Finnland. Finnland (finnska: Suomi, Suomen tasavalta, sænska: Republiken Finland) er eitt Norðurlandanna í norðanverðri Evrópu. Landið liggur að tveimur flóum úr Eystrasalti, Helsingjabotni í vestri og Kirjálabotni í suðri. Það á einnig landamæri að Svíþjóð í vestri, Noregi í norðri og Rússlandi í austri. Álandseyjar í Eystrasaltinu eru undir finnskri stjórn en njóta víðtækrar sjálfstjórnar. Finnland er stundum nefnt "Þúsundvatnalandið". Finnland er í Evrópusambandinu og er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur tekið upp evruna sem gjaldmiðil. Höfuðborg Finnlands heitir á finnsku Helsinki og sænsku "Helsingfors" og er einnig stærsta borg landsins. Aðrir stærstu bæir í stærðarröð eru eftirfarandi: Espoo (sænska: Esbo), Tampere (s. Tammerfors), Vantaa (s. Vanda), Turku (s. Åbo) og Oulu (s. Uleåborg). Espoo og Vantaa ásamt Helsinki mynda höfuðborgarsvæðið. Orðsifjafræði. Uppruni nafnsins Suomi er óljós, en talið er að það sé skylt baltneska orðinu zeme, sem merkir "grund, jörð, þjóð". Nafnið Finnland, sem haft er um landið á öðrum tungum, líkist öðrum skandinavískum staðarheitum. Þar má nefna Finnmörk, Finnveden og Finnskogen. Öll eiga þau rætur að rekja til germanska orðsins "finn", sem er heiti yfir hirðingjaveiðimenn (sem er andstæða við kyrrsetubændur). Hvernig þetta heiti komst yfir Finna er að mestu leyti óþekkt. Á meðal fyrstu rituðu heimilda þar sem „land Finna“ er nefnt eru tveir rúnasteinar. Annar þeirra er í Söderby í Svíþjóð með áletruninni "finlont" og hinn á Gotlandi, sænskri eyju í Eystrasalti, með áletruninni "finlandi" frá 11. öld. Saga. Af fornleifum má ráða að það svæði, sem nú er Finnland, byggðist á níundu öld fyrir Krist, þegar íshella síðustu ísaldar hörfaði undan. Fyrstu íbúar á svæðinu bjuggu við steinaldarmenningu og lifðu á því sem freðmýrin og sjórinn gáfu. Ekki er vitað hvenær finnsk-úrgískumælandi þjóðflokkar hafa fyrst numið land. Elstu leifar akuryrkju eru frá seinni hluta þriðja árþúsundsins fyrir Krist en veiðimennska og söfnun voru lengi eftir það algengasti lífsmátinn, ekki síst í austur og norðurhluta landsins. Bronsöld (1500–500 f. Kr.) og járnöld (500 f. Kr. — 1200 e. Kr.) einkenndust mjög af nánum samskiptum við Skandinavíu, norðurhluta Rússlands og Eystrarsaltssvæðið. Finnar og Kvenir eru nefndir á nokkrum stöðum í rómverskum heimildum og í Íslendingasögunum, þó er sennilegast að átt sé við Sama en ekki Finna. Fáeinar ritaðar heimildir um sögu Finnlands eru til frá 13. öld en það er ekki fyrr en á 14. og 15. öld sem raunveruleg rituð saga hefst. Finnland og Svíþjóð eiga nærri 700 ára sameiginlega sögu. Sögur herma að upphaf þess sé krossferð undir stjórn Eiríks IX Svíakonungs, sem á að hafa átt sér stað árið 1154. Óvíst er hvort þessi krossferð var farin eða hvort þetta er einungis sögusögn. Ritaðar heimildir eru hins vegar fyrir því að Finnland var hluti af ríki Birgis jarls þegar krossferð var gerð þangað 1249. Sænska var ráðandi með fram allri strandlengjunni og í stórum hluta suður Finnlands allt fram undir lok 19. aldar og var þar að auki tungumál yfirvalda og menntunar. Lengi var það sem nú er Finnland ekki skilgreint sem sérstakt svæði innan sænska ríkisins, frekar var að miðhluti Svíþjóðar og suðurhluti Finnlands væru álitin sameiginlegt meginsvæði ríkisins enda voru samgöngur sjóleiðina mun auðveldari en yfir land. Sænskir kóngar leituðust eftir að flytja landamæri ríkisins lengra austur á bóginn og voru meira og minna stöðugar erjur við Rússa gegnum aldirnar af þeim sökum. Á 18. öld snerust leikar og rússneskur her hertók nánast allt það sem nú er Finnland tvisvar (1714—1721 og svo aftur 1742–1743). Upp frá þessu fer hugtakið „Finnland“ að eiga við allt landsvæðið frá Helsingjabotn að rússnesku landamærunum bæði í umræðum innan sænska ríkisins og í Rússlandi. Suðurhluti Finnlands, það sem áður hafði verið kallað Finnland, fékk nú nafnið Hið eiginlega Finnland ("Egentliga Finland" á sænsku, "Varsinais-Suomi" á finnsku) og heitir svo enn. Árið 1808 hertók rússneskur her Finnland og Svíar neyddust til að afsala sér yfirráðarétti yfir því. Finnland varð sjálfstjórnarsvæði, Stórfurstadæmið Finnland, innan rússneska keisardæmisins allt fram til 1917. Alexander I, Rússlandskeisari, varð fyrsti stórfursti Finnlands. Smám saman fékk finnskan mikilvægara hlutverk í opinberu lífi, upphaflega sem hluti af rússneskri viðleitni til að draga úr sambandinu við sænska menningu og menningarhefð en meir og meir sem hluti af finnskri þjóðernishreyfingu. Mikilvægt skref var söfnun og útgáfa sagnaverksins Kalevala árið 1835 og ekki síður þegar finnska var gerð jafnrétthá sænsku sem opinbert mál 1892. Finnsk ritmenning hófst á fyrri hluta 19. aldar og voru það ekki síst sænskumælandi menntamenn sem stóðu fremst í að byggja þetta nýja ritmál, m.a. með slagorðinu: „"Svenskar äro vi icke, ryssar vilja vi icke vara, låt oss bli finnar"“. Fljótlega eftir byltingu bolsévíka í Rússlandi lýsti finnska þingið yfir sjálfstæði Finnlands, hinn 6. desember 1917. Bolsévíkastjórnin viðurkenndi sjálfstæðið en í Finnlandi braust út blóðug borgarastyrjöld 1918 í kjölfar baráttu hvítliða og rauðliða í Rússlandi. Í Finnlandi endaði styrjöldin með sigri hvítliða. Frá stríðslokum og fram undir miðjan fjórða áratug tuttugustu aldar voru tengsl Finnlands og Sovétríkjanna nokkurn veginn hlutlaus. Árið 1939 kröfðust Sovétríkin talsverðra landsvæða af Finnlandi sem ekki var gengist við og hóf þá sovétherinn það sem nefnt er Finnska vetrarstríðið með innrás í Finnland. Finnar vörðust mánuðum saman en máttu á endanum ekki við ofureflinu. Mikil hefndarhugur var í mörgum Finnum eftir lok vetrarstríðsins 1940 og Finnland tengdist náið Þýskalandi undir stjórn nasista. Finnar drógust aftur út í stríð við Sovétríkin 1941 og börðust þá með Þjóðverjum. Eftir stríðið neyddust Finnar til að ganga að hörðum kröfum Sovétríkjanna. Tímabilið frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar fram að upplausn Sovétríkjanna einkenndist af hlutleysi Finnlands í alþjóðamálum og nánu samstarfi við grannann í austri. Þótti mörgum nóg um undirgefni Finna og varð til úr þessu alþjóðlega hugtakið „"finlandisering"“. Finnland fékk inngöngu í Evrópusambandið árið 1995 um leið og Svíþjóð og Austurríki og er hið eina Norðurlandanna sem hefur tekið upp evru sem gjaldmiðil. Jarðfræði og landslag. Finnland prýða mörg þúsund vatna og eyja. Stöðuvötn sem eru 500 m² að flatarmáli eða meira eru 187.888 talsins og eyjarnar 179.584. Saimaa-vatn er eitt þessara vatna og er það 5. stærsta stöðuvatn í Evrópu. Finnskt landslag er að mestu leyti flatt, en þó er það hólótt á svæðum. Hæsti punktur landsins er Halti (1328 m) í norðurhluta Lapplands, við landamæri Noregs. Barrskógur þekur landið að mestu leyti og lítið er af ræktanlegu landi. Algengasta bergtegundin er granít. Það er alltaf nálægt yfirborðinu og sjáanlegt þar sem jarðvegur er af skornum skammti. Jökulruðningur er algengasta jarðvegstegundin, þakin þunnu lagi af mold. Meirihluti eyjanna eru í suðvesturhluta Eyjahafsins (hluti af eyjaklasa Álandseyja) og með fram suðurströnd Kirjálabotns. Plöntu- og dýraríki. Gróður- og dýralíf í Finnlandi er mjög fjölbreytt. Plöntu- og dýrategundir eru mismunandi eftir landshlutum, vegna mismunandi loftslags á milli norður-, vestur- og suðurhluta Finnlands. Í landinu eru yfir 1200 gerðir af æðplöntum, 800 af mosaplöntum og 1000 gerðir af fléttum, þar sem ríkasta gróðurlífið er í suðurhluta landsins og á Álandseyjum. Líkt og öll önnur vistfræði Finnlands, þá á plöntulíf auðvelt með að aðlagast og þola ólíkar árstíðir og veðurskilyrði. Um það bil tveir þriðju af flatarmáli landsins er þakinn barrskógi, furur og greni. Í nyrsta hlutanum vex þó einungis birki. Eik og önnur lauftré vaxa á Álandseyjum og í syðsta hluta landsins. Allt eftir því sem ísjaðarinn hopaði í lok síðustu ísaldar þaktist landið af skógi, fyrsti birkitegundir en síðan fura fyrir um 10.000 árum síðan. Frá því fyrir um 6.000 árum fór greni að breiðast út austan frá og náði vesturströndinni fyrir um það bil 3.000 árum. Einnig býr Finnland yfir fjölbreyttu og víðtæku dýralífi. Þó þurrkuðust öll dýr nánast út á meðan að síðasta ísöld stóð yfir. Dýrin komu til Finnlands á ný fyrir u.þ.b. 10.000 árum síðan, fylgdu minnkun jökla og framsókn gróðurs. Núorðið eru alltént sextíu innfædd spendýr, 248 æxlandi fuglategundir, rúmlega 70 fiskategundir og ellefu skriðdýra- og froskdýrategundir. Af stórum villtum spendýrum, eru þau algengustu skógarbjörn (þjóðardýrið), gráúlfur, elgur og hreindýr. Önnur algeng spendýr eru rauðrefur, rauðíkorni og fjallahéri. Sumar sjaldgæfari skepnur eru flugíkorni, kóngsörn, hringanóri og heimskautarefur, sem er talinn vera í mestri útrýmingarhættu. Þjóðarfugl Finnlands er álft. Algengustu fuglategundirnar eru laufsöngvari, bókfinka og skógarþröstur. Á Saimaa-vatnasvæðinu í suðaustur Finnlandi býr Saimaa-hringanóri ("Phoca hispida saimensis"), ein af þremur ferskvatnsselategundum í heiminum. Samtök finnskra náttúruverndarsinna hafa barist fyrir verndun hringanórans og hefur tekist vel að bjarga honum frá útrýmingu. Samt sem áður telst dýrið enn þá vera í útrýmingarhættu. Nú er talið að um 270 Saimaa-hringanórar séu á lífi. Það er talið að ef að fjöldi þeirra kæmist upp í 400 seli, myndi stofninn komast úr útrýmingarhættu. Vegna veiða og áreita í gegnum tíðina hefur mörgum dýrum á borð við kóngsörn, skógarbjörn og gaupu fækkað mjög. En vegna mikillar verndunar og stofnunar víðlendra þjóðgarða hefur fjöldinn aftur aukist undanfarin ár. Loftslag. Loftslagið í Suður-Finnlandi er kaldtemprað. Í Norður-Finnlandi, sérstaklega í Lapplandi, ríkir heimskautaloftslag sem einkennist af köldum, jafnvel hörðum vetrum og nokkuð heitum sumrum. Það sem á stærstan þátt í loftslagi Finnlands er lega þess á milli 60. og 70. breiddarbaugslínu á evrasísku strandlengjunni, sem veldur því að þar er bæði sjávarloftslag og meginlandsloftslag, breytilegt eftir vindátt. Finnland er nógu nálægt Atlantshafinu til að njóta hlýrra áhrifa Golfstraumsins, sem útskýrir fremur hlýtt loftslag miðað við legu. Fjórðungur af Finnlandi nær norður fyrir heimskautsbaug, það veldur því að miðnætursól getur haldist í fleiri daga. Á nyrsta punkti Finnlands sest ekki sól í 73 daga samfellt yfir sumarið og rís ekki í 51 dag yfir veturinn. Fylki. Til ársins 2009 var landinu skipt í sex fylki (á finnsku "lääni", fl. "läänit", á sænsku "län") en þá voru þau afnumin. Fylkin voru stjórnareiningar ríkisvaldsins og sáu um löggæslu og dómsmál meðal annars. Álandseyjar eru sjálfsstjórnarsvæði innan finnska ríkisins. Lögþing og heimastjórn Álandseyja hafa sjálfstjórn um ýmsa málaflokka, t.d. mennta- og heilsugæslumál, útvarp og sjónvarp, lögreglu- og atvinnumál. Á Álandseyjum er sænska eina opinbera málið og er því strangt framfylgt m. a. geta einungis sænskumælandi íbúar verið landeigendur. Sveitarfélög. Sveitarfélög og samstarfshéruð Finnlands (2009).Sveitarfélög aðgreind með þunnum línum og héruð með þykkum. Megin stjórnsýslueiningar Finnlands eru sveitarfélögin (á finnsku "kunta", sænsku "kommun"), eru þau 348 að tölu 2009. Kosið er til sveitarfélagstjórna í beinum kosningum fjórða hvert ár. Sveitarstjórn og borgarstjórn eru í grófum dráttum það sama, fyrir utan muninn á dreifbýli og þéttbýli. Frá árinu 1977 hefur ekki verið greint á milli borga, bæja og dreifbýlis. Sveitarfélög eru sjálfstætt stjórnvald innan ramma laga sem sett eru af ríkinu. Enginn getur áfrýjað ákvörðunum sveitarfélags svo lengi sem þær eru löglegar. Sveitarfélög hafa með sér tvenns konar skipulagt samstarf. Annars vegar í tuttugu samstarfseiningum sem eru nefndar á finnsku "maakunta" og á "landskap" sænsku. Hlutverk þessara héraðssamtaka er menntunar og heilsugæslusamstarf. Hins vegar eru sjötíu og fjórar samstarfseiningar sem nefndar eru á finnsku "seutukunta" og "ekonomisk region" á sænsku. Hlutverk þessara samstarfseininga er efnahagssamvinna. Áland hefur sjálfstæða stöðu innan finnska ríkisins með eigið lögþing og heimastjórn og er þar að auki formlega eigið fylki. Samar hafa takmarkaða sjálfstjórn á sviði tungumála- og menningarmála í Lapplandi. Stærstu bæir og sveitafélög. Taflan hér að neðan sýnir fjölda íbúa fjölmennustu sveitarfélaganna í heild ("kunta" á finnsku), ekki einungis þéttbýlis. Tölurnar eru frá 31. mars 2011. Höfuðborgarsvæðið, sem samanstendur af Helsinki, Vantaa, Espoo og Kauniainen, myndar samtals milljón manna byggð. Íbúar. Í Finnlandi búa um 5,4 milljónir manna og er þéttleiki byggðar að meðaltali 17 íbúar á hvern ferkílómetra. Það gerir landið þriðja strjálbýlasta land Evrópu, á eftir Noregi og Íslandi. Suðurhluti landsins hefur alltaf verið fjölmennastur og þar að auki jókst íbúafjöldinn við þéttbýlisþróun 20. aldar. Stærstu og mikilvægustu borgir í Finnlandi eru stórsvæði Helsinki (sem nær yfir Helsinki, Vantaa, Espoo og Kauniainen) og Tampere, Turku og Oulu. Eftir Vetrarstríðið árið 1939 (og Framhaldsstríðið 1941), þurftu 12% af íbúum Finnlands að flytjast búferlum. Stríðsskaðabætur, atvinnuleysi og óvissa varðandi þjóðhöfðingja og sjálfstæði frá Sovétríkjunum olli miklum fólksflótta, sem byrjaði ekki að minnka fyrr enn á 8. áratug 20. aldar. Um hálf milljón Finna fluttist til Svíþjóðar á áratugunum frá 1950 fram til 1980, en allstór hluti þeirra hefur flust heim að nýju. Frá seinni hluta 10. áratugar 20. aldar hefur Finnland tekið á móti svipuðum fjölda flóttamanna og innflytjenda og hin Norðurlöndin. Finnland er þjóðfræðilega mjög einsleitt land. Útlendingar eru einungis 4% af heildaríbúatölu landsins. Umtalsvert hlutfall innflytjenda á rætur sínar að rekja til fyrrum Sovétríkjanna. Rúmlega 20 tungumál eru töluð af innflytjendum í Finnlandi í dag, miðað við að a.m.k. 1000 manns tali málið. Tungumál. Finnska og sænska eru bæði opinber tungmál í Finnlandi og jafnrétthá fyrir finnskum lögum. Meirihluti Finna (92%) hefur finnsku að móðurmáli. Finnska tilheyrir finnsk-úgrísku tungumálafjölskyldunni og er á milli þess að vera samloðunarmál og beygingamál. Í finnsku breytast og beygjast nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð og sagnorð eftir hlutverki þeirra í setningunni. Finnland er eitt af þremur sjálfstæðum ríkjum þar sem finnsk-úgrískt mál er talað af meirihlutanum. Hin eru Eistland og Ungverjaland. Stærstu minnihlutamálin í Finnlandi eru sænska (5,5%), rússneska (0,8%) og eistneska (0,3%). Tæplega 2000 samar hafa samísku að móðurmáli, einkum í norðurhluta landsins. Samísku málin eru einnig finnsk-úgrísk mál. Alls eru þrjú samísk mál töluð í Finnlandi: norðursamíska, inarisamíska og skoltsamíska. Auk finnsku er sænska opinbert tungumál í Finnlandi. Sænskumælandi Finnum fækkaði talsvert á síðustu öld af ýmsum ástæðum, svo sem miklum flutningi sænskumælenda til Svíþjóðar, fjölskyldur sænskumælenda eru minni og ekki síst að í fjölmörgum blönduðum fjölskyldum varð fjölskyldumálið finnska. Sænska er samkvæmt lögum eina opinbera tungumálið á Álandseyjum. Minnihlutahópar hafa réttindi til þess að hlúa að menningu sinni og tungumálin eru vernduð með lögum, þar hafa Samar sérstöðu. Samíska er opinbert minnihlutamál. Sænska er skyldunámsgrein í finnskum skólum sem og finnska í skólum sænskumælandi Finna og flestir Finnar læra einnig næga ensku í skólum og af ljósvakamiðlum til að vera samræðufærir á því máli. Margir læra að auki þýsku eða frönsku. Frumbyggjar. Samar eru frumbyggjar sem búa í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Rússlandi. Áður fyrr voru Samar oft kallaðir Lappar, en nú til dags telja margir Samar það vera niðrandi heiti. Auk eigin tungumála hafa Samar sinn eigin lífsstíl, yfirbragð og menningu. Svipuð saga, hefðir, lifnaðarhætti og siðir sameinar Sama sem búa í mismunandi löndum. Samtals eru um 75.000 til 100.000 Samar, af þeim búa minna en 7.000 í Finnlandi, sem gerir sama 0,13% af íbúum Finnlands. Trúarbrögð. Meirihluti Finna (um 76,4%) eru mótmælendatrúar og tilheyra Þjóðkirkju Finnlands. Einnig tilheyrir minnihluti Finnsku rétttrúnaðarkirkjunni (1,1%). Aðrir mótmælendasöfnuðir og Kaþólska kirkjan eru talsvert minni sem og íslam, gyðingdómur og önnur trúarbrögð (samtals 1,4%). Rúm 21,0% af íbúunum eru utan trúfélaga. Meirihluti þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni tekur lítinn þátt í starfi hennar. Menntun. Menntakerfið í Finnlandi er ekki ólíkt því sem fyrirfinnst á öðrum Norðurlöndum. Nemendur í fullu námi þurfa ekki að borga nein námsgjöld. Skólaskylda er frá aldrinum 7-16 ára og fá nemendur í grunn- og menntaskólum máltíðir sér að kostnaðarlausu á skólatíma. Skólaskylda er fyrstu níu ár skólagöngunnar og sækja nemendurnir skóla í nágrenni við heimili sitt. Framhaldsnám er ekki skylda og fer það annaðhvort fram í iðnskóla eða skóla sem undirbýr fyrir áframhaldandi nám, sem nám fer fram í verknámsskólum eða háskólum. Samkvæmt alþjóðlegu PISA-mati OECD samtakanna á frammistöðu 15 ára unglinga í námi eru Finnar ofarlega á blaði. Árið 2006 voru 15 ára finnskir unglingar hæstir á heimsvísu hvað varðaði lesskilningi, náttúruvísindi og stærðfræði Heilsugæsla. Heilbrigðiskerfi Finnlands þykir mjög þróað á heimsvísu. 18,9% af kostnaði við heilsugæslu eru borguð af heimilunum sjálfum, 76,6% borguð af ríkinu og restin af öðrum aðilum. Fyrir hvern lækni eru 307 íbúar. Á áttunda áratugnum gerðu Finnar miklar breytingar á lífsvenjum sínum, í ljósi þess að þeir voru með eina hæstu dánartíðni af völdum hjartasjúkdóma í heiminum. Í dag eru Finnar meðal heilbrigðari þjóða. Lífslíkur kvenna eru 82 ár og karla 75 ár. Stjórnarfar. Finnland er lýðveldi eins og Ísland en hefur ekki þingbundna konungsstjórn eins og Skandinavísku löndin. Forseti Finnlands hefur framkvæmdavald og er þjóðhöfðingi landsins. Einnig sér forsetinn um utanríkismál utan Evrópusambandsins í samstarfi við finnska þingið. Þingið hefur mest völd í landinu og er æðsti maður þess forsætisráðherrann. Yfirlöggjafarvald Finnlands er finnska þingið, þar sitja 200 manns. Á finnsku nefnist það Eduskunta og á sænsku Riksdag. Forseti. Forseti Finnlands er þjóðhöfðingi landsins. Samkvæmt stjórnarskrá landsins hefur forsetinn framkvæmdavald ásamt ríkisstjórninni. Forseti er kosinn í lýðræðislegum kosningum af íbúum landsins og er kjörtímabilið sex ár. Frá árinu 1991 hefur enginn forseti mátt sitja lengur við völd en tvö kjörtímabil. Forsetinn verður að vera innfæddur ríkisborgari. Núverandi forseti landsins er Tarja Halonen. Hún tók við forsetastöðunni árið 2000 og var endurkjörin 29. janúar 2006. Hún getur því setið til ársins 2012. Hún er ellefti forseti Finnlands og fyrsta konan til að gegna stöðunni. Þingið. Aðalbygging finnska þingsins (Eduskunta) í Helsinki Finnska þingið er í einni deild með tvö hundruð þingmönnum, sem eru kosnir í fjögur ár í senn í hlutfallskosningu. Samkvæmt stjórnarskrá Finnlands kýs þingið svo forsætisráðherra, sem er skipaður í embætti af forsetanum. Aðrir ráðherrar eru skipaðir í embætti af forsetanum eftir uppástungum forsætisráðherra. Núverandi forsætisráðherra Finnlands er Mari Kiviniemi og er hún einnig formaður Miðflokksins. Utanríkisstefna. Utanríkisstefna Finnlands byggir á náinni samvinnu við aðrar Norðurlandaþjóðir bæði formlega, í gegnum samstarfið í Norðurlandaráði og óformlega, ekki síst innan Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Frá því að Finnland gerðist aðili að Evrópubandalaginu 1995 hefur þátttaka í starfi þess í vaxandi mæli verið þungamiðja utanríkisstefnunnar. Stærstan hluta 20. aldar var hins vegar sambúðin við Sovétríkin helsti þáttur í utanríkismálum landsins. Frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hefur Finnland ekki átt í neinum alþjóðlegum deilum um landamæri landsins. Formlega er finnski herinn eingöngu til sjálfsvarnar og heimilar finnska stjórnarskráin einungis þátttöku í hernaðaraðgerðum heimiluðum af Sameinuðu þjóðunum eða OSCE. Finnland er mjög háð utanríkisverslun, sem gefur af sér u.þ.b. þriðjung þjóðartekna. Landið er mjög háð innfluttningi hráefna, málma og olíu. Varnarmál. Her Finnlands er skipulagður í þrjár greinar: landher, sjóher og flugher. Herinn gegnir ekki landamæragæslu á friðartímum, sú gæsla er undir stjórn innanríkisráðuneytisins. Almenn herskylda karlmanna er í landinu, að undanteknum Álendingum og vottum Jehóva og um 80 % hvers árgangs karla gegnir herþjónustu. Herskylda nær ekki til kvenna en frá 1995 geta þær boðið sig fram til herþjónustu til jafns við karla. Herþjónustutíminn er 6, 9 eða 12 mánuðir allt eftir ábyrgð og verkefni. Um 34 000 manns eru að jafnaði undir vopnum en samanlagt eru um 350 000 manns þar að auki reiðubúnir að vera kallaðir inn ef á þarf að halda. Mögulegt er að inna aðra þegnskylduþjónustu af hendi í 12 mánuði í stað þess að gegna herþjónustu. Fjármagn til varna jafngildir u.þ.b. 1,4% af landsframleiðslu. Finnland á ekki aðild að NATO en í landinu eru miklar umræður um mögulega þátttöku í bandalaginu. Forsíða. __NOTOC____NOEDITSECTION__ Reykjavík. Reykjavík er höfuðborg Íslands, fjölmennasta sveitarfélag þess og eina borgin. Þannig er Reykjavík efnahagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg þungamiðja landsins. Tæplega 120 þúsund manns búa í Reykjavík, þar af eru 11,1% innflytjendur. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru um 203 þúsund í 7 sveitarfélögum. Ingólfur Arnarson, sem talinn er fyrsti landnámsmaður Íslands, settist að á Íslandi árið 870, að því talið er, og bjó sér ból og nefndi Reykja(r)vík, þar sem borgin stendur nú. Nýlegir fornleifafundir í miðborg Reykjavíkur, einkum í Aðalstræti, Suðurgötu og Kirkjustræti benda til þess sama, og hafa fundist mannvistaleifar allt frá um 870. Sagan segir að Ingólfur hafi gefið bæ sínum nafnið vegna reykjarstróka sem ruku úr hverum í grenndinni. Saga. Ingólfur Arnarson nam Reykjavík og með tíð og tíma byggðist fleiri bæir í kring og má þar helst nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Lítið gerðist á miðöldum í Reykjavík. Árið 1226 hófst byggð á Viðey þegar munkar af Ágústínusarreglu stofnuðu þar klaustur. Ekki fór að myndast þéttbýli að ráði í Reykjavík fyrr en á 18. öld, en fram að því lágu býli af ýmsum stærðum á víð og dreif um svæðið þar sem borgin stendur nú. Á 18. öld var gerð tilraun til að reka ullariðnað í Reykjavík sem var kallað Innréttingarnar, og markaði það þáttaskil í þróun svæðisins, sem í kjölfarið fór að taka á sig einhverja þorpsmynd. Danska konungsvaldið studdi þessar tilraunir til uppbyggingar með því að gefa jarðir sem það átti í Reykjavík og Örfirisey. Sextán hús voru byggð í Reykjavík vegna Innréttinganna, sem hefur verið mikil fjölgun á þeim tíma, merki um tvö þeirra má enn sjá. Þá var fyrsta fangelsi landsins byggt á árunum 1761-71, stæðilegt steinhús, sem í dag er Stjórnarráð Íslands við Lækjargötu. Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786, í kjölfar afnáms einokunarverslunar í landinu. Á nítjándu öld mynduðust þéttar þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna í bænum. Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1845. Ári síðar var Menntaskólinn í Reykjavík fluttur frá Bessastöðum í miðbæinn. Árið 1881 var Alþingishúsið fullbúið. Stýrimannaskólinn tók til starfa 1891 eftir að þilskip voru komin til landsins. Árið 1898 var Miðbæjarskólinn við Tjarnargötu fullbúinn. Hann var þó ekki tekinn í notkun fyrr en haustið 1908 og þá hófu tæplega þrjú hundruð grunnskólabörn nám þar. Fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur, Páll Einarsson, tók til starfa 1908 og fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn á Íslandi voru kjörnar af kvennalistum sem buðu fram til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík í janúar árið 1908. Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa 1909. Gasstöð Reykjavíkur við Hlemm var tekinn í gagnið árið 1910. Gasstöðin starfaði til 1956. Reykjavíkurhafnir voru byggðar í áföngum á árunum 1913-17 bættu mjög skipaaðstöðu. Þaðanaf gátu hafskip lagst að bryggju en áður fyrr þurfti að ferja fólk og varning á milli smærri bryggja og hafskipa sem lágu úti fyrir. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni. Í Reykjavík hafa verið gerðar samfelldar veðurathuganir frá 1920, en elstu skráðu veðurathuganir eru frá fyrri hluta 19. aldar. Þann 3. janúar 1841 mældist þar loftþrýstingurinn 1058,5 hPa, sem er sá mesti sem mælst hefur á Íslandi. Borgarstjórn. Í borgarstjórn Reykjavíkur sitja 15 fulltrúar sem kjörnir eru hlutfallskosningu á fjögurra ára fresti. Síðast var kosið til borgarstjórnar í sveitarstjóranarkosningunum 29. maí 2010. Borgarstjórn kýs sér borgarstjóra, sem er framkvæmdastjóri borgarinnar. Núverandi borgarstjóri í Reykjavík er Jón Gnarr úr Besta flokknum. Hann tók við starfinu 15. júní 2010 af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eftir að Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu nýjan meirihluta í borginni. Borgarstjórar. Frá árinu 1908 til dagsins í dag hafa 22 einstaklingar, þar af 18 karlmenn og fjórar konur, setið sem borgarstjórar Reykjavíkur. Veðurfar. Golfstraumurinn gerir veðurfar í Reykjavík mun heitara og jafnara á ársmælikvarða en á flestum öðrum stöðum á sömu breiddargráðu. Hitastig að vetrarlagi fer sjaldan undir -10 °C. Lega borgarinnar á suðvesturströnd Íslands ber með sér fremur vindasamt veður og eru rok algeng, sérlega að vetrarlagi. Sumur eru svöl, hitastig venjulega á bilinu 10 °C til 15 °C og fer einstaka sinnum upp undir 20 °C. Þó svo að úrkoma sé ekki mjög mikil í Reykjavík mælist þó úrkoma að meðaltali 213 daga á ári. Lengri þurrkatímar eru sjaldgæfir. Vorið er að öllu jöfnu sólríkast og þá helst maímánuður. Árlegir sólartímar mælast um 1.300 sem er sambærilegt við stóran hluta norðurhluta Evrópu. Hitamet í borginni var sett 30. júlí 2008 og mældist þá 26,2 °C og kaldast var 21. janúar 1918 og mældist þá -24,5 °C. Svíþjóð. Konungsríkið Svíþjóð (sænska: Konungariket Sverige) er land í Norður-Evrópu og eitt Norðurlandanna. Landamæri liggja að Noregi til vesturs og Finnlandi til norðausturs, landið tengist Danmörku með Eyrarsundsbrúnni. Einnig liggur landið að Eystrasaltinu til austurs. Svíþjóð er fjölmennust Norðurlanda með yfir níu milljónir íbúa en er þó frekar strjálbýlt. Langflestir íbúanna búa í suðurhluta landsins. Höfuðborg Svíþjóðar er Stokkhólmur. Aðrar stærstu borgir landsins, í stærðarröð, eru Gautaborg, Málmey, Uppsalir, Linköping, Västerås, Örebro, Karlstad, Norrköping, Helsingjaborg, Jönköping, Gävle, Sundsvall og Umeå. Um helmingur landsins er skógi vaxinn (aðallega greni og furu) sem nýtt er í timbur- og pappírsgerð. Í suðurhluta landsins eru einnig eikar– og beykiskógar. Í norðurhluta landsins er mikil námuvinnsla; einkum er þar unninn járnmálmur en þar er einnig að finna ýmsa aðra málma. Aðaliðnaðarsvæðið er um mitt landið en landbúnaður einkennir mjög suðurhlutann. Saga. Fornleifar sýna að það landsvæði sem nú er Svíþjóð byggðist þegar á steinöld. Eftir því sem ísaldarjökullinn hopaði fylgdu hópar veiðimanna og safnara sem fluttu sig lengra norður meðfram strönd Eystrasaltsins. Fornleifafræðingar hafa grafið upp marga stóra verslunarstaði sem styrkja þá kenningu að landsvæðið hafi verið fullbyggt þegar á bronsöld. Á níundu og tíundu öld stóð víkingamenning á stórum hluta þess svæðis sem nú er Svíþjóð. Einkum héldu sænskir víkingar í austurveg til Eystrasaltslandanna, Rússlands og allt suður til Svartahafs. Sænskumælandi íbúar settust að í suðurhluta Finnlands og einnig í Eistlandi. Á þessum tíma tók einnig sænskt ríki að myndast með þungamiðju í Uppsölum og náði það allt suður að Skáni, sem þá var hluti Danmerkur. Árið 1389 sameinuðust Danmörk, Noregur og Svíþjóð undir einum konungi. Kalmarsambandið var ekki pólitískt sambandsríki heldur konungssamband. Meirihluta 15. aldar reyndi Svíþjóð að hamla þeirri miðstýringu sem Danir vildu koma á í sambandinu undir dönskum kóngi. Svíþjóð sagði sig úr Kalmarsambandinu 1523 þegar Gústaf Eiríksson Vasa, síðar þekktur sem Gústaf I, endurreisti sænska konungdæmið. Á 17. öld varð Svíþjóð eitt helsta stórveldi Evrópu eftir mikla sigra í Þrjátíu ára stríðinu. Þegar á leið 18. öld hvarf þessi staða þegar Rússland vann á í baráttunni um völdin við Eystrasalt. Saga Svíþjóðar síðustu aldirnar heftur einkennst af friði. Síðasta stóra styrjöldin sem Svíþjóð tók þátt í var við Rússland 1809 þegar Finnland var innlimað í Rússneska keisaradæmið. Minniháttar skærur urðu þó við Noreg 1814. Þær enduðu með því að sænski krónprinsinnn samþykkti norsku stjórnaskrána 17. maí sama ár og með því gengu Noregur og Svíþjóð í konungssamband. Þegar norska stórþingið samþykkti upplausn þessa sambands 1905 lá við stríði en það tókst að koma í veg fyrir það og þess í stað enduðu deilurnar með samningum. Svíþjóð lýsti yfir hlutleysi í báðum heimsstyrjöldunum og hefur allt síðan haldið fast við þá stefnu að standa utan hernaðarbandalaga í því augnmiði að halda sig utan við væntanlegar styrjaldir. Stjórnmál. Svíþjóð hefur verið konungdæmi í hátt í þúsund ár. Konungur hefur stærstan hluta þessa tíma deilt löggjöf með þinginu (á sænsku: "Riksdag"). Þingið hefur hins vegar haft mismikil völd gegnum tíðina. Frá endurreisn konungdæmisins 1523 var lagasetningu og stjórn ríkisins skipt milli konungs og stéttarþings aðalsmanna. Árið 1680 gerðist sænski konungurinn hins vegar einvaldur. Eftir tap Svía í Norðurlandaófriðinum mikla hófst það sem nefnt er frelsistíminn frá 1719. Honum fylgdu þrjár stjórnarskrárbreytingar, 1772, 1789 og 1809, sem allar styrktu vald borgara gagnvart konungi. Þingræði var komið á 1917 þegar Gústaf 5. sætti sig við að skipa ríkisstjórn í samræmi við valdahlutföll á þingi, eftir langa baráttu. Almennum kosningarétti var komið á 1918 – 1921. Með nýrri stjórnaskrá 1975 var allt vald konungs afnumið. Táknrænu embætti konungs var haldið en án nokkurs valds. Í upphafi 20. aldar mótaðist það flokkakerfi sem að miklu leyti hefur einkennt sænsk stjórnmál síðan. Sænski jafnaðarmannaflokkurinn hefur verið langstærsti stjórnmálaflokkurinn allar götur frá öðrum áratug 20. aldar og hefur setið í stjórn meira og minna samfleytt í yfir sjötíu ár. Á þingi sitja nú fulltrúar sjö flokka sem skiptast í tvær fylkingar, vinstri og hægri. Til vinstrifylkingarinnar teljast sænski jafnaðarmannaflokkurinn ("Socialdemokraterna"), sænski vinstriflokkurinn ("Vänsterpartiet"), sænski umhverfisflokkurinn ("Miljöpartiet"). Til hægrifylkingarinnar teljast sænski hægriflokkurinn ("Moderaterna"), sænski þjóðarflokkurinn ("Folkpartiet") (frjálslyndur miðjuflokkur), sænski miðflokkurinn ("Centerpartiet") og kristilegir demókratar ("Kristdemokraterna") og síðan Svíþjóðar demókratar ("Sverigedemokraterna") lengst til hægri. Landafræði. Svíþjóð liggur að Jótlandshafi, Noregi, Finnlandi og Eystrasalti. Lengsta lengd þess frá norðri til suðurs er 1.572 km og frá austri til vesturs 499 km. Um það bil 221.800 eyjar tilheyra Svíþjóð. Þær stærstu eru Gotland og Eyland sem báðar eru í Eystrasaltinu. Meirihluti Svíþjóðar er flatur og hæðóttur, en Skandinavíufjöllin rísa í yfir 2.000 m hæð við landamærin að Noregi. Hæsti hnjúkurinn er Kebnekaise sem er 2.111 m yfir sjávarmáli. 28 þjóðgarðar eru dreifðir um landið. Þeir stærstu eru í norðvesturhluta landsins. Suður- og Mið-Svíþjóð (Gautland og Svealand) ná aðeins yfir tvo fimmtu hluta landsins en Norður-Svíþjóð (Norrland) nær yfir þrjá fimmtu hluta landsins. Danmörk. Danmörk (danska: "Danmark";) er land í Evrópu sem ásamt Grænlandi og Færeyjum myndar Konungsríkið Danmörk. Danmörk samanstendur af Jótlandsskaga og 443 eyjum en af þeim eru 72 (2007) byggðar. Landið liggur að sjó að vestan, norðan og austan. Að vestan er Norðursjór, Skagerrak og Kattegat að norðvestan og norðaustan og Eystrasalt að austan, en að sunnan á Danmörk landamæri að Þýskalandi við suðurenda Jótlands. Jótland er skagi sem gengur til norðurs út úr Evrópuskaganum. Það er stærsti hluti Danmerkur. Auk Jótlandsskagans er mikill fjöldi byggðra eyja sem eru í Eystrasalti. Stærstar eru Sjáland og Fjón. Helstu borgir eru Kaupmannahöfn á Sjálandi; Óðinsvé á Fjóni; Árósar, Álaborg, Horsens og Esbjerg á Jótlandi. Danmörk var áður mun víðáttumeira ríki en það er í dag. Bæði átti það miklar lendur austan Eyrarsunds, Skán, Halland og Bleiking og einnig bæði héruðin Slésvík og Holtsetaland og náðu landamærin suður fyrir Hamborg þegar veldið var sem mest. Danska konungsættin er elsta ríkjandi konungsætt í heimi. Á nítjándu öld gekk Noregur úr konungssambandi við Danmörku og var þá um tíma undir sænska konunginum. Á 20. öld fékk svo Ísland sjálfstæði frá Dönum, en Færeyjar og Grænland eru enn í konungssambandi við Danmörku þó að bæði löndin hafi fengið heimastjórn. Fótbolti er lang vinsælasta íþróttin í Danmörku. Orðsifjar. Mikið er deilt um orðsifjar „Danmerkur“, sambandið milli Dana og Danmerkur og sameiningu Danmerkur í eina þjóð. Deilurnar snúast um forskeytið „Dan“ og hvort það eigi við ættflokkinn Danir eða konunginn Dan, og merkingu viðskeytisins „-mörk“. Oftast er forskeytið talið eiga rætur að rekja til orðs sem þýðir „flatt land“, tengt þýska orðinu "Tenne" „þreskigólf“, enska "den" „ hellir“ og sanskrít "dhánuṣ-" (धनुस्; „ eyðimörk“). Viðskeytið „-mörk“ er talið eiga við skóga í Suður-Slésvík, kannski svipað nöfnunum Finnmörk, Heiðmörk, Þelamörk og Þéttmerski. Í fornnorrænu var nafnið stafað "Danmǫrk". Fyrsta þekkta notkun orðins „Danmörk“ er á Jalangurssteininum, sem eru rúnasteinar taldir hafa verið settir upp af Gormi gamla (um árið 955) og Haraldi blátönn (um árið 965). Orðið „Danmörk“ er notað á báðum steinunum, í þolfalli „tanmaurk“ ([danmɒrk]) á stóra steininum og í eignarfalli „tanmarkar“ ([danmarkaɽ]) á litla steininum. Íbúar Danmerkur eru kallaðir „tani“ ([danɪ]) eða „Danir“ á steinunum. Fornsaga. Búið hefur verið í Danmörku síðan um það bil 12.500 f.Kr. og eru sannindamerki um landbúnað frá 3600 f.Kr. Bronsöldin í Danmörku var frá 1800–600 f.Kr. og þá voru margir haugar orpnir. Í þeim hafa fundist lúðrar og Sólvagninn. Fyrstu Danir komu til landsins á rómversku járnöld (1–400 e.Kr.). Þá var verslun milli Rómaveldisins og ættflokka í Danmörku og rómverskir peningar hafa fundist þar. Ennfremur finnast sannindamerki um áhrif frá Keltum, meðal annars Gundestrup-potturinn. Víkingaöld. Frá 8. öld til 11. aldar voru Danir meðal þeirra sem þekktir voru sem Víkingar. Víkingar námu Ísland á 9. öld með viðkomu í Færeyjum. Frá Íslandi sigldu þeir til Grænlands og þaðan til Vínlands (líklega Nýfundnalands) og settust þar að. Víkingar voru snillingar í skipasmíðum og gerðu árásir á Bretlandi og Frakklandi. Þeir voru líka mjög lagnir í verslun og viðskiptum og sigldu siglingaleiðir frá Grænlandi til Konstantínusarborgar um rússneskar ár. Danskir víkingar voru mjög virkir á Bretlandi, Írlandi og í Frakklandi og settust að í sumum hlutum Englands og náðu þar völdum (þ.e. Danalög). Evrópa. Evrópa eða Norðurálfa er ein af sjö heimsálfum jarðarinnar, í þessu tilviki mætti frekar kalla álfuna menningarsvæði heldur en ákveðna staðháttafræðilega heild, sem leiðir til ágreinings um landamæri álfunnar. Evrópa er, sem heimsálfa, staðsett á miklum skaga úr Asíu (Evrópuskaganum), og myndar með henni Evrasíu. Landamæri Evrópu eru náttúruleg að mestu leyti. Þau liggja um Norður-Íshaf í norðri, Atlantshaf í vestri (að Íslandi meðtöldu), um Miðjarðarhaf, Dardanellasund og Bospórussund í suðri og eru svo yfirleitt talin liggja um Úralfjöll í austri. Flestir telja Kákasusfjöll einnig afmarka Evrópu í suðri og Kaspíahaf í suðaustri. Evrópa er næstminnsta heimsálfan að flatarmáli, en hún er um 10.390.000 ferkílómetrar eða 2,0 % af yfirborði jarðarinnar. Hvað varðar íbúafjölda er Evrópa þriðja fjölmennasta heimsálfan, á eftir Asíu og Afríku. Í henni búa fleiri en 710.000.000 manna. Það eru 12 % af íbúafjölda heimsins. Evrópusambandið (ESB) er stærsta pólitíska og efnahagslega eining álfunnar en því tilheyra 27 aðildarríki. Næststærsta einingin er Rússland. Orðsifjar. Í grískri goðafræði var Evrópa afburða fögur fönikísk prinsessa. Seifur brá sér í nautslíki og nam hana á brott til Krítar, þar sem hún fæddi Mínos en hann var að hluta maður og að hluta naut. Í huga Hómers var "Evrópa" (Gríska: Ευρωπη) hin goðsagnalega drottning Krítar en ekki landfræðilegt hugtak. Seinna stóð "Evrópa" fyrir meginland Grikklands og um árið 500 f.Kr. var merking orðsins orðin víðari og átti nú einnig við um landsvæðið fyrir norðan. Gríska hugtakið "Evrópa" er komið úr grísku orðunum "eurys" (breiður) og "ops" (andlit), þar sem „breiður“ er líking við móður jörð í hinum endurreistu forn-indóevrópsku trúarbrögðum. Sumir telja hins vegar að merking hugtaksins hafi afmyndast á þann hátt að það hafi komið úr semitísku orði eins og hinu akkadíska "erebu" sem þýðir „sólarlag“. Frá Mið-Austurlöndum séð sest sólin yfir Evrópu, í vestri. Eins telja margir orðið "Asía" hafa öðlast merkingu sína úr semitísku orði eins og hinu akkadíska "asu", sem þýðir sólarupprás, en Asía er einmitt í austri frá Mið-Austurlöndum. Meirihluti tungumála heimsins nota orð skyld „Europa“ um heimsálfuna — aðalundantekningin er hið kínverska 欧洲 (Ōuzhōu) en uppruni þess er óljós. Saga. Uppruni vestrænnar menningar, lýðræðis og einstaklingshyggju er oft rakinn til Forn-Grikklands. Aðrir áhrifavaldar, til dæmis kristni, hafa eflaust einnig haft áhrif á vestræn gildi eins og jafnréttisstefnu og réttarríkið. Eftir fall rómverska stórveldisins gekk langt breytingaskeið yfir Evrópu með þjóðflutningunum. Það skeið er þekkt sem miðaldirnar eða „hinar myrku miðaldir“ eins og þær voru gjarnan kallaðar á endurreisnartímanum enda litu menn á þær sem hnignunarskeið. Afskekkt klaustursamfélög á Írlandi og víðar vernduðu og skráðu skrifaða þekkingu sem áður hafði safnast saman. Undir lok 8. aldar var Hið heilaga rómverska ríki stofnað sem eins konar arftaki Vest-rómverska ríkisins en var í raun laustengt samband ýmissa smáríkja í Mið-Evrópu. Austurhluti rómaveldisins varð Austrómverska ríkið, með Konstantínópel (Býzantíon, síðar Istanbúl) sem höfuðborg. Árið 1453, þegar Ottómanveldið yfirtók Konstantínópel, hneig Austrómverska ríkið til falls. Endurreisnin og nýju konungsdæmin á 15. öld mörkuðu upphaf tímabils rannsókna, uppgötvana og meiri vísindalegar þekkingar. Þá hóf Portúgal og skömmu síðar Spánn landvinningana. Síðar fylgdu Frakkland, Holland og Bretland í fótspor þeirra. Með nýlendustefnunni byggðu þessi lönd upp víðlend nýlenduveldi í Afríku, Suður- og Norður-Ameríku og Asíu. Eftir landvinningana miklu tók lýðræðisleg hugsun við í Evrópu. Barátta gegn einræði varð meiri, sérstaklega í Frakklandi í Frönsku byltingunni. Þetta leiddi til gríðarlegra umbrota í Evrópu meðan þessar byltingakenndu hugmyndir og hugsjónir breiddust út um álfuna. Lýðræði leiddi til aukinnar spennu í Evrópu ofan á þá spennu sem var nú þegar vegna samkeppninnar við nýja heiminn. Frægustu átökin urðu þegar Napóleon Bónaparte komst til valda og fór í hertöku á löndunum umhverfis, og gerði þannig nýtt franskt stórveldi, sem féll skömmu seinna. Eftir þessa landvinninga varð Evrópa aftur stöðug, en byrjað var að hnikta í gömlu undirstöðunni. Iðnbyltingin hófst í Bretlandi seint á 18. öld, en hún átti að hörfa frá landbúnaði, sjá til mun meiri almennrar hagsældar og þar af leiðandi aukningu í íbúafjölda. Mörg af ríkjunum í Evrópu komust í núverandi form eftir fyrri heimsstyrjöldina. Frá enda seinni heimsstyrjaldarinnar og þangað til eftir lok kalda stríðsins var Evrópu skipt í tvær pólitískar og efnahagslegar blokkir: Kommúnistaríki í Austur-Evrópu (Tyrkland og Grikkland eru undantekningar), sem byggðu á áætlunarbúskap, og kapítalistaríki í Suður- og Vestur-Evrópu, sem byggðust á markaðshagkerfi. Um árið 1990 féll Berlínarmúrinn og með honum Járntjaldið, og Sovétríkin aðskildust. Samstarf evrópskra ríkja hefur verið einkennandi fyrir álfuna síðan eftir seinni heimsstyrjöldina og hefur breiðst til Austur-Evrópu eftir kalda stríðið. Evrópubandalagið og síðar Evrópusambandið er bandalag 27 ríkja um samvinnu á ýmsum sviðum. Það hefur þróast úr friðar- og efnahagssamstarfi í einingu sem svipar til ríkjabandalags. NATO hefur líka stækkað frá enda kalda stríðsins, og mörg austur-evrópsk ríki hafa gengið í það. Staðhættir og landamörk. Landfræðilega er Evrópa vestasti hluti mun stærra landflæmis sem kallast Evrasía. Heimsálfan byrjar við Úralfjöll í Rússlandi, sem skilgreina austurmörk álfunnar við Asíu. Suðausturmörkin eru ekki staðfest. Úralfjöll eða Emba-fljót eru bæði mögulegir kostir. Mörkin halda áfram yfir Kaspíahaf, Kákasus-fjöll (eða Kura-fljót), og um Svartahafið, gegnum Bospórussund, Marmarahafið og Dardanellasund og út í Eyjahaf en þar gilda landamæri Tyrklands og Grikklands. Mörkin halda svo áfram um Miðjarðarhaf í suðri, N-Atlantshafið í vestri (Ísland er á mörkum Evrópu), og um N-Íshafið í norðri. Vegna pótitísks og menningarlegs mismunar eru til margar lýsingar á mörkum Evrópu; sumir telja ákveðin svæði ekki í Evrópu en aðrir telja þau í henni. Til dæmis telja landafræðingar frá Rússlandi og öðrum fyrrum sovétlöndum að Úralfjöllin séu í Evrópu en Kákasus-svæðið í Asíu. Önnur notkun á orðinu Evrópa er stytting fyrir Evrópusambandið og meðlimi þess og nokkur önnur ríki sem eru talin ætla sér að ganga í sambandið í framtíðinni. Þessi skilgreining á hins vegar ekki við um lönd utan sambandsins, t.d Noregur, Sviss og Ísland. Staðhættir. Hæðarmunur í Evrópu er mjög mismunandi á tiltölulega litlum svæðum. Suðursvæðin eru fjalllendari en í norðurátt lækkar landið frá háum fjallgörðum eins og Ölpunum, Pýreneafjöllum og Karpatafjöllum og breytist úr hálendu fjallsvæði í hæðir og hóla og loks í láglendar og frjósamar sléttur í norðri en þær eru mjög stórar í austri. Þetta risavaxna láglendi er þekkt sem evrópska sléttan og hjarta þess er í norður-þýsku sléttunni. Í Norðvestur-Evrópu liggur langur fjallgarður, frá Bretlandseyjum og um ögrum skorinn Skandinavíuskagann norður til Kólaskaga. Helstu ám í Evrópu má skipta í tvo flokka; annars vegar straumhörð fljót sem liggja úr fjallgörðum eins og Dóná, Rín og Rón, hins vegar lygn fljót sem aðallega má finna á hinum miklu sléttum austar í álfunni eins og Volga, Dnepr og Dón. Þetta er einfölduð lýsing. Svæði eins og Íberíuskaginn og Ítalía hafa hvert sína eigin flóknu landfræðieiginleika, eins og meginland Evrópu. Þar er að finna margar hásléttur, árdali og víðáttumikla dali sem ekki fylgja aðalstefnunni. Ísland og Bretlandseyjar eru sérstök tilfelli. Ísland hefur myndast fyrir tilstilli flekamóta N-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Bretland var eitt sinn tengt meginlandinu en vegna hækkandi sjávarstöðu þá myndaðist Ermarsundið milli þess og meginlandsins. Lönd. Vennmynd sem sýnir skiptingu yfirþjóðlegra samtaka innan Evrópu Eftirfarandi er kort af Evrópu og þau lönd sem hún samanstendur af. Menning. Segja má að menning Evrópu samanstandi af menningu ýmissa smærri svæða sem skarast. Greina má merki blandaðarar menningar um heimsálfuna þvera og endilanga. Spurningin um sameiginlega menningu Evrópu eða evrópska kjarnamenningu er því flókin. Grunninn að evrópskri menningu er að finna í menningu, sögu og bókmenntum Forngrikkja og Rómverja. Við þennan grunn bættist kristni, sem varð ríkjandi trú og mótaði heimsmynd Evrópumanna frá síðfornöld og upp gegnum miðaldir. Endurreisnin á 15. öld og siðaskiptin höfðu áhrif úti um alla Evrópu, eins og upplýsingin á 18. öld. Nefnifall. Nefnifall er fall sem fallorð geta staðið í. Nefnifall er almennt notað fyrir frumlag setninga og fyrir sagnfyllingar. Nefnifall í forngrísku. Frumlag setningar stendur alla jafnan í nefnifalli í forngrísku. Í óbeinni ræðu þar sem gerandi stýrandi sagnar er sá sami og gerandi nafnháttar í óbeinu ræðunni, stendur frumlag nafnháttarins í nefnifalli (sé það tekið fram) en væri annars í þolfalli. Nefnifall í íslensku. Nefnifall er eitt af fjórum föllum í íslensku. Orð sem eru í nefnifalli eru annaðhvort frumlag setningar eða sagnfylling. Einnig er nefnifall notað í ávörpum. Í sumum örðum tungumálum, svo sem latínu, er sérstakt ávarpsfall notað í þessum tilgangi. Einstöku sinnum er þetta latneska fall notað í íslensku. Venja er hjá Íslendingum að bæta við "hér er" fyrir framan nefnifallið í eintölu en "hér eru" í fleirtölu þegar orð eru fallbeygð sérstaklega. Föll í íslensku. Í íslensku eru fjögur föll, nefnifall, þolfall, þágufall og eignarfall (þolfall, þágufall og eignarfall kallast aukaföll). Auk þeirra má geta að orðmyndin Jesú er ávarpsfall af orðinu Jesús á latínu og er stundum notuð sem slík í íslensku. Annars er nefnifall notað í ávörpum á íslensku. Noregur. Noregur er land, á Skandinavíuskaganum í Norður-Evrópu, hefur landamæri að Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi og er eitt Norðurlandanna. Í Noregi búa um það bil 5.000.000 manns (2012). Höfuðborg landsins er Osló. Tungumál Norðmanna er norska (sem hefur tvö opinber ritunarform, bókmál og nýnorsku), ásamt samískum tungumálum. Norskt talmál einkennist af miklum mállýskumun. Notkun mállýsku í venjulegu talmáli er jafn algeng hjá þeim sem nota bókmál eins og þeim sem nota nýnorsku sem ritmál. Noregur er sagt vera friðsælasta land í heimi, árið 2007 samkvæmt Global Peace Index. Saga. Fólk hefur búið í Noregi í yfir 12.000 ár. Fornleifafræðingar segja að fólkið hafi komið frá norður Þýskalandi eða úr norðaustri, sem er norður Finnland og Rússland. Á 8. - 11. öld fóru margir norskir víkingar til Íslands, Færeyja, Grænlands og til Bretlandseyja, en flestir fóru til Íslands þó, til að flýja burt frá Haraldi hárfagra sem reyndi að setja allan Noreg undir sitt vald. Fornleifafræðingar segja að víkingar byrjuðu að sigla til Íslands áður en valdabarátta Haralds byrjaði. 17. maí 1814 fékk Noregur stjórnarskrá, en varð sjálfstætt land 7. júní árið 1905 af völdum sambandslita á milli Noregs og Svíþjóðar. Eftir það hefur 17. maí alltaf verið þjóðhátíðardagur Noregs. Landshlutar. Noregi er skipt í fimm landshluta. Borgarstjóri Reykjavíkur. Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík Borgarstjóri Reykjavíkur er æðsta embætti Reykjavíkurborgar. Núverandi borgarstjóri er Jón Gnarr. Í bæjarstjórnarlögum fyrir Reykjavík sem sett voru árið 1907 var í fyrsta sinn kveðið á um embætti borgarstjóra. Embættið var auglýst árið 1908 og sóttu tveir um stöðuna, þeir Páll Einarsson og Knud Zimsen. Páll var ráðinn til sex ára en að þeim tíma loknum ákvað hann að hætta störfum og Knud Zimsen tók við embættinu. Hann hélt því til ársins 1932. Auður Auðuns. Auður Auðuns (fædd á Ísafirði 18. febrúar 1911, lést 19. október 1999) var íslenskur lögfræðingur og stjórnmálamaður til margra ára. Hún var fyrsta konan sem útskrifaðist á Íslandi sem lögfræðingur og fyrsta konan sem varð borgarstjóri Reykjarvíkur og ráðherra á Íslandi. Ævi. Auður var dóttir Jóns Auðuns Jónssonar alþingismanns, fyrst fyrir Íhaldsflokkinn og svo seinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og Margrétar Guðrúnar Jónsdóttur. Auður tók stúdentspróf við Menntaskólann í Reykjavík árið 1929 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1935, fyrst íslenskra kvenna. Ári seinna giftist hún Hermanni Jónssyni, hæstaréttarlögmanni og eignaðist með honum fjögur börn; Jón (1939), Einar (1942), Margréti (1949) og Árna (1954). Hún starfaði sem lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur á árunum 1940–60. Hún var bæjar- og síðar borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1946-1970. Hún var forseti bæjarstjórnar, síðar borgarstjórnar 1954 – 1959 og 1960 – 1970. Hún var fyrsta konan sem gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík, en hún gegndi embættinu ásamt Geir Hallgrímssyni frá 19. nóvember 1959 til 6. október 1960. Hún var alþingismaður Reykvíkinga 1959–74, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1967. Hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra þann 10. október 1970 og gegndi embættinu fram á mitt sumar 1971. Hún var fyrsta íslenska konan til að gegna ráðherraembætti. Loks má geta þess að hún sat í útvarpsráði 1975 – 1978. Auður var virk í Kvenréttindafélagi Íslands. Hún var gerð að heiðursfélaga 19. júní 1985 þegar sjötíu ár voru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Landsamband sjálfstæðiskvenna og Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík gáfu út "Auðarbók Auðuns" árið 1981 í tilefni af sjötugsafmæli Auðar. 18. febrúar. 18. febrúar er 49. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 316 dagar (317 á hlaupári) eru eftir af árinu. Sýslur á Íslandi. Íslandi hefur frá fornu fari verið skipt upp í sýslur til umboðsstjórnar. Skiptingin hefur verið svipuð frá upphafi og réðst aðallega af rökréttri landfræðilegri skiptingu landsins. Síðar var sumum sýslunum skipt upp og á 20. öldinni voru þær orðnar 23. Þegar þéttbýlismyndun fór af stað á 18. öld var farið að stofna sérstaka kaupstaði, sem ekki heyrðu undir sýslur þó svo að þeir væru innan landfræðilegra marka þeirra. Sýslumenn fóru með framkvæmdavaldið í sýslunum og voru sjálfkjörnir formenn sýslunefnda, sem einnig voru skipaðar fulltrúum allra þeirra hreppa sem í viðkomandi sýslu voru. Verkefni sýslunefnda voru að hafa eftirlit með gerðum hreppsnefnda og annast ýmis mál er snertu sýsluna alla eins og t.d. þjóðvegi. Sýslurnar hafa nú fallið úr gildi sem formlegar stjórnsýslueiningar en þær eru áfram notaðar í daglegu tali til að vísa til landfræðilega afmarkaðra svæða þó að mörk sveitarfélaga og umdæma sýslumanna gangi nú stundum þvert á hin hefðbundnu mörk. Þetta gerðist með tvennum lögum sem sett voru á 9. áratug 20. aldar. Fyrst voru það ný sveitarstjórnarlög () sem að leystu af hólmi eldri lög um sveitarstjórnir frá 1872, en í þeim var kveðið á um að sýslunefndirnar yrðu lagðar niður og verkefni þeirra færð til sveitarfélaganna sjálfra og sérstakra héraðsnefnda (sem oftast ná yfir stærri svæði en gömlu sýslurnar) sem kaupstaðirnir gætu líka átt hlut að. Seinni lagabreytingin fólst í "lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði" (, nú kölluð "Lög um framkvæmdavald ríkisins í héraði") en í þeim var hlutverk sýslumanna endurskilgreint, embætti bæjarfógeta í kaupstöðum lögð niður og dómsvaldið fært frá þessum embættum til nýrra héraðsdómstóla. Í lögunum var Íslandi skipt upp í 25 umdæmi sýslumanna sem að miðuðust að litlu leyti við hina gömlu sýsluskiptingu landsins. Áhrif þessara lagabreytinga voru þau að nú hafa öll sveitarfélög landsins sömu réttarstöðu, hvort sem þau voru áður flokkuð sem hreppur, bær eða kaupstaður og sýslurnar eru ekki lengur til í lagalegum skilningi sem stjórnsýslulegar einingar. Sýslur og kaupsstaðir Íslands, sýslurnar eru 23 talsins og auk þeirra eru 24 kaupstaðir Landafræði Íslands. Ísland er næst stærsta eyjan í Evrópu, 103 þúsund km² að stærð. Ísland er á heitum reit á Atlantshafshryggnum tæplega 300 km austan við Grænland. Á Íslandi er mikil eldvirkni og víða jarðhiti, víða eru heitir hverir og er jarðhitinn nýttur til upphitunar húsa. Um það bil 10% eyjarinnar er undir jöklum, tæplega fjórðungur er gróinn, rúmlega helmingur er auðn og um 75% telst til hálendis. Eyjan er vogskorin nema suðurströndin, og flestir þéttbýlisstaðir standa við firði, víkur og voga. Helstu þéttbýlisstaðir eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Mosfellsbær liggja saman. Meðal stórra bæa í dreifbýli má nefna Akureyri, höfuðstað Norðurlands, Ísafjörð á Vestfjörðum, þéttbýli í Reykjanesbæ á Reykjanesi og Vestmannaeyjar. Staðsetning og stærð. Ísland er vestasta land í Evrópu en nágrannalandið Grænland er austasta land í Ameríku. Asóreyjar, lítill eyjaklasi Á Atlantshafi sem tilheyrir Portúgal, liggja að hluta vestar en Ísland. Ísland liggur í um 970 km fjarlægð frá Noregi, um 1489 km eru til Danmerkur, 420 km til Færeyja og 550 til Jan Mayen. Ísland er 103.000 km², 107. stærsta land heimsins, ríflega 5 þúsund km² minna en Gvatemala og tæpum 4 þúsund km stærra en Suður Kórea, og um 0,07% af flatarmáli jarðarinnar. Strandlína landsins mælist 4.970 km en Vestfjarðakjálkinn, Reykjanes og Snæfellsnes hafa mikla strandlínu. Nyrsti tangi Íslands heitir Rifstangi (66°32,3´ N) og sá syðsti Kötlutangi (63°23,6´ N), Ísland liggur því á milli 63 og 66 breiddargráðu. Vestasti oddi landsins eru Bjargtangar (24°32,1´ V) og sá austasti Gerpir (13°29,6´ V). Stærstu eyjarnar við strendur landsins eru Vestmannaeyjar (samanlagt 17 km²), Hrísey (8 km²), Hjörsey (5,5 km²), Grímsey (5,3 km²) og Flatey á Skjálfanda (2,8 km²). Byggð er á Vestmannaeyjum, þar búa ríflega fjögur þúsund manns. Jarðfræði. Ísland tók að myndast fyrir um 44-26 milljónum ára. Elsta berg landsins er yst á Vestfjörðum og er um 16 milljón ára gamalt samkvæmt aldursgreiningum. Vegna norðlægrar legu landsins eru ummerki ísaldarinnar áberandi en hún hófst af fullum krafti fyrir rúmlega 2 milljónum ára. Seinasta kuldaskeiði ísaldar lauk fyrir um 11.500 árum og er tímabilið eftir það nefnt nútími. Eins og áður hefur komið fram er Ísland á heitum reit, og er jarðhitasvæðum skipt í háhitasvæði eins og Kröflu, Brennisteinsfjöll og Hengil annars vegar og lághitasvæði eins og við Reykholt í Borgarfirði þar sem Deildartunguhver er að finna. Í gegnum Ísland liggja þrjár aðalsprungureinar sem allar tilheyra Norður-Atlantshafshryggnum; ein kemur sunnan frá vestan Vestmannaeyja og endar við syðri rætur Langjökuls í norðri. Önnur kemur norðan að austan Grímseyjar, yfir Melrakkasléttu og niður Vatnajökul með Bárðarbungu og Grímsvötnum til suðurs. Milli þessarra tveggja klemmist svo þverbrotabelti Suðurlandsundirlendisins sem gerir það að mjög virku jarðskjálftasvæði. Þriðja og máttlausasta sprungureinin gengur vestan við Ísland og norður með landinu austan við Grænland, og snertir eingöngu á föstu landi við Snæfellsjökul. Jöklar, vötn, ár og fossar. Jöklar þekja 11.922 km² eða 11,6% landsins. Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu, er á Suð-Austurlandi en hann er 8.100 km². Úr Vatnajökli ganga nokkrir skriðjöklar; Skaftárjökull, Köldukvíslarjökull, Tungnárjökull, Síðujökull, Skeiðarárjökull, Breiðamerkurjökull, Skálafellsjökull, Fláajökull, Eyjabakkajökull, Brúarjökull og Dyngjujökull. Næst-stærsti jökull landsins er Langjökull um 950 km², Hofsjökull er litlu minni eða 925 km², Mýrdalsjökull er 596 km², Drangajökull 160 km² og fjölda smærri jökla er að finna á landinu. Alls þekja stöðuvötn um 2.757 km² af yfirborði Íslands eða sem samsvarar 2,68% af flatarmáli landsins. Stærsta stöðuvatn Íslands er Þórisvatn eða Þingvallavatn, eftir því hver vatnsstaðan í Þórisvatni er en það er miðlunarlón fyrir Vatnsfellsvirkjun. Dýpsta stöðuvatn landsins er Öskjuvatn við Öskju, um 220 m á dýpt. Mývatn er þekkt stöðuvatn sem er nálægt Kröflu og er mjög grunnt og í eru fjöldi eyja. Í Mývatni finnast stórir, kúlulaga grænþörungar sem nefnt er kúluskítur en þeir eru sérstakir fyrir þær sakir að þeir finnast aðeins í Mývatni og í Akanvatni á Hokkaidoeyju í Japan. Lengsta á Íslands er Þjórsá sem rennur frá norðanverðum Sprengisandi um 230 km leið til sjávar. Vatnsmesta á Íslands er Ölfusá en við Selfoss mælist meðalrennsli hennar 400 m³/s. Jökulsá á Fjöllum sem rennur undan Vatnajökli er önnur lengsta á landsins, Jökulsá á Dal sem rennur líka undan Vatnajökli hefur verið virkjuð með Kárahnjúkavirkjun. Hæsti foss landsins er Glymur í Botnsá, mældur 190 m á hæð. Gullfoss er einn þekktasti foss landsins sem ásamt hvernum Geysi trekkir að fjölda ferðamanna á hverju ári. Dettifoss, Goðafoss, Svartifoss og Dynjandi eru einnig þekkt örnefni. Veðurfar. Á Íslandi er temprað loftslag, landið er ekki stórt og geta mánaðarmeðaltöl í hita á tilteknum stað veitt góða hugmynd um aðra staði á landinu. Golfstraumurinn hefur talsverð áhrif á hitastig, að vetri til er hlýjar meðfram ströndinni en inni á landi. Þetta getur þó breyst sé hafís við landið eða ef mjög hægviðrasamt er. Að sumri til ræður vindafar miklu um hitastig á landinu. Mesti hiti sem mælst hefur á landinu var 30,5 °C Teigarhorni þann 22. júní 1939 en lægsti hiti mældist á Grímsstöðum og Möðrudal -38 °C þann 21. janúar 1918. Meðalhiti í Reykjavík í janúar er 1,8 °C en –8 °C á miðhálendinu þar sem vetur eru kaldastir. Meðalhiti í júlí er um 10 °C á landinu öllu, aðeins lægri á norðurlandi. Fylgni er á milli úrkomu og hitastigs á Íslandi. Á síðastliðinni hálfri öld eða svo hefur úrkoma aukist. Talsverður munur er í meðalúrkomu og meðalhita á veðurathugunarstöðvum fyrir árið 2006; á Kirkjubæjarklaustri mældist úrkoman 2.218 mm og hitinn 5,6 °C, á Raufarhöfn 509 mm og 3,8 °C í Reykjavík 890 mm og 5,4 °C. Gróðurfar. Fjalldrapi var algeng birkitegund á landnámsöld Á landnámsöld er áætlað að um fjórðungur landsins hafi verið þakinn birkiskógi eða kjarri en í dag er um 1,2% þannig vaxinn. Algengasta tréð er ilmbjörk. Önnur innlend tré eru ilmreynir (reyniviður) og hin sjaldgæfa blæösp. Einnig finnast runnar og kjarr eins og gulvíðir og loðvíðir og fjalldrapi. Innfluttar trjátegundir sem notaðar hafa helst í skógrækt eru: Alaskaösp, sitkagreni, rússalerki og stafafura. Skógrækt innfluttra tráa jókst mjög eftir seinni heimsstyrjöld. Talið er að eingöngu um 500 tegundir háplantna sé að finna á Íslandi vegna síðustu ísaldar, er landið var hulið jökli. Bróðurpartur þeirra plantna sem nú þrífast á landinu hafa borist eftir ísöld með vindum, fuglum eða mönnum en sumir telja að allt að fimmtungur hafi lifað af ísöldina, til dæmis á jökulskerjum. Lítil fjölbreytni er í gróðurfari milli landshluta. Þó er talað um einkennisplöntur, það er bláklukku og gullsteinbrjót á Austurlandi og draumsóley og krossjurt á Vestfjörðum. Nokkrar plöntur eru bundnar við ákveðin svæði, til dæmis skeggburkni á Norðurlandi og burstajafni á Suðausturlandi. Yfir 600 mosategundir, 700 fléttutegundir og um 2.000 tegundir af sveppum hafa fundist á Íslandi. Ein ástæða fjölda sveppategunda er sú að sveppagró eru smásæ og geta borist með vindum, aukinheldur þrífast sveppir í tiltölulega ófrjóum jarðvegi. Eitt megineinkenni gróðurfars á Íslandi er mosi en hann er víða eini gróðurinn sem þrífst í hraunum og söndum landsins. Dýralíf. Miðað er við að um 1.600 tegundir dýra finnist á Íslandi, ríflega helmingurinn skordýr. Fá stór spendýr finnast á Íslandi, heimskautarefurinn er eina upprunalega spendýrið. Hvítabirnir hafa einnig borist til landsins með hafís. Önnur stærri dýr hafa verið flutt til landsins og meðal þeirra má nefna hagamúsina, hreindýr, minkinn, rottuna, ketti og hunda. Búskapur er hafður á kindum, hestum og nautgripum. Þá tíðkast einnig eldi hænsna (kjöt og eggjaafurðir), loðdýra, svína og geita. Rostunga má finna við strendur landsins og sex tegundir sela sömuleiðis; landselur, vöðuselur, hringanóri, útselur, blöðruselur og kampselur. Sést hafa 23 tegundir hvala á Íslandsmiðum en á hverjum tíma er metið sem svo að á bilinu 3-4 hundruð þúsund hvali megi finna þar. Einna fjölmennustu tegundirnar eru langreyður, hrefna, grindhvalur og sandreyður en einnig finnast steypireyðar, andarnefjur, háhyrningar, búrhvalir og blettahnýðar. Hnúfubakur er aftur á móti mjög sjaldgæfur að talið er vegna ofveiða Norðmanna en hann var friðaður árið 1955. Enn sjaldgæfari tegundir eru náhvalur og mjaldur. Í ferskvatni lifa laxar, urriðar, bleikjur, hornsíli og álar. Alls hafa sést um 370 tegundir fugla á Íslandi, þ.m.t. mávar, endur, svanir, hafernir, hrafnar og fálkar. Um 80 tegundir fugla verpa á Íslandi. Lundinn er álitinn eins konar einkennisdýr landsins, enda er hann fjölmennastur fugla, talið er að 10 milljón lunda verpi á Íslandi á hverju sumri. Ísland er einnig viðkomustaður farfugla, s.s. gæsa og vaðfugla. Mikil dúntekja hefur verið við Íslandsstrendur í gegnum aldirnar en hún er mikilvæg á hlunnindajörðum. Æðarfuglinn var friðað á Íslandi árið 1786 og var þar með fyrsta dýr í heiminum sem hlaut friðun. Félagasamtök. * Íslensk menning. Íslensk menning er menning Íslendinga. Hún er þekkt fyrir bókmenntasögu sína, sem er byggð á höfundum frá 12. og 14. öldum. Bókmenntir. Elstu íslensku bókmenntirnar eru skrifaðar í kringum 1100, þó þær eigi sér mun eldri rætur í munnlegri geymd. Það sem fyrst var skrifað voru lög, áttvísi (ættfræði) og þýðingar helgar (kristinfræði), auk Fyrstu málfræðiritgerðarinnar og Íslendingabókar Ara fróða. Sögur af konungum fylgdu svo í kjölfarið og þá Íslendingasögur, riddarasögur og fornaldarsögur. Kvikmyndir. Árlega eru veitt verðlaun fyrir afrek liðins árs í kvikmyndagerð á Íslandi. Verðlaunin, sem eru einhvers konar stæling á Óskarsverðlaununum bandarísku eru kölluð Edduverðlaunin. Myndlist. Myndlist á Íslandi er ung á alþjóðamælikvarða. Áður voru það aðallega málverk sem voru gerð, en um 1965 varð til hópur sem kallaði sig SÚM og þeir komu með nýjar stefnur í íslenska myndlist í fyrsta sinn. Innsetningar, gjörningar og fleira í þeim dúr kom í fyrsta sinn til landsins og var listamaðurinn Dieter Roth helsta driffjörðin í SÚM. Í dag er íslensk myndlist komin á heimsmælikvarða og verk eftir íslenska nútíma myndlistarmenn er eftirsótt. Annað. Þekktustu Íslendingarnir eru líklega poppsöngkonan Björk Guðmundsdóttir og Halldór Laxness, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum árið 1955. Lofsöngur. Víðmynd af minningartöflunum tveim við London Street 15. Lofsöngur er sálmur eftir Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Lag og ljóð voru frumflutt af blönduðum kór við hátíðarguðsþjónustu sem hófst klukkan 10:30 í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 sem Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára og var konungur Danmerkur (og þar með konungur Íslands), Kristján IX, viðstaddur þá athöfn. Ljóðið öðlaðist í kjölfar þess vinsældir meðal almennings sem þjóðsöngur og var flutt sem slíkt við fullveldistökuna 1918, sú staða ljóðs og lags var svo fest í „lög um þjóðsöng Íslendinga“, sem voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Áður var vísan Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen við lagið God Save the Queen oft sungin sem einhvers konar þjóðsöngur, en það þótti ekki hæfa að notast við sama lag og aðrar þjóðir nota við þjóðsöng sinn. Lofsöngurinn gengur oftast undir heitinu Ó, Guð vors lands, sem er fyrsta ljóðlína hans og er það meðal annars notað sem heiti ljóðsins í lögum um þjóðsönginn, en er þó skrifað þar án kommu á eftir ó–inu. Umræður um að skipta um þjóðsöng. Reglulega hefur sú hugmynd komið upp í þjóðfélagsumræðunni að skipta um þjóðsöng og hafa þá oft verið nefnd lögin Ísland er land þitt eftir Magnús Þór Sigmundsson við texta Margrétar Jónsdóttur og ljóð Eggerts Ólafssonar Ísland ögrum skorið við lag Sigvalda Kaldalóns og Öxar við ána, lag Helga Helgasonar við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Þjóðsöngurinn hefur einkum verið gagnrýndur fyrir að þykja torsunginn; að vera of langur, en iðulega þarf að auka spilunarhraða lagsins eða stytta það, oftast niður í fyrsta erindið, við alþjóðlega kappleiki og aðrar þjóðlegar samkomur; fyrir að vera torskilinn og að lokum fyrir að fjalla aðallega um Guð kristinna manna. Árið 1994 (121. löggjafarþing, 35. mál) var lögð fram þingsályktunartillaga um „endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga“ og m.a. lagt til að taka upp annan þjóðsöng ásamt lofsöngnum og hafa þá tvo þjóðsöngva (líkt og t.d. Nýja Sjáland hefur gert), tillagan var felld. Þann 8. nóvember 2004 (131. löggjafarþing, 279. mál) lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson fram þingsályktunartillögu þess efnis að kannað yrði hvort rétt væri að skipta um þjóðsöng, „með það fyrir augum að taka upp nýjan þjóðsöng sem væri auðveldari í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur svipuð tækifæri.“. Þau mæltu einkum með tveimur staðgenglum: ljóðinu Ísland ögrum skorið og laginu Ísland er land þitt. Fyrri umræða var haldin 16. nóvember 2004 og var ákveðið skv. atkvæðagreiðslu að halda henni áfram í síðari umræðu. Í könnun Gallup í mars 1994 var spurt tveggja spurninga: „Hvað heitir þjóðsöngurinn?“ og „Á að skipta um þjóðsöng?“ Við fyrri spurningunni svöruðu 60% „Ó guð vors lands“, 1,8% „Lofsöngur“, 6% nefndu aðra söngva, 32% aðspurðra kváðust ekki vita nafn þjóðsöngsins. Mikill munur var eftir aldri á því hvort aðspurðir vissu hver þjóðsöngurinn væri, eða um 30% 15–24 ára fólks og 90% 55-69 ára. Við seinni spurningunni svöruðu 65% því að þeir vildu halda sig við núverandi þjóðsöng, tæplega 5% kusu Öxar við ána. Í annarri Gallupkönnun sem gerð var í nóvember 1996 í kjölfar umræðna á Alþingi um hvort skipta ætti um þjóðsöng, vildu 68% halda núverandi þjóðsöng og tæplega 32% vildu nýjan. Stuðningur við þjóðsönginn jókst með hækkandi aldri en fór þó aldrei niður fyrir 50%. Athuga skal, að í hvorugri könnuninni gaf Gallup upp stærð úrtaks eða svarhlutfall. Lagaleg staða. „Lög um þjóðsöng Íslendinga“, þar sem söngurinn er nefndur „Ó Guð vors lands“, voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Þar er m.a. staðhæft að hann sé eign íslensku þjóðarinnar, að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu, að eigi sé heimilt að nota hann í viðskipta– eða auglýsingaskyni, að forsætisráðherra skuli skera úr um allan ágreining um rétta notkun hans og að forsætisráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti hans. Forsetinn hefur svo vald til að setja nánari ákvæði um notkun hans með forsetaúrskurði ef þörf þykir. Brot á lögunum vörðuðu upprunalega varðhaldi allt að 2 árum, en því var breytt með lögum nr. 82, 16. júní 1998. Eftir að þau tóku gildi varðaði brot á lögum um þjóðsöng Íslendinga fangelsisvist allt að 2 árum. Ljóðið. Lofsöngurinn samanstendur af þremur erindum og er yfirleitt látið nægja að syngja það fyrsta við opinberar samkomur. Íslenska. Íslenska er indóevrópskt, germanskt og vesturnorrænt tungumál sem er einkum talað og ritað á Íslandi og er móðurmál langflestra Íslendinga. Það hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál og er skyldara norsku og færeysku en sænsku og dönsku. Saga íslensku. Íslenska tilheyrir hinni germönsku grein indóevrópskra tungumála sem greindist snemma í norður-, austur- og vesturgermönsk mál þar sem íslenska á rætur sínar að rekja til elsta stigs norðurgermanskra mála — það stig nefnist frumnorræna ("Proto-Norse") sem töluð var á Norðurlöndum á árunum 200–800. Í kringum víkingaöld (frá árinu 793–1066) greindist norrænan svo í austur- (dönsku og sænsku) og vesturnorrænu (íslensku, norsku, færeysku og norn) og er íslenska því skyldari norsku og færeysku en sænsku og dönsku. Þá fluttu Norskir landnámsmenn með sér tungumál sitt þegar þeir settust að á Íslandi á 9. öld en þeir komu flestir frá Vestur-Noregi. Það er álitamál hvenær íslenskan sjálf hafi orðið til og útilokað að tímasetja það nákvæmlega; íslenskan og Norskan fjarlægðust svo hægt og rólega og voru þau orðin talsvert ólík í kringum 1400 en eðlilegast væri að segja að íslenska hafi orðið sértungumál þegar orðinn var einhver ákveðinn munur á því og því norsku. Sumir landnámsmenn voru frá Bretlandseyjum af norrænum og keltneskum uppruna og einnig fluttu landnámsmenn með sér fólk frá Írlandi. Þrátt fyrir það hafa áhrif Kelta á íslenskuna ekki verið mikil eru einskorðuð við tökuorð, mannanöfn og örnefni. Á þeim tíma sem hefur liðið hafa orðið talsverðar breytingar á tungumálinu, einkum á orðaforða og framburði, en lítt á málfræði, eins og kemur fram að neðan. Breytingar þessar, einkum á orðaforða, má rekja til breyttra lifnaðarhátta, breytinga á samfélaginu, nýrrar tækni og þekkingar, sem og áhrifa annarra tungumála á íslensku, einkum ensku og dönsku. Til hægðarauka er sögu íslenskunnar skipt í þrjú skeið: fornmál til um 1350, miðmál frá 1350 til um 1550 (eða 1600) og nýmál frá lokum miðmáls. Íslenska ritmálið hefur 14 sérhljóða: a, á, e, é, u, ú, i, í, o, ó, y, ý, æ, ö. Af þeim eru fjórir tvíhljóðar: á (aú), é (íe), ó (oú) og æ (aí) auk tvíhljóðanna au (öí), ei og ey (eí). Hljóðkerfið hefur einungis átta hreina sérhljóða: a, e, i (og y), í (og ý), o, ö, u og ú. Samhljóðar eru 16. Breytingar. Íslenskt ritmál hefur lítið breyst síðan á 11. öld með þeim afleiðingum að Íslendingar geta enn í dag — með nokkurri æfingu — lesið forn rit á borð við Landnámu, Snorra-Eddu og Íslendingasögurnar. Samræmd stafsetning, og þó einkum nútímastafsetning, auðveldar lesturinn þó mikið, auk þess sem orðaforði þessara rita er heldur takmarkaður. Meiri breytingar hafa orðið á framburði, svo miklar að Íslendingur 20. aldar myndi trúlega eiga í nokkrum erfiðleikum með að skilja Íslending 13. aldar, gætu þeir talað saman. Helstu breytingar á málinu ná því til orðaforða og framburðar en minni breytingar hafa orðið á málfræði. Ýmsar ástæður eru fyrir því hversu vel málið hefur varðveist. Hefðbundna skýringin er auðvitað einangrun landsins en líklega hefur fullmikið verið gert úr því og er sú skýring ein tæpast fullnægjandi. Önnur ástæða sem oft er nefnd er sú að málið hafi varðveist í skinnhandritunum, hvort sem var um afþreyingarbókmenntir að ræða eða fræði. Handritin hafi verið lesin og innihald þeirra flutt fyrir þá sem ekki voru læsir, þannig hafi mál þeirra varðveist og orðaforði handritanna haldist í málinu. Enn fremur hafi lærðir Íslendingar skrifað að miklu leyti á móðurmálinu, allt frá því að Ari fróði og Fyrsti málfræðingurinn skráðu sín rit, þess vegna hafi latínuáhrif orðið minni en víða annars staðar. Kirkjunnar menn á Íslandi voru líka fljótir að tileinka sér aðferðir Marteins Lúthers og Biblían var snemma þýdd á íslensku. Biblíur og önnur trúarrit voru því snemma til á íslensku á helstu fræðasetrum landsins og prestar boðuðu Guðs orð á íslensku. Þessa kenningu má helst styðja með því að bera okkur saman við þjóðir sem ekki áttu Biblíu á eigin tungu, til dæmis Norðmenn en þeir notuðust við danska Biblíu. Orsakir þeirrar þróunar sem varð á íslensku verða seint útskýrðar til hlítar en þeir þættir sem nefndir eru hér að ofan hafa allir haft einhver áhrif. Margir Íslendingar telja íslenskuna vera „upprunalegra“ mál en flest önnur og að hún hafi breyst minna. Það er ekki alls kostar rétt og má í því sambandi nefna að íslenskan hefur einungis fjögur föll af átta úr indóevrópska frummálinu, á meðan flest slavnesk mál hafa sex föll og pólska sjö. Þýska hefur einnig fjögur föll eins og íslenska og varðveitt eru rit á fornháþýsku sem eru mun eldri en íslensku handritin eða frá áttundu öld. Í Grikklandi er enn töluð gríska, rétt eins og fyrir þrjú þúsund árum og svo má lengi telja. Grikkir geta þó ekki skilið forngrísku eins og Íslendingar skilja texta á forníslensku, því breytingarnar voru of miklar milli forn-, mið- og nýgrísku, vegna ýmissa mállýskna sem höfðu áhrif hver á aðra. Öll þessi mál eiga það þó sameiginlegt að hafa breyst að einhverju leyti og er íslenskan þar engin undantekning. Frá fornmáli til nútímamáls hvarf tvítalan sem tíðkaðist í fyrstu og annarri persónu persónufornafna. Eða réttara sagt: tvítala varð fleirtala og fleirtalan varð hátíðlegt mál en þéranir tíðkast ekki enda eru ávörp tiltölulega óformleg í daglegum samskiptum. Daganöfnin breyttust (fyrir áhrif frá Jóni Ögmundarsyni Hólabiskupi) ólíkt því sem var í öðrum germönskum málum, meira að segja færeyskunni. Gamla íslenskan hafði raddað blísturshljóð (z), sem afraddaðist og styttust forliggjandi sérhljóðar ("Özur" → "Össur", "Gizur" → "Gjissur"). Milli 1100 og 1200 urðu "s" að "errum" (samanber "vas" → "var" og "es" → "er"). Fyrir 1300 var létt af samhljóðarunum, það er að segja, u-viðbótin framan við -r í endingum, en dje-viðbæturnar framan við -n og -l tóku sér stað 1400 & 1500. Enn fremur fyrir 1300 önghljóðuðust mörg lokhljóð, samanber mik — mig, barnit - barnið. Sagnir eru nefndar sterkar eða krappar þegar þær mynda fortíð með sérhjóðabreitingu í stofni og eru einkvæðar í fortíð en veikar eða langar þegar þeir eru tví- eða fjölkvæðar í fortíð og enda með -i. Nokkrar sagnir sem voru krappar hafa fengið veika beygingu en gamla afbrigðið einungis að hálfu dáið út, sbr: hratt, fól, hjalp. Endingar sagna í annarri persónu hafa breist sbr. ferð, slærð, lest, var í gamla málinu ferr, slær og less og hér eru auðvitað áhrif frá fornafni annarrar persónu. Þátíð fyrstu persónu eintölu framsöguháttar, (veikra sagna) sem nú endar með -i endaði með -a (Ek kallaða). Enn fremur var germyndarendingin -sk en ekki -st (barðisk - barðist). Beygingarendingar 1. persónu skilyrts háttar / viðtengingarháttar hafa sömuleiðis breyst í hvort tveggja eintölu sem fleirtölu. Viðtengingarháttur fyrstu persónu eintölu nútíðar endar í dag á -i (þótt ég brjóti) en í fornmálinu á -a (þótt ég brjóta) og í fleirtölu endar hann í dag á -um en í fornmálinu á -im. Hljóð- og beygingarkerfi íslenskunnar hefur einni tekið breytingum og fjöldi tökuorða bæst við. Mállýskur. Ísland er talið nær mállýskulaust land og skiptist ekki greinilega upp í mállýskusvæði. Ýmis svæðisbundin afbrigði mynduðust í málinu, þrátt fyrir hinar litlu breytingar, en deildar meiningar eru um hvort sá munur geti kallast mállýskumunur. Hingað til hefur yfirleitt verið einblínt á framburðarmun þó einnig hafi einhver munur verið á orðanotkun. Málvöndunarmenn á fyrri hluta tuttugustu aldar gengu hart fram í að útrýma flámæli, einkum vegna þess að það var talið geta raskað samræmi milli talmáls og ritmáls. Skólarnir voru meðal annars notaðir í þeim tilgangi. Mállýskumunur hefur dofnað talsvert á Íslandi á tuttugustu öld og sumar framburðarmállýskurnar eru nánast horfnar úr málinu. Helstu íslensku framburðarmállýskurnar eru (voru) skaftfellskur einhljóðaframburður, vestfirskur einhljóðaframburður, harðmæli og raddaður framburður, ngl-framburður, bð- og gð-framburður, hv-framburður og rn- og rl-framburður. Íslenska utan Íslands. Íslenska er töluð af áhugamönnum og fólki af íslensku bergi brotið víðsvegar um heim. Mest var af íslenskumælandi fólki í Kanada (t.d. í Gimli í Manitoba), og Bandaríkjunum (til dæmis Norður-Dakota) en þangað fluttust stórir hópar Íslendinga (kallaðir Vesturfarar) við lok 19. aldar, en íslenskukunnátta er þar nú lítil meðal yngra fólks. Svo er að nefna þá er leggja stund á nám á íslensku erlendis, til dæmis þá sem læra íslensku í gegnum kennsluvef Háskóla Íslands, sem kallast "Icelandic Online" og sem erlendir aðilar tóku þátt í, meðal annarra háskóli í Wisconsin í Bandaríkjunum. Marteinn Lúther. Marteinn Lúther (stundum líka Marteinn Lúter á íslensku) (10. nóvember 1483 – 18. febrúar 1546) (þýska: "Martin Luther") var þýskur munkur af Ágústínusarreglunni og prófessor í biblíufræðum við Háskólinn í Wittenberg. Hann er þekktastur fyrir að vera einn af siðbótarmönnum kirkjunnar á 16. öld. Við hann er kennd evangelísk-lúthersk kirkja. Lúther var fjölhæfur guðfræðingur og iðinn rithöfundur. Eftir hann liggur mikið safn rita af ýmsum toga. Hann stóð einnig fyrir þýðingu Biblíunnar yfir á þýsku. Marteinn Lúther negldi táknrænt skjal á dyr kirkjunnar í Wittenberg, þar sem hann setti fram í 95 greinum kenningar sínar um kristna trú og leiðir til þess að endurbæta hana, þá sér í lagi með tilliti til sölu á syndaaflausn. Með þessum gjörningi kom hann af stað Mótmælendahreyfingunni innan Rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem þróaðist loks í evangelísku-lúthersku kirkjuna. Mars (mánuður). Mars eða marsmánuður er þriðji mánuður ársins og er nefndur eftir Mars, rómverskum stríðsguði. Orðsifjar. Mánaðarheitið mars er komið úr latínu. Fyrir daga Júlíusar Sesars byrjaði árið hjá Rómverjum með marsmánuði. Þá fór að vora suður þar og þótti þá hentugt að fara í stríð. Mánuðurinn var því helgaður herguðinum Mars og heitir eftir honum. Vegna þess að mars var fyrstur í röðinni innan ársins skýrast nöfn mánaðanna september, október, nóvember og desember (= sjöundi, áttundi, níundi og tíundi mánuður). Þetta er líka orsök þess að hlaupársdagur er síðasti dagur febrúar, sem þannig var síðasti dagur ársins, sem verður að teljast eðlilegur staður fyrir innskotsdag. Forsætisráðherrar á Íslandi. Forsætisráðherra Íslands er höfuð ríkisstjórnar Íslands líkt og í flestum þeim löndum þar sem höfuð ríkisstjórnar er ekki þjóðhöfðingi. Tengt efni. Ísland forsætisráðherrar Pólland. Pólland (pólska: "Polska"), að fullu nafni Lýðveldið Pólland (pólska: "Rzeczpospolita Polska", kassúbíska: "Pòlskô Repùblika", silesíska: "Polsko Republika"), er land í Evrópu. Það á landamæri að Þýskalandi í vestri, Tékklandi og Slóvakíu í suðri, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Litháen í austri og Rússlandi í norðri. Landið á strönd að Eystrasalti og renna þar árnar Odra og Visla í sjó. Pólland er 312.679 ferkílómetrar að flatarmáli og er það níunda stærsta land Evrópu. Íbúar landsins eru rúmlega 38 milljónir og er það sjötta fjölmennasta ríki Evrópusambandsins. Söguágrip. Oft er talið að Pólland hafi orðið til þegar furstinn Mieszko 1. innleiddi kristna trú árið 966. Þá náði ríki hans nokkurn veginn yfir það svæði sem nú telst til Póllands. Pólland varð konungsríki árið 1025 og árið 1569 voru aldalöng tengsli við stórhertogadæmið Litháen innsigluð með undirritun Lublin-samkomulagsins og Pólsk-litháíska samveldið myndað. Samveldið leystist upp árið 1795 og Póllandi var síðan skipt á milli Prússlands, Rússlands og Austurríkis. Pólland fékk sjálfstæði að nýju sem lýðveldi árið 1918 en í september var landið hernumið af Þjóðverjum og Sovétmönnum og leiddi það til heimsstyrjaldarinnar síðari. Yfir sex milljónir Pólverja féllu í stríðinu og eftir stríð lenti Pólland á áhrifasvæði Sovétríkjanna og Alþýðulýðveldið Pólland var stofnað. Landamæri þess voru töluvert frábreytt þeim sem voru fyrir stríð, og voru pólsk svæði tekin af Sovétríkjunum í austri en Pólland fékk mjög stór landssvæði af hinu fallna Þýskalandi. Stjórn kommúnista var bolað frá árið 1989 og þriðja pólska lýðveldið stofnað. Pólland er nú meðlimur í Evrópusambandinu og NATO. Héraðaskipting. Við endurreisn Póllands eftir heimsstyrjöldina síðari var landinu skipt upp í 14 héruð (pl: "województwo" - þýðir upphaflega "hertogadæmi"). 1950 var þeim fjölgað í 17. Árið 1975 var stjórnkerfinu breytt og stjórnstigum fækkað um eitt. Héruðin urðu þá 49 talsins og hélst svo til næstu stjórnkerfisbreytingar árið 1999. Borgir og bæir. Bielsko-Biała, Białystok, Bydgoszcz, Częstochowa, Gdańsk, Gdynia, Gniezno, Karpacz, Katowice, Kołobrzeg, Kraków, Lublin, Łódź, Malbork, Olsztyn, Opole, Poznań, Sopot, Szczecin, Toruń, Varsjá, Wrocław, Zakopane Matargerð. Pólsk matargerð hefur breyst í gegnum tíma vegna breytilegra aðstæðna í landinu. Hún er svipuð öðrum eldunarhefðum sem er að finna annarsstaðar í Mið-Evrópu og Austur-Evrópu og jafnvel í Frakklandi og á Ítalíu. Áhersla er lögð á kjöti, sérstaklega svínakjöti, nautkjöti og kjúklingi (mismunandi eftir svæðum), og vetrargrænmeti svo sem káli, og kryddum. Ýmiss konar núðlur er líka að finna í mörgum réttum, meðal þeirra helstu eru "kluski", auk kornplantna eins og "kasza". Pólsk matargerð er almennt vegleg og mikið af eggjum og rjóma er notað. Hefðbundnu réttirnir krefjast mikils undirbúnings. Margir Pólverjar eyða miklum tíma í að undirbúa og borða hátíðarréttina sína, sérstaklega um jólin og páska, þá getur tekið nokkra daga til að búa til alla réttina. Poznań. Poznań (Þýska "Posen", Latína "Posnania") er 5. fjölmennastaborg Póllands og höfuðborg Wielkopolskie sýslu. Borgin er ein elsta borg Póllands og var mikilvæg miðstöð á fyrstu árdögum pólska ríkins. Poznań liggur í við Warta-á. Varsjá. Varsjá (pólska: "Warszawa", latína: "Varsovia") er höfuðborg Póllands og jafnframt stærsta borg landsins. Borgin liggur við ána Visla og er um það bil 260 km frá Eystrasalti og 300 km frá Karpatafjöllunum. Árið 2010 var íbúafjöldinn 1.716.855 manns og 2.631.902 manns á stórborgarsvæðinu, þannig er Varsjá 10. fjölmennasta borg Evrópusambandsins. Flatarmál borgarinnar er 516,9 ferkílómetrar en stórborgarsvæðið nær yfir 6.100,43 ferkílómetra. Varsjá er í héraðinu Masóvía og er stærsta borg þess. Varsjá er talin heimsborg og er vinsæl ferðamannaborg og mikilvæg fjármálamiðstöð í Mið-Evrópu. Hún er einnig þekkt sem „föníxborgin“ af því að hún hefur staðist mörg stríð í gegnum söguna. Helsta þessara stríða var seinni heimsstyrjöldin þar sem 80 % af byggingum í borginni voru eyðilagðar en borgin var endurbyggð vandlega eftir það. Þann 9. nóvember 1940 var borginni gefið hæsta heiðursmerki Póllands, Virtuti Militari, vegna umsátursins um Varsjá (1939). Borgin er nafni fjölda ríkja, samninga og atburða, meðal þeirra eru Varsjáríkjabandalagið, Varsjárbandalagið, hertogadæmið Varsjá, Varsjársáttmálinn, Varsjársamningurinn, uppreisnin í Varsjá og uppreisnin í Varsjárgettóinu. Óopinber söngur borgarinnar er Warszawianka. Orðsifjar. Á pólsku þýðir orðið "Warszawa" (einnig stafað "Warszewa" eða "Warszowa") „í eigu Warsz“. "Warsz" er stytting á slavnesku karlmannanafni Warcisław (nafn borgarinnar Wrocław á líka rætur að rekja til þessa mannanafns). Samkvæmt þjóðsögu var Warsz fiskimaður giftur konu sem hét Sawa. Sawa var hafmeyja sem bjó í ánni Visla nálægt borginni, sem Warsz varð ástfanginn í. Í rauninni var Warsz aðalsmaður sem var uppi á 12. eða 13. öld sem átti þorp sem á svæðinu þar sem hverfið Mariensztat liggur í dag. Opinbera heiti borgarinnar á pólsku er "miasto stołeczne Warszawa" (höfuðborgin Varsjá). Á íslensku var borgin stundum nefnd "Varsjáfa", "Varsjáva" eða "Varsjáv". Upphaf. Fyrstu byggðirnar á staðnum sem í dag er kallaður Varsjá voru Bródno (9. – 10. öld) og Jazdów (12. – 13. öld). Eftir að árás var gerð á Jazdów var sest að á svæðinu þar sem fiskiþorpið Warszowa var. Bolesław 2. Masóvíuprins stofnaði byggðina Varsjá um árið 1300. Í byrjun 14. aldar varð byggðin valdastóll Masóvíuhertoganna og var svo gerð að höfuðbæ Masóvíu árið 1413. Á þeim tíma var efnahagur Varsjár byggður á handiðnum og verslun. Þegar hertogaættin dó út var Masóvía fellt aftur inn í konungsríkið Pólland árið 1526. 16. – 18. öld. Pólska þingið (p. "Sejm") var fyrst haft í Varsjá árið 1529 og var þar til frambúðar frá árinu 1569. Árið 1573 var Varsjárríkjabandalagið myndað sem veitti íbúum Pólsk-litháíska samveldisins trúarfrelsi formlega. Vegna góðrar staðsetningar á milli Krakár og Vilníusar varð Varsjá höfuðborg samveldisins en Sigmundur 3. konungur flutti pólsku hirðina frá Kraká til Varsjár árið 1596. Árin eftir það stækkaði borgin út í úthverfin. Nokkur sjálfstæð einkahverfi í eigu aðalsmanna voru stofnuð en þeim var stjórnað með sérlögum. Á tímabilinu 1655–1658 var borgin undir umsátri þrisvar en hún var tekin og rænd af heröflum frá Svíþjóð, Brandenborg og Transylvaníu. Árið 1700 braust Norðurlandaófriðurinn mikli út og nokkrar árásir voru gerðar á Varsjá. Borgin var líka neydd til að borga framlagsfé til stríðsins. Stanisław August Poniatowski konungur endurnýjaði Konunglega kastalann og gerði Varsjá að menningar- og listamiðstöð. Gælunafnið "París austursins" var haft um borgina eftir það. 19. og 20. aldir. Varsjá var áfram höfuðborg Pólsk-litháíska samveldisins til ársins 1795 þegar það varð hluti af konungsríkinu Prússlandi. Þá varð Varsjá höfuðborg héraðsins Suður-Prusslands. Borgin var frelsuð af hermönnum Napóleons árið 1806 og var gerð svo að höfuðborg hertogadæmisins Varsjár. Í kjölfar Vínarráðstefnunnar árið 1815 varð Varsjá höfuðborg konungsríkisins Póllands, sem var þingbundin konungsstjórn í konungssambandi við Rússneska heimsveldið. Konungslegi háskólinn í Varsjá var stofnaður árið 1816. Vegna fjölda brota á pólsku stjórnarskrárinni fyrir hendi Rússlands braust Nóvemberuppreisnin út árið 1830. Pólsk-rússneska stríðinu 1831 lauk þó með ósigri Pólverja og sjálfstæði konungsríkisins var afnumið. Þann 27. febrúar 1861 skaut rússneskt herlið á mannfjölda sem var að mótmæla stjórn Rússlands yfir Póllandi en fimm menn fórust í kjölfar skotárásarinnar. Pólska ríkisstjórnin var í felum í Varsjá meðan á Janúaruppreisninni stóð árin 1863–64. Varsjá blómstraði í lok 19. aldar undir stjórn Sokrates Starynkiewicz (1875–92), sem var rússneskur hershöfðingi skipaður í embætti af Alexander 3. Á tímum Starynkiewicz byggði William Lindley enskur verkfræðingur ásamt syni sínum William Heerlein Lindley fyrsta vatnsveitu- og frárennsliskerfið í Varsjá. Auk þess voru sporvagnakerfið, gaskerfið og götulýsingarkerfið endurbætt og stækkuð. Samkvæmt manntali rússneska heimsveldisins árið 1897 bjuggu 626.000 manns í Varsjá og borgin var á sínum tíma þriðja stærsta í heimsveldinu á eftir Sankta Pétursborg og Moskvu. Varsjá var undir þýsku hernámi frá 4. ágúst 1915 til 1918. Eftir hernámið varð hún höfuðborg nýlega sjálfstæðs Póllands árið 1918. Undir stríði Sovétríkjanna og Póllands árið 1920 var orrustan um Varsjá háð í úthverfunum, þar sem Pólverjarnir sigruðu Rauða herinn. Þannig stöðvaði Pólland aleitt framrás Rauða hersins. Seinni heimsstyrjöldin. Um einn áttundi hluti bygginga í Varsjá var eyðilagður í seinni heimsstyrjöldinni. Í seinni heimsstyrjöldinni var miðsvæði Póllands, ásamt Varsjá, undir stjórn Allsherjarríkisstjórnarinnar (þ. "Generalgouvernement"), sem var þýsk nasistastjórn. Öllum háskólum var lokað strax og allir gyðingar í borginni, nokkur hundruð þúsund manns eða 30 % af öllum íbúafjöldanum, voru fluttir inn í Varsjárgettóið. Seinna varð borgin miðstöð andspyrnunnar gegn nasistastjórn í Evrópu. Sem hluti af Lokalausninni skipaði Hitler að gettóið yrði eyðilagt þann 19. apríl 1943 en svo byrjaði uppreisn í gettóinu gegn honum. Þó að uppreisnarmennirnir voru ofurliði bornir og lítið vopnaðir stóðst gettóið í yfir einn mánuð. Þegar bardaganum lauk voru eftirlifendur strádrepnir og mjög fáir komust undan og tókust að fela sig. Fyrir júlí 1944 var Rauði herinn löngu kominn inn á pólska yfirráðasvæðið og var farinn á eftir Þjóðverjunum í átt að Varsjá. Pólska ríkisstjórnin var í útlegð í London og vissi að Stalín var á móti sjálfstæðu Póllandi. Ríkisstjórnin skipaði svo Heimahernum (p. "Armia Krajowa") að reyna að hrifsa stjórn á Varsjá af Þjóðverjunum áður en Rauði herinn komst þar. Af þessum sökum byrjaði Varsjáruppreisnin þann 1. ágúst 1944 þegar Rauði herinn nálgaðist borgina. Barráttunni, sem átti að standa yfir í 48 klukkustundir, lauk eftir 63 daga. Stalín skipaði þá hermönnunum sínum að bíða fyrir utan Varsjá. Að lokum neyddist Heimaherinn og baráttumennirnir sem voru að hjálpa honum til að gefast upp. Þeir voru teknir í stríðsfangabúðir og allir óbreyttir borgarar voru reknir út úr borginni. Gert er ráð fyrir að 150.000 til 200.000 pólskir óbreyttir borgarar hafi dáið þá. Þjóðverjarnir tortímdu borginni. Hitler hunsaði skilyrði uppgjafarsamningsins, skipaði að borgin yrði eyðilögð og svo að öll bókasöfn og minjasöfn væru annaðhvort tekin til Þýskalands eða brennd. Minnismerki og stjórnarráðsbyggingar voru sprengdar í loft upp af þýsku sérliði sem hét "Verbrennungs- und Vernichtungskommando" („Brennslu- og eyðileggingarsveitin“). Um það bil 85 % af borginni var eyðilögð ásamt gamla bænum og Konunglega kastalanum. Þann 17. janúar 1945 fóru sovéskir hermenn inn í rústir borgarinnar og frelsaði úthverfin frá þýsku hernámi. Borgin var fljótt tekin af Sovéska hernum sem sótti þá fram til Łódź á meðan þýskir hermenn söfnuðust saman á ný vestri. Í dag. Árið 1945 eftir að sprengjuárásum, uppreisnum, bardaga og eyðileggingu var lokið lá mestöll borgin í rústum. Eftir stríðið kom kommúnistastjórn mörgum byggingarverkefnum í gang til þess að takast á við skort á húsnæði. Stór staðsteypt hús voru byggð ásamt öðrum byggingum sem voru algengar í borgum Austurblokkarinnar, svo sem Menningar- og vísindahöllin. Borgin endurheimti hlutverk sitt sem höfuðborg Póllands og miðstöð pólskrar menningar og stjórnmála. Margar gamlar götur, byggingar og kirkjur voru endurreistar í upprunalegri mynd. Árið 1980 var gamli bærinn skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Jóhannes Páll 2. páfi heimsótti heimaborg sína árin 1979 og 1983 og hvatti til stuðnings fyrir verðandi hreyfinguna Samstöðu og stuðlaði að andkommúnistahreyfingum. Árið 1979, eftir minna en eitt ár að hann varð páfi, hélt Jóhannes Páll 2. messu á Sigurtorginu og endaði predikun sína með ákalli á að „endurnýja andlit Póllands“. Þessi orð voru þýðingarmikil fyrir Pólverja og þeir skildu þau sem hvatningu til lýðræðis. Árið 1995 var neðanjarðarlestakerfi Varsjár opnað. Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og þar hefur verið mikill efnahagslegur vöxtur frá þessum tíma. Opnunarleikur Evrópumeistaramóts UEFA 2012 var haldinn í Varsjá. Landafræði. Varsjá liggur í miðausturhluta Póllands um það bil 300 km frá Karpatafjöllunum, 260 km frá Eystrasalti og 520 km fyrir austan Berlín í Þýskalandi. Áin Visla rennur í gegnum borgina. Borgin liggur beint í miðri Masóvíusléttunni og er að meðaltali 100 m yfir sjávarmáli. Hæsti punkturinn í vesturhluta borgarinnar er 115,7 yfir sjávarmáli í hverfinu Wola og hæsti punkturinn í austurhlutanum er 122,1 km yfir sjávarmáli í hverfinu Wesoła. Lægsti punkturinn er á austurbakka árinnar en hann er 75,6 m yfir sjávarmáli. Í borginni eru nokkrir hólar en þeir eru að mestu leyti manngerðir, t.d. Varsjáruppreisnarhóll (121 m) og Szczęśliwice-hóll (138 m, hæsti staðurinn í allri Varsjá). Loftslag. Í Varsjá er temprað loftslag (Köppen: "Dfb") með köldum vetrum og mildum sumrum. Meðalhiti í janúar er −3 °C og 19,3 °C í júlí. Hitastigið getur náð allt að 30 °C á sumrin. Ársmeðalúrkoma er 495 millimetrar og en blautasti mánuður ársins er júlí. Á vorin er mikill blómi og sólskin en á haustin er annaðhvort sólskinsveður eða þoka en þá er oftast svalt en ekki kalt. Hverfi. Til ársins 1994 voru sjö hverfi í Varsjá: Śródmieście, Praga Północ, Praga Południe, Żoliborz, Wola, Ochota og Mokotów. Þeim var svo fjölgað og á tímabilinu 1994–2002 voru þau 11: Centrum, Białołęka, Targówek, Rembertów, Wawer, Wilanów, Ursynów, Włochy, Ursus, Bemowo og Bielany. Árið 2002 var bærinn Wesoła gerður að hverfi. Varsjá er "powiat" (sýsla) og skiptist í 18 borgarhluta sem heita "dzielnica" en í hverjum borgarhluta er sér sjórnsýsla. Í hverjum borgarhluta eru nokkur hverfi með engri réttarstöðu eða stjórnsýslu. Það eru líka tvö söguleg hverfi í borginni: gamli bærinn (p. "Stare Miasto") og nýi bærinn (p. "Nowe Miasto") í borgarhlutanum Śródmieście. Yfirlit. Saga Varsjár og Póllands endurspeglast í fjölbreyttri blöndu byggingarstíla sem er að finna í borginni. Á seinni heimsstyrjöldinni var mestöll borgin tortímd í sprengjuárásum og fyrirhugaðri eyðileggingu. Eftir að borgin var frelsuð hófst endurbygging eins og í öðrum borgum í alþýðulýðveldinu Póllandi. Flestar gamlar byggingar voru endurreistar í upprunalegri mynd. Samt sem áður voru nokkrar byggingar frá 19. öld sem hægt var að endurbyggja rifnar niður á sjötta og sjöunda áratugnum. Stórar íbúðablokkir voru reistar í byggingarstíl sem var algengur í Austurblokkarlöndum á þeim tíma. Mikið er fjárfest í opinberum svæðum í Varsjá og þannig hafa alný torg verið byggð ásamt nýjum görðum og minnismerkjum. Í dag er mikið af samtímabyggingum í borginni. Margar háar samtímabyggingar er að finna í Varsjá í dag Byggingarlist. Í Varsjá er mikið af marglitum kirkjum, höllum og höfðingjasetrum í næst öllum evrópskum byggingarstílum frá hverju sögutímabili. Mest áberandi eru byggingar í gotneskum stíl, endurreisnarstíl, barokkstíl og nýklassískum stíl og margar þeirra eru innan göngufæris frá miðborginni. Helstu byggingarnar í gotneskum stíl eru stórar kirkjur og virki, ásamt húsum sem byggð voru fyrir miðstéttina. Dæmi um svona byggingar eru Jónsdómkirkja (14. öld), sem er dæmigert eintak um svokallaða „Masóvíugotneska stílinn“, Maríukirkja (1411), raðhús byggt fyrir Burbach-fjölskylduna (14. öld) og Konunglegi kastalinn "Curia Maior" (1407–1410). Nokkrar athyglisverðar byggingar í endurreisnarstílnum eru hús Baryczko-fjölskyldunnar (1562), bygging sem heitir „Svertinginn“ (17. öld) og Salwator-fjölbýlishúsið (1632). Ásamt dæmum um manierismastílinn eru Konunglegi kastalinn (1596–1619) og Jesúítakirkja (1609–1626) í gamla bænum. Í lok 17. aldar var byggt mikið af kirkjum og húsum fyrir aðalsmenn. Helstu dæmin frá þessu tímabili eru Krasiński-höll (1677–1683), Wilanów-höll (1677–1696) og Kazimierz-kirkja (1688–1692). Meðal byggingar í rókokóstílnum eru Czapski-höll (1712–1721), Höll fjögurra vinda (1730) og Wizytki-kirkja (1728–1761). Byggingar í Varsjá í nýklassískum stíl einkennast af rúmfræðilegum formum og áhrifum frá rómverskum byggingum. Bestu dæmin um nýklassískan stíl eru Łazienki-höll (endurbyggð 1775–1795), Królikarnia (1782–1786), Karmelítakirkja (1761–1783) og Kirkja heilagrar þrenningar (1777–1782). Á tímum konungsríkisins Póllands var mikill efnahagslegur vöxtur og aukinn áhugi á arkitektúr í kjölfarið. Áhuginn á nýklassíska stílnum var töluverður og sést í byggingum á borð við Mikla leikhús (1825–1833) og byggingarnar á Bankatorginu (1825–1828). Margar byggingar í borgarastéttarstílnum voru ekki endurreistar af kommúnistastjórninni eftir stríðið en sumar þeirra voru endurbyggðar í þjóðfélagslegum raunsæisstíl (svo sem hús fílharmóníusveitar Varsjár). Sum dæmi um byggingar frá 19. öld er samt að finna í borginni, eins og tækniháskólinn í Varsjá (1899–1902). Margar byggingar frá þessu tímabili austan megin við Vislu voru gerðar upp en eru í slæmu ástandi í dag. Borgarstjórn Varsjár hefur ákveðið að endurbyggja Saxahöllina og Brühl-höllina sem voru ásamt helstu byggingum í borginni fyrir stríðið. Nokkur dæmi um samtímabyggingar eru Menningar- og vísindahöllin (1952–1955), sem er skýjakljúfur byggður í þjóðfélagslegum raunsæisstílnum, og Stjórnarskrártorg, þar sem fleiri byggingar í þessum stíl er að finna. Í miðju hverfinu Praga austan megin við ána eru mörg niðurnídd hús við hliðina á nýjum íbúðablokkum og verslunarmiðstöðvum. Byggingar í nútímastílnum, á borð við Metropolitan Office Building á Piłsudski-torgi, sem var hönnuð af breskum arkitekt Norman Foster, Bókasafn háskólans í Varsjá (BUW) eftir arkitektana Marek Budzyński og Zbigniew Badowski, skrifstofuhúsið Rondo 1, sem var hannað af Skidmore, Owings and Merrill, og Złote Tarasy sem er með nokkrum hvolfþökum sem skarast, er að finna víðs vegar um borgina. Varsjá er meðal hæstu borganna í Evrópu, 21 af 18 hæstu byggingum í Póllandi eru í Varsjá. Plöntulíf og dýralíf. a>ar búa í Łazienki-garðinum ásamt nokkrum öðrum dýrategundum Um 40 % af flatarmáli Varsjár er grænt, það er að segja almenningsgarðar, grasbrúnir og tré á götum, landverndarsvæði og litlir skógar í útjaðri borgarinnar. Almenningsgarðar í borginni eru 82 samtals og ná yfir 8 % af flatarmáli borgarinnar. Hinir elstu þeirra Saxagarðurinn og garðarnir við hallirnir Krasiński, Łazienki og Królikarnia. Saxagarðurinn er 15,5 ha að flatarmáli og var áður fyrr konunglegur garður. Í garðinum eru yfir 100 trjátegundir og breiddar göngubrautir með bökkum. Gröf óþekkta hermannsins er í austurhluta garðsins. Garðurinn við Krasiński-höll var gerður upp af landslagsartitektinum Franciszek Szanior á 19. öld en í miðjum garðinum er enn að finna tré frá þessum tíma svo sem musteristré, svört valhnotutré og hesliviði. Þar eru líka margir bekkir, blóm, andatjörn og leikvelli en hann er mjög vinsæll meðal Varsjárbúa. Minnismerki um uppreisnina í Varsjárgettóinu er líka í garðinum. Garðurinn við Łazienki-höll er 76 ha að flatarmáli en skipulag garðsins og plönturnar þar endurspegla sérkennilegu sögu hans. Í garðinum eru nokkur samkomuhús, höggmyndir, brýr og tjarnir en það sem aðskilur hann frá öðrum almenningsgörðum í Varsjá er páfuglar og fasanar sem flækjast frjálsir um garðinn. Einnig eru vatnakarfar í tjörnunum. Garðurinn við Wilanów-höll er 43 ha og var opnaður í lok 17. aldar. Hann var skipulagður í frönskum stíl og minnir á barokkstíl hallarinnar. Austurhluti garðsins er næstur höllinni og er á tveimur hæðum. Akureyri. Akureyri er bær í Eyjafjarðarsýslu á Íslandi og er vestan Eyjafjarðar við botn hans. Þar bjuggu 18.253 manns þann 1. desember 2007. Akureyrarbær er fjórða fjölmennasta sveitarfélag Íslands og það fjölmennasta utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrir utan hið eiginlega bæjarland Akureyrar í botni Eyjafjarðar eru eyjarnar Grímsey og Hrísey einnig innan vébanda sveitarfélagsins. Saga bæjarins. Landnámabók greinir frá því að fyrsti landneminn á svæðinu var Helgi „magri“ Eyvindarson sem kom þangað á 9. öld. Elstu heimildir um nafnið Akureyri eru þó frá 1526 en þá féll dómur á staðnum yfir konu fyrir að hafa sængað hjá karli án þess að hafa giftingarvottorð. Á 17. öld tóku danskir kaupmenn að reisa búðir sínar á sjálfri Akureyri sem var ein af nokkrum eyrum sem sköguðu út í Pollinn. Þeir völdu staðinn vegna afbragðs hafnarskilyrða og einnig vegna þess að héraðið er og var gjöfult landbúnaðarsvæði en dönsku kaupmennirnir sóttust einkum eftir ull og kjöti. Dönsku kaupmennirnir bjuggu þó ekki á Akureyri allt árið á þessum tíma heldur læstu þeir húsum sínum og yfirgáfu staðinn yfir vetrartímann. Árið 1778 var fyrsta íbúðarhúsið reist á staðnum og varanleg búseta hófst. 8 árum síðar fékk bærinn kaupstaðarréttindi ásamt fimm öðrum bæjum á Íslandi. Þetta var að undirlagi Danakonungs en hann vildi reyna að efla hag Íslands með því að hvetja til þéttbýlismyndunar þar en slíkt var þá nánast óþekkt á landinu. Akureyri stækkaði þó ekki við þetta og missti kaupstaðarréttindin 1836 en náði þeim aftur 1862 og klauf sig þá frá Hrafnagilshreppi, þá hófst vöxtur Akureyrar fyrir alvöru og mörk Akureyrarbæjar og Hrafnagilshrepps voru færð nokkrum sinnum enn eftir því sem bærinn stækkaði. Bændur í Eyjafirði voru þá farnir að bindast samtökum til að styrkja stöðu sína gagnvart dönsku kaupmönnunum, uppúr því varð Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) stofnað. KEA átti mikinn þátt í vexti bæjarins, á vegum þess voru rekin mörg iðnfyrirtæki í bænum sem mörg sérhæfðu sig í úrvinnslu landbúnaðarafurða. Árið 1954 var mörkum Akureyrarbæjar og Glæsibæjarhrepps breytt þannig að það þéttbýli sem tekið var að myndast handan Glerár teldist til Akureyrar, þar hefur nú byggst upp Glerárhverfi. Á síðasta áratug 20. aldar tók Akureyri miklum breytingum, framleiðsluiðnaðurinn sem hafði verið grunnurinn undir bænum lét töluvert á sjá og KEA dró verulega úr umsvifum sínum. Meiri umsvif í verslun og þjónustu, ferðaþjónustu, sjávarútvegi og Háskólinn á Akureyri hafa nú komið í stað iðnaðarins að miklu leyti. Hríseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ 2004 en í kosningum í október 2005 var tillögu um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði hafnað á Akureyri. Grímseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ 2009. Á Akureyri hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1881. Stjórnmál. Í bæjarstjórn Akureyrar sitja 11 fulltrúar sem kjörnir eru af íbúum bæjarins yfir 18 ára aldri á fjögurra ára fresti. Bæjarstjórn skipar bæjarráð sem fer með fjármálastjórn bæjarins og aðrar fastanefndir sem fjalla um afmörkuð svið. Forseti bæjarstjórnar er æðsti yfirmaður hennar og hún kemur saman á opnum fundum að jafnaði tvisvar í mánuði en bæjarráð fundar vikulega. Bæjarstjórinn er yfirmaður embættismannakerfisins, hann er ráðinn af bæjarstjórninni og getur verið annaðhvort kjörinn bæjarfulltrúi eða utanaðkomandi. Stjórnkerfinu er svo skipt í þrjú meginsvið (félagssvið, stjórnsýslusvið, tækni- og umhverfissvið) sem svo skiptast í deildir og undir þeim eru einstakar stofnanir. Núverandi skipan bæjarstjórnar. Núverandi meirihluti er hreinn meirihluti Lista fólksins. Bæjarstjóri. Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið bæjarstjóri á Akureyri síðan 12. ágúst 2010. Staðhættir. Akureyri stendur við botn Eyjafjarðar við Pollinn en svo er sjórinn milli Oddeyrar og ósa Eyjafjarðarár kallaður. Í gegnum bæinn rennur Glerá sem aðskilur Glerárhverfi (Þorpið) frá öðrum bæjarhlutum. Önnur hverfi bæjarins eru Oddeyri, Brekkan, Naustahverfi, Innbærinn og Miðbær. Samgöngur. Strætisvagnakerfi er rekið í bænum af Strætisvögnum Akureyrar, og frá og með árinu 2007 voru ferðir gerðar gjaldfrjálsar fyrir farþega. Samkvæmt mbl.is hefur farþegum fjölgað um rúm 60% eftir þetta, eða úr 640 (þriðju viku ársins 2006) í að meðaltali 1020 (um sama leyti 2007). Menntastofnanir. Akureyri er mikill skólabær. Í bænum eru tveir stórir framhaldsskólar (MA og VMA) Myndlistaskólinn á Akureyri, Tónlistarskólinn á Akureyri og Háskólinn á Akureyri. Atvinnuvegir. Helstu atvinnuvegir bæjarbúa eru verslun og þjónusta, framleiðsluiðnaður, sjávarútvegur og opinber þjónusta. Í bænum er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, næststærsta sjúkrahús landsins (á eftir Landsspítala Háskólasjúkrahúsi); Hlutur framleiðsluiðnaðar í atvinnulífi í bænum hefur minnkað mikið síðustu 15-20 árin, en á móti hefur sjávarútvegur vaxið og í dag hafa tvö stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Brim og Samherji þar höfuðstövar. Háskólinn á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er háskóli í bænum Akureyri á Íslandi sem stofnaður var árið 1987. Hann hefur vaxið mikið síðan og í dag eru þar skráðir í kring um 1.500 nemendur en af þeim eru um 500 í fjarnámi en um 900 í staðbundnu námi. Skólinn er meðal þeirra fremstu á Íslandi á sviði fjarnáms. Saga. Háskólinn á Akureyri var stofnaður 5. september 1987 og starfaði hann fyrst í stað í húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri að Þingvallastræti 23. Fyrsti rektor skólans var Haraldur Bessason. Fyrstu útskriftarnemarnir voru 10 iðnrekstrarfræðingar, útskrifaðir 1989. Fyrstu framhaldsnemarnir voru útskrifaðir með M.Sc. í hjúkrunarfræðum 26. febrúar 2000. Heilbrigðisvísindasvið. Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri starfrækir þrjár deildir; hjúkrunarfræðideild og iðjuþjálfunarfræðideild sem bjóða grunnnám til bakkalárprófs (B.s.) og framhaldsnámsdeild sem býður upp á þverfaglegt framhaldsnám til meistaragráðu (M.s.) og diplómugráðu í heilbrigðisvísindum. Margvíslegar rannsóknir í heilbrigðisvísindum eru stundaðar á heilbrigðisvísindasviði sem tengjast inn í framhaldsnámsdeildina og eru í samræmi við stefnu og grunnmarkmið heilbrigðisvísindasviðs og stefnu Háskólans á Akureyri hverju sinni. Hug- og félagsvísindasvið. Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri spannar þrjár deildir; félagsvísindadeild, kennaradeild og lagadeild. Þar er boðið upp á fjölbreytt grunnnám til bakkalárprófs (B.A. og B.Ed.) og framhaldsnám til meistaraprófs (M.A., M.Ed., M.l. og ll.M). Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri tilheyrir sviðinu einnig og starfar það í nánum tengslum við kennaradeild að þróunar- og umbótastarfi í Námið einkennist af fjölbreyttum áherslum sem koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga nemenda. Hver deild hefur sína sérstöðu: Í lagadeild er boðið upp á alþjóðatengt nám og lotukennslu; í félagsvísindadeild eru þverfaglegar áherslur, rannsóknarþjálfun og fjölbreytt val áherslusviða í samvinnu við aðra háskóla; í kennaradeild er byggt á heildstæðri sýn á menntun, nemendur, kennara, skóla og rannsóknir. Með nánu samstarfi við Miðstöð skólaþróunar skapast einnig ómetanleg tenging kennaranáms við þróun á vettvangi og margs konar sérþekkingu. Í kennaradeild er boðið upp nám til B.Ed.-gráðu í kennarafræði sem er fullt þriggja ára nám, 180 einingar. Einnig er boðið uppá nám til M.Ed.-gráðu sem veitir kennsluréttindi Í lagadeild fer fram kennsla í lögfræði bæði á grunn- og framhaldsstigi. Boðið er uppá þriggja ára nám í lögfræði til B.A.-gráðu í lögfræði sem opnar möguleika á framhaldsnámi í lögfræði. Við Háskólann á Akureyri er boðið tveggja ára nám í lögfræði á meistarastigi sem lýkur með prófgráðunni Magister Leges (M.L.). Sú prófgráða, í framhaldi af þriggja ára námi til B.A.-gráðu í lögfræði, jafngildir hefðbundnu fimm ára námi til embættisprófs í lögfræði (cand.jur.) Viðskipta- og raunvísindasvið. Viðskipta- og raunvísindasviði er skipt í auðlindadeild og viðskiptadeild. Deildin býður einnig upp á rannsóknatengt framhaldsnám á meistarastigi í auðlindafræðum (líftækni, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði, umhverfis- og orkufræði). Að auki útskrifa Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sameiginlega meistaranemendur (M.Sc.) í endurnýjanlegum orkufræðum, en RES Orkuskóli hefur höfuðstöðvar á Akureyri. Í viðskiptadeild er boðið upp á bæði bakkalárnám og meistaranám í viðskiptafræði. Stofnanir. Innan vébanda Háskólans á Akureyri eru starfræktar ýmsar stofnanir sem sinna rannsóknum og ýmiss konar þjónustu við fræðasamfélagið. Félagslíf. Stafnbúi er nemendafélag auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Félagið hefur starfað frá því að sjávarútvegsdeildin var sett á laggirnar við skólann árið 1990. Í upphafi var Stafnbúi félag nema í sjávarútvegsfræði en í dag eru nemar í umhverfis- og orkufræði og líftækni einnig félagar í Stafnbúa. Félagið hefur gefið út rit með sama nafni á hverju ári frá árinu 1993, að undanskildu 2009. Mosfellsbær. Mosfellsbær (einnig kallað Mosó í talmáli) er sveitarfélag sem liggur norðaustan við Reykjavík. Nokkrar sundlaugar fyrirfinnast í Mosfellsbæ, eins og sundlaugin Varmá og Lágafellslaug. Vladímír Pútín. Vladímír Vladímírovítsj Pútín ("Владимир Владимирович Путин" á rússnesku) (fæddur 7. október 1952) er annar forseti Rússlands. Hann útskrifaðist frá lögfræðideild Ríkisháskólans í Leníngrad árið 1975 og hóf störf hjá KGB. Á árunum 1985-1990 starfaði hann í Austur-Þýskalandi. Frá árinu 1990 gegndi hann ýmsum embættum, meðal annars í Ríkisháskólanum í Leníngrad, borgarstjórn Sankti-Pétursborgar og frá árinu 1996 hjá stjórnvöldum í Kreml. Í júlí 1998 var hann skipaður yfirmaður FSB (arftaka KGB) og frá mars 1999 var hann samtímis ritari Öryggisráðs Rússneska sambandslýðveldisins. Frá 31. desember 1999 var hann settur forseti Rússneska sambandslýðveldisins en 26. mars 2000 var hann kosinn forseti. Hann var endurkjörinn 14. mars 2004. Vladímír Pútín talar auk rússnesku, þýsku og ensku. Hann er giftur Ljúdmílu Aleksandrovnu Pútínu. Þau eiga tvær dætur, Maríu (f. 1985) og Katerínu (f. 1986) Íslensk sveitarfélög eftir mannfjölda. Skipting Íslands í sveitarfélög og landshluta. Breyting á mannfjölda á milli 2002 og 2012. Breyting á mannfjölda á milli 1998 og 2008. Breyting á mannfjölda á milli 1997 og 2007. Breyting á mannfjölda á milli 1996 og 2006. Þetta er listi yfir íslensk sveitarfélög í röð eftir mannfjölda ásamt upplýsingum um breytingu frá fyrra ári bæði hvað varðar fjölda einstaklinga og hlutfallslega. Hæstu og lægstu gildin í hvorum flokki eru merkt með dekkri lit. Þar sem sveitarfélög hafa sameinast á árinu miðast eldri tölu við samanlagðan íbúafjölda í þeim sveitarfélögum sem sameinuðust. Sjá einnig íslensk sveitarfélög eftir flatarmáli. Athugasemdir. Hafa ber í huga að stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi hafa mikil tímabundin áhrif á tölurnar fyrir Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp og Fjarðabyggð þar sem mikill fjöldi erlendra verkamanna er með skráð lögheimili á meðan framkvæmdunum stendur. Erlendir ríkisborgarar voru 31,5% íbúa Fjarðabyggðar, 32,5% íbúa Fljótsdalshéraðs og 83,2% íbúa Fljótsdalshrepps þann 1. desember 2006. Á landsvísu var hlutfallið þá 5,99%. Þetta tók síðan að ganga til baka þegar mestum hluta framkvæmdanna lauk árið 2007, sem skýrir mikla lækkun þá. Sveitarfélag. Sveitarfélag er svæðisbundin stjórnsýslueining innan ríkis sem er lægra sett en yfirstjórn ríkisins. Sveitarfélög hafa yfirleitt skýrt ákvörðuð landamörk og taka oft yfir eina borg, bæ eða þorp eða sveitahérað. Ein skilgreining á sveitarfélagi er að þau séu lægstu stjórnsýslueiningarnar sem hafa lýðræðislega kjörna stjórn. Sveitarfélög sjá yfirleitt um grunnþjónustu við borgarana á borð við sorphirðu, skóla og almenningssamgöngur. Þau geta myndað byggðasamlög með öðrum sveitarfélögum til að tækla verkefni sem ella yrði erfitt að framfylgja. Rússland. Rússneska sambandsríkið (rússneska: "Росси́йская Федера́ция, umritun: Rossíjskaja Federácija)" eða Rússland "(rússneska: Росси́я, umritun: Rossíja)" er víðfemt land í Austur-Evrópu og Norður-Asíu. Landið er það langstærsta að flatarmáli í heiminum, það er nánast tvöfalt stærra en Kanada sem er næststærst. Landið er einnig það sjöunda fjölmennasta í heiminum. Landið var áður mikilvægasta sambandslýðveldi Sovétríkjanna en hlaut sjálfstæði eftir upplausn þeirra árið 1991. Mest af landsvæði, mannfjölda og iðnaðargetu gömlu Sovétríkjanna var í Rússlandi og eftir upplausnina var það Rússland sem tók við þeirra stöðu í heiminum. Þó ekki sé það lengur sama risaveldið og áður, þá er Rússland enn þá stór þátttakandi í alþjóðastjórnmálum. Saga. Þau víðerni sem Rússland nútímans þekur voru áður byggð ýmsum ósamstæðum ættbálkum sem sættu stöðugum innrásum húna, gota og avara á milli þriðju og sjöttu aldar eftir Krist. Fram á 8. öld bjuggu skýþar, írönsk þjóð, á gresjunum þar sem nú er sunnanvert Rússland og Úkraína og vestar bjó tyrknesk þjóð, kasar en þessir þjóðflokkar viku fyrir sænskum víkingum sem kallaðir voru væringjar og slövum sem þá voru teknir að flytjast á svæðið. Væringjar stofnuðu Garðaríki með höfuðborg í Hólmgarði og runnu síðar saman við slavana sem urðu fljótlega fjölmennasti þjóðflokkurinn þar. Garðaríki stóð í nokkrar aldir Sperma og á þeim tíma tengdist það rétttrúnaðarkirkjunni og flutti höfuðborg sína til Kænugarðs árið 1169. Á þessum tíma var fyrst farið að nota orðin „Rhos“ eða „Russ“, bæði um væringjana og slavana. Á 9. og 10. öld var þetta ríki hið stærsta í Evrópu og einnig var það auðugt vegna verslunarsambanda sinna við bæði Evrópu og Asíu. Á 13. öld var svæðið illa leikið af innbyrðis deilum sem og innrásum úr austri, bæði af hendi mongóla og íslömskum, tyrkneskumælandi hirðingjum sem áttu eftir að valda miklum óskunda á svæðinu næstu þrjár aldirnar. Þeir gengu einnig undir nafninu tatarar og réðu lögum og lofum í mið- og suðurhluta Rússlands á meðan vesturhluti þess féll undir yfirráð Pólsk-litháenska stórhertogadæmisins. Upplausn Garðaríkis leiddi til þess að aðskilnaður varð milli Rússa sem bjuggu norðar og austar og Úkraínumanna og Hvítrússa í vestri og þessi aðskilnaður hefur haldist fram á þennan dag. Norður Rússland og Hólmgarður nutu einhverrar sjálfstjórnar á valdatíma mongóla og þessi svæði sluppu betur undan þeirri skálmöld sem ríkti annars staðar í landinu. Íbúarnir þar þurftu þó að kljást við þýska krossfara sem reyndu að leggja undir sig svæðið. Líkt og á Balkanskaga og í Litlu Asíu varð langvarandi valdaskeið hirðingja til þess að hægja mikið á efnahagslegri og félagslegri þróun landsins. Þrátt fyrir það náðu Rússar að rétta úr kútnum ólíkt býsanska keisaradæminu sem var andlegur leiðtogi þeirra, ráðast gegn óvinum sínum og leggja lönd þeirra undir sig. Eftir að Konstantínópel féll árið 1453 var Rússland eina burðuga kristna ríkið í Austur Evrópu og það gat því litið á sig sem arftaka Austrómverska ríkisins. Þrátt fyrir að vera enn þá að nafninu til undir yfirráðum Mongóla tók hertogadæmið Moskva að auka áhrif sín og seint á 14. öld losnaði það alveg undan yfirráðum innrásarþjóðanna. Ívan grimmi sem var fyrsti leiðtoginn sem krýndur var keisari Rússlands hélt útþenslustefnunni áfram og náði nærliggjandi héruðum undir stjórn Moskvu og lagði svo undir sig víðerni Síberíu og Rússneska keisaraveldið varð til. Því næst komst Romanov ættin til valda, fyrsti keisari hennar var Mikael Romanov sem krýndur var 1613. Pétur mikli ríkti frá 1689 til 1725 en hann færði Rússland nær Vestur-Evrópu og sótti þangað hugmyndir og menningu til að draga úr áhrifum hirðingjamenningar sem hafði hafði haldið aftur af efnahagslegri framþróun landsins. Katrín mikla (valdatíð: 1767-1796) lagði áfram áherslu á þessi atriði og Rússland var nú stórveldi, ekki bara í Asíu heldur einnig í Evrópu þar sem það stóð nú jafnfætis löndum eins og Englandi, Frakklandi og Þýskalandi. Stöðugur órói var þó viðloðandi meðal ánauðugra bænda og niðurbældra menntamanna og við upphaf Fyrri heimsstyrjaldar virtist staða þáverandi keisara Nikulásar II og keisaradæmisins vera fremur óviss. Miklir ósigrar rússneska hersins í stríðinu kyntu undir uppþotum í stærri borgum sem að lokum leiddu til þess að Romanov ættinni var steypt af stóli 1917 í uppreisn kommúnista. Undir lok þessarar byltingar tók bolsévika-armur Kommúnistaflokksins öll völd undir stjórn Vladimirs Leníns og Sovétríkin voru stofnuð en Rússland var þungamiðja þeirra. Undir stjórn Jósefs Stalíns var landið iðnvætt með hraði og samyrkjubúskapur tekinn upp í landbúnaði, fyrirkomulag sem kostaði tugi milljóna mannslífa. Í valdatíð hans tóku Sovétríkin þátt í síðari heimsstyrjöldinni gegn Þýskalandi en mannfall var geypilegt í stríðinu, bæði meðal hermanna og almennra borgara. Að stríðinu loknu öðluðust Sovétríkin mikil áhrif í Austur-Evrópu og komu þar til valda leppstjórnum kommúnista í mörgum ríkjum og stofnuðu Varsjárbandalagið með þeim sem beint var gegn Atlantshafsbandalagi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra en þessi tvö ríki voru nú einu risaveldin í heiminum og börðust um hugmyndafræði, völd og áhrif í Kalda stríðinu svokallaða sem braust í raun aldrei út í beinum vopnuðum átökum þessara tveggja ríkja en á milli þeirra ríkti ógnarjafnvægi sem byggði á stórum kjarnorkuvopnabúrum beggja aðila. Á áratugunum eftir fráfall Stalíns stöðnuðu Sovétríkin efnahagslega og félagslega og reynt var að slaka á kjarnorkuviðbúnaðinum en þeir voru einnig tímabil mikilla afreka hjá Sovéskum vísindamönnum. Um miðjan 9. áratuginn kynnti þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhail Gorbachev tillögur sínar "glasnost" (opnun) og "perestroika" (endurskipulagning) í þeim tilgangi að nútímavæða kommúnismann en óviljandi leystu þær úr læðingi öfl sem tvístruðu Sovétríkjunum í 15 sjálfsstæð ríki í desember 1991, Rússland langstærst þeirra. Rússland hefur síðan þá verið að reyna að byggja upp lýðræðislega stjórnunarhætti og markaðshagkerfi en gengur hægt. Skömmu eftir fall Sovétríkjanna tók að bera á þjóðernisdeilum á meðal sunmra þeirra fjölmörgu þjóðernishópa sem búa innan landamæra Rússlands og á stöðum eins og Téténíu og Norður-Ossetíu hefur brotist út skæruhernaður sem enn þá sér ekki fyrir endann á. Höfuðborg. Lönd þar sem höfuðborgin er ekki stærsta borgin. Höfuðborg er sú borg í gefnu ríki þar sem stjórnvöld ríkisins hafa oftast aðsetur, dæmi: Osló. Einnig er talað um höfuðborgir fylkja í sambandsríkjum. Óttar. Óttar er íslenskt karlmannsnafn. Handelshøyskolen BI. Handelshøyskolen BI (Ísl: Norski viðskipta- og stjórnunarháskólinn BI) er einkaskóli, með höfuðstöðvar rétt utan við Ósló í Noregi (höfuðstöðvarnar munu flytjast til Ósló í ágúst 2005) Árið 2002 voru um 19.500 nemendur við skólan, af þeim voru um 10.000 í fullu námi, og um 390 starfsmenn. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í viðskiptafræðum bæði á norsku og ensku. Nær allt nám til mastersgráðu er á ensku. Skólinn var stofnaður árið 1943 sem ráðgjafafyrirtæki er bauð upp á kvöldskóla í bókfærslu. Síðan þá hefur skólanum vaxið fiskur um hrygg og er nú alþjóðlegur skóli sem býður upp á nám í viðskipta- og stjórnunarfræðum. Í dag er BI stærsti viðskiptaháskóli í Evrópu og næststærsta skólastofnun í Noregi. Heitur reitur. a>) tákna svæði þar sem flekar nuddast saman, línustrikuð svæði tákna stærri svæði þar sem afmörk fleka eru óskýr. Heitur reitur er í jarðfræði staður á yfirborði jarðar þar sem eldvirkni er mikil sökum möttulstróks sem af ber heita kviku úr iðrum jarðar upp að jarðskorpunni (sem af þessum sökum er þynnri en annars staðar), um 50 heitir reitir eru þekktir, helstir þeirra eru Hawaii, Íslands og Yellowstone reitirnir. Fyrirbærinu var fyrst lýst af kanadíska jarðvísinda og jarðfræðingnum John Tuzo Wilson í flekakenningu hans árið 1963, þar sem hann hélt fram að eldfjallakeðjur eins og Hawaiieyjar mynduðust sökum þess að jarðflekar færðust yfir fastan punkt (heitan reit) á löngum tíma á jarðsögulegum mælikvarða. Ósló. Ósló (stundum ranglega skrifað "Osló") er höfuðborg Noregs. Þar bjuggu rúmlega 600 þúsund íbúar árið 2011. Fylkið, sveitarfélagið og bærinn heita öll Ósló. Borgin er vinabær Reykjavíkur. Borgarstjóri er Fabian Stang sem situr fyrir hægrimenn. Fylkið Ósló er það fjölmennasta í landinu og er staðsett í landshlutanum Austurland. Saga. Samkvæmt Heimskringlu byggðist svæðið við Akersána fyrst árið 1048 og var það fyrir tilstilli Haraldar Harðráða sem þá var konungur Noregs. Frá aldamótunum 1300 allt fram á nútíð hefur borgin verið höfuðborg landsins. Eftir borgarbrunana árin 1567 og 1624 byggði Kristján 4. borgina upp á nýtt árið 1624 og lét hana heita Kristjaníu (no: "Christiania" og síðar "Kristiania") og hét hún það allt til ársins 1925. Við ströndina lét Kristján konungur byggja Akershusvirki sem átti að vernda borgina gegn herfylkingum sem gætu komið sjóleiðina inn Óslóarfjörðinn. Árið 1814 varð borgin höfuðborg Noregs því þá sundraðist samstarf Norðmanna og Dana. Á 19. öldinni blómstraði borgin og margar mikilfenglegar byggingar voru reistar, s.s. Konungshöllin, Háskólinn, Þinghúsið, Þjóðleikhúsið og fleiri. Borgin og umhverfið. Borgin skiptist í 15 bæjarhluta; "Alna", "Bjerke", "Frogner", "Gamle Oslo", "Grorud", "Grünerløkka", "Nordre Aker", "Nordstrand", "Sagene", "St. Hanshaugen", "Stovner", "Søndre Nordstrand", "Ullern", "Vestre Aker" og "Østensjø". Hver bæjarhluti sér um hluta af þjónustuverkefnum sem borgin þarf að þjónusta íbúa með. Í kring um Ósló eru fjöll og ásar, sá hæsti heitir "Kjerkeberget" og er 629 m.y.s. Á firðinu eru margar eyjar og eru ferjusamgöngur til þeirra. Á Frogner er að finna Vigelands garðinn, en þar eru styttur eftir myndhöggvarann Gustav Vigeland. Meðal annars er þar að finna 14 metra háa styttu sem kallast "Monolitten" en hún sýnir gang lífsins. Styttan er skorin út úr einum granít-steini. Menning. Vetrarólympíuleikarnir 1952 voru haldnir í Ósló, en borgin er mikil íþróttaborg. Ekki þurfa borgarbúar að fara langt til að komast í íþróttaiðkun. Á veturnar er það sérstaklega vinsælt að fara á gönguskíði í skógunum í kring, auk þess sem skautahlaup er iðkað á ísilögðum fótboltavöllum út um alla borg og á vötnum í skógunum. Norwegian Wood-tónlistarhátíðin er haldin ár hvert á Frogner og margir af þekktustu tónlistarmönnum heims koma þar fram. Oslo Horse Show er einnig haldið á hverju ári, en það er stór hestasýning og -keppni sem haldin er í Oslo Spektrum-fjölnotahúsinu í miðborg Óslóar. Oslo Spektrum er ýmist notað undir tónleikahald, ísdanssýningar auk þess sem húsið hefur marga aðra möguleika í sýninga- og ráðstefnuhaldi. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin í Ósló árið 1996 vegna þess að Noregur vann keppnina ári fyrr með Secret Garden með laginu Nocturne með í Point Theatre í Dublin, Írlandi. Keppnin, 1996 var haldin í Oslo Spektrum í Ósló. Keppnin var svo aftur haldin í Ósló árið 2010 eftir að Alexander Rybak vann keppnina og sló öll met með laginu Fairytale og fékk 387 stig. Keppnin var haldin í Telenor Arena í Ósló. 17. júní. 17. júní er 168. dagur ársins (169. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 197 dagar eru eftir af árinu. Íslensk skáld. Flokkun skálda á aldir fer hvorki eftir fæðingarári né dánarári, heldur er miðað við hvenær skáldin voru virkust og gáfu mest út. Listinn er ekki tæmandi. Skáld. Skáld er sá sem yrkir ljóð (ljóðskáld). Heitið er einnig notað um leikritahöfunda (leikskáld), enda voru leikrit skrifuð í bundnu máli fram á 19. öld. Heitið er sjaldnar notað um rithöfunda — þá sem semja skáldsögur. Stundum eru athafnamenn upphafnir með því að kalla þá „athafnaskáld“ og einnig eru til svokölluð nýyrðaskáld. Háskólinn í Reykjavík. Háskólinn í Reykjavík er einkarekinn háskóli í Reykjavík sem útskrifar nemendur úr viðskiptafræði, tölvunarfræði, tæknifræði, verkfræði, kennslufræði, lýðheilsufræði, íþróttafræði, sálfræði og lögfræði og auk þess starfrækir skólinn stjórnendaskóla. Bakhjarl og stjórn. Skólinn er rekinn af "Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun" (SVÍV) og lýtur stjórn sem skipuð er af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Í háskólaráði sitja auk rektors fimm einstaklingar úr atvinnulífinu. Háskólaráð ræður rektor en hann skipar svo í stöðu deildarforseta og yfirmanna stoðsviða. Framkvæmdastjórn skólans skipa rektor, deildarforsetar, framkvæmdastjóri fjármála, framkvæmdastjóri Opna háskólans, framkvæmdastjóri mannauðs og gæða, formaður rannsóknarráðs og formaður námsráðs. Háskólinn í Reykjavík hefur gert þjónustusamning við menntamálaráðuneytið sem m.a. kveður á um að ríkið greiði tiltekna upphæð fyrir hvern nemanda í skólanum. Þar fyrir utan eru innheimt skólagjöld, sem skólaárið 2010-2011 verða 154.000 krónur á önn í grunnnámi, en frá 348-812 þúsund krónur á önn í framhaldsnámi. Samkvæmt fyrrverandi Rektor HR, Svöfu Grönfeldt, mynda skólagjöldin um 25% af tekjum skólans, framlög frá atvinnulífinu 25% en 50% af tekjunum koma frá ríkinu. Sem gott dæmi um þessi framlög frá atvinnulífinu má nefna að í september 2007 tilkynnti auðmaðurinn Róbert Wessmann, fyrrverandi forstjóri Actavis, að hann myndi leggja einn milljarð króna til þróunarsjóðs HR. Segir í tilkynningu skólans sama dag: "Reykjavík er með þessu komið á kortið sem alþjóðlegri háskólaborg og útrás Íslendinga á sviði menntunar er hafin." Af öðrum samstarfsaðilum HR í gegnum tíðina má m.a. nefna VÍS, Glitnir, Eimskip, Sjóvá og Orkuveita Reykjavíkur. Tekjumódel skólans hefur verið gagnrýnt þónokkuð. Hefur m.a. verið bent á að raunverulegur fjárstuðningur ríkisins við skólann sé nokkuð hærri, þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar fyrir skólagjöldum vegna náms við Háskólann í Reykjavík. Vegna hagstæðra kjara fyrir námsmenn eru námslán dýr fyrir ríkið, sem getur í raun eingöngu búist við að fá helming raunvirðis lánsins greitt til baka. Hafa sumir gagnrýnt að Háskólinn í Reykjavík geti hækkað skólagjöld sín og þar með fengið óbeinan ríkisstyrk í gegnum námslán nemenda sinna. Sögulegt ágrip. Háskólinn í Reykjavík á rætur að rekja til Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands (TVÍ) sem stofnaður var í janúar 1988 og starfræktur í húsnæði Verzlunarskóla Íslands um tíu ára skeið. Háskólinn í Reykjavík var settur í fyrsta sinn hinn 4. september 1998 í nýrri byggingu við Ofanleiti 2, undir nafninu Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. TVÍ varð önnur tveggja deilda hins nýja háskóla. Í janúar 2000 var ákveðið að breyta nafni skólans í Háskólinn í Reykjavík þar sem gamla nafnið þótti ekki nógu lýsandi fyrir starfsemi skólans. HR og Tækniháskóli Íslands sameinuðust undir merkjum hins fyrrnefnda 4. mars 2005. Nú hefur verið ákveðið að framtíðarstaðsetning skólans verði í Vatnsmýrinni og er gert ráð fyrir að starfsemi hans hefjist þar 2009. Sveinn Björnsson. Sveinn Björnsson (27. febrúar 1881 í Kaupmannahöfn í Danmörku – 25. janúar 1952) var fyrsti forseti Íslands. Kona hans var dönsk og hét Georgía Björnsson (fædd Georgia Hoff-Hansen). Þau áttu sex börn. Elsti sonur hans, Björn Sv. Björnsson, var mjög umdeildur eftir seinni heimsstyrjöldina vegna tengsla sinna við þýska nasistaflokkinn. Æviágrip. Foreldrar Sveins voru Björn Jónsson (sem síðar varð ráðherra) og Elísabet Sveinsdóttir. Sveinn lauk prófi í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og var málaflutningsmaður í Reykjavík. Hann var kjörinn þingmaður Reykvíkinga 1914. Síðar var hann viðskiptafulltrúi og samningamaður fyrir Íslands hönd í utanríkisviðskiptum. Hann varð fyrsti sendiherra Íslands og starfaði sem sendiherra í um tvo áratugi. Sveinn var ríkisstjóri Íslands 1941-1944 og fór með vald konungs samkvæmt ákvörðun Alþingis, þar sem Danmörk var hersetin af Þjóðverjum og samband á milli Íslands og konungs þess var rofið. Alþingi kaus hann fyrsta forseta Íslands að Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944 til eins árs. Hann var sjálfkjörinn án atkvæðagreiðslu frá 1945 og aftur frá 1949 til dauðadags. Líffærakerfi. Líffærakerfi er í líffræði hópur líffæra sem eru samsett úr vef, líffæri þessi hafa eitt eða fleiri hlutverk í líkama dýrsins. Jafnvægisskyn. Stúlkan beitir jafnvægisskyni sínu við það að reyna að halda jafnvægi á spítunni. Jafnvægisskyn er eitt af skynfærunum, það gerir mönnum og dýrum mögulegt að halda jafnvægi. Jafnvægisskynfærin í mönnum eru í innra eyra og eru í bogagöngunum, sem eru vökvafyllt og vaxin skynhárum að innan, sem skynja hreyfingu í vökvanum. Beinakerfið. Beinakerfið er í líffræði stoðkerfi dýra og samanstendur það af beinagrind, en til eru þrjár mismunandi gerðir beinagrinda: ytri stoðgrind, innri stoðgrind og vökvastöðustoðgrind. Bein. Mynd af löngu beini með íslenskum glósum. Bein eru hluti beinagrindar hryggdýrs, sem myndar stoðkerfi líkamans. Bein eru gerð úr beinvef. Vöðvar tengjast beinum með sinum. Tegundir beina. Fjórar megintegundir eru löng, stutt, flög og óregluleg bein. Gerð beins. Miðja beins nefnist skaft, "(e. diaphysis)", endar beins nefnast beinköst, "(e. epiphysis)", endafletir beins heita liðfletir en þeir eru brjóskklæddir. Allt beinið er þakið beinhimnu "(e. periosteum)", nema á liðflötum, þar er það þakið liðbrjóski "(e. articular cartilage)". Í löngum beinum er merghol "(e. medullary cavity)"sem er þakið að innan þunnri himnu, mergholshimnu, "(e. endosteum)". Í mergholinu er fituvefur sem nefnist guli beinmergurinn. Þéttbein "(e. compact bone)" eru að mestu leyti utan til í beininu þar sem þarf sterkan vef en frauðbein "(e. spongy bone)" eru mestmegnis innan í beinendum og utan við mergholið. Endurnýjun beina. Beinin eru í stöðgri endurnýjun út allt lífið, hraði endurnýjunarinnar fer eftir álagi og öðrum kröfum sem eru gerðar til beinana. Tvær gerðir frumna sjá um að byggja upp bein og brjóta þau niður, það eru beinkímfrumur og beinátfrumur. Þessar frumur vinna hlið við hlið að við það að lagfæra beinin í líkamanum. Myndun beina. Það ferli þegar bein myndast er kallað beingerð/beinmyndun "(e. ossification)". Beinmyndun á sér stað aðallega af fjórum ástæðum. Tvær mismunandi beinmyndanir eru innanhimnu beingerð "(e. intramembranous ossification)" og innanbrjósks beingerð "(e. endochondral ossification)". Vöxtur beina. Allt til unglingsáranna vaxa beinin bæði að lengd og þykkt. Lengd beina tengist starfsemi vaxtarlagsins. Vaxtarlagið "(e. epiphyseal growth plate)" er á milli beinendans og skaftsins. Í vaxtarlaginu eru brjóskfrumur sem eru stanslaust að skipta sér. Þegar bein vex í lengd myndast nýjar brjóskfrumur í vaxtarlaginu beinenda megin á meðan bein myndast skaft megin, og skaftið lengist. Þegar unglingsárin taka enda minnkar myndun nýrra fruma og millifrumu matrix og hefur endanlega stoppað í kringum 18-25 ára. Þá hefur bein tekið við af öllu brjóski vaxtarlagsins. Endurbygging beina. Bein eru stanslaust að endurbyggjast. Endurbyggingin stafar af stanslausri skiptingu gamals beinvefs fyrir nýjan. Þetta er ferli sem inniheldur það að beinátfrumur hreinsa steinefni og kollagenþræði frá beininu og nýjum steinefnum og kollagenþráðum er komið fyrir með beinkímfrumum. Endurbygging sér einnig um að gera við meidd bein. Eyðing beina. Beinátfrumur eru stórar frumur, sem ferðast um og vella leysihvötum, sem melta beinið. Líkami. Líkami er í lífeðlisfræði efnisheild lífveru. Beinagrind mannsins. Skýringarmynd sem sýnir beinagrind konu með heitum helstu beina. Höfuðkúpa. Höfuðkúpan (hauskúpa eða haus(s)kella) (latína "cranium" af gríska orðinu "κρανιον") er þyrping beina efst á hryggsúlunni, sem hefur að geyma heilann, augun og efsta hluta mænunnar. Hauskúpa manns er úr 22 beinum af ýmsum stærðum og gerðum, auk tungubeins, tanna og þriggja beina í miðeyra hvoru megin. Hlutar höfuðkúpurnar eru tengdir saman með (tenntum) beinsaumum. Höfuðkúpunni er skipt í tvennt: kúpubein, sem umlykja heilann og andlitsbein. Vefur. Vefur er hópur af nátengdum frumum sem sérhæfa sig til að gegna ákveðnum hlutverkum. Núllið. Núllið er almenningssalerni í miðborg Reykjavíkur. Kallað núllið fyrst og fremst vegna staðsetningar sinnar neðst í Bankastrætinu, neðan við fyrstu númeruðu lóðirnar. Beinvefur. Beinvefur er harður og steinefnaríkur stoðvefur, gerður úr bandvefsþráðum og steinefnum, einkum kristölluðum kalsíumfosfatsöltum, en einnig natríum-, kalíum-, klór- og flúorsöltum. Beinhimna umlykur allan beinvef en hún er úr bandvef. Hún aðstoðar beinin við að gróa með næringartilfærslu. Endar beina sem mæta öðrum beinum er brjósk. Þéttbein. Þéttbein er, eins og nafnið bendir til, þétt, en líka hart. Þéttbeinið er búið til úr örlitlum samfelldum spólum sem nefnast beinflögur, "osteocytes". Innan þessara beinflagna eru beinfrumurnar, hinar þroskuðu frumur beinvefjarins, og liggja þar í örholum sem nefnast lón. Lónunum er raðað í samlæga hringi utan um hverja beinflögu. Þéttbeinið er að mestu utan til í beininu þar sem sterkan vef þarf. Fjalakötturinn. Fjalakötturinn var fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi og var í sama sal og Breiðfjörðsleikhúsið, Aðalstræti 8, Reykjavík. Þar var tekið að sýna kvikmyndir 2. nóvember 1906 og tók salurinn 300 manns í sæti. Kvikmyndasýningum lauk í Fjalakettinum 1926 og þar á eftir var salurinn notaður til allavega fundarhalda. Til dæmis voru þar uppboð ("aksjón"), stúkufundir góðtemplara og t.d. stjórnmálafundir kommúnistaflokksins um 1932. Saga "Reykjavíkur Biograftheater". Hús Valgarðs Ö. Breiðfjörðs, sem síðan var kallað "Fjalakötturinn" þegar húsið var farið að láta á sjá, var einnig nefnt "Reykjavíkur Biograftheater", eða einfaldlega "Bíó" í daglegu tali þegar enn fóru fram kvikmyndasýningar í húsinu. Kvikmyndahúsið var til húsa við Aðalstræti 8, við hlið núverandi Morgunblaðshallar. Gengið var inn í kvikmyndasalinn (og leikhúsið) frá Bröttugötu í Grjótaþorpinu, en verslun Breiðfjörðs sneri út að Aðalstrætinu. Fjalakötturinn var ekki lengi eina kvikmyndahúsið á Íslandi því árið 1912 tók Nýja bíó til starfa. Við það varð "Reykjavíkur Biograftheater" að Gamla bíói í hugum bæjarbúa þó það hefði vart slitið barnsskónum. Gamla bíó flutti svo á þriðja áratugnum upp á Ingólfsstræti þar sem kvikmyndasýningum var fram haldið þar til á níunda áratugnum. Nú er þar Íslenska óperan. Niðurrif. Þrátt fyrir að þarna hafi verið rekið sögufrægt leikhús og síðar kvikmyndahús, sem sagt var elsta uppistandandi kvikmyndahús í heimi var Fjalakötturinn rifinn árið 1985. Nú stendur hús Tryggingamiðstöðvarinnar á sömu lóð. Ákvörðunin um niðurrif hússins var mjög umdeild og um hana stóð töluverður styr. Í Háskóla Íslands á áttunda áratug 20. aldar tók kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn sér nafn eftir hinum sögufræga kvikmyndasal. Nafnið var líka notað á dagskrárlið frá fyrstu árum Stöðvar 2 þar sem sýndar voru sígildar kvikmyndir á laugardögum. Árið 2005 var opnaður veitingastaður með nafninu "Fjalakötturinn" í nýju hóteli Hotel Reykjavik Centrum en það var teiknað með það fyrir augum að það liti út eins og þau þrjú hús sem áður stóðu við Aðalstræti, og sá hluti byggingarinnar sem veitingastaðurinn er í er teiknaður eftir Fjalakettinum (þ.e.a.s. Breiðfjörðshúsi). Frauðbein. Frauðbeinið er innan í beinendum og utan við mergholið. Það er gljúpt og myndar bjálka. Í holrúmum þeirra myndast rauði beinmergurinn. Dæmi um frauðbein eru t.d. höfuðbein, hryggjarliður, rifbein og fleiri. Fruma. Mynd af innri gerð plöntufrumu, einnig sjást heiti á flestum líffærum frumunar. Frumur eru smæstu, lifandi byggingareiningar lífvera, þ.e.a.s. allar lífverur eru gerðar úr frumum. Til eru lífverur sem eru einungis ein fruma og nefnast þær einfrumungar en að öðrum kosti fjölfrumungar. Frumum er almennt skipt í dýrafrumur og plöntufrumur. Þær geta verið sérhæfðar, t.d. taugafrumur og veffrumur. Stærsta fruma mannsins er okfruma. Samsetning. Um 70% frumna er vatn. Um 1% eru ólífrænar jónir m.a. kalíum, natríum, magnesíum og kalsíum. Afgangurinn er ýmsar lífrænar sameindir m.a. lípíð, kolvetni, prótín og kjarnsýrur. Frumulíffæri. Í hverri frumu er einn eða fleiri kjarnar sem innihelda litninga. Frumur eru nefndar heilkjörnungar ef þær hafa skýrt afmarkaðan kjarna með kjarnahimnu en ella eru þeir nefndir dreifkjörnungar. Í kjörnum eru kjarnakorn sem mynda RNA við frumuskiptingu. Í dýra- og plöntufrumum er valgegndræp frumuhimna, þ.e.a.s. hún „velur“ hvaða efni ferðast í gegn. Frumuhimnan er aðallega gerð úr fituefni sem nefnist fosfólípíð, og prótínum. Frumuveggur er ysta verndarlag plöntufrumna gert úr beðma og pektíni. Eins og nafnið gefur til kynna er það eins konar styrktarlag frumunnar og liggur hann utan við frumuhimnuna í plöntufrumum. Byggingarþrep líkamans. Mannslíkamanum, svo sem öllum öðrum lífverum, er skipt í byggingarþrep, til að fólk eigi auðveldara með að átta sig á heildarmyndinni. Kúpubein. Kúpubeinin (fræðiheiti: "ossa cranii") eru þau bein höfuðkúpunnar, sem hvelfast um heilann og mynda heilakúpu (fræðiheiti: "cranium"). Önnur bein höfuðkúpunnar nefnast andlitsbein. Mannsheili. Mannsheili er heili mannsins, samsettur úr fjölmörgum taugaþráðum og myndar ásamt mænu miðtaugakerfið. Hann er Heilinn vegur um 1.4 kg (um 2% af líkamsmassa) og þrátt fyrir lítinn massa tekur hann til sín um 20% af blóðinu sem hjartað dælir frá sér (á mínútu) og um 20% af súrefninu sem líkaminn notar. Skortur á súrefni í heila getur valdið varanlegum frumudauða, sem getur orsakað einhvers konar vanhæfni einstaklingsins, en það er mjög misjafnt á milli einstaklinga og er fátt algilt í þessum efnum. Miðað er við að manneskja geti verið súrefnislaus í þrjár til fjórar mínútur án þess að hljóta af varanlegan heilaskaða. Mænukylfa. Mænukylfan eða "medulla oblongata", er hluti af heilanum, hún er neðsti hluti heilastofnsins og mænan í beinu framhaldi af henni niður á við í mannslíkamanum. Það er mænukylfan sem ber „ábyrgð“ á því að vinstri hluti heilans stjórnar hægri hluta líkamans og hægri hluti heilans stjórnar vinstri hluta líkamans, vegna þess að það er í mænukylfunni sem að ákveðnar boðbrautir víxlast. Í mænukylfunni eru líka lífsnauðsynlegar heilastöðvar; heilastöð sem stjórnar hjartslætti, æðastjórnstöð sem stillir blóðþrýsting og svo öndunarstöð sem stjórnar öndun. Einnig eru heilastöðvar sem stýra ýmsum viðbrögðum eins og uppköstum, hnerra, hósta og kyngingu. Brú. Brú, "pons", tengir saman ýmsa hluta hluta heilans. Auk þess á ein öndunarstöð aðsetur í brúnni. Það sem er einna merkilegast við þetta svæði er það að hér víxlast taugabrautir; allar innboðstaugar sem koma frá hægri hlið líkamans og bera heilanum skynáreiti víxlast í brúnni og liggja yfir til vinstra heilahvelsins og öfugt. Miðheili. Í miðheila, "mesencephalon", eru sjónviðbragsstöðvar fyrir höfuð og hreyfingar augna og svo er líka skiptistöð fyrir upplýsingar tengdar heyrn. Framhluti miðheila er samansettur af tveimur pedunculus cerebri. Í þeim eru taugasímar hreyfitaugunga sem leiða taugaboð frá hjarna til mænu, mænukylfu, brúar annars vegar og hins vegar skyntaugunga sem ná frá mænukylfu til stúku. Í miðheila er substantia nigra, en Parkison-sjúkdómurinn felur í sér hrörnun þeirra. Þar eru einnig hægri og vinstri nucleus ruber, þar á sér stað samhæfing vöðvahreyfinga litlaheila og hjarna. Í miðheila er einnig að finna kjarna tengda heilataugum III og IV. Þá er að finna kjarnana colliculus superius og colliculus inferior á bakhluta miðheila. Um hina tvo c. sup. ganga margir viðbragðsbogar tengdir hreyfingum augna, höfuðs og háls. Hinir tveir c. inf. eru hluti af heyrnarbrautinni en þeir senda áfram boð frá viðtökum í eyra til stúku. Einnig eru þeir viðbragðsbogar fyrir að hrökkva við, þ.e. skyndihreyfingar höfuðs og líkama sem á sér stað þegar manni bregður við hátt hljóð. Milliheili. Milliheili, "diencephalon", skiptist í þrjú svæði; stúku, undirstúku og heilaköngul. Stúkan. Stúkan, "thalamus" sér um að tengja ánægju eða óánægju við skynjunarboð frá taugum, endurvarpa taugaboðum frá nokkrum skynfærum til stóra heila og gegnir mikilvægu hlutverki varðandi svefn og vöku. Heilahnykill (Litli heili). Heilahnykill "(litli heili)", "cerebellum", er næststærsti hluti heilans Hjarni (Stóri heili). Í hjarna eða stóra heila, "cerebrum", sem er stærsti hluti heilans, er miðstöð æðri hugsana, gáfnafars, rökhugsunar, minnis, tungutaks og vitundar. Hann sér líka um túlkun meðvitaðrar skynjunar og stjórnun hreyfinga. Þökk sé hjarna höfum við eiginleika sem skyldar lífverur hafa ekki; siðferðiskennd, ljóðagerð, listsköpun hvers konar og hæfileika til að uppgötva alls kyns hluti. (Sjá nánar.) Ysta lag hjarna er að miklu leyti gert úr gránuvef, "substantia grisea", og er það lag nefnt hjarnabörkur, "complex cerebi". Innan við þennan börk er hvítuvefur, "substantia alba". Það er einmitt þessi hjarnabörkur sem greinir taugakerfi mannsins frá skyldum lífverum og gefur okkur suma af þeim eiginleikum sem voru nefndir hér að ofan. Heilabörkur ("cerebral cortex"). Heilabörkurinn er ysta lag gránuefnisins sem umlykur heilann. Maðurinn hefur hlutfallslega stærstan heilabörk allra dýra. Taugabrautir í heilaberki gegna mikilvægu hlutverki í ýmiss konar hugarferlum og hreyfistjórn. Áhrif umhverfisins á heilann. Tilraunir hafa leitt í ljós að reynsla getur valdið breytingum í heila, bæði efnafræðilegum og líkamlegum. Ýmislegt er þó óljóst í þessum efnum. Rannsóknir sem beinast að því að kanna tengsl heila og umhverfis gefa til kynna að áreiti snemma á æviferlinum sé mjög afgerandi fyrir taugar, hreyfingar og gáfnaþroska barna. Mæna. Mænan er í líffærafræði annar hluti miðtaugakerfis hryggdýra, hún er umlukin og vernduð af hryggsúlunni en hún fer í gegnum hrygggöngin. Hún tilheyrir miðtaugakerfinu því í mænu er unnið úr taugaboðum og andsvar taugakerfisins ræðst gjarnan af samspili heila og mænu. Ýmis viðbrögð líkamans fara aðeins um mænutaugar eða mænu og nefnast því mænuviðbrögð (t.d. ef maður brennir sig). Miðtaugakerfi. Miðtaugakerfi er í líffærafræði annar tveggja hluta taugakerfis, myndað úr heila og mænu. Hinn hlutinn kallast úttaugakerfi. Miðtaugakerfið gegnir því hlutverki að vera stjórnstöð fyrir alla starfsemi líkamans, það vinnur úr því áreiti sem berast því í gegnum úttaugakerfið og ákveður hvernig bregðast skuli við þeim. Andlitsbein. Andlitsbeinin (fræðiheiti: "ossa faciale") eru þau 14 bein höfuðkúpnnar, sem flest er tengd með óhreyfanlegum liðamótum, sem nefnast beinsaumar og eru við fæðingu ekki að fullu samvaxnir. Beinin, sem hvelfast um heilann, nefnast kúpubein. Frumeind. a> og sýnir gull frumeindir á (100) yfirborði gullmálms. Hringlaga punktarnir eru hver ein gull frumeind. Frumeind (eða atóm) er smæsta aðgreinanlega eining frumefnis, sem jafnframt hefur efnafræðilega eiginleika þess til að bera. Frumeind er þannig grundvallareining efna og helst óbreytt í efnahvörfum. Eiginleikar. Eiginleikar frumeinda eru ákvarðaðir aðallega út frá kjarna og rafeindaskýi þeirra, þar má nefna massa, hleðslu, kjarnakraft, geislun, seguleiginleika og ástand þeirra. Frumeind má einnig skipta í tvo hluta: kjarna og rafeindasvigrúm. Rafeindasvigrúmið hýsir allar rafeindir frumeindarinnar og mynda rafeindirnar ský um kjarnann. Kjarninn samanstendur af róteindum og nifteindum. Frumeind er sögð vera óhlaðin ef fjöldi róteinda og rafeinda er jafn. Annars kallast hún jón, og hefur jákvæða rafhleðslu ef róteindir eru fleiri en rafeindirnar, annars neikvæða hleðslu. Þótt ómögulegt sé samtímis að ákvarða bæði hraða og staðsetningu einstakra rafeinda nákvæmlega, má skipta rafeindaskýinu upp í hvolf eftir orkustigi rafeindanna. Hvolfin samsvara þá fjarlægð frá kjarnanum, þar sem hærra orkustig merkir meiri fjarlægð frá kjarnanum. Rafeindirnar leitast við að fylla orkulægri hvolfin, en hvert hvolf getur aðeins rúmað ákveðinn fjölda skv. reglunni 2n2 þar sem n er raðtala hvolfsins talið frá kjarna. Rafeindir sem sitja yst í tiltekinni frumeind nefnast gildisrafeindir og hafa mest áhrif á efnafræðilega hegðun hennar. Þær gegna lykilhlutverki í að binda frumdeindir saman og þannig mynda sameindir. Efnishlutur sem eingöngu er gerður úr einni tegund frumeinda kallast frumefni. Kjarni. Hvert atóm hefur kjarna sem samanstendur af kjarneindunum róteind og nifteind. Þessum eindum er haldið saman af sterka kjarnakraftinum. Radíus kjarnans er u.þ.b. formula_1  fm þar sem A er fjöldi kjarneinda í kjarnanum. Þessi stærð er mun minni en heildar radíus atómsins sem er á stærðargráðunni 105 fm, þannig að kjarninn er aðeins brotabrot af heildar stærð atómsins en næstum allur massi atómsins er bundinn í kjarnanum, massi rafeindanna er mun minni er massi kjarnans og yfirleitt ekki tekinn með í útreikningum sem varða atómið í heild. Kjarneindirnar eru fermíeindir og því gildir einsetulögmál Paulis um þær. Þ.e. hver róteind er með sér skammtaástand og deilir því ástandi ekki með annarri róteind, sama gildir um nifteindirnar en þar sem þessar tvær kjarneindir hafa mismunandi hleðslu þá gildir einsetulögmálið ekki á milli þeirra. Fjöldi róteinda ákvarðar sætistölu atómsins og þar með stöðu atómsins innan lotukerfisins. Hvert atóm getur haft mismunandi samsætur þar sem fjöldi nifteinda getur verið mismunandi en fjöldi kjarneinda ákveða kjarnagerðina. Rafeindasvigrúm. Umhverfis kjarnann eru rafeindir. Þessar rafeindir skiptast niður í svokölluð rafeindasvigrúm, sjá má fyrstu fimm svigrúmin á mynd hér til hliðar. Rafeindasvigrúmin hafa ákveðið rúmmál, sem eru háð skammtafræðilegum eiginleikum rafeindanna og eru þær að finna innan þessa rúmmáls en nákvæmlega hvar innan þess er ómögulegt að ákveða með tilraunum eða útreikningum (sjá óvissulögmál Heisenbergs), aðeins líkindi á staðsetningu og hraðavigur rafeindarinnar er hægt að reikna með skammtafræðilegum útreikningum. Rafeindasvigrúmin eru kyrrstæð m.t.t. kjarna frumeindarinnar. Saga. Grískir heimspekingar komu fyrst með þá kenningu að allt efni væri gert úr ódeilanlegum eindum og nefndu þeir þessar eindir "atomos" sem samanstendur af "a", sem er neitandi forskeyti og "tomos", skurður, sem sagt, eitthvað sem ekki er hægt að skera eða deila og lýsti þetta trú þeirra um eðli þessara einda (atomos=ódeili). Demókrítos frá Abderu er sérstaklega kenndur við þessa kenningu. Hér ber að undirstrika að þessar fyrstu hugmyndir um ódeilanlegar frumeindir eru í mikilsverðu tilliti frábrugðnar hugmyndum nútímamanna. Grísku frumeindasinnarnir hugsuðu sér að frumeindirnar væru í raun allar gerðar af sama efni en að þær aðgreindust í óendanlegan fjölda tilbrigða eftir stærð og lögun, þar sem eindir af hverju tilbrigði/tegund áttu að vera eilífar og óbreytanlegar. Stærð (þó alltaf örsmá) og lögun eindanna átti að ákvarða efnafræðilega eiginleika þeirra. Þetta áttu að vera grunneiningar alls hversdagsleg efnis, sem yfirleitt er hrærigrautur einda af mismunandi gerðum. Þó fyrirfinnast efnishlutir sem samanstanda eingöngu af eindum af tiltekinni gerð, sem átti t.d. að gilda um vatn, loft og eld. Þannig var hægt að tala um frumefni, þ.e.a.s efni sem samanstæði aðeins af eindum af tiltekinni gerð. En það er m.a. þetta atriði sem tengir þessi fornaldarfræði við nútíma hugmyndir um frumeindir. a> af atóminu þar sem rafeindirnar ferðast innan ákveðinna hvela og orka færir rafeindir á milli hvelanna Spurningin um tilvist frumeinda/ódeila var mjög umdeild allt frá fornöld og fram á seinni hluta 19. aldar. Spurningin var alltaf nátengd efnafræði og snérist um það hvort frumefni væru til og þá hvort tiltekið frumefni samanstæði af ódeilanlegum frumeindum. Smá saman tókst þó að renna stoðum undir kenninguna um tilvist frumefna, t.d. með uppgötvun fosfórs á 17. öld og síðar súrefnis á 18. öld. Árið 1808 setti John Dalton síðan fram þá kenningu að frumefni væru samsett af einni gerð frumeinda, sem líkt og frumeindir Demokrítosar væru óbreytanlegar í lögun og byggingu. Önnur efnasambönd mætti síðan fá fram með því að blanda ólíkum frumefnum saman. Um miðja 19. öld vann rússneski efnafræðingurinn Mendelejevs við að setja upp töflu eða kerfi frumefna sem byggðist á upplýsingum um atóm massa frumefna, en menn höfðu ekki hugmynd um innri gerð atóma á þessum tíma. Þetta kerfi kallast lotukerfi. Af þessu má ljóst vera að það var skilgreiningar atriði um frumeindir/atóm að þær væru ókljúfanlegar, sbr. nafnið "atomos". Það er því dálítið kaldhæðnislegt að þær tilraunir og uppgötvanir sem loks leiddu til þess að frumeindirnar voru teknar í sátt, sýndu beinlínis að frumeindirnar voru kljúfanlegar. Með uppgötvun rafeindarinnar undir lok 19. aldar fóru menn að velta því fyrir sér hvort atómið væri samansett úr fleiri eindum og voru það einna helst uppgötvanir J. J. Thomson, Henri Becquerel og Ernest Rutherford sem ruddu brautina í þeim efnum. 1896 uppgötvaði Becquerel geislavirkni og ári síðar uppgötvaði Thomson rafeindina. Rutherford tilkynnti svo um uppgötvun kjarnans 1911. Allan þennan gerjunartíma veltu menn því fyrir sér hvernig frumeindir væru uppbyggðir og hvernig þær viðhéldu stöðugleika. Loks árið 1913, tókst Niels Bohr að setja fram líkan fyrir vetnisfrumeindina, sem skapaði grundvöll fyrir áframhaldandi starf og skilning á byggingu frumeinda. Ekki náðust myndir af atómum fyrr en á 20. öld með tilkomu rafeindasmásjárinnar. Sameind. Í efnafræði er sameind (sjaldnar mólekúl) skilgreind sem nægjanlega stöðugur rafhlutlaus hópur tveggja eða fleiri frumeinda með fasta rúmfræðilega skipan sem sterk efnatengi halda saman. Hana má einnig skilgreina sem einingu tveggja eða fleiri atóma sem deilitengi halda saman. Sameindir greinast frá fjölatóma jónum í þessum stranga skilningi. Í lífrænni efnafræði og lífefnafræði er merking hugtaksins "sameind" víðari og nær einnig til hlaðinna lífrænna sameinda og lífsameinda. Þessi skilgreining hefur þróast með vaxandi þekkingu á byggingu sameinda. Fyrri skilgreiningar voru ónákvæmari og skilgreindu sameindir sem minnstu eindir hreinna kemískra efna sem enn hefðu samsetningu og efnafræðilega eiginleika þeirra. Þessi skilgreining reynist oft ótæk því mörg algeng efni, svo sem steindir, sölt og málmar eru gerðir úr atómum eða jónum sem ekki mynda sameindir. Í kvikfræði lofttegunda er hugtakið "sameind" oft notað um hvaða ögn á loftformi sem er, óháð samsetningu. Samkvæmt því væru eðallofttegundir taldar "sameindir" þó gerðar séu úr einu ótengdu atómi. Sameind getur verið gerð úr atómum sama frumefnis, eins og á við um súrefni (O2), eða ólíkum frumefnum, eins og á við um vatn (H2O). Atóm og flókar sem tengjast með ó-jafngildum tengjum svo sem vetnistengjum eða jónatengjum eru venjulega ekki talin stakar sameindir. Ekki er hægt að skilgreina dæmigerðar sameindir fyrir jónísk sölt og deilitengis-kristalla sem eru samsettir úr endurteknu mynztri einingarsella annaðhvort í fleti (eins og í grafíti) eða þrívítt (eins og í demanti eða natrínklóríði). Þetta á einnig við um flest þéttefni með málmtengjum. Sameindafræði. Þau vísindi sem fjalla um sameindir nefnast "sameindaefnafræði" eða "sameindaeðlisfræði" eftir áherzlunni. Sameindaefnafræði fjallar um lögmálin sem stýra víxlverkun milli sameinda sem leiða til þess að efnatengi komast á og rofna, en sameindaeðlisfræði fjallar um lögmálin sem stýra byggingu þeirra og eiginleikum. Í reynd er þessi aðgreining óljós. Í sameindavísindum jafngildir sameind stöðugu kerfi (bundnu ástandi) úr tveimur eða fleiri atómum. Stundum er gagnlegt að hugsa um fjölatómajónir sem rafhlaðnar sameindir. Hugtakið "óstöðug sameind" er notað um mjög hvarfgjarnar sameindir, þ.e. skammlífar samstæður (hermueindir) rafeinda og kjarna, svo sem sindurefni, sameindajónir, Rydbergsameindir, færsluástönd, van der Waals efnasambönd eða kerfi úr atómum sem rekast saman eins og í Bose-Einstein-döggum. Saga. René Descartes varpaði fyrstur fram hugtakinu "molécule" sem merkir "örsmá ögn" á 3. áratugi 17. aldar. Þó margir efnafræðingar hafi viðurkennt tilvist sameinda síðan snemma á 19. öld vegna lögmáls Daltons um ákveðin og margföld hlutföll (1803-1808) og lögmáls Avogadrosar (1811), gætti mótstöðu af hálfu pósitívista og eðlisfræðinga svo sem Machs, Boltzmanns, Maxwells og Gibbs, sem litu á sameindir einfaldlega sem hentugar stærðfræðilegar hugarsmíðar. Með framlagi Perrins um browníska hreyfingu (1911) er lokasönnunin fyrir tilvist sameinda talin hafa komið fram. Stærð sameinda. Flestar sameindir eru langtum minni en svo að séðar verði berum augum, en þó ekki allar. Minnsta sameindin er tvíatóma vetni, H2 en lengd hennar er hér um bil tvöföld tengilengdin sem er 74 pm. Sameindir sem notaðar eru sem byggingareiningar lífrænna efnasmíða hafa lengd frá nokkrum tugum pm til nokkurra hundraða pm. Greina má litlar sameindir og jafnvel útlínur einstakra atóma með rafeindasmásjá. Stærstu sameindir nefnast risasameindir og ofursameindir. Deoxýríbósakjarnsýra, sem er risasameind, getur orðið stórsæ, sem og sameindir margra fjölliða. "Virkur sameindarradíi" endurspeglar þá stærð sem sameind virðist hafa í lausn. Sameindarformúla. Efnaformúla efnasambands er einfaldasta heiltöluhlutfall frumefnanna sem það er gert úr. Til dæmis er vatn ávallt sett saman úr vetni og súrefni í hlutföllunum 2:1. Etýlalkóhól eða etanól er ávallt sett saman úr kolefni, vetni og súrefni í hlutföllunum 2:6:1. Þetta ákvarðar gerð sameindar þó ekki einlítt. Til dæmis hefur dímetýleter sömu hlutföll og etanól. Sameindir með sömu atóm í mismunandi uppröðunum nefnast raðbrigði. Sameindarformúla sameindar lýsir nákvæmum fjölda þeirra atóma sem sameindin er sett saman úr og auðkennir þar með raðbrigðin. Efnaformúlan er oft hin sama og sameindarformúlan en ekki alltaf. Til dæmis hefur sameindin asetýlen sameindarformúluna C2H2 en einfaldasta heiltöluhlutfall frumefnanna er CH. Mólmassa efnis má reikna út frá efnaformúlunni og er tjáð í hefðbundnum atómmassaeiningum. Í kristöllum er hugtakið formúlueining notað í stókíómetrískum reikningum. Sameindarúmfræði. Sameindir hafa fasta jafnvægis-rúmskipan — tengilengdir og -horn — sem þær sveiflast stöðugt um með titrings- og snúningshreyfingu. Hreint efni er sett saman úr sameindum með sömu meðaltals-rúmfræðilega byggingu. Efnaformúlan og bygging sameindarinnar eru hinir tveir mikilvægu þættir sem ákvarða eiginleika þess, einkum hvarfgirnina. Raðbrigði deila sömu efnaformúlu en hafa yfirleitt mjög ólíka eiginleika vegna ólíkrar byggingar. Formbrigði, tiltekin tegund raðbrigða, geta haft mjög áþekka eðlis-efnafræðilega eiginleika en um leið mjög ólíka lífefnafræðilega virkni. Sameindalitrófsgreining. Sameindalitrófsgreining fæst við viðbragð (litróf) sameinda sem víxlverka við könnunarmerki af þekktri orku (eða tíðni samkvæmt formúlu Plancks.) Tvístrunarfræði er fræðilegur bakgrunnur litrófsgreiningar. Könnunarmerkið sem notað er í litrófsgreiningu getur verið rafsegulbylgja eða öreindageisli (rafeinda, jáeinda o.s.frv.) Viðbragð sameindarinnar kann að felast í gleypingu merkis (gleypnilitrófsgreining), útgeislun annars merkis (útgeislunarlitrófsgreining), sundrun eða efnafræðilegum breytingum. Litrófsgreining er viðurkennd sem öflugt verkfæri við rannsóknir á smásæjum eiginleikum sameinda, einkum orkustigum þeirra. Til að öðlast sem mestar smásæjar upplýsingar úr tilraunaniðurstöðum er litrófsgreining oft tengd saman við efnafræðilega útreikninga. Fræðilegar hliðar. Skoðun sameinda útfrá sameindaeðlisfræði og kennilegri efnafræði byggist að verulegu leyti á skammtafræði, sem liggur til grundvallar skilningi á efnatenginu. Einfaldasta sameindin er vetnis-sameindar-jónin H2+ og einfaldasta efnatengið af öllum er einnar-rafeindar-tengið. H2+ er sett saman úr tveimur jákvætt hlöðnum róteindum og einni neikvætt hlaðinni rafeind sem bindast saman með því að skiptast á ljóseindum, sem þýðir að auðveldara er að leysa Schrödingerjöfnu kerfisins vegna fjarveru fráhrindikrafta milli tveggja rafeinda. Eftir tilkomu hraðvirkra tölva hafa nálgunarlausnir fyrir flóknari sameindir orðið mögulegar og eru þær eitt helzta viðfangsefni reiknilegrar efnafræði. Þegar reynt er að skilgreina nákvæmlega hvort tiltekin skipan atóma sé "nógu stöðug" til að líta megi á hana sem sameind, segir IUPAC að hún "verði að samsvara lægð á mættisorkuyfirborðinu sem er nógu djúp til að fanga a.m.k. eitt titringsástand". Þessi skilgreining er aðeins háð styrk víxlverkunarinnar milli atómanna, ekki eðli hennar. Raunar telur hún með veikt tengdar samstæður sem yfirleitt væri ekki litið á sem sameindir, svo sem helín-tvíliðuna He2, sem hefur aðeins eitt bundið titrings-ástand og er svo laustengt að hennar verður sennilega aðeins vart við mjög lágan hita. Frumulíffæri. Mynd af innri gerð plöntufrumu, einnig sjást heiti á flestum líffærum frumunar. Frumulíffæri eru starfseiningar frumunnar. Það eru frumulíffærin sem í raun gera allt það sem frumunni er ætlað að gera. Sesambein. Sesambein er bein sem liggur í sin eða einhvers konar mjúkvef og myndar ekki liði með öðrum beinum. Mannslíkaminn. Mannslíkaminn samanstendur í stórum dráttum af höfði, hálsi, búk, tveimur fótleggjum og tveimur handleggjum. Á fullorðinsárum eru í líkamanum um það bil 10 trilljónir (1012) frumna, sem eru smæstu byggingareiningar mannslíkamans. Hópar af frumna liggja saman og mynda vefi, sem samlagast og mynda líffæri, sem aftur vinna saman og mynda líffærakerfi. Í vestrænum iðnríkjum er meðalhæð fullorðinna karla um 1,7 til 1,8 metrar og fullorðinna kvenna 1,6 til 1,7 metrar. Hæð einstaklingsins ræðst af erfðavísum og mataræði. Það eru um það bil 206 bein í fullsköpuðum mannslíkama. Fjöldi beina er ekki alltaf sá sami, til dæmis hafa ekki allir jafn marga rófuliði. 16. mars. 16. mars er 75. dagur ársins (76. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 290 dagar eru eftir af árinu. Áreitisvaldur. Áreitisvaldur í læknisfræði er hvert það áreiti kallað sem að raskar jafnvægi líkamans. Nái jafnvægistæki líkamans ekki að endurheimta stöðugleika sinn geta ýmsir sjúkdómar komið upp, og jafnvel getur það leitt til dauða. Halldór Laxness. Halldór (Kiljan) Laxness (fæddur Halldór Guðjónsson 23. apríl 1902, dáinn 8. febrúar 1998) var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld. Halldór var sonur Sigríðar Halldórsdóttur (fædd 1872) og Guðjóns Helgasonar (fæddur 1870). Fyrstu æviárin bjó hann í Reykjavík en flutti að Laxnesi í Mosfellssveit árið 1905. Hann tók fljótt að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 14 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu "H.G". Ekki löngu síðar birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni og var sú grein um gamla klukku. Á ferli sínum skrifaði Halldór 51 bók, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit og fleira. Til að sjá þau rit sem hann gaf út er hægt að skoða bókalistann hér að neðan. Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955. Hann var tvíkvæntur og eignaðist fjögur börn. Frá árinu 1945 átti Halldór fast heimili á Gljúfrasteini í Mosfellssveit. Að frumkvæði Davíðs Oddsonar, forsætisráðherra keypti ríkissjóður Gljúfrastein af Auði Laxness, ekkju Halldórs, og opnaði þar safn til minningar um skáldið haustið 2004. Auður gaf safninu innbú þeirra hjóna. Nafn. Halldór Laxness fæddist sem Halldór Guðjónsson, árið 1905 hóf fjölskylda hans búskap að Laxnesi í Mosfellssveit, og kenndi Halldór sig við þann bæ æ síðar. Millinafnið Kiljan tók hann upp þegar hann skírðist til kaþólskrar trúar. Um Halldór Laxness. Hann var elstur í þriggja systkina hópi en yngri voru systur hans, Sigríður, fædd 1909 og Helga, fædd 1912. Foreldrar Halldórs voru Guðjón Helgi Helgason og Sigríður Halldórsdóttir. Guðjón, fæddur 1870, var af fátækri ætt en var bæði verklaginn og duglegur. Hann vann meðal annars í vegavinnu um allt Ísland og fékk fyrir það þokkaleg laun. Sigríður móðir Halldórs fæddist 1872 og var ættuð frá Ölfusi, hún fluttist ung til Reykjavíkur þar sem hún og Guðjón kynntust svo síðar. Árið 1905 seldi Guðjón húsið sitt í Reykjavík og keypti jörðina Laxnes í Mosfellsdal sem er 20 kílómetrum frá Reykjavík. Þangað fluttist Halldór með foreldrum sínum og móðurömmu, Guðnýju Klængsdóttur, ásamt vinnukonu og vinnumanni. Oftast var þó fleira fólk í Laxnesi, bæði gestir og vinnu- og kaupafólk og þar var alltaf nóg að gera. Halldóri fannst það gæfa hans að hafa fengið að reyna, að búa á stóru sveitaheimili og svo virðist sem hann hafi alist upp við góðar aðstæður í Laxnesi. "„Halldór segir í bréfi til Stefáns Einarssonar að samkomulag á heilmilinu hafi ávallt verið gott og í minningasögunni Í túninu heima segir hann: „á þessari liðnu tíð kom hlýtt hjartalag, grandvör framkoma og virðíng fyrir náúnganum í staðinn fyrir réttlæti úr tölvu; þar var sú fegurð í mannlegri sambúð sem ekki varð lifað án þrátt fyrir alt og alt og alt.“" Halldór Guðjónsson byrjaði að skrifa sem barn og fékk ungur áhuga á íslenskri tungu og beitti sér fyrir málrækt í Mosfellsdalnum. Hann gaf út fyrstu bók sína, "Barn náttúrunnar", 1919 þá aðeins 17 ára gamall. Hann skrifaði bókina þegar hann var 16 ára og sat þá frekar á Landsbókasafninu að skrifa en að mæta í skólann. Barn náttúrunnar gaf glöggum bókarýnurum fyrirheit um það sem koma skyldi. Þegar Halldór var ungur maður fór hann að ferðast og dvaldi meðal annars í Vesturheimi á árunum 1927-1929, hann var í klaustri í Lúxemborg frá desember 1922 fram til haustsins 1923. Í klaustrinu tók hann kaþólska trú og var skírður og fermdur til kaþólskrar kirkju 6. janúar 1923. Halldór var tvíkvæntur, árið 1930 giftist hann Ingu Einarsdóttur og með henni átti hann soninn Einar, fæddan 1931. Áður hafði hann eignast frumburð sinn með Málfríði Jónsdóttur, Maríu en hún var fædd 1923. Seinni konu sinni kynntist Halldór á Laugarvatni 1939. Hún hét Auður Sveinsdóttir, fæddist 30. júní 1918 en lést 29. október 2012. Halldór vildi fara rólega sakirnar og fyrstu árin eftir að þau byrjuðu að vera saman þurfti Auður að bíða þolinmóð eftir honum. Auður var tilbúin til þess að færa fórnir fyrir Halldór og hún gat létt áhyggjum af skáldinu, hún var konan sem Halldór dreymdi um. Auður og Halldór giftu sig hjá borgarfógeta 24. desember 1945. Þau fluttu að Gljúfrasteini árið 1945 en það hús létu hjónin byggja. Það var draumur Halldórs að eignast heimili á sínum bernskuslóðum og þau fengu arkitektinn Ágúst Pálsson til þess að teikna húsið. Auður sá að mestu um að fylgjast með húsasmíðunum á meðan Halldór einbeitti sér að skrifum. Halldór og Auður eignuðust tvær dætur þær Sigríði, hún var fædd 26. maí 1951 og Guðnýju sem er þremur árum yngri, fædd 23. janúar 1954. Halldór Laxness fékk fjöldann allan af viðurkenningum fyrir ritstörf sín. Nóbelsverðlaunin eru hvað merkilegust en dæmi um aðrar viðurkenningar sem honum hlottnuðust voru; Menningarverðlaun ASF, Silfurhesturinn (bókmenntaverðlaun dagblaðanna) og virt dönsk verðlaun, kennd við Martin Andersen Nexö, svo eitthvað sé nefnt. Árið 1968, þegar Aabo háskólinn í Finnlandi átti 50 ára afmæli var Halldór gerður að heiðursdoktor við skólann. Það var árið 1955 sem hann var sæmdur Nóbelsverðlaununum og það hafði strax jákvæð áhrif. Bækurnar voru í kjölfarið þýddar á fleiri tungumál og menn sem höfðu ekki gefið verkunum gaum áður fóru og kynntu sér bækurnar. Það var í Stokkhólmi sem Halldór veitti verðlaununum viðtöku frá þáverandi konungi Svía, Gústaf VI Adolf, nánartiltekið í Hljómleikahúsinu við Kóngsgötuna. Verðlaunin, Nóbelsskjalið og gullpeningurinn eru varðveitt í Þjóðminjasafninu og í myntsafni seðlabankans. Halldór skrifaði fjölmörg skáldverk, þýddi verk annarra yfir á íslensku og sendi frá sér greinar í dagblöð og tímarit. Alls skrifaði hann 13 stórar skáldsögur; "Brekkukotsannál, Gerplu, Atómstöðina, Heimsljós I" og "II", 'Íslandsklukkuna, Kristnihald undir Jökli, Söguna af brauðinu dýra, Sölku Völku I" og "II", S"jálfstætt fólk I" og "II", "Smásögur" (öllum smásögum skáldsins safnað saman í eina bók), "Vefarann mikla frá Kasmír" og "Guðsgjafarþula" var svo síðasta skáldsagan sem hann skrifaði. Einnig orti Halldór ýmiskonar kvæði og gaf út fjórar minningasögur, ein þeirra er bókin "Í túninu heima". Auk þess samdi hann fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögu, en fyrsta leikritið samdi Laxness ekki fyrr en hann var orðinn þroskaður höfundur, "Straumrof", 1934. Hann hafði sterka skoðun á þjóðfélaginu og til að mynda skrifaði Halldór tvær bækur um Sovétríkin sem ætlaðar voru til varnaðar þjóðskipulagi landsins. Skrif skáldsins um hag íslensku þjóðarinnar hafa alltaf vakið mikla athygli, landinn reiddist honum ýmist eða varð snortinn yfir einlægni hans. Þegar Halldór var ungur umgengst hann mikið eldra fólk og talsmáti hans varð þess vegna háfleyglegur. Hann ræktaði tungumálið meira en aðrir höfundar og notaði öðruvísi stafsetningu til þess að ná fram ákveðnum stíl í textann sem og mörg áhugaverð orð. Halldór er af mörgum talið eitt merkasta skáld 20. aldrainnar. Verkin hans eru fjölbreytt og hafa komið út í meira en 500 útgáfum og á 43 tungumálum auk móðurmálsins. Halldór þýddi sjálfur verk frá öðrum og þar má nefna "Birtíng" eftir Voltaire og "Fjallkirkjunna" eftir Gunnar Gunnarsson. Þegar Halldór var orðinn gamall maður og heilsan farin að hraka fluttist hann á Reykjarlund. Þar var hann í fjögur ár og eftir því sem heislunni hrakaði varð hann oftar rúmliggjandi. Halldór Laxness lést áttunda febrúar 1998 þá orðinn 95 ára. Mesta skáld þjóðarinnar var fallið frá en segja má að hann lifi áfram í gegn um verkin sín. Í morgunblaðinu birtist grein eftir Mattías Johannessen skáld þar sem hann sagði, ásamt fleiru: "„Þann dag sem Íslendingar gleyma ritsnilld Halldórs Kiljans Laxness gegna þeir ekki lengur hlutverki sínu sem þjóð.“" Deilur um ævisögu Laxness. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor sagði frá því opinberlega sumarið 2003, að hann væri að skrifa ævisögu Laxness, en í kjölfarið reyndi Auður Laxness að meina honum aðgang að bréfasafni skáldsins á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar og tókst það. Ástæðan var sú að hún taldi Hannes ekki færan um að skrifa óhlutdræga ævisögu Laxness. Eftir að fyrsta bindi ævisögunnar, "Halldór" kom út gagnrýndu Helga Kress, prófessor og fleiri Hannes harðlega fyrir að fara frjálslega með tilvitnanir í texta skáldsins án þess að geta heimilda. (Hannes hefur síðar viðurkennt í viðtölum að hann hefði átt að geta heimilda í ríkara mæli en hann gerði.) Haustið 2004 höfðaði Auður mál gegn Hannesi fyrir brot á lögum um höfundarrétt. Hannes var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur 2006 en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og þar var Hannes dæmdur árið 2008 fyrir brot á höfundarrétti í fyrsta bindi af ævisögu Halldórs Laxness. Var honum gert að greiða 1,5 milljónir króna í fébætur og 1,6 milljónir í málskostnað. Auður Laxness og fjölskylda hennar hefur lagt blessun sína yfir ævisögu skáldsins, sem rituð var af Halldóri Guðmundssyni, rithöfundi og veitti honum góðfúslega aðgang að bréfasafni og gögnum, sem voru í vörslu fjölskyldunnar. Meint afskipti íslenskra ráðamanna af útgáfu rita Laxness í Bandaríkjununm. Guðný Halldórsdóttir, leikstjóri og dóttir skáldsins, sagði í Kastljósþætti sjónvarpsins 18. mars 2007 að Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra hefði lagt stein í götu föður síns sem varð til þess að honum reyndist illmögulegt að gefa út bækur sínar á Bandaríkjamarkaði. Hryggsúla. Hryggsúlan er einn af mikilvægustu hlutum beinagrindarinnar, hún heldur líkamanum uppi og ver mænuna. Í hryggnum eru 24 liðir (7 hálsliðir, 12 hryggjarliðir, 5 lendaliðir), og auk þess spjaldbeinið og rófubeinið, sem hvort um sig eru samvaxnir liðir. Hryggsúla mannsins. Liðir hryggjarins, hryggjarliðirnir, eru 32-33, séu samvaxnir liðir spjaldbeins og rófubeins taldir með. Ath: Undir vinstri myndinni hér að neðan stendur handskrifað: Séð að framan, en á að vera séð að aftan. Spjaldbein. Spjaldbein (krossliðsbein, beinið helga eða spjaldhryggur) (fræðiheiti: "Os sacrum") er fimm samvaxnir hryggjarliðir ofan við rófubein. Mjaðmagrind. Mjaðmagrind (latína: "pelvis") er mikilvægur hluti stoðkerfisins, mynduð úr mjaðmabeinum, spjaldbeini og rófubeini. Hlutverk mjaðmagrindarinnar er að verja líffærin í kviðar- og grindarholi; æxlunarfærin, þvagblaðra|þvagblöðru og hluta digurgirnis. Mjaðmagrind kvenna er hlutfallslega stærri en mjaðmagrind karla og er grindarholið einnig iðulega víðara hjá konum en körlum. Þjóðsöngur. Þjóðsöngur er sönglag sem ríkisstjórn og almenningur viðurkennir sem formlegan söng þjóðarinnar. Á 19. og 20. öld, í kjölfar ris þjóðernishyggju, tóku flest ríki heimsins upp þjóðsöngva. Lofsöngur („Ó, Guð vors lands“), við sálm eftir Matthías Jochumsson, er þjóðsöngur Íslendinga. Aðflutningur. Aðflutningur nefnist það þegar einstaklingur sem hefur fasta búsetu í öðru ríki en því landi sem hann fæddist í. Innflytjendur koma í mörgum tilvikum til með að búa í landinu sem þeir flytja til í mörg ár jafnvel út ævina og hljóta þá ríkisborgararétt í mörgum tilvikum. Ferðamenn og aðrir gestir sem koma tímabundið til landsins teljast ekki innflytjendur. Né heldur pólitískir flóttamenn. Farandverkamenn á hinn bóginn eru oft flokkaðir sem innflytjendur. Árið 2005 mat SÞ sem svo að fjöldi innflytjanda í heiminum næmi 190 milljónum manna, u.þ.b. 3% fólksfjölda heimsins. Í nútímanum eru innflytjendur tengdir þróunar ríkja og alþjóðlegra laga. Ríkisborgararéttur ríkis veitir þegnum réttinn til viðveru í ríkinu, en jafnframt setur það þegninum skyldur. Innflytjendur færa með sér aðra menningu og tilheyra öðrum þjóðfélagshópum og það getur skapað spennu milli þeirra og annarra hópa í landinu. Ólöglegir innflytjendur nefnast þeir sem flytja búferlum milli landa með ólöglegum hætti, þ.e.a.s. brjóta í bága við þau lög sem sett hafa verið í landinu um innflutning fólks. Það getur bæði á við fólk sem kemst til landsins án þess að hljóta vegabréfsáritun eða fólk sem dvelur í landinu lengur en það hefur leyfi til. Innflytjendur á Íslandi. Aðlögun innflytjenda á Íslandi snýst að miklu leyti um að læra íslensku og að geta orðið virkir þegnar. Á byrjun 21. aldarinnar fluttust til landsins þúsundir farandverkamanna vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar vegna þess að ekki var til mannafli til verksins. Aukinheldur voru það útlend verktakafyrirtæki sem sáu um vinnuna og var það í þeirra höndum að sjá um starfsmannamál. Gert er ráð fyrir því að flestir þessara verkamanna hverfi af landi. Árið 1991 var 161 einstaklingi veittur íslenskur ríkisborgararéttur, fimmtán árum seinna, 2006, var 844 einstaklingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þann 12. nóvember 2007 var Paul-Fontaine Nikolov varaþingmaður Vinstri grænna fyrstur innflytenda til þess að taka sæti á Alþingi. Stundum verða árekstrar milli innflytjenda og heimamanna. Einvígi. Einvígi er bardagi tveggja manna án afskipta þriðja aðila. Einvígi voru þekkt aðferð til að leysa deilumál víða í Evrópu allt fram á 20. öld, og tóku á sig ýmsar myndir. Algengt var að tveir menn útkljáðu deilumál sín með skotvopnum eða sverðum, og var þá farið að ákveðnum reglum. Margir þekktir menn hafa verið drepnir í einvígum, t.d. rússneska skáldið Alexander Púskín sem dó úr sárum sínum árið 1837 eftir einvígi við elskhuga eiginkonu sinnar. Einvígi hafa einnig verið stunduð víða annars staðar í heiminum, t.d. í Villta vestrinu. Einvígi eru algeng í evrópskum miðaldabókmenntum, t.d. riddarasögum og Íslendingasögum. Í Íslendingasögum eru þau jafnan kölluð "hólmgöngur" og um þær giltu ákveðnar reglur. Dæmi um hólmgöngur má til dæmis finna í Egils sögu þar sem segir frá Ljóti hinum bleika, hólmgöngumanni, og víða annars staðar. Þekktustu einvígin í bókmenntasögunni er hins vegar að finna í Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas, þegar D'Artagnan skuldbatt sig til að heyja þrjú einvígi í röð við skytturnar þrjár, Athos, Porthos og Aramis. Dimmu Borgir. Tónleikar með Dimmu Borgir árið 2005 Dimmu Borgir er melódísk black metal hljómsveit sem hefur verið á toppnum í mörgum Skandinavíulöndum. Hljómsveitin var upphaflega stofnuð í Noregi árið 1993. Dimmu Borgir heita eftir stað á norðurlandi nálægt Mývatni sem heitir Dimmuborgir. Uppruni. Dimmu Borgir var upprunalega stofnuð árið 1993 af Shagrath, Silenoz og Tjodlav. Sveitin gaf skömmu síðar út smáskífu sem bar nafnið "Inn I Evighetens Mørke" (1994). Þessi stutta breiðskífa seldist upp á vikum og sveitin gaf stuttu seinna út breiðskífuna "For All Tid" (1994). Korn (hljómsveit). Korn (einnig KoЯn) er þungarokkshljómsveit frá Bakersfield í Kaliforníu. Hljómsveitin tilheyrir þeirri undirflokk þungarokksins sem hefur fengið viðurnefnið nu-metal. Korn gaf út sína fyrstu prufu árið 1993. Upphafið. Í Bakersfield í Kaliforníu var mjög lítið að gera, annað hvort varstu eitthvað eða ekkert. Fjórir strákar spiluðu saman í hljómsveit, það voru þeir James „Munky“ Shaffer, Reginald „Fieldy“ Arvizu, David Silveria og söngvarinn Richard Morales. Þessi hljómsveit hét „LAPD“ eða „Love and Peace Dude“ en breyttu því fljótlega í „Laughing as People Die“ til þess að vera teknir mun alvarlega. Hljómsveitin var vægast sagt slæm, en gáfu út samt eina plötu. En þeir sáu að þetta gekk ekkert þeir fengu slæma gagnrýni, aðalsöngvari hljómsveitarinnar hætti. Liðsmenn LAPD létu þetta ekki á sig hafa og fengu liðstyrk, gítarleikaran Brian „Head“ Welch. Með því fór hljómsveitin að taka á sig betri mynd, þá skiptu þeir um nafn og tóku sér nafnið „Creep“. En þeim vantaði söngvara, það var löng og ströng leit. Eitt kvöld fóru þeir Munky og Head á einn bar í Bakersfield, eftir að hafa hlustað á nokkur bönd, þá voru þeir að fara labba út, en rétt áður en þeir fóru út þá gekk ný hljómsveit á svið. Hún gekk undir nafninu „Sexart“, hljómsveitin var ekkert sérstök, en þeir voru alveg dolfalnir af söngvaranum. Þessi sönvari hét Jonathan Houseman Davis. Eftir að hljómsveitin hafði klárað lagalistann sinn þá fór Munky og Head að Jonathan og spurðu hvort hann hafði áhuga að prufa syngja fyrir hljómsveitina þeirra. Hann var ekki viss og tók nokkra daga til að velta sér fyrir því hvort hann ætti að prufa. Hann var svo óviss að hann fór til miðils og spurði hana hvort hann ætti að prufa, hún sagði að hann væri heimskur ef hann gerði það ekki. Fysta platan þeirra kom út árið 1994 og hlaut nafnið "Korn". Fimleikar. Fimleikar eru íþrótt sem felur í sér æfingar sem þarfnast styrks, liðleika, lipurðar, samhæfingar og jafnvægis. Á Íslandi eru fimleikar í gríðarlegri sókn og er nú svo komið að íþróttin er sú fjórða mest stundaða á Íslandi á eftir, knattspyrnu, golfi og hestaíþróttum. Fimleikar eru jafnframt næst mest stundaða íþrótt 16 ára og yngri og næst mest stundaða kvennaíþróttin.. Fimleikum er stýrt af Alþjóða fimleikasambandinu (FIG) og í Evrópu af Evrópska fimleikasambandinu (UEG). Fimleika er hægt að stunda sem einstaklingsíþrótt eða hópíþrótt. Í Evrópu skiptast fimleikar í 7 aðalgreinar: Áhaldafimleika, Hópfimleika, Nútímafimleika, Trampolín, Þolfimi, Sýningarfimleika og Almenningsfimleika. Á Íslandi eru í dag stundaðar þrjár af þessum aðalgreinum: Áhaldafimleikar, Hópfimleikar og Almenningsfimleikar. Í áhaldafimleikum er æfingar gerðar á mismunandi áhöldum. Þau eru t.d. gólf, dýna, trampolín, hestur, slá og tvíslá. Markmiðið er að gera eins flóknar æfingar og hægt er. Ekki má þó gera of flóknar æfingar því að maður verður að geta ráðið við þær til að geta gert fallegra. Fimleikar reyna því mikið á kraft, jafnvægi, fimi og að geta hugsað um margt í einu. Þegar maður er að keppa er dómari sem gefur einkunn, sá vinnur sem fær hæðstu einkunn. og þar að leiðandi fá betri einkunn. Það sem er mest gefið einkunn er að vera með strekktar ristar, hendur og fætur, beinar eða bognar eftir því sem við á. Saga. F.L. Jahn er talin vera faðir fimleikanna. Hann opnaði íþróttasvæði fyrir fimleika í Þýskalandi árið 1811 og það er talað um að saga fimleikanna hafi hafist þá. 5 árum seinna gaf hann út bókina Die deutsche Turnkunst (Þýska fimleikalistin). Hann samdi hana með nemenda sínum E. Eiselen. Rétt fyrir 1900 breiddust fimleikar út til annarra landa í Evrópu. Fyrsta íþróttafélagið á Íslandi sem hægt var að æfa fimleika var íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) Sem var stofnað árið 1907. Því miður er ekki hægt að æfa fimleika lengur í ÍR. Fyrsta fimleikamót Íslands var haldið árið 1924 og það var hópfimleikamót og þar hlaut ÍR sigur. En fyrsta einstaklingsfimleikamótið var haldið 1927. Þá voru bara karlar í fimleikum. Það var haldið mót árlega þangað til 1938. Aftur var byrjað að halda mót árið 1968 og voru konur meðal þátttakenda. Almennir fimleikar. Þegar fólk byrjar að æfa fimleika byrjar það í almennum fimleikum og velur svo hvort það ætli í áhaldafimleika, hópfimleika eða þolfimi. Áhaldafimleikar. Áhaldafimleikar skiptast eftir kyni í Áhaldafimleika Karla og Áhaldafimleika Kvenna. Karlar keppa í sex greinum: Gólfæfingum, Bogahesti, Hringjum, Stökki, Tvíslá (samsíða) og Svifrá, á meðan konur keppa í fjórum greinum: Stökk, Tvíslá, Jafnvægisslá og Gólfæfingum. Á Íslandi er keppt eftir Íslenska fimleikastiganum sem getur tekið breytingum á milli ára. Hópfimleikar. Í Hópfimleikum er keppt í Gólfæfingu, Trampolínstökki og á Fíberdýnu. Keppt er ýmist eftir Landsreglum eða Team gym reglum. Landsreglur eru reglur sem einungis eru notaðar hér á landi og meira svigrúm er fyrir keppendur að taka þátt í fleiri umferðum. Team gym reglur eru sam-evrópskar reglur UEG sem notaðar eru þegar lið eru að keppast um að komast á norðurlanda- og/eða evrópumót. Reglurnar þar eru örlítið strangari hvað varðar fjölda keppenda og val æfinga. Einnig er keppt eftir Team-gym reglum á evrópu- og norðurlandamótum. Í hópfimleikum er keppt í þrem flokkum: Kvennalið Karlalið og svo Mix-lið sem samanstendur af jafnmörgum keppendum af báðum kynjum. Árið 2006 kepptu fyrstu íslensku mix-liðin á Íslandi (Stjarnan/Björk og Ármann/Grótta)og fyrstu karlaliðin árið þar á eftir (Stjarnan og Ármann). Gerpla var unglingameistari árin 2005, 2006 og 2007. Allir keppendur þurfa að vera í eins göllum og snyrtilega greiddir. Dómarar geta dregið frá ef reglur um búninga eru brotnar. --157.157.30.200 11. desember 2012 kl. 20:16 (UTC) Þolfimi. Magnús Scheving er frægasti þolfimimaður Íslendinga. Edduverðlaunin. Edduverðlaunin eru íslensk sjónvarps- og kvikmyndaverðlaun veitt af Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunni fyrir bestu frammistöðu og verk sérhvers árs í nokkrum verðlaunaflokkum. Edduverðlaunin voru fyrst veitt 15. nóvember 1999 og hafa verið árlegur viðburður síðan. Verðlaunaflokkar. Verðlaunaflokkarnir á Edduverðlaununum hafa tekið stöðugum breytingum frá ári til árs. Upphaflega voru veitt verðlaun í átta flokkum en síðan hafa flokkarnir að jafnaði verið um fimmtán talsins. Edduverðlaunin 1999. Edduverðlaunin 1999 voru fyrsta afhending Edduverðlauna nýstofnaðrar Íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsakademíu sem fór fram í Borgarleikhúsinu þann 15. nóvember 1999. Kynnir kvöldsins var Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs. Veitt voru verðlaun í átta flokkum auk sérstakra heiðursverðlauna fyrir sérstakt framlag til sjónvarps eða kvikmyndagerðar. Kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur, "Ungfrúin góða og húsið", eftir sögu Halldórs Laxness, hreppti fimm viðurkenningar. Afhendingin var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2. Edduverðlaunin 2000. Edduverðlaunin 2000 voru afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í Þjóðleikhúsinu sunnudaginn 19. nóvember árið 2000. Veitt voru verðlaun í ellefu flokkum, en nýir flokkar voru leikari og leikkona í aukahlutverkum. Auk þess var tekið upp á þeirri nýjung að velja sjónvarpsmann ársins í netkosningu sem fram fór á vefnum mbl.is. Stjórnendur voru Jón Ársæll Þórðarson, sjónvarpsmaður og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona. Mikið var rætt um kosningasmalanir, áróður og jafnvel mútur fyrir kosningu akademíunnar úr tilnefningum dómnefndar. Almenningur gat einnig kosið í öllum flokkum á mbl.is og giltu þau atkvæði 30% á móti 70% vægi atkvæða akademíunnar nema í kosningunni um sjónvarpsmann ársins þar sem atkvæði almennings giltu 100%. Kvikmyndin "Englar alheimsins" eftir Friðrik Þór Friðriksson, byggð á bók Einars Más Guðmundssonar, hlaut flestar tilnefningar, átta talsins og sjö verðlaun auk þess að vera valin sem framlag Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna. Tilnefningar og handhafar Edduverðlaunanna. "Handhafar verðlauna í hverjum flokki eru feitletraðir." Edduverðlaunin 2001. Edduverðlaunin 2001 voru þriðja afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Afhendingin fór fram á veitingastaðnum Broadway 11. nóvember 2001. Frá árinu áður bættust við tveir nýir verðlaunaflokkar, „Handrit ársins“ og „Sjónvarpsfréttamaður ársins“, og voru því veitt verðlaun í þrettán flokkum auk heiðursverðlauna ÍKSA. Einnig voru í fyrsta sinn stuttmyndir teknar með í flokknum „Sjónvarpsverk/leikið sjónvarpsefni ársins“. Almenningi gafst tækifæri til að hafa áhrif með netkosningu en mest vægi í öllum flokkum nema flokknum „vinsælasti sjónvarpsmaður ársins“ höfðu þó atkvæði meðlima akademíunnar. Aðalkynnar kvöldsins voru Valgeir Guðjónsson, tónlistarmaður og Edda Heiðrún Backman, leikkona. Verðlaunaafhendingunni var sjónvarpað beint í Ríkissjónvarpinu. Mesta athygli vakti að kvikmyndin "Mávahlátur" eftir Ágúst Guðmundsson hlaut alls tíu tilnefningar og sex verðlaun og var valin framlag Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna. Tilnefningar og handhafar Edduverðlaunanna 2001. "Handhafar Edduverðlaunanna í hverjum flokki eru feitletraðir og gulllitaðir." Edduverðlaunin 2002. Edduverðlaunin 2002 voru afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í Þjóðleikhúsinu 10. nóvember 2002. Veitt voru verðlaun í sextán flokkum auk heiðursverðlauna ÍKSA sem var þremur fleira en árið áður. Fagverðlaunum ársins var nú skipt í tvennt og veitt sérstök verðlaun fyrir annars vegar hljóð og mynd og hins vegar útlit myndar. Að auki var bætt við flokkunum „Stuttmynd ársins“ og „Tónlistarmyndband ársins“. Aðalkynnar hátíðarinnar voru Valgerður Matthíasdóttir og Logi Bergmann Eiðsson. Kvikmynd Baltasars Kormáks, "Hafið", var aðsópsmest á hátíðinni og fékk alls átta verðlaun. Einnig vakti athygli að tölvuteiknuð stuttmynd, "Litla lirfan ljóta", fékk tvær tilnefningar og ein verðlaun. Tilnefningar og handhafar Edduverðlaunanna. "Handhafar verðlauna í hverjum flokki eru feitletraðir og gulllitaðir." Edduverðlaunin 2003. Edduverðlaunin 2003 voru afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar sem fór fram á Hótel Nordica, föstudagskvöldið 10. október 2003. Aðalkynnar á hátíðinni voru Eva María Jónsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson. Þær breytingar urðu á verðlaunaflokkum að flokkurinn „leikið sjónvarpsverk ársins“ var lagður niður og voru því veitt verðlaun í fimmtán flokkum auk heiðursverðlauna ÍKSA. Kvikmynd Dags Kára, "Nói albínói", var tvímælalaust sigursælust á þessari afhendingu með tíu tilnefningar og sex verðlaun auk þess að vera valin sem framlag Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna. Tilnefningar og handhafar Edduverðlaunanna. "Handhafar verðlauna í hverjum flokki eru feitletraðir." Rammstein. Rammstein er þýsk þungarokkhljómsveit sem stofnuð var árið 1994 í Berlín. Í tónlist Rammstein gætir mikilla áhrifa frá raftónlist og iðnaðarrokki en þó er erfitt að setja tónlist sveitarinnar í ákveðinn flokk, henni er gjarnan líkt við tónlist Laibach. Textarnir eru nær eingöngu á þýsku en nokkrir eru á ensku. Hljómsveitin. Nafn sveitarinnar er dregið af bænum Ramstein í Suður-Þýskalandi þar sem mannskætt slys varð á flugsýningu árið 1988, lagið "Rammstein" er einnig samið til minningar um þann atburð. Með því að bæta inn einu „m“ í viðbót í nafn bæjarins er hægt að þýða það sem „að berja í stein“ sem þykir viðeigandi miðað kraftmikla og áleitna tónlist sveitarinnar. Þrátt fyrir að syngja langmest á þýsku þá nýtur hljómsveitin mikilla vinsælda víða utan Þýskalands og eftir útgáfu "Reise, Reise" árið 2004 varð hún vinsælasta þýskumælandi hljómsveit allra tíma. Riedel, Schneider og Kruspe-Bernstein stofnuðu Rammstein upphaflega en sá síðastnefndi hafði þá um skeið verið viðriðinn hljómsveitina Orgasm Death Gimmicks sem starfaði í Vestur-Berlín og gerði tónlist að amerískri fyrirmynd. Kruspe-Bernstein sagði um þetta: „Ég áttaði mig á því að það er mjög mikilvægt að búa til tónlist og láta hana passa við tungumálið þitt sem ég hafði ekki verið að gera áður. Ég kom aftur [til Þýskalands] og sagði: ‚Það er kominn tími til að búa til tónlist sem er ekta.‘ Ég stofnaði þá til verkefnisins sem kallast Rammstein, til þess að búa til alvöru þýska tónlist.“ Því næst höfðu þeir samband við Lindemann, þáverandi körfuvefara og trommuleikara í hljómsveit sem kallaði sig First Arsch og buðu honum stöðu sem söngvari í sveitinni sem hann og þáði. Þannig skipuð tók sveitin þátt í hljómsveitakeppni fyrir nýjar hljómsveitir og sigraði í henni. Þannig kviknaði áhugi Landers á sveitinni en hann þekkti alla meðlimi hennar fyrir og ákvað að ganga til liðs við hana. Síðasti meðlimurinn var „Flake“ Lorenz, hann hafði spilað með Landers í hljómsveitinni Feeling B, hann var í fyrstu tregur til að ganga til liðs við sveitina en lét þó sannfærast að lokum, ári síðar kom fyrsta platan út. Rammstein hefur haldið tvenna tónleika á Íslandi, þá fyrstu 15. júní 2001 þar sem HAM hitaði upp fyrir þá og þá síðari 16. júní 2001 með Kanada en þeir tónleikar voru haldnir sökum þess að ekki fengu allir miða sem vildu á þá fyrri þó svo að fyrri tónleikarnir hafi verið markaðssettir undir því yfirskyni að ekki væri möguleiki á að haldnir yrðu aukatónleikar. Rammstein gerðu allt vitlaust þann 18. september 2009 þegar þeir settu myndband við lagið sitt "Pussy" á netið, en það þótti helst minna úr átriði úr grófri klámmynd. Þar koma hljómsveitameðlimir fram alnaknir í samförum við kvenmenn, en þá er líkama Flake Lorenz einnig breytt í kvennmannslíkama. Þetta mun vera grófasta tónlistarmyndband sem komið hefur frá Rammstein fyrr og síðar. Listi yfir íslenska tónlistarmenn. Eftirfarandi er listi yfir íslenska tónlistarmenn. 21. öld. Tónlistarmenn Íslenskir tónlistarmenn Bjartmar Guðlaugsson. Bjartmar Anton Guðlaugsson (13. júní 1952 —) er íslenskur tónlistarmaður, skáld og myndlistarmaður sem hóf að gefa út tónlist á níunda áratug 20. aldar. Á tíunda áratugnum flutti Bjartmar til Danmerkur í fimm ár og hóf þar m.a. myndlistarnám. Þó þekkja flestir Íslendingar mörg lög eftir hann eins og „Súrmjólk í hádeginu“ (og cheerios á kvöldin), „Týnda kynslóðin“, „Fimmtán ára á föstu“, „Sumarliði er fullur“ o.fl. Ferill. Bjartmar var einn vinsælasti tónlistarmaður á Íslandi á níunda áratugnum, sló í gegn árið 1987 þegar hann gaf út vinsælustu plötu sína "Í fylgd með fullorðnum". Platan var næstsöluhæsta plata ársins. Plötunni fylgdi hann eftir að ári með "Með vottorð í leikfimi". „Tími þverslaufupoppsins er liðinn“, sagði Bjartmar í viðtali við Þjóðviljann árið 1986 og hafði nú sýnt fram á það svo ekki var um að villast. Áður en hann sló í gegn með "Í fylgd með fullorðnum", skrifaði Bjartmar texta fyrir aðra með góðum árangri, meðal annars fyrir Þorgeir Ástvaldsson, Björk o.fl. Hann hafði einnig gefið út breiðskífurnar "Ef ég mætti ráða" og "Venjulegur maður" auk smáskífunnar "Þá sjaldan maður lyftir sér upp", sem hann gerði í samkrulli við Pétur poppara. Þekktustu og vinsælustu lög Bjartmars eru vafalaust "Týnda kynslóðin", "Hippinn", "15 ára á föstu" og "Járnkallinn". Bjartmari hefur oft tekist að fanga tíðarandann í textum sínum. Hann skýtur gjarnan á aðra íslenska tónlistarmenn, t.d. á Bubba og Megas í textanum "Með vottorð í leikfimi", þar sem hann finnur í seinni tíð að „lífsspekin liggur í saltinu, rokinu og kláminu.“ Þar sem hann gengur lengst í þessum efnum verður satíran fullkomin, t.d. í laginu um "Bastían". Textinn fjallar um ungt og ástfangið par, sem fer illa út úr samskiptum sínum við raunveruleikann. Textinn (og lagið) eru augljós skopstæling á óð Davíðs Oddssonar þáverandi borgarstjóra, "Við Reykjavíkurtjörn", og lögin eru í raun fullkomnar andstæður. "Bastían" sá sem ákallaður er í laginu og það nefnt eftir, er að sjálfsögðu erkitýpa bæjarstjórans og vísun í frægan bæjarfógeta með sama nafni. Bæjarfógeti Bjartmars skekur hamarinn og sendir fulltrúa sinn, en í stað þess að bera skrifpúlt, stól og rúm inn í bárujárnshús við Bergþórugötuna, líkt og í texta Davíðs, „hann borðið og stólinn og skrifpúltið tók“. „Þeim hefði verið nær að byrja búskapinn við Bárujárnsgötuna“. Harðmæli. Það er kallað harðmæli þegar fráblásin lokhljóð eru notuð í innstöðu á eftir löngu sérhljóði. Það er að segja þegar lokhljóð, sem ekki eru í upphafi orðs, eru borin fram hörð en ekki mjúk á gamla vísu og eftir opinberri stafsetningu. Harðmæli er algengast á norðurlandi, sérstaklega í Þingeyjarsýslum og Eyjafjarðarsýslu. Harðmæli er heldur ekki óalgengt á Norðurlandi vestra eða í Múlasýslum á Austurlandi. Efnafræði. Efnafræði rannsakar efni, efnahvörf og orku. Efnafræði er sú grein vísindanna sem fjallar um þau efni, sem finnast í heiminum, jafnt frumefni sem samsett efni. Þær eindir sem efnafræðin fæst við eru frumeindir (atóm) og sameindir. Frumeindirnar eru samsettar úr þremur gerðum smærri einda - rafeindum, róteindum, og nifteindum. Nifteindir og róteindir koma ekki fyrir í efnahvörfum nema í kjarnefnafræði þó er undantekning: stakar róteindir sem eru í raun H+ jónir gera það aftur á móti í sýru-basa hvörfum. Frumefnunum er skipt upp í töflu sem sýnir eiginleika þeirra og byggingu. Dímítrí Mendeléf kynnti þessa töflu fyrstur manna til sögunnar og kom hún í stað margra fyrri tilrauna manna til þess að búa til slíka töflu. Taflan er þekkt sem lotukerfið, stundum kölluð "frumefnataflan". Frumeindir (atóm) tengjast saman og mynda stærri eindir sem kallast sameindir. Til dæmis er súrefni, sem er táknað í lotukerfinu með bókstafnum O, svo til aldrei fljótandi um eitt og sér í náttúrunni, heldur eru yfirleitt tvö súrefnisatóm samföst - ritað sem sameindaformúla: O2. Eitt af algengustu efnasamböndum náttúrunnar hér á jörð er vatn, sem er samsett úr tveimur vetnisfrumeindum (H) og einni af súrefni: H2O. Efnafræðitilraunir eru oft framkvæmdar við ákveðinn hita og loftþrýsting, s.k. "staðalaðstæður". Gríska. Gríska (gr.: Ελληνικά, "Elinika") er indó-evrópskt tungumál sem talað er í Grikklandi og Kýpur. Gríska er rituð með grísku letri. Grískir orðstofnar eru mikið notaðir í vísindaorðum í mörgum tungumálum. Dæmi um orð í íslensku sem eiga rætur að rekja til Grikklands: Atóm, biblía, biskup, pólitík, sófisti. Gríska hefur haft minni bein áhrif á íslensku en flest önnur evrópsk tungumál, til að mynda ensku. Eins og gefur að skilja er grísku skipt upp í margar mállýskur og tímabil. Elstu textar eru frá 1500 f.Kr. Þessir elstu textar eru ritaðir með tveimur letrum, línuletri A og línuletri B, og hefur einungis tekist að ráða annað þeirra eða línuletur B. Óvíst er hvort línuletur A er gríska. Í tímabilum er grísku oft skipt í fimm hluta: mýkeníska grísku (1500 – 1100 f.Kr.), klassíska grísku (800 – 300 f.Kr.), helleníska grísku (300 f.Kr. – 300 e.Kr.), miðgrísku (300 – 1100) og nýgrísku (1600 –). Forngrískum mállýskum er oftast skipt í vestur og austur mállýskur. Austurgrískar teljast attíska, jóníska, æólíska og kýpríska en til vestur mállýska teljast meðal annars dórískan. Forngríska hafði fimm föll nafnorða: nefnifall, ávarpsfall, eignarfall, þágufall og þolfall. Í dag hefur þágufallið að mestu horfið (nema í föstum orðasamböndum). Líkt og í germönskum málum hefur tvítalan lagst af. Hið gríska stafróf var leitt frá fönikísku stafrófi. Maamme. "Maamme'" ("landið okkar") er þjóðsöngur Finnlands. Heiti þess á sænsku, sem er annað opinbert mál Finnlands, er „Vårt Land'"“. Lagið er samið af Fredrik Pacius en ljóðið er eftir Johan Ludvig Runeberg, sem samdi það upprunalega á sænsku. Sama lag eftir Pacius er notað í eistneska þjóðsöngnum, sem hefur ljóð í svipuðum dúr. „"Mu isamaa"“ ("Föðurland mitt"). Akranes. Akraneskaupstaður er kaupstaður á Skipaskaga á Vesturlandi og var áður kallaður Skipaskagi, enn í daglegu tali "Skaginn". Þar bjuggu 6.345 manns þann 1. desember 2007. "Akranes" heitir í raun allt nesið milli Hvalfjarðar og Leirárvoga og trónir Akrafjall á því miðju. Nesið skiptist frá fornu fari milli tveggja hreppa: Akraneshrepps að sunnan og vestan og Skilmannahrepps norðan og austan. Á 19. öld fór að myndast þéttbýli í kringum sjósókn og verslun á Skipaskaga yst á nesinu. Árið 1885 var ákveðið að skipta Akraneshreppi í tvennt vegna hinna ólíku hagsmuna þéttbýlisins og sveitarinnar. Varð kauptúnið og næsta nágrenni þess að Ytri-Akraneshreppi en sveitin inn með Akrafjalli að Innri-Akraneshreppi. Ytri-Akraneshreppur hlaut kaupstaðarréttindi árið 1942 og hét eftir það "Akraneskaupstaður". Enn í dag er sjávarútvegur mikilvægasti atvinnuvegur bæjarins en verslun er einnig mikilvæg svo og iðnaður. Í bænum er sementsverksmiðja sem starfrækt hefur verið síðan á 6. áratug 20. aldar og á Grundartanga skammt frá bænum er álver sem starfað hefur síðan 1998. Knattspyrna hefur lengi verið í hávegum höfð á Akranesi og lið bæjarins, ÍA, hefur löngum verið í fremstu röð á Íslandi. Hvalfjarðargöngin sem vígð voru 1998 voru mikil samgöngubót fyrir Akranes og styttu verulega akstursleiðina til Reykjavíkur. Með tilkomu þeirra hætti Akraborgin siglingum sínum milli Reykjavíkur og Akraness. Skólar. Á Akranesi eru leikskólar, grunnskólar og framhaldsskóli. Hafnarfjörður. Hafnarfjörður er bær á höfuðborgarsvæðinu. Þar bjuggu 26.800 manns 1. janúar árið 2013 og hefur bærinn vaxið gríðarlega á síðustu árum og áratugum líkt og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa gert. Höfnin sem bærinn er kenndur við var ein stærsta verslunarhöfn landsins allt frá 16. öld og mikil útgerð hefur verið stunduð þaðan í sögunni. Á 18. öld var rætt um að gera Hafnarfjörð að höfuðstað Íslands, en slæm samgönguskilyrði þangað, lítil mótekja og lítið undirlendi urðu helstu ástæður þess að Reykjavík varð ofan á í valinu. 29. febrúar 2008 náði íbúafjöldi Hafnarfjarðar upp í 25.000 manns, og gaf bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson 25 þúsundasta Hafnfirðinginum gjöf og heiðursskjal. Hafnarfjörður heyrði undir Álftaneshrepp framan af en eftir skiptingu hans árið 1878 varð bærinn hluti hins nýmyndaða Garðahrepps. Hinn 1. júní 1908 fékk Hafnarfjörður kaupstaðarréttindi og varð þá að sjálfstæðu bæjarfélagi. Íbúar voru þá orðnir 1469 talsins. Skammt sunnan Hafnarfjarðarbæjar er Straumsvík þar sem Alcan á Íslandi rekur álver. Þann 31. mars, árið 2007 fóru fram íbúakosningar um stækkun álversins í Hafnarfirði. Stækkunin var felld með aðeins 88 atkvæðum. Fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var sett upp 12. desember 1904 í Hafnarfirði af Jóhannesi Reykdal, veitan liggur í gegnum Hamarskotslæk. Upphaf byggðar og verslunar. Hafnarfjörður var í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar. Hafnarfjörður er fyrst nefndur í Hauksbók Landnámu, þar sem segir frá brottför Hrafna-Flóka og samferðamanna hans frá Íslandi. Frá upphafi landnáms á Íslandi og fram til upphafs 15. aldar kemur staðurinn annars lítið sem ekkert við sögu. Vegna góðra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins frá og með upphafi 15. aldar, eftir því sem skreið tók við af vaðmál sem eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga. Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun við Ísland. Árið 1413 kom fyrsta enska kaupskipið að landi sem sögur fara af við Hafnarfjörð. Íslendingar tóku ensku kaupmönnunum vel, en Danakonungur reyndi að koma í veg fyrir verslun Englendinga við Ísland og þess vegna kom oft til átaka milli Englendinga og sendimanna Danakonungs. Eftir því sem árin liðu urðu Englendingarnir ekki eins vel liðnir vegna yfirgangs. Einnig áttu þeir til að ræna skreið frá Íslendingum. Um 1468 hófu þýskir Hansakaupmenn siglingar til Íslands frá Bergen í Noregi. Næstu tvo áratugina var hörð samkeppni á milli Englendinga og Hansakaupmanna, sem leiddist oft út í slagsmál og bardaga. Þýsku kaupmennirnir höfðu betur að lokum. Þeir gátu boðið ódýrari og fjölbreyttari vöru heldur en Englendingarnir. Á 16. öld var Hafnarfjörður orðinn aðalhöfn Hamborgarmanna á Íslandi. Um miðja öldina reyndu Danakonungar enn að koma í veg fyrir verslun Þjóðverja á Íslandi og koma versluninni í hendur danskra kaupmanna. Árið 1602 gaf Kristján 4. Danakonungur út tilskipun um einokunarverslun og þar með varð úti um verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands. Á fyrri hluta einokunartímabilsins var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á Íslandi. Frá 1602-1774 var verslunin í höndum danskra kaupmanna og verslunarfélaga, en árið 1774 tók konungurinn við versluninni. Árið 1787 voru eignir konungsverslunarinnar seldar starfsmönnum hennar. Þá myndaðist vísir að samkeppni í verslunarrekstri þegar lausakaupmenn fóru að keppa við arftaka konungsverslunarinnar. Ekkert varð þó meira úr þessari samkeppni, þar sem dönsku kaupmennirnir höfðu yfirhöndina. Árið 1795 kærðu bændur dönsku kaupmennina fyrir of hátt verð á innfluttum vörum og kröfðust þess að verslun yrði gefin algerlega frjáls. Árið 1794 keypti Bjarni Sívertsen verslunarhús konungsverslunarinnar. Hann gerðist brátt umsvifamikill kaupmaður og útgerðarmaður. Hann keypti gamlar bújarðir í landi Hafnarfjarðar og kom upp skipasmíðastöð. Bjarni varð einn af fyrstu Íslendingunum til að fá verslunarleyfi eftir að danska einokunarverslunin var lögð niður. Vegna umsvifa sinna í Hafnarfirði hefur hann oft verið nefndur faðir Hafnarfjarðar. Frá árinu 1787 til 1908 voru flestir kaupmenn í Hafnarfirði danskir. Einn norskur kaupmaður var þar, Hans Wingaard Friis frá Álasundi í Noregi og hann búsettist í Hafnarfirði. Í upphafi tuttugustu aldar fór íslenskum kaupmönnum hins vegar að fjölga, en þeim dönsku fór fækkandi að sama skapi. Kaupstaðarréttindi. Upphaflega var Hafnarfjörður hluti af Álftaneshreppi. Hafnarfjörður hafði þá sérstöðu miðað við aðra staði í hreppnum að aðalatvinnuvegur þar var sjávarútvegur, en ekki landbúnaður. Vegna þessarar sérstöðu var vilji til þess að gera Hafnarfjörð að sérstöku sveitarfélagi og kom hugmyndin fyrst fram opinberlega árið 1876. Árið 1878 var haldinn hreppsnefndarfundur í Álftaneshreppi, þar sem samþykkt var að skipta hreppnum í þrennt: Álftaneshrepp, Garðahrepp og Hafnarfjörð. Gengi það ekki var ákveðið að hreppnum yrði skipt í tvennt: Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Seinni tillagan var samþykkt og varð Hafnarfjörður því hluti af Garðahreppi. Aftur var reynt að fá kaupstaðarréttindi árið 1890. Á fundi hreppsnefndar Garðahrepps í júní það ár var kosin nefnd til að ræða um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar. Nefndin hélt fund 27. febrúar 1891, þar sem kosið var um skiptingu hreppsins, en meirihluti fundarmanna var andvígur skiptingunni. Var málið því látið niður falla og lá það niðri næstu árin vegna erfiðra tíma í Hafnarfirði. Næst var hreyft við málinu árið 1903. Í mars það ár komu nokkrir íbúar í Hafnarfirði því til leiðar að frumvarp var lagt fram á Alþingi til laga um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar. Í frumvarpinu var m.a. gert ráð fyrir því að bæjarfógetinn í Hafnarfirði yrði jafnframt bæjarstjóri og laun hans yrðu greidd úr landssjóði. Frumvarpið var fellt í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Það var lagt fram aftur á Alþingi árið 1905, en aftur fellt í atkvæðagreiðslu. Hins vegar afgreiddi Alþingi frumvörp sem gáfu kauptúnum meiri sjálfstjórn en áður, en þau gengu ekki nógu langt til að Hafnfirðingar yrðu ánægðir. Enn var því komið til leiðar að frumvarp um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar var lagt fyrir Alþingi, nú árið 1907. Meðal breytinga frá fyrra frumvarpinu var sú að nú var gert ráð fyrir því að bæjarstjóri fengi greidd laun úr bæjarsjóði en ekki landssjóði. Þetta frumvarp var samþykkt sem lög nr. 75, 22. nóvember 1907 og tóku lögin gildi 1. júní 1908. Hafnarfjörður varð þar með fimmta bæjarfélagið á Íslandi sem fékk kaupstaðarréttindi. Bæjarstjórn. Alls voru 11.589 atkvæði greidd. Auðir seðlar voru 1.578 og ógildir 106. Í kosningunum missti Samfylkingin hreinan meirihluta sem hún hafði haft frá árinu 2002 og því var myndaður nýr meirihluti Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Bæjarstjóri er Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og forseti bæjarstjórnar er Margrét Gauja Magnúsdóttir. Gaflarar. Orðið "Gaflari" hefur verið notað um Hafnfirðinga um árabil. Upphaf orðsins má rekja til kreppuáranna milli heimsstyrjaldanna, þegar atvinnuleysi var mikið. Var orðið þá notað um sjómenn og verkamenn í Hafnarfirði sem biðu undir húsgöflum í von um að fá vinnu. Skilgreining orðsins hefur verið nokkuð á reiki undanfarin ár. Í hugum margra eru Gaflarar aðeins þeir sem eru bæði fæddir og uppaldir í Hafnarfirði. (Samkvæmt þeirri skilgreiningu hefur alvöru Göflurum farið fækkandi á undanförnum áratugum, þar sem fæðingardeild hefur ekki verið starfrækt í Hafnarfirði síðan í júní 1976). Öðrum finnst nóg að menn búi í Hafnarfirði eða hafi einhverntíma búið þar til að geta talist Gaflarar. Vorið 1993 hófst framleiðsla á Gaflarabrúðum í Hafnarfirði. Brúðan var hönnuð af Katrínu Þorvaldsdóttur og átti að tákna hinn eina sanna Gaflara. Nú eru brúðurnar ófáanlegar. Vinabæir. 20px Frederiksberg 20px Tartu 20px Hammeenlinna 20px Ilulissat 20px Akureyri 20px Bærum 20px Uppsala 20px Cuxhaven 20px Tvøroyri 20px Baoding Skólar. Í Hafnarfirði eru reknir sautján leikskólar, átta grunnskólar, tveir framhaldsskólar og einn tónlistarskóli. Í miðstöð símenntunar fer auk þess fram starfsemi Námsflokka Hafnarfjarðar. Leikskólar. Arnarberg, Álfaberg, Álfasteinn, Bjarmi, Hamravellir, Hjalli, Hlíðarberg, Hlíðarendi, Hraunvallaskóli, Hvammur, Hörðuvellir, Norðurberg, Smáralundur/Kató, Stekkjarás, Tjarnarás, Vesturkot og Víðivellir Grunnskólar. Áslandsskóli, Barnaskóli Hjallastefnunnar, Hraunvallaskóli, Hvaleyrarskóli, Lækjarskóli, Setbergsskóli, Víðistaðaskóli og Öldutúnsskóli. Framhaldsskólar. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Iðnskólinn í Hafnarfirði Tónlistarskóli. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar. (stofnaður í September, 1950) Íþróttafélög. Fimleikafélagið Björk, Fimleikafélag Hafnarfjarðar, Golfklúbburinn Keilir, Siglingaklúbburinn Þytur, Knattspyrnufélagið Haukar, Þórunn Elfa Magnúsdóttir. Þórunn Elfa Magnúsdóttir var móðir Megasar. Hún var einn afkastamesti höfundur á Íslandi um miðja 20. öldina og skrifaði aðallega sveitarómantík í ætt við þá sem Guðrún frá Lundi skrifaði. Grískt stafróf. Gríska stafrófið (gríska: Ελληνικό αλφάβητο) er stafróf sem hefur verið notað við ritun gríska tungumálsins frá því á 9. öld f.Kr. Það er elsta stafrófið sem enn þá er notað. Bókstafir hafa einnig verið notaðir til að tákna gríska tölustafi síðan á 2. öld f.Kr. Í stafrófinu eru 24 bókstafir auk sjö eldri stafa sem duttu snemma úr notkun. Kýrillískt stafróf. Kýrillískt stafróf er stafróf notað til að rita sex slavnesk mál: rússnesku, úkraínsku, hvítrússnesku, serbnesku, makedónsku og búlgörsku ásamt ýmsum tungumálum í fyrrum Sovétríkjunum. Það er einnig notað af þeim þjóðum sem höfðu ekkert skrifmál fyrr en Sovétmenn færðu þær nær nútímanum og einnig af þjóðum sem notuðust við önnur leturkerfi en skiptu yfir í kýrillískt letur á Sovéttímanum. Margar þessara þjóða hafa tekið upp annað leturkerfi eftir hrun Sovétríkjanna, t.d. latneskt letur eða ritmálið sem þær notuðu áður. Kýrillíska stafrófið byggist á því gríska og er kennt við gríska trúboðann Kyrillos. Höfuðborgarsvæðið. Höfuðborgarsvæðið er sá hluti Íslands sem samanstendur af Reykjavíkurborg og næsta nágrenni hennar. Algengasta afmörkun svæðisins er sú að það nái yfir Reykjavík og 7 nágrannasveitarfélög hennar. Svæðið nær frá botni Hvalfjarðar í norðri og suður fyrir Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar, jarðfræðilega er það hluti Reykjanesskaga. Svæðið er afar þéttbýlt á íslenskan mælikvarða og óx mjög hratt á síðari hluta 20. aldar, nú búa þar yfir 60% Íslendinga. Sveitarfélögin á svæðinu eiga með sér víðtækt samstarf á ýmsum sviðum. Til dæmis í sorpmálum og almenningssamgöngum auk þess að þau reka sameiginlegt slökkvilið. Árið 2007 var svo stofnað sameiginlegt lögregluembætti fyrir allt svæðið. Svæðinu er skipt niður í þrjú kjördæmi vegna alþingiskosninga: Reykjavík skiptist í norður og suðurkjördæmi en hin sveitarfélögin á svæðinu tilheyra Suðvesturkjördæmi (kraganum). Hvað dómsvald í héraði snertir þá tilheyra Reykjavík, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Kjósarhreppur umdæmi Héraðsdómi Reykjavíkur en Álftanes, Garðabær, Hafnarfjörður og Kópavogur umdæmi Héraðsdóms Reykjaness. Eggert Ólafsson. Eggert Ólafsson (1. desember 1726 - 30. maí 1768) var skáld, rithöfundur og náttúrufræðingur úr Svefneyjum á Breiðafirði. Hann var einn boðbera upplýsingarinnar á Íslandi. Rannveig systir Eggerts var kona séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Nám, störf og rit. Eggert nam náttúruvísindi við Hafnarháskóla, og lagði auk þess stund á fornfræði, málfræði, lögfræði, lögspeki og búfræði. Eggert ritaði um ýmis efni, sem ekki hefur allt verið gefið út. Hann er og talinn frumkvöðull að því að semja samræmdar réttritunarreglur, en þær reglur eru fremur ólíkar þeim sem við fylgjum í dag. Einnig er hann talinn vera mesti málverndarsinni 18. aldar auk þess að vera þjóðræktarmaður. Eggert fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757. Í þessari ferð könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta. Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta - líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Eggert samdi síðan ferðabók þeirra félaga á dönsku og kom hún út árið 1772. Tveimur árum síðar kom bókin út á þýsku, á frönsku árið 1802 og hlutar hennar á ensku 1805. Á íslensku kom hún út árið 1942. Dauði. Um drukknun Eggerts orti Matthías Jochumsson erfiljóðið "Eggert Ólafsson". Heimildir. Silja Aðalsteinsdóttir, 1993, Bók af bók, Mál og menning Reykjavík, prentun frá 2003. Sænsk tónlist. Í Svíþjóð er löng hefð fyrir þjóðlagatónlist eins og polka, skottís, vals, polska og mazurka. Sænska þjóðlagatónlistin er mest spiluð á harmonikku, klarinett, fiðlu og/eða nikkelhörpu. Á sjöunda áratugnum (1960-1970) fóru ungir sænskir tónlistarmenn að sækja í þjóðlagatónlistina. Þeir vildu lífga við hefð sem var að deyja út. Ungu Svíarnir spiluðu tónlistina m.a. í almenningsútvarpi og -sjónvarpi. Þeir lögðu áherslu á polska, leikinn aðeins af hljóðfærum, en u.þ.b. 30 árum síðar, á árunum um 1990-1995, fór söngur að vera áberandi í tónlistinni. Þessi bylting sem átti sér stað um og eftir 1960 er kölluð „Afturhvarfið“. Sænsk tónlist varð líka fyrir áhrifum af nútímalegri tónlistarstefnum, þar á meðal popp tónlistar. Í lok níunda áratugarins og byrjun þess tíunda á 20. öldinni, fengu Gautaborg og Stokkhólmur mikilvægt hlutverk í þungarokksheiminum. Á þessum tíma urðu skandinavískar þungarokkshljómsveitir, eins og Opeth, mjög vinsælar meðal þeirra sem hlustuðu á þungarokk. Gautaborg og Stokkhólmur voru aðalmiðstöðvar hljómsveitanna. Sænskar popphljómsveitir eins og ABBA, Roxette, Ace of Base og The Cardigans eru meðal þeirra sem hlotið hafa heimsfrægð. Pönk rokkhljómsveitin The Hives, svo enn nýlegra dæmi sé tekið, er einnig orðin heimsfræg. Þjóðlagatónlist. Ballöður og kulning hafa yfirhöndina í sænskri þjóðlagatónlist. Kulning var upprunalega notað af kúahirðum til að smala saman kúahjörðinni, og er samkvæmt hefðinni sungið af konum, þeirra á meðal er söngsnillingurinn Lena Willemark. Textar ballaðanna eiga uppruna sinn að rekja til „Skillingtryck“ sem var sænskt alþýðlegt smárit 19. aldar með vísum, sögum og þess háttar. Nútímalegar hljómsveitir Folk och Rackare, Hedningarna og Garmarna eru búnar að bæta þjóðlagatónlist í lagalistana sína. Þjóðlagahljóðfæri. Fiðlan er sennilega það hljóðfæri sem mest hefur sett svip á sænska þjóðlagahefð. Orðið „spelman“ í sænsku sem þýðir bókstaflega hljóðfæraleikari, hefur hlotið merkinguna fiðlari, eða fiðluleikari, vegna þess hversu vinsæl fiðlan er í sænskri þjóðlagahefð. Fiðlan var komin til Svíþjóðar á 17. öld og varð fljótt almenn, þar til á 19. öld, þegar afturhaldssamir trúarleiðtogar í landinu sögðu að flestar gerðir af tónlist væru syndsamlegar og óguðlegar. Þrátt fyrir kúgunina, urðu þónokkrir fiðluleikarar rómaðir fyrir snilli sína, þar á meðal Lapp-Nils frá Offerdal, Jämtland, Pekkos Per frá Bingsjö og Lejsme-Per Larsson frá Malung. Enginn þessara tónlistarmanna var þó nokkurn tímann hljóðritaður. Hjort Anders Olsson var fyrsti meiri háttar fiðluleikarinn í Svíþjóð sem var hljóðritaður. Nikkelharpan er hljóðfæri sem líkist fiðlu, en hefur svokallaða snertla, ekki ósvipaða píanólyklum, en spilað er á hljóðfærið með fiðluboga. Uppruni nikkelhörpunnar er óþekktur, en ýmist er talað um að hljóðfærið komi frá Svíþjóð eða að upprunann megi rekja til Þýskalands. Vitað er að harpan var til í Svíþjóð árið 1350, en það ár var skorin út mynd af henni í kirkjuhlið í Gautlandi. Á 15. og 16. öldinni var nikkelharpan orðin almenn í Svíþjóð og Danmörku. Notkun á nikkelhörpu fór minnkandi frá þeim tíma allt fram til 1960, þegar ungu Svíarnir tóku þjóðlagatónlistina ástfóstri, endurlífgarar sænsku þjóðlagahefðarinnar. Hljóðfærið sem á var spilað á 15. og 16. öld er ekki það sama og algengast er í dag. Upprunalega hljóðfærið er samt til í dag, auk margra útfærslna á því, en þessi algengasta, kölluð „nútíma krómatísk nikkelharpa“ varð til fyrir tilstilli tveggja manna. Auguste Brohlin og Eric Sahlström gerðu báðir endurbætur á hljóðfærinu. Brohlin endurbætti upprunalega hljóðfærið upp úr 1925, en Sahlström endurbætti svo nikkelhörpu Brohlins enn frekar um 1980. Þó Brohlin hafi gert endurbæturnar um 1925, fór notkun nikkelhörpunnar samt minnkandi, en það var Sahlström sem gerði það að verkum að þessi gerð er sú sem algengust er í dag. Sahlström kenndi nefnilega öðrum nikkelhörpuleikurum að smíða hljóðfærið, og þeir kenndu öðrum og svo koll af kolli, þannig að í dag eru til u.þ.b. 25.000 nikkelhörpur í Svíþjóð einni og talið er að um 8.000 Svíar spili á hljóðfærið. Sænska sekkjarpípan var stór hluti af þjóðlagahefðinni. Sekkjarpípuleikarar komu kunnáttunni á hljóðfærið til arftakanna munnlega. Engar nótur voru til og ekki var kennt á hljóðfærið. Seinasti upprunalegi sekkjapípuleikarinn var Gudmunds Nils Larsson, en hann dó árið 1949. Með honum dó hefðin, en á sjöunda áratugnum með Afturhvarfinu var hljóðfærinu gefið líf á ný. Harmonikkur og munnhörpur voru meginþáttur sænskrar þjóðlagatónlistar í upphafi 20. aldarinnar. Frægasti harmonikkuleikari Svíþjóðar er án efa Kalle Jularbo sem var frægur snemma á 20. öldinni. Svo, á tímum afturhvarfsins, voru harmonikkur og munnhörpur ekki vel séðar meðal afturhvarfssinna, eða ekki fyrr en undir lok áttunda áratugarins. Afturhvarfið. Á sjöunda áratugnum fengu sænskir jazz tónlistarmenn eins og Jan Johansson innblástur og áhrif frá þjóðlagatónlistinni. Þetta varð til þess að í byrjun áttunda áratugarins var röð tónlistarhátiða haldin í Stokkhólmi. Roxette. RoxetteRoxette er sænskur poppdúett, sem samanstendur af Per Gessle og Marie Fredriksson. Eins og margir aðrir sænskir popparar syngja þau á ensku. Mörg lög þeirra hafa komist ofarlega á vinsældalista um víða veröld. Þar má til dæmis nefna: „It Must Have Been Love“, sem var spilað í kvikmyndinni "Pretty Woman", „The Look“, „Joyride“ og „Spending my time“. Nafn safnplötu þeirra ("Don't Bore Us, Get To The Chorus!") lýsir tónlistinni e.t.v. best. Flest lögin eru sungin með engilblíðri en kannski örlítið rauðvínsleginni rödd Marie Fredriksson ("The Look" er reyndar aðallega sungið af Per Gessle), og Gessle leikur undir á gítar eins og níundi áratugurinn sé upphaf og endir alls sem er, var og verður. Alþingi. Alþingi er löggjafarþing Íslands sem upphaflega var stofnað árið 930 á Þingvöllum þar sem það kom saman árlega fram til ársins 1799. Alþingi var endurreist í núverandi mynd í Reykjavík árið 1844. Á þinginu sitja 63 fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sem eru kjörnir af henni í beinni og leynilegri kosningu. Alþingi er æðsti handhafi löggjafarvalds á Íslandi og samkvæmt þingræðisreglunni bera ráðherrar ábyrgð gagnvart Alþingi og ríkisstjórnin verður að njóta stuðnings meirihluta þingheims. Alþingi kemur saman árlega á öðrum þriðjudegi septembermánaðar og stendur til annars þriðjudags septembermánaðar árið eftir ef kjörtímabilinu lýkur ekki í millitíðinni eða þing er rofið, kjörtímabilið er fjögur ár. Kosningarétt til Alþingis hafa allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri. Allir þeir sem hafa kosningarétt til þingsins og óflekkað mannorð eru kjörgengir til Alþingis. Þingið starfar í einni deild ólíkt löggjafarþingum margra annarra ríkja. Reglulegur samkomustaður þingsins er í Reykjavík þar sem það hefur aðstöðu í Alþingishúsinu við Austurvöll og fleiri nálægum byggingum. Við sérstakar aðstæður getur forseti Íslands skipað fyrir um að Alþingi komi saman annars staðar á landinu, sem gerist þó sjaldan og er yfirleitt vegna stórafmæla eða annarra hátíða. Þjóðveldisöld. Alþingi er með elstu starfandi þingum heims og er víða þekkt fyrir það. Það var fullstofnað á Þingvöllum árið 930, um hálfri öld eftir að landnám Íslands hófst. Samkvæmt Íslendingabók var Alþingi upprunalega staðsett í Bláskógum en eigandi landsins, Þórir kroppinskeggi, hafði gerst sekur um morð og landið varð almenningseign. Undirbúningur að stofnun þingsins var talinn hafa verið á árunum 920 til 930 en m.a. var maður að nafni Úlfljótur sendur til Noregs til að nema lög en fyrstu lögin eru einmitt nefnd Úlfljótslög eftir honum. Lögin í Hörðalandi í Noregi voru höfð sem fyrirmynd íslenskra laga. Talið er að Alþingi hafi verið valinn staður á Þingvelli vegna þess að það var tiltölulega miðsvæðis og því aðgengilegt flestum. Einnig er talið að ættingjar Ingólfs Arnarssonar, sem áður höfðu stofnað Kjalarnesþing, hafi nokkru ráðið um staðsetningu þingsins. Undir erlendum yfirráðum. Alþingi starfaði sem löggjafarsamkoma og æðsti dómstóll landsins þar til á árunum 1262-64 þegar Íslendingar samþykktu Gamla sáttmála og gengu Noregskonungi á hönd. Þá voru nýjar lögbækur lögteknar, Járnsíða árið 1271 og síðan Jónsbók árið 1281. Við það breyttist hlutverk Alþingis mikið. Löggjafarvald var í höndum konungs og Alþingis sameiginlega, einkum konungs. Dómstörfin urðu aðalverkefni þingsins. Árið 1662 afsöluðu Íslendingar sér svo sjálfstjórn í hendur konungi með Kópavogssamningi. Þinghaldi lauk á Þingvöllum árið 1798, en Lögrétta kom þó saman í Hólavallaskóla í Reykjavík árið 1799 og 1800. Alþingi var lagt af þann 6. júní 1800 en þá fóru nær eingöngu dómstörf þar fram. Endurreisn Alþingis. Danakonungur gaf út tilskipun um endurreisn Alþingis, þann 8. mars 1843 eftir mikla baráttu sjálfsstæðihreyfingarinnar íslensku, Baldvin Einarsson fór þar fremstur í flokki. Fyrstu kosningarnar fóru fram ári síðar og þing kom í fyrsta skipti saman á endurreistu Alþingi þann 1. júlí 1845. Endurreist Alþingi starfaði fyrst um sinn í Latínuskólanum (nú Menntaskólinn í Reykjavík). Árið 1881 flutti Alþingi svo í sitt núverandi húsnæði í Alþingishúsinu við Austurvöll. Fyrst um sinn var það þó eingöngu ráðgjafarþing, konungi til ráðuneytis um löggjafarmálefni Íslendinga. Árið 1871 voru Stöðulögin sett, þeim fylgdi ný stjórnarskrá, í tilefni af þúsund ára afmæli byggðar á Íslandi, þremur árum seinna. Alþingi fékk takmarkað löggjafarvald, en konungur hafði synjunarvald og beitti því nokkrum sinnum. Yfir Íslandi var skipaður landshöfðingi sem var fulltrúi konungs á Alþingi. Íslendingar fengu svo heimastjórn árið 1904 og þá var þingræði innleitt sem þýddi að Íslendingar fengu Íslandsráðherra, með aðstöðu á Íslandi, sem var ábyrgur gagnvart Alþingi. Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 þegar Sambandslögin voru sett. Sambandið við Danakonung rofnaði árið 1940 í seinni heimsstyrjöldinni, þegar Ísland var hernumið af Bretum, og þann 15. maí 1941 samþykkti Alþingi kosningu ríkisstjóra. Í það embætti var Sveinn Björnsson kosinn. Sambandslögin voru einróma felld úr gildi 25. febrúar 1944 á Alþingi en þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin um málið 20.-23. maí. Sambandslögin voru síðan formlega felld úr gildi 16. júní sama ár og síðan var lýst yfir sjálfstæði Íslands þann 17. júní 1944. Þróun kosningaréttar. Í fyrstu kosningunum til endurreists Alþingis, árið 1844, höfðu kosningarétt karlmenn 25 ára og eldri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um eignir. Það voru um 5% landsmanna. Árið 1903 voru ákvæði rýmkuð um kosningarétt efnaminni manna. Kosningar til Alþingis voru leynilegar frá 1908, en fram að því höfðu þær verið opinberar. Árið 1915 fengu hluti kvenna kosningarétt og skilyrðin um eignir voru felld niður. Eignalausir verkamenn og vinnumenn til sveita, konur og karlar, fengu samt ekki kosningarétt fyrr en þau höfðu náð 40 ára aldri. Aldursmörkin færðust svo niður um eitt ár á hverju ári. Allir fengu réttinn 25 ára árið 1920. Árið 1934 var kosningaréttur lækkaður í 21 ár, aftur í 20 ár árið 1968, og að lokum í 18 ár árið 1984. Kjördæmaskipan og deildaskipting. Árið 1874 var þingi skipt í tvær deildir, efri og neðri deild. Þingmenn voru þá 36 og í efri deild sat þriðjungur þingmanna, eða 12 þingmenn. Sex þeirra voru þjóðkjörnir en sex konungkjörnir. Allir þingmenn í neðri deild voru þjóðkjörnir. Sameiginlegir fundir þingmanna beggja deilda nefndust sameinað Alþingi. Árið 1903 var þingmönnum fjölgað um fjóra og voru þá 40. Við stjórnarskrárbreytingarnar 1915 var konungskjör þingmanna fellt niður og tekið upp landskjör þar sem allt landið var eitt kjördæmi. Landskjörnir þingmenn voru sex, þeir voru kosnir til 12 ára og sátu í efri deild. Árið 1920 var þingmönnum fjölgað í 42 og þá var ákveðið að Alþingi kæmi saman árlega. Árið 1934 var þingmönnum aftur fjölgað, nú um 7 eða í 49. Þá var landskjör einnig fellt niður það ár. 1942 var þeim svo fjölgað í 52. Þá var landið 28 kjördæmi, 21 einmenningskjördæmi, sex tvímenningskjördæmi og Reykjavík sem fékk átta þingmenn. Auk þess voru 11 uppbótarþingmenn. Árið 1959 var landinu skipt upp í átta kjördæmi með hlutfallskosningu auk 11 uppbótarþingsæta. Þingmönnum var aftur fjölgað, nú í 60. Árið 1984 var þingmönnum fjölgað í 63 og árið 1991 voru deildirnar tvær, efri og neðri deild, sameinaðar. Kjördæmaskipan var svo breytt árið 1999 með stjórnarskrárbreytingu og kjördæmunum fækkað í sex. Völd þingsins. Völd Alþingis eiga sér stoð í fyrstu og annari grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í fyrstu greininni segir: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“ og þeirri annarri er mælt fyrir um þrískiptingu ríkisvaldsins. Almennt er talið að með orðalaginu "þingbundin stjórn" sé átt við að á Íslandi sé þingræði eða í það minnsta „að ráðherrar skuli vera háðir Alþingi með ein­hverjum hætti, t.d. með því að standa þinginu reikningsskil gjörða sinna.“ Mælt er nánar fyrir um ráðherraábyrgð í 14. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og dæmi landsdómur þau mál. Þrískipting ríkisvaldsins felur það í sér að löggjafarvaldið setur lög sem framkvæmdarvaldið framkvæmir og dómsvaldið sker úr um þegar ágreiningur kemur upp. Löggjafarvaldið getur ekki leyst úr dómsmálum né heldur getur það tekið einstaka stjórnvaldsákvarðanir sem er að öllu jöfnu viðfangsefni framkvæmdarvaldsins og nefnist opinber stjórnsýsla. Að því sögðu er það þó ljóst af þingræðisreglunni og fjárstjórnarvaldi þingsins að ekki er jafnræði milli þessara handhafa ríkisvaldsins heldur er Alþingi ótvírætt valdamesta stofnunin. Mikilvægi fjárstjórnunarvaldsins sést í 42. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að fyrir hvert reglulega samankomið Alþingi beri að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár. Þetta er eitt viðamesta verkefni Alþingis ár hvert enda eru rekstrartekjur hinna ýmsu opinberra stofnana og styrkupphæðir til einkaaðila ákveðin þar. a> hefur synjað lagafrumvörpum staðfestingar þrisvar sinnum fyrstur forseta Íslands. Alþingi er ekki með ótakmarkað löggjafarvald heldur þarf forseti Íslands að staðfesta lögin með undirskrift sinni. Samkvæmt 19. og 26. gr. stjórnarskrárinnar þarf undirskrift forseta Íslands til þess að veita frumvarpi lagagildi ellegar er þeim vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi völd forseta Íslands voru lengi vel talin óformleg, þeim var ekki beitt fyrr en Ólafur Ragnar Grímsson synjaði fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar árið 2004. Ekki kom til þjóðaratkvæðagreiðslu þá þar sem frumvarpið var dregið til baka af ríkisstjórninni. Í byrjun árs 2010 synjaði Ólafur Ragnar Icesave-frumvarpinu staðfestingar og fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í mars það ár þar sem lögin voru felld. Í febrúar 2011 synjaði Ólafur nýju frumvarpi sem einnig er kennt við Icesave staðfestingar og stendur til að þjóðaratkvæðagreiðsla þar um verði haldin 9. apríl 2011. Þá getur forseti Íslands rofið þing samkvæmt 24. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkt hefur aldrei gerst á lýðveldistímanum en Alþingi var rofið árið 1931 fyrir tilstuðlan Kristjáns 10. Danakonungs. Um fundarstjórn, embætti Alþingis og feril lagasetningar er mælt fyrir um í þingskaparlögum. Sumarið 2011 var þingskaparlögum nokkuð breytt, meðal annars var fjölda fastanefnda Alþingis breytt. Lagasetning. Lagasetning á Alþingi fylgir föstu ferli sem mælt er fyrir um í stjórnarskránni og þingskaparlögum. 38. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um að aðeins þingmenn og ráðherrar megi leggja fram lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur. 44. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema að undangengnum þremur umræðum á Alþingi. Þá segir í 53. gr. stjórnarskrárinnar að Alþingi geti ekki samþykkt mál nema meira en helmingur þingmanna séu viðstaddir atkvæðagreiðslu og 67. gr. þingskaparlaga mælir fyrir um að afl atkvæða ráði úrslitum um mál og málsatriði nema annað sé skýrt tekið fram í stjórnarskránni eða þingskaparlögum. Sem fyrr segir skiptist umfjöllun Alþingis í þrjá umræður. Þriðji kafli þingskaparlaga fjallar nánar um lagasetningu á Alþingi. Þar er mælt fyrir um að að fyrstu umræðu lokinni vísi forseti Alþingis frumvarpinu til fastanefndar Alþingis að hans vali. Þingmenn geta krafist atkvæðagreiðslu á þeim tímapunkti um það hvort ljúka beri fyrstu umræðu eða hvort vísa eigi frumvarpinu til annarar fastanefndar en þeirrar sem forseti Alþingis leggur til. Önnur umræða fer fram í fyrsta lagi nóttu eftir að fyrstu umræðu er lokið eða útbýtingu nefndarálits. Þá eru einstaka greinar frumvarpsins ræddar og breytingartillögur ef einhverjar hafa fram komið. Þá eru greidd atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins og einstök atriði sem þingmenn æskja eftir að kosið sé um. Þá gengur frumvarpið til þriðju umræðu en þingmenn geta óskað eftir atkvæðagreiðslu áður því til staðfestingar. Hafi frumvarpið breyst við aðra umræðu getur þingmaður eða ráðherra óskað eftir því að nefnd taki það til umfjöllunar á ný. Þriðja og síðasta umræðan fer fram í fyrsta lagi nóttu eftir aðra umræðu. Þá eru ræddar greinar frumvarpsins og breytingartillögur við frumvarpið og einnig frumvarpið í heild. Loks eru greidd atkvæði um breytingartillögurnar ef einhverjar eru og svo frumvarpið í heild. Embætti þingsins. Einar Kristinn Guðfinnsson er núverandi forseti Alþingis. Æðsta embætti þingsins er forseti Alþingis. Núverandi forseti er Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Eins og segir í kynningarbæklingi Alþingis „stjórnar [forseti] þinghaldinu, ákveður dagskrá þingfunda og hefur frumkvæði að því að semja starfsáætlun Alþingis og áætlun um fundarhöld. Forseti hefur enn fremur umsjón með starfi þingnefnda og alþjóðanefnda og fyrirspurnir til ráðherra eru háðar leyfi hans. Forseti sker úr ágreiningi um túlkun þingskapa og umræður utan dagskrár eru bundnar samþykki hans.“ Samkvæmt stjórnarskránni er forseti Alþingis einn þriggja handhafa forsetavalds. Forsetar Alþingis eru kosnir af þinginu strax eftir þingsetningu og stýrir aldursforseti þingsins, sá þingmaður með lengstu setu á þingi fundum þangað til að forseti Alþingis hefur verið kosinn. Þingmenn eru tilnefndir til embættisins og eru þeir í framboði sem ekki hreyfa við því mótmælum. Sá þingmaður er kosinn sem hlýtur yfir helming atkvæða eða hreinan meirihluta. Stofnanir Alþingis. Tvær sjálfstæðar stofnanir starfa á vegum Alþingis. Það eru umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með opinberri stjórnsýslu af hálfu Alþingis. Hlutverk Ríkisendurskoðunar er fyrst og fremst að endurskoða ríkisreikninginn og reikninga opinberra stofnana. Hvorki umboðsmaður Alþingis né Ríkisendurskoðun lúta beinu boðvaldi Alþingis heldur geta tekið fyrir mál að eigin frumkvæði. Alþingi getur þó krafist skýrslna af hendi Ríkisendurskoðunar um tiltekin mál. Samsetning þingsins. Kosningar til Alþingis fóru síðast fram 27. apríl 2013 og kjörtímabil þess Alþingis sem þá var kosið rennur út vorið 2017. Flatarmál. Í stærðfræði er hugtakið flatarmál notað yfir tölugildi tvívíðs afmarkaðs svæðis. Líta má á beina línu milli tveggja punkta sem einvíðan vigur. Hann hefur aðeins lengd, sé vigurinn ekki skoðaður með tilliti til tví- eða þrívíðs umhverfis. Sé annar vigur leiddur inn í dæmið, sem er einnig einvíður, en situr hornrétt á við hinn fyrrnefnda vigur, þá afmarka vigrarnir tveir tvívíðan flöt, sem finna má flatarmálið á með því að margfalda lengdir vigranna saman. Að jafnaði er flatarmál gefið upp dags daglega með mælieiningum, gjarnan úr SI kerfinu. Til dæmis er flatarmál landa gefið upp í ferkílómetrum (km²), flatarmál akurlendis í hektörum (eða hektómetrum), (hm²), og flatarmál húsnæðis í fermetrum (m²). Veldisvísinn hjá mælieiningunni má nota til þess að sjá hversu margar svigrúmsvíddir umrætt rúm hefur. T.d. myndu rúmkílómetrar - km³ vera með þrjár svigrúmsvíddir, og lýsir 1km³ þá þrívíðu rúmi. Taugakerfi. Taugakerfi er það líffærarakerfi, sem framkvæmir hreyfingu vöðvanna, fylgist með líffærunum og að tekur við áreiti frá skynfærunum og að bregst við því. Í samvinnu við innkirtlakerfið stuðlar það að því að halda jafnvægi í líkamanum. Taugakerfinu er skipt í tvennt, miðtaugakerfið sem heilinn og mænan fellur undir og úttaugakerfið sem viltaugakerfið og dultaugakerfið fellur undir en því er svo aftur skipt í tvennt í semjukerfið og utansemjukerfið. Úttaugakerfi. Úttaugakerfið er í líffærafræði annar hluti taugakerfisins en hinn er miðtaugakerfið, það samanstendur af þeim taugum og taugafrumum sem eru fyrir utan og teygja sig úr miðtaugakerfinu. Úttaugakerfinu er skipt í tvennt: viltaugakerfið sem lífveran getur stjórnað með vilja sínum og dultaugakerfið sem starfar sjálfkrafa og sér um að halda líffærum gangandi. Dultaugakerfi. Dultaugakefi, einnig nefnt sjálfvirka taugakerfið er í líffærafræði annar hluti úttaugakerfisins en hinn er viltaugakerfið. Í andstæðu við viltaugakerfið sem dýrið hefur meðvitaða stjórn yfir virkar dultaugakerfið sjálfkrafa. Það sér um meltinguna, að viðhalda réttum hita á líkamanum, að stilla tíðni hjartsláttar, að viðhalda réttum blóðþrýstingi, að sjá um öndun og að sjá til þess að líkaminn svitni. Dultaugakerfið skiptist í tvennt; "driftaugakerfi" og "seftaugakerfi". Driftaugakerfi. Forhnoðutaugunga er aðeins að finna í brjóstholshlutum og efstu tveimur eða þremur lenda-hlutum mænu. Þá er að finna í hliðlæga horni mænugrána. Þeir fara úr mænu gegnum kviðlægu rót hennar og sameinast mænutaug. Eftirhnoðutaugungar hafa boli sína annaðhvort í hnoðu driftaugakeðju (e. sympathetic chain of ganglia) sem liggur meðfram hryggsúlu eða í fléttum (e.(sing.) plexus) í kringum megingreinar kviðhluta ósæðar. Forhnoðutaugungar fara inn í driftaugakeðju eftir hvítu samskiptagrein (e. white ramus communicantes), svonefnd vegna mýelínslíðra sinna. Forhnoðutaugungar driftaugakerfis, sem fara til höfuðs og brjósthols, enda í samtengingu við eftirhnoðutaugunga í dultaugakeðjunni. Eftirhnoðutaugungarnir fara aftur í mænutaug í gráu samskiptagrein sem heitir svo vegna engra mýelínslíðra. Hins vegar fara forhnoðutaugungar sem ítauga innri líffæri kviðarhols og mjaðmagrindar óhindraðir í gegnum driftaugakeðjuna og beint í þá fléttu þar sem tilsvarandi eftirhnoðutaugunar bíða. Forhnoðutaugungar seyta yfirleitt acetýlkólíni en eftirhnoðutaugungar noradrenalíni. Skynfæri. Skynfæri halda tengslum við ytra umhverfi og innra ástand. Ytri skynjarar, "exteroceptores", skynja breytingar í umhverfinu en innri skynjarar, "interoceptores", skynja innvortis breytingar. Til skynfæra manna teljast meðal annars augu, eyru, bragðlaukar, lyktarnemar og snertinemar. Önnur dýr eins og fiskar, skordýr og fuglar búa yfir skynfærum á borð við fálmara, lýrunema, veiðihár og jafnvel hljóðsjá (sem er að finna hjá sjávarspendýrum í ætt við höfrunga og hvali og t.d. leðurblökum). Tómas Lemarquis. Tómas Lemarquis (fæddur 3. ágúst 1977) er íslenskur leikari. Hann útskrifaðist úr LHÍ 2003. Hann er þekktastur í dag fyrir að leika Nóa, aðalsöguhetjuna í kvikmyndinni Nói albínói. Hann fór einnig með hlutverk í kvikmyndinni Villiljós frá árinu 2001. Hann leikur einnig í myndinni "Desember" ásamt Laylow. Listaháskóli Íslands. Listaháskóli Íslands er íslenskur háskóli á sviði lista og menningar. Boðið er upp á nám á í fimm deildum: myndlistardeild, leiklistardeild, hönnunar- og arkitektúrdeild, listkennsludeild og tónlistardeild. Listaháskólinn var stofnaður 21. september 1998. Kennsla hófst haustið 1999. Rektor er Hjálmar H. Ragnarsson. Enska. Enska (enska: English'";) er vesturgermanskt tungumál sem á rætur að rekja til fornlágþýsku og annarra náskyldra tungumála Engla og Saxa, sem námu fyrstir Germana land á Bretlandseyjum, en málið hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá ýmsum öðrum málum, þá sér í lagi latínu, fornnorrænu, grísku, og keltneskum málum sem fyrir voru á eyjunum. Enska er töluð víða í heiminum, og er opinbert mál á Englandi, Írlandi, Skotlandi, Wales, Nýja Sjálandi, Ástralíu, Suður-Afríku, Bandaríkjunum, Kanada og fjölmörgum öðrum löndum. Þróunarsögu ensku er skipt í þrjú tímabil. Elst er fornenska ("Old English"), sem er einnig kölluð engilsaxneska eftir hinum germönsku Englum og Söxum sem réðu ríkjum á Englandi frá 5. öld og fram á víkingaöld. Miðenska ("Middle English") var töluð eftir komu víkinga og fram að þeim tíma þegar prentsmiðjur urðu algengar. Eftir tilkomu prentsmiðjanna hefur verið talað það mál sem við þekkjum nú (nútímaenska). Notkun um heiminn. Sökum mikillar útbreiðslu enskunnar og töluverðrar innbyrðis einangrunar mælanda þess, hafa orðið til margar mismunandi mállýskur sem hafa einkennandi raddblæ, framburð og orðaforða. Til dæmis eru til mörg orð í ástralskri ensku sem enginn í Kanada myndi nota í daglegu máli, og öfugt. Til þess að sporna við þessari þróun hóf Oxford-háskóli útgáfu Oxford English Dictionary, sem talin er yfirgripsmesta nútíma enska orðabókin. Hún var fyrst gefin út árið 1884, en hefur síðan þá verið stækkuð mjög til þess að ná yfir allar helstu orðmyndir sem koma fyrir í málinu allt aftur til upphafs nútímaensku. Saga. Enska er vesturgermanskt tungumál sem á upptök sín í engilfrísneskum og lágsaxneskum mállýskum sem kómu á Bretlandseyjar með germönskum ættflokkum og rómverskum hermönnum, frá svæðinu sem er nú Norðvestur-Þýskaland, Danmörk og Holland á 5. öld. Einn þessara ættflokka voru Englar sem voru líklega komnir frá Angeln. Að sögn Bedu prests kómu allir þeirra til Bretlands og gamla land þeirra varð yfirgefið. Orðin "England" (úr "Engla land" „Englaland“) og "English"/"enska" (á fornensku "Englisc") á rætur að rekja til nafns þessa ættflokks. Engilsaxneska innrásin í Bretland hófst um arið 449 e.Kr. Innrásarmenn komu frá Danmörk og Jótlandi. Áður en innrásin á Bretlandi voru innfæddu mennirnir Keltar sem töluðu bretnesku, sem var keltneskt tungumál. Tungumálið sem talað var á undan normönnskum landvinningum árið 1006 hét fornenska. Upp á því hófust mikilvægar breytingar á tungumálið. Upprunalega var fornenska hópur ólíkra mállýska sem endurspegluðu engilsaxnesku kónungsríkin sem voru til í Bretlandi á þeim tíma. Ein þessara mállýska, vestursaxneska, varð sú helsta. Ein helstu áhrif á þróun enskunnar var rómversk-kaþólska kirkjan. Á miðöldum hafði rómversk-kaþólska kirkjan einokun á hugverkum í breska þjóðfélaginu, sem hún notaði til að hafa áhrif á ensku. Kaþólskir munkar skrifuðu eða afrituðu texta aðallega á latnesku sem var þá sú helsta tungumál í Evrópu. Þegar munkarnir skrifuðu á móðurmál sitt notuðu þeir oft orð úr frá latnesku til að skrýa frá hugtökum sem áttu ekkert orð á ensku. Meginhluti orðaforða enskunnar á rætur að rekja til latnesku. Talið er að gegnum tíma notuðu enska menntastéttin meira og meira orð sem munkarnir tóku frá latnesku. Þar að auki hélt hún áfram að draga ný orð úr latneksu eftir það. Tvær bylgjur innrásar höfðu mikil áhrif á fornensku. Fólkið sem gerði fyrstu innrasína talaði norrænt tungumál, og sigraði og nam land á Bretlandseyjum á 8. og 9. öldum. Normannar gerðu aðra innrásina á 11. öld. Þeir töluðu normönnsku og þróuðu enska tegund af þessu máli. Með tímanum minnkuðu áhrif frá normönnsku vegna frönskutegundarinnar sem töluð var í París. Tungumál Normannana breyttist í engilfrönsku. Vegna þessara innrása tveggja varð enska svolítið „blandað“ mál, en hún var ekki í raun blendingsmál. Vegna samlífis við Norðmenn stækkaði magn germanskra orða í fornensku. Auk þess, við normönnsku landvinningar, voru fleiri orð tekin frá rómönskum tungumálum. Normönnsku áhrif á ensku var aðallega sökum notkunar normönnsku af ríkisstjórninni. Þannig var hafið í alvöru að taka mörg orð frá öðrum tungumálum, og orðaforði enskunnar varð mjög stór. Við tilkomu Breska heimsveldsins hófst notkun ensku í Norður-Ameríku, Indlandi, Afríku, Ástralíu og á öðrum svæðum. Mikilvægi Bandaríkjanna sem risaveldi hefur líka hjálpað útþenslu ensku um heiminn. Landfræðileg dreifing. Um það bil 375 milljónir manns tala ensku sem móðurmál. Talið er að enska sé þriðja stærsta tungumálið í heimi eftir magni málhafa, eftir kínversku og spænsku. Hins vegar þegar talaðir eru allir sem tala ensku sem móðurmál og annað mál, er enska stærsta tungumálið í heimi. Málfræði. Í ensku eru ekki eins margar beygingar og í öðrum indóevrópskum málum. Til dæmis í nútímaensku eru ekki málfræðileg kyn eða stigbreytingar lýsingarorða, ólíkt í nútímaþýsku eða hollensku. Fallendingar í ensku eru næstum því horfnar, en eru enn þá til í fornöfnum. Í ensku eru til bæði sterkar (t.d. "speak/spoke/spoken") og veikar sagnir sem eiga germanskar rætur. Afgangar frá beygingum (til dæmis í fleirtölu) geta sést enn þá en eru orðnir reglulegri. Um leið er enska orðið greinandi tungumál. Oftar er notað í ensku ófullkomnar hjálparsagnir og orðaröð heldur fallendingar til þess að bera merkingar. Hjálparsagnir merkja spurningar, neikvæðar setningargerðir, þolmynd og svo framvegis. Dæmi. En ögn eldri dæmi um nútímaensku koma upp um fortíð málsins, eins og sést hér í broti úr "Fönixinum og skjaldbökunni" eftir William Shakespeare (c.a. 1586) Taug. Taug (fræðiheiti: "nervus") er stórt taugasímaknippi, sem er hjúpað bandvef. Taug líkist símastreng að því leyti að taugasímarnir sjálfir eru einstakir vírar í strengnum, og svo eru mýlið, frumuslíðrið og bandvefjahulur einangrun. Vesturnorræn tungumál. Vesturnorræn mál eru norrænu málin íslenska, norska, færeyska og norn. 23. apríl. 23. apríl er 113. dagur ársins (114. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 252 dagar eru eftir af árinu. 8. febrúar. 8. febrúar er 39. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 326 dagar (327 á hlaupári) eru eftir af árinu. 22. mars. 22. mars er 81. dagur ársins (82. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 284 dagar eru eftir af árinu. Arababandalagið. Arababandalagið (جامعة الدول العربية á arabísku), er bandalag Arabaríkja. Það var stofnað 22. mars 1945 af sjö ríkjum, Egyptalandi, Írak, Jemen, Jórdaníu, Líbanon, Sádi-Arabíu og Sýrlandi, til að efla samvinnu Arabaríkja. Stjórnarskrá þess bannar aðildarríkjum að beita hvert annað hervaldi. Vigdís Finnbogadóttir. Vigdís Louise Finnbogadóttir (fædd 15. apríl 1930) var fjórði forseti Íslands og gegndi þvi embætti frá 1980 til 1996. Hún var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Þann 29. júní árið 1980 urðu tímamót í sögu Íslands. Þjóðin hafði kosið fyrsta kvennforseta heimsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vigdís Finnbogadóttir tók við embættinu 1. ágúst og gengdi því í fjögur kjörtímabil eða þar til hún lét af starfi 31. júlí árið 1996. Margir höfðu miklar efasemdir um að einhleyp kona eins og hún gæti gegnt forsetastarfi með sóma. Spurningin um kyn Vigdísar fylgdi henni alla kosningabaráttuna og var einnig áberandi fyrstu ár forsetatíðar hennar en vegna þrjósku og útsjónarsemi sýndi hún fram á að konur gætu gengt embættinu. Hún sýndi mikla hæfileika sem þjóðarleiðtogi og hlaut mikið lof og aðdáun. Sem forseti lagði hún áherslu á stöðu kvenna í samfélaginu og ræktun þjóðar, lands og tungu. Enginn vafi var á því hversu mikla virðingu og þakklæti hún hlaut frá þjóðinni eftir 16 ára forsetastarf. Æskan og námið. Vigdís Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík þann 15. apríl 1930 og var fyrsta barn þeirra Finnboga Rúts Þorvaldssonar prófessors og Ástu Sigríðar Eiríksdóttur hjúkrunarkonu. Vigdís ólst upp í Reykjavík með foreldrum sínum, bróður og ömmu sinni og afa og gengu þau systkinin í Landakotsskóla. Á sumrin dvöldu hún og bróðir hennar í sveit á bænum Eystra-Geldingarholti í Gnúpverjahreppi. Í Eystar- Geldingarholti eignaðist Vigdís aðra fjölskyldu sem henni var mjög kær og skipti hana meira máli eftir því sem að árin liðu. Bróðir sinn missti hún svo ungan að aldri, einungis 20 ára en hann lést af völdum sjóslys árið 1952 og tók það mjög á Vigdísi. Vigdís stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík á málabraut og útskrifaðist þaðan árið 1949 með fyrstu einkun. Á lokaárinu í menntaskólanum var Vigdís ákveðin í því að fara í framhaldsnám til Frakklands. Henni fannst mikilvægt að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast annari menningu og það gerði hún líka. Nítján ára að aldri fór hún til Grenoble í Frakklandi að læra frönsku og franskar bókmenntir en eftir skemmtilega jafnt sem erfiða dvöl þar í eitt og hálft ár fluttist hún til Parísar. Í París gekk hún í Sorbonne háskólan í tvö ár og var henni farið að ganga vel í náminu þegar hún ákvað að kasta öllu frá sér og flytja aftur til Íslands, próflaus, þar sem ungur læknanemi beið hennar. Árin á undan frægðinni. Árin eftir Frakklandsævintýrið einkenndust af dugnaði og velsæld. Hún hafði mikin áhuga á leiklist og steig hún sín fyrstu spor inn í þá veröld þegar Guðlaugur RósinKranz fyrsti þjóðleikhússtjóri Íslendinga bauð henni starf. Vigdís starfaði sem bókavörður Þjóðleikhúsins og síðar varð hún ritstjóri leikskrár sem fólst meðal annars að búa hana til. Samhliða starfinu stundaði hún nám við Háskóla Íslands í ensku, enskum bókmenntum, frönsku og frönskum bókmenntum. Um þetta leyti eða á Þorláksmessu árið 1954 gekk Vigdís að eiga Ragnar Arinbjörn lækni og síðar varð hún barnshafandi. Hún missti hins vegar fóstrið þegar hún var aðeins komin fimm mánuði á leið og var það vissulega mikil sorg fyrir hana. Næstu árin einkenndust af hefðbundnu hjónalífi og vinnu. Vigdís vann á sumrin hjá ferðaskrifstofu ríkisins og ferðaðist þess á milli víða með Ragnari þar sem hann var í framhaldsnámi í lyfjalækningum. Raunveruleikinn varð þó fljótlega sá að hjónaband þeirra hjóna myndi ekki endast mikið lengur og sóttu þau um skilnað eftir sjö ára samvist. Eftir að vegir þeirra leiddu þau í sitthvora áttina tók Vigdís þátt í stofnun tilraunaleikhúsins Grímu og kenndi síðar í MR og MH eftir að hún lauk BA-prófi í ensku og frönsku árið 1968. Árið 1970 sá hún um frönskukennslu í sjónvarpinu undir stjórn Péturs Guðfinnsonar og menningarþáttinn Vöku sem var fyrsti menningarþátturinn í íslensku sjónvarpi sem var gríðarlega vinsæll. Árið 1972 tók Vigdís við af Sveini Einarssyni sem leikhússtjóri LR (Leikfélag Reykjavíkur) og varð hún að sjálfsögðu himinlifandi með þann áfanga í lífinu. Hún tók við starfinu með miklum væntingum og draumum en meðan að Vigdís stjórnaði félaginu voru oft miklir fjárhagserfiðleikar og því erfiðir tímar. Mikla útsjónarsemi þurfti í rekstrinum til þess að hann gæti haldið áfram en það var einmitt það sem Vigdís hafði. Þó að Vigdís hafi unnið hörðum höndum við þau verkefni sem hún tók sér fyrir hendur ákvað hún að sækja um að ættleiða barn en umsókn hennar var neitað. En eftir að hafa fylgt umsókninni eftir með lög ættleiðinga í huga fékk hún nýfætt barn í fangið 18. október 1972. Þessi litla stúlka, Ástríður, breytti lífi Vigdísar að öllu leyti og var hún verulega þakklát fyrir að langþráður draumur hennar rættist loks. Tíminn sem Visdís átti með Ástríði á fyrstu árum hennar voru dásamlegir og hún naut sýn vel sem móðir. Nokkrum árum seinna greindist Vigdís með brjóstakrabbamein og í kjölfar þess beið hennar löng og ströng meðferð. Ekki má gleyma því að Vigdís barðist sem einhleyp og einstæð móðir í baráttunni og mótaði sú reynsla hana að því sem hún er í dag. Forsetaframboð. Eftir haustið 1979 þegar Vigdís ákvað að hætta sem leikhússtjóri var framtíð hennar óráðin en vonaðist þó eftir því að Ísland hefði eitthvað fyrir sig að gera. Þann 1. janúar 1980 tilkynnti þáverandi forseti Kristján Eldjárn að komandi ár væri hans síðasta í embætti og kom sú yfirlýsing þjóðinni ekki á óvart. Vigdís var vissulega glæsileg kona sem var vel að sér í tungumálum, var örugg menntakona og sjálfstæð. Hún var þekkt í sjónvarpi og menningarlífi, hafði margt til brunns að bera og vegna þessa var skorað á hana sem forsetaframbjóðanda í Dagblaðinu 15. janúar. Aðdragandinn var skammur og átti hún sjálf mjög erfitt með að sjá sig sem forseta en hafði mikin vilja í það að sýna að hún gæti þetta allveg jafnvel og karlarnir. Mótframbjóðendur Vigdísar voru þeir Guðlaugur Þorvaldsson, Albert Guðmundsson og Pétur J. Thorsteinsson en frá upphafi fékk framboð Vigdísar sterkan hljómgrunn og svo virtist sem hún og Guðlaugur nytu mesta fylgis. Barátta Vigdísar í framboðinu fram að kosningum var sveiflukennd, margar kjaftasögur snéru að henni en þrátt fyrir það naut hún einnig vinsælda. Hún naut vinsælda vegna þess að framboð hennar var talið nýjung, engin kona hafði áður boðið sig fram sem forseta og varð það til þess að erlendir blaðamenn þóttu hana merkilega. Á kjördegi, 29. júní var ljóst að Vigdís Finnbogadóttir yrði kjörin forseti Íslands. Fékk hún alls 33,8% atkvæða en næstur á eftir henni var Guðlaugur Þorvaldsson með 32,3% atkvæða. Þessi úrslit voru tímamót í sögunni, Vigdís var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í þjóðaratkvæðagreiðslu og því stórfrétt um allan heim. Íslendingar voru stoltir af kosningu sinni og fyrir það var þeim hrósað. Með þessum sigri Vigdísar var ljóst að afstaða til kvenna myndi breytast og gefa konum kjark til þess að færa réttindabaráttuna inn á stjórnmálasviðið. Embættisár og síðari ár. Vigdís sló í gegn sem forseti og naut vinsælda bæði hérlendis og í útlöndum. Hún var undir miklu álagi en smám saman náði hún tökum á embættinu þar sem hún mótaði sínar eigin reglur og hefðir. Hún var strax metin mikils í nágrannalöndunum og athyglin jókst stöðugt. Sem forseti lagði hún áherslu á stöðu kvenna í samfélaginu og ræktun þjóðar, lands og tungu. Vigdís hvatti æsku þjóðarinnar til dáða og bað eldri kynslóðir að vera henni góð fyrirmynd. Hún sýndi mikla hæfileika sem þjóðarleiðtogi og hlaut mikið lof. Vigdís gengdi embættinu í fjögur kjörtímabil eða þar til að hún lét af störfum árið 1996 eftir sextán ára forsetastarf. Skilnaðurinn við þjóðina fór vel fram og enginn vafi var á því að land og þjóð var henni gríðarlega þakklát fyrir vel unnin störf. Þó að Vigdís hafi látið af störfum sem forseti tók hún sér margt annað fyrir hendur. Hún hefur unnið mikið bæði hér á landi og á alþjóðarvetvangi við að styrkja tungumál, rannsóknir og menningu. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar og varð á meðal þess velgjörðarsendiherra tungumála hjá menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) árið 1998. Í dag er hún orðin 82 ára að aldri og er henni efst í huga í daglegu lífi: tónleikar, bækur, bíó og ekki síst leikhús. Hún er þakklát fyrir það sem að lífið hefur gefið henni og reynir að lifa því lifandi og njóta þess í botns á meðan hún getur. 23. mars. 23. mars er 82. dagur ársins (83. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 283 dagar eru eftir af árinu. Óskarsverðlaunin. Óskarsverðlaunin (á ensku Academy Award eða óformlega Oscar) eru veitt kvikmyndagerðarmönnum og öðrum sem starfa við kvikmyndir. Verðlaunahátíðin er yfirleitt sú best kynnta og mest áberandi á Vesturlöndum, og verðlaunin af flestum talin þau eftirsóknarverðustu. Óskarsverðlaunin eru veitt af Bandarísku kvikmyndaakademíunni "(Academy of Motion Picture Arts and Sciences)", samtökum fólks sem starfar við kvikmyndagerð í Bandaríkjunum og er aðild að þeim einungis veitt í heiðursskyni. Árið 2003 voru 5.816 meðlimir í akademíunni með kosningarétt við val á Óskarsverðlaunahöfum. Óskarsverðlaunin hafa verið veitt árlega frá 1929. Íslenskar tilnefningar til Óskarsverðlauna. Eftirtaldir íslenskir aðilar eða myndir hafa fengið tilnefningu Bandarísku kvikmyndaakademíunnar til Óskarsverðlauna. 76. Óskarsverðlaunahátíðin. 76. Óskarsverðlaunahátíðin var haldinn 2003. 18. mars. 18. mars er 77. dagur ársins (78. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 288 dagar eru eftir af árinu. Sjónvarpið. Sjónvarpið (einnig kallað "Ríkissjónvarpið") er eina ríkisrekna sjónvarpsstöðin á Íslandi. Hún hóf útsendingar þann 30. september 1966. Sjónvarpið er deild innan Ríkisútvarpsins, "RÚV", sem einnig rekur þrjár útvarpsstöðvar. Þegar sjónvarpið hóf göngu sína var aðeins sent út tvisvar sinnum í viku, á föstudögum og miðvikudögum en smátt og smátt jukust útsendingar. Fljótlega var sent út alla daga nema fimmtudaga. Einnig fór sjónvarpið í sumarfrí í júlí allt þar til 1983 og voru þá engar útsendingar í gangi. Það var svo ekki fyrr en 1. október 1987 sem sjónvarpið hóf göngu sína 7 daga vikunnar. Nú á dögum er sjónvarpað allan sólarhringinn. Fréttaþjónusta landsmanna batnaði til muna þegar erlendar fréttir fóru að berast gegnum gervihnött, en það gerðist í fyrsta skipti í september árið 1981 gegnum jarðstöðina Skyggni í Mosfellsbæ. Fyrir stofnun RÚV hafði aðeins kanasjónvarpið verið í gangi og mjög fáir höfðu aðgang að sjónvarpi. Útvarpið var þá aðalfjölmiðillinn fyrir utan dagblöðin. Gettu betur. Gettu betur er spurningakeppni íslenskra framhaldsskóla sem Ríkisútvarpið stendur fyrir árlega. Hver framhaldsskóli getur sent eitt lið í keppnina, sem skipað er þremur nemendum við skólann. Undankeppni fer fram í útvarpi og að henni lokinni halda átta lið áfram í útsláttarkeppni í sjónvarpinu. Úrslit til ársins 2000 eru hér. Úrslit frá og með 2001 eru hér. Saga keppninnar. Keppnin var fyrst haldin árið 1986 og hefur farið fram árlega síðan þá. Keppnin hefur verið einn vinsælasti dagskrárliður Ríkisútvarpsins frá upphafi. Umsjónarmaður keppninnar frá upphafi hefur verið Andrés Indriðason. Forkeppnin hefst í janúar ár hvert og fer fram í útvarpi. Að tveimur umferðum loknum eru átta lið eftir og heldur keppnin áfram í sjónvarpssal. Árið 2009 var metár í sögu Gettu betur. Þá tók alls 31 skóli þátt og hafa þeir aldrei verið fleiri. Alls hafa níu skólar sigrað keppnina og er Menntaskólinn í Reykjavík sá langsigursælasti með 18 sigra að baki. Næst á eftir kemur Menntaskólinn á Akureyri með þrjá sigra. Enn sem komið er hefur engum öðrum skóla tekist að sigra oftar en einu sinni. Aðstandendur. Spyrill stendur fyrir miðju og ber upp spurningarnar. Oft er starf spyrils í höndum einhvers þjóðþekkts einstaklings. Dómarinn semur spurningarnar og dæmir svörin. Frá upphafi hefur stigavörður setið á vinstri hönd dómara og talið stigin. Fyrir keppnina árið 2012 var ákveðið að leggja niður stigavarðarembættið og hafa í stað þess tvo dómara. Besti árangur einstakra skóla. Menntaskólinn í Reykjavík (18), Menntaskólinn á Akureyri (3), Menntaskólinn við Sund (1), Kvennaskólinn í Reykjavík (1), Fjölbrautaskóli Suðurlands (1), Menntaskólinn í Kópavogi (1), Borgarholtsskóli (1), Verzlunarskóli Íslands (1), Fjölbrautaskólinn í Breiðholti (1) Menntaskólinn við Hamrahlíð (6), Flensborgarskólinn (2), Verkmenntaskólinn á Akureyri (1) Menntaskólinn að Laugarvatni (3), Fjölbrautaskólinn við Ármúla (3), Menntaskólinn á Egilsstöðum (3), Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (1), Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri (1), Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (1), Verkmenntaskóli Austurlands (1), Menntaskólinn Hraðbraut (1) Fjölbrautaskóli Suðurnesja (4), Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (4), Fjölbrautaskóli Vesturlands (3), Framhaldsskólinn á Laugum (3), Framhaldsskólinn á Húsavík (1), Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (1) Menntaskólinn á Ísafirði (7), Menntaskóli Borgarfjarðar (2), Tækniskólinn (1), Fjölbrautaskóli Snæfellinga (1) Framhaldsskólinn i Mosfellsbæ, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Iðnskólinn í Hafnarfirði, Stýrimannaskólinn, Alþýðuskólinn á Eiðum, Skógaskóli, Samvinnuskólinn, Íþróttakennaraskóli Íslands Davíð Þór Jónsson. Davíð Þór Jónsson (fæddur 5. janúar 1965) varð landsþekktur skemmtikraftur í upphafi 10. áratugarins, þegar hann og Steinn Ármann Magnússon leikari settu upp stutta útvarpsleikþætti daglega á Aðalstöðinni. Leikþættina kölluðu þeir Flugur. Þeir þóttu grófir og í þeim var skopast að samkynhneigðum, kvenkyns íþróttamönnum, bifvélavirkjum og öðrum sem lágu vel við höggi. Saman kallaði tvíeykið sig Radíusbræður, og þeir tróðu víða upp með gríni í nokkur ár, aðallega í framhaldsskólum og á árshátíðum. Davíð Þór er útskrifaður guðfræðingur, hann var spyrill í Gettu betur 1996 – 98, hefur verið vinsæll viðmælandi í spjallþáttum í sjónvarpi og ritstjóri tímaritsins Bleikt & Blátt 1997 – 2001. Hann hefur starfað sem þýðandi, raddleikari og ljóðskáld. Davíð var spurningahöfundur og dómari í Gettu betur árin 2007 og 2009. Hann skrifaði Bakþanka í Fréttablaðið hálfsmánaðarlega frá 2006 – 2012. Radíusbræður. Radíusbræður var sviðsnafn Davíðs Þórs Jónssonar og Steins Ármanns Magnússonar, þegar þeir tróðu saman upp með framsæknu gríni á fyrri hluta tíunda áratugarins. Radíusbræður komu fyrst fram með útvarpsþáttinn "Radíus" á Aðalstöðinni. Síðar áttu þeir þátt í gerð sjónvarpsþáttanna Limbó í leikstjórn Óskars Jónassonar. Þeir þættir urðu skammlífir en RÚV hætti framleiðslu þeirra eftir tvo þætti. Síðar voru þeir með eigin þætti og stutt atriði í Dagsljósi. Stefán Pálsson. Stefán Pálsson (1975) er íslenskur sagnfræðingur og formaður Samtaka hernaðarandstæðinga og stjórnmálaskýrandi. Hann stundaði nám við MR þar sem hann tók þátt í spurningakeppninni Gettu betur og var hann í sigurliðinu 1995. Árin 2004 og 2005 gegndi hann sjálfur stöðu dómara í keppninni. Hann var á tímabili söngvari í pönk-hljómsveitinni Tony Blair. Hann er dyggur aðdáandi breska knattspyrnuliðsins Luton Town og leikur sjálfur í framlínu áhugamannaliðsins "Sheffield Tuesday". Stefán er mikill áhugamaður um viský. Auk Gettu betur tók Stefán einnig þátt í ræðukeppninni MORFÍS á menntaskólaárum sínum. Eftir að hann lauk námi og fram eftir þrítugsaldri kom hann að þjálfun bæði Gettu betur- og Morfís-liða ýmissa framhaldsskóla. Stefán hefur verið virkur í starfi Vinstri grænna, en hann var einnig einn stofnenda "Málfundafélags úngra róttæklinga" (MÚR) árið 1999, sem hélt úti vefritinu Múrinn fram til 2007. Eiginkona Stefáns er Steinunn Þóra Árnadóttir. Hermann Gunnarsson. Hermann Gunnarsson, þekktastur sem „Hemmi Gunn“ (9. desember 1946 – 4. júní 2013), var landsþekktur íþróttafréttamaður, skemmtikraftur, þáttastjórnandi og einn fremsti knattspyrnumaður Íslendinga á 20. öld. Hermann var án efa þekktastur fyrir geysivinsælan skemmtiþátt sinn "Á tali hjá Hemma Gunn", sem sýndur var á RÚV síðasta áratug 20. aldar. Ævi Hermanns. Hermann var einn fremsti knattspyrnumaður Íslands á sjöunda áratugnum. Hann spilaði með Val á blómaskeiði félagsins en var einnig landsliðsmaður. Hemmi þótti einnig nokkuð liðtækur í handbolta og lék nokkra landsleiki í íþróttinni. Hann átti meðal annars markametið yfir flest mörk skoruð í landsleik í mörg ár, þar til það var bætt af Gústaf Bjarnasyni í leik gegn Kína árið 1995. Hermann stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands. Að knattspyrnuferlinum loknum tók hann til starfa sem íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Hann starfaði þar um árabil, þó ekki væri hann alltaf íþróttafréttamaður. Á níunda áratugnum hóf hann að stjórna sínum eigin sjónvarpsþætti hjá RÚV, "Á tali hjá Hemma Gunn". Í lok mars 2005 hóf göngu sína nýr tónlistargetraunaþáttur undir stjórns Hermanns, "Það var lagið", sem sýndur var á Stöð 2. Stjórnaði þættinum "Í sjöunda himni" á Stöð 2 veturinn 2006-'07. Hefur sungið á hljómplötum, bæði einn og með öðrum, meðal annars með Ladda. Hemmi hefur einnig gefið sjálfur út hljómplötu, Frískur og fjörugur. Á henni er að finna lög eins og Einn dans við mig og Fallerí, fallera. Hann starfaði lengi sem fararstjóri og rak veitingastað í Tælandi. Árið 2003 starfaði hann sem kynningarstjóri "Vestfirska forlagsins". Hermann varð bráðkvaddur í Tælandi 4. júní 2013. Íslandsklukkan. Íslandsklukkan er söguleg skáldsaga eftir Halldór Laxness. Hún kom út í þremur hlutum á árunum 1943-1946: "Íslandsklukkan" (1943), "Hið ljósa man" (1944) og "Eldur í Kaupinhafn" (1946). Söguþráður. Fyrsti hluti sögunnar segir frá Jóni Hreggviðssyni, bónda á Rein, og baráttu hans við yfirvöld. Jón er dæmdur til dauða fyrir að drepa kóngsins böðul, Sigurð Snorrason, en sleppur úr haldi með hjálp Íslandssólarinnar Snæfríðar og flýr til Danmerkur þar sem hann ætlar sér að freista þess að ná tali af konungi og fá náðun. Snæfríður Íslandssól, dóttir Eydalíns lögmanns (Snæfríður Björnsdóttir Eydalín), er í aðalhlutverki í öðrum hlutanum. Snæfríður er kynnt til sögunnar í fyrsta hlutanum þar sem hún ferðast um landið með Arnasi Arnæus og síðar þegar hún fær varðmann til að leysa Jón Hreggviðsson úr haldi á Alþingi. Í öðrum hlutanum er Snæfríður gift Magnúsi í Bræðratúngu, þrátt fyrir að hafa elskað Arnas. Þriðji hlutinn fjallar svo um Arnas Arnæus og örlög bókasafns hans í Kaupinhafn. Arnas giftist Snæfríði aldrei, heldur býr í Kaupinhafn með ríkri konu sem fjármagnar bókasöfnun hans. Allar koma aðalpersónurnar við sögu í öllum hlutum sögunnar, en rauði þráðurinn er barátta Jóns Hreggviðssonar. Fyrirmyndir og sögulegur bakgrunnur. "Höfundur vill láta þess getið að bókin er ekki „sagnfræðileg skáldsaga“, heldur lúta persónur hennar, atburðir og stíll einvörðúngu lögmálum verksins sjálfs." Þrátt fyrir þetta er ljóst að rætur sögunnar liggja djúpt í þjóðfélagsveruleika sögutímans. Fleiri persónur sögunnar eiga sér fyrirmyndir í raunveruleikanum, t.d. allir þeir Íslandskaupmenn sem nefndir eru og ýmsar aðrar minni háttar persónur. Halldór notar sér annála töluvert. Stundum nánast orðrétt, til dæmis lýsinguna á bruna Kaupinhafnar í fimmtánda kafla þriðja bindis, sem er tekin úr Hítardalsannál. Einnig nýtir hann sér annað aðsótt efni eftir föngum en samsamar það þó sögunni og fær því þannig nýja merkingu og nýtt hlutverk. Það sem enginn sér. Það sem enginn sér er sönglag, sem var fulltrúi Íslands í Evróvisjón, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1989, og fyrsta íslenska lagið til að hljóta engin stig í keppninni. Lagið og textinn eru eftir Valgeir Guðjónsson, en flytjandi var Daníel Ágúst Haraldsson. Sjálfstætt fólk. Sjálfstætt fólk er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem var gefin út í fjórum bindum á árunum 1933-1935 þ.e.a.s. Landnámsmaður Íslands, Skuldlaust bú, Erfiðir tímar og Veltiár. Seinna meir voru bindin sameinuð í eina bók og er sú bók nefnd Sjálfstætt fólk. Bókin er ein þekktasta íslenska skáldsagan, hún er kennd á framhaldsskólastigi á Íslandi. Sagan er jafnan talin tilheyra félagslegri raunsæisstefnu í bókmenntafræðum og má ætla að hún gerist á árunum 1899-1921 á Íslandi. Söguþráður. Sagan fjallar um Guðbjart Jónsson, Bjart í Sumarhúsum, fjölskyldu hans og örlög þeirra. Sagan hefst þó á frásögn um Kólumkilla. Guðbjartur vann í 18 ár fyrir hreppstjórann í sveitinni meðal annars sem smali, en þá hafði hann loks safnað nægu fé til þess að kaupa sér sitt eigið land. Hann tók við landi er hafði verið í eyði sökum reimleika. Gunnvör og Kólumkilli voru draugar höfðu tekið þar bólfestu og rekið fyrrum ábúendur í burtu. Bjartur trúði ekki á drauga og lét það ekki aftra sér frá því að hefja búskap í Veturhúsum. Hann breytti nafninu á bænum í Sumarhús og reisti nýtt býli. Hann giftist stuttu síðar Rósu, sem lést af barnsförum ári síðar. Bjartur var staddur í leit að á þegar Rósa lést. Ásta Sóllilja, dóttir Rósu, rétt lifði af. Bjartur var mikill kvæðamaður og lagði ekki mikið í nútíma kveðskap, heldur vildi rím og hefðbundna bragarhætti. Síðari hluti sögunar fjallar að mestu um Ástu Sóllilju. Helstu sögupersónur. En auk þess kemur móðir Finnu, Hallbera, amma Guðbjartssonanna mikið við sögu. 26. mars. 26. mars er 85. dagur ársins (86. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 280 dagar eru eftir af árinu. Hamas. Hamas, skammstöfun fyrir Harakat al-Muqawamah al-Islamiyyah (Arabíska: Íslamska andspyrnuhreyfingin), eru herská palestínsk múslimasamtök sem starfa aðallega á Heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Nýlega hafa samtökin einnig orðið stjórnmálaflokkur og eru í meirihluta á þingi palestínumanna. Þau voru stofnuð af Ahmed Jassin síðla árs 1987, þá sem klofningshreyfing úr Bræðralagi Múslima, og helga sig stofnun íslamsks ríkis í Palestínu. Ísraelsríki, Bandaríkin, Evrópusambandið og fleiri lönd hafa skilgreint samtökin sem hryðjuverkasamtök. Þrátt fyrir þetta reka samtökin líka ýmsa samfélagsþjónustu svo sem heilsugæslu og skóla. Langafasta. Langafasta hefst á Öskudegi, miðvikudegi í 7. viku fyrir páska. "Föstuinngangur" stendur þangað til frá sunnudeginum á undan og getur borið upp á 1. febrúar til 7. mars og fara þeir víðast hvar í hinni vestrænu kirkju fram með fögnuði fyrir föstutímann. Hér á landi er í dag er ekki haldið upp á sunnudaginn lengur en hann hefur þó verið tengdur Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar, haldið er aftur á móti upp á mánudaginn með Bolludegi, þriðjudagin með Sprengidegi og svo hefst Langafasta á miðvikudeginum með Öskudegi. Siður er hér á landi að á lönguföstu séu Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í Ríkisútvarpinu. Uppruni. Lönguföstu kristinna má rekja til 40 daga föstu Gyðinga fyrir páska. Heilbrigðissjónarmið virðast hafa ráðið miklu um föstusiði eftir landsvæðum og síðar gildi þess meðal hirðingja að fella ekki lambfylltar ær sem áttu að bera á páskunum. Gyðingar skipuðu því bann við kjötáti sjö vikurnar fyrir Páska og er það frumgerð Lönguföstu eins og hún er tímasett í dag. Páskarnir voru því uppskeruhátíð og nýfæddum lömbum slátrað við mikil hátíðarhöld. Páskalambið sem trúartákn er frá þessum tíma runnið. Á dögum Krists voru gyðingar ekki lengur hirðingjar en páskalambið lifði áfram sem trúartákn en í stað þess voru þeir orðin akuryrkjuþjóð og því var hátíð ósýrða brauðsins búin að bætast við tákn Páskanna. Páskafasta kristinna manna var upphaflega ekki lengri en föstudagurinn langi og laugardagurinn eftir eða sá tími sem Jesús hvíldi í gröf sinni. Um miðja 3. öld var þó víða orðið siður meðal kristinna safnaða að fast eina til tvær vikur fyrir Páska. En á fyrri hluta 4. öld varð 40 daga fastan ráðandi. Með því var föstutími gyðinga tekin upp að nýju en þá undir þeim formerkjum að Jesús hafi fastað 40 daga í eyðimörkinni og Móses dvalist jafnlengi á Sínaífjalli. Um miðja 5. öld útskýrði Leó páfi 1. tilgang lönguföstu sem að hún ætti að undirbúa sálina fyrir páskaundrið með innri hreinsun og helgun. Hún var því tími iðrunar fyrir drýgðar syndir. Sjálf fastan var mikilvægasti þáttur þessa undirbúnings. Föstuhald var misstrangt í kaþólskum sið, kjöt var efst á bannlistanum þá egg og smjör svo fiskur næst grænmeti og mjólkurvörur en ströngust var fasta upp á vatn og brauð. Mismunandi var hve mikið eða hve oft mátti neita þessa matar en fasta er ekki megrun né svelti heldur aðhald og agi í mataræði. Föstuinngangur. Föstuinngangur er upphaf langaföstu sem stendur yfir þrjá daga fyrir öskudag, frá sunnudegi til þriðjudags. Hann fer víðast fram með fögnuði fyrir föstutímann. Gleðskapur við upphaf föstunar á sér fornar rætur og hefur runnið saman við vorhátíðir í Suður-Evrópu. Algengt var að stéttir samfélagsins hæfu föstu hver sinn dag í föstuinngang og gat því orðið samfeld kjötkveðjuhátíð í nokkra daga. Við siðaskiptin var gerð hörð hríð að þessum siðum og til dæmis bannaði Danakonungur föstugangshlaup í löndum sínum á 17. öld en ekkert er vitað um slíka skemmtun á Íslandi fyrr en á 18. öld. Heimildir geta um matarveislur á þriðjudaginn, sprengidagskvöld, og telja má víst að saga þeirra nái aftur til kaþólskra tíma. Ekki var haldið upp á mánudaginn fyrr en á 19. öld með Bolludeginum en miðvikudagurinn hafi breyst úr iðrunardegi í skemmtidag eftir siðaskiptin á 16. öld. Valur Gunnarsson. Valur Snær Gunnarsson (f. 26. ágúst 1976) er íslenskur rithöfundur, blaðamaður, ritstjóri og fyrrum söngvari rokkhljómsveitarinnar Ríkið sem flutti pólitískt rokk. Árið 2000 gaf hann út sólóplötu, "Reykjavík er köld", þar sem hann söng lög eftir Leonard Cohen í eigin þýðingu. Árið 2003 gaf Ríkið út fyrstu og einu plötu sína, "Seljum allt", með textum eftir Val. Valur var þekktur fyrir óvenjulega sviðsframkomu þar sem hann leitaði sér fyrirmynda í pönkinu og meðal óheflaðra rokkara. Þegar Valur kom fram ásamt "Ríkinu" var hann jafnan klæddur hermannajakka, nokkrum númerum of litlum. Valur var ritstjóri Reykjavík Grapevine til ársins 2005 og hefur eftir það fengist við skriftir og blaðamennsku, m.a. á DV og Fréttablaðinu. 2007 kom út eftir hann skáldsagan "Konungur norðursins" sem fékk almennt góða dóma. Passíusálmarnir. Passíusálmarnir eru sálmar eftir Hallgrím Pétursson, sem hann orti á árunum 1656-1659. Þeir teljast vera höfuðverk hans og hafa verið hluti af páskahefð Íslendinga um margra alda skeið. Sálmarnir eru 50 talsins og í þeim er píslarsaga Krists rakin af mikilli innlifun. Þeir hafa komið út á íslensku oftar en 80 sinnum og hafa verið þýddir á fjöldamörg önnur tungumál. Sálmarnir eru fluttir í Ríkisútvarpinu á föstunni ár hvert, og hafa einnig verið fluttir í heild sinni á Föstudaginn langa í Hallgrímskirkju síðan hún var vígð. Séra Hjörleifur Þórðarson á Valþjófsstað (d. 1786 um nírætt) þýddi Passíusálma Hallgríms á latínu, og var sú þýðing gefin út í Kaupmannahöfn 1785, og nefndist: "Quinquaginta psalmi passionales". Formála Passíusálmanna lýkur með orðunum "Vale pie lector" (latína: „Sæll, guðhræddi lesandi“ eða „Vertu sæll góði lesandi“). Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið ohf. (skammstafað RÚV'";) er opinbert hlutafélag staðsett á Íslandi, sem hóf göngu sína árið 1930 og sér um útsendingar á útvarpi og sjónvarpi. Það sendir út eina sjónvarpsstöð sem heitir Sjónvarpið en er oft í daglegu tali kölluð Stöð 1 eða RÚV. Það rekur þrjár útvarpsstöðvar, Rás 1 sem einbeitir sér að dagskrárgerð í kring um talmál og tónlist, Rás 2 sem hefur það verksvið að fjalla um tónlist, dægurmál og fleira í þeim dúr og Rondó sem sendir stafrænt út á höfuðborgarsvæðinu og spilar klassíska tónlist og djass allan sólarhringinn. Einnig starfrækir RÚV fjórar deildir á landsbyggðinni sem sinna fréttaþjónustu á sínum svæðum og senda út staðbundna dagskrá á vissum tímum, deildirnar eru á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Þar að auki rekur Ríkisútvarpið frétta- og dagskrárvefinn ruv.is og textavarpið. Ríkisútvarpið er fjármagnað með auglýsingum og afnotagjöldum sem öllum eigendum sjónvarps- og útvarpstækja ber skylda til að greiða. Útvarp. Ríkisútvarpið hóf útsendingar 20. desember 1930, en fyrir þann tíma höfðu verið starfræktar einkareknar útvarpsstöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Fyrstu ár útvarpsins var bara sent út á einni rás og í nokkra klukkutíma á kvöldi. Fyrsti útvarpstjórinn var Jónas Þorbergsson. Ríkisútvarpið þurfta að fara eftir ákveðnum útvarpreglum svo sem að rækta íslenska tungu og sögu íslands. Einnig þurftu þeir að vera með einhverskonar fréttir og láta í ljós mismunandi skoðanir fyrir fólk til umhugsunar. Það þurfti líka að huga að hafa skemmtiefni fyrir almenning og einnig eitthvað uppbyggilegt barnaefni fyrir krakka á öllum aldri. Árið 1983 hóf svo Rás 2 útsendingar sínar. Í fyrstu átti sú stöð að vera fyrir yngri kynslóðina t.d fyrir unglingana – þar voru t.d. spilaðir poppþættir og nútímalegra efni en á Rás 1 – en í dag er dagskráin mjög fjölbreytt. Sama má reyndar segja um Rás 1, en þó eru gerðar þar meiri kröfur um að efni sé meira unnið, meira lagt í dagskrárgerðina. Dagskrárfólk á Rás 1 keppist við að vinna vandað efni af öllu tagi. Þar má heyra reglulega leikritaflutning. Útvarpsleikhúsið hefur starfað reglubundið frá árinu 1947 og sendir jafnan út á Rás 1, þó stundum séu einnig útsendingar frá leikhúsinu á Rás 2. Á Rás 1 er sendir út reglulega tónleikar frá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eldra fólk hlustar mikið á Rás 1 en það er víðari hlustendahópur á Rás 2. Sjónvarp. Sjónvarpið hóf göngu sína þann 30. september árið 1966. Almennt. Sjónvarpið og útvarpið eru nú í sama húsi eða frá árinu 2000 við Efstaleiti 1. Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn hér á landi sem leiðbeinir starfsmönnum um íslenskt mál og hefur markað sér stefnu í þeim málum. Útvarpsstjóri í dag (2013) er Páll Magnússon og hefur hann það hlutverk að annast rekstur og fjármál ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri gegnir starfi sínu í fimm ár í senn en þá skipar menntamálaráðherra nýjan. Ætlunarverk ríkisútvarpsins samkvæmt vef þeirra er að vera í fararbroddi íslenskra fjölmiðla með því að bjóða landsmönnum fjölbreytta og vandaða dagskrá í samræmi við menningar- og lýðræðishlutverk sitt. Með lögum sem sett voru 23. janúar 2007 var Ríkisútvarpinu breytt í opinbert hlutafélag. Mikil óánægja var um frumvarpið meðal stjórnarandstöðunnar sem að beitti málþófi til þess að tefja framgöngu þess en yfir 100 klukkustundir fóru í umræður. Frumvarpið var á endanum samþykkt með 29 atkvæðum gegn 21, 13 þingmenn voru fjarstaddir og tók það gildi 1. apríl 2007. Eðlisfræði. Eðlisfræði er sú grein náttúruvísindanna sem fjallar um samhengi efnis, orku, tíma og rúms og beitir vísindalegum aðferðum við hönnun líkana, sem setja náttúrufyrirbæri í stærðfræðilegan búning. Eðlisfræðingar rannsaka m.a. víxlverkun efnis og geislunar og samhengi efnis og orku, tíma og rúms án þess að reyna að svara grundvallarspurningum eins og hvað efni, orka, tími og rúm eru. Eðlisfræðin skýrir efni þannig að það sé samsett úr frumeindum, sem eru samsettar úr kjarneindum, sem aftur eru gerðar úr kvörkum. Efni og orka eru í raun sama fyrirbærið samkvæmt afstæðiskenningunni. Geislun er skýrð með ljóseindum og/eða rafsegulbylgjum (tvíeðli). Lögmál eðlisfræðinnar eru flest sett fram sem stærðfræðijöfnur, yfirleitt sem línulegt samband tveggja stærða, eða sem 1. eða 2. stigs deildajöfnur. Nútímaeðlisfræðin reynir að sameina megingreinar eðlisfræðinnar, rafsegulfræði ("rafsegulkrafturinn"), þyngdaraflsfræði ("þyngdarkrafturinn") og kjarneðlisfræði ("sterka- og veika kjarnakraftinn") í eina allsherjarkenningu. Helstu greinar eðlisfræðinnar. Klassísk aflfræði — Rafsegulfræði — Varmafræði — Afstæðiskenningin — Safneðlisfræði — Stjarneðlisfræði — Ljósfræði — Skammtafræði — Öreindafræði — Kjarneðlisfræði — Þétteðlisfræði Spil. Spil eða leikur er athöfn ætluð til að skemmta einum eða fleiri leikmönnum. Leiki má skilgreina út frá a) markmiðum sem leikmönnum er ætlað að ná, og b) þeim reglum sem leikmenn verða að fylgja. Sumir leikir eru bara fyrir einn leikmann, en yfirleitt eru þeir ætlaðir fleiri leikmönnum sem keppa sín á milli. Yfirleitt þurfa leikmenn að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á velgengni þeirra í leiknum, ákvarðanirnar þurfa þó að vera teknar í samræmi við settar reglur. Það kallast yfirleitt svindl ef leikmaður fylgir ekki reglunum í athöfnum sínum, og talað er um að leikmaður hafi rangt við. Frá örófi alda hafa menn leikið leiki, sér og öðrum til skemmtunar. Fjölmargar tegundir leikja hafa orðið til; nokkrar þeirra eru listaðar neðar á síðunni. Heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein færði rök fyrir því í riti sínu, "Philosophische Untersuchungen" ("Rannsóknum í heimspeki"), að hugtakið „leikur“ yrði ekki skilgreint með einföldum hætti, heldur yrði að líta svo á að einungis væri hægt að skilgreina hugtakið með fjölda mismunandi skilgreininga sem deila einhverjum líkindum. Tölvuleikur. Tölvuleikur er hvers kyns leikur sem leikinn er í tölvu eða leikjatölvu. Þeir eru margs konar; spilakassaleikir, sjónvarpsleikir, textaleikir, netleikir og herkænskuleikir hafa t.d. verið vinsælar tegundir. Upp á síðkastið hafa tölvuleikir í auknum mæli verið notaðir til auglýsinga og í stafrænni list. Vélbúnaður. Tölvuleikir eru spilaðir á ýmiskonar vélbúnaði. Algengustu gerðir eru heimilistölvur eða leikjatölvur. Aðrar gerðir af vélbúnaði eru handleikjatölvur eins og Nintendo DS leikjatölvan eða spilakassar sem eru sérstaklega hannaðir til þess að spila tölvuleiki. Á síðustu árum hefur sú þróun átt sér stað að raftæki sem áður fyrr notuðust ekki við hugbúnað hafa í sífellt meiri mæli notast við hugbúnaðarlausnir. Þar af leiðandi er hægt að spila tölvuleiki á enn fleiri miðlum en áður. Sem dæmi um vélbúnað sem getur spilað tölvuleiki en er ekki sérhannaður til þess eru farsímar, lófatölvur, grafískar reiknivélar, GPS-tæki, MP3-spilarar, stafrænar myndavélar og úr. Flokkar. Tölvuleikir eru eins og bækur, bíómyndir og tónlist oft flokkaðir niður í mismunandi gerðir. Algengast er að flokka tölvuleiki eftir því hvernig þeir eru spilaðir líkt og í ævintýraleiki, skotleiki, bardagaleiki og þrautaleiki. Til eru margir undirflokkar og hægt er að setja suma leiki í marga flokka á meðan erfitt er að flokka aðra. Sem dæmi um tölvuleik sem hægt væri að flokka á marga vegu er leikurinn Doom 3. Hann er fyrst og fremst fyrstu persónu skotleikur en einnig væri hægt að flokka hann sem hryllingsleik. Stjórntæki. Það fer eftir gerð leiks og á hvernig tölvu hann er spilaður, hvernig stjórntæki eru notuð. Í venjulegum heimilistölvum er oft notast við lyklaborð, mús eða bæði lyklaborð og mús í einu. Á heimilistölvum er einnig hægt að kaupa sérstaka stýripinna fyrir leiki og eru sérhannaðir stýripinnar fyrir flugherma og bílaleiki þónokkuð algengir. Á leikjatölvum er langalgengast að notast sé við sérstaka stýripinna sem eru sérhannaðir fyrir hverja tölvu og fylgja þá oft með tölvunni sjálfri. Fyrstu leikjatölvurnar notuðust við lyklaborð og einfalda stýripinna en eftir því sem leikjatölvurnar þróuðust hurfu lyklaborðin smám saman. Stýripinnar fyrir leikjatölvur hafa þróast mikið frá upphafi og með hverri kynslóð af leikjatölvum koma oftast einhverjar nýjungar fram á sjónarsviðið. Á leikjatölvum er einnig hægt að kaupa sérhannaða stýripinna sem oft eru sérhannaðir fyrir sérstaka leiki. Í skotleikjum á borð við Duck Hunt og House of the Dead 2 er notast við sérstakar tölvuleikjabyssur og í leiknum Guitar Hero er notast við sérstakan tölvuleikjagítar. Kenningar. Þrátt fyrir það að tæknilegir þættir tölvuleikja hafa verið rannsakaðir í mörg ár eru rannsóknir um áhrif tölvuleikja á samfélagið skemmra á veg komnar. Samfélagslegar rannsóknir eru gerðar á sviði frásagnarfræði og leikjarannsókna. Sögumenn líta á tölvuleiki sem miðil þar sem einstaklingar fá að vera aðrar persónur og taka ákvarðanir í nýjum heimi með hliðsjón af Holodeck-tækninni úr Star Trek. Fræðimenn á sviði leikjarannsókna eru ósammála þessari skoðun og telja tölvuleiki byggjast fyrst og fremst á umhverfi og reglum leikjanna. Rök þeirra eru að söguþræðir og persónur séu ekki nauðsynlegar í leikjum. Tölvuleikir notast hins vegar oft við söguþráð meðal annars vegna þess að almenningur er vanur því að ýmsir skemmanamiðlar eins og kvikmyndir geri slíkt hið sama. Söguþráður í tölvuleikjum er þannig oft notaður til þess að draga spilara að leiknum.. Félagsleg áhrif. Í rannsókn sem GameVision Europe gerði í ríkjum Evrópusambandsins voru 54% leikmanna sem spila leiki á farsímum eða lófatölvum, 20% leikmanna eru kvenkyns og 21% spila tölvuleiki með vinum. Tölvuleikir hafa lengi verið félagsvænir. Fjölspilunarleikir eru spilaðir af nokkrum leikmönnum, ýmist sem keppnisleikur eða með nokkrum stýripinnum. Leikjatölvur hafa síðan þá komið með tveimur eða fjórum tengjum fyrir stýrapinna. Heimilistölvur einblýna frekar á netið fyrir fjölspilun, ýmist í gegnum staðarnet eða internetið. Fjöldanetspunaleikir geta tekið við gríðarlega háum fjölda leikmanna; EVE Online setti met með 54.446 leikmenn á einum netþjón árið 2010. Kostir tölvuleikja. Rannsóknir sýna að leikmenn sem spila tölvuleiki hafa betri samhæfingu augna og handa ásamt betri samhæfingu miðtaugakerfisins og vöðva, sem leiðir af sér betra þol fyrir truflunum og talningu hluta sem eru sýnd í skamman tíma, heldur en þeir sem spila ekki tölvuleiki. Í bók Steven Johnson, "Everything Bad is Good for You", færir hann rök fyrir því að tölvuleikir séu erfiðari en hefðbundin spil. Tölvuleikir halda aftur mikilvægum upplýsingum svo að leikmaðurinn þarf að átta sig á umhverfi leiksins. Flestir leikir gera kröfu um mikla athygli og þeir fresta ánægju mun lengur en aðrar skemmtanir. Leikmenn eru með einbeitt viðhorf gangvart tölvuleikjum. Einbeitingin er það mikil að þeir glíma við vandann án þess að átta sig á því að þeir séu að læra í leiðinni. Ef að sama viðhorfið gæti verið yfirfært yfir á skólana þá myndi menntun þeirra verða mun betri. Með því að leysa þrautir leikja læra þær og það eflir skapandi hugsun. Gagnrýni. Gagnrýni tölvuleikja beinist að fíkniefnum, ofbeldi, áróðri og orðbragði leikjanna. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli ofbeldisfullra leikja og árásarhneigðar. Rök eru færð fyrir því að tölvuleikir séu miðill sem einstaklingar geti lært af og hermt eftir í daglegu lífi. Nokkur samtök flokka tölvuleiki eftir aldri, eins og PEGI sem flokkar leiki í Evrópu og þar á meðal á Íslandi. Þessi samtök eru ýmist í einkaeigu eða í eigu ríkisins. Flestir leikir birta einkunn sína á framhlið vörunnar, en margir foreldrar eru óupplýstir um þessar merkingar. Sölutölur leikja. Stærstu framleiðendur tölvuleikja (í þessari röð) eru: Bandaríkin, Kanada, Japan og Bretland. Írar eru stærstu kaupendur tölvuleikja eftir höfðatölu. Leikjatölva. Leikjatölva er tölva sem er sérhönnuð með það í huga að spila sjónvarpsleiki. Yfirleitt er ætlast til að tölvan sé tengd sjónvarpi og það notað í stað tölvuskjás. Handleikjatölva er leikjatölva sem hönnuð er til að ferðast með. Fyrstu leikjatölvurnar komu út á áttunda áratugnum en þeim er oftast skipt í nokkrar kynslóðar til að aðgreina munina á þeim. Helstu framleiðendur leikjatölva í dag eru Microsoft, Nintendo og Sony, en Atari og Sega voru bæði áhrífarík fyrirtæki á sínum tíma. Fyrsta kynslóð. Magnavox Odyssey var fyrsta heimaleikjatölva en hún kom út árið 1972 Magnavox Odyssey var fyrsta heimaleikjatölva sem hægt var að tengja við sjónvarp, hún var fundin upp af Ralph H. Baer og kom á markaðinn árið 1972. Hún var sæmilega vel heppnuð en almenningurinn hafði ekki mikinn áhuga á tölvuleikum þangað til PONG frá Atari kom út. Fyrir haustið 1975 hætti Magnavox framleiðslu á Odyssey og kom smærri leikjatölvu á markaðinn sem hét Odyssey 100. Með henni var aðeins hægt að spila PONG og hokkí. Önnur leikjatölva sem hét Oydssey 200 kom út með stigum á skjánum, möguleika að láta allt að fjóra spilara spila og öðrum leik: "Smash". Atari framleiddi leikjatölvu fyrir Pong sem kom út næstum samtímis en þessar tvær tölvur hjálpuðu að kveikja áhuga almennings á tölvuleikjum. Bráðum voru allmargar leikjatölvur á markaðnum með PONG-leikjum og leikjum byggðum á honum. Önnur kynslóð. a> var vinsælasta leikjatölva annarar kynslóðar Fairchild setti Video Entertainment System (VES) á markaðinn árið 1976. Þó að það hefði verið aðrar leikatölvur sem notuðu hylki innihéldu þau ekki gögn og voru þess í stað notuð sem rofa (í til dæmis Odyssey), eða þau innihéldu öll gögn um leikinn og engin gögn voru í leikjatölvunni sjálfri. Hins vegar var VES með forritanlegum örgjörva og þannig þurfti aðeins einn minniskubb í hverju hylki til að geyma leiðbeiningar fyrir örgjörvann. Bráðum hófu bæði RCA og Atari framleiðslu á leikjatölvum sem notuðu hylki. Árið 1977 byrjuðu leikjatölvuframleiðendur að selja gömlu vörurnar sínar með háum afslætti en þetta dró úr eftirspurn eftir öðrum leikjatölvum og þá hættu RCA og Fairchild að selja leikjatölvurnar sínar. Þess vegna voru bara Atari og Magnavox eftir í þessum markaði. Seinna hættu þau líka að framleiða leikjatölvur. VES seldist áfram eftir 1977 og skilaði hagnaði en svo gaf Bally út Home Library Computer (árið 1977) og Magnavox Odyssey² (árið 1978) sem báðar voru forritanlegar leikjatölvur sem notuðu hylki. Samt sem áður var það ekki fyrir árið 1980 þegar Atari kom leiknum "Space Invaders" út að markaðurinn yrði aftur í góðu lagi. Vinsældir "Space Invaders" voru miklar og svo komu margir slíkir leikir á markaðinn á þessum tíma í samkeppni við hann. Margir keyptu sér Atari 2600 bara til að spila "Space Invaders". Í byrjun níunda áratugarins komu margar aðrar leikjatölvur út og þó að sumar væru betri en Atari 2600 á tæknilegan hátt seldust þær ekki eins vel og hún. Atari 5200 kom út árið 1982 en næsta árið 1983 var annar samdráttur á tölvuleikjamarkaðnum vegna mikillar samkeppni og leikja sem voru óvinsælir hjá spilurum, eins og "E.T." frá Atari. Flest tölvuleikjafyrirtæki urðu gjaldþrota eða hættu í tölvuleikjamarkaðnum. Mattel Electronics seldi framleiðsluleyfi á Intellivision-tölvunni fyrirtækinu INTV Corporation sem hélt áfram að selja hana og framleiða hana þar til ársins 1991. Sölum allra annarra bandarískra leikjatölva var hætt fyrir árið 1984. Þriðja kynslóð. a> endurkveikti áhuga á tölvuleikjum eftir 1983 Árið 1983 kom Nintendo Family Computer út (eða Famicom) í Japan. Eins og ColecoVision var Famicom með hágæðagrafík en gæti sýnt fleiri liti. Þess vegna gætu leikir fyrir Famicom verið lengri og þeir höfðu nákvæmari grafík. Nintendo hóf sölum á Famicom í Bandaríkjunum árið 1965 undir nafninu Nintendo Entertainment System (NES). Þar voru tölvuleikir talnir tískufyrirbrigði sem var búið. Til þess að aðgreina tölvuna sína frá eldri leikjatölvum setti Nintendo hylkjarauf á framhliðina eins og það sem fannst á myndbandstæki og henni fylgdi "Super Mario Bros." og ljósbyssa frítt. NES var seld sem leikfang. Nintendo seldi líka „vélmenni“ sem hét R.O.B. en í sumum tilfellum fylgdi hún með tölvunni. Alveg eins og "Space Invaders" var vinsælasti leikurinn fyrir Atari 2600 var "Super Mario Bros" vinsælasti leikurinn fyrir NES. Velgengni Nintendo í tölvuleikjamarkaðnum endurvakti hann og í samkeppni við NES komu aðrar leikjatölvur út í kjölfar hennar. Ætlað var að Master System frá Sega gæti keppt á móti NES en hún seldist ekki vel í Bandaríkjunum. Henni gekk talsvert betra í löndum þar sem PAL-staðallinn er notaður, sérstaklega í Brasilíu. Fjórða kynslóð. Sega endurheimti markaðshlutdeild sinni með Genesis sem kom út í Japan 29. október 1988, ágúst 1989 í Bandaríkjunum (undir nafninu Sega Genesis) og svo árið 1990 í Evrópu eða tveimur árum fyrir að Nintendo gæti komið Super Nintendo Entertainment System (SNES) á markaðinn. Sega seldi líka geisladrifið Sega CD sem veitti meira geymsluplássi fyrir margmiðlunarleiki sem tíðkuðust þá hjá forriturum. Seinna kom Sega viðbótarverkfærið 32X á markaðinn sem bauð upp á svipaðri þrívíddargrafík eins og var í fimmtu kynslóðar leikjatölvum á þeim tíma. Þetta viðbótarverkfæri misheppnaðist vegna þess að fáir leikir virkuðu með því og forritarar vildu frekar forrita fyrir kraftmeiri leikjatölvur sem fleiri notuðu, eins og Sega Saturn sem kom út stutt síðan. Aðrar leikjatölvur fjórðu kynslóðar voru TurboGrafx-16 frá NEC og Neo Geo frá SNK Playmore. Fimmta kynslóð. a> varð vinsælasta leikjatölva fimmtu kynslóðar en yfir 100 milljónir eintaka seldust Fyrstu leikjatölvur fimmtu kynslóðar voru Atari Jaguar og 3DO frá Panasonic. Báðar þessar voru miklu kraftmeiri en Super Nintendo Entertainment System (SNES) eða Mega Drive/Genesis: þær voru betri í að sýna marghyrninga og gætu sýnt fleiri liti, og leikir fyrir 3DO-tölvuna voru seldir á diskum heldur en hylkjum. Diskarnir innihéldu meiri gögn og það var ódýrara að framleiða þá. Hvorug þessara leikjatölva hafði mikil áhrif á sölum Nintendo eða Sega þó að þær voru betri. 3DO kostaði meira en bæði SNES og Mega Drive saman og það var ákaflega erfitt að forrita leiki fyrir Jaguar og þess vegna voru fáir leikir sem nýttu hana að fullum krafti. Báðar þessar tölvur voru teknar af markaðnum árið 1996. Bandai tilkynnti vél sem byggð var á Apple Macintosh og hét Pippin en hún var frekar heimilstölva á lágu verði en góð leikjatölva. Henni gekk illa á markaðnum. Fimmtu kynslóðar leikjatölvur voru ekki svo vinsælar áður en Saturn frá Sega, PlayStation frá Sony og Nintendo 64 komu út. Leikir fyrir Saturn og PlayStation fengust á geisladiskum en leikir fyrir N64 voru á hylkjum. Allar þessar vélar kostuðu miklu minna en 3DO og það var auðveldara að forrita þær en Jaguar. Sjötta kynslóð. Í þessari kynslóð urðu leikjatölvur meira eins og borðtölvur og það tíðkaðist að nota DVD-diska fyrir leiki í stað geisladiska. Í kjölfar þess komu út lengri leikir og með betri grafík. Þar að auki voru tilraunir með netleiki gerðar og sumum vélum fylgdu harðir diskar til að vista gögn. Dreamcast frá Sega kom út í Norður-Ameríku 9. september 1999 en hún var síðasta leikjatölvan frá fyrirtækinu. Hún var meðal fyrstu fimmtu kynslóðar leikjatölvanna sem hætt varð í framleiðslu. Sérstakir diskar sem hétu GD-ROM voru notaðir til að hindra ólöglega útgáfu leika þar sem auðvelt var að afrita diska fjórðu kynslóðar en um síðir var farið í kringum þetta. Hætt var að selja Dreamcast mars 2001 og Sega fór þá bara að framleiða leiki. Dreamcast var líka með 33,6Kb eða 56k mótaldi sem maður gæti notað til að komast á netið eða spila nokkra leiki, eins og Phantasy Star Online. PlayStation 2 frá Sony kom út í Norður-Ameríku 26. október 2000 og leysti PlayStation af hólmi. Hún var líka fyrsta leikjatölvan sem gat spilað DVD-diska. Eins og gert var með PlayStation árið 2000 endurhannaði Sony PlayStation 2 í minni útgáfu árið 2004. Frá og með júlí 2008 höfðu um 140 milljónir eintaka PlayStation 2 selst og þetta gerir hana þá leikjatölvu allra tíma sem selst hefur best. Microsoft gaf út fyrstu leikjatölvuna sína árið 2001 en hún heitir Xbox. Henni var fyrsta leikjatölvan sem fygldi harður diskur til að vista leiki og var svipuð í hraða ódýrri borðtölvu á sínum tíma. Þó að hún var dæmd fyrir stærð sína (hún var tvisvar sinnum stærri en aðrar leikjatölvur þátímans) og stýribúnaðinn sem var talinn erfiður í notkun varð hún vinsælla vegna velgegni leikjaraðarinnar "Halo". Xbox var fyrsta leikjatölvan með Ethernet-tengi og bauð upp á háhraðanetleikum í gegnum Xbox LIVE. Nintendo kom út með GameCube í Norður-Ameríku 18. nóvember 2001 og var fjórða heimaleikjatölvan frá fyrirtækinu en sú fyrsta sem notaði geisladiska í stað hylkja. Geisladrifið í GameCube tók ekki við venjulegum 12 cm-diskum en aðeins smærri 8 cm-diskum. Sjöunda kynslóð. a> er vinsæl sjöundu kynslóðar leikjatölva Miklar framfarir hafa verið í leikjatölvum sjöundu kynslóðar. Fleiri disktegundir voru tilkynntar, eins og Blu-ray í PlayStation 3 og HD DVD í Xbox 360 í gegnum aukahluta en síðar var henni hætt í framleiðslu þegar Blu-ray varð vinsælli. Allar leikjatölvur sjöundu kynslóðar styðja þráðlaus stjórntæki. Sumar fjárstýringar eru búnar hreyfiskynjun sem skynja hreyfingar spilarans. Xbox 360 frá Microsoft var fyrsta leikjatölva þessarar kynslóðar en hún kom út 22. nóvember 2005 í Bandaríkjunum. Hún var kraftmeiri en allar aðrar leikjatölvur þegar hún kom út þangað til PlayStation 3 var sett á markaðinn. Öllum Xbox 360 vélum fylgir færanlegur harður diskur nema þeim sem fylgir SSD-diskur. Í henni er DVD-drif sem les leikjadiska og mynddiska. Hægt er að tengja allt að fjögur stjórntæki við hana. Í dag fást tvær útgáfur af Xbox 360, ein með hörðum diski og önnur með SSD. Myndavél sem heitir Kinect er hægt að tengja við Xbox 360 svo að hún skynji hreyfingar spilara. PlayStation 3 frá Sony kom út í Japan 11. nóvember 2006, 17. nóvember sama ár í Norður-Ameríku og svo 23. mars 2007 í Evrópu. Allar PlayStation 3 vélar eru búnar hörðum diskum og geta lesið Blu-ray leiki og mynddiska beint úr kassanum. PlayStation 3 var fyrsta leikjatölvan með HDMI-tengi og getur sýnt myndir í fullri 1080p upplausn. Eldri PlayStation 3 vélar styður minniskort eins og Memory Stick, SD og CompactFlash. Tvær gerðir af PlayStation 3 eru á markaðnum í dag: ein með 160 GB hörðum diski og önnur með 320 GB diski. Í þessar vélar er ekki hægt að setja minniskort. Stjórntæki sem heitir PlayStation Move gerir spilurum kleift að nota hreyfingar sínar til að stjórna vélinni. Hreyfingar eru teknar upp með myndavél. Nintendo Wii kom á markaðinn 19. nóvember 2006 í Norður-Ameríku, í Japan 2. desember sama ár og daginn eftir á Ástralíu, og svo í Evrópu 8. desember sama ár. Henni fylgir Wii Sports og Wii Sports Resort alls staðar nema í Japan. Wii er ólík öðrum leikjatölvum sjöundu kynslóðar þar sem hún er ekki með hörðum diski en er með 512 MB vinnsluminni og styður SD-minniskort. Hún getur sýnt myndir í upplausnum allt að 480p og hún er einasta vél sjöundu kynslóðar sem getur ekki sýnt myndir í hærri upplausn en þessari. Hún er þekkt fyrir stjórntækið sitt sem heitir Wii Remote og lítur út eins og sjónvarpsfjárstýring. Wii sendir frá sér innrautt ljós sem myndavél í stjórntækinu skynir. Hægt er að spila leiki sem hannaðir voru fyrir GameCube á Wii og maður getur tengt allt að fjögur GameCube-stjórntæki við hana. Wii Motion Plus er aukahluti sem hægt er að festa á stjórntækið til að ná betri hreyfiskynjun. Wii fæst í ýmsum litum. Tölvunarfræði. Í víðasta skilningi lýtur tölvunarfræði að rannsóknum á upplýsingavinnslu og reikningsaðferðum, bæði í hugbúnaði og vélbúnaði. Í reynd snýst tölvunarfræðin um fjölmörg viðfangsefni, allt frá formlegri greiningu reiknirita og aðgerðagreiningar til fræða tengdum eiginlegum tölvum eins og forritunarmál, hugbúnað og tölvuvélbúnað. Bókmenntafræði. Bókmenntafræði, stundum nefnd almenn bókmenntafræði, er fræðileg umfjöllun um bókmenntir almennt en einkum þó fagurbókmenntir. Skáldskaparfræði, bókmenntasaga og bókmenntarýni eru helstu undirgreinar bókmenntafræði. Bókmenntafræði á sér djúpar rætur í vestrænni menningu sem teygja sig allt aftur í fornöld en verður ekki til sem sérstök fræðigrein við evrópska háskóla fyrr en á 18. öld. Viðfangsefni bókmenntafræði hafa verið breytileg í gegnum tíðina en mótast þó alltaf af svörum við þremur spurningum, sem ætíð fléttast saman: Hvað eru bókmenntir? Hvað er eftirsóknarvert að vita um þær? Hvaða aðferðum er heppilegast að beita við rannsóknir á þeim? Á íslensku er heiti fræðigreinarinnar „bókmenntafræði“ eða „almenn bókmenntafræði“ en á mörgum málum er hún kennd við samanburðarbókmenntir og felur í sér alþjóðlegar bókmenntarannsóknir fremur en þjóðlega textafræði eins og hún hefur verið stunduð í háskólum Evrópu um aldaraðir undir áhrifum frá Dante og þjóðarbókmenntahugtakinu. Sýslumenn á Íslandi. Sýslumenn á Íslandi eru 24 talsins. Verkefni þeirra eru af tvennum toga. Annars vegar eru það verkefni sem allir sýslumenn fara með, svosem aðfarargerðir, dánarbú, nauðungarsölur, þinglýsingar og leyfi. Hinsvegar er það lögreglustjórn og ákæruvald. Ekki eru þó allir sýslumenn lögreglustjórar í sínum umdæmum, skipulagsbreytingar hjá lögreglunni sem tóku gildi 1. janúar 2007 fækkuðu umdæmunum og þar með lögreglustjórum en fyrir hafði sýslumaðurinn í Reykjavík verið sá eini sem ekki var einnig lögreglustjóri. Sýslumannsembættin eru svo einnig tengiliðir við Tryggingastofnun ríkisins og Hagstofu Íslands vegna þjóðskrár og hlutafélagaskrár. Aðsetur og umdæmi sýslumanna. Hin gamla sýsluskipting ræður oft mörkum umdæmanna í dag en það er þó ekki algilt. 27. mars. 27. mars er 86. dagur ársins (87. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 279 dagar eru eftir af árinu. V-2 flugskeyti. Þýsku V-2 fluskeytin voru fyrstu langdrægu flugskeyti sögunnar. Þjóðverjar skutu fyrsta flugskeytinu af þessari gerð frá hafnarbænum Peenemünde árið 1942. Þýski vísindamaðurinn Werner von Braun stóð á bak við þróun flugskeytisins, en að stríðinu loknu flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann fékk strax starf hjá NASA við að búa til geimflaugar. Nánast vonlaust var að verjast þessum flugskeytum. Þau flugu fyrst upp í níu kílómetra hæð, beygðu svo í átt að skotmarkinu og féllu svo að lokum til jarðar af svo miklum krafti að þau grófust niður í jörðina áður en þau sprungu. V-2 flugskeyti voru fyrst notuð þann 6. september árið 1944, þegar tveimur slíkum var skotið á París. Fyrstu tilraunir mistókust en tveimur dögum síðar, þann 8. september, heppnuðust tilraunirnar betur. Næsta hálfa árið skutu Þjóðverjar meira en þrjú þúsund flugskeytum á óvini sína, flest á Lundúnir og Antwerpen í Belgíu. Áætlað er að stríðstólið hafi kostað nærri 8.000 manns lífið. Síðustu V-2 flugskeytunum var skotið 27. mars árið 1945 á England og Belgíu. Nærri 200 manns féllu í þeim árásum. Arnaldur Indriðason. Arnaldur Indriðason (fæddur þann 28. janúar 1961 í Reykjavík) er íslenskur spennusagnahöfundur og sagnfræðingur. Arnaldur er sonur Þórunnar Ólafar Friðriksdóttur og Indriða G. Þorsteinssonar rithöfundar. Hann lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og starfaði við Morgunblaðið frá því hann útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981, ýmist í lausamennsku eða fullu starfi. Hann var kvikmyndagagnrýnandi blaðsins frá 1986–2001. Arnaldur hefur sent frá sér sautján skáldsögur sem allar eru spennusögur. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á tugi tungumála og hlotið góðar viðtökur, sérstaklega í Þýskalandi, en alls hafa selst yfir sex milljónir eintaka af skáldsögum hans og þær hafa komist ofarlega á metsölulista í mörgum Evrópulöndum. Hann hefur einnig unnið útvarpsleikrit upp úr nokkrum bóka sinna sem Leiklistardeild ríkisútvarpsins hefur flutt. Kvikmynd gerð eftir einni skáldsögu hans, Mýrinni, í leikstjórn Baltasars Kormáks, var frumsýnd árið 2006. Arnaldur hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina árið 2002 og aftur ári síðar fyrir Grafarþögn. Árið 2005 hlaut hann hin virtu ensku glæpasagnaverðlaun Gullrýtinginn frá Samtökum glæpasagnahöfunda fyrir ensku útgáfuna af Grafarþögn. Hann hefur einnig hlotið Grand Prix Littèrature Policiére í Frakklandi, sænsku Martin Beck-verðlaunin fyrir Röddina og bandarísku Barry-verðlaunin fyrir Kleifarvatn, svo og ýmsar aðrar viðurkenningar. Leyndardómar Reykjavíkur 2000. "Leyndardómar Reykjavíkur 2000" er skáldsaga sem var skrifuð af helstu íslensku spennusagnahöfundunum um aldamótin. Þeir eru: Arnaldur Indriðason, Árni Þórarinsson, Birgitta H. Halldórsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Hrafn Jökulsson, Kristinn Kristjánsson, Stella Blómkvist og Viktor Arnar Ingólfsson. Hver þeirra skrifar sinn kafla. 28. mars. 28. mars er 87. dagur ársins (88. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 278 dagar eru eftir af árinu. 29. mars. 29. mars er 88. dagur ársins (89. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 277 dagar eru eftir af árinu. 30. mars. 30. mars er 89. dagur ársins (90. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 276 dagar eru eftir af árinu. 31. mars. 31. mars er 90. dagur ársins (91. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 275 dagar eru eftir af árinu. 1. apríl. 1. apríl er 91. dagur ársins (92. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 274 dagar eru eftir af árinu. 2. apríl. 2. apríl er 92. dagur ársins (93. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 273 dagar eru eftir af árinu. 3. apríl. 3. apríl er 93. dagur ársins (94. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 272 dagar eru eftir af árinu. 4. apríl. 4. apríl er 94. dagur ársins (95. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 271 dagur er eftir af árinu. 5. apríl. 5. apríl er 95. dagur ársins (96. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 270 dagar eru eftir af árinu. Listi yfir íslenskar kvikmyndir. Eftirfarandi er listi yfir íslenskar kvikmyndir. Taldar eru upp þær kvikmyndir sem höfðu aðalframleiðslu á Íslandi og eru ekki styttri en 45 mínútur. Þannig er "Í skóm drekans" ekki á þessum lista því hún er heimildamynd, hins vegar er hún á listanum yfir íslenskar heimildamyndir. Einnig er "Litla lirfan ljóta" ekki á listanum því hún er aðeins 28 mínútur og telst því stuttmynd, hana má hins vegar finna á listanum yfir íslenskar stuttmyndir. Ýmsar aðrar myndir gætu ef til vill talist íslenskar vegna tengsla þeirra við Ísland, til dæmis er kvikmyndin "Hadda Padda" stundum kölluð fyrsta íslenska kvikmyndin, en hún er ekki á þessum lista því hún er strangt til tekin framleidd í Danmörku þótt að hún hafi verið tekin upp á Íslandi og margir Íslendingar unnið við hana, sú mynd er á listanum yfir kvikmyndir tengdar Íslandi. "Silný kafe" er einnig á þeim lista því hún var meðframleidd af Íslendingum og var leikstýrt af Íslendingi. Heimildir. Íslenskar kvikmyndir Milli fjalls og fjöru. "Milli fjalls og fjöru" var fyrsta íslenska kvikmyndin í fullri lengd, sem og fyrsta talmyndin. Hún var gefin út árið 1949 og er 91 mínúta að lengd. Leikstjóri myndarinnar var Loftur Guðmundsson sem var mikill frumkvöðull í kvikmyndagerð á Íslandi. Myndin var frumsýnd í Gamla bíói 13. janúar 1949 og almennar sýningar hófust daginn eftir. Loftur Guðmundsson. Loftur Guðmundsson (18. ágúst 1892 - 4. janúar 1952) var íslenskur ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður. Hann var einn helsti ljósmyndari landsins á öðrum fjórðungi tuttugustu aldar. Hann var fyrst og fremst portrettljósmyndari en tók einnig myndir fyrir Leikfélag Reykjavíkur um árabil, auk þess nokkuð af atburða- og staðarmyndum á fyrstu starfsárum sínum. Hann var einn af brautryðjendum íslenskrar kvikmyndagerðar en fyrsta mynd hans var stuttmyndin "Ævintýri Jóns og Gvendar" sem var sýnd árið 1923. Næstu árin gerði hann nokkrar heimildarmyndir, en árið 1949 var frumsýnd eftir hann fyrsta íslenska talmyndin í fullri lengd, "Milli fjalls og fjöru". Árið 1951 gerði hann svo "Niðursetninginn" sem var síðasta kvikmynd hans. Loftur skrifaði sjálfur handrit kvikmynda sinna. Niðursetningurinn. "Niðursetningurinn" er kvikmynd eftir Loft Guðmundsson frá árinu 1951. Brynjólfur Jóhannesson leikur aðalhlutverkið og leikstýrir myndinni. Með önnur hlutverk í myndinni fóru meðal annars (í stafrófsröð): Jón Aðils, Bessi Bjarnason, Hanna Guðmundsdóttir, Valur Gíslason, Jón Leós, Bryndís Pétursdóttir og Haraldur Á. Sigurðsson. Hringurinn. "Hringurinn" er tilraunakvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson. Í myndinni keyrir myndatökumaður Hringveginn (Þjóðveg 1) í kringum Ísland með myndavél á þaki bílsins. Myndavélin tekur svo einn ramma á hverjum 12 kílómetrum. Þegar myndin er svo sýnd á 24 römmum á sekúndu samsvarar það því að ferðast á 1250 kílómetrum á klukkustund. Hringferðin er tekur um 80 mínútum. Sóley (kvikmynd). "Sóley" er íslensk kvikmynd eftir Rósku frá árinu 1982. Myndin fjallar um ungann mann sem leitar að hestinum sínum sem strauk. Við leitina berst hann við djöfulinn með konu sem minnir helst á guð. Rauða skikkjan. Rauða skikkjan var kvikmynd framleidd árið 1967 í sameiningu af Svíum, Dönum og Íslendingum. Hún var tekin á Íslandi og er í lit. Flestir leikarar myndarinnar voru sænskir eða danskir, en þrír Íslendingar fóru þó með hlutverk í henni, þeir Borgar Garðarsson, Gísli Alfreðsson og Flosi Ólafsson. Sagan var byggð á sögu úr 7. bók "Gesta Danorum" eftir Saxo Grammaticus. Veiðiferðin. "Veiðiferðin" er íslensk fjölskyldumynd eftir Andrés Indriðason frá árinu 1980. Virginia Woolf. Virginia Woolf (25. janúar 1882 – 28. mars 1941) var breskur rithöfundur, gagnrýnandi og feministi. Hún er í hópi áhrifamestu skáldsagnahöfunda á 20. öld. Auk þess sem verk hennar höfðu mikil áhrif á kvennabaráttu 20. aldar, var Virginia brautryðjandi nýrra aðferða við skáldsagnaritun með notkun hugflæðis og innra eintals. Hún skrifaði um hversdagslega atburði, lagði ekki áherslu á flóknar fléttur eða djúpa persónusköpun heldur á tilfinningalíf og hugmyndir söguhetjanna. Þar takmarkaði hún sig ekki við eina söguhetju heldur ferðaðist úr hugarfylgsnum einnar persónu til annarrar, "The Waves" er líklega besta dæmi þess. Þekktasta bók Virginiu er þó eflaust skáldsagan "To the Lighthouse" frá 1927. Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar um líf skáldkonunnar, nú síðast "The Hours" með Nicole Kidman í hlutverki Virginiu. Virginia Woolf giftist Leonard Woolf, gagnrýnanda, árið 1912. Saman stofnuðu þau Hogarth Press árið 1917. Heimili þeirra var samkomustaður fjölda listamanna, skálda og gagnrýnenda, og kallaðist sá hópur Bloomsbury-hópurinn. Árin 1895 og 1915 fékk hún taugaáföll, en hún átti við geðræn vandamál að stríða. Virginia framdi sjálfsmorð þann 28. mars 1941 með því að drekkja sér. Eiginmaður hennar, Leonard, ritstýrði flestum verka hennar sem gefin voru út eftir andlát hennar. 6. apríl. 6. apríl er 96. dagur ársins (97. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 269 dagar eru eftir af árinu. 7. apríl. 7. apríl er 97. dagur ársins (98. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 268 dagar eru eftir af árinu. 8. apríl. 8. apríl er 98. dagur ársins (99. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 267 dagar eru eftir af árinu. 9. apríl. 9. apríl er 99. dagur ársins (100. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 266 dagar eru eftir af árinu. 10. apríl. 10. apríl er 100. dagur ársins (101. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 265 dagar eru eftir af árinu. 11. apríl. 11. apríl er 101. dagur ársins (102. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 264 dagar eru eftir af árinu. 12. apríl. 12. apríl er 102. dagur ársins (103. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 263 dagar eru eftir af árinu. 13. apríl. 13. apríl er 103. dagur ársins (104. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 262 dagar eru eftir af árinu. 14. apríl. 14. apríl er 104. dagur ársins (105. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 261 dagur er eftir af árinu. 15. apríl. 15. apríl er 105. dagur ársins (106. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 260 dagar eru eftir af árinu. 16. apríl. 16. apríl er 106. dagur ársins (107. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 259 dagar eru eftir af árinu. 17. apríl. 17. apríl er 107. dagur ársins (108. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 258 dagar eru eftir af árinu. 18. apríl. 18. apríl er 108. dagur ársins (109. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 257 dagar eru eftir af árinu. 19. apríl. 19. apríl er 109. dagur ársins (110. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 256 dagar eru eftir af árinu. 20. apríl. 20. apríl er 110. dagur ársins (111. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 255 dagar eru eftir af árinu. 21. apríl. 21. apríl er 111. dagur ársins (112. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska dagatalinu. 254 dagar eru eftir af árinu. 22. apríl. 22. apríl er 112. dagur ársins (113. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 253 dagar eru eftir af árinu. 24. apríl. 24. apríl er 114. dagur ársins (115. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 251 dagur er eftir af árinu. 25. apríl. 25. apríl er 115. dagur ársins (116. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 250 dagar eru eftir af árinu. 26. apríl. 26. apríl er 116. dagur ársins (117. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 249 dagar eru eftir af árinu. 27. apríl. 27. apríl er 117. dagur ársins (118. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 248 dagar eru eftir af árinu. 28. apríl. 28. apríl er 118. dagur ársins (119. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 248 dagar eru eftir af árinu. 29. apríl. 29. apríl er 119. dagur ársins (120. á hlaupári) samkvæmt gregoríanska tímatalinu. 246 dagar eru eftir af árinu. 30. apríl. 30. apríl er 120. dagur ársins (121. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 245 dagar eru eftir af árinu. Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Eftirfarandi konur hafa hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum: Selma Lagerlöf, Grazia Deledda, Sigrid Undset, Pearl S. Buck, Gabriela Mistral, Nelly Sachs, Toni Morrison, Nadine Gordimer, Wislawa Szymborska, Elfriede Jelinek og Doris Lessing. Aðrir verðlaunahafar eru karlmenn. Tenglar. Bókmenntir Nóbelsverðlaun í hagfræði. Hagfræðiverðlaun seðlabanka Svíþjóðar til minningar Alfreds Nobels eru verðlaun sem seðlabanki Svíþjóðar stofnaði til 1968 og voru fyrst veitt 1969 af konunglegu sænsku vísindaakademíunni til að heiðra þá, sem þótt hafa lagt mikið til og skarað fram úr á sviði hagfræði. Þau eru óformlega nefnd nóbelsverðlaunin í hagfræði og eru veitt samtímis hinum eiginlegu nóbelsverðlaunum. Tenglar. Hagfræði Booker-verðlaunin. Booker-bókmenntaverðlaunin eru ein virtustu bókmenntarverðlaun heims og eru veitt á hverju ári rithöfundi sem er þegn Breska samveldisins eða Írlands. Booker fyrirtækið stofnaði til verðlaunanna árið 1968. Til að tryggja að einungis fyrsta flokks bækur séu valdar eru dómarar valdir úr einvalaliði gagnrýnenda, rithöfunda og háskólamanna. Síðan 2002 hafa verðlaunin gengið undir nafninu „Man Booker verðlaunin“, vegna stuðnings fjárfestingarfélagsins Man Group plc.. Rússnesk útgáfa verðlaunanna var sett á fót árið 1992. Forval bókanna getur verið tvenns konar. Bókaútgefendur geta sent inn handrit, eða dómarar geta beðið um að ákveðin handrit eða bækur séu sendar inn. Árið 2003 voru 110 bækur sendar inn af útgefendum, en dómarar báðu um að 10 bókum væri bætt við það. Verðlaunahafar. Hér fyrir neðan er listi yfir verðlaunahafa og tilnefningar til Booker-verðlaunanna. Nöfn verðlaunahafa eru tilgreind fremst fyrir hvert ár og feitletruð. Íslensk nöfn þeirra bóka sem komið hafa út á íslensku eru tilgreind aftan við upprunaleg nöfn. Yann Martel. Yann Martel (fæddur 25. júní 1963) er kanadískur rithöfundur. Faðir Yanns Martels starfaði sem kennari og síðar sem diplómati á meðan Yann ólst upp. Störf föður hans höfðu í för með sér að fjölskyldan var stöðugt að flytja heimshorna á milli og þau bjuggu meðal annars í Alaska, Frakklandi, Mexíkó, Kosta Ríka og í kanadísku héruðunum Ontario og Bresku Kólumbíu. Á fullorðinsárum sínum hélt hann Yann áfram að ferðast um heiminn, og dvaldi meðal annars í Íran, Tyrklandi og Indlandi. Að loknu heimspekinámi við Trent háskólann í Peterborough í Ontario, ákvað hann að leggja fyrir sig ritstörf. Dvöl hans í hinum ýmsu menningarheimum hefur haft áhrif á skrif hans, eins og glögglega má sjá í Sögunni af Pí sem aflaði honum hinna virtu Booker-bókmenntaverðlauna árið 2002. Þegar hann undirbjó sig fyrir að skrifa Söguna um Pí, varði Yann Martel sex mánuðum við að heimsækja moskur, musteri, kirkjur og dýragarða í Indlandi. Að því loknu varði hann heilu ári við lestur trúarlegra texta og sagna af skipbrotsmönnum. Eftir þessar rannsóknir tók það hann tvö ár í viðbót að skrifa bókina. Aðspurður segist Yann Martel nú búa í Montréal í Québec-héraði í Kanada, vegna þess að þar lenti flugvélin. Hann kann illa við að vera bundinn einhverju og á því litlar eignir og þegar hann skorti fé áður fyrr tók hann hver þau störf sem veittu honum færi á að ferðast og skrifa. Bókmenntaverðlaun. Martel, Yann Megas. Magnús Þór Jónsson (fæddur 7. apríl 1945 í Reykjavík á Íslandi) er íslenskur tónlistarmaður, dægurlagahöfundur, rithöfundur og myndlistarmaður, hann er best þekktur undir listamannsnafninu Megas. Uppeldi og nám. Megas fæddist 7. apríl 1945, sonur skáldkonunnar Þórunnar Elfu Magnúsdóttur og Jóns Þórðarsonar kennara og rithöfundar. Magnús Magnússon nafni hans og móðurafi var verkamaður í Reykjavík sem stundaði jafnframt sjóinn. Margrét amma Megasar var frá Horni í Skorradal en föðurforeldrarnir Snæfellingar. Þau hétu Sesselja Jónsdóttir og Þórður Pálsson frá Borgarholti í Miklaholtshreppi þar sem þau stunduðu búskap. Megas ólst upp í Norðurmýrinni í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskólann og svo í Menntaskólann í Reykjavík, þaðan sem hann lauk stúdentsprófi árið 1965. Þá vann hann um hríð sem gjaldkeri í Landsbankanum, en hélt svo til Noregs til að stunda nám í þjóðháttafræði við Háskólann í Osló. Megas byrjaði snemma að fást við lagasmíðar og textagerð, lærði á píanó og samdi meðal annars lagið um Gamla sorrí Grána fyrir fermingu. Á gagnfræðaskólaárunum samdi hann menúetta áður en hann hellti sér út í þjóðlagapælingar, keypti sér nótnabók með amerískri alþýðutónlist og lagði sig eftir skandinavískum þjóðlögum. Frá æskuárum Megasar er einnig til fjöldi teikninga af ýmsum toga sem hann hefur haldið til haga. Helstu áhrifavaldar Megasar á æskuárum hans voru Halldór Laxness og Elvis Presley. Á menntaskólaárunum tók Megas þátt í að mála leiktjöld fyrir hundrað ára afmælissýningu Útilegumannanna eftir Matthías Jochumsson, gerði myndskreytingar í skólablaðið og fékk nokkur ljóða sinna birt í blaðinu og smásögur. Hann hlustaði á klassík, einkum þungmelta tólf tóna tónlist og Bob Dylan, en margorðir textar Dylans heilluðu Megas og höfðu veruleg áhrif á hann. Að loknu stúdentsprófi innritaðist Megas í Háskólann. Þar rakst hann á nafnið Megas í grískri orðabók og ætlaði að nota það sem skáldanafn þegar hann reyndi að fá birta eftir sig smásögu í Lesbók Morgunblaðsins. Smásagan komst inn eftir nokkrar hremmingar en hann varð að birta hana undir eigin nafni. Engu að síður notaði hann listamannsnafnið Megas eftir þetta. Um jólin 1968 gaf hann út bókina "Megas", sem innihélt lögin Dauði Snorra Sturlusonar, Jón Sigurðsson & sjálfstæðisbarátta Íslendinga, Með gati, Ófelía, Ragnheiður biskupsdóttir, Silfur Egils, Um óheppilega fundvísi Ingólfs Arnarsonar, Um skáldið Jónas, Um grimman dauða Jóns Arasonar og Vertu mér samferða inní blómalandið, amma. Stuttu síðar kom út annað heftið og það þriðja árið 1973, sem hét "Megas kominn, en fráleitt farinn". Áður en fyrsta hljómplata hans kom út í Noregi árið 1972 komu út eftir hann þrjú hefti með textum, nótum og teikningum. Þau hétu einfaldlega "Megas I" (1968), "Megas II" (1969) og "Megas III" (1970). Árið 1973 gaf hann heftin þrjú út aftur, endurskoðuð, og bætti fjórða heftinu við, "Megas IV". Margt af því efni sem birtist í heftunum átti síðar eftir að rata inn á plöturnar hans. Bækur. Megas I-III Pjáturútgáfa (desember 2009) í 20 eintökum númeruð og árituð Megas I-III endurútgefin (2009/10) í allt að 100 eintökum Von er á nýrri textabók JPV gefur út 2010 eða 2011 Gdańsk. Gdańsk (Þýska: "Danzig", Latína: "Gedanum") er 6. stærsta borg Póllands og höfuðborg Pomorskie sýslu. Stærðfræði. Stærðfræði er rökvísindi sem beitir ströngum, rökfræðilegum aðferðum til að fást við tölur, rúm, ferla, varpanir, mengi, mynstur, breytingar o.þ.h. Einnig er stærðfræði sú þekking sem leidd er út með rökréttum hætti frá ákveðnum fyrirframgefnum forsendum sem kallaðar eru frumsendur. Þeir sem starfa við rannsóknir og hagnýtingu á stærðfræði eru kallaðir stærðfræðingar. Þrátt fyrir að stærðfræðin sé ekki náttúruvísindagrein þar eð stærðfræðingar gera ekki athuganir eða tilraunir á náttúrunni er hún ein helsta undirstöðugrein allra raunvísinda, verkfræði og hagfræði. Hvergi hefur þó orðið jafn sterk samsvörun milli stærðfræðinnar og hins raunverulega heims og í eðlisfræði. Uppgötvanir stærðfræðinga á nýjum stærðfræðilegum fyrirbærum virðast oft hafa litla tengingu við raunveruleikann þegar þær eiga sér stað, en leiða jafnoft til framfara í tilteknum vísindagreinum. Saga stærðfræðinnar. Stærðfræði hefur fylgt manninum frá örófi alda, en elstu skráðu heimildir sýna stærðfræði í mikilli notkun í Súmeru og síðar Babýlóníu, þar sem vitað er að menn þekktu pí, hornasummu þríhyrnings og veldisreikning, svo að fátt eitt sé nefnt. Babýlóníumenn héldu skrár yfir landareignir og búfénað, stunduðu verslun, og skiluðu jafnvel mjög frumstæðum skattaskýrslum. Þessi iðja krafðist skilnings á tölum og einföldum reikniaðgerðum sem giltu um tölurnar, svo sem samlagningu, frádrátt, margföldun og deilingu. Þó eru til enn þá eldri heimildir um stærðfræði, frá því löngu áður en ritlistin kom til. Fornleifafræðingar hafa fundið mannvistarleifar í suðurhluta Afríku sem benda til þess að reikningar og tímamælingar (byggðar á staðsetningu stjarna) hafi verið stundaðar um 70.000 f.Kr. Ishangobeinið, sem fannst við upptök Nílar (í Norðaustur-Kongó), varðveitir elstu þekktu heimildina um runu frumtalna, ásamt nokkrum jafnhlutfallarunum, en beinið er frá um 20.000 f.Kr. Fornegyptar gerðu teikningar af einföldum rúmfræðilegum fyrirbærum um 5.000 f.Kr. Indversk stærðfræði. Yngri heimildir eru til frá Indlandi. Eftir hrun siðmenningarinnar í Indusdalnum um 1.500 f.Kr. komu fram ýmsir stærðfræðingar. Málfræðingurinn Panini lagði fram málfræðireglur á 5. öld f.Kr. fyrir sanskrít með hætti sem líkist nútímalegu stærðfræðitáknmáli. Var fágun þess slík að búa má til Turing-vélar með því. Í dag er Panini-Backus-málskilgreiningarformið gjarnan notað til að skilgreina formleg mál í tölvum. Indverski stærðfræðingurinn Pingala, sem uppi var á 4. eða 3. öld f.Kr. rannsakaði það sem við þekkjum í dag sem Fibbonaccirununa, ásamt Pascalsþríhyrningnum og tvíundarkerfi. Hann notaðist við einfaldan punkt til þess að tákna núll, en það er eitt af elstu dæmum um sérstakt tákn fyrir núll. "Bakshalihandritið", sem var ritað einhvern tímann á milli 200 f.Kr. og 200 e.Kr. sýnir meðal annars lausnir á línulegum jöfnuhneppum með allt að fimm óþekktum stærðum, lausn annars stigs jöfnu, geómetrískar raðir og jafnvel neikvæðar tölur, sem þóttu vafasamar í margar aldir þar á eftir. Einnig virðast indverskir stærðfræðingar frá Jaina-tímabilinu hafa þekkt mismunandi stig óendanleika, mengjafræði, logra, umraðanir og margt fleira. Grísk og hellenísk stærðfræði. Saga grískrar stærðfræði hófst um 500 f.Kr. þegar Þales og Pýþagóras fluttu þekkingu Babýlóníumanna og Egypta til Grikklands. Þales notaði rúmfræði til að reikna hæðir píramída og fjarlægð skipa frá ströndu. Talið er að Pýþagóras hafi lagt fram pýþagórasarregluna, sem er kennd við hann, og að hann hafi notað algebraískar reglur til að reikna út pýþagórískar þrenndir. Kínversk stærðfræði. Í Kína árið 212 f.Kr. skipaði keisarinn Qin Shi Huang (Shi Huang-ti) fyrir um að allar bækur skyldu brenndar. Þó svo að þessari tilskipun hafi ekki verið fylgt til hlítar, hefur lítið varðveist um sögu kínverskrar stærðfræði. Það að Kínverjar skrifuðu á bambus gerði lítið til þess að bæta úr því. Heimildir um talnaritun hafa fundist í skjaldbökuskeljum, en Kínverjar notuðust við tugakerfi sem var þannig að tölur voru ritaðar ofan frá og niður, með tákni hverrar einingar, ásamt tugveldismargföldunartákni inn á milli. Þannig var talan "123" rituð með því að skrifa táknið fyrir "1", svo táknið fyrir hundrað, svo táknið fyrir "2", svo táknið fyrir tug, loks táknið fyrir "3". Á sínum tíma var þetta fullkomnasta talnaritunarkerfi heims, en það gaf færi á útreikningum með reiknitækjum á borð við "suan pan" og abakus. Elsta stærðfræðitengda ritið sem lifði af bókabrennuna var I Ching frá 12. öld f.Kr., sem notast við 64 umraðanir strika sem voru ýmist heil eða brotin. Þýski stærðfræðingurinn Gottfried Wilhelm von Leibniz hafði mikinn áhuga á þessu riti, og telja sumir að hugmynd hans að tvíundarkerfinu hafi komið þaðan. Kínverjar uppgötvuðu ýmislegt sem Evrópa fór lengi vel á mis við, á borð við neikvæðar tölur, tvíliðuregluna, notkun fylkjareiknings til að leysa línuleg jöfnuhneppi, og kínverslu leifaregluna. Einnig þekktu Kínverjar Pascalsþríhyrninginn og þríliður löngu áður en þær þekktust í Evrópu. Persnesk og arabísk stærðfræði. Íslamska heimsveldið sem náði yfir Miðausturlönd, norðurhluta Afríku, Íberíuskagann og hluta Indlands (sem nú er Pakistan) á 8. öld varðveitti og þýddi mikið af grískum stærðfræðiritum, sem þá höfðu gleymst víða í Evrópu. Einnig voru þýdd indversk stærðfræðirit, sem höfðu mikil áhrif, og urðu grunnur að gerð arabískra talna, sem við notum í dag. Muhammad ibn Musa al-Khwarizmi ritaði inngangsrit að því sem í dag þekkist sem algebra, og er það nafn dregið af einu orði í nafni bókarinnar. Einnig er erlent nafn reiknirita (algóriþmi) dregið af nafni al-Khwarizmi sjálfs. Algebra þróaðist talsvert í höndum Abu Bakr al-Karaji (953-1029), og Abul Wafa þýddi verk Díófantósar, og fann síðar upp tangens. Stærðfræði á Íslandi. Elstu heimildir um notkun talna og stærðfræði á Íslandi (reyndar öllum Norðurlöndum) er úr Hauksbók eftir Hauk Erlendsson. Greinar stærðfræðinnar. Þetta eru aðeins nokkrar greinar innan stærðfræðinnar, fyrir lengri lista sá aðalgreinina fyrir þennan lið. Frægir stærðfræðingar. "Höfuðgrein: Frægir stærðfræðingar. Sjá einnig Stærðfræðingar." Pýþagóras — Leibniz — Newton — Euler — Gauss — Mandelbrot — Shannon — Turing — Wiles — Fermat — Gödel Kraká. Kraká (pólska: "Kraków", þýska: "Krakau", latína: "Cracovia") er önnur stærsta borg Póllands og höfuðborg Małopolskie sýslu. Hún er í suðurhluta Póllands við ána Vislu. Saga. Fyrstu heimildir um byggð í Kraká er hægt að rekja aftur til 996. Það er þó talið að allstór bær hafi verið þar nokkru lengur, og fyrst á Wawel hæðinni. Árið 1000 var Kraká gerð að biskupssetri og árið 1038 að höfuðborg Póllands. Á 13. öld var borgin endurskipulögð samkvæmt svokölluðu "skákborðsskipulagi", þannig að frá aðaltorginu lágu fjórar götur í hverja átt, sem voru svo tengdar með minni götum og umhverfis allt lágu borgarmúrarnir. Fyrir utan borgarmúrana lágu svo minni og sjálfstæðir bæir sem með tímanum urðu sameinaðir Kraká. Árið 1364 var í Kraká stofnaður elsti háskóli í Póllandi, Uniwersytet Jagielloński, sem þá kallaðist Akademia Krakowska. Á 15. og 16. öld var Pólland eitt af stórveldum Evrópu og í Kraká átti því sér stað ör þróun. Borgin var miðstöð menninngar, lista og verslunar auk þess sem stórir hlutar hennar, m.a. kastalinn á Wawel hæðinni voru endurbyggðir. Á 16. öld voru íbúar Kraká um 30 þúsund. Með sameiningu Póllands og Litháen varð Kraká í útjaðri ríkisins. Varsjá fór að taka við sem staður funda og kosninga, og árið 1609 varð höfuðborgin endanlega færð þangað. Konungar voru þó enn krýndir í Kraká fram til 1734. Með skiptingu Póllands milli nágrannalanda 1795 komst Kraká undir stjórn Austurríkis. Á árunum 1815-1846 var hann höfuðborg Lýðveldisins Kraká, sem formlega var sjálfstætt, en var í raun undir sameiginlegri stjórn þeirra þriggja landa sem höfðu skipt Póllandi milli sín, Austurríkis, Rússlands og Prússlands. Mikil endurnýjun átti sér þá stað á borginni, mestur hluti borgarmúranna var rifinn og í stað síkisins var reistur garður sem kallast Planty. Einnig var ráðhúsið álitið taka of stóran hluta af aðaltorginu og því tekið í sundur og aðeins turninn skildur eftir. Eftir byltingu árið 1846 var Kraká aftur innlimuð í Austurríki og var hluti þess fram til 1918 þegar Pólland öðlaðist sjálfstæði á ný. Árið 1978 var miðborg Kraká skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Áhugaverðir staðir. Aðaltorg Kraká með Sukiennice markaðnum Út frá aðaltorginu liggja götur í allar áttir, meðal annars helstu verslunargötur borgarinnar, Grodzka og Floriańska. Við enda Floriańska götunnar er eina borgarhliðið sem enn stendur og hluti af gömlu virki sem kallast Barbakan. Aðeins utan við gamla miðbæinn liggur Wawel-hæðin þar sem gamli konungskastalinn stendur. Einn hluti kastalans er dómkirkja þar sem flestir konungar Póllands eru grafnir. Wawel hæðinni tengist þjóðsaga um dreka sem ætlaði að éta alla íbúa Kraká en var drepinn af fátækum skósmið sem fékk konungsdótturina að launum. Í Wawel hæðinni er lítill hellir sem er sagður hafa búið í, og fyrir utan stendur stytta af drekanum sem er vinsæll myndatökustaður fyrir túrista. Í Kraká er einnig mjög vel varðveitt gyðingahverfi sem kallast Kazimierz. Þar eru m.a. nokkur bænahús gyðinga og grafreitur. Á undanförnum árum hefur Kraká orðið vinsæll ferðmannastaður og á hverju ári heimsækja borgina 3-4 milljónir ferðamanna. Frá og með vori 2004 hafa Heimsferðir staðið fyrir beinu leiguflugi til Kraká nokkrum sinnum á ári. Landfræði. Kort af jörðinni, gert með vörpun Robinsons Landfræði (eða landafræði) er fræðigrein sem fæst við samspil náttúru og mannlífs á jörðinni. Sjónarhorn landfræðingsins getur verið gervöll jörðin, tiltekin svæði eða einstakir staðir. Fagið er mjög fjölbreytt og tekur bæði til félags- og náttúruvísinda. Náttúrulandfræði fæst við ytri ásýnd landsins, svo sem landmótun, jarðveg, gróður og veðurfar. Mannvistarlandfræði fæst við líf fólks á jörðinni frá mörgum sjónarhornum. Hún tekur til menningar, efnahagslífs og annarra samfélagslegra þátta. Náttúru- og mannvistarlandfræði eiga sér snertiflöt í umhverfismálum, þar sem nýting náttúruauðlinda og áhrif mannlegra athafna á náttúruna eru í brennidepli. Á þessu ört vaxandi sviði hefur landfræðin ýmislegt til málanna að leggja. Kortlagning og greining lands og landupplýsinga hefur alltaf skipað veglegan sess í greininni og eru tölvuvædd landupplýsingakerfi, byggð á sérstökum aðferðum landfræðinga, orðin mikilvæg á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Greinin á sér afar langa sögu og hið alþjóðlega fræðiheiti hennar, geógrafía, sem komið er úr grísku (γεωγραφία). Það þýðir einfaldlega "skrif um jörðina". Keflavík. Keflavík er um 13.000 manna bær austan megin á Miðnesi á Reykjanesskaga og heyrir undir sveitarfélagið Reykjanesbæ. Bærinn dregur nafn sitt af samnefndri vík, sem liggur á milli Hólmsbergs að norðan og Vatnsness að sunnan og gengur til vesturs inn úr Stakksfirði. Víkin er opin á móti austri og þótti aldrei gott skipalægi. Hún var samt grundvöllur þeirrar verslunar sem þar þróaðist frá 17. öld og varð grundvöllur bæjarins. Keflavíkurjörðin heyrði undir Rosmhvalaneshrepp frá fornu fari. Með vexti kauptúnsins á seinni hluta 19. aldar reyndist landrými of lítið fyrir byggðina. 1891 var löggilt stækkun á verslunarlóðinni til suðurs, í landi Njarðvíkurhrepps, sem stofnaður hafði verið tveimur árum áður. Keflavík var þannig í tveimur hreppum samtímis og hélst svo til ársins 1908. Hinn 15. júní það ár var Rosmhvalaneshreppi skipt upp. Varð nyrðri hlutinn að Gerðahreppi en Keflavíkurjörðin í suðri var sameinuð Njarðvíkurhreppi undir heitinu "Keflavíkurhreppur". Njarðvíkurhreppur klauf sig aftur frá hreppnum 1. janúar 1942. Keflavík fékk kaupstaðarréttindi 22. mars 1949. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Keflavík Njarðvíkurkaupstað og Hafnahreppi undir nafninu "Reykjanesbær". Á Keflavíkurflugvelli hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð Veðurstofunnar síðan 1952. Fornleifafræði. Fornleifafræði er sú fræðigrein, sem fæst við uppgröft, greiningu og varðveislu fornleifa í jörðu. Þeir sem hana stunda nefnast fornleifafræðingar. Fornleifafræði á Íslandi. Mikill uppgröftur hefur verið stundaður á Íslandi hin síðari ár og í mörgum tilvikum komið í ljós samræmi við Íslendingasögur og aðrar heimildir um viðkomandi staði. Þjóðminjasafn Íslands rannsakar og varðveitir fornminjar á Íslandi. Murakami Haruki. Murakami Haruki (村上春樹), einnig þekktur sem Haruki Murakami, var (f. í Kýótó þann 12. janúar 1949) er vinsæll japanskur rithöfundur og þýðandi. Ævi og störf. Hann bjó í Kóbe flest öll æskuárin. Faðir hans var búddaprestur og móðir hans var dóttir kaupmanns frá Osaka. Þau kenndu bæði japanskar bókmenntir. Murakami hafði hins vegar meiri áhuga á amerískum bókmenntum en japönskum, eins og glögglega má sjá í skrifum hans, en vestrænn ritstíllinn er frábrugðinn flestum öðrum japönskum bókmenntum samtímans. Hann lagði stund á leiklist í Waseda háskóla í Tókýó, og hitti þar Yoko, eiginkonu sína. Fyrsta starf hans var í hljómplötuverslun, en að námi loknu stofnaði hann djassbar í Tókýó, sem hann rak á árunum 1974 til 1982. Tónlistaráhuginn kemur líka fram í sögum hans, sérstaklega í "Dansu dansu dansu (e. Dance, Dance, Dance)" og "Noruwei no mori (e. Norwegian Wood)", sem nefnd er eftir samnefndu Bítlalagi. Fyrsta skáldsaga hans: "Kaze no oto wo kike (e. Hear the Wind Sing)" vann til verðlauna árið 1979. Ári síðar gaf hann út "1973 nen no pinbohru (e. Pinball, 1973)". Þessar skáldsögur mynda Rottuþríleikinn, ásamt "Hitsuji wo meguru Bohken (e. A Wild Sheep Chase)". Árið 1985 gaf hann út vísindaskáldsögu, "Sekai no owari to hahdo bohrudo wandahrando (e. Hard-Boiled Wonderland and the End of the World)". Hann sló loks í gegn í Japan með útgáfu "Noruwei no mori" árið 1987. Árið 1986 fór Murakami frá Japan til vesturlanda. Hann þvældist um Evrópu og Bandaríkin og settist að lokum að í bænum Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum. Á þessum árum skrifaði hann "Dansu dansu dansu" og "Sunnan við mæri, vestur af sól (Kokky no minami, taiyou no nishii)". Árin 1994 og 1995 sendi hann frá sér "Nejimakidori kuronikuru (e. The Wind-Up Bird Chronicle)" í þremur hlutum. Bókin fjallaði meðal annars um japanska stríðsglæpi í Mansjúríu. Fyrir þá skáldsögu fékk hann Yomuiri bókmenntaverðlaunin. Með "Nejimakidori kuronikuru" varð vendipunktur á ferli Murakamis. Rit hans urðu þyngri, en fram að þessu höfðu þau verið háfgert léttmeti. Þegar hann var að leggja lokahönd á bókina, reið Kóbe-jarðskjálftinn yfir og gerð var taugagasárás á neðanjarðarlestakerfið í Tókýó. Í kjölfar þessara atburða sneri hann aftur til Japans. Atburðirnir voru þungamiðjan í smásagnasafninu "Kami no kodomotachi ha mina odoru (e. After the Quake)" og í fyrsta ritgerðasafni hans, "Andaguraundo/Yakusoku sareta basho de (e. Underground)". Auk skáldsagna sinna og smásagnasafnsins "Kami no kodomotachi ha mina odoru", sem fyrr er getið, hefur Murakami skrifað fjölda smásagna. Hann hefur einnig þýtt verk eftir F. Scott Fitzgerald, Raymond Carver, Truman Capote, John Irving, Paul Theroux og fleiri á japönsku. Minni. Minni er einstakur hæfileiki sem mannskepnan er gædd til að geta lært allt. Það er fyrirbæri sem hún hefur og notfærir sér til að leysa ýmis verkefni. Minnið er hæfileiki til að móttaka eða afla, varðveita og endurheimta upplýsingar. Menn hafa lengi rannsakað minnið, en þrátt fyrir miklar uppgötvanir og framfarir er ýmislegt enn á huldu um hvernig minnið starfar. Stöðugar framfarir eru í sálfræði og læknavísindunum og geta þær framfarir auðveldlega umbylt þeim kenningum sem eru taldar fullgildar hverju sinni. Tilgangur minnis og kenningar. Minnið gegnir mjög mikilvægu hlutverki í lífi okkar. Svo mikilvægt er minnið, að spyrja mætti hvort manneskja án minnis sé yfir höfuð með meðvitund. Allt sem við kunnum er geymt í minninu; öll sú vitneskja sem við höfum um sjálf okkur er geymd þar, öll orð sem við kunnum, vitneskjan um ættingja okkar og svo framvegis. Við notum minnið að miklu leyti ómeðvitað, þ.e., án þess að reyna mikið á okkur við að rifja upp. Minnisþrepin þrjú. Þegar við lærum eitthvað erum við að gera tvo hluti; umskrá boð sem berast okkur sjónrænt, hljóðrænt eða með öðrum hætti í eitthvað sem mannsheilinn skilur og geyma það í minni. Svo þegar við þurfum á upplýsingunum að halda rifjum við þær upp. Þessu ferli er hægt að skipta í þrennt; "umskráning", "geymd" og "endurheimt". Í fyrsta þrepinu breytum við upplýsingum sem birtast okkur sjónrænt, hljóðrænt eða með öðrum hætti í taugaboð. Þetta kallast "umskráning". Annað þrepið kallast "geymd", og felst í því að upplýsingarnar eru geymdar í minninu (meira má lesa um þetta þrep í greininni um geymd). Svo þegar við þurfum á upplýsingunum að halda náum við í upplýsingarnar úr minninu. Það er kallað "endurheimt". Minnið getur brugðist okkur á öllum þessum þrepum, en það veldur því sem við köllum dags-daglega að "við munum ekki [eitthvað]". Hvert minniskerfi fyrir sig notar sérhæfðar aðferðir við umskráningu, geymslu og endurheimt. Minniskerfin þrjú. Ef litið er á flæði upplýsinga um skynminni og skammtímaminni, þá er ljóst að áreiti berst frá umhverfinu inn í skynminnið. Skynminnið er óvirkt minniskerfi, því ekki er unnið úr upplýsingum þar. Það sem á sér stað í skynminninu er eitthvað sem við erum ekki meðvituð um. Þegar athyglin beinist að einhverju í umhverfinu er upplýsingunum hleypt inn í skammtímaminnið, og þar er svo unnið úr áreitunum og er því virkt minniskerfi. Grunnlíkanið um minni. "Grunnlíkanið um minni" var sett fram af Richard C. Atkinson og Richard M. Shiffrin á sjöunda áratug 20. aldar. Líkanið gerir ráð fyrir þremur minniskerfum, og að upplýsingar flæði milli þessara kerfa með tiltölulega reglulegum hætti. Þessi þrjú kerfi eru skynminni, skammtímaminni og langtímaminni. Í fyrstu fara upplýsingar sem skynjaðar eru í umhverfi í skynminni sem er þó talið frekar hluti af skynjun en minni. Þaðan fara upplýsingar í skammtímaminni með takmarkaða rýmd og að lokum er hægt að umskrá upplýsingar í langtímaminni sem hefur ótakmarkaða rýmd. Líkanið leggur mikla áherslu á geymsluhlutverk og aðgreining kerfana byggist ekki síst á því hversu lengi upplýsingarnar staldra við í hverju minniskerfi. Mörg rök hafa verið færð fyrir þessu líkani, en mörgum finnst þó kerfið full einfalt og nái ekki að skýra hin flóknu tengsl á milli minnis og þekkingar. Einnig hefur verið bent á, að líkanið geti ekki skýrt út hvers vegna við náum að muna atriði sem voru vistuð fyrir löngu síðan, tiltölulega fyrirhafnarlítið. Þessi kenning nýtur þó mikillar hylli. Skynminni. Skynminnið geymir þau áreiti sem berast skynfærum líkamans. Oftast er skynminnið bundið við eitt skynfæri í senn. Skynminnið varir í stutta stund, líklega 1/4 úr sekúndu til þriggja sekúndna. Skynminni fyrir sjón geymir hraðvirkt og sjálfvirkt og er snemma í skynferlinu. Þaðan berst það kennslabiðminni sem er hægvirkara og varanlegra og gerir atriði aðgengileg til svörunar. Svipuð ferli eru fyrir önnur skynfæri. Athygli vinnsluminni beinist að nokkrum atriðum sem var lengur en önnur sem flokkast úr. Skammtímaminni. Skammtímaminnið geymir upplýsingar í nokkrar sekúndur og með endurtekningu geta upplýsingar haldist þar inni lengur. Dæmigerð endurtekning er að þylja með sér upplýsingarnar sem þarf að geyma aftur og aftur. Til að upplýsingar geti komist inn í skammtímaminnið þurfum við að veita þeim athygli, en svo er oft alls ekki raunin. Oft, þegar svoleiðis lagað gerist, er það stimplað sem gleymska. Þetta er mjög eðlilegt fyrirbæri, þar eð okkur er illmögulegt að veita öllu athygli sem gerist í kringum okkur. Skrásetning. Í skammtímaminninu eru upplýsingar skráðar fyrst og fremst hljóðrænt, en þær geta líka verið skráðar á fleiri vegu; þær geta einnig verið geymdar sjónrænt, eða tenging við eitthvað sem hefur merkingu. Mjög vel hefur reynst að geyma upplýsingarnar á hljóðrænu formi, með því að endurtaka þau ("endurtekning"). Athugið þó, að ef upplýsingar eru fyrst skráðar myndrænt í skammtímaminnið getur það umritast og orðið hljóðrænt fljótt, en við það glatast upplýsingar um t.d. letur, leturstærð og svo frv. um textann sem var lesinn. Geymsla. Talið er að um sjö atriði, plús eða mínus tvö, geti rúmast í skammtímaminninu í einu, þar sem að ný atriði ryðja eldri atriðum burt, með þeirri undantekningu að atriði sem eru endurtekin ryðjast ekki út. Einnig dofna þau atriði sem eru ekki endurtekin og hverfa loks úr skammtímaminninu. Um minnið og þessa tölu, sjö, var skrifuð fræg ritgerð, nefnd „The Magical Number Seven, Plus or Minus Two: Some Limits on Our Capacity for Processing Information“, og birtist hún árið 1956. Hér er sýnt hvernig má geyma heimilisfangið í skammtímaminninu á þrjá mismunandi vegu. Hvernig best er að geyma heimilisfangið í minninu veltur á fyrri reynslu viðkomandi og því hvort að hann þekki nöfnin fyrir, þ.e.a.s. hvort að atriðið sé í langtímaminninu. Þessi leið, að skipta upplýsingunum niður, er því mjög góð til að muna eitthvað sem er nýtt fyrir okkur og óþekkt. Endurheimt. Leit í skammtímaminninu er líklegast raðleit, þar sem eitt atriði er athugað í einu. Fyrir hvert atriði sem er í listanum eykst leitartíminn að jafnaði um 40 millisekúndur. Athyglivert er þó að athuga að menn virðast vera nokkuð lengur að átta sig á andlitsmyndum en orðum og öðru munnlegu efni. Langtímaminni. Langtímaminnið er ef til vill mikilvægasta minniskerfið, en þar eru geymdar upplýsingar sem hafa varðveist lengri eða skemmri tíma; nokkra klukkutíma, daga, mánuði og ár. Skráning í langtímaminnið er, ólíkt skammtímaminninu, fyrst og fremst merkingabært, en það getur einnig skráð upplýsingar á ýmsa vegu, t.d. hljóðbært. Langtímaminnið er að mestu ómeðvitað og notast helst við merkingarlega úrvinnslu. Leiðin fyrir áreiti að festast í langtímaminni er slík að fyrst festist áreitið í skynminni, síðan fer það í skammtímaminnið og seinast kemur það í langtímaminnnið ef varanleg minnisfesting verður. Ef minnisatriðin eru endurtekin oft leiðir það til minnisfestingar í langtímaminni. Langtímaminnið geymir svo mikið af upplýsingum að talin er þörf á að skipta því í nokkur undirkerfi, sem hvert og eitt hefur sín sérkenni. Langtímaminnið byrjar að skiptast í tvennt, í "ljóst minni", sem geymir þau þekkingaratriði sem við höfum meðvitaðan aðgang að og "dulið minni" en þar býr sú þekking sem okkur reynist erfiðara að hafa á stjórn á. Ljóst minni skiptist í "atburðaminni" og "merkingaminni", en dulið minni skiptist í "aðferðaminni", "viðbragðsskilyrðingu" og "viðvana". Ástæður þess sem við köllum dags-daglega gleymsku í langtímaminninu eru taldar vera dofnun og hömlun sem megi rekja til vandkvæða við endurheimt og loks geta tilfinningar haft áhrif á hana og skipulagsleysi. Dofnun er talin eiga mest í hlut þegar við getum ekki rifjað eitthvað upp úr langtímaminninu. Dulið minni. Dulið minni felst í því að fyrri reynsla gerir okkur kleift að framkvæma ákveðna hluti án þess að vera með hugann við upprifjun, eitthvað sem við þurfum ekki að muna aðferðina við til að geta athafnað okkur, t.d. synda, hjóla, dansa o.s.frv. Í duldu minni býr sú þekking sem okkur reynist erfiðara að hafa meðvitaðan aðgang að, t.d. hreyfifærni og nám lært með "viðbragðsskilyrðingu". Um er að ræða ómeðvitað minni þar sem venjulegri upprifjun verður ekki við komið. Dulið minni veldur því að börn geta jafnvel munað það sem henti þau þegar þau voru enn í móðurkviði. Til eru þrjár tegundir dulins minnis: Aðferðaminni, viðbragðsskilyrðing og viðvani. Mest athygli hefur þó beinst að aðferðarminninu þegar talað er um dulið minni. Úrvinnsludýpt. Úrvinnsludýpt (e. Levels-of-processing effect) nefnist kenning sem Kenneth Craik og Lockhart mótuðu. Úrvinnsludýpt byggist á þeirri hugmynd að færsla milli skammtímaminnis og langtímaminnis sé ekki að mestu leyti háð endurtekningu og upprifjun heldur ráði hversu mikil vitræn úrvinnsla fer fram um minnisatriðið. Þeir sögðu að þeim mun meiri úrvinnslu sem atriðið þyrfti, því betra væri að muna það sökum þess að þá greinir heilinn atriðið og kemur því í eitthvert kerfi. Tilraunir þeirra styðja stoðum undir kenninguna. Ein tilraunanna var sú að sýna fólki lista með ótengdum orðum og þátttakendurnir síðan beðnir að svara um þau þremur ólíkum spurningum. Í fyrstu spurningalotu var fólk beðið að svara til um hvort orð væru skrifuð með há- eða lágstöfum. Svo var fólk beðið að svara til um hvort ákveðin orðapör rímuðu, og að lokum var fólk beðið að segja til um hvort ákveðin orð pössuðu inn í setningu. Helmingur svaranna var já, en hinn nei. Eftir þetta voru svo lagðir fyrir þátttakendurna langir orðalistar, og það beðið að segja til um hvort orðin á listanum hefðu komið fyrir í fyrri lotunni. Niðurstöðurnar sýndu glögglega að þeim mun meiri vinnsla fór fram, því auðveldara átti fólkið með að muna þau þegar spurningalistinn var lagður fyrir. Svör sem jákvætt svar var við festust einnig betur í minni en þau neikvæðu, líkast sökum meiri merkingartengsla. En þrátt fyrir að niðurstöðurnar standist, og kenningin skýri betur en grunnlíkanið hvernig atriði ferðast milli skammtímaminnis og langtímaminnis, hefur kenningin ýmsa vankanta. Má þar meðal annars nefna hvernig merkingarlítil áreiti eiga það til að festast í minni, að erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað krefst djúprar úrvinnslu og að kenningin gerir ráð fyrir línulegri þrepaskiptingu atriða milli skammtímaminnis og langtímaminnis, þ.e.a.s. sjónræn úrvinnsla orðsins, þá hljóðræn táknmynd þess og að lokum merkingarleg úrvinnsla, á meðan nýjar rannsóknir benda til þess að úrvinnsla áreita fari fram í mörgum samhliða ferlum. Heilalíffæri tengd minni. Ýmis heilalíffæri koma að minninu, en ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar til að leiða í ljós hvaða tilgangi þau gegna. Hér verður fjallað um nokkur þessara líffæra. Gagnaugablað. Kanadíski heilaskurðlæknirinn Wilder Penfield var einn þeirra manna sem rannsakaði heilann með rafreitingu. Hann lét veikan rafstraum fara um heilabörk sjúklinga og kannaði svo hvaða áhrif það hefði á ýmsa sálfræðilega starfsemi hjá fólki með flogaveiki á háu stigi. Fyrstu vísbendingar um að minni væri staðsett í gagnaugablaði fundust árið 1938, en gagnaugablaðið er sá hluti heilabarkar sem liggur innan við gagnaugað. Þar með kom í ljós að hjá sumum virðist áreiting gagnaugablaðsins kallaði fram liðnar minningar og jafnvel ljóslifandi. Drekinn. Talið að drekinn sé viðriðinn ljósa minnið sem er þróaðasti hluti minnisins. Auk þess að sjá um minnisfestingar í ljósa minninu hefur drekinn verið bendlaður við rýmisskynjun. Fólk með skemmd í drekanum á mjög erfitt að búa sér til hugrænt kort af nýjum stöðum og á mjög erfitt að rata heim til sín ef það flytur eitthvert annað eftir áfallið. Ætíð hefur drekinn verið tileinkaður minnisfestingunni og geymd í ljósa minninu. En nýjar rannsóknir sem Teng og Squire (1999) gerðu sýna fram á að hann á einungis að hafa með minnisfestinguna að gera en ekki geymdina. Þeir prófuðu mann vegna herpesveiru sem var með ónýtan dreka og skemmd á hluta á gagnaugablaðsins í báðum hvelum. Þar sem þessar skemmdir voru til staðar þá leiddi það til verlegs óminnis. Hann getur engan vegin munað hvar hann býr eða lært á hverfið sem hann flutti í eftir áfallið. En það merkilega við það að minni hans um æskustöðvar í Los Angeles reyndist alveg eins en fimm jafnaldra hans sem höfðu búið þar jafnlengi og flutt svo í burtu um svipað leyti og hann. Teng og Squire ályktuðu þá af niðurstöðum sínum að drekinn og gagnaugablaðið gegndu vissulega lykilhlutverki í að festa ljósar minningar í LTM en ekki að endurheimta þær eða geyma gamlar minningar. Möndlungurinn. Möndlungurinn tengist lykilhlutverki í randkerfinu sem tengist geðhræringum. Hann virðist sjá um samskipti við hin ýmsu kerfi líkamans sem stjórna óttaviðbrögðum (t.d. auka hjartslátt, hægja á meltingu eða frysta hreyfingar ef við verðum skelfingu lostin). Antonio Damasio og félagar hans hafa rannsakað konu með heilaskemmd sem er bundin við möndlunginn. Hún gat lesið öll tilfinningaleg látbrigði nema óttaviðbrögð. LeDoux og félagar komust að því að fólk með skemmd á gagnaugablaði og í möndlungi bregst ekki við óþægilegu áreiti. Þau sýndu svo að heilbrigt fólk (samanburðarhópur) sýndi lífeðlisleg viðbrögð þegar óþægilegur hávaði (skilyrt áreiti) var paraður við hlutlausan tón (skilyrt áreiti). Skilyrðingin var þannig að hlutlausi tónninn, sem heyrðist alltaf á undan óskilyrta áreitinu, dugði einn og sér til að kalla fram óþægindatilfinningu. Það átti ekki við tilraunahópinn sem var með heilaskaða í möndlungi og gangaugablaði, skilyrta áreitið vakti engin lífeðlisleg viðbrögð. Þar af ályktaði LeDoux að skemmdin í möndlungi orsakaði þetta “óttaleysi”. Möndlungurinn virðist hafa með dulið tilfinningaminni að gera. Gráhýði og rófukjarni. Gráhýði og rófukjarni kallast einu nafni rákakjarni. Bæði líffærin tilheyra svokölluðum botnkjörnum. Þeir liggja djúpt í mannsheilanum og þess vegna er ekki eins mikil áhætta á að það skaddist eins og randkerfið og börkurinn. Talið er að í þessum líffærum sé aðsetur aðferðaminnisins. Fólk sem þjáist af óminni er iðulega fært um að sýna merki þjálfunar sem reynir á þennan hluta minnisins. Gott dæmi er tilfelli Clive Wearing, breskum tónlistarmanni sem fékk heilabólgu og afleiðingin varð margvíslegur minnisbrestur. Hann getur ekki myndað nýjar minningar (eins og tíminn standi í stað hjá honum). Einnig er minni hans á liðna atburði gloppótt. En þrátt fyrir þessi veikindi sín getur Clive spilað á píanó og selló og stjórnað tónlistarviðburðum eins og ekkert sé. Skemmdirnar sem hann hlaut snertu ekki botnkjarnana og það er talin líklegasta skýringin á því að aðferðaminni tónlistar hefur haldið óskert. Forennisblaðið. Forennisblaðið er fremsti hluti heilabarkarins. Heilaskimarnir hafa sýnt að það svæði er mjög virkt þegar er verið að leysa vinnsluminnisverkefni. Tilraunir á öpum hafa sýnt að ef það kemur fram skemmd á þessu svæði þá gætu þeir ekki mögulega leyst verkefni sem reyna á vinnsluminnið. Leifturminni. Leifturminni kallast það þegar fólk hefur tiltölulega skýra mynd eða minningu af því hvar og hvernig þeim bárust upplýsingar um tiltekinn tilfinningaþrunginn atburð, t.d árásirnar á tvíburaturnanna í New York 11. september 2001. Ekki er vitað til fullnustu hvað veldur því að þessar minningar festast svo í vitund fólks en allt eru þetta minningar sem tengjast sterku tilfinningaróti. Út frá þessu telja menn að hormón (adrenalín) og boðefni (dópamín, serótónín, noradrenalín og asetýlkólín) eigi stóran þátt í þessu, svo virðist sem að tilfinningahlaðnar minningar tengist auknu rennsli adrenalíns og noradrenalíns en hlutlausar minningar gera það ekki. Tilraun var gerð til að sýna fram á þetta. Hópi fólks var skipt í tvennt. Hópunum voru sýndar skyggnumyndir og helmingnum var sögð átakanleg saga en hinum ekki. Helmingi hvors hóps um sig var gefið lyfið propanolol, sem hindrar verkan adrenalíns og noradrenalíns, en hinum helmingnum var gefinn lyfleysa. Í ljós kom að þeir sem fengu propanolol áttu í erfiðleikum með að rifja upp tilfinningaþrungnu söguna en hinir ekki. Lyfið hafði engin áhrif á hlutlausu söguna. Það bendir til þess að áðurgreind efni gegni mikilvægu hlutverki við festingu í leifturminni. Heilaskimun bendir til þess að möndlungurinn sé viðrinn tilfinningaminni. Aukin virkni í möndlungi sýnir betra minni á tilfinningaþrungið efni. Af þessu má ætla að tilfinningaminnið sé skráð á annan hátt en hlutlausa minnið. Það er þó umdeilt og rannsóknir á nákvæmni frásagna sýnir að leifturminningar virðast jafn viðkvæmar og venjulegar minningar. Því hafa sumir sagt sem svo að leifturminningar hafi félagslegt mikilvægi og því rifjar fólk slíkar minningar oft upp og finnst það muna það líkt og það gerðist í gær en raunin virðist vera önnur. Algleymi eða alminni? Hvort er betra að vera minnislaus eða muna allt? William James sagði að það væri jafnvont. Að muna allt merkir samkvæmt löghyggju, að maður muni allt sem liðið er, og hafi þar með góða hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér. Einnig er vafasamt að mannsheilinn sé gerður til að muna „allt“ og muni því byrja að skemmast þegar einhverjum „hámarks þröskuldi“ er náð, eða að heilinn muni bregðast við á sem skynsamlegastan hátt og gera mann brjálaðan á öllum þeim upplýsingum sem við höfum. Aftur á móti gefur minnisleysi möguleikann á því að muna ekki að maður sé með minnisleysi og þannig hefur maður ekki hugmynd um að það sé eitthvað að, þetta getur verið talið sem ein gerð ánægju. Reyndar gæti þetta verið hálfgerð blessun fyrir manninn, því að einn besti hæfileiki mannsins er að hunsa allt annað en hann sjálfan og loka augunum gersamlega fyrir öllu því slæma í lífi hans, en með eins þröngri sýn á veruleikan og hann getur, þá finnur hann auðvitað eitthvað að kvarta um. Minnisleysið mundi bæta þennan hæfileika hans, vegna þess að sá sem mundi ekki neitt gæti ekki munað eftir neinu, hvorki slæmu né góðu. Töfratalan sjö og minni. Lengi hafa menn vitað að minni okkar er ekki ótakmarkað. Breski aðalsmaðurinn William Hamilton komst að þeirri niðurstöðu strax á 19. öld. Hann sá að þegar handfylli af marmarakúlum er fleygt á gólf getur maður aðeins greint sjö þeirra vel í einu. Breski kennarinn John Jacobs gerði tilraun á nemendum sínum árið 1887. Þar kom í ljós að nemendur gátu að meðaltali munað samtímis sjö tölur í einu ef þeim var raðað handóhófkennt. Hermann Ebbinghaus komst svo einnig að sömu niðurstöðu. Loks velti bandaríski sálfræðingurinn George A. Miller (1956) þessu fyrir sér og kallaði töluna sjö (plús mínus tveir) töfratölu enda kæmi oft fyrir í heiminum, t.d. eru sjö heimshöf, sjö undur veraldar, sjö dagar í vikunni, sjöundi himinn og sjö dauðasyndir. Minnistækni. Það sparar tíma og fyrirhöfn að hafa gott minni, þá þarf maður ekki að skrá allar upplýsingar hjá sér eða geta treyst á það að geta flett þeim upp. Áður fyrr var það metinn mikilsverður hæfileiki að hafa gott minni, því að þá höfðu landsmenn ekki almennan aðgang að bókum og aðeins hluti þeirra var læs. Nú til dags hafa menn glatað hæfileikanum til að muna langar frásagnir eins og t.d. Íslendingasögurnar. Flestir reikna ekki lengur í huganum heldur slá það inn í reiknivél, tölvurnar eru góður staður til að geyma upplýsingar og einnig GSM- síminn. Eins og alltaf koma nýir hlutir í staðinn fyrir þá gömlu, í dag þarf fólk að muna alls kyns aðgangsorð og númer að kerfum af ýmsu tagi (tölvupóstur, bankanúmer o.s.frv.). Enn er ekki ljóst hvers vegna sumir hafa mun betra minni en aðrir, þó er vitað að þjálfun og erfðir skipta mjög miklu máli. Fyrsta minnisaðferðin nefnist staðaraðferðin, hún felst í því að atriði sem á að muna er sett í samband við ákveðinn stað. Dæmi um aðrar aðferðir sem hafa reynst vel, þeim sem vilja bæta minnið sitt með sérstakri minnistækni, eru: að nota ímyndir, búa til sögur eða nota hrím og hrynjandi. Hver og einn hefur sína aðferð til að muna og eflaust eru til margar aðrar minnisaðferðir. Sálfræði. Sálfræði er gjarnan skilgreind sem vísindagrein um hugarstarf og hegðun. Þeir sem leggja stund á sálfræði eru líka í auknum mæli farnir að kanna heilastarf. Sálin (sem óefnislegt fyrirbæri aðskilið líkamanum) er ekki viðfangsefni greinarinnar og því er nafn hennar ef til vill villandi. Segja má að sálfræði sé yfirgrein margra undirgreina sem rannsaka mannlega hegðun og hugsun, en það sem sameini þessar greinar er aðferðafræði, krafa um vísindalega nálgun, en jafnframt er oft hægt að samnýta þekkingu úr öllum greinunum samtímis. Viðfangsefni sálfræðinnar. Sálfræði er fyrst og síðast fræðigrein sem fjallar um þá hluta mannsins sem snúa að hegðun, hugsun og heila hans. Margar spurningar sem fengist er við í sálfræði eru æði heimspekilegar en sálfræðin á sér rætur einmitt í heimspeki þó svo að rætur hennar nái einnig til líffræði. Spurningarnar sem fengist er við eru spurningar eins og „Hvað er hugsun?“ og „Af hverju hegðar fólk sér eins og það gerir?“. Ólíkt heimspeki notar sálfræði vísindalega aðferð til að leita svara við þeim. Sálfræðin snertir mörg önnur svið og þeir sem hafa veitt þekkingu inn í fagið koma víða að, svo sem úr heimspeki, líffræði, félagsfræði, eðlisfræði, lífeðlisfræði, læknisfræði, erfðafræði, lífefnafræði, mannfræði, málvísindum og tölvunarfræði. Grundvöllur sálfræðinnar eru rannsóknir, einkum tilraunir. Rannsóknum í sálfræði fylgja ýmis vandkvæði þar sem þær eru í flestum tilfellum gerðar á fólki. Fyrir það fyrsta er hætta á að fólk breyti hegðun sinni þegar það veit að einhver fylgist með því. Auk þess þurfa sálfræðingar að fylgja ýtrustu siðgæðisreglum. Reglurnar hafa orðið strangari í seinni tíð svo sumar eldri rannsóknir væru ekki gerðar nú til dags. Tilraunir í sálfræði eru af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna tilraun þar sem einstaklingur leggur á minnið lista af orðum sem hann rifjar svo upp eftir fremsta megni. Annað dæmi eru tilraunir þar sem einstaklingur er látinn leysa þrautir á meðan höfuð hans er í fMRI-skanna. Enn annað dæmi er þegar rannsakendur fylgjast með atferli fólks í vissum aðstæðum (t.d. í skólastofu), breyta vissum atriðum í þessum aðstæðum og kanna hvaða áhrif breytingarnar hafa. Störf sálfræðinga. Algengur misskilningur er að sálfræði snúist fyrst og síðast um að veita þeim meðferð sem eiga í einhvers konar erfiðleikum. Þetta er að sjálfsögðu hluti af sálfræði og margir sálfræðingar vinna við að hjálpa fólki með geðraskanir, veita hjónabandsráðgjöf eða annars konar klíníska þjónustu. Þeir eru þó aðeins brot af heildinni, sálfræði fjallar aðeins að litlu leyti um að leysa vandamál fólks. Sálfræðimenntað fólk starfar á ýmsum vettvangi, þar á meðal við stjórnun fyrirtækja, ráðgjöf, starfsmannastjórnun, markaðssetningu, hönnun tækja og mannvirkja, á rannsóknarstofum, við ýmiss konar meðferð, í fjölmiðlum, í skólum, í líftæknifyrirtækjum og á auglýsingastofum. Sálfræðimenntað fólk er sífellt að hasla sér breiðari völl í atvinnulífinu og atvinnutækifæri eru fjölmörg. Þessi hagnýting á sálfræði byggir á öflugu vísinda- og rannsóknarstarfi sem er grundvöllur greinarinnar. Á Íslandi veitir BS-gráða frá íslenskum háskólum ekki réttindi til að starfa sem sálfræðingur, heldur þarf að minnsta kosti tveggja ára framhaldsmenntun til þess - þ.e., gráðu í klínískri sálfræði. Í Háskóla Íslands er boðið upp á framhaldsnám í klínískri sálfræði, barnasálfræði og vinnusálfræði. Margir fara þó í framhaldsnám í öðrum greinum, bæði innan sálfræði og utan. Til að starfa sem sálfræðingur er víða um heim gerð krafa um viðurkenningu yfirvalda. "Sjá einnig: Listi yfir sálfræðinga" Yfirlit. Seinni hluti 19. aldar markar upphaf sálfræðinnar sem vísindagreinar. Gjarnan er miðað við árið 1879 en þá stofnaði Wilhelm Wundt fyrstu rannsóknarstofuna í sálfræði. Aðrir mikilvægir frumkvöðlar voru Hermann Ebbinghaus sem rannsakaði minni, Ivan Pavlov sem uppgötvaði klassíska skilyrðingu og sálgreinandinn Sigmund Freud sem gerði fræga hugmyndina um dulvitund. Á fyrri hluta 20. aldar var kenningum Freuds hafnað innan sálfræði. Þetta leiddi til mótunar atferlisstefnunnar sem John B. Watson og síðar B. F. Skinner gerðu vinsæla. Kenningar Freuds höfðu samt gífurleg áhrif á aðrar greinar, svo sem geðlæknisfræði og bókmenntafræði, og á hugmyndir almennings um sálarlífið. Á síðustu áratugum 20. aldar varð til nýtt þverfaglegt fag um hugarstarf bæði lífvera og véla, svokölluð vitsmunavísindi. Innan vitsmunavísinda starfs fræðimenn með bakgrunn í sálfræði, málvísindum, tölvunarfræði, heimspeki og taugavísindum, svo eitthvað sé nefnt. Frumsálfræði. Hin forn-egypsku Ebers-skjöl, frá um 1550 fyrir Krist, innihalda lýsingar á geðröskunum eins og klínísku þunglyndi og vitglöpum. Forn-Egyptar virðast ekki hafa talið neinn grundvallarmun vera á geðröskunum og líkamlegum kvillum. Heimspekingar hafa lengi spáð í eðli hugans, ferla hans og innihald, en yfirleitt einungis með kenningum án kerfisbundinna athugana. Forn-grísku heimspekingarnir Alkmajon af Króton (um 500 f. Kr.) og Empedókles af Akragas (um 450 f. Kr.) geta ef til vill talist til fyrstu frumsálfræðinganna (e. protopsychologists). Þeir reyndu báðir að finna lífeðlislegar skýringar á hugsun og hegðun manna. Alkmajon kannaði til að mynda sjónskynjun, eitt aðalviðfangsefni skynjunarsálfræðinga, og taldi réttilega að upplifun og hugsun ættu sér stað í heilanum. Empedókles reyndi líka að finna náttúrlegar skýringar á skynjun, en taldi þó að hún ætti rætur í hjartanu. Upphaflega litu Forn-Grikkir fremur á sálina ("psykke") sem lífsanda en ekki sem geranda hegðunar né sem sjálf manns. Platon þrískipti síðan sálinni í skynsemi, skap og löngun. Aristóteles skipti sálinni líka í marga parta, og taldi að við skynjun tæki hugurinn á sig form þess skynjaða. Aðrir seinni tíma forverar sálfræðinnar eru til að mynda heimspekingarnir René Descartes (1596-1650) og John Locke (1632-1704). Saman mótuðu þeir hugmyndir manna um að hinn meðvitaði hugur væri aðskilinn hinum efnislega heimi. Nútímasálfræði hefur reynt eftir fremsta megni að losa sig undan viðjum þessarar tvíhyggju um sál og líkama. Sálfræði verður að vísindagrein. Árið 1879 opnaði Wilhelm Wundt tilraunastofu sína í sálfræði við Háskólann í Leipzig í Þýskalandi, þar sem sjónum var sérstaklega beint að hegðun og hugarástandi. Svo, árið 1890, gaf William James út bókina "Principles of Psychology", eða "Grundvöll sálfræðinnar", sem lagði undirstöðurnar að fjölda spurninga sem sálfræðingar einbeittu sér að um langt skeið. William James var fyrsti prófessorinn í sálfræði við Harvard-háskóla. Það mikilvægasta var að aðferðir og viðhorf Wilhelms Wundt og William James voru laus við yfirskilvitlegar trúarlegar útskýringar á hugsun manna eða hegðun, sem losaði sálfræðina undan viðjum heimspeki og guðfræði, og lagði grunninn að nútíma sálfræði sem vísindagrein. Árið 1892 voru samtökin "American Psychological Association", ameríska sálfræðingafélagið, stofnuð, en stofnun þeirra hafði mikil áhrif á þróun greinarinnar. Á árunum 1890-1900 mótaði Austurríski taugalæknirinn Sigmund Freud kenningar sínar um dulvitund og þróaði út frá þeim aðferðir sem hann taldi að gætu gagnast til að lækna sálarmein. Aðferðir og kenningar Freuds eru einu nafni nefndar sálgreining. Skilningur Freuds á huganum var að mestu byggður á túlkunaraðferðum og óbeinum athugunum, en ekki kerfisbundnum rannsóknum. Flestir sálfræðingar nútímans hafna kenningum Freuds og þeim aðferðum sem á þeim byggja, yfirleitt á þeim forsendum að þær séu í eðli sínu óprófanlegar og því óvísindalegar. Dulvitundin, eitt grundvallarhugtakið í sálgreiningu, er til dæmis samkvæmt skilgreiningu nokkuð sem ekki er hægt að rannsaka með beinum hætti. Kenningar og aðferðir Freuds eru enn þrætuefni. Þó er engin spurning um að áhrifa hans gætir víða, ekki hvað síst í hugmyndum almennings um sálfræði. Að hluta til sem viðbrögð við hve mikil sálfræðin einbeitti sér að sjálfsskoðun og huglægi á þeim tíma, varð atferlisstefnan vinsæl sem leiðbeinandi sálfræðikenning. Með forvígismennina John B. Watson, Edward Thorndike og B.F. Skinner í fararbroddi, þá stóð atferlisstefnan á bakvið þær hugmyndir að sálfræðin skyldi vera vísindagrein sem rannsakaði hegðun, en ekki hugann og hafnaði hugmyndum um hugarástand (svo sem trú, langanir og markmið) og hélt því fram að öll hegðun og reynsla helgaðist af viðbrögðum frá umhverfinu. Í ritinu "Psychology as the Behaviorist views it", Sálfræðin eins og atferlissinninn sér hana, sem Watson skrifaði árið 1913, segir hann að sálfræði sé algjörlega undirfag náttúruvísinda sem rannsaki hlutlægt, og ekkert annað. Í sama riti hafnar hann algjörlega að sjálfsskoðun sé nokkuð sem sálfræði styðjist við og að atferlissinni þekki enga línu sem skilji að menn og dýr. Atferlisstefnan var ríkjandi innan sálfræðinnar stóran hluta fyrriparts 20. aldarinnar, að miklu leyti vegna þess hve vel kenningarnar um skilyrðingu og hagnýtingu þeirra (ekki síst í auglýsingum) sem vísindaleg módel af mannlegri hegðun heppnuðust. En það varð smám saman ljóst að atferlisstefnan var ekki nógu góð sem leiðandi kenning um mannlega hegðun, þrátt fyrir mikilvægar uppgötvanir. Gagnrýni Noam Chomsky á bók Skinners, "Verbal behavior" (sem hafði það markmið að skýra út tungumálanám með kenningum atferlissinna), er talin vera ein af stærstu þáttunum í því að atferlisstefnan hætti að vera ríkjandi. Chomsky sýndi fram á það að tungumál væri ekki hægt að læra með skilyrðingunni einni saman, vegna þess að fólk getur búið til setningar sem eru einstakar í uppbyggingu og að merkingu sem geta ekki orðið til eingöngu með reynslu af náttúrulegu tungumáli og gaf þar með í skyn að það hlyti að vera til hugarástand, sem atferlisstefnan hafnaði. Hliðstætt, þá sýndi Albert Bandura fram á það í verki sínu að börn gætu lært með því að fylgjast með hegðun í umhverfi sínu, án breytinga á hegðun, svo eitthvað innra með okkur hlyti að eiga hlut að máli. Ris tölvutækninnar lagði sinn skerf til í því að líta á virkni hugans sem úrvinnslu á upplýsingum. Þetta, ásamt vísindalegum aðferðum við að rannsaka hugann, sem og trú á hugarástand, leiddi til riss hugfræðistefnunnar sem ríkjandi kenningu um hugann. Tengingar á milli heilans og taugakerfisins voru einnig að verða ljósar, að hluta til vegna tilrauna Charles Sherrington og Donald Hebb, og að hluta til vegna rannsókna á fólki sem hafði hlotið heilaskaða. Með þróun á tækni sem gerir okkur kleift að rannsaka heilastarfsemi nákvæmlega, þá hefur taugasálfræði og "skilvitleg taugavísindi" (e. "cognitive neurosience") orðið að einna mest virkar innan nútíma sálfræði. Með aukinni þátttöku annarra greina, svo sem heimspeki, tölvunarfræði og taugafræði, í leit að skilningi á huganum, þá hefur orðið til yfirfag sem kallast vitsmunavísindi, sem einblínir á að hagnýta öll framlög með uppbyggilegum hætti. En ekki hafa allir sálfræðingar verið hrifnir af því að reyna að skilja hugann og náttúruna með mekkanískum aðferðum. Carl Jung, sem eitt sinn fylgdi stefnu Freuds, var frumkvöðull í að betrumbæta sjálfsskoðun Freuds með hugmyndum um trú. (Freud hafði hafnað trú sem hópblekkingu). Alfred Adler, eftir að hafa átt einhver samskipti við umræðuhóp Freuds, myndaði sitt eigið fag, kallað einstaklingssálfræði. Áhrif hans á nútímasálfræði hafa verið talsverð, þar sem margar nálganir hafa fengið að láni hluta af kenningum hans. Klassísk adlerísk sálfræði er nýleg endurfæðing á kenningum Alfreds Adlers, en þessi fræði fella saman upprunalegu kenningu Adler's um persónuleika, stíl sálfræðimeðferða og heimspeki lífsviðhorfa, ásamt sýn Abrahams Maslow's á "bestu virkni" (e. optimal functioning). Fyrirbærafræði eða húmanísk sálfræði varð til á 4. áratug 20. aldar, og hefur veitt mótvægi við framstefnu og vísindalegar aðferðir til að rannsaka hugann. Hún leggur áherslu á rannsóknir, á skynjun einstaklingsins og leitast við að skilja manneskjur og hegðun þeirra með því að framkvæma rannsóknirnar. Fyrirbærafræðin á rætur sínar í existentíalisma og fyrirbærafræði í heimspeki. Margir fyrirbærafræðingar hafna algjörlega vísindalegum aðferðum og segja að það að reyna að mæla upplifanir og skynjun ræni það þýðingu og merkingu mannlegrar tilvistar. Þeir sem lögðu fram þær hugmyndir sem mynda grunninn að fyrirbærafræðinni eru meðal annars Abraham Maslow, Carl Rogers, og Fritz Perls. "Sjá einnig: Ágrip af sögu sálfræðinnar, Helstu ártöl í sögu bandarískrar sálfræði, Helstu ártöl í sögu íslenskrar sálfræði" Undirgreinar sálfræðinnar. Það helsta sem sameinar ólíkar undirgreinar sálfræði er viss aðferðafræði, rannsóknaraðferðir. Gerð er krafa um hlutlægar rannsóknir, einkum tilraunir. Tilraunaaðferð náttúruvísinda er meðal aðalsmerkja sálfræði, sem gerir hana frábrugðna öðrum greinum sem fjalla um manninn, svo sem heimspeki og stjórnmálafræði. Líta má á ólíkar undirgreinar sálfræði sem sjónarhorn á viðfangsefni sitt, manninn. Svo nokkur dæmi séu tekin, þá er í atferlisgreiningu eingöngu hegðun rannsökuð og reynt að spá fyrir um hana út frá fyrri hegðun, í líffræðilegri sálfræði er hegðun og hugsun rannsökuð út frá lífræðilegum forsendum, og í hugfræði er reynt að spá fyrir um hugsun út frá hegðun. Aðrar greinar rannsaka sama viðfangsefni, en frá sínum sjónarhornum. Innbyrðis innan sálfræði er sem sagt reynt að útskýra hegðun út frá mismunandi forsendum. Þegar kemur að hagnýtingu á þekkingu úr undirgreinum sálfræðinnar er svo stuðst við þekkingu úr öllum undirgreinum, en skýringar sem taldar eiga frekar við en aðrar eru nýttar. Hagnýtt sálfræði. Hagnýtt sálfræði snýst um að nota sálfræðilegar aðferðir og kenningar til að leysa vandamál í öðrum greinum, eins og t.d. í starfsmannastjórnun, vöruhönnun, lækningum og menntun. Persónuleikasálfræði. Persónuleikasálfræði getur talist til sígildra undirgreina sálfræðinnar og eiga rætur að rekja til kenninga Freuds um persónuleikann. Áhersla er lögð á einstaklingsmun og gengið er út frá því að fólk sé ólíkt vegna meðfæddra eða áunninna persónuleikaþátta sem móta hegðun fólks í vissum aðstæðum og valda því að hver einstaklingur sýnir ákveðinn stöðugleika í hegðun. Öldrunarsálfræði. Öldrunarsálfræði fjallar um líkamlegar, hugrænar, félagslegar og sálrænar breytingar sem eiga sér stað við öldrun. Öldrunarsálfræði fæst bæði við breytingar sem fylgja eðlilegri öldrun sem og óeðlilegar breytingar, svo sem heilabilun. Eðlisfræðilögmál. Eðlisfræðilögmál er stærðfræðilegt samhengi á milli mælanlegrar stærðar og þeirra þátta sem hluturinn, sem á að mæla, er háður. Þetta er grundvallarhugtak í eðlisfræðinni. Eðlisfræðilögmál eru yfirleitt sannreynd med tilraunum. Tilraunir hafa alltaf einhverja óvissu í sér og því er hægt ad segja að eðlisfræðilögmál séu nálganir á því sem mælt er vegna þess ad líkanið, sem er byggt út frá tilraununum, lýsir mæliniðurstöðum innan einhverja skekkjumarka. Fræg eðlisfræðilögmál eru t.d. lögmál Newtons og jöfnur Maxwells. Eskifjörður. Eskifjörður er bær á norðurströnd samnefnds fjarðar sem liggur út frá Reyðarfirði norðanverðum. Íbúar Eskifjarðar voru 1043 þann 1. janúar 2011 og hefur íbúatalan haldist nokkuð stöðug síðustu árin. Eskifjörður var verslunarstaður fyrr á öldum og var einn hinna sex staða á Íslandi, sem fengu kaupstaðarréttindi árið 1786 við afnám einokunarverslunarinnar, en missti þau aftur síðar. Árið 1798 reisti danska verslunarfyrirtækið Örum og Wulff verslunarhús í Útkaupstað, sem svo er kallaður, og hóf þar verslun. Það var þó ekki fyrr en Norðmenn hófu síldveiðar við Ísland á síðari hluta 19. aldar sem íbúum tók að fjölga verulega og árið 1902 voru íbúarnir orðnir 228. Á Eskifirði er Steinasafn Sigurborgar og Sörens Aðalatvinnuvegur íbúa Eskifjarðar er sjávarútvegur og fiskvinnsla en verslun og þjónusta eru einnig mikilvægar atvinnugreinar. Á Eskifirði er Sjóminjasafn Austurlands í gömlu húsi sem Örum og Wulff byggðu um 1816 og þar má sjá minjar um sjósókn á Austfjörðum og byggðasögu og atvinnulíf á Eskifirði. Aðsetur sýslumannsembættis Suður-Múlasýslu var flutt til Eskifjarðar 1853 og þar er miðstöð löggæslu á Austurlandi. Byggðin var gerð að sérstökum hreppi, "Eskifjarðarhreppi", árið 1907 en hafði fram að því tilheyrt Reyðarfjarðarhreppi. Hreppurinn fékk kaupstaðarréttindi á ný 22. apríl 1974. Hinn 1. janúar 1988 sameinaðist Helgustaðahreppur Eskifirði. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Eskifjarðarkaupstaður Reyðarfjarðarhreppi á ný og Neskaupstað að auki undir nafninu "Fjarðabyggð". Heimildir. Á árunum 1971 til 1986 kom úr fimm binda ritverk Einars Braga skálds, sem kallast Eskja. 2003. Árið 2003 (MMIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á miðvikudegi. 2001. Árið 2001 (MMI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á mánudegi. Það var fyrsta ár 21. aldarinnar. 1998. Árið 1998 (MCMXCVIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. Búðardalur. Búðardalur er þorp í Dölum, við botn Hvammsfjarðar. Þorpið er nú hluti af sveitarfélaginu Dalabyggð og er stjórnsýslumiðstöð þess. Íbúar Búðardals voru 248 þann 1. janúar 2011. Í Laxdælasögu er Búðardalur nefndur og sagt frá því að Höskuldur Dala-Kollsson lenti skipi sínu fyrir innan Laxárós þegar hann kom úr Noregsferð og hafði ambáttina Melkorku með sér: „Höskuldur lenti í Laxárósi, lætur þar bera farm af skipi sínu en setja upp skipið fyrir innan Laxá og gerir þar hróf að og sér þar tóftina sem hann lét gera hrófið. Þar tjaldaði hann búðir og er það kallaður Búðardalur. Síðan lét Höskuldur flytja heim viðinn og var það hægt því að eigi var löng leið.“ Verslun hófst í Búðardal árið 1899 er Bogi Sigurðsson, kaupmaður, byggði þar fyrsta húsið, sem var bæði íbúðar- og verslunarhús. Þetta hús var síðar flutt á Selfoss og stendur þar enn. Um aldamótin hóf Kaupfélag Hvammsfjarðar verslunarrekstur í Búðardal og var þar nær allsráðandi uns það varð gjaldþrota 1989. Búðardalur er þjónustukjarni fyrir Dalina og þar er meðal annars mjólkurstöð, verslanir, bílaverkstæði, pósthús, banki og önnur þjónusta fyrir heimamenn og ferðamenn. Þar er Auðarskóli, sameinaður leik- og grunnskóli fyrir Dalabyggð, og dvalarheimilið Silfurtún. Sýslumaður Dalamanna hefur aðsetur í Búðardal og þar er heilsugæslustöð og læknar. Engin kirkja er í þorpinu en sóknarkirkjan er Hjarðarholtskirkja. Hins vegar er prestssetrið í Búðardal. "Eiríksstaðir", bóndabær Eiríks rauða, er ekki langt frá Búðardal. Þar bjó Eiríkur áður en hann fór til Grænlands. Skammt utan við þorpið eru Höskuldsstaðir, þar sem Höskuldur Dala-Kollsson bjó og einnig Hjarðarholt, þar sem Ólafur pái bjó. Hallgerður langbrók og Ólafur pái voru börn Höskuldar á Höskuldsstöðum. José Saramago. José Saramago (16. nóvember 1922 – 18. júní 2010) var portúgalskur rithöfundur, fæddur í Azinhaga. José Saramago var búsettur á Kanaríeyjum. Hann vann sem vélvirki, blaðamaður, ritstjóri og þýðandi áður en hann ávann sér nafn með sögunni Memorial do Convento, sem í enskri þýðingu var nefnd: Baltasar og Blimunda. Helstu verk. Saramago, José Günter Grass. thumb Günter Grass (fæddur í Danzig 16. október 1927) er þýskur rithöfundur, myndlistarmaður og uppgjafahermaður. Hlaut nóbelsverðlaun í bókmenntum 1999. Var meðlimur í Hitlersæskunni og síðar Waffen-SS og barðist með 10 SS-skriðdrekasveit ("Frundsberg") í seinni heimsstyrjöld þar til hann var tekinn til fanga af bandamönnum. Toni Morrison. Toni Morrison (18. febrúar 1931, Ohio –) er bandarískur rithöfundur og handhafi Bókmenntaverðlauna Nóbels. Verk hennar snúast að mestu um samfélag blökkumanna í Bandaríkjunum. Bók hennar "Ástkær" vann Pulitzer verðlaunin árið 1988 og "Söngur Salómons" vann til National Books Critic Avards. Helstu verk. Morrison, Toni Morrison, Toni Ernest Hemingway. Ernest Miller Hemingway (21. júlí 1899 í Oak Park í Illinois í Bandaríkjunum – 2. júlí 1961 í Ketchum í Idaho) var bandarískur rithöfundur. Hann starfaði m.a. sem blaðamaður, sjúkraflutningabílstjóri (á Ítalíu í fyrri heimsstyrjöldinni) og, að sjálfsögðu, sem rithöfundur. Hann bjó um tíma í París þar sem hann kynntist m.a. F. Scott Fitzgerald og James Joyce. Hann fyrirfór sér með því að skjóta sig í hausinn með haglabyssu. Joseph Brodsky. Joseph Brodsky (eða Jósef Brodsky) (24. maí 1940 - 28. janúar 1996) fæddur Iosip Aleksandrovich Brodsky eða Ио́сиф Алекса́ндрович Бро́дский, var rússneskt skáld, leikrita- og ritgerðarhöfundur. Joseph Brodsky fæddist í Leningrad (nú Sankti Pétursborg) í Rússlandi en fluttist til Bandaríkjanna eftir að hafa verið gerður útlægur úr Sovétríkjunum. Hann öðlaðist bandarískan ríkisborgararétt 1977. Hann fékk aldrei að hitta foreldra sína aftur, og tileinkaði þeim ritgerðarsafnið "Less Than One". Joseph Brodsky fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1987. Hann er grafinn í Feneyjum. 2000. Árið 2000 (MM) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á laugardegi. Kjörorð. Kjörorð er setning sem hópur hefur valið sér til að sameinast um. Dæmi um þetta er kjörorð skyttnanna í bókinni Skytturnar þrjár eftir Alexandre Dumas: "„Allir fyrir einn, einn fyrir alla!“". Tony Blair (hljómsveit). Tony Blair er íslensk pönkhljómsveit stofnuð vorið 2004 af fimm félögum í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og er nefnd í höfuðið á forsætisráðherra Bretlands Tony Blair. Sveitin samanstóð í upphafi af Degi Snæ Sævarssyni, sem lék á gítar og söng, Guðmundi Björnssyni á trommur, Hilmari (Hilla) Hilmarssyni á rythmagítar, Katrínu Jakobsdóttur sem bakrödd og Páli Hilmarssyn á bassa. Þegar hljómsveitin átti að byrja að spila mun Dagur ekki hafa átt pening fyrir húsnæðinu og mun þá hafa verið rekinn úr sveitinni. Katrín var einnig látin fara, en af öðrum ástæðum. Eftir þessar breytingar var Stefán Pálsson gerður að söngvara og Haraldur (Halli) Þorleifsson fenginn á gítar. Ekki leið þó langur tími þar til Stefán var rekinn, Palli fór aftur fyrir hljóðnemann og Halli á bassann og er uppstillingin þannig enn þann dag í dag. Þekktasta lagasmíð hljómsveitarinnar er þjóðfélagsádeilan „Það er alltaf hlýtt á Hlemmi“. Minna þekkt lög eru m.a. „Meira paunk“ og „Cherie Blair“. Fyrsta plata hljómsveitarinnar kom út síðla árs 2004 og heitir „Skuðið í tussunni“. Platan inniheldur upptökur frá einum af fjölmörgum tónleikum sveitarinnar á Grand rokk og er þar meðal annars að finna ofangreind lög. Hljómsveitin kýs að kalla sig paunkhljómsveit. Ahmed Yassin. Sjeik Ahmed Yassin (1937 — 22. mars, 2004) var leiðtogi Hamas samtakanna þangað til hann var drepinn af ísraelska hernum. Talsmenn Ísraelsstjórnar sögðu að aftakan væri refsing fyrir allan þann fjölda sjálfsmorðsárása á ísraelska borgara, sem Hamas hefur staðið fyrir. Stuðningsmenn Ahmeds Jassins, auk fjölmargra annarra, fordæmdu aftökuna. Ahmed Yassin stofnaði Hamas ásamt Abdel Aziz al-Rantissi árið 1987. Upphaflega voru samtökin kölluð Palestínuvængur Bræðralags Múslima. Ísraelsríki, Bandaríkin, Evrópusambandið og fleiri lönd hafa skilgreint samtökin sem hryðjuverkasamtök. Auk þess að vera sjóndapur svo jaðraði við blindu var hann lamaður fyrir neðan mitti og bundinn við hjólastól vegna íþróttaóhapps sem henti hann á hans yngri árum. Ólafur Jóhannes Einarsson. Ólafur Jóhannes Einarsson (fæddur 27. mars 1974) er íslenskur lögfræðingur sem starfað hefur hjá Umboðsmanni Alþingis, á skrifstofu Háskólarektors og á lögmannsstofunni Logos, auk stundakennslu við Háskóla Íslands. Hann var í sigurliði Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur árin 1993 og 1994 auk þess að keppa fyrir Íslands hönd í Norðurlandamótinu í skólaskák fyrir hönd Hagaskóla. Jón Gústafsson. Jón Gústafsson var vinsæll þáttastjórnandi á níunda áratugnum, þar sem hann kom að stjórn margra sjónvarps- og útvarpsþátta sem einkum voru ætlaðir ungu fólki. Má þar nefna: Rokkarnir geta ekki þagnað, Unglingarnir í frumskóginum og spurningakeppnina Gettu betur þegar hún var fyrst haldin árið 1986. Síðar stýrði hann spurningaþættinum SPK fyrir yngri keppendur. Stefán Jón Hafstein. Stefán Jón Hafstein (f. 18. febrúar 1955) er stjórnmálamaður, fjölmiðlamaður og rithöfundur sem kom að stofnun Dægurmálaútvarps Rásar 2 og stjórnaði útvarpsþáttunum Meinhorninu og Þjóðarsálinni, þar sem hlustendum gafst færi á að hringja inn og tjá sig um ýmis málefni. Stefán var kosinn borgarfulltrúi Samfylkingarinnar 2005 en hann fékk leyfi frá störfum í borgarstjórn í upphafi árs 2007 til tveggja ára til að starfa sem verkefnisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Namibíu. Hann var umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví 2008-2012 og starfar hjá Þróunarsamvinnustofnun í Reykjavík frá 2012. Maki er Guðrún Kristín Sigurðardóttir. Ævi. Foreldrar Stefáns eru Hannes Þórður Hafstein (látinn) og Sigrún Stefánsdóttir. Stefán gekk í Vogaskóla og útskrifaðist 1975 frá Menntaskólanum við Tjörnina. Hann stundaði nám í ensku og bókmenntun við Háskóla Íslands og lauk BA námi í fjölmiðlafræðum frá Polytechnic of Central London 1979. Að námi loknu sneri Stefán heim til Íslands og starfaði sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV 1979-1982. Svo settist hann á ný á skólabekk og stundaði framhaldsnám í boðskiptafræðum við University of Pennsylvania 1983-85 og útskrifaðist með MA gráðu frá þeim skóla. Að framhaldsnáminu loknu starfaði hann um hríð sem sendifulltrúi Rauða krossins í Genf og Eþíópíu og gengdi trúnaðarstörfum sem slíkur víðar. Hann starfaði sem dagskrárstjóri Rásar 2, dagskrárgerðarmaður Sjónvarpsins, Stöðvar 2 og Rásar 1. Stjórnandi spurningakeppninnar Gettu betur á árunum 1991-1994. Hann var ritstjóri dagblaðsins Dags-Tímans (síðar Dags) 1997-1999, með eigin rekstur 2000 og starfaði sem rekstrarstjóri hjá Eddu - miðlun og útgáfu 2001-2002. Stjórnmál. Stefán tók þátt í undirbúningi og stofnun Samfylkingarinnar árin 1999 og 2000. Hann var kjörinn formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 2001-2005. Var kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík árið 2002 fyrir Reykjavíkurlistann, þar sem hann er fulltrúi Samfylkingarinnar. Hann hlaut fyrsta sæti á lista Samfylkingar í prófkjöri 2003. Hefur starfað sem formaður borgarráðs, forseti borgarstjórnar, formaður menntaráðs, formaður menningar- og ferðamálaráðs og formaður hverfisráðs Grafarvogs. Formaður Víkarinnar sjóminjasafns frá 2004. Í framboði til borgarstjórnar árið 2005 fyrir Samfylkinguna og náði kjöri, sat í menntaráði, menningar- og ferðamálaráði og stjórn Orkuveitunnar. Stefán Jón Hafstein fékk leyfi frá störfum í borgarstjórn í upphafi árs 2007 til tveggja ára til að starfa sem verkefnisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Namibíu og hætti í framhaldi stjórnmálaþátttöku að sinni er hann varð umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví 2008 og starfaði að þeim málum síðan. Sveinn H. Guðmarsson. Sveinn H. Guðmarsson (fæddur 1974) er íslenskur fjölmiðlamaður. Hann er með BA-próf í guðfræði frá Háskóla Íslands og MSc í alþjóðastjórnmálum frá Edinborgarháskóla. Sveinn var dómari í Gettu betur árið 2003, en var áður í sigurliði Menntaskólans í Reykjavík í sömu keppni árin 1993 og 1994. Hann var inspector scholae (formaður nemendafélags) MR veturinn 1993-1994. Þá leiddi hann lista Vöku í kosningum til Stúdentaráðs 1995. Hann hefur starfað áður sem dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og í Sjónvarpinu og við blaðamennsku á Fréttablaðinu. Einnig sem fréttamaður á Stöð 2 og loks ritstjóri "Iceland Review" og flugtímarisins "Atlantica". Frá árinu 2008 hefur Sveinn verið fréttamaður RÚV. Hann starfaði sem fréttaritari í Lundúnum til ársins 2009. Árið 2010 starfaði Sveinn sem upplýsingafulltrúi Unicef í Jemen. Á Rás 2 var Sveinn meðal annars umsjónarmaður hinnar árvissu Spurningakeppni fjölmiðlanna. Hlemmur. Hlemmur er ein af aðalskiptistöðvum Strætó bs. í Reykjavík og stendur gegnt aðallögreglustöð borgarinnar, efst á Hverfisgötu. Nafnið Hlemmur vísar til brúarstubbs sem þar var yfir lækinn Rauðará, sem Rauðarárstígur í Reykjavík er kenndur við. Komið var upp vatnsþró á Hlemmtorgi, til að brynna hestum, skömmu eftir stofnun Vatnsveitu Reykjavíkur. Árið 2005 var höggmynd, sem var gerð fyrir mörgum árum og hafði staðið annars staðar, flutt til og sett niður rétt við Hlemm. Á fyrri hluta tuttugustu aldar stóð Gasstöð Reykjavíkur við Hlemm. Hana hefur Megas sungið um. Einnig kemur Gasstöðin við sögu í skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, "Grafarþögn". Hlemmur var um árabil eins konar afdrep útigangsfólks í Reykjavík. Kvikmyndin "Hlemmur" frá 2003 fjallar um það frá 1980-1984 var Hlemmur aðal félagsmiðstöð ungra upprennandi pönkara sem komu saman á hverjum degi og hengu saman á Hlemmi Gasstöð Reykjavíkur. Gasstöð Reykjavíkur var gasveita við Hlemm í Reykjavík sem var starfrækt frá 1910 til 1956. Hún framleiddi gas til eldunar og lýsingar úr innfluttum kolum. Þegar gasinu hafði verið náð úr kolunum með upphitun, varð til kox, sem Gasstöðin seldi. Gasið var síðan notað til lýsingar og eldunar og koxið til brennslu og upphitunar. Eftir stofnun Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1921 var gasið nær einvörðungu nýtt til eldamennsku. Brauðgerðarhúsið í Gasstöðinni. Vorið 1918 var lokið við að koma upp bökunarofni í Gasstöðinni. Var hann settur ofan á annan gasgerðarofninn, og með þeim hætti var hægt að nota hitann frá honum, sem annars fór til ónýtis. Tilraun þessi þótti sýna það, að þarna væri fundinn hitagjafi, sem ekki hefði verið nýttur, og hann mundi duga til að baka við hann brauð. Um það bil er Fyrri heimsstyrjöldinni lauk, störfuðu fjórir bakarar í þessari nýstárlega brauðgerðarhúsi, en forstöðumaður þess var Kristján Hall. Var í ráði að setja þar upp annan bakaraofn, en af því varð ekki. Kristján Hall lést næsta haust úr spönsku veikinni, og nokkuð eftir lát hans hætti brauðbakstur í Gasstöðinni. Tónlistarmaðurinn Megas söng um gasstöðina í lagi sínu „"Gamla gasstöðin við Hlemm"“. Rauðarárstígur. Rauðarárstígur er gata í Reykjavík milli Miklubrautar og Skúlagötu, austan Norðurmýrar. Kennd við lækinn Rauðará, sem nú rennur í ræsi undir götunni. Yfir Rauðará lá áður brúarstubburinn Hlemmur. Við götuna eru starfræktar ýmsar verslanir og þjónustufyrirtæki. Má þar nefna söluturninn Drauminn, söluturninn Svarta svaninn, Gallerý Fold, veitingastaðinn Maddonnu og steikhúsið Rauðará (steikhús). Vatnsveita Reykjavíkur. Framkvæmdir við Vatnsveitu Reykjavíkur hófust 1908 Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa árið 1909. Lengst af voru aðalvatnsból Vatnsveitunnar í Gvendarbrunnum. Vatnsveita Reykjavíkur er nú hluti Orkuveitu Reykjavíkur sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. Skúlagata. Saltfiskverkun við Skúlagötu sumarið 1925. Lengst til hægri sést í Kveldúlfshúsið sem hefur verið rifið. Húsin til vinstri eru við Lindargötu. Skúlagata 21. Þar er Ríkislögreglustjóri til húsa. Skúlagata er gata í Reykjavík kennd við Skúla Magnússon landfógeta. Liggur milli Höfðatúns og Ingólfsstrætis en er þó klippt í sundur af Snorrabraut. Eldra heiti Skúlagötu er "Vindheimagata", sem vísar til torfbæjarins Vindheima sem stóð við norðvesturenda Klapparstígs. Ríkisútvarpið var með starfsemi sína að Skúlagötu 4 frá 1959-1987, þegar starfsemi þess var flutt í Efstaleiti. Þar eru nú til húsa Sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hluti Skúlagötu, frá Snorrabraut að Höfðatúni, mun í framtíðinni verða kallað Bríetartún eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Skúlagata er einnig staðsett í Borgarnesi. Hegningarhúsið. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg 9 (oft kallað Nían og hér áður fyrr tugthúsið, fangahúsið eða Steinninn) er fangelsi rekið af Fangelsismálastofnun. Í dag er það notað sem móttökufangelsi, þar sem fangar dvelja í stutta stund þegar þeir hefja afplánun dóma. Til stendur að hætta að nota Hegningarhúsið sem fangelsi þar sem það uppfyllir ekki skilyrði varðandi aðstöðu. Í hegningarhúsinu eru sextán fangaklefar, en þeir eru litlir og þröngir og loftræsting ónóg. Fangaklefarnir eru auk þess án salernis og handlaugar. Saga. Það er hlaðið steinhús reist árið 1872 af Páli Eyjólfssyni gullsmið. Húsið var friðað 18. ágúst árið 1978 samkvæmt 1. málsgrein 26. og 27. greinar þjóðminjalaga nr. 52/1969 og tekur friðunin til ytra borðs þess ásamt álmum til beggja hliða og anddyri með stiga. Hæstiréttur var þar til húsa á árunum 1920 – 1949. Norðurmýri. Norðurmýri er hverfi í Reykjavík sem markast af Snorrabraut í vestri, Miklubraut í suðri og Rauðarárstíg í austri. Norðurmörk hverfisins eru ýmist talin miðast við Njálsgötu, Grettisgötu eða Laugaveg. Það fer þannig eftir því hvernig hverfið er skilgreint hvort Austurbæjarbíó telst vera í Norðurmýri eða ekki. Hverfið dregur nafn sitt af mýrlendi sem var milli Skólavörðuholts og Rauðarárholts. Nyrsti hluti Norðurmýrarinnar, ofan Hverfisgötu og fram að sjó nefndist Elsumýri. Syðsti og austasti hlutinn liggur að Klambratúni. Í dag er stundum litið á Norðurmýri sem hluta af Hlíðum, þó að Norðurmýri sé eldri. Samkvæmt fyrstu tillögum að bæjarskipulagi Reykjavíkur frá 1927 var gert ráð fyrir að járnbrautarstöð risi í Norðurmýri. Horfið var frá því ráði og á ofanverðum fjórða áratugnum hófst þar bygging íbúðahverfis. Götur. Auðarstræti, Bollagata, Guðrúnargata, Gunnarsbraut, Hrefnugata, Karlagata, Kjartansgata, Mánagata, Skarphéðinsgata, Skeggjagata og Vífilsgata. Auk þess má telja hluta Flókagötu, Njálsgötu og Grettisgötu til Norðurmýrar. Byggð. Norðurmýrin er íbúðahverfi og flest húsin þar eru frá fjórða áratugnum. Flest húsin eru tveggja eða þriggja hæða steinuð fjölbýlishús með görðum sunnan megin við húsin og steyptum garðveggjum. Við Rauðarárstíg og Njálsgötu er nánast samfelld tveggja hæða húsalengja. Hægt er að sjá greinileg merki um sig jarðvegarins sem stafar af þornun mýrarinnar á því hvernig garðar hafa sigið niður fyrir gangstéttar og garðveggi. Í bókmenntum og kvikmyndum. Í æskuminningabókinni "Sól í Norðurmýri" eftir Þórunni Valdimarsdóttur og Magnús Þór Jónsson (Megas) er lýst uppvexti ungs drengs í hverfinu. Norðurmýrin er sögusvið spennusögunnar "Mýrin" eftir Arnald Indriðason. Samnefnd kvikmynd Baltasars Kormáks frá 2006 sem gerð var eftir sögunni var tekin í hverfinu. Mörg atriði í "Bíódögum" Friðriks Þórs Friðrikssonar voru tekin upp í Norðurmýri. Mikill hluti Löggulífs eftir Þráin Bertelsson var tekinn upp í Norðurmýri. Hrefnugata. Hrefnugata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, á milli Gunnarsbrautar og Rauðarárstígs en samsíða Kjartansgötu og Flókagötu. Gatan er nefnd eftir Hrefnu Ásgeirsdóttur, konu Kjartans Ólafssonar í Laxdælu. Guðrúnargata. Guðrúnargata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, milli Gunnarsbrautar og Rauðarárstígs, en samsíða Bollagötu og Kjartansgötu. Gatan er nefnd eftir Guðrúnu Ósvífursdóttur í Laxdælu. Bollagata. Bollagata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, milli Auðarstrætis og Rauðarárstígs en samsíða Guðrúnargötu og Miklubraut. Gatan er nefnd eftir Bolla Þorleikssyni, eiginmanni Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu. Auðarstræti. Auðarstræti er gata í Norðurmýri í Reykjavík, milli Bollagötu og Flókagötu en samsíða Gunnarsbraut og Miklubraut. Gatan er nefnd eftir Auði djúpúðgu landnámskonu. Gunnarsbraut. Gunnarsbraut er gata í Norðurmýri í Reykjavík, milli Bollagötu og Njálsgötu en samsíða Auðarstræti. Er nefnd eftir Gunnari Hámundarsyni á Hlíðarenda í Fljótshlíð, sem frá er sagt í Brennu-Njáls sögu. Karlagata. Karlagata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs, en samsíða Skarphéðinsgötu og Vífilsgötu. Gatan er nefnd eftir Karla, þræl landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Karli (þræll). Karli var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu hann og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Mun Karli þá hafa látið svo um mælt: „Til ills forum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Samkvæmt Landnámu hljópst Karli á brott frá húsbónda sínum ásamt ambátt, en þau fundust síðar að Reykjum í Ölfusi. Karlagata í Reykjavík dregur nafn sitt af honum. Skeggjagata. Skeggjagata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs, en samsíða Flókagötu og Mánagötu. Gatan er nefnd eftir landnámsmanninum Þórði skeggja. Þórður skeggi Hrappsson. Þórður skeggi Hrappsson (fæddur um 839) nam að sögn Landnámabókar land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu), en hann hélt til Íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar. Bú hans var að Skeggjastöðum. Þórður skeggi var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur, eldri dóttir þeirra hét Helga en hennar maður var Ketilbjörn hinn gamli. Yngri dóttirin hét Þuríður. Skeggjagata í Reykjavík er nefnd eftir honum. Miklabraut. Miklabraut er gata í Reykjavík sem nær eftir endilöngu Seltjarnarnesi frá austri til vesturs. Austurendi götunnar er við gatnamót Reykjanesbraut/Sæbraut en þar skiptir Miklabraut um heiti og kallast þá Vesturlandsvegur. Vesturendinn er við gatnamót Snorrabrautar en þar skiptir Miklabraut einnig um heiti og kallast Hringbraut vestan gatnamótanna. Miklabraut er ein stærsta umferðaræð höfuðborgarsvæðisins en hún tengir íbúðahverfin í austurhluta borgarinnar við atvinnusvæði í vestari hlutanum. Miklabraut er lengst af 6 akreina breið og í nokkurri fjarlægð frá húsum en þegar vestar dregur þrengir að henni og þar standa íbúðarhús nálægt henni. Mislæg gatnamót eru við Skeiðarvog og Reykjanesbraut/Sæbraut en önnur gatnamót eru ljósastýrð. Miklabrautin liggur við Kringluna og Faxafen. Nóbelsverðlaunin. Nóbelsverðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga eða samtaka sem hafa veitt framúrskarandi framlög til samfélagsins, hvort sem er í gegnum rannsóknir, listsköpun eða öðru. Litið er á þessi verðlaun sem æðstu viðurkenningu sem fólk getur fengið fyrir framlög til mannkynsins. Verðlaunin voru sett á fót sem hinsta ósk hins sænska Alfred Nobels (1833-1896), sem fann upp dýnamítið. Hann var hneykslaður á því hvernig uppfinning hans var notuð til illra verka og vildi að verðlaunin færu til þeirra sem gerðu heiminn að betri stað til að lifa í. Fyrstu verðlaunin voru afhent við athöfn árið 1901, í gamla konunglega músíkskólanum í Stokkhólmi og voru veitt í greinunum bókmenntir, eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði. Verðlaunin eru afhent 10. desember (dagurinn sem Nobel dó) hvers árs en oftast er tilkynnt hverjir verðlaunahafarnir eru í október. Kjartansgata. Kjartansgata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, á milli Gunnarsbrautar og Rauðarárstígs en samsíða Hrefnugötu og Guðrúnargötu. Gatan er nefnd eftir Kjartani Ólafssyni, syni Ólafs pá og dóttursyni Egils Skallagrímssonar. Frá Kjartani er sagt í Laxdælu. Mánagata. Mánagata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, á milli Snorrabrautar og Skarphéðinsgötu, en samsíða Vífilsgötu og Skeggjagötu. Gatan er nefnd eftir Þorkatli mána, sonarsyni landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Þorkell máni. Þorkell Þorsteinsson, kallaður Þorkell máni var lögsögumaður á Alþingi á árunum 970–984. Frá 945 hafði hann jafnframt verið allsherjargoði. Þorkell var sonur Þorsteins Ingólfssonar og Þóru Hrólfsdóttur. Afi hans var landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson. Mánagata í Reykjavík er nefnd eftir honum. Í Landnámabók (Sturlubók) segir um Þorkel að hann hafi verið "einn heiðinna manna... best... siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir." Synir Þorkels voru Þorsteinn og Þormóður. Sá síðarnefndi var allsherjargoði er kristni var lögtekin á Íslandi um árið 1000. Vífilsgata. Vífilsgata er gata í Norðurmýri í Reykjavík, á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs, en samsíða Karlagötu og Mánagötu. Gatan er nefnd eftir Vífli, þræl landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Vestmannaeyjar. Vestmannaeyjar eru eyjaklasi suður af Íslandi, samtals 15 eyjar og um 30 sker og drangar. Syðsta eyjan er Surtsey og sú nyrsta er Elliðaey. Heimaey er stærst eyjanna og sú eina sem er byggð, en þar er Vestmannaeyjabær með um 4.200 íbúa. Vestmannaeyjar eru oft notuð sem samheiti yfir Vestmannaeyjabæ. Á Vestmannaeyjum búa rúmlega fjögur þúsund manns, sem þýðir er Vestmannaeyjar er 12. fjölmennasta byggðin á Íslandi. Sjávarútvegur er helsta atvinnugrein Vestmanneyinga. Hin árlega Þjóðhátíð um Verslunarmannahelgi er ein vinsælasta útihátíðin á Íslandi, hana sækja þúsundir manna á hverju ári. Sagnir um nafngift og landnám. a> sést bak við Eldfellshraun til hægri. Samkvæmt Hauksbók var fyrsti landnámsmaður eyjanna Herjólfur Bárðarson, sonur Bárðar Bárekssonar. Hann settist að í Herjólfsdal á 10. öld og hafa margar kenningar verið uppi um hvar í dalnum þessi fyrsta byggð var staðsett. Margrét Hermanns Auðardóttir fornleifafræðingur hóf uppgröft í Herjólfsdal sumarið 1971 og vann þar fimm sumur. Við uppgröftinn kom í ljós að byggð í Herjólfsdal var mun eldri en áður hefur verið talið eða frá því snemma á 9. öld. Í Sturlubók, sem er eldri heimild en Hauksbók, segir hins vegar að Ormur auðgi Bárðarson, bróðir Herjólfs, hafi fyrstur byggt Eyjar. Hauksbók segir að Ormur auðgi hafi verið Herjólfsson. Herjólfur er sagður hafa átt dótturina Vilborgu, sem eftir grjóthrun sem lagði bæ Herjólfs í eyði fluttist á Vilborgarstaði við vatnsbólið Vilpu. Samkvæmt sögunni varaði hrafn Vilborgu við grjóthruninu og bjargaði þannig lífi hennar. Frá tíma Herjólfs Bárðarsonar hefur verið byggð samfellt á eyjunni, þó svo að íbúafjöldinn hafi tekið stórar dýfur þrisvar síðan þá - fyrst um helmingsfækkun íbúa þegar að um þrjú hundruð manns voru numin á brott í Tyrkjaráninu árið 1627, svo í ungbarnadauðanum á 18. öld, og loks í Heimaeyjargosinu 1973 þegar að yfir 6 mánaða skeið bjuggu eingöngu um 200 manns á Heimaey. Þegar gosið hófst var íbúafjöldi bæjarins hins vegar 5.273 (1. desember 1972). Kirkjuvaldið. Í Kristnisögu segir frá því að Ólafur Tryggvason hafi sent Hjalta Skeggjason og Gissur Teitsson með viði til kirkjubyggingar til Íslands og sagt þeim að reisa kirkju þar sem þeir kæmu fyrst að landi. Samkvæmt því reistu þeir kirkju á Hörgaeyri í Vestmannaeyjum árið 1000 úr norskum viðum, en ekki er vitað hvar sú eyri hefur verið og ekki er vitað hversu lengi sú kirkja hefur staðið, en tvær kirkjur voru síðan reistar í Vestmannaeyjum, að Kirkjubæ og Ofanleiti. Á árunum 1130-1148 komust allar jarðir í Vestmannaeyjum í eigu Skálholtsstóls að undirlagi Magnúsar Einarssonar biskups og urðu kirkjujarðir. Eftir það voru því landsetar í Eyjum leiguliðar næstu aldirnar. Í Vestmannaeyjum voru að jafnaði átján býli og mikið af hjáleigum (en fjöldi þeirra gat verið breytilegur eftir árferði), auk tómthúsa- og verbúðarbyggðar við höfnina, sem er líklega einn elsti vísir að eiginlegu þorpi á Íslandi. Jarðfræði. Vestmannaeyjar liggja um 10 km suður undan Landeyjasandi. Eyjaklasinn er 15 eyjar, auk um 30 dranga og skerja. Eyjarnar eru sæbrattar og víðast hvar þaktar graslendi. Af þeim er Heimaey langstærst, um 13,4 km², og sú eina sem er byggð. Helstu og stærstu eyjarnar í kringum Heimaey eru Elliðaey og Bjarnarey norðaustur af Heimaey og til suðvesturs Suðurey, Álsey, Brandur, Hellisey og Surtsey. Eyjarnar eru ungar á jarðsögulegan mælikvarða og hafa allar myndast í eldgosum, þær elstu fyrir u.þ.b. 12 þúsund árum. Flestar eyjarnar eru gíglaga móbergsstapar og á sumum þeirra eru gjallgígar. Vestmannaeyjar eru á umfangsmiklu eldgosasvæði sem er um 38 km langt og 30 km breitt með 70-80 eldstöðvum eða leifum þeirra. Surtsey. Surtsey varð til í miklu neðansjávargosi sem hófst árið 1963 og lauk 1967. Það er lengsta eldgos á Íslandi frá því að sögur hófust. Við upphaf gossins mynduðust tvær eyjar og fengu þær nöfnin Syrtlingur og Jólnir. Jólnir kom upp úr sjó rétt fyrir Þorláksmessu í gosi sem stóð fram yfir jólin 1963. Syrtlingur stóð mun lengur. Leifar þessarra eyja eru sitt hvoru megin Surtseyjar, Jólnir að suðvestan og Syrtlingur að norðaustan. Strax að loknu gosinu var Surstey friðuð og voru jarðfræðingar jafnt sem líffræðingar forvitnir um þróun lífríkisins á eyjunni og eyjunnar sjálfrar. Strax á fyrstu árunum eftir gosið fóru ýmsar lífverur að taka sér bólfestu á eynni. Eyjan er alfriðuð og er í umsjá Surtseyjarfélagsins, sem starfar í umboði umhverfisráðuneytisins fyrir hönd íslenska ríkisins. Allar mannaferðir um eyjuna án sérstaks leyfis eru harðbannaðar. Friðlandið umhverfis eyjuna hefur verið stækkað og er nú unnið að því að koma Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO. Heimaeyjargosið. Ráðhús Vestmannaeyja; Eldfell í Bakgrunni Eldgos hófst á Heimaey þann 23. janúar árið 1973 og eyðilagði og/eða skemmdi um það bil 60% af öllum húsum bæjarins. Nálægt þriðjungur allra húsa fór undir hraun. Í gosinu voru nær allir heimamenn fluttir upp á land. Íbúar voru 5.273 talsins fyrir gosið og sneru flestir þeirra aftur að því loknu, og margir fyrr. Einn maður lét lífið af gaseitrun, sem má tengja gosinu. Þó lést hann ekki fyrr en gosinu loknu og nálgast kraftaverk að mun fleiri skyldu ekki farast. Eftir stóð eldfjallið Eldfell, sem margir Vestmannaeyingar vildu kalla Kirkjufell, rétt norðaustan Helgafells. Frá því stendur Eldfellshraun sem teygir sig frá Skarfatanga í suðri að Skansinum í norðri, og stækkaði það Heimaey um eina 3 ferkílómetra. Eldfellshraun er basískt apalhraun að mestu, með nokkrum helluhraunsblettum; mestallt hraunið er vikur. Gosinu var lýst lokið 3. júlí sama ár og það hófst, en þá tóku við gríðarlegar hreinsunarframkvæmdir á eyjunni, enda höfðu um 300 hús farið undir hraun og afgangur bæjarins lá undir þykku öskulagi. Í eldgosinu 1973 fóru 11 götur innanbæjar ýmist að öllu eða einhverju leyti undir hraun: Austurvegur, Bakkastígur, Formannabraut, Heimagata, Kirkjuvegur, Landagata, Njarðarstígur, Sjómannasund, Strandvegur, Urðarvegur og Víðisvegur. Allt frá árinu 1998 hefur Goslokahátíðin verið haldin í Eyjum til að minnast goslokanna. Fimmta hvert ár eru hátíðirnar stærri en árin á milli. Veðurfar. Í Vestmannaeyjum er fremur hlýtt, úrkomu- og vindasamt og markast það af legu eyjanna undan suðurströnd landsins. Hitamunur milli árstíða er tiltölulega lítill og þoka setur svip sinn á veðráttuna. Veðurfar við Vestmannaeyjar flokkast undir hafrænt úthafsloftslag, nokkuð hlýtt og rakt miðað við meðaltal á fastalandinu. Veðrabrigði eru snögg og breytist veðrið stundum oft á dag. Gjarnan er sagt að ekki sé veður í Vestmannaeyjum, heldur eingöngu veðurprufur. Samfelldar veðurathuganir hafa verið gerðar á Stórhöfða síðan árið 1921 og einnig við flugvöllinn síðan um 1960. Árið 1998-1999 voru gerðar sjálfvirkar mælingar á Eldfellshrauni sem stóðu yfir í tæpt ár. Munur á úrkomu og hitastigi milli veðurstöðva á Heimaey hefur reynst óverulegur og er því miðað við Stórhöfða nema annað sé tekið fram. Árið 2002 var svo sett upp sjálfvirk veðurstöð í Vestmannaeyjabæ, við botn "Löngulágar", þar sem vindmælingar á Stórhöfða gefa oft ekki rétta mynd af veðrinu inni í bænum. Á veturna er meðalhiti hvergi hærri á landsvísu en víða er hlýrra yfir sumarið. Á tímabilinu 1961-2000 var meðalárshiti 4,9 °C á Stórhöfða, en hæsti meðalhiti á einu ári var 5.5 °C árið 1984. Milt hitastig í sjó í kringum Eyjarnar er ástæða fyrir háum meðallofthita og lítilli hitasveiflu milli árstíða og daga. Hiti hefur aldrei mælst yfir 20 °C á Stórhöfða, en í júni árið 1999 mældist hitinn 19,3 °C og er það mesti hiti sem hefur mælst í eyjunum. Frost mældist að meðaltali 82 daga á ári yfir vetrarmánuðina á árunum 1961-1990. Mesta frost sem mælst hefur var -16,9 °C í april árið 1968. Að jafnaði var frost allan sólarhringinn 18 daga á ári á sama tímabili. Lægsti loftþrýstingur á Íslandi mældist á Stórhöfða 919,7 hPa 2. desember 1929. Úrkoma er fremur mikil í Vestmannaeyjum. Á Stórhöfða rignir að meðaltali um 129 mm á mánuði, sem er mikið miðað við aðra landshluta. Meðalúrkoma á ári var 1.556 mm á tímabilinu 1961-2000. Úrkoman er mjög árstíðabundin. Mesta úrkoma er yfir vetrarmánuðina en minnst á tímabilinu apríl - júlí. Mesta úrkoma á einum sólarhring var 146 mm í október árið 1979. Úrkomudagar hafa verið að jafnaði 246 á ári og þar af eru 82 dagar snjókoma eða slydda. Jörð var að meðaltali alhvít 40 daga á ári en alautt var að meðaltali 285 daga á tímabilinu 1961-1990. Þoka var að jafnaði 86 daga á ári við Stórhöfða en þar voru fleiri þokudagar en á nokkrum öðrum stað á Íslandi á tímabilinu 1961-1990. Gera má ráð fyrir að þokudagar séu talsvert færrri í kaupstaðnum sem liggur neðarlega. Alskýjað var að jafnaði 192 daga á ári og heiðskýrt 22 daga. Meðal skýjahula var 6/8 himinhvolfsins á tímabilinu 1961-1990. Meðalrakastig er 82% og þrumudagar voru 4 á ári að jafnaði á sama tímabili. Stórhöfði er vindsamasta veðurstöð landsins. Veðurstöðin er í 120 m hæð yfir sjávarmáli og opin fyrir öllum vindáttum. Meðalvindhraði yfir allt árið var 11,03 m/s á árunum 1961-2000. Talsverður munur er á vindhraða milli árstíða, í júlí er meðalvindhraði 8 m/s en 13,2 m/s í janúar. Lífríki. Í Vestmannaeyjum er mjög fjölbreytt lífríki, þá einkum fuglar og plöntur. Stærsta lundabyggð heims er í Vestmannaeyjum, en meira en tíu milljón lundar búa á eyjunum. Gjöful fiskimið eru umhverfis eyjarnar og ofgnótt hvala, en lítið er af spendýrum á eyjunum sjálfum að undanskildum manninum. En stærsta lundabyggðin á Heimaey á undir höggi að sækja þar sem kanínur eru að yfirtaka Sæfell. Kanínum þessum var sleppt út í náttúruna í kringum 1985. Jarðvegur er víðast hvar grunnur í Vestmannaeyjum en þó eru á stöku stað skilyrði fyrir túnrækt. Víðast hvar er jarðvegur grýttur og stutt er niður á hraun. Jarðvegur á Heimaey telst vera sandorpinn móajarðvegur þar sem eldfjallaska er í bland við lífræn jarðvegsefni. Gamlar uppþornaðar mýrar má meðal annars finna í Lyngfellisdal, Torfmýri og Bleiksmýrardal. Árið 1771, þegar verið var að flytja fyrstu hreindýrin til Íslands, voru 13 hreindýr flutt til Vestmannaeyja. Stendur þá í Árbókum Espólíns (10. deild, bls. 101) að „"Þat sumar komu 13 hreindýr í Vestmannaeyjum at undirlagi Ólafs amtmanns Stephánssonar, dóu 10 í vesöld um vetrinn eftir, en þrjú lifdu"“. Önnur eldri og ítarlegri frásögn er í Islandske Maaneds-Tidender, 2. árg., bls. 55-59, og heimildarmaðurinn er Sigurður Sigurðsson landþingsskrifari á Hlíðarenda. Atvinna, menntun og menning. Vestmannaeyjar hafa verið mikilvægasta verstöð landsins í fjölda ára og byggist afkoma heimamanna að mestu leyti á fiskvinnslu og útgerð. Auk þess eru ört vaxandi atvinnuvegir eyjaskeggja í dag ferðaþjónusta, skipaviðgerðir og menntun. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er stöðugt að stækka við sig þrátt fyrir að oft reynist erfitt að lokka námsmenn til Eyja. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eru báðir búnir að koma sér upp útibúum á Heimaey. Í Vestmannaeyjum eru tveir grunnskólar; Barnaskólinn í Vestmannaeyjum og Hamarsskóli Vestmannaeyja. Sameining skólanna er nú fyrirhuguð. Verið er að undirbúa byggingu nýs sex deilda leikskóla, en fyrir eru þrír leikskólar í eyjunum: Rauðagerði, Kirkjugerði og Sóli. Mörg söfn eru í Vestmannaeyjum, en Safnahús Vestmannaeyja, sem stendur við Ráðhúströð, hýsir Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja, Bókasafn Vestmannaeyja og Byggðasafn Vestmannaeyja. Einnig er þar til húsa Ljósmyndasafn. Við Heiðarveg stendur Náttúrugripasafn Vestmannaeyja, en það er eina safnið af sinni gerð á Íslandi. Við Skansfjöru er húsið Landlyst, sem var áður staðsett á Tanganum, suður af Básaskersbryggju, en það hús var fyrsta fæðingarheimilið á Íslandi, og er það nú notað til listsýninga af ýmsu tagi. Ríkisstjórn Íslands keypti nýlega afnotarétt af myndum Sigmunds, sem hafa birst í áraraðir í Morgunblaðinu, og eru áætlanir um að setja upp safn þeirra í fyrirætluðu menningarhúsi. Þjóðhátíð. Fræg er þjóðhátíð Eyjamanna, sem haldin er ár hvert um verslunarmannahelgi og dregur til sín fólk alls staðar að af landinu. Til hennar var fyrst stofnað árið 1874, þegar eyjaskeggjar komust ekki til hátíðahalda í landi í tengslum við 1.000 ára afmæli Íslandsbyggðar og móttöku fyrstu stjórnarskrár landsins úr hendi Kristjáns IX, Danakonungs á Þingvöllum. Þá ákváðu Vestmannaeyingar að halda sína eigin hátíð. Sú hefð hefur verið að íþróttafélög bæjarins, áður Þór og Týr til skiptis en eftir sameiningu þeirra ÍBV, sjái um framkvæmd þjóðhátíðarinnar, og hljóti gróðann af henni. Hátíðin er haldin í Herjólfsdal fyrstu helgina í ágúst og eru fastir liðir brenna, flugeldasýning og brekkusöngur, sem hefur verið undir stjórn Árna Johnsen í um áratug, að einu ári slepptu á meðan hann sat í fangelsi, en þá var Róbert Marshall fenginn til þess að hlaupa í skarðið. Ginklofinn. Stífkrampafaraldur var í Vestmannaeyjum í margar aldir, sökum bágrar stöðu heilbrigðismála á landsvísu. Dánartíðni var há meðal ungabarna, um 60-80% barna dóu úr stífkrampa, sem kallaður var ginklofi, en annars staðar á Íslandi dóu um 30% barna úr þessum sjúkdómi, og 15-20% í Danmörku. Thomas Klog, fyrsti landlæknir Íslands, var sendur til Vestmannaeyja með konunglegri tilskipun árið 1810 til þess að rannsaka orsakir ginklofans, og birti hann niðurstöður sínar í skýrslunni "Indberettninger om Börnesygdommen Ginklofi". Seinna varð staða héraðslæknis í Vestmannaeyjum til, og gegndu Carl Ferdinand Lund, Carl Hans Ulrich Balbroe, Andreas Steener Iversen Haaland, August Ferdinand Schneider og Philip Theodor Davidsen því embætti hver á fætur öðrum frá árinu 1828. Þrátt fyrir héraðslæknana breyttist ástandið lítið, og engin breyting varð á dánartíðni barna þó svo að almenn heilsa Vestmannaeyinga skánaði. Árið 1847 var Peter Anton Schleisner sendur til Vestmannaeyja til þess að rannsaka ginklofann. Hann hafði ritað grein um barnafarsótt árinu áður, og er það líkleg ástæða þess að hann var sendur. Hann setti á laggirnar fæðingarheimili í húsinu Landlyst, sem var þá fyrsta fæðingarheimili Íslands. Hann lagði til breytingar á hreinlæti við fæðingar, og benti líka á að hengja upp þvott til þerris á þvottasnúrum frekar en að láta hann liggja í grasinu - það kom svo í ljós að það var aðalorsök faraldursins, þar sem að sýkillinn clostridum tetani lifir í jarðvegi, og smitaðist yfir í fötin, og frá þeim inn um naflastreng barnanna. Samgöngur. Herjólfur á leið til hafnar. Farþegaskipið Herjólfur var smíðað í Noregi árið 1992. Skipið siglir alla daga vikunnar tvær ferðir á dag, og tekur skipið 500 farþega og um 40 fólksbíla. Aðeins eitt flugfélag stundar flugferðir til og frá til Vestmannaeyjum og er það Flugfélagið Ernir sem flýgur á Hornafjörð, Sauðárkrók, Bíldudal, Gjögur og Reykjavík. Forveri þess var Flugfélag Vestmannaeyja, sem missti rekstrarleyfi sitt í maí 2010. Á Heimaey eru 66 götur innan bæjarmarkanna, og nokkrar utan þeirra. Lengsta gatan heitir Vestmannabraut, en hét áður Breiðholtsvegur. Flestir íbúar búa við Áshamar en fæstir við Austurgerði, Njarðarstíg og Ofanleitisveg. Í götuheitum í Vestmannaeyjum er að finna nokkur íslensk heiti yfir götu eða veg. Orðin eru eru "vegur", "stígur", "slóð", "gata", "braut", "stræti", "sund" og "traðir". Á síðustu árum hafa miklar vangaveltur verið um hvort mögulegt sé að gera jarðgöng til Vestmannaeyja og hefur áhugamannafélagið Ægisdyr verið stofnað um gerð slíkra ganga. Vestmannaeyingar eru ekki allir sammála um að göng séu rétta lausnin, en þó eru eyjamenn upp til hópa sammála um að samgöngur milli lands og eyja þurfi að bæta. Vífill (þræll). Vífill var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu þrælarnir Karli og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum Vífilsgata í Reykjavík og Vífilsfell draga einnig nafn sitt af þrælnum Vífli. Skarphéðinsgata. Skarphéðinsgata er gata í Norðurmýri, Reykjavík, sem liggur í vinkil milli Snorrabrautar og Skeggjagötu. Nafn götunnar er dregið af Skarphéðni Njálssyni, sem frá er sagt í Brennu-Njáls sögu. Flókagata. Flókagata er gata í Norðurmýri og Hlíðahverfi í Reykjavík, hún liggur frá Snorrabraut í vestri til Stakkahlíðar í austri. Nafn hennar er dregið af landnámsmanninum Hrafna-Flóka Vilgerðasyni. Sunnan við Flókagötu er útivistarsvæðið Miklatún og inngangurinn í listasafnið Kjarvalsstaði. Grettisgata. Grettisgata er gata í Austurbænum og Norðurmýri í Reykjavík. Liggur frá Vegamótastíg í vestri til Rauðarárstígs í austri. Hún tók að byggjast á síðustu árum 19. aldar og er nefnd eftir fornkappanum Gretti Ásmundarsyni. Við götuna eru um 100 hús, flest íbúðarhús. Njálsgata. Njálsgata er gata í miðbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið í Austurbænum og Norðurmýrinni. Hún teygir sig frá Klapparstíg í vestri og að Rauðarárstíg í austri. Fyrir neðan Njálsgötu er Grettisgata, og fyrir ofan hana er Bergþórugata, sem nær þó ekki nema að Frakkastíg. Njálsgata tók að byggjast í upphafi 20. aldar og er nefnd eftir Njáli Þorgeirssyni sem sagt er frá í Njálu. Borgarholtsskóli. Borgarholtsskóli er framhaldsskóli við Mosaveg í Grafarvogi í Reykjavík. Stofnað var til hans með samningi íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar. Var frá upphafi miðað við að skólinn hýsti um 1000 nemendur í starfs– og bóknámi. Í Borgarholtsskóla eru sérhæfðar starfsnámsbrautir, svo sem á sviði málm– og bíliðna. Gettu betur. Skólinn keppti til úrslita í spurningakeppni framhaldsskóla árin 2001, 2004 og 2005. Í úrslitum 2001 töpuðu þeir gegn MR í bráðabana, í úrslitunum 2004 þurftu þeir einnig að lúta lægri haldi í bráðabana þar sem Verzlunarskóli Íslands bar sigur úr býtum, og árið 2005 unnu þeir MA í úrslitum, sem tryggði Borgarholtsskóla sinn fyrsta Gettu Betur titil. Í liði skólans árið 2001 voru Hilmar Már Gunnarsson, Sæmundur Ari Halldórsson og Páll Guðmundsson. Árið 2004 og 2005 voru það hins vegar þeir Baldvin Már Baldvinsson, Björgólfur Guðni Guðbjörnsson og Steinþór Helgi Arnsteinsson. MORFÍS. Skólanum hefur einnig vegnað vel í MORFÍS, Mælsku og rökræðukeppni framhaldsskólanna á Íslandi, og árið 2004 komst skólinn í undanúrslit. Það ár var hann hins vegar sleginn út af þáverandi og núverandi þreföldum MORFÍS meisturum - Verzlunarskóla Íslands, lið hans var skipað af Þórunni Elísabet Bogadóttur, Davíð Gill Jónssyni, Birni Braga Arnarssyni og Óttari Snædal. Björn Þór Jóhannson, Friðjón Mar Sveinbjörnsson og Jóhann Fjalar Skaptason skipuðu MORFÍS lið Borgarholtsskóla. Verkmenntaskólinn á Akureyri. Verkmenntaskólinn á Akureyri (skammstafað "VMA") er framhaldsskóli staðsettur á Eyrarlandsholti á Akureyri. Skólinn tók til starfa árið 1984. Dagskólanemendur eru um 1.350 talsins, auk rúmlega 700 manns sem stunda fjarnám við skólann. Skólameistari VMA er Hjalti Jón Sveinsson Skólinn keppti til úrslita í spurningakeppni framhaldsskóla árið 1992, en beið þar lægri hlut. Tengill. Akureyri Klambratún. Klambratún (áður Miklatún) er útivistarsvæði í Hlíðahverfi Reykjavíkur. Svæðið er nokkurn veginn ferhyrnt og um 10 hektarar að stærð. Það afmarkast af Rauðarárstíg í vestri, Flókagötu í norðri, Lönguhlíð í austri og Miklubraut í suðri. Í norðurhluta Klambratúns standa Kjarvalsstaðir, listasafn helgað list Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals. Hluti túnsins tilheyrði bænum Klömbrum sem stóð þar til um miðja 20. öld. Reykjavíkurbær eignaðist Klömbrur árið 1946. Tveimur árum síðar var þar hafinn rekstur skólagarða fyrir reykvísk ungmenni. Á sjöunda áratugnum var Klambratúni breytt í skrúðgarð og hlaut hann nafnið "Miklatún" að undangenginni nafnasamkeppni. Styttur í garðinum. Á sunnanverðu Miklatúni stendur stytta af skáldinu Einari Benediktssyni eftir Ásmund Sveinsson. Þar er einnig brjóstmynd af skáldinu Þorsteini Erlingssyni eftir Ríkharð Jónsson. Klömbrur. Klömbrur voru býli í Reykjavík sem Maggi Júl. Magnús, læknir og borgarfulltrúi, lét byggja árið 1925 á landi rétt austan við svæðið þar sem nú er hverfið Norðurmýri í Reykjavík. Nafn býlisins var dregið af fæðingarbæ Magga, að Klömbrum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Eftir tæplega áratugs búrekstur Magga komust Klömbrur í eigu dansks manns sem rak þar í fyrstu býli, en kom þar síðar á legg svínasláturhúsi og reykhúsi. Klömbrur og Klambratún komust í eigu bæjarins 1946. Bæjarhúsin voru rifin 1965. Maggi Júlíusson Magnús. Maggi Júlíusson Magnús (4. október 1886 – 30. desember 1941) var íslenskur læknir í Reykjavík frá árinu 1913, yfirlæknir við holdsveikraspítalann í Laugarnesi frá 1934 og starfaði á vegum ríkisins við að veita ókeypis lækningar við kynsjúkdómum frá 1923–1934. Hann var einnig bæjarfulltrúi Reykjavíkurborgar frá 1932–1934. Maggi var mikill áhugamaður um búskap. Hann var formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur og starfaði fyrir Skógræktarfélag Íslands. Árið 1925 reisti hann sér býlið Klömbrur í útjaðri Reykjavíkur, þar sem nú heitir Miklatún eða Klambratún. Hann var sonarsonur Halldórs Kr. Friðrikssonar yfirkennara við Lærða skólann og alþingismanns. Maggi ritaði nafn sitt lengst af Maggi Júl. Magnús eða M Júl. Magnús; nafnið Magnús tók hann upp sem ættarnafn, og er það komið frá afa hans, séra Magnúsi Jónssyni á Grenjaðarstað í S.-Þingeyjarsýslu (Grenjaðarstaðarætt). Dánarmein Magga var krabbamein. Páskauppreisnin. Páskauppreisnin (írska: "Éirí Amach na Cásca") var vopnuð uppreisn gegn breskum yfirráðum á Írlandi sem hófst 24. apríl, á öðrum degi páska, 1916. Uppreisnin er frægasta tilraun herskárra írskra lýðveldissinna til þess ná fram sjálfstæði Írlands með valdi. „Hið írska bræðralag lýðveldisins“ skipulagði uppreisnina og hrinti henni í framkvæmd í gegnum hernaðararm sinn „Írsku sjálfboðaliðana“ sem að kennarinn og lögmaðurinn Patrick Pearse stjórnaði. Pearse og félagar hans réðust gegn Bretum víða um Dyflinni. Með aðstoð herskárra írskra sósíalista náðu þeir yfirráðum á aðalpósthúsi borgarinnar og lýstu yfir sjálfstæði Írlands. Næsta morgun höfðu þeir náð yfirráðum víðast hvar um borgina. Bretar snerust þá til varna og þann 29. apríl hafði uppreisnin verið brotin á bak aftur. Pearse var tekinn af lífi ásamt 14 öðrum fyrir þátt þeirra í uppreisninni. Uppreisnarmennirnir höfðu í raun lítinn stuðning meðal almennings, jafnvel meðal þjóðernissinna sem litu á þá sem óábyrga ævintýramenn en almenningsálitið tók að breytast þegar fréttist af harkalegri meðferð Breta á uppreisnarmönnunum. Vopnuð átök héldu áfram eftir Páskauppreisnina og Írar fögnuðu sjálfstæði árið 1922, með stofnun lýðveldis. Sex sýslur í norðurhluta landsins eru þó enn undir stjórn Bretlands, en þjóðernissinnar innan Írska lýðveldishersins (IRA) héldu baráttunni fyrir fullu sjálfstæði Írlands áfram. Að sumra mati var Páskauppreisnin fyrsta sósíalistabyltingin í Evrópu en sú lýsing er hæpin, aðeins einn af leiðtogum uppreisnarmannanna, James Connoly, var sannfærður sósíalisti og þó að margir hafi að nafninu til lýst yfir stuðningi við sósíalískt frjálst Írland þá var það aðallega gert til að tryggja stuðning Connoly fremur en af pólitískri sannfæringu. Patrick Pearse. Patrick Henry Pearse (10. nóvember 1879 – 3. maí 1916) var kennari og rithöfundur sem leiddi írsku Páskauppreisnina árið 1916. Þegar Bretar höfðu brotið uppreisnina á bak aftur var hann tekinn af lífi ásamt bróður sínum og þrettán öðrum forkólfum uppreisnarinnar. Patrick Pearse fæddist í Dyflinni. Hann lét snemma að sér kveða meðal írskra þjóðernissinna og var framarlega í flokki frelsisbaráttu Íra uppúr aldamótunum, en hann sótti sér fyrirmyndir í leiðtoga sjálfstæðisbaráttu fyrri tíma. Hann gekk til liðs við Hið írska bræðralag lýðveldisins, að öllum líkindum árið 1913, og varð fljótt einn framámanna þeirra samtaka. Hann var meðlimur í vinnuhópi innan bræðralagsins sem skipulagði Páskauppreisnina og helsti skipuleggjandi. Verzlunarskóli Íslands. Verzlunarskóli Íslands (eða Verzló eins og hann er oft kallaður) er framhaldsskóli til fjögurra ára staðsettur í Reykjavík. Skólinn var fyrst settur þann 12. október 1905 og tók til starfa um haustið sama ár. Á fyrsta starfsári hans voru nemendur 66, en telja nú á þrettánda hundrað. Hermesarstafurinn er tákn Vezlunarskóla Íslands enda Hermes guð verslunar. Saga. Skólinn var stofnaður af Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur og Kaupmannafélagi Reykjavíkur. Sumarið 1922 tók Verslunarráð Íslands að sér umsjón skólans, og hefur hann síðan verið undir yfirstjórn þess. Skólinn útskrifaði fyrst stúdenta árið 1945, en stúdentsnámið tók þá sem lokið höfðu verslunarprófi tvö ár. Skólinn var í sex bekkjum árin 1944-1970, en árið 1971 voru tveir neðstu bekkirnir felldir niður og nemendur í staðinn teknir inn í skólann með landspróf eða gagnfræðapróf, og eftir árið 1974 samræmt grunnskólapróf. Félagslíf. Við skólann er mjög virkt og skipulagt félagsstarf. Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands (NFVÍ) starfrækir klúbba og nefndir og eru yfir hundrað nemendur í ýmsum klúbbum og nefndum við skólann og í stjórn nemendafélagsins. Útgáfa. NFVÍ gefur út hið veglega "Verzlunarskólablað" sem út kemur einu sinni á ári og telur nú 79 árganga. Blaðið hefur undanfarin ár verið í formi harðspjalda bókar en síðasti árgangur, V76 var gefinn út með mjúkri kápu. Blaðið er eins konar árbók félagslífsins í Verzló og leitast við að draga upp mynd af starfi félagsins hverju sinni. Auk þess gefur félagið út blöðin "Viljinn", "Harmónía" og "Kvasi", sem er málgagn nemendafélagsins. NEMÓ. Árlega er haldið nemendamót, NEMÓ, sem er gjarna talið hápunktur ársins af nemendum og starfsfólki. Söngleikir Verzlunarskólans sem vakið hafa mikla athygli í gegnum árin, eru fluttir á þessu nemendamóti, sem haldið er í febrúar á hverju ári. Það er nemendamótsnefnd Verzlunarskólans sem sér um sýninguna. Söngleikurinn árið 2008 var byggður á kvikmyndinni Cry Baby og var nefndur "Kræ Beibí". Söngleikurinn árið 2009 var byggður á lögum eftir David Bowie og var nefndur "Stardust". Söngleikurinn árið 2010 var byggður á lögum eftir Michael Jackson og var nefndur "Thriller". Morfís. Skólanum hefur gengið vel í keppnum sem háðar hafa verið á milli framhaldsskóla landsins, þá einkum Morfís. Keppnin var fyrst haldin árið 1985 og hefur allt í allt verið haldin 21 sinni. Á þessu tímabili hefur Verzlunarskóli Íslands unnið hana 9 sinnum. Gettu Betur. Skólinn hefur aðeins einu sinni unnið Gettu Betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, þrátt fyrir að hafa komist 6 sinnum í úrslit, en það var árið 2004 er þeir sigruðu Borgarholtsskóla í bráðabana úrslitaviðureignarinnar. Lið skólans skipuðu þeir Hafsteinn Viðar Hafsteinsson, Steinar Örn Jónsson og Björn Bragi Arnarson. Lið skólans árið 2005-2006 komst í úrslit Gettu Betur þar sem þeir biðu lægri hlut gegn Menntaskólanum á Akureyri, eftir að hafa slegið út lið Borgarholtsskóla og Fjölbrautaskóla Suðurlands með auðveldum hætti. Tölva. Tölva er rafeindatæki sem notað er við hraðvirka úrvinnslu, geymslu og birtingu mikils magns gagna eftir nákvæmri forskrift forrits. Gagnvart almennum notanda samanstendur tölva af skjá, lyklaborði, mús, hátölurum og kassa sem inniheldur tölvuna sjálfa, ásamt diskadrifum og hugsanlegum fleiri inntaks- og úttaksmöguleikum. Tölvan er líklega ein áhrifamesta uppfinning 20. aldarinnar og tölvutækni hefur gjörbreytt aðstæðum fólks til vinnu og leiks um allan heim. Orðsifjar og íslensk heiti. Fyrsta tölvan sem kom til íslands hafði verið kölluð "Rafeindaheilinn" meðal margra innan Háskóla Íslands. Þorsteinn Gylfason hefur sagt frá því að hann var viðstaddur þegar Sigurður fékk hugmyndina, og að orðið hafi verið orðið alkunnugt á nokkrum vikum og öll hin nýyrðin dáið drottni sínum. Rétt nefnifallsmynd er ‚tölva‘ en ekki ‚talva‘, þó notkun þeirrar nefnifallsmyndar sé byrjuð að heyrast í vaxandi mæli er enn mælt með notkun nefnifallsmyndarinnar ‚tölva‘. Innri gerð tölva. Tölva samanstendur af nokkrum einingum eða hlutum sem vinna saman. Venjan er að þeim sé raðað á móðurborð. Minni. Minni tölva er röð af númeruðum einingum sem hver inniheldur tölulegar upplýsingar. Upplýsingarnar geta ýmist verið skipanir sem tölvan framkvæmir eða gögn sem tölvan les eða skrifar. Stærð, fjöldi og gerð minniseininganna er mjög breytilegur milli tölva og flestar nútíma tölvur nota nokkrar mismunandi gerðir minnis (td. flýtiminni, vinnsluminni og harða diska). Miðverk. Miðverkið (e. "Central processing unit") samanstendur af stýri-, reikni- og rökverki ásamt inniminni, staflageymslu, skipunarpípu o.fl.. Í dag er miðverkið venjulega haft á einni kísilflögu sem kallast (ör)gjörvi. Örgjörvinn er kísilflaga samsett úr mörgum smárum og öðrum smáhlutum og sér um að túlka og vinna úr öllum aðgerðum forritanna á tölvunni og venjulega úr öllum ílags- og frálagsbúnaði. Ílag og frálag (inntak og úttak). Ílags- og frálagsbúnaður (e. "input- and outputdevices") er heiti sem er notað bæði þegar verið er að tala um forrit og búnað eins og lyklaborð, skjá, harðadiska og netkort. Til er búnaður sem tekur annað hvort bara við upplýsingum eða sendir bara frá sér (e. "input or output-only"), en flest tæki gera hvort tveggja, jafnvel prentarar og skjáir. Á öllum venjulegum heimilistölvum er grunnstýringarkerfi eða "BIOS" (e. "Basic Input/Output System") þetta kerfi er geymt á lítilli flögu sem er á móðurborðinu. Örgjörvinn notar grunnstýringarkerfið þegar tölvan er ræst, það sér um að koma fyrir nauðsynlegum upplýsingum í vinnsluminni tölvunar svo stýrikerfið geti ræst sig. Jafnframt stjórnar grunnstýringarkerfið upplýsingaflæði á milli ílags- og frálagsbúnaðar og kjarna stýrikerfisins. Þorgils gjallandi. Þorgils gjallandi (2. júní 1851 – 23. júní 1915) var íslenskur rithöfundur, fæddur að Skútustöðum við Mývatn. Hann hét réttu nafni "Jón Stefánsson" en notaði gervinafnið Þorgils gjallandi sem dulnefni. Hann bjó alla tíð í Þingeyjarsýslu og var hreppstjóri þar frá árinu 1890. Hann fór aðeins tvisvar sinnum út fyrir sýslumörkin. Foreldrar hans voru "Stefán Helgason" og "Guðrún Ólafsdóttir". Þau eignuðust saman fjögur börn og komst Þorgils einn á legg. Hann missti móður sína þegar hann var níu ára og föður sinn þegar hann var aðeins 17 ára. Hann tók við búinu eftir dauða föður síns en að ári liðnu gerðist hann vinnumaður á ýmsum bæjum í sveitinni. Þorgils var einn sérstæðasti liðsmaður raunsæisstefnunnar í íslenskum bókmenntum að því leyti að hann var bóndi og að öllu leyti sjálfmenntaður til skrifta. Upphafið að ferli Þorgils er að finna í sveitablöðum mývetninga á 8. og 9. áratug 19. aldar. Hann var natúralisti á evrópska vísu og gekk út frá dýrseðli mannsins og uppruna hans á meðal skepna náttúrunnar, enda eru söguhetjur hans ekki alhreinar heldur kynferðislegar verur sem stjórnast af þörfum og aðstæðum. Ástin var ekki bústaður eilífrar hugsjónar að hans dómi, heldur ástríða sem krefst útrásar, siðlaus og saklaus í senn, af því hún er sama og eðli mannsins. Ástarsögum Þorgils lýkur oftast nær með ósköpum því persónur hans geta ekki komið eðli sínu og lífi saman við skilyrði sem krefjast sjálfshöfnunar og bælingar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að samfélagið hefur með siðareglum sínum afskræmt manninn, breytt honum úr fjörmiklu og kraftmiklu dýri sem stjórnast af hvötum í viðbjóðslegan varg, lymskan og síljúgandi. Árið 1892 gaf Þorgils út bókina Ofan úr sveitum en hún hafði að geyma róttækustu sögur raunsæisstefnunnar fram til þess tíma, enda var hún flestu fólki í landinu mikil hneykslunarhella. Árið 1902 kom síðan út skáldsagan Upp við Fossa og sem fór heldur en ekki fyrir brjóstið á lesendum. Hún var almennt álitin vargur í véum og vart í húsum hæf, síst þar sem börn og unglingar komust í hana. Samt var ekki örgrannt um að þessi höfundur ætti siðsamlega hlið því að hann hafði sent frá sér allmargar dýrasögur allt frá árinu 1893 sem fólk kunni að meta. Árið 1910 kom úrval þessara sagna út undir nafninu Dýrasögur 1. Auk þessara verka skrifaði hann margar aðrar sögur og einnig greinar og erindi um margvísleg efni. Saga Þorgils er því saga afreksmanns sem ekki lét stéttarstöðu sína þagga niður í sér eða gagnrýni berja sig til hlýðni. Þorgils var orðinn tæplega fertugur þegar hann hóf að rita ádeilusögur sínar. 2002. Árið 2002 (MMII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. Á Íslandi. Atburðir Grænumýrartunga í Hrútafirði brann Ingólfur Arnarson. Ingólfur Arnarson (stundum nefndur Björnólfsson) er jafnan talinn fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt fóstbróður sínum og mági, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki á Noregi og ákvað því að flytja til Íslands. Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi. Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir. Viltaugakerfi. Viltaugakerfið er í líffærafræði annar hluti úttaugakerfisins en hinn er dultaugakerfið. Það samanstendur af þeim taugum sem dýr nota til að stjórna beingrindarvöðvum sínum með auk þeirra tauga sem notaðar eru sem skynfæri. Stjórnmálafræði. Stjórnmálafræði er grein innan félagsvísinda sem fjallar um og rannsakar stjórnmál í víðum skilningi. Þar sem stjórnmál er illskilgreinanlegt hugtak er ekki borin von að viðfangsefni stjórnmálafræðinnar séu skýrt afmörkuð. Almennt má þó segja að stjórnmál snúist um ákvarðanir sem varða hópa af einstaklingum og eru bindandi. Stjórnmálafræði snýst því um að skilja betur stjórnmál, t.d. hvað vald sé, hvað sé lýðræði, félags- og efnahagslegt réttlæti og hvernig sé best að tryggja stöðugleika í samfélagi manna. Undirgreinar stjórnmálafræðinnar eru samanburðarstjórnmál, alþjóðasamskipti, opinber stjórnsýsla og stjórnspeki. 6. ágúst. 6. ágúst er 218. dagur ársins (219. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 147 dagar eru eftir af árinu. 1. maí. 1. maí er 121. dagur ársins (122. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 244 dagar eru eftir af árinu. Dagurinn er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. 2. maí. 2. maí er 122. dagur ársins (123. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 243 dagar eru eftir af árinu. Femínistafélag Íslands. Femínistafélag Íslands er íslensk félagasamtök femínista stofnað 14. mars 2003. Félagið berst fyrir jafnrétti kynjanna í víðum skilningi. Birtingarmyndir ójafnréttis og mismununar eru að mati íslenskra femínista margar. Klámvæðing og kynbundið ofbeldi s.s. vændi, nauðganir og mansal. Staðalímyndir um s.k. kynjahlutverk karla og kvenna. Kynbundinn launamunur á vinnumarkaði sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum. Lágt hlutfall kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum og í fjölmiðlum. Starfsemi. Starfsemi félagsins er skipt í 11 starfshópa. Hóparnir hittast mánaðarlega. Til forystu í hverjum þeirra er ráðskona eða ráðskarl. Félagið heldur úti póstlista sem er opinn öllum og hægt er að nálgast. 3. maí. 3. maí er 123. dagur ársins (124. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 242 dagar eru eftir af árinu. Sverrir Þorgeirsson. Sverrir Þorgeirsson (fæddur 1991) er íslenskur skákmaður. Hann varð Íslandsmeistari barna í skák 2001, hefur nú (í mars 2011) 2233 FIDE-skákstig og er í unglingalandsliði Íslands í skák. Skák. Skák (eða tafl, skáktafl eða manntafl'") er borðspil, sem tveir leikmenn ("skákmenn") spila með 32 "taflmönnum" á "taflborði", sem skipt er í átta reiti að lengd og átta að breidd, eða samtals 64 reitir. Þeir sem tefla kallast "skákmenn", en þeir sem ná tilteknum árangri í viðurkenndum "skákmótum" geta hlotið titlana "FIDE-meistari" (FM, fide master), "alþjóðlegur meistari" (IM, international master) og "stórmeistari" (GM, grand master). Skák er ævagamall leikur, listgrein, íþróttagrein, þraut og barátta. Talið er að hún sé upprunalega vestur-indversk. Skákgyðjan heitir Caissa. Hún var gerð árið 1763 af Sir William Jones. Kóngur. Kóngurinn er einstakur því skákinni lýkur með sigri annars skákmannsins, þegar hann hótar að drepa kóng hins í næsta leik og engin undankoma er möguleg. Hvor spilari fær einn kóng og kóngurinn getur eingöngu hreyft sig um einn reit í einu en getur þó farið í allar áttir. Kóngur geta aldrei staðið á reitum sem valdaðir eru af hinum kónginum. Drottning. Drottningin er einstök eins og kóngurinn og er metin upp á níu stig því að hún getur hreyft sig í allar áttir og eins langt og hún kemst. Hvor spilari fær eingöngu eina drottningu í hverju skákspili og skal hún staðsett á d1 hjá hvítum en d8 hjá svörtum. Þumalputtareglan er sú að drottningin skal alltaf byrja á reit af sama lit og hún er. Hrókur. Hrókurinn er staðsettur í hvoru horni í sömu línu og kóngurinn og er hann metinn upp á fimm stig. Hann hreyfir sig í beina línu í allar áttir eins langt og almennar reglur leyfa. Hvor spilari fær tvö stykki af þeim og eru þeir venjulega notaðir í miðtafli eða endatafli. Við hrókeringu getur kóngurinn, ef enginn maður er milli hans og annars hvors hróksins fært kónginn tvo reiti í átt til þess hróks og sett krókinn við hliðina á kónginum, ef kóngurinn fer á g1/g8 fer hrókurinn á f1/f8 en ef kóngurinn fer á c1/c8 fer hrókurinn á d1/d8. Í sumum stöðum er óleyfilegt að hrókera, t.d. ef kóngi eða hróki hefur verið leikið áður eða kóngur stendur í skák. Á ensku heitir hrókurinn rook. Við skráningu skáka stendur H fyrir hrók í íslenskri skráningu en í enskri er það R. Mögulegt er að máta með einungis kóng og einum hróki gegn einungis kóngi. Biskup. Biskupinn er metinn á þrjú stig og getur eingöngu hreyft sig á ská eins langt og almennar reglur leyfa. Hver spilari fær tvö stykki af þeim og er hvor þeirra staðsettir á reiti með mismunandi lit en þeir geta síðan eingöngu verið á reitum sem hafa þann lit það sem eftir er af leiknum. Riddari. Riddarinn er metinn á þrjú stig eins og biskupinn en aðferðin sem hann notar til að hreyfa sig eru einstakar og getur hann hótað að drepa annan skákmann án þess að sami skákmaðurinn geti drepið hann til baka nema skákmaðurinn sé riddari líka. Hreyfingar riddarans eru L-laga og byggjast á því að riddarinn getur hreyft sig um einn reit upp eða niður og síðan 2 reiti annaðhvort til hægri eða vinstri...eða öfugt. Það skiptir engu máli þótt að aðrir skákmenn séu á þessum reitum þar sem riddarinn hefur þann eiginleika að hoppa á reitinn sem hann lendir á. Hver spilari fær tvo riddara og er hvor þeirra staðsettur á milli hróks og biskups. Peð. Peðin eru hermenn og skjöldur æðri skákmanna skákborðsins en hvert þeirra er metið á eitt stig, hver spilari fær 8 peð og er þeim dreift á línuna fyrir ofan hina skákmennina í liðinu. Peð geta eingöngu hreyft sig upp skákborðið í beina línu (nema þegar þau drepa) og aðeins um einn reit í einu, nema í fyrsta leik þeirra, þá getur spilari valið um hvort þau fara áfram um einn reit eða tvo reiti. Reglurnar um hvernig peð drepa eru hins vegar öðruvísi en gengur og gerist hjá öðrum skákmönnum, þau geta eingöngu drepið á ská upp. Peð hafa líka þann eiginleika að ef þau komast alla leið á efstu línu skákborðsins, þá má breyta þeim í drottningu, hrók, riddara eða biskup. Framhjáhlaup. Framhjáhlaup (e., fr. en Passant) felst í því að ef peð færir sig fram um 2 reiti í fyrsta leik og lendir við hliðina á peði af andstæðum lit, þá má það peð drepa nýhreyfða peðið með því að hreyfa sig ská og lenda á reitum sem það fór yfir. Eingöngu má framkvæma þessa hreyfingu strax í næsta leik. Þessi leikur er almennt viðurkenndur í helstu skákmótum og er hluti af skákreglunum. Hrókun. Hrókun er framkvæmd með því að hreyfa kónginn um tvo reiti til hægri eða til vinstri og síðan kemur hrókurinn hinu megin við kónginn. Samkvæmt reglunum má enginn skákmaður vera á milli kóngsins eða hróksins, reitirnir á milli mega ekki vera valdaðir af skákmönnum af öðrum lit, hrókurinn eða kóngurinn valdaðir og þar að auki má hvorki kóngurinn né hrókurinn að hafa hreyft sig áður. "Ef að hrókurinn er færður fyrstur er hrókunin ógild, hann talinn hafa fært sig og ekki er hægt að draga hreyfinguna til baka." Langhrókun. Langhrókun einkennist af því að hrókað er með kónginum og hróknum sem er á drottningarvæng. Kóngurinn fer þá tvo reiti til vinstri og hrókurinn á drottningarvæng fer til hægri um þrjá reiti. Stutthrókun. Stutthrókun einkennist af því að hrókað er með kónginum og hróknum sem er á kóngsvæng. Kóngurinn fer þá tvo reiti til hægri og hrókurinn á kóngsvæng fer til vinstri um tvo reiti. Mát. Mát felst í því að spilara tekst að loka af kónginn í hinu liðinu svo að hann verði drepinn í næsta leik og það sé ekkert sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir það. Kóngurinn er þó aldrei drepinn heldur er leiknum lokið þegar sú staða kemur upp. Pattmát. Pattmát (venjulega bara kallað patt) er í raun og veru ekki mát, heldur er leikurinn skráður sem jafntefli. Staðan er þá þannig að annar hvor spilarinn getur alls ekki hreyft einn einasta skákmann og kónginum er ekki hótað af taflmanni af andstæðum lit. Jafntefli. Jafntefli getur komið upp í pattmáti eða þegar ekki er hægt að ljúka leiknum með máti. Samkvæmt FIDE, þá er jafntefli þegar 50 leikir hafa verið leiknir án þess peði hafi verið leikið, né taflmaður drepinn. "Þriggja leika reglan" segir að skákin sé jafntefli þegar sama staðan á taflborðinu hefur komið upp þrisvar sinnum, en skákmaður verður þá að krefjast jafnteflis áður en hann leikur næsta leik, annars fellur reglan úr gildi. Stórmeistarar semja stundum um jafntefli eftir fáeina leiki án þess að reyna að tefla til vinnings, en slíkt kallast "stórmeistarajafntefli". 1999. Árið 1999 (MCMXCIX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á föstudegi. 7. maí. 7. maí er 127. dagur ársins (128. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 238 dagar eru eftir af árinu. 2004. Árið 2004 (MMIV) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á laugardegi. 4. maí. 4. maí er 124. dagur ársins (125. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 241 dagur er eftir af árinu. Þágufall. Þágufall er fall (nánar tiltekið aukafall) sem almennt er notað til að gefa til kynna með tilliti til hvers eitthvað er gert. Í þeim málum sem hafa þágufall er þágufallið oftast notað fyrir óbeint andlag. Frumlag ópersónulegra sagna er oft í þágufalli. Ofnotkun þágufalls er nefnd þágufallssýki. Í sumum tungumálum hefur þágufallið tekið yfir hlutverk ýmissa falla sem dottið hafa úr málinu. Í íslensku er það til að mynda notað í stað tækisfalls, sem líklega datt úr forvera tungunnar löngu fyrir landnám. Dæmi um slíka notkun er setningin „Hann var stunginn rýtingi,“ þar sem "rýtingi" er notað eins og um tækisfall sé að ræða. Þá er talað um "tækisþágufall". Sjá nánar um notkun þágufalls í íslensku hér að neðan. Hvernig þágufall er hugsað. Þarna myndi sér flokkast sem óþægindafall. "Þeim" í svari Ganglera er þægindafall. Þágufall í íslensku. Þágufall er fall í íslensku sem fallorð geta tekið. Hægt er að finna þágufall með því að setja „frá“ fyrir framan fallorðið. Þágufallið af persónufornafninu „ég“ er þá „mér“ (sbr. frá mér). Margar ópersónulegar sagnir taka frumlag í þágufalli. Dæmi: „Mér líkar þetta vel“. Í öðrum tungumálum. Þágufall var eitt sinn algengt meðal indóevrópskra tungumála. Þágufall í latínu. Frumlag ópersónulegra sagna er oft í þágufalli. Tenglar. Föll 16. maí. 16. maí er 136. dagur ársins (137. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 229 dagar eru eftir af árinu. 1. janúar. 1. janúar er 1. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 364 dagar (365 á hlaupári) eru eftir af árinu. 5. maí. 5. maí er 125. dagur ársins (126. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 240 dagar eru eftir af árinu. 6. maí. 6. maí er 126. dagur ársins (127. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 239 dagar eru eftir af árinu. 8. maí. 8. maí er 128. dagur ársins (129. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 237 dagar eru eftir af árinu. 9. maí. 9. maí er 129. dagur ársins (130. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 236 dagar eru eftir af árinu. Maí. Maí eða maímánuður er fimmti mánuður ársins og er nafnið dregið af nafni rómversku gyðjunnar Maiu. Í mánuðinum er 31 dagur. 15. maí. 15. maí er 135. dagur ársins (136. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 230 dagar eru eftir af árinu. 10. maí. 10. maí er 130. dagur ársins (131. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 235 dagar eru eftir af árinu. 11. maí. 11. maí er 131. dagur ársins (132. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 234 dagar eru eftir af árinu. Sódóma Reykjavík. "Sódóma Reykjavík" er fyrsta kvikmynd Óskars Jónassonar í fullri lengd. Hún fjallar um leit bifvélavirkjans og erkilúðans Axels (Björn Jörundur Friðbjörnsson) að fjarstýringu fyrir sjónvarpstæki móður sinnar. Hluta handrits myndarinnar skrifaði Óskar Jónasson þegar hann dvaldi upp í sveit í sumarbústað. Viðtökur. Um 38.500 manns sáu Sódómu í kvikmyndhúsum á Íslandi þegar hún var frumsýnd sumarið 1992, sem má telja mjög gott miðað við að mannfjöldinn á Íslandi var um 260.000. Hún féll þó fljótlega í töluverða gleymsku en var endurvakin þegar hún fylgdi með öllum pökkum af SS pylsupökkum. Og aftur þegar hún var gefin út á DVD. Kvikmyndinni var einnig vel tekið erlendis og var líkt við kvikmyndina After Hours. Hún var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1993 og í Asíu var sýndur áhugi á að gera japanska endurgerð, þótt ekkert hafi orðið úr því. Um sumarið 1993 var hún sýnd í Regnboganum með enskum texta fyrir ferðamenn. Enska textann má finna á íslenskri DVD útgáfu myndarinnar. 1246. a> og bardaginn við ána Leitha. Blogg. Blogg (enska "blog", sem er fengið úr orðinu we"blog") er vefsíða sem inniheldur reglulegar dagsettar færslur sem venjulega er raðað í öfuga tímaröð. Íslenskun á orðinu blog. "Fyrir utan orðið „blogg“ hafa komið upp nokkrar hugmyndir um íslenskun á orðinu „blog“:" Kjarnorkustríð. Kjarnorkustríð er stríð þar sem notast er við kjarnorkuvopn. Kjarnorkuvopnum hefur aðeins einu sinni verið beitt í stríðsátökum, en það var í síðari heimstyrjöldinni þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Líklega hefur verið einna næst komist kjarnorkustríði síðan þá í svokallaðri Kúbudeilu. En þá hótuðu Bandaríkin að gera kjarnorkuárás á Sovétríkin eftir að þau síðarnefndu höfðu komið fyrir skammdrægum kjarnorkuflaugum á Kúbu. Annars hafa komið upp a.m.k. 4 önnur minna þekkt tilvik þar sem við lá að kjarnorkustríð brytist út vegna misskilnings. Öll þessi atvik voru frekar stutt (styttri en 10 mín.). Fyrst var það 9. nóvember árið 1979 þegar bandarískar tölvur tilkynntu um feiknarmikla kjarnorkuárás frá Sovétríkjunum, en þegar farið var að skoða gögn frá radarbúnaði og gervihnöttum þá kom í ljós að engar flaugar voru á leiðinni heldur hafði óvart verið sett af stað þjálfunarforrit í tölvunni sem gaf út viðvörunina. Stór hluti herafla Bandaríkjamanna var kominn á hátt hættustig þegar loksins kom í ljós að hættan var engin. Næsta tilvik átti sér stað þann 3. júní 1980. Vegna bilunar í tölvukubbi hjá varnarkerfi Bandaríkjamanna sýndi það árás á Bandaríkin frá Sovétmönnum, en fjöldi kjarnorkuflauga var mismunandi eftir því á hvaða skjá var litið og við hvaða stjórnstöð var talað. Þriðja tilvikið átti sér stað þann 26. september 1983. Þá var komið að sovéska varnarkerfinu að gefa frá sér villandi skilaboð. Sovéska kerfið virkaði þannig að það skoðaði ekki allt yfirborð jarðar eins og bandaríska kerfið gerði heldur aðeins efsta lag lofthjúpsins og notaði gervitungl sem voru staðsett á réttum stað til að sjá flaugar fara frá Bandaríkjunum. Á þessum degi sköpuðust einstakar aðstæður (sem hefði þó átt að vera hægt að sjá fyrir) þar sem sól, ský og stað/tímasetning á gervitungli leiddu til þess að gervitunglið hélt að um kjarnorkuárás væri að ræða. Síðasta tilvikið varð síðan 25. janúar 1995 þegar Norðmenn sendu upp tilraunaeldflaug til að rannsaka norðurljósin. Norðmenn létu alþjóðasamfélagið vita af því að þeir ætluðu að framkvæma þessa tilraun en eitthvað fór úrskeiðis í upplýsingastreymi hjá Rússum og héldu þeir að Bandaríkjamenn hefðu sent upp eina Trident eldflaug sem hefði þann tilgang að blinda rússneska varnarkerfið með því að sprengja kjarnaodd hátt í gufuhvolfinu en á eftir fylgir svo hin raunverulega kjarnorkuárás. Listi yfir stærðfræðinga. Stærðfræðingar skipta þúsundum ef ekki tugum þúsunda, og í gegnum aldirnar hafa ótrúlega margir borið það starfsheiti. Þessi listi verður líklega aldrei tæmandi. Til þess að einfalda listann aðeins hefur stærðfræðingunum verið skipt upp eftir því tímabili sem þeir störfuðu á, en það segir mjög margt um eðli þess sem þeir fengust við. Einnig er hægt að sjá stærðfræðinga eftir stafrófsröð. Wacław Sierpiński. Wacław Franciszek Sierpiński (fæddur 14. mars 1882, dáinn 21. október 1969) var pólskur stærðfræðingur. Hann er best þekktur fyrir rannsóknir sínar í grúpufræðum, talnakenningunni, grannfræði og brotamyndum. Tvær mjög frægar brotamyndir eru kenndar við Sierpinski, sem heita "Teppi Sierpinskis" ("Sierpinski's Carpet") og "Pakkning Sierpinskis" ("Sierpinski's Gasket"). Tala (stærðfræði). Talan núll er upprunnin á Indlandi. Tala er hlutfirrt eining sem notuð er til þess að lýsa fjölda og/eða magni. Einfaldasta form talna eru náttúrulegar tölur eða, sem eru notaðar við talningu og er mengi þeirra táknað N. Deilt er um það hvort 0 tilheyri náttúrulegum tölum eða ekki. Ef að neikvæðar heiltölur eru teknar með er komið heiltölumengið Z. Séu hlutföll talna tekin með, og þar af leiðandi brot, eru komnar ræðar tölur, Q. Þó eru ekki allar tölur ræðar, sumar (eins og Pí) eru endalausar, eða óræðar. Sammengi ræðra talna og óræðra nefnist mengi rauntalna, R. Þar sem ekki er hægt að leysa öll algebraísk vandamál með rauntölum eingöngu er mengi rauntalna víkað út á tvinntölusléttuna. Mengi tvinntalna er táknað með C. Tvinntölur má svo útvíkka í fertölur þar sem að víxlreglan gildir ekki um margföldun. Fertölur má svo lengja í átttölur, en þá glatast önnur regla, tengireglan. Tölur eru samsettar úr tölustöfum, sem er raðað eftir reglum talnakerfisins, sem notað er. Talnakerfið með grunntöluna 10 er einna algengast, svonefnt tugakerfi, líklega vegna þess að maðurinn hefur tíu fingur, sem nota má til að telja með. Rómverjar notuðu rómverska tölustafi, sem myndaðir voru úr hópum með 1, 5, 10, 50, 100, 500 og 1000 einingum. Babýlóníumenn byggðu talnakerfi sitt upp á tölunni 60 (sextugakerfi), en leifar þess má sjá á klukkum: 60 mínútur í klukkustund og 60 sekúndur í mínútu og í bogamál: 360 (60*6) gráður í heilum hring. Keltar notuðust lengi við grunntöluna 12 (tylftakerfi), sem enn er notað sem grunneining mælinga í Bandaríkjunum. Allar tölur eru endanlegar, en í örsmæðaeikningi hefur reynst nauðsynlegt að víkka út rauntalnaásinn, þ.a. hann hinnihaldi stökin plús og mínus óendanlegt. (Sjá útvíkkaði rauntalnaásinn.) Rómverskar tölur o.fl.. Mjög mörg mál hafa sömu grunn hugmynd að talningu. Í rómverskum tölustöfum var talið I, II, III, IV, V. Rómversku tölurnar tákna 4 sem IV - „einum minna en fimm“. Í kínversku, japönsku og öðrum málum sem nota kínverskar táknmyndir eru fyrstu tölurnar svipaðar, nema lárétt (一, 二, 三, 士, 五). Súmerar notuðu misjafnan fjölda fleyga („<“) til þess að tákna tölur, og voru allt að fimm fleygum í hóp áður en að annars kyns tákn sýndi tug (sex-tuga kerfi þeirra byggðist á grunntölunni 60). Áhugaverðar tölur. Pí — Googol — Googolplex — Prímtölur — Fibonacci runan — Stórar tölur — Smáar tölur — Staðalform — Avogadrosartalan — Stærðfræðilegur fasti Vingjarnlegar tölur og fullkomnar tölur eru áhugaverðir flokkar heilla talna og margir fleiri slíkir eru til. Náttúrlegar tölur. Náttúrulegar tölur eða náttúrlegar tölur eru talnamengi jákvæðra heiltalna, (1, 2, 3, 4...), táknað með formula_1, sem er óendanlegt en teljanlegt mengi skv. skilgreiningu. Á stundum einnig við mengi "óneikvæðra" heiltalna, (0, 1, 2, 3, 4...), þ.e. jákvæðu heiltalnanna auk sifju (núlls), sem er til aðgreiningar táknað með formula_2. Mengi náttúrulegra talna er líkt og heiltölumengið lokað mengi við samlagningu og margföldun en ólíkt heiltölumenginu (sem er "baugur") er það ekki lokað við frádrátt sökum þess að það inniheldur ekki neikvæðar tölur; né heldur við deilingu, því að það inniheldur ekki ræðar tölur nema heilar. Fyrr á tímum töldust bara ákveðnar tölur „náttúrulegar“ og voru þær jafn vel sagðar frá guði komnar. Til dæmis sagði stærðfræðingurinn Leopold Kronecker: „"Guð skapaði náttúrulegu tölurnar, allt annað er mannanna verk."“ Stærðfræðingar eru ekki á einu máli um hvort telja eigi "núll" til náttúrlegra talna eða ekki, þó viðurkennt sé að núll var „fundið upp“ löngu seinna en „jákvæðu heiltölurnar“, t.d. notuðu rómverjar ekki núll. Aðeins er deilt um skilgreiningu þ.a. engu máli skiptir í raun fyrir stærðfræðina hvort núll sé „"náttúrulegt"“ eða ekki. Núll. Núll er eina talan, sem hvorki er já- né neikvæð og er samlagningarhlutleysa, táknað með tölustafnum 0. Telst af sumum til náttúrlegra talna. Núll er sín eigin samlagningarandhverfa en er eina rauntalan sem hefur enga margföldunarandhverfu. Sifja. Orðið Sifja, rétt eins og nafn talna í íslensku, er upphaflega komið úr arabísku, og er þar ritað „صيپر“, eða svo gott sem. Orðið hefur þó tekið sér bólfestu í fleiri málum en íslensku, en í ensku er það þekkt sem „cypher“, sem þýðir dulmál. Þó er ekki hægt að segja að annað hvort málið hafi þýtt merkinguna betur en hitt, því að orðið þýðir upprunalega „dulið“. Dulmál eru augljóslega dulin þeim sem að áttu ekki að geta ráðið þau, en enn fremur er talan 0 dulin öllum sem að leggja metnað í að reyna að skilja hana, þar með talið Aröbunum sem að byrjuðu að kalla hana sifju. Þessu orði er jafnan skeytt aftan við orð eins og nafn-sifjar og merkir þar tengsl, þ.e. hvaðan nafnið er upprunið. Önnur dæmi um þetta er ættsifjar og orðsifjar. Sifjar (eða Sif) var einnig ein Ásynjanna í norrænni goðafræði, og var kona Þórs. Það nafn er skylt sifjar, í þeirri merkingu þar sem það merkir mágsemdir eða tengsl, nafnið þýðir í raun frændkona. Pýþagóras. Pýþagóras frá Samos (d. um 500 f.Kr.) var forngrískur stærðfræðingur og heimspekingur sem var uppi um 570 f.Kr. til 497 f.Kr. Hann er talinn einna fyrstur til að líta á stærðfræði sem sjálfstæða fræðigrein, en ekki bara safn af nytsamlegum formúlum. Er ásamt Evklíð frægasti stærðfræðingur fornaldar. Einhvern tímann í kringum árið 530 f.Kr setti hann á laggirnar trúarlega reglu í borginni Kroton á Suður-Ítalíu sem hafði tónlist og stærðfræði í hávegum. Einstaklingar innan þessarar reglu (oft kallaðir pýþagóringar) töldu að tölur væru grundvöllur alheimsins og byggist hann því upp á samræmi þeirra og hlutföllum. Hugmyndir Pýþagórasar höfðu mikil áhrif á gríska heimspekinga, m.a. Platon. Regla Pýþagórasar er þó að öllum líkindum ekki frá honum komin þar sem vitað er að Babýlóníumenn þekktu hana um 1800 f.Kr. Trúarleg regla Pýþagórasar var mjög stór í sniðum og er vitað að konur fengu ekki inngöngu í regluna. Allir reglubræður voru bundnir þagnareiði og því er talið að mikið af heimspeki sem tileinkuð er Pýþagórasi komi ekki endilega frá honum sjálfum heldur úr þessari trúarreglu sem stóð lengur en hann lifði. Þar lögðu pýþagóringar stund á heimspeki og stærðfræði. Til að mynda var Pýþagóras sá fyrsti til að sýna fram á stærðfræðilega eiginleika tónfræðinnar. Einnig töluðu þeir um að talan 10 væri í raun heilög tala og í heimspekikerfi sínu gerðu þeir ráð fyrir því að himingeimurinn samanstæði af 10 reikistjörnum og þar af væri ein andjörð sem hreyfðist á móti jörðinni. Frekari fróðleikur. Kahn, Charles H., "Pythagoras and the Pythagoreans: A Brief History" (Indianapolis: Hackett, 2001). Regla Pýþagórasar. Regla Pýþagórasar, Pýþagórasarregla eða setning Pýþagórasar er regla í evklíðskri rúmfræði sem fjallar um tengslin milli lengda hliðanna í rétthyrndum þríhyrningi. Reglan er kennd við forngríska heimspekinginn, trúarleiðtogann og stærðfræðinginn Pýþagóras, þó að vitað sé að reglan hafi þekkst fyrir tíma hans bæði í Babýlóníu og Kína, en talið er að hann hafi verið fyrstur til að sanna að hún gilti fyrir alla rétthyrnda þríhyrninga. Reglan er grundvallarregla í ýmsum rúmfræðireikningi, t.a.m. hnitarúmfræði og hornafræði. Reglan. Mynd sem sýnir þrjá ferhyrninga sem mynda rétthyrndan þríhyrning sín á milli Ef gefinn er rétthyrndur þríhyrningur segir reglan til um að ef lögð eru saman önnur veldi skammhliða þríhyrningsins jafngildi sú summa öðru veldi langhliðarinnar. Setja má regluna fram sem svo að ef smíðaðir eru þrír ferningar, þar sem hver hinna þriggja hliða þríhyrningsins jafngildir hliðarlengd eins fernings, er samanlagt flatarmál minni ferninganna tveggja jafnt flatarmáli þess stærsta. Framsetning reglunnar á algebraískan máta er: formula_1, þar sem a og b eru skammhliðar og c er langhlið. Sönnun. Látum þríhyringinn ABC tákna rétthyrndan þríhyrning (sjá mynd að neðan) þar sem hornið C er rétt. Frá horninu C er dregin lína hornrétt á hliðina AB sem mætir AB í punktinum X. Þá myndast tveir nýir þríhyrningar, ACX og CBX. Þessir þríhyrningar og ABC eru allir einslaga. formula_2 formula_3 Ef lagt er saman a2 og b2 þá fæst formula_4 Þar sem formula_5 getum við skrifað formula_6 Ítarefni. Í bókinni "Pythagorean Triangles" ("Trójkaty pitagorejskie") sýndi Waclaw Sierpinski fram á að til væru óendanlega margir þríhyrningar gerðir úr heiltölum. Þessir þríhyrningar eru kallaðir pýþagórískir þríhyrningar. Einnig er talað um "pýþagórískar þrenndir" ("a", "b", "c") þar sem "a", "b" og "c" eru jákvæðar heiltölur, sem uppfylla skilyrðið "a"2 + "b"2 = "c"2. Leonhard Euler. Leonhard Euler (f. 15. apríl 1707 í Basel í Sviss, d. 18. september 1783 í St. Pétursborg í Rússlandi) (borið fram „Oiler“, ekki „Júler“), var svissneskur stærðfræðingur og eðlisfræðingur. Euler notaði hugtakið „fall“, sem Leibniz setti fyrstur fram árið 1694, til þess að lýsa stæðu með mörgum mismunandi breytum t.d. formula_1. Euler er jafnframt þekktur fyrir að beita stærðfræðigreiningu fyrstur manna í eðlisfræði. Euler menntaði sig í Sviss og starfaði sem prófessor í stærðfræði í St. Pétursborg og Berlín en fór svo seinna aftur til St. Pétursborgar. Hann er þekktur sem einn af fremstu stærðfræðingum allra tíma ásamt Carl Friedrich Gauss og Pál Erdős. Hann var mikilvirkur í stærðfræði 18. aldar og fann mjög margar afleiðingar stærðfræðigreiningar, sem var þá tiltölulega ný grein. Síðustu sautján ár lífs síns var hann blindur en gerði þá samt um það bil helming uppgötvana sinna. Euler skrifaði yfir 1100 bækur og greinar. Eftir dauða hans liðu 47 þar til öll ritverk hans höfðu verið gefin út. Enn er verið að gefa út heildarsafn verka hans og er áætlað að það verði rúmlega 75 bindi. Euler var strangtrúaður alla ævi. Fræg er sagan um það er Denis Diderot, andstæðingur kirkjunnar, skoraði á Euler í kappræður um tilvist Guðs í höll Katrínar miklu. Á Euler þá að hafa flutt mál sitt með orðunum: „"Herra minn, formula_2; þar af leiðir að Guð er til. Svaraðu fyrir þig!"“ Við þetta á Diderot að hafa hrökklast undan, ófær um að skilja eða draga í efa stærðfræðileg rök af þessu tagi. Efast má þó stórlega um sannleiksgildi þessarar sögu, þar sem Diderot var sjálfur allfær stærðfræðingur og hefði því ekki látið glepjast af slíkum gervirökum. Eulersfasti og loftsteinninn 2002 Euler eru nefndir eftir Euler. Uppgötvanir. Uppgötvanir Eulers eru margvíslegar og ná yfir mörg svið stærðfræðinnar. Líklega uppgötvaði hann ásamt Daniel Bernoulli lögmálið um að togkraftur þunnrar teygju er í hlutfalli við teygjanleika efnisins og tregðupunkts þverskurðar þess, í gegnum ás dreginn í gegnum massamiðjuna og þvert á flöt hennar. Hann setti einnig fyrstur fram Eulerjöfnurnar sem eru lögmál í straumfræði og eru beinar afleiðingar hreyfilögmála Newtons. Jöfnurnar eru nákvæmlega eins og Navier-Stokes-jöfnurnar með engri seigju ("viscocity"). Jöfnurnar eru m.a. áhugaverðar vegna þess að þær gera ráð fyrir tilvist höggbylgna. formula_3 Oft er talað um þessa jöfnu sem fallegustu jöfnu stærðfræðinnar. Er það líklega vegna þess að svo margar mikilvægustu tölur stærðfræðinnar koma fram í henni. Talan e er kennd við hann - "Tala Eulers". formula_4 þar sem H er fjöldi hornpunkta, B fjöldi brúna og F fjöldi flata í margflötungi. Margir halda því fram að Euler hafi gefið út fyrstu greinina þar sem notuð er netafræði þegar hann leysti vandamálið um hvort ganga mætti um allar sjö brýr Köningsberg-borgar nákvæmlega einu sinni og enda á sama stað og maður byrjaði. Hann sannaði að það var ekki hægt og eru slík vandamál í netafræði nú kölluð að finna Euler-rás eða Euler-leið í gegnum netið. Euler, Leonhard Euler, Leonhard Euler, Leonhard Von Neumann arkitektúr. Von Neumann arkitektúr er hönnun á gagnastreymiskerfum tölva sem að gerir ráð fyrir því að enginn munur sé á gögnum sem tölvan getur unnið úr og kóðanum sem tölvan getur keyrt. Í hnotskurn: Kóðinn (enska "code") tilheyrir gögnunum. Þessi arkitektúr er kenndur við Ungversk-Ameríska stærðfræðinginn John von Neumann, en hann var sá sem að útfærði hugmyndafræði Gödels yfir á tölvutækt form þegar hann vann við smíði ENIAC tölvunnar. Hann sannaði að kenning Gödels gæti gengið upp, og notaðist við rannsóknir Alans Turing. Tölvur með þessu formi geyma gögn og kóða saman, og koma fram við bæði á sama máta. Þetta gerir það að verkum að forrit geta skapað önnur forrit og keyrt þau, séu þau þannig hönnuð. Visst óöryggi býr í þessari staðreynd, og því hefur Harvard arkitektúr orðið vinsæll meðal margra sérfræðinga tölvuöryggis. John von Neumann. John von Neumann fæddur sem Neumann Janós (28. desember 1903 í Ungverjalandi – 8. febrúar 1957 í Bandaríkjunum) var ungversk-bandarískur stærðfræðingur sem gerði mikilvægar uppgötvanir á sviði skammtafræði, tölvunarfræði, hagfræði, grúpufræði sem og í mörgum öðrum greinum stærðfræðinnar. John von Neumann var elstur þriggja systkina. Foreldrar hans voru "Neumann Miksa", bankastarfsmaður, og "Kann Margit". John fæddist inn í gyðingafjölskyldu en iðkaði þau trúarbrögð aldrei. Á ungum aldri sýndi hann mikla minnishæfileika og gat deilt í átta stafa tölur í huganum þegar hann var sex ára. Árið 1911 stundaði hann nám í lúterskum framhaldsskóla. Neumann varð síðar doktor í stærðfræði frá Háskólanum í Búdapest þegar hann var 23 ára. Á árunum 1926 til 1930 starfaði hann svo sem fyrirlesari í Þýskalandi. Árið 1930 var honum boðið til Princeton háskóla, og var þar valinn sem einn fjögurra fyrstu starfsmanna í háfræðarannsóknastofnun þar (Institute for Advanced Study). Þar var hann prófessor í stærðfræði frá stofnun deildarinnar árið 1933 þar til hann lést. Í Seinni heimstyrjöldinni hjálpaði hann til við þróun kjarnorkusprengjunnar í Manhattan verkefninu, en rétt fyrir dauða sinn varð hann forstöðumaður bandarísku kjarnorkumálanefndarinnar. Á árunum 1936 til 1938 var Alan Turing gestur hjá háfræðastofnuninni og lauk þar doktorsprófi undir umsjón Johns von Neumanns. Heimsóknin hófst stuttu eftir útgáfu ritgerðar Turings, „"Um reiknanlegar tölur með hagnýtingu í Entscheidungsproblem"“ („"On Computable Numbers with an Application to the Entscheidungs-problem"“ á frummálinu), sem fjallaði um hugmyndafræði og rökræna hönnun altæku vélarinnar. Von Neumann var upphafsmaður leikjafræðinnar. Einnig skapaði hann Von Neumann arkitektúrinn fyrir tölvur. Hann lést úr krabbameini í beinum og brisi. Leikjafræði. Leikjafræði er þverfagleg grein tengd stærðfræði og hagfræði sem notast við líkön til þess að spá fyrir um mögulega þróun innan lokaðs kerfis þar sem skilgreindir eru þátttakendur og tengdar breytur. Gagnvirk ákvarðanafræði (e. "interactive decision theory") er annað heiti yfir leikjafræði sem lýsir greininni ef til vill betur. Fræðin teygir sig yfir breytt svið og hefur þróast yfir í að vera einskonar regnhlíf yfir svið félagsvísindanna þar sem gert er ráð fyrir að leikmenn taki ákvarðanir byggðar á skynsemi og rökfræði. Markmiðið er að nota rökvísi og útsjónarsemi til að ná fram sem bestri útkomu í mismunandi atburðarrásum eða við mismunandi aðstæður. Þetta getur átt við aðstæður þar sem upp koma átök eða þörf er á samvinnu. Leikmennirnir geta verið allt frá fyrirtækjum og stofnunum yfir í einstaklinga og jafnvel þjóðir. Leikjafræði er aðallega notuð í hagfræði, stjórnmálafræði, sálfræði sem og rökfræði og líffræði en getur einnig verið notuð við ákvarðanatökur í daglegu lífi. Leiknum er lýst með því að greina frá reglum leiksins og hvaða útkoma hlýst af hverri samsetningu af ákvörðunum. Þannig geta leikmenn notað líkön og tól Leikjafræðinnar til að fá skýrari sýn á aðstæður með það að markmiði að bæta útkomu ákvarðanna sinna. Þegar hver leikmaður hefur valið þá leikáætlun sem er honum fyrir bestu með það í huga hvaða leikáætlun aðrir leikendur hafa valið er sú lausn kölluð Nash-jafnvægi. Leikjafræði var fyrst rannsökuð af John von Neumann og Oskar Morgenstern árið 1944. Eitt þekktasta dæmi leikjafræðinnar nefnist vandamál fangans. Það lýsir þeim valmöguleikum og hugsanlegum útkomum þess þegar tveir einstaklingar, A og B, eru ákærðir fyrir glæp. Þeir eru aðskildir við yfirheyrslur og þurfa að ákveða framburð sinn. Ef báðir þegja fá þeir báðir mildan dóm. Ef annar bendir á hinn og hinn þegir er þeim fyrrnefnda sleppt en sá síðarnefndi fær þungan dóm. Ef þeir benda báðir hvor á annan fá þeir báðir dóma. Birtingarmynd leikja. Leikjum er skipt upp í tvo flokka eftir því hvort báðir leikendur þurfa að taka ákvarðanir á sama tíma eða hvort annar fær að byrja. Samtímaleikur (e. "simultaneous game") er sá leikur þar sem báðir aðilar taka ákvarðanir í einu án vitneskju um ákvörðun hvors annars. Leikmenn verða samt sem áður að vera meðvitaðir um hina leikmennina þegar þeir taka ákvarðanir. Samtímaleikjum er lýst með fylkjum sem sýna mismunandi útkomur við mismunandi samsetningar ákvarðanna. Raðleikur (e. "sequential game") er þegar leikmaður 1 tekur ákvörðun fyrst og leikmaður 2 tekur ákvörðun á eftir honum og notar því vitneskjuna um ákvörðun hins til að taka sína ákvörðun. Hver leikmaður verður þá að horfa fram á við til að sjá hvaða áhrif ákvörðun hans mun hafa á ákvörðun mótspilarans og taka út frá því ákvörðun. Raðleikur hefur einnig verið kallaður leikur með fullkomna vitneskju (e. "perfect information game"). Raðleikir eru sýndir með svokölluðu ákvarðanatré eins og sjá má á myndinni til hliðar. Samtímaleikjum er lýst með fylkjum sem sýna mismunandi útkomur við mismunandi ákvarðanir. Hver punktur milli greina táknar þann stað þar sem ákvarðanir eru teknar og leikmaðurinn er táknaður með númeri við hvern punkt. Línurnar tákna mögulegar ákvarðanir og útkomur eru táknaðar með tölum á botni ákvarðanatrésins. Tegundir leikja. Leikir með og án samvinnu (e. "Cooperative or non-cooprerative games") Samhverfir og ósamhverfir leikir (e. "Symmetric and assymetric games") Einkenni leikja. Leikir geta haft mörg mismunandi einkenni en þau helstu eru útskýrð hér Leikáætlanir. Leikáætlun er einn af valkostum sem leikmaður getur valið í leik, þar sem ekki einungis hans eigin gjörðir skipta máli heldur einnig gjörðir annarra. Leikáætlun mun ákvarða hvernig leikmaður spilar. Dæmi: Í skák þá ákveður leikmaður ákveðna leikáætlun um hvernig skákin í heild sinni skuli leikin en ekki hvern einstaka leik. Leikáætlunin þarf ekki einungis að taka mið af eigin gjörðum, hann þarf einnig að taka mið af gjörðum andstæðingsins og ákveða leikáætun sína útfrá því. Ríkjandi leikáætlun (e. "dominant strategy") Leikáætlun er ríkjandi ef hún er ávallt betri en allar aðrar leikáætlanir fyrir einn leikmann sama hvað mótherji hans gerir. Þá er leikmaðurinn með ríkjandi leikáætlun og gjörðir mótherjans skipta engu máli. Sá sem er með ríkjandi leikáætlun ætti að nota hana ef hann vill vinna. Víkjandi leikáætlun (e. "dominated strategy") Leikáætlun er víkjandi ef til er að minnsta kosti ein önnur leikáætlun sem er betri. Leikmaður á að útiloka víkjandi leikáætlun og velja ríkjandi leikáætlun. Ef báðir leikmenn hafa ríkjandi leikáætlun og velja hana þá er um Nash-jafnvægi að ræða. Nash-jafnvægi er í leikjafræði lausnarregla — búin til af og nefnd í höfuðið á John Forbes Nash — sem vísar til þess jafnvægis sem skapast þar sem tveir eða fleiri leikmenn eru til staðar, þegar hver leikmaður velur leikáætlun sem kemur honum best þegar hann veit hvaða áætlanir allir hinir leikmennirnir hafa valið. Nash-jafnvægi er þá til staðar þegar allir leikmenn vita hvað hinir ætla að gera, og enginn hagnast af því að breyta sinni áætlun. Bandaríkin. Bandaríki Ameríku (stundum nefnd Bandaríki Norður-Ameríku, skammstafað BNA), oftast kölluð Bandaríkin, eru sambandslýðveldi sem er næststærsta ríki Norður-Ameríku að flatarmáli (9,83 milljónir km² eða 3,79 milljónir fermílur) og jafnframt það fjölmennasta með yfir 305 milljónir íbúa. Þau eru enn fremur fjórða stærsta land heims og það þriðja fjölmennasta. Þau teygja sig milli Atlantshafs og Kyrrahafs og eiga landamæri að Kanada í norðri og Mexíkó í suðri. Bandaríkin samanstanda af 50 ríkjum sem njóta nokkurs sjálfræðis í eigin efnum og hafa eigin löggjöf sem þó má ekki stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Auk sambandsríkjanna hafa Bandaríkin lögsögu yfir ýmsum hjálendum víða um heim. Bandaríkin rekja uppruna sinn til sjálfstæðisyfirlýsingarinnar frá 4. júlí 1776 þegar þrettán breskar nýlendur lýstu yfir eigin frelsi og sjálfstæði frá Breska heimsveldinu. Nýlendurnar höfðu betur í Frelsisstríði Bandaríkjanna en það var fyrsta nýlendustríðið þar sem nýlendan hafði betur en herraþjóðin. Nýlendurnar samþykktu sameiginlega stjórnarskrá í Philadelphiu þann 17. september 1787. Stjórnarskráin gerði nýlendurnar þrettán að einu lýðveldi. Á 20. öldinni tóku Bandaríkin forystu í heiminum hvað varðar efnahagsleg, pólitísk, hernaðarleg og menningarleg áhrif. Bandaríska hagkerfið er það stærsta í heimi en verg landsframleiðsla Bandaríkjanna árið 2006 var 13 trilljónir bandaríkjadala, það er að segja um það bil fjórðungur af vergri landframleiðslu alls heimsins. Evrópusambandið er stærra hagkerfi en Bandaríkin en er ekki ein þjóð. Eftir endalok kalda stríðsins voru Bandaríkin eina eftirstandandi risaveldi heims. Bandaríkin eru fjölmenningarsamfélag með afar fjölbreytta samfélagsgerð. Landafræði og umhverfi. hæðarkort af samtengdu fylkjum Bandaríkjanna. Bandaríkin eru þriðja eða fjórða stærsta land heims miðað við heildarflatarmál. Rússland og Kanada eru stærri en það veltur á skilgreiningu hvort Kína sé það einnig. 48 fylki Bandaríkjanna eru samtengd en þau tvö nýjustu eru staðsett nokkuð langt frá hinum. Þau eru Alaska sem liggur að Kanada í vestri og Hawaii sem er eyjaklasi í suðvestrátt af meginlandi Bandaríkjanna. Landsvæði Bandaríkjanna er afar fjölbreytt. Á austurströndinni eru stórar sléttur og sumargrænir skógar sem ná langt inn í land. Appalachiafjöllin skilja austurstöndina frá Vötnunum miklu og gresjunum í Miðvestrinu. Mississippi- og Missourifljót mynda saman fjórða lengsta fljótakerfi heims en þau renna að mestu frá norðri til suðurs í gegn um mitt landið. Slétturnar miklu teygja sig til vesturs þar til Klettafjöll taka við. Klettafjöllin eru fjallgarður sem nær suður til Nýju Mexíkó og stendur hæst í um 4.300 m (14.000 fet) í Colorado. Á vesturströndinni er að finna háa fjallgarða en einnig eyðimerkur á borð við Mojave-eyðimörkina. Hæsti tindur Bandaríkjanna (og Norður-Ameríku) er Denali (McKinleyfjall) í Alaska en hann er 6.194 m (20.320 fet). Virk eldfjöll er að finna bæði í Alaska og Hawaii. Í Yellowstone-þjóðgarðinum er gríðarstór megineldstöð sem er sú stærsta í Norður-Ameríku. Forsaga og frumbyggjar. Fyrstu íbúar Norður-Ameríku komu frá Asíu fyrir um það bil 12 þúsund árum yfir Bering-landbrúna, þar sem nú er Beringssund á milli Síberíu og Alaska. Áætlað er að á bilinu tvær til níu milljónir frumbyggja (indíána) hafi búið á því svæði sem nú er Bandaríkin, þegar Evrópubúar komu þangað fyrst. Evrópubúarnir báru með sér sjúkdóma á borð við bólusótt, sem frumbyggjarnir höfðu ekki kynnst áður og höfðu enga mótstöðu gegn; þeim fækkaði því mjög upp frá því. Þróuðustu samfélög þessara frumbyggja var að finna meðal Anazasi-þjóðarinnar í suðvestri og Woodland-indíánanna, sem byggðu Cahokia, borg sem stóð nálægt þeim stað þar sem nú er St. Louis; þar bjuggu 40.000 manns þegar mest var í kringum 1200. Landnám Evrópumanna. Norrænir menn komu til Norður-Ameríku í kringum árið 1000 en settust ekki að til frambúðar. Það var ekki fyrr en með leiðöngrum Kristófers Kólumbusar árið 1492 sem Evrópumenn fóru að senda þangað könnunarleiðangra og landnema. Á 16. og 17. öld settust Spánverjar að í núverandi Suðvesturríkjum Bandaríkjanna og Flórída þar sem þeir stofnuðu St. Augustine 1565 og Santa Fe (í núverandi Nýju-Mexíkó) 1607. Fyrsta varanlega byggð Englendinga var Jamestown í Virginíu, einnig 1607. Á næstu áratugum stofnuðu Hollendingar einnig nokkrar landnemabyggðir á austurströndinni, þar á meðal Nýju Amsterdam, sem seinna varð að New York. Svíar höfðu einnig hug á landnámi í Ameríku og stofnuðu Fort Christina árið 1637 en misstu þá byggð til Hollendinga 1655. Þá hófst umfangsmikið landnám Breta á austurströndinni. Landnemarnir voru að mestu látnir afskiptalausir af móðurlandinu fyrst um sinn eða fram að sigri Breta í Frakka- og indíánastríðinu en niðurstaða þess varð sú, að Frakkar gáfu eftir Kanada og svæðið í kringum Vötnin miklu. Þá fóru Bretar að innheimta skatta af 13 nýlendum sínum vestanhafs. Þetta þótti mörgum íbúum nýlendnanna ósanngjarnt þar sem þeim var neitað um að hafa málsvara í breska þinginu. Spennan á milli Breta og landnemanna jókst þangað til að út braust stríð, Frelsisstríð Bandaríkjanna, sem stóð frá 1776 til 1783. Frá sjálfstæðisbaráttu til borgarastríðs. Árið 1776 klufu hinar þrettán nýlendur sig frá Bretlandi og stofnuðu Bandaríkin, fyrsta sambandslýðveldi heimsins, með útgáfu Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna. Upphaflega var um að ræða laustengt bandalag sjálfstæðra ríkja. Miklar deilur spruttu á milli þeirra sem vildu halda því þannig og þeirra sem vildu sjá sterkari alríkisstjórn. Hinir síðarnefndu höfðu sigur með Stjórnarskrá Bandaríkjanna sem tók gildi árið 1789. Mikill skortur á vinnuafli háði hinu nýja landi frá upphafi. Þessar aðstæður ýttu undir þrælahald, sérstaklega í suðurríkjunum þar sem mannaflsfrekur landbúnaður treysti á vinnuafl innfluttra Afríkubúa. Um miðja 19. öld hafði myndast djúp gjá á milli norðurs og suðurs hvað varðaði réttindi ríkja og útvíkkun þrælahalds. Norðurríkin voru á móti þrælahaldi en suðurríkin álitu það nauðsynlegt og vildu taka það upp á þeim svæðum sem ekki tilheyrðu neinu ríki enn. Ágreiningurinn leiddi að lokum til þess að sjö suðurríki sögðu sig úr Bandaríkjunum og stofnuðu Sambandsríki Ameríku. Þau ríki sem eftir voru innan Bandaríkjanna gátu ekki sætt sig við það og borgarastyrjöld, hið svokallaða Þrælastríð, braust út. Fjögur ríki til viðbótar gengu til liðs við Suðurríkin eftir að stríðið hófst. Meðan á því stóð gaf Abraham Lincoln út yfirlýsingu þess efnis að gefa skyldi öllum þrælum í Suðurríkjunum frelsi en því var ekki að fullu hrint í framkvæmd fyrr en eftir sigur norðanmanna 1865, upplausn Suðurríkjasambandsins og gildistöku þrettánda viðauka stjórnarskrárinnar. Borgarastríðið útkljáði þá spurningu hvort einstökum ríkjum væri heimilt að segja sig úr Bandaríkjunum og er það einnig álitið vera sá punktur í sögunni þar sem völd alríkisstjórnarinnar urðu víðtækari en völd fylkjanna. Frá borgarastríði til nútímans. Á 19. öld bættust mörg ný fylki við hin þrettán upphaflegu eftir því sem landið stækkaði til vesturs. Í byrjun 19. aldar börðust Bandaríkjamenn og Kanadabúar við Breta, fyrrverandi nýlenduherra sína, í Stríðinu 1812. Þegar Texas var innlimað í Bandaríkin árið 1845 eftir að hafa verið sjálfstætt ríki í tíu ár, olli það ólgu á meðal ráðamanna í Mexíkó. Í kjölfarið brast á stríð á milli landanna sem stóð yfir frá 1846 til 1848. Þessu stríði lauk formlega með friðarsamningi, sem kenndur er við Guadalupe Hidalgo og urðu mexíkósk stjórnvöld að afsala sér stórum hluta yfirráðasvæðis síns, nánar tiltekið ríkjunum í norðri. Þessi innlimun landsvæða í Bandaríkin, hin svokölluðu Suðvesturríki, eru Kalifornía, Nevada og Utah auk stórra landsvæða sem falla undir Nýju Mexíkó, Colorado, Arizona og Wyoming. Vaxandi fólksfjöldi í austrinu og sívaxandi straumur innflytjenda frá Evrópu hvatti landnema til þess að leita vestur og ryðja hinum amerísku indíánum úr vegi í leiðinni. Á sumum svæðum hafði fjöldi þeirra dregist mjög saman vegna sjúkdóma en á öðrum svæðum voru þeir fluttir til með valdi. Útþensla Bandaríkjanna átti sér ekki aðeins stað á meginlandi Norður-Ameríku heldur komust þau yfir Púertó Ríkó, Gvam og Filippseyjar með sigri í Spænsk-bandaríska stríðinu. Filipseyjar hlutu sjálfstæði árið 1946. a>n var fundin upp í Bandaríkjunum. Á þessu tímabili urðu Bandaríkin einnig leiðandi iðnveldi í heiminum. En í kjölfar iðnbyltingarinnar hafði England verið stærsta iðnveldið. Sú þróun hélt áfram á 20. öldinni, árið 1914, við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar var efnahagur Bandaríkjanna sá stærsti í heiminum og átti enn eftir að vaxa. Þar var gnægt náttúruauðlinda, fjárfesting í atvinnulífinu var mikil, fólksfjölgun var mikil vegna Vesturferða, og framleiðni einnig mikil. Mestur iðnaður var í Norð-Austurhluta Bandaríkjanna en í Suðurhlutanum var landbúnaður meira áberandi. Bandaríkin urðu á þessum tíma vagga nýsköpunar og tækniþróunar; síminn, sjónvarpið, tölvan, internetið, kjarnorka, flugvélin og geimferðir eru allt tækninýjungar sem voru fundnar upp eða verulega endurbættar í Bandaríkjunum. Kreppan mikla reið yfir Bandaríkin á árunum 1929 til 1941 og var mikið áfall. Að auki tók landið þátt í bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldinni með Bandamönnum í bæði skiptin. Í seinna tilvikinu urðu Bandaríkin fyrsta og eina þjóðin til þess að hafa beitt kjarnorkuvopnum í stríði. Eftir stríðið stóðu Bandaríkin og Sovétríkin eftir sem einu risaveldi heimsins og háðu hið hugmyndafræðilega „Kalda stríð“ og skiptu heiminum niður í áhrifasvæði. Í Víetnam og Kóreu voru þó háð „heit stríð“ á sömu forsendu — að berjast gegn útbreiðslu kommúnisma. Eftir fall Sovétríkjanna stóðu Bandaríkin eftir sem eina risaveldi heimsins með efnahagslega og hernaðarlega yfirburði. Síðan þá hafa þau verið virk í hernaðarinnrásum og friðargæslu um víða veröld, þar á meðal í Kósóvó, Haítí, Sómalíu og Líberíu og í Persaflóastríðinu 1991. Eftir árásirnar á World Trade Center og Pentagon þann 11. september árið 2001 var hrundið af stað svokölluðu „stríði gegn hryðjuverkum“ en á grundvelli þess var ráðist inn í Afganistan og Írak. Saga innflytjenda í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru mjög ungt land og í rauninni byggt á innflytendum. Fyrstu lög gegn ólöglegum innflytendum voru sett 1790. Þau bönnuðu innflytjendum af evrópskum uppruna að koma til landsins. Árið 1882 voru sett lög sem bönnuðu kínverska innflytendur. Þeim lögum var aflétt 1943 auk þess sem innflytjendur frá Evrópulöndum var leyft að koma. Tungumál. Enska er í raun opinbert tungumál Bandaríkjanna, enda þótt ekkert opinbert mál sé skilgreint í alríkislögum. Samt gera sum lög, þar á meðal lög um veitingu ríkisborgararéttar, ráð fyrir ensku sem tungumáli landsins. Árið 2007 töluðu um 226 milljónir eða 80% landsmanna fimm ára og eldri einungis ensku heima hjá sér. Um 12% landsmanna tala spænsku heima hjá sér en spænska er næstalgengasta tungumálið í Bandaríkjunum og algengasta annað mál sem kennt er í skólum. Sumir Bandaríkjamenn vilja að enska verði gerð að opinberu máli landsins með lögum, eins og er raunin í 28 ríkjum. Á Hawaii eru bæði hawaiska og enska skilgreind sem opinber tungumál í lögum ríkisins. Í New Mexico er ekkert opinbert tungumál skilgreint en lög kveða á um notkun bæði ensku og spænsku. Í Louisiana er því eins farið með ensku og frönsku. Í sumum öðrum ríkjum, svo sem Kaliforníu kveða lög á um að ákveðin opinber skjöl verði að vera tiltæk á spænsku auk ensku, þar á meðal skjöl er varða dómstóla. Sum svæði viðurkenna stöðu tungumála innfæddra auk ensku: Samóamál og kamorrómál eru viðurkennd á Bandarísku Samóaeyjum og í Guam; Spænska er opinbert mál á Puerto Rico. Menntun. Bæði ríki og sveitarfélög reka almenningsskóla í Bandaríkjunum en Menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna setur skólahaldi reglur og styrkir starfsemina. Í flestum ríkjum er skólaskylda frá sex eða sjö ára aldri til átján ára aldurs en þá líkur menntaskóla (e. high school) að tólfta bekk loknum. Í sumum ríkjum geta nemendur lokið menntaskóla sextán eða sautján ára gamlir. Um 12% barna ganga í einkaskóla og rétt rúmlega 2% barna hljóta menntun sína heima fyrir. Um 84,6% Bandaríkjamanna hafa lokið stúdentsprófi um 25 ára aldur. Fjölmargir háskólar eru starfræktir í Bandaríkjunum, bæði ríkisreknir og einkareknir, auk alþýðuháskóla. Um 52,6% Bandaríkjamanna hafa stundað nám á háskólastigi og 27,2% ljúka B.A.-gráðu (eða annarri sambærilegri gráðu í grunnnámi). Um 9,6% Bandaríkjamanna hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi. Margir af fremstu háskólum heims eru í Bandaríkjunum, þar á meðal Harvard, Princeton, Yale, Stanford, Columbia, Cornell, Brown, Pennsylvaníuháskóli, Chicago-háskóli, MIT og Caltech. Læsi í Bandaríkjunum er talið vera 99%. Sameinuðu þjóðirnar gefa Bandaríkjunum einkunnina 0,97 á Menntakvarða og eru Bandaríkin því í tólfta sæti. Bandarískar bókmenntir. Bandaríski rithöfundurinn og skáldið Walt Whitman árið 1887. Á 18. öld og snemma á 19. öldinni voru bandarískar bókmenntir undir miklum áhrifum frá evrópskum bókmenntum. Rithöfundar á borð við Nathaniel Hawthorne, Edgar Allan Poe og Henry David Thoreau skópu sérstakt yfirbragð og tón bandarískra bókmennta um miðja 19. öld. Rithöfundurinn Mark Twain og skáldið Walt Whitman voru áhrifamiklir á síðari hluta 19. aldar. Emily Dickinson er nú álitin mikilvægt skáld enda þótt hún væri flestum ókunn í lifanda lífi. Nokkur ritverk eru öðrum fremur talin einkenna bandaríska menningu en það eru saga Hermans Melville, "Moby-Dick" (1851), "Ævintýrir Stikilsberja-Finns" (1885) eftir Mark Twain og "Hinn mikli Gatsby" (1925) eftir F. Scott Fitzgerald. Ellefu bandarískir borgarar hafa hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels, síðast Toni Morrison árið 1993. William Faulkner og Ernest Hemingway eru gjarnan taldir áhrifamestir höfunda 20. aldar. Vinsælar bókmenntagreinar eins og vestrar og krimmar urðu til í Bandaríkjunum. Bandarísk heimspeki. Henry David Thoreau og Ralph Waldo Emerson voru frumkvölar bandarískrar heimspeki á 19. öld. Á síðari hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. varð gagnhyggja til hjá heimspekingum á borð við Charles Sanders Peirce, William James og John Dewey. Á 20. öld voru bandarískir heimspekingar áfram undir miklum áhrifum frá gagnhyggjunni en urðu einnig fyrir miklum áhrifum frá rökgreiningarheimspekinni frá Evrópu, ekki síst á fjórða áratug aldarinnar þegar margir af helstu heimspekingum Evrópu flúðu stríðið. Meðal merkra bandarískra heimspekinga 20. aldar má nefna W.V.O. Quine, Hilary Putnam, Wilfrid Sellars, Nelson Goodman, Donald Davidson, Richard Rorty, Saul Kripke og John Searle. Bandaríski málvísindamaðurinn Noam Chomsky hefur einnig látið að sér kveða. Seggja má að John Rawls hafi einn síns liðs vakið stjórnmálaheimspeki af værum blundi þegar bók hans "Kenning um réttlæti" kom út árið 1971. Í kjölfarið fylgdi Robert Nozick og fjöldi annarra stjórnmálaheimspekinga. Bandarísk matarmenning. Deep-dish pizza var fundin upp í Chicago, Illinois og dreifðist þaðan um heiminn. Hún er til í ýmsum formum, sem dæmi má nefna afbrigði frá Alaska þar sem elgskjöt er haft sem álegg. Ítölsk pylsa er algengt álegg á pizzur í Bandaríkjunum en fæst ekki á Íslandi. BBQ-sósa er önnur vel þekkt Bandarísk uppfinning og er í miklu uppáhaldi hjá fólki víðs vegar um heiminn. BBQ-sósa er mjög vinsæl með grillmat en mikið er borðað af honum í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Coca Cola var fundið upp árið 1886 af Dr. John Stith Pemberton, lyfjafræðingi frá Atlanta í Georgíu. Matreiðsluaðferðir Bandaríkjanna eru samanbanda frá Frakklandi, Afríku og innfæddum Indíánum. Grasker einkenna mið og norðríki Bandaríkjanna, skelfiskur við Mexíkóflóa og nautasteikur eru helst þekktar í Texas. Til viðbótar við þessa flóru eiga borgir bandaríkjana heilu hverfin sem bjóða upp á matarmenningu frá ýmsum heimshornum. Hinum stóru skömmtum landsins, og vinsældum skyndibitafæðu hefur oft verið kennt um offitu landans. Efnahagur. Efnahagur Bandaríkjanna er stærsta efnahagskerfi nokkurs þjóðríkis. Áætluð verg landsframleiðsla fyrir árið 2010 var um 14,7 billjón bandaríkjadala. Bandaríkin eru hins vegar ákaflega skuldsett og hafa fjárlögin ávallt gert ráð fyrir gífurlegum hallarekstri. Nóbelsverðlaun í eðlisfræði. Eðlisfræði Auga. Auga er líffæri, sem skynjar ljós og gerir dýri mögulegt að sjá. Er hluti sjónfæra, auk sjóntaugar og heila. Einföldustu augu geta aðeins skynjað hvort umhverfið er dimmt eða bjart. Flóknari augu geta á hinn bóginn veitt fullkomna sjón. Ljósnemar augans kallast keilur og stafir. Mannsaugað. Mannsaugað kann að vera af mismunandi litum. Algengasti litur er brúnn, en blá eða græn augu tíðkast stundum í meirihluta í sumum þjóðum. 88% af Íslendingum eru blá- eða græneygðir. Algengir augnkvillar. Með sjóntækjum er mögulegt að bæta sjóngalla, sem stafa af algengustu augnkvillum. Með laseraðgerð má einnig bæta sjóngalla af völdum nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Pí. Pí, táknað með gríska bókstafnum π („pí“), er óræður, stærðfræðilegur fasti, skilgreindur sem hlutfallið milli ummáls og þvermáls hrings í Evklíðsku rúmi. Talan π jöfn flatarmáli einingarhrings (hringur með geisla 1), of ennfremur jöfn hálfu ummáli hans. Flest nútímarit skilgreina π á fágaðan máta með hornaföllum, t.d. sem minnsta mögulega jákvæða x þar sem sin(x) = 0, eða sem tvöfallt minnsta mögulega jákvæða x þar sem cos(x) = 0. Allar ofangreindu skilgreiningarnar eru jafngildar. π er einnig þekkt sem "fasti Arkímedesar" (sem ekki ætti að rugla við Tölu Arkímedesar), "fasti Ludolphs" eða "tala Ludolphs" og kemur einnig mikið við sögu í eðlisfræði og stjörnufræði. Saga π. Notkun táknsins „π“ fyrir tölu Arkímedesar kom fyrst fram árið 1706 þegar William Jones gaf út bókina "A New Introduction to Mathematics", þó að sama tákn hafi áður verið notað til þess að tákna ummál hrings. Táknið varð að staðli þegar Leonhard Euler tók það upp. Í báðum tilfellum er π fyrsti stafurinn í gríska orðinu περιμετροσ (perimetros), sem þýðir ummál. Menntaskólinn við Hamrahlíð. Menntaskólinn við Hamrahlíð (MH) er ríkisskóli sem starfar samkvæmt íslenskum framhaldsskólalögum. Hlutverk skólans er að mennta nemendur til stúdentsprófs með áherslu á undirbúning fyrir nám í háskólum. Skólinn var stofnaður árið 1966 og voru fyrstu stúdentar brautskráðir þaðan árið 1970. Fyrstu árin var bekkjarkerfi starfrækt í skólanum en árið 1972 skipti skólinn um stefnu og var fyrsti skólinn sem tók upp svokallað áfangakerfi. Í MH er boðið upp á kvöldkennslu, svokallaða öldungadeild, en skólinn var sá fyrsti á landinu sem bauð upp á slíkt. Fyrsti rektor skólans var Guðmundur Arnlaugsson. Í dagskólanum er boðið upp á náttúrufræðibraut, félagsfræðibraut, málabraut, opna braut og listdansbraut auk sérnámsbrautar og IB. Almennar upplýsingar um MH. MH var lengi vel skilgreindur sem tilraunaskóli og fékk leyfi til að fara ótroðnar slóðir á ýmsum sviðum. Má þar nefna stofnun félagsfræðibrautar og síðar tónlistarbrautar til stúdentsprófs, mikla fjölbreytni valáfanga og kennslu ýmissa námsgreina sem ekki voru fyrir í námsskrá. Árið 1997 hóf skólinn undirbúning að kennslu til alþjóðlegs stúdentsprófs, International Baccalureate Diploma, IB, og voru hinir fyrstu úr því námi brautskráðir sumarið 2000. Skólinn hefur byggt upp ýmsa þjónustu við fatlaða nemendur og þróað námsefni og sérkennslu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur sem stefna á stúdentspróf. Húsakynni skólans eru við Hamrahlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Skólabyggingin er á tveimur hæðum og einkennist af stóru opnu rými á hvorri hæð. Rýmið á neðri hæðinni kallast Matgarður en á efri hæðinni er Miðgarður. Öðru megin Miðgarðs er salurinn, sem kallast Mikligarður, en hinu megin er svæði sem kallast Útgarður og er undir beru lofti. Í skeifu umhverfis Miklagarð, Miðgarð og Útgarð liggur gangur. Frá honum er gengið inn í flestar kennslustofur skólans og þær liggja ýmist að útveggjum eða að Útgarði. Við austurhlið skólabyggingarinnar var reist viðbót við skólann. Í nýbyggingunni eru kennslustofur, viðbót við bókasafn og íþróttahús. Hluti af neðri hæðinni er kallaður Norðurkjallari. Þar hefur Nemendafélag MH starfsaðstöðu. Þar eru haldnir fundir og samkomur, en einnig tónleikar, kvikmyndasýningar og aðrir viðburðir á vegum nemendafélagsins. Námsbrautir. Náttúrufræðibraut býr nemendur undir framhaldsnám í háskóla í raunvísindum (s.s. líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði), stærðfræði og verkfræði. Brautin veitir m.a. undirstöðuþekkingu í náttúruvísindum og er góður undirbúningur undir nám í heilbrigðisgreinum og landbúnaðarfræðum. Félagsfræðibraut býr nemendur undir framhaldsnám í háskóla, einkum á sviði félagsvísinda. Brautin er heppilegur undirbúningur undir margs konar nám í háskóla að undanskildum raunvísindum og verkfræði. Málabraut veitir m.a. staðgóða þekkingu á ensku og tveimur öðrum nútímamálum samkvæmt vali skólans og nemandans. Brautin er góður undirbúningur hvers konar málanáms á háskólastigi. Námið hentar sem undirbúningur háskólanáms þar sem reynir á kunnáttu í ensku eða öðrum nútímamálum, svo sem náms í ýmsum greinum félagsvísinda, heimspeki, bókmenntafræði og málfræði. Nám á listdansbraut er góður grunnur að framhaldsnámi í listdansi. Einnig nýst námið sem undirbúningur fyrir fjölmargt annað nám á háskólastigi. Danshluti námsins fer fram utan við MH. Nemandi því bæði bóklegt og verklegt nám samtímis. Nemandi velur annaðhvort klassískan listdans eða nútímalistdans. IB er krefjandi bóklegt nám sem lýkur með samræmdu prófi. Námið veitir svipuð réttindi til framhaldsnáms og íslenskt stúdentspróf. Námið tekur tvö ár að loknu undirbúningsári í framhaldsskóla og kennt er á ensku. Sérnámsbraut skólans er fyrir þá nemendur sem notið hafa sérkennslu í grunnskóla og þurfa einstaklingsmiðað nám. Nemendum er að miklu leyti kennt í sérdeild en mikið er lagt upp úr að brautin sé hluti af skólaheildinni. Kennslan er byggð á námsáætlun fyrir nemendahóp eða einstakling og er hún unnin út frá markmiðum aðalnámskrár framhaldsskóla, ásamt upplýsingum um þarfir nemenda og mati á stöðu þeirra í námi og þroska. Kenndar eru 20 klukkustundir á viku þ.e. 30 kennslustundir. Nemendum býðst að stunda nám í fjögur ár og útskrifast þau með lokaskírteini um námsferil sinn frá sérnámsbraut. Áfangakerfi. Áfangakerfi var tekið upp í MH árið 1972. Með áfangakerfi fær nemandi aukið frelsi, þar sem hann getur stjórnað sínu námi og námshraða nokkurnvegin sjálfur. Áfangi kallast skilgreint námsefni í tiltekinni grein í eina önn. Við lok annar eru þreytt próf í námsefninu eða einkunn byggð á símati yfir önnina og hlýtur þá nemandi, sem staðist hefur áfangann með tilskildum árangri, ákveðinn einingafjölda fyrir (venjulega 3 einingar). Til að öðlast stúdentspróf frá MH þarf nemandi að ljúka 140 námseiningum af einhverri bóknámsbrautanna. Námið á hverri braut skiptist í kjarna, kjörsvið og frjálst val. Námið í kjarna er að miklu leyti sameiginlegt fyrir allar brautirnar. Nám á kjörsviði nemur samtals 30 einingum og felur í sér sérhæfingu á viðkomandi námssviði í samræmi við lokamarkmið brautarinnar. Frjálsa valið er 12 einingar og gefur það nemanda möguleika á að kynna sér nýjar námsgreinar eða dýpka kjörsvið sitt. Kórinn. Við skólann er starfræktur skólakór, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, sem og kór fyrir eldri og útskrifaða nemendur skólans, Hamrahlíðarkórinn. Kórstjóri þeirra beggja er Þorgerður Ingólfsdóttir. Nemendafélag Menntaskólans við Hamrahlíð. NFMH stendur fyrir Nemendafélag Menntaskólans við Hamrahlíð og hefur félagið aðsetur í Norðurkjallara. Félagið hefur verið starfrækt allt frá stofnun skólans. Stjórn félagsins skipa níu nemendur við skólann, sem kosnir eru til eins árs í senn. Í nemendafélaginu er fjöldinn allur af minni ráðum. Skemmtiráð skipuleggur og sér um dansleiki á vegum nemendafélagsins. Að venju eru haldin 6 dansleikir á skólaári. Lagningardagar eru þemadagar sem haldnir eru í byrjun febrúar ár hvert. Lagningardagaráð sér um og skipuleggur lagningardaga. Óðríkur Algaula er lagasmíðakeppni NFMH sem haldin er á haustönn. Ráðið sér einnig um að halda söngkeppni skólans á vorin. Mímisbrunnur er tengiliður nemendafélagsins við Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Mímisbrunnur stendur fyrir innanskólaspurningakeppni á vorönn. Íþróttaráð heldur skipulagt íþróttamót á hverri vorönn, Hlíðakapp. Ráðið sér um HM-Kvennó daginn. Leikfélagið stendur fyrir leiklistarnámskeiðum og ýmiskonar uppákomum. Leikfélagið setur upp leiksýningu ár hvert. Leikfélag MH hefur lengi verið þekkt fyrir gott og metnaðarfullt starf. Listafélagið stendur fyrir ýmiskonar viðburðum innan skólans, skipulagningu tónleika, myndlistarsýninga og kvikmyndasýninga. Málfundafélagið hefur yfirumsjón með skipulagningu málfunda á vegum NFMH. Það heldur ræðunámskeið á hverju skólaári. Málfundafélagið er tengiliður nemendafélagsins við Morfís. Einnig heldur félagið innanskólaræðukeppnina, M.O.R.T.A.R.. Tvenn skólablöð eru gefin út á vegum nemendafélagsins, Beneventum og Fréttapési. Beneventum er gefið er út einu sinni á önn en Fréttapési kemur út mánaðarlega. Rektor. Hamrahlíð Morgunblaðið. Fyrsta fréttamyndin sem birtist í íslensku dagblaði var þessi mynd af Dúkskoti sem birtist í "Morgunblaðinu" 17. nóvember 1913 í tengslum við morðmál. "Morgunblaðið" er íslenskt dagblað sem kemur út alla daga vikunnar á Íslandi. Það kom fyrst út 2. nóvember 1913 og hefur verið gefið út af Árvakri hf síðan 1924. Stofnendur "Morgunblaðsins" voru þeir Vilhjálmur Finsen og Ólafur Björnsson, yngri bróðir Sveins Björnssonar forseta. Árið 1997 hóf svo "Morgunblaðið" útgáfu fréttavefs á internetinu fyrst allra fréttastofa á Íslandi. Síðan hefur mbl.is verið vinsælasti fréttavefur landsins. Morgunblaðið var lengi vel málgagn Sjálfstæðisflokksins og þrátt fyrir að blaðið hafi með tímanum reynt að fjarlægjast flokkadrætti hallar það sér að jafnaði meira til hægri. Árvakur. Árvakur hf er útgáfufélag stofnað árið 1919 í Reykjavík, undir heitinu „Fjelag í Reykjavík“, og keypti það Morgunblaðið litlu síðar. Árvakur er nú alhliða frétta- og upplýsingamiðlunarfyrirtæki. Félagið gefur út Morgunblaðið og vikublaðið Monitor sem er dreift frítt með Morgunblaðinu og víða á höfuðborgarsvæðinu. Einnig á Árvakur vefmiðilinn mbl.is sem stofnaður var árið 1998 og rekur einnig blog.is sem er íslenskur bloggvefur. Árvakur á dótturfélagið Landsprent ehf. sem er dagblaðaprentfyrirtæki og prentar auk blaða Árvakurs, Viðskiptablaðið, DV og ýmis smærri blöð. Öll starfsemi Árvakurs er til húsa að Hádegismóum 2 í Reykjavík. Eignarhald. Árvakur er í eigu Þórsmerkur ehf. sem á 99% og Áramóta ehf. sem á 1%. Stærstu eigendur Þórsmerkur ehf. eru Hlynur A ehf. (forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir) sem á 26,77%, Krossanes ehf. (forsv.maður Þorsteinn Már Baldvinsson) sem á 20,8% og Áramót ehf. (í eigu Óskars Magnússonar) sem á 20,08%. Eyra. Eyrum margra dýra sitja hátt á höfðinu og nema þannig hljóð úr mikill fjarlægð. Þá er hægt að snúa þeim í á að hljóðgjafa til að nema betur hvað er á seyði. Þessi hestur skynjar eitthvað fyrir framan sig og toppar því eyrun. Eyra heyrir til skynfæra. Í daglegu máli vísar eyra til ytri hluta eyrans, útvöxturinn frá höfði, úteyra. En í fræðilegu tilliti er eyra meira, það er líka það sem við ekki sjáum, innra eyrað. Stjörnufræði. Stjörnufræði (eða stjörnuvísindi) er undirgrein náttúruvísindanna sem fæst við rannsóknir á heiminum utan lofthjúps jarðar. Þeir sem leggja stund á greinina kallast stjörnufræðingar (eða stjarnvísindamenn). Í stjörnufræði er rannsakaður uppruni og þróun, sem og efnis- og eðlisfræðilegir eiginleikar, hluta sem hægt er að fylgjast með fyrir utan lofthjúp jarðar. Ólíkt flestum öðrum vísindagreinum eru áhugamenn enn snar þáttur í stjörnufræði nútímans, aðallega við að uppgvöta og fylgjast með fyrirbærum. Stjörnufræði er oft ruglað saman við stjörnuspeki, sem ekki byggist á vísindalegri aðferð og flokkast því til gervivísinda. Menntaskólinn í Reykjavík. Menntaskólinn í Reykjavík (latína: "Schola Reykjavicensis" eða "Schola Reykjavicana") er framhaldsskóli í miðbæ Reykjavíkur. Áður fyrr kallaður Reykjavíkurskóli, Lærði skólinn eða Latínuskólinn. Hann á sér langa sögu og hafa margir þekktir Íslendingar haft þar viðkomu í gegnum tíðina. Skólinn er bóknámsskóli með bekkjakerfi og býður upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Við hann eru tvær meginbrautir, náttúrufræðibraut og málabraut, sem greinast í samtals átta deildir. Saga. Menntaskólinn í Reykjavík er elsta íslenska menntastofnunin. Hann á rætur sínar að rekja til ársins 1056 en hefur ekki alltaf verið á þeim stað sem hann er nú, né heldur hefur hann alltaf borið sama heiti. Skálholtsskóli (1056 - 1784). Þetta er elsta varðveitta frásögn af skólahaldi hér á landi. Hefð hefur skapast fyrir því að miða upphaf skólans við árið sem Ísleifur var vígður 1056. Þó er vitað hann sneri ekki heim úr vígsluför sinni til Brima fyrr en árið 1057 og sat á biskupsstól til ársins 1080, þannig að kennsla hans gæti hafa hafist á hvaða ári sem er þar á milli, heimildir eru ekki nákvæmari en svo. Skálholtsskóli var, ásamt Hólaskóla og klausturskólum helsta menntastofnun landsins til siðaskipta, en með konungsboði 1552 var biskupsstólunum íslensku gert skylt að reka skóla, fyrst og fremst í því skyni að mennta lúthersk prestsefni. Í Suðurlandsskjálftanum um sumarið 1784 hrundu öll hús í Skálholti nema dómkirkjan. Á sama tíma voru móðuharðindin og búfé staðarins var þá næstum allt fallið úr hor og nærri má geta að landsetar af jörðum biskupsstólsins hafa ekki getað staðið í skilum með afgjöld af jörðum og leigubúfé. Biskupinn, Finnur Jónsson, hélt þó til í Skálholti um veturinn með þjónustufólki sínu, en skólahald féll niður. Með því var skólinn fluttur til Reykjavíkur. Hólavallarskóli (1786-1805). Árið 1785 var ákveðið að leggja niður Skálholtsstól, flytja biskupsembættið og skólann til Reykjavíkur og setja kennara skólans á föst laun úr ríkissjóði. Á næsta ári var hróflað upp skólahúsi á Hólavelli við Reykjavík, þar sem nú má finna Hólavallagötu. Árið 1801 var ákveðið að leggja Hólastól niður og sameina skólann sem þar var Hólavallarskóla, sem þá varð eini skólinn á landinu. Skólinn var í timburhúsi sem hélt hvorki vindi né vatni. Því var ákveðið árið 1805 að flytja skólann að Bessastöðum. Bessastaðaskóli (1805-1846). Bessastaðir 1834. Þá var í Bessastaðastofu eini eiginlegi skóli landsins. Árið 1805 var það ráð tekið að flytja skólann að Bessastöðum, í Bessastaðastofu, steinhús sem hafði verið reist til að hýsa amtmann og síðar stiftamtmann um 1760. Þáverandi stiftamtmaður, Ólafur Stephensen, bjó ekki á Bessastöðum og nýr amtmaður, F.C. Trampe, gaf Bessastaði eftir til skólahalds. Skólinn starfaði til ársins 1846 en var þá fluttur aftur til Reykjavíkur, í nýtt hús, vígt haustið 1846. Lækjargata 7 (1846-). 1918-1919 Kennslustund í Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu, MR. Eftir að skólinn var fluttur frá Bessastöðum og fram til 1904 nefndist hann "Reykjavíkur lærði skóli" en var í daglegu tali kallaður "Reykjavíkurskóli", "Lærði skólinn", "Gamli skólinn" eða "Latínuskólinn". Árið 1904 var áherslum í námsefni skólans breytt verulega. Latínukennsla var minnkuð til muna og grískukennslu hætt í því formi sem verið hafði. Í samræmi við það var nafni skólans breytt og nefndist hann þá "Hinn almenni Menntaskóli í Reykjavík". Frá 1937 hefur skólinn borið heitið Menntaskólinn í Reykjavík. Menntaskólinn í Reykjavík er kunnur fyrir frammistöðu sína í spurningakeppninni Gettu betur, þar sem hann hefur unnið samtals 17 sinnum. Samfelld sigurganga í þeirri keppni stóð frá 1993 til 2004. Sjö sinnum hafa lið skólans unnið í mælskukeppninni Morfís. Breytingar á skólanum. Frá og með árinu 1949 var gagnfræðadeild skólans lögð niður, og eftir það skiptist skólinn aðeins í fjóra árganga í stað sex, eins og hafði verið frá 1904. Þó hélst sú hefð að kalla síðasta bekk skólans 6. bekk og byrja því nýnemar í 3. bekk. Konur í skólanum. Stúlkur höfðu ekki aðgang að skólanum fyrr en 1904 en máttu taka próf frá árinu 1886. Ólafía Jóhannsdóttir lauk 4. bekkjar prófi utanskóla árið 1890. Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, settist á skólabekk í skólanum fyrst kvenna haustið 1904. Átti hún þar heldur dapra ævi og varð fyrir miklu einelti af hálfu skólabræðra sinna. Lauk hún þó stúdentsprófi 1910. Áður hafði ein stúlka tekið stúdentspróf utanskóla, Elínborg Jacobsen. Camilla Torfason lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn 1889 og Björg Karítas Þorláksdóttir 1901, en í Danmörku fengu stúlkur aðgang að æðri menntastofnunum þegar árið 1875. Stúlkur voru í minnihluta stúdenta fram til 1970 en eftir 1979 hafa þær verið í meirihluta. Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, var nemandi og síðar kennari við skólann. Fyrsta konan til að gegna embætti rektors MR var Ragnheiður Torfadóttir, 1996-2001. Námsframboð. Menntaskólinn í Reykjavík er hefðbundinn bóknámsskóli sem býður fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Skólinn er bekkjaskóli með bekkjakerfi og hefur fylgt þeirri skipan frá stofnun. Nemendum 5. og 6. bekkjar gefst nokkur kostur á valfögum innan vissra námsdeilda. Á fyrsta ári velja allir sér námsbraut og velja síðan námsdeild í lok annars ársins. Í boði eru valfög í II-deildunum. Félagslíf. Félagslíf í Menntaskólanum í Reykjavík er óvenjulegt að því leyti að þar starfa tvö nemendafélög, "Skólafélag Menntaskólans í Reykjavík" og "Framtíðin". Þetta fyrirkomulag á rætur sínar að rekja til laga sem sett voru árið 1963. Úr því að Framtíðin tók ekki við nemum á fyrsta ári varð að stofna nýtt nemandafélag. Innan vébanda þeirra er lögð er stund á leiklist (leikfélagið Herranótt), mælskulist, myndlist, dans, skák, bókmenntir, kórsöng og fleira. MR hefur átt góði gengi að fagna í keppnum við aðra menntaskóla. MR er langsigursælasti skólinn í sögu Gettu betur og hefur unnið keppnina 18 sinnum alls, síðast árið 2013. Jafnframt hefur MR unnið Morfís, ræðukeppni framhaldsskólanna, 7 sinnum, en aðeins einn skóli hefur unnið hana oftar. Arnar Þór Stefánsson (x2), Arnór Hauksson, Atli Freyr Steinþórsson (x2), Ágúst Hauksson (x2), Birgir Ármannsson, Birgir Andri Briem, Björn Friðgeir Björnsson, Björn Reynir Halldórsson (x3), Elías Karl Guðmundsson (x2), Grétar Þór Sigurðsson, Grétar Guðmundur Sæmundsson, Guðmundur Björnsson (x2), Halldór Kristján Þorsteinsson, Hilmar Þorsteinsson, Hjalti Snær Ægisson (x3), Jón Áskell Þorbjarnarson, Magnús Þorlákur Lúðvíksson (x2), Oddur Ástráðsson (x2), Ólafur Kjaran Árnason, Ólafur Jóhannes Einarsson (x2), Ólafur Hafstein Pjetursson, Snæbjörn Guðmundsson (x2), Stefán Kristinsson, Stefán Pálsson, Svanur Pétursson (x2), Sveinn H. Guðmarsson (x2), Sverrir Guðmundsson (x3), Sverrir Teitsson (x2), Viðar Pálsson (x2), Vignir Már Lýðsson (x2), Þorsteinn Gunnar Jónsson og Þorsteinn Davíðsson. Agnar Hansson, Ari Guðjónsson, Arnar Már Ólafsson, Auðunn Atlason, Auðunn Lúthersson, Birgir Ármannsson, Daníel Freyr Jónsson, Eygló Hilmarsdóttir, Guðmundur Egill Árnason, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Gunnar Örn Guðmundsson, Gylfi Magnússon, Hlynur N. Grímsson (x2), Jóhann Friðgeir Haraldsson, Jóhann Páll Jóhannsson (x2) Jón Benediktsson, Jón Eðvald Vignisson, Kári Þrastarson, Kristján Hrafnsson, Magni Þór Pálsson, Magnús Karl Ásmundsson, Orri Hauksson, Ólafur Kjaran Árnason (x2), Saga Garðarsdóttir, Sveinn Valfells Skólaárið 2007-2008 vann MR það afrek að sigra í öllum helstu keppnum sem framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í. Það sigraði árlega keppni sína við Verslunarskóla Íslands, í Gettu betur og Morfís, auk þess að sigra í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna, efnafræðikeppninni, eðlisfræðikeppninni, þýskuþrautinni og frönskukeppninni. Skólahúsið. Skólahúsið að Lækjargötu 7, betur þekkt sem Gamli skóli í daglegu tali nemenda, er elsta hús skólans. Húsið er smíðað eftir teikningu J.H. Kochs, ríkishúsameistara Danmerkur. Efniviðurinn í húsið kom tilhöggvinn frá Kristjánssandi í Noregi vorið 1844. Fyrst var hátíðasalur skólans innréttaður, þannig að alþingi gæti haldið þar fundi sína sumarið 1845. Smíði hússin lauk vorið 1846 og var vígslan haldin 1. október sama ár. Það var á þeim tíma stærsta hús landsins. Á jarðhæð er að finna kennslustofur A, B, C, D, E, F, O og L. Á annarri hæð eru kennslustofur G, H, T, I, hátíðasalurinn og kennarastofa. Á þriðju hæð er skrifstofa skólans og rektors, bókasalan og skrifstofur kennara. Húsið er 1.524 fermetrar. Íþaka. Íþaka hýsir bókasafn skólans. Enski kaupmaðurinn Charles Kelsall ánafnaði Latínuskólanum í Reykjavík þúsund sterlingspundum í erfðaskrá sinni árið 1853 vegna þess hve mjög hann hreifst af því að Íslendingar skyldu geta haldið uppi sjálfstæðu menningarlífi, þrátt fyrir að vera fámenn þjóð og fátæk. Peninginn skyldi nota til þess að reisa skólanum bókhlöðu. Danskur timburmeistari að nafni Klentz teiknaði húsið og danskir iðnaðarmenn byggðu það árin 1866-1867. Húsið er nefnt eftir bænum Ithaca í New York-fylki í Bandaríkjunum, en það var heimabær Willards Fiske, prófessors við Cornell-háskóla. Fiske, sem kom til Íslands árið 1879, hafði beitt sér fyrir stofnun nýs lestrarfélags nemenda og kennara. Lestrarfélagið Íþaka var síðar nefnt bókasafnið Íþaka. Á neðri hæð hússins er lestrarsalur nemenda en á þeirri efri er bókasafn skólans. Húsið er 259 fermetrar. Fjósið. Var upprunalega fjós reist árið 1850. Húsið er 123 fermetra timburhús. Byggt var við húsið 1945. Nú á dögum hýsir Fjósið stofur K og M. Upphaflega þjónaði fjósið eldvarnatilgangi, en í því voru geymd tól til slökkvistarfs. Síðar voru kýr hýstar þar og hefur nafnið Fjósið því fest sig í sessi. Íþróttahús. Íþróttahús skólans var byggt árið 1898. Árin 1901 og 1944 var byggt við það. Íþróttahúsið er sagt vera vagga handboltans hér á landi. Þegar nýtt íþróttahús rís mun það gamla hýsa bókasafn. Í kjallara Íþróttahússins er kraftlyftingasalurinn "Þrælakistan". Íþróttahúsið er 123 fermetrar og Þrælakistan 41. Casa Christi. Byrjað var að byggja "Casa Christi" (latína: "Hús/kofi Jesú") árið 1906 og var það vígt á skírdag 1907. Upphaflega var það reist undir höfuðstöðvar KFUM og KFUK en þangað flutti félagið úr Melsteðshúsi við Lækjartorg. Nú eru höfuðstöðvar þess við Holtaveg. Menntaskólinn á núna allt húsið sem hýsir kennslustofur 1-10 auk kennarastofu. Húsið er 856 fermetrar. Casa nova. Framkvæmdir hófust í "Casa nova" (latína: "Nýja hús") í júlí 1963 og var húsið tekið í notkun 1. október 1964. Nú hýsir það kennslustofur C101-C253 og margmiðlunarver. Félagsaðstaða nemenda er í kjallaranum og kallast Cösukjallari, eða Casa í daglegu tali nemenda. Þar er veitingasalan "Kakóland" sem er rekin af nemendum. Villa nova. "Villa nova" (latína: "Nýja setur") var byggt árið 1901 og endurbætt árið 1963. Þar er aðstaða húsvarðar og náms-og starfsráðgjafa. Hýsti skrifstofur nemendafélaganna þangað til haustið 2004. Húsið er 170 fermetrar. Elísabetarhús. Húsið er byggt árið 1968. Árið 1996 tilkynnti Davíð S. Jónsson, að hann hefði ákveðið að gefa skólanum húsið að Þingholtsstræti 18 til minningar um konu sína Elísabetu Sveinsdóttur. Var húsið tekið í notkun í ársbyrjun 1999. Ragnheiður Torfadóttir fyrrverandi rektor Menntaskólans ákvað að húsið skyldi heita "Minni Elísabetar", en það nafn náði ekki fótfestu og er opinbert nafn þess nú "Elísabetarhús". Margir nemendur líta þó ekki á húsið sem sérstakt hús en það er tengt "Casa Nova" með tengibyggingu sem var byggð í tengslum við að húsið var tekið í notkun. Það hýsir verklegar kennslustofur, tölvuver nemenda og skrifstofur kennara. Húsið er 1.147 fermetrar. Amtmannsstígur 2. Amtmannsstígur 2 er timburhús byggt árið 1906. Á efri hæðum eru skrifstofur kennara, en kjallarinn hýsir skrifstofur Skólafélagsins og Framtíðarinnar. Húsið er 434 fermetrar. Þekktir nemendur. Tveir menn sem síðar hlutu Nóbelsverðlaun hafa gengið í Menntaskólann í Reykjavík, Halldór Laxness og Niels Ryberg Finsen. Fjölmargir þjóðkunnir einstaklingar hafa gengið í skólann og gegnt þar æðstu stöðum innan skólafélaganna. Má þar nefna Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, sem gegndu stöðu inspectors scholae, og Ásgeir Ásgeirsson og Ólaf Ragnar Grímsson, sem voru forsetar Framtíðarinnar. Tenglar. Reykjavík Douglas Adams. Douglas Noël Adams (11. mars 1952 - 11. maí 2001) var breskur rithöfundur, þekktastur fyrir að hafa samið Hitchhikers Guide to the Galaxy og bækurnar um Dirk Gently. Upphaf. Douglas Noël Adams fæddist þann 11. mars árið 1952 í Cambridge á Englandi. Hann hneigðist snemma til ritlistar og fékk til þess strax mikla hvatningu frá barnaskólakennurum. Hann fékk styrk til að læra ensku við Cambridge háskóla og þáði hann aðallega vegna þess að í Cambridge starfaði (og starfar enn) stúdentaleikfélagaið Cambridge University Footlights Dramatic Club sem skal hér eftir kallast Footlights. Honum var þó fyrst hafnað en þegar hann sótti um ári seinna var hann tekinn inn í leikfélagið. Það skal tekið fram að það árið sat Simon Jones í stjórn Footlights og átti því þátt í að hann var samþykktur í félagið. Mestu áhrifavaldar Adams voru Monty Python hópurinn en hluti hans hafði einmitt farið í gegnum Footlights og hann vildi gera eins og þeir, þ.e. skrifa efni og flytja það síðan sjálfur. Því var hann ekki sáttur við það, þegar hann átti stóran hluta efnisins í leiksýningu Fottlights, að hann fékk ekki að leika neitt í henni. Þó var það á einni af þessum sýningum þegar nokkuð fýldur Douglas Adams hitti mjög heillaðan Graham Chapman sem dáði margt af því sem hann hafði séð. Upp úr þessum kynnum hefst tiltölulega skammlíft en nokkuð árangursríkt samstarf. Árið 1975 fór Douglas í puttaferðalag um Evrópu og tók með sér bók sem hét "leiðarvísir puttaferðalangsins að Evópu". Um tengsl þessarar bókar við "The Hitchhiker's Guide to the Galaxy" eru til sögur sem slá goðsögunum um Sálumessa Mozart við á marga vegu. Árið 1976 tók Adams að sér að leikstýra sýningu Footlights en það urðu honum þó nokkur vonbrigði. The Hitchhiker's Guide to the Galaxy. Árið 1977 kom pöntun frá BBC um útvarpsleikrit. Úr því varð The Hitchhiker's Guide to the Galaxy, útvarpsleikrit í sex þáttum sem var send út í mars-apríl 1978, með hinum gamla og virta leikara Peter Jones og félaga úr Footlights klúbbnum Simon Jones í aðalhlutverkum sem Bókin og Arthur Dent. Því er haldið fram á síðum BBC að persóna Arthur Dent hafi verið sérstaklega hönnuð utan um Simon Jones. Sú þáttaröð var endurflutt tvisvar sinnum áður en árið var liðið og svo nokkrum sinnum eftir það en árið 1980 fylgdi önnur sex þátta þáttaröð og skömmu seinna kom bókin "The Hitchhiker's Guide to the Galaxy" út. Þar, eins og í bókinni The Restaurant at the End of the Universe er hlutum úr útvarpsleikritinu (þó ekki öllu) blandað saman við nýtt efni. Árið 1981 kom svo út sjónvarpsþáttaröð unnin upp úr útvarpsleikritinu. Hinar þrjár bækurnar: Life, The Universe and Everything, So Long and Thanks For All the Fish og Mostly Harmless eru hins vegar sjálfstæðar framhaldssögur og óháðar útvarpsleikritunum en voru uppfærðar fyrir útvarpsleikrit, að verulegu leyti eftir dauða Adams og þriðja, fjórða og fimmta stig The Hitchhiker's Guide To The Galaxy voru flutt árin 2004-2005. Hafði Adams ætlað að vinna mikið í handritunum að nýju útvarpsleikritunum með leikstjóranum Dirk Maggs en lést því miður áður en sú vinna gat hafist. Þeir höfðu hinsvegar rætt mikið um leikritin áður en hann lést og margar hugmyndir í þeim komu frá Adams. Með hjálp tækninnar gat Adams einnig leikið persónuna Agrajag en notuð var upptaka af upplestri Adams úr bókinni Life, the Universe and Everything. Eftir The Hitchhiker's Guide to the Galaxy. Adams var mikill náttúruverndarsinni og árið 1985 var honum boðið af WWF í leiðangur til Madagaskar að skoða Aye Aye lemúra. 18 mánuðum seinna var lagt upp í ferð til að skoða önnur nær-útdauð dýr með Mark Carwardine. Upp úr þessum leiðangri var unnin útvarpsþáttarröðin Last Chanse To See, en í henni „lék“ Peter Jones sambærilega rullu og í "The Hitchhiker's Guide to the Galaxy", þulinn. Þessir útvarpsþættir voru svo, eins og "The Hitchhiker's Guide to the Galaxy", yfirfærðir á bók. En rétt áður en farið var af stað í þann leiðangur kom fyrsta bókin um einkaspæjarann Dirk Gently, þ.e. "Dirk Gently's Holistic Detective Agency". Ári seinna kom önnur Dirk Gently bók "The Long Dark Teatime Of the Soul" út. Hann var einnig mikill áhugamaður um tækni og tölvur og sá um marga útvarpsþætti, m.a. The Hitchhiker's Guide To The Future þar sem hann fjallaði um framtíðarsýn sína um tölvur og hinn stafræna heim. Hann gaf, með Terry Jones út tölvuleikinn Starship Titanic árið 1999. Hann skrifaði nokkuð af öðru efni á tíunda áratugnum og var með nokkur járn í eldinum þegar hann dó úr hjartaáfalli þann 11. maí árið 2001 í Santa Barbara á suðurströnd Kaliforníu, 49 ára að aldri. Kjarnorkuvopn. a>, eftir að sprengju var varpað þar Kjarnorkuvopn eru tegund vopna sem nota orku sem myndast við kjarnahvarf en ekki efnaverkun eins og hefðbundnar sprengjur. Þau búa yfir gríðarlegum eyðingarmætti, jafnvel minnstu kjarnorkuvopn eru margfalt kraftmeiri en hefðbundnar sprengjur og þau stærstu geta þurrkað út heilar borgir. Kjarnorkusprengjan var þróuð í Manhattan verkefninu á árum seinni heimsstyrjaldar. Einungis tvisvar hefur kjarnorkusprengja verið notuð í hernaðarlegum tilgangi (þ.e., utan við sprengingar í tilraunaskyni), en það voru Bandaríkin í lok seinni heimstyrjaldar sem stóðu að því, og eyddu þeir japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki. Þau lönd sem fullvíst er að eiga kjarnorkuvopn eru Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland, Alþýðulýðveldið Kína, Indland og Pakistan. Auk þess er almennt talið að Ísrael eigi kjarnorkuvopn og að Norður-Kórea og Íran stefni að því. Suður-Afríka var með kjarnorkuvopnaáætlun í gangi á 8. áratugnum en hefur síðan hætt slíku. Gerðir kjarnavopna. Kjarnorkuvopn eru gjarnan flokkuð sem ýmist samruna- eða klofnunarvopn eftir því hvaðan þau fá meirihluta orku sinnar, en þó er þessi flokkun ekki alveg nákvæm sökum þess að næstum öll nútímakjarnavopn notast við báðar tegundir kjarnaverkana. Lítil kjarnaklofnun er sett af stað til að auka hitastigið og þrýstinginn nóg til þess að koma af stað kjarnasamruna. Á hinn bóginn eru klofnunarvopn mun skilvirkari þegar samrunakjarni er fyrst notaður til þess að auka orku vopnsins. Úr því bæði klofnunar- og samrunavopn fá orku sína úr breytingum á innri gerð atómkjarna er réttnefni fyrir allar tegundirnar "kjarnorkuvopn", "kjarnaorkuvopn" eða "kjarn(a)orkusprengjur" Kjarnaklofnunarvopn fá orku sína úr kjarnaklofnun. Á hún sér þannig stað að nifteindir sem skella á þungum kjörnum úrans eða plútóns valda því að þeir hreinlega tætast í sundur og mynda kjarna léttari frumefna úr brotunum. Þegar klofnun á sér stað í fyrstu frumeindinni losna margar nifteindir sem svo hrökkva í atómkjarna í nágrenninu og koma þannig af stað keðjuverkun. Stundum heyrist orðið "atómsprengjur" notað sem samheiti yfir kjarnorkusprengjur en það ætti í raun betur við um hefðbundnar sprengjur því í þeim losnar orka úr efnatengjum milli atóma. Kjarnasamrunavopn byggjast á kjarnasamruna þar sem léttir kjarnar á borð við vetni og helín renna saman í þyngri frumefni og losa við það mjög mikla orku. Vopn sem byggja á samruna eru oftast þekkt sem "vetnissprengjur" sökum þess að vetni er helsta eldsneyti þeirra, eða "varmakjarnavopn", þar eð kjarnasamruna-keðjuverkun kemst aðeins af stað við mjög háan hita. Nifteindasprengja er kjarnorkusprengja sem hönnuð er til að dreifa öflugri nifteindageislun um takmarkað svæði. Væri slíkri sprengju beitt, færust allar lífverur á því svæði en dauðir hlutir svo sem byggingar stæðu óhaggaðir. Notagildi sprengja af þessu tagi er umdeilt. Skítug sprengja er nýlegt hugtak fyrir geislavirknivopn; vopn sem hefur enga kjarnaverkun en dreifir geislavirkum efnum sem pakkað var inn í sprengjuna yfir stórt svæði. Þegar slík sprengja springur verður til heilsufarsvandamál sem er svipað geislavirku úrfelli. Það hefur verið áhyggjuefni vestrænna stjórnvalda síðan í árásunum á Bandaríkin þann 11. september 2001 að hryðjuverkamenn gætu sprengt skítuga sprengju á þéttbýlissvæði. Skítugar sprengjur, líkt mörgum öðrum úrfellisvopnum, eru svæðisútrýmingarvopn sem að geta gert svæði óbyggileg í mörg ár eða áratugi eftir sprenginguna. Þróaðri gerðir kjarnavopna. Stærstu nútímakjarnavopnin eru með ytri skel úr úrani. Við kjarnasamrunastig sprengingarinnar verður svo mikil nifteindalosun að jafnvel óvirkt úran tekur þátt í kjarnasamrunanum, sem margfaldar drægni vopnsins Kóbaltsprengja hefur kóbalt í skel sinni, og samrunanifteindirnar breyta kóbaltinu í samsætuna kóbalt-60, sem er kraftmikill gamma-geislagjafi með helmingunartímann 5 ár. Þessi gerð sprengju er svokölluð söltuð sprengja. Fara áhrif geislavirka úrfellisins eftir því hvaða samsætur mynda söltin Korn. Ýmsar korntegundir og afurðir þeirra Korn er safnheiti yfir fræ nytjaplantna af grasaætt. Helstu kornplöntur eru hrís, hveiti, maís, bygg, dúrra, hafrar, hirsi og rúgur. Verkun. Korn er slegið með þreskivél sem skilur í sundur hálm (stöngul) og kornið sjálft. Það skilur hálminn eftir í garða og sumar þreskivélar saxa hann áður en honum er skilað aftur á akurinn. Útvarpsleikrit. Útvarpsleikrit er leikrit sem flutt er eingöngu sem hljóð í útvarpi af leikurum. Oft er notast við margskonar hljóð til þess að auka á tilfinningu þess sem hlustar. Útvarpsleikrit náðu fyrst vinsældum á árunum 1920 til 1930. Leikrit hafa verið flutt í Ríkisútvarpinu frá stofnun, 1930 og hafa þau verið vinsæl síðan þá þó að eitthvað sé minna um þau í dag þar sem sjónvarpið er núna orðin mun meira notaður miðill fyrir samskonar skemmtun. Útvarpsleikhúsið á Rás 1 á hefur framleitt útvarpsleikrit reglulega frá því Þorsteinn Ö. stephensen var ráðinn leiklistarstjóri 1947 og gerir það enn. Það er eina útvarpsstöðinn á Íslandi sem setur upp og útvarpar útvarpsleikrit með reglulegum hætti. Núverandi leiklistarstjóri er Viðar Eggertsson, en hann tók við starfinu 1. janúar 2008. Karl Ágúst Úlfsson. Karl Ágúst Úlfsson (f. 4. nóvember 1957) er íslenskur leikari, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi og leikskáld. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1977, lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1981 og lék í mörg ár á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndum. Karl Ágúst lauk meistaragráðu í leikritun og handritagerð við Ohio University árið 1994. Fjögur verka hans hafa verið sett á svið í Bandaríkjunum; "The Guarding Angel", "A Guy Named Al", "Body Parts" og "The Iceman Is Here". Meðal leikverka Karls Ágústs sem sýnd hafa verið á Íslandi eru "Í hvítu myrkri" í Þjóðleikhúsinu, söngleikirnir "Fagra veröld", "Sól & Máni" og "Gosi" í Borgarleikhúsinu og "Ó, þessi þjóð" í Kaffileikhúsinu, "Stóllinn hans afa" sem Hafnarfjarðarleikhúsið sýndi á vinnustöðum og sjónvarpsleikritin "Fyrsta atriði", "Æ, æ og Ást í bakaríi". Ásamt félögum sínum Erni Árnasyni og Sigurði Sigurjónssyni samdi Karl Ágúst leikritið "Harrý og Heimir - Með öðrum morðum" og söngleikinn "Gulleyjuna" ásamt Sigurði. Auk þess hefur Karl þýtt yfir þrjátíu leikverk fyrir útvarp og leiksvið, þar á meðal "Pétur Gaut" eftir Ibsen, "Leitt hún skyldi vera skækja" eftir Ford og söngleikina "Kabarett, Saga úr vesturbænum, Galdrakarlinn í Oz, Rent, Syngjandi í rigningunni, Með fullri reisn" og "Jesus Christ Superstar". Í dag þekkja landsmenn hann einna helst sem einn höfunda, leikstjóra og leikara í Spaugstofunni sem Karl stofnaði árið 1985 ásamt fjórum félögum sínum. Fyrstu verkefni hópsins voru tvö áramótaskaup á RÚV og útvarpsþættir af ýmsu tagi. Árið 1989 hófu þeir félagarnir að senda út vikulega sjónvarpsþætti, sem fljótlega urðu vinsælasta sjónvarpsefni sem völ var á hér á landi. Þættirnir héldu velli og óskertum vinsældum allt fram á vorið 2010. Haustið eftir var útsendingu þeirra haldið áfram á Stöð 2, þar sem þeir ganga enn. Með Spaugstofunni hefur Karl Ágúst skapað margar ódauðlegar persónur, svo sem nirfilinn Silla, Geir löggu og Steindór leigubílstjóra í 25 ár. Auk þess hefur hann starfað sem uppistandari og veislustjóri um árabil og með Spaugstofunni hefur hann ferðast um landið með sýningarnar "Í gegnum grínmúrinn", "Spaugstofan á fleygiferð" og "Enn einn hringurinn". Karl hefur einnig lagt nokkra stund á kennslu, bæði í leikritun og skapandi skrifum og meðal annars kennt við Háskóla Íslands, Endurmenntunarstofnun, Listaháskólann, Leiklistarskóla Bandalags leikfélaga, Leiklistarskóla Færeyja og Mesa State College í Colorado. Auk þess hefur hann flutt fjölda fyrirlestra um kímni, hlátur og gildi þess að brosa í lífinu. Hann hefur einnig verið virkur í félagsstörfum, meðal annars starfað í stjórn Félags íslenskra leikara og Félags leikskálda og handritahöfunda auk þess sem hann sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands í níu ár. Nýverið hefur Karl bætt við sig enn einu starfsheitinu en það er trumbuleikari og stjórnandi trumbuhringja. Karl hefur sótt námskeið í trommuleik og afríkutöktum víða um heim og hefur síðan verið iðinn við að kynna þetta nýjasta áhugamál sitt fyrir landanum. Í samvinnu við Ásdísi Olsen skrifaði Karl bækurnar "Ég er bara ég", "Kynlega klippt og skorið" og "Kynlíf", en þær eru kennslubækur í lífsleikni fyrir efri deildir grunnskóla og árið 2007 hlutu þau Ásdís Íslensku Menntaverðlaunin fyrir brautryðjendastarf á sviði námsefnisgerðar. Sama ár var hann útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar. Karl rekur bókaútgáfuna Undur og Stórmerki, sem einbeitir sér að útgáfu bóku sem snerta lífsleikni, mannrækt og leitina að lífshamingjunni. Þekktustu útgáfur forlagsins eru "Meiri hamingja" eftir Tal Ben-Shahar og barnabækurnar um "Bjarnastaðabangsana". Sjónvarp. Sjónvarp er útvarpstækni til að senda út kvikmyndað efni ásamt hljóði til fjölda viðtakenda. Orðið er einnig notað um viðtæki, sem tekur við sjónvarpssendingum eða fyrirtæki sem sendir þær út. Kópavogur. Kópavogsbær er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem liggur sunnan við Reykjavík og norðan við Garðabæ og á jafnframt landsvæði á Sandskeiðum og Húsfellsbruna. Bærinn dregur nafn sitt af voginum sunnan við Kársnes. Kópavogur er fjölmennastur þeirra bæja sem liggja í kringum Reykjavík og er jafnframt næstfjölmennasta sveitarfélag á Íslandi, með 31.198 íbúa í janúar árið 2012. Þar var Kópavogsfundurinn haldinn árið 1662, en allt fram á 20. öld voru einungis nokkrir bústaðir og býli í Kópavogi. Á 4. áratug 20. aldar var byrjað að úthluta lóðum í landi Kópavogs og ollu þjóðfélagsaðstæður því að fólksfjölgun var mikil og hröð. Kópavogshreppur klofnaði frá Seltjarnarneshreppi árið 1948 og fékk svo kaupstaðarréttindi 1955. Undir lok 20. aldarinnar og í byrjun 21. aldar var mikil uppbygging í Kópavogi. Sem úthverfi Reykjavíkur eru aðallega íbúðasvæði í Kópavogi, en vegna staðsetningar sinnar í miðju höfuðborgarsvæðisins er einnig mikið af atvinnuhúsnæði og þjónustu í bænum. Þar er stærsta verslunarmiðstöð landsins, Smáralind, hæsta bygging landsins Smáratorg 3 og mikil viðskiptastarfsemi. Landsvæði Kópavogsbæjar er fjölbreytt. Í botni Kópavogs eru leirur með fjölbreyttu fuglalífi og á svæðinu sem bærinn stendur á eru mikil ummerki um forna sjávarstöðu og ísaldarjökla. Við Elliðavatn er fallegt umhverfi og er vatnið sjálft á náttúruminjaskrá. Eystri landskikar sveitarfélagsins eru að miklu leyti innan Bláfjallafólkvangs, þar er Þríhnúkagígur og skíðasvæðið í Bláfjöllum. Fram á 20. öld. Elstu merki um búsetu í landi Kópavogs eru í botni Kópavogs, norðan við ósa Kópavogslækjar, en þar fannst jarðhýsi sem talið er að geti verið frá 9. öld. Önnur forn bæjarstæði í landi Kópavogs eru Digranes, Hvammur (síðar Hvammskot og Fífuhvammur) og Vatnsendi. Fyrsta ritaða heimild um búsetu á Vatnsenda er frá 1234 og nafnið Kópavogur kemur fyrst fram í heimildum árið 1523. Á Þingsnesi við Elliðavatn er stórt rústasvæði, 6.000-7.000 m² að stærð, sem hefur vakið mikla athygli fornleifafræðinga. Jafnvel er talið að um sé að ræða hið forna Kjalarnesþing, en elstu rústir á svæðinu eru frá 10. öld. Kópavogsþing var staðsett á Þinghól í botni vogsins, en Bessastaðir voru mikilvægur staður á 17. öld og því þörf fyrir þingstað í nágrenninu. Íslendingar vildu þingstað utan lands Bessastaða og því varð Kópavogur fyrir valinu. Af heimildum virðist það hafa verið frekar stórt þing og á 16. öld voru uppi hugmyndir um að flytja Alþingi þangað, þó að til þess hafi aldrei komið. Erfðahyllingin árið 1662, oft kölluð Kópavogsfundurinn, fór fram á Kópavogsþingi. Fundurinn var haldinn til þess að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldi Danakonungs. Þetta hafði það í för með sér að allt ríkisvald komst í hans hendur. Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var erfðahyllingin notuð sem dæmi um yfirgang Dana á Íslendingum í gegnum tíðina. Danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund segir svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sem var gefin út árin 1877-82: „Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Árið 1870 bjuggu 46 í Kópavogi. Ekki eru til miklar heimildir um mannlíf í landi Kópavogsbæjar á síðustu öldum en þar var búið á nokkrum bæjum fram á 20. öld. Jarðirnar í Kópavogi voru leigujarðir og því voru ör skipti ábúenda. Því hefur verið haldið fram að þetta sé ástæðan fyrir að ekki er rótgróin saga í Kópavogi eða stórar ættir þaðan. Upphaf byggðar (1936-1955). a>, er eitt helsta kennileiti Kópavogs. Í kreppunni miklu á 4. áratugnum var skortur á húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir þann fjölda fólks sem flutti til Reykjavíkur úr sveitum Íslands. Upp úr 1930 tók ríkisstjórnin Kópavogs- og Digranesjarðirnar úr leigu og skipti niður í nýbýli og leigulönd. Fyrsti vegurinn í Kópavogi var lagður árið 1935 af mönnum í atvinnubótavinnu. Fyrir neðan þennan veg voru byggð nokkur nýbýli og var vegurinn kenndur við þau og kallaður Nýbýlavegur. Nýbýli þessi voru um 15-18 ha að stærð. Kársnesbraut var lögð árið 1937 og síðan Urðarbraut, Álfhólsvegur, Hlíðarvegur og Digranesvegur. Kópavogur var upphaflega skipulagður sem nýbýla-, ræktunar- og sumarbústaðahverfi, og þjónusta þar var svipuð og í sveitum. Eftir seinni heimsstyrjöldina flutti mikið af fólki til Reykjavíkur og var borgin ekki viðbúin þeim aðstraumi. Því var mikil aðsókn í lóðir í Kópavogi. Upp úr 1940 var komin allnokkur byggð á Kársnesi og norðanverðum Digraneshálsi og árið 1945 bjuggu 521 í bænum, sem var á þeim tíma hluti Seltjarnarneshrepps. Engin verslun eða skóli var í Kópavogi fyrstu ár þéttbýlisins og alla þjónustu þurfti að sækja annað. Börn gengu í skóla á Seltjarnarnesi og sýslumaðurinn var í Hafnarfirði. Svifflugfélag Íslands fékk aðstöðu fyrir flugvöll á Sandskeiði í austurhluta sveitarfélagsins árið 1939 og stendur hann enn. Sökum mikillar fólksfjölgunar í Kópavogi og þess að Seltjarnarneshreppur var nú í tveimur aðskildum hlutum eftir að Skerjafjörður var færður undir Reykjavíkurbæ, óskuðu Seltirningar eftir því að aðskilja Seltjarnarneshrepp þannig að Kópavogsbúar mynduðu eigin hrepp. Sú skipting var samþykkt og 1. janúar 1948 tók hún gildi þegar Kópavogur og þau landsvæði sem féllu í hans hlut mynduðu Kópavogshrepp. Á árunum eftir stofnun hreppsins var mikil þétting byggðar í bænum, og 1949-1954 var unnið að heildarskipulagi svæðisins. Framfarafélagið Kópavogur var stofnað árið 1945 og hafði á stefnuskrá sinni endurbætur í ýmsum málum, svo sem menningu, menntun, samgöngum, síma- og póstsamskiptum, vatnsveitu og jarðrækt. . Kennsla hófst síðan í Kópavogsskóla árið 1949; í skólanum voru 232 nemendur árið 1951 en árið 1957 voru þeir orðnir 580. Ungmennafélagið Breiðablik var stofnað árið 1950. Tvær litlar matvöruverslanir opnuðu í Kópavogi árið 1945 en Kaupfélag Kópavogs hóf rekstur árið 1952. Á undanförnum árum hefur verið mikil uppbygging í sunnan- og austanverðum Kópavogi. Kaupstaður (1955-). Fyrst var kosið í bæjarstjórn í október 1955 eftir að kaupstaðarréttindi tóku gildi í maí það ár. Líkt og í öllum þremur hreppsnefndarkosningunum hélt meirihluti Framfarafélagsins við stjórnvölinn eftir það undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og það var ekki fyrr en 1962 að breyting varð á þegar Framsóknarflokkurinn gekk í lið með þeim til að mynda meirihluta og svo síðar Sjálfstæðisflokkurinn. Til að byrja með fundaði bæjarstjórn í Kópavogsskóla en síðar í Félagsheimili Kópavogs þar sem bæjarskrifstofurnar eru enn. Fyrsta stóra ágreiningsmál bæjarstjórnar var tillaga um að sameina Reykjavík og Kópavog en sú tillaga hlaut ekki hljómgrunn. Á næstu áratugum var hröð uppbygging í innviðum svo sem menntun og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Árið 1958 var lokið við fyrsta skipulagsuppdrátt Kópavogs en framkvæmdum við Hamraborg var að mestu lokið árið 1984. Kópavogskirkja var teiknuð árið 1957 af Herði Bjarnasyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og vígð árið 1962. Á sama tíma varð mikill vöxtur í ýmiss konar iðnaði og þjónustu í bænum. Í lok 9. áratugarins voru aðalatvinnugreinar í Kópavogi húsgagnaiðnaður, matvælaiðnaður, bifreiðaumboð og almenn verslun. Frá því á síðasta áratug 20. aldar hefur íbúafjöldi Kópavogs tvöfaldast og stórt verslunar- og þjónustuhverfi risið í Kópavogsdal. Austan Reykjanesbrautar hefur verið mikil uppbygging undanfarin 15 ár, og þar hafa risið íbúðahverfi kennd við Lindir, Salir, Kóra, Þing og Hvörf. Smáratorg var opnað árið 1997, Smáralind árið 2001 og hinn 20 hæða turn á Smáratorgi 3 árið 2008. Í kosningunum 2006 hrapaði fylgi Framsóknar en þó náðu flokkarnir tveir að halda meirihluta. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2010 hefur haft talsverð áhrif á uppbyggingu í Kópavogi. Í kosningunum 2010 féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og meirihluti Samfylkingar, Vinstri Grænna, Næstbesta flokksins og Y-lista Kópavogsbúa var myndaður. Staðhættir. Kópavogsbær er samtals 80 km² að stærð og er og er í 65. sæti af 76 sveitarfélögum á Íslandi eftir stærð, á undan Garðabæ. Sveitarfélagið er á þremur aðskildum landspildum á milli Reykjavíkur, Garðabæjar og Mosfellsbæjar innst á Reykjanesskaga. Öll byggð í Kópavogi er á því landi sem afmarkast af Fossvogsdal í norðri, Breiðholti og Elliðavatni í austri og Garðabæ í suðri. Vestast í bænum er Kársnes sem liggur á milli Kópavogs og Fossvogs. Í miðjum bænum er Kópavogsdalur og eftir honum rennur Kópavogslækur, sem er í daglegu tali oft kallaður Skítalækurinn þar sem skólpi var veitt í hann fyrr á árum. Milli Kópavogsdals og Elliðavatns eru ávöl holt og hæðir áberandi. Þar má nefna örnefni eins og Leirdal, Hnoðraholt og Rjúpnahæð. Fyrsta þéttbýli í Kópavogi þróaðist á Kársnesi og á Kópavogshálsi sem liggur inn af Kársnesi og skilur að Fossvogsdal og Kópavogsdal. Á undanförnum tveimur áratugum hefur Kópavogur byggst upp frá norðvestri til suðausturs í átt að Elliðavatni. Í botni Kópavogsdals eru útivistarsvæði og íþróttamannvirki, en sitt hvoru megin eru þéttbýl íbúða- og verslunarhverfi. Það landsvæði Kópavogs sem er ekki uppbyggt liggur annars vegar á Sandskeiðum, vestan Vífilfells, og hins vegar á Húsfellsbruna á milli Húsfells og Bláfjalla. Skíðasvæðið í Bláfjöllum er í landi Kópavogs. Náttúra. Vesturhluti Kópavogs liggur á því grágrýtissvæði sem meginhluti höfuðborgarsvæðisins stendur á. Þetta grágrýti er að minnsta kosti 100.000 ára gamalt. Austari hlutar sveitarfélagsins eru á hraunum sem hafa runnið eftir ísöld og sum eftir landnám. Þá er móberg frá því um miðbik ísaldar neðst í Kópavogsdal. Land Kópavogs ber þess ýmis merki að hafa verið mótað af ísaldarjöklum. Þinghóll er í raun hluti af 10.000 ára gömlum jökulgarði og stór jökulgarður liggur frá Álftanesi og neðansjávar upp að norðurströnd Kársness. Í landi Kópavogs eru ýmis náttúruvætti. Í botni Kópavogs og Fossvogs eru leirur með fjölbreyttu fuglalífi, og má þar nefna tegundir eins og tjald, stokkönd, stúfönd, rauðbrysting, tildru og lóuþræl. Kópavogsleira er um 21 hektari að stærð og er dvalarstaður fyrir alls 30 staðbundnar fuglategundir og um 10 farfuglategundir. Borgarholt á Kársnesi er friðlýst náttúruvætti þar sem eru greinileg ummerki um hærri sjávarstöðu á höfuðborgarsvæðinu. Grágrýtishnullungar einkenna holtið og neðri mörk þeirra marka hina fornu sjávarstöðu. Einnig er áhugavert samfélag villtra gróðurtegunda á Borgarholti sem hefur þrifist í návist við erlendan garðagróður í nágrenninu. Víghólar eru einnig friðlýstir en þeir eru jökulsorfnar grágrýtisklappir á hæsta punkti Kópavogsháls í um 70 metra hæð yfir sjávarmáli. Elliðavatn er á náttúruminjaskrá, en það er grunnt sigdældarvatn sem í er þykkt kísilgúrlag og mikið lífríki. Botnplöntur eru mjög áberandi og dýralíf við fjöruna mjög mikið. Í Elliðavatni er góð silungsveiði, en í vatnakerfinu lifa allar tegundir villtra ferskvatnsfiska á Íslandi; bleikja, lax, urriði, áll og hornsíli. Vatnið í Elliðavatni er að uppruna lindarvatn sem streymir upp víðs vegar umhverfis vatnið. Vatnið stækkaði verulega til suðurs eftir að það var stíflað á árunum 1924-1925 Næstum því helmingur af landi Kópavogs, eða 37 km², er innan Bláfjallafólkvangs. Svæðið er á Reykjanesgosbeltinu og á því eru margs konar ummerki um eldvirkni, svo sem hraun, eldgígar og móbergsmyndanir. Hraun frá að minnsta kosti 15 eldstöðvum innan fólkvangsins eru að hluta innan marka Kópavogs. Í Þríhnúkagíg, syðst í landi Kópavogs, er 120 metra djúpur gígketill sem er sá stærsti sinnar tegundar á Íslandi og er af mörgum talin ein merkasta náttúrumyndun landsins. Inn af botni ketilsins er 115 metra langur hellir. Hugmyndir eru uppi um að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan fyrir almenning með því að gera göng inn í hann og byggja þar útsýnispall. Stjórnsýsla. Eins og í öðrum sveitarfélögum á Íslandi er kosið til bæjarstjórnar Kópavogs á fjögurra ára fresti. Bæjarstjórn kýs síðan bæjarstjóra og skipar í ýmis ráð og nefndir bæjarins. Bæjarstjórn Kópavogs er skipuð 11 fulltrúum úr 6 framboðum, en meirihlutasamstarf er með Samfylkingunni, Vinstri grænum, Næstbesta flokknum og Y-lista Kópavogsbúa. Þessi meirihluti hefur verið starfandi frá árinu 2010 þegar síðast var kosið til bæjarstjórnar. Forseti bæjarstjórnar er Ólafur Þór Gunnarsson úr Vinstri grænum. Bæjarstjóri Kópavogs er Guðrún Pálsdóttir, en hún fer með framkvæmda- og fjármálastjórn bæjarins ásamt bæjarráði sem kosið er af bæjarstjórn. Formaður bæjarráðs er Guðríður Arnardóttir úr Samfylkingunni. Kópavogur er í Suðvesturkjördæmi og er fjölmennasta sveitarfélagið í kjördæminu. Fyrir breytingar á lögum um framkvæmdavald ríkisins árið 1989 var Kópavogur hluti Gullbringu- og Kjósarsýslu. Kópavogsbær er sérstakt sýslumannsumdæmi, en frá árinu 2007 hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu séð um löggæslu í bænum. Kópavogur er í umdæmi Héraðsdóms Reykjaness. Samfélag og menning. Samfélagið í Kópavogi einkennist af ungum aldri bæjarins, staðsetningu hans og náttúru svæðisins. Kópavogur er því sem næst í miðju höfuðborgarsvæðisins og í gegnum bæinn liggja tvær stofnbrautir, Hafnarfjarðarvegur og Reykjanesbraut. Því eru margir Kópavogsbúar sem sækja vinnu eða stunda nám í nágrannasveitarfélögunum og öfugt. Í Kópavogi er mikið um verslun og þjónustu, sérstaklega í Smáranum og við Smiðjuveg. Þessi þjónusta er sótt af íbúum af öllu höfuðborgarsvæðinu. Nálægð bæjarins við höfuðborgina og ungur aldur byggðarinnar hefur áhrif á menningarstarfsemi í Kópavogi. Flestar menningarstofnanir Kópavogs eru til húsa á Borgarholti. Lestrarfélag Kópavogs var stofnað 1953 að undirlagi Jóns úr Vör. Bókasafn Kópavogs er nú til húsa í Safnahúsi Kópavogs með útibú í Lindaskóla. Árið 2007 voru 212.060 útlán frá safninu. Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarskóli Kópavogs og Salurinn eru einnig til húsa í Safnahúsinu. Salurinn er einn stærsti tónleikasalur á Íslandi og tekur hann um 300 manns í sæti. Gerðarsafn er listasafn sem er til húsa í Hamraborg, í næsta nágrenni við Safnahúsið. Það var opnað í apríl 1994 og heitir eftir Gerði Helgadóttur myndhöggvara. Héraðsskjalasafn Kópavogs var opnað árið 2001 og er til húsa í Hamraborg. Það fer með umboð Þjóðskjalasafns í Kópavogi. Leikfélag Kópavogs var stofnað árið 1957 og var lengi vel til húsa í Félagsheimili Kópavogs. Starfsemi þess fer nú fram í húsnæði við Fitjalind. Skólahljómsveit Kópavogs var stofnuð 1966 og hefur aðstöðu í íþróttahúsinu Digranesi. Henni er skipt í þrjár sveitir eftir aldri og getu sem koma að meðaltali fram 90 sinnum á ári. Í Kópavogi eru fjórar kirkjur. Kópavogskirkja, sem var vígð árið 1962, er eitt helsta kennileiti Kópavogs og einfölduð mynd af kirkjunni kemur fyrir í merki bæjarins. Í bænum eru tvær sundlaugar og fjölmargir almenningsgarðar og útivistarsvæði, svo sem í Kópavogsdal, Fossvogsdal og við Elliðavatn. Kópavogspósturinn er vikulegt blað sem er dreift á heimili í Kópavogi og í eru ýmsar fréttir úr bæjarlífinu. Skólar. Í Kópavogi eru 21 leikskóli, en árið 2009 voru 83% barna á leikskólaaldri í Kópavogi í leikskóla á vegum bæjarins. Kópavogsbær rekur 11 grunnskóla. Menntaskólinn í Kópavogi er eini framhaldsskólinn í Kópavogi en þar stunda um 1400 manns nám. Auk hefðbundins bóknáms er þar boðið upp á ferðamálanám og nám á matvælasviði. Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um að Knattspyrnuakademía Íslands myndi koma að starfsemi framhaldsskóla í Kórahverfinu, en frá því var horfið. Um 550 nemendur stunda nám við Tónlistarskóla Kópavogs. Þá er Kvöldskóli Kópavogs með starfsemi í Snælandsskóla og býður upp á ýmis námskeið, þar á meðal íslenskunámskeið fyrir útlendinga. Samgöngur. Hafnarfjarðarvegur og Reykjanesbraut liggja í gegnum Kópavog. Í framtíðinni er áætlað að leggja göng í gegnum Kópavogsháls milli þessara tveggja stofnbrauta, Kópavogsgöng. Kópavogsbær er aðili að Strætó bs. sem sér um almenningssamgöngur í bænum. Strætisvagnabiðstöð er í Hamraborg þaðan sem leiðir 28, 35 og 36 ganga um bæinn. Leiðir 1, 2 og 4 ganga frá Hlemmi og í gegnum Kópavog. Leið 24, sem gengur milli Garðarbæjar og Grafarvogs, liggur í gegnum Kópavog. Í Kópavogi er göngu- og hjólastígakerfi sem er hluti af stígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Meðal annars liggja stígar fyrir Kársnes, fyrir botn Kópavogs til Garðabæjar, um Kópavogsdal og meðfram mörkum Reykjavíkur og Kópavogs úr Kópavogsdal upp í Kórahverfi. Íþróttir. Í Kópavogi eru fjölmörg íþróttafélög og er íþróttaiðkun algeng í bænum. Breiðablik og HK eru stærstu félögin í bænum og á vegum þeirra eru stundaðar fleiri íþróttagreinar en á vegum hinna félaganna. Breiðablik var stofnað árið 1950 og hefur lið í Pepsideildum karla og kvenna og í Iceland Express-deild karla. Félagið hefur aðstöðu í Smáranum og á Kópavogsvelli. HK var stofnað árið 1970 og hefur lið í N1 deild karla og N1 deild kvenna. Það hefur aðstöðu í íþróttahúsinu Digranesi og á Kópavogsvelli. Íþróttafélagið Gerpla hefur aðstöðu í Versölum en kvennalið félagsins í hópfimleikum, sem jafnframt var landslið Íslands, sigraði Evrópumótið í hópfimleikum árið 2010. Í Leirdal er 9 holu golfvöllur, en Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur einnig aðstöðu á 18 holu golfvelli innan lands Garðabæjar. Tvær knattspyrnuhallir eru í Kópavogi, Fífan sem var opnuð 2002 og Kórinn sem var opnaður 2007. Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu á Kársnesi og Tennisfélag Kópavogs í Tennishöllinni í Kópavogsdal. Hestamannafélagið Gustur er með aðstöðu á Kjóavöllum. Þá eru í bænum tvö dansfélög, taflfélag og skotfélag. Siglufjörður. Siglufjörður er bær sem stendur við samnefndan fjörð á mið-Norðurlandi nyrst á Tröllaskaga. Siglufjörður var áður sjálfstætt bæjarfélag en er nú ásamt Ólafsfirði hluti af sveitarfélaginu Fjallabyggð. Saga og staðhættir. Hinn forni Sigluneshreppur náði yfir bæði Siglufjörð og Héðinsfjörð og samsvaraði landnámi Þormóðs ramma. Var hann kenndur við bæinn Siglunes, sem framan af var höfuðból sveitarinnar og síðar kirkjustaður og mikil verstöð. Árið 1614 var ný kirkja reist á Hvanneyri við Siglufjörð, en nafnið Hvanneyrarhreppur mun ekki hafa verið tekið upp fyrr en á 18. öld. Verslun hófst í hreppnum 1788 og Siglufjörður varð að löggiltum verslunarstað árið 1818. Þá var 161 íbúi í hreppnum, þar af 8 í kaupstaðnum. Einni öld síðar, árið 1918, fékk Hvanneyrarhreppur kaupstaðarréttindi og hét eftir það "Siglufjarðarkaupstaður". Fjörðurinn er lítill og þröngur, umlukinn háum og bröttum fjöllum. Þar er mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi en undirlendi lítið, nema inn af botni fjarðarins og á Hvanneyrinni vestan hans, og þrengdist því fljótt að byggðinni þegar fólki fjölgaði. Snjóflóðahætta er víða mikil í firðinum og 12. apríl 1919 fórust 9 manns í snjóflóði í ofurlitlu þorpi sem þá var risið austan fjarðarins og um sama leyti 7 í Engidal, sem er vestan Siglufjarðar en í Hvanneyrarhreppi, og 2 í Héðinsfirði, auk þess sem mörg mannvirki eyðilögðust, þar á meðal fyrsta stóra fiskimjölsverksmiðja á Íslandi. Alls fórust því 18 manns í hreppnum í þessari snjóflóðahrinu. Síldarárin. Í bænum bjuggu 1214 manns 1. janúar 2010, sem er mikil fækkun frá blómaskeiði bæjarins á fjórða og fimmta áratugnum. Árið 1950 bjuggu 3100 manns á Siglufirði og var það þá fimmti stærsti kaupstaður landsins, auk þess sem fjöldi aðkomumanna kom þangað til vinnu um stundarsakir og í brælum þegar ekki gaf til veiða lágu tugir eða jafnvel hundruð skipa á firðinum. Þetta blómaskeið Siglufjarðar var afleiðing mikilla síldveiða fyrir Norðurlandi sem hófust árið 1903. Það voru Norðmenn sem hófu veiðarnar en fljótlega fóru Íslendingar sjálfir að veiða síldina og þá varð Siglufjörður helsti síldarbærinn vegna góðrar hafnaraðstöðu og nálægðar við miðin. Þar voru nokkrar síldarbræðslur, þar á meðal sú stærsta á landinu, og yfir 20 söltunarstöðvar þegar best lét. Á síldarárunum, eins og þau urðu síðar kölluð, var mikið um að vera á Siglufirði og oftmikið um farandverkafólk sem vann mikið í törnum og fékk vel greitt fyrir miðað við það sem annars staðar fékkst, sem varð til þess að Siglufjörður var stundum kallaður "Klondike Íslands". Sum árin var verðmæti síldarútflutnings frá Siglufirði yfir 20% af öllum útflutningi Íslendinga. Siglfirðingar minnast þessa tímabils enn í dag, því í bænum er starfandi Síldarminjasafn og árlega er haldin „Síldarævintýrið á Sigló“ um verslunarmannahelgi. Áður en síldin kom til sögunnar hafði Siglufjörður einkum verið þekktur fyrir hákarlaveiðar en þar var mikil hákarlaútgerð. Hnignun og sameining. Halla fór undan fæti á sjötta áratugnum, þegar síldin brást mörg ár í röð og íbúum fækkaði. Afli jókst aftur en árið 1964 hvarf síldin af norðlenskum miðum og 1968 alveg af Íslandsmiðum. Allöflug togaraútgerð hófst frá Siglufirði upp úr 1970, auk þess sem loðnubræðsla var stunduð í gömlu síldarbræðslunni og seinna kom rækjuvinnsla til sögunnar. Þó hefur íbúum fækkað jafnt og þétt en heldur hefur hægt á fækkuninni á síðustu árum. Í janúar 2006 samþykktu Siglfirðingar og Ólafsfirðingar í kosningum að sameina bæjarfélögin tvö. Sameiningin gekk í gildi 11. júní 2006 að afloknum sveitarstjórnarkosningum 27. maí. Í kosningu um nafn á sameinað sveitarfélag varð tillagan "Fjallabyggð" ofan á. Samgöngur. Samgöngur við Siglufjörð voru lengst af mjög erfiðar; gönguleiðir lágu fyrr á öldum um háa og torfæra fjallvegi til Fljóta og Héðinsfjarðar en lengst af voru nær allir flutningar til Siglufjarðar á sjó. Árið 1946 var lagður um 15 km langur bílvegur yfir Siglufjarðarskarð sem er í 630 m hæð yfir sjávarmáli og var aðeins opið örfáa mánuði á ári en þótti þó mikil samgöngubót. Enn meira munaði þó um jarðgöngin Strákagöng, sem voru grafin í gegnum fjallið Stráka vestan Siglufjarðar og voru opnuð 1967. Þau opnuðu Siglfirðingum greiða leið yfir í Skagafjörð. Árið 2010 voru síðan Héðinsfjarðargöng opnuð en þau tengja saman Siglufjörð og Ólafsfjörð með viðkomu í Héðinsfirði og er vegalengdin á milli þéttbýlisstaðanna aðeins 15 km. Menning. Einn þekktasti íbúi Siglufjarðar á fyrri tíð var séra Bjarni Þorsteinsson, sem varð sóknarprestur Siglufjarðar 1888 og gegndi því embætti í hálfa öld. Hann lét til sín taka í mörgum framfaramálum en er þó þekktastur fyrir tónverk sín og söfnun íslenskra þjóðlaga, en óhætt er að segja að hann hafi bjargað mörgum þeirra frá glötun. Nú er Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar rekið á Siglufirði og var það vígt árið 2006 í tilefni af aldarafmæli útkomu þjóðlagasafns Bjarna. Einnig er árlega haldin þjóðlagahátíð á Siglufirði. Síldarmynjasafnið á Siglufirði er eitt virtasta safn landsins og það eina sem hlotið hefur evrópsku safnaverðlaunin. Ljóðasetur Íslands tók til starfa á Siglufirði árið 2011. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, vígði setrið við hátíðlega athöfn þann 8. júlí það ár. Á setrinu er leitast við að kynna gestum íslenskan kveðskap á fjölbreyttan og lifandi hátt. Ljóðahátíðin Glóð hefur verið haldin árlega á Siglufirði frá árinu 2007 og mörg af þekktustu ljóðskáldum landsins hafa komið þar fram auk heimamanna. Það eru Ungmennafélagið Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands sem standa að hátíðinni. Lífræn efnafræði. Lífræn efnafræði fjallar um byggingu, eðli, samsetningu og efnahvörf efnasambanda kolefnis. Nafnið. Lífræn efnafræði fæst við þau efnasambönd þar sem kolefni er í aðalhlutverki. Nafnið er hugsað til aðgreiningar frá ólífrænni efnafræði. Aðskilnaður er þó eingöngu sögulegs eðlis. Löngum var það trú manna að þau efni, sem fyrirfinndust í lífverum væru í grundvallaratriðum ólík þeim efnum sem væru í dauðum hlutum og að flokkarnir tveir gegndu ólíkum náttúrulögmálum. Á grundvelli þeirrar hugmyndar kom fram skipting í lífræna og ólífræna efnafræði. Sú hugmynd hefur fyrir löngu verið yfirgefin. En menn greina þó enn í dag milli lífrænnar og ólífrænnar efnafræði til hægðarauka, þar sem þær tvær undirgreinar efnafræði beita oft mismunandi aðferðum og líkönum. Nafnakerfi lífrænna efna. Nafnakerfi IUPAC er notað til að flokka og nefna lífræn efnasambönd. Alifatísk efnasambönd. Alkan - Alken - Díen - Alkýn - Alkýlhalíð - Alkóhól - Aldehýð - Ketón - Karboxýlsýrur - Eter - Ester - Amín - Amíð - Nítríl - Kolvetni - Fitusýrur Arómatísk efnasambönd. Bensen - Tólúen - Xylen - Anilín - Fenól - Naftalín - Antrasen - Fenantren Heterósýklísk efnasambönd. Pýridín - Pýrról - Fúran Eiginleikar lífrænna efna. Gríðarlegur fjöldi lífrænna efna er til. Orsök þessa er hæfileiki kolefnis til þess að mynda keðjur og hringi af mörgum mismunandi stærðum. Mörg kolefnissambönd eru afar hitanæm, og flest sundrast þau undir 300 °C. Þau eru ekki eins auðleysanleg í vatni og flest ólífræn sölt, en ólíkt þeim leysast þau vel í lífrænum leysiefnum eins og eter og alkóhólum. Samgild tengi eru í lífrænum efnum. Ár. Ár er tímaeining, sem miðast við göngu jarðar kringum sólina. Hvarfár er tíminn milli sólstaða og er hið náttúrulega árstíðaár. Sólár er umferðartími jarðar miðað við fastastjörnurnar og er 365,25636 dagar, en (gregorískt) almanaksár er 365,2425 dagar að meðaltali. Vegna þess að árið er um það bil fjórðungi degi lengra en sem nemur heilum dögum ársins, er tímatalið hannað þannig að eitt ár er að jafnaði 365 dagar, nema að bætt er við aukadegi fjórða hvert ár (þegar ártalið er deilanlegt með tölunni 4). Þetta fjórða ár nefnist hlaupár og bætist aukadagurinn við febrúarmánuð. Undantekning er síðustu ár alda en þau eru ekki hlaupár, nema þegar talan 400 gengur upp í ártalinu, t.d. var árið 2000 hlaupár, en ekki árið 1900. Árinu er enn fremur skipt upp í tólf mánuði, sem hafa misjafna lengd; ýmist 30 eða 31 sólarhringur, nema annar mánuður ársins, febrúar, hann hefur 28 daga, en 29 þegar hlaupár er. Uppruni orðsins. Orðið "ár" er einkum notað sem tímaeining, 365 dagar eða 12 mánuðir, en þýddi líka að fornu "góðæri" og "ársæld". Þá blótuðu menn "til árs og friðar", eins og segir í fornum bókum. Ár er sama orð og "år" í dönsku og sænsku, "year" á ensku og skylt "hornus" í latínu sem merkir ársgamall. Í eldgamalli slavnesku var orðið "jara" notað í merkingunni vor. Af því mætti ætla að ár sé leitt af stofni sem annars vegar merkti tími, hins vegar ársæld. Alfræðirit. Alfræðirit er rit sem ætlað er að gefa yfirlit yfir alla þekkingu og tækni mannkyns almennt eða á tilteknum sérsviðum. Þegar alfræðirit er gefið út í bókaformi og efnisorðum raðað í stafrófsröð kallast það einnig alfræðiorðabók vegna hliðstæðunnar við orðabók. IUPAC-nafnakerfi. IUPAC-nafnakerfi eða nafnakerfi IUPAC er kerfisbundin leið til að gefa lífrænum efnasamböndum nöfn sem kallast IUPAC-heiti. Í því er reynt að gefa hverju efni nafn sem segir ótvírætt til um byggingarformúlu þess. Nafnakerfið notast við fjölda for- og viðskeyta og inn í heitin er skeytt nöfnum og staðsetningu virkra hópa. Forskeyti. Notast er við ákveðin forskeyti háð fjölda efniseinda. Notuð eru tvö mismunandi forskeyti, eftir því hvort við er átt fjölda kolefnisatóma eða annarra efniseinda. Alkanar. Beinkeðjualkanar hafa viðskeytið -an. Einfaldasti alkaninn er þannig metan, CH4. Hringlaga alkanar hafa einnig forskeytið sýkló-; þannig er C4H8 sýklóbútan. Greindar alkankeðjur eru meðhöndlaðar sem beinar keðjur með alkýlhópum tengdum. Sem forskeyti er tala þess kolefnis sem alkýlhópurinn tengist við, og á eftir fylgir stofn sá sem á við fjölda atóma í alkýlhópnum. Hann ber viðskeytið -ýl, og er skeytt á grunnnafn keðjunnar. Þannig verður (CH3)2CHCH3, ísóbútan, að 2-metýlprópan, þar sem CH3, metýl, tengist á annað kolefni lengstu kolefnakeðjunnar, sem hefur þrjú atóm. Þar sem ekki getur verið til annað en 2-metýlprópan (1-metýlprópan væri bútan), má sleppa tölunni; þannig verður það einfaldlega metýlprópan. Komi upp vafi varðandi tölugjöf, hvað varðar þann enda sem talið er frá, þá er alltaf talið þannig að virkir hópar fái sem lægst tölugildi. Séu fleiri en einn sams konar hópur eru tölurnar aðgreindar með kommum, og dí-, trí-, tetra-, o.s.frv. bætt framan á heiti hans. Þannig verður C(CH3)4 að 2,2 dímetýlprópan. Ef hóparnir eru mismunandi er þeim raðað í stafrófsröð, og þeir aðskildir með kommu. Flóknari hópar fá nafn sem lýsir byggingu þeirra, og eru númeraðir frá tengipunkti sínum. Þannig er 4-(1-metýlprópýl)oktan oktankeðja með própýlhóp tengdan við fjórða kolefnið, en metýlhópur er tengdur við kolefnið sem næst er meginkeðjunni. Alkenar og alkýnar. Alkenar bera nöfn meginkeðjunnar, með viðskeytið -en, og innskeytta tölu sem gefur til kynna staðsetningu tvítengisins. CH2=CHCH2CH3 er bút-1-en. Ekki er þörf á tölum í eten og própen, þar sem enginn vafi er á staðsetningu tvítengis í þeim. Aftur er lægsta tala notuð. Ef tvítengi eru fleiri, breytist viðskeytið í -díen, -tríen, o.s.frv.: CH2=CHCH=CH2 er búta-1,3-díen. Alkýnar nota sama kerfi, með viðskeytinu -ýn. Breiðholt. Breiðholt er hverfi í austurhluta Reykjavíkur með um 21 þús. íbúa. Nafnið er dregið af bænum Breiðholt, sem staðsettur var þar sem nú er Skógarsel. Hverfið skiptist í Efra-Breiðholt (Fell, Berg og Hólar), Neðra-Breiðholt (Bakkar, Stekkir, Mjódd) og Seljahverfi. Í vestur markast hverfið af Reykjanesbraut. Í norður og austur markast hverfið af Elliðaám, syðri kvísl. Í suður markast hverfið af sveitarfélagamörkum Kópavogs. Flestar verslanir og þjónusta eru staðsettar í Mjódd. Í Breiðholti eru 5 grunnskólar: Breiðholtsskóli, Seljaskóli, Ölduselsskóli, Fellaskóli og Hólabrekkuskóli og einn framhaldsskóli: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Í hverfinu eru þrjár kirkjur: Breiðholtskirkja, Seljakirkja og Fella- og Hólakirkja. Meðal annarra stofnana má nefna tvö útibú Borgarbókasafns: Gerðuberg og Seljasafn og félagsmiðstöðvarnar Miðberg og Hólmasel. Í hverfinu eru starfrækt þrjú íþróttafélög: Íþróttafélag Reykjavíkur, Íþróttafélagið Leiknir og Sundfélagið Ægir Saga Breiðholts. Þar sem Breiðholt stendur núna stóð bærinn Breiðholt. Þegar Guðni Símonarson, sem hafði búið um langt skeið í Breiðholti, brá búi árið 1922 komu leigumál jarðarinnar nokkrum sinnum til umræðu á bæjarstjórnarfundum - því jörðin var eign bæjarins. Það var síðan ákveðið sama ár að Sveinn Hjartarson bakari fengi jörðina til umráða til þriggja ára "gegn 1180 króna eftirgjaldi á ári", eins og stendur í Morgunblaðinu sama ár. Breiðholt var einnig um tíma helsta berjaland Reykjavíkurbúa. Þar var einnig seld hagaganga. Í auglýsingu í Morgunblaðinu árið 1928, segir: "Hagaganga fyrir kýr í Breiðholtslandi á að kosta 200 krónur fyrir sumartímann". 1997. Árið 1997 (MCMXCVII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á miðvikudegi. Pýþagórískur þríhyrningur. Pýþagórískur þríhyrningur er rétthyrndur þríhyrningur þar sem allar hliðarlengdirnar eru jákvæðar heiltölur. Minnsti pýþagóríski þríhyrningurinn hefur hliðarlengdirnar 3, 4, og 5. Wacław Sierpiński sannaði að til væru óendanlega margir slíkir þríhyrningar. Hugsum okkur rétthyrndan þríhyrning með hliðarnar a, b og c, þar sem a og b eru skammhliðarnar og c er þá langhliðin. Veljum nú tvær "ósamþættar oddatölur", köllum þær p og q og látum þá stærri vera p, þ. e. p>q. Setjum svo a=pq, og b=(p2-q2)/2. Þá er c=(p2+q2)/2, eins og auðvelt er að finna með Pýþagórasarreglu og algebru. Ef við látum p og q vera minnstu mögulegu oddatölur, sem uppfylla skilyrðin, 3 og 1, þá fáum við a=3, b=4 og c=5. Með 5 og 1 fást gildin a=5, b=12 og c=13. Með 5 og 3 fæst a=15, b=8 og c=17. Með 7 og 1 fást gildin a=7, b=24 og c=25. Hér eru komnar 4 mismunandi Pýþagórískar þrenndir, sem eru (3,4,5), (5,12,13), (15,8,17) og (7,24,25). Augljóslega er hægt að halda þessu áfram í hið óendanlega og fá alltaf nýja þrennd. Eitt dæmi enn: p=25, q=9 gefur a=225, b=(625-81)/2=272 og c=(625+81)/2=353. Þess vegna er (225,272,353) Pýþagórísk þrennd og þríhyrningur með þessar hliðarlengdir er því rétthyrndur. Öld. Öld er hundrað ára tímabil. Venjan er að kalla tímabilið frá og með árinu 100*n+1 til og með ársins 100*n+100. (n+1)-ta öldin. Þannig var 20. öldin árin 1901 til 2000 og fyrsta öldin árin 1 til 100. Tímatal á vesturlöndum notast yfirleitt við hið svokallaða Anno Domini kerfi, þar sem fæðingarár Krists er kallað 1. árið eftir Krist og eru þá árin talin eins og dagar mánaðarins. Árið þar á undan kallast árið 1 fyrir Krist. Þetta er skýringin á venjunni að ofan. En þetta þykir óheppilegt kerfi þar sem það vantar í það núllið og því hentar það illa til útreikninga. Því notast vísindin oft við svokallað stjörnufræðitímatal þar sem árið 0 kemur í stað ársins 1 f.Kr. og áfram er haldið með neikvæðum tölum aftur í fortíðina. Það er því ekki alls kostar rétt sem oft er haldið fram að aldrei hafi verið til árið núll, því vissulega var ár á undan árinu 1 e.Kr. hvort sem það er kallað árið 1 f.Kr. eða árið 0, en þó ber að hafa í huga að þeir sem benda á að árið núll hafi ekki verið til eiga alls ekki við að ekkert ár hafi verið á undan árinu 1 e.Kr., heldur að ekki hafi verið til árið núll innan Anno Domini kerfisins. John Forbes Nash. John Forbes Nash (fæddur 13. júní 1928) er stærðfræðingur sem fékkst við leikjafræði og diffurrúmfræði. Hann deildi nóbelsverðlaununum í hagfræði árið 1994 með tveimur öðrum leikjafræðingum, Reinhard Selten og John Harsanyi. Ferill. Hann hóf stærðfræðiferil sinn með miklum látum, en um þrítugt fór að bera á geðklofa hjá honum, sem hann hefur náð sér af rúmum 25 árum seinna. John Nash fæddist í Bluefield í Vestur Virginíu-fylki í Bandaríkjunum, sonur Johns Nash eldri og Virginia Martin. Faðir hans var rafmagnsfræðingur, og móðir hans tungumálakennari. Á ungum aldri eyddi hann miklum tíma í að lestur og tilraunir, sem hann gerði í svefnherbergi sínu, sem hann hafði breytt í tilraunastofu. Á árunum 1945 til 1948 lærði hann við Carnegie Tæknistofnunina í Pittsburgh, með það markmið að feta í fótspor föður síns. Í stað þess öðlaðist hann mikla ást og virðingu fyrir stærðfræði og fékk áhuga á talnakenningunni, Diophantine jöfnum, skammtagreiningu og afstæðiskenningunni. Hann nýtur þess að leysa þrautir. Við Carnegie fékk hann áhuga á 'málamiðlanavandamálinu', sem John von Neumann hafði skilið eftir óleyst í bók sinni "Leikjakenningin og efnahagsleg hegðun" ("The Theory of Games and Economic Behaviour", 1928). Hann var meðlimur í leikjafræðifélaginu þar. Frá Pittsburgh fór hann til Princeton, þar sem hann fékkst við jafnvægiskenningu sína sem nefnist Nash-jafnvægi. Hann fékk doktorsnafnbót sína árið 1950 með ritgerð sinni um "Samvinnulausa leiki". Ritgerð hans innihélt skilgreininguna á því sem nú er þekkt sem Nash jafnvægi. 44 árum seinna var það þessi kenning sem ávann honum Nóbelsverðlaunin. Rannsóknir hans á þessu sviði leiddu til þriggja greina, sem hétu "Equilibrium Points in N-person Games" (1950), "The Bargaining Problem" (1950) og "Two-person Cooprative Games" (janúar 1953). Sumarið 1950 vann hann hjá RAND fyrirtækinu í Santa Monica, California, þar sem hann vann svo aftur um stutt skeið 1952 og 1954. Frá 1950 til 1951 kenndi hann stærðfræðigreiningu við Princeton háskóla, stundaði rannsóknir og tókst að koma sér undan herþjónustu. Á þessum tíma sannaði hann Nash greypingarkenninguna, sem var mikill áfangi í rannsóknum á diffurrúmfræði-víðáttum. Árin 1951-1952 var hann vísindaaðstoðarmaður við MIT. Hjá MIT kynntist hann Aliciu Lopez-Harrison de Lardé, stærðfræðinema frá El Salvador, sem hann giftist í febrúar 1957. Sonur þeirra, John Charles Martin (fæddur 20. maí 1959) var nafnlaus í heilt ár vegna þess að Alicia hafði þá nýlega sent Nash á geðveikrahæli, og henni fannst hann eiga að eiga þátt í nafngjöfinni. Eins og foreldrar sínir, varð John stærðfræðingur, en líkt og faðir sinn var hann síðar greindur sem geðklofi. Nash eignaðist annan son, John David (fæddur 19. júní 1953), með Eleanor Stier, en hann neitaði að eiga nokkur samskipti við þau. Hann var yfirlýstur tvíkynhneigður, og átti nokkur náin sambönd við karlmenn á þessum tíma. Alicia skildi við John Nash árið 1963, en þau tóku saman aftur árið 1970. Þau voru mjög ósamrýmd þangað til árið 1994, þegar að John vann Nóbelsverðlaunin; en þau giftu sig aftur 1. júní 2001. Árið 1958 fór John Nash að sýna fyrstu einkenni geðveikinnar, hann varð ofsóknarbrjálaður og var lagður inn á McLean sjúkrahúsið frá apríl til maí 1959, þar sem að hann var greindur sem „ofsóknarbrjálaður geðklofi“. Hann dvaldi í París og Genf, og fór aftur til Princeton árið 1960. Þar var hann á stöðugu flakki inn og út úr geðsjúkrahúsum þar til 1970, þó að hann hafi verið með rannsóknarstöðu við Brandeis háskóla frá 1965-1967. Á þrjátíu ára tímabilinu frá 1966 til 1996 gerði hann engar markverðar vísindalegar rannsóknir, en árið 1978 fékk hann John von Neumann kenningarverðlaunin fyrir uppfinningu sína á Nash jafnvæginu. Geðheilsu hans batnaði mjög hægt og bítandi. Hann fékk á ný áhuga á stærðfræðilegum vandamálum og með því getu til þess að hugsa rökrétt. Hann fékk einnig áhuga á tölvuforritun. Snilli hans átti afturkvæmt á tíunda áratug 20. aldar, þó svo að hugur hans væri enn veikburða. Í desember 2001 var gefin út kvikmyndin Fegurð hugans sem lýsti ýmsum þáttum í lífi hans á dramatískan hátt. Myndin fékk fern óskarsverðlaun árið 2002. Einnig hefur verið gefin út heimildarmynd um hann frá PBS, sem ber titilinn "A brilliant Madness". Nash, John Forbes Nash, John Forbes Nash, John Forbes Eldfjöll Íslands. Eldvirkasvæðið er rautt á myndinni. Eldfjöll Íslands eru mörg virk vegna sinna einstakra jarðfræðilegra aðstæðna. Á eyjunnni eru u.þ.b. 130 eldfjöll, en einungis nokkur eldfjöll gjósa reglulega, til dæmis Hekla eða Krafla. 1990. Árið 1990 (MCMXC) byrjaði á mánudegi. Lokaár Kalda-stríðsins er ýmist talið vera 1990 eða 1991. Forritunarmál. Forritunarmál er mál sem nota má til að lýsa forriti sem stýrir tölvum. Áður en tölvan getur keyrt forritið þarf að þýða það yfir á vélamál viðkomandi tölvu. Upphaflega voru tölvur forritaðar með vélamáli sem er einfaldlega listi yfir aðgerðir sem örgjörvi tölvunar á að keyra. Þannig þurfti að umskrifa forrit ef átti að keyra það á nýrri tölvu með ólíkum örgjörva. Með hærrastigs-málum nægir að þýða forritið að nýju. Flokkun forritunarmála. Forritunarmál eru flokkuð niður eftir því hversu mikið forritarinn þarf að hugsa langt niður á vélamál - til einföldunar má segja að skiptingin fari eftir flækjustigi forritunarmálsins. Eins og flokkunin gefur til kynna er vélamálsflokkurinn líkur vélamáli, smalamálið líkast smalamáli og svo framvegis. Þau forritunarmál sem eru vinsælust eru hátæknimál og fjórðu kynslóðar málin, enda er mun auðveldara að smíða stór og milli-stór forrit í þeim en í hinum málunum, en auk þess er C einnig vinsælt. 5. júní. 5. júní er 156. dagur ársins (157. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 209 dagar eru eftir af árinu. Snæfellsnes. Foss við Kálfárvelli á Snæfellsnesi thumb Snæfellsnes er langt nes á Vesturlandi á milli Faxaflóa að sunnan og Breiðafjarðar að norðan. Fjallgarður liggur eftir nesinu endilöngu en hæsta fjallið á nesinu er Snæfellsjökull (1446 m) sem er eldkeila. Snæfellsjökull er frægur fyrir meinta dulræna krafta sem í honum eru sagðir búa og fyrir að vera upphafsstaður ævintýra söguhetjanna í bókinni "Leyndardómar Snæfellsjökuls" eftir Jules Verne. Byggð er nokkur meðfram ströndum nessins og nokkrir þéttbýliskjarnar á norðurströnd þess, þeir eru Stykkishólmur, Grundarfjörður, Ólafsvík, Rif og Hellissandur, talið frá austri til vesturs, en allt eru þetta þorp og bæir sem byggja afkomu sína að mestu á sjávarútvegi. Að sunnanverðu eru tveir smábæir, Arnarstapi og Hellnar. Vestan á nesinu var á árum áður útróðrarstöð í Dritvík og svo þorpið Beruvík, sem hefur verið í eyði í marga áratugi. Þórsmörk. Þórsmörk er svæði norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls. Þórsmörk afmarkast af Mýrdalsjökli í austri, Krossá í suðri og Markarfljóti og Þröngá í norðri. Nafn sitt dregur Þórsmörk af germanska guðinum Þór en í Landnámabók segir að Ásbjörn Reyrketilsson hafi numið land í Þórsmörk og helgað landnám sitt Þór. Blaðmosar, burknar og birkitré vaxa þar og er gróðurfarið mjög fjölbreytt. Meginástæða gróðursældar í Þórsmörk er sú að svæðið er náttúrulega varið fyrir búfé af torfærum ám og jöklum. Bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum ráku fé á Þórsmörk til beitar bæði sumar og vetur og stunduðu þeir einnig skógarhögg á svæðinu. Voru skógar mjög illa farnir af beit á Þórsmörk og nærliggjandi afréttum í byrjun 20 aldar og í kjölfar Kötlugoss 1918 var Þórsmörk beitarfriðuð og falin Skógrækt ríkisins til umsjónar. Árið 1990 stækkaði beitarfriðlandið með samningum Landgræðslu ríkisins við vestur Eyfellinga en þeir höfðu rekið fé á Almenninga. Birkiskógar hafa sáð sér út yfir stór svæði í Þórsmörk við friðunaraðgerðir Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar. Krossá rennur niður Krossárdal og skilur Þórsmörk frá Goðalandi í mörgum kvíslum. Krossá er jökulá og er því mjög köld og breytir sér oft. Yfirferð getur verið hættuleg og hafa nokkur banaslys orðið í ánni. Brú hefur verið gerð fyrir fótgangendur. Veðurfarið er gott og hlýtt, betra en gengur og gerist á Suðurlandi vegna hárra fjalla sem umkringja svæðið og vernda það fyrir úrkomuskýjum. Þórsmörk er mjög vinsæl meðal útivistarfólks og þar er fjöldi gönguleiða. Það er til dæmis mögulegt að ganga á jökulinn, ganga hinn þekkta Laugaveg til Landmannalauga eða þá að ganga í Stakkholtsgjána eða um Fimmvörðuháls til Skóga. Einnig eru ákaflega fjölbreyttar styttri gönguleiðir innan svæðisins og mætti þar sem dæmi nefna göngu í Litla Enda, Stóra Enda eða á Valahnúk eða úr Langadal í Húsadal. Húsavík (Skjálfanda). Húsavík er bær við Skjálfanda í sveitarfélaginu Norðurþingi í Suður-Þingeyjarsýslu. Sjávarútvegur, verslun og ferðaþjónusta eru þar mikilvægustu atvinnuvegir. Framhaldsskóli er í bænum: Framhaldsskólinn á Húsavík. Á meðal merkilegra mannvirkja á Húsavík er Húsavíkurkirkja sem er frá fyrri hluta 20. aldar. Boðið er upp á hvalaskoðunarferðir frá Húsavík og þar er einnig hvalasafn. Einnig er Mývatn ásamt eldstöðvunum við Kröflu ekki langt frá. Húsavík er kaupstaður við innanverðan Skjálfanda að austanverðu. Fiskvinnsla og útgerð hefur verið ein af stoðum atvinnulífisins ásamt með verslun og þjónustu við nágrannasveitir. Vinnsla landbúnaðarafurða er og stór þáttur í atvinnulífinu og eru þar framleiddar landsþekktar kjötvörur. Elsta kaupfélagið á landinu, Kaupfélag Þingeyinga (oft skammstafað KÞ) var stofnað árið 1882 og hafði höfuðstöðvar á Húsavík, árið yfirtók KEA (Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri) KÞ og alla framleiðslu þess, þar á meðal Mjólkursamlag Húsavíkur sem framleiddi hið geysi vinsæla Húsavíkur Jógúrt, í dag er það framleitt af MS Akureyri. Hótel Húsavík, Gistihúsið Árból og fleiri heimagistingar eru á staðnum og þjónusta við ferðamenn eins og hún gerist best. Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík eru löngu þekktar hérlendis sem og víðast annars staðar í heiminum og kemur fjöldi íslenskra og erlendra ferðamanna til Húsavíkur gagngert til að skoða hvali. Árangurinn í þessum ferðum hefur orðið til þess, að bærinn er nú kallaður: „Hvalahöfuðborg heimsins”. Hvalamiðstöðin dregur til sín tugi þúsunda gesta ár hvert. Stutt er í eina af þekktustu laxveiðiám landsins, Laxá í Aðaldal, en einnig býðst veiði í vötnum og öðrum ám í nágrenninu. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru í nágrenni Húsavíkur og má t.d. nefna Tjörnes, þar finna má skeljar í berglögum vel fyrir ofan sjávarmál. Skammt er til Mývatns, Kelduhverfis, Jökulsárgljúfra og annnarra áhugaverðra staða frá Húsavík. Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði. Þetta er listi yfir handhafa Nóbelsverðlaunanna í læknis- og lífeðlisfræði. Karólínska stofnunin í Stokkhólmi útdeilir verðlaununum. Athugasemdir við töflu. A. Nöfnin eru stafsett á þann hátt sem Nóbelnefndin gerir á síðu sinni, nobelprize.org. B. Þjóðerni er gefið upp í samræmi við það sem fram kemur á síðu Nóbelnefndarinnar, nobelprize.org. Ekki er sjálfgefið að uppgefið þjóðerni sé það sama og upprunaland eða veitandi ríkisborgararéttar. Heimildir. Líffræði Nóbelsverðlaun í efnafræði. Efnafræði Frumtala (stærðfræði). Frumtala eða prímtala er náttúruleg tala, sem aðeins er mögulegt að deila með einum og tölunni sjálfri. Talan 1 er ekki skilgreind sem frumtala þar sem hún er eining og gengur því upp í sérhverja náttúrulega tölu. Samsettar tölur (eða þættanlegar tölur) eru andstæður frumtalna en það eru tölur sem hafa jákvæðan deili annan en 1 og sjálfa sig. Vöxtur frumtalna og umfang reikninga. Talið er að zetufall Riemanns geti gefið mikilvægar upplýsingar um dreifingu frumtalna. 21. öldin. 21. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 2001 til enda ársins 2100. 20. öldin. 20. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1901 til enda ársins 2000. Fólk talar oft um tímabilið frá 1900 til 1999 en það er almennt talið rangt vegna þess að það er ekkert núll ár á undan 1. ári eftir Krist. 1904. Thomsenbíllinn kom til Reykjavíkur 20. júní 1904. Póstnúmer. Póstnúmer eru notuð til að auðvelda sendingu pósts, sérstaklega til annarra hluta bæjar eða utanbæjar. Þau eru notuð víðs vegar um jörðina. 19. öldin. 19. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1801 til enda ársins 1900. Apríl. Apríl eða aprílmánuður er fjórði mánuður ársins og er nafnið komið af latneska orðinu aprilis. Í mánuðinum eru 30 dagar. Orðsifjar. Mánaðarheitið apríl er komið úr latínu og heitir þar "Aprilis". Á Ítalíu fóru blóm að springa út í apríl, en sagnorðið "aperio" í latínu merkir einmitt: opna. UTC. Máltími (einnig UTC eða samræmdur alþjóðlegur tími'") er tímakvarði sem er eins og GMT að öðru leyti en því að UTC byggir á tímamælingu með atómklukku, þar sem GMT á hinn bóginn reiknar tímann með stjarnfræðilegum hætti. Þegar nauðsyn krefur er skotið inn aukasekúndu(m) í lok mánaðar og verður klukkan þá 23:59:60 (og áfram ef þörf krefur) áður en hún verður 00:00:00. Slíkri aukasekúndu var síðast bætt inn 30. júní 2012. Þessi leiðrétting stafar af því að snúningur jarðar verður í sífellu hægari og lengjast því GMT-sekúndur stöðugt, en atómklukkusekúndur eru óbreytilegar. Skammstöfunin UTC er alþjóðleg og var hugsuð sem málamiðlun á milli frönsku ("Temps universel coordonné, TUC") og ensku ("Coordinated Universal Time, CUT"). Tímabelti jarðar eru skilgreind sem jákvæð (austur) og neikvæð (vestur) hliðrun frá UTC. Heiltölur. Heiltölur (sem er stytting á heilar tölur) er talnamengi, sem samanstendur af náttúrulegum tölum (1, 2, 3, 4...), samlagningarandhverfum þeirra (-1, -2, -3, -4...) auk tölunnar núll. Mengi þetta er táknað með stafnum formula_1 og stendur stafurinn fyrir „Zahlen“ sem á þýsku þýðir „tölur“. Heiltölumengið er á sama hátt og mengi náttúrulegra talna lokað mengi við samlagningu og margföldun en ólíkt því náttúrulega er það einnig lokað við frádrátt sökum þess að það inniheldur neikvæðar heilar tölur. Það er hins vegar ekki lokað við deilingu. Einar Vilhjálmsson. Einar Vilhjálmsson (fæddur 1. júní 1960) er íslenskur íþróttamaður, best þekktur fyrir árangur sinn í spjótkasti. Íslandsmet hans er 86,80 metrar, sett 30. ágúst 1992. Einar er sonur Vilhjálms Einarssonar, sem vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Einar stundaði háskólanám í Bandaríkjunum og setti bandarískt háskólameistaramótsmet, 89,98 m, árið 1983 í Houston í Texas og bandarískt háskólamet, 92,42 m (303,2 fet), á Teras Relays 1984. Þar sló hann elsta frjálsíþróttamet NCAA á þeim tíma, sem sagt hafði verið að yrði aldrei slegið, 300 feta kast Mark Muro frá Tennessee. Hann setti Norðurlandamet, 82,78 m, á Landsmóti UMFÍ á Húsavík árið 1987 og Evrópumeistaramótsmet, 85,48 m, árið 1990 í Split í þáverandi Júgóslavíu. Einar vann landskeppni Norðurlandanna og Bandaríkjanna árið 1983 og lagði þar heimsmethafann Tom Petranoff í annað sinn. Hann var valinn í úrvalslið Evrópu til keppni í heimsbikarkeppni árið 1985 og leiddi fyrstu Grand Prix stigakeppni IAAF (í dag nefnd Gullmótaröð IAAF) sama ár frá fyrsta móti í Kaliforníu í maí allt til ágústmánaðar og eru þá allar frjálsíþróttagreinar meðtaldar. Hann sigraði á heimsleikunum í Helsinki árið 1988 en það mót er sterkasta spjótkastskeppni heims sem haldin er árlega. Einar vann til yfir 10 gullverðlauna á Grand Prix stórmótaröðum IAAF og fjölda silfur og bronsverðlauna á árunum 1985, 1987, 1989 og 1991 en mótaröðin er haldin annað hvert ár í öllum greinum. Keppnisferill Einars spannar um 220 mót í um 22 löndum og hafnaði hann á verðlaunapalli á um 200 þeirra. Einar komst fyrst á heimslistann yfir bestu spjótkastara heims árið 1983 og síðast árið 1992. Hann varð sjötti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og kom Íslandi á blað í frjálsíþróttum með 1 stig. Á keppnisferli Einar var spjótum breytt þrisvar sinnum vegna mistaka við fyrstu breytingar þess hjá IAAF árið 1986. Ferill hans spannar því kafla í sögu spjótkastsins sem skipta má í fjögur tímabil þar sem mismunandi áhöld voru löggild: 1) fyrir árið 1986 2) árin 1986-1988 3) árin 1989-1990 og 4) tímabil núverandi metaskrár sem hófst árið 1991. Þessar breytingar höfðu mikil áhrif á alla spjótkastara heimsins sem náð höfðu að kasta yfir 90 metra fyrir breytingarnar 1986 og nafnabreytingar á heimslistum milli ára hafa aldrei í sögu spjótkastsins verið meiri en á þessum árum. Einar var einn þriggja spjótkastara í heiminum sem náði að komast á heimslistann með öllum spjótunum. Sú staðreynd er sennilega eitt magnaðasta afrek Einars sem íþróttamanns. Árlega fór Einar í íþróttavíking og keppti á flestum sterkustu mótum heims um tíu ára skeið. Jafnaðarárangur hans var mjög góður og sem dæmi má nefna að meðaltal tíu lengstu kasta hans árið 1985 var yfir 90 metrar. Fórnarkostnaður árlegra víkingaferða Einars virðist hafa verið sá að hann náði ekki að sýna sitt besta á medalíumótunum í lok keppnistímabila og komst ekki á pall á Ólympíuleikum, Heimsmeistaramóti og Evrópumeistaramóti þótt hann hafi margsinnis áður sigrað flesta þá sem unnu til verðlauna á þeim mótum. Einar náði á ferli sínum að sigra alla heimsmethafa, heimsmeistara, Ólympíumeistara og Evrópumeistara í spjótkasti að Uwe Hone (DDR) undanskildum. Hone náði að kasta 104,80 m í heimalandi sínu, Austur-Þýskalandi árið 1984 en hætti keppni 1986 eftir meiðsli. Eftir metkastið mættust Einar og Uwe aðeins einu sinni. Þeir háðu harða keppni á Grand Prix-móti í Stokkhólmi árið 1985 þar sem Einar leiddi keppnina fram í fjórðu umferð með kasti upp á 89,36 m en Uwe Hone tók forustuna í fimmtu umferð með kasti upp á 91,54 m og sigraði. Þriðji var Tom Petranoff, fyrrum heimsmethafi. Eftir keppnina var Einar krýndur krónprins spjótsins í sænskum fjölmiðlum. Einar grínaðist stundum með það að hann ætti að minnsta kosti heimsmetið með vinstri hendi, en hann er örvhentur. Einar var kosinn Íþróttamaður ársins árin 1983, 1985 og 1988. Íslendingabók Ara fróða. Íslendingabók er stutt yfirlitsrit um sögu Íslands frá landnámi og að ritunartíma, rituð af Ara fróða Þorgilssyni á árunum 1122-1133. Hún er elsta íslenskra sagnaritið. Íslendingabók var skrifuð á íslensku, þrátt fyrir að alþjóðamál lærðra manna á ritunartímanum hafi verið latína. Segja má að Ari hafi þannig í upphafi íslenskrar bókmenningar markað þá stefnu að rita á móðurmálinu. Stíll Ara er knappur og ber þess nokkur merki að Ari er latínulærður. Heimildarmenn eru valdir af kostgæfni og nefndir, elsti heimildarmaður Ara var fæddur árið 995 (72 árum eldri en Ari var sjálfur). Í Íslendingabók er meðal annars sagt frá dvöl papa á Íslandi, landnámi Íslands, stofnun Alþingis, kristnitökunni, fundi Grænlands og upphafi byggðar þar, auk þess sem tímatalið er skorðað. Elsta varðveitta handrit Íslendingabókar er frá 17. öld, pappírshandrit skrifað af Jóni Erlendssyni, presti í Villingaholti fyrir Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup. Jón skrifaði Íslendingabók upp eftir gömlu handriti, sem nú er glatað, en talið er að hafi verið frá því um 1200. Handritið mun hafa týnst skömmu eftir að Jón skrifaði það upp, en Árni Magnússon fann ekkert af því þegar hann safnaði íslenskum handritum nokkrum áratugum síðar. Íslendingabók (ættfræðigrunnur). Íslendingabók er gagnagrunnur líftæknifyrirtækisins Íslenskrar erfðagreiningar með upplýsingum um ættir allra Íslendinga sem heimildir eru til um, samtals um það bil 740.000 manna. Grunnurinn hefur líklega upplýsingar um um það bil helming allra þeirra Íslendinga sem búið hafa á Íslandi frá landnámi. Ýmsar heimildir eru notaðar við samantekt ættfræðiupplýsinga. Manntöl, þjóðskrá, kirkjubækur og niðjatöl eru helstu heimildirnar. Auk þess er notast við stéttatöl, ábúendatöl, íbúaskrár, minningargreinar, annála, alþingisbækur, dómabækur og ýmis fornrit. Íslendingabók er eini ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Íslensk erfðagreining setti grunninn saman í samstarfi við Friðrik Skúlason með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingarnar við erfðafræðirannsóknir fyrirtækisins. Íslendingar geta fengið aðgang að grunninum til að skoða upplýsingar um sjálfa sig og leita upplýsinga um ættir sínar. Íslendingabók fær nafn sitt frá merku fornriti, Íslendingabók Ara fróða, en þar er saga Íslands rakin frá landnámi og fram á 12. öld, eða til u.þ.b. 1120. Einokunarverslunin. Einokunarverslun Dana á Íslandi var verslunareinokun danskra kaupmanna á Íslandi á 17. og 18. öld. Hún átti rætur í kaupauðgisstefnunni og var tilgangurinn með henni að efla danska kaupmannastétt og danska verslun gegn Hansakaupmönnum í Hamborg, og auka völd danska konungsins á Íslandi. Einokunartímabilið hófst árið 1602 og stóð til ársloka 1787. Verslað var á tuttugu (síðar 25) kauphöfnum, samkvæmt föstum taxta sem ákveðinn var af konungi. Kaupmenn skiptu kauphöfnunum milli sín fyrir vissa leigu, en Vestmannaeyjar voru leigðar út sér fyrir hærra verð. Kaupmönnum var bönnuð þátttaka í annarri atvinnustarfsemi á Íslandi fram til 1777. Á tímum einokunarverslunarinnar voru það oft sömu kaupmenn sem stunduðu sömu kauphafnir ár eftir ár. Þetta leiddi til þess að þeir byggðu vöruskemmur (lagera) sem voru læstar yfir veturinn. 1777 var ákveðið, samkvæmt tillögu Skúla Magnússonar að kaupmenn skyldu hafa fasta búsetu á Íslandi. Voru þá reistar vöruskemmur og íbúðarhús fyrir kaupmennina, fjölskyldur og starfslið í öllum kauphöfnum. Áður höfðu nokkrir kaupmenn, eins og t.d. kaupmaðurinn á Eyrarbakka byggt sér íbúðarhús. Einnig máttu kaupmenn þá fjárfesta í annarri atvinnustarfsemi. 1602. Árið 1602 (MDCII í rómverskum tölum) var ár sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> gefið út af Hollenska Austur-Indíafélaginu árið 1623. 1984. 1984 (MCMLXXXIV í rómverskum tölum) var 84. ár 20. aldar og hlaupár sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu. Sveitarfélagið Skagafjörður. Sveitarfélagið Skagafjörður er sveitarfélag á norðvesturlandi sem þekur mest allt svæðið í kringum Skagafjörð. Sveitarfélagið varð til 6. júní 1998 við sameiningu 11 sveitarfélaga í Skagafirði: Skefilsstaðahrepps, Sauðárkrókskaupstaðar, Skarðshrepps, Staðarhrepps, Seyluhrepps, Lýtingsstaðahrepps, Rípurhrepps, Viðvíkurhrepps, Hólahrepps, Hofshrepps og Fljótahrepps. Höfðu íbúar þeirra samþykkt sameininguna í kosningum 15. nóvember árið áður. Akrahreppur var eina sveitarfélagið í firðinum sem ákvað að vera ekki með. Innan vébanda hins nýja sveitarfélags búa nú um 4.000 manns, þar af 2600 á Sauðárkróki, sem er langstærsti bærinn. Auk þess er þéttbýli á Hofsósi, á Hólum í Hjaltadal og í Varmahlíð. Sveitastjórn. Í sveitastjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar sitja 9 fulltrúar sem kjörnir eru hlutfallskosningu á fjögurra ára fresti. Síðast var kosið til sveitastjórnar í sveitarstjóranarkosningunum 29. maí 2010. Fyrsti málfræðingurinn. "Fyrsti málfræðingurinn" er óþekktur, en höfundur "Fyrstu málfræðiritgerðarinnar" hefur verið kallaður þessu nafni vegna þess að verk hans er elsta varðveitta fræðiritið um íslenskt mál. Hann var upp á 12. öld, en talið er að "Fyrsta málfræðiritgerðin" hafi verið skrifuð á síðari hluta 12. aldar. Fyrsta málfræðiritgerðin. Fyrsta málfræðiritgerðin (eða Um latínustafrofið) er sú fyrsta af fjórum íslenskum ritgerðum um málfræði í Ormsbók Snorra-Eddu. Hún var, eins og segir í ritgerðinni sjálfri, „skrifuð til þess að hægara verði at rita og lesa sem nú tíðist og á þessu landi bæði lög og áttvísi eða þýðingar helgar eða svo þau hin spaklegu fræði er Ari Þorgilsson hefir á bækur sett af skynsamlegu viti“. Nafn sitt fær ritgerðin einfaldlega vegna þess að hún er fremst þessara fjögurra í handritinu. Hún þykir einnig merkust ritgerðanna fjögurra, og er að öllum líkindum frá síðari hluta 12. aldar. Fræðimenn hafa ekki verið á einu máli um hvenær ritgerðin var samin og hefur tímabilið 1130-1180 verið nefnt. Höfundur verksins er ekki kunnur, en hann er oftast nefndur „fyrsti málfræðingurinn“. Í ritgerðinni er gerð tilraun til að fella latneska stafrófið að íslenska hljóðkerfinu eins og það var þá, auk þess sem reynt er að sýna fram á nauðsyn samræmdrar stafsetningar. Auk þess að vera ómetanleg heimild um sögu íslenska hljóðkerfisins, beitir höfundur aðferðum sem ekki tíðkuðust í hljóðkerfisfræði fyrr en á 20. öld, þ.e.a.s. hann notar svokölluð lágmarkspör til að sýna hvaða hljóð eru merkingargreinandi. Ormsbók Snorra-Eddu. Ormsbók Snorra-Eddu ("Codex Wormianus") er eitt af fjórum aðalhandritum Snorra-Eddu. Hún er varðveitt á „Det Arnemagnæanske Institut“ í Danmörku og hefur þar skráningarnúmerið AM 242 fol. Um uppruna Ormsbókar er ekki vitað, en eigendasaga hennar á 17. öld er þó nokkuð vel skráð. Árni Magnússon fékk handritið frá danska biskupnum Christian Worm árið 1706, en sá hafði fengið það frá afa sínum, fornfræðingnum og lækninum Ole Worm (1588-1654), en við hann er handritið kennt. Ole Worm fékk handritið frá Arngrími Jónssyni lærða (1568-1648) árið 1628, og Arngrímur hefur líklega fengið það frá Guðbrandi Þorlákssyni biskupi (1542-1627), en á síðu 147 í handritinu má sjá fangamark hans. Ekki er vitað með fullri vissu hvaðan Guðbrandur fékk handritið, en líklega hefur hann erft það frá móðurafa sínum, Jóni Sigmundssyni. Þó saga handritsins sé ekki þekkt lengra en aftur á 16. öld er handritið vafalaust mun eldra, almennt talið frá miðri 14. öld. Aldursgreiningin er helst rökstudd með vísunum í málfræði, letur og stafsetningu textans. Handritið er allt skráð með sömu rithönd, en sú rithönd er einnig þekkt úr öðrum handritum. Sigurður Nordal taldi handritið vera skrifað upp í Húnavatnssýslu á 14. öld. Ormsbók hefur, auk Snorra-Eddu, að geyma fjórar málfræðiritgerðir sem einfaldlega eru kallaðar fyrsta, önnur, þriðja og fjórða málfræðiritgerðin. Þær eru í aldursröð í handritinu, hvort sem tilviljun hefur ráðið því eða ekki, sú fyrsta er elst og sú fjórða er yngst. Ekki er vitað hver er höfundur málfræðiritgerðanna, fyrir utan þá þriðju, en höfundur hennar er að öllum líkindum Ólafur Þórðarson hvítaskáld (1210-1259). Auk málfræðiritgerðanna og Snorra-Eddu er í handritinu einnig að finna eina varðveitta eintak Rígsþulu, auk annarra smávægilegri verka og athugasemda. Ole Worm. Ole Worm (13. maí 1588 - 31. ágúst 1654) var danskur fornfræðingur og læknir. Hann safnaði náttúru- og forngripum, meðal annars íslenskum handritum. Ormsbók Snorra-Eddu er kennd við hann. Hann skrifaðist m.a. á við Brynjólf Sveinsson biskup, og Arngrím lærða, en handrit Ormsbókar fékk hann hjá Arngrími. 21. júní. 21. júní er 172. dagur ársins (173. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 193 dagar eru eftir af árinu. Ólafur Ragnar Grímsson. Ólafur Ragnar Grímsson er fimmti forseti Íslands. Ólafur er doktor í stjórnmálafræði, hann var prófessor við Háskóla Íslands og sat á þingi fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Alþýðubandalagið. Ævi. Ólafur fæddist á Ísafirði þann 14. maí 1943, sonur Gríms Kristgeirssonar hárskera og Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar húsmóður. Árið 1974 kvæntist hann Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur og ári seinna eignuðust þau dæturnar Guðrúnu Tinnu og Svanhildi Döllu. Guðrún lést úr hvítblæði árið 1998. Árið 2003 kvæntist hann Dorrit Moussaieff. Menntun. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1962 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar 1960-1961. Eftir stúdentspróf fór hann til Englands til að læra stjórnmálafræði og hagfræði. Árið 1965 útskrifaðist hann úr háskólanum í Manchester í Englandi með BA gráðu í báðum þeim fögum. Árið 1970 lauk hann doktorsgráðu í stjórnmálafræði úr sama skóla. Starfs- og pólitískur ferill. Ólafur lét snemma að sér kveða í stjórnmálum og sat í miðstjórn Framsóknarflokksins á árunum 1967 – 1974, framkvæmdastjórn sama flokks árin 1969 – 1973, en klauf sig frá flokknum ásamt fleirum í svokallaðri "Möðruvallahreyfingu" 1974. Ólafur var í blaðstjórn Tímans 1967 – 1971, í útvarpsráði 1971 – 1975, formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974 – 1976 og í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins frá 1977. Hann var formaður framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins á árunum 1983–87. Árið 1987 var hann kosinn formaður Alþýðubandalagsins og gegndi því til ársins 1995. Lektor var Ólafur skipaður fyrir í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands það var árið 1970 og hann lagði grunn að kennslu í stjórnmálafræði. Hann var skipaður sem fyrsti prófessor við Háskóla Íslands árið 1973 og var það í stjórnmálafræðinni. Ólafur stundaði rannsóknir í stjórnmálafræði við Háskóla Ísland á árunum 1970-1988. Ólafur var fyrst kosinn varaþingmaður árið 1974 og komst svo á þing 1978. Árin 1974 og 1975 kom hann inn sem varaþingmaður fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna, en eftir 1978 sat hann sem þingmaður fyrir Alþýðubandalagið. Ólafur gegndi embætti fjármálaráðherra árin 1988 – 1991 í síðustu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Í forsetakosningunum 1996 var hann síðan kjörinn í embætti forseta Íslands, endurkjörinn í kosningunum árið 2000 án atkvæðagreiðslu og aftur Forsetakosningarnar árið 2004 (gegn Ástþóri Magnússyni og Baldri Ágústssyni). Hann var síðan aftur sjálfkjörinn 2008. Í forsetakosningum árið 2012 var Ólafur endurkjörinn með tæpt 53% fylgi. Ólafur gegndi stöðu lektors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands á árunum 1970 til 1973 og stöðu prófessors árin 1973 – 1993. Forseti Íslands. Ólafur er fyrsti forsetinn í sögu Íslands til þess að neita að skrifa undir lög frá Alþingi, svonefnt "fjölmiðlafrumvarp". 26. grein stjórnarskrárinnar segir að þá skuli lögin vera sett í þjóðaratkvæðargreiðslu, til þess kom ekki í þetta skiptið þar sem ríkisstjórnin ákvað að draga hið umdeilda frumvarp til baka áður en til þess kæmi. Skiptar skoðanir eru á meðal fræðimanna um raunverulega merkingu 26. greinarinnar, það er hvort að forseti geti yfirleitt beitt henni sökum hefða fyrrum forseta, greinin sjálf er hins vegar afdráttarlaus. Ólafur hefur verið umdeildur í starfi sínu sem forseti, en gagnrýni á störf hans jókst mjög eftir hrun íslensku bankanna; ekki síst vegna hlutar hans í útrás íslenskra fyrirtækja og sambands hans við íslenska auðmenn. Synjun forseta á staðfestingu frumvarps til laga um fjölmiðla 2004. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta frumvarp að lögum um fjölmiðla (fjölmiðlafrumvarpið) árið 2004. Ákvörðunin var umdeild, en Alþingi tók í framhaldi frumvarpið af dagskrá, þ.a. ekki þótti nauðsynlegt að leggja það fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og gera bar skv. stjórnarskrá Íslands. Þátttaka forseta Íslands í Þróunarráði Indlands 2007. Ólafur Ragnar Grímsson hlaut nokkra gagnrýni fyrir að taka þátt í Þróunarráði Indlands, án þess að ráðfæra sig við forsætis- og utanríkisráðherra. Þingforseti, Halldór Blöndal gagnrýndi forsetann opinberlega fyrir ákvörðunina. Hjartaaðgerð í október 2008. Dagana 6. til 7. október 2008 fór forsetinn í hjartaþræðingu á Landspítala. Tilkynning um hjartaaðgerð forsetans barst ekki þjóðinni fyrr en nokkrum dögum síðar, en samkvæmt stjórnarskrá fara handhafar forsetavalds með völd forseta í forföllum hans. Fundur forseta með sendiherrum Norðurlandanna og Rússlands í nóvember 2008. Í nóvermber 2008 var haldinn fundur með ráðherrum Norðurlandanna og Rússlands, en þá var Ólafur mjög harðorður og skv. minnisblaði, sem lekið var til fjölmiðla átt forseti m.a. að hafa ávítað norðurlandaþjóðirnar fyrir að hafa ekki komið Íslandi til hjálpar í fjármálakreppunni. Þann 16. febrúar 2009 ritaði Eiður Guðnason sendiherra harðorða grein þar sem hann taldi forsetann hafa sagt rangt frá ummmælum sínum í boðinu. Geir Haarde biðst lausnar, 26. janúar 2009. Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á Bessastöðum 26. janúar 2009. Forseti veitti Geir lausn frá embætti og veitti síðar Jóhönnu Sigurðardóttur heimild til að leiða minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri Grænna fram að kosningum 26. apríl sama ár. Viðtal við forseta Íslands í Silfri Egils 18. febrúar 2007. Í viðtali í Silfri Egils, 18. febrúar 2007, sagði Ólafur Ragnar Grímsson að forsetinn heyri ekki undir neitt ráðuneyti og nær væri að tala um að ráðuneytin heyri undir forseta ef menn vildu fara út í orðhengilshátt. Þessum ummælum var slegið upp í Morgunblaðinu daginn eftir. Björg Thorarensen, lagaprófessor segir að í stjórnsýslulegu tilliti fari forsætisráðuneytið með alla umsýslu sem varðar forsetaembættið og megi því segja að forsætisráðuneytið fari með málefni forsetans. Viðtal við forseta í Kastljósi RÚV haustið 2008. Í viðtali í Kastljósi RÚV í kjölfar bankahrunsins á Íslandi viðurkenndi Ólafur Ragnar hafa farið of geyst í að mæra útrás Íslensku bankanna. Forseti hafnar undirskrift umdeildra Icesave-laga 2010. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta umdeild Icesave-lög 5. janúar 2010, eftir að hafa áður tekið sér umhugsunarfrest frá gamlársdag 2009. Forseti sagðist með neituninni vilja vísa lögunum til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur er eini forseti lýðveldisins sem neitað hefur að skrifa undir lög, fyrst árið 2004 og síðar 2010. Forseti vísar Icesave-lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu 2011. Ólafur Ragnar Grímsson hafnaði staðfestingu nýrra laga um Icesave og vísaði þeim til þjóðaratkvæðis 20. febrúar 2011. Framboð til forseta Íslands 2012. Í nýársávarpi 2012 lét Ólafur að því liggja að hann hygðist snúa til annarra starfa og mundi því ekki bjóða sig fram til forseta Íslands 2012. Hann neitaði síðar að skýra mál sitt frekar, þegar hann var inntur eftir því. Efnt var til undirskriftasöfnunar til að skora á Ólaf að bjóða sig fram og skrifuðu rúmlega 30.000 undir áskorunina. Á blaðamannafundi í lok febrúar sagðist Ólafur vera að íhuga framboð og mundi gefa svar eftir eina til tvær vikur. Hann tilkynnti loks framboð sitt til forsetaembættis 4. mars 2012. Í forsetakosningunum 2012 náði Ólafur endurkjöri með tæp 53% greiddra atkvæða. Hann var settur inn í embættið þann 1. ágúst og hófst þar með er 5. kjörtímabil hans sem forseti Íslands. Enginn fyrri forseta hefur setið lengur en 4 kjörtímabil. Gregoríska tímatalið. Gregoríska tímatalið (stundum kallað gregoríanska tímatalið eða nýi stíll) er tímatal sem innleitt var í kaþólskum löndum árið 1582 og kennt er við Gregoríus páfa 13. Tímatalið tók við af rómverska tímatalinu, sem oftast er kallað júlíska tímatalið og kennt við Júlíus Sesar, en mikil skekkja var orðin í því. Leiðréttingin var miðuð við vorjafndægur og gekk út á það að felldir voru niður 10 dagar árið sem það var tekið í notkun og kom þá 15. október í stað 5. október. Eingöngu fjórða hvert ár varð hlaupár og það aldamótarár sem talan 400 gengur upp í, í stað allra aldamótarára áður. Þannig var 1900 ekki hlaupár, en 2000 var það. Bæði hefðu verið hlaupár í gamla stíl. Í löndum annara kirkjudeilda tók sumstaðar upp undir tvær aldir að koma breytingunni á og flestar deildir austurkirkjunnar (Rétttrúnaðarkirkjunnar) hafa ekki enn tekið það upp. Því hefur til að mynda jóladagur þeirra á 20. öld verið þann 6. janúar vegna skekkjunnar sem er í Júlíska tímatalinu, en ekki 25. desember eins og í því Gregoríska. Gregoríska tímatalið var tekið upp á Íslandi árið 1700 og gildir í dag. Var skekkjan þá orðin 11 dagar frá því Júlíska, sem voru klipptir úr árinu þannig að 29. nóvember kom í stað 17. nóvember. Páll Ólafsson. Páll Ólafsson (fæddur 8. mars 1827, dáinn 23. desember 1905) var íslenskt skáld. Æviágrip. Páll fæddist á Dvergasteini við Seyðisfjörð þann 8. mars 1827 og dó 23. desember 1905. Foreldrar hans voru Ólafur Indriðason (1796 – 1861), síðar prestur á Kolfreyjustað og kona hans Þórunn Einarsdóttir (1793 – 1848). Páll var tvíkvæntur: Fyrri kona hans (gift 3. júlí 1856), var Þórunn Pálsdóttir (1811 – 1880). Seinni kona (gift 5. nóvember 1880) var Ragnhildur Björnsdóttir (5. nóvember 1843 – 5. júní 1918). Börn Páls og Ragnhildar voru Björn Skúlason (fæddur 1881), Björn (fæddur 1883), Sveinbjörn (fæddur 1885), Þormóður (fæddur 1886) og Bergljót (fædd 1887). Páll stundaði heimanám hjá föður sínum og var svo við nám einn vetur hjá Sigurði Gunnarssyni alþingismanni í Vallanesi. Vorið 1855 varð hann ráðsmaður á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu hjá Þórunni Pálsdóttur, sem þá var ekkja. Hann gerðist bóndi þar 1856–1862, bjó að Höfða á Völlum 1862–1864, á Eyjólfsstöðum á Völlum 1864–1866, aftur á Hallfreðarstöðum 1866–1892 og loks á Nesi í Loðmundarfirði 1892–1900. Þá fluttist hann ásamt Ragnhildi konu sinni að Sigurðarstöðum á Sléttu til Guðrúnar systur hennar, síðar að Presthólum til séra Halldórs Björnssonar, bróður Ragnhildar, og vorið 1905 til Reykjavíkur. Páll var umboðsmaður Skriðuklaustursjarða árin 1865–1896. Hann var alþingismaður Norðmýlinga árin 1867–1873, einnig 1874–1875, en sagði þá af sér þingmennsku. Ljóðmæli. Páll varð snemma landsþekktur fyrir snjallar og gamansamar lausavísur og mjög persónulega ljóðagerð og voru lausavísur hans á hvers manns vörum, enda voru yrkisefni hans og lífsviðhorf vaxin úr jarðvegi íslenskrar sveitamenningar. Þess vegna hefur hann oft verið talinn merkisberi hins fjölmenna hóps alþýðuskálda. Hallfreðarstaða og nágrennis er oft getið í ljóðum hans og stökum. Minnisvarði um Pál er í Hallfreðarstaðalandi. Einnig orti hann mörg hundruð ástarljóð til seinni konu sinnar, Ragnhildar, á 40 árum. Þau voru gift seinni hluta þess tíma og dró það síst úr hita ljóðanna, mörg sérstæðustu ástarljóð sín orti hann í ektastandi, eins og ljóðið "Þögul nóttin" þar sem hann yrkir um hvíta handleggi Ragnhildar. Fá ástarljóðanna voru gefin út um hans daga en þorri þeirra 66 árum eftir dauða hans. Tónlist. Hljómdiskur Ragnheiðar Ólafsdóttur og Þórarins Hjartarsonar með textum Páls Ólafssonar. Ljóð Páls hafa verið sungin um allt land frá því að þau tóku að birtast á prenti, s.s. hestavísur hans og drykkjuvísur. Hver kannast ekki við "Eg hef selt hann Yngra-Rauð" og "Ég hefi margan morgun vaknað". Þessir söngvar eru undir gömlum þjóðlögum. Auk þess hefur hann verið viðfangsefni tónskálda allt frá Inga T. Lárussyni ("Gott áttu hrísla", "Ó blessuð vertu sumarsól", "Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini" o.fl.), til Hróðmars Inga, Heimis Sindrasonar og fleiri yngri tónskálda. Fjölmörg þessara laga hafa verið gefin út á hljómplötum og diskum og má nefna diskana Söng riddarans (Þórarinn Hjartarson og Ragnheiður Ólafsdóttir 2001) og Þögul nóttin (Felix Bergsson 2011) þar sem eingöngu eru textar eftir Pál. Einnig mætti nefna söngvasýninguna Lífsdagbók ástarskálds eftir Þórarinn Hjartarson. Friðarverðlaun Nóbels. Friðarverðlaun Nóbels eða bara Friðarverðlaunin eru ein af þeim fimm verðlaunum sem sænski iðnjöfurinn Alfred Nobel stofnaði til með auðæfum sínum. Í erfðaskrá sinni kvað hann á um að friðarverðlaunin skyldi veita þeim sem gert hefði mest eða unnið best að bræðralagi þjóða, unnið að afvopnun og dregið úr hernaðarmætti og fyrir að standa fyrir og vinna að friðarráðstefnum. Friðarverðlaunin eru veitt af norska Stórþinginu, sem kýs sérstaka friðarverðlaunanefnd, sem aftur velur verðlaunaþegann. Hin Nóbelsverðlaunin sjá Svíar um. Handhafar friðarverðlauna Nóbels. Friðarverðlaun Íslenski fáninn. Íslenski fáninn er þjóðfáni Íslands. Hann var fyrst opinberlega staðfestur með konungsúrskurði 19. júní árið 1915. Lög um íslenska fánann voru hins vegar sett þann 17. júní 1944 og tóku gildi 24. ágúst, en þau voru fyrstu lögin sem samþykkt voru á eftir stjórnarskránni. Fáninn er svokallaður krossfáni eins og fánar allra hinna Norðurlandanna eru. Hann er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum. Hlutföllin í litum fánans eru, talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd hans samkvæmt 1. grein fánalaga. Samkvæmt fánalögum verða allir fánar dregnir á fánastöng að vera í góðu ástandi, lögreglan má gera upptæka alla fána sjáanlega á opinberum stöðum sem ekki samræmast íslenskum fánareglum. Ströng lög gilda um þá virðingu sem sýna ber þjóðfána Íslendinga og getur það varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári að brjóta fánalögin. Litirnir í íslenska fánanum tákna fjallablámann, ísinn og eldinn en það virðist útbreiddur misskilningur að blái liturinn tákni annað hvort hafið sem umkringur landið eða vötnin sem eru á landinu sjálfu. Hann táknar í raun fjallablámann en rauði liturinn táknar eldinn í iðrum landsins og sá hvíti ísinn á toppum þess. Opinberir fánadagar. Að auki mega opinberar stofnanir draga fánann að húni við sérstök tækifæri sem forsætisráðuneytið gefur tilskipun um. Almenningur má draga fánann að húni við sérstök tækifæri. Einnig er í reglum að fáninn skuli aldrei vera dreginn á stöng fyrir kl. 7 að morgni og sé að jafnaði ekki uppi lengur en til sólarlags en þó skal hann aldrei vera lengur uppi en til miðnættis. Hægt er að fá senda áminningu með tölvupósti daginn fyrir hvern opinberan fánadag, með því að skrá sig á síðunni www.faninn.is C (forritunarmál). Forritunarmálið C eða bara C er forritunarmál sem var þróað af Ken Thompson og Dennis Ritchie á áttunda áratugnum til notkunar á UNIX stýrikerfinu. Í dag er það notað á nær öllum stýrikerfum í heimi og var vinsælasta forritunarmálið til kerfisforritunar, einnig hafa verið gerðir þýðendur fyrir hina ýmsu örgjörva. C++, sem er útvíkkuð útgáfa af C og styður hlutbundna forritun, hefur nú tekið við af C á flestum sviðum. C fylgir engum einum staðli, en nokkrir staðlar eru til sem að menn geta kosið að fylgja, ef þeir kjósa svo. Vinsælustu staðlarnir eru fyrst K&R sem eins og nafnið gefur til kynna var það sem Ken og Dennis notuðu í byrjun, seinna voru fleiri staðlar búnir til, t.d. ANSI C ISO C (ISO 9899:1989) og C99 (ISO 9899:1999). Á Íslandi er í gildi Íslenskur staðall ÍST ISO 9899:1992 um forritunarmálið C, en sá staðall er mjög lítið viðurkenndur meðal forritara. C er mjög nálægt vélbúnaðinum, sem þýðir að C kóði hefur mjög litla falda virkni, og flestar skipanir þýðast beint yfir í smalamál með litlum breytingum. Einnig hefur C nánast ótakmarkaðann aðgang að minni tölvunnar. Þetta gerir C að öflugu forritunarmáli en jafnframt erfitt í viðhaldi og villuleit. Dorrit Moussaieff. Dorrit Moussaieff (hebreska: דורית מוסאיוף) (fædd í Jerúsalem 12. janúar 1950) er bresk athafnakona og forsetafrú Íslands, gift Ólafi Ragnari Grímssyni. Dorrit er af ísraelskum uppruna og gyðingatrúar, dóttir Shlomo og "Aliza Moussaieff" og er elst þriggja dætra þeirra hjóna. Hún hefur lengst af búið í Bretlandi þar sem fjölskylda hennar á stóra keðju skartgripaverslana og er á meðal ríkustu fjölskyldna Bretlandseyja. Dorrit og Ólafur giftust þann 14. maí 2003 á sextugasta afmælisdegi Ólafs. Hún er ekki fyrsta íslenska forsetafrúin sem er af erlendu bergi brotin, Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, átti danska konu.. Hún gerðist íslenskur ríkisborgari árið 2006. Þann 22. ágúst 2008 sagði hún: „Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi“ eftir að Íslendingar höfðu lagt Spánverja að velli i handbolta. Þann 27. desember 2012 flutti Dorrit lögheimili sitt til Bretlands, að sögn á grundvelli skattalaga og til að geta sinnt viðskiptum sínum og öldruðum foreldrum. Linux. a> er vinsælasta Linux-útgáfan í dag. Linux er frjáls stýrikerfiskjarni sem Linus Torvalds byrjaði að skrifa árið 1991, í dag vinna hundruð manna að honum en Linus Torvalds hefur þó enn yfirumsjón með þróununni. Hann er nær allur skrifaður í C, með nokkra hluta sem snúa að samskiptum við einstaka örgjörva í smalamáli. Er náskylt Unix stýrikerfinu og kallast Unix-legt. Upprunalega féll Linux ekki undir skilgreininguna "Frjáls hugbúnaður" þar sem bara mátti dreifa honum án hagnaðar, en snemma var leyfinu breytt í útgáfu 2 af hinu almenna GNU leyfi eða "GPL". Strangt til tekið vísar orðið Linux eingöngu til kjarnans, en í daglegu tali er orðið þó notað yfir öll þau stýrikerfi og dreifingar sem byggja á honum. Richard Stallman stofnandi og aðaldrifkrafturinn á bak við GNU verkefnið, sem leggur til fjölmarga aðra hluta frjálsra stýrirkerfa, hefur barist fyrir því að slík kerfi séu kölluð GNU/Linux en því hefur verið tekið dræmt. Álfur. Álfar eru goðsagnakenndar verur úr germanskri goðafræði sem hafa lifað í norður-evrópskum þjóðfræðum. Upprunalega kynstofn smávægilegra guða náttúru og frjósemi, þeim er oft lýst sem smáu, unglegu, mjög fögru fólki, sem býr í skógum og á öðrum náttúrulegum stöðum, neðanjarðar eða í vatnsuppsprettum. Þeir eiga jafnan að geta lifað að eilífu og hafa galdramátt. Álfar koma reglulega fram í goðafræði og ævintýrum fyrr á öldum sem og sögum dagsins í dag. Álfar í íslenskri þjóðtrú eru um margt sérstakir og er orðið notað um sérstakan flokk huldufólks. Íslenskir álfar búa jafnan í klettum eða steinum og iðka búskap sinn líkt og mennirnir en kjósa að vera látnir í friði. Í íslenskum þjóðsögum er mikið til af lýsingum af samskiptum álfa og manna. Háskalegt er þar jafnan að styggja álfa, t.d. með því að raska bústað þeirra eða slá svokallaða álagabletti. En sé þeim gerður greiði eru ríkuleg laun vís, til dæmis er í mörgum þjóðsögum greint frá gæfu þeirra sem aðstoðað hafa álfkonu í barnsnauð. Ralph Chubb. Ralph Nicholas Chubb (8. febrúar 1892 - 14. janúar 1960) var breskt skáld, prentari og listamaður. Reykjanesbær. Reykjanesbær er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga, hið fimmta fjölmennasta á Íslandi, með um 14 þúsund íbúa (2009). Það var stofnað 11. júní 1994 við sameiningu þriggja sveitarfélaga: Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps. Ásamt fleirum byggðarlögum á Reykjanesskaga telst Reykjanesbær vera hluti af Suðurnesjum. Keflavík og Njarðvík voru fyrst og fremst útgerðar- og fiskvinnslustaðir fyrr á tímum, en síðan hefur margt breyst. Kvótinn hefur flust annað og útgerð er nú svipur hjá sjón miðað við það sem var og fiskvinnsla lítil eða engin. Nú er Reykjanesbær þjónustubær (verslun, skólar, heilbrigðisþjónusta, hótel o. fl.) og iðnaðarbær. Árlega er haldin hátíð í Reykjanesbæ, sem kallast Ljósanótt. Þetta er mikil menningarhátíð með margs konar sýningum, tónleikum og samkomum af öllu tagi. Hátíðin er haldin fyrstu helgina í september. Hápunkturinn er á laugardagskvöldinu, en þá er kveikt á ljósum, sem lýsa upp Bergið (Keflavíkurberg, Hólmsberg). Undir lok sumars 2010 var fjallað um bága fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar í kjölfar þess að það uppfréttist að sveitarfélagið ætti í erfiðleikum með að endurfjármagna 1,8 milljarða króna lán hjá þýskum banka. Til þess að bregðast við bágu fjárhagsástandi voru lagðar fram tillögur um 450 milljóna króna niðurskurð í útgjöldum sveitarfélagsins á ársgrundvelli. Meðal þess sem skera á niður eru laun starfsmanna með lækkun á starfshlutfalli, viðhald á fasteignum og útgjalda vegna styrkveitinga. Dimmuborgir. Nokkrir af hinum fjöldamörgu dröngum sem eru í Dimmuborgum Dimmuborgir eru einstæðar hraunmyndanir við austanvert Mývatn. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Dimmuborgir á ári hverju. Myndun Dimmuborga. Hraunið sem rann þegar Dimmuborgir mynduðust kom frá eldgosi í Lúdentsborgum og Þrengslaborgum fyrir um 2000 árum og er það mesta hraungos sem orðið hefur á Mývatnssvæðinu eftir ísöld. Dimmuborgir eru staðsettar í lægð og er talið að þegar þær mynduðust hafi hraun frá fyrrnefndu gosi streymt í þessa lægð og smám saman fyllt hana af bráðnu hrauni. Á meðan á þessu stóð tók yfirborð hraunsins að storkna og sumstaðar storknaði það til botns og myndaði þá hraunstólpa sem fólk sér þegar það gengur um svæðið í dag. Storkið hraunið myndaði nokkurskonar þak ofan á bráðinni kvikunni en á endanum braust hraunið fram og tæmdist undan þakinu. Við þetta veiktist þakið svo að það hrundi niður og eftir varð það einstæða landslag sem flestir þekkja í dag sem Dimmuborgir. Þekktar hraunmyndanir. Sumar hraunmyndanir í Dimmuborgum eru þekktari en aðrar. Þeirra þekktust er tvímælalaust Kirkjan, hraunhvelfing sem opin er í báða enda og heitir svo vegna þess að lögun hennar minnir á kirkju. Hið íslenska bókmenntafélag. Hið íslenska bókmenntafélag er íslenskt bókaforlag sem var stofnað árið 1816 og er elsta starfandi félag á landinu. Félagið hefur gefið út mörg rit frá stofnun, þá helst íslensk en helst er það þekkt fyrir fræðiritið (áður fréttamiðill) Skírni sem hefur verið gefið út síðan 1827. Skírnir er elsta tímarit á Norðurlöndum. Hið íslenska bókmenntafélag var upphaflega stofnað af Bjarna Thorarensen, Bjarna Thorsteinssyni, Árna Helgasyni og Rasmusi Kristjáni Rask. Hið íslenska lærdómslistafélag var formlega sameinað hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1818. Um skeið var Jón Sigurðsson (f. 1811, d. 1879) forseti þess og festist það við hann og er hann þess vegna jafnan kallaður Jón forseti. Stofnun Hins íslenska bókmenntafélags. Árið 1813 kom danski málfræðingurinn Rasmus Kristján Rask til Íslands. Eftir veru sína á landinu taldi hann ljóst að ekki yrði talað íslenskt orð í Reykjavík að hundrað árum liðnum og tungan útdauð með öllu í landinu eftir 200 ár. Taldi hann vænlegast að stofna félag meðal Íslendinga, sem skyldi efla og styðja bókmenntir þeirra, vera til varnar og viðhalds íslenskrar tungu og styrkja almenna menntun. Í samráði við biskup samdi Rask boðsbréf árið 1815, þar sem gerð er grein fyrir hversu hinu fyrirhugaða félagi skuli vera háttað, það var síðan sent til allra prófasta landsins. Áður en Rasmus Kristján Rask fór af landinu hafði hann mælst til þess við séra Árna Helgason að hann tæki að sér að verða forseti félagsins. Eftir að Rasmus Kristján Rask kom aftur til Kaupmannahafnar, átti hann frumkvæðið að því að stofnað væri sams konar félag og hið íslenska, sem bæði Íslendingar í Kaupmannahöfn og Danir gengju í. Á fundi í Þrenningarkirkjunni í Kaupmannahöfn, hinn 30. mars 1816 var félagið formlega stofnað í Danmörku. Eftir að forsvarsmenn félagsins á Íslandi, einkum séra Árni Helgason, spurðu af stofnun félagsins í Danmörku kölluðu þeir menn til fundar í Reykjavík 1. ágúst 1816. Þar var lagt fram lagafrumvarpið sem komið fram á fundinum í Kaupmannahöfn en ályktun um það var frestað til næsta fundar. Sá fundur var haldinn 15. ágúst 1816 í Reykjavík og þar var samþykkt lagafrumvarpið og um leið ákveðið að félögin skyldu sameinast og vera tvær deildir í einu félagi er heita skyldi Hið íslenska bókmenntafélag. Þá fyrst er unnt að segja að félagið væri að fullu stofnað, þótt ekki væri endanlega frá lögum gengið fyrr en árið 1818. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags. Frá árinu 1970 hefur bókmenntafélagið gefið út ritröðina Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags. Í ritröðinni eiga að vera sígild fræðirit, „tímamótaverk í sögu mannlegrar hugsunar“ og önnur fræðileg rit sem þykja framúrskarandi góð og „sem hlotið hafa skýlaust lof“. Þótt ætlunin með ritröðinni hafi ekki verið að geyma fagurbókmenntir hefur eigi að síður myndast hefð fyrir því að gefa út þýðingar á ýmsum bókmenntum fornaldar sem lærdómsrit, enda teljast þau oftar en ekki tímamótaverk í sögu mannlegrar hugsunar. Flest eru ritin þýðingar úr erlendum málum en einnig eru nokkur rit íslensk. Ritin eru nú orðin 61 talsins og koma nokkur rit út árlega. Lærdómsritin voru um margt nýlunda í íslenskri bókaútgáfu, ekki síst vegna ritstjórnar ritraðarinnar og þeirrar ritstjórnarstefnu að hver þýðing skyldi unnin af sérfróðum manni og lesin yfir af minnst tveimur öðrum sérfróðum mönnum. Ítarlegur inngangur er að hverju riti og skýringar aftanmáls. Stofnandi ritraðarinnar var Þorsteinn Gylfason sem ritstýrði henni til ársins 1997. Þorsteinn Hilmarsson aðstoðaði við ritstjórn lærdómsritanna frá 1985 og var aðstoðarritstjóri 1989 – 1997. Vilhjálmur Árnason tók við ritstjórninni 1997 en núverandi ritstjórar eru Ólafur Páll Jónsson og Björn Þorsteinsson. Núverandi forseti er Sigurður Líndal lagaprófessor. Stöðulögin. Stöðulögin voru lög sett af Dönum árið 1871, svo nefnd því þau ákvörðuðu stöðu Íslands gagnvart Danmörku. Stöðulögunum fylgdi svo fyrsta stjórnarskrá Íslands árið 1874. Nokkuð var liðið frá því að einveldi Danakonungs hafði verið lagt af 1848 og nú hafði danska þingið löggjafarvald. Einokunarverslun Dana var lögð af 1855 og áframhaldandi barátta Íslendinga, leidd af Jóni Sigurðssyni og stuðningsmönnum hans, fyrir sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga fengu dræmar undirtektir í Kaupmannahöfn. Frumvarp stjórnarskrár fyrir Íslendinga var samþykkt á Alþingi með breytingum en hafnað af danska þinginu 1867. Loks setti danska þingið "stöðulögin" sem byggðust á því að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti af Danmörk. Í „skaðabætur“ fyrir það ætlaði danska ríkið að greiða Íslendingum 50.000 ríkisdali fyrstu tíu árin en síðan myndi upphæðin lækka hvert ár næstu 20 árin niður í 30.000 rd. Íslendingar voru ekki sáttir við lögin og var þeim hafnað af Alþingi með 10 atkvæðum gegn 14. Samkvæmt frumvarpinu var sérstakur landshöfðingi skipaður, Hilmar Finsen þann 1. apríl 1873, til þess að stjórna landinu eftir fyrirskipunum frá danska dómsmálaráðuneytinu. Síðan var samið nýtt frumvarp byggt á því sem var samið á Þjóðfundinum 1851 en því var hafnað síðan af Dönum. Hvalfjarðargöng. Hvalfjarðargöngin eru jarðgöng á milli Suðvesturlands og Vesturlands. Í þeim liggur Vesturlandsvegur undir utanverðan Hvalfjörð. Göngin eru samtals 5770 metrar að lengd og þar af liggja 3750 metrar undir sjó. Göngin eru að mestu tvíbreið en þrjár akreinar í hallanum norðan megin. Dýpst fara göngin 165 metra undir yfirborð sjávar og eru grafin djúpt í berggrunninn undir sjávarbotninum. Um 5.500 bílar ferðast um göngin á sólarhring en göngin voru upprunalega hönnuð fyrir aðeins fimm þúsund bíla á sólarhring. Um framkvæmdina. Göngin voru grafin á árunum 1996-1998 og voru opnuð fyrir bílaumferð þann 11. júlí 1998 af þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsyni. Frá opnun ganganna hafa um 14 milljónir ökutækja farið um göngin eða um 5.500 bílar á sólarhring að meðaltali. Við byggingu ganganna var farin ný leið í slíkum stórframkvæmdum á Íslandi þar sem einkafyrirtæki stóð fyrir framkvæmdunum og fjármagnaði án aðkomu ríkissjóðs. Það er Spölur ehf. sem sá um framkvæmdina og er nú rekstraraðili og eigandi Hvalfjarðarganganna í dag og innheimtir veggjald af vegfarendum til að borga fyrir framkvæmdina. Upphaflega var áætlað að göngin yrðu greidd að fullu eftir 20 ár frá opnun en umferð um þau hefur reynst töluvert meiri en gert var ráð fyrir og því mun það mark nást nokkuð fyrr. Um það var samið að íslenska ríkið eignaðist göngin þegar þau verða greidd að fullu. Notkun gangnanna. Frá þeim tíma hafa ríflega 15 milljónir ökutækja farið um göngin og meðaltalsumferð er um 5.500-6.000 bílar á sólarhring en göngin voru upprunalega hönnuð fyrir aðeins fimm þúsund bíla á sólarhring. Talið er að vegna hækkandi bensínverðs frá árinu 2003 þá hafi eitthvað dregið úr umferðinni. Göngin voru mikil samgöngubót fyrir alla sem leið eiga um Hvalfjörð þar sem þau stytta leiðina frá Borgarfirði að Reykjavík um 42 km. Mestu hafa göngin þó breytt fyrir íbúa Akraness en landleið þeirra til Reykjavíkur styttist um 60 km með tilkomu ganganna og gerði það kleyft að nú sækja margir vinnu til Reykjavíkur frá Akranesi og öfugt. Svindl. Eitthvað hefur verið um það að fólk svindli sér í göngin án þess að borga en hefur þetta farið upp í 39 skipti og jafnvel 65. Ný göng. Spölur ætlast til að ný göng, samhliða Hvalfjarðargöngunum, verði grafin til að sporna við umferð, en þeir telja að það muni vera varasamt fari umferð yfir sex þúsund bíla á dag. Ætlar Spölur að hin nýju göng verði klár árin 2013-2014, en tilraunaborunum er lokið. Kópavogsfundurinn. Kópavogsfundurinn var haldinn 28. júlí 1662 á Kópavogsþingi og var tilgangur hans að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldið. Áður fyrr var einveldið þannig að konungur væri kjörinn af helstu fulltrúum ríkisins en yrði síðan ekki löglega konungur fyrr en fulltrúar allra þjóðanna sem tilheyrðu Danaveldi höfðu samþykkt hann. Svíar höfðu fengið nóg af yfirráðum Dana yfir Eyrarsundi og orsakaði það stríð á milli þeirra tveggja. Afleiðingar stríðsins settu fjárhag Dana í rúst og vildi Friðrik 3. koma á erfðaeinveldi að evrópskri fyrirmynd þar sem konungsvaldið gengi sjálfkrafa í arf. Þessi aðgerð var meðal annars til þess að takmarka völd aðalsins í Danmörku. Henrik Bjelke, aðmíráll, fulltrúi konungs, kom til Íslands á fund í Kópavogi til þess að fá íslenska höfðingja til að undirrita Erfðahyllinguna. Samningurinn var síðan kallaður Kópavogssamningurinn og afleiðingarnar voru þær að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi án sérstaks samþykkis Alþingis Íslendinga. Erfðaeinveldið gilti til ársins 1874 þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá. Sagnir um að Bjelke hafi hótað Íslendingum með herliði til að neyða Íslendinga til að samþykkja Erfðahyllinguna komust í hámæli eftir að tveir minnismiðar fundust í kistu Jóns Sigurðssonar sem sögðu frá því að Brynjólfur Sveinsson biskup hefði andmælt þessari löggjöf en Bjelke minnt hann á hermennina og að Árni Oddsson, lögmaður hafi tárfellt við undirskriftina. Þessari harmasögu var slegið upp í Þjóðólfi í miðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Ekkert í samtímaheimildum bendir hins vegar til annars en að hér hafi verið um annað að ræða en formlegt samþykki á "fait accompli", þ.e. að samþykkt Alþingis á lögum konungs hafði um langt skeið áður verið sjálfvirk. Annálar minnast Kópavogsfundarins helst fyrir það að eftir undirskriftina var haldin mikil og vegleg veisla með flugeldasýningu og fallbyssuskotum. Gamli sáttmáli. Gamli sáttmáli var samkomulag Íslendinga við Hákon gamla, Noregskonung. Sáttmálinn var gerður 1262 og fól hann það í sér, að konungur Noregs væri jafnframt konungur Íslands og að Íslendingar væru skattþegnar Noregskonungs. Á móti skuldbatt Noregskonungur sig til þess að halda uppi siglingum til Íslands og skyldu ekki færri en sex skip koma til Íslands frá Noregi árlega með nauðsynjavarning. Þótti þetta vera misjafnlega efnt af hálfu Noregskonungs. Ekki var lokið við að undirrita samninginn fyrr en árið 1264 þegar Magnús lagabætir var orðinn konungur í Noregi, og er því venjan að tala um að Íslendingar hafi gengið Noregskonungi á hönd árið 1262/64. Konungur taldi Gamla sáttmála fallinn úr gildi eftir Kópavogsfundinn 1662 og þegar frelsisbarátta Íslendinga stóð sem hæst á 19. öld undir forystu Jóns Sigurðssonar forseta, vísaði hann oftar en ekki til ákvæða Gamla sáttmála og hélt því alltaf fram að hann væri í fullu gildi, þó að það væri mjög umdeilt. Þetta var samt hans sterkasta vopn og ásamt öðrum reyndist það bíta. Fræðimaðurinn Patricia Pires Boulhosa hefur sett fram þá kenningu að Gamli sáttmáli sé ekki frá 13. öld heldur frá 15. öld. Sandgerði. Sandgerðisbær (áður Miðneshreppur) er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga. Nær hann yfir alla vesturströnd Miðness (Rosmhvalaness), allt út að Garðskaga. "Miðneshreppur" var stofnaður árið 1886 þegar Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt eftir endilöngu nesinu. Hélt hinn hlutinn gamla nafninu áfram en hann náði yfir byggðirnar innan megin á nesinu: Garð, Leiru og Keflavík. Miðneshreppur fékk kaupstaðarréttindi 3. desember 1990 og nefndist upp frá því "Sandgerðisbær". Sandgerðishverfi er eitt af sjö hverfum Miðneshrepps/Sandgerðis og talið að sunnan frá Ósabotnum nefnast þau: Stafneshverfi, Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi, Bæjarskershverfi, Sandgerðishverfi, Flankastaðahverfi og Kirkjubólshverfi. Við jarðamatið 1861 voru fimm býli skráð í Sandgerðishverfi: Krókskot, Landakot, Tjarnarkot, Bakkakot, auk Sandgerðisjarðar. Bakkakot eignaðist ekki nein landréttindi, heldur var tómthús. Hin býlin urðu sjálfstæðar jarðir með hlutdeild í sameiginlegum réttindum hverfisins. Auk heiðarlandsins sem allar fjórar jarðirnar eiga sameiginlega, eru svonefnd Lönd í sameign Krókskots og Sandgerðisjarðar. Íbúar í Sandgerði eru rúmlega 1700 og hefur verið nokkur fjölgun síðustu áratugi. Sjávarútvegur og fiskvinnsla eru helstu atvinnuvegir, einnig iðnaður, verslun og þjónusta í frekar smáum stíl. Allgóð höfn er í Sandgerði og hafa viðamiklar hafnarframkvæmdir átt sér þar stað á seinni hluta 20. aldar. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er innan bæjarmarka Sandgerðis. Sandgerði var upphaflega útvegsjörð í betra lagi og bjuggu þar góðbændur, sem aðallega höfðu fiskinn í sjónum að bústofni. Eins og nafnið gefur til kynna er jarðvegur þarna mjög sendinn og ekki vel fallinn til ræktunar. Sandurinn var að miklu leyti heftur með umfangsmikilli ræktun melgresis og hleðslu mikils sjóvarnargarðs á fyrri hluta 20. aldar. Í Sandgerði er Björgunarsveitin Sigurvon, sem er fyrsta björgunarsveit sem stofnuð var á vegum Slysavarnafélags Íslands. Rekur hún björgunarbátinn Hannes Þ. Hafstein og hefur mörgum verið bjargað úr sjávarháska og komið til aðstoðar vegna slysa eða sjúkdóma á hafi úti með þessum bát. Sandgerðisbær nær frá Garðskagatá í norðri að Ósabotnum í suðri. Kirkjustaður er á Hvalsnesi, en þar var Hallgrímur Pétursson, sálmaskáld, (1614 - 1674) fyrst prestur árin 1644 - 1651. Sandgerðisbær var draumasveitarfélag Suðurnesja árið 2007 og var í 13. sæti yfir öll sveitarfélög á Íslandi. Gottfried Wilhelm von Leibniz. Gottfried Wilhelm von Leibniz (1. júlí 1646 í Leipzig – 14. nóvember 1716 í Hannover) var þýskur stærðfræðingur, heimspekingur, vísindamaður, bókasafnsfræðingur, stjórnmálamaður og lögfræðingur af sorbískum ættum. Hugtakið "fall" er komið frá honum (1694), þar sem að hann notar það til þess að lýsa magni með tilliti til ferils. Hann er einnig, ásamt Isaac Newton, kenndur við þróun stærðfræðigreiningar, einkum heildun, en báðir voru mikilvægir boðberar upplýsingarinnar. Menntun. Hann var fæddur í Leipzig og talinn ótrúlega gáfaður sem ungmenni; hann hóf göngu sína í Leipzig-háskóla við fimmtán ára aldur. Þaðan útskrifaðist hann með gráðu í heimspeki sautján ára og lauk doktorsprófi í lögfræði tvítugur að aldri. Reiknivél. Leibniz smíðaði fyrstu vélrænu reiknivélina sem gat framkvæmt margföldun og deilingu. Hann þróaði enn fremur nútíma ritmáta tvenndarkerfisins ("binary") og notaðist við það í stafrænum reiknivélum. Ýmsir hafa velt fyrir sér þeim möguleika hvað hefði gerst ef að hann hefði sameinað þróun sína á tvíundarkerfinu við þróunina í vélrænum reikningum. Stærðfræðigreining. Leibniz og Isaac Newton eru taldir upphafsmenn örsmæðareiknings - þ.e. deildunar- og heildunarreiknings um 1670. Eftir minnispunktum hans að dæma kom stóra uppgötvun hans þann 11. nóvember 1675 þegar hann notaði heildun í fyrsta sinn til þess að finna flatarmál undir fallinu y=x. Hann lagði fram ýmsa ritmáta sem eru notaðir í stærðfræðigreiningu í dag, til dæmis merkið ∫, sem er teygt S komið af latneska orðinu "summa", og "d" sem notað er í deildun (enska: differentiation, stundum nefnd diffrun á íslensku) frá latneska orðinu "differentia". Táknvís hugsun: Verk Leibniz í formlegri rökfræði. Leibniz taldi að tákn væru mjög mikilvæg fyrir skilning manna á fyrirbærum. Hann reyndi því að þróa stafróf mannlegra hugsana, þar sem að hann reyndi að lýsa öllum grunnhugtökum heimsins með táknum, og sameinaði þessi tákn til þess að einkenna flóknari hugsanir. Leibniz kláraði þetta aldrei, en að mörgu leyti svipar þetta til annarra náttúrulegra tungumála sem nota táknmyndir, t.d. kínverska og súmerska. Á sama tíma var annar breskur heimspekingur, John Wilkins að nafni, að reyna að þróa algilt heimspekimál ("Universal philosophical language") þar sem að hann notaði "Real character" stafrófið. Allar hugmyndir okkar eru samsettar úr mjög fáum einföldum hugmyndum sem skapa stafróf mannlegrar hugsunar. Flóknar hugmyndir koma fram úr þessum einföldu hugmyndum eftir algildri og samhverfri samsetningu sem er sambærileg við stærðfræðilega margföldun. Með tilliti til fyrri þáttarins, þá er fjöldi einfaldra hugmynda mun meiri en Leibniz taldi, og með tilliti til seinni þáttarins, þá telur rökfræði til þrjár aðgerðir — sem eru nú þekkt sem lógísk margföldun, lógísk samlagning og lógísk neitun, en ekki bara ein aðgerð. Tákn voru, að því er Lebiniz taldi, hvaða rituðu form sem er, en „raunveruleg“ tákn voru þau sem, líkt og í kínverskum myndtáknum, lýstu hugtökum beint en ekki orðunum sem við notum til þess að setja skilning í hugtakið. Meðal raunverulegra tákna voru sum hugmyndafræðileg, og sum voru til þess að bjóða upp á málamiðlun. Egypsk og kínversk hýróglýfur, ásamt táknum stjarnfræðinga og efnafræðinga teljast til fyrri hópsins, en Leibniz taldi þau ófullkomin, og vildi gefa út seinni hópinn með það sem að hann kallaði "alheimseinkennið". Það var ekki í formi algebru sem að hann fann fyrst upp á þessu einkenni, líklega þar sem að hann var þá mjög stutt kominn í stærðfræði, heldur í formi alheimstungumáls eða -ritmáls. Það var árið 1676 sem að hann fyrst fór að láta sig dreyma um táknvísa hugsun, og það var táknvísi rithátturinn sem að hann notaðist síðar við sem grunn fyrir táknkerfið. Leibniz taldi svo mikilvægt að almennileg tákn væru fundin upp að hann lagði alla vinnu sína í stærðfræði á það að finna almennileg tákn. Örsmæðareikningur hans er einmitt fullkomið dæmi um getu hans til þess að finna viðeigandi tákn. Frumspeki. Heimspekilega framlag hans til frumspekinnar er í formi mónöðufræðinnar, sem leggur fram "mónöður" eða "einunga" (þý.: "Monaden" af gríska orðinu "monas") sem grunnform tilverunnar, sem eru nokkurs konar andlegar frumeindir eða atóm; eilíf, ódeilanleg, einstök, fylgjandi sínum eigin lögmálum, og hafa ekki áhrif hvert á annað, heldur er hvert og eitt ímynd alls alheimsins í forskapaðri fullkomnun. Með þessari hugmyndafræði er hægt að brúa bilið milli huglægs og hlutlægs heims, sem að René Descartes átti erfitt með að útskýra, sem og einstaklingssetninguna sem að Baruch Spinoza komst ekki fram hjá með lýsingu sinni á einsökum verum sem óvæntum afglöpum frá hinu eina og sanna efni. Guðrétta og jákvæðni. Árið 1710 kom út ritið "Guðrétta" en það hefur verið nefnt eitt af höfuðritum 18. aldar. Þar reynir Leibniz að réttlæta augljósa galla heimsins með því að leggja til að heimurinn sé meðaltal allra mögulegra heima - að heimurinn okkar hljóti að vera besti mögulegi og jafnasti heimurinn, þar sem að hann var skapaður af fullkomnum Guði. Staðhæfingin um að „við lifum í besta mögulega heiminum“ var álitin skopleg af mörgum samtímamönnum Leibniz, þá sérstaklega François Marie Arouet de Voltaire, sem fannst hún svo fáranleg að hann gerði lítið úr honum í bókinni "Birtíngur", þar sem að Leibniz kemur fram sem persónan prófessor Altúnga (Dr. Pangloss). Þessi ádeila varð til þess að hugtakið „panglossi“ varð til, sem er haft um það fólk sem telur sig búa í fullkomnasta mögulega heiminum. Leibniz er talinn vera sá fyrsti til þess að leggja til að gagnvirkni væri nytsamleg til þess að kanna margs kyns fyrirbæri í mörgum fræðigreinum. Textafræði. Leibniz hafði áhuga á textafræði og málvísindum og nam mörg tungumál, hafði ákafan áhuga á að auka orðaforða sinn og skilning sinn á málfræði. Hann hrakti þá kenningu, sem var útbreidd meðal kristinna manna, að hebreska hefði verið upprunalegt tungumál mannkyns. Hann hrakti einnig kenningu sænskra fræðimanna síns tíma að gömul sænska væri uppruni allra annarra germanskra tungumála. Hann braut heilann um uppruna slavnesku málanna, vissi af tilvist sanskrít og var heillaður af klassískri kínversku. Hann gaf út frumútgáfu ("princeps editio") miðaldatextans "Chronicon Holtzatiae", sögu Holstein-sýslu á latínu. Kaldrananeshreppur. Kaldrananeshreppur í Strandasýslu nær frá Selá í Steingrímsfirði að sunnan að Spena norðan við Kaldbaksvík. Í hreppnum er þorpið Drangsnes á Selströnd norðan við Steingrímsfjörð. Nokkur byggð er einnig í Bjarnarfirði milli Steingrímsfjarðar og Kaldbaksvíkur. Drangsnes. Drangsnes er lítið þorp á Selströnd yst við norðanverðan Steingrímsfjörð í Strandasýslu. Íbúar í Kaldrananeshreppi voru 110 (í árslok 2010) og hefur lítið fækkað síðastliðin ár. Í Hveravík skammt innan við þorpið eru heitir hverir í fjöruborðinu alveg í vegarkantinum. Þar lifa sérstakar hitaþolnar flær. Þar var áður sundlaug. Í nágrenninu er Strákatangi þar sem hafist var handa haustið 2005 við fornleifauppgröft á hvalveiðistöð Baska frá 17. öld. Á Drangsnesi er löndunarbryggja, en 2,5 km innan við þorpið, í Kokkálsvík, er viðleguhöfn. Yst í þorpinu, þar sem heita Grundir, er sérkennilegur steindrangur, sem heitir Kerling. Þorpið dregur nafn af þessum drangi, en þjóðsagan segir að hann hafi verið eitt af þremur tröllum sem reyndu að grafa Vestfirði frá meginlandinu. Fyrir ofan þorpið er Bæjarfell (344 m). Þaðan er víðsýnt og er þægileg gönguleið á fellið. Við mynni Steingrímsfjarðar utan við Drangsnes er Grímsey, sannkölluð náttúruperla. Þar er stór lundabyggð. Einungis 10 mínútna sigling er út í eyjuna og eru ferðir til Grímseyjar á sumrin með bátnum Sundhana, sem einnig býður upp á sjóstangaveiði. Árið 1996 fannst heitt vatn við borun í miðju þorpinu og var lögð hitaveita í öll hús. Í fjöruborðinu neðan við þorpið eru heitir pottar, sem öllum er frjálst að nýta sér, wc og skiptiklefar voru opnaðir sumarið 2011 og eru þeir staðsettir hinum meginn við götuna. Sumarið 2005 var Sundlaugin á Drangsnesi opnuð, en hún er útisundlaug með vaðlaug, heitum potti og eimbaði. Drangsnesingar hafa haldið Bryggjuhátíð árlega frá 1996 og dregur hún til sín fjölda fólks hvert sumar. Flestir Drangsnesingar taka þátt í undirbúningi hátíðarinnar í sjálfboðavinnu. Á Drangsnesi er boðið upp á gistingu í tveggja manna herbergjum og einnig á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Sígild aflfræði. Sígild aflfræði (stundum kölluð klassísk aflfræði) er eðlisfræði, sem fæst við krafta sem verka á hluti. Oft er talað um hana sem „Aflfræði Newtons“ eftir lögmálum, sem við hann eru kennd, um hreyfingu „sígildra“ hluta. Sígild aflfræði er skipt niður í tvo hluta, stöðufræði (sem fjallar um hluti í kyrrstöðu) og hreyfifræði (sem fjallar um hluti á hreyfingu). Sígild aflfræði lýsir hversdaglegum hlutum nokkuð vel. Hún bregst hinsvegar þegar hlutir ferðast um á hraða nálægt ljóshraða, þá þarf að notast við afstæðilega aflfræði. Þegar kerfi eru svo lítil að taka þarf tillit til skammtafræði hluta eða þegar kerfi eru bæði lítil og ferðast um á hraða nálægt ljóshraða, þá tekur afstæðilega skammtasviðsfræði-kenningin við. Samt sem áður þá er sígild aflfræði gagnleg vegna þess að hún er mun einfaldari í notkun en hinar kenningarnar og er góð nálgun á mjög marga hluti. Sígild aflfræði getur lýst hreyfingu stórra hluta eins og bolta, reikistjarna og líka nokkurra smárra hluta eins og lífrænna sameinda. Þótt sígild aflfræði sé nokkurnvegin samkvæm öðrum „sígildum“ kenningum eins og rafsegulfræði og varmafræði, þá kom fram ósamræmi á milli kenninga og tilrauna á seinni hluta 19. aldar, sem aðeins nútímakenningar geta útskýrt. Sérstaklega þá segir klassísk óafstæðileg rafsegulfræði að ljóshraðinn sé fasti miðað við ljósvaka, sem er erfitt að skýra í heimi sígildrar aflfræði og leiddi til þróunar á takmörkuðu afstæðiskenningunni. Sameining sígildrar aflfæði og sígildrar varmafræði leiðir til svokallaðrar þversagnar Gibbs, þar sem óreiða er ekki vel skilgreind stærð og einnig til útfjólubláa stórslyssins þar sem svarthlutur sendir frá sér óendanlega mikla orku. Tilraunir til lausna á þessum vandamálum leiddu til þróunar á skammtafræði. Lýsing kenningarinnar. Hér verða kynnt grunnhugtök sígildarar aflfræði. Til einföldunar er skoðað kerfi „punktagnar“, sem er eind (hlutur) þar sem stærð eindarinnar er nánast núll. Hreyfing punktagnar er skilgreind af fáum kennistærðum: staðsetningu, massa og kröftunum sem virka á hana. Við munum ræða hverja þessa kennistærð. Þeir hlutir sem sígild aflfræði getur lýst eru ekki punktagnir heldur hafa endanlega stærð. Punktögnum eins og t.d. rafeindum er lýst með skammtafræði. Hlutir með endanlega stærð hafa flóknara hegðunarmynstur en punktögn, vegna þess að innri hegðun þeirra getur breyst - t.d. bolti getur snúist á meðan hann flýgur í gegnum loftið. Hinsvegar munum við geta notað niðurstöður okkar fyrir punktagnir til að rannsaka slíka hluti með því að hugsa um þá eins og safn mjög margra punktagna sem allar hafa áhrif hver á aðra. Við getum þá sýnt að slíkir samansettir hlutir hegða sér eins og punktagnir, gerandi ráð fyrir að þeir séu smáir miðað við lengdirnar sem um ræðir í vandamálinu, sem gefur til kynna að notkun okkar á punktögnum sé leyfileg í útleiðslu sígildarar aflfræði. Staðsetning og afleiður hennar. Staðsetning punktagnar er skilgreind með tilliti til einhvers punktar í rúminu, sem er oftast kallaður upphafspunktur, O. Staðsetning er skilgreind sem vigur r frá O til agnarinnar. Almennt séð þarf ögnin ekki að vera kyrr svo r er fall af "t", tímanum sem er liðinn frá einhverjum ákveðnum upphafstíma. Fyrir daga afstæðiskenningar Einsteins var tíminn álitinn altækur í öllum viðmiðunarkerfum. Hraði. Hraði er skilgreindur sem hlutfall breytingar á staðsetningu og þess tíma sem breytingin tekur, eða afleiða staðsetningarvigursins með tilliti til tíma Í sígildri aflfræði er hægt að leggja saman og draga frá hraða án nokkurra vandkvæða, þetta breytist þegar hlutir eru komnir á ljóshraða eða nálgast hann. T.d. ef bíll er að ferðast í austur á hraða 60 km/klst og fer fram úr öðrum bíl sem einnig ferðast austur en er á hraða 50 km/klst þá er fyrri bíllinn á hraða 60 - 50 = 10 km/klst hraða í austur átt frá sjónarhóli bílsins sem tekið er framúr. Frá sjónarhóli bílsins sem ekur hraðar er hinn bíllinn að ferdast í vestur á hraðanum 10 km/klst (eða í austur á hraðanum -10km/klst). Hröðun. Þegar hlutur hægir á sér er talað um neikvæða hröðun. Í því tilfelli hafa hraðavigurinn og hröðunarvigurinn mismunandi stefnu. T.d. þegar bolta er hent upp í loft þá er hraðavigurinn í sömu stefnu og boltinn er að fara (þ.e. beint upp) en hröðunarvigurinn hefur stefnu í þveröfuga átt (þ.e. beint niður). Viðmiðunarrammar (hnitakerfi). Eftirfarandi yrðingar um atburði í tveim viðmiðunarrömmum, "S" og "S er hægt að leiða út. "S ferðast með hraða "u" miðað við "S". Kraftar; Annað lögmál Newtons. Annað lögmál Newtons gefur samband á milli massa og hraða eindar og vigurstærðar sem er þekkt undir nafninu kraftur. Gerum ráð fyrir að "m" sé massi eindar og F sé vigursumma allra krafta sem virka á eindina (þ.e. heildar kraftur), þá segir annað lögmál Newtons að Stærðin "m"v er kölluð skriðþungi. Venjulega er massinn "m" fasti og annað lögmál Newtons er hægt að skrifa á einfaldari hátt þar sem a er hröðunin eins og hún var skilgreind fyrir ofan. Það er ekki alltaf satt að "m" sé óháð tíma. T.d. minnkar massi eldflaugar jafnóðum þegar eldsneytið brennur upp. Undir slíkum kringumstæðum er ofangreind jafna röng og nota verður rétt form ofangreindrar jöfnu. þar sem λ (lambda) er jákvæður fasti. Þegar við höfum fengið slíkar jöfnur fyrir sérhvern kraft sem virkar á eindina þá stingum við þeim inn í annað lögmál Newtons og fáum venjulega diffurjöfnu, sem er kölluð hreyfijafna eindarinnar. Gerum nú ráð fyrir að núningskraftur sé eini krafturinn sem virkar á eindina. Þá er hreyfijafnan Þetta er hægt að heilda sem gefur þar sem v0 er upphafshraði eindarinnar. Þetta þýðir að hraði eindarinnar minnkar veldisvaxandi í átt að núlli með auknum tíma. Þessa jöfnu er hægt að heilda aftur til að fá staðsetninguna r sem fall af tíma. Mikilvægir kraftar eru meðal annars þyngdarkrafturinn og Lorentz krafturinn í rafsegulfræði. Þar að auki er oft hægt að nota þriðja lögmál Newtons til að finna út hvaða kraftar virka á eind. Ef við vitum t.d. að eind A virkar á aðra eind B með krafti F, þá virkar eind B á eind A með jafn stórum krafti F en í andstæða átt og því sett mínus fyrir framan hann -F. Orka. Ef kraftur F virkar á eind og færir hana til um δr þá er vinnan sem er framkvæmd gefin með stigstærðinni Gerum ráð fyrir að massi eindarinnar sé fasti og δ"W"H sé heildarvinnan framkvæmd á eindina, sem við fáum með því að leggja saman vinnuna sem er framkvæmd af hverjum krafti fyrir sig. Frá öðru lögmáli Newtons getum við sýnt að þar sem "T" er kölluð hreyfiorka. Fyrir punkteind er hún skilgeind sem Fyrir hluti sem eru samsettir úr mörgum minni eindum er hreyfiorka hlutarins summan af hreyfiorku hverrar eindar fyrir sig. Gerum ráð fyrir að allir kraftar sem virka á eind séu geymdir og "V" sé heildar stöðuorkan, fengin með því að leggja saman allar stöðuorkur sem tilheyra hverjum krafti. Þá er Þessi niðurstaða er þekkt sem lögmálið um varðveislu orkunnar, og segir að heildar orka, formula_15 sé fasti í tíma. Þetta er mjög mikilvæg niðurstaða því oftast eru kraftar geymdir. Frekari niðurstöður. Lögmál Newtons veita margar mikilvægar niðurstöður fyrir samansetta hluti. Sjá hverfiþungi. Til eru tvær aðrar útgáfur af sígildri aflfræði: aflfræði Lagrange og aflfræði Hamiltons. Þær eru jafngildar aflfræði Newtons en eru oft þægilegri í notkun til að leysa vandamál. Þessar, og aðrar nútímalegar útgáfur, tala yfirleitt ekki um krafta heldur um stærðir eins og orku til að lýsa aflfræðilegum kerfum. Saga. Grikkir og þá sérstaklega Aristóteles voru fyrstir til að koma með þá tillögu, að náttúrunni væri stjórnað af sértækum lögmálum. Einn af fyrstu vísindamönnunum sem kom með þannig lögmál var Galileo Galilei sem gerði hina frægu tilraun að láta tvær misþungar fallbyssukúlur falla af skakka turninum í Pisa. (Kenningin og tilraunin sýndu að þær lentu samtímis.) Þó að deilt sé um það hvort hann hafi í raun framkvæmt þessa tilraun, þá er vitað að hann framkvæmdi aðrar tilraunir með því að rúlla boltum á skábretti; kenning hans (sem var rétt) um hraðaða hreyfingu var greinilega fengin frá niðurstöðum þessara tilrauna. Newton var fyrstur til að leggja til hin þrjú lögmál hreyfingar (tregðulögmálið, annað lögmálið sem nefnt er að ofan, og lögmálið um átak og gagntak) og sanna að þessi lögmál stýrðu bæði hlutum á jörðunni og í geimnum. Newton þróaði líka örsmæðareikninginn sem er nauðsynlegur til að framkvæma þá útreikninga sem þörf er fyrir í klassískri aflfræði. Eftir Newton varð viðfangsefnið meira stærðfræðilegt og sértækt. Rafsegulmagn. Rafsegulmagn kallast víxlverkun rafsegulsviðs við efni, sem hefur rafhleðslu eða segulmagn. Þótt raf- og segulkraftar hljómi nokkuð framandi þá eiga næstum allir atburðir sem við upplifum í daglegu lífi (fyrir utan þyngdarkraftinn) upptök sín í rafsegulfræði. Kraftarnir á milli atóma, þar á meðal aðdráttarkrafturinn á milli atóma í fast efni sem veldur því að efni stífnar, eru meira eða minna rafsegulkraftar. Einnig allir stærri kraftar eins og núningskraftar eiga rætur sínar að rekja til rafsegulkraftsins, maður þarf bara að skoða kerfið nógu smátt. Litirnir sem við sjáum frá öllum hlutum eru ljós með mismunandi bylgjulengdir og hægt er að lýsa ljósi sem rafsegulbylgjum sem eru truflanir á rafsegulsviðinu. Þarna sést að mikil þörf er á því að skilja rafsegulfræðina. Kenningar rafsegulfræðinnar. Klassísk rafsegulfræði var þróuð af nokkrum eðlisfræðingum á 19. öld, og náði hápunkti í vinnu James Clerk Maxwell sem sameinaði fyrri kenningar í eina kenningu og komst að rafseguleiginleikum ljóss. Klassísk rafsegulfræði lýsir hegðun rafsegulsviðsins með jöfnum sem kallast jöfnur Maxwells. Krafturinn, sem rafsegulsviðið virkar á rafhlaðna ögn með, kallast Lorentzkraftur. Árið 1940 var lokið við að sameina skammtafræði og rafsegulfræði og kallast sú kenning skammtarafsegulfræði (enska "Quantum electrodynamics", skammstafað "QED" (ekki skal ruglað saman við QED í stærðfræði). John Hume. John David Hume er írskur stjórnmálamaður, sem meðal annars stofnaði SDLP (Sósíalíska lýðræðissinnaða verkamannaflokkinn á Írlandi). Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1998 ásamt David Trimble fyrir að hafa stofnað til samningaviðræðna fyrir samning föstudagsins langa árið 1998, sem var raunsæ tilraun til þess að binda enda á um 80 ára ófrið á Írlandi. Hume, John Isaac Newton. "Newton, getur einnig átt við SI-mælieininguna njúton." Sir Isaac Newton (1642 – 1727) var enskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur, stjarnfræðingur, náttúruspekingur og gullgerðarmaður. Hann bar höfuð og herðar yfir flesta samtímamenn sína og gjörbylti stærðfræði og eðlisfræði 17. aldar. Framlög hans til þessara fræða voru meðal annars örsmæðareikningur, aflfræðin, þyngdarlögmálið, lögmálið um hreyfingu reikistjarna á braut, tvíliðuröðin (binomial series), aðferð Newtons í tölulegri greiningu auk mikilla fræða um lausnir jafna og fleira. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Newton sagðist þola illa gagnrýni og þess vegna birti hann ekki niðurstöður rannsókna sinna fyrr en seint og um síðir og sumar aldrei. Sem dæmi um þetta er sagt að Edmund Halley, sem halastjarna Halleys er kennd við, hafi árið 1684 stungið upp á því við Newton að hann kannaði hvernig það aðdráttarlögmál væri, sem leiddi af sér niðurstöður Keplers um hreyfingar reikistjarnanna. Þá svaraði Newton því til, að þetta væri hann búinn að leiða út fyrir mörgum árum, það væri lögmálið um andhverfu fjarlægðarinnar í öðru veldi. Halley var undrandi á að Newton skyldi ekki hafa gefið þetta út, og skoraði á hann að birta niðurstöður rannsókna sinna. Newton lét loks af því verða árið 1687, er hann gaf út höfuðrit sitt "Philosophiae Naturalis Principia Mathematica", oftst nefnt Principia. Hin frægu þrjú lögmál Newtons, sem hann setti fram í Principia, leggja grunninn að klassískri aflfræði, en 2. lögmálið gefur tengsl krafts og hröðunar á þann veg að kraftur sé jafn margfeldi massa og hröðunar, þ.e. "F" = "ma". (Lögmál Newtons stóðu óhögguð í rúm 200 ár, en afstæðiskenningin sýndi að breyta þurfti þeim þegar fengist var við hluti sem fara með hraða, sem er nærri ljóshraða.) Þessi meinta viðkvæmni Newtons á gagnrýni kom líka í veg fyrir að hann birti niðurstöður sínar í örsmæðarreikningi fyrr en eftir að Leibniz hafði gert grein fyrir sínum niðurstöðum. Nú þykir nokkuð víst að Newton gerði uppgötvanir sínar á undan Leibniz, en lokaði þær niðri í skúffu. Leibniz hafði aldrei um þær heyrt er hann gerði sínar uppgötvanir fáum árum síðar og birti niðurstöðurnar strax. Þá loks dreif Newton sig til þess að koma sínum útreikningum á framfæri. Af þessum sökum eru þeir báðir taldir upphafsmenn örsmæðareiknings og er ekki gert upp á milli þeirra hvað það varðar. SI-mælieining krafts, njúton var nefnd í höfuðið á honum. Tenglar. Newton, Isaac Newton, Isaac Newton, Isaac Niels Henrik Abel. Niels Henrik Abel (fæddur 5. ágúst 1802, dáinn 6. apríl 1829) var norskur stærðfræðingur. Á sinni stuttu ævi náði hann að gera ýmsar grundvallaruppgötvanir á sviði algebrufalla og raða. Hann sannaði til dæmis að ekki væri til almenn formúla fyrir lausnir fimmta stigs margliðu og skoðaði ýmsa eiginleika sporgerðra falla. Einnig tók hann til í ónákvæmum verkum eldri meistara, svo sem Eulers, og lagði þannig grunn að agaðri stærðfræðilegri útleiðslu í vinnu með raðir. Í dag eru Abelsverðlaunin veitt í hans nafni stærðfræðingum sem þykja hafa skarað fram úr á alþjóðavettvangi. Æviágrip. Niels Henrik Abel var annað barn presthjónanna Søren Georg Abel og Anne Marie. Fjölskyldan bjó þá á Finnøy í fylkinu Rogaland en þegar Niels var tveggja ára fluttust þau til Gjerstad í Austur-Ögðum þar sem hann ólst upp. Þrettán ára gamall var hann sendur í skóla til Oslóar eða Kristjaníu eins og borgin nefndist þá. Fyrsti stærðfræðikennari hans þar var af gamla skólanum og plagaði nemendur sína og hikaði ekki að við að beita þá ofbeldi. Því var erfitt að læra hjá honum. Þetta endaði með því að einn daginn barði hann nemanda svo illa, að hann lést viku síðar. Eftir þetta atvik kröfðust nemendur skólans nýs stærðfræðikennara og það fengu þeir. Sá maður hét Bernt Michael Holmboe og fljótlega eftir að hann tók við starfinu uppgötvaði hann snilli Abels. Hann tók drenginn í einkakennslu og fór að kynna fyrir honum alþjóðlegar rannsóknir í stærðfræði. Árið 1821 lauk Abel svo stúdentsprófi frá með ágætiseinkunn í stærðfræði en mun verri einkunnir í öðrum fögum. Næst tók við nám við Háskólann í Kristjaníu og hóf Abel það þetta sama ár. Fjárhagur hans var þó bágur á þessum tíma enda var faðir hans nýlátinn og móðir hans gat varla séð fyrir sjálfri sér heima í sveitinni. Vinskapur Abels við Holmboe og áhrif hans innan norskrar menntastéttar varð þó til þess að hæfileikar Abels fóru að spyrjast út. Þetta varð svo til þess að nokkrir prófessorar slógu saman í styrki handa Abel svo hann gæti haldið áfram námi. Það gerði hann, en námið varð lítilfjörlegt. Engar rannsóknir á sviði stærðfræði voru við Háskólann í Kristjaníu og lærði Abel því að mestu sjálfstætt. Á þessum tíma skrifaði hann nokkrar greinar sem birtust í almennum norskum vísindatímaritum og fór í kjölfarið að vekja sífellt meiri athygli. Árið 1823 var honum boðið til Kaupmannahafnar. Þar gat hann loks hitt fleiri stærðfræðinga, bæði prófessora og stúdenta. Þar kynntist hann einnig Christine Kemp sem hann trúlofaðist síðar. Að lokinni Kaupmannahafnarheimsókninni fór hagur hans að vænkast fjárhagslega. Hann komst á opinbera styrki árið 1824 og honum var lofað utanlandsferð næði hann betri tökum á frönsku. Hann fór því að leggja stund á hana og árið 1825 hélt hann til útlanda ásamt nokkrum öðrum norskum stúdentum. Í upphafi var ætlunin að líta við hjá Gauss í Göttingen og halda síðan til Parísar sem þá var Mekka stærðfræðinnar. Á leiðinni breyttist þó ferðaáætlunin og Abel endaði í Berlín. Þar kynntist hann manni að nafni August Leopold Crelle. Crelle var verkfræðingur en mikill áhugamaður um stærðfræði og hafði lengi gælt við að setja á stofn þýskt stærðfræðitímarit. Abel gat ýtt þeirri áætlun hans úr vör og réðst Crelle í útáfu tímarits sem hann nefndi Journal für die reine und angewandte Mathematik. Í það tímarit átti Abel síðar eftir að skrifa margar sínar merkustu greinar og átti hann raunar stærstan þátt í því hversu virt það varð. Abel dvaldist í Berlín í fjóra mánuði en hélt svo til Alpanna. Þangað fylgdi hann félögum sínum, sem voru flestir að læra jarðfræði og landfræði, því hann óttaðist að þurfa að ferðast einn. Til Parísar komst hann loks í júlí 1826 og var hann þá orðinn einn á ferðalaginu. Þetta var langþráður áfangastaður og hafði hann sparað það sem hann taldi sínar merkustu hugleiðingar til þessa tækifæris. Nú settist hann því niður og skrifaði hugleiðingarnar niður og úr varð fræðirit sem hann lagði fyrir vísindakademíuna í París. Akademían sýndi ritinu þó takmarkaðan áhuga, lagði það til hliðar og það gleymdist. Abel tók þessu mjög þunglega og veiktist í kjölfarið. Um áramótin 1827 hélt hann heim á leið aftur frekar daufur. Á leiðinni neitaði hann boði um að ritstýra tímariti Crelles sökum þess að nú langaði hann bara heim til Noregs. Þegar Abel kom aftur heim til Noregs litu Norðmenn svo á að ferðin hefði mistekist. Abel hafði einungis náð að skrifa greinar í eitthvað „nýtt og ómerkilegt“ þýskt tímarit og litla lukku hafði hann vakið í París. Því voru styrkirnir dregnir til baka og nú varð hann að lifa á láni, sem hann tók persónulega. Abel hélt þó áfram að leggja stund á stærðfræði og skrifa greinar, sem hann sendi til Crelle til útgáfu. Síðar á árinu veiktist hann af berklum. Þrátt fyrir veikindin reyndi hann að komast heim í sveitina til að dveljast þar yfir jólin. Það tókst honum en veikindin ágerðust upp úr því og næstu mánuðina var hann rúmliggjandi. Það var síðan 6. apríl 1929 sem hann lést, einungis 26 ára gamall. Þetta síðasta ár sitt hafði hann þó afkastað gríðarmiklu. Hann skrifaði 13 stórar fræðiritgerðir, þá lengstu upp á 126 blaðsíður. Sumir telja að ástæða þessarar vinnugleði hafi verið sú, að hann hafi strax í París verið greindur með berkla og hann hafi því vitað hvað var framundan. Tveimur dögum eftir andlát hans voru svo send af stað tvö bréf en þá vissi hvorugur aðilinn af andlátinu. Annað þeirra var frá París, þess efnis að fræðiritið, sem hann lagði fyrir vísindaakademíuna væri nú fundið aftur. Hitt var frá Crelle sem tilkynnti að nú væri öruggt að hann fengi stöðu við Berlínarháskóla en Crelle hafði síðustu árin sótt það stíft að útvega Abel stöðu við háskólann. Hann hafði oft verið hársbreidd frá því en alltaf hafði það mistekist. Fimmta stigs margliðan. Á þessum tíma var búið að uppgötva almennar formúlur fyrir lausnum annars, þriðja og fjórða stigs margliðna en menn sátu fastir á fimmta stigs margliðunni. Það varð fyrsta markmið Abels að leysa þetta vandamál og hann hóf leitina að almennri formúlu strax í menntaskólanum í Kristjaníu. Abel tókst fljótt að finna formúlu sem hann taldi rétta og rökstuddi hana á það sannfærandi hátt að hvorki Holmboe né Ferdinand Degen (sem var einn frægasti stærðfræðingur á Norðurlöndum á þeim tíma) fundu glufur í lausninni. Degen vissi þó að margir höfðu reynt að finna þessa formúlu og jafn mörgum hafði mistekist svo hann ráðlagði Abel að skoða fleiri töluleg dæmi áður en hann kynnti fleirum lausnina. Abel hóf prófanir og komst fljótt að því að formúlan var kolröng. Hann lét þó ekki bugast heldur hélt leitinni áfram næstu árin. Hann fann þó lítið annað en mótsagnir og sannfærðist smátt og smátt um að svona formúla væri ekki til. Árið 1823 taldi hann sig svo vera kominn með sönnun fyrir því. Þessari sönnun þjappaði hann saman á sex síður, lét prenta hana á eigin kostnað og sendi ýmsum frægum stærðfræðingum, meðal annars Gauss. Viðbrögðin voru lítil en Abel var engu að síður ánægður með þetta fyrsta afrek sitt. Reyndar var það svo að 25 árum áður en þetta gerðist hafði Ítali að nafni Paolo Ruffini sýnt fram á nákvæmlega það sama. Sönnun hans þótti þó óskýr og flókin og kom meira að segja á daginn að villa var í henni. Einnig kom í ljós að göt voru í sönnun Abels en hann náði að stoppa í þau og sendi síðar frá sér tvær óhrekjanlegar sannanir fyrir því að umrædd formúla væri ekki til. Í dag er þeim þó báðum veittur heiðurinn af þessari niðurstöðu og nefnist hún Abel-Ruffinis reglan. Sporgerð föll. Sporgerð föll voru annað áhugamál Abels. Það var Ferdinand Degen sem benti honum á að skoða þau í tengslum við rannsóknirnar á fimmta stigs margliðum. Þessar rannsóknir réðst Abel í þegar hann kom heim frá fyrstu Kaupmannahafnarheimsókn sinni árið 1824 og skoðaði föllin frá öðrum sjónarhornum en aðrir höfðu gert. Þetta leiddi til ýmissa nýrra uppgötvana. Til dæmis uppgötvaði hann að þessi föll hafa tvær aðskildar lotur. Abel vann einnig með tegur sporgerðra og algebrulegra falla. Hann bjó til almenn fræði um þessi föll og árið 1827 lauk hann við stórt rit um þau. Þetta rit sá Gauss síðar og lét þau orð falla að allar útleiðslur Abels væru einkar glæsilegar og skýrar. Eins og með fimmta stigs margliðuna var Abel ekki einn að vinna að rannsóknum á þessum föllum. Samtímis honum vann nefnilega Þjóðverjinn Carl G. J. Jacobi. Í fyrstu unnu þeir án vitneskju hvor um annan, en þegar þeir fréttu hvað hinn var að gera hófst kapphlaup. Á þeim tíma hafði Abel næstum lokið við að setja upp fræðin og lagði því allt kapp á að koma þeim skipulega niður á blað. Hann hóf að skrifa rit um föllin, sem hann í bréfi nefndi „"dauða Jacobi"“. Þetta hafðist að hluta hjá honum og varð úr að Jacobi gaf Abel fullan heiður af ýmsum grundvallaruppgötvunum og notaði þær síðan óspart í rannsóknum sínum. Parísar-fræðiritið. Eins og áður kom fram ritaði Abel sínar merkustu hugleiðingar meðan hann dvaldist í París. Úr varð fræðirit sem fjallaði um summu tegra af gefnu algebrulegu falli. Þar setti Abel meðal annars fram setningu þess efnis að allar slíkar summur mætti skrifa með "p" liðum slíkra tegra, þar sem tegrin væru algebruleg föll af upphaflegu tegrunum. Minnsta slíka "p" kallaði hann ætt algebrufallsins og var þetta í fyrsta skipti sem það hugtak kom fyrir. Umrædd regla var mun almennari en svipuð regla sem Euler hafði sett fram áður. Ritið lagði hann fyrir Vísindaakademíuna í París en hún sýndi lítinn áhuga. Það voru Cauchy og Lagrange sem áttu að meta ritið en Cauchy var allt of upptekinn með sín eigin verk og „vildi vart líta á það“ eins og Abel komst að orði í bréfi. Það varð úr að ritið gleymdist og týndist og fékk ekki verðskuldaða athygli fyrr en eftir að Abel lést. Ári eftir lát hans voru honum meira að segja veitt virt frönsk verðlaun fyrir framlag sitt. Sjálft frumritið fannst þó ekki fyrr en árið 1952 í Lorenzo-kirkjunni í Flórens og þá vantaði í það átta síður. Fjórar þeirra fundust árið 2002 á bókasafni í Livorno en enn eru fjórar síður þessa fræðirits ófundnar. Raðir. Í Berlín vann Abel ásamt öðrum stúdentum að því að skoða það sem Euler og hans samtímamenn höfðu sett fram með gagnrýnum augum. Þóttu margar rökfærslur þessara manna um raðir hæpnar og skrifaði Abel einu sinni í bréfi: „"Ósamleitnar raðir eru í heild sinni vafasamar, og skammarlegt að nokkur maður vogi sér að nýta sér þær í útleiðslum. Hægt er að komast að hvaða niðurstöðu sem maður vill með því að nota þær, og notkunin hefur hingað til einungis valdið óhamingju og mótsögnum. Er hægt að hugsa sér nokkuð hrikalegra en að fullyrða að formula_1 þegar n er jákvæð heiltala?"“ Í kjölfarið fór Abel að vinna að því að sanna tvíliðuregluna óyggjandi en sú vinna átti eftir að ná mun lengra. Þegar upp var staðið hafði hann fundið ýmsa vankanta og villur í ritum annarra stærðfræðinga. Sýndi hann til dæmis fram á að ein regla, sem Cauchy taldi sig hafa sannað væri röng, en sú regla er þekkt í dag sem "Ranga setning Cauchys" - skopleg tilvísun í það að flest allt sem Cauchy gerði hefur reynst rétt. Villa hans fólst í því að gera ekki greinarmun á einslegri- og punktlegri samfelldni. Vinnan skilaði sér í grundvallarriti um raðir, þar sem farið var eftir ströngum reglum í útleiðslum. Til að mynda varð að sanna að markgildi raða væru til áður en menn færu að vinna með þau. Þetta rit varð upphafið að nýjum vinnureglum, sem stærðfræðingar, sem vinna með raðir, hafa til hliðsjónar enn í dag. Arfleifð Abels. Abel hefur verið heiðraður á ýmsan hátt eftir dauða sinn. Mesti heiðurinn felst náttúrulega í því að niðurstöður hans á sviði stærðfræði eru í fullri notkun enn í dag. Fljótlega eftir dauða hans fóru menn að ræða um að stofnsetja alþjóðleg stærðfræðileg verðlaun í hans nafni. Árið 1898 fór svo stærðfræðingur að nafni Sophus Lie út í að safna styrkjum til að veita slík verðlaun, en þar sem hann lést ári seinna varð ekkert úr því. Umræðan vaknaði aftur 1902, 100 árum eftir fæðingu Abels, en þá lýsti Oskar II Svíakonungur (en á þessum tíma réði Svíþjóð yfir Noregi) yfir vilja til að stofnsetja slík verðlaun. Sú ætlun hans fór þó út um þúfur 1905 þegar Noregur og Svíþjóð slitu sambandi sínu. Á sömu tímamótum var Abels einnig minnst um gjörvallan Noreg. Þjóðskáldin ortu um hann og voru nokkrum stærðfræðingum veittar viðurkenningar í hans nafni. Árið 1908 var svo í tengslum við þetta vígð stytta af Abel í Vigelandsparken í Ósló. Hundrað árum eftir að Abel lést, það er árið 1929, var hann prentaður á frímerki og árið 1948 var hann svo heiðraður enn frekar þegar andlit hans var sett á framhlið norska 500 króna seðilsins. Þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Abels árið 2002, vaknaði umræðan um verðlaunin enn á ný. Í þetta skiptið komust verðlaunin á legg og veitti Noregskonungur Abelsverðlaunin í fyrsta skipti í júní árið 2003 til Jean-Pierre Serre. Árið 2004 runnu verðlaunin til Sir Michael Francis Atiyah frá Edinborgarháskóla og Isadore M. Singer frá MIT og árið 2005 hlaut þau Peter D. Lax frá Courant stofnuninni við New York háskóla. Að lokum má nefna að gígur á tunglinu og gata í París bera nafn Abels. 1976. 1976 (MCMLXXVI í rómverskum tölum) var 76. ár 20. aldar og hlaupár sem hófst á fimmtudegi. Janúar. Cray-1 með gleri yfir hluta tölvunnar til að sýna innri gerð hennar Febrúar. Árekstur milli varðskipsins "Óðins" og bresku freigátunnar HMS "Scylla". Apríl. Brotherhood of Man í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva Ágúst. Ummerki eftir flóðbylgjuna á Mindanao á Filippseyjum. September. Höfundar og leikarar Star Trek-þáttanna við vígslu geimskutlunnar "Enterprise". Október. MV "George Prince" snúið við bryggju 20 tímum eftir áreksturinn. Desember. Olía lekur úr flaki "Argo Merchant" við Nantucket. Mannfjöldi. Mannfjöldi eða íbúafjöldi er hugtak yfir fjölda fólks sem tilheyrir ákveðnum hóp. Í landafræði merkir hugtakið fjölda íbúa ákveðins staðar eða landsvæðis. Hlaupár. Hlaupár eru ár þar sem auka degi eða mánuði er bætt við almanaksár til að leiðrétta skekkju í tímatali, sem orsakast af því að árstíðaárið er í raun og veru um 365,2422... dagar. Í Gregoríanska tímatalinu koma þau að meðaltali upp á rúmlega 4 ára og 45 daga fresti. Hlaupár í ýmsum tímatölum. Eratosþenes stakk fyrstur manna upp á hlaupári, en Júlíus Caesar keisari innleiddi það árið 46 f.Kr. Hlaupársdegi var síðan bætt inn eftir vorhátíðina Terminalia sem haldin var 23. febrúar hvert ár en það var síðasti mánuður ársins í Rómverska keisaraveldinu og 1. mars var nýársdagur. Hlaupárið varð síðan alltaf 4. hvert ár. Þetta tímatal var kallað Júlíanska tímatalið og var í gildi á Íslandi þar til í október árið 1700. Með Gregoríanska tímatalinu var hlaupársskipulaginu breytt þannig að eingöngu aldamótaár, sem talan 400 gekk upp í varð hlaupár en að öðru leyti var alltaf hlaupár 4. hvert ár. Þetta tímatal er kennt við Gregorius páfa, sem lét reikna það út og tók upp notkun þess og breiddist það svo smám saman út um heiminn. Á Íslandi var Gregoríanska tímatalið tekið upp í byrjun október árið 1700. Þá var 10 dögum sleppt úr, svo að í stað 1. október kom 11. október. Dagarnir 1. til 10. október árið 1700 hafa því aldrei verið til á Íslandi. 1975. 1975 (MCMLXXV í rómverskum tölum) var 75. ár 20. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu. Árið var lýst ár kvenna af Sameinuðu þjóðunum og arkitektúrverndarárið af Evrópuráðinu. Janúar. Altair 8800 á Smithsonian Museum Apríl. Flóttafólk frá Sægon í Tælandi 29. apríl 1975 Júlí. a> í Sojús takast í hendur. September. Lögreglumynd af Patriciu Hearst tekin 19. september 1975 Desember. Holiday Inn í Beirút var höfuðvígi kristinna herflokka í upphafi borgarastyrjaldarinnar í Líbanon 1974. 1974 (MCMLXXIV í rómverskum tölum) var 74. ár 20. aldar og byrjaði á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu. Júlí. Úrslitaleikur Vestur-Þýskalands og Hollands í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu Ágúst. 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar í Reykjavík 3. ágúst Dáin. Pompidou á fundi þeirra Nixons í Reykjavík 1973 1973. 1973 (MCMLXXIII í rómverskum tölum) var 73. ár 20. aldar og hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu. Apríl. "Pioneer 11" sendur út í geim Maí. Nixon og Pompidou í Reykjavík 31. maí 1973 September. Áhöfnin á pólsku skútunni "Copernicus" sem tók þátt í Whitbread Round the World Race 1973. Dáin. Tolkien í breska hernum 1916 1972. 1972 (MCMLXXII í rómverskum tölum) var 72. ár 20. aldar og hlaupár sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu. Janúar. Flakið af "Queen Elizabeth" í Hong Kong Febrúar. Nixon og Maó 29. febrúar 1972. Júní. a> sem fylgdi eftir útgáfu plötunnar 1971. 1971 (MCMLXXI í rómverskum tölum) var 71. ár 20. aldar og hófst á föstudegi samkvæmd gregoríska tímatalinu. Apríl. Frá mótmælunum gegn Víetnamstríðinu í Washington 24. apríl 1971 Júní. a> á síðustu tónleikunum sem haldnir voru í Fillmore East í New York 6. júní 1971 Desember. Frank Zappa á tónleikum í París 1971 Fædd. Sacha Baron Cohen í gervi Borats Dáin. Louis Armstrong ásamt Barbra Streisand í stiklu úr kvikmyndinni "Hello, Dolly" frá 1969 1958. a> varð líklega til á Naustinu 1958. 1957. Árið 1957 (MCMLVII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. 1954. __TOC__ Njúton. Njúton (enska "newton") er SI-mælieining krafts, táknuð með N. Nefnd eftir breska stærð- og eðlisfræðingnum Isaac Newton. Eitt njúton er sá kraftur sem veldur hröðuninni einum metra á sekúndu á sekúndu þegar hann verkar á hlut með massa eitt kílógramm, þ.e. 1 N = 1 kg m/s2. Á yfirborði jarðar togar þyngdaraflið í 1 kg hlut með kraftinum 9,8 N, svo þegar hlutur fellur til jarðar er hröðun hans 9,8 m/s2. Skilgreining. Njúton er stærð krafts sem þarf til að hraða ákveðnu magni af eins kílógramma massa einn meter á sekúndu í öðru. Þýskaland. Sambandslýðveldið Þýskaland (þýska: Bundesrepublik Deutschland;) er sjöunda stærsta ríki Evrópu og spannar rúmlega 357 þúsund km². Það er að sama skapi næstfjölmennasta land Evrópu með 82,4 milljónir íbúa. Aðeins Rússland er fjölmennara. Höfuðborgin er Berlín. Þýskaland var áður fyrr meginhluti Hins heilaga rómverska keisaradæmis sem myndaðist við skiptingu hins mikla Frankaríkis Karlamagnúsar árið 843. Í dag er Þýskaland eitt mesta iðnveldi heims og er efnahagskerfi landsins eitt það stærsta í heimi. Lega og landamæri. Þýskaland liggur í Mið-Evrópu og nær frá Ölpunum í suðri til stranda Norðursjávar og Eystrasalts í norðri. Nágrannalönd Þýskalands eru níu talsins: Danmörk í norðri, Pólland og Tékkland í austri, Austurríki og Sviss í suðri ásamt Frakklandi, Lúxemborg, Belgíu og Hollandi í vestri. Strandlengja landsins er samtals 2.389 km löng (Norðursjór og Eystrasalt til samans). Orðsifjar. Þýskaland myndaðist við skiptingu Frankaríkis Karlmagnúsar, sem samansafn ótal germanskra þjóðflokka. Orðið er dregið af orðinu "teutona" sem er heiti á germönskum þjóðflokki. Keisararíkið hét "Regnum Teutonicum" á 10. öld. Af þessu myndaðist orðið "teutsch" og seinna "deutsch". Orðið breyttist í "tysk" á dönsku, "þýsk" á íslensku og "tedeschi" á ítölsku. Enska heitið "Germany" er dregið af orðinu "Germania" en því nafni nefndu Rómverjar landið handan eigin ríkis. Franska heitið "Alemangne" er dregið af orðinu "Alemanni" sem er heiti á germönskum þjóðflokki sem bjó við frönsku landamærin við Rínarfljót. Þýskaland er kallað Þjóðverjaland í gömlum íslenskum bókum. Saga Þýskalands. Þýska tungumálið og samkennd meðal Þjóðverja er yfir þúsund ára gömul en sameinað þýskt þjóðríki varð þó ekki til fyrr en með stofnun Þýska keisaradæmisins árið 1871. Þýskaland rekur uppruna sinn til Verdun-samningsins frá 843 en með honum var Frankaveldi skipt upp í vesturhluta sem varð að Frakklandi nútímans, miðhluta sem tók yfir Norður-Ítalíu, Niðurlönd og fleiri svæði og austurhluta sem myndaði Hið heilaga rómverska keisaradæmi. Það var til í ýmsum myndum allt til 1806 en var þó aldrei meira en mjög laustengt bandalag smá konungsríkja og hafði auk þess fleiri þjóðir en þá þýsku innan sinna vébanda. Á þessum þúsund árum juku Þjóðverjar mjög við áhrif sín í gegnum kaþólsku kirkjuna, Norður-krossferðirnar og Hansasambandið. Fornöld (100 f.Kr. – 300 e.Kr.). Talið er að rekja megi uppruna germanskra þjóðflokka til bronsaldar Norður-Evrópu (um 1800 – 600 f.Kr.) eða í síðasta lagi til járnaldar Norður-Evrópu (5. öld – 1. öld f.Kr.) Þjóðflokkarnir breiddust út til suðurs, austurs og vesturs frá suðurhluta Skandinavíu og norðurhluta Þýskalands á 1. öld f.Kr. og komust þá í kynni við keltneska þjóðflokka í Gallíu og íranska og slavneska þjóðflokka í Austur-Evrópu. Lítið er vitað um sögu germanskra þjóðflokka á þessum tíma, nema hvað varðar samskipti þeirra við Rómverja auk þekktra fornleifa. Í valdatíð Ágústusar hófu Rómverjar, undir forystu rómverska herforingjans Publiusar Quinctiliusar Varusar, að ráðast inn á landsvæði Germana. Á þessum tíma kynntust Germanar herstjórnarlist Rómverja. Árið 9 e.Kr. gereyddu Germanar, undir forystu Arminiusar (Hermans), þremur rómverksum herdeildum Varusar í orrustunni um Teutoburgs-skóg. Þar með héldust landsvæði Germana allt að Rín og Dóná utan Rómaveldis. Um 100 e.Kr., þegar rit Tacitusar "Germanía" var samið, höfðu Germanar komið sér fyrir meðfram Rín og Dóná og réðu nú að mestu leyti yfir því svæði sem Þýskaland nær yfir nú á dögum. Á 3. öld óx ýmsum vestur-germönskum þjóðflokkum eins og Alamönnum, Frönkum, Söxum og fleirum ásmeginn. Hið heilaga rómverska keisaradæmi (843 – 1806). Þýskaland miðalda átti rætur að rekja til veldis Karlamagnúsar, sem var stofnað 25. desember árið 800. Árið 843 var ríkinu skipt upp í þrjá hluta með Verdun-sáttmálanum. Einn hluti ríkis Karlamagnúsar, Hið heilaga rómverska keisaradæmi, var til í einni mynd eða annarri til ársins 1806. Landsvæði þess náði frá Egðu í norðri til Miðjarðarhafs í suðri. Á árunum 919 – 1024 voru furstadæmin Lothringen, Saxland, Frankaland, Schwaben, Türingen og Bæjaraland innlimuð. Árin 1024 – 1125 lagði Hið heilaga rómverska keisaradæmi undir sig Norður-Ítalíu og Búrgund en á sama tíma misstu keisarar Hins heilaga rómverska keisaradæmis völd til kirkjunnar. Á árunum 1138 – 1254 jukust áhrif þýskra fursta í suðri og austri á landsvæðum Slava. Bæir í Norður-Þýskalandi uxu og döfnuðu innan Hansasambandsins. Árið 1530, eftir að umbótatilraunir mótmælenda innan kaþólsku kirkjunnar mistókust, var ný kirkja mótmælenda stofnuð í mörgum af þýsku ríkjunum. Þetta leiddi til innbyrðis deilna Þjóðverja, 30 ára stríðsins sem háð var frá 1618 til 1648 og lauk með Vestfalska friðinum. Eftir þessi átök reyndust Þjóðverjar illa undirbúnir til að takast á við Napóleon sem réðst inn í lönd Þjóðverja og leysti upp Hið heilaga rómverska keisaradæmi. Upp frá því varð Frakkland að erkióvini Þjóðverja fram yfir síðari heimsstyrjöld. Þýska sambandið og bylting (1814 – 1871). Mestu varanlegu áhrifin af upplausn Hins heilaga rómverska keisaradæmis voru þau að Austurríki, sem hafði þá lengi verið öflugasta þýska ríkið, fjarlægðist þau norð- og vestlægari. Vínarfundurinn, ráðstefna sem sigurvegarar Napóleonsstyrjaldanna héldu, var settur í nóvember 1814 og stóð til júní 1815. Á ráðstefnunni var ákveðið að stofna Þýska sambandið, laustengt bandalag 39 fullvelda. Byltingarnar í Frakklandi 1848 höfðu mikil áhrif á sjálfstæðisanda innan Þýska sambandssins og greina mátti vísi að þjóðernisstefnu. Byltingarandinn leiddi til þess að vald konunganna í ríkjunum 39 dvínaði. Otto von Bismarck var gerður að forsætisráðherra í Prússlandi en hann lagði mikið upp úr hernaðarstyrk ríkisins. Árið 1864 hafði Prússland betur í stríði gegn Danmörku og árið 1866 gegn Austurríki. Undir þessum kringumstæðum gat Bismarck stofnað Norður-þýska sambandið og undanskilið Austurríki, fyrrum sterkasta þýska ríkið, frá aðild. Þýska keisaradæmið (1871 – 1918). Árið 1871 var lýst yfir stofnun Þýska keisaradæmisins í Versölum eftir ósigur Frakka í Fransk-prússneska stríðinu. Otto von Bismarck átti stóran þátt stofnuninni. Öll þau ríki sem áður höfðu myndað Þýska sambandið, fyrir utan Austurríki, Liechtenstein og Lúxemborg, voru með í keisaradæminu. Keisaradæmið leið undir lok eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöld og keisaranum var gert að segja af sér. Weimar-lýðveldið (1919 – 1933). Hið lýðræðislega Weimar-lýðveldi var stofnað 1919 en Þjóðverjar voru ekki sérlega hrifnir af því. Heimskreppan og harðir friðarskilmálar frá fyrri heimsstyrjöld lögðust þungt á Þýskaland og stjórnmálamenn gátu lítið gert, fylgi andlýðræðislegra stjórnmálaafla á bæði vinstri og hægri væng stjórnmálanna jókst mjög. Í tvennum þingkosningum árið 1932 fékk Nasistaflokkurinn 37,2% og 33,0% atkvæða og þann 30. janúar 1933 var Adolf Hitler skipaður Kanslari Þýskalands. Eitt af fyrstu verkum Hitlers í embætti var að leggja frumvarp fyrir þingið sem færði honum alræðisvöld og nam stjórnarskrá Weimar-lýðveldisins í raun úr gildi. Þriðja ríkið (1933 – 1945). Nasistar kölluðu veldi sitt Þriðja ríkið og það var við lýði í tólf ár, 1933 – 1945. Sú stefna nasista að komast yfir landsvæði í nágrannalöndum og skapa Þjóðverjum þannig „lífsrými“ ("Lebensraum") var ein af mörgum ástæðum fyrir upphafi síðari heimsstyrjaldar þann 1. september 1939. Þýskaland og bandamenn þess unnu stóra sigra í fyrri hluta stríðsins og lögðu undir sig stóran hluta Evrópu. Eftir innrásina í Sovétríkin 22. júní 1941 og stríðsyfirlýsingu gegn Bandaríkjunum 11. desember sama ár fór að halla undan fæti fyrir Þjóðverja, þeir gáfust upp 8. maí 1945 eftir að Hitler framdi sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi sínu í Berlín en þá var her Sovétmanna að ná borginni á sitt vald. Ofsóknir á hendur gyðingum og síðar helförin, skipulögð tilraun til að útrýma gyðingum í Evrópu, var alræmt stefnumál nasista á millistríðsárunum og í heimsstyrjöldinni síðari. Klofnun (1945 – 1990). Eftir Heimsstyrjöldina síðari misstu Þjóðverjar mikil landsvæði í austri þar sem nú er Pólland og þurftu milljónir Þjóðverja að flytja sig frá þessum svæðum. Því svæði sem eftir var var skipt í hernámssvæði Bandaríkjamanna, Breta, Frakka og Sovétmanna. Þegar kalda stríðið hófst var Þýskalandi skipt í tvennt þar sem hernámssvæði Sovétmanna myndaði Þýska alþýðulýðveldið ("Deutsche Demokratische Republik") eða Austur-Þýskaland og hernámssvæði hinna þjóðanna myndaði Sambandslýðveldið Þýskaland ("Bundesrepublik Deutschland") eða Vestur-Þýskaland. Berlín hafði einnig verið skipt í fjögur hernámssvæði þrátt fyrir að borgin væri öll innan Austur-Þýskalands. Austur-Berlín var gerð að höfuðborg Austur-Þýskalands en Vestur-Berlín varð að útlendu sem vesturveldin héldu gangandi. Austur-Þjóðverjar höfðu áhyggjur af því að fólkið í austurhlutanum myndi flýja vestur og byrjuðu því að reisa Berlínarmúrinn og var hann fullreistur 1963 og stóð fram á árið 1989. Sameinað á ný (Frá og með 1990). Í lok kalda stríðsins voru þýsku ríkin sameinuð á ný 3. október 1990 og höfuðborg Þýskalands flutt aftur til Berlínar. Sameinað Þýskaland er fjölmennasta ríki Vestur-Evrópu og iðnaðarveldi á heimsmælikvarða, það er lykilmeðlimur í Evrópusambandinu og sækist nú eftir föstu sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Borgir. Í Þýskalandi eru fjórar milljónaborgir. Tíu aðrar eru með meira en hálfa milljón íbúa. Stærsta þéttbýlissvæði Þýskalands er Ruhr-hérað í Norðurrín-Vestfalíu en þar búa allt að ellefu milljón manns á tiltölulega litlu svæði. Fjöll og fjallgarðar. Þýskalandi má skipta í þrjá hluta. Nyrst er norðurþýska láglendið ("Norddeutsche Tiefebene"). Sunnar hækkar landið og skiptist þá í meðalhá fjalllendi ("Mittelgebirge") og stóra dali. Af helstu fjalllöndum má nefna Harsfjöll, ("Harz") og Svartaskóg ("Schwarzwald"). Syðst eru svo Alpafjöll, en þau eru hæsti og stærsti fjallgarður Þýskalands. Þar er hæsta fjall landsins, Zugspitze, sem er 2.962 m hátt, og markar landamærin á milli Þýskalands og Austurríkis. Fljót og vötn. Í Þýskalandi eru mýmargar ár. Þar eiga stórfljót eins og Dóná upptök sín (í Svartaskógi). Flestar ár renna til norðurs og munda í Norðursjó eða Eystrasalti (eða eru þverár þessara áa). Eina undantekningin er Dóná, sem rennur til austurs og mundar í Svartahafi. Í Þýskalandi er urmull stöðuvatna. Flest þeirra eru í Mecklenborg-Vorpommern og í Bæjaralandi. Stóru vötnin í Bæjaralandi mynduðust öll við bráðnun ísaldarjökulsins. Eyjaklasar og eyjar. Mýmargar eyjar eru við þýsku ströndina. Austurfrísnesku eyjarnar eru í Wattenmeer vestur af Brimum í Norðursjó. Meginþorri Norðurfrísnesku eyjanna tilheyra einnig Þýskalandi, en þær nyrstu tilheyra Danmörku. Nyrst þeirra í þýska hlutanum er Sylt, en norðuroddi hennar er jafnframt nyrsti punktur Þýskalands. Stærstu eyjar landsins eru hins vegar í Eystrasalti. Stjórnmál. Þýskaland er samband 16 sambandslanda sem kallast á þýsku "Länder" (eintala: "Land") eða óformlega "Bundesländer" (eintala: "Bundesland"). Hvert sambandsland á fulltrúa í sambandsráðinu ("Bundesrat"), en það er fulltrúaráð sem er sambærilegt við efri deildir sumra þjóðþinga. a> er fyrst kvenna til að gegna embætti kanslara í Þýskalandi Sambandslöndin hafa mikið sjálfstæði og er hverju þeirra stjórnað af sinni ríkisstjórn ("Landesregierung") undir forsæti forsætisráðherra ("Ministerpräsident"). Yfirstjórn Þýskalands er í höndum sambandsstjórnarinnar ("Bundesregierung") sem situr á sambandsþinginu ("Bundestag") og er kosin til fjögurra ára í senn. Æðsti maður hennar er kanslarinn. Þjóðhöfðingi Þýskalands er forsetinn. Hagkerfi. Þýskaland er stærsta hagkerfi í Evrópu og fjórða stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum, Alþýðulýðveldinu Kína og Japan. Það er sjötta öflugasta hagkerfi heims miðað við kaupmátt. Útflutningsvörur eru ein meginstoð þýska hagkerfisins. Þýskaland er annað mesta útflutningsland heims en útflutningtekjur þess námu 1.337 milljörðum dollara árið 2010. Einungis Alþýðulýðveldið Kína flytur meira út heldur en Þýskaland. Stærstur hluti útflutningsvara eru bifreiðar, vélar og efni. Þýskaland er stærsti framleiðandi vindhverfla í heimi. Stærstu fyrirtæki landsins eru Volkswagen AG, Daimler AG, Siemens AG, E.ON AG, Metro AG, Deutsche Post AG, Deutsche Telekom AG, BASF SE, BMW AG og ThyssenKrupp AG. Tungumál. Opinbert tungumál er þýska en hún er germanskt tungumál. Hins vegar eru til hinar og þessar mállýskur af þýsku, sumar jaðra við að vera eigið mál. Það á við um lágþýsku (þ. "plattdeutsch") sem töluð er nyrst við Eystrasalt, frísnesku, sem töluð á frísnesku eyjunum, og bæversku, sem töluð er í Bæjaralandi. Venjulega er þó talað um háþýsku og lágþýsku. Auk þýsku eru töluð nokkur önnur mál í Þýskalandi, aðallega af minnihlutahópum. Þeirra helst eru tyrkneska, kúrdíska og pólska enda Tyrkir, Kúrdar og Pólverjar fjölmennir í landinu. Austast er töluð sorbneska en það er gamalt slavneskt mál sem haldist hefur allt frá tímum þýsks landnáms austast í Saxlandi og Brandenborg. Trú. Segja má að í landinu séu tvær stórar kirkjur, nær jafnstórar, sem skipta þjóðinni í tvennt. 31,7% íbúanna tilheyra kaþólsku kirkjunni, en hún er mest í vestur- og suðurhluta landsins. 31,3% íbúanna tilheyra mótmælendum, mest lútersku kirkjunni en mótmælendur eru aðallega í norðurhluta landsins. 31% íbúanna tilheyra engri kirkju, aðallega í austurhluta landsins, enda var sá hluti undir stjórn kommúnista í hartnær 40 ár. Múslímar eru 4% þjóðarinnar og vegur þar mest sá mikli fjöldi Tyrkja sem í landinu búa. Gyðingar eru um það bil 106 þúsund talsins en það gerir aðeins tæplega 0,13%. Bókmenntir. Rekja má þýskar bókmenntir aftir til miðalda og til verka rithöfunda á borð við Walther von der Vogelweide og Wolfram von Eschenbach. Fjölmargir þýskir rithöfundar og skáld hafa notið mikilla vinsælda, þar á meðal Johann Wolfgang von Goethe og Friedrich Schiller. Ævintýrin og þjóðsögurnar sem kenndar eru við Grimmsbræður hafa gert þýskar þjóðsögur þekktar víða. Meðal áhrifamikilla rithöfunda á 20. öld má nefna Thomas Mann, Bertolt Brecht, Hermann Hesse, Heinrich Böll og Günter Grass. Heimspeki. Þýskir (og aðrir þýskumælandi) heimspekingar hafa haft gríðarleg áhrif á þróun heimspekinnar frá lokum miðalda. Tilkoma nútíma náttúruvísinda og hnignun trúarbragða hafa getið af sér ýmsar spurningar, sem eru fyrirferðamiklar í þýskri heimspeki, meðal annars um sambandið milli trúar og þekkingar, skynsemi og geðshræringa og heimsmynda vísindanna, siðfræðinnar og listarinnar. Gottfried Leibniz var einn af mikilvægustu rökhyggjumönnunum. Immanuel Kant reyndi að sætta rökhyggju og raunhyggju en með heimspeki hans verður einnig til þýsk hughyggja. Hún lifði áfram í kenningum Johanns Gottliebs Fichte, Georgs Wilhelms Friedrichs Hegel og Friedrichs Wilhelms Josephs Schelling og einnig hjá Arthur Schopenhauer. Karl Marx og Friedrich Engels voru frumkvöðlar þráttarefnishyggju, undir áhrifum frá Hegel, og kommúnisma. Nítjándu aldar heimspekingurinn Friedrich Nietzsche nálgaðist heimspekilegar spurningar frá öðru sjónarhorni, afneitaði frumspeki forvera sinna og var forveri meginlandsheimspekinnar, sem varð til á 20. öld. Stærðfræðingurinn Gottlob Frege fann upp nútíma rökfræði á áttunda áratug 19. aldar en hlaut litla eftirtekt fyrr en breski heimspekingurinn Bertrand Russell uppgötvaði mótsögn í kerfinu árið 1901. Saman marka þeir upphafið af rökgreiningarheimspekihefðinni sem naut mikilla vinsælda á 20. öld og hafði ómæld áhrif. Innan meginlandsheimspekinnar á 20. öld voru hins vegar áhrifamiklir þeir Martin Heidegger og Frankfurt-skólinn með þá Max Horkheimer, Theodor Adorno, Herbert Marcuse og Jürgen Habermas í broddi fylkingar. Tónlist. Þjóðverjar státa af ríkri tónlistarsögu og hafa meðal annars alið nokkur af þekktustu tónskáldum klassískrar tónlistar, svo sem Ludwig van Beethoven, Johann Sebastian Bach, Johannes Brahms og Richard Wagner. En ýmsir áhrifamiklir popptónlistarmenn hafa einnig komið frá Þýskalandi, þar á meðal Kraftwerk, Boney M., Nico, Nina Hagen, Scorpions, Toten Hosen, Tokio Hotel, Rammstein og Paul van Dyk. Árið 2006 var Þýskaland fimmta stærsta markaðssvæði tónlistar í heimi. Apolloníos frá Perga. Apolloníos frá Perga (um 262 f.Kr – 190 f.Kr.) var grískur stærðfræðingur. Hann skrifaði rit um keilusnið (sporbaug, fleygboga og breiðboga), sem allt fram á 20. öld var merkasta rit allra tíma um það efni. Hann gerði ráð fyrir að pláneturnar hreyfðust í sporbaug eða hjámiðjuhring um sólu, þótt það væri fyrst með Isaac Newton á 17. öld, sem það var sannað að brautin væri sporbaugslaga. Arkímedes. Arkímedes frá Sýrakúsu (287 f.Kr. — 212 f.Kr.) var grískur stærðfræðingur, stjarnfræðingur, heimspekingur, eðlisfræðingur og vélfræðingur. Hann er oft talinn með mestu stærðfræðingum allra tíma. Hann er þekktastur fyrir framlög sín til rúmfræðinnar (geometríu). Hann fann meðal annars upp aðferðir til að reikna rúmmál og yfirborðsflatarmál kúlu og flatarmál fleygbogasneiðar. Hann skrifaði frægt verk um vökvaaflfræði og um jafnvægi. Rit sem hann skrifaði hét "Aðferðin". Það glataðist en fannst aftur árið 1906. Arkímedes er þekktur fyrir að hafa fundið lögmálið um uppdrif hluta, sem sökkt er í vökva og sagt er að hann hafi átt aðgæta hvort kóróna kóngsins væri ósvikin. Sagt er að hann hafi fundið það er hann var í baði og þegar hann fór í baðið hækkaði yfirborð vatnsins og þannig fattaði hann hvernig hann gæti mælt kórónu kóngsins. Sagt er að hann hafi verið svo glaður er hann fann það að þá hafi hann risið upp úr baðinu og hlaupið nakinn um götur borgarinnar Sýrakúsu á Sikiley þar sem hann bjó, hrópandi: „Hevreka! Hevreka!“ („Ég hef fundið það, ég hef fundið það!“). Sagan segir að þegar Rómverjar gerðu innrás á Sikiley og tóku hana af Grikkjum var Rómverjum bannað að drepa Arkímedes. Arkímedes var staddur á ströndinni og teiknaði myndir af hringum í sandinn. Rómverskur hermaður kom að honum og Arkímedes bannaði honum að snerta hringina: „Noli turbare circulos meos!“ („Snertu ekki hringana mína!“) en Rómverjinn drap hann á staðnum. Charles Babbage. Charles Babbage (26. desember 1791 – 18. október 1871) var enskur stærðfræðingur. Nú er hann þekktastur fyrir að hafa verið upphafsmaður reiknivéla, sem leiddu til tölva nútímans. Hann hannaði reiknivél, sem hann kallaði „Analytical engine“ en tókst ekki að ljúka smíði hennar, meðal annars vegna fjárskorts. Vinkona hans og samstarfsmaður var Ada Lovelace, dóttir Byrons lávarðar, og er hún talin fyrsti forritarinn. Líkan af reiknivél Baggage sýnt á ráðstefnu 2008 Babbage, Charles Aryabhata. Aryabhata (um 475 - 550) var indverskur stærðfræðingur. Hann er höfundur ritsins Aryabhatiya, sem er rímað rit um stærðfræði og er eitt af elstu ritum indverskum um þau fræði. Þessi kvæði innihalda fjölmargar reglur um útreikninga og mælitækni. Nefna má flatarmálsreglur, gildi á pí og summur raða. Einnig er þarna að finna töflu um hornafallið sínus, byggt á hálfum streng eins og gert er í dag en ekki á heilum streng eins og grikkir gerðu til forna. Al-Khwarizmi. Mynd af al-Khwarizmi á sovésku frímerki. Abu Ja'far Muhammad ibn Musa (persneska: أبو عبد الله محمد بن موسى خوارزمي), betur þekktur sem al-Khwarizmi (uppi um 800 e. Kr.) var persneskur stærðfræðingur í Khorasan, Íran, en hann kom frá bænum Kowarzizm (og nafn hans er dregið af því: Al-Khwarizmi þýðir „frá bænum Kowarzizm“) sem nú er þekkt sem Khiva í Úzbekístan. Hann var meðlimur í „Húsi Viskunnar“, nokkurs konar skóla vísindamanna í Baghdad. Hann er höfundur tveggja rita um reikning og algebru. Orðið „algorithm“ (algóritmi, reiknirit) er dregið af nafni hans ("al-Khwarizmi"), sem kom fyrir í titli annarrar bókarinnar. Í þeirri bók er meðal annars að finna lýsingu á indversk-arabíska talnakerfinu, sem notað er í dag. Hin bókin hét "Kitab al-jabr wa'l muqabalah" og af nafni hennar er komið orðið algebra (frá "al-jabr"). Í því riti er til dæmis lýst aðferð til að leysa annars stigs jöfnur, sem líkist þeirri aðferð, sem nú er kölluð "að fylla í ferninginn" (enska: completing the square). Evklíð. Málverk Justus van Ghents frá 16. öldinni af Evklíð. Evklíð (Gríska: Εὐκλείδης) var forngrískur stærðfræðingur sem var uppi um 300 f.Kr. Hann bjó í Alexandríu í Egyptalandi, sem þá var háborg vísinda og lista í heiminum. Er ásamt Pýþagórasi frægasti stærðfræðingur fornaldar, einnig nefndur "faðir rúmfræðinnar". Bók (eða bækur) hans, "Frumatriði" var snemma þýdd á latínu og er mest notaða stærðfræðikennslubók allra tíma og var kennd allt fram í byrjun 20. aldar, eða í um 2000 ár. Ekki er vitað að hve miklu leyti "Frumatriði" er frumsmíð hans, eða hvað hann hefur haft frá öðrum, en hvað sem því líður er bókin stórvirki. Sagt hefur verið um þessa bók að hún sé önnur áhrifamesta bók í vestrænni menningu. Lítið sem ekkert er að öðru leyti vitað um æviferil Evklíðs. Frumvarp. Frumvarp í lagalegum skilningi er skjal sem inniheldur tillögur að breytingum á heildarlöggjöfinni og er flutt á lagalegu þingi. Frumvörp geta snúist um það að breyta einu orði í ákveðnum lögum upp í að breyta heilum lagaköflum (ef frumvarpið er svokallaður bandormur) eða að setja ný lög frá grunni og/eða að fella út áður samþykkt lög. Í íslensku orðabókinni stendur:,Tillaga til formlegrar breytingar á fyrri ákvæðum eða til nýrra laga, reglna eða stefnumótunar." Frumvarp er stjórnarfrumvarp ef ráðherra sem málið heyrir undir flytur það, annars er það þingmannafrumvarp. Einstaka sinnum er frumvarp flutt af þingnefnd. Ferli frumvarpa á Alþingi. Allir þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands mega flytja lagafrumvarp og er þetta tryggt með 25. og 38. grein stjórnarskrárinnar. Við umræður má flutningsmaður ekki taka til máls oftar en þrisvar sinnum en aðrir ekki oftar en tvisvar. Engar skorður eru þó á því hversu oft ráðherra sem málið fellur undir má taka til máls. Fyrsta umræða frumvarps. Fyrst fjallar flutningsmaður stutt um málið og eftir það fer af stað almenn umræða. Ekki má hefja 1. umræðu fyrr en liðnar eru a.m.k. 2 nætur frá útbýtingu frumvarpsins nema þingið samþykki fyrst með auknum meirihluta afbrigði frá þingsköpum, sem leyfi það. Þegar 1. umræðu er lokið fer málið til þeirrar nefndar sem frumvarpið fellur undir eða til Allsherjarnefndar ef það snertir margar nefndir. Einnig kemur þó til greina að frumvarpinu sé vísað frá eftir 1. umræðu. Nefnd sem hefur frumvarp til umræðu getur flutt það til annarrar nefndar ef hún telur að það tilheyri henni frekar og þarf þá samþykki beggja nefnda að liggja fyrir. Nefndin skilar síðan nefndaráliti og breytingartillögu ef hún telur þörf á því. Önnur umræða frumvarps. Umræðan byrjar á því að flutningsmaður frumvarps ræðir nánar um frumvarpið. Mælendur hafa eins langan tíma og þeir þurfa til að skila sínu áliti auk þess sem að rætt er nánar um einstaka hluta þess. Ef breytingartillögur hafa verið gerðar, þá eru greidd atkvæði um þær og eru því næst greidd atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins eins og það stendur eftir samþykktar breytingar. Nú er hægt er að vísa frumvarpinu aftur til nefndar ef þörf er á eða jafnvel að vísa því frá. Nokkuð algengt er að 2. umræðu sé sleppt og farið beint í 3. umræðu frá þeirri fyrstu. Þriðja umræða frumvarps. Rætt er um frumvarpið á ný í heild sinni. Eftir hana eru greidd atkvæði um breytingartillögur ef þær hafa verið gerðar. Að lokum eru greidd atkvæði um frumvarpið í heild sinni eins og það stendur eftir samþykktar breytingar. Þó er hægt að fresta 3. umræðu áður en kemur til lokaatkvæðagreiðslu og vísa frumvarpinu aftur til nefndar. Þá má gera nýjar breytingatillögur og 3. umræða getur þannig í raun skipst í nokkrar umræður. Allar atkvæðagreiðslur eru opinberar nema umræður hafi verið gerðar óopinberar. Ef frumvarp er fellt, þá má ekki flytja það óbreytt aftur á sama þingi. Ef það er samþykkt, þá er það sent sem lög til forseta Íslands til undirritunar eða synjunar. Lög taka ekki gildi fyrr en þau hafa verið birt í Stjórnartíðindum. Atkvæðagreiðslur. Atkvæði eru oftast greidd með rafeindabúnaði. Þingforseti gefur hljóðmerki sem heyrist um allt þinghúsið og lætur þannig vita af atkvæðagreiðslunni. Atkvæðagreiðslan er ekki gild nema að minnsta kosti helmingur þingmanna sé viðstaddur hana. Eingöngu er hægt að greiða atkvæði með eða á móti eða velja um að sitja hjá en eingöngu fyrri möguleikarnir tveir eru teknir gildir við talningu atkvæða. Ef að atkvæði með og móti frumvarpinu eru jafn mörg, þá fellur frumvarpið á jöfnum atkvæðum og öðlast ekki lagalegt gildi. Atkvæðagreiðslan má líka fara þannig fram að þingmenn tjái afstöðu sína með því að rétta upp hönd og einnig geta þingmenn líka krafist þess að atkvæði séu gerð með nafnakalli og spyr þá þingforseti hvern og einn þingmann hvort hann sé með eða á móti. Þingmenn geta líka komið upp í ræðustól og gert grein fyrir atkvæði sínu. Þingforseti getur líka lagt til að mál sé samþykkt án atkvæðagreiðslu ef að enginn þingmaður mótmælir. Allar niðurstöður eru birtar í Alþingistíðindum. Þingmál má leggja undir atkvæði án þess að fara í gegnum umræður, tveir þriðju fundarmanna verða að samþykkja þá tillögu ef hún á fram að ganga. Frumvörp um breytingu á stjórnarskránni. Sérstakar reglur gilda um frumvörp um breytingu eða viðauka á stjórnskipunarlögum. Ferlið sem lýst er hér að ofan er framkvæmt tvisvar. Fyrra skiptið má framkvæma hvenær sem er og skal rætt um frumvarpið í 3 umræður en það fer ekki fyrir forseta ef það er samþykkt í atkvæðagreiðslu, heldur skal rjúfa þing og boða til nýrra Alþingiskosninga. Nýkjörið þing ræðir um það aftur undir nýrri stjórn (eða sömu ef úrslit eru þannig). Frumvarpið fer ekki fyrir neina fastanefnd, heldur skal skipuð sérnefnd til að fjalla um málið. Í seinna skiptið sem frumvarpsferlið hefst skal rætt um frumvarpið í aðrar 3 umræður. Ef frumvarpið er samþykkt í seinna skiptið óbreytt og með 2/3 hluta atkvæða að baki sér í bæði skiptin, þá skal það lagt fyrir forseta. Sólarhringur. Sólarhringur er tímaeining, sem miðast við möndulsnúningstíma jarðar miðað við sólu og er (oftast) miðað við 24 klukkustundir. Sólarhringur er ekki SI-mælieining. Miðað við fastastjörnur er sólarhringurinn nákvæmlega 23 klukkustundir, 56 minútur og 4 sekúndur. Sólarhingur var upphaflega ákvarðaður út frá sýndargangi sólar, þ.e. "sönnum sóltíma" og samkvæmt jarðmiðjukenningunni var einn sólarhringur sá tími sem það tók sólina að fara einn hring á himninum, frá austri til austurs á ný. Réttara þykir þó að tala um þann tíma sem það tekur jörðina að snúast einn hring um möndul sinn miðað við fastastjörnur (sbr. sólmiðjukenningu). Sólarhringur sem þannig er mældur er ekki nákvæmlega 24 klukkustundir og vantar í raun fjórar mínútur til að hann fylli 24 tíma. Í raun tekur einn möndulsnúningur jarðar 23 klukkustundir, 56 mínútur og 4,091 sekúndur. En á þeim tíma hefur jörðin færst á braut sinni um sólu, og því hefur afstaða jarðar og sólar breyst. Það þýðir að jörðin þarf að snúast örlítið lengra til að sólin virðist á sama stað á himninum, en það tekur 3 mínútur og 55,909 sekúndur. Þess vegna er sólarhringurinn nákvæmlega 24 klukkustundir (sem eru 1440 mínútur, eða 86400 sekúndur), þótt einn snúningur jarðar sé í raun aðeins styttri. Nú er venja að líta svo á að sólarhringurinn byrji klukkan 0:00:00 og endi einni sekúndu eftir klukkan 23:59:59, en þá er klukkan annað hvort 24:00:00 eða 0:00:00 og er sá tími kallaður miðnætti. Klukkur dagsins í dag miðast við s.k. meðalsóltíma, en ekki sannan sóltíma. Dagur er sá hluti sólarhrings, sem varir frá sólarupprás til sólarlags, en nótt er frá sólarlagi til sólarupprásar. Ferkílómetri. Ferkílómetri (Einnig: km²) er flötur sem er einn kílómetri á hvern veg (flatarmál), þ.e.a.s. bæði 1 kílómetri á breidd og lengd, eða jafngildi þessa flatar með annarri lögun. Til dæmis er hringur með r = 564,19 m nokkurn veginn 1 ferkílómetri. Brook Taylor. Brook Taylor (18. ágúst 1685 – 29. desember 1731) var enskur stærðfræðingur, sem átti þátt í þróun örsmæðareiknings. Hann gaf út bók árið 1715, sem inniheldur það sem í dag nefnist Taylorröð, en í raun höfðu aðrir uppgötvað þetta á undan honum. Taylorröð er stærðfræðileg umskrift, sem gerir kleift að nálga sérhvert n sinnum diffranlegt fall með n-ta stigs margliðu með minnkandi skekkju eftir því sem liðirnir verða fleiri. Taylorraðir eru mjög mikilvægar í stærðfræðigreiningu og margar stærðfræðiformúlur byggjast á þeim. Til dæmis formula_1, sem betra er að skrá svona: formula_2 Heimildir. Taylor, Brook 1942. Erlendis. Útrýmingarbúðirnar í Treblinka voru reistar fyrri hluta árs 1942. Barist var um nánast hvert hús í orrustunni um Stalíngrad og aðaljárnbrautarstöð borgarinnar féll til skiptis í hendur herjanna þrettán sinnum. 1940. a> með hjálm, búinn undir loftárás. 1938. a> snýr heim frá München og tilkynnir á flugvellinum um „frið um vora daga“. 1926. Útifundur í Hyde Park í breska allsherjarverkfallinu 1926. Rudolph Valentino. Fréttir af andláti hans vöktu mikla sorg meðal kvenna víða um heim. 1924. Auglýsingaplakat fyrir kvikmyndina Hadda Padda. 1922. a> í hlutverki Dórótheu í "Galdrakarlinum í Oz". 1921. 1921 var almennt ár sem byrjaði á laugardegi. 1920. a> verst fjandmanni sínum fimlega í kvikmyndinni "The Mark of Zorro". 1912. a> í höfn áður en lagt var af stað í jómfrúarferðina. 1906. Bygging Landsbókasafnsins hófst þetta ár og lauk 1908. Harmleikurinn í Courrières var mannskæðasta námaslys sem nokkru sinni hefur orðið í Evrópu. San Francisco var að miklu leyti í rústum eftir jarðskjálftann. 1901. a> varð konungur eftir langa bið. Leonardo Pisano. Stytta af Fibonacci í Písa. Leonardo Pisano eða Fibonacci (stytting úr "filius Bonacci", sonur Bonacci) (um 1170 - 1250) var ítalskur stærðfræðingur, sem starfaði sem kaupmaður. Fibonacci var dulnefni hans, en rétt nafn hans var Leonardo Pisano. Hann er einn af allra fyrstu Evrópsku stærðfræðingunum eftir að hinum myrku miðöldum lauk. Hann skrifaði bókina Liber abaci, sem gefin var út 1202. Í henni gerist hann öflugur talsmaður indversk-arabíska talnakerfisins, sem þá var sem óðast að ryðja rómverska rithættinum úr vegi í Evrópu. formula_1, formula_2, formula_3, formula_4, formula_5, formula_6, formula_7, formula_8, formula_9..og svo framvegis Pisano, Leonardo Opinbert tungumál. Opinbert tungumál er tungumál sem sett er á sérstakan stall innan ríkja, fylkja eða sjálfsstjórnarsvæða. Það er yfirleitt málið sem notað er í löggjafarþingum viðkomandi svæðis en lög margra ríkja fara þó fram á það að opinber gögn séu þýdd á önnur mál einnig. Um helmingur ríkja í heiminum hafa opinbert tungumál. Sum hafa aðeins eitt opinbert tungumál (t.d. Litháen, Þýskaland og Albanía) og sum hafa fleiri en eitt eins og Hvíta-Rússland, Belgía, Kanada, Finnland og Suður-Afríka. Í löndum, eins og Írak, Ítalíu og Spáni, eru opinber tungumál en í sumum héruðum þessara landa eru leyfð önnur tungumál. Önnur lönd, eins og Bandaríkin hafa ekkert opinbert tungumál en nokkur ríki Bandaríkjanna hafa opinbert tungumál. Að lokum má nefna lönd eins og Ástralíu, Lúxemborg og Svíþjóð sem hafa ekkert opinbert tungumál, ekki er heldur getið um opinbert tungumál í stjórnarskrá Íslands. Afleiðing nýlendustefnu í Afríku og á Filippseyjum er sú að opinbert tungumál (franska eða enska) er ekki það sama og talað er af fólkinu í landinu. Á móti má nefna Írland þar sem írska hefur verið skilgreind sem opinbert tungumál sökum þjóðernishyggju en flest allir tala ensku sem er að vísu annað opinbert tungumál Írlands. Sjálfstæði. Sjálfstæði lands, þjóðar eða ríkis er að ábúendur njóti algers fullveldis. Að öðrum kosti eru viðkomandi undir aðra settir og geta slík valdatengsl tekið á sig margs konar myndir eftir samhengi þess. Þannig er til að mynda rætt um forræði milli ríkja þegar voldug ríki hafa mikil áhrif á grannríki, svo mikil jafnvel að vegið er að sjálfstæði þeirra. Annað dæmi er nýlendur þær sem voru settar undir evrópsku verslunarveldin á tímabili útbreiðslu vestrænnar heimsvaldastefnu. Eftir að Sovétríkin liðu undir lok urðu mörg ríki þeirra sjálfstæð. Á Balkanskaganum myndaðist fjöldi ríkja úr leifum Júgóslavíu, þeirra á meðal Kosóvó, yngsta ríki heimsins, sem lýsti yfir sjálfstæði 17. febrúar 2008. Jörðin. Jörðin er þriðja reikistjarnan frá sólu, sú stærsta af innri reikistjörnum og sú fimmta stærsta af þeim öllum. Jörðin, sem talin er hafa myndast fyrir um 4,55 milljörðum ára, er eini hnötturinn sem vitað er til að líf þrífist á. Tunglið er eini fylgihnöttur jarðar og hefur fylgt henni í að minnsta kosti 4,5 milljarða ára. Ef jörðin er skoðuð utan úr geimnum lítur hún út ekki ósvipað og djúpblá marmarakúla með hvítri slikju sem þekur hana hér og þar. Blái liturinn kemur til vegna úthafanna, en sá hvíti vegna skýja, sem að öllu jöfnu þekja talsverðan hluta hennar. Jörðin er talsvert björt, og af innri reikistjörnunum er það einvörðungu Venus sem endurkastar stærri hluta af því ljósi sem á hana fellur. Síðan jörðin myndaðist hefur hún þróast stöðugt, og standa nú eftir litlar sem engar leifar af upphaflegri ásýnd hennar. Ysta lag jarðarinnar, jarðskorpan, samanstendur af nokkrum jarðflekum sem fljóta ofan á möttlinum. Þessir flekar eru á hreyfingu hver gagnvart öðrum og breytir þessi hreyfing ásýnd jarðarinnar smátt og smátt. Aflið sem knýr þetta ferli kemur úr iðrum jarðar, en bráðinn möttull hennar er á stöðugri hreyfingu. Möttullinn hvílir á kjarna jarðar, sem er að meginhluta til úr járni, og er uppspretta segulsviðs jarðarinnar. Úthöf jarðarinnar þekja um 70% af yfirborði hennar, en hin 30% yfirborðsins samanstanda af eyjum og stærri landmössum. Umhverfis jörðina liggur þunnt lag lofttegunda, svokallaður lofthjúpur, sem samanstendur að mestu leyti af köfnunarefni og súrefni. Lofthjúpurinn verndar jörðina fyrir áhrifum geislunar, temprar hitastig hennar, og dýr og plöntur nýta ýmis efni úr lofthjúpnum. Jarðhræringar eru ekki eini áhrifavaldurinn á ásýnd jarðarinnar, ýmsir kraftar utan úr geimnum verka á jörðina. Tunglið veldur með snúningi sínum sjávarföllunum og hefur með því hægt á snúningshraða jarðarinnar síðan það myndaðist. Jörðin verður einnig fyrir stöðugum ágangi loftsteina. Þá hefur sólin að sjálfsögðu mjög mikil áhrif, en hún hitar yfirborð reikistjörnunnar og knýr að auki veðrakerfið. Saga jarðarinnar. Saga jarðarinnar hefur verið ítarlega rannsökuð og er þekkt með nokkurri vissu. Talið er að jörðin hafi myndast í árdaga sólkerfisins fyrir um 4,55 milljörðum ára, á svipuðum tíma og sólin og hinar reikistjörnurnar. Tunglið myndaðist skömmu síðar, fyrir um 4,5 milljörðum ára. Þegar jörðin myndaðist fyrst var yfirborð hennar bráðið, en þegar hún kólnaði storknaði yfirborðið. Ýmsar lofttegundir sem losnuðu frá jörðinni, meðal annars í eldgosum, voru upphafið að lofthjúp jarðarinnar. Höfin mynduðust við það að vatnsgufa úr andrúmsloftinu þéttist smám saman og ís sem barst til jarðarinnar með halastjörnum bráðnaði. Við þessar ólguríku aðstæður er talið að líf á jörðinni hafi kviknað. Fyrsta sameindin sem var fær um að afrita sjálfa sig er talin hafa orðið til fyrir um fjórum milljörðum ára, og síðasti sameiginlegi forfaðir allra núlifandi lífvera er talinn hafa lifað um hálfum milljarði ára síðar. Þegar lífverur þróuðu með sér getu til ljóstillífunar gátu þær í fyrsta skipti nýtt orku sólarinnar á beinan hátt, og byrjuðu þá að losa súrefni úr koldíoxíði (ildisbyltingin). Súrefnið hafði mikil áhrif á lofthjúpinn. Hluti þess breyttist í óson og myndaði ósonlagið, sem ver lífverur jarðarinnar fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar. Þegar ágangur útfjólublárra geisla minnkaði gafst lífverum tækifæri á að stækka, og hópar af einfruma lífverum runnu saman í fyrstu fjölfrumungana. Smám saman breiddust þessar lífverur út um alla jörðina. Eftir því sem ármilljónirnar liðu urðu til heimsálfur og liðu undir lok. Yfirborð jarðarinnar var á stöðugri hreyfingu, og jarðflekana, sem heimsálfurnar eru á, hefur rekið til og frá, og stundum hafa þeir búið til nokkurs konar risaheimsálfu. Fyrir um 750 milljónum ára byrjaði fyrsta risaheimsálfan, Rodinia, að brotna í sundur. Fyrir um 600 milljónum ára runnu heimsálfurnar aftur saman og myndyðu Pannotiu, sem brotnaði upp 150 milljónum ára síðar. Síðasta risaheimsálfan var Pangaea, sem brotnaði upp fyrir um 180 milljónum ára. Í jarðsögunni hafa orðið margar ísaldir, og hefur verið leitt að því líkum að sú sem stóð yfir fyrir milli 750 og 580 milljónum ára síðan hafi jafnvel verið svo köld að úthöf jarðarinnar hafi frosið. En óháð því hvort þessi ísöld hafi verið svo afgerandi er vitað að þegar henni lauk fyrir um 535 milljónum ára, spratt upp ótrúlegur fjöldi fjölfruma lífvera, á tímabili sem nefnist kambríatímabilið. Síðan á kambríatímabilinu hefur það gerst fimm sinnum að stór hluti tegunda hefur skyndilega dáið út. Síðast gerðist það fyrir 65 milljónum ára, þegar risaeðlurnar dóu út, sennilega af völdum stórs loftsteins sem rakst á jörðina. Lítil spendýr lifðu hins vegar af þær hamfarir sem þá gengu yfir. Á síðustu 65 milljónum ára hafa þróast fjölmargar tegundir spendýra og fyrir nokkrum miljónum ára er talið að afrískur api hafi öðlast þann hæfileika að geta staðið á tveimur fótum. Þeir apar sem gátu staðið á tveimur fótum höfðu þar með tvo útlimi lausa sem þeir gátu notað til ýmissa hluta, meðal annars til að fara að nota verkfæri. Í kjölfarið þróaðist akuryrkja, sem gerði mönnunum, afkomendum apanna, kleift að fjölga sér mikið. Mennirnir settust smám saman að alls staðar á jörðinni, nema á Suðurskautslandinu, og hafa gjörbreytt allri ásýnd hennar, umhverfi og loftslagi. Gerð jarðarinnar. Jörðin er nánast kúlulaga, en vegna snúnings hennar er hún örlítið aflöguð, og í laginu eins bolti sem einhver hefur sest á. Meðalþvermál jarðarinnar er um það bil 12.742,6 km (~ 40.000 km / π). Jörðin sjálf samanstendur af jarðskorpunni, möttli og kjarna, en fyrir ofan yfirborð jarðarinnar liggur lofthjúpurinn. Lofthjúpur jarðar samanstendur aðallega af köfnunarefni (78%) og súrefni (21%), en afgangurinn (1%) samanstendur af öðrum lofttegundum, svo sem koldíoxíði og vatnsgufu. Miðað við stærð jarðarinnar er hann örþunnur, og er oft miðað við 80-400 km, þótt hjúpurinn hafi í raun engin föst endimörk, heldur þynnist hann smám saman. Lofthjúpurinn styður við líf á jörðinni með því að draga úr útfjólublárri geislun frá sólinni, tempra hitastig jarðar, stuðla að flutningi vatnsgufu af rakari stöðum á þurrari. Auk þess eru ýmsar lofttegundir í lofthjúpnum lífsnauðsynlegar fyrir dýr, plöntur og aðrar lífverur. Lofthjúpurinn er einn af aðaláhrifavöldunum á veður og loftslag jarðar. Myndin sýnir innri gerð jarðarinnar (í réttum hlutföllum) og hvolf lofthjúpsins (ekki í réttum hlutföllum) Undir lofthjúpnum liggur jarðkúlan sjálf, og er jarðskorpan efsta lag hennar. Jarðskorpan er á bilinu 5-70 km þykk, og er hún þynnst í úthöfunum en þykkust undir heimsálfunum. Jarðskorpan skiptist í allnokkra fleka. Flekarnir fljóta ofan á möttlinum og eru á hreyfingu hver gagnvart öðrum. Á flekamótum myndast núningur og spenna í jarðskorpunni, sem veldur jarðskjálftum. Þar sem flekana rekur í sundur verður gliðnun og eru þar tíðari eldgos en annars staðar. Möttullinn liggur undir jarðskorpunni. Möttullinn er miklum mun þykkari en skorpan, og nær niður á 2890 km dýpi. Honum er oft skipt í ytri og innri möttul, vegna mismunandi eiginleika hans eftir dýpi. Þótt möttullinn sé að mestu leyti úr föstu efni veldur hitastigið því að efnið getur hreyfst til yfir lengri tímabil. Hreyfingar möttulsins tengdar reki jarðflekanna sem á honum fljóta, og er það varmaflutningur frá neðri hluta hans til þess efri sem knýr jarðsögulega virkni á yfirborðinu. Í miðju jarðar er kjarninn. Kjarninn samanstendur af föstum innri kjarna, sem er tæplega 2500 km í þvermál, og fljótandi ytri kjarna, en kjarninn allur er um 7000 km í þvermál. Meginuppistaða innri kjarnans er talinn vera járn, auk einhvers nikkels, en ytri kjarninn er talinn samanstanda af bæði járni og nikkeli, og ögn af léttari frumefnum. Talið er að segulsvið jarðarinnar sé myndað í kjarnanum, sennilega af völdum iðustrauma í ytri kjarnanum. Þær fræðigreinar sem fjalla um jörðina sérstaklega, myndun hennar, gerð og eðli, nefnast jarðfræði, jarðefnafræði og jarðeðlisfræði. Jörðin og sólkerfið. Hreyfimynd sem sýnir snúning jarðar Jörðin er á stöðugum snúningi um möndul sinn, og liggur möndullinn á línu sem liggur gegnum norðurpól og suðurpól jarðarinnar. Hver snúningur miðað við fastastjörnur tekur tæplega einn sólarhring, eða 23 klukkustundir, 56 mínútur og 4,091 sekúndur, en sólarhringur miðast við einn snúning samanborið við sól og er nákvæmlega 24 klst. Samhliða möndulsnúningnum gengur jörðin umhverfis sólina, eftir sporöskjulaga sporbaug. Auk þess hefur jörðin einn fylgihnött, tunglið, sem gengur í kringum jörðina um það bil einu sinni á hverjum mánuði. Sólin, jörðin og tunglið eru öll hluti af sólkerfinu, sem samanstendur af sólinni og öllum þeim hnöttum og hnullungum sem eru föst í þyngdarsviði hennar. Aðrir fylgihnettir sólarinnar eru meðal annars Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus, Neptúnus og Plútó, og hafa flestir þeirra einnig eigin fylgihnetti, eða tungl. Sú fræðigrein sem fjallar um sólina, aðrar fastastjörnur, reikistjörnur þeirra og hugsanlega fylgihnetti reikistjarnanna nefnist stjörnufræði. Björn Bjarnason (f. 1944). Björn Bjarnason (f. 14. nóvember 1944) lögfræðingur, er fyrrverandi menntamála- og dómsmálaráðherra og var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á árunum 1991-2009. Ævi og störf. Björn fæddist í Reykjavík, foreldrar hans voru Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigríður Björnsdóttir. Björn á þrjár systur Guðrúnu, Valgerði og Önnu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964, lærði lögfræði við Háskóla Íslands og var formaður Stúdentaráðs 1967-1968. Sumarið 1970 missti hann foreldra sína og ungan systurson í eldsvoða í sumarbústað á Þingvöllum. Lagaprófi frá Háskóla Íslands lauk hann 1971. Hann vann sem útgáfustjóri Almenna bókafélagsins 1971-1974, fréttastjóri á Vísi 1974, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu 1974-1979, blaðamaður á Morgunblaðinu 1979-1984 og aðstoðarritstjóri 1985-1991. Hann hlaut 3. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1991 og settist þá á þing. Hann varð menntamálaráðherra 1995 og gegndi þeirri stöðu til 2002, þegar hann tók að sér að verða forystumaður Sjálfstæðisflokksins í baráttunni fyrir borgarstjórnarkosningar 2002. Hann varð dómsmálaráðherra 2003, eftir að Davíð Oddsson myndaði í þriðja skipti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og gegndi embætti til ársins 2009 og lét þá af þingmennsku. Björn hefur tekið mikinn þátt í umræðum um öryggis- og varnarmál á Íslandi og ætíð verið eindreginn stuðningsmaður vestræns varnarsamstarfs og varnarsamningsins við Bandaríkin. Hann var sumarið 2004 skipaður formaður Evrópunefndar forsætisráðherra, sem skilaði skýrslu í mars 2007. Hann er félagi í International Institute for Strategic Studies og hefur setið fundi Bilderberg-samtakanna. Greinasafnið "Í hita kalda stríðsins" kom út eftir hann árið 2001. Björn er kvæntur Rut Ingólfsdóttur fiðluleikara, og eiga þau tvö börn, Sigríði Sól og Bjarna Benedikt. Hann er tengdafaðir Heiðars Más Guðjónssonar. Srinivasa Ramanujan. Srinivasa Aiyangar Ramanujan (22. desember 1887 - 26. apríl 1920) (tamil: "ஸ்ரீனிவாஸ ஐயங்கார் ராமானுஜன்") var indverskur stærðfræðingur. Hann vann sem skrifstofumaður í Madras á Indlandi og var algjörlega sjálfmenntaður í stærðfræði. Hann skrifaðist á við breska stærðfræðinginn G. H. Hardy (Málsvörn stærðfræðings) og í framhaldi af því var honum boðið til Bretlands. Þar vann hann með Hardy að rannsóknum í talnafræðum, en hæfileikar hans á því sviði og fleirum þóttu með ólíkindum. Hann var heilsuveill og sneri aftur til Indlands árið 1919 og dó þar 1920. Ásgeir Ásgeirsson. Ásgeir Ásgeirsson (fæddur í Kóranesi á Mýrum 13. maí 1894, látinn 15. september 1972) var annar forseti Íslands (1952-1968), en hafði áður verið forsætisráðherra Framsóknarflokksins á árunum 1932-1934. Foreldrar hans voru Ásgeir Eyþórsson, verslunarmaður og Jensína Björg Matthíasdóttir. Ásgeir útskrifaðist frá Lærða skólanum árið 1912 eftir að hafa gegnt embætti forseta Framtíðarinnar árið 1911 og inspectors scholae skólaárið 1911-1912. Hann var guðfræðingur að mennt, hann lauk prófi frá Háskóla Íslands 21 árs gamall og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn í eitt ár að því loknu. Ásgeir var biskupsritari Þórhalls Bjarnarsonar biskups og síðar kennari við Kennaraskólann og fræðslustjóri í mörg ár. Hann var þingmaður Vestur-Ísafjarðarsýslu 1923 - 1952, forseti sameinaðs þings á Alþingishátíðinni 1930, gegndi embætti fjármálaráðherra 1931 - 1932 og var forsætis- og fjármálaráðherra 1932—1934. Hann var bankastjóri Útvegsbanka Íslands 1938 - 1952 er hann var kjörinn forseti. Ásgeir var fyrsti forseti þjóðarinnar sem var kosinn til þess embættis í almennum kosningum. Hann sat í embætti árin 1952 – 1968 eða í fjögur kjörtímabil. Hann fékk aldrei mótframboð og var því ávallt sjálfkjörinn í embætti frá og með 1956. Kona hans var Dóra Þórhallsdóttir, dóttir Þórhalls Bjarnarsonar biskups. Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn 1923-1934, utanflokka 1934-1937 og fyrir Alþýðuflokkinn 1937 til 1952. Forseti Sameinaðs þings 1930 til 1931 og varaforseti þess 1928-1929. Fjármálaráðherra 1931-1932 er hann varð forsætis- og fjármálaráðherra og gegndi hann því starfi til 1934. Kristján Eldjárn. Kristján Eldjárn Þórarinsson Eldjárn fornleifafræðingur (fæddur á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916 – dáinn 14. september 1982) var þriðji forseti Íslands árin 1968 – 1980. Foreldrar hans voru hjónin Þórarinn Kr. Eldjárn, bóndi og kennari á Tjörn, og Sigrún Sigurhjartardóttir. Kristján lauk fyrrihlutaprófi í fornleifafræði frá Kaupmannahafnarháskóla en lærði síðan íslensk fræði við HÍ. Hann lauk doktorsprófi árið 1957 og nefnist ritgerð hans "Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi". Kristján var þjóðminjavörður og þjóðþekktur og vinsæll maður vegna þátta sinna í sjónvarpi um fornar minjar og muni í vörslu Þjóðminjasafnsins. Kristján var hispurslaus og alúðlegur í framgöngu og ávann sér miklar vinsældir þjóðarinnar. Hann sigraði mótframbjóðanda sinn, Gunnar Thoroddsen, í kosningunum 1968 með miklum atkvæðamun og var sjálfkjörinn eftir það. Árið 1980 virtist stefna í að Kristján yrði að mynda utanþingsstjórn en hann komst hjá því þegar Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var mynduð. Fornleifafræði. Kristján Eldjárn fór í sinn fyrsta fornleifaleiðangur árið 1937 til Grænlands að grafa upp norænnan miðaldabæ í Austmannsdal, kennara hans trú um að sveitastrákur frá íslandi ætti ekki í vandræðum með þær aðstæður sem þessi leiðangurinn myndi bjóða upp. Sumarið 1939 er mikilvægt ár í fornleifa uppgreftri hér á landi, Mattías Þórðarsson kom á fót norrænum rannsóknarleiðangri á Ísland en í honum voru allar norrænu þjóðinar nema Noregur, en niðurstöður úr þessum leiðangri voru tímaamót í fornleifarannsóknum hér á landi en niðurstöður um leiðangurinn var birt í riti sem heitir Forntida gårdar i Island. Kristján var undir stjórn Dana sem hét Aage Roussell en sá hópur sá um gröftinn í Stöng í Þjórsárdal og í uppgröftinum kom í ljós að þetta voru ein best varðveitti bærinn. Kristján hafði lokið fyrri hluta prófi í norrænni fornleifafræði en fór ekki til Danmerkur til að klára því það var augljóst að stríð myndi byrja von bráðar. Sumarið 1940 fór Kristján að rannsaka skálatótt í klaufanesi í svarfaðardal en þarna kom í ljós að hann að hann hefði mikinn áhuga að stjórna sínum eigin fornleifarannsóknum, hægt er að segja að þessi fornleifauppgröftur sé sá fyrsti mikli uppgröftir sem undir stjórn Íslendings sem stenst nútimakröfur. Og ári eftir kom hans fyrsta grein í Árbók fornleifafélagsins en þetta var hans fyrsta grein fornleifafræðilegs efnis. En árið 1945 varð hann starfsmaður fyrir Þjóðminjasafnið en einungis voru tvær stöður í boði og varð hann aðstoðarmaður Matthíasar Þórðarsonar en þetta var fjölbreytt starf og Matthías var byrjaður að eldast svo hann fékk mikla ábyrgð í starfinu frá fyrsta degi við margskonar verkefni. Þann 1. desember árið 1947 tók hann við keflinu af Matthíasi sem dróg sig í hlé vegna aldurs. En það var mikið breytinga skeið á þessum tíma því þjóðminjasafnið var að væra sig um set í nýtt húsnæðið á melunum en þegar það hús var opnað árið 1949 var haldinn þróunarsýning Reykjavíkur, Reykjavíkursýningin. Einnig var hann kjörinn í stjórn Árbókarinar árið 1945 en ekki stendur á bókunum að Kristján sé ritstjóri fyrr en 1955-56 hann hafði þá þegar skrifað 2 miklar greinar í Árbókina sem var frá árunum 1943-48 ein þeirra greina var um hrunmannafrétti sem var hálendisbyggð lagðist af vegna Heklugos 1104, hin greinin var um kuml á Hafurbjarnastöðum en blástur hafði verið þar í gangi allt frá 1868 þar til að Kristján og Jón Steffensen rönnsökuðu þau árið 1947. Árið 1954-55 þegar var ákveðið að gera dómskirkju á gamla krikjustæðinu í Skálholti var augljóst að skoðað yrði grunnurinn að eldri krikjum skoða í leiðinni. Þessi uppgröftur var sá fyrirferðamesti sem Kristján sá um hann fékk góða samstarfsaðila Hákon Christie sem var norskur arkitekt og sérfræðingur um kirkjur sem voru byggðar á miðöldum. Gísli Gestsson sá að mestu um rannsóknir en Jón Steffensen sá um beinarannsóknir. Síðan var ætlunin að gefa út sjálfstætt rit um þennan fund, Kristján ætlaði að sjá um það verk. En hann náði aldrei að ljúka því verki. Hann vildi ólmur finna hvort hinar fornu sagnir úr Íslendingabók og Landnámsbók væru sannar um Papana og byrjaði það verk árið 1967 fór síðan fjögur til viðbótar út í eyna árið 1969 síðan fór hann aftur 1971 og tvisvar sinnum árið 1982 en þá hafði hann grafið upp allar minjar sem báru fyrir augum en allt kom fyrir ekki engar minjar voru fyrir hendi að Papar hefðu nokkurn tíman verið þar en þó fann hann minjar frá búset á miðöldum í kringum 1200 og var í norrænn í útliti. Fornleifarannsóknir á erlendri grundu. Á Grænlandi 1962 að Þjóðhildarkirkjunni og einnig það ár vann hann að uppgreftri á fornrústum L’Anse aux Meadows Þjóðvegur 1. Þjóðvegur 1 eða Hringvegurinn er vegur sem liggur um Ísland og tengir saman flest öll byggileg héruð á Vestur-, Norður-, Austur- og Suðurlandi. Vegurinn er samtals 1332 km á lengd og liggur um alla landshluta nema Vestfirði og Miðhálendið. Hringurinn var kláraður árið 1974 þegar Skeiðarárbrú var opnuð. Núllpunktur Hringvegarins er á sýslumörkum Skaftafellssýslnanna tveggja á Skeiðarársandi. Vegurinn er að mestu tvíbreiður nema þar sem hann liggur í gegnum stærri bæi þar sem hann er breiðari og einnig í hluta Hvalfjarðarganganna. Stærstur hluti vegarins er nú með bundnu slitlagi en á nokkrum köflum á Austurlandi er hann enn þá einungis malarvegur. Nú er þó hægt að aka á bundnu slitlagi umhverfis landið ef farið er um Fagradal og suðurfirði Austfjarða, að undanskildum kaflanum um Berufjarðarbotn. Umferð um veginn er langmest í nágrenni höfuðborgarinnar og stærri bæja eins og Akureyrar og Selfoss en fjarri þéttbýli er að finna kafla þar sem umferð er mjög lítil eða undir 100 ökutækjum á dag. Lengi hefur það verið vinsælt hjá íslenskum ferðamönnum að fara hringinn enda er stór hluti landsins innan seilingar frá honum. Í seinni tíð hefur leiðin öðlast meiri vinsældir meðal erlendra ferðamanna sem leigja sér bíl, taka með eigin bíl eða hjóla þessa leið. Friðrik Þór Friðriksson gerði kvikmyndina Hringinn þar sem hann keyrði allan Hringveginn og tók það upp. Kílómetri. Kílómetri er mælieining fyrir vegalengd og jafngildir eitt þúsund metrum. Forskeytið "kíló-" er komið af gríska orðinu "kilo" sem merkir þúsund. Einn kílómetri er um 0,621 mílur. SI mælieiningar. SI mælieiningar eru þær mælieiningar sem skilgreindar eru í SI kerfinu. Allar aðrar mælieiningar má reikna út frá þessum mælieiningum og eru þær þá SI ættaðar mælieiningar. Vegalengd. Grunnmælieiningin er metri og er notuð til að mæla vegalengdir. Metrakerfið var ákvarðað upphaflega þann 26. mars árið 1791 í Frakklandi og átti einn metri að vera 1/10.000.000 (einn tíumilljónasti) af vegalengdinni frá landfræðilega norðurpólnum, í gegnum París, og að miðbaug. Vegna betri aðferða til útreikninga, þá vitum við núna að þessi vegalengd er í raun og veru 10.001.957 metrar. Árið 1983 var metrinn skilgreindur upp á nýtt, og nú er 1 m sú vegalengd sem ljósið fer í lofttæmi á 1/299.792.458 hlutum úr sekúndu. Massi. Grunnmælieiningin til að mæla massa er ekki gramm eins og mætti kannski búast við, heldur kílógramm. Strangt til tekið er kílógramm ekki mælieining fyrir þyngd heldur skal einungis tala um massa í kílógrömmum. Þyngd er kraftur og er mæld með mælieiningunni newton (N) eins og aðrir kraftar. Þyngd ákveðins hlutar er mismunandi eftir því hvar í þyngdarsviði hann er staddur. Staðalkílógrammið er lóð úr blöndu af iridíum og platínu, sem geymt er í Sevres í Frakklandi. Tímamæling. Grunnmælieiningin er sekúnda og er notuð til að mæla tíma. Frá 1967 hefur grunndvallareining tímans verið 1 atómsekúnda, sem miðast við 9 192 631 770 sveiflutíma raföldu frá loftkenndu sesíumi ("133Cs"). Þegar mældur er styttri tími en ein sekúnda er tugakerfið notað á hefðbundinn hátt (1/10, 1/100, 1/1000 úr sekúndu o.s.frv.) Af sögulegum ástæðum er hins vegar notast við tylftir við að mæla tíma allt upp í einn sólarhring, þannig er 1 mínúta 5x12=60 sekúndur, o.s.frv. en þær mælieiningar eru ekki hluti af SI-kerfinu. Rafstraumur. Grunnmælieiningin er amper. Formúlutáknið er I og tákn mælieiningarinnar A eða amp. Hitastigsmæling. Grunnmælieiningin er kelvín og er notuð til að mæla hitastig. Algengt er að rugla saman hitastigi og varma, en varmi er orka og mælist í júlum. Efnismagn. Grunnmælieiningin er mól og er notuð til að mæla magn tiltekins efnis. Ljósstyrkur. Grunnmælieiningin er kandela og er notuð til að mæla ljósstyrk í ákveðna átt. Hrísey. Hrísey er dropalaga eyja í norðanverðum Eyjafirði sem stendur austur af Dalvík og norðaustur af Árskógssandi. Eyjan mælist 8,0 km2 að flatarmáli og er næststærsta eyja við Íslandsstrendur á eftir Heimaey. Syðst á eynni er lítið þorp þar sem flestir búa en þar voru fastir íbúar um 180 árið 2003. Hrísey er aðallega þekkt fyrir að vera vinsæll ferðamannastaður og fyrir einu einangrunarstöð gældýra á Íslandi sem nefnist Hvatastaðir. Hrísey heyrir alfarið undir Akureyrarkaupstað. Eyjarlýsing. Hrísey er aflöng eyja frá norðri til suðurs, rúmlega 7 km löng en 2,5 km breið. Hún er láglend, rís hæst 110 metra yfir sjávarmál, og er vel gróin. Berggrunnur eyjarinnar er blágrýti, um 10 milljón ára gamall. Jarðhiti er í eynni og hitaveita. Borholurnar eru við ströndina um 1 km norðan við þorpið. Í Hrísey eru laugar í flæðarmálinu sem voru um 50°C áður en vinnsla hófst. Við Laugakamb á norðurenda eyjarinnar er laug sem fer á kaf í flóði, hitinn þar er yfir 60°C. Samfelld byggð hefur verið í Hrísey allt frá landnámstíð. Hríseyjar-Narfi Þrándarson nam eyna. Hans er getið í Landnámabók og Víga-Glúms sögu. Hrísey heyrði lengst af undir Árskógshrepp en var gerð að sérstökum hreppi, "Hríseyjarhreppi", árið 1930 og myndaði upp frá því eigin hreppsnefnd. Hinn 1. ágúst 2004 sameinaðist Hríseyjarhreppur Akureyrarkaupstað að undangenginni atkvæðagreiðslu í báðum sveitarfélögunum 26. júní s.á. Klettsvík. Klettsvík er vík við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn sem afmarkast af Ystakletti til austurs, Miðkletti til norðurs og Heimakletti til vesturs. Klettsvík var á árunum 1998 til 2003 heimili háhyrningsins Keikó, en hefur síðan verið notuð undir fiskeldi. Fyrir komu Keikós hafði víkin verið notuð mikið af smábátasjómönnum til þess að gera að fiski eða laga net, en sú iðja hefur horfið frá Vestmannaeyjum að mestu á síðustu árum. Í Klettsvík er inngangurinn inn í Klettshelli, sem er í Ystakletti. Eldfell. Eldfell er rétt rúmlega 200 m hátt eldfjall á Heimaey í Vestmannaeyjaklasanum. Það myndaðist í eldgosi sem hófst 23. janúar 1973 en lauk 3. júlí 1973, eldgos þetta er kallað Heimaeyjargosið. Yfirlit. Í upphafi gossins opnaðist stór sprunga frá norðri til suðurs á austasta hluta Heimaeyjar, og náði hún að höfninni í norðri en niður að Skarfatanga í suðri. Fljótlega minnkaði sprungan þó og megineldvarpið varð þar sem nú stendur Eldfell. Gosefnið í upphafi gossins var nánast ísúrt, en þó varð það fljótlega basískt (SiO2 > 52%). Efnainnihald kvikunnar bendir til að kvikuhólf og megineldstöð séu að myndast á þessum slóðum. Strax og tilkynning barst um að eldgos væri hafið hófst brottflutningur fólks af eynni. Af 5.500 íbúum eyjarinnar voru um 4.000 fluttir burt um nóttina, mestmegnis með skipum. Á næstu vikum voru búslóðir fólks fluttar burt að mestu, en hús tóku mjög fljótlega að hverfa undir hraun. Einungis einn maður dó í gosinu og var það af völdum koldíoxíðeitrunar - mikið af lífshættulegum lofttegundum kom upp úr jörðinni með vikrinum og gjóskunni. Mikil mildi þótti að ekki skyldi hafa farið verr, þar sem að sprungan kom upp rétt austan við austasta hús bæjarins (þó munaði ekki nema nokkrum metrum). Um helmingur húsa bæjarins ýmist lenti undir hrauni eða á annan hátt eyðilagðist í gosinu, en uppbyggingin eftir gosið var mjög snögg. Gosið í Heimaey byrjaði 23.janúar 1973 og lauk 3.júlí sama ár. Þetta er fyrsta gos sem hefst í þorpi á Íslandi. Það var Loftskeytamaðurinn Hjálmar Guðnason og vinur hans Ólaf Granz sem voru í sínum vanalega miðnæturgöngutúr þegar hinn tilkomumikla sýn birtist þeim þegar þeir skoðuðu bæinn frá Helgafellstoppi. Þar sáu þeir jörðina opnast og eldtungurnar stóðu marga metra upp í loftið. Strax var haft samband við lögreglu þar sem tilkynnt var að jarðeldur væri kominn upp austan við Kirkjubæ. Lögreglan var ekki alveg að trúa þessum upplýsingum í fyrstu og fór strax að athuga hvað væri í gangi og þegar á staðinn var komið sáu þeir að gos var hafið á 1600 metra langri sprungu og magnaðist hratt á fyrstu mínútunum. Kveikt var á brunalúðrum og á mjög skömmum tíma var allur bærinn vaknaður og fólk streymdi úr húsum sínum og niður á bryggju. Flestir þeir sem upplifðu gosið eru sammála um að klukkuna hafi vantað fimm mínútur í tvö þegar að gosið hófst. Surtsey. Mynd tekin 30. nóvember árið 1963, sextán dögum eftir að gossins varð vart. Surtsey er syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, en miðpunktur hennar er 63°18'N, 20°36'V. Hún er jafnframt sú eina þeirra sem hefur myndast á sögulegum tíma, eða í mesta neðansjávareldgosi á sögulegum tíma. Menn urðu gossins varir klukkan 7:15 að morgni þess 14. nóvember 1963, þegar það braust upp úr yfirborði sjávar skammt frá fiskibátnum Ísleifi II frá Vestmannaeyjum. Skipverjar mældu sjávarhita í hálfrar mílu (rúmlega 900m) fjarlægð og reyndist hitastigið vera nálægt 10 °C. Gosið magnaðist hratt og varð hár gosmökkur. Næsta morgun sást í gosmekkinum að eyja hafði myndast. Er því ljóst að gosið hefur hafist einhverjum dögum áður en þess varð vart. Þann 12. nóvember fannst brennisteinslykt í lofti í suðvestanátt í Vík í Mýrdal, en engra jarðhræringa hafði orðið vart dagana fyrir uppkomu gossins. Gosið stóð fram til 5. júní 1967 eða í um það bil þrjú og hálft ár. Síðan þá hefur flatarmál eyjunnar minnkað úr 2,7 km2 í 1,4 km2 sökum rofs sjávar og vinda. Eyjan er um 20 km suðvestur af Heimaey, eða um 30 km suðvestur af Landeyjasandi á meginlandi Íslands. Surtsey hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 8. júlí 2008. Surtsey var friðlýst árið 1965. Umhverfisstofnun fer með umsjón Surtseyjarfriðlandsins. Surteyjarfélagið samræmir og leitast við af efla vísindarannsóknir í Surtsey. Óheimilt er að fara í land í Surtsey eða kafa við eyna nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Heimilt er að veita leyfi til ferða úti í Surtsey til rannsókna og verkefna sem tengjast þeim, eða til kvikmyndatöku og/eða ljósmyndunar vegna gerðar fræðsluefnis með sérstaka skírskotun til Surtseyjar eða rannsókna þar. Bítlarnir. Bítlarnir (enska: "The Beatles") voru ensk rokkhljómsveit. Saga. Bítlarnir voru áhrifamikil popphljómsveit sem var stofnuð 1960. Hljómsveitin er í hópi þeirra vinsælustu sem uppi hafa verið. Meðlimir sveitarinnar koma frá Liverpool í Englandi og á rætur sínar að rekja til hljómsveitarinnar The Quarry Men, sem var stofnuð af John Lennon árið 1956. Árið 1957 gekk Paul McCartney til liðs við hana, og árið 1958 George Harrison seinna ganga Stuart Sutcliffe og Pete Best til liðs við hana. Hljómsveitin gekk undir ýmsum nöfnum næstu árin, t.d. Johnny and the Moondogs, The Silver Beetles og vorið 1960 voru hljómsveitarmeðlimir farnir að kalla sig Bítlana (The Beatles). Í upphafi voru The Quarry Men aðeins enn ein skiffle hljómsveitin í Liverpool en þroskaðist og þegar þeir slógu í gegn snemma á sjöunda áratugnum spiluðu þeir nýstárlega kraftmikla popptónlist. Fyrsta breiðskífa þeirra "Please Please Me" kom út árið 1963 og tónlist þeirra hélt áfram að þróast allt þar til yfir lauk árið 1970, þegar síðasta plata þeirra kom út, "Let it be", en samstarfi þeirra var þá þegar lokið og upptökurnar á plötunni voru gamlar. Allt frá því að fyrsta platan kom út árið 1963 og þar til sú síðasta kom út árið 1970 samanstóð hljómsveitin af fjórum meðlimum, John Lennon, sem spilaði á gítar og söng, Paul McCartney, sem spilaði á bassa og söng, George Harrison, sem spilaði á gítar og söng stöku sinnum, og svo trommaranum Ringo Starr (Richard Starkey), sem einnig söng örfá lög. Langflest lögin voru samin af frægasta lagahöfunda tvíeyki sögunnar Lennon/McCartney. Síðastliðin ár hafa átt sér stað miklar deilur á milli Paul McCartney og Yoko Ono (síðari eiginkona John Lennon) vegna þess að Paul hefur viljað breyta skráningu laga sem hann samdi í McCartney/Lennon. Bítlaæðið hófst í kjölfar útgáfu fyrstu plötu þeirra í Bretlandi árið 1963, en snemma árs árið 1964 komu Bítlarnir fram í "The Ed Sullivan Show" í Bandaríkjunum. Bítlaæðið fór í kjölfarið eins og eldur í sinu um heiminn. Bítlarnir gerðu tilraunir með hugvíkkandi lyf á sjöunda áratugnum og gáfu út plötur sem unnar voru undir áhrifum lyfjanna. Ber þar helst að nefna „Magical Mystery Tour“ og „Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band“. Hljómsveitin framleiddi einnig nokkrar kvikmyndir, sú fyrsta nefndist "Bítlarnir", eða "A Hard Day's Night" á móðurmálinu, og í kjölfarið fylgdu "Help!", "Magical Mystery Tour", Heimildarmyndin "Let It Be" og teiknimyndin "Yellow Submarine", sem Bítlarnir komu nánast ekkert nálægt. Örsmæðareikningur. Örsmæðareikningur, stærðfræðigreining, reiknivísi, deilda- og heildareikningur eða diffur- og tegurreikningur (á latínu "calculus"; „steinvala“) er aðferð í stærðfræði, sem felst í að nota markgildi til að ákvarða hallatölu ferils og flatarmál undir ferlinum. Helstu aðgerðir í örsmæðareikningi eru tvær, heildun og deildun, sem einnig nefnast tegrun og diffrun. Einnig er markgildishugtakið mjög mikilvægt, en til viðbótar koma ferilheildi, stiglar og ýmsar aðrar aðgerðir. Í örsmæðareikningi er fengist við stærðir sem verða óendanlegar og því hefur reynst nauðsynlegt að víkka út rauntalnaásinn þ.a. hann innihaldi einnig stökin "plús óendanlegt" (formula_1) og "mínus óendanlegt" (formula_2). (Sjá útvíkkaði rauntalnaásinn.) Hugmyndafræði. Eitt af því sem höfðaði til manna var það að geta mælt hallatölur margliða af hærri gráðum en 1 og annarra falla sem eru ekki beinar línur, svo sem sínus. Auðvelt er að finna hallatölu línu sem lýst er með jöfnunni formula_3, þar sem að hallatalan er einfaldlega formula_4. Þá stefnir markgildi þessarar stæðu á hallatölu fallsins formula_6 í punktinum formula_4 þegar að formula_8 stefnir á 0. Þessi aðgerð er oftast rituð formula_9 eða formula_10, og er kölluð deildun. Vegna þess að hallatalan í þessum tiltekna punkti er þá þekkt, þá er hægt að finna línu með sömu hallatölu, en hún hefur jöfnuna Eingöngu ein slík lína er til, en hún kallast snertill fallsins "f", þar sem að hún gengur ekki í gegn um "f" í þessum punkti, heldur rétt strýkur við hana. Allar aðrar línur með sömu hallatölu sem ganga í gegnum fallið eru kallaðir sniðlar. formula_12 þar sem að formula_13, þar sem að U er undirsumman og Y er yfirsumman. Saga. Örsmæðareikningur var innleiddur á sautjándu öld til þess að mæta vaxandi þörf manna fyrir útreikninga í vísindum. Einkum var um að ræða þörf fyrir að geta tengt hröðun, hraða og vegalengd hlutar á hreyfingu, hallatölur snertla og breytingarhraða (rate of change), hágildi og lággildi falla (t.d. mestu og minnstu fjarlægð reikistjörnu frá sólu), lengd ferils, flatarmál undir ferli, rúmmál óreglulegra hluta (t.d. rúmmál snúðs) og svo framvegis. Enn þann dag í dag er örsmæðareikningur besta stærðfræðileiðin til útreikninga af þessu tagi og varla er til sú fræðigrein sem ekki nýtur góðs af á einn eða annan hátt. Upphafsmenn örsmæðareiknings voru samtímamennirnir Isaac Newton (1642 - 1727) í Englandi og Gottfried Wilhelm von Leibniz (1646 - 1716) í Þýskalandi. Þeir voru báðir framúrskarandi stærðfræðingar í sinni tíð. Þó voru þeir langt því frá að vera vinir, og voru mjög harðir keppinautar lengst af - hvor um sig taldi hinn loddara og sjálfan sig hinn eina sanna höfund örsmæðareikningsins. Deila Newtons og Leibniz teygði arma sína þvert yfir Evrópu, og stóðu vísindamenn altént með öðrum hvorum þeirra. Frægt er að Bernulli bræður lögðu fyrir Newton margar þrautir sem þeir töldu að væri ógerlegt að leysa með hans útgáfu örsmæðareikningsins. Til að mynda brachistochrones vandamálið, á meðan að stuðningsmenn Newtons á borð við John Kiell og Fatio de Fullier lögðu mjög svipaðar þrautir fyrir Leibniz. Alan Turing. Stytta af Turing í Manchester. Alan Turing (23. júní 1912 – 7. júní 1954) var enskur stærðfræðingur og rökfræðingur. Hann er þekktastur fyrir að finna upp svokallaða Turing-vél, sem er hugsuð vél, sem talin er geta reiknað allt sem reiknirit er til fyrir. Turing vélar hafa reynst mikilvægar fyrir framþróun tölva og tölvunarfræði. Í seinni heimsstyrjöldinni var Turing dulmálsgreinir á vegum bresku ríkisstjórnarinnar og hvíldi fullkomin leynd yfir störfum hans eins og allra annarra sem að slíku störfuðu. Hann var einn þeirra sem tókst að ráða Enigma, sem var dulmál Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni, búið til með dulmálsvélinni Enigma, sem sennilega er frægasta dulmálsvél allra tíma. Eftir stríðið vann hann meðal annars að smíði tölva og þróun forritunarmála. Turing var samkynhneigður, sem var afskaplega illa séð á þessum tíma. Þegar upp komst um kynhneigð hans féll hann í algjöra ónáð og skömmu síðar framdi hann sjálfsmorð með því að borða epli, sem hann hafði lagt í bleyti í blásýru. Sagt er að ákvörðun hans um að nota eitrað epli tengist teiknimyndinni um Mjallhvíti og dvergana sjö, sem var þá nýlega farið að sýna í kvikmyndahúsum. Andrew Wiles. Andrew Wiles (fæddur 11. apríl 1953) er enskur stærðfræðingur og prófessor, sem starfar við Princeton-háskóla í New Jersey í Bandaríkjunum og varð heimsfrægur í júní árið 1993 er hann hélt fyrirlestra við Isaac Newton Institute, þar sem hann hélt því fram að hann hefði sannað síðustu reglu Fermats. Í rúmar þrjár aldir hafði engum stærðfræðingi tekist það, þrátt fyrir að flestir þeir bestu hafi örugglega reynt. Stærðfræðiheimurinn stóð á öndinni. Wiles hafði unnið að útreikningum sínum í sjö ár án þess að nokkur vissi hvað hann var að gera. Í nóvember sama ár kom í ljós að sönnun hans var ekki fullnægjandi, því að alvarleg rökvilla fannst í útreikningunum. Hann neitaði að gefast upp og hóf samstarf við Richard Taylor um þá stærðfræðilegu þætti sem á skorti til að sönnunin væri gild. Þann 25. október 1994 gaf Andrew Wiles út tvær ritgerðir, aðra stutta í samvinnu við Richard Taylor, en hina langa og algjörlega í eigin nafni. Til samans eru þessar ritgerðir fullkomin sönnun á síðustu reglu Fermats og innihalda miklar stærðfræðilegar nýjungar. Þessi seinni sönnun er talin fullgild og 1997 var Andrew Wiles verðlaunaður fyrir sönnun sína. Tenglar. Wiles, Andrew Deildun. Deildun (einnig þekkt sem diffrun, sjá samheiti innan stærðfræðinnar) er sú stærðfræðilega aðgerð sem notuð er í örsmæðareikningi til þess að finna afleiðu falls og út frá henni hallatölu snertils fallsins í gefnum punkti. Þar sem afleiðan (hallatalan) er jöfn núlli hefur fallið hágildi, lággildi eða beygjuskil. Ef gildi afleiðunnar er jákvætt (pósitíft) þá er fallið vaxandi, en sé gildið neikvætt (negatíft) þá er fallið minnkandi. Sé afleiðan deilduð (diffruð) fæst svokölluð önnur afleiða. Hún hefur neikvætt (negatíft) gildi í hágildispunkti fallsins og jákvætt (pósitíft) gildi í lággildispunkti þess. Þar sem önnur afleiðan er jöfn núlli er svokallaður beygjuskilapunktur. formula_1 Dæmið hér að ofan sýnir deildunarstíl Leibniz, en þar er formula_2 notað til þess að lýsa diffrun á fallinu f(x) með tilliti til breytunnar x. Annar stíll er til, sem kenndur er við Lagrange, en þar er fallið bara „merkt“: formula_3. Að sama skapi er hægt að ítreka deildunina (önnur afleiða, þriðja afleiða...) með því að merkja oftar: formula_4, og svo framvegis. Notkun stafsins 'd' í deildunarstíl Leibniz kemur af latneska orðinu "differentia", sem þýðir "mismunur". Nauðsynlegt skilyrði fyrir að fall sé deildanlegt er að það sé samfellt, en það er ekki nægjanlegt skilyrði, t.d. er algildisfallið |"x"| ekki deildanlegt í punktinum "x" = 0 og Weierstrassfallið, sem er alls staðar samfellt á rauntalnaásnum, er hvergi deildanlegt. Andhverfa deildunar nefnist heildun. Heildun. Heildun (einnig þekkt sem "tegrun" úr enska orðinu "integra'"tion", sjá samheiti innan stærðfræðinnar) er sú stærðfræðilega aðgerð sem notuð er í örsmæðareikningi til þess að finna markgildi allra yfir- og undirsumma falls á tilteknu bili. Þetta þýðir, í stuttu máli, að verið er að reikna flatarmál svæðisins á milli ferils fallsins og x-ássins (á tilteknu bili). Heildun, í sínu einfaldasta formi, gengur út á að reikna "ákveðið heildi" á tilteknu bili með því að finna fyrst stofnfall fallsins sem heilda skal og taka síðan mismun stofnfallsins í endapunktum bilsins. Dæmi: Fallið, sem heilda skal,: formula_1, á sér stofnfall, formula_2, þar sem "c" er óskilgreindur fasti. Heildunartáknið er í rauninni stílfært S og stendur fyrir latneska orðið ‚summa‘ en Leibniz skóp þetta tákn. Andhverfa heildunar nefnist deildun. Heimaklettur. Heimaklettur er hæsti klettur Vestmannaeyja (283 m) og jafnframt einn útvarða Heimaeyjar í norðri. Þaðan er útsýni er afbragðsgott, m.a. til allra úteyjanna, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls en leiðin upp er talsvert brött. Heimaklettur er móbergsstapi sem varð til við eldgos undir jökli fyrir um 13000 árum. Efsti partur fjallsins - kollurinn - er bólstrabergsmyndun, og er hann grasi vaxinn. Undir klettinum, þar sem nyrðri hafnargarðurinn er nú kallast "Hörgaeyri". Þar höfðu Eyjamenn hörga sína í heiðni skv. Ólafs sögu Tryggvasonar og síðar var þar reist fyrsta kristna kirkjan á Íslandi. Norðan í klettinum er grasi vaxin brekka, sem heitir "Dufþekja", eftir einum þræla Hjörleifs. Þar hrapaði þrællinn til bana, þegar menn Ingólfs Arnarssonar eltu hann. Eiðið milli Heimakletts og Klifsins, sem heitir Eiðið í daglegu tali, hét upprunalega "Þrælaeiði", því að þrælar Hjörleifs sátu þar að snæðingi, þegar menn Ingólfs komu að þeim. Austan við Miðklett er Klettsvík, þar sem kví háhyrningsins Keikós var komið fyrir árið 1998. Klettshellir í Ystakletti er skammt þar frá. Hellirinn er vinsæll meðal ferðamanna, og þar er oft komið við í bátsferðum og höfð stutt viðdvöl og jafnvel leikið á hljóðfæri á meðan á dvöl þar stendur, því að hljómburður í hellinum er með ágætum. 2. janúar. 2. janúar er 2. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 363 dagar (364 á hlaupári) eru eftir af árinu. 3. janúar. 3. janúar er 3. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 362 dagar (363 á hlaupári) eru eftir af árinu. 4. janúar. 4. janúar er 4. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 361 dagur (362 á hlaupári) er eftir af árinu. 5. janúar. 5. janúar er 5. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 360 dagar (361 á hlaupári) eru eftir af árinu. Atburðir. * 1941 - Fjölrituðu bréfi var dreift til breskra hermanna í Reykjavík og þeir hvattir til þess að ganga ekki í störf Íslendinga, sem voru í verkfalli. Herstjórnin leit á þetta sem hvatningu til uppreisnar. Gekk atburðurinn undir nafninu Dreifibréfsmálið. 6. janúar. 6. janúar er 6. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 359 dagar (360 á hlaupári) eru eftir af árinu. Ási í Bæ. Ástgeir Kristinn Ólafsson, betur þekktur sem "Ási í Bæ" fæddist þann 27. febrúar 1914. Móðir hans var Kristín Jónsdóttir og faðir Ólafur Ástgeirsson, sem var þekktur bátasmiður í Eyjum, og bjuggu þau að Litlabæ í Vestmannaeyjum. Ungur að aldri byrjaði hann sjóróðra með föður sínum á opnum vélbáti. Á unglingsárum veiktist hann af þrálátri beinátu í hægra fæti, sem hrjáði hann alla ævi, og var rúmliggjandi í heilt ár á þessum aldri vegna sjúkdómsins. Hann óttaðist að geta ekki stundað sjómennsku framar en um leið og hann hafði jafnað sig hélt hann á fiskimiðin á ný. Hann útskrifaðist úr Samvinnuskólanum 1940. Hann vann sem skrifstofumaður í Vestmannaeyjum um hríð en starfaði þó lengst af á sjónum oftast sem matsveinn eða háseti. Hann eignaðist vélbátinn m/b Herstein ásamt öðrum félaga sínum 1955. En árið 1959 keypti hann vélbátinn m/b Ugga. Hann varð snemma aflakóngur og var talinn í flokki mestu færamanna á Eyjamiðum. Árið 1968 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og vann þar sem ritstjóri Spegilsins. Ási var landskunnur texta- og lagasmiður, vísnasöngvari og afkastamikill rithöfundur og lét mikið að sér kveða en þó sérstaklega eftir hann lét af sjómennsku. Hann var í þeim margrómaða mannræktarkvartett með Árna úr Eyjum, Lofti Guðmundssyni og Oddgeiri Kristjánssyni, sem kallaðir eru feður hinna sígildu þjóðhátíðarlaga. Samstarf þeirra Ása í bæ og Oddgeirs varð víðfrægt og úr því urðu til landsþekkt lög, t.d. "Sólbrúnir vangar" og "Ég veit þú kemur". Hann skrifaði margar bækur og rit m.a. "Sá hlær best" þar sem hann fjallar um lífsbaráttu sína, "Granninn í vestri" sem er ferðabók um Grænland, "Breytileg átt" sem er skáldsaga, "Eyjavísur" og smásagnasafnið "Sjór, öl og ástir". Hann gaf einnig út hljómplötu þar sem hann söng og spilaði eigin lög og texta. Eiginkona Ása var Friðmey Eyjólfsdóttir. Hann lést í Reykjavík, 71 árs að aldri, vorið 1985. Binni í Gröf. Benóný Friðriksson, (7. janúar 1904 – 12. maí 1972) betur þekktur sem Binni í Gröf, var landsfrægur aflamaður. Hann fæddist í Vestmannaeyjum og var sonur formannsins Friðriks Benónýssonar og Oddnýjar Benediktsdóttur sem bjuggu í Gröf á Vestmannaeyjum. Binni hóf að sækja á sjó aðeins 12 ára gamall. Binni gerðist með afbrigðum góður sjó- og aflamaður, einhver mesti sem við Vestmannaeyjar hefur fiskað. Binni réri fyrstu vertíðar sínar með vélbátnum m/b Nansen og var hann formaður á bátnum í forföllum Jóhanns á Brekku. Árið 1926 var honum boðið að taka formennsku á vélbátnum m/b Gullu. Þar var hann starfandi þrjár vertíðir, síðan tók hann við bátnum Newcastle, og var svo með vélbátana m/b Gottu, m/b Heklu, m/b Gulltopp, e/s Sævar, m/b Þor og m/b Andvara. Eftir það keypti hann skipið m/b Gullborg og varð landsþekktur fyrir formennsku sína á þeim bát. Binni varð aflakóngur í Vestmannaeyjum árið 1954 og hélt þeim titli samfellt í sex vertíðir, og fékk titilinn margoft til viðbótar yfir ævina. Benóný hafði ávallt duglegri skipshöfn að stjórna enda samrýmdist hverskonar seinagangur og stirðleiki ekki skapi skipstjórans. Binni var sæmdur fálkaorðunni árið 1971 fyrir störf sín. Kona hans var Katrín Sigurðardóttir frá Þinghól í Hvolhreppi og áttu þau saman átta börn. Binni lést þann 12. maí 1972 á sjúkrahúsi Vestmannaeyja rúmri viku eftir að hann féll í höfnina í Vestmannaeyjum á leið upp landganginn í bátinn sinn. Heimildarmyndin Hafið gaf og hafið tók var gerð um ævi og feril Binna. Oddgeir Kristjánsson. Oddgeir Kristjánsson fæddist í Vestmannaeyjum þann 16. nóvember 1911 og lést langt um aldur fram árið 1966. Á barnsaldri hneigðist hugur Oddgeirs til tónlistar og á þrettánda ári var hann farinn að leika á trompet í lúðrasveit í Eyjum. Fyrir hvatningu góðra manna fór Oddgeir til Reykjavíkur í fiðlunám til Þórarins Guðmundssonar. Það stóð þó aðeins í einn vetur því heimskreppan skall á og lokaði leiðum. Veturinn 1944-45 var hann við tónfræðinám hjá Róbert A. Ottóssyni. Það varð honum drjúgt veganesti. Oddgeir samdi þegar á unga aldri lög sem hafa verið vinsæl með þjóðinni, en mörg laga hans voru fyrst kynnt á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Oddgeir fékk til liðs við sig snjalla textahöfunda, vini sína Árna úr Eyjum og Ása í Bæ auk Lofts Guðmundssonar, en einnig samdi Oddgeir lög við ljóð annrarra skálda. Dæmi um ógleymanleg lög eftir Oddgeir eru "Vor við sæinn", "Gamla gatan", "Ég veit þú kemur", "Ágústnótt", "Ship ohoj" og "Sólbrúnir vangar" Um áratuga skeið var Oddgeir drifkraftur í tónlistarlífi Vestmannaeyinga. Hann var einn af forgöngumönnum um stofnun Lúðrasveitar Vestmannaeyinga og stjórnandi hennar til dauðadags. Síðustu tíu ár ævinnar var hann tónmenntakennari í Barnaskóla Vestmannaeyja. Oddgeir og kona hans Svava Guðjónsdóttir eignuðust þrjú börn: Hrefnu, Kristján, en hann lést á níunda ári, - og Hildi. Oddgeir var aðeins 54 ára þegar hann lést. Sigfús M. Johnsen. Sigfús Maríus Jóhannsson Johnsen (28. mars 1886 - 9. janúar 1974) var frá "Frydendal" í Vestmannaeyjum og var lögfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan árið 1914. Hann var í um þrjátíu ár fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í Reykjavík. Árið 1940 varð hann bæjarfógeti í Vestmannaeyjum. Hann skrifaði nokkrar bækur, svo sem "Saga Vestmannaeyja í tveim bindum" (Reykjavík 1946), "Herleiddu Stúlkuna" (Reykjavík 1960), "Uppi var Breki", "Svipmyndir úr Eyjum" (Reykjavík 1968) og "Yfir fold og flæði" (Reykjavík 1972). Eiginkona Sigfúsar, Jarþrúður P. Johnsen, starfaði mikið og farsællega að ýmsum félagsmálum í Vestmannaeyjakaupstað og gat sér góðan orðstýr fyrir þau störf. Hún lést þann 9. október 1969. Þorsteinn Jónsson (formaður). Þorsteinn Jónsson fæddist í Gularáshjáleigu í Austur Landeyjum 14. október 1880 og lést 25. mars 1965. Hann var sonur Jóns Einarssonar og Þórunnar Þorsteinsdóttur. Þau fluttu til Vestmannaeyja árið 1883. Þorsteinn hóf sjómennskuferil sinn um fermingu á opnu skipi með "Hannesi lóðs á Miðhúsum". Hann varð svo formaður á teinæringnum Ísak árið 1900 og var með hann til ársins 1905. Hann varð ásamt öðrum fyrstur manna til þess að kaupa vélbát til Vestmannaeyja og markaði á þann hátt upphaf vélbátaaldar í Vestmannaeyjum. Báturinn sem Þorsteinn og félagar keyptu var nefndur "Unnur" og var Þorsteinn formaður á bátnum. Hann eignaðist síðar tvo aðra báta með sama nafni og var formaður með þá til ársins 1948 og hafði þá verið formaður í samtals 48 ár. Þorsteinn var mjög framfarasinnaður í úterðarmálum og var m.a. sá fyrsti til að gera tilraunir með veiðar í þorskanet. Hann var gerður að heiðursborgara Vestmannaeyjabæjar. Þorsteinn Víglundsson. Þorsteinn Þórður Víglundsson (fæddur 19. október árið 1899 að Melum í Mjóafirði – látinn 3. september 1984 í Reykjavík) var íslenskur skólameistari, sparisjóðsstjóri, safnvörður, baráttumaður verkalýðsins, rithöfundur, kaupmaður og frumkvöðull frá Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Jónína Guðrún Þorsteinsdóttir og Víglundur Þorgrímsson. Á barnsaldri var hann tekinn í fóstur að Hóli í Norðfirði til hjónanna Stefaníu Guðjónsdóttur og Vigfúsar Sigurðssonar. Eftir nám í Barnaskóla Norðfjarðar lá leiðin í Búnaðarskólann á Hvanneyri og varð hann búfræðingur tvítugur að aldri. Þorsteinn stundaði nám í Noregi árin 1921-1923 í lýðháskóla nálægt Björgvin, Noregi og ári seinna lauk hann lokaprófi í nokkrum greinum í menntaskóla á Suður-Mæri. Eftir heimkomuna fór Þorsteinn í Kennaraskóla Íslands og tók hann lokapróf þar árið 1927. Strax um haustið 1927 flutti hann til Vestmannaeyja ásamt konu sinni, Ingigerði Jóhannsdóttur, en þá voru þau nýgift. Þangað fór hann til þess að taka við stöðu skólastjóra Unglingaskólans í Vestmannaeyjum. Hann sinnti því starfi til ársins 1963. Auk skólastjórnar sinnti Þorsteinn fjölmörgum störfum og áhugamálum þ.á m. gaf hann út tímaritið Blik annað hvert ár í 44 ár, var virkur í Verkamannafélaginu Drífanda, safnaði ýmsum forn- og menningarmunum í Byggðasafn Vestmannaeyja, samdi norsk-íslenska orðabók, vann að stækkun Gagnfræðaskólans, var sparisjóðsstjóri og þannig mætti lengi telja. Á efri árum hlaut Þorsteinn heiðursborgaranafnbót í Vestmannaeyjum fyrir framlag sitt til menningarmála. Unglingaskólinn. Þorsteinn tók við stöðu skólastjóra Unglingaskólans í Vestmannaeyjum árið 1927. Skólinn var starfræktur í fimm mánuði á ári og voru aðeins níu nemendur skráðir í skólann nokkrum dögum fyrir skólasetningu en alls voru um 200 unglingar í Eyjum á þessum tíma. Þorsteinn kynnti fyrirhugaða starfsemi skólans fyrir félögum Verkamannafélagsins Drífanda og á fundi Bindindisstúkunnar Báru og tókst þannig að fjölga skráðum nemendum í 22. Innan skamms stóðu nemendur fyrir undirskriftasöfnun til að hvetja til að skólaárið yrði lengt um einn mánuð og var það samþykkt af bæjaryfirvöldum. Þorsteinn var snemma umdeildur enda aðkomumaður með ákveðnar skoðanir á menntamálum í Eyjum og áhugi yfirvalda jafnt sem almennings var takmarkaður líkt og tíðkaðist í mörgum sjávarplássum á þessum tíma. En þrátt fyrir mótbárur gekk skólastarfið vel frá upphafi. Nemendum fjölgaði stöðugt, félagsstarf var blómlegt og árið 1930 varð skólinn að Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja með lagabreytingu. Þorsteinn hélt stöðu sinni þrátt fyrir nokkra andstöðu í hans garð. Þrautseigja hans og metnaður bar árangur því fáeinum árum eftir að hann tók við stjórn skólans fengu nemendur í skólanum hæstu meðaleinkunn á landsprófi. Störf og áhugamál. Fyrir utan kennslu vann Þorsteinn ýmsa verkamannavinnu og sinnti að auki áhugamálum sínum af mikilli atorku þar sem skólastarf lá niðri meirihluta ársins. Hann gekk í Verkamannafélagið Drífanda þar sem hann lét pólitískar skoðanir sínar í ljós en það stuðlaði að enn frekari tortryggni í hans garð. Þorsteinn var þá harður Alþýðuflokksmaður sem boðaði nauðsyn þess að sjómenn og verkafólk stæðu saman. Þorsteinn lagði kapp á frá upphafi að vernda skyldi menningarverðmæti og fékk aðstoð nemenda sinna við að safna ýmsum munum eftir fyrirmynd norskra byggðasafna. Hann gaf út "Blik", blað Málfundafélags Gagnfræðaskólans, en fyrsta tölublaðið kom út 1936 og urðu árgangarnir alls 34. Árið 1942 stóð Þorsteinn ásamt öðrum fyrir því að Sparisjóður Vestmannaeyja yrði stofnsettur og varð Þorsteinn sparisjóðsstjóri. Árið 1952 tók hann sér eins árs leyfi og hélt til Noregs í því skyni að kynna land og þjóð í 50 byggðum í Noregi. Eftir heimkomu hófst hann handa við að semja norsk-íslenska orðabók sem kom út 15 árum seinna. Þorsteinn sneri sér í auknum mæli að bæjarmálum og lagði m.a. fram frumtillögu um rafkapal milli lands og Eyja. Hann átti þátt í að stofna Kaupfélag alþýðu og Kaupfélag Vestmannaeyja mörgum árum seinna. Árið 1956 varð langþráður draumur Þorsteins loks að veruleika þegar nýtt 8,500 fermetra húsnæði Gagnfræðaskólans var tekið í notkun, 25 árum eftir að Þorsteinn bryddaði upp á málinu við bæjastjórn. Hugmyndinni var ekki vel tekið í upphafi, þannig að Þorsteinn kom henni í framkvæmd sjálfur með því að smala saman öllum nemendum skólans, útbýtta skóflum, og saman hófust nemendurnir handa - ásamt honum sjálfum - við að grafa fyrir grunn skólans. Í dag er byggingin notuð fyrir Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum Enn vantaði húsnæði fyrir alla þá menningarmuni sem Þorsteinn hafði séð um að varðveita og geymdir voru uppi á hanabjálka á Goðasteini, heimili Þorsteins og Ingigerðar um árabil. Árið 1963 var byggðasafni komið fyrir í almennilegum húsakynnum, á þriðju hæð nýja Sparisjóðshússins. Þetta sama ár hætti hann skólastjórn Gagnfræðaskólans eftir 36 ára starf. Í eldgosinu í Eyjum 1973 urðu Þorsteinn og Ingigerður að yfirgefa Eyjarnar eftir 46 ára dvöl í Vestmannaeyjum, og settust að í Hafnarfirði. En Þorsteinn hélt áfram skrifum sínum um menningu og sögu Eyja og uppbyggingu Byggðasafnsins. Þorsteinn var mjög harður bindindismaður. Hann lést, 85 ára gamall, í Reykjavík 1984 og kona hans, Ingigerður Jóhannsdóttir, níu árum síðar, 91 árs að aldri. Viðurkenningar. Þorsteinn Þ. Víglundsson fékk á efri árum margar viðurkenningar fyrir ævistörf sín. Til að mynda hlaut hann heiðursborgaranafnbót Vestmannaeyjakaupstaðar fyrir framlag sitt til menningarmála og St. Olav orðuna frá Ólafi Noregskonungi fyrir vináttu við Noreg. Höggmynd af höfði Þorsteins stendur á annarri hæð Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum til minningar um hann. Þorsteinn var kjörinn heiðursfélagi í Sögufélagi Vestmannaeyja í virðingar- og þakklætisskyni fyrir framlag hans. Ákveðin heildi. formula_1 F(x) er þá heildaða formið af f(x): formula_2 formula_3 formula_4 7. janúar. 7. janúar er 7. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 358 dagar (359 á hlaupári) eru eftir af árinu. 8. janúar. 8. janúar er 8. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 357 dagar (358 á hlaupári) eru eftir af árinu. 9. janúar. 9. janúar er 9. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 356 dagar (357 á hlaupári) eru eftir af árinu. Janúar. Janúar eða janúarmánuður er fyrsti mánuður ársins og er nefndur eftir Janusi, rómverskum guði dyra og hliða. Orðsifjar. Orðið Janúar er komið úr latínu, þar sem mánuðurinn hét "Januarius", en Rómverjar kenndu þennan mánuð við guðinn Janus. Sá hafði tvö andlit og horfði annað til fortíðar, hitt til framtíðar. Febrúar. Febrúar eða febrúarmánuður er annar mánuður ársins og er nefndur eftir Februus, rómverskum guði hreinleika. Í febrúar eru 28 dagar, 29 ef það er hlaupár. Orðsifjar. Orðið "febrúar" er komið úr latínu, þar sem það hét "Februarius". Uppruna sinn á það að rekja til Rómaborgar hinnar fornu, en þar var haldin einskonar trúarsamkoma í helli við ána Tíber. Tveir ungir menn voru valdir til að slátra geitum, en síðan voru ristir þvengir úr húðum þeirra og fengnir unglingunum. Þessir þvengir voru kallaðir "februa", en það merkir: hreinsunartæki. Þeim fylgdi sú náttúra að ef konur voru lamdar með þeim urðu þær ekki lengur ófrjóar. Síðan hlupu strákarnir um alla Rómaborg með hina helgu þvengi og lömdu með þeim allar þær ófrjóu konur sem þeir mættu. Töframáttur þvengjanna stafaði frá Júnó sem var frjósemisgyðja og kölluð "Februaria". Þaðan er komið heiti mánaðarins. 10. janúar. 10. janúar er 10. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 355 dagar (356 á hlaupári) eru eftir af árinu. Júní. Júní eða júnímánuður er sjötti mánuður ársins og er nefndur eftir Juno, eiginkonu Júpiters. Í mánuðinum eru 30 dagar. Nafnskýringin er þó umdeild, en nafnið kemur frá Rómverjum. Júnímánuður hét "Sólmánuður" til forna. Júlí. Júlí eða júlímánuður er sjöundi mánuður ársins og er nefndur eftir Júlíusi Caesar, einvaldi Rómarríkis. Í mánuðinum er 31 dagur. Mánuðurinn hét áður Quintilis (quintus: fimmti) því hann var fimmti mánuður ársins eftir þágildandi tímatali í Róm. Freenode. freenode er IRC net sem vinsælt er meðal notenda og forritara frjáls hugbúnaðar, notendur eru um 20.000. Þar er (ólíkt t.d. IRCNet) boðið upp á að skrá gælunafn sitt og rásir, en leyfð gælunafnalengd er 16 tákn og rásagerðir sem algengar eru notendum eru # rásir. Lotukerfið. Lotukerfið (einnig lotukerfi Mendelejevs) er yfirlit yfir öll þekkt frumefni á töfluformi. Efnunum er raðað í hana eftir rafeindaskipan þannig að hún sýnir hvernig margir eðliseiginleikar efnanna breytast í gegnum töfluna. Hvert efni er sýnt með sætistölu sinni og efnatákni. Taflan sýnir ýmis grundvallareinkenni efnanna. Til eru fleiri kerfi, sem sýna eiginleika frumefnanna, annaðhvort í meiri smáatriðum eða frá öðru sjónarhorni. Lotur og flokkar. Hver lárétt lína í töflunni nefnist lota (enska: period) og er taflan nefnd í samræmi við það. Hver dálkur töflunnar nefnist efnaflokkur eða bara flokkur. Í stöðluðu lotukerfi, eins og því sem sjá má hér á eftir, eru 18 flokkar. Öll efni sem eru saman í flokki hafa svipaða efnaeiginleika, sem byggist á því að gildisrafeindir þeirra eru jafnmargar. Flokkakerfi. Til eru um þrjú mismunandi flokkakerfi. Eitt þeirra notast við arabíska tölustafi og það er kerfið sem hér er notað og er einnig alþjóðlegur staðall; annað notar eingöngu rómverska tölustafi (I, II, III, IV, …) og hið þriðja notar blöndu af rómverskum tölustöfum og latneskum bókstöfum (I, II, IIIb, IVb, …) 11. janúar. 11. janúar er 11. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 354 dagar (355 á hlaupári) eru eftir af árinu. 12. janúar. 12. janúar er 12. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 353 dagar (354 á hlaupári) eru eftir af árinu. 13. janúar. 13. janúar er 13. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 352 dagar (353 á hlaupári) eru eftir af árinu. 14. janúar. 14. janúar er 14. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 351 dagur (352 á hlaupári) er eftir af árinu. Elliðaey. Elliðaey (stundum kölluð Ellirey) er þriðja stærsta eyjan í Vestmannaeyjarklasanum og er 0,45 km² að flatarmáli, hún er í náttúruminjaskrá því þar eru mjög miklar og sérstæðar sjófuglabyggðir. Landslag. Eyjan er víðast sæbrött, lægri að austanverðu þar sem greitt er uppgöngu um Austurflá þar sem reipi hefur verið komið fyrir. Elliðaey er mjög grösug og þar var heyjað fyrrum og einnig hagaganga fyrir fé og jafnvel nautgripi. Gífurlega mikið varp er þar og fuglatekja. Eyjan er hæst að norðan, það er Hábarð (114 metrar yfir sjávarmáli). Á eyjunni eru tveir gjallgígar, Litli Bunki og Stóri Bunki. Talið er að eyjan hafi myndast í eldgosi sem hefur verið töluvert stærra en Surtseyjargosið, fyrir um 5-6 þúsund árum. Graslendi þekur alla eyjuna og hefur gríðarlegur fjöldi lunda grafið sér holur þar. Í eyjunni er fé beitt og lundaveiði er stunduð á sumrin. Aðstaða. Á eyjunni er stórt veiðihús í eigu Elliðaeyjarfélagsins, sem að stundar þar Lundaveiði á sumrin og eggjatöku á vorin, en húsið er gjarnan leigt út til annarra félagsstarfa. Húsið var byggt árið 1953 við rætur Hábarðs og hefur verið endurbættur mikið síðan. Nafnsifjar. Deildar meiningar eru um nafn eyjunnar en Elliðaeyjarnafnið dregur hún sennilega af skipi því að hún er lík stafnháu skipi. En sumir segja að nafnið "Ellirey" sé vegna þess að eyjan taki nafn sitt af tveimur hellum H-ellirey, en önnur eyja í Vestmannaeyjum dregur nafn sitt af hellum, Hellisey. Eyjafjörður. Eyjafjörður er fjörður á miðju Norðurlandi. Hann er einn af lengstu fjörðum Íslands og héraðið umhverfis fjörðinn og inn af honum er næstfjölmennasta hérað landsins. Nafnið er dregið af Hrísey sem liggur á miðjum firðinum. Staðhættir. Fjörðurinn er langur og mjór, 60 km frá mynni að botni. Mesta breidd hans er 25 km á milli Sigluness og Gjögurtáar í mynni fjarðarins en yfirleitt er fjörðurinn á bilinu 6-10 km breiður. Tveir minni firðir ganga út úr Eyjafirði vestan megin, Ólafsfjörður og Héðinsfjörður. Fjörðurinn er umkringdur fjöllum á báða vegu, þó nokkuð hærri að vestanverðu í fjallgarði Tröllaskaga. Það er nánast ekkert undirlendi meðfram ströndum í utanverðum firðinum en þegar sunnar dregur breikkar láglendið, þó meira að vestanverðu. Nokkrir dalir ganga inn frá Eyjafirði. Að vestan eru Svarfaðardalur, Þorvaldsdalur og Hörgárdalur þeirra mestir en að austan Dalsmynni. Stærsti dalurinn sem gengur út frá Eyjafirði er þó sá sem gengur beint inn af firðinum og ber hann einnig nafnið Eyjafjörður (sem á ekki að rugla saman við Eyjafjarðardal). Sá dalur er bæði langur og breiður og hýsir eina þéttbýlustu og grösugustu sveit landsins. Nokkrar ár renna í Eyjafjörð, þeirra stærstar eru Eyjafjarðará, Fnjóská og Hörgá en einnig Svarfaðardalsá. Mannlíf. Eyjafjarðarsvæðið er það næst fjölmennasta á Íslandi á eftir höfuðborgarsvæðinu. Árið 2003 var samanlagður mannfjöldi sveitarfélaganna sem liggja að firðinum 21.536 (að Siglufirði og Grímsey frátöldum, þeir staðir eru í Eyjafjarðarsýslu en tilheyra ekki Eyjafirði í landfræðilegum skilningi.) Langstærsti bær svæðisins er Akureyri en aðrir bæir og þorp eru: Ólafsfjörður, Dalvík, Hrísey, Árskógssandur, Hauganes, Hjalteyri, Hrafnagil, Svalbarðseyri og Grenivík. Grunnatvinnuvegir flestra þessara staða eru sjávarútvegur og landbúnaður en Akureyri er að auki þjónustumiðstöð svæðisins með mörgum mikilvægum stofnunum á borð við sjúkrahús og háskóla. a> sést neðst til hægri á myndinni 15. janúar. 15. janúar er 15. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 350 dagar (351 á hlaupári) eru eftir af árinu. Wrocław. Wrocław (['vrɔʦwaf],; þýska "Breslau", tékkneska "Vratislav", latína "Vratislavia") er fjórða stærsta borg Póllands og höfuðborg Dolnośląskie-sýslu, íbúar voru 633.000 árið 2004. Flatarmál: 292,9 km². Szczecin. Szczecin (þýska: "Stettin", latína: "Stetinum") er 7. stærsta borg Póllands og höfuðborg sýslunnar Zachodniopomorskie. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Stofnað var til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 1988 af Evrópsku kvikmyndaakademíunni. Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, sem kölluð voru "Felixverðlaunin" fram til ársins 1997, er ætlað að beina sjónum almennings að evrópskri kvikmyndagerð og að efla sjálfsmynd evrópskrar kvikmyndagerðar. Eins og á Óskarsverðlaunahátíðinni í Bandaríkjunum, eru veitt verðlaun í ýmsum flokkum, t.d. fyrir besta leik karla og kvenna, bestu leikstjórn og bestu heimildamynd. Bless Lenín! Vertu sæll, Lenín! (frumtitill: Good bye, Lenin!) er þýsk tragíkómedía frá árinu 2003. Kvikmyndin vann til verðlauna á kvikmyndahátíðum um allan heim. Hún var meðal annars valin besta myndin við veitingu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna og hlaut meirihluta verðlauna á þýsku kvikmyndahátíðinni árið 2003. Hún var tilnefnd til BAFTA verðlaunanna í Bretlandi og Golden Globe verðlaunanna í Bandaríkjunum. Söguþráður. Myndin gerist í Austur-Berlín haustið 1989 og sumarið 1990. Christiane Kerner, móðir Alexanders Kerners, fær hjartaáfall og fellur í dauðadá skömmu fyrir fall Berlínarmúrsins. Hún vaknar á ný átta mánuðum síðar, en er mjög máttfarin og læknarnir ráðleggja börnum hennar tveimur að hlífa henni við öllu því sem gæti truflað hana eða valdið áhyggjum, til að koma í veg fyrir að hún fái annað hjartaáfall. Christiane hafði verið ötull talsmaður sósíalismans, og í ljósi þess hefur sonur hennar áhyggjur af því að það verði henni ofviða að heyra frá falli múrsins, sameiningu Þýskalands og öllum breytingunum sem því fylgdu. Hann leggur sig því allan fram við að búa móður sinni umhverfi þar sem hann getur blekkt hana til að trúa því að ekkert hafi breyst. Áður en yfir lýkur kemst móðirin þó að því að sonur hennar sé að blekkja hana, en til að særa hann ekki lætur hún hann ekki vita af því. Hún blekkir hann sem sagt til að trúa því að hann sé að blekkja hana. Sagan leikur sér þannig með sannleika og blekkingu. Allar lygarnar eru þó vel meintar og til þess ætlaðar að vernda fjölskylduna, auðvelt er að sjá líkingu með hegðun fjölskyldunnar og ástandinu sem var í Austur-Þýskalandi sjálfu, en myndin beinir einnig sjónum að því hvernig staðið var að sameiningu ríkisins með hagsmuni Vestur-Þjóðverja að leiðarljósi, hvernig fyrsta reynsla Austur-Þjóðverja var af vestrinu og hvernig Vestur-Þjóðverjar og kannski fyrst og fremst vestur-þýsk stjórnvöld, litu niður á Austur-Þjóðverja sem hálfgert þriðja heims fólk og annars flokks. Myndin veltir einnig upp spurningum um þjóðerni, hvað það er sem sameinar fólk svo það geti kallað sig eina þjóð. Einnig er athyglinni beint að Austur-Þjóðverjunum sem sjá eftir veröldinni sem var á bak við járntjaldið, því sem kallað hefur verið ostalgía (Ost = þ. austur). Með fullri reisn. Með fullri reisn (enska: "The Full Monty") er vinsæl bresk gamanmynd frá árinu 1997. Hún segir frá sex stáliðjuverkamönnum í Sheffield á Englandi, sem misst hafa vinnuna. Til að bæta úr fjárskorti ákveða þeir að setja upp nektardanssýningu í borginni. Aðalleikarar eru Robert Carlyle, Mark Addy, William Snape, Steve Huison, Tom Wilkinson, Paul Barber, and Hugo Speer. Handritshöfundur myndarinnar er Simon Beaufoy og henni var leikstýrt af Peter Cattaneo. Leikrit sem gert var eftir kvikmyndinni var sett á svið í Þjóðleikhúsinu leikárið 2002-2003. 16. janúar. 16. janúar er 16. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 349 dagar (350 á hlaupári) eru eftir af árinu. 17. janúar. 17. janúar er 17. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 348 dagar (349 á hlaupári) eru eftir af árinu. Flóabardagi. Flóabardagi er eina sjóorrustan sem háð hefur verið við Ísland þar sem Íslendingar hafa skipað bæði lið. Bardaginn átti sér stað 25. júní 1244. Þeir sem þarna börðust voru Þórður kakali Sighvatsson og Kolbeinn ungi Arnórsson. Þórður var með liðssafnað sem hann hafði dregið saman á Vestfjörðum og hafði 15 skip af ýmsum stærðum og gerðum og 210 menn eftir því sem segir í Sturlungu, en Kolbeinn ungi var með norðlenskt lið, hafði 20 skip og u.þ.b 600 menn. Þórður sigldi skipum sínum úr Trékyllisvík á Ströndum en mætti á miðjum Húnaflóa flota Kolbeins, sem hafði siglt úr Selvík á Skaga og ætlaði að taka land á Ströndum til að eltast við Þórð og hans menn og sló þegar í bardaga með liðunum. Aðalvopnin voru grjót og eldibrandar auk þess sem menn reyndu að sigla skipunum hverju á annað til að sökkva þeim. Þrátt fyrir mikinn liðsmun tókst Þórði og mönnum hans lengi vel að hafa í fullu tré við menn Kolbeins. Þótt þeir þyrftu á endanum að leggja á flótta tókst Kolbeini ekki að elta þá uppi og var hann almennt talinn hafa beðið afhroð í bardaganum. Kolbeinn fór síðan ránshendi um Strandir og tók eða eyðilagði öll skip og báta sem hann fann. 18. janúar. 18. janúar er 18. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 347 dagar (348 á hlaupári) eru eftir af árinu. Persaflóastríðin. Á seinni hluta 20. aldar og fyrri hluta þeirrar 21. hafa verið háð þrjú stríð í nágrenni Persaflóa sem gengið hafa undir nafninu Persaflóastríð. Á Íslandi hefur eitt þessara stríða (1990-1991) einnig verið nefnt Flóabardagi líkt og sjóorrusta sem fram fór á Húnaflóa á Sturlungaöld. Internet Relay Chat. Internet Relay Chat (IRC, íslenskað með viðskeyttum greini sem Irkið eða irkið) er kerfi sem notað er til samskipta á rauntíma í gegnum Netið. Nafnið getur einnig átt við um þann netsamskiptastaðal sem notaður er. Hver notandi þarf forrit eða biðlara sem sér um samskipti við netþjón sem aftur sér um að skilaboð komast á réttan stað (stundum sér netþjóninn um meira, til dæmis geymir skilaboð ef þú ert ekki tengdur þegar einhver þarf að tala við þig). Stærstu samskiptanetin ernetu oftast samsett úr mörgum netþjónum og menn tengjast þá gjarnan þeim sem er manni næstur.Nokkur IRC-þjónanet eru til en á meðal þeirra má nefna DALnet, EFnet, IRCnet og Undernet en allir þeir sem vilja geta stofnað sinn eiginn IRC-þjón með frjálsum og ókeypis hugbúnaði. Notkun á irkinu nefnist að irka og notendur nefnast irkarar. Þegar persóna tengist inn á IRC-þjón er hægt að láta IRC-þjóninn fá m.a. fullt nafn, tölvupóstfang og gælunafn en samskipti við aðrar persónur fara í gegnum gælunöfnin. Notendur eiga líka möguleika á því að hafa samskipti við aðra notendur í gegnum rásir en allar þeirra hafa ákveðið forskeyti eftir eðli þeirra. Skráaskipti eru einnig möguleg án milligöngu netþjónanna. Sérstakir stjórnendur eða oppar (dregið af enska orðinu "op" eða "op'"erator") fylgjast með spjallrásunum og en þeir geta til dæmis bannað notendur og hent þeim út. Stríð Íraks og Írans. Stríð Íraks og Írans (einnig kallað Fyrsta Persaflóastríðið) var stríð háð á milli Írans og Íraks sem stóð frá 22. september 1980 til 10. ágúst 1988. Deilt er um upphaf og ástæður stríðsins, en í grundvallaratriðum var barist um áhrif á Persaflóasvæðinu. Valdamenn í báðum löndum vonuðust til að draga úr þrótti andstæðingsins og auka þannig eigin völd bæði heima og á alþjóðavettvangi. Stríðið hófst með innrás Íraka. Þeir sóttu hratt inn í Íran til að byrja með en hægðu svo á og hörfuðu aftur inn í Írak og vörðust. Seinna á lokamánuðum stríðsins hófu þeir svo aftur sókn inn í Íran. Stríðið kallaði miklar hörmungar yfir báðar þjóðirnar, tafði efnahagsþróun, truflaði olíuútflutning og kostaði um eina milljón mannslífa að því að talið er. Aðdragandi. Einn þeirra þátta, sem jók á fjandskap þjóðanna tveggja var þrá Saddams Hussein, forseta Íraks, eftir völdum yfir Shatt al-Arab-fljótinu, sem rennur í Persaflóa og er mikilvæg flutningsleið olíu fyrir báðar þjóðir. Írakar höfðu nokkrum árum fyrr afsalað sér yfirráðum yfir fljótinu og nálægum landsvæðum með Alsírsamningnum, sem þeir gerðu við Írani árið 1975 í skiptum fyrir að Íranir hættu stuðningi sínum við uppreisn Kúrda í Írak. Í kjölfar byltingarinnar í Íran 1979, þar sem keisaranum var steypt af stóli, óttuðust leiðtogar margra annarra íslamskra Arabaríkja að íslamska byltingin myndi breiðast út um Arabaheiminn og steypa veraldlegum (e. „secular“) ríkisstjórnum af stóli. Írönum var einnig í nöp við hina veraldlegu stjórn Baath flokksins í Írak og reyndu þeir að steypa henni með stuðningi við kúrdíska aðskilnaðarsinna í norðri og leiðtoga Sjíta-múslima annars staðar í Írak í þeirri von að það myndi leiða til borgarastyrjaldar í landinu. Írak hafði einnig augastað á Íranska héraðinu Khuzestan þar sem nokkrar af stærstu olíulindum Írana er að finna, þ.m.t. olíuvinnslustöðina við Abadan sem byggð var 1909. Saddam Hussein var nýkominn til valda og var ákveðinn í að gera Írak að risaveldi í Mið-Austurlöndum. Vel heppnuð innrás í vestur Íran myndi koma Írak í yfirburðastöðu við Persaflóa og veita þeim algjör völd yfir olíuframleiðslu á svæðinu. Þessar metnaðarfullu hugmyndir voru ekki svo langsóttar. Fjölmargar aftökur á háttsettum mönnum innan íranska hersins auk skorts á varahlutum í búnað hersins (sem var að mestu frá Bandaríkjunum) hafði lamað herinn sem hafði eitt sinn verið sá öflugasti á svæðinu. Bróðurparturinn af íranska hernum samanstóð nú af illa búnum, óþjálfuðum sjálfboðaliðum, svonefndum Pasdaran- og Basij-sveitum byltingarsinna sem voru hliðhollar Khomeini og töldust ekki til hefðbundins hers. Auk þess hafði Íran aðeins uppi lágmarksvarnir við Shatt al-Arab fljótið. 22. september, 1980 gripu Írakar tækifærið og gerðu innrás sem þeir réttlættu með meintu banatilræði við þáverandi utanríkisráðherra Tariq Aziz sem Íslamski Dawa-flokkur shíta í Írak átti að hafa staðið fyrir í apríl á sama ári með stuðningi Írans. Gangur stríðsins. Til að byrja með gekk Írökum allt í haginn þar sem þeir sóttu inn í Íran á breiðu svæði. Hins vegar komust þeir fljótlega að því að íranski herinn var ekki jafn máttlaus og þeir höfðu reiknað með. Íranir fylktu sér að baki ríkisstjórnar sinnar og börðust gegn innrásarhernum. Í júní 1982 höfðu Íranir, með vel heppnaðri gagnsókn, tekið aftur þau svæði sem Írakar náðu á sitt vald í upphafi stríðs. Það sem eftir var af stríðinu fóru mestir bardagar fram innan landamæra Írak. Íranir beittu áfram óþjálfuðum Pasdaran- og Basij-sveitum sínum og treystu á mátt fjöldans á meðan fámennari en betur búinn her Íraka varðist. Írakar lögðu til vopnahlé 1982 en Íranir héldu fast við þá áætlun sína að steypa írösku ríkisstjórninni úr stóli og stríðið hélt áfram í 6 ár til viðbótar sem einkenndust af skotgrafahernaði þar sem mannfall var gríðarlegt en landvinningar engir fyrir hvorugt landið. Uppúr 1984 hófst svokallað „olíuflutningaskipa-stríð“ (e. tanker war) milli landanna. Írönsku og írösku herirnir víluðu þá ekki fyrir sér að sökkva hlutlausum olíuflutningaskipum sem hættu sér inn fyrir Persaflóann. Tilgangurinn var að veikja andstæðinginn efnahagslega og koma í veg fyrir útflutning olíu. Hundruð olíflutningaskipa voru skemmd eða eyðilögð á þennan hátt og hundruð sjómanna létu lífið. Á síðari árum stríðsins hlaut Írak meiri og meiri stuðning erlendis frá og gat byggt upp vel búinn og vel þjálfaðan landher, flugher og flota. Árið 1988 hófu Írakar svo nýja sókn inn í Íran og hófu að gera mikla loftárásir á íranskar borgir eins og Teheran. Einangraðir Íranir gáfust þá upp og boðuðu til friðarviðræðna sem Írakar samþykktu enda hafði hið 8 ára stríð farið mjög illa með efnahaginn og fólkið í landinu. Stríðið einkenndist af mikilli grimmd, þá sérstaklega notkun efnavopna af hálfu Íraks (aðallega sinnepsgas). Alþjóðasamfélagið beitti Íraka mjög litlum þrýstingi til að hætta notkun efnavopnanna. Írak og Bandaríkin héldu því þó fram að Íranir hefðu einnig gerst sekir um notkun slíkra vopna en það hefur aldrei fengist staðfest. Sú herfræði sem beitt var í stríðinu svipar mjög til skotgrafahernaðar fyrri heimsstyrjaldar þar sem fjölmennum, illa búnum og illa þjálfuðum herjum var stefnt saman með tilheyrandi mannfalli. Þessi aðferð var þó sérstaklega notuð af Írönum. Alþjóðasamfélagið. Vopnabúnaður Íraka var að mestu keyptur frá Sovétríkjunum en á meðan stríðið stóð keyptu þeir einnig vopn frá Kína, Egyptalandi, Frakklandi og hugsanlega Þýskalandi. Írakar fengu einnig nokkurn fjárhagslegan stuðning frá Kúveit og Sádi Arabíu að nokkru leyti í formi lána. Árið 1982 breyttu Bandaríkin stefnu sinni gagnvart stríðinu og hófu beinan stuðning við Íraka með því að sjá þeim fyrir vopnum og fjárhagsaðstoð ásamt því að taka upp venjulegt stjórnmálasamband við Írak á ný (en það hafði legið niðri frá Sex daga stríðinu 1967). Bandaríkin og bandamenn þeirra (til dæmis Bretland, Frakkland og Ítalía) sáu Írökum fyrir efna- og sýklavopnum og hjálpuðu þeim til að byggja upp getu til að framleiða kjarnorkuvopn. Á meðan Írak naut stuðnings flestra risavelda samtímans, þar á meðal bæði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna var Íran einangrað og hafði einungis opinberan stuðning Sýrlands og Líbýu. Bandaríkin lýstu aldrei formlega yfir stríði á hendur Íran en þrátt fyrir það þá lenti hersveitum landanna saman nokkrum sinnum á árunum 1987–1988 í nokkrum sjóorrustum á Persaflóa þar sem Bandaríkin höfðu mikinn viðbúnað. 3. júlí 1988, skaut Bandaríska herskipið USS Vincennes niður farþegaþotu á vegum "Iran Air" en stjórnvöld Í Bandaríkjunum sögðu að flugvélin hefði verið tekin í misgripum fyrir íranska F-14 Tomcat þotu sem var á sveimi á svæðinu á sama tíma. Allir þeir 290 farþegar og áhöfn sem voru í hinu borgaralega flugi fórust, þar á meðal konur og börn. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hafði nokkru áður ástundað að selja einnig Írönum vopn, fyrst óbeint (hugsanlega með milligöngu Ísrael) en síðar beint (sjá Íran-Kontrahneykslið). Eftirmálar. Að stríðinu loknu var Írak mjög skuldugt við þær Arabaþjóðir sem höfðu staðið við bakið á þeim í stríðinu og stutt fjárhagslega. Til dæmis skulduðu þeir Kúveit 14 milljarða Bandaríkjadala sem átti þátt í þeirri ákvörðun Saddam Husseins að ráðast inn í landið árið 1990 sem leiddi til næsta Persaflóastríðs. Olíuvinnsluiðnaður beggja ríkja var illa farinn en olíulindirnar höfðu verið aðalskotmörkin í loftárásum á báða bóga. Í lok stríðsins stóðu landamæri ríkjanna óbreytt. Tveimur árum eftir stríðslok þegar stríð Íraks við vesturveldin vofði yfir viðurkenndi Saddam yfirráð Írana yfir austurbakka Shatt al-Arab og þar með var nákvæmlega sama staða komin upp á svæðinu og hafði verið fyrir stríðið. Kjördæmi Íslands. Íslandi er skipt í sex kjördæmi samkvæmt 31. grein Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og í lögum um kosningar til Alþingis. Þau eru: Reykjavíkurkjördæmi norður (11), Reykjavíkurkjördæmi suður (11), Norðvesturkjördæmi (9), Norðausturkjördæmi (10), Suðurkjördæmi (10) og Suðvesturkjördæmi (12). Atkvæðavægi. Núverandi skiptingu var komið á með stjórnarskrárbreytingu árið 1999 og var ætlað að jafna vægi atkvæða milli landshluta frá því, sem áður var, en allt frá því að þéttbýli fór að myndast á Íslandi hefur því verið mismunað með hlutfallslega minna atkvæðavægi en dreifbýlinu. Í kosningunum 1999, sem voru þær síðustu þar sem kosið var eftir eldri kjördæmaskipan, var mesti munur atkvæðavægis rétt tæplega ferfaldur á milli Vestfjarðakjördæmis og Reykjanesskjördæmis. Núverandi kjördæmaskipting byggir á þremur kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu og þremur á landsbyggðinni. Misræmi í atkvæðavægi er enn þá til staðar (sem dæmi má nefna að í Alþingiskosningunum 2003 hefðu kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu átt að fá 5-6 þingsætum fleira en þau fengu, ef miðað hefði verið við fjölda á kjörskrá) en ákvæði í stjórnarskrá segja, að ef fjöldi kosningabærra manna á bakvið hvert sæti í einu kjördæmi er orðinn helmingur þess sem hann er í því kjördæmi þar sem flestir eru á bakvið hvert þingsæti þegar gengið er til kosninga, skal færa eitt kjördæmissæti á milli þeirra fyrir næstu kosningar. Kjördæmi getur þó ekki haft færri en 6 kjördæmissæti. Reglunni hefur verið beitt einu sinni hingað til, í alþingiskosningunum 2003 voru kjósendur á kjörskrá fyrir hvert þingsæti ríflega tvöfalt fleiri í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi og því var eitt kjördæmissæti flutt þar á milli fyrir alþingiskosningarnar 2007. Hröð íbúafjölgun í Suðvesturkjördæmi og stöðnun íbúafjölda í Norðvesturkjördæmi varð til þess að litlu munaði að kjósendur á kjörskrá fyrir hvert þingsæti í kosningunum 2007 væru tvöfalt fleiri í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi, þrátt fyrir tilflutning sætisins. Í kosningunum 2009 voru aftur tvöfalt fleiri kjósendur á kjörskrá fyrir hvert þingsæti í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi og því mun annað kjördæmissæti flytjast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis í kosningunum 2013. Kjördæmissæti og jöfnunarsæti. Tvenns konar þingsætum er úthlutað samkvæmt þessu kerfi eftir mismunandi reglum. Kjördæmissætum er úthlutað samkvæmt d'Hondt-reglunni í samræmi við niðurstöðu kosninga innan hvers kjördæmis. Jöfnunarsæti taka hins vegar einnig mið af úrslitum á landsvísu og er ætlað að leiðrétta misræmi á milli fylgis flokks á landsvísu og fjölda kjördæmasæta. Einungis framboð með 5% atkvæða eða meira koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta. Saga. Fjöldi þingmanna á Alþingi hefur aukist talsvert síðan það var endurreist árið 1843. Þá voru 20 þingmenn kosnir í einmenningskjördæmum en sex voru konungskjörnir, þ.e. skipaðir af Danakonungi. Á tímabilinu 1843-1874 þegar Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá var Alþingi ráðgefandi þing. Það þýddi að Danakonungur hafði lokaorðið um alla lagasetningu á Íslandi. Árið 1858 var kjördæmaskipan breytt þannig að Skaftafellssýslu var skipt í tvennt og einum þingmanni bætt við. Árið 1874 er Íslendingar hlutu sína fyrstu stjórnarskrá var kosningakerfinu breytt þannig að 30 þingmenn voru kosnir bæði í einmennings- og tvímenningskjördæmum og áfram sex konungskjörnir. Með Heimastjórninni 1904 tók íslenska flokkakerfið, sem nefnt hefur verið fjórflokkakerfið, að taka á sig mynd. Þá voru 34 þingmenn kosnir í einmennings- og tvímenningskjördæmum og sex konungskjörnir, alls 40 þingmenn. Kjördæmaskiptingin hyglaði strjálbýlinu á kostnað þéttbýlisins. Kosningaréttur karla var gerður nokkuð almennur en ungmenni, vinnuhjú og konur höfðu hann ekki. Árið 1915 var kosningakerfi landsins breytt með þeim hætti að konur fengu nú kosningarétt, konungskjörnir þingmenn voru lagðir af og í þeirra stað komu sex landskjörnir þingmenn sem kosnir voru til 12 ára í senn með landið allt sem eitt kjördæmi. Ári seinna var fyrst kosið í alþingiskosningum eftir þessu nýja kerfi. Sama ár voru tveir stjórnmálaflokkar stofnaðir; Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur landsins, og Alþýðuflokkurinn, stjórnmálaarmur ASÍ. Fyrir kosningarnar 1920 var kosningakerfinu breytt þannig að þingmönnum var fjölgað um tvo, þeir voru því alls 42. Fjórir þingmenn voru kosnir í hlutfallskosningu í Reykjavík, þetta var gert til að minnka mun á atkvæðavægi til sveita annars vegar og í þéttbýli hins vegar. Kjörtímabil landskjörinna þingmanna var lækkað í átta ár. Árið 1934 var kjördæmaskipunin fest í sessi í stjórnarskránni. Þingmönnum var fjölgað um sjö, úr 42 í 49, kosningaaldur var lækkaður í 21 ár og ákvæði um að sveitastyrkþegar mættu ekki kjósa var afnumið. Landskjörnu þingmennirnir sex voru afnumdir og þeirra í stað var 11 uppbótarsætum komið á, þannig að byggt á niðurstöðum kosninga var sætunum skipt á milli kjördæma til þess að jafna atkvæðavægi. Árið 1942, á meðan seinni heimsstyrjöldin geysaði, var samþykkt önnur breyting á stjórnarskránni: þremur þingmönnum var bætt við. Nú voru 21 þingmenn kosnir í einmenningskjördæmum, 12 þingmenn voru kosnir með hlutfallskosningu í sex tvímenningskjördæmum, átta þingmenn voru kosnir með hlutfallskosningu í Reykjavík og uppbótarsæti voru 11. Siglufjörður var gerður að kjördæmi. Þessi breyting á kosningakerfinu var gerð í óþökk leiðtoga Framsóknarflokksins, Hermanns Jónassonar og olli ósætti á milli hans og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins (sjá Eiðrofsmálið). Árið 1959 var kosningakerfinu gjörbreytt þannig að þau 28 kjördæmi sem áður voru voru lögð niður og tekin var upp hlutfallskosning í átta kjördæmum, Reykjavíkurkjördæmi hélst óbreytt en eldri kjördæmi sem höfðu miðaðst við sýslur eða kaupstaði voru sameinuð eftir landshlutum. Þingmönnum var fjölgað um átta í 60, fjöldi þingmanna í hverju kjördæmi var á bilinu 5-12. Þessi breyting á kosningakerfinu var hluti af samkomulagi Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins fyrir Viðreisnarstjórnina. Framsóknarflokkurinn, sem hafði mikið fylgi á landsbyggðinni tapaði mjög á þessari breytingu og var henni mótfallinn. Þetta fyrirkomulag hélst óbreytt í 28 ár, til ársins 1987. Árið 1987 var kosningakerfinu breytt þannig að 50 þingmenn voru kosnir í kjördæmunum átta og uppbótarsætin höfð 13 talsins. „Breytingunni var ætlað að jafna atkvæðavægi milli flokka eins og hægt væri, án þess þó að útrýma misvægi atkvæða milli kjördæma. Þetta var gert með því að þróa einstaklega flókið kosningakerfi sem einungis fámennur hópur sérfræðinga skildi hvernig virkaði. Samstaða var um tillögurnar milli flokka.“ Frá því 2003 hafa verið sex kjördæmi, þar sem Reykjavík er skipt í tvennt. Þingmenn sem kosnir eru beint eru 54 talsins en uppbótarþingmenn eru níu (aðeins stjórnmálaflokkar með a.m.k. 5% fylgi koma til greina). Hægt er að breyta kosningalögum beint með ⅔ atkvæða, ekki þarf stjórnarskrárbreytingu. Um miðjan mars 2010 var lagt fram frumvarp, með undirskrift 19 þingmanna, þess efnis að breyta ætti landinu í eitt kjördæmi. Flutningsmaður var Björgvin G. Sigurðsson. Frumvarpinu var vísað til sérnefndar um stjórnarskrármál sem skilaði ekki áliti á því. Kjördæmi. Kjördæmin og þau sveitarfélög sem til þeirra teljast Pierre de Fermat. Pierre de Fermat (17. ágúst 1601 – 2. janúar 1665) var franskur stærðfræðingur, sem einkum fékkst við talnafræði og er talinn einn af þeim merkustu á því sviði. Sagt er að hann hafi fæðst 17. ágúst 1601, samt er hann sagður 57 ára á legsteini sínum og dáinn 1665, svo að eitthvað passar ekki. Prins áhugamannanna. Fermat var áhugamaður í stærðfræði, en gerði samt ýmsar merkar uppgötvanir. Til dæmis uppgötvaði hann árið 1629 að fall á forminu f(x,y) = 0 samsvarar ferli í x-y fletinum. Þetta var fyrst gefið út í riti Descartes, "Rúmfræðinni, árið 1637. Hann gerði undirstöðuuppgötvanir á sviði örsmæðareiknings, sem Isaac Newton byggði á þegar hann þróaði deildunarreikning (sem hann kallaði fluxions). Hann var dómari í Toulouse og er jafnan kallaður "Prins áhugamannanna" af stærðfræðingum. Framlög til stærðfræðinnar. Frægasta framlag Fermats til stærðfræðinnar er svokölluð síðasta regla Fermats. Hún tekur mið af Pýþagórasarreglu (a² + b² = c²), sem hefur óendanlega margar heiltölulausnir fyrir a, b og c. Síðasta regla Fermats er þannig: "Jafnan" xn + yn = zn "hefur enga lausn ef" x, y, z "og" n "eru náttúrulegar tölur" (>0) "og" n>2. Þessa reglu sagðist hann hafa sannað og skrifaði regluna á spássíu bókar sem hann var að lesa og fannst að honum látnum. Þar stóð ennfremur, að hann hefði fundið dásamlega sönnun á þessari reglu, en að hún væri of löng til að komast fyrir á spássíunni. Sönnun hans fannst aldrei og í tæp 330 ár var þetta viðfangsefni bestu stærðfræðinga veraldar. Það var ekki fyrr en 1994 að breska stærðfræðingnum Andrew Wiles tókst loks að sanna síðustu reglu Fermats á mjög viðamikinn og flókinn hátt og tók það hann átta ára þrotlausa vinnu. Annað framlag Fermats er kenningin sem á ensku er kölluð Fermat's conjecture, eða ályktun Fermats. Hún er á þá leið, að sérhverja náttúrulega tölu er unnt að skrifa sem summu fjögurra ferningstalna eða færri. Dæmi: 25 = 9 + 16 og 99 = 9 + 16 + 25 + 49. Þessi regla var síðar sönnuð af Jacobi, sem var frægur stærðfræðingur á 19. öld. Tenglar. Fermat, Pierre de Łódź. Łódź er þriðja stærsta borg Póllands og liggur í miðju landinu í samnefndu héraði. Fólksfjöldinn var um 742.387 árið 2009. Łódź er höfuðborg samnefnds héraðs og liggur um það bil 135 km suðvestan við Varsjá. Skjaldarmerki borgarinnar er bátur, þar sem orðið "łódź" þýðir „bátur“ á pólsku. Łódź er mikilvæg miðstöð fyrir vefnaðariðnað og raftækjaiðnað, auk og kvikmyndagerðar og afþreyingar. Borgin er líka mikilvæg akademísk og menningarleg miðstöð en þar eru tveir háskólar, þar á meðal kvikmyndaháskóli, og fjöldi leikhúsa, minjasafna og annarra menningarstofnana. Łódź hefur stækkað mikið undanfarin ár og þar er verið að fjárfesta mikið. Hún hefur stöðuna „powiat“ og íbúarnir á storborgarsvæðinu eru um það bil 1.150.000. Borgin fékk bæjarréttindi af Vladislav 2. Jagello konungi árið 1423. Samt sem áður var það ekki fyrir 19. öld að Łódź þróaðist í borg, árið 1820 voru áðeins nokkrar þúsundir íbúa þar. Þá breyttist hún í eina stærstu vefnaðariðnaðarborgina í Evrópu og íbúarnir voru hálf milljón rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina. Útþensla borgarinnar stöðvaði á meðan á heimstyrjöldinni stóð en hún varð óopinber höfuðborg Póllands þangað til Varsjá varð endurbyggð. Knattspyrnudeild ÍBV. Knattspyrnudeild ÍBV er ein af eldri deildum félagsins. Heimildir eru til frá 1903 frá æfingum Björgúlfs Ólafssonar læknis. Í þá daga gekk félagið undir nafni KV sem keppti meðal annars á fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu 1912. Knattspyrnudeild ÍBV hefur náð góðum árangri í gegnum tíðina. Innan hennar geta margir aldurshópar æft knattspyrnu undir leiðsögn þjálfara hjá ÍBV og er deildin ein sú öflugasta innan félagsins. Meistaraflokkur karla. Framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV er Valur Smári Heimisson. Formaður knattspyrnudeildar ÍBV er Óskar Örn Ólafsson. Eldri tímabil 2011, 2012 Undirbúningstímabil 2013. Eldri tímabil 2011, 2012 Tenglar. ÍBV Tungumál. Mál er kerfi merkja, tákna, hljóða og orða sem notuð eru saman til þess að lýsa hugtökum, hugmyndum, merkingum og hugsunum. Málfræðingar eru þeir sem að rannsaka mál, en í nútímanum var málfræði fyrst kynnt sem vísindagrein af Ferdinand de Saussure. Þeir sem að tala mál, eða nota það á annan hátt, eru taldir með sem hluti af málsamfélagi þess máls. Tungumál er hugtak sérstaklega notað um þau mál sem að hafa hljóðkerfi. Fjölmörg tungumál eru til í heiminum í dag, ýmist með eða án ritkerfa. Þar sem að orðið "mál" hefur margar merkingar í íslensku (t.d. í hugtökunum málaferli og „að taka mál af e-u“), og er ekkert annað orð tiltækt sem er sambærilegt við orðið "language" á ensku, þá mun orðið "tungumál" vera notað hér eftir sem hvert það kerfi merkja, tákna, hljóða og orða sem hægt er að rita, tala eða á annan hátt skilja. Flokkar tungumála. Einfaldasta flokkun tungumála væri í náttúruleg tungumál og tilbúin tungumál. Annað flokkunarkerfi gæti verið töluð mál, rituð mál og táknmál. Einnig eru náttúruleg tungumál flokkuð niður í málhópa eftir málsvæðum, en í því kerfi telst íslenska til indóevrópskra mála, undir því til germanskra mála og ennfremur til norrænna mála og vesturnorrænna mála. John Maynard Keynes. John Maynard Keynes (5. júní 1883 – 21. apríl 1946) var mikilsvirtur hagfræðingur, og kenningar hans um að ríkisvaldinu bæri að stýra heildareftirspurninni í samfélaginu höfðu mikil áhrif á hagstjórn í heiminum eftir heimsstyrjöldina fyrri. Frægasta bók hans, "Almenna kenningin um atvinnu, vexti og peninga", hefur áhrif enn þann dag í dag á hagfræðina, þó að margir telji kenningar hans ekki hafa staðist tímans tönn. Þær hafa ætíð verið umdeildar. Æviágrip. John Maynard Keynes fæddist 1883 í Cambridge á Englandi. Faðir hans var hagfræðingur og móðir hans var fyrsta konan til að útskrifast úr King's College í Cambridge-háskóla. Hann lauk B.A. prófi 1905 og M.A. prófi 1909 og starfaði svo við ýmsar stofnanir, m.a. breska seðlabankann. Árið 1919 fór hann til Versala í Frakklandi sem hagfræðilegur ráðgjafi þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Lloyd George. Þar var Versalasamningurinn undirritaður, en þar var kveðið á um stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar voru látnir greiða. Keynes taldi þær allt of háar og sagði þær grafa undan efnahag Þjóðverja. Í framhaldi af þessu skrifaði hann bókina "Áhrif friðar á efnahag" (enska: The Economic Consequences of the Peace). Sú bók var víða lesin en tekið með nokkrum fyrirvara. Keynes lést í Sussex árið 1946, 63 ára að aldri. Hann er af mörgum talinn einn merkasti hugsuður 20. aldarinnar. Heimspekingurinn Bertrand Russell sagði að Keynes hefði verið einn gáfaðasti maður sem hann hefði nokkru sinni þekkt og bætti við: „Ætíð þegar ég átti í rökræðum við Keynes fannst mér ég hafa líf mitt í lúkunum og gekk sjaldan frá slíkum rökræðum án þess að finnast ég vera svolítill kjáni.“ Keynes á að hafa sagt konu sinni að hann hefði hitt guð á 5:15 lestinni þegar hann hafði hitt lærisvein Russells, Ludwig Wittgenstein. Kenningin. Helsta verk Keynes var kenningin um hlutverk ríkisvalds í efnahagsstjórnun. Kenningar hans urðu fyrst kunnar 1929 og voru þá settar inn í stefnuskrá frjálslynda flokksins í Bretlandi. Sumir vilja meina að þar hafi grunnur verið lagður að hugmyndafræði miðjuaflanna, þar sem öfgum til hægri og vinstri hafi verið hafnað. Keynes taldi að kreppan mikla hefði komið til vegna þess að minna var notað og meira sparað af tekjunum. Eyðslan og eftirspurnin var ekki nóg. Þar með var til komið fjármagn á lausu; það ætti ríkið að taka að láni og koma í umferð meiri peningum en það gat aflað með sköttum. Út af því fjármagni sem lá óhreyft í sparnaði átti fjármagnsinnspýtingin ekki að valda verðbólgu, heldur myndi jafnvægi milli eyðslu og sparnaðar nást aftur. Keynes sagði, að út af fyrir sig, væri það gott að borga hópi manna til að moka skurð einn dag og fylla svo aftur upp í skurðinn næsta dag, til þess eins að koma peningum af stað. Reyndar taldi hann að vegagerð væri heppilegustu verkefnin til að veita fólki vinnu og auka peningaflæði um hagkerfið. Hann mat margföldunaráhrifin vera á milli 2 og 3, sem þýðir að fyrir hverja krónu sem notuð var umfram tekjur á krepputíma, yrðu til verðmæti upp á tvær eða þrjár krónur úti í samfélaginu. „Og það skrýtna var að í sögunni hjá Keynes var enginn skúrkur sem kenna mátti um allt saman. Það þýddi ekkert að skamma kapítalistana fyrir að vilja ekki fjárfesta. Þeir voru allir af vilja gerðir en það var engin eftirspurn, studd peningum til að kaupa vörurnar. Og það þýddi lítið að skamma atvinnuleysingjana sem samkvæmt kenningunni brugðust skyldu sinni um að spara.“ Þetta var því ekki það vegasalt sem kapítalistar höfðu haldið fram að hagkerfið væri, heldur lyfta, sem stundum færi upp en dytti stundum niður. Þegar það gerðist þyrfti að setja rafmagnið á aftur til að hún fengist haggað upp á við. Mótrök. Kenningin var hins vegar langt í frá gallalaus. Stór galli var á gjöf Njarðar sem ekki kom fyllilega í ljós fyrr en 1931. Aukin kaupgeta á heimamarkaði leiðir nefnilega óumflýjanlega til aukins innflutnings sem aftur leiðir til þess að gjaldeyrisjöfnuðinum er ógnað. Breska pundinu, sem enginn bjóst við að yrði haggað, skrikaði fótur. Keynes tók kenninguna og prjónaði örlítið við hana. Hann sagði að þegar ríkið fengi peninga að láni og kæmi þeim inn í hagkerfið til að auka eftirspurn, yrðu innflutningstollar, innflutningsstýring eða eitthvað sambærilegt að fylgja. Mörgum hefur þótt hugmyndafræði Keynes ekki hafa staðist tímans tönn. Ef til vill sást honum yfir að hagkerfi er ekki eins og vel smurð vél og mannlega hegðun er ekki hægt að kryfja til mergjar. Það skapar augljósa hættu að færa miðstýrt fjárfestingarvald á hendur fárra eins og mörg ríki hafa sopið seyðið af, þar á meðal Ísland. Margir töldu að hagkerfið myndi ævinlega leita jafnvægis við fulla nýtingu framleiðsluþátta fyrir tilverknað hinnar ósýnilegu handar markaðarins. Íhlutun í þann viðkvæma stillibúnað hagkerfisins gerði því aðeins illt. Austurríski hagfræðingurinn Schumpeter var ætíð á öndverðum meiði við Keynes. Schumpeter taldi að kapítalisminn væri bestur óheftur og að ríkisafskipti dræpu að lokum frumkvöðulinn í dróma og kapítalismann í leiðinni. Bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman lýsti "Almennu kenningunni um atvinnu, vexti og peninga" sem „merkilegri bók“ en hélt því þó fram að keynesisminn gæti leitt til lítillar framleiðslu og hárrar verðbólgu líkt og hagkerfi iðnríkja upplifðu snemma á áttunda áratugnum. Friedman fannst "Tract on Monetary Reform", sem kom út árið 1923, vera mun álitlegra rit og besta rit Keynes vegna þeirrar áherslu að halda stöðugleika í verðgildi. Hagfræðingurinn Friedrich von Hayek gagnrýndi kenningu Keynes einnig og sagði að Keynes fæli ríkisvaldinu allt of mikið vald og að það leiddi til sósíalisma. Kenningin í reynd. Segja má að sátt hafi ríkt um uppbyggingu velferðarkerfa í anda kenninga Keynes frá lokum fjórða áratugarins og fram á þann áttunda, bæði á Íslandi og annars staðar. Forseti Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum, John F. Kennedy, framfylgdi til að mynda kenningum Keynes og í kjölfarið fylgdi lengsta hagvaxtarskeið BNA til þeirra tíma. En þegar kom fram á áttunda áratuginn fóru að koma upp efasemdir um að þessi hagfræði stæðist. Til dæmis fór hagvöxtur minnkandi víða í Vestur-Evrópu auk þess sem verðbólga og atvinnuleysi fóru vaxandi. Hagfræðingar fóru að telja rót vandans felast í útþenslu ríkisins, sem í vaxandi mæli sogaði til sín fjármagn og hefði lamandi áhrif á frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja. Upp úr þessu unnu þeir sigur í kosningum sem afneituðu keynesismanum. Kosning Ronald Reagan í Bandaríkjunum og Margaret Thatcher í Bretlandi eru órækar sannanir þess. Reyndar mistókust margar aðgerðir Reagans, en núorðið telja menn að það megi rekja til þess að bandarískur iðnaður hafi ekki verið undir þær búinn. Seinna var róið að því öllum árum að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og einstaklinga og hefur það skilað tilætluðum árangri. Má í því sambandi nefna Bill Clinton, sem notaði það sem eitt af sínum aðalkosningamálum í forsetakosningunum árið 1992. Arfleifð Keynes. Að mati Jóns Baldvins Hannibalssonar er Keynes sennilega áhrifamesti einstaklingur liðinnar aldar, nema ef Einstein þætti merkari. Þó svo að kenningar Keynes séu enn mjög umdeildar, er þó ekki loku fyrir það skotið að áhrifanna gæti enn víða. Winston Churchill á að hafa sagt: „Ef tveir hagfræðingar koma saman færðu tvær skoðanir, nema ef annar þeirra er Keynes lávarður en þá færðu þrjár skoðanir.“ Mongólía. Mongólía er landlukt land í Mið-Asíu sem á landamæri að Rússlandi og Kína. Saga landsins er löng og það hefur breyst úr því að vera stórveldi á þrettándu öld með Gengis Khan í broddi fylkingar, í það að vera undirokuð þjóð. Saga. Þjóðin er komin af hirðingjaættflokkum sem reikuðu um slétturnar í gegnum aldirnar. Gengis Khan gerði Mongólíu að stórveldi á þrettándu öld. Hann náði að sameina allar hirðingjaþjóðirnar og byggði upp ósigrandi reiðmannaher. Hver hermaður hafði þrjá til reiðar í hverjum herleiðangri til að yfirferðin yrði sem hröðust. Með ótrúlegri hörku og grimmúð náði Mongólía yfir stóran hluta Asíu, þar með talið Kína. Þegar veldi Mongóla var hvað stærst náði það allt frá Víetnam í austri að Ungverjalandi í vestri. Sonarsonur Gengis, Kublai Khan, vann í ýmsum landvinningum og reyndi að halda ríkinu saman, en það tókst ekki og ríkið leystist fljótlega upp í minni einingar. Seinna náðu Kínverjar stjórn á Mongólíu og skiptu því í Innri- og Ytri Mongólíu sem voru héruð innan Kína. Ytri Mongólía sagði skilið við Kína árið 1921 með stuðningi Sovétríkjanna og kallaði sig Alþýðulýðveldið Mongólíu frá 1924. Kommúnismi var tekinn upp í landinu og hélst þangað til Sovétríkin féllu. Sovétríkin vörðu landið gegn Japönum í Síðari heimsstyrjöld og þegar slettist upp á vinskap Sovétmanna og Kínverja árið 1958 tóku Mongólar afstöðu með Sovétríkjunum og leyfðu þeim að reka herstöðvar á landi sínu. Árið 1990 var bann við rekstri annarra stjórnmálaflokka en Kommúnistaflokksins afnumið en kommúnistar héldu þó áfram að vera með stærstu flokkum landsins. Árið 1992 var tekin upp ný stjórnarskrá í Mongólíu þar sem Alþýðulýðveldið var afnumið og blöndu af forseta- og þingræði komið á. Stjórnmál. Þar til 27. júní 2004 var hinn Mongólski Byltingarflokkur Alþýðunnar stærsti flokkur landsins, hann var stofnaður af fyrrverandi kommúnista leiðtogum landsins þegar Kalda stríðinu lauk. Stærsti andstöðuflokkurinn hefur verið Lýðræðisflokkurinn sem leiddi samsteypustjórn á árunum 1996-2000. Í kosningunum 2004 beið Byltingarflokkurinn mikinn ósigur og er nú í stjórnarandstöðu en kosningaþátttaka hefur aldrei verið meiri í landinu. Í ríkinu er við lýði tvöfalt framkvæmdavald þar sem að kjörinn forseti gegnir hlutverki þjóðhöfðingja og forsætisráðherra er æðsti maður ríkisstjórnar. Löggjafarþingið kallast "Hural", í því eru 76 sæti í einni deild. Skipting í stjórnsýsluumdæmi. Mongólía skiptist í 21 Aimag eða héruð, sjá listann hér. Landafræði. Mongólía hálf önnur milljón ferkílómetra að stærð, sem jafngildir ríflega fimmtánfaldri stærð Íslands, og eins og Ísland er Mongólía afar fámennt land. Einungis tvær milljónir af þeim 5 ½ milljónum Mongóla, búa í Mongólíu, hinir búa í ýmsum héröðum nágrannalandanna. Þessi litli fjöldi, 1,7 íbúar á ferkílómetri, gerir landið allnokkru strjálbýlla en til dæmis Ísland, sem hefur 2,7 íbúa á ferkílómetri. Höfuðborgin, Ulaanbataar, er byggð um 700.000 íbúum. Aðrar borgir eru öllu minni. Landið er á teygir sig sitthvoru megin við 46°N sem er svipað og Frakkland. Norðan-, mið-, og vestantil er mikið fjalllendi sem nær upp í 3600 metra hæð. Á landamærunum við Rússland er nokkuð um eldfjöll. Flestar ár landsins hverfa í sölt vötn sem aldrei komast til sjávar. Fjölbreytt dýralíf er í kringum vötnin, sérílagi norðantil. Eins og fyrr segir er Mongólía með hefðbundið og öfgakennt meginlandsloftslag, vetur eru langir, kaldir og þurrir en sumrin heit. Úrkoma er allt frá 5 cm á ári í Gobí eyðimörkinni upp í 50 í fjalllendi, þó meirihluti landsins sé allþurr. Dýra- og plöntulíf er fjölbreytt, skógar, gresjur og steppur skiptast á með sínum plöntu- og dýrategundum. Veðurfarið og hæðin setja vistkerfinu þó þröngar skorður. Efnahagur. Kaupmáttur er rúmlega fimmtán sinnum minni en á Íslandi, sem jafnast ögn út vegna lægra verðlags þar. Þó er ljóst að fátækt er mjög mikil og í því sambandi má nefna að 36% íbúa lifa undir fátæktarmörkum. Landið er ríkt af málmum og kolum og kemur megnið af útflutningstekjum landsins af sölu þessa, einkum kopars. Mest viðskipti eiga þeir við Rússland, Kína og Japan. Kommúnismi, sem var tekinn upp 1921, olli straumhvörfum í lifnaðarháttunum. Heilsugæsla stórefldist og komið varð böndum yfir marga helstu sjúkdóma þess tíma. Iðnaður, sem fyrir var enginn, var rifinn upp og skóp landinu velsæld. Enn í dag er þó hráefnaútflutningur mikilvægastur í útflutningi, og róa nú stjórnvöld öllum árum að því að skapa meiri verðmæti úr þessum gæðum með fullvinnslu og að koma styrkari og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið. Einkavæðing hefur verið nokkur undanfarin ár en slæmir vetur hafa verið nokkuð tíðir og ýtt undir verðbólgu og hægt á hagvexti. Lýðfræði. Mongólar eru dökkir á hörund og dökkhærðir, meðalháir og kubbslegir í vexti og nokkuð skáeygir. Í margar aldir hafa mongólar verið hirðingjar og það eðli er enn ríkt í þeim. Til marks um það má nefna að um 15 húsdýr eru að meðaltali á hvert mannsbarn í landinu. Flestir Mongólar tala tungumálið Khalkha og nær allir eru búddatrúar. Dragnót. Dragnót eða snurvoð er veiðarfæri til fiskveiða sem var fundið upp í Danmörku árið 1848 af Jens Laursen Væver. Dragnót samanstendur af pokalaga belg úr neti og út frá honum liggja stórir vængir. Frá vængjunum liggja dragstrengir. Dragstrengirnir ýta við fisknum og smala honum í netið. Neðan á dragnótinni er fótreipi sem hjálpar til að smala fiskinum inn í netið en er einnig notað til að verja netið. Byrjað er að setja annan dragstrenginn út og á enda hans er bauja til að auðveldara sé að finna endann aftur. Skipið leggur svo dragstrenginn í boga þar til nótinni er kastað. Hinum dragstrengnum er svo keyrt í boga á móti þeim fyrri. Fyrri strengurinn er síðan tekinn um borð og keyrt er af stað og nótin dregin á eftir skipinu. Meðan dregið er, lokast hringurinn smám saman og fiskurinn innan togsvæðisins smalast saman inn í voðina. Þegar strengirnir hafa lagst saman lokast voðin og er þá hífð um borð. Engir hlerar halda voðinni opinni, né eru togvír þar sem toga voðina. Hún er aðallega notuð til þorsk- og flatfiskveiða en um helmingur alls flatfiskaflans fæst í dragnót. Dragnótin er ríkjandi í sandkola- og skrápflúruveiðum og um tveir þriðju hlutar skarkolaaflans kemur í þetta veiðarfæri. Dragnótin er notuð allt í kringum landið og mest er veitt á 40-60 m dýpi. Munurinn á dragnótunum er að vængir og netop eru hærri á þorskvoðinni en á kolavoðinni, og ekkert þak er á kolavoðinni. Net dragnótarinnar getur verið sett upp á sama hátt og um botnvörpu væri að ræða. Má þar nefna V-trollið, sem ýmist er notað með hlerum sem troll, eða án hlera sem dragnót. Oftar er þó nokkur munur á netinu, og er þar fyrst að nefna að vængir dragnótar eru hlutfallslega lengri en vanalega tíðkast um troll. Lágmarksmöskvastærð í dragnót er eins og í botnvörpum ýmist 135 mm eða 155 eftir veiðisvæðum. Við dragnótaveiðar verður að leggja annan dragstrenginn fyrst, síðan voðina sjálfa og loks hinn strenginn. Eftir að kastað hefur verið, er um tvær mismunandi veiðiaðferðir að ræða. Sú eldri er að draga voðina að bátnum liggjandi fyrir föstu. Sú aðferð er víða algeng, en er þó á undanhaldi og þekkist alls ekki á Íslandi núorðið. Hin aðferðin er að hafa bátinn lausan, og er það kallað að draga fyrir lausu. Þar sem dragnótin er dregin fremur hægt er tiltölulega auðvelt fyrir kafara að fylgjast með henni í drætti og athuga viðbrögð fiska við veiðarfærinu. Þegar dráttarstrengirnir nálgast skarkolann hrekkur nánast allur kolinn hornrétt út frá tóginu inn að voðinni. Þannig smalast kolinn saman í átt að netopinu. Ýsan hegðast sér öðruvísi að því leyti að hún syndir á ská út frá tóginu en stundum áræðir hún þó að synda yfir það og sleppur. Eins og öll önnur veiðarfæri hefur dragnótin bæði sína kosti og galla. Svo að fyrst sé vikið að göllunum þá er þessi veiði mjög bindandi fyrir áhöfn. Við íslenskar aðstæður tekur um 15 mínútur að kasta, þegar mjög grunnt er togað, upp í 30 mínútur að draga og loks tekur um 20 mínútur að hífa. Því er ljóst, að híft er á um það bil klukkustundar fresti, en við togveiðar er oft ekki híft nema 4-6 sinnum á sólarhring, ef verið er á góðum botni. Þá dregur það úr ágæti dragnótaveiða, að þær eru að mestu einskorðaðar við góðan botn og grunnt vatn, auk þess sem veiðarfærið er all dýrt. Helstu kostir dragnótar eru þeir, hversu góðum fiski hún skilar. Smáfiskur veiðist því í minna mæli en í botnvörpu af sömu möskvastærð. Einkum á þetta við um þorsk. Unnt er líka að nota afllítil skip við þessar veiðar og nýta smábleyður, þar sem trolli verður tæpast komið við. Dragnótin eyðileggur botninn ekki eins mikið og þung botntroll geta gert. Kadmín. Kadmín (kadmíum) er frumefni með efnatáknið Cd og er númer 48 í lotukerfinu. Þetta er frekar sjaldgæfur, mjúkur, blá-hvítur, eitraður hliðarmálmur sem finnst í sinkgrýti og er aðallega notaður í rafhlöður. Almenn Einkenni. Kadmín er mjúkur, sveigjanlegur, þjáll, blá-hvítur tvígildur málmur sem hægt er auðveldlega að skera með hníf. Því svipar að mörgu leiti til sinks en er hægt að nota í flóknari efnasamböndum. Algengasta oxunarstig kadmíns er +2, þótt einstaka dæmi um +1 finnist. Notkun. Um þrír fjórðu af notkun kadmíns er í rafhlöður (þá sérstaklega Ni-Cd rafhlöður) og hinn einn fjórði er mestmegnist notaður í litarefni, klæðningar og málmhúðun, og sem varðveisluefni í plast. Önnur not; Saga. Kadmín (latína "cadmía", gríska "kadmeia" sem þýðir „kalamín“ og er gamalt heiti yfir sinkgrýti) var uppgötvað árið 1817 af Frederich Strohmeyer á rannsóknarstofu hans í Þýskalandi. Strohmeyer fann þetta nýja frumefni sem óhreinindi í sinkkarbónat þegar hann tók eftir að óhrein sýnishorn af kalamíni skiptu um lit þegar þau voru hituð á meðan hreint kalamín gerði það ekki. Málmurinn var svo nefndur eftir latneska heitinu yfir kalamín því að það var í því sem að málmurinn fannst fyrst. Þó að kadmín og efnasambönd þess séu baneitruð, tilgreindi Breska Lyfjafræðibókin frá 1907 að kadmínjoð væri notað sem lyf til að lækna „bólgin liðamót, kirtlaveiki, og kuldabólgu“. Árið 1927 endurskilgreindi Alþjóðlega ráðstefnan um þyngdir og mælingar metrann samkvæmt rauðri kadmín litrófslínu (1 m = 1.553.164,13 bylgjulengdir). Þessi skilgreining hefur síðan verið breytt (sjá krypton). Tilvist. Steingrýti sem innihalda kadmín eru sjaldgæf og þegar þau finnast, finnast þau í litlum mæli. Greenockít (CdS) er eina mikilvæga kadmínsteintegundin og finnst nær alltaf með sphaleríti (ZnS). Þar af leiðandi er kadmín framleitt mest megnis sem aukaafurð í vinnslu súlfíðgrýti sinks, og í minna mæli, blýs og kopars. Lítið magn af kadmíni, um 10% af notkun, er framleitt með öðrum leiðum, þá aðallega úr dufti sem endurvinnsla brotajárns og -stáls leiðir af sér. Samsætur. Náttúrulegt kadmín er samansett af 6 stöðugum samsætum. 27 geislasamsætum hefur verið lýst, þar sem að sú stöðugasta er Cd-113 með helmingunartíma upp á um 7,7×1015 ár, Ct-109 með helmingunartíma 462,6 daga og Cd-115 með helmingunartíma 53,46 klukkustundir. Allar hinar geislasamsæturnar hafa helmingunartíma minni en 2,5 klukkutíma og mestur hluti þeirra minni en 5 mínútur. Þetta frumefni hefur einnig 8 systurkjarna, þar sem að þeir stöðugustu eru Cd-113m (helmingunartími 14,1 ár), Cd-115m (helmingunartími 44,6 dagar) og Cd-117m (helmingunartími 3,36 klukkustundir). Samsætur kadmíns vega á milli 96,935 u (Cd-97) til 129,934 u (Cd-138). Aðalsundrunarháttur á undan algengastu stöðugu samsætunni, Cd-112, er rafeindahremming og á eftir henni er það betasundrun. Aðal dótturefni sundrunar á undan Cd-112, er frumefni 47 (silfur) og á eftir því, er það frumefni 49 (indín). Varúðarráðstafanir. Kadmín er eitt af fáum frumefnum sem hefur engann uppbyggjandi tilgang í mannslíkamanum. Þetta frumefni og lausnir efnasambanda þess eru gríðarlega eitruð, jafnvel í örsmáum skömmtum, og safnast fyrir í vefjum lífvera og vistkerfum. Ein möguleg ástæða fyrir eituráhrifum þess er að það truflar gang sink-innihaldandi hvata. Sink er mikilvægt efni í líffræðilegum kerfum, en kadmín, þó það sé efnafræðilega svipað sinki á margan hátt, getur víst ekki „leyst af“ fyrir það. Kadmín getur einnig truflað líffræðileg ferli sem hafa að geyma magnesín og kalsín á svipaðan máta. Aðöndun dufts sem inniheldur kadmín leiðir fljótlega til vandamála í öndunarvegi og nýrum sem að getar verið banvæn (oft sem nýrnabilun). Neysla kadmíns veldur strax eitrun og lifra- og nýrnaskemmdum. Efnasambönd sem innihalda kadmín eru einnig krabbameinsvaldandi. Kadmíneitrun er orsakavaldur itai-itai sjúkdómsins, sem að bókstaflega þýðir „ái!-ái!“ í japönsku. Auk nýrnaskemmda, þjáddust sjúklingar af beinþynningu og beinmeyru. Ef unnið er með kadmín, er mikilvægt að gera það með afsogsbúnað til staðar, til að vernda gegn hættulegum gufum. Sem dæmi, inniheldur silfurlóðmálmur kadmín og skyldi meðhöndla með varúð. Alvarleg eituráhrif geta valdist af langvarandi nærveru við kadmínhúðunarböð. Kadmín í kræklingi við Ísland. Áætluð var vinnsla á kræklingi við Arnarfjörð á Vestfjörðum en of mikið innihald kadmíns miðað við Evrópska staðla, kom í veg fyrir það. Ekki fannst of mikið af kadmíni í kræklingi á öðrum stöðum á landinu. Dauðaholdris. Dauðaholdris á sér stað er karlmaður deyr í stellingu þar sem umtalsvert blóðmagn safnast við mitti hans. Í lifanda lífi sér hjartað um að halda jafnri dreifingu blóðs um líkamann en við dauða stöðvast blóðrásin og blóðmassinn leitar á lægsta þyngdarpunkt líkamans. Ef lega líksins er lóðrétt til dæmis vegna hengingar leitar blóðið fyrst og fremst neðst í fætur sem veldur mikilli útvíkkun á æðum í fótum þar eð blóðmassi líkamans þrýstir niður á við. Þó mestur blóðþrýstingur sé neðst við fæturna í þessari stöðu myndast einnig umtalsverður þrýstingur við mitti sem veldur holdrisi hjá hinum látna sem stendur — eða jafnvel vex - svo lengi sem búkurinn hangir í stellingu þar sem blóðþyngdin liggur á mittinu. Fimmtudagur. Fimmtudagur er 5. dagur vikunnar og er nafnið komið út frá því. Dagurinn er á eftir miðvikudegi en á undan föstudegi. Á Íslandi til forna var dagurinn helgaður Þór og hét þá Þórsdagur. Svo er enn í dönsku, norsku og ensku, Torsdag og Thursday. Sum tungumál kenna daginn frekar við þrumuna, sem Þór stjórnaði. Það á við um þýskuna: Donnerstag og hollenskuna: Donderdag. Sunnudagur. Sunnudagur er 1. dagur vikunnar og er nefndur eftir sólinni, sem einnig heitir sunna. Dagurinn er á eftir laugardegi en á undan mánudegi. Dagurinn er hafður sem seinasti dagur vikunnar hjá sumu fólki vegna þess að almenna vinnuvikan byrjar á mánudegi. Allir mánuðir sem hefjast á sunnudegi innihalda föstudaginn þrettánda. Föstudagur. Föstudagur er 6. dagur vikunnar. Dagurinn er á eftir fimmtudegi en á undan laugardegi. Nafnið er dregið af því, að þennan dag skyldi fólk fasta á kjöt. Dagurinn er seinasti almenni vinnudagur vikunnar. Til forna var dagurinn kenndur við Freyju og hét Frjádagur. Það nafn er enn við lýði í dönsku, sænsku, norsku, ensku og þýsku: Fredag, Friday og Freitag. Frumbygginn í sögu Daniels Defoe um Róbinson Krúsó hét Friday, sem var íslenskað sem Frjádagur. Miðvikudagur. Miðvikudagur er 4. dagur vikunnar og er nafnið dregið af því að hann er dagurinn sem er í miðri vikunni. Dagurinn er á eftir þriðjudegi en á undan fimmtudegi. Til forna var dagurinn kenndur við Óðin, æðsta ásinn í norrænni goðafræði, og hét þá Óðinsdagur. Enn sjást merki þess bæði í dönsku (og öðrum norrænum málum) og ensku, onsdag og Wednesday. Núverandi heiti á sér hinsvegar samsvörun í þýsku: Mittwoch. Davíð Oddsson. Davíð Oddsson (fæddur 17. janúar 1948) er íslenskur lögfræðingur og ritstjóri Morgunblaðsins. Davíð er einn sigursælasti og vinsælasti, en um leið umdeildasti, stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Hann var forsætisráðherra Íslands frá árinu 1991 til ársins 2004 lengst allra, en var einnig borgarstjóri í Reykjavík frá árinu 1982 til 1991, utanríkisráðherra frá 2004 til 2005 og formaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2005. Davíð gegndi stöðu aðalbankastjóra Seðlabankans 2005 til 2009. Davíð hefur einnig vakið athygli sem smásagnahöfundur, leikskáld og textahöfundur. Fjölskylda, menntun og störf fram að stjórnmálaferli. Davíð Oddsson fæddist í Reykjavík en dvaldist fyrstu árin á heimili móðurforeldra sinna á Selfossi. Foreldrar hans eru Oddur Ólafsson (f. 11. maí 1914, d. 4. janúar 1977) barnalæknir og Ingibjörg Kristín Lúðvíksdóttir (f. 28. apríl 1922) ritari. Faðir hans var af hinni kunnu Briemsætt og voru þeir Oddur og Gunnar Thoroddsen fjórmenningar. Eftir að Davíð fluttist til Reykjavíkur, ólst hann upp með móður sinni og móðurömmu. Hann íhugaði að fara í leiklistarnám til Japans en varð ástfanginn af Ástríði, sem hann seinna giftist, og lauk hann því stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970. Þar var hann inspector scholae (formaður nemendafélagsins) í sjötta bekk en hann hefur sagt frá því að í skólanum töldu menn að hann hefði „blekkt þá til fylgis við mig; ég hefði klæðzt eins og vinstri maður, hárgreiðslan var eins og á vinstri manni og svo talaði ég eins og vinstri maður“. Geir H. Haarde varð inspector scholae næst á eftir honum. Davíð lék aðalhlutverkið 1969 í leikritinu Bubba kóngi eftir A. Jarry í Herranótt Menntaskólans, en það var líka sýnt í sjónvarpi. Leikur Davíðs vakti athygli Sveins Einarssonar sem réði hann sem leikhúsritara Leikfélags Reykjavíkur árin 1970-2. Davíð kvæntist 5. september 1970 Ástríði Thorarensen (f. 20. október 1951), og eiga þau einn son, Þorstein Davíðsson (f. 12. nóvember 1971). Davíð hóf lögfræðinám við Háskóla Íslands haustið 1970. Jafnframt sá hann í tvö sumur um hinn vinsæla gamanþátt Matthildi í útvarpinu ásamt skólabræðrum sínum og vinum Þórarni Eldjárn og Hrafni Gunnlaugssyni. Hann var einnig blaðamaður á Morgunblaðinu með námi og sat í stjórnum Stúdentafélags Reykjavíkur, Sambands ungra sjálfstæðismanna og Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu. Á námsárum sínum þýddi Davíð bókina "Eistland - Smáþjóð undir oki erlends valds" eftir eistneska blaðamanninn Anders Küng. Davíð náði kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur 1974 og vann meðfram því sem útgáfustjóri Almenna bókafélagsins 1975. Eftir að hann lauk lagaprófi 1976 gerðist hann skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur og varð síðan framkvæmdastjóri þess 1978. Borgarfulltrúi og borgarstjóri. Davíð skipaði níunda sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1974 og náði kjöri. Í kosningabaráttu sinni beitti Davíð þeirri nýbreytni að halda opinn fund við verslunarmiðstöðina Glæsibæ. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í borgarstjórn Reykjavíkur í kosningunum 1978 og, eftir að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, hætti afskiptum af borgarmálum og settist á þing, varð Davíð leiðtogi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Hann sigraði Albert Guðmundsson naumlega í harðri baráttu í prófkjöri um efsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1982. Undir forystu Davíðs vann Sjálfstæðisflokkurinn aftur meirihluta í borgarstjórn. Eitt fyrsta verk Davíðs sem borgarstjóri var að fækka borgarfulltrúum úr 21 í 15, en flokkarnir þrír, sem mynduðu meirihluta í borgarstjórn 1978-1982, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, höfðu fjölgað þeim. Davíð hafði árin 1972-76 verið einn af útgefendum tímaritsins "Eimreiðarinnar" ásamt Þorsteini Pálssyni, Magnúsi Gunnarssyni, Geir H. Haarde, Kjartani Gunnarssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og fleirum. Vildi „Eimreiðarhópurinn“ sveigja stefnu Sjálfstæðisflokksins í átt til frjálshyggju og sótti hugmyndir til hagfræðinganna Ólafs Björnssonar og Jónasar Haralz hér á landi og Miltons Friedman og Friedrichs A. von Hayek erlendis. Skömmu eftir að Davíð varð borgarstjóri, hafði hann forgöngu um það, að Bæjarútgerð Reykjavíkur var sameinuð einkafyrirtækinu Ísbirninum, en síðan var hið nýja fyrirtæki, sem bar nafnið Grandi selt. Var Brynjólfur Bjarnason forstjóri Granda. Má segja, að með þessu hafi „einkavæðing“ íslensks atvinnulífs hafist. Bæjarútgerðin hafði verið rekin með tapi mörg ár á undan. Davíð veitti afnot af Höfða, móttökuhúsi borgarstjórnar Reykjavíkur, þegar þeir Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbatsjof, leiðtogi Ráðstjórnarríkjanna, hittust á sögulegum fundi sumarið 1986. Davíð beitti sér einnig fyrir því, að Reykjavíkurborg eignaðist verulegt land í Grafarvogi, og myndaðist þar mikil byggð, en árin á undan hafði verið lítið framboð á lóðum. Hann lét gera við Viðeyjarstofu, sem ríkið hafði gefið Reykjavík á tvö hundruð ára afmæli borgarinnar 1986. Hann hóf einnig framkvæmdir við ráðhús við Tjörnina og veitingahúsið Perluna í Öskjuhlíð þrátt fyrir harða gagnrýni. Hann veitti einnig Leikfélagi Reykjavíkur ríflegan stuðning við smíði Borgarleikhússins í nýja miðbænum við Kringluna. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í kosningunum 1986 og 1990. Forsætisráðherra. Davíð Oddsson hafði verið kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1989. Skömmu fyrir landsfundinn 1991 tilkynnti Davíð, að hann gæfi kost á sér til formanns, en Þorsteinn Pálsson hafði gegnt þeirri stöðu frá 1983. Var formannskjörið tvísýnt, en Davíð hlaut nauman sigur. Undir forystu Davíðs bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig miklu fylgi í þingkosningunum 1991 frá því, sem verið hafði fjórum árum áður. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995. Eftir kosningarnar 1991 myndaði Davíð á stuttum tíma ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem hefur verið kölluð „Viðeyjarstjórnin“. Varð Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra. Stjórnin kvaðst berjast við mikinn „fortíðarvanda“, sem fælist í hallarekstri á ríkissjóði, tómum sjóðum vegna misheppnaðra fjárfestinga í fiskeldi og loðdýrarækt og hættu á verðbólgu. Með aðhaldi í fjármálum og peningamálum tókst að halda verðbólgu í skefjum, en það auðveldaði stjórninni leikinn, að aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert svonefnda „þjóðarsátt“ árið 1990 um hóflegar launahækkanir. Einnig voru ýmsir opinberir sjóðir lagðir niður, svo sem Framkvæmdasjóður, Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingarsjóður og strangar reglur settar um Byggðasjóð. Eitt fyrsta verk stjórnarinnar að ráði þeirra Davíðs og Jóns Baldvins var að viðurkenna á ný sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, eftir hrun Sovétríkjanna, og varð Ísland fyrst ríkja til þess að gera. Halla í rekstri ríkisins var á nokkrum árum snúið í afgang, sem síðan var notaður til að lækka skuldir. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 50% í 30% í því skyni að skapa atvinnulífinu betri skilyrði, en vegna minnkandi afla á Íslandsmiðum og óhagstæðrar verðlagsþróunar á alþjóðavettvangi var nokkurt atvinnuleysi fyrstu ár hinnar nýju stjórnar. Atvinnulífið opnaðist einnig verulega, þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994. Í sjávarútvegi var kvótakerfið svonefnda — kerfi varanlegra og framseljanlegra aflakvóta — fest í sessi með margvíslegri löggjöf. Nokkur ágreiningur var þó milli stjórnarflokkanna, því að Alþýðuflokkurinn vildi taka upp auðlindagjald eða sölu veiðileyfa, en Davíð taldi, að það myndi raska rekstri útgerðarfyrirtækja um of. Jafnframt hóf ríkisstjórnin sölu ríkisfyrirtækja eða „einkavæðingu“. Alþýðuflokkurinn vildi þó ekki samþykkja sölu viðskiptabankanna tveggja í ríkiseigu. Stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2004. Alþýðuflokkurinn hafði klofnað 1994, þegar Jóhanna Sigurðardóttir gekk úr honum og stofnaði Þjóðvaka. Ríkisstjórnin hélt þó meiri hluta sínum í kosningunum 1995, en aðeins með einu atkvæði. Davíð myndaði því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og varð Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra. Davíð sagði á blaðamannafundi sumarið 1995, að kreppu síðustu ára væri lokið og góðæri tekið við. Við tók mikill vöxtur í atvinnulífinu næstu ár. Einnig voru tveir ríkisbankar seldir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, og mörg önnur opinber fyrirtæki. Sala bankanna sætti nokkurri gagnrýni, aðallega vegna þess að kaupendur Búnaðarbankans voru taldir tengjast Framsóknarflokknum, en ríkisendurskoðandi komst að þeirri niðurstöðu í sérstakri skýrslu, að ekkert hefði verið athugavert við hana. Davíð Oddsson gaf út smásagnasafnið "Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar" 1997, en þegar hann varð fimmtugur 1998, kom út mikið afmælisrit eftir fjölda manns, helgað honum. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í þingkosningunum 1999, þótt hann hefði haft stjórnarforystu í átta ár. Davíð gaf út annað smásagnasafn 2002, "Stolið frá höfundi stafrófsins". Samskipti Davíðs og ýmissa framámanna úr viðskiptalífinu hafa oft verið stirð. Þar má nefna Jón Ólafsson, sem oft er kenndur við Skífuna, og Jón Ásgeir Jóhannesson og aðra stjórnendur Baugs, en Jónarnir hafa báðir sakað Sjálfstæðisflokkinn um óeðlileg afskipti af fyrirtækjum sínum. Davíð hefur á móti látið í ljós áhyggjur af fákeppni á matvörumarkaði, þar sem Baugur hefur stóra hlutdeild, og einnig vegna eignarhalds sama fyrirtækis í stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins (sem nú heitir Dagsbrún hf.). Í kosningunum vorið 2003 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn talsverðu fylgi. Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin þingmeirihluta sínum, og sömdu stjórnarflokkarnir um að halda samstarfi sínu áfram, og tæki Halldór Ásgrímsson við stöðu forsætisráðherra eftir eitt og hálft ár. Var ákveðið að ráðast í frekari skattalækkanir. Tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður í 18%, eignarskattur var felldur niður og erfðaskattur stórlega lækkaður. Tekjuskattur einstaklinga var einnig lækkaður. Davíð beitti sér vorið 2004 fyrir frumvarpi, sem setti hömlur við eignarhaldi stórfyrirtækja á fjölmiðlum og samþjöppun eignarhalds. Fjölmiðlafrumvarpið svonefnda var mjög umdeilt, enda blasti við að það myndi aðallega bitna á Norðurljósum hf. (nú Dagsbrún hf.), fjölmiðlafyrirtæki sem var að stórum hluta í eigu Baugsfeðga. Frumvarpið var samþykkt eftir talsverðar breytingar sumarið 2004. En forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði frumvarpinu staðfestingar og var það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins að forseti synjaði frumvarpi frá Alþingi staðfestingar. Davíð gagnrýndi þá ákvörðun bæði vegna persónulegra tengsla forsetans við Baug og einnig vegna þess að stjórnarskrárákvæðið sem hann beitti væri í raun óvirkt þar sem lög hafa aldrei verið sett um hvernig framkvæma eigi þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem mælt er fyrir um í því. Eftir nokkurt þóf samþykkti Alþingi að taka frumvarpið aftur, og varð því ekki úr þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Skömmu eftir þessar málalyktir greindist Davíð með krabbamein í nýrum og hálsi, en hann náði bata og tók við stöðu utanríkisráðherra haustið 2004. Utanríkisráðherra. Í utanríkismálum hefur var Davíð eindreginn stuðningsmaður vestræns varnarsamstarfs og bandamaður Bandaríkjanna, en ekki hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann gegndi stöðu utanríkisráðherra þó aðeins í eitt ár, því að haustið 2005 tilkynnti hann, að hann myndi ekki gefa kost á sér til formanns í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi, sem þá var framundan, og hætta um leið afskiptum af stjórnmálum. Kvaðst hann vilja rýma fyrir yngri mönnum. Geir H. Haarde, sem verið hafði varaformaður, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og tók við stöðu utanríkisráðherra, en Davíð var skipaður aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands af Halldóri Ásgrímssyni sem þá var orðinn forsætisráðherra í stað Davíðs. Seðlabankastjóri. Í september árið 2005 tilkynnti Davíð að hann hygðist hætta í stjórnmálum og taka við stöðu seðlabankastjóra sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði hann í. Hann sagði af sér embætti ráðherra 27. september og tók við stöðu seðlabankastjóra 25. október sama ár. Sem seðlabankastjóri hefur hann oft verið talsmaður óvinsælla ákvarðana Seðlabanka Íslands um hækkanir á stýrivöxtum vegna verðbólguþrýstings á íslenskt efnahagslíf árin 2005 og 2006. Einnig hefur hann gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir skort á aðhaldi við þær aðstæður sem efnahagslífið bjó við. Þáttur Davíðs í bankahruninu. Davíð var afar áberandi þegar efnahagskreppa reið yfir Ísland um haustið 2008. Hann kom sem seðlabankastjóri að umdeildum samningum við stjórnendur Glitnis um kaup ríkisins á 75% hlut í bankanum, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti, eftir að bankinn leitaði til seðlabankans um lán til þrautavara. Þann 7. október 2008 kom Davíð fram í viðtali í Kastljósi RÚV. Þar kom fram að hann teldi íslensku krónuna eiga góða möguleika á að rétta úr kútnum í þeim ólgusjó sem hún væri í um þær mundir. Hann talaði um þá sem hann kallaði „óreiðumenn“ sem íslenska ríkið gæti ekki borgað skuldir fyrir. Davíð sagði það gott að eiga góða vini í Rússlandi og sá enga meinbugi á því að taka risalán hjá Rússum til að styrkja gjaldeyrisforðann. Hann hélt því skýrt fram að íslenska þjóðin myndi ekki borga erlendu skuldir bankanna. Hann taldi mögulegt að skilja að innlendar og erlendar skuldir íslensku bankanna og greiða aðeins 5 til 15 % af erlendu kröfunum, svipað og Bandaríkjamenn hefðu gert þegar bandaríski bankininn Washington Mutual fór í þrot. Til marks um það traust sem Davíð hefur notið, má nefna að hann var sá stjórnmálaleiðtogi sem Íslendingar sögðust treysta best til þess að leiða sig út úr kreppunni í sem Viðskiptablaðið lét gera fyrir sig í október 2009, rúmu ári eftir hrunið. Til marks um öndverð sjónarmið má nefna að tímaritið Times nefndi Davíð á lista yfir 25 einstaklinga á alþjóðavettvangi sem bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu. Áhrif og umsagnir. Í skoðanakönnunum, á meðan Davíð Oddsson gegndi forystuhlutverki í stjórnmálum, 1991-2005, var hann oft talinn vinsælasti stjórnmálamaðurinn, en einnig oft hinn óvinsælasti á sama tíma. Hann naut óskoraðs trausts flokkssystkina sinna og var á landsfundum jafnan kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með nær öllum greiddum atkvæðum. Í stjórnartíð hans gerbreyttist atvinnulífið, varð miklu frjálsara og opnara en áður, þótt auðvitað séu til ýmsar skýringar á því aðrar en frumkvæði Davíðs eins, til dæmis svipuð þróun víða um heim og aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Af stuðningsmönnum sínum hefur hann verið hann kallaður hugrakkur, röggsamur og skörulegur, skjótur til ákvarðana og hiklaus að segja álit sitt, hvort sem öðrum líkaði betur eða verr. Gagnrýnendur segja hann hinsvegar vera ráðríkan, reiðigjarnan og langrækinn, og hefði það komið fram í deilum hans við Jón Ólafsson og Baugsfeðga. Hallgrímur Helgason rithöfundur birti 21. janúar 2003 grein um „bláu höndina“ í "Morgunblaðinu", þar sem hann lét að því liggja, að Davíð ætti einhvern þátt, hugsanlega óbeinan, í lögreglurannsókn á Baugi, sem hafði hafist nokkrum mánuðum áður. Algeng gagnrýni á hann er að á valdatíma hans hafi tekjuskipting orðið ójafnari, ekki væri skeytt um lítilmagnann og allt mælt á vogarskálum arðsemi. Í áramótaávarpi 2002 tilkynnti Davíð að ríkisstjórnin hefði hug á að kaupa Gljúfrastein af ekkju Halldórs Laxness og opna þar safn til „að heiðra minningu skáldsins“, eins og það var orðað. Varð svo og ríkissjóður greiddi talsverða fjárhæð fyrir húsið og listaverk, sem þar voru innanstokks. (Látið var liggja að því að ekkja Halldórs „gæfi“ aðra innanstokksmuni og húsgögn til væntanlegs safns.) Sumarið 2003 hófust umfangsmiklar endurbætur og viðgerð á húsinu, sem lauk haustið 2004 og safnið var síðan opnað með pompi og prakt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2003, hélt 9. febrúar 2003 ræðu í Borgarnesi, þar sem hún varpaði fram þeirri spurningu, hvort lögreglurannsóknin á Baugi og skattrannsókn á Jóni Ólafssyni tengdist því, sem hún taldi fjandskap Davíðs í garð einstakra athafnamanna. Stuðningsmenn Davíðs, til dæmis Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem heldur úti vefsíðu um stjórnmál, hafa vísað þessu harðlega á bug og halda fram að áhyggjur Davíðs af atvinnulífinu hafi verið almenns eðlis. Þær hafi verið um það, að tryggja verði frjálsa samkeppni og dreifingu hagvaldsins. Í kjölfar meðferðar gegn krabbameini á Landspítala 2004 tilkynnti Davíð að hann hefði hug á að nota fé sem fékkst við sölu Símans til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Varð það fljótlega samþykkt af ríkisstjórninni og eitt af síðustu verkum Davíðs sem forsætisráðherra var að tilkynna byggingu nýja hátæknispítalans. Í framhaldi var rykið dustað af 30 ára gömlum hugmyndum um færslu Hringbrautar til suðurs, sem hófust árið eftir. Tenglar. Verk og greinar eftir Davíð Oddsson Þriðjudagur. Þriðjudagur er 3. dagur vikunnar og er nafnið komið út frá því. Dagurinn er á eftir mánudegi en á undan miðvikudegi. Áður fyrr hét dagurinn Týsdagur í höfuðið á goðinu Tý en er enn þá nefndur eftir honum á nokkrum öðrum tungumálum (d. Tirsdag, nn. Tysdag, e. Tuesday, þ. Dienstag). Mánudagur. Mánudagur er 2. dagur vikunnar og er nafn hans dregið af orðinu mána, eða tungli og var því í upphafi „mánadagur“. Dagurinn er á eftir sunnudegi en á undan þriðjudegi. Dagurinn er fyrsti dagur almennrar vinnuviku og er stundum hataður vegna þess, bæði í gríni og í alvöru. Laugardagur. Laugardagur er 7. og síðasti dagur vikunnar. Nafnið dregið af því að eitt sinn tíðkaðist að fólk laugaði sig, það er færi í bað, á þessum degi. Dagurinn er á eftir föstudegi en á undan sunnudegi, sem er þá fyrsti dagur næstu viku. Dagurinn er hvíldardagur og helgur hjá gyðingum, sjöunda dags aðventistum og jafnvel fleirum. Gæsalappir. Gæsalappir (eða tilvitnunarmerki) (annað hvort einfaldar (‚…‘) eða tvöfaldar („…“) gæsalappir) eru greinarmerki sem notuð eru til að afmarka beina ræðu, orðréttar tilvitnanir, einstök orð og orðasambönd (m.a. sérnöfn, til að gefa í skyn eða koma á framfæri háði eða kaldhæðni) o.fl. Þær samanstanda af opnunargreinarmerki og lokunargreinarmerki, og fer það eftir tungumáli, málvenjum o.fl. hvort þessi tvö merki eru sama táknið. Orðsifjar. Orðið „gæsalappir“ er komið af þýska orðinu „gänsefüsschen“ sem er talmál, „gåsefødder“ þekkist í dönsku sem tökuorð úr þýsku en algengara er að tala um „gåseøjne“ eða „anførselstegn“. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um orðið „gæsalappir“ er úr bókinni "Stuttur leiðarvísir fyrir alþýðu til þess að skrifa íslenzku rjett og greinilega" eftir Magnús Jónsson. Þýskar gæsalappir. Þýskar gæsalappir eru einnig notaðar í íslensku, búlgörsku og rússnesku. Π dagur. Tveir dagar eru kenndir við π: π dagur og Nálgunardagur π. Dagar þessir eru ekki opinberir hátíðisdagar. π dagur. 14. mars er haldið upp á π dag. Ástæðan fyrir því að þessi dagur er valinn fram yfir aðra er sú að π námunduð að tveimur aukastöfum er 3,14, og þar sem mars er þriðji mánuðurinn varð fjórtándi þess mánaðar fyrir valinu. Margur lætur þó ekki 14. mars nægja heldur skoðar π með fimm aukastöfum (3,14159) og heldur upp á daginn þegar fjórar mínútur vantar í tvö um nóttina (klukkan 1:59). Á tímapunkti þessum hefjast teiti í stærðfræðideildum ýmissa skóla víðsvegar um heim. Nálgunardagur π. 22. júlí er svo haldið upp á Nálgunardag π. Þessi dagsetning er í sumum dagsetningarsniðum skrifuð 22/7 en brotið formula_1 er algeng nálgun á π. Íslenskar menntastofnanir. Þetta er listi yfir allar íslenskar menntastofnanir frá og með grunnskólastigi, listanum er raðað eftir skólastigi og í stafrófsröð. __TOC__ Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Myndlista- og handíðaskóla Íslands var stofnaður árið 1939 undir nafninu "Handíðaskólinn" sem síðar breytt í Myndlista- og handíðaskóli Íslands (MHÍ). Við stofnun Listaháskóla Íslands árið 1999 rann MHÍ saman við hann og varð að myndlistar og hönnunardeildum LHÍ. Skólinn gegndi margþættu hlutverki sem myndlistarskóli, listiðnaðar- og hönnunarskóli og kennaraskóli, auk þess sem hann var vinsæll tómstundaskóli fyrir börn og fullorðna. Á dönsku var hann nefndur Islands kunst- og kunsthåndværkerskole. Menntaskólinn á Akureyri. Gamli skóli, elsta hús Menntaskólans á Akureyri Menntaskólinn á Akureyri (latína: "Schola Akureyrensis") er íslenskur framhaldsskóli sem er á Brekkunni á Akureyri. Skólinn á sér langa sögu og hafa margir frægir Íslendingar haft viðkomu þar í gegnum tíðina. Í dag er skólinn bóknámsskóli sem býður upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. a> Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri Saga. Upphaf Menntaskólans á Akureyri er yfirleitt rakið til stofnunar Möðruvallaskóla á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880. Þó má líta á skólann sem beint framhald af því skólahaldi sem fór fram á Hólum í Hjaltadal allt frá biskupstíð Jóns Ögmundssonar um 1106 og stóð til 1802 þegar Hólaskóli var lagður niður með konungsbréfi. Um leið og Hólaskóli hafði verið lagður niður hófst barátta norðlendinga fyrir því að „norðlenski skólinn“ yrði endurreistur þrátt fyrir það álit embættismanna Danakonungs og valdamanna í Reykjavík að ómögulegt væri að reka lærðan skóla annars staðar á landinu en í Reykjavík. Stofnun Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum 1880 var sigur í þeirri baráttu. 1902 brann skólahúsið á Möðruvöllum og var skólinn þá fluttur um set til Akureyrar og var þá kallaður Gagnfræðaskólinn á Akureyri. Fyrstu tvö árin á Akureyri hafði hann aðsetur í Hafnarstræti 53 en fluttist svo inn í hið nýja Gagnfræðaskólahús við Eyrarlandsveg haustið 1904 þegar bygging þess var langt komin, húsið er enn í notkun og kallast nú Gamli skóli. 1905 var skólinn tengdur Menntaskólanum í Reykjavík þannig að nemendur gátu tekið fyrstu þrjú ár hans á Akureyri og sest svo beint í fjórða bekk í Reykjavík. Á árunum 1924-1927 fór svo fram menntaskólakennsla í fyrsta sinn í skólanum þ.e. seinni þrjú árin til viðbótar við þau þrjú sem áður hafði verið boðið uppá. Þeir nemendur sem luku því námi fengu svo utanskóla stúdentspróf frá MR vorið 1927. Á árunum 1927-1930 var mikil togstreita um það á alþingi og í ráðuneytum hvort leyfa ætti skólanum að braustskrá stúdenta. Þeirri baráttu lauk ekki fyrr en 1930 þegar skólinn var gerður að fullkomnum menntaskóla og tók sér núverandi nafn. Síðan 1930 hefur skólinn stækkað mjög við sig í nemendafjölda og húsakosti og nú stunda þar um 750 manns nám og skólinn útskrifar rúmlega 150 stúdenta á ári hverju. Námsframboð - ný Námskrá frá 2010. Menntaskólinn á Akureyri er hefðbundinn bóknámsskóli sem býður upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Skólinn er bekkjaskóli með áfangakerfi. Í því felst að á hverri önn tekur hver bekkur fyrir fram ákveðna áfanga. Einnig gefst einstaklingum nokkur kostur á valáföngum innan hvers sviðs. Árið 2008 voru samþykkt ný lög um framhaldsskóla á Íslandi. Menntaskólinn á Akureyri var einn þeirra skóla sem valinn var til að vera í fararbroddi við ritun nýrrar námskrár. Haustið 2010 hóf MA kennslu eftir nýrri námskrá í 1. bekk og fyrstu stúdentar skv. nýrri námskrá eru brautskráðir vorið 2014. Menntaskólinn á Akureyri býður áfram upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs, eða 240 framhaldsskólaeiningar. Námið skiptist í kjarna og val, en val hefur verið aukið í nýju kerfi og er nú um fjórðungur námsins. Nemendur geta ýmist valið sér kjörsviðsgreinar eða áfanga í frjálsu vali. Á 1. og 2. ári fást nemendur aðallega við kjarnagreinar en lokaárið samanstendur að langmestu leyti af valgreinum. Á fjórða ári er einnig gert ráð fyrir því að allir nemendur vinni að lokaverkefni í samræmi við áhugasvið og áherslur í náminu og er það liður í framúrskarandi undirbúningi fyrir áframhaldandi nám. Allir nemendur í 1. bekk taka Íslandsáfangann, sem er tvískiptur stór samsettur áfangi, um það bil helmingur námseininga á fyrsta ári. Annars vegar er um að ræða menningarlæsi með áherslu á íslensku, sögu og samfélagsgreinar, og hins vegar náttúrulæsi, með áherslu á íslensku, jarðfræði og náttúrufræðigreinar. Aðrar námsgreinar sem allir nemendur taka eru stærðfræði, íslenska, enska, danska, þýska/franska, félagsfræði, saga, líffræði, jarðfræði, landafræði, eðlis- og efnafræði, íþróttir og velgengnisdagar (lífsleikni og fleira). Þessar greinar eru skilgreindar sem hluti af breiðri almennri menntun. Í skólanum er í mörgum greinum lögð áhersla á samvinnu og samþættingu námsrgeina. Það hefur um árabil verið svo á ferðamálakjörsviði málabrautar, en verður eftir breytinguna aðgengilegt fleiri nemendum. Íslandsáfangarnir eru samvinnuverkefni margra kennara og ainnig hefur verið reynt að kenna saman ensku og landafræði og gefist vel. Áfram verður samstarf við Tónlistarskólann á Akureyri um tónlistarbraut á Listnámssviði. Sjá nánar á Vef MA (ma.is) Félagslíf. Menntaskólinn á Akureyri er rótgróin stofnun þar sem nokkuð er um gamlar hefðir og má til dæmis nefna þegar nemendur safnast á ganga Gamla skóla til þess að reyna að syngja fyrir fríi. Árshátið skólans hefur löngu fest sig í sessi og er haldin á ári hverju í kringum fullveldisdaginn 1. desember. Sú hátíð er vímulaus eins og allar samkomur á vegum skólans og skólafélagsins. Skólafélagið "Huginn" sér um skipulag félagslífsins, gefur út skólablaðið Muninn og stendur fyrir viðburðum á borð við Ratatosk sem eru opnir dagar þar sem brugðið er útaf hefðbundinni stundaskrá skólans og boðið upp á ýmiss konar fyrirlestra og námskeið. Undir skólafélaginu starfa svo fjölmörg félög eins og leikfélag, tónlistarfélag, íþróttafélag, kór, ljósmynda- og myndbandafélag og svo framvegis. Algengt er að nöfn félaganna séu skammstöfuð og enda þau þá ávallt á MA, þar má nefna HÍMA og VÍMA sem eru stjórnmálafélög skólans (Hægri menn í MA og Vinstri menn í MA). Eitt af því sem einkennir mjög andrúmsloftið í skólanum er það að nemendur hans koma alls staðar af landinu en stór heimavist er við skólann, um helmingur nemenda skólans kemur ekki frá Akureyri. Hús skólans. Skólinn á nú mest allt landið milli Eyrarlandsvegar, Hrafnagilsstrætis, Þórunnarstrætis og Lystigarðs og hefur reist nokkur hús þar. Gamli skóli. Gamli skóli er elsta hús skólans, hann var byggður sumarið 1904. Framkvæmdir hófust í maí og hófst kennsla í húsinu í október sama ár en þá var húsið að mestu tilbúið. Á efri hæð hússins er að finna Sal sem sem var samkomusalur skólans allt fram til 1968. Í dag hýsir gamli skóli kennarastofu og skrifstofur stjórnenda skólans auk þess sem kennsla í erlendum tungumálum fer að mestu fram þar. Íþróttahúsið. Íþróttahús skólans hefur á síðustu áratugum verið kallað Fjósið, en það hefur þó aldrei hýst nein húsdýr. Það var byggt sem íþróttasalur árið 1905 norðan við vegg hlöðu sem skólameistari hafði fyrir hey handa hestum sínum. Löngu síðar var opnað á milli salarins og hlöðunnar og henni breytt í búningsherbergi og böð. Enn síðar var byggt við íþróttahúsið rými sem var fyrst geymsla og verkstæði, síðar innréttað sem kraftlyftingarsalur. Möðruvellir. Möðruvellir voru teknir í notkun 1968 og er húsið nefnt eftir Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem fyrirrennari Menntaskólans á Akureyri var eitt sinn. Húsið hefur frá upphafi verið notað að mestu til raungreinakennslu, í kjallara þess var aðalsamkomusalur skólans á árunum 1968-1996. Í kjallaranum eru nú tölvuver og aðstaða nemendafélagsins. Heimavist. Framkvæmdir við núverandi heimavist MA hófust 1946 en verkið gekk hægt og lauk því ekki fyrr en um 1970. Fram að því hafði heimavist skólans verið í Gamla skóla. Bókasafn skólans var lengi hýst í húsi heimavistarinnar. Hólar. Hólar voru teknir í notkun 1996 og eru nefndir eftir Hólum í Hjaltadal. Byggingin stendur á milli Gamla skóla og Möðruvalla og tengist þeim með göngum þannig að nú er innangengt milli allra kennsluhúsa skólans. Á Hólum er aðalinngangur skólans, bókasafnið og stór samkomusalur sem kallaður er Kvosin. Þar er einnig vinnuaðstaða fyrir kennara og nokkrar kennslustofur sem eru mest notaðar fyrir kennslu í félagsvísindagreinum, íslensku og sögu. Nemendagarðar. Nýir nemendagarðar voru teknir í notkun 2003 austan við eldri heimavist. Í húsinu eru 118 smáíbúðir sem ætlaðar eru bæði nemendum við MA sem og VMA. Lén (tölvunarfræði). Lén eru auðkenni netþjóna sem notuð eru í stað vistfangs sem mönnum er ekki eins tamt að muna. Til þess að sækja eða senda göng yfir net til ákveðinnar tölvu þarf notandinn að þekkja vistfang þeirrar vélar. Hún gæti til dæmis verið "64.233.187.99" sem er frekar erfitt að muna, í stað þess mætti nota lén sem svarar til þessa vistfangs, til dæmis "google.com". Lénsheiti yfir í vistfang. Þessi leið er samt ekki farin í hvert einasta skipti sem að spurt er um lénsheiti, heldur eru svörin við beiðnunum geymd í nafnaþjónunum í ákveðinn tíma svo að ekki þurfi að spyrja eins oft. Þetta er gert til að flýta fyrirspurnum á Internetinu og um leið minnka álagið á nafnaþjónunum. Lén. Lén (e. Domain) geta innihaldið töluvert fleiri stafi (um 63) heldur en rótarlén (2-4 núna, sbr..info) en hverjum einstaklingi/fyrirtæki er frjálst að sækja um lén með hvaða stafaumröðun sem er, svo fremur sem það falli undir reglur þess sem sér um að úthluta því og RFC reglunum um lénsheiti. Á Íslandi er hægt að sækja um lén sem innihalda íslenska sérstafi í lénsheitinu en með tilkomu IE7 geta flestir nýtt sér þau. Safari og Firefox hafa haft þann kost lengur en IE. Undirlén. Undirlén (e. Sub-domain) geta innihaldið nokkuð marga stafi og þau geta verið skilgreind með stöfum og punktum (en hafa samt sín takmörk), en það má ekki hafa punkta í venjulegum lénsheitum. Hægt að bæta við eins mörgum undirlénum og rétthafi léns vill án þess að láta úthlutunaraðila léns vita eða sækja um það sérstaklega til hans. Stórhöfði. Stórhöfði er syðsti punktur Heimaeyjar, sem er stærsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum. Á Stórhöfða hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1921, sem er fræg fyrir að hafa mælt einn mesta vindhraða sem mælst hefur á norðurhveli jarðar, en á suðurhvelinu hefur Suðurskautslandið slegið Stórhöfða við alloft. Jarðfræði. Stórhöfði myndaðist í miklu eldgosi fyrir tæpum 6000 árum. Gosið var mjög svipað og í Surtsey. Meðan sjórinn náði til gosrásarinnar splundraðist kvikan og myndaði gjóskuhrúgald sem síðan varð að móbergi á nokkrum árum vegna hitans. Líkt og í Surtsey fór svo að sjór hætti að ná til gosrásarinnar og þá tók hraun að renna ofan á móberginu. Khalil Gibran. Gibran Khalil Gibran (6. janúar 1883 – 10. apríl 1931) (arabíska: جبران خليل جبران) var líbanskt skáld, heimspekingur og myndlistarmaður. Hann fæddist í grennd við Líbanonsfjall en fluttist til New York á ungum aldri. Hann var mjög trúaður alla tíð, en hann fæddist inn í kristinn söfnuð maroníta og mótaði trú hans á Jesú Krist allan skáldskap hans. Í Bsharri, sem er í 1450 m hæð á brún Kadisha dals eða gljúfurs, er nú minningarsafn um Khalil Gibran. Heimildir. Gibran, Kahil Gibran, Kahil Gibran, Kahil Hringur (rúmfræði). Skýringarmynd sem sýnir miðju, þvermál og geisla hrings. Hringur er rúmfræðilegt hugtak, sem á við tvívíðan, stærðfræðilegan feril, sem er þannig að allir punktar hans eru í sömu fjarlægð frá tilteknum punkti, sem kallast miðpunktur hringsins. Í sumum tilvikum er orðið hringur látið tákna ferilinn og allt svæðið innan hans en betra heiti á því er hringskífa. Hringur er sértilvik af sporbaug, þar sem brennipunktarnir eru einn og sami punturinn. Hringur er einnig keilusnið sem fæst með því að sníða keilu með plani sem hornrétt er á ás keilunnar. Jafna hrings með miðju í punktinum ("h","k") í kartesísku hnitakerfi er þar sem "r" táknar geisla hringsins. Jöfnuna má umrita á ýmsa vegu, til dæmis á forminu Jafna hrings í pólhnitum er þar sem "r" er breytan r í pólhnitum og "a" er geisli hringsins. Flatarmál hrings er stærð þess svæðis sem afmarkast innan hringferilsins. Jafna þess er Ummál hrings er lengd sjálfs ferilsins. Jafnan er Sólkerfið. Sólkerfið er heiti á sólkerfi því sem sólin og jörðin tilheyra. Til sólkerfisins heyra reikistjörnurnar ásamt tunglum þeirra, dvergreikistjörnur, smástirni, loftsteinar og halastjörnur. Þrjú stór loftsteinabelti eru í sólkerfinu, hið fyrsta er á milli Mars og Júpíters, annað er utan við sporbaug Neptúnusar (Kuiper-beltið) og hið þriðja fer í gegnum Oort-skýið. 9. febrúar. 9. febrúar er 40. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 325 dagar (326 á hlaupári) eru eftir af árinu. Listi yfir tungumál. Þessi listi nær yfir öll viðurkennd tungumál heims, röðuð í stafrófsröð eftir heiti þeirra á íslensku. Ethnologue viðurkennir um 6,800 tungumál í málanafna listanum sínum (sjá útværan hlekk neðst) og gerir greinarmun á um 41,000 mismunandi nöfnum mála og málýskna. Þessi listi nær bara yfir einstök tungumál, og inniheldur eingöngu náttúruleg tungumál og tilbúin tungumál sem eru töluð. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er æðstu lög Íslands, sem öll önnur lög landsins verða að hlíta. Núverandi stjórnarskrá var samþykkt sem lög nr. 33/1944 af Alþingi við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum, 17. júní 1944. Stjórnarskráin er í 80 greinum í 7 köflum og í henni er stjórnskipan landsins ákveðin og ýmis grundvallarréttindi borgaranna vernduð. Saga. Á 19. öld hljóp mikill kraftur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga samfara því sem þjóðernishyggja og kröfur um aukin borgaraleg réttindi urðu háværari á meginlandi Evrópu. Í júní 1849 sá þáverandi konungur Danmerkur sig tilneyddan til að ganga til móts við kröfur frjálslyndra og þjóðernissinna og samþykkti stjórnarskrá fyrir Danmörk og þar með einnig Ísland. Sú stjórnarskrá afnam einveldið og kom á stjórnarskrárbundinni konungsstjórn þar sem völd yfir nokkrum mikilvægum málaflokkum voru færð til þjóðkjörins þings. Þessi breyting féll ekki í góðan jarðveg hjá Íslendingum þar sem hún þýddi í raun skerta sjálfsstjórn Íslendinga. Fyrir 1849 höfðu íslenskir embættismenn í raun ráðið því sem þeir vildu ráða í málefnum landsins en nú var það komið undir stjórn þings sem Íslendingar höfðu engin áhrif á. Danir voru ófúsir að ganga að kröfum Íslendinga um sjálfsstjórn sem settar voru fram á þjóðfundinum 1851 vegna þess að ef látið væri eftir þeim kröfum gæti það skaðað hagsmuni Dana í Slésvík og Holtsetalandi. En þegar þau héruð voru innlimuð í Prússland árið 1867 sköpuðust nýjar aðstæður og stöðulögin voru sett 1871 og mæltu fyrir um samband Íslands og Danmerkur. Árið 1874 á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar kom Kristján IX þáverandi konungur Danmerkur til landsins og var viðstaddur hátíðahöld í tilefni tímamótanna. Það tækifæri var notað til að gefa Íslendingum sérstaka stjórnarskrá eins og þeir höfðu krafist. Sú stjórnarskrá var kölluð „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“ og er að stofni til sú sama og núgildandi stjórnarskrá. Með sambandslögunum 1918 varð Ísland fullvalda ríki og árið 1920 fékk landið nýja stjórnarskrá til að endurspegla þær miklu breytingar sem höfðu orðið á stjórnskipun þess. Sú stjórnarskrá var kölluð „Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“. Snemma árs 1944 samþykkti Alþingi að fella niður sambandslögin og samþykkti nýja stjórnarskrá auk þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tveggja. Í maí sama ár var gengið til kosninga og var kjörsókn 98%. 97% greiddu atkvæði með sambandsslitum og 95% samþykktu lýðveldisstjórnarskrána. Þann 17. júní 1944 kom Alþingi svo saman á Þingvöllum þar sem lýst var yfir gildistöku stjórnarskrárinnar og stofnun lýðveldis. Frá gildistöku stjórnarskrárinnar hefur henni verið breytt alls 7 sinnum, oftast vegna breytinga á kjördæmaskipan og skilyrðum kosningaréttar. Árið 1991 var skipulagi Alþingis breytt þannig að það starfar nú í einni deild en ekki tveimur eins og áður var. Umfangsmestu breytingarnar voru gerðar árið 1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður. Kaflar stjórnarskrárinnar. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands skiptist í 7 kafla sem hver tekur á ólíkum þáttum stjórnskipunarinnar. I. kafli. 1. kafli stjórnarskrárinnar er eingöngu 2 greinar og tilgreinir fyrri greinin það að Ísland eigi að vera lýðveldi og að ríkisstjórnin skuli vera þingbundin, en það merkir að ríkisstjórnin er bundin af ákvörðunum Alþingis. Í 2. grein er svo kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins og hvernig henni skuli háttað. Löggjafarvaldið er í höndum Alþingis og forseta Íslands, framkvæmdavaldið er hjá forsetanum, en hann felur það ráðherrum og öðrum stjórnvöldum sem skilgreind eru í lögum. Dómsvaldið er hjá dómendum. II. kafli. 2. kafli fjallar um embætti forseta Íslands, hvernig til þess skal kosið og hvert valdsvið forseta skuli vera. Forsetinn hefur völd til að gera samninga við önnur ríki, náða menn, rjúfa þing, gefa út bráðabirgðalög og skipa embættismenn. Hins vegar er forsetinn ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Þessi völd eru því í reynd hjá ráðherrum. Hins vegar er ekki sátt um það meðal fræðimanna hvernig beri að túlka sumar greinar um völd forseta. 26. greinin mælir til dæmis fyrir um að lagafrumvarp þurfi staðfestingu forseta áður en það verður að lögum en neiti forseti að staðfesta lögin þá skal efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau. Frá upphafi lýðveldisins hafa fræðimenn deilt um það hvort að þetta synjunarvald sé raunverulega til staðar og einnig hefur verið deilt um það hvort að það sé æskilegt að það sé til staðar. Þessar deilur komust í hámæli eftir að Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp árið 2004. Ekki kom til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna málsins þar sem ríkisstjórnin dró hið umdeilda frumvarp til baka. Einnig neitaði Ólafur Ragnar Grímsson að staðfesta hin umdeildu IceSave lög og fór það mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 2. kafla er einnig kveðið á um ráðherraábyrgð og það að birta þurfi lög. III. kafli. 3. kafli fjallar um kjördæmaskipan, kosningarétt og kjörgengi fyrir Alþingiskosningar. Eftir kjördæmabreytinguna 1999 eru kjördæmi landsins ekki lengur skilgreind landfræðilega í stjórnarskrá, heldur er látið duga að skilgreina hversu mörg þau megi vera (6-7) og hver lágmarksfjöldi kjördæmiskjörinna þingmanna skal vera í hverju (6). Heimild er gefin til þess að ákveða kjördæmamörk með almennum lögum með því skilyrði að 2/3 Alþingis samþykki allar breytingar á kjördæmamörkum og þingmannafjölda. (Sjá nánar: Kjördæmi Íslands). Nefnt er að eingöngu íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri megi kjósa en stjórnarskráin heimilar að nánari reglur skuli skilgreindar í kosningalögum. Allir þeir sem hafa kosningarétt til Alþingis og óflekkað mannorð eru kjörgengir til þess að undanskildum hæstaréttardómurum. IV. kafli. 4. kafli skilgreinir helstu atriði er varða störf Alþingis og ákvarðar réttindi og völd þingmanna. 1. málsgrein 35. greinarinnar heimilar að breyta megi samkomudegi reglulegs Alþingis með almennum lögum en núna byrjar Alþingi á fyrsta virka degi októbermánaðar. Í kaflanum er mælt fyrir um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en eftir þrjár umræður á Alþingi, fundir Alþingis skuli fara fram í heyranda hljóði nema annað sé samþykkt af þinginu. Meirihluti þingmanna verður að vera viðstaddur til þess að afgreiða mál. Flestar aðrar starfsreglur þingsins eru kallaðar þingsköp og ákveðin í lögum samkvæmt 58. grein. Í 4. kafla eru einnig tilgreind nokkur atriði sem ávallt þarfnast lagasetningar frá Alþingi. Ekki má leggja á nýja skatta eða breyta eða afnema eldri skatta án lagasetningar, það er því ólöglegt fyrir ráðherra að gera slíkt að eigin frumkvæði án samþykkis frá Alþingi. Einnig þarf lagasetningu til að heimila lántökur í nafni ríkisins og til þess að selja fasteignir ríkisins eða afnotarétt af þeim. Einnig er óheimilt að greiða nokkuð úr ríkissjóði án þess að heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Um réttindi og skyldur þingmanna segir, að þeir skuli aðeins vera bundnir af eigin sannfæringu og ekki neinum reglum frá kjósendum sínum. Þingmenn má ekki hneppa í gæsluvarðhald né heldur má höfða mál gegn þeim án þess að þingið samþykki það. Þetta gildir þó ekki, ef þingmaðurinn er staðinn að glæp. Alþingismenn þurfa heldur ekki að gera grein fyrir orðum sínum, sem þeir láta falla úr ræðustól án þess að Alþingi samþykki, þetta þýðir m.a. að ekki er unnt að kæra þingmann fyrir meiðyrði vegna einhvers, sem hann hefur sagt í ræðustól Alþingis. V. kafli. 5. kafli stjórnarskrárinnar samanstendur af 3 greinum en þar er fjallað um dómsvaldið. Þar er mælt svo fyrir að eingöngu má skipa í dómsvaldið með lögum. Dómendur skera úr öllum ágreiningi, sem verður vegna starfa yfirvalda. Þeir sem ekki eru sáttir við úrskurð dómsvaldsins geta ekki komist hjá því að hlýða honum með því að skjóta málinu til dóms. Seinasta greinin í kaflanum nefnir að dómendur mega eingöngu notast við lögin í störfum sínum og að eingöngu má víkja þeim úr embætti án vilja þeirra með lögum, nema vegna breytingar á skipulagi. Dómara sem orðinn er 65 ára má leysa úr embætti (með viðeigandi eftirlaunum) en hæstaréttardómarar fá full laun þrátt fyrir lausn frá embætti. VI. kafli. 6. kafli fjallar um trúmál á Íslandi og er eingöngu 3 greinar. Í kaflanum er sagt að evangelíska lúterska kirkjan skuli vera þjóðkirkja Íslands og að ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda. Trúfrelsi er skilgreint og er öllum frjálst að stofna trúfélög og vera aðilar að þeim, en þó má ekki gera neitt í nafni trúarinnar, sem brýtur gegn góðu siðferði eða allsherjarreglu. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga en þá skal greiða nefskatt til Háskóla Íslands þá upphæð, sem annars hefði borist til trúfélagsins. 62. greininni og 2. meðgrein 64. greinar má breyta með almennum lögum. VII. kafli. 7. kafli er svonefndur mannréttindakafli og fjallar um rétt hvers manns sem er staddur á landinu. 1. greinin í kaflanum segir að "„allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“". Í sama kafla er sagt í grófum dráttum um rétt hverrar manneskju gagnvart íslenskum lögum eins og t.d. að nauðungarvinna og dauðarefsingar skulu aldrei verða framkvæmdar og að dæmt skuli eftir þeim lögum, sem voru í gildi þegar glæpurinn var framinn. Einn mikilvægasti rétturinn sem skilgreindur er í kaflanum er tjáningarfrelsið, en þar er hverjum manni tryggður réttur til að tjá hugsanir sínar, en þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi og síðan er áskilið að ritskoðun og sambærilegar tálmanir á prentfrelsi skuli aldrei í lög leiða. Hins vegar má takmarka tjáningarfrelsi ef það er í þágu "allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum". Að lokum ræðir þessi kafli um skattamál landsmanna. Engum hluta þessa kafla má breyta nema með beinni breytingu á stjórnarskránni. 79. grein stjórnarskrárinnar fjallar um skilyrði þess að breyta stjórnarskránni sjálfri. Ef breyting er samþykkt, þá skal rjúfa þing og stofna til almennra kosninga. Ef að breytingin er síðan samþykkt óbreytt af nýkjörnu Alþingi og staðfest af forseta Íslands, þá fær hún gildi. 81. greinin segir að stjórnarskráin hljóti gildi hafi meiri hluti atkvæðabærra manna samþykkt hana, en sú grein var miðuð við samþykki upprunalegu stjórnarskrárinnar 17. júní 1944. Breytingar á stjórnarskrá. Stjórnarskráin er sem fyrr segir, æðsta réttarheimild Íslands og yfir önnur lög hafin. Því nýtur hún meiri verndar en almenn lög og erfiðara er að breyta henni en öðrum lögum. 79. grein stjórnarskrárinnar segir til um það hvernig eigi að haga breytingum á henni. Breytingin verður að vera samþykkt af tveimur þingum með þingrofi og almennum kosningum á milli, auk þess sem Forseti Íslands þarf að staðfesta breytinguna eins og einnig er skilyrði við almenna lagasetningu. Nokkrar greinar í stjórnarskránni eru þó undanþegnar þessu ferli og þeim má breyta með venjulegri lagasetningu. Sem dæmi má nefna 35. grein sem fjallar um samkomutíma Alþingis, þeirri grein má breyta með almennum lögum. 62. grein sem skilgreinir hina „evangelísku lútersku kirkju“ sem þjóðkirkju Íslands má einnig breyta með lögum, en 1. málsgrein 79. greinar segir að auki, að slík breyting þurfi samþykki í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Metallica. Metallica er bandarísk þungarokkshljómsveit sem hefur verið virk síðan á 9. áratugnum. Á fyrri hluta ferilsins áttu þeir mikinn þátt í þróun svokallaðs "Bylturokks" en upp úr 1990 fór sveitin að öðlast almennari vinsældir og í gegnum 10. áratuginn var hún með þekktustu nöfnunum á sviði þungarokks. Árið 2003 gaf Metallica út plötu, "St. Anger" sem fékk misjafna dóma og hefur ekki selst sérstaklega vel. Upphaf og fyrstu verk. Metallica var stofnuð í Los Angeles í Kaliforníu árið 1981 af trommaranum og fyrrum tennisleikaranum Lars Ulrich, og gítarleikaranum og söngvaranum James Hetfield en þeir kynntust eftir að hafa báðir sett auglýsingar í einkamáladálk dagblaðsins "The Recycler". Bassaleikarinn Ron McGovney var einnig með frá upphafi en studdist við nokkra bráðabirgða gítarleikara í upphafi áður en föst skipan komst fyrst á hlutina. Nafnið Metallica varð til þegar Lars Ulrich var að aðstoða mann að nafni Ron Quintana að velja nafn á nýtt tímarit um þungarokk sem hann ætlaði að gefa út. Quintana stakk upp á nafninu "Metallica" en Lars stakk strax upp á öðru og ákvað að nota nafnið sjálfur á hina nýstofnuðu hljómsveit. Snemma árs 1982 tók Metallica upp lagið „Hit the Lights“, þá var Dave Mustaine gítarleikari genginn til liðs við sveitina. Nokkrum mánuðum síðar var bassaleikarinn Cliff Burton svo fenginn til liðs við sveitina en hann setti það skilyrði að hún yrði þá að flytjast til San Francisco sem þeir gerðu. Árið 1983 ferðaðist sveitin til New York þar sem þeir komust í kynni við útgáfufyrirtækið "Megaforce Records" sem þeir sömdu við um að gefa út fyrstu tvær plötur sveitarinnar. Í New York var Dave Mustaine látinn fara en Kirk Hammet ráðinn í hans stað frá hljómsveitinni Exodus rétt áður en upptökur hófust fyrir fyrstu plötuna. 1983 kom hún svo út og fékk nafnið Kill 'Em All. Strax á næsta ári kom næsta plata út, Ride the Lightning, lögin á henni voru mörg lengri og hægari en á frumrauninni, þar á meðal var "Fade to Black" sem var það fyrsta af nokkrum svipuðum lögum sem gjarnan eru talin marka muninn á milli Metallica og annarra "thrash metal" hljómsveita þess tíma. Leiðin til vinsælda. 1985 skrifaði sveitin undir stóran samning við "Elektra Records" og gaf út plötuna Master of Puppets 1986 sem margir aðdáendur telja besta verk sveitarinnar. Sama ár lést Cliff Burton í rútuslysi í Svíþjóð. Eftir nokkra leit réðu þeir til sín bassaleikarann Jason Newsted og hófu upptökur á næstu plötu. ...And Justice for All myndi hún heita og kom út 1988. Nú var í uppsiglingu stefnubreyting hjá Metallica en þeir fengu Bob Rock til liðs við sig við framleiðsluna með það að markmiði að skapa eitthvað sem væri líklegra til almennra vinsælda en það sem þeir höfðu áður gefið út. Útkoman var Metallica, samnefnd hljómsveitinni og einnig oft kölluð "svarta platan". Lögin voru stytt og einfölduð eins og vinsælasta lagið af plötunni, "Enter Sandman" ber vott um. Markmiðið náðist og platan seldist í bílförmum og færði Metallica áður óþekktar vinsældir miðað við þungarokkshljómsveit. Um þetta leytið fór mikið að bera á ásökunum eldri aðdáenda um að sveitin hefði „selt sig“ peningavaldinu hjá útgáfufyrirtækjunum. Til að fylgja eftir gríðarlegum vinsældum svörtu plötunnar fór sveitin á tónleikaferðalag sem átti eftir að standa í þrjú ár. Meðlimir sveitarinnar voru örþreyttir eftir þá raun og tóku sér hlé þar sem ekkert nýtt heyrðist frá þeim fyrr en 1995 að þeir fóru að taka upp nýtt efni og gáfu svo út plötunnar Load (1996) og Reload (1997). Þær plötur nutu lítilla vinsælda miðað við það sem undan var gengið og fengu misjafna dóma. Margir af eldri aðdáendum sveitarinnar litu á þær sem sönnun fyrir því að hljómsveitin væri ekki sú sama og á 9. áratugnum og hefði nú endanlega selt sálu sína. Árið 1998 kom út Garage inc. sem var samansafn tökulaga frá öðrum hljómsveitum en innihélt ekkert nýtt efni. 1999 voru svo haldnir tónleikar með synfóníuhljómsveit San Francisco sem voru svo gefnir út bæði á geisladisk og DVD. Tvö ný lög voru kynnt til sögunnar þar, "No Leaf Clover" og "- Human". Napster deilan. Á árinu 2000 komst Metallica á snoðir um það að nýjasta lag þeirra þá, "I Disappear" hafði lekið á netið þar sem notendur Napster forritsins deildu því með hverjum öðrum. Þegar þeir uppgötvuðu svo að öll þeirra tónlist frá upphafi var í boði gjaldfrjálst með hjálp Napster þá ákváðu þeir að kæra Napster og kröfðust þess að 300.000 notendur þess sem höfðu orðið uppvísir að því að deila Metallica lögum yrðu útilokaðir frá kerfinu. Árið 2001 náði Metallica þó samkomulagi við Napster og aldrei kom til þess að einstakir notendur yrðu kærðir fyrir höfundarréttarbrot. Málið hafði þó mjög neikvæð áhrif á ímynd hljómsveitarinnar, sérstaklega var Lars Ulrich útmálaður sem gráðug og tilgerðarleg rokkstjarna úr tengslum við aðdáendur sína. Jason hættir. Skömmu áður en til stóð að hefja tökur á nýrri plötu árið 2001 hætti Jason Newsted í sveitinni vegna „Líkamlegs tjóns sem ég hef valdið mér í gegnum árin þegar ég spila tónlistina sem ég elska“. Hins vegar hefur síðar orðið ljóst að meginástæðan fyrir brotthvarfinu var ágreiningur milli meðlima sveitarinnar vegna hliðarverkefna utan Metallica sem Jason tók þátt í. Næstu ár voru lágpunktur á ferli Metallica til þessa, James Hetfield fór í meðferð við áfengissýki og þegar hann sneri aftur tók sveitin að semja nýtt efni fyrir næstu plötu, Bob Rock tók að sér að spila á bassa í upptökunum á meðan sveitin hafði engann slíkan. Loks fundu þeir sér nýjan bassaleikara, Rob Trujillo sem áður hafði spilað með hljómsveit Ozzy Osbourne. Nýjasta plata Metallica kom svo út árið 2003 og hlaut nafnið "St. Anger". Hún náði á toppinn á einhverjum sölulistum en hlaut afar misjafnar undirtektir hvort tveggja aðdáenda sem og gagnrýnenda. Metallica hefur einu sinni haldið tónleika á Íslandi. Þá komu 18.000 manns saman í Egilshöll í Reykjavík þann 4. júlí 2004 og mun það vera stærsta innisamkoma íslandssögunnar. Glerárhverfi. Glerárhverfi er hverfi á Akureyri, til þess telst sá hluti bæjarins sem er norðan Glerár, í daglegu tali er það af sögulegum ástæðum oftast kallað Þorpið. Hverfið skiptist í minni hverfi eftir endingum götunafnanna, þar eru Holtahverfi, Hlíðahverfi, Síðuhverfi og Giljahverfi sem eru að mestu íbúðahverfi en Nesjahverfi er iðnaðar- og athafnasvæði í vexti. Einnig eru atvinnusvæði við Krossanes, milli Austursíðu og Hörgárbrautar og við Óseyri þar sem er meðal annars smábátahöfn. Þrír grunnskólar eru í hverfinu, Glerárskóli, Giljaskóli og Síðuskóli. Nú búa rúmlega 7000 manns í hverfinu. Saga. Framan af 20. öld voru bæjarmörk Akureyrar við Glerána. Heyrði svæðið norðan hennar undir Glæsibæjarhrepp og var því ekki innan lögsagnarumdæmis kaupstaðarins. Á seinni hluta 19. aldar fór að myndast vísir að þéttbýli á svæðinu nálægt ánni (þar sem nú er Langahlíð og Höfðahlíð) og þegar kom fram á 20. öld var komin þorpsmynd á svæðið sem fór að ganga undir heitinu Glerárþorp. Þorpið byggði einkum efnaminna fólk sem hafði ekki efni á því að reisa sér hús á Akureyri vegna byggingarreglugerða sem höfðu verið teknar upp þar sem bönnuðu m.a. byggingu torfbæja en nokkrir slíkir risu í Þorpinu á þessum árum. Fyrstu íbúar Þorpsins stunduðu sjálfsþurftarbúskap á litlum landskikum við hús sín og sóttu vinnu í iðnfyrirtæki á Akureyri þegar slíkt stóð til boða, sumir sóttu sjóinn. Búið er að rífa mörg af gömlu húsunum í glerárþorpi Árið 1955 var Glerárþorp svo sameinað Akureyri og var þá kallað Glerárhverfi þó að þorpsnafnið hafi haldist allar götur síðan. Upp úr 1960 hófst skipulögð uppbygging í hverfinu sem þandist hratt út á áttunda, níunda og tíunda áratug 20. aldar. Sjónbeinandi. Sjónbeinandi í bókmenntaverki er sá sem beinir sjónum lesandans að einhverju. Í fyrstu persónu frásögn er sá sem mælir, sögumaður, einatt sjónbeinandi. Ef frásögnin er í endurliti þar sem sögumaður lítur yfir farinn veg og segir frá sjálfum sér yngri er sjónbeinandinn þó persónan eins og hún var þegar atburðirnir gerðust. Í þriðju persónu frásögnum kann svo vitundarmiðjan að vera sjónbeinandinn meðan sá sem talar í þriðju persónu er sögumaður. Brian Molko. Brian Molko (fæddur 10. desember 1972) er söngvari og gítarleikari bresku hljómsveitarinnar Placebo. Brian, sem er tvíkynhneigður, er hálfur bandaríkjamaður og hálfur skoti. Fyrir utan tónsmíðarnar er hann meðal annars þekktur fyrir að koma oft fram sem dragdrottning á tónleikum. Þingvellir. Þingvellir eru flatir, grasi grónir vellir norðan við Þingvallavatn á bökkum Öxarár, sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn, sem er stærsta stöðuvatn á Íslandi. Þjóðgarður var stofnaður árið 1928 og nær hann yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Í Öxará er Öxarárfoss, þar sem áin steypist ofan í Almannagjá. Rennur áin síðan eftir gjánni og svo út úr henni og niður á vellina. Almannagjá er sprunga við vestanverða sigdældina á milli úthafsflekanna tveggja sem Ísland liggur á. Almannagjá á ÞingvöllumÞingvellir eru einn af mikilvægustu stöðunum í íslenskri sögu. Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman árlega allt fram til ársins 1798. Það var árið 999 eða 1000 sem lögsögumaðurinn Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og lýsti Íslendinga í kjölfarið kristna. Það var einnig á Þingvöllum sem Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði þann 17. júní 1944. Þangað hafa margir íslenskir listamenn sótt innblástur sinn, til dæmis Jóhannes Kjarval. Skammt frá Þingvallakirkju er svokallaður þjóðargrafreitur, þar sem Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson eru grafnir. Tónlist. Tónlist er mjög umdeilt hugtak, þar sem að þar keppast að eðlisfræðilegar, félagslegar og fagurfræðilegar skilgreiningar, sem allar eiga jafn mikinn rétt á sér. "Tónlist sem hljóð": Algengasta skilgreining tónlistar, sem runa hljóða og þagna sem raðað er upp á listrænan máta, hefur verið notuð síðan seint á 19. öld þegar fyrst var farið að rannsaka tengslin milli hljóða og skynjana. "Tónlist sem upplifun": Önnur algeng skilgreining tónlistar heldur því fram að tónlist verði að vera falleg eða melódísk. Þessi skilgreining hefur verið notuð til þess að halda því fram að sumar tegundir raðaðra hljóðruna "séu ekki tónlist", en að aðrar séu það. Vegna þess hversu misjafn smekkur fólks á tónlist er milli menningarsvæða og tímabilia er þessi skoðun neydd til þess að taka upp ögn breiðari sjónarmið, þar sem að sagt er að tónlist þróist með tíma og þjóðfélagi. Þessi skilgreining var öllum öðrum algengari á 18. öld, en á því tímabili hélt Mozart því meðal annars fram að „"Tónlist má aldrei gleyma sér, og má aldrei hætta að vera tónlist."“ "Tónlist sem flokkur skynjunar": Sjaldgæfari þykir hin skynjunarlega skilgreining tónlistar, þar sem því er haldið fram að tónlist sé ekki eingöngu hljóð, eða skynjun hljóða, heldur aðferð sem að skynjanir, aðgerðir og minningar raðast eftir. Þessi skilgreining hefur haft töluverð áhrif á sálarfræði, sem leitast við að finna þau svæði heilans sem að sjá um að vinna úr og muna mismunandi þætti tónlistarupplifunar. Þessi skilgreining myndi fela í sér dans. "Tónlist sem félagslegt fyrirbæri": Póstmódernískar kenningar halda því fram að tónlist, eins og aðrar listgreinar, sé skilgreint fyrst og fremst út frá félagslegu samhengi. Samkvæmt þessu telst til tónlistar hvað það sem fólk vill telja til tónlistar - hvort sem það er stundarþögn, skilgreind hljóð eða mikilfengleg hljóðræn framsetning. Frægt þykir tónverk samið af John Cage, 4' 33" í þessu samhengi - en sú tónsmíð samanstóð af 4 mínútum og 33 sekúndum af þögn. Vegna þess hversu misjafnar þessar skilgreiningar eru falla til mjög mörg form af tónlist. Rannsóknir á titringi og hljómburði, sálfræðilegar rannsóknir á tónlist, rannsóknir á tónfræði, sögu tónlistar, meðtöku tónlistar, tónlistarstefnur eftir þjóðfélögum og svo framvegis. Jafnvægi (læknisfræði). Jafnvægi í læknisfræði er stöðugleiki í mannslíkamanum. Líkaminn hefur alltaf tilhneigingu til að halda jafnvægi í líkamsstarfssemi, en þetta kallast samvægi (latína: homeostasis) og þekkist í öllum lífkerfum. Athugið að hér er ekki um að ræða jafnvægisskyn, heldur hluti eins og hitastig. Listi yfir íslenskar hljómsveitir. Hér fylgir listi yfir íslenskar hljómsveitir, listinn er í stafrófsróð. X. íslenskar hljómsveitir Frumþáttun. Frumþáttun er þáttun, sem felst í að finna alla frumþætti heiltölu, þ.e. allar frumtölur, sem ganga upp í tölunni. Til að frumþátta tölu, þá er deilt með öllum frumtölum minni en kvaðratrót tölunnar. Ef það kemur út heil tala út úr einhverri deilingunni, þá er haldið áfram að deila í niðurstöðuna þangað til ekki er hægt að fá heila tölu. Ef engin heil tala kemur úr deilingunni, þá er talan frumtala. Samsettar tölur eru allar þær tölur sem eru margfeldi af 2 eða fleiri frumtölum. Talan 24. 3/2 = 1,5 (ekki heil tala) Frumþættir tölunnar 24 eru því 2, 2, 2 og 3. Talan 765. 765/2 = 382,5 (ekki heil tala) Frumþættir tölunnar 765 eru því 3, 3, 5 og 17. Íslendingasögur. a> í vígahug, mynd í 17. aldar handriti Egils sögu, AM 426 fol. a>, mynd í 17. aldar handriti, AM 426 fol. Íslendingasögurnar eru ásamt konungasögum, þekktustu miðaldabókmenntir Íslendinga. Þær eru um fjörutíu talsins og mynda saman einn af sex flokkum fornsagna. Ritunartími. Fyrstu Íslendingasögurnar voru að öllum líkindum ritaðar öðru hvoru megin við aldamótin 1200, en þær síðustu við lok sagnritunarskeiðsins undir 1350. Flestar voru þær þó líklega skrifaðar á 13. öld. Skoðanir á aldri eru meðal annars tengdar hugmyndum um uppruna þeirra. Þrettánda öldin er upplausnartími þjóðveldisins og má sjá þess víða stað í sögunum að varað er við erlendu konungsvaldi og upplausn ætta. Sögurnar eru allar án höfundarnafns og einungis varðveittar í eftirritum, þ.e. ekkert handrit er varðveitt sem gæti verið frumrit viðkomandi sögu. Uppruni sagnanna. Af öðrum kenningum má nefna "goðsagnakenninguna", en hún gerir ráð fyrir að sögurnar séu að stofni til goðsagnir eða mjög mótaðar af goðsagnatengdu efni er tengdist landnámi sem athöfn og stofnun ríkis. Einar Pálsson er upphafsmaður kenningarinnar. Efni og stíll. Íslendingasögurnar eru veraldlegar sögur. Þær fjalla um Íslendinga á tímabilinu frá landnámsöld til fyrri hluta 11. aldar og gerast að mestu á Íslandi. Sögurnar einkennast af hlutlægum frásagnarstíl, höfundur tekur ekki beina afstöðu og tilfinningum persóna er ekki lýst (nema í bundnu máli í stöku tilvikum). Ef persónum er ekki lýst þegar þær eru kynntar til sögunnar lýsa þær sér helst sjálfar með verkum sínum og orðum. Annars geta persónulýsingar orðið æði fjölskrúðugar. Sögumaður leyfir almannaróm stundum að heyrast, og er það nánast eina tækið sem hann beitir til að stýra skoðunum lesenda, annað en val á sjónarhorni. Að öðru leyti lætur hann sem minnst á sér bera. Textinn einkennist af mikilli notkun hliðskipaðra aðalsetninga. Stíllinn er því einfaldur og málsgreinar yfirleitt stuttar og hnitmiðaðar, auk þess sem jafnvægi skapast í frásögninni. Mikið er um sviðsetningar og samtöl, sem eru allajafna stutt og einkennast af spakmælum. Tilsvör eru oft meitluð og engu er þar ofaukið. Í mörgum sagnanna gefa fyrirboðar eða spásagnir til kynna óorðna atburði. Enginn má sköpum renna, allt er ákveðið fyrir fram og enginn getur flúið örlög sín. Samfélag. Samfélag Íslendingasagnanna er goðaveldið eins og það var á Íslandi fyrstu aldir eftir landám. Það er ættasamfélag þar sem goðorðið gengur í arf. Brúðkaup eru til þess að efla karlmanninn og skapa honum ættartengsl sem nýst geta síðar meir. Söguhetjurnar eru oftast höfðingjaættar þó það sé reyndar ekki algilt. Lægra settu fólki bregður fyrir til góðs eða ills, en oftast er það í aukahlutverki. Hetjur og manngildi. Það má skipta hetjum Íslendingasagnanna gróflega í tvo flokka. Ljósar hetjur og dökkar hetjur. Þó eru sumar persónur flóknari en svo að þær geti fallið í annan hvorn þessara flokka. Ljósar hetjur eru ljósar yfirlitum, heiðarlegar og seinþreyttar til vandræða. Þær dragast nauðugar inn í átök til að koma í veg fyrir að skuggi falli á sæmd þeirra. Dökkar hetjur eru dökkar yfirlitum og oft ófríðar eða beinlínis ljótar. Þær eiga í vandræðum með sjálfar sig og grípa oft til vopna að fyrra bragði. Þær leggja þannig fram drýgri skerf til að skapa sín eigin vandræði. Karlmenn eru langoftast í aðalhlutverkum og sjónarhóllinn er þeirra. Konur hrinda þó oft atburðarás af stað, þær eru þrætuepli eða hvetja hetjurnar til stórræða. Íslendingaþættir. Íslendingaþættirnir eru stuttar frásagnir af Íslendingum, flestar líklega frá 13. öld. Kopar. Kopar eða eir er frumefni með efnatáknið Cu og er númer 29 í lotukerfinu. Almennir eiginleikar. Kopar er rauðleitur málmur með mikla raf- og varmaleiðni (af hreinum málmum við stofuhita hefur einungis silfur hærri rafleiðni). Kopar er að líkindum elsti málmur í notkun í dag. Fundist hafa tilbúnir hlutir úr kopar sem taldir eru vera frá um 8700 f.Kr. Auk þess að finnast í margvíslegu málmgrýti, finnst kopar sums staðar í hreinu formi. Á tímum Forn-Grikkja, var málmurinn þekktur undir nafninu "khalkos". Á tíma Rómverja varð hann svo þekktur sem "aes Cyprium" ("aes" er almennt latneskt orð yfir koparmálmblöndur eins og brons og aðra málma og mikið af því var unnið úr námum á Kýpur). Heitið var einfaldað yfir í "cuprum" og þaðan, með breytingum, yfir í íslenska orðið "kopar". Ljóshraði. Ljóshraði í lofttæmi er nákvæmlega 299.792.458 metrar á sekúndu sem er tæplega 1.080.000.000 km/klst. Til viðmiðunar er þægilegt að hugsa til þess að ljósið er u.þ.b. 133 millisekúndur að ferðast hringinn í kringum jörðina, rúmlega 1,5 sekúndur að fara fram og til baka á milli jarðar og tungls og um 8,3 mínútur að ferðast frá Sólu til Jarðar. Hraði þessi er skilgreining, en ekki mæling, þar sem að lengd metrans er reiknuð út frá hraða ljóssins, en ekki öfugt. Ljóshraðinn á sitt eigið tákn í eðlisfræðinni sem er formula_1. Yfirlit. Allar rafsegulbylgjur, þar á meðal ljós, ferðast með föstum hraða í tómarúmi - svokölluðum ljóshraða en hann breytist ef bylgjan ferðast um efni. Þetta er náttúrulegur fasti táknaður með formula_1 (frá Latínu „celeritas“ sem þýðir hraði). Allar mælingar á hraða ljóssins í lofttæmi munu gefa sama gildið, sama í hvaða viðmiðunarramma (hnitakerfi) viðkomandi er eða á hvaða hraða hann er. Ef upplýsingar gætu ferðast hraðar en formula_1 í einum viðmiðunarramma þá væri orsakalögmálið brotið, þar sem einn viðmiðunarrammi gæti fengið upplýsingarnar áður en þær hefðu verið sendar af stað. Slíkt brot á orsakalögmálinu hefur aldrei verið mælt. Skv. núverandi skilgreiningu (síðan 1983) er ljóshraðinn Þetta er u.þ.b. 3 × 108 metrar á sekúndu, eða um 30 sentimetrar á nanósekúndu. Gildi formula_5 skilgreinir rafsvörunarstuðul (formula_6) og segulsvörunarstuðul lofttæmis (formula_7) í SI kerfinu sem Þessir fastar koma fram í jöfnum Maxwells sem lýsa rafsegulfræði. Skilgreining á metranum. Þar sem ljóshraðinn í tómarúmi er fasti er þægilegt að skilgreina lengd út frá því hversu langt rafsegulbylgja ferðast í tómarúmi á ákveðnu tímabili. Árið 1983 var metrinn endurskilgreindur sem sú vegalengd sem ljósið fer á einni sekúndu deilt með 299.792.458 eða formula_10. Þessi skilgreining er háð því að ljóshraði mælist sá sami í öllum viðmiðunarrömmum. Þess má geta að oft eru stjarnfræðilegar lengdir mældar í ljósárum, en ljósár er sú vegalengd, sem ljósið fer á einu ári í tómarúmi. Það eru því sem næst 9,46formula_11 1015 m. John Wilkins. John Wilkins (1614-1672), biskup í Chester, var breskur dulmálsfræðingur og stofnandi, fyrsti formaður og ritari Royal Society - bresku náttúruvísindasamtakanna. Hann skrifaði talsvert um vísindaleg efni, meðal annars umdeilda ritgerð um hvort líf gæti þrifist á tunglinu. Hann er meðal ýmiss annars þekktur fyrir að hafa þróað algilt heimspekimál og Real Character stafrófið - atkvæðastafróf þar sem að tákn hvers atkvæðis lítur út eins og lögun tungu, vara og barka mannveru sem að gefur frá sér viðkomandi atkvæði. Einnig skrifaði hann mjög efnismikið rit um dulmálsfræði, þar sem hann safnaði saman og lýsti öllum helstu dulmálum hins þekkta heims. Sveitarfélög Íslands. Skipting Íslands í sveitarfélög og landshluta. Sveitarfélög á Íslandi eru svæðisbundnar stjórnsýslueiningar sem sjá um ýmsa þjónustu við íbúa sína á borð við sorphirðu, almenningssamgöngur, rekstur grunnskóla og leikskóla, félagslega aðstoð, þjónustu við fatlað fólk og aldraða o.s.frv. Stjórnir sveitarfélaganna eru kosnar í almennum kosningum meðal íbúanna á fjögurra ára fresti. Fjöldi sveitarfélaga hefur verið nokkuð breytilegur í gegnum tíðina. Lengst framan af tíðkaðist að laga stærð hreppanna að fólksfjöldabreytingum með því að skipta upp fjölmennum hreppum og sameina þá fámennu. Þeim fjölgaði allnokkuð á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta hinnar 20. í samræmi við fólksfjöldaþróun í landinu. Einnig var algengt að hreppum væri skipt upp vegna ólíkra hagsmuna þéttbýlisstaða og sveita. Flest urðu sveitarfélögin 229 um miðja 20. öld. Frá og með 9. áratugnum var farið að leggja áherslu á sameiningu sveitarfélaga til að auka hagkvæmni í rekstri þeirra og bæta þjónustu. Árið 2013 eru sveitarfélög á Íslandi 74, sjá lista yfir þau öll í röð eftir mannfjölda eða flatarmáli. Sjá einnig allsherjarlista yfir íslensk sveitarfélög fyrr og síðar. Köngulær. Köngulær (fræðiheiti: "Araneae") er ættbálkur áttfættra, hrygg- og vænglausra dýra sem búa til silki. Allar kóngulær eru eitraðar, nema einn flokkur sem kallast netjukóngulær. Margar köngulóategundir veiða með því að búa til vefi eða gildrur til höfuðs skordýrum. Útlit og uppbygging. Ólíkt skordýrum hafa köngulær (líkt og aðrar áttfætlur) tvískiptan búk. Höfuð og frambolur eru samvaxin í það sem kallast höfuðbolur, en ekki aðskilin með skoru eins og hjá skordýrum. Þar eru meginlíffæri staðsett, svo sem heilinn. Í afturbolnum (latína: "abdomen"; sem þýðir kviður) er að finna meltingarfærin, öndunarfæri og hjarta; spunavartan er einnig staðsett utan á honum. Ytri stoðgrind kóngulóa kallast hamur og er búin til úr efni sem nefnist kítín og er loðinn. Kóngulær eru hamskiptar, sem þýðir að reglulega þurfa þær að yfirgefa stoðgrindina og mynda nýja því hún stækkar ekki með þeim. Stærðir eru breytilegar milli tegunda, en í flestum tilvikum er kvendýrið stærra en karlinn. Fjöldi augna er oftast átta og eru augun einlinsa — en ekki eins og í mörgum skordýrum, sem eru með fjöllinsa augu. Bifhár á fótum greina loftstrauma og önnur hár virka sem bragðskynhár eða annars konar nemar. Einnig eru á kóngulónni svokallaðir lýrunemar sem eru raufar á fótunum með taugaendum sem nema titring, t.d. í vef kóngulóarinnar. Köngulær hafa opið æðakerfi, sem þýðir að blóð rennur á milli æða og í sérstök hólf í stað þess að fylgja föstu æðakerfi. Silkið. Silkið er notað af köngulóm á margan hátt, meðal annars nota þær það til að spinna vef sem þær veiða í og kallast slíkar köngulær vefköngulær. Aðrar (og vefköngulær margar hverjar reyndar líka) nota hann til að ferðast á milli staða og kallast föruköngulær. Köngulær nota líka silkið til að geyma bráð sína í. Þær vefja bráðina inn í sekk og sprauta svo meltingarensímum inn í hann. Síðan sjúga köngulærnar innan úr sekknum. Köngulóarsilki er með sterkustu efnum í heimi, og er tíu sinnum sterkara en stál. Burðargeta eins fermetra er um 240.000 tonn. Silkið er líka það sem gerir þeim kleift að skríða upp veggi. Vegna styrkleika silkis köngulóa (margfalt sterkara en silkið fengið frá silkiormum) hafa menn lengi reynt að herma eftir uppbyggingu þess. Nexia Biotech Ltd. tókst, með því að flytja gen úr köngulóm yfir í erfðaefni geita, að fá geiturnar til að framleiða próteininn sem þarf til að smíða vefinn. Þótt svo að þeim hafi tekist að vinna próteininn úr mjólkinni eiga þeir eftir að finna út hvernig á að „púsla“ þessu saman. Takist þeim það geta þeir framleitt afar sterkt lín sem hægt væri að nota í föt í staðin fyrir nælon og kevlar (efnið notað í skotheld vesti). Jón hlaupari. Jón Guðmundur Hvammdal Guðlaugsson (fæddur 3. apríl 1926) betur þekktur sem Jón „hlaupari“ er íslensk nútímagoðsögn. Árið 1968 var hann fyrsti Íslendingurinn sem hljóp löglegt maraþonhlaup, áður hafði maraþonhlaup verið hlaupið en taldist ekki löglegt þar eð tvo kílómetra vantaði upp á. Hryggleysingjar. Hryggleysingjar () er flokkur dýra sem hefur ekki hryggjarsúlu, þ.e. eru ekki hryggdýr. Flokkurinn er ekki notaður í nútíma vísindalegri flokkun. Tölfræði. Tölfræði er undirgrein stærðfræðinnar um söfnun, greiningu, túlkun, framsetningu og úrvinnslu á gögnum. Tölfræði er þverfaglegt hjálpartæki í rannsóknum í vísindagreinum sem byggja á megindlegum aðferðum hvort sem um er að ræða raunvísindi, hugvísindi eða félagsvísindi. Hægt er að skipta tölfræði mjög gróflega í tvennt: lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. Lýsandi tölfræði er notuð til að lýsa eiginleikum tölulegra gagna, svo sem miðsækni og dreifingu þeirra. Ályktunartölfræði er hins vegar notuð til að draga ályktanir um tiltekin gögn, svo sem varðar ákveðna eiginleika sem þýði hefur, út frá upplýsingum sem fengust í úrtakinu. Þær breytur sem mældar eru skiptast í nafnkvarða, raðkvarða, jafnbilakvarða eða hlutfallskvarða. Saga tölfræði. Eitt af fyrstu dæmum þess að tölfræði hafi verið beitt er að finna í verkinu "Observations on the Bills of Mortality" eftir einn að brautryðjendum lýðfræðinnar, Bretanum John Graunt, sem kom út árið 1662. Ein helst ástæða þróunar í tölfræði var nauðsyn ríkisins á áreiðanlegum gögnum til þess að geta gert áætlanir fram í tímann. Hvað mestur framgangur varð í notkun tölfræði á 19. öld og jókst hún jafnt og þétt í framhaldinu. Hefð er fyrir því að tölfræði sé talinn aðskilin grein hagnýtrar stærðfræði frekar en undirgrein stærðfræði. Grundvöllur tölfræðinnar var lagður þegar Blaise Pascal og Pierre de Fermat settu fram kenningar sínar um líkindafræði á 17. öld. Carl Friedrich Gauss bætti svo við þekkingu undir lok 18. aldar. Tilkoma nútímalegra tölva með meiri reiknigetu en áður hefur orðið til þess að flókinn tölfræðilegur útreikningur er mun auðveldari en áður. Tíðnidreifing. Framsetning á gögnum getur verið margskonar. Sé um einföld töluleg gögn að ræða er hægt að búa til tíðnitöflu sem sýnir tíðni (e. "frequency") breytanna. Í þessu dæmi einkunna sem nemendur hafa hlotið eru einkunnirnar raðaðar eftir stíganda, þ.e.a.s. þær fara hækkandi. Í fljótu bragði má sjá að fjórir nemendur hafa hlotið einkunnina 6. Hægt er að sjá fjölda nemenda með því að leggja tölurnar saman formula_1. Samanlögð tíðni er mæld í prósentum og venjulega sett í sér dálk við hliðinni á hlutfallstíðninni. Hún virkar þannig að hlutfallstíðnin í prósentum er lögð saman við samanlögðu tíðinni í færslunni fyrir ofan. Hún hækkar því neðar á töflunna er litið og er ávallt 100% undir lokin. Bilskipt tafla er framsett með þeim hætti að flokkar eru sameinaðir, sem getur verið þægilegt ef fjöldi mismunandi atriða er mikill eða óskað er eftir gögnum yfir eitthvað sem spannar stórt bil. Dæmi um þetta eru t.d. einkunnir tugi nemenda sem tóku ákveðið próf og síðan raðað eftir einkunnum. Þegar bil eru ákvörðuð er skýrast að hafa þau jafn löng en lengdin sem það spannar er kölluð "billengd". Í billengd er tekið til greina alla lengdina sem tölubilið spannar, einnig þegar námundun er notuð. Sem dæmi má nefna bilin 0-4, 5-9 og 10-14 en billengdin í þessu tilviki er 5. Fyrstgreinda bilið spannar tölurnar -0,5 til 4,5, það næsta er 4,5 til 9,5 og það síðastgreinda 9,5 til 14,5. Í dæminu hér til hliðar eru fimm 2 billengdar bil. Miðsækni. Miðsækni (e. "central tendency"); meðaltal, miðgildi og tíðasta gildi, í lýsandi tölfræði veitir upplýsingar um dreifingu gagna. Miðgildi er gildi þess staks sem er í miðjunni. Til að reikna út miðgildi skal raða tölunum í beina línu í vaxandi röð, talan sem er í miðjunni er síðan miðgildið eða ef það eru tvær tölur í miðjunni, þá skal taka meðaltal af þeim. Hér til hliðar, í sama dæmi og að ofan, eru 25 tölur og því er tekið meðaltalið af tólftu og þrettándu tölunni. formula_2 Í dæminu sem við notumst við má gjörla komast að því að meðaltalið er: formula_5 Tíðasta gildi er, eins og nafnið gefur til kynna, sú breyta sem birtist oftast. Vert er að athuga að tíðasta gildið getur verið fleiri en eitt. Í dæminu hér að ofan er það 7 sem kemur 8 sinnum fyrir. Dreifing. Til þess að rýna betur í það mengi sem verið er vinna með er hægt að skoða dreifinguna (e. "dispersion"). Spönnin er fundin út með því að draga lægstu töluna frá þeirri efstu. Í dæminu hér að ofan er spönnin formula_6. Meðalfrávik er mælikvarði á meðalfjarlægðinni frá meðaltalinu. Til að fá út meðalfrávik er fyrst fundið út meðaltalið, það dregið frá sérhverri tölu til að fá frávik hverrar tölu frá meðaltalinu, frávikin eru öll lögð saman án tillits til formerkja (mínus breytist í plús) til að fá heildarfrávik og á endanum er heildarfrávikið deilt með fjölda talna. formula_7 Staðalfrávik er önnur aðferð til að finna út dreifingu talna í líkindalegri dreifingu (e. "probability distribution"), handahófskenndri breytu, þýði eða gagnasafni. Lástafur gríska bókstafsins sigma σ er oftast notaður til þess að tákna staðalfrávik (eða "s" í latneska stafrófinu). Staðalfrávik er skilgreint sem kvaðratrótin af frávikinu, eða dreifnin í öðru veldi. Staðalfrávik er því í raun meðaltal frávika, þ.e. hversu langt frá meðaltali stök eru að meðaltali. Frávikshlutfall. Frávikshlutfall er formúla sem er notuð til að bera staðalfrávik mismunandi talnahópa saman. Formúlan reiknar út hlutfall staðalfráviksins af meðaltalinu. Frávikshlutfall = formula_12 formula_13 = Staðalfrávik formula_14 = Meðaltal allra talnanna Ósýnilegi bleiki einhyrningurinn. Trúaðir segja að líkt og í öðrum trúarbrögðum sé trúin á Ósýnilega bleika einhyrninginn byggð á vísindum og trú. Vísindum þar sem „hún hljóti að vera ósýnileg, þar sem við sjáum hana ekki“ og trú þar sem „við vitum í hjarta okkar að Ósýnilegi bleiki einhyrningurinn er til“. Þessum rökum er ætlað að vera skopstæling á guðfræðilegum rökum sem liggja að baki margra annarra trúarbragða. Hugmyndin er að þar sem Einhyrningurinn er ósýnileg er ógerlegt að sanna að hún sé ekki til og ef engin leið er að sanna tilvist hennar, hvernig vitum við þá að hún er bleik og með eitt horn? Hugmyndin um bleika einhyrninginn gerir einnig at í mótsögnum innan ýmissa trúarbragða. Ekkert getur bæði verið ósýnilegt og haft ákveðinn lit á sama tíma, og má bera það saman við hugmyndir um alvitran eða almáttugan guð, hugmyndir sem hafa verið gagnrýndar fyrir að vera í mótsögn við sjálfar sig. Auk þess hafa gagnrýnendur trúarbragða leitað uppi og fundið kafla í Biblíunni eða Kóraninum sem þeir telja vera í mótsögn við aðra kafla í sömu ritum. Nafni Ósýnilega bleika einhyrningsins fylgja oft setningar líkt og „Blessaðir séu heilagir hófar hennar“, „Friður sé með henni“, „Megi skuggi aldrei falla á hófa hennar“, „Dýrð sé bleiku faxi hennar“ o.s.frv. Þessum setningum er ætlað að draga dár að blessunum múslima þegar þeir tala um Múhammeð, spámann sinn. Frumtöluskítandi björninn. Frumtöluskítandi björninn (finnska: "Alkulukuja Paskova Karhu") er vefhreyfimynd af birni sem skítur frumtölum. Klippan var búin til af Finna árið 2001. Hún er knúin af vefforritunarmálinu JavaScript og er ætluð til skemmtunar. Björninn hefur átt talsverðu fylgi að fagna á Internetinu og hefur náð nokkurs konar költstöðu. Gestir á vefsíðu bjarnarins keppast við að finna hæstu frumtöluna sem björnin getur skitið áður en minnið í tölvunni klárast. Einnig er til spjallrás tileinkuð Frumtöluskítandi birninum og aðrar vefmyndir hafa verið gerðar eftir honum, t.d. Frumtöluskítandi Goatse.cx maðurinn. Einveldi. Einveldi er tegund stjórnarfars þar sem einvaldurinn — oftast konungur — hefur algjör völd til þess að stýra landinu og íbúum þess. Hann er eina uppspretta og trygging laga og réttar og er því ekki sjálfur bundinn af lögum. Einvaldurinn var talinn hafa vald sitt beint frá Guði og þannig hafa ótakmörkuð völd yfir öllum landsmönnum, jafnvel aðlinum. Saga. Kort sem sýnir ólíkt stjórnarfar eftir löndum, einveldi sýnt með fjólubláum lit Einveldi var ríkjandi stjórnarfar í mörgum Evrópulöndum á 17.–19. öld og eitt besta dæmið um einveldi er stjórnartíð Loðvíks XIV í Frakklandi. Einveldið varð til úr lénsskipulaginu sem áður var ríkjandi en þar var konungurinn aðeins „fremstur meðal jafningja“ í aðalsstétt. Þótt konungstign héldist að jafnaði innan konungsfjölskyldunnar, var konungur valinn á kjörþingum þar sem æðstu aðalsmenn, greifar eða kjörfurstar kusu konung, oft með fyrirvara um samþykkt einhvers konar réttindaskrár, skattafríðinda og annarra skilyrða sem komu aðlinum til góða. Með einveldinu gekk konungstignin í arf samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum um erfðarétt meðlima konungsfjölskyldunnar. Öflugri og dýrari herir kölluðu á meiri miðstýringu sem varð til þess að smám saman jukust völd einvalda á kostnað aðalsins. Einnig varð með aukinni verslun og borgamyndun í Evrópu meiri losarabragur á nánum tengslum lénsherra, undirsáta og lands sem ríkt hafði á miðöldum til þess að grafa undan tilgangi lénsveldisins. Með einveldinu var lagður grundvöllurinn að þjóðríkjum í Evrópu, og ríkisvald eins og við þekkjum það í dag verður til þegar konungur fer að stjórna þegnum sínum án milligöngu aðalsins, í gegnum ráðherra og embættismenn sem hann skipar sjálfur. Með því að konungstignin gekk sjálfkrafa til næsta erfingja konungsins, gátu orðið til konungar sem voru óhæfir til að stjórna. Geðveikir einvaldar eins og Georg III á Englandi og Kristján VII í Danmörku gátu valdið miklum vandræðum án þess að nokkur gæti komið í veg fyrir valdatöku þeirra eða sett þá af. Einveldistímabilið einkenndist einnig af valdabaráttu milli aðalsins og borgarastéttarinnar sem kepptust um að ná völdum í ríkisstjórnum einvaldanna. Hugmyndin um hið upplýsta einveldi varð til með Upplýsingunni á 18. öld og einkenndist það af áhuga á umbótum og því að auka borgararéttindi. Eftir frönsku byltinguna og frelsisstríð Bandaríkjanna og eftir að þær lýðræðis og frelsis hugsjónir sem lágu til grundvallar þar fóru að njóta meiri vinsælda lét einveldið á sjá. Kröfur um stjórnarskrá sem væru bindandi grunnlög, óháð konungi, urðu háværar á 19. öld, og að lokum vék einveldið fyrir þingbundnu konungsvaldi í flestum konungsríkjum. Einveldi á Íslandi. Á Íslandi var einveldi Danakonungs staðfest með Erfðahyllingunni á Kópavogsfundinum árið 1662. Einveldi var svo afnumið í Danmörku 1849 en staða Íslands var óljós fram til stöðulaganna 1871 og má segja að þá hafi einveldið fyrst verið afnumið á Íslandi. Einveldi samtímans. Á vorum dögum eru einungis örfá ríki eftir í heiminum sem segja má að búi við einveldi, það eru Brúnei, Nepal, Svasíland og Vatíkanið. Lýðveldi. Táknmynd lýðveldisins í París, Frakklandi. Lýðveldi er tegund stjórnarfars þar sem að þjóðhöfðinginn er kjörinn eða útnefndur, oftast um ákveðinn tíma en embættið er ekki látið ganga í arf líkt og í konungsveldum. Það að land sé lýðveldi þarf ekki að merkja það að stjórnarfarið í því landi einkennist af lýðræði. Stundum er þjóðhöfðinginn kjörinn af þjóðinni sjálfri en stundum af kjörmönnum, þingi eða fámennri valdaklíku. Lýðveldi sem stjórnarfar er mjög gamalt en frægasta lýðveldi fornaldar er tvímælalaust Rómaveldi sem var lýðveldi frá 509 f.Kr. til 27 f.Kr. og fylgdi tveimur grundvallarlögmálum varðandi embætti ræðismanns eins og æðsta embætti ríkisins var kallað. Annars vegar var það að enginn skyldi gegna embættinu lengur en eitt ár og hins vegar það að aldrei skyldu færri en tveir menn gegna embættinu á sama tíma. Erfðaefni. Erfðaefni á við kjarnsýrurnar DKS eða RKS, sem hafa að geyma erfðafræðilegar upplýsingar, eða uppskrift fyrir byggingu frumna og röðun. Allar lífverur og veirur flytja með sér erfðaefni. Ríbósakjarnsýra. Ríbósakjarnasýra (skammstafað RKS, en þekktari undir ensku skammstöfuninni RNA) er kjarnsýra, sem finnst í umfrymi allra fruma. RKS er erfðaefni og flytjur erfðaupplýsingar frá DKS yfir í prótein, en bygging þess svipar mjög til DKS. Helstu gerðir RKS eru mRKS (mótandi RKS), rRKS (ríplu RKS) og tRKS (tilfærslu RKS). DNA. DNA (skammstöfun á enska heitinu "deoxyribonucleic acid", sjaldnar þekkt undir íslenska nafninu deoxýríbósakjarnsýra skammstafað sem DKS) er kjarnsýra sem myndar erfðaefni í öllum lífverum og sumum veirum. Hún er mynduð úr tveimur þráðum línulegra fjölliða af deoxýríbókirnum sem vefjast hvor um annan og mynda þannig form sem minnir á hringstiga. Röð kirnanna myndar kóða sem fruman getur lesið úr allar þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsemi sinni og hafa stjórn á einstökum lífefnafræðilegum ferlum. Gen eru DNA-bútar, sem geyma arfbærar uppýsingar um samsetningu prótína eða virkra RNA-sameinda. Stýrlar eru DNA-bútar sem stjórna því hvenær gen undir þeirra stjórn eru tjáð. Inni í frumum er DNA-sameindunum pakkað saman, með próteinum, í stórar einingar sem kallast litningar. Litningar eru mismargir í mismunandi lífverum (í mönnum eru 46 litningar) og samanlagt mynda þeir erfðamengi lífverunnar. Í heilkjörnungum er DNA-ið inni í kjarna frumunnar en í dreifkjörnungum er það í umfryminu. Þegar fruma skiptir sér er allt DNA-ið í frumunni eftirmyndað því nýju dóttur-frumurnar þurfa báðar að innihalda alla litninga lífverunnar. Í DNA eftirmyndun eru þræðirnir tveir aðskildir og nýjir þræðir myndaðir við þá báða. Nýju þræðirnir eru nákvæm eftirmynd gömlu þráðanna því ensímið DNA pólýmerasi sér um að para rétta basa við gömlu þræðina. Erfðavísir. Erfðavísir eða gen er bútur DKS kjarnsýrunnar, sem inniheldur upplýsingar um byggingu og eiginleika einstakra stórsameinda og þar með eiginleika fruma og lífveru. Erfitt hefur reynst að skilgreina Gen. Lengi voru gen skilgreind sem sá hluti erfðaefnis sem var umritaður yfir í RNA, sem var síðan þýtt í prótín, og auðvitað þær raðir sem nauðsynlegar voru fyrir stjórn á umritun, verkun og tjáningu. Rannsóknir sýna að sum gen eru ekki þýdd í prótín, þar sem RNA afrit af þeim "starfa" í frumunni. Til þessa hóps tilheyra tRNA gen, rRNA gen, snRNA gen og síðan nýuppgötvaðar sameindir sem kallast ncRNA (non coding RNA). Undir þetta falla miRNA, piwiRNA og lincRNA. Skólakerfið á Íslandi. Skólaskylda. Samkvæmt íslenskum lögum er skólaskylda í grunnskólum Íslands og er einstaklingum frá 6 til 16 ára aldurs skylt að sækja þá (nema veittar séu undanþágur). Námið er fyrrgreindum einstaklingum að kostnaðarlausu en ríkinu er skylt að kosta alla skólagönguna á meðan hún fellur undir aðalnámskrá. Tilheyrandi sveitarfélag sér síðan um rekstur hvers skóla en menntamálaráðuneytið sér um að ákvarða aðalnámskrá. Starfstími nemenda í grunnskóla er að lágmarki níu mánuðir og byrjar venjulega fyrir mánaðamótin ágúst/september og endar um mánaðamótin maí/júní. Kennsludagar skulu ekki vera færri en 170 samkvæmt aðalnámsskrá en samkvæmt kjarasamningum við kennara eru þeir 180. Skóladagar. Hver kennsludagur byrjar að morgni til (venjulega um eða rétt eftir kl. 8:00) og er samfelldur með eðlilegum stundahléum og matarhléi. Að lágmarki fimmtán mínútur skulu vera teknar í stundahlé fyrir hverjar 100 mínútur sem kenndar eru og matarhléið skal aldrei vera skemur en 30 mínútur. Í 1.-4. bekk eru að lágmarki 30 kennslustundir á viku, 5.-7. bekk 35 kennslustundir og 37 kennslustundir fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Meðallengd kennslustunda er 40 mínútur. Jólaleyfi grunnskólanemenda eru frá og með 21. desember til og með 3. janúar. Páskaleyfi eru frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Hægt er samt að færa til leyfin með skólanámskrá. Samræmd lokapróf. Í lok náms í 4. og 7. bekk skulu nemendur þreyta samræmd próf í íslensku og stærðfræði. Í 10. bekk mega þeir taka fyrrgreindar greinar auk ensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og dönsku og er tilgangurinn með þeim að sjá gengi hvers nemanda miðað við heildina.N̶i̶ð̶u̶r̶s̶t̶ö̶ð̶u̶r̶n̶a̶r̶ ̶ú̶r̶ ̶p̶r̶ó̶f̶u̶n̶u̶m̶ ̶í̶ ̶1̶0̶.̶ ̶b̶e̶k̶k̶ ̶m̶á̶ ̶n̶o̶t̶a̶ ̶t̶.̶d̶.̶ ̶v̶i̶ð̶ ̶m̶a̶t̶ ̶á̶ ̶þ̶e̶k̶k̶i̶n̶g̶u̶ ̶o̶g̶ ̶n̶á̶m̶s̶h̶æ̶f̶n̶i̶ ̶h̶v̶e̶r̶s̶ ̶n̶e̶m̶a̶n̶d̶a̶ ̶þ̶e̶g̶a̶r̶ ̶h̶a̶n̶n̶ ̶s̶æ̶k̶i̶r̶ ̶u̶m̶ ̶f̶r̶e̶k̶a̶r̶a̶ ̶n̶á̶m̶ ̶e̶ð̶a̶ ̶a̶t̶v̶i̶n̶n̶u̶ ̶s̶e̶m̶ ̶k̶r̶e̶f̶s̶t̶ ̶á̶k̶v̶e̶ð̶i̶n̶n̶a̶r̶ ̶h̶æ̶f̶n̶i̶ ̶í̶ ̶v̶i̶ð̶k̶o̶m̶a̶n̶d̶i̶ ̶g̶r̶e̶i̶n̶u̶m̶. Nemendur mega sleppa því að taka samræmdu prófin í 10. bekk en það minnkar rétt þeirra á að sækja framhaldsskóla og þarf að taka svokallaða "núll-áfanga" fyrir hverja grein sem sleppt var. Framhaldsskóli. Framhaldsskóli er hugsaður sem beint framhald af grunnskóla en ekki er skólaskylda. Hægt er að velja margar mismunandi brautir eftir námsáherslu og er hægt að útskrifast sem stúdent af brautum sem bjóða upp á 140 einingar eða fleiri í námskrá. Ólíkt grunnskóla, þá er námið eingöngu að hluta til styrkt af ríkinu og því þurfa nemendur að borga skólagjöld og fyrir það námsefni sem þeir þurfa. Tegundir náms. Tvær mismunandi tegundir framhaldnáms eru í boði og eru það iðnskóli og menntaskóli eða fjölbrautaskóli. Í iðnnámi er lögð áhersla á helstu kjarnagreinar, greinar sem nauðsynlegar eru fyrir námið og síðan verklegt nám í iðninni sem brautin tekur fyrir. Nemendur sem útskrifast úr iðnnámi fá opinbera staðfestingu til að stunda viðkomandi starfsgrein. Áherslan í menntaskóla er hins vegar bóklegt nám en minna er um verklegt nám en í iðnnámi. Bekkjakerfi og áfangakerfi. Framhaldsskólar hafa mismunandi fyrirkomulag við kennslu og eru helstu kerfin nefnd bekkjakerfi og áfangakerfi. Í bekkjakerfi eru nemendur settir í hópa eftir því hvaða braut þeir hafa valið sér og taka allir sömu fögin en lokaprófin eru tekin um vorið og vinnur nemandinn sér inn einingarnar þegar hann hefur staðist þau. Áfangakerfið er hins vegar frjálsara en bekkjarkerfi, þar sem hver og einn nemandi getur ráðið því hvaða greinar hann sækir um og fjölda þeirra, svo fremi að það sé innan leyfilegra marka. Nemendur bera því algera ábyrgð á því að velja eftir sínum hentugleika og að ákvarða rétta leið í átt að útskrift af brautinni. Skólatímabilið, ólíkt því í bekkjakerfi, er kallað önn og stendur í um fjóra til fimm mánuði í hvert skipti og eru lokapróf tekin í enda hverrar annar. Haustönn kallast skólatímabilið sem stendur frá seinni hluta ágúst og endar með prófum í desember en vorönn er tímabilið sem hefst í janúar og endar með prófum í maí. Skóladagur. Mismunandi er eftir stundatöflum hvenær hver nemandi byrjar skóladaginn og getur það verið mismunandi eftir skólatímabilum en venjulegur skóladagur byrjar rétt eftir kl. 8:00 að morgni og getur staðið þess vegna fram yfir kvöldmat (ekki endilega samfleytt) en það fer eftir skipulaginu á stundatöflunni. Í bekkjakerfi eru venjulega 40 mínútna kennslustundir á stundatöflu en í áfangakerfi er lengd kennslustundar mismunandi eftir skólum, oft á bilinu 40 mínútur til 1 klst. Einingakerfið. Til að teljast stúdent af einhverri ákveðinni braut, þá þarf nemandi að hafa lokið 140 einingum af brautinni. Hægt er að taka 2 eða fleiri brautir en hverjum áfanga þarf ekki að ljúka nema einu sinni. Hver áfangi hefur fjögurra stafa áfanganúmer en þeim seinasta er venjulega sleppt til einföldunar. Fyrsti tölustafurinn er venjulega númer áfangans í röðinni og verður að ljúka byrjunaráföngum áður en haldið er áfram. Annar tölustafurinn er notaður til aðgreiningar, til dæmis ef það eru margir áfangar innan sömu greinar á sama erfiðleikastigi. Þriðji tölustafurinn tilkynnir einingafjöldann sem að nemandi fær þegar hann hefur lokið námi í áfanganum. Fjórði og seinasti tölustafurinn, venjulega ekki skrifaður á stundatöflur, segir til um hve margar 40 mínútna kennslustundir eru kenndar í hverri viku í áfanganum. Venjulega er talan tvöfalt hærri en sú þriðja en það eru undantekningar frá því. Fall. Nemandi fellur á önn nái hann ekki níu einingum. Mjög fjölbreytt er hver lámarksmæting í kennslustundir er og fer það eftir skólum en ef lágmarks mætingu er ekki náð fellur nemandinn. Ef fallið er í sama fagi oftar en þrisvar þá er ekki frekari skólavist heimiluð. Þó eru undantekningar á þessu öllu. Upphafsstafaheiti. Upphafsstafaheiti er skammstöfun sem inniheldur eingöngu upphafsstafi. Gott dæmi er NATO - "North Atlantic Treaty O'"rganisation". Ýmsir hlutir tæknilegs eðlis heita slíkum nöfnum, svo sem eins og RADAR og LASER. Fyrra orðið kemur úr "RAdio Detection And R'"anging" og seinna orðið er soðið saman úr "Light Amplification by Stimulated Emission of R'"adiation". Allmargir hlutir í daglega lífinu heita slíkum nöfnum, sérstaklega í ensku en síður í íslensku. Hér hentar að nefna tvö dæmi: TV (frb. tíví, =television =sjónvarp) og jeep (hljóðlíking við GP =General Purpose, en það er umdeilt), sem er sú tegund bíla sem á íslensku kallast jeppi. Einnig hefur tíðkast að einstakar þjóðir nefni sig slíkum heitum, þó aðallega á prenti. Dæmi þess eru USA (United States of America), GB (Great Britain), SSSR (Soyuz Sovetskikh Sotsialisticheskikh Respublik) og svo UN (United Nations = Sameinuðu þjóðirnar). Upphafsstafaheiti eru venjulega mynduð úr fyrstu einum eða tveim stöfunum í hverju orði sem ekki er smáorð en þó er það stundum gert ef það hentar vel til að mynda meðfærilegri orð út úr skammstöfunum, sjá dæmi um samsetningu upphafsstafaheitisins RADAR hér að ofan. Önnur leið til að mynda heitin er að taka áherslustafi inn í miðjum orðum, sjá samsetningu TV hér að ofan. Machinae Supremacy. Machinae Supremacy er sænsk hljómsveit sem spilar SID-Metal, sem er afbrigði af harðkjarnatónlist sem notast við MOS Technology SID tölvukubbinn til þess að framkalla rafmögnuð tölvuhljóð sem þeir þekkja vel sem á sínum tíma spiluðu leiki á Commodore 64-tölvu. Tónlist "Machinae Supremacy" ber keim af tölvuleikjum fortíðar og sérstaklega leikjum á borð við "The Great Gianna Sisters", "Bubble Bobble" og öðrum í sama dúr. Machinae Supremacy gerði þemalagið fyrir Emily Booth, en það lag heitir Bouff. Einnig gerðu þeir tónlistina fyrir tölvuleikinn Jets'n'Guns "Sidology" er leikjasyrpa í þremur þáttum, og hafa þættir 1 og 3 verið gefnir út. Þrátt fyrir yfirlýsingar af hálfu söngvarans um að þáttur 2 yrði ekki gefinn út var þáttur 2 gefinn út á heimasíðu hljómsveitarinnar snemma árs 2006. GNU. GNU (ensk endurkvæmskammstöfun fyrir "GNU's Not U'"nix" eða "GNU er ekki Unix") er frjálst hugbúnaðarverkefni með það að markmiði að búa til frjálst stýrikerfi. Því var upprunalega ýtt af stokkunum í september 1983 af Richard Stallman. Samkvæmt Stallman er nafnið er borið fram "guh-NÚ" eða ˌgəˈnɯ eins og það er oftast skrifað í alþjóðlega hljóðstafrófinu. UNIX-stýrikerfið var þegar víðnotað þegar byrjað var að skrifa GNU, þar sem hönnun þess hafði þegar sannað sig, var ákveðið að gera GNU samhæft því. Hönnun UNIX gerði GNU kleift að skrifa eitt og eitt forrit í einu til að koma í stað fyrir álíka forrit í UNIX. Ekki þurfti þó að skrifa allt frá grunni þar sem ýmsir hlutar t.d. TeX og X-gluggakerfið voru þegar til og voru frjáls. Linus Torvalds skrifaði einnig Linux styrikerfiskjarnann fyrir GNU stýrikerfið og er oft talað um GNU stýrikerfið með undirliggjandi Linux kjarnann sem Linux eða jafnvel einfaldlega Linux þótt GNU sé oftast mun stærri hluti af grunnkóðanum. Saga. Tilkynnt var um verkefnið í bréfi sem sent var þann 27. september 1983 á Usenet fréttahópana net.unix-wizards og net.usoft. Vinna við stýrikerfið byrjaði þó ekki á fullu fyrr en 5. janúar 1984 þegar Stallman sagði starfi sínu hjá MIT lausu sökum ótta við það að MIT myndi kasta eign sinni á GNU og/eða trufla dreifingu þess sem frjáls hugbúnaðar. Um árið 1990 var GNU stýrikerfið nánast tilbúið; það vantaði bara stýrikerfiskjarnann —– Hurd (venjulega kallaður „the Hurd“), en Hurd er ensk skammstöfun fyrir „Hird of Unix-Replacing Daemons“ og þar er Hird aftur (ensk) skammstöfun á „Hurd of Interfaces Representing Depth“. Það má því segja að skammstöfunin sé endurkvæm í tveim skrefum. Erfðafræði. Erfðafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á því hvernig eiginleikar berast á milli kynslóða. Þeir sem leggja stund á greinina kallast erfðafræðingar. Erfðafræðin skiptist upp í nokkrar undirgreinar, og skarast einnig við aðrar greinar t.d. í líffræði og læknisfræði. Staðalaðstæður. Staðalaðstæður eða staðalskilyrði eru þær umhverfisaðstæður sem reynt er að hafa ríkjandi þegar efnafræðilegar tilraunir eru framkvæmdar. Þessar stöðluðu aðstæður eru "stofuhiti", þ.e. hiti 20°C (293,15 K) og "staðalþrýstingur", þ.e. loftþrýstingnn 1 loftþyngd = 1013,25 hPa (hektópasköl). Á ensku eru staðalaðstæður táknaðar með skammstöfuninni STP, sem stendur fyrir "Standard Temperature and Pressure". Skilgreining staðalaðstæðna er þó reyndar mjög á reiki og er stundum miðað við hitastigið 0 °C og stundum 25 °C. Einnig er stundum miðað við það hitastig og þrýsting þar sem jafnvægisklofnunarstuðull vatns er 10-14. Sætistala. Sætistala (Z) er hugtak notað í efnafræði og eðlisfræði sem stendur fyrir fjölda róteinda í kjarna frumeinda. Í óhlaðinni frumeind er fjöldi rafeinda sá sami og fjöldi róteinda. Sætistala átti upprunalega um sæti frumefnis í lotukerfinu. Þegar Mendeleev raðaði frumefnunum, sem þekkt voru á hans tíma, eftir efnafræðilegum eiginleikum, var það augljóst að ef þeim var raðað í röð eftir atómmassa kom í ljós nokkuð ósamræmi. Sem dæmi, ef joði og tellúr var raðað í röð eftir atómmassa, virtust þau vera í vitlausri röð, en ef þeim var víxlað pössuðu þau betur. Með því að raða þeim í röð eftir líkum efnafræðilegum eiginleikum, var tala þeirra í kerfinu sætistala þeirra. Þessi tala virtist vera næstum í hlutfalli við massa frumeindanna, en eins og þetta misræmi gat með sér, virtist sætistalan endurspegla einhverna annann eiginleika en massa. Þessi frávik í röðun voru loksins útskýrð eftir rannsóknir af Henry Moseley árið 1913. Moseley uppgötvaði skýrt samband milli röntgengeislabrotrófs frumefna og staðsetningu þeirra í lotukerfinu. Það var seinna sýnt fram á að sætistalan samsvaraði rafhleðslu kjarnans — með öðrum orðum fjölda róteinda. Það er þessi hleðsla sem að gefur frumefnunum efnisfræðilega eiginleika þeirra, frekar en atómmassinn. Sætistala er náskyld massatölunni (þó að ekki skyldi rugla þeim saman) sem er fjöldi róteinda og nifteinda í frumeindakjarnanum. Massatalan kemur oft á eftir nafni frumefnisins t.d. kolefni-14 (sem notað er í aldursákvörðun með geislakolum). Bobby Fischer. Robert James Fischer (fæddur í Chicago 9. mars 1943 – dáinn í Reykjavík 17. janúar 2008), best þekktur sem Bobby Fischer, var bandarískur stórmeistari í skák og fyrrverandi heimsmeistari í skák undir merkjum FIDE, sem síðar hlaut íslenskan ríkisborgararétt. Hann gjörsigraði FIDE heimsmeistarann Boris Spasskíj í Einvígi aldarinnar í Reykjavík 1. september 1972 og varð þar með fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vera krýndur heimsmeistari í skák. (Hinn bandaríski Paul Morphy var almennt talinn heimsmeistari í skák um miðbik 19.aldar, en háði þó aldrei opinbert einvígi um titilinn.) Heimsmeistaratitillinn rann honum úr greipum 3. apríl 1975, þegar hann neitaði að verja titilinn gegn áskorandanum Anatolíj Karpov. Bobby Fisher var þekktur sem einn iðnasti og hæfileikaríkasti skákmaður sögunnar, en einnig fyrir óútreiknanlega hegðun sína og öfgafullar stjórnmálaskoðanir, litaðar af gyðingahatri og fyrirlitningu á Bandaríkjunum. Þrátt fyrir langa fjarveru frá skákkeppnum var hann enn meðal þekktustu skákmanna veraldar. (Fischer var þó sjálfur gyðingur enda báðir foreldrar hans líklega af gyðingaættum.) Fischer virti að vettugi alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Júgóslavíu þegar hann tefldi skákeinvígi við Spasskíj í Sveti Stefan árið 1992. Eftir einvígið var hann eftirlýstur í Bandaríkjunum og eigur hans þar gerðar upptækar. Hann fluttist seinna til Japans, en var hnepptur í fangelsi þegar vegabréf hans rann út. Hann sótti í framhaldi um landvistarleyfi á Íslandi með bréfi til Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, 26. nóvember 2004. Þann 15. desember 2004 var honum veitt landvistarleyfi, en bandarískum stjórnvöldum mislíkaði ákvörðunin og fóru þess á leit að leyfið yrði afturkallað. Eftir að í ljós kom að dvalarleyfi á Íslandi væri ekki nóg til þess að japönsk stjórnvöld framseldu hann til Íslands sendi hann alþingi bréf í janúar 2005 þar sem hann fór þess á leit að fá íslenskan ríkisborgararétt. Málið var tekið fyrir af allsherjarnefnd þingsins sem ákvað þann 17. febrúar að mæla ekki með því við þingið að Fischer fengi ríkisborgararétt. Nokkrum dögum síðar samþykktu stjórnvöld þó að gefa út svokallað útlendingavegabréf handa Fischer. Í ljós kom samkvæmt yfirlýsingum japanskra embættismanna að vegabréfið eitt og sér dygði ekki til þess að leyfa Fischer að fara til Íslands, þá kom beiðnin um ríkisborgararétt aftur upp. Þann 17. mars tók allsherjarnefnd beiðnina fyrir aftur og samþykkti daginn eftir að mæla með því við alþingi að Fischer yrði veittur ríkisborgararéttur. Þann 21. mars samþykkti alþingi það svo án umræðna og með 42 samhljóða atkvæðum (21 þingmaður var fjarverandi) að veita Fischer ríkisborgararétt. Fischer var svo leystur úr haldi 23. mars 2005 og flaug til Íslands sama dag. Hann bjó í Reykjavík til æviloka og lést eftir baráttu við alvarleg nýrnaveikindi. Fischer dvaldist á sjúkrahúsi í Reykjavík í október og nóvember 2007, en síðan á heimili sínu.. Síðustu orð hans, samkvæmt Magnúsi Skúlasyni, sem sat hjá honum þeger hann lést voru: „Ekkert linar þjáningar eins og mannleg snerting.“ Fischer var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk í kirkjugarði Laugardæla í Flóa þann 21. janúar 2008. 5. júlí 2010 var lík Fischers grafið upp til að ná í lífsýni, sem notað var í erfðamáli, sem aðstandendur Filippseysku stúlkunnar "Jinky Ong" höfðuðu. DNA-próf sýndi að Fischer var ekki faðir stúlkunnar. Þann 8. apríl 2011 féll dómur Hæstaréttar, sem dæmdi "Myoko Watai" eina erfingja Fischers. Þolfall. Þolfall er fall sem fallorð geta staðið í. Það er almennt notað fyrir beint andlag, en einnig er frumlag nafnháttar í óbeinni ræðu oft haft í þolfalli. Þolfall í forngrísku. Í óbeinni ræðu er frumlag nafnháttar haft í þolfalli, nema ef gerandi stýrandi sagnar er sá sami og gerandi nafnháttarins, en þá er frumlag nafnháttarins (ef tekið fram) í nefnifalli. Þolfall í íslensku. Þolfall er eitt af fjórum föllum í íslensku. Það er almennt notað fyrir beint andlag og margar forsetningar stýra þolfalli en auk þess stendur frumlag ópersónulegra sagna oft í þolfalli. Enn fremur getur aukafallsliður í þolfalli haft sérhæfðara hlutverk í íslensku, þ.á m. Í óbeinni ræðu er frumlag nafnháttar haft í þolfalli. Dæmi: „Hann sagði manninn hlaupa“ (þar sem „manninn“ er frumlag sagnarinnar „hlaupa“ í óbeinu ræðunni „manninn hlaupa“) Þolfall í latínu. Í óbeinni ræðu er frumlag nafnháttar haft í þolfalli. Dæmi: "Scio te haec egisse" („ég veit að þú gerðir þetta“). Eignarfall. Eignarfall er fall sem fallorð geta staðið í. Ýmsar forsetningar stýra eignarfalli og í sumum málum stýra ýmsar sagnir eignarfalli. Einnig getur eignarfallið staðið með öðru fallorði og gefið til kynna ákveðin tengsl þess, sem orðið í eignarfalli stendur fyrir, og þess, sem stýrandi orð stendur fyrir. Mörg tungumál hafa eignarfall, þeirra á meðal: arabíska, finnska, georgíska, gríska, hollenska, írska, íslenska, latína, litháíska, pólska, rússneska, sanskrít, og þýska. Eignarfall í latínu. Föll Vika. Vika er mælieining fyrir tíma, sem er lengri en dagur og styttri en mánuður. Í flestum nútíma tímatölum, þar á meðal gregoríska tímatalinu, er ein vika sjö dagar. Samkvæmt hefð er sunnudagur talinn sem fyrsti dagur vikunnar í kristnum löndum, eins og sést t.d. á nafninu "þriðjudagur". Með tilkomu ISO 8601 staðalsins hefur þetta breyst í mörgum löndum þar sem ný vika hefst nú á mánudegi. Þessi munur skiptir t.d. máli þegar vikunúmer eru notuð. Oft er einnig rætt um "viðskiptaviku" eða "vinnuviku" í þessu sambandi. Dagatöl evrópskra ríkja hefjast þannig yfirleitt á mánudegi, en í t.d. Bandaríkjunum er algengara að reikna frá sunnudegi. Dagarnir mánudagur til föstudags nefnast "virkir dagar", en laugardagur og sunnudagur "helgi- eða frídagar" og til samans kallast þeir "helgi". Pierre-Simon Laplace. Pierre-Simon Marquis de Laplace (28. mars 1749 – 5. mars 1827) var franskur stærðfræðingur. Hann var þekktastur fyrir fimm binda rit sitt um hreyfingu reikistjarna, Mécanique céleste, og einnig grundvallarrannsóknir í líkindafræði. Laplace jók við þyngdaraflskenningu Newtons. Laplacevirkinn er nefndur eftir honum og sömuleðis jafna Laplace og Laplacevörpun. Djöfull LaPlaces. Hann var þeirrar skoðunar að um leið og allar upphafsaðstæður einhvers lokaðs aflfræðilegs kerfis, svo sem alheimsins, væru þekktar, mætti sjá alla þróun og lok kerfisins fyrir. Þessi kenning telst til löghyggju og er mjög einkennandi fyrir hugarfar vísindamanna í kjölfar Upplýsingarinnar. Þegar Napoleon spurði hann hvar og hvernig guð passaði inn í kenninguna, svarði hann því til að hann hefði enga þörf fyrir þá tilgátu. Hann var um skamma hríð innanríkisráðherra í stjórn Napoleons. Laplace, Pierre-Simon Joseph-Louis Lagrange. Joseph-Louis Lagrange (25. janúar 1736 – 10. apríl 1813) var franskur stærðfræðingur. Sumir telja hann einn mesta stærðfræðing 18. aldar, jafnvel næstan á eftir Euler. Hann fæddist í Torino á Ítalíu og bjó þar fyrri hluta ævinnar, en settist síðar að í París og er jafnan talinn franskur. Hann tók við af Euler sem prófessor við háskólann í Berlín og þar eru flest stórvirki hans unnin. Þau ná yfir öll svið stærðfræði þeirra tíma. Hann er þekktastur fyrir niðurstöður sínar á sviði talnafræði og algebru auk ritsins "Mécanique analytique", sem fjallar um aflfræði og kom út 1788. Lagrange-fallið og Lagrange rithátturinn eru nefnd í höfuðið á honum. Lagrange, Joseph Louis Samlagning. Samlagning er reikniaðgerð þar sem tveir liðir eru sameinaðir í einn en nafnið er komið af því "að leggja saman". Hún er skilgreind með merki sem kallast "plús", táknað með +, og er staðsett á milli liðanna þar sem framkvæma á aðgerðina. Þessi stærðfræðiaðgerð er ein af þeim fyrstu sem börn læra í grunnskóla en hún er mikilvægur grunnur að stærðfræðilegri þekkingu. Niðurstaða (útkoma) samlagningar nefnist summa eða sjaldnar samtala. Allar venjulegar tölur eru gerðar úr ákveðnum fjölda af einingum (t.d. er talan 1 notuð sem eining í rauntölukerfinu) og þegar einhverjar tölur eru lagðar saman, þá er einingafjöldinn sameinaður og úr verður nýr fjöldi af einingum. Talan 2 hefur tvær einingar og talan 7 hefur sjö einingar og þegar tölurnar eru lagðar saman er tveim einingum bætt við töluna 7 (eða öfugt) og talið hve margar einingar verður út úr því. Hægt er að telja þetta í huganum og bætt 2 einingum við 7 með því að bæta við einni einingu í einu við 7 tvisvar sinnum og fá þannig út 9. Það er erfiðara að reikna þetta í huganum ef unnið er með stærri tölur en hægt er að stytta sér leið með því að taka 5, 10, 50, 100 eða fleiri þægilegri tölur í einu. Það fer síðan eftir æfingunni hve stórar tölur hægt er að taka með þessari aðferð en þegar tölurnar eru of flóknar eða of stórar, þá er hægt að nota reiknivél eða skrifa útreikninginn á pappír. Samlagning er í öllum tilvikum víxlin aðgerð, þ.a. ekki skiptir máli í hvaða röð tölur eru lagðar saman. Talan núll er samlagningarhlutleysa, þ.a. ef núll er lagt við tölu verður útkoman undantekningarlaust jöfn tölunni sem núll var lagt við. Sömu nefnarar. formula_1 Ólíkir nefnarar. Nú vandast málin þegar 2 almenn brot eru lögð saman og hafa ólíka nefnara. Þegar það gerist, þá er fundinn minnsti samnefnari og brotin síðan stytt eða lengd eftir þörfum. Í dæminu er minnsti samnefnarinn 12. formula_2 Frádráttur. Frádráttur er reikniaðgerð þar sem seinni liðurinn er "dreginn frá" liðinum á undan en nafnið er komið frá því. Hann er skilgreindur með merki sem kallast mínus, táknað með bandstriki –, og er staðsett á milli liðanna þar sem framkvæma á aðgerðina. Þessi stærðfræðiaðgerð er eitt af því fyrsta sem börn læra í grunnskóla en hún er mikilvægur grunnur að stærðfræðilegri þekkingu. Allar tölur eru gerðar úr ákveðnum fjölda af einingum (t.d. í rauntölukerfinu er talan 1 notuð sem eining) og þegar einhver tala er dregin frá annarri, þá eru jafn margar einingar teknar í burtu frá fyrri tölunni og eru í þeirri seinni. Ef tekið er dæmi um að draga töluna 2 frá tölunni 7, þá eru teknar 2 einingar frá tölunni 7 og séð hve margar einingar eru eftir. Hægt er að reikna þetta í huganum og taka 2 einingar frá 7 með því að taka eina einingu í einu frá 7 tvisvar sinnum og fá þannig út 5. Það er erfiðara að reikna þetta í huganum ef unnið er með stærri tölur en hægt er að stytta sér leið með því að taka 5, 10, 50, 100 eða fleiri þægilegri tölur í einu. Það fer síðan eftir æfingunni hve stórar tölur hægt er að taka með þessari aðferð en þegar tölurnar eru of flóknar eða of stórar, þá er hægt að nota reiknivél eða skrifa útreikninginn á pappír. Niðurstaða frádráttar tveggja talna nefnist mismunur talnanna. Sömu nefnarar. formula_1 Ólíkir nefnarar. Nú vandast málin þegar almennt brot er dregið frá öðru og hafa ólíka nefnara. Þegar það gerist, þá er fundinn minnsti samnefnari og brotin síðan stytt eða lengd eftir þörfum. formula_2 Deiling. Deiling er sú reikniaðgerð, sem er andhverfa margföldunar. Hægt er að túlka deilingu sem ítrekaðan frádrátt (hversu oft er hægt að draga seinni þáttinn frá þeim fyrri áður en afgangurinn er minni en seinni þátturinn). Deiling er oft táknuð með skástriki og er staðsett á milli liðanna þar sem framkvæma á aðgerðina. Einnig getur deiling verið sett upp sem almennt brot. Deiling er eitt af því fyrsta sem börn læra í grunnskóla en hún er mikilvægur grunnur að stærðfræðilegri þekkingu. Margar leiðir eru til að reikna út deilingu og eru þær mismunandi flóknar. Ein þeirra er að finna út hve oft seinni talan gengur upp í þá fyrri. T.d. ef reiknað er formula_1, þá er reiknað út hve oft talan 5 gengur upp í töluna 70, sem er 14 sinnum. Útkoman úr formula_1 er því 14. Málin flækjast all verulega ef fyrri talan gengur ekki upp í þá seinni, t.d. formula_3. Deiling með almennum brotum. Þegar almenn brot eru deild í önnur almenn brot, þá skal víxla teljaranum og nefnaranum í seinna brotinu og framkvæma síðan margföldun. Síðan á að margfalda teljarana og nefnarana saman í sitt hvoru lagi. T.d. formula_4 formula_5 Margföldun. Margföldun er reikniaðgerð þar sem hlutföll fyrri þáttarins er breytt eftir því hvað seinni þátturinn skilgreinir - eða öfugt. Hlutfallið 1 skilgreinir óbreytt ástand en aðrar tölur eða algebrustærðir skilgreina breytingu. Það er skilgreint með punkti (eða stjörnu) í miðjunni og er staðsett á milli liðanna þar sem framkvæma á aðgerðina. Þessi reikniaðgerð er ein af þeim fyrstu sem börn læra í grunnskóla en hún er mikilvægur grunnur að stærðfræðilegri þekkingu. Þegar um er að ræða 2 tölur, þá er fyrri talan lögð við sjálfa sig jafn oft og seinni talan segir til um - eða öfugt. Ólíkt frádrætti eða deilingu, þá skiptir engu máli hvor talan er á undan í margföldun, m.ö.o. þá er margföldun talna víxlin aðgerð. (Margföldun fylkja er þó ekki víxlin.) Ef tekið er dæmi um margföldun á tölunum 2 og 7, þá er annað hvort hægt að margfalda 2 með 7 eða 7 með 2 en venjulega er stærri talan höfð fyrst til að einfalda hlutina. Þegar 2 tölur eru margfaldaðar, þá er meint að fyrri talan er lögð saman við töluna 0 jafn oft og seinni talan segir til um. Ef notað er fyrra dæmi um 7 og 2, þá er talan 2 lögð við 0 svo að út kemur 2, en tölunni 2 er síðan aftur bætt við útkomuna svo að út kemur 4, síðan 6, og heldur svona áfram þangað til henni hefur verið bætt við samtals 7 sinnum og endar síðan með tölunni 14. Ef að dæminu er snúið við og 7 er aðaltalan, þá er 7 eingöngu bætt við 0 tvisvar sinnum og þá kemur líka út 14. Talan einn er margföldunarhlutleysa, þ.a. ef margfaldað er með einum er útkoman alltaf jöfn hinni tölunni, sem margfaldað var með. Margföldun með núll gefur undantekningalaust útkomuna núll. Margföldun með almennum brotum. Þegar almenn brot eru margfölduð, þá skal margfalda teljarana og nefnarana saman í sitt hvoru lagi. T.d. formula_1 formula_2 Ferningstala. Ferningstala er heil tala sem er jöfn annarri heilli tölu í öðru veldi. Þegar eitthvað er í öðru veldi, þá hefur það verið margfaldað með sjálfu sér einu sinni. Talan sem sett var í annað veldi, kallast ferningsrót ferningstölunnar. Lægstu ferningstölurnar eru 1, 4, 9, 16, 25, 36, 49, 64, 81 og 100. Ferningstalan fyrir 4 er 16 þar sem formula_1. Ferningstalan fyrir neikvæða tölu eða tákn er alltaf jákvæð. Ferningstalan fyrir -4 er því 16 eins og með 4. Hinsvegar er ferningstalan af tvinntölu neikvæð rauntala eða tvinntala. Til að finna ferning af almennu broti, þá skal finna ferningstölu fyrir bæði teljara og nefnara sjálfstætt. T.d. formula_2 formula_3 Colin Maclaurin. Colin Maclaurin (febrúar 1698 – 14. júní 1746) var skoskur stærðfræðingur. Hann skaraði fram úr breskum stærðfræðingum í næstu kynslóð á eftir Newton. Hann dýpkaði og bætti við örsmæðareikning. Í kennslubók hans koma fram margar mikilvægar niðurstöður, en Maclaurinröð, sem við hann er kennd er í raun bara sérútgáfa af Taylorröð, sem var þekkt alllöngu áður og er kennd við Brook Taylor. Maclaurin, Colin Ferningsrót. Ferningsrót eða kvaðratrót af rótarstofni "a" er sú jákvæða tala sem margfölduð sjálfri sér gefur rótarstofninn, þar sem "a" er jákvæð tala tala undir rótarmerki. Tölurnar núll og einn eru ferningsrætur sjáfra sinna. Ferningsrót af s.n. ferningstölu er heiltala. Ferningsrótin af rótarstofninum 9 er 3, þar sem formula_1. Hins vegar er formula_2 þó að (-3) sé ekki ferningsrót af 9. Ferningsrótin af 9 er skrifuð sem formula_3. formula_4 er |formula_5| þar sem ferningsrótin og annað veldið fella hvort annað úr gildi. formula_6 er hins vegar formula_7 þar sem formula_8. Þegar ferningsrót er dregin af veldi, þá deilist í veldisvísinn með tveimur. Til að finna ferningsrót af almennu broti skal finna ferningsrót af teljara og nefnara sjálfstætt. T.d. formula_9 Deiling og margföldun róta. formula_10 "Reglan gildir eingöngu ef rótarvísir er hinn sami." Þvertölur. Neikvæðar tölur hafa ekki ferningsrót í mengi rauntalna. Það er vegna þess að í hvert sinn sem venjuleg tala er hafin í annað veldi er útkoman jákvæð tala. Til að ráða bug á þessu má búa til nýjan hlut sem gegnir því hlutverki að vera ferningsrót tölunnar -1. Þessi stærðfræðihlutur er jafnan ritaður formula_12 og er kölluð þvertalan með lengd 1. Þannig er formula_13. René Descartes. René Descartes einnig þekktur sem Cartesius á latínu (31. mars 1596 – 11. febrúar 1650) var franskur stærðfræðingur og heimspekingur og vísindamaður. Descartes er stundum nefndur „faðir nútímaheimspeki“ og „faðir nútímastærðfræði“ en mikið af nýaldarheimspeki var beinlínis viðbragð við kenningum hans. Æviágrip. Descartes fæddist í La Haye en Touraine (en bærinn heitir í dag Descartes) í Indre-et-Loire í Frakklandi. Móðir hans, Jeanne Brochard, lést úr berklum þegar hann var eins árs gamall. Faðir hans, Joachim, var hæstaréttardómari. Þegar Descartes var ellefu ára gamall hóf hann nám hjá jesúítum í hinum konunglega skóla Hinriks mikla í La Flèche. Að náminu loknu lá leiðin til háskólans í Poitiers, þaðan sem Descartes brautskráðist með gráðu í lögfræði árið 1616. Faðir Descartes ætlaði honum að verða lögfræðingur. En Descartes starfaði aldrei sem lögfræðingur. Árið 1618 gekk hann í þjónustu Maurice frá Nassau í Hollandi. Descartes hugðist skoða heiminn og uppgötva sannleikann. Þann 10. nóvember 1618 kynntist Descartes Isaac Beeckman, sem glæddi áhuga hans á stærðfræði og hinni nýju eðlisfræði. Ári síðar, 10. nóvember 1619, var Descartes á ferðalagi um Þýskaland og var hugsi um beitingu stærðfræðinnar til að leysa vandamál í eðlisfræði. Hann dreymdi draum þar sem hann „uppgötvaði undirstöður merkilegra vísinda“. Undirstöðurnar sem Descartes dreymdi um urðu síðar að hnitarúmfræði þeirri sem Descartes fann upp. Hann helgaði líf sitt rannsóknum í stærðfræði, heimspeki og vísindum. Descartes las sér einnig til um hugmynd Ágústínusar um frjálsan vilja, þ.e. að vilji okkar sé óháður vilja guðs. Árið 1622 sneri Descartes aftur til Frakklands. Næstu árum varði hann í París og víðar í Evrópu. Hann hélt til La Haye árið 1623, seldi þar allar eignir sínar og fjárfesti í skuldabréfum. Arðurinn nægði Descartes til að framfleyta sér til æviloka. Árið 1628 flutti hann til Hollands og einbeitti sér að ritstörfum sínum. Árið 1633 fordæmdi Rómversk-kaþólska kirkjan Galileo Galilei. Í kjölfarið hætti Descartes við að gefa út rit sitt "Um heiminn", sem hann hafði unnið að undanfarin fjögur ár. Rit Descartes "Orðræða um aðferð" kom út árið 1637. Hann hélt áfram að semja og gefa út rit um stærðfræði og heimspeki. Árið 1643 fordæmdi háskólinn í Utrecht heimspekilegar kenningar Descartes. Descartes átti í miklum bréfaskriftum vegna þessa. Árið 1663, að Descartes látnum, lét Alexander VII páfi setja rit Descartes á lista yfir bannfærðar bækur. Descartes lést 11. febrúar 1650 í Stokkhólmi í Svíþjóð, þar sem hann var gestur Kristínar Svíjadrottingar. Dánarorsök var sögð vera lungnabólga. Andlátsorð hans voru „ça, mon âme, il faut partir“ eða „Jæja, sál mín, tími til að fara“ Descartes var borinn til grafar í kirkjugarði Adolf Friðriks-kirkjunnar í Stokkhólmi. Jarðneskar leifar hans voru síðar grafnar upp og fluttar til Frakklands þar sem þeim var komið fyrir í Sainte-Geneviève-du-Mont-kirkjunni í París. Leifar hans voru fluttar enn á ný á dögum frönsku byltingarinnar, að þessu sinni til Panthéon í París þar sem margir að merkustu vísindamönnum Frakka eru grafnir. Grafhvelfing hans er nú í Saint-Germain-des-Prés-kirkjunni í París. Þorpið þar sem hann fæddist var nefnt "La Haye – Descartes" árið 1802 og stytt í Descartes árið 1967. Stærðfræði. Descartes varð þekktur fyrir nýjungar sínar sem fólust í því að nota algebru við lausnir rúmfræðilegra verkefna og einnig á hinn bóginn að nota rúmfræði við lausnir algebruverkefna. Þetta svið stærðfræðinnar er nú þekkt sem „analytísk“ rúmfræði eða hnitarúmfræði. Descartes skrifaði og gaf út bókina "La Géométrie", en fyrstu hugmyndir hans um hnitareikning komu út sem dæmi í bókinni "Orðræða um aðferð" ("Discourse de la méthode") 1637. Kartesískt hnitakerfi er nefnt eftir honum. Heimspeki. Enda þótt heimspeki Descartes sé að einhverju leyti viðleitni til þess að losna undan áhrifum eldri spekinga fela ýmsir þættir í heimspeki hans í sér áhrif frá eldri kenningum, til dæmis aristótelisma, stóuspeki, sem naut vinsælda á ný á 16. öld, og frá kenningum Ágústínusar. Descartes var einn mikilvægasti hugsuður rökhyggjunnar á 17. öld, ásamt hugsuðunum Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz. Hann beitti aðferðafræðilega efahyggju, sem gjarnan er kennd við Descartes en er þó er ekki réttnefnd efahyggja, heldur felst hún í því að vefengja kerfisbundið eigin hugmyndir og trú í þeim tilgangi að finna vísindalegri þekkingu öruggan grundvöll. Það eina sem hann gat ekki efast um var eigin tilvist úr því að hann efaðist. Þetta dró hann saman í þessa frægu setningu: Ég hugsa, þess vegna er ég til (latína: "Cogito, ergo sum"). Frá þessum upphafspunkti leiddi hann út ýmsa aðra þekkingu. Þetta viðhorf, að alla þekkingu verði að reisa á öruggum grunni, nefnist bjarghyggja um þekkingu. Descartes hafnaði aristótelísku greiningunni á efnislegum hlutum í efni og form sem verið hafði viðtekin í skólaspeki. Hann hafnaði einnig markhyggjuskýringum á náttúrufyrirbærum. Hugspeki og sálfræði. Descartes gerði skýran mun á sál og líkama. Samkvæmt kenningu hans um tvíhyggju sálar og líkama stjórnast öll líkamsstarfsemi af lögmálum, til dæmis berast boð um sársauka eftir taug til heilans þegar við komumst í snertingu við eld. Hins vegar taldi hann að mannssálin stjórnaðist ekki af vélrænum lögmálum heldur varð að kanna hana með sjálfsskoðun og íhugun. Hann taldi að það væri heilaköngullinn sem væri aðsetur hugans og tengdi saman samskipti milli hugar og líkama. Heilaköngullinn er eina líffærið í heilanum sem er ekki tvískipt og því hélt hann að hann sæi um einhvers konar tengsl milli þess andlega og líkamlega. Descartes kom einnig með nýjar uppgötvanir í líffræðilegri sálfræði, þótt hann hafi verið uppi löngu áður en sálfræði var viðurkennd fræðigrein. Hann var með þeim fyrstu til að reyna að skýra ákveðna hegðun með líffræðilegum þáttum, sbr. rannsóknir hans á taugakerfinu og viðbrögðum mannsins við sársauka. Trú. Fræðimenn hafa deilt ákaft um hver trúarviðhorf Renés Descartes raunverulega voru. Hann kvaðst sjálfur vera dyggur kaþólikki og hélt því fram að eitt markmiða sinna í "Hugleiðingum um frumspeki" hafi verið að verja kristna trú. Descartes var aftur á móti sakaður um það á sínum tíma að aðhyllast frumgyðistrú á laun eða jafnvel guðleysi. Samtímamaður hans, Blaise Pascal, sagði „Ég get ekki fyrirgefið Descartes. Í allri sinni heimspeki reyndi hann að ýta guði til hliðar. En Descartes gat ekki komist hjá því að nota guð til þess að setja heiminn í gang með sínum guðdómlega fingrasmelli. En eftir það hafði Descartes ekki meiri not fyrir guð.“ Í ævisögu Descartes eftir Stephen Gaukroger kemur fram að „hann hafði djúpstæða guðstrú sem kaþólikki og hélt henni allt til æviloka ásamt harðákveðinni og ástríðufullri þrá eftir því að uppgötva sannleikann.“ Að Descartes látnum í Svíþjóð afsalaði Kristín Svíadrottning sér krúnunni og snerist til kaþólskrar trúar (en samkvæmt sænskum lögum varð þjóðhöfðinginn að vera mótmælenda trúar). Descartes var eini kaþólikkinn sem hún átti verulegt samneyti við. Tenglar. Descartes, René Descartes, René Descartes, René Hippías. Hippías frá Elís var uppi um 430 f. Kr., og var því yngri samtímamaður Prótógórasar og Sókratesar. Hann þótti mjög fjölhæfur maður og vann sér virðingu samborgara sinna með því að starfa sem sendiherra. Í Aþenu kynntist hann Sókratesi og öðrum leiðandi hugsuðum þess tíma. Hann var mjög sjálfsöruggur líkt og margir sófistar, og sagðist vera viðurkenndur sérfræðingur um öll svið, en hann hélt marga fyrirlestra og græddi á þeim öllum, hvort sem að það var ljóðlist, málfræði, sagnfræði, stjórnmálafræði, fornleifafræði, stærðfræði eða stjarnvísindi. Hann var alveg óhemjumontinn, en hafði líka vit og færni til þess að réttlæta það. Platon þótti hann það áhugaverður að hann skrifaði tvær bækur um samræður við hann, "Hippías meiri" og "Hippías minni", sem gefa skýra mynd af aðferðafræði hans, þótt að þær séu án efa mjög ýktar. Hippías er án efa þekktastur fyrir það stærðfræðilega fall sem kallast Quadratrix Hippiasar. Quadratrix Hippíasar. Quadratrix Hippíasar, eða ferningsmargliða Hippíasar, er stærðfræðilegt fall sem er hannað með það í huga að finna þrískiptingu horns eða til þess að finna ferning með sama flatarmál og tiltekinn hringur. Þó svo að ferningun hrings sé ógerleg, þá er hægt að þrískipta horni með ferningsmargliðunni. Að ferninga hring. Að ferninga hring er sú forna þraut að teikna ferning með flatarmál nákvæmlega jafnt einhverjum tilteknum hring með hringfara og ókvarðaðri reglustriku. Fólk leitaðist við að finna slíka ferninga í um tvær árþúsundir. Saga. Fyrstur manna til þess að reyna við þetta var líklega Anaxagóras. Hippias komst nokkuð nærri lagi með Quadratrixinu sínu, en þó er það ekki nægilega nákvæmt til þess að geta sagt að þrautin sé leyst. Árið 1882 kom hinsvegar skýring á því af hverju þetta var svona mikið vandamál þegar að þýski stærðfræðingurinn Ferdinand Lindemann sannaði að π væri torræð tala, en það hefur í för með sér að ómögulegt er að ferninga hring. Um 350 f.Kr. notaði Dinostratus Quadratrix Hippiasar til þess að reyna við þessa þraut. Þá virkar það þannig að hringurinn er skorinn í fjórar jafnar sneiðar, og ein sneiðin, sem hefur ferilinn frá B til D í gegnum E, þar sem að E er hvaða punktur sem er sem að hefur fasta fjarlægð frá A á myndinni hér til hliðar, er skorin í þrennt með Quadratrixinu og sú lína kölluð BG. Þá mætir Quadratrixinn línunni AD í punktinum G og, þannig að lengd ummáls hringsins er lýst í lengdum beinna lína. Þessar beinu línur má svo nota til þess að byggja rétthyrning (ónákvæman þó) sem að hefur flatarmál jafnt flatarmáli hringsins. Nálganir á π. Til þess að áætla π eru til margar reglur. En þó gildir að alveg sama hversu vel þessar reglur reynast til þess að komast ansi nærri π, þá er engin þeirra fullnægjandi jafna fyrir π, og þangað til að slík jafna finnst er π álitin óræð, og þar með er ekki til nein aðferð til þess að finna ferning með nákvæmlega sama flatarmál og tiltekinn hringur í Evklíðsku rúmi – þó er það hægt í Gauss-Bolyai-Lobachevski rúmi, eins og Gray sannaði árið 1989. Augustin Louis Cauchy. Augustin Louis Cauchy (f. 21. ágúst 1789, d. 23. maí 1857) var franskur stærðfræðingur sem skaraði fram úr í Frakklandi á fyrri hluta 19. aldar. Hann skrifaði fjölda stærðfræðilegra ritgerða, líklega um 800 talsins. Hann er talinn vera aðalfrumkvöðull formfestu (rigor) í stærðfræðigreiningu. Hann skilgreindi samfelldni og samleitni með því að hagnýta skilgreiningu markgildis. Einnig ruddi hann brautina í tvinnfallagreiningu. Cauchyruna og ójafna Cauchy-Schwarz er kenndar við hann. Cauchy, Augustin Louis Jakob Bernoulli. Jakob (eða Jacques) Bernoulli (1654 – 1705) var svissneskur stærðfræðingur. Fjölskyldan bjó í Basel. Nokkrir bræður hans voru miklir stærðfræðingar einnig, sérstaklega Johann Bernoulli. Jakob lagði mest til mála á sviði örsmæðareiknings og líkindafræði. Bókin Ars conjectandi (Listin að draga ályktanir) kom út að honum látnum árið 1713. Bernoulli, Jakob Johann Bernoulli. thumb Johann (eða Jean) Bernoulli (27. júlí 1667 – 1. janúar 1748) var svissneskur stærðfræðingur. Hann var bróðir Jakobs Bernoullis og faðir Daniels Bernoullis. Johann lagði ýmislegt til mála í örsmæðareikningi, meðal annars uppgötvaði hann regluna um markgildi ræðra falla, þegar bæði teljari og nefnari stefna á núll eða á óendanlegt, sem ranglega er kennd við l'Hôpital. Sagt er að Jóhann hafi verið skuldugur greifanum l'Hôpital og að hann hafi sent honum þessa reglu og sönnun hennar sem greiðslu upp í lán. Bernoulli, Johann Rúmmál. Rúmmál er hugtak notað yfir umfang hlutar eða svæðis í þrívíðu rúmi. SI-mælieining er rúmmetri, táknaður með formula_1. Fyrir hverja lengri lengdareiningu, þá skal færa kommuna um 3 tölur til vinstri. Fyrir hverja styttri lengdareiningu, þá skal færa kommuna um 3 tölur til hægri. T.d. er formula_2 en annars er cm eingöngu 10 sinnum stærri en mm. Rúmmál yfir í lítra. formula_3 = 1000 lítrar formula_4 = 1 lítri formula_5 = 0,001 lítri Ferstrendingur. formula_6 Sívalningur. formula_7 Pýramídi. formula_8 Keila. formula_9 Kúla. formula_10 Mælingar og mælitæki. Yfirfallsker er einfalt tæki til að mæla rúmmál hluta eða rúmmetra. Kerið er fyllt af vökva og hlutinn sem mæla á látinn síga ofan í það. Vökvinn sem lekur úr kerinu er mældur og hann gefur þá upp rúmmál hlutarins í millilítrum. Veldi (stærðfræði). þar sem veldisstofninum formula_2 er margfaldað jafn oft við sjálfan sig og veldisvísirinn formula_3 gerir grein fyrir, en sé veldisvísirinn 0 er útkoman 1. Sem dæmi má nefna að formula_4 (fjórir í þriðja veldi) jafngildir formula_5. Í þessu dæmi er veldisstofninn formula_6 og 3 veldisvísirinn. Eingöngu er hægt að sameina veldi ef að stofninn er sá sami. Veldi eru sameinuð með því að leggja saman veldisvísana. formula_7, til dæmis formula_8 Sömuleiðis gildir það með deilingu: formula_9, til dæmis formula_10 Einnig gildir: formula_11, til dæmis formula_12 Athugið að eftirfarandi gildir: formula_13 Ástæðan er sú að veldisvísarnir eru reiknaðir fyrst frá hægri til vinstri í veldum. Þetta má rekja til tetra-reiknings. Aðgreina þarf með svigum ef leysa á úr veldum frá vinstri til hægri. Neikvæð veldi eru notuð til að tákna tölur eða tákn sem hafa gildi milli 0 og 1. Hægt er að finna gildi þeirra með því að sleppa formerkjunum í veldisvísinum og deila í 1. formula_14 Einnig skal athugað að formula_15 fyrir öll hugsanleg gildi á formula_16 Almenn brot sem veldisvísar. Hægt er að tákna kvaðratrót í veldum, en í þeim tilvikum, þá eru notuð almenn brot. Nefnarinn er þá kvaðratrótin sem stofninn er í og teljarinn er veldisvísirinn. Það er síðan hafið í veldi skilgreint með nefnara. formula_17 formula_19 Þegar stofn er í formula_20 veldi, þá er þetta jafnt kvaðratrótinni af stofninum. T.d. formula_21 23. desember. 23. desember er 357. dagur ársins (358. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 8 dagar eru eftir af árinu. Dagur þessi er Þorláksmessa á Íslandi. Vetrarsólstöður geta orðið á þessum degi á norðurhveli jarðar. Sveitarfélagið Árborg. Árborg er sveitarfélag á Suðurlandi, vestan til í Flóanum. Það varð til 7. júní 1998 við sameiningu 4 sveitarfélaga: Selfossbæjar, Eyrarbakkahrepps, Stokkseyrarhrepps og Sandvíkurhrepps. Fall (málfræði). Föll eru fyrirbæri í sumum tungumálum sem notuð eru til þess að breyta eðli fallorða eftir kringumstæðum eða umræðuefni. Misjafnt er eftir tungumálum hvaða orðflokkar teljast til fallorða, en í íslensku teljast til þeirra nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð og greinir. Í íslensku telst þolfallið, þágufallið og eignarfallið til aukafalla. Hér er listi yfir þau föll sem til eru í ýmsum tungumálum. Alls ekki öll tungumál hafa orð sem beygjast í föllum, raunar mjög fá, en þó er upptalningin hér að neðan hvergi tæmandi. Almennt brot. Mynd af köku þar sem einn fjórða (formula_1) vantar og þrír fjórðungshlutar eru eftir— þ.e.a.s. formula_2 Almennt brot er tala táknuð sem hlutfall tveggja talna "a" og "b" ritað sem formula_3 (lesið „"a" á móti "b"“ eða „"a" af "b"“) þar sem deilt er í "teljarann" "a" með "nefnaranum" "b" þar sem nefnarinn "b" jafngildir ekki núlli. Blandnar tölur. Blandnar tölur eru almennt brot og heil tala, sem mynda eina heild. Heiltöludeiling er notuð til að finna út blandnar tölur. Samlagning brota. Eins með frádrátt nema þá er sett mínus í stað plús í dæminu og útkoman verður formula_7. Ákveðnir annmarkar eru þó á þessari aðferð, þegar að sameiginlegur nefnari er ekki til. Í þeim tilfellum eru brotin gerð samhverf, áður en þau eru lögð saman. Slík umhverfa kallast samlagningsumhverfa. Margföldun brota. Brot eru margfölduð saman með því að margfalda saman nefnarana og teljarana í sitthvoru lagi og eftir það eru brotin yfirleitt stytt ef hægt er. Dæmi Deiling brota. Þegar brotum er deilt hvoru í annað er teljari útkomunnar fundinn með því að taka teljara brotsins sem deilt er í og margfalda með nefnara brotsins sem deilt er með. Nefnari útkomunnar er nefnari brotsins sem deilt er í, margfaldaður með teljara brotsins sem deilt er með. Dæmi Stytting brota. Stytting almennra brota felst í því að gera teljara og nefnara að eins lágum tölum og hægt er, án þess að gildi brotsins breytist. Til dæmis hefur formula_11 sama gildi og formula_5 en í seinna brotinu koma fyrir mun lægri tölur. Almenn brot eru stytt með því að finna sameiginlega frumþætti í teljara og nefnara og deila þeim út. Til dæmis hefur talan 75 frumþættina 3, 5 og 5 en talan 100 frumþættina 2, 2, 5 og 5. Sameiginlegir frumþættir eru því 5 og 5 og ef þeim er deilt út úr bæði teljara og nefnara þá verður eftir 3 í teljaranum og 4 í nefnaranum. Þar með er búið að finna að og brotið er orðið fullstytt þar sem "3" og "4" eru ósamþátta. Lenging brota. Þegar brot eru lögð saman eða dregin frá hvort öðru er oft þörf á að lengja brotin til þess að þau hafi öll sama nefnara. Í því tilviki er fundinn minnsti sameiginlegi nefnari sem allir nefnararnir ganga upp í og brotin lengd eftir þörfum. September. September eða septembermánuður er níundi mánuður ársins og er nefndur eftir latneska töluorðinu "septem" sem þýðir „sjö“. September var sjöundi mánuðurinn í latneska dagatalinu, en janúar og febrúar voru 11. og 12. mánuður ársins, sem þá hófst 1. mars. Október. Október eða októbermánuður er tíundi mánuður ársins og er nefndur eftir latneska töluorðinu "octo" sem þýðir „átta“. Október var áttundi mánuðurinn í latneska dagatalinu, en janúar og febrúar voru 11. og 12. mánuður ársins, sem þá hófst 1. mars. Nóvember. Nóvember eða nóvembermánuður er ellefti mánuður ársins og er nefndur eftir latneska töluorðinu "novem" sem þýðir „níu“. Nóvember var níundi mánuðurinn í latneska dagatalinu, en janúar og febrúar voru 11. og 12. mánuður ársins, sem þá hófst 1. mars. Í nóvember eru 30 dagar. Desember. Desember eða desembermánuður er tólfti og síðasti mánuður ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. Hann er nefndur eftir latneska töluorðinu "decem" sem þýðir tíu (enda oft skrifaður Xber á latínu). Desember var tíundi mánuðurinn í latneska dagatalinu, en janúar og febrúar voru 11. og 12. mánuður ársins, sem þá hófst 1. mars. Daniel Bernoulli. Daniel Bernoulli (8. febrúar 1700 í Groningen – 17. mars 1782 í Basel) var svissneskur eðlis– og stærðfræðingur. Hann var sonur Johanns Bernoulli, sem var mikill stærðfræðingur eins og flestir bræður hans. Daniel er þekktastur fyrir útreikninga sína á sviði vökvaaflfræði. Bernoulli, Daniel Nicholas Bourbaki. Nicholas Bourbaki er dulnefni hóps stærðfræðinga, sem flestir eru franskir. Undir þessu nafni hafa verið skrifaðar margar bækur um stærðfræðileg efni, sem eiga að verða eins konar alfræðibók stærðfræðinnar undir nafninu "Éléments de mathématique". Lengi vel var talið að Nicholas Bourbaki væri einhver einn stærðfræðingur, en nú er löngu ljóst að þetta er hópur manna, enda hafa skrif undir þessu nafni verið að birtast síðan 1939. Menn greinir á um það hvort áhrif þessara skrifa séu til góðs eða ills, en þau eru vissulega nokkuð mikil og eftir þeim hefur verið tekið. Bourbaki hefur verið merkisberi þeirrar stefnu sem á ensku hefur verið kölluð Structuralist School í nútíma stærðfræði. Girolamo Cardano. Girolamo Cardano (24. september 1501 – 21. september 1576) var ítalskur eðlisfræðingur og stærðfræðingur. Hann skrifaði bókina "Ars Magna" ("Hin mikla list") og þar lýsir hann því í fyrsta sinn á prenti, hvernig hægt sé að leysa almenna þriðja stigs og fjórða stigs jöfnu með algebru. Hann hafði ekki fundið lausnina sjálfur, heldur var það stærðfræðingurinn Tartaglia, sem fyrstur leysti þetta vandamál og svo Ludovico Ferrari á eftir honum. Samt sem áður var Cardano mikill stærðfræðingur á sviði algebru og hornafræði. Cardano, Girolamo Cardano, Girolamo Skipting ríkisvaldsins. Kenningar um skiptingu ríkisvaldsins eru raktar til 18. aldar heimspekinga og fræðimanna upplýsingarinnar, einkum þeirra Montesquieus, sem setti fram hugmyndir sínar þess efnis í bók sinni "Andi laganna", og Johns Locke. John Locke er þeirra eldri og kom upphaflega með hugmyndina sem Montesquieu fullkomnaði og breiddi út. Kenningin gerir ráð fyrir að ríkisvaldinu sé skipt í jafn réttháa þætti, oftast þrjá: löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Hver þáttur átti að takmarka og tempra hinn. Þetta átti að minnka líkur á ofríki og geðþóttastjórn. Óvíða er reglunni fylgt út í hörgul. Í löndum sem búa við þingræði velur í raun löggjafarsamkundan æðstu handhafa framkvæmdavalsins.. Flest lýðfrjáls ríki styðjast við þessa kenningu að mismiklu leyti þó. Þættir ríkisvaldsins. Hlutverk einstakra þátta er því eftirfarandi: Löggjafarvald setur lög. Framkvæmdavald framkvæmir en þó aðeins það sem lög kveða á um. Dómstólar úrskurða í ágreiningsmálulm um lagaleg efni sem til þeirra er skotið. Þetta er mikilvægt. Framkvæmdavald hefur aðeins heimild til að framkvæma það sem lög segja til um og dómstólar eru bundnir við lög í dómum sínum og geta aðeins beitt valdi sínu í málum sem til þeirra er skotið þ.e. þeir geta ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði. Algengast er að lagafrumvörp sem ná fram að ganga í þingræðislöndum séu undan rifjum framkvæmdavaldsins komin. Sérhverjum þingmanni og ráðherra er heimilt að leggja fram frumvörp en fæst þingmannafrumvörp ná því að verða að lögum. Þingið getur komið skilaboðum um vilja sinn til framkvæmdavaldsins í formi þingsályktana. Slíkar samþykktir hafa ekki lagagildi þ.e. þær setja aðeins þrýsting á framkvæmdavaldið. Dómstólar dæma eftir lögum í víðum skilningi og eingöngu eftir lögum. Þeim væri t.d. óheimilt að fara að fyrirmælum framkvæmdavaldsins. Dómstólar dæma m.a. um embættistakmörk stjórnvalda, þ.e. hvort þau fara að lögum og hvort lög standist kröfur stjórnarskrár. Ísland. Ísland er lýðveldi. Þjóðhöfðinginn - forsetinn - er þjóðkjörinn til fjögura ára í senn. Vald forseta er lítið og verður helst virkt við stjórnarmyndanir. Skv. stjórnarskrá fara forseti og Alþingi með löggjafarvaldið, forseti og ríkisstjórn með framkvæmdavaldið og dómstólar með dómsvaldið. Vald forseta er takmarkað og er aðallega táknrænt. Á Íslandi er þingræði og takmarkast þrígreining valdsins hér eins og að ofan greinir. Forsetinn er ábyrgðarlaus um störf sín og lætur stjórnvöld framkvæma vald sitt. Þrátt fyrir ákvæði stjórnarsrkár þá voru dómstólar í héraði lítt sjálfstæðir á Íslandi fram til ársins 1989 - sjá lög um aðskilnað framkvæmdavalds og dómsvalds. Sýslumenn landsins voru í senn yfirmenn löggæslu og höfðu með höndum víðtækt framkvæmdavald, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Þeir voru jafnframt dómarar í héraði. Þessu var breytt með fyrrnefndum lögum og breytingu á öllum sérlögum um réttarfar. Hluti þeirra athafna sem áður töldust dómsathafnir, svo sem þinglýsingar, töldust eftir breytinguna framkvæmdavaldsgerðir, sem síðan má bera undir dómstóla. Mörg dæmi eru um að dómstólar sinni sínu takmarkandi og temprandi hlutverki m.a. með því að dæma að lög ríði í bága við stjórnarskrá og að stjórnvöld fari ekki að lögum. Nýlegur dómur féll þess efnis að inngrip stjórnvalda og Alþingis í launakjör dómara stæðist ekki vegna þess að slíkt skerti sjálfstæði þeirra. Slíkur dómur byggir á sjónarmiðum þrígreiningar ríkisvaldsins. Skattur. Skattur er gjald eða önnur álagning sem sett er á einstaklinga eða lögaðila (fyrirtæki og stofnunar) af ríkinu eða jafngildi ríkis (t.d. af ættbálk, aðskilnaðarhreyfingu, byltingarhreyfingu o.fl.).Skattur er reiknaður af eignum, tekjum o.fl. Sumir líta á skatta sem nauðungargjald en flestir sem sameiginleg útgjöld til að halda uppi siðmenntuðu þjóðfélagi (mennta-, heilbrigðis- og vegakerfi t.d.). "Beinir skattar" eru skattar innheimtir hjá þeim sem ætlað er að bera þá. "Óbeinir skattar" skattar einkum lagðir á neysluvöru, venjulega eftir verðmæti þeirra. Trúfrelsi. Trúfrelsi er frelsi einstaklinga til að velja hvaða trúfélagi þeir vilja tilheyra eða að standa utan trúfélaga eða að hafna trú á yfirnáttúrulegar verur (trúleysi). Þýðir að öllum er frjálst er iðka hvaða trú sem er, svo fremur sem það brjóti ekki á réttindum annarra. Í sumum löndum er þó ekkert eða lítið trúfrelsi og geta einstaklingar verið drepnir fyrir það sem þeir trúa á, hvort sem sá verknaður er unnin af hálfu stjórnvalda eða æstra múga. Í stjórnarskrám flestra iðnríkja er getið þess að algjört trúfrelsi skuli ríkja en í mörgum þeirra hallast stjórnvöld frekar að einu ákveðnu trúfélagi og getur það gengið svo langt að harðar milliríkjadeilur og jafnvel stríð eru hafin vegna trúarbragða. Á Íslandi ríkir trúfrelsi, en Þjóðkirkja Íslands nýtur „verndar og stuðnings“ ríkisstjórnarinnar skv. stjórnarskránni og laun presta eru greidd úr ríkissjóði. Mótsögn. Mótsögn er setning, orðræða eða hugsun, sem í senn heldur einhverju fram og mótmælir því í sömu andrá. Hugtakið merkir að eitthvað stangast á. Hægt er að stangast á við eitthvað annað en það merkir að mismunandi niðurstöður eru á nákvæmlega sama hlutnum en síðan er hægt að vera í mótsögn við sjálfan sig en þá er það sama persónan sem kemur með þessar mismunandi niðurstöður á því sama. Ef það eru t.d. tvær bækur og önnur þeirra segir að 2 + 2 = 5 en hin segir 2 + 2 = 3, í því tilviki er sagt að bækurnar séu í mótsögn við hvor aðra. En hins vegar ef þessar niðurstöður væru í sömu bókinni, þá væri bókin í mótsögn við sjálfa sig. Þótt það komi tvær mótsagnir, þá þarf ekki endilega að þýða að önnur þeirra sé sönn ef hin er það ekki, þær gætu báðar verið rangar. Hægt er að leiða út svokallaða "óbeina sönnun" með því að fullyrða sem svo að ef formula_1 þá formula_2 (ef yrðingin formula_1 er sönn þá er yrðingin formula_2 sönn) og gera ráð fyrir að formula_1 sé sönn en formula_2 ósönn. Þessar forsendur myndu þá leiða til fjarstæðu eða mótsagnar við eitthvað sem við álítum vera satt (t.d. formula_1 eða jafnvel að formula_8). Með öðrum orðum að ef formula_2 er ósönn þá er eitthvað annað (sem við gerum ráð fyrir að sé satt) ósatt líka. Þetta stenst ekki, og þá hefur verið sannað að formula_2 sé sönn þegar formula_1 sé sönn. Ein frægasta mótsögn í stærðfræðisönnun allra tíma er sönnun Evklíðs á því að talan formula_12 sé óræð tala (þ.e. ómögulegt að skrifa hana sem brot). Getraun. Getraunir hafa verið við lýði í lengri tíma og ekki hafa vinsældirnar minnkað yfir tíðina. Þær byggjast á því að fólk greiðir fyrir þátttöku í þeim og ef það er nógu heppið til að vinna, þá fær það margfalda fjárhæðina til baka. Því minni sem líkurnar eru á vinningi, því meira er í verðlaun og hvetur það fólk til að taka þátt. Nú á tímum eru margar skemmtanir í formi getrauna eins og happdrætti, 1x2, veðhlaupabrautir,spilakassar og happdrættismiðar. Biblían. Biblían er safn trúarrita, sem sum eru meira en 2000 ára gömul en önnur nokkru yngri. Orðið Biblía er grískt og þýðir „bækur“ (sbr. alþjóðlega orðið "bibliotek"). Biblían skiptist í tvo aðalhluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið og fjallar fyrrnefndi hlutinn um sköpun jarðar, upphaf mannfólksins, syndaflóðið, lögmálið, frelsun Ísraels og fólks hans frá Egyptalandi, afhendingu boðorðanna 10 og sýnir og vitranir spámannanna, svo eitthvað sé nefnt. Seinni hlutinn (Nýja testamentið) fjallar um fæðingu Jesú, lærisveina hans, krossfestingu hans og upprisu. Því næst fylgja ýmis bréf sem send voru af lærisveinunum og að lokum spádómsbók um endalok tilvistar okkar á jörðinni. Sumar útgáfur af biblíunni, m.a. biblía 21. aldar, skjóta svokölluðum Apókrýfuritum gamla testamentisins inn milli testamentanna. Nokkur trúarbrögð álíta rit biblíunnar heilög og byggja trú sína meira eða minna á þeim. Meðal þessara trúarbragða eru gyðingdómur, kristni (Sem skiptist í margar kirkjudeildir, svo sem kaþólska trú, rétttrúnað og mótmælendatrú), mormónatrú, vottar Jehóva og íslam. Þessi trúarbrögð eru þó ekki alveg sammála um hvaða rit eigi heima í biblíunni. Biblían á íslensku. Þegar Íslendingar tóku kristni um 1000, þurftu menn að geta útskýrt hinn nýja sið fyrir almenningi í landinu. Meðal hins fyrsta sem ritað var á íslensku voru "þýðingar helgar", sem getur bæði átt við ýmiss konar trúarlegar útleggingar, en einnig þýðingar á ritum Biblíunnar. Elstu biblíutextar sem til eru á íslensku eru taldir frá 12. öld, og er þar yfirleitt um að ræða stutta kafla eða tilvitnanir í Biblíuna. Á 13. öld virðist hafa verið unnið markvissar að því að þýða og endursegja einstök rit Biblíunnar, og var þessum þýðingum safnað saman um 1350 í ritsafn sem kallað er Stjórn. Ekki er útlilokað að öll Biblían hafi verið til í íslenskri þýðingu á 14. öld, en ekki hefur tekist að sýna fram á það. Biblía kaþólsku kirkjunnar var eingöngu á latínu, svo nefnd Vúlgata-útgáfa. Með siðaskiptunum þurfti íslenska Biblíu. Oddur Gottskálksson steig fyrsta skrefið og þýddi Nýja testamentið á íslensku, og fékk það gefið út í Hróarskeldu 1540. Þýðingin var gerð eftir Vúlgata-útgáfunni á latínu, en Oddur studdist einnig við þýska þýðingu Marteins Lúthers. Guðbrandur Þorláksson lauk svo verkinu og gaf út heildarþýðingu biblíunnar á Hólum 1584. Þýðing Guðbrandsbiblíu byggir á biblíu Lúthers og hinni dönsku biblíu Kristjáns III. Nýja testamentið í Guðbrandsbiblíu er texti Odds Gottskálkssonar með lagfæringum. Ekki er vitað hverjir þýddu Gamla testamentið. Talið er að Oddur Gottskálksson hafi þýtt Sálmana og Gissur Einarsson hefur verið talinn þýðandi Orðskviða Salómons og Síraksbókar. Hugsanlegt er að Guðbrandur hafi sjálfur þýtt önnur rit Gamla testamentisins. Alls liggja fyrir 11 útgáfur Biblíunnar á íslensku, og hefur þýðingin verið endurskoðuð meira eða minna í þeim flestum. Hið íslenska Biblíufélag var stofnað 1815 og hefur síðan séð um íslenskar útgáfur Biblíunnar. Lög. Lög í samfélagi manna eru þær reglur sem leyfa eða banna ákveðna hegðun eða mæla fyrir um það hvernig samskiptum milli einstaklinga og annarra lögaðila skuli háttað. Lögin eiga að tryggja að í meðferð yfirvalda ríki jafnræði á meðal fólks og þau mæla fyrir um refsingar til handa þeim sem brjóta á viðurkenndum hegðunarreglum samfélagsins. Kínversk stjórnmálastefna sem byggir á að nota lög við stjórnun ríkis (bókstafshlýðni) kemur frá tíma hinna þúsund heimspekinga í Kína, helstu mótbárur gegn því að nota lög til að stjórna ríkinu komu frá fylgismönnum Konfúsíusar, þar sem lögin voru notuð til að banna þeirra sið. Síðar varð konfúsíusarhyggja ríkjandi í Kína allt til valdatöku maóista á 20. öldinni. Stjórnarskrá. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er líklega þekktasta dæmi um stjórnarskrá. Stjórnarskrá er heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkis. Stjórnarskrá getur verið í formi eins ákveðins skjals eða hún getur verið dreifð í mörgum rituðum textum, hún getur einnig verið óskrifuð að miklu eða öllu leyti, til dæmis geta hefðir og venjur haft stjórnskipulegt gildi og þannig verið hluti af stjórnarskránni. Það nefnist stjórnarskrárbrot ef hún er brotin eða lög sett sem stangast á við hana. Í sumum löndum, t.d. í Frakklandi er sérstakur stjórnarskrárdómstóll sem sker úr því hvort svo sé. Annars staðar eins og í Bandaríkjunum geta allir dómstólar dæmt mál eftir stjórnarskránni en oftast lendir það í hlut hæsta rétts Bandaríkjanna. Stjórnarskrá í einu skjali. Algengasta notkun orðsins stjórnarskrá lýsir einu afmörkuðu skjali þar sem stjórnskipan ríkisins er ákvörðuð með lagagreinum. Í slíkum stjórnarskrám er farið yfir það hverjir setja lög, skiptingu valds á milli stofnanna og takmarkanir valds. Þar eru einnig oft ákvæði um borgaraleg réttindi s.s. jafnræði, tjáningarfrelsi, trúfrelsi, ferðafrelsi, félagafrelsi o.fl. Stjórnarskráin er álitin vera æðstu lög ríkisins sem öll önnur lög verða að taka mið af. Þar sem stjórnarskrár eru taldar mikilvægari en almenn lög er yfirleitt leitast við að gera breytingar á þeim erfiðari en á almennum lögum og er það gert með ýmsum hætti. Stundum þarf aukinn meirihluta á löggjafarþingi til þess að samþykkja breytinguna. Í sumum ríkjum þarf að halda nýjar þingkosningar sem þarf svo að staðfesta breytingarnar. Í sambandsríkjum getur þurft ákveðinn fjölda aðildarríkjanna að leggja blessun sína yfir breytinguna. Í Þýskalandi eru breytingar á hluta stjórnarskrárinnar óheimilar með öllu. Stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1787 var með fyrstu stjórnarskránna á þessu formi og sú elsta sem er enn í gildi. Flest ríki hafa í dag stjórnarskrá á þessu formi. Kostur slíkra stjórnarskrárskjala er álitinn vera auðveldara aðgengi hins almenna borgara að stjórnarskránni þar sem reglurnar eru samankomnar á einum stað og þurfa oftast ekki mikillar túlkunar við. Stjórnarskrá Íslands var samþykkt sem lög við lýðveldisstofnunina, 17. júní 1944. Dreifð stjórnarskrá. Í ríkjum sem hafa dreifða stjórnarskrá er ekkert eitt skjal sem hægt er að kalla stjórnarskrá heldur er stjórnskipunin byggð á reglum úr ýmsum áttum, bæði skrifuðum reglum sem og óskrifuðum. Þessi hefð hefur skapast í Bretlandi og þar og í nokkrum löndum sem eru fyrrverandi breskar nýlendur er þessi hátturinn hafður á. Óskrifaðar reglur í þessu samhengi eru til dæmis venjur, hefðir og fordæmi. Skrifaðar reglur er hinsvegar að finna í ýmsum skjölum, í Bretlandi eru það aðallega ýmsir lagabálkar frá þinginu sem eru álitnir mikilvægari en aðrir, til dæmis þeir sem veita þegnunum ákveðin réttindi. Einstakir fornir textar frá því áður en þingið varð til eru einnig taldir hafa stjórnskipulegt gildi, t.d. Magna Carta. Það ber þó að hafa í huga að á Bretlandi er þingræði grundvallarregla og er þinginu engin takmörk sett í löggjafarvaldi sínu. Það þýðir að öllum lagabálkum er hægt að breyta með sama hætti, hvort sem um er að ræða lög sem talin eru hafa stjórnskipunarlegt gildi eður ei. Lýðveldisstofnunin. Lýðveldisstofnunin átti sér stað á fyrri hluta ársins 1944. Alþingi ályktaði 25. febrúar 1944 um að slíta formlega konungssambandinu við Danmörku í samræmi við sambandslögin frá 1918 og stofna lýðveldi. Jafnframt ákvað Alþingi að dagana 20.-23. maí 1944 skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla til synjunar eða staðfestingar á ákvörðun þingins. Eftir yfirgnæfandi staðfestingu þjóðarinnar var Lýðveldishátiðin haldin þann 17. júní 1944 þar sem Alþingi ákvað með formlegum hætti að slíta sambandinun, stofna Lýðveldið Ísland og kjósa forseta. Þjóðaratkvæðagreiðslan 20.-23. maí 1944. Með ályktun Alþingis 25. febrúar 1944 var því lýst yfir að sambandssamningurinn frá 1918 væri úr gild. Um leið ákvað Alþingi að yfirlýsing þessi skyldi borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Jafnframt skyldi greiða atkvæði um framvarp til væntanlegrar stjórnarskrár lýðveldisins. Er Alþingi hafði svo fyrir mælt, setti það þegar í stað lög um framkvæmd og tilhögun atkvæðagreiðslunnar, er fram skyldi fara dagana 20. - 23. maí, og niðurstöður hennar því næst leggjast fyrir Alþingi er það kæmi saman að nýju hinn 16. júní. Kjörfundur hófst kl. 12:00 laugardaginn 20. maí og lauk á miðnætti þriðjudagins 23. maí 1944. Á forsíðu Morgunblaðsins fimmtudaginn 25. maí 1944 segir að kjörsókn hafi verið 98%. Samkvæmt forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 26. maí 1944 var niðurstaðan sú að af þeim ríflega 48.100 manns sem greiddu atkvæði voru 99,5% samþykkir sambandsslitum við Dani og 98,3% stofnun lýðveldisins. Með því gaf íslenska þjóðin samþykki sitt fyrir sambandsslitum við Dani og stofnun Lýðveldisins. Lýðveldishátíðin. Lýðveldishátíðin var haldin á Þingvöllum þann 17. júní 1944. Klukkan 13:30 setti forsætisráðherra, dr. jur. Björn Þórðarson, hátíðina með ávarpi. Eftir það var haldin guðsþjónusta. Kl. 13:55 var fundur sameinaðs Alþingis settur og þingsályktun Alþingis frá 16. júní tekin til dagskrár. Að því loknu hringdi forseti sameinaðs þings bjöllu og var klukkan þá nákvæmlega 14.00. Lýðveldisfáninn var síðan dreginn að hún og þingmenn risu úr sætum um leið og kirkjuklukkum var hringt yfir mannfjöldan og um allt land í 2 mínútur frá Útvarpsstöðinni í Reykjavík. Eftir ávarp forseta sameinaðs þings, samþykkti Alþingi einróma að frá og með þeim degi skyldi Ísland vera lýðveldi. Að því búnu kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins, Svein Björnsson, en hann er eini forseti Íslands, sem aldrei var til þess embættis kjörinn af þjóðinni. Loks setti Alþingi þennan sama dag fánalögin svokölluðu, en það eru lög um gerð og notkun þjóðfána Íslendinga. Mannréttindi. Mannréttindi eru hugmyndin um að allir menn njóti ákveðinna grundvallarréttinda sem ekki verða af þeim tekin og eru í gildi í hvaða lögsögu sem er og óháð þáttum eins og kyni, þjóðerni eða kynþætti. Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir samþykkt fjölmargra þjóða á yfirlýsingu, sem kallast Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og er hún eða efnisatriði hennar víða stjórnarskrárbundin, eða með öðrum hætti tryggt að borgararnir njóti þess réttar sem þar er áskilinn. Sumar svæðisbundnar stofnanir hafa einnig samþykkt mannréttindasaminga, þróaðasta dæmi þess er Mannréttindasáttmáli Evrópu á vegum Evrópuráðsins. Sá samningur hefur mikið vægi í aðildarríkjunum og einstaklingar innan þeirra geta farið með kvörtunarefni sín fyrir sérstakan dómstól. Gerðir mannréttinda. Mannréttindum er gjarnan skipt niður í frelsi og réttindi (stundum nefnd neikvæð og jákvæð réttindi eða griðaréttur og gæðaréttur). Neikvæð réttindi eða griðaréttur samsvarar aðhaldsskyldu og eru þau sem að krefjast aðgerðarleysis (að borgararnir séu látnir í friði) og eru til dæmis tjáningarfrelsi, trúfrelsi og fundafrelsi. Jákvæð réttindi eða gæðaréttur eru aftur á móti þau réttindi sem að ríki hafa jákvæða skyldu eða svokallaða verknaðarskyldu til að tryggja borgurum sínum, eins og réttur til menntunar, heilbrigðis og lífsviðurværis. Þó er hægt að tryggja frelsi með því að varna nokkrum frá því að brjóta gegn því. Þriðja kynslóðin nýtur minnstrar viðurkenningar enn sem komið er. Mannréttindi í stjórnarskránni. Sjöundi kafli Stjórnarskrár Íslands er svokallaður "mannréttindakafli". Þar er meðal annars kveðið á um að ekki skuli lögleiða nema hefðbundna ritskoðun, og þá aðeins til að tryggja allsherjarreglu eða öryggi ríkisins. Pyndingar og nauðungarvinna eru bannaðar með öllu. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga kallast barátta íslensku þjóðarinnar fyrir sjálfsákvörðunarrétti í eigin málum, innri og ytri. Segja má að þessi barátta hafi staðið allt frá því að þjóðin glataði sjálfstæði sínu er Gamli sáttmáli var gerður við Hákon gamla árið 1262 og allt til 1918 er Ísland var viðurkennt frjálst og fullvalda ríki með eigið þing og eigin ríkisstjórn. Þessi barátta var lengi rislítil og jafnvel ekki meira en hljóðlát ósk í hugum landsmanna, en á 19. öld efldist hún mjög og tók kipp þegar Jörundur hundadagakonungur gerði valdaránstilraun á Ísland sumarið 1809. Sjálfstæðisbaráttan náði hámarki í baráttu Jóns Sigurðssonar, sem öðrum fremur var leiðtogi sjálfsstæðissinna og kristallast í orðunum „vér mótmælum allir“, sem féllu á þjóðfundinum 1851. Þjóðernishyggja. Þjóðernishyggja (eða þjóðernisstefna) er sú skoðun að þjóðir séu grunneiningar í samfélagi manna, að þær séu eini lögmæti grundvöllurinn fyrir ríkjum og að hver þjóð eigi rétt á eigin ríki. Ekki má rugla þjóðernishyggju saman við ættjarðarást þó vissulega geti þetta allt skarast. Þjóðernishyggja er trú á að ein sameinuð þjóð í hverju ríki sé besta fyrirkomulagið. Þar sem að andstæðan væri þá ríki með mörgum þjóðum þar sem ríkir óeining samkvæmt þeirri skoðun. Þjóðernissinnar vilja oftar en ekki aðlaga útlendinga að samfélagi sínu og gera þá að sama þjóðerni og þeir. Á meðan vilja andstæðingar þeirra sem eru oft kallaðir fjölmenningarsinnar að útlendingar haldi sínu þjóðerni og að í landinu þrífist margskonar menningarstefnur hlið við hlið. Ekki má blanda saman orðunum þjóðernishyggja og kynþáttahyggja þótt sögulega hafi þessar stefnur stundum fylgst að. Kynþáttahyggja gengur venjulegast út á það að einn kynþáttur búi í viðkomandi landi. Þjóðernishyggja gerir ekki endilega mun á kynþætti samanber þjóðernishyggja flestra Bandaríkjamanna sem eru skilgreindir af mismunandi kynþætti. Oft fylgir þjóðernishyggju sú skoðun að blöndun þjóða sé af hinu illa og sér í lagi að sumar þjóðir séu öðrum þjóðum með einhverjum hætti „æðri“. Þessi skoðun eða stefna hefur verið grundvöllur ofsókna þjóða gegn öðrum um aldir og er mjög áberandi víða í heiminum enn í dag. Margar styrjaldir hafa verið háðar vegna þessarar stefnu og eru einhverjar í fullum gangi á okkar tímum. Skemmst er að minnast borgarastyrjaldarinnar í fyrrum Júgóslavíu og eilífra deilna Ísraels og Palestínu. Til eru ýmsar kenningar um þjóðernishyggju, orsakir hennar og afleiðingar. Samtímakenningum um þjóðernishyggju er stundum skipt í tvo hópa: annars vegar þær sem líta svo á að þjóðernishyggja hafi einfaldlega verið búin til af rómantískum höfundum á 18. og 19. öld, og hins vegar þær sem telja að þjóðernishyggja eigi sér eldri rætur í ættbálkasamfélögum þótt hún komi fyrst fram sem kenning á rómantíska tímabilinu. Benedict Anderson einn af þekktustu fulltrúum fyrri kenninganna, bendir engu að síður á að þjóðarhugtakið er óumdeilt í samtíma okkar sem grundvöllur samskipta fólks á öllum stigum samfélags og þjóðernishyggja sé síður en svo á undanhaldi. 1849. a>. Mynd eftir Charlotte systur hennar. Á Íslandi. Grími margt þeri báru á brýn / báðu hann ei að vera: / "Ríða munu menn til þín, / Þjóðaratkvæðagreiðsla. Þjóðaratkvæðagreiðsla kallast það þegar allt kosningabært fólk kýs um ákveðið mál hvort sem atkvæðagreiðslan er ákvarðandi eða leiðbeinandi fyrir ríkisvaldið. Í mörgum stjórnarskrám er kveðið á um að almenningur eigi að kjósa um ákveðin mál í staðinn fyrir að kjörnir fulltrúar þeirra leiði það til lykta. Tilgangurinn með þjóðaratkvæðagreiðslum er oft sá, að sjá hvaða möguleika almenningur vill velja í ákveðnu máli og helst koma í veg fyrir að ákvarðanir í viðkvæmum málum séu gegn vilja meirihluta landsbúa. Það land þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru hvað mest í notkun er Sviss þar sem þær eru haldnar reglulega um margs kyns málefni. Varlega má áætla að ríflegur meirihluti þjóðaratkvæðagreiðslna sem átt hafa sér stað í sögunni hafi verið haldnar í Sviss. Konungur. Konungur er þjóðhöfðingi í konungsríki, sem hlotið hefur tign sína í arf eða verið tekinn til konungs af þjóðinni eða þingi hennar. Konungur þjónar (eða ríkir yfir) þjóð sinni ævilangt, nema því aðeins að hann segi af sér eða sé settur af með einhverjum hætti. Konungstign gengur að jafnaði í arf til elsta sonar, en allnokkur ríki hafa samþykkt breytingu þess efnis að elsta barn konungsins hljóti tignina, hvors kynsins sem það kann að vera. Þing. Þing er nú til dags hugtak sem haft er um hóp sérstaklega kjörinna manna, fulltrúa, sem kjörnir eru til þess að taka ákvarðanir í nafni heildarinnar um einhver nánar skilgreind málefni. Þjóðþing eru kjörin í kosningum og nefnast fulltrúarnir þingmenn. Slík þing eru kosin með það fyrir augum að setja þegnunum lög, hefur það þá löggjafarvald, og að veita ríkisstjórn landsins aðhald, því að ráðherrar, sem fara með framkvæmdavald hver á sínu sviði, eru ábyrgir gagnvart þinginu. Orðið var upprunalega notað yfir samkomur sem flestir germanskir ættbálkar héldu meðal annars til að ákvarða um málefni ættbálksins. Þá höfðu oftast allir frjálsir menn sem honum tilheyrðu atkvæðisrétt. Þing norrænna ríkja sem svo heita í dag má flest rekja til slíkra þinga. Þjóðfundurinn 1851. Þjóðfundurinn 1851 var einn afdrifaríkasti atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Kallað hafði verið til fundarins í stað reglulegs Alþingis, sem hafði verið endurreist sex árum áður. Fundurinn var haldinn á sal Lærða skólans í Reykjavík. Á þessum fundi skyldi taka fyrir mál er vörðuðu stjórnskipun Íslands. Þar lagði Trampe greifi fram frumvarp sem fól í sér að Ísland yrði algerlega innlimað í Danmörku, Ísland myndi hafa sömu lög og reglur Danmörk og Alþingi yrði amtráð en Íslendingar fengju að hafa sex fulltrúa á danska þinginu. Þjóðkjörnu fulltrúarnir voru andvígir frumvarpinu en þeir konungskjörnu mótmæltu því ekki. Trampe sá fram á að þjóðkjörnu fulltrúarnir myndu fella frumvarpið og sleit þá fundinum. Mótmælti Jón Sigurðsson þá í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem haft væri í frammi. Flestir íslensku fulltrúarnir risu þá úr sætum og sögðu hin fleygu orð, sem síðan eru oft kennd við Jón Sigurðsson: „Vér mótmælum allir.“ Þjóðfundarmenn. Bræðurnir Eggert, Jóhann og Ólafur Briem sátu þjóðfundinn. Eggert sýslumaður Eyfirðinga og Ólafur bóndi á Grund sátu þjóðfundinn fyrir Eyjafjarðarsýslu. Sr. Jóhann, prestur í Hruna og prófastur í Árnesprófastsdæmi 1848-1861, sat þjóðfundinn fyrir Árnesinga ásamt Gísla Magússyni kennara við Lærða skólann. Stefán Jónsson bóndi á Syðri-Reistará 1823—1856 sem var þingmaður Eyfirðinga frá 1845-1849 og aftur eftir Þjóðfundinn 1852-1874 var þjóðfundarmaður Skafirðinga. Konungkjörnir voru þeir sr. Halldór Jónsson prestur á Hofi í Vopnafirði, fyrrum prófastur í Skagafirði og síðar prófastur í Norður-Múlaprófastsdæmi (1854—1879) sem var konungkjörinn 1845—1851, en síðar þingmaður Norður-Múlasýslu 1858—1874 þó hann sæti ekki þingin 1861, 1867, 1871 og 1873), sr. Helgi Thordersen biskup (konungkjörinn 1845—1865), sr. Pétur Pétursson forstöðumaður Prestaskólans í Reykjavík, síðar biskup (konungkjörinn 1849—1887), Þórður Jónassen dómari (konungkjörinn 1845—1859 og 1869—1875), Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari (konungkjörinn 1845— 1856). Kristján 9.. Kristján 9., konungur Íslands og Danmerkur Kristján 9. var konungur Danmerkur 1863 – 1906. Hann fæddist 8. apríl 1818 í Gottorpshöll (Gottorp Slot). Friðrik 7. konungur var barnlaus, en hann útnefndi þennan fjarskylda frænda sinn til þess að taka við krúnunni eftir sinn dag. Kona hans (og síðar drottning Danmerkur) var Louise af Hessen-Kassel, en hún var náskyld konunginum og hafði erfðarétt og er talið að það hafi verið helsta orsök þessarar tilnefningar. Þessi konungshjón, Kristján 9. og Louise af Hessen-Kassel urðu þekkt sem „"tengdaforeldrar Evrópu"“. Fjögur barna þeirra urðu þjóðhöfðingjar eða makar þjóðhöfðingja. Þau voru: Friðrik, konungur Danmerkur, Alexandra drottning í Englandi, gift Albert Edward prins af Wales og síðar konungi Englands undir nafninu Játvarður 7., Dagmar keisaraynja Rússlands gift Alexander 3. sem tók sér nafnið Maria Feodorovna og Vilhelm, sem varð Georg 1. konungur Grikklands. Kárahnjúkavirkjun. Kárahnjúkavirkjun er 690 MW vatnsaflsvirkjun á hálendi Íslands norðan Vatnajökuls. Virkjunin sér álveri Alcoa í Reyðarfirði fyrir raforku. Virkjaðar eru jökulár Vatnajökuls: Jökulsá á Dal (Jökulsá á Brú), Jökulsá í Fljótsdal, Kelduá og þrjár þverár hennar. Mannvirkið sem slíkt hefur verið nefnt "stærsta framkvæmd Íslandssögunnar". Undirbúningur að verkinu hófst árið 1999, framkvæmdir hófust 2002 og loks var virkjunin formlega gangsett 30. nóvember 2007. Til verksins voru fengnar þúsundir erlendra iðnaðarmanna, og var aðalverktakafyrirtækið, Impregilo, ítalskt. Um virkjunina og byggingu álversins hafa staðið miklar deilur milli þeirra sem eru á móti spillingu umhverfisins og annarra sem telja uppbygginguna jákvæða. Heildarkostnaður við byggingu virkjunarinnar var 133 milljarðar kr. á verðlagi sept. 2007. Aðstæður og verklýsing. Jökulsá á Dal var virkjuð með þremur stíflum og er "Kárahnjúkastífla" stærst þeirra (198 m há) við syðri enda Hafrahvammagljúfurs. Vestan Kárahnjúkastíflu er "Sauðárdalsstífla" (29 m) og austan megin er "Desjarárstífla" (68 m). Við þessar stíflur myndaðist Hálslón, sem er 57 km² stórt miðlunarlón. Jökulsá í Fljótsdal var stífluð um 2 km neðan við Eyjabakkafoss með "Ufsarstíflu" (37 m), en við það myndaðist "Ufsarlón", 1 km² að flatarmáli. Auk þessa var vatni veitt austan að af Hrauni í Ufsarlón um miðlunarlónið "Kelduárlón" (7,5 km², þar sem áður var "Folavatn") með stíflun Kelduár ásamt þremur þverám hennar, "Grjótá", "Innri-" og "Ytri-Sauðá". Vatninu úr Hálslóni og Ufsarlóni er svo veitt með sitthvorum jarðgöngunum sem sameinast undir miðri Fljótsdalsheiði í sameiginleg aðrennslisgöng (alls 40 km löng) að stöðvarhúsi virkjunarinnar sem var grafið inn í Valþjófsstaðafjall í Fljótsdal. Úr stöðvarhúsinu er vatninu svo veitt út í Lagarfljót sem rennur út í Héraðsflóa. og svo framvegis Hallormsstaðaryfirlýsingin. Dagana 28-29. júní 1999 hittust forsvarsmenn Norsk Hydro, Landsvirkjunar og íslenskra stjórnvalda við Hallormsstaði og undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis að athuga skyldi hvort hagkvæmt væri að byggja álver í Reyðarfirði. Gengið var út frá því að "Fljótsdalsvirkjun" myndi sjá álverinu fyrir 210 MW af rafmagni og að það geti árlega framleitt 120 þúsund tonn af áli með möguleika á stækkun upp í 480 þúsund tonn. Eignarhaldsfélagið "NORAL" átti að stofna til þess að halda utan um rekstur álbræðslunnar og átti rekstur að hefjast fyrir lok 2003. Ekkert varð úr þessu þótt leyfi hefði fengist fyrir Fljótsdalsvirkjun vegna þess að aðilar sem að framkvæmdinni komu töldu þörf á stærri virkjun. Kárahnjúkavirkjun komin á dagskrá. Þann 24. maí 2000 var komið annað hljóð í strokkinn því nú átti að athuga hvort ekki væri hægt að reisa álver sem framleiddi „240 þúsund tonn á ári, og er gert ráð fyrir að hún verði síðar aukin í 360 þúsund tonn á ári“ og til þess þurfti stærri virkjun, Kárahnjúkavirkjun. Enn fremur var reiknað með því að framleiðsla gæti orðið allt að 480 þúsund tonn á ári og að framkvæmdum yrði lokið einhvern tímann á árinu 2006. Þann 20. apríl 2001 fékk Skipulagsstofnun afhenta matskýrslu frá Landsvirkjun og 4. maí 2001 var hún gerð aðgengileg almenningi. Skipulagsstofnun úrskurðaði 1. ágúst 2001 að leggjast gegn framkvæmdinni sökum umhverfisáhrifa. Þá ákvað Norsk Hydro að fresta um hálft ár, frá 1. febrúar 2002 og til 1. september 2002, ákvörðun um það hvort úr virkjuninni yrði. Þann 20. desember sama ár ákvað þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, að fella úrskurðinn úr gildi með ákveðnum fyrirvörum. Skýrsla Gríms Björnssonar. Eftir að umhverfisráðherra hafði ógilt úrskurð Skipulagsstofnunar sendi Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, í febrúar 2002 athugasemdir sínar þar sem hann fann umhverfismatinu eitt og annað til foráttu. Skýrslan var þá merkt sem trúnaðarmál og kom hvorki þingmönnum né almenningi fyrir sjónir um sinn. Greinin var birt á heimasíðu hans 17. mars 2003. Í henni kemur fram að landsig undan Hálslóni gæti takmarkað miðlunargetu þess, að óöruggt væri að reisa svo stóra stíflu á eldvirku svæði og að áhrifin á lífríki hafsins í kring væru vanmetin. Í kjölfarið var honum meinað af yfirmönnum sínum um að tjá sig um virkjunina sökum hagsmunaárekstra þar sem Landsvirkjun og OR væru í beinni samkeppni. Þá dró til tíðinda 24. ágúst 2006 þegar tilkynnt var um ákvörðun forstjóra OR að leyfa honum á ný að tjá sig opinberlega um Kárahnjúkavirkjun. ALCOA hleypur í skarðið. Þann 23. mars 2002 tilkynnti Norsk Hydro að sökum yfirtöku á þýska álframleiðslufyrirtækinu "VAW Aluminium AG" hefði fyrirtækið í hyggju að fresta virkjunarframkvæmdum um ókominn tíma. Í fréttayfirlýsingu kom einnig fram að skilningur ríkti um að íslensk stjórnvöld og fjárfestar gætu leitað fjárfestingar til annarra fyrirtækja. Þann 16. apríl 2002 samþykkti Alþingi ný lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Þreifanir á milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Alcoa hófust fljótlega og strax tæpum mánuði eftir yfirlýsingu NORAL-hópsins, 19. apríl, var undirrituð viljayfirlýsing um að Alcoa tæki við af Norsk Hydro þar sem frá var horfið. Þar kom einnig fram að sérstök undirstofnun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins Fjárfestingarstofan (e.) hefði milligöngu fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Þann 23. maí 2002 var gefin út önnur viljayfirlýsing um áframhaldandi athuganir og miðað við að frekari fréttir myndu berast þann 18. júlí, tæpri viku eftir stjórnarfund Alcoa. Í millitíðinni gáfu alþjóðlegu náttúru- og dýraverndunarsamtökin WWF út fréttatilkynningu þar sem þau "fordæmdu" fyrirætlanir Alcoa að eyðileggja á óafturkræfan hátt íslenska náttúru og skoruðu á fyrirtækið að hætta við framkvæmdirnar. Þann 19. júlí undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og G. John Pizzey einn af mörgum aðstoðarforstjórum Alcoa enn eina viljayfirlýsinguna þar sem fram kom að stefnt væri að samvinnu en komast þyrfti að samkomulagi um grunnforsendur fyrir marslok 2003. Nú var miðað við að árleg afkastageta álversins yrði 295 þúsund tonn og að uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar yrði 630 MW og jafnframt að hún yrði tilbúin snemma á 2007 eða jafnvel fyrr. Þegar voru hátt í 80 manns í ýmiss konar verkavinnu á Kárahnjúkasvæðinu til undirbúnings fyrir frekari framkvæmdir, þ.m.t. lagningu "Kárahnjúkavegar" og byggingu brúar yfir Jökulsá á Brú. Þann 15. nóvember 2002 ákvað Norsk Hydro og Hæfi að selja eignarhluti sína í Reyðaráli til Alcoa. „Samninganefndir Alcoa og Landsvirkjunar luku í dag við gerð raforkusamnings vegna fyrirhugaðs 322.000 tonna álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Á sama tíma var lokið vinnu við samninga á milli Alcoa, ríkisins, Fjarðabyggðar og Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar. Lögfræðingar aðila munu yfirfara samningstexta og verða samningarnir áritaðir fyrir áramót. Raforkusamningurinn verður lagður fyrir stjórnir fyrirtækjanna til staðfestingar. Iðnaðarráðherra mun leggja fram heimildarfrumvarp vegna samninganna þegar Alþingi kemur saman að loknu jólaleyfi. Jafnframt verða samningar sem Fjarðabyggð er aðili að teknir til afgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum þar. Álverinu er ætlað að hefja framleiðslu árið 2007.“ Þann 12. desember 2002 hófust sprengingar við jarðgöng stíflustæðisins, aðalverktaki var ÍAV og undirverktaki þeirra norsk-sænska fyrirtækið NCC, verkinu lauk í mars 2003. Samningar í höfn. Landsvirkjun skrifaði undir rafmagnssamninga við Alcoa, sem getið var í síðustu viljayfirlýsingu, þann 10. janúar. Helgi Hjörvar stjórnarmaður Landsvirkunar samþykkti ekki samninginn og lagði fram bókun þar sem fram kom að hann taldi framkvæmdina ekki nægilega arðbæra. Þann 12. mars 2003 tóku lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði gildi. Lögin voru samþykkt af 41 þingmanni, atkvæði á móti greiddu Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir (þingmenn Samfylkingarinnar), Katrín Fjeldsted (þingmaður Sjálfstæðisflokks) og Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson (þingmenn Vinstri grænna). Pétur Bjarnason, varaþingmaður Frjálslynda flokksins, sat hjá við atkvæðagreiðsluna en 12 þingmenn voru fjarverandi. Við þriðju umræðu ofangreindra laga lögðu sex þingmenn Vintri grænna breytingartillögu þar sem sá fyrirvari var gerður á lagasetningunni að hún yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða Alþingiskosningum seinna sama ár, tillagan var felld með 35 atkvæðum gegn 6. Þann 15. mars voru undirritaðir endanlegir samningar um Kárahnjúkavirkjun og Álverið í Reyðarfirði. Fyrir hönd íslenska ríkisins skrifuðu ráðherrarnir Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir, Alain J.P. Belda forstjóri og B. Michael Baltzell, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi, fyrir hönd Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður og Friðrik Sophusson forstjóri fyrir hönd Landsvirkjunar og Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri fyrir hönd Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og voru þúsund manns viðstödd athöfnina. Sagt var að „[s]annkölluð þjóðhátíðarstemmning“ hefði verið ríkjandi á svæðinu og að samningar hefðu verið undirritaðir „eftir nærri þriggja áratuga bið“. Þremur dögum seinna skrifuðu Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Gianni Porta, verkefnisstjóri hjá Impregilo undir formlega eftir útboðið á gerð stíflu og jarðganga í desember ríflega þremur mánuðum fyrr. Á næsta einu og hálfa árinu keypti Impregilo vinnu og þjónustu af íslenskum fyrirtækjum að andvirði 8,3 milljörðum kr. Framkvæmdir. Ljóst var frá byrjun að flytja þyrfti inn töluvert af erlendu vinnuafli á meðan á framkvæmdunum stæði. Sitt sýndist hverjum um hver langtímaáhrifin yrðu fyrir þjóðarbúskapinn. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gaf út skýrsluna „Mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda 2003-2008.“ þar sem fram kom að eftirspurn eftir vinnuafli umfram innlendu framboði myndi sveiflast en ná allt að 2.500 störfum þegar mest læti. Þann 9. september 2003 gerði Landsvirkjun samning við Fosskraft um byggingu stöðvarhússins í Valþjófsstaðafjalli að andvirði 8,3 milljörðum kr. Haustið 2003 bættist hratt í fjölda manns við vinnu á svæðinu. Umfjöllun. Mikil umræða hefur verið um Kárahnjúkavirkjun. Segja sumir að þjóðin skiptist í tvær fylkingar, virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Fjöldamörg bréf hafa verið skrifuð í blöðin, mótmæli skipulögð og ýmsir uppákomur haldnar af þeim sem vilja vekja athygli á því að önnur atvinnustefna sem valdi ekki skaða á náttúru landsins geti verið arðbær. Deilur hafa m.a. snúist um það hvort að raforkuverðið sé of lágt, hvort áhættumat fyrir Hálslón hafi verið nægilega vel unnið, hvort rétt hefði verið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðunina að ráðast í framkvæmdina o.fl. Þann 29. nóvember birtist í breska dagblaðinu Guardian ítarleg grein eftir blaðakonuna Susan De Muth þar sem hún fjallaði um Kárahnjúkavirkjun og fór fögrum orðum um íslenska náttúru og gagnrýndi þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að ráðast í þessa framkvæmd. Nánar tiltekið efaðist hún um hæfni þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur og umhverfisráðherra Sifjar Friðleifsdóttur þar sem þær hefðu ekki menntun á tengdum sviðum. Í grein sinni vitnaði hún m.a. í rithöfundinn Guðberg Bergsson, ljóðskáldið Elísabetu Jökulsdóttur, Friðrik Sophusson, Guðmund Pál Ólafsson o.fl. Viðbrögðin létu ekki á sér standa; Sverrir Gunnlaugsson, sendiherra í Englandi, skrifaði ritstjóra Guardian bréf þar sem hann undirstrikaði að lög um Kárahnjúkavirkjun hefðu verið samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta Alþingis og lýsti óánægju sinni með hlutdræg skrif umræddar blaðakonu. Friðrik Sophusson skrifaði ritstjóranum einnig bréf þar sem hann gagnrýnindi sömuleiðis hlutdræg skrif og tilhæfulausar dylgjur um vanhæfni Valgerðar og Sifjar, sagði orkunýtingu íslenskra náttúruauðlinda vera ábyrga og sjálfbæra, bauð blaðinu aðstoð við samningu nýrrar, betur upplýstrar greinar og lét fylgja með samantekt Sigurðar St. Arnalds „Power and prejudice“. Að lokum barst ritstjóranum bréf frá Mike Baltzell, forstjóra þróunarsviðs Alcoa þar sem hann sagði umfjöllun Susans byggða á misskilningi, í greininni væru rangfærslur og að hún væri augljóslega hlutdræg. Framvinda á vinnusvæðinu. Banaslys varð 15. mars 2004 þegar grjóthnullungur féll á ungan mann sem var að undirbúa borun í berg. Ungi maðurinn var starfsmaður Arnarfells, undirverktaka Impregilo. Í júlí 2004 átti verktakafyrirtækið Arnarfell lægsta tilboðið í Ufsarveitu, þ.m.t. 3,5 km löng aðrennslisgöng, þegar fyritækið bauð 1911 milljónir í verkþátt sem metinn var á 2500 milljónir. Stuttu seinna var lokið við að bora fallgöngin í Valþjófsstaðarfjalli. Þann 11. nóvember 2004 samdi Slippstöðin ehf. á Akureyri við þýska fyrirtækið "DSB Stahlbau GmbH" um að stálfóðra aðfallsgöngin í Valþjófsstaðarfjalli að stöðvarhúsinu. Þetta reyndist Slippstöðinni þó of umfangsmikið verkefni og varð fyrirtækið gjaldþrota tæpu ári seinna án þess að geta lokið verkinu. Nýjar upplýsingar um jarðfræði virkjanasvæðisins. Í apríl 2005 bárust fréttir af því að vinnuhópur leiddur af Freysteini Sigmundssyni, jarðeðlisfræðing hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, á vegum Landsvirkjunar hefði komist að þeirri niðurstöðu að þungi fyllts Hálslóns gæti valdið misgengihreyfingum. Þá ákvað Landsvirkjun að ráðast í frekari varúðarráðstafanir sem kostuðu 100-150 milljónir kr. Mest hætta var talin stafa af kvikuhreyfingum við Kverkfjöll. Þá urðu líflegar utandagskrárumræður á Alþingi vegna þessa. Í seinni hluta júlí voru unnin skemmdarverk af mótmælendum þegar spreyjuð voru skilaboð á upplýsingaskilti og vinnuvélar og rúður í þeim brotnar. Hópur fólks sem hafði tjaldbúðir við Valþjófsstaði og hafði fengið leyfi fyrir því hjá landeiganda, Prestsetrasjóði, hlekkjaði sig við vinnuvélar. Í kjölfarið óskaði Landsvirkjun sérstaklega eftir því að löggæsla a svæðinu yrði efld. Mótmælendurnir, m.a. útlendingar, héldu því fram að lífi þeirra hafi verið stofnað í hættu þegar vinnuvélar sem þeir voru hlekkjaðir við voru gangsettar. Talsmaður Impregilo vísaði því á bug. Í nóvember 2005 kom út skýrsla náttúru- og umhverfisverndarsamtakanna WWF um virkjanir og stíflur og hafði Landsvirkjun eitt og annað út á hana að setja. Þá varð annað banaslys í mars 2006 þegar ungur starfsmaður Arnarfells lést við vinnu sína. Hann var að koma fyrir sprengiefni þegar ein sprengjan sprakk nærri honum og olli gróthruni sem hann varð fyrir. Annað banaslys varð svo viku seinna þegar undirlag vinnuvélar gaf undan og hún valt nálægt Desjárstíflu. Maðurinn sem starfaði fyrir undirverktakann Suðurverk var látinn þegar að var komið. Í ágúst 2006 var gefin út skýrsla um þá hugsanlegu áhættu sem því fylgdi að veita vatni á Hálslón. Í umræðu hafði verið Campos Novos-stíflan í Brasilíu þar sem stíflugöng gáfu sig í júní 2006 og vatnið úr lóninu flæddi burt. Sagt var að Kárahnjúkarvirkjun væri sambærileg og að hætta væri á því þetta myndi endurtaka sig. Skýrsluna samdi nefnd sérfræðinga með Norðmanninn Kaare Hoegh og Brasilíumanninn Nelson Pinto, auk Sveinbjörns Björnssonar, eðlisfræðings innanborðs. Þeir áætluðu að vatnsleki yrði um 5 rúmmetrar á sekúndu en myndi minnka eftir því sem set þjappaðist saman í lóninu. Hornsteinn lagður að stöðvarhúsi. Þann 12. maí 2006 lagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ásamt sex grunnskólabörnum, hornstein við stöðvarhús Kárahnjúka. Með táknrænni athöfn komu þau blýhólki fyrir sem innihélt gögn um virkjunina sem skjöldur með nöfnum þeirra var lagður yfir. Stöðvarhúsi virkjunarinnar var gefið nafnið, Fljótdalsstöð við athöfn þar sem um 400 manns voru samankomin. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti ræðu og séra Lára Oddsdóttir á Valþjófsstað lagði blessun sína yfir stöðina. Í blýhólknum voru upplýsingar á blaðsformi, í minniskubbi og á geisladiski. Þar fylgdi kort af virkjununni og fram komu upplýsingar um þá opinberu starfsmenn sem að ákvarðanatöku komu þegar ráðist var í virkjunina. Upptalning á helstu kennitölum virkjunarinnar, ráðgjöfum og verktökum. Þar er einnig skjal þar sem andstæðingar virkjunarinnar rekja aðdraganda þess að ákveðið var að virkja og tekið fram að Skipulagsstofnun hafi úrskurðað gegn virkjuninni. Í skjalinu var sagt um Kárahnjúkavirkjun; „...mestu náttúruspjöll sem hafa farið fram af mannavöldum á þessu landi. Landið sem skal sökkt undir lónið er bæði fjölbreytt og fágætt á landsvísu og heimsvísu. Þar eru einstæðar jarðmyndanir, fossar og flúðir, þar eru heimkynni hreindýra, gæsa, fálka og fleiri fuglategunda. Þar vex berjalyng upp við Töfrafoss og þar eru stuðlahlið við ármót Jöklu. Þetta var ósnortið svæði þar til ákveðið var að sökkva því fyrir bandarískt álfyrirtæki sem notaði meiri raforku en öll íslenska þjóðin. Yfirvöld komu kerfisbundið í veg fyrir að spjöllin yrðu lýðum ljós og komu þar með í veg fyrir upplýsta ákvörðun. Þúsundir Íslendinga reyndu að standa gegn framkvæmdinni og tjáðu hug sinn í orði og verki. Framkvæmdin er aðeins hluti af gömlu markmiði sem beinist að því að gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi. Hafi okkur ekki tekist að koma í veg fyrir þetta markmið viljum við biðja afkomendur okkar afsökunar.“. Þar var einnig eftirfarandi ljóð eftir Njörð P. Njarðvík. Auðnin er þögul og þegjandi tekur en önnur sprenging sem yfir dynur opnar sár svo að jörðin stynur. Enn er þó ekki búið að sökkva um framtíðarjörð sem er fórnað til táls þess fólks er metur sitt land til áls. Vatni safnað í Hálslón. 28. september 2006 var lokað fyrir hjáveitugöng "Kárahnjúkastíflu" og þar með byrjað að safna vatni í Hálslón. Vinnu við stíflurnar sem mynda lónið er þó ekki lokið og mun halda áfram langt frameftir árinu 2007. Vatnsmagn Hálslóns jókst jafnt og þétt og var lómið orðið rétt tæpir fjórir km² á aðeins nokkrum dögum. Í desember 2006 birti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, svar við skriflegri fyrirspurn Kolbrúnar Halldórstóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs, um rannsóknir vegna virkunarinnar. Varmafræði. Varmafræði er sú grein eðlisfræðinnar sem fjallar um flutning á orku á milli kerfa. Hiti er grundvallarstærð í varmafræði, en einnig er fengist við hugtök eins og orku, vermi, óreiðu, varma og vinnu til að lýsa kerfum og hvernig þau víxlverka. Varmafræði er nátengd safneðlisfræði, sem er oft notuð til að leiða út varmafræðileg sambönd. Lögmál varmafræðinnar eru grundvallarlögmál í eðlisfræði og eru fjögur talsins. Varmafræði fjallar einungis um hvort hlutir séu komnir í varmafræðilegt jafnvægi eða ekki, en ekki "hvernig" orka færist á milli hluta. Tveir hlutir sem eru að flytja varma á milli sín eru ekki í varmafræðilegu jafnvægi. Því er sagt að varmafræði sé tímáóháð. Lögmál varmafræðinnar. Varmafræðin hefur tvö grundvallarlögmál, það 1. og 2., en síðar var bætt við s.k. 0. og 3. lögmáli. "Núllta lögmálið" fjallar um varmafræðilegt jafnvægi en tvö kerfi eru sögð í jafnvægi ef enginn heildarflutningur á varma er á milli þeirra. Lögmálið segir að ef kerfi A er í jafnvægi við kerfi B og kerfi B í jafnvægi við kerfi C þá er kerfi A í jafnvægi við kerfi C. "Annað lögmál varmafræðinnar" setur skorður á það hvernig orka getur breytt um form. Það er til í mörgum útgáfum sem allar eru jafngildar. Sem dæmi má nefna útgáfu Clausiusar sem segir að varmi geti ekki borist af sjálfu sér frá kaldari hlut til heitari hlutar og útgáfu Kelvins og Plancks sem segir að ómögulegt sé að breyta varma að öllu leyti í vinnu. Almennasta orðalag annaðs lögmálsins er að óreiða geti aldrei minnkað í lokuðu kerfi, sem ekki skiptir á varma við umhverfi sitt, eða stærðfræðilega þar sem S táknar óreiðu í lokuðu kerfi. "Þriðja lögmálið" segir að ómögulegt sé að kæla kerfi niður í alkul, eða þar sem T táknar hita kerfis í kelvín, en útilokar ekki neikvæðan hita. Löggjafarvald. Löggjafarvald er valdið til þess að setja lög, sem almenningur og ríkisvald eiga síðan að fylgja. Nafnið felur það í sér að lögin séu gefin (þjóðinni) og löggjafinn er sá sem gefur lögin. Á Íslandi er Alþingi löggjafinn og hjá því er löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Íslandi var sett sérstök stjórnarskrá árið 1874 en með henni fékk Alþingi löggjafarvald í málefnum Íslands (konungur hélt að vísu neitunarvaldi) Bráðabirgðalög. Bráðabirgðalög eru lög sem sett eru af stjórnvöldum án þess að hefðbundinn handhafi löggjafarvalds komi nálægt því. Þetta er gert ef brýnt er að setja lög mjög hratt útaf aðkallandi aðstæðum t.d. neyðarástandi og ekki er unnt að kalla til þing til þess. Ísland. Á Íslandi setur forseti bráðabirgðalög fyrir atbeina ráðherra þegar þing situr ekki. Nauðsynlegt er að bera bráðabirgðalög undir þingið strax og það kemur saman, til samþykktar eða synjunar. Ef þau eru ekki samþykkt innan sex vikna eftir að Alþingi hefur komið saman (þrátt fyrir að lögin séu í afgreiðslu þingsins), þá falla þau sjálfkrafa úr gildi. Almennt fá engin lög gildi til frambúðar nema hafa samþykki beggja handhafa löggjafarvaldsins, Alþingis og forseta. Undantekning frá þessu er ef forseti synjar undirritun laga og þau verða staðfest í þjóðaratkvæði, þá er ekki gert ráð fyrir því að forseti undirriti lögin. Ekki er hægt að setja bráðabirgðalög á meðan Alþingi er að störfum eða ef þau ríða í bág við stjórnarskránna. Óæskilegt þykir að setja bráðabirgðalög og er slíkt ekki gert, nema að rík ástæða sé til að mati ráðherra. Mjög hefur dregið úr því á síðari árum að bráðabirgðalög séu sett á Íslandi enda hafa þær aðstæður ekki komið oft upp. Jean Baptiste Joseph Fourier. (Jean Baptiste) Joseph Fourier (21. mars 1768 – 16. maí 1830) var franskur barón, verkfræðingur og stærðfræðingur. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á varmaleiðni og á hornafallaröðum. Þessar raðir eru við hann kenndar og kallast Fourier-raðir og hafa gífurlega þýðingu í eðlisfræði, verkfræði og á fleiri sviðum, auk þess að vera stærðfræðilega áhugaverðar. Fourier, Jean Baptiste Joseph Fourier, Jean Baptiste Joseph Johannes Kepler. Johannes Kepler (27. desember 1571 – 15. nóvember 1630) var þýskur stjarnfræðingur og stærðfræðingur. Hann er þekktastur fyrir þrjú lögmál sem við hann eru kennd, eitt þeirra segir að reikistjörnurnar ferðist á sporbaugslaga brautum umhverfis sól sína, með sólina í öðrum brennipunkti sporbaugsins. Fyrstu tvö lögmálin setti hann fram 1609 og það þriðja 10 árum síðar. Lögmálin voru reynslulögmál, sem þýðir það að þau voru byggð á athugunum og mælingum, en ekki útleidd stærðfræðilega. Niðurstöður sínar byggði hann á athugunum Tycho Brahe. Það beið þar til Isaac Newton kom fram með þyngdaraflslögmál sitt, sem segir að tveir hlutir dragist hvor að öðrum í réttu hlutfalli við massa þeirra og í öfugu hlutfalli við fjarlægðina á milli þeirra í öðru veldi. Út frá þessu lögmáli Newtons má síðan leiða lögmál Keplers stærðfræðilega. Tengill. Kepler, Johannes Kepler, Johannes Oasis. Oasis er bresk rokkhljómsveit, stofnuð í Manchester árið 1991. Hún varð heimsfræg árið 1994 þegar hún gaf út plötuna ",Definitely Maybe". Oasis varð eitt vinsælasta „britpop“ band 10. áratugarins, og það er þeim að þakka, ásamt hljómsveitum eins og Blur, Pulp og Suede að „britpopið“ er vinsælt enn þann dag í dag. Meðal helstu áhrifavalda sveitarinnar eru Bítlarnir, Rolling Stones og The Stone Roses. Aðalsprautur sveitarinnar eru bræðurnir Liam, sem er söngvari Oasis, og Noel Gallagher, sem er helsti lagasmiðurinn auk þess sem hann spilar á gítar. 1991-1993: Upphafið. Í fyrstu var hljómsveitin skipuð skólafélögunum "Liam Gallagher" (söngur), "Paul „Bonehead“ Arthur" (gítar), "Paul,Guigsy" McGuian" (bassi) og "Tony McCaroll" (trommur), og gekk þá undir nafninu "„The Rain“." Liam fékk síðan þá hugmynd að breyta nafni sveitarinnar í Oasis. Noel Gallagher starfaði þá sem rótari hjá hljómsveitinni „"The Inspiral Carpets"“. En 1991 fór Noel Gallagher aftur til Manchester vegna þess að bróðir hans hafði boðið honum að vera í hljómsveitinni. Noel samþykkti með þeim fyrirvara að hann mundi stjórna hljómsveitinni og hún myndi hætta að spila lög Liams. Liam samþykkti - sem og öll hljómsveitinn. Með nýtt nafn og nýjan stíl hóf Oasis árið með löngum og ströngum æfingum. 1994-1998: Gullaldarárin. Alan McGee, meðeigandi Creation Records, sá og heyrði Oasis spila á King Tut's Wah Wah Hut í Glasgow og var svo heillaður að hann bauð þeim plötusamning. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu smáskífu „"Supersonic"“ vorið 1994. Sú smáskífa fékk jákvæða dóma. "Supersonic" var síðan gefið út á plötunni "„Definitely Maybe“". „"Shakermaker"“ varð enn stærri smellur snemma sumars 1994. Og aðeins mánuði seinna gáfu Oasis út sína 3. smáskífu, en það var stórsmellurinn "„Live forever“" sem er þegar kominn á spjöld sögunar. Mánuðu síðar gáfu Oasis út fyrstu breiðskífu sína, "„Definitely Maybe“", en hún sló hraðamet í sölu í Bretlandi og náði 1. sæti á breska vinsældalistanum. Þá byrjaði sannkallað „Rock N' Roll“. En það var ekki alltaf eins mikið rock n' roll, Noel hætti einfaldlega í hljómsveitinni eftir erfiða tónleikaferð um Bandaríkin. Hann kom fljótlega aftur og hljómsveitin fór aftur til Englands. Þegar „Supersonic“ var á uppleið á Bandaríska listanum yfir rokkplötur og nútímarokk. Smáskífulagið ",Whatever" sem kom aldrei á plötu með hljómsveitinni fór í annað sæti á breska listanum yfir jólin '94. Í byrjun 1995 einbeitti hljómsveitin sér að Bandaríkjunum, komu á framfæri laginu "„Live Forever“". Lagið varð risa smellur á MTV, yfir plötur og nútímarokk útvarpsstöðvar, á toppnum númer tvö, og "Definitely Maybe" varð gullplata í heimkomunni til Englands eftir uppselda tónleikaferð í Bandaríkjunum, hljómsveitin tók upp nýja smellinn "„Some Might Say“". Um kvöldið þegar smellurinn var gefin út var trommarinn Tony McCaroll rekinn úr hljómsveitinni. Alan White tók við trommukjuðunum í hans stað. Í sama mánuði (í maí) náði "„Some Might Say“" toppnum; Frami lagsins varð til þess menn fóru að líta áður útgefnum lögum hljómsveitarinnar augum. Oasis eyddi restinni af sumarinu að klára "(What's The Story) Morning Glory?", sem var gefin út í Október 1995. Eftir að hún var gefin út fór hún í fyrsta sæti breska vinsældarlistans, og seldist í 20 milljónum eintaka, var einnig hraðseldasta platan síðan Michael Jackson gaf út plötuna "Bad". Yfir 1996 varð "(What's the Story) Morning Glory?" önnur stærsta plata allra tíma í Bretlandi, komu sér vel fyrir á alþjóðlegum vettvangi. Vegna styrks lagsins "„Wonderwall“" varð "Morning Glory" ein af tíu vinsælustu plötunum í Bandaríkjunum. Platan náði hreint frábærum árangri og komst í alls staðar í topp 10 lista í Evrópu og Asíu. Árið 1996 komst oft hið stormasama samband Gallagher bræðranna í slúðurblöðin, þegar þeir skyndilega hættu við Bandaríkjaferðina seint um sumarið. Í kjölfarið urðu tvennir tónleikar þeirra í Knebworth stærstu útitónleikar í sögu Bretlands, en um 250.000 manns sáu hljómsveitina spila á þessum tónleikum. Eftir að þeir hættu við Bandaríkjaferðina einbeittu þeir sér að því að taka upp þriðju plötuna. Þar sem það tók stuttan tíma að taka upp fyrstu tvær plöturnar, tók það þá nokkra mánuði að taka upp þessa, sem að var gefinn út 21. ágúst 1997, með smellinum "„D'You Know What I Mean?“". Með hjálp góðrar gagngrýni og góðri sölu komst "„Be Here Now“" í sæti yfir mest seldu plötur í Bretlandi, og næstum toppaði Bandaríska sölulistann, gerðu þeir sjálfan sig að rokkgoðum. Þó fengu þeir bakslag frá bæði gagngrýnendum og plötukaupendum fyrir velgengni plötunnar. Eftir tónleikaferðina sem fylgdi ",Be Here Now" tók hljómsveitin sér kærkomið frí, en þeir höfðu túrað nánast stanslaust í 5 ár. Þeir notuðu tækifærið og gáfu út B-hliðaplötuna "The Masterplan" 1998. Á henni er m.a. að finna lögin ",Acquiesce" og ",The Masterplan" sem eru meðal bestu verka sveitarinnar og með eftirlætislögum aðdáenda á tónleikum. 1999-:Miklar mannabreytingar. Þegar hljómsveitin var að taka upp sýna fjórðu plötu sumarið 1999, hættu þeir Paul „Bonehead“ Arthurs og Paul,Guigsy" McGuigan í hljómsveitinni. Bonehead gaf þá ástæðu að hann vildi eyða meiri tíma með fjöskyldu sinni. Í viðtali við NME, 11. ágúst, sýndist þá Noel Gallagher vera alveg sama og sagði: „It's hardly Paul McCartney leaving the Beatles.“ Andy Bell, fyrrverandi gítarleikari "Ride" og "Heavy Stereo", og Gem Archer, gítarleikari "Hurricane #1", gengu til liðs við hljómsveitina eftir að upptökum lauk á plötunni "Standing On The Shoulder Of Giants". Sú plata kom út snemma á árinu 2000 og er minnst selda plata Oasis. Hún komst þó í efsta sæti á sölulista breska breiðskífulistans. Bell tók að sér að spila á bassa og Gem á gítar. Sama ár fögnuðu þeir nýrri plötu með eftirminnilegu tónleikaferðalagi og gáfu út sína fyrsu tónleikaplötu "Familiar To Millions", sem var tekin upp sumarið 2000 á Wembley. Hún var gefin út í sex mismunandi hlutum, DVD, VHS, þreföldum Vínyl, og Mini Disc. Fyrsta platan þar sem þeir Bell og Gem fengu að spreyta sig á kom út sumarið 2002 og fékk nafnið,"Heathen Chemistry". Það sem helsta athygli vakti á þeirri plötu var að Noel Gallagher, lagasmiður sveitarinnar, samdi ekki öll lögin. Liam átti þrjú lög á plötunni, Bell og Gem sitthvort lagið. Reyndar hafði Liam samið eitt lag sem er að finna plötunni,"Standing On The Shoulder Of Giants". Eftir túrinn sem fylgdi plötunni hætti trommari sveitarinnar Alan White. Þeir Gallagher-bræður réðu Zak Starkey, son Ringo Starr, til að tromma á næstu plötu sem ber titilinn,"Don't Believe The Truth" og kom út árið 2005. Starkey er reyndar ekki fullgildur meðlimur hljómsveitarinnar enn sem komið er, en hann bæði trommaði á plötunni og spilaði með hljómsveitinni á tónleikaferðalagi til að fylgja henni eftir. Platan komst í efsta sæti breska listans eins og allar fyrri plötur sveitarinnar. Smáskífurnar,"Lyla" og,"The Importance Of Being Idle" komust í efsta sæti breska smáskífulistans. Þann 20. nóvember 2006 kom út 18 laga plata sem inniheldur brot af því besta sem Oasis hefur sent frá sér. Flest lögin eru frá gullaldarárum sveitarinnar 1994-1996. Platan heitir,"Stop The Clocks". Sveitin var heiðruð fyrir ",Framúrskarandi framlag til tónlistar" (e. "Outstanding contribution to music") á bresku tónlistarverðlaununum þann 14. febrúar 2007. Benoît Mandelbrot. Benoît B. Mandelbrot (fæddur 20. nóvember 1924 í Varsjá í Póllandi, lést 14. október 2010) er pólskættaður franskur stærðfræðingur. Hann er að stórum hluta ábyrgur fyrir þeim áhuga sem fólk hefur í dag á rúmfræði brotamynda, eða "fractal geometry". Hann sýndi fram á að brotamyndir koma fram á mörgum stöðum bæði í stærðfræði og annars staðar í náttúrunni. Hann fæddist árið 1924 inn í fjölskyldu með ríka menntahefð. Þó svo að faðir hans hafi verið fatakaupmaður, þá var móðir hans læknir. Sem ungur strákur var honum kynnt fyrir stærðfræði af tveimur frændum sínum. Þegar fjölskylda hans fluttist til Frakklands árið 1936 tók frændi hans, Szolem Mandelbrojt, sem var þá prófessor í stærðfræði hjá Frakklandsháskóla, við umsjón á menntun hans. Þar var honum kynnt verk G.H.Hardy mjög vel, og með því öðlaðist Mandelbrot vissa andstyggð á hagnýtri stærðfræði, sem hefur síðan elst af honum. Á námsárunum stundaði hann nám við Lycée Rolin háskólann í París fram að seinni heimsstyrjöld, og í Lyon háskóla og École Normale háskóla eftir seinni heimsstyrjöld. Hann stundaði þar nám undir Paul Lévy. Að lokinni doktorsgráðu sinni fór hann í California Institute of Technology og svo seinna til Princeton, þar sem að hann stundaði frekara viðbótarnám undir leiðsögn John von Neumann. Mandelbrot mengið og Julia mengi í hliðarmynd Árið 1958 hætti hann svo námi og kennslu tímabundið og hóf vinnu hjá IBM í Bandaríkjunum, en þar gerði hann sína merkilegustu uppgötvun. Árið 1945 hafði frændi hans kynnt honum fyrir ritgerð Gaston Julia um brotamyndir, þar sem að hann lagði fram jöfnuna formula_1. Mandelbrot þótti ritgerðin heldur tilkomulítil, líklegast vegna andstyggðar sinnar á hagnýtri stærðfræði, en um 1970 lenti hann í því að þurfa að endurskoða greinina. Sagan segir að Mandelbrot hafi verið falið það verkefni að finna út hvers vegna gagnatap varð í netsnúrum sem lágu víðsvegar um höfuðstöðvar IBM. Hann hafði hugsað málið í nokkra daga og rætt málið við samstarfsmenn sína, sem að sögðu gagnatapið líklegast til komið vegna þess að fólk með skrúfjárn væri að fikta í netkerfinu hér og þar í byggingunni. Í framhaldi áttaði hann sig á því að gagnatapið var í raun vegna rafsegulsviðs sem snúrurnar gáfu frá sér, og að gagnatapið var útreiknanlegt, samkvæmt formúlunni formula_1. Þetta fékk hann til þess að þróa Mandelbrot mengið, sem Julia mengið getur verið reiknað út frá. Ítarefni og heimildir. Mandelbrot, Benoît B. Mandelbrot mengið. Mandelbrot mengið er stærðfræðilegt mengi sem lýsir brotamynd. Það er skilgreint sem mengi allra punkta "c" í tvinntölusléttunni þar sem að runan formula_1 fyrir öll formula_2 þar sem að formula_3 og formula_4 hneigist ekki að óendanleika. Þetta þýðir, í mannlegu máli, að tölurnar Z og C eru tvinntölur, og að formula_1 er runa sem leggur alltaf saman ferninginn af síðustu útkomu rununar samanlagt við ákveðinn frumstilli ("Seed"). Ef að runan með gefnum frumstilli "c" heldur sér innan endanlegra marka um óendanlegt skeið telst frumstillirinn til mengisins. Mandelbrot mengið stækkað 70000 sinnum Það sem gerir þetta svo merkilegt er að þessi mynd er brotamynd. Það er að segja, myndin er samansett úr óteljandi smærri útgáfum af sjálfri sér. Því má sjá sama form birtast aftur ef að brotamyndin er stækkuð upp. Hér til hægri má t.d. sjá stærsta eintakið af mandelbrotsmyndinni innan mengisins, en hún er um 70000 sinnum smærri en heildareintakið. Þar sem að Mandelbrot mengið er ekki fullkomin brotamynd á borð við Sierpinski teppið eða Koch snjóflöguna, kemur upp villa í smækkaðri endurtekningu myndarinnar ("pertubations"). Mandelbrot mengið er ávallt til innan endanlegra marka, en þau mörk eru hringur, 2 að þvermáli, með miðju í hnitunum "(0,0)". Saga mengisins. Mandelbrot mengið var fyrst skilgreint árið 1905 af Pierre Fatou, frönskum stærðfræðingi sem vann á sviði tvinnfallagreiningar. Fatou rannsakaði runur á borð við formula_12, þar sem að hann hóf útreikninga frá punkti formula_13 á tvinnsléttunni. Punktar sem komu út frá því urðu til með því að endurtaka formúluna, og gaf runan því sporbraut umhverfis formula_13 í formi formula_15 Fatou áttaði sig á því að sporbraut formula_16 í þessari runu myndi gefa smá vísbendingu um hegðun slíkra kerfa. Það eru til óendanlega mörg slík föll, eitt fyrir hvert mögulegt gildi á "c". Fatou hafði hins vegar ekki aðgang að tölvu sem gat reiknað út sporbrautir allra þessarra falla, þannig að hann reyndi að handreikna það. Hann sýndi fram á það að um leið og punktur myndi færa sig í radíus frá upphafspunkti hnitakerfisins myndi sporbrautin sleppa út í óendanleika. Fatou sá aldrei mynd af því sem við þekkjum í dag sem Mandelbrot mengið, þar sem að fjöldi útreikninga sem þörf er á til þess að búa til slíka mynd er töluvert fleiri en mögulegt er að handreikna. Benoit Mandelbrot var fyrsti maðurinn sem notaði tölvu til þess að teikna þetta mengi, og er mengið því nefnt í höfuðið á honum. Brotamyndir (enska: "fractals") urðu vinsælar þegar að Benoit Mandelbrot gaf út bókina sína "Les Objects Fractals: Forme, Hazard et Dimension" árið 1975. Í þeirri bók notar Mandelbrot hugtakið "fractal", brotamynd, til þess að lýsa fjöldan allan af stærðfræðilegum fyrirbærum sem virtust bera með sér handahófskennda og ótrúlega eiginleika. Öll þessi fyrirbæri voru samsett úr einhvers konar falli eða mengi sem voru svo endurtekin með reikniriti eða runu. Aðrar brotamyndir. "Myndirnar voru búnar til í XaoS, frjálsu brotamyndagerðarforriti. Fjölskylda. Fjölskylda er hugtak sem notað er um nánustu ættingja einhvers. Á milli menningarheima er þetta hugtak nokkuð mismunandi breitt en venjulega er talað um þá ættingja sem búa á sama heimili og/eða eru tengdir nánum fjölskylduböndum. Hjónaband, sambúð, barn, sonur, dóttir, foreldri, móðir, faðir, bróðir, hálfbróðir, systir, hálfsystir, afi, amma, frændi, frænka, niðji. Barnaskóli Vestmannaeyja. Barnaskóli Vestmannaeyja er annar tveggja heildstæðra grunnskóla í Vestmannaeyjum, með u.þ.b. 450 nemendur á aldrinum 6-16 ára í 2 bekkjardeildum. Skólastjóri er Fanney Ásgeirsdóttir, en Björn Elíasson er aðstoðarskólastjóri. Barnaskólinn hefur verið einsetinn frá og með haustinu 1995. Saga. Fyrsti barnaskóli Íslands var settur á stofn í Vestmannaeyjum árið 1745. Hann starfaði í u.þ.b. 10 ár, en þá voru ekki til peningar til frekari starfsrækslu hans. Árið 1880 var Barnaskóli Vestmannaeyja stofnaður, og hefur hann starfað samfleytt í Vestmannaeyjum frá 1880. Skólinn stendur við Skólaveg og var elsti hluti byggingarinnar tekinn í notkun 1917. Byggt hefur verið við skólann fjórum sinnum; fyrst var íþróttasalur byggður árið 1929, en hann er nú notaður sem samkomusalur; svo var sá hluti byggingarinnar þar sem að anddyri, skólabókasafn og skólaskrifstofur eru nú byggður, svo sá hluti þar sem að miðdeild skólans er með aðstöðu, og loks sá hluti þar sem að unglingadeildin er til húsa. Í elsta hluta byggingarinnar - gamla skólanum - eru yngstu bekkir með aðstöðu, ásamt sérdeild. Aðstaða og starfsumhverfi. Íþróttakennsla skólans fer fram í Íþróttamiðstöðinni við Brimhólabraut. Í skólanum er sérdeild fyrir fatlaða nemendur enn fremur hefur undanfarin ár verið starfrækt nýbúadeild í skólanum til stuðnings fyrir nemendur sem hafa flutt til Eyja erlendis frá. Barnaskólinn leggur áherslu á að nemendur kynnist sérstöðu heimabyggðar sinnar eins og jarðfræði, dýralífi og sögu. Skólinn er virkur þátttakandi í erlendum samskiptum með nýjustu tækni má þar nefna Jason verkefnið, þátttaka í Comeniusarverkefni, GLOBE- umhverfisverkefnið sem nú stendur yfir og fleira. Þá eru óakedemísk starfsmarkmið skólans að efla samkennd, vináttu og sjálfsöryggi nemenda og er unnið að því m.a. með: samveru á sal, vinahópum, íþróttadegi, upplestrarkeppni, útivistardögum, árshátíð, tilbreytingadögum og ýmsu öðru. Frjáls hugbúnaður. Frjáls hugbúnaður er hugtak notað yfir hugbúnað sem handhafinn getur notað, afritað, kynnt sér, breytt og dreift með eða án breytinga að vild. Hugbúnaður sem flokkast undir þetta er meðal annars hugbúnaður sem ekki nýtur verndar laga um höfundarrétt eða hugbúnaður sem leyfi er gefið til að nota á þennan hátt. Tími. Tími er hugtak um huglægu víddina (eða aðferðina) þar sem að breyting gerist. Tími hefur verið mældur í fleiri aldir en á misnákvæman hátt en mælingar eru byggðar á alþjóðlega einingakerfinu þar sem að grunneining tíma er sekúnda. Til að mæla og ákvarða tíma eru venjulega notaðar tímaeiningar sem eru ekki hluti af SI kerfinu, þ.e. mínútur, klukkustundir, dagar o.s.frv. Þessar einingar eru þó venjulega notaðar í sambland við SI kerfið. Til hæginda notum við klukkur (og dagatöl) sem að segja okkur hvað tímanum líður og þar með getum við áætlað hversu langur tími er liðin frá því að eitthvað gerðist (einhver breyting varð) eða hversu langt það er í að eitthvað gerist (hversu langt er til jóla til að mynda). Við tölum um að klukkan sé t.d. 5:07:10 — sem er lesið sjö mínútur og 10 sekúndur yfir fimm — sem þýðir í raun að 18.430 sek. séu frá miðnætti (5,7 og 10 samanlagt í sexagesimal kerfinu eru formula_1), við vitum þá einnig að 67.970 sekúndur eru til miðnættis (næsta dags), því að í einum degi eru 24 klukkustundir eða u.þ.b. 86.400 sek (sekúndu fjöldi daga er breytilegur skv. sumum tímakerfum, sjá GMT). Deginum er ýmist skipt upp í tvisvar sinnum 12 klukkustundir eða 24 klukkustundir (hertími). Þegar honum er skipt upp í 12 klukkustundir er talað um tíma liðin frá hádegi (eftir hádegi, skammstafað e.h.) og miðnætti (e.m. eða f.h., fyrir hádegi), en í 24-klukkustundakerfinu er alltaf talað um tíma frá miðnætti. Fortíð og framtíð eru hugtök um það sem hefur þegar gerst og það sem á eftir að gerast en fortíðinni er ekki hægt að breyta því að hún er þegar búin að gerast. Framtíðin er hins vegar í stöðugri breytingu frá okkur séð en hún gæti einnig verið fyrirfram ákveðin, að hluta eða algjörlega, án þess að við höfum aðgang að því hvernig hún muni fara fram. Hún fer eftir orsökum og afleiðingum atburða sem eru að gerast og eiga eftir að gerast. Líffræði. Mynd af innri gerð plöntufrumu, einnig sjást heiti á mörgum frumulíffærum. Animalia - Bos primigenius taurus Bacteria - Gemmatimonas aurantiaca (- = 1 Micrometer) Líffræði eða lífvísindi er sú vísindagrein sem fjallar um lífið. Allir þættir lífs eru rannsakaðir, allt frá efnasamsetningu lífvera að umhverfi þeirra og atferli. Einnig er fjallað um sögu lífs frá uppruna og þróun þess fram til okkar daga. Alþjóðlegt heiti greinarinnar, "biologia", er komið úr forngrísku og er sett saman af orðinu "bio", sem merkir líf, og viðliðnum "logia", sem merkir meðal annars fræði. Meginstoðir líffræðanna. Líffræði er afar víðfeðmt svið, svo nánast er ógjörningur að alhæfa um rannsóknanálgun líffræðinga. Því heyrist þó stundum fleygt að rannsóknir líffræðinga séu um margt ólíkar því sem tíðkast innan eðlisfræða og annarra raungreina og séu ekki byggðar á lögmálum og stærðfræðilegum útskýringum. Athuganir líffræðinga hafa þó leitt í ljós að lífið fylgir ákveðnum reglum sem lýsa má með eftirfarandi hugmyndum um einkenni lífvera, þróun þeirra, fjölbreytileika, skyldleika, jafnvægishneigð og samverkun. Megineinkenni lífvera. Ýmsir þættir og ferli eru sameiginleg á meðal lífvera og má telja grundvallar atriði lífsins. Þær verur sem búa yfir þessum eigindum má þá líta á sem „fullgildar“ lífverur. Til að mynda samanstanda allar lífverur af frumum sem allar eru um margt svipaðar að byggingu. Hafa til dæmis frumuhimnu úr fosfólípíðum og eru samsettar úr sams konar lífefnum. Allar lífverur hljóta í arf erfðaefni (frá foreldri eða foreldrum) sem inniheldur erfðamengi lífvera. Þroski fósturvísa hjá fjölfruma lífverum sýnir áþekk formfræðileg skref og þroskaferlinu er stjórnað með tjáningu líkra erfðavísa. Þróun: meginregla líffræðanna. Rannsóknir líffræðinga hafa leitt í ljós að allar lífverur eru afkomendur sameiginlegs áa og hafa orðið til fyrir tilstilli þróunar. Þetta er meginástæða þess að lífverur eru svo líkar að gerð og atferli. Charles Darwin setti fram þá útgáfu þróunarkenningarinnar sem enn er í gildi og skilgreindi drifkraft hennar, náttúruval. Upprunaflokkun lífvera. Þrátt fyrir að lífverur séu líkar í grundvallaratriðum, þá er afar mikinn fjölbreytileika að finna innan lífríkisins, til dæmis hvað varðar atferli, form og efnaskipti. Til þess að kljást við þennan fjölbreytileika hafa líffræðingar reynt að flokka allar lífverur. Flokkunarkerfið ætti að taka mið af skyldleika lífvera og endurspegla þróunarsögu þeirra. Slík flokkun heyrir undir flokkunarfræði og nafngiftargræði, þar sem lífverur eru flokkaðar í hópa ("taxa") sem bera hvert sitt fræðiheiti. Lífverur eru flokkaðar í þrjú lén: gerla, fyrnur og heilkjörnunga. Innan lénanna eru síðan smærri flokkunar einingar, svo sem ríki, fylkingar og flokkar. Veirur, naktar veirur og prótínsýklar eru einnig taldin til viðfangsefna líffræðanna, þó svo hæpið sé að telja þessar verur til lífvera í eiginlegum skilningi. Samvægi: aðlögunarhæfni lífvera. Samvægi er tilhneyging lífkerfa til að bregðast við áreiti (breytingum í umhverfi o.s.frv.) þannig að innra jafnvægi haldist innan ásættanlegra marka. Allar lífverur, einfruma og fjölfruma, reyna eftir fremsta megni að halda líkamlegu jafnvægi. Samvægi sést hjá frumum sem leitast við að halda jöfnu sýrustigi eða saltmagni (sjá osmósa), hjá fjölfrumungum með heitt blóð sem leitast við að halda réttum líkamshita og í vistkerfum — t.d. þegar að koldíoxíð magn eykst, er meira brennsluefni handa plöntum svo að meira vex af þeim og þær eyða umfram koldíoxíði og koma á jafnvægi. Vefir og líffæri leitast einnig við að halda samvægi. Samverkun: lífveruhópar og umhverfið. Allar lífverur verka á víxl við aðrar lífverur og umhverfið. Stórt vandamál sem blasir við rannsóknum á stórum vistkerfum er að það eru svo margar víxlverkanir sem geta átt sér stað og erfitt að rekja eina til enda eða upphafs. Eins og ljón bregst við umhverfi sínu á veiðum á gresjunni bregst baktería við sykursameind sem verður á leið hennar. Hegðun lífvera gagnvart öðrum er hægt að flokka í samhjálp, árásagirni, gistilíf og sníkjulíf. Málið vandast þegar farið er að skoða samband lífvera í vistkerfi og heyra þær athuganir undir vistfræði. Jarðvísindi. Jarðvísindi (geoscience, earth science) er undirgrein náttúrufræðinnar og reikistjörnufræðinnar sem fæst við rannsóknir á jörðinni. Þeir sem leggja stund á greinina kallast jarðvísindamenn. Vistfræði. Vistfræði er vísindagrein sem snýst um rannsóknir á dreifingu og fjölda lífvera, atferli þeirra og samskipti við umhverfi sitt, jafnt hvað varðar ólífræna þætti á borð við veðurfar og jarðfræði, og lífræna þætti á borð við aðrar tegundir lífvera. Mannavistfræði er skyld en sérstök grein vísindanna sem skoðar vistfræði manna, skipulögð verk mannkynsins, og umhverfi manna. Það tengist vistfræði, félagsfræði, mannfræði og öðrum vísindagreinum mjög náið. Viðfangsefnum vistfræðanna er gjarnan skipt upp í vistkerfi, en gjarnan er talað um að Jörðin öll sé eitt vistkerfi, sem svo skiptist í önnur minni, t.d. lífríkið umhverfis Mývatn eða á Galápagoseyjum. Vistfræði telst vera undirgrein af líffræði. Listi yfir íslenska staðla. Listi yfir íslenska staðla sem settir eru af Staðlaráði Íslands. Ágúst. Ágúst eða ágústmánuður er áttundi mánuður ársins í gregoríska tímatalinu með 31 dag og er nefndur eftir Ágústus Caesar. Mánuðurinn hefur svo marga daga vegna þess að Ágústus vildi jafn marga daga og júlí sem er nefndur eftir Júlíusi Caesar. Mánuðurinn er þar sem hann er vegna þess að Kleópatra dó á þessum tíma. Áður en Ágústus endurskýrði mánuðinn hét hann "Sextilis" á latínu því hann var sjötti mánuðurinn í rómsverska tímatalinu en það tímatal byrjaði í mars. Frakkland. Lýðveldið Frakkland eða Frakkland (franska "République française" eða "France") er land í Vestur-Evrópu sem nær frá Miðjarðarhafi í suðri að Ermarsundi í norðri og frá Rín í austri að Atlantshafi í vestri. Vegna lögunar landsins gengur það oft undir heitinu „sexhyrningurinn“ (fr. "Hexagone") hjá Frökkum sjálfum. Í Evrópu á Frakkland landamæri að Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Mónakó, Spáni og Andorra, en handanhafssýslur þess í öðrum heimsálfum eiga landamæri að Brasilíu, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Landið tengist Bretlandseyjum gegnum Ermarsundsgöngin. Frakkland er meðal aðildarríkja Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins og á fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Landlýsing. Meginland Frakklands (fr. "France métropolitaine") liggur í Vestur-Evrópu, en ríkinu tilheyra einnig landsvæði í Norður-Ameríku, á Antillaeyjum, í Suður-Ameríku, í Indlandshafi, í Kyrrahafi bæði norðan og sunnan miðbaugs og á Suðurskautslandinu. Landamæri Frakklands í Evrópu eru 2970 km að lengd og snúa að eftirtöldum átta ríkjum: Spáni (650 km), Belgíu (620 km), Sviss (572 km), Ítalíu (515 km), Þýskalandi (450 km), Lúxemborg (73 km), Andorra (57 km) og Mónakó (4,5 km). Í Suður-Ameríku á Franska Gíana landamæri að Brasilíu (580 km) og Súrínam (520 km). Saint-Martin-ey í Antillaeyjaklasanum skiptist milli Frakklands og Hollands. Loks gera Frakkar tilkall til svonefndrar Terre Adélie á Suðurskautslandinu en það svæði er landlukt og umkringt af landsvæði sem Ástralar gera tilkall til. Stjórnsýsla á þessum yfirráðasvæðum Frakklands er með ýmsum hætti og ganga þau eftir því undir fjölbreytilegum nöfnum, allt frá „handanhafssýslu“ til „handanhafssvæðis“. Meginland Frakklands einkennist af mjög fjölbreyttu landslagi, allt frá flatlendinu með norður- og vesturströndinni að fjallakeðjunum í suðaustri (Ölpunum) og suðvestri (Pýreneafjöllum). Í frönsku ölpunum er hæsti fjallstindur í vestanverðri Evrópu, Mont Blanc, sem er talinn 4810 m. Í landinu er víða fjalllendi sem er eldra að uppruna, til að mynda miðfjalllendið ("Massif central"), Júrafjöll, Vogesafjöll og loks Ardennafjöll sem eru bæði klettótt og vaxin þéttum skógi. Frakkar njóta þess einnig að eiga mikið kerfi vatnsfalla en helstu fljótin eru Leira, Rón (kemur upp í Sviss), Garonne (kemur upp á Spáni), Signa og nokkur hluti árinnar Rín, en einnig Somme og Vilaine. Meuse er eina stórfljótið í Frakklandi sem hefur ekki verið aðlagað skipaumferð. Vegna mikils fjölda franskra yfirráðasvæða um allan heim sem snúa að hafi ræður Frakkland yfir annarri stærstu efnahagslögsögu heims á eftir Bandaríkjunum, samtals mælist hún 11.035.000 km². Saga. Frakkland nútímans tekur yfir svipað svæði og hið forna hérað Gallía þar sem Gallar bjuggu en þeir voru keltnesk þjóð. Á fyrstu öld fyrir Krist var Gallía innlimuð í Rómaveldi og tóku íbúarnir upp latneska tungu og menningu. Kristni skaut rótum í landinu á annarri og þriðju öld eftir Krist. Á fjórðu öld tóku germanskir ættflokkar að streyma yfir Rín sem markaði austurlandamæri Gallíu. Í þeim hópi voru Frankar mest áberandi en af þeim er nafn Frakklands dregið. Samfelld tilvist Frakklands sem sérstaks ríkis er talin hefjast á 9. öld þegar Frankaveldi Karlamagnúsar skiptist í vestur- og austurhluta. Austurhlutinn náði þá yfir það svæði sem nú er Þýskaland og er þessi skipting oft einnig talin marka upphaf Þýskalands. Frakkland var konungsríki allt til ársins 1792 þegar lýðveldi var komið á í kjölfar frönsku byltingarinnar. Napóleon Bónaparte náði svo undirtökum í lýðveldinu og lýsti sjálfan sig keisara 1804. Napóleon lagði undir sig stóran hluta Evrópu með landvinningum og með því að koma skyldmennum til áhrifa í mörgum konungsríkjum þess tíma. Napóleon var settur af árið 1815 og var gamla konungsríkið endurreist. Það var svo afnumið með öðru lýðveldinu sem síðar var afnumið með öðru keisaraveldinu undir forustu bróðurson Napóleons. Honum var svo steypt af stóli og þriðja lýðveldið aftur komið á1870. Í síðari heimsstyrjöldinni hernámu Þjóðverjar norðanvert Frakkland, en svonefnd Vichystjórn stýrði suðurhlutanum. Að stríðinu loknu var stofnsett svokallað fjórða lýðveldi sem varð loks fimmta lýðveldið með stjórnskipunarbreytingum sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1958. Frakkland var meðal sigurvegara í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni en hafði enga burði eftir stríðin til að viðhalda stórveldisstöðu sinni í heiminum. Eftir stríðið hafa tekist sættir með Frökkum og Þjóðverjum og hefur samvinna þessara þjóða verið kjarninn í stofnunum eins og Evrópusambandinu en Frakkar hafa verið hvað harðastir stuðningsmenn þess að efla samstarf Evrópuríkja á sviði stjórnmála, varnar- og öryggismála. Stjórnsýslustig. Stjórnsýslustig í Frakklandi eru mörg. Landið skiptist í 26 héruð (fr. "régions") og liggja 22 þeirra í Evrópu (eitt þeirra er eyjan Korsíka en hin 21 liggja á meginlandi álfunnar) en fjögur eru svonefnd „handanhafshéruð“ (fr. "régions d'outre-mer"). Héruðin skiptast síðan í 100 sýslur. Þær eru tölusettar (í stórum dráttum eftir stafrófsröð) og ráðast póstnúmer, skráningarnúmer ökutækja og fleira af því. Sýslunum er skipt í 342 svonefnd "arrondissements" en þau hafa enga kjörna fulltrúa og þjóna einvörðungu tæknilegu hlutverki í skipulagi ríkisstofnana. "Arrondissements" skiptast í 4.035 kantónur (fr. "cantons") sem eru fyrst og fremst kosningakjördæmi. Loks skiptast "arrondissements" einnig í 36.682 sveitarfélög (fr. "communes") með kjörinni stjórn. Héruð, sýslur og sveitarfélög kallast einu nafni „umdæmi“ (fr. "collectivités territoriales"), en það merkir að þau hafa á að skipa bæði kjörnum fulltrúum og framkvæmdavaldi ólíkt því sem gildir um "arrondissements" og kantónur. Til ársins 1940 voru "arrondissements" einnig umdæmi með kjörinni stjórn, en kosningar til þeirra lögðust af á tímum Vichy-stjórnarinnar og voru svo aflagðar samkvæmt stjórnarskrá fjórða lýðveldisins árið 1946. Upphaflega voru kantónurnar einnig umdæmi með kjörnum fulltrúum. Fjórar sýslnanna eru svonefndar „handanhafssýslur“ (fr. "départements d'outre-mer") er falla saman við handanhafshéruðin fjögur. Þau eru fullgildur hluti Frakklands (og þar með Evrópusambandsins) og njóta þannig í flestum atriðum sömu stöðu og meginlandssýslur Frakklands. Auk héraðanna 26 og sýslnanna 100 tilheyra Frakklandi fjögur „handanhafsumdæmi“ (fr. "collectivités d'outre-mer"), eitt umdæmi sem sérstakar reglur gilda um (Nýja-Kaledónía) og eitt „handanhafssvæði“ (fr. "territoire d'outre-mer"). Handanhafsumdæmi og handanhafssvæði tilheyra Frakklandi sem ríki en ekki Evrópusambandinu og tollabandalagi þess. Á frönskum yfirráðasvæðum í Kyrrahafi er þannig enn í gildi svonefndur Kyrrahafsfranki, en verðgildi hans er tengt gengi evru. Í handanhafssýslunum (-héruðunum) fjórum var áður notaður franskur franki og nú evra. Auk þessa ráða Frakkar enn allmörgum eyjum í Indlandshafi þar sem byggð er ekki samfelld. Mannfjöldi. Íbúafjöldi í Frakklandi er um 63 milljónir (2006). Manntal fór fram með reglulegu millibili frá árinu 1801 en frá árinu 2004 hefur mannfjöldaskráin verið haldin óslitið. Fjölgun íbúa í Frakklandi er einhver sú mesta í Evrópu og stafar það bæði af tiltölulega hárri fæðingatölu og miklum fjölda innflytjenda. Engu að síður fjölgar öldruðum í Frakklandi hlutfallslega mjög ört vegna hækkandi meðalaldurs og sökum þess að fjölmennar kynslóðir eftirstríðsáranna eru nú farnar að bætast í þann hóp. Trúarbrögð. Eins og í ýmsum öðrum Evrópuríkjum telst ekki við hæfi í Frakklandi að ríkið grennslist fyrir um trúarlíf þegnanna. Ýmsar sjálfstæðar stofnanir stunda þó slíkar rannsóknir. Meðal annars fer fram á þriggja ára fresti könnun á vegum stofnunarinnar CSA. Samkvæmt könnun frá árinu 2004, sem náði til úrtaks 18.068 Frakka, segjast 64,3% kaþólskrar trúar en 27% segjast vera guðleysingjar. Hlutfall kaþólskra hafði þá fallið úr 69% á þremur árum. Þannig teljast um 30 milljónir fullorðinna Frakka kaþólskrar trúar en fjórar milljónir alls tilheyra öðrum trúarbrögðum, fyrst og fremst íslam og mótmælendakirkjum. Flestir hinna kaþólsku segjast ekki leggja rækt við trúna. Samkvæmt könnun á vegum stofnunarinnar IFOP, sem fram fór í apríl árið 2004, segjast 44% Frakka ekki trúaðir. Árið 1947 var sá hópur ekki nema 20% þjóðarinnar. Bókmenntir. Elstu bókmenntir Frakka voru samdar á miðöldum en þá var ekkert eitt tungumál talað á því landsvæði sem í dag tilheyrir Frakklandi. Franska var enn að verða til úr latínu snemma á miðöldum og ýmsar mállýskur voru talaðar en engin réttritun. Höfundar franskra mimðaldabókmennta eru ókunnir, sem sem höfundar verkanna "Tristan og Ísold" og "Lancelot og hið heilaga gral". Ýmiss franskur miðaldakveðskapur sótti innblástur til þjóðsagna, til dæmis Rolandskvæði. „Roman de Renart“, sem Perrout de Saint Cloude samdi árið 1175, segir söguna af Reynard (refinum) og er annað dæmi um snemmfranskar bókmenntir. Nöfn nokkurra höfunda eru þekkt, þar á meðal Chrétien de Troyes og Vilhjálmur 9. af Aquitaniu, sem ritaði á okkitísku. a> er meðal mikilvægustu skáldsagnahöfunda og skálda Frakka og er stundum talinn merkasti höfundur Frakka fyrr og síðar. François Rabelais var mikilvægur höfundur á 16. öld og hafði töluverð áhrif á orðaforða og myndmál nútíma frönsku. Á 17. öld höfðu leikrit eftir Pierre Corneille, Jean Racine og Molière, sem og siðfræðileg og heimspekileg rit eftir Blaise Pascal og René Descartes mikil áhrif á frönsku yfirstéttina og urðu enn fremur mikilvægar fyrirmyndir næstu kynslóða franskra rithöfunda, þar á meðal fyrir höfunda á borð við Jean de La Fontaine, sem var mikilvægt skáld á 17. öld. Franskar bókmenntir og kveðskapur stóðu í miklum blóma á 18. og 19. öld. Á 18. öld voru til að mynda að störfum rithöfundar eins og Voltaire, Denis Diderot og Jean-Jacques Rousseau, sem allir fengust við heimspeki. Charles Perrault var mikilvirkur höfundur barnabókmennta og skrifaði til dæmis víðkunnar sögur svo sem um stígvélaða köttinn, Öskubusku, Þyrnirós og Bláskegg. a>, 19. aldar rithöfundur, skáld og þýðandi. Við upphaf 19. aldarinnar var táknsæisstefnan mikilvæg hreyfing í frönskum bókmenntum en til hennar heyrðu meðal annarra skáld á borð við Charles Baudelaire, Paul Verlaine og Stéphane Mallarmé. Á 19. öld voru einnig að störfum rithöfundarnir Victor Hugo ("Vesalingarnir" og "Hringjarinn í Notre-Dame"), Alexandre Dumas ("Skytturnar þrjár" og "Greifinn af Monte-Cristo") og Jules Verne (' og "Leyndardómar Snæfellsjökuls"). Sá síðastnefndi var mikilvægur brautryðjandi vísindaskáldskapar. Meðal annarra skáldsagnahöfunda 19. aldar má nefna Émile Zola, Honoré de Balzac, Guy de Maupassant, Théophile Gautier og Stendhal. Prix Goncourt eru frönsk bókmenntaverðlaun sem voru fyrst veitt árið 1903. Meðal mikilvægra rithöfunda 20. aldar má nefna Marcel Proust, Louis-Ferdinand Céline, Albert Camus og Jean-Paul Sartre. Antoine de Saint Exupéry samdi "Litla prinsinn", sem hefur áratugum saman notið vinsælda sem barnabók en einning meðal fullorðinna. Lengst af á 20. öld áttu Frakkar fleiri nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum en nokkur önnur þjóð. Myndlist. Upphaf franskrar myndlistar var undir töluverðum áhrifum frá ítalskri myndlist. Frægustu tveir myndlistarmenn Frakka á endurreisnartímanum voru Nicolas Poussin og Claude Lorrain, sem báðir bjuggu á Ítalíu. Forsætisráðherra Loðvíks 14., Jean-Baptiste Colbert, stofnaði árið 1648 Konunglegu myndlistarakademíuna til að styðja við listamenn og árið 1666 stofnaði hann Frönsku akademíuna í Róm, sem starfar enn. Henni var ætlað að styrkja tengslin við ítalska listamenn. Frönsk myndlist fylgdi einnig þróun ítalskrar myndlistar í áttina að rókókóstíl 18. aldarinnar en hann sótti innblástur til gamals barokkstíls. Verk hirðlistamanna, svo sem Antoines Watteau, François Boucher og Jean-Honorés Fragonard voru dæmigerð fyrir ríkjandi stíl. Með frönsku byltingunni komu ýmsar breytingar en Napóleon Bónaparte hafði dálæti af nýklassískum stíl, til dæmis í verkum Jacques-Louis David. Um miðja 19. öld var ríkjandi stefna í fyrstu rómantík, eins og fram kom í verkum Théodores Géricault og Eugènes Delacroix, og síðar meira raunsæi eins og verk Camilles Corot, Gustaves Courbet og Jean-François Millet bera vitni um. Á síðari hluta 19. aldar varð Frakkland að miðstöð lista og listsköpunar og þar urðu til nýjar stefnur í myndlist, þar á meðal impressjónismi en meðal frægustu myndlistarmanna þeirrar stefnu voru Camille Pissarro, Édouard Manet, Edgar Degas, Claude Monet og Auguste Renoir. Önnur kynslóð impressjónískra myndlistarmanna var einnig framúrstefnuleg en til þeirrar kynslóðar teljast myndlistarmennirnir Paul Cézanne, Paul Gauguin, Toulouse-Lautrec og Georges Seurat. Til expressjónismans, sem naut vinsælda snemma á 20. öldinni, heyrðu Henri Matisse, André Derain og Maurice de Vlaminck. En á fyrri hluta 20. aldar var kúbismi einnig að ryðja sér til rúms. Hann varð til í verkum Georges Braque og spánska listamansins Pablos Picasso, sem bjó í París. Margir aðrir erlendir listamenn settust að í París, svo sem Vincent van Gogh, Marc Chagall og Wassily Kandinsky. Mörg listasöfn í Frakklandi sérhæfa sig í myndlist. Mikill fjöldi frægra málverka frá því á 18. öld eða fyrr er til sýnis á ríkisrekna listasafninu Louvre í París, þar á meðal Mona Lisa. Louvre-höll hefur lengi verið listasafn Orsay-safnið var vígt í gamalli lestarstöð (Gare d'Orsay) árið 1986, þegar mikil uppstokkun átti sér stað í skipulagi listasafna hins opinbera. Frönskum málverkum frá síðari hluta 19. aldar var safnað saman, einkum impressjónískum og expressjónískum verkum. Nútímalist er til sýnis á Musée National d'Art Moderne, sem flutti árið 1976 til Centre Georges Pompidou. Þessi þrjú söfn taka á móti um það bil 17 milljónum gesta á ári hverju. Meðal annarra opinberra myndlistarsafna má nefna Grand Palais (1,3 milljónir gesta árið 2008) en einnig eru mörg listasöfn í eigu borga og bæjarfélaga og er Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris vinsælast þeirra með um átta hundruð þúsund gesti á ári (2008). Tónlist. Saga franskrar tónlistar nær aftur til miðalda en stóð þó í mestum blóma á 17. öld þökk sé Loðvíki 14., sem réð fjölda tónlistarmanna og tónskálda við hirð sína. Frægustu tónskáld þessa tíma voru meðal annarra Marc-Antoine Charpentier, François Couperin, Michel-Richard Delalande, Jean-Baptiste Lully og Marin Marais. Allir voru þeir við hirð konungs. Að Loðvíki 14. látnum fataðist franskri tónlist flugið en á næstu öld öðlaðist Jean-Philippe Rameau þó nokkra frægð og er enn í dag meðal þekktustu tónskálda Frakklands. Klassísk tónlist náði aftur fyrri hæðum á 19. og 20. öld við lok rómantíska tímabilsins. Í fyrstu bar mest á óperutónskáldum á borð við Hector Berlioz, Georges Bizet, Gabriel Fauré, Charles Gounod, Jacques Offenbach, Édouard Lalo, Jules Massenet og Camille Saint-Saëns. Þetta tímabil var gullöld óperunnar. Á eftir fylgdu forverar nútíma klassískrar tónlistar með þá Érik Satie og Francis Poulenc og umfram allt Maurice Ravel og Claude Debussy fremsta í fylkingu. Um miðja 20. öldina lögðu tónskáldin Maurice Ohana, Pierre Schaeffer og Pierre Boulez sitt af mörkum til þróunar klassískrar tónlistar. Frönsk tónlist var svo fyrir miklum áhrifum frá popptónlist og rokktónlist um miðja 20. öld. Enda þótt tónlist frá enskumælandi löndum yrði vinsæl í Frakklandi hefur frönsk popptónlist, þekkt sem "chanson française", ætíð notið mikilla vinsælda. Meðal mikilvægustu tónlistarmanna Frakka á 20. öld má nefna Edith Piaf, Georges Brassens, Léo Ferré, Charles Aznavour og Serge Gainsbourg. Þótt fáar rokkhljómsveitir séu í Frakklandi samanborið við enskumælandi lönd, hafa hljómsveitir á borð við Noir Désir, Mano Negra, Niagara og Rita Mitsouko og nýverið Superbus, Phoenix og Gojira náð alþjóðlegum vinsældum. Meðal annarra franskra tónlistarmanna sem hafa notið vinsælda víða um heim má nefna söngkonurnar Mireille Mathieu og Mylène Farmer, raftónlistarmennina Jean-Michel Jarre, Laurent Garnier, Bob Sinclar og David Guetta. Á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar hafa raftónlistarhljómsveitirnar Daft Punk, Justice og Air einnig náð vinsældum víða um heim og átt sinn þátt í að auka vinsældir raftónlistar um heim allan. Bretland. Hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands (enska: "United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland") oftast þekkt á Íslandi sem Bretland eða Stóra Bretland er land í vestur Evrópu. Landið nær yfir megnið af Bretlandseyjum fyrir utan Ermarsundseyjar, Mön og meiri hluta Írlands. Bretland skiptist í England, Wales, Skotland og Norður-Írland. Bretland á ekki landamæri að öðrum löndum fyrir utan landamæri Norður-Írlands og Írska lýðveldisins en er umkringt af Atlantshafi, Norðursjó, Ermarsundi og Írlandshafi. Ermarsundsgöngin tengja Bretland og Frakkland. Á íslensku hefur skapast sú venja að tala um Bretland sem ríkið en "Stóra-Bretland" sem eyjuna þar sem England, Skotland og Wales eru. Hafa ber í huga að sú nafngift getur verið ruglandi þar sem ríkið nær einnig yfir Norður-Írland sem er ekki hluti af Stóra Bretlandi. Í Bretland er þingræði og þingbundin konungsstjórn og Elísabet 2. er þjóðhöfðinginn. Ermarsundseyjarnar og Mön eru svokallaðar krúnunýlendur og eru ekki hluti af Bretlandi þrátt fyrir að vera í konungssambandi með því. Bretland ræður yfir fjórtán hjálendum sem allar voru hluti af breska heimsveldinu. Það var það stærsta sem sagan hefur kynnst og náði hátindi á Viktoríutímanum á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Bretland er þróað land og hefur sjötta stærsta hagkerfi í heimi eftir nafnvirði landframleiðslu. Það var fyrsta iðnvædda landið í heiminum. Bretland er meðlimur í Evrópusambandinu, Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Breska samveldinu, G8, OECD, NATO og WTO. Saga. Landsvæði sem á einhverjum tímapunkti tilheyrði breska heimsveldinu. Konungsríkið Stóra-Bretland varð til þann 1. maí 1707 við sameiningu konungsríkisins Englands (þar með Wales) og konungsríkisins Skotlands. Þessi sameining kom í kjölfar Sameiningarsáttmálans sem var samþykktur 22. júlí 1706 og staðfestur af enska þinginu og skoska þinginu sem settu bæði lög um sameiningu (Sambandslögin 1707). Einni öld síðar sameinaðist konungsríkið Írland (sem var undir stjórn Englands til 1691) við konungsríkið Stóra-Bretland og þá varð ríkið Bretland til með Sambandslögunum 1800. Þó að England og Skotland væru aðskilin ríki fyrir árið 1707 höfðu þau verið í konungssambandi frá 1603 þegar Jakob 6. Skotakonungur erfði ensku og írsku krúnurnar og flutti hirð sína frá Edinborg til London í kjölfarið. Á 18. öld var Bretland leiðandi við mótun vestrænna hugmynda á borð við stjórnskipan byggða á þingræði en landið lagði einnig mikið af mörkum í bókmenntum, listum og vísindum. Iðnbyltingin hófst í Bretlandi, umbreytti landinu í efnahagslegt stórveldi og hraðaði mjög vexti breska heimsveldisins. Líkt og önnur nýlenduveldi Evrópu var Bretland viðriðið ýmiskonar kúgun á fjarlægum þjóðum, þar á meðal nauðungarflutninga á afrískum þrælum til nýlendanna í Ameríku. Bretland tók þó afstöðu gegn þrælaverslun með lögum settum 1807, fyrst stórþjóða. Með sigri gegn herjum Napóleons í Napóleonsstyrjöldunum styrkti Bretland verulega stöðu sína og varð langöflugasta flota- og efnahagsveldi heimsins á 19. öld og fram á miðja 20. öld. Mestri útbreiðslu náði breska heimsveldið árið 1921 eftir að Þjóðabandalagið veitti því umboð til að stýra fyrrum nýlendum Ottómanaveldisins og Þýskalands eftir ósigur þeirra í fyrri heimsstyrjöldinni. Ári síðar var Breska ríkisútvarpið (BBC) stofnað en það varð að fyrsta fjölmiðlinum sem hóf útvarpssendingar á heimsvísu. Í kjölfar kosningasigurs Sinn Féin á Írlandi í þingkosningunum 1918 braust út stríð milli Breta og írskra sjálfstæðissinna sem lauk með stofnun Írska fríríkisins 1921. Norður-Írland kaus þó að vera áfram hluti af Bretlandi. Í kjölfar þessa var formlegu nafni Bretlands breytt til núverandi horfs, Bretland var í liði bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir ósigra bandamanna á meginlandi Evrópu á fyrstu ári stríðsins háði Bretland miklar loftorrustur við Þjóðverja sem þekktar urðu sem bardaginn um Bretland. Í kjölfar sigurs bandamanna var Bretland eitt af þeim þremur stórveldum sem mest höfðu að segja um gerbreytta skipan heimsmála eftir stríðið. Fjárhagur landsins var þó illa farinn eftir stríðið en Marshalláætlunin og rífleg lán frá Bandaríkjunum og Kanada hjálpuðu til við endurbygginguna. Eftir stríðið var lögð áhersla á uppbyggingu velferðarkerfisins í Bretlandi og stofnuð var ríkisrekin heilbrigðisþjónusta sem allir landsmenn skyldu hafa aðgang að. Þá hófst einnig aðflutningur fólks til Bretlands víða að úr fyrrum nýlendum breska heimsveldisins sem gert hefur Bretland að fjölmenningarlegu samfélagi. Útbreiðsla ensku um allan heim hefur viðhaldið áhrifum bókmennta- og menningararfs landsins en poppmenning frá Bretlandi hefur einnig haft áhrif úti um allan heim, sértaklega á sjöunda áratugunum. Áherslur í breskum stjórnmálum breyttust talsvert með valdatöku Margrétar Thatcher árið 1979 þar sem reynt var að auka frjálsræði í viðskiptum og draga úr vægi ríkisvaldsins. Þær áherslur héldu að mestu áfram undir forystu Tony Blair frá og með 1997. Bretland var eitt af tólf löndum sem stofnuðu Evrópusambandið árið 1992 þegar Maastrichtsáttmálinn var undirritaður. Fyrir stofnun ESB var Bretland aðildarríki Evrópubandalagsins frá 1973. Landafræði. Kort af Bretlandi með einstökum ríkum. Heildarflatarmál Bretlands er um það bil 245.000 ferkílómetrar og samanstendur af eyjunni Stóra-Bretlandi, Norður-Írlandi og minni eyjum. Bretland er á milli Norður-Atlantshafsins og Norðursjávar og er 35 km norður af strönd Frakklands. Ermarsund aðskilur löndin tvö. Stóra-Bretland liggur á milli breiddargráðanna 49° og 59° N (Hjaltlandseyjar ná upp í 61° N) og lengdargráðanna 8° V til 2° A. Stjörnuathugunarstöðin í Greenwich í London er miðstöð Greenwich-núllbaugsins. Frá norðri til suðurs er Stóra-Bretland bara pínulítið meira en 1.100 km að lengd á milli Land’s End í Cornwall og John o’ Groats í Caithness. Norður-Írland er með landamæri við Írland sem eru 360 km að lengd. Loftslag á Bretlandi er stillt og það er nægur regnskúr árlega. Hitastig er breytilegt en sjaldan fellur niður –10 °C eða næ yfir 35 °C. Aðalvindur er frá suðvestri og ber milt og vott veður. Svæði í austri eru vernduð af þessum vindi og þess vegna eru þurrustu. Straumar frá Atlantshafinu, sérstaklega Golfstraumurinn, bera mild vetur sérstaklega í vestri hluta landsins þar sem vetur eru vot. Sumur eru heitast í suðausturhluta landsins, sem er næst við meginland Evrópu, og kaldast í norðri. England nær yfir helming flatarmáls Bretlands og er 50.350 km2 að stærð. Megnið af landinu er undirlendi. Fjöllótt landsvæði er í norðvesturhluta landsins að meðtöldum Lake District, Pennínafjöllum og hæðum úr kalksteini í Peak District, auk þess Exmoor og Dartmoor í suðvestri. Aðalár eru Thames, Severn og Humber. Stærsta fjallið á Englandi er Scafell Pike í Lake District sem er 978 metrar að hæð. Á Englandi eru margir stórir bæir og borgir með sex af 50 stærstum þéttbýlum í ESB. Skotland nær yfir um það bil þriðjungi flátarmálsins Bretlands og er 78.772 km2 að stærð með tæpum átta hundruðum eyjum aðallega vestur og norður af meginlandinu. Aðaleyjaklasar eru Suðureyjar, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar. Landslag Skotlands er óslétt og fjallhátt. Það er stórt misgengi sem nær frá Helensburgh til Stonehaven. Misgengið aðskilur tvö mjög ólík svæði: Hálöndin í norðri og vestri og Undirlendið í suðri og austri. Ben Nevis er hæsta fjallið á Skotlandi og hæsti punktur á Bretlandi, 1.343 km að hæð. Undirlendisvæði sérstaklega á milli Firth of Clyde og Firth of Forth eru flatari og þar sem flest fólk á Skotlandi býr. Þar eru stórar borgir eins og Glasgow og Edinborg. Wales nær yfir tæpap tíunda hluta Bretlands og er 20.758 km2 að stærð. Wales er aðallega fjallhátt land enda þótt Suður-Wales sé ekki eins fjallhátt og Norður-Wales. Íbúa- og iðnaðarsvæði eru í suðri og samanstanda af Cardiff (höfuðborg Wales), Swansea og Newport. Stærstu fjöllin í Wales eru í Snowdonia og eru að meðtöldum Snowdon (velska: "Yr Wyddfa") sem er 1.085 m að hæð og er hæsti fjallstindurinn í Wales. Það eru um það bil 14 eða 15 fjöll í ríkinu. Strandlína Wales er yfir 1.200 km að lengd. Það eru nokkrar eyjar við strönd Wales og stærsta er Angelsey ("Ynys Môn") í norðvestri. Norður-Írland nær yfir aðeins 14.160 km2 landsins og er aðallega hæðótt land. Lough Neagh, stærsta vatn á Bretlandi og Írlandi (388 km2 að flatarmáli) er á Norður-Írlandi. Hæsti fjallstindurinn á Norður-Írlandi er Slieve Donard að 849 m. Stjórnsýslueiningar. Nokkur ólík stjórnsýslueiningakerfi eru í notkun á Bretlandi, og notkun þeirra getur verið breytileg. Bretland skiptist í fjögur lönd sem tilheyrir einu ríki: England, Norður-Írland, Skotland og Wales. Hvert þessara landa notar sitt eigin stórnsýslueiningakerfi. Þessar stjórnsýslueiningar eiga oft rætur að rekja til tíma kerfa sem í notkun voru fyrir sameiningu Bretlands. Þess vegna er það ekki til eitt staðlað kerfi sem er notað um landið allt. Fram að 19. öld breytust þessi kerfi ekki mikið, en frá þeim tíma hafa verið nokkrar breytingar. Þessar breytingar voru ekki líkar í öllum löndunum og vegna þess að meira vald hefur verið afhent Skotlandi, Norður-Írlandi og Wales verða framtíðarbreytingar einnig ólíkar. Staða sveitarsjórna á Englandi er flókin. Landið er oft skipt í 48 sýslur (sjá sýslur á Englandi). Til stjórnar er England skipt í níu svæði og eitt þeirra, það er Stór-Lundúnasvæðið (e. "Greater London"), hefur átt sitt eigin borgarstjóra síðan 2000. Ætlað var að öðrum svæðum væri gefið borgarstjóra en þetta hefur ekki verið framkvæmt. Stór-Lundúnasvæðið skiptist í 32 borgarhluta og önnur svæðin skiptast í sýsluráð. Ríkisstjórn og stjórnmál. Á Bretlandi er þingbundin konungsstjórn og Elísabet 2. Bretadrottning er þjóðhöfðingi landsins og 15 annarra landa í bresku samveldinu. Ríkið er eitt af þremur löndum í heimi sem eru ekki með kerfisbundna stjórnarskrá og svo samanstendur stjórnskrá ríkisins af mörgum skrifuðum bréfum. Bretland er með þingræði sem er grundvallað á Westminster-kerfinu sem hefur verið líkt eftir um allan heim. Það er tvær deildir í þinginu sem funda í Westminsterhöllinni: House of Commons og House of Lords. Öll lög sem eru sett þurfa Royal Assent, þ.e. samþykki einvaldsins. Forsætisráðherra Bretlands er maður sem vinnur meirihluta í House of Commons og er yfirleitt formaður stærsta stjórnmálaflokks í deildinni. Ríkisstjórn er formlega útnefnd af einvaldinum og forsætisráðherranum enda þótt raunverulega kýs forsætisráðherrann ríkisstjórn og einvaldurinn virðir völ sín. Núverandi forsætisráðherrann er "The Rt Hon" David Cameron MP. Hann tók við embætti þann 11. maí 2010. Fyrir almennar kosningar er Bretlandi skipt í 646 kjördæmi. 529 eru á Englandi, 18 á Norður-Írlandi, 49 á Skotlandi og 40 í Wales, en í næstu kosningum verða kjördæmin 650. Hvert kjördæmi kýs einn þingmann með meirihluta atkvæða. Einvaldurinn boðar til almennra kosninga þegar forsætisráðherra ráðleggur svo. Engin lágmarkslengd kjörtímabils er skilgreind en samkvæmt Parliament Act 1911 þarf að halda almennar kosningar á fimm ára fresti. Það er þrír aðalstjórnmálaflokkar á Bretlandi: Verkamannaflokkurinn, Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn. Þessir þrír flokkar unnu 616 af 646 sæti í House of Commons í 2005 almennum kosningum. Það eru líka til aðrir stjórnamálflokkar sem taka þátt í kosningum í bara einum hluta landsins, eins og Skoski þjóðlegi flokkurinn (aðeins á Skotlandi), Plaid Cymru (aðeins í Wales) og Sinn Féin (Norður-Írlandi). Það eru 78 þingmenn í 12 kjördæmum sem standa fyrir Bretland í Evrópuþinginu en í næstu kosningum verða Evrópuþingmenn Bretlands 72. Efnahagsmál. Bretland samanstendur af hagkerfum (í lækkandi stærð) Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands. Samkvæmt gengum hefur Bretland sjötta stærsta hagkerfi í heimi og þriðja stærsta í Evrópu á eftir Þýskaland og Frakkland. Iðnbyltingin hófst á Bretlandi og snerist í fyrstu um þungaiðnað eins og skipasmíðar, námugröft kola, framleiðslu stáls og vefnað. Heimsveldið myndaði markað til útlanda fyrir breskar vörur og gerði Bretland kleift að ráða yfir milliríkjaviðskiptum á 19. öldinni. Vegna iðnvæðingar annarra landa byrjaði Bretland að missa keppnisanda sinn með heimsstyrjöldunum tveimur. Iðnaður á Bretlandi hnignaði verulega á 20. öldinni. Framleiðsla er enn mikilivæg í dag fyrir hagkerfið en aflaði einungis sjöttungs tekna árið 2003. Breski bílaiðnaðurinn er mikilvægur hluti bresks iðnaðs en hann hefur líka hnignað mjög með hruni MG Rover Group. Megnið af þessum iðnaði er í eigu erlendra fyrirtækja. BAE Systems sem framleiðir flugvélar meðal annars fyrir hergeirann er stærsti varnarverktaki Evrópu. Rolls-Royce er mikilvægur framleiðandi í geimverkfræði. Efna- og lyfjaiðnaðir eru sterkir á Bretlandi. Lyfjafyrirtækin (GlaxoSmithKline og AstraZeneca) hafa höfuðstöðvar sínar í landinu. Þjónustugeirinn á Bretlandi hefur stækkað mjög og er 73% af landsframleiðslu. Geirinn er ráðinn yfir af fjármálaþjónustu sérstaklega í bankarekstri og vátryggingu. London er stærsta fjármálamiðstöðin í heimi; kauphöllin í London, London International Financial Futures and Options Exchange og vátryggingamarkaður Lloyd's of London öll stödd í Lundúnaborg. London er aðalmiðstöð fyrir alþjóðaviðskipti og er ein af þremur miðstöðum alþjóðahagkerfisins (með New York og Tokyo). Stærsta samsöfnun erlendra banka í heimi er í London. Á síðastan áratug hefur ný fjármálamiðstöð verið byggð upp á Docklands-svæðinu í Austur-London. HSBC, stærsti banki í heimi, og Barclays Bank hafa höfuðstöðvar þar. Mörg fyrirtæki sem eiga viðskipti við Evrópu hafa höfuðstöðvar sínar í London. Til dæmis er bandaríski bankinn Citibank með Evrópu-höfuðstöðvar sínar í London. Höfuðborg Skotlands Edinborg er ein stærstu fjármálamiðstöðva í Evrópu. Höfuðstöðvar Royal Bank of Scotland, einn stærsti bankinn í heimi, eru staddar þar. Ferðaþjónusta er stór atvinnugrein á Bretlandi. Frá og með 2004 fóru um 27 milljónir ferðamanna þangað. Bretland er sjötti helsti ferðamannastaður heimsins. London er mesta heimsótt borgin í heimi, með 15,6 milljónir ferðamanna árið 2006. Í öðru sæti er Bangkok með 10,4 milljónir ferðamanna og í þriðja sæti er París með 9,7 milljónir ferðamanna árið 2006. Lýðfræði. Á Bretlandi er tekið manntal á hverju tíunda ári samtímis um landið allt. Office for National Statistics safnar upplýsingum varðandi Englandi og Wales. General Register Office for Scotland og Northern Ireland Statistics and Research Agency sjá um þetta í Skotlandi og Norður-Írlandi. Mannfjöldi. Samkvæmt manntali árið 2001 var mannfjöldi Bretlands 58.789.194, þriðji mesti mannfjöldi í Evrópu, fimmti mesti í samveldinu og tuttugastiogfyrsti mesti í heimi. Frá og með miðju ári 2007 var mannfjöldi um það bil 60.975.000. Mannfjöldi stækkar í dag vegna aðflutnings fólks en fæðingartala og lífslíkur eru líka að hækka. Samkvæmt mati á mannfjölda árið 2007 eru í fyrsta sinn fleiri ellilífeyrisþegar en fólk undir 16 ára aldri. Árið 2007 var mannfjöldi Englands um það bil 51,1 milljónir. Það er eitt af þéttbyggðustu löndum í heimi með 383 manns á ferkílómetri (árið 2003). Megnið af fólki býr í London og Suðaustur-Englandi. Á þeim tíma var mannfjöldi Skotlands um það bil 5,1 milljónir, Wales 3 milljónir og Norður-Írlands 1,8 milljónir. Öll þessi lönd eru strjálbýlli en England. Þéttbýli Wales, Norður-Írlands og Skotlands voru 142/km2, 125/km2 og 65/km2 hver um sig. Tungumál. Það er ekkert opinbert tungumál á Bretlandi en helsta talað mál er enska, sem er vestgermanskt tungumál er á rætur að rekja til fornensku. Í ensku eru mörg tökuorð úr öðrum málum, aðallega fornnorrænu, normanskri frönsku og latínu. Aðallega þökk sé Breska heimsveldinu er enska svo útbreitt í heiminum í dag. Hún er orðin alþjóðlegt viðskiptatungumál og er það vinsælasta annað tungumál. Skoska tungumálið sem upprunnið er frá miðensku er talað í Skotlandi. Til er mállýska skosku sem töluð er í norðursýlsum á Írlandi. Einnig er talað fjögur keltnesk tungumál á Bretlandi: velska, írska, gelíska og kornbreska. Samkvæmt manntalinu 2001 sagðist rúmlega fimmtungur (21%) Walesbúa geta talað velsku sem er aukning miðuð við manntalið 1991 (18%). Auk þess er metið að 200.000 manns sem kann að tala velsku búa á Englandi. Samkvæmt manntalinu 2001 í Norður-Írlandi gætu 167.487 (10,4%) manns talað svolítið írsku. Næstum því allt þeirra eru kaþólskir. Yfir 92.000 manns í Skotlandi (tæplega 2% af mannfjöldanum) sagðist kunna smá í gelísku, þar á meðal 72% þeirra manna sem búa í Suðureyjum. Fjöldi skólabarna sem er kennt velsku, gelísku og írsku er vaxandi. Það er líka talað velsku og gelísku í nokkrum öðrum löndum, til dæmis tala sumir gelísku í Nýja-Skotlandi í Kanada og aðrir velsku í Patagóníu í Argentínu. Um allt Bretland er venjulega skyldubundið að skólabörn læru annað tungumál: á Englandi upp í 14 ár og í Skotlandi upp í 16 ár. Franska og þýska er þau tvö helstu tungumál sem kennd eru á Englandi og í Skotlandi. Í Wales er öllum skólabörnum annaðhvort kennt á velsku eða kennt velsku sem annað tungumál upp í 16 ár. Flutningur. Íbúar á Bretlandi sem fæddust erlendis. Bretland er ólíkt sumum öðrum evrópskum löndum af því mannfjöldi sitt er enn stækkandi vegna aðflutningar. Aðflutningur skýrði helming mannfjölgunar frá 1991 til 2001. Borgarar frá Evrópusambandinu hafa rétt til að búa og vinna á Bretlandi. Sjöttungur innflytjenda voru frá löndum sem fengu inngöngu í ESB árið 2004. Margt fólk kom líka frá löndum í nýju samveldinu. Samkvæmt opinberum tölum hafa 2,3 milljónir innflytjenda flutt til Englands síðan 1997, 84% eru ekki evrópsk. 7 milljónir nýrra innflytjenda eru væntanlegar fyrir 2031. Árið 2007 voru innflytjendur 237.000 sem er aukning frá árinu áður þegar 191.000 manns flutti til Englands. Jafnframt búa 5,5 milljónir Breta erlendis, aðallega í Ástralíu, á Spáni og í Frakklandi. Árið 2006 sótti 149.035 manns um breskt ríkisfang og var 154.095 manns gefið það. Fólkið sem fékk ríkisfang var aðallega frá Indlandi, Pakistan, Sómalíu og Filippseyjum. 21,9% barna sem fæddust á Englandi og í Wales voru fædd af mæðrum sem fæddust utan við Bretland (þ.e. 146.956 af 669.601 börnum). Á milli áranna 2004 og 2009 fluttu 1,5 milljónir manns frá löndum sem eru nýkomin í ESB. Tveir þriðjungar af þessum innflytjendum voru frá Póllandi, en margir eru farnir aftur heim. Vegna samdráttar á Bretlandi á seinni árum hefur það verið ekki eins mikil hvatning fyrir Pólverja til að koma til Bretlands. Núna er breska ríkisstjórnin að kynna nýtt flutningskerfi fyrir þá sem koma frá löndum utan EES. Í júní 2010 setti nýja ríkisstjórnin hámark á innflytjendum sem 24.100, áður en kynnt er nýtt hámark í apríl 2011. Þjóðarbrot. Upprunalega eiga Bretar rætur sínar að rekja til ýmislegra ætta sem bjuggu á Bretlandi þar til 11. aldar: Kelta, Engilsaxa, Rómverja, Víkinga og Normanna. Núna er talið að 75% Breta eigi rætur sínar að rekja til Baska. Saga flutningar að Bretlandi er löng, elsta samfélag Blökkumanna í landi er í Liverpool, frá árinu 1730. Elsta samfélag Kínverja í Evrópu er í Bretlandi, og hefur verið þar frá komu sjómanna frá Kína á 19. öld. Frá 1945 hefur það verið mikilsverður flutningur frá Afríku, Karíbahafi og Suður-Asíu vegna arfs eftir Breska heimsveldinu. Frá 2004 hefur verið mikill flutningur frá Mið- og Austur-Evrópu en frá og með 2008 hefur hann dregið úr. Árið 2001 litu 92,1% ríkisborgara á sig sem Hvítir, og hin 7,9% ríkisborgara litu á sig sem meðlimir í þjóðernisminnihluta. Borgir og þéttbýli. Höfuðborgir landanna á Bretlandi eru: Belfast (Norður-Írlandi), Cardiff (Wales), Edinborg (Skotlandi) og London (Englandi). London er líka höfuðborg Bretlands í heild sinni. Menntun. Í hverju landi sem tilheyrir Bretlandi er ólíkt menntunarkerfi. Á Englandi ber menntunarráðherra Englands ábyrgð á menntun en sveitarstjórnir sjá um daglega stjórn menntunarkerfisins. Menntun fyrir alla var kynnd á Englandi og í Wales árið 1870 á grunnskólastigi og árið 1900 á gagnfræðaskólastigi. Skyldumenntun byrjar á aldri 5 ára og lýkur á aldri 16 ára (15 ára ef barnið fæddist í lok júlí eða ágúst). Meginhluti barna er menntaður í ríkisskólum. Nokkrir ríkísskóla hafa sérstakar inngangskröfur og þeim sem er leyft að velja nemendur samkvæmt vitneskju og námsgetu eru sambærilegir við einkaskóla: meðal tíu bestu skóla landsins árið 2006 voru tveir ríkisskólar. Þó að fjöldi skólabarna í einkaskólum hafi minnkaður hefur hlutfall barnanna í þeim vaxið, það stendur nú í 7%. Þrátt fyrir það er yfir helming nemanda hjá Cambridge og Oxford-háskólum menntaður í einkasskólum. Háskólar í Englandi eru meðal þeirra bestu í heimi, Cambridge-háskóli, Oxford-háskóli, Imperial College London og University College London eru meðal 10 bestu háskóla í lista dagblaðsins "The Times" árið 2008. Enskir nemendur eru taldir sjöundu bestu í stærðfræði og sjöttu bestu í vísindum í heimi, hærra settir en nemendur í Þýskalandi og Skandinavíu. Í Skotlandi ber menntunarráðherra Skotlands ábyrgð á menntun en sveitarstjórnir sjá um daglega stjórn menntunarkerfisins. Skyldumenntun varð til í Skotlandi árið 1496. Hlutfall barnanna í einkaskólum í Skotlandi er rúmlega 4% en það er æ vaxandi undanfarin ár. Skoskir nemendur sem fara í háskóla í Skotlandi eiga ekki að borga námskostnaði né önnur gjöld ólíkir nemendum frá öðrum löndum í Bretlandi. Í Norður-Írlandi ber menntunarráðherra Norður-Írlands ábyrgð á menntun og fimm ráð sjá um stjórn skóla og bókasafna. Annars er Írland mjög mikið fyrir bækur og allskonar gömul rit. Í Wales sér Velska þingið um menntun og þar eru flestum nemendum kennt á velsku upp í aldur 16 ára. Menning. Mikil áhrif hafa verið á breska menningu en hún hefur líka haft talinverð áhrif á menningar annarra landa, m.a. Ástralíu, Bandaríkin, Kanada, Indland og Suður-Afríku. Kvikmyndagerð. Bretland hefur leikið þýðingarmikið hlutverk í sögu kvikmyndagerðar. Bresku leikstjórarnir Alfred Hitchcock og David Lean eru meðal þeirra best fögnustu leikstjóra allra tíma. Margir breskir leikarar eru vel þekktir víða um heim og hafa verið vel heppnaðir, þar með talið Julie Andrews, Richard Burton, Michael Caine, Charlie Chaplin, Sean Connery, Vivien Leigh, David Niven, Laurence Olivier, Peter Sellers og Kate Winslet. Nokkrar þeirra best heppnuðustu kvikmynda allra tíma hafa verið framkvæmdar á Bretlandi, meðal annars "Harry Potter" og "James Bond". Ealing Studios segist vera elsta stöðugt kvikmyndafyrirtæki heimsins. Þó að margar talinverðar kvikmyndir hafi verið gerðar á Bretlandi er það oft spurt hve áhrifamiklar breskar kvikmyndir séu í Evrópu og Bandaríkjunum. Margar breskar kvikmyndir eru gerðar í samráði við bandaríska framleiðendur með bæði breskum og bandarískum leikurum. Breskir leikarar birtast oft í aðalhlutverkum í Hollywood-kvikmyndum. Margar farsælar Hollywood-kvikmyndir snúast um fræga Breta eða breska atburði, meðal annars "Titanic", "The Lord of the Rings" og "Pirates of the Caribbean". Það hafa líka verið þýðingarmikil áhrif Breta í Disney-kvikmyndunum "Alice in Wonderland", "Robin Hood" og "One Hundred and One Dalmatians". Árið 2009 tóku breskar kvikmyndir um 2 milljarða bandaríkjadala í heildartekjur um allan heim (um 7% markaðshlutdeild um allan heim og 17% á Bretlandi). Breskar kvikmyndir tóku um 944 milljónir punda frá aðgöngumiðasölum sama ár en það er um það bil 173 milljónir miða. Kvikmyndastofnun Bretlands (e. "British Film Institute") hefur búið til lista yfir 100 bestu breskar kvikmyndir allra tíma sem heitir BFI 100. Bókmenntir. „Breskar bókmenntir“ kallast þau ritverk sem tengjast Bretlandi, Mön, Ermarsundseyjum og ritverk sem skrifuð voru fyrir sameiningu Bretlands. Flest bresk rtiverk eru skrifuð á ensku. Á Bretlandi er gefið út 206.000 bækur hvert ár og þetta er meira en í öllum öðru löndum. Leikritahöfundurinn og skáldið William Shakespeare er talinn eitt besta leikritaskáld allra tíma. Meðal þeirra fyrstu enskra rithöfunda eru Geoffrey Chaucer (14. öld), Thomas Malory (15. öld), Sir Thomas More (16. öld) og John Milton (17. öld). Á 18. öld ruddu þeir Daniel Defoe (höfundur "Robinson Crusoe") og Samuel Richardson brautina til fyrstu skáldsögunnar. Á 19. öld fylgdu fleiri nýjungar frá Jane Austen, Mary Shelley, Lewis Carroll, Brontë-fjölskyldunni, Charles Dickens, Thomas Hardy, George Eliot, William Blake og William Wordsworth. Nokkur dæmi um höfunda frá 20. öld eru skáldasagnahöfundurinn H. G. Wells, barnabókahöfundarnir Rudyard Kipling, A. A. Milne (skrifaði "Winnie the Pooh") og Roald Dahl, og þau D. H. Lawrence, Virginia Woolf, Evelyn Waugh, George Orwell, Graham Greene, krimmahöfundurinn Agatha Christie, Ian Fleming (skrifaði James Bond) og skáldin TS Eliot, Philip Larkin og Ted Hughes. Kveikt hefur verið aftur áhuga á verk J. R. R. Tolkien og C. S. Lewis vegna vinsælda "Harry Potter"-bókanna eftir J. K. Rowling. Nokkrir talinverðir skoskir rithöfundar eru Arthur Conan Doyle (höfundur "Sherlock Holmes"), Sir Walter Scott, J. M. Barrie, Robert Louis Stevenson og skáldið Robert Burns. Í seinni tíð hafa módernistinn Hugh MacDiarmid og þjóðernissinninn Neil M. Gunn stuðlað að Skosku endurreisninni, þar sem höfundarnir Ian Rankin og Iain Banks skapað vægðarlausari mynd. Höfuðborg Skotlands, Edinborg, var fyrsta „Bókmenntaborg“ UNESCO. Það elsta kvæði frá svæðinu sem nú er kallað Skotland, "Y Gododdin", var skrifað á fornvelsku seint á 6. öld og í því er elsta þekkt tilvísun til Arthur konungs. Dafydd ap Gwilym er talinn vera besta velskt skáld allra tíma. Vegna þess að velska var aðaltungumál Wales fram að 18. öld eru mörg velsk bókmenntaverk skrifuð á þetta tungumál. Daniel Owen er talinn vera fyrsti velski skáldsagnahöfundurinn, og gaf út "Rhys Lewis" árið 1885. Á 20. öld urðu R. S. Thomas og Dylan Thomas fyrir skáldskap sinn á ensku. Talinverðir velskir skáldsagnahöfundar eru Richard Llewellyn og Kate Roberts. Fjölmiðlar. Aðalsjónvarpsstöðvar í Bretlandi eru fimm: BBC One, BBC Two, ITV, Channel 4 og Five. Sem stendur útvarpa þessar stöðvar bæði í flaumrænum og stafrænum merkjum. Fyrstu tvær þessara stöðva eru auglýsingalausar og fjármagnaðar með leyfisgjaldi, hinar útvarpa auglýsingum. Í Wales er útvarpað S4C í stað fyrir Channel 4 og það aðallega á velsku. Í Bretlandi eru margar stafrænar sjónvarpsstöðvar, meðal þeirra eru sex frá BBC, fimm frá ITV, þrjár frá Channel 4 og ein frá S4C sem er aðeins á velsku. Kapalsjónvarpsþjónustur eru til frá fyrirtækjunum Virgin Media og gervihnattasjónvarp frá Freesat eða British Sky Broadcasting. Rekið er líka ókeypis stafræna jarðsjónvarpsþjónustu að nafni Freeview. Áætlað er að slökkva á flaumrænu sjónvarpi fyrir 2012. Fyrirtækið BBC sem stofnað var árið 1922 er fjármagnað af almenningi og rekur útvarps,- sjónvarps- og Internetsþjónustur. BBC er elsta og stærsta útsendingafyrirtæki í heimi. Fyrirtækið útvarpar frá nokkrum sjónvarps- og útvarpsstöðvum bæði í Bretlandi og erlendis. BBC World News er alþjóðleg fréttastöð fyrirtækisins og BBC World Service er alþjóðleg útvarpsstöð er send út á 31 tungumál. BBC Radio Cymru er velsk útvarpsstöð BBC og BBC Radio nan Gàidheal gelísk útgáfa þess. Aðalútvarpsstöðvum á Bretlandi er útvarpað af BBC Radio sem sendir út tíu stöðvar um landið allt og fjórtíu staðbundnar stöðvar. BBC Radio 1 fylgir BBC Radio 2 sem vinsælasta útvarpsstöðin. Á Bretlandi eru margar þjóðlegar og staðbundnar útvarpsstöðvar sem fjarmagnaðar eru með auglýsingum. Samkvæmt venju eru tvær aðaltegundir dagblaðanna á Bretlandi: svokölluðu „gæðisblöðin“ (e. "quality newspapers" eða "broadsheets") og „slúðurblöðin“ (e. "tabloids"). Upprunalega voru gæðisblöð prentuð á stærri pappír en slúðursblöð en til þess að gera það einfaldara að lesa þau eru mörg gæðisblöð nú prentuð á minni pappír (þessi pappírsstærð var venjulega notuð aðeins af slúðurblöðum). "The Sun" er mesta lesið dagblað Bretlands, með 3,1 milljónir lesendum (um fjórðung markaðshlutdeildarinnar). Systurblaðið þess "News of the World" var mesta lesið sunnudagsblaðið útgáfu var hætt árið 2011 vegna þess að stunda símhleranir. "The Daily Telegraph" er hægriblað gæðisblöðunum. "The Guardian" er vinstriblað og "Financial Times" er aðalviðskiptablaðið á Bretlandi, vel þekkt fyrir það að það er prentað á bleikum pappír. Tónlist. a> eru meðal þeirra vel heppnuðustu flytjanda allra tíma Ýmislegar tónlistarstefnur eru vinsælar í Bretlandi, t.d. ensk þjóðartónlist og bárujárn. Nokkur talinverð tónskáld frá Bretlandi eru meðal annars William Byrd, Henry Purcell, Sir Edward Elgar, Gustav Holst, Sir Arthur Sullivan, Ralph Vaughan Williams og Benjamin Britten brautryðjandi í breskri nútímaóperu. Sir Peter Maxwell Davies er eitt helsta lífandi tónskáld og er núverandi Master of the Queen's Music. Nokkrar sinfóníuhljómsveitar sem þekktar eru um allan heim eru staddar í Bretlandi, meðal þeirra BBC Symphony Orchestra og London Symphony Chorus. Nokkrir talinverðir hljómsveitarstjórar eru meðal annars Sir Simon Rattle, John Barbirolli og Sir Malcolm Sargent. Nokkur talinverð bresk kvikmyndatónskáld eru John Barry, Clint Mansell, Mike Oldfield, John Powell, Craig Armstrong, David Arnold, John Murphy, Monty Norman og Harry Gregson-Williams. George Frideric Handel, þó að hann fæddist í Þýskalandi, varð breskur ríkisborgari og nokkur helstu verka hans, m.a. "Messiah", voru á ensku. Andrew Lloyd Webber er vel heppnaður söngleikaframleiðandi og sýningar hans hafa verið sýndar í West End í London og Broadway í New York. Undanfarin fimmtíu ár hafa margir breskir poppflytjendur verið sérstaklega áhrifamiklar. Bítlarnir (e. "The Beatles"), Queen, Cliff Richard, Bee Gees, Elton John, Led Zeppelin, Pink Floyd og The Rolling Stones hafa allt selt yfir 200 milljónir hljómplötur hver um sig. Bítlarnir hafa selt yfir einn milljarð hljómplata um allan heim. Samkvæmt rannsóknum framkvæmdar af Guinness World Records eru átta þeirra tíu flytjanda sem hafa selt flesta smáskífurnar í breska topplistanum eru breskir: Status Quo, Queen, The Rolling Stones, UB40, Depeche Mode, the Bee Gees, Pet Shop Boys og Manic Street Preachers. Að undanförnu hefur flytjendum eins og Coldplay, Radiohead, Oasis, Spice Girls, Amy Winehouse, Muse og Gorillaz gengið vel víða um heiminn. Nokkrar borgar á Bretlandi eru þekktar fyrir tónlistina sína. Flytjendum frá Liverpool hefur gengið best, með 54 smáskífum efstum í topplistanum, fleiri en allar aðrar borgir í heimi. Nokkrir talinverðir flytjendur hafa líka verið frá Glasgow, sem var nefnd „Tónlistarborg“ af UNESCO. Íþróttir. Meðal þeirra vinsælustu íþrótta á Bretlandi eru knattspyrna, ruðningur, róður, hnefaleikar, badminton, krikket, tennis og golf. Allar fyrirnefndu íþróttirnar eiga rætur að rekja til Bretlands. Samkvæmt könnun sem framkvæmd var árið 2006 er fótbolti vinsælasta íþróttin á Bretlandi. Í alþjóðlegum keppnum koma aðskilin lið fram fyrir hönd Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands í flestum liðaíþróttum og í Samveldisleikunum (á ensku er stundum átt við þessi lönd sem „Home Nations“). Í Ólympíuleikunum kemur eitt lið fram fyrir hönd Stóra-Bretlands. Ólympíuleikarnir hafa verið haldnir í London árin 1908 og 1948 og verða haldnir þar aftur árið 2012. Hvert land sem tilheyrir Bretlandi hefur sitt eigin meistarakeppni, landslið og deild í knattspyrnu. Vegna þess að England, Skotland, Wales og Norður-Írland keppa alþjóðlega sem aðskilin lið koma aðskilin lið fram fyrir hönd Bretlands í knattspyrnuviðburðum í Ólympíuleikunum. Lagt hefur verið fram að eitt lið keppir fyrir hönd Bretlands í Sumarólympíuleikunum 2012, en þær skosku, velsku og norður-írsku meistarakeppnirnar vilja ekki taka þátt. England hefur verið best heppnaðast úr svökölluðu „Home Nations“ og vann Heimsmeistarakeppnina árið 1966 þegar keppnin var haldin þar. Venjulega hefur verið mikil keppni á milli Englands og Skotlands í knattspyrnu. Talið er að krikket hafi verið fundið upp á Englandi og í enska landsliðinu eru krikketleikarar frá sýsluliðum þar og í Wales. Ólíkt í ruðningi og knattspyrnu þar sem ensku og velsku liðin eru aðskilin er aðeins eitt krikketlið fyrir hönd beggja landanna. Skotland, England (með Wales) og Írland (með Norður-Írlandi) hefur öll keppt í Heimsmeistarakeppninni í krikketi. Á Bretlandi er meistaradeild í krikketi þar sem lið frá 17 sýslum á Englandi og einni í Wales keppa við hvert annað. Ruðningur er vinsæl íþrótt á sumum hlutum Bretlands. Hann á rætur að rekja til bæjarins Huddersfield og er spiluð aðallega í Norður-Englandi. Tennis á líka rætur að rekja til Norður-Englands, hann var fundinn upp í Birmingham á árunum 1859 til 1865. Wimbledon mótið í tennis er haldið árlega í Wimbledon í London. Snóker er ein vinsælasta breska íþróttin sem spliuð er erlendis og hvert ár er haldið meistarakeppni í Sheffield. Golf er upprunnin í Skotlandi og er sjötta vinsælasta íþróttin á Bretlandi. Kappakstur er líka vinsæll og tekið er þátt í Formúlu 1. Ekkert annað land hefur unnið eins marga títla í Formúlu 1 og Bretland. Fyrsta keppnin í Formúlu 1 var haldin á Bretlandi í Silverstone árið 1950. Listi yfir útvarpsstöðvar á Íslandi. Eftirfarandi er listi yfir útvarpstöðar á Íslandi. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Flugstöð Leifs Eiríkssonar, oftast kölluð Leifsstöð, er flugstöð Keflavíkurflugvallar sem er stærsti flugvöllur Íslands og sá sem mestallt millilandaflug fer um. Í flugstöðinni er meðal annars fríhöfn. Flugstöðin er rekin af sérstöku opinberu hlutafélagi, Isavia ohf. Öryggisgæsla. Við inngöngu í fríhöfnina fara farþegar í gegnum málmleitartæki auk þess sem farangur þeirra er gegnumlýstur. Starfsmenn fríhafnarinnar, flugvallarins og áhafnir fara hins vegar í gegnum öryggisgæslu annars staðar í byggingunni. Þeir farþegar sem ferðast innan Schengen þurfa undir venjulegum kringumstæðum ekki að fara í gegnum vegabréfaeftirlit við komu eða för til landsins. Fólk sem vinnur við innritun biður þó gjarnan um að sjá ferðaskilríki auk þess sem að farþegi þarf ávallt að hafa vegabréf meðferðist þegar ferðast er innan Schengen ríkja utan Norðurlanda. Við komu í fríhöfnina er allur farangur annaðhvort gegnumlýstur eða leitað í honum, og stundum bæði. Fríhöfnin. Fríhafnarsvæðið er aðgengilegt bæði brottfarar- og komufarþegum sökum hönnunar stöðvarinnar, í fríhafnarsvæðinu er bar og ýmsar verslanir. Mohammed Saeed al-Sahaf. Mohammed Saeed al-Sahaf var upplýsingamálaráðherra Íraks á meðan á innrásinni í írak stóð árið 2003. Ayreon. Ayreon er hollensk eins-manns hljómsveit sem gefur út frumsamdar rokk-óperur. Þessi hugarsmíði Arjen Anthony Lucassens hefur heimspekilega stefnu sem minnir á hugleiðingar danska heimspekingsins Søren Kierkegaard um tilveruna. Arjen, sem í flestum tilfellum semur söguþræði óperanna og ákveður stíl tónlistarinnar, safnar þegar að hann er tilbúinn til sín fólk alls staðar að úr heiminum í upptökuverið sitt „The electic castle“ þar sem geisladiskarnir eru teknir upp. Verkefnið bar ekkert sérstakt nafn til að byrja með, en þar sem fyrsti diskurinn hét stakk útgáfufyrirtæki hans Import upp á því að Ayreon nafnið skyldi notað yfir svipuð verkefni Arjen. Saga. Fyrsti geisladiskur Ayreon var gefinn út árið 1995 undir nafninu "Ayreon: The Final Experiment" og segir hann sögu breta á 5. öld sem byrjar að móttaka skilaboð frá vísindamönnum ársins 2084 þegar mannkynið hefur nær tortímt sér í lokaheimstyrjöld. Á plötunni koma fram þrettán gestasöngvarar og hljóðfæraleikarar sem flestir eru hollenskir. "Actual Fantasy" (1996) er eina Ayreon platan fjalla ekki öll um eitt ákveðið söguefni heldur hvert lag um sig um eitt ákveðið ævintýri. Á honum koma eingöngu fram þrír söngvarar og þrír hljóðfæraleikarar, en það þykir lítið fyrir Ayreon. "Into the Electric Castle" (17. apríl 1998) er tveggja diska útgáfa segir sögu átta einstaklinga frá mismunandi tímabilum í mannkynssögunni, föst saman á einkennilegum stað tímaleysis og rúmleysis. Þar er dularfull rödd sem talar við þá, og hjálpar þeim að finna leið sína heim í gegnum rafmagnskastalann. Uppfull af vísindaskáldsögu-klisjum og sýru-rokki, sungið af sjö aðalsöngvurum og nokkrum aukasöngvurum, sem hver er í sínu hlutverki. Ellefu hljóðfæraleikarar spila undir á plötunni. "Ayreonauts Only" (10. júlí 2000). Tvöfalda útgáfan "The Universal Migrator" (2000) er vísindaskáldsaga sem segir frá síðasta manninum, sem býr aleinn á Mars. Á fyrri geisladisknum, "The Dream Sequencer" heldur hann af stað í ferðalag aftur í tímann í minningum ýmissa annarra einstaklinga í gegnum mannkynssöguna með hjálp tækis er kallast draumaraðarinn. Fyrri diskurinn er uppfullur af rólegu framúrstefnurokki. Seinna meir for-skapast hann lengra fram í tímann, alla leið að miklahvelli á seinni diskinum, sem er töluvert þyngri, "The Flight of the Migrator". Aftur hafa þessar plötur um tíu söngvara sem eru studdir af mjög mörgum undirspilurum. Bruce Dickinson úr Iron Maiden kemur fram á seinni disknum, en hann er líklega best þekkti tónlistarmaðurinn sem hefur komið fram undir merki Ayreon. "The Human Equation" var gefinn út árið 2004. Líkt og í The Electric Castle eru þó nokkrir söngvarar, hver með sitt hlutverk. Með þessari útgáfu hvarf Ayreon frá sínum vanalega viðfangsefni vísindaskáldskap og tók fyrir sögu sem gerist í huga manns sem liggur í dauðadái á sjúkrahúsi eftir einkennilegt bílslys á hábjörtum degi með enga aðra bíla í grenndinni. Aðalleikararnir á þessum disk eru ellefu, og leika flest þeirra mismunandi tilfinningar hins meðvitundarlausa manns: Röksemd, ást, ótti, stolt, ástríða, kvöl og bræði. Ed Warby, hljómborðsleikari Uriah Heap, og Mikael Åkerfeldt, söngvari Opeth, eru líklega frægustu tónlistarmennirnir á þessum disk. "01011001", sem kom út árið 2008, bindur saman alla undangengna diska og segir frá tilraunum þjóðar sem kallar sig "Forever of the Stars" við að takast á við eigin uppruna og eigin vanskilning. Þeir skapa því mannkynið og rannsaka það, en sjá að þau eru ekkert betur sett með þetta flóknar spurningar. Diskurinn hefur hlotið lof gagnrýnanda, svo sem 10/10 á MetalRaw.com, 5/5 á Korroso.fi, og var valin plata vikunar á ProgArchives.com. Stóra-Bretland. Stóra-Bretland er stærsta eyjan í eyjaklasa undan vesturströnd Evrópu sem nefnist Bretlandseyjar. Á eyjunni er að finna löndin England, Skotland og Wales. Hún er umflotin Norðursjó, Ermarsundi, Írlandshafi og Atlantshafi. Eyjan er 229.850 ferkílómetrar að flatarmáli, stærsta eyja Evrópu og sú áttunda stærsta í heiminum. Með 60 milljón íbúa er Bretland jafnframt þriðja fjölmennasta eyja heims, á eftir Jövu og Honsú (Japan). Eyjan er láglend í suðri og austri en hæðir og fjöll einkenna norður- og vesturhluta hennar. Fyrir lok síðustu ísaldar var Stóra-Bretland skagi út frá meginlandi Evrópu en þegar yfirborð sjávar hækkaði myndaðist Ermarsund sem í dag skilur eyjuna frá meginlandinu. Golfstraumurinn streymir hjá eyjunni og gerir það að verkum að loftslag þar er mildara en víða annars staðar á svipaðri breiddargráðu í heiminum. Nafngiftin Stóra-Bretland stafar ekki af mikilmennskubrjálæði heldur skýrist hún af því að það er til annað Bretland, Bretagne-hérað í Frakklandi sem er hinum megin við Ermarsund og sem hefur verið kallað "Litla-Bretland" eða "Brittany" á ensku þar sem "-ny" er smækkunarending. 19. janúar. 19. janúar er 19. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 346 dagar (347 á hlaupári) eru eftir af árinu. Botnleðja. Botnleðja er íslensk rokkhljómsveit sem var stofnuð af nokkrum piltum í Hafnarfirði snemma í byrjun 10. áratugsins.Hún er skipuð þeim Heiðari Erni Kristjánssyni sem syngur og spilar á gítar, Ragnari Páli Steinssyni á bassa og Haraldi Frey Gíslasyni á trommum. Hljómsveitin vann músíktilraunir árið 1995. Hljómsveitin tók þátt í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2003 með lagið Eurovísa og hafnaði þar í öðru sæti, eftir Birgittu Haukdal. Meðlimir. Kristinn Gunnar Blöndal var hljómborðsleikari hljómsveitarinnar á því tímabili sem hún gerði Magnyl. Gítarleikarinn Andri Freyr Viðarsson tók við af Kristni og tók þátt í mörgum hljómleikaferðum hljómsveitarinnar víða um heim og hérlendis. Hann spilaði ekki inn á plötu með Botnleðju. Dýrafjörður. Dýrafjörður er fjörður á Vestfjarðakjálkanum og er á milli Arnarfjarðar og Önundarfjarðar. Dýrafjörður er þrjátíu og tveggja kílómetra langur og um níu kílómetrar að breidd yst. Hann er nú hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Tvö fell, sitt hvoru megin fjarðarins, setja svip sinn á hann, Sandafell (362 m) að sunnan og Mýrafell (312 m) að norðan. Í sameiningu loka þau fyrir sýn inn fjörðinn svo að úr fjarðarmynninu sést ekki inn í botn en þegar siglt er inn fjörðinn opnast dyr á milli þeirra. Þess hefur verið getið til að fjörðurinn hafi upphaflega dregið nafn af þessu og heitið "Dyrafjörður" en samkvæmt Landnámabók heitir hann eftir landnámsmanninum Dýra frá Sunnmæri. a> í Dýrafirði. Sandafell til hægri. Nokkurt undirlendi er við fjörðinn innanverðan og þar eru allnokkrir bæir, báðum megin fjarðar. Dálítill dalur er inn af fjarðarbotninum en þar er engin byggð lengur. Inn af dalbotninum er Gláma, víðáttumikið hálendissvæði þar sem áður var jökull. Á suðurströnd Dýrafjarðar, undir Sandafelli, er þorpið Þingeyri. Þar var þingstaður og verslunarstaður frá fornu fari og kauptún fór að myndast þar á 19. öld. Skammt fyrir utan Þingeyri er Haukadalur þar sem Gísli Súrsson bjó. Frá Þingeyri liggur vegur um Hrafnseyrarheiði yfir í Arnarfjörð en hann er jafnan lokaður nokkurn hluta vetrar. Rætt hefur verið um að gera jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Frá norðurströnd fjarðarins liggur svo góður vegur norður yfir Gemlufallsheiði til Önundarfjarðar. Við norðanverðan Dýrafjörð, utan við Mýrafell, er Núpur, gamalt höfðingjasetur og kirkjustaður. Þar var stofnaður skóli árið 1907 og varð hann síðar héraðsskóli og var starfræktur til 1992. Þar er nú sumarhótel. Kirkjur eru einnig á Mýrum við norðanverðan fjörðinn og á Hrauni í Keldudal, yst í sunnnanverðum firðinum, en sú síðarnefnda er ekki lengur sóknarkirkja því dalurinn er í eyði. Áður var kirkja á Söndum en hún var síðar færð til Þingeyrar. Landnám. Fjórir landnámsmenn námu land í Dýrafirði, Dýri, sem áður er nefndur og sagður hafa búið á Hálsum, Eiríkur í Keldudal, Vésteinn Végeirsson í Haukadal og Þórður Víkingsson, sem nam fyrstur land í Alviðru í Dýrafirði. Þórður var kallaður son Haralds konungs hárfagra, „en það mun þó varla vera satt“, skrifar Guðbrandur Vigfússon. 20. janúar. 20. janúar er 20. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 345 dagar (346 á hlaupári) eru eftir af árinu. 21. janúar. 21. janúar er 21. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 344 dagar (345 á hlaupári) eru eftir af árinu. 22. janúar. 22. janúar er 22. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 343 dagar (344 á hlaupári) eru eftir af árinu. 23. janúar. 23. janúar er 23. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 342 dagar (343 á hlaupári) eru eftir af árinu. 24. janúar. 24. janúar er 24. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 341 dagur (342 á hlaupári) er eftir af árinu. 25. janúar. 25. janúar er 25. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 340 dagar (341 á hlaupári) eru eftir af árinu. 26. janúar. 26. janúar er 26. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 339 dagar (340 á hlaupári) eru eftir af árinu. 27. janúar. 27. janúar er 27. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 338 dagar (339 á hlaupári) eru eftir af árinu. 28. janúar. 28. janúar er 28. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 337 dagar (338 á hlaupári) eru eftir af árinu. 29. janúar. 29. janúar er 29. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 336 dagar (337 á hlaupári) eru eftir af árinu. 30. janúar. 30. janúar er 30. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 335 dagar (336 á hlaupári) eru eftir af árinu. 31. janúar. 31. janúar er 31. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 334 dagar (335 á hlaupári) eru eftir af árinu. 18. öldin. 18. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1701 til enda ársins 1800. Muse. Muse er ensk rokkhljómsveit frá Teignmouth í Devon og var stofnuð árið 1994 undir dulnefninu Rocket Baby Dolls. Síðar ákváðu þeir að kalla sig Muse, hættu í skóla og lögðu tónlistina fyrir sig. Sveitina skipa þeir Matthew Bellamy (söngvari, gítarleikari og hljómborðsleikari), Christopher Wolstenholme (bassaleikari) og Dominic Howard (trommari og slagverksleikari). Muse blandar saman öðruvísi rokki, þungarokki, framsæknu rokki, sígildri tónlist og raftónlist og mynda þannig nýframsækið rokk. Muse er best þekkt fyrir kröftuga og ægibjarta tónleika og fyrir sérvitringslegan áhuga Matthew Bellamy á alheimssamsæri, lífi úti í geimnum, ofsóknaræði, guðfræði og heimsendi. Muse hefur gefið út fimm breiðskífur og var sú fyrsta nefnd "Showbiz" og kom út 1999, en sú síðasta "The Resistance" (2009). "Black Holes & Revelations" sem kom út 2006 hlaut Mercury Prize-tilnefningu og lenti í þriðja sæti hjá NME á „lista yfir plötur ársins 2006“. Stofnun sveitarinnar (1992 – 1997). Meðlimir Muse voru hver í sinni hljómsveit þegar þeir gengu í framhaldsskólanum Teignmouth Community College snemma á 10. áratug 20. aldar. Samstarf þeirra fór að taka á sig mynd þegar Matthew Bellamy, þá 14 ára gamall, þreytti áheyrnarpróf sem gítarleikari fyrir hljómsveit Dominics Howards. Þeir báðu Chris Wolstenholme, sem þá spilaði á trommur, að læra að leika á bassa og ganga til liðs við þá. Árið 1994 sigraði hljómsveitin í tónlistarkeppni. Þá gengu þeir undir nafninu Rocket Baby Dolls og voru með gotnesku yfirbragði. Þeir voru „eina alvöru rokkhljómsveitin“ sem tók þátt í keppninni og mölvuðu hljóðfærin sín á sviðinu. „Þetta áttu að vera mótmæli, yfirlýsing“, sagði Bellamy, „svo, þegar við unnum í raun, var það áfall. Rosalegt áfall. Eftir þetta fórum við að taka okkur alvarlega.“ Stuttu eftir keppnina ákváðu þeir að fara ekki í háskóla, hættu í vinnu, breytu nafni hljómsveitarinnar í Muse og fluttu frá Teignmouth. Fyrstu stuttskífurnar og "Showbiz" (1998 – 2000). Eftir að hafa byggt upp aðdáendahóp á nokkrum árum, hélt hljómsveitin fyrstu tónleika sína í London og Manchester. Þeir áttu góðan fund með Dennis Smith eiganda hljóðversins Sawmills, sem var innréttuð, gömul vatnsmylla í Cornwall. Samstarf Muse við Sawmills leiddi til fyrstu stuttskífu þeirra, sem var einfaldlega kölluð "Muse", en hún var gefin út undir merkjum Dangerous sem tilheyrði Sawmills og sá Dominic Howard um hönnun plötuhulstursins. Önnur stuttskífa þeirra, "Muscle Museum", vakti athygli breska tónlistarskríbentsins Steve Lamacq og breska tónlistartímaritsins NME. Á sama tíma stofnaði Dennis Smith ásamt Safta Jaffery plötufyrirtækið Taste Media og var það sérstaklega gert fyrir Muse (sveitin var á mála hjá þeim við gerð fyrstu þriggja diska sinna). Þrátt fyrir að önnur stuttskífa þeirra hafi aflað þeim minni háttar hylli, voru bresk plötufyrirtæki treg til að styðja þá fjárhagslega og vildu margir meina að þeir hljómuðu, eins og svo margir samtímamenn þeirra, of mikið eins og Radiohead. Hins vegar voru bandarísk plötufyrirtæki áköf í að semja við þá og buðu þeim flug í fyrsta farrými til Bandaríkjanna í áheyrnarprufur. Þeir komust á samning hjá Maverick Records þann 24. desember 1998. Fyrir heimkomu þeirra til Englands stóð Taste Media að samningum við hin og þessi upptökufyrirtæki í Evrópu og Ástralíu og veitti það þeim frelsi til að stjórna ferli sínum þar. John Leckie, sem hafði framleitt plötur fyrir The Stone Roses, „Weird Al“ Yankovic og The Verve auk hinnar áhrifaríku plötu "The Bends" fyrir Radiohead, var fenginn til að framleiða fyrstu plötu sveitarinnar, "Showbiz". Platan opinberaði harðan rokkstíl sveitarinnar og textarnir fjölluðu til dæmis um hversu erfitt hafði verið að koma sér á framfæri í bænum Teignmouth. Eftir útgáfu Showbiz fór Muse í tónleikaferðalag með Savage Garden um Bandaríkin. Árin 1999 og 2000 spiluðu þeir á stórhátíðum í Evrópu og á tónleikum í Ástralíu og á sama tíma eignuðust þeir stóran aðdáendahóp í Vestur-Evrópu, sérstaklega í Frakklandi. "Origin of Symmetry" og "Hullabaloo" (2001 – 2002). Við gerð annarrar plötu sveitarinnar, "Origin of Symmetry", gerði sveitin ýmsar tilraunir með óvenjulegum hljóðfæraútsetningum á borð við kirkjuorgel, mellotron og stærra trommusett. Það var meira um hátónaðan söng hjá Bellamy, brotna gítarhljóma og auðkennandi píanóspil. Bellamy hefur nefnt að gítarleikurinn hafi verið undir sterkum áhrifum Jimi Hendrix og Tom Morello (úr Rage Against the Machine og Audioslave), en áhrif þess síðarnefnda koma sérstaklega í ljós í stefbyggðum lögum á "Origin of Symmetry", og þar sem Bellamy notar „pitch-shift“-hljóðbreyta í gítareinleik. Á plötunni er líka sérstök endurgerð af laginu „Feeling Good“, sem var samið af Anthony Newley og Leslie Bricusse. Muse fór í mál við Neskaffi árið 2003 fyrir að nota þeirra útgáfu af „Feeling Good“ í sjónvarpsauglýsingu án leyfis og gáfu Oxfam þau 500,000 pund sem þeir fengu í skaðabætur. Céline Dion var einnig hótað lögsókn árið 2002 þegar hún hugðist kalla sýningu sem hún stóð fyrir í Las Vegas „Muse“, þrátt fyrir að Muse hefði einkarétt á nafninu á heimsvísu. Céline Dion bauð þeim 50,000 dali til að nota nafnið en þeir höfnuðu því og Bellamy sagði „Við viljum ekki fara þangað og fólk heldur að við séum stuðningssveit Céline Dion“. Á endanum neyddist Céline Dion til að hætta við. Muse hefur verið líkt við hljómsveitina Queen, þó það sé að nokkru leyti vegna þess hversu svipaðar hljómsveitirnar eru á sviði, og stíll Bellamy minnir á Brian May úr Queen. Platan hefði getað náð miklum vinsældum í Bandaríkjunum, en Maverick útgáfan var ósammála Muse um hvernig söngurinn ætti að vera. Hún vildi hafa hann tónlægri til að hann „hljómaði betur í útvarpi“, svo hún bað þá um að breyta honum áður en þeir gæfu plötuna út í Bandaríkjunum. Við þetta ákvað sveitin að skilja við Maverick og varð það til þess að platan var ekki gefin út í Bandaríkjunum fyrr en 20. september 2005. Eftir að Muse hafði getið sér gott orð sem tónleikasveit var ákveðið að gefa út tónleikamynddisk og geisladisk. Mynddiskurinn, "Hullabaloo", var tekinn upp á velheppnuðum tónleikum á Le Zenith í París, þar sem þeir spiluðu tvö kvöld í röð. Samtímis var tvöfaldur geisladiskur gefinn út, "Hullabaloo Soundtrack", en á honum voru upptökur af lögum og eitthvað af tónleikunum á Le Zenith. Þá voru lögin „In Your World“ og „Dead Star“ gefin út á smáskífu. Lagið „Shrinking Universe“ frá "Hullabaloo Soundtrack" var eitt af aðallögum kvikmyndarinnar "28 Weeks Later" sem gefin var út 2007. Í febrúar 2006 setti Q Magazine plötuna "Origin of Symmetry" í 74. sæti af 100 bestu plötum frá upphafi samkvæmt skoðanakönnun meðal aðdáenda blaðsins. "Absolution" (2003 – 2005). Árið 2003 var platan "Absolution" gefin út en hún var framleidd af Rich Costey sem hafði unnið með Rage Against the Machine. Platan var framhald af tilraunastarfsemi sveitarinnar líkt og "Origin of Symmetry" og skartaði einnig hinu vinsæla lagi „Time Is Running Out“. Sveitin hefur sagt að þemað, sem sé gegnumgangandi á plötunni, snúist um heimsendi og hvernig brugðist er við honum. Þrátt fyrir þetta segir Muse plötuna vera „upplífgandi“, með jákvæðum skilaboðum í lögum eins og „Blackout“ og „Butterflies And Hurricanes“. Ástæðan er áhugi Bellamy á samsæriskenningum, guðfræði, tækni og hinu yfirnáttúrulega. Til dæmis er lagið „Ruled By Secrecy“ nefnt eftir bók eftir Jim Marrs, "Rule by Secrecy", sem fjallar um leyndardóma á bak við stjórnun stórvelda. Margir textanna á plötunni hafa stjórmálalegar tilvísanir. Með þessari plötu náði Muse loksins miklum árangri á Bretlandi og með nýjan bandarískan plötusamning upp á vasann fór Muse í fyrsta skipti í alþjóðlega tónleikaferð og héldu tónleika á íþróttavöllum. Á ferðalaginu fóru þeir um Ástralíu, Nýja Sjáland, Bandaríkin, Kanada og Frakkland. Á meðan á ferðinni stóð tókst þeim að gefa út lögin Time Is Running Out, Hysteria, Sing for Absolution, Stockholm Syndrome og Butterflies and Hurricanes. Sveitin spilaði á Glastonbury-hátíðinni í júní 2004. Þar lýsti Bellamy tónleikunum sem „bestu tónleikar lífs okkar“. „Þetta var besta tilfinning um afrek sem að við höfðum fundið á ævi okkar eftir að koma af sviði.“ sagði Bellamy. Skömmu eftir tónleikana lést faðir Dominic Howard, trommuleikara, af völdum hjartaáfalls en hann hafði verið á tónleikunum. „Það var næstum óraunverulegt að aðeins klukkutíma síðar var faðir hans dáinn. Það var varla hægt að trúa því. Næstu vikuna vorum við að reyna að styðja við Dom. Ég held að hann hafi verið glaður yfir því að faðir hans gat séð hann á þeirri stund sem var örugglega sú besta á ferli sveitarinnar.“ Muse hélt áfram tónleikaferðalagi sínu. Síðustu tónleikarnir voru í Bandaríkjunum en aukatónleikar voru haldnir vegna mikillar eftirspurnar á Earls Court í London. Í lok ársins gaf Vitamin Records út "The String Quartet Tribute to Muse" eftir The Tallywood Strings, plötu með órafmagnaðri útgáfu af sumum laga Muse. Sveitin lauk ferðalaginu í janúar 2005 en sneri aftur til Bandaríkjanna í apríl og maí það ár. Þann 2. júlí 2005 tók Muse þátt í Live 8 í París þar sem þeir spiluðu „Plug In Baby“, „Bliss“, „Time Is Running Out“ og „Hysteria“. Í apríl 2005 var ævisaga sveitarinnar gefin út á mynddiski sem nefnist "Manic Depression". Hljómsveitin tók ekki þátt í verkefninu og studdi ekki þessa útgáfu. Annar mynddiskur, Absolution Tour, var gefinn út 12. desember, 2005 og innihélt hann endurklippt efni frá Glastonbury-hátíðinni 2004 ásamt áður óséðu efni frá Earls Court í London, Wembley Arena og Wiltern Theatre í Los Angeles. Tvö lög voru falin á diskinum, „Endlessly“ og „Thoughts Of A Dying Atheist“, en þau voru mynduð á Wembley Arena. Eina lagið af plötunni "Absolution" sem var ekki á mynddiskinum var lagið „Falling Away With You“, en það hefur aldrei verið spilað á tónleikum. "Absolution" varð á endanum gullplata í Bandaríkjunum. "Black Holes & Revelations" og "HAARP" (2006 – 2008). Sveitin sneri aftur í hljóðver í ágúst 2005, þó að upptökur hæfust ekki af alvöru fyrr en í september. Platan var tekin upp fram á vor 2006 með nokkrum hléum vegna fría. Sveitin tilkynnti um nýju plötuna í maí 2006. Platan, sem var framleidd af Rich Costey eins og "Absolution", hét "Black Holes & Revelations". Stuttu fyrir útgáfu plötunnar var henni lekið á veraldarvefinn. Platan var gefin út í Japan 28. júní 2006 með aukalaginu „Glorious“ sem er ekki á plötum annars staðar í heiminum en lagið var hægt að fá pantað frá iTunes. Platan var gefin út í Evrópu 3. júlí 2006 og í Norður-Ameríku 11. júlí 2006. Hún lenti í 1. sæti á vinsældalistunum á Bretlandi, mestum hluta Evrópu, Ástralíu og náði miklum vinsældum í Bandaríkjunum þar sem hún lenti í 9. sæti á Billboard 200 plötulistanum. "Black Holes & Revelations" seldist í meira en einni milljón eintaka. Titill plötunnar og þemu laganna stafa af áhuga sveitarinnar á geimnum, sérstaklega Mars og Cydoniu. Myndirnar á plötunni voru hannaðar af Storm Thorgerson og sýna landslag reikistjörnunnar Mars með fjórum mönnum við borð og fjóra smáhesta ofan á því – líklegast eru þar á ferð Fjórmenningarnir sem hafa vaxið meira en hestar þeirra. Tónlistarþemað á disknum er að miklu leyti nokkurs konar rokk-diskó. Enn og aftur fjalla textarnir um stjórnmál og spillingu en sjónarhornið er ekki jafn svartsýnt og áður. Fyrsta lag plötunnar var selt eitt og sér á veraldarvefnum. Það var „Supermassive Black Hole“ frá og með 9. maí 2006. Laginu fylgdi tónlistarmyndband sem leikstýrt var af Floria Sigismondi. Lagið fékk misjafnar móttökur þar sem það vék frá tónlistarstíl sveitarinnar. Það var síðan gefið út á smáskífu með laginu „Crying Shame“. Önnur smáskífa sveitarinnar af diskinum innihélt lagið „Starlight“, gefið út þann 4. september 2006. „Knights of Cydonia“ var gefið út sem útvarpssmáskífa í Bandaríkjunum þann 13. júní 2006 og sem smáskífa í Bretlandi 27. nóvember sama ár og náði inn á Topp 10 listann. Myndbandið við lagið var tekið upp í Rúmeníu og er undir áhrifum frá spagettí vestrum. Fjórða lagið af plötunni, sem gefið var út á smáskífu, var „Invincible“, sem kom út 9. apríl 2007. Önnur smáskífa, „Map of the Problematique“, kom í kjölfar Wembley Stadium tónleikanna og var hún aðeins seld á veraldarvefnum sem niðurhal þann 18. júlí 2007. Muse byrjaði aftur á tónleikaferðalagi 13. maí 2006. Þeir komu fyrst fram á „One Big Weekend“ sem BBC Radio 1 stóð fyrir og þar á eftir nokkrum sinnum í sjónvarpi. Aðalferðalagið byrjaði rétt fyrir útgáfu plötunnar. Þar spiluðu þeir mest á hátíðum, meðal annars í Reading og Leeds. Í lok júlí spiluðu þeir í Norður-Ameríku og lauk ferðinni í september 2006. Þá tók við tónleikaferðalag í Evrópu þar sem mikið var spilað á innanhússíþróttavöllum í Bretlandi. Breska hljómsveitin Noisettes studdi þá á ferðalaginu í nóvember og mestan hluta desember 2006. Ferðalagið hélt svo áfram í Ástralíu og Suðaustur-Asíu. Í lok ársins 2006 tilkynnti Muse að þeir myndu spila á hinum nýbyggða Wembley-leikvangi fyrir alls 90.000 manns þann 16. júní 2007. Von bráðar seldist upp á Wembley-tónleikana og var þá öðrum bætt við 17. júní. Sem upphitunarsveitir spiluðu The Streets, Rodrigo y Gabriela og Dirty Pretty Things þann 16. júní og My Chemical Romance, Biffy Clyro og Shy Child þann 17. júní. Báðir tónleikarnir voru myndaðir fyrir tónleikamynddisk sem kom út um páskana 2008 og hlaut nafnið "HAARP". Muse neyddist til að aflýsa nokkrum tónleikum með My Chemical Romance í maí, þar sem nokkrir starfsmenn og meðlimir My Chemical Romance fengu matareitrun. Tímaritið Q Magazine setti Muse í níunda sæti yfir „10 mest spennandi sveitir á Jörðu í dag“ í 252. tölublaðinu sínu. "The Resistance" (2009 - 2011). Fimmta breiðskífa hljómsveitarinnar, "The Resistance", var gefin út 14. september 2009. Platan seldist vel og var hún þriðja plata hljómsveitarinnar til að ná efst á metsölulista í Bretlandi. "The 2nd Law" (2011 - nú). Hljómsveitin hóf upptökur á sinni sjöttu breiðskífu í september 2011. Platan nefnist "The 2nd Law" og kemur út 1. október 2012. Mývatn. Kort yfir Mývatn og umhverfi Mývatn er stöðuvatn í Suður-Þingeyjarsýslu, skammt frá Kröflu. Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn Íslands, um 37 ferkílómetrar að stærð. Vatnið er fremur grunnt, eða fimm metrar þar sem dýpst er. Í vatninu eru um 40 litlar eyjar og þykja þær gefa vatninu ægifagurt yfirbragð. Innrennsli í vatnið er að mestu frá lindum sem eru víða við það austan- og sunnanvert. Úr Mývatni rennur Laxá. Mývatn er einna þekktast fyrir fjölskrúðugt fuglalíf - t.d. eru fleiri andategundir þar en á nokkrum öðrum stað heimsins. Kísiliðjan vann kísilgúr úr vatninu af í tæpa fjóra áratugi, en vinnslu var hætt 28. nóvember 2004 og verksmiðjan rifin ári síðar. Sumir telja vatnið vera ofauðgað, þ.e. ofmettað af næringarefnum. Við Mývatn hefur verið starfrækt sjálfvirk veðurathugunarstöð síðan 1996. Maus. Maus er íslensk rokkhljómsveit sem stofnuð var í apríl 1993. Maus vann músíktilraunir árið 1994. Vinabæir. Vinabæir eiga rætur sínar að rekja til seinni heimsstyrjaldarinnar og er hugmyndin á bak við þá að auka skilning og efla samskipti milli fólks í mismunandi löndum auk þess að hvetja til þess að sett verði upp ýmis verkefni báðum bæjunum til hagsbóta. Þó að hugmyndin sé vinsælli í Evrópu en annars staðar hefur hún verið tekin upp í öðrum heimsálfum meðal annars í Norður Ameríku þar sem hugtakið Systraborgir ("sister cities") er notað eða "Town twinning". Síðan 1989 hafa um 1,300 vinabæir innan Evrópu verið styrktir af Evrópusambandinu og var heildarupphæð styrkjanna 12 milljón evrur árlega eða um einn miljarður íslenskra króna. Menntaskólinn í Nyborg. Menntaskólinn í Nyborg eða Nyborg Gymnasium eins og hann hetir á dönsku er menntaskóli staðsettur við Skolebakken 13 í bænum Nyborg á Fjóni í Danmörku. Í skólanum eru að meðaltali 500 nemendur þar af um 125 á heimavist hans, sem staðsett er um 50 metra frá skólabyggingunni. Boðið er upp á almennt danskt stúdentspróf (studentereksamen), hf próf (højere forberedelseseksamen) auk International Baccalaureate náms. Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn er íslenskur stjórnmálaflokkur sem kennir sig við hægristefnu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af verið stærsti flokkur landsins sé miðað við kjörfylgi sem flokkurinn hefur fengið í kosningum bæði til þings og sveitarstjórna. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig sá flokkur sem státar af flestum skráðum flokksmönnum. Mestu kosningu fékk flokkurinn árið 1933 48,0% en þá verstu árið 2009 23,7% eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í 22 af þeirri 31 ríkisstjórn sem mynduð hefur verið frá stofnun hans og veitt 15 þeirra forystu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt tæplega 45% meðalfylgi í bæjar- og sveitarfélögum frá stofnun. Í Reykjavík hafði flokkurinn hreinan meirihluta um áratuga skeið, allt til 1978 og aftur 1982 til 1994. Hugmyndafræði. Sjálfstæðisflokkurinn segir hlutverk sitt „[a]ð vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“. Hinn hluti Sjálfstæðisstefnunnar er söguleg arfleifð sjálfstæðisbaráttu Íslendinga um að Ísland eigi skilyrðislaust að vera sjáfstætt ríki. Saga. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 25. maí árið 1929 við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Fyrsti formaður flokksins var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar borgarstjóri Reykjavíkur, til 1934 þegar Ólafur Thors tók við. Flokkurinn tók þátt í ríkisstjórn í fyrsta sinn frá miðju ári 1932 til miðs árs 1934. Styrkjamálið. Í aðdraganda kosninganna árið 2009 varð flokkurinn uppvís að því að taka við styrktarfé frá umdeildum stórfyrirtækjum á Íslandi í desember árið 2006, einungis nokkrum dögum áður en lög tóku gildi sem takmörkuðu styrki til stjórnmálaflokka við 300 þúsund krónur frá einum lögaðila á ári hverju, og upp úr því spruttu upp miklar deilur bæði innan flokksins og utan. Styrkirnir, sem komu frá Landsbankanum og FL Group, námu alls 55 milljónum króna. Landsbankinn lagði til 25 milljónir en hafði áður á sama ári styrkt flokkinn um 5 milljónir króna. FL Group styrkti flokkinn um 30 milljónir. Þegar uppvíst varð um styrkina tók stjórn flokksins þá ákvörðun að skila styrkjunum að undanskildum fyrri styrk Landsbankans. Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður flokksins, kvaðst einn bera ábyrgð á að hafa veitt styrkjunum viðtöku en mikið var rætt um hverjir hefðu vitað af styrkjunum. Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, lét af störfum vegna málsins enda þótt hann segðist hvorki hafa átt frumkvæði að því að afla styrkjanna né hafa tekið ákvörðun um að veita þeim viðtöku. Bjarni Benediktsson. formaður flokksins, sagðist telja að Andri og Kjartan Gunnarsson, sem lét af störfum sem framkvæmdarstjóri flokksins haustið 2006, hefðu báðir vitað af styrkjunum en Kjartan neitaði að hafa vitað af styrkjunum. Í kjölfar styrkjamálsins spáði Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, að í kosningunum biði Sjálfstæðisflokkurinn hörmulegan kosningaósigur. Gunnar Helgi benti einnig á að styrkirnir hefðu borist flokknum „nokkrum mánuðum áður en að fulltrúar flokksins komu að fyrirtækinu REI sem hafi væntanlega verið ábatasamt fyrir þá aðila sem voru að gefa flokknum þessa fjármuni“ en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagðist telja að engin tengsl væru milli styrkjamálsins og REI-málsins. Leiðtogar flokksins. Núverandi formaður flokksins er Bjarni Benediktsson og núverandi varaformaður er Hanna Birna Kristjánsdóttir. Flokkurinn hefur nú 19 sæti á Alþingi eftir kosningarnar 2013 en hafði 16 þingsæti fyrir þær kosningar. Allir formenn flokksins utan Bjarna hafa gegnt embætti forsætisráðherra á Íslandi. Jón Þorláksson var forsætisráðherra 1926-1927 (fyrir Íhaldsflokkinn) en var síðan formaður Sjálfstæðisflokksins frá stofnun til ársins 1934. Ólafur Thors var forsætisráðherra 1942, 1944-1947, 1949-1950, 1953-1956 og 1959-1963. Ólafur leiddi Sjálfstæðisflokkinn frá 1934 til 1961. Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra á árunum 1963-1970. Jóhann Hafstein var forsætisráðherra 1970-1971, Jóhann gegndi formennsku í Sjálfstæðisflokknum til ársins 1973. Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra 1974-1978 en formaður Sjálfstæðisflokksins til 1983. Geir sigraði Gunnar Thoroddsen í varaformannskjöri á landsfundi 1971 og tók við formennsku á Flokksráðsfundi árið 1973 er Jóhann Hafstein sagði af sér formennsku af heilsufarsástæðum. Þorsteinn Pálsson var forsætisráðherra 1987-1988 og Davíð Oddsson var forsætisráðherra á árunum 1991-2003. Geir H. Haarde tók við forsætisráðuneytinu 15. júní 2006. Davíð sigraði Þorstein í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1991. Það var eina skiptið sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur tapað formannskjöri. Auk þeirra var sjálfstæðismaðurinn Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra á árunum 1980-1983. Sigurður Eggerz, einn af stofnendum Sjálfstæðisflokkins, var forsætisráðherra í tvígang, 1914-1915 og 1922-1924. Einar Arnórsson ráðherra Íslands 1915-1918, sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1931-1932. Magnús Guðmundsson, fyrsti varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gegndi störfum forsætisráðherra frá andláti Jóns Magnússonar uns stjórn Jóns Þorlákssonar tók við sumarið 1926. Framsóknarflokkurinn. Framsóknarflokkurinn er íslenskur frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem staðsetur sig á miðjunni. Hann var stofnaður 16. desember 1916 með samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda og er elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Framsóknarflokkurinn var stofnaður í presta-, kennara- og bændasamfélaginu og sótti því kjörfylgi sitt framan af til landsbyggðar og ungmennafélagshreyfingarinnar. Í seinni tíð hefur hann einnig sótt fylgi til menntafólks og miðjufólks og hefur lagt áherslu á að styrkja menntun og atvinnulíf. Á heimasíðu flokksins er stefna Framsóknarflokksins útlistuð. „Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.“ Saga Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn var stofnaður 16. desember 1916 á Alþingi, sama ár og Alþýðuflokkurinn var stofnaður. Á þeim tíma stóð fyrri heimsstyrjöldin með tilheyrandi truflun á verslun og viðskiptum við útlönd. Konur höfðu öðlast kosningarétt árið áður og kosningaaldur hafði verið lækkaður úr 30 árum í 25. Því jókst fjöldi kosningabærra manna mjög. Í nóvember 1916 komu átta þingmenn saman á Seyðisfirði á leið til Reykjavíkur á þing. Það voru Sigurður Jónsson, Einar Árnason, Sveinn Ólafsson, Jón Jónsson, Þorsteinn M. Jónsson, Ólafur Briem, Guðmundur Ólafsson og Þorleifur Jónsson. Þeir komu sér saman um að stofna þingflokk sem hlaut nafnið Framsóknarflokkurinn. Fyrsti ráðherra Framsóknarflokksins, var Sigurður Jónsson sem sat sem atvinnumálaráðherra í þriggja ráðherra ríkisstjórn sem mynduð var ásamt Jóni Magnússyni fyrir Heimastjórnarflokkinn og Björn Kristjánsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn (eldri), frá 1917 til 1920. Fyrsti formaður Framsóknarflokksins var Ólafur Briem. Fram að 1930 starfaði flokkurinn eingöngu sem þingflokkur. Á því tímabili takmörkuðust flokksmenn við þingmenn flokksins. Árið 1938 var Samband ungra framsóknarmanna stofnað. Allt frá upphafi hefur Framsóknarflokkurinn verið frjálslyndur umbótaflokkur svo sem uppruni hans og stefnuyfirlýsingar í gegnum tíðina bera með sér. Þetta felur í sér að flokkurinn er fordómalaus um úrlausnir aðsteðjandi vandamála á hverjum tíma. Hann vill beita aðferðum þekkingar og vísinda til að ryðja framþróuninni braut á grundvelli þeirra þjóðfélagslegu gilda sem stefna hans byggist á. Sem umbótaflokkur hefur flokkurinn í starfi sínu lagt höfuðáherslu á að hver kynslóð leitist við að skila þeirri næstu betra þjóðfélagi en hún tók við, betra lífi, fleiri tækifærum og ríkari menningu. Þjóðfélagi þar sem manngildið er metið ofar auðgildi. Árin 1971 til 1991 voru tími framsóknarmanna í íslenskum stjórnmálum og eru þeir stundum kallaðir "Framsóknaráratugirnir". Þeir voru í stjórn öll þessi ár ef undan er skildir nokkrir mánuðir í kringum áramótin 1980 og meira en helming tímans var forsætisráðherrann úr þeirra röðum. Tvisvar mynduðu þeir stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Algengast var þó á þessum árum að Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið ynnu saman, fjórum sinnum eða samtals í um tíu ár. Þeir höfðu þó aldrei þingmeirihluta og því varð alltaf að vera að minnsta kosti einn flokkur til viðbótar með í för. Einn þekktasti stjórnmálamaður 9. áratugarins á Íslandi var Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hann var fyrst kosinn í alþingiskosningum 1979 þegar framsóknarmenn bættu við sig miklu fylgi. Talsverðar breytingar hafa átt sér stað innan flokksins frá 2007. Flokkurinn hefur endurnýjað forystu sína og styrkt tengslin við hugmyndafræði grasrótarinnar. Þann 17. nóvember 2008 sagði sitjandi formaður, Guðni Ágústsson, af sér þingmennsku og formannsembætti eftir mikla gagnrýni flokksmanna á flokksforystuna á miðstjórnarfundi helgina 15.-16. nóvember. Valgerður Sverrisdóttir tók þá við sem formaður og gegndi því embætti þar til nýr formaður yrði kosinn á flokksþingi flokksins sem flýtt var fram til janúar 2009. Fimm manns buðu sig fram til formanns. Það voru þeir Lúðvík Gizurarson, Páll Magnússon, Jón Vigfús Guðjónsson, Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Tveir buðu fram til varaformanns en það voru þau Siv Friðleifsdóttir og Birkir Jón Jónsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður flokksins 18. janúar á flokksþingi flokksins og Birkir Jón Jónsson var kjörinn varaformaður. Þá buðu sig 3 fram til ritara þau Gunnar Bragi Sveinsson, Sæunn Stefánsdóttir og Eygló Harðardóttir. Eftir að formaður og varaformaður höfðu verið kjörin dró Gunnar Bragi framboð sitt til baka til þess að gæta jafnræðis innan flokksforystunnar. Eygló Harðardóttir var þá kjörinn ritari. Í kjölfar þessara breytinga í forystusveit Framsóknar jókst stuðningur við flokkinn töluvert og könnun, sem gerð var á vegum MMR rannsókna dagana 20.-21. janúar, mældist flokkurinn með 17% fylgi. Frá því í janúar 2008 hefur flokksmönnum í framsóknarflokknum fjölgað um 20%. Á flokksþingi flokksins, 9. apríl 2011, var samþykkt ályktun, með talsverðum meirihluta, að "Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld tryggt hagsmuni Íslands best á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar. Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun flokkurinn berjast fyrir þeim rétti". Núverandi staða Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn fékk nítján þingmenn kjörna í alþingiskosnigunum 2013. Var það töluverð aukning frá níu þingmönnum sem flokkurinn fékk í alþingiskosningunum síðustu en árið 2009 lauk tímabili af mestu niðursveiflu flokksins frá stofnun. Flokkurinn myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum 23. maí 2013 með Sigmund sem forsætisráðherra. Í lok maí 2011 fjölgaði þingmönnum Framsóknarflokksins í tíu er Ásmundur Einar Daðason fyrrum þingmaður VG gekk til liðs við Framsóknarflokkinn eftir að hafa verið utan þingflokka um skamman tíma. Þeim fækkaði svo aftur þegar Guðmundur Steingrímsson gekk úr flokknum í ágúst 2011, Guðmundur hefur síðar gefið það út að hann gæti stutt ríkistjórnina falli komi til þess. Framsóknarflokkurinn er við völd i nokkrum sveitarfélögum víða um land. Baráttumál. Á upphafsárum Framsóknarflokksins stóð flokkurinn meðal annars fyrir; sjálfstæði þjóðarinnar, innlendum þjóðbanka (vegna ástands bankamála á þeim tíma) og alþýðumenntun sem hann taldi hornstein allra þjóðþrifa. Undir forsæti Tryggva Þórhallssonar á fjórða áratuginum sat ríkisstjórn Framsóknarflokksins ein að völdum og á 5 árum tók við mikil uppbygging. Lagt var ofurkapp á að byggja upp innviði samfélagsins. Vegagerð og brúasmíði, hafnarmannvirki og vitar voru byggðir, Landhelgisgæslan efld og skip leigð af ríkisstjórninni til þess að auka aflaverðmæti íslensks fisks. Þá voru byggð mörg af glæsilegustu húsum landsins, Landspítalinn tók til starfa og Þjóðleikhúsið byggt. Þingvellir voru gerðir að þjóðgarði og til að efla lýðræðisumræðu og fræða þjóðina var Ríkisútvarpið stofnað. Atvinnumál hafa þó verið ofarlega á blaði hjá Framsókn síðastliðina áratugi og þekkt er atvinnuátak Framsóknar frá 1995 þegar þeir komust í ríkistjórn sem skapaði 13.000 störf. Þá hefur Framsókn verið framarlega í jafnréttis og siðferðismálum og var fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem setti sér bæði kynjakvóta, fyrir bæði kyn(2005) og siðareglur(2009). Kynjakvótanum var síðan fyrst beitt 2009, þegar karlmaður var færður upp á kosningarlistanum í Suðvesturkjördæmi eftir að konur röðuðust í öll efstu sætin sem þótti athyglisvert enda settur inn vegna baráttu landssambands framsóknarkvenna. Framsóknarflokkurinn stóð einnig framarlega í Icesave málinu og voru harðir andstæðingar þess að íslendingum bæri að borga. Þá vildu þeir setja fleiri fyrirvara við samningana og gagnrýndu samningsferlið. Talið er að barátta Framsóknarflokksins gegn Icesave hafi styrkt Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann flokksins. Þingflokkur. Þingflokkur framsóknarmanna kýs sér þriggja manna stjórn í upphafi hvers þings, formann og tvo meðstjórnendur, til eins árs í senn. Listi yfir íslensk orðatiltæki. Eftirfarandi er listi yfir íslensk orðatiltæki Stjórnmál. Kosningaáróður fyrir bæjarstjórnarkosningar í Lausanne í Sviss. Stjórnmál (eða pólitík í daglegu tali) er ferli bindandi ákvarðanatöku fyrir hóp af fólki. Algengast er að tala um stjórnmál í sambandi við ákvarðanatöku fyrir ríki og sveitarfélög, en hugtakið getur einnig átt við um stjórnun fyrirtækja, og félagasamtaka. Í lýðræðisríkjum sem byggja á fulltrúalýðræði eru stjórnmálamenn kosnir til valda. Þeim er falið umboð til ákvarðanatöku fyrir hóp fólks. Harold Lasswell, þekktur bandarískur stjórnmálafræðingur á fyrri hluta 20. aldarinnar, sagði að stjórnmál snerust um „hver fengi hvað, hvenær og hvernig”. Pólitík er dregið af gríska orðinu "polis" sem notað var um forn-grísku borgríkin. Orðsifjar pólitíkur leiða að ákveðinni stofnun samfélags manna. Í dag hefur nútímaríkið tekið við hlutverki borgríkisins. Í hnattrænu samhengi eru ríki grunneiningar tjórnmála. Þýski félagsfræðingurinn Max Weber skilgreindi stjórnmál sem „viðleitni til að eiga hlut í völdum eða til að hafa áhrif á skiptingu valda, hvort sem er milli ríkja eða milli hópa manna innan sama ríkis.” Max Weber er einnig höfundurinn að einni víðteknustu skilgreiningu á ríkinu en það er sú félagslega stofnun sem hefur réttmætan og viðurkenndan einkarétt á beitingu líkamlegs ofbeldis á ákveðnu landssvæði. Hér erum við því aftur komin af lykilhugtökunum ríki og vald. Markverður stafur. Markverður stafur er tölustafur sem hjálpar til við skilgreiningu á nákvæmni í tölu. Þeir eru oft notaðir við námundun. Markverðir stafir í tölu eru taldir frá fyrsta stafnum til vinstri í tölu sem er ekki núll, og síðan að seinasta stafnum sem ekki er núll í heilum tölum en alveg að seinasta tölustafnum í tölum sem hafa tugabrot. Mögulegt er að seinasta núllið í heilli tölu sé markverður stafur en hægt er að skrifa töluna með tugveldi til að draga úr öllum efa. Tölustafur. Tölustafur er í stærðfræði einn bókstafur eða tákn, sem stendur fyrir tölu. Flestar tölur eru táknaðar með einum eða fleiri tölustöfum. Talan "7" er t.d. táknuð með einum tölustaf en táknið sem stendur fyrir töluna "77" er samsett úr tveimur tölustöfum. Tölur eru einnig táknaðar með almennum brotum, tugabrotum og bókstöfum, eins og t.d. talan pí, sem er táknuð með gríska bókstafnum π. Námundun. Námundun er aðgerð í stærðfræði þegar fjöldi markverðra stafa er minnkaður, venjulega til einföldunar. Þegar námundað er, þá er markverði stafurinn sem námundað er að hækkaður ef tölustafurinn til hægri er á bilinu 5 til 9, annars er hann óbreyttur, eftir það eru allir tölustafir hægra megin við markverða stafinn fjarlægðir ef þeir eru tugabrot en skipt fyrir tölustafinn 0 ef þeir eru hluti af heillri tölu. Þegar tölur eru námundaðar er annað hvort verið að fækka fjölda markverðra stafa eða viðhalda honum en það fer eftir því hve námundunin er gróf. "Námundun fjölgar aldrei markverðum stöfum". Þegar talan "12" er námunduð að tug, þá er tölunni "2" skipt út fyrir "0" og talan "12" hefði orðið 10. En ef talan hefði verið "1,2" væri tölustafurinn "2" fjarlægður (auk kommunar) og orðið að tölunni "1". Ef talan "12,12" væri námunduð að tug, þá væri fyrri tölustafnum "2" skipt út fyrir "0" og ",12" fjarlægt af tölunni. Þegar tölurnar "12345" og "12567" eru námundaðar að þúsundi, þá hefur þriðji tölustafurinn áhrif á það hvort annar stafurinn hækkar upp í "3" eða ekki. Þriðji tölustafur fyrri tölurnnar er "3" og því hækkar annar tölustafurinn ekki en í þeirri seinni er hann "5" og því hækkar annar stafurinn frá "2" og upp í "3". Seinustu þrem stöfunum er síðan skipt út fyrir "0". Fyrri talan verður þá að "12000" en sú seinni að "13000". 1897. Klukkan í turni Dómkirkjunnar var sett upp þetta ár. Guglielmo Marconi með senditæki sitt. Hátíðahöld í London vegna sextíu ára krýningarafmælis Viktoríu drottningar. Andrée-leiðangurinn heldur af stað í feigðarför sína. 1894. Alfred Dreyfus sviptur tignarmerkjum sínum og sverð hans brotið. 1891. a> og dr. Watson. Mynd úr "The Strand Magazine" eftir Sidney Paget. Skálholt. Skálholt er bær og kirkjustaður í Biskupstungum í Árnessýslu. Þar var biskupssetur frá upphafi (1056) og fram á 19. öld og má segja höfuðstaður Íslands í margar aldir. Þar var löngum rekinn skóli. Í Skálholti var stærsta kirkja sem reist hefur verið á Íslandi, kirkja Brynjólfs biskups Sveinssonar, og var hún miklu stærri en núverandi kirkja þar, sem reist var 1963. Fornleifarannsóknir. Skálholt er einn merkasti sögustaður landsins, samtvinnaður sögu kristni á Íslandi. var reist í Skálholti stuttu eftir kristnitöku og sat þar fyrsti. Skálholt var höfuðstaður landsins í um 750 ár, miðstöð kirkjustjórnar og mikið fræðasetur. Vitað er að í kringum 1200 bjuggu um 120 manns í Skálholti. Þar hefur því staðið þorp húsa af ýmsum stærðum og gerðum sem mynduðu fyrsta þéttbýlið á Íslandi. Óvíða er mögulegt að rannsaka með uppgreftri húsakynni af jafnfjölbreyttu tagi og frá jafnmörgum tímabilum, enda er í Skálholti að finna minjar frá öllum öldum Íslandssögunnar. Hér gefst því einstakt tækifæri til að afla upplýsinga um þau tímabil sem lítið er fjallað um í rituðum heimildum. Þar sem biskupssetrið í Skálholti hefur staðið um aldir fer ekki hjá því að vænta megi mikilla fornleifa í jörðu. Lengi hefur verið vitað að merkilegar minjar væru undir sverði á þessum forna höfuðstað landsins. Þó að raunverulegar fornleifarannsóknir hæfust ekki í Skálholti fyrr en eftir miðja 20. öld komu þar ýmsir fornfræðingar á 19. öld sem skráðu upplýsingar um fornleifar í Skálholti. 1873. Fyrstur þeirra var danski fornfræðingurinn Kristian Kålund en hann kom við í Skálholti 1873 og þótti „ekki mikið eftir af dýrð biskupstímans“. Þar var nú ósjáleg trékirkja og bærinn „á engan hátt glæsilegur“. Það eina sem honum þótti enn vera sem áður var hið fagra útsýni. Kålund getur þess að sagnir á staðnum snúist einkum um og hins vegar um atburði kringum Hólabiskup. Var Kålund sýndur staðurinn hjá kirkjugarðinum þar sem Jón og synir hans voru teknir af lífi og voru „blóðblettirnir“ enn sýnilegir á klöppinni. Einnig hafði til skamms tíma verið laut í kirkjugarðinum þar sem hinir líflátnu höfðu verið jarðaðir uns Norðlendingar grófu þá upp og fluttu til Hóla. 1893. var fyrstur íslenskra fornfræðinga til að kanna minjar í Skálholti. Hann kom þar árið 1893 og skráði sýnileg ummerki, munnmæli og frásagnir staðkunnugra um fornleifar. Brynjúlfur kannaði legsteina í kirkjunni og kirkjugarðinum og skráði niður áletranir á þeim. Hefur honum þótt ástand þessara merku fornleifa dapurlegt og lýkur skýrslu sinni með þessum orðum: „Mjög er áríðandi að vernda hinar fáu fornmenjar sem enn finnast í Skálholti.“ 1927. Þá friðlýsti þrennar minjar í Sálholti: Þorláksbúð, Staupastein og Þorláksbrunn. 1949. Árið 1949 urðu þáttaskil í sögu minjaverndar í Skálholti. Að frumkvæði, sem þá var prófessor í guðfræði við, var stofnað Skálholtsfélag sem hafði það að markmiði að vinna að endurreisn Skálholtsstaðar. Varð félaginu vel ágengt og ráðist var í að reisa nýja kirkju þar sem hinar fyrri kirkjur höfðu áður staðið. Var að þessum framkvæmdum staðið með meiri forsjá og framsýni en öðrum stórframkvæmdum á þessum tíma, því ákveðið var að gera vandaða fornleifarannsókn á eldri kirkjugrunnum áður en þeir yrðu látnir víkja. 1952–1958. Vegna fyrirhugaðrar kirkjubyggingar var farið í eina umfangsmestu rannsókn á einum minjastað á Íslandi til þess tíma. Hún hófst árið 1952 með uppgreftri á kirkjugrunnum í Skálholti með frumkönnun sem Björn Sigfússon gerði. Gróf hann leitarholur hér og hvar til að finna takmörk eldri kirkjugrunna, einnig gróf hann upp undirganginn að hluta og í svokallaðan Virkishól. Fornleifauppgröfturinn 1954 – 1958 fór fram undir stjórn, en með honum unnu Håkon Christie, Gísli Gestsson og Jón Steffensen. Sú kirkja sem þá stóð í Skálholti hafði verið reist árið 1851. Var hún færð af byggingarstað sínum við upphaf rannsóknanna árið 1954 og loks rifin árið 1956. Eftir að kirkjan hafði verið fjarlægð af grunni sínum hófst fornleifauppgröftur og komu þá í ljós tveir eldri kirkjugrunnar sem staðið höfðu á sitt hvoru tímaskeiðinu. Auk kirkjugrunna voru grafin upp göng á milli kirkju og bæjarstæðis. Aftur reyndist unnt að greina tvö mismunandi byggingarstig sem tengja mátti við kirkjugrunnana tvo. Norðaustan við kirkjuna var rannsökuð lítil rúst sem gengur undir nafninu Þorláksbúð. Meðal þess tilkomumesta sem upp var grafið og vafalaust margir muna eftir var steinkista sem lést árið 1211. Kistan er tilhöggvin úr móbergi og vel varðveitt, utan þess að lokið er þríbrotið. Í kistunni var, auk beina Páls, húnn af fagurlega útskornum bagli. Árið 1955 var grafinn upp grunnur að byggingu norðan við stöpulinn og lokið við uppgröft á Þorláksbúð. Grafið var í „beinakjallara“ og uppgreftri haldið áfram í undirganginum. Voru og grafnar leitarholur hér og þar, aðallega norðan við kirkjustæðið. Þá var umhverfi staðarins snyrt, veggjasteinar í Þorláksbúð voru réttir og grasþökur lagðar í gólfið, Skólavarðan var löguð sem og Þorlákssæti. Árið 1958 var lokið rannsókn á undirganginum og eldra byggingarstig hans kannað. Var hann síðan endurbyggður. Þá var einnig ýtt ofan af bæjarhólnum og hann sléttaður. Veggjarbrotum og bæjarleifum frá 19. og 20. öld var ýtt burtu og suður af hólnum en Kristján Eldjárn taldi sýnt að enn væru miklar mannvistarleifar í jörðu sunnan og suðvestan við kirkjuna og kirkjugarðinn. 1983-1988. Ef frá er skilið sumarið 1987, fóru fram fornleifarannsóknir, á árunum 1983 – 1988 á hinu gamla bæjarstæði Skálholtsstaðar. Þær fólust í því að grafnir voru könnunarskurðir á völdum stöðum til þess að kanna hvar mannvirkja væri að vænta og hvort hægt væri að nota gamlar teikningar og uppdrætti af staðnum til þess að staðsetja einstök bæjarhús á bæjarstæðinu. Til grundvallar var stuðst við vel þekkta uppdrætti sem sýna húsaskipan árið 1784, sama ár og bærinn hrundi til grunna í miklum jarðskjálfta. Annað markmið var einnig að kanna hvort eitthvað væri eftir af bænum undir yfirborði, sem sléttað hafði verið yfir með jarðýtu á 6. áratug 20. aldar. Þá var rætt um að ef niðurstöður rannsóknanna gæfu tilefni til, mætti nýta þær til þess að hlaða lága veggi á yfirborði jarðar, sem sýndu legu 18. aldar bæjarins samkvæmt áðurnefndum teikningum og niðurstöðum fornleifarannsóknanna. Þjóðminjasafnið annaðist rannnsókirnar sem unnar voru fyrir Skálholtsstað sem greiddi Guðmundur Ólafsson stjórnaði rannsókninni öll árin. Með honum störfuðu, um lengri eða skemmri tíma, Adolf Friðriksson, Jens Pétur Jóhannsson, Kevin P. Smith, Logi Sigmundsson, Martin Ringmar, Unnur Dís Skaptadóttir og Þorkell Grímsson. Á seinni hluta 20. aldar hefur Hörður Ágústsson manna mest sinnt rannsóknum á sögu Skálholts. Hann vann við úrvinnslu Skálholtsrannsókna frá árunum 1954-1958 og sá um frágang þeirra til útgáfu árið 1988. Hann hefur safnað heimildum um staðinn, tekið túlkun á gerð kirknanna til rækilegrar endurskoðunar, sett fram tilgátur um útlit þeirra og smíð og samið vandaðar skrár um áhöld og skrúða frá Skálholti. Hafa rannsóknir Harðar á heimildum um húsakost stólsins m.a. leitt í ljós að húsaskipan hefur í megindráttum verið hin sama frá miðri 16. öld og til loka 18. aldar. 1999. Árið 1999 hófst nýr kafli í rannsóknum á Skálholti en þá gerði Timothy Horsley frá Háskólanum í Bradford viðnámsmælingar í Skálholti. Niðurstöður þeirra gefa mjög skýra mynd af þeim mannvirkjaleifum sem er að finna undir sverði suðvestan við kirkjuna. Þar er nú slétt grasflöt en undir henni eru greinilega leifar bæjarins sem féll í jarðskjálftanum 1784 og undir þeim má vænta enn eldri leifa. 2002-2007. Árið 2001 stofnaði Alþingi Kristnihátíðarsjóð veitti hann meðal annars fé til nýrra fornleifarannsókna í Skálholti, umfangsmikils uppgraftar 2002-2007, sem var samstarfsverkefni Skálholtsstaðar, Fornleifastofnunar Íslands, Þjóðminjasafns Íslands, Háskólans í Árósum, Háskólans í Stirling og Háskólans í Bradford. Verkefnisstjórn skipuðu Orri Vésteinsson, Mjöll Snæsdóttir og Gavin Lucas, fornleifafræðingar hjá Fornleifastofnun. Rannsóknin beindist einkum að kjarna staðarhúsa eins og þau voru á 17. og 18. öld, híbýlum biskupa og skylduliðs þeirra, bókaskemmu og skrifstofum, göngum og eldhúsi auk skólabygginganna. Sjálf húsasamstæðan á bæjarstæðinu er þó stærri og í þessu verkefni urðu útundan ýmis útihús, skemmur og skepnuhús, prenthús og margt fleira. Segja má að flókin og margbrotin saga staðarhúsanna í Skálholti sé meðal þess áhugaverðasta í þessari rannsókn. Fornleifarannsóknin staðfestir í meginatriðum að hinir varðveittu uppdrættir eru að miklu leyti traustir en þó takmarka þeir að sumu leyti sýn okkar. Hvorki uppdrættirnir né varðveittar úttektarlýsingar sýna allar þær fjölmörgu, smáu og stóru breytingar sem orðið hafa á staðarhúsunum. Ýmiss konar breytingar á húsum hafa verið ákaflega algengar. Merkilegt var að sjá vaxandi skiptingu milli vestari og eystri hluta innhúsanna. Á 17. öld virðist hafa verið auðvelt að komast á milli skóla og biskupsherbergja, bókaskemmu og annarra herbergja, margir gangar tengdu þessar vistarverur saman. Á 18. öld virðist þessum göngum smátt og smátt hafa verið lokað. Ef til vill er það breytt samband biskups og skóla sem setur mark sitt á húsaskipan. Við túlkun Skálholtsminja reynir á að lesa saman mismunandi heimildir, uppgrafnar rústir, fundna gripi, skrifaðar úttektir og uppdrætti. Uppdrættirnir tveir sem varðveittir eru frá 18. öld koma að miklu gagni við að átta sig á notkun húsa. Þó verður að hafa í huga að notkun húsa getur breyst og uppdrættirnir lýsa aðeins ákveðnum tíma. Það er að sumu leyti annar vandi í því falinn að túlka minjar sem aðrar heimildir eru til um en sá vandi sem það getur verið að túlka uppgrafnar minjar eingöngu. Reyndar er það svo að hver sem túlkar minjar styðst alltaf við eitthvað fleira en minjar þær sem grafnar eru úr jörðu. Ekkert gerist í tómarúmi og slíkar minjar eru alltaf bornar saman við aðrar minjar. Fornleifavernd ríkisins veitti til framhaldsrannsókna á biskupssetri. Ábyrgðaraðili er Mjöll Snæsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses. 2008. Fornleifavernd ríkisins veitti til minniháttar rannsókna vegna frágangs minjasvæðis. Ábyrgðaraðili er Mjöll Snæsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses. 2009. Fornleifavernd ríkisins veitti vegna frágangs á minjasvæði og minniháttar rannsókna eftir þörfum. Ábyrgðaraðili er Mjöll Snæsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses. Rúst Þorláksbúðar,sem hafði verið rannsökuð að hluta árið 1954, undir stjórn Håkon Christie, var nú rannsökuð af starfsmönnum Fornleifastofnunar Íslands ses.. Þar kom í ljós að þarna voru eldri byggingarskeið undir yngstu rústinni auk fornra grafa. Mjöll Snæsdóttir 2009: Könnunarskurðir í svonefnda Þorláksbúð í Skálholti. Fornleifastofnunar Íslands FS435-09041. 2011. Fornleifavernd ríkisins veitti til kennsluuppgraftar. Ábyrgðaraðili er Gavin Lucas, Háskóli Íslands. Árið 2011 var hafin Þorláksbúðar, 30 fermetra tilgátuhús úr torfi, á þeim stað sem hún upprunalega stóð. Bygging Þorláksbúðar hefur verið gagnrýnd af mörgum og ekki allir sammála um ágæti hennar. 2012. Gavin Lucas, Fornleifastofnun Íslands ses., fékk 2.000.000 kr. úr fornleifasjóði til úrvinnslu fornleifarannsókna í Skálholti. Hólar í Hjaltadal. Dómkirkjan á Hólum og skólahúsið í baksýn. Nýibær á Hólum í Hjaltadal, reistur af Benedikt Vigfússyni prófasti árið 1854. Hólar í Hjaltadal eru bær, kirkjustaður og skólasetur í Hjaltadal í Skagafjarðarsýslu. Þar var settur biskupsstóll árið 1106 þegar Norðlendingar kröfðust þess að fá sinn eigin biskup til mótvægis við biskupinn í Skálholti. Fyrsti biskup á Hólum var Jón Ögmundsson. Biskupssetur. Hólar voru í raun höfuðstaður og helsta menningarsetur Norðurlands frá því í upphafi tólftu aldar til upphafs nítjándu aldar og frá fornu fari hafa Norðlendingar og þó einkum Skagfirðingar talað um að fara „heim að Hólum“. Biskupsstóllinn átti geysimiklar eignir og um siðaskipti var um fjórðungur af öllum jörðum í Norðlendingafjórðungi í eigu stólsins. Á Hólum var löngum rekinn skóli, þó líklega ekki óslitið nema frá því um siðaskipti, og prentsmiðja var starfrækt þar lengi. Aðalhöfn fyrir Hóla fram að siðaskiptum var Kolbeinsárós (Kolkuós). Þar komu að landi þau skip sem biskupsstóllinn átti í förum á miðöldum. Hólabiskupar voru 23 í kaþólskum sið og 13 í lútherskum sið. Margir biskupanna á 14. og 15. öld voru þó erlendir og stóðu stutt við á Hólum eða komu jafnvel aldrei til landsins en dvöldust erlendis og létu fulltrúa sína sinna málefnum biskupsdæmisins. Af atkvæðamestu biskupum í kaþólskum sið má auk Jóns Ögmundssonar nefna Guðmund góða Arason (biskup 1203-1237), Norðmanninn Auðun rauða Þorbergsson (biskup 1313-1322), sem meðal annars reisti Auðunarstofu hina fyrri, og Jón Arason (1524-1550), síðasta biskup á Hólum í kaþólskum sið. Fyrsti lúterski biskupinn á Hólum var Ólafur Hjaltason en atkvæðamestur lútherskra biskupa þar var Guðbrandur Þorláksson, sem sat staðinn í meira en hálfa öld, eða frá 1571 til 1627 og lét meðal annars þýða og prenta biblíuna sem við hann er kennd og kölluð Guðbrandsbiblía. Gísli Magnússon (biskup 1755-1779) lét reisa steinkirkjuna sem enn stendur á Hólum. Síðasti biskup á Hólum var Sigurður Stefánsson (biskup 1789-1798) en eftir lát hans voru biskupsdæmin tvö sameinuð og Hólastóll lagður niður en skólinn fluttur suður og sameinaður Hólavallarskóla. Eftir að biskupsstóllinn var lagður af og eignir hans seldar voru Hólar prestssetur til 1868 en þá var prestssetrið flutt í Viðvík. Hólar urðu aftur prestssetur 1952 og frá Hólum hefur þar verið vigslubiskupssetur. Skólasetur. Skagafjarðarsýsla keypti jörðina 1881 og árið eftir var bændaskóli stofnaður á Hólum, Frá 2003 hefur nám þar verið á háskólastigi og kallast skólinn nú Háskólinn á Hólum. Ýmsar stofnanir eru einnig á Hólum, þar á meðal Sögusetur íslenska hestsins, Guðbrandsstofnun, sem er rannsókna- og fræðastofnun í tengslum við skólann, og fiskeldisstöðin Hólalax. Á Hólum er grunnskóli og leikskóli. Þar er umfangsmikil ferðaþjónusta og á sumrin er rekið þar gistihús og veitingahús. Þar er einnig sundlaug. Íbúar á Hólum voru 83 1. janúar 2012. 1. febrúar. 1. febrúar er 32. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 333 dagar (334 á hlaupári) eru eftir af árinu. 2. febrúar. 2. febrúar er 33. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 332 dagar (333 á hlaupári) eru eftir af árinu. Kyndilmessa er þennan dag og er nafn hennar dregið af blysförum eða kertaskrúðgöngu á hreinsunarhátíð Maríu guðsmóður. 3. febrúar. 3. febrúar er 34. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 331 dagur (332 á hlaupári) er eftir af árinu. 4. febrúar. 4. febrúar er 35. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 330 dagar (331 á hlaupári) eru eftir af árinu. 5. febrúar. 5. febrúar er 36. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 329 dagar (330 á hlaupári) eru eftir af árinu. 6. febrúar. 6. febrúar er 37. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 328 dagar (329 á hlaupári) eru eftir af árinu. 7. febrúar. 7. febrúar er 38. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 327 dagar (328 á hlaupári) eru eftir af árinu. 10. febrúar. 10. febrúar er 41. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 324 dagar (325 á hlaupári) eru eftir af árinu. 11. febrúar. 11. febrúar er 42. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 323 dagar (324 á hlaupári) eru eftir af árinu. 12. febrúar. 12. febrúar er 43. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 322 dagar (323 á hlaupári) eru eftir af árinu. 13. febrúar. 13. febrúar er 44. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 321 dagur (322 á hlaupári) er eftir af árinu. 14. febrúar. 14. febrúar er 45. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 320 dagar (321 á hlaupári) eru eftir af árinu. Víðsvegar um hinn vestræna heim er haldið uppá Valentínusardag þann 14 Febrúar, en hann er vestræn útgáfa af hinni rómversku hátíð Lupercaliu. 15. febrúar. 15. febrúar er 46. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 319 dagar (320 á hlaupári) eru eftir af árinu. 16. febrúar. 16. febrúar er 47. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 318 dagar (319 á hlaupári) eru eftir af árinu. 17. febrúar. 17. febrúar er 48. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 317 dagar (318 á hlaupári) eru eftir af árinu. 19. febrúar. 19. febrúar er 50. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 315 dagar (316 á hlaupári) eru eftir af árinu. 20. febrúar. 20. febrúar er 51. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 314 dagar (315 á hlaupári) eru eftir af árinu. 21. febrúar. 21. febrúar er 52. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 313 dagar (314 á hlaupári) eru eftir af árinu. 22. febrúar. 22. febrúar er 53. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 312 dagar (313 á hlaupári) eru eftir af árinu. 23. febrúar. 23. febrúar er 54. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 311 dagar (312 á hlaupári) eru eftir af árinu. 24. febrúar. 24. febrúar er 55. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 310 dagar (311 á hlaupári) eru eftir af árinu. 25. febrúar. 25. febrúar er 56. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 309 dagar (310 á hlaupári) eru eftir af árinu. 26. febrúar. 26. febrúar er 57. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 308 dagar (309 á hlaupári) eru eftir af árinu. 27. febrúar. 27. febrúar er 58. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 307 dagar (308 á hlaupári) eru eftir af árinu. 28. febrúar. 28. febrúar er 59. dagur ársins samkvæmt gregoríska tímatalinu. 306 dagar (307 á hlaupári) eru eftir af árinu. 29. febrúar. 29. febrúar er hlaupársdagur samkvæmt gregoríska tímatalinu og ber því aðeins upp á hlaupári. Hann er þá 60. dagur ársins og eru 306 dagar eftir af árinu. 1787. a> árið 1787 en hún hefur tekið miklum breytingum síðan. a> undirrituð. Málverk eftir Howard Chandler Christy. 1789. a> settur í embætti sem fyrsti forseti Bandaríkjanna. 1797. a> fyrir framan Barberini-höllina í Róm. 1803. a> og elsta hús í miðbæ Reykjavíkur. a> frá Afríku til nýlendna sinna. 1804. a> páfa til Parísar til að krýna sig keisara en tók svo kórónuna úr höndum hans og krýndi sig sjálfur. Málverk eftir Jacques-Louis David. a> Bandaríkjaforseti. Málverk eftir Charles Wilson Peale frá 1791. 1805. a>. Málverk eftir J. M. W. Turner. Fritz Haarmann. Fritz Haarmann (1879 - 15. apríl 1925) einnig þekktur sem Vampíran frá Hannover eða Slátrarinn frá Hannover var þekktur raðmorðingi fæddur í Hannover í Þýskalandi. Hann er talinn hafa myrt í minnsta lagi 100 manns á árunum 1919-1924. Saga. Fritz hafði á unga aldri dálæti á því að klæða sig upp sem stelpa. Hann framdi fyrsta afbrot sitt ungur að aldri (17 ára) og faðir hans (sem hann hafði óbeit á) vildi koma honum fyrir á hæli, en læknar þar sáu enga ástæðu til að halda honum, svo ekkert varð úr því. Hann gekk þá í herinn og gekk þar vel og var hrósað fyrir frammistöðu. Árið 1903 sneri hann aftur til Hannover og byrjaði feril sinn sem smáglæpamaður. Hann féll vel inn í hóp glæpamanna og var vinsæll á meðal þeirra. Hann naut einnig nokkurrar velvildar hjá lögreglunni sem hafði handtekið hann nokkrum sinnum fyrir smáglæpi. Eftir að honum var sleppt úr fangelsi árið 1918 vann hann fyrir sér á svarta markaðinum við að selja kjöt, föt og annan varning. Hann hélt sig mikið við járnbrautarstöðina þangað sem flóttamenn og strokubörn sóttu helst til. Hann hafði sérstakan áhuga á ungum strákum þar. Hann safnaði upplýsingum handa lögreglu um flóttamenn og strokulýð og aflaði sér þannig mikils trausts hjá lögreglunni sem í staðinn leit framhjá svartamarkaðsbraski hans. Hann varð þá þekktur fyrir að selja afar ódýran varning og keyptu margir kjöt af honum. Hann tældi marga stráka heim til sín með súkkulaði og góðgæti. Heimili hans var oft rannsakað af lögreglunni vegna barnshvarfa í nágrenninu en lögreglan sá aldrei ástæðu til að aðhafast meira. Síðar kynntist Fritz Hans Graan nokkrum, sem var karlkyns hóra. Þeir hjálpuðust að við að tæla drengi til Fritz. Þegar nokkuð mörg börn höfðu horfið og fólk var farið að vera vart um sig, stigmögnuðust sögusagnir um vampírur og skrímsli. Nokkrir fóru með kjötið sem Fritz seldi þeim til lækna og sérfræðinga til þess að láta greina kjötið vegna gruns um að þar væri á ferðinni mannakjöt, en læknarnir héldu því ávallt fram að um svínakjöt væri að ræða. Það var ekki fyrr en 1924 að mannabein fundust við bakka Leine og stuttu síðar var Fritz staðinn að verki við að ræna ungum dreng. Hann viðurkenndi allt samstundis og lýsti aðferðum sínum fyrir lögreglu. Hann tældi unga drengi heim til sín, reif háls þeirra í sundur með tönnunum og hjó síðan líkamann í sundur og seldi það kjöt sem hann ekki át sjálfur ásamt fötunum þeirra. Afganginum henti hann í ána Leine. Við uppgröft við bakka Leine fundust hundruð mannabeina. Fritz var dæmdur sekur ásamt Hans sem hlaut lífstíðar fangelsisdóm, en var aðeins í fangelsi í 12 ár. Fritz var dæmdur til dauða og var afhöfðaður 1925. Hann var dæmdur sekur um 27 morð. Sjálfur vissi hann ekki fjöldann, en talið er að morðin hafi verið um hundrað talsins. 1. mars. 1. mars er 60. dagur ársins (61. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 305 dagar eru eftir af árinu. 2. mars. 2. mars er 61. dagur ársins (62. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 304 dagar eru eftir af árinu. 3. mars. 3. mars er 62. dagur ársins (63. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 303 dagar eru eftir af árinu. 4. mars. 4. mars er 63. dagur ársins (64. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 302 dagar eru eftir af árinu. 5. mars. 5. mars er 64. dagur ársins (65. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 301 dagur er eftir af árinu. 6. mars. 6. mars er 65. dagur ársins (66. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 300 dagar eru eftir af árinu. 7. mars. 7. mars er 66. dagur ársins (67. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 299 dagar eru eftir af árinu. 8. mars. 8. mars er 67. dagur ársins (68. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 298 dagar eru eftir af árinu. 9. mars. 9. mars er 68. dagur ársins (69. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 297 dagar eru eftir af árinu. 10. mars. 10. mars er 69. dagur ársins (70. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 296 dagar eru eftir af árinu. 11. mars. 11. mars er 70. dagur ársins (71. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 295 dagar eru eftir af árinu. 12. mars. 12. mars er 71. dagur ársins (72. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 294 dagar eru eftir af árinu. 13. mars. 13. mars er 72. dagur ársins (73. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 293 dagar eru eftir af árinu. 14. mars. 14. mars er 73. dagur ársins (74. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 292 dagar eru eftir af árinu. 15. mars. 15. mars er 74. dagur ársins (75. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 291 dagur er eftir af árinu. 17. mars. 17. mars er 76. dagur ársins (77. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 289 dagar eru eftir af árinu. 19. mars. 19. mars er 78. dagur ársins (79. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 287 dagar eru eftir af árinu. 20. mars. 20. mars er 79. dagur ársins (80. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 286 dagar eru eftir af árinu. 21. mars. 21. mars er 80. dagur ársins (81. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 285 dagar eru eftir af árinu. Áramót eru 21. mars í ýmsum trúarbrögðum svo sem sóróisma, súfisma og baháítrú. Í kaþólsku kirkjunni var þetta dagur vorjafndægra sem markaði upphaf Páskahátíðarinnar en eiginleg vorjafndægur voru breytileg þar til Gregoríus 13. páfi breytti tímatalinu þannig að vorjafndægur bæri alltaf upp á 21. mars árið 1582. 24. mars. 24. mars er 83. dagur ársins (84. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 282 dagar eru eftir af árinu. 25. mars. 25. mars er 84. dagur ársins (85. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 281 dagur er eftir af árinu. Þennan dag er haldið upp á boðunardag Maríu í kaþólskum löndum, en dagurinn var fyrsti dagur ársins í löndum kristinna manna til ársins 1621. 12. maí. 12. maí er 132. dagur ársins (133. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 233 dagar eru eftir af árinu. 13. maí. 13. maí er 133. dagur ársins (134. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 232 dagar eru eftir af árinu. 14. maí. 14. maí er 134. dagur ársins (135. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 231 dagur er eftir af árinu. Dagurinn er fánadagur á Íslandi vegna afmælis forseta Íslands. 17. maí. 17. maí er 137. dagur ársins (138. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 228 dagar eru eftir af árinu. 18. maí. 18. maí er 138. dagur ársins (139. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 227 dagar eru eftir af árinu. 19. maí. 19. maí er 139. dagur ársins (140. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 226 dagar eru eftir af árinu. 20. maí. 20. maí er 140. dagur ársins (141. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 225 dagar eru eftir af árinu. 21. maí. 21. maí er 141. dagur ársins (142. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 224 dagar eru eftir af árinu. 22. maí. 22. maí er 142. dagur ársins (143. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 223 dagar eru eftir af árinu. 23. maí. 23. maí er 143. dagur ársins (144. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 222 dagar eru eftir af árinu. 24. maí. 24. maí er 144. dagur ársins (145. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 221 dagur er eftir af árinu. 25. maí. 25. maí er 145. dagur ársins (146. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 220 dagar eru eftir af árinu. 26. maí. 26. maí er 146. dagur ársins (147. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 219 dagar eru eftir af árinu. 27. maí. 27. maí er 147. dagur ársins (148. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 218 dagar eru eftir af árinu. 28. maí. 28. maí er 148. dagur ársins (149. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 217 dagar eru eftir af árinu. 29. maí. 29. maí er 149. dagur ársins (150. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 216 dagar eru eftir af árinu. 30. maí. 30. maí er 150. dagur ársins (151. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 215 dagar eru eftir af árinu. 31. maí. 31. maí er 151. dagur ársins (152. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 214 dagar eru eftir af árinu. Þennan dag er reyklausi dagurinn um allan heim. 1. júní. 1. júní er 152. dagur ársins (153. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 213 dagar eru eftir af árinu. Hannover. Hannover er höfuðborg og stærsta borg þýska sambandslandsins Neðra-Saxlands með rúmlega hálfa milljón íbúa. Hannover var áður höfuðborg konungsríkisins Hannover sem var stofnað 1814 og stóð til 1866. Hannover er iðnaðarborg, en er einnig þekkt sýningar- og ráðstefnuborg. Lega. Hannover liggur við ána Leine sunnarlega í Neðra-Saxlandi. Næstu borgir eru Brúnsvík til austurs (55 km), Bielefeld til vesturs (90 km), Bremen til norðvesturs (100 km) og Hamborg til norðurs 135 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítt borgarvirki á rauðum grunni. Gullið ljón stendur milli turnanna. Undir hliðinu er grænt Maríublóm. Borgarvirkið táknar Hannover. Maríublómið var upphaflega notuð á mynt, eftir 1534. Ljónið er ættarmerki Welfen-ættarinnar sem átti sitt fyrsta óðal í Brúnsvík. Þekktastur meðlimur ættarinnar var Hinrik ljón (Heinrich der Löwe). Skjaldarmerki þetta birtist fyrst 1266, en var formlega tekið upp aftur 1929. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Vicus Hanovere, sem ef til vill merkir "þorpið við háu bakkana". Seinna kom fram sú kenning að heitið merki sefbakki, enda stendur borgin ekki við neina háa bakka. Miðaldir. Hannover myndaðist við bakka árinnar Leine, einmitt við vað þar sem hægt var að komast yfir ána. Bærinn myndaðist snemma á 12. öld og kom fyrst við skjöl 1150. Um þetta leyti veitti Lóþar III Hinrik ljón Hannover að léni, en Hinrik var af Welfen-ættinni. En Hinrik lenti í ónáð hjá keisaranum Friðrik Barbarossa keisara. Keisaraherinn sat um Hinrik í Brúnsvík, en fékk ekki unnið hana. Þess í stað fór herinn til Hannover og gjöreyddi henni með eldi. Bærinn var byggður upp aftur og hlaut borgarréttindi 1241. Um miðja 14. öld voru miklir borgarmúrar reistir. Á þessum tíma gekk borgin í Hansasambandið og upphófst þá fyrsta blómaskeiðið. Íbúar voru þá 4 þús. Siðaskipti og 30 ára stríðið. Lútherstrú barst til Hannover í kringum 1530. En ráðsmenn borgarinnar höfnuðu henni og héldu fast við kaþólsku. Hins vegar meðtók almenningur nýju trúna. 1533 voru kom til átaka milli þessara hópa og sá borgarráð sig tilknúið til að flýja til borgarinnar Hildesheim, sem enn var kaþólsk. Furstinn í Saxlandi lét þá gera umsátur um borgina, en íbúarnir stóðu við sitt. Þeir kusu sér nýtt borgarráð, greiddu furstanum lausnargjald og viðhéldu þar með lúterstrú. Það var ekki fyrr en eftir 1540 að nýja trúin breiddist út í furstadæminu öllu. Í 30 ára stríðinu sameinuðust herir frá Saxlandi og Danmörku. En Tilly herforingi keisarahersins sigraði þá 1626 og settist um allar stærri borgir landsins, nema Hannover. Hún slapp við eyðileggingu stríðsins, en þurfti að greiða af hendi lausnargjald. Nærsveitir lágu hins vegar í rústum. Meðan stríðið geysaði enn gerði hertoginn Georg von Calenberg Hannover að aðsetri sínu, enda með sterka borgarmúra. Eftir andlát Georgs stjórnaði sonur hans, Ernst Ágúst, greifadæminu og gekk í lið með keisara. Fyrir dyggilega þjónustu hlaut hann embætti kjörfursta árið 1705. Hannover varð þar með að mikilvægri borg í þýska ríkinu. Sameining við England. Soffía hefði orðið drottning Englands ef henni hefði enst aldur til Um aldamótin 1700 varð Soffía ríkjandi höfðingi í greifadæminu þar sem eiginmaður hennar, kjörfurstinn Ernst Ágúst lést. Soffía var af ætt Stuart og sem slík var hún einnig krónprinsessa Bretlands. Hún lést hins vegar aðeins nokkrum mánuðum á undan Önnu Englandsdrottningu árið 1714. Sonur Soffíu tók því við sem kjörfursti í Hannover og varð einnig konungur Englands sem Georg I. Þannig sameinuðust Hannover og England. En Georg og ætt hans flutti til Lundúna og stjórnaði hann greifadæmi sínu þaðan. Sökum tenglsa við England réðust Frakkar á greifadæmið og Hannover í 7 ára stríðinu 1757. Þeir náðu að hertaka borgina, en urðu að yfirgefa hana snemma á næsta ári þegar prússar nálguðust. Áður en stríðinu lauk réðust Frakkar nokkrum sinnum á Hannover á ný, en fengu ekki unnið hana. Aftur réðust Frakkar á Hannover í Napoleonstríðunum, enda voru Frakkland og England svarnir fjendur. Að þessu sinni hertóku þeir Hannover fyrirhafnarlítið 1803. 1805 náðu prússar að frelsa borgina, en strax á næsta ári hertóku Frakkar hana á nýjan leik eftir sigra Napoleons við Jena og Auerstedt. Napoleon stofnaði konungsríkið Vestfalíu og gerði bróður sinn, Jerome, að konungi þar. Hannover er innlimað í þetta ríki, en höfuðborg þess var Kassel. 1813 tapaði Napoleon orrustunni við Leipzig og drógu Frakkar sig þá í hlé. Ernst Ágúst, sonur Georgs III Englandskonungs, sneri þá heim á ný og tók Hannover og furstadæmið aftur fyrir hönd föður síns. Konungsríkið Hannover. Á Vínarfundinum 1815 var furstadæmið Hannover gert að konungsríki með sameiginlegum konungi Englands. Örskömmu síðar var Napleon aftur kominn á kreik eftir útlegð sína til Elbu. Í orrustunni við Waterloo barðist her frá Hannover með Englendingum undir stjórn Wellington lávarðs, þar sem Napoleon var endanlega sigraður. 1837 lést Vilhjálmur IV konungur Englands og Hannover. Hann var barnlaus og næsti í línunni á enska konungsstólinn var frænka hans Viktoría. Vandamálið var hins vegar að í konungsríkinu Hannover bönnuðu lögin konum að verða þjóðhöfðingjar. Því var ákveðið að slíta konungssambandi við England. Nýr konungur í Hannover varð Ernst Ágúst. Hann var í meira lagi íhaldssamur og tók úr gildi stjórnarskrána og önnur réttindi þegna sinna. Fyrir vikið varð konungsættin með eindæmum óvinsæl og þurfti að berjast við uppþot og uppreisnir það sem eftir lifði konungsríkisins. Prússatíminn. Georg V var konungur Hannover í upphafi 19. aldar. Hann var ekki einungis harður á þegna sína, heldur einnig á tengsl sín við prússa. Hannover barðist með Austurríki gegn Prússlandi í orrustunni við Langensalza í Þýringalandi 1866, en beið ósigur. Prússar gengu á lagið og hertóku Hannover. Vilhjálmur I prússakonungur lagði þá konungsríkið Hannover niður og innlimaði ríkið í Prússland. Þetta markaði endalok Hannover sem höfuðborg í hartnær eina öld. Sem prússnesk borg varð Hannover brátt að blómstrandi iðnaðarborg, þar sem íbúarnir voru loks lausir undan oki gamla konungsríkisins. Íbúafjöldinn fór yfir 100 þús 1873. Í Hannover var bílaverksmiðjan Hanomag stofnuð og starfrækt. En í heimstyrjöldinni fyrri leið borgin mikið sökum tapaðra verslunarsambanda og hungurs. 1918 lauk stríðinu með ósigri Þjóðverja. Keisaraveldið Prússland leið undir lok. 20. öldin. Eftir stríð óx borgin á ný er iðnaðurinn blómstraði á ný. En það stóð stutt yfir, því í heimskreppunni miklu 1929 nær gjörhrundi iðnaðurinn. Hanomag verksmiðjurnar sögðu fólki upp í stórum stíl og á tímabili var þriðji hver íbúi atvinnulaus. Aðstæður bötnuðu ekki fyrr en nasistar komust til valda. Hanomag var umbreytt í vopnaverksmiðjur og mýmörg önnur verkefni sköffuðu fólki atvinnu. Í Hannover var einn stærsti hópur gyðinga í Þýskalandi, eða um 4.800 alls. Þar stóð einnig eitt stærsta bænahús þeirra í Þýskalandi. 1938 voru gyðingar fyrir alvöru ofsóttir og bænahús þeirra brennt niður. Færri en 100 lifðu ofsóknirnar og stríðið af. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum, enda mikilvæg iðnaðarborg. Alls voru 125 loftárásir gerðar á Hannover, þær síðustu 28. mars 1945. Kaldhæðnin var að nær öll borgin lá í rústum, en iðnaðarmannvirkin voru nær óskemmd og héldu áfram starfsemi sinni. 10. apríl var borgin hertekin af Bandaríkjamönnum nær bardagalaust. Þeir eftirlétu Bretum borgina, enda var hún á hernámssvæði þeirra. 1946 stofnuðu Bretar og þýskir stjórnmálamenn núverandi sambandsland Neðra-Saxland. Hannover varð höfuðborg á ný eftir tæplega 100 ára hlé. Í dag er Hannover aftur orðin að mikilli iðnaðar- og sýningarborg. Árið 2000 fór heimssýningin Expo 2000 fram í borginni. Viðburðir. Mikil litadýrð er á flugeldakeppninni í Hannover Schützenfest Hannover er heiti á skyttuhátíð í borginni. Hún á uppruna sinn á 16. öld er skyttur með boga og lásboga voru þjálfaðar fyrir varnir borgarinnar. Hér er um stærstu skyttuhátíð í heimi að ræða. Þátttakendur eru 10 þúsund, bæði innlendir og erlendir, og eru allir í búningum. Skrúðvagnarnir eru 60, en skrúðgangan er 12 km löng. Vitanlega er einnig haldin skotkeppni og eru sigurvegarar verðlaunaðir. Samfara öllu þessu er leiktækjagarður í gangi fyrir almenning. Allt í allt er hátíðin ein sú mesta í Þýskalandi. Karneval er haldið að vori. Það er meðal stærri hátíða í Þýskalandi, en skrúðgangan er tveggja km löng. Í apríl er haldin vorhátíð, en hér er um leiktækjagarð að ræða, með tilheyrandi veitingarekstri og bjórdrykkju. Að hausti er sama hátíð haldin og kallast þá Oktoberfest. Á sumrin til er haldin flugeldakeppni að kvöldi til. Flugeldasmiðir hvaðanæva úr heiminum hittast í borginni og sýna það besta sem þeir hafa upp á að bjóða. Í fyrstu eru skylduverkefni í gangi, en síðan mega smiðirnir sýna eigin framleiðslu. Íþróttir. Íshokkí. Hannover er ein af miðstöðum íshokkí-íþróttarinnar. Liðin í borginni eru tvö: Hannover Scorpions og Hannover Indians. Knattspyrna. Aðalknattspyrnuliðið heitir Hannover 96 og leikur í Bundeligunni. Félagið varð þýskur meistari 1938 og 1954, og bikarmeistari 1992. Rugby. Í Hannover var stofnuð fyrsta grasíþróttin (það sem í dag kallast rugby) í Þýskalandi 1878. Síðan þá er borgin miðstöð rugby-íþróttarinnar. Heil átta lið frá borginni keppa eða hafa keppt í efstu deild. Frá 1909 til dagsins í dag varð 62 sinnum (af 83) félag frá Hannover þýskur meistari. Félag frá borginni var á öllum þessum árum í úrslitaleiknum, nema 1913. Skylmingar. Í Hannover var einnig stofnað fyrsta skylmingarfélag Þýskalands 1862 og er það enn við lýði í dag. Maraþon. Árlega fer fram Maraþonhlaup í borginni, kallað Spielbanken Marathon. Um 11 þús hlauparar taka þátt. Vinabæir. Stjörnufræðingurinn Herschel uppgötvaði reikistjörnuna Úranus Byggingar og kennileiti. Gamla ráðhúsið er verslunarhús í dag Seinni heimsstyrjöldin. Seinni heimsstyrjöldin eða heimsstyrjöldin síðari var útbreidd styrjöld, sem hófst í Evrópu en breiddist síðan út til annarra heimsálfa og stóð í tæp sex ár. Meirihluti þjóða heims kom að henni með einhverjum hætti og var barist á vígvöllum víða um heim. Talið er að um 62 milljónir manna hafi fallið (sem á þeim tíma var 2,5% alls mannkyns) og að mun fleiri hafi særst og er hún mannskæðasta styrjöld mannkynssögunnar. Stríðið var háð á milli tveggja ríkjahópa. Annars vegar var um að ræða bandalag Bandaríkjanna, Breska samveldisins, Kína, Sovétríkjanna (eftir 1941) auk útlægrar ríkisstjórnar Frakklands og fjölda annarra ríkja sem gekk undir nafninu Bandamenn; hins vegar var bandalag Ítalíu, Japans og Þýskalands auk fleiri ríkja, sem gekk undir nafninu Öxulveldin eða Möndulveldin. Mest var barist í Evrópu og Austur-Asíu og á Kyrrahafi en einnig í Norður-Afríku. Venjulega er sagt að upphaf stríðsins hafi verið í Evrópu í kjölfar innrásar Þjóðverja í Pólland þann 1. september 1939 en Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum tveimur dögum síðar. Átökin í Evrópu breiddust út á Atlantshaf og til Norður-Afríku. Stríð hafði brotist út fyrr í Asíu og er þá ýmist miðað við innrás Japana í Kína árið 1937 eða jafnvel innrás þeirra í Mansjúríu 1931 en þegar þeir réðust á flota Bandaríkjamanna í Perluhöfn á Hawaii fléttuðust saman stríðið í Asíu og stríðið í Evrópu og Bandaríkin drógust einnig inn í átökin í Afríku og Evrópu. Í Evrópu lauk stríðinu með uppgjöf Þjóðverja 8. maí 1945 en stríðið hélt áfram í Asíu þar til Japanir gáfust upp 15. ágúst 1945 eftir að Bandaríkin höfðu varpað tveimur kjarnorkusprengjum á borgirnar Hiroshima 6. ágúst og Nagasaki 9. ágúst. Japanir gáfust formlega upp þann 2. september sama ár. Seinni heimsstyrjöldin hafði gríðarleg áhrif á alþjóðastjórnmál. Valdajafnvægi breyttist en til urðu tvö stórveldi, Bandaríkin og Sovétríkin. Máttur eldri stórvelda fór þverrandi en stríðið skildi eftir sig sviðna jörð víðast hvar í Evrópu auk þess sem jafnvel sigurvegarar sátu eftir með gríðarháar stríðsskuldir. Þá má segja að seinni heimsstyrjöldin hafi markað endalok heimsveldsisstefnunnar sem Evrópuríkin höfðu fylgt frá 19. öld. Evrópa skiptist í tvennt, Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu, sem áhrifasvæði stórveldanna; tvö hernaðarbandalög voru stofnuð, NATO og Varsjárbandalagið og kalda stríðið hófst. Sameinuðu þjóðirnar voru einnig stofnaðar í kjölfar stríðsins. Forsaga. Fyrri heimsstyrjöldin hafði gjörbreytt pólitísku landslagi í Evrópu, Asíu og Afríku með ósigri Þýskalands, Austurríki-Ungverjalands og Ottómanveldisins; Austurríki-Ungverjaland liðaðist í sundur og Ottómanveldið leið undir lok. Enn fremur varð bylting í Rússlandi haustið 1917, bolsévikar hrifsuðu völdin og stofnuðu Sovétríkin. Mörg ný ríki urðu til með óleystum landamæradeilum og hergagnaframleiðsla jókst. Þjóðernishyggja færðist í aukana og ólga og reiði kraumaði undir í þeim löndum sem biðu ósigur. Fasískar hreyfingar komust til valda á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Þýskalandi í þeim efnahagslega óstöðugleika og kreppu sem einkenndi 3. og 4. áratuginn. Á Ítalíu kraumaði ólga undir niðri en á árunum 1922 til 1925 komust fasistar til valda með Benito Mussolini í broddi fylkingar. Í Þýskalandi lék Versalasamningurinn stórt hlutverk, sérstaklega grein 231 (svokölluð sektarklausa) og það þrátt fyrir að samningnum væri ekki fylgt stíft eftir vegna ótta við annað stríð. En Þýskaland missti einnig 13% af landsvæðum sínum, öllum nýlendum sínum, þurfti að greiða gríðarlega háar stríðsskaðabætur og mátti ekki hafa nema mjög takmarkaðan her. Á 4. áratugnum var Japan stjórnað af hernaðarklíku sem hafði það að markmiði að gera landið að heimsveldi. Árið 1931 réðust Japanir inn í Mansjúríu en japönsk yfirvöld urðu æ herskárri og sú hugmyndafræði var útbreidd að Japan hefði ákveðinn rétt til áhrifa í Asíu. Kína gat ekki veitt Japönum mótspyrnu og leitaði til Þjóðabandalagsins, sem fordæmdi innrás Japana. En Japan sagði sig þá úr Þjóðabandalaginu. Til smávægilegra átaka kom milli Japans og Kína en þeim lauk með Tanggu-sáttmálanum árið 1933. Bretar og Frakkar reyndu þó að gera ekkert til að styggja stjórnvöld í Þýskalandi, þar sem Adolf Hitler og Nasistaflokkur hans hafði komist til valda árið 1933. Þessi ótti auk þeirrar undanlátsemi sem Hitler var sýnd er þvert á móti talin hafa átt þátt í því að Nasistaflokkurinn varð jafn valdamikill og raunin varð. Hitler virti Versalasamningana að vettugi og hóf uppbyggingu á herafla Þjóðverja í trássi við samningana. Bretar og Frakkar höfðu áhyggjur af þróun mála í Þýskalandi og samþykktu ásamt Ítalíu Stresa-samkomulagið 14. apríl 1935 en það kvað á um sjálfstæði Austurríkis. Frakkar létu eftir Ítölum að seilast til valda í Eþíópíu þar sem Ítala hafði lengi langað í meiri ítök. Sovétmenn höfðu á hinn bóginn áhyggjur af markmiðum Þjóðverja að ná aftur fyrrum landsvæðum sínum í austri og undirrituðu gagnkvæman varnarsamning við Frakkland en samningurinn átti eftir að hljóta samþykki Þjóðabandalagsins. Í Bandaríkjunum var fylgst náið með þróun mála í bæði Evrópu og Asíu en í ágúst árið 1935 lýstu Bandaríkin yfir hlutleysi sínu. Í október árið 1935 gerðu Ítalir innrás í Eþíópíu. Þýskaland var eina stóra Evrópuríkið sem studdi innrásina en í kjölfarið dró Ítalía til baka stuðning sinn við Stresa-samkomulagið. Í mars næsta ár skipaði Hitler hersveitum sínum að halda inn í Rínar-héruð, þar sem Þjóðverjar máttu ekki hafa hersveitir samkvæmt Versalasamningunum. En viðbrögð annarra Evrópuríkja voru lítil sem engin. Í júlí 1936 braust út borgarastyjöld á Spáni milli fasískra þjóðernissinna annars vegar og kommúnista hins vegar. Hitler og Mussolini lýstu báðir yfir stuðningi við fasista með Francisco Franco í broddi fylkingar en Sovétríkin studdu sveitir kommúnista. Bæði Þjóðverjar og Sovétmenn nýttu sér stríðið á Spáni til þess að prufa ný hertól. Snemma árs 1939 höfðu fasistar sigrað. Í október 1936 gerði Þýskaland og Ítalía með sér bandalag. Mánuði síðar mynduðu Þjóðverjar og Japanir bandalag gegn komintern og Ítalía bættist í hópinn ári síðar. Árið 1938 innlimuðu Þjóðverjar Austurríki í Þriðja ríkið. Árið 1937 réðist Japan inn í Kína til að auka við magrar náttúruauðlindir sínar. Bandaríkjamenn og Bretar brugðust við með því að veita Kínverjum lán og setja efnahagsþvinganir á Japani sem hefðu á endanum neytt landið til að draga sig úr Kína vegna skorts á eldsneyti. Japanir brugðust við með því að ráðast óvænt á Perluhöfn og draga Bandaríkjamenn þannig inn í stríðið. Markmið Japana með árásinni var að sigra Austur-Indíur og tryggja sér þannig olíu. Innrásin í Eþíópíu. Stutt nýlendustríð braust út í október 1935 og lauk í maí 1936 þegar Ítalir gerðu innrás í Eþíópíu (eða Abyssiníu). Stríðinu lauk með hruni og hernámi Eþíópíu og innlimun landsins í hina nýstofnuðu nýlendu Ítölsku Austur-Afríku ("Africa Orientale Italiana"). Brestir urðu ljósir í Þjóðabandalaginu, sem var ófært um að tryggja frið. Bæði Ítalía og Eþíópía voru aðildarríki en Þjóðabandalagið gerði ekkert þegar Ítalir brutu bersýnilega gegn Tíundu grein sáttmála Þjóðabandalagsins. Borgarastríðið á Spáni. Þýskaland og Ítalía studdu fasíska þjóðernissinna undir stjórn Franciscos Franco á Spáni. Sovétríkin studdu vinstrisinnaða ríkisstjórnina. Báðar fylkingar nýttu sér stríðið til að prófa ný hertól og herkænsku. Loftárásin á Guernicu, borg með fimm til sjö þúsund íbúa, var álitin skelfilegur atburður á Vesturlöndum og hermt var að 1654 hefðu týnt lífinu; talað var um „ógnar-loftárás“. Innrás Japana í Kína. Í júlí 1937 hertóku Japanir kínversku borgina Beiping í kjölfarið á Marco Polo-brúaratvikið, sem endaði með allsherjarinnrás Japana í Kína. Sovétmenn undirrituðu snögglega griðarsamning við Kína til að leggja Kínverjum lið og bundu þar með enda á þriggja áratuga langa samvinnu Kína og Þýskalands. Chiang Kai-shek herforingi beitti sínum bestu hersveitum í orrustunni um Sjanghæ en eftir þriggja mánaða löng átök féll borgin. Japanir héldu áfram að þjarma að kínverskum hersveitum, tóku höfuðborgina Nanjing í desember árið 1937 og frömdu fjöldamorðin í Nanking. Í júní árið 1938 náðu kínverskar hersveitir að tefja framrás Japana með því að láta Gula fljótið flæða yfir bakka sína en þótt þeir hefðu þar með áunnið sér tíma til að undirbúa varnir borgarinnar Wuhan féll hún engu að síður í orrustunni um Wuhan í október. Hersigrar Japana ollu þó ekki hruni kínverskrar andspyrnu eins og Japanir vonuðust eftir. Þess í stað færðu kínversk yfirvöld sig til Chongqing til að stýra áfram andspyrnunni þaðan. Innrás Japana í Sovétríkin og Mongólíu. Þann 29. júlí 1938 gerði japanski herinn innrás í Sovétríkin en framrás þeirra stöðvaðist í orrustunni um Khasanvatn. Lauk henni með sigri Sovétmanna en Japanir litu þó á hana sem niðurstöðulaust jafntefli og ákváðu 11. maí 1939 að færa út landamæri Japans og Mongólíu að Khalkin Gol-fljóti með hervaldi. Þeim varð í fyrstu nokkuð ágengt en Rauði herinn stöðvaði framrás þeirra og japanski herinn beið í fyrsta sinn afgerandi ósigur. Japönsk yfirvöld sannfærðust af þessum átökum um að reyna að ná sáttum við sovésk yfirvöld til að forðast að þau blönduðu sér í stríð Japana við Kína. Í staðinn var ákveðið að beina hernaðinum í suður, í átt að bandarískum og evrópskum lendum á Kyrrahafi. Evrópa: Ögrun og friðþæging. Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi varð ríkjandi hugmyndafræði um „Lebensraum“, lífsrými, en það var stefna sem fólst í því að skapa Þjóðverjum nýtt rými á kostnað Austur-Evrópubúa. Til þess að réttlæta þessa kröfu um aukið land í austri, kom Þýskaland á framfæri áhyggjum sínum af meðferð á Þjóðverjum sem bjuggu í Austur-Evrópu og voru þessar kröfur háværastar í tengslum við Pólland og Tékkóslavakíu. Þýskir skriðdrekar aka inn í borgina Komtau í október 1939. Ríkisstjórnir Bretlands og Frakklands reyndu að stilla til friðar fyrir stríðið til að reyna að koma í veg fyrir að nýtt stríð brytist út í Evrópu, enda efuðust báðar ríkisstjórnir um að landsmenn sínir væru tilbúnir í nýtt stríð eftir hið herfilega mannfall í fyrri heimsstyrjöldinni. Þessi friðþæging sást einna best á Munchen-samkomulaginu sem gert var við Þjóðverja og gerði þeim það kleift að hernema og innlima Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu þar sem þýskumælandi fólk var í meirihluta. Forsætisráðherra Breta, Neville Chamberlain, lét falla fræg orð eftir undirritun samkomulagsins um að hann hefði tryggt „frið um vora daga“. Í mars 1939 réðust Þjóðverjar svo inn í restina af Tékkóslóvakíu og hernumdu hana. En hörð viðbrögð Breta og Frakka létu enn á sér standa. En brot Þjóðverja á Munchen-samkomulaginu sýndu á hinn bóginn fram á með ótvíræðum hætti að ekki var hægt að treysta Hitler og í kjölfarið gerðu Frakkar og Pólverjar með sér samkomulag þann 19. mars um að koma hvor öðrum til aðstoðar yrði ráðist á aðra hvora þjóðina. Bretar höfðu þá þegar heitið Pólverjum að koma Póllandi til aðstoðar yrði ráðist á landið. Þann 23. ágúst 1939 gerðu Þjóðverjar og Sovétmenn með sér samkomulag, nefnt Molotov-Ribbentrop samkomulagið (eftir utanríkisráðherrum beggja landa), þar sem þjóðirnar ákváðu að skipta með sér Póllandi. Í samkomulaginu var einnig kveðið á um sölu olíu og matar Sovétmanna til Þjóðverja. Markmið Þjóðverja var að koma í veg fyrir matarskort ef Bretar settu á þá hafnarbann, líkt og hafði gerst í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir að samkomulagið var gert gat Hitler óhræddur ráðist á Pólland. Tylliástæða hans var að Þýskaland ætti óleyst mál við Pólland tengd borginni Danzig auk landssvæðis við Visdula-ána. Markmið hans var hins vegar að hernema stóran hluta af Póllandi og innlima hann í Þýskaland. Undirritun sáttmála milli Bretlands og Póllands þann 25. ágúst 1939 breytti engu um þær fyrirætlanir. Þjóðverjar og Sovétmenn ráðast inn í Pólland. Þann 1. september 1939 réðust Þjóðverjar og Slóvakía (sem var í raun leppríki Þjóðverja) inn í Pólland eftir að hafa sett á svið árás á þýska landamærastöð. Bretar og Frakkar kröfðust þess að Þjóðverjar drægju hersveitir sínar tafarlaust til baka. Það gerðu Þjóðverjar ekki og þann 3. september lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði á hendur þeim. Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland fylgdu svo fljótlega í kjölfarið. En stríðsyfirlýsingum þeirra fylgdu ekki umfangsmiklar hernaðaraðgerðir tafarlaust, þvert á móti gerðist nánast ekkert. Franski herinn var hægur og gerði svo aðeins sýndarárás og dró sig í hlé. Bretar gátu hins vegar ekki aðstoðað Pólverja á þeim stutta tíma sem þeir höfðu. Pólski herinn var lítil fyrirstaða fyrir þann þýska sem náði þann 8. september til höfuðborgar Póllands, Varsjár. Þann 17. september, og í samræmi við samkomulag sitt við Þjóðverja, réðist sovéski herinn á Pólland úr austri og opnaði þannig nýjar vígstöðvar. Degi síðar flúði forseti Póllands til Rúmeníu. Þann 1. október, eftir tæpt mánaðar umsátur, þrammaði þýski herinn inn í Varsjá og sex dögum síðar lét pólski herinn af mótspyrnu sinni. Pólland lýsti aldrei opinberlega yfir uppgjöf en í raun var landinu nú skipt á milli Þjóðverja, Sovétmanna, Litháen og Slóvakíu. Á sama tíma og orrustan um Pólland var háð réðust Japanir á Changsha, hernaðarlega mikilvæga borg í Kína en þurftu að hörfa úr borginni aftur undir lok septembermánaðar. Í kjölfarið á innrásinni í Pólland og í samræmi við samkomulag Þjóðverja og Sovétmanna um Litháen neyddu Sovétmenn Eystrasaltslöndin til að leyfa sér að koma hersveitum Rauða hersins fyrir í löndum þeirra undir yfirskini samkomulags um gagnkvæmar varnir. Finnar höfnuðu beiðni Sovétmanna og Rauði herinn réðist í kjölfarið inn í Finnland í nóvember 1939. Vetrarstríðinu lauk í mars 1940 með uppgjöf Finna. Frakkar og Bretar álitu innrás Sovétmanna í Finnland jafngilda því að styðja stríðsrekstur Þjóðverja og brugðust við með því að styðja brottrekstur Sovétríkjanna úr Þjóðabandalaginu. Í Vestur-Evrópu voru breskar hersveitir sendar til meginlandsins en Bretar nefndu það „gervistríðið“ (e. Phoney War) og Þjóðverjar „setustríðið“ (þ. Sitzkrieg) og hvorugur aðilinn tók af skarið eða undirbjó sókn þar til í apríl 1940. Þýskaland og Sovétríkin gerðu með sér verslunarsamkomulag í febrúar 1940 og fengu þá Sovétmenn hergögn og iðnaðarvélar í skiptum fyrir hráefni sem gerðu Þjóðverjum kleift að komast hjá hafnarbanni Breta. Í apríl 1940 réðust Þjóðverjar inn í Danmörku og Noreg til að tryggja sér aðgang að járngrýti frá Svíþjóð en Bandamenn höfðu áform um að hindra þann aðgang. Danmörk gafst upp fyrirvaralaust en Norðmenn voru sigraðir eftir tvo mánuði. Í maí 1940 hertóku Bretar Ísland. Óánægja Breta með þróun mála í Noregi varð til þess að Neville Chamberlain lét af störfum sem forsætisráðherra og Winston Churchill tók við þann 10. maí 1940, sama dag og Bretar hernámu Ísland. Baráttan um Atlantshafið. Veturinn 1939 – 1940 réðust þýskir kafbátar endurtekið á skip bandamanna. Á fyrstu fjórum mánuðum stríðsins náðu þeir að sökkva 110 skipum. Eftir 1943 dró verulega úr sigrum Þjóðverja á hafi þar sem bandamenn náðu að smíða skip hraðar en Þjóðverjar sökktu þeim auk þess sem skip tóku að sigla saman í skipalestum. Árangur bandamanna gegn þýskum kafbátum merkti að meðal líftími kafbátahermanna Þjóðverja á sjó var mældur í mánuðum. Undir lok styrjaldarinnar kynntu Þjóðverjar til sögunnar nýjan kafbát, af gerð 21, en það reyndist of seint til að hafa áhrif á stríðsrekstur þeirra. Í Suður-Atlantshafi náði þýska herskipið Graf Spee að sökkva níu breskum kaupskipum. Skipið var elt af bresku beitiskipunum HMS Ajax, HMS Exeter og HMNZS Achilles og leitaði það ásjár í höfninni Montevídeó. Í stað þess að snúa aftur í bardaga ákvað skipstjóri þess, Langsdorff, að sökkva í því rétt utan við höfnina. Sókn Öxulveldanna. Þjóðverjar gerðu innrás í Frakkland, Belgíu, Holland og Lúxemborg þann 10. maí 1940. Sama dag sagði Neville Chamberlain af sér embætti forsætisráðherra Bretlands og við tók Winston Churchill. Holland og Belgía féllu eftir einungis nokkra daga og vikur í leifturstríði Þjóðverja. Frakkar miðuðu undirbúning sinn við reynslu sína úr fyrri heimsstyrjöldinni og vígbjuggu og styrktu Maginot-línuna en Þjóðverjar fóru kringum hana um skógi vaxin Ardennafjöll, sem franskir hernaðarfræðingar töldu ranglega að brynvarin ökutæki kæmust ekki um. Breskar hersveitir urðu að hörfa og komust naumlega undan til Dunkerque þaðan sem þær voru fluttar til Bretlands yfir Ermarsund. Skilja varð eftir alls kyns þung hergögn og vélar. Þann 10. júní gerðu Ítalir innrás í Frakkland og lýstu yfir stríði gegn bæði Frakklandi og Bretlandi. Tólf dögum síðar gafst Frakkland upp og var fljótlega skipt í hernámshluta Þjóðverja og hernámssvæði Ítala en að auki var í óhernumdum hluta landsins komið á leppstjórn; Vichy-stjórninni. Þann 3. júlí gerði breski herinn árás á franska flotann í Alsír til að koma í veg fyrir að hann kæmist í hendur Þjóðverja. Í júní, á síðustu dögum innrásarinnar í Frakkland settu Sovétmenn á svið kosningar í Eystrasaltslöndunum og innlimuðu löndin ólöglega með valdi. Skömmu seinna innlimuðu þeir Bessarabíu í Rúmeníu. Enda þótt Sovétríkin væru í raun bandamenn Þjóðverja vegna efnahagslegrar samvinnu, takmarkaðrar hernaðaraðstoðar, skiptum á fólki og landamærasamkomulags var Þjóðverjum þó í nöp við að Sovétmenn tækju yfir Eystrasaltslöndin, Bessarabíu og Norður-Bukovinu. Ljóst var af þessu að frekari samvinna yrði ómöguleg auk þess sem spenna milli ríkjanna var að aukast vegna árekstra áhrifasvæða þeirra. Bæði ríki bjuggust við að stríð brytist út milli þeirra. Eftir að Frakkland var hernumið hófu Þjóðverjar að keppa við Breta um yfirráð í lofti (orrustan um Bretland) til að undirbúa innrás á Bretland. Þeim varð ekki að ósk sinni því að Bretar gáfu ekki eftir yfirráð í lofti og því var fallið frá áætlunum um innrás í september. En þýski sjóherinn nýtti sér nýlega herteknar hafnir Frakka og naut um hríð árangurs í orrustunni um Atlantshafið. Þjóðverjar beittu kafbátahernaði gegn breskum skipum á Atlantshafi. Ítalía hóf aðgerðir á Miðjarðarhafi meðal annars umsátur um Möltu í júní. Þeir lögðu undir sig Somalíland í ágúst og réðust inn í Egyptaland í september 1940, sem þá var undir stjórn Breta. Japan herti hafnarbann sitt á Kína í september með því að taka nokkrar herstöðvar í norðurhluta frönsku Indókína, sem nú var býsna einangruð. Bandaríkin, sem voru hlutlaust land, hafði gert ýmislegt til að styðja Kína og bandamenn í Vestur-Evrópu. Í nóvember 1939 var Bandarísku hlutleysislögunum breytt svo að stríðandi fylkingum (bandamönnum) var leyft að versla við Bandaríkjamenn að því gefnu að þeir staðgreiddu varninginn og flyttu sjálfir. Árið 1940, í kjölfarið á hernámi Þjóðverja í París, stækkuðu Bandaríkjamenn sjóher sinn umtalsvert (eða 70%) með það í huga að geta beitt sjóhernum á tveimur ólíkum úthöfum samtímis. Eftir að Japanir réðust inn í Indókína beittu Bandaríkjamenn Japani viðskiptaþvingunum og bönnuðu sölu á járni, stáli og vélum til Japana. Í september féllust Bandaríkjamenn enn fremur á skipta á bandaríksum tundurspillum og breskum herstöðvum. Bretar fengu þá fimmtíu tundurspilla í skiptum fyrir herstöðvar á Nýfundnalandi, Bahamaeyjum, Jamaíka, Antígva, vesturströnd Trinidads og víðar. Mikill meirihluti bandarísku þjóðarinnar var eftir sem áður mótfallinn beinum hernaðarafskiptum allt fram til síðla árs 1941. Í septemberlok árið 1940 var formlega gengið frá bandalagið Þýskalands, Ítalíu og Japans. Sáttmálinn kvað á um að ef eitthvert ríki að Sovétríkjunum undanskildum, sem væri ekki þegar þátttakandi í stríðinu réðist á eitthvert Öxulveldanna, þá jafngilti það stríðsyfirlýsingu á öll ríkin þrjú. Bandaríkin héldu áfram stuðningi sínum við Bretland og Kína. Bandaríkjamenn friðlýstu hálft Atlantshafið og og tók að sér að vernda breskar skipalestir sem fluttu hráefni og varning frá Norður-Ameríku til Evrópu. Bandaríkin og Þýskaland áttu því í sífelldum árekstrum og smáorrustum á miðju og norðanverðu Atlantshafi, jafnvel þótt Bandaríkin væru enn þá opinberlega hlutlaust land. Í nóvember 1940 stækkaði bandalag Öxulveldanna þegar Ungverjaland, Slóvakía og Rúmenía gengu til liðs við hin Öxulveldin. Þessi ríki tóku þátt í innrásinni í Sovétríkin en Rúmenar lögðu mest af mörkum því þeir vildu ná aftur þeim landsvæðum í Bessarabíu og Norður-Bukovinu, sem Sovétmenn höfðu innlimað. Leiðtogi Rúmena, Ion Antonescu, var auk þess ákafur andstæðingur kommúnista. Í október 1940 réðust Ítalir inn í Grikkland en voru hraktir burt innan fárra daga og hörfuðu til Albaníu. Í desember hófu breskar hersveitir gagnárár á ítalskar sveitir í Egyptalandi og Ítölsku Austur-Afríku. Snemma árs 1941 þegar ítalski herinn hafði verið rekinn aftur til Líbýu fyrirskipaði Churchill að hersveitir skyldu sendar frá Afríku til Grikklands til að efla varnir þar. Ítalski sjóherinn beið nokkrum sinnum ósigur og breski sjóherinn gerði óvíg þrjú herskip Ítala við Taranto og mörg önnur skip Matapanhöfða. Þjóðverjar gripu fljótt í taumana til að hjálpa Ítölum. Hitler sendi þýskar hersveitir til Líbýu í febrúar og í lok marsmánaðar höfðu Þjóðverjar blásið til sóknar gegn þverrandi herafla Breta. Innan mánaðar höfðu breskar hersveitir hörfað aftur til Egyptalands að undanskilinni umsetnu hafnarborginni Tobruk. Bretar freistuðu þess að ýta við sveitum Öxulveldanna í maí og aftur í júní en til einskis í bæði skiptin. Snemma í apríl, eftir að Búlgaría hafði gengið til liðs við Öxulveldin, gerðu Þjóðverjar innrás á Balkanskaga, réðust inn í Grikkland og Júgóslavíu í kjölfar valdaráns þar. Þeim varð mjög ágengt og bandamenn urðu frá að hverfa eftir að Þjóðverjar náðu Krít á sitt vald í lok maímánaðar. Bandamenn náðu þó einhverjum árangri á þessum tíma stríðsins. Í Miðausturlöndum bældu Bretar niður valdaránstilraun í Írak, sem þýskar flugsveitir höfðu stutt frá herstöðvum innan landamæra Sýrlands, sem var á valdi Vichy-stjórnarinnar, svo réðust þeir ásamt frjálsum Frökkum inn í Sýrland Líbanon til að koma í veg fyrir annað eins. Á Atlantshafi náðu Bretar að sökkva þýska herskipinu Bismarck. Ef til vill munaði mestu um að breski flugherinn hafði staðið upp í hárinu á þýska flughernum og loftárásum Þjóðverja á Bretland lauk að mestu í maí 1941. Í Asíu var komin upp pattstaða milli Japana og Kínverja árið 1940, þrátt fyrir ýmsar tilraunir beggja aðila. In Japanir tóku völdin í sunnanverðri Indókína til þess að auka þrýstinginn á Kína með því að loka verslunarleiðum þeirra og koma japönskum hersveitum betur fyrir ef átök brytust út við Vesturlönd. Í ágúst sama ár blésu kínverskir kommúnistar til sóknar í Mið-Kína. Japanir brugðust hart við á hernumdum svæðum. Ástandið í Evrópu og Asíu var tiltölulega stöðugt og Þjóðverjar, Japanir og Sovétmenn gerðu allir ráðstafanir. Sovétmenn voru þreyttir á aukinni spennu milli sín og Þjóðverja og í apríl 1941 gerðu þeir griðarsamning við Japani sem höfðu í hyggju að nýta sér stríðið í Evrópu og hertaka mikilvægar auðlindir Evrópuríkjanna í Suðaustur-Asíu. Þjóðverjar voru á hinn bóginn að undirbúa innrás í Sovétríkin og fjölguðu mjög hersveitum sínum við landamærin í austri. Stríðsárin á Íslandi. "Aðalgrein: Stríðsárin á Íslandi" Armin Meiwes. Armin Meiwes (fæddur 1961) er þýskur tölvunarfræðingur og mannæta, einnig þekktur sem Mannætan frá Rotenburg. Maðurinn. Armin ólst upp einn með móður sinni í stóru húsi, hún var ráðrík kona sem oft skammaði hann á almannafæri að sögn fyrrum skólafélaga hans. Móðir hans bjó með honum allt til dauðadags og var mjög uppáþrengjandi, hún fylgdi honum jafnvel á stefnumót og í ferðalög sem hann fór í með hernum á 9. áratuginum þegar hann gengdi herskyldu. Að eigin sögn varð einmannaleg barnæska hans til þess að hann bjó sér til þykjustu-bróðir sem hann kallaði Franky, Armin hélt því einnig fram að þráin eftir yngri bróðir hefði verið það sem rak hann til þess að drepa mann og leggja sér til munns. Hann „þráði einhvern sem væri partur af honum“. Geðlæknir sem bar vitni við réttarhöldin yfir Armin sagði hann vera alls ófæran um að sýna öðru fólki hlýjar tilfinningar. Hann væri sjálfumglaður og sjálfsöruggur og hefði nokkur einkenni geðklofa en hann væri ekki geðveikur. Verknaðurinn. Armin setti fyrst auglýsingu á internetið árið 1999 þar sem hann auglýsti eftir „ungum, vel-byggðum karlmönnum á aldrinum 18-30 ára til slátrunar“. Hann fékk fjölmörg svör við auglýsingunni og hitti nokkra svarendur sem voru ekki tilbúnir að ganga alla leið. Árið 2001 komst hann svo í samband við 43 ára verkfræðing frá Berlín, Colan Man, sem samþykkti að vera drepinn og borðaður af Armin. Armin bauð Colan inná heimili sitt þar sem Colan heimtaði að hann myndi bíta af sér getnaðarlimin en þegar það gekk ekki þá skar Armin af honum getnaðarliminn sem hann eldaði og þeir átu síðan saman. Að máltíð lokinni drap Armin svo Colan (að eigin sögn) með hans samþykki. Líkið skar hann niður í litla búta sem hann geymdi í frysti og gæddi sér á reglulega yfir nokkra mánuði. Upp um verknaðinn komst þegar lögreglan brást við vísbendingum frá netverjum sem höfðu rekist á auglýsinguna. Armin var árið 2004 dæmdur til 8 og hálfs árs fangelsisvistar fyrir manndráp en gæti losnað úr fangelsi mun fyrr eða 2008 sýni hann af sér góða hegðun. Verjendur hans fóru fram á að verknaðurinn myndi flokkast undir ólöglegt líknardráp en refsing við slíku er aðeins 6 mánuðir til 5 ára. Sækjendur vildu hinsvegar fá hann dæmdan fyrir morð og til 15 ára fangelsisvistar. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að verknaðurinn félli ekki undir líknardráp en einnig að þau skilyrði sem sett eru í þýskum lögum fyrir sakfellingu fyrir morð væru ekki til staðar, niðurstaðan var því manndráp. Þann 9. Maí var hann svo dæmdur fyrir moð og var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Þessir atburðir urðu innblástur fyrir lag Rammstein, "Mein Teil". J. R. R. Tolkien. John Ronald Reuel Tolkien (3. janúar 1892 – 2. september 1973) var enskur málvísindamaður og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir skáldsögurnar sínar "The Lord of the Rings" og "The Hobbit", eða "Hringadróttinssögu" og "Hobbitann", eins og þær nefnast á íslensku. Tolkien fæddist í Suður-Afríku og varði þar fyrstu þremur árum sínum, þangað til hann flutti til Englands með móður sinni og bróður. Þau voru fátæk og því buðust bræðrunum fá tækifæri. Tolkien sannaði þó snemma hversu góður námsmaður hann var. Tolkien stundaði nám við háskólann í Oxford og eftir að hafa lokið námi þaðan fór hann með breska hernum á vígstöðvar í Frakklandi en fyrri heimsstyrjöldin geisaði um þessar mundir. Fræðimennska hans sneri fyrst og fremst að fornensku og enskum bókmenntum. Tolkien starfaði sem prófessor í enskum málvísindum, fyrst við háskólann í Leeds og síðar við Oxford-háskóla. Eftir að fyrri heimsstyrjöldina fór hann að sinna ritstörfum. Tolkien var þekktur fyrir frjótt ímyndunarafl sem að birtist í ævintýrum hans. Þekktustu verk hans er barnaævintýrið Hobbitinn og framhald þess, þríleikurinn Hringadróttinssaga. Tolkien lést í Oxford árið 1973, 81 árs gamall. Tvær bækur komu út að honum látnum, Silmerillinn og The Children of Húrin. Sonur Tolkens, Christopher Reuel Tolken sá um að setja saman heilstæðar sögur úr gífurlegu ritsafni Tolkiens og náði að koma saman tveimur bókum. Tolkien sjálfur var haldinn talsverðri fullkomnunaráráttu og gat ekki með nokkru móti sent frá sér efni nema það væri algjörlega fullkomið. Þess vegna náði hann ekki að gefa þetta út sjálfur áður en hann lést. Honum vannst einfaldlega ekki tími til þess. Uppvaxtarárin. Á seinni hluta 19. aldar flutti maður að nafni Arthur Tolkien til smábæjarins Bloemfontein í Suður-Afríku. Honum hafði verið boðið starf í banka þar í landi, fljótlega tókst honum að klífa metorðastigann og gat þá boðið æskuástinni sinni, Mabel Suffield, að koma og búa hjá sér. Þann 3. janúar árið 1892 fæddist þeim sonur, hann var nefndur John Ronald Reuel Tolkien. Barnæskan í Afríku var mjög frábrugðin því sem önnur ensk börn upplifðu heima á Bretlandi. Móður Johns leið ekki vel með syni sína í þessu umhverfi og því fluttust hún, John og bróðir hans, Hilary, aftur til Birmingham á Englandi árið 1895. Arthur kom ekki með því hann var hræddur um að missa stöðu sína í bankanum. Fyrst um sinn hafðist fjölskyldan við hjá systur Mabelar sem að bjó í litlu húsnæði í iðnaðarhverfi í Birmingham. Eftir að fjölskyldan fékk fréttir af því að Arthur hefði látist eftir skammvinn en erfið veikindi fluttist hún í lítið fallegt hús í smáþorpinu Sarhole, rétt fyrir utan borgina. Móðir drengjanna kenndi þeim heima og tók strax eftir því að John var efni í mikinn bókaorm. Þar má segja að John hafi byrjað að blómstra. En Adam var ekki lengi í paradís því samfélagið á þessum tíma var ekki sniðið fyrir einstæða móður með 2 börn. Drengirnir áttu fá tækifæri í skóla og þurftu oftar en ekki að taka pásur í náminu vegna peningaskorts. Árið 1903 fékk John styrk til að stunda nám við King Edwards skólann, sem hann þurfti þó að yfirgefa þegar móðir hans veiktist. John hafði svo mikinn áhuga á námi að þegar hann var ekki í skóla las hann mikið sjálfur. Árið 1904, þegar John var einungis 12 ára, lést Mabel móðir hans úr sykursýki. Drengirnir voru þá orðnir munaðarlausir en fluttu til frænku sinnar, þar sem þeir fengu húsaskjól og mat og gátu sótt skóla þaðan. Bræðurnir áttu gott samband við kaþólskan prest, séra Francis Xavier Morgan, sem hafði reynst þeim og móður þeirra afskaplega vel. Þetta góða samband við prestinn olli því að Tolkien var alla tíð einlægur fylgismaður kaþólskrar trúar. Þegar Tolkien var 16 ára kynntist hann tilvonandi eiginkonu sinni, Edith Bratt. Hún bjó þá á sama heimili og Tolkien bræðurnir. Þau felldu snemma hugi saman og eyddu miklum tíma saman. Í fyrstu hafði enginn neitt að segja við þessu sambandi en þegar fór að nálgast þann tíma að Tolkien ætti að taka inntökupróf í Oxford-háskólann bannaði séra Francis, sem var forráðamaður drengjanna, honum að eiga í samskiptum við Edith þangað til hann væri orðinn lögráða. Í millitíðinni átti hann að einbeita sér að náminu. Náms- og stríðsárin. Exeter háskólinn í Oxford, þar sem Tolkien var við nám Skotgröf við Somme í seinni heimsstyrjöldinni. Tolkien féll á inntökuprófinu í fyrsta skipti sem hann reyndi, en komst inn í annað skiptið með glæsibrag sem tryggði honum skólastyrk. Auk þess fékk hann styrk frá King Edwards skólanum sem hann stundaði áður nám við og frá forráðamanni sínum, séra Francis. Tolkien byrjaði að nema klassísk fræði við Exester háskólann í Oxford. Það nám hentaði honum þó ekki mjög vel og hann skipti seinna, í samráði við kennara sína yfir í enska tungu og bókmenntir. Þá var hann kominn á rétta braut og fann sig afskaplega vel við að rýna í uppruna enskrar tungu. Tolkien útskrifaðist með fyrstu einkunn frá háskólanum árið 1915. Fyrri heimsstyrjöldin hófst í júní árið 1914 og margir nemendur í Oxford gengu í breska herinn svo heldur tómlegra var á skólalóðinni á síðasta ári Tolkiens. Hann kláraði námið en þurfti strax eftir það að fara í æfingabúðir fyrir hermenn. Hann, sem menntamaður, var gerður að undirforingja í hersveit. Árið 1916 var Tolkien sendur til vígstöðvanna í Frakklandi. Stuttu eftir komuna þangað var hann og hans deild send til Somme. Þar starfaði Tolkien sem merkjamaður en barðist einnig í skotgröfunum. Eins og fyrir flesta var stríðið Tolkien mjög erfitt. Hann hafði séð marga deyja, drepið sjálfur og það sem honum fannst verst, misst einhvern nákominn sér. Eftir að hafa dvalist í Frakklandi í fimm mánuði fékk Tolkien skotgrafarveiki, sem var hitasótt af völdum bakteríusýkingar og var í kjölfarið fluttur heim til Englands. Tolkien og Edith Bratt. Eftir að parið sameinaðist á ný þegar Tolkien náði lögræðisaldri var samband þeirra enginn dans á rósum. Það olli strax nokkurri togstreitu á milli þeirra að Tolkien var gallharður kaþólikki en Edith var alin upp við ensku biskupakirkjuna sem Tolkien fyrirleit. Edith samþykkti þó að skipta um trú og árið 1914 var hún tekin inn í rómversk-kaþólsku kirkjuna. Tolkien og Edith ákváðu að gifta sig áður en hann hélt til Frakklands í stríð, þau giftu sig þann 22. mars árið 1916. Eftir að Tolkien kom heim úr stríðinu tók í hönd tími mikillar óvissu. Unga parið var hrætt því það vissi ekki hvað framtíðin bar í skauti sér en voru samt sem áður nokkuð hamingjusöm, þau höfðu nú meiri tíma fyrir hvort annað en þau höfðu nokkurn tímann átt. Edith varð ólétt af þeirra fyrsta barni og þann 16. nóvember 1917 fæddist sonur þeirra, John Francis Reuel. Enn og aftur var dvöl þeirra í paradís ekki löng. Þangað til stríðinu lauk var Tolkien í sífellu kallaður út og suður um England í herbúðir. Það olli því að hann náði sér aldrei almennilega af veikindunum, lenti nokkru sinnum á sjúkrahúsi og fjölskyldan þurfti sí og æ að flytja. Við stríðslok var þungu fargi létt af Tolkien fjölskyldunni eins og svo mörgum öðrum. Fjölskyldan flutti til Oxford þar sem Tolkien hafði boðist starf sem málvísindamaður við gerð orðabókar. Þá var líf fjölskyldunnar komið í nokkuð fastar skorður þó hún hafi reyndar flutt nokkru sinnum eftir þetta. Tolkien bauðst staða í kennslu við háskólann í Leeds. Eftir það starfaði hann sem prófessor við háskólann í Oxford í 34 ár. Hjónin Edith og Tolkien eignuðust fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Þau hétu John Francis, Michael Hilary, Christopher John og Priscilla Mary Anne. Skáldastörf. Börn Tolkiens frjóvguðu huga hans. Hann skrifaði ýmis ævintýri fyrir þau og jákvætt viðmót þeirra til ævintýranna varð honum hvatning til að gera meira. Ævintýrin sem hann sagði börnum sínum voru létt og falleg en meðfram því skrifaði hann líka sögur um ýmsar drungalegar verur. Eitt af þessum ævintýrum átti eftir að vekja sérstaklega mikla lukku, árið 1937 kom Hobbitinn út. Hobbitinn var barnaævintýri sem varð til í hugarheimi Tolkiens þegar hann var að fara yfir próf hjá nemendum. Sú bók átti sér framhald í þríleiknum Hringadróttinssögu, sögurnar þrjár komu út á árunum 1954-5. Nokkur önnur verk liggja eftir Tolkien en engin hafa náð jafn miklum vinsældum og þessi fjögur. Fáir rithöfundar í gegnum tíðina geta státað sig af jafn litríku ímyndunarafli og J.R.R.Tolkien. Bækur hans eru enn mjög vinsælar og eiga eflaust aldrei eftir að gleymast. En skáldargáfa hans var honum þó ekki alveg meðfædd, hann átti strembna ævi en var algjör grúskari og bókaormur. Hann sökkti sér algjörlega í bækur og forn rit, talaði mörg tungumál og vann margar rannsóknir á fornum handritum, eins og til dæmis gömlu konungasögunum og íslendingasögunum. Tolkien talaði íslensku og hann og góðvinur hans, C.S. Lewis, höfundur Narniu-ævintýranna, voru saman í leshring í Oxford sem einsetti sér að rýna í íslendingasögurnar. Síðustu árin. Gröf J.R.R. og Edith Tolkien. Tolkien hagnaðist seint af ritstörfum sínum, hann var kominn á gamalsaldur þegar hann græddi á Hringadróttinssögu sem hafði notið vinsælda. Þá fluttu hann og Edith á nýjan stað, í rúmgott hús með stórum garði sem hann dundaði sér við að rækta. Tolkien þótti smámunasamur og oft erfiður í samskiptum. Árið 1971 varð Edith mjög veik, hún hafði fengið gallblöðrukast og lést 29. nóvember sama ár. Missirinn tók Tolkien þungt en hann flutti til Oxford aftur eftir að yngsti sonur hans, Christopher fann handa honum stað þar til búa á. Þessi síðustu ár Tolkiens voru nokkuð góð þrátt fyrir konumissinn. Honum leið vel að vera aftur kominn til Oxford og hann hlaut margar viðurkenningar. Hann var meðal annars gerður að heiðursfélaga í háskólasamfélaginu og heiðursdoktor við marga háskóla. Vænst þótti honum um þá nafnbót frá sínum háskóla, Oxford. Tolkien naut sín einnig við að fá heimsóknir og heimsækja gamla vini og ættingja en heilsufar hans var ekki orðið upp á marga fiska. Hann þjáðist meðal annars af gigt og meltingartruflunum. Eitt sinn var hann í heimsókn hjá gömlum vinum sínum og skemmti sér vel. Um nóttina vaknaði hann hins vegar við sáran verk og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús þar sem kom í ljós svæsið magasár. Þremur dögum síðar lést Tolkien, þann 2. september 1973, þá 81 árs að aldri. Heimildir. Tolkien, J.R.R. Ósýnileiki. Ósýnileiki vísar til þess eiginleika hlutar að sjást ekki og er hann ekki sjáanlegur og er orðið dregið af því. Hlutir eru sagðir ósýnilegir þegar þeir hleypa ljósgeislum í gegnum sig án þess að breyta stefnu þeirra. Dæmi um það er súrefni og koltvísýringur. Auk þess geta þeir verið ósýnilegir ef þeir eru of smáir til að augað fái greint þá eða ljósið er utan þeirrar bylgjulengdar er augað getur numið. Tíðnisvið. Tíðnisvið er það svæði sem ákveðin tíðni spannar. Bylgjulengd. Bylgjulengd er fjarlægð milli næstliggjandi öldutoppa (eða öldudala) á reglulegri bylgju. Sem dæmi er bylgjulengd innrauðs ljóss um 5 µm til 1000 µm. Míkrómetri. Míkrómetri (µm) er mælieining fyrir lengd og jafngildir einum milljónasta úr metra, þ.e. (1×10−6 m). Öldutoppur. Í eðlisfræði er hugtakið öldutoppur hæsti punktur bylgju. Landnámsöld. Landnámsöld er tímabil við upphaf Íslandssögunnar. Hún er sögð hefjast með landnámi Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík 870 eða 874 og enda með stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Var þá Ísland talið fullnumið. Ferðir landkönnuða fyrir landnám við Íslandsstrendur Á landnámsöld sigldu þúsundir manna frá nágrannalöndunum, einkum Noregi, til Íslands og settust að. Auk Norðmanna var allmikill fjöldi Dana og Svía í hópnum, svo og fólk af öðrum uppruna, og þess utan var allnokkur fjöldi þræla og ambátta frá Írlandi og fleiri löndum. Nýlegar erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljós að líklega hafa um 80% karla sem hingað komu verið af norrænum uppruna en aðeins um helmingur kvenna. Til eru gamlar heimildir um landnámið, Landnámabók og Íslendingabók Ara fróða, sem hafa að geyma upplýsingar um landnámsmenn. Þær voru líklega ritaðar á 12. eða 13. öld og eru að sjálfsögðu ekki sérlega traust heimild um nöfn einstakra landnámsmanna og mörk landnáma, þar sem þá voru liðin að minnsta kosti 200 ár frá landnámi. Fyrstu landnámsmennirnir. Saga Íslands hefst samkvæmt hefðbundinni söguskoðun með komu fóstbræðranna Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs Hróðmarssonar um 870 því þá hefst jafnframt skipulagt landnám Íslands. Áður höfðu þó nokkrir komið hingað og getur Landnáma um þá Naddodd víking, Garðar Svavarsson og Hrafna-Flóka Vilgerðarson, sem reyndi landnám í Vatnsfirði á Barðaströnd en hvarf aftur til Noregs eftir að hafa gefið landinu nafn. Þeir Ingólfur og Hjörleifur höfðu með sér bæði frjálsborna menn og konur, svo og þræla nokkra og konur og voru hvor á sínu skipi. Þegar nálgaðist landið er sagt að Ingólfur hafi varpað öndvegissúlum sínum frá borði og heitið því að setjast að þar sem þær ræki að landi. Ingólfur tók fyrst land við Ingólfshöfða og hafði þar vetursetu en Hjörleifur við Hjörleifshöfða. Næsta vor var Hjörleifur veginn af þrælum sínum sem flúðu því næst til Vestmannaeyja en Ingólfur elti þá uppi og vó. Ingólfur nam svo allt land frá Ölfusá og að Botni í Hvalfirði og settist að í Reykjavík, því þar áttu öndvegissúlurnar að hafa fundist. Hann er jafnan talinn fyrsti landnámsmaðurinn og er yfirleitt miðað við ártalið 874, því þá er hann talinn hafa byggt bæ sinn. Fornleifarannsóknir á síðustu árum benda þó til þess að mannabyggð hafi verið hér töluvert fyrr. Þótt Ingólfur Arnarson sé almennt kallaður fyrsti landnámsmaðurinn, þá höfðu aðrir komið til landsins áður og getið er um mann sem settist að í landinu á undan honum. Hann er kallaður Náttfari í Landnámabók, en óvíst er að það sé rétt nafn hans. Hann kom með Garðari Svavarssyni landkönnuði nokkrum árum fyrir landnám Ingólfs og „sleit frá honum“ á báti, ásamt þræli og ambátt. Hann settist fyrst að í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og helgaði sér þar land en var seinna rekinn þaðan og settist þá að í Náttfaravíkum. Landið numið. Á næstu árum eftir landnám Ingólfs fjölgaði landnámsmönnum hratt en talið er að þeir hafi verið á bilinu 10-20 þúsund á fyrstu áratugunum eftir komu fóstbræðranna. Ísland byggðist til fulls á rúmri hálfri öld og tók þá þegar að gæta þrengsla. Þekktust nokkrar sögur af því hvernig marka átti sér land. Segir ein þeirra að maður hafi getað eignað sér land sem því svæði nemur að hann hafi komist um með logandi eldi á einum degi. Landnámin voru þó mjög misstór. Þeir sem fyrstir voru á ferð og komu að ónumdu landi gátu slegið eign sinni á mjög stór svæði og gefið eða selt svo öðrum hluta af því en landnámsmenn sem seinna komu urðu að láta sér nægja mun minna landrými og oft útkjálka eða afdali. Um það bil fjórðungur þeirra landnámsmanna sem taldir eru í Landnámabók virðist hafa fengið land hjá þeim sem á undan komu. Meðal frægra landnámsmanna sem komu snemma og námu stór landsvæði, jafnvel heil héröð, má telja Auði djúpúðgu, Helga magra, Ketilbjörn gamla, Ingimund gamla, Björn austræna, Geirmund heljarskinn og Skalla-Grím Kveldúlfsson. Breytingar við landnám. Landgæði í upphafi landnáms voru önnur og meiri en seinna varð og veðurfar var líka mildara. Sagt er að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru þegar landnámsmenn komu hingað fyrst en sú lýsing hefur verið dregin í efa. Þó er enginn vafi á því að gróðureyðing var mikil þegar á fyrstu áratugunum og öldunum eftir landnám, enda virðast menn hafa látið búsmala sinn ganga meira og minna sjálfala. Landnámsmenn fluttu með sér nautgripi, sauðfé, hesta, geitur, svín og hænsni, auk hunda og katta. Á landnámsöld og fram eftir öldum var hlutfallslega mun meira um nautgripi en seinna varð og færra sauðfé. 2. júní. 2. júní er 153. dagur ársins (154. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 212 dagar eru eftir af árinu. 3. júní. 3. júní er 154. dagur ársins (155. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 211 dagar eru eftir af árinu. 4. júní. 4. júní er 155. dagur ársins (156. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 210 dagar eru eftir af árinu. 6. júní. 6. júní er 157. dagur ársins (158. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 208 dagar eru eftir af árinu. 7. júní. 7. júní er 158. dagur ársins (159. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 207 dagar eru eftir af árinu. 8. júní. 8. júní er 159. dagur ársins (160. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 206 dagar eru eftir af árinu. 9. júní. 9. júní er 160. dagur ársins (161. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 205 dagar eru eftir af árinu. 10. júní. 10. júní er 161. dagur ársins (162. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 204 dagar eru eftir af árinu. 11. júní. 11. júní er 162. dagur ársins (163. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 203 dagar eru eftir af árinu. 12. júní. 12. júní er 163. dagur ársins (164. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 202 dagar eru eftir af árinu. 13. júní. 13. júní er 164. dagur ársins (165. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 201 dagur er eftir af árinu. 14. júní. 14. júní er 165. dagur ársins (166. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 200 dagar eru eftir af árinu. 15. júní. 15. júní er 166. dagur ársins (167. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 199 dagar eru eftir af árinu. 16. júní. 16. júní er 167. dagur ársins (168. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 198 dagar eru eftir af árinu. 18. júní. 18. júní er 169. dagur ársins (170. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 196 dagar eru eftir af árinu. 19. júní. 19. júní er 170. dagur ársins (171. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 195 dagar eru eftir af árinu. Á Íslandi er dagurinn helgaður kvenréttindum. 20. júní. 20. júní er 171. dagur ársins (172. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 194 dagar eru eftir af árinu. 22. júní. 22. júní er 173. dagur ársins (174. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 192 dagar eru eftir af árinu. 23. júní. 23. júní er 174. dagur ársins (175. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 191 dagur er eftir af árinu. 24. júní. 24. júní er 175. dagur ársins (176. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 190 dagar eru eftir af árinu. 25. júní. 25. júní er 176. dagur ársins (177. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 189 dagar eru eftir af árinu. 26. júní. 26. júní er 177. dagur ársins (178. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 188 dagar eru eftir af árinu. 27. júní. 27. júní er 178. dagur ársins (179. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 187 dagar eru eftir af árinu. 28. júní. 28. júní er 179. dagur ársins (180. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 186 dagar eru eftir af árinu. 29. júní. 29. júní er 180. dagur ársins (181. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 185 dagar eru eftir af árinu. 30. júní. 30. júní er 181. dagur ársins (182. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 184 dagar eru eftir af árinu. 1. júlí. 1. júlí er 182. dagur ársins (183. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 183 dagar eru eftir af árinu. 2. júlí. 2. júlí er 183. dagur ársins (184. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 182 dagar eru eftir af árinu. 3. júlí. 3. júlí er 184. dagur ársins (185. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 181 dagur er eftir af árinu. 17. öldin. 17. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1601 til loka ársins 1700. 16. öldin. 16. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1501 til enda ársins 1600. Helstu atburðir og aldarfar. a> settist aldrei í ríki hans. 15. öldin. 15. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1401 til loka ársins 1500. Vísindi. Vísindi er tiltekið ferli sem fylgt er við þekkingaröflun. Vísindalegrar þekkingar afla menn með rannsóknum, það er með kerfisbundinni leit að þekkingu. Hrein og hagnýtt vísindi. Hagnýtt vísindi eru þær fræðigreinar þar sem rannsóknir geta haft bein áhrif á þjóðfélagið, t.d. er hægt að selja lyf framleidd vegna rannsókna í lyfjafræði. Hrein vísindi eru hins vegar fræðigreinar sem hafa óbein áhrif á þjóðfélagið en þekkingar er aflað óháð því hvort þær hafi hagnýtt gildi eða ekki en afraksturinn af rannsóknum fræðimanna þeirra greina er nýttur í rannsóknir í fræðigreinum hagnýttra vísinda. Vísindaleg aðferð. Nátengd skilgreiningu á vísindum er skilgreining á því sem kallast vísindaleg aðferð. Hin vísindalega aðferð er í raun ekki ein tiltekin aðferð, heldur ákveðin aðferðafræði eða viðhorf um það hvers lags aðferðir eru vænlegar til að auka vísindalega þekkingu. Samkvæmt þessari aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum. Athugun. Athugun er fyrsta þrepið við kenningarmyndun en í því felst að vakin er athygli á ástæðunni fyrir því að farið sé út í kenningarmyndun og aðrar athugasemdir á viðfangsefninu. Þekking sem styðst eingöngu við athugun en ekki tilraun kallast reynsluþekking. Mikill hluti nútímavísinda byggir eingöngu á reynsluþekkingu. Tilgáta. Tilgáta er annað þrepið en þá er sett fram óstaðfest lausn eða aðferð út frá athugunum sem voru gerðar í fyrra þrepinu. Tilraun. Tilraunir eru gerðar til að annað hvort staðfesta eða hrekja tilgáturnar sem settar voru fram í fyrra þrepi. Í þessu þrepi er framkvæmd bæði "aðaltilraun" og "samanburðartilraun" en munurinn felst í því að í aðaltilrauninni er prófað að framkvæma aðferðina eða lausnina sem skilgreind var í tilgátunni sem sett var fram en samanburðartilraunin er framkvæmd á sama hátt, nema sleppt að framkvæma það sem prófað er með aðaltilrauninni. Kenning. Kenning er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma. Kenningar eiga til með að mótast eða verið afsannaðar eftir að þær hafa verið settar svo að taka skal tillit til þess þegar kenningar eru íhugaðar. Þess ber að minnast að svonefnd „lögmál“ eru kenningar, þrátt fyrir að nafngiftin segi annað. Munurinn á kenningu og lögmáli. Kenningar verða ekki að ígrunduðu máli að lögmálum. Kenningar og lögmál lýsa tveim mismunandi hlutum. Lögmál lýsir reglubundnum hlutum (t.d. þyngdaraflinu) sem hægt er að nota til að spá fyrir um hluti. T.d. þyngdarlögmálið sem á alltaf við eftir því að við best vitum, af því að það er lögmál getum við búist við því að það eigi við hlut í framtíðinni og getum því notað formúlur til að spá fyrir um niðurstöðu (mun bolti detta í gólfið ef ég sleppi honum?). Kenning er samansafn lögmála og reglna sem útskýra náttúruleg fyrirbrigði. T.d. þá getur þróunarkenning Darwins útskýrt steingervinga og sameiginlegt erfðaefni tegunda, en getur ekki spáð fyrir um hvernig þróun ákveðinnar tegundar verður. Listi yfir vinabæi Íslands. Eftirfarandi er listi yfir vinabæi Íslands. Frjálst efni. Hugtakið á rætur að rekja til frjáls hugbúnaðar og er ætlað að koma á svipuðu skipulagi varðandi annars konar verk en hugbúnað. Í þessu skyni hafa verið samin mörg frjáls afnotaleyfi á borð við GFDL og Creative Commons. Wikipedia er stærsta einstaka safn frjáls efnis í heiminum. Charles Dickens. Charles John Huffam Dickens (7. febrúar 1812 – 9. júní 1870) var breskur rithöfundur sem uppi var á Viktoríutímabilinu. Bar hann rithöfundarheitið „Boz“ og skrifaði fjölda bóka og ljóða. Tenglar. Dickens, Charles Glæstar vonir. Glæstar vonir ("Great Expectations") er skáldsaga eftir Charles Dickens skrifuð á árunum 1860 til 1861. Hún fjallar um munaðarleysingjan Pip. Hann lendir í því að strokufanginn Magwitch, sem hann hræðist, fær hann til að útvega sér mat og tól til að losa sig úr fótajárnum. Þetta atvik á síðar eftir að hafa áhrif á líf Pip, sem síðar fær óvænta fúlgu fjár frá óþekktum velunnara sem verður til þess að hann fer til London með "glæstar vonir" um betra líf, en lendir í erfileikum og ólukkan eltir hann. Frummál. Frummál er oftast það tungumál sem eitthvað er frumsamið á en getur einnig átt við tungumál frummannsins. Frummaður. Frummaður í venjulegum skilningin eru fremdardýr sem augljóslega líkjast mönnum, allt frá górillum til undirtegunda manna (fræðiheiti "homo") sem komu á undan Homo sapiens sapiens. Transmetropolitan. Transmetropolitan er teiknimyndasería sem skrifuð er af Darick Robertson og Warren Ellis. Serían fjallar um Spider Jerusalem, sem er frægur fréttamaður í framtíðinni. Hann ásamt aðstoðarmönnum sínum (oftast kallaðir „filthy assistants“ af Spider) berjast gegn spillingu bandaríkjastjórn. Ljós. a>ar, þar sem sýnilegt ljós er auðkennt. Ljós er rafsegulbylgjur innan ákveðins tíðnisviðs, en oftast er átt við það tíðnisvið sem mannsaugað greinir. Við nánari athugun er hægt að sýna að ljós er í senn bylgjur og ljóseindir og er í því sambandi talað um tvíeðli ljóss. Frægasta tilraunin sem sýnir fram á bylgjueðli ljóss er tvíraufa tilraun Youngs, þar sem ljósi er beint í gegnum tvær raufar, með bili milli raufann af sömu stærðargráður og bylgjulengd ljóssins. Ljósið sýnir þá svokallaða samliðunar- eða víxleiginleika. Ein helsta tilraunaniðurstaða, sem styður tilvist ljóseinda ljósröfun, þar sem ljós örvar frumeind og veldur ljósröfun. Til þessa dags hefur ekki verið unnt skýra þess tilraun með ljósbylgjum. Sýnilegt ljós, sem er það ljós sem mannsaugað getur numið, með bylgjulengd á bilinu 400 til 700 nm. Sýnilegt ljós spannar því rafsegulrófið milli innrauðs og útfjólublás ljóss. Ljóshraði (í tómarúmi) er um 300,000 km/s. Ljósgjafi er hlutur, áhald eða tæki sem gefur sýnilegt ljós, t.d. kerti, ljósapera, flúrljós og tvistur (díóða). Geislatæki gefur geislun, sem að mestu utan sýnlega sviðsins, en geislagjafi gefur jónandi geislun, sem stafar af geislavirkni. Nanómetri. Nanómetri (táknað nm) er mælieining fyrir lengd, jafngildir einum milljarðasta úr metra / 0.000000001 m eða 10-9 metri. 4. júlí. 4. júlí er 185. dagur ársins (186. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 180 dagar eru eftir af árinu. 5. júlí. 5. júlí er 186. dagur ársins (187. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 179 dagar eru eftir af árinu. 6. júlí. 6. júlí er 187. dagur ársins (188. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 178 dagar eru eftir af árinu. 7. júlí. 7. júlí er 188. dagur ársins (189. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 177 dagar eru eftir af árinu. 8. júlí. 8. júlí er 189. dagur ársins (190. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 176 dagar eru eftir af árinu. 9. júlí. 9. júlí er 190. dagur ársins (191. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 175 dagar eru eftir af árinu. 10. júlí. 10. júlí er 191. dagur ársins (192. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 174 dagar eru eftir af árinu. 11. júlí. 11. júlí er 192. dagur ársins (193. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 173 dagar eru eftir af árinu. 12. júlí. 12. júlí er 193. dagur ársins (194. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 172 dagar eru eftir af árinu. 13. júlí. 13. júlí er 194. dagur ársins (195. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 171 dagur er eftir af árinu. 14. júlí. 14. júlí er 195. dagur ársins (196. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 170 dagar eru eftir af árinu. 15. júlí. 15. júlí er 196. dagur ársins (197. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 169 dagar eru eftir af árinu. 16. júlí. 16. júlí er 197. dagur ársins (198. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. Þá eru 168 dagar eru eftir af árinu. 17. júlí. 17. júlí er 198. dagur ársins (199. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 167 dagar eru eftir af árinu. 18. júlí. 18. júlí er 199. dagur ársins (200. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 166 dagar eru eftir af árinu. 19. júlí. 19. júlí er 200. dagur ársins (201. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 165 dagar eru eftir af árinu. 20. júlí. 20. júlí er 201. dagur ársins (202. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 164 dagar eru eftir af árinu. 14. öldin. 14. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1301 til enda ársins 1400. 13. öldin. 13. öldin er tímabilið frá upphafi ársins 1201 til loka ársins 1300. 12. öldin. 12. öldin er tímabilið frá upphafi ársins 1101 til loka ársins 1200. Atburðir og aldarfar. a>. Krossferðin endaði illa og Loðvík sneri heim með her sinn tveimur árum síðar. 11. öldin. 11. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1001 til enda ársins 1100. Seamus Heaney. Seamus Heaney (13. apríl 1939 - 30. ágúst 2013) var írskur rithöfundur og ljóðskáld. Hann fæddist í Derry-sýslu norðvestur af Belfast. Hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1995. Tenglar. Heaney, Seamus Gabriel García Márquez. Gabriel García Márquez (f. 6. mars 1928) er kólumbískur rithöfundur, blaðamaður og útgefandi. Á blaðamannaferli sínum hefur hann starfað víða um Evrópu og í New York-borg en höfuðvígi hans hefur verið í Mexíkóborg síðustu árin. Gabriel García Márquez fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1982. Verk. Márquez, Gabriel Garcia Márquez, Gabriel Garcia Jean-Paul Sartre. Jean-Paul Sartre (f. 21. júní 1905 í París; d. 15. apríl 1980 í París) var franskur rithöfundur, heimspekingur og gagnrýnandi. Hann skrifaði í anda tilvistarstefnu. Árið 1964 voru honum veitt bókmenntaverðlaun Nóbels en hann afþakkaði þau með þeim ummælum, að „enginn ætti að vera heiðraður fyrir það eitt að lifa“. Tenglar. Sartre, Jean-Paul Sartre, Jean-Paul Rudyard Kipling. Joseph Rudyard Kipling (30. desember 1865 í Bombay á Indlandi – 18. janúar 1936) var breskur rithöfundur og ljóðskáld, sem er einkum frægur fyrir dýrasögur sínar sem gerast á Indlandi. Frægastur er hann fyrir "Frumskógarbókina". Kipling var talsmaður heimsvaldastefnunnar og kom fram með hugtakið „byrði hvíta mannsins“ sem hann útskýrir í samnefndu ljóði er kom út árið 1899. Hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1907, fyrstur breskra rithöfunda. Wisława Szymborska. Wisława Szymborska (f. 2. júlí 1923 í Bnin hjá Poznań, d. 1. febrúar 2012 í Kraków) var pólskt ljóðskáld og þýðandi. Eftir bernskuár í Toruń fluttist hún með fjölskyldu sinni til Krakár árið 1931 og hefur búið þar síðan. Hún nam pólsku og félagsfræði við Jagiellonska háskólann þar í borg milli 1945 og 1948. Fyrsta ljóðið hennar - Szukam słowa ("ég leita orðsins") - birtist í dagblaði árið 1945. 1954 hlaut Szymborska bókmenntaverðlaun Krakárborgar, verðlaun pólska menningarmálaráðuneytisins 1963, Siegmund-Kallenbach-verðlaunin 1990, Goethe-verðlaunin 1991, og Herder-verðlaunin 1995. Sama ár var hún gerð að heiðursdoktor við Adam-Mickiewicz-háskólann í Poznań. Bókmenntaverðlaun Nóbels hlaut hún árið 1996. Dario Fo. Dario Fo (f. 24. mars 1926 í Sangiano) er ítalskt leikskáld, leikstjóri og tónskáld. Hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1997. Hann er einkum frægur fyrir gamanleiki sem ganga út á háðsádeilu (satíru) og hefur oftsinnis verið harðlega gagnrýndur fyrir verk sín af hægri öflunum á Ítalíu og kaþólsku kirkjunni. Mánuður. Mánuður er tímabil sem hefur enga fasta lengd. Upprunalega voru þeir allir 30 sólarhringar og er það nokkurn veginn tíminn sem líður á milli fullra tungla. Yfir söguna hafa lengdir mánaða verið breytilegar og geta núna haft 28 til 31 sólarhringa eftir því hvaða mánuð er um að ræða. Núna eru 12 mánuðir í árinu og hafa þeir allir sín eigin nöfn, sá fyrsti heitir janúar og sá seinasti desember. Á Íslandi var hins vegar annað skipulag á mánuðum áður en núverandi skipulag var tekið upp. Trú. Trú er í víðum skilningi að hafa eitthvað fyrir satt eða vona að eitthvað muni gerast. Í þrengri skilningi orðsins getur það átt við trú á yfirnáttúrlegar verur eða algildan sannleika, án bindingar við skipulegan átrúnað. Trú getur einnig verið það að aðhyllast tiltekin trúarbrögð, að tilheyra tilteknu trúfélagi. 10. öldin. 10. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 901 til enda ársins 1000. * 9. öldin. 9. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 801 til enda ársins 900. 8. öldin. 8. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 701 til enda ársins 800. 21. júlí. 21. júlí er 202. dagur ársins (203. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 163 dagar eru eftir af árinu. 22. júlí. 22. júlí er 203. dagur ársins (204. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 162 dagar eru eftir af árinu. 23. júlí. 23. júlí er 204. dagur ársins (205. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 161 dagur er eftir af árinu. 24. júlí. 24. júlí er 205. dagur ársins (206. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 160 dagar eru eftir af árinu. 25. júlí. 25. júlí er 206. dagur ársins (207. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 159 dagar eru eftir af árinu. 26. júlí. 26. júlí er 207. dagur ársins (208. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 158 dagar eru eftir af árinu. 27. júlí. 27. júlí er 208. dagur ársins (209. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 157 dagar eru eftir af árinu. 28. júlí. 28. júlí er 209. dagur ársins (210. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 156 dagar eru eftir af árinu. 29. júlí. 29. júlí er 210. dagur ársins (211. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 155 dagar eru eftir af árinu. 30. júlí. 30. júlí er 211. dagur ársins (212. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 154 dagar eru eftir af árinu. 31. júlí. 31. júlí er 212. dagur ársins (213. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 153 dagar eru eftir af árinu. 1. ágúst. 1. ágúst er 213. dagur ársins (214. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 152 dagar eru eftir af árinu. 2. ágúst. 2. ágúst er 214. dagur ársins (215. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 151 dagur er eftir af árinu. 3. ágúst. 3. ágúst er 215. dagur ársins (216. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 150 dagar eru eftir af árinu. 4. ágúst. 4. ágúst er 216. dagur ársins (217. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 149 dagar eru eftir af árinu. 5. ágúst. 5. ágúst er 217. dagur ársins (218. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 148 dagar eru eftir af árinu. 7. ágúst. 7. ágúst er 219. dagur ársins (220. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 146 dagar eru eftir af árinu. 8. ágúst. 8. ágúst er 220. dagur ársins (221. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 145 dagar eru eftir af árinu. 9. ágúst. 9. ágúst er 221. dagur ársins (222. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 144 dagar eru eftir af árinu. 10. ágúst. 10. ágúst er 222. dagur ársins (223. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 143 dagar eru eftir af árinu. 11. ágúst. 11. ágúst er 223. dagur ársins (224. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 142 dagar eru eftir af árinu. 12. ágúst. 12. ágúst er 224. dagur ársins (225. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 141 dagur er eftir af árinu. 13. ágúst. 13. ágúst er 225. dagur ársins (226. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 140 dagar eru eftir af árinu. 14. ágúst. 14. ágúst er 226. dagur ársins (227. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 139 dagar eru eftir af árinu. 15. ágúst. 15. ágúst er 227. dagur ársins (228. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 138 dagar eru eftir af árinu. 16. ágúst. 16. ágúst er 228. dagur ársins (229. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 137 dagar eru eftir af árinu. 17. ágúst. 17. ágúst er 229. dagur ársins (230. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 136 dagar eru eftir af árinu. 18. ágúst. 18. ágúst er 230. dagur ársins (231. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 135 dagar eru eftir af árinu. 19. ágúst. 19. ágúst er 231. dagur ársins (232. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 134 dagar eru eftir af árinu. 20. ágúst. 20. ágúst er 232. dagur ársins (233. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 133 dagar eru eftir af árinu. 21. ágúst. 21. ágúst er 233. dagur ársins (234. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 132 dagar eru eftir af árinu. 22. ágúst. 22. ágúst er 234. dagur ársins (235. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 131 dagur er eftir af árinu. 23. ágúst. 23. ágúst er 235. dagur ársins (236. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 130 dagar eru eftir af árinu. 24. ágúst. 24. ágúst er 236. dagur ársins (237. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 129 dagar eru eftir af árinu. 25. ágúst. 25. ágúst er 237. dagur ársins (238. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 128 dagar eru eftir af árinu. 26. ágúst. 26. ágúst er 238. dagur ársins (239. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 127 dagar eru eftir af árinu. 27. ágúst. 27. ágúst er 239. dagur ársins (240. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 126 dagar eru eftir af árinu. 28. ágúst. 28. ágúst er 240. dagur ársins (241. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 125 dagar eru eftir af árinu. 29. ágúst. 29. ágúst er 241. dagur ársins (242. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 124 dagar eru eftir af árinu. Dagurinn er kallaður höfuðdagur, vegna píslarvættis Jóhannesar skírara. Dagurinn er einnig tengdur íslenskri hjátrú, en menn trúðu því að veðurfarið þennan dag héldist næstu þrjár vikur. 30. ágúst. 30. ágúst er 242. dagur ársins (243. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 123 dagar eru eftir af árinu. 31. ágúst. 31. ágúst er 243. dagur ársins (244. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 122 dagar eru eftir af árinu. 1. september. 1. september er 244. dagur ársins (245. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 121 dagur er eftir af árinu. 2. september. 2. september er 245. dagur ársins (246. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 120 dagar eru eftir af árinu. 3. september. 3. september er 246. dagur ársins (247. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 119 dagar eru eftir af árinu. 4. september. 4. september er 247. dagur ársins (248. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 118 dagar eru eftir af árinu. 5. september. 5. september er 248. dagur ársins (249. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 117 dagar eru eftir af árinu. 6. september. 6. september er 249. dagur ársins (250. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 116 dagar eru eftir af árinu. 7. september. 7. september er 250. dagur ársins (251. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 115 dagar eru eftir af árinu. Heilahimnubólga. Heilahimnubólga er bólga í heilahimnunum umhverfis heilann og mænu. Algengasta orsökin er veiru- eða bakteríusýking. 1810. a> var endurreist á Hólum árið 2001. 8. september. 8. september er 251. dagur ársins (252. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 114 dagar eru eftir af árinu. 9. september. 9. september er 252. dagur ársins (253. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 113 dagar eru eftir af árinu. 10. september. 10. september er 253. dagur ársins (254. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 112 dagar eru eftir af árinu. 11. september. 11. september er 254. dagur ársins (255. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 111 dagar eru eftir af árinu. 12. september. 12. september er 255. dagur ársins (256. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 110 dagar eru eftir af árinu. 13. september. 13. september er 256. dagur ársins (257. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 109 dagar eru eftir af árinu. 14. september. 14. september er 257. dagur ársins (258. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 108 dagar eru eftir af árinu. 15. september. 15. september er 258. dagur ársins (259. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 107 dagar eru eftir af árinu. 16. september. 16. september er 259. dagur ársins (260. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 106 dagar eru eftir af árinu. 17. september. 17. september er 260. dagur ársins (261. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 105 dagar eru eftir af árinu. 18. september. 18. september er 261. dagur ársins (262. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 104 dagar eru eftir af árinu. 19. september. 19. september er 262. dagur ársins (263. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 103 dagar eru eftir af árinu. 20. september. 20. september er 263. dagur ársins (264. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 102 dagar eru eftir af árinu. 21. september. 21. september er 264. dagur ársins (265. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 101 dagur er eftir af árinu. 22. september. 22. september er 265. dagur ársins (266. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 100 dagar eru eftir af árinu. 23. september. 23. september er 266. dagur ársins (267. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 99 dagar eru eftir af árinu. 24. september. 24. september er 267. dagur ársins (268. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 98 dagar eru eftir af árinu. 25. september. 25. september er 268. dagur ársins (269. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 97 dagar eru eftir af árinu. 26. september. 26. september er 269. dagur ársins (270. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 96 dagar eru eftir af árinu. 27. september. 27. september er 270. dagur ársins (271. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 95 dagar eru eftir af árinu. 28. september. 28. september er 271. dagur ársins (272. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 94 dagar eru eftir af árinu. 29. september. 29. september er 272. dagur ársins (273. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 93 dagar eru eftir af árinu. 30. september. 30. september er 273. dagur ársins (274. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 92 dagar eru eftir af árinu. 1. október. 1. október er 274. dagur ársins (275. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 91 dagur er eftir af árinu. 2. október. 2. október er 275. dagur ársins (276. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 90 dagar eru eftir af árinu. Gomlich áhrifin. Gomlich áhrifin lýsa afleiðingum þess er stelpa öskrar við fögnuð, einkum vegna strákahljómsveitar. Hugtakið var mótað árið 2000 af sögupersónunni Chef í þættinum South Park sem sýndur er á Comedy Central, er hann veitti Cartman ráðgjöf um hvernig hann gæti gert strákahljómsveitina sína Fingerbang vinsæla. Samkvæmt Chef, þá eru "Gomlich áhrifin" þau lög eðlisfræðinnar er segja að ef ein stelpa öskrar vegna einhvers, mun það koma öðrum stelpum til að öskra, og mun það stigmagnast þar til allar stelpur í fimm mílna (8 kílómetra) radíus eru öskrandi. Samheiti. Samheiti eða samnefni eru ólík orð sem þýða það sama (eða nær það sama) andstæðan við þau eru andheiti. Samheiti eru m.a. notuð í rituðu máli til að forðast endurtekningar, í krossgátum og öðrum orðaleikjum og í skáldamáli. Samyrði er aftur á móti orð sem hefur fleiri en eina merkingu. Slétt tala. Slétt tala er tala, sem talan tveir gengur upp í, þ.e. deiling með tölunni „2“ gefur enga leif. Deiling með tveimur í núll gefur enga leif og núll telst því slétt tala. Allar tölur, þar sem síðasti tölustafur er slétt tala, eru sléttar tölur. Hinar tölurnar nefnast oddatölur. Talnamengi sléttra talna er mengi talnanna 2"n", þar sem "n" er heiltala. Þversumma. Þversumma er útkoman sem fæst þegar allir tölustafir tölu eru lagðir saman. Þversumma tölunnar formula_1 er því formula_2 eða formula_3. Dæmi. Einnig er gefið að 6*x = y Finna þarf x og lægsta y þar sem y þarf að hafa þversummuna 12. 6*8 = 48 => 4+8 = 12 Oddatala. Oddatala er heiltala, sem ekki er slétt tala, þ.e. þar sem deiling með tölunni „2“ gefur leif (þ.e. deiling með tveimur gengur ekki upp). Talan einn er því oddatala, en núll telst slétt tala. Síðasti tölustafur í oddatölu er oddatala. Talnamengi oddatalna er mengi talnanna 2"n"+1, þar sem "n" er heiltala. 3. október. 3. október er 276. dagur ársins (277. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 89 dagar eru eftir af árinu. 4. október. 4. október er 277. dagur ársins (278. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 88 dagar eru eftir af árinu. 5. október. 5. október er 278. dagur ársins (279. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 87 dagar eru eftir af árinu. 6. október. 6. október er 279. dagur ársins (280. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 86 dagar eru eftir af árinu. 7. október. 7. október er 280. dagur ársins (281. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 85 dagar eru eftir af árinu. 8. október. 8. október er 281. dagur ársins (282. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 84 dagar eru eftir af árinu. 9. október. 9. október er 282. dagur ársins (283. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 83 dagar eru eftir af árinu. 10. október. 10. október er 283. dagur ársins (284. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 82 dagar eru eftir af árinu. 11. október. 11. október er 284. dagur ársins (285. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 81 dagur er eftir af árinu. 12. október. 12. október er 285. dagur ársins (286. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 80 dagar eru eftir af árinu. 13. október. 13. október er 286. dagur ársins (287. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 79 dagar eru eftir af árinu. 14. október. 14. október er 287. dagur ársins (288. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 78 dagar eru eftir af árinu. 15. október. 15. október er 288. dagur ársins (289. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 77 dagar eru eftir af árinu. 16. október. 16. október er 289. dagur ársins (290. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 76 dagar eru eftir af árinu. 17. október. 17. október er 290. dagur ársins (291. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 75 dagar eru eftir af árinu. 18. október. 18. október er 291. dagur ársins (292. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 74 dagar eru eftir af árinu. 19. október. 19. október er 292. dagur ársins (293. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 73 dagar eru eftir af árinu. 20. október. 20. október er 293. dagur ársins (294. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 72 dagar eru eftir af árinu. 21. október. 21. október er 294. dagur ársins (295. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 71 dagur er eftir af árinu. 22. október. 22. október er 295. dagur ársins (296. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 70 dagar eru eftir af árinu. 23. október. 23. október er 296. dagur ársins (297. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 69 dagar eru eftir af árinu. 24. október. 24. október er 297. dagur ársins (298. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 68 dagar eru eftir af árinu. 25. október. 25. október er 298. dagur ársins (299. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 67 dagar eru eftir af árinu. 26. október. 26. október er 299. dagur ársins (300. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 66 dagar eru eftir af árinu. 27. október. 27. október er 300. dagur ársins (301. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 65 dagar eru eftir af árinu. 28. október. 28. október er 301. dagur ársins (302. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 64 dagar eru eftir af árinu. 29. október. 29. október er 302. dagur ársins (303. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 63 dagar eru eftir af árinu. 30. október. 30. október er 303. dagur ársins (304. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 62 dagar eru eftir af árinu. 31. október. 31. október er 304. dagur ársins (305. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 61 dagur er eftir af árinu. 1. nóvember. 1. nóvember er 305. dagur ársins (306. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 60 dagar eru eftir af árinu. Dagurinn nefnist Allraheilagramessa og í Mexíkó kallast hann Dagur hinna dauðu. 2. nóvember. 2. nóvember er 306. dagur ársins (307. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 59 dagar eru eftir af árinu. 3. nóvember. 3. nóvember er 307. dagur ársins (308. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 58 dagar eru eftir af árinu. 4. nóvember. 4. nóvember er 308. dagur ársins (309. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 57 dagar eru eftir af árinu. 5. nóvember. 5. nóvember er 309. dagur ársins (310. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 56 dagar eru eftir af árinu. 6. nóvember. 6. nóvember er 310. dagur ársins (311. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 55 dagar eru eftir af árinu. 7. nóvember. 7. nóvember er 311. dagur ársins (312. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 54 dagar eru eftir af árinu. 8. nóvember. 8. nóvember er 312. dagur ársins (313. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 53 dagar eru eftir af árinu. 9. nóvember. 9. nóvember er 313. dagur ársins (314. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 52 dagar eru eftir af árinu. 10. nóvember. 10. nóvember er 314. dagur ársins (315. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 51 dagur er eftir af árinu. 11. nóvember. 11. nóvember er 315. dagur ársins (316. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 50 dagar eru eftir af árinu. Dagurinn er þjóðhátíðardagur Póllands. 12. nóvember. 12. nóvember er 316. dagur ársins (317. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 49 dagar eru eftir af árinu. 13. nóvember. 13. nóvember er 317. dagur ársins (318. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 48 dagar eru eftir af árinu. 14. nóvember. 14. nóvember er 318. dagur ársins (319. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 47 dagar eru eftir af árinu. 15. nóvember. 15. nóvember er 319. dagur ársins (320. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 46 dagar eru eftir af árinu. 16. nóvember. 16. nóvember er 320. dagur ársins (321. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 17. nóvember. 17. nóvember er 321. dagur ársins (322. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 44 dagar eru eftir af árinu. 18. nóvember. 18. nóvember er 322. dagur ársins (323. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 43 dagar eru eftir af árinu. 19. nóvember. 19. nóvember er 323. dagur ársins (324. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 42 dagar eru eftir af árinu. 20. nóvember. 20. nóvember er 324. dagur ársins (325. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 41 dagur er eftir af árinu. 21. nóvember. 21. nóvember er 325. dagur ársins (326. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 40 dagar eru eftir af árinu. 22. nóvember. 22. nóvember er 326. dagur ársins (327. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 39 dagar eru eftir af árinu. 23. nóvember. 23. nóvember er 327. dagur ársins (328. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 38 dagar eru eftir af árinu. 24. nóvember. 24. nóvember er 328. dagur ársins (329. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 37 dagar eru eftir af árinu. 25. nóvember. 25. nóvember er 329. dagur ársins (330. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 36 dagar eru eftir af árinu. 26. nóvember. 26. nóvember er 330. dagur ársins (331. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 35 dagar eru eftir af árinu. 27. nóvember. 27. nóvember er 331. dagur ársins (332. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 34 dagar eru eftir af árinu. 28. nóvember. 28. nóvember er 332. dagur ársins (333. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 33 dagar eru eftir af árinu. 29. nóvember. 29. nóvember er 333. dagur ársins (334. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 32 dagar eru eftir af árinu. 30. nóvember. 30. nóvember er 334. dagur ársins (335. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 31 dagur er eftir af árinu. 1. desember. 1. desember er 335. dagur ársins (336. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 30 dagar eru eftir af árinu. 2. desember. 2. desember er 336. dagur ársins (337. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 29 dagar eru eftir af árinu. 3. desember. 3. desember er 337. dagur ársins (338. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 28 dagar eru eftir af árinu. 4. desember. 4. desember er 338. dagur ársins (339. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 27 dagar eru eftir af árinu. 5. desember. 5. desember er 339. dagur ársins (340. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 26 dagar eru eftir af árinu. 6. desember. 6. desember er 340. dagur ársins (341. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 25 dagar eru eftir af árinu. 7. desember. 7. desember er 341. dagur ársins (342. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 24 dagar eru eftir af árinu. 8. desember. 8. desember er 342. dagur ársins (343. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 23 dagar eru eftir af árinu. 9. desember. 9. desember er 343. dagur ársins (344. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 22 dagar eru eftir af árinu. Ljósár. Ljósár er lengdareining (stjarnfræðieining) sem notuð er í stjörnufræði og heimsfræði. Það er sú fjarlægð sem ljós fer á einu ári í tómarúmi, þ.e. 9,461 × 1012 kílómetrar eða 63.240 stjarnfræðieiningar. 10. desember. 10. desember er 344. dagur ársins (345. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 21 dagur er eftir af árinu. 11. desember. 11. desember er 345. dagur ársins (346. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 20 dagar eru eftir af árinu. 12. desember. 12. desember er 346. dagur ársins (347. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 19 dagar eru eftir af árinu. 13. desember. 13. desember er 347. dagur ársins (348. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 18 dagar eru eftir af árinu. 14. desember. 14. desember er 348. dagur ársins (349. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 17 dagar eru eftir af árinu. 15. desember. 15. desember er 349. dagur ársins (350. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 16 dagar eru eftir af árinu. 16. desember. 16. desember er 350. dagur ársins (351. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 15 dagar eru eftir af árinu. 17. desember. 17. desember er 351. dagur ársins (352. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 14 dagar eru eftir af árinu. 18. desember. 18. desember er 352. dagur ársins (353. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 13 dagar eru eftir af árinu. 19. desember. 19. desember er 353. dagur ársins (354. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 12 dagar eru eftir af árinu. 20. desember. 20. desember er 354. dagur ársins (355. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 11 dagar eru eftir af árinu. 21. desember. 21. desember er 355. dagur ársins (356. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 10 dagar eru eftir af árinu. Vetrarsólstöður eru þennan dag og er þetta því sá dagur ársins sem nóttin er lengst og birtu nýtur skemmst, um það bil 4 klst. og 10 mínútur. 22. desember. 22. desember er 356. dagur ársins (357. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 9 dagar eru eftir af árinu. 22. desember er stundum kallaður "Hlakkandi". 24. desember. 24. desember er 358. dagur ársins (359. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 7 dagar eru eftir af árinu. 25. desember. 25. desember er 359. dagur ársins (360. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 6 dagar eru eftir af árinu. Jóladagur hjá kaþólikkum og mótmælendum, þar sem haldið er upp á fæðingu Krists. 26. desember. 26. desember er 360. dagur ársins (361. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 5 dagar eru eftir af árinu. Annar í jólum. 27. desember. 27. desember er 361. dagur ársins (362. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 4 dagar eru eftir af árinu. 28. desember. 28. desember er 362. dagur ársins (363. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 3 dagar eru eftir af árinu. 29. desember. 29. desember er 363. dagur ársins (364. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 2 dagar eru eftir af árinu. 30. desember. 30. desember er 364. dagur ársins (365. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu. 1 dagur er eftir af árinu. 31. desember. 31. desember, eða gamlársdagur, er 365. dagur ársins (366. á hlaupári) samkvæmt gregoríska tímatalinu og jafnframt sá síðasti. 30. febrúar. 30. febrúar er samkvæmt gregoríska tímatalinu ekki til þar sem lengd febrúar er venjulega 28 eða 29 dagar. Þrisvar í sögunni hefur hann hinsvegar talið 30. daga. Svíþjóð (sem á þeim tíma innihélt Finnland) ætlaði frá og með 1700 að breyta úr júlíska tímatalinu í það gregoríanska með því að sleppa hlaupárum næstu 40 árin. Árið 1700 var þar með ekki hlaupár í Svíþjóð en 1704 og 1708 voru það fyrir mistök þvert á áætlanir Svía og hafði þær afleiðingar að sænska tímatalið varð einum degi á undan því júlíska en tíu dögum á eftir því gregoríanska. Örlítið var bætt úr ruglingnum árið 1712 þegar tveim dögum var bætt við árið sem samsvöruðu 29. febrúar í júlíanska tímatalinu og 11. mars í því gregoríanska. Svíar skiptu svo loks algerlega í gregoríanska tímatalið árið 1753. Árið 1929 kynntu Sovétríkin Byltingartímatal Sovétríkjanna þar sem hver mánuður hafði 30 daga og þeir 5 eða 6 dagar sem eftir stóðu voru mánaðarlausir hátíðisdagar. Var þetta tímatal við lýði í tvö ár eða frá 1930 til 1931 en árið 1932 var aftur farið að nota hefðbundna lengd á mánuðum. Listi yfir mongólsk Aimag. Héruð Mongólíu nefnast Aimag, þau eru 21. Höfuðborg landsins, Ulaanbaatar, flokkast sem sveitarfélag utan héraða. Mongólía 1876. Árið 1876 (MDCCCLXXVI) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á fimmtudegi. Morfín. Morfín (C17H19NO3) er sterkt verkjalyf sem unnið er úr ópíum sem það er helsta virka efnið í. Kerfisbundið nafn þess er 7,8-didehydro-4,5-epoxy-17-methylmorphinan-3,6-diol. Nafn lyfsins er dregið af draumaguðinum Morfeos. Morfín virkar beint á miðtaugakerfið (sem og önnur ópíum-skyld lyf) í mönnum. Það er oft notað í lækningaskyni til að létta á miklum sársauka vegna beinbrota, skurðaðgerða, áfalla o.fl. Saga. Morfín var fyrst einangrað árið 1804 af þýska apótekaranum Friedrich Wilhelm Adam Serturner sem skírði það „morphium“ eða morfín, sem var dregið af nafni Morfeusar, hins gríska guðs drauma. Heróín (enska:diacetylmorphine) er meðal annars unnið úr morfíni og var það fyrst gert árið 1853. Það var hins vegar ekki fyrr en sprautan kom til sögunnar árið 1874 sem notkun þess varð mikil. Áhrif á menn. Hliðarverkanir eru minni hugræn geta, sælutilfinning, svimi, sinnuleysi, skert sjón og ógleði. Morfín minnkar einnig matarlyst og veldur hægðartregðu. Morfín er afskaplega ávanabindandi og neytendur þess þróa fljótt með sér þol og líkamlegan og sálfræðilegan ávana. Möttulstrókur. Möttulstrókur myndast í iðrum jarðar. Þessi fyrirbæri eru öflugir, staðbundnir uppstreymisstaðir sem ná djúpt niður í möttulinn. Heitt efni (fast efni sem er um 200° C heitara en umhverfið) myndar möttulstrókinn, en vegna hitans er strókurinn eðlisléttari og því rís jarðskorpan yfir stróknum ofar en jarðskorpan í kring (um 5-40 km). Þegar jarðskorpan rís losnar þrýstingur og efsti hluti möttulstróksins bráðnar og myndar oftast basalt kviku. Kvikan sem berst upp með möttulstróknum ber þess merki að hafa verið í iðrum jarðar í allt að 2000 milljón ár, án þess að hafa komið upp á yfirborðið. Efnasamsetning kvikunnar er frábrugðin venjulegri kviku, hvað varðar magn léttmálma í henni. Svæði yfir möttulstrókum kallast heitir reitir. Möttulstrókar eru hringrásarstraumar sem myndast vegna varmamyndunar og varmaburðar í iðrum jarðar og kólnunar á yfirborði hennar. Varmaburðurinn lýsir sér þannig að heitara og eðlisléttara efni rís og kaldara, þéttara efni sekkur. Yellowstone-þjóðgarðurinn. Yellowstone eða Yellowstone National Park er þjóðgarður í Bandaríkjunum, staðsettur í Idaho, Montana og Wyoming. Yellowstone er fyrsti og elsti þjóðgarður Bandaríkjanna. Yellowstone er á svokölluðum heitum reit, enda eru þar heitir hverir, eins og Old Faithful, sem er einn af frægustu goshverum heims. Guillaume François Antoine l'Hôpital. Guillaume François Antoine, Marquis de l'Hôpital (1661 – 1704) var franskur stærðfræðingur. Hann skrifaði fyrstu kennslubókina um diffrun og örsmæðareikning og var hún ásamt annarri sem hann skrifaði um hnitarúmfræði (analytic geometry) notuð til kennslu í heila öld, eða lungann úr 18. öldinni. Í fyrri bókinni er regla l'Hôpitals, sem vitað er að er komin frá Johann Bernoulli (Jean Bernoulli), en hann sendi greifanum ýmsar uppgötvanir sínar í skiptum fyrir fjárhagslegan stuðning. Hôpital, Guillaume François Antoine, Marquis de l' Christiaan Huygens. Christiaan Huygens (1629 – 1695) var hollenskur stærðfræðingur, stjörnufræðingur og eðlisfræðingur. Í stærðfræði og eðlisfræði er hans helst minnst fyrir rannsóknir á pendúlklukkum og aflfræðilegar rannsóknir. Meðal annars fann hann regluna fyrir sveiflutíma einfalds pendúls og miðflóttaafl í jafnri hringhreyfingu. Huygens, Christiaan Huygens, Christiaan Huygens, Christiaan Hýpatía. Hýpatía (370 – 415) var forngrískur heimspekingur og stærðfræðingur og starfaði við háskólann í Alexandríu. Hún er fyrsta konan, sem nafngreind er í sögu stærðfræðinnar. Faðir hennar var einnig stærðfræðingur og hét Þeon. Margir frægir stærðfræðingar og heimspekingar þessa tíma leituðu til Hýpatíu, því að hún var afskaplega virt. Hún skrifaði greinar um verk Díofantosar og Apolloníosar. Hún var myrt á hryllilegan hátt af kristnum múgi og er sá atburður gjarnan talinn marka upphaf hnignunar Alexandríu sem menningarmiðstöðvar. Nokkur rit eru eignuð henni í síðari tíma heimildum, þ.á m. skýringarrit við rit Díofantosar "Um reiknilistina", rit Apolloníosar "Um keilur" og rit ýmis Ptólemajosar, en engin þeirra eru varðveitt. Á hinn bóginn gefa bréf til hennar frá Synesíosi nemanda hennar einhverja hugmynd um menningarlegan tíðaranda sem hún bjó við. Hýpatía var platonisti, en ekki er vitað hvort hún fylgdi Plótínosi, helsta platonska heimspekingi 3. aldar, að málum í túlkun sinni á heimspeki Platons. Che Guevara. right Ernesto Rafael Guevara de la Serna (14. júní 1928 – 9. október 1967), betur þekktur sem Che Guevara, var byltingasinnaður marxisti (kommúnisti) og einn af hershöfðingjum Fídels Castro. Hann þjáðist af astma. Hann lærði læknisfræði við háskólann í Buenos Aires en tók sér frí til þess að ferðast með vini sínum Alberto Granado um Suður-Ameríku. Hvert sem hann fór varð hann vitni af fátækt og slæmri meðferð á almenningi af stjórnvöldum. Hann skrifaði bók um ferðalag sitt sem nefndist Mótorhjóladagbækurnar sem fór beint á metsölulista "New York Times" og varð síðar gerð samnefnd kvikmynd sem hlaut fjölda verðlauna. Þegar Che sneri aftur til Buenos Aires lauk hann læknisfræðináminu og hélt til Mexikó þar sem hann kynntist Fidel Castro. Hann gerðist meðlimur í 26. júlí byltingunni og hélt með Castro til Kúbu. Eftir að Castro hafði náð völdum yfir allri Kúbu 1959 gerði hann Che að iðnaðar- og landbúnaðarráðherra og síðar að seðlabankastjóra. Honum fór fljótt að leiðast þetta líf og hélt til Bólivíu árið 1966 þar myndaði hann lið skæruliða og ætlaði að bylta stjórn landsins eins og gert hafði verið á Kúbu. Það mistókst hinsvegar og hann náðist af bólivískum stjórnvöldum. Hann var skotinn þann 9. október 1967, 39 ára að aldri. Heimildir. Guevara, Che Guevara, Che Guevara, Che Espressó. Espresso í glæru glasi og ofan á sést gulleita froðan sem kölluð er „crema“ Espressó (ítalska "espresso", sem þýðir „þrýst út“ eða „útþrýstingur“) er afar sterkur og bragðmikill kaffidrykkur. Hann er búinn til með því að þrýsta heitu vatni í gegnum lag af möluðum kaffibaunum sem er komið fyrir í svonefndri "greip". Espressó er grunnurinn að mörgum öðrum kaffidrykkjum, svo sem sviss mokka (mokka), cappuccino og latte. Eitt lykilatriða bragðins er froðan, sem nefnist "kremma" (crema), sem samanstendur af olíum, sykrum og próteinum. Á Ítalíu er espressó oft drukkið eftir mat, sérstaklega á veitingahúsum. Sumir segja að varast beri að panta aðrar kaffitegundir eftir mat og þá sérstaklega cappuccino vegna þess að það gæti móðgað kokkana Chewbacca-vörnin. Chewbacca-vörnin (enska: "Chewbacca Defense") er hugtak ættað úr teiknimyndaseríunni South Park yfir þá lögfræðilegu tækni að kaffæra áheyrendur með rugli og fáránlegum rökum svo þeir missa tök á rökum andstæðingsins og afneiti þeim. Uppruni. Hugtakið kemur fram í South Park-þættinum „Chef Aid“, sem var frumsýndur 7. október 1998. Þetta var fjórtándi þáttur annarrar seríu. Í þættinum, ver Johnnie Cochran stórt útgáfufyrirtæki gegn Chef. Chef á að hafa samið lagið „Stinky Britches“ sem Alanis Morissette gaf út undir eigin nafni og það þykir nokkuð augljóst að útgáfufyrirtækið hafi brotið höfundarréttarlög. Sönnunargögnin sem Chef hefur fyrir rétti þykja nokkuð skotheld en þá beitir Cochran frægu "Chewbacca-vörninni". Aðferðin heppnast og er Chef dæmdur sekur um að níðast á útgáfufyrirtækinu og dæmdur til að greiða 2 milljónir dollara til útgáfufyrirtækisins innan 24 klukkustunda ella þurfi hann að fara í fangelsi í 8 milljón ár. Þá stofna aðalpersónurnar í South Park til tónleika, „Chef Aid“ til að safna peningum svo Chef geti ráðið Johnnie Cochran sér til varnar gegn útgáfurisanum. Á tónleikunum flytja gamlir kollegar tónlist Chef, þar á meðal Elton John og Ozzy Osbourne. Á tónleikunum nagar samviskan Johnnie Cochran og hann ákveður að flytja mál Chef fyrir rétti, og tekst það með því að nota Chewbacca-vörnina; Notagildi. Hugtakið "Chewbacca Defense" er notað á mörgum bloggum og Internet-umræðuhópum, sérstaklega á þeim sem innihalda lögfræðileg málefni. Slashdot er gott dæmi, þar sem Chewbacca-vörnin er notuð á stöku stað varðandi rök annarra sem eru algjört rugl. Þetta kemur oft fram í málefnum tengdum Microsoft, SCO, og RIAA á Slashdot. (sjá, Rökvilla. Rökvilla er það þegar rök fela í sér villu og ganga af þeim sökum ekki upp eða leiða til mótsagnar. Formlegar rökvillur eru villur þar sem niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Í víðari skilningi ná rökvillur einnig yfir svonefndar "óformlegar rökvillur" en slík rök teljast rökvillur af öðrum ástæðum en vegna formlegs galla, til dæmis þess að þau eru ómálefnaleg. Dæmi um formlega rökvillu. Röksemdafærsla af því tagi sem dæmi er um hér að ofan er ógild vegna þess að í henni er formleg rökvilla; það er að segja niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Villan veldur ruglingi vegna þess að hún er við fyrstu sýn sennileg; ef allir skvoppar eru skvampar og flestir skvampar hafa einhvern eiginleika, þá eru "líkur" á að einhverjir skvoppar séu í hópi þeirra skvampa sem hafa eiginleikann, enda minnihluti skvampa sem hafa hann ekki. En á hinn bóginn er röksemdafærslan ekki líkindarök, heldur ályktar hún af forsendunum (1 og 2) að það séu einhverjir skvoppar sem hafa eiginleikann sem flestir skvampar hafa (þ.e. að ganga í nærbuxum). Með öðrum orðum segir hún að sumir skvoppar gangi í nærbuxum "vegna þess" sem forsendurnar segja okkur um skvoppa og skvampa. En forsendurnar tryggja alls ekki að niðurstaðan sé rétt; það er alls ekki víst að sumir skvoppar gangi í nærbuxum, þótt það sé ef til vill sennilegt í ljósi þess að flestir skvampar hafi þann eiginleika; það má nefnilega vel vera að skvoppar séu mikill minnihluti allra skvampa og séu einmitt allir í hópi þeirra skvampa sem hafa ekki þann eiginleika að ganga í nærbuxum. Af þessum sökum er röksemdafærslan ógild vegna forms síns og skiptir engu máli hverjar breyturnar eru (þ.e. hvaða orð eru sett inn í stað „skvoppa“, „skvampa“ og „ganga í nærbuxum“); form röksemdafærslunnar gerir að verkum að það er mögulegt að forsendurnar séu sannar en niðurstaðan samt ósönn og af því má ráða að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum — ekki heldur þegar svo vill til að niðurstaðan er sönn, eins og í eftirfarandi dæmi. Í þessari röksemdafærslu eru forsendurnar (1 og 2) báðar sannar: Vissulega eru allir Íslendingar, þ.e. íslenskir ríkisborgarar, mannlegir einstaklingar og flestir menn hafa vissulega tvö augu. Niðurstaðan (3) er líka sönn því að sumir — og raunar vel flestir — Íslendingar hafa tvö augu. Vandinn er hins vegar sá að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum sem gefnar eru og því er röksemdafærslan ógild. Ýmsar tegundir af rökvillum. "Eftirfarandi er listi yfir rökvillur. Vinna þarf nánar úr honum til að hann samræmist stöðlum á Wikipediu. Heimildir eru aðallega af Vantrú.is og ensku Wikipediu." Post hoc rökvillan ("lat." post hoc ergo propter hoc). Það að halda að A komi á eftir B sanni að A orsakist af B. Dæmi: Ég varð kvefuð og tók sólhatt. Tveimur vikum seinna var mér batnað af kvefinu. Þar af leiðandi hlýtur sólhatturinn að hafa læknað mig. Post hoc rökvillan er í raun dæmi um að fylgnisamband sé ekki endilega orsakasamband (correlation is not causation). Klasavillan ("e." cluster illusion). Að halda að tilviljanakenndir atburðir sem gerast aftur og aftur séu í raun ekki tilviljanakenndir. Dæmi: Ég fékk sexu fimm sinnum í röð í spilinu. Ég hlýt að kasta teningnum svona frábærlega vel. Heildarskekkja og deildarskekkja. Heildarskekkja er þegar heildin er talin hafa sömu einkenni og hlutar hennar (t.d. „úr Háskóla Íslands komu menn sem ollu efnahagshruninu; því olli Háskólinn efnahagshruninu“). Deildarskekkja er þegar hlutar heildarinnar eru taldir hafa sömu einkenni og heildin (t.d. „Háskóli Íslands er trúlaus stofnun, því eru starfsmenn Háskólans trúlausir“). Að álykta út frá undantekningunni ("e." converse accident). Að draga almenna ályktun út frá undantekningu á reglu. Dæmi: Sumir misnota áfengi. Því ætti áfengi að vera bannað. Óviðkomandi niðurstaða (lat. ignoratio elenchi). Þegar ályktanir leiða ekki af þeim rökum sem gefin voru og eru þeim í raun alveg óviðkomandi. Dæmi: Það er mikið að þessu þjóðfélagi. Þess vegna ættum við öll að fara að hugsa meira um siðferðismál. Afvegaleiðing, „rauða síldin“, „gulrótin“ ("e." red herring). Er sértilfelli af óviðkomandi niðurstöðu, þar sem reynt er að afvegaleiða fólk viljandi, veifa svo að segja gulrót fyrir framan nefið á þeim. Dæmi: Við höfum kannski ekki staðið við loforð um skattalækkanir en sjáiði bara formann hins flokksins! Ég hef staðfestar heimildir um að hann gangi í kvenmannsnærfötum! Hringavitleysan ("lat." petitio principii, "e."). Þegar einhverju er haldið fram, ályktun er dregin af því og ályktunin svo notuð til að styðja upprunalegu forsenduna. Dæmi: Styrkir er það sem styrkir hegðun (þetta er allavega mjög nálægt því að falla undir hringavitleysu). Valtvennuvillan ("e."). Þegar tveimur valkostum er komið fram sem annað hvort eiga ekkert sameiginlegt eða að til séu fleiri valkostir. Dæmi: Ef þú ert ekki með okkur, ertu með óvinunum. Þetta útilokar að minnsta kosti þriðja möguleikann, hlutleysi. Ignoratio elenchi. Ignoratio elenchi (á íslensku „fáfræði hrakninga“) er rökvilla þar sem ályktunin er óviðkomandi röksemdafærslunni eða röksemdafærslan í heild óviðkomandi málefninu; í slíku tilfelli getur vel verið að röksemdafærslan sem slík sé gild þótt hún sé málinu óviðkomandi. Gullfoss. Gullfoss er foss í Hvítá upp af Haukadal í Árnessýslu á Íslandi, hann er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Iðnvæðing og náttúrufegurð. Í upphafi 20. aldar var talsverð umræða í þjóðfélaginu á Íslandi um virkjun fossa, einkum í því skyni að framleiða rafmagn svo íbúar landsins og atvinna gætu blómstrað. Gullfoss var hluti þessarar umræðu. Ekki voru allir á því að virkja bæri Gullfoss. Þar á meðal voru Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, og Jónas Jónsson frá Hriflu. Jónas lét í það skína í skrifum sínum að virði Gullfoss væri ekki hægt að mæla með peningum. Einnig féllu þau orð strax í byrjun 20. aldar að fossinn væri konungur íslenskra fossa. Engu að síður virtust flestir sammála því að það væri mikilvægt að virkja fossinn í þágu rafvæðingar og iðnaðar. Eigendur Gullfoss. Eigendur Gullfoss um aldamótin 1900 voru Tómas Tómasson í Brattholti og Halldór Halldórsson á Vatnsleysu. Tómas þessi var faðir Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti, sem varð þekkt síðar fyrir umleitanir sínar til að fossinn yrði látinn ósnortinn. Virkjanaáætlanir, leiga og sala. Á 20. öldinni var fossinn leigður með milligöngu innlendra aðila til innlendra og erlendra aðila, en endanlegir leigutakar leigðu hann í því skyni að virkja hann. Eigendurnir seldu fossinn aldrei frá sér á þessu „virkjanatímabili“, ekki fyrr en síðar, eins og segir frá að neðan. Ýmist voru það vatnsréttindi fossins eða réttur til iðnreksturs sem voru leigð út. Ekkert varð af virkjanaáformum, þrátt fyrir sterkan áhuga. Vitað er, að í að minnsta kosti einu tilfelli fengust ekki peningar til verksins. Árið 1928 hættu að berast greiðslur vegna leigu á fossinum og loks árið 1934 var leigusamningnum um hann aflýst, en fossinn hafði verið í leigu samfellt frá árinu 1907. Um 1940 keypti íslenska ríkið fossinn, en þá hafði Einar Guðmundsson eignast þann hluta fossins sem Tómas Tómasson í Brattholti hafði átt. Eftir að Íslenska ríkið eignaðist fossinn voru gerðar áætlanir um að veita vatni úr ánni fyrir ofan fossinn til virkjunar. Voru gerðar rannsóknir og áætlanir á sjötta áratugnum fram á þann áttunda á hagnýtingu árinnar. Var ætlunin sú að virkja ána þannig að ekki sæist á fossinum yfir sumartímann að áin væri virkjuð. Ekkert varð af þessum fyrirætlunum, og á níunda áratugnum var fossinn ekki lengur á lista yfir helstu virkjanakosti sem áformað var að ráðast í það sem eftir lifði 20. aldar. Fossmálið. Fossmálið nefndust deilur, og dómsmál sem var höfðað vegna leigu á Gullfossi. Annar angi fossmálsins var dómsmál sem leigutaki Gullfoss, Sturla Jónsson, höfðaði til að fá það viðurkennt að hann væri handhafi vatnsréttinda í Gullfossi. Upphaf málsins má rekja til þess að Tómas Tómasson, annar eigandi fossins, viðurkenndi ekki Sturlu sem leigutaka, en eigendurnir höfðu upphaflega leigt fossinn manni sem framleigði hann til Sturlu. Málið endaði með því að Sturla var úrskurðaður löglegur handhafi vatnsréttinda í Gullfossi. Hinn anginn var barátta Sigríðar Tómasdóttur fyrir því að fossinn yrði ekki virkjaður og tilraunir hennar til að fá fossinn viðurkenndan sem sína séreign. Sigríður var yfirlýstur andstæðingur þess að Gullfoss yrði virkjaður, og gekk svo langt að hóta því að henda sér í fossinn yrði hann virkjaður. Sem fyrr segir eignaðist ríkið Gullfoss um 1940. Þá hafði Sigríður þegar selt sinn eignarhluta fossins frá sér, þegar hún seldi Einari Guðmundssyni, fóstursyni foreldra sinna, jörðina sem Brattholt stóð á. Sigríður virtist ekki treysta ríkinu fyrir fossinum og reyndi að fá lögformlega staðfestingu á að hún hefði ekki selt fossinn frá sér, en það tókst ekki. Virðist tilfinning Sigríðar hafa verið rétt, því eins og fyrr segir, voru síðar gerðar áætlanir um að veita vatni úr ánni fyrir ofan fossinn til virkjunar, en slíkt hefði gerbreytt ásýnd fossins, í það minnsta yfir vetrartímann. Nokkuð útbreidd er sú saga að Sigríður hafi komið í veg fyrir virkjun Gullfoss og önnur saga segir að hún hafi komið í veg fyrir að útlendingar fengju eignarhald á Gullfossi. Hvorugt er rétt, aðrar ástæður komu til. Hins vegar er rétt að Sigríður var á móti virkjun fossins, eins og fyrr segir, og var reistur minnisvarði um Sigríði árið 1978, til að minnast verka hennar. Svo var Sigríðarstofa opnuð í nágrenni fossins árið 1994. Friðun fossins. Í byrjun áttunda áratugarins fór viðhorf fólks í umræðu um nýtingu vatnsafls að breytast í þá átt að meira fór að bera á umræðu um náttúruvernd en áður. Um miðjan áttunda áratuginn komu fram hugmyndir um að friðlýsa Gullfoss. Þegar menn voru komnir af stað með að útbúa friðlýsingu fyrir fossinn, bauð Einar Guðmundsson fram eins mikið land til friðlýsingar meðfram Hvítá eins og menn töldu nauðsynlegt og samkomulag næðist um. Boðið var þegið og Gullfoss og landið sem Einar gaf var friðlýst árið 1979. Nokkrum árum eftir að Gullfoss var friðaður komu fram hugmyndir um að skilgreina fossinn innan þjóðgarðs. Það varð þó ekki niðurstaðan, heldur sú að tryggja að rétt væri staðið að verndun svæðisins ásamt því að byggja upp þjónustu við ferðamenn. Rótarvísir. Rótarvísir táknað "n" í eftirfarandi dæmi: formula_1 formula_2 Forskeyti SI-kerfisins. Forskeyti SI-kerfisins: SI-kerfið notar ákveðin forskeyti á undan mælieiningunum sínum til einföldunar á mjög háum og mjög lágum tölum. Hvert forskeyti er hægt að skilgreina með tákni en í þeim efnum skipta hástafir og lágstafir máli. Afstaða talnanna er síðan skilgreind með tugveldum. Matarprjónar. Matarprjónar eru pör af litlum aflöngum prjónum sem eru hefðbundin mataráhöld í Kína, Japan, Kóreu og Víetnam („Matarprjónalöndunum fjórum“). Þeir eru alla jafnan úr bambus þar sem það er bragðlaust, ódýrt og algengt efni sem auðvelt er að kljúfa auk þess sem það er hitaþolið, en einnig er algengt að þeir séu úr viði, málmi, beini, hornum dýra, agati, jaða, postulíni, kóral og á vorum dögum úr plasti. Aðalgerðir matarprjóna eru þrjár: Kínverskir prjónar, sem eru langir viðarprjónar með ávala enda; japanskir, sem eru stuttir viðarprjónar, einnig með ávala enda og kóreskir, sem eru stuttir málmprjónar með þverskorna enda, þó viðarútgáfur séu einnig notaðar. Þar að auki skiptast allir prjónar í tvo flokka: einnota „"waribashi"“ prjóna og svo hefðbunda prjóna — eða þá sem ætlaðir eru til langvarandi notkunar. Nafn. Nafn matarprjóna á mandarín, „"kuàizi"“ (筷子) eða „"kuài'er"“ (筷兒) þýðir „bambusáhöld til að borða hratt“. Þeir heita hins vegar „"zhù"“ (箸) í klassískri kínversku og er tákn þeirra þar mögulega hljóðtákn og gefur það til kynna að þeir séu hlutur gerður úr bambus. Kínverska orðið „"zhù"“ barst svo til Japan og er þar borið fram „"hashi"“ í kunyomi framburði, en er nær rótinni með „"zu"“ í onyomi framburði. Kórea hins vegar notar sitt eigið orð "jeotgarak" (젓가락) og er það orð hvorki ættað úr japönsku né kínversku. Í víetnömsku er svo orðið „"đũa"“ notað. Hönnun. Hönnun prjónanna er afar einföld, einfaldlega stutt, þunn prik með þverskurðarflatarmál minna en einn fersentimetri, lengd mismunandi. Annar endinn er svo aðeins þynnri en hinn og er það sá endi sem snýr að matnum. Notkun þeirra er list, sem getur tekið allnokkurn tíma að ná tökum á. Matreiðsla í Austur-Asíu, sem er það svæði sem þeir eru aðallega notaðir á, er sniðin að notkun þeirra. Kjöt, grænmeti, núðlur og annað í matnum er skorið niður, svo auðvelt sé að taka upp bitana með prjónunum og hrísgrjón eru elduð þannig að þau festist saman, ólíkt þeim hrísgrjónum, sem algeng eru annars staðar í heiminum, einmitt svo auðvelt sé að taka upp bita af þeim með prjónunum. Hefðbundnir japanskir matarprjónar eru venjulega um 22 sentimetrar að lengd en einnota waribashi prjónar eru um tveimur sentimetrum styttri, kínverskir prjónar eru svo ögn lengri eða um 25cm. Saga matarprjóna. Prjónarnir eru taldir hafa verið þróaðir fyrir um það bil 3000-5000 árum í Kína (nákvæmara ártal en það þekkist ekki). Þeir höfðu svo þegar komið var fram á 4. öld dreifst frá Kína á það svæði sem í dag er Japan, Kórea og Víetnam. Á 10. öld var farið að búa til matarprjóna í tveimur hlutum í stað eins hluta með samanliggjandi svæði á toppnum, sem þurfti svo að brjóta við notkun, prjónar í gamla stílnum eru þó enn gerðir og þá sérstaklega notaðir sem einnota. Líklega má rekja uppruna þeirra til þess að brjóta greinar af trjám til að borða með og enn fremur þess að mikil hungursneyð og fólksfækkun varð um 4. öld f.Kr., sem neyddi fólk til að spara orku. Var matur þá skorinn í litla búta til að hægt væri að elda hann hraðar og með minni eldivið. Talið er að kínverski heimspekingurinn Konfúsíus sem uppi var á 6–5. öld f.Kr. hafi haft umtalsverð áhrif á aukna notkun mataprjóna. Hann ráðlagði fólki að nota ekki hnífa við matarborðið þar sem þeir myndu minna það á sláturhúsið og væru þar með og ofbeldisfullir til að hægt væri að nota þá þar. Verkfæri sem minna á matarprjóna hafa auk þess verið grafin upp við fornleifagröft í Megiddo í Ísrael og voru þeir í eigu innrásarhers Skiþíumanna, sem réðst inn í Kanaan á tíma Móses og Jósúa. Uppgötvun þessi sýnir, hve mikil vöruskipti milli miðausturlanda og Austurlanda fjær voru á þessum tíma. Matarprjónar voru einnig algengir heimilismunir Uyghúrmanna á Mongólsku sléttunum á 5.–7. öld. Í Japan voru matarprjónar upprunalega álitinn verðmætur varningur, sem var eingöngu notaður í trúarlegum athöfnum. Japanir voru svo fyrstir til að lakka prjónana á 16. öld. Við það urðu þeir örlítið sleipari en mun endingarbetri. Japanir fundu einnig upp einnota matarprjóna sem þeir kalla „"waribashi"“ árið 1878. Notkunarleiðbeiningar. Haldið er á prjónunum milli þumalfingurs og hinna fingra hægri handar. Þeir eru svo notaðir sem tengur til að taka upp mat sem borinn er á borð, niðurskorinn til að gera það auðveldara. Þeir eru þá einnig notaðir sem áhöld til að sópa hrísgrjónum eða smáum matarögnum inn í munninn úr skálum. Athuga skal hins vegar að flóknar siðareglur ríkja um notkun þeirra og að þær eru mismunandi eftir löndum. Langalgengast er að haldið sé á prjónunum í hægri hönd, jafnvel af örvhentum. Ástæðan fyrir þessu er sú, að í Austur-Asíu sem og í múslimalöndum er það vinstri höndin „óhreina höndin“ sem notuð er á salerninu, þar sem sú hægri er notuð til að matast með. Nú á dögum hefur hins vegar verið slakað á þessum óskrifuðu reglum samfélagsins og er þar með hægt að nota matarprjónana með báðum höndum án þess að vera álitinn dóni. Japanskar siðareglur. Almennt skal nota matarprjóna til þess að borða og ekki til neins annars, það að benda eða tákna eitthvað með þeim, tromma með þeim eða kalla á athygli er dónaskapur. Matarprjónalöndin fjögur. Matarprjónalöndin fjögur eru Kína, Japan, Kórea og Víetnam og er þar verið að vísa í að þessi fjögur lönd eru þau einu þar sem matarprjónar eru notaðir í stað annarra áhalda eins og hnífs og gaffals. Póstlisti. Póstlisti er samansafn nafna og heimilisfanga sem einstaklingur eða samtök nota til að senda efni til margra viðtakenda. Orðið er oft einnig notað yfir það fólk sem hefur áskrift af þannig lista og er þá talað um þá sem „Póstlistinn“ eða sem „Listann“ Í það minnsta tvær gerðir póstlista eru til, sá fyrsti er listi þar sem viðtakendurnir fá fréttabréf, auglýsingar, dagblöð eða annað í gegnum hefðbundið póstkerfi, og á hinum fá viðtakendurnir rafpóst í gegnum internetið eða svipað net. Kanji. Orðið „kanji“ ritað með kanji. Kanji er japanska heitið á kínverskum táknum, en kínverska myndtáknrófið er, í bland við hiragana og katakana, notað til að skrifa japönsku. Orðið kanji er ritað 漢字 með kínverskum táknum, en það er skrifað eins í kínversku, ef notuð eru hefðbundin kínversk tákn, þótt þar sé það borið fram öðruvísi (hànzì). Til að auðvelda lestur kanji er framburður táknanna stundum ritaður með kana (hiragana eða katakana) ofan við eða til hægri við táknin (eftir því hvort skrifað er frá vinstri til hægri eins og er algengt í nútímanum, eða ofan frá og niður eins og gert var á öldum áður), en þessi hefð kallast furigana. Saga kanji. Á 3. og 4. öld f.Kr. fluttu kínverskir og kóreskir ferðalangar með sér ritmál til Japan sem er þekkt í dag sem kanji, eða Han-tákn. Táknin áttu uppruna sinn á bökkum Gulár (Huáng Hé) í Kína um 2000 f. Kr., og um 3000 tákn frá því tímabili hafa fundist á ýmsum fornmunum. Á þeim tíma sem þessi tákn komu til Japans var japanska eingöngu til sem talað mál. Kínversk tákn voru fengin að láni á um 400 ára tímaskeiði, og japanska málið þróaðist í ritað mál. Í Japan hafa sum táknin fengið einfaldað form, og nokkrum hundruðum tákna hefur verið bætt við rófið, svo að ekki er um að ræða nákvæmlega sama úrval tákna í nútímajapönsku og nútímakínversku. Japanska ríkið hefur útbúið sérstakan lista yfir "jōyō kanji", 1,945 tákn sem öllum er gert að læra og sem ætlast er til að t.d. dagblöð takmarki sig að mestu við. Yfirleitt er notað s.k. furigana til að sýna framburð tákna sem notuð eru í dagblöðum, en eru ekki í "jōyō kanji". 983 viðbótartákn er að finna í "jinmeiyō kanji", en þau má (auk hinna) nota í mannanöfn og örnefni. Flokkar tákna. Flokkar tákna í kanji eru sex talsins. Framburður. Framburðarhættir fyrir kanji eru tveir: onyomi (音読み) og kunyomi (訓読み). Onyomi er notað fyrir orð af kínverskum uppruna, og er onyomi framburðurinn þá fremur líkur hefðbundinni kínversku, en kunyomi er hins vegar notað fyrir þau orð sem eru af japönskum uppruna. Mjög mörg kanji hafa bæði onyomi og kunyomi framburð, en hefðin hefur verið að börn læri kunyomi framburðinn á undan. Eldstöð. Eldstöð er jarðfræðilegur landslagsþáttur (oftast fjall, þá kallað eldfjall) þar sem hraun eða í tilfelli lághitaeldstöðva, rokgjarnt efni gýs, eða hefur gosið. Fjölmargar eldstöðvar eru þekktar á reikistjörnum og tunglum í sólkerfinu, margar þeirra mjög virkar. Á jörðinni á þetta sér stað á flekamótum og á svokölluðum heitum reitum, en Hawaii eyjajklasinn myndaðist til dæmis yfir einum slíkum. Hæsta þekkta eldfjall heims er Ólympusfjall á reikistjörnunni Mars, og er það jafnframt hæsta fjall í heimi sem vitað er um. Virkasta eldfjall jarðarinnar er Kilauea eldfjallið á Hawaii. Alkóhólismi. Alkóhólismi (eða áfengissýki) er sjúkleg fíkn í áfengi sem einkennist af sterkri þörf til að drekka áfengi, að tapa stjórn á drykkju sinni, af líkamlegri þörf til að drekka og fráhvarfseinkennum og af því að mynda óþol fyrir áfengi og eiga þar með erfiðara með að að vera fullur. Fíkn í áfengi getur verið mjög skæð og erfiðara er að losa sig undan henni en undan fíkn í mörg önnur fíkniefni. Líkamleg fráhvarfseinkennin áfengis geta verið það slæm að einstaklingurinn getur dáið af þeim einum, til samanburðar er ekki hægt að deyja af fráhvarfseinkennum frá heróíni einum saman. Samtök tengd alkóhólisma. AA-samtökin eru alþjóðleg samtök einstaklinga sem komist hafa yfir áfengisfíkn sína og hjálpa öðrum sem þjást af alkóhólisma að fá lausn á vanda sínum. SÁÁ eru íslensk samtök áhugamann um áfengissýki, tengsl áfengissýki og vímuefnamisnotkunar við hin ýmsu samfélagsmein og þeirra leiða sem hægt er að leita til að takast á við vandamálið. Japanska. Japanska (日本語, „nihongo“) er tungumál, bæði tal- og ritmál, sem er aðallega notað í Japan. Um 130 milljón manns kunna tungumálið og er það áttunda mest talaða tungumáli heims. Málvísindamenn deila um flokkun japanska tungumálsins, en megin kenningin er sú að það sé einangrað tungumál sem á sér margar birtingarmyndir og í raun yfirheiti á tungumálaætt sem kallast japönsk tungumál. Önnur kenning segir að japanska sé hugsanlega hluti af svokallaðri altísktri tungumálaætt sem nær yfir mikinn hluta Mið-Asíu og inniheldur einnig tyrknesk, mongólsk, kóresk og mansjúrísk mál. Hvorug þessara kenninga hafa enn verið samþykktar opinberlega. Japan er eina landið þar sem japanska er hið opinbera tungumál (eyjan Angaur hefur þrjú opinber tungumál og er japanska eitt af þeim). Japanska er þó töluð í mörgum öðrum löndum sökum landsflutninga og ber helst á henni í Bandaríkjunum, aðallega í Kaliforníu og Hawaii, Brasilíu og Filippseyjum. Japönsk menning hefur þróast stöðugt í margar aldir og ólíkt mörgum öðrum þjóðarmenningum hefur hún ekki orðið fyrir barðinu á innrásum þjóða og menningu þeirra fyrr enn nú á seinni árum. Í gegnum tíðina hefur þó í japönsku safnast upp mikið af tökuorðum úr kínversku, portúgölsku, hollensku, þýsku, frönsku og nýlega ensku. 60 % orðaforða japönskunnar er tökuorð frá kínversku. Landfræðileg dreifing. Þótt japanska sé nær eingöngu töluð í Japan hefur hún á nokkrum tímabilum í sögunni verið töluð í öðrum löndum eða þegar Japan hertók Kóreu, Taívan og hluta af Kína. Heimamenn í þessum löndum voru neyddir til að læra japönsku og Kóreubúar fengu japönsk nöfn. Út af þessu eru enn margir í þessum löndum sem tala japönsku í stað eða með staðarmálinu. Þar að auki tala innflytjendur frá Japan sem búa að mestu í Bandaríkjunum (aðallega Kaliforníu og Havaí) og Brasilíu oft japönsku. Afkomendur þeirra eru kallaðir „"nisei"“ (二世) eða „önnur kynslóð“, en sú kynslóð talar hinsvegar yfirleitt ekki góða japönsku. Þar að auki er nokkrar milljónir taldar vera að læra japönsku. Ritunarkerfi. Í japanskri skrift er að mestu notast við þrjú kerfi: kanji, hiragana og katakana. Kanji er kínversk skrift sem var innleid í Japan á 4. öld. Hiragana er aðallega notað til að sýna beygingu orða með samstöfum en katakana er aðallega notað fyrir tökuorð úr öðrum tungumálum. Elstu textar á Japönsku eru frá 712. Hljóðfræði. Í Japönsku eru engin tannvaramælt önghljóð (F & V) en á móti finnst raddað sem óraddað tvívaramælt önghljóð (þveröfugt við íslensku) og kannski má rekja þetta til smærri efri framtanna. Ennfremur er hvorki -þ né -ð. Bæði raddað sem óraddað blísturshljóð er að finna í málinu (s & z) og -r má finna raddað sem óraddað. Í japönsku er ekkert hliðarhljóð (L). Málfræði. Engin greinir er í japönsku. Nafnorð hafa ekkert málfræðilegt kyn og trakterast hvorki í tölu né föllum. Sagnorð trakterast hvorki í persónu né tölu. Lýsingarorð og atviksorð stigbreitast ekki þó skjóta meigi fyrir framan þau motto (meira) og mottomo (mest). Engin eignarfornöfn er að finna í japönsku en jafngildi þeirra myndað með eftirsetningu smáorðsins 'no' eftir tilvíkjandi perónufornafn. Eiginlega bara sagnorð taka beygingum í japönsku. Lýsingarorð í japönsku eru ólík lýsingarorðum í vestrænum málum því þau líkjast sagnorðum og hafa hætti og tíðir svo jafnvel er litið á þau sem undirflokk sagnorða. Hiragana. Hiragana (平仮名, ひらがな eða ヒラガナ, beinþýtt sem „slétt kana“) er annað tveggja atkvæðatáknrófa í japönsku, en hitt er katakana. Þau, ólíkt kanji, lýsa atkvæðum frekar en hugtökum og eru því líkari hebresku, eþíópísku, ndjuká eða inuktitut heldur en öðrum austurlenskum ritkerfum. Hiragana samanstendur af 50 grunntáknum og tveimur aðgreiningarmerkjum (diacritics), ° og ¨, sem gefa 25 tákn til viðbótar. Einnig eru til mörg atkvæði sem lýst eru með tveimur táknum, þ.e. atkvæðatákni sem dregur samhljóða inn í atkvæðið og svo ýmist ya (や), yu (ゆ), eða yo (よ). Þá er hefðin að það tákn sé skrifað smærra en hitt, til þess að fjarlægja allan vafa um réttan framburð, t.d. er kya (きゃ) skrifað „ki“ (き) og „ya“ (や). Ritkerfið. Það eru til aðrar aðferðir til þess að lýsa hljóðum í hiragana, t.d. með notkun smækkaðra mynda hinna fimm stöku sérhljóða. Þetta er ekki almennt notað í formlegri skrift, en er stundum notað í katakana á tökuorðum til þess að lýsa betur upprunalegum framburði orðsins. Það eru nokkur hiragana sem eru ekki í stöðluðu nútíma táknrófi. wi (ゐ) og we (ゑ) eru úreld. Vu (ゔ) er nútímalegt og borið fram "bwu" til þess að áætla „v“ hljóðið í erlendum tungumálum á borð við íslensku eða ensku. Það er mjög sjaldgæft samt vegna þess að tökuorð eru yfirleitt rituð í katakana. Ef að tölvan þín hefur leturgerð sem styður Japanska stafi getur þú séð eftirfarandi töflu af hiragana ásamt Hepburn rómönskun þeirra. Úrelt kana eru sýnd í rauðum lit. Hawaii. Hawaiieyjar eða Hawaii (stundum skrifað Havaí og sjaldnar Hawaí) er eyjaklasi í Kyrrahafinuog eitt af 50 fylkjum Bandaríkjanna. Hawaii er einnig stærsta eyjan í Hawaii-eyjaklasanum og er oft þekkt sem „Stóra - Eyjan“ (The Big Island). Á frummáli eyjaskeggja, hawaiísku nefnist eyjan „Hawai‘i“, en úrfellingamerkið ('Okina á hawaiísku) merkir í raun skyndilegt stopp eins og í miðri upphrópuninni „Oh-ó“. Honolulu er stærsta borgin og höfuðborg fylkisins. Næst stærsta eyjan er Maui. Íbúafjöldi Hawaii er rúmlega 1,3 milljón. Seint á 19. öld og í upphafi 20. aldar voru Hawaiieyjar kunnar undir nafninu "Sandwich Islands", og nefndust þá á íslensku "Sandvíkureyjar". Halldór Laxness kallar í einu verka sinna Hawaii "Háeyju" sem er hljóðlíking. Jarðfræði. Hawaiieyjar eru austasti og jafnframt yngsti hluti Hawaii-Emperor eyjaklasans. Heiti reiturinn, sem er undir Stóru-Eyjunni, myndaði Hawaii-Emperor eyjaklasann þar sem Kyrrahafsplatan hefur færst yfir hann. Þær átta eyjar sem teljast til Hawaiieyja eru (frá vestri til austurs), Ni'ihau, Kauai'i, O'ahu, Moloka'i, Lana'i, Kahoʻolawe (óbyggð), Maui og Hawai'i. Eyjarnar liggja frá norðvestri til suðausturs og má frá því sjá að Kyrrahafsplatan hefur verið að færast til norðvesturs (að því gefnu að heiti reiturinn sé ekki að hreyfast). Listi yfir Skálholtsbiskupa. ATH: Vegna tæknilegra takmarkana virka ekki allir íslenskir stafir á þessum tímaás. Vígslubiskupar í Skálholtsbiskupsdæmi. Skálholtsstifti og Hólastifti voru endurreist með lögum 1909. Urðu þá til embætti vígslubiskupa. Aðalverkefni þeirra er að vígja biskup Íslands, ef fráfarandi biskup getur það ekki. Með lögum 1990 var mælt fyrir um endurreisn gömlu biskupssetranna á Hólum og í Skálholti, og að vígslubiskupar gegni prestsstörfum í sinni sókn. Varð Skálholtsstaður þá formlega biskupssetur á ný. Árið 1970 var Strandasýsla lögð undir Húnavatnsprófastsdæmi. Árið 2003 voru Múla- og Austfjarðaprófastsdæmi tekin undan Skálholtsbiskupsdæmi og lögð undir Hólabiskupsdæmi. Er því misvægi í stærð biskupsdæmanna nú orðið mun minna en áður fyrr. Listi yfir Hólabiskupa. ATH: Vegna tæknilegra takmarkana virka ekki allir íslenskir stafir á þessum tímaás. Vígslubiskupar í Hólabiskupsdæmi. Hólastifti og Skálholtsstifti voru endurreist með lögum 1909. Urðu þá til embætti vígslubiskupa. Aðalverkefni þeirra er að vígja biskup Íslands, ef fráfarandi biskup getur það ekki. Vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi hefur verið búsettur á Hólum frá 1986. Með lögum 1990 var mælt fyrir um endurreisn gömlu biskupssetranna á Hólum og í Skálholti, og að vígslubiskupar gegni prestsstörfum í sinni sókn. Varð Hólastaður þá formlega biskupssetur á ný. Árið 1970 var Strandasýsla lögð undir Húnavatnsprófastsdæmi. Árið 2003 var Hólabiskupsdæmi víkkað út til austurs, og nær nú einnig yfir Múla- og Austfjarðaprófastsdæmi, sem tekin voru undan Skálholtsbiskupsdæmi til þess að jafna stærð umdæmanna. Jóker (getraun). Jóker er getraunaleikur sem Íslensk Getspá rekur og gengur út á það að dregnar eru 5 tölur í ákveðinni röð og markmiðið er að fá eins margar tölur og hægt er í réttri röð frá hægri til vinstri. Verðlaunin eru mismunandi eftir því hve margar réttar tölur í röð eru fengnar. Fyrir að vera með allar tölurnar réttar og í réttri röð eru verðlaun upp á 100.000 kr. Fyrir 4 síðustu tölurnar í réttri röð eru verðlaunin 10.000 kr., 3 síðustu í réttri röð 1.000 kr. og fyrir 2 síðustu í réttri röð eru verðlaunin 100 kr. Líkurnar á því að vinna hvern vinning eru jafn miklar og verðlaunin eða 1 á móti 100.000 fyrir 5 tölur í réttri röð og svo framvegis. Lottó. Lottó er getraunaleikur sem Íslensk Getspá heldur úti var fyrst með 5 tölur í hverri röð og síðan 32 talna úrval. Því var hins vegar breytt í 5 tölur á röð og 38 talna úrval í september 1988 en við þá breytingu minnkuðu líkurnar verulega og jókst fjöldi mögulegra raða úr 201.376 í 501.942. Saga lottós. Fyrsti lottómiðinn var keyptur 22. nóvember 1986 af Steingrími Hermannsyni en á þeim tíma var Lottó kallað „Lottó 5/32“. Fyrsti úrdrátturinn fór svo fram 29. nóvember 1986 í Ríkissjónvarpinu. Líkurnar á að fá 5 aðaltölur réttar: formula_1 Líkurnar á að fá 4 aðaltölur réttar og bónustölu: formula_2 Líkurnar á að fá 4 aðaltölur réttar: formula_3 Líkurnar á að fá 3 aðaltölur réttar: formula_4 Líkurnar á að fá 2 aðaltölur réttar og bónustölu: formula_5 Alþjóðlega einingakerfið. Alþjóðlega einingakerfið eða SI kerfið (franska "Système International d'Unités") er heiti á alþjóðlegu mælieiningakerfi, sem notað er í flestum ríkjum, nema í Bandaríkjunum, Líberíu og Mjanmar. Við ákvörðun á kerfinu, voru innleiddar þáverandi skilgreiningar í metra-kílógrammi-sekúndu einingakerfinu sem kallaðist "MKS" og þar að auki bætt inn nokkrum skilgreiningum á öðrum mælieiningum í viðbót. Skilgreiningar sumra af mælieiningunum hafa verið endurnýjaðar síðan kerfið gekk fyrst í gildi, eins og til dæmis metri og sekúnda. SI kerfið er stundum ranglega kallað metrakerfið, en metrakerfið er annað og eldra kerfi. Flestar mælieiningar í SI kerfinu eru byggðar á einni grunnmælieiningu og síðan ákveðið forskeyti eftir stöðu tölunnar í tugakerfinu, grunneiningarnar kílógramm og sekúnda eru samt undantekningar, kílógramm þar sem forskeyti er við grunneininguna og sekúnda því að tímatalning byggist á eldra kerfi sem notast við tylftir. Ein mínúta er þannig hálft stórt hundrað sekúndna, eða 60 sekúndur. Frjálshyggjufélagið. Frjálshyggjufélagið er félag sem starfar að fræðslu um frjálshyggju á Íslandi. Félagið var stofnað 10. ágúst 2002. Esperanto. Esperanto er útbreiddasta tilbúna tungumálið. Nafnið er dregið af rithöfundarheiti Ludovics Lazarusar Zamenhofs, „D-ro Esperanto“. Hann gaf út sitt fyrsta verk um málið undir því nafni. Esperanto þýðir bókstaflega „Sá sem vonar“. Aðaleinkenni tungumálsins er að það eru engar undantekningar á málfræðinni og hefur það ýtt undir útbreiðslu þess meðal fólks um allan heim. Þar að auki þarf lítinn orðaforða til að geta bjargað sér í málinu, þar sem einstök orð eru mynduð af stofni orða með aðskeytum (for- og viðskeytum). Saga esperanto. Þar sem tungumálið er tilbúið er saga þess stutt og vel þekkt. Zamenhof gaf út fyrsta rit sitt á og um Esperanto í júlímánuði árið 1887. Titill þess var: "D-ro Esperanto: Internacia Lingvo. Antaŭparolo kaj Plena Lernolibro [por Rusoj]." Útgáfa þeirrar bókar markar upphaf esperantohreyfingarinnar. Esperanto náði brátt nokkurri útbreiðslu en lá að miklu leyti niðri á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914-1918 en rétti fljótt út kútnum eftir hana. Zamenhof var pólskur gyðingur og augnlæknir. Hitler mintist stuttlega á esperanto í Mein Kampf. Nokkru fyrir seinni heimsstyrjöldina fóru nasistar í Þýskalandi að ofsækja esperantista og Stalín snerist öndverður gegn esperantistum i Rússlandi. Hreyfingin var þá búin að festa alltraustar rætur víða í Evrópu og einnig í Japan og fleiri Asíulöndum. Seinni heimsstyrjöldin 1939-1945 var svo afar þungt áfall fyrir esperantohreyfinguna og var hún lengi að ná sér eftir það reiðarslag. Nú er þó svo komið að esperantistar eru dreifðir út um allan heim þótt fátt sé vissulega um esperantista meðal sumra þjóða. Evrópumenn hafa alla tíð verið leiðandi í esperantohreyfingunni en upp á síðkastið hafa Asíumenn látið æ meir að sér kveða. Til dæmis hefur hreyfingunni vaxið mjög fiskur um hrygg í Kína og sömuleiðis hefur fylgi hennar vaxið í Íran. Líklega hefur vöxtur hennar þó hvergi verið jafnhraður og í Brasilíu. Ætt. Þar sem esperanto er tilbúið tungumál er það ekki beintengt neinum öðrum tungumálum. Hljóðfræði og orðaforði þess eru hinsvegar undir áhrifum frá indóevrópskum málum, sérstaklega rómönskum. Ritkerfi. Það stafróf sem notað er í esperanto er breytt útgáfa af latneska stafrófinu og hefur sex stöfum verið bætt við: „ĉ“, „ĝ“, „ĥ“, „ĵ“, „ŝ“ og „ŭ“ þar fyrir utan hafa fjórir stafir verið teknir út eða „q“, „w“, „x“ og „y“. Þeir sex aukastafir sem bætt hefur verið við eru í alþjóðaformi Morse kóða. a b c ĉ d e f g ĝ h ĥ i j ĵ k l m n o p r s ŝ t u ŭ v z Málfræði. Nokkrar helstu grunnreglurnar varðandi myndum orða. Nafnorð eru alltaf mynduð með því að skeyta stafnum „o“ fyrir aftan stofninn. Dæmi: hundo: hundur; kato: köttur. Lýsingarorð eru mynduð á sama hátt með því að bæta stafurinn „a“ við stofninn. Dæmi: bela: fallegur; granda: stór. Sagnorð með því að bæta „i“ við stofn. Dæmi: veni: koma; trovi: finna. Og atviksorð eru mynduð með endingunni „e“ eða þau eru endingarlaus. Dæmi: bone: gott, vel; ankaŭ: líka. Til að mynda fleirtölu er stafnum „j“ skeytt aftan við nafnorð og lýsingarorð sem eiga að vera í fleirtölu. Dæmi: hundoj: hundar; bonaj: góðir (góðar, góð); bonaj hundoj: góðir hundar. Enginn óákveðinn greinir er notaður í esperantó en ákveðinn greinir er "la". Nafnorð hafa tvö föll: nefnifall og andlagsfall. Til að mynda andlagsfall er -n bætt við enda nefnifalls. Gagnrýni. Esperanto hefur lengi verið gagnrýnt fyrir að vera alls ekki það alþjóðlega og undantekningalausa mál sem það þykist vera. Hljóðkerfið er mjög mikið byggt á því pólska, og er því með nokkuð magn erfiðra hljóða fyrir flesta. Orðaforðinn er einnig mjög indó-evrópskur. Uppbygging orðanna hefur einnig valdið gagnrýni, til dæmis þýðir forskeytið "mal-" andstæða: þannig er "bona" góður, og "malbona" vondur. Þetta forskeyti, vilja gagnrýnendur meina, er ofnotað og ólógískt. Að opna er "malfermi", "ekki-loka". Hægri er "dekstra", vinstri er "maldekstra", en norður og suður "norda" og "suda". Notkun "mal-" forskeytisins er því alls ekki alltaf augljós né án undantekninga. Fáni. Esperantofáninn er grænn feldur með hvítan efri stangarreit, sem inniheldur svo græna fimmarma stjörnu. Stóra græna svæðið táknar von, hvítt táknar frið og hlutleysi og stjarnan táknar heimsálfurnar fimm. Nafn fánans á esperanto er „Verda Stelo“ eða „Græna stjarnan“. Tímarit. Nokkur tímarit hafa verið gefin út á Íslandi á esperanto (að hluta eða eingöngu). Blaðið hefur stækkað með árunum og hefur frá og með 29. hefti verið 24 blaðsíður fyrir utan kápu. Flestir áskrifenda eru Íslendingar en upp á síðkastið hafa allmargir útlendingar farið að kaupa ritið og á það sér nú áskrifendur í 24 þjóðlöndum utan Íslands. La Tradukisto er tvískipt tímarit. Þýðingar úr íslensku á esperanto spanna um það bil tvo þriðju hluta ritsins en þýðingar úr esperanto á íslensku um þriðjung. La Tradukisto er eina tímarit á Íslandi sem eingöngu birtir þýðingar. Blaðið er gefið út á Laugarvatni. Tvíhyggja. Tvíhyggja kallast hver sú kenning eða sérhvert viðhorf sem gengur út frá einhverri grundvallartvískiptingu. Tvíhyggja um sál og líkama (eða efni og anda) er sú hugmynd að frumþættir tilverunar séu tveir, annars vegar efni og hins vegar hugur ("líkami og sál" eða "efni og andi"). Gert er ráð fyrir því að þessir tveir hlutar séu óskyldir og geti því jafnvel "lifað" óháðir hvor öðrum. Tvíhyggju er að finna bæði í vestrænum og austrænum trúarbrögðum og heimspeki. Andstæður tvíhyggju eru hvers kyns einhyggja og fjölhyggja. Sovétríkin. Sovétríkin eða Советский Союз á rússnesku (einnig kallað Ráðstjórnarríkin eða "Союз Советских Социалистических Республик (СССР)" á rússnesku, umritað "Sojúz Sovétskikh Socialistíčeskikh Respúblik (SSSR)", í íslenskri þýðingu "Sambandsríki sósíalískra sovíetlýðvelda") var sambandsríki með sósíaslíska stjórnarskrá í Austur-Evrópu og Asíu sem sett var á laggirnar árið 1922 og leystist upp 1991. Stjórnmálakerfi Sovétríkjanna var einsflokkskerfi þar sem Kommúnistaflokkurinn var við völd fram til ársins 1990. Enda þótt Sovétríkin ættu að heita samband lýðvelda (sem voru 15 talsins eftir 1956) með Moskvu að höfuðborg var í raun um að ræða ríki sem alla tíð var mjög miðstýrt. Efnahagskerfi Sovétríkjanna byggðist á áætlanabúskap. Ísleifur Gissurarson. Ísleifur Gizurarson (fæddur 1006 - dáinn 5. júlí 1080) var fyrsti Skálholtsbiskup á Íslandi í kjölfar kristnitökunnar. Foreldrar hans voru Gissur hvíti Teitsson af ætt Mosfellinga og einn helsti leiðtogi kristinna manna við kristnitökuna, og þriðja kona hans, Þórdís Þóroddsdóttir. Faðir hans setti son sinn til mennta, fylgdi honum út þegar hann fór til náms í Saxlandi „ok seldi hann til læringar abbadísi einni í borg þeiri er Herfurða (Herford) heitir. Ísleifr kom svá til Íslands at hann var prestr ok vel lærðr," segir í Hungurvöku. Ísleifur tók svo við goðorði föður síns og bjó í Skálholti. Árið 1056, þegar hann var fimmtugur, var hann vígður biskup af Aðalbjarti erkibiskupi í Brimum, raunar bæði yfir Íslandi og Grænlandi, en ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurntíman sinnt því síðarnefnda. Hann kom heim ári síðar og bjó áfram í Skálholti, sem var eign hans en ekki eiginlegur biskupsstóll. Þar stofnaði hann skóla. „En er það sáu höfðingjar og góðir menn að Ísleifur var miklu nýtri en aðrir kennimenn, þeir er á þvísa landi næði, þá seldi hann mörgum sonu sína til læringar og létu vígja til presta,“ segir Ari fróði í Íslendingabók. Á meðal nemenda hans var Jón Ögmundarson, sem síðar varð fyrstur biskup á Hólum. Ísleifur lést í Skálholti hinn 5. júlí 1080 og hafði þá verið biskup í 24 ár. Kona hans var Dalla Þorvaldsdóttir og áttu þau synina Þorvald bónda í Hraungerði, Teit og Gissur, sem varð biskup eftir föður sinn. Gissur Ísleifsson. Gissur Ísleifsson (1042 - 1118) var biskup Íslands, annar í röðinni, en frá 1106 biskup í Skálholtsbiskupsdæmi því það ár var Hólabiskupsdæmi stofnað. Foreldrar hans voru Ísleifur Gissurarson Skálholtsbiskup og Dalla Þorvaldsdóttir. Gissur lærði á Saxlandi eins og faðir hans og var vígður prestur á unga aldri. Hann kom heim og kvæntist Steinunni Þorgrímsdóttur (f. um 1042. d. eftir 1118), sem áður hafði verið gift Þóri Skegg-Broddasyni á Hofi í Vopnafirði. Þau bjuggu þar fyrst. Gissur var mikill maður og vel bolvexti, bjarteygður og nokkuð opineygður; tígulegur í yfirbragði og manna góðgjarnastur, rammur að afli og forvitri, segir í Hungurvöku. Hann ferðaðist mikið til útlanda og þau hjón fóru bæði í suðurgöngu til Rómar. Hann var erlendis 1080, þegar faðir hans dó en kom heim sumarið eftir og var þá valinn biskup. Gissur fór til Saxlands að taka vígslu en þá hafði erkibiskupinn þar verið sviptur embætti. Hann fór þá til Rómar á fund Gregoríusar páfa 7., sem sendi hann til Hardvigs erkibiskups í Magdeburg og þar fékk hann vígslu 1082. Hann var þá fertugur að aldri. Hann settist að í Skálholti þegar heim kom. Eftir að Dalla móðir hans lést gaf hann jörðina til biskupsstóls ásamt ýmsum öðrum eignum og mælti svo um "að þar skyldi ávallt biskupsstóll vera meðan Ísland væri byggt og kristni má haldast", eins og segir í Hungurvöku. Hann byggði líka kirkju í Skálholti og hélt þar skóla eins og faðir hans hafði gert. Gissur var helsti frumkvöðullinn að því, að tíund yrði lögtekin á Íslandi og náðist það fram á Alþingi árið 1097. Hann lét telja búendur á landinu áður en biskupsdæminu var skipt upp 1106 og "voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil en í Rangæingafjórðungi tíu en í Breiðfirðingafjórðungi níu en í Eyfirðingafjórðungi tólf", segir í Íslendingabók. Gissur lést í Skálholti árið 1118 eftir að hafa verið biskup í 36 ár. Hann átti son og dóttur með konu sinni og fjóra syni aðra, en aðeins einn þeirra, Böðvar, lifði þegar faðir þeirra lést og einnig lifði dóttirin Gró(a). Maður hennar var Ketill Þorsteinsson Hólabiskup. Gróa gerðist seinast nunna og dó í Skálholti eftir 1152. Viggó viðutan. Viggó viðutan (franska: "Gaston Lagaffe") er belgísk persóna í samnefndum teiknimyndasögum eftir André Franquin. Ævintýri Viggós birtust fyrst sem framhaldssögur í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi. Í sögunum vinnur Viggó á blaði ásamt Val úr sögunum um Sval og Val. Hann veldur þar sífelldum vandræðum sem oft og tíðum eru tengd steindaldarhörpunni hans svokölluðu. Trent Reznor. Michael Trent Reznor betur þekktur sem Trent Reznor er eini fasti meðlimur hljómsveitarinnar Nine Inch Nails sem hann gefur út undir merkjum útgáfufyrirtæki síns Nothing Records. Trent fæddist fæddist 17. maí 1965 í bænum Mercer í Pensilvaníufylki í Bandaríkjunum en býr nú í New Orleans. Hann er auk þess skrifaður sem upptökustjóri fyrir þremur geisladiskum hljómsveitarinnar Marilyn Manson "Portrait of an American Family" sem gefin var út árið 1994, "Smells Like Children" (1995), og "Antichrist Superstar" (1996) auk þess að semja tónlist fyrir kvikmyndirnar "Natural Born Killers" og "Lost Highway". Reznor, Trent Japan. Japan ("Nippon/Nihon" 日本 (táknin merkja sól og rætur/uppruna), þýðir bókstaflega „Uppruni sólarinnar“), er landamæralaust land í Austur-Asíu, staðsett austur af Kóreuskaga og vestarlega í Kyrrahafinu. Nafnið er oft þýtt „Land rísandi sólar“ og er sú þýðing ættuð úr kínversku. Áður en Japan hafði nokkur samskipti við Kína, var landið kallað Yamato (大和). "Wa" (倭) var nafnið sem Kínverjar notuðu snemma þegar þeir töluðu um Japan. Japan er eyjaklasi, og stærstu eyjarnar eru frá norðri til suðurs, Kyūshū (九州), Shikoku (四国), Honshū (本州, stærsta eyjan), og Hokkaidō (北海道). Nafnsifjar. Japan heitir á japönsku "Nippon" eða "Nihon", bæði heitin eru skrifuð eins á japönsku ritmáli. Japanska nafnið Nippon er fyrir formlega notkun, s.s. á gjaldmiðli, frímerkjum og alþjóðlegum íþróttamótum. Nihon er hversdagslegt heiti Japans sem Japanar nota. Sem dæmi, Japanar kalla sig Nihonjin og tungumál sitt Nihongo: sem bókstaflega þýðir „japanskt fólk“ og „japönsk tunga“. Í Japan nú til dags, hefur nafnið Nippon meiri þjóðernissinnaða merkingu, notað meira af eldra fólki, meðan að Nihon er notað dagsdaglega af mestum hluta þjóðarinnar. Heiti Japans á evrópskum tungumálum (þar með talið íslensku) barst með verslunarleiðum til vesturs. Nafn Japans kom fyrst fyrir í skjölum frá Marco Polo sem "Cipangu" úr mandarín. Hins vegar er Japan á kantónsku "Jatbun", og þaðan er vestræna heitið líklegast komið. Á malajísku varð kantónska heitið "Japang" og hafa portúgalskir kaupmenn rekist á það í Malakka á 16. öld. Talið er að portúgalskir kaupmenn hafi borið nafnið til Evrópu. Það var fyrst skráð á ensku sem "Giapan". Nihonkoku (日本国), er formlegt heiti Japans og þýðir í raun „japanska ríkið“. Saga Japans. Fornleifarannsóknir benda til þess að búseta manna í Japan hafi hafist fyrir 500.000 árum, á fyrri hluta fornsteinaldar. Á ísöldum síðustu milljón ára hefur Japan tengst meginlandi Asíu (við Sakhalin í norðri og líklegast Kyūshū í suðri), sem hefur auðveldað búferlaflutninga manna, dýra og plantna til japanska eyjaklasans, frá því svæði sem er nú Kína og Tævan. Við lok síðustu ísaldar og með heitara loftslagi tók Jomon-tímabilið (縄文時代) við u.þ.b. 14.500 f.Kr. Leirker frá Jomon tímabilinu í Japan eru meðal þeirra elstu í heiminum. Þegar tók að líða á Jamon tímabilið tóku að myndast smáþorp víða í Japan. Samkvæmt klassískri goðafræði Japans var Japan sett á laggirnar á 7. öld fyrir Krist af Jimmu keisara, sem samkvæmt goðafræðinni á ættir sínar að rekja til guða. Um 300 fyrir Krist tók við Yayoi-tímabilið (弥生時代) sem markaði endalok Jomon tímabilsins. Tímabilið einkenndist af áhrifum frá asíska meginlandinu, til dæmis barst til Japans þekking á hrísgrjónarækt og þekking á bronsgerð. Jafnframt voru miklir búferlaflutningar frá mörgum hlutum Asíu til Japans á því tímabili. Almennt er samt talið víst að einhver tímann um 300 e.Kr. hafi Yamatoættin sameinað eyjarnar Honshū, Shikoku, Kyūshū og hugsanlega einhvern hluta Kóreuskaga og að það hafi verið upphafið að sameiningu Japans. Á 5. og 6. öld tóku Japanar upp kínverska ritkerfið og búddisma, fyrst gegnum Kóreuskaga en síðar beint frá Kína. Keisararnir voru aðeins að nafninu til stjórnendur, en gegndu í raun aðeins trúarlegu hlutverki. Raunverulegt vald var í höndum hirðar aðalsmanna sem höfðu arfgeng lénsréttindi. Árið 794 tók við Fujiwara fjölskyldan og Kammu keisari, hann reisti nýja höfuðborg (áður var Nara höfuðborgin), Heian-kyo (heitir nú Kyoto). Fujiwara fjölskyldan efldi veldi sitt með einokun og gifti meðlimi ættarinnar inn í keisarafjöldskylduna til að halda áfram völdum. Það gerðist iðulega að keisarinn sagði af sér og útnefndi yngri mann, ættingja Fujiwara, keisara. Fyrrverandi keisari gekk svo í klaustur og stjórnaði á bakvið tjöldin. Slíkur háttur var á lengi vel, en upp úr 900 fóru margir aðalsmenn, sem ekki höfðu mikil völd innan hirðarinnar, að hætta að sætta sig við hætti Fujiwara fjölskyldunar og settust að í héruðum þar sem þeir tóku sér völd og eignuðu sér landsvæði. Til að verja eigin landsvæði mynduðu þeir bændaheri, sem seinna kölluðust samúræjar. Þetta varð tilefni margra bardaga og hafði mikil áhrif á keisaraveldið. Loks árið 1185, sigruðu bræðurnir Yoshitsune og Yoritomo úr Minamoto fjölskylduni Taira fjölskylduna (sem þá var orðin voldugasta fjölskylda Japans) eftir langar erjur, og komu á sjogúnstjórn (herríkisstjórn, 幕府). Yoshitsune varð fyrsti einráði sjogúninn. Sjogúnstjórnin bar heitið Kamakura Sjogúnstjórnin (鎌倉幕府). Yoshitsune gerði ýmislegt til að bæta hag samúræja sinna og átti mikinn þátt í að skapa menninguna í kringum þá. Erfingjar Yoshitsune voru samt síðar meir aðeins einráðir opinberlega, en Hoju fjölskyldan stjórnaði í raun öllu á bakvið tjöldin. Þetta stjórnskipulag hélst lengi vel eða allt til ársins 1854 þegar Bandaríkjamenn voru farnir að beita Japan þrýstingi til að opna hafnir sínar fyrir erlendum kaupmönnum en Japan hafði þá verið einangrað síðan snemma á 17. öld. Á Meijitímabilinu (1868 til 1912) voru lénsréttindi afnumin og japanska ríkið tók á sig mynd kapítalískra ríkja í Evrópu. Stjórnmál. Í Japan er stjórnarskrárbundin konungsstjórn með tveggja deilda þingi, sem kallast Kokkai (国会). Japan hefur konunglega fjölskyldu, þar sem keisarinn er hæst settur en samkvæmt núverandi stjórnarskrá hefur hann engin raunveruleg völd heldur þjónar hann eingöngu formlegu hlutverki þjóðhöfðingja. Framkvæmdavaldið, sem heyrir undir Kokkai, er í höndum ríkisstjórnar sem samanstendur af forsætisráðherra og öðrum ráðherrum, sem verða að vera almennir borgarar. Forsætisráðherrann er meðlimur í Kokkai. Forsætisráðherra hefur vald til að ráða og reka ráðherra en ráðherrarnir þurfa flestir að vera meðlimir í Kokkai. Núverandi forsætisráðherra er Shinzo Abe, frá 26. desember 2012. Héraðsskipan Japans. Kort af Japan og nálægum hafsvæðum Landafræði. Japan er stórt eyríki sem teygir sig eftir hluta af Kyrrahafsströnd Asíu. Stærstu eyjarnar heita Hokkaidō, Honshū (stærst og fjölmennust), Shikoku, og Kyūshū. Ryūkyū eyjaklasinn teygir sig yfir 1000 km til suðvesturs frá Kyūshū alla leið til Tævan. Að auki eru um 3000 smærri eyjar sem tilheyra Japan. 73% landsins telst sem fjalllendi, fjallgarðar liggja eftir eyjunum endilöngum, venjulega frá norðri til suðurs. Hæsta fjallið er Fuji fjall sem er 3776 metra hátt og er virkt eldfjall. Hið takmarkaða flatlendi er mjög þéttbýlt, Tókíó og nágrannaborgir mynda þannig langstærsta samfellda þéttbýlissvæði á jörðinni með yfir 33 milljónir íbúa. Japan er staðsett á hinum svonefnda eldhring sem umlykur Kyrrahaf og er mjög virkt jarðskjálfta og eldfjalla svæði. Stórir jarðskjálftar geta riðið yfir hvar sem er í Japan og má reikna með nokkrum slíkum á hverri öld. Á 20. öldinni urðu verstu skjálftarnir annars vegar árið 1923 í nágrenni Tókíó sem kostaði 140.000 mannslíf og svo aftur 1995 við Kobe þar sem yfir 6000 manns létust. Jarðhiti er nokkur í Japan og víða má finna heitar uppsprettur og í kringum þær sumar hafa verið byggð böð og heilsuhæli, ekki ósvipað Bláa lóninu á Íslandi. PHP. PHP (endurkvæm skammstöfun fyrir: PHP: Hypertext Preprocessor) er túlkað forritunarmál sem er ætlað fyrir forritun kvikra vefsíðna. PHP er oftast túlkað á vefþjóni en það er líka hægt að keyra það í skipanaviðmóti og jafnvel til að búa til sjálfstæð gluggaforrit. Þróun. PHP var upphaflega búið til af danska forritaranum Rasmus Lerdorf árið 1994. Helsta útfærsla þess er nú þróuð af PHP Group en hluti af umsýslu kóðans er í höndum ísraelska fyrirtækisins Zend Technologies sem Zeev Suraskit og Andi Gutmans stofnuðu árið 1999 utanum endurritun PHP-túlksins. Sú útgáfa er í reynd staðalútgáfa PHP þar sem ekki er til neinn formlegur staðall fyrir forritunarmálið. Notkunarleyfi. PHP er gefið út með s-k PHP-leyfi sem er samþykkt af Free Software Foundation sem frjálst hugbúnaðarleyfi. Ritháttur. Ritháttur PHP er að mestu kominn úr forritunarmálunum C, Perl og Java. // Þetta er athugasemd, kóðinn að neðan sýnir „Halló heimur!“ phpinfo(); # Þetta sýnir ýmsar upplýsingar um stillingar á vefþjóninum og PHP þýðandanum Þó að ritháttur PHP sé fengin úr ofangreindum forritunarmálum, eiga málin fátt sameiginlegt. PHP kóði er skrifaður í bland með HTML í skilgreiningunum á heimasíðum. Þegar vefsíðan er skoðuð með vafra er PHP kóðanum breytt í HTML sem vafrarinn getur skoðað. Kostir og samkeppni. Helstu keppinautar PHP eru ASP/ASP.NET, Cold Fusion, JSP/Java, Python og Ruby. PHP er í dag eitt vinsælasta vefforritunarmál í heiminum og hafa vinsældir þess aukist gríðarlega eftir útkomu útgáfu 4 sem keyrir á Zend-vélinni. Samkvæmt Tiobe-vísitölunni yfir vinsældir forritunarmála er PHP í fjórða sæti yfir vinsælustu forritunarmálin á eftir C++, C og Java. PHP er notað á milljónum vefþjóna um allan heim. Einungis nýlega, og líklega að hluta til vegna vinsælda PHP sem forritunarmáls, hefur það rutt sér til rúms sem fjölnota forritunarmál. Þannig er t.d. mögulegt að forrita myndrænt notendaviðmót í PHP með GTK+-viðfangasafninu, ncurses og newt. Endurkvæm skammstöfun. Endurkvæm skammstöfun er skammstöfun sem hefur upphafstaf sem táknar sjálfan sig. Eitt þekktasta dæmið um endurkvæma skammstöfun er "GNU", en hún stendur fyrir "GNU's Not Unix" (íslenska: GNU er ekki Unix). "GNU", í "GNU's Not Unix" stendur svo aftur fyrir GNU's Not Unix, o.s.frv. Endurkvæmnin býr því í raun til endalausa runu:...Not Unix is Not Unix is Not Unix is Not Unix is Not Unix is Not Unix is Not Unix. HTML. HyperText Markup Language eða HTML er ívafsmál notað til þess að sníða stiklutexta, oftast notað við gerð vefsíðna og er það einföld útgáfa á SGML ívafsmálinu. HTML er nú staðall haldið við af Alþjóðasamtökum um veraldarvefinn (W3C) og er nýjasta útgáfa þess 4.01 en W3C mælir með að fólk noti hið XML byggða XHTML í stað þess. Sérstök merki, tög (oft kölluð mörk),eru notuð í HTML til að merkja á rökréttan hátt hvaða hlutar skjalsins þýða hvað, til dæmis hver fyrsta fyrirsögnin á síðunni er, merkin eru táknuð með "goggum", eða "minna en" og "stærra en" merkjum. Einnig er stór hluti taga í HTML sem segir til um útlit hluta skjalsins, en HTML hefur einmitt verið gagnrýnt fyrir að greina ekki nægilega vel á milli útlitsþátta (umbrots) og innihalds. Myndræn sundurliðun á atriðum HTML-liðs. 1857. a> settur í embætti forseta Bandaríkjanna. Þetta er fyrsta myndin sem tekin var af embættistöku Bandaríkjaforseta. 1850. a> varaforseti tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (skammstafað sem ÁTVR en oftast kallað Ríkið í óformlegu máli en gengur núna opinberlega undir heitinu Vínbúðin) er einokunarverslun með smásölu áfengis á Íslandi. Hún hefur samkvæmt 10. grein laga númer 75 sem samþykkt voru 15. júní 1998 „einkaleyfi til smásölu áfengis [á Íslandi]“ sem telst samkvæmt sömu lögum drykkur með >2,25% vínanda. Borgari. Borgari er persóna sem býr á ákveðnum stað. Talað er um ríkis"borgara" sem þá persónu hefur ríkisboragarétt í ákveðnu ríki. Annað dæmi er heims"borgari", sem er sá sem er víðförull og hefur átt — eða á — heima á mörgum stöðum. Áður var orðið „"borgari"“ notað um mann, sem hafði keypt sér svokallað borgarabréf, en í því fólst réttur til að stunda verslun og viðskipti. Í annarri merkingu, þá er borgari stytting fyrir "Hamborgari", sem getur bæði þýtt einhvern frá Hamborg í Þýskalandi eða um ákveðna tegund af kjöti, oftast hakkað nautakjöt, sem er sett milli tveggja brauðsneiða. Í fyrri merkingunni er orðið ritað með stóru „H“ en í þeirri síðari með litlu. Beslan. Beslan (rússneska: Бесла́н) er borg í Norður-Ossetíu í Suður-Rússlandi. 1. september 2004, voru nemendur og starfsfólks skóla þar teknir í gíslingu af vopnuðum vígamönnum af ýmsum þjóðernum, þar á meðal Téténar og Ingúsítar. Gíslatökunni lauk 3. september þegar rússneskar öryggissveitir gerðu áhlaup á skólann, opinberar tölur um fallna eru 344 þar af um 172 börn en margir í viðbót særðust. Brainfuck. Brainfuck, einnig kallað "brainf*ck", "brainf***" eða "BF", er lítið heimullegt forritunarmál sem er Turing-samhæft, en það var búið til af Urban Müller í kringum árið 1993. Java (forritunarmál). Java er hlutbundið forritunarmál, þróað í upphafi 10. áratugs 20. aldar af James Gosling hjá Sun Microsystems. Java var kynnt almenningi árið 1995, og síðan þá hefur það náð töluverðum vinsældum. Málið færði margar gamlar hugmyndir í almenna notkun, svosem hreina hlutbundna forritun, ruslasöfnun og að fylgst er með að ekki sé skrifað út fyrir mörk vigurs, ásamt ýmsum öðrum öryggisráðstöfunum. Rithátturinn (e. syntax) í Java er að miklu leyti fenginn úr C++, en er einfaldari. Ólíkt C++, sem var klúðurslegt á mörgum sviðum varðandi hlutbundna forritun, vegna þess að það var byggt á C, Klasasafnið sem fylgir Java þykir vera yfirgripsmikið og fullkomið. Java er hannað til að vera óháð vélbúnaði og stýrikerfi. Þegar Java forrit er þýtt, verður til millibils kóði (bitakóði) sem er túlkaður af Java vél þegar hann er keyrður. Öll stýrikerfi sem styðja Java, það er að segja hafa Java-vél, geta keyrt þessi forrit. Java-vélin sér um að breyta bitakóðanum í skipanir sem stýrikerfið og vélbúnaðurinn skilur. Þetta mikilvæga atriði gerir Java mögulegt að keyra á mörgum stýrikerfum og er ein ástæðan fyrir vinsældum Java á Internetinu. Í dag eru m.a. til Java vélar fyrir Microsoft Windows, Linux, Mac OS og Solaris stýrikerfi auk þess sem margir nýir farsímar hafa innbyggða Java vél. Java er ekki skylt forritunarmálinu JavaScript, nema að hafa svipað nafn og rithátt. Java er vinsælt til að skrifa hugbúnað sem keyrir á vefþjóni, þá oft með tækni sem nefnist Java Servlets og Java Server Pages. Hlutbundin forritun. Fyrsta hönnunarforsenda Java er hlutbundin forritun. Í henni er gegnumgangandi hugmynd að hanna hugbúnað á þann veg að tengja vel saman fyrir hverja tegund gagna, hvaða aðgerðir er hægt að framkvæma á þesskonar gögn. Slík eining er kölluð hlutur. Klasi er skilgreining á gagnategund, ásamt aðgerðum sem hægt er að beita á þesskonar gögn. Klasi er skilgreining, og síðan getur forrit búið til marga hluti af því tagi sem klasinn skilgreinir. Hægt er að hugsa um hlut sem afmarkaða einingu sem hefur hegðun (aðferðir) og ástand (gögn). Meginreglan er að skipta forritinu niður í einingar sem eru hannaðar á þann veg að breyting í einum klasa hafi sem minnst áhrif á aðra hluta forritsins. Þannig er auðveldara að smíða stór kerfi. Annað markmið hlutbundinnar forritunar er að þróa almenna klasa sem er hægt að endurnýta í mörgum hugbúnaðarverkefnum. Þannig er hægt að byggja kerfi fljótar án þess að þurfa að skrifa allt frá grunni. Það telst mikill kostur að klasi sem hefur verið notaður í mörgum verkefnum er búinn að ganga í gegnum miklar prófanir og lagfæringar. Þó hefur endurnýting klasa ekki náð þeim árangri sem ætlast var til í upphafi. Vandamálið er að erfiðara er að smíða almennan klasa heldur en sérhæfðan, og oft veit forritarinn ekki af þeim klösum sem eru til, þannig að hann getur ekki endurnýtt þá. Ásamt klösum leyfir Java manni að skilgreina skil (e. interface) sem virkar eins og samkomulag milli forritarans sem skrifar klasa og forritarans sem notar klasann, þó að þeir séu stundum einn og sami forritarinn. Einn kosturinn við þetta er að margir klasar geta uppfyllt sömu skil, og þá getur forritari skipt á milli þeirra og notað þá sitt á hvað, án þess að þurfa að gera miklar breytingar á kóðanum sem notar klasann. Sjálfvirk ruslasöfnun. Einn af göllunum við forritunarmál á borð við C++ er fyrirhöfnin sem fylgir því að forritarinn þarf sjálfur að sjá um minnismeðhöndlun. Hann þarf að taka frá minni til að búa til nýja hluti og skila minninu þegar ekki er þörf á hlutnum lengur. Ef forritarinn gleymir að skila minninu, þá getur það leitt til minnisleka, þ.e.a.s forritið þarf alltaf að taka frá meira og meira minni, og hrynur hugsanlega að lokum. Forritið hrynur einnig ef forritarinn reynir að skila minni sem hann er þegar búinn að skila. Þessi vandamál eru ekki fyrir hendi í Java, vegna þess að Java notar sjálfvirka ruslasöfnun. Minni í hrúgu er tekið frá þegar forritarinn býr til nýja hluti og forritið getur geymt tilvísun sem bendir á nýja hlutinn. Þegar engar tilvísanir eru eftir í hlutinn, þá er ekki lengur hægt að nota hann, og því er óhætt að skila minninu sem hluturinn tekur. Minnislekar geta þó komið upp ef forritið geymir áfram tilvísun á hlut sem ekki er þörf á lengur, en það er mun auðveldara vandamál en vandræðin í C++. Þetta sparar forritaranum mikla vinnu og kemur í veg fyrir margar hugbúnaðarvillur. Steingrímur J. Sigfússon. Steingrímur Jóhann Sigfússon (fæddur 4. ágúst 1955), er alþingismaður og fyrrum fjármála- og atvinnuvegaráðherra. Steingrímur var formaður VG á árunum 1999-2013. Steingrímur hefur setið á Alþingi frá árinu 1983, og er starfsaldursforseti þingsins. Steingrímur sat sem þingmaður Alþýðubandalags 1983-1998, óháður þingmaður 1998-1999 og þingmaður VG frá 1999. Steingrímur var þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra 1983-2003 og frá 2003 fyrir Norðausturkjördæmi. Steingrímur var varaformaður Alþýðubandalagsins 1989-1995 en tapaði naumlega fyrir Margréti Frímannsdóttur í formannskjöri 1995. Steingrímur sagði skilið við Alþýðubandalagið í aðdraganda stofnunar Samfylkingarinnar og beitti sér fyrir stofnun Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, nýs vinstriflokks, árið 1999 og var fyrsti formaður hennar. Steingrímur var samgönguráðherra og landbúnaðarráðherra frá 28. september 1988 til 30. apríl 1991. Steingrímur tók við fjármálaráðuneytinu eftir efnahagshrunið sem varð haustið 2008 og var fjármálaráðherra á árunum 2009-2011. Árin 2011-2012 var hann sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra. Steingrímur var svo atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 2012-2013. Steingrímur var formaður Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs frá stofnun flokksins 1999 til ársins 2013, þegar Katrín Jakobsdóttir tók við formennskunni. Þann 16. janúar 2006 fór bíll Steingríms út af og valt á hringveginum við Klif, á milli Ártúna í Langadal og Bólstaðarhlíðar í Svartárdal, en hann hefur náð sér að fullu. Steingrímur býr í Reykjavík en er fæddur og uppalinn á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Hann er sonur Sigfúsar Aðalbergs Jóhannessonar og konu hans, Sigríðar Jóhannesdóttur. Steingrímur er jarðfræðingur að mennt og áhugamaður um útivist og íþróttir. Sumarið 2005 gekk hann frá Reykjanestá að Langanesi. Í nóvember 2006 kom út eftir hann bókin hjá Bókaútgáfunni Sölku. Tilvitnanir. 2. apríl 2005 - Um efnahagsmál "Greinin „Eldarnir loga en kann Halldór á fiðlu?“ í Morgunblaðinu 2. apríl 2005" 14. maí 2004 - Alþingisumræður um fjölmiðlafrumvarpið Togvíraklippur. Skýringarmynd sem sýnir hvernig togvíraklippunum er beitt. Togvíraklippur eru áhald sem notað er til þess að klippa á togvíra, en það er vírinn sem dregur upp botnvörpu togara. Klippurnar eru íslensk uppfinning og voru fyrst notaðar í þorskastríðunum 1972 og 1975 af Landhelgisgæslunni og komu þær breskum sjómönnum alveg í opna skjöldu. Þeir héldu til að byrja með að klippurnar væru eitthvert hátæknilegt tæki, en því fer fjarri, þær eru mjög einfaldar og er til dæmis ekkert hreyfanlegt í þeim. Hannes Finnsson. Hannes Finnsson (8. maí 1739 – 4. ágúst 1796) fæddist í Reykholti í Borgarfirði. Var hann sonur prestshjónanna þar, séra Finns Jónssonar, sem síðar varð biskup í Skálholti, og Guðríðar Gísladóttur. Hannes útskrifaðist aðeins 16 ára úr Skálholtsskóla vorið 1755 og hélt þegar um sumarið til guðfræðináms við Hafnarháskóla. Reyndi hann þar að auki að kynnast sem flestum greinum, einkum náttúruvísindum, þjóðhagfræði og stærðfræði, auk norrænna fræða. Náði hann einnig góðri kunnáttu í latínu, grísku, hebresku, frönsku og þýsku. Embættispróf í guðfræði tók hann 1763. Á þeim 12 árum, sem Hannes dvaldist samfleytt í Kaupmannahöfn, kynntist hann mörgum helstu fræðimönnum Danmerkur og velunnurum þeirra. Komst hann í einstaka aðstöðu til grúsks og fræðastarfa og nýtti hann sér það samviskusamlega. 1767 sneri Hannes heim í Skálholt til aðstoðar föður sínum við ýmis fræðistörf og var þar næstu 3 árin. 1770 hélt hann aftur til Kaupmannahafnar og dvaldi þar næstu 7 árin við störf í íslenskum fræðum, m.a. útgáfu á fornritum og þeirri miklu kirkjusögu, sem faðir hans hafði sett saman. Á þessum árum gerði hann ferð til Stokkhólms að skoða handrit og er ferðasagan til á prenti. Hannes var vígður aðstoðarbiskup til Skálholts 1777 af Harboe Sjálandsbiskupi. Finnur biskup var farinn að eldast og vildi fá soninn sér til halds og trausts með það fyrir augum, að hann yrði síðar eftirmaður hans. Finnur lét af embætti árið 1785 og var Hannes þá einn biskup. Árið áður höfðu Suðurlandsskjálftar lagt Skálholtsstað meira og minna í rúst og var nú svo komið, að flytja átti biskupsstólinn til Reykjavíkur. Hannes keypti þá Skálholtsstað og fékk að sitja þar áfram sem hann og gerði til æviloka. Hannes var tvígiftur. Fyrri kona hans var Þórunn Ólafsdóttir Stefánssonar stiftamtmanns en hún dó í bólunni 1786. Tveir synir þeirra dóu ungir. 1789 kvæntist hann Valgerði Jónsdóttur sýslumanns frá Móeiðarhvoli. Fjögur börn þeirra komust öll á legg og er af þeim komin Finsen-ættin (Hannes hafði kallað sig "Finsen" á Kaupmannahafnarárum sínum). Á síðustu æviárunum skrifaði Hannes tvö merkustu rit sín: "Um mannfækkun af hallærum á Íslandi" og "Kvöldvökur". Hannes dó hinn 4. ágúst 1796 í Skálholti eftir skyndileg veikindi. Sænsku konungshjónin. Sænsku konungshjónin eru sænski konungurinn Karl Gústaf XVI og drottninginn Silvia Sommerlath. TI-84 Plus serían. TI-84 er vinsæl forritanleg grafísk reiknivél framleidd af Texas Instruments. Á henni er lítið USB tengi. Nine Inch Nails. Nine Inch Nails eða NIN eins og nafnið er stytt er bandarísk rokkhljómsveit sem spilar industrial tónlist en einnig róleg lög sem einkennast oft af píanóleik, hún var stofnuð árið 1988 í Cleveland í Ohio af Trent Reznor. Öllum útgáfum hljómsveitarinnar er auk venjulegs titils gefið nafn í forminu „Halo i“ þar sem i er hækkandi heiltala, fyrsta útgáfa sveitarinnar, smáskífan Down in It var þar með Halo 1 og síðasta útgáfan, tónleikaupptakan And All That Could Have Been Halo 17. Textar sveitarinnar einkennast oft af miklu sjálfshatri og vonleysi, frá og með breiðskífunni The Fragile hefur þó færst meiri von í textana og tónlistina en sú útgáfa endurspeglaði langa baráttu Reznors við tvískautaröskun og þunglyndi en hann lét hafa eftir sér í viðtali árið 1999 við Rolling Stone magazine: „It just took me time to sit down and change my head and my life around. I had to slap myself in the face: ‚If you want to kill yourself, do it, save everybody the fucking hassle. Or get your shit together.‘“ Reznor er mikill Doom áhugamaður og spilaði Doom og Quake í tónleikaferðum. Hann samdi tónlist fyrir Quake og sjá má NIN merkið á skotfæraboxum fyrir naglabyssuna í leiknum. Norðurlöndin. Fánar þeirra ríkja sem tilheyra Norðurlöndunum Norðurlöndin er samheiti sem notað er yfir fimm lönd í Norður-Evrópu: Ísland, Finnland, Svíþjóð, Noreg og Danmörku. (Stundum er orðið Skandinavía notað í sömu merkingu.) Lönd þessi eru einnig öll aðildarríki að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Einnig eru sjálfstjórnarlöndin Áland, Færeyjar og Grænland aðilar að ráðinu og ráðherranefndinni. Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru nú aðilar að Evrópusambandinu og Ísland og Noregur nátengd með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samstarfinu. Sjálfstjórnarsvæðin Færeyjar og Grænland standa utan Evrópusambandsins. Saga Norðurlanda. Saga Norðurlanda hefur verið samtvinnuð frá upphafi, frá því að ríki fóru að myndast á tíundu öld einkenndust samskipti þeirra lengi vel mest af valdabaráttu, styrjöldum og ágreiningi. Alþingiskosningar. Úrslit alþingiskosninga 1963-2007. Sýnd eru þau framboð sem náð hafa mönnum á þing tvisvar eða oftar í röð. Alþingiskosningar eru kosningar til íslenska löggjafarþingsins, Alþingis. Alþingiskosningar fara að jafnaði fram á fjögurra ára fresti nema þing sé rofið áður en kjörtímabili lýkur. Kosningarétt hafa allir íslenskir ríkisborgarar yfir 18 ára aldri sem hafa átt lögheimili á Íslandi, hafi maður verið búsettur erlendis lengur en 8 ár þarf þó að sækja sérstaklega um kosningaréttinn. Kjörgengi hafa allir þeir sem hafa kosningarétt og óflekkað mannorð en hæstaréttardómarar eða umboðsmaður Alþingis eru þó ekki kjörgengir né heldur Forseti Íslands. Kosningarnar eru listakosningar, fulltrúar eru valdir af framboðslistum í samræmi við fjölda atkvæða. Landinu er skipt upp í 6 kjördæmi. Þingkosningar. Þingkosningar eru kosningar þar sem borgarar lýðræðisríkis kjósa sér fulltrúa á þing. Kosningarnar fara fram með reglulegu millibili eins og t.d. fjögurra ára fresti á Íslandi. Latína. Latína er tungumál sem var upphaflega talað á því svæði í kringum Róm sem heitir Latium en varð mun mikilvægara þegar rómverska heimsveldið breiddist út um Miðjarðarhafið og Mið-Evrópu. Öll rómönsk tungumál eiga rætur sínar að rekja til latínu og mörg orð sem byggð eru á latínu finnast í öðrum tungumálum nútímans eins og t.d. ensku. Latína var "lingua franca" stjórnmála og vísinda í um þúsund ár, en á 18. öld fór franska einnig að ryðja sér til rúms sem og enskan á 19. öld en við lok 18. aldar höfðu þjóðtungurnar vikið latínunni til hliðar. Latína er enn formlegt tungumál rómversk-kaþólsku kirkjunnar og þar á meðal Vatíkansins. Ítalska er það núlifandi tungumál sem líkist mest latínu. "Bókmál" var til forna haft um (kirkju)latínu. Elstu textar sem varðveist hafa eru frá um 600 f.kr. en bókmenntir hefjast ekki að ráði fyrr en á annarri til þriðju öld f.Kr. Föll. Föll í latínu (eintala: "casus" „fall“, fleirtala: "casi" „föll“) eru 7 talsins, og eftirfarandi er tæmandi listi yfir þau; þar sem íslenska heitið kemur fyrst, og það latneska í sviga á eftir. Lúxemborg. Stórhertogadæmið Lúxemborg er landlukt smáríki í Vestur-Evrópu. Það á landamæri að Frakklandi í suðri, Þýskalandi í austri og Belgíu í vestri og norðri. Lúxemborg hefur í aldanna rás tilheyrt ýmsum konungs- og keisaradæmum en fékk ásamt Belgíu sjálfstæði frá Hollendingum að loknum Napóleonsstyrjöldunum árið 1815. Landið öðlaðist þó ekki viðurkenningu á alþjóðavettvangi fyrr en árið 1838. Lúxemborgarbúar þurftu að þola hernám Þjóðverja í bæði fyrri og seinni heimsstyrjöld. Lúxemborg gerðist stofnaðili að bæði Sameinuðu þjóðunum og NATO og síðar Efnahagsbandalagi Evrópu. Þá lék Lúxemborg stórt hlutverk í ævintýralegri sögu Loftleiða þegar ríkið var næstum hið eina sem leyfði Loftleiðavélum að lenda á flugvelli sínum en í landinu var ekkert ríkisflugfélag starfandi sem hefði getað tapað á samkeppni við Loftleiðir í Ameríkufluginu. Loftleiðir settu aftur á móti stórt strik í reikning flugfélaga á borð við SAS, Lufthansa og önnur ríkisrekin flugfélög í Evrópu með því að bjóða flugferðir til Norður-Ameríku á mun lægra verði en áður hafði þekkst. Þá var tollabandalag Lúxemborgar, Hollands og Belgíu, svokallað BeNeLux-samband, vísir að Kola- og stálbandalagi Evrópu, sem seinna varð Efnahagsbandalag Evrópu og loks Evrópubandalagið, en það er nú uppistaðan í Evrópusambandinu. Í Lúxemborg hefur smám saman vaxið upp ein öflugasta fjármálamiðstöð heims, en sú starfsemi er helsta tekjulind landsmanna auk nokkurra stálsmiðja í norðanverðu stórhertogadæminu. Lúxemborg (aðgreining). Lúxemborg er evrópskt örnefni sem vísar til ýmissa staða og stofnana og er einnig notað sem kenninafn (ættarnafn). Athugið að þegar átt er við ríkið Lúxemborg eða einstaka hluta þess er á erlendum málum ýmist notuð stafsetningin "Luxemburg" (þýskt) eða "Luxembourg" (franskt). Örnefni og stofnanir í Belgíu og Frakklandi eru ávallt rituð samkvæmt frönskum hætti. Bláberjasulta. Bláberjasulta er sulta gerð úr bláberjum, venjulega samanstendur hún af um 700-1000 grömmum af sykri á móti hverju kílói af bláberjum. Venjulega er ekki settur hleypir í sultuna því að bláberinn sjálf innihalda hleypiefni. Bláber. Bláber eru ávextir ákveðinna lynga af bjöllulyngs-ættkvíslinni, lyngið sem berin vaxa á er kallað bláberjalyng. Berin eru vinsæl til matargerðar hjá mannfólkinu en einnig eru þau í miklu uppáhaldi hjá mörgum dýrum m.a. þröstum. Á Íslandi þroskast þau yfirleitt ekki fyrr en seint í ágúst sem flest önnur ber. Næring. Talið er að efni í bláberjum sem heitir pterostilbene geti dregið úr hættu að fá krabbamein í ristli. Succubus. Succubus er goðsögn frá miðöldum (fleirtala "succubi"; á latínu succubare eða „að liggja undir“), sem er kvenkyns djöfull sem tælir menn, sérstaklega munka, í draumum eða tælir þá til að hafa mök við sig, og dregur þannig orku úr þeim sem viðheldur hennar eigin lífi, oft þar til að fórnarlambið er örmagna eða deyr. Þessi goðsögn er talinn hafa orðið til, sem útskýring á blautum draumum. Lilith og Lilin (úr gyðingdóm), Lilitu (Súmeríska) og Rusalka (Slavneska) eru þekktir succubi djöflar. Til er karlkyns útgáfa af þessari goðsögn sem kallast Incubus. Vísir (stærðfræði). 5² = 5 ⋅ 5 ⋅ 1 Vísir (eða vísitala) er í stærðfræði tala sem er brjóstvísir (og kallast þá veldisvísir) eða hnévísir, sem brjóstvísir stendur hún með veldisstofn og táknar fjölda skipta veldisstofninn er margfaldaður með sjálfum sér, auk þess sem hann er margfaldaður með tölunni 1. Liðvísir er vísir liðar í runu eða röð. Vísisimengi er mengi vísa allra staka í öðru mengi og er hlutmengi í mengi náttúrlegra talna. Vísisfall er fall, þar sem breytistærðin er veldisvísir. Carl Gustav Jacob Jacobi. Carl Gustav Jacob Jacobi (10. desember 1804 – 18. febrúar 1851) var þýskur stærðfræðingur. Hann átti hlut að máli við þróun svokallaðra elliptískra falla, en það er flokkur falla sem kemur fram við andhverfur sérstakra heilda. Með því að beita elliptískum föllum innan talnafræðinnar (number theory) tókst honum að sanna ályktun Fermats um það að sérhverja náttúrulega tölu mætti skrifa sem summu fjögurra eða færri ferningstalna. Hann átti líka þátt í þróun ákveða af fylkjum og í aflfræði. Tengt efni. Jacobi, Carl Gustav Jacob Vingjarnlegar tölur. Vingjarnlegar tölur kallast á ensku: "„amicable numbers“". Þá er átt við par af heilum pósitífum tölum sem eru þannig, að hvor talan um sig er jöfn summu allra heiltalna, sem ganga upp í hinni tölunni. Þannig eru til dæmis tölurnar 220 og 284 vingjarnlegar tölur, því að þær sem ganga upp í 220 eru 1, 2, 4, 5, 10, 11, 20, 22, 44, 55, 110 með summuna 284, og þær sem ganga upp í 284 eru 1, 2, 4, 71, og 142 með summuna 220. Slík talnapör voru þekkt hjá Pyþagóringum og frá þeim er nafnið komið. Fermat fann vingjarnlega talnaparið 17296 og 18416. Euler bjó til lista yfir 64 talnapör sem eru vingjarnleg. Árið 1867 fann 16 ára ítalskur drengur næstminnsta talnaparið, sem er 1184 og 1210, en Euler hafði ekki tekið eftir því. Nú eru mörg hundruð slík talnapör þekkt, en enn þá hefur ekki verið sannað hvort fjöldi slíkra para er óendanlegur eða ekki. Fullkomin tala. Fullkomin tala er náttúruleg tala, sem hefur þann eiginleika, að summa allra þátta tölunnar (þó ekki talan sjálf) er jöfn tölunni sjálfri. Minnsta fullkomna talan er 6 en tölur sem ganga upp í hana eru 1, 2 og 3 og summa þeirra er 6, þar af leiðandi er 6 fullkomin tala. Önnur dæmi eru 28 (= 1 + 2 + 4 + 7 + 14) og 496. Það eru jafn margar fullkomnar tölur þekktar og fjöldi Mersenne frumtalna. Ef 2p-1 er frumtala, þá er (2p-1)(2p-1) fullkomin tala. Eingöngu er vitað um sléttar fullkomnar tölur en þó er ekki vitað hvort það séu til fullkomnar oddatölur eða ekki. Aðfeldi. Aðfeldi (einnig er kölluð hrópmerking) er aðgerð, framkvæmd á náttúrulegum tölum og núlli, táknuð með "n!". Merking táknsins "n!" er sú, að reiknað er margfeldi allra náttúrlegra talna frá einum til tölunnar "n". Þannig fæst 1! = 1; 2! = 1formula_12 = 2; 3! = 1formula_12formula_13 = 6; 4! = 1formula_12formula_13formula_14 = 24 og svo framvegis. n! er lesið „"n hrópmerkt"“ eða „"aðfeldið af n"“. Auk þess er skilgreint að 0! = 1. Þetta hefur hagnýtt gildi til dæmis þegar athugað er á hve marga vegu er hægt að raða n mismunandi hlutum upp. Dæmi: Hve mörg mismunandi fjögurra stafa „orð“ er hægt að mynda úr bókstöfunum a, b, c og d? Þar sem stafirnir eru 4, þá er þetta hægt á 4! mismunandi vegu, það er að segja að 24 mismunandi 4 stafa orð eru til sem innihalda eingöngu þessa stafi. Einnig í verkefnum eins og þessu: Á hve marga mismunandi vegu er hægt að velja þrjá menn úr tíu manna hópi? Svarið við þessu er formula_7, þar sem n táknar heildarfjöldann (10) og k táknar þann fjölda, sem valinn er úr heildinni (3). Þá fæst að hægt er að velja 3 úr 10 á C = formula_8 = 120 mismunandi vegu. Þegar við kaupum lottó er gott að vita á hve marga vegu er hægt að velja 5 tölur úr 38 talna hópi. Svarið við því er formula_9, sem gefur töluna 501.942. Þess vegna eru vinningslíkur (5 réttir) á hverja röð í lottó einungis 1:501.942 eða nokkurn veginn 0,0002%. formula_10 fyrir öll heil n frá 1 til óendanlegt. Deilum í gegnum jöfnuna með n og fáum formula_11 sem gildir fyrir öll n frá 1 til óendanlegt Setjum nú formula_12 og fáum þá formula_13 eða augljóslega formula_14. Gammafallið er útvíkkun aðfeldis á tvinntalnasléttuna. Þýska. Þýska (þýska: Deutsch;) er tungumál, sem talað er og ritað aðallega í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Þýska tilheyrir germönskum málum, eins og danska, norska, sænska, íslenska, færeyska, enska og hollenska. Germönsk mál flokkast síðan til indó-evrópskrar málaættar og eru fjarskyld málum eins og til dæmis sanskrít. Einkenni. Þýska er nokkuð lík íslensku hvað varðar málfræði, m.a. varðandi beygingar á fallorðum. Nafnorðin sjálf hafa oftast sömu beygingarmynd í eintölu, ákvæðisorðin sem stýra fallinu breytast hins vegar. Undantekningar frá þessu eru eignarfallsmyndir karlkyns og hvorugkyns nafnorða, veik og óreglulega beygð nafnorð auk karlkynsorða af erlendum uppruna. Nafnorðin hljóðvarpast sum hver í fleirtölu og eða bæta við sig endingu. Ólíkt flestum málum skyldri þýsku eru öll nafnorð og ávarpsfornöfn rituð með stórum staf og þérun er algeng. Í þýska stafrófinu er líka bókstafurinn ß („das Eszett“) sem ekki er að finna í öðrum germönskum málum. Setningarfræði í þýsku er ólík þeirri íslensku að því leyti að aðalsagnir sem fylgja hjálparsögnum koma aftast í setningar. Eins standa öll sagnorð í aukasetningum aftast. Mersenne-frumtölur. Mersenne-frumtala er frumtala á forminu (2p-1), þar sem p er frumtala. Franski munkurinn Marin Mersenne rannsakaði slíkar tölur. Þekktar er 46 Mersenne-frumtölur og stærst þeirra er talan (243.112.609 − 1), sem jafnframt er stærsta þekkta frumtalan (september 2008). Ekki eru allar tölur á forminu (2p-1) frumtölur, t.d. er talan (211-1) ekki frumtala. Stórt verkefni er í gangi á Internetinu um að finna Mersenne-frumtölur, þar sem að þær tölur hafa mikla þýðingu fyrir dulkóðun og ýmsa aðra strjála útreikninga. Verkefnið hefur fundið sjö af tíu stærstu þekktu frumtölum heims, þar af þá stærstu sem var fundin í september 2008, en hún er 12978189 tölustafir að lengd. Marin Mersenne. Marin Mersenne (8. september 1588 – 1. september 1648) var franskur munkur. Hann var stærðfræðingur og heimspekingur og var mikilvægur tengiliður á milli samtímamanna sinna, svo sem Descartes, Fermats, Galileos og Pascals auk annarra. Um hann var sagt: „"Það að segja Mersenne frá uppgötvun jafngildir því að básúna hana út um alla Evrópu".“ Þetta var ekki meint sem hrós, því að oft vildu fræðimenn halda uppgötvunum sínum leyndum á þessum tíma. Mersenne fékkst við það að reyna að finna formúlu fyrir frumtölur, nokkuð sem margir hafa reynt við en engum tekist. Í þeirri leit sinni fékkst hann við tölur af gerðinni (2p-1) þar sem p er frumtala og taldi að allar slíkar tölur væru frumtölur. Það var hinsvegar ekki rétt hjá honum því að talan (211-1)= 2047 þáttast í 23formula_189. Tölur af þessari gerð nefnast Mersenne-tölur og þær þeirra sem eru frumtölur kallast Mersenne-frumtölur. Mersenne, Marin Mersenne, Marin Galíleó Galílei. Galileo Galilei (15. febrúar 1564 – 8. janúar 1642) var ítalskur stærðfræðingur, stjörnufræðingur og eðlisfræðingur. Hann var upphafsmaður þess að samhæfa kenningu og tilraunir í eðlisfræði. Hann leiddi út lögmálið um jafna hröðun fallandi hlutar, s = (1/2)at² og sannreyndi það með tilraunum. Einnig leiddi hann út fleygbogaferil hlutar á flugi í þyngdarsviði. Hann endurbætti sjónaukann og gerði fyrstur manna merkar og framúrskarandi athuganir með sjónauka á stjarnfræðilegum fyrirbærum. Seinna á ævi hans olli stuðningur hans við kenningar Kópernikusar um það að reikistjörnurnar gengju umhverfis sólina árekstri við kirkjuna og sat hann í stofufangelsi vegna þessara kenninga sinna. Hann hefur alla tíð verið gífurlega mikils metinn fræðimaður og sést það best á því að hann hefur verið nefndur „faðir nútíma stjarnfræði“, „faðir nútíma eðlisfræði“ og „faðir vísindanna“. Tenglar. Galilei, Galileo Galilei, Galileo Afstæðiskenningin. a> setti fram almennu og takmörkuðu afstæðiskenninguna. Afstæðiskenningin (stundum kölluð Afstæðiskenning Einsteins) er mikilvæg kenning í nútímaeðlisfræði, sem sett var fram í tveimur hlutum af Albert Einstein: almennu afstæðiskenningunni og þeirri takmörkuðu. Sú fyrri er almenn kenning um þyngdarafl og sú takmarkaða fjallar um klassíska aflfræði þegar hlutir ferðast nálægt ljóshraða. Þótt Einstein byggði verk sitt á þekktum niðurstöðum þá vantaði samhengið sem hann gaf til að fullkomna verkið. Grunnhugmyndin á bakvið báðar kenningarnar er sú að tveir athugendur í sitthvoru tregðukerfinu mæla mismunandi hraða og vegalengd á sama hlutnum en öll eðlisfræðilögmál eru óbreytt á milli tregðukerfa. Þ.e.a.s. mælendur í tveim mismunandi tregðukerfum mæla kannski mismunandi hröðun á hlut en krafturinn á hlutinn fylgir samt sem áður 2. lögmáli Newtons formula_1 Áður en afstæðiskenningin kom til sögunnar höfðu menn vissulega ýmsar heildstæðar og ágætlega nytsamlegar hugmyndir eða kenningar um viðfangsefni eðlisfræðinnar. Kjarni þessara hugmynda var byggður á aflfræði Newtons. En auk hennar höfðu menn um aldamótin 1900 einnig gert sér skýrar hugmyndir til dæmis um rafsegulfræði. Þegar spurt er hvernig vísindakenning geti „útskýrt betur hvað er að gerast“, þá ber að miða við þessar eldri kenningar og hugmyndir. Spyrja má hvar afstæðiskenninguna greinir á við eldri kenningar í forspám sínum og útskýringum á því sem fyrir augu ber í athugunum og tilraunum. Þegar slík frávik koma fyrir eru forspár og skýringar afstæðiskenningarinnar alltaf réttari og betri en þær eldri og því er hún almennt talin réttari kenning. Á hinn bóginn er að vísu athyglivert að eldri aðferðir eru samt sem áður oft notaðar áfram, en það er annars vegar af því að þær eru einfaldari og meðfærilegri, og hins vegar vegna þess að frávikin eru þá svo lítil að þau mælast alls ekki. Miðsóknarafl í sígildri aflfræði er kraftur sem heldur hlut á braut um tiltekinn miðpunkt. Dæmi um miðsóknarkrafta eru togkraftur í slöngvivað sem heldur steini á hringhreyfingu um hendi veiðimanns, rafkraftur á ögn með rafhleðslu sem hreyfist á braut um ögn með andstæða hleðslu eða þyngdarkraftur á fylgihnött sem gengur á braut um sólstjörnu. Þar sem spurningin lýtur að þyngdaraflinu skulum við skoða síðasta dæmið nánar. Í viðmiðunarkerfi þar sem sólstjarnan er kyrrstæð gengur fylgihnötturinn eftir sporbaug og miðja sólstjörnunnar er í öðrum brennipunkti sporbaugsins. (Réttara sagt er annar brennipunktur sporbaugsins í massamiðju kerfisins en ef stjarnan hefur miklu meiri massa en fylgihnötturinn þá eru massamiðjan og miðja stjörnunnar nánast á sama stað.) Í þessu viðmiðunarkerfi veldur þyngdarkrafturinn frá stjörnunni hröðun sem fær fylgihnöttinn til að breyta hreyfingarstefnu sinni í sífellu þannig að hann fylgi sporbaugnum en þeytist ekki út í buskann. Í þessu samhengi er talað um að þyngdarkrafturinn sé afl sem fái fylgihnöttinn til að sækja í átt að miðju stjörnunnar, það er að þyngdarkrafturinn sé miðsóknarafl. Í almennu afstæðiskenningunni, sem er kenning Einsteins um þyngdaraflið, er hreyfingu hluta lýst með öðrum hætti en tíðkast í sígildri eðlisfræði. Í kenningunni er ekki litið svo á að þyngdarkraftar verki milli hluta heldur er þyngdaráhrifum lýst út frá rúmfræðilegum eiginleikum tíma og rúms. Í sígildri eðlisfræði er hreyfing hluta í þrívíðu evklíðsku rúmi mæld í algildum tíma, sem tifar áfram óháð öllu sem fram fer. Í afstæðiskenningunni er rúmi og tíma fléttað saman í eina heild, svonefnt tímarúm sem hefur fjögur hnit: þrjú rúmhnit og eitt tímahnit. Jöfnur Einsteins lýsa því hvernig efnið, eða réttara sagt sú orka sem fólgin er í efninu, hefur áhrif á tímarúmið. Hið stærðfræðilega tungumál sem Einstein notaðist við er svonefnd deildarúmfræði (einnig nefnd diffurrúmfræði) sem er alhæfing á hinni aldagömlu rúmfræði Evklíðs og tekur til rúma sem búa yfir sveigju. Kunnuglegt dæmi um sveigt rúm er kúluyfirborð, eins og yfirborð jarðar. Ef slíkt rúm er aðeins skoðað í grennd við tiltekinn punkt þá er erfitt að greina frávik frá hefðbundnu sléttu rúmi, sem í þessu tilfelli væri tvívíð slétta eða plan, enda skjóta öðru hvoru upp kollinum hugmyndir um að jörðin sé flöt. Munurinn verður hinsvegar augljós þegar kúluyfirborðið í heild sinni er skoðað. Nú telur tímarúm afstæðiskenningarinnar fjórar víddir, og ein þeirra er á ýmsan hátt frábrugðin hinum þremur, þannig að það er erfitt að sjá rúmfræði þess fyrir sér á sama hátt og tvívítt kúluyfirborð. Hinar almennu reglur deildarúmfræðinnar eru engu að síður í fullu gildi og reiknireglur afstæðiskenningarinnar eru vel skilgreindar. Í grófum dráttum lýsir kenningin því hvernig efni veldur sveigju tímarúmsins í nágrenni við sig og hún segir fyrir um hreyfingu efnisagna sem verða fyrir þyngdaráhrifum frá efni í kring. Ef engir aðrir kraftar, eins og rafkraftar eða togkraftar frá snúrum, verka á tiltekna ögn þá hreyfist hún eftir svonefndum gagnvegi í tímarúminu, en það er stysta leið milli tiltekinna punkta og svarar þannig til beinnar línu í evklíðskri rúmfræði. Gagnvegir á yfirborði jarðar eru svonefndir stórbaugar. Allir lengdarbaugar eru stórbaugar en breiddarbaugar (aðrir en miðbaugur) eru það ekki. Til dæmis liggur stysta leið frá Reykjavík til Fairbanks í Alaska ekki eftir 64. breiddarbaug beint í vestur heldur eftir stórbaug sem liggur í norðlægari stefnu frá Reykjavík. Fyrsta lögmál Newtons er á þá leið að hlutur sem enginn kraftur verkar á hreyfist með jöfnum hraða eftir beinni línu í rúminu. Í vissum skilningi á þetta lögmál einnig við í afstæðiskenningunni þar sem þyngdarsvið kemur fram sem sveigja tímarúmsins. Í kenningunni verka nefnilega engir þyngdarkraftar og hlutir hreyfast eftir gagnvegum sem eru þær leiðir sem komast næst því að vera beinar línur í hinu sveigða tímarúmi. Þó að ögn fari jafnan stystu leið í tímarúminu getur ferill hennar í þrívíðu rúmi verið talsvert frábrugðinn beinni línu. Skoðum aftur dæmið um fylgihnött á braut um sólstjörnu. Í þessu tilfelli sveigir stjarnan tímarúmið umhverfis sig og fylgihnötturinn ferðast eftir gagnvegi, sem er stysta leið á milli punkta í hinu sveigða tímarúmi. Frá sjónarhóli þrívíða rúmsins lýsir þessi sami gagnvegur hinsvegar brautarhreyfingu eftir sporbaug á ákveðnum hraða á hverjum tíma. formula_2 Skemmst er frá því að segja að frávik afstæðiskenningarinnar frá eldri kenningum eru mörg og veigamikil og birtast í mikilvægum fyrirbærum allt í kringum okkur. Þessi frávik eru bæði megindleg og eigindleg (quantitative and qualitative) sem kallað er; þau koma fram annars vegar í mismunandi útkomum úr tölulegum forsögnum eða útreikningum sem eru bornar saman við mælingar og hins vegar í því að ýmislegt sem gerist eða ber fyrir augu er hreinlega allt öðru vísi samkvæmt afstæðiskenningunni en samkvæmt eldri hugmyndum. Samkvæmt eldri hugmyndum töldu menn að til væri svokallaður ljósvaki sem bæri ljós og aðrar rafsegulbylgjur milli staða svipað og loft og önnur efni bera hljóðið sem við heyrum. Tilraunir Michelsons og Morleys á síðustu tveimur áratugum 19. aldar sýndu hins vegar að þessi ljósvaki er ekki til. Þetta var eitt af því sem hvatti Einstein til dáða enda leysir kenning hans úr þeim vanda sem þarna kom upp. Samkvæmt henni getur ljósið borist um tómarúm en jafnframt kemur upp úr kafinu að hraði þess er óháður athuganda og hreyfingu hans. Takmarkaða afstæðiskenningin segir fyrir um það að massi hluta fari eftir hraða þeirra. Safneðlisfræði. Safneðlisfræði er grein innan eðlisfræðinnar þar sem beitt er tölfræði til að vinna með safn smásærra einda og aflfræði þeirra. Hún veitir grundvöll til að tengja smásæja eiginleika einda við stórsæja eiginleika hluta sem eindirnar mynda og veitir þar með tengingu á milli aflfræði (klassískrar og skammtafræðilegrar) og varmafræði, sem fyrir tíma safneðlisfræðinnar var yfirleitt byggð á reynslu lögmálum. Nafnorð í þýsku. Nafnorð í þýsku hafa þau séreinkenni að byrja alltaf á hástaf, hvort sem þau eru sérnöfn eða ekki. Þetta er samkvæmt "Rechtschreibereform" en áður var mjög mismunandi hvaða nafnorð hófust á stórum staf og hver ekki. Eins og í íslensku, þá fallbeygjast þau en hins vegar er greinirinn ekki viðskeyttur í fallbeygingu. Kyn. Kyn nafnorða (Genus der Substantive) eru ekki alltaf þau sömu og í íslensku og getur reynst erfitt að læra þau, en það eru samt ákveðin grunnatriði sem hægt er að miða við. Þegar um er að ræða samsett orð, þá er það síðasta orðið sem ræður kyni. Fallbeyging. Fallbeyging í þýsku er nokkurn veginn eins og í íslensku, nema að greinirinn er ekki hafður viðskeyttur, heldur er í sér orði. Sjá „Greinir í þýsku“ fyrir nánari upplýsingar um greininn. Nafnorðið er óbreytt í gegnum fallbeygingu nema í eignarfalli í eintölu karlkyni og hvorugkyni og síðan þágufalli fleirtölu. Nafnorð í eignarfalli eintölu bæta við sig annað hvort -es eða -s. Nafnorð í þágufalli fleirtölu bæta alltaf við sig -n. Kenniföll nafnorða eru nefnifall eintölu, eignarfall eintölu og nefnifall fleirtölu. Veik beyging karlkynsorða. Ekki öll karlkynsorð beygjast reglulega og eru til undantekningar frá þeirri reglu. 1) Orð af erlendum stofni sem hafa áherslu á síðasta atkvæði. 2) Flest orð sem enda á -e beygjast veikt og taka þá að sér -en eða -e endingu í öllum föllum, nema nefnifalli eintölu. Dæmi um það eru orðin Junge, Däne, Kunde. Käse tekur þó ekki að sér veika beygingu. 3) Einhver önnur algeng orð. Dæmi: Herr og Bauer. HIM. HIM er finnsk metal hljómsveit. Þeir urðu frægir í Evrópu með smáskífunni „Join Me In Death“ eða „Join Me“, sem komst á topplista í Þýskalandi árið 2000. Stíll. Menn hafa lengi deilt um það hvernig flokka eigi HIM, tónlistarstíllinn er gjarnan nefndur „love metal“ af söngvara hljómsveitarinnar og mörgum aðdáendum hennar. Ville Valo hefur sagt að hljómsveitinn hafi í upphafi verið „nokkurs konar Black Sabbath lofhljómsveit“, sem rennir stoðum undir þá skoðun að hljómsveitin hneigist til metalsins. Á "Love Metal Archives" DVD–disknum segir Valo í viðtali að hann hafi fengið nóg af spurningum fréttamanna og spyrla um hvernig flokka eigi HIM. Hann sagði að til að svara þeirri spurningu hefðu þeir búið til plötu sem kölluð var "Love Metal". Meðlimir hljómsveitarinnar. Núverandi meðlimir eru: Ville Valo, Emmerson Burton, Gas Lipstick, Lilly Lazor og Mige Amour. Gítaristinn Lilly Lazer er líka í annarri hljómsveit, "Daniel Lioneye" með Amour og Valo. The O.C.. "The O.C." (O.C. stendur fyrir Orange County) er bandarísk drama sjónvarpsþáttaröð (sápuópera) sem er sýnd á Fox sjónvarpsstöðinni. Halldór Ásgrímsson. Halldór Ásgrímsson endurskoðandi og alþingismaður (f. 8. september 1947 á Vopnafirði) var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra Íslands. Hann sat á Alþingi Íslendinga, 1974-78 og síðan 1979-2006. Halldór lét af þingmennsku að loknu flokksþingi Framsóknarflokksins í ágúst 2006, eftir 31 árs setu á þingi, en hann var starfsaldursforseti þingsins er hann lét af þingmennsku. Halldór gegndi ráðherraembætti nær samfellt í tvo áratugi, rúm 19 ár, og hefur aðeins Bjarni Benediktsson gegnt lengur ráðherraembætti í stjórnmálasögu landsins. Halldór var sjávarútvegsráðherra 1983 – 1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988 – 1989, ráðherra norrænnar samvinnu 1985 – 1987, utanríkisráðherra 1995 – 2004 og forsætisráðherra 2004 – 2006. Halldór sat á þingi fyrir Austurlandskjördæmi, fyrst 1974 - 1978 og síðar 1979 - 2003, og loks fyrir Reykjavík norður 2003 - 2006. Halldór tók við af Davíð Oddssyni sem forsætisráðherra þann 15. september 2004. Hann er fimmtándi maðurinn sem gegnir embætti forsætisráðherra frá stofnun lýðveldisins. Þann 5. júní 2006 tilkynnti Halldór Ásgrímsson að hann hygðist hætta sem forsætisráðherra og sem formaður Framsóknarflokksins. Þessi tilkynning kom í kjölfar slæms gengis Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningum. Halldór lét af embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi þann 15. júní 2006 og lét með því af ráðherraembætti eftir rúmlega 19 ára setu í ríkisstjórn samtals. Halldór lét af formennsku í Framsóknarflokknum á flokksþingi þann 19. ágúst 2006, eftir að hafa verið formaður og varaformaður flokksins í rúmlega aldarfjórðung samfellt, sem varaformaður 1980 - 1994 og formaður 1994 - 2006. 1. janúar 2007 tók Halldór við sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og sinnti hann því embætti til ársins 2013. Grindavík. Grindavík er bær á sunnanverðum Reykjanesskaga. Sjávarútvegur er aðalatvinnugrein enda er Grindavík einn öflugasti útgerðarbær landsins en stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin eru Þorbjörn, Vísir og Stakkavík. Í auðlinda- og menningarhúsinu Kvikunni eru sýningarnar Saltfisksetur, saga saltfiskvinnslu á Íslandi, og Jarðorka, sýning um jarðhita, eldivirkni og jarðskjálfta. Land Grindavíkur nær frá Reykjanestá og austur að sýslumörkum Árnessýslu, en Krýsuvík heyrir þó undir Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn Bjarni Sæmundsson fæddist og ólst upp í Grindavík. Þar er einnig fæddur Guðbergur Bergsson rithöfundur. Þá bjó héraðslæknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns í Grindavík. Í Grindavík hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð Siglingastofnunar Íslands síðan 1995 en árið 2008 setti Veðurstofan einnig upp sjálfvirka stöð. Í Grindavík er Ungmennafélag Grindavíkur og á UMFG lið í efstu deildum bæði í körfuknattleik og fótbolta. Grindavík er einnig þekkt fyrir öflugt björgunar- og slysavarnastarf en þar er Björgunarsveitin Þorbjörn, ein af öflugri björgunarsveitum landsins. Þá var frumkvöðull slysavarna á Íslandi, síra Oddur V. Gíslason, prestur á Stað í Grindavík á árunum 1878-1894, en samhliða preststörfum þar réri hann til fiskjar og hóf þá mikla baráttu fyrir öryggismálum sjómanna. Björgunarskip Grindvíkinga er nefnt eftir Oddi V. Gíslasyni. Þáttun. Þáttun er aðgerð í algebru, sem felst í að finna alla þætti heiltölu eða margliðu. Liðun er andstæða þáttunar. Þáttun margliða. Margliður eru oftast settar fram á forminu formula_1, þar sem formula_2 er einhver fasti. Oft viljum við samt fá margliðuna þáttaða, t.d. til að finna núllstöðvar hennar. Þáttun margliðunnar formula_3 er formula_4, sem dæmi. Þáttunaraðferðir. formula_5 (öfug samokaregla eða summa sinnum mismunur) formula_6 formula_7 formula_8 formula_9 Frumtöluþáttun heiltalna. Vinsælt efni í nútímastærðfræði er frumþáttun heiltalna, sem felst í að finna alla frumtöluþætti heiltölu. T.d. hefur talan 15 frumþættina 3 og 5, þ.e. formula_10. Eftir því sem talan verður stærri verður erfiðara að finna frumtöluþætti hennar en þetta hefur notagildi i dulmálsfræði. Margir dulmálskóðar í dag byggja á því að ekki er hægt að þátta stórar heiltölur nema á mjög löngum tíma, t.d. RSA dulkóðunin.Ef við til dæmis hugsum okkur tvær mismunandi frumtölur, sem hvor um sig hefði svona 200 tölustafi og margföldum þær síðan saman, þá fengist tala sem væri með eitthvað nálægt 400 tölustöfum. Fengi nú einhver það verkefni að þátta slíka tölu þá gæti það tekið hann margar aldir, jafnvel þótt verkið væri unnið í öflugum tölvum. Um þetta er fjallað á skemmtilegan hátt í bókinni "The Code Book", eftir Simon Singh (og víðar). Nanjing fjöldamorðin. Nanjin fjöldamorðin eða það sem hefur stundum verið kallað upp á ensku „The Rape of Nanking“ (íslensk þýðing: „?“), er samheiti yfir þá glæpi sem sem Japanir frömdu gagnvart Kínverjum eftir að hafa hertekið borgina Nanjin í bardaganum um Nanjing 13. desember 1937 í síðari heimsstyrjöldinni. Japanski herinn nauðgaði og myrti skipulega um 200.000 til 300.000 konum og stúlkum á því tímabili sem þeir héldu borginni (desember 1937 til mars 1938). Latte. "Latte" eða "caffé latte" er kaffidrykkur búinn til með því að hella flóaðri mjólk yfir lögun af espresso. Hlutfallið milli mjólkur og kaffis er venjulega um 5:1, þannig að "caffé latte" hefur miklu meiri mjólk en "cappuccino" þótt stundum sé þessu ruglað saman. Nafnið kemur úr ítölsku en „caffè latte“ þýðir „mjólkurkaffi“, styttingin „latte“ varð algeng í Bandaríkjunum um 1985. Venjan er að bera "caffé latte" fram í háu og mjóu glasi og teskeið með löngu handfangi í. Á kaffihúsum er mjólkin yfirleitt flóuð með heitri gufu úr espressóvélinni, rétt eins og þegar mjólkurfroða er búin til og stundum endar dálítil mjólkurfroða efst. Athugið að ef þú biður um „latte“ á Ítalíu færir þjónninn þér nær örugglega mjólkurglas. GNU/Linux. GNU/Linux er frjálst stýrikerfi sem samanstendur af Linux kjarnanum og GNU tólum. Til eru margar útgáfur af því sem kölluð eru „distro“ (komið af enska orðinu „distribution“, sem þýðir í þessu samhengi útgáfa). 1821. a>. Málverk eftir Sir Thomas Lawrence. Samsæta. Í efnafræði eru samsætur (ísótóp) ólíkar gerðir sama frumefnis, þar sem fjöldi róteinda í frumeind er sá sami (og því kallast það enn sama frumefnið) en fjöldi nifteinda er mismunandi og því massatalan ólík. Samsætur vetnis eru t.d. 1H1 (einvetni), 2H1 (tvívetni) og 3H1 (þrívetni) þar sem upphöfðu tölurnar tákna fjölda kjarnagna (massatölu), en hnévísirinn táknar fjölda róteinda (sætistölu). Liðun. Liðun er aðgerð í algebru þar sem einum eða fleiri þáttum er breytt í liði, oft kallað að „"að margfalda upp úr sviga"“. Fyrst skoðum við einn lið: formula_3. Ef hægt, þá eru liðir sameinaðir, sérstaklega ef þeir eru skilgreindir sem tölur. Í þessu tilviki er ekki hægt að sameina fleiri liði. Þáttun er andstæða liðunar. Nokkrar liðunarreglur. formula_5 (Ferningsregla fyrir summu) formula_6 (Ferningsregla fyrir mismun) formula_7 (Samokareglan) Rasphúsið. Rasphúsið var alræmt fangelsi í Kaupmannahöfn. Þangað voru dæmdir Íslendingar iðulega sendir. Ýmis erfiðisvinna tíðkaðist í fangelsum framan af, meðal annars voru fangar látnir raspa niður tré til litunar. Því voru fangelsi á Norðurlöndum oft uppnefnd rasphús. Orðið „rasphús“ er einnig notað sem Grýla á börn: „"Ef þú gerir þetta aftur verður þú sendur í rasphúsið!"“ Seppuku. Seppuku (切腹, せっぷく) eða harakiri (腹切り, はらきり) er virðuleg sjálfsmorðsaðferð sem samúræjar notuðu við viss skilyrði, henni mætti líkja við helgisið. Hún felst í því að kviðrista sjálfan sig fyrir framan vitni, jafnvel er annar samúræji honum til aðstoðar sem afhöfðar hann örskotsstundu eftir að hann hefur kviðrist sig. Í Japan er siður fyrir því að menn skrifi örstutt ljóð (haiku) fyrir dauðan, margir samúræjar skrifuðu slíkt áður en þeir tóku líf sitt. Bushido. Bushido (武士道) (íslenska „hættir stríðsmansins“) eru siðareglur japanskra stríðsmanna (bushi). Oftast notað yfir siðareglur samúræja, sem eru afar strangar og fylgt af ítrustu nákvæmni. Íslenska stafrófið. þar sem broddarnir (´) yfir sérhljóðum tákna hvorki breytileika í áherslu né lengd heldur annað hljóðgildi. Tveir sérstakir stafir í stafrófinu eru þeir þorn og eð en stafurinn Þ hefur verið í stöðugri notkun í íslensku máli frá upphafi. Stafurinn Z var einu sinni hluti af stafrófinu en var tekinn út árið 1973 vegna þess að z er í íslensku borið fram eins og s og þótti því ástæða til að einfalda stafsetningu. Samtímis var rætt um að fella út y og ý en ekki náðist samstaða um það. Fimm stafir í íslenska stafrófinu tákna tvö hljóð: x é á ó æ Stafirnir C, Q, W, og Z eru ekki notaðir almennt í íslensku, en koma fyrir í sumum nöfnum sem Íslendingar bera, aðallega ættarnöfnum, og finnast á íslensku lyklaborði. Margir telja að þeir ættu að vera með í íslenska stafrófinu, enda er stafrófið fyrst og fremst tæki til þess að raða orðum og/eða nöfnum í "rétta" röð. Séu þessir stafir ekki á ákveðnum stað í stafrófinu getur enginn sagt hvar raða skal nöfnum eins og Carl eða Walter, sem bæði eru vel þekkt hérlendis. Stafrófið var kennt í íslenskum skólum með þessum stöfum allt fram undir 1980. Þá var stafrófið þannig: a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö. Alls 36 stafir. Íslenska stafrófið á uppruna sinn í latneska stafrófinu, sem á rætur að rekja til gríska stafrófsins. Íslenskar stafrófsvísur. A, Á, B, D, Ð, E, É, F, G, H, I, Í, J, K. L, M, N, O, Ó og P, R, S, T, U, Ú, V næst, X, Y, Ý, svo Þ, Æ, Ö. a, b, c, d, e, f, g l, m, n, o, einnig p, ætla eg q þar standi hiá. r, s, t, u eru þar næst x, y, z, þ, æ, ø 1815. Joachim Murat, marskálkur Napóleons og konungur Napólí. Æ. Æ eða æ er þrítugasti og fyrsti bókstafurinn í íslenska stafrófinu, tuttuguasti og áttundi í því færeyska og tuttugasti og sjöundi í því danska, norska og fornenska stafrófinu. Má rekja uppruna þess til þess að munkar sem unnu við endurskrifun á bókum skeyttu gjarnan „A“ og „E“ saman í einn bókstaf til þess að spara pláss, finna má dæmi um þetta í gömlum latneskum ritum. Í alþjóðlega hljóðstafrófinu táknar hann tvíhljóðann /ai/ í Íslensku, tvíhljóðann /εa/ eða sérhljóðann /a/ í færeysku, sérhljóðann /ɛ/ í dönsku og norsku sem táknar þar sama hljóðið og Ä í sænsku og þýsku. Æ og æ eru í Unicode og ISO 8859-1 táknaðir með kóðapunktunum 198 og 230 eða C6 og E6 eins og það er skrifað í sextándakerfinu. 1835. Á Íslandi. Tímaritið Fjölnir hefur göngu sína. Að útgáfunni stóðu svo kallaðir Fjölnismenn. Þeir voru Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Tómas Sæmundsson og Brynjólfur Pétursson. 1838. a> var tekinn í notkun 1838. Alþjóðlega hljóðstafrófið. Alþjóðlega hljóðstafrófið eða Alþjóðlega hljóðritunarstafrófið (enska: "International Phonetic Alphabet", skammstafað IPA) er sérstakt stafróf sem er sérstaklega hannað til að lýsa öllum hljóðum mannlegs máls til hljóðritunar. Það var að frumkvæði Alþjóðlega hljóðfræðifélagsins (e. "International Phonetic Association") árið 1886 sem málvísindamenn hófu að þróa samræmt hljóðritunarstafróf. Nú til dags nýtist það málvísindamönnum, talmeinafræðingum, söngvurum og leikurum svo fátt eitt sé nefnt. Með Alþjóðlega hljóðstafrófinu er leitast við að lýsa áþreifanlegum eiginleikum mælts máls, þá hljóðönum, hljómfalli og niðurgreiningu í orð og atkvæði. Því eru þó takmörk sett þegar kemur að smæstu smáatriðum, en reynt hefur verið að auka á notagildi þess með viðbótartáknum. Þau grunntákn sem stuðst er við í Alþjóðlega hljóðstafrófinu eru stafir og sérmerki (e. diacritics). Hægt er að hljóðrita af mismikilli nákvæmni er stöðugt unnið að því að bæta nákvæmni stafrófsins. Alþjóðlega hljóðfræðifélagið bætir, fjarlægir og breytir táknum eftir þörf. Núorðið eru stafirnir alls 107, sérmerkin 52 og hljómfallstákn fjögur í stafrófinu. Paka-paka. Paka-paka er "aðferð" til að skapa spennu þar sem bakgrunnurinn skiptir um liti mjög hratt, notuð í anime teiknimyndum. Hugtakið varð mjög þekkt árið 1997 þegar um 12.000 börn í Japan fengu einkenni tengd flogaveiki við að horfa á Pokémon þátt þar sem þessari aðferð var beitt. Ræðar tölur. Ræðu tölurnar eru þétt hlutmengi í mengi rauntalna. Það þýðir að sérhver rauntala er markgildi samleitinnar runu af ræðum tölum. Með öðrum orðum þýðir það í hversu lítilli grennd um hverja rauntölu sem vera skal má finna ræðar tölur. Teljanleiki. Mengi ræðra talna er teljanlegt, sem unnt er að ímynda sér að hægt sé að stilla ræðu tölunum upp í röð. Formlegar þýðir það að unnt að smíða átæka vörpun frá formula_1 til formula_4. Þessi merkilegi eiginleiki blasir þó ekki við. Eitt af vandamálunum er að sérhver ræð tala hefur óendanlega margar jafngildar framsetningar, t.d. er formula_5. Glöggur lesandi sér þó að með þessu erum við að margnúmera sumar ræðu talnanna, t.d. er formula_14. Við getum þó lagað vörpunina okkar með því að númera tvær jafngildar ræðar tölur aðeins einu sinni. Í okkar tilfelli myndum við t.d. sleppa að varpa formula_12 í 5. Að vísu höfum við með þessu ekki sýnt fram á að allt mengið formula_1 sé teljanlegt, en hugmyndin er sú sama. Eins og með svo margt annað í stærðfræðinni ráðumst við ekki beint á þetta vandamál með því að smíða vörpun með flókinni forskrift, heldur er vandamálið leyst í smærri og einfaldari verkefnum. Til að sýna fram á teljanleika formula_1 myndum við fyrst sýna fram á teljanleika formula_18 með dúfustélsaðferðinni. Með því að sýna að sammengi tveggja teljanlegra mengja sé teljanlegt fæst svo að þar sem formula_4 og eðlilega formula_20 eru teljanleg að formula_21 er teljanlegt. Þá má nota sér þessar stoðir til að sýna að formula_22 sé teljanlegt og því formula_1. Rauntala. Rauntölur er talnamengi þeirra talna, sem eru annað hvort í mengi ræðra talna eða óræðra talna. Mengi þetta er táknað með stafnum formula_1 og má skilgreina sem mengi allra þeirra talna, sem táknanlegar eru með óendanlegu tugabroti, með eða án lotu. Tölur sem táknast með lotubundnu tugabroti kallast ræðar og má umrita á formið a/b, þar sem a og b eru heilar tölur; en þær sem táknast með óendanlegu tugabroti án lotu kallast óræðar tölur og er ekki hægt að tákna þær sem hlutfall heilla talna. Rauntölur er endanlegar, en með tilkomu örsmæðaeiknings reyndist nauðsynlegt að víkka út mengi rauntalna, þ.a. það hinnihéldi tvö stök til viðbótar, þ.e. plús og mínus óendanlegt. (Sjá útvíkkaði rauntalnaásinn.) Óræðar tölur. Það má ímynda sér óræða rauntölu sem óendanlega runu tölustafa þannig að enginn hluti rununnar fari á endanum að endurtaka sig. Sem dæmi um rauntölu sem tekur að endurtaka sig er t.d. 0.142857142857142857... (og endurtekur sig svona óendanlega oft). Hún er því ekki óræð, og reyndar er hún ræða talan 1/7. Dæmi um óræðar tölur eru t.d. π = 3,14159265..., e = 2,71828... og formula_3. Í vel skilgreindum skilningi eru óræðu tölurnar "miklu fleiri" en ræðu tölurnar. Þær eru mest notaðar í stærðfræðigreiningu. ræðar tölur eru táknaðar með Q Óræðu tölurnar skiptast í tvo undirflokka, algebrulegar tölur og torræðar tölur. Algebrulegar kallast þær tölur sem eru lausnir margliðujafna með ræðum stuðlum, en hinar eru „torræðar“. Af dæmunum sem nefnd voru hér að ofan eru π og e „torræðar“, en formula_4 er algebruleg, enda lausn á formula_5. Tvinntölur. Breyturnar formula_7 og formula_6 í tvinntölunni formula_12 eru notaðar sem hnit í hnitakerfi tvinntalna, sem gjarnan er kallað tvinnsléttan. Er tvinntalan x+yi þá oft táknuð sem hnitið (x,y). Tvinnsléttan er í raun bara tvívíð talnalína þar sem að önnur víddin lýsir rauntölum, formula_13, en hin lýsir þvertölum, þ.e. þeim tölum sem fást með því að margfalda saman rauntölu formula_14 og fastann formula_15. Tvinntalan x + yi er sögð vera á rétthyrndu formi. Aðgerðir. Aðgerðir í mengi tvinntalna eru þær sömu og í rauntalnamenginu, en eru víðtækari að því leyti, að í formula_8 eru allar margliðujöfnur með rauntölustuðlum leysanlegar og hafa jafnmargar lausnir og stig margliðunnar segir til um þ. e. a. s. að margliðujafna af stigi n hefur n lausnir í formula_8). Einnig er hægt að draga hvaða rót sem vera skal af sérhverri rauntölu og enn fremur að reikna logra af sérhverri tölu nema af núlli. Ekkert af þessu er mögulegt í mengi rauntalna nema að sérstaklega vel standi á. Hlutar tvinntölu. Í stað formula_40 og formula_41 er oft ritað Re(z) og Im(z). Báðir rithættirnir eru jafngildir þar sem Re stendur fyrir "real" og á við raunhlutann og Im stendur fyrir "imaginary" og á við þverhlutann. Sérstaka athygli skal vekja á því að formula_41 gefur rauntöluna formula_6, ekki þvertöluna formula_44. Pólhnit. Pólhnit eru á forminu formula_46, þar sem að formula_47 lýsir lengd punktsins frá miðpunkti, og formula_48 lýsir horni punktsins frá raunásnum í jákvæða stefnu. Til þess að reikna tvinntölu yfir í pólhnit er notuð reglan Veldi. Hægt er að rita tvinntölur sem veldi af "e", þ.e. formula_58 þar sem að "z" er tvinntala. Raunhluti tvinntölunnar er þá samsvarandi vísisfallinu formula_61, en um þverhlutann gildir að Þar sem að allar rétthyrndar tvinntölur má líka rita í pólhnitum, þannig að Lokað mengi. Lokað mengi er mengi sem inniheldur alla jaðarpunkta sína. Fyllimengi lokaðs mengis er opið mengi. Mengi geta verið bæði opin og lokuð, eða hvorki opið né lokað. Grunnmengi eru til dæmis bæði opin og lokuð, og mengi sem inniheldur suma, en ekki alla jaðarpunkta sína er hvorugt. Eftirfarandi skilgreining er jafngild fyrir mengi í firðrúmi. Mengi "X" er lokað þá og því aðeins að markgildi sérhverrar samleitinnar runu af stökum í menginu sé í menginu sjálfu. Sniðmengi lokaðra mengja er lokað. Endanlegt sammengi lokaðra mengja er lokað. Mengi getur einnig verði "lokað" m.t.t. reikniaðgerðar, sem þýðir að útkoman sé einnig stak í menginu. Dæmi: Mengi heiltalna er lokað m.t.t. samlagningar, margföldunar og frádráttar, en mengi nátturlegra talna er aðeins lokað m.t.t. samlagningar og margföldunar, en ekki frádáttar. Algildi. sem merkir að formula_4 hafi gildið formula_2 ef formula_2 er stærra en núll og gildið formula_7 sé formula_2 minna en núll, algildi tölunnar formula_9 eða formula_10 væri því einfaldlega formula_9 og algildi tölunnar formula_12 eða formula_13 væri því formula_14 eða formula_15. Ef vigur formula_19 í jöfnunni formula_20 sem tilgreinir bæði stefnu og lengd hans, samsvarar lengdin algildi vigursins. Engin samvarandi jafna hinsvegar til fyrir fylki, sjá ákveðu og spor. Vigur (stærðfræði). Teikning af vigri með útskýringum. Vigur með upphafspunktinn A og endapunktinn B. Vigurinn getur til að mynda táknað hliðrun frá A til B, lengd hans gefur til kynna stærð hliðrunarinnar og örin í hvaða stefnu hliðrunin er. Margar algebrureglur sem gilda um aðgerðir á rauntölum samsvara reglum um vigra, svo sem víxlreglan, tengireglan og dreifireglan. Það er hægt að leggja saman vigra, draga einn vigur frá öðrum, margfalda þá saman og snúa þeim. Summu tveggja vigra sem hafa sama upphafspunkt má finna með samsíðungsreglunni. Margföldun vigurs með tölu, sem þá er nefnd stigstærð, jafngildir því að breyta lengd vigursins og margföldun með neikvæðri stigstærð gefur honum öfuga stefnu og breytir stærð hans. Það má kerfisbinda lýsingu vigra og aðgerðir þeirra í hnitakerfi. Vigurinn fær þá hnit sem mótast af vegalengd og stefnu á milli upphafs- og endapunkts vigursins, samlagningu og margföldun vigra má þá framkvæma á hnitunum sem auðveldar gjarnan reikninga. Vigrar gegna veigamiklu hlutverki í eðlisfræði. Sumum hlutum nægir að lýsa með stærð og mælieiningu, svo sem massa í kílógrömmum. En önnur magnbundin fyrirbæri eins og kraftur og hröðun hafa líka stefnu, krafturinn sem beitt er þegar kerra er toguð áfram hefur bæði stærð og stefnu í þá átt sem kerran er dregin. Slík fyrirbæri eru kölluð vigurstærðir. Yfirlit. Í þessari grein er með vigri átt við rúmfræðilegt fyrirbrigði sem hefur bæði stærð (í stærðfræði tala en í eðlisfræði tala ásamt mælieiningu) og stefnu, sem myndrænt er sýnd með ör. Vigrarnir a og b eru sagðir jafngildir ef þeir hafa sömu stærð og stefnu óháð staðsetningu þeirra. Við segjum að a sé samstefna b ef þeir hafa sömu stefnu óháð stærð þeirra. Ef -b er samstefna a er b sagður gagnstefna a. Dæmi um vigur á talnalínu. Kraftur (F) er vigurstærð sem gæti til dæmis verið „15 newton til hægri“, ef við veljum talnalínu sem er jákvætt áttuð til hægri er hnit vigursins 15 N en ef krafturinn verkar til vinstri -15 N (þ.e. vigurinn stefnir til vinstri). Stærð eða lengd vigursins er 15 N í báðum tilfellum án formerkis. Hliðrun (s) er einnig vigurstærð og getur verið „4 metrar til hægri“, þá er hnit vigursins 4 m en ef hliðrunin er í öfuga átt -4 m. Eftir sem áður er lengd beggja vigra 4 m. Vinna í eðlisfræðilegum skilningi er innfeldi tveggja vigurstærða. Okkur nægir að vita að innfeldi tveggja vigra er tölustærð ekki vigur; aðgerðin er skýrð. Í þessu tilfelli er vinnan sem unninn er af hendi, þegar 15 N krafti er beitt til að hliðra hlut um 4 metra, 60 J. Skilgreiningar. Vigur formula_4 í formula_5 er röðuð "n"-nd formula_6 af rauntölum. Vigurinn hefur "n" víddir. Vigrar eru gjarnan skrifaðir yfirstrikaðir, undirstrikaðir eða feitletraðir til þess að aðgreina þá ótvírætt frá öðrum breytistærðum. Aðgát skal höfð þegar yfirstrikun er notuð, því að hún er einnig notuð til þess að tákna tvinntölur. Hér verða rithættirnir þrír notaðir á víxl til þess að leggja áherslu á að þeir eru jafngildir í raun. Núllvigur. Vigur sem hefur öll stök núll, t.d. formula_7 eða formula_8 kallast núllvigur, og er ritaður formula_9 eða formula_10. Núllvigur hefur enga stefnu og stærðina núll því formula_11 (sjá Pýþagórasarregluna) og er samkvæmt skilgreiningu samlagningarhlutleysa. Stærð vigra. Stærð, einnig nefnd lengd vigra er fundin með Pýþagórasarreglunni þannig að fyrir fyrir tvívíða vigurinn Vigur með stærðina 1 nefnist "einingavigur". Einingavigur má gera úr hvaða vigri sem er með því að deila honum með stærð sinni. Samlagning og frádráttur vigra. Vigrasamlagning eða samlagning vigra fæst með því að leggja saman x-hnit og y-hnit vigrana. Samlagninguna er hægt að tákna myndrænt (sbr. rauður vigur á mynd til hægri) með því að gera vigur AC, og er því AB + BC = AC (þar sem; a = AB, b = BC og a + b = AC). Hægt er að túlka samlagningu vigra myndrænt með því að leggja byrjun vigursins b við enda vigursins a og að teikna svo vigur frá upphafi a að enda b. Sá vigur (fjólublár á myndinni fyrir neðan) er summa vigranna a og b. Frádráttur þessara tveggja vigra má útskýra rúmfræðilega sem sú gjörð að draga b frá a, setja upphaf a og upphaf b í sama punkt og draga svo vigurinn a − b (fjólublár á myndinni að neðan) frá oddi b að oddi a. Innfeldi vigra. Innfeldi er rauntala sem rituð er með punkti og þess vegna stundum kallað depilmargfeldi. Innfeldi tveggja vigra formula_18 og formula_19, er reiknað: formula_20 Margfeldi vigurs með tölu. Margfeldi vigurs "a" við tölu Margföldun við rauntölu lengir eða styttir vigurinn og snýr stefnu hans við sé talan neikvæð. Margföldun með töluna núll gerir hann að núllvigri, en talan einn er margföldunarhlutleysa. Endanleg tala lengir vigurinn ef algildið er stærra en einn, en styttir hann ef það er minna. Bundnir eða frjálsir vigrar. Vigrar eru almennt bundnir eða frjálsir. Frjáls vigur er óháður upphafspunkti sínum og breytist ekki við færslu. Bundin vigur er aftur skorðaður við upphafspunkt eða línu og er talað um punktbundin eða línubundinn vigur. Eff. Eff þýðir í stærðfræði, heimspeki og rökfræði „ef og aðeins ef“, annað orðalag er „þá og því aðeins að“. Séu "P" og "Q" tvær rökyrðingar, þá er hægt að segja að P gildi ef og aðeins ef að Q gildir — það er að segja, P gildir ef Q gildir, og Q gildir ef P gildir. Þvertala. Þvertölur eru í stærðfræði hlutmengi talna í tvinntölumenginu sem hafa neikvæða ferningstölu. Hugtakið var mótað af stærðfræðingnum René Descartes árið 1637 en hann kallaði það "„nombre imaginaire pur“" (sem þýðir á frönsku „algjörlega ímyndaðar tölur“) og var því ætlað að vera lítillækkandi þar sem slíkar tölur væru augljóslega ekki til. Skilgreining. Talan formula_2 er raunhluti tvinntölunar og formula_3 er þverhlutinn. Mengjaaðgerð. Mengjaaðgerðir er í stærðfræði sú aðgerð að mynda eitt mengi úr gefnum mengjum á ákveðinn hátt. Sammengi. Sammengi formula_2 er táknað formula_3 og lesið „A sam B“. Öll stök sem koma fyrir í formula_4 og formula_5 eru í sammengi þess. Sniðmengi. Sniðmengi formula_2 er táknað formula_9 og lesið „A snið B“. Öll stök sem eru sameiginleg með formula_4 og formula_5 eru í sniðmengi þess. Mismengi. Mismengi formula_4 og formula_5 er táknað formula_16 og lesið „A mis B“. Öll stök sem koma fyrir í formula_4 en eru ekki hluti af formula_5 koma fyrir í þessu mismengi. Hins vegar er mismengið formula_19 mengi allra staka sem fyrir koma í formula_5 en eru ekki stök í formula_4. Fyllimengi. Fyllimengi er fundið út frá gefnu mengi, A, og tilteknu grunnmengi, G, sem hið gefna mengi er hlutmengi í. Fyllimenginu tilheyra öll stök grunnmengisins, sem ekki eru stök í A. Þannig er fyllimengi A það sama og formula_24. Fyllimengi mengisins A er táknað með yfirstrikuðu A; Henryk Sienkiewicz. Henryk Sienkiewicz (5. maí 1846 - 15. nóvember 1916) var pólskur rithöfundur. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1905. Niels Ryberg Finsen. Niels Ryberg Finsen (15. desember 1860 í Færeyjum – 24. september 1904) var færeyskur læknir af íslenskum og dönskum ættum, búsettur í Danmörku frá 1882. Ævi. Faðir hans, Hannes Finsen, var lengi amtmaður í Færeyjum og ólst Niels þar upp fyrstu árin, en var sendur til Danmerkur í skóla þegar hann var fjórtán ára. Þar gekk honum ekki vel og fékk hann þann vitnisburð eftir tveggja ára nám að hann væri drengur góður en skorti bæði hæfileika og dugnað. Þá var hann sendur til ömmu sinnar og frændfólks í Reykjavík og kunni þá enga íslensku. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík árið 1882 með lélega einkunn, fór þá til náms í Kaupmannahöfn og tók embættispróf í læknisfræði frá háskólanum þar í borg 1890. Að náminu loknu var hann um skeið aðstoðarkennari í lífeðlisfræði við háskólann og skurðlæknir við "Kommunalhospitalet" en helgaði sig þó fyrst og fremst ljóslækningum. Hann sagði sjálfur svo frá að fyrstu hugmyndir sínar um gagnsemi ljóss og sólar hefðu kviknað þegar hann fylgdist með ketti sem lá úti á þaki og færði sig öðru hverju til eftir því sem skuggar hreyfðust, til að njóta sólarljóssins sem best. Helsta viðfangsefni Finsens var að rannsaka áhrif ljóss á húðina. Árið 1893 birti hann fyrstu grein sína um efnið: "Om Lysets Indvirkninger paa Huden". Næsta grein birtist 1896: "Om Anvendelse i Medicinen af koncentrerede kemiske Lysstraaler", þar sem hann lýsir ljósameðferð við lupus vulgaris (húðberklum). Sama ár setti hann á stofn Finsenstofnunina í Kaupmannahöfn ("Finsens medicinske Lysinstitut" almennt kallað "Finseninstituttet"). 1898 varð hann prófessor í læknisfræði. Niels R. Finsen hlaut Nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 1903 fyrir rannsóknir sínar á ljósameðferð og framlag til lækninga. Hann var þá orðinn alvarlega sjúkur og gat ekki verið viðstaddur athöfnina. Heilsu hans hafði farið að hraka þegar hann var á þrítugsaldri, hann var veill fyrir hjarta og með vatnssýki í kviðarholi og var í hjólastól seinustu árin. Hann lést árið eftir Nóbelsverðlaunaveitinguna eftir langvarandi veikindi, 43 ára að aldri. Eiginkona Nielsar var Ingeborg Dorothea Balslev (gift 29. desember 1892). Hún var dóttir biskupsins í Ribe. Þau eignuðust þrjú börn sem lifðu. Hún hafði frumkvæði að því að sett var upp ljósastofa þar sem maður hennar gat stundað rannsóknir og lækningar og má ef til vill segja að það hafi verið fyrsta sólbaðsstofan. Heimildir. F F Frjálsa GNU-handbókarleyfið. Frjálsa GNU-handbókarleyfið (e. "GNU Free Documentation Licence") er „copyleft“ leyfi fyrir frjálst efni hannað af „Free Software Foundation“ fyrir GNU-verkefnið. Núverandi útgáfa leyfisins er útgáfa 1.2. Atkvæðatáknróf. Atkvæðatáknróf eru ritkerfi þar sem að hvert tákn er lýsandi fyrir eitt atkvæði, þ.e. sérhljóða og hugsanlega einn eða fleiri samhljóða að auki. Nokkrir tugir þessháttar ritkerfa eru til í heiminum. Íslenski þjóðhátíðardagurinn. Skrúðgangan í Reykjavík 17. júní, 2007. Íslenski þjóðhátíðardagurinn er haldinn hátíðlegur 17. júní ár hvert en það var fæðingardagur Jóns Sigurðssonar. Fæðingardags hans var fyrst minnst með opinberum samkomum árið 1907 en fyrst var haldinn almennur þjóðminningardagur á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 1911. Þá var Háskóli Íslands settur í fyrsta sinn. Eftir það héldu íþróttasamtök upp á daginn. Árið 1944 var 17. júní valinn stofndagur lýðveldisins. Síðan hefur hann verið opinber þjóðhátíðardagur og almennur frídagur. Þjóðhátíðarsöngvarnir „Hver á sér fegra föðurland“ og „Land míns föður“ eru gjarnan sungnir þegar ættjarðarinnar er minnst. Textarnir fjalla á hátíðlegan hátt um ættjörðina. Fleygrúnir. thumb Fleygrúnir ("Cuneiform") eru letur, að því er talið elsta þekkta skriftarformið og var notað í Persíu, Súmer og Babýlóníu frá því um 2500 f.Kr. til um 1000 f.Kr.. Kerfið var tölulegt atkvæðatáknróf, en hvert orð hafði hljóðgildi og tölugildi. Til dæmis var talan 1 táknuð með einum lóðréttum fleyg en sama tákn var borið fram sem „"ane"“ og þýddi naut. Í hebresku þekkist samskonar tákn, formula_1 (áður fyrr skrifað formula_2, sem er líkt einum fleyg), sem „"aleph"“, og þýðir einnig naut þar. Grikkir sneru þessu tákni við og kölluðu það „"alpha"“, en héldu sömu merkingu um þó nokkurt skeið. Dæmi um mikilvægt orð í þessu kerfi er, "Anu", nafn æðsta guðs Súmera. Eins og sést á þessu var ritað frá hægri til vinstri í þessu ritkerfi en línurnar fóru niður á við og dálkar færðust æ lengra til hægri. Fyrstu ritin sem voru skrifuð í þessu ritkerfi voru skattaskrár en elsta frásögn, sem fundist hefur, var skrifuð á leirtöflur með þessu letri (og raunar einnig öðrum) en það var Gilgamesharkviða. Að skrifa Fleygrúnir. Fleygrúnir voru ritaðar á leirtöflur með bitlitlum reyrstöfum. Reyrstafurinn virkaði þá eins og penni eða blýantur. Stafirnir eða förin eftir reyrstafinn voru fleyglaga, sem varð kveikjan að nafngiftinni Cuneiform (sem þýðir í raun „fleyglaga“). Leirtöflurnar voru skildar eftir útivið til að þorna eða brenndar í leirbrennsluofni. Þessar töflur voru í raun „leirskjöl“ og urðu að fyrstu gagnasöfnunum og bókasöfnum. Ólíkar gerðir Fleygrúna eru til, líkt og ólíkar gerðir tungumála eru til í dag. Mikill meirihluti fleygrúna voru ritaðar á leirtöflur. Fleygrúnir ritaðar til minningar eða tileinkunkar má þó finna á steinum, fílabeinum, málmi og gleri. Leir var auðfinnanlegur og aðgengilegur í Mesópótamíu en þurfti þó jafnan nokkurs undirbúnings við til að tryggja rétt gæði. Þetta gilti sérstaklega þegar verið var að rita á leirtöflur sem átti að varðveita sem nokkurs konar heimildasafn. Það að búa til töflu af réttri stærð með góðu, sléttu yfirborði hefur sennilega verið eitt það fyrsta sem „fleygrúnalærlingar“ þurftu að tileinka sér. Framhlið töflunnar var eins flöt og mögulegt var en bakhlið oft kúpt. Bakhliðin var þó stundum einnig flött út svo hægt væri að rita báðu megin. Það fyrsta sem nemandi þurfti að læra þegar kom að fleygrúnum var að búa til töflu og handleika reyrstafinn. Fyrstu skrefin í skrift voru gerð á hverskonar leir og þannig lært að þrýsta í leirinn og mynda fleyglaga form rúnanna. Nemandinn æfði láréttar, lóðréttar og hallandi fleyglaga línur aftur og aftur. Því næst var byrjað á grunntáknunum. Ekki einungis þurfti viðkomandi að læra formið sjálft, heldur einnig fyrir hvaða atkvæði táknið gat staðið. Eftir að hafa lært grundvallaratriðin þurfti nemandinn því næst að læra öll hinna þúsunda súmerísku orða sem voru tjáð með fleiri en einu tákni. Að því loknu var nemandinn tilbúinn fyrir næsta stig. Kennarinn skrifaði þá yfirleitt þrjár línur á litla hringlaga töflu, til dæmis guðanöfn, tæknileg atriði eða brot úr bókmenntum eða orðskviðum. Nemandinn þurfti að skoða línurnar rækilega, snúa töflunni svo við og endurgera línurnar þrjár. Að lokum hafði nemandinn þá komist á stig þess að læra og skrifa súmerískar bókmenntir. Þrátt fyrir að hafa margir hverjir verið ólæsir, voru konungar á útbreiðslusvæði fleygrúna meðvitaðir um gildi þess að skjalfesta varanlega hetjudáðir sínar. Þannig eru til ýmsir munir skreyttir fleygrúnum til minningar um konungana, mestmegnis útskornar í stein. Steinninn var valinn fremur en leir þar sem hann var endingarbetri og sjaldgæfari við óseyrar Tígris og Efrat. Uppruni Fleygrúna. Nokkar mismunandi kenningar eru uppi um hvernig Fleygrúnirnar urðu til og þróuðust. Sú fyrsta, og jafnframt sú vinsælasta, er sú að myndletur, eða myndir sem stóðu fyrir raunverulega hluti, væru grunnurinn að Fleygrúnum. Eldri myndletur eða tákn líktust mjög því sem þær lýstu en eftir endurtekna notkun fóru táknin að breytast, verða einfaldari og jafnvel afstrakt. Táknin urðu svo fleyglaga, sem gerði fólki kleyft að tjá hljóð og afstrakt hugtök. Önnur kenning Denise Schmandt-Besserat er sú að Fleygrúnir séu í raun sprottnar af notkun þrívíðra leirtákna sem voru nokkurskonar gjaldmiðill, notuð í skiptum fyrir vörur eða þjónustu. Leirtákn hafa verið notuð sem miðill til skrásetningar allt frá 8000 f.Kr. Oft voru notuð fleiri en eitt tákn í hverju tilviki. Þessi tákn voru yfirleitt mjög einföld geómetrísk form eins og kúlur, keilur, skífur og sívalningar, en einnig flóknari og skreytt útskurði. Schmandt-Besserat fann einnig út að í Mesópótamíu til forna voru þessi tákn eða hlutir geymdir í leirumslögum, prýddum táknum þess sem þau innihéldu. Að lokum komu leirtöflur, skrýddar Fleygrúnum í stað hlutanna og umslaganna. Af þessum tveimur kenningum má sjá að enn liggur uppruni Fleygrúna nokkuð á huldu. Frekari rannsókna þarf við til að öðlast fullan skilning á því hvernig hið forna ritform kom til. Eðli og notagildi. Fleygrúnir voru ekki tungumál. Þær voru, eins og egypskar híróglýfur og kínversk tákn, nokkurskonar myndletur sem notaði tákn. Eftir því sem táknin öðluðust viðurkenningu og útbreiðslu í Mið-Austurlöndum, urðu þau þar læsileg fólki af öllum þjóðernum, jafnvel þeim sem töluðu mismunandi tungumál og mállýskur. Elstu þekktu dæmin um Fleygrúnir voru útskorin eða rituð af Súmerum sunnarlega í Mesópótaímu, sem gáfu hverju tákni sitt hljóð. Síðar tóku Akkadíar táknin einnig upp, en báru þau fram sem samsvarandi akkadísk orð. Fleygrúnir gengu þannig milli manna og þjóða. Frá Akkadíum til Babýlonmanna og svo áfram til Sýrlendinga. Útbreiðsla Fleygrúna utan Mesópótamíu hófst um það bil 3000 f.Kr. þegar landið Elam, nú suðvestur-Íran, tóku þær upp. Um 2000 f.Kr. voru fleygrúnir svo orðnar algildur tjáningarmiðill í rituðum samskiptum meðal þjóða Mið-Austurlanda. Sýrlenska og Babýlónska stórveldið liðu svo undir lok á 7. og 8. öld f.Kr. Þá var Aramic að verða algengasta tungumál svæðisins og fönikískt stafróf að komast í almenna notkun. Fleygrúnir voru notaðar í sífellt minni mæli, þó svo að margir prestar og fræðimenn hafi haldið notkun skriftarformsins á lífi allt til 2. aldar f.Kr. Fleygrúnir hurfu af sjónarsviðinu aðallega vegna þess að þær gátu ekki keppt við stafrófskerfin sem þróuð voru af Föníkum, Ísraelum, Grikkjum og öðrum þjóðum við Miðjarðarhaf. Gilgameskviða. "Gilgameskviða" er söguljóð frá Mesópótamíu og eitt elsta ritaða bókmenntaverk sem þekkt er. Fræðimenn telja að kviðan eigi rætur sínar að rekja til raða súmerskra þjóðsagna og kvæða um goðsögnina og hetjukonunginn Gilgames, sem síðar var safnað saman í lengra kvæði á akkadísku. Heillegasta eintakið sem til er í dag er varðveitt á tólf leirtöflum úr bókasafni frá 7. öld f.Kr., í eigu assýanska konungsins Ashurbanipal. Mögulegt er að persónan Gilgames sé byggð á raunverulegum höfðingja á tímabili frumkeisaraveldisins II á 27. öld f.Kr. Kviðan fjallar um sambandið á milli konungsins Gilgamess, sem er orðinn spilltur af valdinu og orðinn snauður að hjartagæsku, og vinar hans, Enkídú, sem er hálfgerður villimaður og fer ásamt Gilgamesi í hættulegan leiðangur. Í kvæðinu er sjónum beint talsvert að hugsunum Gilgamess um missi í kjölfar dauða Enkídús. Þráin eftir ódauðleika spilar einnig stórt hlutverk í kviðunni. Hluti hennar segir frá leiðangri Gilgamess eftir dauða Enkídús til þess að öðlast ódauðleika. Forsaga verksins. Mikið af ólíkum, upprunalegum heimildum eru varðveittar tvö þúsund ár aftur í tímann en þær elstu og þær sem fram komu síðar á tímabilinu gefa nokkuð góða mynd til að hægt sé þýða samfellda kynningu á efninu. Þess vegna er súmerska útgáfan og síðar akkadíska útgáfan, sem nú er vísað til sem hefðbundinnar útgáfu verksins, að mestu skírskotað til. Hefðbundna útgáfan er grunnurinn af nútíma þýðingum á verkinu og gamla gerðin er aðeins notuð til uppfyllingar þegar bilin í fleygleturstöflunni, í hefðbundnu útgáfunni, eru stór. Elsta súmerska gerðin af kvæðinu er frá þriðja keisaraveldi (2150 – 2000 f.Kr.). Elsta akkadíska gerðin er dagsett í byrjun annarar aldar f.Kr. Hin „hefðbundna“ akkadíska gerð inniheldur tólf töflur, sem settar voru saman af særingar prestinum Sin-liqe-unninni, úr eldri goðsögnum, á bilinu 1300 og 1000 f.Kr. Hana uppgötvaði Austen Henry Layard, sem fann hana á bókasafni Ashurbanipals í Niníveh árið 1849. Hún var skrifuð á staðlaðri babýlónísku, akkadíska mállískan er aðeins notuð í bókmenntafæðilegum tilgangi. Mismunurinn á akkadísku og súmersku gerðinni er byggð á opnunarorðunum í kvæðinu. Eldri gerðin byrjar með orðunum „Bar af öðrum konungum“ á meðan hefðbundna gerðin hefst á „Hann er sá djúpið“. Akkadíska orðið nagbu, „djúpið“, á líklega að vísa til „hins óþekkta og dularfulla“. Þrátt fyrir það trúir Andrew George að það vísi til hinnar sérstöku þekkingar sem Gilgames öðlaðist á fundi sínum með Uta-Napishiti (Utnapishtim): Hann öðlast þekkingu á því hvernig ber að tilbiðja guðina, af hverju dauðinn var skapaður fyrir hina mennsku, hvað það er sem gerir mann að góðum konungi og hvernig ber að lifa góðu lífi. Utnapishtim, hetja goðsagnarinnar um flóðið, segir Gilgames sögu sína, sem tengist babýlóníska kvæðinu um Atrahasis en hann var konungur Shuruppak, súmerskar borgar, í kringum 1800 f.Kr., áður en flóðið skall á. Tólfta taflan. Síðasta taflan stendur ein í kvæðinu, er í raun sjálfstætt framhald af hinum ellefu upprunalegu, og var að öllum líkindum bætt við síðar. Þessari töflu hefur venjulega verið sleppt, þar til á síðastliðnum árum. Hún inniheldur óvænta frásögn af Enkídú á lífi, sem stangast á við það sem áður hafði komið fram, hún hefur lítil tengsl við hinar ellefu vel sköpuðu töflur sem á undan koma. Reyndar er kvæðið rammað inn í eins konar hringlaga formgerð, þar sem upphafs línur kvæðisins kallast á við loka línur ellefta erindis, það er að segja þar er vitnað í upphafið á sögunni, sem gefur heildarmyndinni bæði hringlaga form og endalok. tólfta tafla er í raun nánast afrit af eldri frásögn, þar sem Gilgames sendir Enkídú til Undirheima til að endurheimta hluti sem hann á þar, en Enkídú lætur lífið í þessari för og kemur til baka í formi anda til að tengja eðli Undirheimana við Gilgames — atburður sem mörgum þykir ofaukinn, um draum Enkídú um Undirheimana í töflu sjö. Þýðingar. Kvæðið um Gilgames er víða þekkt í dag. Fyrsta nútímaþýðingin af kvæðinu var gerð árið 1880 af George Smith. Yngri þýðing á enska tungu var gerð af skáldsagnarhöfundinum John Gardner og John Maier, útgefin 1984. Árið 1989 kom einnig út þýðing af Gilgameskviðu sem Maureen Gallery Kovacs gerði. Verkið kom út í íslenskri þýðingu Stefáns Steinssonar árið 1996 en hann styðst við tvær yngri útgáfurnar. Tafla eitt. Sagan byrjar á kynningu á borginni Úrúk í Suður-Mesópótamíu þar sem Gilgames á að hafa farið með völd á þriðja árþúsundi f.Kr. Þar koma einnig fram lýsingar á afrekum Gilgamess í stuttri frásögn. Honum er lýst sem hetjukonungi, hann er tveir þriðju hlutar guð og einn þriðji hluti mennskur, afsprengi Lúgalbanda, sem býr yfir miklu afli og villikýrinnar göfugu, Rímat-Nínsún, sem ku hafa verið vígaleg á velli og átti að hafa unnið mörg mikil verk. Gilgames mun hafa verið gefin mikil fegurð og fullkomnun hvað útlit varðar frá móðurgyðju sinni Arúrú, sem er einnig nefnd í verkinu, mammetúm og Beletílí. Gilgames gnæfir yfir allt í ríki sínu og fólk óttast hann. Hann beitir ógnarstjórn og er tákn siðmenningar í kviðunni. Einmannaleiki hans og einangrun þjaka íbúa Úrúk. Til að auka árhrif vanlíðunnar íbúanna að eilífu lætur hann reisa mikinn vegg í kringum borgina, sem leiðir til uppgjafar fólksins og örvæntingar svo að þau leita grátandi á náðir Sólargyðjunnar, Arúrú. Sem svar við ofríki Gilgames, er villimaðurinn Enkídú, skapaður í mynd Anús. Hann er tákn náttúrunnar og er skapaður til að lifa með dýrunum, bíta gras, drekka með þeim úr vatnsbólunum og læra af þeim góðvild. Með þessu eru guðirnir að leita af jafnvægi í borginni Úrúk. Enkídú er gerður hraustur, sterkur og þakinn hárum. Hann þekkir ekki siðmenningu, umgengst ekki fólk og lifir á auðninni. Gildruveiðimaður er á veiðum í auðninni og þrjá daga í röð verður hann var við ferðir Enkídús hinu mengin við vatnsbólið. Veiðimaðurinn verður óttasleginn en heldur stillingu uns Enkídú hverfur á braut með dýrunum. Hann heldur heim til föður síns og segir honum fréttirnar. Faðir hans hvetur hann til að halda til Úrúk og segja Gilgames allt af létta. Hann veit að Gilgames mun beita yndiskonunni Sjamat á villimanninn, láta tæla hann og viti menn, það gengur eftir. Gilgames trúir að með freistingu muni dýrin og villimennskan verða Enkídú framandi. Sjamat og veiðimaðurinn halda inn í skóginn og hitta fyrir Enkídú. Veiðimaðurinn hvetur Sjamat til að halda ekkert aftur af sér þegar hún tælir villimanninn. Hún afklæðist og Enkídú fellur í stafi, lostafullur leikur þeirra stendur í sex daga og sjö nætur. Þegar Enkídú hefur loks nært hold sitt, ætlar hann að halda uppteknum hætti og hlaupast á brott með dýrunum en þau forðast hann og hann finnur að allt er breytt. Yndiskonan bíður honum að koma með sér til Úrúk í hofið helga, þar sem guð himins og konungsveldis, Anú, og gyðja ástar, kynlífs, frjósemis og stríða, Ístar, sitja og Gilgames ræður ríkjum, hann sé vitur en stjórni ríki sínu sem mannýgur tarfur. Enkídú geðjast að boði yndiskonunnar og eltir hana til Úrúk. Hann finnur hjá sér þrá til að eignast vin. Yndiskonan lýsir Gilgamesi fyrir Enkídú, sem fögrum, sterkum manni, elskuðum af guðunum. Hann þarf ekki að sofa, en gerir það þó líklega stundum, þar sem hann dreymir draum um Enkídú. Gilgames dreymir tvo þýðingamikla drauma sem móðir hans Ninsún, hin alvitra ræður sem góða fyrirboða. Þeir eru eru báðir fyrir komu Enkídú og vinskapnum sem þróast þeirra á milli. Yndiskonan heyrir af draumunum og segir Enkídúi frá, eftir einn af ástarleikjum þeirra. Tafla tvö. Enkídú og Sjamat undirbúa sig fyrir brottför úr auðninni og leiðin liggur til Úrúk. Þeim er veittur matur og mjöður hjá harðmönnum, Sjamat leiðbeinir honum hvað gera á við slíkt og Enkídú borðar sig saddann og verður örlítið hífaður af öldrykkjunni. Hann vakir síðan yfir hjörðum mannanna um nóttina. Hann kemur auga á mann og Sjamat kallar á manninn og spyr hvaða ferðalagi hann sé á. Leið hans liggur á brúðkaupstefnu í Úrúk, þar sem Gilgames muni njóta brúðarinnar. Heimildir frá Mesapótamíu herma að hefð hefði verið fyrir því á þessum tíma að konungur hafði mök við hina „útvöldu“ brúði á undan eiginmanninum. Enkídú verður myrkur á svip og arkar af stað og Sjamat á eftir honum. Enkídú hindrar för Gilgames að rekkju brúðarinnar og þeir takast á. Fólkið í Úrúk verður himinlifandi að sjá að Gilgames hefur eignast jafningja, sem er líkur honum í útliti en ólíkt honum hefur Enkídú siðsemi og góðvild að leiðarljósi. Gilgames endar slagsmálin og Enkídú minnir hann á að móðir hans hafi fætt hann einstakann, sem mann réttlætis, hann beri höfuð yfir aðra menn og hafi verið gerður konungur yfir mannheimum af Enlíl. Enkídú heyrir samtal Gilgames og Rímat-Nínsún, móður hans. Hún bendir syni sínum á að Enkídú eigi ekki foreldra, enginn hafi alið hann upp né hugsað um hann. Enkídú brestur í grát, þetta vekur upp samkennd hjá Gilgamesi og hann faðmar Enkídú að sér. Uppfrá þessu verða Enkídú og Gilgames vinir, í raun sem bræður. Gilgames breytist til hins betra. Gilgames vill að þeir félagar fari og drepi Húmbaba verndara sedrusviðarskógar og ber þá hugmynd á borð fyrir Enkídú. Gilgames er orðinn leiður á hinu friðsæla lífi í Úrúk og vill gera nafn sitt ódauðlegt, hann telur að ferð til sedrusviðarskógar geti hrist upp í hlutunum. Tilgangur ferðarinnar væri að höggva niður mikil tré og drepa verndara skógarins, árann Humbaba, sem sólarguðinn og guð réttlætis, Sjamas, hatar. Gilgames vill gera þetta til þess að öðlast frægð og frama og til að smíða mikilfenglega hluti úr sedrusviðnum. Enkídú reynar fá hann ofan af þessu, en án árangurs. Tafla þrjú. Þeir undirbú ferðina til sedrusviðarskógar, báðir tveir. Gilgames segir móður sinni frá hættuför þeirra félaga og biður hana að leita á náðir Sjamas til verndar. Ninsún biður til Sjamas um vernd og aðstoð fyrir son sinn og að láta næturvörðinn, stjörnurnar og föður sinn Sin, mánaguðinn, fylgja Gilgamesi á næturnar, einnig um að hleypa upp stórviðri gegn Húmbaba daginn sem hann er felldur. Ninsún gefur Enkídú ráð, færir honum hálsmen og á einhvern hátt, ættleiðir hann. Gilgames felur öldungunum stjórnina í Úrúk og biður þá að vera vægir í dómum sínum við fólk. Gilgames biður til Sjamas um vernd og velgengni. Þeir vígbúast og gera sig tilbúna í leiðangurinn. Öldungarnir vara Gilgames við að treysta of mikið á krafta sína, vera á varðbergi og láta Enkídú fara á undan sér, þar sem hann þekkir óbyggðirnar vel. Þeir biðja Enkídú að vernda Gilgames og færa hann heilann heim til Úrúk, hann skuli færa Sjamasi fórn að morgni og ávallt hafa Lúgalbanda í huga. Með því veittu öldungarnir hetjunni fararleyfi. Tafla fjögur. Á leið Gilgames og Enkídú til sedrusviðarskógar, gengur Gilgames á fjall áður en hann leggst til hvílu, færir fórn og óskar eftir draumtákni frá Sjamas. Hann dreymir fimm slæma drauma, Enkídú ræður draumana og allir eru þeir góðir fyrirboðar. Sá fyrsti er fyrir því að þeir yfirbugi Húmbaba. Annar draumurinn táknar að Sjamas verndari Gilgames, leiði hann í þrengingum. Þriðji draumurinn merkir að baráttan við Húmbabú nálgist en þeir sigri hann. Fjórði draumurinn sé merki um að gegn Húmbaba fari þeir hamstola og sigri áður en dagur rís. Í fimmta draumi finnst Gilgamesi hann berjast við villtan tarf sem meiðir hann en gefur honum að drekka að lokum. Enkídú ræður drauminn þannig að þeir eigi fyrir höndum mikið verk og muni drýgja dáð slíka að ekkert því um líkt hefur áður þekkst. Gilgames og Enkídú heyra varnarorð af himni, þeir eiga að taka höndum saman og varna þess að Húmbaba komist inn í skóginn, svo hann feli sig ekki þar. Þegar þeir koma í sedrusviðarskóg, sækir uggur að Enkídú en Gilgames hvetur hann áfram. Þeir ganga inn í skóginn. Tafla fimm. Í skógarjaðrinum sjá þeir sedrusviðinn, stíg sem Húmbaba hefur markað og sedrusviðarfjall, dvalarstað guðanna. Gilgames heggur í sedrusviðinn og raskar þar með ró Húmbaba og hann verður reiður. Hetjurnar hitta fyrir Humbaba, tröllvaxinn ára, verndara trjánna og ófreskjan misbýður þeim. Gilgames verður hræddur, en Enkídú og Sjamas hvetja hann áfram. Sjamas sendi þrettán vinda sína gegn Húmbaba er gnístu augu hans. Hann getur sig hvergi hrært svo að Gilgames finnur höggstað á honum með vopni sínu. Ófreskjan sárbænir Gilgames um lífgjöf en Enkídú biður hann að drepa ófreskjuna. Húmbaba snýr sér þá að Enkídúi og sárbænir hann að láta vin sinn þyrma lífi sínu. Þegar Enkídú endurtekur bón sína við Gilgames, formælir ófreskjan þeim báðum. Gilgames drepur þá ófreskjuna. Þar með var skógarvörðurinn, sem hrellt hafði Sýrland og Líbanon, fallinn. Þeir skáru úr honum innyflin og tunguna og við það kippist ófreskjan til. Gilgames heggur sedrusviðinn og með því rýfur hann helgan reit Annúnakí-guðanna. Þeir höggva gríðarstórt tré og smíða úr því mikið hlið og fleyta því niður ána Efrat, hinni helgu Nippúr til dýrðar og fara sjálfir á fleka niður ána. Gilgames er með höfuð Húmbaba í höndum sér. Tafla sex. Gilgames prýðist konungsklæðum og gyðjan Ístar dáist að honum. Gilgames hafnar ástleitnum tilburðum gyðjunnar, vegna illrar meðferðar hennar á fyrrum elskhugum sínum eins og Litla hirðinum, fjárhirðinum, döðluyrkjumanni föður hennar. Ístar fær æðiskast og fer á fund föður síns Anú, guð himins, hún biður hann að senda naut himins, til þess að hefna fyrir framkomu Gilgames, láta nautið éta hann. Hún hótar því jafnframt, að ef hann ekki verði að óskum hennar, muni hún opna dyr undirheimanna og vekja upp þá dauðu. Anú óttast uppskeru landsins en Ístar hefur séð um að nægt fæði verði næstu sjö ár svo Anú gefur eftir. Naut himins veldur usla á jörðu niðri og eitthvað af fólki liggur í valnum. Gilgames og Enkídú taka höndum saman og slátra nautinu og færa Sjamasi hjartað úr því að gjöf. Þeim er ákaft fagnað á götum Úrúk. Gilgames heldur hátíð í höll sinni. Bræðurnir fá sér síðan blund og Enkídú dreymir illa, hann segir Gilgamesi drauminn. Tafla sjö. Í dögun tjáir Enkídú sig enn frekar um drauminn við Gilgames. Honum finnst sem Anú, guð vindanna, Enlíl, og Sjamas sitji fund og tali um að þeir sem slátrað hafi nauti himins og Húmaba eigi að fá refsingu. Fyrir það verði sá sem hjó sedrusviðinn að deyja. Guðirnir eru ósammála um hverjum skuli refsað. Þegar Enkídú veikist verða bræðurnir hryggir og óttast það að sjást ekki aftur. Enkídú skynjar nálægð Sjamas. Enkídú talar til sedrusviðar hliðsins, líkt og það væri mennskt. Hann formælir því og finnst þeim mikið vanþakklæti sýnt. Gilgames hefur áhyggjur af óráði vinar síns og biður hann að halda sönsum. Hann er mjög sorgmæddur og ákallar Enlíl. Enkídú vaknar í dögun og æpir á Sjamas. Hann iðrast þess að hafa orðið mennskur, formælir veiðimanninum og biður þess að honum gangi veiðar sínar illa, að dýrin sleppi undan honum. Eftir formælingar veiðimannsins, finnur Enkídú þörf hjá sér til að formæla yndiskonunni. Hann leggur bölvun á hana, óskar þess að hún verð alltaf svöng, geti ekki unnað barni sínu og að það muni lemja hana. Að hún fái aðeins að dvelja með ambáttum, að mjaðurdreggjar kámi hennar fagra skaut, fylliraftar æli yfir hátíðaskikkju hennar, hún eignist aldrei fagran grip úr alabasti, gleði mannfólksins vitji aldrei heimilis hennar og fleira sem hann telur upp til að gera líf hennar snautt og ömurlegt. Þetta gerir hann til að hefna sín á því að hún tók þátt í því að gera hann mennskan. Þegar Sjamas heyrir formælingar hans, kallar hann til Enkídú af himni og spyr hann hvers vegna hann formælir yndiskonunni sem hefur fært honum Gilgames að vin, fætt hann og klætt og verið honum góð. Við orð Sjamas, dvín reiði Enkídús og hann kallar á yndiskonuna, Sjamat. Óskar henni þess að varirnar sem formæltu henni muni nú færa henni blessun. Hann þylur upp fögur örlög henni til handa. Enkídú líður illa þar sem hann liggur veikur og segir Gilgamesi frá draumi sem hann dreymdi. Fyrst finnst Enkídú hann staddur í hættu og kallar á Gilgames en hann þorir ekki að koma honum til aðstoðar. Svo finnst honum hann staddur í heimi hinna látnu. Gilgames ræður drauminn sem illan fyrirboða. Í tólf daga liggur Enkídú og æ versnar sóttin. Á tólfta degi þýtur hann upp úr rúminu og kallar hann nafn Gilgames og heldur að hann hafi yfirgefið sig. Enkídú finnst lítil sæmd í að deyja af sótt, honum þykir það verðugur dauðdagi að falla fyrir vopnum. Gilgames hrekkur upp við óp Enkídús og óskar honum þess að komast frá hinum dauðu. Gilgames vill vera við hlið vinar síns og finnur að hann muni syrgja hann. Tafla átta. Í sorg sinni skipar Gilgames öllum lýð landsins að syrgja vin sinn, Enkídú, allt frá fólkinu í sveitinni til hinna háu guða, náttúrunni, dýrunum og öllum sem eru í Úrúk. Hann tjáir sig um hversu mikilvægur Enkídú var honum, líkir honum við sverð sitt og skjöld og fleira sem honum þykir vera hluti af sér. Hann þreifar á líki Enkídús og finnur lífleysi líkama hans, honum er líkt við ljónynju sem misst hefur unga sína, æðir um og rífur af sér skartið, sker af sér hárlokka og hendir á jörðina. Gilgames lætur þau boð út ganga um ríki sitt, að handverksmenn landsins skulu reisa Enkdú minnismerki úr gulli og kóngablásteini. Hann heitir því að láta sér vaxa skítugan hárlubba, klæðast hundshúð og æða um öræfin. Daginn eftir fer Gilgames og finnur fagra steina, gull og fílabein og raðar því á Enkídú. Hann færir hinni miklu drottningu Ístar fórn og biður hana að fagna Enkídú og ganga honum við hlið, einnig guðinum Namra-Sít, Erekígal, drottningu undirheims, Dúmúsí, fjárhirði hinnar elskuðu Ístar, Namatar, klæðskera örlaganna og ráðgjafa Ereskígal, Húspysju, þernu undirheims, Kassútabat, sópara Erekígal, Ninsjúlúha, þrifabósa hússins, Bíbbí, slátrara undirheims, Dúmúsí-absú, blóraböggli undirheims og að lokum guðinum Sjamasi. Hann færir þeim öllum fórn og þakklætisvott og biður þess að þeir gangi við hlið vinar síns. Tafla níu. Gilgames grætur vin sinn sárt og ákveður að halda af stað um öræfin á leið sinni til Útnapistím, sem er goðsögn sem líkist Nóa í Biblíunni, sá er lifði af flóðið mikla. Hann er með slæma tilfinningu fyrir ferðinni og biður því mánaguðinn Sin að færa sér góðan draum. Draumar hans standa eitthvað á sér og hann vaknar við það að stríðsmenn og ljón leika sér að lífi hans. Hetjan Gilgames vegur mótherja sína, klæðist dýrshúðinni, kastar hræjunum á víð og dreif og étur hold þeirra. Þetta veldur Sjamasi áhyggjum því hann veit að förin er til einskis. Gilgames er á öðru máli biður Sjamas að senda sér sólskin. Gilgames kemur að fjallinu Masjú, sem gætir sólseturs og sólrisu. Rætur fjallsins ná niður til undirheima og það teygir sig hærra en nokkuð annað fyrir utan þak himins. Sporðdrekafólkið, verðir sólarinnar, gæta inngangsins. Þau eru uggvænleg ásýndar og Gilgames þarf að taka sig taki til þess að mæta þeim. Sporðdrekamaðurinn segir konu sinni að sá sem nálgist þau minni á einhvern guð. Hjónin gæta sólarinnar er hún rís og hnígur Sporðdrekahjónin sjá að Gilgames er ekki nema að tveim þriðju guðlegur og þriðjungur mennskur. Þau vilja vita á hvaða ferðalagi hann er, svo þau geti vísað honum veginn. Hann segir þeim að hann vilji fara á fund Útnapistím, forföður síns, til að fræðast um líf og dauða. Þau segja Gilgamesi frá hættum sem hann á í vændum, sem dauðlegur maður, ef hann kjósi að halda yfir fjallskarðið. Jafnframt að enginn hafi vogað sér á mót rísandi sólu, leiðin sé myrk af stórum hluta. Gilgames er ákveðinn og vill ótrauður halda áfram og biður þau að opna sér leiðina. Þau veita honum ferðafrelsi um Masjúfjöll. Gilgames hugsar um orð hjónanna og heldur af stað í eftir undirheimavegi Sjamas, myrkrið er þétt og ljósglætu hvergi að sjá á þessum hluta leiðarinnar. Hann kemst í gegnum myrkrið, við enda þess mætir honum kyrrlátt ljós. Gilgames gengur í gegnum afar fagran garð þar sem tré eru prýdd gimsteinaklösum, laufblöð af kóngablásteini og allt ljómar af birtu mismunandi steintegunda. Tafla tíu. Ölseljan, Sídúrí, sér hvar Gilgames kemur illa til reika. Hún verður hrædd við hann og læsir að sér. Gilgames hótar henni öllu illu ef hún opni ekki fyrir sér. Hún vill vita af hverju hann líti svona illa út og ráfi um öræfin ef hann er hinn mikli Gilgames. Hann segir ölseljunni frá dauða Enkdús sem íþyngi sér og hann leiti að friði í sál sína og óttist endalokin. Ölseljan segir að lífið sem hann leiti af sé hvergi að finna, guðirnir hafi gert mannkynið dauðlegt. Hún ráðleggur honum að njóta hvers dags, lifa lífinu lifandi. Það sé hið raunverulega hlutverk mannkyns. Gilgames biður hana að vísa sér veginn til Útanapistíms. Ölseljan segir þessa ferð ómögulega fyrir aðra en guði en ef hann reyni þurfi hann aðstoð ferjumannsins. Gilgames fer í gegnum skóginn og finnur ferjumanninn, Úrsjanbí og biður hann um að vísa sér veginn til Útanapistíms. Úrsjanabí leiðbeinir Gilgames svo hann geti haldið ferð sinni áfram, þeir ýta úr vör þegar þeir eru ferðabúnir. Þeir sigla hálfsmánaðar ferð aðeins á þremur dögum og koma að vötnum dauðans. Og komu þá á Vötn dauðans, þau þekkti Úrsjanabí Úrsjanabí segir Gilgamesi að taka tólf stjökunarstafi í hönd og snerta alls ekki Vötn dauðans. En þegar ekkert gengur í þeim málum, afklæðir Gilgames ferjumanninn og býr til segl úr klæðum hans. Útnapistím undrar sig á því hver sé þarna á ferð, hann rýnir út í fjarskann að þetta er ekki einn af hans mönnum og veltir því fyrir sér hvort þetta sé dýr. Þegar þeir hittast vill Útnapistím vita hvers vegna Gilgames sé sorgmæddur og illa útlítandi. Gilgames rekur honum raunir sínar og segir honum að þess vegna verði hann að hitta Útanpistím. Gilgames segir honum jafnframt frá ferð sinni og hremmingum. Útanpistím segir Gilgamesi að eyða ekki tímanum í að berjast gegn ódauðleika sínum, heldur lifa lífinu í gleði, einn dag í senn. Tafla ellefu. Höfundur "Gilgameskviðu" tekur söguna um flóðið mikla beint upp úr goðsögninni um Aþrahasis skv. þýðanda, jafnframt segir hann orðin „kúkkú“ sem merkir bæði brauð og myrkur og orðið „kibtú“ sem þýðir bæði hveiti og ógæfa, notuð hér í formi orðaleiks. Gardner og Maier telja ræðu Ea í þessari töflu með betri dæmum um líkingamál í mesópótamískum kveðskap, með þessum akkadísku orðum sem nefnd voru og bera með sér tvöfalda merkingu. Gilgames veltir því upp við Útanpistím, af hverju hann sem líti eðlilega út hafi öðlast eilíft líf. Útanpistím segir honum söguna af flóðinu mikla, þar sem guð vísidómsins og herra jarðar, Ea, biður hann að smíða sér örk. Hann skuli útskýra brottför sína fyrir borginni, þjóðinni og öldungunum í Sjúrúppak, þar sem hann bjó, með því að segja að guðinn Enlíl hafi hafnað honum og því megi hann ekki búa í borg hans. Hann ætli því halda til bústaðar Ea og búa hjá honum. Hann skuli taka allar lifandi skepnur um borð með sér en þegar örkin sé tilbúin ætli Sjamas að láta rigna brauði og þá um kvöldið, dynja yfir hellidembu hveitis. Þá skuli Útnapistím stíga um borð og þétta meðfram hlerum. Útanpistím gerir eins og honum er sagt og sama dag gerir veður svo hrikalegt að jörðin splundrast og himinn springur og allt kaffærist í vatni, fjöll, fólk og lönd. Jafnvel guðirnir verða skelkaðir við allan hamaganginn í veðrinu. Hinn gamli heimur verður hluti af fiskunum i sjónum. Nú fyllir hún flokk fiska í sjónum Á sjöunda degi birtir til og þögn færist yfir allt. Útnapístím sendir dýrin smám saman út af örkinni, þegar hættan er liðin hjá. Enlíl, valdur flóðsins, verður reiður að sjá að einhver hefur komist lífs af. Enlíl fer um borð í örkina og lætur Útnapistím og konu hans krjúpa á kné sér og segir þau nú vera guði og býr þeim bústað langt í burtu við árósana. Útnapistím gefur Gilgamesi tækifæri á að öðlast ódauðleika og leggur fyrir hann prófraun, hann þarf að vaka í sex daga og sjö nætur, má ekki leggjast út af. Gilgames stenst ekki prófraunina. Útnapistím færir ferjumanninum Gilgames í hendur og óskar þess að hann aðstoði hann við að þrífa sig, bera á sig olíu, kasti dýrshúðinni og klæði hann konunglegum klæðum. Hann vill síðan að hann komi Gilgamesi heim til sín. Útnapistím vill ekki senda Gilgames tómhentan heim. Hann vill að hann geti komið til baka með sæmd. Hann segir honum leyndardóm jurtar nokkurrar sem yngir fólk upp og hvar hana sé að finna. Gilgames finnur jurtina og ætlar sér að gefa öldungunum hana þegar hann kemur til baka, ásamt því að borða af henni sjálfur. Eina nóttina þegar ferjumaðurinn og Gilgames hvílast, kemur snákur og stelur jurtinni. Þegar Gilgames uppgötvar það kemur vonleysi í hann aftur. Þegar þeir koma til Úrúk biður Gilgames, ferjumanninn að fara upp á Úrúk-garðana sem umlykja borgina og skoða stórfenglega smíði þeirra. Tafla tólf. Þessi tafla er að öllum líkindum skrifuð af öðrum höfundi, mun seinna en hin og er ekki beint framhald hinna ellefu taflnanna. Gilgames kvartar yfir því við Enkídú vin sinn að hann sakni eins og annars af eigum sínum, þar á meðal einhverskonar trumbu og trumbuslagara, sem fallið hafa niður í undirheima. Enkídú bíðst til þess að fara að sækja þetta fyrir hann. Gilgames gleðst og segir honum hvað hann beri að forðast. Enkídú gerir allt sem hann má ekki gera og undirheimarnir hleypa honum ekki til baka. Gilgames biður til guða sinna að færa sér Enkídú til baka, Sin mánaguðinn, bendir honum á að tala við Ea. Ea gerir holu í jörðina og upp úr henni skýst andi Enkídús. Taflan endar á því að Gilgames spyr Enkídú hvað hann hafið upplifað í undirheimum. Það er óljóst hvort Enkídú heldur áfram að vera draugur eða hvort hann vaknar til lífs aftur. Nippur. Nippur var borg í Mesópótamíu á tíma Babýlons. Sú borg var álitin heilög, og sögð dvalarstaður guðsins Enlíls. Mesópótamía. Mesópótamía (gríska: Μεσοποταμία; þýtt úr forn–persnesku: Miyanrudan „milli fljótanna“; aramíska: Beth-Nahrain „hús tveggja áa“) er það svæði sem að liggur á milli ánna Efrat og Tígris. Almennt er þó átt við allt árframburðar svæðið sem afmarkast við sýrlensku eyðimörkin í vestri, þá arabísku í suðri, Persaflóa í suðaustri, Zagrosfjöll austri og Kákasusfjöll í noðri. Einhver elstu umerki um siðmenningu í veröldinni er að finna á þessu svæði og því er það stundum kallað „vagga siðmenningar“. Súmerar réðu þar ríkjum í kringum 3500 f.Kr. og þróuðu með sér eitt fyrsta ritmál sem þekkt er í sögunni og síðar voru rituð þar niður ein elstu lög sem þekkt eru. Nokkrar elstu siðmenningar heims byggðu þetta svæði, m.a. Súmerar, Akkaðar, Babýlóníumenn og Assýringar. Í dag er þetta svæði hluti af Írak, Sýrlandi og Tyrklandi. Mesópótamía hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir mjög næringarríkan jarðveg, og er þetta því tilvalinn staður fyrir mannabyggð. Mikla jarðolíu er að finna á þessu svæði, en þetta er jafnframt austasti hlutinn af frjósama hálfmánanum. Mesópótamía hefur stundum verið nefnt "Millifljótaland". Halldór Laxness nefnir það t.d. svo í greinasafni sínu: Upphaf mannúðarstefnu. Útnapíshtim. Útnapíshtim er sögupersóna í söguljóðinu um Gilgamesh, en þar er hann maður sem að hefur öðlast eilíft líf í þakkargjöf frá guðinum Ea, en hann byggði örk og tók tvö dýr af hverri tegund, karldýr og kvendýr, upp í örkina, þegar að mikið flóð ógnaði lífi þeirra allra. Það flóð var ákveðið af guðunum í sameiningu að beiðni ástargyðjunnar Ishtars, en Ea, sjávarguðinn, var mótfallinn því. Ishtar var þekkt fyrir mikla frekju, og faðir hennar, æðsti guðinn Anu tilskipaði flóðið. Þessi saga er þó nokkuð eldri en sambærileg saga úr Biblíu kristinna manna, en þar heitir hetjan Nói. Málfræðingar hafa sýnt fram á að Útnapíshtim og Nói eru rituð á sama hátt, en á sitthvoru tungumálinu (sem bæði notast við fleygrúnaletur) þannig að nafnbreytingin er alveg fullkomlega eðlileg. Suðurskautslandið. Suðurskautslandið (einnig kallað Suðurheimskautslandið eða Antarktíka) er syðsta heimsálfa jarðarinnar og er Suðurpóllinn á henni. Það er staðsett á suðurhveli jarðar, að miklu leiti fyrir sunnan suðurheimskautsbaug, og er umlukið Suður-Íshafinu. Suðurskautslandið er Um það bil 14 milljón ferkílómetrar og er því fimmta stærsta heimsálfan að flatarmáli á eftir Asíu, Afríku, Norður Ameríku og Suður Ameríku. 98% ef flatarmáli Suðurskautslandsins er þakið jökulís, sem er að meðaltali 1,6 kílómetra þykkur. Að meðaltali er Suðurskautslandið kaldasta, þurrasta og vindasamasta heimsálfan og hefur hæstu hæð að meðaltali yfir sjávarmáli af öllum heimsálfum. Fyrst að það er lítil úrkoma nema við strendurnar, þá eru innviði álfunnar tæknilega séð stærsta eyðimörk í heimi. Á Suðurskautslandinu eiga engir menn varanleg heimili og þar eru engin ummerki um núverandi eða forsögulegar byggðir innfæddra manna. Aðeins plöntur og dýr sem þola kulda vel lifa þar, til dæmis mörgæsir, nokkrar tegundir hreifadýra, mosar, fléttur og margar tegundir af þörungum. Þrátt fyrir að goðsagnir og getgátur um Terra Australis („Landið í suðri“) megi rekja aftur í fyrndina, er það almennt viðurkennt að Suðurskautslandið hafi fyrst sést í rússneskum leiðangri árið 1820 með Mikhail Lazarev og Fabian Gottlieb von Bellingshausen í fararbroddi. Hinsvegar var heimsálfunni gefinn lítill gaumur fram á 20. öldina vegna fjandsamlegs veðurfars, skorts á auðlindum og einangrunar. Kyrrahaf. Kyrrahafið er stærsta úthaf jarðar. Það afmarkast í stórum dráttum af Norður-, Mið- og Suður-Ameríku að austan; meginlandi Asíu, Japan og Indónesíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu að vestan. Það nær frá Beringssundi í norðri að Suðurskautslandinu (Antarktíku) í suðri. Kyrrahafið er um 165 milljón ferkílómetrar og er því um þriðjungur flatarmáls jarðar og meira að flatarmáli en allt land til samans. Í Kyrrahafinu er gífurlegur fjöldi eyja, sem flestar eru smáar. Margar þeirra eru byggðar mönnum, en þó munu fleiri vera óbyggðar. Eftir Kyrrahafinu nokkurn veginn miðju liggur daglínan í dálitlum hlykkjum frá norðri til suðurs. Austan hennar gæti verið þriðjudagur 5. október 2004 (svo að dæmi sé tekið) en vestan hennar á sama tíma í svona 100 metra fjarlægð er þá miðvikudagur 6. október 2004. Íslenskur fjárhundur. Íslenskur fjárhundur er tegund hunda sem kom til Íslands með landnámsmönnum. Íslenskir fjárhundar voru síðar fluttir til Bretlandseyja og varð grunnurinn að Border Collie-hundategundinni og ýmsum öðrum hundategundum, s.s. Hjaltlenska fjárhundinum með blöndun við Norska búhundinn. Persóna ein í leikritinu Hinrik 5 eftir William Shakespeare minnist á íslenska hundinn og segir: "Pish for thee, Iceland dog! thou prick-ear'd cur of Iceland!". Og er þannig í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: "Svei þér! þú, Íslands eyrnasperrti hundur!" Vilpa. Vilpa var ein þriggja náttúrulegra vatnslinda í Vestmannaeyjum (ein er í Herjólfsdal). Hún var austan til á Heimaey, norðan Kirkjubæjar, en þar byggði Vilborg Herjólfsdóttir bæ sinn, Vilborgarstaði. Vatnið í Vilpu var gruggugt og mjög blandað yfirborðsvatni, en fólk sótti þó þangað vatn lengi vel þar sem mun skemmra var að sækja það þangað en inn í Herjólfsdal. Á veturna lagði vatnsbólið og var þar vinsælt skautasvell. Þegar Vestmannaeyjagosið hófst fóru á kreik sagnir um gamlan spádóm sem átti að segja fyrir um að þegar byggð á Heimaey færðist vestan Hásteins, fyllt yrði upp í Vilpu eða hún þornaði og biskupssonur yrði prestur Vestmannaeyinga, þá myndu Tyrkir ræna Vestmannaeyjar að nýju, og vildu ýmsir meina að gosið tengdist spádómnum og kæmi í stað Tyrkjaráns. Fyrstu húsin í Vestmannaeyjabæ austan Hásteins komu til sögunnar þegar byggð hófst við Illugagötu, en sú gata er í beinni línu við Hástein. Barn drukknaði í Vilpu 1970 og eftir það var ákveðið að fylla upp í hana. Var það gert sumarið 1972. Biskupssonurinn Karl Sigurbjörnsson hafði sótt um prestsembætti í Vestmannaeyjum þegar eldgos hófst þar 23. janúar 1973. Þessari sögn mótmæltu þó sóknarnefnd og prestur Vestmannaeyinga og bentu á að hér væri vísað í Krukkspá, þar sem einmitt er sagt fyrir um annað Tyrkjarán en skilyrðin sem þar eru nefnd eru önnur að hluta og ekkert minnst á Vilpu. Vilpa hvarf undir hraun í gosinu. Kosningaréttur. Kröfuganga kvenna í Washington í Bandaríkjunum fyrir kosningarétti árið 1913. Kosningaréttur er réttur fólks til þess að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Oft er kosningaréttur stjórnarskráarlega varinn en algengast er að fólk fái kosningarétt við 18 ára aldur, eins og tíðkast á Íslandi. Kosningaréttur hefur jafnt og þétt verið víkkaður út eftir því sem lýðræðisumbætur hafa átt sér stað víða um heim. Einveldi konunga var lagt af í Evrópu á 19. og 20. öld og við það fengu oftast efnaðir, hvítir karlmenn kosningarétt. Með tímanum fengu konur kosningarétt (þó ekki fyrr en 1971 í Sviss), fólk af öðrum kynþætti en hvítum og borgarar almennt burt séð frá efnahag. Kosningaréttur á Íslandi. Íslendingar fengu fyrst kosningarétt með tilskipun sem Kristján 8. Danakonungur gaf út 8. mars 1843 og var hann bundinn því að menn væru orðnir 25 ára, hefðu óflekkað mannorð og ættu að minnsta kosti 10 hundraða jörð eða múr- eða timburhús í kaupstað sem metið væri á að minnsta kosti 1000 ríkisdali eða hefðu lífstíðarábúð á 20 hundraða jörð. Karlmenn einir höfðu kosningarétt. Reglurnar um eign voru rýmkaðar dálítið þegar kosið var til þjóðfundarins 1851 og aftur árið 1903. Þá fengu karlmenn sem ekki voru öðrum háðir sem hjú og borguðu fjórar krónur eða meira í útsvar kosningarétt. Árið 1915 var svo gerð veruleg breyting; konur fengu þá kosningarétt og einnig allir sem orðnir voru 25 ára og skulduðu ekki sveitarstyrk. Þessum nýju kjósendum var þó ekki strax treyst til að beita kosningaréttinum; aðeins þeir sem orðnir voru 40 ára máttu kjósa og það mark átti síðan að færast niður um eitt ár á ári þar til 25 ára markinu væri náð. Þessar takmarkanir voru þó felldar niður árið 1920. Enn varð breyting árið 1934, þegar kosningaréttur var færður niður í 21 árs aldur og takmarkanir á kosningarétti vegna skuldar við sveitarsjóð voru numdar úr gildi. Kosningaaldurinn var svo lækkaður í 20 ár árið 1968 og að lokum í 18 ár 1984. Thomas Simpson. Thomas Simpson (20. september 1710 – 14. maí 1761) var breskur stærðfræðingur sem er einna hvað þekktastur fyrir Simpsons aðferðina, aðferð sem notar margliður til þess að heilda tölulega. Útgefin rit. Simpson, Thomas Simpsonsreglan. Simpsonsaðferðin er töluleg heildunaraðferð sem að er gjarnan notuð í tölvum, en hún er kennd við Thomas Simpson sem fann hana upp og lagði hana fram í bók sinni, "The Doctrine and Application of Fluxions". Aðferðin byggir á því að nálga fall við margliðu. Þessi aðferð er í mörgum tilfellum nákvæmari en aðrar sambærilegar tölulegar heildunaraðferðir, en þetta nær að nálga sínus og kósínus án nokkurrar skekkju, sem er ákveðinn kostur við þessa aðferð fram yfir aðrar. formula_2 Gildin á formula_3 eru útgildin á f(x) á skiptipunktunum (sem koma með h millibili) formula_4 Talan formula_5 skal vera slétt, og formula_6. Skekkja. Vegna þess að fallið er töluleg nálgun við fall, þá er ákveðin reikniskekkja, en hægt er að áætla eða nálga reikniskekkjuna. Villan samsvarar formula_7, og stærð skekkjunnar minnkar eftir því sem skiptipunktunum fjölgar. Skekkjan er um það bil formula_8 þar sem að formula_6. Talnalína. Talnalínan er í stærðfræði ímynduð einvíð lína án upphafs eða enda en með miðpunkt í núlli. Út frá henni ganga allar tölur í mengi rauntalna, formula_1, raðaðar eftir stærðarröð. -10 -9 -8 -7 -6 -5 -4 -3 -2 -1 0 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Ríki (flokkunarfræði). Ríki er yfirflokkur vísindalegra flokka sem notaðir eru til að flokka lífverur. "Ríki" eru sums staðar notuð sem yfirflokkur fyrir annað en lífverur vegna hliðstæðu milli flokkunarkerfa. Sem dæmi má nefna veiruríkið (veirur eru ekki lífverur en flokkaðar á svipaðan hátt) og steinaríkið. Ríkin eru efsti (eða næstefsti) flokkurinn í flokkunarfræðinni. Í bók sinni "Systema naturae" sem kom út árið 1735 gerði Carl von Linné greinarmun á tveimur ríkjum lifandi vera, dýraríkinu og jurtaríkinu. Hann fjallaði raunar líka um steindir og setti þær í sérstakt steinaríki ("Mineralia"). Linné skipti hverju ríki í flokka sem síðar urðu að fylkingum hjá dýrum og skiptingum hjá jurtum. Þegar einfrumungar uppgötvuðust var þeim fyrst skipt á milli ríkjanna tveggja þannig að hreyfanleg form lentu í frumdýraríkinu ("Protozoa") en litir þörungar og bakteríur í jurtaríkinu sem þelplöntur ("Thallophyta") og frumplöntur ("Protophyta"). Erfitt reyndist að flokka nokkurn fjölda einfrumunga eða þá að þeir voru flokkaðir á ólíkan hátt af ólíkum höfundum; til dæmis hreyfanlegir dílþörungar og amöbulík "Mycetozoa". Vegna þessa stakk Ernst Haeckel upp á þriðja ríkinu, frumveruríkinu ("Protista"), fyrir þessar lífverur. Tvö veldi, fjögur ríki. Sú uppgötvun að bakteríur eru með frumubyggingu sem er gerólík frumum annarra lífvera (bakteríur eru með eina frumuhimnu meðan frumur annarra lífvera hafa flóknari byggingu, til dæmis kjarna og frumulíffæri) fékk Chatton til að stinga árið 1937 upp á skiptingu alls lífríkisins í tvö veldi; veldi heilkjörnunga fyrir lífverur með frumukjarna, og veldi dreifkjörnunga fyrir lífverur án frumukjarna. Tillaga Chattons fékk ekki miklar undirtektir til að byrja með. Herbert Copeland kom fram með algengara kerfi árið 1956 þar sem dreifkjörnungar fengu sérstakt ríki sem upphaflega hét "Mychota" en fékk síðar heitið "Monera" eða gerlaríkið ("Bacteria"). Í kerfi Copelands voru allir heilkjörnungar, aðrir en dýr og jurtir, settir í frumveruríkið "Protoctista". Smátt og smátt kom samt betur í ljós hversu mikilvæg skiptingin var milli heilkjörnunga og dreifkjörnunga og fleiri urðu til að taka upp tvíveldiskerfi Chattons. Fimm ríki. Robert Whittaker stillti upp sérstöku svepparíki 1969 og niðurstaðan af því varð fimm ríkja kerfi sem hefur náð mikilli útbreiðslu og er enn mikið notað. Það byggir aðallega á ólíkum næringaraðferðum: jurtaríkið inniheldur aðallega fjölfruma frumbjarga lífverur, dýraríkið fjölfruma ófrumbjarga lífverur og svepparíkið fjölfruma rotverur. Síðustu tvö ríkin, frumveruríkið og gerlaríkið, innihalda einfrumunga og einfalda frumuklasa. Sex ríki. Á árunum í kringum 1980 var mikil áhersla á þróunarferla og ríkin voru endurskilgreind þannig að þau yrðu einætta. Dýraríki, jurtaríki og svepparíki voru dregin saman í kjarnahópa náskyldra vera og afgangurinn settur í frumveruríkið. Á grundvelli rRNA-rannsókna skipti Carl Woese dreifkjörnungum í tvö ríki: raungerlaríkið "Eubacteria" og forngerlaríkið "Archaebacteria". Slík sex ríkja kerfi hafa orðið algeng síðan. Margar nýjar uppástungur að heilkjörnungaríkjum hafa síðar komið fram en þeim hefur jafnan verið hafnað og þau gerð að fylkingum eða flokkum eða einfaldlega hent. Það eina sem enn er almennt notað er ríki litvera ("Chromista") (Thomas Cavalier-Smith, 1981) sem inniheldur þara, kísilþörunga og eggsveppi. Heilkjörnungum er þannig í grundvallaratriðum skipt í þrjá hópa ófrumbjarga lífvera: dýraríki, svepparíki og frumdýr; og tvo hópa lífvera sem ljóstillífa: jurtaríki (þar með talda rauðþörunga) og "Chromista". Þessi skipting hefur samt ekki náð mikilli útbreiðslu vegna óvissu um að tvö síðastnefndu ríkin séu einstofna. Þrjú lén. Árið 1990 stakk Carl Woese upp á því að raungerlar, forngerlar og heilkjörnungar væru þrjár helstu þróunarlínur lífvera og gerði þá í samræmi við það að lénum sem hann kallar "Bacteria", "Archaea" og "Eucarya". Þetta þriggja léna kerfi hefur fengið á sig mikla gagnrýni en hefur engu að síður að mestu tekið við af tveggja léna kerfi Chattons sem leið til að flokka ríkin sjálf. Samantekt. Athugið að samsíða ríki í þessari töflu eru ekki endilega alveg jafngild. Haeckel setti til dæmis rauðþörunga og blábakteríur í jurtaríkið en í nútímaflokkunum eru þeir hafðir með frumverum annars vegar og gerlum hins vegar. Mygalomorphae. Mygalomorphae er undirættbálkur 2.000-3.000 frumstæðra kóngulóa sem fuglakóngulær ("tarantúlur"), skjóðuvefarar og hlerakóngulær tilheyra. Þessar kóngulær einkennast af tveim bóklungum og engum loftæðum, flestar stórar og loðnar. Þær hafa oftast fjóra innganga að hjartanu. Þær lifa flestar á hitabeltissvæðum. Preacher. Preacher er myndasögusería, skrifuð af Garth Ennis og teiknuð af Steve Dillon. Aðalpersónan, Jesse Custer, er fyrrverandi prestur (enska: "preacher") sem býr í Texas og verður andsetin af "Genesis" sem er afkvæmi engils og djöfuls. Guð er hættur störfum í himnaríki og allt virðist vera að fara úr böndunum, því svo virðist sem að Genesis eigi eftir að valda heimsenda. Jesse, sem hefur enga hugmynd um þetta enn, fer í leiðangur um Bandaríkin að leita svara. En nokkrir vilja hann feigan, s.s. "Arseface" og "Saint of Killers". Preacher myndasöguserían er blanda af vestra-, hryllings-, glæpa- og „fucked-up-strange“-söguþræði. Arseface. Arseface er erkióvinur Jessi Custer í myndasöguseríunum Preacher. Hann er sonur lögreglustjórans sem að Jessi varð óbeint að bana, þegar hann skipaði honum að hafa mök við sjálfan sig, sem olli því að reðurinn varð ónothæfur og hann framdi því sjálfsmorð. Arseface kennir Jessi um og heitir þess að drepa hann. Hann er kallaður Arseface sökum þess hvað hann er afmyndaður í andlitinu (sem veldur einnig alvarlegum málgalla). Afmyndun þessi stafar af því að í kjölfar þess að Kurt Kobain framdi sjálfsmorð, gerði Arseface heiðarlega tilraun til hins sama, en tókst ekki betur en að skjóta framan af andlitinu á sér. (Sjá Preacher bindi 4: Ancient History) Kambfætlur. Kambfætlur er ætt um 2.500 köngulóa, sem nefnast kambfættar því þær hafa kamb á fjórða fætinum sem þær nota til að vefa þrívíða grind sem kallast pallvefur. Ættkvíslir sem tilheyra þessum hóp eru t.d. ekkjuköngulær sem svarta ekkjan tilheyrir. Forsætisráðherra Mongólíu. Forsætisráðherra Mongólíu er æðsti ráðamaður Mongólsku ríkisstjórnarinnar, hann er skipaður af þinginu sem getur losað sig við hann með því að samþykkja vantrauststillögu. Árni Thorsteinson (tónskáld). Árni Thorsteinson (15. október 1870 – 16. október 1962) var tónskáld og ljósmyndari í Reykjavík. Foreldrar hans voru Árni Thorsteinson, landfógeti og alþingismaður, og kona hans Soffía Kristjana Johnsen. Árni ólst upp í Landfógetahúsinu við Austurstræti í Reykjavík. Eftir stúdentspróf frá Lærða skólanum árið 1890 hélt hann til lögfræðináms í Kaupmannahöfn. Þar sneri hann sér smám saman að tónlistinni auk þess sem hann lærði ljósmyndun, en lögfræðiáhuginn dofnaði. Eftir heimkomuna 1897 stofnaði hann ljósmyndastofu og starfrækti fram á ár fyrri heimsstyrjaldarinnar. Mikill hluti þeirra mannamynda sem hann tók á þessu tímabili komst síðar í vörslu Þjóðminjasafnsins. Samhliða ljósmyndastörfunum hafði Árni umsjón með brunavirðingum húsa í Reykjavík í umboði dansks tryggingafélags. 1918–1929 starfaði hann hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands og hjá Landsbanka Íslands 1929–1940. Árni tók virkan þátt í tónlistarlífi Reykjavíkur, enda söngmaður mikill. Söng hann m.a. með söngflokkunum "kátir piltar" og "17. júní". Þekktastur varð hann þó fyrir tónsmíðar sínar. Um aldamótin tók hann til við að semja lög við kvæði ýmissa góðskálda og urðu mörg þeirra fljótt vinsæl, einkum eftir að þau fyrstu komu út á prenti árið 1907. Árni kvæntist Helgu Einarsdóttur 15. september 1900 og áttu þau fjögur börn: Árna, Soffíu, Jóhönnu og Sigríði. Khalkha. Khalkha er stærsta þjóðarbrot Mongólíu. Tungumálið sem þau tala er opinbera mállýskan af mongólsku í landinu. Eiginlegar köngulær. Eiginlegar köngulær (fræðiheiti: "araneomorphae") er stærsti undirættbálkur köngulóa og eru til 95 ættir af þeim. Þær einkennast af kjálkum sem bíta skáhallt saman eins og tangir. Kóngulóafælni. Köngulóafælni (lat. "arachnophobia", komið af grísku orðunum αραχνη ("arakhnē"), „kónguló“ og φόβος ("phóbos"), „hræðsla“) er ofsahræðsla manns við kóngulær, og er ein af algengustu fælniviðbrögðum mannsins. Köngulóafælni er ein tegund dýrafælni, sem aftur heyrir undir afmarkaða fælni. Óvíst er hvernig köngulóafælni sest að í fólki, en talið er víst að hún þróist í sálarlífi þolanda snemma á barnsaldri eins og flestar tegundir fælni. Til eru margar aðferðir til að losa fólk við köngulóafælni, en helsta og áhrifaríkasta aðferðin er atferlismeðferð. Einnig er stundum notast við hugræna meðferð og lyfjameðferð. Svo virðist sem kóngulóafælni (og fælni yfir höfuð) auki hæfileika okkar til þess að greina "hættuleg" dýr í umhverfinu, eða það sem hugurinn nemur sem hættur. Sænsk rannsókn leiddi t.d. í ljós að fólk sem fælist kóngulær virðist vera fljótara að greina þær í umhverfinu en annað fólk. Sama gilti um fólk sem hræðist snáka. Evrópusambandið. Evrópusambandið (stytt ESB eða ES) er stjórnmálaleg og efnahagsleg alþjóðasamtök 28 Evrópuríkja með höfuðstöðvar í Brussel. Sambandið var stofnað í núverandi mynd með undirritun Maastrichtsamningsins þann 7. febrúar 1992 þar sem byggt var á Evrópubandalaginu. Rúmlega 500 milljónir borgara búa innan ríkja Evrópusambandsins og samanlagt er verg landsframleiðsla aðildarríkja um 30% af vergri landsframleiðslu heimsins. Í Evrópusambandinu er sameiginlegur markaður sem er staðlaður með löggjöf sem öll aðildarríki eru skyldug til þess að setja. Þau lög snúa að hinu svokallaða fjórfrelsi sem tryggir frjálsa för fólks, varnings, þjónustu og fjármagns um landamæri þeirra. Að auki má nefna sameiginlega viðskiptastefnu, landbúnaðarstefnu og sjávarútvegsstefnu auk byggðastefnu. Sextán aðildarríki hafa tekið upp sameiginlegan gjaldmiðil, evruna sem mynda Evrusvæðið. Evrópusambandið hefur einnig hlutverki að gegna í utanríkismálum, sameiginlegur fulltrúi ESB-ríkja semur um kjör og kosti í Alþjóða viðskiptastofnuninni, á fundum G8-ríkjanna, G20-ríkjanna og hjá Sameinuðu þjóðunum. Með Schengen-samstarfinu eru vegabréf óþörf fyrir ríkisborgara 22 ríkja Evrópusambandsins auk þriggja annarra ríkja utan Evrópusambandsins, það er að segja Noregs, Írlands og Sviss þegar kemur að ferðum landanna á milli. Tuttugu og eitt ríki Evrópusambandsins eru meðlimir NATO. Sem alþjóðasamtök er Evrópusambandið hvorki yfirþjóðlegt né hefðbundin milliríkjasamtök. Helstu stofnanir innan Evrópusambandsins eru ráðherraráðið, framkvæmdastjórn, Evrópska ráðið, Evrópuþingið, Seðlabanki Evrópu og Evrópudómstóllinn. Til Evrópuþingsins geta þeir kosið sem hafa evrópskan ríkisborgararétt. Uppruni og saga. Eftir eyðileggingu síðari heimsstyrjaldarinnar einsettu Evrópubúar sér að endurbyggja Vestur-Evrópu. Markmiðið var að koma á varanlegum friði í Evrópu, eftir að hvert stríðið hafði rekið annað frá örófi alda. Kola- og stálbandalag Evrópu varð fyrsti vísirinn að því að efla samstarf Evrópuríkja, fyrst skyldi leitast við að gera ríkin efnahagslega víxlháð og sáttmálinn um Kola- og stálbandalagið gerði það með því að setja kola-, járn- og stálframleiðslu undir sameiginlega stjórn og á sameiginlegan markað. Það er athyglisvert að Kola- og stálbandalagið varð til upp úr viðræðum Frakka og Þjóðverja, en skærur milli þessara tveggja þjóða höfðu verið einn af meginþáttunum í áðurnefndri stríðssögu Evrópu, allt frá því að mörk þess, sem seinna varð að Frakklandi og Þýskalandi nútímans, voru dregin með Verdun-samningnum árið 843. Meðal helstu áhrifavalda að Evrópusamrunanum á þessum upphafsárum voru Jean Monnet, Robert Schuman, Paul Henri Spaak og Alcide de Gasperi. Upphaflegu stofnríki Kola- og stálbandalagsins voru Belgía, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Ítalía og Vestur-Þýskaland. Árið 1957 undirrituðu þessi sex ríki Rómarsáttmálann. Þá varð til Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) en því til viðbótar var Kjarnorkubandalag Evrópu stofnað sem hálf-sjálfstæð stofnun. Áratug seinna, árið 1967, gekk Samrunasamningurinn í gildi en þá voru stofnanir EBE færðar undir einn hatt. Árið 1973 gengu þrjú lönd í EBE: Danmörk, Írland og Bretland. Aðildarríki töldu nú níu. Norðmenn höfðu lokið aðildarviðræðum en í þjóðaratkvæðagreiðslu höfnuðu þeir aðild. Árið 1979 var kosið til Evrópuþingsins í fyrsta skiptið. Grikkland gekk í EBE árið 1981 og Spánn og Portúgal fylgdu eftir árið 1986. Schengen-samstarfið hófst árið 1985 með undirritun fimm ríkja um að opna landamæri sín fyrir ríkisborgurum þeirra í milli og leyfa fólksflutninga án vegabréfa. Árið 1986 var Evrópufáninn tekinn í notkun og Einingarlögin bjuggu til sameiginlegan markað ríkja EBE. Eftir hrun kommúnismans og fall Sovétríkjanna opnaðist möguleiki fyrir Austur- og Mið-Evrópuríkja á að ganga í EBE. Af því tilefnu komu aðildarríki EBE sér saman um Kaupmannahafnarkríteríuna þar sem tekin voru fram þau skilyrði sem aðildarríki þurftu að hafa til að geta hlotið inngöngu. Evrópusambandið (ESB) varð formlega til þegar Maastrichtsamningurinn tók gildi 1. nóvember 1993. Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu í ESB árið 1995 en þessi ríki höfðu fram að þessu viljað gæta hlutleysi með tilliti til Sovétríkjanna. Amsterdamsáttmálinn gekk í gildi 1997 en með honum voru ýmsir hnökrar á Maastrichtsáttmálanum lagfærðir og búið í haginn fyrir yfirvofandi stækkun ESB. Með Nicesáttmálanum 2001 var þessu starfi haldið áfram. Árið 2002 var evran, gjaldmiðill ESB, tekin í notkun í tólf aðildarlöndum. 2004 stækkaði Evrópusambandið um tíu ríki, og taldi þá 25 aðildarríki, þegar Malta, Kýpur, Slóvenía, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland gengu í ESB. Þann 1. janúar 2007 bættust Rúmenía og Búlgaría í hóp aðildarríkja, sem töldu þá 27 talsins og Slóvenía tók upp evruna. 1. júlí 2013 gekk Króatía í sambandið sem 28. aðildarrikið. Staða. Evrópusambandið er um margt einstakt þegar kemur að alþjóðastofnunum, hvort heldur er alþjóðlegum eða svæðisbundnum. Fyrst ber að líta á, að Evrópusambandið felur í sér dýpra og víðtækara samstarf milli aðildarríkja en nokkur önnur alþjóðasamtök geta státað af, einnig það að áhrif Evrópusambandsins á löggjöf aðildarríkjanna eru meiri en gengur og gerist og þar með eru áhrif þess á daglegt líf borgara í þessum löndum meiri en fylgja yfirleitt aðild að alþjóðasamtökum. Sambandið getur sjálft sett lög, sem gilda sjálfkrafa í öllum aðildarríkjum. Sambandið starfar á sviðum frá heilsugæslu og efnahagsmálum að utanríkis- og varnarmálum en aðildarríkin hafa framselt mismikið af valdi sínu til ESB eftir því um hvaða málaflokk er að ræða. Hvað varðar peningastefnu, landbúnað, viðskipti og umhverfismál til dæmis má líkja ESB við sambandsríki að völdum. Utanríkismál eru hins vegar dæmi um málaflokk, sem er alveg á hinum enda skalans, samstarfið í þeim flokki er meira í ætt við hefðbundið milliríkjasamstarf, þar sem ekki er hægt að þvinga aðildarríki til samstarfs. Aðrir málaflokkar lenda svo þarna mitt á milli. Evrópusambandið er þannig einstakt, hvorki hefðbundin alþjóðastofnun né sambandsríki, heldur er það stofnun sem er „sinnar eigin tegundar“ (l. "sui generis"). Það hversu langt á að ganga með þessu samstarfi hefur verið uppspretta deilna frá upphafi þess og skoðanir eru skiptar bæði innan aðildarríkja sem og á milli þeirra. Þannig hafa meginlandsþjóðir á borð við Frakka, Þjóðverja og Benelúxlöndin yfirleitt verið jákvæðari gagnvart dýpra sambandi en þjóðir eins og Norðurlöndin og Bretland til dæmis hafa ekki viljað ganga eins langt. Aðildarríki og stækkunarlotur. Frá 1. júlí 2013 hafa aðildarríki Evrópusambandisins verið 28 sjálfstæð og fullvalda Evrópuríki sem skilgreind eru sem aðildaríkin. Stofnmeðlimir sambandsis 1952/1958 voru: Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland. Síðan þá hafa 22 ríki gengið í sambandið í nokkrum stækkunarlotum. Þrjú ríki eru opinberlega umsóknarríki, sem þýðir að þau hafi hug á að ganga í ESB og verið sé að meta það hvort þau uppfylli skilyrði sem ákveðin voru á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn árið 1993. Þau eru Ísland, Fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedóníu, Svartfjallaland og Tyrkland. Ríkisstjórn Íslands hefur þó ákveðið að stöðva aðildarviðræður. Fimm lönd á Balkanskaganum hafa opinberlega verið viðurkennd sem hugsanleg umsóknarríki en þau eru Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Serbía og Kosóvó. Uppbygging. Stofnanir og lagareglur Evrópusambandsins eru fjölmargar og hlutverk þeirra skarast oft. Þetta er afleiðing þess að sambandið byggir á röð milliríkjasamninga, sem hafa orðið til á nokkrum áratugum. Á seinni árum hefur verið hreyfing í þá átt að sameina og einfalda samningana og er Stjórnarskrá Evrópusambandsins dæmi um það. Þrjár stoðir ESB. Með samningnum um Evrópusambandið (Maastricht) var hinum svokölluðu þremur stoðum Evrópusambandsins komið á fót. Þetta fyrirkomulag varð til í aðdraganda Maastrichtsamningsins, þegar sumum aðildarríkjum þótti æskilegt að utanríkis-, öryggis- og varnarmál, málefni innflytjenda og hælisleitenda og samvinna lögreglu og dómstóla yrðu partur af samstarfinu en önnur ríki vildu ekki að þessi mál féllu undir Evrópubandalagið vegna þess að þau væru of viðkvæm til að treysta stofnun með yfirþjóðlegt vald til að sjá um þau, betra væri ef að samstarfið á þessum sviðum færi fram eins og hefðbundið milliríkjasamstarf, þar sem ríkisstjórnir aðildarríkjanna eiga ávallt seinasta orðið. Í málamiðlunarskyni var ákveðið að fella þessi mál ekki undir Evrópubandalagið heldur búa til sérstakar „stoðir“, þar sem vald EB stofnanna á borð við Evrópuþingið, Framkvæmdastjórnina og Evrópudómstólinn er takmarkað verulega. Með breytingunum, sem gerðar voru í Amsterdam- og Nicesamningunum hafa þessir málaflokkar þó færst nær þeirri (yfirþjóðlegu) málsmeðferð, sem tíðkast innan EB (gjarnan kölluð Bandalagsaðferðin). Stærsta breytingin í þessa átt var þegar mörg málefni, sem áður féllu undir stoð III voru færð undir Bandalagsstoðina eftir Amsterdamsamninginn. Drög að Stjórnarskrá Evrópusambandsins gera ráð fyrir því, að stoðakerfið verði aflagt og málefni þeirra sett undir Evrópusambandið sjálft. Stoð I: Evrópubandalagið. Áður en stofnun Evrópusambandsins var lýst yfir var nafnið Evrópubandalagið notað yfir þau lönd sem þá voru þátttakendur í samstarfinu. Evrópubandalagið er enn þá til en nú sem fyrsta stoð ESB og sú langmikilvægasta. Það sem flestir sjá sem Evrópusambandið er í raun og veru Evrópubandalagið, það er stofnunin sem rekur meðal annars Evrópuþingið, Framkvæmdastjórnina og Ráðið. Evrópubandalagið hefur, ólíkt hinum stoðunum, yfirþjóðlegt vald. Stoð II: Sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna. Samvinna á sviði utanríkismála hófst árið 1970 innan Evrópubandalagsins með svokallaðri Lúxemborgarskýrslu. Með einingarlögunum var samvinnan lögfest en þá fólst hún fyrst og fremst í því að ríkin hefðu samráð um utanríkismál. Hræringar í heimsmálunum í upphafi 10. áratugarins kölluðu á nánari samvinnu á þessu sviði og í samningnum um Evrópusambandið var gert ráð fyrir því, að sambandið sem slíkt gæti haft sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu. Samstarfið innan þessarar stoðar fer fram í gegnum stofnanir Evrópusambandsins, sérstaklega Ráðið og Evrópska ráðið. Evrópska ráðið skilgreinir meginreglurnar og leiðbeiningarreglurnar fyrir samstarfið en Ráðið hrindir þeim í framkvæmd með því að samþykkja sameiginlega afstöðu og sameiginlegar aðgerðir. Í báðum tilfellum verður ráðið að veita einróma samþykki sitt. Stoð III: Lögreglusamvinna og lagaleg samvinna í refsimálum. Aðildarríki EB höfðu haft samvinnu um svokölluð lagaleg og innri málefni allt frá árdögum bandalagsins en með Maastrichtsamningnum var leitast við að kerfisbinda samstarfið undir merkjum Evrópusambandsins. Upphaflega var þessi stoð kölluð „samvinna um lagaleg og innri málefni“ en með Amsterdamsamningnum voru málefni ólöglegra innflytjenda, vegabréfsáritanir, hælisveitingar og samvinna dómstóla í einkamálum færð undir Bandalagsstoðina. Stofnanir ESB. Evrópski umboðsmaðurinn hefur eftirlit með því að stofnanir ESB misbeiti ekki valdi sínu. Varnarmál. a> er framleidd í samvinnu fjögurra Evrópusambandsríkja. Evrópusambandið hefur ekki sameiginlegan her. Forverar Evrópusambandsins voru hugsaðir sem öflug hernaðarbandalög vegna þess að NATO gegndi því hlutverki fyrir flestar aðildarþjóðirnar. Tuttugu og eitt aðildarríki Evrópusambandsins er einnig aðildarríki NATO en hin fjögur Evrópusambandslöndin (Austurríki, Finnland, Írland og Svíþjóð) halda fram hlutleysi. Aftur á móti hefur verið dregið í efa að hlutleysi þeirra samrýmist aðildinni að Evrópusambandinu og þegar á reynir, til dæmis í tilviki hryðjuverka eða utanaðkomandi ógnar, er samstaða og eining innan Evrópusambandsins samkvæmt sáttmálum þess. Vestur-Evrópusambandið, sem var hernaðarbandalag með sáttmála um sameiginleg varnarviðbrögð, var lagt niður árið 2010 vegna þess að Evrópusambandið hafði tekið við hlutverki þess. Samkvæmt Alþjóðlega friðarrannsóknasetrinu í Stokkhólmi (SIPRI) varði Bretland meira en 48 milljörðum evra í varnarmál árið 2009 og var þar með í þriðja sæti á eftir Bandaríkjunum og Kína. Frakkland varði 47 milljörðum evra og var í fjórða sæti. Saman bera Bretland og Frakkland ábyrgð á 45% af heildarútgjöldum Evrópusambandsins til varnarmála, 50% af herafla þess og 70% af útgjöldum til rannsókna þróunar í varnarmálum. Árið 2000 báru Bretland, Frakkland, Spánn og Þýskaland ábyrgð á 97% af öllum útgjöldum til rannsókna og þróunarvinnu í varnarmálum. Í kjölfarið á Stríðinu í Kosovo árið 1999 ákvað Evrópuráðið að Evrópusambandið yrði að hafa getuna til þess að framkvæma hernaðaraðgerðir á eigin vegum, hersveitirnar til að framkvæma þær og viljann og getuna til að ákveða að nota þær til þess að geta brugðist við aðstæðum sem gætu komið upp. Með það í huga var ráðist í að auka hernaðargetu Evrópusambandsins. Friðargæslusveitir Evrópusambandsins hafa verið sendar til ríkja fyrrum Júgóslavíu á Balkanskaga, til Afríku og Miðausturlanda. Ýmsar stofnanir styðja við hernaðaraðgerðir Evrópusambandsins, þar á meðal Varnarmálastofnun Evrópu, Gervihnattamiðstöð Evrópusambandsins og Hermálaráð Evrópu. Lýðfræði. Íbúafjöldi Evrópusambandsríkjanna allra var áætlaður rúmlega hálfur milljarður 1. janúar 2010. Íbúafjöldi Evrópusambandsins er 7,3% af fólksfjölda heimsins en Evrópusambandið nær þó einungis yfir um 3% af landsvæði jarðar. Evrópusambandið er því tiltölulega þéttbýlt svæði, með 115,9 íbúa á km². Stórborgarmyndun. Auk margra stórborga eru í löndum Evrópusambandsins fjölmörg afar fjölmenn þéttbýlissvæði sem hafa engan einn kjarna en hafa myndast úr nokkrum stórborgum. Stærstu svæðin af þessu tagi eru Rín-Ruhr svæðið með tæpar tólf milljónir íbúa (sem Köln, Dortmund, Düsseldorf og fleiri borgir mynda), Randstad með um sjö milljónir íbúa (sem Amsterdam, Rotterdam, Haag, Utrecht og fleiri borgir mynda), Rín-Main með tæpar sex milljónir íbúa (sem Frankfurt, Wiesbaden og fleiri borgir mynda), Flæmski demanturinn með um 5,5 milljónir íbúa (þéttbýlissvæðið milli Antwerpen, Brussel, Leuven ogGhent), Eyrarsundssvæðið með um 3,7 milljónir íbúa (Kaupmannahöfn í Danmörku og Malmö í Svíþjóð) og Efra Silesíu iðnaðarsvæðið með um 3,5 milljónir íbúa (sem Katowice, Sosnowiec og fleiri borgir mynda). Menntun og vísindi. Í menntun og vísindum takmarkast hlutverk Evrópusambandsins við að aðstoða aðildarríkin. Menntastefna Evrópusambandsins varð til á 9. áratug 20. aldar og miðaði í upphafi einkum að því að auðvelda nemendaskipti og hreyfanleika. Þekktast þessara verkefna er Erasmus-verkefnið, sem er skiptinemaverkefni á háskólastigi sem var ýtt úr vör árið 1987. Á fyrstu tveimur áratugunum hefur það gert hálfri annarri milljón háskólanema kleift að að heimsækja erlenda háskóla og hefur orðið að nokkurs konar táknmynd evrópsks háskólalífs. Nú eru einnig sams konar verkefni í boði fyrir grunn- og framhaldsskólanema og kennara, fyrir iðnnema og í símenntun. Þeim er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á öðrum löndum og breiða út góða starfshætti í menntun og þjálfun innan Evrópusambandsins. Með Bologna-viðmiðunum reynir Evrópusambandið einnig að stuðla að stöðlun námskrafna og námsgráða innan Evrópu. Ísland og Evrópusambandið. Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu, en hefur sótt um aðild. Þann 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi Íslendinga þingsályktunartillögu um umsókn um aðild að ESB. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands afhenti Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, umsóknina með formlegum hætti þann 23. júlí. Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð, hafði þó afhent umsóknina í Stokkhólmi 17. júlí. Ísland hefur hins vegar verið aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) síðan 1970, en þeim var ætlað að stuðla að frjálsri verslun. Með Evrópska efnahagssvæðiðnu, sem Ísland gerðist aðili að 1994 fengu íslensk fyrirtæki aðgang að evrópskum markaði. Mikil umræða hefur verið um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB, nú eða þá upptöku evrunnar, eða annars gjaldmiðils á síðustu árum. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í apríl 2008 eru ríflega ⅔ Íslendinga fylgjandi því að undirbúa umsókn að ESB. Í könnun frá því febrúar þegar spurt var um hvort sækja ætti um aðild (ath: ekki undirbúa umsókn um aðild) frá því í febrúar sama ár svaraði 55,1% játandi. Það var ekki stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem mynduð var eftir Alþingiskosningar 2007, að sækja um inngöngu í ESB. Samfylkingin hefur lýst því yfir að það sé á þeirra stefnu að sækja um aðild, en Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því. Eftir að skuldakreppan í Evrópu (og þá einkum á Evrusvæðinu) hófst fyrir alvöru, 2010, hefur dregið mikið úr stuðningi við aðild. Adrien-Marie Legendre. Adrien-Marie Legendre (18. september 1752 – 10. janúar 1833) var franskur stærðfræðingur, sem ásamt Lagrange og Laplace var í þriggja manna hópi sem tengdist frönsku byltingunni. Hann var vel þekktur á nítjándu öld, sem höfundur góðrar kennslubókar um rúmfræði Evklíðs, en meginstarf hans var á sviði örsmæðareiknings. Svokallaðar Legendre-margliður, sem eru lausnir vissra deildajafna, eru mikilvægar í stærðfræðigreiningu. Hann ásamt Euler leiddi út og sannaði að nokkru lögmál í talnafræði, sem þekkt er sem lögmálið um andhverfuna í öðru veldi. Legendre, Adrien-Marie Tungumál í Evrópusambandinu. Fjölmörg tungumál eru töluð í ríkjum Evrópusambandsins, sum þeirra njóta sérstakrar stöðu innan þess og eru skilgreind sem opinber mál, það eru mál sem notuð eru innan stofnanna sambandsins. Til viðbótar finnast mörg tungumál í aðildarríkjunum sem ekki njóta slíkrar viðurkenningar en vaxandi hreyfing hefur verið í kringum að gera nokkur þeirra að opinberum málum, sérstaklega hvað varðar basknesku, katalónsku og gallísku. Listi yfir tungumál í evrópusambandinu flokkað eftir fjölda. Í eftirfarandi töflu eru mest töluðu tungumál í evrópusambandinu flokkuð eftir hlutfalli íbúa sambandsins sem tala þau sem móðumál og sem erlent mál. Tölurnar eiga við stöðuna 2005, sem er áður en Búlgaría og Rúmenía gengu í evrópusambandið. Evrópufáninn. Evrópufáninn samanstendur af tólf gulllituðum stjörnum á bláum bakgrunni. þó hann sé oftast tengdur við Evrópusambandið er það algengur misskilningur að hann eigi uppruna sinn að rekja þangað, en hann var upprunalega notaður sem merki Evrópuráðsins frá og með 1955. Hann á í dag að tákna Evrópu í heild sinni í stað einna samtaka eins og ESB eða ráðs Evrópu. Árni Thorsteinson (landfógeti). Árni Thorsteinson (5. apríl 1828 – 29. nóvember 1907) var síðasti landfógeti á Íslandi frá 1861 til 1904 og alþingismaður 1877-1905 og forseti Alþingis árið 1885. Árni var fæddur á Arnarstapa, sonur Bjarna Thorsteinssonar amtmanns og konu hans Þórunnar Hannesdóttur, sem var dóttir Hannesar Finnssonar biskups. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1847 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1854. Árið 1856 varð hann sýslumaður í Snæfellsnessýslu og 18. febrúar varð hann bæjarfógeti í Reykjavík og jafnframt landfógeti. Bæjarfógetaembættið var skilið frá landfógetaembættinu með konungsúrskurði 1874 og frá 1. júlí það ár var Árni einungis landfógeti. Atlantshafsbandalagið. Atlantshafsbandalagið (einnig NATÓ eftir enskri skammstöfun á nafni þess: "North Atlantic Treaty Organisation" eða OTAN eftir franskri skammstöfun á heiti þess, ("l'Organisation du Traité de l'Atlantique Nord")) er hernaðarbandalag. Skrifað var undir stofnsáttmála bandalagsins í Washington D.C. 4. apríl 1949. Kjarni bandalagsins er 5. grein stofnsáttmálans þar sem því er lýst yfir að árás á eitt bandalagsríki í Evrópu eða Norður-Ameríku jafngildi árás á þau öll. Sú grein var hugsuð til að gera Sovétríkjunum það ljóst að innrás inn í Vestur-Evrópu jafngilti stríðsyfirlýsingu við Bandaríkin og allan hernaðarmátt þeirra. Á móti stofnuðu Sovétríkin ásamt leppríkjum sínum í Austur-Evrópu Varsjárbandalagið. Innrás Sovétmanna varð þó aldrei að veruleika og 5. greinin hefur aðeins verið notuð einu sinni en það var 12. september 2001 eftir hryðjuverkaárás á Bandaríkin. Aðild Íslands að NATO. Lög um inngöngu Íslands í NATO voru samþykkt á Alþingi, 30. mars 1949. Talsverðar óeirðir urðu í samband við það á Austurvelli. NATO ásamt Bandaríkjaher rak Keflavíkurstöðina á Miðnesheiði frá 1951 til 2006. Aðildarríki. Þýskaland gekk í sambandið sem Vestur-Þýskaland, landsvæðið sem áður var Austur-Þýskaland varð hluti af NATÓ með sameiningu þýsku ríkjanna árið 1990. Frank Sinatra. Frank Sinatra (12. desember 1915 – 14. maí 1998) var bandarískur söngvari. Hann var einnig þekktur kvikmyndaleikari. Antonio Vivaldi. Antonio Vivaldi (4. mars 1678 – 28. júlí 1741), fæddist í Feneyjum og var einn frægasti tónlistarmaður barokktímabilsins. Hann lærði á fiðlu hjá föður sínum, sem var fiðluleikari í Markúsarkirkjunni í Feneyjum. Vivaldi lærði til prests og tók vígslu en gat ekki sungið við messur vegna veikinda og þar með hófust mikil tengsl hans við munaðarleysingjahæli telpna. Þar var hann tónlistarkennari en munaðarleysingjahælið naut mikillar virðingar fyrir metnaðarfulla söng- og hljóðfærakennslu. Svo virðist vera sem Vivaldi hafi upplifað mikla lægð í sögu Feneyja en veldi þessarar annars mikilsvirtu borgar virtist hnigna mikið við fund Ameríku og nýrra siglingaleiða. Samt sem áður gegndu Feneyjar enn sem fyrr stóru menningarlegu hlutverki í listum álfunnar. Sem tónlistarkennari munaðarleysingjahælisins reis Vivaldi upp sem áhrifamesti og afkastamesti tónlistarmaður síns tíma. Þar kom hann á fót telpnahljómsveit og telpnakór og lét þær syngja lög, sviðsetja óperur og dansa listdans. Hlutverk hans var að semja tónlist fyrir stúlkurnar. Það leysti hann vel af hendi. Konsertar hans skipta hundruðum og finnst mörgum þeir vera svo líkir að þar sé hreinlega einn og sami konsertinn. Á þessum krepputíma Feneyja var mikill skortur á fjárframlögum, svo að Vivaldi átti við mikinn fjárskort að stríða. Undi hann ekki við sitt hlutskipti og vildi ferðast um heiminn til að að koma sér á framfæri. Það gerði hann og varð þekktur sem "rauði klerkurinn", bæði vegna rauða hársins, sem hann skartaði, svo og menntunar hans sem prestur. Að lokum ákvað hann að selja allar eigur sínar og freista gæfunnar. Hann fluttist frá Feneyjum til München og Vínarborgar. Þar ætlaði hann sér frægð og frama en vegna mikilla tískubreytinga urðu verk hans úrelt og dó hann að lokum í fátækt. Vivaldi samdi um 40 óperur en aðeins hafa varðveist hlutar úr átján þeirra. Nú á síðari árum hefur verið unnið að því að endurreisa verk hans og þá helst konserta hans en óperur hans eru þó hver af annarri að vakna til lífsins af löngum vetrardvala. Varsjárbandalagið. Aðildarríki Varsjárbandalagsins sjást hér rauð á kortinu. Varsjárbandalagið var hernaðarbandalag Sovétríkjanna og nokkurra annarra kommúnistaríkja í Austur-Evrópu á tímum Kalda stríðsins. Það var stofnað að í Varsjá þann 14. maí 1955 að frumkvæði Nikita Krútsjov, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Bandalagið var hugsað sem svar við Atlantshafsbandalagi vesturveldanna sem stofnað var 1949. Sérstaklega var það innganga Vestur-Þýskalands í NATO sem varð kveikjan að stofnun Varsjárbandalagsins. Varsjárbandalagið var formlega leyst upp hinn 1. júlí 1991. Gunnar Dal. Gunnar Dal (skírður Halldór Sigurðsson) (4. júní 1923 – 22. ágúst 2011) var íslenskur rithöfundur, heimspekingur, kennari og skáld. Gunnar skrifaði mikið um heimspeki, en gaf einnig út nokkrar skáldsögur og öllu fleiri ljóðabækur. Hann þýddi einnig talsvert magn ljóða sem flest eru heimspekilegs eðlis. Um árabil starfaði Gunnar við kennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem hann kenndi Heimspeki og íslensku. Kazoo. Kazoo er lítið munnblásturshljóðfæri sem að er spilað á með því að raula inn í það. Raulað er inn um breiðari endan og fær titringurinn í raulinu lítin pappaflipa til að hristast og mynda suðandi hljóð. Jóhannes Sveinsson Kjarval. Jóhannes Sveinsson Kjarval, oftast ritað Jóhannes S. Kjarval, (15. október, 1885 – 13. apríl 1972) er einn frægasti listmálari Íslands. Hann afþakkaði stórkross Hinnar íslensku fálkaorðu sem átti að veita honum árið 1965. Sættir náðust þó með því að orðan var varðveitt í Listasafni Íslands en Jóhannes vildi aldrei fá hana í hendur. Þetta er eina fálkaorðan sem ekki hefur þurft að skila við andlát orðuhafa. Afkomendur Kjarvals vefengja listaverkagjöf Kjarvals Reykjavíkurborg til handa, en Kjarvalsstaðir hýsa verk þau sem um ræðir. Bernska og ætt. Kjarval fæddist að Efri-Ey í Meðallandi. Foreldrar hans voru "Sveinn Ingimundarson" og kona hans "Karitas Þorsteinsdóttir Sverrissen". Kjarval dvaldist fyrstu fjögur árin hjá foreldrum sínum, en ólst eftir það upp hjá hálfbróður móður sinnar á Borgarfirði eystra. Hann hét Jóhannes Jónsson og var bóndi i Geitavík en kona hans var Guðbjörg Gissurardóttir. Kjarval stundaði sjómennsku á yngri árum. Fyrstu myndlistarsýningu sína hélt hann í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík (Gúttó) árið 1908. Hafði hann þá engrar tilsagnar notið. Þann 26. september sama ár birtist einnig fyrsta greinin um Kjarval í Austra, en hana skrifaði Guðbrandur Magnússon. Guðbrandur beitti sér síðan fyrir því að ungmennafélögin héldu myndlistahappadrætti til að safna í ferðasjóð fyrir Kjarval. Söfnuðust þá 800 krónur, og Hannes Hafstein ráðherra bætti síðar við 1000 krónum úr ríkissjóði. Þessir peningar urðu til þess að Kjarval gat farið utan til náms árið 1909. Hann var í fyrstu vetrarlangt í Lundúnum, bjó hjá lögregluþjóni að 40 Liverpool Street Kings Cross og stundaði þar söfn og málaði. Námsár. Kjarval fór til Kaupmannahafnar árið 1913. Hann lauk prófi frá Konunglega listaháskólanum þar í borg árið 1917. Siðar dvaldist hann i Rómaborg og viðar á Ítaliu til ársins 1920 og í París dvaldist hann árið 1928. Frá árinu 1922 starfaði svo Kjarval sem listmálari í Reykjavik. Immanuel Kant. Immanuel Kant (22. apríl 1724 – 12. febrúar 1804) var prússneskur heimspekingur og er talinn vera síðasti merki heimspekingur upplýsingartímabilsins. Æskuár. Immanuel Kant — sem var nefndur Emanuel en breytti síðar nafni sínu í Immanuel eftir að hafa lært hebresku — var fæddur 1724 í Königsberg í Prússlandi (nú Kalíníngrad í Rússlandi). Hann var fjórða barnið af níu sem foreldrar hans Jóhann Georg Kant (1682-1746) og Anna Regína Porter (1697-1737) eignuðust, fimm þeirra lifðu til fullorðinsára. Kant bjó alla sína ævi í heimabæ sínum sem þá var höfuðborg Austur-Prússlands. Faðir hans var handiðnaðarmaður frá Memel, norðaustustu borg Þýskalands (nú Klaipėda í Litháen), og móðir hans var dóttir söðlara. Ungur var Kant ábyrgur nemandi en þó ekki framúrskarandi. Hann var alinn upp við rétttrúnað sem þá var vinsæl umbótahreyfing innan lútherstrúar og lagði áherslu á mikla trúrækni, persónulegt lítillæti og lestur Biblíunnar. Menntun hans lagði ríkt á um latínu– og trúarkennslu frekar en stærðfræði og vísindi vegna þessa og var ströng og agamikil. Kant sagði síðar að þetta tímaskeið hefði fallið honum þungt í geð. Menntun. Kant innritaðist í Háskólann í Königsberg árið 1740, þá sextán ára að aldri. Hann nam heimspeki Leibniz og Christians Wolff hjá Martin Knutsen, rökhyggjumanni sem vel var kunnur breskri heimspeki og vísindum og vakti áhuga Kant á stærðfræðilegri eðlisfræði Newton. Hann stöðvaði tímabundið nám 1746 þegar faðir hans fékk hjartaáfall og lést. Þá varð Kant einkakennari í úthverfum Königsberg en hélt áfram fræðilegum rannsóknum. Árið 1749 gaf hann út sitt fyrsta heimspekiverk, "Hugleiðingar um rétt mat á lífskröftum". Kant gaf út nokkur verk vísindalegs eðlis og byrjaði að flytja fyrirlestra 1755. Nú byrjaði hann að einbeita sér meira að heimspekinni þótt hann héldi áfram að skrifa um vísindi allt sitt líf. Snemma á sjöunda áratug 18. aldar gaf hann út röð mikilvægra heimspekiverka. Rökfræðiverkið "Sýnt fram á að fágun rökhendusniðanna fjögurra sé ósönn" var gefið út 1762. Tvö önnur verk birtust í kjölfarið næsta ár: "Tilraun til að kynna hugtakið neikvæðar stærðir í heimspeki" og "Einu mögulegu rökin til að styðja sönnun á tilvist guðs". Árið 1764 ritaði Kant svo "Athuganir á tilfinningu fyrir fegurðinni og hinu tignarlega" og "Rannsókn á skýrleika frumsetninga náttúrulegrar guðfræði og siðfræði" og var í öðru sæti á eftir Móses Mendelssohn í verðlaunakeppni berlínsku akademíunar (verkið er því gjarnan kallað „verðlaunaritgerðin“). Árið 1770, þá orðinn 45 ára gamall, var Kant gerður að prófessor í rökfræði og frumspeki við Háskólan í Königsberg. Þá ritaði Kant til varnar prófessorstöðu sinni "Um snið og meginreglur skyn- og skilningsheimsins". Það verk endurspeglaði nokkur meginþemu síðari verka hans, þar á meðal takmörk mannlegrar skynsemi og skynjunar. Síðari menntastörf. Fjörtíu og sex ára að aldri var Kant mikilsmegandi fræðimaður og hafði sífellt meiri áhrif sem heimspekingur. Menn bjuggust við miklu af honum. Eftir að hafa fengið bréf frá einum nemanda sinna, Markus Herz, sá hann að í "Um snið og meginreglur skyn- og skilningsheimsins" hafði hann ekki bent fyllilega á samhengi skilningarvitanna og skynseminnar. Hann stóð einnig í þakkarskuld við David Hume fyrir að hafa vakið sig upp af „svefni kreddufestunnar“ (um 1770). Ekkert rit birtist frá honum í rúman áratug. Á þessu tímabili vann hann að því að laga vankanta í verkum sínum. Þrátt fyrir dálæti á félagsskap og samræðum lokaði Kant sig af og tilraunir vina hans til að draga hann úr einverunni voru árangurslausar. Kant sneri aftur úr einangruninni 1781 með útgáfu verksins "Gagnrýni hreinnar skynsemi". Enda þótt verkið sé í dag almennt álitið eitt helsta heimspekirit sögunnar, þá var ritið að mestu hunsað við fyrst útgáfu. Bókin var löng, eða um 800 síður á frummálinu, og skrifuð í þurrum og fræðilegum stíl. Hún fékk litlar undirtektir og þeir fáu ritdómar sem voru skrifaðir kunnu ekki að meta brautryðjandi náttúru hennar. Kant var vonsvikin vegna móttöku bókarinnar. Hann gerði sér þó grein fyrir óskýrleika ritsins og skrifaði því "Forspjall að sérhverri vísindalegri frumspeki framtíðar" árið 1783 sem samantekt meginatriða hennar og fékk vin sinn Johann Schultz til að gefa út stutta athugasemd við "Gagnrýni hreinnar skynsemi". Orðstír Kants jókst á áttunda áratug 18. aldar í kjölfarið á útgáfu nokkurra rita: "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing" árið 1784, "Grundvöllur að frumspeki siðferðilegrar breytni" árið 1785 sem var jafnframt hans fyrsta siðfræðiverk hans og "Frumspekilegar forsendur náttúruvísinda" árið 1786. Þó var frægð hans í raun að þakka Karl Reinhold sem gaf út röð af bréfum 1786 um kantíska heimspeki. Í þessum bréfum notaðist Reinhold við heimspeki Kant til að svara einu helsta deilumáli þess tíma: algyðistrúardeilunni. Friedrich Jacobi hafði sakað G. E. Lessing (frægt leikritaskáld sem skrifaði heimspekilegar ritgerðir) um að aðhyllast heimspeki Spinoza, en Lessing hafði nýlega látist. Slíkum ásökunum, sem svipaði til ásökunar um trúleysi, var harðlega neitað af vini Lessing að nafni Moses Mendelssohn og opinber deila hófst á milli þeirra. Ágreiningurinn snerist á endanum um gildi upplýsingarinnar og skynsemina. Reinhold hélt því fram í bréfum sínum að "Gagnrýni hreinnar skynsemi" eftir Kant gæti gert út um deiluna með því að verja yfirráð og takmörk skynseminnar. Bréf Reinhold voru víðlesin og gerðu Kant að frægasta heimspekingi síns tíma. Tenglar. Kant, Immanuel Kant, Immanuel Kant, Immanuel Mengi. Mengi er í stærðfræði safn staka (einnig kallað íbúar), sem til samans mynda eina heild. Mengjahugtakið er eitt af grunnhugtökum í nútíma stærðfræði. Mengjafræði varð til við lok 19. aldar og er stærðfræðingurinn Georg Cantor upphafsmaður hennar. Stök mengja. Stök mengis geta verið hvað sem er: tölur, fólk, bókstafir, önnur mengi o.s.frv. Mengi eru oftast táknuð með stórum bókstöfum eins og "A","B" og "C". Tvö mengi "A" og "B" eru sögð jöfn, táknað "A"="B", ef þau innihalda sömu stök. Mengi getur verið lokað eða opið, bæði lokað og opið eða hvorki lokað né opið. Talnamengi hafa eingöngu tölur sem stök, en tómamengið hefur ekkert stak, táknað ∅. Líkt og núll í talnafræði, gegnir tómamengið mikilvægu hlutverki í mengjafræði. Skilgreining mengja. Mengjaskilgreiningarritháttur er sá ritháttur sem notaður er til að skilgreina mengi. Jafnvel þótt að lýsa megi tveimur mengjum á mismunandi vegu, geta þau verið jöfn sem mengi. Til dæmis er "A"="C" og "B"="D" í dæmunum að ofan, því stök þeirra eru þau sömu. Það breytir engu í hvaða röð eða hversu oft stök eru talin upp í skilgreiningu á mengi. Til dæmis er , og eitt og sama mengið þar sem stökin eru þau sömu. Fjöldi staka í mengi. Í dæmunum að ofan er ljóst hver fjöldi staka í menginu er, A inniheldur 3 stök og B fjögur. Mengi geta haft óendanlegan fjölda staka, en náttúrulegu tölurnar eru dæmi um óendanlegt, en teljalegt mengi. Fjöldatölur segja til um fjölda staka í endanlegum mengjum, en eru stærðfræðilegur mælikvarði á fjölda staka í óendanlegum mengjum. Georg Cantor. Georg (Ferdinand Ludwig Philipp) Cantor (1845 – 1918) var stærðfræðingur, fæddur í St. Pétursborg, en bjó lengst af og starfaði í Halle í Þýskalandi, þar sem hann kenndi við háskólann. Hann var sonur dansks kaupmanns og konu hans, sem var gyðingur og því taldist hann vera gyðingur. Hann var nemandi Karl Weierstrass. Hann átti allra manna mestan þátt í þróun mengjafræði og einnig í þróun óendanleikahugtaksins. Árið 1873 sýndi hann fram á teljanleika mengis ræðra talna. Jafnframt sýndi hann fram á að mengi rauntalna er ekki teljanlegt. Síðar fullkomnaði hann kenningu sína um óendanleg mengi og svokallaðar „ofurendanlegar“ tölur. Á seinni hluta ævi sinnar varð hann að glíma við erfiðan og vaxandi geðsjúkdóm. Bertrand Russell. Bertrand Arthur William Russell (18. maí 1872 – 2. febrúar 1970) var breskur heimspekingur, rökfræðingur, stærðfræðingur og rithöfundur, sem skrifaði um mjög fjölbreytileg efni. Í heimspeki og stærðfræði er hann þekktastur fyrir að skrifa ásamt A.N. Whitehead bókina "Principia Mathematica", sem kom út í þremur bindum á árunum 1910 til 1913. Með verkinu hugðust þeir sýna fram á að hægt væri að leiða alla hreina stærðfræði út frá vissum rökfræðilegum frumsendum. Þeim tókst ekki ætlunarverkið en samt hefur verk þeirra reynst ákaflega áhrifaríkt. Russell er einnig mjög þekktur fyrir að uppgötva þversögnina, sem við hann er kennd: Russell-þversögnin ("the Russell paradox"). Russell var einnig mikilvirkur höfundur bóka um samfélagsleg málefni, svo sem kvenréttindi og hjónaband, stjórnmál, stríð og stríðsvæðingu. Hann var friðarsinni og einarður andstæðingur kjarnorkuvopna. Honum voru veitt bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950. Æviágrip. Bertrand Russell fæddist 18. maí árið 1872 í Ravenscroft í Trellech í Monmouthshire í Wales inn í áhrifamikla frjálslynda breska yfirstéttarfjölskyldu. Föðurafi hans, John Russell, 1. jarlinn Russell, var þriðji sonur Johns Russell, 6. hertogans af Bedford. Viktoría Englandsdrottning hafði tvisvar beðið hann að mynda ríkisstjórn og gegndi hann embætti forsætisráðherra hennar á 5. og 7. áratug 19. aldar. Russellfjölskyldan hafði verið áhrifamikil á Englandi öldum saman og hafði komist til metorða á tíma Túdoranna á 16. öld. Móðir Russells, Katharine Louisa (1844 – 1874) var dóttir Edwards Stanley, 2. barons Stanley af Alderley og systir Rosalind Howard, hertogaynju af Carlisle. Móðuramma Russells var meðal stofnenda Girton College í Cambridge. Rökgreining. Russell er yfirleitt talinn einn af upphafsmönnum rökgreiningarheimspekinnar, og stundum jafnvel talinn upphafsmaður mismunandi strauma og stefna innan hennar. Í upphafi 20. aldar átti Russell ásamt G.E. Moore mikinn þátt í að hrinda af stað bresku „uppreisninni gegn hughyggju“, sem var undir miklum áhrifum frá þýska heimspekingnum G.W.F. Hegel og breskum fylgjanda hans, F.H. Bradley. Þessi uppreisn átti sér hliðstæðu 30 árum síðar í Vínarborg í uppreisn rökfræðilegra raunhyggjumanna gegn frumspekinni. Russell ofbauð einkum kredda hughyggjunnar um innri vensl en samkvæmt henni verðum við að þekkja öll innri vensl fyrirbæris til að geta þekkt fyrirbærið. Russell sýndi að þetta myndi gera tíma og rúm, vísindi og tölur óskiljanleg hugtök. Russell hélt áfram á þessari braut í rökfræði sinni ásamt Whitehead. Russell og Moore leituðust við að uppræta það sem þeir töldu að væru merkingarlausar og mótsagnakenndar fullyrðingar í heimspeki og þeir miðuðu að skýrleika og nákvæmni í framsetningu raka sinna og notkun nákvæms tungumáls. Þeir tóku heimspekilegar staðhæfingar í sundur og greindu þær í einföldustu parta sína. Russell leit einkum á rökfræðina og vísindin sem ómissandi tól heimspekingsins. Ólíkt fyrirrennurum sínum og flestum samtímamönnum taldi hann raunar ekki að til væri nein sérstök aðferð fyrir ástundun heimspeki. Hann taldi að meginverkefni heimspekingsins væri að varpa ljósi almennustu staðhæfingarnar um heiminn og að uppræta rugling og annan misskilning. Russell vildi binda enda á það sem hann áleit vera öfgar frumspekinnar. Russell tileinkaði sér rakhníf Ockhams, þ.e. þá reglu sem kennd er við William af Ockham að gera ráð fyrir sem fæstum fyrirbærum, og skipaði veglegan sess í aðferðafræði sinni. Málspeki. Russell var ekki fyrsti heimspekingurinn sem benti á að tungumálið væri mikilvægt til skilnings á heiminum. En Russell lagði meiri áherslu á tungumálið og "hvernig við notum tungumálið" í heimspeki sinni en nokkur heimspekingur hafði áður gert. Án Russells er ósennilegt að heimspekingar á borð við Ludwig Wittgenstein, Gilbert Ryle, J.L. Austin og P.F. Strawson hefðu farið sömu leið enda voru þeir allir að verulegu leyti að betrumbæta eða bregðast við því sem Russell hafði sagt áður. Og þeir beittu mörgum aðferðum sem hann hafði upphaflega þróað. Russell og Moore voru á einu máli um að skýr framsetning væri kostur en sú hugmynd hefur verið almennt viðtekin meðal málspekinga og annarra heimspekinga innan rökgreiningarhefðarinnar allar götur síðan. Mikilvægasta framlag Russells til málspekinnar er lýsingahyggjan sem hann setti fram í frægri grein sinni „Um tilvísun“ (e. „On Denoting“) sem birtist fyrst í "Mind" árið 1905. Greininni lýsti stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Frank P. Ramsey sem „fyrirmyndardæmi um heimspeki“. Kenningunni er yfirleitt lýst með dæmi um „núverandi konung Frakklands“: „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur“. Um hvað er þessi staðhæfing að því gefnu að það er enginn núverandi konungur Frakklands (sem er um þessar mundir lýðveldi)? Alexius Meinong hafði áður lagt til að við yrðum að gera ráð fyrir að í einhverjum skilningi væru til hlutir sem eru ekki til og að við værum að vísa til þeirra í staðhæfingum af þessu tagi. En það er vægast sagt undarleg kenning. Frege beitti greinarmuni sínum á skilningi og merkingu og lagði til að staðhæfingar sem þessar væru hvorki sannar né ósannar enda þótt þær væru merkingarbærar. En staðhæfingar á borð við „"Ef" núverandi konungur Frakklands er sköllóttur, "þá" hefur núverandi konungur Frakklands ekki hár á höfðinu“ virðast ekki eingöngu vera merkingarbærar heldur augljóslega sannar, jafnvel þótt það sé enginn núverandi konungur Frakklands. Vandinn snýst um „ákveðnar lýsingar“ almennt. Hvert er „rökform“ ákveðinnar lýsingar? Ákveðnar lýsingar virðast vera eins og eiginnöfn sem vísa til nákvæmlega eins hlutar. En hvað skal segja um staðhæfinguna í heild sinni ef einn hluti hennar gerir ekki það sem hann á að gera? Lausn Russells var í fyrsta lagi að greina staðhæfinguna í heild sinni. Hann hélt því fram að það mætti umorða setninguna „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur“ þannig: „Til er x þannig að x er núverandi konungur Frakklands, ekkert annað en x er núverandi konungur Frakklands og x er sköllóttur“. Russell hélt því fram að sérhver ákveðin lýsing fæli í sér fullyrðingu um tilvist og fullyrðingu þess efnis að viðfangsefnið sé eitt og aðeins eitt; en þessar fullyrðingar sem fælust í ákveðinni lýsingu mætti greina að frá umsögninni sem er inntak staðhæfingarinnar. Staðhæfingin í heild sinni segir því þrennt um viðfangið: ákveðna lýsingin segir tvennt (að það sé til og að það sé það eina sem lýsingin á við um) en restin af setningunni segir þriðja atriðið um viðfangið. Ef viðfangið er ekki til eða er ekki það eina sem lýsingin getur átt við um, þá er setningin í heild sinni ósönn en ekki merkingarlaus. Ein helstu andmælin gegn kenningu Russells eru upphaflega komin frá Strawson og eru á þá leið að ákveðnar lýsingar feli ekki í sér fullyrðingu um að viðfang þeirra sé ekki til, þær geri einungis ráð fyrir því. Wittgenstein, nemandi Russells, varð býsna áhrifamikill í málspeki, ekki síst eftir útkomu bókar hans "Rannsóknir í heimspeki", skömmu eftir að hann lést. Að mati Russells var málspeki Wittgensteins á síðari árum á rangri braut og hann harmaði áhrif hennar og fylgjenda Wittgensteins (ekki síst Oxford-heimspekinganna sem aðhylltust heimspeki hversdagsmáls en Russell vændi þá um dulhyggju). Russell bar þó enn mikla virðingu fyrir Wittgenstein, ekki síst eldra riti hans, "Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki". Russell hélt að Wittgenstein væri „ef til vill fullkomnasta dæmi um snilling í venjulegum skilningi“ sem hann vissi um, hann væri „ástríðufullur, djúpur, brjálaður og tilkomumikill“. Það var skoðun Russells að heimspeki ætti ekki að einskorðast við rannsóknir á hversdagsmáli. Sú skoðun naut minni vinsælda um miðbik 20. aldar en er orðin að má heita viðtekin skoðun á ný. Þekkingarfræði. Þekkingarfræði Russells tók nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Þegar hann hafði losað sig undan nýhegelismanum sem hann daðraði við á yngri árum hélt hann fast við hluthyggjuna það sem eftir var ævinnar og taldi að skynreynsla okkar væri mikilvægasti þátturinn í tilurð þekkingar. Sumar skoðanir hans eiga síður upp á pallborðið hjá heimspekingum nú um mundir en áhrif Russells eru þó enn mikil. Enn er gengið út frá greinarmuni Russells á „þekkingu af eigin kynnum“ og „þekkingu af lýsingu“. Um tíma taldi Russell að við gætum einungis þekkt beint skynreyndir okkar — hráar skynjanir og upplifanir af litum, hljóði og þar fram eftir götunum — og að allt annað, þar með taldir efnislegir hlutir sem yllu þessum skynreyndum, væri einungis hægt að álykta út frá skynreyndunum — þ.e. þekkt af lýsingu — en ekki beint af eigin kynnum okkar af þeim. Greinarmunurinn er notaður í víðara samhengi af öðrum heimspekingum en Russell hafnaði um síðir skynreyndakenningunni. Á seinni árum hélt Russell fram einhvers konar einhyggju í anda Baruch Spinoza og taldi að greinarmunurinn á hinu efnislega og hinu andlega skipti á endanum litlu eða engu máli, væri tilviljanakenndur og að hvort tveggja væri á endanum smættanlegt í einn hlutlausan veruleika. Þetta viðhorf er keimlíkt því sem bandaríski heimspekingurinn William James hafði haldið fram og átti á endanum rætur að rekja til Spinoza, sem Russell hafði miklar mætur á. Í staðinn fyrir „hreina reynslu“ James lýsti Russell hins vegar efnivið frumskynjunar okkar sem „atburðum“, en sú afstaða er um margt lík kenningu fyrrum kennara hans og starfsfélaga, Alfreds North Whitehead um veruleikann sem verðandina. Vísindaheimspeki. Russell kvaðst oft vera vissari um ágæti "aðferðar" sinnar við að stunda heimspeki, það er að segja rökgreiningaraðferðina, en um sjálfar niðurstöðurnar. Vísindin voru eitt helsta hjálpartæki hans, auk stærðfræði og rökfræði. Russell trúði staðfastlega á vísindalega aðferð, að þekking yrði til með raunprófanlegum rannsóknum sem væru ítrekað prófaðar. Engu að síður taldi hann að vísindin kæmust ekki nema að sennilegum niðurstöðum og að framfarir væru hægar. Hann trúði raunar því sama um heimspeki. Annar helsti upphafsmaður nútímavísindaheimspeki, Ernst Mach, lagði mun minni áherslu á aðferðina sem slíka því hann taldi að sérhver aðferð sem leiddi til fyrirsjáanlegrar niðurstöðu væri fullnægjandi. Hann taldi einnig að meginverkefni vísindamannsins væri að spá réttilega fyrir um atburði, forspárgildi kenninga væri allt sem máli skipti. Russell taldi á hinn bóginn að endanlegt markmið bæði vísinda og heimspeki væri skilningur á raunveruleikanum en ekki einungis réttar forspár. Sú staðreynd að Russell gerði vísindunum svo hátt undir höfði í heimspekilegri aðferð sinni var snar þáttur í því að gera vísindaheimspeki að sjálfstæðri undirgrein heimspekinnar sem aðrir heimspekingar sérhæfðu sig í síðar meir. Margar af hugleiðingum Russells um vísindin er að finna í riti hans "Our Knowledge of the External World as a Field for Scientific Method in Philosophy" sem kom út árið 1914. Ritið hafði meðal annars áhrif á fylgjendur rökfræðilegrar raunhyggju, ekki síst Rudolf Carnap, sem hélt því fram að það sem öðru fremur einkenndi vísindalegar kenningar og staðhæfingar væri sannreynanleiki þeirra. Russell hafði einnig mikil áhrif á Karl Popper sem taldi að höfuðeinkenni vísindalegra kenninga og staðhæfinga væri að þær væru "mögulega" hrekjanlegar. Russell hafði mikinn áhuga á vísindum sem slíkum, einkum eðlisfræði, og hann samdi nokkur rit um vísindi handa almenningi, þar á meðal ritin "The ABC of Atoms" sem kom út árið 1923 og "The ABC of Relativity" sem kom út árið 1925. Siðfræði. Russell skrifaði heilmikið um siðfræðileg efni en taldi þó ekki að siðfræðin ætti heima innan heimspekinnar eða að hann væri að skrifa um siðfræði sem heimspekingur. Á yngri árum sínum varð Russell fyrir miklum áhrifum frá riti G.E. Moore "Principia Ethica". Eins og Moore taldi hann þá að siðferðilegar staðreyndir væru hlutlægar en yrðu einungis þekktar í gegnum innsæi, þær væru einfaldir eiginleikar hluta en jafngiltu ekki (t.d. ánægja er góð) þeim náttúrulegu fyrirbærum sem þeir eru oft eignaðir (sjá náttúruhyggjuskekkjuna). Þeir töldu að þessa einföldu og óskilgreinanlegu siðferðilegu eiginleika væri ekki hægt að greina á grundvelli annarra eiginleika sem siðferðilegu eiginleikarnir eru oft kenndir við. Þegar fram liðu stundir varð hann á hinn bóginn meira sammála heimspekilegu hetjunni sinni, David Hume, sem taldi að siðferðishugtök vísuðu til huglægra gilda sem ekki er hægt að sannreyna á sama hátt og staðreyndir. Ásamt öðrum kenningum Russells höfðu þessar kenningar áhrif á rökfræðilega raunhyggjumenn, sem settu fram og þróuðu samhygðarhyggju, sem kvað á um að siðfræðilegar staðhæfingar (auk staðhæfinga frumspekinnar) væru í eðli sínu merkingarlausar og óskiljanlegar, og jafngiltu tjáningu á viðhorfum manns og löngunum. þrátt fyrir áhrifin sem hann hafði á rökfræðilegu raunhyggjumennina tók Russell sjálfur ekki svo djúpt í árinni, því hann taldi siðfræðilegar spurningar merkingarbærar og raunar bráðnauðsynlegar í sérhverri samfélagsumræðu. Þótt Russell væri oft lýst sem dýrlingi skynseminnar var hann þó sammála Hume um að skynsemin ætti að vægja fyrir siðferðinu. Trúarbrögð og guðstrú. Mest alla ævina hélt Russell því fram að trúarbrögð væru lítið annað en hjátrú og að þrátt fyrir öll jákvæð áhrif sem trúarbrögð eða guðstrú gæti haft væri hún fólki skaðleg. Hann taldi að trúarbrögð og öll önnur kreddutrú (Russell áleit kommúnisma og aðra kerfisbundna hugmyndafræði vera af þeim toga eins og trúarbrögðin) væru hindrun í vegi þekkingar, ælu á ótta og ósjálfstæðri hugsun og væru rótin að mörgum stríðum, kúgun og þjáningu í heiminum. Til þess að svara spurningu föður Mills um hver skapaði guð þarf annaðhvort að finna guði skapara (og það leiðir til vítarunu, því hver skapaði hann?) eða halda því fram að guð sé eilífur. En ef hægt er að halda því fram að eitthvað sé eilíft er allt eins hægt að halda því fram að heimurinn sé eilífur og þá er ekki lengur nauðsynlegt að gera ráð fyrir að heimurinn eigi sér einhverja fyrstu orsök (sem væri guð). Russell var hafði ríka trúarhneigð á yngri árum og hafði meðal annars áhuga á platonisma. Hann vildi uppgötva eilíf sannindi eins og hann greinir frá í ritgerðinni „A Free Man's Worship“, sem er af mörgum talin meistaraverk enda þótt Russell mislíkaði ritgerðin síðar meir. Hann hafnaði allri hjátrú en játaði fúslega að hann þráði einhverja dýpri merkingu í lífinu. Áhrif á heimspekina. Russell hafði gríðarleg áhrif á þróun nútímaheimspeki, ekki síst í enskumælandi löndum. Russell öðrum fremur gerði rökgreiningu að ríkjandi aðferðafræði í heimspeki. Allar greinar rökgreiningarheimspekinnar eiga að einhverju leyti rætur að rekja aftur til verka Russells. Russell hafði einnig gríðarleg áhrif á einstaka heimspekinga. Ef til vill hafði hann mest áhrif á Ludwig Wittgenstein, sem var nemandi hans á árunum frá 1911 til 1914. Þó ber að hafa í huga að Wittgenstein hafði þónokkur áhrif á Russell, meðal annars að því leyti að Wittgenstein sannfærði Russell um að stærðfræðileg sannindi væru ekkert nema röksannindi. Merki um áhrif Russells á Wittgenstein eru víða sjáanleg í fyrsta riti Wittgensteins "Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki", sem Wittgenstein náði að gefa út með hjálp Russells. Russell hjálpaði Wittgenstein einnig að fá "Rökfræðilegu ritgerðina um heimpeki" samþykkta sem doktorsritgerð og hjálpaði honum að fá kennslustöðu við Cambridge-háskóla og ýmsa styrki. Þeir Russell og Wittgenstein urðu þó um síðir ósammála um nálgun Wittgensteins í málspeki. Russell taldi að nálgun Wittgensteins væri veigalítil en Wittgenstein fannst lítið til alþýðlegra ritverka Russells koma og taldi að heimspeki Russells væri yfirborðskennd. Russell hafði einnig merkjanleg áhrif á A.J. Ayer, Rudolf Carnap, Alonzo Church, Kurt Gödel, Karl Popper, W. V. Quine, David Kaplan, Saul Kripke, John R. Searle og fjölda annarra heimspekinga og rökfræðinga. Sumir telja að áhrif Russells hafi einkum verið neikvæð, einkum þeir sem gagnrýna Russell fyrir áherslur sínar á vísindi og rökfræði með þeim afleiðingum að frumspekinni var vikið til hliðar og fyrir að halda því fram að siðfræði kæmi heimspekinni ekkert við. Margir af aðdáendum og gagnrýnendum Russells þekkja betur til samfélagsgagnrýni hans, stjórnmálaskoðana og gagnrýni á trúarbrögðin. Það er rík tilhneiging til þess að meta Russell sem heimspeking í umfjöllun um þessi efni, sem hann taldi að kæmi heimspekinni ekki við. Russell bað fólk oft að gæta að þessum greinarmuni. Russell skildi eftir sig gríðarlegt magn rita. Allt frá unglingsárum skrifaði Russell um 3.000 orð á dag með fáum leiðréttingum; fyrsta uppkast var venjulega lokaútgáfan, jafnvel í umfjöllun um flókin og tæknileg mál. Tenglar. Russell, Bertrand Russell, Bertrand Russell, Bertrand Russell, Bertrand Russell, Bertrand Russell-þversögn. Russell-þversögn eða þverstæða Russells er stærðfræðileg þversögn, sem Bertrand Russell uppgvötvaði árið 1901 og sýnir fram á að hversdagsleg mengjafræði Georgs Cantors og Gottlobs Frege er þverstæðukennd. Þversögnin er líkast til það atriði sem átti stærstan þátt í að gera Russell jafn frægan og raun bar vitni. Mengi má skilgreina sem mengi allra þeirra staka, "x", sem uppfylla einhver tiltekin skilyrði. Nú er alveg ljóst að hugsanlegt er að mengi innihaldi ekki sjálft sig; til dæmis mengi náttúrulegra talna, það inniheldur ekki sjálft sig, því að það er ekki tala. En einnig er mögulegt að mengi innihaldi sjálft sig, til dæmis "mengi allra mengja", en stök þess eru öll hugsanleg mengi og þá þar á meðal það sjálft. Bertrand Russell setti fram Russell-þversögnina árið 1901, þar sem hann benti á það, að "mengið sem inniheldur öll þau mengi, sem ekki innihalda sjálf sig" býr yfir þeim eiginleika, að "ef það inniheldur sjálft sig þá gerir það það ekki" samkvæmt skilgreiningunni og "ef það inniheldur ekki sjálft sig þá inniheldur það sjálft sig" samkvæmt sömu skilgreiningu. Þetta er rökleg hliðstæða svokallaðar "þverstæðu lygarans", ein þeirra allra einföldustu er setningin: „Þessi setning er lygi“. Önnur er „Ég lýg öllu sem ég segi, ég segi það satt“. Rakaraþverstæðan er afbrigði af þverstæðu Russells sem segir: „Rakarinn í þorpinu rakar alla (og aðeins þá) þorpsbúa sem ekki raka sig sjálfir. Hann býr sjálfur í þorpinu. Rakar hann sjálfan sig?“ en bæði játun og neitun leiða til mótsagnar. Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) er framhaldsskóli starfræktur í Keflavík í Reykjanesbæ. Hann var stofnaður sumarið 1976 og settur í fyrsta sinn þann 11. september það ár. Skólinn var stofnaður og rekinn í samvinnu 7 sveitarfélaga (síðar 5 vegna samruna) og ríkisins. Skólinn varð til við samruna Iðnskóla Suðurnesja, Framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans í Keflavík (sem nú heitir Holtaskóli) og Öldungadeildar Gagnfræðaskólans í Keflavík. Hann fékk til umráða húsnæði Iðnskólans, sem þá þegar var allt of lítið og var það bætt upp með leiguhúsnæði frá Gagnfræðaskólanum og víðar um bæinn. Strax á öðru starfsári skólans var byggt ofan á húsið, í stað einnar hæðar voru þær orðnar þrjár. Það var samt allt of lítið. Skömmu síðar var byggt við endann á húsinu og fjölgaði kennslustofum þá um sex auk þess sem kennarastofa stækkaði mikið. Enn var þetta ófullnægjandi. Árið 1990 var hafist handa við byggingu þverálmu á eldra húsið. Hún var 1000 fermetrar að grunnfleti og á 3 hæðum. Varð þá heildargólfflötur hússins um 6500 fermetrar og mátti með góðum vilja segja, að húsið fullnægði brýnustu þörfum þegar þessi álma var tekin í notkun haustið 1992, en ekkert var umfram það. Haustið 2004 var tekin í notkun enn ein álman, sem er einnig á þremur hæðum og á þriðja þúsund fermetrar að heildargólffleti. Einnig hafa farið fram gagngerðar endurbætur á eldra húsnæðinu. Er skólinn nú hinn glæsilegasti í alla staði og er starfsaðstaða nemenda og kennara mjög góð. Er nú loksins kominn salur sem risið getur undir því nafni, svo og glæsilegt nemendamötuneyti, nýjar og mjög vandaðar kennslustofur raungreina, ný kennaraaðstaða og svo mætti lengi telja. Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru um 250 talsins þegar skólinn hóf starfsemi sína, en síðan hefur fjöldi þeirra fjórfaldast og eru nemendur nú (á vorönn 2006) um eitt þúsund. Þessi fjölgun nemenda samsvarar nokkurn veginn 5% stöðugri aukningu á ári frá upphafi. Reyndar hefur fjölgunin ekki verið jöfn allan tímann heldur hefur hún gengið í stökkum. Tengill. Suðurnesja Jón Leifs. Jón Leifs (1. maí 1899 — 30. júlí 1968) var íslenskt tónskáld. Kvikmyndin "Tár úr steini" er byggð á æfi hans. Karólína Eiríksdóttir. Karólína Eiríksdóttir (fædd 1951) er íslenskt tónskáld. Hún lærði í Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar við University of Michigan. Þar tók hún meistarapróf í tónlistarsögu- og rannsóknum árið 1976 og tveimur árum síðar, eða árið 1978, hlaut hún sömu gráðu í tónsmíðum. Ári síðar flutti hún aftur til Íslands og hefur síðan þá unnið sem tónskáld sem og kennt við ýmsa tónlistarskóla. Járnsíða. Járnsíða var lögbók sem Magnús lagabætir Noregskonungur lét semja handa Íslendingum. Hún var lögtekin 1271-1274 og gömlu þjóðveldislögin, "Grágás", voru felld úr gildi. Meginuppistaða Járnsíðu var sótt í norsk lög. Efni bókarinnar þótti ekki henta Íslendingum og aðstæðum þeirra. Fyrsta árið fékkst aðeins einn af bálkum hennar, Þingfararbálkur og tveir kapitular úr Erfðabálki, lögteknir. Fullnaðarsamþykki fékk bókin ekki fyrr en tveimur árum seinna, 1273. Ekki er ljóst hvers vegna mótstaðan var gegn lögtöku bókarinnar. En á endanum lét Magnús konungur semja nýja bók, "Jónsbók", sem var lögtekin 1281 og var í notkun í heild sinni fram á 18. öld. The Star-Spangled Banner. Árið 1814 samdi maður að nafni Francis Scott Key ljóð um sigur Bandaríkjamanna á Bretum. Það ljóð heitir „The Star Spangled Banner'"“. Það varð vinsælt að syngja ljóðið við vinsæla drykkjulagið „"To Anacreon in Heaven"”. Uppruni þess lags er óljós en það er talið að maður sem að hét John Stafford Smith (fæddur 1750) hafi samið lagið. Það var ekki fyrr en árið 1931 eftir tuttugu ára baráttu á þingi að lagið var samþykkt sem þjóðsöngur Bandaríkjanna þó svo að sjóherinn og landherinn hefði notað það í fjölda ára. Á Woodstock hátíðinni í ágúst 1969 spilaði Jimi Hendrix lagið mjög eftirminnilega og hefur öskrandi gítarsóló hans oft verið innblástur margra tónlistarmanna. Kína. Kínversku keisaradæmin á mismunandi tímum Kína (中国/中國, Pinyin: Zhōngguó, Wade-Giles: Chung-kuo) er menningarsvæði á meginlandi Austur-Asíu ásamt nokkrum eyjum undan ströndinni sem síðan 1949 hefur verið skipt á milli Alþýðulýðveldisins Kína (nær yfir meginlandið auk Hong Kong og Makaó) og Lýðveldisins Kína (nær yfir Tævan auk nærliggjandi eyja). Höfuðborg Alþýðulýðveldisins er Beijing. Kína er ein af elstu samfelldu siðmenningum á Jörðinni og ritkerfið sem þar var notað er það elsta sem var í sífelldri notkun. Saga þess hefur einkennst af stríði og friði til skiptis og blóðugum erjum mismunandi keisaraætta. Nýlendustefna Evrópumanna, innrás Japana og borgarastríð bitnaði illa á Kína á 19. og 20. öld og stuðlaði að núverandi skiptingu landsins. Íbúar svæðisins telja vel yfir einn milljarð og eru flestir af þjóð Han-kínverja. Tungumál þeirra er kínverska sem notast að mestu við sama ritmálið en skiptist í margar talmáls-mállýskur. Að Kína liggja þrettán lönd; Víetnam, Laos, Myanmar, Indland, Pakistan, Kirgistan, Afghanistan, Kasakstan, Tadsjikistan, Rússland, Mongólía, Norður-Kórea og Nepal. Alþýðulýðveldið Kína. Alþýðulýðveldið Kína (kínverska: 中国; pinyin: "Zhōngguó") nær yfir megnið af því svæði sem í menningarlegu, landfræðilegu og sögulegu samhengi hefur verið kallað Kína. Allt frá stofnun þess árið 1949 hefur ríkið verið undir stjórn Kommúnistaflokks Kína. Það er fjölmennasta ríki veraldar með yfir 1,3 milljarða íbúa sem flestir teljast til hankínverja. Það er stærsta ríki Austur-Asíu að flatarmáli og það fjórða stærsta í heiminum. Ríkið á landamæri að fjórtán ríkjum: Afganistan, Bútan, Indlandi, Kasakstan, Kirgistan, Laos, Mongólíu, Búrma, Nepal, Norður-Kóreu, Pakistan, Rússlandi, Tadsjikistan og Víetnam. Höfuðborgin er Beijing. Alþýðulýðveldið gerir tilkall til Tævan og nærliggjandi eyja sem í raun lúta þó stjórn Lýðveldisins Kína. Hugtakið „meginland Kína“ er stundum notað til að lýsa Alþýðulýðveldinu og þá eru Hong Kong og Maká yfirleitt ekki talin með sökum sérstöðu þeirra. Einnig gengur þessi hluti Kína undir nafninu „Rauða Kína“, yfirleitt á meðal andstæðinga eða gagnrýnenda þess. Stærstu borgir. Borgarvæðing hefur aukist samhliða auknum íbúafjölda og efnahagsuppgangi. Erfitt getur verið að ákvarða íbúafjölda borga, bæði vegna ákvörðunar borgarmarka (sbr. Chongqing sem er bæði sveitarfélag og stórt hérað) og vegna stöðugs straums farandverkafólks til stærri borga. Eftirfarandi listi sýnir nokkrar stærstu borgirnar eftir áætluðum íbúafjölda innan borgarmarka og innan stjórnsýslueiningar til samanburðar. Lýðveldið Kína. Lýðveldið Kína (hefðbundin kínverska: 中華民國, einfölduð kínverska: 中华民国; Wade-Giles: Chung-hua Min-kuo, Tongyong Pinyin: JhongHuá MínGuó, Hanyu Pinyin: Zhōnghuá Mínguó) er fjölflokka fulltrúalýðræðisríki sem nær nú yfir Tævan, Pescadoreseyjar, Kinmeneyjar og Matsueyjar undan strönd meginlands Kína. Nafnið „Tævan“ er oft notað til að vísa til þessa ríkis en „Kína“ til að vísa til Alþýðulýðveldisins Kína á meginlandinu. Lýðveldið Kína var eitt af 51 stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna og eitt af þeim fimm ríkjum sem sátu í upprunalega öryggisráðinu, árið 1971 tók Alþýðulýðveldið Kína sæti þess hjá Sameinuðu þjóðunum og heldur því enn til dagsins í dag. Flest ríki tóku í kjölfar þess að viðurkenna Alþýðulýðveldið Kína sem sjálfstætt ríki í stað Lýðveldisins Kína en Lýðveldið Kína er nú viðurkennt sem sjálfstætt ríki af 26 ríkjum. Taívan. Taívan (hefðbundin kínverska: 臺灣, einfölduð kínverska: 台湾, pinyin: Táiwān, wade-giles: T'ai-wan, tævanska: Tâi-oân) er eyja undan strönd meginlands Kína í Kyrrahafi. Hún gengur einnig undir nafninu Formósa, en portúgalskir sjómenn kölluðu hana "Ilha Formosa" sem þýðir „falleg eyja“ á portúgölsku. Eyjan er 349 km löng og 144 km breið, fjalllend, og er þakin af hitabeltis- og heittempruðum gróðri Hallgrímur Pétursson. Hallgrímur Pétursson (1614 – 27. október 1674) var prestur og mesta sálmaskáld Íslendinga. Hallgrímur var fæddur í Gröf á Höfðaströnd, sonur hjónanna "Péturs Guðmundssonar" og konu hans, "Solveigar Jónsdóttur". Pétur var svokallaður "Fljótaumboðsmaður", sem þýðir það að hann hafði umboð fyrir þeim jörðum í Fljótum, sem voru í eigu Hólastóls. Hann var einnig titlaður hringjari á Hólum. Sem Fljótaumboðsmaður og hringjari, jafnframt því að vera frændi sjálfs biskupsins á Hólum (þeir voru bræðrasynir Pétur og Guðbrandur Þorláksson) hlýtur hann að hafa búið við þolanleg efni, svo að séra Hallgrímur er ekki af fátæku fólki kominn, heldur þvert á móti. Ævi. Hallgrímur er talinn vera fæddur í Gröf á Höfðaströnd en var ungum komið í fóstur á Hólum. Hann var góður námsmaður, en það hamlaði, að hann var baldinn og erfiður í æsku. Því var hann sendur til náms úti í Lukkuborg (Glückstadt), sem þá var í Danmörku en nú í Þýskalandi, og mun hann hafa numið málmsmíði þar. Hann var nokkrum árum síðar starfandi hjá járnsmið í Kaupmannahöfn og þar hitti Brynjólfur Sveinsson, síðar biskup, Hallgrím. Brynjólfur kom honum í nám í Frúarskóla í Kaupmannahöfn og var Hallgrímur þar við nám í nokkur ár og sóttist það vel og var kominn í efsta bekk árið 1636 um haustið. Þá bar svo til, að þetta haust komu til Kaupmannahafnar nokkrir Íslendingar, sem höfðu lent í Tyrkjaráninu 1627 og verið úti í Alsír í tæpan áratug. Var talið að þeir væru farnir að ryðga í kristinni trú og jafnvel í móðurmálinu. Þess vegna var fenginn íslenskur námsmaður til þess að fara yfir fræðin með þeim og varð Hallgrímur fyrir valinu. Í þessum hópi var kona nokkur frá Vestmannaeyjum, Guðríður Símonardóttir, gift kona, en maður hennar, Eyjólfur Sólmundarson (d. 1636), hafði sloppið við að vera rænt. Urðu þau ástfangin hún og Hallgrímur og æxluðust mál þannig að hann yfirgaf námið og Danmörku og fór til Íslands með Guðríði, þegar hópurinn var sendur heim. Komu þau til lands í Keflavík snemma vors 1637 og var Guðríður þá ófrísk að fyrsta barni þeirra. Guðríður var allnokkru eldri en Hallgrímur, talin fædd 1598, d. 18. desember 1682. Þau settust að í smákoti, sem hét Bolafótur og var hjáleiga frá Ytri-Njarðvík, og gerðist Hallgrímur púlsmaður hjá þeim dönsku (kaupmönnunum í Keflavík). Hann var stór maður og luralegur og svo er sagt að hann hafi ekki verið ásjálegur. Einhverja sekt mun hann hafa orðið að greiða, vegna þess að þegar þau komu til Íslands var Guðríður ófrísk, gift kona, en reyndar hafði maður hennar dáið árið 1636. En það vissu þau hjúin ekkert um og voru því ótvírætt brotleg. Einhvern veginn kastaðist í kekki á milli Hallgríms og veraldlegra ráðamanna á Suðurnesjum og munu hann og Torfi Erlendsson, sýslumaður á Stafnesi, aldrei hafa litið hvor annan réttu auga. Sýna þessi ummæli Torfa og kveðskapur Hallgríms að þeim hefur verið lítt til vina. Á Hvalsnesi bjuggu þau í nokkur ár (til 1651) og mun Hallgrími hafa líkað frekar þunglega. Þar fæddist þeim dóttir, sem hann skírði Steinunni. Hún dó mjög ung og syrgði Hallgrímur hana mjög. Fór hinn smíðamenntaði prestur út í Miðnesheiði og sótti sér stein, sem hann hjó í grafskrift dóttur sinnar. Er sá steinn enn þá til og var um nokkra áratugi talinn týndur. Það var hann þó aldrei, því að í Suðurnesjaannál, sem skrifaður var um eða fyrir 1880, segir séra Sigurður B. Sívertsen frá því að legsteinn Steinunnar sé í kirkjustétt á Hvalsnesi. Reyndist þetta rétt, því að steinninn kom í ljós þegar gert var við kirkjustéttina eftir miðja 20. öld. Hefur hann síðan verið geymdur í Hvalsneskirkju og er einn af dýrgripum hennar, en hefur látið mjög á sjá í tímans rás. Árið 1651 fékk séra Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og fluttust þau hjón þangað. Talið er að þar hafi Hallgrími líkað betur. Þar orti hann Passíusálmana og marga aðra sálma, sem frægir eru enn í dag, til dæmis sálminn „Um dauðans óvissan tíma“, sem allt fram á síðustu ár var sunginn yfir moldum hvers einasta Íslendings sem jarðsettur var. Passíusálmarnir eru heimsfrægt verk og hafa verið þýddir á fleiri tungumál en flest annað, sem upprunnið er á Íslandi. Handrit sálmanna gaf hann Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti í maí 1661. Sagt er að hún hafi haft þá með sér í gröfina. Síðustu ár sín bjó Hallgrímur á Kalastöðum og loks á Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd og dó þar. Hann hefur þá verið farinn að þjást af sjúkdómnum sem dró hann til dauða, en það var holdsveiki. Þau Guðríður áttu nokkur börn, en aðeins eitt þeirra komst upp og var það Eyjólfur, elsta barnið. Frá honum eru ættir og komu út á bók um eða eftir 1980. Margar kirkjur eru kenndar við Hallgrím Pétursson: Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd (byggð 1954 – 1957) og Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti í Reykjavík (byggð 1945 – 1986). Einnig er lítil en falleg kirkja: Hallgrímskirkja Vindáshlíðar í Kjós. Sú kirkja var áður í Hvalfirði en var flutt eftir að Vindáshlíðarkonur höfðu mikið beðið fyrir að fá kirkju. Verk. Hallgrímur Pétursson var mjög virkt ljóðskáld en meðal hans frægustu verka eru Passíusálmarnir svokölluðu, 50 talsins, sem hann skrifaði á árunum 1656 – 1659. Sem dæmi um önnur verk hans má nefna sálminn Um dauðans óvissan tíma (oft nefnt Allt eins og blómstrið eina eða einfaldlega Sálmurinn um blómið sem er einmitt nafn á bók eftir Þórberg Þórðarson). Hallgrímur var undir miklum áhrifum píetismans. Kraftaskáld. Til eru nokkrar þjóðsögur um Hallgrím þar sem hann er sagður vera kraftaskáld. Við þetta féll tófan niður dauð og segir sagan að þar hafi hann misst skáldgáfuna vegna þess að hann misnotaði hana með þessum hætti í miðri guðsþjónustu. Samkvæmt sögunni fékk hann hana aftur þegar hann hóf að semja Passíusálmana 1656-1659. Úlfar Þormóðsson skráði skáldsöguna Hallgrímur og kom hún út 2010. Það er söguleg skáldsaga, þar sem rétt er farið með þekktar staðreyndir og síðan fyllt í eyðurnar eins og Úlfar sér atburði fyrir sér. Er það mjög öðruvísi en áður hefur verið gert. Vigur (eyja). Horft inn Ísafjarðardjúp, Vigur fyrir miðju. Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og önnur tveggja, sem eru byggðar. Eyjan liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót. Elsta byggingin í Vigur er vindmylla sem er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og var byggð um 1840, og er hún sú eina sem enn er uppistandandi á Íslandi. Auk þess er í Vigur elsti bátur landsins, Vigur Breiður, áttæringur sem smíðaður var um 1800, og var notaður allt til ársins 2000 til að flytja sauðfé milli lands og eyjar, og er hann í góðu ástandi og sjófær. Við eyjuna er kennd geysifjölmenn ætt, Vigurætt, sem eru afkomendur Þórðar Ólafssonar í Vigur, sem venjulega er nefndur Þórður "stúdent". "Vigurætt" var gefin út fyrir allnokkrum árum, mikið safn í 10 bindum. Í Vigur var stundaður heilsársbúskapur, þar var mjólkurframleiðsla en nú eru engar kýr lengur á eynni, hlunnindi þ.e. æðarvarp og fuglatekja, og vaxandi ferðaþjónusta. Landnámsmaður. Landnámsmaður er maður sem nemur nýtt, áður óbyggt land og sest þar að til frambúðar. Þótt orðið merki formlega það sama og "landnemi" er viss munur á notkun hugtakanna. Um "landnámsmenn" er nær eingöngu talað í tengslum við landnám Íslands, Færeyja og Grænlands á víkingaöld en "landnemar" geta byggt hvaða land sem er á hvaða tímaskeiði sögunnar sem er, jafnvel á fjarlægum hnöttum í fjarlægri framtíð. Helsta heimild um landnámsmenn á Íslandi er Landnámabók. Auk þess fjalla flestar Íslendingasögurnar um þá landnámsmenn sem tengjast sögupersónum hverrar sögu. Landnámsmenn í Sunnlendingafjórðungi. Landnámsmenn í Sunnlendingafjórðungi og landnám þeirra. Listinn fylgir upptalningu Landnámabókar sem byrjar á Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík og telur þaðan réttsælis um landið. Við Hvítá í Borgarfirði voru mörk fjórðunga. Héðan rekur Landnáma sig áfram réttsælis um Vestfirðingafjórðung, Norðlendingafjórðung og Austfirðingafjórðung. Við Jökulsá á Sólheimasandi er aftur komið í Sunnlendingafjórðung. Landnámsmenn í Norðlendingafjórðungi. Landnámsmenn í Norðlendingafjórðungi og landnám þeirra. Farið er réttsælis um landið að hætti Landnámu og hefst upptalningin við fjórðungsmörk í botni Hrútafjarðar. Vestan á Langanesi tekur við Austfirðingafjórðungur. Regla l'Hôpitals. Ef formula_4 er rauntala eða formula_5 og að því gefnu að formula_9 og formula_10 séu bæði diffranleg í grennd um formula_4 og að markgildi formula_12 sé til. Til þess að athuga hvort formula_13 sé til getum við endurtekið reglu l'Hôpitals á brotið formula_12 ef það uppfyllir áðurnefnd skilyrði reglunnar.Svona getum við haldið áfram. Ef á endanum fæst markgildi sem er til er það hið sama og markgildi upprunalega brotsins. Ef markgildið er hins vegar ekki til var ekki hægt að nota reglu l'Hôpitals til að byrja með og við erum engu nær hvort formula_15 eigi sér markgildi eða ekki. Sýnidæmi. Þar sem formula_19 og formula_20 eru bæði diffranleg í 0 segir reglan okkur að formula_21 og þar sem seinna markgildið er til gildir það jafnframt um það fyrra. formula_30. Nefnarinn stefnir á formula_23 svo við fáum formula_32 ef seinna markgildið er til. En það er ekki til því formula_33 á sér ekkert markgildi í óendanlegu. Regla l'Hôpitals var því ekki réttlætt hér, og við verðum að ráðast á upprunalega markgildið öðruvísi. þar sem síðasta jafnaðarmerkið er réttlætt með klemmureglu. Upprunalega fallið á sér sem sagt markgildi, þótt regla l'Hôpital hafi ekki getað ákvarðað það. Skoðum formula_35. Við sjáum strax að formula_36. Með endurtekinni beitingu á reglu l'Hôpital== Í mörgum tilfellum er betra að nota reglu Taylors til að finna markgildi. Saga reglunnar. Þessi regla er nefnd eftir franska 17. aldar stærðfræðingnum Guillaume François Antoine de l'Hôpital (1661 - 1704), vegna þess að hún birtist fyrst í bók hans, "Analyse des infiniment petits pour l'intelligence des lignes courbes" (1696), en það var fyrsta kennslubókin sem skrifuð var um stærðfræðigreiningu. Regluna hafði hann hins vegar fengið frá Johann Bernoulli. Listi yfir íslenskar stafsetningar- og málfræðivillur. Listi yfir algengar málfræðivillur (þ.e. málvillur og ritvillur) í íslensku, hér eru aðeins skráð orð og orðasambönd sem alltaf teljast röng en ekki bara röng í vissu samhengi. Guðríður Símonardóttir. Guðríður Símonardóttir (1598 – 18. desember 1682) (Tyrkja-Gudda) var húsmóðir í Vestmannaeyjum sem var gift Eyjólfi Sólmundarsyni (eða Sölmundarsyni) (d. 1636), sem líklega hefur verið sjómaður þar. Árið 1627 komu svokallaðir Tyrkir og rændu í Vestmannaeyjum og víðar, meðal annars í Grindavík og á Djúpavogi. „Tyrkirnir“ voru sjóræningjar frá Alsír og voru að líkindum allra þjóða kvikindi, en rán þetta er alltaf kallað Tyrkjaránið í Íslandssögunni. Rændu þeir bæði fólki og fé og var Guðríður ásamt Sölmundi, syni sínum, í hópi þeirra sem rænt var. Ambátt í Alsír. Guðríður var ánauðug í tæpan áratug í Alsír. Þá keypti konungur Danmerkur nokkra Íslendinga lausa úr „barbaríinu“ og var Guðríður þeirra á meðal, en Sölmundur sonur hennar varð þar eftir og hafði tekið Múhameðstrú. Þessi hópur var sendur til Kaupmannahafnar og fékk þar uppfræðslu í kristnum fræðum og upprifjun á móðurmáli sínu veturinn 1636 til 1637. Þá kennslu annaðist Hafnarstúdentinn Hallgrímur Pétursson, sem þá var á síðasta námsári sínu í Frúarskóla í Kaupmannahöfn. Felldu þau hugi saman og fór Hallgrímur með henni til Íslands og yfirgaf skólann án þess að ljúka prófi. Húsfreyja á Íslandi. Fyrstu árin var Guðríður húsfreyja í Bolafæti í Njarðvík, en það var tómthúshjáleiga frá Ytri-Njarðvík. Þar bjó þá Grímur Bergsson, sem talið er að hafi reynst þeim hjónakornum vel. Eyjólfur, elsta barn þeirra hjóna er að líkindum fæddur í Bolafæti. Árið 1644 varð Hallgrímur prestur á Hvalsnesi og var þá Guðríður orðin prestsfrú þar. Þar eignuðust þau Steinunni, sem Hallgrímur orti mjög innilegt kvæði eftir, er þau misstu hana unga. Ennfremur hjó hann út legstein hennar, sem nú er geymdur í Hvalsneskirkju. Þarna var Guðríður til 1651, en það ár fluttust þau að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og bjuggu þar í allmörg ár. Síðustu ár Hallgríms bjuggu þau á Kalastöðum og á Ferstiklu og þar dó Hallgrímur úr holdsveiki árið 1674. "Reisubók Guðríðar Símonardóttur" eftir Steinunni Jóhannesdóttur kom út árið 2001 og er þar rakinn ferill hennar í formi sögulegrar skáldsögu. Sekúnda. Sekúnda er SI grunneining tíma, táknuð með s. (Algeng íslensk skammstöfun er "sek."). Er einnig grunneining tíma í cgs-kerfinu. Er skilgreind sem 9.192.631.770 sveiflutímar ákveðinnar raföldu loftkennds sesíns. Sextíu sekúndur eru ein mínúta (m) og 3600 sekúndur eru ein klukkustund (h) (hvorug eininganna eru þó SI-mælieining). Gráða, í hornamáli er 60 bogamínútur og 3600 bogasekúndur. Wolfgang Amadeus Mozart. Wolfgang Amadeus Mozart fæddur Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart, 27. janúar 1756 – 5. desember 1791) var eitt mikilvægasta og áhrifamesta tónskáld Klassíska tónlistartímabilinu í Evrópu. Þrátt fyrir stutta ævi náði Mozart að koma frá sér rúmum sex hundruð verkum af ýmsum toga. Hann samdi óperur, Sinfóníur, píanó konserta, píanó sónötur, kammerverk, svo fátt eitt sé nefnd. Mozart litli var aðeins fjögurra ára þegar Leopold fannst tími til kominn að kenna stráknum á píanó. Leopold vissi ekki að Wolfgang hafði æft sig í laumi og varð yfir sig hissa þegar hann uppgötvaði að strákurinn gat leikið heilt lag á píanóið án þess að ruglast. Frægðin sem hafði fylgt því að geta leikið snilldarlega á hljóðfæri ungur að árum dofnaði hratt. Leopold Mozart pabbi Wolfgangs var ættaður frá Bæjaralandi og var tónlistarmaður við hirð Sigismunds von Schrattenbach erkibiskupnum í Salzburg. Móðir Wolfgangs, Anna María fæddist í Pertl árið 1720, einu ári á eftir manni sínum. Anna María var hins vegar Austurrísk. Þau Anna María og Leopold eignuðust sjö börn en aðeins tvö þeirra komust á legg. Yngri ár. Hann fæddist í Salzburg (þá furstadæmi, nú hluti af Austurríki) og var skírður "Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart". Frá unga aldri lærði hann hjá föður sínum, Leopold Mozart (1719 – 1787), og lærði Mozart að spila á bæði píanó og fiðlu. Hann samdi fyrsta tónverk sitt fimm ára að aldri og fyrstu sinfóníuna sjö ára. Eftir að hafa farið um helstu borgir Evrópu í mörgum tónleikaferðalögum var hann ráðinn sem hirðtónskáld til erkibiskupsins af Salzburg, sem jafnframt var furstinn yfir borginni. Honum líkaði ekki við vinnuveitanda sinn og eftir nokkurra ára vist sagði hann upp og hélt til Vínar. Mozart í Vín. Þar sem honum tókst ekki að fastráða sig vann hann lausavinnu, þ.e. hann samdi, og fékk borgað fyrir, eitt og eitt verk eftir pöntun. Nokkru eftir að Mozart kom til Vínar fór heilsu hans að hraka og um það leyti er hann sá fram á að hann mundi hugsanlega ekki ná sér af þeim veikindum keypti eldri maður af honum sálumessu til handa konunni sinni. Fljótlega fékk hann þó þá tilfinningu að hann væri að semja sína eigin sálumessu. 5. desember 1791 lést Wolfgang Amadeus Mozart af veikindum sínum í sárafátækt og var jarðaður í ómerktri gröf. Hann kláraði aldrei sálumessuna, en lærisveinn hans Franz Xaver Süssmayr lauk við hana eftir að Joseph Eybler, annar og virtari lærisveinn hans og vinur, hafði beðist undan verkinu. Goðsögnin segir að nokkrir vinir tónskáldsins hafi sungið messuna yfir honum, nokkru eftir greftrunina sjálfa. Eftir dauða hans hefur nafn Mozarts hins vegar orðið eitt mesta og arðbærasta vörumerki heims þar sem það kemur nú fyrir, ásamt brjóstmynd af tónskáldinu, á flestu sem hægt er að ímynda sér þar með töldu bjór, marsipankúlum og Hollywood-kvikmynd. Dauði. Wolgang Amadeus Mozart lést svo 5.desember árið 1791 og var grafinn í ómerktri fjöldagröf fyrir fátæklinga. Þar sem hann kláraði aldrei sálumessuna lauk lærisveinn hans Franz Xaver Süssmayr við hana. Sagan segir að nokkrir vinir Mozarts hafi sungið messuna yfir honum stuttu eftir að hann var jarðaður. Tenglar. Mozart, Wolfgang Amadeus Mozart, Wolfgang Amadeus Mozart, Wolfgang Amadeus Langanes. Langanesskagi grænmerktur Langanes er stór skagi fyrir austan Þistilfjörð og norðan við Bakkaflóa. Skaginn teygist næstum 40 km út í hafið til norðausturs, allbreiður vestast en mjókkar út í örmjóan bjargtanga austast sem heitir Fontur. Framnes er sá hluti Langaness kallaður, sem er sunnan Þórshafnar, miðnes út að Eiðisskarði en utan þess útnes. Öll býli á útnesinu eru nú komin í eyði. Nesið hefur ávallt verið strjálbýlt, stærsta byggðin er sjávarþorpið Þórshöfn á vesturströndinni. Lág fjöll og fell liggja norður eftir Langanesi, 200-400 m há og er austurhlutinn er miklu hálendari og undirlendi lítið. Gunnólfsvíkurfjall er hæsta fjallið, 719 m. Nálægt miðju nesinu er Eiðisskarð, sem sker fallgarðinn. Að norðanverðu er Langanes láglent og er breiðasta undirlendið frá Sauðanesi og út að Heiðarfjalli. Útnesið er víða grýtt og hrjóstrugt en að sunnanverðu er það betur gróið. Fjöllin eru úr móbergi að suðaustanverðu en að öðru leyti er nesið úr grágrýti. Láglendið skiptist að mestu í mýrar, grýtta mela og holt. Nokkrar sjaldgæfar jurtategundir vaxa á Langanesi svo sem flétta ein sem kallast klettakróða. Mikið fuglalíf er á Langanesi, það eru einkum lundi, langvía, álka, teista, fýll og rita sem verpa þar í fuglabjörgum. Undir Skoruvíkurbjargi er klettadrangur, sem heitir Stórikarl og er þar eina súlubyggðin á þessum slóðum. Bandaríkjaher rak ratsjárstöð á Heiðarfjalli 1954-68. Önnur ratsjárstöð á vegum NATO var reist á Gunnólfsvíkurfjalli 1989. Wilhelm Conrad Röntgen. Wilhelm Conrad Röntgen (f. 27. mars 1845, d. 10. febrúar 1923) var þýskur eðlisfræðingur sem uppgötvaði röntgengeislun. Röntgengeislar eru rafsegulbylgjur sem frumeind lætur frá sér þegar rafeind hoppar á milli innstu orkuástanda frumeindarinnar. Þegar Röntgen var við að gera tilraunir með rafmagn þann 8. nóvember 1895 uppgötvaði hann fyrir tilviljun geisla sem hann nefndi upphaflega x-geisla (x er gjarnan látið tákna óþekkta breytu í stærðfræði) en voru síðar nefndir röntgengeislar, þrátt fyrir mótmæli Röntgens sjálfs. Röntgen hlaut heiðursgráðu í læknavísindum hjá Háskólanum í Würzburg fyrir þessa uppgötvun sína og fyrstu nóbelsverðlaunin í eðlisfræði. Röntgen gaf verðlaunaféð til háskólans og hafnaði (líkt og Pierre Curie gerði nokkrum árum síðar) einkaleyfi á uppgötvun sinni af siðferðilegum ástæðum. Mælieiningin "roentgen", sem notuð var fyrir "raffræðilegan geislaskammt", er nefnd eftir honum. Lífsferill. Röntgen var fæddur í Lennep í Þýskalandi en fjölskylda hans fluttist til Hollands þegar hann var þriggja ára. Hann hóf nám stofnun Martinus Herman van Doorn og síðar við tækniskólanum í Utrecht þaðan sem hann var rekinn fyrir að teikna háðmynd af einum kennaranum, glæpur sem hann staðfastlega neitaði að hafa framið. Árið 1865 hóf hann nám í Háskólanum í Utrecht og síðar við Tækniháskólann í Zurich þar sem hann lærði vélaverkfræði. Hann úskrifaðist með Ph.D. gráðu frá Háskólanum í Zurich árið 1869. Árið 1874 varð hann fyrirlesari við Háskólann í Strassborg og ári seinna prófessor við Landbúnaðarháskólann í Hohenheim, Württemberg. Árið 1876 snéri hann aftur til Strassborgar og þá sem prófessor í eðlisfræði. Þremur árum síðar varð hann formaður eðlisfræðideildarinnar við Háskólann í Giessen. Árið 1888 varð hann formaður eðlisfræðideildarinnar við Háskólann í Würzburg og 1900 varð hann formaður eðlisfræðideildarinnar við Háskólann í Munchen þar sem hann dvaldi til æviloka. Tenglar. Röntgen, Wilhelm Conrad Röntgen, Wilhelm Conrad Hendrik Antoon Lorentz. Hendrik Antoon Lorentz (f. 18. júlí 1853 í Arnhem, d. 4. febrúar 1928 í Haarlem) var hollenskur eðlisfræðingur. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1902 fyrir rannsóknir sínar á rafsegulgeislun. Lorentz stundaði grunnskólann í Arnhem þangað til hann náði 13 ára aldri, þá fór hann í nýjan menntaskóla þar. Hann hóf nám við Háskólann í Leiden árið 1870 en tveim árum síðar sneri hann aftur til Arnhem til að stunda kvöldkennslu. Á meðan hann kenndi vann hann að doktorsverkefni sinu og hlaut Ph.D. gráðu sína 1875. Í doktorsritgerð sinni endurskilgreindi Lortentz rafsegulfræði Maxwells og útkýrði betur speglun ljóss og ljósbrot. Nafn hans er núna tengt við Lorentz-Lorenz jöfnuna. Hann var settur sem prófessor í stærðfræðilegri eðlisfræði við Háskólann í Leiden árið 1878. Á meðan hann var þar vann hann aðallega að því að finna eina kenningu sem útskýrði sambandið á milli rafmagns, seglunar og ljóss. Lorentz gat sér til um að frumefni væru gerð úr hlöðnum eindum og kom með þá tillögu að sveiflun þessara agna væri uppruni ljóss. Þetta var sannað með tilraun árið 1896 af Pieter Zeeman, sem var lærisveinn Lorentz. Árið 1895 þegar hann reyndi að útskýra niðurstöður Michelson-Morley tilrauninnar innleiddi hann hugmyndina um staðartíma (þ.e. að tíminn breytist mismunandi eftir staðsetningu). Hann lagði einnig til að hlutir sem nálguðust ljóshraða degðust saman í þá átt sem hluturinn hreyfðist (sjá Fitzgerald-Lorentz samdráttur). Árið 1904 (ári áður en Einstein birti sína grein) útvíkkaði Lorentz þessa vinnu og þróaði Lorentz ummyndanirnar. Þessar stærðfræðiformúlur lýstu grunnatriðum afstæðiskenningarinnar nefnilega massaaukningu, lengdarstyttingu og timalengingu sem eru einkennandi fyrir hlut á hreyfingu. Lorentz var formaður fyrstu Solvey ráðstefnunnar sem var haldin í Brussel haustið 1911. Þessi ráðstefna leit á vandræðin sem stöfuðu af því að hafa tvær aðferðir til að lýsa heiminum, nefnilega klassísk aflfræði og skammtafræði. Hins vegar samþykkti Lorentz aldrei skammtafræði og vonaði að hún yrði innlimuð í klassísku aðferðina. Lorentz varð forstöðumaður rannsókna við Teyler stofnunina í Haarlem, hann var þó áfram heiðursprófessor við Leiden og var með fyrirlestra þar í hverri viku. Lorentz var margheiðraður fyrir framlög sín til vísinda. Hann var kosinn meðlimur í Royal Society árið 1905. Þeir veittu Lorentz Rumford orðuna árið 1908 og Copley orðuna árið 1918. Lorentzkraftur er kenndur við hann. Lorentz, Hendrik Antoon Lorentz, Hendrik Antoon Bragðavellir. Bragðavellir eru bær í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Snemma á 20. öldinni fundust þar tveir rómverskir koparpeningar frá 270–305 e.Kr. Margar kenningar eru uppi um þessa peninga og aðra, sem fundust síðar á Suðurlandi. Ekki er vitað hvort þeir hafi borist með skipi Rómverja til Íslands sem þangað hafa hrakist í vondu veðri frá Englandi eða hvort þeir hafi komið með víkingum mun síðar. Þarna hafa fundist fleiri fornminjar en þær skýra ekki tilvist peninganna. Á hægri hönd austan Hamarsár í Hamarsfirði er grjóthrúga, sem "Djáknadys" heitir. Lengi var hún áningarstaður ferðamanna. Vestan Hamarsár er bærinn Bragðavellir. Í landi þeirrar jarðar fundust tveir rómverskir peningar, annar frá tíð Árilíusar keisara, sem uppi var um 270-275. Hann fannst árið 1905. Hinn er frá tíð Prombusar keisara sem uppi var 276-282. Hann fannst árið 1933. Með fundi þessara tveggja mynta, sem nú eru geymd á Þjóðminjasafni Íslands, var sagt á sínum tíma að Jón Sigfússon, bóndi á Bragðavölum hafi lengt sögu Íslands um allt að 500 ár aftur í tíman. Henry Cavendish. Henry Cavendish (f. 10. október 1731 - d. 24. febrúar 1810) var lítið þekktur breskur vísindamaður, hann er af mörgum talin vanmetinn enda uppgötvaði hann ýmislegt en birti oftast ekki niðurstöður sínar. Hann fæddist á Englandi 10. október 1731 og var sonarsonur annars hertogans af Devonskíri. Hann gekk í Háskólann í Cambridge á árunum 1749-1753 en útskrifaðist ekki með neina gráðu. Hann var afar feimin og mannfælinn (hugsanlega hefur hann þjáðst af Asperger sjúkdómnum). Hann hafði svo dæmi sé tekið samskipti við brytann sinn með bréfaskriftum. Það var líklegast vegna feimni hans sem að verk hans urðu ekki þekkt fyrr en mörgum árum síðar þegar James Clerk Maxwell tók að sér að fara yfir skjalasafnið hans. Hann hafði meðal annars, á undan öðrum, útskýrt viðnám ("lögmál Ohms"), lögmál Daltons, grunninn að leiðni, Lögmál Charles og margt annað. Hann mældi einnig massa jarðarinar og skeikaði aðeins um 1%, nákvæmari tölur fengust ekki fyrr en 200 árum seinna. Hann uppgötvaði einnig frumefnið vetni, þótt hann hafi ekki nefnt það því nafni. Landnámsmenn í Vestfirðingafjórðungi. Landnámsmenn í Vestfirðingafjórðungi og landnám þeirra. Farið er réttsælis um landið að hætti Landnámabókar frá Hvítá í Borgarfirði að Hrútafjarðará. Við Hrútafjarðará tekur við Norðlendingafjórðungur. GNU Aspell. GNU Aspell eða Aspell er stafsetningarvilluleiðréttingarforrit sem er hluti af stöðluðu GNU stýrikerfi. Því er ætlað er að koma í stað Ispell (sambærilegt forrit á öðrum Unix–legum kerfum). Það þýðist einnig á öðrum Unix-legum stýrikerfum auk Microsoft Windows. Aðal forritinu sem haldið við af Kevin Atkinson er undir LGPL leyfi og handbókin undir GFDL, orðabækur eru til fyrir það á um 70 tungumálum. Áratugur. Áratugur er 10 ára tímabil. Hins vegar er hægt að ræða um ákveðna áratugi en venja er í flestum ef ekki öllum tungumálum að skipta öldum í tíu áratugi sem byrja þá annaðhvort á árum sem enda á tölustafnum 0 eða 1, en sú fyrri er algengari. Þannig er í íslensku tímatali talað um fimmta, sjötta, sjöunda o.s.frv. áratuginn, hver áratugur hefst þá á ári sem endar á tölustafnum 1 og endar á ári sem endar á tölustafnum 0, sama afmörkun er notuð varðandi aldir. Tímabilið 1981–1990 er þannig 9. áratugur 20. aldar. Á ýmsum öðrum tungumálum er farin önnur leið að þessu, oft með því að bæta fleirtöluendingu aftan á ártöl en slíkt gengur illa upp í íslenskri málfræði. Samkvæmt enskri venju er þannig talað um 1980s (nineteeneighties) og samkvæmt þýskri 1980er (neunzehnachtziger) sem þau ár sem eru 198x, þ.e. fyrsta árið í slíkum áratug endar á tölustafnum 0 og hið síðasta endar á tölustafnum 9. Landnámsmenn í Austfirðingafjórðungi. Landnámsmenn í Austfirðingafjórðungi og landnám þeirra. Farið er réttsælis um landið að hætti Landnámabókar og hefst upptalningin á Langanesi vestanverðu. Vestan Jökulsár á Sólheimasandi tekur við Sunnlendingafjórðungur. Johann Müller. Johann Müller (1436 – 1476) var þýskur stærðfræðingur. Hann skrifaði undir nafninu Regiomontanus, sem er latneska útgáfan af nafni fæðingarborgar hans, Königsberg. Þekktasta verk hans er "De triangulis omnimodis" (Um allar gerðir þríhyrninga) og var fyrsta heildarúttekt á þríhyrningum og hornafræði. Verkið hafði mikil áhrif á vesturlöndum þó svo að það kæmi ekki út fyrr en árið 1533. Müller, Johann Georg Friedrich Bernhard Riemann. Georg Friedrich Bernhard Riemann (17. september 1826 – 20. júlí 1866) var þýskur stærðfræðingur sem var stórt nafn í stærðfræðisögu 19. aldar. Á ýmsan hátt má telja hann arftaka Gauss á vitsmunasviðinu. Í rúmfræði hóf hann þróun þeirra aðferða, sem Einstein notaði síðar til þess að lýsa alheiminum. Grunnhugmyndir hans í rúmfræði koma fram í innsetningarræðu hans við háskólann í Göttingen. Þar var Gauss á meðal áheyrenda. Hann átti stóran þátt í þróun heildunar og nafn hans lifir í Riemann heildinu, einnig í svokölluðum Cauchy-Riemann jöfnum og Riemannflötum. Hann fann einnig samband á milli frumtalna og stærðfræðigreiningar, setti fram Riemann tilgátuna, sem fjallar um hið dularfulla formula_1-fall (Zetufall Riemanns) og er enn ósönnuð, en gæti gefið mikilvægar upplýsingar um dreifingu frumtalna í formula_2. Tenglar. Riemann, Georg Friedrich Bernhard Reykjanes. Reykjanes er suðvestasta táin á Reykjanesskaga. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúk eða Valahnúkum, sem er(u) yst. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil. Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá. Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins. Fyrir Reykjanes liggur erfið siglingaleið, sem er sú fjölfarnasta við strendur landsins. Það er sundið á milli Reykjaness og Eldeyjar, sem heitir Húllið. Í Húllinu er Reykjanesröst, sem er straumþung og getur bára orðið þar mjög kröpp í vissum áttum og eftir sjávarföllum. Reykjanes og siglingaleiðin þar fyrir hefur löngum verið skeinuhætt fyrir sæfarendur. Eitt mesta slysið þar varð þann 28. febrúar árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks í suðvestan hvassviðri. 50 manns voru í áhöfn, breskir yfirmenn en meirihlutinn Kínverjar. Hluti áhafnarinnar, eða 31 maður, fóru í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdi í briminu. Af þessum 31 fórust 27 manns en 4 mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim 19 mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað með fluglínutækjum af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var aðstoðarvitavörður í Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust. Betur fór hins vegar þegar nýsköpunartogarinn Jón Baldvinsson RE strandaði skammt austan litla vitans á Reykjanesi í endaðan mars 1955. Togarinn sigldi á fullri ferð upp í stórgrýtisurð undir hátt í 40 metra háu bjargi. Björgunarsveitinni Þorbirni auðnaðist þá að bjarga allri áhöfn togarans, 42 mönnum, með fluglínutækjum og er þetta fjölmennasta björgun úr strönduðu íslensku skipi. Reykjanesskagi. Reykjanesskagi er skagi sunnan Faxaflóa og er í laginu eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandi Íslands. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krísuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara "suður" þegar haldið er út skagann, en "inn" þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara "inn eftir" til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum). Landafræði. Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða. Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri. Byggðarlög. Á Reykjanesskaga eru mörg byggðarlög. Að slepptu höfuðborgarsvæðinu öllu (sem fræðilega tilheyrir skaganum) eru þar Vatnsleysuströnd og Vogar, Reykjanesbær (Keflavík, Ytri- og Innri Njarðvík og Hafnir), Garður, Sandgerði og Grindavík auk Keflavíkurflugvallar, en þar var allstórt byggðarlag á íslenskan mælikvarða meðan þar var herstöð Bandaríkjahers. Einu nafni eru þessi byggðarlög oft nefnd Suðurnes og er heildaríbúafjöldi um 17500 manns og fer vaxandi. Að auki bjuggu lengi í Keflavíkurstöðinni við flugvöllinn allt að 5000 bandarískir hermenn og skyldulið þeirra frá 1951 til 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Atvinnulífið byggist mest á sjósókn og fiskvinnslu í smærri byggðunum, en á iðnaði, þjónustu og verslun í Reykjanesbæ, sem er eins konar höfuðstaður svæðisins. Hitaveita Suðurnesja. Öll þessi byggðarlög eru kynt með heitu vatni frá Hitaveitu Suðurnesja í Illahrauni. Hún er reyndar oft kennd við Svartsengi, þar sem fyrstu tilraunaholur voru boraðar áður en vinnsla hófst, en á endanum var orkuverið reist í Illahrauni, sem ber nafn með rentu. Affallsvatn frá Hitaveitunni myndar Bláa lónið, sem nú er einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Lónið þykir vera heilsulind og er meðal annars notað við lækningu á sjúkdómnum psoriasis og ýmsum húðútbrotum og exemum. Þór (norræn goðafræði). Þór sem einnig er kallaður Ása-Þór eða Öku-Þór ("hann heitir á þýsku Thor/Donar, Þórr á norrænu og Þunor á fornensku") er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og sagður verndari ása og manna. Honum er oft lýst sem sterklegum og rauðskeggjuðum með stingandi augnaráð. Þór er mest dýrkaður allra Ása að fornu og nýju. Þór var samfélagsgoð, verndari þinga og þeirra sem yrkja jörðina en einnig himnagoð og hamar hans er tákn þrumu og eldinga. Himnarnir skulfu við þrumur þær og eldingar sem fylgdu honum er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu. Margar sagnir bæði grimmlegar og skoplegar eru af ferðum hans til Jötunheims að berja á jötnum. Þór býr í höll sem heitir Bilskirnir í ríki sínu sem kallast Þrúðvangur. Í Bilskirni voru 540 herbergi og var stærst allra húsa sem menn kunnu skil á. Fjölskylduhættir. Hann er sonur Óðins og Jarðar, verndari mannanna og Miðgarðs. Kona hans er Sif og börn þeirra eru Þrúður og Móði en einnig á Þór soninn Magna með jötunmeynni Járnsöxu. Einnig átti Sif son sem var stjúpsonur Þórs. Hann hét Ullur. Í "Snorra-Eddu" segir: „Ullur heitir einn, sonur Sifjar, stúpsonur Þórs. Hann er bogmaður svo góður og skíðfær svo að enginn má við hann keppast. Hann er fagur álitum og hefur hermanns atgervi. Á hann er og gott að heita í einvígi.“ Einkennisgripir. Þór á nokkra dýrgripi sem einkenna hann. Fyrst má nefna vagn sem hann ferðast á en hann er dreginn af tveimur höfrum sem heita Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Á ferðum sínum át Þór oft hafra sína til kvöldverðar, safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá til lífs á ný með hamri sínum. Vagninum ók hann um himininn og það fylgja honum bæði þrumur og eldingar. Aðrir dýrgripir í eigu Þórs eru megingjarðir, járnglófar og stafurinn Gríðarvölur sem hann fékk hjá gýginni Gríði. Merkasti gripurinn er þó hamarinn Mjölnir sem er máttugasta vopn hans í baráttunni við jötna og jafnframt tákn Þórs. Mjölnir eða Þórshamarinn er nú eitt helsta tákn heiðinna manna. Vikudagur. Þórsdagur var nefndur eftir ásnum og helst það nafn á flestum germönskum málum (til dæmis "hósdagur" á færeysku) en Jón Ögmundsson biskup afnam hin heiðnu daganöfn á Íslandi. Fimmtudagur er kenndur við Þór í flestum germönskum tungumálum, svo sem þýsku (Donnerstag), ensku (Thursday) og norsku (torsdag). Dýrkun. Þór var einkum dýrkaður í vesturhluta Noregs og á Íslandi. Hann var mjög vinsælt goð og við kristnitökuna á Íslandi var hann sá ás sem erfiðast var að útrýma. Margs konar athafnir voru tengdrar honum. Til dæmis var hamar lagður í kjöltu brúðar við brúðkaup, honum haldið yfir höfði nýfædds barns og mynd af hamri klöppuð á landamerkjasteina eða ristur á grafsteina. Norrænir menn báru oft hamarsmen úr silfri um hálsinn. Ragnarök. Í Ragnarökum mun Þór berjast við erkióvin sinn Miðgarðsorm og munu þeir drepa hvor annan. Einhyrningur (dýr). Einhyrningur er goðsögulegt dýr sem býr nær undantekningarlaust yfir jákvæðum eigindum. Einhyrningurinn hefur líkingu af hvítum hesti og er með stakt horn sem stendur fram úr miðju enni hans. Hornið er langt og mjótt og gormsnúið og er ekki ólíkt horni náhvalsins, alltént ef litið er til þess hvernig listamenn hafa framfært hann í áranna rás. Einhyrningurinn er þó ekki alveg eins og venjulegur hestur, að frátöldu horninu, því hann er með klofna hófa, ljónshala og undir höku hans er sömuleiðis oft að finna krullað geitarskegg. Þetta er þó ekki algilt, enda sýn manna mismunandi eftir því á hvaða tíma er litið, hver sögumaðurinn er eða listamaðurinn sem hefur endurskapað hann á striga eða sem höggmynd. Suðurnes. Kort af Íslandi sem sýnir Suðurnes lituð rauð. Suðurnes er heiti sem haft er sem samheiti um þau byggðarlög sem eru á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, eða sunnan Straums eins og Suðurnesjamenn segja oft. Þessi byggðarlög eru Vatnsleysustrandarhreppur með þéttbýliskjarnann Voga, Reykjanesbær (sem var myndaður 1994 úr Innri- og Ytri Njarðvík, Keflavík og Höfnum en sameining var felld í öðrum byggðarlögum), Garður, Sandgerði og Grindavík. Á þessu svæði er landnám Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs, en henni gaf hann Rosmhvalanes allt sunnan Hvassahrauns, eins og Landnáma kemst að orði. Einnig landnám Molda-Gnúps, sem nam Grindavík. Annars er frásögn Landnámu um þetta svæði mjög óljós. Heildaríbúafjöldi svæðisins er rúmlega 21.000 manns (2010). Í Vatnsleysustrandarhreppi um 1225, í Reykjanesbæ um 13000, í Garði um 1450, í Sandgerði um 1700, í Grindavík um 2700. Lengst af á seinni hluta 20. aldar var heilt byggðarlag á Keflavíkurflugvelli þar sem bandarískir hermenn og fjölskyldur þeirra bjuggu og voru þar yfir 5000 manns þegar mest var, en Keflavíkurstöðin var lögð niður árið 2006. Haustið 2007 hófst útleiga til námsmanna á íbúðum sem áður tilheyrðu varnarliðinu og var þetta hverfi fyrst nefnt Vallarheiði, síðar nefnt Ásbrú og tilheyrir Reykjanesbæ. Suðurnesin hafa löngum verið einhver mestu útgerðarpláss landsins vegna legu sinnar og nálægðar við fengsæl fiskimið. Dregið hefur úr útgerð og fiskvinnslu síðan kvótakerfið var tekið upp og hafa Suðurnesjamenn selt kvóta í miklum mæli til annarra landshluta. Einnig hafa þeir misst mikinn kvóta vegna sameiningar fyrirtækja. Mest útgerð og fiskvinnsla er í Grindavík, sem byggir afkomu sína nánast eingöngu á þessum atvinnugreinum og beinni og óbeinni þjónustu við þær. Svipað má segja um Sandgerði, en þó hefur dregið talsvert úr útgerð þar á allra síðustu árum. Í Garði er allmikil fiskvinnsla, en lítil sem engin útgerð er þaðan vegna skorts á hafnaraðstöðu. Reykjanesbær er að mestu þjónustu-, iðnaðar- og verslunarbær. Allt svæðið er eitt atvinnusvæði og vinnur fjöldi manns úr öllum byggðarlögunum á Keflavíkurflugvelli eða við Leifsstöð í þjónustu við flugið. Flugstöðin er í reynd stærsti atvinnuveitandinn á svæðinu. Helst er að Grindavík skeri sig úr í þessu sambandi vegna þess að sá bær liggur fjærst hinum. Á undanförnum árum hefur hlutfall atvinnuleysis á Suðurnesjum verið viðvarandi hæst á landinu, sem stafar fyrst og fremst af samdrætti í umsvifum hersins á Keflavíkurflugvelli. Hefur það valdið Suðurnesjamönnum talsverðum búsifjum, en mun að líkindum þegar fram í sækir stuðla að breyttum atvinnuháttum með aukningu í iðnaði og þjónustu. Á Suðurnesjum er hæsta hlutfall líkamsárasa miðað við íbúatölu á landinu og má velta fyrir sér hvort að samband geti verið á milli atvinnuleysis og ofbeldis. Atvinnuleysi á Suðurnesjum í apríl 2010 var 14,6% en var 9,7% á höfuðborgarsvæðinu og 9,0% á landinu öllu. Á svæðinu eru átta grunnskólar, einn framhaldsskóli, eitt sjúkrahús, sjö kirkjur, eitt kvikmyndahús og auk þess fjöldi verslana og annarra þjónustufyrirtækja. William Thomson. William Thomson (26. júní 1824 – 17. desember 1907), einnig þekktur sem lávarðurinn af Kelvin eða einfaldlega Kelvin, var breskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og verkfræðingur. Hann var fæddur í Belfast á Norður-Írlandi. Hann stundaði eðlisfræðilegar rannsóknir á sviði rafmagnsfræði, segulorku og í vökvaaflfræði. Þróaði hann stærðfræði sem hentar til slíkra útreikninga. Hann starfaði sem stærðfræðiprófessor við háskólann í Glasgow. William Thomson var þekktur undir nafninu Lord Kelvin. Í Glasgow stendur stór glerhöll inni í Botanical Gardens, sem hann flutti í heilu lagi um langan veg og þótti það mikið verkfræðilegt afrek. Er þessi bygging við hann kennd og kallast Kelvin Hall. Einnig er þetta nafn hans þekkt af Kelvin hitakvarðanum. Lord Kelvin reyndi líka að meta aldur jarðar. Hann taldi innri hita jarðar stafa af því að jörðin hefði í upphafi verið glóandi hnöttur og væri nú að kólna. Niðurstaða hans reyndist röng. Samt var hún byggð á útreikningum, sem eru réttir, en hann vantaði eina forsendu, sem hann vissi ekkert um, enda uppgötvaðist hún ekki fyrr en síðar og það var geislavirkni. Thomson, William Sauðárkrókur. Sauðárkrókur (oft kallaður Krókurinn í daglegu tali) er bær í Sveitarfélaginu Skagafirði og eini kaupstaður Skagafjarðarsýslu. Umhverfi. Sauðárkrókur er innst við botn Skagafjarðar að vestanverðu, sunnan undir Tindastóli og skammt sunnan við ós Gönguskarðsár. Byggðin var fyrst öll á fremur mjórri malarspildu undir Nöfunum, bröttum malarkömbum upp af bænum, norðan við ós Sauðár, sem þá rann fram úr Sauðárgili og til norðurs um eyrar undir Nöfunum, þar sem nú er íþróttavöllur, sundlaug og tjaldstæði bæjarins. Byggðin færðist síðar suður fyrir ána og rann hún þá gegnum bæinn en síðar var ánni veitt til suðurs þar sem hún kemur úr Sauðárgili og rennur hún nú fyrir sunnan byggðina. Gönguskarðsá hefur einnig myndað allnokkra eyri við ósinn og þar er höfnin, frystihús, sláturhús og steinullarverksmiðja. Fimm klaufir eða skorningar ganga inn í Nafirnar upp af bænum og nefnast þær Kristjánsklauf, Gránuklauf eða Bakarísklauf, Kirkjuklauf, Grænaklauf og Grjótklauf. Framan af var byggðin öll á eyrinni og flötunum neðan Nafanna en þegar það svæði var nær fullbyggt um 1970 hófst uppbygging nýs hverfis á Sauðárhæðum, sunnan Sauðárgils, og hefur það verið aðalbyggingasvæði bæjarins síðan. Saga. Sauðárkrókur að vetrarlagi.Sauðárkrókur er byggður úr landi jarðarinnar Sauðár. Engin byggð var á eyrinni á fyrri öldum og voru verslunarstaðir héraðsins við austanverðan fjörðinn, á Hofsósi, í Grafarósi og Kolkuósi, en árið 1858 varð Sauðárkrókur löggiltur verslunarstaður. Þá fóru kaupskip að koma þangað. Þar var þó engin föst búseta fyrr en 1871, þegar Árni Árnason járnsmiður kom sér þar upp þurrabúð og settist þar að. Hann seldi bændum sem komu að versla við kaupskipin gistingu og veitingar. Strax árið eftir kom fyrsta fasta verslunin og kaupmenn, iðnaðarmenn og sjómenn settust að á Króknum og síðan ýmsir embættismenn. Sauðárkrókskirkja var reist árið 1892. Fólki fjölgaði hratt á Króknum fyrstu árin og um aldamótin 1900 voru íbúar um 400. Hafnleysi og einhæfir atvinnuhættir komu í veg fyrir að þessi öra fjölgun héldi áfram. Íbúar voru þó orðnir um 1000 þegar bærinn fékk kaupstaðaréttindi 1947. Gönguskarðsárvirkjun var reist á árunum 1947-1949 og hitaveita úr borholu við Áshildarholtsvatn var lögð í bæinn 1953. Hafnaraðstaða var smám saman bætt og er nú töluverð útgerð og fiskvinnsla í bænum. Atvinnuhættir. Á Króknum búa nú um 2600 manns sem hafa atvinnu af sjávarútvegi, fjölbreyttum iðnaði og verslun og þjónustu í síauknum mæli, en á Sauðárkróki hefur til dæmis Byggðastofnun höfuðstöðvar sínar. Kaupfélag Skagfirðinga er langstærsta fyrirtækið sem starfar á Sauðárkróki og rekur það mjög fjölbreytta starfsemi, svo sem verslanir, mjólkurbú, sláturhús og kjötvinnslu, vélaverkstæði og margt annað. Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var stofnaður á Sauðárkróki árið 1979. Þar er líka heilsugæsla og allstórt sjúkrahús. Sveitarfélagið Skagafjörður. Bærinn var upphaflega í Sauðárhreppi, en varð að sérstökum hreppi, "Sauðárkrókshreppi", árið 1907, sem varð svo Sauðárkrókskaupstaður 1947. Hinn hluti Sauðárhrepps varð að Skarðshreppi. Hinn 6. júní 1998 sameinuðust Sauðárkrókskaupstaður og Skarðshreppur á ný ásamt 9 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Síðasta bæjarstjórn. Síðasta bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 28. maí 1994. Ítalía. Ítalía er land í Suður-Evrópu. Landið liggur aðallega á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhafið og minnir í lögun dálítið á stígvél. Að norðan nær landið allt upp í Alpafjöll. Lönd sem liggja að Ítalíu eru Frakkland, Sviss, Austurríki og Slóvenía. Einnig eru tvö sjálfstæð ríki umlukin af Ítalíu; San Marínó (sem er nálægt austurströndinni og Rímíní) og Vatíkanið eða Páfagarður, sem er hluti af Róm. Rómaborg er höfuðborgin og stærsta borgin. Hún er ein af söguríkustu og merkustu borgum Evrópu og er stundum kölluð „borgin eilífa“. Aðrar stórar borgir eru til dæmis Mílanó, Flórens, Genúa, Tórínó, Feneyjar, Veróna, Bologna, Rímíní, Napólí og Palermó. Gjaldmiðillinn er evra síðan 1999 en var áður líra. Íbúar eru um 58 milljónir og landið er þrisvar sinnum stærra en Ísland. Saga. Á Ítalíu hafa komið upp mörg menningarsamfélög frá því í fornöld en hugmyndin um Ítalíu sem ríki var þó ekki til fyrr en með sameiningu Ítalíu ("risorgimento") um miðja 19. öld. Þrátt fyrir það er alvanalegt að fjalla um sem hluta sögu Ítalíu hluti eins og sögu Stór-Grikklands ("Magna Graecia"), sögu Rómaveldis, miðaldir, þegar Býsans, Frankaveldi og fleiri tókust á um yfirráð á skaganum, sögu borgríkjanna á Norður-Ítalíu og ítölsku endurreisnina. Sameining Ítalíu. Nútímaríkið Ítalía varð til 17. mars 1861 þegar meirihluti borgríkjanna á Ítalíuskaganum sameinuðust í eitt konungsríki undir stjórn konungs af Savoja-ættinni, Viktors Emmanúels 2., eftir yfir þrjátíu ára baráttu. Fyrst um sinn stóðu Róm og nærliggjandi héruð utan við ríkið þar sem þau töldust hluti Páfaríkisins ("Patrimonium Petri") en 20. september 1870 var borgin hertekin eftir stutt átök og gerð að höfuðborg. Afleiðing þessa varð sú að páfinn neitaði að viðurkenna Ítalíu sem ríki fram að Lateransamningunum 1929. Fyrri heimsstyrjöld og fasisminn. Ítalía barðist með bandamönnum gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum í fyrri heimsstyrjöldinni. Samkvæmt Versalasamningnum fengu Ítalir ekki landssvæðið Fiume ("Rijeka"), þar sem Króatía er í dag, sem þeir gerðu tilkall til. Vonbrigði og erfiðleikar millistríðsáranna, auk ótta við mögulega byltingu bolsévika, leiddu til fæðingar fasismans og valdatöku Benito Mussolinis eftir Rómargönguna 1922. Mussolini varð einræðisherra 1925 og ríkti sem slíkur til 1943. Á tímum fasismans stundaði Ítalía árásargjarna heimsvaldastefnu gagnvart Albaníu, Líbýu, Eþíópíu og Sómalíu og studdi falangista í Spænsku borgarastyrjöldinni. Ítalía gerði bandalag við Þýskaland Hitlers (Stálbandalagið) og varð eitt af Öxulveldunum í Síðari heimsstyrjöldinni. Eftir fullnaðarsigur bandamanna í styrjöldinni var ný stjórnarskrá samin og lýst yfir stofnun lýðveldis árið 1948. Lýðveldisstofnunin. Margir stjórnmálamenn sem höfðu haft embætti í fasistastjórinni gengu í endurnýjun lífdaga í nýstofnuðum miðjuflokki, Kristilega demókrataflokknum sem fór síðan óslitið með völd til 1993. Ítalía varð félagi í NATO árið 1949 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 1955. Mikill vöxtur var í efnahagslífinu frá 1958 til 1963 og Ítalía var ekki lengur með fátækustu þjóðum Evrópu ("Ítalska efnahagsundrið"). Á 8. áratugnum bar mikið á misskiptingu auðs og hryðjuverkum af hálfu vinstri- og hægrisinnaðra öfgahópa ("Blýárin"). Einnig bar mikið á misvægi milli Suður-Ítalíu, þar sem efnahagslífið var bundið við landbúnað, stöðnun ríkti og skipulögð glæpastarfsemi blómstraði, og hinnar iðnvæddu og ríku Norður-Ítalíu, þar sem efnahagslífið byggði á framleiðsluiðnaði. „Annað lýðveldið“. Árið 1992 – 93 fór fram víðtæk rannsókn á spillingu í ítölskum stjórnmálum ("Mani pulite") sem batt endi á valdatíma Kristilegra demókrata. Þetta gerðist á sama tíma og Ítalir tókust á við efnahagslegar og stjórnarfarslegar umbætur sem voru undanfari þátttöku í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Spillingarrannsóknin skapaði stjórnmálakreppu sem ruddi brautina fyrir stjórnmálaferil fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvios Berlusconis, og myndun nokkurs konar „tvíflokkakerfis“ þar sem tvö stór kosningabandalög, hvort um sig myndað úr einum stórum miðjuflokki og smærri flokkum á vinstri og hægri væng stjórnmálanna, takast á í kosningum. Landafræði. Ítalía er að stærstum hluta langur skagi (Appennínaskagi) sem skagar langt út í Miðjarðarhafið, auk tveggja stórra eyja; Sikileyjar og Sardiníu. Skaginn og eyjarnar afmarka hafsvæði eins og Adríahaf austan við skagann, Jónahaf í suðaustri, Tyrrenahaf í vestri og Lígúríuhaf í norðvestri. Norðurlandamæri Ítalíu eru í Alpafjöllunum, en frá þeim liggja Appennínafjöllin eftir endilöngum skaganum. Hæsti tindur Ítalíu er Mont Blanc (4.810 m) en hæsti tindur Appennínafjallanna er Gran Sasso (2.912 m). Stærsta samfellda undirlendi Ítalíu er Pódalurinn þar sem áin Pó rennur ásamt þverám sínum úr Alpafjöllunum, Appennínafjöllunum og Dólómítunum 652 km leið út í Adríahaf. Önnur þekkt fljót á Ítalíu eru Arnó, Adige og Tíberfljót. Á Ítalíu eru nokkur virkustu eldfjöll Evrópu eins og Etna, Vesúvíus og Strombólí. Jarðskjálftar eru ekki óalgengir og þó nokkur jarðhiti er á mörgum stöðum. Stjórnsýslueiningar. Ítalía skiptist í tuttugu héruð ("regioni") sem hvert hefur sinn höfuðstað. Fimm héraðanna (Friúlí, Sardinía, Sikiley, Trentínó og Ágústudalur) hafa takmarkaða sjálfsstjórn sökum menningarlegrar sérstöðu. Héruðin skiptast í nokkrar sýslur ("province") sem aftur skiptast í mörg sveitarfélög ("comuni") sem árið 2001 voru 8.101 talsins. Stjórnmál. Ítalía er lýðveldi með fulltrúalýðræði og þingræði eftir að ákveðið var að leggja ítalska konungdæmið niður í þjóðaratkvæðagreiðslu 2. júní 1946. Stjórnarskrá Ítalíu sem kveður á um stjórnskipan lýðveldisins gekk í gildi 1. janúar 1948. Forseti Ítalíu er þjóðhöfðingi landsins og er kjörinn af sameinuðu þingi til sjö ára í senn. Forsetinn má ekki sitja lengur en eitt kjörtímabil og ekki verða forseti annað sinn. Forsetinn er fulltrúi einingar þjóðarinnar og á að tryggja að stjórnarskrá sé fylgt þegar hann undirritar lög frá þinginu. Forsetanum ber einnig að bera undir þingið lagafrumvörp sem fengið hafa tiltekinn fjölda undirskrifta almennings, en með þeim hætti geta almennir borgarar knúið fram að lagafrumvörp séu tekin fyrir á þinginu. Ítalska þingið skiptist í tvær deildir: fulltrúadeild, þar sem 630 fulltrúar sitja og öldungadeild þar sem sitja 315 kjörnir fulltrúar auk öldungadeildarþingmanna sem skipaðir eru ævilangt. Kjördæmin eru 26 talsins, nokkurnveginn eftir héruðum; Langbarðaland greinist í þrjú kjördæmi, Fjallaland, Venetó, Latíum, Kampanía og Sikiley skiptast í tvö. Þessi héruð kjósa 618 þingmenn til fulltrúadeildarinnar, 12 þingmenn til viðbótar eru kosnir af ítölskum ríkisborgurum sem búa erlendis. Til öldungadeildarinnar er kosið eftir sambærilegum kjördæmum, þar sem sitja 315 kjörnir fulltrúar þar af sex fyrir ítalska ríkisborgara sem búa erlendis. Auk þeirra sitja öldungadeildarþingmenn til lífstíðar sem forsetinn skipar og geta verið fimm talsins auk fyrrum forseta lýðveldisins. Hvert löggjafarþing getur setið hámark fimm ár en eftir það er boðað til þingkosninga. Ríkisstjórn Ítalíu fer með framkvæmdavaldið og skiptist í þrennt: forsætisráðherra Ítalíu, ráðherra og ríkisstjórnina sjálfa sem er fundur eða ráð fyrrnefndra stofnana. Dómsvaldið er á mörgum dómstigum en æðst þeirra er stjórnlagadómstóll Ítalíu sem dæmir um það hvort lög standist stjórnarskrána. Æðstaráð dómsvaldsins er æðsta vald í málefnum dómsvaldsins og sér um skipan dómara. Ráðið er skipað að 1/3 dómurum sem tilnefndir eru af þinginu og að 2/3 af dómurum sem kjörnir eru af stofnunum dómsvaldsins. Þannig er reynt að tryggja sem mest sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart bæði framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu. Efnahagslíf. Ítalía er eitt af átta helstu iðnríkjum heims og áttunda stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum, Kína, Japan, Indlandi, Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi. Samkvæmt Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er Ítalía sjötti stærsti útflytjandi heims á sviði framleiðsluvara. Langstærstur hluti fyrirtækja á Ítalíu eru lítil eða mjög lítil fyrirtæki. Ítölsk stórfyrirtæki eru yfirleitt í eigu fjölskyldna stofnendanna eða erlendra fjárfesta. Hugmyndin um almenningshlutafélag í dreifðri eign hefur ekki notið fylgis á Ítalíu og ítalskir sparifjáreigendur þykja yfirleitt íhaldssamir. Sterk skil eru á milli Norður- og Suður-Ítalíu hvað efnahagslíf varðar. Mestöll iðnvæðing á Ítalíu frá því á 19. öld fór fram í norðurhlutanum og þar eru langflest framleiðslufyrirtækin með starfsemi sína. Mílanó er þannig réttnefnd efnahagsleg höfuðborg Ítalíu og þar er ítalska verðbréfaþingið staðsett. Efnahagslíf suðurhlutans byggðist aftur á móti á landbúnaði og þar er enn í dag meira atvinnuleysi og vanþróaðra efnahagslíf þrátt fyrir margar tilraunir til að efla atvinnulíf með ýmsum aðgerðum meðal annars með ríkisreknum iðnfyrirtækjum. Skilin á milli hins ríka norðurhluta og vanþróaða suðurhluta hafa þó haft tilhneigingu til þess að færast suður á bóginn með árunum. Auk framleiðsluiðnaðar er ferðaþjónusta mikilvæg atvinnugrein á Ítalíu sem er í fjórða sæti (á eftir Frakklandi, Spáni og Bandaríkjunum) hvað varðar fjölda heimsókna erlendra ferðamanna á ári (yfir 39 milljónir). Ítalía flytur inn langstærstan hluta hráefnis og 75% orku sem nýtt eru í landinu. Frá upphafi 10. áratugar 20. aldar hefur ítalska ríkið reynt að halda jafnvægi í ríkisfjármálum í tengslum við aðildina að Evrópubandalaginu og með því hefur tekist að halda verðbólgu og vöxtum niðri. Ítalíu tókst þannig að uppfylla öll skilyrðin fyrir aðild að myntbandalagi Evrópu og tók upp evru í stað lírunnar árið 1999. Ýmis vandamál plaga þó ríkisfjármálin, svo sem mikil og landlæg skattsvik og skuldir ríkisins sem námu 107,4% af landsframleiðslu árið 2006. Menning. Allt frá tímum Etrúra og Rómaveldis hefur framlag Ítalíu til heimsmenningarinnar verið gríðarlegt. Mikilvægi ítalskrar menningar hefur meðal annars stafað af því að þar var miðpunktur Rómaveldis, þar hefur páfinn, höfuð hins rómversk-kaþólska heims, verið staðsettur lengst af og þar kom endurreisnin upp sem markaði þáttaskil milli miðalda og nýaldar. Ítalía er það land sem geymir flestar heimsminjar á Heimsminjaskrá UNESCO (41). Á tímum Rómaveldis var latína opinbert tungumál, en á Ítalíuskaganum voru töluð mörg tungumál; rómönsk, púnversk, etrúsk og gallversk. Ítalska þróaðist út frá ýmsum latneskum mállýskum á miðöldum. Elstu merki um hana er að finna í textum frá 10. öld en hún varð fyrst viðurkennd sem bókmenntamál með verkum rithöfunda á borð við Dante Alighieri, Giovanni Boccaccio og Francesco Petrarca á 13. og 14. öld. Langflestir Ítalir aðhyllast rómversk-kaþólska kristni og þótt kaþólska kirkjan sé ekki lengur opinber trúarbrögð á Ítalíu þá eru ítök kaþólsku kirkjunnar mjög mikil í ítölsku samfélagi. Innflytjendur frá löndum eins og Albaníu og Marokkó (sem eru samanlagt um 1,4% íbúa landsins) hafa flutt með sér íslam, en á Ítalíu eru líka nokkuð öflugt og aldagamalt samfélag gyðinga auk hinna ýmsu trúfélaga mótmælenda. Grikkland. Grikkland (gríska: Ελλάδα, "Ellaða"; eldra form: Ελλάς, "Hellas") er land í Suðaustur-Evrópu á suðurenda Balkanskaga. Grikkland á landamæri að Búlgaríu, fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu og Albaníu í norðri og Tyrklandi í austri. Landið liggur að Jónahafi í vestri og Eyjahafi í austri. Saga Grikklands er löng og merkileg og landið er gjarnan álitið vera vagga vestrænnar siðmenningar. Grikkland er heimaland ólympíuleikanna. Fyrstu nútíma ólympíuleikarnir voru haldnir í Grikklandi árið 1896 og sumarólympíuleikarnir voru haldnir í Aþenu höfuðborg Grikklands árið 2004. Ísafjarðarbær. Ísafjarðarbær () varð til sem sveitarfélag 1. júní 1996 þegar sex sveitarfélög á Vestfjörðum sameinuðust í eitt. Þau voru, í stafrófsröð: Flateyrarhreppur, Ísafjarðarkaupstaður, Mosvallahreppur, Mýrahreppur, Suðureyrarhreppur og Þingeyrarhreppur. Helstu þéttbýlisstaðir sveitarfélagsins eru Ísafjörður (sem er jafnframt stærsta þéttbýli á Vestfjörðum), Hnífsdalur, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Fjórar sundlaugar eru á Ísafjarðarbæ, Sundhöllin á Ísafirði, Sundlaugin á Flateyri, Sundlaugin á Þingeyri og Sundlaugin á Suðureyri. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er Daníel Jakobsson Teljanlegt mengi. frameTeljanlegt mengi er mengi formula_1, sem er þannig búið að mögulegt er að setja fram gagntæka vörpun frá því á hlutmengi formula_2 náttúrulegu talnanna. Ef formula_3 inniheldur óendanlega mörg stök (t.d. ef formula_3 er mengi frumtalnanna eða sléttu talnanna) er formula_1 ennfremur "teljanlega óendanlegt". Sé mengi ekki teljanlegt er það kallað "óteljanlegt". Jómontímabilið. Jómon (縄文時代) er tímabil í sögu Japans sem nær frá 14.500 f.Kr. til 300 f.Kr. Jómon þýðir „strengjamynstur“ og er dregið af mynstrum sem sjást á leirkerjum frá þessu tímabili. Egill Skalla-Grímsson. Kirkjan á Borg á Mýrum og listaverkið Sonatorrek eftir Ásmund Sveinsson, nefnt eftir kvæði Egils sem hann orti til minningar um syni sína tvo. Egill Skalla-Grímsson (eða Skallagrímsson, ~910 – ~990) var höfðingi á Íslandi á víkingaöld. Um hann er fjallað í Egils sögu. Kona hans var Ásgerður Björnsdóttir en hún var áður gift Þórólfi, bróður Egils sem lést í orrustu milli Englendinga og Skota þar sem þeir bræður voru í liði Aðalsteins Englandskonungs. Ævi. Egill Skalla-Grímsson fæddist líklega árið 910 á Borg á Mýrum. Hann tilheyrir fyrstu kynslóð Íslendinga. Egill var sonur hjónanna Gríms Úlfssonar, sem kallaður var Skallagrímur, og Beru Yngvarsdóttur en þau settust að á Íslandi ásamt öðru flóttafólki frá Noregi við upphaf landnáms. Egill Skalla-Grímsson leið alla ævi fyrir verk föður síns og afa og einkenndist líf hans af átökum við norska konungsvaldið sem meinaði honum að ná rétti sínum en Egill gerði tilkall til eigna í Noregi er hann taldi sig eiga erfðatilkall til vegna konu sinnar Ásgerðar Bjarnadóttur en foreldrar hennar voru stóreignafólk úr Firðafylki og af góðum ættum. Egill var gott skáld og eru kvæði hans í hávegum höfð enn þann dag í dag. Sitt fyrsta kvæði orti Egill þriggja ára gamall samkvæmt sögunni. Í hinstu orðum Egils í Egils sögu minnist hann á laug er hann mælir: „Vil ek fara til laugar.“ Svo fór hann og fól silfurkistur Aðalsteins konungs. Bein hans voru grafin upp og flutt í Mosfellskirkjugarð: „Þau voru miklu meiri en annarra manna bein. Hausinn var undarlega mikill og þungur, allur báróttur utan." Egill dó um áttrætt á Mosfelli í Mosfellssveit, hjá stjúpdóttur sinni Þórdísi Þórólfsdóttur, sem einnig var bróðurdóttir hans, og manni hennar Grími Svertingssyni lögsögumanni. Hann var grafinn þar sem nú er bærinn Hrísbrú. Hundrað árum seinna voru bein hans flutt, enda var það skylda þegar ný kirkja var reist í sveitinni, í nýjan kirkjugarð sem nú er á Mosfelli. Egils saga er helsta heimildin um ævi og störf Egils. Talið er að Snorri Sturluson hafi skrifað hana. Egils saga. Egils saga, eða Egla er ein elsta Íslendingasagan. Aðalpersóna hennar er Egill Skallagrímsson, 10. aldar höfðingi, vígamaður og ljóðskáld. Egla kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1782. Sagan er ekki síst þekkt fyrir þann mikla forna skáldskap sem hún hefur að geyma. Mörg afrit af handriti Eglu hafa verið rituð eftir 13. öldina en einungis tvö þeirra, frá 19. öld, eru varðveitt í Landsbókasafninu. Eldri afrit en frá árinu 1700 eru geymd í erlendum bókaskemmum. Egils saga er ólík öðrum Íslendingasögum að því leyti að hún gerist að mestu annars staðar en á Íslandi. Sagan hefst í Noregi þar sem segir frá Kveldúlfi afa Egils, Skallagrími föður hans og Þórólfi föðurbróður hans. Eftir víg Þórólfs fóru þeir feðgar til Íslands. Kveldúlfur andaðist í hafi en Skallagrímur varð einn fyrsti landnámsmaðurinn. Egill fæddist og ólst upp á Borg á Mýrum, þar sem hann varð strax í æsku mikið skáld og bardagamaður. Egill ferðaðist víða um Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin og England. Hann átti í deilum við jafnt merka sem ómerka menn. Hann var einn fárra víkinga sem náði háum aldri og í sögulok deyr hann á Mosfelli hjá stjúpdóttur sinni Þórdísi. Þá var komið undir lok 10. aldar. Með hinstu orðum sínum minntist Egill á laug þegar hann mælti: „Vil eg fara til laugar“. Ef trúa má þeirri frásögn að hann hafi sjö ára að aldri orðið andstæðing sínum í knattleik að bana er ekki ósennilegt að hann eigi Íslandsmet sem yngsti manndrápari Íslandssögunnar og er á hann minnst í þessu tilliti í Íslandsmetabók. Brennu-Njáls saga. Brennu-Njáls saga (oft aðeins kölluð "Njáls saga" eða "Njála") er ein þekktasta Íslendingasagan og sú lengsta. Hún er saga Njáls Þorgeirssonar bónda, höfðingja og lögspekings á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum og sona hans, einkum þá Skarphéðins. En auk þess er hún ævisaga Hallgerðar langbrókar Höskuldsdóttur og Gunnars á Hlíðarenda Hámundarsonar og margra fleiri. Sagan þykir vera afburða vel skrifuð. Fjöldi persóna sem við sögu koma að meira eða minna leyti skiptir mörgum hundruðum. Mannlýsingar eru sérlega glöggar og getur lesandinn oftast séð persónuna fyrir sér er hann les. Menn eru ekki á einu máli um áreiðanleika eða sagnfræðilegt gildi sögunnar. Þó er alveg óhætt að slá því föstu að helstu persónur sögunnar voru uppi á sinni tíð og að margir eða flestir atburðir sem frá er sagt áttu sér stað í raun og veru. Hins vegar er ekki víst að þeir hafi gerst með nákvæmlega þeim hætti sem sagan vill vera láta. Tími sögunnar er frá því um 950 til um 1020 eða svo. Einar Pálsson, fræðimaður taldi Njálssögu vera táknsögu um kristnitökuna. Njáll Þorgeirsson. Njáll Þorgeirsson (einnig nefndur Njáll á Bergþórshvoli) var stórbóndi, lögspekingur og forspár maður, sem bjó á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum á síðari hluta 10. aldar og fram yfir 1010. Hann kemur víða við sögur og virðist hafa verið áhrifamikill í landsmálapólitík síns tíma. Njáll og Gunnar á Hlíðarenda voru miklir vinir og varð þeim aldrei sundurorða. Konur þeirra hötuðust hins vegar og létu þær árum saman drepa húskarla hvor fyrir annarri en Njáll og Gunnar bættu jafnan hina vegnu með síhækkandi gjöldum. Endalok Njáls og Bergþóru urðu þau að Flosi Þórðarson á Svínafelli hefndi fyrir víg Höskuldar Hvítanesgoða með því að brenna bæinn á Bergþórshvoli. Fórust þau þar hjónin og synir þeirra allir ásamt dóttursyni þeirra, Þórði Kárasyni. Kári Sölmundarson tengdasonur Njáls slapp úr brennunni og hefndi hennar og sonar síns grimmilega næstu árin á eftir. Lýsing Njáls. Njáli er lýst í 20. kapitula Brennu-Njáls sögu. Hann er sagður sonur Þorgeirs gollnis Þórólfssonar og Ásgerðar Áskelsdóttir. (Í Landnámabók er Ásgerður sögð Asksdóttir, landnámskona milli Seljalandsmúla og Markarfljóts, og talin móðir Þorgeirs gollnis, sem er þar sagður Ófeigsson en ekki Þórólfsson; Þórólfur er þar sagður landnámsmaður „fyrir vestan Fljót milli Deildará tveggja“, bróðir Ásgerðar en fósturfaðir Þorgeirs gollnis.) Njáll bjó á Bergþórshvoli í Landeyjum en átti annað bú að Þórólfsfelli. Hann var auðugur að fé og landi. Lögspekingur var hann mestur á Íslandi, langminnugur, vitur, góðgjarn, forspár og heilráður. Hann var friðarsinni og bar aldrei vopn nema fyrir hefðar sakir því eitt sinn bar hann litla taparöxi en þær voru oftast virðingagjafir til forna. Sagt var að hann leysti hvers manns vandræði er á hans fund kom. Njáll var talsmaður sátta og friðsamlegrar sambúðar. Hann taldi lög vera bestu leiðina til sætta og eftir honum eru höfð hin þekktu orð að „með lögum skuli land byggja en með ólögum eyða“. Hann kaus lagaþing fremur en vopnaþing. Njáll sóttist ekki eftir peningum eða völdum, kaus fremur sæmd og orðstír. Hann var ekki mikill að líkamlegu atgervi og leitaðist því við að auka sæmd sína með ýmsu ráðabruggi og tókst oft vel til með það. Sá löstur þótti á Njáli að honum óx ekki skegg. Með lýsingunni á Njáli leitast höfundur Njálu við að koma til skila andlegu atgervi hans, visku og góðgirni. Snorri Sturluson minnist einnig á Njál í Eddu sinni en þar tilgreinir hann skáldskap hans og eignar honum eitt heiti sjávar, húmur. Fjölskylda. Kona Njáls var Bergþóra Skarphéðinsdóttir og er henni lýst svo að hún hafi verið drengur góður. Börn þeirra voru sex að sögn Njálu, þrír synir og þrjár dætur. Skarphéðinn, Grímur og Helgi eru kallaðir einu nafni Njálssynir; dæturnar hétu Þorgerður og Helga, en sú þriðja er ekki nefnd. Auk þess átti Njáll soninn Höskuld með Hróðnýju Höskuldsdóttur frá Keldum. Synir Njáls og Bergþóru voru kvæntir og áttu börn. Kona Skarphéðins var Þórhildur Hrafnsdóttir, kona Helga var Þórhalla Ásgrímsdóttir og kona Gríms var Ástríður af Djúpárbakka og var hann seinni maður hennar. Dætur þeirra hjóna voru einnig giftar. Þorgerður var gift Katli Sigfússyni í Mörk og Helga var gift Kára Sölmundarsyni. Uppeldi. Njálssynir urðu allir vaskir menn og miklir af rammleik. Faðir þeirra virðist þó oftast hafa tangarhald á þeim og þeir hlýtt honum í flestu. Heilræði Njáls voru alltaf til taks fyrir synina þegar á þurfti að halda. Í sögunni heldur Njáll hugmyndina um feðraveldi í heiðri og gengur að því vísu að vilji hans sé virtur, þ.e. að hann ráði öllu. Hann reynir að ráðstafa lífi sona sinna á sem hagstæðasta hátt fyrir fjölskyldu sína. Synir hans virðast af þeim sökum ekki vera mjög sjálfstæðir. Þeir dvelja löngum stundum á Bergþórshvoli og fylgja Njáli nær alltaf. Skarphéðinn var ólíkur Njáli þar eð hann var líkamlega sterkur og vildi láta vopnin tala. Njáll virðist ekki hafa haft mikið dálæti á honum en Bergþóra mat hann mikils, enda voru þau um margt lík. Hins vegar lét hann meira með Helga, sem var forspár líkt og faðir hans. Grímur Njálsson virðist hvorki hafa verið Njáli til ama né mikillar sæmdar. Þórhallur Ásgrímsson Elliða-Grímssonar var einnig í fóstri á Bergþórshvoli. Honum kenndi Njáll lög svo vel að eftir dauða Njáls var hann sagður einn af þremur lögfróðustu mönnum Íslands. Þegar Njáll var fimmtugur tók hann Höskuld Þráinsson í fóstur. Það virðist hafa verið ætlun hans að reyna með því að forðast deilur síðar meir þar sem synir hans höfðu vegið Þráin föður Höskulds. Höskuldur var að mörgu líkari Njáli en synir hans og unni Njáll að eigin sögn Höskuldi meira en blóðsonum sínum. Þó kann að vera að hann hafi látið svo til að reyna að forðast hefndir frænda Höskuldar eftir víg hans. Hann ól Höskuld upp af kostgæfni og gerði hann að manni vinsælum og leiðtoga í sveitinni. Ást Njáls á Höskuldi kom bersýnilega í ljós þegar hann gekk framhjá elsta syninum, Skarphéðni, og kom því til leiðar að Höskuldi var veitt goðorð. Hjónaband og vinátta. Hjónabönd í Íslendingasögum verða oftar en ekki valdur að afdrifaríkri atburðarás og er Njála þar engin undantekning. Hjónaband Hallgerðar langbrókar og Gunnars á Hlíðarenda var vægast sagt ófarsælt. Það tengist einnig sambandi Bergþóru og Njáls. Njáll mat Gunnar meira en syni sína og reyndi Bergþóra að auka sæmd Helga á kostnað Gunnars. Það gerði hún með því að láta Hallgerði víkja úr sæti á Bergþórshvoli fyrir konu Helga. Hún vissi að Hallgerði rynni í skap og hún mundi erfa þetta við hana. Bergþóra var snjöll rétt eins og Njáll en beitti kænsku sinni ekki alltaf í sömu átt. Gunnar á Hlíðarenda. Vinátta Njáls og Gunnars var með eindæmum góð þótt á þeim væri töluverður aldursmunur og eru fá dæmi um slík vinatengsl í íslensku fornsögunum. Með samspili andlegs atgervis Njáls; visku hans og góðvildar, og líkamlegs atgervis Gunnars varð til mjög sterkt tvíeyki og er nærtækast dæmið um Kaupa-Héðin; Hrútur mátti sín einskis, þótt vitur væri, gagnvart kænsku Njáls og hetjuskap Gunnars. Vinum sínum reyndist Njáll ávallt vel og voru margir fúsir að veita honum lið sökum þess. Nefna má að Hjalti Skeggjason hét Njáli liðveislu og sagði heilræði Njáls, sem hann hafði veitt honum áður, vera næg laun. Örlögin. Njáll ólst upp við heiðni og þá siði sem henni fylgdu, svo sem hefndarskyldunna. Hann tók kristni á gamals aldri en ávallt var togstreitan milli hins gamla og nýja siðar til staðar. Þegar Höskuldur var veginn var Njáll orðinn gamall, að öllum líkindum um áttrætt. Hann gerði sér grein fyrir að það illvirki sem synir hans höfðu framið var óbein afleiðing ráða hans, að láta stofna Hvítanesgoðorð til handa Höskuldi og gera þannig á hlut Marðar Valgarðssonar. Mörður rægði saman Njálssyni og Höskuld og leiðir það til vígs Höskuldar og síðan brennufarar Flosa eftir að Hildigunnur Starkaðardóttir, ekkja Höskuldar, eggjaði hann til hefnda. Njáll, sem hafði reynt að forðast hefndina með því að taka Höskuld í fóstur, játaði sig sigraðan og gaf sig á vald örlaganna, sem hann hafði séð fyrir löngu áður. Þegar hann sá menn Flosa nálgast Bergþórshvol vissi hann hvað var í aðsigi. Hann ráðlagði sonum sínum að fara inn og hlýddu þeir ráði hans þótt Skarphéðinn vildi heldur verjast utandyra. Njáll virðist hafa verið búinn að gefast upp á því að reyna að sveigja örlögin sér í hag. Kristniáhrif. Þegar búið var að bera eld að bænum og konur urðu óttaslegnar lét Njáll mjög athyglisverð orð falla: „Trúið þér ok því, at guð er miskunnsamr, ok mun hann oss eigi láta brenna bæði þessa heims ok annars.“ Þar koma bersýnilega í ljós áhrif kristni á Njál þar sem hann telur að með því að brenna inni muni hann og aðrir hreinsast af syndum sínum í samræmi við trúna á hreinsunareldinn á þessum tíma. Að lokum. Það er ljóst að Njáll er margslunginn persónuleiki en ávallt hefur verið litið á hann sem eitt af góðmennum Brennu-Njáls sögu og Íslendingasagna yfir höfuð. Skeggleysið kann að hafa verið vísbending um karlmennskuleysi hans og var talið honum til minnkunnar en viska hans vó upp á móti því. Þó má segja að góðmennska hans hafi orðið honum að falli þar eð ráð hans undu upp á sig og urðu kveikja að þeirri atburðarás sem varð bani hans og sona hans. Gunnar Hámundarson. Gunnar Hámundarson (10. öld) var stórbóndi og höfðingi á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var jafnan kenndur við bæinn og er fullt eins þekktur sem Gunnar á Hlíðarenda. Um hann er fjallað í fyrri hluta Njálu og alla þá atburði sem urðu til þess að hann var drepinn á Hlíðarenda í lok 10. aldar. Gunnar var sonur Hámundar Gunnarssonar og Rannveigar Sigfúsdóttur (skv. Njálu) eða Sigmundardóttur (skv. Landnámu) og er það talið réttara. Bræður Gunnars voru tveir og hétu þeir Kolskeggur og Hjörtur. Eina systur átti hann, sem Arngunnur hét og var hún kona Hróars Tungugoða sonarsonar Garðars er fann Ísland. Gunnar var mikill bardagamaður og stóðst honum enginn snúning jafnvel þó að um ofurefli væri að ræða. Hann bar af öðrum mönnum um afl og líkamsburði að því er Njála segir og er sagt að hann hafi stokkið hæð sína í fullum herklæðum. Hann var afburða bogskytta og í návígi notaði hann atgeir, sem menn telja að hafi verið langt og breitt spjót sem bæði mátti höggva og leggja með. Gunnar var mikill vinur Njáls á Bergþórshvoli og sótti til hans góð ráð. Njáll ráðlagði honum að vega ekki aftur í sama knérunn, það merkir að hann skyldi ekki vega mann af sömu ætt og einhver sem hann hefði vegið áður, því að það yrði hans bani. Eins og oftar reyndist Njáll sannspár í þessu, því að Gunnar var drepinn eftir að hann hafði vegið tvo af ættmönnum Gissurar hvíta og þeirra Mosfellinga. Gunnar giftist Hallgerði Höskuldsdóttur frá Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu eftir að hann kom til baka úr sinni einu utanferð sem þó var um margt merk en hann dvaldist við hirð bæði Noregskonungs og Danakonungs og herjaði í austurveg þar sem kallað var Vindland en er í dag Eistland og Litháen. Hún er þekkt sem Hallgerður langbrók. Hann var þriðji maður hennar. Var um hana sagt að hún hefði ráðið báðum fyrri mönnum sínum bana, en það var þó alls ekki rétt nema varðandi þann fyrsta. Hallgerður lét þræl ræna búið í Kirkjubæ eitt sinn er þröngt var í búi hjá þeim á Hlíðarenda og varð það upphaf atburða, sem að lokum leiddu til þess að mikill herflokkur undir forystu Gissurar hvíta fór að Gunnari og drápu þeir hann eftir frækilega vörn. Þegar bogastrengur Gunnars slitnaði bað hann Hallgerði að gefa sér lokk úr hári sínu, svo að hægt væri að snúa nýjan bogastreng úr honum. Þessu neitaði Hallgerður og kvaðst með því vilja launa honum kinnhestinn sem hann gaf henni forðum. Fyrir þetta hefur Hallgerði verið álasað um allar aldir en þó hefur sú kenning verið sett fram að Hallgerður hafi vitað sem var að lokkur úr mannshári gæti aldrei komið að gagni sem bogastrengur og því hafi slík nauðvörn verið óhugsandi hvort eð var. Gunnar komst aldrei í tæri við kristni og hefur verið um fimmtugt er hann féll frá. Gunnar og bræður hans, Kolskeggur og Hjörtur, börðust við Starkað Barkarson og hans menn við Knafahóla á Rangárvöllum. Leituðu þeir undan niður í nesið við Rangá eystri og vörðust þar. Vógu þeir þrír saman fjórtán menn Starkaðar en Hjörtur var einnig veginn þar og taldi mannfallið því alls fimmtán menn. Hlíðarendi í Fljótshlíð. Hlíðarendi er bær í Fljótshlíð í Rangárvallasýslu. Bærinn hefur lengst af verið mikið höfðingjasetur og sýslumannssetur um margra alda skeið. Kirkja var á Hlíðarenda fram til 1802 en þá var hún flutt að Teigi. Árið 1896 voru svo kirkjur á Teigi og Eyvindarmúla lagðar af en ný kirkja reist á Hlíðarenda árið eftir. Einn þekktasti ábúandi Hlíðarenda var trúlega Gunnar Hámundarson sem kom fram í Njálu. Aðrir þekktir ábúendur þar voru Vísi-Gísli sem stundaði þar tilraunir í matjurtaræktun og skáldið Bjarni Thorarensen. Þorlákur helgi fæddist árið 1133 á Hlíðarenda. Kirkja á bænum var helguð honum. Gagnihessou. Gangnihessou var fyrsti tólf hefðbundna konunga Dahómey og var valdatími hans í kringum árið 1620, merki hans voru gangnihessou fugl, tromma, kast– og veiðispjót. Einhver vafi leikur á um konungdóm Gangnihessou, má vera að hann hafi aðeins verið áhrifamikill leiðtogi sem stýrði ríkinu óbeint í gegnum yngri bróður sinn Dakodonou. Strandasýsla. Strandasýsla er sýsla á Vestfjörðum á Íslandi sem nær frá Holtavörðuheiði í suðri að Geirólfsgnúpi í norðri. Íbúafjöldi sýslunnar var 747 í árslok 2008. Strandir eru heiti á byggðinni og svæðinu sem liggur norður meðfram vestanverðum Hrútafirði og Húnaflóa þar til Hornstrandir taka við. Vestan megin á Strandasýsla mörk að Norður-Ísafjarðarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Austan megin er Húnaflói og Vestur-Húnavatnssýsla. Suðurendi sýslunnar teygir sig upp á Holtavörðuheiði þar sem hann mætir sýslumörkum Mýrasýslu. Stærsti þéttbýlisstaður Strandasýslu er þorpið Hólmavík við Steingrímsfjörð um miðbik Stranda með 368 íbúa (1. jan. 2009). Þar er meðal annars rækjuvinnsla og þó nokkur útgerð. Annar þéttbýliskjarni við norðanverðan Steingrímsfjörð er Drangsnes og við Hrútafjörð er Borðeyri. Á Steingrímsfirði, úti fyrir Drangsnesi, er eyjan Grímsey. Akvegur fær öllum bílum liggur að Ingólfsfirði, norðan Trékyllisvíkur, en jeppavegur nær alla leið í Ófeigsfjörð. Einkenni. Í fjörunni á Ströndum er mikið um rekavið sem voru verðmætustu hlunnindi svæðisins fyrr á öldum. Svæðið skiptist áður fyrr nokkuð í tvennt við Bjarnarfjörð eða þar um bil hvað varðar atvinnulíf þar sem suðurhlutinn byggði á hefðbundnum sauðfjárbúskap, en í norðurhlutanum er meira um hlunnindabúskap, helst við nýtingu rekaviðar auk selveiði og æðardúntekju. Í þjóðsögum gengur mikið galdrarykti um Strandamenn, sem kannski er ekki tilviljun þegar á það er litið að óvenjustór hluti þeirra galdramála sem upp komu í galdrafárinu á Íslandi á 17. öld tengdust Ströndum og Vestfjörðum. Merki Strandasýslu, líkt og merki flestra annarra sýslna á Íslandi, var teiknað af Tryggva Magnússyni fyrir Alþingishátíðina 1930, en hann var frá Bæ í Steingrímsfirði. Merkið er hinn þekkti galdrastafur, Ægishjálmur, og vísar til galdramálanna og þjóðsagna um Strandamenn. Fólk sem býr á Ströndum kallar sig Strandamenn. Strandasýsla nær einnig vestur í Djúp, en Langadalsströnd frá Kaldalóni og austanverður Ísafjörður eru hluti af Strandabyggð. Fólkið sem þar býr kallar sig Djúpverja. Sveitarfélög og þéttbýli. Horft út Steingrímsfjörð frá Kálfanesborgum fyrir ofan Hólmavík Bæjarhreppur · Strandabyggð · Kaldrananeshreppur · Árneshreppur Borðeyri (27 íb.) · Hólmavík (385 íb.) · Drangsnes (65 íb.) Vísir að þéttbýli myndaðist á 20. öld í Djúpavík og Gjögri við Reykjarfjörð og einnig á Eyri í Ingólfsfirði. Nú er aðeins heilsársbúseta í einu húsi í Djúpavík á þessum stöðum. Verslunarstaður var um aldir á Kúvíkum í Reykjarfirði. Náttúra og landslag á Ströndum. Fjallið Klakkur í botni Kollafjarðar. Strandir draga nafn sitt af langri strandlengjunni sem liggur frá botni Hrútafjarðar norður eftir Vestfjarðakjálkanum austanverðum. Suðurhluti sýslunnar einkennist af aflíðandi fjallshlíðum og liggja fjórir heiðarvegir vestur yfir heiðar um Laxárdalsheiði, Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Þessar leiðir liggja yfir í Dali, Gilsfjörð, Reykhólahrepp og Ísafjarðardjúp. Lág klettabelti, grýttir móar og hólmar einkenna þetta svæði. Norðan við Bjarnarfjörð verða klettabeltin hærri og ná sums staðar fram í sjó, líkt og er einkennandi fyrir Vestfjarðakjálkann. Þar eru „Strandafjöllin“ sem sjást vel frá Skagaströnd. Hæst er Háafell, sunnan Reykjarfjarðar. Norðvestan við Strandafjöllin á sýslumörkum Strandasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu (þar sem Hornstrandafriðlandið hefst) er Drangajökull sem verður hæstur 925 m.y.s. Vegna þess hve aflíðandi fjallshlíðarnar eru á sunnanverðum Ströndum eru ekki skörp skil milli ræktarlands og hálendis. Í fjörunum er fjölbreytt dýralíf, selur setur svip á fjöruna og nokkur selalátur eru úti fyrir ströndinni. Æðarvarpi er víða sinnt vel. Eitt af því sem einkennir Strandir eru fjölbreyttar fuglahræður sem settar eru upp til að halda vargi frá æðarvarpinu og laða að æðarfugl. Þær eru settar saman úr rekaviði og ýmsu dóti úr fjörunni. Hvalur sést oft elta átu og smáfiska inn í Steingrímsfjörð og þar er haldin skrá um þegar fólk verður vart við hvali. Strandavíðir er hraðvaxta afbrigði gulvíðis sem var fenginn til ræktunar frá Tröllatungu í Steingrímsfirði. Hann var því kallaður „tröllavíðir“ upphaflega, áður en farið var að nota það nafn á eitt afbrigði alaskavíðis. Trjáplöntur má víða sjá við bæi á Ströndum, en þar eru fáir ræktarskógar þótt skjól sé gott. Í Bjarnarfirði hefur þó verið skógræktarverkefni um nokkurt skeið. Í Kálfanesi, en þorpið Hólmavík byggðist úr landi hennar, vex afbrigði af brenninetlu sem er kölluð „stórnetla“. Líklegt er að hún hafi verið flutt til landsins og ræktuð sem lækningajurt. Bæði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og Ólafur Olavius nefna netluna í ritum sínum, sá fyrri segir að hún sé góð við hósta og hryglu sé hún menguð með hunangi, en sá síðari segir að hún henti vel til að húðstrýkja galdramenn sem láti þá af þeirri iðju. Strandir eru fyrst og fremst þekktar sem sauðfjárræktarsvæði þótt fjölbreyttari kvikfjárrækt sé stunduð í Hrútafirði og hlunnindabúskapur hafi ráðið úrslitum fyrir byggðirnar norðan Reykjarfjarðar fyrr á öldum. Strandir norðan Bitrufjarðar eru riðulaust svæði og þangað er gjarnan sótt sauðfé þegar fé er fengið að nýju á svæði eftir niðurskurð. Firðir og víkur á Ströndum. Hrútafjörður · Bitrufjörður · Kollafjörður · Steingrímsfjörður (Tungusveit, Hólmavík, Staðardalur, Selströnd) · Bjarnarfjörður · Balar · Kaldbaksvík · Veiðileysufjörður · Reykjarfjörður (Gjögur) · Trékyllisvík (Víkursveit) · Norðurfjörður · Ingólfsfjörður · Ófeigsfjörður · Eyvindarfjörður · Drangavík · Bjarnarfjörður (nyrðri) · Skjaldabjarnarvík Samgöngur á Ströndum. Syðst í Strandasýslu liggur Hringvegurinn frá sýslumörkum við Mýrasýslu að botni Hrútafjarðar. Í botni Hrútafjarðar eru gatnamót hans og Innstrandavegar, sem liggur norður eftir vestanverðum Hrútafirði, um Bitru og Kollafjörð og inn Steingrímsfjörð vestanverðan. Haustið 2009 opnaði nýr heilsárs vegur um Gautsdal við Króksfjörð og Arnkötludal yfir í Steingrímsfjörð á Ströndum. Hann stytti leiðina frá suðvesturhorni landsins að Hólmavík og á norðanverða Vestfirði um 40 kílómetra. Hann er hluti Djúpvegar, sem liggur framhjá Hólmavík, yfir Steingrímsfjarðarheiði og um Ísafjarðardjúp, allt til Bolungarvíkur. Í botni Steingrímsfjarðar er einnig hægt að beygja norður Strandir um Strandaveg norður í Bjarnarfjörð, Reykjarfjörð, Norðurfjörð og Ingólfsfjörð. Nokkrir fleiri stuttir vegir eru í Strandasýslu s.s. inn í Miðdal í Steingrímsfirði, inn í Selárdal í Steingrímsfirði og inn í Sunndal og Goðdal í Bjarnarfirði. Þar að auki eru tæpir 30 km af Snæfjallastrandarvegi inn Langadalsströnd við Djúp að Kaldalóni í Strandabyggð. Djúpvegur er allur malbikaður, en hluti Innstrandavegar (39 km af 106 km) og langmestur hluti Strandavegar eru malarvegir. Djúpvegi er haldið opnum 6 daga í viku yfir veturinn og Innstrandavegur er opnaður 5 daga í viku, en Strandavegur norður í Árneshrepp er ekki opnaður yfir háveturinn. Tveir flugvellir eru á Ströndum, á Hólmavík (ICAO: BIHK) og Gjögri (ICAO: BIGJ). Áætlunarflug er á Gjögur allan ársins hring. Landnám og miðaldir. Önundur tréfótur bjó í Kaldbaksvík og þar er sagt að Svanur á Svanshóli hafi gengið í fjallið Kaldbakshorn. Í Landnámu eru nefndir einir sextán landnámsmenn á Ströndum. Þeirra helstir eru Þorvaldur Ásvaldsson, faðir Eiríks rauða sem nam land á Dröngum, Önundur tréfótur sem nam land í Kaldbaksvík, Björn sá sem Bjarnarfjörður heitir eftir, faðir Svans á Svanshóli og móðurafi Hallgerðar langbrókar, og Steingrímur trölli sem nam land í Steingrímsfirði og bjó á Tröllatungu. Strandir voru ekki með sérstakt þing heldur sóttu Strandamenn til Þorskafjarðarþings í Barðastrandarsýslu. Strandir koma við sögu í Íslendingasögum eins og Njálu, Þorgils sögu og Hafliða og Eyrbyggju. Til eru nokkrar þjóðsögur um Guðmund biskup góða á Ströndum en hann mun hafa orðið skipreika í Skjaldabjarnarvík 1180 og síðar á ævinni flúið á Strandir undan ofsóknarmönnum sínum. Í Sturlungu segir frá því hvernig Þórður kakali bjó skip sín við Árnesey í Trékyllisvík og hugðist halda með þau í Eyjafjörð en mætti þess í stað flota Kolbeins unga í Flóabardaga á Húnaflóa. Strandasýsla er fyrst nefnd í heimildum frá 1553. Til forna þekktist að hún væri kölluð Balasýsla. Hvalveiðar og brennuöld. Galdrastafurinn Ægishjálmur í galdrabók frá 17. öld. Frá 17. öld eru heimildir um baskneska hvalveiðimenn á Húnaflóa og nýleg fornleifarannsókn á Strákatanga við norðanverðan Steingrímsfjörð bendir til að þar hafi verið hvalstöð. Jón lærði Guðmundsson, sem var frá Ófeigsfirði, ritar á einum stað að baskar hafi fyrst komið á Strandir árið 1613 og hafi átt vinsamleg samskipti við íbúana. Hvalveiðar höfðu þá minnkað á hefðbundnum veiðisvæðum baskanna við Nýfundnaland og hvalurinn færst norðar. Um miðja 17. öld má segja að hefjist brennuöld í Íslandssögunni þegar þrír menn voru brenndir á báli fyrir galdur í Trékyllisvík á Ströndum, dagana 20. og 25. september 1654. Ýmis fleiri galdramál komu upp á Ströndum og þar var síðasta galdramálið sem lyktaði með líflátsdómi tekið fyrir á Hrófbergi í Steingrímsfirði 1690. Konungur breytti dómnum í ævilanga útlegð 1691 sem markar endalok brennualdar. Verstöðvar og verslun. Hákarlinn í merki Árneshrepps minnir á mikilvægi hákarlaveiða fyrir verstöðvar eins og Gjögur áður fyrr. Nokkrar þekktar verstöðvar voru á Ströndum um aldir, eins og t.d. Skreflur og Gjögur. Eini verslunarstaðurinn þar á tímum einokunarverslunarinnar var á Kúvíkum í Reykjarfirði. Gjögur við norðanverðan Reykjarfjörð var upphaflega verstöð en vísir að þorpi tók að myndast þar í kringum hákarlaveiðar um aldamótin 1900. Hákarlalýsi var þá verðmæt útflutningsvara. Thorarensenættin var áberandi í verslunarrekstri á Kúvíkum og á Gjögri. Borðeyri við Hrútafjörð varð síðan löggiltur verslunarstaður árið 1846 og tveimur árum síðar kom þangað fyrsta verslunarskipið. Meðal fyrstu kaupmanna þar var Richard P. Riis sem reisti þar verslunarhús sem enn standa. Hann hóf síðan verslun á Hólmavík í Steingrímsfirði sem tók að byggjast upp um 1895, fimm árum eftir að staðurinn varð löggiltur verslunarstaður. Brátt varð þorpið að höfuðstað sýslunnar og þar var staðsettur héraðslæknir frá 1903, grunnskóli reistur 1910 og sýslumannsembættið frá 1938. Elsta starfandi kaupfélag landsins, Kaupfélag Steingrímsfjarðar, var stofnað 1898 og rekur enn verslun á staðnum og er með útibú á Drangsnesi og Norðurfirði. Utar með firðinum tók síðan að myndast þorp á Drangsnesi í kringum viðskipti með fisk á 3. áratug 20. aldar. Síldarævintýri, fólksfjölgun og aflabrestur. Síldveiðar höfðu mikil áhrif á byggð á Ströndum á 20. öld og verksmiðjuþorp byggðust upp í kringum síldveiðar, síldarsöltun og -bræðslu í Ingólfsfirði og á Djúpavík. Fyrsta „síldarævintýrið“ varð þegar byggð voru upp fyrirtæki í kringum síldarsöltun á árunum 1917-1919 en þau fóru á hausinn í heimskreppunni. Seinna síldarævintýrið varð í Djúpavík og stóð frá 1934 til 1954. Þar var reist stærsta síldarverksmiðja landsins á örskömmum tíma og íbúar þorpsins voru um 500 talsins þegar mest var. Starfsemin stóð með miklum blóma til 1944 en fór minnkandi eftir það. Síldarbræðslunni og starfsemi verksmiðjunnar var síðan hætt þegar síldin hvarf úr Húnaflóa og þorpið fór smám saman í eyði. Frá 1985 hefur búið þar ein fjölskylda og rekið gistihús í eyðiþorpinu. Eftir að síldarárunum lauk tók líka að fækka verulega í Árneshreppi sem nú er fámennasta sveitarfélag Íslands með aðeins einn tíunda af þeim íbúafjölda sem þar bjó um aldamótin 1900. Mikil fólksfjölgun varð á Hólmavík og Drangsnesi fram undir miðja 20. öld líkt og á mörgum fleiri stöðum vegna aukinnar vinnu við sjávarútveg. Mest bjuggu um 2100 manns í allri sýslunni 1940. Langvinnur aflabrestur upp úr miðri öldinni olli nokkurri fólksfækkun, en aftur tók að fjölga nokkuð þegar rækjuveiðar hófust í Húnaflóa um 1970 og rækjuvinnsla var sett upp á Hólmavík. Eftir 1990 hefur íbúum fækkað umtalsvert. Sýslumenn. Margir þekktir einstaklingar hafa gegnt stöðu sýslumanns í Strandasýslu í gegnum tíðina. Ari Magnússon í Ögri hélt sýsluna með Ísafjarðarsýslu í upphafi 17. aldar og lét hana síðan hálfa eftir við Þorleif Kortsson, mág sinn. Eftir lát Ara fékk Þorleifur sýsluna alla og bjó á stórbýlinu Bæ í Hrútafirði. Síðar tók Rögnvaldur Sigmundsson við sýslunni, en hann bjó á Skarðströnd. Hann var sjálfur hlutaðeigandi í galdramáli og kom síðar að máli Klemusar Bjarnasonar úr Steingrímsfirði sem var sá síðasti sem dæmdur var til lífláts fyrir galdur. Eftir Rögnvald fékk Jón Magnússon, bróðir Árna Magnússonar, sýsluna. Einnig hélt Páll Vídalín sýsluna um tíma ásamt Dalasýslu. Halldór Jakobsson hélt sýsluna um þrjátíu ára skeið eftir miðja 18. öld og bjó að Felli í Kollafirði. Hann var þekktur fyrir sagnaritun og skrautlegan embættisferil, en hann þótti drykkfelldur. Frægt varð þegar hann bauð upp nokkra hluti úr strandi skipsins "Fortuna" 1787 án auglýsingar og keypti þá sjálfur. Hann var líka gagnrýndur harðlega þegar Fjalla-Eyvindur slapp úr haldi hjá honum. Fyrsta konan sem skipuð var sýslumaður á Íslandi var Hjördís Björk Hákonardóttir sem skipuð var sýslumaður í Strandasýslu árið 1979 og gegndi því starfi til 1983. Núverandi sýslumaður á Hólmavík er Lára Huld Guðjónsdóttir. Kjördæmi og þingmenn. Strandasýsla var sérstakt kjördæmi með einn þingmann frá 1844 til 1959 þegar hún varð hluti af Vestfjarðakjördæmi. Sýslan er nú hluti af Norðvesturkjördæmi. Þingmenn sýslunnar voru (1) Ásgeir Einarsson (1845-1864), (2) Torfi Einarsson (1864-1877), (3) Björn Jónsson (1879), (4) Ásgeir Einarsson (1881-1885), (5) Páll Ólafsson (1886-1891), (6) Guðjón Guðlaugsson (1893-1908 fyrir Heimastjórnarflokkinn), (7) Ari Arnalds (1908-1911 fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri), (8) Guðjón Guðlaugsson (1911-1913 fyrir Sambandsflokkinn), (9) Magnús Pétursson (1914-1923 fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri), (10) Tryggvi Þórhallsson (1923-1934 fyrir Framsóknarflokkinn) og (11) Hermann Jónasson (1934-1959 fyrir Framsóknarflokkinn). Tveir þeir síðustu urðu báðir forsætisráðherrar meðan þeir gegndu þingmennsku fyrir kjördæmið. Hvorugur þeirra var þó ættaður úr sýslunni. Kirkjur á Ströndum. Staðarkirkja stendur í Staðardal í botni Steingrímsfjarðar. Strandir voru sérstakt prófastsdæmi, Strandaprófastsdæmi, sem heyrði undir Skálholtsstifti. Það var lagt niður 1970 og eftir það tilheyrðu prestaköll sýslunnar Húnavatnsprófastsdæmi. Á Ströndum er nú aðeins eitt prestakall, Hólmavíkurprestakall, og átta sóknir: Árnessókn, Drangsnessókn, Hólmavíkursókn, Kaldrananessókn, Kollafjarðarnessókn, Nauteyrarsókn, Óspakseyrarsókn og Melgraseyrarsókn. Átta kirkjur eru á Ströndum: á Prestbakka, Óspakseyri og Kollafjarðarnesi, Hólmavíkurkirkja, Staðarkirkja, á Kaldrananesi og tvær kirkjur í Árnesi. Elsta kirkjan er eldri Árneskirkjan sem var reist 1850 og er jafnframt elsta hús sýslunnar. Næstelstar eru kirkjan á Kaldrananesi, reist 1851, og Staðarkirkja í Steingrímsfirði reist 1855. Kirkjan á Kollafjarðarnesi er elsta steinsteypta hús sýslunnar, byggð árið 1909. Á Drangsnesi er kapella í Grunnskólanum. Galdramál á Íslandi. Galdramál á Íslandi voru angi af "galdrafárinu" í Evrópu á 17. öld. Árið 1654 voru þrír menn brenndir fyrir galdur í Trékyllisvík á Ströndum. Þær brennur mörkuðu upphaf galdrafársins á Íslandi sem nefnt hefur verið „brennuöld“. Árið 1625 eða 29 árum áður var fyrsti maðurinn brenndur fyrir galdur, Jón Rögnvaldsson á Melaeyrum í Svarfaðardal. Í kjölfar brennana í Trékyllisvík voru sextán menn og ein kona brennd til viðbótar. Síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram í Arngerðareyrarskógi við Djúp árið 1683. Tveimur árum seinna var maður brenndur á alþingi fyrir guðlast og hefur það mál stundum verið talið með galdramálum, vegna refsingarinnar. Síðasti brennudómurinn á Íslandi var kveðinn upp árið 1690. Þá var Klemus Bjarnason úr Steingrímsfirði á Ströndum dæmdur á Öxárþingi til að brennast á báli fyrir að hafa valdið veikindum húsfreyjunnar á Hrófbergi. Dómnum var svo breytt með konungsbréfi og Klemus dæmdur í útlegð. Klemus dó úr sótt í fangelsi í Kaupmannahöfn tveimur árum síðar. Um 170 manns voru ákærðir fyrir kukl eða annars konar galdrastarfsemi á Íslandi. Þrátt fyrir fordæmi meginlands Evrópu voru kvenmenn aðeins um tíu prósent grunaðra. Ákærurnar snerust flestar um notkun forboðinna kúnsta til að valda fólki eða búfénaði skaða eða ólöglega notkun galdrabóka og -rúna. En ekki snerust öll galdramál um skaða á fólki eða eignum, heldur var fólk einnig ákært fyrir að nýta galdra í eigin þágu, svo sem til að bæta veðurfar eða heilsu sína eða annarra. 21 Íslendingur voru brenndir fyrir galdrastarfsemi og var einn af þeim kona. Að auki voru fjórir líflátnir fyrir brot sem á einhvern hátt tengdust göldrum. Ekki var að fullu hægt að sanna sekt sumra galdramannanna og voru þeir samt brenndir. Réttarkerfi Íslands var þá ekki fullkomnara en svo að mestu máli skipti framsögn háttsettra manna en minna máli gagngerar sannannir gegn sakborningum. Rækjuvinnslan á Hólmavík. Rækjuvinnslan á Hólmavík er rækjuvinnslustöð rekin af Hólmadrangi hf., hún er ein fullkomnasta rækjuvinnslustöð Íslands og hefur síðan rækjuveiðar hófust á Hólmavík árið 1965 verið ein mikilvægasta atvinnugrein staðarins, en í henni vinna rúmlega 30 manns. Hólmavík. Hólmavík er stærsta kauptúnið á Ströndum og er jafnframt verslunar– og þjónustumiðstöð sýslunnar. Hólmavík er í sveitarfélaginu Strandabyggð. Íbúar í þorpinu voru 380 1. desember 2005. Þorpið stendur undir Kálfanesborgum, innan við miðjan Steingrímsfjörð að vestanverðu og hefur byggst úr landi Kálfaness. Saga Hólmavíkur. Áður en Hólmavíkurþorp varð til var um tíma þurrabúðarlóð í vestanverðri Hólmavíkinni, austan undir Höfðanum. Árið 1883 fluttu Sigurður snikkari og kirkjusmiður Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir frá Felli í Kollafirði að Kálfanesi og bjuggu þar eitt ár. Síðan fluttu þau niður í víkina og byggðu sér nýjan bæ töluvert utar. Sonur þeirra er skáldið Stefán frá Hvítadal og er hann talinn fyrsti maðurinn sem fæddur er á Hólmavík. Þann 3. janúar 1890 varð Hólmavík löggiltur verslunarstaður, en frá miðri 19. öld hafði verið verslað um borð í skipum kaupmanna sem sigldu á Skeljavík. Þeirra á meðal var kaupmaðurinn R. P. Riis sem byggði svo verslun á Hólmavík árið 1897, en árið áður hafði verið byggður þar annar verslunarskúr. Verslunarfélag Steingrímsfjarðar, sem var forveri Kaupfélags Steingrímsfjarðar, var svo stofnað 29. desember 1898. Um aldamótin 1900 voru byggðar fyrstu bryggjur á Hólmavík, tvær trébryggjur sem hétu eftir eigendunum, Riisbryggja og Kaupfélagsbryggja. Þorpið byggðist síðan upp í kringum útgerð, þjónustufyrirtæki og verslun. Um 1950 varð langvarandi aflabrestur þess valdandi að atvinnuleysi varð nokkurt og fólki fækkaði í þorpinu. Ekki rættist úr aftur fyrr en með rækjunni laust fyrir 1970. Síðan þá má segja að atvinnuástand hafi verið gott þó að fólksfækkun hafi verið nokkur eins og víðar á landsbyggðinni. Atvinnulíf. Helstu atvinnugreinar á Hólmavík hafa löngum verið verslun og ýmis þjónusta, auk útgerðar. Ferðaþjónusta hefur verið vaxandi atvinnugrein síðustu ár og þar er upplýsingamiðstöð ferðamála. Galdrasýning á Ströndum er með höfuðstöðvar á Hólmavík og hefur verið einn helsti vaxtarbroddur í ferðaþjónustu og ímyndarsköpun Strandamanna í greininni. Til ársins 2000 var rekið sláturhús á Hólmavík hvert haust. Þar eru einnig miðstöðvar Orkubús Vestfjarða og Vegagerðar ríkisins. Tvær bankastofnanir eru á Hólmavík, Sparisjóður Strandamanna og Arion banki. Stærstu vinnustaðir á Hólmavík eru Hólmadrangur hf, sem rekur fullkomna rækjuverksmiðju og Heilbrigðisstofnunin Hólmavík þar sem rekin er heilsugæsla. Hólmavíkurhreppur. Hólmavíkurhreppur eins og hann var 2002 - 2006 Hólmavíkurhreppur var sveitarfélag á Ströndum sem nú er hluti af Strandabyggð. Áður kallaðist svæðið "Staðarsveit" og náði frá sunnanverðum Steingrímsfirði, frá Forvaða í Kollafirði, og fyrir botn Steingrímsfjarðar, að Selá í Selárdal að norðanverðu. Hreppurinn nær yfir í Ísafjarðardjúpi í vestri, að Kaldalóni að norðanverðu og í botn Ísafjarðar að sunnanverðu. Í hreppnum er þorpið Hólmavík. Hreppurinn hét áður "Hrófbergshreppur" eftir bænum Hrófbergi sem var þingstaðurinn. Honum var síðan skipt í tvennt árið 1942 undir nöfnunum Hrófbergshreppur og Hólmavíkurhreppur og sameinaður aftur 1. janúar 1987 undir nafni Hólmavíkurhrepps. Hólmavíkurhreppur sameinaðist síðan tvisvar öðrum hreppum: Nauteyrarhreppi í Djúpi árið 1994 og Kirkjubólshreppi við sunnanverðan Steingrímsfjörð árið 2002. Nýja sveitarfélagið hét eftir sem áður Hólmavíkurhreppur. Sameiningartillögur. Í tillögum stjórnvalda árið 2005 var lagt til að sameinuð yrðu öll sveitarfélög á Ströndum norðan Hrútafjarðar í eitt sveitarfélag. Við þá breytingu hefðu orðið í einu sveitarfélagi auk íbúa Hólmavíkurhrepps, íbúar Broddaneshrepps sem tekur yfir Bitrufjörð og Kollafjörð sunnan Hólmavíkurhrepps og íbúar Kaldrananeshrepps og Árneshrepps sem eru norðan við Hólmavíkurhrepp. Nýtt sveitarfélag hefði náð frá Stikuhálsi í suðri að Geirólfsgnúpi í norðri. Í kosningu um sameiningu sveitarfélaga í október 2005 var tillagan um sameiningu felld í öllum sveitarfélögum á Ströndum, nema Broddaneshreppi. Viðræður um sameiningu Broddaneshrepps og Hólmavíkurhrepps hófust síðan í nóvember sama ár. Var sameining samþykkt í kosningu 8. apríl 2006 og tók hún gildi 10. júní, að afloknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006. Þá var einnig kosið um þrjár tillögur að nafni nýs sameinaðs sveitarfélags og var hægt að velja á milli þriggja nafna, Strandahreppur, Strandabyggð og Sveitarfélagið Strandir. Í kosningunum hlaut nafnið Strandabyggð flest atkvæði, eða 95, en margir skiluðu auðu eða ógiltu seðlana sína með því að skrifa annað nafn. Flestir sem ógiltu seðilinn með þessum hætti munu hafa skrifað nafnið "Hólmavíkurhreppur". Vestfirðir. Kort af Íslandi sem sýnir Vestfirði litaða rauða. Vestfirðir eru norðvesturhluti Íslands eða svæðið sem nær frá Gilsfirði, um Reykhólasveit, Barðaströnd og Patreksfjörð, Tálknafjörð, Arnarfjörð, Dýrafjörð, Önundarfjörð, Súgandafjörð og Ísafjarðardjúp, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Hornstrandir, niður Strandir að botni Hrútafjarðar. Norðurhluti Breiðafjarðar telst einnig til Vestfjarða. Frá Bitrufirði að botni Gilsfjarðar er stutt leið, og svæðið er þannig vel landfræðilega afmarkað. Svæðið einkennist af djúpum fjörðum, miklu fuglalífi og auðugum fiskimiðum. Þar bjuggu á miðöldum helstu auðmenn Íslands. Áður fyrr byggði afkoma fólks að mestu leyti á sjósókn, hlunnindum og hefðbundnum búskap. Á Vestfjörðum eru margir bæir og þorp þar sem afkoman byggir að stærstum hluta á sjávarútvegi og þjónustu. Látrabjarg vestasti oddi Íslands er á Vestfjörðum. Vestfirðir skiptust áður í fimm sýslur: Austur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu, en nú er venja að tala fremur um Barðastrandarsýslu, Ísafjarðarsýslur og Strandir. Vestfirðir eru frá 2003 hluti af Norðvesturkjördæmi, áður, frá 1959 voru Vestfirðir, Vestfjarðakjördæmi. Sameining sveitarfélaga á Vestfjörðum. Árið 2003 hófst verkefnið „Átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins“ á vegum Félagsmálaráðuneytisins. Sérstök sameiningarnefnd var sett á laggirnar af því tilefni, hennar hlutverk var að gera tillögur um mögulegar sameiningar íslenskra sveitarfélaga. Hvað varðaði Vestfirði, lagði sameiningarnefndin upphaflega til að Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinist og að Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur sameinist í eitt sveitarfélag. Einnig lagði hún til að öll sveitarfélög á Ströndum sameinist í eitt sveitarfélag, utan Bæjarhreppur sem sameinist Húnaþingi vestra austur yfir Hrútafjörð. Þá var einnig lagt til að Reykhólahreppur sameinist Dalabyggð og Saurbæjarhreppi. Síðar var fallið frá hugmyndum um sameiningu Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps vegna andstöðu viðkomandi sveitarstjórna. Kosið var um hinar tillögurnar í öllum viðkomandi sveitarfélögum þann 8. október 2005 en sameiningartillögur voru alls staðar felldar á Vestfjörðum nema í Broddaneshreppi. Broddaneshreppur og Hólmavíkurhreppur héldu þó aðra atkvæðagreiðlu í apríl 2006 þar sem sameining þeirra var samþykkt, nýja sveitarfélagið hlaut nafnið Strandabyggð og tók til starfa 10. júní 2006. Grímsey (Steingrímsfirði). Grímsey á Steingrímsfirði er stærsta eyjan úti fyrir Ströndum. Í Grímsey var fyrrum býli og fram á 20. öld höfðu menn vetursetu á eyjunni og verbúðir. Í upphafi 20. aldar voru refir aldir í eyjunni og síðan veiddir þegar mest fékkst fyrir skinnin. Í eyjunni var reistur viti 1915 og síðan endurbyggður 1949, eftir að Þjóðverjar höfðu eyðilagt hann með loftárás í síðari heimsstyrjöld. Í Grímsey er gríðarleg lundabyggð. Áætlað er að þar séu milli 25-30 þúsund pör af lundum. Frá Drangsnesi eru áætlunarferðir út í Grímsey yfir sumartímann. Það er rétt um 10 mínútna sigling. Í Landnámabók er Grímsey sögð hafa fengið nafn af Grími Ingjaldssyni Hróaldssonar úr Haddingjadal, sem þar hafði vetursetu og drukknaði í róðri um veturinn. Vélbáturinn Hrefna II frá Hólmavík fann við eyna 400 kílóa 157 cm langa sæskjaldböku 1963 og er það eina dæmið um að skjaldbaka hafi fundist náttúrlega við Ísland. Steingrímsfjörður. Horft út Steingrímsförð yfir Hólmavík Steingrímsfjörður gengur inn úr Húnaflóa til norðvesturs og er lengsti fjörður á Ströndum. Við fjörðinn standa tvö kauptún, Hólmavík og Drangsnes. Talsverður búskapur er stundaður í Steingrímsfirði og þar er undirlendi nokkuð mikið og skjólgott í flestum áttum. Kollafjörður er næsti fjörður sunnan við Steingrímsförð og Bjarnarfjörður næsti fjörður norðan við. Steingrímsfjörður dregur nafn sitt af landnámsmanninum Steingrími trölla sem nam þar land og bjó í Tröllatungu. Hann er heygður uppi á Staðarfjalli í Steingrímshaugi, samkvæmt þjóðsögunni. Landlýsing. Kort af Steingrímsfirði með helstu örnefnum. Selströnd og Selárdalur. Steingrímsfjörður skiptist milli tveggja sveitarfélaga, Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps. Mörkin milli þeirra eru dregin við Selá sem rennur úr Selárdal í botni fjarðarins en norðurströnd fjarðarins þar austan við heitir Selströnd þar sem þorpið Drangsnes stendur í Hveravík. Ágætan fisk er að hafa úr Selá. Í Selárdal er búskapur á einum bæ; Geirmundarstöðum. Staðardalur. Staðardalur gengur einnig úr botni Steingrímsfjarðar en um hann liggur Djúpvegur yfir Steingrímsfjarðarheiði (í 439 m hæð) niður í Ísafjarðardjúp. Í Staðardal rennur Staðará, ágæt veiðiá, niður í Steingrímsfjörð. Í Staðardal er eingöngu búskapur á Stað, sem er fornt stórbýli og kirkjustaður. Staðarkirkja var byggð árið 1855. Nokkur sumarhús eru í Staðardal. Hólmavík. Nokkuð út með firðinum sunnanverðum er skálarlaga vík þar sem þorpið Hólmavík stendur í landi jarðarinnar Kálfaness. Víðidalur. Rétt sunnan við Hólmavík er Víðidalsá sem er enn ein veiðiáin í Steingrímsfirði. Í henni er laxveiði. Víðidalsá rennur úr Víðidal og sameinast Húsadalsá um það bil kílómetra frá sjó. Nokkru framar rann Þverá áður úr Þiðriksvallavatni í Húsadalsá, en nú er vatnið miðlunarlón fyrir Þverárvirkjun. Þiðriksvallavatn er nokkuð stórt og er í Þiðriksvalladal. Tungusveit. Suðurströnd Steingrímsfjarðar hefur verið kölluð Tungusveit og austasti hluti hennar Gálmaströnd. Tungusveit dregur nafn af stórbýlinu Tröllatungu sem samkvæmt sögunni var landnámsjörð Steingríms trölla. Frá Tröllatungu er gamall vegur án nokkurrar þjónustu yfir Tröllatunguheiði, í 420 metra hæð yfir sjávarmáli, yfir í Geiradal í Reykhólasveit. Grímsey. Í mynni Steingrímsfjarðar er eyjan Grímsey sem er vinsæll útivistarstaður. Þar er stór lundabyggð. Hlunnindi. Hlunnindi eru ýmis konar landnytjar sem fylgja ákveðnum jarðeignum. Áður fyrr skiptu hlunnindi oft sköpum varðandi ábúð og mynduðu jafnvel grundvöll að ríkidæmi einstakra jarðeigenda. Hlunnindi teljast hluti af verðmæti lands og nýting þeirra getur eftir atvikum verið í höndum landeiganda, leiguliða eða annarra. Sums staðar, eins og á norðanverðum Ströndum og á Breiðafjarðareyjum geta hlunnindi verið meginuppistaða í búskap á viðkomandi svæði og er þá talað um "hlunnindabúskap", og nytjandinn kallaður hlunnindabóndi. Kollafjörður (Ströndum). Kort sem sýnir Kollafjörð og nágrenni. Kollafjörður er stuttur fjörður á Ströndum. Bændur þar lifa á sauðfjárrækt. Grunnskóli var rekinn á Broddanesi frá 1978 fram til ársins 2004, en hætti þá um haustið og skólabörnum er nú ekið til Hólmavíkur. Skólabyggingin er nú notuð í ferðaþjónustu, en þar er farfuglaheimili. Hún er teiknuð af dr. Magga Jónssyni arkitekt. Næsti fjörður norðan við Kollafjörð er Steingrímsfjörður og næsti fjörður sunnan við er Bitrufjörður. Úr botni Kollafjarðar liggur vegur nr. 69 yfir í Gilsfjörð um Steinadalsheiði. Utarlega í Kollafirði norðanverðum standa tveir steindrangar í fjöruborðinu, í Drangavík. Sagan segir að þeir séu tröll sem dagaði þar uppi eftir að hafa gert tilraun til að skilja Vestfirði frá meginlandinu. Kjálkann ætluðu þau að hafa fyrir tröllaríki. Stærri drangurinn er kerlingin og sá minni er karlinn. Þriðja tröllið sem tók þátt í þessari vinnu er drangurinn sem Drangsnes er kennt við. Á Kollafjarðarnesi er kirkja, byggð úr steinsteypu árið 1909. Það er elsta steinsteypta hús á Ströndum. Kollafjarðarnes er nú í eyði. Á sveitabænum Felli er rekin sumardvöl fyrir fatlaða einstaklinga. Erfið siglingaleið er inn á fjörðinn vegna skerja. Þjóðsagan segir að kerlingin Hnyðja hafi lagt á fjörðinn að þar myndi aldrei drukkna maður og heldur aldrei fást þar bein úr sjó, eftir að synir hennar tveir drukknuðu í fiskiróðri. Jarðir í Kollafirði. Tvær síðastnefndu jarðirnar, yst við norðanverðan Kollafjörð, tilheyrðu áður Kirkjubólshreppi og síðar Hólmavíkurhreppi, en hinar tilheyrðu Broddaneshreppi, síðar Fellshreppi og síðan aftur Broddaneshreppi. Nú eru öll þessi sveitarfélög hluti af Strandabyggð. Bitrufjörður. Bitrufjörður er fjörður á Ströndum sem gengur inn úr vestanverðum Húnaflóa. Næsti fjörður norðan við hann er Kollafjörður en næsti fjörður sunnan við Bitrufjörð er Hrútafjörður. Bitrufjörður er oft kallaður Bitra og fólkið sem þaðan er er kallað Bitrungar. Í Bitru er kirkjustaður á Óspakseyri og þar var til skamms tíma rekið Kaupfélag Bitrufjarðar, verslun og sláturhús. Það hefur nú verið lagt niður. Landnámabók um Bitrufjörð: „Þorbjörn bitra hét maðr; hann var víkingr ok illmenni; hann fór til Íslands með skuldalið sitt; hann nam fjörð þann, er nú heitir Bitra, ok bjó þar. Nökkuru síðar braut Guðlaugr, bróðir Gils skeiðarnefs, skip sitt þar út við höfða þann, er nú heitir Guðlaugshöfði. Guðlaugr komsk á land ok kona hans ok dóttir, en aðrir menn týndusk; þá kom til Þorbjörn bitra ok myrði þau bæði, en tók meyna ok fæddi upp. En er þessa varð varr Gils skeiðarnef, fór hann til ok hefndi bróður síns; hann drap Þorbjörn bitru og enn fleiri menn. Við Guðlaug er kennd Guðlaugsvík.“ Rekaviður. Rekaviður er viður sem rekið hefur á land með sjávarstraumum. Rekaviður á íslandi. Rekaviður sem berst á land á Íslandi hefur ávallt verið talinn mikilvæg hlunnindi. Á Ströndum eru til dæmis margar góðar rekajarðir. Kirkjujarðir og stórbýli víða um land áttu ítök í rekanum um aldir og höfðingjar sóttu langt að til að sækja við til bygginga. Oft voru askar smíðaðir úr rekaviði. Talið er að rekaviðurinn berist alla leið frá ströndum Síberíu. Af volkinu í sjónum verður hann gegnsýrður af salti sjávar og fær þannig náttúrulega vörn gegn fúa. Rekaviður er því oft á tíðum afbragðs smíðaviður. Bjarnarfjörður. Bjarnarfjörður gengur vestur úr Húnaflóa og er næsti fjörður norðan við Steingrímsfjörð. Bjarnarfjörður tilheyrir Kaldrananeshreppi þar sem Drangsnes er eina þéttbýlið. Bjarnarfjarðará liðast niður dalinn og hefur safnað vatni ofan af Trékyllisheiði. Ágæt bleikjuveiði er í Bjarnarfjarðará. Kirkjustaðurinn í Bjarnarfirði er á Kaldrananesi, sunnanmegin við fjörðinn. Þar er kirkja sem byggð var árið 1851. Laglega hlaðinn grjótgarður er í kringum kirkjugarðinn. Kort sem sýnir örnefni í Bjarnarfirði og nágrenni. Búskapur hefur farið minnkandi í Bjarnarfirði undanfarin ár og nú er einungis hefðbundinn búskapur á tveim bæjum, í Odda og á Kaldrananesi. Á Laugarhóli var skóli sveitarinnar í árafjöld en nú er rekið þar hótel árið um kring. Þar er einnig sundlaug sem kallast Gvendarlaug eftir Guðmundi góða biskup, sem vígði vatnið í eldri laug ofan við núverandi sundlaug. Kotbýli kuklarans er skammt frá lauginni en það er annar áfangi. Áform eru um nokkuð stórtæka skógrækt í Bjarnarfirði en þar eru veður mjög hagstæð. Tvær akleiðir eru í Bjarnarfjörð að sunnan. Annars vegar yfir Bjarnarfjarðarháls sem er styttri leið og hinsvegar út Steingrímsfjörð að norðanverðu eftir Selströnd og áfram í gegnum Drangsnes. Það er falleg leið og margt að skoða í fjölda lítilla rekafjara eftir að komið er inn í Bjarnarfjörð. Þegar ekið er áfram norður úr Bjarnarfirði er ekið eftir Bölum þar til komið er í Kaldbaksvík. Þá er stutt í Árneshrepp þar sem eru nyrstu byggðu ból á Ströndum. Samkvæmt Landnámabók heítir fjörðurinn eftir landnámsmanninum Birni. Hann er ekki ættfærður í Landnámu og ekki getið um landnámsjörðina en sagt er að kona hans hafi heitið Ljúfa og sonur þeirra Svanur og búið á Svanshóli. Hrútafjörður. Hrútafjörður er um 36 km langur fjörður, sem liggur suður úr Húnaflóa. Næsti fjörður fyrir norðan hann er Bitrufjörður. Byggðin á vesturströndinni, Strandamegin, kallaðist Bæjarhreppur og var syðsta sveitarfélagið á Ströndum. Skráður íbúafjöldi í hreppnum var um það bil 100 manns, sem hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og þjónustu. Dálítið þéttbýli er á Borðeyri. Eftir að sameining Húnaþings vestra og Bæjarhrepps var samþykkt þann 3. desember 2011 voru þessi tvö sveitarfélög sameinuð um áramótin 2011-2012. Sveitarfélagið Húnaþing vestra nær því inn í botn Bitrufjarðar á Ströndum. Við austanverðan fjörðinn var áður Staðarhreppur, en er nú hluti af Húnaþingi vestra. Þar er Reykjatangi þar sem er Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og áður var rekinn Héraðsskólinn á Reykjum. Við miðjan Hrútafjörð er Hrútey sem er í eigu Melstaðarkirkju. Í eynni er gjöfult æðarvarp. Inn Hrútaförð var siglingaleið fraktskipa fyrr á árum og sigldu þau þá inn til Borðeyrar með vistir og varning. Hrútafjörður þótti erfiður til siglinga fyrir stór skip sökum þess hve skerjóttur hann er. Nokkur hætta var því á að flutningaskip tækju niðri á einhverjum köflum í firðinum. Mörk Stranda og Húnaþings, og þar með einnig mörk Vestfjarða og Norðurlands, liggja frá botni Hrútafjarðar með Hrútafjarðará, síðan vestur yfir miðja Holtavörðuheiði upp á Tröllakirkju. Innsti byggði bærinn var áður Grænumýrartunga en er núna Óspaksstaðir eftir að Grænumýrartunga fór í eyði árið 1967. Í Landnámabók er sagt að Ingimundur gamli Þorsteinsson hafi gefið firðinum nafn þegar hann kom þar við í leit sinni að landi til að nema og fann tvo hrúta. Bálki Blængsson er hins vegar sagður hafa numið land í Hrútafirði og búið á Bálkastöðum og síðan í Bæ. Hann á að hafa verið son Sóta af Sótanesi og barist í Hafursfjarðarorustu gegn Haraldi konungi. Í landnámi Bálka byggðu síðan landnámsmennirnir Arndís auðga Steinólfsdóttir, Grenjuður og Þröstur Hermundarsynir, Eysteinn meinfretur Álfsson og Þóroddur. Borðeyri. Borðeyri varð löggiltur verslunarstaður 23. desember 1846. Með fyrstu kaupmönnum sem ráku verslun þar var Richard P. Riis sem reisti þar verslunarhús. 7. maí 1934 kom þar upp Borðeyrardeilan sem snerist um samningsrétt félaga í verkalýðsfélagi í Hrútafirði. Á Borðeyri var lengi starfrækt Kaupfélag Hrútfirðinga en síðar var þar útibú frá Kaupfélaginu á Hvammstanga. Seinast var þar verslunin Lækjargarður sem ekki er starfrækt lengur. Í dag er þar útibú frá Sparisjóði Húnaþings og Stranda, leik- og grunnskóli, bifreiðaverkstæði, gistiheimili og tjaldsvæði. Verið er að vinna að endurbótum á elsta húsi staðarins, Riis-húsi, en það eitt elsta hús við Húnaflóa. Á Borðeyri fæddust Sigurður Eggerz forsætisráðherra, Þorvaldur Skúlason listmálari og Karl Kvaran listmálari. Thor Jensen kom til Borðeyrar um fermingaraldur til að starfa við Brydeverslunina þar. Tröllatunga. Tröllatunga er sveitabær sem stendur við Steingrímsfjörð á Ströndum. Þar var prestssetur til ársins 1886, en kirkjustaður til 1909. Þá var kirkja reist á Kollafjarðarnesi og kirkjurnar á Felli í Kollafirði og Tröllatungu lagðar af. Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt forn klukka úr Tröllatungukirkju. Sveitin sunnan megin við Steingrímsfjörð, frá Kollafjarðarnesi að Skeljavík, heitir Tungusveit eftir Tröllatungu. Sagt er að landnámsmaðurinn Steingrímur trölli hafi búið í Tröllatungu. Frá Tröllatungu liggur akvegur yfir Tröllatunguheiði yfir í Geiradal við Gilsfjörð. Fell (Kollafirði). Fell í Kollafirði á Ströndum er sveitabær fyrir miðri byggð í botni Kollafjarðar. Land jarðarinnar er bæði stórt og gróðursælt, enda var Fell á öldum áður bústaður andlegra og veraldlegra höfðingja, auk landnámsmannsins Kolla. Fagurmyndað fjall sem nefnist Klakkur gnæfir yfir bænum og sést langt að. Þarna er einnig Svartfoss, en hann var notaður af sjómönnum til að miða út fiskimið á innanverðum Húnaflóa. Á síðari hluta átjándu aldar varð Fell sýslumannssetur, þegar Halldór Jakobsson (1734-1810) flutti þangað. Hann var merkur söguritari en brokkgengur í embætti og sagður drykkfelldur og rustafenginn. Hann hlaut bágt fyrir að gæta ekki Fjalla-Eyvindar betur en svo að hann strauk úr fangavistinni á Felli og var síðar settur af fyrir drykkjuskap og óráðsíu við strand verslunarskipsins "Fortuna" í Eyvindarfirði árið 1787. Kirkja stóð á Felli fyrr á tímum og þar er kirkjugarður. Kirkjan á Felli var helguð Ólafi helga Noregskonungi í kaþólskum sið, en jörðin var kirkjustaður allt til ársins 1906 þegar sóknir Fells- og Tröllatungusafnaða voru sameinaðar og kirkja síðan reist á Kollafjarðarnesi 1909. Frá 2004 hefur verið starfræktur orlofsstaður fyrir fatlaða á Felli. William Butler Yeats. William Butler Yeats (13. júní, 1865 – 28. janúar, 1939) var írskt skáld og leikskáld sem var einn af frumkvöðlum írsku bókmenntaendurreisnarinnar fyrir aldamótin 1900. Hann var einn af stofnendum Abbey Theater leikhússins í Dublin 1904. Hann var einnig mikill áhugamaður um dulspeki og guðspeki og kynnti sér Hindúatrú. Hann fékk sæti í írsku öldungadeildinni 1922. Þótt hann sé eitt af lykilskáldum á ensku á 20. öldinni fékkst hann ekki við óbundið form líkt og svo mörg önnur módernísk skáld heldur orti undir hefðbundnum bragarháttum. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1923. Ritaskrá. Yeats, William Butler Yeats, William Butler Yeat, William Butler Þverárvirkjun. Þverárvirkjun er vatnsaflsvirkjun í Steingrímsfirði á Ströndum byggð á árunum 1951–1953. Hún var fyrst gangsett þann 15. desember 1953 og vígð með viðhöfn þann 4. september 1954. Þiðriksvallavatn er miðlunarlónið fyrir virkjunina sem stendur við Húsadalsá. Bygging. Þverá sem áður rann úr Þiðriksvallavatni var stífluð og tekin í gegnum vatnspípu niður að Þverárvirkjun og rennur nú út í Húsadalsá í gegnum virkjunina. Stíflan sem upphaflega var byggð í gjúfri Þverár var að hluta til bogastífla, 17 metra löng og 10 metra há, sú fyrsta sinnar tegundar á landinu. Veggþykkt í boganum var 60 sm og heildarlengd stíflunnar var 34 metrar. Við þessar framkvæmdir hækkaði vatnsyfirborð Þiðriksvallavatns úr 78,5 m hæð yfir sjávarmáli í 82,5 metra og vatnið stækkaði úr 1,55 í 1,8 ferkílómetra. Tún bæjanna Þiðriksvalla og Vatnshorns framan við Þiðriksvallavatn fóru þá undir vatn, en þeir höfðu skömmu áður farið í eyði. Stíflan var svo hækkuð lítilega í nokkrum áföngum næstu áratugina, m.a. 1963. Á árunum 1999–2002 var Þverárvirkjun endurnýjuð að miklu leyti og stóð Orkubú Vestfjarða fyrir þeim framkvæmdum. Þá var byggð ný stífla og stöðvarhúsið stækkað og breytt, skipt um hluta af þrýstivatnspípu og ný vél sett niður. Við það tækifæri voru rannsakaðar fornleifar á Þiðriksvöllum og fundust þar ummerki um landnámsbæ. Ný 500 metra löng jarðvegsstífla var byggð af Ístak árið 2000 og er gamla steypta stíflan hluti af henni. Með byggingu stíflunnar hækkaði yfirborð Þiðriksvallavatns um 6 metra og vatnsmagnið sem nýtist virkjuninni tvöfaldaðist. Yfirborð vatnsins er við þessa breytingu orðið 90 metrar yfir sjávarmáli og flatarmálið 2,7 ferkílómetrar. Náttúrulegt yfirfall fyrir virkjunina er í svonefndu Kotskarði. Hugmyndin er að með þessum framkvæmdum tvöfaldist árleg orkuframleiðsla Þverárvirkjunar og verði um 8,5 gígavattstundir. Broddaneshreppur. Broddaneshreppur var sveitarfélag á Ströndum sem nú er hluti Strandabyggðar. Það náði yfir Kollafjörð og Bitrufjörð á Ströndum, frá Stikuhálsi milli Hrútafjarðar og Bitru og að Forvaða við norðanverðan Kollafjörð. Hreppurinn samsvarar hinum forna Broddaneshreppi áður en honum var skipt upp í Fellshrepp og Óspakseyrarhrepp á síðari hluta 19. aldar. Broddaneshreppur varð svo aftur til við endursameiningu þeirra 1. janúar 1992. Í Broddaneshreppi voru rétt rúmlega 50 íbúar í árslok 2005 og hafði fækkað mjög á síðustu árum. Bændur í hreppnum lifa á sauðfjárrækt. Í hreppnum var Kaupfélag Bitrufjarðar á Óspakseyri sem hætti starfsemi árið 2004. Einnig grunnskóli á Broddanesi, sem var lokað haustið 2004, en hann hafði þá starfað frá ársbyrjun 1978. Börnin í Kollafirði sækja nú skóla til Hólmavíkur, en börn í Bitrufirði sækja skóla að Borðeyri í Hrútafirði. Sameiningartillögur. Í kosningu um sameiningu sveitarfélaga í október 2005 var tillaga stjórnvalda um sameiningu allra sveitarfélaga á Ströndum felld í öllum sveitarfélögum á Ströndum, nema Broddaneshreppi. Viðræður um sameiningu Broddaneshrepps og Hólmavíkurhrepps hófust síðan í nóvember sama ár. Var sameiningin samþykkt í kosningu 8. apríl 2006 og tók gildi 10. júní, að afloknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006. Samhliða kosningunum var kosið um þrjár tillögur að nafni á nýja sveitarfélagið - Strandahrepp, Strandabyggð og Sveitarfélagið Strandir. Í kosningunni varð nafnið Strandabyggð ofan á með 95 atkvæði, en auðir og ógildir seðlar voru 117. Grímsvötn. Grímsvötn er virk eldstöð undir Vatnajökli austur af Grímsfjalli. Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins og hefur að öllum líkindum gosið oftar en hundrað sinnum frá landnámi og þar af þrettán sinnum síðan 1902. Eldstöðin er um 100km löng og 15 km breið. Við gos undir jökli á borð við Grímsvatnagos myndast iðulega móbergsstapar, en dæmi sum slíkan er Herðubreið. Nafnið Grímsvötn. Í handritasafni Árna Magnússonar er saga af útilegumanni, sem Grímur hét og hafðist við hjá vötnum þeim, er síðan eru við hann kennd og kölluð Grímsvötn. Sagan, sem er flokkuð með tröllasögum og nefnist: "Sagan af Vestfjarðagrími", er prentuð í þjóðsagnasafni Jóns Árnason og mun nú af flestum talin uppspuni einn. Sagan segir að Grímur hafi orðið sekur vegna vígaferla og orðið að fara huldu höfði, en kona nokkur forspá vísaði honum að vötnunum og taldi að hann gæti lifað þar á veiðiskap. „Grímur fór sem honum var ráðlagt til vatnanna og gerði sér þar skála, laufskála úr skógi er þar var nógur, og tók að veiða í vötnunum.“ En risi nokkur bjó ásamt dóttur sinni í helli eigi allskammt þaðan, og stal hann veiði frá Grími. Lauk þessu svo, að Grímur drap risann og tók saman við dóttur hans. Tímaröð gosa. Gos á 20. og 21. öld: 1902, 1922, 1933, 1934, 1938, 1945, 1954, 1983, 1996, 1998, 2004 og 2011 Gosið 1998. Gosið hófst 18. desember 1998 kl. 09:20 UTC+0, Þetta var í fyrsta skipti sem vísindamenn gátu fylgst með eldgosi undir stórum jökli. Gosið 2004. Hófst upp úr tíu að kvöldi 1. nóvember, greind voru ummerki eldgoss upp úr klukkan átta. Gosið 2011. Eldgosið 2011 í Grímsvötnum (22. maí) Eldgos hófst upp úr kl. sjö að kvöldi 21. maí. Fyrstu ummerki um hugsanlegt eldgos varð vart um hálf sex en þá mældist aukin skjálftavirkni á svæðinu. Strókur steig hátt og hratt í loft upp yfir Grímsvötnum og sást víða að eða allt frá Egilsstöðum til Selfoss. Strókurinn var fljótlega kominn yfir 20 km. Aska og eldingar sáust í mekkinum. Gosið sennilega það stærsta í Grímsvötnum í heila öld. 1625. Árið 1625 (MDCXXV í rómverskum tölum) var 25. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Metanet. Metanet er miðjulaust net, með svipuð markmið og Freenet, en aðra hönnun. Metanet snýst um að gera það erfitt að finna auðkenni annarra á netinu, til að leyfa þeim að hýsa efni og IPv4 og IPv6 þjónustur, nafnlaust. Kaldbaksvík. Kaldbaksvík á Ströndum er stærsta víkin á milli Bjarnarfjarðar og Veiðileysufjarðar í Kaldrananeshreppi. Landnámsmaðurinn Önundur tréfótur nam þar land og byggði þar bæ sinn Kaldbak, að norðanverðu í víkinni. Á þeirri jörð stendur hús sem byggt var skömmu eftir 1940 úr viðum húss kaupmannsins í Kúvíkum við Reykjarfjörð. Bærinn Kleifar stendur sunnan við víkina og er einungs notað til sumardvalar líkt og Kaldbakur. Fáein önnur smærri sumarhús í einkaeign eru í landi Kleifa. Kaldbakshorn gnæfir yfir víkinni sunnanverðri, 508 metra hátt, sagnir eru af því að Svanur á Svanshóli hafi gengið í fjallið eftir að hann drukknaði út af víkinni og að þar hafi verið vel tekið á móti honum. Svanur bjó á Svanshóli í Bjarnarfirði. Sagan segir að göng liggi úr hlíðinni ofan við Svanshól undir fjallgarðinn og út um Svansgjá, sem er áberandi gjá í Kaldbakshorni. Þá leið notaði Svanur til að stytta sér leið er hann reri til fiskjar frá Kaldbaksvík. Kaldbaksvíkurvatn er í dalnum inn af víkinni og þar nokkru ofar er að finna heita hveri með allt að 70°C heitu vatni. Fjallendið milli Kaldbaksvíkur og Veiðileysufjarðar er á náttúruminjaskrá og hæsti tindur svæðisins er Lambatindur, 854 m. Kalli litli könguló. Kalli litli könguló er barnagæla til er á fjölmörgum tungumálum um könguló sem í íslensku útgáfunni fjallar um tilraun köngulóarinnar „Kalla“ til að klifra upp á vegg. Í þeirri ensku fjallar hún hinsvegar um klifur hans upp tepott. Hinir ýmsu hlutar vísunnar eru svo oft táknaðir með hreyfingum sem tákna aðstæður Kalla. Barnagæla. Barnagæla er hefðbundið ljóð eða vísa kennd og sungin meðal ungra barna, þær aðstoða barnið við að læra móðurmálið auk litanafna, að telja o.fl. Heimaey. Heimaey er eina byggða eyjan í Vestmannaeyjum, og jafnframt eina eyjan í klasanum sem hefur myndast í fleiri en einu gosi. Fyrst urðu til Dalfjallið, Klifið og Háin ásamt Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti. Þessi hluti eyjunnar nefnist einu nafni Norðurklettar og eru þeir taldir hafa myndast í lok ísaldar fyrir um 10 - 12 þúsund árum. Einnig hafa verið settar fram kenningar um að hluti Norðurkletta, þ.e. Há og Fiskhellar, sé mun eldri eða um 110-120 þúsund ára. Yngri gosmyndanir, 5-6 þúsund ára gamlar, eru í Stórhöfða og Stakkabótargíg. Við gos í Helgafelli tengdi Helgafellshraun Stórhöfða og Sæfjall við Dalfjall og myndaði eyjuna eins og hún var fram til 1973. Uppsöfnun jarðefna milli Klifsins og Heimakletts myndaði að lokum Þrælaeiði, eða "Eiðið" eins og það er kallað í daglegu tali. Við þá tengingu myndaðist höfn frá náttúrunnar hendi, sem hefur verið lífæð byggðar í Vestmannaeyjum. Síðast bættist við Heimaey í gosinu sem hófst 23. janúar 1973, en þá stækkaði eyjan um 2,2km², en nýja hraunið þekur alls 3,3km². Rúmlega þriðjungur Heimaeyjar er óbyggilegur sökum eldfjalla og fjalllendis. Núverandi byggð er svo til öll á svæðinu frá Heimakletti til suðurs að rótum Helgafells, þar eð Eldfellið og Eldfellshraun takmarka byggð austan til og Ofanleitishamar að vestan. Jólasveinar ganga um gólf. Jólasveinar ganga um gólf er íslenskt jólalag eftir Friðrik Bjarnason, 1880-1961, tónlistarkennara í Hafnarfirði. Til eru nokkrar útgáfur af laginu. Tenglar. Til voru sérstakir ölstólar í gamla daga, nútíma tilraunin um hólinn hefur því verið afsönnuð sem misskilningur. Frans Eemil Sillanpää. Frans Eemil Sillanpää (16. september 1888 – 3. júní 1964) var einn af frægustu rithöfundum Finnlands. Hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1939. Bjarnarey (Vestmannaeyjum). Bjarnarey er eyja í Vestmannaeyjaklasanum liggur skammt suður af Ellirey og er næst henni í stærð, 0.32km². Bjarnarey er mjög hálend og þverhníptir klettahamrar umlykja eyjuna alla nema á litlu svæði norðaustan-megin, þar sem er uppgangur. Á miðri eyjunni er afar hár grasivaxinn fjallhnúkur og í honum miðjum er dæld. Fjallhnúkurinn nefnist Bunki og er gjallgígur líkt og á Elliðaey. Hæsti punktur þar er 161m yfir sjávarmáli. Bjarnarey myndaðist í eldgosi um svipað leyti og Elliðaey eða fyrir 5-6 þúsund árum. Graslendi þekur alla eyjuna og lundi hefur grafið sér holur mjög víða. Gróður í Bjarnarey er fjölbreyttur og þar er að finna mesta tegundafjölda í af öllum úteyjum Vestmannaeyjaklasans. Veiðikofi Bjarneyinga er vestan við Bunka og er sá eini í eyjunni. Talsverðum fjölda kinda er beitt í Bjarnarey og lundi er veiddur yfir sumartímann. Einnig er töluvert tekið af svartfuglseggjum yfir eggjatímann sem er í maí. Álsey. Álsey (einnig stundum nefnd Álfsey) er eyja sem liggur um 3,5km vestur af Stórhöfða og er þriðja stærsta úteyja Vestmannaeyjaklasans. Eyjan er girt háum hömrum, að norðurhliðinni undanskilinni, og eru þeir næstum eggsléttir austan og sunnan til. Álsey er hálend og er 137m hár grasiþakinn hryggur á miðri eyju, en halli er mikill niður á brúnirnar. Af þessum sökum er lundabyggð þétt í Álsey og er lundaveiði mikil eftir því. Sauðfé er haft á beit á Álsey. Veiðikofi Álseyinga er staðsettur norðan megin á eyjunni. Óspakseyri. Óspakseyri í Bitrufirði á Ströndum er landnámsjörð Þorbjarnar bitru en á söguöld bjó þar ójafnaðarmaðurinn Óspakur sem jörðin dregur nafn af. Jörðin er kölluð Eyri í daglegu tali. Á Óspakseyri hefur staðið kirkja frá því snemma á öldum. Kirkjan sem stendur þar í dag var reist árið 1939. Löggilt höfn er á Óspakseyri en engin mannvirki hafa þó verið reist þar henni tengd, þar er ekki bryggja. Þingstaður var á Eyri og Ungmennafélagið Smári í Bitrufirði byggði þar lítið samkomuhús, sem enn stendur, árið 1927, sama ár og félagið var stofnað. Á Óspakseyri var rekið sláturhús til margra ára. Þar var lengi verslun Kaupfélags Bitrufjarðar, en henni og sláturhúsinu hefur hvoru tveggja verið lokað og Kaupfélagið var lagt niður árið 2005. Árið 2012 opnaði búðin á Óspakseyri aftur eftir að hafa verið lokuð í sjö ár og er hún opin nokkrum sinnum í viku. Rekstur búðarinnar er í höndum bændanna á Bræðrabrekku. Nafni búðarinnar hefur nú verið breytt í Kjörbúðin Óspakseyri. Steinadalsheiði. Steinadalsheiði er stuttur fjallvegur á milli Gilsfjarðar og Kollafjarðar á Ströndum, milli bæjanna Gilsfjarðarbrekku og Steinadals. Við Heiðarvatn á miðri heiðinni eru mót þriggja sýslna - Strandasýslu, Austur-Barðastrandasýslu og Dalasýslu. Sumarvegur liggur um Steinadalsheiði, sem hefur nú vegnúmerið 690 (var númer 69 fram til 1994). Á árunum 1933-48 var sá vegur aðalleiðin milli Hólmavíkur og annarra landshluta. Akvegurinn norður Strandir leysti hann af hólmi þegar hann var tekinn í notkun árið 1948. Á Þorláksmessu árið 1929 varð ungur maður úti á Steinadalsheiði, eftir að hafa lent í snjóflóði á Brekkudal, sem liggur að heiðinni að vestan. Svanur á Svanshóli. Þegar Þjóstólfur hafði drepið Þorvald, fyrsta eiginmann Hallgerðar, sendi hún hann á náðir Svans. Þegar menn hugðust leita Þjóstólfs í Bjarnarfirði gerði gerningaþoku á Bjarnarfjarðarhálsi svo að mennirnir villtust og týndu vopnum sínum. Launsonur Svans var Brynjólfur rósti, en hann kemur við sögu í Njálu. Hann gerðist banamaður Atla, sem var húskarl Bergþóru og var síðar veginn sjálfur af Þórði leysingjasyni. Þjóðsögur um Svan á Svanshóli segja að hann hafi gengið í fjallið Kaldbakshorn eftir dauða sinn og verið fagnað vel. Árneshreppur. Árneshreppur er nyrsta sveitarfélagið í Strandasýslu og afskaplega landmikið. Í suðri nær hreppurinn frá Spena undir Skreflufjalli á milli eyðibýlanna Kaldbaks og Kolbeinsvíkur og að norðanverðu að Geirólfsgnúp fyrir norðan Skjaldabjarnarvík. Árneshreppur er stundum nefndur Víkursveit eftir búsældarlegasta hluta sveitarfélagsins, Trékyllisvík, og er það fornt nafn á hreppnum. Trékyllisvík var vettvangur hörmulegra atburða á tímum galdraofsókna á 17. öld, en þar voru þrír galdramenn brenndir árið 1654 í klettagjá sem kallast Kistan. Á svæðinu urðu til vísar að þéttbýli á 20. öld í Kúvíkum, Gjögri og Djúpavík, einkum í tengslum við hákarlaveiðar og síldveiðar, og eru þar miklar menjar um atvinnulíf og mannlíf. Ekkert aðalskipulag er í gildi, en samkvæmt lögum þarf að vera búið að vinna slíkt árið 2008. Verslunarstaður er í Norðurfirði, rekinn af Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Ársnesshreppur er fámennasta sveitarfélag Íslands með 48 íbúa. Í sveitarfélaginu býr að meðaltali 0.07 manns á km². Norðurland. Norðurland er heiti sem notað er fyrir byggð héruð á norðurhluta Íslands. Vesturmörk svæðisins liggja við botn Hrútafjarðar og austurmörk við Langanes. Svæðinu hefur frá fornu fari verið skipt upp í fjóra hluta eins og landafræði svæðisins hefur gefið tilefni til, þau eru frá vestri til austurs: Húnaþing, Skagafjörður, Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur. Siglufjörður yst á Tröllaskaga fellur þó utan þessarar flokkunar og það sama á við um Grímsey. Svæðið var fyrst sérstaklega afmarkað með skiptingu landsins í fjórðunga á þjóðveldisöld, þá varð til Norðlendingafjórðungur sem var skipt upp í 4 þing ólíkt hinum þremur fjórðungunum sem hverjum var skipt upp í 3 þing. Var þetta gert þar sem Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um skiptingu í þrjá hluta. Frá 1106 til 1798 var Norðurland sérstakt biskupsdæmi. Biskup Norðlendinga sat á Hólum í Hjaltadal. Á Norðurlandi bjuggu 35.962 manns þann 1. desember 2003. Norðurland skiptist á milli tveggja kjördæma, Húnaþing og Skagafjörður eru í Norðvesturkjördæmi en Siglufjörður, Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur tilheyra Norðausturkjördæmi. Sýslumenn sitja á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Akureyri og Húsavík. Columbia (ofurtölva). Columbia er ofurtölva byggð af Silicon Graphics og Bandarísku geimferðarstofnuninni NASA, hún er sem stendur (samkvæmt TOP500 listanum) fjórða öflugasta ofurtölva í heimi (á eftir L) en hraði hennar mældist 51,87 teraflop í LINPACK hraðaprófunum. Verk hennar eru að herma eftir geimferðum, spá fyrir um veðurfar, gera rannsóknir á lofthjúpi jarðar auk þess sem aðrar ríkisstofnanir og rannsóknarstofur Bandaríkjanna fá aðgang að henni fyrir hin ýmsu verkefni. Hönnun. Columbia er samansett af tuttugu 512 örgjörva SGI Altix 3700 BX2 vélum eða samtals 10.240 örgjörvum. Hún keyrir eina ræsimynd af Linux kjarnanum en aldrei áður hefur jafn mörgum örgjörvum verið stjórnað af einu Linux kerfi (Kalpana tölva NASA átti fyrra metið með 512 örgjörva). Innbyrðis eru vélarnar tengdar saman með Voltaire InfiniBand ISR 9288 288 tengla skipti (e. "switch") sem hefur allt upp í 1.024 megabæta færslugetu á sekúndu. Samanlagt vinnsluminni hennar er 20.480 terabæt, og geymslupláss hennar 440 terabæt en gögn eru geymd á SGI InfiniteStorage vélum sem tengd eru við hana. Staðarkirkja (Steingrímsfirði). Staðarkirkja stendur í Staðardal fyrir botni Steingrímsfjarðar á Ströndum. Talið er að þar hafi verið prestsetur frá frumdögum kristni á Íslandi. Kirkjan var í kaþólskum sið Maríukirkja og allra heilagra. Staður var lengi meðal eftirsóttustu brauða landsins. Jón Árnason (1665-1743) sem síðar varð Skálholtsbiskup sat Stað í 15 ár frá 1707. Jón er þekktur fyrir ýmsar ritsmíðar, samdi meðal annars Fingrarím árið 1739. Hann var vel að sér í guðfræði, stærðfræði, rúmfræði og söngfræði. Annar merkur prestur sem setið hefur á Stað var séra Sigurður Gíslason (1798-1874). Hann þjónaði þar í þrjá áratugi og lét reisa kirkjuna sem nú stendur á Stað árið 1855. Hún er þriðja elsta hús í Strandasýslu, aðeins Kaldrananeskirkja (1851) og Árneskirkja (1850) eru eldri. Kirkjan á Stað var um tíma í hálfgerðri niðurníðslu eftir að Hólmavíkurkirkja tók við hlutverki hennar, en var síðan tekin til gagngerra endurbóta. Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands beitti sér fyrir stofnun sjóðs í því skyni eftir heimsókn á Strandir 1981. Viðgerðunum lauk árið 1990 og þá var kirkjan endurvígð. Kirkjan var endurbyggð í upphaflegum stíl, að því frátöldu að turninn sem er síðari tíma viðbót var látinn halda sér. Þá var kirkjugarðurinn stækkaður og girtur að nýju. Staðarkirkja á nokkra merka gripi. Halldór Einarsson, prestur á Stað 1724-38, og Sigríður Jónsdóttir kona hans gáfu Staðarkirkju predikunarstólinn sem er þar enn. Þarna eru einnig tvær fornar klukkur, önnur með ártalinu 1602, silfurkaleikur og altaristafla frá 18. öld. Kaleikurinn er smíðaður af gullsmiðnum Sigurði Þorsteinssyni. Þá á kirkjan fornt skírnarfat úr messing með ártalinu 1487 og oblátudósir úr silfri, gefnar af séra Hjalta Jónssyni sem var prófastur á Stað 1798-1827. Gvendarlaug í Bjarnarfirði. Gvendarlaug í Bjarnarfirði á Ströndum er lítil hlaðin baðlaug (Hver) um 100 metrum norðan við vesturhorn Hótel Laugarhóls í gamla skólahúsinu á Klúku. Laugin er friðlýst sem fornleifar og er ein margra Gvendarlauga á Íslandi, þar sem sagt er að Guðmundur góði Arason biskup á Hólum (-1237) hafi vígt vatnið. Lítið eitt neðan við baðlaugina, á milli Hótels Laugarhól og Kotbýlis kuklarans sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum, er sundlaug sem einnig er kölluð Gvendarlaug, eftir gömlu lauginni. 1654. Árið 1654 (MDCLIV í rómverskum tölum) var 54. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Borgin Delft eftir sprenginguna 12. október. 1656. Árið 1656 (MDCLVI í rómverskum tölum) var 56. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Þrenningarkirkjan í Kaupmannahöfn var vígð þetta ár. 1627. Árið 1627 (MDCXXVII í rómverskum tölum) var 27. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1652. Árið 1652 (MDCLII í rómverskum tölum) var 52. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Hornstrandir. 400 px Hornstrandir eru nyrsti hluti Vestfjarðakjálkans. Hinar eiginlegu Hornstrandir ná frá Geirólfsgnúpi í austri og voru áður taldar ná vestur að Kögri en nú eru Aðalvík og víkurnar austan hennar oftast einnig taldar til Hornstranda og þær ná þá að Rit vestan Aðalvíkur. Eftir að allt svæðið norðan Skorarheiðar var gert að friðlandi árið 1975 hefur Hornstrandanafnið tekið að færast yfir á allt friðlandið, einnig Jökulfirði. Töluverð byggð var á Hornströndum fyrr á öldum en hún lagðist af um miðja 20. öld, nema hvað vitavörður var á Hornbjargsvita, í Látravík austan Hornbjargs, til 1995. Þrjú mikil fuglabjörg eru á Hornströndum, Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Riturinn. Víðidalsá. Víðidalsá er heiti yfir býli og ár. Rækjuvinnsla á Íslandi. Rækjuvinnsla er sú tegund fiskvinnslu sem gengur út á að vinna rækju fyrir markað. Á Íslandi er einkum veidd úthafsrækja eða pólarrækja ("pandalus borealis") — einnig oft nefnd sem Stóri kampalampi. Rækjan fer á markað fersk, frosin eða lausfryst, ýmist sem heil rækja, rækjuhalar eða skelflett rækja. Langstærstur hluti framleiðslunnar á Íslandi er skelflett lausfryst rækja. Áður en rækjan er skelflett er hún snöggsoðin til að tryggja gæði kjötsins. Á Íslandi eru fimm rækjuvinnslur starfandi árið 2010, Kampi ehf á Ísafirði, Hólmadrangur hf á Hólmavík, Dögun hf á Sauðárkróki, Rammi hf á Siglufirði og FISK á Grundarfirði. Einnig er rækja fullunnin um borð í rækjuveiðiskipum á sérútbúnu vinnsludekki. Skelflett rækja er einkum flutt út til Bretlands og Danmerkur en nokkuð af heilfrystri rækju er flutt út til Japans. Ekki er vitað til að Íslendingar hafi neytt rækju í nokkrum mæli fyrr en á 20. öld en líklega hefur hún verið nýtt sem beita áður en veiðar hófust hér við land. Upphaf veiða og vinnslu á rækju við Ísland varð þegar Norðmennirnir Simon Olsen og Ole G. Syre sem bjuggu á Ísafirði hófu veiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi. Þeir höfðu þá stundað tilraunaveiðar nokkrum árum fyrr. Frekari fróðleik um það má finna á Leopold Kronecker. Leopold Kronecker (7. desember 1823 - 29. desember 1891) var þýskur stærðfræðingur, sem lagði sitt af mörkum til talnafræði og einnig á öðrum sviðum stærðfræðinnar. Hans er oftast minnst fyrir það að vera fyrstur til að draga í efa svokallaðar óuppbyggjandi tilvistarsannanir. Hann stóð í deilum við Weierstrass og fleiri um þau mál. Einnig er hans minnst fyrir að segja: „"Guð skapaði heilu tölurnar. Allt annað er verk mannsins."“ Spánn. Spánn (spænska: "España") er konungsríki á Íberíuskaga í Suðvestur-Evrópu. Lönd sem liggja að Spáni eru Portúgal að vestan og Frakkland að austan. Auk þess er örríkið Andorra í Pýreneafjöllum á landamærum Spánar og Frakklands. Syðst á Spáni er kletturinn Gíbraltar, sem er lítið landsvæði undir yfirráðum Breta. Að norðaustan liggur Biskajaflói að Spáni, Atlantshafið að suðvestan og að sunnan er Gíbraltarsund og svo Miðjarðarhafið að suðaustan og austan. Syðsti oddi Spánar er jafnframt syðsti oddi meginlands Evrópu. Þar er smábær sem heitir Tarifa. Hann er á nákvæmlega 36°N. Hið opinbera heiti landsins er Konungsríkið Spánn ("Reino de España"). Spáni tilheyra Baleareyjar í Miðjarðarhafi (Majorka, Menorka og Íbísa), Kanaríeyjar í Atlantshafi og útlendurnar Ceuta og Melilla í Norður-Afríku. Landið er rúmlega 500 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli eða um það bil fimm sinnum stærra en Ísland. Á Spáni búa um 45 milljónir manna. Stærstu borgir Spánar eru höfuðborgin, Madríd og Barselóna. Í Madríd búa um 5,5 milljónir manna og tæpar fimm milljónir í Barselóna. Spánn er fornfrægt menningarríki. Arabar og Berbar lögðu hluta af Spáni undir sig á miðöldum og voru þar kallaðir Márar. Miklar minjar eru um dvöl þeirra á Spáni, meðal annars Alhambrahöllin. Barselóna þykir mjög athyglisverð fyrir nútímabyggingarlist og ber þar helst að nefna Antonio Gaudí en byggingar hans eru víða í borginni. Spánn var einræðisríki undir stjórn Franciscos Franco einræðisherra frá 1939 til 1975. Jóhann Karl 1. hefur verið konungur Spánar frá 1975. Saga. Á Spáni hafa fundist elstu merki um menn frá forsögulegum tíma í Evrópu frá því fyrir meira en 1,2 milljónum ára síðan. Cro Magnon-menn komu inn á skagann fyrir 35 þúsund árum síðan. Þekktustu minjar um menn frá þessum tíma eru meðal annars hellamálverkin í Altamira í Kantabríu sem eru um 17 þúsund ára gamlar. Helstu þjóðirnar á Spáni í fornöld voru Íberar, sem settust að við Miðjarðarhafsströndina í austri, og Keltar, sem settust að við Atlantshafsströndina í vestri. Að auki bjuggu þá Baskar í vesturhluta Pýreneafjalla. Aðrir þjóðflokkar byggðu svo suðurströndina þar sem nú er Andalúsía. Föníkar og Grikkir stofnuðu nýlendur á Miðjarðarhafsströndinni og verslun blómstraði með málma úr námum á Spáni. Rómaveldi. Á 3. öld f.Kr., undir lok Annars púnverska stríðsins, lögðu Rómverjar undir sig nýlendur Karþagóbúa á Spáni og náðu brátt yfirráðum yfir öllum Íberíuskaganum. Rómversk yfirráð stóðu í hálft árþúsund og höfðu varanleg áhrif á tungumál, menningu og siði íbúanna. Meðal þess sem Rómverjar komu á voru stórjarðeignir undir yfirráðum lends aðals sem framleiddu landbúnaðarvörur fyrir heimsveldið. Hispanía var rómverskt skattland. Henni var upphaflega skipt í tvennt; "Hispania Citerior" (norðausturhluti skagans) og "Hispania Ulterior" (suðvesturhluti skagans). Síðar skipti Ágústus keisari skaganum í þrjú skattlönd: "Hispania Baetica" (höfuðborg Córdoba), "Hispania Lusitania" (höfuðborg Mérida) og "Hispania Citerior" (höfuðborg Tarragona). Vesturgotar. Með hnignun Vestrómverska keisaradæmisins á 5. öld lögðu germanskir þjóðflokkar, Svefar, Vandalar og að lokum Vesturgotar, Íberíuskagann undir sig. Konungar Vesturgota voru að nafninu til undirkonungar (patrisíar) sem ríktu í nafni Rómarkeisara. Þeir gerðu Tóledó að höfuðborg. Á þeim tíma efldust menningarleg og trúarleg kaþólsku kirkjunnar mikið þótt Vesturgotar væru arískt kristnir eða heiðnir fram til loka 6. aldar þegar konungur þeirra tók upp kaþólska trú. al-Andalus. Múslimskir Márar og Arabar frá Norður-Afríku lögðu nánast allan Íberíuskagann undir sig á aðeins sjö árum 711 til 718 undir stjórn Úmajada. Veldi Vesturgota, sem þá var margklofið vegna deilna um ríkiserfðir, kom engum vörnum við og síðasti konungurinn Roderic lést í bardaga. Innrásarherinn stofnaði ríkið al-Andalus. Þegar Abbasídar tóku völdin af Úmajödum árið 750 stofnaði einn af prinsum Úmajada í útlegð, Abd-ar-Rahman 1., sjálfstætt emírat í Córdoba og neitaði að beygja sig undir yfirráð Abbasída. Undir yfirráðum Abd-al-Rahman 3. sem lýsti sig kalífa á 10. öld gengu Córdoba og al-Andalus í gegnum blómaskeið þar sem þau nutu menningarlegra og viðskiptalegra tengsla við Arabaheiminn, en héldu samt sem áður sjálfstæði gagnvart kalífatinu í Bagdad. Ferdinand og Ísabella við fótskör Maríu meyjar. "Reconquista". Í upphafi 11. aldar klofnaði ríkið hins vegar í mörg sjálfstæð ríki eftir borgarastyrjöld. Kristnu smáríkin í norðaustri, León, Kastilía og Baskaland tóku að sækja í sig veðrið við endurheimt Spánar ("Reconquista") einkum undir stjórn Alfons 6. sem varð konungur bæði Kastilíu og León árið 1072. Múslimsku konungarnir óskuðu þá eftir aðstoð frá Almoravídum sem ríktu yfir Marokkó. Þeir lögðu öll múslimsku ríkin á skaganum, nema Saragossa, undir sig 1094. Áður höfðu kristnu ríkin lagt Tóledó undir sig. Almóhadar tóku við völdum í Marokkó af Almóravídum á 12. öld en náðu ekki að standast framrás kristnu konunganna sem lögðu meirihluta skagans undir sig í röð átaka á 13. öld. Portúgal varð til þegar Afonsó 1. lýsti sig konung Portúgals árið 1139. Eina ríkið sem eftir var undir stjórn Múslima var Granada á syðsta odda skagans. Marínídum tókst ekki að leggja al-Andalus undir sig með innrásum á 13. og 14. öld. Árið 1469 gengu konungsríkin Aragón og Kastilía í konungssamband með hjónabandi Ísabellu af Kastilíu og Ferdinands af Aragón. Ferdinand og Ísabella lögðu Granada undir sig sama ár og Kristófer Kólumbus kom til Nýja heimsins í leiðangri sem þau fjármögnuðu. Þau hófu líka skipulegar ofsóknir á hendur Márum og Gyðingum á Spáni og stóðu fyrir stofnun Spænska rannsóknarréttarins. Gullöld Spánar. Flotinn ósigrandi leggur upp frá Spáni. Með sameiningu ríkjanna Aragón, León, Kastilíu og Navarra var grundvöllur lagður að nútímaríkinu Spáni og Spænska heimsveldinu sem náði hátindi sínum undir stjórn Karls 5. sem var samtímis konungur Spánar og keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1519 til 1556. Með honum komust Habsborgarar til valda á Spáni. Árið 1580 varð Filippus 2. Spánarkonungur einnig konungur Portúgals sem sameinaði þessi tvö heimsveldi í eitt konungssamband til ársins 1640. Spánn og Portúgal lögðu á þessum tíma undir sig Rómönsku Ameríku, meirihluta Karíbahafsins og einokuðu auk þess verslun við Afríku og Austur-Indíur. Gullöld Spánar er venjulega talin frá 1492 til 1659. Þegar á 16. öld tók þessu mikla heimsveldi að hnigna. Englendingar og Frakkar sóttu gegn nýlendum Spánar í Nýja heiminum, bæði með sjóránum gegn skipum sem fluttu góðmálma til Spánar og eins með launverslun við nýlendurnar sem Spánn reyndist ófær um að sjá fyrir nauðsynjum. Mikið flæði gulls og silfurs frá Nýja heiminum olli síðan óðaverðbólgu á Íberíuskaganum sem skaðaði efnahag Spánar enn frekar. Tilraun Filippusar 2. til að sýna Englandi í tvo heimana með Flotanum ósigrandi 1588 mistókst herfilega og Hollendingar sögðu sig úr lögum við Spán 1585 og rændu hverri höfninni af annarri frá Portúgölum í Austur-Indíum. Þrjátíu ára stríðið 1618 til 1648, þar sem Spánverjar reyndu að leggja Holland aftur undir sig, hafði slæm áhrif á efnahag landsins. Portúgal sagði sig úr konungssambandinu 1640 og Spánn varð að gefa Frakklandi eftir landsvæði með Pýreneasáttmálanum 1659 eftir tíu ára styrjöld milli ríkjanna. Eftir Spænska erfðastríðið 1701 – 1714 missti Spánn svo öll landsvæði sín í Evrópu utan Íberíuskagans til annarra ríkja og frönsk konungsætt, Búrbónar, tók við völdum. 19. öldin. Spánn réðist inn í Frakkland í kjölfar Frönsku byltingarinnar en beið ósigur og varð að lokum leppríki Napoléons 1795. Sama ár lýsti Spánn yfir stríði á hendur Bretlandi og Portúgal (sem höfðu gert bandalag). Hörmulegt efnahagsástand leiddi til afsagnar Karls 4. 1808 og Joseph Bonaparte, bróðir Napoléons, tók við völdum. 2. maí sama ár hófst uppreisn gegn hinum erlenda konungi sem markar upphafið að Sjálfstæðisstríði Spánar. Frakkar voru hraktir frá völdum á Spáni 1814. Kreppa Spánar í upphafi 19. aldar leiddi líka til missis nær allra nýlendnanna í Ameríku. 1898 braust Spænsk-bandaríska stríðið út sem leiddi til missis Filippseyja, Gvam og Púertó Ríkó í hendur Bandaríkjanna og sjálfstæðis Kúbu. 20. öldin. Í upphafi 20. aldar tók Spánn stuttlega þátt í kapphlaupinu um Afríku og lagði undir sig Miðbaugs-Gíneu, Vestur-Sahara og Spænsku Marokkó. Alræðisstjórn Miguel Primo de Rivera 1923-1931 leiddi til stofnunar Annars spænska lýðveldisins sem gaf Baskalandi, Galisíu og Katalóníu sjálfsstjórn að hluta og konum kosningarétt. 1936 braust Spænska borgarastyrjöldin út. Hún stóð til 1939 og lyktaði með sigri Falangista undir stjórn Francisco Franco hershöfðingja. Franco kom á flokksræði á Spáni sem byggðist á áherslu á hefðbundin þjóðleg gildi, andkommúnisma og kaþólska trú. Spánn var hlutlaus í síðari heimsstyrjöldinni og eftir ósigur Öxulveldanna var landið einangrað í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Með tilkomu Kalda stríðsins varð landið mikilvægt sem bandamaður Bandaríkjamanna og efnahagslífið blómstraði á 7. áratugnum. Við lát Francos 1975 tók Jóhann Karl 1. við völdum sem konungur Spánar. Lýðræði var aftur komið á með nýrri stjórnarskrá 1978 þrátt fyrir andstöðu margra gamalla stuðningsmanna Francos sem meðal annars reyndu að gera herforingjabyltingu árið 1981. 2002 tók Spánn um evru sem gjaldmiðil í stað peseta. Mikill efnahagsuppgangur einkenndi fyrstu ár 21. aldar á Spáni með tilheyrandi verðhækkunum neysluvara og hækkunum á húsnæðisverði. Landafræði. Spánn er 504.782 km² að stærð, 51. stærsta land heims, álíka stórt og Frakkland og fimm sinnum stærra en Ísland. Í vestri á landið landamæri að Portúgal og í suðri að breska yfirráðasvæðinu Gíbraltar og Marokkó við spænsku borgirnar Ceuta og Melilla á norðurströnd Afríku. Í norðaustri liggja landamæri Spánar og Frakklands eftir Pýreneafjöllunum þar sem einnig er smáríkið Andorra. Spáni tilheyra eyjaklasarnir Kanaríeyjar í Atlantshafi undan vesturströnd Norður-Afríku og Baleareyjar í Miðjarðarhafinu austan við Spán. Að auki ná yfirráð Spánar yfir nokkrar óbyggðar eyjar Miðjarðarhafsmegin við Gíbraltarsund. Lítil útlenda, Llívia, er innan Frakklands í Pýreneafjöllunum. Stærstur hluti meginlands Spánar er háslétta og fjallgarðar á borð við Sierra Nevada. Þaðan renna helstu árnar, Tagus, Ebró, Duero, Guadiana og Guadalquivir. Flóðsléttur er að finna meðfram ströndinni, þá stærstu við Guadalquivir í Andalúsíu. Veðurfar á Spáni er mjög mismunandi eftir landsvæðum. Gróflega má skipta því í þrennt: Milt meginlandsloftslag ríkir inni á skaganum, Miðjarðarhafsloftslag við austurströndina og úthafsloftslag í Galisíu og við Biskajaflóa í norðvestri. Stjórnsýsluumdæmi. Spánn skiptist í sautján sjálfstjórnarhéruð ("comunidades autónomas") og tvær sjálfstjórnarborgir ("ciudades autónomas") - Ceuta og Melilla á norðurströnd Afríku. Að auki skiptist Spánn í fimmtíu sýslur. Sjö sjálfstjórnarhéruð eru aðeins ein sýsla: Astúrías, Baleareyjar, Kantabría, La Rioja, Madríd, Múrsía og Navarra. Að auki skiptast sum héruðin sögulega í nokkrar sveitir ("comarcas"). Lægsta stjórnsýslustigið eru sveitarfélögin. Efnahagslíf. Samkvæmt gögnum Alþjóðabankans er hagkerfi Spánar það níunda stærsta í heimi og það fimmta stærsta í Evrópu. Verg landsframleiðsla var áætluð 1.362 milljarðar bandaríkjadala árið 2007 og VLF á mann miðað við kaupmáttarjöfnuð var áætluð 33.700 bandaríkjadalir sama ár sem er hærra en Ítalía og svipað og Japan og Frakkland. Spænska hagkerfið hefur verið í stöðugum vexti síðustu ár, öfugt við hagkerfi hinna stóru Vestur-Evrópuríkjanna sem hafa nánast staðið í stað. Hagkerfi Spánar er dæmigert þjónustuhagkerfi þar sem nær 65% vinnuafls vinnur við þjónustu, 30% við iðnað og rúm 5% við landbúnað. Ferðamannaiðnaðurinn er landinu afar mikilvægur. Á Norður-Spáni er þungaiðnaður og þar eru unnin kol og járn úr jörðu. Spáni tókst, undir hægri-ríkisstjórn José María Aznar að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins fyrir upptöku evrunnar sem kom í stað pesetans fyrir almenn viðskipti árið 2002. Atvinnuleysi var 7,6% árið 2006 sem telst framför miðað við um 20% atvinnuleysi snemma á 10. áratugnum. Helstu vandamál eru stórt neðanjarðarhagkerfi og há verðbólga. Spænska hagkerfið óx mikið vegna alþjóðlegra hækkana á húsnæðisverði í byrjun 21. aldar og hlutur byggingariðnaðar af vergri landsframleiðslu var 16%. Um leið hefur skuldastaða heimilanna versnað. Ferðamannaiðnaður. Á undanförnum fjórum áratugum hefur ferðamannaiðnaðurinn á Spáni vaxið og orðið sá næststærsti í heimi og veltir árlega 40 milljörðum evra en það jafngilti 5% af vergri landsframleiðslu Spánar árið 2006. Í dag gera verðurfar á Spáni, sögulegar minjar og menningarverðmæti og landfræðileg lega landsins að verkum að ferðamannaiðnaðurinn er meðal helstu atvinnugreina á Spáni. Stjörnugjöf spánskra hótela er kröfuharðari en annarra Evrópulanda. Lýðfræði. Landfræðileg dreifing þéttbýlis á Spáni árið 2008. Árið 2008 hafði íbúafjöldi Spánar náð 46 milljónum. Landið er strjálbýlla en flest önnur lönd í Vestur-Evrópu, með 91 íbúa á hver ferkílómetra. Einnig er dreifing byggðar um landið nokkuð ójöfn. Þéttbýlasta svæði landsins er umhverfis höfuðborgina Madríd, sem er inni í miðju landi, en annars eru helstu þéttbýlissvæðin úti við ströndina. Íbúafjöldi Spánar hefur meira en tvöfaldast frá árinu 1900 en þá bjuggu 18,6 milljónir manna í landinu. Árið 2008 veitti Spánn 84.170 einstaklingum spánskan ríkisborgararétt. Flestir þeirra komu frá Suður-Ameríkulöndunum Ekvador og Kólumbíu eða frá Marokkó. Þó nokkur hluti aðfluttra kemur frá öðrum Vestur-Evrópuríkjum, svo sem Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi og Noregi. Innflytjendur. Samkvæmt upplýsingum frá spænskum yfirvöldum voru 4,5 milljónir erlendra ríkisborgara búsettar í landinu árið 2007. Óháðar kannanir benda til þess að talan sé eilítið hærri eða 4,8 milljónir manna eða um 11% heildaríbúafjölda landsins. Samkvæmt upplýsingum um veitt landvistarleyfi árið 2005 var um hálf milljón Marokkóbúa á Spáni, önnur hálf milljón frá Ekvador, rúmlega 200 þúsund Rúmenar og um 260 þúsund frá Kólumbíu. Af öðrum erlendum ríkisborgurum voru Bretar (8%), Frakkar (8%), Argentínumenn (6%), Þjóðverjar (6%) og Bólivíumenn (3%). Á Spáni eru rúmlega 200 þúsund innflytjendur frá Vestur- og Mið-Afríku. Frá árinu 2000 hefur íbúafjöldi á Spáni aukist mjög í kjölfar innflytjendabylgja. Þetta hefur skapað ákveðna spennu. Af Evrópusambandslöndum er hlutfall innflytjenda næsthæst á Spáni á eftir Kýpur en fjöldi þeirra er langmestur á Spáni. Ástæðurnar eru margar, meðal annars menningarbönd Spánar og Suður-Ameríkuríkja, landfræðileg lega Spánar og öflugur landbúnaður, sem krefst meira af ódýru vinnuafli en vinnumarkaðurinn getur veitt. Einnig setjast margir borgarar annarra Evrópusambandslanda að á Spáni á eftirlaunaárunum. Menntun. Á Spáni er menntun á vegum hins opinbera ókeypis. Skólaskylda er frá sex ára aldri til sextán ára aldurs. Þá tekur við tveggja ára langt valfrjálst nám. Núgildandi lög um menntakerfi landsins voru sett árið 2006. Háskólanám er venjulega fjögurra ára langt nám, nema í læknisfræði og þar sem nemendur taka tvöfalt aðalfag en þá er námið sex ára langt. Háskólar landsins nota evrópska ECTS-einingakerfið og fullt nám telst vera 60 ECTS-einingar á ári. Venjulegt háskólanám er þá 240 ECTS-einingar. Í framhaldsnámi eru í boði meistaragráður (Máster) og doktorsgráður (Doctorado) en hverjum háskóla er í sjálfvald sett að bjóða upp á annars konar gráður í framhaldsnámi. Menning. Menning Spánar á rætur að rekja til þeirra ólíku þjóða sem hafa byggt Íberíuskagann frá örófi alda, frá Keltum og Íberum, til Rómverja, Vesturgota, Berba og Araba. Fyrir utan basknesku eru þau tungumál og mállýskur sem töluð eru á Spáni rómönsk mál, afleiðing af 500 ára yfirráðum Rómverja. Opinbert tungumál alls staðar á spáni er kastillíska en önnur tungumál, s.s. katalónska, baskneska og galisíska hafa opinbera stöðu. Um 75% Spánverja eru rómversk-kaþólskir en 20% telja sig trúlausa. Á heimsveldistíma Spánar varð spænsk tunga og spænsk menning, þar með talið kaþólsk trú, ríkjandi menning í nýlendum Spánar um allan heim. Þessa sér enn stað í Rómönsku Ameríku, Filippseyjum í Kyrrahafinu og Miðbaugs-Gíneu í Afríku. Spánn er í öðru sæti (á eftir Ítalíu) yfir þau lönd sem hafa flestar færslur á Heimsminjaskrá UNESCO; 40 færslur. Spænskar bókmenntir. Hugtakið "spænskar bókmenntir" vísar til bókmennta á spænsku, þar á meðal — en ekki einvörðungu — bókmennta eftir höfunda frá Spáni. Stundum eru aðrar bókmenntir á spænsku aðgreindar og nefndar suður-amerískar bókmenntir. Frá Spáni eru einnig til katalónskar bókmenntir, baskneskar bókmenntir og galikískar bókmenntir. Vegna sögulegs og landfræðilegs margbreytileika hafa spænskar bókmenntir orðið fyrir áhrifum víða og eru afar fjölbreyttar. Miguel de Cervantes er að öllum líkindum frægasti rithöfundur Spánar, víðfrægur fyrir bók sína "Don Kíkóti". Kirkjuból. Kirkjuból er heiti á 27 jörðum á Íslandi. Þar af eru 19 þeirra á Vestfjörðum og 4 við Önundarfjörð. Sumar af þessum jörðum eru farnar í eyði, en enn er búið á nokkrum. Það er hins vegar athyglisvert að í dag er aðeins kirkja á einni jörðinni, Kirkjubóli í Valþjófsdal við Önundarfjörð. Húsavík í Víkum. Húsavík er önnur stærst nokkurra víkna í svokölluðum Víkum sem er á milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar, og er vinsælt útivistarsvæði. Í Húsavík er samnefnt býli sem er vel við haldið og gömul sveitakirkja. Innihald gamla kirkjugarðsins í Húsavík hefur komið betur í ljós undanfarna áratugi því kirkjugarðurinn er alveg við sjávarbakkann og sjórinn hefur eytt landi og forn mannabein og líkkistur komið í ljós. Heldur hefur þó dregið úr því undanfarin ár. Borgarljósin. "Borgarljósin" eða "City Lights" er kvikmynd eftir Charles Chaplin sem var frumsýnd 30. janúar 1931 í Los Angeles. Myndin var kostuð af Chaplin sjálfum (og framleidd af Chaplin – United Artists), hann leikstýrði myndinni einnig, samdi alla tónlistina (að undanskildu einu lagi), ritstýrði og lék aðalhlutverkið á móti Virginia Cherril (blinda stúlkan). Ekkert var talað í myndinni þrátt fyrir að tæknin til að setja inn hljóð á filmu væri til staðar, en Chaplin vildi ekki að talmál væri notað í myndinni. Þrátt fyrir það er myndin full af tónlist og hann notar hljóð á afar spaugilegan máta. Líklegast var aðal vandamálið að velja rödd fyrir "flækinginn", þ.e. hann var fræg persóna um gjörvallan heim og allir höfðu myndað með sér eigin hugmyndir um hvernig hann talaði, að finna rétta rödd fyrir "flækinginn" hefði verið vandasamt verk og hugsanlega eyðilagt persónuna. Margar frægar persónur sáu verk Chaplins á frumsýningu, þar á meðal Albert Einstein. Lýsing. Myndin fjallar í stuttu máli um fræga persónu Chaplins „The Tramp“ (ísl. Flækingurinn) sem að kynnist blindri og fátækri stúlku, sem vinnur fyrir sér með blómasölu. Flækingurinn verður afar hrifinn af henni og gerir allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa stúlkunni þegar hún veikist og hefur ekki efni á húsaleigunni. 1648. Árið 1648 (MDCXLVIII í rómverskum tölum) var 48. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1663. Árið 1663 (MDCLXIII í rómverskum tölum) var 63. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Bláturn á koparstungu frá 1611. Kirkjuból (Steingrímsfirði). Kirkjuból í Steingrímsfirði er jörð á Ströndum. Þar er nú rekin ferðaþjónusta. Fyrrum var kirkja á Kirkjubóli, en síðustu heimildir um hana eru frá 17. öld. Þar kvæntist Jón lærði Guðmundsson konu sinni árið 1600. Þarna var einnig þingstaður Kirkjubólshrepps fyrrum, en sá hreppur var árið 2002 sameinaður Hólmavíkurhrepp. Þekktur aftökustaður á Kirkjubóli er Lákaklettur. Jón lærði Guðmundsson. Jón lærði Guðmundsson (1574 – 1658) var víðkunnur fræðimaður, handritaskrifari, handverksmaður, auk þess sem hann sinnti lækningum og var álitinn fjölkunnugur. Hann var þrátt fyrir það ómenntaður alþýðumaður. Jón fæddist í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574 og ólst upp þar og á Ósi við Steingrímsfjörð. Hann var ýmist nefndur Jón málari eða smiður eða tannsmiður (hann skar út í hvaltennur) en hlaut síðar viðurnefnið hinn lærði. Á árunum 1611 – 12 er sagt að Jón lærði hafi kveðið niður tvo drauga að Stað á Snæfjallaströnd með mögnuðum galdrasæringum, kvæðunum Fjandafælu og Snjáfjallavísum. Þau eru bæði varðveitt. Jón kvæntist haustið 1600 Sigríði Þorleifsdóttur frá Húsavík í Steingrímsfirði og áttu þau soninn Guðmund Jónsson, prest á Hjaltastöðum. Jón lærði andmælti Spánverjavígunum 1615 opinberlega, en hrökklaðist eftir það af Vestfjörðum undan sýslumanninum Ara í Ögri. Eftir það settist hann að undir Jökli og stundaði meðal annars lækningar en var kærður fyrir galdra og dæmdur útlægur af landinu. Jón fór til Kaupmannahafnar og fékk málið tekið upp að nýju en á Alþingi 1637 var dómurinn staðfestur. Jón fékk þó að lifa það sem eftir var ævinnar austur á Héraði hjá syni sínum, mest fyrir tilstilli Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti. Jón lærði skrifaði fjölda handrita sem hafa varðveist. Verk. Eftir Jón liggja ýmis kvæði, eins og Fjölmóður, ævidrápa, Snjáfjallavísur, Fjandafæla, Áradalsvísur og Fuglakvæði, rímur eins og Ármannsrímur, Rímur af Fertram og Plató og Spánverjarímur. Hann á einnig ritgerðir eins og Stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur og Víg Spánverja í Æðey. Einnig stutt rit eins og Um nokkurra grasa náttúrur, Um hulin pláz og yfirskyggða dali á Íslandi, Samantekt um skilning á Eddu, Lækningabók, Tidsfordrif, Augnamerkingar. Einnig Uppdráttur Grænlands. Krukksspá hefur einnig verið eignuð honum. 1662. Árið 1662 (MDCLXII í rómverskum tölum) var 62. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Hefðbundin Punch og Judy-sýning í Swanage. Spánverjavígin. Spánverjavígin er heiti sem haft er um þá atburði sem urðu á Vestfjörðum haustið 1615, þegar allmargir baskneskir skipbrotsmenn voru drepnir á grimmilegan hátt. Basknesku hvalveiðimennirnir komu frá bæði spænska og franska hluta Baskalands. Þeir fóru að venja komur sínar á Íslandsmið snemma á 17. öld, eftir að hafa verið hraktir frá Nýfundnalandsmiðum. Sumarið 1615 héldu þrjú hvalveiðiskip til við Strandir og höfðu aðstöðu í Reykjarfirði, þar sem hvalurinn var bræddur, og höfðu þeir því töluverð samskipti við landsmenn og versluðu við þá með ýmsan varning. Á Alþingi um sumarið var lesið upp konungsbréf þar sem allar hvalveiðar útlendinga við landið voru bannaðar og munu Baskarnir hafa haft spurnir af því og voru eftir það sérlega varir um sig. Skipstjórarnir á skipunum þremur hétu Marteinn, Stefán og Pétur. Um haustið fóru þeir að huga að heimferð en þann 21. september skall á illviðri og brotnuðu öll skipin. 83 menn komust í land en þrír drukknuðu. Þeim tókst næstum engu að bjarga nema nokkrum árabátum og voru því bjargarlausir. Sumir heimamanna höfðu samúð með þeim og vildu taka þá til dvalar en aðrir töldu Baskana á að þeim væri best að skipta sér upp í hópa og dreifa sér um Vestfirði. Þeim var líka sagt frá haffærri skútu sem til væri á Dynjanda í Leirufirði en hún hefði að vísu aldrei dugað þeim til siglingar yfir hafið. Þeir héldu því á bátum sínum norður fyrir Hornstrandir og reru inn á Ísafjarðardjúp. Eftir að hafa rænt skútunni í Leirufirði skiptu þeir sér í hópa. Þeir sem verið höfðu á skipum Stefáns og Péturs, 51 að tölu, tóku skútuna og sigldu á henni suður með Vestfjörðum. Menn Marteins skiptust í tvo hópa og fór hann sjálfur með 17 menn í Æðey en hinir 14 reru fyrst til Bolungarvíkur og síðan til Dýrafjarðar. Þar rændu þeir salti og skreið úr kaupmannshúsum á Þingeyri og bjuggu svo um sig í sjóbúðum á Fjallaskaga, yst á nesinu norðan fjarðarins. Dýrfirðingar drógu þegar saman lið, fóru að þeim aðfaranótt 5. október og drápu þá þar sem þeir sváfu, nema einn unglingur gat falið sig. Voru líkin svo afklædd og þeim varpað í sjóinn. Unglingurinn sem slapp gat gert löndum sínum á skútunni vart við sig þegar þeir sigldu hjá og björguðu þeir honum. Þegar þeir fréttu hvað gerst hafði sigldu þeir suður á Patreksfjörð, þar sem þeir brutu upp dönsku verslunarhúsin á Vatneyri og bjuggust þar til vetursetu. Þegar Ari Magnússon sýslumaður í Ögri frétti af atburðum í Dýrafirði byrjaði hann á að kveða upp dóm þar sem Baskarnir voru dæmdir réttdræpir óbótamenn svo allt væri nú löglegt. Hann safnaði síðan liði og hafði fimmtíu manna flokk. Var sagt að ekki hefðu allir verið þar af fúsum og frjálsum vilja. Vegna illviðris var það ekki fyrr en 14. október sem liðið fór út í Æðey og voru þá aðeins fimm Baskar þar fyrir, hinir höfðu náð að veiða hval og voru að skera hann á Sandeyri á Snæfjallaströnd. Drápu Ari og menn hans Baskana í Æðey og héldu síðan til Sandeyrar. Var Marteini skipstjóra lofað griðum ef þeir afhentu vopn sín og gerðu þeir það en þó var höggvið til Marteins um leið og hann kom út. Hljóp hann þá út í sjó og synti um en var eltur uppi á bát, dreginn í land, afklæddur og drepinn á hroðalegan hátt. Menn Marteins börðust í örvæntingu fyrir lífi sínu og gekk illa að vinna þá þar til Magnús, sextán ára sonur Ara, gat fellt þá einn af öðrum með byssuskotum. Voru líkin svo afklædd og vanvirt á ýmsan hátt. Þeir sem höfðu verið á skútunni og búið um sig á Vatneyri beittu ýmsum ráðum til að sjá fyrir sér, réru til fiskjar og fóru um sveitir og leituðu sér matar þótt lítið væri að hafa. Þeir áttu ýmis samskipti við fólk þar í grenndinni og ekki öll óvinsamleg. Meðal annars er sagt að Ragnheiður Eggertsdóttir, móðir Ara í Ögri, hafi gert vel við þá. Ari fór í janúar 1616 með hundrað manna lið og ætlaði að ná þeim, hitti einhverja þeirra fyrir í Tálknafirði og tókst að drepa einn og særa annan með byssuskoti en hinir sluppu og vegna veðurs og ófærðar treysti Ari sér ekki til að fara að þeim á Vatneyri. Þeir voru því þar allan veturinn og um leið og fyrsta enska fiskiskipið sást við landið um vorið reru þeir að því og tókst að hertaka það. Þeir sigldu svo burt og er ekki vitað hvað um þá varð eða hvort þeir komust aftur heim. Brynjólfur Sveinsson. Brynjólfur Sveinsson (14. september 1605 – 5. ágúst 1675) var Skálholtsbiskup frá 15. mars 1639 til 1674 og var ásamt öðrum íslenskum fyrirmönnum á Kópavogsfundinum árið 1662. Teikning af honum er á íslenska 1000 króna seðlinum. Æviferill. Brynjólfur fæddist í Holti í Önundarfirði, sonur Sveins Símonarsonar prests þar og síðari konu hans, Ragnheiðar, dóttur Staðarhóls-Páls Jónssonar og Helgu Aradóttur. Var Jón Arason biskup langafi hans. Hann þótti afburðanámsmaður og var orðlagður grískumaður. Hann var í Skálholtsskóla 1617-1623 og lærði við Kaupmannahafnarháskóla 1624-1629. Þá kom hann heim en fékk ekki embætti sem honum líkaði svo að hann las grísku heima í Holti en sigldi aftur til Kaupmannahafnar 1631 og hélt áfram námi. Ári síðar var hann ráðinn konrektor við Hróarskelduháskóla 1632-1638. Þá fór hann heim til Íslands í heimsókn og ætlaði síðan að mennta sig enn frekar suður í Evrópu, var búinn að fá fjárstyrk til þess frá Hróarskelduháskóla, en var þá kjörinn biskup í Skálholti þvert gegn vilja sínum. Hann reyndi að koma sér undan embættinu, sagðist fyrst og fremst vera skólamaður og kennari en ekki guðfræðingur, en það var einmitt talin þörf á slíkum manni til að efla skólann í Skálholti og Brynjólfur var biskup næstu 35 árin. Brynjólfur var áhugasamur um náttúruvísindi og hugvísindi, safnaði fornritum og var áhugamaður um útgáfu þeirra. Hann reyndi að fá leyfi fyrir prentsmiðju í Skálholti, en það strandaði á mótspyrnu Þorláks biskups á Hólum, sem vildi sitja einn að allri prentun í landinu. Biskupsstóllinn í Skálholti þótti dafna vel í biskupstíð Brynjólfs, enda var fremur gott í ári og Brynjólfur góður fjáraflamaður. Hann var einn af helstu leiðtogum landsins og átti góð samskipti við Hinrik Bjelke höfuðsmann þótt hann yrði að láta að vilja hans á Kópavogsfundi. Verk. Brynjólfur var latínuskáld og þýddi meðal annars Nýja testamentið beint úr grísku en fékk ekki prentað. Af ritverkum Brynjólfs eru þekktar ritgerðirnar "Um meðgöngutíma kvenna" og "Um eiða og undanfærslu í legorðsmálum", "Æviminning Vigfúsar Hákonarsonar í Bræðratungu, Ritgerð um nafnið Svíþjóð, Historica relatio de rebus Islandiæ". Einnig er honum ætluð "Lækningabók". Brynjólfur stóð fyrir byggingu nýrrar timburkirkju í Skálholti 1650, sem síðar hefur verið kölluð „Brynjólfskirkja“. Kirkjan fullgerð var myndarbygging, en talsvert minni en miðaldakirkjurnar þar, en hún stóð uppi til ársins 1802. Kirkjunni var þannig lýst á 18. öld að hún væri "mikið há með tréturni sem í hangi klukkur, byggð í kross með 2 stúkum sinni á hvorri hlið, öll af timbri, tvísúðuð og glerglugguð og prýdd að innan með máluðum biskupamyndum". Fjölskylda. Brynjólfur kvæntist 30. ágúst 1640 Margréti Halldórsdóttur (4. desember 1615 - 21. júlí 1670), dóttur Halldórs Ólafssonar lögmanns á Grund í Eyjafirði og konu hans Halldóru Jónsdóttur (Björnssonar Jónssonar Arasonar). Voru þau þremenningar og þurftu undanþágu til hjúskaparins. Þau eignuðust sjö börn en einungis tvö þeirra komust á legg. Halldór sonur þeirra dó hálfþrítugur í Yarmouth á Englandi 1666. Ragnheiður Brynjólfsdóttir dóttir þeirra eignaðist barn í meinum og lést ári eftir barnsburðinn einungis 22 ára gömul. Brynjólfur tók son hennar, Þórð Daðason, að sér og arfleiddi að öllum eigum sínum. Pilturinn lést aðeins 11 ára gamall og svo fór að Brynjólfur skildi enga afkomendur eftir sig. 1615. Árið 1615 (MDCXV í rómverskum tölum) var fimmtánda ár 17. aldar sem byrjaði á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Hallgerður Höskuldsdóttir. Hallgerður Höskuldsdóttir (10. öld) var þekkt undir nafninu "Hallgerður langbrók", að líkindum vegna þess að hún hefur verið hávaxin og leggjalöng. Hallgerður var dóttir Höskuldar Dala-Kollssonar og konu hans, Jórunnar Bjarnardóttur, sem bjuggu á Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Hún var systir þeirra Þorleiks og Ólafs páa, en frá sonum þeirra, Bolla og Kjartani, segir í Laxdæla sögu. Hallgerður þótti kvenna fríðust, en var að sama skapi geðstór og óstýrilát. Fóstri hennar hét Þjóstólfur og var hann vígamaður mikill. Hallgerður var ung að árum er faðir hennar gifti hana að henni forspurðri og líkaði henni það stórilla. Fyrsti maður hennar var Þorvaldur Ósvífursson er bjó undir Felli á Meðalfellsströnd (Staðarfelli á Fellsströnd). Hann sló Hallgerði utan undir er hún sakaði hann um nísku og fyrir það drap Þjóstólfur hann. Síðar giftist hún Glúmi Óleifssyni, en bræður hans voru Ragi og Þórarinn lögsögumaður. Bjuggu þau á Varmalæk í Borgarfirði. Dóttir þeirra hét Þorgerður Glúmsdóttir og varð hún húsfreyja á Grjótá í Fljótshlíð, gift Þráni Sigfússyni, sem Skarphéðinn drap og var móðir Höskuldar Hvítanessgoða. Hallgerður og Glúmur unnust mjög en þó sló Glúmur hana kinnhest og fyrir það drap Þjóstólfur hann einnig þó svo að Hallgerður bæði honum griða. Hallgerður skipti löndum við Þórarin mág sinn, hann fékk Varmalæk en hún Laugarnes við Reykjavík. Nokkru síðar giftist hún Gunnari Hámundarsyni á Hlíðarenda og var húsfreyja þar. „Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur hingað“ sagði Njáll á Bergþórshvoli við Gunnar um þann ráðahag. Eitt vor varð þurrð í búi þeirra Hlíðarendahjóna og sendi Hallgerður þá Melkólf þræl til að stela í Kirkjubæ á Rangárvöllum, en þar hafði hann verið áður og þekkti öll húsakynni. Er Gunnar komst að þessu sló hann Hallgerði kinnhest og kvaðst ekki vilja vera þjófsnautur. Þennan kinnhest mundi hún honum er hún neitaði að gefa honum lokk úr hári sínu áður en hann var veginn. Hefur það verið túlkað á ýmsa vegu af bókmenntafræðingum. Synir Gunnars og Hallgerðar voru Grani og Högni og var Högni vinur Skarphéðins, en Grani ekki. Eftir víg Gunnars fór Hallgerður að Grjótá til Þorgerðar dóttur sinnar. Síðar fluttist hún að Laugarnesi við Reykjavík, sem var eignarjörð hennar eftir Glúm mann sinn. Þar bjó hún um nokkurt skeið og dó þar nokkru eftir kristnitöku. Hallgerðarleiði hét þúst eða stór þúfa, sem nú er horfin undir gatnamót Kleppsvegar og Laugarnesvegar. Henni fylgdi sú sögn að þar lægi Hallgerður grafin, en einnig er til sú sögn að legstaður hennar sé í Laugarneskirkjugarði. Þegar grafið var í þúfuna árið 1921 fannst þar gjallhaugur og einhverjar hleðslur. Reykjarfjörður nyrðri. Reykjarfjörður nyrðri er kallaður svo til aðgreiningar frá Reykjarfirði í Árneshreppi. Hann fór í eyði árið 1959, en húsin standa enn og er vel við haldið. Það er sumarbyggð í Reykjarfirði en þangað koma afkomendur gömlu ábúendanna hvert vor og nýta hlunnindin langt fram á haust. Í Reykjarfirði er hverasvæði og heitasta laugin er um 64 gráður. Þar er sundlaug sem byggð var árið 1938. Önnur hlunnindi sem fylgja jörðinni eru mikill rekaviður og seltaka. Mikla sögunarverksmiðju er að finna niðri við ströndina. Í Reykjarfjörð gengur lengsti skriðjökullinn fram úr norðanverðum Drangajökli og frá honum kemur Reykjarfjarðarós sem er heitið á jökulánni sem fellur niður dalinn fram í Reykjarfjörð. Ótal örnefni eru kunn í Reykjarfirði sem gefa til kynna að fleiri býli hafi verið þar á öldum áður, en lagst af vegna framskriðs jökulsins eða rennslisbreytinga óssins. Vinsæl gönguleið er frá Reykjarfirði og suður Strandir í Ófeigsfjörð og einnig yfir Reykjarfjarðarháls norður til Þaralátursfjarðar og þaðan yfir Svartaskarð til Furufjarðar. Þar er komið inn á hinar eiginlegu Hornstrandir. Í firðinum sunnanverðum er sæmileg flugbraut sem ábúendur halda við yfir sumarið. 1605. Árið 1605 (MDCV í rómverskum tölum) var ár sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu, eða þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. Atburðir. Forsíða fyrsta fréttablaðsins, "Relation Aller Fuernemmen und gedenckwuerdigen Historien" frá 1609. 1675. Árið 1675 (MDCLXXV í rómverskum tölum) var 75. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Ægishjálmur. Ægishjálmurinn hefur verið merki Strandasýslu frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930, sem haldin var í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis. Fyrir þá hátíð teiknaði Strandamaðurinn Tryggvi Magnússon drög að öllum sýslumerkjunum. Stafurinn er oft notaður í húðflúr, eins og fleiri galdrastafir. Holland. Konungsríkið Holland (hollenska: "Koninkrijk der Nederlanden") er vesturevrópskt land staðsett við Norðursjó. Það er 41.546 km² að stærð og því tæplega hálfdrættingur á við Ísland. Stór hluti landsins er neðan sjávarmáls. Landið var efnahagslegt stórveldi frá 16. öld til 18. aldar. Holland er í Evrópusambandinu. Höfuðborgin er Amsterdam, þó svo að stjórnsýsla landsins sé í Haag. Lega og lýsing. Þannig liti Holland út í dag án sjávarvarnargarða Holland liggur syðst við Norðursjó í Vestur-Evrópu, gegnt Bretlandi. Það á landamæri að Þýskalandi í austri og Belgíu í suðri. Holland er ákaflega flatt land og býr við það að þrjú stórfljót eiga óshólma sína innan landsins: Rín, Maas og Schelde. Fyrir vikið hefur vesturhluti strandlengju landsins mótast af ám og óshólmum. Auk þess hafa stormflóð brotið niður landið við vestur- og norðvesturströndina og hefur það mótað mannlíf í gegnum aldirnar. Á 20. öld hófst gríðarstórt verkefni landsins (Deltaplan) við að temja vatnið, bæði sjóinn og árnar, með víðáttumiklum varnargörðum, skurðum og dælukerfi. Fyrir vikið er stór hluti landsins neðan sjávarmáls. Íbúar eru 16,5 milljónir. Til Hollands teljast einnig Vesturfrísnesku eyjarnar undan norðurströndinni, sem og nokkrar gamlar nýlendur í Vesturheimi (Hollensku Antillaeyjar og Arúba). Orðsifjar. Holland hét upphaflega Holtland (eða Holtlant), sem merkir "skógarland". Þó er Holland eingöngu eitt (reyndar tvö) af tólf héruðum landsins. Upphaflega kallaðist landið allt, ásamt Belgíu, Niðurlönd ("Nederlanden") í fleirtölu. Heitið er til komið sökum þess að þeim var stjórnað af hertoganum frá Búrgund og hann kallaði löndin neðri löndin, í þeirri merkingu að þau lægju neðar með stórfljótunum. Þegar sjálfstæði Hollands var viðurkennt 1648 hét það Nederlanden (Niederlande á þýsku, Netherlands á ensku, Pays bas á frönsku). En sökum þess að héraðið Holland er aðalhérað landsins og tók sig mest fram í sjálfstæðisstríðinu við Spánverja, fóru menn að nota orðið Holland um landið allt. Á íslensku hefur orðið Niðurlönd aldrei verið mikið notað, en hafa ber í huga að landið heitir opinberlega Nederlanden á hollensku og það getur verið móðgun við marga Hollendinga að kalla landið Holland, ekki ólíkt því að tala um allt Bretland sem England. Mannfjöldi. Íbúar Hollands eru tæplega 17 milljónir talsins og búa flestir í stórborgunum í vesturhluta landsins. Holland er meðal þéttbýlustu landa heims, en þar búa að jafnaði 397 íbúar á km2. Rétt tæp 20% landsmanna eru af erlendum uppruna, flestir frá Indónesíu, eða tæp 390 þús manns en rétt á eftir koma Þjóðverjar (380 þús manns). Tungumál. Kort af útbreiðslu trúfélaga. Grænt er þar sem kaþólikkar eru í meirihluta, rautt þar sem kalvínistar eru í meirihluta. Í Hollandi eru töluð tvö viðurkennd tungumál: hollenska og frísneska. Hollenska er vesturgermanskt tungumál og náskylt þýsku. Nokkur munur er á málinu eftir landsvæðum, en það er einnig talað sums staðar í Belgíu auk núverandi og fyrrverandi nýlenda Hollendinga en einnig er tungumálið afríkanska ("afrikaans"), sem talað er í sunnanverði Afríku upprunnið úr hollensku. Frísneska er nær eingöngu töluð í héraðinu Fríslandi og á Frísnesku eyjunum undan norðurströndinni. Málið er náskylt þýsku og dönsku og er einnig talað í strandhéruðum Þýskalands við Norðursjó. Þeir íbúar Hollands sem tala frísnesku, tala einnig hollensku. Trú. Trú manna í Hollandi er ákaflega misjöfn, meira en gengur og gerist í Vestur-Evrópu. 44% landsmanna kenna sig ekki við nein trúarbrögð, hvorki kristin né önnur en það er eitt stærsta hlutfall á vesturlöndum. 26% eru kaþólskir og 11% mótmælendur (flestir eru Kalvínstrúar), og 5% múslimar. Flestir kaþólikkar búa í suðurhluta landsins (Limburg og Brabant). Þjóðfáni og skjaldarmerki. Fáni Hollands er þrjár láréttar rendur: Rauð, hvít og blá. Þessi þrílita fáni notaði prinsinn Vilhjálmur frá Óraníu-Nassau í fyrsta sinn 1579 í bardaga gegn Spánverjum í frelsisstríði landsins. Upphaflega var ekki rautt, heldur appelsínugult í fánanum sem tákn Óraníuættarinnar, en skipt var á litum 1630. Fáninn kallast prinsenvlag ("prinsaflaggið") og var formlega samþykktur af Vilhelmínu drottningu 1937. Skjaldarmerki Hollands er gullið ljón á bláum fleti. Tvö önnur gullin ljón eru sitthvoru megin við og efst er gullkóróna. Neðst er borði með áletruninni: Je Maintiendrai, sem merkir "ég mun vara". Yfir þessu öllu er sveipaður konunglegur möttull og enn ein kórónan efst. Skjaldarmerkið var innleitt 1815 við stofnun konungsríkis Hollands og er samsett af merkjum Hollands og valdaættarinnar Óraníu-Nassau. Stjórn. Í Hollandi er þingbundin konungsstjórn. Konungur/drottning landsins velur forsætisráðherran og aðra ráðherra í samráði við forystu stjórnmálaflokkanna. Venjulega er sá maður valinn sem er formaður stærsta stjórnmálaflokksins eftir almennar þingkosningar. Þingið samanstendur af tveimur deildum. Í efri deild eru fulltrúar fylkja, en í neðri deild eru frambjóðendur kosnir beint í almennum kosningum. Þingkosningar voru síðast 2010 og í framhaldið varð Mark Rutte nýr forsætisráðherra, en hann tók við af Jan Peter Balkenende. Mark Rutte er forsætisráðherra Hollands síðan 2010 Konungar/drottningar Hollands frá stofnun konungsríkisins. Allir nema Emma eru af Óraníu-Nassau ættinni sem á uppruna sinn í Þýskalandi. Her. Samkvæmt stjórnarskránni fer ríkistjórn landsins með yfirstjórn hersins. Hann skiptist í fjórar deildir: Landher, sjóher, flugher og þjóðarlögreglan. Allt í allt starfa um 44 þús manns sem hermenn í öllum þessum deildum. Í Hollandi var herskylda allt til 1996, en síðan þá hefur hernum verið breytt í atvinnuher. Verkefni hersins eru að verja móðurlandið og Hollensku Antilleyjar fyrir hugsanlegri árás óvina. Í samvinnu við NATÓ og Sameinuðu þjóðirnar starfar herinn einnig að alþjóðlegum verkefnum, og aðstoðar gjarnan við hamfarir. Útgjöld vegna hernaðar nema 1,4% af heildartekjum landsins. Höfuðborg. a> í Hag er aðsetur hollenska þingsins Höfuðborg Hollands er Amsterdam, þrátt fyrir að ríkistjórnin sitji ekki þar. En samkvæmt stjórnarskrá landsins er Amsterdam höfuðborgin. Þar er aðsetur þjóðhöfðingjans og hefur verið síðan Hollandi var breytt í konungsríki 1815. Ríkisstjórnin situr í borginni Haag, sem er höfuðborg fylkisins Suður-Hollands. Þar er einnig Alþjóðadómstóllinn með aðsetur. Gjaldmiðill. Gjaldmiðill Hollands er evran en hún var tekin upp þar í landi 2002. Áður notuðu Hollendingar gyllini ("Gulden"). Gyllinið var notað sem mynt í ýmsum löndum í Evrópu. Hollendingar byrjuðu að nota gyllini að einhverju leyti allt frá 1378 þegar Vilhjálmur V greifi af Hollandi og Sjálandi ("Zeeland") lét þrykkja fyrstu slíku myntina. Opinberlega var gyllinið tekið í notkun 1601. Árið 1999 var evran fyrst notuð í uppgjöri fyrirtækja, en 1. janúar 2002 tók hún við sem gjaldmiðill landsins. Upphaf. Niðurlönd voru hluti af frankaríkinu mikla sem Karlamagnús setti saman. Eftir fráfall hans skiptist ríkið í þrennt 843 og lentu Niðurlönd í miðríkinu, Lóþaringíu. Þegar því var hins vegar skipt milli franska ríkisins og þýska ríkisins 855, lentu þau í þýska ríkinu. Þar var hins vegar engin ríkisheild, heldur stjórnuðu greifar og furstar löndunum. Niðurlöndum var stjórnað af greifanum frá héraðinu Hollandi, hertoganum frá Geldern og hertoganum frá Brabant. Auk þess af biskupnum frá Utrecht. Það var hertoginn frá Búrgúnd sem sameinaði löndin. Búrgúnd var staðsett við Rínarfljót ofanvert og því var byrjað að tala um héruðin sem "löndin neðan fljóta" (Niðurlönd). Eftir að Karl hinn hugrakki, hertogi Búrgúnd, lést í orrustunni við Nancy 1477, erfði María dóttir hans öll Niðurlönd. Hún missti móðurlandið (Búrgúnd) til Frakklands, en hélt Niðurlöndin eftir. Eiginmaður hennar var Maximilian frá Habsborg og stjórnuðu þau Niðurlöndum frá Brussel. Habsborg. Vilhjálmur hertogi af Óraníu-Nassau var leiðtogi uppreisnarmanna Með andláti Maríu og Maximilians erfði Habsborg Niðurlöndin. Árið 1506 erfði Karl V Niðurlönd en hann var þá aðeins 6 ára gamall. Karl var barnabarn Maríu og Maximilians. Árið 1519 var Karl kjörinn sem keisari þýska ríkisins og sem aðalerfingi Habsborgara ríkti hann yfir þýska ríkinu, Austurríki, Spán og Niðurlönd. Á hans tíma hófust siðaskiptin, bæði með Lúther í þýska ríkinu og með Kalvín og Zwingli í Sviss. Kalvínisminn breyddist hratt út og áður en varði var stór hluti Niðurlanda heltekinn af honum, sérstaklega í norðurhéruðunum. Karl V keisari gat lítið við ráðið á Niðurlöndum, því trúaróróinn í þýska ríkinu hélt honum uppteknum þar. Karl sjálfur var strangtrúaður kaþólikki. 1556 lét hann af völdum og deildi ríkinu með nokkrum erfingjum. Bróðir hans, Filippus, fékk Spán og Niðurlönd. Filippus var einnig strangtrúaður kaþólikki og mislíkaði hvernig Niðurlöndin meðtóku siðaskiptin. Hann hóf því að ofsækja alla kalvínista og aðra sem ekki voru kaþólskrar trúar. Í kjölfarið gerðu norðurhéruðin uppreisn gegn Filippusi, sem sjálfur sat á Spáni. Landstjórinn í Brussel, Margrét frá Parma, réði ekki við ástandið, og því skipaði Filippus hertogann af Alba sem landstjóra á Niðurlöndum árið 1567. Alba stjórnaði þar með þvílíkri grimmd og offorsi að við lá algerri upplausn í löndunum. Til að mynda lét hann spænska hermenn sína ræna og rupla í Antwerpen í þrjá heila daga en borgin var kalvínísk á þessum tíma. Einnig lét hann safna sex þúsund af helstu uppreisnarmönnum Niðurlendinga til Brüssel og lét slátra þeim þar. Uppreisn Niðurlendinga varð að frelsisstríði. 80 ára stríðið. Frelsisstríð Niðurlendinga stóð yfir með hléum í 80 ár. 1573 var Alba kallaður heim og Requesens tók við af honum sem landstjóri. Ekki fórst honum betur að stjórna landinu. Í fyrsti bauð hann íbúunum sáttarhönd, en krafðist síðan himinhárra skatta. Við það færðust Niðurlendingar í aukanna og söfnuðu liði. Fyrsta orrustan var háð 1574 við Middelburg í Sjálandi ("Zeeland"). Þar sigruðu Niðurlendingar og hröktu þeir Spánverja burt. Foringi uppreisnarmanna var Vilhjálmur af Óraníu, en bróðir hans, Lúðvík af Nassau, féll í orrustunni. Ári síðar náðu uppreisnarmenn borgina Leiden á sitt vald, sem og héruðin Holland og Sjáland. Floti Hollendinga átti stóran þátt í þessum sigrum, því hann stöðvaði alla flutninga spænskra skipa. Eftirmaður Requesens varð Jóhann af Austurríki. Í tíð hans settust öll sautján héruð Niðurlanda að samningaborði við Jóhann, þar sem saminn var friður. Þetta var síðasta sameiginlega verk hinna 17 héraða. Friðurinn var úti 1579, enda mismunaði Jóhann íbúunum eftir trú þeirra. Hann hyglaði kaþólikkum, en hóf að ofsækja aðra á ný. Ástandið varð óþolandi og settust fulltrúar sjö héraða í norðri niður í Utrecht og gerðu með sér bandalag (Utrecht-bandalagið). Þetta voru héruðin Holland, Sjáland, Groningen, Utrecht, Frísland, Gelderland og Overijssel. Héruðin Brabant og Flandur voru með í bandaladinu. En 1581 sagði bandalagið (án Brabant og Flandur) sig úr lögum við spænska landstjórann í Brussel og lýstu yfir sjálfstæði. Leiðtogi þeirra var Vilhjálmur af Óraníu. Stríðið hófst á ný. Spánverjar hertóku Brabant og Flandur og settust um ýmsar borgir í suðurhluta Niðurlanda. Á næstu árum höfðu stríðsaðilar ýmist betur. 1601 féll Antwerpen á ný og 1604 féll Oostende. Samið var um vopnahlé 1609 en samfara 30 ára stríðinu brutust átök út á ný eftir tólf ár. Spánverjar náðu Breda eftir nokkurra ára umsátur, en á móti náðu Hollendingar Haag og Maastricht. Spánverjar liðu fyrir erfiða flutninga á vörum og hermönnum, því eftir ósigur flotans (Armada) gegn Englendingum 1588 var sjóveldi þeirra brotið. Hollendingar og Spánverjar sömdu um frið samfara friðarsamningunum í Vestfalíu eftir 30 ára stríðið. Í samningunum viðurkenndu Spánverjar sjálfstæði Hollands, það er að segja norðurhéraða Niðurlanda. Suðurhlutinn (seinna Belgía) var enn eign Spánar. Gullaldarárin. Skip Austur-Indíafélagsins. Málverk eftir Hendrick Corneliszoon Vroom Meðan sjálfstæðisstríðið geysaði enn hófu Hollendingar að sigla um heimsins höf og stofna nýlendur víða í heimi. Fyrsta nýlenda Hollendinga var eyjan Máritíus í Indlandshafi 1598. Þar með hófst gullöld Hollendinga í siglingu og verslun. 1602 var hollenska Austur-Indíafélagið stofnað, en Hollendingar eignuðu sér nýlendur víða í Suður-Asíu, svo sem Indónesíu, Síam (Tælandi) og Indlandi. Helsta nýlendan var Batavía á eyjunni Jövu (nú Jakarta). 1620 eignuðu Hollendingar sér fyrstu nýlenduna í Vesturheimi með St. Maarten. 1624 stofnuðu þeir landnám í Nýju Hollandi ("Nieuw Holland") í Norður-Ameríku. Höfuðstaðurinn hét Nýja Amsterdam á eyjunni Manhattan. Önnur þorp voru til dæmis Breukelen og Haarlem. Um miðja 17. öld hófst hins vegar fyrsta verslunarstríðið við Englendinga. Þegar Oliver Cromwell varð einvaldur í Bretlandi, hófst aggressíf stefna Breta í nýlendum bæði í vestri og í austri. Í kjölfarið hófst annað verslunarstríð Hollands og Bretlands. Í því hertóku Bretar Nýju Amsterdam og hröktu alla Hollendinga þaðan. Nýja Amsterdam breyttist í enska nýlendu og kallaðist New York. Bæirnir Haarlem og Breukelen (Brooklyn) urðu sömuleiðis enskir. Fyrsta nýlenda Hollendinga í Afríku var Grænhöfði í Senegal 1617. En stærsta landnám Hollendinga var í Suður-Afríku en þar var nýlenda stofnuð 1652. Hollendingar dreifðu sér víða um suðurhluta álfunnar en Bretar innlimuðu það í heimsveldi sitt í Búastríðinu 1889-1902. Margar af þessum nýlendum glötuðu Hollendingar til Breta, aðrar voru yfirgefnar og enn aðrar hlutu sjálfstæði, svo sem Indónesía 1949 og Súrínam 1975. Í dag eiga Hollendingar aðeins örfáar eyjar í Vesturheimi. Meðan gullöld Hollendinga stóð yfir var einnig mikill uppgangur í vísindum og menningu. Fyrsti háskóli Hollands var stofnaður í Leiden 1575. Meðal þekktra hollenskra vísindamanna á þessum tímum má nefna Christiaan Huygens og Antoni van Leeuwenhoek. Meðal þekktra málara má nefna Rembrandt, Jan Steen og Frans Hals. Gullaldarár Hollands hnigu til viðar síðla á 17. öld. Kom þar til að þriðja verslunarstríð við Breta frá og með 1672 endaði í ósigri. Hollendingar kalla þetta ár Rampjaar ("hamfaraár"). Í stríðinu þrömmuðu herir frá Frakklandi og þýska ríkinu inn í Holland. Í kjölfarið misstu Hollendingar margar nýlendur og Bretar tóku við sem helsta siglingaþjóð heims. Síðasta nýja nýlenda Hollendinga var Petit Popo í Tógó árið 1731 (yfirtekin af Frökkum 1760). Árið 1689 ráku Englendingar af sér konung sinn, Jakob II, og kölluðu eftir Vilhjálmi landstjóra í Hollandi en eiginkona hans var náin erfingi. Vilhjálmur sigldi undir eins til Englands og tók við völdum sem Vilhjálmur III. Bretland og Holland voru því undir sama þjóðhöfðingja í skamman tíma. Franski tíminn. Vilhjálmur I., fyrsti konungur Niðurlanda 1815. 1780 var Holland fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Bandaríkjanna. Út frá því hófst fjórða stríðið við Englendinga sem aftur leiddi til borgarastríðs og efnahagshruns. Því var vart lokið er franskur byltingarher hertók Holland 1795 og stofnaði lýðveldi sem kallaðist Batavíska lýðveldið. Það var ekkert annað en leppríki Frakklands. Fjórum árum síðar bætti Napoleon Belgíu og Lúxemborg við og breytti nýja ríkinu í konungsríki. Konungur þess var Lúðvík Bonaparte, bróðir Napoleons. Ríki þetta varaði stutt, því Napoleon var mjög ósáttur hvernig bróður sinn rak ríkið. Lúðvík Bonaparte bar nefnilega hagsmuni Niðurlendinga ofar hagsmunum Frakka. Því setti Napoleon bróður sinn af 1810 og innlimaði Niðurlönd Frakklandi. Þeim var eftirleiðis stjórnað frá París. Eftir hinn misheppnaða Rússlandsleiðangur Napoleons 1813, voru Frakkar hraktir úr landi. Holland, Belgía og Lúxemborg stofnuðu stórt sameiginlegt ríki og lýstu yfir sjálfstæði. Þetta ríki hlaut viðurkenningu Vínarfundarins 1815 og gildir það ár sem stofnár ríkisins. Konungur þessa ríkis varð Vilhjálmur I af ætt Óraníu-Nassau. Þrátt fyrir að Belgar voru loks sjálfstæðir og lausir undan yfirráðum erlendra ríkja, voru þeir óánægðir með nýja fyrirkomulagið. Ástæðan var einföld. Þeim fannst Hollendingar líta á sig sem annars flokks þegna. Belgar voru enn kaþólskir en Hollendingar kalvínistar og reformeraðir. Belgía var iðnvæddara land en Hollendingar notfærðu sér tækni þeirra og skatta. Að lokum töluðu margir Belgar frönsku, meðan aðalmálið í Hollandi var hollenska. 1830 gerðu Belgar byltingu og sögðu sig úr sambandi við Holland. Vilhjálmur sendi herlið til suðurs en neyddist til að draga það til baka er Frakkar sendu einnig herlið til landamæra Belgíu. Vilhjálmur viðurkenndi ekki nýja ríkið fyrr en 1839. Það ár sagði Lúxemborg sig einnig úr sambandi við Holland. Því urðu til þrjú sjálfstæð ríki. Eitt mesta þrætueplið var héraðið Brabant. Suðurhlutinn var kaþólskur og frönskumælandi að mestu. Því var héraðið splittað. Norður-Brabant varð að héraði Hollands en Suður-Brabant að héraði Belgíu. Limburg hélst í Hollandi. Flandur hélst hins vegar í Belgíu. Holland fram að heimstyrjöldinni síðari. 1848 fengu Hollendingar fyrstu stjórnarskrána sína. Þá var Vilhjálmur II við völd. Ýmsar breytingar voru gerðar í landinu. Fyrst og fremst varð Holland að lýðveldi, það er að segja landinu var breytt í þingbundna konungsstjórn. Vilhjálmur II missti eiginlega öll völd. Hann var enda orðinn gamall og lést ári síðar. Sonur hans, Vilhjálmur III, skipti sér nánast ekkert af stjórnmálum. Með nýju stjórnarskránni var kaþólska kirkjan viðurkennd á ný í Hollandi, eftir að hafa verið þrætuepli frá miðri 16. öld. Kaþólskir biskupsstólar voru þar með endurreistir. Þó fóru engar kosningar fram. Með nýrri stjórnarskrá 1884 var eiginlegt kosningakerfi tekið upp, þótt það hafi verið frumstætt. Það var ekki fyrr en 1917 sem allir karlmenn landsins fengu almennan kosningarétt. Konur fengu kosningarétt 1922. Þegar heimstyrjöldin fyrri braust út 1914 lýstu Hollendingar yfir hlutleysi. Þrátt fyrir það var herinn settur í viðbragðsstöðu. Prússar hertóku Belgíu nánast í hendingskasti og orsakaði það mikinn straum flóttamanna yfir til Hollands. Við stríðslok 1918 afþakkaði síðasti keisari Prússlands, Vilhjálmur II, völdum og fór í útlegð til Hollands. Stríð og herseta. Loftárásin á Rotterdam 14. maí 1940 a> og fjölskylda hennar földust stendur við Prinsengracht 263 í Amsterdam 1939 hófst heimstyrjöldin síðari. Hollendingar lýstu á ný yfir hlutleysi en lágu þó hernaðarlega á óheppilegum stað (milli Þýskalands, Frakklands og Bretlands). 10. maí 1940 ruddu nasistar inn í Holland og hertóku landið á fjórum dögum. Síðasta daginn var aðeins barist í Rotterdam. 14. maí létu nasistar því sprengjum rigna yfir borgina, sem eyðilagðist að stórum hluta. 800 manns biðu bana og 78 þúsund manns urðu heimilislausir. Eftir þennan atburð gafst hollenska stjórnin upp. Helstu ráðamenn flúðu til Englands, þar á meðal konungsfjölskyldan, þar sem útlagastjórn var mynduð. Strax í upphafi hófu Þjóðverjar að flytja gyðinga úr landi og fangelsa andspyrnumenn. Fram til 1945 voru 160 þúsund hollenskir gyðingar fluttir úr landi, þar á meðal Anna Frank og fjölskylda hennar. Saga fjölskyldunnar varð heimskunn er dagbók Önnu fannst síðar og var gefin út. Þjóðverjar settu landið undir herstjórn, án aðkomu Hollendinga. 5. september 1944 ruddist herlið bandamanna inn í Holland í því skyni að ná haldi á helstu brúm yfir stórfljótin. Hollendingar héldu að frelsun þeirra væri í vændum og kölluðu daginn Dolle Dinsdag ("hinn galni þriðjudagur"). Þjóðverjar náðu hins vegar tökum á ástandinu. Í refsingarskyni voru matarflutningar til íbúanna takmarkaðir og var veturinn 1944-45 því hungurveturinn mikli ("Hongerwinter") þar í landi. Holland var ekki frelsað fyrr en á vormánuðum 1945 er Þjóðverjar létu undan síga gegn ofurefli bandamanna bæði í vestri og austri. Í Asíu hertóku Japanir hollensku nýlendurnar í Austur-Indíum. Þegar Japanir gáfust upp í ágúst 1945, markaði það endalok heimstyrjaldarinnar. Hins vegar tók sjálfstæðisstríð eyjanna gegn Hollendingum við. Það endaði með því að Hollensku Austur-Indíur lýstu yfir sjálfstæði 1949 og kölluðu sig Indónesía. Þar með átti Holland eingöngu nokkrar nýlendur eftir í Vesturheimi. Eftir stríð gerðu Hollendingar tilkall til nokkurra þýskra jaðarsvæða við hollensku landamærin. Þannig var bærinn Elten innlimaður og sömuleiðis héraðið Selfkant 1949. Báðum svæðunum var skilað síðar. Nútíma Holland. Margir töldu að tap Hollensku Austur-Indía hefðu efnahagslegt bakslag í för með sér. En hið gagnstæða átti sér stað. Á tiltölulegum skömmum tíma varð Holland að mjög iðnvæddu ríki. Velgengnin í landbúnaði og hátækniiðnaði var gríðarleg. 1952 var Holland stofnland í kola- og stálbandalaginu (fyrirrennari EB). Mjög snemma urðu íbúar jaðarsvæða Hollands og Þýskalands að takast á við ágang sjávar. Stormflóð riðu yfir landið og brutu af því. Þúsundir manna létust og urðu heimilislausir. Síðasta stóra stormflóð í Hollandi átti sér stað 1953 og biðu tæplega tvö þúsund íbúar Sjálands og Suður-Hollands bana. Í kjölfarið var verkefninu "Deltaplan" hrundið af stað. Reistir voru gríðarmiklir varnargarðar í óshólmum Rín og Maas. Einnig var mynni Ijsselmeer girt af með einum lengsta sjávarvarnargarði heims. Þetta þýddi að stór hluti landsins var neðan sjávarmáls á flóði. Varnargarðarnir eru flestir með lokur, þannig að á fjöru geta árnar flætt óhindrað út í sjó í nokkra klukkutíma. Sömuleiðis var net vatnaleiða skipulagt fyrir skipaleiðir. Verkefni þessu lauk ekki fyrr en 1997 og kostaði þá sex milljarðar gyllini þá. Við þornun Ijsselmeer 1986 varð til nýtt fylki, Flevoland, en það mun vera einstakt í heiminum að vinna land úr sjónum fyrir heilt fylki. 1973 lýsti Súrínam yfir sjálfstæði. Eftir þetta eru einu eyjarnar sem enn tilheyra Hollandi Arúba og Hollensku Antilleyjar, það er eyjarnar Curacao, Sint Maarten, Bonaire, Sint Eustatius og Saba. Fylki. Hollandi er skipt niður í tólf fylki ("provincie"). Það yngsta, Flevoland, var stofnað 1986 er suðurhluti Ijsselmeer var þurrkaður upp og numinn. Borgir. Amsterdam, Rotterdam og Haag eru langstærstu borgir landsins. Eftir það er stór hópur meðalstórra borga. Ár og fljót. Rínarfljót er mest áberandi fljótið í Hollandi. En strax eftir að það kemur yfir landamærin til Hollands, klofnar það í tvær stórar kvíslar, Lek og Waal. Lek klofnar svo aftur tvisvar. Fyrri aðgreiningin heitir Ijssel en hin seinni Oude Rijn. Kvísl frá báðum ánum Lek og Waal sameinast svo aftur rétt áður en að Norðursjó kemur og gerir vatnakerfið svolítið flókið. Sökum þess að óshólmar þessara áa eru neðan sjávarmáli, geta þær ekki runnið til sjávar nema í nokkra klukkutíma á dag þegar fjarar út. Gríðarstórir varnargarðar halda vatninu lokuðu inni í landi meðan flæðir að. Stærstu ár Hollands. Lengd þeirra miðast við innanlands. Vötn og lón. Óvenjulegt við vötn í Hollandi er að flest stærstu vötnin eru manngerð, þ.e. þau voru áður fyrr hluti af sjónum en síðan lokuð af. Önnur mynduðust vegna varnargarða. Af þeim sökum er erfitt að henda reiður á stærð vatna þar í landi. Ijsselmeer er hins vegar langstærsta vatn Hollands með ca. 1.100 km2 og er að flatarmáli stærra en öll önnur vötn Hollands til samans. Það er norðarlega í landinu og sker landið nærri því í tvennt. Ijsselmeer var áður fyrr fjörður og hét þá Zuidersee ("Suðursjór"). En 1932 var byrjað á að reisa varnargarð og hraðbraut við fjarðarmynnið og loka því af. Síðan þá er vatnsborð Ijsselmeer fyrir neðan sjávarmál og þarf að pumpa vatninu upp og út í sjó. Suðurhluti vatnsins hefur verið þurrkaður og þar hefur myndast heilt fylki, Flevoland. Helstu borgir við vatnið eru Amsterdam, Hoorn, Volendam, Enkhuizen, Lelystad og De Lemmer. Ijsselmeer er nefnt eftir ánni Ijssel sem rennur óbeint í það. Orðið –meer á hollensku merkir ekki "sjór", heldur "vatn". Önnur stór vötn í Hollandi eru Oosterschelde, Grevelingen og Haringvliet. Þau voru öll hluti af sjónum áður fyrr. Eyjaklasar og eyjar. Kort af Vesturfrísnesku eyjunum. Litlu tölusettu eyjarnar eru óbyggðar smáeyjar Í Hollandi er einn eyjaklasi, Vesturfrísnesku eyjarnar. Þær eru í Vaðhafinu fyrir norðan meginlandið og eru framhald af Austurfrísnesku eyjunum sem tilheyra Þýskalandi. Stærst Vesturfrísnesku eyjanna er Texel. Hún var í upphafi tvær eyjar, en uxu saman 1835 eftir miklar þurrkunarframkvæmdir og gróðursetningu melgresis. Allar eru eyjarnar miklir bað- og ferðamannastaðir. Sumar þeirra eru friðaðar vegna fuglavarps og selaláturs. En stærsta eyja Hollands er Flevoland, sem varð til er suðurhluti Ijsselmeer var þurrkaður 1986. Áður fyrr voru margar stórar eyjar í óshólmum Rín, Maas og Schelde, en eftir að Deltaplan var hleypt af stokkunum 1953 voru varnargarðar lagðir á hinum ýmsum stöðum milli eyjanna, þannig að þær teljast ekki eyjar lengur. Nýlendur. Willemstadt á Curacao er höfuðstaður Hollensku Antillaeyja Síðan 1598 hafa Hollendingar ávallt átt nýlendur. Fyrsta nýlendan var eyjan Máritíus í Indlandshafi en hún var yfirgefin 1710. Aðrar þekktar nýlendur í Asíu voru Hollensku Austur-Indíur (hlutu sjálfstæði 1949), Agra á Indlandi, Ceylon (var hertekin af Bretum 1796) og nokkrar fleiri. Í Afríku áttu Hollendingar meðal annars eyjuna Sao Tomé, Grænhöfða í Senegal og Höfðaland í Suður-Afríku. Í Ameríku áttu Hollendingar ýmsar eyjar, aðallega þó í Antillaeyjum, og Hollenska Guyana. Hið síðastnefnda hlaut sjálfstæði 1973 undir nafninu Súrínam. Í dag eru aðeins nokkrar eyjar í Antillaeyjum eftir í eigu Hollands. Vísindi og listir. Málverkið Næturvaktin eftir Rembrandt (1642) Á gullaldarárum Hollands komu fram margir frægir lista- og vísindamenn. Meðal þekktustu málara er án efa Rembrandt, en verk hans þykja dýrgripir í dag. Af öðrum þekktum málurum má nefna Hieronymus Bosch, Jan Vermeer, Frans Hals, Jan Steen og Vincent van Gogh. Skáldskapur hefur staðið svolítið í skugga myndlistarinnar. Þó eru Joost van den Vondel, Pieter Cornelszoon Hooft, Harry Mulisch og Gerard Reve þekkt nöfn þar í landi. Meðal þekkstustu vísindamanna Hollendinga má nefna Erasmus frá Rotterdam, húmanisti, heimspekingur og guðfræðingur, Christiaan Huygens, stærðfræðingur og eðlisfræðingur, og Antoni van Leeuwenhoek, sem smíðaði fyrstu smásjána. Íþróttir. Skautahlaup hefur verið ein vinsælasta íþrótt Hollendinga Hollendingar hafa á afburða íþróttamönnum og konum að skipa. Þjóðaríþrótt Hollendinga áður fyrr var skautahlaup, en það er enn ein vinsælasta íþrótt almennings. Fólk notaði frosin síki til að fara á skauta. Hollensk knattspyrna er á heimsklassa. Karlalandsliðið hefur þrisvar leikið til úrslita á HM, en ávallt tapað, síðast fyrir Spáni 2010. Meðal þekktustu knattpyrnumanna má nefna Johan Cruijff og Marco van Basten. Hollenskir þjálfarar eru eftirsóttir víða um heim. Holland og Belgía héldu í sameiningu EM í knattspyrnu árið 2000. 1928 voru sumarólympíuleikarnir haldnir í Amsterdam. Amsterdam og Rotterdam eru að sækja um að fá að halda þá að nýju fyrir árið 2028. Ólympíuleikar þroskaheftra voru haldnir í Arnhem 1980. Matargerð. Hollensk matargerð er ekki eins þekkt og í ýmsum öðrum evrópskum löndum. Þó er Holland þekkt ostaland. Helstu ostar þar eru Edammer (frá borginni Edam), Goudse kass (frá Gouda), Leerdammer (frá Leerdam), Delft (frá Delft) og ýmsa fleiri. Ostamarkaðurinn í Gouda er heimsfrægur, en þar eru ostauppboð haldin undir berum himni. Helgidagar. Ólíkt því sem gerist í öðrum löndum er enginn eiginlegur þjóðhátíðardagur í Hollandi. Í stað þess er haldið upp á drottningardaginn. Ekki er 1. maí heldur haldinn hátíðlegur þar í landi. Stríðslokahátíðin eftir heimstyrjöldina síðari er haldinn 5. maí, ekki 8. maí eins og í nokkrum öðrum evrópskum löndum, því Þjóðverjar og Hollendingar sömdu um frið þremur dögum fyrir hin eiginlegu stríðslok. Sviss. Sviss er landlukt land í Mið-Evrópu og er um miðbik Alpafjalla. Stærðin er 41.293 km². Íbúar eru tæplega 7,8 milljónir talsins. Höfuðborgin er Bern. Sviss er þekkt fyrir hlutleysisstefnu sína og hefur ekki tekið þátt í neinum stríðsátökum á 20. eða 21. öld. Landið hefur talsverða sérstöðu á vesturlöndum sökum mikils beins lýðræðis og þjóðaratkvæðagreiðslna. Sviss er ekki aðili að Evrópusambandinu en þar eru þó skrifstofur ýmissa alþjóðastofnanna, svo sem Sameinuðu þjóðanna. Lega og lýsing. Hinir þrír meginhlutar Sviss. Brúnt merkir Alpana, gult merkir dalina og grænt merkir Júrafjöll. Sviss er landlukt og á landamæri að Ítalíu fyrir sunnan, Frakklandi fyrir vestan, Þýskalandi fyrir norðan og Austurríki og Liechtenstein fyrir austan. Í grófum dráttum má skipta landinu í þrjá meginhluta. Alpana fyrir sunnan, dalina fyrir norðan og vestan og svo Júrafjöll norðvestast. Mikið af vötnum og ám eru í landinu, sem langflest eru náttúruleg afurð Alpafjalla. Miklir fjalladalir skera Alpana þvers og kruss, og mynda nokkurs konar samgönguæðar um landið. Aðeins syðsti hluti kantónunnar Ticino (Tessin) nær suður fyrir Alpafjöll niður á norðurítalska láglendið. Litla svæðið Büsingen í Schaffhausen (við Rínarfljót), nyrst í Sviss, er eysvæði og tilheyrir Þýskalandi. Sömuleiðis er litla svæðið Campione við Luganovatn í suðri að öllu leyti innan Sviss en tilheyrir þó Ítalíu. Orðsifjar. Opinbert heiti landsins, Confoederatio Helvetica ("Sambandsríkið Sviss" eða "Eiðsambandið Sviss"), er á latínu til þess að forðast að gera upp á milli hinna fjögurra tungumála landsins. Landið á einnig opinber heiti á öllum fjórum tungumálum sínum og eru þau þessi: Schweizerische Eidgenossenschaft (þýska); Confédération Suisse (franska); Confederazione Svizzera (ítalska); Confederaziun Svizra (rómanska). Confoederatio merkir "samband" eða "bandalag". Helvetica er nefnt eftir gamla keltneska þjóðflokknum Helvetum sem lifði á svæðinu á tímum Rómverja. Heitið Sviss er dregið af bæjarnafninu Schwyz, sem síðar gaf kantónunni Schwyz nafn, en hún var ein af upprunalegu héruðunum þremur sem mynduðu bandalagið. Íbúar Schwyz voru þekktir fyrir að vera dugandi hermenn og gátu sér gott orð sem slíkir, ekki síst eftir orrustuna við Sempach 1386. Það var þó ekki fyrr en með Sigismundi keisara í upphafi 15. aldar að hugtakið Sviss náði almennri útbreiðslu. Sviss heitir Schweiz á þýsku, Suisse á frönsku, Svizzera á ítölsku og Svizra á rómönsku. Á ensku heitir það Switzerland. Nafnið á þorpinu Schwyz er fyrst skrásett árið 972 og þá á forminu Svittes (Suittes). Líklegt má telja að þetta orð merki sveitir, það er að segja hersveitir. Menn frá Schwyz eru nefndir Schwyzer og með tíð og tíma var Schwyzerland notað yfir Sviss allt. Tungumál og þjóð. Kort af útbreiðslu tungumála í Sviss (2013). Rautt = þýska, fjólublátt = franska, grænt = ítalska og gult = rómanska. Sviss myndaðist ekki af einni þjóð, heldur sem bandalag mismunandi héraða sem ákváðu að tengjast af pólitískum ástæðum. Upphaflegu kantónurnar voru þýskumælandi en eftir því sem fleiri héruð bættust við, bættust frönsku- og ítölskumælandi íbúar við. Af sömu ástæðu eru einnig fleiri en eitt tungumál talað í landinu. Þjóðtungurnar eru fjórar: þýska (svissnesk þýska) um allt miðbik landsins, franska í vestri, ítalska fyrir sunnan og rómanska fyrir austan. Síðastnefnda málið er minnst útbreitt af málum þessum og er leifar af latínu og germönsku frá tímum Rómverja. Langflestir tala þó þýsku eða tæp 64%. Um 20% tala frönsku. Að mestu leyti eru málamörkin skýr, sérstaklega í sveitum. En í nokkrum borgum eru tvö mál töluð, til dæmis í Fribourg (Freiburg), Neuchâtel (Neuenburg) og Biel (Bienne), þar sem bæði er töluð þýska og franska. Þjóðfáni og skjaldarmerki. Þjóðfáni Sviss er hvítur jafnarma kross á rauðum ferningi. Hann er mjög líkur fána kantónunnar Schwyz og er mótaður eftir honum. Krossinn var þegar notaður af herjum hins unga bandalags, fyrst í orrustunni við Laupen 1339 svo vitað sé. Skjaldarmerkið er nánast eins útlits en þó skjaldarlaga. Merkið var tekið upp 1889. Tellsögnin. Opinbert innsigli Helvetíska lýðveldisins með myndefni úr Tellsögninni Svæðið sem núverandi Sviss samanstendur af tilheyrði heilaga rómverska ríkinu í gegnum aldirnar. Friðrik II keisari gerði borgirnar Bern, Zürich, Schaffhausen og Freiburg að fríborgum til að tryggja sér aðgöngu að Alpaskörðunum og þjóðleiðunum til Ítalíu. Að öðru leyti var Habsborgara-ættin með yfirráð yfir svæðin í kring. Vilhjálmur Tell er þjóðhetja Svisslendinga. Sagan segir að Tell hafi blöskrað yfirráð fógetans Gesslers, sem var á mála hjá Habsborgurum. Gessler setti til dæmis upp hatt sinn á stöng í borginni Altdorf í Uri og fyrirskipaði að allir ættu að hneigja sig fyrir honum. Tell hafi þó neitað þessu og gengið framhjá hattinum án þess að virða hann. Þá tók Gessler til bragðs að handtaka Tell og fyrirskipaði honum að skjóta epli af höfði syni sínum. Þegar honum tókst það, fékk Tell að halda frelsi sínu. En skömmu seinna sat Tell fyrir Gessler og skaut hann til bana með lásboga sínum. Þetta varð til þess að íbúar þriggja héraða hittust á fjalllendinu Rütli við Vierwaldstättersee og gerðu með sér bandalag gegn yfirráðum Habsborgara. Í dag er ekki vitað hvort Tell-sögnin er á sannleika reist en hún er skráð í ýmsum heimildum, þar á meðal í Þiðreks sögu sem rituð var á norrænu á miðöldum. Eiðssambandið. Hvað sem Tellsögninni líður, þá hittust fulltrúar þriggja héraða (Uri, Schwyz og Nidwalden) árið 1291 og stofnuðu bandalag til varnar yfirgangi Habsborgara. Stofnskjalið er enn til og er geymt í skjalasafni í Schwyz. Á skjalinu eru fulltrúar Nidwalden mættir en þeir notuðu innsigli Obwalden. Nidwalden og Obwalden eru hálfkantónur og mynda saman kantónuna Unterwalden. Því má segja að fjórar kantónur hafi stofnað Sviss sem eiðssamband. Það var þó ekki fyrr en 1315 að Habsborgarar náðu að safna saman liði og gengu til orrustu við uppreisnarmenn úr Sviss. Það var Leópold, bróður gagnkonungsins Friðriks frá Austurríki, sem leiddi liðið til orrustu. En Svisslendingar voru reiðubúnir og gerðu fyrirsát í þröngum dal við Morgarten á landamærum Uri og Schwyz. Þar beið Habsborgarherinn algjöran ósigur. Á næstu áratugum gengu fleiri héruð til liðs við svissneska sambandið. 1332 var það Luzern, 1351 Zürich, 1352 Glarus og Zug, og loks Bern 1353. Um miðja 14. öld er svissneska sambandið orðið að nokkuð sterku ríki, þrátt fyrir að Habsborgarar reyndu enn að þvinga héruðin til hlýðni og sameina þau undir yfirráð sín. Orrustur og sjálfstæði. 1386 réðust Habsborgarar á ný inn í Sviss. Það dró til orrustu sem háð var við Sempach. Orrusta þessi var hápunktur í baráttu Habsborgara við hina eiðsvörnu. Í henni sigruðu Svisslendingar og með þessum sigri var stórt skref stigið í sjálfstæði landsins. Tveimur árum síðar voru Habsborgarar aftur á ferð. Í orrustunni við Näfels sigruðu Svisslendingar á nýjan leik en þetta var síðasta orrustan milli þessara tveggja aðila. Eftir tap Habsborgara sömdu þeir frið við hina eiðsvörnu, fyrst til sjö ára, en síðan til 20 ára. Þeir hættu öllu tilkalli til landa hinna eiðsvörnu og misstu þar með þjóðleiðirnar yfir Alpaskörðin. Sviss naut því friðar næstu aldir. 1474 fór svissneskur her að tilstuðlan keisarans Friedrichs III til Búrgúnd og eyddu því ríki. Svisslendingar þóttu nefnilega afbragðs hermenn og voru þeir eftir þetta vinsælir leiguliðar. Til dæmis eru varðmenn páfa eingöngu skipaðir Svisslendingum allt frá 1506. Eftir sigurinn á Búrgúndum var Sviss orðið sterkt ríki í Mið-Evrópu. Það hélt að sama skapi áfram að vaxa. 1481 bættust Fribourg (Freiburg) og Solothurn við sem kantónur. Eftir svávastríðið 1499, sem Svisslendingar tóku þátt í, viðurkenndi Maximilian I keisari Sviss sem sjálfstætt ríkjasamband fyrir hönd hins heilaga rómverska ríkis. Löglega séð var það þó enn hluti af þýska ríkinu allt til 1648, er friðarsamningarnir eftir 30 ára stríðið voru gerðir. 1501 bættust við Schaffhausen og Basel (sem seinna klofnaði í Basel-Stadt og Basel-Landschaft). Loks bættist Appenzell við 1513. Næstu kantónur bættust ekki við fyrr en tæpum 300 árum síðar. Trúarumrót. Ulrich Zwingli hóf fyrstur manna siðbótina í Sviss 1515 töpuðu svissneskir leiguliðar orrustunni við Marignano á Norður-Ítalíu gegn Frans I Frakklandskonung. Þetta varð til þess að Sviss lýsti yfir hlutleysi og hefur það haldist æ síðan. Einn af þeim sem lifði orrustuna við Marignano af var Svisslendingurinn Ulrich Zwingli. Hann hóf síðan eigin siðbót á kristinni trú í heimaborg sinni Zürich, sem leiddi til þess að stofnuð var ný kirkja 1522 ("Reformierte Kirche"). Þetta var fimm árum eftir mótmæli Lúthers í Wittenberg, en þó áður en Lútherska kirkjan varð til. Nýja kirkjan breiddist hratt út í Sviss, sérstaklega um norðanvert landið. Í austanverðu landinu var kaþólska kirkjan hins vegar enn alls ráðandi. Þetta leiddi til nokkurra innanríkisátaka (kölluð Kappeler stríðin). Um miðja 16. öldina hóf Jean Cauvin (Jóhann Kalvín) siðbótarstarf sitt í borginni Genf (sem þá var ekki hluti ríkjasambandsins, en þó tengd því). Úr því varð einnig ný kirkja sem breiddist hratt út, ekki bara í Sviss, heldur víða í Evrópu. Kalvínisminn skaut sterkum rótum í Frakklandi, Englandi og Niðurlöndum en þaðan barst hann til Ameríku. Gagnsiðbót kaþólsku kirkjunnar seint á 16. öld tókst ekki að hindra útbreiðslu nýju kirknanna, en hún varð til þess að kantónan Appenzell klofnaði í tvennt 1597 í Appenzell Innerrhoden og Appenzell Ausserrhoden, sem tilheyrðu sitthvorri kirkjunni. Svissneskir meðlimir nýju kirknanna studdu húgenotta í trúarstríðinu í Frakklandi af miklum dugnaði. Napoleonstríðin. Sviss meðan Helvetíska lýðveldið var við lýði 1798 ruddust Frakkar inn í Sviss og hertóku landið. Að tilstuðlan Napoleons, sem þá var orðinn einvaldur, var Sviss breytt í lýðveldi sem fékk heitið Helvetíska lýðveldið. Frakkar höfðu einnig hertekið nærliggjandi landsvæði og stækkuðu lýðveldið talsvert. 1803 voru héruðin St. Gallen, Graubünden, Aargau, Thurgau, Ticino og Vaud sameinuð lýðveldinu en Genf var innlimað Frakklandi. Þó var Sviss á þessum tíma leppríki Frakka meðan Napoleons naut við. Eftir hrakfarir hans í Rússlandsleiðangrinum leystist Helvetíska lýðveldið upp og hið gamla ríkjasamband tók gildi á nýjan leik. Nokkurrar spennu gætti þó milli hinna gömlu og nýju kantóna þannig að lá við borgarastríði. Það var þó ekki fyrr en Vínarfundurinn úrskurðaði 1815 að nýju kantónurnar skyldu tilheyra ríkjasambandinu að friður komst á. Auk þess var Genf bætt við á ný, og auk þess Valais og Neuchâtel. Hlutleysi landsins var auk þess alþjóðlega viðurkenndur. Nýrri tímar. Með 19. öldinni þróaðist Sviss á öllum sviðum þjóðfélagsins. Byltingarkenndir straumar bárust þangað og leiddi þetta til þess að róttækar breytingar voru gerðar á innviðum þjóðfélagsins. 1847 var nútíma sambandsríkið stofnað, ári fyrir byltinguna miklu í Evrópu. Ákveðið var að kalla saman þing árlega í borginni Bern en að sama skapi var ákveðið að Bern yrði ekki höfuðborg, heldur sambandsborg ("Bundesstadt"). Ný stjórnarskrá tók gildi 1848. Kantónurnar viðhéldu stórum hluta sjálfstæðis síns og fengu að ráða yfir flestum málefnum sínum. Atkvæðagreiðslur innan hverrar kantónu urðu almennar, en sökum íhaldssemi í mörgum þeirra fóru breytingar fram hægt. Til dæmis var kosningaréttur kvenna ekki lögleiddur fyrr en 1971. Í heimstyrjöldinni fyrri viðhélt Sviss hlutleysi sitt. Landið bauð þó stríðshrjáðum löndum líknaraðstoð, svo sem með því að taka upp særða hermenn og flóttamenn. Einn þeirra var Lenín en hann bjó í Sviss milli 1914-17. Í stríðslok sótti vestasta hérað Austurríkis, Vorarlberg, um inngöngu í Sviss en var neitað. 1920 gekk Sviss í þjóðabandalagið, sem hafði höfuðstöðvar sínar í Genf. Í heimstyrjöldinni síðari viðhélt Sviss einnig hlutleysi sínu. Landið tók á ný við fjölda flóttamanna, sérstaklega Frökkum þegar nasistar réðust inn í Frakkland. Þrátt fyrir hlutleysið kom það mýmörgum sinnum fyrir að þýskar flugvélar eða flugvélar bandamanna rufu svissneska flughelgi og í nokkur skipti urðu svissneskir bæir fyrir loftárásum fyrir misgáningi. Alvarlegast var er borgin Schaffhausen varð fyrir loftárásum bandamanna 1. apríl 1944. Eftir stríð gekk Sviss hvorki í Sameinuðu þjóðirnar né í NATO. Á hinn bóginn var Sviss einn stofnmeðlima að EFTA 1960 og gekk einnig í Evrópuráðið 1963. Enn sem komið er er Sviss ekki í Evrópusambandinu. 1979 var síðast stofnuð kantóna í Svissneska sambandinu, Júra, sem áður var frönskumælandi partur Bernarkantónu. Það var ekki fyrr en árið 2002 að Sviss gekk til liðs við Sameinuðu þjóðirnar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnskipulag. Sviss er sambandsríki 26 kantóna sem hver fyrir sig er nokkuð sjálfstæð. Sérhver kantóna er með eigið þing og þar er kosið um allar meiri háttar ákvarðanir í fólkskosningum. Sambandsþingið situr í Bern. Þar er starfandi forseti en hann er frekar valdalítill. Þingið samanstendur af tveimur deildum, þjóðráðinu ("Nationalrat") og kantónuráðinu ("Ständerat"). Í þjóðráðinu eru 200 meðlimir kosnir af þjóðinni. Í kantónuráðinu eru 46 meðlimir, tveir úr hverri kantónu. Í flestum tilfellum er hér um aukastarf þingmanna að ræða. Sviss hefur þá sérstöðu að notast við þjóðaratkvæðagreiðslur af miklu leyti en frá 1848 hafa verið haldnar á sjötta hundrað þjóðaratkvæðagreiðslur þar. Hver ríkisborgari getur stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem getur fellt sett lög, nái hann að safna 50.000 undirskriftum því til stuðnings. Vegna þessa er sterk hefð fyrir þjóðstjórnir í landinu og hefur ríkisstjórn landsins nánast undantekningarlaust verið mynduð af fjórum helstu stjórnmálaflokkum landsins frá árinu 1959. Höfuðborg. Formlega (de jure) er engin höfuðborg í Sviss. 1848 var borgin Bern þó kosin sem sambandsborg (ekki höfuðborg) þar sem þingið hittist. Þingið sjálft hafði rökrætt málið lengi og komist að þeirri niðurstöðu að engin borg í Sviss ætti að kallast höfuðborg landsins. Því var heitið sambandsborg ("Bundesstadt") valið. Tæknilega (de facto) er Bern þó höfuðborg landsins. Mynt. Í Sviss er notast við svissneskan franka. Fram að 1798 var mynt landsins á vegum hverrar kantónu fyrir sig. Þegar Napoleon stofnaði Helvetíska lýðveldið í landinu, var í fyrsta sinn notast við sömu myntina, kallaður franki, enda notuðu Frakkar einnig franka. Eftir fall Napoleons notaði Sviss erlenda mynt, gull- og silfurmynt frá Frakklandi, Belgíu, Ítalíu og Grikklandi. Einnig var notast við gyllini, eins og í Austurríki. En 1852 gaf Sviss út eigin mynt, svissneska frankann, en allar útlendu myntirnar voru þó enn notaðar með um sinn. Litla myntin heitir Rappen og er einn franki 100 Rappen. Heitið Rappen kom frá Freiburg í Þýskalandi. Þar var slegin mynt með erni á 13. öld. En örninn var óskýr og breyttist svo í hrafn ("Rabe" á þýsku). Þaðan kom heitið Rappen. Kantónur. Sviss samanstendur af 26 kantónum, misstórum og misfjölmennum. Upphaflegu kantónurnar voru þrjár (Uri, Schwyz og Unterwalden) en þær mynduðu Sviss þegar árið 1291. Unterwalden samanstendur af tveimur hálfkantónum (Nidwalden og Obwalden). Bern er stærsta kantónan með tæplega 6.000 km² en Baselborg er minnst með aðeins 37 km². Fjölmennust er Zürich með 1,2 milljón íbúa en Appenzell Innerrhoden er aðeins með 17 þúsund íbúa. Þrátt fyrir þennan mun eru þingmenn kantónanna jafnmargir og jafnréttháir. Borgir. Engar milljónaborgir eru í Sviss. Stærsta borgin er Zürich með tæplega 400 þúsund íbúa. Þó búa rúmlega 1,1 milljón manns á stórborgarsvæðinu. Nær allar stærstu borgir landsins eru í norðri og vestri, það er að segja í þýsku- og frönskumælandi hluta landsins. Fjöll og fjallgarðar. Matterhorn er eitt þekktasta fjallið í Sviss Tveir aðalfjallgarðar eru í Sviss. Sá stærri þeirra eru Alpafjöll, en þau ganga yfir gjörvallt miðbik og suðurhluta landsins. Þau eru svo stór að þeim er skipt niður í margar minni einingar. Minni fjallgarðurinn eru Júrafjöll fyrir norðvestan og mynda þar náttúruleg landamæri að Frakklandi. Svisslendingar telja fjöll sín í tindum. Þannig teljast tveir tindar á sama fjalli til tveggja fjalla. Hæsti fjallgarður Alpanna innan Sviss eru Monte Rosa fjöllin en hæsti tindur þeirra er Dufourtindurinn sem nær í 4.634 metra hæð. Matterhorn er trúlega þekktasta fjallið í landinu en það nær í 4.478 metra hæð. Ár og vötn. Vegna Alpafjalla eru mýmargar ár í Sviss, sem flestar renna til norðurs og vesturs. Helsta áin í Sviss er Rín, en hún á upptök sín suðaustast í landinu. Sviss er mikið vatnaland. Þar eru nokkur af stærstu stöðuvötnum Mið-Evrópu, en þau eru í flestum tilfellum gömul jökulvötn frá ísaldartímanum. Menntun, tækni og vísindi. Menntun í Sviss er afar fjölbreytileg af því að stjórnarskrá Sviss kveður á um að skólakerfið sé málefni kantónanna. Það eru starfræktir bæði opinberir skólar og einkaskólar í landinu, þar á meðal einkareknir alþjóðlegir skólar. Í nær öllum kantónum hefst skólagangan um sex ára aldur um flestar kantónur starfrækja einnig ókeypis „barnaskóla“ fyrir fjögurra og fimm ára börn. Fyrsta erlenda málið sem börn lærðu var ávallt eitt af hinum tungumálum landsins (eftir því hvert fyrsta mál barnanna var) en undanfarið hefur enskan verið að ryðja sér til rúms í nokkrum kantónum sem fyrsta erlenda mál. Í Sviss eru tólf háskólar en tíu þeirra eru kantónu-skólar. Elsti háskólinn er Háskólinn í Basel en hann var stofnaður árið 1460. Svissneskar bókmenntir. Þegar ríkið var stofnað árið 1291 voru langflestir Svisslendingar þýskumælandi og því eru elstu bókmenntir Svisslendinga á þýsku. Á 18. öld var franska móðins í Bern og víðar og áhrif frönskumælandi landa urðu meira áberandi. Meðal sígildra svissneskra bókmennta á þýsku má nefna rit þeirra Jeremiasar Gotthelf (1797 – 1854) og Gottfrieds Keller (1819 –1890). Óumdeildir meistarar svissneskra bókmennta á 20. öld eru þeir Max Frisch (1911 – 1991) og Friedrich Dürrenmatt (1921 – 90) en meðal verka hans má nefna "Die Physiker" ("Eðlisfræðingurinn") og "Das Versprechen" ("Loforðið"), sem Hollywood-kvikmynd var gerð eftir árið 2001. Meðal merkra frönskumælandi höfunda má nefna heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau (1712 – 1778) og Germaine de Staël (1766 – 1817). Meðal yngri höfunda eru Charles Ferdinand Ramuz (1878 – 1947), hvers bækur lýsa lífi whose bænda og fjallbúa við erfiðar aðstæður, og Blaise Cendrars (fæddur Frédéric Sauser, 1887 –1961). Ítölskumælandi höfundar hafa verið mun færri. Ef til vill er frægasta bókmenntapersóna Svisslendinga "Heiða", sem er munaðarlaus stúlka sem býr hjá afa sínum í Ölpunum. Bækurnar um Heiðu urðu vinsælar barnabókmenntir en eru einnig táknmynd Sviss. Höfundur bókanna, Johanna Spyri (1827 – 1901), samdi einnig fjölmargar bækur aðrar um svipuð efni. Íþróttir. Í Sviss eru vinsælustu íþróttirnar vetraríþróttir á borð við skíðaíþróttir og fjallgöngur en landafræði Sviss er heppileg fyrir ástundun slíkra íþrótta. Einnig tengist ferðamannaiðnaður Sviss iðkun vetraríþrótta en margir ferðamenn koma til Sviss á hverju ári til að iðka skíðaíþróttir. Svissneskir skíðaíþróttamenn á borð við Pirmin Zurbriggen og Didier Cuche hafa náð miklum árangri í sínum greinum. Svissnesk matarmenning. Matarmenning Sviss er margbrotin. Sumt, eins og fondue, raclette og rösti, er fáanlegt alls staðar í landinu en í sérhverjum landshluta hafa einnig þróast sérstakar venjur. Í hefðbundinni svissneskri matargerð eru notuð áþekk hráefni og í öðrum Evrópulöndum, auk sérstakra svissneskra hráefna, til dæmis mjólkurvara og osta á borð við Gruyère eða Emmental, sem eru framleiddir í Gruyères-dal og Emmental-dal. Fjöldi veitingahúsa í landingu er mikill, einkum í vesturhluta landsins. Svisslendingar hafa búið til súkkulaði frá því á 18. öld en það varð ekki frægt fyrr en undir lok 19. aldar þegar nútíma súkkulaðigerð varð til, sem gerði mögulega framleiðslu á gæðasúkkulaði. Uppfinning Daniels Peter á mjólkursúkkulaði árið 1875 var einnig stór og mikilvægur áfangi. Svisslendingar neyta meira af súkkulaði en nokkur önnur þjóð. Vinsælasti áfengi drykkurinn í Sviss er vín. Sviss er þekkt fyrir margbreytileika þrúganna sem ræktaðar eru. Svissneskt vín er einkum framleitt í Valais, Vaud (Lavaux), Genf og Ticino og er örlítið meira framleitt af hvítvíni. Vínekrur hafa verið starfræktar í Sviss frá því á dögum Rómaveldis. Helstu afbrigðin eru Chasselas (kallað Fendant í Valais) og Pinot Noir. Merlot-vín eru einkum framleidd í Ticino. Ferðaþjónusta. Skilti sem bendir á ferðaþjónustu Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem snýst um ýmsa þjónustu við ferðamenn, s.s. fólksflutninga, gistingu, veitingarekstur og afþreyingu. Ferðaþjónusta á sér langa sögu, en venjan er að miða við Grand Tour eða menningarferðir á slóðir klassískrar menningar á 18. öld sem upphaf skipulegrar ferðaþjónustu. Fjöldaferðamennska hefst með auknum kaupmætti verkafólks og ákvæðum um sumarfrí á 20. öld. Síðustu ár hefur fjöldaferðamennska smám saman vikið fyrir dreifðari ferðamennsku, meðal annars vegna sveigjanlegri frítíma almennings. Ferðaþjónusta er undirstöðuatvinnugrein í mörgum löndum. Tékkland. Lýðveldið Tékkland (tékkneska: "Česká republika") eða bara Tékkland er landlukt ríki í Mið-Evrópu og vestasta land gömlu austantjaldsríkjanna. Landið var stofnað 1. janúar 1993 þegar Tékkóslóvakía skiptist upp í tvo hluta, Tékkland og Slóvakíu. Höfuðborgin er Prag og er hún jafnframt stærsta borg landsins. Lega og lýsing. Hæðarkort af Tékklandi. Fjöll umkringja landið á nær alla vegu. Tékkland er nánast miðsvæðis í Mið-Evrópu og á sér að miklu leyti náttúruleg landamæri í formi fjallgarða. Í vestri er Þýskaland, en Eirfjöllin (Krušné hory) (þýska: Erzgebirge) og Bæheimsskógur (Šumava) skilja þar á milli. Í norðri er Pólland en þar mynda Súdetafjöllin (Sudety) og Risafjöllin (Krkonoše) náttúruleg landamæri. Í austri er Slóvakía en landamærin ganga eftir Karpatafjöllum. Í suðri er svo Austurríki. Tékklandi er gjarnan skipt í þrjá meginhluta: Bæheim í vestri, Mæri í austri og syðsti hluti Slésíu í norðaustri. Í höfninni í Hamborg er stór hafnarbakki, 30 þúsund m2 að stærð, sem tilheyrir Tékklandi. Bakkinn kallast Moldarhaugurinn (Vltavský přístav). Hann var hluti af Versalasamningnum sem kvað á um að Tékkland skyldi eiga aðgang að hafnaraðstöðu í Hamborg, þaðan sem hægt er að sigla niður Saxelfi alla leið til Bæheims. Samningurinn gildir í 99 ár og rennur út árið 2028. Orðsifjar. Tékkar nota orðið Česko fyrir landið sitt. Hugtakið kemur fyrst fram 1777 en var aldrei eða sárasjaldan notað fyrir 1993. Meðan Tékkóslóvakía var til hét landið allt Československo. Þegar Tékkóslóvakía skiptist í tvö ríki 1993 varð heitið Česko ofan á en það merkir Tékkar eða tékkneska þjóðin. Tékkneska heitið fyrir Bæheim er Čechy en oftast er það notað fyrir landið allt (líka Mæri og Slésíu). Þjóðsagan segir að forfaðirinn Čech hafi verið stofnandi tékknesku þjóðarinnar. Önnur tungumál, svo sem enska og þýska, hafa tekið síðara orðið að láni og myndað heitið Czech (enska) og Tschech (þýska) síðan Tékkóslóvakía var mynduð 1918. Það hafa Íslendingar einnig gert. Þó eru íbúar Mæri og Slésíu ekki á eitt sáttir við síðara heitið, enda útilokar það á vissan hátt íbúa þess en setur íbúa Bæheims ofar hinum. Tékkar sjálfir nota ekki neitt stuttheiti á landi sínu. Alþjóðlega heitir landið Česká republika. Þó er til stuttform í flestum öðrum málum. Í íslensku er heitið Tékkland gjarnan notað í staðinn fyrir Tékkneska lýðveldið. Mannfjöldi og þjóðflokkar. Alls búa 10,5 milljónir manna í Tékklandi, þar af 75% þeirra í borgum. Þéttleikinn er 130 íbúar á m2, sem er talsvert undir meðallagi í Evrópu. Rúmlega 90% þjóðarinnar eru Tékkar. 3,7% eru mærar (íbúar frá Mæri), en þessir þjóðflokkar voru ekki aðgreindir fyrr en 1980. 3,9% eru útlendingar og fer þeim ört fjölgandi. Stærsti hópur útlendinga eru Úkraínumenn (1,2%), síðan Slóvakar, Víetnamar, Rússar og Pólverjar. Trú. 59% allra landsmanna eru ekki skráðir í nein trúfélög og er það eitt hæsta hlutfall heims. 26% landsmanna eru kaþólikkar, 7% eru í rétttrúnaðarkirkjunni en afgangurinn greinist í kirkjur mótmælenda. Eftir heimstyrjöldina síðari urðu kristnu kirkjurnar fyrir eignarnámi. Áætlað er að endurgreiða skaðann sem þær urðu fyrir og á það að verða gert í síðasta lagi 2013. Tungumál. Opinbert tungumál Tékklands er tékkneska, sem er indóevrópskt tungumál af ætt vesturslavneskra tungumála. Tólf önnur tungumál eru opinberlega viðurkennd sem móðurmál minnihlutahópa í Tékklandi. Það eru slóvakíska, romani, úkraínska, pólska, þýska, gríska, ungverska, rússneska, rusyn, búlgarska, króatíska og serbneska. Þjóðfáni og skjaldarmerki. Þjóðfáni Tékklands samanstendur af þremur reitum. Efst er hvítt, neðst er rautt, en frá vinstri sker sig blár þríhyrningur inn í hina litina. Slíkt er einsdæmi hjá fánum í Evrópu. Rauði og hvíti liturinn eru komnir úr skjaldarmerki Bæheims, en blái liturinn er upprunni í Slóvakíu. Fáninn var tekinn í notkun 30. mars 1920 og gilti fyrir Tékkóslóvakíu. Þegar Þjóðverjar innlimuðu Bæheim 1939 var notast við annan fána, en sá gamli var tekinn í notkun á ný eftir stríð 1945. Þegar Tékkóslóvakía klofnaði í sundur 1993 var ákveðið að halda fánanum óbreyttum. Litirnir eru auk þess gjarnan notaðir fyrir slavnesk lönd (til dæmis Rússland). Skjaldarmerki Tékklands samanstendur af fjórum minni skjöldum. Tveir þeirra eru eins, efst til vinstri og neðst til hægri en það er hvíta ljónið í skildi Bæheims. Efst til hægri er hvíti örn Mæri en neðst til vinstri er svarti örn Slesíu. Skjaldarmerkið var innleitt 1993. Stjórnsýslueiningar. Tékkland skiptist upp í þrettán héruð, auk höfuðborgarinnar Prag. Her. Í Tékklandi er atvinnuher. Hann samanstendur af landher og flugher, auk varahermanna. Alls þjóna 25 þúsund menn í tékkneska hernum. Æðsti yfirmaður hersins er ríkisforsetinn. Tékkneskir hermenn hafa sinnt friðargæslu í nokkrum stórum verkefnum, svo sem í Bosníu, Kosóvó, Írak (aðeins til 2004) og Afganistan. Gjaldmiðill. Fram til 1918 var austurríska krónan gjaldmiðill í landinu. Þegar Tékkóslóvakía var stofnuð sem ríki var búinn til nýr gjaldmiðill, tékkóslóvakíska krónan. 1993 klofnaði landið í Tékkland og Slóvakía. Tékkland tók þá upp eigin mynt, tékknesku krónuna. 1 króna eru 100 Haleru (þýska: Heller). Þegar Tékkland gekk í Evrópusambandið var ætlunin að innleiða evruna árið 2010. Af þessu hefur þó ekki orðið enn þá en stjórnin hefur skuldbundið sig til að taka upp evruna á allra næstu árum. Upphaf. Stórmæri þegar það náði mestri útbreiðslu Á fyrstu árhundruðum f.Kr. settist keltneski þjóðflokkurinn boier að á svæðinu. Talið er að heitið Bæheimur (Bohemia) sé dregið af þessum þjóðflokki. Á fyrstu öld e.Kr. settust germanir að á svæðinu, sem þrengdu keltum burt. Í Bæheimi voru til dæmis markomannar en Rómverjar hindruðu útrás þeirra lengra til suðurs. Á tímum þjóðflutninganna miklu á 5. öld gjörbreyttist allt. Fræðimenn gera ráð fyrir að germanir hafi horfið úr svæðinu, sem hafi að mestu legið eftir autt. Frá og með 550 settust slavar að í Bæheimi og Mæri. 833 var furstadæmið Stórmæri stofnað og náði það langt út fyrir mörk Bæheims og Mæri í dag. Svatopluk varð fursti í Stórmæri 871, en á hans tíma komu munkarnir (og bræðurnir) Kyrill og Meþód og kristnuðu þjóðina. Þeir höfðu verið sendir frá Miklagarði og lögðu því grunninn að rétttrúnaðarkirkjunni í Stórmæri. Árið 895 gekkst Spytihněv fursti á hönd þýska ríkisins, en konungur ríkisins var þá Arnúlfur. Stórmæri varð því hluti af ríkinu, en það var lagt niður tólf árum síðar. Afleiðingin var sú að rómversk kaþólska kirkjan nam land í Bæheimi og óx hratt meðan rétttrúnaðarkirkjan átti undir högg að sækja. 1003 réðist Boleslaw I konungur Póllands inn í Bæheim og hertók landið. Hersetan stóð hins vegar aðeins yfir í eitt ár. Miðpunktur þýska ríkisins. Karl IV gerði Prag að stórborg 1085 leyfði Hinrik IV keisari stofnun konungsríkis í Bæheimi. Markgreifinn Vratislav II varð því krýndur konungur, enda var Vratislav eindreginn stuðningsmaður Hinriks gegn söxum. Krýningin fór fram í Prag, sem þar með varð að eiginlegri höfuðborg. Konungríkið Bæheimur var sjálfstætt sem slíkt en var undir verndarvæng og umsjón þýska ríkisins. Í kjölfarið fylgdi nokkurt þýskt landnám í Bæheimi. Sökum stuðnings konunganna í Prag við þýsku keisarana, var konungur Bæheims hverju sinni einnig kjörfursti, það er að segja hann sat í kjörfurstaráðinu sem valdi næsta konung þýska ríkisins. Sem kjörfurstar höfðu konungar Bæheims mikil völd í ríkinu. Árið 1300 voru Bæheimur og Pólland með sameiginlegan konung, fyrst Wenzel II og síðan Wenzel III, en því fyrirkomulagi lauk 1306 er Wenzel III var myrtur í Olomouc. Keisaradæmið. 1310 kvæntist Jóhann af Lúxemborg, sonur Hinriks VII keisara, Elísabetu, dóttur Wenzels II konungs í Bæheimi. Sonur þeirra hét Karl og tók hann við konungdæminu í Bæheimi 1347 sem Karl I. Aðeins ári síðar stofnaði Karl konungur háskóla í Prag en hann er elsti háskóli Evrópu norðan Alpa. Á sama ári var hann einnig kjörinn konungur þýska ríkisins og var krýndur sem Karl IV í borginni Aachen. Karl ákvað að sitja í Prag, sem þar með varð að höfuðborg þýska ríkisins. 1355 var Karl svo krýndur keisari ríkisins í Róm. Karl gaf út Gullna bréfið 1378, en í því fastsetti hann reglur um konungskjör í þýska ríkinu, ásamt ýmsum öðrum grundvallarlögum. Gullna bréfið var í gildi allt til loka ríkisins 1806. Tveir synir Karls áttu einnig eftir að verða þýskir konungar. Wenzel var konungur 1378 – 1400 og Sigismundur 1411 – 1437. Sá síðarnefndi var krýndur keisari ríkisins 1433. Hússítar. Jan Hus brenndur á báli 1415 Hússítar voru siðbótamenn frá Bæheimi sem hófu að starfa gegn kaþólsku kirkjunni og keisaranum, sem á þessum tíma voru jafnframt konungar Bæheims. Hússítar eru nefndir eftir guðfræðingnum Jan Hus, sem á tímabili var rektor háskólans í Prag. Þegar Hus var brenndur á báli í kirkjuþinginu í Konstanz 1415, hófu fylgjendur hans að gera uppreisn. Þegar hússítar réðust inn í ráðhúsið í Prag 1419 og fleygðu starfsmönnum konungs út um gluggana, hófst stríð, svokalla hússítastríðið. Múgur manna réðist einnig inn í kirkjur og klaustur til að ræna og eyðileggja. Í desember 1419 fór fyrsta orrustan fram nálægt Plzeň, en henni lauk með sigri hússíta. 1420 réðist keisaraher inn í Prag en hússítar náðu að hrekja hann á brott. Keisarinn missti meira og meira land í Bæheimi næstu árin, uns hann réði aðeins yfir nokkrum jaðarsvæðum. Nokkrir bæir sem héldu tryggð við kaþólsku kirkjuna og keisarann voru jöfnuð við jörðu. Í stríðinu réðust hússítar einnig á borgir handan Bæheims, svo sem Austurríki (1428 – 1429), Saxland og jafnvel Ungverjaland. Eftir ýmsar orrustur, sem hússítar yfirleitt sigruðu í, kom til lokaorrustu við keisaraherinn 1434. Þar voru hússítar loks gjörsigraðir og nær útrýmdir. Ósigur þeirra batt þó ekki alveg enda á siðbót hússíta í Bæheimi, jafnvel þó að kaþólska kirkjan var víða endurreist í landinu. Þar að auki hafði Jan Hus þýtt Biblíuna á tékknesku og þannig átt stóran þátt í að festa tungumálið í ritmálinu. Þrátt fyrir ósigur hússíta myndaðist í fyrsta sinn eiginleg þjóðarvakning meðal Tékka. 1458 varð Georg Podiebrad konungur Bæheims, en þar með varð hann fyrsti siðaskiptakonungur Evrópu á miðöldum. Habsborgarar og 30 ára stríðið. Fulltrúum keisarans hent út um glugga á kastalanum í Prag. Atburður þessi markaði upphaf 30 ára stríðsins. Frá og með 1526 urðu Bæheimur og Mæri eign Habsborgara er Ferdinand I af Habsborg varð konungur landsins. Þar með voru Bæheimur og Mæri tengd Austurríki allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri 1918. Habsborgarinn Rúdolf II, keisari þýska ríkisins, flutti aðsetur sitt frá Vín til Prag 1583. Prag varð því næstu áratugi miðstöð stjórnmála, lista og vísinda í ríkinu. Rúdolf var opin gagnvart nýjum hugmyndum og veitti Bæheimi formlegt trúfrelsi. Hann var jafnframt ötull áhugamaður lista og vísinda, og bauð ýmsum þekktum mönnum á þeim sviðum til Prag. Má þar nefna Tycho Brahe og Jóhannes Kepler. 1612 lést Rúdolf. Þá varð Mattías konungur Bæheims og þýska ríkisins. Hann hóf þegar að þrengja að mótmælendum í Bæheimi og endurvekja kaþólsku kirkjuna. Þetta gekk svo langt að 1618 ruddust mótmælendur í kastalann í Prag (Hradčany) og fleygðu fulltrúum keisarans út um gluggann. Atburður þessi markar upphafið á 30 ára stríðinu. Ári síðar lést Mattías keisari og kusu gildin í Prag, sem voru mótmælendur, Friðrik frá Pfalz sem nýjan konung Bæheims. Samtímis varð Ferdinand II af Habsborg keisari þýska ríkisins. Um vorið 1620 var fyrsta orrusta stríðsins háð í Bæheimi er keisaraher Ferdinands gjörsigraði Friðrik konung við Hvítafjall. Friðrik flúði úr landi og var kallaður Vetrarkonungurinn. Hann var síðasti konungur Bæheims. Mótmælendur í Prag voru eltir. Sumir voru fangelsaðir, aðrir líflátnir. Enn aðrir flúðu land. Í kjölfarið kom Ferdinand keisari kaþólsku kirkjunni á með valdi. Konungdæmið í Bæheimi var lagt niður og sjálfstæði landsins að hluta afnumið. Bæheimi og Mæri varð þaðan í frá stjórnað frá Vín, allt til 1918. Þýsk tunga ruddi sér til rúms, að minnsta kosti í opinberu lífi, en tékkneska hörfaði. Ný þjóðarvakning. Á 19. öld myndaðist ný þjóðarvakning meðal Tékka, enda hafði landið verið stjórnað af Habsborgarkeisurum í Vín í tvær aldir. Í júní 1848 var haldin Slavaráðstefnan mikla í Prag. Tékkar heimtuðu að tékkneskt mál yrði viðurkennt á ný en það var þá orðið að minnihlutamáli. Auk þess kröfðust þeir aukin stjórnmálaleg réttindi. Ráðstefnunni var vart lokið þegar borgarauppreisn hófst í Prag og stóð hún í fimm daga (12.-17. júní). Mótmælendur heimtuðu sjálfstæði og gengu berserksgang út um allt. Götubardagar stóðu yfir í nokkra daga. Austurrískir varðliðar urðu að setja upp fallbyssur og umkringja borgina til að ráða niðurlögum mótmælanna. Í iðnbyltingunni sem fylgdi varð Bæheimur að iðnaðarhéraði fyrir keisaradæmið í Vín. En þjóðin naut ekki þess frelsis sem aðrar þjóðir innan Austurríska keisaradæmisins nutu. Til að mynda var bannað að gefa út dagblöð á tékknesku. Allt lesefni var á þýsku. Það var ekki fyrr en 1897 að stjórnin í Vín leyfði borgum og sveitarfélögum að nota tékknesku til jafns við þýsku. Einnig fékk Bæheimur heimastjórn en hún var leyst upp á ný 1913. Tékkóslóvakía. Hitler lætur hylla sig í Kraslice í október 1938 eftir að hafa innlimað Súdetahéruðin Tékkar börðust með Þjóðverjum og Austurríkismönnum í heimstyrjöldinni fyrri, þrátt fyrir andstöðu almennings. Við stríðslok 1918 leystist austurríska keisaradæmið upp. Skyndilega stóðu Tékkar uppi án stjórnar í Vín. 16. október 1918 sameinuðust héruðin Bæheimur, Mæri og suðurhluti Slésíu er stofnað var nýtt ríki. Prag varð að höfuðborg nýja ríkisins. Tveimur vikum síðar, 30. október, sameinaðist Slóvakía nýja ríkinu, sem hlaut nafnið Tékkóslóvakía. Auk þess tilheyrði vestasti hluti Úkraínu nýja ríkinu. Í manntali 1921 kom í ljós að íbúar voru 14 milljónir, þar af rúmlega helmingur Tékkar, 23% Þjóðverjar, 14% Slóvakar, 5,5% Ungverjar, auk Rúmena, Pólverja og Króata. Lýðveldið var því fjölþjóðaríki og voru erjur og sundurlyndi nánast daglegt brauð. 1938 ásældist Hitler stóra hluta landsins, aðallega Súdetahéruðin, enda bjuggu þar margir Þjóðverjar. Í München-sáttmálanum 29. september 1938 voru Súdetahéruðin innlimuð Þýskalandi. Ungverjaland og Pólland hlutu einnig sinn skerf af landinu. Við þetta missti Tékkóslóvakía rúmlega 40% iðnaðarins. Eftir stóð aðeins lítið og vanmáttugt ríki. Þjóðverjar hófu að reka Tékka burt úr innlimuðu héruðunum, en margir voru fangelsaðir og myrtir. 5. október flúði Edvard Beneš forseti til London. Í kjölfarið lýstu Slóvakar yfir sjálfræði. 15. mars 1939 innlimaði Hitler afganginn af Bæheimi og Mæri. Þarmeð leystist Tékkóslóvakía upp sem ríki. Það voru Sovétmenn sem frelsuðu landið að mestu leyti 1945. 5. maí hófu íbúar Prag uppreisn gegn Þjóðverjum sem stóð í þrjá daga. 8. maí hrökluðust Þjóðverjar burt og degi síðar hertók Rauði herinn borgina. Í kjölfarið var Tékkóslóvakía endurreist, fyrir utan Úkraínuhlutann. Þremur milljónum Þjóðverja, aðallega í Súdetahéruðunum, var gert að yfirgefa landið. Kommúnistaríkið og Vorið í Prag. Í kosningum 1946 hlutu kommúnistar 40% greiddra atkvæða og hlutu mikilvæg embætti í stjórn landsins. 1948 hrifsuðu þeir til sín öll völdin í landinu og lutu reglugerðum frá Moskvu. Edvard Beneš, sem aftur var orðinn forseti, neitaði að skrifa undir nýja stjórnarskrá og sagði af sér. Klement Gottwald, leiðtogi kommúnista, lýsti því yfir stofnun nýs sósíalísks lýðveldis og var fyrsti forseti þess. 1968 var Alexander Dubček formaður kommúnistaflokksins og Ludvík Svoboda varð forseti. Þeir voru báðir mjög frjálslegir gagnvart kommúnismanum og hófu ýmsar umbætur í landinu. Til dæmis voru höftin á prentfrelsi afnumin, komið var á skoðanafrelsi og fólk mátti jafnvel ferðast til útlanda. Einnig unnu þeir að endurbótum á efnahagssviðinu. Endurbætur þessar gengu undir heitinu Vorið í Prag. Á hinn bóginn mældist þetta illa fyrir í öðrum austantjaldslöndum, sérstaklega í Póllandi og Austur-Þýskalandi. 21. ágúst 1968 gerðu herir Varsjárbandalagsins, undir forystu Sovétmanna, innrás í Tékkóslóvakíu. Tékkar fengu ekkert við ráðið. Allar lýðræðisbreytingar undanfarinna mánaða voru teknar til baka. Dubček var settur af og kommúnistaflokkurinn hreinsaður. Heimurinn stóð á öndinni. Tugþúsundir Tékka yfirgáfu landið í kjölfarið. Talið er að rúmlega 170 þús manns hafi farið til Austurríkis. Leiðin til lýðræðis. Í nóvember 1989 hófust mikil mótmæli gegn kommúnistastjórninni í Prag. Þýða hafði myndast í ýmsum austantjaldslöndum, ekki síst í Sovétríkjunum. Í lok nóvembers sagði stjórnin í Prag af sér. Í upphafi desember var mynduð ný stjórn án aðkomu kommúnista. Seinna sama mánuð var rithöfundurinn og baráttumaðurinn Václav Havel kjörinn forseti landsins. Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar landsins síðan 1945 fóru fram 8. júní 1990. Brátt kom þó í ljós að hagsmunir Tékka og Slóvaka voru mismunandi. Strax í upphafi árs 1991 hófust viðræður milli aðilana um aðskilnað, en ákveðið var að bíða eftir kosningar 1992. Þegar þær voru afstaðnar komust forsætisráðherrar beggja þjóða að þeirri niðurstöðu að aðskilja löndin á friðsamlegan hátt, án kosninga eða aðkomu almennings. Samkvæmt því fór aðskilnaðurinn fram 1. janúar 1993 en við hann mynduðust Tékkland og Slóvakía sem tvö sjálfstæð ríki. Í júní á sama ári gekk Tékkland í Evrópuráðið og 1999 í NATO. 1. maí 2004 fékk Tékkland síðan inngöngu í Evrópusambandið. Um það var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu en rúmlega 77% kusu með aðild. Fjöll. Snætindur (Sněžka) er hæsti tindur Tékklands með 1.602 m. Efst sér í veðurathugunarstöðina. Tékkland er nær umkringt fjallgörðum. Bæheimur er eins og skál í stórum fjalladal. Til vesturs eru Bæheimsskógur og Eirfjöllin en til norðurs eru Risafjöllin og Súdetafjöllin. Í síðastnefnda fjallgarði er hæsta fjall landsins, Snætindur (tékkneska: Sněžka; þýska: Schneekoppe) sem er 1.602 metra hátt. Í austri landsins er vestasti hluti Karpatafjalla. Ár og vötn. Í Tékklandi eru stöðuvötn aðeins fá og lítil. Iðnaður. Austurríki-Ungverjaland iðnvæddist hratt en stóð þó Bretlandi og þýska ríkinu (Þýskalandi) nokkuð að baki enda hófst iðnaðaruppbygging þar síðar en í fyrrnefndum löndum og pólítískur óstöðugleiki í austurríska heimsveldinu árin fyrir stofnun keisaradæmisins Austurríkis-Ungverjalands hafði sín áhrif. Iðnaður varð sérstaklega öflugur í vestanverðu keisaradæminu og varð Prag í Bæheimi ein helsta þungamiðja þeirrar þróunar. Þannig varð svæðið sem nú nefnist Tékkland að einu af meginiðnaðarsvæðum Evrópu. Í austurhluta Austurríkis-Ungverjalands varð landbúnaður hins vegar ráðandi. Helstu framleiðsluvörur voru iðnvélar, stál og járn, kol, textíll og vefnaðarvörur, vopn og hergögn, efnavörur og margt fleira. Iðnaðurinn nútímavæddist í takt við tímann og gaf öðrum ekkert eftir og var til dæmis hafinn bílaframleiðsla upp úr aldamótunum 1901. Bæheimur og Mæri voru kjarni alls iðnaðar Austuríkis-Ungverjalands þar til það veldi leystist upp. Í fyrri heimsstyrjöldinni var iðnaður svæðisins nýttur til hergagnaframleiðslu þar sem Austuríki-Ungverjaland barðist við hlið Þjóðverja við bandamenn. Brestir voru þó komnir í ríkjasambandið Austurríki-Ungverjaland og leið það undir lok í stríðslok. Eftir stríðið varð Tékkóslóvakía til sem sjálfstætt ríki í fyrsta sinn þegar Bæheimur, Mæri og Slóvakía, sem voru áður héruð í Austuríki-Ungverjalandi runnu saman í eitt ríki. Landið fékk stærstan hluta iðnaðar heimsveldisins fyrrverandi í sinn hlut og varð því eitt af öflugri iðnríkjum Evrópu og á því byggði landið ágætt gengi sitt á millistríðsárunum. Kreppan mikla á þriðja áratug 20. aldar fór ekki framhjá Tékkóslóvakíu frekar en öðrum löndum hins vestræna heims. Iðnaðarframleiðsla dróst saman og atvinnuleysi jókst. Mun alvarlegri og dekkri ský hrönnuðust þó upp á sjóndeildarhringnum, sérstaklega þó í vestri en einnig í austri þó torræðari væru. Tékkóslóvakía varð fyrsta fórnarlamb seinni heimstyrjaldarinnar í Evrópu og varð það áður en sú styrjöld hófst opinberlega enda var landinu fórnað fyrir ímyndaðan frið á samningaborði alþjóðlegra stjórnmála. Þjóðverjar hernámu meginhluta landsins 1938 – 1939 og afgangnum var skipt milli nágrannanna. Iðnaðarmáttur Tékkóslóvakíu var þegar settur í fulla vinnu fyrir þýsku hervélina og framleiddi gríðarlegt magn vopna allt stríðið svo sem skriðdreka, vélbyssur og fallbyssur. Við þessa framleiðslu var mjög notast við þrælavinnuafl, bæði heimamanna og erlendra „verkamanna“ eða Fremdarbeiter eins og þeir voru kallaðir. Margir lifðu þá vist ekki af enda aðbúnaður og meðferð skelfileg. Vopnaframleiðslan stöðvaðist ekki að fullu fyrr en við uppgjöf Þjóðverja vorið 1945 en þá hrúguðust upp óveðurskýin eina ferðinna enn og nú á austurhimni þar sem Tékkóslóvakía lenti á áhrifasvæði Sovétríkjanna en líkt og áður voru það örlög sem ákveðin voru við samningaborð stórveldanna á Yalta ráðstefnunni. Við tóku nokkur ár óvissu í landinnu sem var þó fljótlega eytt. Þegar kommúnistar tóku yfir Tékkóslóvakíu árið 1948 var nokkurt jafnvægi milli hinna ýmsu þátta hagkerfisins. Iðnaður var þó þungamiðja atvinnulífsins enda landið eitt það iðnvæddasta í Evrópu þó enn væru Tékkóslóvakar að sjálfsögðu að súpa seiðið af seinni heimsstyrjöldinni líkt og aðrar þjóðir álfunnar. Eftir að kommúnistar tóku völdin lögðu þeir höfuðáherslu á þungaiðnað umfram aðra þætti atvinnulífsins svo sem landbúnað og framleiðslu almennra neitendavara. Margar helstu atvinnugreinar þjóðarinnar höfðu verið þjóðnýttar að hluta eða öllu leyti fyrir yfirtöku kommúnista og héldu þeir því áfram. Svo var komið í kring um árið 1950 að svo til allt efnahagslíf þjóðarinnar hafði verið þjóðnýtt og hélst það svo allt þar til kommúnistastjórnin féll í flauelsbyltingunni 1989. Vorið í Prag hafði að sjálfsögðu ákveðinn áhrif á iðnað líkt og aðra hluti þjóðfélagsins en varði svo stutt að engar meiriháttar breytingar höfðu komist í framhvæmd þegar það var kæft í fæðingu. Stóriðnaður fékk mikinn stuðning á 6. áratugnum en með því fylgdi að mikið var um úrgang og verksmiðjurnar voru ekki nægilega vel staðsettar til þess að geta nýtt allt það sem landið og fólkið í landinu hafði upp á að bjóða. Þrátt fyrir að starfsfólkið væri vel þjálfað og duglegt þá voru hvatir til vinnu og stjórnunar litlar. Það leiddi til minni veltu, minni framleiðslu og lélegri vara. Hagkerfið hrundi því að einhverju leyti á sjöunda áratugnum og þrátt fyrir ýmsar ráðstafanir og tilraunir til umbóta þá náðist ekki fullnægjandi árangur. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn aðstoðaði Tékkland árið 1989 að byggja upp innviðið aftur. Með því byrjaði iðnaður að dafna og erlendir fjárfestar fjárfestu í iðnaði. Iðnaður í Tékklandi var að einkavæðast. Árið 1995 voru mýmörg fyrirtæki einkavædd sem leiddi til þess að um 80% af öllum iðnaði í Tékklandi var ekki undir ríkinu. Þó hafði tékkneska ríkið einhverja smá stjórn á stál-, fjarskipta- og orkuiðnaði í gegnum fyrirtækið CEZ Group en það á um það bil 96 fyrirtæki og starfsemi þess er í allmörgum löndum svo sem Austurríki, Póllandi, Serbíu, Tyrklandi og átta öðrum löndum. Það því eitt stærsta ríkisrekna fyrirtæki í Evrópu. Einkavæðing CEZ Group átti að hefjast árið 2001 þegar fyrirtækið stóð undir 41% af vergri landframleiðslu og veitti 35% af fólki í Tékklandi atvinnu. En vegna efnahagslegrar niðursveiflu var hætt við það. Nú árið 2012 er verið að hugsa aftur um hvort einkavæða eigi fyrirtækið. Tékkland er nú með eitt iðnvæddasta hagkerfi í Mið- og Austur-Evrópu. Þessi iðnstyrkur er arfleifð frá 19. öld þegar Bæheimur og Mæri voru iðnaðarhéröð í austurríska-ungverska keisaradæminu. Íbúar Tékklands eru vel menntaðir og innviði Tékklands er mjög þróað. Helstu atvinnugreinar. Skoda-bílar á sýningu í Leipzig 1980 Helstu atvinnugreinar Tékklands eru: Bílaiðnaður, smíði véla, járn og stálframleiðsla, járnvinnsla, raftæki, vefnaður, gler, kristall, postulín, vopnaframleiðsla, keramik og auðvitað við bjórbruggun. Helstu landbúnaðarafurðir Tékklands eru: Sykurrófur, kartöflur, hveiti og humlar. Eins og með mörg ríki í Mið-Evrópu er mikil hagvöxtur fólginn í eftirspurn og erlendri fjárfestingu. Bílaiðnaður. Í Tékklandi voru framleiddir 465.268 bílar árið 2001 en framleiðslan er nú að ná um einni milljón bíla á ári. Meira en 800 fyrirtæki eru beintengd framleiðslu bíla í Tékklandi. Verg ársframleiðsla greinarinar er um 9-10%. Af bílaframleiðendum sem framleið eitthvað eða allt í ökutækin í Tékklandi má nefna Skoda, TPCA (Toyota Peugeot Citroën Automobile), Hyundai, Tatra, Irisbus Iveco og Avia Ashok Leyland. Orkuiðnaður. Samkvæmt hagstofu Tékklands er 65,4% af rafmagni landsins búið til með gufu. Gufan er ekki jarðhiti heldur búin til með því að hita vatn með brennslu kola og annarra efna. 30% af rafmagninu kemur frá kjarnorku en einungis 4,6% frá endurnýtanlegum orkugjöfum svo sem fallvatni. Mikið er notað af gasi í Tékklandi en það kemur með pípum frá Rússlandi og Noregi. Tvöfalt meira er notað af gasi en rafmagni í iðnaði. Kvikmyndir. Eftir fyrri heimstyrjöldina blómstraði kvikmyndaiðnaðurinn í Tékklandi. Margar kvikmyndir voru gerðar eða um áttatíu á ári. Svo var sjöundi áratugurinn gullöld kvikmyndagerðarinnar. Film and Television School of the Academy of Performing Arts (FAMU) einn elsti skóli sinnar tegundar í Evrópu var stofnaður í Prag og tvær tékkneskar myndir unnu Óskarinn fyrir bestu erlendu myndina. Nú eru margir erlendir aðilar sem flykkjast til Tékklands bæði til að taka upp myndir þar vegna minni kostnaðar og einnig til að uppgötva nýjar tékkneskar kvikmyndir. Tónlist og bókmenntir. Ýmsir þekktir tónlistarmenn eru frá Tékklandi. Frá 19. öldinni eru nöfn eins og Bedřich Smetana og Antonin Dvořak heimsþekkt. Af þekktum rithöfundum má nefna Franz Kafka og Milan Kundera. Íþróttir. Þjóðaríþrótt Tékka er íshokkí. Landsliðið hefur nokkrum sinnum orðið heimsmeistarar, síðast 2010. 1998 urðu þeir Ólympíumeistarar á vetrarleikunum í Nagano í Japan. Aðrar vetraríþróttir eru einnig hátt skrifaðar, svo sem skíðaíþróttir. Miðstöð skíðaíþrótta í landinu er Liberec í norðri Bæheims en þar fór meðal annars fram heimsbikarmótið í norrænum greinum 2009. Knattspyrna er einnig vinsæl íþrótt. Úrvalsdeildin heiti Gambrinus-deild og er með 16 lið. Landsliðið hefur síðustu ár verið að gera það gott á alþjóða vettvangi. Á EM 1996 í Englandi komst liðið í úrslit en tapaði leiknum fyrir Hollandi. Liðið hefur eini sinni komist í lokakeppni HM, árið 2006 í Þýskalandi, en komst ekki upp úr riðlakeppninni. Meðan Tékkóslóvakía var og hét komst liðið tvisvar í úrslit en tapaði báðum leikjum. Fyrst 1934 fyrir Ítalíu, síðan 1962 fyrir Brasilíu. Af þekktum tékkneskum leikmönnum má nefna Milan Baroš (Galatassaray), Jan Koller (lengst af hjá Borussia Dortmund) og markmanninn Petr Čech hjá Chelsea. Í kappakstursbrautinni Automotodrom Brno er keppt í alþjóðlegum kappakstri. Matargerð. Tékknesk matargerð einkennist af kjötréttum, sérstaklega svínakjöti. Landið er þó þekktara fyrir bjórframleiðsu, en bjór er ein helsta útflutningsvara landsins. Tékkar framleiða á einum ársfjórðungi um 15.263 hektólítra af bjór og af þeim eru um 2.903 milljón hektólítrar fluttir út. Helstu kaupendur tékknesks bjórs eru Þjóðverjar, Slóvakar og Rússar. Þær borgir sem helst brugga bjór eru Plzeň og České Budějovice en þekktustu tegundirnar eru nefndar eftir borgunum (Pilsner og Budweis). Tékkar drekka hlutfallslega mest bjór á mann í heimi. Helgidagar. Auk ofangreindra helgidaga er haldið upp á nokkra aðra daga en aðeins í vissum landshlutum. Bjarnarfjarðarháls. Bjarnarfjarðarháls er lítil heiði (180 m) á milli Bjarnarfjarðar og Steingrímsfjarðar á Ströndum. Vegur nr. 643 liggur yfir hálsinn, sem er aðal samgönguleiðin í Bjarnarfjörð. Selkollusteinn er uppi á hálsinum sunnanverðum en þar og á Selströnd er vettvangur þjóðsögunnar um Selkollu sem var magnaður draugur í konulíki með selshaus og gekk ljósum logum um Selströnd. Neðarlega utan við veginn yfir hálsinn, í Bjarnarfirði, er minnisvarði um þá sem létust í snjóflóði sem féll yfir bæinn Goðdal í Bjarnarfirði árið 1947. Í Njáls sögu segir frá því þegar Svanur á Svanshóli gerði gerningaþoku á Bjarnarfjarðarhálsi til að villa um fyrir eftirreiðarmönnum Þjóstólfs. Sagnarandi. Sagnarandi er fyrirbæri sem er vel þekkt í íslenskri þjóðtrú. Sagnarandi segir eiganda sínum allt sem hann vil vita og talar helst í rosaveðri og austanátt. Sá sem vill fá sér sagnaranda þarf að fara afsíðis frá öðrum mönnum, því líf hans liggur við ef á hann er yrt á meðan hann seiðir andann til sín. Hann þarf að leggjast niður í skugga og snúa mót norðri og hafa yfir vitum sér líknarbelg af hryssufóstri og fara með særingar í bland við guðsþulur afturábak. Þá mun andinn, sem er vofa eftir dauðan mann koma og reyna að fara ofan í manninn en líknarbelgurinn verður fyrir honum svo það ríður á að maðurinn verði snöggur að bíta saman tönnunum svo andinn festist á milli. Þá skal líknarbelgurinn með andanum í settur ofan í bauk með áristum sagnarandastaf sem er galdrastafur. Sleppi sagnarandinn úr bauknum þá gerir hann þann mann brjálaðan sem fangaði hann. Sagnarandinn mælir ekki orð fyrr en dreypt hefur verið yfir hann helgu víni og dögg sem fellur í maímánuði. Þegar eigandi sagnarandans er feigur þá byrjar sagnarandinn að ljúga að eigandanum og þá er best að afhenda hann nýjum eiganda eða lóga honum með því að grafa hann í jörðu í bauknum, vel signdum Rotaskrossi. Þau álög fylgja sagnaranda að hjónum kemur illa saman á jörð þeirri sem hann er grafinn í. Einkum verður eiginkonan svo ákaflega málgefin, að eiginmaðurinn getur ekkert sagt nema: „Þú hefur rétt að mæla elskan mín“, einmitt þegar frúin rausar og lýgur sem mest. Ársverk. Ársverk er notað sem mælieining á starfsemi fyrirtækja eða atvinnugreina og er nálgun á fjölda starfa á viðkomandi sviði. Um er að ræða reiknaða tölu sem miðast við ákveðnar forsendur. Hjá er miðað við að ársverk samsvari 52 vinnuvikum eða fullt starf eins einstaklings í ár. Yfirleitt er miðað við meðaltöl þegar ársverk eru reiknuð og ekki tekið tillit til þess að mismunandi fjöldi vinnustunda getur staðið á bak við vinnu hvers einstaklings á ári, m.a. vegna yfirvinnu. Ekki er því endilega samræmi á milli fjölda ársverka og fjölda starfandi fólks. Listi yfir lönd og útliggjandi yfirráðasvæði eftir stærð. Hér er listi yfir lönd jarðar, raðað eftir stærð. Einnig er höfuðborg ríkisins tilgreind, sé hún nokkur. Stærðin er tilgreind í ferkílómetrum (km²) að meðtöldum ám, vötnum og uppistöðulónum. Athugið: Nokkrir listar yfir stærð landa eru í gangi og eru ekki sammála um stærð allra landa. Til dæmis er það á reiki hvort Kúba er talin stærri eða minni en Ísland. Þess vegna er Ísland á bilinu frá sæti 104 til númer 106 eftir því hvaða tafla er notuð. Finnur Jónsson (biskup). Finnur Jónsson (16. janúar 1704 – 23. júlí 1789) var biskup í Skálholti, næstsíðastur í röð biskupa sem þar sátu. Finnur var sonur Jóns Halldórssonar prófasts og sagnaritara í Hítardal og konu hans, Sigríðar Björnsdóttur. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í Hítardal, varð stúdent frá Skálholtsskóla og sigldi síðan og lærði í Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð svo prestur í Reykholti 1732. Finnur var stiftprófastur í Skálholtsbiskupsdæmi 1743-53 og síðan biskup þar 1754-85. Hann mun hafa verið tregur til að taka við biskupsembættinu, einkum vegna umsýslu og ráðsmennsku sem því fylgdi, en þótti þó standa sig vel í þeim efnum. Hann var röggsamur stjórnandi en tók oft vægt á smærri málum. Finnur var mikill fræðimaður eins og faðir hans og ýmsir ættmenn og hlaut árið 1774 doktorsnafnbót í guðfræði, fyrstur Íslendinga. Hann skrifaði "Historia Ecclesiastica Islandiæ", rit um kirkjusögu Íslands á latínu sem kom út á prenti í Kaupmannahöfn 1772-1778. Hann lét eftir sig fjölda annarra rita, prentaðra og óprentaðra, einkum um guðfræði og kirkjusögu. Sonur hans varð biskup í Skálholti á eftir honum, Hannes Finnsson, og vígðist raunar biskup 1777 og var föður sínum til aðstoðar þar til hann lést 1789. Flest hús í Skálholti skemmdust eða hrundu í Suðurlandsskjálftanum 1784 og kvikfé hafði flest fallið í harðindunum veturinn áður en Finnur neitaði þó að flytja og var í Skálholti meðan hann lifði. Kona hans var Guðríður Gísladóttir (1707 – 1766), dóttir Gísla í Mávahlíð, sonar Jóns Vigfússonar biskups og systir Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Landsframleiðsla. Landsframleiðsla er mælikvarði notaður í þjóðhagsreikningum á það hversu mikið er framleitt af tilbúnum vörum og þjónustu. "Hagvöxtur" er mælieining á hlutfallslega breytingu á landsframleiðslu frá einu ári til annars. Landsframleiðsluna er hægt að mæla og sýna á nokkra vegu en algengast er að hún sé sett fram samkvæmt svokallaðri ráðstöfunaraðferð. Hún byggist á því að gera grein fyrir hvernig þeim fjármunum sem verða til í hagkerfinu er ráðstafað. Gerður er greinarmunur á þjóðarframleiðslu og landsframleiðslu. Þjóðarframleiðsla er framleiðsla einnar þjóðar þar sem eigur og tekjur erlendra ríkisborgara eru ekki teknar með í reikninginn. "Verg landsframleiðsla" er er algengasta leiðin til þess að mæla landsframleiðslu. Einnig er hægt að mæla "hreina landsframleiðslu" og eru þá afskriftir og skuldir dregnar frá. Landsframleiðsla er ekki eini mælikvarðinn á ástand efnahagslífs þar sem ekki er tekið tillit til þess sem framleitt er á heimilum til einkanota eða hins svo kallaða neðanjarðarhagkerfis, þau viðskipti sem eru ólögleg. 1619. Árið 1619 (MDCXIX í rómverskum tölum) var nítjánda ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. 1624. Árið 1624 (MDCXXIV í rómverskum tölum) var 24. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1630. Árið 1630 (MDCXXX í rómverskum tölum) var 30. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Gústaf Adolf stígur á land í Þýskalandi. Úr "Svensk historia" eftir Anders Fryxell. 1636. Árið 1636 (MDCXXXVI í rómverskum tölum) var 36. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1649. Árið 1649 (MDCXLIX í rómverskum tölum) var 49. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1655. Árið 1655 (MDCLV í rómverskum tölum) var 55. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Christiaan Huygens uppgötvaði Títan þetta ár. 1661. Árið 1661 (MDCLXI í rómverskum tölum) var 61. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1665. Árið 1665 (MDCLXV í rómverskum tölum) var 65. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1674. Árið 1674 (MDCLXXIV í rómverskum tölum) var 74. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Séra Marquette predikar meðal indíána. 1679. Árið 1679 (MDCLXXIX í rómverskum tölum) var 79. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. James Scott, hertogi af Monmouth. 1684. Árið 1684 (MDCLXXXIV í rómverskum tölum) var 84. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1691. Árið 1691 (MDCXCI í rómverskum tölum) var 91. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1697. Árið 1697 (MDCXCVII í rómverskum tölum) var 67. ár 17. aldar. Það hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Stytta sem sýnir Pétur mikla vinna í hollenskri skipasmíðastöð. 1700. Árið 1700 (MDCC í rómverskum tölum) var 100. og síðasta ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en hlaupár sem hófst á mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Rotaskross. Rotaskrossar eru galdrastafir og mjög áhrifamiklir sem verndarstafir. Allnokkrir eru kunnir s.s. Rotaskross Stefnis, Rotaskross Eiríks jarls hinn meiri og Rotaskross Eiríks jarls hinn minni og Rotaskross Ólafs Tryggvasonar auk nokkurra annarra sem eingöngu bera heitið Rotaskross. Almennt eru krossar þessir nefndir Róðu- eða Rúðukrossar en upprunalega heitið er Rotaskross, en það er dregið af nafninu Sator lesið öfugt og er komið úr galdratalbyrðingnum fræga Satorarepo. Satorarepo gefur öllum galdralestri kraft. Rotaskrossar eru því betri og öflugri vörn sem fleiri koma saman. Satorarepo. Galdratalbyrðingurinn Satorarepo gefur öllum galdralestri kraft og er notaður við alls konar gjörningar, særingar, ristur og lækningar. Talbyrðingurinn er forn og hefur fundist meðal annars á töflu frá Pompei. Annað gamalt satorsvers er að finna á vegg í dómkirkjunni í Siena á Ítalíu. Satorarepo er þannig uppbyggður að hvort sem lesið er fram eða aftur, upp eða niður í byrðingnum þá koma ávallt út sömu orðin: „Sator, Arepo, Tenet, Opera, Rotas“. Ef reiknuð er þversumma talnagilda stafanna í hverri línu miðað við latneska stafrófið, verður hún sú sama (tíu) fyrir allar línurnar. Við lækningar sjúkdóma eða til að verjast illum öndum, draugum, sendingum, afturgöngum, óvættum, árum eða djöflum, voru þessi fimm orð rist á allar neglur viðkomandi sjúklings eða þess er verjast skyldi og um leið skyldi þylja versið. Balar. Balar eru landsvæðið milli Bjarnarfjarðar og Kaldbaksvíkur á Ströndum á um 12-13 km svæði. Það er undirlendisræma undir grýttum fjallshlíðum Balafjalla. Landið allt er fremur grýtt og gróðurlítið og virðist ekki vel fallið til landbúnaðar við fyrstu sýn, en fjörubeit er mikil. Talsvert rekur þar af rekaviði á fjörur. Lendingar voru góðar og heimræði stundað af hverjum bæ. Enginn hefðbundinn búskapur er lengur á svæðinu og þau hús sem enn standa uppi eru nýtt til sumardvalar og hlunnindabúskapar af rekaviði og æðarfugli. 1639. Árið 1639 (MDCXXXIX í rómverskum tölum) var 39. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Homo floresiensis. Homo floresiensis er nýlega uppgötvuð tegund manna sem er einstaklega smávaxin. Hún fannst á eyjuni Flores í Indónesíu. Talið er að hún sé kominn af "hinum upprétta manni" og hafi komið til Flores fyrir um 800.000 árum en svo horfið af sjónarsviðinu fyrir um 13.000 árum. Hrafn. Hrafn (eða krummi) (fræðiheiti: "Corvus corax") er stór svartur fugl af hröfnungaætt. Hann er með sveigðan gogg. Hrafnar verða um 60 - 75 cm langir með um tvöfalt stærra vænghaf. Hrafnar þrífast í fjölbreyttu umhverfi og eru algengir um allt norðurhvel jarðar. Flestir hrafnar kjósa að gera sér hreiður í skóglendi, fjöllum eða við strendur. Hreiður hrafnsins nefnist „laupur“ á íslensku. Hann verpir á vorin 4 – 6 eggjum. Ungarnir koma úr eggjunum eftir u.þ.b. þrjár vikur. Utan varptíma safnast hrafnar í stórum hópum saman á ákveðnum stöðum og þeir eru oftast tveir og tveir saman á ferð. Á haustin má sjá þrjá eða fleiri hrafna saman og eru þar að öllum líkindum á ferðinni foreldrar með nýfleyga unga. Hrafnar eru ákaflega tryggir maka sínum og endist hjúskapur þeirra ævilangt. Líkt og aðrir hröfnungar getur hrafninn hermt eftir hljóðum úr umhverfi sínu, þar með töldu mannamáli. Hrafninn er stærsti spörfuglinn á Íslandi og er einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru. Hann er algengur um allt land. Hann er staðfugl á Íslandi og duglegur að bjarga sér þegar hart er í ári. Hrafninn í þjóðtrú og bókmenntum. Margar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta. Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu. Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir. Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna. Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann. Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar. Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan. Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England. Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið "Hrafninn" eftir Edgar Allan Poe, leikritið "Óþelló" eftir William Shakespeare og "Hobbitinn" eftir J. R. R. Tolkien. George W. Bush. George Walker Bush (fæddur 6. júlí 1946;) var 43. forseti Bandaríkjanna. Hann tilheyrir Repúblikanaflokknum og gegndi áður starfi ríkisstjóra Texas. Hann tók við af Bill Clinton 20. janúar 2001 sem forseti eftir að hafa naumlega sigrað mótframbjóðanda sinn úr röðum Demókrata, Al Gore í kosningum í nóvember árið 2000 þar sem Bush fékk reyndar færri atkvæði á landsvísu en náði fleiri kjörmönnum. Bush sigraði svo aftur í kosningunum 2004, þá á móti öldungadeildarþingmanninum John Kerry, nú með naumum meirihluta atkvæða á landsvísu. Varaforseti Bush er Dick Cheney. Seinna kjörtímabili Bush lauk 20. janúar 2009. Eftir að hafa útskrifast úr háskóla, þá starfað Bush að olíuviðskiptum fjölskyldu sinnar. Seinna var hann meðeigandi í hafnaboltaliðinu Texas Rangers, áður en hann snéri sér aftur að stjórnmálum til að verða ríkisstjóri Texas. Hann bauð sig fram á móti Ann Richards og var kosinn ríkisstjóri Texas 1994. Faðir George W. Bush er George Herbert Walker Bush sem var 41. forseti Bandaríkjanna á árunum 1989 – 1993. Bush er óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá upphafi Gallup-kannana. Tilvísanir. Bush, George W. Björn Halldórsson. Björn Halldórsson (5. desember 1724 – 24. ágúst 1794) var prestur í Sauðlauksdal. Hann var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi. Enn þá sést móta fyrir Akurgerði, gróðurreit þar sem Björn ræktaði kartöflur frá 1760. Minnismerki um sr. Björn er í Sauðlauksdal. Hann var mágur Eggerts Ólafssonar skálds. Björn var einn helsti boðberi upplýsingarinnar á Íslandi. Æviágrip. Björn Halldórsson fæddist 5. desember árið 1724 í Vogsósum í Selvogi, þar sem faðir hans, Halldór Einarsson (1795 – 21. nóvember 1738), var þá prestur. Kona hans og móðir Björns var Sigríður Jónsdóttir (1692 – 8. september 1763) frá Gilsbakka í Hvítársíðu. Sama ár og Björn fæddist varð faðir hans prestur á Stað í Steingrímsfirði. Þar ólst Björn upp til fjórtán ára aldurs en þá lést faðir hans. Þá fékk hann ókeypis vist í Skálholtsskóla hjá Jóni biskupi Árnasyni sökum þess hve biskupinn hafði mikið álit á föður Björns. Í Skálholti nam hann í fimm vetur og í stúdentsvottorði sínu var hann stimplaður sem siðprúður og vandaður maður sem best var að sér í latínu, grísku og guðfræði. Næstu árin var hann ritari sýslumanns og eftir það aðstoðarprestur í Sauðlauksdal. Vorið 1753 varð hann svo prestur í Sauðlauksdal og árið 1756 prófastur. Það ár giftist hann Rannveigu Ólafsdóttur. Þau bjuggu í Sauðlauksdal í nærri 30 ár þangað til heilsu Björns fór að hraka. Þá sótti hann um rólegra embætti og fékk Setberg í Eyrasveit árið 1782. Heilsa hans skánaði þó ekki við flutninginn og árið 1785 veiktist hann alvarlega og missti sjónina í kjölfarið. Björn lét þó ekki bugast og þann 25. september 1785 hélt hann til Danmerkur í leit að lækningum. Þar dvaldist hann til ársins 1788 en tilraunir danskra lækna báru engan árangur og kom Björn því heim aftur jafn blindur og slappur og áður. Næstu árin lifði Björn rólegu lífi á Setbergi en við sólsetur 24. ágúst 1794 lést hann, 69 ára gamall. Frumkvöðlastarf í jarðyrkju. Þann tíma sem Björn bjó í Sauðlauksdal vann hann mikið frumkvöðlastarf í jarðyrkju. Björn reyndi ávallt að leysa þau vandamál sem upp komu og auka þar með frjósemi túna. Eitt þessara vandamála og jafnframt helsta vandamál bænda í Sauðlauksdal var sandurinn. Þessi fíni skeljasandur sem fauk í sífellu úr fjörunni og upp á túnin og dró þannig mjög úr frjósemi þeirra. Björn reyndi að sá melgresi í sandinn til þess að binda hann en það erfiði skilaði litlu. Öllu áhrifmeiri var garður sem hann lét gera umhverfis túnið. Þessi garður var heljar mannvirki enda 940 metra langur. Við lagningu hans fékk Björn leyfi landsstjórnar til að skylda sóknarmenn að vinna við garðinn og nýtti hann sér það leyfi. Ekki voru sóknarmennirnir sáttir við það og nefndu garðinn því Ranglát en það nafn hefur loðað við hann síðan. Auk ofannefndra stórframkvæma lét Björn einnig gera ýmsa smáhluti. Hann lét ræsta fram smálindir með skurðum sem skilaði sér í þurrara og betra túni. Þetta umframvatn leiddi hann í læk um bæjarhúsin og stíflaði lækinn þannig að smátjarnir mynduðust. Þessar tjarnir mátti svo nýta til þvotta auk þess sem lifandi silungar voru stundum geymdir í þeim svo bjóða mætti gestum ferskan fisk. Frumkvöðlastarf í garðrækt. Moldin í Sauðlauksdal fékk lítinn frið meðan Björn bjó á staðnum enda var hann kappsamur garðyrkjumaður og gerði tilraunir með ýmsar jurtir sem aldrei höfðu sést á Íslandi áður. Fyrstu tilraunir voru á sviði kornræktar og hóf Björn þær í kjölfarið af því að Danakonungur fyrirskipaði öllum íslenskum bændum að framkvæma slíkar tilraunir. Þessar tilraunir mistókust því miður allar og Björn sneri sér því að öðrum jurtum. Meðal þeirra var kál, næpur, kartöflur og fleira og fljótlega var Björn kominn með fjóra allstóra matjurtargarða í Sauðlauksdal. Af þessu er hann frægastur fyrir kartöflurækt sína enda var hann með þeim fyrstu sem tókst að rækta kartöflur á Íslandi. Strax árið 1758 pantaði hann nokkrar kartöflur frá Kaupmannahöfn (það sama haust voru fyrstu íslensku kartöflurnar teknar upp á Bessastöðum). Þessi farmur komst þó ekki á leiðarenda fyrr en í ágúst sumarið eftir og þá höfðu þá allar kartöflurnar spírað á leiðinni. Þar sem liðið var á sumarið gróðursetti Björn þær einungis í potti og það bar þann árangur að í október fékk hann litla uppskeru með kartöflunum á stærð við piparkorn. Þessar kartöflur gróðursetti hann svo næsta sumar og fjórum vikum síðar gat hann státað sig að myndarlegri kartöfluuppskeru. Ritstörf. Björn Halldórsson var einnig kunnur fyrir ritstörf og skrifaði hann ýmis rit sem lúta að þjóðnytjum, fræðslu og framförum í anda Upplýsingastefnunnar. Það fyrsta sem hann fékk útgefið var skýrsla sem hét því stutta nafni "Korte Beretninger om nogle Forsøk til Landvæsenets og især Hauge-Dyrkningens Forbedring i Island. Begynte på en præstegård vester på landet og fortsatte samme steds i næstleden 9 ár, i de få fra embedsforretninger ledige timer. Gjort på egen bekostning, med liden formue og meget arbejde, men med fornøjet sind og en overflødig Guds velsignelse". Þetta var skýrsla um landbúnaðarframkvæmdir hans á árunum 1757 til 1764 og fékk Björn þetta útgefið með hjálp Eggerts Ólafssonar fyrrverandi skólabróður síns og mágs. Síðari verk Björns eru þó frægari. Frægast þeirra er ritið Atli sem er leiðarvísir fyrir bændur um rétta breytni í búskaparmálum. Nánast allt ritið er á samtalsformi eins og tíðkaðist um kennslubækur fyrr á tímum. Þar ræða saman hinn fávísi Atli og einstaklingur sem einungis er titlaður "bóndi". Atli er að stíga sín fyrstu skref í búskap og fræðir reynslumikill "bóndinn" hann um hvernig reka skuli gott bú. Ritið var fyrst gefið út 1780 og þótti það gott að fyrir tilstilli danakonugs var því útbýtt endurgjaldslaust til íslenskra bænda. Þótti ritið hin mesta skemmtun og var ekki óalengt að lesið væri upp úr því á kvöldvökum allt fram á 19. öld. Björn samdi einnig ritið Arnbjörgu sem er hliðstætt Atla. Það kom fyrst út 1783 og í því er konum kennt hvernig styðja skuli manninnn sinn við bústörfin, hvernig eigi að ala upp börnin og ýmislegt fleira sem lýtur að innanbæjarbúsýslu. Til viðbótar skrifaði hann ýmis rit á sviði grasafræði svo sem bókina Grasnytjar auk þess sem hann aðstoðaði Eggert Ólafsson með við gerð Matjurtabókarinnar. Eftir Björn liggur að auki eitt stórt rit sem er ekki á sviði búskap og garðyrkju. Það er bókin Lexicon Islandico-Latino-Danicum sem er íslensk orðabók með latneskum þýðingum. Björn vann að ritinu í samfleytt 15 ár og árið 1786 sendi hann það til Kaupmannahafnar til prentunar. Það var þó ekki fyrr en 1814 sem ritið kom fyrst út en þá höfðu fleiri merkir menn endurbætt og aukið ritið. Afkastamikið ljóðskáld var Björn ekki en nokkur kvæði orti hann þó. Kvæðið "Ævitíminn eyðist" er merkast þeirra. Þar upplýsir Björn þá skoðun sína að jarðlífið sé einungis tímabundin gisting. Á meðan á gistingunni stendur eigi menn strita og leggja hart að sér svo afkomendurnir og næstu gestir jarðarinnar geti notið erfiðis forfeðranna. Björn og gapastokkurinn. Sagt er að séra Björn hafi verið bæði siðavandur og refsingasamur og setti sóknarbörn sín stundum í gapastokk. Vinnumaður var þar í sókninni er Guðbrandur hét, fremur fávís. Var það eitt sinn er hann bar húsbónda sinn af skipi, er þeir komu úr fiskróðri, að hann sagði þá er hann setti hann af sér, því að honum þótti byrðin þung: "„Mikil bölvuð þyngsli eru á líkamanum á þér, Jón“!" Þá er bóndi kom til kirkju næsta sunnudag á eftir, sagði hann prófasti frá þessu, en honum þóttu ummælin svo óhæfileg, að hann lét setja Guðbrand í gapastokk um messuna fyrir þetta. Björn og tröllriðnir hestar. Séra Björn getur þess í "Grasnytjum" sínum að hestar þeir séu nefndir tröllriðnir sem detta niður án orsaka, og bætir því við, að ef tófugras sé lagt undir tungurætur á tröllriðnum hestum, þá batni þeim þegar. Matthías Jochumsson. Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 - 18. nóvember 1920) var íslenskt skáld, hann fæddist á bænum Skógum sem stóð um 100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima á Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Matthías var nokkuð hverflyndur í trúarkenningum sínum, en hann var greinilega hallur undir únítarisma. Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið Skugga-Sveinn og hann samdi ljóðið Lofsöngur sem síðar var notað sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið reisti hann sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi. Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr stuðlabergi úr Vaðalfjöllum. Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans. Matthías þýddi Friðþjófssögu og Sögur herlæknisins á íslensku. Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, "Upp á Sigurhæðir" kom út haustið 2006. Bergþóra Skarphéðinsdóttir. Bergþóra Skarphéðinsdóttir'", (10. öld - 1011) var kona Njáls Þorgeirssonar á Bergþórshvoli í Landeyjum. Njála segir um hana: „"Hún var... kvenskörungur mikill og drengur góður og nokkuð skaphörð."“ Svo miklir vinir sem þeir voru, Njáll og Gunnar á Hlíðarenda, þá ríkti fullkomin óvinátta á milli þeirra Bergþóru og Hallgerðar, konu Gunnars. Um nokkurra ára skeið létu þær drepa þræla og húskarla hvor fyrir annarri og gerðist það jafnan snemma sumars er menn þeirra voru á Alþingi, en þá áttu þær frítt spil heima fyrir. Bergþóra sendi Svart til skógarhöggs og kolagerðar í Rauðuskriðum, sem þeir áttu í félagi, Njáll og Gunnar. Fyrir það lét Hallgerður Kol, verkstjóra sinn, drepa Surt. Næsta vor lét Bergþóra Atla, húskarl sinn, drepa Kol. Hallgerður svarði með því að fá frænda sinn, Brynjólf rósta Svansson, til þess að vega Atla. Þá svaraði Bergþóra með því að láta Þórð leysingjason, sem var fóstri allra sona hennar, til þess að drepa Brynjólf rósta. Að ári fékk Hallgerður Sigmund Lambason, frænda Gunnars, og Skjöld hinn sænska til þess að vega Þórð og að lokum drápu Njálssynir þá Sigmund og Skjöld. Þar með voru bæði Njálssynir og Gunnar orðnir til eftirmála. Þegar mikil mannvíg höfðu orðið um langa hríð og svo var komið að Njálssynir og Kári Sölmundarson höfðu drepið Höskuld Hvítanessgoða, fóstbróður sinn, fór Flosi á Svínafelli til Bergþórshvols og brenndi þá alla inni, nema Kára, sem einn slapp úr brennunni. Hann bauð Bergþóru útgöngu, en hún neitaði og sagðist ung hafa verið gefin Njáli og skyldi eitt yfir bæði ganga. Flosi Þórðarson. Flosi Þórðarson (10. og 11. öld), einnig þekktur sem "Brennu-Flosi", eftir að hann fór að Njáli á Bergþórshvoli og brenndi hann inni ásamt sonum sínum öllum. Flosi var mikill höfðingi og bjó á Svínafelli í Öræfum. Hann var sonur Þórðar Freysgoða Össurarsonar og Ingunnar dóttur Þóris á Espihóli Hámundarsonar heljarskinns. Hálfbróðir hans samfeðra var Starkaður Þórðarson, sem var faðir Hildigunnar Starkaðardóttur, sem fyrr var gift Höskuldi Hvítanessgoða og síðar Kára Sölmundarsyni. Eftir að Njálssynir, Kári og Mörður Valgarðsson (Lyga-Mörður) höfðu drepið Höskuld Hvítanessgoða að áeggjan Marðar, kom Hildigunnur því svo fyrir að Flosi varð að hefna vígsins. Æxluðust málin þannig að Flosi safnaði geysimiklu liði og fór að Bergþórshvoli að nóttu til síðsumars árið 1011 og bar eld að bænum. Bauð hann útgöngu konum öllum og vinnuhjúum. Bergþóra, kona Njáls, vildi ekki þiggja að ganga úr eldinum. Brann þarna inni mikill fjöldi fólks, en Kári Sölmundarson slapp úr eldinum einn manna og hefndi grimmilega fóstbræðra sinna og Þórðar sonar síns, sem fórst með afa sínum og ömmu í brennunni. Síðar sættust þeir heilum sáttum, Kári og Flosi og var hápunktur sættanna þegar Kári gekk að eiga Hildigunni Starkaðardóttur. Flosi fór í hárri elli í verslunarferð til Noregs og varð seinn fyrir til baka. Menn sögðu honum að skip hans væri ekki gott til úthafssiglinga, en hann taldi það hæfa sér, því hann væri gamall og fúinn líka. Lét hann svo í haf og fórst skipið í hafi með öllu sem á var. Kolbeinn Flosason lögsögumaður er oftast talinn sonur Flosa og konu hans, Steinvarar, dóttur Síðu-Halls. Írland. a> í réttum litum af „eyjunni grænu“ eins og Írland er stundum kallað Írland (írska: "Éire", enska: "Ireland") er þriðja stærsta eyja Evrópu á eftir Stóra-Bretlandi og Íslandi. Hún liggur vestan við Stóra-Bretland og Írlandshaf en að Atlantshafi í vestri. Eyjunni er skipt upp annars vegar í Norður-Írland sem er hluti af Bretlandi og hins vegar Írska lýðveldið sem tekur yfir bróðurpartinn af eyjunni sunnanverðri. Íbúar Írlands eru um 5,6 milljónir, þar af búa 4 milljónir í Írska lýðveldinu en íbúum þess hefur farið hratt fjölgandi síðari ár vegna mikillar efnahagsuppsveiflu. Saga Írlands. Skipting eyjunnar í „norður“ og „lýðveldi“ er tiltölulega nýleg þróun en sú skipan komst á árið 1920 eftir nokkur hundruð ár af kúgun og misheppnuðum byltingum gegn völdum Englendinga yfir eyjunni. Írland hefur verið í byggð í um það bil 9000 ár en lítið er þó vitað um tíman fyrir kristnitöku, einu heimildirnar eru nokkrar frásagnir Rómverja, írsk ljóð og þjóðsögur auk fornleifa. Fyrstu íbúarnir komu um 8000 f. Kr. á steinöld, þeir reistu mikla steina sem oft var raðað eftir stjörnufræðilegum mynstrum. Á bronsöld sem hófst um 2500 f. Kr. hófst framleiðsla á ýmsum munum og vopnum úr gulli og bronsi. Járnöldin á Írlandi er yfirleitt samtengd Keltum sem tóku að nema land á eyjunni í nokkrum bylgjum á milli 8. og 1. aldar f.Kr. Keltarnir skiptu eyjunni upp í 5 eða fleiri konungdæmi. Rómverjar kölluðu Írland: „Hiberníu“ en lítið er vitað um samband þeirra við þjóðflokka Hiberníu. Árið 100 e. Kr. skrásetti Ptólemíus landafræði eyjunnar og þjóðflokka hennar af mikilli nákvæmni. Talið er að árið 432 hafi Heilagur Patrekur komið til Írlands og hafið að snúa íbúunum til Kristni. Hin nýju trúarbrögð mörkuðu endalok drúídahefðanna. Írskir fræðimenn lögðu stund á latnesk fræði og kristna guðfræði í klaustrunum sem blómstruðu á Írlandi á þessum tíma, og stóðu reyndar framar öðrum evrópskum fræðimönnum í því að varðveita latínuna í gegnum hinar „myrku miðaldir“. Þessari gullöld lauk með innrásum Víkinga sem hófust á 9. öld og stóðu í u.þ.b. 200 ár, Víkingarnir rændu klaustur og bæi og stofnuðu marga bæi á ströndum Írlands. Árið 1172 sölsaði Hinrik II Englandskonungur undir sig írsk lönd og á 13. öld var farið að innleiða ensk lög. Ítök Englendinga náðu í fyrstu einungis til svæðisins í kringum Dyflinni sem þá gekk undir nafninu Pale en tóku að breiðast út á 16. öld og við lok þeirrar 17. var hið gelíska samfélag liðið undir lok. Á miðri 19. öld reið kartöfluhungursneyðin mikla yfir eyjuna. Aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart þessari kreppu leiddi til þess að milljónir sultu og enn fleiri fluttu úr landi til Bretlands, Norður-Ameríku og Ástralíu. Íbúafjöldi eyjunnar hrapaði úr 8 milljónum fyrir hungursneyðina niður í 4,4 milljónir 1911. Ensk áhrif héldu áfram að breiðast út og enska varð stærsta tungmálið, en á sama tíma tók að bera á háværari röddum um aðskilnað frá breskum stjórnvöldum og sjálfstæði Írlands. Sjálfstæðissinnar gerðu tilraun til að ná fram markmiðum sínum með Páskauppreisninni 1916, uppreisnin var þó að mestu bundin við Dyflinni. Stuðningur við uppreisnarmennina var fjarri því almennur meðal Íra en aðferðir Breta við að bæla hana niður og aftökurnar sem fylgdu í kjölfarið vöktu mikla reiði og juku aðeins á kröfurnar um sjálfstætt Írland. Stríð milli Breta og Íra braust út 1919 og stóð til 1921 og það leiddi til stofnunar Suður-Írlands (sem varð svo þekkt sem Írska fríríkið) og Norður-Írlands sem áfram hélt sambandi við Bretland. Hið nýja Írska fríríki átti í miklum erfiðleikum á sínum fyrstu árum, atvinnuleysi var mikið og brottflutningur fólks einnig. Árið 1937 var ný stjórnarskrá innleidd í fríríkinu sem stofnsetti ríkið Éire sem varð lýðveldi árið 1949. Hlutleysi ríkisins í síðari heimsstyrjöld bjargaði því frá hryllingi stríðsins en það bitnaði þó á íbúunum í formi skömmtunar á mat og kolum. Allt fram á 9. áratuginn var Írland álitið vera með vanþróaðri svæðum Evrópu en á þeim 10. tók loks að birta til og jókst hagvöxtur gríðarlega og nútímavæðing hóf innreið af krafti og leiddi til viðsnúnings á fólksflutningunum þannig að fólk tók aftur að flytja til Írlands. Þegar Norður-Írland var stofnað fékk það einnig eigið þing þar sem sambandssinnar (fylgjandi áframhaldandi tengslum við Bretland) réðu lengst af lögum og lofum. Á 7. áratugnum jókst fylgi hreyfinga sem börðust fyrir réttindum kaþólika og til átaka kom á blóðuga sunnudeginum árið 1972 en þá drápu breskir hermenn 27 Íra í kröfugöngu í Derry. Þetta leiddi langvarandi og ofbeldisfullra átaka í Norður-Írlandi sem stóðu í 3 áratugi og náði stöku sinnum einnig til Bretlands, sérstaklega á 9. áratugnum. Þann 10. apríl 1998 var skrifað undir „Sáttmála föstudagsins langa“ þar sem leitast er við að deila völdum á Norður-Írlandi á milli sambandssinna sem vilja áfram vera í sambandi við Bretland og þjóðernissinna sem vilja sameinast Írska lýðveldinu. Völdin sem sáttmálinn fjallar um eru þó ekki mikil og hann hefur nokkrum sinnum verið nálægt því að rofna. Framtíð Norður-Írlands er enn þá óljós. Konungsríkin fjögur. Áður fyrr var Írlandi skipt upp í fjögur konungsríki. Syðst var Munster, með höfuðborg sína í Cork; Leinster var í austri, og var Dyflinn höfuðborg þess. Nyrst var Ulster, sem spannar það svæði sem nú er Norður-Írland (að Monaghan-sýslu, Donegal-sýslu og Cavan-sýslu undanskildum). Belfast var höfuðborg Norður-Írlands lengst af. Loks var Connaught í vestri, en höfuðborg þess var Galway. Þessi skipting er enn notuð í dag, en hvert þeirra er kallað sér "umdæmi" eða "hérað". Rúmenía. Rúmenía er land í Suðaustur-Evrópu vestur af Svartahafi. Rúmenía á landamæri að Úkraínu og Moldóvu í norðaustri, Ungverjalandi og Serbíu í vestri og Búlgaríu í suðri. Í miðju landinu er Transilvaníusléttan, sem er afar frjósöm og fjallend. Rúmeníu er skipt upp í 41 sýslu eða "judeţe". Rúmenía er 238.391 ferkílómetrar og þar með tólfta stærsta land Evrópu. Í Rúmeníu búa tæpar 22 milljónir (90% rúmenskumælandi, 7% ungverskumælandi og 3% eru sígaunar eða koma annars staðar frá). Tvær milljónir búa í höfuðborginni Búkarest, sem er fjölmennasta borgin, en helstu stórborgir Rúmeníu eru með svipaðan íbúafjölda og á öllu Íslandi: Galati (299 þúsund), Iasi (317 þúsund), Cluj-Napoca (298 þúsund), Timisoara (307 þúsund), Craiova (297 þúsund), Constanta (307 þúsund) og Brasov (285 þúsund). Opinbert tungumál landsins er rúmenska. Verg þjóðarframleiðsla ársins 2004 var rúmir 73 milljarðar Bandaríkjadala og hafði þá vaxið að raungildi um 8,3% frá árinu áður. Helstu áskoranir efnahagslífsins árið 2005 litu þannig út að verðbólgan var 8,6% og atvinnuleysið 5,9%. Veðurfar. Veðurfar í Rúmeníu er í stíl við legu landsins á miðju meginlandinu. Kaldasti mánuðurinn er janúar þar sem meðalhiti er milli mínus sjö og mínus einnar gráðu á celsíus en júlí er heitastur og er sjaldgæft að hitinn fari niður fyrir sextán gráður í þeim mánuði heldur en hann frekar nær 34 gráðunum. Saga. Saga Rúmeníu er löng og ná heimildir því sem næst aftur til fyrstu aldar e.Kr. Árið 106 náðu Rómverjar yfirráðum yfir Dakíu og ríktu þar allt fram til 271 þegar Germanar náðu þar völdum. Næstu stóru breytingar verða svo ekki fyrr en árið 900 þegar Transylvanía varð yfirráðasvæði Ungverja og aftur á 15. öld þegar furstadæmin Moldavía og Vallakía beygðu sig undir tyrknesk yfirráð og greiddu þeim skatta. En það eru einmitt þessi tvö furstadæmi sem sameinuðust um 1860 undir nafninu Rúmenía og fengu alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfsstætt ríki á Berlínarfundinum 1878. Saga nútímaríkisins Rúmeníu nær semsagt aftur til fyrrnefndrar sameiningar. Þremur árum eftir að Rúmenía fékk sjálfstæði varð hún að konungsríki. Hið nýja konungsríki náði þó ekki til allra svæða þar sem Rúmenar bjuggu. Þannig bjuggu þrjár milljónir rúmenskumælandi fólks í Transylvaníu sem var undir ungverskri stjórn, tvær milljónir bjuggu í Bessarabíu sem var undir stjórn Rússa og lítill hópur bjó í Dobrúdja í Búlgaríu. Markmið hins nýja konungsríkis var að sameina alla Rúmena í eitt ríki (Stór-Rúmenía). Þetta markmið náðist við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri þegar bandamenn skilgreindu Rúmeníu ásamt hluta Transylvaníu, Bessarabíu, Norður-Búkóvínu og suðurhluta Dobrúdja sem andsovéskt svæði. Við þetta tvöfaldaðist Rúmenía að stærð en náði hvorki að aðlaga nýju íbúana að ríkinu né byggja upp efnahag nýju svæðanna í samræmi við efnahag landsins. Þetta breyttist aftur 1940 þegar Sovétríkin yfirtóku stærstan hluta þessa svæðis og Þýskaland tók til sín Transylvaníu. Friðarsamningurinn 1947 þýddi fyrir Rúmeníu að norðurhluti Transylvaníu varð aftur hluti ríkisins en Bessarabía og Norður-Búkóvína voru undir sovéskum yfirráðum (í dag eru þessi héruð hlutar annars vegar Moldóvu og hins vegar Úkraínu). Þekktastur leiðtoga Rúmeníu eftir síðari heimsstyrjöldina er vafalaust Nicolae Ceausescu enda stjórnaði hann landinu harðri hendi frá 1965 til 1989. Það var semsagt ekki fyrr en við fall kommúnismans í Austur-Evrópu sem hann missti völdin. Í framhaldi af blóðugri uppreisn var hann tekinn af lífi ásamt konu sinni 25. desember sama ár. Rúmenía varð aðili að ESB þann 1. janúar 2007 en þó voru sett ákveðin höft og skilyrði varðandi inngöngu landsins. Í lok ársins 2006 tóku ný trúarbragðalög gildi í Rúmeníu sem leystu af hólmi lög frá 1948. Þar sem Vottar Jehóva hafa nú einnig fengið viðurkenningu sem trúfélag hefur viðurkenndum trúfélögum nú fjölgað í átján í Rúmeníu. Í nýju lögunum kemur fram að engin ein trúarbrögð í landinu séu ríkistrúarbrögð og að öll viðurkennd trúfélög séu jöfn frammi fyrir lögum landsins. Landafræði. Rúmenía er stærsta landið í Suðaustur-Evrópu. Stór hluti af landamærum landsins við Serbíu og Búlgaríu er myndaður af Dóná. Áin mætir ánni Prut, sem myndar landamæri við Moldóvu og rennur svo út í Svartahaf við Dónárósa sem eru best varðveittu stóru árósarnir í Evrópu og mikilvægur viðkomustaður margra tegunda farfugla á leið til og frá Norður-Evrópu. Í miðju landinu eru Karpatafjöll sem skilja Transylvaníu frá Vallakíu og Moldavíu. Hæsta fjall Rúmeníu er Moldoveanu-tindur (2544 m) í suðurhluta landsins. Stjórnmál. Stjórnarskrá Rúmeníu byggist á Stjórnarskrá fimmta franska lýðveldisins og var samþykkt með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1991. Stjórnarfar í Rúmeníu byggist á fjölflokkakerfi og aðskilnaði þriggja greina ríkisvaldsins. Forseti og forsætisráðherra deila með sér framkvæmdavaldinu. Forsetinn er kosinn í almennum kosningum og getur mest setið tvö fimm ára kjörtímabil. Þingið skiptist í fulltrúadeild með 346 þingsætum og öldungadeild með 140 sætum. Allir þingmenn eru kjörnir til fjögurra ára samkvæmt hlutfallskosningu. Rúmenska dómskerfið er undir miklum áhrifum frá franska dómskerfinu. Æðsti dómstóllinn er stjórnlagadómstóll sem kveður upp úr um samræmi laga við stjórnarskrána. Í tengslum við inngönguna í ESB hefur landið ráðist í ýmsar umbætur, þar á meðal réttarfarsumbætur, og reynt að koma böndum á spillingu. Engu að síður er Rúmeníu og Búlgaríu lýst sem tveimur spilltustu löndum sambandsins. 1682. Árið 1682 (MDCLXXXII í rómverskum tölum) var 82. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Henrik Bjelke. Henrik Bjelke, "Hinrik Bjelke", "Hinrik Bjálki" (13. janúar 1615 – 16. mars 1683) var norskur aðalsmaður sem hófst til virðingar innan danska ríkisins þegar átök hófust milli Danakonungs og danska aðalsins um einveldið, en Bjelke studdi konung í því máli. Bjelke var fyrsti norsk-ættaði maðurinn til að fá sæti í danska ríkisráðinu 1660. Henrik Bjelke var ríkisaðmíráll í Svíastríðinu 1657 og vann þar sögufrægan sigur á Svíum í sjóorrustu við Moen. Bróðir hans Jørgen Bjelke vann auk þess til baka lönd sem Svíar höfðu tekið í Noregi. Æviágrip. Bjelke var sonur norska kanslarans Jens Bjelke og hélt ungur til náms og var skráður 1633 í háskólann í Padúa á Ítalíu. Nokkru síðar gerðist hann hirðmaður Friðriks af Óraníu. Hann sagði sig úr þjónustu Friðriks þegar hann frétti af innrás Lennarts Torstensons í Jótland 1644 og hélt til Danmerkur með liðssafnað. Í mars það ár sendi Kristján IV hann til Noregs með ofurstatign og átti hann að þjóna undir norska ríkisstjóranum Hannibal Sehested. Eftir friðarsamningana í Brömsebro fékk hann leyfi konungs til að halda erlendis og var um skeið hjá Corfitz Ulfeldt í Hollandi en gekk síðan í þjónustu Peters Melander hershöfðingja keisarahersins í Vestfalíu. 1648 sneri hann aftur til Danmerkur, var gerður höfuðsmaður á Íslandi og síðan aðlaður sama ár. Árið 1653 var hann gerður að skipherra og 1654 var hann sendur til Íslands gegn enskum sjóræningjum. Í Svíastríðinu vann hann, ásamt Niels Juel, frægan sigur á sænska flotanum undir stjórn Clas Bjelkenstjerna við Moen 12. september 1657. Hann tók við formennsku í flotaráðinu af Ove Gjedde árið 1660, fékk sæti í danska ríkisráðinu sama ár og var gerður að ríkisaðmírál 1662. Á sama tíma var hann samt í sambandi við Corfitz Ulfeldt og virðist hafa haldið vináttu við hann og Leonóru Kristínu eftir að þau komust í ónáð hjá Friðriki III. Hann virðist þó ekki hafa verið látinn gjalda þessa. Kópavogsfundurinn. Bjelke stýrði Kópavogsfundinum 1662 þegar Íslendingar undirrituðu erfðahyllinguna. Undirritunin var með þeim fyrirvara að engar breytingar yrðu á stjórnskipan landsins þar til eftir dauða Bjelkes, sem varð til þess að landinu var ekki skipaður stiftamtmaður fyrr en 1683. Heimildir. Bjelke, Henrik Erfðahyllingin. Erfðahyllingin er atburður í Íslandssögunni sem gerðist á Kópavogsfundinum árið 1662. Þar var undirritað skjal, sem fól í sér viðurkenningu Íslendinga á því, að embætti konungs yfir Danmörku gengi sjálfkrafa í arf frá föður til sonar en áður var konungur kjörinn af danska ríkisráðinu og þurfti formlegt samþykki Alþingis Íslendinga áður en hann gat talist konungur Íslands. Teiknimyndasaga. Teiknimyndasögur eru listform sem felst í því að listamaðurinn segir sögu í myndum sem raðað er upp í ákveðna röð. Sögurnar geta verið annað hvort með texta eða án en algengast er að einhver texti fylgi. Algengt er að stuttar teiknimyndasögur (1-5 rammar) birtist í dagblöðum en lengri teiknimyndasögur eru gjarnan gefnar út í blöðum og jafnvel í stærri brotum sem er þá kallað „graphic novels“ á ensku. Teiknimyndasögur eru kallaðar comics á ensku, manga á japönsku og bande dessinée eða B.D. á frönsku. Í Bretlandi er gjarnan talað um comics sem innlendar teiknimyndasögur en comic books sem teiknimyndasögur frá Bandaríkjunum. Ungverjaland. Lýðveldið Ungverjaland (ungverska: Magyarország) er landlukt ríki í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Það er rúmlega 93 þús km2 að stærð og voru vesturlandamærin að Austurríki jafnframt hluti járntjaldsins. Landið var fyrsta austurevrópska ríkið til að ganga í NATO í mars 1999. 1. maí 2004 fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Íbúar eru 10 milljónir. Höfuðborgin er Búdapest. Lega og lýsing. Ungverjaland á landamæri að sjö öðrum ríkjum. Fyrir norðan er Slóvakía, fyrir norðaustan er Úkraína, fyrir austan er Rúmenía, fyrir sunnan er Serbía, Króatía og Slóvenía, og fyrir vestan er Austurríki. Landið er afar láglent og er lægsti punkurinn aðeins í 78 metra hæð, þrátt fyrir mikla fjarlægð til sjávar. Dóná skiptir landinu í tvo hluta, en fljótið rennur frá norðri til suðurs um miðbik landsins. Nær allur austurhluti landsins samanstendur af ungversku sléttunni (pússtunni). Vestan við Dóná er hæðótt landslag, en þar eru nokkur fjalllendi. Hæsti tindur landsins, Kékes, nær þó aðeins 1.014 metra hæð. Vestast er Vínarsléttan sem teygir sig yfir landamærin til Austurríkis. Vestarlega í landinu er Balatonvatn, en það er stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu. Þjóðfræði. Kort af Ungverjalandi á ensku Orðsifjar. Ungverjaland heitir Magyarorszák á ungversku. Heitið er dregið af einum af sjö ættbálkum úgríta, magyara, sem komu upphaflega frá Mið-Asíu. Magyarar sameinuðu ættbálkana á 10. öld og upp frá þeim tíma var heitið notað yfir landið. Á öðrum tungumálum er heitið hins vegar komið úr slavnesku. Slavar kölluðu íbúana onogur, sem merkir tíu ættir. Úr því myndaðist orðið Ungverjar. Ítalir segja Ungheria, en Danir og Þjóðverjar Ungarn. Á latínu bættist auka –h– við orðið, svo úr varð Hungarus. Þannig heitir landið enn Hungary á ensku og Hongry á frönsku. Mannfjöldi og þjóðerni. Ungverjar í Rúmeníu í þjóðbúningum Ungverjar eru 10 milljónir talsins og hefur þeim verið að fækka hratt síðustu áratugi. 1995 voru þeir t.d. 10,3 milljónir. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að þeim haldi áfram að fækka, þannig að Ungverjar fari niður fyrir 9 milljónir um miðja 21. öld, a.m.k. miðað við núverandi þróun. Miðað við 10 milljónir íbúa er þéttleiki landsins 107,5 íbúar á km2. Langstærsti hluti íbúanna eru Ungverjar (magyarar), eða 92,3%. Stærsti minnihlutahópurinn er Rómafólkið (1,7%), sem dags daglega er kallað sígaunar á íslensku. Auk þess búa um 2,4 milljónir Ungverjar í nágrannalöndunum, aðallega í Rúmeníu. Tungumál. Þjóðtunga Ungverja er ungverska. Engin önnur tunga er viðurkennd sem ríkismál, þrátt fyrir fjölda minnihlutahópa í landinu. Utan við landsteinana er ungverska líka víða töluð í Rúmeníu, Slóvakíu og Serbíu, sem og í öðrum nágrannalöndum. Í Rúmeníu búa 1,4 milljónir Ungverja, en í Slóvakíu 520 þús (10% af slóvösku þjóðinni). Trú. Í manntali 2001 kom í ljós að tæplega 55% þjóðarinnar kenndu sig við kaþólsku kirkjuna. Sú trú er í miklum meirihluta um allt miðbik og vesturhluta landsins. Um 16% játuðu Kalvínstrú og eru þeir austast í landinu og á nokkrum stöðum vestast. Fyrir heimstyrjöldina síðari bjuggu um 800 þús gyðingar í Ungverjalandi. Í dag eru þeir ekki nema tæplega 13 þús. Aðrir trúarhópar eru talsvert færri. Um fjórðungur landsmanna játuðu hins vegar enga trú, eða slepptu því að nefna trúfélag. Í landinu er engin þjóðkirkja. Þjóðfáni og skjaldarmerki. Stefánskrónan er í skjaldarmerki landsins, en hana átti Stefán konungur á 11. öld. Hún er geymd í þinghúsinu í Búdapest, ásamt öðrum ríkisdjásnum. Þjóðfáni Ungverjalands samanstendur af þremur láréttum röndum: Rautt efst, hvítt fyrir miðju og grænt neðst. Rauði liturinn táknar blóðið sem úthellt var fyrir sjálfstæði landsins. Hvíti liturinn táknar hreinleika landsins. Græni liturinn stendur fyrir byltinguna á 19. öld. Litirnir sem slíkir eru hins vegar miklu eldri og ná aftur til upphafs þjóðmyndunar Ungverja. Þríliti fáninn var fyrst notaður af Matthíasi II konungi árið 1608, en hann laut þá Habsborgarkeisara. Hins vegar voru einnig aðrir fánar notaðir, sérstaklega meðan Ungverjaland var hluti af keisararíki Austurríkis. Þó héldust litirnir. Þegar keisararíkið leystist upp 1918 varð þrílita fáninn að ríkistákni. Þó var fáninn talsvert lengri en hann er í dag. 1940 var skjaldarmerki landsins sett í miðju fánans. Það merki var skipt út fyrir sósíalískt merki (hamar, ax, rauð stjarna) allt til 1957 er merkið hvarf úr fánanum. 1. október það ár var núverandi fáni (án tákns) tekinn í notkun. Þess má geta að þjóðfáni Tajikistans er nákvæmlega eins, nema hvað hann er með gulu tákni fyrir miðju, rendurnar eru misbreiðar og fáninn er ívið lengri. Saga fánanna er auk þess gjörólík. Skjaldarmerki Ungverjalands er gert úr tvískiptum skildi með kórónu efst. Til hægri er patríarkarkrossinn sem stendur á þrítindi. Tindarnir merkja fjöllin Tatra, Fatra og Matra. Tvö þau fyrrnefndu eru staðsett í Slóvakíu í dag. Krossinn var léður Stefáni konungi af páfa árið 1000. Fyrir miðju er gullkóróna, en hún bættist við skjaldarmerkið á 17. öld. Til vinstri eru 8 rauðar og hvítar rendur. Uppruni þeirra er óljós, en voru komnar fram á 13. öld. Sumir vilja meina að hvítu rendurnar tákni hin fjögur höfuðfljót landsins: Dóná, Tisza, Drava og Sava. Efst er svo Stefánskórónan, en hún er konungskóróna Ungverjalands. Skjaldarmerki þetta hefur tekið talsverðum breytingum í gegnum tíðina. Núverandi merki var tekið upp 1990 eftir snarpar umræður á þinginu. Stjórn. Í Ungverjalandi er þingbundin stjórn. Þingið samanstendur aðeins af einni deild, þar sem eru 386 sæti. Almennar kosningar eru á fjögurra ára fresti. Þær síðustu fóru fram 2010. Þingið velur hins vegar forseta landsins (til fimm ára), forsætisráðherrann, stjórnlagaráðið, forseta hæstaréttar og ríkissaksóknara. Forsætisráðherrann er valdamesti maður landsins. Síðan 2010 gegnir Viktor Orbán þessu embætti. Ungverjaland gekk í NATO 1999 og var meðal fyrstu fyrrverandi kommúnistaríkja sem það gerði. Síðan 2004 er landið einnig í Evrópusambandinu. Ungverska stjórnin er skyldug til að sinna hagsmunum Ungverja í nágrannaríkjunum, en þeir eru um 2,5 milljónir, aðallega í Rúmeníu og Slóvakíu. Þetta hefur orsakað nokkra spennu milli landanna, sérstaklega eftir að ungverska þingið ákvað 2010 að veita öllum Ungverjum í nágrannalöndunum ungverskan ríkisborgarrétt. Slóvakar hafa í kjölfarið hótað að reka alla þá sem það þiggja úr opinberum embættum í landinu, en 10% þjóðarinnar í Slóvakíu eru Ungverjar. Hermál. Ungverjaland er með her uppá ca. 30 þús manns. Flestir eru í landhernum (rúm 23 þús), en um 7000 eru í flughernum. Konur eru 17% allra hermanna. Enginn sjóher er til staðar, enda liggur Ungverjaland ekki að sjó. Aðaltilgangur hersins er að tryggja varnir landsins á stríðstímum. Auk þess starfar herinn náið með herjum NATO, sem reyndar hefur gagnrýnt ungverska herinn fyrir að vera of veikan til að sinna eigin vörnum ef stríð brytist út. Fjórum sinnum hafa Ungverjar sent herlið í friðargæslu til annarra landa. Til Bosníu 158 manns, til Afganistans 205 manns og til Kosóvó 484 manns. Auk þess sendu Ungverjar herlið til Íraks, en kölluðu það til baka árið 2005. Gjaldmiðill. Þrátt fyrir að vera í Evrópusambandinu er Ungverjaland með eigin mynt. Hún kallast Forint og Filler (100 Filler = 1 Forint). Forint heitir eftir Florenus, myntinni sem borgríkið Flórens á Ítalíu gaf út fyrr á öldum. Myntin var tekin upp 1325 af Karli Róberti af Anjou í Ungverjalandi og þótti ein sterkasti gjaldmiðill Mið-Evrópu fram til 17. aldar. Þegar landið var hluti af keisararíkinu Austurríki var þó áfram notast við Forint fram til 1892, en þá tók við ungverska krónan. Sökum óðaverðbólgu í kreppunni miklu var krónan tekin úr umferð og Penkö tekin upp. Þá náði óðaverðbólgan þvílíkum hæðum að gjaldmiðillinn varð verðlaus. Árið 1946 var Forint aftur tekin í notkun, sem styrktist mjög á tímum kommúnismans. Hann er enn gjaldmiðill landsins í dag. Ráðgert er að taka upp evruna, en það verður ekki gert fyrr en í fyrsta lagi 2020, ef Ungverjaland uppfyllir þau efnahagslegu skilyrði sem því hefur verið sett. Landnám. Ungverjar eiga uppruna sinn á sléttunni vestast í Síberíu, rétt austan Úralfjalla. Þeir kölluðust þá úgríar og eru indóevrópskur mannflokkur. Á öldunum f.Kr. flutti sig hluti þessa fólks til vesturs, þar sem hann komst í snertingu við aðra mannflokka, s.s. skýþa. Á þessum tíma samanstóðu Ungverjar enn af sjö eða átta ættbálkum. Þeir sameinuðust við norðanvert Svartahaf á öldunum e.Kr. Seint á 9. öld, nánar tiltekið 895-896, fluttu Ungverjar sig enn vestar og settust að á sléttunni miklu sem í dag kallast Ungverska sléttan. Áður hafði sléttan tilheyrt Rómaveldi, síðan germönum og loks húnum. Eftir að húnar voru sigraðir myndaðist nokkurt tómarými á sléttunni, þrátt fyrir að ýmsir slavar settust þar að. Það var því ekki mikið tiltökumál fyrir Ungverja að setjast að á sléttunni og svæðunum þar í kring. Landnámið gekk hratt fyrir sig, en Ungverjar settust að á landsvæði sem í dag ná langt inn í Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu og Króatíu. Ekki var um frekara landnám til vesturs að ræða, því í Austurríki var germanskt landnám í fullum gangi. Þar bjuggu bæjarar og frankar. Ránsferðir. Stytta af Stefáni, fyrsta konungi Ungverjalands Strax og Ungverjar voru búnir að koma sér vel fyrir á sléttunni, hófu þeir að herja á nágrannahéruð með ránsferðum. Reiðflokkar þeirra voru mjög léttir og hreyfanlegir, og þannig gátu þeir sigrað vel skipulagða og þróaða heri. Á fyrstu þremur áratugum 10. aldar fóru Ungverjar í árangursríkar langferðir, stundum alla leið til þýska ríkisins, Mið-Ítalíu, Frakklands og jafnvel Balkanskaga. Þannig var mikið af vestrænum vörum fluttar til ungversku sléttunnar. Engum tókst að hrinda árásum Ungverja, enda voru þeir fljótir í förum. Mikill ótti við þá greip um sig víða í Evrópu. Árið 933 gerðust Ungverjar svo djarfir að heimta skatt af þýska keisaranum, Hinrik I. Í maí á því ári barðist keisari við Ungverja í orrustunni við Riade, sunnarlega í Saxlandi. Þar sigraði Hinrik og hrakti Ungverja úr þýska ríkinu. Þrátt fyrir ósigurinn héldu Ungverjar áfram ránsferðum sínum. 955 fór fram stórorrustan á Lechvöllum (Lechfeld) í Bæjaralandi milli Ungverja og Ottó I. keisara. Þar sigraði Ottó keisari Ungverja fyrir fullt og allt. Eftir þetta drógu Ungverjar sig að öllu leyti til baka til sléttunnar og fóru aðeins í eina ránsferð enn. Hún var farin gegn Austrómverska ríkinu (Býsans), en þar biðu Ungverjar enn ósigur. Konungsríkið. Stórfurstinn Géza og sonur hans Vajk (Stefán) umbyltu landinu og buðu trúboðum að kristna landið. Árið 1001 varð Ungverjaland að konungsríki, er Stefán I konungur hlaut formlega viðurkenningu af páfa. Hann gerði kristni að ríkistrú og lét reisa kirkjur. Fyrir vikið var hann gerður að dýrðlingi kaþólsku kirkjunnar þegar árið 1089. Með völdum hjónaböndum var friðinum haldið við nágrannaþjóðir. Þannig sameinaðist Króatía Ungverjalandi 1102. Á miðri 13. öld ruddust mongólar vestur til Evrópu. 1241 tóku Ungverjar á móti þeim í orrustunni við Muhi, en biðu mikinn ósigur. Í kjölfarið nánast eyddu mongólar ríkinu. Um helmingur landsmanna var drepinn. Mongólar hurfu hins vegar fljótt aftur til síns heima. Béla IV. konungur tók þá til bragðs að bjóða þýskumælandi fólki að setjast að í Ungverjalandi, aðallega í nútíma Rúmeníu og Slóvakíu. Osmanir. Umsátur kristinna manna um Búda 1686, síðasta stóra vígi ósmana í Ungverjalandi. Málverk eftir Frans Geffels Á 14. öld höfðu osmanir (Tyrkir) náð fótfestu í Suðaustur-Evrópu og sóttu vestur. 1396 fóru Ungverjar, ásamt frönskum riddaraher, í fyrsta sinn til orrustu við þá við Nikopol (Búlgaríu), en biðu mikinn ósigur. Osmanir náðu þó ekki að nýta sér sigurinn að ráði. Aftur var barist við Warna í Búlgaríu 1444. Á þessum tíma var Wladislaw III í senn konungur Ungverjalands og Póllands. Í orrustunni, sem Osmanir gjörsigruðu, féll Wladislaw. Í kjölfarið hertóku osmanir hvert landsvæði á fætur öðru (Mikligarður féll 1453). Ungverjar hættu afskiptum af stríðinu gegn þeim og upplifðu jafnvel lítil blómaskeið meðan Matthías Corvinus var konungur 1458-1490. Á 16. öld komust osmanir til Ungverjalands. 1526 dró til stórorrustu við Mohács í suðurhluta landsins. Þar gjörsigraði Súleiman mikli Ungverja og féll þar Lúðvík II konungur. Ósigurinn var svo mikill að í ungversku máli varð Mohács að tákngervingi hins versta. Í kjölfarið fóru osmanir ránsferðir um rúmlega helming Ungverjalands áður en þeir héldu gegn Vínarborg (1529). Eftir fráfall Lúðvíks konungs var barist um konungdóminn, en erkihertoginn frá Austurríki, Ferdinand, gerði tilkall til konungdómsins. Þegar osmanir réðust aftur inn í Ungverjaland 1541, var meginhluti landsins svo gott sem á valdi Austurríkis. Aðeins Transylvanía (Rúmenía) var á valdi Ungverja. Osmanir lögðu Búda í eyði og hertóku aðrar helstu borgir landsins. Við það varð meginhluti Ungverjalands að héraði í osmanaríkinu næstu 140 árin. Ungverjum fækkaði mikið á þessum tíma, en talið er að þeim fækkaði úr 3,5-4 milljónir niður í 2,5. Osmanir fóru ekki gegn Vín á nýjan leik fyrr en 1683. Við tapið þar gerðu Habsborgarar harða hríð að osmönum í Ungverjalandi og hröktu þá úr landi á fjórum árum. Osmanir áttu aldrei afturkvæmt til Ungverjalands. Habsborg. Kort af Ungverjalandi 1910. Einstakar þjóðir eru afmarkaðar með litum. Kortið er á ensku. Eftir að Habsborgarar hröktu osmani burt, var hinn níu ára gamli erkihertogi Austurríkis, Jósef, kjörinn til konungs í Ungverjalandi og var krúnan arfgeng. Krýningin fór fram 9. desember 1687 í Bratislava (sem þá var í Ungverjalandi). Löndin voru þó ekki sameinuð, heldur var hér ávallt um tvö ríki undir sama einvaldi að ræða. Ungverjar voru ekki sáttir við þennan ráðahag, en fengu ekki að gert. Uppreisnin mikla 1703-1711 gegn yfirráðum Habsborgara breytti þar engu um. Þegar María Teresía sat við völd í Vín, hófst mikið landnám þýskumælandi manna í Ungverjalandi. Nær alla 18. öldina naut landið friðar, einnig á tímum Napoleonsstríðanna. En eftir Vínarfundinn hófst mikil þjóðarvakning meðal Ungverja. 1825 varð ungverska aftur að ríkismáli, en Habsborgarar höfðu notast við latínu. 1848 hófst uppreisn á ný gegn Habsborgurum undir forystu Lajos Kossuth. Hún fékk mikinn hljómgrunn víða um land. 14. apríl 1849 safnaðist ungverskt þing í fyrsta sinn saman í reformeruðu kirkjunni í borginni Debrecen, en þar lýsti Kossuth yfir endalokum yfirráða Habsborgar og jafnframt sjálfstæði Ungverjalands. Herir frá Austurríki fengu aðstoð Rússa við að berjast við uppreisnarmenn og náðu ekki að brjóta þá á bak aftur fyrr en í ágúst á sama ári eftir blóðuga bardaga. Leiðtogar uppreisnarmanna, ásamt ungverska forsætisráðherranum, voru teknir af lífi. Á hinn bóginn reyndist ómögulegt fyrir Austurríki að stjórna Ungverjalandi með óbreyttum hætti. 1867 settist Frans Jósef I keisari niður með leiðtogum Ungverja, þar sem hið nýja fjölþjóðaríki var stofnað. Ungverska þingið var endurreist, ungverska þjóðin aðskilin hinum þýskumælandi íbúum Austurríkis. Ungverjaland varð að konungsríki á ný, en konungur og drottning voru alla tíð keisari og keisaraynja Austurríkis. Þau voru krýnd í Búda (þ.e. Búdapest). Króatía var sameinað Ungverjalandi á ný. Króatar voru mjög ósáttir við þennan ráðahag, en fengu ekki að gert. Ungverjar sjálfir voru mjög ánægðir með nýja ríkið og hélst konungssambandið við Austurríki allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri 1918. Millistríðsárin. Stækkun Ungverjalands að tilstuðlan Hitlers Handtaka gyðinga í Búdapest 1944 Við stríðslok 1918 breyttist ríkjaskipan talsvert á Balkanskaga. Samfara Tríanon-samningnum 1920 var Júgóslavía stofnað sem ríki. Við það missti Ungverjaland Króatíu, Slóvakíu og Vojvodina-hérað. Auk þess missti Ungverjaland Transylvaníu og Banat til Rúmeníu. Loks var vestasti hluti landsins sameinaður Austurríki (Burgenland). Alls missti Ungverjaland tvo þriðju hluta lands síns til nágrannalandanna (minnkaði úr 279 þús km2 í 186 þús km2). Við það mynduðust núverandi landamæri landsins. Flestar náttúruauðlindir töpuðust við tilfærslu landamæranna, þar sem þau voru í töpuðu héruðunum. Fyrir þátt sinn í stríðsrekstri heimstyrjaldarinnar varð landið þar að auki að greiða stríðsskaðabætur í 33 ár. Landið var formlega enn konungsríki, en var stjórnað af forsætisráðherra, Miklós Horthy. Með tímanum hallaðist landið að Þýskalandi, en milliríkjasamningar voru gerðir 1934, skömmu eftir valdatöku Hitlers. Strax 1937 hófust herferðir gegn gyðingum í landinu. Ungverjaland studdu Þjóðverja í innrás þeirra á Balkanskaga og tók þátt í stríðinu gegn Sovétríkjunum frá 1941. Í viðskiptum fór um 73% alls útflutnings Ungverjalands til Þýskalands. Fyrir vikið var Ungverjaland stækkað er það hlaut vænar sneiðar af Rúmeníu, Tékkóslóvakíu og Júgóslavíu, allt með fulltingi Þjóðverja. En brátt sá Horthy að sér, þar sem herferðin til Rússlands gekk ekki sem skyldi. 1943 hafði hann samband við bandamenn í því skyni að láta af stuðningi við Hitler. 19. mars 1944 réðust Þjóðverjar því inn í Ungverjaland og hertóku landið. Horthy var steypt af stóli og Döme Sztójay tók við embætti forsætisráðherra. Hann var þó eingöngu leiksoppur Þjóðverja. Nasistar, undir stjórn Adolfs Eichmann, hófu að flytja gyðinga úr landi í stórum stíl. Á aðeins tveimur mánuðum voru tæplega 440 þús gyðingar í Ungverjalandi fluttir í útrýmingarbúðir, þrátt fyrir kröftug mótmæli nýju leppstjórnarinnar. Það var á þessum tíma sem sænski diplómatinn Raoul Wallenberg tókst að bjarga þúsundum gyðinga, m.a. með því að veita þeim sænsk bráðabirgðavegabréf. Wallenberg hvarf í október 1944 og var trúlega handtekinn af Sovétmönnum. Sama mánuð var stjórninni í Búdapest steypt og við tók fasistastjórn Ferenc Szálasi. Aðeins nokkrum dögum seinna var rússneski herinn kominn inn fyrir landamærin. Búdapest varð fyrir miklum loftárásum bandamanna, sérstaklega á tímabilinu desember 1944 til febrúars 1945. Í kjölfarið sat rauði herinn um höfuðborgina og tók umsátrið alls 102 daga uns borgin féll í þeirra hendur eftir mikla bardaga. Síðustu bardagar í Ungverjalandi fóru fram 4. apríl 1945, en þá var landið algerlega í höndum Sovétmanna. Landið var í rúst, en miklar eyðileggingar á vélum, búfénaði og öðru nær eyðilögðu atvinnulíf landsins. 600 þús Ungverjar létust í stríðinu, að viðbættum 440 þús gyðingum. Eftirstríðsárin. Brúin yfir lækinn Andau, en yfir hana flúðu tugþúsundir Ungverja til Austurríkis Samfara Parísarsamkomulaginu 1947 misstu Ungverjar öll þau landsvæði sem þeir hlutu á stríðsárunum. Sovétmenn handtóku hundruð þúsundir Ungverja og fluttu þá í vinnubúðir til Sovétríkjanna, þar sem álitið er að 200 þús þeirra létust. Eftir stríð gerðu bandamenn ráð fyrir lýðveldisstofnun í Ungverjalandi. Í kosningum síðla árs 1945 hlutu kommúnistar afar litla fylgd, sömuleiðis í kosningum 1947 (22%). En 1949 voru allir stjórnmálaflokkar bannaðir, utan kommúnistaflokksins, og var þá mynduð ný stjórn í anda Stalíns. Forsætisráðherra varð Mátyás Rákosi. Á árunum þar á eftir fékk hin alræmda öryggislögregla ríkisins það hlutverk að hreinsa landið af óæskilegum mótherjum. Eftir lát Stalíns tók Imre Nagy, forsætisráðherra, upp frjálslynda stefnu. Fyrir vikið var hann handtekinn 1955 og allt komst í sama horf aftur. 23. október 1956 hófst allsherjaruppreisn borgara í Búdapest, sem dreifðist til annarra borga. Stjórninni var steypt og varð Imre Nagy forsætisráðherra á ný. Hann dró landið úr Varsjárbandalaginu, stofnaði fjölflokkastjórn, leysti öryggislögregluna upp og lýsti yfir hlutleysi Ungverjalands. 1. nóvember réðist sovéski herinn inn í landið og í nokkra daga á eftir stóðu yfir miklir bardagar hér og þar um landið, sérstaklega í Búdapest. 22. nóvember höfðu Sovétmenn náð landinu á sitt vald. Nagy var handtekinn og hengdur eftir stutt réttarhöld. Í kjölfarið flúðu rúmlega 200 þús Ungverjar land, aðallega til Austurríkis. Um 100 þús sovéskir hermenn urðu eftir í landinu til að koma í veg fyrir aðra uppreisn. Nýr forsætisráðherra varð János Kádár, en hann ríkti til 1988. Undir hans stjórn upplifði landið nokkurn efnahagsuppgang, en tímabil þetta kallast oft Gúllaskommúnismi. Árið 1988 voru blikur á lofti. Þýða myndaðist meðal ráðamanna þegar stjórnarandstaða var opinberlega leyfð. Í lok ársins tók Miklós Németh við sem forsætisráðherra. 2. maí 1989 hóf landið að rífa landamæri sín að Austurríki, sökum kostnaðarsams viðhalds að eigin sögn. Opnun eins varðhlið 19. ágúst var fyrsta opnun járntjaldsins í Evrópu. 23. október sama ár var nýtt lýðveldi stofnað í Ungverjalandi. Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar fóru fram 25. mars 1990 og var í kjölfarið mynduð stjórn þriggja flokka. Forsætisráðherra varð József Antall. Landið gekk úr Varsjárbandalaginu 26. júní. Áður en árið var liðið yfirgáfu síðustu sovésku hermennirnir landið. 12. mars 1999 gekk Ungverjaland formlega í NATO og 1. maí 2004 fékk landið inngöngu í Evrópusambandið. Sýslur. Sýslurnar í Ungverjalandi eru 19 talsins, auk Búdapest Ungverjaland er skipt niður í 19 sýslur, kallaðar megye á ungversku. Margar þeirra eru ævagamlar, enda myndaðar árið 1000 þegar Ungverjaland varð að konungsríki. Auk sýslnanna eru 24 sjálfstæðar borgir í landinu. Þær tilheyra viðkomandi sýslu, en íbúar kjósa sér borgarráð og taka ekki þátt í sýslukosningum. Árið 1999 var landinu auk þess skipt niður í sjö héruð samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Í hverju héraði eru 2-3 sýslur. Borgir. Búdapest er langstærsta borg landsins með um 1,7 milljónir íbúa. Næstu borgir er ekki með nema rúmlega 200 þús íbúa. Fjöll. Kekés er hæsta fjall Ungverjalands Ungverjaland er frekar láglent land og samanstendur aðallega af sléttum. Aðeins í vestri og norðri eru einhver fjöll að kalla má. Þau eru þó ekki há og eru í flestum tilvikum þakin skógi. Í norðri eru hæstu fjöll landsins. Þar eru fjallgarðarnir Matra og Bükk sem slaga í 1000m. Hæsta fjall landsins er Kékes í Matrafjöllum, 1014m hátt. Þrátt fyrir litla hæð er skíðabraut í fjallinu sem er opin á veturna. Ár og vötn. Í Ungverjalandi er fjöldi áa. Stærstu fljótin eru Tisza og Dóná, en báðar renna þær frá norðri til suðurs í gegnum landið. Báðar eru þær að öllu leyti skipgengar innanlands. Aðrar stórar ár eru Raba vestast í landinu og Drava við landamærin að Króatíu. Sameiginlegt með öllum þessum fljótum er að ekkert þeirra sprettur upp í Ungverjalandi, heldur er uppspretta þeirra allra í nágrannalöndunum. Þótt Dóná sé aðeins næstlengsta áin innanlands, er hún eina vatnasvið landsins. Allar aðrar ár renna í Dóná, eða í einhverjar af þverám hennar. Innanlands er Tisza lengsta fljót Ungverjalands Auk ofangreindra fljóta er Sió-skurðurinn lengsta manngerða vatnaleiðin, en hann var grafinn að mestu eftir litlum árfarvegi. Skurðurinn gengur úr norðausturhluta Balatonvatns til Dónár. Þrjú stærri vötn eru í Ungverjalandi. Stærst þeirra er Balatonvatn í vestanverðu landinu, en það er jafnframt stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu með 594 km2. Norðvestast er Neusiedler See (Fertö á ungversku). Aðeins syðsti hluti vatnsins er í Ungverjalandi, bróðurparturinn er í Austurríki. Ungverski hlutinn er mikilvægt náttúrufriðsvæði og er á heimsminjaskrá UNESCO. Í austurhluta landsins er Tiszavatn, en það myndaðist við stíflugerð í fljótinu Tisza 1973. Vatnið er 127 km2 að stærð og þarmeð langstærsta lón landsins. Listir. Þekktustu listamenn Ungverjalands eru án efa tónlistarmenn. Meðal helstu má nefna Franz Liszt, Imre Kalman, Franz Lehár, Ernő Dohnányi, Zoltán Kodály og Béla Bartók, en sá síðastnefndi var mikill safnari ungverskrar þjóðlagatónlistar. Glanstími ungverskra bókmennta er 19. öldin, en þá rituðu þjóðskáldin Mihály Vörösmarty, János Arany og Sándor Petöfi helstu stórverk Ungverja. Ferenc Molnár er helsta leikritaskáld og rithöfundur landsins á 20. öld. Miklós Barabás er helsti málari Ungverja, en hann var uppi á 19. öld. Margir þessara listamanna bjuggu erlendis, t.d. í Austurríki eða Bandaríkjunum. Vísindi. Af þekktum ungverskum vísindamönnum má nefna Albert Szent-Györgyi (Nóbelsverðlaun í læknisfræði 1937), sem uppgötvaði C-vítamín og bjó til fyrstu gervivítamínin. Kálman Tihanyi fann upp hitamyndavélina og plasmasjónvarpið. Leó Szilárd smíðaði fyrsta kjarnorkuverið og fann upp rafeindasmásjána. László Bíró fann upp Bírópennann. Edward Teller smíðaði fyrstu kjarnorkusprengjurnar (ásamt Robert Oppenheimer) og er faðir vetnissprengjunnar. Ernö Rubik fann upp Rúbík-kubbinn. Matargerð. Ungversk matargerð einkennist mikið af bændasamfélagi Ungversku sléttunnar áður fyrr. Þekktasti rétturinn er án efa gúllasið (gulyas á ungversku), en það er heiti á sérstökum súpum með ýmsu kjöti. Í þær er oft sett paprika og því eru súpurnar gjarnan sterkar. Gúllasið er til í ýmsu formi og var á 19. öld undirstöðufæða fyrir ungverska herinn (kallaðist gúllaskanóna). Ungverjaland er einnig þekkt fyrir hinar ýmsu pylsutegundir, en pylsurnar eru einkenni fyrir vissar borgir og landshluta. Víða um landið eru góð vínræktarsvæði, þótt ungversk vín séu minna þekkt en önnur evrópsk vín. Þeirra helst er Tokaj-vínið sem framleitt er norðaustast í landinu og að einhverju leyti af Ungverjum í Slóvakíu. Tokaj-vínin voru á borðum í konungshúsum víða í Evrópu á 19. öld. Íþróttir. Þjóðaríþrótt Ungverja er knattspyrna. Landsliðið hefur þrisvar sigrað knattspyrnukeppnina á sumarólympíuleikunum (1952, 1964 og 1968). Það hefur níu sinnum keppt í úrslitakeppni HM og tvisvar komist í úrslitaleikinn. 1938 tapaði liðið fyrir Ítalíu og 1954 fyrir Þjóðverjum. Gullaldarár ungverskrar knattspyrnu náði frá fjórða áratug 20. aldar til sjöunda áratugarins. Helsti knattspyrnumaður Ungverja var Ferenc Puskás sem lék eingöngu með Honvéd í Búdapest og Real Madrid. Árangursríkasta félagsliðið er Ferencváros Búdapest sem 28 sinnum hefur orðið ungverskur meistari. Liðið komst einu sinni í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa (1975), en tapaði þá fyrir Dynamo Kiew. Handbolti er einnig mikið leikinn í Ungverjalandi. Lið eins og KC Veszprém og SC Szeged eru þekkt í Evrópu. Tvær þekktar kappakstursbrautir eru í landinu. Á Hungaroring er keppt í Formúlu 1, en á Pannoniaring á mótorhjólum. Íshokkí er vaxandi íþrótt í Ungverjalandi. Árið 2009 tryggði landsliðið sér þátttökurétt í HM í fyrsta sinn í 70 ár. Helgidagar. Ólíkt öðrum löndum eru þrír þjóðhátíðardagar í Ungverjalandi, allt eftir tilefni. 15. mars er haldið upp á marsbyltinguna, 20. ágúst uppá stofnun ríkisins og 23. október uppá byltingardaginn gegn kommústastjórninni 1956. Auk neðangreindra helgidaga voru nokkrir í viðbót á tímum kommúnismans, en þeir voru afnumdir við stofnun lýðveldisins 1989. Kjörsókn. Kjörsókn er það hlutfall kjósenda á kjörskrá sem kýs í kosningum. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er skóli á framhaldsskólastigi sem tók formlega til starfa haustið 1979 við samruna "Vélskólans í Vestmannaeyjum", "Iðnskólans í Vestmannaeyjum" og framhaldsdeilda "Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum". Í upphafi árs 1997 tók svo Framhaldsskólinn yfir rekstur "Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum". Í upphafi heyrðu elstu bekkir grunnskólans undir Framhaldsskólann, var þá sami skólameistari yfir Framhaldsskólanum og Gagnfræðaskólanum og sumir kennarar kenndu á báðum skólastigunum. Nemendafjöldi fyrsta árið var 85 nemendur. Þeim fjölgaði fram til ársins 1997 að nemendafjöldi náði 300. Það hefur nokkuð haldist í stað síðan, með sveiflur niður í um 250 nemendur. Það heitir Nemendafélag Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, skammstafað NFFÍV. Byggingin sem Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er í var upprunalega byggður fyrir Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum. Apalhraun. Apalhraun á HawaiiApalhraun er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri, ísúrri eða súrri kviku. Dæmi um apalhraun er hraunið sem liggur yfir Suðurnesin, og Eldfellshraun á Heimaey Konungur Íslands. Konungur Íslands er titill sem 30 konungar hafa borið í þremur konungssamböndum. Sá fyrsti var Hákon gamli Noregskonungur, en hann hlaut yfirráð yfir Íslandi með Gamla sáttmála. Samningurinn var þó ekki staðfestur að fullu fyrr en Magnús lagabætir, sonur Hákonar, hafði tekið við konungdómi í Noregi. Fram að Kópavogsfundinum var nýr konungur staðfestur af Alþingi, en eftir það einungis hylltur, enda var þá konungdómur yfir Íslandi orðinn arfgengur. Konungar Íslands voru þjóðhöfðingjar landsins. Eftir lýðveldisstofnunina 17. júní 1944 hefur forseti Íslands gegnt því hlutverki. 1991-2000. Tímabilið 1991–2000 var tíundi áratugur 20. aldar. 1981-1990. Tímabilið 1981–1990 var níundi áratugur 20. aldar. 1971-1980. Tímabilið 1971–1980 var áttundi áratugur 20. aldar. 1961-1970. Tímabilið 1961–1970 var sjöundi áratugur 20. aldar. 1921-1930. Árin frá 1921-1930 nefnist á íslensku þriðji áratugurinn. Gljámispill. Gljámispill (fræðiheiti: "Cotoneaster lucidus") er runni af rósaætt. Land. Land táknar oftast ríki eða viðurkennt svæði, sem heitir tilteknu nafni. Flest lönd eru afmörkuð hvert frá öðru með landamærum, sem hafa verið afskaplega breytileg og hreyfanleg í tímans rás. Sum lönd eru umlukin sjó eingöngu og hafa þá engin eiginleg landamæri. Þannig háttar til dæmis um Ísland og Japan. Önnur liggja að sjó að hluta og að öðrum löndum að hluta. Sem dæmi slíks má nefna Noreg og Danmörku. Þá eru einnig lönd sem eru algjörlega landlukt, en þau eiga hvergi land að sjó og allt umhverfis þau eru landamæri, sem liggja að einu eða fleiri öðrum ríkjum. Slík lönd eru sem dæmi Sviss og Tékkland. Til eru tvö lönd í veröldinni, sem kalla mætti tvílandlukt, en þau eru umkringd löndum, sem hvergi liggja að sjó. Þessi tvö lönd eru Úsbekistan og Liechtenstein. Í annarri merkingu er orðið „"land"“ notað um svæði almennt án vísunar til heitis sérstaklega. Sem dæmi um slíka notkun orðsins mætti taka þessa setningu: „Í Himalayafjöllum liggur land að jafnaði hærra en annars staðar á jörðunni.“ Þriðja merking orðsins er stórt eða smátt svæði á jörðinni, sem stendur upp úr sjó, slíkt svæði nefnist meginland eða eyja og byggist aðgreiningin að mestu leyti á stærð. „Land fyrir stafni!“ Að síðustu mætti nefna þá merkingu orðsins sem vísar til eignar tiltekins manns eða lögaðila. „Möðrudalur á Fjöllum er ein landmesta jörð á Íslandi.“ JavaScript. JavaScript er hlutbundið forritunarmál sem er oft notað á vefsíðum. JavaScript er venjulega túlkað forritunarmál eða forskriftumál. Helstu vafrar eru með innbyggðan JavaScript-túlk. JavaScript var upphaflega þróað af Brendan Eich starfsmanni Netscape Communications. Fyrsti innbyggði JavaScript-túlkurinn var hluti af Netscape Navigator 3.0 vafranum sem kom út 19. ágúst árið 1996. JavaScript var staðlað árið 1997 undir heitinu ECMAScript. Staðallinn samsvarar JavaScript 1.5 og er núna líka orðinn ISO-staðall. JavaScript er oft ruglað saman við forritunarmálið Java en þau eiga lítið sem ekkert sameiginlegt fyrir utan líkar málfarsreglur. Kemur þá JavaScript-kóðinn í stað '...'. Herbert Guðmundsson. Herbert Guðmundsson (fæddur í Reykjavik 15. desember 1953) er íslenskur tónlistarmaður, söngvari, lagasmiður, útsetjari, útgefandi og framleiðandi á eigin tónlist. Allar götur síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið upp úr 1970, þá söngvari með ýmsum hljómsveitum hefur hann verið afkasta mikill í íslensku tónlistarlífi. Fyrst með skólahljómsveitinni Raflost í Laugarlækjarskóla í Reykjavík um miðjan sjötta áratuginn. Síðan komu hljómsveitirnar Eilífð, Tilvera, Stofnþel, Eik, Pelican, Dínamít og síðast hljómsveitinni Kan sem gerð var út frá Vestfjörðum nánar tiltekið frá Bolungarvík á árunum 1982-84. Kan gaf út plötuna "Í Ræktinni" og þekktustu lög Kan voru „Megi sá draumur“ og „Vestfjarðaóður“, sem Herbert hefur nýverið endurunnið og gefið út á plötunni "Tree Of Life". Herbert varð fyrst þekktur á Íslandi þegar honum bauðst staða aðalsöngvara í Hljómsveitinni Tilveru. En á þeim tíma voru þekktustu hljómsveitir landsins ásamt Tilveru, Ævintýri og Trúbrot. Herbert söng inn á sína fyrstu plötu með Tilveru 1971, sem var 45 snúninga tveggja laga plata. Öðru megin var lagið „Sjálfselska og eigingirni“ sem Herbert söng og hinu megin „Lífið“ sungið af Axeli Einarssyni en Axel var aðal driffjöður hljómsveitarinnar Tilveru og er aðalhöfundur lagsins „Hjálpum þeim“. Það lag varð þjóðþekkt og er verkefni sem Herbert tók þátt í. En á þessum tíma voru gefin út lög í þeim tilgangi að styðja við hjálparstarf í Afríku og má þar nefna Band Aid. Herbert hefur síðan á eigin vegum gefið út fjölda hljómplatna og eru þær nú orðnar tólf talsins auk eins DVD tónleikadisks (HG í Íslensku Óperunni - útgáfutónleikar plötunnar "Nýspor á íslenskri tungu"). Í gegnum tíðina hafa komið frá honum vinsælir smellir á borð við „Can't Walk Away“, „Hollywood“, „I Believe In Love“, „Time“ og nú síðast Eurovision-lagið „Eilíf Ást“. Hann hóf tónlistarferilinn 1969 með hljómsveitinni Raflost. Hann byrjaði sólóferill sinn 1985 með útgáfu á plötunni „Dawn Of The Human Revolution“. Lagið „Can't Walk Away“ af þeirri plötu var 13 vikur á íslenska listanum. Jón Vídalín. a>, þar sem Jón Vídalín dó. Jón Þorkelsson Vídalín (21. mars 1666 – 30. ágúst 1720) var biskup í Skálholti, lærdómsmaður, mikill prédikari og helsta latínuskáld sinnar tíðar. Jón var sonur séra Þorkels Arngrímssonar, prests í Görðum á Álftanesi, sonar Arngríms lærða, og konu hans Margrétar Þorsteinsdóttur. Hann tók sér snemma nafnið Vídalín eins og margir afkomendur Arngríms. Bræður hans voru þeir Þórður Þorkelsson Vídalín, skólameistari í Skálholti um tíma en síðan bóndi í Þórisdal í Lóni, og Arngrímur Vídalín skólameistari í Nakskov íDanmörku. Systir þeirra var Guðrún prófastsfrú á Þingvöllum. Hann stundaði skólanám hjá frænda sínum, Páli Björnssyni í Selárdal. Síðan sigldin hann og lærði við Kaupmannahafnarháskóla, samtíða Árna Magnússyni, og lauk þaðan guðfræðiprófi. Síðan var var um tveggja ára skeið sjóliði í danska flotanum og mun hafa átt von á að hækka fljótt í tign en þegar það varð ekki keypti móðir hans hann lausan með milligöngu Kristofers Heidemann landfógeta. Hann kom svo heim til Íslands 1691, sagður fátæklega til fara. Árið eftir varð hann kennari við Skálholtsskóla og 1693 dómkirkjuprestur í Skálholti. Hann varð svo prestur í Görðum og var valinn biskup í Skálholti 1697 (vígður 1698), aðeins sex árum eftir að hann kom heim. Við það tækifæri færði hann Þingvallakirkju bjöllu sem nú hangir þar í klukkuturninum. Jón Vídalín var mikill mælskumaður og kennimaður. Hann er þekktastur fyrir rit sitt "Vídalínspostillu" sem er húslestrarpostilla, með einni predikun fyrir hvern hátíðisdag ársins, ætluð til upplestrar á heimilum. Postillan var ein mest lesna bók á Íslandi um tveggja alda skeið og hafði veruleg áhrif á íslenska menningu, trúarlíf og bókmenntir fram á 20. öld. Jón var, auk Hallgríms Péturssonar, einn helsti fulltrúi lúthersku rétttrúnaðarstefnunnar (píetismans) á Íslandi. Jón er sagður hafa verið lítillátur og lítt gefinn fyrir íburð, stórgjöfull við fátæka og tók oft skólasveina og aðra efnilega unglinga til sín án þess að hirða um borgun, en ekki góður fjármálamaður. Hann var áhugasamur um framfarir, reyndi kálræktun og hvatti til nýjunga eins og hreindýraræktar og saltvinnslu. Hann þótti nokkuð drykkfelldur og gengu sögur um drykkjuskap hans á Alþingi og víðar. Hann var líka skapmaður mikill og átti til dæmis í deilum og jafnvel handalögmálum við Odd lögmann Sigurðsson. Jón biskup andaðist í Biskupsbrekku á Uxahryggjaleið síðsumars 1720. Hann hafði verið á leið vestur að Staðarstað til að vera við útför mágs síns, séra Þórðar Jónssonar, en veiktist og komst ekki lengra. Kross var reistur á staðnum fyrir nokkrum árum til minningar um Jón en þess má geta að Jón Þorkelsson Thorcillius mun fyrstur manna hafa stungið upp á því árið 1745 að Jóni yrði reist minningamark í Biskupsbrekku. Kona Jóns var Sigríður yngri (1677 – 16. júní 1730), dóttir Jóns Vigfússonar Hólabiskups og Guðríðar Þórðardóttur konu hans. Hún þótti skynsöm kona og vel menntuð og kenndi meðal annars undirstöðuatriði í latínu. Skóli. Skóli er stofnun þar sem ungum sem öldnum eru kenndar ýmsar fræðigreinar af kennurum, en það er mismunandi eftir skólastigi og tegund skóla hvað er kennt og á hvaða erfiðleikastigi. Á sumum skólastigum er mætingaskylda, svo nemendur þurfa að mæta á réttum tíma. Orðið "skóli" er einnig haft um ákveðan stefnu í listum, t.d. "vínarskólinn". Saga skólastofnanna á Íslandi. Fyrsti skólinn hér á landi er talinn hafa verið á Bæ í Borgarfirði. Rúðólfur biskup sem var hér á landi í 20 ár hélt þar uppi skóla, og var Sigfús Loðmundarson, faðir Sæmdundar fróða, einn af nemendum hans. Skólinn lagðist þó niður þegar Rúðólfur biskup fór af landi brott, en héðan fluttist Rúdólfur árið 1050 og hélt þá til Englands og gerðist ábóti í Abington. Sagt er að Sæmundur hafi fyrstur Íslendinga stundað nám í Frakklandi, og er líklegt að það hafi verið fyrir áeggjan Rúðólfs biskups. Næst stofnaði Ísleifur biskup skóla í Skálholti og Teitur sonur hans stofnaði síðan skóla í Haukadal, þar sem Ari fróði var við nám. Síðan koma skólarnir á Hólum og Odda, sem þeir stofnuðu vinirnir Jón Ögmundsson biskup og Sæmundur fróði. Ekki er gott að segja hvor skólinn er eldri, en sennilega er það skólinn í Odda. Um hann er lítið vitað, en talið er víst að þar hafi verið kennd þjóðleg fræði auk annars og margt fært í letur. Til dæmis um það hvert álit skólinn hafði á sér, er sagt frá því í sögu Þorláks biskups helga, að móðir hans hafi sett hann í skólann í Odda, sem þá hefði verið fremsti skóli hér á landi. 1601-1610. a> á borð við þann sem Rubens ber voru orðnir nær allsráðandi. 1601-1610 var fyrsti áratugur 17. aldar sem er hluti af árnýöld í sögu Evrópu. Á þessum árum kom barokkið upp í evrópskri myndlist, með fyrstu verkum Peter Paul Rubens, og byggingarlist með framhlið Kirkju heilagrar Súsönnu í Róm eftir Carlo Maderno sem var lokið við árið 1603. Á þessum árum hófst framleiðsla á sjónaukum og stjörnufræðingar á borð við Galileo Galilei notuðu þessi nýju tæki til að sýna fram á sólmiðjukenninguna. Pieter Zeeman. Pieter Zeeman (25. maí, 1865 – 9. október, 1943) var eðlisfræðingur sem lærði hjá Hendrik Lorentz og deildi nóbelsverðlaununum í eðlisfræði með honum fyrir uppgtötvun sína á Zeeman hrifunum. Zeeman var fæddur í Zonnemaire, Hollandi. Hann var stúdent hjá Lorentz í Háskólanum í Leiden. Hann byrjaði að halda fyrirlestra við Leiden árið 1890. Árið 1896 bað Lorentz hann um að athuga áhrif segulsviðs á ljósuppsprettu og uppgötvaði hann þá það sem í dag er þekkt sem Zeeman hrifin. Þessi uppgötvun sannaði kenningu Lorentz um rafsegulgeislun. Zeeman var settur prófessor í eðlisfræði við Háskólann í Amsterdam árið 1900. 1908 var hann síðan settur yfirmaður náttúruvísindadeildarinnar þar. Zeeman, Pieter Zeeman, Pieter Belgía. Belgía (hollenska: "België"; franska: "Belgique"; þýska: "Belgien") er konungsríki í Vestur-Evrópu sem á landamæri að Hollandi, Þýskalandi, Lúxemborg og Frakklandi. Auk þess liggur strönd Belgíu að Norðursjó. Belgía liggur á mörkum germönsku og rómönsku Evrópu og skiptist sjálft á milli þessara menningarheima, þar sem í norðurhluta landsins, Flandri ("Vlaanderen"), er töluð hollenska, en í suðri hlutanum, Valloníu ("Wallonie") er töluð franska. Þýska er töluð í austurhluta landsins. Brussel, hin tvítyngda höfuðborg landsins, liggur í Flandri, nálægt mörkum að Vallóníu. Belgía er ein af stofnþjóðum Evrópusambandsins og eru höfuðstöðvar þess í Brussel. Evrópskar höfuðstöðvar NATÓ eru einnig staðsettar í landinu og EFTA samtökin eru með stórt útibú þar. Í Belgíu búa rúmlega 10,8 milljónir manna á um 30 þús km2 svæði. Lega og lýsing. Belgía er ákaflega flatt land. Meirihluti landsins er láglent undirlendi. Í norðurhluta landsins eru jafnvel nokkrir staðir sem liggja neðan sjávarmáls, en þeir eru talsvert færri og minni en t.d. í Hollandi. Syðst er lítill fjallgarður, Ardennafjöll, en hæsti tindurinn þar, Signal de Botrange, nær aðeins 694 metra hæð. Skipta má landinu í þrjá landfræðilega hluta: ströndina, miðundirlendið og Ardennafjöll. Fjölda áa renna um landið. Þeirra helstu eru Maas og Schelde. Orðsifjar. Heitið Belgía er runnið undan rifjum Júlíus Caesars, sem hertók landið á 1. öld f.Kr., en hann kallaði nyrstu héruð Gallíu "Gallia Belgica" eftir keltneska þjóðflokknum Belgae. Heitið hvarf þó á miðöldum en kom fram aftur 1790 þegar Belgía var sjálfstætt ríki í nokkra mánuði. Það hét þá États-unis de Belgique (Sameinuðu belgísku löndin). Eftir skamma samveru með Hollandi frá 1815-1830 varð Belgía sjálfstætt konungsríki. Landið tók sér heitið Royaume de Belgique (konungsríkið Belgía) en það er enn opinbert heiti landsins í dag. Mannfjöldi og tungumál. Íbúar í Belgíu eru 10,8 milljónir á 30 þús km2 svæði. Þéttleikinn í landinu er því 355 íbúar á km2. Venjulega hafa íbúarnir verið flokkaðir eftir tungumálum. Í Belgíu eru þrjú opinber tungumál: Hollenska (flæmskar mállýskur), franska og þýska. Flæmingjar (hollenskumælandi) eru um 60% íbúanna. Vallónar og frönskumælandi íbúar eru um 40%. Lengst í austri er lítill minnihlutahópur við þýsku landamærin sem talar þýsku. Höfuðborgin Brussel er tvítyngd (franska og hollenska). Trú. Um 75% Belga eru kaþólskir. 1% tilheyra sameinuðu mótmælendakirkjunni. Um 4% tilheyra íslam. 20% eru ekki skráðir í trúflokka. Belgíska stjórnin viðurkennir eingöngu 6 trúflokka: Anglísku kirkjuna, íslam, gyðingdóm, kaþólsku kirkjuna, rétttrúnaðarkirkjuna, sameinuðu mótmælendakirkjuna og fríhugsuðir (þ.e. húmanistar). Gyðingar í Belgíu eru 20 þús talsins. Þjóðfáni og skjaldarmerki. Þjóðfáni Belgíu samanstendur af þremur lóðréttum röndum: Svart, gult og rautt. Þegar Brabant lýsti yfir sjálfstæði 1789 var þetta fáninn sem tekinn var upp, nema hvað rendurnar voru láréttar. Lýðveldi þetta var brotið á bak aftur. En 1830 var konungsríkið Belgía stofnað. Fáninn var tekinn í notkun aftur 23. janúar 1831, en rendurnar látnar vera lóðréttar. Til hliðsjónar var franski fáninn hafður, en hann samanstendur einnig af þremur lóðréttum röndum. Litirnir hafa hins vegar ekkert með þýska fánann að gera. Það er algjör tilviljun að fánarnir eru nauðalíkir. Belgíska skjaldarmerkið er til í tvennu formi, þ.e. eitt stórt og eitt minna. Bæði sýna þau gullna ljón héraðsins Brabant, en það var aðalsmerki hertoganna af Brabant fyrr á öldum. Merkið var tekið upp í núverandi formi 17. mars 1817. Stjórn. Í Belgíu er þingbundin konungstjórn. Lögþingið samanstendur af tveimur deildum, ásamt konungi. Framkvæmdarvaldið samanstendur af 15 manna ríkisstjórn og konungi. Æðsti maður ríkisstjórnarinnar er forsætisráðherra landsins. Síðan 2011 er Elio Di Rupo forsætisráðherra. Konungurinn ber titilinn konungur Belga (Roi des Belges), ekki konungur Belgíu. Gulgræna svæðið er Flæmingjaland, brúna svæðið er Vallónía, bláa svæðið er þýskt menningarsvæði. Fyrir miðju er höfuðborgarsvæðið. Vallónar krefjast þess að viðhalda Belgíu sem eitt ríki. Meðal flæmingja heyrist sú krafa æ oftar að kljúfa sig úr ríkinu og mynda eigið land. Síðan 2007 hafa stjórnmálamenn átt í miklum erfiðleikum að samrýma allar þessar kröfur. Her. Belgía er með her sem skiptist í fjóra hluta: Landher, sjóher, lofther og sjúkraher. Stærstur þessara herja er landherinn með tæpa 25 þús hermenn. Loftherinn ræður yfir 72 flugvélum og 31 þyrlu. Sjóherinn lýtur sameiginlegri stjórn Benelux-landa. Herskylda var afnumin í landinu 2006. Stjórnsýsluumdæmi. Belgíu er skipt upp í tvö landfræðileg svæði: Vallóníu (frönskumælandi) í suðri og Flæmingjalandi eða Flandri (hollenskumælandi) í norðri. Hvort svæði um sig er skipt upp í fimm héruð eða fylki. Það athugist að héraðið Lúxemborg er ekki það sama og furstadæmið Lúxemborg, sem er sjálfstætt ríki. Héraðið í kringum Brussel telst ekki til neins héraðs. Það er heldur ekki vallónskt eða flæmst, heldur myndar höfuðborgarsvæðið sér svæði. Niðurlönd. Stærsti hluti nútíma Belgíu var fyrr hluti Rómaveldis, en það var Júlíus Caesar sem hertók landið 57-51 f.Kr. Belgía var skattland Rómverja, kallað Gallia Belgica, en höfuðborgin var Reims (í Frakklandi í dag). Eftir það var landið hluti af frankaríkinu mikla sem Karlamagnús setti saman síðla á 9. öld. Eftir fráfall hans skiptist ríkið í þrennt 843 og lentu Niðurlönd í miðríkinu, Lóþaringíu. Þegar því var hins vegar skipt milli franska ríkisins og þýska ríkisins 855, lentu þau í þýska ríkinu. Þar var hins vegar engin ríkisheild, heldur stjórnuðu greifar og furstar löndunum. Niðurlöndum var stjórnað af greifanum frá héraðinu Hollandi, hertoganum frá Geldern og hertoganum frá Brabant. Auk þess af biskupnum frá Utrecht. Það var hertoginn frá Búrgúnd sem sameinaði löndin. Á þessum tíma voru borgir eins og Bruges, Gent og Antwerpen meðal ríkustu borga Evrópu. Eftir að Karl hinn hugrakki, hertogi Búrgúndar, lést í orrustunni við Nancy 1477, erfði María dóttir hans öll Niðurlönd. Hún missti móðurlandið (Búrgúnd) til Frakklands, en hélt Niðurlöndin eftir. Eiginmaður hennar var Maximilian frá Habsborg og stjórnuðu þau Niðurlöndum frá Brussel. Með andláti Maríu og Maximilians erfði Habsborg Niðurlönd, en þau erfðust til spænsku línu Habsborgar 1556. Sjálfstæðisstríð. Þar sem Spánverjar ríktu með harðri hendi á Niðurlöndum hófst uppreisn íbúa svæðisins 1568. Niðurlöndum var skipt í 17 héruð og skiptust þau í andstæða hópa. 1581 lýstu norðurhéruðin yfir sjálfstæði, en suðurhéruðin, að miklu leyti núverandi Belgía, héldu að mestu tryggð við Spánverja. Þó lentu ýmsar belgískar borgir illilega í stríðinu. Til að mynda féll Antwerpen tvisvar og var hún rænd og rupluð. Stríðinu lauk ekki fyrr en með friðarsamningunum í Vestfalíu, samfara lokum 30 ára stríðsins. Spánverjar viðurkenndu sjálfstæði Hollands, en Belgía var enn eign Spánar. Í ófriði við Frakka missti spænska Belgía borgir eins og Dunkerque, Lille og Arras til Frakklands. Við friðarsamninga spænska erfðastríðsins 1713-14 misstu Spánverjar Belgíu til Austurríkis. Reyndar var Belgía á þessum tíma orðið nær sjálfstætt ríki, enda var keisarasambandið við Austurríki aðeins lauslegt. En þegar Jósef II keisari setti ný og strangari lög um Belgíu 1790, gerðu belgísku héruðin uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Austurríkismönnum tókst þó að hertaka landið á sama ári. Frakkar. 1794 hertók franskur byltingarher Niðurlönd öll. Meðan Hollandi var breytt í Batavíska lýðveldið, var Belgía innlimuð Frakklandi. Þar með lauk yfirráðum Habsborgara endanlega á Niðurlöndum. Frakkar umbyltu landinu nánast. Bannað var að tala hollensku í Brabant og Flandri. Aðeins mátti tala frönsku. Efnahagurinn hrundi nánast, en bannað var að selja iðnvörur nema til Frakklands. Kaþólska kirkjan var ofsótt, biskupsdæmin lögð niður og kirkjur vanhelgaðar. Ástand þetta varaði allt til 1814, er Napoleon var sigraður og settur í útlegð á eyjuna Elbu. Þá voru Frakkar hraktir úr landi og frönsk lög afnumin. En Napoleon strauk frá Elbu aðeins ári síðar, safnaði að sér her og varð einvaldur á ný. 18. júní 1815 var síðasta stórorrusta hans háð við smábæinn Waterloo rétt sunnan við Brussel. Þar beið hann ósigur gegn sameinuðum herjum Englendinga og Prússa. Á Vínarfundinum var ákveðið að Holland, Belgía og Lúxemborg skyldu sameinast í eitt konungsríki. Fyrsti konungur þess ríkis varð Vilhjálmur I af Óraníu. Belgíska uppreisnin. Uppreisnin í Belgíu hófst í Brussel 1830. Málverk eftir Egide Charles Gustave Wappers. Þótt Belgar væru ánægðir með að losna við yfirráð Frakka, voru þeir óánægðir með Hollendinga. Ástæðan var einföld. Þeim fannst Hollendingar líta á sig sem annars flokks þegna. Belgar voru enn kaþólskir, en Hollendingar kalvínistar og reformeraðir. Belgía var iðnvæddara land en Hollendingar notfærðu sér tækni þeirra og skatta. Að lokum töluðu margir Belgar frönsku, meðan aðalmálið í Hollandi var hollenska. Í júlí 1830 sauð upp úr. Í Brussel hófst bylting sem breiddist út til annarra borga. Krafan var að splitta sig frá Hollandi. Í september var bráðabirgðastjórn mynduð og 4. október 1830 lýsti stjórnin yfir sjálfstæði Belgíu í ráðhúsinu í Brussel. Í ráðstefnu sem stórveldi í Evrópu héldu í London í lok ársins, var Belgía viðurkennt sem sjálfstætt ríki. Vilhjálmur I, konungur Niðurlanda, viðurkenndi nýja ríkið hins vegar ekki fyrr en 1839. Þingið ákvað einnig að Belgía skyldi vera konungsríki. Hins vegar neitaði aðall landsins að taka við konungdóminum. Það tók heilt ár að finna hentugan aðila. Að lokum varð þýski aðalsmaðurinn Leópold af ætt Sachsen-Coburg-Gotha fyrir valinu. Hann var krýndur 21. júlí 1831 og er þessi dagur þjóðhátíðardagur Belga í dag. 1839 splittaðist hertogadæmið Lúxemborg í tvennt. Það hafði tekið þátt í belgísku uppreisninni 1830 og var hluti Belgíu. En 1839 klofnaði héraðið. Vesturhlutinn varð eftir í Belgíu (og heitir Lúxemborg í dag), en austurhlutinn varð að sjálfstæðu ríki (heitir einnig Lúxemborg). Nýlenduveldi og heimstyrjöld. Með nýju sjálfstæði færðist iðnvæðingin í aukana. Nýjar kolanámur spruttu upp og lagt var járnbrautarnet þvert yfir landið og til nágrannalandanna. 1889 varð Belgía að nýlenduveldi er Leópold II konungur eignaðist formlega Kongó í Afríku. Hann hafði þó löngu áður braskað með landið og íbúana. Leópold notaði íbúa Kongósvæðisins vægðarlaust og hófst mikil rányrkja í landinu. Eitthvað um 10 milljónir Kongóbúar létu lífið í þrælabúðunum. Þetta olli þvílíkri hneikslan á Vesturlöndum að Leópold konungur neyddist til að afsala sér landið 1908, sem eftirleiðis var stjórnað af ríkisstjórninni og hlaut heitið Belgíska Kongó (Belgian Congo). Leópold lést ári síðar. Í ágúst 1914 réðust Þjóðverjar inn í Belgíu til að komast betur inn í Frakkland. En Belgar tóku á móti þeim með þvílíkum krafti að Þjóðverjar voru stöðvaðir í heilan mánuð. En um síðir náðu Þjóðverjar meirihluta landsins á sitt vald. Stjórnin flúði til Le Havre í Frakklandi. Þjóðverjar tóku fólk af lífi og eyðilögðu byggingar fyrir hið vasklega viðnám og sem hefnd fyrir miklar andspyrnuhreyfingar. Margar borgir skemmdust mikið. 40 þús Belgar voru sendir til Þýskalands til að vinna í hergagnaiðnaðinum. Tugþúsundir annarra voru hnepptir í vinnuþrælkun. Í stríðslok, er Þjóðverjar yfirgáfu landið 1918, eignaðist Belgía héraðið í kringum borgirnar Eupen og Malmedy, sem áður tilheyrði Þýskalandi. Þar með mynduðust núverandi landamæri Belgíu. Einnig tók belgíski herinn þátt í hersetu Ruhr-héraðsins sem hluti stríðsskaðabóta Þjóðverja. Heimstyrjöldin síðari. Belgísk vopn daginn eftir uppgjöf Belga fyrir Þjóðverjum 1940 10. maí 1940 réðust Þjóðverjar aftur inn í Belgíu. Að nýju veittu Belgar mikið viðnám, en fengu ekki við ráðið. Brussel féll 17. maí. Stjórnin fór þá til Englands og starfaði í London. Þjóðverjar hertóku landið á 18 dögum. Leópold III konungur neitaði hins vegar að yfirgefa landið. Hann var að lokum handtekinn af Þjóðverjum og töldu sumir að hann hafi veitt þeim haldbærar upplýsingar og aðstoð. Leópold átti fund með sjálfum Hitler í bæríska bænum Berchtesgaden í nóvember 1940. Landstjóri nasista í Belgíu varð Alexander von Falkenhausen. Strax var byrjað á því að ofsækja gyðinga og senda þá úr landi. Í september 1944 hrökkluðust nasistar úr Belgíu, en þá höfðu bandamenn ráðist inn í Normandí nokkru áður. Stjórnin sneri heim frá London og neyddi Leópold III konung til að segja af sér. Hann var þó settur í embætti á ný 1946. Í lok árs 1944 sóttu Þjóðverjar fram á vesturvígstöðvunum í síðasta sinn. Þeir komust inn yfir Ardennafjöll og sóttu inn í Belgíu. Framsókn þessi var þó skammlíf, enda mættu Þjóðverjar þar ofjörlum sínum. Nútíma Belgía. Eftir stríð var belgíska stjórnin enn óánægð með Leópold konung. 1949 efndi hún til þjóðaratkvæðagreiðslu um persónu hans. 72% þjóðarinnar kaus með konungi og sat hann því áfram í embætti. En þetta leysti miklar erjur úr læðingi og við lá borgarastríði. 1951 sá Leópold sitt vænsta og afþakkaði. Við konungdóminn tók sonur hans Baldvin. Eftir stríð hófst mikil efnahagsuppsveifla í landinu. Þeir gengu í kola- og stálbandalag Evrópu 1952 og voru stofnmeðlimir Evrópubandalagsins 1957 með Rómarsáttmálanum. 1967 setti NATO upp aðalstöðvar sínar í Brussel. Síðan þá hafa margar aðrar alþjóðlegar stofnanir reist aðalstöðvar sínar í borginni, þar á meðal aðalskrifstofur Evrópusambandsins. Því er Brussel oft nefnd höfuðborg Evrópu. 1960 hófust uppþot í nýlendunni Kongó, sem endaði með sjálfstæði landsins 30. júní. Þegar uppþotin héldu áfram í júlí, sendi Belgía herlið til landsins í trássi við stjórnina í Kongó. Í borgarastyrjöldinni sem á eftir fylgdi neyddust Belgar til að draga sig til baka. Heima fyrir var tungumálavandinn ákaflega erfiður ljár. Það var ekki fyrr en 1967 að hollensk útgáfa af stjórnarskrá landsins varð til. Hún hafði alltaf verið á frönsku fram að þessu. Hollenskan og franskan skiptu landinu einnig upp í tvær þjóðir og tvo menningarheima. 1964 var landinu formlega skipt upp í fjögur tungumálasvæði: Frönsku, hollensku, þýsku og tvítyngda höfuðborg. Eftir þetta hafa nokkrar ríkisbreytingar verið gerðar. Elio di Rupo varð forsætisráðherra Belgíu eftir lengstu stjórnarkreppu í sögu Vesturlanda Eftir kosningar 2010 tókst ekki að mynda nýja ríkisstjórn og var landið tæknilega stjórnlaust í hálft annað ár. Stjórnarkreppan leystist ekki fyrr en í desember 2011 er Elio Di Rupo tókst að mynda nýja stjórn. Stjórnarkreppan stóð yfir í 541 dag, sem er heimsmet. Þrátt fyrir allar þessar breytingar eru vandamálin í landinu ekki leyst. Ekki er útilokað að Belgía leysist upp í tvö ríki í framtíðinni. Ár og vötn. Nokkrir skipaskurðir eru í Belgíu. Stærsti skurðurinn er Albert-skurðurinn, en hann er 129 km langur. Skurðurinn tengir árnar Maas og Schelde milli borganna Liege og Antwerpen. Hæðarmunurinn er 56 m og þurfa skip því að fara í gegnum fimm skipastiga. Brussel-Schelde-skurðurinn er 28 km langur og tengir höfuðborgina við fljótið Schelde, og þaðan áfram til sjávar. Skurðurinn var vígður 1561 og er einn allra elsti skipaskurður Evrópu sem enn er í notkun. Ardennafjöll eru að mestu skógi vaxin Stöðuvötn í Belgíu eru fá og lítil. Stærsta vatnið er Lacs de L'Eau d'Heure í héraðinu Namur nálægt frönsku landamærunum. Það er þó ekki nema rúmlega 6 km2 að stærð. Vatnið er uppistöðulón sem myndaðist við stíflugerð á 8. áratugnum. Fjöll. Meginhluti Belgíu er flatlendi. Bara í suðaustri er landið hæðótt. Þar eru Ardennafjöll sem teygja sig frá Belgíu til Lúxemborgar og að einhverju leyti til Frakklands. Hæsta fjallið er Signal de Botrange sem er 694 metra hátt. Það liggur í þeim hluta Ardennafjöllum sem kallast Haute Fagnes nálægt þýsku landamærunum. Fjallið er nær allt skógi vaxið, en efst er útvarpsturn og veitingahús. Fjögur önnur fjöll í Ardennafjöllum (innan Belgíu) ná 600 metra hæð. Málaralist. Belgísk málaralist er síst lakari en sú hollenska, sérstaklega 17. öldin. Meðal þekktustu málara þess tíma má nefna Adriaen Brouwer, Peter Paul Rubens, Anthonis van Dyck, Teniers feðgar og Cornelis de Vos. Teiknimyndasögur. Í Belgíu er hægt að stunda nám í teiknimyndalistinni í listaháskólum. Matargerð. Franskar eru í raun belgísk uppfinning Belgísk matargerð er ekki einsleit, enda landið klofið í tvo menningarheima. Þekktasta matarafurð landsins er án efa franskar kartöflur, en það er misskilningur margra að þær séu ættaðar frá Frakklandi. Víða í Belgíu eru lítil veitingahús á hjólum (Friture á frönsku) sem selja franskar og aðrar djúpsteiktar vörur. Venjan er að ef borða skuli franskar heima fyrir, þá eru þær keyptar úti og teknar heitar heim. Belgískur bjór er víða þekktur, en landið framleiðir um 500 tegundir. Af þekktum ostum má nefna Limburger og Passendaele, sem gjarnan eru borðaðir sem eftirréttur. Belgískt konfekt er heimsþekkt. Það er selt í hundruðum tegunda og njóta mikilla vinsælda. Íþróttir. Í Antwerpen voru sumarólympíuleikarnir haldnir 1920, þeir fyrstu eftir heimstyrjöldina fyrri. Af þekktum belgískum íþróttamönnum má nefna tenniskonurnar Kim Klijsters og Justine Henin (báðar nr. 1 á heimslistanum á sínum tíma), markmanninn í knattspyrnu Jean-Marie Pfaff og hjólreiðamanninn Eddy Merckx, sem margir telja besta hjólreiðakappa allra tíma. Í Spa-Francorchamps er keppt í Formúlu 1. Mozilla Firefox. Mozilla Firefox eða einfaldlega Firefox (áður þekktur sem Phoenix og Mozilla Firebird) er vafri, þróaður af Mozilla Foundation og hundruðum sjálfboðaliða. Vafrinn, sem fellur undir hugtakið opinn hugbúnaður, á að mæta þörf fólks á vafra sem er lítill, hraður og einfaldur. Firefox býr einnig yfir viðbótarkerfi sem gerir fólki mögulegt að sníða vafrann að þörfum sínum. Samkvæmt W3Counters nota 20,7% af öllum sem nota vafra, Firefox í apríl 2013. Hann er þriðji vinsælasti vafri heims á eftir Chrome og Internet Explorer. Saga. Firefox byrjaði sem tilraun hjá Dave Hyatt og Blake Ross í Mozilla-verkefninu. Þann 3. apríl 2003 kynnti Mozilla Organization að þeir ætluðu að breyta áherslunni frá Mozilla Suite í Firefox og Thunderbird. Verkefnið hefur síðan skipt um nafn nokkrum sinnum. Í upphafi hét það Phoenix en var endurnefnt út af Phoenix Technologies. Í staðinn kom Firebird en var skipt yfir í Mozilla Firebird til að rugla ekki saman við Firebird free database software project. Vegna pressu frá Firebird skiptu þeir þann 9. febrúar yfir í Mozilla Firefox. Firefox var í mörgum útgáfum áður en það varð 1.0 þann 9. nóvember 2004. 24. október 2006 gaf Mozilla út Firefox 2. Alkóhól. Alkóhól eru afleiður vatns (H—O—H), sem einkennast af skautuðum hýdroxýl hóp, þar sem að lífrænir hópar hafa skipt út öðru vetnisatóminu. Alkóhól hafa því formúluna: R—OH; þar sem R táknar „leif“ (enska „residue“). Í almennu tali er oftast átt við vínanda þegar talað er um "alkóhól". Samkvæmt nafnakerfi IUPAC enda nöfn "alkóhóls" á "–ól" og hliðargreinar fá forskeytið "hydroxy–". Alífatísk alkóhól hafa almennu formúluna formula_1. Einfaldasta arómatíska alkóhólið er fenól (fenýlalkóhól). Vefsíða. Vefsíða er stiklutexti á Veraldarvefnum, venjulega skrifuð í ívafsmálinu HTML, þótt ívafsmálið XHTML sé óðum að ryðja sér til rúms. Vefsíða inniheldur venjulega tengla á aðrar vefsíður og er þannig hluti af neti vefsíðna eða vef. Vefsíður eru lesnar með þar til gerðum biðlara. Algengustu vefbiðlararnir eru vafrar, en einnig póstforrit og fréttalesarar, sem dæmi. Skoðun vefsíðna takmarkast venjulega af því hvaða ívafsmál og miðla biðlarinn styður, en algengustu biðlararnir styðja að minnsta kosti myndir og JavaScript. Fjöldi ólíkra biðlara með stuðning fyrir mismunandi hluti gerir vefsíðugerð oft erfiða. Henri Becquerel. Antoine Henri Becquerel (15. desember, 1852 – 25. ágúst, 1908) var franskur eðlisfræðingur, nóbelsverðlaunahafi og einn þeirra sem uppgötvaði geislavirkni. Becquerel fæddist í París inn í fjölskyldu vísindamanna og telst sonur hans vera 4 ættliðurinn sem leggur fyrir sig vísindin. Hann lærði náttúruvísindi við École Polytechnique og verkfræði við École des Ponts et Chaussées. Árið 1892 varð hann þriðji fjölskyldumeðlimurinn til að verma stól yfirmanns eðlisfræðideildarinnar í náttúruvísindasafninu í Frakklandi ("Muséum National d'Histoire Naturelle"). 1894 varð hann síðan yfirverkfræðingur deildar sem hafði umsjón með brúar- og vegagerð í Frakklandi. 1896 uppgötvaði hann geislavirkni fyrir tilviljun þegar hann var að rannsaka fosfórljómun frá úransalti. Fyrir þessa uppgötvun deildi hann nóbelsverðlaununum 1903 í eðlisfræði með Pierre og Marie Curie og honum til heiðurs var SI-einingin fyrir geislavirkni, bekerel, nefnd eftir honum. Austurríki. Austurríki (opinberlega Lýðveldið Austurríki; þýska: Republik Österreich) er landlukt ríki í Mið-Evrópu með um 8,4 milljónir íbúa. Landið er sambandslýðveldi sem samanstendur af níu sambandsríkjum. Höfuðborg þess heitir Vín. Austurríki einkennist af hálendi Alpafjallanna en teygir sig einnig inn að Bæheimsskógi og Pannonísku sléttunni. Í margar aldir var Austurríki hluti af þýska ríkinu en klauf sig endanlega frá því síðla á 19. öld er Prússland varð leiðandi aðili í sameiningu þýsku ríkjanna. Austurríki er aðildarríki að NATO og er meðlimur Evrópusambandsins. Lega og lýsing. a> mikla og Vínarundirlendið í austri. Gróflega má skipta Austurríki í fimm jarðfræðilega hluta. Auk Alpafjalla er Dóná mjög áberandi í landslagi Austurríkis en fljótið rennur í gegnum landið norðanvert frá vestri til austurs. Í Austurríki eru tvö lítil svæði, Kleinwalsertal í Vorarlberg og Jungholz í Tírol. sem ekki eru aðgengileg annars staðar frá Austurríki vegna hárra fjalla. Heldur eru bæði svæðin eingöngu aðgengileg frá Þýskalandi. Orðsifjar. Austurríki hefur í gegnum tíðina verið nefnt nokkrum nöfnum. Mannfjöldi. Í Austurríki búa 8,4 milljónir manna á tæplega 84 þúsund km2 svæði. Þéttleiki landsins er því 100 íbúar á km2. Mikil fjölgun fólks var merkjanleg á tímum iðnbyltingarinnar, þrátt fyrir talsverðar Ameríkuferðir en íbúum fækkaði snöggt meðan heimstyrjaldirnar tvær á 20. öld stóðu yfir. Eftir stríð hefur Austurríkismönnum fjölgað hægt og er fjölgunin í dag ekki nema um 30 þúsund á ári. Fjölgunin er til komin vegna innflutnings erlendra borgara, þar sem fæðingar- og dánartala landsins er nær jafnhá. Flestir þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir eru frá löndum fyrrverandi Júgóslavíu. Útlendingar í Austurríki eru rúmlega 800 þúsund talsins, þ.e. tæp 10% af íbúafjölda landsins. Í Vín er hlutfallið 20%. Tungumál. Við ungversku landamærin eru bæjarheitin rituð á tveimur málum Í Austurríki er þýska opinbert tungumál. Hér er hins vegar um suðurþýska mállýsku að ræða, þannig að framburður og orðaforði eru eitthvað ólík háþýsku. Austurríska mállýskan líkist helst bærísku en hefur þó þróast enn lengra. Við inngöngu Austurríkis í Evrópusambandið var samið um að landið fengi að halda sínum sérstaka orðaforða. Önnur viðurkennd tungumál í Austurríki eru ungverska, slóvenska, burgenlandkróatíska, tékkneska, slóvakíska og rómaní (sígaunar). Trú. Tæplega 75% Austurríkismanna eru kaþólskir. Aðeins 4,6% tilheyra evangelískum kirkjum. Um 340 þúsund manns eru Múhameðstrúar en það eru 4,3% landsmanna. Gyðingar eru 8-10 þúsund. Langflestir þeirra búa í Vín. Tíu þúsund manns tilheyra búddisma. Þeir sem ekki tilheyra neinum trúflokki eru 12% af íbúum landsins. Þjóðfáni og skjaldarmerki. Þjóðfáni Austurríkis samanstendur af þremur láréttum röndum: Rauðri, hvítri og rauðri. Hann kom fyrst fram 1230 svo vitað sé og var þá tákn Babenberger-ættarinnar, en það var markgreifa- og hertogaættin í Austurríki fram á síðla 13. aldar. Ekkert er vitað um tilurð fánans, en þjóðsagan segir að hann hafi orðið til í þriðju krossferðinni. Með í för var Leópold V hertogi af Babenberg. Í umsátrinu um Akkó (1189-1191) höfðu bardagar orðið svo miklir að hvítur kirtill Leópolds litaðist rauður. Eingöngu hafi sést í hvíta beltisbindið sem sverðið hans hékk í. Eftir daga Babenberg-ættarinnar tók Habsborgarættin fánann upp og gerði hann síðar að ríkisfána. Fánanum var breytt á ýmsum tímabilum, svo sem við innlimun Austurríkis í þýska ríki nasista. Skjaldarmerki Austurríkis sýnir svartan örn sem horfir til vinstri. Á sitthvorum fæti eru hlekkir. Klærnar halda á hamri og sigð. Á brjóstinu er þjóðfáninn í skjaldarformi og á höfðinu er kóróna í formi borgarmúrs. Örninn var merki þýska ríkisins, en Austurríki var hluti af því fram í byrjun 19. aldar. Sigðin merkir bændurna. Hamarinn merkir vinnuaflið. Kórónan merkir borgarana. Örninn var í aldaraðir merki þýska ríkisins og Austurríkis en núverandi örn var tekið upp 1919, við upplausn austurríska-ungverska sambandsins. 1945 var hlekkjunum bætt við en þeir merkja sigur yfir einræðisstjórn nasista á tímum heimstyrjaldarinnar síðari. Stjórnkerfi. Austurríki er lýðveldi sem samanstendur af níu sambandsríkjum. Austurríska þingið samanstendur af tveimur deildum: Þjóðarráðinu (Nationalrat) og sambandsráðið (Bundesrat). Hið fyrrnefnda mynda 183 þingmenn sem kosnir eru í almennum kosningum. Kjörtímabilið er fimm ár. Sambandsráðið samanstendur af fulltrúum sambandsríkjanna, sem einnig eru þingmenn í hverju sambandsríki fyrir sig. Æðsti yfirmaður þingsins er kanslarinn, sem valinn er af forseta landsins. Kjörtímabil forsetans er sex ár. Allir ráðherrar eru tilnefndir af forsetanum en það er kanslarinn sem endanlega velur þá. Hvert sambandsland er með eigið þing (Landtag). Í hverju þingi eru sextán þingmenn sem kosnir eru í almennum kosningum og velja þeir ráðherrana í hverju sambandslandi fyrir sig. Her. Í Austurríki er herskylda fyrir alla karlmenn og stendur hún yfir í sex mánuði. Í hernum eru að staðaldri 35 þúsund manns en 25 þúsund til viðbótar eru tiltækir. Konur eru ekki herskyldar en eru engu að síður velkomar. Markmið hersins er að tryggja varnir ríkisins en einnig að aðstoða við hjálparstarf ef náttúruhamfarir valda skaða eða neyðaraðstæður koma upp. Eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk hefur Austurríki ekki tekið þátt í neinum hernaðarátökum. Þó hefur landið sent hermenn til starfa erlendis síðan 1960. Í öllum slíkum tilvikum er um litlar herdeildir að ræða. Stærsta verkefni austurríska hersins var KFOR-verkefnið í Kosóvó 1999 en 436 manns voru sendir þangað. Gjaldmiðill. Gjaldmiðillinn í Austurríki er evran. Á árunum 1925-1938 og aftur 1945-1998 var notast við Schilling (skildingur). Einn Schilling voru 100 Groschen. Á árunum 1938-1945 var landið hluti af Þýskalandi og var þá notast við þýsku ríkismörkina. Skildingurinn átti uppruna sinn í ríki Karlamagnúsar en ýmis lönd hafa notað hann í gegnum aldirnar, svo sem England (Shilling), Þýskaland og Danmörk (Skilling). Árið 1999 tók Austurríki upp evruna, en skildingurinn var í notkun til 28. febrúar 2002. Landnám. Langstærstur hluti Austurríkis var hernuminn af Rómverjum. Aðeins nyrsti hlutinn, fyrir norðan Dóná, tilheyrði germönum. Við endalok Rómaveldis þustu vestgotar, austgotar og alemannar yfir landið en enginn þessara þjóðflokka settist þar að. Á sjöttu öld fluttu bajúvarar til landsins frá norðri en alemannar settust að vestast í Vorarlberg. Eftir það fluttu einnig slavar í einhverjum mæli til landsins frá austri. Árið 600 stofnuðu slavar fyrsta sjálfstæða slavaríkið í Evrópu (Karantanía) en það náði inn í suðurhluta núverandi Austurríkis (Kärnten og Steiermark). Þetta ríki liðaðist undir lok á 8. öld og varð loks hluti hins mikla frankaríkis. Á tímum Karlamagnúsar hófst landnám germana þar, en Ungverjar eyðilögðu það jafnharðan. Eftir að Ottó I keisari sigraði Ungverja endanlega árið 955, hófst nýtt landnám bajúvara frá Bæjaralandi í vestri. Árið 976 hlaut Leopold frá Bæjaralandi, af ætt Babenberg, allt svæðið að léni undir Ottó III keisara. Það var þá kallað Ostarichi, sem seinna breyttist í Österreich. Austurríki varð því undir stjórn Bæjaralands en var greifadæmi í þýska ríkinu. Uppgangur Habsborgara. Á tímum Babenberg ættarinnar var landið rutt og þar myndaðist heilstætt samfélag. Babenberg-ættin átti líka Bæjaraland og voru bæði greifadæmin undir sömu stjórn. En 1156 aðskildi Friðrik Barbarossa keisari bæði löndin og breytti Austurríki í hertogadæmi. Með þessum gjörningi hófst saga Austurríkis sem eigið landsvæði innan þýska ríkisins, enda var það þá sjálfstætt samfélag undir stjórn hertoga. Fyrsti hertoginn hét Hinrik, með viðurnefnið Jasormimgott. Hann gerði borgina Vín að aðsetri sínu, en síðan þá hefur Vín verið höfuðstaður Austurríkis. Á tíma Hinriks hertoga varð Steiermark hluti af Austurríki en einnig landsvæði sem í dag eru hluti af Slóveníu. Þegar Friðrik II hertogi féll í orrustu 1246, dó Babenberg-ættin út. Þá hófst valdabarátta um héraðið, sem var nokkurn veginn stjórnlaust næsta áratuginn. Ottókar II, konungur Bæheims, náði völdum 1256 en hann féll í orrustu 1278 gegn Rúdolf af Habsborg. Þar með náði Habsborgarættin völdum í Austurríki sem ríkjandi hertogar og héldu þeim í 640 ár, allt til 1918. Erkihertogadæmið. 1335 féll Kärnten í hendur Habsborgara og 1363 Tírol. Þar með var Austurríki orðið að stóru hertogadæmi og náði vel yfir núverandi landmæri. Þetta þótti þá vera allstórt svæði og 1379 var hertogadæminu skipt upp í þrjá hluta. Þetta leiddi til mikilla erja á allri 15. öldinni, enda voru erfingjarnir margir og löndin góð. Austurríki sameinaðist ekki aftur fyrr en 1493 er Friðrik V hertogi erfði alla hlutana. Friðrik var kjörinn keisari þýska ríkisins á miðri 15. öld. Nokkrir hertogar Habsborgara höfðu áður verið kjörnir konungar (og keisarar) þýska ríkisins en með Friðrik, sem kallaðist Friðrik III, myndaðist nær óbrotin lína Habsborgara sem konungar og keisarar þýska ríkisins, allt til enda þess 1806. Friðrik hóf Austurríki upp sem erkihertogadæmi innan ríkisins strax árið eftir kjör sitt sem konungur. Þannig stóð erkihertogadæmið Austurríki jafnfætis við kjörfurstadæmin, með þeirri undantekningu að erkihertoginn hafði ekki kjörgengi í konungskjöri. Sem erkihertogadæmi varð Austurríki hins vegar sjálfstætt ríki í ríkinu. Stórveldi. 1556 afþakkaði Karl V og settist í helgan stein. Þar með skiptist Habsborg í tvær nýjar ættir: Spænska ættin og austurríska ættin. Allir keisarar þýska ríkisins eftir þetta voru af austurrísku ættinni. Siðaskipti og Tyrkjaógnin. Tyrkir sitja um Vín 1529 Þegar siðaskiptin hófust snemma á 16. öldinni fór nýja trúin eins og eldur í sinu um gjörvallt Austurríki. Aðallinn og keisarinn viðhéldu kaþólskunni en ekki kom til átaka eða uppþota í ríkinu. Ef til vill átti óttinn við Tyrki einhvern þátt í því að þjappa íbúum Austurríkis saman. 1529 voru Tyrkir komnir að borgarmörkum Vínar. Þann 27. september hófu þeir umsátur um borgina undir forystu soldánsins Súlíman I. Íbúar Vínar voru skelfingu lostnir. Margir íbúar Vínar flúðu en á hinn bóginn tókst nokkur þúsund hermönnum frá þýska ríkinu og Spáni að komast til borgarinnar áður en umsáturshringurinn lokaðist. Tyrkir voru hins vegar með nær 250 þúsund manna lið. Eftir nokkra bardaga ákvað Súlíman að hætta umsátrinu sökum versnandi veðurs en vetur var í nánd og birgðaflutningar erfiðir. Þann 14. október hurfu Tyrkir úr landi. Þeir birtust aftur 1532 en þá hafði Karli V tekist að safna miklu liði. Súlíman réðist því ekki á Vín, heldur rændi og ruplaði í Steiermark og hvarf á braut á ný. Árið 1600 hóf kaþólska kirkjan gagnsiðbótina í Austurríki, heldur seinna en víða annars staðar í þýska ríkinu. Siðbótin var hins vegar mjög grimmileg og árangurinn eftir því. Á skömmum tíma tókst að snúa meirihluta íbúa Austurríkis til kaþólsku á ný. Þar af leiðandi tók landið þátt í 30 ára stríðinu og barðist með bæjurum gegn siðaskiptamönnum og gegn Svíum. Síðara umsátur Tyrkja. 1683 birtust Tyrkir aftur við borgardyr Vínar. Að þessu sinni undir forystu stórvesírsins Kara Mústafa. 14. júlí var umsáturshringur lagður um borgina. Meðan Vín var þannig einangruð frá umheiminum, rústuðu Tyrkir svæðinu í kring, sem og Neðra Austurríki. Mörgum borgum var eytt og íbúar þeirra stráfelldir. Þrátt fyrir ákafar árásir á Vín náðu Tyrkir ekki að komast inn fyrir borgarmúrana. Í ágúst hafði Leopold I keisari safnað nægu liði til að þramma til Vínar. Með í för voru hermenn frá Bæjaralandi, Frankalandi, Saxlandi, Sváfalandi og Feneyjum. Einnig mætti pólskur her til Vínar. Sobieski konungur var aðal-herstjórnandi kristna hersins. Þann 12. september varð stórorrusta við Tyrki í Kahlenberg við Vín. Meðan sú orrusta stóð yfir gerði herinn í Vínarborg útrás og réðust á Tyrki. Eftir tólf tíma bardaga létu Tyrkir undan síga og flúðu af vettvangi. Vín var þannig björguð en reyndar er talið að ósigur Tyrkja hafi bjargað Austurríki öllu. Í kjölfarið var farið í Tyrkjastríð á Balkanskaga. Það fyrra fór fram 1683-1699 en í því var Eugen prins af Savoy mjög sigursæll. Austurríki hlaut þá landsvæði á Balkanskaga sem í dag eru hlutar Slóveníu og Króatíu. Spænska og austurríska erfðastríðin. María Teresía. Málverk eftir Martin van Meytens. Árið 1701 hófst spænska erfðastríðið. Ýmsir gerðu tilkall til spænsku krúnunnar við andlát Karls II konungs, en hann var síðasti aðili spænsku Habsborgaranna. Jósef I keisari gerði tilkall til krúnunnar fyrir hönd Austurríkis, en eftir mikla bardaga hlaut Filippus V frá Frakklandi hnossið. Stríðinu lauk með friðarsáttmálunum í Utrecht 1713. Eftir fleiri Tyrkjastríð 1714-18 hlaut Austurríki landsvæðin í norðurhluta Bosníu og Serbíu og nokkur fleiri. Habsborgarveldið náði því mestri útbreiðslu sinni eftir að Spánn var skilinn frá. 1711 hafði Karl VI tekið við sem keisari þýska ríkisins. Honum var strax ljóst að hann yrði síðasti Habsborgarinn í karllegg og hafði áhyggjur af framtíð Austurríkis og þýska ríkisins. Því bjó hann til nýja stjórnarskrá fyrir keisaraveldið, en í því kvað svo á að keisaraembættið mætti ganga í erfðir með dætrum í Austurríki. Karl lést 1740. Sökum þess að enginn önnur lönd þýska ríkisins, né heldur kjörfurstarnir, viðurkenndu stjórnarskrá Karls VI um erfðir kvenna, braust út stríð um krúnu Austurríkis og þýska ríkisins. Friðrik mikli Prússakonungur réðist inn í Sílesíu og hertók landsvæðið. Hann gerði bandalag við kjörfurstann af Bæjaralandi, sem í kjölfarið var kjörinn keisari sem Karl VII. Prússar, Bæjarar og Frakkar börðust gegn Austurríki en Englendingar og Hollendingar veitti Austurríkismönnum mikinn stuðning. Karl VII lést 1745 og þá var leiðin greið fyrir elstu dóttur Karls VI, Maríu Teresíu. Hún var krýnd sem erkihertogaynja af Habsborg og drottning Ungverjalands, en eiginmaður hennar, Frans I, var krýndur sem keisari ríkisins. Enn var þó barist í stríðinu til 1748. Sjö ára stríðið 1756-63 breytti engu um Sílesíu eða önnur landamæri Austurríkis. Evrópumál. Jósef II tók við af móður sinni sem erkihertogi af Austurríki 1780. Hann var mjög framfarasinnaður og vildi allt fyrir fólkið gera. 1785 stakk hann upp á því að fá að skipta á austurrísku Niðurlöndum (þ.e. Belgíu) fyrir Bæjaraland, þannig að Bæjaraland og Austurríki myndu sameinast í eitt ríki. Þýska ríkið hlytu Niðurlönd. Tillögunni var hins vegar hafnað af kjörfurstunum. Á hinn bóginn tók Jósef þátt í skiptingu Póllands 1772, 1793 og 1795 (ásamt Prússlandi og Rússlandi). Það með fékk Austurríki stóran hluta landsins, allt norður til Varsjár en Pólland þurrkaðist út af landakortinu. Franska byltingin skók Evrópu 1789. Strax 1794 hertók franskur byltingarher Niðurlönd Habsborgara (þ.e. Belgíu). Napoleonsstríðin. Austurríki tók þátt í bandalaginu gegn Napoleon þegar árið 1799 til að stemma stigu við yfirgang Frakklands. Þrátt fyrir það stóðu Austurríkismenn einir gegn Napoleon í orrustunni við Marengo og við Hohenlinden árið 1800 og biður ósigur í bæði skiptin. Við það unnu Frakkar lönd við Rínarfljót. Eftir sigur Frakka í þríkeisaraorrustunni miklu við Leipzig 1805 komust þeir til Vínarborgar og tóku borgina. Við það tækifæri missti Austurríki lönd sín á Ítalíu (til dæmis Venetíu). Frakkar yfirgáfu borgina hins vegar skjótt aftur. Þegar þýska ríkið var lagt niður 1806 eftir þrýsting frá Napoleon, var Frans II ríkjandi keisari. Strax á sama ári lýsti hann yfir stofnun Austurríkis sem keisararíkis. Segja má að þetta hafi verið stofnstund Austurríkis sem óháð og frjálst ríki, þrátt fyrir að nær allir keisarar þýska ríkisins hafi verið af ætt Habsborgara og oftast setið í Vín síðan á 15. öld. Nýja keisararíkið stóð til 1918. Aftur var myndað bandalag gegn Napoleon. Austurríki tók hins vegar ekki þátt í neinum orrustum fyrr en 1809. Á því ári töpuðu þeir fyrir Napoleon í orrustunni við Abensberg, Eggmühl og Regensburg. Austurríski herinn flúði til Bæheims og Napoleon þrammaði til Vínar. Frakkar skutu á borgina og hertóku hana í einni svipan í maí. Við svo búið sneri austurríski herinn aftur frá Bæheimi. Í orrustunni við Aspern (nálægt Vín) sigruðu Austurríkismenn og hröktu Frakkar burt úr landi á næstu mánuðum. Þetta var fyrsta stóra tap Napoleons á ferli sínum. Fyrir vikið hélt Austurríki sjálfstæði sínu. 1813 dró til þjóðarorrustunnar miklu við Leipzig. Þar mættust Frakkar og bandamenn (Austurríki, Prússland, Rússland og Svíþjóð). Orrustan stóð yfir í þrjá heila daga og lauk með ósigri Napoleons. Þetta var síðasta orrusta Austurríkismanna gegn honum. Þeir komu ekki við sögu við lokafall Napoleons í orrustunni við Waterloo. Vínarfundurinn. Eftir fall Napoleons var nauðsynlegt að koma skipan á nýjum ríkjum og landamærum í Evrópu. Haldin var viðamikil ráðstefna í Vín að boði Frans I keisara, en fundarstjóri var utanríkisráðherra landsins, Metternich fursti. Ráðstefnan hófst 18. september 1814 og kallast Vínarfundurinn (þ. "Wiener Kongress"). Allir helstu leiðtogar í Evrópu sóttu ráðstefnuna, sér í lagi frá Rússlandi, Bretlandi, Austurríki, Prússlandi, Frakklandi, kirkjuríkisins og margra annarra smærri ríkja. Vín var næsta árið pólitísk þungamiðja Evrópu. Viðræður og samningar þokuðust hægt. Á vormánuðum 1815 strauk Napoleon úr útlegð frá Elbu og safnaði nýju liði. Komst þá skriður á samninga og lauk ráðstefnunni 9. júní. Aðeins níu dögum síðar, 18. júní, var Napoleon sigraður aftur í stórorrustunni við Waterloo. Fyrir Austurríki hafði ráðstefnan mikil áhrif. Landið missti Niðurlönd og eignir við ofanvert Rínarfljót. Á hinn bóginn fékk Austurríki að halda Galisíu (suðurhluti Póllands). Landið fékk auk þess Illyríu og Salzburg. Austurríki varð eftir sem áður stórveldi í Evrópu. Eitt það síðasta sem Vínarfundurinn gerði var að stofna þýska sambandið úr leifum þýskra furstadæma, hertogadæma og konungsríkja. Austurríki varð leiðandi afl í nýja ríkinu en var þess fyrir utan eigið keisaraveldi. Austurríki var til að mynda utan við tollbandalag nýja ríkisins. Þýska sambandið var leyst í sundur af Bismarck 1866. Byltingar. Samhliða aukinni iðnvæðingu og fjölgun í röðum nýrrar verkamannastétt jukust stjórnmálaleg átök í Austurríki. Þetta var einnig tími þjóðernishyggju. Um miðja 19. öldina voru mótmælin í hámarki en sökum þess að Austurríki var fjölþjóðaríki, náðu mótmælendur ekki að skipuleggja sig eins og víða annars staðar. Á byltingarárinu 1848 kom til víðtækra mótmæla, en þær voru allar barðar niður. Á hinn bóginn sá keisari að friða þurfti lýðinn. Því var Metternich fursti rekinn úr embætti, enda var hann mjög íhaldssamur á gamla kerfið og mikill harðlínumaður. Þann 22. júlí fundaði fyrsta austurríska þingið í nútíma-formi í Vín. Ekkert þinghús var til staðar og því var fundað í reiðskóla til að byrja með. Meðan íbúar móðurlandsins voru friðaðir í bili, braust út bylting í öðrum hlutum ríkisins. Í Norður-Ítalíu var bylting barin niður af hernum. Í Ungverjalandi var vilji til að losna frá Austurríki og myndaður var mikill her. Austurríski herinn neitaði hins vegar að fara austur og því lýstu Ungverjar sig úr sambandi við keisarann. Yfirmenn hersins voru studdir af íbúum Vínar og gerð var aðför að keisara og stjórninni, sem yfirgáfu borgina og flúðu til borgarinnar Olomouc í Mæri (Tékklandi). Þar afþakkaði Ferdinand I keisari en frændi hans, Jósef Karl, tók við sem nýr keisari. Keisarasinnar söfnuðu liði og hófu gagnbyltingu. 1. nóvember hertóku þeir Vín í miklum bardögum þar sem 2000 manns týndu lífi. 24 leiðtogar byltingarmanna voru teknir af lífi. Þar með var endir bundinn á byltingunni. Aðeins með aðstoð Rússa tókst að vinna Ungverjaland á ný. Eftir þetta tók Jósef Karl keisari sér nánast einræðisvald. Ítalía og þýska stríðið. Árið 1859 hófu Ítalir, undir forystu Garibaldis, að sameina sjálfstæð lönd og greifadæmi á Ítalíuskaga. Þeir sigruðu Austurríki í orrustunni við Solferino og Magenta. Við tapið missti Austurríki nokkur lönd, svo sem Langbarðaland. Ítalía varð svo sjáfstætt konungsríki 1861. Einnig varð mikill órói í þýska sambandinu. Austurríki var ávallt leiðandi afl í því, þar til Bismarck komst til valda í Prússlandi. Þegar Bismarck hertók Slésvík og Holtsetaland, deildi hann yfirráðum þessara héraða með Austurríki. Prússland réði yfir Slésvík en Austurríki yfir Holtsetaland. Þegar Bismarck hertók Holtsetaland 1866 sagði Austurríki Prússlandi stríð á hendur. 3. júlí var barist við Königgrätz í Bæheimi. Við hlið Austurríkis börðust saxar, bæjarar og nokkur önnur þýsk héruð, sem einnig vildu stöðva framgang Prússlands. Prússar sigruðu hins vegar í orrustunni og urðu leiðandi afl í Þýskalandi. Þýska sambandið var lagt niður. Aðeins fimm árum síðar varð Prússland keisaraveldi og hafði þá sameinað mestan hluta Þýskalands. Austurríki var ekki með í því keisaraveldi. Þar með hafði Austurríki misst bæði lönd, völd og virðingu, þrátt fyrir að vera enn eigið keisararíki. Frans I var niðurlægður. Ári síðar stofnaði hann austurríska-ungverska sambandið og var krýndur konungur Ungverjalands 8. júní 1867. Við það varð Ungverjaland ekki lengur hluti af keisararíkinu. Hins vegar tilheyrðu Bæheimur, Mæri, Galisía, vesturhluti Rúmeníu, Slóvenía og Króatía til keisaradæmisins. Serbíukrísan. Morðið á krónprinsinum Frans Ferdinand og eiginkonu hans 1878 hertók Austurríki alla Bosníu og Hersegóvínu, en þau lönd höfðu tilheyrt Tyrkjum. 1908 voru þau innlimuð Austurríki. Meðan Frans Jósef keisari reyndi að meðhöndla þegna sína hvarvetna í ríkinu á grundvelli jafnréttis, leyndi ríkisarfinn, Frans Ferdinand, ekki skoðunum sínum um að slavar og Ungverjar væru annars flokks þegnar. 1914 heimsótti hann og eiginkona hans borgina Sarajevó í Bosníu. Mörgum þjóðernissinnum þar í borg, sem vildu sameina suðurslava í eitt ríki, fannst heimsókn þessi ögrun. Meðan Frans Ferdinand og kona hans voru að keyra í gegnum Sarajevó 28. júní voru þau skotin til bana af Gavrilo Princip, serbneskum þjóðernissinna. Austurríkismenn voru æfir. Stjórnin kenndi ríkisstjórn Serbíu um verknaðinn. 23. júlí setti Austurríki stjórn Serbíu úrslitakosti sem þeir síðarnefndu gátu ekki uppfyllt að öllu leyti. Eftir að keisari Prússlands hafði staðfest stuðning við Austurríki, lýsti Austurríki stríð á hendur Serbum 28. júlí. Þar með hófst heimstyrjöldin fyrri. Heimstyrjöld. Karl I var síðasti keisari Austurríkis Austurríki reið ekki feitum hesti í hernaði í styrjöldinni. Þeir börðust aðallega í Galisíu (núverandi Póllandi), við landamærin að Ítalíu og á Balkanskaga. Rússar náðu að hrekja Austurríkismenn og Þjóðverja burt úr Galisíu. Á Balkanskaga voru serbar mjög aðgangsharðir og hröktu Austurríkismenn burt. Það var einungis á landamærum að Ítalíu þar sem Austurríkismönnum tókst að halda stöðu sinni. Árið 1916 lést Frans Jósef keisari og við tók Karl I. Hann kallaði saman ríkisráðið, sem tjáði honum hugmyndir þess um framtíð Austurríkis. Ungverjaland og Balkanskagi var ekki hluti af þeim hugmyndum og því var ljóst fyrir stríðslok að Austurríki myndi brátt líða undir lok sem fjölþjóðaríki. Karl hvatti því hinar ýmsu þjóðir ríkisins til að mynda eigin stjórn, sem myndi lúta stjórninni í Vín. Þjóðirnar settu upp sínar eigin stjórnir, en hugðust hins vegar lýsa yfir sjálfstæði. Í stríðslok lágu Þýskaland og Austurríki efnahagslega í rústum. Því tók þjóðarráð Austurríkis til bragðs að mynda nýja stjórn í október 1918 án aðkomu Karls keisara. 11. nóvember leysti Karl því keisara- og konungsríkið Austurríki-Ungverjaland upp og 12. nóvember var lýðveldið Austurríki formlega stofnað. Karl sagði hins vegar ekki af sér sem keisari. Því var honum gefin þau tilmæli að segja af sér eða yfirgefa landið ella. Í mars 1919 yfirgaf Karl landið og í apríl voru gömlu Habsborgarlögin tekin úr gildi. Í uppgjöri stríðsins missti Austurríki öll slavnesku landsvæðin sín. Galisía varð að hluta Póllands. Bæheimur og Mæri varð að vesturhluta Tékkóslóvakíu. Slóvenía, Illyría og Bosnía og Hersegóvína urðu að vesturhluta Júgóslavíu. Suðurhluti Tírol var hertekið af Ítalíu. Ungverjaland varð sjálfstætt ríki. Þar með varð Austurríki minna en núverandi stærð (Burgenland var enn hluti Ungverjalands) og hafði aldrei verið minni í sögu Habsborgarveldisins. Fyrsta lýðveldið. Við stofnun lýðveldisins voru fáir sem trúðu á bjarta framtíð landsins. Margir lærðir menn töldu að móðurlandið væri of lítið til að brauðfæra íbúana. Auk þess var landið efnahagslega í rúst. Upp kom sú hugmynd að Austurríki sameinaðist Weimar-lýðveldinu en bandamenn lögðu blátt bann við öllu slíku. Salzburg sótti formlega um inngöngu í Þýskaland, óháð stjórninni í Vín, en Weimar-lýðveldið hafnaði því. Vorarlberg sótti um inngöngu í Sviss en við atkvæðagreiðslu vildu 80% íbúanna verða að kantónu í Sviss. Bæði Svissarar og bandamenn höfnuðu því hins vegar. Í syðstu sýslum í Kärnten var einnig aðkvæðagreiðsla íbúanna um sameiningu við Slóveníu (og þarmeð Júgóslavíu), en niðurstaðan var sú að vera áfram í Austurríki. 1921 var ákveðið að stofna nýtt ríki í vestasta hluta Ungverjalands. Við atkvæðagreiðslu vildi mikill meirihluti íbúanna hins vegar sameiningu við Austurríki og því varð svo. Svæðið hlaut heitið Burgenland og er fámennasta sambandsland Austurríkis. Til að rétta af fjárhag landsins var gamla krónan leyst upp 1924 og tekin upp skildingur (Schilling). Hin litla efnahagsuppsveifla varð þó að engu 1929 þegar heimskreppan skall á. Austurríki lifði á lánum. Til að mynda lánaði Þjóðabandalagið landinu 300 milljónir skildinga gegn því að landið sameinaðist ekki Weimar-lýðveldinu næstu 20 árin. 1933 var þriðjungur Austurríkismanna atvinnulaus. 1932 komst kristilegi sósíalistinn Engelbert Dollfuss til valda sem kanslari lýðveldisins. Hann varð fyrir áhrifum af fasískum fyrirmyndum á Ítalíu og varð nánast einvaldur 4. mars er hann leysti upp þingið. 7. mars var ritskoðun og bann við hópamyndun sett á í landinu. 10. maí voru allar kosningar afnumdar og í framhaldið allir stjórnmálaflokkar bannaðir. Í febrúar gerðu íbúar landsins allsherjar uppreisn, þar sem sýnt þótti að Dollfuss kanslari myndi ekki slaka á völdum. Uppreisnin var hins vegar barin niður af mikilli hörku. 1934 var gerð önnur tilraun til byltingar. Í henni varð Dollfuss fyrir skoti og lést af sárum sínum 25. júlí. Innlimunin. Hitler (í fremsta bílnum) lætur hylla sig í Vín 15. mars 1938 Eftirmaður hans, Kurt Schuschnigg, átti við ramman reip að draga. Mikil óánægja var í Austurríki og þurfti Schuschnigg á aðstoð frá Mussolini og síðar frá Þýskalandi Hitlers að halda. Hitler, sem var sjálfur fæddur í Austurríki, vann að því bak við tjöldin að sameina ríkin, þrátt fyrir bann Þjóðabandalagsins. Schuschnigg kanslari reyndi forða slíkar tilraunir og tilkynnti óvænt að leyfa þjóðarakvæðagreiðslu um frjálst og óháð Austurríki. Atkvæðagreiðslan átti að fara fram 13. mars 1938. 11. mars þrýsti Hitler með hótunum á Miklas forseta að leysa Schuschnigg af embætti og kalla nasistann Arthur Seyss-Inquart sem nýjan kanslara. Strax daginn eftir þrammaði þýski herinn inn fyrir landamæri Austurríkis og hertók allar höfuðborgir sambandslandanna. Þann dag tilkynnti Hitler að Þýskaland og Austurríki hefðu sameinast. Stjórnin var leyst upp. Hitler var nýi valdhafinn í Austurríki, sem sótti Vín heim 15. mars til að láta hylla sig. Samtímis þessu var þegar byrjað að ofsækja gyðinga hvarvetna í landinu og flytja burt. Heimstyrjöldin síðari hófst í nóvember 1939. Hundruð þúsundir Austurríkismanna voru settir í þýska herinn og urðu þeir að berjast með nasistum. Fyrstu loftárásir á landið voru gerðar í ágúst 1943, sökum fjarlægðar frá flugvöllum bandamanna. Sovétmenn komust til Vínar og eftir harða bardaga við nasista féll borgin 23. apríl 1945. Þar með lauk landið þátttöku sinni í stríðinu. Aðrir bandamenn hernámu Austurríki ekki fyrr en í maíbyrjun. Hernám og annað lýðveldið. Eftir stríð skiptu bandamenn Austurríki upp í fjögur hernámssvæði, eins og gert var með Þýskaland. Austurríki skipt upp í fjögur hernámssvæði Vín var skipt niður í fjögur svæði, rétt eins og Berlín. Miðborgin var undir stjórn allra fjögurra bandamanna. Aldrei kom til greina að sameina Þýskaland og Austurríki, enda bæði bandamenn og Austurríkismenn ákveðið á móti öllu slíku. Hernámið stóð yfir í tíu ár. 15. maí 1955 hlaut Austurríki sjálfstæði sitt á ný og yfirgáfu þá allir erlendir hermenn landið. Austurríki varð að lýðveldi á ný. Á sama ári lýsti landið yfir hlutleysi. Í framhaldi af því varð mikill efnahagsuppgangur í landinu. Það gekk í Sameinuðu þjóðirnar í desember 1955 og í Evrópuráðið 1956. Margir flóttamenn flúðu til Austurríkis frá Ungverjalandi eftir misheppnaða byltingu þar 1956 og frá Tékklandi eftir vorið í Prag 1968. Þegar járntjaldið féll 1990 opnuðust landamæri landsins til Tékklands, Ungverjalands og Slóveníu. Austurríki var því ekki lengur á jaðarsvæði í Evrópu. Meðan stríðið í Júgóslavíu stóð yfir tók Austurríki við fjölda flóttamanna. Austurríki gekk í Evrópusambandið 1995, en áður hafði það verið stofnmeðlimur að EFTA 1960. Þann 1. janúar 2002 tók evran gildi þar í landi. Fjöll. Grossglockner er hæsti tindur Austurríkis Ár og fljót. Fjólublátt = Vatnasvið Dónár. Appelsínugult = Vatnasvið Rínar. Grænt = Vatnasvið Saxelfar. Vötn. Stærsta uppistöðulón Austurríkis heitir Stauraum Altenwörth og er aðeins 11 km2 að stærð. Það er staðsett í Dóná rétt vestan við Vín. Tónlist. Mozart var eitt þekktasta tónskáld Austurríkis Margir af þekktustu tónskáldum og tónlistarmönnum klassíska tímans komu frá Austurríki. Þeirra helstu eru Wolfgang Amadeus Mozart, Joseph Haydn, Franz Schubert, Anton Bruckner og Franz Liszt, sem var Ungverji sem fæddist í Burgenland. Auk þeirra fluttu ýmsir aðrir til Vínar til að starfa þar, svo sem Ludwig van Beethoven (fæddist í Bonn). Sérstakur undirflokkur klassískrar tónlistar nefnast Vínarvalsar og eru þeir heimsþekktir. Helstu valsatónskáldin eru Johann Strauss (bæði faðir og sonur) og Josef Lanner. Fjölmörg óperutónskáld eru frá Austurríki. Þeirra helstu eru Karl Millöcker, Nico Dostal, Franz Suppé, Franz Lehár og Ralph Benatzky. Fáar þekktar hljómsveitir nútímatónlistar eru frá Austurríki. Einn helsti dægurlagasöngvari landsins er Udo Jürgens, sem sigraði í Eurovision 1966. Aðrir listamenn. Þekktir austurrískir rithöfundar eru Franz Grillparzer (oft nefndur þjóðskáld Austurríkis), Franz Kafka, Bertha von Suttner (fyrsta konan til að hljóta friðarnóbelinn), Rainer Maria Rilke, Egon Erwin Kisch, Johannes Mario Simmel og Elfriede Jelinek (Nóbelsverðlaun). Þekktir leikarar og leikkonur frá Austurríki eru meðal annars Romy Schneider, Curd Jürgens, Maximilian Schell, Klaus Maria Brandauer og Arnold Schwarzenegger. Vísindi. Þrír Austurríkismenn hafa hlotið Nóbelsverðlaunin í efnafræði, fjórir í eðlisfræði og sex í læknisfræði. Þeirra þekktastir eru kjarneðlisfræðingurinn Wolfgang Pauli og atferlisfræðingurinn Konrad Lorenz. Einn þekktasti sálfræðingur heims var Austurríkismaðurinn Sigmund Freud. Íþróttir. Niki Lauda er þrefaldur heimsmeistari í Formúlu 1 Þjóðaríþrótt Austurríkismanna eru skíðaíþróttir (Alpagreinar). Skíðamenn eins og Toni Sailer, Franz Klammer og Hermann Maier eru margfaldir heimsbikar- og Ólympíumeistarar. Innsbruck er Ólympíuborg, en þar hafa vetrarleikarnir verið haldnir tvisvar (1964 og 1976). Í ruðningi þykir austurríska deildin meðal bestu í heimi. Í handbolta hefur kvennaliðið Hypo Niederösterreich átta sinnum unnið Evrópudeildina. Í Formúlu 1 hafa þrír Austurríkismenn getið sér gott orð: Niki Lauda (þrefaldur heimsmeistari), Jochen Rindt og Gerhard Berger. Helgidagar. Auk neðangreindra helgidaga eru til nokkrir í viðbót sem eingöngu gilda í einu eða tveimur sambandslöndum. Portúgal. Lýðveldið Portúgal er land í Suðvestur-Evrópu á vesturströnd Íberíuskagans. Portúgal á landamæri að Spáni og strönd þess liggur að Atlantshafi. Nokkrir eyjaklasar á Atlantshafi tilheyra einnig Portúgal, þeirra stærstir eru Azoreyjar og Madeira. Sumir telja nafn landsins koma úr latínu, "Portus Cale", sem þýðir falleg höfn en aðrir telja það koma frá aröbum, sem eitt sinn réðu landinu. Samkvæmt því er upphaflegt heiti landsins "Portugalia", sem einfaldlega þýðir appelsína. Á 15. og 16. öld var Portúgal efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt stórveldi þegar yfirráðasvæði þess teygði sig um allan heiminn. Veldi þessu hnignaði hins vegar nokkuð hratt eftir að önnur nýlenduveldi komu til sögunnar. Portúgal dagsins í dag á rætur sínar að rekja til byltingar árið 1974, þegar einræðisstjórn landsins var steypt af stóli. Frá því landið gekk í Evrópubandalagið (nú Evrópusambandið) árið 1986 hafa framfarir í landinu verið miklar, þrátt fyrir að það sé enn annað tveggja fátækustu landa í Vestur-Evrópu. Lúsitanía. Um þúsund árum fyrir Krist gerðu Keltar innrás í Portúgal frá Mið-Evrópu og blönduðust þeim sem fyrir voru í landinu, Íberum. Grískir landkönnuðir nefndu landið „Ofiussa“ (gríska fyrir „land naðranna“), sennilega þar sem innfæddir tilbáðu nöðrur. Árið 238 f.Kr. réðu Karþagómenn yfir Íberíuströndinni. Eftir það réðu nokkrir ættbálkar yfir svæðinu, þeirra helstir Lúsitaníumenn, sem bjuggu á milli ánna Douro og Tagus, og Kalaicianir, sem lifðu norður af ánni Douro ásamt öðrum ættbálkum. Fönikíumenn stofnuðu einnig nýlenduna Conii í suðurhluta landsins og síðar námu Keltar land í Alentejo-svæðinu í suðurhluta landsins. Árið 219 f.Kr. réðust fyrstu rómversku hersveitirnar inn á Íberíuskagann og hröktu Karþagómenn burtu í púnversku stríðunum. Innan 200 ára höfðu Rómverjar svo náð yfirráðum yfir mestum hluta skagans. Rómverjar treystu vald sitt yfir landinu næstu áratugina með stuðningi manna í Conii. Árið 194 f.Kr. hófst hins vegar uppreisn í norðurhluta landsins þar sem Lúsitaníumenn og aðrir ættbálkar héldu aftur af Rómverjum, náðu af þeim landi og réðust inn í höfuðborg Conii til að hefna fyrir stuðning þeirra við Róm. Viriathus, sem sagður er hafa fæðst í fjöllum Lorica (Loriga) í miðhluta landsins, hrakti svo Rómverja á brott úr landinu. Róm sendi margar herdeildir til að kljást við uppreisnaröflin og koma aftur á stjórn en tókst það ekki fyrr en þeir náðu að telja Lúsitaníumenn á að drepa sinn eigin leiðtoga. Lúsitaníu óx hins vegar ásmegin og margar af þeim borgum Portúgals sem stofnaðar voru á þessum tíma standa enn. Árið 73 e.Kr. hlaut Lúsitanía stöðu rómversks héraðs. Á fimmtu öldinni gerðu germanskir þjóðflokkar, barbarar, innrás á Íberíuskagann. Einn af þeim, Suevi þjóðflokkurinn, lagði hins vegar niður vopn og stofnaði konungsríki, með Bracara Augusta sem höfuðborg, á svæði sem svarar nokkurn veginn til Portúgals í dag. Síðar náðu Vísigotar yfirráðum yfir þessu konungsríki og sameinuðu skagann. Konungsdæmið. Kastalinn í Guimarães, gjarnan kallaður vagga sjálfstæðis landsins Árið 711 réðust márar inn á skagann og gerðu þar með út um konungsríki vísigota. Margir fyrirmenn í röðum vísigota flúðu til hálendis Asturias-héraðs (þar sem nú er Spánn) þaðan sem þeir ráðgerðu að endurheimta landið úr höndum mára. Árið 868 náði Vímara Peres greifi yfirráðum á landsvæðinu milli Minho og Douro ánna (þar á meðal yfir þeirri borg sem varð fyrsta höfuðborg landsins, "Portucale" - þar sem í dag er borgin Porto). Landið varð þar með þekkt sem Portucale (þ.e. Portúgal). Portúgalar líta svo á að þeir hafi öðlast sjálfstæði þann 24. júní 1128, í São Mamede bardaganum þar sem her Afonso I barðist við her móður sinnar og elskhuga hennar. Her Afonso vann bardagann og Afonso titlaði sig ‚Prinsinn af Portúgal‘. Þann 5. október 1143 var Portúgal svo formlega viðurkennt sem land. Afonso hóf fljótlega sókn suður á bóginn með það að markmiði að vinna landið úr höndum mára. Það var þó ekki fyrr en árið 1250 sem her Portúgala kom loks að ströndinni í Algarve, sem merkti að márar höfðu að lokum verið hraktir burt úr landinu. Mörg næstu ár átti landið í langvinnum stríðum við Kastillíu og eftir orrustuna við Aljubarrota, sem hefur orðið þekktastur af sjálfstæðisstríðum landsmanna, voru Portúgalar loks lausir við árásir frá austri. Sá sem stjórnaði her Portúgala í þeim bardaga, Jóhann af Aviz, var að honum loknum gerður að konungi landsins. Upphaf og fall heimsveldis. Í lok 14. aldar og í upphafi þeirrar 15. lögðu Portúgalar grunninn að landafundunum sem áttu eftir að gera landið að heimsveldi. Þann 25. júlí 1415 lagði Jóhann konungur I af stað frá landinu og réttum tveimur mánuðum síðar, þann 25. júlí, náðu herir hans að yfirtaka Ceuta í Norður-Afríku, sem þá var auðug viðskiptamiðstöð múslima. Áratug síðar fundu Portúgalar svo Asóreyjar og Madeira. Henrique landkönnuður (e. Henry the Navigator) safnaði um sig áhugasömum einstaklingum sem, ásamt nýrri siglingatækni, gerðu yfirráð Portúgala á höfunum möguleg. Árið 1431 sigldi Gil Eanes umhverfis Bojador-höfða, suður af Marokkó og markaði sú ferð upphaf landvinninga portúgala í Afríku. 56 árum síðar sigldi Bartholomeu Dias kringum Góðrarvonarhöfða í þeirri von að komast í kryddvörur indverja. Upphaflega gaf Dias höfðanum nafnið Stormhöfði (p. Cabo da Tormentas) En Jóhann II endurnefndi höfðann (p. Cabo da Boa Esperança) í samræmi við þá bjartsýni sem ríkti eftir að sjóleiðin austur hafði loksins verið opnuð. Á síðasta áratug aldarinnar könnuðu Pêro de Barcelos og João Fernandes Lavrador Norður-Ameríku, Pêro da Covilhã sigldi til Eþíópíu og Vasco da Gama sigldi til Indlands. Um aldamótin náði svo Álvares Cabral að ströndum Brasilíu, sem átti eftir að verða gimsteinninn í kórónu landsins. 1510 náði Afonso de Albuquerque svo yfirráðum yfir Goa, Damão og Diu á Indlandi, Adem í Persíuflóa og Melaka þar sem nú er Indónesía. Þar með var vöruflutningur frá Indlandi til Portúgals tryggður. Árið 1581 náði konungur Spánar völdum í Portúgal eftir að konungur landsins, sem ekki skildi eftir sig neinn erfingja að krúnunni, var drepinn í bardaga. Portúgal hélt sínum eigin lögum, nýlendum, stjórn og mynt í samræmi við sáttmála þjóðanna á milli. Eftir að Spánverjar reyndu að minnka völd aðalsins í landinu lýstu Portúgalar hertogann af Bragança réttmætan konung landsins og í kjölfarið áttu þjóðirnar tvær í stríði sem Portúgalar unnu á endanum. Þrátt fyrir að Portúgalar hefðu þegar misst mikið af heimsyfirráðum sínum þegar kom á miðja 18. öldina í hendur annarra þjóða (sérstaklega Englendinga og Hollendinga) var meginþunginn af falli landsins fólginn í jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Lissabon árið 1755 og drap um þriðjung borgarbúa. Tæplega fimmtíu árum síðar hertóku svo herir Napóleons landið. Það var meðan á þeirri hersetu stóð, árið 1809, sem helsta nýlendan, Brasilía, sagði sig frá móðurlandinu. Áfram tókst landsmönnum þó að halda í aðrar nýlendur sínar í Afríku og Asíu. Fyrsta lýðveldið. Árið 1910 risu Portúgalar upp gegn konungsveldinu og stofnuðu það sem síðar varð þekkt sem "Fyrsta lýðveldið". Pólitísk ringulreið, stormasamt samband við kaþólsku kirkjuna (sem enn réð miklu í landinu), ömurleg frammistaða portúgalskra hermanna sem sendir voru á vesturvígstöðvarnar í fyrri heimsstyrjöldinni, auk erfiðs efnahags sem enn versnaði þegar heimsstyrjöldin skall á leiddi til þess að fyrsta lýðveldið stóð aðeins í 16 ár. Árið 1926 hafði herinn fengið nóg af því sem hann sá réttilega sem óstjórn og ringulreið í stjórn landsins og reis upp gegn réttkjörnum stjórnvöldum. Í kjölfarið var herforingjastjórn komið á í landinu sem hafði á sér allt yfirbragð fasisma. Einræði. "Sjá einnig" António de Oliveira Salazar Árið 1928 var hagfræðiprófessor við háskólann í Coimbra að nafni António de Oliveira Salazar gerður að fjármálaráðherra landsins og var hans helsta verkefni að koma skikki á mjög svo bágan efnahaginn sem lamaði líf flestra landsmanna. Eftir að hafa tekist það með miklum ágætum var Salazar gerður að forsætisráðherra landsins árið 1932 og ári síðar stigu stjórnvöld nokkur skref sem gerðu landið að hreinu einræðisríki. Einræðið var þekkt sem Nýja ríkið (por. Estado Novo) þar sem – þrátt fyrir bakgrunn forsætisráðherrans – stjórnvöld fjárfestu ekki í menntun landsmanna og stéttaskipting var mikil. Fall einveldisins. Það sem hafði mest áhrif á það að einveldið féll voru styrjaldir portúgala í fyrrum nýlendum sínum í Afríku. Á 6. áratug 20.aldar risu frelsishreyfingar upp í Angóla, Gínea-Bissá og Mosambík með það að markmiði að steypa portúgölskum stjórnvöldum þessara landa og öðlast sjálfstæði. Herforingjastjórn Portúgals brást ókvæða við þessum hreyfingum og reyndi strax að bæla þær niður með hervaldi. Forsætisráðherra Portúgal, Salazar, lýsti því meðal annar yfir í ræðu og riti að löndin væru og yrðu um alla ævi „órjúfanlegur hluti af móðurlandinu“. Að vissu leyti var afstaða Portúgala skiljanleg. Efnahagur landsins valt að miklu leyti á afurðum frá afríkulöndunum og mörg hundruð þúsund Portúgalar bjuggu í löndunum. Það að missa nýlendurnar var því ávísun á það að þegar bágur heimahagur hins svokallaða móðurlands hryndi. Portúgölum tókst þó ekki að bæla uppreisnirnar niður og áður en langt um leið þurftu Portúgalar að senda mikinn fjölda viðbótarhermanna til landanna þriggja. Það eru vissulega margar ástæður fyrir því að Portúgölum mistókst að ganga milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum en ein þeirra stærstu er sú að uppreisnarmenn í öllum löndunum þremur nutu stuðnings bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, nokkuð sem ekki var algengt í kalda stríðinu. Markmið stórveldanna beggja var að sjálfsögðu að tryggja sín eigin ítök í löndunum sem voru rík af náttúruauðlindum. Þrátt fyrir að Salazar fengi heilablóðfall árið 1968 sem lamaði hann þannig að hann gat aldrei tekið þátt í stjórnmálum aftur héldu Portúgalar áfram að berjast í Afríku í heil 6 ár til viðbótar. Endalok baráttunnar komu aðeins eftir uppreisn í Portúgal þann 25. apríl 1974 þar sem herforingjastjórninni var steypt af stóli og vinstri menn komust til valda í landinu. Í Portúgal er sú uppreisn kölluð Nellikubyltingin vegna þess að landsmenn settu nellikur í byssuhlaup hermanna sem óhlýðnuðust þeim fyrirmælum herforingjastjórnarinnar á skjóta á landsmenn til að bæla uppreisnina niður. Í dag er 25. apríl frídagur í landinu. Fall nýlendanna hafði það hins vegar í för með sér að mörg hundruð þúsund Portúgalar fluttu aftur til Evrópu með tilheyrandi vandamálum. Landið þurfti í mörg ár á eftir á fjárhagsaðstoð að halda til að reyna að samþætta þessa „nýbúa“ sína og hindra það að efnahagur landsins hrundi, en hann var skiljanlega bágur eftir áratuga einræðisstjórn og þá pólitísku og efnahagslegu ringulreið sem ríkti í kjölfarið á falli hennar. Í átt til Evrópu. Portúgalar hafa frá falli einræðisstjórnarinnar verið ákafir talsmenn evrópusamvinnu og gengu í Evrópubandalagið árið 1986. Þrátt fyrir mýmargar tilraunir stjórnvalda á síðustu 30 árum til að koma í gegn efnahagsumbótum í landinu, þar sem sumar hafa tekist og aðrar ekki, er niðurstaðan almennt ekki nógu góð og Portúgal er enn þann dag í dag eitt af fátækustu ríkjum Vestur-Evrópu. Þrátt fyrir að hafa skilað nánast öllum nýlendum sínum á 8. áratug 20. aldar var það ekki fyrr en um aldamótin sem nánast 500 ára valdatíð Portúgala sem nýlenduherra lauk þegar þeir skiluðu síðustu nýlendunni sinni. Sú var Makaó, lítið landssvæði á suðurströnd Kína sem Kínverjar tóku yfir árið 1999. Landsvæði. Skipting landsins er nokkuð flókin. Því er skipt í 308 sveitarfélög (concelhos) og þeim er svo aftur skipt í yfir 4.000 hreppa (freguesias). Báðir þeir falla svo í yfirflokka sem sumir hafa að gera með stjórnun svæða en aðrir með hlutverk þeirra (s.s. ferðamannasvæði). Róttækasta skipting landsins var gerð árið 1976, þegar var annars vegar skipt upp í Portúgal meginlandsins og svo í eyjaklasana tvo (Azoreyjar og Madeira), sem með því fengu takmarkaða sjálfsstjórn. Samgöngur. Á 9. áratug síðustu aldar settu portúgölsk stjórnvöld samgöngumál á oddinn, enda leit hægri stjórn Cavaco Silva svo á að samgöngur væri ein helsta forsenda þess að landið stæði jafnfætis öðrum og ríkari löndum álfunnar. Í dag státar landið af nálægt 70.000 kílómetrum af hraðbrautum þar sem, því miður, er ein hæsta tíðni dauðsfalla í Evrópu af völdum gáleysisaksturs. Löng strönd landsins gerir hafnir þess sérstaklega mikilvægar fyrir efnahag þess. Helstu hafnirnar eru í Lissabon í landinu miðju, Porto í norðurhlutanum, Setúbal, Sines og Faro í suðurhlutanum og Funchal og Ponto Delgada á eyjum landsins. Margar hafnirnar hafa verið teknar í gegn á síðustu árum, enda flestar illa á sig farnar. Tvær stærstu borgir landsins – Lissabon og Porto – státa af lestarkerfi innan borganna sem hvort um sig er yfir 35 kílómetrar að lengd og kallast þau Metro á portúgölsku. Að auki er mikið lestarkerfi í byggingu sem mun tengja saman þéttbýliskjarnana suður af höfuðborginni. Einnig er lestarkerfi í byggingu fyrir borgina Coimbra. Hraðlestir tengja svo borgirnar Braga, Porto, Coimbra, Lissabon og Faro saman, og smærri og hægfærari lestir tengja saman margar aðrar borgir landsins. Nýlega kynnti ríkisstjórn landsins áætlun um að minnka enn meira flutningstímann á milli Porto og Lissabon og að tengja einnig saman Lissabon og Madríd á Spáni saman með hraðlest. Flugvellir landsins voru margir hverjir endurbættir í tengslum við Evrópukeppnina í knattspyrnu sem haldin var í landinu árið 2004. Þannig var Sá Carneiro flugvöllurinn í Porto algerlega endurbyggður og er hann nú sá glæsilegasti í landinu. Flugvöllurinn í Lissabon er Líka endurbyggður en ekki jafn glæsilegur. Farsímaeign í Portúgal er með því hæsta sem gerist í heiminum. Sú staðreynd að landið er eitt það þéttbýlasta í Evrópu gerði það einnig að verkum að þriðju kynslóðar farsímakerfið var fyrst tekið í notkun í landinu (ásamt í Þýskalandi) árið 2004. Í dag eru 11 milljón manns áskrifendur að farsímanúmeri, heilli einni milljón meira en íbúafjöldi landsins. Stærstu farsímakerfin eru í eigu Portugal Telecom (PT) og Vodafone. Af öðrum staðreyndum í samgöngumálum má nefna að brúin sem tengir Lissabon við suðurhluta landsins, Vasco da Gama brúin, er heilir 17 kílómetrar að lengd, sem gerir hana að einni lengstu brú í heimi og þeirri lengstu í Evrópu. Landafræði og loftslag. Á meginlandi Evrópu skiptir Tagus áin (einnig kölluð (Tejo) Portúgal í tvennt. Norðan árinnar einkennist landsvæðið af fjöllum og hálendi sem skipta því í fernt. Suður af Tagus ánni liggur Alentejo svæðið með víðfemum sléttum og mun mildara veðurfari en er í norðurhlutanum. Suður af Alentejo tekur Algarve við og skera fjöll landsvæðin tvö í sundur. Loftslagið í Alentejo á mun fremur skylt við loftslagið í suðurhluta Spánar og Marokkó en öðrum landsvæðum Portúgals. Aðrar helstu ár landsins eru Douro, Minho og Guadiana og eiga þær, ásamt Tagus ánni, það sameiginlegt að eiga upptök sín á Spáni. Asóreyjarnar og Madeira eru staðsettar á miðjum Atlantshafshryggnum og er eldvirkni þar þó nokkur. Síðast gaus eldfjall á eyjunum árið 1957, en það var Capelinhos eldfjallið á vesturhluta eyjunnar Faial sem jók stærð eyjunnar. Eldfjöll á svæðinu hafa myndað nýjar eyjur og telja sumir jarðfræðingar að ný eyja muni myndast í ekki svo mjög fjarlægri framtíð. Strönd Portúgals er víðfeðm, eða 943 kílómetrar á meginlandinu, 667 kílómetrar á Asóreyjum og 250 kílómetrar á Madeira. Alls gera það 1860 kílómetra. Portúgal státar af góðum ströndum, sérstaklega í suðurhlutanum, þar sem strendurnar á Algarve eru heimsfrægar. Á eyjunni Porto Santo mynda strandþekjur einnig vinsælar strendur sem ferðamenn sækja í. Ein besta strönd landsins er þó hvorki staðsett í suðurhlutanum né á eyjunum heldur í norðurhlutanum, nokkra kílómetra frá borginni Aveiro. Ströndin er 45 kílómetrar að lengd og allt að 11 kílómetrar að breidd og státar af miklu fiska- og fuglalífi. Mjór höfði myndar þar lón sem margir líta á sem eina mestu sérstöðu í allri og oft mikilfenglegri strönd landsins. Veðurfar landsins er gott. Meðalhiti á meginlandinu er yfir 13 gráður í norðurhluta landsins og 18 gráður í suðurhlutanum á meðan veðurfarið á eyjum landsins er rakara. Ekki er óalgengt að hitinn á meginlandinu fari yfir 30 gráður í norðurhlutanum yfir sumarmánuðina og yfir 40 gráður í suðurhlutanum. Rigning er algeng á veturna, þó svo sólardagar séu einnig margir. Hitinn á veturna fer sjaldan niður fyrir 5 gráður við ströndina en getur farið niður fyrir frostmark inn til landsins á veturna. Nokkuð algengt er að það snjói í fjöllum landsins, sérstaklega í Serra da Estrela (ísl. „Fjallgarður stjarnanna“). Menntakerfi landsins. Menntakerfi landsins er skipt niður í "forskóla" (Pré-Escolar) fyrir börn undir 6 ára aldri, Grunnskóla (Ensino Básico), sem samanstendur af þremur stigum sem samtals telja 9 ár, "framhaldsskóla" (Ensino Secundário) sem tekur þrjú ár og "háskóla" (Faculdades) og "tækniskóla" (Ensino Superior). Menntun er ókeypis og 9 ára skólaganga er skylda í landinu. Frumvarp hefur verið lagt fram í Portúgalska þinginu um að börn verði að ganga í skóla þar til þau nái fullorðinsaldri (18 ára aldri). 6,7% þjóðarinnar er ólæs, nær eingöngu eldra fólk. Fyrsti háskóli Portúgals — O Estudo Geral (Í dag Háskólinn í Coimbra) — var stofnaður þann 1. mars 1290 í Lissabon samkvæmt tilskipun frá Dinis konungi og er næstelsti háskóli í Evrópu. Háskólinn var fluttur til Coimbra árið 1308, og fluttist svo nokkrum sinnum aftur á milli borganna tveggja allt til ársins 1537. Árið 1559 var Háskólinn í Évora stofnaður af Henrique kardinála sem síðar átti eftir að verða konungur Portúgals og laut skólinn stjórnar jesúíta. Á 18. öld lokaði Marquês de Pombal háskólanum í Évora í tilraun til að minnka völd jesúíta í landinu. Á 19. öld voru mýmargir skólar stofnaðir, t.a.m. Tækniskólinn (Escola Politécnica) og Iðnskólinn (Escola Industral), báðir staðsettir í Lissabon. Þegar lýðveldi skaut rótum í landinu voru margir þessara skóla innlimaðir í Háskólann í Lissabon og Háskólann í Portó. Á 6. áratuginum var Kaþólski háskólinn stofnaður, og var hann fyrsti skólinn sem ekki var rekinn af portúgalska ríkinu. Mesta fjölgun háskóla varð þó á 7. áratugi 20. aldar þegar skólar líkt og Háskólinn í Aveiro og Háskólinn í Minho voru stofnaðir, ásamt mörgum einkaskólum. Í dag hefur miðjustjórn Jose Socrates sett menntamálin á oddinn. Meiri peningum er varið til málaflokksins og ríkisstjórnin hefur gefið það út að allir í landinu skuli læra ensku. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá landsmönnum þó svo að áhrif þessa eigi að sjálfsögðu enn eftir að koma fullkomlega í ljós. Trú. Meirihluti Portúgala (eða um 84% þjóðarinnar) er kaþólskur. Þrátt fyrir þetta sýndi rannsókn, sem unnin var af kaþólsku kirkjunni 2001, að einungis 18,7% landsmanna sækti reglulega kirkju. Nokkur hópur mótmælenda er í landinu og er flestir þeirra innflytjendur frá Brasilíu. Smáir hópar múslíma, gyðinga og hindúa er einnig í landinu, flestir þeirra fyrsta kynslóð innflytjenda. Portúgalska stjórnarskráin tryggir trúfrelsi í landinu, en þó er samkomulag um að gera kaþólsku kirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúarhópum. Algengt er að fulltrúar kaþólsku kirkjunnar séu viðstaddir opinberar athafnir og blessi þá sem þær sækja eða haldi jafnvel stuttar messur. Þrátt fyrir að taka trú sína alvarlega (fremur þó í orði en á borði) eru Portúgalar ekki þekktir fyrir að blanda saman trú- og stjórnmálum, líkt og sást árið 1995 þegar þeir kusu sér Jorge Sampaio sem forseta, en hann aðhylltist ekki kaþólska trú. Tungumál. Portúgalska er opinbert tungumál landsins en hún að rætur sínar að rekja til latínu. Annað tungumál landsins er Mirandês, sem talað er af um 15.000 íbúum í norðurhluta landsins. Portúgalska stafrófið samanstendur af öllum stöfum latneska stafrófsins, nema K og Y sem sagt A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, V, X, Z. Portúgölsk stjórnvöld. Stjórnvöld landsins samanstanda af forseta lýðveldisins, þinginu, ráðherrum (ríkisstjórninni) og dómskerfinu. Forseti landsins, sem jafnframt er yfirmaður hers landsins, er kosinn til fimm ára í senn af þjóðinni. Völd forsetans felast í skipun forsætisráðherra, sem jafnframt er kosinn af þinginu, sem og annarra ráðherra, sem tilnefndir eru af forsætisráðherranum. Forsetinn getur leyst upp ríkisstjórnina, líkt og gerðist í upphafi ársins 2005, sem og þingið. Þessi völd eru þó háð takmörkunum þar sem forsetinn verður fyrst að ráðfæra sig við ríkisráðið sem samanstendur af sex fyrrum forsetum lýðveldisins og tíu borgurum, fimm sem forsetinn tilnefnir og fimm sem tilnefndir eru af þinginu. Algengast er að forsetinn beiti valdi sínu þegar hann samþykkir eða hafnar löggjöfum þingsins. Þingið (Assembleia da República á portúgölsku) starfar í einni málstofu og samanstendur af 230 þingmönnum sem þjóna til fjögurra ára í senn. Hlutverk þingsins er að setja lög í landinu og forseti þess er handhafi forsetavalds að forsetanum fjarverandi. Forsætisráðherra landsins fer fyrir ríkisstjórninni og tilnefnir ráðherra. Þegar ný ríkisstjórn er kjörin hefur hún þær skyldur að útlista stefnu sína í stórum dráttum og leggja hana fyrir þingið. Ef meirihluti þingsins hafnar ekki stefnu forsætisráðherrans telst þingið hafa staðfest ríkisstjórnina. Dómstólar landsins starfa á nokkrum stigum, þar sem hæstiréttur fer með æðsta dómsvald. Tveir stjórnmálaflokkar eru ráðandi í landinu, sósíalistaflokkurinn PS (Partido Socialista) og sósíaldemókratar PSD (Partido Social Democrata, sem báðir fylgja sömu stefnu í grunninn. Báðir flokkarnir styðja nána samvinnu evrópulanda og leggja mikla áherslu á frjálsan markað og félagslega þætti. Aðrir flokkar sem eiga sæti á þingi eru: kommúnistar PCP (Partido Comunista Português), alþýðuflokkurinn PP (Partido Popular), vinstriflokkurinn BE (Bloco de Esquerda) og umhverfissinnar PEV (Partido Ecologista Os Verdes). Allir eru þeir vinstri flokkar utan alþýðuflokkinn, PP. Árið 2005 vann sósíalistaflokkurinn stórsigur í kosningum og hefur hreinan meirihluta á þingi (121 þingsæti). Forsætisráðherra landsins er José Sócrates. Portúgalskur almenningur er afar hallur undir Evrópusambandið og samstarf Evrópuþjóða, en 60% landsmanna segjast styðja sambandið. Trú er sterk í landinu sem sést einna best á því að lög gegn fóstureyðingum eru ströng og fóstureyðingar aðeins leyfðar ef um nauðgun er að ræða eða þar sem líf móðurinnar kann að vera í hættu. Árið 1998 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, þar sem 49% þjóðarinnar vildi leyfa fóstureyðingar og 51% var á móti. Allar líkur eru á því að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin árið 2006. Samkynhneigðir njóta nú aukinna réttinda en aðeins eftir tilskipun frá Evrópusambandinu þar um. Menning landsins. Menning Portúgals er undir áhrifum af þeim mörgu straumum og stefnum sem landið hefur orðið fyrir á síðustu 1000 árum, ekki hvað síst frá nýlendum sínum. Þetta sést hvað best í þeim mörgu hátíðum sem eiga rætur sínar að rekja til heiðinna siða og Rómverja en sem hafa þróast yfir í hátíðir til heiðurs kristnum dýrlingum. Portúgölsk tónlist. Portúgölsk tónlist er samsuða margra strauma. Þekktasta form hennar er án efa Fado, þunglyndisleg og tregablandin tónlistarstefna sem óx og dafnaði bæði meðal lægri stétta landsins sem og í háskólasamfélagi þess. Það orð sem best lýsir tónlistinni er portúgalska orðið saudade. Orðinu saudade (sem helst væri þýtt með hryggð) er ætlað að lýsa þeirri sammannlegri tilfinningu sem felst í því að vera ástfanginn af einhverjum eða einhverju sem maður er fjarri. Þrátt fyrir að stefnan teljist portúgölsk á hún væntanlega uppruna sinn í afrískum þrælasöngvum ásamt tónlist portúgalskra sjómanna, auk þess sem hún hefur orðið fyrir áhrifum af arabískum söngvum. Fado skiptist í tvær meginstefnur: Þá sem á uppruna sinn í höfuðborginni, Lissabon, og þá sem má rekja til háskólabæjarins Coimbra. Fyrrnefnda stefnan var talin tónlist alþýðunnar og flytjendurnir voru yfirleitt konur, á meðan sú síðari var tók sig alvarlegar, var hástemmdari og yfirleitt flutt af karlmönnum. Frægustu fadosöngvarar landsins eru Amália Rodrigues, Mariza, Ana Moura, Cristina Branco, auk hljómsveitarinnar Madredeus. Vinsælasta tónlistin í dag er annars popp- og rokktónlist ásamt tónlist sem kallast hipp hopp tuga (sambland hipp hopps, afrískrar tónlistar og reggís) þar sem flytjendurnir eru aðallega af afrískum uppruna, og hins vegar pimba, einföld alþýðutónlist sem aðallega er vinsæl í smábæjum og þorpum landsins. Portúgalskar bókmenntir. Bókmenntir Portúgals hafa þróast frá 13. öld, þegar hljóðfæraleikarar ferðuðust um og fluttu kvæði fyrir þá sem vildu heyra. Dáðasti rithöfundur landsins er sennilega Luís de Camões (1524 – 1580) sem skrifaði söguljóðið Os Lusíadas á ferðum sínum um Afríku og Asíu. Annað vinsælt ljóðskáld er Fernando Pessoa (1888 – 1935) sem skrifaði ljóð undir mörgum dulnefnum þar sem hann spann upp karaktera sem jafnvel rifust sín á milli á prenti. Meðal annarra frægra rithöfunda landsins eru Almeida Garrett, Alexandre Herculano, Eça de Queirós, Sophia de Mello Breyner Andresen, António Lobo Antunes og José Saramago, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1998, fyrstur portúgalskra rithöfunda. Portúgölsk byggingarlist. Byggingarlist landsins hefur orðið fyrir miklum utanaðkomandi áhrifum í gegnum aldirnar og því erfitt að staðsetja hana en hún hefur sín eigin séreinkenni og sínar eigin stefnur, svo sem Manulinu eða síðgotneskan stíl. Einkennandi fyrir portúgalska bygginarlist er notkun skrautlegra flísa. Ýmsir borgarhlutar, og jafnvel heilu borgirnar (líkt og Sintra) eru á heimsminjaskrá UNESCO. Portúgal státar af einum fremsta arkitektaskóla heims, sem einfaldlega kallast Escola do Porto, eða Portóskólinn. Matarmenning. Hvert landsvæði hefur sína sérrétti sem oftast innihalda kjöt eða fisk. Saltfiskur er sérstaklega vinsæll í landinu (bacalhau á portúgölsku) enda sagt að Portúgalar kunni 365 leiðir til að elda saltfisk. "Bacalhau à Brás" og "Bacalhau à Gomes de Sá" eru vinsælustu aðferðirnar. Einnig er mikið um sætindi, sem oftar en ekki eru drukkin með sterku kaffi. Portúgalar hafa einnig þróað sína eigin skyndibitamenningu, "Francesinha" þar vinsælasti rétturinn (nafnið merkir lítil frönsk stúlka), gerður úr brauði, pylsum, kjöti, osti og sósu sem meðal annars samanstendur af viskíi og bjór. Portúgölsk vín hafa verið flutt út síðan á dögum Rómverja. Þrátt fyrir að hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna er sagt að Portúgalar kunni ekki að markaðsetja vín enda eru þau illfáanleg í mörgum löndum. Helstu vínin eru "Vinho Verde" (óþroskað hvítvín), "Vinho Alvarinho" (sérstök gerð hvítvíns) og "Vinho do Alentejo" (vín frá Alentejo svæðinu, oft talin þau bestu í Portúgal). Portúgal, nánar tiltekið norðurhluta landsins í kringum Porto og ána Douro, er einnig heimsfrægur fyrir púrtvínsgerð, þó svo flestar púrtvínsverksmiðjur landsins séu í eigu Englendinga. Þrátt fyrir að púrtvín (portúgalska: Vinho do Porto) dragi nafn sitt af borginni Portó eru vínin ekki framleidd í þeirri borg heldur í Vila Nova de Gaia, við suðurhluta Douro árinnar. Íþróttir. Fótbolti er langvinsælasta íþrótt landsins, enda hefur landið verið ofarlega á heimslista FIFA undanfarna áratugi. Portúgal hefur alið af sér marga þekkta fótboltamenn í gegnum tíðina og eru þeir helstu Luís Figo, goðsögnin Eusébio, Rui Costa, Pauleta og Cristiano Ronaldo. Luis Figo meðal annars var kjörinn knattspyrnumaður Evrópu árið 2001 þegar hann spilaði með Real Madrid og Cristiano Ronaldo var kjörinn knattspyrnumaður ársins af FIFA árið 2008 og knattspyrnumaður Evrópu. Hjólaskautahokkí er einnig vinsælt, enda Portúgal það land sem hefur unnið flesta titla á því sviði. Golf er einnig mikið stundað í landinu, og þá helst í suðurhlutanum í kringum ferðamannakjarna, sem og blak og strandfótbolti. Gullna kynslóðin. Í lok 9. áratugar síðustu aldar komu fram á sjónarsviðið ungir knattspyrnumenn í Portúgal sem náðu aðdáunarverðum árangri í knattspyrnu með landsliði Portúgala sem skipað var leikmönnum yngri en 21 ára, og sem aflaði þeim viðurnefnisins ‘Gullna kynslóðin’. Þannig vann þetta ungmennalandslið Portúgala tvö heimsmeistaramót í knattspyrnu í röð (árið 1989 og 1991) og hafði meðal annars innanborðs knattspyrnumennina Luis Figo og Rui Costa. Líkt og skiljanlegt er voru væntingar Portúgala til þessara knattspyrnumanna sinna miklar þegar þeir tóku út þroska sinn á knattspyrnuvellinum - og að sama skapi urðu vonbrigðin mikil þegar þeim mistókst það keppni eftir keppni. Í sjálfu sér er rangt að segja að niðurstaðan sé engin. Í Evrópukeppninni árið 2000 tapaði landsliðið fyrir Frökkum, sem síðar urðu Evrópumeistarar, og í Evrópukeppninni árið 2004, sem haldin var í Portúgal, tapaði liðið í úrslitaleiknum fyrir Grikkjum, 1 - 0. Þrátt fyrir þessa næstum-því-sigra er niðurstaðan langt í frá sú sem búist var við. Ferðamannaþjónusta. Mest sótta ferðamannasvæði Portúgals er héraðið Algarve í suðurhluta landsins og þá sérstaklega Albufeira, sem er vel þekkt meðal margra Íslendinga. Ferðamannastraumurinn til héraðsins var þó óverulegur fram til 6. áratugar síðustu aldar áður en flugvöllurinn í Faro var opnaður. Flestir ferðamenn sem koma til landsins eru frá Bretlandi, Þýskalandi og Skandinavíu. Næststærsti ferðamannastaður landsins er sjálf höfuðborgin, Lissabon. Flestir sem þangað sækja leita í ofgnótt af sögu borgarinnar sem endurspeglast í þeim aragrúa minnisvarða sem finna má í borginni. Meðal frægustu minnisvarða hennar er Betlehemsturninn og Jeronimo klaustrið. Porto, önnur stærsta borg landsins, dregur að sér sinn skerf af ferðamönnum. Auk þess að vera mesta púrtvínsborg heims, státar borgin af brú eftir Gustave Eiffel og heilum borgarhluta sem hefur verið settur á Heimsminjaskrá UNESCO. Meðal annarra svæða landsins sem laða að sér ferðamenn ár hvert eru Asóreyjarnar (með sitt milda loftslag allt árið um kring), Madeira (með miklum og fjölskrúðugum gróðri), Coimbra (þar sem finna má næstelsta háskóla í Evrópu), Braga, Evora og Sintra, þær tvær síðastanefndu - að mismiklum hluta - á heimsminjaskrá UNESCO. Landamæradeilur við Spán. Portúgal á í landamæradeilum við nágranna sinn, Spán, um Olivença svæðið í suðurhluta landsins (Olivenza á spænsku). Árið 1815 samþykktu Spánverjar að skila svæðinu aftur til Portúgala en það hefur ekki verið gert enn þann dag í dag og ítreka Portúgalar reglulega þá kröfu sína að landssvæðinu verði skilað. Síðast var fjallað um málið á portúgalska þinginu árið 2004. Samkvæmt alþjóðalögum telst Olivença til Portúgals, þrátt fyrir að hafa verið undir spænskri stjórn frá árinu 1801. Írska lýðveldið. Írska lýðveldið er ríki sem tekur yfir 5/6 hluta eyjunar Írlands vestur af strönd Evrópu, afgangurinn tilheyrir Norður-Írlandi sem er hluti af Bretlandi. Írland er vestasta ríki Evrópusambandsins. Opinbert nafn ríkisins samkvæmt stjórnarskrá þess er Éire sem er írska og þýðir bara Írland, „Írska lýðveldið“ er samkvæmt lögum lýsing á ríkinu en ekki nafn þess. Listi yfir lönd eftir mannfjölda. thumb Athugasemd varðandi listann yfir lönd eftir mannfjölda: Mjög margir listar yfir íbúafjölda eru til og fer því fjarri að þeim beri saman. Þess vegna er alltaf umdeilanlegt hvar í röðinni hvert ríki um sig er miðað við mannfjölda. 1719. Erlendis. a>æktun breiddist út um alla Evrópu á 18. öld. Þormóður Torfason. Þormóður Torfason eða Thormod Torfæus, sagnfræðingur Þormóður Torfason, "Thormod Torfæus", "Torvæus" (27. maí 1636 – 31. janúar 1719) var sagnaritari og fornritaþýðandi sem bjó mestanpart ævi sinnar í Noregi. Hann var sonur Torfa Erlendssonar sýslumanns á Stafnesi og Þórdísar Bergsveinsdóttur, prests á Útskálum. Hann fæddist í Engey. Þormóður hefur verið kallaður "„faðir norskrar sagnfræði“" fyrir hið stóra rit sitt um sögu Noregs. Ævi Þormóðs. Þormóður varð stúdent frá Skálholtsskóla 1654 og fór að því búnu strax utan. Hann lærði í Kaupmannahafnarháskóla og varð fornritaþýðandi í þjónustu Danakonungs eftir 1659. Árið 1662 var hann sendur til að safna handritum á Íslandi og flutti þá til Kaupmannahafnar frá Brynjólfi Sveinssyni handritin Konungsbók Eddukvæða og Gráskinnuhandrit Njáls sögu. Árið 1664 varð Þormóður kamerarius í Stafangursstifti og bjó þar síðan á Stangarlandi á eyjunni Körmt (Karmøy) úti fyrir Rogalandi þar sem gröf hans var inni í Ólafskirkju. Árið 1682 var hann gerður að sagnaritara Noregs á launum hjá konungi og árið 1704 að assessor í háskólaráði. Hann átti mikið samstarf við Árna Magnússon og nýtti handrit Árna mikið við sagnaritun sína þar sem hann fylgdi fyrst og fremst íslenskum frásögnum. Árni fékk handrit hans að honum látnum. Þórmóður er þekktastur fyrir bækur sem hann skrifaði á latínu, en þær eru: "Historia Vinlandiœ Antiquœ" (1705); "Grœnlandia Antiqua" (1706) og "Historia Rerum Norvegicarum" (1711). Hin síðastnefnda hefur nú (2008) verið gefin út í norskri þýðingu, og hafa þrjú bindi af sex verið gefin út. Morðið á Sámsey. Árið 1671 ferðaðist hann til Íslands til að ganga frá erfðamálum. Í bakaleiðinni, árið 1672, varð hann skipreika á Sámsey við Jótland í Danmörku. Hermt var að nokkrir drukknir Íslendingar ásamt danska vertinum, Hans Pedersen, hefðu ruðst inn til hans eftir að hann var genginn til náða. Greip hann þá til korðans og lagði til vertsins með þeim afleiðingum að hann lést. Fyrir þetta var hann dæmdur til dauða, en var síðan náðaður og dæmdur til að skrifta opinberlega og greiða hundrað ríkisdali í manngjöld. Fjölskylda. Þormóður giftist árið 1665 Önnu Hansdóttur, auðugri ekkju sem lést árið 1695. Árið 1702 átti hann svo aðra Önnu Hansdóttur, sem hafði verið bústýra hans. Hann átti ekki börn með þeim, en var síðar talinn hafa átt mörg börn í lausaleik. 1559. Erlendis. a> Englandsdrottning. Myndin talin eftir William Segar. Lénsskipulag. Lénsskipulagið var fyrirkomulag um eignarhald og notkun á landi sem notað var í Evrópu á miðöldum (svipað fyrirkomulag var einnig notað í Japan á sjogún tímabilinu). Við fall Rómaveldisins úthlutuðu keisararnir landsvæðum til aðalsmanna sem í staðinn hétu þeim stuðningi sínum. Þessi svæði voru kölluð höfuðból eða herragarðar og aðalsmaðurinn á höfuðbólinu átti landið og allt sem á því var, sem var yfirleitt kastali, lítið þorp og ræktað land. Aðalsmennirnir tóku landið formlega að láni ("léni") og var landssvæðið því kallað „lén“ og aðalsmaðurinn „lénsherra“. Bændurnir fengu að búa á landinu og fengu vernd lénsherrans í skiptum fyrir vinnu eða skatta. Flestir bændur urðu þá ánauðugir bændur og máttu ekki flytja af landinu nema að kaupa sér frelsi (sbr. vistarband). Þessir ánauðugu bændur höfðu það litlu betra en þrælar [engin heimild gefinn fyrir þessari hlutdrægu alhæfingu], eini munurinn var sá að það mátti ekki selja þá á milli höfuðbóla. Þeir þurftu oft að vinna 3-4 daga vikunnar fyrir lénsherra upp í leiguna og afganginn af vikunni unnu þeir við að rækta mat fyrir sig og fjölskyldu sína. Sumir bændur unnu eingöngu á akrinum en þeir þurftu þá að borga lénsherranum mikinn meirihluta þess sem þeir ræktuðu. Lénsskipulag og óðalsréttur. Ein kenning gengur út frá því að lénsskipulagið í Evrópu hafi stangast á við óðalsrétt bænda á Norðurlöndum, og að óréttur sá sem Haraldur hárfagri beitti er hann gerði Noreg að konungsríki, hafi falist í því að koma á lénsskipulagi, sem í raun þýddi eignaupptöku allra jarða og hlunninda þeim tengdum. Á Íslandi hefur óðalsréttur gilt til ársins 2005, en segja má að takmörkuðu lénsskipulagi hafi verið komið á á Íslandi við siðaskiptin þegar konungur eignaðist stóran hluta jarða og eins á 17. öld þegar konungur krafðist yfirráða yfir öllu vogreki og fálkatekju. Kastali. Kastali er víggirt mannvirki sem gjarnan er torsótt vegna staðsetningar. Flestir kastalar á miðöldum voru heimili hefðarfólks og konungborinna og voru byggðir til að standast áhlaup óvina, ásamt því að vera mikilvægt stöðutákn. Saga. Þegar Rómverjar lögðu undir sig Evrópu byggðu þeir á lykilstöðum í álfunni virki sem urðu að miðstöðvum herafla þeirra. Þessi virki samanstóðu af nokkrum húsum og virkisvegg úr trédrumbum í kring um þau. Þessi hús voru kölluð castra á latínu en virkið var kallað castellum. Þegar Rómarveldi leið undir lok jókst óöryggi í sífellt fjölmennari Evrópu með tilheyrandi árekstrum og deilum á milli þjóðarbrota og ráðamanna. Á 10. og 11. öld voru svo fyrstu kastalarnir byggðir og hélst latneska nafnið við þá. Þessir fyrstu kastalar voru að mestu jarðvegur og tré, sem þýðir að jarðvegi var ýtt upp í hæðir sem byggt var ofan á. Í kring um húsin efst á hæðinni var svo myndaður veggur úr trédrumbum. Flestir staðanna nýttu sér umhverfið á einhvern máta, annað hvort var byggt á hæð í umhverfinu eða við klettabelti til að spara sér vegginn. Fljótlega var farið að grafa skurði í kring um virkisveggina og fylla þá af vatni. Fljótlega hófu menn að nota steina við að reisa bæði hús og virkisveggi. Einnig varð að bregðast við öflugri vopnum, svo sem slöngvivað og færanlegum turnum. Urðu því virkisveggir og turnar stærri og stærri, síki breiðari og dýpri og aðkomuleiðir erfiðari. Kastalar hafa ætíð haft umtalsverð áhrif á landsvæðið í kring um þá. Iðulega bjuggu þar aðalsmenn sem réðu yfir landshlutanum og þáðu skatt af íbúum þess. Í staðinn bar að vernda þegnana og var það oftast gert með því að koma þeim fyrir í kastalagarðinum á hættutímum. Ein öflugasta leiðin til að sigra andstæðing sem hafði komið sér fyrir innan kastalamúranna var að setja upp umsátur um kastalann. Í stað þess að ráðast til atlögu við kastalann var séð til þess að vistir og liðsafli gæti ekki borist til þeirra sem þar voru. Á endanum varð heimafólk hungri að bráð, nema það gæfist upp. Vendipunktur í þróun kastala varð á 13. öldinni þegar byssupúður barst til Evrópu frá Kína. Öflugar fallbyssur urðu fljótlega staðalbúnaður í hverjum her og var lítið mál að skjóta niður hurðir og veggi með þeim. Sáu menn sér þá þann kost einan að færa bardagana frá heimilum sínum út á víðavang í stað þess að loka sig inní brothættum húsum. Þessi þróun varð til þess að minna var lagt í varnarhlutverk kastalanna og breyttust heimili aðalsins úr kastölum yfir í að vera meira í líkingu við herragarða. Mjóar raufir fyrir bogaskyttur urðu að stórum gluggum og í stað vindubrúa komu steinbrýr. Þrátt fyrir að hlutverki kastala í hernaði væri lokið var ekki hætt að búa í þeim, enda stór híbýli og mjög sterkbyggð. Fram til dagsins í dag eru fjölmargir kastalar enn í fullri notkun, margir sem söfn en þónokkrir sem heimili, jafnvel heimili afkomenda þeirra sem þá byggðu. Hýdroxýl. Hýdroxíð (efnaformúla: OH-) er jón samsett úr einni vetnisfrumeind og einni súrefnisfrumeind sem finnst í mörgum lífrænum efnasamböndum (þá oft kallað hýdroxýl(hópur)). Oft er talað um að efnið sem það binzt sé "vatnað". Gjaldmiðill. Gjaldmiðill (eða verðmiðill) nefnist eining sem gefur til kynna verðmæti og er notuð sem greiðslumiðill í viðskiptum með vörur og þjónustu. Gjaldmiðlar eru eitt form peninga ef peningar eru skilgreindir sem flutningsmiðill verðmæta sem hafa þó ekki eiginlegt verðmæti sjálfir. Oftast er aðeins einn gjaldmiðill ráðandi á tilteknu svæði, til þess að auðvelda viðskipti milli svæða með mismunandi gjaldmiðla er gengi þeirra skráð, þ.e. verðmæti gjaldmiðla gagnvart hverjum öðrum. Gengi gjaldmiðils ræðst af lögmálum framboðs og eftirspurnar á sama hátt og verð á vörum og þjónustu. Oftast ákveður hvert land að gera einn ákveðinn gjaldmiðil að lögeyri í landinu sem veitir þeim gjaldmiðli yfirburðastöðu innan landsins, gjaldmiðlinum er stýrt af sérstakri ríkisstofnun sem kallast seðlabanki sem hefur einkarétt á því að framleiða gjaldmiðilinn og getur þannig stýrt framboðinu af honum þegar þörf krefur. Frá þessu geta þó verið undantekningar. Algengt er að mörg lönd noti sama nafnið fyrir gjaldmiðla sína, þar má nefna krónur sem er nafn gjaldmiðlanna sem Norðurlöndin fyrir utan Finnland nota. Mörg lönd geta einnig deilt sama gjaldmiðli og rekið sameiginlegan seðlabanka eins og er tilvikið með evruna. Lönd geta líka skilgreint gjaldmiðil annars lands sem sinn eigin lögeyri eins og Panama þar sem Bandaríkjadalur er notaður sem lögeyrir. Algengast er að gjaldmiðli sé skipt í minni einingar, oftast 100. Til dæmis: 100 aurar = 1 króna, 100 sent = 1 dollari o.s.frv. Stundum kann gjaldmiðlinum að vera skipt í 10 eða 1000 parta en aðeins gjaldmiðli Máritaníu er ekki skipt eftir tugakerfi heldur í 5 parta. Sumum gjaldmiðlum er ekki skipt í minni einingar og á þetta við um íslensku krónuna þar sem aurar hafa verið teknir úr umferð. Gjaldmiðill getur einnig verið vörur eða þjónusta eins og egg, dýr, kynlíf eða föt. Þeir eiginleikar sem góður gjaldmiðill þarf að hafa eru varanleiki, hreyfanleiki, deilanleiki og einsleitni. Fjölnir (forritunarmál). Fjölnir er listavinnslu- og einingaforritunarmál þróað að mestu leyti af Snorra Agnarssyni prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands á níunda áratuginum. Málið er á íslensku í heild sinni og hægt er að nota alla stafi íslenska stafrófsins í breytunöfnum. Frumkóðaskrárnar hafa oftast nafnlenginguna codice_1. 1691-1700. 1691-1700 var 10. áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Atburðir og aldarfar. Koparstunga frá 1690 sýnir stúdent frá Leipzig með íburðarmikla síða hárkollu sem komst í tísku í Evrópu á þessum áratug. Níu ára stríðið. 1688 fóru Frakkar með her yfir Rínarfljót og ætluðu sér með því að tryggja yfirráð yfir mikilvægum landamærahéruðum við landamærin að Þýskalandi. Loðvík 14. hugsaði sér að stríðið yrði stutt en reyndin varð hins vegar allt önnur. Heilaga rómverska ríkið hafði nýlokið við að reka Tyrki frá Vínarborg og berja niður uppreisn Imre Thököly í Ungverjalandi og snerust til varnar með stuðningi Hollendinga og Spánverja til að stöðva útþenslustefnu Frakka. Upphaflega gengu áætlanir Frakka upp, ef undan er skilin tilraun til að koma Jakobi 2. aftur á valdastól í Englandi, en efnahagshrun og hungursneyð árið 1693 drógu úr styrk Frakka sem þurftu að gefa kröfur sínar eftir í friðarsamningum 1696-1697 en héldu þó Elsass og Strassborg. Stríð gegn Tyrkjaveldi. Rússar, Austurríkismenn og Feneyingar héldu áfram bardögum við Tyrkjaveldi. Rússar lögðu undir sig Azov og Austurríkismenn unnu mikilvæga sigra í Serbíu. Með Karlowitz-samningnum 1699 fékk Austurríki allt Ungverjaland og Transylvaníu og Feneyjar fengu Dalmatíu, Pólsk-litháíska samveldið fékk Pódólíu en Tyrkir héldu Belgrad. Samningurinn er talinn marka upphafið að hnignun Tyrkjaveldis. Samningurinn var forsenda þess að Rússar gætu sótt gegn Svíaveldi til að fá hafnaraðstöðu við Eystrasalt sem leiddi til Norðurlandaófriðarins mikla 1700-1721. 27 ára stríðið. Á Dekkanhásléttunni reyndi Aurangzeb að berja niður uppreisn Marattaveldisins. Hann náði með svikum að taka Sambhaji höndum og pyntaði hann til dauða 1689, en lát hans jók enn andstöðuna við Mógúlveldið. Rajaram Chhatrapati var krýndur konungur og varðist í Jinji-virki í Tamil Nadu. Her Mógúlveldisins náði virkinu á sitt vald 1698 eftir sjö ára umsátur. Rajaram lést úr veikindum í virkinu Sinhagad í Maharashtra en sonur Sambhajis Chattrapati Shahu tók við krúnunni. Nornafárið í Salem. Í bænum Salem í Massachusettsflóahéraðinu hófust réttarhöld yfir fólki sem sakað var um galdra. Um 150 manns voru handteknir á árunum 1692 og 1693. Réttarhöldunum lyktaði með því að fjórtán konur og fimm karlmenn voru hengd og einn kraminn til bana með þungum steinum. Næstu árin voru réttarhöldin og þeir samfélagsleiðtogar sem stóðu fyrir þeim harðlega gagnrýnd í ræðu og riti. Ákærendur báðust opinberlega afsökunar og sögðust hafa verið ginnt af Satan til að ásaka saklaust fólk. Ráðamenn. Tsangyang Gyatso, sjötti Dalai Lama Málverk af Pétri mikla frá 1697 1681-1690. 1681-1690 var níundi áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Atburðir og aldarfar. Sendimenn frá Síam við hirð Loðvíks 14. árið 1686. Eintak Newtons af frumútgáfu "Principia Mathematica" frá 1687 með handskrifuðum leiðréttingum fyrir næstu útgáfu. Fyrsti samningurinn um landamæri Rússlands og Kína. Í Kína var síðasta andstaðan við Kingveldið barin niður þegar her keisarans lagði Taívan undir sig 1683. Á norðurmörkum keisaradæmisins við Mansjúríu höfðu rússneskir kósakkar reist bækistöðvar við Amúrfljót skömmu eftir miðja öldina og færðu sig sífellt neðar eftir fljótinu í leit að frjósamari ræktarlöndum. 1682 hóf Kangxi að undirbúa að reka þá burt. Árið eftir var búið að rýma allar rússneskar bækistöðvar við fljótið nema virkið Albazino. Keisaraherinn vann virkið í tvígang 1685 og 1686 og Moskvustjórnin gerði sér grein fyrir því að Amúrhérað væri óverjandi. Stjórnin í Peking óttaðist hins vegar að Rússar myndu styðja óvinveitta Mongóla gegn þeim. Kína og Rússland gerðu með sér Nertsinsksamninginn árið 1689 þar sem ríkin sættust á landamæri norðan við Amúrfljót og eftir Stanovojfjallgarðinum að Okotskhafi. Þetta var fyrsti samningurinn milli ríkjanna tveggja. Síamska uppreisnin. Í konungsríkinu Ayutthaya í Síam (Taílandi) leitaðist Narai konungur við að styrkja tengslin við Vesturlönd, einkum Frakkland sem hann áleit mikilvægt mótvægi við áhrif Hollendinga og Portúgala. Helsti ráðgjafi konungs var kaþólskur Grikki, Konstantínos Gerakis, sem aflaði sér margra óvina innan hirðarinnar. Þegar konungur leyfði Frökkum að stofna virki með herliði í Bangkok og Mergui jókst andstaða landsmanna við útlendinga, einkum Frakka. Narai veiktist alvarlega 1688 og mandaríninn Phetracha leiddi hallarbyltingu gegn honum. Sama ár settust menn hans um frönsku virkin; liðið í Mergui flúði en í Bangkok vörðust Frakkar til haustsins þegar gerðir voru samningar um brottflutning þeirra. Samskipti milli Síam og Vesturlanda minnkuðu mikið í kjölfar atburðanna þrátt fyrir að hollendingar héldu áfram mikilli verslun þar og trúboðar jesúíta fengju að starfa áfram með ströngum skilyrðum. Trúarofsóknir í Frakklandi. Árið 1681 hóf franski herinn í Poitou að neyða húgenottafjölskyldur til að hýsa og kosta dragóna á heimilum sínum. Þetta var samþykkt af stjórninni í París þar sem stefna Loðvíks 14. var að neyða húgenotta til að snúast til kaþólskrar trúar eða flýja land ella. 1685 gaf konungur út Fontainebleu-tilskipunina þar sem þau réttindi sem mótmælendur höfðu fengið með Nantes-tilskipuninni voru afturkölluð. Mótmælendatrú var bönnuð og mótmælendakirkjur eyðilagðar. Í kjölfarið hófst mikill flótti mótmælenda frá Frakklandi til Nýja heimsins, auk Írlands, Englands, Hollands og Prússlands. Friðrik Vilhjálmur kjörfursti af Brandenborg gaf sama ár út Potsdamtilskipunina sem tryggði frönskum mótmælendum örugga ferð til Prússlands, leyfi til að syngja messu á frönsku og skattafríðindi. Efnahagur Frakklands skaðaðist hins vegar þar sem þekking á mörgum sviðum iðnaðar (t.d. silfursmíði, vefnaði, húsgagnasmíði og glergerð) glataðist með fólkinu. Dýrlega byltingin í Englandi. Í Englandi reyndu Viggarnir á þingi að koma í veg fyrir að hinn kaþólski Jakob 2. erfði krúnuna eftir bróður sinn Karl 2. en mistókst. Þegar Karl lést 1685 var Jakob krýndur með stuðningi íhaldsmanna og ensku biskupakirkjunnar. Uppreisn Monmouths gegn konungi sama ár var barin niður. Þótt kaþólsk trú konungsins væri honum fjötur um fót hugguðu menn sig við það að báðar dætur hans voru mótmælendur. Athafnir hans næstu árin öfluðu honum vaxandi óvinsælda þar sem hann reyndi að koma kaþólskum stuðningsmönnum sínum í allar lykilstöður innan þingsins, stjórnsýslunnar og hersins. Þegar konungur eignaðist son, Jakob Stúart prins af Wales árið 1688, jukust enn líkurnar á að kaþólskur konungur myndi erfa krúnuna. Á sama tíma var Níu ára stríðið í undirbúningi og Vilhjálmur 3. af Óraníu sá sér leik á borði að halda gegn Jakobi tengdaföður sínum með her og koma um leið í veg fyrir bandalag Englands og Frakklands. Hann undirbjó innrásina vandlega og aflaði henni stuðnings bæði í Hollandi og Englandi. Hann gekk á land með her sinn við Brixham í Devonskíri 5. nóvember 1688. Stuðningur við Jakob dvínaði hratt og hann flúði til Frakklands í desember sama ár. Bandalög gegn Frökkum og Tyrkjum. Í upphafi áratugarins hóf Loðvík 14. að leggja undir sig sveitir við austurlandamæri Frakklands og nýtti sér þar hvað samningarnir frá Nijmegen og Vestfalíu voru ónákvæmir. Tilgangurinn var að styrkja landamæri Frakklands með keðju víggirtra kastala. 1681 lagði franski herinn Strassborg undir sig og við Ítalíulandamærin nýtti hann sér uppkaup og hótanir til að ná undir sig hernaðarlega mikilvægum stöðum við landamærin. Á Spáni fjármögnuðu Frakkar uppreisnarmenn gegn spænsku stjórninni í Katalóníu sem hófu Barretinas-uppreisnina árið 1681. Spánn lýsti Frökkum stríði á hendur með stuðningi Heilaga rómverska ríkisins 1683. Stríðið stóð stutt og Frakkar sömdu um vopnahlé, meðal annars vegna tíðinda úr austri. Sama ár hóf Tyrkjaveldi nýja árás á Heilaga rómverska ríkið og réðist á Vín. Jóhann 3. Sobieski hélt þá Austurríkismönnum til bjargar með pólskan her. Innósentíus 11. hvatti til stofnunar bandalags gegn Tyrkjum og Heilaga bandalagið var myndað með þátttöku Heilaga rómverska ríkisins, Pólsk-litháíska samveldisins og Feneyska lýðveldisins. Rússneska keisaradæmið gerðist svo aðili að bandalaginu árið 1686. Tyrkjaveldi tapaði löndum sínum í Suðaustur-Evrópu smátt og smátt í röð ósigra gegn bandalaginu næstu árin og við tók langt hnignunarskeið. Undir lok áratugarins hófst síðan Níu ára stríðið milli Frakka og bandalags annarra Evrópuríkja. Vísindasaga. Árið 1684 ræddi Edmond Halley við Isaac Newton um sönnun á lögmálum Keplers og komst þá að því að Newton hafði þegar sannað þau en ekkert gefið út. Halley hvatti þá Newton til að gefa útreikninga sína út í bókinni "Philosophiæ Naturalis Principia Mathematica" sem sumir höfundar vilja meina að marki upphaf upplýsingarinnar. 1690 gaf John Locke út "An Essay Concerning Human Understanding" sem hafði mikil áhrif á heimspeki upplýsingarinnar. Ráðamenn. Vilhjálmur 3. af Óraníu á málverki frá 9. áratugnum. 1671-1680. 1671-1680 var 8. áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu, Jedótímabilsins í sögu Japans, Tjingtímabilsins í sögu Kína, tíma Mógúlveldisins í sögu Indlands og Tyrkjaveldis í sögu Miðausturlanda. Í sögu Suðaustur-Asíu, Afríku, Norður- og Suður-Ameríku er þetta tími evrópsku nýlenduveldanna; portúgalska og spænska heimsveldisins, Breska- og Hollenska Austur-Indíafélagsins. Í sögu Norður- og Mið-Asíu einkennist þetta tímabil af útþenslu Rússaveldis og Tjingveldisins í Kína. Í jarðsögunni er 17. öldin hluti af mýrarskeiðinu síðara á Hólósentímabilinu eða Mannöld. Stríð í Evrópu. Tvö tengd stríð áttu sér stað á þessum áratug: Stríð Frakklands og Hollands hófst með skyndiárás Frakka á Holland árið 1672 með stuðningi Englands, Svíþjóðar og biskupanna í Münster og Köln. Hollendingar náðu hins vegar nokkrum mikilvægum sigrum á flotum Frakka og Englendinga (þriðja stríð Englands og Hollands) auk þess sem Heilaga rómverska ríkið, Spánn og kjörfurstinn af Brandenborg gengu til liðs við þá. Englendingar drógu sig út úr stríðinu 1674. 1675 ákvað Kristján 5. Danakonungur að nýta tækifærið og gerði innrás í Skán sem var upphaf skánska stríðsins. Brandenborgarar réðust einnig á lönd Svía á meginlandinu. Með friðarsamningum 1679 fengu Svíar öll lönd sín aftur. Uppreisnir gegn Mógúlveldinu. Á Indlandsskaga jókst andstaðan við Mógúlkeisarann Aurangzeb sem barðist gegn helgisiðum hindúa og síka og hélt fram strangari túlkun íslam en fyrirrennarar hans. Á Dekkanhásléttunni veitti Shivaji, sem síðar stofnaði Marattaveldið, honum viðnám og í austri vann her Ahomríkisins sigur á her keisarans í orrustunni við Saraighat 1671. Árið eftir gerðu Pastúnar uppreisn og her Mógúlveldisins var tvístrað af ættbálkum þeirra í Kaíberskarði. Uppreisn lénsherranna þriggja. Í Kína ríkti mansjúkeisarinn Kangxi yfir stóru og erfiðu ríki. Héraðshöfðingjar fengu því mikið sjálfstæði frá miðstjórnarvaldinu í Peking. Þrír fyrrum herforingjar í her Mingveldisins voru gerðir að lénsherrum yfir Yunnan, Guizhou, Guangdong og Fujian. Þetta voru gríðarstór lén og náðu samanlagt yfir helminginn af Suður-Kína. Þegar lénsherrarnir hugðust láta af völdum létu þeir reyna á það hvort keisarinn heimilaði þeim að velja sér eftirmenn, sem í reynd þýddi að gera lén þeirra að erfðalénum. Þegar keisarinn neitaði, gerðu þeir uppreisn sem var kölluð uppreisn lénsherranna þriggja og snerist um að endurreisa Mingveldið. Uppreisnin stóð í átta ár frá 1673-1681 og lauk með sigri keisarans. Brennumál. Í Frakklandi kom Eiturmálið upp 1676 þegar upp komst um morð framin með eitri af konum á ættingjum og keppinautum. Ljósmóðirin Catherine Deshayes var dæmd fyrir að útvega konum eitur og brennd á báli árið 1680. Á Íslandi héldu Selárdalsmálin áfram. 1674 skrifaði séra Páll Björnsson í Selárdal bókina "Kennimark Kölska". Árið eftir voru tveir menn brenndir fyrir að valda veikindum prestfrúarinnar í Selárdal og 1678 voru mæðgin úr Skagafirði tekin af lífi fyrir sömu sakir. Könnun Norður-Ameríku. Frönsku landkönnuðirnir René-Robert Cavelier de la Salle og Louis Jolliet könnuðu ár og vötn í Norður-Ameríku. Jolliet og jesúítatrúboðinn Jacques Marquette könnuðu og kortlögðu Mississippifljót fyrstir manna. La Salle sigldi um Vötnin miklu í leit að Norðvesturleiðinni til Kyrrahafsins, fyrst með tíu tonna brigantínunni "Frontenac" og síðan með "Le Griffon", 45 tonna barkskipi sem hélt í jómfrúarferð sína 7. ágúst 1679. Vísindasaga. Á árunum frá 1671 til 1677 gerðu Ole Rømer og Jean Picard fjölda stjörnufræðiathugana í Úraníuborg, stjörnuskoðunarstöð Tycho Brahe á eynni Hveðn. Þessar athuganir leiddu meðal annars til útreikninga Rømers á ljóshraða sem hann kynnti fyrst fyrir Frönsku vísindaakademíunni og gaf út í vísindatímaritinu "Journal des sçavans" árið 1676. Rannsóknir Hollendingsins Antonie van Leeuwenhoek með smásjá voru hins vegar gefnar út af Konunglega breska vísindafélaginu í tímariti þeirra "Philosophical Transactions" en grein þar sem hann lýsti fyrstur manna einfrumungum mætti almennri vantrú og orðspor hans beið hnekki þar til hann fékk uppreisn æru árið 1680 og var gerður að fullgildum félaga sama ár. 1661-1670. 1661-1670 var 7. áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Endurreist konungdæmi í Englandi. Þegar Karl 2. Englandskonungur hafði tekið við völdum og enska samveldið lagt niður tók við blómaskeið veraldlegra skemmtana og bókmennta sem er kallað Stúart-endurreisnin. Karl afturkallaði bann þingsins við leiksýningum og kom kirkjuskipan ensku biskupakirkjunnar í það horf sem ríkt hafði fyrir ensku borgarastyrjöldina. Sú bjartsýni sem fylgdi endurreisninni leiddi til almenns stuðnings við Annað stríð Hollands og Englands sem braust út um miðjan áratuginn, meðal annars vegna vaxandi áhrifa Hollendinga sem nú voru orðnir máttugra sjóveldi en Englendingar. Hollendingar báru sigur af hólmi og atburðir á borð við Lundúnabrunann og Lundúnapláguna drógu úr mætti Englendinga. Einveldið staðfest í Danmörku. Í ríki Danakonungs hófst Friðrik 3. handa við að koma á þeim stjórnarfarslegu breytingum sem hið nýsamþykkta einveldi gerði mögulegar. Erfðahyllingin í Kaupmannahöfn 1660 var endurtekin í Noregi og á Íslandi. Hæstiréttur Danmerkur var stofnaður 1661 og 1665 voru konungslögin um einveldið undirrituð af konungi. Einveldið fól meðal annars í sér að öll lén voru lögð niður og ömt tekin upp í staðin. Á Íslandi gekk þessi breyting ekki í gegn fyrr en við lát síðasta lénsherrans yfir landinu, Henriks Bjelke, árið 1683. Selárdalsmálin. Á Íslandi komu svokölluð Selárdalsmál upp á Vestfjörðum þegar Helga, kona Páls Björnssonar í Selárdal, veiktist af ókennilegum sjúkdómi í desember árið 1668. Þessi galdramál, sem stóðu til 1683, ollu meira en þriðjungi allra galdrabrenna á Íslandi. Vísindi og menning. Á þessum árum gerði enski vísindamaðurinn Robert Hooke athuganir sínar með smásjá og gaf þær út í ritinu "Micrographia" 1665. Tveimur árum síðar uppgötvaði hann að umbreyting blóðs í lungunum væri forsenda öndunar. Hann framkvæmdi margar af tilraunum sínum fyrir Konunglega breska vísindafélagið sem var stofnað 1660. 1669 gaf danski fræðimaðurinn Rasmus Bartholin út rannsóknir sínar á silfurbergi þar sem hann skýrði tvíbrot í fyrsta skipti. Sama ár uppgötvaði gullgerðarmaður frá Hamborg, Henning Brand, fosfór, fyrsta nýja frumefnið sem hafði uppgötvast frá því í fornöld. Á Íslandi ritaði Jón Ólafsson Indíafari hina þekktu ferðabók sína í upphafi áratugarins, og árið 1666 var eitt þekktasta íslenska bókmenntaverk 17. aldar, "Passíusálmarnir", eftir Hallgrím Pétursson, gefið út á Hólum. 1651-1660. 1651-1660 var sjötti áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Enska samveldið. Síðustu stórorrustu Ensku borgarastyrjaldarinnar lauk með ósigri konungssinna og Karls 2. árið 1651. Enska þingið ríkti yfir Enska samveldinu en þar gætti vaxandi einveldistilburða Olivers Cromwell sem gerðist einvaldur í reynd árið 1654. 1658 lést hann og sonur hans tók við en hann sagði af sér árið eftir. 1660 var konungdæmið svo endurreist þegar Karl 2. kom til London. Eitt af hans fyrstu verkum var að láta lífláta alla þá sem undirrituðu dauðadóminn yfir föður hans. Syndaflóðið í Póllandi. Kmelnitskíjuppreisnin gaf Rússum átyllu til að ráðast á Pólsk-litháíska samveldið 1654. Árið eftir réðist Karl 10. Gústaf Svíakonungur einnig inn í Lífland og hélt svo áfram inn í landið og lagði undir sig Varsjá og Kraká. Hann lenti þó fljótt í vandræðum og hélt með leifar liðs síns í herför til Danmerkur. Pólverjum tókst á endanum að sigra einnig Rússa og bandamenn þeirra, Prússa og Transylvana, en það sem áður var stærsta Evrópuríkið var illa statt eftir styrjaldirnar. Rússar gerðu áfram tilkall til Úkraínu og Prússar fengu aukið sjálfstæði. Þetta tímabil er kallað Syndaflóðið í Póllandi eða Sænska syndaflóðið í sögu Póllands. Karls Gústafsstríðið. Ófarir Karls 10. í Póllandi gáfu Friðriki 3. ástæðu til að ætla að hann gæti endurheimt þau lönd sem Svíar höfðu haft af Dönum 1645. Hann réðist því inn í Skán. Karl 10. Gústaf tók þessu hins vegar sem kærkomnu tækifæri til að losa sig úr vonlausri stöðu í Póllandi. Hann réðist inn í Danmörku með her sinn og lagði Jótland fljótlega undir sig veturinn 1657. Óvenjumikið frost olli því að Litlabelti og Stórabelti frusu og sænski herinn gat því vandkvæðalaust komist með allan sinn farangur yfir á Sjáland í janúar 1658. Friðrik neyddist til að gefast upp og undirrita Hróarskeldufriðinn. Karl virti þó ekki samkomulagið og réðist aftur inn í Danmörku síðar sama ár. Dönum tókst þá, með hjálp Hollendinga, að hrinda áhlaupi Svía á Kaupmannahöfn og taka hersveitir þeirra höndum á Sjálandi. Þrændalög, sem Svíar höfðu fengið við samningana í Hróarskeldu, gerðu uppreisn og hröktu Svíana burt. Árið eftir neyddist Karl til að draga her sinn til baka. Niðurstaðan var því sú að Svíar héldu Skáni, en fengu engin ný lönd. Galdrafárið á Íslandi. Árið 1654 hófst brennuöld á Íslandi þegar þrír menn voru brenndir á báli fyrir galdur í Trékyllisvík á Ströndum. Tveimur árum síðar hófst Kirkjubólsmálið í Skutulsfirði sem leiddi til brennu tveggja manna vegna kæru Jóns Magnússonar þumlungs sem samdi "Píslarsögu" sína tveimur árum síðar sér til varnar. 1641-1650. 1641-1650 var fimmti áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Á þessum áratug áttu sér stað breytingar sem höfðu mikil áhrif á stjórnmál heimsins allt fram á 20. öld: Í Kína tók Kingveldið yfir miðstjórnarvaldið sem það hélt til 1912; Enska borgarastyrjöldin hefur verið kölluð fyrsta borgaralega byltingin; og Vestfalíufriðurinn 1648 varð ein af grunnstoðum þjóðríkja 19. aldar með því að festa í sessi hugmyndina um alþjóðasamskipti milli formlega jafngildra fullvalda ríkja og mikilvægi valdajafnvægis í Evrópu. Atburðir og aldarfar. Loðvík 14. og bróðir hans, hertoginn af Orléans á málverki frá miðjum 5. áratugnum. Þrjátíu ára stríðið. Bardagar héldu áfram í Þrjátíu ára stríðinu, einkum milli keisarahers hins Heilaga rómverska ríkis annars vegar og herja Svía og Frakka hins vegar. Mörg héruð Þýskalands voru orðin að auðn eftir áratugalangar herfarir, sjúkdóma og hungursneyð. Friðarsamningar voru loks undirritaðir í Vestfalíu árið 1648. Enska borgarastyrjöldin. Einveldistilburðir Karls 1. Englandskonungs leiddu til upphafs Ensku borgarastyrjaldarinnar árið 1642. Bardagar stóðu allan áratuginn og lyktaði með því að Karl var hálshöggvinn árið 1649. Við það lýsti sonur hans, Karl 2., sig konung og reyndi innrás sem mistókst. Hann var ekki viðurkenndur sem Englandskonungur fyrr en árið 1660. Í borgarastyrjöldinni kom enska þingið sér upp atvinnuher, "New Model Army", þar sem kjarninn var róttækir mótmælendur. Herinn varð fljótt pólitískt afl sem átti þátt í því að riddaraliðsforinginn Oliver Cromwell komst til valda. Dansk-norska ríkið. Dansk-norska ríkið upplifði stutt velmegunarskeið eftir að Kristján 4. dró sig út úr Þrjátíu ára stríðinu með samningi við keisarann 1629, en Torstensonófriðurinn 1643 var sá fyrsti í röð hernaðarósigra fyrir Svíþjóð sem á endanum leiddu til þess að Danmörk missti öll lönd sín austan megin Eyrarsunds. Kristján lést sama ár og Þrjátíu ára stríðinu lauk eftir sextíu ára valdatíma. Á Íslandi voru biskuparnir Þorlákur Skúlason á Hólum og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti áberandi í handritasöfnun í anda fornmenntastefnunnar. Brynjólfur sendi Kristjáni 4. Konungsbók Eddukvæða, eitt frægasta Eddukvæðahandritið, sem gjöf árið 1643. Kína. Síðasta keisaraveldi hankínverja, Mingveldið, missti miðstjórnarvaldið í Kína þegar mansjúmenn lögðu Peking undir sig og stofnuðu Kingveldið árið 1644. Landkönnun. Könnun Kyrrahafsins hélt áfram og hollenski skipstjórinn Abel Tasman kannaði Nýja-Sjáland og Tasmaníu og norðurströnd Ástralíu í tveimur leiðöngrum frá Austur-Indíum 1642-1643 og 1644. 1631-1640. 1631-1640 var fjórði áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Í Evrópu einkenndist áratugurinn öðru fremur af ófriði. Svíar tóku þátt í Þrjátíu ára stríðinu og náðu miklum árangri til að byrja með, auk þess að tryggja beina þátttöku Frakka í stríðinu gegn keisaranum. Í Skotlandi urðu deilur um bænabók til þess að Karl Englandskonungur beið ósigur fyrir Sáttmálamönnum í Biskupastríðunum og neyddist til að kalla enska þingið saman sem aftur leiddi til Ensku borgarastyrjaldarinnar. Helstu atburðir og aldarfar. a>styttur sem kristnir uppreisnarmenn í Shimabara-uppreisninni í Japan (1637-1638) hjuggu höfuðin af. Þrjátíu ára stríðið. Eftir nær samfellda sigurgöngu í Þrjátíu ára stríðinu fyrstu tvö árin misstu Svíar konung sinn Gústaf 2. Adolf í orrustunni við Lützen 1632. Ríkiskanslarinn Axel Oxenstierna tók þá við stjórnartaumunum fyrir hönd hinnar barnungu Kristínar drottningar, hélt sjálfur til Þýskalands og sá til þess að sænski herinn hélt herförum sínum þar áfram. Herstjóri keisarans, Albrecht von Wallenstein var myrtur 1634 vegna gruns um að hann ætti í friðarviðræðum við Svía. Í orrustunni við Nördlingen 1634 biðu Svíar sinn fyrsta afgerandi ósigur gegn keisarahernum en Oxenstierna samdi þá við Frakka um enn frekari stríðsstyrk og tryggði beina þátttöku þeirra í stríðinu, en fram að því höfðu þeir látið sér nægja að fjármagna það. Einangrun Japans. Í Japan hófst einhliða einangrun Japans fyrir alvöru árið 1636 með því að sjóguninn bannaði allar ferðir Japana til og frá landinu að viðlagðri dauðarefsingu. Skipulegar ofsóknir gegn kristnum Japönum höfðu hafist í upphafi áratugarins. Shimabara-uppreisnin var uppreisn kristinna bænda gegn herstjóraveldinu. Hún var barin niður 1638 þegar hersveitir herstjórans tóku Harakastala á Shimabara. Um 37 þúsund uppreisnarmenn voru hálshöggnir og kristin trú bönnuð með öllu í landinu. Biskupastríðin í Skotlandi. Karl 1. Englandskonungur hélt áfram einveldistilburðum sínum og ríkti án enska þingsins. Tilraun hans til að koma á nýrri bænabók í Skotlandi varð til þess að upp úr sauð og Skotar hófu Biskupastríðin gegn konungi. Á endanum neyddist Karl til að boða nýtt þing 1640 til þess að semja við Skota um friðarskilmála. Þetta sama þing átti síðar eftir að steypa Karli af stóli og taka hann af lífi. Verslunarstaðir, nýlendur og landkönnun. Hollendingar áttu sitt mesta útþensluskeið í Austur-Indíum þar sem þeir reistu bækistöðvar og hröktu Portúgali frá verslunarstöðum. Konungssamband Portúgals og Spánar leið svo undir lok 1640 þegar Jóhann 4. var hylltur sem konungur Portúgals. Uppihald hins vel þjálfaða spænska atvinnuhers og stríðið við Frakkland var orðið íþyngjandi fyrir héruð undir stjórn Spánar sem leiddi til Sláttumannaófriðarins 1640. Englendingar héldu áfram að stofna nýlendur á austurströnd Norður-Ameríku. Þessar nýlendur efldust og voru í stakk búnar til að verjast árásum indíána sem reyndu að reka Evrópubúana af höndum sér. Rússneskir kósakkar í þjónustu Mikaels Rómanovs náðu til Kyrrahafsins í fyrsta skipti við Okotsk. Það var mikilvægur áfangi í því að leggja Síberíu undir keisarann. Íslendingar snúa heim úr Barbaríinu. Um miðjan áratuginn voru 35 Íslendingar sem teknir höfðu verið í Tyrkjaráninu keyptir lausir úr Barbaríinu. 27 sneru heim með skipi um vorið 1637, þeirra á meðal Guðríður Símonardóttir sem strax hóf búskap með Hallgrími Péturssyni á Suðurnesjum. Vísindasaga. 1633 var Galileo Galilei neyddur til þess að draga stuðning sinn við sólmiðjukenningu Kópernikusar opinberlega til baka frammi fyrir rómverska rannsóknarréttinum. Til merkis um aukinn áhuga á fornsögum Norðurlanda var fyrsta prentaða útgáfa "Heimskringlu" (í norskri þýðingu) gefin út í Kaupmannahöfn árið 1633. Hið byltingarkennda rit "Orðræða um aðferð" eftir René Descartes kom út 1637 þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um hnitakerfi og setninguna frægu „cogito ergo sum“. Sama ár skrifaði Pierre de Fermat athugasemd á spássíu þar sem hann sagðist hafa sönnun fyrir því sem síðar var kallað síðasta setning Fermats. 1621-1630. 1621-1630 var þriðji áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu. Atburðir og aldarfar. Titilsíða bókar Ólafs Egilssonar um Tyrkjaránið 1627. Þrjátíu ára stríðið. Eftir sigur í orrustunni við Hvítafjall virtust Habsborgarar ósigrandi í Þrjátíu ára stríðinu. Hersveitir Spánarkonungs sóttu fram í Niðurlöndum og þegar Kristján 4. Danakonungur hugðist láta til sín taka fyrir hönd mótmælenda var hann gjörsigraður af hersveitum keisarans undir stjórn Tillys og Wallensteins og hrökklaðist yfir á Sjáland við illan leik. Keisaraherinn rak flóttann og rændi og ruplaði á Jótlandi. Við lok áratugarins stigu svo Svíar fram á völlinn með vel þjálfaðan her sem sneri stríðsgæfunni mótmælendum í vil. Uppreisn húgenotta í Frakklandi. Þau réttindi sem franskir húgenottar höfðu fengið með Nantes-tilskipuninni í valdatíð Hinriks 4. urðu óðum að engu í stjórnartíð Loðvíks 13. sem gerði hvað hann gat til að draga úr áhrifum tilskipunarinnar. Þetta leiddi til uppreisnar undir stjórn hertogans Henri Rohan. Loðvík hélt gegn uppreisnarmönnum í Suður-Frakklandi. Her hans mistókst að vinna virki húgenotta í Montauban 1621 og Montpellier 1622. Þessum átökum lauk með friðarsamkomulagi. 1624 varð Richelieu kardináli nýtt æðstaráð konungs. Uppreisn húgenotta hófst aftur 1625 og Richelieu gerði það að forgangsverkefni að ráða niðurlögum hennar. Hann leiddi umsátur um hafnarborgina La Rochelle 1627-1628 sem lyktaði með ósigri húgenotta þrátt fyrir aðstoð frá Englandi. 1629 vann kardinálinn síðan Montauban. Síðar það ár lauk uppreisninni með friðarsamkomulagi þar sem trúarleg réttindi húgenotta voru viðurkennd en pólitísk réttindi þeirra afnumin. Borgarastyrjöld í Víetnam. Í Víetnam ríkti Trịnh-ættin í nafni valdalauss keisara, eftir að hafa haft sigur í baráttunni við Mạc-ættina á 16. öld. Bandamenn þeirra, Nguyên-ættin, hafði þá fengið suðurhluta landsins í sinn hlut sem lén og gerðist nú æ sjálfstæðari gagnvart hirð Trịnh-lávarðanna í norðri, meðal annars vegna viðskipta við kaupmenn frá Portúgal. 1620 neitaði Nguyễn Phúc Nguyên að greiða skatta til hirðarinnar í Hanoi. Borgarastyrjöld braust síðan út árið 1627 þegar Trịnh Trang sendi herlið gegn Nguyên. Þrátt fyrir fjölmennt herlið tókst honum ekki að leggja suðurhlutann undir sig bæði vegna landfræðilegra hindrana og tengsla Nguyên-furstanna við erlenda kaupmenn sem gerðu þeim kleift að koma sér upp öflugu stórskotaliði. Borgarastyrjöldin stóð til 1673 þegar fylkingarnar sættust á landamæri milli sín. Sú skipting landsins var í gildi í hundrað ár eftir það. Tilraun til einveldis í Englandi. Í Englandi var grunnurinn lagður að Ensku borgarastyrjöldinni þegar Karl 1. tók við af föður sínum, Jakobi 1. Karl ætlaðist til konungshollustu af þinginu og áleit sig hafa sjálfstætt vald, líkt og faðir hans hafði gert. Hann hafði líka áhuga á að láta til sín taka í styrjöldunum á meginlandinu en enska þingið stóð í vegi fyrir þeim fyrirætlunum. Hann leysti þá upp þingið en neyddist til að kalla það saman aftur og skrifa undir réttindaskjal, því ella hefði hann ekki getað innheimt skatt. Landnám í Nýja heiminum. Sókn evrópskra landnema til Nýja heimsins hélt áfram, stöðugt fjölgaði í þeim nýlendum sem fyrir voru og nýjar nýlendur voru stofnaðar, eins og Portsmouth (New Hampshire), Salem, Nýja Amsterdam, Barbados og Sankti Kristófer og Nevis. Alkonkvínar reyndu að losa sig við þær nýlendur sem reistar höfðu verið í Virginíu með því að ráðast á Jamestown, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Sjórán. Hollenskir og enskir sjóræningjar höfðu sig mikið í frammi gegn spænskum og portúgölskum skipum og nýlendum. Á Íslandi bar það við 1627 að herskip frá Barbaríinu, undir stjórn hollensks ræningjaforingja, drápu og rændu fólki í Grindavík og Vestmannaeyjum sem þeir seldu síðan í þrældóm í Algeirsborg. Ræningjaforinginn, Murat Reis (Jan Janszoon frá Haarlem) var áður skipstjóri á hollensku ræningjaskipi sem sjóræningjar frá Barbaríinu náðu á sitt vald árið 1618. Hann kaus að snúast til Íslam í Algeirsborg. 1619 hóf hann að gera út frá sjóræningjalýðveldinu Salé á Atlantshafsströnd Marokkó sem heyrði undir konung Marokkó að nafninu til. Fjórum árum eftir ránið í Vestmannaeyjum endurtók Janszoon leikinn í þorpinu Baltimore á Írlandi. Ráðamenn. a> átján ára gömlum árið 1623. 1611-1620. 1611-1620 var annar áratugur 17. aldar sem er hluti af árnýöld í sögu Evrópu. Á þessum áratug efldust margar evrópsku nýlendurnar í Norður-Ameríku og breyttust úr hokurbýlum í blómlegar byggðir. Á sama tíma hófst hið langvinna og mannskæða Þrjátíu ára stríð í Evrópu sem jók enn á aðdráttarafl nýlendnanna. Japan hóf að loka fyrir aðgang útlendinga að landinu og á Íslandi var einokunarverslun fest í sessi með upptöku samræmds verslunartaxta fyrir allt landið. Lok Sengokutímabilsins í sögu Japans. Eftir sigur Tokugawa-ættarinnar í japönsku borgarastyrjöldinni sem markar endalok Sengokutímabilsins árið 1615 ákvað herstjórinn Tokugawa Hidetada að loka fyrir aðgang útlendinga að Japan nema í tveimur höfnum. Uppreisn Mansjúmanna í Kína. Í Kína gerðu Mansjúmenn uppreisn gegn Mingveldinu og stofnuðu Seinna Jinveldið sem þeir töldu vera beint framhald af hinu mongólska Júanveldi. Upphaf stórveldistíma Svíþjóðar. Svíþjóð átti í styrjöldum við Pólsk-litháíska samveldið og Rússland um landsvæði við Eystrasalt og eftir fremur brösulega byrjun lyktaði þeim með umtalsverðum landvinningum Svía undir stjórn nýs konungs, Gústafs 2. Þrjátíu ára stríðið hefst. Þrjátíu ára stríðið hófst árið 1618 með því að stéttaþingin í Bæheimi neituðu að kjósa hinn óbilgjarna kaþólikka Ferdinand sem konung yfir sig og völdu þess í stað Friðrik 5. kjörfursta í Pfalz sem var kalvínisti. Uppreisnin í Bæheimi var barin niður af her keisarans og furstans af Bæjaralandi en ófriðurinn breiddist út enda snerist hann öðrum þræði um uppgjör milli mótmælendatrúar og kaþólskrar trúar í Evrópu og eins um völd Habsborgara á meginlandinu. Vöxtur evrópskra nýlendna í Norður-Ameríku. Eftir mjög erfiða byrjun tók nýlendum Frakka og Englendinga í Nýja heiminum að vegna vel og efnahagslegur grundvöllur þeirra var lagður með útflutningi tóbaks frá Virginíu og skinnaútflutningi frá Québecborg. Árið 1620 kom svo skipið "Mayflower" með hóp pílagríma sem stofnuðu Plymouth-nýlenduna fyrir innan Þorskhöfða í núverandi Massachusetts. Upphaf nornaveiða í Norður-Evrópu. Skipulegar nornaveiðar hófust í löndum mótmælenda og í Danmörku gaf Kristján 4. út konungsbréfið „Um töframál“ sem kvað á um að allur galdur (bæði svartigaldur og hvítigaldur) skyldi refsiverður. Bréfið var ekki lögtekið á Íslandi fyrr en mörgum árum síðar. Einokunarverslun og hvalveiðar Baska við Ísland. Á Íslandi var einkaleyfi til verslunar tekið af kaupmönnum í Málmey, Kaupmannahöfn og Helsingjaeyri árið 1619 eftir að í ljós kom að þeir voru í reynd aðeins leppar Hamborgarkaupmanna sem einokuninni var stefnt gegn. Fyrsta íslenska verslunarfélagið í Kaupmannahöfn fékk þá einkaleyfið og tók upp samræmdan verslunartaxta fyrir allt landið. Það hélt síðan Íslandsversluninni til 1662. Í Vestmannaeyjum hertóku enskir „reyfarar“ danskt kaupskip og fóru ránshendi um eyjarnar í viku sumarið 1614. Baskneskir hvalveiðimenn hófu að sækja til Íslands vegna minnkandi veiða á Nýfundnalandi. Þeir veiddu í Húnaflóa og áttu vinsamleg viðskipti við Strandamenn, samkvæmt Jóni lærða sem þá bjó á Ströndum og segir þá hafa komið þangað fyrst árið 1613. Eftir óvenjuharðan vetur árið 1615 þar sem hafís gekk meðal annars upp að Suðurnesjum brutu baskarnir skip sín í flóanum í óveðri um haustið og héldu þá á bátum vestur yfir Hornstrandir til að freista þess að komast á haffært skip. Hópur þeirra var drepinn í Æðey á Ísafjarðardjúpi í Spánverjavígunum. Ráðamenn. Abbas mikli og hirð hans um 1611. Kristján 4. á málverki frá 1611-1616. Færeyjar. Færeyjar eru klasi 18 eyja í Atlantshafinu á milli Skotlands og Íslands. Þær eru allar í byggð nema tvær, Koltur og Lítla Dímun, en mjög fámennt er á sumum þeirra. Nafnið þýðir fjáreyjar og eru þær kenndar við sauðfé. Þær byggðust á svipuðum tíma og Ísland og með sama hætti, þar eð norskir víkingar og sæfarar settust þar að, auk fólks frá Skotlandi og Írlandi, sem margt var af norrænum stofni. Höfuðstaður Færeyja er Þórshöfn á Straumey en í sveitarfélaginu eru alls um 20 þúsund íbúar. Heildaríbúafjöldi eyjanna er um 48.500 (árið 2011). Færeyjar tilheyra Danmörku og njóta umtalsverðra fjárstyrkja þaðan en Færeyingar hafa haft sjálfstjórn frá 1948. Æðsti maður færeysku stjórnarinnar er titlaður lögmaður. Þjóðþing Færeyinga er kallað Lögtingið og er með aðsetur í Þórshöfn en þar sitja 33 þingmenn. Færeyingar eiga jafnframt 2 kjörna fulltrúa á Folketinget, þjóðþingi Dana. Sjálfstæðisbarátta Færeyinga hefur verið eitt helsta deilumálið í Færeyjum frá fyrri hluta 20. aldarinnar en þjóðin virðist ávallt skiptast nokkuð jafnt í þá sem vilja sjálfstæði og þá sem vilja áfram tilheyra Danmörku. Aðalatvinnuvegir Færeyinga eru fiskveiðar og fiskvinnsla. Miklar olíulindir er að finna undir hafsbotni á milli Færeyja og Bretlands og binda Færeyingar vonir við að hægt verði að vinna umtalsvert magn af olíu þar. Margir Færeyingar fóru til Íslands og unnu á vertíð upp úr miðri 20. öld og settust sumir þeirra að á Íslandi og hafa gerst íslenskir borgarar. Einnig hafa allnokkrir Íslendingar sest að í Færeyjum. Þjóðirnar eru náskyldar, svo og tungumálin færeyska og íslenska. Saga. Talið er að einsetumenn og munkar frá Skotlandi eða Írlandi hafi sest að í Færeyjum á 6. öld og líklega flutt þangað með sér sauðfé og geitur. Norrænir menn komu svo til eyjanna um 800 og settust einhverjir þeirra þar að en samkvæmt því sem segir í Færeyinga sögu fullbyggðust eyjarnar seint á 9. öld þegar norskir menn hröktust þangað undan Haraldi hárfagra. Fyrsti landnámsmaður Færeyja var að sögn Grímur kamban. Hann á að hafa búið í Funningi á Eysturoy. Viðurnefnið er keltneskt og bendir til tengsla við Bretlandseyjar. Færeyjar á fyrri öldum. Í Færeyinga sögu segir svo frá kristnitöku í Færeyjum að Sigmundur Brestisson hafi hrakist þaðan undan óvinum sínum til Noregs í lok 10. aldar. Þar tók hann kristna trú og var falið af Ólafi konungi Tryggvasyni að kristna Færeyinga, sem hann og gerði, en helsti andstæðingur hans var Þrándur í Götu og féll Sigmundur fyrir honum. Þrándur var leiðtogi Færeyinga næstu áratugina en hann dó um 1035 og þá varð Leifur Össurarson helsti höfðingi Færeyinga og gerðist lénsmaður Noregskonungs. Hefur verið miðaði við að víkingaöldinni í Færeyjum hafi lokið það ár og eyjarnar komist undir yfirráð Noregskonungs. Hélst sú skipan til 1380, þegar Noregur komst undir Danmörku í Kalmarsambandinu. Alla tíð síðan hafa Færeyjar verið undir danskri stjórn. Árið 1274 varð lögmaðurinn konunglegur embættismaður en hafði áður verið valinn af landsmönnum á þingi. Biskupssetur var stofnað í Færeyjum, líklega um eða upp úr 1100, því vitað er að Ormur, sem var biskup eyjanna 1139, var sá fjórði í röðinni og líklega sá fyrsti sem sat í Kirkjubæ. Erlendur var biskup Færeyja 1269-1308 og í hans tíð var Sauðabréfið skrifað, elsta skjal sem varðveitt er frá Færeyjum. Hann hóf líka byggingu Magnúsarkirkjunnar í Kirkjubæ. Annars er fremur fátt vitað um biskupana í kaþólskri tíð. Siðaskipti urðu á eyjunum 1538 og biskupinn sem þá tók við varð eini lútherski Færeyjabiskupinn, embættið var lagt niður og eyjarnar lögðust fyrst undir biskupinn í Björgvin og frá 1620 undir Sjálandsbiskup. Embætti Færeyjabiskups komst ekki á að nýju fyrr en 1963. Sjóræningjar frá Alsír, líklega þeir sömu og rændu á Íslandi, frömdu Tyrkjarán í Hvalba 1629, drápu sex og rændu yfir þrjátíu konum og börnum og seldu í þrældóm. Ensk, hollensk og þýsk skip gerðu iðulega strandhögg á eyjunum en Magnús Heinason barðist gegn þeim af miklu kappi um 1580 og eftir það varð mun friðvænlegra. Verslunin fluttist svo frá Björgvin til Kaupmannahafnar snemma á 17. öld. Árið 1655 hófst tímabil það sem nefnt hefur verið Gablatíðin, þegar Daninn Christoffer Gabel fékk Færeyjar að léni, og er það almennt talið erfiðasti tíminn í sögu Færeyja. Einn helsti andstæðingur hans var presturinn Lucas Debes, sem leiddi sendinefnd sem hélt til Kaupmannahafnar 1673 til að kvarta yfir Gabel, sem lést sama ár. Sonur hans tók þó við og Gablatíðin er talin standa til 1709. Þjóðernisvakning. Þegar Danir misstu yfirráð yfir Noregi í friðarsamningunum í Kiel 1814 héldu þeir Færeyjum, Grænlandi og Íslandi áfram þótt þessi lönd hefðu heyrt undir Noregskonung. Árið 1816 ákvað danska stjórnin að leggja niður færeyska lögþingið og embætti lögmanns og gera eyjarnar að amti í Danmörku. Á svipuðum tíma hófst þó barátta fyrir framförum í Færeyjum og var skáldið, bóndinn og skipasmiðurinn Nólseyjar-Páll þar í fararbrjósti. Hann barðist gegn einokunarversluninni, sem lengi hafði verið í Færeyjum, smíðaði sér sjálfur skip og sigldi á því til Danmerkur og Englands og keypti varning í trássi við yfirvöld. Páll, sem er ein helsta þjóðhetja Færeyinga, fórst á heimleið frá Englandi veturinn 1808/1809. Einokunarverslunin var loks afnumin 1856 og lögþingið var endurreist 1852. Þjóðernisvakning hófst 1888 með stofnun Føroyingafelagsins og snerist upphaflega fyrst og fremst um að varðveita færeyska tungu og menningu en síðar fór hún að beinast meira að stjórnmálum og stjórnmálaflokkar urðu til. Deilan um tungumálið harðnaði þegar danska stjórnin ákvað árið 1912 að undirlagi Sambandsflokksins að kennsla í færeyskum skólum skyldi fara fram á dönsku. Því var þó breytt aftur árið 1938. Einn helsti leiðtogi þjóðernisvakningarinnar var kóngsbóndinn Jóannes Patursson. Heimastjórn. Bretar hernámu Færeyjar 12. apríl 1940 og stóð hernámið til stríðsloka. Efnahagur Færeyinga batnaði mjög í stríðinu vegna fisksölu til Bretlands og þeir sigldu undir eigin fána, sem þeir höfðu ekki getað áður. Þegar stríðinu lauk tóku Danir aftur við en sjálfstæðishreyfingunni hafði vaxið fiskur um hrygg. Færeyingar gátu hins vegar ekki komið sér saman um hvað þeir vildu sjálfir. Árið 1946 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem Færeyingar kusu um framtíðarfyrirkomulag sambandsins við Danmörku. Þeir samþykktu með mjög naumum meirihluta að lýsa yfir sjálfstæði en danska stjórnin hafnaði því og boðaði til kosninga þar sem andstæðingar sjálfstæðisyfirlýsingar náðu meirihluta svo að ekkert var gert með hana. Í kjölfarið fengu Færeyingar þó heimastjórn 1948 og yfirráð yfir eigin málum að flestu leyti, en danska stjórnarskráin frá 1953 hefur aldrei verið samþykkt í Færeyjum og í henni er raunar hvergi minnst á eyjarnar. Þegar Danir gengu í Evrópusambandið 1973 ákváðu Færeyingar að standa fyrir utan það. Alvarleg efnahagskreppa var í Færeyjum upp úr 1990 eftir mikinn uppgang á níunda áratugnum og um 15% Færeyinga fluttu úr landi en eyjarnar náðu þó að rétta úr kútnum. Stuðningur við sjálfstæði hefur farið vaxandi í Færeyjum á síðari árum og meirihluti Dana vill losna úr ríkjasambandinu en mörg mál eru þó óleyst og Færeyjar fá enn töluverðan fjárstuðning frá Danmörku og margir Færeyingar telja ríkjasambandið nauðsynlega tryggingu vegna þess hve einhæft atvinnulíf eyjanna er. Þjóð og tunga. V.U. Hammershaimb mótaði færeyska ritmálið. Færeyingar eru af norrænum uppruna, líkt og Íslendingar. Talið er að landnámsmenn í Færeyjum hafi ýmist komið beint frá Noregi og öðrum Norðurlöndum eða úr byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum. Færeyingar hafa ekki sjálfstæðan ríkisborgararétt, heldur eru þeir danskir ríkisborgarar. Fólk af færeyskum uppruna, búsett í Danmörku, er þó sérstaklega skráð hjá dönsku hagstofunni og samkvæmt upplýsingum hennar bjuggu 22.549 einstaklingar af færeyskum uppruna (fæddir í Færeyjum eða eiga foreldri eða afa eða ömmu fædda í Færeyjum) í Danmörku árið 2006, en það ár voru íbúar Færeyja 48.219. Þann 1. febrúar 2011 voru þeir orðnir 48.565. Tungumál. Færeyska er tungumál sem hefur þróast úr fornnorrænu og er náskylt íslensku en hefur þó orðið fyrir mun meiri áhrifum frá dönsku. Færeyska ritmálið var mótað af prestinum Venceslaus Ulricus Hammershaimb, sem var góðvinur Jóns Sigurðssonar og varð fyrir áhrifum af honum. Hann gaf út fyrstu færeysku málfræðibókina árið 1854 og samdi stafsetningarreglur. Christian Matras, kunnur færeyskur fræðimaður og prófessor í málvísindum við Kaupmannahafnarháskóla, samdi fyrstu færeysk-dönsku orðabókina ásamt Mads Andreas Jacobsen og kom hún út 1927-1928. Matras varð síðar fyrsti forstöðumaður Fróðskaparseturs Føroya. Christian Matras vann að útgáfu ýmissa færeyskra handrita, meðal annars mikils safns á færeyskum danskvæðum. Hann átti mikinn þátt í að móta færeyskt nútímaritmál. Árið 1998 kom út stór orðabók, "Føroysk orðabók", og var aðalritstjóri hennar Jóhan Hendrik W. Poulsen, en bókin var unnin á Fróðskaparsetrinu og byggðist að hluta á seðlasöfnum frá Christian Matras og fleirum. Menntun. Í færeyskum grunnskólum hefur verið kennt á færeysku frá 1938 en einnig fá nemendur kennslu í dönsku og ensku. Vísir að framhaldsskóla kom þegar árið 1937 en það var ekki fyrr en 1964 sem fyrsti framhaldsskólinn, Føroya Studentaskúli, var settur á laggirnar í Hoyvík. Í Þórshöfn er Føroya Handilsskúli, tækniskóli og sjómanna- og vélskóli. Þar er einnig Fróðskaparsetur Føroya, sem var stofnað 20. maí 1960 og er eini skólinn á háskólastigi. Mjög margir Færeyingar fara þó til framhaldsnáms í Danmörku og öðrum löndum. Dansar og kvæði. Eftir siðaskiptin í Færeyjum var færeyskri tungu í raun úthýst úr kirkjunni, menningu og stjórnsýslu eyjanna og færeyskt ritmál var ekki mótað fyrr en um miðja 19. öld. Menningararfurinn varðveittist því fyrst og fremst í munnlegri geymd um 300 ára skeið, bæði sem sögur, ævintýri og ekki síst dansar og kvæði. Sum þessara kvæða eru um fornkappa, stundum íslenska, önnur um riddara og rómantík og sum eru skopkvæði um færeyska almúgamenn. Þessi kvæði hafa verið gefin út í stórum kvæðasöfnum. Færeyingar sungu þjóðkvæði sín við forn vikivakalög og dönsuðu dansa sem áttu rætur að rekja til miðalda. Svipaðir dansar tíðkuðust á Íslandi á fyrri öldum en hurfu á 17. og 18. öld þótt mörg danskvæði hafi varðveist niðurskrifuð. Færeyingar hafa aftur á móti haldið dans- og kvæðamenningu sinni til dagsins í dag og stíga enn forna dansa, til dæmis á þjóðhátíðardeginum Ólafsvöku. Færeyski dansinn er hringdans eða keðjudans og geta danskvæðin verið allt frá fáeinum erindum upp í mörg hundruð. Oftast er einn forsöngvari sem syngur kvæðið en svo taka allir undir í viðlaginu, sem er sungið eftir hverja vísu. Færeyski þjóðbúningurinn er svipaður þeim íslenska en þó litríkari. Fólk klæðist honum meðal annars á Ólafsvöku þegar það dansar en það er þó alls ekkert skilyrði að vera í búningi. Færeyskar bókmenntir. Færeyingar eiga engin nafnkennd skáld eða rithöfunda frá fyrri öldum en þjóðhetjan Nólseyjar-Páll var vinsælt skáld um aldamótin 1800. Eftir að færeyskt ritmál varð til komu ýmis skáld og rithöfundar fram á sjónarsviðið en þekktustu höfundar Færeyja voru allir fæddir um aldamótin 1900, þeir William Heinesen, sem fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1964 fyrir skáldsöguna "Det gode håb" (Vonin blíð) en skrifaði reyndar aðallega á dönsku, Hedin Brú, en Færeyingar völdu sjálfir skáldsögu hans "Feðgar á ferð" sem bók 20. aldarinnar í Færeyjum, og Jørgen-Frantz Jacobsen, en skáldsaga hans "Barbara", sem skrifuð var á dönsku og kom út 1939, ári eftir lát höfundarins, var þýdd á fjölda tungumála og hefur náð mestri útbreiðslu allra bóka eftir færeyskan höfund. Af yngri höfundum er Rói Patursson þekktastur, en hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir ljóðasafnið "Líkasum". Fjölmiðlar. Elsta færeyska blaðið er "Dimmalætting", sem fyrst kom út 1878 og kemur nú út fimm daga í viku eins og helsti keppinauturinn, "Sosialurin", sem hefur komið út frá 1927. Dimmalætting var áður flokksblað Sambandsflokksins og Sosialurinn fylgdi Jafnaðarflokknum en bæði teljast nú óháð. Fleiri flokksblöð komu út í Færeyjum áður en lögðu upp laupana í kreppunni upp úr 1990. "Norðlýsið" er gefið út í Klakksvík og ætlað íbúum Norðeyjanna. Nokkur tímarit koma einnig út. Útvarp Føroya hóf útsendingar 1957 og síðan hafa bæst við Rás 2 og kristilega útvarpsstöðin Lindin. Sjónvarp Føroya hóf útsendingar 1984 og urðu Færeyjar þar með síðasta landið í Evrópu til að fá eigin sjónvarpsstöð. Sjónvarp Føroya og Útvarp Føroya sameinuðust árið 2005 í eitt fyrirtæki, Kringvarp Føroya. Trúarlíf. Færeyingar þykja trúræknir; um 83% Færeyinga tilheyra evangelísk-lúthersku þjóðkirkjunni og flestir aðrir öðrum kristnum söfnuðum. Árið 1948 var Biblían gefin út á færeysku í fyrsta sinn og hafði hún verið þýdd á færeysku úr ýmsum nútímatungumálum. Jacob Dahl og Kristian Osvald Viderø luku við nýja þýðingu úr hebresku og grísku árið 1961. Embætti Færeyjabiskups var aflagt skömmu eftir siðaskipti og eftir það var stiftsprófastur æðsti maður kirkjunnar þar. Biskupsembættið var endurreist árið 1963 og á Ólafsvöku 2007 varð færeyska þjóðkirkjan sjálfstæð og ekki lengur undir dönsku kirkjunni. Jógvan Friðriksson var kjörinn fyrsti biskup færeysku þjóðkirkjunnar. Færeyskar matarhefðir. Frá fornu fari hefur uppistaðan í mataræði Færeyinga verið kjöt- og fiskmeti. Kartöflur bættust við á 19. öld ásamt fáeinum öðrum grænmetistegundum, einkum hvítkáli og gulrófum. Á síðustu áratugum hefur neysla á innfluttum matvælum aukist mikið en hefðbundnir færeyskir réttir eru bæði algengur hversdagsmatur og bornir fram við hátíðleg tækifæri. Lítið er þó um að þeir séu á boðstólum á færeyskum veitingastöðum. Einn þekktasti rétturinn er skerpikjöt, sem er vindþurrkað kindakjöt. Það er mjög bragðsterkt og fellur ekki að smekk allra. Það er oftast skorið hrátt í þunnar sneiðar og borðað á rúgbrauði. Kjötið er þurrkað í hjalli í 5-9 mánuði eða jafnvel í heilt ár. Mjög víða í Færeyjum má einnig sjá siginn fisk ("ræstan fisk") hanga í hjalli eða undir þakskeggi og einnig "ræst kjöt", kindakjöt sem hefur hangið í mun styttri tíma en skerpikjötið, gjarna um tvo mánuði. Kindakjöt er langalgengasta kjötið en nauta- og svínakjöt er einnig borðað, svo og kjúklingur. Eina færeyska villibráðin, fyrir utan hvali og sjófugla, eru snæhérar, sem eru veiddir fyrir jólin. "Grind og spik" er algengur færeyskur réttur, kjöt og spik af grindhvölum. Kjötið er einnig oft steikt og borið fram í brúnni sósu og kallast þá "grindabúffur". Ýmsir sjófuglar eru líka borðaðir, ýmist ferskir eða „ræstir“, og egg sjófugla eru einnig vinsæll matur. Fiskur, ferskur, siginn eða þurrkaður, er mjög algengur matur og með honum er stundum höfð "garnatálg", en það er mör úr sláturfé sem er mótaður í kúlu og síðan látinn hanga. "Knettir" eða fiskibollur eru oft á borðum. Fæstir Færeyingar kaupa fisk úti í búð, enda úrvalið lítið; þeir veiða hann sjálfir eða kaupa hann beint af sjómönnum á bryggjunni. Grindadráp. Grindhvaladráp er ekki aðeins gamall siður í Færeyjum, heldur mikilvægur þáttur í efnahagslífi margra byggða og er talið að kjötið af grindhvölunum sé um 25% alls kjöts sem neytt er á eyjunum. Um 950 grindhvalir eru veiddir árlega og eru hvalavöðurnar reknar meðbátum inn í víkur eða firði og að landi, þar sem hvalfangarar slátra þeim og síðan er fengnum skipt jafnt á milli allra þátttakenda í veiðunum. Strangar reglur gilda um hvernig staðið er að veiðunum og sýslumaður á hverjum stað fylgist með því að þeim sé fylgt. Stjórnmál og stjórnsýsla. Frá árinu 1948, þegar heimastjórnarlögin voru sett, hafa Færeyjar haft sjálfsstjórn innan konungsríkisins Danmerkur. Eyjarnar hafa eigið löggjafarþing, Lögþingið, og eigin fána, en framkvæmdavaldið er í höndum landsstjórnar undir forystu lögmanns. Nokkrir málaflokkar eru þó enn í höndum Dana, þar á meðal löggæsla og æðsta dómsvald. Frá 1. janúar 2009 hafa Færeyjar skipst í 30 sveitarfélög sem ná yfir um 120 bæi, þorp og byggðir, en áætlað er að fækka sveitarfélögunum verulega á næstu árum og þau verði á bilinu 7-15. Þórshöfn og Klakksvík eru einu þéttbýlisstaðirnir sem Færeyingar sjálfir telja til bæja. Fimm fjölmennustu þéttbýlisstaðirnir eru Þórshöfn, Klakksvík, Hoyvík, Argir og Fuglafjørður á Austurey. Bæði Hoyvík og Argir eru í raun samvaxnar við Þórshöfn. Eyjarnar skiptast einnig frá fornu fari í sjö sýslur, Norðeyjar, Austurey, Norður-Straumey, Suður-Straumey, Vága, Sandey og Suðurey, en sýslurnar eru nú á tímum fyrst og fremst löggæsluumdæmi. Fram til 2008 var hver sýsla kjördæmi fyrir sig en nú eru Færeyjar allar eitt kjördæmi. Á víkingatímanum hafði hver sýsla sitt eigið vorþing. Danska stjórnarskráin hefur verið látin gilda í Færeyjum en hefur þó aldrei verið samþykkt, hvorki í þjóðaratkvæðagreiðslu né á Lögþinginu. Nú er verið að semja stjórnarskrá handa Færeyingum. Færeyingar fylgdu Dönum ekki í Evrópusambandið en geta valið hvort þeir vilja hafa færeyskt-danskt vegabréf eða danskt ES-vegabréf. Það eru þó aðeins Færeyingar búsettir í Danmörku sem njóta fullra réttinda innan ES, burtséð frá vegabréfinu. Núverandi stjórn. Jafnaðarflokkurinn, Þjóðveldisflokkurinn og Miðflokkurinn mynduðu stjórn að kosningum loknum og var Jóannes Eidesgaard úr Jafnaðarflokknum lögmaður. Meirihlutinn var þó mjög veikur því flokkarnir höfðu aðeins 17 þingmenn og slitnaði upp úr samstarfinu strax haustið 2008. Jafnaðarflokkurinn, Fólkaflokkurinn og Sambandsflokkurinn mynduðu þá meirihluta og hafa 20 þingmenn af 33. Lögmaður var Kaj Leo Johannesen úr Sambandsflokknum. Upp úr samstarfinu slitnaði vorið 2011 og frá 6. apríl 2011 hefur minnihlutastjórn Sambandsflokksins og Jafnaðarflokksins setið undir forystu Kaj Leo Johannesen. Í stjórninni sitja nú fjórir karlar og tvær konur. Konur í færeyskum stjórnmálum. Fyrsta konan settist á lögþingið árið 1964 og þá sem varamaður en konur voru ekki kjörnar á þingið fyrr en 1978. Fyrsta konan sem tók sæti í landstjórninni var Jóngerð Purkhús árið 1985 og 1993-1994 varð Marita Petersen lögmaður Færeyja, fyrst kvenna og sú eina hingað til. Af 33 þingmönnum sem kjörnir voru á lögþingið 2008 voru sjö konur. Landhættir og loftslag. Færeyjar eru í Atlantshafi, á milli Noregs, Íslands og Skotlands, á um 62°N, 7°V. Golfstraumurinn leikur um eyjarnar og vetur eru því mildir en sumrin svöl. Meðalhiti áranna 1961-1990 var 3,4 °C í janúar en 10,3 °C í júlí. Veðurlag er mjög breytilegt á eyjunum og loftslagið er rakt og rigningasamt. Meðalúrkoma í Þórshöfn 1961-1990 var 1.284 mm. Oft er þoka í eyjunum og þar er vindasamt en mjög snjólétt. Eyjarnar eru átján talsins og eru samtals 1.396 km². Umhverfis þær eru hólmar, drangar og sker, alls 779 talsins. Svæðið sem eyjarnar liggja á er 113 kílómetrar frá norðri til suðurs og 75 kílómetrar frá austri til vesturs. Samanlögð strandlengja er 1.289 kílómetrar og á eyjunum er lengst hægt að komast til vesturs eða austurs um fimm kílómetra frá sjó. Eyjarnar eru myndaðar úr basalti og móbergi við eldgos og hafa sorfist til af jöklum á síðustu ísöld. Við það mynduðust firðir, sund og dalir. Flest fjöllin á eyjunum eru lág, að meðaltali um 300 metrar; hæstur er Slættaratindur, 882 m. Sørvágsvatn er stærsta stöðuvatn færeyja, 3,4 ferkílómetrar. Öll önnur stöðuvötn færeyja eru um eða undir 1 ferkílómetrar. Lítið er um vatnsból en það veldur þó sjaldan erfiðleikum vegna þess hve úrkoma er mikil. Aðeins 2,4% lands í Færeyjum telst ræktanlegt land. Gróður og dýralíf. Eyjarnar eru nokkuð vel grónar og er gróðurfarið að miklu leyti svipað því sem gerist á Íslandi og á norðanverðum Bretlandseyjum. Við landnám voru eyjarnar kjarri vaxnar að miklu leyti en nú er afar lítið um trjágróður, nema þar sem innflutt tré hafa verið gróðursett, og eyjarnar eru aðallega vaxnar grasi og lyngi og blómskrúð er sumstaðar mikið. Fjölskrúðugasta og mesta gróðurinn er að finna á afgirtum svæðum og klettasyllum þar sem sauðfé kemst ekki að. Engin villt spendýr voru á eyjunum þegar menn komu þangað fyrst en nú eru þar rottur og húsamýs, sem borist hafa þangað með skipum, og snæhérar, sem þangað voru fluttir frá Noregi árið 1854 og eru nú á meirihluta eyjanna. Færeyski stofninn hefur breytt um lit vegna snjóleysis á eyjunum og er nú brúnn en ekki hvítur. Rottur eru á nokkrum eyjanna og mýs á öðrum en Straumey er sú eina þar sem báðar tegundirnar eru. Að minnsta kosti tvær deilitegundir músa er að finna á eyjunum og er önnur þeirra kennd við eyjuna Mykines, enda finnst hún eingöngu þar. Á sumum eyjanna finnast engin villt spendýr. Nokkuð er um útsel við eyjarnar og hann kæpir þar sumstaðar, einkum í sjávarhellum. Ýmsar hvalategundir eru í hafinu kringum eyjarnar og er þar grindhvalurinn þekktastur. Margar fuglategundir verpa á eyjunum, bæði sjófuglar og aðrir, og má nefna lunda, álku, langvíu, teistu, stuttnefju, fýl sem er algengasti varpfugl eyjanna og súlu, sem þó verpir aðeins á Mykinesi. Tjaldurinn er þjóðarfugl eyjanna og má rekja það til "Fuglakvæðis" Nólseyjar-Páls. Eyjarnar. Allar eyjarnar eru byggðar nema ein, Lítla Dímun, enda er eyjan lítil um sig, 0,82 km² og umgirt bröttum hömrum. Á sumum hinna eyjanna eru íbúar þó fáir og hefur fækkað á síðustu áratugum. Stæsta eyjan er Straumey, 372 km². Sunnarlega á henni er höfuðstaðurinn, Þórshöfn. Þar eru um 20.000 íbúar. Eyjarnar eru taldar upp hér á eftir í stafrófsröð. Efnahagslíf og atvinnuhættir. Togarar í höfninni í Sandi á Sandey. Allt fram yfir aldamótin 1900 voru Færeyjar fyrst og fremst bændasamfélag og landbúnaður var aðalatvinnan þótt fiskveiðar og fuglatekja væru mikilvægar aukabúgreinar. Þótt búskapur sé enn stundaður á eyjunum breyttist þetta með vélbátavæðingu og síðar togaraútgerð og nútíma fiskvinnslu og nú er sjávarútvegur helsta tekjulind Færeyinga; þrátt fyrir fámennið voru þeir árið 2003 25. mesta fiskveiðiþjóð heimsins (Ísland var í 11. sæti). Um 10% Færeyinga hafa aðaltekjur sínar af fiskveiðum og fiskvinnslu. Fiskeldi er líka nokkuð öflug atvinnugrein. Sauðfjárrækt er enn stunduð í eyjunum þótt mjög hafi dregið úr mikilvægi hennar fyrir efnahaginn og flestir stunda hana aðeins sem aukabúgrein eða frístundaiðju. Hún er þó enn mikilvægur þáttur í menningu Færeyinga. Árið 2004 veiddu færeysk skip samtals 580.000 tonn af fiski, þar af um helming innan færeysku landhelginnar. Þar af var uppsjávarfiskur um 400 þúsund tonn. Fiskur er aðalútflutningsvara Færeyinga, um 98% af öllum vöruútflutningi frá eyjunum. Mest er flutt út til Bretlands og þá til Noregs, Danmerkur, Frakklands og Spánar. Færeyingar flytja aftur á móti mest inn frá Danmörku og síðan Noregi, Þýskalandi og Svíþjóð. 2,4% innflutnings til Færeyja kemur frá Íslandi (2007). Þetta þýðir að sjálfsögðu að efnahagur Færeyinga er afar háður fiskveiðum og hætta er á miklum niðursveiflum, bæði vegna aflabrests og verðbreytinga. Þetta kom glöggt í ljós í kreppunni sem varð í Færeyjum upp úr 1990 vegna aflabrests og hás olíuverðs. Um miðjan áratuginn var atvinnuleysi 10-15% og margt ungt fólk flutti úr landi og hefur ekki snúið aftur. Færeyingar horfa því vonaraugum til olíuvinnslu sem framtíðartekjulindar og nokkur olíufélög hafa fengið heimild til olíuleitar í færeyskri landhelgi en enn hafa ekki fundist olíulindir sem vert þykir að nýta. Atvinnuleysi fer nú vaxandi að nýju og var í febrúar 2011 7,8%. Samgöngur. Eini flugvöllur Færeyja er Vágaflugvöllur á Vágum og stærsta flugfélag í Færeyjum er Atlantic Airways. Einnig er áætlunarflug með þyrlum milli sumra eyjanna. Bílferjan Norræna (færeyska: "Norröna") siglir allt árið á milli Þórshafnar og Hanstholm á Jótlandi og á sumrin einnig til Seyðisfjarðar. Áður hafði Norræna einnig viðkomu í Björgvin í Noregi og í Skotlandi, ýmist í Lerwick eða Scrabster. Vegna fjöllótts landslags og smæðar eyjanna var samgöngukerfið lengi vel ekki eins víðtækt og í öðrum löndum. Samgöngur milli eyjanna voru eingöngu með bátum og ferjum og á sumum eyjanna voru vegir lélegir eða jafnvel engir og einu samgöngurnar við sumar byggðirnar voru sjóleiðina. Sú er ekki lengur raunin og miklar framfarir hafa orðið í grunnsamgöngukerfi eyjanna. Jarðgangagerð í Færeyjum hófst snemma á 7. áratug 20. aldar og fyrstu göngin, Hvalbagöngin, voru tekin í notkun árið 1963 en fyrstu neðansjávargöngin, Vágagöngin, voru opnuð 10. desember 2002. Nú eru alls 19 jarðgöng í eyjunum; lengstu göngin eru Norðeyjagöngin, neðansjávargöng milli Borðeyjar og Austureyjar, um 6300 metrar. Fleiri göng eru í undirbúningi, þar á meðal göng frá Straumey til Sandeyjar (um 12 km) og jafnvel þaðan til Suðureyjar (um 20 km). Tæplega 85% Færeyinga hafa nú beinan aðgang að jarðgöngum sem tengja eyjarnar auk þess sem sumar eyjanna eru tengdar með landfyllingum eða brúm. Hraðskreiðar ferjur sigla á milli eyjanna í suðri og póstbátar sigla til litlu eyjanna í norðaustri. Engin járnbraut er í Færeyjum en þar er gott strætisvagnakerfi. Rauðir strætisvagnar aka um Þórshöfn undir nafninu "Bussleiðin" og bláir vagnar keyra á milli þorpa og eyja undir nafninu "Bygdaleiðir". Skírnir - Tímarit Hins íslenzka Bókmenntafélags. "Skírnir - Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags" er tímarit sem Hið íslenzka bókmenntafélag gefur út. Það varð til við sameiningu tímaritanna "Skírnis" og "Tímarits Hins íslenzka bókmenntafélags" en er yfirleitt nefnt "Skírnir" í daglegu máli. Það kemur út í tveimur tölublöðum á hverju ári og birtir fyrst og fremst fræðilegar greinar um bókmenntir, sagnfræði, heimspeki og fleira. "Skírnir" er ritrýnt tímarit. Ritstjóri er Halldór Guðmundsson. "Skírnir" er elsta tímarit á íslensku sem enn kemur út. Fyrsta eintakið kom út í Kaupmannahöfn haustið 1827 og tók við af Íslenzkum sagnablöðum sem bókmenntafélagið hafði áður gefið út. Fyrst flutti það fréttir, en um aldamótin 1900 - 1901 var því alfarið breytt í menningartímarit. Tímaritið var prentað í Kaupmannahöfn til ársins 1890, en eftir það í Reykjavík. Gabriel Fauré. Gabriel Urbain Fauré (12. maí 1845 – 4. nóvember 1924), var franskt tónskáld. Fauré, Gabriel Fauré, Gabriel Fauré, Gabriel 1618. Árið 1618 (MDCXVIII í rómverskum tölum) var átjánda ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Invader Zim. Augu Invader ZimInvader Zim (Zim innrásarliði) er teiknimyndasería eftir teiknimyndasöguhöfundinn Jhonen Vasquez sem sýnd var á bandarísku sjónvarpsstöðinni Nickelodeon árið 2001. Þættirnir eru tæknilega vandaðir og undir nokkrum áhrifum frá anime teiknimyndum og kímnin og stíllinn er dökkur og kaldhæðinn, þetta skapaði lítinn en ákafann hóp aðdáenda sem voru yfirleitt nokkuð eldri en hinir hefðbundnu áhorfendur Nikcelodeon. Stöðin varð fyrir vonbrigðum með lítið áhorf á þættina og fannst það ekki réttlæta háan framleiðslukostnað þeirra og hætti því framleiðslunni um sinn en hóf hana aftur vegna þrýstings frá aðdáendum. Stöðin hætti framleiðslunni aftur, hóf hana á ný og hætti svo að lokum endanlega. Aðeins 1 og hálf syrpa af þáttunum voru framleiddar (önnur syrpan var aldrei kláruð). Vasquez sagði frá því að sumir þættirnir voru aldrei fullkláraðir þrátt fyrir að eingöngu nokkurra daga vinna var eftir af þeim. Þættirnir fóru fyrst í loftið í mars 2001 og hafa nú verið gefnir út á DVD. Zim er geimvera af hinum mikla Irken kynþætti þar sem staða einstaklinga í samfélaginu ræðst af hæð þeirra. Yfir Irkenveldinu ríkja „hinir almáttugu Hæstu“ ("The Almighty Tallest") sem eru tveir þegar þættirnir gerast þar sem þeir eru nákvæmlega jafn háir. Zim var sendur í útlegð til plánetunnar "Foodcourtia" þar sem hann skyldi verja afgangi ævi sinnar í að steikja hluti í refsingu fyrir að valda miklu tjóni í einni borg Irkenþjóðarinnar með risastóru vélmenni. Vélmennið var liður í mikilli herför sem kallaðist „Aðgerð: Yfirvofandi skapadómur I“ ("Operation Impending Doom I"), Zim var fullákafur og ræsti sitt vélmenni á meðan hann var enn þá staddur á heimaplánetu sinni. Þegar Zim heyrir af yfirvofandi „Aðgerð: Yfirvofandi skapadómur II“ ("Operation Impending Doom II") tekur hann þá ákvörðun að „hætta“ að vera útlægur, honum tekst að sleppa frá Foodcourtia og flýtir sér til að taka þátt í hinni „miklu úthlutun“ ("Great Assigning") þar sem þeim bestu í her Irkenveldisins er úthlutað plánetum sem þeir eiga að ferðast til og reyna að falla inn í samfélag innfæddra, safna upplýsingum og undirbúa innrás. Zim nær að vera viðstaddur úthlutunina þar sem hann grátbiður hina hæstu um að úthluta sér plánetu. Til þess að losna við hann úthluta þeir Zim leyniplánetu (sem reyndar var bara tilviljanakenndur punktur í geimnum) sem reynist vera Jörðin þegar Zim kemst þangað eftir 6 mánaða ferðalag ásamt GIR, treggáfuðum vélmennisaðstoðarmanni sínum. Þættirnir lýsa tilraunum Zim til að hertaka Jörðina á meðan erkióvinur hans, Dib, reynir að stöðva hann. Evrópuráðið. Evrópuráðið er alþjóðasamtök 47 ríkja í Evrópu, með samanlagt um 800 milljónir borgara, stofnuð 5. maí 1949. Aðild er opin öllum Evrópuríkjum sem teljast réttarríki byggð á lögum og virða grundvallar mannréttindi og frelsi borgara sinna. Helstu stofnanir Evrópuráðsins er þing Evrópuráðsins og ráðherranefnd Evrópuráðsins. Með mikilvægustu verkum ráðsins var samþykkt Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1950 og stofnun Mannréttindadómstóls Evrópu til að fylgja eftir sáttmálanum. Fyrir þau lönd sem nýlega hafa tekið upp lýðræðislega stjórnarhætti - svo sem mörg fyrrverandi Ráðstjórnarríki - var litið til viðmiðana Evrópuráðsins við samningu stjórnarskrá þeirra. Evrópuráðið hefur höfuðstöðvar í Strassborg nálægt landamærum Frakklands og Þýskalands, höfuðstöðvarnar eru í byggingu sem nefnist Evrópuhöllin og er á jaðri miðborgarinnar. Evrópuráðið tengist ekki Evrópusambandinu, öll aðildarríki ESB eru einnig í Evrópuráðinu en ekki eru öll aðildarríki ráðsins í Evrópusambandinu. Til að flækja málin þá eru tvær stofnanir innan ESB með keimlík nöfn, þ.e. Evrópska ráðið og Ráð Evrópusambandsins. Markmið. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar var vilji leiðtoga Evrópu sá að koma í veg fyrir frekari stríðsátök í Evrópu í framtíðinni, bráðnauðsynlegt skref í þá átt væri að tryggja að í öllum Evrópulöndum væru mannréttindi allra einstaklinga virt og að stuðla ætti að gagnkvæmum skilningi og samvinnu meðal Evrópuþjóða. Opinn hugbúnaður. Opinn hugbúnaður er allur hugbúnaður sem flokkast undir opnu hugbúnaðarskilgreininguna. Skilgreining. Skilyrði þess að hugbúnaður teljist „opinn hugbúnaður“ er ekki eingöngu það að grunnkóðinn sé aðgengilegur, heldur þarf höfundarréttarstaða hans að vera samhæfð, sem samanstendur af tíu atriðum. Oftast er höfundarréttarstaðan tryggð með hugbúnaðarleyfi, en einnig flokkast hugbúnaður, sem nýtur ekki verndar höfundarlaga, sem opinn hugbúnaður. Heimsfræði. Heimsfræði er fræðigrein sem fjallar um eðli, uppruna, uppbyggingu, þróun og endalok alheimsins. Tímabelti. Tímabelti eru afmörkuð svæði á Jörðinni sem hafa samræmdan tíma (kallaður staðartími), áður fyrr var sólartími notaður en með tilkomu fjarskipta og bættra samgangna varð þörfin ljós fyrir að samræma tímann yfir stærri svæði. Tímabeltin eru gjarnan miðuð við lengdargráður þar sem hvert tímabelti nær yfir 15 gráður (360 / 24 = 15), þessi sipting er notuð á sjó og í háloftunum. Á landi eru mörk tímabelta hinsvegar yfirleitt látin fylgja landamærum og mörkum héraða til hagræðis fyrir íbúana. Kína er til dæmis allt í sama tímabeltinu þó að það teygi sig yfir 5 tímabelti, Rússlandi hinsvegar er skipt í 11 tímabelti. Tímabeltin eru öll reiknuð út frá UTC tíma en hann er miðaður við núllbaug sem liggur í gegnum Greenwich stjörnuathugunarstöðina í London, Englandi. Rótarlén. Rótarlén er sá hluti internetléna sem er á eftir síðasta punktinum, sem dæmi er .net rótarlén internetlénsins rsync.example.net. Example.net. Lénin example.net, example.com og example.org eru samkvæmt RFC 2606 frátekin internetlén. Þeim er ætlað að vera sýnidæmi um internetlén í handbókum og leiðbeiningum og því er ekki mögulegt fyrir almenning að skrá þau. RFC 3330 skilgreinir svo 24 netið en IP tölur á því neti eru ætlaðar til notkunar í sýnidæmum líkt og "example" lénin. Ljósapera. Ljósapera eða glópera (fyrrum rafmagnspera eða glóðarlampi, en sjaldnar þráðarlampi, ljósakúla eða kúlupera) er ljósgjafi gerður úr gagnsæju, möttu eða hvítu hylki sem er oftast peru- eða pípulaga, með glóþræði, sem glóir þegar rafstraumi er hleypt á hana. Sumar ljósaperur nota glóandi gas í stað glóþráðar. Þróun ljósaperunnar tók allnokkra áratugi og komu margir þar við sögu, en oftast er uppgötvun ljósaperunnar eignuð Thomas Alva Edison, bandarískum uppfinningamanni, og ársett 1879. Edison fann þó í raun ekki upp ljósaperuna sem slíka, heldur endurbætti aðferðir og efnisval annarra þannig að útkoman varð pera sem gat enst dágóðan tíma áður en þráður hennar brann. Þannig gat hann gert ljósaperuna að seljanlegri markaðsvöru, en það hafði engum tekist áður. Fyrsta borg veraldar, sem lýst var upp með rafmagni í stað gass var New York (neðsti hluti Manhattan) og stóð Thomas Edison fyrir því. Fyrsta rafstöðin tók til starfa þann 4. september 1882 og stóð hún við Pearl Street þar í borg. Upphaf ljósaperunnar. Thomas Edison (1847-1931) fann upp ljósaperu 31. desember 1879, fyrirtæki hans hét "Edison Electric Light Company" og hafði unnið hörðum höndum að því að koma rafmagnsljósi til almennings. Eftir að Edison kynnti ljosaperuna breiddist notkun rafmagnsljósa hratt út eftir þetta og urðu dreifikerfi fyrir rafmagn sífellt stærri og margþættari. Jóhannes Reykdal innleiddi rafmagn á Íslandi árið 1904. Í fyrstu ljósaperuna notaði Edison kolaða bómull í glóþráðinn en síðar var notaður þráður úr volfram. Ljósaperan/glóperan er án efa ein af merkari uppfinningum, en hún leysti af hólmi kertin, steinolíulampana og minnkaði eldhættu. Thomas Alva Edison. Thomas Alva Edison (11. febrúar 1847 — 18. október 1931) var bandarískur uppfinningamaður, sem varð frægur á 19. öld fyrir fjölmargar uppfinningar sínar. Hann endurbætti ljósaperuna, símann, fann upp hljóðritun og kvikmyndun, smíðaði fyrsta kvikmyndaverið, stóð fyrir raflýsingu New York-borgar og þannig mætti lengi telja. Edison var mjög vinsæll meðal almennings fyrir uppfinningar sínar, sem höfðu mikið gildi og gjörbreyttu daglegu lífi fólks. Bæði var þar um að ræða aukin þægindi eins og vegna raflýsingar og síma, sem og mikið skemmtigildi hljóðritana og kvikmynda. Á seinni hluta ævi sinnar var hann kallaður „Galdramaðurinn í Menlo Park“ og var þannig kenndur við bæ einn í New Jersey þar sem hann bjó um tíma og hafði rannsóknarstofur sínar. Í West Orange, sem einnig er í New Jersey, byggði hann fyrsta kvikmyndaver sögunnar. Það er enn til og gengur undir nafninu Svarta María. Edison var einnig mikið í fjölskyldulífi. Árið 1871 giftist hann konu að nafni Mary Stilwell en hún dó 13 árum seinna. Árið 1886 giftist hann 19 ára stúlku Mina Miller. Edison, Thomas Alva Svarta María (kvikmyndaver). Svarta María (enska. Black Maria) er fyrsta kvikmyndaver sögunnar, byggt af Thomas Alva Edison í West Orange í New Jersey í Bandaríkjunum. Þetta kvikmyndaver er lítið hús, svart á lit og er með opnanlegu þaki til þess að hleypa inn dagsbirtunni. Auk þess er húsinu fyrirkomið á sporbraut eða járnbrautarteinum, svo að snúa má því í hring, þannig að sólarljósið falli alltaf inn undir sama horni. Þetta hús er til sýnis við Edison-safnið, þar sem rannsóknarstofur Edisons voru, síðustu áratugina sem hann starfaði. Þær eru í tveimur stórum verksmiðjuhúsum og kemur stærð þeirra og umfang verulega á óvart. Svarta María (lögreglubifreið). Svarta María var heiti, sem haft var um lögreglubifreiðar á Íslandi eftir miðja 20. öld. Ástæðan var sú að bílarnir voru svartir og frekar auðkennilegir til að sjá. Þessir bílar voru af Chevrolet gerð, allstórir og traustir bílar, með klefa aftur í, þar sem hægt var að troða inn nokkrum handteknum í einu ef þörf var á og flytja til næstu lögreglustöðvar eða fangageymslu eftir atvikum. 1601. Árið 1601 (MDCI í rómverskum tölum) var fyrsta ár 17. aldar og hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> var herforinginn sem sigraði Svíana í orrustunni við Koknese. Eistland. Lýðveldið Eistland (á eistnesku: Eesti) er land í Norður-Evrópu við Eystrasalt og Kirjálabotn. Það á landamæri að Rússlandi í austri og Lettlandi í suðri, það er eitt Eystrasaltslandanna, en hin eru Lettland og Litháen. Saga. Eistland hefur verið byggt finnsk-úgrískum þjóðflokkum síðan á forsögulegum tíma. Landið var kristnað af þýskum riddurum og dönum sem höfðu lagt það undir sig 1227. Erlend ríki sem stjórnað hafa Eistlandi í gegnum söguna eru Danmörk, Svíþjóð, Pólland og Rússland. Eftir hrun Rússneska keisaradæmisins vegna Októberbyltingarinnar lýsti Eistland yfir sjálfstæði sínu þann 24. febrúar 1918. Landið var svo innlimað í Sovétríkin með valdi í júní 1940 og var það eitt af lýðveldum Sovétríkjanna til 20. ágúst 1991 er þau liðu undir lok og Eistland lýsti yfir sjálfstæði sínu á ný. Þjóðhátíðardagur Eistlendinga er 24. febrúar. Rússneskur her var í landinu allt til 1994 en síðan þá hefur Eistland nýtt sér nýfengið frelsi til að mynda efnahagsleg og stjórnmálaleg tengsl við vestræn ríki. Eistland fékk ingöngu í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið árið 2004. Stjórnmál. Eistland er stjórnarskrárbundið lýðræðisríki. Forseti þess er kosinn á 5 ára fresti af þinginu. Ríkisstjórnin er handhafi framkvæmdavaldsins og mynduð af forsætisráðherra og 14 öðrum ráðherrum sem forsetinn setur í embætti eftir að þingið hefur samþykkt þá. Löggjafarvald liggur hjá þinginu sem starfar í einni deild og er kallað "Riigikogu". Þingmenn eru 101 og er kjörtímabil þingsins 4 ár. Hæstiréttur landsins er handhafi dómsvalds og eru dómarar 17. Forseti hæstaréttar er valinn af þinginu og í kjölfarið skipaður af forseta ævilangt. Prússland. Fáni Prússneska keisaradæmisins 1892 - 1918 Prússland ("þýska: Preußen, pólska: Prusy, litháenska: Prūsija, latína: Borussia") var áður fyrr landsvæði, hertogadæmi, konungsríki og keisararíki fyrir sunnan Eystrasalt. Skilgreiningar. Nafn sitt dregur Prússland af Borussi eða Prussi, baltneskri þjóð sem er skyld Litháum. Prússalén var lén pólska konungsdæmisins fram til 1660 og Konungs-Prússland var hluti af Póllandi fram til 1772. Með vaxandi þýskri þjóðernishyggju á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar fóru flestir þýskumælandi Prússar að líta á sig sem hluta af þýsku þjóðinni, oft með áherslu á það sem kallað var „prússnesk gildi“: frábært skipulag, fórnarlund og réttarríki. Söguágrip. 1618 sameinaðist markgreifadæmið Brandenborg og hertogadæmið Prússland í orði, en það var ekki fyrr en 1657 sem Friðrik Vilhjálmi (kallaður hinn mikli kjörfursti) tókst að gera hertogadæmið Prússland að sjálfstæðu héraði. Þannig markaði hann veginn að endanlegri sameiningu Brandenborgar og Prússlands. Konungsríkið Prússland. Krýning Vilhjálms I til keisara í Versölum 1871. Fyrir miðri mynd má sjá í Bismarck kanslara (í hvítum búningi). Það gerðist 1701 er kjörfurstinn Friðrik III sameinaði löndin í eitt konungsríki. Frá þessum tíma kallast það konungsríki Prússland. Kjörfurstinn Friðrik III varð þá að Friðrik I konungi Prússlands. En það var ekki fyrr en í tíð Friðriks Vilhjálms I að Prússland varð að stórveldi. Hann hætti öllu gjálífi sem faðir hans hafði stofnað til og var sparsamur mjög. Ennfremur myndaði hann mikinn her og var það hann öðrum fremur sem hóf Prússland upp sem herveldi. Friðrik Vilhjálmur tók þátt í Norðurlandaófriðnum mikla og vann lönd af Svíum við suðurströnd Eystrasalts (Pommern). Sonur hans, Friðrik II, var eflaust einn mesti konungur síns tíma. Hann tók þátt í 7 ára stríðinu og hertók Slésíu og átti þátt í skiptingu Póllands. Fyrir hertökuna á Slésíu fékk hann viðurnefnið hinn mikli. 1806 tók Friðrik Vilhjálmur III þátt í orrustunum við Jena og við Auerstedt gegn Napoleon og tapaði þeim orrustum. Í kjölfarið hertók Napoleon Berlín til skamms tíma. 1862 réði Vilhjálmur I Otto von Bismarck sem kanslara ríkisins. Eftir þrjú snörp stríð við Frakka, Dani og Austurríki varð Prússland að keisararíki 1871. Keisararíkið Prússland. Prússland við lok heimstyrjaldarinnar fyrri 1918 1871 varð Prússland að keisararíki. Vilhjálmur I, konungur Prússlands, var krýndur til keisara í Versölum í Frakklandi 18. janúar það ár. Keisararíkið varaði þó stutt, aðeins í 47 ár, og voru keisararnir aðeins þrír. Árið 1888 var kallað "þrí-keisara-árið" ("Drei-Kaiser-Jahr"), er allir þrír keisararnir tóku við hver á eftir öðrum. 1890 var Bismarck kanslari rekinn og Vilhjálmur III keisari stjórnaði ríkinu sjálfur. Hann neyddist til að segja af sér keisaradómi 1918 og fór í útlegð til Hollands. Fríríkið Prússland. Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918 var Weimar-lýðveldið stofnað. Höfuðborg þess ríkis var Berlin. Prússlandi var þá breytt í fríríki, sem var nokkurs konar lýðveldi innan lýðveldisins, svipað og nokkur önnur héruð í Þýskalandi. Fríríkið var þó í raun afnumið af nasistum 1934, en síðan formlega af bandamönnum 1947. Síðan þá hefur notkun hugtaksins Prússland miðast við sögulega, landfræðilega og menningarlega merkingu þess. Stóra brottfall. Í stóra brottfalli veiktust áherslulaus sérhljóð og féllu brott. Fleirkvæð orð byrjuðu þá að styttast í eitt atkvæði. Samhliða stóra brottfalli urðu breytingar sem nefnast i-hljóðvarp, u-hljóðvarp og klofning. Rafeindatækni. Rafeindatækni er tæknigrein sem fjallar um aðferðir til að notast við og stjórna flæði rafeinda í rafeindarásum, þ.m.t. í viðnámum, þéttum og hálfleiðurum. Upphaf rafeindatækni má rekja til þess þegar John Ambrose Fleming fann upp rafeindalampann árið 1904 og hefur hún þróast æ síðan. Úkraína. Úkraína ("úkraínska: Україна) er lýðveldi í Austur-Evrópu við strönd Svartahafs. Það á landamæri að Rússlandi í austri, Hvíta-Rússlandi í norðri og Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu og Moldóvu í vestri. Saga. Úkraína var miðja fyrsta slavneska ríkisins, Garðaríkis sem stofnað var af Væringjum (sænskum víkingum) og var stærsta og öflugasta ríki Evrópu á 10. og 11. öld. Innbyrðis deilur og innrás Mongóla veiktu ríkið sem var þá innlimað í Stórhertogadæmið Litháen sem seinna varð að Pólsk-Litháenska samveldinu. Menningarleg og trúarleg arfleifð Garðaríkis hélt lífinu í úkraínskri þjóðernishyggju næstu aldirnar. Nýtt ríki kósakka var stofnað í Úkraínu um miðja 17. öld eftir uppreisn gegn Pólverjum, ríkið var formlega hluti af Rússneska keisaradæminu en var í raun nánast alveg sjálfstætt í meira en 100 ár. Á seinni hluta 18. aldar lögðu Rússar undir sig megnið af landi Úkraínu. Eftir fall Rússneska keisaradæmisins 1917 lýsti Úkraína yfir sjálfstæði sínu um skamma hríð (1917 – 1920) en var þá innlimað á ný, nú inn í Sovétríkin. Tvær manngerðar hungursneyðir riðu yfir landið (1921 – 1922 og 1932 – 1933) þegar samyrkjubúskapur var innleiddur með valdi í landinu, yfir átta milljónir manna létu lífið í þessum hörmungum. Úkraína varð að blóðugum vígvelli í Síðari heimsstyrjöld þar sem herir Þýskalands og Sovétríkjanna börðust hatrammri baráttu sem kostaði sjö til átta milljónir mannslífa. Sjálfstæði náðist á ný með falli Sovétríkjanna 1991 en mörg vandamál blasa við hinu unga lýðveldi. Völd ríkisins eru enn þá gríðarleg og spilling er mikil sem hefur tafið fyrir efnahagsumbótum, einkavæðingu og innleiðslu borgaralegra réttinda. Eldgos. Eldgos kallast sá þáttur eldvirkni, þegar bergkvika brýtur sér leið upp úr jarðskorpunni, og gosið þá annaðhvort í formi hrauns eða ösku. Vatn. Vatn er lyktar-, bragð- og nær litlaus vökvi sem er lífsnauðsynlegur öllum þekktum lífverum. Vatnssameindin er samansett úr tveimur vetnisfrumeindum og einni súrefnisfrumeind og hefur því efnaformúluna H2O. Það eru 1,4 milljarðar km³ vatns á Jörðinni sem þekja 71% af yfirborði hennar. Efnafasar. Vatn er fljótandi við stofuhita. Það frýs við 0 °C og suðumark þess er 100 °C við einnar loftþyngdar þrýsting. Eðlismassi vatns er háður hitastigi þess og er hann mestur þegar hitastig þess er 4 °C. Heitara vatn flýtur ofan á kaldara vatni, nema að hitastigið sé undir 4 °C, en þá flýtur kaldara vatn ofan á heitara. Þetta leiðir til þess að ísmyndun á sér stað við yfirborðið þegar vatn frýs. Ís er svo allmiklu eðlisléttari en vatn, þannig að hann flýtur ofan á. Vatn getur orðið undirkælt, það er að segja það getur haft hitastig undir frostmarki án þess að frjósa, en þá myndast stundum ís við botninn án þess að fljóta upp og kallast það botnstingull. Við suðumark breytist vatnið úr fljótandi formi í loftkennt form, gufu. Þegar vatn sýður, myndast litlar gufubólur hvar sem vera skal í vökvanum, fljóta upp að yfirborði og eykst þá rúmmál þeirra á leiðinni upp vegna lækkandi þrýstings. Við yfirborðið opnast gufubólurnar og gufan sleppur út. Hin þrjú form vatns, það er fast, fljótandi og loftkennt, geta verið öll til staðar í einu og haldið jafnvægi ef hitastigið er 0,01 °C (273,16 K). Þetta hitastig er þess vegna kallað þrípunktur (triple point) vatns. Tyrkland. Lýðveldið Tyrkland er land í Suðvestur-Asíu og Evrópu sem samanstendur af Anatólíu eða Litlu-Asíu í Asíu og svæði í Suðaustur-Evrópu sem er lítið samanborið við asíska hlutann en þó litlu minna en sum Evrópsk ríki. Landið heitir "Türkiye Cumhuriyeti" eða bara "Türkiye" á tyrknesku, sem er tungumál landsmanna. Landið var aðalsvæði Ottómanveldisins allt fram til 1922. Anatólíuskaginn, sem liggur á milli Svartahafs og Miðjarðarhafs er meginhluti þess. Hann er oft nefndur Litla-Asía. Höfuðborgin er Ankara, en þekktasta borgin mun vera Istanbul, sem áður hét Konstantínópel og þar áður Bysans eða Bysantium og Íslendingar nefndu hana Miklagarð. Hún mun vera eina borg veraldar, sem tilheyrir tveimur heimsálfum. Lönd sem liggja að Tyrklandi eru Georgía, Armenía, Aserbaítsjan og Íran að austan; Írak og Sýrland að sunnan og Grikkland og Búlgaría að vestan. Eyjahafið liggur að landinu vestan- og suðvestanverðu og eru þar fjölmargar eyjar sem flestar tilheyra Grikklandi. Þegar siglt er til norðurs úr Eyjahafinu á milli asíska og evrópska hluta Tyrklands er fyrst farið um Dardanellasund inn í Marmarahaf, sem er lítið innhaf, og úr því um Bosporussund (sem norrænir menn nefndu "Sæviðarsund") inn í Svartahaf, sem er stórt innhaf. Írska. Írska ("Gaeilge") er keltneskt (gelískt) tungumál sem enn er talað víða á Írlandi, sérstaklega á svokölluðum "Gaeltacht"-svæðum, sem flest eru á vesturströnd Írlands, sérstaklega í nágrenni Galway. Margir Írar sem hafa áhuga á tungu sinni og menningu reyna að halda henni lifandi, en enn sem komið er hafa tilraunir þessar borið takmarkaðan árangur. Skilti á Írlandi eru bæði á ensku og á írsku. Írska er eitt af 23 formlegum tungumálum Evrópusambandsins. Elsta írskan notaði Ogham-skriftina frá 4. öld fram á 6. öld, en síðan notaðist latneska stafrófið. Fornírska var töluð frá 6. öld fram á 10. öld, og miðírska frá 10. öld fram á 12. öld. Dómkirkja. Dómkirkja er kristin kirkjubygging sem er höfuðkirkja biskupsdæmis og geymir biskupsstólinn eða hásæti biskups. Dómkirkjur á Íslandi. Á Íslandi voru lengst af tvær dómkirkjur, á Hólum í Hjaltadal og í Skálholti. Þar voru einnig sæti tveggja biskupa Íslands. Núna eru tvær dómkirkjur á Íslandi, báðar í Reykjavík. Þetta eru Dómkirkjan í Reykjavík og Kristskirkja á Landakoti. Árni Magnússon. Árni Magnússon (1663, - ársbyrjun 1730) var handritasafnari og fræðimaður. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa safnað bókfellum og handritum á Íslandi og flutt til Kaupmannahafnar, en einnig fyrir jarðabók sem hann skrifaði með Páli Vídalín. Árni fæddist á Kvennabrekku í Dölum. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar prests (síðar lögsagnari) og Guðrúnar Ketilsdóttur. Hann tók próf í guðfræði í Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð aðstoðarmaður Tómasar Bartholin og síðar ritari við 1697. Fjórum árum síðar varð hann prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Á árunum 1702 til 1712 var hann á Íslandi og tók saman hina frægu jarðabók og manntal ásamt Páli Vídalín. Árni safnaði markvisst handritum á Íslandi og annars staðar og flutti í handritasafn sitt í Kaupmannahöfn þar sem þau voru rannsökuð, skrifuð upp og sum hver búin til prentunar. Hann fékk meðal annars handritasafn Þormóðs Torfasonar eftir lát hans 1719. 20. október 1728 varð mikill bruni í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir mikið björgunarstarf brann þar hluti af bókasafni Árna, auk bókasafns háskólans. Talið er að í brunanum hafi glatast mörg íslensk handrit. Við Árna eru kenndar stofnanirnar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku. Ladder (forritunarmál). Forritunarmálið Ladder eða relay ladder logic er myndrænt forritunarmál sem er mjög vinsælt til að forrita iðntölvur (programmable logic controller eða PLC). Forrit í ladder er á margan hátt byggt upp til að líkja eftir almennum gamaldags liðastýringum. Þetta var gert til að auðvelda rafvirkjum, sem ekki höfðu nauðsynlega forritunarkunnáttu, að tileinka sér þessa forritunarleið. Forritið byggist upp á rimum sem hver og ein er sjálfstæð eining. Hver rim inniheldur svo skilyrði og aðgerðir. Séu skilyrðin uppfyllt til að komast í gegnum rimina, er aðgerðin framkvæmd. Best er að útskýra þetta með dæmi. Greinum virkni eftirfarandi rimar. formula_1 Það eru sem sagt tvær leiðir fyrir þessa rim til að verða virka, það er boolean breytan O1 verður sönn. Það er ef B1 er sönn og B2 eða B3 er sönn og B4 er ósönn. Flestar útgáfur af ladder, hafa einnig flóknar aðgerðir sem hægt er að framkvæma á hin ýmsu gögn. Til dæmis færa til gögn milli minnishólfa, framkvæma stærðfræðilegar aðgerðir eða vinna með textastrengi. Innbærinn (Akureyri). Innbærinn er eitt hverfa Akureyrar og það elsta þeirra. Innbærinn stendur á flatlendisræmu á milli fjöru og nokkuð brattrar brekku og norðurmörk hans liggja að miðbænum en skilin oftast dregin við Samkomuhúsið við Hafnarstræti 57. Íbúar Innbæjarins voru 442 í 216 íbúðum 1. desember 2003 en þær tölur eiga þó við um allt svæðið sunnan Kaupvangsstrætis sem er aðeins stærra en Innbærinn samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Húsin eru flest gömul með 2–4 íbúðum hvert en á síðustu árum hefur töluvert hefur verið byggt af nýjum einbýlishúsum á uppfyllingum austan Hafnarstrætis og Aðalstrætis sem urðu til þegar Drottningabraut var lögð. Fyrir tíð Drottningabrautar og Leiruvegar gekk sjór alveg upp að Aðalstræti og Hafnarstræti sem þá voru líka aðalumferðaræðarnar í gegnum bæinn. Minjasafnið á Akureyri og Nonnahús eru í Innbænum og Laxdalshús (Hafnarstræti 11) einnig sem er elsta hús bæjarins, reist 1795. Metri. Metri er grunneining SI-kerfisins fyrir fjarlægð, táknuð með m. Er skilgreindur út frá ljóshraða og sekúndunni, þ.a. einn metri er "sú vegalengd, sem ljósið fer á 1/299.792.458 hluta úr sekúndu". Þessi skilgreining var ákveðin á sautjándu alþjóðaráðstefnunni um mælieiningar árið 1983. Áður hefur metrinn verið skilgreindur á nokkra mismunandi vegu. Orðið "metri" er komið úr grísku, "metron" (μετρον) í gegnum frönsku, "mètre", sem þýðir mál eða mæling. Upphaf metrans má rekja til 18 aldar. Þá var orðið ljóst að nauðsynlegt var að skilgreina mælieiningu fyrir lengd á einhvern fastan og óumbreytanlegan hátt. Tvær stefnur voru uppi: Önnur vildi skilgreina metrann sem lengd þess pendúls sem hefði hálfan sveiflutíma jafnan einni sekúndu. Hin var sú að mæla vegalengdina frá norðurskauti að miðbaug með allri þeirri nákvæmni sem til væri og skilgreina metrann sem einn tíumilljónasta hluta þeirrar vegalengdar. Frakkar tóku þá ákvörðun að byggja á þessari skilgreiningu og notuðu lengdarbauginn í gegnum París til viðmiðunar. Þeir bjuggu til stöng úr platínu og iridíni í hlutföllunum 90% og 10% og mörkuðu á hana tvær línur með eins metra millibili. Þessi stöng er enn geymd í París. Fljótlega kom í ljós, að í mælingunum var skekkja. Þá var ákveðið að breyta ekki metranum, heldur gefa honum nýja skilgreiningu. Árið 1960 var ákveðið að einn metri skyldi miðast við 1.650.763,73 bylgjulengdir appelsínugulu litrófslínunnar í litrófi krypton-86 atómsins í tómarúmi. Þessi skilgreining gilti svo til ársins 1983, þegar núverandi skilgreining var samþykkt. Metrinn er hin alþjóðlega lengdareining í vísindum, en mikið vantar upp á að hann sé hin almenna viðmiðun í daglegu lífi þjóða, nema helst í Frakklandi, Þýskalandi og á Norðurlöndum. Aðrar lengdraeiningar eru enn mikið notaðar, t.d. tommur, fet, jardar, mílur og sjómílur. Kínamúrinn. Kínamúrinn (hefðbundin kínverska: 長城, einfölduð kínverska: 长城, Hanyu Pinyin: Chángchéng) er 6.350 kílómetra langur virkisveggur í Kína sem var byggður á Ming-tímanum sem spannar tímabilið frá 14. öld til þeirrar 16.. Hann var reistur til þess að vernda Kína gegn innrásum mongólskra og tyrkneskra ættflokka úr norðri og norðvestri. Þegar mest var stóðu rúmlega ein milljón hermanna vörð á múrnum. Kínamúrinn, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er vinsæll ferðamannastaður í Kína og eitt þekktasta mannvirki landsins. Saga. a> sem nær efst frá hægri og þaðan um það bil þvert yfir hana. Byggingarsögu múrsins er yfirleitt skipt í þrjá hluta og eru þeir nefndir eftir þeim ættum sem þá stjórnuðu landinu. Það er Chin-tímbilið, Han-tímabilið og Ming-tímabilið. Chin-tímabilið. Árið 211 f.Kr. var Kína skipt niður í furstadæmi, en með því hófust gegndarlausar skærur um yfirráð þeirra og margir furstar létu byggja leir- og moldarveggi til að vernda sig og sína. Bardagarnir héldu áfram þar til árið 211 e.Kr., að Chin-ættin, undir forystu Zheng, náði völdum yfir öllum furstadæmunumm og sameinaði þau í eitt sem nú er Kína. Í kjölfar sameiningarinnar breytti hann nafni sínu og tók upp nafnið Shi Huangdi Tí eða „hinn fyrsti einvaldi keisari“. Til þess að Kína yrði eitt ríki lét hann auk þess samræma letur og mælieiningar og setti furstadæmunum fyrrverandi sömu staðla í einu og öllu. Enn fremur lét hann rífa niður og eyða flestum öðrum múrum á milli furstadæmanna svo landið yrði ein órofa heild. Nágrannar Kína voru Mongólar en þeir voru svarnir óvinir Kínverja og réðust inn í landið hvenær sem tækifæri gafst til. Til þess að verjast þeim sameinaði og styrkti Shi Huangdi hluta af ytri múrum hinna gömlu furstadæma, lengdi þá og reisti nýja. Stuttu eftir valdatökuna lét hann hefja byggingu múrsins, en hann varð allt í allt 3700 km á einungis átta árum. Byggingarhraðinn samsvaraði því að byggður væri einn og hálfur kílómetri á dag. Þessi fyrsti múr var kallaður "10.000 Li langveggurinn" eða "Stóri Mangol" og var frumgerð Kínamúrsins. Til þess að halda þessum gífurlega byggingarhraða voru hundruð þúsund þræla notuð í verkið og enn fleiri sjálfseignarbændur fengnir til að aðstoða og þegar mest var er talið að um 20 milljónir manns hafi unið að því að byggja vegginn í einu. Enda er talið að tala þeirra sem létust við byggingu múrsins hlaupi á hundruðum þúsunda. Það er í raun rangnefni að kalla þetta einn múr því þetta voru margar raðir af múrum og sums staðar urðu þeir tvöfaldir. Shi Huangdi þótti mikill kúgari og ætlaði arftaki hans að halda því áfram en hann var ráðinn af dögum tveimur til þremur árum eftir dauða Shi Huangdi. Gerðist það í mikilli uppreisn árið 206 f.Kr. Eftir fall Chin-ættarinnar urðu átök um stjórnun landsins og í henni var múrinn skilinn eftir ómannaður í 66-7 ár eða uns Han-ættin náði völdum. Þá hófst annar þáttur í byggingarsögu múrsins. Tími Han-ættarinnar. Han-ættin, undir stjórn Wu-ti, mannaði vegginn mun betur með því að setja ljósvita á 2,5 km fresti, turna á 5 km fresti, virki á 15 km fresti og kastala á 50 km fresti. Ef gerð var á árás á vegginn þá sendu verðirnir reykmerki frá ljósvitunum að degi til en kveiktu á vitanum að nóttu til og bárust þá skilaboðin hratt eftir múrnum og náðu þau til keisarahallarinnar mun fyrr heldur en ef reiðskjóti hefði verið sendur. Wu-ti lét einnig leggja Silkiveginn en það var verslunarleið sem lá með fram múrnum til vesturs og náði hún miklum vinsældum. Múrinn varði leiðina drjúgan hluta leiðarinnar. Fleiri meðlimir Han-ættarinnar létu lagfæra og auka við múrinn. Ein af merkari stækkunum ættarinnar var þegar múrinn var byggður í gegnum Gobi-eyðimörkina sem þykir afar illfær. Vegna þess hve jörðin í Gobi-eyðimörkinni er snauð varð efnisnotkun öðruvísi en áður hafði verið. Í stað þess að þjappa mold og leir í 10 cm háa viðarramma, þá var sett í botninn á viðarrömmunum reyrstafi og ofan á það fíngerður sandur og vatn sem var þjappað vel. Frá Han-ættinni til Ming-ættarinnar. Eftir að Han-ættin hrökklaðist frá völdum liðu yfir 1000 ár þar til byggt var eitthvað að ráði við múrinn aftur. Þó skipti múrinn áfram gífurlega miklu máli fyrir kínversku þjóðina. Árið 423 lét Ming-shuan byggja um 1000 km viðbót við múrinn og á eftir honum kom Tai-wu sem lét byggja þunnan vegg utan um höfuðborgina. Árið 552 voru fengnar 1,8 milljónir manns til að gera við og stækka múrinn. Eftir að Súí-ættin náði völdum var byggt við múrinn og gert við hann sjö sinnum. Tang-ættin náði völdum 618 og hófst þá mikil þensla í Kína. Fyrir vikið datt Kínamúrinn upp fyrir og endaði með því að Mongólar réðust á Kína og náðu henni á sitt vald árið 1279 og réðu henni í ríflega 100 ár en þá kom Ming-ættin til sögunnar og með henni fylgdi gullaldartími Kínamúrsins. Ming-ættin náði aftur völdunum í ríkinu og ákvað að aldrei aftur skildu Mongólar ráðast á Kína. Með það fyrir augunum lét Ming-ættin því hefjast handa við að byggja mun rammgerðari og traustari múr en áður hafði verið. Múrinn var í þetta sinn aðallega hlaðinn úr steini ólíkt því sem áður hafði verið en framan af hafði múrinn verið úr mold, leir og sandi. Ming-múrinn er sá múr sem sjá má í dag og er þekktur sem sem Kínamúrinn. Þegar Ming-ættin lét byggja múrinn fékk hún til þess hæfa steinverkamenn í stað þrælanna sem áður höfðu unnið við að reisa múrinn og borgaði þeim í silfri. Ming-ættin endurbyggði drjúgan hluta af múrunum og bætti enn fremur við hann. Ming-ættin byggði nálægt höfuðborginni annan múr samsíða hinum svo um tvöfalda vörn væri að ræða og var þá skipt í syðri og nyrðri múr. Ming-ættin var ein duglegasta ættin í byggingu múrsins og bætti hún hann ekki aðeins heldur lengdi hann einnig mikið. Árið 1644 hrökklaðist Ming-ættin frá völdum og Ching-ættin tók völdin. Lagði hún mikla áherslu á að sameina Mongólíu, Tíbet og aðrar þjóðir í kring og því var engin ástæða fyrir því að halda múrnum við vegna þess þá stafaði Kína ekki ógn af nágrannaþjóðum sínum. Af þessum sökum var múrnum ekki haldið við öldum saman. Nútíminn. Í upphafi 20. aldarinnar var hluti múrsins eyðilagður í kringum höfuðborgina. Einnig hafa verið gerð göt í gegnum vegginn fyrir vegi. Árið 1970 gekk þetta meira að segja svo langt að hluti af múrnum var rifinn niður og notaður í byggingarefni. Í dag er litið á þetta öðrum augum og hlutinn sem var eyðilagður árið 1970 hefur verið endurbyggður og vissir hlutar af múrnum verið gerðir upp. Árið 1987 var Kínamúrinn settur á heimsminjaskrá UNESCO. Múrinn er nú vinsæll ferðamannastaður í Kína og á ágangur ferðamanna á múrinn nú mestan þátt í að þörf er á viðhaldi og viðgerðum á honum. Lýsing. Kínamúrinn er allt í allt 7300 km langur, ef tvöföldun er ekki tekin með þá er hann um 6700 km langur. Múrinn er að meðaltali sjö til átta metra hár og fer mest í 10 metra. Hann er sex metra breiður og hægt er að ganga ofan á múrnum og eru eins metra háir kantar ofan á múrnum svo hestar og menn falli ekki af honum. Tröppur liggja upp á múrinn og á 200-300 metra fresti kemur svo upphækkaður stallur sem gaf góða sýn yfir bardagann. Þar uppi kemur svo reglulega ljósviti eða skjól fyrir hermennina í stormum. Stundum var stallurinn á tveimru til þremur hæðum og voru vopn og skotfæri geymd þar inni. Kínamúrinn í menningu og listum. Mörg merk ummæli hafa verið látin flakka um þennan múr. Þegar Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna, heimsótti Kína sagði hann: „Þetta er merkur múr og einungis merk þjóð með merka fortíð hefði getað byggt svo merkan múr. Og svo merk þjóð með svo merka fortíð mun hlýtur að eiga sér merka framtíð.“ Vatnajökull. Vatnajökull (fyrrum nefndur Klofajökull) er þíðjökull staðsettur á suðaustur-hluta Íslands. Hann er stærsti jökull landsins bæði að flatarmáli og rúmmáli og stærsti jökull Evrópu að rúmmáli en sá annar stærsti að flatarmáli (sá stærsti er Austfonna á Nordaustlandet á Svalbarða), eða 8.100 km² og allt upp í kílómetri að þykkt, en meðalþykkt hans er um 400 metrar. Saga jökulsins. Fyrir 14. öld var Vatnajökull miklu minni en hann er nú, síðan 1930 hefur hann verið í stöðugri rýrnun, en þá mun stærð hans hafa verið í hámarki. Hugsanlegt er að Vatnajökull hafi áður verið tveir aðskildir jöklar, enda hét hann Klofajökull lengi fram eftir öldum. Eldvirkni. Undir Vatnajökli eru einhverjar mestu eldstöðvar landsins, Grímsvötn eru þeirra þekktust ásamt Öræfajökli. Einnig má nefna Gjálp, sem var nefnd því nafni fyrir fáeinum árum, eins og Öræfajökul og Bárðarbungu. Gos úr Vatnajökli hafa komið í hrinum í tímans rás og telja jarðvísindamenn að slík goshrina sé um það bil að hefjast núna um þessar mundir. Gætu þá gos í Vatnajökli orðið mjög tíð næstu hálfa öldina eða rúmlega það. Þjóðgarðar. Hluti jökulsins í kringum Skaftafell var gerður að þjóðgarði 1967. 28. október 2004 varð allur Syðri hluti Vatnajökuls hluti af þjóðgarðinum í Skaftafelli. Árið 2007 varð allur Vatnajökull þjóðgarður með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli og Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum urðu jafnframt hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Skriðjöklar. Út frá Vatnajökli falla um það bil 30 skriðjöklar. Hér að neðan er listi yfir skriðjökla sem falla frá Vatnajökli, en þeir eru flokkaðir eftir stjórnunarumdæmum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta er ekki tæmandi listi. Hvalbak. Hvalbak (eða jökulflúð) er í jökla- og jarðfræði klöpp sem skriðjökull hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval. Á hvalbaki eru oft rákir á þeirri hlið þess sem sneri upp í skriðstefnu jökulsins og er svo stöllótt og bratt hinum megin. Karlkyns orðið hvalbakur, sem merkir þiljur eða hvelfing yfir fremsta hluta skips, er ekki hið sama og hvorkyns orðið hvalbak, og varast bera að rugla þeim saman. Tröllaskagi. Tröllaskagi er skagi fyrir miðju Norðurlandi Íslands á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Skaginn er fjöllóttur og ná margir fjallatindar yfir 1200 m yfir sjávarmál og nokkrir yfir 1400 m, hæst er Kerling (1538 m). Fjölmargir smájöklar eru í fjöllum og dölum Tröllaskaga, þeirra stærstir eru Gljúfurárjökull og Tungnahryggsjökull. Djúpir dalir skerast inn í fjalllendi Tröllaskaga, þeirra stærstir eru: Hjaltadalur, Hörgárdalur, Norðurárdalur og Svarfaðardalur. Dalirnir mótuðust af greftri vatnsfalla og svörfun skriðjökla á jökulskeiðum ísaldar. Byggð á svæðinu einskorðast við láglendi nálægt ströndum og í dölum, landbúnaður er þar mikill og sjávarútvegur stundaður frá nokkrum þéttbýlisstöðum. Þéttbýlisstaðir í kringum Tröllaskaga eru: Hólar, Hofsós, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Árskógssandur, Hauganes, Hjalteyri, Akureyri og Hrafnagil. Hálendi Tröllaskaga er nokkuð erfitt viðureignar fyrir samgöngur á svæðinu en tveir akvegir liggja nú um það. Lágheiði liggur á milli Ólafsfjarðar og Fljóta í Skagafirði, sú leið er yfirleitt lokuð meirihluta árs vegna snjóa. Þjóðvegur 1 liggur um Öxnadalsheiði, þar fer vegurinn hæst í 540 metra yfir sjávarmál og er nokkuð snjóþungur að vetrum en þó kemur sjaldan til lokana þar sem mikið er lagt í að halda honum opnum. Tillögur eru uppi um jarðgöng sem gætu leyst veginn yfir heiðina af hólmi, annað hvort undir núverandi vegarstæði eða frá Hörgárdal yfir í Hjaltadal sem myndi stytta verulega vegalengdina milli Akureyrar og Sauðárkróks. Jarðgöng eru milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar Múlagöng og milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar Héðinsfjarðargöng. Örnefnið Tröllaskagi er ungt, sennilega búið til undir lok 19. aldar. Áður mun skaginn hafa verið nafnlaus. Kommúnistaflokkur Íslands. Kommúnistaflokkur Íslands var íslenskur stjórnmálaflokkur sem starfaði á árunum 1930–1938 eftir að hafa klofið sig úr Alþýðuflokknum. Brynjólfur Bjarnason var eini formaður flokksins. Kommúnistarnir stofnuðu ásamt Héðni Valdimarssyni og öðrum fylgismönnum hans úr Alþýðuflokknum Sameiningarflokk alþýðu Sósíalistaflokkinn 1938. Kommúnistaflokkurinn var formlega hluti af alþjóðasamtökum kommúnista, Komintern. Verkalýðsblaðið var lengst af málgagn flokksins. Tjón. Tjón er blendingur fangaðs karltígurs og kvenkyns ljóns, tjónsdýrið fæðist oftast ófrjótt, en eru þó dæmi þess að þau hafi getið af sér afkvæmi. Ekki er vitað til að ljónynjur og tígrar eðli sig án þess að mannshöndin komi að þar sem tegundirnar tvær deila hvergi yfirráðasvæði nema í Gir skógi í Indlandi auk þess sem þær umgangast ekki í náttúrunni. Lítri. Lítri er lagarmálseining. Einn lítri jafngildir einum rúmdesimetra, þ.e. 1 l = 1 dm³. Lítrar eru fyrst og fremst notaðir til að mæla minni háttar vökvamagni, en sé um mikið magn að ræða eru notaðar stærri rúmmálseiningar, eins og rúmmetrar. Afleiddar einingar lítra eru með smækkunar- og stækkunarforskeytum þessar: millilítri, sentilítri, desilítri, ("lítri"), dekalítri, hektólítri, kílólítri. Í hverju skrefi er tíföld stækkun. Þannig eru 1000 millilítrar í einum lítra og 10000 sentilítrar í einum hektólítra, svo að dæmi séu tekin. Lítið vökvamagn eins og til dæmis fljótandi lyf er að jafnaði mælt í millilítrum. Áfengisskammtar eru mældir í sentilítrum (1 einfaldur = 3 sentilítrar). Við matargerð og bakstur er iðulega miðað við desilítra. Menn kaupa mjólk og bensín í lítratali og heitt vatn frá hitaveitu í lítrum á mínútu. Dekalítraeiningin sést nánast aldrei notuð og hektólítrar sjaldan. Kílólítri (kl) er ekki notaður vegna þess að 1 kl jafngildir 1 rúmmmetra og menn nota heldur rúmmetra. Lítri tengist metrakerfinu samkvæmt skilgreiningu, en er ekki SI-mælieining. Margar Evrópuþjóðir nota lítra, nema helst Bretar og Bandaríkjamenn, sem nota lagarmálseiningarnar "fluid ounce, pint, quarter, gallon" o.s.frv. (Ath. að munur er á breskum og bandarískum lagarmálseiningum með sama heiti, en að jafnaði eru þær bresku stærri en þær bandarísku.) Norðurvegur ehf.. Norðurvegur ehf. er félag sem stofnað var í febrúar 2005 í þeim tilgangi að undirbúa mögulega lagningu hálendisvegar til þess að stytta vegalengdina á milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands. Stærstu hluthafar eru KEA (25%), Akureyrarbær (15%) og Hagar (10%) en mörg fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar á norður- og suðurlandi eiga einnig hlut. Stórisandur. Upprunaleg hugmynd um legu Norðurvegar yfir Stórasand. Upphaflega var félagið stofnað í kringum tillögu um veg sem lagður yrði á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar með það að markmiði að stytta vegalengdina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 42 kílómetra. Vegurinn yrði lagður upp úr Borgarfirði um Hallmundarhraun, Stórasand og sunnan Blöndulóns niður í Skagafjörð þar sem hann tengist núverandi Þjóðvegi 1 í Norðurárdal. Vegur frá Borgarfirði um Kaldadal að Þingvöllum myndi svo stytta leiðina um aðra 40 km eða 82 kílómetra alls. Einn helsti stuðningsmaður framkvæmdarinnar og sá sem stakk upp á heitinu „Norðurvegur“ er Halldór Blöndal sem ásamt fleiri þingmönnum lagði fram þingsályktunartillögu um verkefnið um vorið 2004. Gert var ráð fyrir að lagning vegarins á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar yrði einkaframkvæmd og að veggjald yrði innheimt á þeim kafla en kostnaðurinn við þann kafla var áætlaður 4,5 milljarðar króna. Vegurinn um Kaldadal yrði hins vegar ríkisframkvæmd en sá vegur er nú þegar á vegaáætlun. Áætlanir um veg um Stórasand voru umdeildar af umhverfisástæðum en sá vegur hefði legið í gegnum eitt stærsta ósnortna víðernið sem eftir er á hálendi Íslands auk þess sem hann hefði leitt mikla umferð í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum. Einnig komu upp efasemdir um að rétt væri að leggja veg í eins mikilli hæð og þau áform gerðu ráð fyrir. Kjölur. Á aðalfundi félagsins 24. mars 2006 var tilgangi þess breytt þannig að í stað vegar yfir Stórasand muni það beita sér fyrir vegalagningu úr Skagafirði, yfir Eyvindastaðarheiði og yfir Kjöl. Við breytinguna gerðust ýmis sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar á Suðurlandi hluthafar í félaginu. Þann 4. febrúar 2007 efndi félagið til blaðamannafundar og kynnti áætlanir sínar um veginn. Samkvæmt þeim myndi vegurinn liggja frá þjóðvegi 1 nálægt Silfrastöðum í Norðurárdal í Skagafirði til suðurs upp á Eyvindastaðarheiði og áfram yfir Kjöl, vegurinn myndi svo tengjast Biskupstungnabraut (þjóðvegi 35) við Gullfoss. Ekki stendur til að byggja upp núverandi Kjalveg heldur væri þetta alveg nýr vegur langstærsta hluta leiðarinnar. Vegurinn yrði 145 kílómetra langur, 8,5 metra breiður, upphækkaður um 2-3 metra yfir nánasta umhverfi og færi mest í 720 metra hæð yfir sjávarmáli. Styttingin á milli Akureyrar og Reykjavíkur myndi nema 47 km (12,1% stytting) og á milli Akureyrar og Selfoss væri styttingin 141 km (32,8% stytting). Ætlunin er að leggja veginn í einkaframkvæmd og fjármagna með veggjöldum. Kostnaðurinn er áætlaður vera í kringum 4,2 milljarða króna og gert er ráð fyrir því að veggjaldið nemi 2000 kr. fyrir staka ferð á fólksbíl en 8000 kr. fyrir þungaflutninga, afslættir væru í boði fyrir þá sem nota veginn oft samkvæmt svipuðu fyrirkomulagi og er í Hvalfjarðargöngum. Gagnrýni. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefur lýst því yfir að samtökin séu andvíg uppbyggingu hálendisvega. Ferðaklúbburinn 4x4 hefur einnig ályktað gegn veginum.. Einnig hefur Ómar Ragnarsson lýst yfir andstöðu við veginn. Stjórn Ferðafélags Íslands hefur ályktað gegn byggingu vegarins. Rökin sem nefnd hafa verið gegn lagningu vegarins eru fyrst og fremst þau að hann sé of umfangsmikil framkvæmd á svæði sem hefur verið nokkurn veginn laust við mannvirki hingað til. Því er haldið fram að vegur sem byggður er upp um 2-3 metra og ber mikla umferð, þar á meðal þunga flutningabíla eigi eftir að valda miklum skaða vegna sjón- og hávaðamengunar enda sé kyrrðin á svæðinu þess helsti kostur. Bent hefur verið á að unnt sé að stytta þjóðveg 1 frá Norðurlandi til höfuðborgarsvæðisins töluvert á láglendi, 25 kílómetrar hafa verið nefndir í því sambandi. Í tillögu að samgönguáætlun 2007-2018 eru tveir möguleikar nefndir í þessu sambandi, annars vegar 3,5 km stytting með nýrri legu þjóðvegarins í Skagafirði en hins vegar 15,5 km stytting með nýrri legu vegarins sunnan Blönduóss. Sundabraut kemur einnig til með að stytta leiðina um 7-9 km. Varðandi styttingu fram hjá Blönduósi er það þó forsenda að sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu falli frá andstöðu sinni við breytta legu vegarins þar og samþykki að breyta sameiginlegu svæðisskipulagi í þá veru. Beiðni Vegagerðarinnar um að svæðisskipulaginu yrði breytt í þá veru að leyfa vegagerðina var hafnað í maí 2005, sú ákvörðun var kærð en var endanlega staðfest af umhverfisráðherra 23. mars 2006. William Rowan Hamilton. William Rowan Hamilton (4. ágúst 1805 - 2. september 1865) var írskur stærðfræðingur og sagður hafa verið mesti stærðfræðingur Írlands. Hans er líklega helst minnst fyrir framlag sitt til hreinnar stærðfræði með kenningum sínum um tvinntölur. Hann uppgötvaði einnig fertölur (enska: "quaternions") og hagnýtingu óvíxlinnar algebru. Hann var kallaður undrabarn og sagt er að hann hafi talað 13 tungumál reiprennandi er hann var 13 ára. Hann varð prófessor í Dyflinni og Konunglegur stjörnufræðingur Írlands 22 ára gamall. Fertölur. Fertala er stærðfræðilegt hugtak sem lýsir tölu, sem er samsett úr fjórum liðum, þannig að einn þeirra er rauntala en hinir þrír eru allir þvertölur. Allar reiknireglur venjulegrar algebru gilda, nema að margföldun er ekki víxlin. Á máli stærðfræðinnar er mengi fertalna óvíxlinn baugur, en andhverfa er til fyrir sérhvert stak nema 0. Háskóli Íslands. Háskóli Íslands er ríkisháskóli sem var stofnaður árið 1911. Fyrsta starfsárið voru 45 nemendur við nám, þar af ein kona, en eru nú um það bil fjórtán þúsund, þar af um 1100 erlendir nemendur. Rektor skólans er Kristín Ingólfsdóttir, prófessor í lyfjafræði. Saga. Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní árið 1911 og tók til starfa í októberbyrjun sama ár. Við það sameinuðust Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn. Ein deild innan Háskólans var tileinkuð hverjum þeirra auk þess sem stofnuð var sérstök heimspekideild. Fyrsta árið voru 45 nemendur við skólann, fimm í guðfræðideild, sautján í lagadeild og 23 í læknadeild, en enginn var skráður í heimspekideild. Fyrsti rektor skólans var Björn M. Ólsen, prófessor við heimspekideild. Fyrstu 29 árin var Háskóli Íslands staðsettur á neðri hæð Alþingishússins við Austurvöll, en árið 1940 flutti skólinn starfsemi sína í nýtt húsnæði, aðalbyggingu Háskólans, austan við Suðurgötu. Síðan þá hefur Háskólasvæðið stækkað til muna, og kennt er í mörgum byggingum beggja vegna Suðurgötu og á fleiri stöðum. Kostnaður við nýbyggingar skólans sem og viðhald eldri bygginga hefur að miklu leyti verið greiddur af Happdrætti Háskólans sem var stofnað árið 1934 með sérstöku leyfi. Í lok árs 2007 lauk byggingu Háskólatorgs sem er samnefnari tveggja bygginga, samanlagt 8.500 fm2 að stærð. Byggingavinna hófst vorið 2006. Nám. Háskóli Íslands býður upp á fjölbreytt nám, bæði á grunnstigi og framhaldsstigi. Við Háskóla Íslands eru 25 deildir og fjórar Þverfræðilegar námsbrautir. Að auki fer fram kennsla á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands. 1. júlí 2008 tóku gildi breytingar á námsskipulagi sem og stjórnkerfi skólans. Ákveðið var að skólinn skildi sameinast Kennaraháskóla Íslands. Fræðasvið skólans urðu fimm talsins og deildirnar 25. Félagsvísindasvið. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands var stofnuð árið 1976. Sviðið er það fjölmennasta í Háskólanum. Deildir sviðsins eru sex talsins. Menntavísindasvið. Kjarni Menntavísindasviðsins er myndaður úr Kennaraháskóla Íslands sem sameinaðist HÍ í júlí 2008. Útskrifaðir eru kennarar fyrir leik- grunn- og framhaldsskóla, íþrótta- og heilsufræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa. Háma. Háma nefnist mötuneyti Háskóla Íslands sem staðsett er á Háskólatorgi. Rektorar. Rektor Háskóla Íslands er æðsti fulltrúi skólans og ber ábyrgð á allri starfsemi hans. Rektor er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára í senn samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, að undangengnum almennum kosningum innan Háskólans. Fyrsti rektor Háskólans var Björn M. Ólsen. Núverandi rektor er Kristín Ingólfsdóttir sem er fyrst kvenna til að gegna embættinu. Önnur afleiða. Önnur afleiða er afleiða (fyrstu) afleiðu falls. Núllstöðvar hennar gefa upplýsingar um staðsetningu beygjuskila fallsins. Þorgeir Ástvaldsson. Þorgeir Ástvaldsson er þáttastjórnandi á útvarpsstöðinni Bylgjunni og er höfundur dægurlagsins "Á puttanum" og söng lagið "Ég fer í fríið". Hann stjórnaði einnig Skonrokki sem voru vinsælir tónlistarþættir í sjónvarpinu á níunda áratugnum. Hann var líka fyrstur til að gefa upp stig sem Íslendingar gáfu í Eurovision 1986. Portishead. Portishead er trip hop hljómsveit frá borginni Bristol sem stofnuð var árið 1991 þegar Geoff Barrow, sem hafði áður unnið með sveitum í sama tónlistarflokki á borð við Massive Attack og Tricky, hitti Beth Gibbons. Ákveðið var að nefna sveitina eftir fæðingarbæ Barrows sem er staðsettur um 20 kílómetrum fyrir vestan Bristol. Meðlimir sveitarinnar hafa þó seinna gefið úr þá yfirlýsingu að þeim sé vægast sagt illa við bæinn. Nafnið er borið fram „Por-tis-head“, með „s“ í miðjunni 's' en ekki „Por-ti-shead“. 1766. Dansleikur í Riddarasalnum í Kristjánsborgarhöll í tilefni af brúðkaupi Kristjáns 7. og Karólínu Matthildar 1766. 1762. Erlendis. a>. Málverk eftir Rokotov frá 1763. Úrtaksmengi. Úrtaksmengi (kallað útkomurúm í líkindafræði) er mengi allra mögulegra útkoma úr ákveðinni tilraun. Úrtaksmengi ásamt σ-algebru af hlutmengjum úr úrtaksmenginu og líkindamáli mynda líkindarúm. Úrtaksmengi þurfa ekki að vera teljanlega stór. Útkomurúmið fyrir það hversu mikil rigning, í millimetrum, fellur á Akureyri á einu ári samanstendur af öllum gildum á bilinu formula_1. Þó svo að það muni líklega aldrei falla óendanlega mikil rigning á Akureyri, þá er það samt sem áður fræðilega hugsanleg útkoma úr tilrauninni, sökum þess hvernig fjarlægð er skilgreind. Þetta sýnir að það þurfa ekki að vera jafn miklar líkur á öllum útkomum í útkomurúmi tilraunar. Dæmi. Fyrir teningakast samanstenur útkomurúmið af gildunum 1, 2, 3, 4, 5 og 6; þ.e. allar þær tölur sem geta komið upp við teningakastið. Útkomurúm fyrir tilraunina að velja eitt spil af handahófi úr spilastokk samanstendur af öllum spilunum í stokknum. Nánara dæmi. Ef við sem dæmi gerum ráð fyrir því að tilraunin felist í því að kasta peningi þrisvar og skrá hvort upp kemur framhlið eða bakhlið (F eða B), þá væri úrtaksmenginu lýst sem, þar sem til dæmis FBB táknar það að í fyrsta kasti sneri framhliðin upp, en bakhlið peningsins í öðru og þriðja kasti. Væri hugmyndin hins vegar að kasta peningi þrisvar og skrá hversu oft framhlið sneri upp í þessum þremur köstum, þá væri úrtaksmengið, þar sem t. d. 2 táknar það að í einhverjum tveimur köstum fékkst framhlið. Í fyrra úrtaksmenginu eru 8 mismunandi útkomur, sem allar eru jafn líklegar, hver um sig hefur líkurnar 1/8. Í seinna menginu eru 4 mismunandi útkomur, en þær eru ekki jafn líklegar. Líkur þess að fá 0, sem þýðir það að aldrei snýr framhlið upp í köstunum þremur (þ. e. BBB) eru 1/8. Talan 1 felur í sér að framhliðin komi upp einu sinni og getur því átt við FBB, BFB eða BBF og eru líkur þess því 3/8. Á sama hátt á talan tveir við FFB, FBF eða BFF og eru líkur þess því líka 3/8. Að síðustu er svo talan 3, sem táknar að framhlið sneri upp í öllum köstunum, FFF. Líkur þess eru 1/8. Séu líkur allra möguleika úrtaksmengisins lagðar saman er summan ætíð 1. 1/8 + 3/8 + 3/8 + 1/8 = 1. Söðulpunktur. Söðulpunktur er í stærðfræði punktur P í þrívíðum fleti, z = f(x,y), þar sem P hefur þann eiginleika, að vera lággildispunktur á ferlinum sem fæst þegar flöturinn z er skorinn með lóðréttu plani í eina stefnu, en er aftur á móti hágildispunktur þegar z er skorinn með lóðréttu plani í aðra stefnu. Venjulegur hnakkur hefur einn punkt, sem er svona: ef hnakkurinn er skorinn í sundur að endilöngu fæst lággildispunktur rétt framan við miðjan hnakkinn. Sé hnakkurinn hins vegar skorinn þvert í gegnum þennan sama punkt verður hann hágildispunktur. Þetta er ástæðan fyrir nafngiftinni. Stigull söðulpunkts er núllvigurinn. 1752. Benjamín Franklín sendir upp flugdreka í þrumuveðri. Katrín Jakobsdóttir. Katrín Jakobsdóttir (fædd 1. febrúar 1976) er formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrum mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín er oddviti VG í Reykjavíkurkjördæmi norður. Menntun. Katrín lauk grunnskólaprófi frá Langholtsskóla 1992, stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1996 með hæstu meðaleinkunn sem fengist hafði á stúdentsprófi þar, 9.7. Hún lauk BA-prófi í íslensku með frönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands 1999 og MA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 2004 en lokaritgerð hennar fjallaði um Arnald Indriðason. Stjórnmál. Katrín var formaður ungra vinstri grænna á árunum 2002-2004. Kjörtímabilið 2002-2006 var hún varaborgarfulltrúi í Reykjavík fyrir R-listann. Katrín hefur setið á Alþingi frá vorinu 2007 og var menntamálaráðherra á árunum 2009-2013. Katrín var varaformaður VG 2003-2013 og hefur verið formaður VG frá árinu 2013. Annað. Árin 2004 og 2005 var hún einn af umsjónarmönnum Sunnudagsþáttarins á SkjáEinum. Tvíburarnir Ármann Jakobsson og Sverrir Jakobsson eru bræður hennar. Skúli Thoroddsen stjórnmálamaður var langafi Katrínar og Theódóra Thoroddsen skáld langamma hennar, afi hennar Sigurður S. Thoroddsen verkfræðingur og Alþingismaður og Dagur Sigurðarson skáld móðurbróðir hennar. Fersentimetri. Fersentímetri er flatarmálseining sem fengin er með því að margfalda saman lengd sinnum breidd. Einn fersentímetri er því 1sm * 1sm = 1sm^2= 1 fersentímetri. Refurinn. "Refurinn" (enska: "The Fox") er stutt skáldsaga eftir D. H. Lawrence gefin út árið 1923. Bubbi Morthens. Ásbjörn Kristinsson Morthens (fæddur 6. júní 1956 í Reykjavík á Íslandi), oftast nefndur Bubbi Morthens, er íslenskur tónlistarmaður. Móðir hans var dönsk og pabbi hans hálfíslenskur og hálfnorskur. Bubbi hefur verið þekktur í íslensku tónlistarlífi síðan á 9. áratugnum. Hann hefur verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum, þekktastar eru Utangarðsmenn og Egó en lengst af hefur Bubbi verið einn með gítarinn sem trúbador. Bubbi hefur í gegnum tíðina selt fleiri plötur á Íslandi en nokkur annar tónlistarmaður, íslenskur eða erlendur. Bubbi hélt þekkta tónleika sem voru kallaðir "06.06.06" árið 2006. Karlamagnús. Karlamagnús (Karl I eða Karl mikli; franska: "Charlemagne", þýska: "Karl der Große", latína: "Carolus magnus") (um 2. apríl 742 – 28. janúar 814 í Aachen) var konungur frankaríkisins mikla sem spannaði um nær gervalla Vestur-Evrópu. Hann var krýndur keisari árið 800 og var einn mesti höfðingi í Evrópu á miðöldum. Karlamagnús er dýrlingur kaþólsku kirkjunnar að áeggjan Friðriks Barbarossa keisara, sem einnig veitti honum nafnbótina ‚faðir Evrópu‘ ("Pater Europae"). Eftir honum er ætt Karlunga nefnd. Karlungi. Gullslegin stytta af Karlamagnúsi í dómkirkjunni í Aachen Karlamagnús var af ætt Karlunga, en það var konungsættin í frankaríkinu. Hann fæddist árið 747 eða 748 (heimildum ber ekki saman). Foreldrar hans voru Pipin litli frankakonungur og Bertrada af Laon. Ekkert er vitað um æsku Karls en þegar hann var um tvítugt lést Pippín faðir hans árið 768. Í fyrstu eftir það ríkti hann með bróður sínum, Karlóman I. En aðeins þremur árum síðar lést Karlóman og varð Karl þá eini konungur frankaríkisins. Ástandið í Evrópu á þessum tíma var ótryggt. Á norðurþýsku lágsléttunni bjuggu saxar en þeir voru enn heiðnir og voru utan við frankaríkið. Á Spáni réðu márar og leituðust við að sækja til norðurs. Á Ítalíu voru langbarðar í erjum við páfagarð um yfirráð á skaganum. Í austri voru austrænir avarar að sækja vestur. Stríð. Karlamagnús mun snemma hafa tekið sér fyrir hendur að treysta ytri mörk ríkisins, kristna nágranna sína og hertaka ný lönd. Fyrsta verkefni hins unga konungs var að hertaka Akvitaníu (syðst í nútíma Frakklandi) en þar hafði Húnold hertogi gert uppreisn gegn konungi. Í átökunum náði Karl ekki aðeins Akvitaníu, heldur einnig Gascoigne. Þannig mynduðust núverandi landamæri Frakklands og Spánar. Næst sneri Karl sér að söxum í norðri. Þangað fór hann fyrst árið 772 en þetta mun hafa verið erfiðasta verkefnið sem hann tók sér fyrir hendur. Alls varði Karl 30 árum ævi sinnar í að hertaka lönd saxa í nokkrum leiðöngrum. Honum var ekki aðeins umhugað um að ná löndum þeirra, heldur réðst hann í að kristna þá. Í þeim tilgangi var borgin Hamborg stofnuð og var hún lengi vel miðstöð kristniboðsins í norðri. Á meðan saxastríðin stóðu yfir fór Karl í herleiðangra í aðra hluta ríkis síns. 773 fór hann suður Alpafjöll og herjaði á langbarða. Ári síðan náðu frankar höfuðborg þeirra, Pavia. Karl setti síðasta langbarðakonunginn, Desideríus, af og útnefndi sjálfan sig sem konung langbarða. Hann sótti alla leið til Rómar og gerði samning við páfa þar sem páfagarður fékk að halda þeim löndum sem Pippín II, forfaðir Karlamagnúsar, hafði gefið páfa. Sökum mikillar velgengni sinnar ákvað Karl nú að ráðast inn í Spán og herja á mára. Sá leiðangur var farinn 778 en var misheppnaður. Frankar náðu að eyða Pamplona og komast alla leið suður til Saragossa. En í orrustunni við Roncesvalles í Pýreneafjöllum biðu þeir mikinn ósigur og hvarf Karl þá aftur í ríki sitt. Þetta var eina stóra orrustan sem Karl tapaði á langri ævi sinni. Sagan segir að á leið sinni norður Pýreneafjöll hafi Karl stofnað hertogadæmið Andorra. Það er þó óvíst. Árið 788 var Bæjaraland innlimað í frankaríkið. Bæjaraland hafði verið óháð hertogadæmi fram að þessu. Karl hertók einnig Austurmörkina (núverandi Austurríki) og setti þar upp nýtt hertogadæmi til varnar avörum frá austri. Keisari. Þýsk skýringarmynd af frankaríkinu. Blátt = Stærð ríkisins þegar Karlamagnús tók við völdum. Appelsínugult = Landsvæði sem Karl herjaði á og innlimaði. Gult = Háð landsvæði. Árið 795 var Leó III kjörin páfi. Hann lenti upp á kant við íbúa Rómar sem endaði með því að hann flúði til Karlamagnúsar árið 799 en hann sat þá í Paderborn. Karl brást jákvætt við og fór til Ítalíu ári síðar. Fyrir framan borgarmúra Rómar hitti hann Leó páfa aftur, sem krýndi hann til keisara á jóladegi árið 800. Karl var þeirrar skoðunar að þannig væri Rómaveldi endurreist, en síðasti vestrómverski keisarinn var settur af árið 476 af gautum. Að því leyti kallaði hann ríki sitt heilagt, en það var ekki fyrr en eftir hans daga að austurhluti ríkisins var nefndur heilaga rómverska ríkið. Nikefóros keisari í Býsans var hneykslaður á krýningunni, enda litu Býsansmenn á sig sem arftaka Rómaveldis. Níkefóros neitaði að viðurkenna Karl sem keisara og tók ekki á móti sendiboðum frá honum. Til átaka kom er Níkefóros gerði tilkall til Dalmatíu (norðanverð Adríahafsströnd) og Venetíu (héraðið í kringum Feneyjar). Pippín, sonur Karlamagnúsar, náði að hertaka Venetíu en Dalmatía varð áfram eign Býsans. Andlát. Þegar árið 806 gerði Karl ráðstafanir varðandi andlát sitt. Hann gerði áætlanir um að skipta ríkinu milli sona sinna. En tveir elstu synir hans létust og var þá aðeins Lúðvík guðhræddi eftir sem arfgengur sonur. Aðrir synir voru fæddir utan hjónabands. Lúðvík varð meðkonungur föður síns 813. Karl sjálfur lést 28. janúar 814 í keisaraborginni Aachen og hvílir í dómkirkjunni þar. Karl var í lifanda lífi verndari kristninnar og lét reisa kirkjur, kastala og virki víða í ríkinu. Hann ríkti yfir stærsta landsvæði allra konunga miðalda í Evrópu. Þar sem hann fór í marga leiðangra, sat hann á ýmsum stöðum, en kaus þó borgina Aachen sem aðalaðsetur sitt. Karl var lýstur helgur í kaþólsku kirkjunni 1165 að áeggjan Friðriks Barbarossa keisara. Eiginkonur. Karlamagnús var margkvæntur. Hann átti að minnsta kosti fjórar eiginkonur en ef til vill fimm. Karl átti að minnsta kosti fjórar hjákonur sem hann átti börn við. Þær hétu Madelgard, Gersvind, Regína og Aðalind. Spaugstofan. "Spaugstofan" er grín-sjónvarpsþáttur sem hefur verið í gangi í Sjónvarpinu og síðan Stöð 2 með hléum síðan 21. janúar 1989 þegar hún hóf göngu sína undir nafninu "89 af stöðinni", árið eftir hét hún "90 af stöðinni" og enn síðar "Enn ein stöðin". Þátturinn er á dagskrá á laugardagskvöldum og gengur yfirleitt út á það að sýna atburði liðinnar viku í spaugilegu ljósi. Spaugstofuna skipa í dag þeir Örn Árnason, Karl Ágúst Úlfsson, Pálmi Gestsson og Sigurður Sigurjónsson. Randver Þorláksson var í Spaugstofunni í tæpa tvo áratugi, eða allt til ársins 2007. Þessi hópur kallast Spaugstofumenn þegar fjallað er um þá í fjölmiðlum. Þessi skipan hefur verið óbreytt megnið af þeim tíma er Spaugstofan hefur starfað, ef frá er skilið brotthvarf Randvers árið 2007. Þeir í Spaugstofunni gera mikið grín að stjórnmálum og frægum mönnum á Íslandi. Þátturinn var lengst af í Ríkissjónvarpinu á laugardögum en flutti sig yfir á Stöð 2 árið 2010. Í upphafi árið 1986 voru framleiddir fjórir þættir undir heitinu Spaugstofan en þá var Laddi einnig með þeim félögum en hann fór svo yfir í Gríniðjuna. Pálmi var ekki með Spaugstofunni þá en gekk til liðs við hana 1989. Persónur og atriði í þáttunum. Spaugstofumenn leika í þáttunum stjórnmálamenn og annað fólk sem er áberandi í fjölmiðlum. Þeir leika einnig persónur sem þeir hafa sjálfir þróað. Ragnar Reykás. Lágvaxni alþýðumaðurinn Ragnar Reykás er leikinn af Sigurði Sigurjónssyni. Hann kemur venjulega fram í viðtölum utandyra við fréttamanninn Erlend (leikinn af Erni Árnasyni) og gefur álit "mannsins á götunni" á málefnum líðandi stundar. Einkennandi fyrir þessi viðtöl er að Ragnar gefur sig út fyrir að hafa ígrundaðar skoðanir á málunum og talar af sterkri sannfæringu en á meðan á viðtalinu stendur gerist eitthvað sem leiðir til þess að Ragnar sér nýja hlið á málinu og skiptir algjörlega um skoðun. Þegar Tor Bomann-Larsen kynnti tilgátur sínar um að Ólafur fimmti, konungur Noregs, hefði verið rangfeðraður, kom í ljós að Ragnar Reykás væri réttborinn konungur Noregs. Kristján Ólafsson. Kristján Ólafsson, einnig leikinn af Sigurði Sigurjónssyni, sér um fræðsluþætti fyrir neytendur og reynir að gefa neytendum góð ráð varðandi ýmsar vörur. Hann kynnir sig með því að segja "Kristján heiti ég, Ólafsson". Kristján hefur nokkra kæki og virðist því vera taugaóstyrkur yfir því að tala fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar. Hann verður sérstaklega vandræðalegur þegar hann talar um kynlíf og því tengda hluti, en það gerir hann oft. Hann nefnir gjarnan ensk orð yfir hluti og hugtök sem hann talar um, áhorfendum til upplýsingar. Í einum þætti dró hann stóran smokk yfir líkama sinn og tróð sér inn í stórt líkan af kynfærum konu. Þetta atriði varð til þess að forsvarsmenn þáttarins voru kærðir fyrir að brjóta gegn almennu velsæmi. Bogi og Örvar. Útigangsmennirnir Bogi og Örvar, venjulega titlaðir "rónar", eru leiknir ef Erni Árnasyni og Randver Þorlákssyni. Þeir halda til á bekk við styttuna af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Þeir taka yfirleitt ekki virkan þátt í íslenska þjóðfélaginu heldur láta sér oftast nægja að velta því fyrir sér hvaða afleiðingar ýmsar aðgerðir og breytingar munu hafa fyrir þá. Þegar þeir komast að niðurstöðu syngja þeir ýmist "Nú erum við í góðum málum, lallarallala," eða "Nú erum við í vondum málum, lallarallala," eftir því hver niðurstaðan er. Sum atriði með Boga og Örvari ganga út á tilfallandi orðaleiki og enn önnur draga á skoplegan hátt fram muninn á lífi útigangsmannsins og lífi hins vinnandi manns, t.d. þegar annar þeirra vinnur 50% starf hjá fyrirtæki og er svo "róni hálfan daginn" og þegar annar þeirra hefur með sér nema, ungan mann sem er að "læra til róna". Hjónin Boris og Svetlana. Hjónin Boris Beljakov og Svetlana Rassarova eru skautadansarar frá fyrrum Sovétríkjunum. Til að byrja með komu þau aðallega fram í sjónrænum grínatriðum en þau komu fram í viðtali þegar "nýbúar" komust í fjölmiðlaumræðuna. Sniðugt á Íslandi. Sniðugt á Íslandi eru atriði sem sýna nokkra austur-evrópska menn sem sækja námskeið í íslensku fyrir nýbúa. Ýmis fyrirbæri í íslenska þjóðfélaginu eru útskýrð fyrir nýbúunum, sem jafnan komast að þeirri niðurstöðu að það sé "sniðugt á Íslandi". Samsæriskenninga-maðurinn. Ónefndur maður, leikinn af Erni Árnasyni, kynnir ýmsar samsæriskenningar fyrir áhorfandanum. Stundum horfir áhorfandinn á hann gegnum öryggismyndavélar hér og þar. Þessi maður horfir alltaf í myndavélina og talar beint til áhorfandans. Hann hefur innréttað leynilega njóstastöð innan í styttu fyrir framan Stjórnarráðið í Reykjavík og þaðan njósnar hann um ríkisstjórn Íslands. Hann grunar Norðmenn um samsæri til að ná völdum á Íslandi. Þegar honum sýnist fólk vera að fylgjast með honum hrópar hann "Heia Norge!" í uppgerðarhollustu við Noreg. Glerárskóli. Glerárskóli Stofnaður 1908 er grunnskóli í Glerárhverfi á Akureyri með um 430 nemendur. Skólastjórinn heitir Úlfar og aðstoðarskólastjórinn Katrín. Skólaslitin í Glerárskóla eru fyrst af skólum á Akureyri. Glerárskóli er eini skólinn á Akureyri sem er með sundlaug. Bjór (öl). Bjór er áfengur drykkur sem er framleiddur er með því að gerja sterkjuríkt korn, oftast melt bygg, en ómelt bygg, hveiti, maís og aðrar korntegundir eru einnig notaðar í suma bjóra. Bjórframframleiðsla er nokkuð flókið ferli í mörgum skrefum (sjá neðar), en oftast kölluð einu nafni bruggun þó strangt til tekið eigi það heiti eingöngu við eitt skrefið (suðu í bruggkatli). Bjór var þekktur meðal Súmera, Egypta og Mesópótamíumanna og hefur því verið framleiddur að minnsta kosti frá 4000 f.Kr. Þar sem hráefnin sem notuð eru við bjórbruggun eru ólík á milli landsvæða geta einkenni bjórs (gerð, bragð og litur) verið nokkuð ólík og bjórar því gjarnan flokkaðir í mismunandi stíla. Helstu hráefnin til bjórgerðar eru vatn, melt bygg (malt), humlar, ger og stundum sykur. Á víkingatímanum var mikið drukkið, bæði öl og svo sterkt, sætt ávaxtavín og mjöður. En það var fyrst á miðöldum, sem almennt var farið að nota humla í ölið í staðinn fyrir pors. Humlarnir náðu fyrst vinsældum í Heiðabæ ("Hedeby") á Norður-Þýskalandi, en einmitt frá þeim slóðum fengu Skandinavar fyrst vín í miklum mæli, einkum frá Rínarsvæðinu. Bjór á Íslandi. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og að minnsta kosti fram á 17. öld var kornöl aðalveisludrykkur manna hér á landi. Það var bruggað úr malti, sem er spírað bygg, og kallað mungát. Orðið bjór var framan af fremur notað um innflutt öl af þessu tagi. Til ölgerðar þurfti einungis malt, vatn og ger sem venjulega var tekið frá fyrri lögun. Ekki er ólíklegt að trjábörkur eða einiber hafi verið sett í öl til bragðbætis. Humlanotkun fer svo að breiðast út á Norðurlöndum á 12. öld. Þeir voru ekki eingöngu til bragðbætis heldur vörðu þeir einnig ölið skemmdum. Áhöld sem notuð voru til ölgerðar voru kölluð "ölgögn", eða "hitugögn", og á höfðingjasetrum voru sérstök "hituhús" til þessarar iðju í eldri tíð. Á heimilum hefur ölhita væntanlega farið fram í eldhúsi, eða e.t.v. við útielda þegar þannig viðraði. Konur hafa vafalítið gert öl á íslenskum heimilum. „Konu skal kenna til ölgagna ok allra þeirra hluta er henni samir að vinna“, segir í Snorra Eddu. Gamall málsháttur segir: „Ekki er hatur í ölkonu húsi“. Hér hafa einnig verið karlkyns iðnaðarmenn á þessu sviði. Fræg er sagan af Ölkofra sem gerði öl og seldi á Alþingi, en af þeirri iðn varð hann málkunnugur öllu stórmenni, því að þeir keyptu mest mungát. „Var þá sem oft kann verða“ -segir í sögunni-, „að mungátin eru misjafnt vinsæl og svo þeir er selja“. Fyrir siðskipti þótti gott að heita á heilagan Þorlák, ef ölbruggun gekk illa. Bjórbannið. Árið 1961 lagði Pétur Sigurðsson alþingismaður fram frumvarp um það að leyft yrði að brugga áfengt öl til sölu innanlands. Flutningsmenn voru Pétur og nokkrir aðrir þingmenn. Það náði ekki fram að ganga. Árið 1965 lagði hann aftur fram frumvarp þess efnis, en það fór sömu leið. Bann við sölu bjórs á Íslandi var afnumið 1. mars árið 1989. Kannabis. Kannabis (fræðiheiti: "Cannabis") er dulfrævingaættkvísl sem skiptist í þrjá meginstofna: cannabis indica (indverskur hampur), cannabis sativa og cannabis ruderalis. Áður fyrr kölluðust afurðir plöntunnar einu nafni "hampur", en í nútímamerkingu er það notað yfir þær plöntur sem gefa af sér aðrar afurðir en vímugjafa. Plöntunnar er neytt sem vímugjafa á ýmsa vegu. Algengast er að óunnins brums sé neytt, að kristöllum plöntunnar sé þjappað saman til að búa til hass og úr því er einnig unnin hassolía. Hampur er planta sem hefur verið ræktuð í nær 5000 ár. Plantan á uppruna sinn að rekja til Asíu, en er í dag ræktuð um allan heim. Í stöngli plöntunnar eru langar og grófar trefjar sem nýtast vel til iðnaðar. Úr hampi hafa lengi verið unnin m.a. reipi og vefnaðarvörur. Í háblöðum og bikarblöðum kvenplantna myndast efni sem nefnast kannabínóíðar. Best rannsökuðu kannabínóíðarnir eru tetrahydrocannabinol (THC), cannabidiol (CBL) og cannabinol (CBN). Fundist hafa a.m.k. 85 kannabínóíðar, en þessi efnamyndun er mjög mismunandi frá einni plöntu til annarrar. Enn er margt óljóst í sambandi við kannabínóíða, en ljóst þykir að þeir eru hugvíkkandi efni plöntunnar. Áhrif. Við neyslu hamps örvast ákveðnir viðtakar heilans og verkar það róandi á hug og líkama, örvandi á matarlyst og verkjastillandi. Í sumum tilfellum greina neytendur einnig frá mildum ofskynjunum. Til neikvæðra áhrifa hampneyslu eru oft talin vænisýki og skammvinnt minnisleysi. Aldrei hefur verið skráð tilfelli um dauðsfall vegna kannabis. Dauðsföll af völdum vímuefna eru sjaldnast rakin beint til þeirra. Þekkt er að neysla kannabis getur leitt til þunglyndis í fráhvörfum og þá hafa neytendur tekið eigið líf. Einnig eru þekkt áhrif kannabis á hjarta, lungu og æðarkerfi. Möguleg læknisfræðileg áhrif kannabis. Verið er að kanna áhrif kannabis á ýmsa kvilla. Talið er að það hafi jákvæð áhrif hjá þeim sem gangast undir meðferði við krabbameini með því að minnka ógleði þeirra. Það gæti einnig hjálpað til við að minnka þrýsting í augum þeirra sem þjást af gláku. Að auki er það talið bæta astmaköst, og minnka einkenni sumra hreyfisjúkdóma. Rannsóknir benda til þess að það geti einnig hjálpað til við að lina þann sársauka sem fylgir nokkrum sjúkdómum, s.s. tengda mænuskaða. Rannsóknir núna beinast að því að kanna virkni þess sem verkjastillandi lyfs og að þróa kannabis sem ekki felur í sér þá vímu sem raunin er með kannabisefni. Saga kannabisefna. Talið er að hampafurðir hafi verið notaðar í a.m.k. 5000 ár og eru elstu heimildir um það frá Kína. Textar sem fundist hafa í Kína benda til þess að það hafi verið notað sem lyf í Asíu til meðferðar við fjölmörgum sjúkdómum. Á Indlandi tengdist kannabis gyðjunni Shiva. Í Evrópu hefur hampur bæði verið notaður til iðnaðar og í lækningaskyni. Í prússneskum texta frá því um árið 1350 er minnst á hamp og hann kallaður knapis (af "kannabis"). Hampur var einnig notaður í drykkjarföng og í Þýskalandi eru enn þann dag í dag til barir sem bjóða upp á hampbjór og hampvín. Þessi bjór og vín innihalda þó ekki kannabínóíða. Í Bandaríkjunum var hægt að fá kannabisefni keypt út í búð, en notkun þeirra minnkaði með komu annarra deyfilyfja á markaðinn. Á fjórða áratug síðustu aldar var kannabis bannað með lögum í Bandaríkjunum. Talið er að jasskynslóðin hafi svo hafið kannabis upp til nýrra hæða í Bandaríkjunum um miðja tuttugustu öld. Að auki hefur kannabis verið notað í trúarlegum tilgangi, til að mynda meðal Rastafaritrúaðra á Jamaíku og Sadhúa á Indlandi. Viðurlög við notkun kannabis. Kannabis var gert ólöglegt í byrjun síðustu aldar víðast í hinum vestræna heimi. Það var bannað á Bretlandi árið 1928 og sett voru takmörk á það í Bandaríkjunum árið 1937. Þeim takmörkunum réði ekki hvað síst andstaða þeirra sem bjuggu til gerviefni við hampræktun. Bann við kannabis tekur oftast til ræktunar, eignar og dreifingar efnisins. Í Hollandi hefur lengi vel verið leyft að kaupa kannabisefni á sérstökum kaffihúsum og notkun efnisins er ekki ólögleg. Menn greinir hins vegar á um hvort þetta leyfi kyndi undir neyslu annarra efna enda telja sumir að kannabisneysla sé einfaldlega undanfari neyslu annarra efna. Þrátt fyrir skiptar skoðanir hafa sum lönd nú leyft mönnum að eiga kannabis til einkanota (oft án þess að leyfa sölu þess) og er hugsunin ekki hvað síst að menn geti notað það í lækningaskyni. Meðal þessara landa eru Spánn og Portúgal og Ástralía. Á Englandi eru menn ekki lengur handteknir fyrir að eiga lítið magn af kannabis þar sem lögreglan telur sig ná betri árangri með því að einbeita sér að sterkari efnum. Þrátt fyrir það geta menn búist við sektum ef lögregla finnur kannabisefni á þeim. SkjárEinn. SkjárEinn er íslensk sjónvarpsstöð sem hóf útsendingar sínar 20. október 1999, hún er rekin af Íslenska sjónvarpsfélaginu sem er í eigu Símans. Stöðin hefur verið rekinn af auglýsingatekjum síðastliðnu 10 ár og því ókeypis fyrir almenning en stöðinni var læst og rukkuð eru áskriftargjöld sem nemur 2.890 krónum á mánuði. Richard Feynman. Richard Phillips Feynman (11. maí 1918 – 15. febrúar 1988) einn áhrifamesti bandaríski eðlisfræðingur 20. aldarinnar og bætti hann allmikið við skammtarafsegulfræði kenninguna. Hann var talinn mjög góður fyrirlesari og oft sagður hafa verið besti eðlisfræðikennarinn sem uppi hefur verið (fékk viðurnefni „The Great Explainer“ eða „útskýrandinn mikli“). Hann kom við sögu í Manhattan verkefninu og sat í rannsóknarnefndinni sem fór yfir orsakir Challenger-slyssins. Hann hlaut nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir verk sín í skammtarafsegulfræði 1965 og fékk einnig Oersted-orðuna fyrir kennslu. Richard Feynman var einnig góður bóngótrommuleikari. Tengt efni. Feynman, Richard Miklihvellur. Samkvæmt kenningunni um Miklahvell var alheimurinn ákaflega þéttur og heitur í upphafi. Þegar rúm byrjaði að þenjast út aðskildist efni og gerir enn, stjörnuþokur ferðast í sífellu frá hver annarri Miklihvellur er kenning innan heimsfræðinnar sem segir að alheimurinn eigi sér upphaf í tíma og að þá hafi heimurinn verið gríðarlega þéttur og heitur. Kenningin byggir á lögmáli Hubble, meginfrumsemdum heimsfræðinnar um einsleitan og einsátta alheim auk Friedmann-Lemaître líkansins sem byggir á almennu afstæðiskenningunni. Af þessum forsendum og athugunum meðal annars á rauðviki leiðir að alheimurinn hafi allt sitt tilveruskeið verið í útþenslu. Þar af leiðir að alheimurinn mun hafa verið mun þéttari í árdaga og að hann mun þá eiga sér upphaf. Ekki eru allir eðlisfræðingar á sama máli hvernig ástand heimsins var fyrir þetta, hins vegar gerir almenna afstæðiskenning ráð fyrir þyngdaraflssérstæðu (yfirlit yfir getgátur um ástand heimsins fyrir miklahvell má finna á grein um upprunafræði). Hugtakið miklihvellur er í takmarkaðri merkingu notað um þann tímapunkt er rúm byrjaði að þenjast út. Almennari notkun hugtaksins felur hins vegar í sér þá kenningu sem algengust er innan heimsfræðinni um upphaf og útþenslu alheimsins, auk kenningu um samsetningu efnis í upphafi og kjarnamyndun (Alpher-Bethe-Gamow kenningin). Ein afleiða kenningarinnar er sú að ástand alheimsins hafi verið frábrugðið ástandi heimsins í dag og í framtíðinni (þ.e.a.s. þróun alheimsins á sér stað). Út frá þessum upplýsingum gerði George Gamow sér ljóst að hugsanlega væri til það sem kallað er örbylgjukliður sem myndi sannreyna miklahvellskenninguna frekar. Örbylgjukliðurinn var uppgötvaður 1965 og varð til þess að miklahvellskenningin var almennt talin líklegri en sístöðukenningin. Áætlað er að miklihvellur hafi átt sér stað fyrir 13,7 miljörðum ára. Þó er staðfest að finna má plánetur í 46 miljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni. Saga. Kenningin um miklahvell þróaðist út frá athugunum og kennilegum hugleiðingum. Athugendur tóku eftir því að flestar þyrilstjörnuþokur fjarlægðust jörðina, en þeir sem tóku eftir þessu gerður sér hvorki grein fyrir því að um var að ræða stjörnuþokur utan Vetrarbrautarinnar né hvað þetta þýddi fyrir heimsfræðina. Árið 1927 leiddi Georges Lemaître út Friedmann-Lemaître-Robertson-Walker jöfnurnar út frá afstæðiskenningu Einsteins og lagði fram kenningu byggða á athugunum um undanhald stjörnuþoka, um að alheimurinn hefði hafist með „sprengingu frumatóms“, sem síðar var kölluð miklahvellskenningin. Árið 1929 útvegaði Edwin Hubble fyrstu gögnin til stuðnings kenningu Lemaître. Hann komst að því að stjörnuþokur fjarlægðust jörðina úr öllum áttum á hraða sem var háður fjarlægð þeirra frá jörðinni. Þetta er þekkt sem lögmál Hubbel. Lögmál Hubble benti til þess að einsleitur og einsátta alheimur þendist út, en það passaði ekki við hugmyndir Einsteins um staðnaðan og óendanlegan alheim. Þessi hugmynd um útþenslu alheimsins bauð upp á tvo gagnstæða möguleika. Annar var miklahvellskenning Lemaître, sem George Gamow var talsmaður fyrir. Hinn möguleikinn var sístöðukenning Fred Hoyle þar sem efni átti að myndast jafnóðum þegar stjörnuþokurnar fjarlægðust hvor aðra. Samkvæmt því módeli er alheimurinn nánast eins á hverjum tímapunkti. Um langt skeið voru stuðningsmenn hvorar kenningar um sig jafnmargir. Athuganir bentu þó til að alheimurinn hefði þróast frá heitu og þéttu upphafi. Uppgötvun örbylgjukliðs árið 1965 varð til þess að menn fóru að álíta miklahvellskenninguna sennilegri útskýringu á upphafi alheimsins. Nánast öll kennileg verk innan heimsfræðinnar í dag gera ráð fyrir því að miklahvellskenningin sé rétt. Mikil framþróun varð á miklahvellskenningunni síðla á 9. áratug 20. aldarinnar og snemma á 21. öldinni samhliða þróun sjónaukatækni ásamt miklum gögnum frá gervihnöttum eins og COBE, Hubble sjónaukanum og WMAP. Gögnin hafa gert vísindamönnum kleyft að reikna út nýjar breytistærðir fyrir miklahvellsmódelið gert kenninguna nákvæmari og meðal annars komist að því að þensla alheimsins er að aukast. Heljarhrun. Heljarhrun er í heimsfræði tilgáta um að alheimurinn muni á endanum hætt að þenjast út og byrja að dragast aftur saman (andstæða miklahvells) þangað til hann myndar óendanlega þétta sérstæðu þar sem tímarúm mun enda. Forsendur. Gert er ráð fyrir að nægir kraftar séu fyrir hendi til að stöðnun verði á útþenslu alheimsins og er sú sérstæða kölluð hámarksstærð alheimsins; og hann byrji að dragast aftur saman á svipað löngum tíma og hann hefur verið að þenjast út. Rúmsveigja alheimsins þarf að vera nógu mikil til að vera jákvæð til þess að heimurinn byrji að dragast aftur saman. Ef rúmsveigjan er of lítil, eða fyrir neðan það sem kallast markþéttleiki, heldur heimurinn áfram að þenjast út. Margar rannsóknir benda hinsvegar til þess að þetta eigi ekki eftir að gerast, heldur eigi heimurinn eftir að þenjast út með meiri hraða en áður og þyngdaraflið verði ekki nægilegt til að halda aftur af því. Evrópskur sumartími. Evrópskur sumartími er sumartími sem fylgt er í öllum evrópulöndum nema Íslandi sem fylgir UTC+0 allan ársins hring, á meðan á honum stendur eru klukkur færðar áfram um eina klukkustund og aftur um það sama þegar honum lýkur. Sumartími þessi stendur frá 01:00 UTC á síðasta sunnudeginum í mars til 01:00 UTC á síðasta sunnudeginum í október ár hvert. Andorra. Andorra er landlukt furstadæmi í austurhluta Pýreneafjalla milli Frakklands og Spánar. Höfuðborgin heitir Andorra la Vella og er hæst staðsetta höfuðborg Evrópu í 1.023 metra hæð. Landið er aðeins 468 ferkílómetrar að stærð og er því sjötta minnsta land Evrópu. Furstadæmið var stofnað árið 1278 til að sætta átök milli biskupsins af Urgell og greifans af Foix. Greifadæmið gekk síðan til þjóðhöfðingja Frakklands sem nú er Frakklandsforseti. Andorra er vinsæll ferðamannastaður sem fær yfir 10 milljónir ferðamanna árlega. Landið er auk þess skattaskjól. Það er ekki í Evrópusambandinu en evra er engu að síður notuð sem "de facto" gjaldmiðill. Lífslíkur í Andorra eru þær fjórðu mestu í heimi. Landafræði. Landið er mjög fjalllent. Meðalhæð yfir sjávarmáli er 1.996 metrar og hæsta fjallið er Coma Pedrosa sem nær 2.942 metra hæð. Milli fjallanna eru mjóir dalir sem mætast á lægsta punkti þar sem áin Gran Valira rennur til Spánar. Í landinu er ýmist alpaloftslag eða meginlandsloftslag. Bifhár. Bifhár (bifþræðir eða sóphár) (fræðiheiti: "Cilium") eru frymisþræðir margra frumna sem þær nota til hreyfinga. Bifhár er til dæmis að finna innan á öndunarrásum í lungum manna og fleiri landhryggdýra og eru frumurnar þaktar bifhárum sem sópa slími og aðskotaefnum í átt út úr líkamanum. Deilikorn. Deilikorn aðgreina litninga við kjarnaskiptingu og er aðeins að finna í dýrafrumum. Þau eru sívalningar af svokallaðri 9+0 gerð. Í öllum dýrafrumum og flestum frumverum eru tvö deilikorn, hornétt hvort á annað við geislaskautið. Frumuhimna. Frumuhimna er næfurþunn himna sem umlykur allar frumur og einstök frumulíffæri. Hún sér um að rétt magn sé af réttum efnum í frumunni. Hún dælir inn í frumuna efnum sem hún þarfnast og sleppir þeim sem hún þarfnast ekki. Frumuhimnan er að mestu búin til úr fosfólípíðsameindum. Golgiflétta. Golgiflétta eða frymisflétta er frumulíffæri sem er eins konar vinnslu-, pökkunar- og dreifingarstöð fyrir prótín og fitu. Hún breytir sameindum þessara efna á ýmsan hátt í belgjum fléttunnar og pakkar þeim inn í litlar blöðrur til flutninga (það ferli kallast burður). Hvatberi. Hvatberi er belglaga frumulíffæri sem sundrar fæðuefnum við hægan bruna (frumöndun) og framleiðir efni sem heitir ATP sem er eina efnið sem frumur geta notað sem orkulind, því eru hvatberar stundum kallaðir „orkuver frumna“. Hvatbera er að finna í flestum kjarnafrumum, þeir eru nokkrir míkrómetrar að lengd. Hvatberar hafa sitt eigið erfðaefni sem er óskylt erfðaefni í kjarna frumunnar sem þeir finnast í. Því telja margir að eitt sinn hafi hvatberar verið sjálfstæðar lífverur, en hafi seinna stofnað til samlífis við aðrar lífverur. Kjarnakorn. Kjarnakorn fyrirfinnast í kjarna frumna og eru einskonar próteinsmiðja hennar. Í þeim eru örsmá korn sem nefnast netkorn eða ríbósóm, í þeim er amínósýrum raðað saman í prótín. Mönnum er alls kostar ljóst hvaða hlutverki það gegnir, en þeir hallast helst að því að þetta örsmáa frumulíffæri gegni því mikilvæga hlutverki við að smíða prótín í frumuna. Frymisnet. Í frymisneti myndast prótín og fleiri efni sem berast í bólur, til annarra hluta frumunnar eða bara út úr henni. Er kerfi úr himnum sem liggur um alla frumuna. hlutverk þess er að flytja efni innan frumunnar og taka þáttí að mynda ýmis efni. Frymisnetið er framleiðlsukerfi. Til er bæði slétt og kornótt frymisnet. Kornótta frymisnetið lýsir sér þannig að innan þess eru ríbósóm, en í slétta frymisnetinu eru ekki ríbósóm. Slétta frymisnetið tekur síðan við vissum efnum frá kornótta frymisnetinu til þess að vinna þau enn frekar. Gísli Óskarsson. Gísli Jóhannes Óskarsson (fæddur 18. desember 1949 í Vestmannaeyjum á Íslandi) er íslenskur líf- og jarðfræðingur Hann lauk hefðbundinni skólagöngu í Vestmanneyjum, en þaðan lá leiðin til Reykjavíkur og lauk hann þar kennaraprófi árið 1970, stúdentsprófi 1971 og svo líffræði- og jarðfræðinám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1973. Gísli skipulagði og sá um uppgræðsluna á Heimaey í kjölfar jarðeldanna í Heimaey 1973. Auk kennslu hefir Gísli unnið að rannsóknum á klaki og viðkomu loðnu (sbr. kvikmynd um loðnu hjá Námsgagna-stofnun) en einnig rannsakað neðansjávarhljóð sem þykkvalúra gefur frá sér og áhrif hljóðsins á ýmsar fisktegundir. Gísli hefur umtalsverða starfsreynslu sem kennari í grunnskóla og framhaldsskóla, en einnig á sviði kvikmyndagerðar. Árabilið 1985-1988 sótti hann ýmis námskeið í kvikmynda- og þáttagerð, s.s.TV Inter Ísland 1985, KKR í Danmörku 1987 og IMM í Belgíu 1988. Undanfarin ár hefur Gísli unnið að rannsóknum á veiðiþoli lundastofns á afmörkuðu svæði og atferli lunda í holu. Áfangaskýrsla rannsóknanna hefur verið gefin út og 19. mínútna kvikmynd um hluta rannsóknanna er tilbúin árið 2004. Gísli hefur verið fréttaritari Sjónvarpsins og Stöðvar 2 frá árinu 1988. Hann hefur einnig framleitt 10 kvikmyndir, heimildamyndir og fræðslumyndir, lengd þeirra er frá 8 mín. til 60 mín. Hann hætti vinnu við Grunnskóla Vestmannaeyja í desember 2009 við mikin söknuð nemanda. Kýpur. Kýpur (eða Kípur) (enska: Cyprus; gríska: Κύπρος; tyrkneska: Kıbrıs) er eyja í eystri hluta Miðjarðarhafsins sem fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1960. Kýpur er sjálfstætt ríki og aðildarríki Evrópusambandsins. Núna er eyjunni skipt í tvo hluta og stjórna Kýpur-Grikkir vestari hluta hennar en Kýpur-Tyrkir þeim eystri og minni (Norður-Kýpur). Tyrkir viðurkenna ekki sjálfstæði gríska hlutans og telja þann tyrkneska til Tyrklands. Flugfélag Íslands. Flugfélag Íslands er íslenskt flugfélag, sem stofnað var í kjölfar samruna innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands. Fyrirtækið var rekstrareining innan FL Group en er í dag hluti af Icelandair Group. Meirihluti flugferða eru á milli Reykjavíkur, Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Saga. Þrjú flugfélög hafa verið stofnuð með nafnið Flugfélag Íslands. Fyrsta var stofnað árið 1919 sem starfaði aðeins í eitt ár. Nýtt flugfélag, Flugfélag Akureyrar, var síðan stofnað árið 1937 sem síðar breytti nafni sínu í Flugfélag Íslands. Árið 1997 var Flugfélag Íslands í núverandi mynd stofnað eftir sameiningu innanlandsdeildar Flugleiða og Flugfélags Norðurlands. Áfangastaðir. Fljúga til Færeyja í samvinnu við flugfélagið Atlantic Airways. Flug til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnarfjarðar er í samvinnu við flugfélagið Norlandair Snjókarl. Snjókarl er fígúra, oftast í mannlegri mynd gerð úr snjó. Vinsælt er, sérstaklega meðal barna að byggja þá ásamt snjóhúsum og að fara í snjókast. Snjór. Snjór er úrkoma vatns í formi kristallaðs íss, sem fallið hefur til jarðar. Hann er samsettur úr miklum fjölda óreglulegra korna, sem nefnast snjókorn. Snjór er oftast mjúkur viðkomu, enda er hann gisinn og loftríkur, nema að utanaðkomandi kraftar þjappi honum saman. Snjór myndast að jafnaði í allmikilli hæð við þéttingu vatns í andrúmsloftinu við hitastig undir 0 °C. Eftir að smáir ískristallar hafa myndast taka þeir að loða saman og mynda hin óreglulegu snjókorn, sem falla svo til jarðar. Hægt er að framleiða snjó með sérstökum vélum og er það oft gert á skíðasvæðum þegar náttúrulega fallinn snjór er af skornum skammti. Snjókoma. Úrkoman nefnist snjókoma og þegar hún fellur í logni og snjókornin ná að verða stór, er snjórinn laus í sér og kallast lausamjöll. Þegar rakastig snævarins er hátt og mikil samloðun er á milli kornanna verða þau mjög stór og er þá að jafnaði talað um hundslappadrífu. Slík snjókoma á sér oftast stað í mjög vægu frosti og hægum vindi eða logni. Þegar snjóar í roki er oftast talað um hríð og ef lausamjöll fer að fjúka myndast skafrenningur. Hann er algengastur þegar frost er talsvert og stífur vindur. Oft er miðað við 35°N sem syðstu mörk snjókomu á láglendi á norðurhveli jarðar, en langt sunnan þessara marka snjóar í há fjöll, jafnvel í grennd við miðbaug. Nefna má fjallið Kilimanjaro í Tansaníu sem dæmi, en toppur þess er síþakinn snjó. Á heimskautasvæðunum er svo til öll úrkoma sem fellur snjór, en oft er þar þurrt og úrkoma mjög lítil. Skráð heimsmet í snjókomu er á Mount Baker í Washingtonfylki í Bandaríkjunum, en þar féllu samtals 28 metrar af snjó á eins árs tímabili 1998 – 1999. Fyrra skráð met var á Mount Rainier í sama fylki, 25 metrar á einu ári, 1971 – 1972. Mesta sólarhringssnjókoma sem mælst hefur var við Silver Lake í Kaliforníu en þá mældust 1,93 metrar á einum sólarhring. Það gerðist 1921. Snjór í tómstundum og í umferðinni. Snjór er að jafnaði kærkominn börnum og þeim sem hafa gaman af ýmsum vetraríþróttum, svo sem skíðamennsku, snjósleðasporti eða jeppamennsku. Á hinn bóginn getur snjór verið varhugaverður í umferðinni, hvort sem fólk er akandi eða gangandi. Snjónum fylgir þung færð, hálka og oft lélegt skyggni og geta þessar aðstæður valdið alvarlegum slysum. Snjór sem safnast hefur saman í fjallshlíðum getur undir vissum kringumstæðum tekið upp á því að æða ofan hlíðarnar og myndar þá snjóflóð, en þau hafa frá því sögur hófust hrifið með sér fjölda mannslífa. Snjóflóð eru og hafa alltaf verið alltíð á Íslandi. Einnig eru þau algeng í Alpafjöllum og víðar. Fourier–vörpun. Fourier-vörpun er vörpun, sem varpar falli yfir í fallagrunn sínuslaga grunnfalla, þ.e.a.s. lýsir fallinu sem línulegri samantekt sínuslaga falla. Nefnd eftir stærðfræðingnum Jean Baptiste Joseph Fourier. Samfelld Fourier-vörpun. Þetta er reyndar andhverfa samfellda Fourier-vörpunin, en sjálf Fourier-vörpunin táknar "F"(ω) út frá "f"("t"). Upprunalega fallið og vörpun þess kallast "Fourier-par". Sjá Samfelld Fourier-vörpun (á ensku) með frekari upplýsingum, þ.m.t. töflu yfir mikilvæg Fourier-pör, upplýsingum um eiginleika vörpunarinnar og fleira. Fourier-raðir. þar sem "a'n" og "b'n" eru (raungilt) útslag fyrir Fourier-röðina. Íslensku tónlistarverðlaunin 2004. Íslensku tónlistarverðlaunin 2004 voru afhent í Þjóðleikhúsinu miðvikudaginn 2. febrúar 2005. Poppplata ársins. "Mugimama, Is This Mugimusic? - Mugison" Rokkplata ársins. "Hljóðlega af stað - Hjálmar" Dægurtónlist, plata ársins. "Vetrarljóð - Ragnheiður Gröndal" Söngvari ársins. "Páll Rósinkranz" Tónverk ársins. "Sinfónía eftir Þórð Magnússon" Plata ársins. "Verk fyrir selló og píanó. Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Edda Erlendsdóttir píanóleikari spila tónverk eftir Enescu, Janacek, Kodaly og Martinu." Plata ársins. "Dansaðu fíflið þitt dansaðu!, Sammi & Tómas R og Jagúar" Tónverk ársins. "Ástin eftir Tómas R. Einarsson (Dansaðu fíflið þitt dansaðu)" Flytjandi. "Samúel Jón Samúelsson og stórsveitin Jagúar" Umslag ársins. "Mugison - Mugimama, is this monkey music?" Útflutningsverðlaunin Reykjavík Loftbrú. "Bang Gang og Barði Jóhannsson" Heiðursverðlaun hátíðarinnar. "Helga Ingólfsdóttir semballeikari" Hvatningarverðlaun Samtóns. "Ágúst Einarsson fyrir bókina Hagræn áhrif tónlistar" Björk Guðmundsdóttir. Björk Guðmundsdóttir, best þekkt sem Björk, (fædd 21. nóvember 1965 í Reykjavík) er íslenskur popptónlistarmaður, sem hefur náð alþjóðlegri hylli. Hún hóf tónlistarferil sinn með píanónámi þegar hún var ellefu ára. Ári síðar, eða 1977, kom út platan "Björk" þar sem hún söng meðal annars þekkt íslensk barnalög. Stuttu síðar fór pönktónlist að hafa áhrif á hana en einnig djasstónlist. Snemma á ferli sínum var hún í nokkrum pönk- og djass-fusion hljómsveitum. Árið 1983 stofnaði hún ásamt fimm öðrum hljómsveitina KUKL, sem síðan þróaðist út í hljómsveitina Sykurmolarnir. Með þeirri hljómsveit hlaut Björk fyrst heimsfrægð. Þegar Sykurmolarnir hættu árið 1992 hóf hún sólóferil og hefur á honum gefið út 10 plötur, þar af 3 safndiska og einn með tónlistinni við mynd Lars von Triers Myrkradansarinn, en hún bæði lék aðalhlutverkið og samdi tónlistina við myndina. Björk var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir lagið,I've seen it all" úr Myrkradansaranum árið 2000. Björk hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir tónlist sína, meðal annars Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 1997. Björk lét húðflúra galdrastafinn Vegvísi á vinstri handlegg sinn. Faðir Bjarkar, Guðmundur Gunnarsson, er fyrrverandi formaður RSÍ. Tengt efni. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs Pierre Curie. Pierre Curie (15. maí 1859 – 19. apríl 1906) var franskur eðlisfræðingur og nóbelsverðlaunahafi. Hann var frumkvöðull í rannsóknum á kristallafræði, segulfræði, þrýstirafhrifum og geislavirkni. Hann var giftur Marie Curie. Pierre fæddist í París og var í heimanámi hjá föður sínum fyrstu ár ævi sinnar. Snemma sýndi hann mikla hæfileika í stærðfræði og rúmfræði og á 18. ári hafði hann lokið námi sem samsvaraði háskólaprófi en fór ekki beint áfram í doktorsnám vegna skorts á fjármagni. Þess í stað fór hann að vinna sem aðstoðarmaður í rannsóknarstofu í Sorbonne. 1880 tókst Pierre og eldri bróður hans Jacques að sýna fram á að ákveðnar gerðir kristalla mynduðu rafspennu ef þrýstingi var beitt á þá, og nefnast þessi áhrif þrýstirahrif. Ári seinna sýndu þeir fram á hið gagnstæða, að kristallar gætu afmyndast þegar þeir væru settir í rafsvið. Næstum öll nútímatækni byggist á þessum hrifum því hægt er að gera góða sveifla með nokkuð nákvæmnri tíðni með því að nota þessi efni. Áður en Pierre lauk rannsóknum sínum á sviði segulfræði, sem hann fékk doktorsgráðu fyrir, hannaði hann mjög nákvæmna snúningsvog sem hann notaði til að mæla fasta í segulfræði. Mismunandi útgáfur af þessu tæki urðu vinsæl mælitæki innan segulfræðinnar. Hann rannsakaði járnseglun, meðseglun og mótseglun fyrir doktorsnám sitt og uppgötvaði áhrif hitastigs á meðseglun sem í dag er þekkt sem lögmál Curies. Hann uppgötvaði einnig að járnseglandi efni breyttu seguleiginleikum sínum við ákveðið hitastig og er þetta hitastig nefnt eftir honum, Curie-markið. Pierre giftist Marie Sklodowska 25. júlí árið 1895 og hófst þar með vísindasamstarf sem átti eftir að gerbylta heiminum. Fyrsta sameiginlega afrek þeirra var að einangra bæði pólón og radín. Önnur afrek Pierres voru uppgötvun á stöðugri útgeislun varma frá radíni og rannsóknir á eiginleikum geislavirkni. Með notkun segulsviðs komst hann að því að sum útgeislun var jákvætt hlaðin, sum neikvætt hlaðin og restin með enga hleðslu. Rutherford nefndi þessar agnir síðar alpha, beta og gamma. Árið 1903 fengu Curie-hjónin nóbelsverðlaunin í eðlisfræði ásamt Henri Becquerel fyrir rannsóknir sínar á geislavirkni. Einingin curie fyrir geislavirkni er nefnd eftir hjónunum og samsvarar 3,7 formula_1 1010 hrörnunum á sekúndu. Pierre var orðinn veiklulegur um þetta leyti af völdum geislaveiki, en áhrif geislavirkni á líkamann voru ekki þekkt á þessum tíma. Hann þurfti þó ekki að veslast upp og deyja af þeim sökum, því að hann lenti í slysi árið 1906 sem varð honum að aldurtila. Marie Curie, kona hans, lést hinsvegar af geislaveiki. Pierre og Marie eignuðust tvær dætur og varð önnur þeirra, Irene Joliet-Curie merkur eðlisfræðingur. Hin dóttirin, Eva, giftist H. R. Labouisse sem tók við friðarverðlaunum Nóbels fyrir hönd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna árið 1965 sem hann var forstöðumaður fyrir. Eva ritaði ævisögu móður sinnar. Sagan var þýdd á íslensku af Kristínu Ólafsdóttur lækni, heitir Frú Curie, og kom út hjá Ísafoldarprentsmiðju árið 1939. Curie, Pierre Curie, Pierre Demókrataflokkurinn. Demókrataflokkurinn er bandarískur stjórnmálaflokkur, annar þeirra tveggja stærstu sem skiptast á að fara með völdin þar í landi en hinn er Repúblikanaflokkurinn. Fylgismenn Demókrataflokksins er gjarnan kallaðir demókratar. Í bandarískum stjórmálum er Demókrataflokkurinn skilgreindur sem vinstra megin við Repúblikana en stefna hans er þó ekki jafn vinstrisinnuð og stefna hefðbundinna sósíaldemókrata eða verkamannaflokka í mörgum löndum. Eins og stendur er Demókrataflokkurinn í meiri hluta í báðum deildum þingsins sem og í löggjafarþingum flestra sambandsríkja, stærri hluti ríkisstjóra eru demókratar og núverandi forseti, Barack Obama er demókrati. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur lengi verið við líði eins konar flokkapólitík þar sem fáir en stórir flokkar hafa nær öll völd á þingi. Flokkarnir urðu til í kringum aldamótin 1900 og risu upp frá mismunandi skoðunum um hvort ríkisafskipti skyldu vera í miklum mæli eða með minna móti. Þeir aðilar sem börðust hart gegn íhlutun ríkisins í innanríkismálum stofnuðu flokk sem hét Repúblikaflokkurinn, en með tíð og tíma breyttist það nafn í Demókrataflokkinn sem hefur haldist við hann upp frá því. Demókrataflokkurinn, með stefnumál og málefni, eins og við könnumst við hann í dag varð ekki til fyrr en á fyrri hluta síðustu aldar þegar um það bil hundrað ár voru frá upphaflegri stofnun hans. Í upphafi var hann flokkur hinna ríku og eignamiklu sem vildu að ríkið skipti sér sem minnst af innanríkismálum og leyfðu þess í stað hinu frjálsa markaðskerfi að blómstra. Aftur á móti voru meðlimir Demókrataflokksins á því að Bandaríkin skyldu ekki hika við að beita hervaldi ef hagsmunir lands og þjóðar væru í húfi. Fremstur í flokki í þessum efnum var maður að nafni Thomas Jefferson sem var á móti stefnu sitjandi stjórnvalda. Í kringum skoðanir hans myndaðist flokkur sem kallaðist Repúblikanaflokkurinn og var hann í andstöðu við stjórn þáverandi forseta, George Washington. Í kosningunum 1800 var Jefferson kosinn til forseta í tvísýnum kosningum og var þetta í fyrsta skipið sem sitjandi flokkur tapaði í forsetakosningum. Í kringum kosningarnar 1828 spruttu upp deilur milli hópa innan flokksins sem lyktaði með því að klofningur varð innan flokksins og stofnaðir voru Þjóðar Repúblikaflokkurinn sem seinna varð að „Whig-flokknum“ og Demókrataflokkurinn. Demókrataflokkurinn stóð uppi sem eins konar sigurvegarar og eignuðust næstu forseta, þar á meðal Andrew Jackson og Martin Van Buren sem héldu gömlu einkennunum, um lítil afskipti ríkisins af innanríkismálum, á lofti fram eftir öldinni. Stuðningsmannahópur Demókrataflokksins var orðinn aðeins fjölbreyttari en gamla Repúblikaflokksins, þar sem plantekrueigendur voru hvað fjölmennastir, í að vera flokkur fyrir bæði landeigendur og verkamenn, þá aðalega í norð-austur ríkjunum. Þetta voru allt hópar sem áttu það sameiginlegt að vilja vera í friði frá ríkinu og treysta á sjálfsframlagið. Á þessu tímabili var flokkurinn mjög virkur og hélt úti miklum áróðri, jafnt nálægt kosningum og þess á milli. Það sem gerði þetta allt mögulegt var að fjármunir höfðu safnast saman og við það gátu ákveðnir einstaklingar helgað sig pólitíkinni alfarið. Andstæðingar demókrata, „Whig-flokkurinn“ voru einnig mjög stórir á þessum tímum og héldu úti sterkri kosningabaráttu móti demókrötum, þótt þeir hafi aðeins náð forsetaembættinu tvisvar af átta skiptum milli 1828 og 1856 og þurft að vera í stjórnarandstöðu í þinginu oftast. Til stórtíðinda kom svo um miðja 19. öldina þegar stuðningur við flokkinn dvínaði töluvert á stuttum tíma. Ástæður fyrir hnignandi gengi flokksins voru nokkrar og má þar meðal annars nefna stefnu þeirra í þrælamálum, tollamálum, innflytjendamálum og hvernig leiðtogar flokksins, þeir Lewis Cass og Stephen Douglas vildu heldur láta ríkisstjórnum og sveitarfélögum eftir stjórn, fremur en ríkinu. Varð þetta þess valdandi að stuðningur við flokkinn efldist í suðurríkjunum en aftur á móti jókst andúð hjá mörgum öðrum hópum og gengu sumir þeirra til liðs við rísandi flokk repúblikana sem þar af leiðandi unnu komandi kosningar með Abraham Lincoln í broddi fylkingar. Í kjölfarið byrjaði bandaríska borgarastyrjöldin þar sem suðurríkin (demókratar) börðust gegn norðurríkjunum (repúblikönum). Repúblikanar voru duglegir að úthúða demókrata fyrir ótryggð með því að vilja ekki styrkja herinn og önnur þjóðfélags mál. Þessi taktík var kölluð að veifa blóðugu skyrtunni (e. waving the bloody shirt) og var hún notuð gegn þeim í kosningabaráttu út alla 19. öldina. Norður-ríkin sigruðu borgarastyrjöldina og þeirra vilji fékk fram að ganga í flestum málefnum, svo sem varðandi þræla. Á næstu árum voru demókratar í minnihluta og þó að þeir hafi alltaf haft nokkur fylki á sínu bandi, var ógnin við Repúblikana aldrei mjög alvarleg. Frá borgarastríðinu og fram að kreppunni miklu náðu þeir aldrei meirihluta nema þegar repúblikanir tvístruðust í skoðunum og demókratar náðu með því að vinna kosningar. Það var eitt sem hafði alla tíð fylgt demókrötum og hafði að vissu leyti hamlað starfsemi þeirra og uppgangi, en það var klíkuskapur sem dróg marga kjósendur frá þeim. Á síðasta áratug 19. aldarinnar var hitinn orðinn rosalegur í flokknum og þrír hópar stóðu í innbyrgðis deilu. Þetta voru aðilar sem voru hlyntir gömlu demókratastefnunni og stóðu á bakvið forsetann Grover Cleveland, hópur sem samanstóð af mönnum sem sóttu styrk sinn til innflytjenda sem þeir höfðu hjálpað að setjast að í Bandaríkjunum og hópur suðurríkja manna sem voru á móti iðnbyltingunni og miðstýrðu efnahagskefi. Þegar upp úr sauð, varð suðurríkja hópurinn ofan á og völdu þeir næsta leiðtoga, William Bryan sem gerði fremur lítið. Hann varð aldrei forseti og flokkurinn missti lítilega fylgi. Á öðrum áratug 20. aldarinnar fengu demókratar Woodrow Wilson kjörinn til forseta vegna ósamstöðu innan raða repúblikana. Hann var kosinn tvisvar en skellurinn var mikill í kosningunum 1920 þar sem stórir hópar af þýsk- og írsk ættuðu fólki mótmælti íhlutun Bandaríkjamanna í fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem Bandaríkjamenn studdu Breta, með því að kjósa repúblikana. Við lok 3. áratugsins komst til valda í Demókrataflokknum maður að nafni Al Smith. Hann kom með áherslur sem miðuðu að því að gera flokkinn að þeim flokki sem við þekkjum hann í dag, þ.e. að flokk sem vill hafa töluverð ríkisafskipti af efnahags- og þjóðfélagsmálum og byggja upp velferðarkefi. Þessar áherslur hafa verið kallaðar ný gjöf (e. New Deal) og í kjölfar kreppunnar miklu fékk þessi stefna byr undir báða vængi. Með þessum áherslum fékk Franklin D. Roosevelt, frambjóðandi demókrata, forsetastólinn og varð langlífasti forseti í starfi fyrr og síðar í Bandaríkjunum. Hann sat frá 1933 - 1945 og á þeim tíma sópuðust að flokknum nýir kjósendur, sér í lagi margir minnihlutahópar eins og svart fólk. Þetta var hápunktur Demókrataflokksins og lagði grunninn að 48 ára meirihlutastjórn í þinginu frá 1933 til 1981, að undanskildum 4 árum. Árið 1960 var svo einn vinsælasti og ástsælasti forseti Bandaríkjanna kosinn, en það var John F. Kennedy. Þegar hann var myrtur tók við varaforsetaefni hans, Lyndon Johnson. Á þessum tíma gekk velferðarkefið mjög vel og flokkurinn var í góðum málum. En þegar líða tók á seinni hluta 7. áratuginn fór að halla undan fæti og stefna flokksins varðandi Víetnam kom þeim í koll síðar meir. Síga fór á ógæfuhliðina og á kosningunum 1968 tapaði flokkurinn stórt. Ef ekki hefði verið fyrir Watergate-málið hefði staða flokksins væntanlega ekki væntkast töluvert fyrir kosningarnar 1976 þar sem „Bóndinn frá suðurríkjunum“ tók forsetastólinn og ætlaði að ná til hvítra bænda í suðurríkjunum aftur eftir að þeir höfðu hrakist hægt úr flokknum síðan Roosevelt var forseti. Ætlunarverk hans tókst ekki eins og áætlað hafði verið og repúblikanar tóku næstu þrjú kjörtímabil. Árið 1993 var forsetaefni demókrata Bill Clinton, en hann var þriðji yngsti maðurinn í sögu Bandaríkjana til að vera kosinn forseti. Hann er einnig einn af vinsælari forsetum 20. aldarinnar og er talið að hann hafi gert velferðakefinu mjög mikið, til dæmis að auka mjög menntun og menntunarmöguleika þeirra sem minna máttu sín. Hann sat tvö kjörtímabil en varaforsetaembætti hans og arftaki hjá flokknum, Al Gore, tapaði naumlega fyrir repúblikananum George W. Bush árið 2000. Í kosningunum 2004 tapaði svo forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, John Kerry í nokkuð tvísýnum kosningum fyrir George W Bush. Frambjóðandi flokksins í kosningunum 2008 er Barack Obama, mótframbjóðandi hans í Rebúblíkanaflokknum er John McCain, Kosningabaráttan var mjög tvísýn og skiptust þeir á að vera í forrystu í skoðannakönnunum. Kosið var 4. nóvember og hafði Obama betur. Sjálfbær þróun. Sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld fyrir alla jarðarbúa til langs tíma. Markmið sjálfbærrar þróunar er að koma á sjálfbærni í samfélaginu í heild og á jörðinni. Sjálfbærni er markmið sjálfbærrar þróunar. Sjálfbær þróun byggir á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hverri annarri. Hugtakið er notað í hnattrænu samhengi en ekki um einstakar einingar án samhengis við hið hnattræna. Stundum er talað um að eitthvað sé sjálfbært t.d. sjálfbær neysla, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, sjálfbær framleiðsla. Þá er átt við að það styðji meira við sjálfbæra þróun en önnur sambærileg fyrirbæri. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu misserum, en markmið hennar er að stuðla að sjálfbærri þróun. Hugtakið „sjálfbær þróun“ kom fyrst fram um 1980, en festist í sessi með útkomu Brundtland-skýrslunnar „Sameiginleg framtíð vor“ árið 1987. Skýrslan var undanfari Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992. Þyngdarhröðun. Þyngdarhröðun er hröðun sem frjáls hlutur verður fyrir í þyngdarsviði annars mun stærri hlutar, þegar þeir eru í tómarúmi. Ef hlutirnir eru hins vegar kyrrir miðað við hvorn annan er frekar talað um þyngdarkraftinn á milli þeirra. Þyngd hlutar er mælikvarði á þyngdarhröðun/-kraft. Þyngdarlögmál Newtons gefur þyngdarkraft "F" milli tveggja hluta með massa "m"1 og "m"2 og í fjarlægð "r" frá hvor öðrum sem þar sem "G" er þyngdarfastinn og hefur nálgunargildið "G" = 6,67 × 10−11 N m² kg-2. Þegar annar massinn er lítill í samanburði við hinn og nálægt yfirborði massameiri hlutarins þá er gerð sú nálgun að öll breyting á "r" er hlutfallslega lítil sem réttlætir að þessi jafna er oft skrifuð sem þar sem "g" er kallað þyngdarhröðun hlutarins með massa "m"1 í þyngdarmætti massans "m"2 og hefur gildið Á jörðinni hefur "g" meðalgildið 9,8 m/s². Hálfleiðari. Hálfleiðarar eru efni sem hafa rafeindaskipan sem veldur því að eðlisleiðni í hálfleiðandi efni eykst með hækkandi hitastigi upp að ákveðnu marki. Hægt er að fá fram ýmsa gagnlega eiginleika með því að blanda öðrum efnum við hreinan hálfleiðara með ákveðnum aðferðum en það kallast dópun. Hagnýting hálfleiðara byggir á þessum eiginleikum. Efni sem ekki eru hálfleiðarar flokkast ýmist sem leiðarar eða einangrarar. Munurinn á hálfleiðurum og einangrurum er stigsmunur. Við mjög hátt hitastig fara einangrarar að sýna þá eiginleika sem hálfleiðarar sýna í kringum herbergishita. Grunnatriði í eðlisfræði hálfleiðara. Eiginleikar hálfleiðara byggjast á ákveðnu bili milli leyfilegra orkuástanda fyrir rafeindir í hálfleiðarakristalli. Þetta bil kallast orkugeil. Öll ástönd fyrir neðan þetta bil eru full af rafeindum og öll ástönd fyrir ofan það eru laus, fyrir utan tiltölulega fáar rafeindir sem stökkva yfir bilið fyrir tilstilli varmaorku. Þessar rafeindir geta leitt rafstraum í gegnum kristalinn. Þegar hitastigið hækkar, eykst fjöldi rafeinda sem hafa nógu mikla varmaorku til að stökkva yfir bilið og þess vegna eykst eðlisleiðnin. Með því að blanda litlu magni af öðrum efnum (þetta kallast að íbæta hálfleiðarann og aukaefnin kallast íbæting) er hægt að bæta við aukarafeindum sem halda sig stöðugt fyrir ofan orkugeilina. Þá kallast efnið n-efni. Með því að íbæta með annars konar efnum er hægt að búa til "holur" fyrir rafeindir fyrir neðan orkugeilina. Þá er talað um p-efni. Hvort fyrir sig eykur leiðnina, en ekki er hægt að gera hvort tveggja í einu. Virkni hálfleiðaratóla byggist að miklu leiti á samskeytum milli p-efnis og n-efnis. Hálfleiðandi efni. Þrjú frumefni eru hálfleiðarar á hreinu formi. Þau eru germaníum, kísill og kolefni í formi demants. Þau eru öll í sömu lotu í lotukerfinu. Aðrir hálfleiðarar eru efnasambönd. Dæmi um slík eru GaAs, GaSb og InAs. Mikilvægasti hálfleiðarinn er án efa kísill. Kostir hans eru að hann er frumefni og hefur hærra bræðslumark en germaníum auk þess sem auðveldara er að hreinsa hann. Aðrir hálfleiðarar eru notaðir í sérhæfð tól s.s. ljósdíóður og hálfleiðaraleysa. Notkun hálfleiðara. Hálfleiðarar tóku við hlutverki rafeindalampa í rafeindatækni eftir því sem leið á seinni helming 20. aldarinnar og nútíma rafeindatækni byggir nánast alfarið á því að hagnýta eiginleika hálfleiðara. Einföldustu hálfleiðaratólin, eða hlutirnir sem hægt er að búa til úr hálfleiðara, kallast díóður og transistorar. (Á íslensku heita þau tvistar og smárar, en íslensku nöfnin hafa aldrei náð að festa sig í sessi.) Tölvukubbar, þ.m.t. örgjörvar eru framleiddir úr kísli og í raun má líta svo á að þeir séu fjölmargir transistorar sem tengjast saman. Úr ákveðnum hálfleiðurum eru framleiddar ljósdíóður og leysidíóður sem geisla frá sér ljósi þegar straumur fer um þær. Hálfleiðarar eru einnig notaðir sem ljósskynjarar þar sem leiðni hálfleiðara eykst þegar á hann skín ljós. Saga hálfleiðaratækni. Fyrsta notkun hálfleiðara var í svokölluðum kristalviðtækjum fyrir útvarp, en þau komu fram í kringum aldamótin 1900. Þau byggðust á díóðu sem var þannig gerð að með þar til gerðu skafti potaði hlustandinn málmprjóni í hálfleiðarakristal þangað til tækið fór að virka. Þá virkaði tækið í einhvern ófyrirsjáanlega langan tíma og svo þurfti að endurtaka þetta. Á þessum tíma var ekki til eðlisfræðileg útskýring á hvernig díóðan virkaði. Með tilkomu lampaviðtækja urðu kristaltækin úrelt, en nær hálfri öld síðar, í seinni heimstyrjöldinni, vaknaði aftur áhugi á þessari gömlu tækni vegna þess að ratsjártæknin var að ryðja sér til rúms og í ljós kom að kristallarnir hentuðu betur en lampadíóður við þær háu tíðnir sem best hentuðu ratsjánni. Þá var leitað leiða til að búa til transistor og það heppnaðist árið 1947 í Bell Laboratories í Bandaríkjunum. Uppfinningin er eignuð John Bardeen, Walter Brattain og William Shockley. Hröðun. formula_1 Ennfremur gildir samkvæmt öðru lögmáli Newtons að formula_2 en þessi skilgreining á aðeins við ef massi hlutarins helst fastur. Almenna skilgreiningin er formula_3 þar sem formula_4 er skriðþungi hlutar og þar sem bæði hraðinn og massinn eru bæði föll af tíma er hröðunin formula_5 Þegar hlutur eykur hraða sinn, þ.e. krafturinn er í sömu stefnu og hraðinn, er sagt að hann hafi jákvæða hröðun en þegar hraðinn minnkar, krafturinn er í öfuga átt við hraðann, er sagt að hann hafi neikvæða hröðun, vigurinn a er sem sagt alltaf í sömu stefnu og krafturinn, ekki sömu stefnu og hraðinn. SI-mælieining hröðunar er metrar á sekúndu, á sekúndu (m/s2). Hröðun bifreiða er yfirleitt gefin sem sá tími í sekúndum, sem það tekur að aka bílnum úr kyrrstöðu í hraðann 100 km/klst. Sem dæmi má nota massa m sem hefur hröðun 2 m/s2 sem þýðir að fyrir hverja sekúndu sem líður eykur massinn hraða sinn um 2 m/s, þannig að hann byrjar með hraða 0 m/s, eftir 1 sekúndu er hraðinn orðinn 2 m/s, eftir 2 sekúndur er hraðinn orðinn 4 m/s og þar fram eftir götunum. Hröðun í hringhreyfingu og gervikraftar. Þegar hlutur ferðast eftir hringferli, þá verkar svokallaður miðsóknarkraftur á hann og hröðunin verður því í átt að miðju hringsins en ekki frá eins og gervikrafturinn miðflóttakraftur gefur til kynna, sem allir telja sig finna, þegar þeir lenda í hringhröðun. Svigkraftur jarðar ("Corioliskraftur") er gervikraftur, sem ásamt miðsóknarkrafti veldur því að loft blæs rangsælis umhverfis lægðir, en réttsælis umhverfis hæðir á norðurhveli jarðar. (Þessu er öfugt farið á suðurhvelinu.) Vísindavefurinn. Vísindavefurinn er vefsíða sem Háskóli Íslands setti upp 29. janúar 2000 og forseti Íslands (þá Ólafur Ragnar Grímsson) opnaði. Vefurinn var hluti af verkefni háskólans „Opinn háskóli“ sem aftur var hluti af verkefni Reykjavíkurborgar í tilefni þess að hún var ein af Menningarborgum Evrópu. Vinsældir vefjarins leiddu til þess að hann hélt áfram að starfa eftir að ofangreindu verkefni lauk. Á vefnum er hægt að spyrja spurninga um allt sem viðkemur vísindum og fræðum. Starfsmenn Vísindavefsins leita svo til fræðimanna á viðkomandi sviði og ritstýra svörum sem frá þeim berast. Einnig er hægt að leita í gömlum svörum með leitarvél síðunnar. Svör. Fjöldi svara á Vísindavefnum var 6000 í ágúst 2006, og oft koma tugir spurninga á dag- þó koma fleiri um veturinn. Fjarlægð svör. Vísindavefurinn fjarlægði 16 svör tengd geimverkfræði í nóvember 2005 eftir að höfundur þeirra var dæmdur fyrir nauðgun. Albanía. Lýðveldið Albanía er ríki í suðaustur Evrópu. Það á landamæri í norðri að Kosóvó og Svartfjallalandi, Makedóníu í austri og Grikklandi í suðri. Vesturhluti landsins liggur að Adríahafinu og í suðvestri liggur strönd landsins meðfram Jónahafinu. Landið er aðili að Sameinuðu þjóðunum, NATO, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Organisation of the Islamic Conference (OIC) og Miðjarðarhafsráðinu. Það hefur verið umsóknaraðili að ESB síðan 2003 og sótti formlega um aðild þann 28. apríl 2009. Í landinu er þingræði. Höfuðborg Albaníu er með 600.000 íbúa af þeim 3.000.000 sem búa í öllu landinu. Lagabreytingar sem miða að frjálsum markaði hafa opnað landið fyrir erlendum fjárfestingum, sérstaklega á orku- og samgöngusviði. Héruð. Landinu er skipt í 12 héruð sem skiptast svo aftur í 36 sýslur og 373 bæjarfélög. 72 bæjarfélög landsins eru borgir. Í landinu öllu er alls 2980 bæir og samfélög. Hver sýsla er með ráð sem er skipað meðlimum bæjarfélaganna í sýslunni. Bæjarfélögin eru ábyrg fyrir grunnþjónustu og löggæslu. Lettland. Lettland (á latnesku Latvija) er eitt af Eystrasaltsríkjunum ásamt Litháen og Eistlandi. Næstu nágrannar Lettlands eru Eistland til norðurs, Litháen til suðurs og Rússland og Hvíta-Rússland til austurs, til vesturs á það strönd við Eystrasaltið. 20. september 2003 kusu Lettar um inngöngu í Evrópusambandið og samþykktu það, inngangan í það varð að raunveruleika þann 1. maí 2004. 29. mars 2004 gekk það einnig í NATO Hornafall. Hornafall er fall, sem tekur einingalausa stærð sem breytu, en breytuna má túlka sem horn. Hornaföllinn eru sínus ("sin"), kósínus ("cos"), tangens ("tan"), kótangens ("cot"), sekant ("sec") og kósekant ("csc"). Hornaföll eiga sér andhverfur, sem eru stundum sameiginlega kölluð "arcusarhornaföll". Þau föll heita sömu nöfnum og venjulegu hornaföllin, en með forskeytið „arcus“, sem er latneska orðið fyrir „horn“: Arcus sinus ("arcsin"), arcus cosinus ("arccos"), arcus tangens ("arctan"), og svo framvegis. Stundum eru þessi föll rituð sem formula_1, formula_2 og svo framvegis þar sem að formula_3(x) er viðtekið tákn fyrir andhverfa fallið af f(x). Hornaföllin sem nefnd eru hér að framan eru skilgreind fyrir rétthyrnd hnitakerfi, en hýperbólísk hornaföll eru nauðsynleg í hýperbólísku rúmi, svo sem í Riemann rúmi, ásamt í mörgum sértilfellum í örsmæðareikningi og öðrum fögum. Ennfremur eru sérstakar hornafallareglur sem notaðar eru til þess að mæla horn á yfirborði kúlu, en þær reglur tilheyra kúluhornafræði. Skilgreiningar. Til eru margar skilgreiningar á hornaföllum. Fyrsta skilgreiningin á þeim var samband á milli hvassra horna í rétthyrndum þríhyrningi og hlutfalla á milli lengda hliða hans. Þannig er sínus af hvössu horni rétthyrnds þríhyrnings skilgreindur sem hlutfallið á milli mótlægrar skammhliðar og langhliðar, kósínus af hvössu horni í rétthyrndum þríhyrningi skilgreindur sem hlutfallið á milli aðlægrar skammhliðar og langhliðar og tangens af horni skilgreindur sem hlutfallið á milli mótlægrar skammhliðar og aðlægrar skammhliðar eða sem hlutfallið á milli sínuss og kósínuss sama horns. Almennari skilgreining er að skilgreina föllin sínus og kósínus sem hnit punkts á ferli einingarhrings, þannig að hornið sem miðað er við myndist á milli pósitífa hluta x-ássins og radíuss til punktsins. Sé hornið kallað v, þá eru hnit punktsins (x,y)=(cosv,sinv). Með þessu móti hægt að skilgreina hornaföll fyrir hvaða horn sem er, ekki bara hvöss horn eins og ofangreind skilgreining gerir, heldur einnig rétt horn og gleið og reyndar einnig horn stærri en 180° án nokkurra efri marka. Enn almennari skilgreining er að skilgreina hornaföllin sem summu af óendanlegri röð, s.s. Taylor röð eða veldaröð eða þá sem lausn á deildajöfnum. Red Dragon. Red Dragon er skáldsaga eftir Thomas Harris, einnig er til samnefnd kvikmynd byggð á bókinni. Titillinn er fengin úr heiti listaverks eftir Willam Blake sem heitir: "The Great Red Dragon and the Woman Clothed with the Sun". Jól. Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Þeir halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi. Jól eru haldin um gjörvallan hinn kristna heim og víða annars staðar þar sem kristni er jafnvel í miklum minnihluta. Hátíðin er ekki á sama tíma alls staðar. Hjá mótmælendum og rómversk kaþólskum eru jól haldin á jóladag, þann 25. desember, og sumir þeirra hafa heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, en það gera alls ekki allar kristnar þjóðir. Í austurkirkjunni (grísk kaþólsku og rétttrúnaðarkirkjunni) eru jólin haldin um það bil hálfum mánuði síðar. Uppruni jólahalds er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna, sem fögnuðu endurkomu sólarinnar sem lífgjafa. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti árs og settu jólin á svipaðan tíma og sólhvarfahátíðin var áður. Með því móti glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó að þeir skiptu um trú. Barn. Barn er ófullvaxinn einstaklingur, og er orðið yfirleitt aðeins notað um ófullvaxna menn. Yfirleitt er æviskeiði manna þannig skipt í tvennt, þannig að einstaklingurinn telst vera barn þar til hann er orðinn fullvaxinn, og telst hann þá fullorðinn. Þó er til í dæminu að rætt sé um að unglingar séu þeir einstaklingar sem eru ekki lengur börn, en eru þó ekki orðnir fullorðnir. Ekki er til nein ákveðin skilgreining á því hvenær menn hætta að teljast börn, og fer það að miklu leyti eftir samfélögum. Á Íslandi teljast allir einstaklingar undir 18 ára aldri vera börn, en sums staðar myndu einstaklingar allt niður í 14 ára aldur teljast fullorðnir. Karlkyns barn nefnist strákur eða drengur, en kvenkyns barn stelpa eða stúlka. Barn sem afkvæmi. Í íslensku er orðið barn einnig notað til að lýsa því að tiltekinn einstaklingur sé afkvæmi annars einstaklings, annaðhvort karlkyns "sonur" hans eða kvenkyns "dóttir". Þegar orðið er notað í þeim skilningi er ekki alltaf um sérstaka aldursskiptingu að ræða, þótt oftast sé orðið einnig notað um ófullvaxna einstaklinga þegar það er notað í þessari merkingu. "Ungbarn", "kornabarn", "hvítvoðungur" eða "smábarn", er mjög ungt barn, yfirleitt ekki eldra en eins til tveggja ára gamalt. Enska orðið „infant“, sem oft er notað í svipuðum skilningi, er komið af latneska orðinu "infans": „getur ekki talað“, og er sú merking í samræmi við þann skilning að þegar börn hafi lært að tala séu þau ekki lengur ungbörn. Ungbarn á sér mörg samheiti á íslensku, t.d. "bosbarn","hvítvoðungur", "kögurbarn", "kornabarn", "lébarn" (gamalt), "posungur", "reifabarn", "reiflingur" (gamalt),"spenabarn", "sprotabarn" (gamalt) og "tyttubarn" (úr rímum). Orðið barn. Íslenska nafnorðið barn kemur af 2. kennimynd sagnarinnar að bera, en hún fer eftir 4. hljóðskiptaröð: bera-bar-bárum-borið. Samsvarandi orð um afkvæmi mannsins eru í mörgum náskyldum málum. Gotneska var að þessu leyti alveg eins og íslenska og önnur Norðurlandamál, en í ensku hefur samsvarandi orð týnst. Í máli Hjaltlendinga var barn "bjadni" (orðið til úr barnit, segir Jan de Vries), og minnir á þann framburð sem tíðkaðist víða hér á landi. Skaftfellingar segja sumir barnið með rödduðu r-i og löngu a-i. Af 4. kennimynd sagnarinnar að bera, sem í forneskju hafði stofnsérhljóðið u, kemur nafnorðið bur = sonur, sömuleiðis buri eins og í tvíburi og þríburi. Orðið nýburi er einnig af þessum meiði, en fyrir eru til jóð eða ungbarn sem merkja það sama. Stjórnmálaflokkur. Stjórnmálaflokkar eru samtök manna um að standa fyrir ákveðnum hugmyndum í stjórnmálum með það að augnamiði að ná völdum. Menn skiptast í flokka eftir stefnum, hagsmunum og sameiginlegum skoðunum og hugsjónum. Í lýðræðislegum ríkjum bjóða stjórnmálaflokkar sig fram í listakosningum. Í sumum einræðisríkjum eru einnig stjórnmálaflokkar, s.s. Kommúnistaflokkurinn í Sovétríkjunum. Það fer eftir sögu, kosningakerfi og stjórnarfari viðkomandi lands. Gagnvart kjósendum. Eitt hlutverk stjórnmálaflokka er að einfalda val kjósenda sem standa andspænis mörgum viðamiklum og flóknum málefnum. Þetta gera þeir með því að skilgreina stefnu sína í mismunandi málaflokkum, sem má líta á sem málamiðlun milli allra flokksmeðlima. Um stefnu flokka er gjarnan kosið, innan þeirra, á aðalfundum þar sem samþykktar eru formlegar ályktanir. Annað hlutverk þeirra er að fræða borgara um ýmis málefni sem snerta stjórnmál. Stjórnmálaflokkar geta tekið fyrir ákveðin málefni og hafa þannig dagskrárvald. Í 21. grein stjórnarskrá Þýskalands kemur fram að hlutverk stjórnmálaflokka sé að móta pólitískan vilja fólksins. Í þriðja lagi hafa stjórnmálaflokkar það hlutverk að vera sameiningartákn. Flokkshollusta er hugtak sem er oft notað í neikvæðri merkingu um tilhneigingu flokksmeðlima til þess að hlýða "flokksaganum" hvað stefnumál varðar, ellegar einangra sig innan flokksins. Fyrir tilstilli slíkra stofnana minnka líkurnar á því að lýðsskrumarar og öfgahópar komist til valda. Í fjórða lagi vinna stjórnmálaflokkar að því að fólk taki þátt í kosningum, bæði með því að nýta kosningarétt sinn og með því að vinna í kosningaherferðum en þannig fræðist fólk um þá valmöguleika sem þeim stendur til boða. Hlutverk stjórnmálaflokka sem samtök. Helsta hlutverk stjórnmálaflokka er að sjá um nýliðun stjórnmálaleiðtoga og koma mönnum að í opinber embætti. Aðferðir stjórnmálaflokka til þessa eru m.a. með því að leita, þjálfa þá og loks velja hæfa einstaklinga. Innri stofnanir stjórnmálaflokka, s.s. ýmist félagastarf, svæðisbundin félög og ungmennafélög, aðalskrifstofa og nefndir vinna að þessu markmiði. Innan flokkanna fer því fram kennsla og dreifing á efni sem boðar ákveðna hugmyndafræði. Í Sovétríkjunum var ágæti kommúnismans undirstrikað en á Vesturlöndum er rík hefð fyrir frjálslyndu lýðræði. Í flestum lýðræðisríkjum er sjaldgæft að óflokksbundnir einstaklingar hljóti háttsett embætti, svosem ráðherraembætti. Stjórnmálaflokkar á Íslandi. Sögulega hefur verið svokallað fjórflokkakerfi á Íslandi. Með því er átt við að jafnan hafa fjórir flokkar fengið í hlut sinn mikinn meirihluta atkvæða í þingkosningum. Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 og þá tóku fyrstu flokkarnir að myndast, Heimastjórnarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn (eldri). Á eftir fylgdu Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn árið 1916. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929. Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður 1930 en starfaði aðeins í átta ár. Alþýðubandalagið var stofnað árið 1956 og leystist upp í Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og Samfylkinguna árið 1998. Fleiri framboð voru stofnuð sem öll störfuðu í styttri tíma, mörg hver í eitt eða tvö kjörtímabil. Í dag eiga fimm stjórnmálaflokkar sæti á Alþingi: Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin. Samfylkingin og Vinstrihreyfingin standa að ríkisstjórn um þessar mundir, en hinir eru í stjórnarandstöðu. Samfylkingin. Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands er íslenskur jafnaðarmannaflokkur sem varð til við samruna Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Samtaka um kvennalista og Þjóðvaka árið 2000, Íslandshreyfingin var fimmti flokkurinn til að ganga í Samfylkinguna. Íslandshreyfingin rann inn í hana í mars 2009. Í fyrstu þremur kosningunum sem flokkurinn tók þátt í fékk hann næstflest atkvæði, á eftir Sjálfstæðisflokknum, en í kosningunum 2009 varð Samfylkingin stærsti flokkur landsins. Formaður flokksins er Árni Páll Árnason og varaformaður er Katrín Júlíusdóttir. Samfylkingin er aðili að núverandi ríkisstjórn Íslands ásamt Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Á landsfundi flokksins 2013 var nafni flokksins breytt í Samfylkingin Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Saga. Ólíkt hinum Norðurlöndunum var enginn stór jafnaðarmannaflokkur starfandi á Íslandi mestalla 20. öldina heldur voru vinstri menn klofnir í smærri flokka. Hugmyndir um sameiningu vinstri manna í einn flokk sem gæti keppt við Sjálfstæðisflokkinn í fylgi voru þó ávallt lífseigar og í nafni þeirra var gjarnan stofnað til sérstakra klofningsframboða úr eldri flokkum sem áttu að ná fram þessu markmiði. Síðasta slíka framboðið var Þjóðvaki sem stofnaður var 1994 í því yfirlýsta markmiði að sameina íslenska jafnaðarmenn. Í kjölfar alþingiskosninganna 1995 fór umræða um mögulega samfylkingu af stað fyrir alvöru. Alþýðuflokkurinn var þá kominn í stjórnarandstöðu ásamt hinum vinstri flokkunum og vel heppnað sameiginlegt framboð vinstri manna og Framsóknarflokksins í sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík 1994 og 1998 undir merkjum R-listans virkaði sem hvati á sameiningarviðræður. Viðræður um sameiningu. Innan Alþýðuflokks og Þjóðvaka var stuðningur við sameiningu hvað mestur. Haustið 1996 voru þingflokkar þessara flokka sameinaðir undir nafninu „þingflokkur jafnaðarmanna“. Raunar gengu þrír af fjórum þingmönnum Þjóðvaka síðan aftur í Alþýðuflokkinn, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Þjóðvaka var ein eftir. Þjóðvaki tók þannig ekki þátt í Samfylkingunni sem flokkur en Jóhanna gerði það sem einstaklingur. Í nóvember 1997 var haldinn flokksstjórnarfundur hjá Alþýðuflokknum og landsfundir hjá Kvennalista og Alþýðubandalagi um það hvort að hefja ætti sameiningarviðræður. Allir flokkarnir samþykktu það að gengið skyldi til viðræðna en mismikil eindrægni var í þeirri afstöðu milli flokka. Alþýðuflokkurinn lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi við sameiningarviðræður. Innan Kvennalistans var áherslumunur á milli kynslóða þar sem yngri kynslóðin reyndist tilbúnari til þátttöku í mögulegri samfylkingu en margar fyrrverandi og þáverandi þingkonur flokksins voru andvígar, meðal annars á þeirri forsendu að Kvennalistinn hafi verið hugsaður sem óháður hefðbundnum stjórnmálaöflum en með samfylkingu væri verið að skilgreina hann sem vinstri félagshyggjuflokk. Niðurstaðan varð að samþykkt var að ganga til sameiningarviðræðna með 36 atkvæðum gegn 18, í kjölfarið sögðu nokkrar af þeim konum sem höfðu verið andvígar sig úr flokknum. Það var í Alþýðubandalaginu sem að andstaðan reyndist hvað hörðust. Málefnaágreiningur réði þar mestu, margir óttuðust að flokkurinn væri að fórna hefðbundnum stefnumálum sínum og færast of langt til hægri með því að sameinast Alþýðuflokki en þessir tveir flokkar höfðu að ýmsu leyti ólíka stefnu. Alþýðuflokkurinn var t.d. jákvæðari gagnvart Atlantshafsbandalaginu og mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu en Alþýðubandalagið. Af þessum sökum sögðu þrír þingmenn Alþýðubandalagsins sig úr flokknum og stofnuðu eigin vinstri flokk - Vinstri hreyfinguna -grænt framboð - sem skyldi leggja meiri áherslu á hefðbundnari vinstri gildi auk umhverfismála. Alþingiskosningar. Samfylkingin bauð fram í fyrsta skipti í alþingiskosningunum 1999 sem kosningabandalag. Margrét Frímannsdóttir, þáverandi formaður Alþýðubandalags, gegndi þá hlutverki talsmanns. Flokkurinn hlaut þá 26,8% atkvæða sem var hæsta hlutfall atkvæða sem að vinstri flokkur hafði fengið í áratugi en þó 11% lægra en flokkarnir fjórir höfðu fengið samanlagt í kosningunum 1995. Vinstri grænir fengu 9,1% í sömu kosningum. Stofnfundur Samfylkingarinnar var haldinn 5. - 6. maí 2000 og varð hún þá að formlegum flokki, fyrsti formaðurinn var kjörinn Össur Skarphéðinsson. Fyrir alþingiskosningarnar 2003 tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður þrátt fyrir að hafa lýst því yfir eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002 að hún væri ekki á leið í þingframboð. Þetta vakti hörð viðbrögð samstarfsflokka Samfylkingarinnar í R-listanum sem kröfðust þess að hún viki úr stóli borgarstjóra. Í kjölfarið var hún titluð „forsætisráðherraefni“ flokksins fyrir kosningarnar og ræða sem hún hélt í Borgarnesi 9. febrúar 2003 varð eitt helsta deilumál baráttunar en þar spurði hún að því hvort að lögregluaðgerðir og skattarannsóknir gagnvart Baugi og Jóni Ólafssyni væru mögulega sprottnar af persónulegri óvild Davíðs Oddssonar í garð einstakra athafnamanna. Í kosningunum bætti flokkurinn við sig nokkru fylgi, fékk flest atkvæði í tveimur kjördæmum og vantaði nú aðeins tvö sæti til að ná Sjálfstæðisflokknum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur á Íslandi sem varð til þann 6. febrúar 1999 þegar nokkrir þingmenn úr Alþýðubandalaginu vildu ekki ganga í Samfylkinguna við stofnun hennar. Auk hefðbundinnar félagshyggju og sósíalisma á hann margt sameiginlegt með græningjaflokkum Evrópu í stefnu sinni. Flokkurinn bauð fyrst fram í kosningum til Alþingis árið 1999 og fékk þá 6 menn kjörna en í kosningunum 2003 tapaði hann einum manni og hafði þá 5. Í alþingiskosningunum árið 2007 jókst fylgi flokksins verulega og fékk hann 9 þingmenn. Í alþingiskosningunum árið 2009 voru 14 þingmenn kosinr á þing. Í alþingiskosningunum 2013 fékk flokkurinn 10,9% og 7 þingmenn, sem var betri útkoma en kannanir höfðu gefið til kynna. Stofnanir innan flokksins eru Ung vinstri græn og Eldri vinstri græn. Félagar í VG eru nú um þrjú þúsund talsins og er flokkurinn meðlimur Norræna Vinstri-Græna Bandalagsins. UVG. Ung vinstri græn stofnuðu með sér formlegan samstarfsvettvang haustið 2000. Tilgangur UVG er að tryggja ungu fólki í VG vettvang til málefnaumræðu og mynda inngönguleið fyrir nýja félaga. Á aðalfundi félagsins haustið 2012 var ákveðið að hætt yrði að kjósa formann og kosin stjórn sem skipti með sér verkum. Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, sitjandi formaður hafði áður tilkynnt að hún myndi ekki bjóða sig fram til endursetu og hún var því síðasti formaður hreyfingarinnar. Fyrri formenn voru: Katrín Jakobsdóttir (2002-2004), Oddur Ástráðsson (2004-2005), Dögg Proppé Hugosdóttir (2005-2006), Auður Lilja Erlingsdóttir (2006-2008), Steinunn Rögnvaldsdóttir (2008-2009), Jan Eric Jessen (2009-2010), Guðrún Axfjörð Elínardóttir (2010-2011) og Snærós Sindradóttir (2011). Virk svæðisfélög eru á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Borgarbyggð. EVG. Á haustdögum 2005 var ákveðið í samráði við Steingrím J. Sigfússon, að gera tilraun til að mynda hóp eldri borgara sem væru félagar eða stuðningsmenn Vinstri Grænna. Formaður félagsins er Margrét Margeirsdóttir. Landsfundir. Landsfundur er æðsta vald flokksins en hann er haldinn á tveggja ára fresti. Á landsfundi er kosið í stjórn flokksins og í flokksráð. Í stjórn flokksins sitja 11 aðalmenn auk fjögurra varamanna og fer þessi hópur með daglega stjórn flokksins í samræmi við lög og samþykktir. Stjórnin hittist mánaðarlega. Flokksráð er æðsta vald milli landsfunda en það mynda aðal- og varamenn í flokksstjórn, þingmenn og varaþingmenn og sveitastjórnarfulltrúar flokksins, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga, formaður ungliðahreyfingar flokksins og 30 fulltrúar sem kosnir eru sérstaklega af landsfundi. Varaformaður flokksstjórnar er jafnframt formaður flokksráðs. Staða flokksins í dag. Kjörfylgi VG fór úr 21,7% í kosningum 2009 í 10,9%, sem jafngildir tæplega helmings fylgistapi. Á kjörtímabilinu var tekist á innanflokks um ýmis erfið deilumál sem flokkurinn þurfti að taka afstöðu til í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni (t.a.m. aðildarumsókn að Evrópusambandinu, Icesave og fiskveiði - og stjórnarskrármálin) sögðu fjórir þingmenn flokksins sig úr þingflokknum á kjörtímabilinu 2009-2013 auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, sem lét af þingmennsku áramótin 2012-13. Í kosningunum 2013 tapaðist ekki síst fylgi út á landsbyggðinni. Í norðvesturkjördæmi fékk flokkurinn 22,8% í kosningunum 2009 og þrjá þingmenn kjörna, þau Jón Bjarnason, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ásmund Einar Daðason. Hvert um sig hefur umtalsvert persónufylgi á bakvið sig í sínum byggðalögum. Árið 2011 gekk Ásmundur Einar til liðs við Framsóknarflokkinn, eftir deilur innan flokksins um Icesave og Evrópusambandsumsóknina. Hann skipaði 2. sætið á lista flokksins í kosningunum 2013. Jón Bjarnason sagði sig úr þingflokki VG í upphafi árs 2013 og leiddi J-lista Regnbogans í kjördæminu í kosningunum 2013. Þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um framboð flokksins skömmu fyrir kosningar fékk J-listinn 4,5% atkvæða í kjördæminu á sama tíma og Framsóknarflokkurinn fékk rúm 35% og fjóra af átta þingmönnum kjördæmisins. VG fékk 8,5% og Lilja Rafney náði kjöri sem jöfnunarmaður. Í norðausturkjördæmi vann VG ákveðinn varnarsigur, fékk tæp 16% og tvo menn kjörna. Í suðurkjördæmi hrundi fylgi flokksins úr 17,1% árið 2009 í 5,9%. Það má að hluta til rekja til úrsagnar Atla Gíslasonar úr flokknum. Í höfuðborginni blasti fylgistap einnig við flokknum. Flokkurinn missti einn mann í hvoru Reykjavíkurkjördæminu og hefur nú þrjá þingmenn í Reykjavík. Ögmundur Jónasson náði kjöri í suðvesturkjördæmi, en þar fékk flokkurinn 7,9% í kosningunum 2013 en hafði 17,4% í kosningunum 2009, þegar tveir menn náðu kjöri. Eins og staðan er í dag hefur Vinstrihreyfingin - grænt framboð sveitarstjórnarfulltrúa í 14 sveitarfélögum auk þess sem að fjöldi flokksmanna hefur tekið sæti á blönduðum listum sem víða fara með meirihlutavald. Þingflokkur. Árni Þór Sigurðsson, 8. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður Bjarkey Gunnarsdóttir, 9. þingmaður Norðausturkjördæmis Katrín Jakobsdóttir, 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður Lilja Rafney Magnúsdóttir, 8. þingmaður Norðvesturkjördæmis Steingrímur J. Sigfússon, 5. þingmaður Norðausturkjördæmis Svandís Svavarsdóttir, 5. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður Ögmundur Jónasson, 8. þingmaður Suðvesturkjördæmis Frjálslyndi flokkurinn. Frjálslyndi flokkurinn er íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 1998, hann fékk tvo þingmenn í kosningunum 1999, fjóra í kosningunum 2003 og 2007 en fékk ekki fulltrúa í kosninunum 2009. Framtíð hans er því óljós. Meginstefnumál flokksins hefur ávallt verið barátta fyrir breytingum á núverandi kvótakerfi í stjórnun fiskveiða við Ísland en nýverið einnig áherslur á að setja hömlur á flæði innflytjenda inn í landið. Helsta vígi Frjálslynda flokksins er á Vestfjörðum sem eru hluti Norðvesturkjördæmis. Flokkurinn hefur þó fylgi út um allt land. Á árinu 2012 bárust fréttir af því að Frjálslyndi flokkurinn væri skuldugur. Saga. Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður af Sverri Hermannssyni, fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins og bankastjóra Landsbankans, í nóvember 1998. Meðal helstu baráttumála var að breyta fiskveiðistjórn, umhverfisvernd, sér í lagi á hálendi Íslands og að varðveita velferðarkerfið. Að undirbúningi að stofnun flokksins komu samtökin Samtök um þjóðareign, helstu baráttumál þeirra samtaka var að útgerðarmenn í íslenskum sjávarútveg þyrftu að greiða fyrir aflaheimildir til ríkissjóðs. Uppúr samstarfi Sverris og Samtaka um þjóðareign slitnaði þó og stofnuðu framamenn innan samtakanna stjórnmálaflokkinn Frjálslynda lýðræðisflokkinn um sömu mundir. Fyrsta landsþing flokksins var haldið í Reykjavík í janúar 1999 og á það mættu á fjórða hundrað manns. Sverrir Hermannsson var kosinn formaður með 183 atkvæðum, Gunnar Ingi Gunnarsson varaformaður með 167 atkvæðum og Margrét Sverrisdóttir, dóttir Sverris Hermannsssonar, var kosin ritari flokksins. Meðal tillagna á þinginu var að Ísland yrði gert að einu kjördæmi og að þingmönnum yrði fækkað í 51. Í fyrstu Alþingiskosningum sínum árið 1999 fékk Frjálslyndi flokkurinn 4,2% og tvo menn kjörna á Alþingi. Flokkurinn fékk langmesta fylgi sitt á Vestfjörðum eða 17,7% í öðrum kjördæmum fór fylgið hvergi yfir 5%. Eftir að niðurstöður kosninganna voru ljósar sagði Sverrir Hermannsson að flokkurinn hefði unnið „málfrelsissigur“ þar sem fjölmiðlar, og þá sér í lagi Morgunblaðið hefðu lagt sitt af mörkunum til „að drepa á dreif aðalmáli kosninganna“ en með því átti hann við baráttu flokksins fyrir breyttu kvótakerfi. Í Alþingiskosningunum 2003 jók flokkurinn fylgi sitt í 7,4% og fékk fjóra þingmenn. Ekki munaði nema 13 atkvæðum að flokkurinn fengi einn þingmann til. Í Alþingiskosningunum 2007 fékk flokkurinn aðeins lægra fylgi, 7,26% en hélt fjórum þingmönnum. Mikil innanflokksátök einkenndu flokkinn kjörtímabilið 2007-2009 og tveir af fjórum þingmönnum flokksins gengu úr honum. Í kosningunum 2009 beið flokkurinn afhroð, datt af þingi og hlaut aðeins 2,2% atkvæða. Frjálslyndi flokkurinn bauð fram í Reykjavík og á Ísafirði í sveitastjórnarkosningunum 2002. Flokkurinn fékk 10,1% atkvæða í Reykjavík og einn fulltrúa, Ólaf F. Magnússon. Í Ísafjarðarbæ fékk flokkurinn 13,4% atkvæða og einn fulltrúa sömuleiðis. Kristni. Kristni er eingyðistrú af abrahamískum stofni. Upphafsmaður trúarbragðanna og sá sem þau eru kennd við var Jesú frá Nasaret sem meðal kristinna manna er kallaður Jesús Kristur. Byggjast þau á boðskap hans og trúnni á að hann hafi verið sonur Guðs og risið upp frá dauðum, svo að þeir sem á hann trúi öðlist eilíft líf. Um hann má lesa í Nýja testamentinu, sem er síðari hluti Biblíunnar, trúarrits kristinna manna. Kristni er fjölmennustu trúarbrögð heimsins í dag, einkum og sér í lagi á vesturlöndum og er hún þess vegna oftast talin ein af meginstoðum vestrænnar menningar. Saga. Kristni er upprunnin fyrir botni Miðjarðarhafs, þaðan sem Jesús var, en fljótlega færðist þungamiðja trúarbragðanna til Rómar, sem var á þeim tíma langöflugasta miðstöð menningar við Miðjarðarhafið. Til að byrja með voru kristnir fáir og litið niður á þá, og voru þeir ofsóttir í Rómaveldi vegna þess að þeir neituðu að dýrka keisarann sem guð. En árið 313 veitti Konstantín keisari kristnum mönnum trúfrelsi og hætti ofsóknum í Róm þar með. Árið 391 gerði Theodosius I kristni að ríkistrú í rómaveldi. Kristni breiddist einnig út í nágrannalöndum, árið 301 varð kristni gerð að ríkistrú í Armeníu og var það fyrsta kristna ríkiskirkjan í heiminum. Til að byrja með var lítil miðstjórn meðal kristinna og miklar deilur um ýmis trúaratriði, til dæmis eðli Jesú og Heilaga þrenningu. Keisarinn var yfir kirkjunni, en það var aðeins að nafninu til. Af og til voru haldin kirkjuþing, þar sem saman komu helstu trúspekingar samtímans og embættismenn hinna ýmsu kirkjudeilda, til að taka ákvarðanir um stefnur og strauma er fylgja skyldi. Smám saman fór þó biskupinn í Róm að auka völd sín og varð embætti hans smám saman að því, sem við í dag köllum páfa. Þetta sætti patríarkinn í Konstantínópel (nú: Istanbúl) sig ekki við, þannig að kirkjan klofnaði í rómversk-kaþólsku kirkjuna (sem einnig var nefnd Vesturkirkjan) og rétttrúnaðarkirkjuna (sem einnig var nefnd Austurkirkjan). Á 16. öld varð svo enn klofningur, þegar þeir, sem eru enn í dag kallaðir mótmælendur, mótmæltu valdi páfa og spillingu innan kirkjunnar og klufu sig frá henni í ýmsar deildir, svo sem Lúterstrú og kalvínista. Kristni í dag. Nú er kristin trú fjölmennustu trúarbrögð heimsins, með um 2 milljarða fylgjenda. Rúmur helmingur þeirra telst til rómversk-kaþólsku kirkjunnar, 367 milljónir eru mótmælendur og 216 milljónir tilheyra grísku/rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Kristnir búa flestir í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu. Hlutfallslega eru kristnir mun færri í Asíu og Afríku en en í hinum álfunum en þar eru þó margir kristnir, meðal annars í Eþíópíu, þar sem kristni hefur verið við lýði frá 330. Kristni á Íslandi. Kristni var lögtekin á Íslandi annaðhvort árið 999 eða 1000. Margir Íslendingar höfðu tekið kristna trú fyrr og var kristnin að breiðast hratt út í landinu. Ríkisstjórn. Ríkisstjórn er sú grein ríkisvaldsins sem fer með framkvæmdaréttinn og getur sett reglugerðir og er ábyrg fyrir almennum rekstri ríkisins. Ríkisstjórnir eru valdar á ýmsan hátt, í Bandaríkjunum er forseti kjörinn sem æðsti maður ríkisstjórnar, hann velur svo hverjir skipa ríkisstjórnina. Ríkisstjórn Íslands er lýðræðislega kjörin þar sem hún er þingbundin hinu lýðræðislega kjörna Alþingi Íslands þó hún sé ekki kosin beint. Ríkisstjórn Íslands. Ríkisstjórn Íslands er handhafi framkvæmdavalds í íslensku stjórnkerfi. Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 var framkvæmdavaldið flutt frá Danmörku til Íslands og segja má að þá hafi ríkisstjórn Íslands orðið til. Hannes Hafstein fór fyrir fyrstu ríkisstjórn Íslands og var reyndar eini meðlimur hennar, hann gegndi embætti Íslandsráðherra (ráðherra Íslandsmála). Síðar urðu ráðherrarnir þrír og fjölgaði þeim jafnt og þétt á 20. öldinni og mest í 12. Viðreisn. Er viðreisnarstjórnin tók við völdum var fyrsti heilbrigðismálaráðherrann skipaður Lög um Stjórnarráðið. 1. janúar 1970 tóku ný lög um Stjórnarráðið gildi Tengt efni. Ríkisstjórn Íslands Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Engillinn Moroni blæs í lúður á turni aðalmusteris mormóna í Salt Lake City Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu sem er þekktari sem mormónakirkjan var stofnuð á fyrrihluta 19. aldar í Bandaríkjunum. Samanlagt í heiminum eru safnaðarfélagar nú fleiri en 12 miljónir. Mormónar trúa því að söfnuður þeirra sé endurrisin söfnuður sá er Jesús skapaði og að aðrir trúarhópar sem kenna sig við Krist hafi villst af leið. Það var Joseph Smith (1805 - 1844) sem var frumkvöðull trúarinnar. Trúarsamfélagið mótaðist af Brigham Young sem hafði forystu um landnám mormóna í Salt Lake City í Utah-fylki í Bandaríkjunum 1847. Mormónar trúa því að Guð sé líkamleg vera sem er giftur og á börn. Þeir trúa því einnig að menn geti orðið guðir eftir dauðan. Þeir leggja stranga áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar og leggjast mjög gegn fóstureyðingum, samkynhneigð, kynlífi utan hjónabands og klámi. Safnaðarfélagar mega ekki stunda fjárhættuspil né nota tóbak, áfengi, te, kaffi eða fíkniefni. Það er algengur misskilningur að mormónar stundi fjölkvæni þrátt fyrir að kirkjan hafi bannað það þegar árið 1890. Aðal trúarrit þeirra eru Mormónsbók og Biblían. Saga mormónakirkjunnar. Ljósmynd af Joseph Smith frá 1843 Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu var stofnuð af Joseph Smith í New York-fylkin í Bandaríkjunum árið 1830. Samkvæmt söguskoðun mormóna fékk Smith opinberun frá Guði, fyrst í gengum engilinn Moroni og síðar gegnum bók skráða á gullplötur. Smith snéri bókinni á ensku sem "Book of Mormon" – Mormónsbók. Bókin segir frá fornum þjóðum í Ameríku og var gefin út í fyrsta skipti 1830. Sama ár og Mormónsbók var gefin út var söfnuðurinn stofnaður og urðu safnaðarfélagar fljótlega allmargir. Frá upphafi var mikil áhersla lögð á trúboð. Þessi nýju trúarbrögð vöktu mikla andúð annarra safnaða. Sjálfur var Smith handtekinn oftar en þrjátíu sinnum vegna trúar sinnar. Fyrsta musteri mormóna var vígt 1836 í Kirtland í Ohio. Söfnuðurinn óx hröðum skrefum en ofsóknirnar héldu einnig áfram. Mormónarnir fluttu þá til Illinois og stofnuðu þar sveitarfélagið Nauvoo. En þeir sluppu ekki við ofsóknir þar heldur. Joseph Smith var handtekinn hvað eftir annað og þegar hann sat í fangelsi í borginni Carthage í Illinois ásamt bróður sínum Hyrum voru þeir báðir myrtir 27 júní 1844 af vopnuðum lýð sem réðist inn í fangelsið. Joseph Smith var þá einungis 38 ára gamall. Þegar Smith var myrtur hafði mormónakirkjan vaxið í 26 000 manna söfnuð. Eftir morðið var mormónum ljóst að þeir voru ekki óhultir í þéttbýli Bandaríkjanna. Meðal annars voru 200 bóndabæir mormóna í Nauvoo brenndir á einum mánuði 1845. Brigham Young (1801 – 1877) sem tók við forstöðu safnaðarins eftir Smith ályktaði að framtíðarlandið væri í vesturhluta norður Ameríku. Hann ákvað því að söfnuðurinn allur mundi taka sig upp og flytja til fyrirheitna landsins á sama hátt og Ísraelsmenn höfðu flúið Egyptaland. Um 16 000 safnaðarfélagar tóku sig upp og hófu langa og stranga ferð vestur eftir meginlandinu. Eftir tveggja ára ferð kom fyrsti mormónahópurinn á áfangastað, Salt Lake-dalinn í Utah, í júlí 1847. Á þessum tíma var Salt Lake langt frá öllum byggðum og utan landamæra Bandaríkjanna. Þaðan var meir en 1600 km til næstu stærri borgar í Bandaríkjunum og langt frá ofsækjendunum. Mormónar hófu að byggja borgina Salt Lake City með Musteri Mormons sem öxul. Þar að auki stofnuðu mormónar 325 þorp og bæi í Utah á tímum Brigham Young. Mormónar óskuðu eftir því við ríkisstjórn Bandaríkjanna að fá til yfirráða eigið fylki sem þeir nefndu Deseret og átti að ná yfir stóran hluta Klettafjalla og nágrennis. Í stað þess fengu þeir miklu minna landsvæði sem var kallað Utah (eftir indjánaþjóð á svæðinu sem nefnd var Ute) og var ekki vert að fylki heldur yfirráðasvæði (s.k. territory). Árið 1857 sendi bandaríkjastjórn herlið til Utah til að berja niður mormónauppreisn sem fréttist hafði um til Washington. Uppreisnin reyndist vera sögusögn en hersetan olli margvíslegum erfiðleikum fyrir íbúa Utah. En mormónum hélt áfram að fjölga mjög og við andlát Brigham Young 1877 voru þeir orðnir 140 000 í Utah. Það var ekki einungis því að þakka að þeir eignuðust mörg börn heldur öllu frekar trúboð í Evrópu og innflytjendur sem komu þaðan. Á þessum tíma var það opinber trúarsetning mormóna að Guð vildi að þeir stunduðu fjölkvæni. Það var hins vegar ólöglegt í Bandaríkjunum og mikill þyrnir í augum andstæðinga mormóna. 1887 voru sett ný lög í Bandaríkjunum gegn mormónum og fjölkvæni. Með þeim voru settar miklar hömlur á allt starf kirkjunnar og allar eigur gerðar upptækar, allir einstaklingar sem neituðu að taka afstöðu gegn fjölkvæni voru sviptir kosningarétti og kjörgengi. Fjölmargir voru dæmdir í fangelsisvist og aðrir flúðu undan lögreglu og herliði. Wilford Woodruff sem þá var kirkjuleiðtogi fékk vitrun 1890 og lýsti því yfir að fjölkvæni væri nú gegn vilja Guðs. Flestir mormónar fylgdu kenningu Woodruffs án mótmæla. Afnám fjölkvænis gaf mormónum og Utah möguleika að taka nýja stöðu í samfélagslífi Bandaríkjanna. Árið 1896 varð Utah 45 fylkið í Bandaríkjunum. Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu hélt áfram að vaxa, frá 268 331 árið 1900 til 979 454 árið 1948. Árið 1950 bjuggu einungis 8% mormóna utan Bandaríkjanna en 1990 voru það 35%. Nú býr um helmingur mormóna í Bandaríkjunum. Trúarkenningar. Mormónar álíta ekki að mannlegt líf hefjist við fæðingu. Þeir trúa því að við höfum eilíft líf, bæði fyrir og eftir jarðvistina og það stjórnar öllum verkum þeirra. Mormónar trúa því að með Guði, hinum himneska föður, sé kona hans, hin himneska móðir. Móðirin er jöfn föðurnum í heilagleika og vísdómi. Mormónar kenna að Guð sé í raun þrjár persónur, sjálfstæðir guðir. Guð faðirinn sem heitir Elohim, sonurinn Jesús sem er kallaður Jehóva í Gamla testamentinu og Heilagur andi. Menn geta einnig orðið guðir við hlið Guðs í eilífðinni. Samkvæmt mormónum er Jesús fullkomin fyrirmynd. Hann kenndi í orði og verki á hvaða hátt menn skuli haga eigin lífi og elska Guð og samferðamenn sína. Hann lét sjálfviljugur líf sitt á krossinum og fullgerði þannig friðþæginguna. Með því frelsaði hann alla frá syndum sem vilja fylgja honum. Mormónar álíta andstætt við aðrar kristnar kirkjur að Jesús hafi ”verið getinn af heilögum anda”, þeir trúa því að hann hafi á jörðu verið barn Guðs og Maríu og á himni barn Guðs, Elohim, og konu hans. Þeir eru einnig vissir um að Jesús hafi farið til Ameríku eftir að hann reis upp frá dauðum. Lifandi spámenn. Mormónar trúa á lifandi spámenn, spámenn sem gegna sama hlutverki eins og Abraham, Móses, Jóhannes skírari og postularnir. Þeir telja Joseph Smith sem spámann en einnig alla þá sem eru í forystu kirkjunnar á hverjum tíma. Endurreist kirkja. Mormónar halda því fram að þeir séu kristnir en á eigin hátt. Þeir trúa því að Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu hafi endurreist þá frumkirkju sem Jesús stofnaði. Samkvæmt kenningu þeirra skipulagði Jesús þrjú síðustu árinn á lífi söfnuðinn og skipaði tólf postula og veiti þeim vald til að tala í hans nafni og stjórna kirkjunni. Fljótlega eftir dauða Jesús voru postularnir sjálfir myrtir og bein áhrif Guðs á kirkjuna enduðu þar með. Þar með hófst tími misskilnings og vantúlkana. Mormónar telja sig ekki á neinn hátt tilheyra þeim kirkjulegu og trúarlegu hefðum sem hafa skapast allt frá fyrstu öldum kristinnar kirkju. Árið 1820 birtust Guð og Jesús Joseph Smith og sögðu honum að hlutverk hans væri að endurreisa kirkjuna. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er þess vegna eina kristna kirkjan sem hefur valdsumboð frá Jesú Kristi. Kirkjan er hliðstæð frumkirkjunni sem Kristur stofnaði í jarðneskri þjónustu sinni hvað varðar trú, kenningar, valdsumboð og skipulag. Erfðasyndin. Kristnar kirkjur hafa kennt að Adam og Eva hafi syndgaði þegar þau átu af tré þekkingar góðs og ills og þar með fengu allir menn þegar við fæðingu sama syndaeðli.
 Mormónar afneita kenningunni um erfðasyndina og kenna hins vegar að synd Adams hafi verið nauðsynleg í áætlun lífsins og blessun fyrir gjörvalt mannkyn og að menn verði dæmdir fyrir eigin syndir en ekki Adams. Skírn látinna. Samkvæmt kenningum kirkjunnar hafa meðlimir hennar skyldum að gegna gagnvart látnum ættmennum, þeim sem ekki höfðu möguleika á að velja Jesú Krist meðan þeir lifðu. Til að auðvelda þeim eilífðarlífið er hægt að skíra þá í musteri kirkjunnar með staðgengli. Til að auðvelda þetta rekur kirkjan eitt stærsta ættfræðisafn í heiminum: Ættfræðisafnið í Salt Lake City, Utah. Það er opið almenningi, sem fengið getur aðgengi að milljónum heimildarskjala með fæðingardögum, giftingardögum, dánardögum. Prestar. Prestar mormóna eru ólaunaðir og eru ekki skólagengnir prestar. Þeir drengir sem eru taldir verðugir og eru það flestir geta hlotið Aronsprestdæmið þegar þeir eru 12 ára og Melkísedeksprestdæmið 18 ára. Það þýðir að nánast allir karlmenn í kirkjunni gegna prestembætti. Trúboð. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu leggur mikla áherslu á trúboð og hefur gert frá upphafi. Trúboðar eru sendir úr tveir og tveir saman tvo og tvo saman. Flestir trúboðar kirkjunnar eru ungir menn og konur á aldrinum 19 til 23 ára. Trúboðar eru kallaðir til að starfa í 18 mánuði og upp í tvö ár og gera það upp á eigin kostnað. Verðandi trúboðar geta þurft að þjóna hvar sem er í heiminum og þurfa oft að læra nýtt tungumál. Fyrir utan svo sem tveggja mánaða þjálfun í tungumálanámi, fá trúboðar litla beina þjálfun áður en þeir fara til þjónustunnar. Þekkingu sína hafa þeir í flestum tilvikum öðlast á heimilum. Trúboðarnir kenna bæði úr Biblíunni og úr Mormónsbók. Helgirit. Biblíuna, er Gamla og Nýja testamentið. Þeir álíta þó að varúð þurfi að hafa við lestur Biblíunnar þar sem margt í henni hafi verið vantúlkað og rangsnúið og sumt falsað í hinum ýmsu þýðingum. Mormónar hafa þess vegna gert eigin þýðingar á ýmis tungumál þar sem gallarnir eru leiðréttir. Mormónsbók, helg ritning sem sambærileg Biblíunni. Þar sem ber á milli gildir Mormónsbók. Í henni eru rit spámanna frá fornum tímum. Einn þeirra, Lehí, var uppi í Jesúsalem um 600 f.Kr. Lehí leiddi fámennan hóp til meginlands Ameríku að boði Guðs. Þar varð fólkið að mikilli þjóð með spámönnum. Mormónsbók er safn rita um spámennina og leiðtoga þessa samfélags. Hún er nefnd eftir Mormón, sem var einn af síðustu spámönnum þessa tíma. Joseph Smith fann Mormónsbók 1830 eftir leiðsögn engilsins Moroni og var hún skráð á gullplötur. Kenning og sáttmálar, er safn guðlegra opinberana og innblásinna útskýringa, sem Guð veitti spámönnum á nítjándu öld til að stofna og leiða kirkjuna á síðari dögum. Hin dýrmæta perla, er safn opinberana, þýðinga og rita frá Joseph Smith. Mormónar á Íslandi. Á Íslandi er starfandi söfnuður í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Fjölkvæni og mormónar. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu bannaði fjölkvæni meðlima sinna árið 1890 og útilokar þá úr kirkjunni sem ekki fara eftir því. Það er enn algengur misskilningur að mormónar stundi fjölkvæni og byggir það á því að kirkjan studdi það í nær fimmtíu ár. Joseph Smith fékk snemma í sögu kirkjunnar opinberun frá Guði um að fjölkvæni og fjölveri væri honum þóknanlegt og æskilegt. Smith skrifaði fyrst um þetta árið 1843 þó svo að opinberunin hafi átt sér stað mörgum árum áður. Það þótti talsvert hugrekki til að tala fyrir fjölkvæni þar sem það opnaði fyrir heiftarlegar árásir og ofsóknir gagnvart söfnuðinum. Í upphafi voru flestir mormónar óviljugir að taka sér marga maka og samkvæmt ýmsum heimildum gerðu þeir það eftir miklar bænir og vangaveltur. Brigham Young fékk ítrekaða opinberun frá Guði 1852 um fjölkvæni og eftir það varð það mun algengar en áður. Því var meðal annars trúað að einungis þeir sem höfðu lifað í hjónabandi við fleiri en eina persónu gætu náð hæsta tilverustigi á himnum. Þrátt fyrir það var ekki meirihluti hjónabanda mormóna fjölkvænishjónabönd. Um 20 % allra hjónbanda voru af því tagi og um 60 % karla í þessum hjónaböndum höfðu einungis tvær eiginkonur og um 5 % fleiri en fimm. Nokkur dæmi eru um fjölveri, þ.e. að ein kona hafði fleiri en einn eiginmann. Lög Bandaríkjanna bönnuðu fjölkvæni og flestallir þeir sem ekki voru mormónar tóku harkalega afstöðu gegn fjölkvæni. Eftir mikil átök milli mormóna og yfirvalda fékk þáverandi leiðtogi mormóna, Wildord Woodruff, opinberun frá Guði 1890 um það að engin ný fjöldahjónabönd mætti stofna upp frá því. Þeir sem þá lifðu í þannig hjónaböndum voru ekki neyddir til að leysa þau upp. Ekki sættu allir mormónar sig við þessa opinberun Woodruffs og klufu sig úr söfnuðinum. Áætlað er að um 30 000 manns lifi í fjölkvæni í fylkjunum Utah, Idaho, Montana og Arizona. Sumir þeirra telja sig lifa eftir upprunalegum kenningum mormóna og aðrir hafa valið þetta hjónabandsform óháð trúarbrögðum. Sértrúarsöfnuður. Sértrúarsöfnuður er kirkja eða söfnuður sem aðhyllist sértrú, það er trúna á að þeir einir hafi sannleikann og ganga verði í viðkomandi söfnuð til að komast til himna, eða hvað annað sem er markmið með viðkomandi trúarbrögðum. Á Íslandi hefur þetta hugtak verið notað niðrandi um ýmsar aðrar kirkjudeildir, sem eru minni (hér á landi) en hin evangelísk-lútherska þjóðkirkja Íslands, þó slíkt eigi í fæstum tilvikum við, þar sem þær telja sig ekki hina einu réttu, heldur starfa með öðrum kirkjum og telja hjálpræðið ekki bundið við ákveðna kirkju eða söfnuð. Vottar Jehóva. Vottar Jehóva eru trúarhópur sem telur sig kristinn en sker sig frá öðrum slíkum (og eru þess vegna af mörgum ekki taldir kristnir í raun) til dæmis með því að hafna þrenningarkenningunni (um Guð föðurinn, soninn og hinn heilaga anda sem eitt og þrennt í senn) og hafna þannig kenningunni um eðli Jesú sem Guð. Hinsvegar trúa þeir að Jesú sé sonur Guðs en ekki sama persóna og honum óæðri. Samkvæmt trú Votta Jehóva bjó  Jesús á himni sem andavera áður en hann kom til jarðar, hann var fyrsta sköpun Guðs og nefna þeir hann þess vegna „frumburður“ sona Guðs. Jesús er eini sonurinn sem Guð skapaði að öllu leyti sjálfur og áður en Jesús varð maður notaði Jehóva hann sem ‚verkstjóra‘ við sköpun alls annars á himni og á jörð. Vottar Jehóva halda ekki jól, páska né afmælisdaga. Þeir trúa á þúsund ára ríkið, endurkomu Krists og dómsdag, þegar lifendur og dauðir verða dæmdir. Enn fremur að upp muni rísa réttlátir og ranglátir. Þeir afneita ekki veraldlegu valdi en ef lög veraldlega valdsins ganga gegn lögum Guðs þá hafna þeir þeim. Til dæmis neita þeir að ganga í her og taka þátt í kosningum (þeir hafa kosið stjórnarsjónarmið Guðs). Þeir neita alfarið að þiggja blóðgjafir þegar um slys eða skurðaðgerðir er að ræða vegna þess að Jehóva bannar það. Upphaf trúarinnar er rakið til Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum árið 1872, þegar Charles Taze Russell stofnaði International Bible Students Association. Árið 1931 var nafnið Vottar Jehóva (e. "Jehovah's Witnesses") tekið í notkun. Arftaki Russells, Joseph Franklin Rutherford, stóð fyrir nafnbreytingunni. Jehóva er annar ritháttur á hebreska orðinu JHVH sem vottarnir álíta vera persónulegt nafn Guðs. Gamlatestamenitsfræðingar hafa nú sýnt fram á að orðið Jehóva hafi í raun orðið til fyrir slysni. Vegna þess að ekki mátti nefna nafn drottins upphátt var í hebreskum biblíum orðinu "YHWH ("JHVH) blandað saman við orðið "Adonai", sem þýðir í raun guð eða drottinn. Fólk átti þá að segja guð ("Adonai") frekar en að lesa upphátt hið heilaga nafn hans, JHVH. Síðari kynslóðir Gyðinga tóku síðan uppá því að að lesa upphátt þessa samblöndu frekar en að segja "Adonai" og varð þá til nafnið Jehóva sem er því ekki komið frá biblíunni. Vottar Jehóva, eða vottarnir, eins og þeir eru kallaðir í daglegu tali, líta svo á að bæði Gamla- og Nýja testamennti Biblíunnar séu skrifuð undir innblæstri Guðs og beinlínis sannleikur. Vottarnir hafa gefið út sína eigin þýðingu af Biblíunni (þó ekki á íslensku) sem er frábrugðin í allnokkrum miklvægum atriðum. Þeir telja sig lifa eftir boði Krists um að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum. Þess vegna ganga þeir hús úr húsi með Biblíuna og vilja flytja fólki fagnaðarboðskap sinn um Guðsríki. Vottarnir skíra til trúar sinnar með niðurdýfingu á svipaðan hátt og hvítasunnumenn gera. Jesús frá Nasaret. Jesús frá Naseret (oftast aðeins Jesús) eða Jesús Kristur (≈6–4 f.Kr. – ≈29–33) er mikilvægasta persóna í kristni og er í hugum kristinna guð í mannslíki ("holdtekja guðs"). Meðan hann lifði var Jesús predikari, sonur Maríu og drottins, sumir segja að hann hafi verið getinn að óbrugðnum lið (meyfæðing), aðrir að Jósef hafi verið faðir hans. Jesús var af gyðingaættum og kenndur við bæinn Nasaret. Nafn Jesú. Jesús er þá þekktur sem Jesús Kristur (dregið af hebresku: יהושע [Yĕhošūa‘] (Jahve bjargar) og grísku: Χριστός [Christos] (hinn smurði)). Ævi. Kristnir menn trúa því að Jesús hafi lifað frá ca. 6–4 f.Kr. til ca. 29–33 e.Kr. og flestir sagnfræðingar telja að Jesús hafi verið til sem raunveruleg persóna. Samkvæmt 2000 ára órofinni hefð og frásögnum guðspjallanna fjögurra sem mynda fyrstu kaflana í Nýja testamenti Biblíunnar trúa kristnir menn því að Jesús hafi verið messías (hinn smurði), sonur Guðs og Guð sjálfur og hluti af hinni heilögu þrenningu. Jesús er einnig mikilvæg persóna í ýmsum öðrum trúarbrögðum, eins og íslam, mormónatrú og meðal votta Jehóva. Óflekkað mannorð. Störf og embætti. Óflekkaðs mannorðs er samkvæmt íslenskum lögum krafist af öllum þeim er gegna og/eða hafa heimild til eða sækjast eftir eftirfarandi embættum og störfum. Baldvin Einarsson. Baldvin Einarsson (2. ágúst 1801 – 9. febrúar 1833 Kaupmannahöfn) má telja einn af upphafsmönnum íslensku sjálfsstæðishreyfingarinnar. Baldvin gaf út ritið Ármann á Alþingi árið 1829 til að koma skoðunum sínum á framfæri. Baldvin Einarsson var fæddur að Molastöðum í Fljótum og var sonur hjónanna Einars Guðmundssonar á Lambanesi í Fljótum, hreppstjóra og Guðrúnar Pétursdóttur. Hann nam lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Sagnfræðingurinn Nanna Ólafsdóttir gaf út ævisögu Baldvins árið 1961. Andlát Baldvins. Sagt er að söknuðurinn hafi tekið fyrir kverkar honum, er hér var komið, og varnað honum máls. Íslenskir námsmen í Kaupmannahöfn kostuðu útför Baldvins. Ármann á Alþingi. Ármann á Alþingi var baráttu-, menningar- og þjóðmálarit sem gefið var út af Baldvin Einarssyni og Séra Þorgeiri Guðmundssyni í sjálfstæðisbaráttu Íslands. Útgáfan hófst 1830, aðeins 21 ári eftir skammlíft sjálfstæði Íslands byltingarsumarið 1809, þegar Jørgen Jørgensen lýsti landið frjálst og fullvalda ríki úr lögum við Danmörk. Tímaritið var gefið út í Danmörku og var efnið oft í formi samtala á milli ólíkra stétta. Yfirlýst markmið útgefenda var m.a. að endurreisa Alþingi Íslendinga. Jörundur hundadagakonungur. Jørgen Jørgensen (fæddur 1780 í Kaupmannahöfn í Danmörku – látinn 20. janúar 1841 í Hobart í Tasmaníu), sem í daglegu tali er kallaður Jörundur hundadagakonungur, var danskur að uppruna og ólst upp í Danmörku. Hann var mikill ævintýramaður og ógæfumaður. Hann bjó í Bretlandi framan af og dáðist að öllu, sem enskt var. Síðar þvældist hann inn í Íslandsævintýri sitt og varð þar „hæstráðandi til sjós og lands“ (nk. ígildi konungs) um nokkurra vikna skeið og er viðurnefni hans á Íslandi dregið af því að þetta bar til um hundadagana. Eftir að hann var fluttur aftur til Bretlands var hann meira og minna fangi, vegna þess að hann var forfallinn spilafíkill og greiddi sjaldan skuldir sínar. Að lokum var hann fluttur sem fangi til Ástralíu. Hann fékk frelsi nokkrum árum áður en hann dó. Nám og störf. Jørgen Jørgensen var sonur konunglegs úrsmiðs í Kaupmannahöfn, sem var mikils metinn maður. Vegna þess að drengurinn var haldinn mótþróa gegn því skólanámi, sem honum var ætlað, sendi faðir hans hann á sjóinn og kom honum í siglingar og nám í siglingafræði á breskum kaupskipum þegar hann var um 15 ára aldur. Hann var fullnuma fyrir tvítugt. Þá gekk hann í breska flotann og var á nokkrum herskipum. Eftir það á kaupskipum og rannsóknarskipum, sem sigldu til Ástralíu. Hann var á skipinu Lady Nelson, sem fann sundið á milli meginlands Ástralíu og Van Diemens-lands, eins og Tasmanía hét þá. Síðar varð hann fyrsti stýrimaður á Lady Nelson og flutti skipið fanga frá Bretlandi til Ástralíu. Einnig voru framkvæmdar mælingar við strendur Ástralíu. Eftir þetta varð hann skipstjóri á selveiðiskipi og svo stýrimaður á hvalveiðiskipi. Þannig þvældist hann um mikinn hluta heimsins til sumarsins 1806 er hann kom til London. Þar tókst honum að komast í kynni við mennta- og vísindafrömuðinn Sir Joseph Banks, sem var góðkunningi konungsins og ráðgjafi hans í vísindalegum málefnum. Vináttu þeirra lauk eftir Íslandsævintýri Jörundar nokkrum árum síðar. Eftir þetta fór hann til Kaupmannahafnar, sem hann hafði ekki séð síðan á unglingsárum sínum. Hann fyrirleit Danmörku og hélt uppi vörnum fyrir England, sem öðrum Dönum var mjög í nöp við á þessum tíma. Um þessar mundir, árið 1807, gerðu bresk herskip árás á Kaupmannahöfn og hertóku borgina eftir þriggja vikna umsátur. Sex vikum síðar héldu Bretarnir heim. Þá sögðu Danir Englandi stríð á hendur og allir Danir á aldrinum 18 til 50 ára voru gerðir herskyldir og þar með sat Jørgensen fastur. Sem reyndur sjómaður og skipstjórnandi var hann skikkaður til að gerast skipstjóri á dönsku herskipi sem hét "Admiral Juul". Honum þótti lítið til skipsins koma. Hann fékk skipanir um að sigla til Frakklands og sækja herlið. Þess í stað dólaði hann meðfram ströndum Englands þar til hann var hertekinn. Eftir þetta var hann talinn föðurlandssvikari í Danmörku og réttdræpur ef hann kæmi þangað. Hann fékk að ganga laus í London gegn heiðursmannsloforði um að strjúka ekki, en aðrir úr áhöfn "Admiral Juul" sátu í fangelsi sem stríðsfangar. Íslandsferðir. Átta mánuðum síðar lagði hann í för sína til Íslands. Hún var farin í þeim tilgangi að kaupa tólg eða mör á Íslandi til sápugerðar. Jörundur laug sig inn á sápukaupmanninn Samuel Phelps og kvaðst hafa sambönd á Íslandi. Hann greindi honum ekki frá því að hann væri stríðsfangi í farbanni. Skipið "Clarence" var tekið á leigu til fararinnar. Jörundur fór með sem túlkur, en fulltrúi Phelps hét Savignac. Þeir sigldu frá Liverpool í desember og komu til Hafnarfjarðar í janúar. Þar var þeim algjörlega bönnuð öll verslun við Íslendinga, þrátt fyrir þá staðreynd að þeir voru allslausir og dönsk sigling hafði ekki borist vegna stríðsins við England. Hélt svo "Clarence" til baka án kaupskapar á Íslandi og kom til Englands í apríl. Nú var ráðgerð ný ferð. Að þessu sinni var Phelps sápukaupmaður með í för og var hann studdur af Sir Joseph Banks og jafnvel af flotamálaráðuneytinu og verslunarráðuneytinu. Phelps lánaði Jörundi 1000 pund til þess að losa hann úr skuldum, en um leið tókst Jörundi að slá hina og þessa kunningja sína um 360 pund að láni, svo að hann var með fullar hendur fjár. Að þessu sinni hét skipið "Margaret & Anne" og var látið úr höfn frá Gravesend snemma laugardags þann 3. júní 1809. Skipið kom til Reykjavíkur miðvikudaginn 21. júní. Trampe greifi bannaði alla verslun við þá að viðlagðri dauðarefsingu, þó svo að breskt herskip hefði verið í Reykjavík nokkrum dögum fyrr og lofaði hann skipherra þess að "Margaret & Anne" fengi leyfi til verslunar. Af þessum sökum gerðu þeir Jörundur, Phelps og Savignac byltinguna frægu. Ennþá var Bretunum ókunnugt um að Jörundur væri stríðsfangi í Bretlandi og hefði ekki mátt yfirgefa London á sínum tíma. Byltingin. Geti nokkur með rökum sannað, að einhver hafi brotið á móti þessari auglýsingu, þá skal sá hljóta verðlaun af 50 rd. Seinni auglýsingin var í 20 greinum og hófst þannig: "Ísland er laust og liðugt frá Danmerkur Ríkisráðum." Einnig þessi auglýsing var undirrituð af Jörgen Jörgensen. Þannig var fyrsta sjálfstæðisyfirlýsing Íslands orðin að veruleika. Þann 11. júlí birtist enn ein auglýsing og var fyrsta grein hennar þannig að loknum talsverðum formála: (... Það gjörist þess vegna hérmeð heyrum kunnugt) Undirskriftin var: "Reykjavík þann 11. júlí 1809, Útgefið undir Vorri Hendi og Signeti, Jörgen Jörgensen, Alls Íslands Verndari og Hæstráðandi til Sjós og Lands." Varnir landsins voru treystar með því að Phelps, sápuframleiðandi, lét byggja virki, sem kallað var Phelpsvirki á batteríinu niðri á Klöpp, sem var fyrir neðan og vestan fyrrverandi Útvarpshús við Skúlagötuna í Reykjavík. Þessi klöpp og umhverfi hennar er nú allt komið undir mikla landfyllingu neðan við Skúlagötu. Í virki þessu áttu að verða sex fallbyssur. Yfir því blakti fáninn sem Jörundur hafði sjálfur hannað: Blár, með þrjá hvíta, flatta þorska. Til Bretlands aftur. Byltingunni lauk eftir tæpa tvo mánuði. Breska herskipið Talbot kom inn til Hafnarfjarðar og fengu þeir þar fréttir af ástandinu. Hraðaði skipstjórinn sér þá til Reykjavíkur og kallaði Phelps og Jörund fyrir sig. Að kvöldi sama dags tókst Trampe greifa að flýja frá borði á "Margaret & Anne" og komst hann um borð í "Talbot". Þann 19. ágúst flutti Jörundur sig um borð í "Margaret & Anne" og völdum hans var lokið á Íslandi. Skipið fór þó ekki af stað til Bretlands næstu daga vegna slæms veðurs. Þann 22. ágúst undirrituðu Jones, skipherra á "Talbot", Samuel Phelps, Magnús Stephensen etatsráð og Stefán Stephensen amtmaður samkomulag um að allar auglýsingar og aðgerðir Jörundar skyldu ógildar með öllu. 25. ágúst var svo haldið af stað til Bretlands og voru bæði Trampe greifi og Jörundur fluttir út nauðugir, Trampe um borð í Margaret & Anne, en Jörgensen um borð í skipinu "Orion", sem var skip Trampes. Áhöfn "Orions" var fangar um borð í "Margaret & Anne". Þeim líkaði vistin illa og kveiktu þeir í ullarfarmi skipsins strax á öðrum degi siglingarinnar. Varð uppi fótur og fit um borð og skipstjórinn var ófær um að halda stjórn. "Orion" var talsvert á eftir, en er það bar að, tók Jörundur að sér stjórn hins brennandi skips og reyndi hvað hann gat til að bjarga því, en það var um seinan. Áhöfnin bjargaðist hins vegar öll yfir í "Orion", sem nú var snúið til baka til Reykjavíkur. Þetta var mikið björgunarafrek og hlaut Jörundur af þessu nokkurn heiður. Nú var umskipað í Reykjavíkurhöfn. "Talbot" var ekki farið og tók Jones skipherra Trampe greifa og fleiri um borð í herskipið, en á "Orion" voru Jörundur, Phelps og fleiri. "Orion" sigldi beina leið til London, en Talbot kom ekki þangað fyrr en tveimur vikum síðar. Skömmu eftir það var Jörundur handtekinn. Ekki fyrir að hafa gert uppreisnina á Íslandi, heldur fyrir að hafa brugðist heiðursmannsloforðinu um að halda kyrru fyrir sem stríðsfangi. Í fangelsinu kynntist hann argasta lýð og meðal annars lærði hann þar fjárhættuspil og ýmis svindlbrögð og var eftir það forfallinn spilafíkill. Eftir fimm vikur í þessu fangelsi var kveðinn upp dómur yfir honum. Hann skyldi vera fangi um borð í fangaskipi með öðrum stríðsföngum. Kröfum um að framselja hann til Danmerkur var alfarið hafnað. Fangi. Í október 1809 var Jörgensen fluttur um borð í fangaskipið Bahamas. Þetta var frekar lítið skip en þó voru um borð 800 fangar af ýmsu þjóðerni. Margir þeirra voru danskir stríðsfangar eins og hann, en það var honum frekar andstætt, því að allir Danir voru honum ævareiðir fyrir að láta Breta ná herskipinu Admiral Juul. Þarna var hann fangi í tæpt ár og notaði tímann til að skrifa, en hann var allafkastamikill rithöfundur, þó að deila megi um gæðin. Hann var látinn laus af skipinu í september 1810 gegn drengskaparheiti um að halda kyrru fyrir í Reading, sem er smáborg um 65 km vestan við London. Í Reading hélt hann áfram ritstörfum og lét gefa út eftir sig eitt og annað. Hann kom sér í mjúkinn hjá yfirstéttarfólki, ævinlega tungulipur. Mörgum þótti upphefð í því að fá að kynnast þessum ævintýramanni. Þarna sat hann í farbanni þar til í júlí 1811, að hann var látinn laus. Hann fór beina leið til London og lifði þar í sukki og svalli og sólundaði öllum eigum sínum og safnaði skuldum fram á árið 1812. Þá var honum varpað í skuldafangelsi. Þar gengu menn „frjálsir“ en urðu að greiða fyrir veru sína. Í þessu „fangelsi“ hitti hann fyrrum félaga frá Íslandsferðinni, því að þar var Savignac fyrir og hafði það nokkuð gott. En Jörgensen var haldinn slíkri spilafíkn, að í stað þess að greiða skuldir sínar og kaupa sig þannig lausan, spilaði hann öllu fé frá sér hvað eftir annað. Njósnari Breta. Fyrir tilviljanir og heppni tókst honum að ná eyrum valdamanna, sem urðu honum hjálplegir á æðstu stöðum. Honum var falið að gerast njósnari fyrir Breta á meginlandi Evrópu. Hafði hann nú fullar hendur fjár og allar skuldir hans voru greiddar fyrir hann. Hann lagðist beint í sukkið aftur og sinnti ekki störfum sínum á meðan utanríkisráðuneytið hélt að hann væri að njósna í Evrópu. Það var ekki fyrr en á miðju ári 1815, sem hann fór til að sinna þeim störfum. Þá voru Napóleonsstríðin í fullum gangi og hann reyndi að ná sambandi við Wellington hershöfðingja, sem hann hafði kynnst áður, en það tókst ekki. Hann var félaus í Frakklandi, en átti að vera í Þýskalandi og þar biðu laun hans. Þangað komst hann með því að ljúga sér út fé hvar sem hann fór. Í Berlín lifði hann hátt og tókst að komast í mjúkinn hjá aðlinum. Þaðan fór hann til Dresden og lenti þar enn á ný í spilasolli og að lokum flúði hann skuldir sínar fótgangandi og komst til Hamborgar. Bretar voru ánægðir með upplýsingar hans og borguðu honum vel fyrir njósnirnar. Þessu fór fram til 1817, en þá fór hann aftur til London. Hann skrifaði ritgerðir um vörusmygl og um skattsvik og fékk vel greitt fyrir þær frá utanríkisráðuneytinu. Hann lét gefa út ferðabók sína, sem þótti léleg. Newgatefangelsi. Aldrei gat hann haldið sér frá spilum og nú lenti hann í fangelsi vegna skulda fyrir alvöru. Hann var settur í Newgatefangelsið, sem veitti honum ekkert frelsi eins og hann hafði notið í hinu fyrra. Hann komst í starf á sjúkradeild fangelsisins og stóð sig vel þar. Þarna var hann í nokkur ár, en 1821 í nóvember var hann látinn laus með því skilyrði að hann yfirgæfi Bretland áður en mánuður væri liðinn. Að sjálfsögðu stóð hann ekki við það og breytti í engu lifnaðarháttum sínum. Svo að hann lenti aftur í Newgate í október 1822. Ástralía. Í árslok 1825 var Jörgensen fluttur um borð í fangaskip og var áfangastaður Nýja Suður-Wales. En hann fékk því framgengt að hann var fluttur um borð í annað skip, sem fór til Van Diemenslands (Tasmaníu). Það skip hét Woodman. Á leiðinni var hann aðstoðarmaður skipslæknisins og stundaði jafnframt njósnir fyrir skipstjórann. Þegar til Hobart kom þótti honum mikið til um þá breytingu, sem orðin var frá því hann var þar við rannsóknir í óbyggðum aldarfjórðungi fyrr. Nú var þarna 8000 manna bær. Hann fékk meðmæli frá skipstjóranum til landsstjórans og var vægt tekið á honum. Honum tókst að vinna sig upp í Hobart og fékk stöðu sem eftirlitsmaður með hinum föngunum. Síðar varð hann lögregluþjónn í Hobart og giftist þar. Kona hans var írsk og hét Nora Corbett. Að sjálfsögðu var hún fangi eins og hann. Þau giftu sig í janúar 1831. Það var víst ekki hamingjuríkt hjónaband. Hann sagði af sér lögregluþjónsstöðunni og þau fóru bæði að lifa í slarki og drykkjuskap. Jörgensen vann við skriftir og liggur ýmislegt eftir hann frá þessum tíma. Þau bjuggu í húsi númer 4 við Watchorn stræti. Jörgensen var greiddur út 200 punda arfur frá Kaupmannahöfn (líklega eftir föður hans). Einhvern tíma um 1835 fór hann fram á að vera náðaður og var það veitt, þó með því skilyrði, að hann kæmi aldrei aftur til Bretlands. En hann mátti fara hvert annað sem honum sýndist og var frjáls eftir það. Hann fór þó hvergi. Kona hans dó 17. júlí 1840 og hann lifði áfram sama slarklifnaði og fyrr. Hann dó í Hobart 20. janúar 1841 á 61. aldursári. Sagt er að hann eigi afkomendur í Ástralíu. Jörundur var grafinn við hið Nóru konu sinnar i grafreit kaþólikka í Hobart. Árið 1911 var kirkjugarðurinn aflagður og reistur heimavistarskóli yfir grafstæðin. Þá voru þau bein sem lágu ómerkt í garðunum grafin upp, sett í kassa og jarðsett að nýju við hlið skólahússins. Þar er því að líkindum að finna jarðneskar leyfar Jörundar undir litlum minningarsteini. Síðar var gert bílastæði kennara á þessum stað og stendur steinninn í útjarðri þess. Á honum er að finna eftirfarandi áletrun: "In our labour rest most sweet/Grateful coolness in your heat./Solace found in your mind. - Here lie the remains of unknown Tasmanian Catholics (1825-1870)" Fullveldi. Fullveldi felur í sér einkarétt til þess að fara með æðstu stjórn, dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdavald, yfir landsvæði eða hópi fólks til dæmis þjóð eða ættbálki. Að hafa full völd. Yfirleitt fer annaðhvort ríkisstjórn eða þjóðhöfðingi með fullveldið, allt eftir stjórnarfari. Fullveldis-hafinn getur framselt vald sitt tímabundið til stjórnkerfisins, eða til erlendra yfirþjóðlegra stofnana. Ríki geta haft fullveldi án þess að vera sjálfstæð. Ísland hlaut fullveldi 1. desember 1918 undan Danmörku en varð ekki sjálfstætt land fyrr en 17. júní 1944. Útskýringin er að Íslendingar hlutu fullveldi nema hvað Íslendingar viðurkenndu danska konunginn sem þjóðhöfðingja sinn og utanríkisstefna Íslands var áfram í höndum Dana. Hugtakið fullveldi var til grundvallar alþjóðastjórnmálum frá lokum Þrjátíu ára stríðsins með undirritun Vestfalíufriðarins og vel fram á seinni hluta 20. aldarinnar. Eftir því sem líða tók á 20. öldina tók milliríkjasamstarf á sig nýjar og óvæntar myndir, eins og í tilfelli Evrópusambandsins, og í krafti hnattvæðingarinnar urðu stórfyrirtæki valdameiri en áður þekktist. Boutros Boutros Ghali, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í ræðu árið 1992 að tími hins algilda og útilokandi fullveldis væri liðinn, það sem meira væri hefði hugtakið aldrei staðið undir nafni. Ameríka. Ameríka er heimsálfa á milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins. Henni oftast skipt í tvennt, Norður- og Suður-Ameríku. Einnig stundum í latnesku Ameríku og N-Ameríku, en latneski hluti N-Ameríku er gjarnan kallaður Mið-Ameríka. Bandaríki Norður-Ameríku eru oft kölluð Ameríka í daglegu tali, einkum þar í landi. Heimsálfan er nefnd eftir Amerigo Vespucci, sem var fyrsti Evrópubúinn sem hélt því fram að Ameríka væri ekki Austur-Indíur, heldur áður ófundið landsvæði. Norður-Ameríka. Norður-Ameríka er heimsálfa á norðurhveli jarðar. Hún er þriðja stærsta heimsálfa jarðar, bæði að stærð og íbúafjölda. Norður-Ameríka markast af Norður-Íshafi í norðri, Karabíska hafinu í suðri, Kyrrahafi í vestri og Atlantshafi í austri. Heimsálfan er 24.230.000 ferkílómetrar að stærð. Talið er um 454 milljónir manns búi í álfunni. Heimsálfa. Hreyfimynd sem sýnir ólíkar skilgreiningar á heimsálfunum. Heimsálfa er stór samfelldur landmassi á Jörðinni. Engin nákvæm skilgreining er til á heimsálfu en nokkur skilyrði eru oftast höfð til hliðsjónar: landsvæðið verður að vera stórt, ofan sjávar, með greinanleg landfræðileg mörk. Þar sem skilgreininguna skortir eru ekki allir sammála um hver fjöldi heimsálfanna er í raun og hafa tölur frá 4 til 7 verið nefndar í því samhengi, algengast er að miða við 6–7. Mest er deilt um það hvort að Asía og Evrópa séu ein (Evrasía) heimsálfa eða tvær, það sama gildir um skiptingu Ameríku í Suður– og Norður–Ameríku. Nokkrir landfræðingar hafa einnig lagt til að Afríka og Evrasía skuli teljast til einnar heimsálfu (Evrafrasíu). Eyjar eru annað vandamál við skilgreiningu heimsálfa, þær eru oft sagðar tilheyra þeirri heimsálfu sem þær eru næstar, það á við um t.d. Stóra-Bretland í Evrópu og Japan í Asíu. Aðrar eyjar eru skilgreindar sem úthafseyjar utan heimsálfa. Eyjaálfa er hugtak sem notað hefur verið yfir úthafseyjar á Kyrrahafi og er stundum talin heimsálfa með Ástralíu og stundum utan heimsálfa. Hvað Ísland varðar þá eru rökin fyrir því að það tilheyri Evrópu menningarleg og söguleg frekar en jarðfræðileg eða landfræðileg þar sem það væri kannski betur skilgreint sem hluti N–Ameríku eða bara utan heimsálfa. Suður-Ameríka. Suður-Ameríka er heimsálfa. Hún er að mestu leyti á suðurhveli jarðar, á milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Suður-Ameríka er fjórða stærsta heimsálfan, bæði að stærð og íbúafjölda. Hún þekur 17.818.508 ferkílómetra og eru íbúar álfunnar um 355 milljónir. Asía. Heimskort sem sýnir staðsetningu Asíu Asía (stundum nefnd Austurálfa eða Austurheimur) er heimsálfa. Hún er austari hluti Evrasíu. Erfitt er að skilgreina mörk hennar nákvæmlega, en gróflega eru þau oft sögð liggja suður Úralfjöll, gegnum Kaspíahaf og Kákasusfjöll, þaðan í gegn um Svartahafið, Bosporussund, Marmarahaf og Dardanellasund. Þaðan liggi mörkin um Miðjarðarhaf og í gegnum Súesskurð. Asíu er oftast skipt niður í sex svæði: Norður-, Suður- (eða Mið-), Austur-, Suðaustur- og Suðvestur-Asíu (oftast kallað Mið-Austurlönd) eftir menningarsvæðum. Asía er bæði stærsta og fjölmennasta heimsálfan, með um 60% íbúa jarðarinnnar. Afríka. Afríka er heimsálfa. Hún afmarkast af Miðjarðarhafinu í norðri, Súesskurðinum (Súeseiðinu) í norðaustri, Indlandshafi í austri, Suður-Íshafinu í suðri og Atlantshafi í vestri. Afríka er önnur stærsta heimsálfa jarðar á eftir Asíu og er einnig sú næstfjölmennasta. Hún er um það bil 30.244.050 km² að flatarmáli (að meðtöldum eyjum) og þekur 20,3% af þurrlendi jarðar. Þar búa tæplega 1,034 milljarðar manna í 56 löndum, sem er sjöundi hluti alls mannfjölda heims. Nafnsifjar. Nafnið Afríka er komið frá Rómverjum sem notuðu heitið "Africa terra" ("land Afri" sem er fleirtala af "Afer") fyrir norðurströnd álfunnar og skattlandið Afríku með höfuðborgina Karþagó, sem var þar sem nú er Túnis. Sagnfræðingurinn Leó Afríkanus (1495–1554) taldi nafnið komið af gríska orðinu "phrike" (φρικε, sem merkir „kuldi og hrollur“) ásamt neitunarforskeytinu "a-" og merkti þannig land laust við kulda og hroll. En hljóðbreytingin úr "ph" í "f" hefur átt sér stað í kringum fyrstu öld, svo þetta getur því ekki verið uppruni nafnsins. Egyptaland var talið hluti Asíu af fornmönnum. Fyrstur til að telja það með Afríku var landafræðingurinn Ptólemajos (85–165) sem notaði Alexandríu sem núllbaug og gerði Súeseiðið að mörkum Asíu og Afríku. Eftir því sem Evrópumenn uppgötvuðu raunverulegt umfang álfunnar, óx inntak nafnsins með þeirri þekkingu. Landa- og jarðfræði. Mörk Afríku eru Miðjarðarhafið í norðri, Súesskurðurinn í norð-austri, Indlandshaf og Rauðahaf í austri, Suður-Íshafið í suðri og Atlantshafið í vestri. Heimsálfan er um 8000 km löng frá norðri til suðurs (37°21'N til 34°51'15"S) og 7400 km breið frá vestri til austurs (17°33'22"W til 51°27'52"E). Nyrsti punktur álfunnar er Ras ben Sakka í Marokkó, syðsti punkturinn er Agulhashöfði í Suður-Afríku, vestasti punkturinn er Almadihöfði á Grænhöfðaeyjum og sá austasti er Raas Xaafuunhöfði í Sómalíu. Strandlengja Afríku er um 26000 km löng. Miðbaugur liggur í gegnum álfuna og mestur hluti hennar er því í hitabeltinu. Það er mikið um eyðimerkur og óbyggðir og þurrkar og úrhellisrigning gera búsetu á ýmsum svæðum erfiða. Tungumál. Kort sem sýnir dreifingu Afríkumálaættanna og nokkur aðalafríkumál. Níger-Kongó málaættinni er skipt til að sýna útbreiðslu Bantumálanna, sem eru undirflokkur Níger-Kongó ættarinnar. Í Afríku eru töluð yfir þúsund tungumál. Í álfunni eru fjórar aðalættir tungumála. Einnig eru töluð nokkur Evrópumál í Afríku, svo sem enska, franska og portúgalska, sem eru opinber tungumál margra Afríkuríkja. Eyjaálfa. Eyjaálfa er heimsálfa sem nær yfir Kyrrahafseyjar. Nákvæm skilgreining svæðisins sem heimsálfan nær yfir er ekki til sökum þess hversu stór hluti hennar er haf. Til hennar eru oft talin Ástralía og nálægar eyjar: Papúa, Nýja Sjáland og ýmsar smærri Kyrrahafseyjar. Stundum er Eyjaálfu skipt í heimshlutana Melanesíu, Míkrónesíu og Pólýnesíu. Stundum eru öll Ástralasía og Malajaeyjar talin hluti af Eyjaálfu. Fyrstur til að stinga upp á því að gera þennan heimshluta að heimsálfu var dansk-franski landfræðingurinn Conrad Malte-Brun árið 1812. Franska heitið sem hann stakk upp á, "Océanie", er dregið af gríska orðinu ὠκεανός "ókeanos" sem merkir „haf“. Hann sá fyrir sér að svæðið næði frá Malakkasundi í vestri að strönd Ameríku í austri og skiptist í fjóra heimshluta: Pólýnesíu (Bandaríska Samóa, Cooks-eyjar, Páskaeyja, Franska Pólýnesía, Hawaii, Nýja Sjáland, Níve, Norfolkeyja, Pitcairn, Samóa, Tókelá, Tonga, Túvalú, Wallis- og Fútúnaeyjar, Rotuma), Míkrónesíu (Palá, Míkrónesía, Kíribatí, Maríanaeyjar, Marshalleyjar, Nárú, Wake-eyja), „Malasíu“ (Indónesía, Filippseyjar, Singapúr, Brúnei, Austur-Tímor og Austur-Malasía) og Melanesíu (Ástralía, Vanúatú, Salómonseyjar, Fídjieyjar og Papúa-Nýja Gínea). Nú eru Malajaeyjar oftar taldar til Asíu. Nýja Sjáland, Ástralía og Nýja Gínea ásamt nálægum eyjum eru oft flokkuð saman sem Ástralasía innan Eyjaálfu. Vistfræðilega er Ástralasía sérstakt vistsvæði aðgreint frá Indómalajasvæðinu í norðvestri og Eyjaálfusvæðinu í norðaustri. Bandaríska frelsisstríðið. Bandaríska frelsistríðið (einnig þekkt sem Bandaríska byltingin) var uppreisn þrettán breskra nýlenda á austurströnd Norður-Ameríku gegn breskum yfirráðum, sem stóð frá 19. apríl 1775 til 3. september 1783. Frelsisstríðið varð kveikjan að stofnun fyrsta nútímalýðræðisríkisins, Bandaríkja Norður-Ameríku, sem síðar leiddi til frekari byltinga víða um veröld. Fyrstu hernaðarátök byltingarinnar áttu sér 19. apríl 1775 í námunda þorpanna Lexington og Concord í Massacussets. Þann 4. júlí samþykkti Annað meginlandsþing Bandaríkjanna (e. "Second Continental Congress") sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Framan af fóru herir byltingarmanna í nýlendurnum halloka en árið 1778 gerðust Frakkar samherjar nýlendubúa. Markmið Frakkakonungs var að grafa undan veldi Englendinga og ná sér þannig niðri á þeim eftir ósigurinn í nýlendustríðinu. Auk þess að eiga við heri nýlendubúa í Norður-Ameríku þurftu Bretar nú að hafa áhyggjur af franska flotanum og her Frakkakonungs. Þar sem kraftar breska heimsveldisins voru nú dreifðir gátu byltingarmenn náð undirtökum. Árið 1783 sömdu Bretar frið og skrifuðu undir samning þar sem þeir samþykktu sjálfstæði hinna nýstofnuðu Bandaríkja Norður-Ameríku. Bolungarvík. Bolungarvík er kaupstaður á Vestfjörðum og sjálfstætt sveitarfélag, við samnefnda vík, yst í Ísafjarðardjúpi. Hún er ein elsta verstöð landsins og er stutt í góð fiskimið. Áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi hét sveitarfélagið Hólshreppur. Þann 1.desember 2008, var íbúarfjöldi Bolungarvíkur 962 manns sem gerir ekki bara það að Bolungarvík er næstfjölmennasti bærinn á Vestfjörðum heldur líka næstfjölmennasta sveitarfélagið á undan Vesturbyggð og á eftir Ísafjarðarbæ. Saga. Það hefur verið byggð í Bolungarvík allt frá landnámsöld og býlið Hóll kemur fyrir í elstu heimildum. Hóll var höfuðból frá því um miðja 13. öld og er líklega fyrsta jörðin í byggðalaginu. Þar sem kaupstaðurinn Bolungarvík stendur núna voru áður jarðirnar Tröð, Ytri Búðir, Heimari-Búðir og Grundarhóll. Jörðin Tröð var áður undir fjallshlíðinni fyrir ofan Traðar- og Dísarland. Seinasta íbúðarhúsið í Tröð stendur ennþá við Traðarland. Bolungarvík var ein helsta verstöð í Ísafjarðardjúpi allt fram á 20. öld. Róið var frá Bolungarvíkurmölum og svonefndum Grundum og úr Ósvör. Á 17. öld munu 20-30 skip hafa róið úr Bolungarvík og um aldamótin 1900 réru um 90 skip þaðan. Margar verbúðir voru í Bolungarvík en þar mun aldrei hafa risið eiginlegt sæbýlahverfi. Í byrjun 18. aldar voru 18 verbúðir í víkinni. Það var Þuríður sundafyllir sem nam land í Bolungarvík, en til er skemmtileg saga um það hvernig hún varð seinna að steini. Þuríður átti soninn Völustein og eru til götur í Bolungarvík sem heita eftir þeim mæðginum. Mönnuð veðurathugunarstöð hefur verið í Bolungarvík frá 1994. Hólshreppur. Hólshreppur er gamla nafn Bolungarvíkurkaupstaðar, áður en sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindi. Þingrof. Þingrof er þegar stofnað er til nýrra þingkosninga, í ríkjum þar sem þing eru, áður en venjulegu kjörtímabili lýkur. Þingrof á Íslandi. Samkvæmt 24. grein stjórnarskrárinnar getur forseti Íslands rofið þing. Þar sem þingræði er á Íslandi er óljóst hvort að forsetinn getur rofið þingið í óþökk forsætisráðherra með meirihluta þings að baki sér. Því hefur það verið túlkað sem svo að í reynd fari forsætisráðherra með þingrofsvaldið. Sé þing rofið halda þingmenn umboði sínu fram að kjördag. Alþingi var rofið 14. apríl 1931. Alþingi var einnig rofið 8. maí 1974. Bakkaflói. Bakkaflói er grunnur flói milli Langaness og Digraness. Inn úr honum ganga stuttir firðir, Finnafjörður nyrstur, Miðfjörður og Bakkafjörður, þar sem stendur samnefnt kauptún í landi jarðarinnar Hafnar. Íbúar eru um 120. Þar er vélbátaútgerð, grunnskóli, heilsugæslustöð og félagsheimili. Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn (danska: København) er höfuðborg Danmerkur. Kaupmannahöfn stendur við Eyrarsund á austurströnd Sjálands og er að hluta til á eyjunni Amager sem er austan við Sjáland. Kaupmannahöfn varð höfuðborg Danmerkur árið 1536. Orðsifjar. Íslenska heitið á Kaupmannahöfn á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar borgin nefndist „Købmandshavn“ á dönsku. Nafnið hefur síðan einfaldast á máli Dana og orðið að "København". Nafn borgarinnar á lágþýsku „Kopenhagen“ hefur gengið inn í önnur tungumál, svosem ensku ("Copenhagen"), frönsku ("Copenhague") og ítölsku ("Copenaghen"). Íslendingar nefna oft borgina „Köben“ í daglegu og óformlegu tali, og er stytting á núverandi heiti hennar á dönsku. Saga Kaupmannahafnar. Sveinn tjúguskegg er talinn hafa stofnað borgina um árið 1000, eða hugsanlega sonur hans Knútur hinn ríki (Sveinsson), en fornleifar benda þó til þess að búið hafi verið þar sem borgin stendur nú fyrir um 5000 til 6000 árum. Fyrst er minnst á borgina á árinu 1043, en Kaupmannahöfn fékk nafn sitt „Købmandshavn“ um 1200. Árið 1728 hófst bruninn í Kaupmannahöfn og brann 28% Kaupmannahafnar. Árið 2011 bjuggu 1.199.224 manns á stórkaupmannahafnarsvæðinu, þar af 509.861 (2008) í Kaupmannahöfn sjálfri. Flatarmál hennar er 400-455 km² og þéttleiki byggðar er 2.500-2.850/km². Þingmaður. Þingmaður er hver sá maður, sem kosinn hefur verið til þings. Á Íslandi eru þingmenn kosnir til Alþingis á fjögurra ára fresti í Alþingiskosningum, alls 63 þingmenn. Á Íslandi er hefð fyrir því að velja ráðherra úr hópi þingmanna, en þeir halda þingsæti sínu eftir sem áður. Hugtakið ‚þingmaður‘ getur átt við bæði karl og konur þar sem orðið ‚maður‘ á við bæði kynin, þótt stundum sé starfsheitið þingkona notað. Hægt er að sitja á þingi, í merkingunni að sitja að spjalli, eða vera á fundi, án þess að viðkomandi sé þingmaður. Varaþingmaður er staðgengill þingmanns í fjarveru hans. Ástralía. Ástralía (eða Samveldið Ástralía) (enska: "Commonwealth of Australia" eða "Australia") er land í heimsálfunni Eyjaálfu, sem einnig heitir Ástralía. Ástralía er eina ríki heims sem nær yfir heilt meginland. Landið er í Breska samveldinu og er drottning Bretlands, jafnframt drottning Ástralíu. Ástralía skiptist í sex fylki og tvö svæði, hvert með sína höfuðborg. Fjölmennasta borg Ástralíu er Sydney. Nafnið. Alþjóðlega nafnið Ástralía er komið úr latneska orðinu "australis" sem þýðir "suðrænt" og hefur verið notað síðan að minnsta kosti á 2. öld yfir óþekkta heimsálfu í suðri ("terra australis incognita"). Breski landkönnuðurinn Matthew Flinders gaf meginlandinu nafnið "Terra Australis" en fyrir höfðu Hollendingar nefnt það "Nova Hollandicus" eða Nýja-Holland. Flinders breytti nafninu í Ástralía ("Australia" á ensku) á korti sem hann lauk við árið 1804 þegar hann var í haldi Frakka á Máritíus. Þegar hann kom aftur heim til Englands árið 1814 og gaf út verk sín var hann neyddur af bresku flotastjórninni til að breyta nafninu aftur í "Terra Australis". Það var svo árið 1824 að Lachlan Macquarie, landsstjóri Nýja Suður Wales náði að sannfæra flotastjórnina um að breyta nafninu opinberlega í Ástralía eftir að hafa gert sér grein fyrir að það væri það nafn sem Flinders líkaði best við. Saga. Margar mismunandi kenningar eru uppi um það hvenær og hvernig fólk kom fyrst til Ástralíu. Þær kenningar sem vilja rekja mannvist þar lengst aftur halda fram að nútímamaðurinn hafi þróast þar. Þær kenningar njóta þó ekki mikillar hylli og er talið að besta áætlunin sé að fólk hafi komið þangað fyrst fyrir um 53.000 árum. Öruggar leifar um mannvist eru elstar 50.000 ára í Ástralíu. Lítið er vitað með vissu um sögu Ástralíu frá þeim tíma fram til þegar Evrópumenn komu þangað þar sem frumbyggjarnir þróuðu aldrei með sér ritmál. Portúgalar voru fyrstir Evrópumanna til að sjá heimsálfuna fyrir víst en könnun hófst ekki fyrr en á 17. öld. Fyrstir Evrópumanna til að setjast að í Ástralíu voru Bretar sem árið 1788 stofnuðu fanganýlendu þar sem nú er Sydney og um hana nýlenduna Nýja Suður Wales sem náði yfir allt meginland Ástralíu og Tasmaníu fyrir utan Vestur-Ástralíu. Í kjölfar útbreiðslu breskra byggðarlaga yfir hina nýju nýlendu, voru svo nýjar nýlendur klofnar frá til að mynda Tasmaníu (1825, en hún var þá kölluð Van Diemensland) Suður-Ástralíu (1836), Victoriu (1851) og Queensland (1859). Vestur-Ástralía varð bresk nýlenda árið 1829. Til að byrja með var þróun mjög hæg í hinum nýju nýlendum. Efnahagurinn byggðist aðallega á sauðfjárrækt og sölu afurða svo sem ullar. Árið 1851 uppgötvaðist hins vegar gull í Ástralíu og síðan þá hefur námagröftur verið meðal helstu atvinnuvega landsins. Upp frá því uxu borgirnar við suður- og austurstrendur landsins hratt, á tíma var Melbourne næst-stærsta borg breska heimsveldisins. Árið 1901 sameinuðust nýlendurnar sex í Samveldið Ástralíu, fullvalda ríki í konungssambandi við Bretland. Deilur risu hins vegar upp um hvar höfuðborg hins nýja samveldis skyldi vera (bæði Melbourne og Sydney gerðu tilkall til titilsins) en á endanum var sú ákvörðun tekin að Melbourne yrði höfuðborg þangað til Höfuðborgarsvæði Ástralíu yrði stofnað mitt á milli borganna tveggja. Það var gert árið 1911 og Samveldisþingið flutti þangað 1927. Stjórnsýsla. Eins og fyrr hefur verið sagt, skiptist Ástralía í sjö megin stjórnsýsluumdæmi. Hvert og eitt þeirra hefur einhverja gerð af framkvæmda- löggjafar- og dómsvaldi. Þau eru svo öll undir sambærilegar stofnanir fyrir allt samveldið sett. Með löggjafarvaldið fer Samveldisþingið (enska: "Commonwealth Parliament"), framkvæmdavaldið eins konar ríkisráð (enska: "Executive Council of Australia") og dómsvaldið Hæstiréttur Ástralíu (enska: "High Court of Australia"). Þessar stofnanir eru allar til húsa í Canberra. Formlega er æðsti handhafi framkvæmdavalds í Ástralíu landsstjórinn (enska: "Governor-General"), sem er staðgengill drottningar í landinu. Í raun fer hins vegar ríkisstjórnin með vald hans. Ríkisstjórnin er valin af forsætisráðherranum, sem aftur er valinn af meirihluta þingsins (oftast leiðtogi stærsta flokksins). Forsætisráðherra Ástralíu nú (2012) er Julia Gillard. Landsstjórinn er Quentin Bryce. Með löggjafarvald fyrir Samveldið fer Samveldisþingið. Það skiptist í tvær deildir, fulltrúadeild og öldungadeild. Einnig telst drottningin formlega vera hluti þingsins. Í öldungadeildinni eiga sæti tólf fulltrúar frá hverju fylki, og tveir frá hvoru svæði (territory). Fulltrúadeildin hefur um tvöfalt fleiri eða 150 þingmenn. Samkvæmt stjórnarskrá hafa báðar deildirnar sömu möguleika til að leggja fram lagafrumvörp (fyrir utan þau sem snúa að ríkisfjármálum) og þurfa báðar deildir að samþykkja öll frumvörp áður en þau geta orðið að lögum. Samkvæmt venju eru langflest frumvörp þó lögð fram af ríkisstjórninni, og þar með í fulltrúadeild, en síðan samþykkt í öldungadeild. Hæstiréttur Ástralíu er aðallega stjórnlagadómstóll, en líka efsta stigs áfrýjunardómstóll Ástralíu. Hann er skipaður sjö dómurum og forseti réttarins er Anthony Murray Gleeson. Skipting í stjórnsýsluumdæmi. Kort sem sýnir landamæri ástralskra fylkja og svæða. Þrjú síðastnefndu svæðin eru því sem næst óbyggð og þau þrjú byggðu utan meginlandsins mjög fámenn. Náttúra. Sökum einangrunar Ástralíu er náttúra hennar mjög sérstök. Hún er því sem næst eini staðurinn í heiminum, þar sem pokadýr búa villt og einnig þar sem eucalyptus-tré vaxa. Þegar Evrópubúar komu þangað fyrst, trúðu þeir ekki eigin augum, enda náttúran mjög ólík öllu því sem þeir áttu að venjast. Þegar þeir sáu breiðnefinn (enska: "platypus") fyrst, trúðu engir þeim heima fyrir, þangað til náðist að fanga einstakling og senda hann til Evrópu. Breiðnefurinn og mjónefurinn eru nefnilega einu tvö spendýrin í heiminum, sem verpa eggjum, og breiðnefurinn hefur þar að auki gogg og sundfit. Eftir að Evrópumenn settust þar að, hafa ýmsar af þessum tegundum dáið út, þar sem þær áttu sér enga óvini í náttúrunni áður en maðurinn kom. Frægust þessara tegunda er Tasmaníutígurinn. Nú er hins vegar markvisst unnið að verndun innlendrar náttúru gagnvart utanaðkomandi áhrifum. Lýðfræði. Ástralir eru flestir komnir af Evrópumönnum. Að hluta til af föngum, sem sendir voru þangað, og fangavörðum þeirra, en aðallega fólki sem fluttist þangað á 19. öld og upphafi þeirrar tuttugustu, þá einkum í tengslum við gullæðið. Aðeins eitt prósent Ástrala eru af frumbyggjum komnir, en þeim var markvisst fækkað þegar Evrópumenn fluttust þangað. Búa flestir frumbyggjar í Nýja Suður Wales og Queensland, en á strjálbýlli svæðum landsins eru einnig sérstök verndarlönd frumbyggja. Innan eins slíks er hinn frægi klettur Uluru (einnig þekktur sem Ayers-klettur). Sjö prósent Ástrala eru innflytjendur frá Asíu. Um þrír fjórðu Ástrala eru kristnir, flestir tilheyra Biskupa- eða Kaþólsku kirkjunum með fjórðung hvor. Menning og fjölmiðlar. Löngu áður en að Evrópumenn komu til Ástralíu var þar komin upp blómleg menning frumbyggja en með komu Evrópumanna náði þeirra menning yfirhöndinni, sem hún hefur haft æ síðan. Á undanförnum árum hefur þó verið lagt meira og meira upp úr menningu frumbyggja, þar sem þeirra hefðbundnu aðferðir við til dæmis tónlistar- og myndlistarsköpun eru gjörólík þeim Evrópsku. Evrópskættuð menning er þó enn, eins og fyrr segir, sterkust í Ástralíu og er einmitt mikil gróska þar í klassískri tónlist meðal annars með starfandi sinfóníuhljómsveit í hverri höfuðborg. Þaðan kemur líka mikið af dægurtónlistarflytjendum sem eru heimsfrægir, svo sem hljómsveitirnar Bee Gees og DC eða hinar nýrri hljómsveitir Jet og The Vines. Kvikmyndagerð er mikil í Ástralíu, þó hún veki sjaldan heimsathygli. Nú til dags er Ástralía þó þekktust í kvikmyndaheiminum fyrir að vera vinsæll tökustaður og að þaðan koma margir leikarar sem síðan hafa slegið í gegn í Hollywood. Matarmenning Ástrala er komin af Evrópskum rótum, en hefur þróast í samræmi við loftslagið: Þar eru grill (Barbie, á áströlsku) mikilvægt menningarfyrirbæri og oft eru mikil matarboð látin snúast í kring um slíkt. Í Ástralíu eru rekin fimm sjónvarpsstöðvanet sem ná yfir allt landið, þar af tvö ríkisrekin (ABC og SBS), og þrjú net áskriftarssjónvarpsstöðva, einnig yfir allt landið. Í öllum helstu borgum kemur út dagblað og tvö dagblöð koma út yfir allt landið, "The Australian" og "The Australian Financial Review". Flestir prentmiðlar, þar á meðal öll helstu dagblöð, eru í eigu annaðhvort News Corporation (fyrirtækis Rupert Murdochs) eða fyrirtækja á vegum John Fairfax. Út af þessari fákeppni er Ástralía í 31. sæti á lista Fréttamanna án landamæra yfir frelsi blaðamanna. Canberra. Canberra er höfuðborg Samveldisins Ástralíu. Hún er á Höfuðborgarsvæði Ástralíu. Nafnið er komið af heiti frumbyggja svæðisins yfir það, og talið þýða staður þar sem fólk kemur saman. Íbúar borgarinnar eru um 340.000. Saga. Hún var stofnuð sérstaklega sem höfuðborg fyrir hið nýja Samveldi í kjölfar deilna milli tveggja stærstu borganna, Melbourne og Sydney um hvar hið nýja þing skyldi vera staðsett. Staðsetningin var valin árið 1908 sem nokkurnvegin mitt á milli borganna tveggja og þægileg staðsetning til að byggja á, með góðum aðgangi að vatni. Árið 1911 sigraði Bandaríkjamaðurinn Walter Burley Griffin alþjóðlega keppni um skipulag borgarinnar. Það er stöðuvatn í miðri borginni nefnt eftir honum. 1913 var borgin nefnd og byrjað var að byggja hana. Árið 1927 flutti samveldisþingið þangað. Framan af var Canberra hálfgerður smábær, en í dag er Canberra orðin alvöru höfuðborg, allavega hvað varðar stjórnsýsluna. Hún er reyndar ekki mjög fjölmenn, og alls ekki menningarlega höfuðborg. En þar eru samveldisþingið, hæstirétturinn, Háskóli Ástralíu (enska: "Australian National University") og fleiri mikilvægar stofnanir. Í Janúar 2003 riðu skógareldar yfir hluta borgarinnar og 491 heimili brunnu til kaldra kola. Einnig eyðilagðist algjörlega stjörnuskoðunarstöðin á Stromlófelli. Þrátt fyrir þetta létust einungis fjórir. Hverfaskipting. Canberra er skipulögð borg, með einn kjarna og nokkur stór úthverfum, hverju skiptu í mörg smærri hverfi. Flest þessara úthverfa hafa svo eigin kjarna með verslunum og þjónustu og útivistarsvæði, oftast með litlu stöðuvatni. Milli helstu úthverfana eru græn svæði, þar sem náttúran ræður ríkjum og dýr svo sem kengúrur ganga villt. Norður og suður Canberra eru miðbærinn, sitt hvoru megin við Burley Griffin-vatn. Þar að auki eru bærinn Queanbeyan (í Nýja Suður Wales) og þorpið Hall (eitt af mjög fáum sveitarfélögum innan höfuðborgarsvæðisins utan Canberra) hálfgerð úthverfi borgarinnar. Róm. Róm eða Rómaborg er höfuðborg Ítalíu og höfuðstaður héraðsins Lazio. Borgin stendur við Tíberfljót og reis upphaflega á sjö hæðum á vestri bakka fljótsins gegnt Tíbereyju; Palatínhæð, Aventínhæð, Kapítólhæð, Kvirinalhæð, Viminalhæð, Eskvinalhæð, Janikúlumhæð. Hún umlykur borgríkið Vatíkanið þar sem höfuðstöðvar kaþólsku kirkjunnar eru og aðsetur páfans, æðsta stjórnanda hennar. Þar var til forna höfuðborg rómverska heimsveldisins, og þar með menningarleg höfuðborg Miðjarðarhafssvæðisins. Róm er stundum kölluð „borgin eilífa“. Í dag búa í Róm rúmar tvær og hálf milljónir manna. Borgarstjóri (frá 2007) er Gianni Alemanno. Öll stjórnsýsla ítalska ríkisins, utan héraðsþing sjálfstjórnarhéraðanna fimm er í borginni. Höll forseta lýðveldisins er í Kvirinalhöll, sem áður var bústaður páfa. Að auki hýsir borgin ýmsar mikilvægar alþjóðastofnanir, eins og Alþjóða matvælastofnunina (FAO). Höfuðborg Ítalíu. Róm tók við hlutverki höfuðborgar Ítalíu af Flórens þegar hersveitir konungsríkisins hertóku hana 20. september árið 1870. Áður hafði hún verið höfuðstaður Páfaríkisins sem náði yfir miðhluta Ítalíuskagans frá tímum Karlamagnúsar. Við hertökuna lýsti páfi sig fanga í Vatíkaninu og neitaði að viðurkenna ítalska ríkið, hótaði jafnvel bannfæringu þeim sem tækju þátt í kosningum á Ítalíu. Málið var óleyst þar til Lateran-samningarnir voru gerðir milli páfa og ríkisstjórnarinnar (undir stjórn fasista) árið 1929. Undir stjórn Mússólínís var ráðist í ýmsar róttækar og mjög umdeildar breytingar á borginni, gömul hverfi rifin til að skapa pláss fyrir breiðgötur og torg sem hæfðu nútíma höfuðborg, en borgin hafði vaxið mjög hratt eftir að hún var gerð að höfuðborg. Í stríðinu varð borgin fyrir miklum loftárásum, en var þó ekki eyðilögð. Hún féll í hendur bandamanna 6. júní 1944 eftir stutt tímabil þýskrar hersetu (stjórn fasista féll 1943). Staðarnafnið Róm á íslensku. Róm er kvenkyns orð á íslensku, en var haft í hvorugkyni hér áður fyrri (annaðhvort skrifað "Róm" eða "Rúm"). Þá var sagt að fara til Róms, ekki til Rómar. Róm er nútildags oftast skrifað "Rómar" í eignarfalli. Róma er gamalt heiti á Róm. En stundum var Róma haft aðeins um borgarsvæðið norðan við Tíber (sem á íslensku var nefnd Tífur). Rétt er að skrifa Rómaborg, en ekki Rómarborg (og engin dæmi um það í orðabókum) og er nefnd "skilgreinandi samsetning". Eða bandstafssamsetning, eftir því hvernig menn líta á samsetninguna. Stafrófsröð. Stafrófsröð er ákveðin röð bókstafa í gefnu stafrófi. Þegar raðað er í stafrófsröð er byrjað á því að raða eftir fyrsta staf orðanna, hugtakanna eða annars sem skal raða og svo koll af kolli. Stafrófsröð er meðal annars oftast notuð við niðurröðun í orðabækur, símaskrár, alfræðiorðabækur og fleira. Ef talað er um að fólki eða hlutum sé raðað niður í stafrófsröð er þeim raðað niður eftir nöfnunum eða orðunum yfir viðkomandi manneskju eða hlut. Sydney. Sydney er stærsta borg Ástralíu og höfuðborg fylkisins Nýja Suður Wales. Í borginni og nágrannasveitarfélögum búa um fjórar milljónir 12.400km², sem gerir hana að einni stærstu borg í heimi að flatarmáli. Byggð hefur verið á svæðinu í að minnsta kosti 40.000 ár, en borgin var stofnuð 1788 af Arthur Phillip sem fanganýlenda að skipun breskra stjórnvalda. Borgin er nefnd eftir hinum breska innanríkisráðherra þess tíma, Sydney Lávarði. Í dag er Sydney ein helsta fjölmenningarborg heims og búa þar auk Ástrala af evrópskum rótum og frumbyggja mikið af innflytjendum frá suður- og suð-austur Asíu og Kyrrahafseyjum. Vatíkanið. Vatíkanið eða Páfagarður (latína: "Status Civitatis Vaticanae", ítalska: "Stato della Città del Vaticano"), er landlukt land stjórnað af Hinum helga stól (latína: "Sancta Sedes"), æðsta yfirvaldi kaþólsku kirkjunnar sem er einráður yfir því. Landið er landlukt en eina ríkið sem það á landamæri að er Ítalía, enda er ríkið í raun inni í Rómarborg. Þar hefur páfinn aðsetur sitt og eru þar margar kirkjur og kapellur, þeirra á meðal hin fræga Sixtínska kapella. Saga. Svæðið sem Vatikanið er á hefur lengi verið talið helgt og voru þar fáar eða engar byggingar framan af. Þar er talið að ef til vill hafi verið rómverskur grafreitur, meðal annars vegna þess að fyrsta kirkjan þar á að hafa verið reist yfir grafhýsi heilags Péturs, árið 326. Smám saman fjölgaði byggingum þar, þegar það varð aðsetur biskupsins í Róm og síðar páfans þar í borg, einkum eftir að Páfagarður fór að verða pólitísk stofnun til viðbótar við trúarlega. Eftir fall Rómverska keisaradæmisins var Róm oftast undir stjórn páfa eða einhvers veldis sem naut stuðnings hans (svo sem hins þýska Heilaga rómverska keisaradæmis). Síðar varð það svo að páfi stýrði sjálfur löndum, sem saman voru kölluð Páfaríki. Þegar mestöll Ítalía sameinaðist í eitt ríki 1861 var Róm ekki með í hinu nýja ríki, það var ekki fyrr en 1870 að Róm, og þar með Vatikanið, var innlimuð í Ítalíu og gerð að höfuðborg. Páfagarður undi sér þó aldrei í ósjálfstæðinu, eftir að hafa verið eitt mesta pólitíska afl vesturlanda. Í langan tíma voru páfarnir ekki á því að hætta öllum diplómatískum afskiptum, sem þeir þó neyddust til að gera. Það voru deilur um þessi mál milli Páfagarðs og Ítalíu allt til 1929 þegar fasistaríkisstjórnin á Ítalíu samþykkti sjálfstæði Vatikansins með Lateran-samningunum. Það var ekki fyrr en þá að Vatikanið í þeirri mynd sem við þekkjum það varð til. Á undanförnum árum, einkum í tíð Jóhannesar Páls páfa II hefur Vatikanið svo farið að skipta sér af pólitískum málum á ný, og nýtir sér það að eiga áheyrnarsæti í flestum helstu alþjóðastofnunum nútímans. Efnahagur. Efnahagskerfi Vatíkansins er einstakt í heiminum. Allar tekjur þess koma frá rómversk-kaþólskum kirkjum um allan heim, sölu á minjagripum og frímerkjum eða aðgöngu að söfnum Vatíkansins. Það er engin einkageiri þar og því sem næst allir vinna fyrir sömu stofnunina, Páfagarð. Þrátt fyrir þetta óvenjulega kerfi eru aðstæður íbúa mjög góðar og jafnvel betri en íbúa Rómar sjálfrar. Lýðfræði. Vatíkanið hefur íbúasamsetningu, sem er frábrugðin flestum öðrum ríkjum heims vegna þess að allir íbúarnir búa þar út af starfi sínu. Meiripartur íbúanna er klerkar, sökum þess að þar eru höfuðstöðvar stærsta trúfélags heims, allt frá kardinálum yfir í presta yfir í óbreytta munka og nunnur. Flestir tala latínu starfs síns vegna, en koma frá hinum ýmsu stöðum heims og eiga því önnur móðurmál sem þeir nota dags daglega. Reyndar er stór hluti íbúanna af ítölsku bergi brotinn, en Ítalir hafa alltaf átt sterk ítök í æðstu stofnunum rómversk-kaþólsku kirkjunnar af sögulegum ástæðum. Flestir þeir sem búa í Vatíkaninu og eru ekki af klerkastétt, eru svissnesku verðirnir. Það er her hins sjálfstæða ríkis Vatíkansins, en allir sem í honum eru eru svissneskir. Af þeim sökum tala þeir þýsku sín á milli. Allir íbúar Vatíkansins eru, eðli málsins samkvæmt, rómversk-kaþólskir. Merkilegir staðir. Vatikanið var lengi vel ein helsta valdamiðstöð Evrópu og þar eru margar merkilegar stofnanir og byggingar. Þar er Basilíka heilags Péturs, sem er oft talin fallegasta kirkja heims, og er minna umdeilanlega sú stærsta. Þar var fyrst byggð kirkja árið 326 sem var fyrsta byggingin á því svæði sem í dag er Vatikanið. Sú sem stendur í dag var byggð á miðri 16. öld og þá voru veggir og loft skreytt með málverkum sem í dag eru mörg hver talin meðal þeirra allra fegurstu. Sixtínska kapellan var byggð á 15. öld að tilskipun Sixtusar Páfa IV og hefur sama grunnform og Musteri Salomóns. Hún er líka þakin freskum, þeirra frægust sköpun Adams. Í Vatikaninu eru rekin listasöfn, því listaverk Páfastóls eru ekki einungis þau sem á veggjunum eru, heldur líka margar styttur, málverk og fleiri stök verk. Þessi söfn eru talin hafa mörg fegurstu listaverkaverka Evrópu sem páfar hafa í gegnum tíðina sankað að sér. Auk þess hýsa þau ýmsa muni tengda sögu kristni, kaþólsku og einkum Páfastólnum sjálfum, svo sem fyrrverandi hásæti páfa. Þar að auki er í Vatikaninu eitt merkasta skjalasafn heims, Hið leynda skjalasafn Vatikansins. Þar eru geymd flest skjöl sem Páfastóll hefur látið frá sér eða sankað að sér. 1922 var ákveðið að opna hluta þessa annars leynda skjalasafns fyrir vísindamönnum til rannsókna. Í sinni tíð sem páfi opnaði Jóhannes Páll páfi II fleiri hluta safnsins og opnaði hann meðal annars þá hluta þess sem snúa að Heimsstyrjöldinni síðari. Enn er þó mikill hluti þessa skjalasafns algjörlega leyndur óviðkomandi og eru uppi margar samsæriskenningar um hvað þar sé geymt. Advance Australia Fair. Þjóðsöngur Ástralíu heitir Advance Australia Fair'", ("íslenska": Áfram fagra Ástralía) og hefur verið síðan 1977 þegar það vann kosningar þess efnis (fyrir þann tíma var þjóðsöngur Ástralíu sá sami og Bretlands, God Save the Queen). Lagið og ljóðið voru samin af Peter Dodds McCormick á síðari hluta 19. aldar og fyrst flutt 30. nóvember, 1878 í Sydney. Ljóðinu var breytt nokkuð þegar það var gert að þjóðsöng: Öðru, fjórðu og fimmtu erindunum var sleppt og nokkrum línum í hinum tveimur var breytt til að sýna betur þá ímynd sem Ástralir vildu sýna af sjálfum sér. Waltzing Matilda. Ef til vill er vert að minnast á lagið Waltzing Matilda eftir A.B. „Banjo“ Patterson, sem er í raun frægara og almennt frekar tengt við Ástralíu en Advance Australia Fair. Það lag var einnig í kjöri um þjóðsöng, en lenti í öðru sæti á eftir Advance Australia Fair, enda er það um öllu umdeildara efni (ljóðið segir sögu útilegumanns sem rænir kind og fremur svo sjálfsmorð þegar laganna verðir ná honum). .is. .is er höfuðlén og þjóðarlén (ccTLD) Íslands. Internet á Íslandi hf. (ISNIC) hefur yfirumsjón með skráningum og rekstri höfuðnafnaþjóna léna undir því. Tilurð ISNIC og tilurð Internetsins sem slíks á Íslandi er samofin. Internet á Íslandi hf. (ISNIC) var stofnað 1995 til að halda utan um reksturinn á íslenska hluta Internetsins (ISnet). ISNIC var reist á grunni tveggja félagasamtaka; SURIS (Samtök um upplýsinganet rannsóknaraðila á Íslandi) og ICEUUG (Icelandic Unix Users Group) sem höfðu rekið ISnet frá því það var sett á laggirnar 1986. Fyrsta nettengingin var við evrópska EUnet-netið að tilstuðlan starfsmanna Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnunar. Fyrstu.is-lénin voru hafro.is, hi.is og os.is (Orkustofnun). Fyrstu starfsmenn ISNIC voru Helgi Jónsson, sem einnig var framkvæmdastjóri félagsins til ársins 2007, og Maríus Ólafsson MSc. stærðfræðingur, sem er net- og gæðastjóri ISNIC. ISNIC var fyrsti íslenski aðilinn sem gerðist félagi í RIPE (Samtök netþjónustuaðila í Evrópu) og fékk fyrst íslenskra aðila úthlutað IP-tölu (130.208.0.0/16) og AS-númerinu 1850 (Autonomous System Number). Höfuðlénið.is var skráð hjá IANA 18. nóvember 1987 og verður því 25 ára undir lok árs 2012. Elsta íslenska lénið er hins vegar hi.is, þar var skráð ári fyrr eða 11. desember 1986. Ekkert stofngjald er á.is-lénum. Árgjald, sem greitt er fyrirfram, er kr. 7.982 ISK m. virðisaukaskatti er fyrir rekstur og umsjón lénsins í eitt ár í senn. Höfuðborgarsvæði Ástralíu. Höfuðborgðarsvæði Ástralíu (enska: "Australian Capital Territory", "ACT") er, eins og nafnið bendir til, svæði sem stofnað var utan um höfuðborg Ástralíu, Canberra, svo hún tilheyrði hvorki Nýja Suður Wales né Victoria eftir að höfuðborgir þeirra (Sydney og Melbourne) höfðu deilt um hvor þeirra fengi hlutverkið. Svæðið er algjörlega umlukið NSW enda tilheyrði land þess áður því fylki. Höfuðborgarsvæði Ástralíu hefur ákveðna sjálfstjórn en sú sjálfstjórn er þó miklu minni en fylkjanna. Svæðið hefur sína eigin 17 manna löggjafarsamkomu, en ríkisstjórn samveldisins hefur neitunarvald yfir þeim öllum. Höfuðborgarsvæðið hefur 2 þingmenn í hvorri deild ástralska samveldisþingsins. Staðir. Canberra er eina borg svæðisins, og þar býr mikill meirihluti íbúanna, en einnig er eitthvað af sveitabæjum enn í kring um hana og einstaka þorp sem flest eru eldri en borgin, t.a.m. Hall, sem smám saman er að renna inn í borgina (svæðið er í raun miklu stærra en borgin er í dag). Fyrir sunnan borgina er Tidbinbilla friðlandið þar sem hefur mátt sjá Áströlsk dýr í sínu náttúrulega umhverfi en friðlandið var að stóru leyti hannað fyrir gesti að koma og skoða náttúruna. Svæðið varð mjög illa úti í skógareldunum 18. janúar 2003 og dóu því sem næst öll dýrin. Uppbyggingarstarf hófst strax en langt er þangað til svæðið mun ná sér að fullu. Mikilvægt er þó að geta að skógareldar eru mjög mikilvægur þáttur í náttúru Ástralíu og liður í fjölgun margra tegunda. Rétt hjá friðlandinu er geimfjarskiptastöð rekin af NASA. Þétt upp við friðlandið er líka Namadgi þjóðgarðurinn og í honum er nyrsti hluti áströlsku alpanna. Saga. Fólk hefur búið þar sem nú er Höfuðborgarsvæði Ástralíu mjög lengi og þar bjuggu frumbyggjaættbálkarnir Walgalu, Ngarigo og Ngunnawal (en úr máli þeirra er nafn höfuðborgarinnar tekið). Evrópumenn komu ekki þangað fyrr en á þriðja áratugi 18. aldar og var svæðið, eins og svo mikið af Ástralíu, með einstaka þorpi. 1908 var svæðið valið undir hina nýju höfuðborg verandi nokkurnvegin mitt á milli Sydney og Melbourne, stærstu borganna, og með góðu aðgengi að vatni. 1911 var haldin keppni um skipulag hinnar nýju höfuðborgar og hana vann Walter Burley Griffin. Bygging hófst 1913 og flutti þingið loks í höfuðborgarsvæðið 1927. Richterskvarði. Richterskalinn mettast við um 7 stig og ekki er hægt að nota gögn frá jarðskjálftum á honum sem gerast í meira en 600 km fjarlægð Manhattan-verkefnið. Manhattan-verkefnið var í seinni heimsstyrjöldinni rannsóknarverkefni Bandaríkjanna með aðstoð Bretlands og Kanada, sem miðaði að því að þróa kjarnorkuvopn, m.a. eftir að ljóst varð, að Þjóðverjar voru að þróa slík vopn. Yfirmaður rannsóknanna var eðlisfræðingurinn Robert Oppenheimer, en Leslie Groves hershöfðingi hafði yfirumsjón með verkefninu. Fimmhyrningur. Fimmhyrningur er í rúmfræði lokað tvívítt svæði afmarkað af fimm línum. Ef öll innri horn hans eru jafnstór og allar hliðarlínur jafnlangar, kallast hann reglulegur fimmhyrningur og er þá hvert horn hans 108°. Fimmstirningur er svo myndaður með að draga hornalínur inni í fimmhyrninginum, í reglulegum fimmstirningi verða þær 36° frá næstu línu. Úr tólf reglulegum fimmhyrningum er hægt að smíða lokað þrívítt form. Ólafsvík. right Ólafsvík er bær á utanverðu Snæfellsnesi í sveitarfélaginu Snæfellsbæ. Ólafsvík var upphaflega í Neshreppi, síðan í Neshreppi innan Ennis eftir að Neshreppi var skipt í tvennt. Þeim hreppi var svo aftur skipt í tvennt árið 1911 og varð þá "Ólafsvíkurhreppur" til, sem og Fróðárhreppur þar austur af. Kaupstaðarréttindi fékk Ólafsvík 14. apríl 1983. Þann 1. apríl 1990 sameinaðist Fróðárhreppur Ólafsvík á ný, að þessu sinni undir merkjum kaupstaðarins. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Ólafsvíkurkaupstaður Neshreppi utan Ennis, Breiðuvíkurhreppi og Staðarsveit undir nafninu "Snæfellsbær". Bæjarbúar byggja afkomu sína á sjávarútvegi og í auknum mæli á ferðaþjónustu. 985 manns búa í Ólafsvík samkvæmt mannfjölda mælingum hagstofu Ísland frá 31. desember 2006. Forseti Íslands. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi og æðsti embættismaður lýðveldisins Íslands. Forsetinn er þjóðkjörinn til fjögurra ára í senn og er eini embættismaðurinn sem kjörinn er í beinni kosningu. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er forsetinn æðsti handhafi framkvæmdavaldsins og annar handhafi löggjafarvaldsins. Í reynd er þátttaka forsetans í löggjöf eða stjórnarathöfnum yfirleitt aðeins formsatriði þannig að hann hefur ekki aðkomu að efni löggjafar eða stjórnarathafna. Þó er viðurkennt að hann getur haft áhrif á stjórnarmyndunarviðræður og jafnvel skipað utanþingsstjórn ef aðstæður til þess eru uppi. Jafnframt hefur forsetinn vald til þess að synja lagafrumvarpi frá Alþingi staðfestingar og leggja það í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu en á það hefur reynt í þrisvar sinnum í sögu embættisins. Í fjarveru forsetans fara forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar saman með vald forsetans. Flest störf forsetans eru táknræn og er stundum sagt um embættið að það eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Á meðal hefðbundinna embættisverka forsetans er að flytja þjóðinni ávarp á nýársdag, að ávarpa Alþingi við setningu þess jafnframt því sem forsetinn setur Alþingi formlega, að veita fálkaorðuna og ýmis verðlaun á vegum embættisins og félagasamtaka. Forsetinn tekur einnig á móti erlendum þjóðhöfðingjum og öðrum hátt settum gestum í opinberum heimsóknum á Íslandi og fer sjálfur í opinberar heimsóknir til annara ríkja. Aðsetur forseta Íslands er á Bessastöðum á Álftanesi en embættið hefur jafnframt skrifstofu í húsinu Staðastað við Sóleyjargötu 1 í Reykjavík. Frá tilurð embættisins við lýðveldisstofnunina 17. júní 1944 hafa fimm einstaklingar gegnt embættinu. Þeirra fyrstur var Sveinn Björnsson. Árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands og varð þar með fyrsti kvenkyns þjóðkjörni þjóðhöfðinginn í heiminum. Núverandi forseti er dr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem situr sitt fimmta kjörtímabil. Kjörgengi. Forsetaefni skal skv. stjórnarskránni og lögum um framboð og kjör forseta Íslands vera minnst 35 ára auk þess að uppfylla sömu skilyrði og gerð eru um kosningarétt til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu, en samkvæmt því þarf að eiga lögheimili á Íslandi til að eiga kosningarétt. Ekki er gerð krafa um trú forseta, hann getur staðið utan trúfélaga ef því er að skipta. Synjun forseta á staðfestingu frumvarps til laga um fjölmiðla 2004. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði fyrstur forseta Íslands að staðfesta lagafrumvarp vorið 2004. Um var að ræða frumvarp að lögum um fjölmiðla (fjölmiðlafrumvarpið). Ákvörðunin var umdeild, en Alþingi tók í framhaldi frumvarpið af dagskrá, þ.a. ekki þótti nauðsynlegt að leggja það fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og gera bar skv. stjórnarskrá Íslands. Forsetar. Sveinn Björnsson lést í embætti. Varahandhafar forsetavalds fóru með völd forseta fram að innsetningu Ásgeirs Ásgeirssonar í embættið þann 1. ágúst sama ár. Frá og með 17. Júní 2012. Arabíska. Arabíska (العربية) er semískt tungumál sem er upprunið á Arabíuskaganum, en breiddist yfir stærra svæði með útbreiðslu Íslams og er nú talað víðast hvar alla leið frá Marokkó til Íraks. Arabíska er eitt helsta sameiningartákn þeirra sem í dag kalla sig Araba sem eru mun fleiri en þeir sem búa á Arabíuskaganum. Arabísku má skipta í tvennt, bókmenntaarabísku og talaða arabísku. Sú fyrrnefnda er notuð í formlegu máli af flestum fjölmiðlum og í bókum nær alls staðar þar sem arabíska er töluð og er sú arabíska sem notuð er Kóraninum. Síðarnefnda gerðin skiptist hins vegar í margar mállýskur sem talaðar eru þvert yfir svæðið. Þær eru mjög misjafnar og skiljast jafnvel ekki af þeim sem tala aðrar mállýskur. Stafróf. Arabíska er skrifuð með arabíska stafrófinu, t.d. er arabíska skrifað svona á arabísku: العربية. Tölur. Þeir tölustafir (0 1 2 3 4 5 6 7 8 9) og það talnakerfi sem nú er notað um allan heim kom til Evrópu í gegnum arabísku og eru tölurnar því gjarnan kallaðar arabískar tölur en í reynd eru þær upprunnar frá Indlandi og í arabísku eru tölurnar einmitt kallaðar „indverskar tölur“. Arabíska er rituð frá hægri til vinstri líkt og hebreska og hindí, en tölur eru aftur á móti ritaðar frá vinstri til hægri. Sveitarfélagið Garður. Sveitarfélagið Garður (áður Gerðahreppur) er sveitarfélag á nyrsta odda Reykjanesskagans, á innanverðu Miðnesi. Á það land að Sandgerði og Reykjanesbæ. "Gerðahreppur" var stofnaður 15. júní 1908 við seinni uppskiptingu Rosmhvalaneshrepps. Hinn hlutinn, sem tilheyrði Keflavíkurkauptúni, sameinaðist Njarðvíkurhreppi og varð að Keflavíkurhreppi. Skjaldarmerki sveitarfélagsins er mynd af vitunum tveimur á Garðskaga. Á Garðskaga var reist fyrsta leiðarmerki fyrir sæfarendur á Íslandi og var það hlaðin grjótvarða á ströndinni. Síðar var sett á hana ljósmerki. Fyrsti eiginlegi vitinn var hins vegar reistur á Reykjanesi. Gerðaskóli er einn elsti starfandi barnaskóli á landinu, stofnaður 1872 af séra Sigurði B. Sívertsen, sem var prestur á Útskálum í rúmlega hálfa öld. Hann átti einnig frumkvæði að byggingu núverandi Útskálakirkju árið 1861 og tók saman Suðurnesjaannál. Björgunarsveitin Ægir var stofnuð 1935 og Knattspyrnufélagið Víðir í Garði var stofnað 1936. Stýrikerfiskjarni. Stýrikerfiskjarni eða kjarni er sá hluti stýrikerfis sem sér um grunnvirkni tölvunnar. Nútímastýrikerfi styðja fjölforritavinnslu, þ.e. að mörg forrit keyri samhliða. Til að gera þetta mögulegt er nauðsynlegt að stýrikerfið stýri aðgangi forrita að vélbúnaði tölvunnar, þ.e. örgjörva, minni og jaðartækjum. Kjarninn felur að miklu leiti virkni vélbúnaðarins, sem gerir það auðveldara að skrifa forrit. Venjuleg forrit hafa þá ekki bein samskipti við vélbúnaðinn, heldur kalla á stýrikerfið í gegnum kerfiskall sem framkvæmir þá vinnu sem forritið óskar. Slík hjúpun er gegnumgangandi stef í hugbúnaðargerð. Stýrikerfi. Stýrikerfi er kerfishugbúnaður sem hefur það hlutverk að stýra aðgangi forrita að vélbúnaði tölvunnar og sjá þeim fyrir ýmis konar sameiginlegri þjónustu. Stýrikerfið hefur þannig umsjón með inntaks- og úttaksaðgerðum og minnisúthlutun fyrir notendaforrit þótt sjálft forritið sé keyrt af vélbúnaðinum beint. Stýrikerfi er að finna í öllum tækjum sem innihalda tölvu, allt frá farsímum að ofurtölvum. Dæmi um stýrikerfi eru Microsoft Windows, Mac OS X, Linux, Symbian og Palm OS. Áloxíð. Áloxíð (eða súrál) (Al2O3) er sameind, sem samanstendur af áli og súrefni, og er gjarnan kallað súrál í iðnaði. Áloxíð er aðalega unnið úr rauðleitum leir, er kallast báxít, og er mjög ríkur af áloxíði. Þetta er gert með svokölluðu Bayer ferli. Úr áloxíði er svo unnið hreinál með rafgreiningu (Hall-Heroult ferli). Gimsteinarnir rúbín og safír eru að mestu leyti áloxíð og fá þeir sína einkennandi liti vegna óhreininda í áloxíðinu. Áloxíð, sem myndast utan á hreinu áli, gefur því þá góðu eiginleika að þola veðráttu vel. Ál er mjög fljótt að oxast og myndast þá þunn húð á málminum, sem verndar hann frá því að oxast frekar. Með efnafræðiaðferðum er hægt að stjórna þykkt þessa verndarlags. Áloxíð leiðir varma mjög vel og er einnig góður einangrari. Í kristölluðu formi er áloxíð afar hart og er oft notað til að slípa eða skera með. Arngrímur Jónsson lærði. Arngrímur Jónsson lærði (1568 – 27. júní 1648) var prestur og fræðimaður á Mel í Miðfirði og Hólum í Hjaltadal. Hann er einkum frægur fyrir rit sitt um Ísland, Crymogæa. Arngrímur fæddist á Auðunarstöðum í Víðidal, sonur Jóns Jónssonar bónda þar og Ingibjargar Loftsdóttur, en flutti ungur til frænda síns, Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum. Hann varð stúdent úr Hólaskóla 1585 og fór til náms í Kaupmannahafnarháskóla, kom aftur til Íslands 1589 og fékk þá konungsveitingu fyrir brauðinu Mel í Miðfirði en hafði þar aðstoðarprest og var sjálfur rektor á Hólum til 1594. Varð formlega skipaður aðstoðarmaður Guðbrands biskups af konungi árið 1596 og var eftir það viðloðandi Hóla þótt hann gengdi jafnframt prestsembættum í Skagafirði, lengst af á Mælifelli. Hann fór tvisvar til Kaupmannahafnar í erindum biskups. Guðbrandur fékk slag 1624 og lá rúmfastur eftir það. Hann lést 1627 og ári síðar fékk Arngrímur aftur veitingu fyrir Melstað og var prestur þar til dauðadags. Arngrímur átti í miklum bréfaskiptum við Ole Worm og skrifaði mikið af lærðum ritum. Sérstaka eftirtekt hlutu rit hans um íslensk efni s.s. "Brevis commentarius" og "Crymogæa". "Crymogæa" er fyrsta samfellda Íslandssagan, en átti upphaflega að vera lært svar við ritum erlendra manna um Ísland. Eftir Arngrím liggja einnig margar þýðingar á guðsorðabókum og sálmar. Stungið hefur verið upp á því að skrif Arngríms gegn ritum erlendra höfunda um Ísland hafi verið hluti af því pólitíska valdatafli sem Danakonungur lék gegn Hansakaupmönnum á þeim tíma og leiddi á endanum til verslunareinokunar Dana, en rit Arngríms beindust gegn skrifum manna sem höfðu komið til Íslands í erindum verslunar Hansakaupmanna. Fyrri kona Arngríms var Sólveig Gunnarsdóttir, sem kölluð var kvennablómi, dóttir Gunnars Gíslasonar klausturhaldara á Víðivöllum og Hólaráðsmanns. Hún dó 1627 og giftist Arngrímur þá Sigríði yngri (f. 1601), dóttur Bjarna Gamalíelssonar (Gamlasonar), sem var rektor Hólaskóla um skeið, heimilisprestur á Hólum og síðast prestur á Grenjaðarstað. Arngrímur átti alls 9 börn sem upp komust með konum sínum. Yngst þeirra var Hildur (1643 - 12. október 1725), móðir Páls Vídalín lögmanns. Ritverk. Í síðasta bindinu er doktorsritgerð Jakobs: "Arngrímur Jónsson and his works", sem einnig kom út sem sérstök bók. 1606. Árið 1606 (MDCVI í rómverskum tölum) var ár sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu, eða miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. 1620. Árið 1620 (MDCXX í rómverskum tölum) var 20. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Júpíter (reikistjarna). Júpíter er fimmta reikistjarnan frá sólu talið og sú stærsta, en einnig sú fyrsta af gasrisum sólkerfisins. Heildarrúmmál Júpíters er meira en samanlagt rúmmál allra hinna reikistjarnanna. Júpíter er nefndur eftir hinum rómverska konungi guðanna sem bar sama nafn. Í kínveskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hann nefndur "viðarstjarnan", byggt á frumefnunum fimm. Efni Júpíters er að mestu gas, en fyrir innan allt þetta gas er lítill kjarni úr gegnheilum steini. Gasský hans eru gerð úr mörgum mismunandi efnasamböndum, þar á meðal vetni, helíum, koltvísýringi, vatnsgufu, metangasi, ammoníakís og ammóníumhýdrósúlfíði (ammonium hydrosulfide). Það tekur Júpíter 10 klukkustundir að snúast um sjálfan sig. Eitt ár á Júpíter (sá tími sem það tekur hann að fara einn hring um sólu) er jafnlangt og 11,9 ár á jörðinni. Júpíter hefur í það minnsta 67 tungl. Þau þekktustu eru: Jó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó. 1650. Árið 1650 (MDCL í rómverskum tölum) var 50. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Merkúríus (reikistjarna). Merkúríus (einnig kölluð Merkúr) er innsta reikistjarnan í sólkerfinu og sú innsta af innri reikistjörnunum. Hún er nefnd eftir rómverska guðinum Merkúríus. Fyrir 5. öld f.Kr. héldu grikkir að hún væri tvær stjörnur, þar sem þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því að hún birtist sitt hvoru megin við sólina með svo stuttu millibili. Sú sem menn sáu á kvöldhimninum var kölluð Hermes en Apollo, eftir sólguðinum, þegar hún birtist á morgnana. Pýþagóras er talinn sá fyrsti sem benti á að þetta væri eini og sami hluturinn. Í kínveskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hún kölluð "Vatnsstjarnan", byggt á frumefnunum fimm. Þvergöngur Merkúrs eru tiltölulega algengar, eða 13 til 14 á hverri öld. Andrúmsloft. Merkúríus hefur leifar af andrúmslofti en það er afar þunnt. Gasfrumeinindirnar í andrúmsloftinu rekast oftar á yfirborð reikistjörnunnar en þær rekast hver á aðra. Reikistjarnan er því talin vera súrefnislaus. Andrúmsloftið er að mestu úr súrefni, vetni, helíum og natríum (sodium). Stafnes. Stafnes ("Starnes", "Sternes", "Stapnes", "Stafsnes") er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Sandgerði. Upphaflega hefur nesið heitið "Starnes" (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið "Stafnes" kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Jörðin Stafnes. Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu. Útgerð frá Stafnesi. Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil. Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925. Andrúmsloft. Andrúmsloft eða lofthjúpur er hjúpur samsettur úr gasi, ryki, vökvum og ís sem umlykur himinhnött og fylgir hreyfingu han vegna áhrifa þyngdarsviðs. Veður stafar af innbyrðis skammtímabreytingum á ástandi lofthjúps, en langtímabreytingar nefnast loftslag. Andrúmsloft jarðar kallast einnig gufuhvolf. Nafnorð. Nafnorð eru orð sem notuð eru yfir einstaklinga, staði eða atburði, hugmyndir o.fl. Þau skiptast í tvo undirflokka, sérnöfn og samnöfn. Nafnorð eru fallorð og hafa því kyn, tölu og fall. Fáein nafnorð eru aðeins til í einni tölu, t.d. "orðstír" (et.), "mjólk" (et.), "dyr" (ft.) "buxur" (ft.). Nafnorð eru ýmist ákveðin þegar þau standa með greini (t.d. "fjallið"), eða óákveðin þegar þau standa án greinis (t.d. "fjall"). Fallbeyging. Í orðabókum eru kenniföll nafnorða jafnan uppgefin, en það eru þau föll sem mestu máli skipta við fallbeygingu; nefnifall eintölu, eignarfall eintölu og nefnifall fleirtölu Dæmi; hestur, -s, -ar sem gefur til kynna fallbeyginguna "hestur - hests - hestar". og gestur, -s, -ir sem gefur til kynna fallbeyginguna "gestur - gests - gestir". Taflan sýnir endingar kennifalla nafnorða og falla flest nafnorð undir þessa flokkun en þó ekki öll, t.d "sykur, gleði" o.fl. Óreglulega beygingu hafa sex sterk karlkynsorð; "faðir, bróðir, vetur, fótur, fingur" og "maður". Nokkur sterk kvenkynsorð hafa einnig óreglulega beygingu; "hönd, kýr, ær, sýr, mús, lús, móðir, dóttir, systir, mær (mey)". Stofn nafnorðs er sá orðhluti þess sem er sameiginlegur öllum föllum. T.d. er orðhlutinn "hest" stofn orðsins "hestur" eins og sést af fallbeygingunni; "hest"-ur, "hest"-, "hest"-i, "hest"-s. Ísafjörður (Skutulsfirði). Ísafjörður er þéttbýlisstaður á Eyri við Skutulsfjörð. Hann er þjónustumiðstöð sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar og er stærsti byggðakjarninn innan þess. Ísafjörður er fallegasti staður á Íslandi. Ísafjörður var einn hinna 6 verslunarstaða á Íslandi sem fengu kaupstaðarréttindi árið 1786 (hinir voru Reykjavík, Grundarfjörður, Akureyri, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar) en missti þau aftur eins og allir hinir að Reykjavík undanskilinni. Bærinn endurheimti kaupstaðarréttindin árið 1866. Náði land kaupstaðarins yfir Eyrina og stóran hluta Eyrarhlíðar. Áður hafði það heyrt undir Eyrarhrepp. Kaupstaðurinn og hreppurinn sameinuðust aftur 3. október 1971, þá undir nafni Ísafjarðarkaupstaðar. Árið 1994 bættist Snæfjallahreppur við sveitarfélagið og Sléttuhreppur árið eftir en hann hafði þá verið í eyði í meira en fjóra áratugi. Hinn 1. júní 1996 sameinaðist Ísafjarðarkaupstaður 5 öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum: Flateyrarhreppi, Mosvallahreppi, Mýrahreppi, Suðureyrarhreppi og Þingeyrarhreppi, undir nafninu "Ísafjarðarbær". Evrópubandalagið. Evrópubandalagið (skammstafað EB) var upphaflega bandalag stofnað með undirritun Rómarsamningsins (25. mars 1957) en hét þá Efnahagsbandalag Evrópu (skammstafað EBE). Nafninu var síðar breytt í Evrópusambandið með Maastrictsamningnum 1992. Stofnanir Evrópubandalagsins hafa frá 1965 einnig náð yfir Kola– og stálbandalag Evrópu (lagt niður 2002) og Kjarnorkubandalag Evrópu og þessi þrjú bandalög saman hafa síðan 1978 gengið undir nafninu Evrópubandalögin eða jafnvel bara Evrópubandalagið. Með Maastrichtsamningnum var EB gert að „fyrstu stoð“ Evrópusambandsins, sem þá var sett á stofn. EB stoðin er sú mikilvægasta af þremur stoðum Evrópusambandsins en margar stofnanir EB, t.d. ráðherraráðið og framkvæmdastjórnin, breyttu nöfnum sínum þannig að þær væru frekar kenndar við Evrópusambandið þó að það sé ekki ennþá sjálfstæður lögaðili og verði það ekki fyrr en Stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt í öllum aðildarríkjum þess. Þegar og ef stjórnarskráin tekur gildi munu stoðirnar þrjár renna saman í eitt, Evrópusambandið verður þá lögaðili og Evrópubandalagið lagt niður. Söguleg uppbygging ESB Hvalsnes. Hvalsnes er nes sem gengur til vesturs út úr Miðnesi (Rosmhvalanesi), vestast á Reykjanesskaga. Á Hvalsnesi er samnefnt býli og kirkjustaður. Þar var lengi prestsetur og þjónaði Hvalsnesprestur þá að jafnaði einnig í Kirkjuvogi (Höfnum) og í Innri-Njarðvík. Prestakallið var lagt niður árið 1811 og síðan hefur Hvalsnessókn tilheyrt Útskálaprestakalli. Hvalsneskirkja. Núverandi kirkja á Hvalsnesi er hlaðin steinkirkja úr höggnu grágrýti úr Miðnesheiði. Kirkjusmiður var Magnús Magnússon, steinsmiður í Garði. Hann fórst 1887 áður en smíðinni lauk og tók þá við Stefán Egilsson. Stórbóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi í Höfnum var þá eigandi Hvalsnesjarðarinnar og kostaði hann kirkjubygginguna. Kirkjan var vígð á jóladag 1887. Hún á marga góða gripi, meðal annars er þar geymdur legsteinn Steinunnar, dóttur Hallgríms Péturssonar sálmaskálds, en hann var þar prestur frá 1644 til 1651. Hann er sagður hafa höggvið legsteininn sjálfur. Kirkjuból (Miðnesi). Kirkjuból er jörð og áður bær á Miðnesi, norðarlega. Kirkjuból var mikil og góð jörð fyrr á öldum en hefur hrakað mjög vegna landbrots og auðnar í Miðnesheiði af völdum hrísrifs og ofbeitar. Um 1430 bjó á Kirkjubóli Ívar Vigfússon Hólm, sonur Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra (d. 1420) og hjá honum var systir hans, Margrét. Árið 1432 var Jón Gerreksson biskup í Skálholti og hafði um sig sveit manna, sem voru hinir verstu ribbaldar. Forsprakki þeirra hét Magnús og er titlaður kæmeistari, en það mun líklega vera sama og bryti. Sagt er að hann hafi beðið Margrétar Vigfúsdóttur, en fengið hryggbrot. Til þess að hefna fyrir þá hneisu gerðu sveinar Jóns Gerrekssonar áhlaup á bæinn á Kirkjubóli. Lögðu þeir eld í bæinn og drápu alla nema Margréti, en hún komst ein úr brennunni og gat flúið á hesti. Komst hún norður í land segir sagan, og sór að giftast þeim manni einum, sem hefndi brennunnar. Til þess urðu Þorvarður Loftsson (sonur Lofts ríka Guttormssonar) á Möðruvöllum í Eyjafirði og vinur hans, Teitur Gunnlaugsson í Bjarnanesi í Hornafirði, en þeir fóru með her í Skálholt og drápu biskupssveina og drekktu Jóni biskupi í Brúará. Voru þeir frekar að hefna harma sinna en Margrétar, en hún giftist síðar Þorvarði og voru þau ríkustu hjón á Íslandi á sinni tíð. Löngu síðar gerðust aftur sögulegir atburðir á Kirkjubóli á Miðnesi. Eftir aftöku Jóns Arasonar og sona hans í Skálholti haustið 1550, var Kristján skrifari, sem hét réttu nafni Christian Schriver og var umboðsmaður hirðstjóra konungs, á ferð suður með sjó til að innheimta afgjöld konungsjarða. Það mun hafa verið seinni hluta vetrar 1551. Þá fengu norðlenskir vermenn, sem voru fjölmennir á Suðurnesjum, fregnir af því að hann mundi gista á Kirkjubóli. Söfnuðu þeir liði og gerðu árás á bæinn og drápu þar Kristján skrifara og fylgdarmenn hans alla til hefnda eftir Jón Arason. Bóndinn á Kirkjubóli var ákærður fyrir að hafa verið í vitorði með norðlingum og var hann dæmdur til dauða. Hann var hálshöggvinn í Straumi við Straumsvík vorið 1551. Skagagarðurinn. Snemma á öldum var akuryrkja á Garðskaga. Þá var hlaðinn veggur eða garður frá túngarði á Kirkjubóli í beina stefnu að Útskálum í Garði, en þetta er rúmlega tveggja kílómetra leið. Garðurinn hefur líklega verið reistur á 10. öld. Garður þessi var mikið mannvirki og mótar fyrir honum enn í dag, þar sem hann er sokkinn í jörð. Tilgangurinn með mannvirkinu er talinn hafa verið að verja akurlöndin fyrir búfé, sér í lagi kindum. Garðurinn var stöllóttur þeim megin sem að akurlöndunum sneri, en þverhníptur hinum megin. Þetta var til þess að hægt væri að reka kindur, sem inn komust, beint á garðinn og stukku þær þá upp stallana að innanverðu og út af honum að utanverðu. Af þessum garði dregur Garðskagi nafn sitt, svo og sveitarfélagið Garður. Árni Hallvarðsson. Árni Hallvarðsson (1712-1748) var prestur á Suðurnesjum. Foreldrar hans voru Hallvarður Ingimundarson í Gerðum í Garði og Þórdís Halldórsdóttir frá Keflavík. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1739 en var á sumrum hjá Brynjólfi Sigurðssyni sýslumanni á Reykjum í Ölfusi. Hann var prestur á Hvalsnesi frá 1742 til dauðadags. Sagt er að séra Árni hafi bannað vikivaka og jólaskemmtanir þær sem haldnar voru á Flankastöðum og að honum hafi hefnst fyrir það er hann drukknaði í embættisferð að Kirkjuvogi þann 31. mars 1748. Tíund. Tíund er einn tíundi af einhverju og er oftast átt við skatt af einhverju tagi. Tíund hefur tíðkast sem aðferð við skattlagningu víða um heim og allt aftur til upphafs miðalda. Tíundin var aðferð kristnu kirkjunar til þess að fjármagna starfsemi sína víða um Evrópu lengi vel og er lögboðin í einstaka löndum enn í dag. Tíundarlög á Íslandi. Tíundarlög voru samþykkt á Alþingi árið 1096/7, fyrstu skattalög á Íslandi. Að þeim stóðu Gissur Ísleifsson, biskup, Sæmundur Sigfússon hinn fróði í Odda og sjálfsagt fleiri höfðingjar. Í öðrum löndum hafði slíkri skattheimtu verið mótmælt harðlega, jafnvel kostað blóðsúthellingar, en ef marka má frásögn Ara Þorgilssonar voru þau samþykkt einróma hér á landi og þóttu það mikil undur. Lögin voru þó frábrugðin því sem gerðist annars staðar, þar var um að ræða 10% tekjuskatt - bændur greiddu 10% af uppskerunni, handverksmenn 10% af framleiðslunni - en hér var tíundin greidd af eign og var því eignaskattur eða öllu heldur eignaaukaskattur. Gert var ráð fyrir því að eignir manna ykjust um 10% árlega og greiddu 10% af eignaaukanum, eða 1% af heildareign. Slíkur eignaskattur, eða vextir af „dauðu“ fé, var þyrnir í augum kirkjunnar manna annars staðar en hér á landi. En ljóst er að Gissur biskup hlýtur að hafa fengið samþykki fyrir þessu skatta–„frumvarpi“ hjá erkibiskupi eða jafnvel páfa. Allar eignir manna, sem náðu lágmarkseign, voru „tíundaðar“. Skatturinn skiptist í fjóra staði: 1/4 rann til biskups til uppbyggingar biskupsstól og rekstri, 1/4 rann til þurfamanna, og fengu hreppsmenn þann hluta til að deila út meðal fátækra, 1/4 rann til kirkna, til viðhalds og uppbyggingar og 1/4 til presta. Tveir síðustu hlutarnir runnu í raun til þeirra höfðingja sem áttu kirkjurnar og höfðu presta í þjónustu sinni, og gátu þeir sjálfsagt farið með það fé einsog þeim sýndist. Prestar voru hvort eð er í þjónustu kirkjueigenda. Af þessum sökum er ekki undarlegt að höfðingjar hafi samþykkt skattheimtuna á Alþingi, þar sem þeir sjálfir fengu helminginn til baka, auk þess sem skatturinn var mun léttari en 10% tekjuskattur. Leiddi það óneitanlega til aukinna valda og áhrifa höfðingja og ójafnræðis þeirra gagnvart þingmönnum sínum, þ.e. öðrum bændum, og þannig hefur það stuðlað að myndun héraðsríkjanna sem leiddi svo aftur að hruni Þjóðveldisins og í kjölfar þess að þjóðin glataði sjálfstæði sínu í 7 aldir. Þjóðveldið. Þjóðveldið eða þjóðveldisöld er tímabil í Íslandssögunni frá stofnun Alþingis árið 930 til undirritunar gamla sáttmála árið 1262/64 er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd. Síðustu ár þjóðveldisins eru nefnd Sturlungaöld þegar helstu höfðingjar landsins bárust á banaspjótum um yfirráð yfir tilteknum landshlutum eða landinu öllu. Söguöld. Flestar Íslendingasögurnar segja frá atvikum sem eiga að hafa gerst á tímabilinu frá því á síðari hluta landnámsaldar og fram til 1030 eða þar um bil. Þetta var mikill umbrotatími, landið var fullnumið og farið að þrengjast um sumstaðar en stjórnskipulag og réttarkerfi ekki fullmótað og mönnum gekk misjafnlega að beygja sig undir það. Íslendingar voru líka mikið í ferðum til útlanda, sigldu til Noregs á konungsfund eða til að versla og fóru í víkingaferðir til Bretlandseyja og tóku þar þátt í bardögum og ránsferðum. Margar Íslendingasagna gerast að hluta til erlendis. Sögurnar eru flestar skráðar 200-300 árum eða meira eftir að atburðir sem þær segja frá gerðust og geta því ekki talist örugg heimild um þá en þær geyma arfsagnir sem gengið hafa á milli kynslóða þar til þær voru skrifaðar niður og margir þeirra atburða sem þær segja frá hafa vafalaust gerst með einhverjum hætti. Sumt er líka stutt af öðrum heimildum, svo sem fornleifarannsóknum. Sögurnar gefa líka mikilvægar upplýsingar um hugmyndir 13. aldar Íslendinga um mannlíf og landshætti á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Goðar og goðorð. Á landnámsöld urðu til stjórnareiningar sem nefndust goðorð og áttu sér ekki eiginleg landfræðileg mörk. Um var að ræða eins konar bandalag bænda við goðana, en hverjum bónda var skylt að fylgja einhverjum goða sem þeim var frjálst að velja sjálfir. Fylgismenn goðans voru kallaðir þingmenn hans. Goðarnir voru helstu höfðingjar landsins og höfðu í heiðni líklega haft það hlutverk að stýra blótum en urðu síðar eingöngu veraldlegir höfðingjar. Goðinn var fulltrúi bændanna á héraðsþinginu og gætti hagsmuna þeira. Goðorðin voru persónuleg eign hvers goða, þau gengu í arf og voru stundum gefin eða seld. Þeim mátti líka skipta og sumir áttu aðeins hlut úr goðorði. Goðorðin voru 36 við stofnun Alþingis en var síðar fjölgað um þrjú og voru goðar eftir það 39. Stofnun Alþingis. Landnámsmenn gerðu sér fljótt grein fyrir því að einhvers skipulags væri þörf, ekki síst til að leysa úr deilumálum sem upp komu þegar landsmönnm fjölgaði og þrengdist um svigrúm. Þeir voru líka vanir þinghaldi úr heimalöndum sínum. Því komu staðbundin þing fljótlega til sögunnar og eru Kjalarnesþing í landnámi Ingólfs og Þórsnesþing á Snæfellsnesi talin elst, enda byggðust svæðin í kringum þau mjög snemma. Brátt sáu menn þó að heppilegast væri að hafa eitt þing fyrir allt landið og árið 930 var Alþingi stofnað sem löggjafarsamkunda og æðsti dómstóll Íslendinga. Er það talið elsta starfandi þing í heiminum í dag, þótt hlé hafi orðið á þinghaldi á 19. öld. Málverk af Alþingi við Þingvelli Alþingi var valinn staður á Þingvöllum við Öxará. Þingvellir lágu vel við samgöngum úr öllum landshlutum ein einnig kann það að hafa ráðið nokkru um staðarvalið að Þingvellir voru í landnámi Ingólfs; sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Sá sem fór með goðorð Ingólfs kallaðist allsherjargoði og hafði það hlutverk að helga þingið eða setja það og slíta því. Skipulag þingsins. Æðsta stofnun þingsins var lögrétta, sem setti ný lög, fjallaði um mál og nefndi menn í fimmtardóm, sem var eins konar yfirréttur, eftir að honum var komið á um 1005, en einnig störfuðu á þinginu fjórir fjórðungsdómar, einn fyrir hvern landsfjórðung. Í henni sátu 48 goðar (eða goðorðsmenn) á miðpalli og hafði hver þeirra tvo ráðgjafa, annar sat fyrir framan hann og hinn fyrir aftan, þannig að í raun sátu 146 menn í lögréttu. Lögsögumaður var æðsti og eini launaði embættismaður þingsins og var hann kosinn af lögréttu þriðja hvert ár. Hann stýrði fundum í lögréttu og sagði upp lög, átti að fara með þriðjung þeirra í heyranda hljóði fyrir þingheim á ári hverju þannig að þeir sem höfðu minni og námsgáfur til áttu að geta lært lögin á þremur árum. Lögin voru ekki til skrifuð, enda var ritöld ekki hafin, en fyrir stofnun alþingis höfðu Íslendingar sent mann sem Úlfljótur hét til Noregs til að kynna sér lög þar og sagði hann manna fyrstur upp lög á Þingvöllum. Þau voru sniðin eftir Gulaþingslögum í Noregi, enda munu flestir landnámsmenn hafa komið af því svæði. Þekkt eru nöfn allra lögsögumanna frá upphafi og þar til embættið var lagt niður 1271. Alþingi var framan af sett í 9. viku hvers sumars en eftir kristnitöku í 10. viku. Þangað komu jafnan mun fleiri en goðar og ráðgjafar þeirra og þeir sem þurftu að leggja mál í dóm, það var allsherjarsamkoma þar sem saman kom fólk úr öllum landshlutum í ýmsum erindum. Héraðsþingin héldu þó áfram sem undirdómstig og árið 965 var ákveðið að skipta landinu í fjórðunga. Þrjú héraðsþing eða vorþing voru í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi, þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða vegna þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað en raunar var Norðlendingafjórðungur fjölmennasti fjórðungurinn. Vorþingin voru haldin í maí ár hvert. Þegar goðar komu heim frá alþingi héldu þeir svo leiðarþing en þar voru eingöngu gefnar skýrslur um það sem gerst hafði á þinginu. Kristnitaka. Flestir landsnámsmanna voru ásatrúar en nokkrir kristnir og höfðu þeir flestir kynnst kristinni trú og látið skírast á Bretlandseyjum. Fæstir virðast þó hafa viðhaldið trú sinni lengi hér og enginn landnámsmanna reisti kirkju en ásatrúarmenn reistu víða hof og blótuðu þar. Samkvæmt heimildum var það Þorvarður Spak-Böðvarsson sem byggði fyrstu kirkjuna í Neðri-Ási í Hjaltadal um 984. Um svipað leyti sendi Haraldur blátönn saxneskan biskup, Friðrek að nafni, til Íslands til kristniboðs og var Skagfirðingurinn Þorvaldur víðförli með honum í för. Fleiri kristniboðar komu hingað á næstu árum og varð þeim nokkuð ágengt. Þekktastur þeirra var Þangbrandur. Honum tókst að kristna austfirska höfðingjann Síðu-Hall og aðra í kjölfarið, þar á meðal Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason. Ólafur Tryggvason Noregskonungur var mjög áhugasamur um að kristna Ísland — með góðu eða illu. Á Alþingi sumarið 1000 (þó líklega fremur árið 999 samkvæmt rannsóknum dr. Ólafíu Einarsdóttur) voru flokkar bæði kristinna manna undir forystu þeirra Gissurar og Hjalta og heiðinna fjölmennir og stefndi í vopnaviðskipti. Þó tókst að afstýra blóðsúthellingum og ákváðu Íslendingar að taka kristni að ráðum Þorgeirs ljósvetningagoða. Þessu voru þó að sögn settar þær undantekningar að Íslendingar máttu ennþá blóta leynilega, bera út börn og eta hrossakjöt, en hafi slíkar undantekningar verið gerðar í raun hurfu þær fljótt úr sögunni. Biskupsstólar og klaustur. Næstu árin voru hér ýmsir förubiskupar en árið 1056 var Ísleifur Gissurarson vígður biskup Íslands og Skálholtsstóll stofnaður. Árið 1096 eða 1097 fékk sonur hans, Gissur Ísleifsson, sem tók við af föður sínum, komið því fram að tíund var tekin upp en það var skattur á eignir Íslendinga sem skiptist í fernt. Fjórðung fengu prestar, fjórðung fengu kirkjur til viðhalds, fjórðungur rann til biskups og síðasti fjórðungurinn fór til þurftarmanna. Þar sem kirkjur voru yfirleitt á höfuðbólunum sem höfðingjar áttu og þeir voru margir vígðir menn og voru sjálfir prestar þýddi þetta að þeir fengu í raun helminginn af tíundinni. Stuðlaði það að auðsöfnun þeirra en átti eftir að valda miklum deilum síðar (Sjá Staðamálin). Norðurland var fjölmennasti landsfjórðungurinn og þótti Norðlendingum þeir afskiptir með biskup og vildu líka halda eftir innan fjórðungsins tekjum sem runnu til Skálholts. Árið 1106 var orðið við óskum þeirra og annar biskupsstóll stofnaður á Hólum í Hjaltadal. Fyrsti Hólabiskup var Jón Ögmundsson. Hann stofnaði þegar skóla á Hólum og efldi menntun en skóli var einnig í Skálholti, svo og í klaustrum og víðar, svo sem í Haukadal og Odda á Rangárvöllum. Fyrsta klaustrið var stofnað á Þingeyrum í Húnaþingi 1133 og var það munkaklaustur af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur (1155) og Hítardalsklaustur (1155), en það síðastnefnda var skammlíft. Þykkvabæjarklaustur (1168), Flateyjarklaustur (1172, flutt til Helgafells 1184), Viðeyjarklaustur (1226), Möðruvallaklaustur í Hörgárdal (1296) og Skriðuklaustur (1493) voru öll Ágústínusarklaustur. Nunnuklaustrin á Kirkjubæ (1186) og Reynistað (1295) voru bæði Benediktsklaustur. Klaustrin voru auk biskupsstólanna helstu menntasetur landsins og í sumum þeirra voru góð bókasöfn. Þar voru skrifaðar upp bækur og þegar leið á þjóðveldisöld fór þar fram umfangsmikil sagnaritun. Margar helstu gersemar íslenskra handrita eru skrifaðar í klaustrum. Lög þjóðveldisins. Með aukinni menntun hófst ritöld á Íslandi. Samkvæmt því sem Ari fróði segir rituðu Hafliði Másson og aðrir lögbókina Hafliðaskrá (sem innihélt m.a. Vígslóða) á heimili Hafliða á Breiðabólstað í Vesturhópi veturinn 1117-1118 og er það fyrsta fyrsta þekkta ritið á íslensku. Stuttu seinna var Íslendingabók Ara fróða rituð. Lagasafn þjóðveldisaldar kallaðist seinna Grágás en þar er ekki um eiginlega lögbók að ræða. Refsingar skiptust í þrjá flokka. Þessar refsingar kölluðust útlegð (fjársektir, misháar), fjörbaugsgarður (skylda til að fara til útlanda og vera þar í þrjú ár en vera réttdræpir ella, og var það séríslensk refsing) og skóggangur. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn voru í raun útskúfaðir úr þjóðfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist. Kirkjan hafði einnig yfir refsingum að ráða og gátu biskupar meðal annars bannfært menn. Eftirmæli. Því hefur verið haldið fram að þjóðveldið hafi verið trúarríki í þeirri merkingu að goðarnir, sem voru tenging almennings við löggjafann og dómskerfið, voru trúarleiðtogar í heiðni. Síðan við kristnitöku árið 1000 hafi þeir orðið prestar, eða kirkjujarðareigendur með presta á launum hjá sér. Þannig hafi frá upphafi á Íslandi verið samband ríkis og kirkju/ríkistrúar. Þjóðveldið hefur verið sumum Íslendingum fyrirmynd um gullaldarárin þegar þjóðin var sjálfstæð og var oft vísað til þess í sjálfsstæðisbaráttunni sem réttlæting fyrir endurreisn sjálfsstæðis og þjóðveldis íslensku þjóðarnnar. Einnig hefur það verið mörgum Anarkó-kapítalistum og frjálshyggjumönnum dæmi um það frjálsa samfélag sem kenningar þeirra geti leitt af sér þar sem þjóðveldið var (að minnsta kosti að nafninu til) laust við framkvæmdavald eða ríkisvald. Þjóðarlén. Þjóðarlén eru sá hluti rótarléna sem notuð eru af ríkjum, ósjálfstæðum ríkjum með heimastjórn og alþjóðasamtökum. Þjóðarlén eru tveir stafir sem taka langoftast mið af alpha-2 kóðanum í ISO 3166-1 staðlinum. 1664. Árið 1664 (MDCLXIV í rómverskum tölum) var 64. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1666. Árið 1666 (MDCLXVI í rómverskum tölum) var 66. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Árið var kallað "Annus Mirabilis" í Englandi. Þetta var líka árið sem hefur alla rómversku tölustafina í ártalinu í röð þannig að hver kemur fyrir einu sinni. 1667. Árið 1667 (MDCLXVII í rómverskum tölum) var 67. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Regluleg segð. Regluleg segð er segð sem lýsir streng eða mengi strengja með ákveðnum forsniðsreglum. Þær eru notaðar í hinum ýmsu forritunarmálum og textaritlum til að finna og breyta texta með kerfisbundnum hætti. Grunntegundir. Regluleg segð er oftast notað til að lýsa mengi strengja án þess að telja upp alla möguleika. Sem dæmi er hægt að lýsa strengjunum "Eyður" og "Eiður" með segðinni "E(i|y)ður". 1668. Árið 1668 (MDCLXVIII í rómverskum tölum) var 68. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Höll Jóhannesar 1. Eþíópíukeisara í Gondar. 1653. Árið 1653 (MDCLIII í rómverskum tölum) var 53. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1651. Árið 1651 (MDCLI í rómverskum tölum) var 51. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Vængjaðir húsarar hleypa gegn skyttuliði kósakka í orrustunni við Beresteczko. 1626. Árið 1626 (MDCXXVI í rómverskum tölum) var 26. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Péturskirkjan í Róm var vígð þetta ár. 1603. Árið 1603 (MDCIII í rómverskum tölum) var ár sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1604. Árið 1604 (MDCIV í rómverskum tölum) var hlaupár sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu, eða sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. Herluf Daa. Herluf Trolle Daa ("Herlegdáð") (1565 - 28. febrúar 1630) var hirðstjóri á Íslandi 1606 til 1619. Hann var af gamalli jóskri aðalsætt, en fæddist í Björgvin, sonur Jørgens Daa, höfuðsmanns, og Kirsten Beck. Herluf Daa varð aðmíráll undir Kristjáni IV. Tók þátt í Kalmarófriðnum 1611-1613 milli Danmerkur og Svíþjóðar. Lést skuldum vafinn, meðal annars vegna málareksturs hans gegn Oddi biskupi Einarssyni og fleirum. Í kjölfar þeirra mála var hann sviptur höfuðsmannstign árið 1619 og gert að greiða 3000 ríkisdali í bætur fyrir afglöp. Sektin var aldrei greidd, og þegar hann lést gekk ekkja hans frá búinu. 1616. Árið 1616 (MDCXVI í rómverskum tölum) var sextánda ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Verslunarhús Hollenska Austur-Indíafélagsins í Hirado. 1617. Árið 1617 (MDCXVII í rómverskum tölum) var sautjánda ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Gústaf Adolf 2. var formlega krýndur í Uppsölum þetta ár. 1614. Árið 1614 (MDCXIV í rómverskum tölum) var fjórtánda ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Kort af Nýja Hollandi sem byggir á leiðangri Adriaen Block 1614. 1629. Árið 1629 (MDCXXIX í rómverskum tölum) var 29. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Eftirmynd af skipinu "Batavia" í Hollandi. 1677. Árið 1677 (MDCLXXVII í rómverskum tölum) var 77. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1678. Árið 1678 (MDCLXXVIII í rómverskum tölum) var 78. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Úr "För pílagrímsins" (útgáfa frá 1778). Söguhetjan Kristinn fer í gegnum tágahliðið. 1628. Árið 1628 (MDCXXVIII í rómverskum tölum) var 28. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Útskorinn skutur og bakborðshlið Vasaskipsins. Flankastaðir. Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Sandgerði, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar. Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. Frá Flankastöðum hafa jafnan verið stundaðir útróðrar, eins og frá flestum öðrum jörðum er liggja að sjó. Flankastaðir eru næsti bær norðan Sandgerðis, en þaðan var líka mikið útræði. Útgerðin og góð fiskimið skammt undan í Miðnessjó hafa að líkindum verið aðalundirstaða lífsafkomu bænda á Flankastöðum. Þaðan var Magnús Þórarinsson, sem skrifaði bókina Frá Suðurnesjum og gaf út um miðja tuttugustu öld. Á Flankastöðum voru lengi haldnir vikivakar um miðsvetrarleytið og var þar dansað og sungið á meðan nokkur gat staðið. Að líkindum hafa veislur þessar oft verið svallsamar og voru prestar þeim mjög andvígir. Að lokum lagði Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi blátt bann við þeim. Nokkrum árum síðar fórst hann á leið að Kirkjuvogi í Höfnum til að syngja þar messu. Höfðu sóknarbörn hans á orði að þar hefndist honum fyrir að afleggja vikivakana á Flankastöðum. Uni danski. Uni danski var sonur Garðars Svavarssonar, þess er fann Ísland og nefndi Garðarshólma. Uni var einn landnámsmanna í Austfirðingafjórðungi og nam hann land við Héraðsflóa á milli Lagarfljóts og Unalækjar. Hann var sendimaður Haraldar hárfagra Noregskonungs og hafði gert við hann samkomulag um að koma Íslandi undir konung. Skyldi hann hljóta jarlstign að launum. Bændur fyrir austan komust að því hver áform Una voru og hröktu þeir hann þaðan. Flæmdist hann þá suður um land uns hann kom í Skógahverfi til Leiðólfs kappa. Leiðólfur átti dóttur er Þórunn hét og áttu þau vingott, hún og Uni. Uni hefur samt greinilega ekki viljað bindast henni, þó svo að honum stæði til boða allur arfur eftir Leiðólf, og stakk hann af og fór út á Suðurnes. Fór Leiðólfur á eftir honum og náði honum við Flankastaði á Miðnesi, þar sem þeir börðust og missti Uni nokkra menn. En Leiðólfur tók Una og fór með hann nauðugan austur aftur. Ekki undi Uni þar að heldur og stakk af öðru sinni. Reiddist þá Leiðólfur ógurlega og fór eftir honum og drap hann og förunauta hans alla við Kálfagrafir. Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði, sem erfði Leiðólf afa sinn. Hróar var mágur Gunnars á Hlíðarenda, giftur Arngunni Hámundardóttur, og bjuggu þau í Skaftártungu. Sonur þeirra var Hámundur halti og var hann mikill vígamaður að sögn Landnámu. Uni var fyrstur manna til að gera tilraun til þess að koma Íslandi undir Noregskonung. Þó að sú tilraun mistækist, linnti slíkum tilraunum aldrei fyrr en Hákon gamli og Magnús sonur hans höfðu heppnina með sér 1262. Gerðu þeir samning við landsmenn, er nefndur var Gamli sáttmáli og var hann staðfestur 1264. Þorkell Arngrímsson. Þorkell Arngrímsson (1629 - 15. desember 1677) er líklega fyrsti Íslendingurinn sem lærði læknisfræði við háskóla. Hann var sonur Arngríms lærða og Sigríðar Bjarnadóttur. Hann lærði í Hólaskóla og síðan guðfræði, náttúrufræði og jarðfræði í Kaupmannahafnarháskóla undir handleiðslu Ole Worm. Var einnig við nám í Leyden og Amsterdam í Hollandi. 1654-56 var hann í Noregi hjá Jørgen Bjelke hirðstjóra í Þrándheimi, bróður Henriks Bjelke höfuðsmanns, og lagði þar stund á lækningar og námarannsóknir. 1658 fékk hann Garða á Álftanesi, tók við þeim 18. desember og hélt til æviloka. Giftist Margréti Þorsteinsdóttur árið 1660 og áttu þau m.a. synina Þórð Þorkelsson Vídalín, rektor og lækni, og Jón Vídalín biskup. Verk. Þorkell hélt nokkuð nákvæmt og afar merkilegt yfirlit yfir læknisverk sín og samdi að auki lækningabók. Hann þýddi bók Thomas à Kempis, "Eftirbreytni Krists" ("De Imitatione Christi") sem prentuð var á Hólum árið 1676. Hann átti í miklum bréfaskriftum við Ole Worm. Sjúkraflutningar. Sjúkraflutningar eru stundaðir af sjúkraflutningamönnum. Í sjúkraflutningum felst að koma að sjúklingum utan heilbrigðisstofnanna, meta ástand þeirra, veita bráðasjúkraþjónustu ef með þarf og flytja þá á sjúkrahús eða að frekari læknishjálp. Sjúkraflutningar eru til í ýmsum myndum úti um allan heim. Mjög algengt rekstarform er að slökkvilið á hverjum stað sjái um sjúkraflutninga, en það er jafnframt algengasta rekstarformið hérlendis. Einnig þekkist það erlendis, að sérstakar sjúkraflutningaþjónustur séu reknar, en þær geta verið af ýmsum toga, sjúkrabílar, þyrlur o.s.frv. Á Íslandi eru sjúkraflutningar á ábyrgð Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem síðan gerir samning við rekstraraðila á hverjum stað um starfsemina. Í gildi er samningur milli ríkis og Rauða kross Íslands um rekstur allra sjúkrabifreiða. Í Vestmannaeyjum og Vopnafirði er reksturinn á höndum lögreglu, heilbrigðisstofnanna á hverjum stað eða slökkviliðs. Sjúkraflug er víðast hvar starfrækt með svipuðum hætti, en mannað af rekstraraðilum sjúkraflutninga á hverjum stað. Landhelgisgæslan annast bráðasjúkraflutninga í þyrlum sínum þar sem þarf, en vegna peningaörðugleika Landhelgisgæslu er reynt að stilla slíkum flutningum í hóf. Sjúkraflutningamenn. Sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstétt sem, á Íslandi, starfar á eigin faglegri ábyrgð við sjúkraflutninga hjá viðurkenndum rekstraraðila. Menntun sjúkraflutningamanna skiptist í nokkur stig. Hér verður aðeins rætt um þau stig sem eru í notkun hér á landi, en þau eru byggð á bandarískum stöðlum. Á Íslandi sér Sjúkraflutningaskólinn um menntun sjúkraflutningamanna. Auk þessara stiga sækja sjúkraflutningamenn mörg sérhæfð námskeið á borð við sjúkraflutninga í óbyggðum ("Wilderness EMT"), sérnám í bráðaþjónustu við börn ("Pediatric Education for Pre-hospital Professionals", PEPP) o.m.fl. Stéttarfélag sjúkraflutningamanna er Landssamband Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hjá "stóru" sjúkraflutningaaðilunum, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Slökkviliði Akureyrar, eru flestir sjúkrabílar mannaðir einum neyðarbílsmanni/bráðatækni og einum með a.m.k. grunnmenntun sjúkraflutningamanna. Annars staðar er þetta mismunandi, en mikil áhersla hefur verið lögð á menntun sjúkraflutningamanna á síðustu árum, og mun sú vinna væntanlega halda áfram. Víða eru læknar með í neyðarflutningum. Oddur Einarsson. Oddur Einarsson (31. ágúst 1559 – 28. desember 1630) var biskup í Skálholti frá 1589. Hann var elsti sonur séra Einars Sigurðssonar, prests og sálmaskálds í Nesi í Aðaldal, og fyrri konu hans, Margrétar Helgadóttur. Æviferill. Úraníuborg. Þangað kom Oddur á námsárum sínum í Danmörku. Þegar Oddur fæddist var faðir hans aðstoðarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal og fæddist Oddur í Möðruvallaseli. Síðar varð Einar prestur í Mývatnsþingum og svo í Nesi 1565. Skömmu síðar dó Margrét en Einar giftist aftur Ólöfu Þórarinsdóttur. Þau voru fátæk og áttu fjölda barna en þó komust bæði Oddur og Sigurður albróðir hans í Hólaskóla. Oddur fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla árið 1583 og var þar til 1585. Hann hafði áhuga á stærðfræði og stjörnufræði og 2. mars 1585 er meðal annars getið um komu hans til eyjunnar Hveðnar og í Úraníuborg, hús stjörnufræðingsins fræga, Tycho Brahe, en ekki er vitað hve lengi hann dvaldist þar. Eftir heimkomuna varð Oddur skólameistari við Hólaskóla í tvö ár. Vorið 1588 sendi Guðbrandur Hólabiskup hann til Alþingis með tillögur sínar varðandi biskupskjör í Skálholtsbiskupsdæmi þar sem hann mælti með Oddi án þess að nefna hann á nafn. Þar notaði hann meðal annars þau rök að Oddur væri mikill lærdómsmaður. Oddur var kosinn á þinginu, fór til Danmerkur um haustið, dvaldi þar um veturinn og var vígður vorið eftir, þrítugur að aldri. Fjölskylda Odds var fátæk og strax á fyrsta ári tók hann föður sinn, stjúpmóður og systkini sín mörg til sín í Skálholt. Síðan fékk hann föður sínum Eydali í Breiðdal, eitt besta prestakall landsins, og gerði hann að prófasti þar. Sem biskup þótti Oddur siðavandur og amaðist meðal annars við smalabúsreiðum, vikivökum og hestaati á helgidögum og hefur í þessu verið sammála samtíðarmönnum sínum Guðbrandi Þorlákssyni og Arngrími lærða sem allir voru undir áhrifum frá húmanisma og töldu siðmenningu skorta á Íslandi. Á prestastefnu Odds biskups á Kýraugastöðum í Rangárþingi árið 1592 var gerð svonefnd Kýraugastaðasamþykkt þar sem „heiðinglegar“ skemmtanir eru fordæmdar, og hótað er að svipta altarissakramenti þá sem leggja stund á hvers kyns galdur, líka hvítagaldur í lækningaskyni. Sonarsonur Odds lýsir honum þannig í Fitjaannál: „Hann var hálærður maður, vitur, hógvær, guðhræddur og góðlyndur, litillátur og gustukagjarn, kom mörgum til góðrar menningar.“ Á síðasta ári Odds brann Skálholtsstaður til kaldra kola, og þar með fjöldi merkra handrita og allt annað innbú. Ári eftir lát hans var Gísli sonur hans og aðstoðarmaður frá 1629 kjörinn biskup í Skálholti. Ritstörf Odds. Oddur var vel menntaður, fræðimaður og er meðal annars talinn hafa verið fyrstur til að safna íslenskum handritum, en það safn brann að hluta í eldsvoða í Skálholti árið 1630. Árni Magnússon eignaðist seinna leifarnar af handritasafni Odds. Oddur skrifaði ýmis rit, meðal annars um Skálholtsbiskupa, um Jón Arason biskup og fleira, og hann lét eftir sig ýmsar þýðingar þótt fátt eitt af ritum hans væri prentað. Hann hvatti líka aðra til skrifta og það var fyrir tilstilli hans að Jón Egilsson skrifaði Biskupaannál. Oddi er eignuð Íslandslýsing ("Qualiscunque descriptio Islandiae") sem fannst í byrjun 20. aldar í ríkisbókasafni Hamborgar. Vitað var að hann skrifaði slíka lýsingu og að hún var til í handriti í safni Árna Magnússonar, en hún var talin glötuð þar til Jakob Benediktsson færði rök fyrir því að þessi tiltekni texti væri eftir Odd. Sveinn Pálsson þýddi textann á íslensku og fyrir útgáfu 1971. Ástæða þess að ritið kom aldrei út á prenti á sínum tíma hefur líklega verið sú að "Brevis Commentarius" Arngríms lærða kom út árið 1597, en tilgangur Íslandslýsingar Odds var hliðstæður tilgangi Arngríms. Fjölskylda. Kona Odds, sem hann giftit 1591, var Helga Jónsdóttir (1567 – 23. október 1662), dóttir Jóns Björnssonar sýslumanns á Holtastöðum í Langadal og Grund í Eyjafirði, sonar Björns Jónssonar prests á Melstað. Hún þótti nokkuð aðsjál og var sagt að hún hefði látið brytann í Skálholti höggva af náttúrulegan steinboga sem var á Brúará til að losna við ágang förufólks. Á meðal barna þeirra voru Árni lögmaður, Gísli biskup og Eiríkur bóndi á Fitjum í Skorradal, sem kallaður var Eiríkur heimski af því að hann vildi ekki læra til prests, faðir Eiríks Oddssonar, höfundar "Fitjaannáls". Áður en Oddur kvæntist átti hann tvær dætur í lausaleik. Slackware. Slackware er ein elsta Linux útgáfan, stýrikerfið Red hat er byggt á henni. Álftanes. Álftanes er nes á suðvesturlandi. Nesið liggur til norðvesturs á milli Hafnarfjarðar að sunnan og Skerjafjarðar að norðan. Nesið er láglent og á því allnokkurt hraun, Gálgahraun. Á nesinu er vaxandi byggð. Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Á Bessastöðum er aðsetur forseta Íslands. Garðar eru kirkjustaður og fyrrum prestssetur. Í Gálgahrauni mun hafa verið aftökustaður sakamanna fyrrum. Yst á Álftanesi er Skansinn, en þar var byggt vígi til varnar konungsgarðinum á Bessastöðum ef sjóræningjar skyldu leggja þangað leið sína. Nesið skiptist áður á milli tveggja sveitarfélaga, utanvert var sveitarfélagið Álftanes (áður Bessastaðahreppur) en innri hlutinn tilheyrði Garðabæ. Samhliða þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs þann 20. október 2012, fór fram íbúakosning í Garðabæ og sveitarfélaginu Álftanesi og var sameining þeirra í eitt sveitarfélag samþykkt. Hið nýja sveitarfélag heitir Garðabær en um það hafði verið samið fyrir kosningarnar. Logi Bergmann Eiðsson. Logi Bergmann Eiðsson (fæddur 2. desember 1966) er sjónvarpsfréttamaður á Stöð 2 en hann hóf fréttamannaferil sinn sem íþróttafréttamaður á Ríkisútvarpinu. Hann gegndi stöðu spyrils í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, á árunum 1999 - 2005. Hann gekk að eiga Svanhildi Hólm Valsdóttur, sjónvarpskonu, 16. júní 2005. Logi hefur sungið lagið "Run to the Hills" með hljómsveitinni Iron Maiden á tónleikum á Spáni fyrir framan 15.000 áhorfendur. Madrid. Madrid er höfuðborg Spánar. Íbúar borgarinnar sjálfrar voru um 3 milljónir árið 2003 en með útborgum er íbúafjöldinn um 5,6 milljónir. Borgin er einnig höfuðborg samnefnds héraðs. Madrid, sem er stærsta borg Spánar, liggur inni í miðju landi á víðáttumikilli sléttu. Borgin hefur verið höfuðborg frá því á 16. öld og á síðari tímum hefur hún verið mikilvæg miðstöð verslunar og iðnaðar. Í hjarta Madrid er torgið Puerta del Sol og út frá því liggja allar aðalgötur borgarinnar. Nýrri borgarhverfi eru í austurhlutanum. Höskuldur Þráinsson. Höskuldur Þráinsson Hvítanessgoði var sonur Þráins Sigfússonar og Þorgerðar Glúmsdóttur á Grjótá í Fljótshlíð. Telja má hann fæddan nálægt 980 til 985 og dáinn um vorið 1010. Hann var bóndi og goði í Ossabæ í Austur-Landeyjum, kona hans var Hildigunnur Starkaðardóttir frá Svínafelli, bróðurdóttir Flosa Þórðarsonar, goða á Svínafelli. Höskuldur hét eftir langafa sínum, Höskuldi Dala-Kollssyni á Höskuldsstöðum í Laxárdal, sem dó skömmu áður en hann fæddist, og réð Hallgerður langbrók, amma hans, nafninu. Þegar Höskuldur var barn að aldri drap Skarphéðinn Njálsson Þráin föður hans, við Markarfljót, eftir að hafa stokkið frægasta langstökk Íslandssögunnar yfir ál Markarfljóts á milli höfuðísa. Eftir það var hann í fóstri um hríð hjá föðurbróður sínum, Katli Sigfússyni í Mörk undir Eyjafjöllum og konu hans, Þorgerði Njálsdóttur frá Bergþórshvoli. Hét þá Ketill því að hann skyldi annast hann eins og sinn eigin son og hefna hans ef hann yrði veginn. Er hann var líklega um 10-12 ára aldur bauð Njáll honum til fósturs með sér á Bergþórshvoli og óx hann þar upp við mikið ástríki Njáls og sona hans. Njáll kenndi honum lög og gerði hann að goða til þess að útvega honum göfugt gjaforð. Mikill samgangur var á milli Höskuldar og Njálssona eftir að Höskuldur fór að búa í Ossabæ og fór vel á með þeim uns rógtungan Mörður Valgarðsson sáði ósætti á milli þeirra, sem varð til þess að Njálssynir, Kári og Mörður sjálfur fóru að Höskuldi og drápu hann er hann vann að sáningu um vorið. Hildigunnur, ekkja Höskuldar, tók skikkjuna sem hann var í og geymdi, þar til Flosi kom að austan. Þá lét hún búa honum öndvegi og steypti síðan yfir hann blóðugri skikkjunni. Þar með var blóð Höskuldar komið yfir hann og hann gat ekki skorast undan því að hefna drápsins. Leiddi þetta til Njálsbrennu. Ketill í Mörk, tengdasonur Njáls, var einn brennumanna vegna heitsins sem hann hafði unnið, að hefna Höskuldar ef hann yrði veginn. Sachsenring Trabant. Merki Sachsenring-verksmiðjanna sem framleiddu Trabant Trabant er heiti á bíltegund sem var framleidd í Austur-Þýskalandi af Sachsenring-verksmiðjunum. Fyrsta útgáfan af Trabant, Trabant 50 var upphaflega hönnuð sem þriggja hjóla skellinaðra með húsi á en í lok þróunarferilsins varð Trabant breytt fjögurra hjóla bíl. Undir vélarhlífinni var lítil, tveggja strokka vél, sem í raun voru tvær sambyggðar vélar af svipaðri gerð og er í garðsláttuvélum og skellinöðrum. Vélin var loftkæld og smurolían var sett í bensínið. Undir lok framleiðslunnar á fyrri hluta 10. áratugarins skilaði hún 25 hestöflum (19 kW) og hafði 594,5 cc rúmtak en það skilaði 112 km hámarkshraða en hann komst upp í 100 km hraða á 21 sekúndu. Trabant var fluttur inn af Ingvari Helgasyni frá Danmörku. 1637. Árið 1637 (MDCXXXVII í rómverskum tölum) var 37. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1638. Árið 1638 (MDCXXXVIII í rómverskum tölum) var 38. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1640. Árið 1640 (MDCXL í rómverskum tölum) var 40. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Jóhann 4. hylltur sem konungur Portúgals. 1698. Árið 1698 (MDCXCVIII í rómverskum tölum) var 98. ár 17. aldar. Það hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1699. Árið 1699 (MDCXCIX í rómverskum tölum) var 99. ár 17. aldar. Það hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1646. Árið 1646 (MDCXLVI í rómverskum tölum) var 46. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> neyddist til að segja af sér vegna veikinda. 1621. Árið 1621 (MDCXXI í rómverskum tölum) var 21. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Frederik Friis. Frederik Friis, "Friðrik Friis" (1591-1619) varð höfuðsmaður á Íslandi árið 1619, eftir að Herluf Daa hafði verið sviptur því embætti vegna afglapa. Hann varð sjúkur á leið til landsins og lést þremur dögum eftir komuna. Frederik Friis var skráður nemandi í lögfræði við háskólann í Padúa árið 1612. Hann var annar umboðsdómara (hinn var Jørgen Vind) sem konungur hafði sent hingað til að rannsaka embættisfærslu Herlufs Daa árið áður. Richard Stallman. Richard Matthew Stallman (fæddur 16. mars 1953) er best þekktur sem stofnandi Frjálsu hugbúnaðarsamtakanna (the Free Software Foundation) og fyrir að hafa ýtt GNU verkefninu af stokkunum árið 1984. Hann kom til Íslands í janúar 2005 og hélt fyrirlestur í sal Kennaraháskóla Íslands dagana 10. og 11. janúar á vegum RGLUG (Reykjavík GNU/Linux user group). Hann kom einnig til Íslands í nóvember 2012 og hélt erindi um höfundarrétt í Háskóla Reykjavíkur. Holger Rosenkrantz. Holger Rosenkrantz, "Holgeir Rósinkrans" (d. í febrúar 1658) var danskur sjóliðsforingi sem var hirðstjóri á Íslandi 1620 til 1633. Rosenkrantz var frá Ørup á Skáni. Hann gekk ungur í danska sjóherinn og varð kapteinn árið 1610. Árið 1616 stýrði hann flaggskipinu í leiðangri Jørgen Daa gegn sjóræningjum á Eystrasalti. Hann var gerður hirðstjóri á Íslandi 1620. Hann var áfram í sjóhernum og stýrði meðal annars skipinu Justitia í orrustunni við Hamborgara 1630, sem háð var á Saxelfi. en var þó oft á Íslandi. Hann var á Bessastöðum þegar Tyrkjaránið var framið árið 1627 og hlaut nokkurt ámæli fyrir aðgerðarleysi þegar annað skip ræningjanna strandaði á skeri og fannst ýmsum að hann hefði þá átt að neyta færis og ráðast að þeim á meðan þeir fluttu varning og fanga yfir í hitt skipið. Rosenkrantz var þó ekki með öllu aðgerðarlaus og lét gera virki á Bessastöðum til að verjast ræningjunum og safnaði liði. „En hófuðsmaður með sínum þénurum og mörgum Islenzkum í stórum látúnssöðlum á landi riðu til umsjónar og aðgætni með löngum stöngum, svo sem hertygjað fólki væri að sjá, þá sólin á söðulbryggjurnar skein,“ segir Jón Ólafsson Indíafari í ævisögu sinni en hann var þá í þjónustu höfuðsmanns Árið 1633 lét hann af hirðstjórn á Íslandi en fékk Gotland í staðinn og hætti þá í sjóhernum. 1645 misstu Danir Gotland í friðarsamningum við Svía og fékk hann þá Stafangurslén í Noregi og hélt því til 1648. Þá flutti hann til Frøllinge á Hallandi, sem hann hafði fengið með konu sinni, Vibeke Thott, og átti þar heima síðustu tíu árin. Hann var einn af fulltrúum skánska aðalsins á stéttaþingi í Kaupmannahöfn 1650. Pros Mund. Pros Mund, "Pros Mundt" (um 1589 – 13. október 1644) var danskur aðalsmaður, sonur Niels Sørensen Mund, sem líklega var frá Mecklenburg, og Inger Prosdatter frá Eiðangri á Þelamörk í Noregi. Kona hans hét Edel Urne og eignuðust þau soninn Johan Mund. Pros Mund tók þátt í sjóorrustunni við Hamborg 1630 til að reka Hansasambandið frá Lukkuborg. Hann var hirðstjóri á Íslandi 1633-1644. Hann varð varaaðmíráll í Torstensonófriðnum árið 1644 og barðist við Lister Dyb og Kolberger Heide þar sem Danir unnu frægan sigur. Hann fór með sautján skip gegn sameinuðum flota Svía og Hollendinga við Láland 13. október 1644 og missti þar fjórtán skip og týndi lífinu. Enevold Kruse. Enevold Kruse (d. 1626) var danskur aðalsmaður og hirðstjóri á Íslandi frá 1601 til 1606. Hann var yfirliðþjálfi hjá Kristjáni IV og féll í orrustunni við Lutter am Barenberg 27. ágúst árið 1626. Kruse, Enevold Hirðstjórar á Íslandi. Framan af, það er að segja frá 13. öld og fram á miðja 15. öld, er oft mjög torvelt að greina hverjir voru eiginlegir hirðstjórar og hverjir umboðsmennn hirðstjóra eða fógetar, svo og hvort menn höfðu hirðstjórn yfir allt landið eða aðeins helming þess eða einstaka fjórðunga. Ketill Þorláksson er fyrsti maðurinn sem kallaður er hirðstjóri í konungsbréfi og á honum hefst Hirðstjóraannáll Jóns Halldórssonar í Hítardal. Á undan honum höfðu ýmsir menn verið umboðsmenn konungs á Íslandi en óvíst er hvaða embættistitla þeir báru þótt hefð sé fyrir því að telja Hrafn Oddsson og Orm Ormsson fyrstu hirðstjórana. Á 16. og 17. öld var hirðstjóri (höfuðsmaður) venjulega sjóliðsforingi eða aðmíráll í danska flotanum án fastrar búsetu á Íslandi. Í fjarveru höfuðsmannsins var hlutverkinu sinnt af fógeta. Menntaskólinn við Sund. Menntaskólinn við Sund er bóknámsskóli með bekkjarkerfi og býður nám til stúdentsprófs. Hjördís Þóra Rúnarsdóttir er besti nemandi sem að Menntaskólinn við Sund hefur haft frá upphafi. Nemendur eru saman í bekk í langflestum námsgreinum. Það er markmið skólans að bjóða nemendum aðeins það besta, góða þjónustu og fyrsta flokks nám óháð því á hvaða námsbraut þeir eru. Þá leggur skólinn sérstaka áherslu á að vera í fremstu röð hvað varðar náttúrufræðikennslu.. Þessum markmiðum sínum ætlar skólinn að ná með því að virkja frumkvæði nemenda og starfsmanna, með því að leggja áherslu á góða kennslu og fjölbreytilega kennsluhætti, nýtingu upplýsingatækni í kennslu, góðan tækjakost, samvinnu við fyrirtæki og stofnanir og símenntun starfsmanna sinna. Stofnun skólans. Þegar skólinn var stofnsettur árið 1969 voru einungis fjórir framhaldsskólar fyrir á höfuðborgarsvæðinu, MR, MH, Verzlunarskólinn og Iðnskólinn í Reykjavík. Hinn yngsti þeirra, MH, hafði tekið til starfa árið 1966 og vegna sívaxandi sóknar í framhaldsnám var nú nauðsynlegt að stofna nýjan framhaldsskóla. Skólinn var fyrst til húsa í gamla miðbæjarskólanum og var nefndur Menntaskólinn við Tjörnina. Var skólinn rekinn sem útibú frá MR í upphafi og var sameiginlegur rektor yfir skólunum. Árið 1973 flutti skólinn í Gnoðarvoginn og var nafninu breytt í Menntaskólinn við Sund. Nemendur við skólann eru 780 í 33 bekkjum. Húsnæðismál. Húsnæði Miðbæjarskólans þótti óhentugt að mörgu leyti. Umferðargnýr, þrengsli og kuldi gerðu nemendum og kennurum oft lífið leitt. Þrátt fyrir þetta varð skólalífið mjög blómlegt frá fyrstu tíð. Góður andi ríkti og athafnasemi nemenda í félagslífinu var með eindæmum. Hafin var útgáfa skólablaðs (Andríki; níu tölublöð skólaárið 1971-72), stofnaður kór 1972 undir stjórn eins af nemendum skólans, Snorra Sigfúsar Birgissonar, og sama ár var færð upp fyrsta leiksýning nemenda. Nemendafjöldi jókst mjög strax á fyrstu árunum. Haustið 1971 voru þeir orðnir 541 og varð að grípa til þess ráðs að tvísetja skólann. Árið 1972 fékk skólinn fyrirheit ráðamanna um nýtt skólahúsnæði og var honum tryggð lóð ofarlega í Laugardal (skammt fyrir vestan Glæsibæ). Draumurinn um nýja skólann varð sem kunnugt er aldrei að veruleika. Þó voru mál komin á það stig 1973 að skipuð hafði verið byggingarnefnd skólans, ráðinn arkitekt og veittar 2 milljónir króna á fjárlögum til undirbúnings verksins. Hinn 30. maí 1973 voru fyrstu stúdentarnir útskrifaðir frá skólanum, 159 að tölu. Athöfnin fór fram í Háskólabíói og var það svo fram til ársins 2003 en síðan þá hafa útskriftir farið fram í Borgarleikhúsinu. Árið 1974 var tekin sú ákvörðun að hætta við nýbyggingaráform skólans. Þess í stað var honum útvegað húsnæði í Vogaskóla. Um haustið fékkst hluti hans til afnota. Hélst sú skipan allt til vorsins 1976 að skólinn var starfræktur á tveimur stöðum, en þá var gamli Miðbæjarskólinn endanlega kvaddur og öll starfsemin flutt í núverandi húsnæði. Við flutninginn stórbatnaði öll aðstaða nemenda og kennara. Til dæmis var bókasafn sett á stofn, kennarar fengu vinnuherbergi, nemendur samkomusalinn Skálholt (1977) og kaffistofuna Kattholt (1978). Þó að skólinn væri ekki lengur við Tjörnina hélt hann enn um sinn upprunalegu nafni sínu. Eftir miklar vangaveltur tók þáverandi menntamálaráðherra, Vilhjálmur Hjálmarsson, af skarið, kvað upp úrskurð sinn og tilkynnti við skólaslit vorið 1977 að skólinn skyldi eftirleiðis heita Menntaskólinn við Sund. Árið 1988 lét skólinn reisa listaverkið „Blómgun“ eftir Sigurjón Ólafsson á lóð skólans. Fékkst til þess styrkur úr listskreytingarsjóði. Stjórnendur. Frá byrjun skólaárs 1970-1971 varð MT sjálfstæð stofnun og skipaður var rektor við skólann, Björn Bjarnason, sem gegndi því starfi til vorsins 1987. Árið 1970 var tekið upp annakerfi í skólanum, skólaárinu skipt í tvö námstímabil, haustönn og vorönn. Hefur sú skipan haldist síðan. Haustið 1975 var Þór Vigfússon ráðinn fyrsti konrektor skólans. Haustið 1978 lét Þór af þessu starfi og tók þá við því Sigurður Ragnarsson. Gegndi hann starfi konrektors til loka skólaárs 1986-87 en tók við sem rektor sumarið 1987 er Björn Bjarnason lét af embætti. Frá sama tíma var Pétur Rasmussen ráðinn konrektor. Sumarið 1996 hætti Sigurður Ragnarsson störfum sem rektor og Eiríkur G. Guðmundsson tók við. Eiríkur lét af störfum snemma árs 2001 en þá tók við núverandi rektor, Már Vilhjálmsson. Pétur Rasmussen hætti sem konrektor sumarið 2002 og Hjördís Þorgeirsdóttir tók við. Frá upphafi skólaárs 1990-91 var stofnað embætti kennslustjóra við skólan sem Sigurrós Erlingsdóttir gegnir í dag. Árið 1974 fékk skólinn Ólafsdal við Gilsfjörð til afnota sem skólasel. Um árabil voru Ólafsdalsferðir vinsæll þáttur í skólastarfinu en eru nú aflagðar og húsnæðið afhent Landbúnaðarráðuneytinu að nýju. Félagslíf. Félagslíf nemenda við skólann hefur alla tíð verið blómlegt. Hafa ýmsar athafnir nemenda orðið að fastri hefð í skólalífinu og ber þar líklega hæst Busadaginn,85 ball skólans, Fardag og Tirnu. Busl hefur tíðkast frá fyrstu tíð þegar annarsbekkingar haustið 1970 báru Tjarnarvatn í ámu inn í skólaportið og skírðu þar busa með niðurdýfingu. Fyrstu stúdentarnir (1973) kvöddu skólann með mikilli hátíð síðasta kennsludag sem þeir nefndu Fardag. Hefur sá dagur verið með líkum hætti síðan. Einnig hafa allir stúdentahópar gefið út bókina Tirnu (Tirna — sbr. Tjörn). Skólafélagið gefur einnig út tímaritið Steingerði sem nefnt er eftir ömmu Andra Snæs Magnasonar, fyrsta ritstjóra hennar. Leikfélag MS heitir Thalía og setur það upp árleg leikverk, núna í ár Aladdín, síðast leikritið Söngleikurinn Harry potter og myrkiherrann og árið á undan var sett fram söngleikurinn Stjörnustríð MS hefur unnið bæði Morfís (1989 og 2010) og Gettu betur (1990). Ármann Jakobsson. Ármann Jakobsson (f. 18. júlí 1970) er prófessor í íslensku og rithöfundur. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum við Sund árið 1990, lauk svo BA-prófi frá Háskóla Íslands 1993 og MA-prófi 1996. Lauk svo doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku-og menningardeild Háskóla Íslands. Systir hans Katrín Jakobsdóttir er menntamálaráðherra. Á menntaskólaárum sínum komst hann ásamt tvíburabróður sínum Sverri þrisvar í úrslit í Gettu betur og sigraði í þeirri keppni 1990. Árið 1989 var hann í ræðuliði skólans sem sigraði í Morfís-ræðukeppninni. Árið 2001 var Ármann dómari í Gettu betur. Ármann hefur sent frá sér tvær skáldsögur, Vonarstræti árið 2008 og Glæsi árið 2011, en í hinni síðarnefndu er efniviðurinn sóttur í Íslendingasöguna Eyrbyggju. Ármann hefur sérhæft sig í miðaldabókmenntum og ásamt fræðiskrifum og fræðistörfum var hann kennari við Menntaskólann í Reykjavík 2002-2008. Um vorið 2011 kom út í ritröðinni Íslenzk fornrit hjá Hinu íslenska fornritafélagi konungasagnaritið Morkinskinna í tveimur bindum en Ármann sá um útgáfuna ásamt Þórði Inga Guðjónssyni. Hornvík. Hornvík milli Hælavíkurbjargs og Hornbjargs Hornvík er íslensk vík á Hornströndum sem liggur á milli Hælavíkurbjargs og Hornbjargs. Áður voru þar 3 bæir, Horn, Höfn (í eyði 1946) og Rekavík (í eyði 1945). Við Höfn í Hornvík er nú þjónustuhús landvarðar á Hornströndum. Landvörður er Jón Björnsson, kennari frá Ísafirði. Hirðstjóri. Hirðstjóri, "merkismaður", "höfuðsmaður" (einkum eftir miðja 16. öld) (da: "lensmand", "befalingsmand") var titill umboðsmanns konungs á Íslandi frá Gamla sáttmála til ársins 1683 þegar landinu var skipaður stiftamtmaður. Hirðstjóri tók landið að léni og greiddi fyrir ákveðna upphæð fram til loka 14. aldar þegar þeir fengu ákveðinn hluta konungstekna af landinu. Til að byrja með var hirðstjóri fremstur umboðsmanna eða hirðar konungs (þ.e. sýslumanna) og sá sem varðveitti innsigli hans (sbr. "merkismaður"). Oftast var einn hirðstjóri skipaður fyrir allt landið, en líka stundum tveir; "norðan og vestan" og "sunnan og austan". Eitt skipti (1357) voru fjórir hirðstjórar skipaðir; einn fyrir hvern fjórðung. Hlutverk. Hlutverk hirðstjóra var að hafa eftirlit með sýslumönnum, lesa konungsbréf á Alþingi þar sem hann sat í öndvegi, annast landvarnir, hafa eftirlit með verslun, nefna dóma í stærri málum, staðfesta dóma Lögréttu sem höfðu lagagildi, veita sýslur, skattheimta og hafa umsjón með eignum konungs. Þegar yfirdómur var stofnaður 1593 var það hlutverk hirðstjóra að nefna 24 menn í hann. Saga embættisins. Fyrstu hirðstjórar á Íslandi voru höfðingjarnir Ormur Ormsson og Hrafn Oddsson. Sá síðasti var Henrik Bjelke, ríkisaðmíráll. Eftir lát hans var embættið lagt niður. Til að byrja með var embættið veitt til þriggja ára. Íslendingar gerðu kröfu um að hirðstjóri væri íslenskur og samþykktur af Lögréttu og var því yfirleitt fylgt fram á miðja 15. öld. Íslenskir hirðstjórar sátu á heimili sínu, en erlendir á Bessastöðum. Á 14. öld fóru hirðstjórar oft með sýsluvöld. Á 16. og 17. öld var hirðstjóri venjulega sjóliðsforingi eða aðmíráll í danska flotanum (sbr. "höfuðsmaður"), án fastrar búsetu á Íslandi. Í fjarveru þeirra var hlutverkinu sinnt af fógeta. Fógeti. Fógeti ("fóviti, fóveti") var titill umboðsmanns hirðstjóra á Íslandi. Eftir að hirðstjórar urðu erlendir sjóliðsforingjar, voru þeir oft langdvölum frá landinu og sinnti fógeti þá skyldum þeirra. Stundum voru sýslumenn nefndir "fógetar" á 16. öld. Fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra er sá ráðherra í ríkisstjórn sem hefur fjármál ríkisins á sinni könnu. Valdsvið embættisins er mismunandi eftir löndum en felur oft í sér að hafa umsjón með gerð fjárlaga og leggja á, breyta eða afnema skatta. 1622. Árið 1622 (MDCXXII í rómverskum tölum) var 22. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Tréskurðarmynd frá 1628 af blóðbaðinu í Jamestown. 1623. Árið 1623 (MDCXXIII í rómverskum tölum) var 23. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> neyddist til að flýja í útlegð. 1676. Árið 1676 (MDCLXXVI í rómverskum tölum) var 76. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> til að myrða ættingja og keppninauta. Hún var brennd fyrir galdra 1680. 1686. Árið 1686 (MDCLXXXVI í rómverskum tölum) var 86. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Veggmálverk af frelsun Búda 1686. 1696. Árið 1696 (MDCXCVI í rómverskum tölum) var 96. ár 17. aldar. Það var hlaupár sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Pétur mikli varð einn keisari Rússlands við lát hálfbróður síns, Ívans 5. 1694. Árið 1694 (MDCXCIV í rómverskum tölum) var 94. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> var fyrsti bankastjóri Englandsbanka 1694-1697. 1644. Árið 1644 (MDCXLIV í rómverskum tölum) var 44. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. "Orrustan við Marston Moor" eftir J. Baker. 1681. Árið 1681 (MDCLXXXI í rómverskum tölum) var 81. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Fyrstu drög að stjórnskipan Pennsylvaníu eftir William Penn frá því um 1681. 1634. Árið 1634 (MDCXXXIV í rómverskum tölum) var 34. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Flugrit frá 1634 sem lýsir morðinu á Wallenstein. 1607. Árið 1607 (MDCVII í rómverskum tölum) var ár sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Janúar. Palazzo San Giorgio, höfuðstöðvar Genúabanka á Ítalíu Júlí. Mynd sem lýsir uppreisn Zebrzydowskis í Póllandi Október. a> (1874-1941) sem sýnir uppreisn Bolotnikovs Dáin. Titilsíða "Mechanicorum liber" eftir del Monte frá 1577 1608. Árið 1608 (MDCVIII í rómverskum tölum) var hlaupár sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. Atburðir. Endurgerð upprunalega virkisins í Jamestown. Október. Rúdolf lætur Matthíasi eftir kórónu Ungverjalands. Fædd. Ferdinand 3. tólf ára 1620 Dáin. Mynd af Giambologna eftir Hendrik Goltzius gerð árið 1591 1609. Árið 1609 (MDCIX í rómverskum tölum) var ár sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. Atburðir. Galileo Galilei hóf rannsóknir sínar með stjörnukíki þetta ár og gaf þær út árið eftir. September. Kristnir márar stíga á skip í höfninni í Denia í Valensíu. Ódagsettir atburðir. Síða úr "Astronomia Nova" eftir Johannes Kepler sem sýnir þrjár eldri kenningar um hreyfingar himintungla. Dáin. Sjálfsmynd af Annibale Carracci frá því um 1605. 1635. Árið 1635 (MDCXXXV í rómverskum tölum) var 35. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> um að Frakkar tækju beinan þátt í styrjöldinni í Þýskalandi. 1645. Árið 1645 (MDCXLV í rómverskum tölum) var 45. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu, en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. „Skyttur konungs“ í sviðsetningu á orrustunni við Naseby árið 2005. 1647. Árið 1647 (MDCXLVII í rómverskum tölum) var 47. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. "Agreement of the People" var hugmynd að eins konar stjórnarskrá sem róttækir hópar innan New Model Army héldu fram. Marmarahaf. Borgin Istanbúl, er staðsett við innanvert op Bosporussunds, báðum megin við sundið Marmarahaf (Tyrkneska: Marmara denizi, Nútíma Gríska: Μαρμαρα̃ Θάλασσα eða Προποντίδα) er innhaf í Norðvestur-Tyrklandi, tengt Svartahafi um Bosporussund og Eyjahafi um Dardanellasund. Það aðskilur ásamt fyrrnefndum sundum evrópsku og asísku hluta Tyrklands. Nokkrar eyjar eru í Marmarahafi með marmaranámunum frægu. Hin stærsta þeirra er Marmara (129 km²). Hafið er 277 km langt og 11.140 km² að flatarmáli. 1685. Árið 1685 (MDCLXXXV í rómverskum tölum) var 85. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Þorri. Mánuðurinn Þorri hefst á Föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hanns hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf. Mánaðarheitið Þorri kemur fyrir í elsta íslenska rímhandritinu frá lokum 12. aldar og einnig í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í upptalningu mánuðana í Snorra Eddu. Margir gömlu mánuðirnir í norræna tímatalinu báru mismunandi nöfn eftir heimildum, en Þorri hélt alltaf nafni sínu í þeim öllum. Svipað mánaðarheiti þekkist á öðrum Norðurlöndum en þar sem nafn á janúar og jafnvel mars. Merking orðsins er ekki ljós og hafa verið settar fram margar kenningar um hana. Helstu tilgátur eru að orðið sé skylt lýsingarorðinu "þurr", sögninina að "þverra", nafnorðið "þorri", merkjandi „meginhluti“ og eins að "Þorri" gæti verið eitt nafna Þórs eða nafn á samnefndum fornkonungi. Þorrablót til forna. Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur eða vættur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót. Ekki er vitað hvernig þeim var háttað en lýsingarnar benda þó til mikilla veisla og að menn hafa gert vel við sig í mat og drykk. Engar frásagnir eru í Íslendingasögum eða öðrum fornsögnum sem gerast á Íslandi. En orðið "Þorrablót" kemur fyrir í forneskjulegum þætti sem bæði er að finna í Orkneyinga sögu og á tvem stöðum í Flateyjarbók þar sem hann heitir "Hversu Noregr byggðist" og "Fundinn Noregur". Af þessari frásögn má ráða að nafn Þorra tengist miðjum vetri og þá skildi haldið blót. Einnig kemur fram nafn næsta mánaðar, Góu, dóttur Þorra (í mörgum frásögnum Gói). Bóndadagur. Fyrsti dagur þorra er nefndur bóndadagur en sá síðasti "þorraþræll". Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða. Núna hefur sú hefð komist á að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi. Líkt og að menn gefa konu sinni blóm á konudaginn, fyrsta dag Góu. Þorrablót í dag. Fyrr á öldum virðast þorrablót fyrst og fremst hafa verið haldin á heimilum fólks og fyrir heimilisfólkið. En þorrablót eins og við þekkjum þau í dag, sem almennar veislur í sal út í bæ og haldin eins og kallað var í upphafi „að fornum sið“, voru ekki tekin upp fyrr en undir lok 19. aldar. Þorrablótin lögðust svo af en um miðja tuttugustu öldina var farið að halda þorrablót á veitingastaðnum Naustinu í Reykjavík, þar sem fram var borinn „hefðbundinn“ íslenskur matur, súr, reyktur og/eða saltaður. Síðan hefur tíðkast að halda þorrablót einhvern tímann á þorra, oftast á vegum félaga og ýmissa samtaka. Bosporussund. Bosporussund (Tyrkneska: "Boğaziçi" eða "İstanbul Boğazı") er sund sem tengir innhafið Marmarahaf við Svartahaf og skilur ásamt Dardanellasundi og Marmarahafi að evrópska og asíska hluta Tyrklands. Norrænir menn nefndu sundið Sæviðarsund eða Sjáviðarsund. "Stólpasund" höfðu þeir um vík úr Bosborussundi sem lá inn í Miklagarð. Stólpasund er þó einnig annað nafn á Gíbraltarsundi. Sundið er 30 km langt, breiðast er það 3.700 m og mjóst 750 m milli Anadoluhisarı og Rumelihisarı, miðdýpt þess er 36-124 m. Fjarlægðarformúlan. Ef við lítum á d sem fall sem tekur inn tvo punkta og skilar fjarlægðinni milli þeirra fáum við firð á mengið formula_2, sem er oftast nefnd "Evklíðska firðin". Skerum hár vort í samræmi við sósialískan lífsstíl. Skerum hár vort í samræmi við sósialískan lífsstíl er sjónvarpsþáttur framleiddur af ríkisstjórn Norður-Kóreu og er honum útvarpað á ríkisrekinni sjónvarpsstöð í höfuðborg landsins Pjongjang. Honum er ætlað að fræða almenning um góðar og slæmar klippingar. Fullyrt er í þættinum að hárlengd hafi áhrif á gáfnafar manna, m.a. vegna næringarskorts í líkamanum sökum hárvaxtar sem hægt væri að koma í veg fyrir með styttra hári. Frédéric Chopin. Frédéric-François Chopin (1. mars 1810 – 17. október 1849), er vinsælasta tónskáld Pólverja og á meðal vinsælustu píanó tónskálda heims, en hann skrifaði flesti tónverk sín fyrir píanóið. Hann var skírður Fryderyk Franciszek Chopin en breytti því síðar í franska útgáfu „Frédéric-François“ þegar hann fór frá Pólandi til Parísar tvítugur að aldri. Síðasta nafn hans er stundum stafað Szopen í pólskum textum. Hann fæddist að sögn 1. mars 1810 en skírnarvottorð hans segir fæðingardag hans vera 22. febrúar. Hann fæddist í Żelazowa Wola í miðju Póllandi nálægt Sochaczew. Móðir hans hét Tekla Justyna Krzyżanowska en franskættaður faðir hans hét Mikołaj (Nicolas) Chopin. Ævi. Þegar hann var ungur að aldri voru hæfileikar hans auðheyranlegir og mætti líkja æsku hans við æsku Mozarts. Sjö ára að aldri, hafði hann þegar samið tvær pólóníur, fyrra verkið var gefið út á verkstæði föður Cybulski. Undraverk hans kom út í dagblaði í Varsjá, og varð „Chopin litli“ aðdráttarafl við gestamóttöku aðalsgestasofa í höfuðborginni. Hann hélt einnig opinbera góðgerðartónleika. Fyrsti kennari hans á píanó var fiðluleikarinn Wojciech Żywny — frá 1816 til 1822, sem kenndi honum þar til hann gat ekki kennt honum meira, þar sem að nemandinn skaraði fram úr kennaranum sjálfum. Hann fékk frekari leiðsögn frá Wilhelm Würfel en eftir að hafa heimsótt Vín 1831 fór hann til Parísar, þar sem hann eyddi miklum hluta ævi sinnar. Um 1838 var Chopin orðin frægur í París og hafði eignast vini á borð við óperuskáldið Vincenzo Bellini og málarann Eugène Delacroix. Upp úr 1840 fór heilsu hans að hraka og hann lést 1849 og var grafinn í Père Lachaise í París (að undanskildu hjarta hans sem var jarðsett í "Kirkju heilaga krossins" í Varsjá). Sálumessa Mozarts var spiluð við jarðarför hans. Tenglar. Chopin, Frédéric Chopin, Frédéric Chopin, Frédéric Þríhyrningur. Þríhyrningur er tvívíð rúmmynd, sem myndast af þremur punktum, sem ekki eru á beinni línu. Þríhyrningar hafa þrjá "hornpunkta" og þrjár "hliðar" og stysta hliðin liggur andspænis hvassasta horninu og stærsta hliðin á móti gleiðasta horninu. Gerðir þríhyrninga. Mikilvægasta gerð þríhyrninga eru rétthyrndir þríhyrningar. Öllum þríhyrningum, hvort sem þeir eru rétthyrndir eða ekki, er unnt að skipta í tvo rétthyrnda þríhyrninga með því að draga hæð frá stærsta horninu. Einslaga þríhyrningar. Ef tveir þríhyrningar hafa jafn stór horn, kallast þeir einslaga eða einshyrndir þríhyrningar; hliðarnar þurfa ekki að vera jafn langar, en í einslaga þríhyrningum eru hlutföll á milli samsvarandi hliða jöfn. Út frá einslaga rétthyrndum þríhyrningum er fundin skilgreining hornafallanna og nokkrar reglur um samband skammhliðanna og hæðar á langhlið, skammhliðar, langhliðar og ofanvarps skammhliðarinnar á langhliðina og samband skammhliðanna við langhlið (regla Pýþagórasar). Þríhyrningar eru að jafnaði merktir þannig, að hornpunktar þeirra eru táknaðir með upphafsstöfunum A, B og C. Sú hlið, sem liggur á móti hornpunktinum A (á milli B og C) er táknuð með a. Hliðin á móti B er táknuð með b og sú sem er á móti C er táknuð með c. Ef þríhyrningurinn er rétthyrndur er C að jafnaði notað á rétta hornið (C=90°). Góð venja er að merkja minnsta hornið með A og stærsta hornið með C, en það er að sjálfsögðu ekki nauðsynlegt. Sé þessi aðferð notuð er einfalt að leiða í ljós að 60°< C < 180°, það er að segja að stærð stærsta horns í þríhyrningi er alltaf meiri en 60° og minni en 180°. Hornasumma þríhyrnings er 180°, A+B+C=180°. Flatarmál þríhyrnings. Flatarmál þríhyrnings er afskaplega mikilvægt í flatarmyndafræði, vegna þess að öllum tvívíðum myndum, sem hafa beinar hliðarlínur, má skipta niður í þríhyrninga. Þess vegna er hægt að reikna flatarmál allra slíkra mynda ef hægt er að reikna flatarmál þríhyrninga almennt. Fleiri aðferðir eru til, til dæmis er hægt að nota ákveðu fylkis. Níu punkta hringur. Í gegnum fótpunkta hæðanna og miðpunkta hliðanna gengur hringur, sem kallast "níu punkta hringur" eða Feuerbach-hringur. Hann gengur einnig í gegnum þá þrjá punkta, sem eru mitt á milli O og hornpunkta þríhyrningsins (O=orthocenter, skurðpunktur allra hæðanna). Euler-lína. Þyngdarpunkturinn, skurðpunktur hæðanna, skurðpunktur miðnormalanna og miðpunktur Feuerbach-hringsins liggja allir á einni og sömu línunni, sem kennd er við stærðfræðinginn Leonhard Euler, og kallast Euler-lína. Skurðpunktur helmingalínanna (= miðpunktur innritaða hringsins) liggur venjulega ekki á Euler-línunni. 1695. Árið 1695 (MDCXCV í rómverskum tölum) var 95. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Potalahöll var fullbyggð þetta ár. 1610. Árið 1610 (MDCX í rómverskum tölum) var ár sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. Atburðir. Teikning Galileos af yfirborði tunglsins úr "Sidereus Nuncius" borin saman við ljósmynd. Dáin. Davíð með höfuð Golíats eftir Caravaggio frá því um 1609. Höfuð Golíats er talið vera sjálfsmynd listamannsins. 1613. Árið 1613 (MDCXIII í rómverskum tölum) var þrettánda ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> er eftirmynd af leikhúsinu sem brann 1613. 1612. Árið 1612 (MDCXII í rómverskum tölum) var tólfta ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu eða á miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Blóm tóbaksplöntunnar ("Nicotiana tabacum") sem John Rolfe hóf að flytja út til Englands frá Nýja heiminum 1612 og varð brátt ein af undirstöðum efnahags nýlendunnar í Virginíu. 1611. Árið 1611 (MDCXI í rómverskum tölum) var ellefta ár 17. aldar og hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en á þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1671. Árið 1671 (MDCLXXI í rómverskum tölum) var 71. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Karl 2. í krýningarskrúða árið 1661 með veldissprota, ríkisepli og Játvarðskórónuna. Thomas Blood flatti kórónuna út með hamri til að ná að fela hana undir kufli sínum. Efnavopn. Efnavopn er vopn sem notast við eituráhrif efnasambands til þess að skaða, drepa eða gera óvini óvirka. Hugtakið er illa skilgreint og hefur margar merkingar. Í Genfarsáttmálanum frá 1925 eru efnavopn skilgreind sem þær gastegundir sem valda köfnun eða eitrun og aðrar gastegundir sem notaðar eru í hernaði ásamt vökvum, öðrum efnum og búnaði sem er notaður í þeim tilgangi. Í íslenskum lögum eru efnavopn skilgreind sem eiturefni og forstigsefni þeirra, nema þau séu ekki ætluð til hernaðarlegra nota sem og skotfæri og tæki sem sérstaklega eru gerð til að valda bana eða öðrum skaða með eituráhrifum eiturefna og að lokum hvern þann búnað sem sérstaklega er gerður til að nota við beitingu slíkra skotfæra og tækja. Til dæmis er af þessum skilgreiningum báðum óljóst hvort eigi að telja til efnavopn þau vopn sem ætluð eru að valda dýrum eða plöntum skaða með eituráhrif tiltekinna efnasambanda á þær lífverur og um það er deilt, hvort slíkt eigi að gera. Í þessarri grein er stuðst við tiltölulega víða skilgreiningu á því, hvað séu efnavopn. Saga notkunar efnavopna. Það að eitra vatnsból andstæðinga manns og slíkar aðgerðir gætu hæglega flokkast undir notkun efnavopn og slíkar frumstæðar aðfarir við efnahernað hafa tíðkast frá örófi alda. Sömuleiðis hefur það lengi verið stundað, að bera eitur á örvar, spjót, byssukúlur og annað til að gera viðkomandi vopn banvænni. Einnig þekkjast dæmi þess að líkum þeirra sem létust af smitsjúkdómum hafi verið varpað inn fyrir virkisveggi til að smita setuliðið. Meiri háttar notkun efnavopna á kerfisbundinn hátt var hins vegar fyrst reynd í fyrri heimsstyrjöldinni og hafa þau aldrei síðan verið notuð á slíkum skala. Þar var efnavopnum beitt mikið af báðum stríðandi fylkingum Efnavopn í fyrri heimsstyrjöld. Fyrstir til að beita efnavopnum í því stríði voru Frakkar, sem strax í upphafi stríðs beittu Xylylbrómíði, táragasi, gegn Þjóðverjum. Þjóðverjar beittu efnavopnum fyrstu af ráði í annarri orrustunni um Ypres, en það var líka í fyrsta skipti sem Klórgasi var beitt í hernaði í stórum stíl. Þjóðverjar notuðu að því sinni þá frumstæðu aðferð að opna tanka af klóri þegar vindátt var hagstæð og láta gasið færast með vindinum yfir einskismannsland að skotgröfum andstæðinganna. Klórgas er þyngra en loft og færðist með fram jörðinni og settist að í dældum í landslaginu, þar á meðal í skotgröfum. Bretar beittu efnavopnum í stórum stíl fyrst í orrustunni um Loos-en-Gohelle 1915, þá klórgasi. Meðal þekktustu annarra efnasambanda sem voru notuð í fyrri heimsstyrjöldinni voru fosgen og hið svokallaða sinnepsgas. Efnavopn voru þróuð og notuð af báðum fylkingum á vesturvígstöðvunum allt fram að stríðslokum. Millistríðsárin. Þó að almenningsálitið í mörgum löndum væri mjög andsnúið notkun efnavopna eftir fyrri heimsstyrjöldina var slíkum vopnum víða beitt á árunum rétt eftir stríð. Bretar beittu þeim í rússnesku borgarastyrjöldinni og gegn uppreisnarmönnum í Írak, sem þá var nýlenda Breta. Sömuleiðis beittu Spánverjar þeim gegn uppreisnarmönnum í Marokkó, sem á þeim tíma tilheyrði Spáni. Árið 1925 komu flestar vestrænar þjóðir sér saman um að banna notkun efnavopna eftir reynslu fyrri heimsstyrjaldarinnar. Almenningsálitið víða um lönd hafði mikið að segja um að knýja ríkisstjórnir margra landa til að sætta sig við þetta. Efnavopn í seinni heimsstyrjöld. Í seinni heimsstyrjöldinni stóðu flest ríki við skuldbindingar sínar frá 1925 um að beita ekki efnavopnum. Í Evrópu var þeim ekki beitt af ráði en Japanir beittu þeim lítils háttar gegn Kínverjum. Við innrás Þjóðverja í Pólland 1939 nefndi Hitler í frægri ræðu sinni, þar sem hann kunngjörði að stríð væri skollið á milli Þjóðverja og Pólverja, að ef Pólverjar myndi beita efnavopnum yrði þeim svarað í sömu mynt. Segja má að það hafi slegið tóninn fyrir stríðið hvað efnavopn varðar, því öll stórveldin stóðu fyrir mikilli framleiðslu efnavopna á stríðsárunum, til þess að geta svarað fyrir sig ef á þau yrði ráðist með efnavopnum en ekkert þeirra beitti þeim af ráði. Eftir seinni heimsstyrjöldina. Eftir seinni heimstyrjöldina hefur efnavopnum oft verið beitt. Egyptar munu hafa beitt þeim í Jemen. Bandaríkjamenn stunduðu í Víetnamstríðinu umfangsmiklar árásir á Norður-Víetnam til að drepa trén í skógum landsins og hrísgrjónaplöntur á ökrum til að eyða því skjóli, sem skæruliðar höfðu í skógunum og til að skera undan matvælaframleiðslu landsins til að knýja það til uppgjafar. Helsta efnið sem var notað var 2,4,5-tríklóró-fenoxyediksýrubútylester, hið svokallaða "Agent Orange". En það er mjög umdeilt hvort slík vopn sem beinast gegn plöntum teljist til efnavopna. Í stríði Íraks og Írans beittu Írakar óumdeildum efnavopnum í meira mæli en tíðkast hefur síðan í fyrri heimsstyrjöldinni. Sérstaklega þekkt er árás íraska hersins á kúrdíska þorpið Halabdscha 1988. Elísabet 1.. Elísabet 1. (7. september 1533 – 24. mars 1603) var drottning Englands og Írlands frá 17. nóvember 1558 til dauðadags. Hún var kölluð "meydrottningin". Elísabet 1. var fimmti og síðasti einvaldur Túdorættarinnar, eftir að hafa tekið við af hálfsystur sinni Maríu 1. Ríkisár hennar einkenndust af einu mesta trúarbragðaumróti í sögu Englands. Valdatími Elísabetar er kallaður Elísabetartímabilið eða "gullöldin" í sögu Englands þar sem hann einkenndist af auknum styrk og áhrifum Englendinga um allan heim. 1669. Árið 1669 (MDCLXIX í rómverskum tölum) var 69. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a> (1771) sýnir Henning Brand uppgötva fosfór. 1670. Árið 1670 (MDCLXX í rómverskum tölum) var 70. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Uppreisnarmenn Stenka Rasíns í Astrakan á hollenskri koparstungu frá 1681. 1680. Árið 1680 (MDCLXXX í rómverskum tölum) var 80. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Teikning af ferli halastjörnunnar 1680 úr "Principia Mathematica" eftir Isaac Newton. 1683. Árið 1683 (MDCLXXXIII í rómverskum tölum) var 83. ár 17. aldar sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1693. Árið 1693 (MDCXCIII í rómverskum tölum) var 93. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1692. Árið 1692 (MDCXCII í rómverskum tölum) var 92. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1673. Árið 1673 (MDCLXXIII í rómverskum tölum) var 73. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1672. Árið 1672 (MDCLXXII í rómverskum tölum) var 72. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á föstudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en mánudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Afmynduð lík de Witt-bræðra í Haag. Listi yfir íslensk póstnúmer. a>i (skilgreint af fyrstu tveimur tölunum í póstnúmerinu). Póstnúmer á Íslandi samanstanda af þremur tölum. Póstnúmerunum fylgir nafn þess staðar þar sem verið er að dreifa póstinu, sem er annað hvort sveitarfélag, nálægasta borg, bær eða þorp. Heildarfjöldi póstnúmera er 149; þar sem 18 eru frátekin fyrir pósthólf, tvö fyrir opinberar stofnanir og stærri einkafyrirtæki og eitt einungis fyrir alþjóðlega flokkun. Svalbarðsætt. Magnús prúði og Ragnheiður Eggertsdóttir ásamt börnum þeirra. Óþekktur listamaður, 16. öld. Svalbarðsætt ("Svalberðingar") var ein valdamesta ætt Íslands á 17. öld, afkomendur Jóns Magnússonar ríka og Ragnheiðar Pétursdóttur á rauðum sokkum. Síðari kona Jóns var Guðný Grímsdóttir en þau áttu ekki börn saman. Ættin er kennd við bæinn Svalbarð í Eyjafirði en heimaland hennar varð síðar á Vestfjörðum og í Dölum eftir að Magnús prúði hafði lotið í lægra haldi fyrir Ásverjum í keppni um völd á Norðurlandi. Ýmsir meðlimir ættarinnar stóðu í miklum deilum við Guðbrand Þorláksson biskup í hinu svokallaða „morðbréfamáli“ kringum aldamótin 1600. Svalbarðsætt kemur mjög við sögu í galdramálum, ýmist sem ákærendur, ákærðir, vitni eða dómarar. Átök við Ásverja. Ætt Ásverja, frá Ási í Kelduhverfi, hafði um langt skeið farið með sýsluvöld í Þingeyjarþingi, en það bar við árið 1554 að Páll Jónsson frá Svalbarði var gerður að sýslumanni og ári síðar Magnús bróðir hans. Magnús var vinsæll og ekki að sjá að Ásverjar hafi haft neitt við hann að athuga að svo búnu. Um 1560 fór Danakonungur að ásælast mjög brennistein, en einu brennisteinsnámurnar sem eftir voru á Íslandi voru þá á Norðurlandi og undir nokkurs konar einkaleyfi Ásverja. Jón Magnússon reyndi að tryggja Magnúsi syni sínum jörðina Grænavatn í Mývatnssveit ásamt námaréttindum sem hann áleit að tilheyrðu jörðinni, en Ásverjar töldu sín. Upp úr þessu varð þræta um réttindin sem lauk með því að konungur keypti „brennisteinsfjöll“ Ásverja 1563 og veitti þeim meðal annars sýsluvöld í Þingeyjaþingi fyrir. Magnús náði þó að halda jörðinni Grænavatni, giftist Ragnheiði dóttur Eggerts Hannessonar lögmanns og flutti árið 1565 að Ögri í Ísafjarðardjúpi. Deilur við Guðbrand biskup. Árið 1573 varð Jón Jónsson á Vindheimum, bróðir Magnúsar prúða, lögmaður norðan og vestan og varð brátt valdamesti maður Íslands. Um sama leyti var Guðbrandur Þorláksson biskup að reyna að endurheimta þær jarðir sem Gottskálk Nikulásson biskup hafði haft af afa hans, Jóni Sigmundsssyni, með rangindum. Biskupi varð nokkuð ágengt í fyrstu, en þegar hann reyndi að endurheimta jarðirnar Hól og Bessastaði í Sæmundarhlíð í Skagafirði komu fram nokkur bréf þar sem morð og fleiri glæpir voru bornir á Jón Sigmundsson. Guðbrandur gaf þá út á prenti þrjá morðbréfabæklinga þar sem hann sýndi fram á að bréfin væru fölsuð og kenndi Jóni Ólafssyni lögréttumanni, þáverandi eiganda jarðanna, um fölsunina. Við þetta hófst svokallað „morðbréfamál“ þar sem Jón Jónsson lögmaður, Jón Sigurðsson lögmaður, bróðursonur hans og Jón Magnússon snerust gegn biskupi, en Ari Magnússon í Ögri, tengdasonur biskups, lenti í þeirri stöðu að verja hann og sækja mál hans gegn ættmennum sínum. Galdramál á Vestfjörðum. Mestalla 17. öld sátu Svalberðingar að embættum á Vestfjörðum og í Dölum. Ættin átti sinn þátt í því að langstærstur hluti þeirra galdramála sem upp komu á Íslandi tengdust þessum landshluta, einkum í Selárdalsmálum sem leiddu af sér sjö galdrabrennur, eða þriðjung allra galdrabrenna á Íslandi. Þar komu við sögu Páll Björnsson, prófastur í Selárdal, sonarsonur Magnúsar prúða, Helga kona hans og hálfbróðir Páls, Eggert Björnsson ríki, sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Á þessum tíma var Þorleifur Kortsson lögmaður norðan og vestan, en hann var mægður inn í ættina, giftur Ingibjörgu Jónsdóttur Magnússonar prúða. En ættin kom víðar við í galdramálum; Magnús Jónsson, sýslumaður, bróðir Ingibjargar, var borinn göldrum vegna þess að hann þótti sýna galdramönnum linkind (hann hafði hugmyndir um að galdramenn yrðu látnir sæta sektum í stað húðláts). Hann sór galdraorðið af sér á Alþingi 1657. Brynjólfur Sveinsson biskup, dóttursonur Staðarhóls-Páls, þótti með eindæmum undanlátssamur gagnvart þeim skólapiltum sem uppvísir urðu að meðferð galdrastafa. Þannig mætti lengi áfram telja, svo segja má að óvenjulega stór hluti ættarinnar tengist galdramálum með einum eða öðrum hætti. Ættartré. Jón Magnússon ríki á Svalbarði, lögréttumaður (1480─1564) ~ (1) Ragnheiður Pétursdóttir á rauðum sokkum (~1494─1540) │ (2) Guðný Grímsdóttir (d. 1584) ├─Steinunn Jónsdóttir á Melstað (~1513-~1593) ~ (1) Björn Jónsson á Melstað │ (2) Ólafur Jónsson í Snóksdal │ (3) Eggert Hannesson sýslumaður ├─Sólveig Jónsdóttir (~1520-?) ~ Filippus Þórarinsson á Svínavatni ├─Magnús Jónsson prúði, sýslumaður í Ögri og Bæ á Rauðasandi (1525─1591) ~ Ragnheiður Eggertsdóttir sýslumanns │ ├─Jón Magnússon eldri í Haga, sýslumaður (~1566─1641) ~ Ástríður Gísladóttir │ │ ├─Magnús Jónsson í Haga, sýslumaður (~1600–1675) │ │ ├─Eggert Jónsson á Stóru-Ökrum, lögréttumaður (~1603─1656) ~ Steinunn Þorvaldsdóttir │ │ │ ╰─Jón Eggertsson klausturhaldari (1643─1689) ~ Sigríður Magnúsdóttir stórráða │ │ ├─Gísli Jónsson í Reykjarfirði, sýslumaður (1615─1679) │ │ ╰─Ingibjörg Jónsdóttir (1615─1703) ~ Þorleifur Kortsson, lögmaður │ ├─Ari Magnússon í Ögri, sýslumaður (1571─1652) ~ Kristín Guðbrandsdóttir │ │ ├─Magnús Arason á Reykhólum, sýslumaður (1599─1635) ~ Þórunn Jónsdóttir ríka │ │ ├─Jón Arason í Vatnsfirði, prófastur (1606─1673) │ │ ╰─Halldóra Aradóttir (~1600─1652) ~ Guðmundur Hákonarson, sýslumaður á Þingeyrum │ ╰─Björn Magnússon í Saurbæ sýslumaður (~1580─1635) ~ (1) Sigríður Daðadóttir │ ├─Eggert Björnsson ríki á Skarði (1612─1681) │ ╰─Páll Björnsson í Selárdal, prófastur (1621─1706) ~ Helga Halldórsdóttir ├─Þórdís Jónsdóttir (~1525-?) ~ Þorgrímur Þorleifsson, bóndi í Lögmannshlíð ├─Staðarhóls-Páll Jónsson, sýslumaður á Reykhólum (~1538─1598) ~ Helga Aradóttir │ ├─Ragnheiður Pálsdóttir (~1565─1636) ~ Sveinn Símonarson prestur í Holti í Önundarfirði │ │ ╰─Brynjólfur Sveinsson, biskup (1605─1675) │ ├─Pétur Pálsson á Staðarhóli (~1565─1621) │ ╰─Elín Pálsdóttir (1571─1637) ~ Björn Benediktsson ríki á Munkaþverá, sýslumaður │ ├─Magnús Björnsson í Eyjafirði, lögréttumaður (1595─1662) ~ Guðrún Gísladóttir │ │ ╰─Gísli Magnússon (Vísi─Gísli), sýslumaður (1621─1696) ~ Þrúður Þorleifsdóttir │ │ ╰─Guðríður Gísladóttir (1651─1707) ~ Þórður Þorláksson, biskup │ ├─Sigríður Björnsdóttir (~1586─1633) ~ Páll Guðbrandsson á Þingeyrum, sýslumaður │ ╰─Guðrún Björnsdóttir (~1600─1633) ~ Gísli Oddsson, biskup ├─Jón Jónsson á Vindheimum, lögmaður (1536─1606) ╰─Sigurður Jónsson á Reynistað, sýslumaður (~1540─1602) ~ Guðný Jónsdóttir ├─Jón Sigurðsson á Reynistað, lögmaður (~1565─1635) ├─Elín Sigurðardóttir (~1580─1662) ~ Guðmundur Einarsson á Staðarstað, prófastur ╰─Halldóra Sigurðardóttir (~1573─1645) ~ Þorbergur Hrólfsson á Seylu, sýslumaður ╰─Kolbeinn Jónsson klakkur (~1550-~1619), bóndi á Einarslóni á Snæfellsnesi 1633. 1633 (MDCXXXIII í rómverskum tölum) var 33. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1632. 1632 (MDCXXXII í rómverskum tölum) var 32. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. Ásgarður (hverfi). Ásgarður er heiti á hverfishluta í miðborg Reykjavíkur í brekkunni neðan við Skólavörðuholtið (suð)vestanmegin. Svæðið markast af Óðinsgötu/Urðarstíg í vestri og suðri, Njarðargötu í austri og Skólavörðustíg í norðri. Heiti hverfisins kemur til af því að allar göturnar heita í höfuðið á goðum og gyðjum í norrænni goðafræði. Stundum hefur hverfið verið kallað "guðlastið". Hverfið er fyrst og fremst íbúðahverfi, að Skólavörðustígnum undanskildum, en þar var lengi vel mikið af atvinnuhúsnæði í bland. Mikið af þessu húsnæði var breytt í íbúðarhúsnæði í upphafi 21. aldar en enn er þó töluvert af fyrirtækjum í hverfinu, einkum við Óðinsgötu og Freyjugötu. Á mörkum Óðinsgötu, Týsgötu og Þórsgötu er lítið torg, Óðinstorg, sem núna er bílastæði. Annað stórt opið svæði er leikvöllurinn við Freyjugötu. Götur. Götur í Ásgarði eru Baldursgata (að hluta), Bragagata, Freyjugata (að hluta), Haðarstígur, Lokastígur, Njarðargata, Nönnugata, Óðinsgata, Týsgata, Urðarstígur, Válastígur og Þórsgata. 1631. 1631 (MDCXXXI í rómverskum tölum) var 31. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Stjórnleysisstefna. Stjórnleysisstefna (eða anarkismi) er stjórnmála- og félagsstefna sem einkennist fyrst og fremst af andstöðu við yfirvald, og höfnun á réttmæti þess. Fylgismenn stefnunnar stefna að samfélagi byggðu á sjálfviljugri samvinnu einstaklinga. Stjórnleysingjar eru afar fjölbreyttur hópur, eins og við er að búast, þar sem hugmyndafræðin byggist upp á höfnun á yfirvaldi, gagnrýninni hugsun og einstaklingsfrelsi. Nafngjöfin á þessari stjórnmálastefnu, anarkismi (sem íslenskað hefur verið sem stjórnleysisstefna), er upphaflega níðyrði andstæðinganna sem vildu meina að hún mundi leiða til upplausnar og ringulreiðar. Orðið sjálft kemur úr grísku αναρχία ("anarkhia") og þýðir án höfðingja eða stjórnanda. Einkennandi hugmyndir. Stjórnleysisstefna einkennist, eins og nafnið gefur til kynna, af andstöðu við stjórnun. Hér er í raun átt við stjórn eins á öðrum; einstaklingar og hópar hafa að sjálfsögðu rétt til sjálfstjórnar. Ríkisandstaða. Ríkið hefur tilskipunarvald á ákveðnu landsvæði. Tilskipunarvald er í beinni andstöðu við hugmyndirnar sem liggja að baki stjórnleysisstefnu, og því má telja nokkuð ljóst að stjórnleysingi hljóti að vera andstæðingur ríkisvalds. Í ófáum orðabókum er stjórnleysisstefna skilgreind sem andstaða við ríkisvald. Þó er ekki hægt að segja að andstaða við ríkisvald sé allt sem í stjórnleysi felst. Aðgreining eignarréttar og andkapítalismi. Kapítalísk einkaeign greinir ekki milli tannbursta og fjölþjóðafyrirtækis. Stjórnleysingjar telja að hér sé um tvær ólíkar gerðir eignar að ræða. Annars vegar er eign sem einstaklingur hefur sjálfur bein not af, eins og tannbursti eða íbúð sem hann býr sjálfur í. Hins vegar er eign sem einstaklingurinn notar ekki sjálfur, heldur lætur aðra nota í sinn stað (og fær yfirleitt greiðslu í staðinn). Í þessum flokki mætti finna hlutabréf í fjölþjóðafyrirtæki, sem tákna peninga sem fyrirtækið notar, og íbúð sem eigandinn leigir út. Þessi aðgreining var fyrst sett á prent af Proudhon, og hefur verið notuð af stjórnleysingjum allar götur síðan. Enn fremur hafa stjórnleysingjar verið andsnúnir seinni gerðinni, þó svo að nokkuð hafi greint á um nákvæma túlkun svo og nánari útfærslu aðgengisreglna. Ljóst má þykja að þessi andstaða leiðir af sér andkapítalisma, en kapítalisminn er efnahagskerfi sem byggir á seldri vinnu við eign annarra. Beinar aðgerðir. Stjórnleysingjar styðja almennt það sem nefnt er beinar aðgerðir. Beinar aðgerðir fela í sér allt það sem einstaklingar og hópar gera til að fá sínu framgengt án milliliða. Almenn mótmæli eru þannig beinar aðgerðir, en kosning stjórnmálaflokks á þing er það ekki. Bein aðgerð getur einnig falið í sér myndun stuðningskerfis, eins og sjálfstæðs skólakerfis og heilbrigðisþjónustu, utan hins viðurkennda kerfis. Öfgakenndar útgáfur þessarar hugmyndar hafa verið notaðar til að réttlæta hryðjuverk eins og launmorð. Til dæmis var William McKinley Bandaríkjaforseti skotinn til bana af Leon Czolgosz, sem var yfirlýstur stjórnleysingi, árið 1901. Einnig hafa samtökin Earth Liberation Front beitt svipaðri röksemd fyrir íkveikjum og skemmdarverkum. Kvíslir. Stjórnleysisstefna er margbrotin, og innan hennar rúmast afar ólíkar hugmyndir. Helsta skipting hreyfingarinnar er þó í það sem nefna má hægri og vinstri arma hennar – sem einnig má nefna einstaklings- og félagshyggjuhluta hennar. Þessar greinar má svo einnig sundurgreina enn frekar. Þrátt fyrir þetta misræmi hugmynda hefur lítið farið fyrir missætti stjórnleysingja; "kvíslir" stjórnleysisstefnu eru lausar í sér, og algengt er að stjórnleysingjar tileinki sér hugmyndir víða að. Stjórnleysis einstaklingshyggja. Málverk eftir Gustave Courbet frá 1865 af Pierre-Joseph Proudhon og börnum hans Höfuðmunurinn á einstaklingshyggjustjórnleysingjum og hinum ýmsu félagshyggjuhópum er stuðningur þeirra fyrrnefndu við frjálsan markað. Þennan stuðning má rekja til Pierre-Joseph Proudhon, en hugsjón hans um stjórnlaust samfélag byggði á frjálsum félögum sjálfstætt starfandi fólks, hvort sem það væri verkafólk eða sjálfstætt starfandi atvinnurekendur (e.k. samvinnufélög) og gagnkvæmum bönkum. Hreifingin þróaðist fyrst og fremst í bandaríkjunum en þar þróuðu menn á borð við Lysander Spooner og Benjamin Tucker hugmyndir Proudhon áfram og héldu inni atriðum á borð við markaðshyggju og umbótastefnu og gerðu ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda líkt og Proudhon og Josiah Warren gerðu. Einstaklingssinnaðir stjórnleysingjar telja að sjálfstæðir atvinnurekendur sem og samvinnufélög sjálfstæðra atvinnurekenda og verkamanna muni kjósa að selja framleiðslu sína á markaði, frekar en að bindast í stærri samtök, eins og félagshyggjustjórnleysingjar telja líklegra. Stjórnleysis félagshyggja. Félagshyggjustjórnleysingjar eru sá hópur sem hefur verið ráðandi í hreyfingunni í Evrópu, og ýmsar kvíslir hennar hafa náð verulegum vinsældum víða. Hugmyndir þeirra má að verulegu leyti rekja til Mikhail Bakunin, sem aftur byggði á hugmyndum Proudhons. Eins og fram kom að ofan felst helsti munur á félagshyggjustjórnleysingjum og einstaklingshyggjustjórnleysingjum í því að þeir fyrrnefndu vilja leggja markaðskerfið af. Það sem greinir helst milli ýmissa félagshyggjustjórnleysingja er nákvæmlega hvað þeir telja heppilegast til að setja í staðinn. Áhersluatriði. Til viðbótar við þessa hópa, sem leggja höfuðáherslu á efnahagsbreytingar og umbætur og réttindi verkafólks, hafa á 20. öld birst nýjar greinar stjórnleysisstefnu sem falla oft undir efnahagshugmyndir ofangreindra en beina sjónum fyrst og fremst að öðrum málefnum. Þar má meðal annars nefna stjórnleysis jafnréttishyggju og umhverfisvænt stjórnleysi. Ekki stjórnleysi? Þrátt fyrir umburðarlyndi stjórnleysingja eru tvær hreyfingar sem báðar vilja taka sér titilinn en mæta andstöðu. Hér er um að ræða stjórnleysis auðvaldshyggju og frumstæðishyggju. Í gegnum ríflega 150 ára sögu hefur stjórnleysisstefna staðið fyrir óhikaða og algjöra andstöðu við ríkjandi efnahagsfyrirkomulag. Stjórnleysis auðvaldshyggja, róttækur armur frjálshyggjuhreyfingarinnar, á því lítið sem ekkert skylt við hina hefðbundnu stjórnleysishreyfingu, sem er hafnað nær algjörlega. Svipað á við um frumstæðishyggju (eða primitivisma): Þeir hafna nær öllum lausnum og hugmyndum stjórnleysingja, sem þeir telja ekki ganga nógu langt. Vandamálið, segja frumstæðissinnar, er ekki ríkið eða auðvaldshyggja, heldur siðmenning. Við verðum að hverfa aftur; misjafnt er hversu langt: Margir telja nógu gott að fara aftur fyrir iðnbyltinguna en John Zerzan vill afnema tungumál og tímaskynjun. 1641. Árið 1641 (MDCXLI í rómverskum tölum) var 41. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Brúðhjónin María og Vilhjálmur á málverki eftir Antoon van Dyck. Lennart Torstenson tók við sem hermarskálkur sænsku herjanna í Þýskalandi. 1642. Árið 1642 (MDCXLII í rómverskum tölum) var 42. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Hollenski landkönnuðurinn Abel Tasman kannaði Tasmaníu og kom auga á Nýja-Sjáland þetta ár. 1643. Árið 1643 (MDCXLIII í rómverskum tölum) var 43. ár 17. aldar sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. a>, herforingja í her konungssinna í ensku borgarastyrjöldinni. Júlíska tímatalið. Júlíska tímatalið (stundum kallað gamli stíll eða júlíanska tímatalið) var kynnt til sögunnar af Júlíusi Caesar árið 46 f.Kr. og tekið í notkun 45 f.Kr. eða 709 "ab urbe condita" (frá stofnun borgarinnar). Með þessu tímatali var árið ákvarðað sem 365 dagar og fjórða hvert ár skyldi vera hlaupár þar sem einum degi væri bætt við. Tímatalið var í notkun fram á 20. öld í mörgum löndum og er enn notað af ýmsum kirkjudeildum Rétttrúnaðarkirkjunnar. Það var þó gallað að því leyti að of mörgum dögum var bætt við með hlaupárunum þannig að tímatalið skekktist með tímanum frá raunverulegum árstíðum um 11 mínútur á hverju ári. Sagt er að Caesar hafi vitað af þessu misræmi en ekki fundist það vera nógu merkilegt til að spá mikið í því. Gregoríska tímatalið (eða nýi stíll) var kynnt til sögunnar á 16. öld til þess að lagfæra misræmið og var þá miðað við vorjafndægur. Hlaupárum var fækkað þannig að aldamótaár sem deilanleg eru með 400 teljast hlaupár, en önnur aldamótaár ekki. Þannig var 1900 ekki hlaupár, en 2000 var það. Bæði hefðu verið hlaupár í gamla stíl. Gregoríska tímatalið var tekið upp á Íslandi árið 1700. Var þá skekkjan orðin 11 dagar og voru þeir kliptir úr árinu þannig 28. nóvember kom í stað 17. nóvember. 1657. Árið 1657 (MDCLVII í rómverskum tölum) var 57. ár 17. aldar sem hófst á mánudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en fimmtudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Skilti við minnismerki um fórnarlömb Meirekibrunans. Litháen. Lýðveldið Litháen (eða Lítáen, í eldra máli Lithaugaland, litháíska: "Lietuva") er land í Norðaustur-Evrópu, eitt Eystrasaltslandanna. Það á landamæri að Lettlandi í norðri, Hvíta-Rússlandi í austri og Póllandi og Kaliningradhéraði Rússland í suðri. Slóvenía. Lýðveldið Slóvenía "(slóvenska: Republika Slovenija)" er land í sunnanverðri Mið-Evrópu við rætur Alpafjalla. Slóvenía á landamæri að Ítalíu í vestri, Austurríki í norðri, Ungverjalandi í norðaustri og Króatíu í suðri. Landið á einnig strönd að Adríahafi. Landið var hluti af Austurríki-Ungverjalandi þar til 1918, Konungsdæmi Serba, Króata og Slóvena milli heimstyrjaldanna, og Júgóslavíu á árunum 1945 til 1991 þegar það lýsti yfir sjálfstæði, það er nú meðlimur í Evrópusambandinu (frá 1. maí 2004) og NATO. Landið hefur áheyrnarstöðu í La Francophonie. Saga Slóveníu. Slavneskir forfeður nútíma Slóvena settust að á þessu svæði á 6. öld. Slavneska hertogadæmið Karantanía var stofnað á 7. öld. Árið 745 glataði Karantanía sjálfstæði sínu og var að mestu innlimuð inn í Frankneska keisaradæmið. Margir Slavar tóku þá upp kristna trú. Freising-handritin, elstu varðveittu slóvensku skjölin og fyrstu skjölin á slóvensku sem rituð voru í latnesku letri voru rituð um árið 1000. Á 14. öld urðu flest héröð Slóveníu að eign Habsburg ættarinnar, sem síðar varð að Austurrísk-Ungverska keisaradæminu. Slóvenar bjuggu þá í flestum héröðum Carniola, Gorizia og Gradisca, og hlutum héraðanna Istria, Carintia og Styria. Árið 1848 varð til sterk hreyfing innan Austurríkis sem barðist fyrir sameinuðu Slóvensku konungsveldi ("Zedinjena Slovenija") undir stjórn keisaradæmisins, jöfnum rétti slóvenska málsins á opinberum vettvangi, og var andvíg sameiningu Habsburg einveldisins við þýska ríkjasambandið. Hreyfingunni tókst ekki áætlunarverk sitt, en þetta voru baráttumál Slóvena fram að fyrri heimsstyrjöld. Fall Austurrísk-Ungverska keisaradæmisins árið 1918 varð til þess að Slóvenar stofnuðu ríki Slóvena, Króata og Serba, sem varð síðar að Konungsveldi Serba, Króata og Slóvena. Það var svo endurnefnt aftur árið 1929 sem Konungsveldið Júgóslavía. Eftir að Júgóslavía var endurstofnuð eftir síðari heimsstyrjöld varð Slóvenía hluti af henni. Slóvenía og Króatía voru fyrstu sambandsríki Júgóslavíu til að lýsa yfir sjálfstæði þann 25. júní 1991, Tíu daga stríðið fylgdi í kjölfarið þangað til samið var um vopnahlé og júgóslavneski herinn var dreginn til baka. Landið slapp því við þau stríðsátök sem léku aðra hluta Júgóslavíu grátt á tíunda áratugnum. Slóvenía gekk í Atlantshafsbandalagið þann 29. mars 2004 og svo Evrópusambandið þann 1. maí 2004. Stjórnarfar. Æðsti maður Slóveníu er forseti landsins, sem er kjörinn í lýðræðislegum kosningum á fimm ára fresti. Forsætisráðherra fer fyrir framkvæmdarvaldinu ásamt stjórnarráði ráðherra, sem kjörnir eru af þinginu. Slóvenska þingið er tvístétta. Það samanstendur af þjóðþinginu ("Državni zbor") og þjóðarráðinu ("Državni svet"). Þjóðþingið samanstendur af 90 sætum, sem eru að hluta tekin frá af beinkjörnum fulltrúum, og að hluta til af hlutfallslega kjörnum fulltrúum. Tvö sætanna eru frátekin fyrir innfæddu Ungversku og Ítölsku minnihlutahópana. Þjóðarráðið hefur 40 sæti, sem samanstendur af fulltrúum hagsmunahópa á sviði velferðar, hagkerfis, fagmanna og sérhópa. Þingkosningar eru á fjögurra ára fresti, en þjóðarráðskosningar eru haldnar með óbeinum hætti á fimm ára fresti. Söguleg skipting. Slóvenía er skipt, samkvæmt hefð, í átta svæði. Síðustu tvö svæðin eru yfirleitt talin saman sem Littoral svæðið ("Primorska"). Hvíta Carniola ("Bela krajina"), sem er hluti Neðra Carnoliu, er yfirleitt talið sem hluti sérstaks svæðis. Náttúruleg skipting. a>, hæsta fjall Slóveníu (2,864 m). Samkvæmt nýrri náttúrulegum landfræðilegum skiptingum samanstendur landið af fjórum yfirsvæðum. Þau eru Alpasvæðið, Miðjarðarhafssvæðið, Dínarska svæðið og Pannoníska svæðið. Yfirsvæðin eru skilgreind út frá landhæð og loftslag (meginlandsloftslag, alpaloftsslag og miðjarðarhafsloftslag). Þau eru mjög samofin. Yfirsvæðunum er svo skipt í mörg og fjölbreytt undirsvæði. Ríkjandi þáttur í skilgreiningu þeirra er jarðfræðileg samsetning og landhæð. Tölfræðileg skipting. Slóveníu skipt í tólf svæði. Slóveníu er, frá og með maí 2005 skipt í tólf svæði vegna lagalegra og tölfræðilegra álitaefna. Verið er að undirbúa nýja skiptingu landsins í á bilinu 12-14 svæði. Þó getur hugsast að þessi tólf svæði haldi sér. Eftir á að opinbera tillögur þess efnis. Að því loknu verður málið rætt á þingi. Sveitarfélög. Slóvenía skiptist í 210 sveitarfélög ("občine"). Celje, Koper, Kranj, Ljubljana, Maribor, Murska Sobota, Nova Gorica, Novo Mesto, Ptuj, Slovenj Gradec og Velenje teljast til þéttbýlis. Landafræði. Sagt er að fjögur svæði mætist í Slóveníu: Alpafjöllin, Dinarísku alparnir, Pannóníska sléttan og Miðjarðarhafið. Hæsta fjall Slóveníu heitir Triglav (2,864 m), meðalhæð yfir sjávarmáli er 557 m. Slóvenía er þriðja mest skógi vaxna land Evrópu, á eftir Finnlandi og Svíþjóð. Rúmlega helmingur landsis (11.691 km²) er þakinn skógi, hluti þeirra er ævaforn, stærst þeirra svæða Kočevje. Graslendi þekur 5.593 km², 2.471 km² teljast til garða og engja. Loks eru 363 km² undirlagðir aldingörðum og 216 km² af vínekrum. Loftslagið er Miðjarðarhafsloftslag við strendurnar, alpaloftslag við fjöllin og meginlandsloftslag í austurhluta landsins. Meðalhitastig er -2 °C í Janúar og 21 °C í Júlí. Meðalregnfall er 1.000 mm við strendurnar en svo 3.500 mm í Ölpunum, 800 mm í suðvestri og 1.400 mm á miðju landi. Efnahagur. Slóvenía er hátekjuland ($23,250 árið 2006), með hæstu vergu landsframleiðslu af þem löndum sem nýlega gengu inn í ESB eða um 90% af meðaltali innan Evrópu. Verðbólga hefur minnkað mikið undanfarið og er nú um meðaltal innan Evrópu. Hagvöxtur hefur verið mikill síðustu ár (5.2% fyrstu 9 mánuði 2006, 4.0% árið 2005, 4.4% árið 2004, áætlaður 4.8% 2007), eftir að hafa verið aðeins 2.7% 2003 áður en landið gekk inn í ESB. Frá síðustu aldamótum hafa bankar, símafyrirtæki og opinber þjónustufyrirtæki verið einkavædd. Höft á erlenda fjárfestingu hafa verið afnumin og gert er ráð fyrir að áhugi á erlendri fjárfestingu muni aukast næstu ár. 1658. Árið 1658 (MDCLVIII í rómverskum tölum) var 58. ár 17. aldar sem hófst á þriðjudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en föstudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Sænski herinn fer yfir Stóra-belti á ísnum. 1659. Árið 1659 (MDCLIX í rómverskum tölum) var 59. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1660. Árið 1660 (MDCLX í rómverskum tölum) var 60. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Erfðahyllingin í Kaupmannahöfn 18. október. 1687. Árið 1687 (MDCLXXXVII í rómverskum tölum) var 87. ár 17. aldar sem hófst á miðvikudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en laugardegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Suðurhlið Meyjarhofsins sem skemmdist mikið í sprengingunni 1687. 1688. Árið 1688 (MDCLXXXVIII í rómverskum tölum) var 88. ár 17. aldar og hlaupár sem hófst á fimmtudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. 1689. Árið 1689 (MDCLXXXIX í rómverskum tölum) var 89. ár 17. aldar sem hófst á laugardegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en þriðjudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Atburðir. Heidelbergkastali sem Frakkar brenndu 1689. 1690. Árið 1690 (MDCXC í rómverskum tölum) var 90. ár 17. aldar sem hófst á sunnudegi samkvæmt gregoríska tímatalinu en miðvikudegi samkvæmt júlíska tímatalinu sem er tíu dögum á eftir. Búlgaría. Lýðveldið Búlgaría (búlgarska: "България") er land í Suðaustur-Evrópu við strönd Svartahafs. Það á landamæri meðfram Dóná að Rúmeníu í norðri, Tyrklandi og Grikklandi í suðri og Makedóníu og Serbíu í vestri. Höfuðborg landsins heitir Sófía. Slóvakía. Lýðveldið Slóvakía "(slóvakíska: Slovensko)" er landlukt land í Mið-Evrópu. Það á landamæri að Austurríki og Tékklandi í vestri, Póllandi í norðri, Úkraínu í austri og Ungverjalandi í suðri. Helstu borgir eru Bratislava, sem er höfuðborg landsins, Košice, Prešov, Žilina, Nitra og Banská Bystrica. Slóvakía gekk í Evrópusambandið í maí 2004. Malta. Lýðveldið Malta er lítið og þéttbýlt landamæralaust land á samnefndri eyju og nokkrum smærri eyjum í Miðjarðarhafi. Eyjarnar eru á milli Ítalíu í norðri og norðurstrandar Afríku í suðri. Opinber tungumál landsins eru enska og maltneska. Malta hefur verið í Evrópusambandinu síðan 2004 og er það núverandi minnsta Evrópusambandslandið bæði í fjölda og stærð. Eyjarnar hafa verið á valdi ýmissa ríkja í gegnum tíðina þar sem þær hafa þótt eftirsóknarverðar vegna hernaðarlega mikilvægrar staðsetningar. Saga. Eitt af fyrstu vísbendingum um menningu á eyjunni er hof Ħaġar Qim, sem er milli 3200 og 2500 fyrir Krist, stendur efst á hæð á suðurenda eyjarinnar Möltu. Við hliðina á Ħaġar Qim er annað hof, Mnajdra. Elsta hofið á eyjunum er Ggantija, á Gozo, sem er frá 3500 fyrir Krist. Samfélagið sem byggði þessar byggingar dó út eða hvarf. Landafræði. Malta er eyjaklasi í miðju Miðjarðarhafi, austur af Túnis og norður af Lýbíu,93 km suður af ítölsku eyjunni Silkiey en Möltusund er á milli þeirra. Aðeins þrjár stærstu eyjar Möltu eru byggðar, Malta, Gozo og Comino. Minni eyjarnar, eins og Filfla, Cominotto og eyja St. Paul eru óbyggðar. Í fjölmörgum fjörðum meðfram ströndum eyjanna eru góðar hafnir. Landslagið einkennist af lágum hæðum. Hæsti punkturinn er á fjallinu Ta' Dmejrek á eyjunni Möltu og er 253 metra hár nálægt Dingli. Á Möltu eru engar ár eða lækir nema tímabundið þegar mikið rignir. Þó er ferskt vatn finnanlegt á stöku stað á eyjunni allt árið. Slíkir staðir eru Baħrija, Imtaħleb og San Martin. Rennandi vatn á Gozo finnst hjá Lunzjata Valley. Höfuðdagur. Afhöfðun Jóhannesar skírara, mynd eftir Wenceslas Hollar (1607 - 1677) Höfuðdagur er 29. ágúst og ber þetta nafn vegna þess að á þessum degi var Jóhannes skírari afhöfðaður, en Heródes konungur Antipas lét höggva af honum höfuðið vegna óskar Salóme, fósturdóttur sinnar, árið 31. e. Kr. Segir svo frá í Nýja testamentinu, Matteusar guðspjalli, fjórtánda kafla: „En er afmælisdagur Heródesar kom, dansaði dóttir Herodíasar frammi fyrir þeim og geðjaðist hún vel Herodesi. Þess vegna hét hann með eiði að gefa henni hvað sem hún bæði um. Og eftir áeggjan móður sinnar segir hún: Gef mér hingað höfuð Jóhannesar skírara á fati. Og konungurinn varð hryggur, en vegna eiða sinna og boðsmannanna, bauð hann að henni skyldi það gefið verða. Og hann sendi og lét höggva Jóhannes í varðhaldinu, og var komið með höfuð hans á fati".“ Höfuðdagur var fyrrum haldinn heilagur í minningu þessa. Hjátrú. Hjátrú segir að veðurfar mundi batna með Höfuðdegi og segir svo frá því á einum stað: „Bregður þá vanalega veðráttu og helzt þá hið sama í 20 daga og minnir á það í 40 daga eftir Egediusmessu (1. sept.)." Listi yfir íslenska myndlistarmenn. Þetta er listi yfir íslenska myndlistarmenn. Tengt efni. Íslenskir myndlistarmenn Myndlistarmenn Kítín. Kítin er í líffræði fjölsykra sem að er að finna í stoðgrind margra skordýra, áttfætlna og frumuveggjum sveppa. Sigurður Örlygsson. Sigurður Örlygsson (fæddur 28. júlí 1946) er íslenskur myndlistamaður. Foreldrar hans voru Unnur Eiríksdóttir og Örlygur Sigurðsson. Sigurður lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskólanum, listaakademíunni í Kaupmannahöfn og í New York. Hann hélt fyrstu sýningu sína 11. september 1971. Hann hlaut menningarverðlaun DV árið 1988 og hefur nokkrum sinnum hlotið listamannalaun. Örlygur Sigurðsson. Örlygur Sigurðsson (13. febrúar 1920 - 24. október 2002) var listmálari og rithöfundur. Hann skrifaði og myndskreytti bækur sínar með sínum sérstaka stíl og skrifaði einnig margar greinar í blöð. Örlygur fæddist í Reykjavík. Faðir hans var Sigurður Guðmundsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Örlygur kvæntist Unni Eiríksdóttur og bjuggu þau lengst af í Hafrafelli í Laugardalnum í Reykjavík. Börn þeirra eru Sigurður Örlygsson myndlistarmaður og Malín Örlygsdóttir kaupmaður. Örlygur var mjög áberandi í íslensku þjóðlífi á sínum tíma. Fælni. Fælni eða fóbía (af gríska orðinu yfir ótta, φόβος (fobos)) er kvíðaröskun sem lýsir sér í órökréttri hræðslu við tiltekið fyrirbæri. Í kóngulóafælni er viðkomandi t.d. hræddur við kóngulær. Flokkun. Í DSM-IV, flokkunarkerfi fyrir geðraskanir, er fælni flokkuð í þrjá undirflokka, eða víðáttufælni, félagsfælni og afmarkaða fælni. Afmörkuð fælni skiptist svo aftur í fernt, eða í dýrafælni, náttúrufælni, aðstæðubundna fælni og blóðfælni. Meðferð. Algengasta og áhrifaríkasta meðferðin við fælni er atferlismeðferð. Meðal aðferða sem notaðar eru í atferlismeðferð eru kerfisbundin ónæming, hermun (e. modeling) og flæði (e. flooding). Einnig er stundum notast við hugræna meðferð og lyfjameðferð. Í kerfisbundinni ónæmingu er fólk látið búa til óttastigveldi, þar sem það raðar því sem það óttast frá því sem því vekur með því minnstan ótta og yfir í það sem vekur mestan. Fólk ímyndar sér svo hvert þrep í stigveldinu, eitt á eftir öðru, á meðan það slakar á. Slökunin parast því við það sem fólk óttaðist, og kemur því að lokum í staðinn fyrir kvíðann sem það vakti áður upp. Í hermun þarf fólk að herma eftir þeirri hegðun meðferðaraðilans sem beinist að því sem óttast er. Til að mynda gæti meðferð við snákafælni falist í því að meðferðaraðilinn héldi á snáki, og bæði svo skjólstæðing sinn um að gera hið sama. Í flæði er skjólstæðingurinn sífellt látinn horfast í augu við það sem hann óttast, þar til það hættir að vekja með honum kvíða. Dæmi um það er ef fólk með lofthræðslu þyrfti að standa á svölum á 8. hæð í blokk til lengri tíma. Þessi aðferð virkar yfirleitt hraðar en hinar tvær, en erfiðara er að fá skjólstæðinga til að gangast undir slíka meðferð. Til þess að gera flæði bærilegra fyrir skjólstæðinga hefur stundum verið notast við sýndarveruleikatækni, þar sem skjólstæðingurinn er látinn takast á við það sem hann óttast í sýndarheimi, en ekki í raunveruleikanum. Kvíðastillandi lyf geta dregið úr kvíða og hræðslu hjá fólki með fælni, en áhrifin eru ekki langvarandi. Atferlismeðferð virðist aftur á móti hjálpa fólki að losna við fælni til frambúðar. Listi yfir myndlistarskóla á Íslandi. Í eftirfarandi skólum á Íslandi boðið upp á myndlistarnám. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hóf starfsemi sína 4. október árið 1975 og er fyrsti fjölbrautaskólinn á Íslandi. Skólinn stendur við Austurberg 5. Skólinn starfar eftir áfangakerfi. Sérstaða FB er sú að þar er í boði fjölbreytt nám á brautum sem ekki eru í boði annars staðar. Meðal annars listnámsbraut, rafvirkjabraut, handíðabraut, upplýsinga- og tæknibraut, fjölmiðlabraut, sjúkraliðabraut, snyrtibraut, íþróttabraut og starfsbraut fyrir fatlaða. Fyrsti skólameistari skólans var Sr. Guðmundur Sveinsson, áður skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst, en árið 1988 tók nýr skólameistari við, Kristín Arnalds. Núverandi skólameistari FB er Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir. Aðstoðarskólameistari er Stefán Benediktsson. Á meðal þjóðþekktra íslendinga sem hafa stundað nám við skólann má nefna Magnús Scheving, Svöfu Grönfeldt og Sjón sem einnig hefur kennt við skólann. Á meðal þekkts fólks sem hefur kennt við skólann má nefna Kristinn H. Gunnarsson alþingismann, Gunnar Dal heimspeking og skáld og Ævar Kvaran leikara sem kenndi nemendum að tala með norðlenskum framburði. Starfsbraut. Nemandi á starfsbraut vinnur íslenskuverkefni í Clicker5 margmiðlunarforritinu Við skólann er starfrækt starfsbraut fyrir nemendur sem hafa stundað nám í sérskóla eða almennum skóla samkvæmt einstaklingsmiðaðri námsskrá. Brautin var stofnuð haustið 1998. Fyrsta árið stunduðu sex nemendur nám við brautina. Árið 2010 er boðið er upp á fjögurra ára nám við starfsbrautina og ekki eru gerðar kröfur um ákveðna námslega getu og er námið sniðið að sérþörfum hvers og eins og kostur er. Námsefni er mikið til útbúið af kennurum brautinnar og aðlagað að þeim nemendum sem þar stunda nám sitt. Bóklegt starfsnám er hluti af kennslu á fyrsta og öðru ári og felst það m.a. í heimsóknum á vinnustaði og þjálfun í vinnuveri. Á starfsbraut eru m.a notuð sérhæfð forrit til kennslu eins og Clicker5 margmiðlunarforritið. Á þriðja og fjórða ári stunda nemendur verklegt starfsnám. Heimildir. Breiðholti Fjölbrautaskóli. Fjölbrautaskóli er framhaldsskóli sem býður upp á fleiri námsleiðir en hefðbundinn menntaskóli. Þar er yfirleitt hægt að taka bæði stúdentspróf og sveinspróf. Saga fjölbrautaskólanna hófst á áttunda áratug tuttugustu aldar, þegar sett voru lög á Alþingi um heimild til stofnunar fjölbrautaskóla no. 13 frá 14. apríl 1973. Fyrsti skólinn til að taka til starfa skv.lögunum var Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Strax á eftir komu Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi og svo Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Fjölmargir hafa svo bæst í þennan hóp skóla síðan. Coral. Coral er rokkhljómsveit frá Reykjavík. Hljómsveitin kom fyrst saman í Hljómskálanum við Reykjavíkurtjörn í janúar 2000. Coral áttu lagið „Sex Dwarf“ sem kom fram í myndinni Gemsar. Þeir gáfu út stuttskífu árið 2002 sem var samnefnd hljómsveitinni en er betur þekkt undir nafninu "Gula platan". Af þessari plötu fékk lagið „Big Bang“ mikla útvarpsspilun. Einnig voru gerð myndbönd við þrjú lög af stuttskífunni: „Sex Dwarf“, „Big Bang“ og „Arthur“. Undir lok ársins 2007 kom síðan út fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar "The Perpetual Motion Picture". Árið 2011 kom út önnur breiðskífa Coral, Leopard Songs Landsnúmer. Landsnúmer eru heiltölur á bilinu 0 til 999 sem notaðar eru til að aðgreina lönd og önnur sérstök svæði í alþjóða símkerfinu. Númer þessi eru skilgreind af E.164 staðlinum. Tromma. Tromma er ásláttarhljóðfæri. Dæmigerð tromma er þannig að skinn er strekkt yfir opið á hólklaga grind. Algengt er að leikið sé á trommur með kjuðum, burstum eða berum höndum. Ásláttarhljóðfæri. Spilað er á ásláttarhljóðfæri (slagverkshljóðfæri) með því að slá, hrista, nudda eða skrapa þau. Þau eru líklega elstu hljóðfæri í heimi. Sum ásláttarhljóðfæri mynda ekki bara takt eða rytma, heldur laglínu og hljóma líka. Sneriltromma. Sneriltromma er nokkuð hefðbundin tromma, nema hún hefur snerla. Tromman hefur skinn báðum megin, en á botnskinninu liggja vírar, sem kallaðir eru snerlar, sem titra þegar slegið er á trommuna. Flestir kannast við þessa trommu úr skrúðgöngum og marseringum. María 1. Englandsdrottning. María 1. (18. febrúar 1516 – 17. nóvember 1558) var drottning Englands og Írlands samkvæmt lögum 6. júlí 1553 en hún varð ekki yfirlýst drottning fyrr en 19. júlí 1553, hún ríkt allt til dauðadags. Hún var dóttir Hinriks 8. og Katrínar af Aragon, og næstsíðasti meðlimur Túdorættarinnar við völd. Hún er þekktust fyrir að hafa reynt að breyta ríkistrú Englands úr mótmælendatrú í rómversk-kaþólska trú. Í valdatíð hennar voru þrjúhundruð andófsmenn aflífaðir og var hún þess vegna kölluð "Blóð-María". Hálfsystir hennar, Elísabet 1., tók við af henni þegar hún lést barnlaus. Vitsmunavísindi. Vitsmunavísindi (e. cognitive science) er fjölþætt þekkingarsvið sem hefur það markmið að kanna hæfileika hugans til þess að setja fram og reikna og hvernig þessum hæfileikum er komið fyrir í heilanum. Í vitsmunavísindum er fengist við það hvernig unnið er úr táknum, og þau taka til jafnólíkra greina og sálfræði, tölvunarfræði, málvísinda, mannfræði, heimspeki, uppeldisfræði, stærðfræði, verkfræði, lífeðlisfræði og taugavísinda. Skilgreiningin er fengin úr gagnagrunni Íslenskrar málstöðvar. Sykra. Sykrur eru í efnafræðinni hýdröt kolefnis með almennu formúluna Cn(H2O)m. Þau verða flest til við ljóstillífun plantna og eru jafnframt forðanæring þeirra, svo og annarra lífvera. Sykrur skiptast upp í "einliður" eða "einsykrur", sem eru minnstu sameindirnar, því næst koma "tvísykrur", sem eru tvær einsykrur tengdar saman, næst "fásykrur" sem eru úr tveimur til níu einsykrum og svo að síðustu "fjölsykrur" sem eru tíu eða fleiri einsykrur, sem mynda stórar sameindir. "Matarsykur" eða það sem við köllum sykur (einnig reyrsykur) í daglegu tali, er tvísykra og er samsett úr einsykrunum glúkósa og frúktósa. Fjölsykrur eru gerðar úr stórsameindum af einsykrum þær flokkast sem mjölvi og beðmi. Mjölvi er forðanæring plantna, við fáum mikla orku úr mjölva. Finnst í ávöxtum, grænmeti, kornmeti o.fl. Beðmi er í frumuvegg plantna. Maðurinn getur ekki melt beðmi en grasbítar, svo sem jórturdýr, lifa samlífi með örverum sem geta melt það. Við þurfum trefjar fyrir meltinguna af því að þær t.d mýkja hægðir. Hægt er að rita flestar sykrur Cn(H2O)m þar sem m og n gildið er þrír eða hærri tala og oftast er sama hlutfall vetnis og súrefnis og í vatni. Einföldustu sykrurnar eru því C3(H2O)3 og eru kallaðar 3C-sykrur og fæst nafnið af kolefnisfjöldanum í sykrunni. Eins og sést hér til vinstri á myndinni eru hýdroxýlhópar tengdir flestum kolefnunum. Þegar sykrur bindast saman og mynda tví- eða fjölsykrur, losnar hýdroxýlhópur af annarri sykrunni og vetni af hinni og verða þá til laus tengi svo að efnin geta bundist, afgangs verður vatn. Einliða sykrur tengjast eingöngu á þennan hátt og mynda svokölluð 1,4-tengi. Til hliðar er mynd af sakkarósa, sem er tvísykra, og á henni sést hvernig frúktósi og glúkósi hafa bundist saman. Íslenskt mannanafn. Íslenskt mannanafn getur annars vegar átt við nöfn mynduð af íslenskum rótum og hins vegar þau nöfn sem tíðkast á Íslandi og hafa fengið samþykki Mannanafnanefndar. Listi yfir landsnúmer. Þetta er listi yfir landsnúmer, bæði úthlutuð og óúthlutuð. Ole Rømer. Ole Christensen Rømer (25. september 1644 í Árósum í Danmörku – 19. september 1710 í Kaupmannahöfn í Danmörku) var danskur stjörnufræðingur. Hann er einkum frægur fyrir að hafa fyrstur reynt að mæla ljóshraða og fyrir Rømer-kvarðann fyrir hita, beinan fyrirrennara Fahrenheit-kvarðans. Ole Rømer fæddist í Árósum og lærði við Kaupmannahafnarháskóla ásamt Rasmus Bartholin á árunum 1662 til 1671. Ári síðar fór hann til Parísar þar sem hann sýndi fram á að ljóshraði er endanlegur. Með því að fylgjast með tunglum Júpíters (Íó sérstaklega) tókst honum að reikna ljóshraðann sem tvöfalda vegalengdina milli jarðar og sólar á 22 mínútum. Niðurstöðu hans skakkar um 10-25%. Þessir útreikningar hans voru gefnir út á frönsku árið 1676. Í París tók hann þátt í hönnun hinna frægu gosbrunna í Versölum og var kennari erfðaprinsins, sonar Loðvíks XIV. Þegar hann sneri aftur til Danmerkur árið 1681 varð hann prófessor í stjörnufræði við Kaupmannahafnarháskóla og hélt áfram rannsóknum sínum, meðal annars úr Sívalaturni. Allar athuganir hans urðu eldinum að bráð í brunanum í Kaupmannahöfn 1728. Árið 1700 fékk hann konung til að taka upp gregoríska tímatalið. Rømer þróaði einn af fyrstu hitakvörðunum, Rømer-kvarðann, með því að miða núll við frosinn pækil og suðumark vatns við 60. Daniel Gabriel Fahrenheit heimsótti hann árið 1702, endurbætti kvarðann, sem síðar varð þekktur sem Fahrenheit-kvarðinn, og kynnti hann árið 1724. HAM. HAM var íslensk rokkhljómsveit sem starfaði á árunum 1988 – 1994 og kom svo aftur saman á tvennum tónleikum árið 2001. Síðast kom hún fram á tónleikum 15. nóvember 2008 á tónleikunum "Áfram með lífið" í Laugardalshöll. Hljómsveitin var í tenglum við Smekkleysuhópinn, og var vel þekkt í íslensku neðanjarðartónlistarsenuni. Hljómsveitin var brautryðjandi í spilun þyngra rokks á Íslandi og meðal fólks sem að spilaði með henni má nefna Dr. Gunni, en hann spilaði á gítar með þeim í nokkra mánuði snemma á ferlinum og Björk Guðmundsdóttir, en hún spilaði með þeim á pípuorgel í kringum tökurnar á Sódómu Reykjavík. Hún tók líka upp nokkur lög með þeim í tengslum við þá mynd. Hljómsveitin náði samt aldrei neinum víðtækum vinsældum á Íslandi á meðan hún starfaði en hefur síðar hlotið almenna viðurkenningu sem mikilvæg hljómsveit í rokksögu Íslands. Saga. Fyrsta hljómplata sveitarinnar var stuttskífan "Hold". Platan fékk nær enga spilun í útvarpi og var mjög umdeild. Gert var myndband við lagið „Trúboðssleikjari“ en Sjónvarpið brenndi eina eintakið sem til var af því þar sem myndefnið þótti ekki við hæfi. Útrás sveitarinnar, eða tilraun til útrásar, hófst með því að hún hitaði upp fyrir Sykurmolana á fimm tónleikum í Þýskalandi árið 1988. Árið eftir sendi sveitin frá sér plötuna "Buffalo Virgin" sem fyrirtækið One Little Indian gaf út. Á eftir fylgdi að spila á tónleikum í New York. Hljómplatan "Pleasing The Pirahna" var tekin upp árið 1990 en hún kom reyndar aldrei út. Önnur óútgefin plata Ham er platan "Pimpmobile" að sögn Óttars Proppé í tónlistarspurningarþættinum Popppunkti árið 2004. Árin 1991 – 1992 tók hljómsveitin þátt í gerð kvikmyndarinnar Sódóma Reykjavík þar sem Sigurjón samdi að auki mestalla tónlistina í myndinni. Það er ekki síst sú mynd sem hefur haldið orðstír sveitarinnar á lofti síðan hún hætti. "Saga rokksins" kom út 1993 og þann 4. júní 1994 hélt hljómsveitin síðustu tónleika sína á skemmtistaðnum Tunglinu í Reykjavík, þeir tónleikar voru hljóðritaðir og komu svo út á plötunni "HAM lengi lifi". Árið 1995 voru áður óútgefnar stúdíóupptökur sveitarinnar gefnar út á plötunni "Dauður hestur". HAM lá svo í dvala allt til ársins 2001 þegar það spurðist út að þýska hljómsveitin Rammstein myndi spila á Íslandi um sumarið, þá komst af stað þrálátur orðrómur um það að Sigurjón hefði einhvern tíma sagt að eini möguleikinn á því að HAM kæmi saman aftur væri til þess að hita upp fyrir Rammstein. Sigurjón neitaði því reyndar að hafa sagt það en engu að síður var ákveðið að kalla hljómsveitina saman á ný. Hún spilaði á skemmtistaðnum Gauki á Stöng þann 14. júní og svo í allra síðasta skiptið (að eigin sögn) þann 15. júní fyrir 5.500 manns í Laugardalshöll einmitt til að hita upp fyrir Rammstein. Tónleikarnir á Gauknum voru svo gefnir út á tónleikaplötunni "Skert flog". Þeir áttu að taka lagið á tónlistarhátíðinni Reykjavík Rokkar sumarið 2006 ásamt The Darkness og Motörhead, en sú tónlistarhátíð féll niður vegna ónógrar miðasölu. þess í stað boðuðu þeir stuttu seinna til tónleika á skemmtistaðnum NASA í Reykjavík, þann 29. júní. Þar var húsfyllir og Ham liðar tóku gamalt efni í bland við nýtt. Þeir léku einnig á tónlistarhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, á Ísafirði árið 2007. Ham virðist því hafa risið úr dvala sínum. HAM kom aftur saman til þess að spila á Airwaves árið 2010, en síðast spiluðu þeir á rokkhátíð í Hörpunni, á opnunarhelgi nýja tónlistarhússins. Kolvetni. Kolvetni (stundum kallað vetniskol) er í efnafræðinni flokkur efnasambanda sem innihalda bara kolefni og vetni. Hlutföll kolefnis og vetnis í kolvetnum er ólíkt milli einstakra kolvetna. Undirflokkar. Flóra kolvetna er mjög rík. Ein flokkunarleið er að flokka þá í þrjá flokka eftir því hvort tví- eða þrítengi koma fyrir í þeim eða ekki. Samkvæmt því kerfi nefnast þau kolvetni, þar sem einungis eintengi koma fyrir alkanar, þau þar sem að minnsta kosti eitt tvítengi kemur fyrir nefnast alkenar og þau þar sem þrítengi koma fyrir nefnast alkýnar. IUPAC notar þetta flokkunarkerfi. Í náttúrunni. Kolvetni finnast víða fyrir í náttúrunni. Þau finnast undir yfirborði jarðar sem olía eða jarðgas, þar sem olía eru kolvetni á fljótandi formi og jarðgas kolvetni sem gös. Vegna gríðarlegrar þýðingar sinnar í iðnaði hafa menn lagt mikið í að þróa leiðir til að finna þau og að ná þeim upp úr jörðinni. Efnahagslegt mikilvægi. Fáir flokkar efna skipta efnahag jarðarbúa eins miklu máli eins og kolvetni. Nú á dögum eru kolvetni aðal orkuuppspretta flestra iðnvæddra ríkja og líklegt er að mikilvægi þeirra muni aukast enn í náinni framtíð ef sum þeirra ríkja sem í dag teljast til þróunarríkja iðnvæðast. Aðrar merkingar. Innan næringarfræði er merking kolvetna önnur. Innan hennar eru kolvetni þau sambönd kolefnis sem hafa almennu formúluna Cn(H2O)n sem er sykra. Þegar talað er um kolvetni á matvælaumbúðum er átt við þá skilgreiningu. Mörður Valgarðsson. Mörður Valgarðsson (um 1000) er ein af persónunum í Brennu-Njáls sögu. Hann bjó á Hofi á Rangárvöllum og var sonur hjónanna Valgarðs gráa og Unnar Marðardóttur, frændkonu Gunnars á Hlíðarenda, en hún var áður gift Hrúti Herjólfssyni vestur í Dölum. Mörður Valgarðsson er annálaður fyrir illmensku sína, undirferli og lygar og er illyrðið „lygamörður“ dregið af nafni hans. Hann átti meðal annars þátt í vígi Gunnars á Hlíðarenda og Höskulds Hvítanessgoða. Einnig kom hann mjög við sögu í aðdraganda Njálsbrennu og lék stærsta hlutverkið í eftirmálunum, því að hann sótti brennumenn til saka á Alþingi. Mörður kvæntist Þorkötlu Gissurardóttur hins hvíta og áttu þau að minnsta kosti tvö börn: Valgarð Marðarson, sem var skáld og bjó á Velli (fyrrum bæ Marðar gígju langafa síns) og Rannveigu Marðardóttur, sem giftist Starkaði Starkaðarsyni af ætt Svínfellinga. Jóhann Sigurjónsson skrifaði sitt síðasta leikrit um Mörð og nefnist það ýmist Mörður Valgarðsson eða Lyga-Mörður. Þrjátíu ára stríðið. Þrjátíu ára stríðið var röð styrjalda sem áttu sér stað í Þýskalandi á árunum 1618 til 1648. Öll helstu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin. Stríðsins var lengi minnst sem einnar skæðustu styrjaldar í Evrópu fram að Napóleonsstyrjöldunum og herfarir stríðsaðila og plágur sem þeim fylgdu lögðu mörg héruð Þýskalands því sem næst í auðn. Aðdragandi. Ferdinand 2. keisari hins Heilaga rómverska ríkis. Augsborgarfriðurinn (1555) staðfesti að þýsku furstarnir (225 að tölu) gætu valið héruðum sínum trú (lútherstrú eða kaþólska trú) samkvæmt skilyrðinu "cuius regio, eius religio" í Hinu heilaga rómverska keisaradæmi sem náði á þeim tíma yfir Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland og Bæheim. Keisarinn var kosinn til ævilangrar setu af sjö kjörfurstum sem voru greifinn í Pfalz, hertoginn af Saxlandi, markgreifinn af Brandenburg og konungurinn í Bæheimi, auk erkibiskupanna í Mainz, Trier og Köln. Keisaradæmið var í reynd orðið erfðaveldi Habsborgara sem fylgdi hertogadæminu í Austurríki. Hertoginn af Austurríki var auk þess venjulega einnig konungur Ungverjalands og Bæheims, en þar með hafði hann eitt atkvæði við kjör nýs keisara. Í kringum árið 1615 var ljóst að til átaka myndi koma í Evrópu. Spánn stefndi að því leynt og ljóst að leggja undir sig Holland sem gert hafði uppreisn gegn Spáni 1561 og lýst yfir sjálfstæði árið 1581 með fulltingi Breta. Spænsku Niðurlönd voru enn undir leppstjórn Spánar, þar sem Habsborgarar voru við völd, og gerður hafði verið vopnahléssamningur árið 1609 sem átti að gilda til 1621. Til þess að koma her og hergögnum frá Spáni til Spænsku Niðurlanda þurftu Spánverjar að geta ferðast eftir Rínarfljóti, en þar var fyrir þeim kjörfurstinn í Pfalz sem var kalvínisti. Ljóst var að bæði Frakkar og Bretar myndu gera það sem þeir gætu til að standa gegn fyrirætlunum Spánverja. Það bjuggust því allir við að styrjöld hæfist árið 1621 og að hún myndi eiga sér stað í Niðurlöndum og við Rínarfljót. Raunin varð hins vegar allt önnur. Uppreisnin í Bæheimi (1618-1625). Matthías keisari og konungur Bæheims, sem verið hafði umburðarlyndur gagnvart framsókn mótmælendatrúar, tilnefndi árið 1617 Ferdinand af Styrju sem eftirmann sinn í embætti. Ferdinand þótti óbilgjarn kaþólikki og hafði bælt niður mótmælendur í hertogadæmi sínu. Í Bæheimi voru á þessum tíma margir kalvínistar auk hússíta og útrakista sem voru umbótahreyfingar innan kaþólsku kirkjunnar en litnar hornauga af henni. Þótt Habsborgarar hefðu ríkt sem konungar í Bæheimi óslitið frá 1526 var konungurinn samt kosinn af háaðlinum. Þegar Ferdinand sendi tvo sendimenn til Prag árið 1618 til að undirbúa kjör sitt, var þeim hent út um glugga á konungshöllinni af mótmælendum. Þeir lentu að vísu mjúklega í heyi (eða skít, í sumum heimildum). Aðallinn kaus svo Friðrik V, kjörfursta í Pfalz, sem konung yfir Bæheimi. Bæheimska uppreisnin breiddist út til nærliggjandi héraða, Slésíu, Mæri og Lausitz og furstinn í Transylvaníu, Bethlen Gábor réðist inn í Ungverjaland til stuðnings mótmælendum. Í Bæheimi flýðu kaþólikkar til borgarinnar Pilsen og bjuggust til varnar. Hershöfðinginn Ernst von Mansfeld tók borgina 21. nóvember 1618. Mansfeld hafði verið sendur til aðstoðar uppreisnarmönnum af hertoganum af Savoja sem einnig óttaðist innrás Spánverja. Friðrik var greifi af Pfalz og kalvínisti og því álitinn sjálfsagður útvörður mótmælenda á Rínarfljóti gegn yfirvofandi innrás Spánverja. Auk þess þótti ljóst að Ferdinand myndi ekki sætta sig við að missa konungdóm í Bæheimi. En þótt Friðrik væri lattur til þess, hélt hann engu að síður til Prag til að taka við konungdómi um haustið 1619. Hann ríkti sem konungur um veturinn 1619-1620 (hann var síðar kallaður „vetrarkonungurinn“) en krýning hans fór fram haustið eftir. Í millitíðinni hafði Ferdinand verið kosinn keisari, eftir málamyndamótmæli frá fulltrúa Pfalz, og gert bandalag við hinn kaþólska Maximilian I af Bæjaralandi. Með blessun hins lútherska Jóhanns Georgs af Saxlandi, sendu þeir saman herlið til Bæheims undir stjórn Tillys hershöfðingja. Mansfeld var sigraður í orrustu við Sablat og hvarf af vettvangi með leifar liðs síns. Herir keisarans unnu síðan endanlegan sigur yfir uppreisnarmönnum í orrustunni við Hvítufjöll 8. nóvember 1620, einungis tveimur mánuðum eftir krýningu Friðriks. Friðrik þurfti að flýja í útlegð og eyddi næstu árum í að afla stuðnings við kröfu sína um konungdóm í Bæheimi. Í Bæheimi fóru fram svo umfangsmiklar trúarhreinsanir að mótmælendaaðallinn hvarf algerlega og Bæheimur varð rómversk-kaþólskur eftir. Lönd mótmælendafursta voru tekin og seld kaþólskum aðalsmönnum eins og Albrecht von Wallenstein. Her Tillys hélt áfram herför sinni til Pfalz og lagði Rínarhéruðin undir sig með stuðningi Spánverja 1623. Maximilian af Bæjaralandi var gerður að kjörfursta sama ár. Stutt ævintýri Danakonungs (1625-1629). Kristján IV hafði árið 1613 unnið sigur gegn Gustav Adolf II Svíakonungi í Kalmarófriðnum. Eftir orrustuna við Hvítufjöll hafði hann náð að nýta sér ótta mótmælenda til að tryggja syni sínum erkibiskupsstól í Bremen-Verden og neytt Hamborg til að samþykkja dönsk yfirráð yfir Holtsetalandi. Á þessum tíma var Gustav Adolf upptekinn í átökum við frænda sinn Sigmund Vasa III konung Póllands. Kristján IV ætlaði sér að tryggja dönsk áhrif í héruðunum við Saxelfi og einnig tryggja að Gustav tæki ekki frumkvæðið sem verndari mótmælenda í Þýskalandi. Þann 5. maí 1625 réðist Kristján IV inn í Þýskaland með 15-20.000 manna herlið og fjárstuðning frá Frökkum. Mansfeld, sem þá hélt sig í Hollandi, hélt liði sínu til stuðnings Kristjáni. En Wallenstein, sem hafði hagnast verulega á hreinsununum í Bæheimi, bauð keisaranum þjónustu sína og hélt gegn Mansfeld með um 50.000 manna liðssafnað og gjörsigraði hann við Dessau 25. apríl 1625. Þann 27. ágúst 1626 tapaði Kristján svo orrustu gegn Tilly við Lutter am Barenberg, missti meginhluta riddaraliðs síns, þar á meðal Enevold Kruse sem hafði verið hirðstjóri á Íslandi, og flýði undan herjum keisarans til Sjálands. Wallenstein rak flóttann og hertók Jótland en komst ekki yfir á eyjarnar þar sem hann hafði engan flota. Þess í stað settist hann um Stralsund (Strælu) sem hefði gefið honum aðstöðu til að koma upp flota á Eystrasalti. 1. janúar 1628 gerði Kristján bandalag við Svía og sameinuðum flota Svía og Dana tókst að aflétta umsátrinu. Í maí 1629 náði Kristján að semja frið við keisarann í Lübeck án þess að láta eftir lönd og dró sig endanlega út úr stríðinu í Þýskalandi. Eftir þessa sigra gaf keisarinn út fyrirmæli 1629 um að þau lönd sem höfðu verið kaþólsk við Ágsborgarfriðinn 1555 en höfðu síðar gerst mótmælendatrúar, skyldu nú verða kaþólsk biskupsdæmi á ný og að kaþólska kirkjan fengi aftur lönd sem furstarnir höfðu gert upptæk á þessum tíma. Þessi skipun varð til þess að stríðið hélt áfram, þar sem hún þýddi að margir mótmælendafurstar hefðu misst umtalsverðan hluta af löndum sínum. Sænsk íhlutun (1630-1635). Gustav Adolf II konungur Svía Árið 1630 sagði keisarinn Wallenstein upp störfum sem hershöfðingja. Wallenstein réði þá yfir her sem taldi fleiri en 100.000 manns, sem var stærri her en nokkur hafði áður safnað saman, þótt stór hluti hans hafi vafalaust verið flóttafólk frá stöðum sem Wallenstein hafði sjálfur lagt í rúst með hernum. Ferdinand óaði við því veldi sem hershöfðinginn hafði komið sér upp og kærði sig ekki um að hann færi út í uppbyggingu flota á Eystrasalti, eins og hann hefur líklega ætlað sér. Niðurstaða þessa var að Wallenstein lét Tilly eftir stjórn hersins og sneri aftur til landa sinna í norðurhluta Bæheims, sem hann kallaði Friedland. 12. janúar 1628 hafði sænska þingið gefið konunginum, Gustav Adolf II, heimild til að taka þátt í styrjöldinni í Þýskalandi. 1629 gerði hann vopnahlé við Pólverja og sá sér leik á borði að stíga fram á völlinn sem verndari mótmælenda í Þýskalandi, niðurlægja í leiðinni Kristján IV og tryggja sér fótfestu í Pommern. Auk þess reri Richelieu kardináli að því öllum árum að fá hann til að ráðast inn í Þýskaland til að draga úr veldi Habsborgara, sem nú virtust ósigrandi, bæði í Þýskalandi og á Spáni. Frakkar hétu Svíum háum upphæðum í stríðsstyrk í þessum tilgangi. Þann 25. júní 1630 sté Gustav Adolf á land á Rügen (Ré) með mikið lið vaskra og vel þjálfaðra hermanna, riddara og skyttna. Gustav var fljótur að tryggja sér bandalag við kjörfurstana í Saxlandi og Brandenburg og sjá til þess að peningar héldu áfram að streyma frá Frakklandi. Hann mætti her Tillys við Breitenfeld 17. september 1631 og hafði afgerandi sigur þótt saxneskir bandamenn hans flýðu af hólmi í miðri orrustu. Ári síðar mætti hann Tilly aftur við Lech-fljótið þar sem Tilly féll 30. apríl 1632. Gustav Adolf var þekktur fyrir að skipa her sínum þannig að skytturnar voru innanum riddaraliðið og skutu meðfram eða yfir hestana. Einnig hafði hann þjálfað skyttur sínar til að stilla sér upp í raðir þannig að þeir fremstu fóru aftast til að hlaða þegar þeir voru búnir að hleypa af, en heildin skaut viðstöðulaust. Gustav Adolf notaði aðra nýjung sem voru léttar leðurfallbyssur sem reyndust illa þegar á hólminn var komið. Með þessum tækninýjungum náði konungur undraverðum árangri í fyrstu átökunum, en andstæðingar hans lærðu fljótt og brátt náði blönduð skipan riddaraliðs og skyttna miklum vinsældum í báðum herjum, ef því varð við komið. Einkum byggði Svíakonungur þó á því að hersveitir hans voru ferskar, vel þjálfaðar og agaðar. Með tímanum varð her hans þó brátt mjög blandaður málaliðum og flóttafólki sem börðust fyrir ránsfeng eins og aðrir herir. Eftir því sem á leið fækkaði í úrvalssveitunum og orðstír Svía fór hratt versnandi. Fall Gustavs Adolfs við Lützen 1632 Um þetta leyti virtist Gustav Adolf vera ósigrandi og keisarinn sá sér þann einn kost að kalla aftur á Wallenstein. Þá um vorið náði Wallenstein að safna miklu liði á fáum vikum og fór gegn her Svía, sem þá höfðu með góðum árangri hertekið mikið svæði í norðurhluta Bæjaralands þangað sem styrjöldin hafði ekki fyrr náð. Wallenstein og Gustav mættust við Lützen nálægt Leipzig. Svíar héldu orrustuvellinum, en konungur féll. Harmi slegnir Svíarnir ákváðu að reka ekki flóttann til að eyða óvinahernum, eins og hefði verið ráðlegt. Axel Oxenstjerna tók við stjórn hersins, og Kristín, dóttir konungs, tók við stjórn Svíþjóðar. Keisaraherinn náði að safnast saman á ný og tveimur árum síðar gerðu þeir út um frekari íhlutun Svía í orrustunni við Nördlingen 5. september 1634 undir stjórn Ferdinands kardinála sonar Spánarkonungs og Ferdinands konungs Ungverjalands elsta sonar keisarans. Fyrr um árið (25. febrúar 1634) hafði Wallenstein verið myrtur að ósk keisarans, grunaður um landráð vegna tilrauna hans til að semja um frið milli fylkinganna. „Sænska tímabilinu“ svokallaða lauk með því að þýsku furstarnir gerðu með sér friðarsamning í Prag í maí árið 1635. Samningurinn fól í sér að eignir kaþólsku kirkjunnar frá því fyrir Ágsborgarfriðinn yrðu ekki endurheimtar, að þýsku furstadæminn skyldu ekki halda sérstaka heri, að þýsku furstunum væri bannað að mynda bandalög sín á milli og að kalvínismi væri löglegur. Með þessu var bundinn endir á bandalög furstanna við Svía, og keisaradæmið gat virst sameinað við bak Ferdinands. Samningurinn dugði samt ekki til að stöðva átökin í Þýskalandi. Lokakafli átakanna (1636-1648). Með friðarsamningunum í Prag var staða sænska hersins, undir stjórn Johans Banér, orðin nokkuð vafasöm. Oxenstjerna tók því þá ákvörðun að kalla Frakka til stuðnings. Richelieu hafði enn miklar áhyggjur af styrk Habsborgara og átti frumkvæði að bandalagi milli Svía, Hollendinga og Frakka. Á móti sendi Spánn herlið inn í Frakkland og Þýskaland. Her Spánar var almennt talinn sá sterkasti í Evrópu á þeim tíma, enda stærsti atvinnuher sem til var. Í fyrstu náðu Spánverjar góðum árangri gegn óöguðum frönskum aðalsmönnum. Spænski herinn sótti inn í Frakkland og nálgaðist París en 1638 tókst Bernard af Saxe-Weimar að hrekja Spánverja burt og valda þeim þungum búsifjum í röð orrusta sem þó náðu ekki að gera út um stríðið. Richelieu kardínáli lést árið 1642 og ári síðar tók Mazarin kardínáli við sem ráðsmaður hins barnunga Loðvíks XIV þegar hann tók við völdum 14. maí 1643. Fimm dögum síðar unnu Frakkar frægan sigur á Spánverjum í orrustunni við Rocroi. Mazarin hóf að reyna að koma á friði, enda ljóst að Þýskaland var rústir einar og Spánn yrði þess seint umkominn að hertaka Holland. Við lát Banérs 1641 varð Lennart Torstenson yfirhershöfðingi sænska hersins í Þýskalandi. 1642 hóf hann herför um Brandenburg, Slesíu og Mæri og gjörsigraði her keisarans við Breitenfeld 23. október 1642. 1643 var hann skyndilega kallaður til að gera innrás í Danmörku Kristjáns IV í stríði sem kallað hefur verið Torstensonófriðurinn en ári síðar réðist hann aftur inn í Þýskaland og vann sigra á her keisarans sem virtist alveg heillum horfinn. 14. mars 1647 gerðu Frakkar, Svíar, Bæjaraland og Köln með sér vopnahlé. Um haustið braut Maximilian vopnahléð og endurnýjaði bandalag sitt við keisarann. Sameinaðir herir Frakka og Svía réðust þá inn í Bæjaraland 1648 og sigruðu her keisarans. Friðarviðræður undir stjórn Mazarins fylgdu í kjölfarið. Friðarsamningarnir í Vestfalíu. Undirritun friðarsamninganna í Vestfalíu 1648 Í stjórnmálasögu er gjarnan (með nokkurri sögulegri ónákvæmni) talað um ríkjakerfi Evrópu sem byggir á sjálfsákvörðunarréttinum og samskiptum milli sjálfstæðra ríkja sem „Vestfalíukerfið“. Vestfalíufriðurinn festi vissulega í sessi mörk ríkja sem við þekkjum í dag og fól í sér viðurkenningu á sjálfstæði Hollands og Sviss og gerði að Hið heilaga rómverska keisaradæmi varð vart meira en nafnið eitt, en hugmyndir þess tíma eru engu að síður langt frá þeim þjóðríkishugmyndum sem síðar komu fram. Vestfalíufriðurinn gekk fyrst og fremst út á samskipti milli voldugra ættarvelda sem einokuðu stjórnmálalífið á 17. öld. Engu að síður er þrjátíu ára stríðið (ásamt einveldishugmyndum) eitt af þeim skrefum sem stigin voru á þessum tíma í átt til þjóðríkja 19. og 20. aldar. Með friðarsamningunum hefst tímabil alþjóðasamskipta og utanríkisstefnu í Evrópu. Eyðilegging stríðsins. Þýsku héruðin urðu mjög misilla úti í styrjöldinni. Sum, eins og Hamborg, náðu að styrkja stöðu sína og sluppu við öll átökin, en önnur misstu allt að helming íbúa sinna. Taka verður tillit til þess að í Þrjátíu ára stríðinu notuðu stríðandi fylkingar markvisst prentaða áróðursbæklinga til að útmála mannvonsku andstæðingsins og eymd fórnarlambanna. Því verður að taka t.d. tölum um mannfall með nokkrum fyrirvara. Engu að síður er ljóst að ástandið á stöðum eins og Pommern, Würzburg og Pfalz, Brandenburg, Bæjaralandi og Bæheimi, var skelfilegt eftir stríðið, og fólksfækkun af völdum stríðsins meiri en helmingur allra íbúa. Beinn orsakavaldur fólksfækkunar voru herfarir hershöfðingjanna fram og aftur um sömu héruðin með heri sem sumir voru illa launaðir málaliðaherir sem börðust fyrir ránsfeng. Venjan var þegar stríðsaðilar urðu uppiskroppa með fé til að greiða hermönnunum, þá gáfu þeir leyfi til að taka ránsfeng í bæjum og borgum sem fyrir þeim urðu. Þetta gat leitt til öldu ofbeldis, nauðgana og morða, þegar hermennirnir fóru hömlulaust að reyna að kreista þau verðmæti sem þeir gátu út úr borgurum og bændalýð. Til er áhrifamikil lýsing á eyðingunni í Magdeburg þegar borgin féll fyrir her Tillys og Pappenheims 20. maí 1631. Af 20.000 manna íbúafjölda borgarinnar voru 400 eftir og borgin brunnin til grunna, eftir að herirnir höfðu farið um hana ránshendi stjórnlaust. Óbeinir orsakavaldar voru hungursneyðir og sjúkdómar. Herfarirnar leiddu til þess að uppskeran eyðilagðist og búfénaði var slátrað fyrir hermennina. Þannig urðu mörg sveitahéruð illa úti og fólkið lagðist í flakk og bættist jafnvel í raðir hersins sem hafði eyðilagt fyrir því lifibrauðið þegar hann færði sig yfir í næsta hérað. Herirnir voru þannig samasafn eiginlegra hermanna, málaliða og manna sem neyddir höfðu verið í herinn, hestasveina og þvottakvenna, gamalmenna og barna. Við þetta mynduðust svo kjöraðstæður fyrir útbreiðslu sjúkdóma eins og taugaveiki, iðrakreppu og kýlapest. Kim Jong-il. Kim Jong-il (16. febrúar 1941 í Viatsk í Sovétríkjunum – 17. desember 2011) var leiðtogi Norður-Kóreu árin 1994 - 2011. Hann tók við af föður sínum Kim Il-sung, sem hafði þá stjórnað landinu síðan 1948. Hann var þekktur í Norður-Kóreu sem „leiðtoginn kæri“ (친애하는 지도자, "ch'inaehanŭn chidoja"). Hann var æðsti yfirmaður herafla landsins og aðalritari í Verkamannaflokki Kóreu, eina leyfilega flokki landsins. Fæðingardagur hans er helsti hátíðardagurinn í Norður-Kóreu ásamt fæðingardegi föður hans. Æviágrip. Kim Jong-Il var einræðisherra Norður-Kóreu á árunum 1994-2007. Hann stjórnaði með harðri hendi líkt og faðir sinn. Ekki er nákvæmlega vitað um fæðingardag hans, kóreskar upplýsingar segja til um að hann hafi fæðst 1942 en sovéskar heimildir segja hann hafa fæðst árið 1941. Sögur segja að hann hafi fæðst hátt uppá fjalli og við fæðingu hans hafi komið tvöfaldur regnbogi og ný stjarna hafi birst á himnum. Kim Jong-Il átti að hafa getað stjórnað veðrinu, ekki er vitað hvað er satt og hvað eru ýkjur eða bara hreinn uppspuni. Kim ættin hefur verið við völd í N-Kóreu og íbúar N-Kóreu eiga að líka mjög vel við Kim ættina, í raun er bannað með lögum að tala neikvætt um þá. Utanaðkomandi aðilar telja þó líklegt að sú ást sé hvött áfram af hræðslu frekar en hreinni ást. Umdeilt er hvort Norður-Kórea eigi kjarnorkuvopn en samkvæmt upplýsingum sem gefnar hafa verið út af N-Kóreu hefur N-Kórea prófað kjarnorkuvopn neðanjarðar með góðum niðurstöðum. Þrátt fyrir afskipti Bandaríkjanna hafa þeir haldið rannsóknum sínum áfram og eru að því enn. Kim Jong-Il er einnig þekktur fyrir að lifa mjög góðu lífi, borðar humar, kavíar og fínasta sushi alla daga og skolar því niður með rándýru cognaci. Mikla unun hefur hann á kvikmyndum og bílum og hefur hann reynt umfangsmiklar tilraunir til þess að stofna kvikmyndaiðnað í Norður Kóreu. Kim Jong-Il lést þó árið 2011 vegna hjartáfalls, sagt var að hann hafi unnið of mikið. Nú hefur sonur hans Kim Jong-un tekið við og ekki er vitað hvort hann muni stjórna í líkingu við föður sinn og afa eða breyta um stíl. Ekki er nákvæmlega vitað hvenar Kim-Jong Il fæddist. Heimildir frá Sovétríkjunum segja að hann hafi fæðst 16. febrúar 1941. Opinberar heimildir Norður-Kóreu segja að hann hafi fæðst 16. febrúar 1942 í leynilegum tjaldbúðum á landamærum Kína. Sögur segja frá því að tvöfaldur regnbogi hafi birst á himnum og ný stjarna hefði einnig birst á sama tíma og hann fæddist. Í gagnfræðaskóla sýndi hann áhuga á fjölmörgum sviðum til dæmis tónlist, vélfræði og landbúnað. Hann fór í vísindaferðir meðal annars á bóndabæi og fleira. Kim sýndi snemma að hann hafði áhuga á stjórnmálum og sýndi einnig fram á hæfileika sýna til að stjórna með því að vera varaformaður í Félagi ungra demókrata. Kim útskrifaðist úr Namsan Middle School 1960 og fór beinustu leið í Kim Il sung Háskólann. Þar lærði hann marxíska-pólitíska efnahagsfræði sem aðalfag, með því tók hann einnig heimspeki og hernaðarleg vísindi en einnig fór hann með föður sínum í ferðir um Norður-Kóreu sem ráðgjafi og lærlingur. Leiðin á toppinn. Árið 1961 varð Kim aðili að Verkamannaflokknum sem var þá stærsti stjórnmálaflokkur í Norður Kóreu. Strax eftir útskrift árið 1964 fór Kim að vinna sig upp metorðastigann hjá flokknum. Á þessum árum var Norður-Kórea að reyna færa sig frá áhrifum stórra kommúnistavelda líkt og Kína og Sóvétríkin. Kim Jong-Il var valinn af flokknum til að leiða sókn gegn áhrifum þeirra og gera hvað hann gæti til þess halda í gömlu viðmiðin sem flokkurinn stóð fyrir. Hann styrkti hernaðartengsl flokksins og rak herforingja sem voru ekki nógu hliðhollir flokknum. Hann tók einnig yfir stóru fjölmiðlafyrirtæki og gaf skýr fyrirmæli um að allir rithöfundar, listamenn og opinberir aðilar skyldu koma þeim áróðri til skila sem flokkurinn vildi. Kim Il sung, faðir Kim Jong-Il var byrjaður að þjálfa son sinn til þess að verða hæfur stjórnandi. Hann byrjaði að þjálfa hann árin 1970 – 1980 á meðan var Kim að verða sífellt mikilvægari í Verkamannaflokknum. 1980 var svo farið að vinna að því að Kim myndi taka við af föður sínum sem leiðtogi Norður-Kóreu. Hörð stjórnun. Tvö atvik áttu sér stað á 9. áratugnum sem sýndi hvernig Kim Jong Il ætlaði að stjórna með harðri hendi. Það var þegar hann fyrirskipaði skotárás á farþegaþotu sem olli því að allir 115 um borð létu lífið. Hitt atvikið var þegar Kim hélt að stjórnmálamenn voru að hittast til að mynda stjórnarandstöðu lét hann sprengja húsið í loft upp sem varð sautján stjórnmálamönnum að bana. Eilífur forseti. 8. júlí 1994 lést Kim Il-sung vegna hjartaáfalls, 82 ára gamall. Hann fékk titilinn „Eilífur forseti“. Af völdum þessa titils varð Kim Jong Il ekki forseti Norður-Kóreu heldur „leiðtogi“ þeirra. Erfiðir tímar. Árin 1990 – 2000 voru erfiðir tímar í Norður-Kóreu. Norður-Kórea var undan farin ár búin að versla mikið við Sovétríkin en við fall Sovétríkjanna 1991 missti Norður-Kórea verslun sína við Sovétríkin. Erfið sambönd við Kína og Suður-Kóreu. Flóð 1995, 1996 og svo þurrkur 1997 lamaði alla matarframleiðslu. Í besta falli var 18% af landinu sem hægt var að nýta til ræktunar. Við þessar aðstæður varð mikið hungur, Kim varð hræddur um að missa völd sín og setti á lög um að herinn hefði forgang á mat. Þannig hafði hann herinn með sér á móti óvinum sínum. Stórar sendingar af mat voru sendar frá Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjunum en þegar sendingarnar komu hafði fólk þegar látist, tölur eru þó mikið á reiki en allt frá 200 þúsund til 3,5 milljónir manna létu lífið vegna hungurs. Kjarnorkuvopn. 1994 gerðu Bandaríkin og Norður-Kórea samning um að Norður-Kórea myndi stöðva þróun á kjarnorkuvopnum ef byggt yrði fyrir þá tvö kjarnorkuver til að framleiða rafmagn. Fleiri samningar voru gerðir á næstu árum. Árið 1999 sömdu Bandaríkin og Norður-Kórea um að N-Kórea mynd hætta tilraunum með langdrægar eldflaugar ef BNA myndi aflétta viðskiptabanni sínu á þeim. Árið 2002 hittust svo Kim Jong-Il og leiðtogi Suður-Kóreu, Kim Dae-Jung, var það í fyrsta skipti sem þeir hittust. Þar var ákveðið að ganga ákveðin skref í átt að sameiningu. Svo árið 2002 sagði forseti Bandaríkjanna, George Bush, að Norður-Kórea væri ekki að virða samning þeirra og væru á laun að augða úran. Bush líkti einnig Kim og stjórnun hans við illsku. Þetta hafði ekki góð áhrif á samband Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Ári seinna lýsti Kim Jong-Il svo yfir að Norður-Kórea væri farinn að rannsaka og reyna að framleiða kjarnorkusprengjur. Svo árið 2006 var gefið út að Norður-Kórea hefði gert tilraun með kjarnorkusprengjur neðanjarðar sem á að hafa heppnast vel. Eyðslusemi. Kim Jong-Il var þekktur fyrir að gera mjög vel við sig. Kim flutti inn $700 þúsund virði af Hennessy koníakí á hverju ári. Borðaði humar, kavíar, einungis fínasta sushi og elskaði að horfa á Hollywood myndir. Rambo og Friday the 13th voru meðal uppáhaldsmyndum hans. Kim elskaði einnig Benz bifreiðir og átti flota af bifreiðum. Kim hafði mikinn áhuga á kvikmyndum, sagður eiga meira en 20 þúsund kvikmyndir og gekk svo langt árið 1978 að hann lét ræna frægum leikstjóra og konu hans frá Suður-Kóreu og flytja hann til Norður-Kóreu með það í huga að reyna að mynda kvikmyndaiðnað í Norður-Kóreu. Persónuleiki og stjórnun. Kim Jong-Il náði að halda einkalífi sínu frekar leyndu, orðrómu var um það að hann hefði gift sig áður og átt börn. Elsti sonur hans og erfingi hans var opinberlega niðurlægður þegar hann var handtekinn í Disney-landi í Tokyo með falsað vegabréf og við það missti hann arf sinn. Þá var bróðir hans næstur í röðinni, Kim Jong-un. Eins og góður einræðisherra eru myndir af Kim Jong-Il og föður hans út um allt. Meinyrði gagnvart Kim mönnum er refsivert. Lofsöngvar eru stanslaust í útvarpinu og allir fjölmiðlar eru í eigu ríkisins svo þeir geta ekki miðlað neinu sem á ekki að komast í loftið, einnig eru afmælisdagar þeirra feðga miklir hátíðardagar í landinu. Þó segja utanaðkomandi aðilar að ástin sem einræðisherrunum er gefin af fólkinu sé drifin áfram meira af ótta en ást. Dvínandi heilsa. Opinberar upplýsingar segja Kim Jong-Il hafa átt þrjár eiginkonur, þrjá syni og þrjár dætur þó segja aðrar heimildir um að hann hafi átt hátt í 70 börn. Kim Jong-Il lést svo á leið sinni þvert yfir landið þann 17. desember 2011. Ekki leið langur tími þar sem Norður-Kórea var leiðtogalaust en nánast um leið og Kim Jong-Il lést var þriðji sonur hans Kim Jong-Un gerður æðsti ræðismaður og einræðisherra Norður-Kóreu. Norður-Kórea. Norður-Kórea, opinbert heiti Alþýðulýðveldið Kórea (kóreska: "Chosŏn Minjujuŭi Inmin Konghwaguk"; hangul: 조선민주주의인민공화국; hanja: 朝鮮民主主義人民共和國), er land í Austur-Asía|Austur-Asíu og þekur norðurhluta Kóreuskaga. Til suðurs á Norður-Kórea landamæri við Suður-Kóreu, en þessi lönd voru áður þekkt sem Kórea. Á landamærunum er 4 kílómetra breitt hlutlaust svæði. Í norðri á Norður-Kórea landamæri við Kína og Rússland. Á stöku stað er landið kallað "Pukchosŏn" ("Norður-Chosŏn"; 북조선; 北朝鮮). "Bukhan" ("Norður-Han"; 북한; 北韓) er almennt notað í Suður-Kóreu. Kóreuskaginn var allur undir Kóreska keisaradæminu frá 19. öld til 1910 þegar Japanska keisaradæmið lagði hann undir sig. Þegar Japanir gáfust upp við lok Síðari heimsstyrjaldar var skaganum skipt í tvö hernámssvæði: norðurhluta undir stjórn Sovétríkjanna, og suðurhluta undir stjórn Bandaríkjanna. Kosningar á vegum Sameinuðu þjóðanna 1948 urðu til þess að hvor hlutinn fékk sína ríkisstjórn. Bæði ríkin gerðu tilkall til alls skagans sem leiddi til Kóreustríðsins 1950. Samið var um vopnahlé 1953 en formlegur friðarsamningur hefur aldrei verið gerður. Bæði ríkin urðu aðilar að Sameinuðu þjóðunum árið 1991. Norður-Kórea er flokksræði undir stjórn kóreska verkamannaflokksins. Hugmyndafræði flokksins er sögð mótuð af fyrsta forseta landsins, Kim Il-sung, og leggur áherslu á pólitískt sjálfstæði, sjálfræði og sjálfsþurft. Ríkið einkennist af persónudýrkun leiðtoga þjóðarinnar, áherslu á uppbyggingu hers og efnahagslegri einangrunarstefnu. Króatía. Lýðveldið Króatía er land á Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Slóveníu og Ungverjalandi í norðri, Serbíu í austri og Svartfjallalandi á örstuttum kafla allra syðst. Króatía á einnig landamæri að Bosníu og Hersegóvínu en hún umlykur það land að mestu. Ísland varð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu árið 1991. Serbía og Svartfjallaland. Serbía og Svartfjallaland var samband tveggja fyrrum lýðvelda Júgóslavíu: Serbíu og Svartfjallalands. Þessi tvö voru þau einu af 6 lýðveldum Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu sem ekki höfðu sagt skilið við það á árunum 1991-1992 en hin fjögur voru Slóvenía, Króatía, Bosnía og Hersegóvína og Makedónía. Upphaflega hét ríkið Sambandslýðveldið Júgóslavía en því var breytt með nýrri stjórnarskrá sem tók gildi 2003. Með nýju stjórnarskránni var samstarf Serbíu og Svartfjallalands takmarkað við afmörkuð svið (t.d. varnarmál) en þau ráku sjálfstæða efnahagsstefnu og notuðu mismunandi gjaldmiðla. Í stjórnarskránni voru einnig ákvæði um að bæði ríkin gætu farið fram á að sambandinu yrði slitið ef það væri samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hægt væri að halda í fyrsta lagi árið 2006. Slík atkvæðagreiðsla fór fram í Svartfjallalandi 21. maí það ár og lýsti Svartfjallaland formlega yfir sjálfstæði 3. júní og batt þannig enda á sambandið við Serbíu. Serbneska þingið lýsti því svo yfir 5. júní að Lýðveldið Serbía væri arftaki sambandsins. FTP. FTP-samskiptareglurnar eða bara FTP (enska: "File Transfer Protocol") eru samskiptareglur fyrir flutning gagna á milli tölva og er þetta einn elsti samskiptastaðallinn sem enn er í notkun. Hann tilheyrir notkunarlagi OSI netsamskipta módelsins. FTP er átta bita biðlaraþjónustu samskiptastaðall sem getur meðhöndlað gögn án þess að þurfa breyta þeim (engin dulkóðun eða annað slíkt fer fram), aftur á móti er biðtími langur, þ.e. milli þess að skipunin er gefin og gagnaflutningur hefst og einnig getur auðkenning verið langdregin. Yfirlit. FTP notar tvær TCP tengingar samtímis, aðra á porti 21 og hina á porti 20. Gögnin og skipanirnar sem fara á milli þjóna eða þjóns og biðlara eru aðskilinn, gögnin fara um port 20 á meðan að skipanir til að stjórna samskiptunum fara um port 21. Á meðan á gagnafærslu stendur ganga engar skipanir á milli og portið er aðgerðalaust, þetta veldur því, þar sem að eldveggir loka ónotuðum portum, að rof verður á sambandi. Kýótósáttmálinn. Kyotosáttmálinn er alþjóðlegur samningur um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem samþykktur var 15. febrúar 2005 í Kyoto í Japan eftir að rússar samþykktu hann. Með samningnum er ætlunun að draga úr gróðurhúsaáhrifum og hnattrænni hlýnun. Skammstöfun. Skammstöfun er stytting á einu eða fleiri orðum, en styttingin samanstendur vanalega af stöfum úr upprunalegu orðunum. Þegar orð er ritað án skammstöfunar er sagt að það sé ritað "fullum stöfum". Reglur um skammstöfun í íslensku. Í íslensku gilda þær málvenjur að settur er punktur á eftir hverju heilu orði sem er stytt t.d. „og fleira“ sem er skammstafað sem „o.fl.“ og „þar á meðal“ sem er skammstafað „þ.á m.“. Ekki er settur punktur þegar fyrri hluti orðs er skammstafaður, t.d. Rvík fyrir Reykjavík, ef skammstafað er SI viðskeyti (10 m, 15 km) og ef stofnun eða fyrirtæki er skammstafað t.d. RARIK. Um notkun punkts. og heldur er ekki bætt við punkti við skammstafanir af erlendum uppruna Um stafbil. Því að liðirnir á undan þeim síðasta eru annað hvort tveir stafir eða fleiri (cand. med.) eða hvor um sig sjálfstæðar einingar (ef. ft., o.fl. o.fl) Algebra. Síða úr "Kitab al-mukhtasar fi Hisab Al-Jabr wa-al-Moghabalah". Algebra eða merkjamálsfræði, er grein innan stærðfræðinnar sem snýst, í stuttu máli, um óþekktar stærðir og úrvinnslu úr þeim. Orðið er komið úr arabísku, en þetta er stytting á nafni rits eftir Al-Khwarizmi er hét "Kitab al-mukhtasar fi Hisab Al-Jabr wa-al-Moghabalah" sem þýðir "Bók samantektar varðandi útreikning með hjálp tilfærslu og einföldunar"; en orðið "Al-Jabr" (الىابر) þýðir "einföldun" eða "smækkun". Iron Maiden. Iron Maiden á tónleikum 2006. Iron Maiden er þungarokkshljómsveit sem var stofnuð á jóladag árið 1975 af bassaleikaranum Steve Harris fyrrverandi meðlim Gypsy's Kiss og Smiler. Hljómsveitin er ein sú áhrifamesta og þekktust af gaddavírsböndum („heavy metal“) heims og hefur selt meira en 100 milljón plötur á heimsvísu. Byrjunin. Iron Maiden var stofnuð af bassaleikaranum Steve Harris í London árið 1975, sem þá var aðeins 19 ara og auk þess alveg bráðefnilegur knattspyrnumaður þar sem hann spilaði með unglingaliði West Ham í austurhluta London. Ætlunin hjá Steve var að byrja að læra á trommur, en sökum plássleysis ákvað hann frekar að fá sér bassa. Hann fékk sinn fyrsta bassa 17 ára gamall, Fender Telecaster eftirlíkingu fyrir 40 pund, sem eru um 5000 íslenskar krónur. Steve byrjaði að spila með Gypsy’s Kiss, en sú hljómsveit entist aðeins 6 tónleika. Á eftir henni stofnaði Steve hljómsveitina Smiler sem ekki varð langlíf heldur. En síðan stofnaði hann nýtt band sem átti eftir að verða mun langlífara, Iron Maiden. Nafn sveitarinnar, Iron Maiden, eða Járnmærin á íslenskri tungu, má rekja til gamals pyntingartækis. Hugmyndina fékk Steve úr kvikmyndinni The Man In The Iron Mask (1939). Á þessum tíma var pönkstefnan vinsælust, en Harris hlustaði frekar á rokkbönd eins og Deep Purple, Jethro Tull, Judas Priest og Wishbone Ash og hafði mestan áhuga á að spila í tónlistarstefnu fyrrgreindra hljómsveita. Það sem Iron Maiden var að semja og spila var mjög keimlíkt því sem Gypsy´s Kiss og Smiler voru að gera. Steve réð til sín söngvarann Paul Day, gítarleikaranna Dave Sullivan og Terry Rance og trommarann Ron „Rebel“ Matthews. Þessi liðsskipan átti eftir að breytast mjög fljótt, þar sem Steve hafði mjög sterka skoðun og hugmyndir um það hvernig tónlistarstefnan þeirra yrði. Í nóvember sama ár voru bara Ron og Steve eftir, þá réð hann söngvarann Dennis Wilcock, sem áður hafði verið í Smiler með Steve og gítarleikarnn Bob Sawyer (Bob Angelo). Dennis benti Steve á gítarleikarann Dave Murray og var hann samstundis ráðinn. Í lok ársins hætti svo Bob Sawyer. Nú hófst tími mannabreytinga innan bandsins. Inn kom Barry Graham en hann vildi láta kalla sig „Thunderstick“. Og mikill órói var innan bandsins. Dave þoldi hvorki Dennis né Bob og öfugt og endaði það með því að hann var rekinn úr sveitinni. Steve sá mjög á eftir honum og að lokum fengu allir að fjúka. Hann nýtti tækifærið og endurréð Dave. Aftur réð hann fyrrum Smiler meðlim en að þessu sinni var það Doug Sampson, trommari. Löng leit af söngvara lauk þegar Steve fann Paul Di’Anno. Endalausar mannabreytingar héldu áfram. Rísandi frægð. Fyrstu alvöru tónleikar Iron Maiden voru í Ruskin Arms klúbbnum í London, á gamlárskvöld 1977. Þeir héldu síðan áfram að spila á klúbbum við góðar viðtökur. Meðan á að þessum tónleikum stóð sömdu þeir lög, þar á meðal lögin Prowler, Strange World og Iron Maiden. Þeir ákváðu loks að fara í stúdíó til að taka upp eitthvað af þessu nýsamna efni. Þeir fóru í Spacewars stúdíóið í Cambridge og tóku þar upp Prowler, Strange World, Iron Maiden og Invasion. Stúdíótímarnir kostuðu 200 pund. Þeir sendu plöturnar til ýmissa útgefanda og að lokum voru þær gefnar út á plötunni The Soundhose Tapes, sem var þó aðeins smáskífa. Hún var gefin út í smáu upplagi og þykir ómetanlegur safngripur i dag. Platan vakti jafnframt mikla athygli, og fengu strax umboðsmann, Rod Smallwood. Þarna komust þeir einnig í kynni við teiknarann Derek Riggs, sem teiknaði og hannaði goðsagnaveruna Eddie, sem hefur alla tíð verið lukkudýr sveitarinnar og prýtt öll þeirra plötuhulstur. Smallwood stóð sig nokkuð vel í starfi umboðsmanns og kom á mörgum tónleikum fyrir þá. Hann mælti einnig með því að þeir réðu annan gítarleikara, sem varð Dennis Stratton. Doug Sampson þurfti að hætta í bandinu og í hans stað kom Clive Burr. Rokkið sem tónlistarstefna átti sívaxandi vinsældum að fagna og rokkplötur seldust vel um þetta leyti. Þegar fyrsta lag væntanlegrar plötu kom út sló það í gegn og náði 36. sæti breska vinsældarlistans, en þetta var lagið Running Free. Þeim var boðið að koma fram í sjónvarpi í Top of the Pops þættinum á BBC. Þeir samþykktu það með því skilyrði að þeir fengu að spila ‘live’. Þeir fengu það og urðu þar með önnur hljómsveitin til að gera það, en The Who með Pete Townshend í broddi fylkingar gerðu það fyrstir banda árið 1973. Platan, sem einfaldlega hét Iron Maiden, kom út þann 14. apríl 1980. Umslag plötunnar prýddi fyrsta teikning Dereks Riggs af Eddie. Platan sló í gegn og náði 4. sæti á topplistanum í Bretlandi. Platan innihélt lög á borð við Phanton of the Opera, Iron Maiden og Running Free. Flest laganna voru samin af Steve og Paul. Þetta sama ár komu út tvær smáskífur, þær Sanctuary og Women in Uniform. Þær vöktu einna helst athygli fyrir umslögin, en á Sanctuary sést Eddie myrða Margaret Thatcher með öxi, en á Women in Uniform situr Margaret fyrir honum með vélbyssu. Steve fannst Dennis vera að semja of mikið af lögum sem hljómuðu eins og 10cc eða The Eagles og að lokum var hann rekinn. Í stað hans var ráðinn æskuvinur Dave Murray, Adrian Smith. Í ágúst sama ár er þeim boðið að hita upp fyrir stórbandið frá Ameríku, KISS, á Evróputúr þeirra, og að hita upp fyrir UFO í Reading. Það gaf Steve tækifæri til að hitta Pete Way, einn af hans helstu áhrifavöldum. Auknar vinsældir. Önnur plata var væntanleg frá strákunum og fengu þeir í þetta skiptið Martin Birch til að útsetja hana. Birch hafði áður unnið með Deep Purple, Black Sabbath, Rainbow og Whitesnake. Hann breytti hljóminum til hins betra og kom með nýjar áherslur. Þann 2. febrúar kom svo platan út og fékk nafnið Killers. Hún náði 12. sæti á breska listanum, sem voru nokkur vonbrigði miðað við hæðina sem fyrsta platan náði. Meðal laga voru Drifter, Killers og Wrathchild. Eftir plötuna fóru þeir í tónleikaferðalag um heiminn og auk þess að spila í Evrópu fóru þeir í fyrsta sinn til Kanada og Japan. Plata var gefin út með upptöku af tónleikum í Japan, sem fékk nafnið Maiden Japan. Nú voru Maiden á barmi heimsfrægðar. Þeir spiluðu á 125 tónleikum árið 1981 og þeir hafa alltaf verið þekktir fyrir að vera duglegir að spila á tónleikum um allan heim. Di’Anno lifði lífi hinnar dæmigerðu rokkstjörnu; reykti, drakk, dópaði og djammaði mikið. En það var farið að hafa áhrif á röddina og var honum sagt að hann mætti ekki drekka neitt sterkara en te til að halda röddinni. Það tókst honum erfiðlega og var hann að lokum rekinn um haustið 1981, en þó má einnig segja að kókaínneysla hans hafi haft sitt að segja. Það olli mikilli óvissu um framtíð sveitarinnar. En í stað Paul Di'Anno var ráðinn Bruce Dickinson, söngvari breska rokkbandsins Samson. Reyndar kallaði Bruce sig Bruce Bruce eftir persónu úr Monty Python atriði, en breytti því svo aftur í Dickinson þegar hann gekk til liðs við Maiden. Og nú fóru hlutirnir fyrst að gerast af alvöru hjá Iron Maiden. Gullárin. "„Woe to you, oh Earth and Sea, for the Devil sends the beast with wrath, because he knows the time is short... Let him who hath understanding reckon the number of the beast for it is a human number, its number is Six hundred and sixty six.“ Auk titillagsins inniheldur platan þekktasta lag sveitarinnar, Run to the Hills sem fjallar um baráttu indjána og kúreka. Fyrri hluti lagsins er frá sjónarhorni indjánanna („White man came, across the see, he brought us pain, and misery“), en sá seinni frá sjónarhorni kúrekanna. („Raping the women and wasting the men, the only good indians are tame“) Síðasta setningin vitnar í orðin „The only good indians are dead indians“ „Melting his face screaming in pain Peeling the skin from his eyes Watch him die according to plan He’s dust on the ground what did we learn“ Hallowed by Thy Name fjallar um seinustu augnablik í lífi manns sem er við það að deyja. Textinn er frábær og söngurinn mjög kraftmikill. Þeir fóru á risa tónleikaferðalag eftir Number of the Beast plötuna, Beast on the Road, og spiluðu meðal annars í fyrsta sinn í Ástralíu og Nýja Sjálandi og síðan fyrir 35.000 manns á Reading tónleikahátíðinni. Alls voru tónleikarnir um 180. Brátt hætti Clive Burr sem trommari vegna erfiðra samskipta við Steve. Í hans stað kom trommarinn úr sveitinni Trust, Michael McBrain, kallaður Nicko. Virkilega hæfileikaríkur trommari. Hans fyrsta verkefni var næsta plata þeirra, Piece of Mind. 16. maí 1983 kom hún út og náði hún 33. sæti breska vinsældarlistans. Frægustu lög þeirrar plötu eru líklega The Trooper og Flight of Icarus. Á umslaginu er Eddie hlekkjaður á geðveikrahæli. Tónleikaferðalagið eftir Piece of Mind gekk vel og voru alltaf fleiri að mæta og sjóvið að aukast. Næsta plata fékk nafnið Powerslave og kom hún út 3. september 1984, en hún var fyrsta platan þar sem line-upið breyttist ekki. Á plötuumslaginu var Eddie egypskur Faraó. Á þessum tíma voru Iron Maiden á toppi ferils síns og þessi plata er svo sannarlega merki um það. Lög eins og Aces High, Powerslave og 2 Minutes To Midnight eru algjör klassík. Síðan er þarna lagið Rime of the Ancient Mariner, byggt á samnefndu ljóði eftir Samuel Taylor Coleridge. Lagið skiptist í 7 parta og er rúmar 13 mínútur á lengd. Næst kom út live platan Live After Death. Hún var tvöföld og fylgdu með textarnir, sem er frekar óvenjulegt á tónleikaplötum á þeim tíma. Næsta breiðskífa var Somewhere in Time sem kom út þann 29. júní 1986. Á umslaginu var Eddie í stórborg og með geislabyssu. Platan fékk reyndar þá gagnrýni að formúlan væri þreytt og væri búið að reyna hana áður. Lög á borð við Caught Somewhere in Time og Wasted Years eru meðal betri laga plötunnar. Það leið nokkur tími í næstu plötu, eða tvö ár. Þá kom út Seventh Son of a Seventh Son. Nafnið átti vel við, enda var þetta sjöunda plata þeirra. Platan var alls ekki ólík seinustu plötu og fékk svipaða gagnrýni. Hún kom 11. apríl 1988 og þrátt fyrir gagnrýnina seldist hún vel og náði fyrsta sæti breska vinsældarlistans. Á umslagi myndarinnar var Eddie að leysast í sundur og var það greinilegt merki um að sveitin væri á sömu braut. Liðsmenn hennar höfðu alls ekki jafngaman af þessu og áður. En á plötunni má helst nefna lagið Can I Play With Madness og titillagið sjálft. Eftir þessa plötu ákváðu liðsmenn sveitarinnar að taka sér ársfrí og koma svo sterkir inn aftur. Veldið hrynur? Í þessu fríi sendi Bruce frá sér sólóplötuna Tattooed Millionare meðal annars með vini sínum Janick Gers. Adrian stofnaði hljómsveitina ASAP, sem stendur fyrir As Soon As Possible. Að loknu þessu fríi kom hljómsveitin saman til að taka upp nýja plötu, Martin Birch var ráðinn til að stjórna upptökum. Það gekk ekki áfallalaust fyrir sig og að lokum gekk Adrian út. Þá hafði Bruce samband við fyrrnefndan Janick Gers og bað hann um að koma í stað Adrians. Hann samþykkti það, enda kunni hann flest Maiden lögin. Platan kom út 1. október 1990. Hún hét No Prayer for the Dying. Hún fékk misgóða dóma, en lögin Holy Smoke og Bring Your Daughter to the Slaughter eru þó ágætis smellir. Platan náði öðru sæti breska listann. Þrátt fyrir það er þetta ein þeirra slakasta plata. 1992 kom svo út platan Fear of the Dark. Hún fékk ekki mjög góða dóma þó hún hafi innihaldið lög á borð við Be Quick or Be Dead og Fear of the Dark, sem er reyndar frábært lag. Lag sem er ávallt spilað á tónleikum. Enn voru Maiden að reyna að ná fram plötu sem minnti á gullaldartímana. Á tónleikaferðalaginu eftir plötuna kom sveitin til Íslands, en miðasalan gekk svo illa að fólki var bara hleypt frítt inn. Í byrjun ársins 1993 hætti Bruce óvænt í sveitinni. Þeir fengu 5000 upptökur með söngvurum sem höfðu áhuga á að syngja með þeim. Að lokum var valinn maður sem kallaði sig Blaze Bayley. Fyrsta plata hans var X-Factor. Hún kom út 1995. Þetta var tíunda plata þeirra og fékk hún slæmar viðtökur og ætla ég ekki að segja mikið um hana. 1996 gáfu þeir út safnplötu og eftir gott frí kom platan Virtual XI út árið 1998. Nafnið vísaði til þess að platan var sú ellefta. Hún fékk enn verri dóma en X-Factor og að marga mati var stutt í endalok sveitarinnar. Steve Harris og Blaze töluðust ekki við og Blaze ferðaðist í annarri rútu á ferðalögum. Brátt var staðfest að Bruce væri kominn aftur, og með Adrian Smith með sér. Lítið var sagt um Blaze, en hann vildi sjálfur meina að þetta hafi verið gert í góðu. Endurris. Árið 2000 kom út platan Brave New World, hún fékk góða dóma. Mörg frábær lög prýða plötuna og standa Wicker Man, Dream of Mirrors og Blood Brothers hæst ásamt titillaginu. Árið 2003 kom svo út Dance of Death platan sem innihélt m.a. Wildest Dreams og Dance of Death. Á plötunni er einnig lagið Face In The Sand sem er fyrsta og eina lagið sem að Nicko McBrain notar tvöfalda bassatrommu. DVD diskurinn „The History Of Iron Maiden: The Early Days“ kom út seint 2004 og fór þeir á heimstúr sumarið eftir og komu til Íslands eftir 13 ára bið. Eftir túrinn gáfu þeir út live plötuna „Death on The Road“ sem tekinn var upp í Dortmund á DoD túrnum og DVD diskur með sama nafni kom svo út í febrúar 2006. Sumarið 2006 tilkynnti hljómsveitin að næsta plata hljómsveitarinnar myndi heita „A Matter of Life and Death“. Platan kom svo út í byrjun september sama ár við góðar viðtökur aðdáenda og gagnrýnenda. Margir hafa jafnvel kallað hana bestu plötu Maiden frá 1988, eða síðan „Seventh Son of a Seventh Son“ kom út. Tölvupóstur. Tölvupóstur eða rafpóstur er rafrænn samskiptamáti sem notast við Internetið. Hann gerir mögulegt að senda stafræn skeyti, með aðstoð SMTP samskiptastaðalsins, á milli manna sem hafa gild netföng. Mörg netfyrirtæki sjá hag sinn í því að bjóða upp á ókeypis netföng, t.d. Hotmail, Yahoo! og Gmail. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. a> þar sem framkvæmdastjórnin hefur aðsetur. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er ein helsta stofnun Evrópusambandsins (ESB) og telst fara með framkvæmdavald innan þess. Störf framkvæmdastjórnarinnar felast aðallega í því að semja frumvörp og setja nýja löggjöf, fylgja settri stefnu í einstökum málaflokkum, að sjá til þess að markmiðum stofnsamninganna sé framfylgt og sjá um rekstur ESB. Í framkvæmdastjórninni sitja 27 fulltrúar, einn frá hverju aðildarríki sambandsins. Framkvæmdastjórnin gegnir einnig því hlutverki á stundum að vera í fyrirsvari fyrir Evrópusambandið á alþjóðavettvangi, t.d. í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Framkvæmdastjórnir eru gjarnan kenndar við forseta framkvæmdastjórnarinnar, núverandi forseti (síðan í nóvember 2004) er José Manuel Durão Barroso og leiðir hann Barroso-framkvæmdastjórnina. Fjöldi starfsmanna starfa undir framkvæmdastjórnina, telja þeir um 25.000 manns og eru með aðstöðu í Berlaymontbyggingunnni í Brussel. Þau tungumál sem notuð eru eru enska, franska og þýska. Áður hafa 11 framkvæmdastjórnir setið frá setningu Rómarsáttmálans árið 1957. Það eru Hallstein (1958-67), Rey (1967-70), Malfatti (1970-72), Mansholt (1972-73), Ortoli (1973-77), Jenkins (1977-81), Thorn (1981-85), Delors (1985-94), Santer (1995-99), Marín (1999) og loks Prodi (1999-2004). Framkvæmdastjórn Jacques Delors er talin ein sú farsælasta en á því tímabili voru Einingarlögin sett og Maastrichtsáttmálinn samþykktur eftir mikið þóf. Framkvæmdastjórn Jacques Santer þurfti hins vegar að segja af sér vegna hneykslismáls árið 1999. Hlutverk. Sérstök áhersla er á hagsmuni Evrópu sem einnar heildar í starfi framkvæmdastjórnarinnar. Ráðherraráðið endurspeglar ríkisstjórnir aðildarríkjanna og hagsmuni þeirra, öðru fremur, og Evrópuþingið er skipað fulltrúum borgara Evrópu. Framkvæmdastjórnin hefur á hinn bóginn hvað mest sjálfstæði og hvað minnst lýðræðislegt lögmæti. Í 211 grein Rómarsáttmálans segir að hlutverk Framkvæmdastjórnarinnar sé að sjá um stefnumótun, undirbúa lagafrumvörp, undirbúa fjárlög ESB, annast viðskiptasamninga við erlend ríki og veita framkvæmd stofnsamninga og samþykkta eftirfylgni. Ráðherraráðið felur Framkvæmdastjórninni framkvæmdavaldið á öllum sviðum nema utanríkisstefnu þar sem sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna á við sem fellur undir Ráðherraráðið. Framkvæmdastjórnin hefur frumkvæði að lagasetningu á þeim málaflokkum sem falla undir ESB með samningu frumvarpa (nema á sviði utanríkismála). Bæði Ráðherraráðið og Evrópuþingið geta farið fram á að tiltekið frumvarp verði samið en slíkt er þó ekki algengt og í öllu falli getur Framkvæmdastjórnin neitað. Samkvæmt Lissabonsáttmálanum geta almennir borgarar Evrópu beðið um tiltekna lagasetningu með því að safna einni milljón undirskrifta, slík undirskriftasöfnun er þó ekki heldur bindandi fyrir Framkvæmdastjórnina. Eftir að frumvarp verða að lögum með lagasetningu Ráðherraráðsins sem og Evrópuþingsins fellur það í skaut Framkvæmdastjórnarinnar að sjá til þess að þeim lögum sé framfylgt með eftirliti. Þetta er gert eftir flóknu kerfi nefnda (á ensku "comitology"). Framkvæmdastjórnin ber einnig ábyrgð á fjárreiðum Evrópusambandsins í samvinnu við Endurskoðunarréttinn. Á vegum Framkvæmdastjórnarinnar koma ótal skýrslur á hverju ári. Mikið samráð er haft við ríkis- og sveitarstjórnir aðildarríkja auk ýmissa hagsmunahópa og félagasamtaka við samningu lagafrumvarpa. Uppbygging. Hver framkvæmdastjóri tekur að sér umsjón með ákveðnu sviði í starfsemi ESB (líkt og ráðherrar í ríkisstjórn). Forseti framkvæmdastjórnarinnar er valinn af Evrópska ráðinu en Evrópuþingið verður að staðfesta það val. Síðan tilnefna aðildarríkin hvert einn fulltrúa í stjórnina í samráði við forsetann. Fjöldi varaforseta er fimm í núverandi framkvæmdastjórn en hann er breytilegur. Þegar stjórnin er fullskipuð og verkaskiptingin innan hennar er komin á hreint verður Evrópuþingið að samþykkja framkvæmdastjórnina í heild sinni. Kjörtímabil framkvæmdastjórnarinnar er fimm ár og henni verður ekki vikið frá nema ⅔ hlutar Evrópuþingsins samþykki tillögu þess efnis, einstökum stjórnarmönnum verður þó eingöngu vikið frá störfum samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins ef þeir hafa gerst sekir um alvarleg afglöp í starfi eða fullnægja ekki lengur skilyrðunum sem þeir ættu að gera. Framkvæmdastjórnin á að vera óháð ríkisstjórnum aðildarríkjanna í störfum sínum og ekki beygja sig undir þrýsting frá þeim. Hún á að berjast fyrir hagsmunum sambandsins í heild en ekki einstakra aðildarríkja. Eins og fram kom fyrr er töluvert erfitt að víkja framkvæmdastjórninni frá og er það liður í því að tryggja sjálfstæði hennar. Fita. Fita eða fituefni ("lípíð") er efnasamband fitusýra og glýseróls (og stundum annarra efna á borð við nitur og fosfór) og eru lífræn efni sem að eru illvatnsleysanleg en leysast upp auðveldlega með lífrænum leysum. Hún er helsta forðanæring lífvera og skiptist upp í fitur, vax og stera. Evrópuþingið. Evrópuþingið er þing Evrópusambandsins (ESB). Sumar aðrar alþjóðastofnanir hafa yfir að ráða þingum en Evrópuþingið sker sig úr að því leytinu til að þingmennirnir eru kosnir beint af borgurum Evrópusambandsins. Alls sitja 751 þingmaður á þinginu. Völd þingsins. Líta má á Evrópuþingið sem neðri deild löggjafa Evrópusambandsins þar sem Ráðherraráðið er efri deildin, saman fara þessar stofnanir með löggjafarvaldið innan ESB. Þingið getur þannig samþykkt, gert breytingartillögur eða hafnað flestum reglugerðum, tilskipunum, tilmælum og álitum. Innyrðis valdahlutföll þingsins og Ráðherraráðsins eru þó misjöfn eftir því á hvaða sviði löggjöfin er en þróunin hefur verið í þá átt að veita þinginu meiri völd. Þingið getur líka samþykkt eða hafnað fjárlögum ESB. Evrópuþinginu er einnig ætlað að veita framkvæmdastjórninni lýðræðislegt aðhald. Þingið þarf að leggja blessun sína yfir skipun nýrrar framkvæmdastjórnar og það getur með ⅔ hluta atkvæða lýst vantrausti á hana þannig að hún þurfi að segja af sér. Drög að Stjórnarskrá Evrópusambandsins gera ráð fyrir því að auka enn völd þingsins þannig að það löggjafarvald í nánast öllum málaflokkum og veita því algjöra stjórn yfir fjárlögum ESB. Staðsetning. Þó að þær stofnanir ESB sem fara með framkvæmdavaldið (framkvæmdastjórnin og Evrópska ráðið) séu staðsettar í Brussel þá var það gert að skilyrði í Amsterdamsamningnum að þingið hittist mánaðarlega í Strasbourg. Af praktískum ástæðum fer þó öll undirbúningsvinna og nefndarstarf fram í Brussel í nálægð við hinar stofnanir ESB. Ofan á þetta þá er aðalskrifstofa þingsins í Lúxemborg og þar er megnið af starfsfólki þess. Þingið kemur aðeins saman 4 daga í mánuði í Strasbourg þar sem það afgreiðir málin og greiðir atkvæði en aðrir fundir eru haldnir í Brussel. Þingið hefur sjálft óskað eftir því nokkrum sinnum að það fái sjálft að ráða því hvar það skuli vera staðsett enda er mikið óhagræði í þessu kerfi, en það er undir aðildarlöndunum komið að gera þeir breytingar sem þarf til að leyfa þinginu það og Frakkar vilja endilega halda því í Strasbourg. Kosningar. Ríkisborgarar aðildarríkjanna kjósa til þingsins á fimm ára fresti. Þær fyrstu fóru fram árið 1979 og verða þær næstu haldnar í júní 2009. Hvert ríki fyrir sig ákveður hvernig kosningunum er háttað nákvæmlega en oft er kosið um sömu flokka og í landskosningum. Stærri stjórnmálaflokkar hafa myndað evrópuflokka með systurflokkum sínum í Evrópu. Þessir flokkar starfa svo einir eða fleiri sem hópar á þinginu. Evrópudómstóllinn. Evrópudómstóllinn (ECJ) er dómstóll Evrópusambandsins, hann hefur aðsetur í Lúxemborg ólíkt flestum stofnunum ESB sem hafa aðsetur í Brussel. Evrópudómstóllinn dæmir í málum sem varða túlkun á Evrópurétti en hann hefur einkarétt á slíkri túlkun og dómstólar í aðildarríkjunum eru bundnir af túlkun hans. Fordæmi Evrópudómstólsins er því mjög mikilvæg réttarheimild í ESB-rétti. Lögsaga. Í tveimur síðastnefndu tilfellunum geta landsdómstólarnir óskað eftir bindandi forúrskurði (sjá neðar) frá ECJ um þann þátt málsins sem snertir túlkun á lögum ESB. Landsdómstólum ber skylda til að fara eftir túlkun ECJ á ESB-rétti, þeir mega ekki sniðganga ESB-réttinn né lýsa einstök ákvæði hans ógild og þeim ber að túlka innlendan rétt í samræmi við ESB-rétt. Evrópudómstóllinn fjallar eingöngu um löggjöf ESB, hann hefur ekki lögsögu til að taka afstöðu landsréttar í einstökum ríkjum. Túlkun dómstólsins á ESB-rétti getur þó lent í mótstöðu við lagaákvæði í aðildarríkjum og í þeim tilvikum víkja landslögin fyrir ESB-rétti án þess að dómstóllinn orði það sérstaklega. Forúrskurðir. Dómstólar í aðildarríkjum geta kallað eftir forúrskurði frá ECJ ef vafi leikur á einhverju atriði tengdu lögum ESB í málum sem þeir hafa til meðferðar. Það er dómarinn í málinu en ekki málsaðilar sem ákveður hvort að kalla eigi eftir forúrskurði og hvernig spurningin eigi þá að vera. Í vissum tilvikum er það "skylda" landsdómstólsins að leita eftir forúrskurði, sérstaklega ef um er að ræða æðsta dómstig í aðildarríkinu. Evrópudómstóllinn tekur í forúrskurði sínum eingöngu afstöðu til þess hvernig eigi að túlka það ákvæði ESB-réttarins sem málið snýst um, hann tekur ekki afstöðu til sjálfs málsins heldur lætur dómstólnum sem leitaði eftir forúrskurðinum það eftir að dæma í málinu. Landsdómstóllinn er hinsvegar bundinn af forúrskurði ECJ um það hvernig skuli túlka hið umdeilda ESB-lagaákvæði og það sama á við um alla aðra dómstóla í aðildarríkjunum þegar þeir lenda í því síðar að nota þetta sama ákvæði. Ógildingarmál. Aðildarríki, stofnanir ESB og einkaaðilar í ESB ríkjum geta farið fram á það að einstakar ákvarðanir og lagareglur sem stofnanir ESB hafa sent frá sér séu dæmdar ógildar, einkaaðilar geta þó einungis sótt slíkt mál ef þeir eiga beina hagsmuni í því. Ástæður sem geta réttlætt ógildingu eru: að stofnunin sem um ræðir hafi farið út fyrir valdsvið sitt, að umrædd löggjöf hafi ekki verið sett með formlega réttum hætti, ef efni löggjafar brýtur í bága við stofnsáttmála og þegar löggjöfin felur í sér misbeitingu á valdi. Argumentum ad baculum. Argumentum ad baculum (kylfurök eða valdrök) er rökvilla sem gengur út á það að hóta valdi þeim sem ekki fellst á rökstuðning viðkomandi, sumir heimspekingar halda því þó fram að alls ekki sé um rökvillu að ræða heldur gagnlega röksemdafærslu sem sé nýtileg í mörgum tilfellum. Argumentum ad baculum er ein gerð af argumentum ad consequentiam. Íslendingar. Íslendingar eru þeir sem hafa íslenskt ríkisfang. Þeir eru þjóð sem býr aðallega á Íslandi. Langflestir Íslendingar hafa íslensku að móðurmáli. Þegar íslenska lýðveldið var stofnað 17. júní 1944 urðu Íslendingar sjálfstæðir frá Danska konungsdæminu. Um 60 prósent landnámsmanna Íslands voru komnir af ættflokkum frá norrænum uppruna (aðallega Vestur-Noregi) og aðrir frá keltneskum ættflokkum á Bretlandseyjum. Ferðaþjónusta á Íslandi. Ferðaþjónusta á Íslandi er ört vaxandi atvinnugrein sem hefur öðlast aukið mikilvægi á landsvísu undanfarin ár, hún var árið 2002 næstmikilvægasta útflutningsgreinin á eftir sjávarútvegi. Heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands fjölgar eftir veldisfalli þótt fáir sæki landið heim í samanburði við önnur Evrópulönd. Helstu greinar ferðaþjónustu á Íslandi eru náttúrutengd ferðaþjónusta og menningartengd ferðaþjónusta auk ýmissar starfsemi í kringum námsferðir, viðskiptaferðir, ráðstefnuferðir, komu skemmtiferðaskipa, og þar fram eftir götunum. Jens Fink-Jensen. Jens Fink-Jensen (fæddur 19. desember, 1956 í Kaupmannahöfn) er danskur rithöfundur, ljóðskáld, ljósmyndari og tónskáld. Fyrsta framlag hans til fagurbókmennta birtist á prenti í júní 1975, en þá kom skáldsaga hans "Júní 1995" út í dagblaðinu "Information". Ári síðar birtust ljóð hans "Skæbnefuglen (Örlagafuglinn), Dagligdags (Hvunndagurinn), Eftermiddagsdigt (Síðdegisljóð)" og "Etikette (Siðvenja)" í tímaritinu "Hvedekorn" nr. 76/1. Hann gaf út fyrstu bók sína í október 1981, með ljóðasafninu "Verden i et øje (Horft á heiminn)". Í júní 1986 gaf hann út smásagnasafnið "Bæsterne (Vitringarnir)" og 1994 kom út fyrsta barnabók hans, "Jonas og konkylien (Jónas og konkúllinn)". Jens Fink-Jensen lauk stúdentsprófi úr nýmáladeild "Herlufsholm Kostskole" 1976. Að því loknu þjónaði hann herskyldu og var á meðan henni stóð í framhaldsnámi í stjórnun í "Konunglegu lífvarðarsveitinni" (Den Kongelige Livgarde). Hann lauk arkítektanámi (MAA, cand.arch.) í "Kunstakademiets Arkitektskole" árið 1986 og námi í margmiðlun úr sama skóla árið 1997. Claude Shannon. Claude Elwood Shannon (30. apríl 1916 - 24. febrúar, 2001) hefur verið nefndur „faðir upplýsingakenningarinnar“, og var frumkvöðullinn á bak við nútíma rökrásagerð. Hann fæddist í Petoskey, Michigan og var fjarskyldur ættingi Thomas Edison. Á uppvaxtarárunum starfaði hann sem sendill fyrir Western Union. Lífsferill. Árið 1932 hóf Shannon nám við Michigan-háskóla, þar sem hann lærði meðal annars um verk George Boole. Hann útskrifaðist árið 1936 með tvær B.S. gráður, annars vegar í rafmagnsverkfræði og hins vegar í stærðfræði. Hann fluttist þá til MIT í framhaldsnám, þar sem hann vann við diffurgreinisvél Vannevar Bush, sem var hliðræn tölva. Árið 1937 skrifaði hann mastersritgerð sína, "A Symbolic Analysis of Relay and Switching Circuits", þar sem hann sannaði að booleísk algebra og tvíundarreikningur gætu nýst til einföldunar á röðun og skipulagi rafeindafræðilegra rofa (e. "relay") sem voru á þeim dögum notaðar í samskiptabrautum símkerfa. Hann sneri svo þessari hugmynd sinni á hvolf og sýndi fram á það að mögulegt sé að nota sams konar rofa, raðað upp með ákveðnum hætti, til þess að leysa booleískar stæður. Þessi hugmynd - að nýta rafmagn til þess að reikna stærðfræði - er grunnurinn að öllum nútíma stafrænum tölvum, og þessi ritgerð varð grundvöllurinn fyrir stafrænar rafrásir eftir Seinni heimsstyrjöld. Howard Gardner frá Harvard-háskóla kallaði ritgerð Shannons „hugsanlega mikilvægustu, en jafnframt frægustu, mastersritgerð aldarinnar“. Ritgerðin var gefin út í 1938 útgáfu blaðsins "Transactions of the American Institute of Electrical Engineers", og árið 1940 fékk Shannon "Alfred Noble American Institute of American Enginners Award" verðlaunin. Vegna þessarar velgengni lagði Vannevar Bush til að Shannon fylgdi sér í "Cold Spring Harbor Laboratory" til þess að þróa svipuð stærðfræðileg tengsl fyrir Mendelíska erfðafræði, sem leiddi af sér doktorsritgerð hans árið 1940 - "Algebra fyrir erfðafræði". Shannon byrjaði þá að starfa hjá Bell Labs þar til að hann sneri aftur til MIT á 6. áratugnum. Árið 1948 gaf Shannon út "A Mathematical Theory of Communication", eða "Stærðfræðileg samskiptakenning", sem síðar hefur verið nefnd einfaldlega "Upplýsingakenningin". Ritgerðin beinist að vandamálinu um það hvernig skal setja saman við móttöku upplýsingar sem sendandi hefur sent frá sér. Þessi ritgerð nýtist við slembigreiningu og stór frávik, sem voru þá tiltölulega ný hugtök meðal stærðfræðinga. Shannon þróaði upplýsingaóreiðu sem mælieiningu á ofaukinn gagnaflaum, og útreiknanleiki óreiðu í upplýsingum kjarninn í öllum þjöppunarreikniritum. Hann skrifaði síðar bók með Warren Weaver að nafni "The Mathematical Theory of Communication", sem er stutt og aðgengileg útgáfa af fyrri ritgerð hans. Önnur grein sem hann gaf út 1949 var "Samskiptakenning öryggiskerfa", mjög mikilvæg viðbót við dulmálsfræði. Hann er einnig kenndur við uppgötvun úrtökukenningarinnar. Shannon var þekktur fyrir að vera mikill hugsuður; margir hafa staðhæft að hann hafi getað skrifað heilu ritgerðirnar eftir minni, villulaust. Hann var mjög sjaldan staðinn að verki við að skrifa hugmyndir og hugsannir á pappír eða töflu, heldur leysti hann flest vandamál í huganum. Utan við akademísk markmið hafði Shannon áhuga á hlutakasti, einhjólun, og skák. Hann fann einnig upp mörg tæki, m.a. skákvél, rakettuknúna pogo-stöng og trompet með innbyggðri eldvörpu. Hann kynntist konu sinni, Betty Shannon, þegar hún starfaði sem tölugreinir hjá Bell Labs. Frá 1958 til 1978 var hann prófessor við Massachusetts tæknistofnuninni. Í minningu afreka hans voru margar sýningar á verkum hans árið 2001. Þrjár styttur af Shannon hafa verið reistar; ein við Michigan-háskóla, ein við Massachusetts tæknistofnunina, og ein við Bell Labs. Ítarefni. Shannon, Claude Shannon, Claude Shannon, Claude Kahlúa. Kahlúa er mexíkóskur kaffilíkjör, þungur og bragðmikill með greinilegum keim af mexíkósku kaffi. Magn vínanda í drykknum er um 26,5%. Kahlúa er notað í ýmsa kokteila og er einnig blandað við ýmsa kóla drykki. Manntal. Manntal er skrá yfir alla íbúa einhvers svæðis, svo sem sveitarfélags, hrepps, sýslu eða lands. Þau eru gjarnan notuð til mannfræði- og ættfræðirannsókna og eru mikilvægar heimildir. Manntöl eru yfirleitt gerð að frumkvæði stjórnvalda og síðan safnað saman á einn stað til úrvinnslu. Sóknarmannatöl presta eru ekki kölluð "manntöl", þó að þau innihaldi sambærilegar upplýsingar. Manntöl á Íslandi. Á Íslandi hafa verið tekin manntöl frá árinu 1703. Önnur mikilvæg manntöl voru gerð 1801, 1845 og 1910. Á fyrri hluta 20. aldar voru manntöl tekin á 10 ára fresti, en nú hefur því verið hætt og íbúaskrár Hagstofu Íslands (Þjóðskrár) látnar nægja. Glýseról. Glýserín eða glýseról (1,2,3-própantríól eða 1,2,3-tríhýdroxýlprópan) er litar- og lyktarlaust alkóhól sem er afar vatnsgleypið, seigfljótandi og er sætt á bragðið. Það hefur þrjá vatnssækna hýdroxýl hópa sem valda vatnsgleypni þess. Glýserín er notað í glýserín sápur, snyrtivörur, mat og efnafræði. The Devil's dictionary. The Devil's dictionary eða Orðabók Andskotans (í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar) er ritverk og orðabók eftir Ambrose Bierce og er samantekt orðútskýringa sem hann gaf út í vikublaðinu Wasp 1881-1906. Bókin kom fyrst út sem „Orðskviðir hundingjans“ 1906 en hlaut síðar sitt þekkta heiti. Bækur í svipuðum stíl hafa verið gefnar út, t.d. The Computer Contradictionary. Mikil launhæðni (og hreinskilni jafnvel) er fólgin í orðaútskýringunum og þykja þær almennt hnyttnar. Auk skilgreininga er að finna ljóð og mistúlkaðar goðsagnir. Vampíra. Vampíra á upprunalega við uppvakning sem rís upp úr gröf sinni að nóttu og nærist á blóði lifenda (manna eða dýra) til að viðhalda ódauðlegri tilvist sinni. Vampíran er að vissu leiti alþjóðleg goðsagnarvera þar sem goðsagnir um „þá dauðu“ sem vakna upp aftur til þess að drekka blóð lifenda fyrirfinnast í nánast öllum menningarheimum. Orðið „vampíra“ kemur frá búlgverska orðinu "Vampir", sem svo aftur er talið koma frá slavneska orðinu "Obyri" (ǫpyrь). Þótt heimildum greini verulega á þá vilja margir halda því fram að gríska orðið "Nosophoros" („pláguberi“) hafi með tímanum þróast yfir í forn slavneska orðið "nosfur-atu", en vestrænir menningarheimar þekkja einmitt þennan óvætt best undir nöfnunum "Vampir" og "Nosferatu". Uppruni. Frá Afríku til Asíu og Evrópu hafa sögur um vampíruna haldið mönnum hugföngnum í aldanna rás. Hvergi sjáum við þó fleiri vampíru-þjóðsögur heldur en hjá þjóðflokkum slava, sögulega séð gæti ástæða þess verið fjöldi sígauna á þeirra svæðum, farferðir sígauna hafa verið raktar þvert yfir evrópsku heimsálfuna allt til norður Indlands, þar sem fjölgyðistrúarbrögð höfðu að geyma ýmsa blóðþyrsta guði og vætti, svo sem gyðjuna Kali og vættirnar Bhutu. Sú kenning hefur verið sett fram að sígaunar hafi tileinkað sér brot og brot úr goðsögnum og trúarbrögðum víðvegar um heimsálfurnar í ferðum sínum til vestursins sem seinna hafi haft stórbrotin áhrif á slavnesku þjóðina. Engidalsskóli. Engidalsskóli er grunnskóli í Hafnarfirði. Nemendur á aldrinum 6-10 ára (1.-4. bekkur) stunda nám við skólann. Að því námi loknu halda halda flestir áfram námi í Víðistaðarskóla. Starfsmenn skólans eru 55. Skólastjóri er Sigurður Björgvinsson. Frá árinu 1994 hefur verið þar deild fyrir fötluð börn. Skólinn sameinaðist Víðistaðaskóla árið 2010 og árgöngum fækkað úr 1.-7. bekk niður í 1.-4. bekk. Iglur. Iglur (eða seglrendur (sanguisuga) eða blóðsugur) (fræðiheiti: "Hirudinea") eru liðormar. Til eru ferskvatns-, sjávar- og jarðiglur. Eins og ættingjar þeirra fáburstarnir þá hafa þeir gjörð. Margar iglanna eru blóðætur (sníkjudýr), þ.e. þær lifa á á blóði fiska, froskdýra og spendýra með því að festa sig við þau og sjúga úr þeim blóð (þess vegna stundum bara kallaðar "blóðsugur"). Flestar iglanna eru þó rándýr, sem lifa á smáum ormum og öðrum hryggleysingjum. Lækningaiglan ("Hirudo medicinalis") sem lifir í Evrópu hefur verið notuð í þúsundir ára við blóðtöku. Iglan sprautar sérstöku efni í blóðið sem gerir það að verkum að það storknar síður. Blóðsuga. Einnig er orðið haft yfir okrara eða sníkjudýr í samfélaginu og þýðir í bókstaflegri merkingu sá sem sýgur blóð. Ásgarður. Ásgarður er heimili ásanna í norrænni goðafræði, þar er að finna hallir þeirra og í miðju Ásgarðs er Iðavöllur sem er samkomustaður goðanna. Inngangurinn í Ásgarð er um Bifröst sem Heimdallur verndar. Hjálmar (hljómsveit). Hulduhljómsveitin Hjálmar var stofnuð árið 2004 í Keflavík og spilar reggítónlist með íslensku yfirbragði. Hún hefur sent frá sér fjórar breiðskífur. Þegar unnið var að fyrstu breiðskífunni var hún skipuð þeim Þorsteini Einarssyni, Guðmundi Kristni Jónssyni, Kristni Snæ Agnarssyni, Petter Winnberg og Sigurði Halldóri Guðmundssyni. Þegar kom að því að taka upp aðra breiðskífu sveitarinnar höfðu orðið nokkrar mannabreytingar. Svíarnir Nils Olof Törnqvist og Mikael Svensson höfðu gengið til liðs við sveitina en Kristinn Snær Agnarsson hætti. Í ágúst 2006 var tilkynnt að hljómsveitin hefði hætt samstarfi. Í mars 2007 komu Hjálmar þó fram á nýjan leik og hafa haldið tónleika reglulega síðan. Þeirra fyrsta plata, "Hljóðlega af stað" var tekin upp í "Geimsteini", en hún vann til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004 sem besta rokkplata ársins. Ári síðar, 2005 léku þeir á færeysku tónlistarhátíðinni G! Festival. Önnur plata sveitarinnar, "Hjálmar", var hljóðrituð í félagsheimilinu á Flúðum dagana 15. til 19. ágúst 2005. Listi yfir handhafa einkarétts á Íslandi. Eftirfarandi hafa einkarétt til einhvers skv. íslenskum lögum, handhahafar almennra einkaleyfa eru ekki á listanum. Grannfræði. Grannfræði (áður kölluð stöðfræði) er grein stærðfræðinnar, sem fjallar eingöngu um samfelldni og vensl. Grannfræði fjallar um rannsóknir á grannfræðilegum eiginleikum, og þá sérstaklega grannfræðilegar óbreytur. Grannfræðilegir eiginleikar. Mengi er sagt "grannfræðilegt" ef hægt er að lýsa því á samfelldan hátt. Grannfræðileg eigindi mengis er kallað grannfræðileg óbreyta (e. "topological invariant") ef hún er til staðar fyrir allar mótanir (e. "homeomorphism"). Grannmótun (eða "mótun") er samfelld breyting til beggja átta úr einni mynd í aðra, t.d. þegar tekið er kennaratyggjó, með ákveðninni lögun, og lögun þess er breytt án þess að það sé slitið í fleiri hluta, brotið saman, ný göt mynduð eða gati lokað, telst sú breyting vera grannmótun. Á sama hátt eru teningur og kúla grannmótanleg - það er hægt að breyta kúlu í tening á samfelldan hátt. Einnig er grannfræðilega mögulegt að ummóta kleinuhring í kaffibolla og öfugt. Stærðfræðileg skilgreining. Ef X er mengi og "T" fjölskylda hlutmengja X, þá er "T" grannmynstur á X ef Ef "T" er grannfræði á X, þá kallast tvenndin (X, "T") grannrúm og X"T" er notað til að tákna X ásamt tilsvarandi grannfræði "T". Saga. Grannfræði á rætur sínar að rekja til rúmfræðirannsókna í fornum samfélögum, en grein Leonhard Eulers frá 1736 um Brýrnar í Königsberg er talin vera ein fyrsta rúmfræðilega rannsóknin sem reiðir sig ekki á neinar mælingar - þ.e., ein fyrsta grannfræðilega rannsóknin. Georg Cantor, upphafsmaður mengjafræðinnar, stundaði rannsóknir á punktamengjum í Evklíðsku rúmi á seinni hluta 19. aldar. Henri Poincaré gaf út bókina „"Analysis Situs"“ árið 1895, þar sem hann kynnti hugtökin "togun" (e. "homotopy") og "samsvip" (e. "homology"). Maurice Fréchet tók meðal annars saman verk Cantors, Volterras, Arzelàs, Hadamards, Ascolis og kynnti hugtakið "firðrúm" (e. "metric space") árið 1906. Árið 1914 kynnti Felix Hausdorff hugtakið "grannrúm" (e. "topological space") sem einföldun og alhæfingu á firðrúmshugtakinu og gaf út skilgreiningu á því sem nú er kallað Hausdorff rúm. Að lokum lagði Kazimierz Kuratowski til alhæfingu árið 1922 sem núverandi skilningur okkar á grannrúmi byggist á. Hugtakið „topologie“ var notað í Þýsku árið 1847 af Johann Benedict Listing (1808—1882) í „"Vorstudien zur Topologie"“; en hann hafði notað orðið áður í c.a. 10 ár í bréfskriftum og sínum eigin athugasemdum. Enska orðið „"Topology"“ kom fyrst fram á prenti frá Solomon Lefschetz árið 1930 til þess að koma í stað latneska hugtaksins „"analysis situs"“. Á íslensku var þessi grein fyrst nefnd stöðfræði, en síðar var farið að nefna þetta grannfræði. Grannfræðiþrautir (Stöðfræðiþrautir). Margir vita ekkert um grannfræði (stöðfræði), en kannast þó vel við ýmsar þrautir sem eiga rætur sínar í henni. Sem dæmi má nefna allar þrautir sem ganga út á að teikna einhverja mynd í einu pennastriki og fara ekki oftar en einu sinni í hvert strik. Einnig skemmtileikur eins og „Að leysa sig úr hjónabandi“, en þar er par bundið saman þannig að úlnliðir þess eru bundnir saman með krosslögðu bandi. Á það nú að leysa sig úr „hjónabandinu“ án þess að slíta bandið eða að leysa það af úlnliðunum. Þriðja slík þraut er sú, að maður klæddur í vesti og jakka fær að spreyta sig á því að fara úr vestinu án þess að fara úr jakkanum. Auðvitað verður hann að vera í vestinu innan undir jakkanum í upphafi. Grannfræðilegir „hlutir“. Nefna má sem dæmi Möbíusarræmuna en það er borði, sem er búinn til með því að taka mjóan renning og festa hann saman í hring en áður en endarnir eru límdir saman er settur hálfur snúningur á annan endann. Við það fæst borði, sem hefur bara einn flöt og eina brún og getur hver og einn sannfært sig um það með því að búa þetta til og skoða. Einnig er Klein-flaska frægt fyrirbæri. Það er hugsuð flaska, sem hefur teygðan stút. Stúturinn er sveigður og stingst í gegnum hliðarflöt flöskunnar (án þess að rjúfa hann!) og tengist síðan við botn hennar innan frá, þannig að þar er opið inn í stútinn. Þetta fyrirbæri hefur enga brún og aðeins einn flöt. Þessir hlutir eru kenndir við höfunda sína, sem báðir voru þýskir stærðfræðingar, þeir August Ferdinand Möbius og Felix Klein. Æsir. Æsir (ft. af ás) eru goð í norrænni goðafræði, annar af tveimur flokkum goða og sá meiri. Hinn flokkurinn eru Vanir. Æsir búa, samkvæmt goðafræðinni, í Ásgarði og þeir sem trúa á þá kallast ásatrúar. Ættfaðir ása og æðstur þeirra er Óðinn sem var sonur jötunsins Bestlu og risans Bors. Bor var sonur Búra sem var sleiktur úr hrími Ginnungagaps af Auðhumlu. Óðinn og bræður hans Vilji og Vé sköpuðu heiminn úr líkama jötunsins Ýmis sem þeir drápu. Síðar sköpuðu þeir mennina úr viði Emblu og Asks. Aðrir mikilvægir æsir eru meðal annarra þrumuguðinn Þór (en hann var mest dýrkaður á Íslandi fyrr á öldum), Baldur hinn bjarti, Týr guð hernaðar og bardaga, hinn hrekkvísi og klaufski Loki (sem má reyndar deila um hvort hafi verið ás eða ekki), Frigg kona Óðins og Iðunn sem gætti eplanna sem héldu goðunum ungum. Samband íslenskra samvinnufélaga. Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS), Sambandið eins og það er kallað í daglegu tali eða Samband eins og það var kallað erlendis var stofnað á Ysta-Felli Þingeyjasýslu 20. febrúar 1902 sem Sambandskaupfélag Þingeyinga en fékk síðan nafn sitt endanlega árið 1906. SÍS var stofnað upphaflega til að vera samræmingaraðili íslenskra samvinnufélaga og þróaðist síðan yfir í samvinnuvettvang þeirra á sviði út og innflutnings og til að ná hagstæðum samningum erlendis vegna þess taks sem danska kaupmannastéttin hafði enn á íslensku viðskiptalífi á þeim tíma. Meðal annars rak SÍS skipadeild sem var stofnuð 1946 og sá um vöruflutninga í samkeppni við Eimskipafélag Íslands. Stuttu áður en annar samkeppnisaðili, Hafskip, varð gjaldþrota í lok árs 1985 stóð til að SÍS myndi kaupa fyrirtækið en á stjórnarfundi var kosið gegn því og munaði einu atkvæði. Þegar leið á 20. öldina varð SÍS öflugasta viðskiptaveldi Íslands og með ítök á flestum sviðum viðskiptalífsins allt fram til ársins 1992 þegar starfsemi þess var orðin nánast engin vegna skulda þess við lánardrottna sína. Häxan. "Häxan" (íslenska "Nornin") er þögul sænsk kvikmynd frá árinu 1922 eftir danska leikstjórann Benjamin Christensen. Myndin er nokkurs konar fræðslumynd þar sem farið er yfir nornafárið í Evrópu og velt upp hugmyndum um ástæður þess. Leikstjórinn var þeirrar skoðunar að kvikmyndin væri upplagður miðill fyrir fræðslu af þessu tagi. Sama ár kom út Nanook of the North sem venjulega er talin fyrsta eiginlega heimildamyndin. Häxan gengur þó lengra og jaðrar við að verða hryllingsmynd á köflum, þar sem myndmálið er runnið af sömu rót og hjá þýsku expressjónistunum og stillimyndum er blandað við hraðar senur sem sýna meðal annars nornamessu við Blokksbjarg, nornir á flugi yfir borg, djöfulinn tæla til sín konur og rannsóknarréttinn pynta nornir til sagna. Leikstjórinn sjálfur leikur djöfulinn. Kvikmyndin var oft sýnd ritskoðuð. Einkum var það sú mynd sem hún dregur upp af kirkjunnar mönnum, þar sem sagt er frá rannsóknarréttinum, sem fór fyrir brjóstið á fólki í Mið- og Suður-Evrópu. Myndin var sýnd í Bandaríkjunum árið 1968 með yfirlestri William Burroughs og djassundirleik, undir titlinum „Witchcraft Through the Ages“. Kvikmyndin var sýnd á vetrarhátíð í Reykjavík 19. febrúar 2005 þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir frumsamda tónlist við kvikmyndina eftir Barða Jóhannsson undir stjórn Esa Heikkilä. Brennuöld. Brennuöld er í Íslandssögunni kallað tímabilið frá 1654 til 1690, eða frá þeim tíma þegar þrír menn voru brenndir á báli fyrir galdra í Trékyllisvík á Ströndum og til þess þegar Klemus Bjarnason var dæmdur á bálið (dómnum var breytt í lífstíðardóm). Það er á þessum tíma sem langflest galdramálin koma upp, þótt auðvitað séu til skjalfest galdramál frá fyrri hluta 17. aldar og 18. öld. Fyrsta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1625, en svo leið langur tími fram að þeirri næstu. England. England (borið fram /ˈɪŋglənd/ á ensku) er land sem er hluti af Bretlandi. Ábúendur þess eru yfir 83% af íbúum Bretlands. England á landamæri við Skotland í norðri, Wales í vestri og annarsstaðar móta Norðursjór, Írlandshaf, Keltahaf, Bristol-sund og Ermarsund landamæri þess. Höfuðborg landsins er London sem er stærsta þéttbýli Bretlands. England varð að sameinuðu ríki árið 927 og dregur nafn sitt af „Englum“ sem var germanskur ættflokkur sem settist að á 5. og 6. öld. England hefur haft veruleg menningarleg og lögfræðileg áhrif á umheiminn og er einnig upphafsstaður enskra tungu. Orðsifjar og notkun. England er nefnt eftir „Englunum“ sem var germanskur ættflokkur sem settist að á 5. og 6. öld og er talinn hafa komið frá skaganum Angeln, sem í dag er hluti af Danmörk og norður-Þýskalandi. Samkvæmt orðabók Oxford var heitið „England“ fyrst notað í suðurhluta eyjunnar árið 897 og var nútímastafsetning þess fyrst notuð um 1538. Saga. Bein- og tinnusteinstól hafa fundist í Norfolk og Suffolk sem sýna að "Homo erectus" bjó á Englandi fyrir 700.000 árum. Þá tengdist England meginlandi Evrópu um landbrú. Ermarsundið var á sem að lágu þverárnar Thames og Signa. Á síðustu ísöld eyddist byggð á þessu svæði. England var síðan ekki byggt aftur fyrr en fyrir 13.000 árum. Þeir íbúar tóku síðar upp keltneska menningu. Árið 43 gerðu Rómverjar innrás í England. 55 f.Kr. hafði Júlíus Caesar gert innrás í England en landið var ekki lagt undir Rómaveldi fyrr en Claudíus gerði innrás aftur árið 43 e.Kr. Rómverjarnir höfðu mikil áhrif á breska menningu. 400 árum síðar yfirgáfu þeir landið vegna falls Rómaveldis. England á miðöldum. Eftir rómverska tímabilið tók við engilsaxneskt tímabil sem nær yfir miðaldir fram að innrás Normanna árið 1066. Kristni komst á í Englandi og landið var sameinað í eitt konungsríki. Fyrsti einvaldurinn sem notaði nafnbótina "Englandskonungur" var Offa af Mersíu árið 774 þó svo að listar hefjist oft á Egbert af Wessex árið 829. Ríkisstjórn og stjórnmál. England hefur ekki haft sína eigin ríkisstjórn síðan 1707. Landafræði. England er á suðvesturhluta Stóra-Bretlands með Wighteyju og öðrum eyjum. Skotland liggur að landinu í norðri og Wales í vestri. England er nær meginlandi Evrópu en aðrir hlutar Bretlands. Ermarsund greinir England að meginlandinu og er 52 km að vídd. Ermarsundsgöngin skammt frá Folkestone tengir England beint við Frakklandi. Mest allt England er mildir hólar en í norðri er landið fjöllóttara. Pennínafjöll eru fjallgarður sem liggur frá austri til vesturs. Í Austur-Anglíu er flatt undirlendi notað sem beitiland. Þetta svæði er kallað Fens. London er stærsta borg Bretlands og er líka höfuðborg landsins. Þær eru stærsta þéttbýli á landinu. Birmingham er önnur stærsta borgin. Aðrar stórar borgir eru Manchester, Leeds, Liverpool, Newcastle, Sheffield, Bristol, Coventry, Bradford, Leicester og Nottingham. Stærsta höfnin er Poole á suðströndinni. Efnahagsmál. England er eitt af stærstu efnahagskerfum Evrópu og fimmta stærsta í heimi. Hagkerfi Englands notar engilsaxneskt haglíkan. Það er eitt af fjórum hagkerfum á Bretlandi, og 100 af 500 stærstum fyrirtækjum í Evrópu eru með höfuðstöðvar í London. Sem hluti Bretlands er England aðalmiðstöð fyrir efnahagsmál heimsins. England er eitt iðnvæddu landa í heimi. Aðaliðnaðasvæði eru efna- og lyfjaiðnaðir og tækniiðnaðir eins og geimverkfræði, vopnaiðnaður og framleiðslu hugbúnaða. London flytur út aðallega iðnaðarvörur and flytja inn efni eins og jarðolía, te, ull, hrásykur, timbur, smjör, málmur og kjöt. Í fyrra flutti út England meira en 30.000 tonn nautakjöta eiga 75.000.000 breskra punda. Frakkland, Ítalía, Grikkland, Holland, Belgía og Spánn eru aðalinnflytjendur nautakjöta frá Englandi. Seðlabanki Bretlands sem setur vaxtaprósentur og kemur á peningamálastefnu er Englandsbanki í London. Kauphöllin í London er líka í borginni og er aðalkauphöllin í Bretlandi og er stærsta í Evrópu. London er alheimsleiðtogi í fjármáli, börgin er stærsta fjármálamiðstöð í Evrópu. Hefðbundnir framleiðslu- og þungaiðnaðir hafa hnignað undanfarið á Englandi eins og annars staðar á Bretlandi. Um leið hafa þjónustugreinar orðið öllu meira mikilvægar. Til dæmis er ferðaþjónusta sjötti stærsti iðnaðurinn á Bretlandi og gaf hagkerfinu 76 milljónir breskra punda. Árið 2002 ræður hún 1.800.000 stöðugildi fólks eða 6,1% vinnandi íbúa. Aðalmiðstöð fyrir ferðamenn er London og börgin laðar að milljónum ferðamanna árlega. Embættislegi gjaldmiðill Bretlands er breskt pund (stundum "sterlingspund" eða "GBP", e. "pound sterling"). Menning. Ensk menning er breið og fjölbreytileg. Englendingar hafa spilað inn í þróun lista og vísindanna. Margir mikilvægir vísindamenn og heimspekingar fæddust á Englandi eða hafa búið á Englandi, til dæmis Isaac Newton, Francis Bacon, Charles Darwin, Ernest Rutherford (fæddur á Nýja-Sjálandi), John Locke, John Stuart Mill, Bertrand Russell, Thomas Hobbes og hagfræðingar svo sem David Ricardo og John Maynard Keynes. Karl Marx skrifaði mest af ritverkum sínum í Manchester. Verkfræði. England er fæðingarstaður Iðnbyltingarinnar og margir uppfinningamenn bjuggu á Englandi á 18. og 19. öld. Frægir verkfræðingar eru til dæmis Isambard Kingdom Brunel, Charles Babbage, Tim Berners-Lee, John Dalton, James Dyson, Michael Faraday, Robert Hooke, Robert Stephenson, Joseph Swan og Alan Turing. Vísindi og heimspeki. Meðal mikilhæfra vísindamanna frá Englandi má nefna Isaac Newton, Michael Faraday, Robert Hooke, Robert Boyle, Joseph Priestley, J. J. Thomson, Charles Babbage, Charles Darwin, Stephen Hawking, Christopher Wren, Alan Turing, Francis Crick, Joseph Lister, Tim Berners-Lee, Andrew Wiles og Richard Dawkins. Enskir heimspekingar áttu ríkan þátt í að móta vestræna heimspeki. Þar má nefna William af Ockham, Francis Bacon, Thomas Hobbes, John Locke, Jeremy Bentham, Thomas Paine, John Stuart Mill, Herbert Spencer, Bertrand Russell, G.E. Moore, A.J. Ayer, Gilbert Ryle, J.L. Austin, G.E.M. Anscombe og Bernard Williams. Bókmenntir. Saga enskra bókmennta er rótgróin. Margir rithöfundar eru frá Englandi til dæmis leikskáldin William Shakespeare, Christopher Marlowe, Ben Jonson og John Webster, til viðbótar rithöfundarnir Daniel Defoe, Henry Fielding, Jane Austen, William Makepeace Thackeray, Charlotte Brontë, Emily Brontë, J.R.R. Tolkien, Charles Dickens, Mary Shelley, H. G. Wells, George Eliot, Rudyard Kipling, D.H. Lawrence, E.M. Forster, Virginia Woolf, George Orwell og Harold Pinter. J.K. Rowling, Enid Blyton og Agatha Christie eru rithöfundar sem hafa orðið frægir á 20. öld. Tónlist. Tónskáld frá Englandi eru ekki eins fræg og rithöfundarnir þaðan. Flytjendur eins og Bítlarnir, Led Zeppelin, Pink Floyd, Elton John, Queen og The Rolling Stones eru meðal þeirra sem hafa selt mest af plötum í heiminum. England er einnig fæðingarstaður margra tónlistarstefna til dæmis harðrokks, þungarokks, Britpops, glamrokks, drum and bass, framsækins rokks, pönks, gotnesks rokks og triphops. Tungumál. Enska varð til á Englandi og er aðaltungumál Englands í dag. Enska er vesturgermanskt indóevrópskt tungumál og er skylt skosku og frísnesku. Í sögu málsins er tímabilið fram til ársins 1066 nefnt fornenska en frá árinu 1066 til 15. aldar er talað um miðensku og frá 15. öld um nútímaensku. Allt frá árinu 1066 hefur enska orðið fyrir miklum áhrifum frá latínu og frönsku, ekki síst orðaforðinn sem er nú að verulegu leyti af latneskum rótum líkt og í rómönsku málunum. Nýja Suður-Wales. Nýja Suður-Wales er eitt sex fylkja í Ástralíu. Höfuðborg þess er Sydney. Nýja Suður-Wales var upphaflega stofnað sem fyrsta nýlenda Breta í Ástralíu, 1788 og náði þá frá austurströndinni þangað sem í dag er Vestur-Ástralía. Síðan voru smámsaman af henni tekin landsvæði sem mynduðu Victoriu, Suður-Ástralíu, Queensland og Tasmaníu. Enn síðar, við stofnun Samveldisins Ástralíu 1901 var svæðið fyrir Höfuðborgarsvæði Ástralíu tekið úr fylkinu og þar stofnuð höfuðborgin Canberra. Í dag er það fjölmennasta fylkið og helsta miðstöð bæði menningar- og efnahagslífs Ástralíu. Stoðir. Stoðir ehf. (áður FL Group og enn fyrr Flugleiðir) er fjárfestingarfyrirtæki með sérstaka áherslu á fjárfestingar í flugrekstri og ferðaþjónustu og var um tíma stærst á því sviði á Íslandi. Fyrir 10. mars 2005 hét fyrirtækið Flugleiðir og snerist rekstur þess félags lengst af að mestu um flugsamgöngur. Flugleiðir urðu til árið 1973 við sameiningu flugfélaganna Flugfélags Íslands og Loftleiða. Eftir að nafni fyrirtækisins var breytt í FL Group fór rekstur þess smám saman að snúast meira um fjárfestingar og að lokum dró félagið sig að mestu út úr flugrekstri. Nafni félagsins var aftur breytt árið 2008 og heitir það nú Stoðir eignarhaldsfélag. Félagið fór fram á greiðslustöðvun þann 29. september 2008 eftir að Ríkissjóður Íslands keypti 75% hlut í viðskiptabankanum Glitni sem Stoðir áttu um þriðjungshlut í. Saga. FL Group varð til þann 10. mars árið 2005 þegar Flugleiðum var breytt í FL Group eftir skipulagsbreytingar. Ragnhildur Geirsdóttir tók við sem forstjóri félagsins í maí 2005. Ragnhildur yfirgaf þó félagið í október 2005 og þá tók Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður, við forstjórastólnum. Á sama tíma var skipulagi fyrirtækisins breytt þannig að fjárfestingastarfsemi varð aðalverkefni þess og stofnuð voru tvö dótturfélög; Icelandair Group, sem tók við alþjóðlegum flugrekstri FL Group, og FL Travel Group, sem tók við innlendri ferðaþjónustu. Aðskilnaður FL Group frá Icelandair Group varð staðreynd 16. október 2006 þegar FL Group seldi allt hlutafé sitt í félaginu. Á sama tíma var FL Travel Group lagt niður og eignir þess ýmist seldar eða sameinaðar Icelandair Group. Með þessu sagði FL Group í raun skilið við þá arfleifð sem það hafði fengið frá Flugleiðum. Í desember 2007 lét Hannes Smárason af störfum sem forstjóri félagsins og við tók Jón Sigurðsson þáverandi aðstoðarforstjóri í kjölfar skipulagsbreytinga á félaginu. Þá var það gert kunnugt að FL Group hyggðist auka hlutafé sitt um 64 milljarða, í 180 milljarða króna. Í febrúar árið 2008 greindu stjórnendur FL Group frá því að tap fyrirtækisins á árinu 2007 hafi numið 67,3 milljörðum króna, þar af 63,2 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi. Þetta er mesta tap íslensks fyrirtækis á einu ári en stjórnendur fyrirtækisins ráku tapið að mestu til óróa á erlendum fjármálamörkuðum á síðari hluta ársins. Í júlí 2008 var FL Group breytt í Stoðir eignarhaldsfélag. Á sama tíma keyptu Stoðir 25 milljarða króna hlut í Baugi Group. Þessar breytingar voru tilraun eigenda félagsins til að endurskipuleggja rekstur þess, en á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 tapaði FL Group 47,8 milljörðum króna og á öðrum ársfjórðungi 11,6 milljörðum, samtals tæplega 60 milljörðum á fyrri helmingi ársins 2008. Þann 29. september 2008 var tilkynnt að Stoðir hf. hefði óskað eftir greiðslustöðvun við Héraðsdóm Reykjavíkur. Sterling Airlines. Flugvél í eigu Sterling Airlines. FL Group gekk frá kaupum á danska lággjaldaflugfélaginu Sterling Airlines af Fons, eignarhaldsfélagi sem er að hluta í eigu Pálma Haraldssonar, þann 23. október 2005. Kaupverðið var 14,6 milljarðar króna en Fons hafði keypt Sterling í mars 2005 fyrir tæpa fjóra milljarða. FL Group tók við rekstri Sterling í byrjun árs 2006. Stjórnendur Icelandair voru mótfallnir kaupum FL Group á Sterling því þeir töldu rekstur þess of áhættusaman. Einnig voru stjórnendur Icelandair eindreigið mótfallnir sameiningu Icelandair og Sterling sem upphaflega var markmið FL Group, en frá því var falllið. Þegar FL Group tók við rekstrinum gerðu stjórnendur fyrirtækisins ráð fyrir því að hagnaður Sterling yrði 345 milljónir danskra króna á árinu 2006 en þegar upp var staðið var 200 milljóna danskra króna tap á rekstrinum. Þann 27. desember 2006 seldi FL Group allt hlutafé sitt í Sterling, fyrir 20 milljarða króna. Kaupandi var hið nýstofnaða fyrirtæki Northern Travel Holding en FL Group á 34% hlut í Northern Travel Holding. Fyrirtækið Fons á 44% hlut í Northern Travel Holding og Sund á 22%. AMR Corporation. FL Group fjárfesti, í desember 2006, í 5,98% hlutabréfa í bandaríska fyrirtækinu AMR Corporation, móðurfélagi flugfélagsins American Airlines. Kaupverð var yfir 400 milljónir dala eða um 29 milljarðar íslenskra króna. Í febrúar 2007 jók FL Group hlut sinn í 8,63% og varð þar með stærsti hluthafinn í fyrirtækinu. Við þetta tilefni sagði Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group, að stjórnendur fyrirtækisins bæru miklar væntingar til fjárfestingarinnar. Upp úr áramótum 2007 hækkuðu bréf AMR Corporation og töldu stjórnendur FL Group sig eiga um 10 milljarða króna óinnleystan hagnað af fjárfestingunni þegar gengið var sem hæst, en eftir það fóru bréfin lækkandi og þessi meinti hagnaður var horfinn í marsmánuði 2007. Bréfin héldu áfram að falla á árinu 2007 og í lok nóvember seldi FL Group stærstan hlut eignar sinnar (hélt eftir 1,1%) sem hafði þá rýrnað um 15 milljarða króna á árinu. Commerzbank. Í apríl 2007 tilkynnti FL Group að bankinn hefði fjárfest í hlutabréfum hjá þýska bankanum Commerzbank, öðrum stærsta banka Þýskalands og einum þeim stærsta í Evrópu. Keypt voru bréf að andvirði 63,5 milljarða íslenskra króna eða 723 milljónir evra sem var um 2,99% hlutur í bankanum. Seinna á árinu var hlutur FL Group aukinn í 3,24% og þá var eignin í Commerzbank næststærsta einstaka eign FL Group. Enn var aukið við hlutaeign FL Group og í lok september 2007 nam hlutdeildin 4,25% að andvirði 69 milljarðar króna. Í byrjun árs 2008 seldi FL Group hluti í Commerzbank, lækkaði eignarhlut sinn úr 4,3% í 2,1% og nam tap vegna gengisfalls 2,6 milljörðum króna. Sérstök tilkynning fylgdi fljótlega eftir þar sem tekið var fram sérstaklega að salan hafi ekki verið þvinguð. Nokkrum dögum síðar hafði FL Group lækkað hlutdeild sína í 1,15%. Aðrar fjárfestingar. Fyrirtækið á einnig 22,4% hluta í finnska flugfélaginu Finnair. Í mars 2007 var tilkynnt að FL Group hefði keypt 10% hlut í breska fjárhættuspilafyrirtækinu Inspired Gaming Group PLC á 15,3 milljónir pund, jafnvirði um 2 milljarða króna. Icelandair. Icelandair er alþjóðlegt flugfélag og dótturfyrirtæki Icelandair Group. Forverar Icelandair voru Loftleiðir og Flugfélag Íslands. Félagið notar nafnið Loftleiðir fyrir leigustarfsemi félagsins. Icelandair var í eigu FL Group - en þeir seldu allt sitt hlutafé 16. október 2006. Félagið er í dag í eigu Icelandair Group sem er hlutafélag skráð í desember 2006 í Kauphöll Íslands eða OMX sem ICEAIR. Saga félagsins. Í kreppunni 1970 urðu rekstrarhorfur bæði Flugfélags Íslands og Loftleiða mjög slæmar. Ríkistjórn Íslands reyndi að sameina félögin, sem varð að veruleika 1973 eftir langt tímabil samningafunda. Eignarhaldsfélagið "Flugleiðir" var stofnað, sem sameinaði félögin og hagræddi starfsemi félagana. Hagræðingin fólst í rekstri eigna félagsins, vátryggingum, gistihúsareksturs, veitingaþjónustu, bifreiðaleigu, ferðaskrifstofu og starfsemi á flugvöllum. Rekstur flugvélanna var aðskildur í félögunum tveimur fyrst um sinn. Við sameininguna var tveir þriðju farþega félagsins í millilandaflugi og floti Flugfélags Íslands var stækkaður með DC-8s flugvélum Loftleiða. 1979 keypti Flugfélag Íslands allar eignir Loftleiða í Flugleiðum og flugfélagið varð þekkt sem "Icelandair". Í kjölfar sameiningar. Flugvélafloti Icelandair var óbreyttur þangað til Boeing 757-200 vélar voru keyptar á tíunda áratuginum til að skipta út Douglas DC-3 flugvélum á leiðum til Evrópu og Ameríku. Frá 1955 hafði flugvöllurinn í Lúxemborg verið eini viðkomustaður félagsins og forvera þess í Evrópu. Aukin samkeppni á Norður-Atlantshafs flugi leiddi til þess að markaðurinn í Lúxemborg minnkaði og í kjölfarið hætti félagið flugi þangað. Einnig var afgreiðslu á Kennedyflugvelli hætt og félagið gerði samning við British Airways um að taka við þjónustunni. Í stað Lúxemborgar var ákveðið að fljúga beint frá stærstu borgum Evrópu til Íslands. 1997 var innanlandsflug Icelandair, sem var áður rekið af "Flugfélagi Norðurlands", sameinað Norðurflugi til að mynda Flugfélag Íslands.. Þetta gerði Icelandair kleift að einblína á alþjóðaflug félagsins. 1999 var einkennismerki félagsins breytt til að höfða betur til flugfarþega í viðskiptaerindum. 2001 var miðstöð flugs Icelandair flutt til Keflavíkurflugvallar. Hryðjuverkin 11. september sama árs höfðu mikil áhrif á rekstur félagsins sem leiddi til þess að 300 manns misstu vinnuna. Eignarhaldsfélög Flugleiða voru Icelandair Group (fyrir flugrekstur) og FL Group (fyrir annan rekstur) á milli 2002 og 2005. 2003 var nýtt félag var stofnað undir leigusamninga flugvéla "Loftleiðir Icelandic". Þróun frá 2005. Í febrúar 2005 gerði Icelandair bindandi pöntun á tveimur Boeing 787 Dreamliner flugvélum sem átti upphaflega að afhenda 2010. Síðar var tveimur flugvélum bætt við pöntunina en í ljósi seinkana á afhendingu vélana frá Boeing og rekstrarvandræðum félagsins í kjölfar kreppunnar 2008-2010 var tilkynnt í maí 2011 að kaupréttindi á þessum vélum höfðu verið færð yfir á Norwegian Air Shuttle. Flugtakmarkanir í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli 2010 höfðu mikil áhrif á rekstur félagsins, en flugtakmarkanirnar leiddu til þess að stór hluti flugumferðarsvæðis Evrópu var lokaður. Flugtakmarkanirnar áttu sér stað í upphaf sumartímabils félagsins en á þeim tíma koma flestir farþegar til landsins. Í kjölfarið byrjaði neyðarteymi félagsins að greina ástandið á þremur fundum yfir daginn í höfuðstöðvum félagsins. Settir voru fram þeir kostir að ef Keflavíkurflugvöllur myndi lokast myndi flugið flytjast yfir á Akureyrar- eða Egilstaðaflugvöll, eða að öðrum kosti verði miðstöð fyrir flug félagsins flutt úr landi. Þegar Keflavíkurflugvöllur lokaði 22. maí flutti Icelandair flugmiðstöð sína tímabundið til Glasgow. Á þeim tíma var tengiflug til Akureyrar með rútuflutningum til Reykjavíkur. Flugfélagið breytti flugmiðstöðinni aftur til Keflavíkur 28. maí. Í kjölfar gossins var átakið "Inspired by Iceland" sett fram til að auka fjölda ferðamanna á Íslandi. Í kjölfar átaksins jókst fjöldi ferðamanna um 0,6 prósent miðað við sama tímabil síðasta árs og tekjur af ferðamönnum voru 34 milljarðar. Leiðakerfi Icelandair. a>. Á myndinni sést vel hvernig Keflavíkurflugvöllur hentar sem viðkomustaður í flugi á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Leiðakerfi Icelandair byggist á staðsetningu Íslands á milli Evrópu og N-Ameríku og gefur möguleika á mjög stuttum ferðatíma á leiðinni yfir Atlantshafið. Staðsetning Íslands gefur einnig möguleika á mjög stuttum og í mörgum tilvikum stysta mögulega ferðatíma milli N-Ameríku og Indlands, Mið-Austurlanda og Suðaustur-Asíu. Aðrir áfangastaðir. Einnig hefur komið fram hjá fyrirtækinu að þeir hyggjast hefja flug til Indlands og Kína á næstu árum. Flugfloti. Vél frá Icelandair á flugi Icelandair rekur aðeins Boeing-þotur og eru þær flestar af gerðinni Boeing 757 og sumar þeira eru samnýttar með Loftleiðum og Icelandair Cargo. Icelandair hefur samið við Boeing um kaup á fjórum Boeing 787 vélum fyrir Icelandair en sú fyrsta verður afhent 2010. Þær hafa mun meira flugdrægi en fyrri vélar félagsins. Tímatal. Tímatal er aðferð mannsins til þess að skrásetja atburði í tíma. Til þess setjum við atburði upp í t.d. tímaás og skoðum atburði þannig í samhengi og skiptum atburðum upp í hópa og köllum tímabil. Fræðigreinin sem fæst við athuganir á tímatali kallast tímatalsfræði. Rannsóknir á tímatali áttu sér stað fyrir mörg þúsund árum og er talið víst að t.d. Egyptar hafi notast við ýmsar mælingar og athuganir (stjörnuskoðun) til þess að fylgjast með tímanum og sjá fyrir árlega viðburði svo sem flóð í ánni Níl. Köfnunarefni. Nitur eða köfnunarefni er frumefni með skammstöfunina N og er númer sjö í lotukerfinu. Efnið er litar-, lyktar- og bragðlaus málmleysingi og andrúmsloft jarðar samanstendur af um 78% nitri sem gerir það algengasta frumefnið í andrúmslofti Jarðar. Skordýrafræði. Skordýrafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á skordýrum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast skordýrafræðingar. Skordýr hafa mikið að segja gagnvart manninum í sambandi við landbúnað og í raun allt daglegt líf og er skordýrafræðin því mikilvægt fag innan líffræðinnar. Bæði eru skoðuð skordýr sem eru manninum skaðleg óbeint og beint, og svo aftur skordýr sem hann nýtir á ýmsan máta, svo sem silkiorma og hunangsflugur. Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi eða FVA er fjölbrautaskóli, staðsettur á Akranesi og var stofnaður á grunni Gagnfræðiskólans á Akranesi og Iðnskólans á Akranesi 12. september 1977. Skólinn býður upp á alhliða framhaldsmenntun, bóklega og verklega, á mörgum námsbrautum. Hann veitir öfluga námsráðgjöf og leggur mikla áherslu á að styðja nýnema. Fjölbrautaskóli Vesturlands hefur frá upphafi starfað eftir áfangakerfi og átt drjúgan þátt í mótun þess. Áfangakerfið gerir skólanum kleift að taka tillit til einstaklinga með ólíkar þarfir og misjafna getu til náms. Við skólann er heimavist fyrir 64 nemendur og mötuneyti fyrir alla nemendur skólans. Skólaakstur er milli Akraness og Borgarness. Héraðsskólinn í Reykholti var á tímabili rekinn sem útibú Fjölbrautaskóla Vesturlands en skólinn rak einnig útibú á Snæfellsnesi. Þau voru lögð niður eftir að stofnaður var framhaldsskóli í Grundarfirði. Við FVA stunda að jafnaði um 600 nemendur nám á önn hverri. Tenglar. Vesturlands á Akranesi Vanir. Vanir eru annar tveggja flokka goða í norrænni goðafræði og búa í Vanaheimum. Hinn flokkurinn eru æsir. Vanir eru mun færri og skipta minna máli en æsir og eru aðallega frjósemisgoð. Í goðafræðinni er talað um stríð milli flokkanna tveggja og er oft talið að vanatrú séu leifar eldri trúarbragða, sem urðu undir við þjóðflutninga. Þetta er einnig vegna þess, að ekkert er talað um uppruna þeirra, meðan góðar lýsingar eru á tilurð ása. Helstu vanir eru sjávarguðinn Njörður og frjósemisgoðin, börn hans, Freyr og Freyja, sem voru gíslar ása eftir fyrrnefnt stríð. Survivor (sjónvarpsþáttur). "Survivor" er vinsæll sjónvarpsþáttur sem venjulega er talinn til þess sem kallað hefur verið „raunveruleikasjónvarp“. Til eru mismunandi útgáfur af Survivor framleiddar í ólíkum löndum. Hugmyndin var þróuð af bresku fyrirtæki í eigu Bobs Geldof og Charlie Parsons, Studio 24, og þeir héldu réttinum eftir í fyrirtæki sínu Castaway Productions þegar þeir seldu Studio 24 árið 1999. Fyrstu þættirnir sem nýttu þessa hugmynd voru "Expedition Robinson" framleiddir af sænska ríkissjónvarpinu Sveriges Television árið 1997. Á Íslandi hefur SkjárEinn sent út útgáfu bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS frá árinu 2000 eða frá fyrstu þáttaröðinni sem Mark Burnett framleiddi með leyfi frá Castaway Productions. Vítamín. Vítamín (hefur verið þýtt sem fjörefni á íslensku, en það orð er lítið notað) er safnheiti yfir ýmis lífræn stjórnefni sem eru lífverum nauðsynleg til að halda heilsu en lífverurnar geta ekki myndað sjálfar eða geta ekki myndað nóg af. Þessi efni eru breytileg eftir lífverum, til að mynda þurfa menn C-vítamín úr fæðu en geitur ekki, því þær framleiða eigið C-vítamín. Vítamín á þó ekki við þörf á steinefnum, fitu eða amínósýrum. Vítamín fást aðallega úr mat. Hugtakið vítamín er komið frá pólska líffræðingnum Kazimierz Funk, sem notaðist fyrst við hugtakið árið 1912. "Vita" þýðir líf og "amin" er önnur mynd og stytting af amín, sem er lífrænn efnahópur (íslenskur ritháttur er með í í stað i), en áður var talið að öll vítamín væru amínefni. Íslenska heitið er í raun bein þýðing þar sem "fjör" er gamalt orð fyrir líf. A, B1, B2, B3, B5, B6, B9, B12, B13, B15, B17, C, D, E, K Vítamín eru ýmist vatnsleysanleg eða fituleysanleg. Líkaminn á auðvelt með að skilja út vatnsleysanleg vítamín ef maður neytir þeirra of mikið, en erfitt með að skilja út þau fituleysanlegu. Þess vegna verður maður að gæta þess að neyta ekki of mikils magns fituleysanlegra vítamína, því að það getur valdið eitrun. Iceland Express. Iceland Express er íslenskt lággjaldaflugfélag og ferðaskrifstofa sem var í eigu Fengs eignarhaldsfélags en var tekið yfir af WOW air í október 2012 og skipuleggur ferðir frá Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið fékk ferðaskrifstofuleyfi á Íslandi frá samgönguráðherra þann 17. desember 2002 og hóf í kjölfar þess starfsemi árið 2003. Árið 2005 festu eigendur Iceland Express kaup á dönsku flugfélögunum Sterling og Maersk Air. Eftir að hafa sameinað þau í eitt seldu þeir FL Group fyrirtækin og fengu í skiptum hlutabréf í FL Group. 23. október 2012 yfirtók fyrirtækið WOW air Iceland Express. Við yfirtökuna tók félagið yfir leiðarkerfi, vörumerki og viðskiptavild. 30. október sama ár sagði svo WOW air öllum starfsmönnum Iceland Express upp störfum ásamt því að rifta samningum við flugrekanda Iceland Express, Holidays Czech Airlines. Flugfloti. Félagið á hvorki né rekur flugvélaflotann sem það notar auk þess sem það hefur ekki flugmenn í vinnu. Haustið 2008 tók félagið á leigu tvær Boeing 737-700 vélar af Astraeus í stað MD-90 vélanna. 21. nóvember 2011 var Astraeus tekið til slitameðferðar og er henni ekki enn lokið. Um sama leyti gerði Iceland Express samning við tékkneska flugfélagið HOLIDAYS Czech Airlines, sem útvegar Iceland Express Airbus A320 180 sæta flugvélar til að sinna áætlun félagsins. Í febrúar 2012 var síðan gerður nýr samningur milli félagana sem gildir til vorsins 2013, en félögin lýstu jafnframt yfir að þau myndu halda áfram að þróa samstarf sitt. Óljóst er þó með þann samning eftir að WOW air tók yfir rekstur Iceland Express. Sigurjón Birgir Sigurðsson. Sigurjón Birgir Sigurðsson (fæddur 27. ágúst 1962 í Reykjavík á Íslandi) er íslenskt skáld best þekkur undir listamannsnafninu Sjón. Hann er sonur Sigurðar Geirdal, bæjarstjóra í Kópavogi til margra ára. Hann skrifaði handrit kvikmyndarinnar Regína! með Margréti Örnólfsdóttur, kom fram í heimildarmyndinni Gargandi snilld og skrifaði handrit stuttmyndarinnar Anna og skapsveiflurnar þar sem hann lék Dr. Artmann. Hann skrifaði texta fyrir flest lög kvikmyndarinnar Myrkradansarinn ásamt Björk, Mark Bell & Lars von Trier. Sjón hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2005 fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur. Norræn goðafræði. Norræn goðafræði er samnefni yfir goðafræði þeirra trúarbragða sem voru áður fyrr iðkuð á Norðurlöndum öllum og áhrifasvæðum þeirra. Hún er þekktasta grein germanskrar goðafræði. Trú á hana lagðist víðast hvar af um það leyti sem kristni breiddist yfir Norðurlönd. Nýlega hefur þessi trú verið endurvakin á Íslandi og nokkrum öðrum stöðum undir heitinu ásatrú. Heimildir. Norræn goðafræði hafði aldrei neitt höfuðrit og átrúnaðurinn var líklega ekki mjög formfastur. Helstu heimildir um goðafræðina eru nokkur rit, flest rituð á Íslandi eftir að kristni var lögtekin. Það eru helst Eddukvæði, sem sagt er að Sæmundur fróði hafi tekið saman, en eru þó líklega mun eldri að uppruna (og þar með frá tímum þeim er trúin var iðkuð) og rit eftir Snorra Sturluson t.d. Snorra-Edda. Goð. Goð skiptast í tvær fylkingar, æsi og vani. Ættfaðir ása er Óðinn, sonur Bors og Bestlu. Búri var sleiktur úr hrími af kúnni Auðhumlu en Bestla var jötunn. Vanir voru færri en æsir, og koma minna við sögu í goðafræðinni, en þar eru helst þrír, Njörður og börn hans Freyja og Freyr. Meðal helstu ása voru Þór, Baldur, Loki og Frigg. Svo virðist sem að vanir hafi aðallega verið frjósemisgoð og er talið að þeir gætu hafa verið leifar eldri trúarbragða sem urðu undir við þjóðflutninga. Norræn goðafræði hefur, auk goða, ýmsa vætti og verur sem ekki teljast til goða en eru þó mörg mjög kröftug og mikilvæg. Þeirra fremst eru jötnar, mestu óvinir goðanna, sem þó eru yngri í heiminum en jötnar. Þar að auki eru margar verur sem eru hálf-jötnakyns og hálf-ásakyns, þeirra á meðal börn Loka Fenrisúlfur, Miðgarðsormur og Hel. Hlutverk goðanna voru margvísleg, þau eiga öll einhverja sérstaka eiginleika og virka sem bæði fyrirmyndir og vættir sem fólk getur beðið um hjálp til með því að blóta. Fleiri nöfn má nefna eins og Mímir, Bifröst, Heimdallur, Bragi, Iðunn, Týr, Sigyn. Heimsmynd. Heimsmynd manna á 17. öld um heimsýn norrænna manna var sú að jörðin væri flöt sbr. myndina er hér fylgir. Lítið er vitað um heimsýn norrænna manna en margt bendir til að norrænir menn hafi talið jörðina hnöttótta. Jörðin var sögð sköpuð af Óðni, Vilja og Vé úr líkama jötunsins Ýmis. Himinkringlan var sköpuð úr höfuðkúpu hans, sjórinn úr blóði hans, fjöllin úr beinunum og þar fram eftir götunum. Í gegnum miðjan heiminn kom tréð Askur Yggdrasils. Ein rót þess var í Niflheim, sem voru eins konar undirheimar, þangað sem flestir fóru þegar þeir dóu. Þar var ríki Heljar. Önnur rót trésins var þar fyrir ofan, á jörðinni, með Miðgarði, ríki mannanna. Annars ber Eddukvæðum ekki saman við Snorra Sturluson um legu rótanna. Frá jörðinni lá regnbogabrú upp til himna, Bifröst. Þar var goðið Heimdallur tilbúinn að vara hin goðin við innrás. Uppi á himnum var aðsetur ása, Ásgarður og þriðja rót Yggdrasils. Smyrill (félag). Smyrill er félag hægrimanna í Menntaskólanum við Hamrahlíð (MH). Félagið var stofnað árið 2004 af Kára Þór Kjartanssyni, Jóni Felix Sigurðarsyni og Aroni Ólafssyni, ungum MH-ingum með álíkar hugsjónir. Markmið félagsins er að boða hugsjónir frjálshyggjunnar um einstaklingsfrelsi og frjálsan markað. Félagsmenn vilja breyta þeirri sósíalísku ásýnd sem MH og nemendur hans hafa haft í gegnum tíðina. Smyrill er í samstarfi við önnur hægrifélög í framhaldskólum á landsvísu sem aðhyllast hugsjónir frjálshyggjumanna. Innan félagsins er unnið mjög fjölbreytt starf. Félagið heldur meðal annars fjölda kappræðu- og umræðufunda sem og "Dag Frjálshyggjunnar", þar sem fagnað er frjálshyggjunni innan veggja skólans með ýmsum hætti. Félagsfundir eru haldnir reglulega. Hægt er að nálgast umsóknareyðublöð til inngöngu í félagið á helstu stöðum í MH. Stjórnarformenn. Stjórn Smyrils að ári hverju sér um að stuðla að betra Nemendafélagi. Þeir skulu leggja reglulega fram tillögur sem afhentar eru "Stjórn Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð" hversu sinni - félagsmenn skulu allir hafa samþykkt þessar tillögur. Stjórnarformenn sjá einnig um að gefa nemendum skólans þann möguleika á að sækja um í félagið, og þurfa nemendur að skila inn umsóknum til þess að verða fullgildir félagsmenn. Eftir að félagið hafði legið dvala í tvö ár var það endurvakið af nokkrum Garðbæingum við skólann, þeim Baldvini Þormóðssyni, syni Þormóðs Jónssonar stjórnarformanns Fíton og Kjartani Hreinssyni, syni Hreins Loftssonar fyrrverandi stjórnarformanns Baugs og formanni einkavæðinganefndar. Í félagið skráðu sig 4 aðrir nemendur. Félagið hefur ekki gert neitt til að vinna að hugsjónum frjálshyggjunnar við skólann enda mætti félagið mikilli mótstöðu við endurvakningu. Umferðarlög á Íslandi. Umferðarlög á Íslandi eru þau lög og reglur sem gilda um umferð ökutækja á vegum, lóðum, afréttum og almenningum á Íslandi, en líka um umferð gangandi, hestamanna og fleiri. Sem ökutæki teljist meðal annars bíl, reiðhjól, dráttarvél og strætisvagn samkvæmt lögum. Hafa ökumenn allra ökutækja jafnan rétt á akvegum, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Atferlisgreining. Atferlisgreining leitast við það að rannsaka atferli, hverjir undanfarar þess eru og hverjar afleiðingarnar eru. Margir þeirra sem leggja stund á atferlisgreiningu eru einnig atferlissinnar. Atferlisgreinendur notast við hlutlægar mælingar og reyna að breyta eða bæta hegðun með því að breyta skilmálum hegðunar. Það felst iðulega í því að breyta afleiðingum og undanförum hegðunar. Þrír mælanlegir eiginleikar hegðunar eru lífeðlislegir, sjáanlegir og munnlegir. Munnlegir eiginleikar eru iðulega notaðir til marks um innri ferli. Kallað munnleg hegðun þar sem við höfum ekki aðgang að hugsunum eða hugarferlum í heila nema að einhver segi frá því. Hafa litið til eiginleika hegðunar þar sem hægt er gera hlutlægar mælingar til að geta metið árangur meðferða eða breytinga sem verða á lífi sjúklings eða lífveru. Atferlisgreining er eina meðferðin sem hefur sýnt fram á verulegan bata hjá einhverfum. Ivar Lovaas notaðist við skilmála atferlisgreingar og jukust greindarstig barna um allt að 30 stig að meðferð lokinni og var þá stór hluti barnanna óaðgreinanlegur frá börnum með „venjulegan“ þroska. Hugfræði. Hugfræði rannsakar allt sem viðkemur hugarstarfi lífvera og jafnvel véla eins og tölva. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna minni, athygli, hugsun, skilning og tungumál. Það mætti líka segja að gervigreind tilheyri viðfangsefni hugfræði. Hugfræði leggur áherslu á að rannsaka „hugbúnað“ heilans, en síður „vélbúnað“. Hugfræði innan sálfræði. Hugfræði er ein af undirgreinum sálfræði. Þeir sem leggja stund á hugfræðilega sálfræði leitast við að þekkja og skilja hugarferla fólks. Slíkir ferlar koma meðal annars við sögu við þrautalausn, í minni og í notkun á tungumálum. Þeir sem leggja stund á hugfræði innan sálfræði vilja skilja þá hugarferla sem eiga sér stað á milli þess sem gerist eftir að áreiti dynja á fólki og þar til svör koma frá því. Skynjunarsálfræði. Skynjunarsálfræði fjallar um alla þætti skynjunar, en ef til vill einkum um sjón-, heyrnar- og talskynjun. Athugað er hvernig fólk greinir skynáreiti í umhverfinu, hvar unnið er úr þeim í heilanum og hvernig. Þroskasálfræði. Þroskasálfræði er undirgrein sálfræði sem rannsakar breytingar á andlegum eiginleikum fólks sem eiga sér stað eftir því sem það eldist. Upprunalega var þroskasálfræði aðeins bundin við ungbörn og börn en fæst nú við allt lífsskeiðið. Viðfangsefni þroskasálfræði er til að mynda hreyfigeta, geta til að leysa þrautir, tungumálanám og siferðisþroski. Þroskasálfræðingar fást einnig við lykilspurningar eins og hvort börn hafi ekki þá eiginleika sem fullorðnir hafa eða hreinlega skorti reynsluna sem þeir fullorðnu byggja á. Þeir fást einnig við spurningar um hvort þroski eigi sér stað smám saman með samsöfnun þekkingar eða þá skipingu frá einu þrepi hugsunar til annars; hvort börn séu fædd í þennan heim með ákveðna þekkingu eða finni hana út frá reynslu; og hvort þroski sé drifinn áfram af félagslegum öflum eða einhverju sem er innra með hverju barni. Heimspekilegar vangaveltur um eðli barna og þroska þeirra spiluðu stórt hlutverk í fyrstu rannsóknunum sem gerðar voru á þroska barna. Þessum spurningum var síðan fljótlega skipt út fyrir hagkvæmari hluti eins og velferð barna. John Locke (1632 – 1704) leit svo á að öll börn fæddust sem óskrifað blað ("tabula rasa"). Hann trúði því að börnin væru mótuð af skynjun á umhverfinu og vegna leiðsagnar eldra fólks. Locke neitaði því samt ekki að börn hefðu ólíka skapgerð og eiginleika. En hann hélt því samt fram að kennsla sem færi fram á frumstigum bernskunnar hefði lang mestu áhrifin. Þessi kenning hefur verið þungamiðjan í nútímakenningum um kennslu. Annar áhrifamaður í þroskasálfræði var franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau (1712 – 1778). Hann sagði að börn fæddust hrein ("pure") og væru í eðli sínu góð. Síðan væri annað hvort hlúð að þessari góðmennsku eða hún eyðilögð af siðmenningunni. Morðbréfamálið. Morðbréfamálið var mál sem kom upp undir lok 16. aldar og varðaði nokkur bréf sem komu fram um 1590 og hermdu upp á Jón Sigmundsson lögmann þrjú morð. Bréfin voru til þess ætluð að gera að engu kröfu afkomenda Jóns um eignir hans, sem Gottskálk Nikulásson biskup hafði haft af honum í málaferlum. Þau málaferli vörðuðu meðal annars skyldleika hans og konu hans, og þar með hvort börn hans teldust skilgetin. Eftir siðaskipti var Guðbrandur Þorláksson biskup fenginn til þess af fjölskyldu sinni að endurheimta eignir Jóns Sigmundssonar afa síns. Í fyrstu varð honum vel ágengt, en þegar hann krafðist jarðanna Hóls og Bessastaða í Sæmundarhlíð í Skagafirði lenti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni og frændum hans af Svalbarðsætt. Fram komu fjögur „morðbréf“ sem ónýttu kröfu Guðbrands, en hann varðist með útgáfu svokallaðra morðbréfabæklinga þar sem hann hrekur bréfin og sýnir fram á að þau séu fölsuð. Þessum átökum lauk með því að Guðbrandur hætti embætti sínu og þurfti að lokum að greiða háa sekt fyrir rógburð. Aðdragandi. Gottskálk „grimmi“ Nikulásson Hólabiskup hlaut þau eftirmæli að hann hefði verið harðdrægur og gráðugur í að leggja jarðir undir Hólastól. Um 1505 kærði hann Jón Sigmundsson, sem var höfðingi á Norðurlandi, fyrir ýmsar sakir, meðal annars að hann hefði vantalið eignir fyrir tíundarreikninga (það er að segja, skattsvik). Með þessum sökum og fleirum og með því að kalla ávallt presta sína til vitnis tókst honum að ná undir sig meirihlutanum af eignum Jóns, þar á meðal jörðunum Hóli og Bessastöðum í Sæmundarhlíð í Skagafirði sem hann gaf dóttur sinni, Kristínu, í heimanmund árið 1508. Árið 1519 létust þeir báðir Jón Sigmundsson og Gottskálk biskup. Um skeið tók Jón Arason við ráðsmennsku á Hólum. 1521 ákærði hann Einar Jónsson fyrir samneyti við föður sinn bannfærðan. Einar leitaði ásjár Teits Þorvaldssonar höfðingja í Glaumbæ og þeir Teitur og Jón Arason mættust og börðust á Sveinsstaðafundi 1522. Báðir hlutu þeir nokkra vegsemd af þeim bardaga, hvor í sínum flokki, og skömmu síðar var Jón kjörinn biskup og Teitur lögmaður. Teitur sættist þó brátt við Jón og Einar Jónsson færði síðan Jóni forræði eigna sinna og gerðist próventumaður á Hólum. Afdrif jarðanna Hóls og Bessastaða urðu þau að sonur Kristínar Gottskálksdóttur, Ólafur Jónsson, erfði jarðirnar, og síðan gengu þær til dóttur hans og Steinunnar Jónsdóttur ríka frá Svalbarði, Guðrúnar Ólafsdóttur. Eiginmaður hennar, Hannes Björnsson, seldi jarðirnar bræðrunum Jóni og Markúsi Ólafssonum 1585 eða þar um bil, þrátt fyrir að Guðbrandur hefði áður stefnt honum um jarðirnar. Endurheimt kirkjujarða. Guðbrandur Þorláksson á efri árum Eftir siðaskipti gengu allar eigur kirkna á Íslandi, sem ekki voru sannanlega annarra eign, til konungs. Fljótlega hófu ýmsir að reyna að sækja mál til að endurheimta jarðir sem þeir töldu að kaþólsku biskuparnir hefðu ólöglega af þeim eða forfeðrum þeirra haft. Bæði Gottskálk og Jón Arason höfðu þótt ágjarnir og beitt fyrir sig bannfæringu og lagakrókum til að sölsa jarðir undir sjálfa sig og biskupsstólana. Strax árið 1561 leituðu afkomendur Jóns Sigmundssonar til höfuðsmanns, Páls Stígssonar, varðandi jarðeignir þær sem Gottskálk hafði af honum og Einari syni hans haft, og árið 1568 fór Guðbrandur Þorláksson á fund konungs með kröfu afkomenda Jóns. Með bréfi frá 1570 veitti móðir Guðbrands, Helga Jónsdóttir, honum fullt umboð til að reyna að endurheimta jarðir afa síns. Guðbrandi varð í fyrstu nokkuð vel ágengt og þegar hann varð biskup 1571 hafði hann náð að endurheimta um tuttugu meðaljarðir. Morðbréfin. Um 1590 komu fram á Alþingi fjögur bréf sem virtust vitna um að ásakanir og dómar Gottskálks yfir Jóni Sigmundssyni hefðu fyllilega átt rétt á sér og væru jafnvel vægir miðað við meinta glæpi Jóns. Í fyrsta bréfinu er hermt að Jón hafi myrt bróður sinn Ásgrím Sigmundsson, sem dó í bardaga í kirkjugarðinum í Víðidalstungu árið 1483. Annað bréfið hermir að Jón hafi játað á sig bróðurmorðið. Það þriðja er heimild til aflausnar Jóns Sigmundssonar fyrir morðið sem Gottskálk skrifar Jóni ábóta á Þingeyrum og í því fjórða er svo borið upp á Jón að hann hafi myrt stjúpson sinn í Gljúfrá og síðar myrt sitt eigið barn, tveggja ára gamalt, með því að stinga því í pott. Með þessu móti var ekki aðeins verið að sverta minningu Jóns og réttlæta ofsóknir biskups á hendur honum, heldur líka draga í efa að auðæfi hans, sem hann erfði meðal annars eftir börn sín, væru fengin með réttmætum hætti. Bréfin voru afhent höfuðsmanni á þinginu og virtist sem lítið yrði úr vinnu Guðbrands við að endurheimta jarðir afa síns. Fyrsti morðbréfabæklingurinn. Á Alþingi árið 1592 reyndi Guðbrandur að fá lögréttu til að dæma bréfin fölsuð, en sökum andstöðu Jóns Jónssonar lögmanns, gekk það ekki. En Guðbrandur biskup sat á Hólum þar sem prentverkið var og hann hikaði ekki við að beita því þegar svona var komið. Án þess hann hefði fengið að sjá morðbréfin með eigin augum, gaf hann út fyrsta morðbréfabæklinginn 1592 þar sem hann hrakti þær ávirðingar sem fram komu í bréfunum lið fyrir lið og sýndi fram á ranglæti Gottskálks biskups gagnvart afa hans. Hann lét auk þess prenta ýmis bréf sem innihéldu vitnisburði til stuðnings máli sínu, einkum hvað varðaði þá ákæru Gottskálks gagnvart Jóni að hann og Björg kona hans væru fjórmenningar. Annar morðbréfabæklingurinn. Sama ár sendi Guðbrandur Arngrím Jónsson til Kaupmannahafnar til að sækja málið til konungs. Konungur bauð höfuðsmanni að sætta biskup og Jón lögmann með bréfi dagsettu 9. maí 1594. Sama ár, 30. júní, voru morðbréfin svo dæmd fölsuð á Alþingi. Áður höfðu komið fram í lögréttu svokölluð „jarðabréf“ sem vitnuðu um að Jón Sigmundsson og Björg kona hans hefðu framselt jarðirnar Hól og Bessastaði í Sæmundarhlíð til Gottskálks biskups til greiðslu skuldar. Þessi bréf voru ekki dæmd fölsuð í lögréttu heldur staðfest að þau væri góð og gild. Eftir þessa útreið gaf Guðbrandur því út annan morðbréfabæklinginn 1595 þar sem hann í fyrsta lagi sýnir fram á að morðbréfin séu fölsuð, skafin og endurskrifuð gömul bréf með innsiglum, nú búinn að sjá þau með eigin augum, og í öðru lagi sýnir fram á með rökum að jarðabréfin séu einnig fölsuð á sama hátt. Málaferli og eftirmál. Út af þessum bæklingi hófust mikil málaferli. Árið eftir hreinsaði Jón Ólafsson sig með eiði af ákæru Guðbrands. Jón Sigurðsson, bróðursonur Jóns Jónssonar, var þá orðinn lögmaður og ávítaði biskup í bréfi eftir klögun Jóns Ólafssonar. Árið 1611 stefndi biskup Jóni Ólafssyni fyrir falsanirnar og vændi jafnframt Jón Sigurðsson um hórdómsbrot. Á þinginu var honum gert að sættast við Jón Sigurðsson, en Jón Ólafsson féll frá því að kæra biskup fyrir róg. Rekistefnan hélt samt áfram, og 24. júní 1618 kærði Jón Ólafsson biskup fyrir eftirlitsmönnum konungs, Frederik Friis og Jørgen Vind, sem voru á Íslandi til að rannsaka embættisfærslu Herlufs Daa. Árið eftir sættist biskup við Jón Ólafsson og greiddi honum bætur. Þessi sáttagerð virðist þó hafa komið til of seint, því þegar Frederik Friis kom til landsins vorið eftir sem nýr höfuðsmaður, bar hann með sér bréf frá konungi um að höfða skyldi mál gegn Guðbrandi. Stuttu áður hafði biskup reynt að endurheimta öll þau eintök af síðasta bæklingnum sem hann gat komið höndum yfir og látið brenna þau, svo að í dag eru örfá eintök þekkt. 1620 nefnir Holger Rosenkrantz höfuðsmaður tveggja tylfta yfirdóm um málið. Ari Magnússon í Ögri, tengdasonur biskups, en jafnframt náfrændi lögmannanna Jóns Jónssonar og Jóns Sigurðssonar, tók að sér að verja málstað biskups fyrir dóminum og fór tvennum sögum af framgöngu hans. Erfiðlega gekk að útvega eintak af bæklingnum sem dæma átti út af, en það tókst þó á endanum. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brot Guðbrands varðaði embættismissi, en ákveðið var að leggja málið í dóm konungs. Árið eftir úrskurðaði konungur að Guðbrandur skyldi halda embætti en greiða sekt sem ákveðin var þúsund ríkisdalir. Árið 1624 gerði Guðbrandur síðustu tilraun til að endurheimta jarðirnar með stefnu sem Ari bar fram fyrir hans hönd, en Jón Sigurðsson ónýtti sókn þeirra á Alþingi. Ekki hefur fjölskylda Guðbrands verið ánægð með framgöngu Ara, og Halldóra Guðbrandsdóttir bað höfuðsmann árið 1625 um að setja Ara frá öllum forráðum á Hólum, líklega af ótta við að Ari ætlaði sér að skipta búi biskups eftir lát hans. Höfuðsmaður varð við bóninni og Ari hvarf frá Hólum áður en Guðbrandur lést árið 1627. Ásgarður (gata). Ásgarður er gata í Fossvoginum í Reykjavík. Gatan liggur í skeifu með báða enda á Bústaðaveginum. Í Ásgarði er mest af raðhúsalengjum, en einnig eru blokkir og einbýlishús við götuna. Gatan er í póstnúmeri 108 og er stundum kölluð Ástgarður. Asgarður Guðbrandur Þorláksson. Guðbrandur Þorláksson á málverki frá 17. öld Guðbrandur Þorláksson (1541(?) – 20. júlí 1627) var biskup á Hólum frá 8. apríl 1571 til dauðadags. Guðbrandur var sonur séra Þorláks Hallgrímssonar, prests á Mel í Miðfirði og víðar, og Helgu Jónsdóttur, sem var dóttir Jóns Sigmundssonar lögmanns og Bjargar Þorvaldsdóttur konu hans. Guðbrandur lærði í Hólaskóla á árunum 1553 til 1559 og fór svo í Kaupmannahafnarháskóla árið 1560 sem þá var óvenjulegt, þar sem flestir Íslendingar fóru í háskóla í Þýskalandi. Þar lagði hann stund á guðfræði og rökfræði. Eftir heimkomuna varð hann rektor í Skálholtsskóla 1564-1567 og síðan prestur á Breiðabólstað í Vesturhópi uns Friðrik 2. Danakonungur skipaði hann biskup á Hólum eftir meðmæli frá Sjálandsbiskupi, sem verið hafði kennari hans í háskólanum, þrátt fyrir að prestastefna á Íslandi hefði kjörið annan mann. Biskupstíð. Guðbrandur var biskup á Hólum í 56 ár og hefur enginn Íslendingur gegnt biskupsembætti lengur. Hann setti því mikinn svip á samtíð sína. Hann þótti vera einn mesti lærdómsmaður á Íslandi, einn af fulltrúum húmanismans og hafði mikinn áhuga á landafræði, stærðfræði og stjörnufræði. Hann vildi festa lútherska trú betur í sessi og í því skyni keypti hann prentsmiðjuna sem Jón Arason hafði flutt til landsins og hann hafði sjálfur unnið við á Breiðabólstað þegar hann var prestur þar, og lét flytja hana til Hóla. Hann stóð að umfangsmikilli prentun á guðsorðabókum og öðru trúarlegu efni á Hólum en þar ber hæst "Guðbrandsbiblíu", sem kom út árið 1584 og var að hluta til þýdd af Guðbrandi sjálfum, auk þess sem hann notaði þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu og aðrar eldri þýðingar. Hún var prentuð í 500 eintökum og kostaði hvert þeirra tvö til þrjú kýrverð, eftir efnahag kaupandans. Með þýðingunni og útgáfunni á biblíunni og öðrum ritum stuðlaði Guðbrandur að varðveislu íslenskrar tungu. Hann skrifaði margar bækur sjálfur og þýddi aðrar og gerði ákveðnar gæðakröfur til þess efnis sem hann gaf út, meðal annars um að íslenskum bragvenjum væri fylgt, auk þess sem kenningin þurfti að vera rétt. Guðbrandur hafði sem fyrr segir mikinn áhuga á stjörnufræði og landmælingum og tókst að reikna út hnattstöðu Íslands og einnig Hóla af meiri nákvæmni en áður hafði verið gert. Hann gerði líka landakort af Íslandi og leiðrétti önnur eldri. Var Íslandskort Guðbrandar lengi fyrirmynd annarra korta. Nánasti samstarfsmaður Guðbrandar mestalla biskupstíð hans var Arngrímur Jónsson lærði. Morðbréfamálið. Nokkru áður en Guðbrandur varð biskup fékk fjölskylda hans hann til að endurheimta jarðeignir sem fyrirrennari hans, Gottskálk Nikulásson Hólabiskup, hafði kúgað út úr afa hans, Jóni Sigmundssyni lögmanni eftir 1505. Guðbrandur fékk, samkvæmt umboðsbréfi Helgu móður sinnar, ákveðinn hlut þeirra eigna sem hann næði að endurheimta. Honum varð í fyrstu vel ágengt, en þegar hann reyndi að ná tveimur jörðum í Skagafirði, sem afkomendur Kristínar dóttur Gottskálks biskups héldu, lenti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni af Svalbarðsætt. Jarðirnar voru seldar Jóni og Markúsi Ólafssonum og um 1590 komu fram fjögur bréf sem hermdu morð upp á Jón Sigmundsson. Jón lögmaður stóð gegn því að Guðbrandur fengi bréfin dæmd fölsuð. Við svo búið beitti biskup prentverkinu á Hólum fyrir sig og lét prenta þrjá bæklinga máli sínu til stuðnings árin 1592, 1594 og 1608. Morðbréfamálið stóð allt til 1624 og lyktaði með því að Guðbrandi var gert að greiða 1000 ríkisdala sekt fyrir rógburð. Fjölskylda. Um það leyti sem Guðbrandur varð biskup eignaðist hann barn með Guðrúnu Gísladóttur vinnukonu á Hólum. Var það Steinunn Guðbrandsdóttir (1571 — 1649), sem giftist Skúla Einarssyni bónda á Eiríksstöðum í Svartárdal og í Bólstaðarhlíð. Þau áttu fjölda barna og eitt þeirra var Þorlákur Skúlason biskup, sem varð eftirmaður afa síns. Guðbrandur kvæntist 7. september 1572 Halldóru Árnadóttur (1547 — 30. september 1585), dóttur Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda og síðar klausturhaldara í Þingeyraklaustri og konu hans Guðrúnar Sæmundsdóttur. Börn þeirra voru Páll Guðbrandsson (1573—1621) sýslumaður og klausturhaldari á Þingeyrum, Halldóra Guðbrandsdóttir (1574—1658), sem giftist ekki en stóð fyrir búi á Hólastól þegar faðir hennar gerðist aldraður og veikur, og Kristín Guðbrandsdóttir (1574—1652) kona Ara Magnússonar sýslumanns í Ögri við Ísafjarðardjúp. Anime. Anime (アニメ) eða japanskar teiknimyndir er sá flokkur teiknimynda sem framleiddur er í Japan og byggir á sama teiknistíl og japanskar myndasögur, manga. Mikið af anime þáttaröðum og kvikmyndum eru framleiddar fyrir yngri kynslóðina en einnig eru framleitt blóðugra og grófara efni en það sem vestrænn hugsunarháttur á við að venjast. Þó má ekki misskilja það á þann hátt að allt anime sé gróft og blóðugt. Mikill hluti af þess eru rómantískar sögur og drama. Anime er eins og manga flokkað niður eftir efni, til að mynda Shōnen fyrir pilta á unglingsárum og Shōjo fyrir stúlkur á svipuðum aldri, ecchi eða hentai er svo erótískt efni. Þetta er þó ekki tæmandi listi yfir hina ýmsu flokka af anime. Listi yfir algeng stöðuheiti veraldlegra embættismanna á Íslandi fyrr á öldum. Þetta er listi yfir algeng stöðuheiti veraldlegra embættismanna á Íslandi fyrr á öldum. Listinn er sennilega ekki tæmandi, svo bættu endilega við hann ef þú veist um eitthvað sem vantar. Múmínálfarnir. Múmíhúsið í skemmtigarðinum, Múmínheimur í Naantali, Finnlandi. Múmínálfarnir (sænska: "Mumintrollen") eru aðalpersónurnar í bókaröð og myndasögum eftir finnlandssænska rithöfundinn og myndlistarkonuna Tove Jansson, sem gefnar voru út á árunum 1945 til 1970. Þær voru skrifaðar á sænsku og gefnar út fyrst að finnska bókaforlaginu "Schildts Förlags Ab" sem sérhæfir sig í útgáfu á sænsku í Finnlandi. Þær hafa verið þýddar á ein 43 túngumál og nokkrar þeirra þar á meðal á Íslensku. Auk níu skáldsagna um Múmínálfana skrifaði Tove Jansson og myndskreytti fimm myndabækur, samdi teiknimyndasögur fyrir dagblöð með bróður sínum Lars Jansson sem birtust í enskum dagblöðum og lög innblásin af persónunum hafa verið gefin út. Einnig hafa verið gerðar teikni-og brúðumyndir fyrir sjónvarp um Múmínálfana, þær þekktustu í Póllandi og Japan auk teiknimynda í fullri lengd. Teiknimyndir um Múmínálfana hafa verið sýndar í Íslenska Ríkissjónvarpinu nokkrum sinnum. Skemmtigarðurinn Múmínheimur í Naantali í Finnlandi sem var opnaður árið 1993, er helgaður þeim, sem og safnið "The Museum Moomin Valley" í Tampere, en þar eru geymdar upprunalegar teikningar ásamt handunnum leirbrúðum Tove og öðru efni sem tengist Múmínálfunum og sögu þeirra. Bækurnar fjalla um Múmínálfana og vini þeirra og nágranna í Múmíndal. Múmínálfarnir eiga heima í Múmínhúsinu, sem er há, blá, sívöl bygging. Þeir eru hvítir á litinn og minna á flóðhesta í útliti. Bækur. Fyrsta sagan um múmínálfana hét "Småtrollen och den stora översvämningen" og kom út árið 1945. Fyrsta múmínálfabókin sem kom út á íslensku var "Pípuhattur galdrakarlsins" sem kom út árið 1968 í þýðingu Steinunnar S. Briem. Sögupersónur. Listi yfir nokkrar sögupersónur í bókunum og teiknimyndunum um múmínálfana. Encyclopædia Britannica. a> þar sem ellefta útgáfa Britannica er auglýst. Alfræðiorðabókin Britannica (enska: Encyclopædia Britannica) er elsta alfræðiorðabókarútgáfan á ensku um almenn málefni. Greinar hennar eru almennt taldar áreiðanlegar, nákvæmar og vel skrifaðar. Saga. Upphaflega var alfræðiorðabókin gefin út í Edinborg af prentaranum Colin Macfarquhar og leturgrafaranum Andrew Bell. Fyrsta útgáfan var í þremur bindum sem komu út, eitt á ári, 1768 til 1771. Ritið seldist vel og þegar komið var að fjórðu útgáfunni árið 1809 voru bindin orðin tuttugu. Á áttunda áratug nítjándu aldar flutti útgáfan frá Edinborg til London og varð hluti af samsteypu dagblaðsins The Times. Eftir elleftu útgáfu Britannicu, árið 1911, flutti hún á ný, nú til Chicago, þar sem hún komst í eigu Sears verslanafyrirtækisins. Hún er enn staðsett í Chicago, en síðan 1996 hefur eigandinn verið svissneski milljarðamæringurinn Jacqui Safra sem á líka Merriam-Webster orðabókina. Samningur við Íslenska ríkið. Þann 20. apríl 1999 gerði Björn Bjarnason fyrir hönd Menntamálaráðuneytis Íslands samning við Encyclopedia Britannica International Ltd þess efnis að öll íslensk IP-net fengju aðgang að vefútgáfu alfræðiorðabókarinnar gegn ákveðnum skilyrðum, sem sett voru fram í samningnum. Gilti hann til 30. apríl 2000 og borgaði ráðuneytið 10,000 sterlingspund, eða rúmlega eina milljón íslenskra króna fyrir. Þetta var í fyrsta skipti sem slíkur aðgangur hafði verið keyptur fyrir heilt land, en slíkir samningar eru oftast gerðir við einstaka skóla, þá oftast mennta- eða háskóla. Verðið sem einstaklingur þarf að borga fyrir ársaðgang að alfræðiorðabókinni á vefnum er 40 pund. Miðað við það fékk Menntamálaráðuneytið um 99,9 prósent afslátt ef borið er saman við að íbúar landsins hefðu allir keypt aðgang sjálfir. Karíbahaf. Karíbahaf (Karabíska hafið eða Vestur-Indíur) er haf sem afmarkað er af norðurströnd Suður-Ameríku, Atlantshafinu, Litlu-Antillaeyjum, Stóru-Antillaeyjum, Mexíkóflóa og Mið-Ameríku. Flatarmál þess er um 2.754.000 km², dýpsti punktur þess er Kaímangjáin milli Kúbu og Jamaíku sem er 7.500m undir sjávarmáli. Í því eru minnst 7000 eyjar og hafinu er skipt í 25 yfirráðasvæði sem ýmist eru sjálfstæð ríki eða hlutar annarra ríkja. Saga. Stórveldi Evrópu lögðu svæðið undir sig á 16. og 17. öld og börðust einnig innbyrðis um yfirráð. Eyjunum var þannig skipt í yfirráðasvæði sem nefndust spænsku Vestur-Indíur, bresku Vestur-Indíur, dönsku Vestur-Indíur, frönsku Vestur-Indíur og hollensku Vestur-Indíur, en skipting þessara svæða gat verið breytileg eftir stríðsgæfu viðkomandi nýlenduveldis. Tíð átök nýlenduveldanna og takmörkuð stjórn þeirra á svæðinu, auk þess sem Spánn flutti reglulega um hafið stóra skipsfarma af góðmálmum og eðalsteinum frá hinu mikla nýlenduveldi sínu í Suður-Ameríku, gerði það að verkum að Karíbahafið varð draumastaður sjóræningja fram á 18. öld. Orðsifjar. Hafið dregur nafn sitt af Karíbum, indíánum sem bjuggu á eyjunni Hispaníóla þegar Kristófer Kólumbus kom þangað árið 1492, en Kólumbus sjálfur gaf svæðinu nafnið "Vestur-Indíur". Sjúkrahúsið á Akureyri. Sjúkrahúsið á Akureyri, áður Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (skammstafað FSA), er sjúkrahús með höfuðstöðvar á brekkunni á Akureyri. Að jafnaði starfa þar 650 manns í um 490 ársstörfum, þar af um 50 læknar, sjúkrarúm eru 184, þar af eru 27 í Seli og 41 á Kristnesi. FSA er hátæknisjúkrahús og er annað stærsta sjúkrahús landsins (á eftir Landspítalanum). Nafni sjúkrahússins var breytt með lagasetningu 2007 og tók breytingin gildi 1. september sama ár. Fyrst um sinn verður þó notast við skammstöfunina FSA áfram. Aðstaða. Heildarstærð húsnæðis aðalbyggingar FSA sem staðsett er á Eyrarlandsholti sunnan Lystigarðsins og austan Þórunnarstrætis er um 25 þúsund fermetrar. Þar af eru óinnréttaðar þrjár hæðir í legudeildarálmu spítalans, samtals um 2.500 fermetrar. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veitir alla almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahúsið er þekkingarstofnun sem starfar í nánum tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum. Stjórn & hlutverk. FSA starfar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu () og er svokallað svæðissjúkrahús sbr. 24. gr. laganna. Sjúkrahúsið heyrir undir heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið. Heilbrigðisráðherra skipar stjórn sjúkrahússins. Þrír stjórnarmanna eru tilnefndir af Akureyrarbæ, einn af starfsmannaráði en formann skipar ráðherra án tilnefningar. Forstjóri er skipaður af heilbrigðisráðherra. Starfandi er framkvæmdastjórn sem skipuð er forstjóra, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs, framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga. Reksturinn er fjármagnaður úr ríkissjóði en auk þess með þeim sértekjum sem sjúkrahúsið aflar. Hokusai. Katsushika Hokusai, 葛飾北斎 á japönsku (1760 í Jedó í Japan – 1849), var japanskur myndlistarmaður frá Jedótímabilinu, fæddur í Jedó (sem nú heitir Tókýó). Hann gerði skissubók í 15 bindum sem heitir "Hokusai manga" (frá 1814) og trégrafík, eða tréprent, sem heitir "36 sjónarhorn á Fuji" (frá ca. 1823–1829), sem m.a. inniheldur verkið "Stóru ölduna við Kanagawa". Hann er talinn vera einn af bestu Ukiyo-e listamönnunum. En ukiyo-e þýðir „myndir af fljótandi veröld“ (daglegt líf). Hokusai er einnig þekktur fyrir erótísku prentin sín í shunga-stíl. "Fukujusō"-myndaröð hans, sem er 12 mynda röð þar sem hold og ástríða er áberandi, er talin vera ein af þremur bestu shunga-verkunum. List hans hafði mikilvæg áhrif á marga impressjónista eins og Claude Monet. Ævi. Hokusai fæddist í Edô (nú Tokyo) í níunda mánuði á 10. ári Horeki tímabilsins (október-nóvember, 1760) inn í myndlistarfjölskyldu. Faðir hans, Nakajima Issai, var speglagerðarmaður. Þegar Hokusai var átján ára og hafði æft sig sem tréútskurðarmaður, fór hann í læri á vinnustofu Katsugawa Shunsho, málara og hönnuð litprenta. Hokusai fylgdi þó ekki reglum meistara síns og var því að lokum rekinn árið 1785. Á árunum 1796-1802 gerði hann líklega um 30.000 bókaskýringarmyndir og litprent. Hann fékk oft innblástur frá daglegu lífi í Japan, hefðum og sögusögnum. Árið 1824 gaf hann út bókina "Ný form fyrir hönnun" og hönnun hans hefur haft gífurleg áhrif, m.a. á Sashiko-munstrin. Dæmigerðustu tréprent og landslagsmyndir Hokusais voru gerðar á árunum 1830–1840. Þrátt fyrir að Hokusai hafi prófað ýmsar stílgerðir, hélt hann sínum sérstæða stíl eftir það. Á tímabili bjó hann við fátækt, og þrátt fyrir að hann hljóti að hafa fengið einhverja peninga fyrir verk sín, var hann fátækur, og lýsti sjálfum sér, allt til dauðadags, sem bónda. Hann var mjög metnaðargjarn allt til dauðadags, og sagði á banabeði sínu: „Ef Guð hefði gefið mér bara fimm ár í viðbót, hefði ég orðið frábær málari.“ Hann dó 10. maí 1849. Eftir dauða hans var hluti af tréprenti hans sent til vesturlanda, og hafði ásamt verkum annarra ukiyo-e listamanna, áhrif á vestræna meistara eins og Vincent van Gogh og Paul Gauguin. Katsushika Hokusai hefur notið meiri vinsælda í vestrænni menningu en í Japan. Mikið af verkum japanskra prentgerðarmanna voru flutt til Evrópu, einkum París á miðri 19. öld. Fólk safnaði þeim og myndirnar voru mjög vinsælar meðal impressjónista eins og Claude Monet, Edgar Degas og Henri de Toulouse-Lautrec, en í verkum þeirra má sjá sterk áhrif frá japanskri list. Þekktasta verk hans er sennilega "Stóra aldan við Kanagawa". Myndin er af stórri öldu sem er um það bil að fara að gleypa mennina og bátana, og það glittir í Fuji fjall í bakgrunni. Öldurnar í myndinni eru stundum ranglega kallaðar „tsunami“, en réttilega heita þær „okinami“. Verk. Hokusai átti langan feril en hann gerði sín helstu verk eftir sextugt. Vinsælasta verk hans er ukiyo-e myndaserían "36 sjónarhorn á Fuji" (富嶽三十六景 "fugaku sanjūrokkei"), sem hann gerði á árunum 1826–1833. Serían samanstendur af 46 myndum (10 þeirra var bætt við seinna), en hann gerði snilldarlegar myndir af næstum því hvaða myndefni sem var – blómum, fuglum og daglegu lífi. Stærsta verk Hokusai er myndaröð í 15 bindum, sem heitir "Hokusai manga" (北斎漫画). Það eru bækur fullar af uppfinningasömum skissum, gefnar út árið 1814. Teikningarnar eru oft taldar fyrirrennari nútímamanga. Svampur Sveinsson. Merki þáttanna um Svamp Sveinsson Svampur Sveinsson (enska: "SpongeBob SquarePants") eru teiknimyndir eftir teiknarann og sjávarlíffræðinginn Stephen Hillenburg sem eru sendar út á Nickelodeon í Bandaríkjunum sem framleiðir þær líka, Stöð 2 á Íslandi og MTV í Evrópu. Aðalpersónur þáttanna eru Svampur Sveinsson, Pétur krossfiskur, Sigmar smokkfiskur, Klemmi krabbi og Harpa íkorni. Flestir þættirnir eiga sér stað í bænum Bikinibotnum og nágrenni. Þættirnir gerast að mestu leyti neðansjávar en aðstæður þar eru gerðar mjög svipaðar og ofansjávar. Umhverfið virðist hafa sama viðnám og ofansjávar í þáttunum og íbúarnir keyra um á bátum sem eru mjög svipaðir bílum og þeir fara jafnvel í freyðibað. Vinsældir. Svampur Sveinsson nýtur mikilla vinsælda, bæði meðal barna og fullorðinna en þættirnir eru fyrstu ódýru (low budget) teiknimyndirnar frá Nickelodeon sem ná viðlíka vinsældum. Kvikmyndin. Veturinn 2004 var frumsýnd kvikmynd um sama efni í Bandaríkjunum og átti hún upphaflega að vera lokaþátturinn en framleiðslu sjónvarpsþáttanna var þó haldið áfram. Myndin var frumsýnd á Íslandi föstudaginn 8. apríl. Í myndinni fá Svampur og Pétur það verkefni að bjarga kórónu Neptúnusar konungs og lenda í ýmiskonar ævintýrum á leiðinni og hitta m.a. alþjóðlegu stórstjörnuna David Hasselhoff. Þar lenda þeir einnig uppi á raunverulegu (óteiknuðu) yfirborði, sem er áhugavert þar sem raunverulegu fiskarnir verða teiknaðir um leið og þeir lifna við. Einnig hitta þeir fyrir raunverulegan kafara í gamaldags köfunarbúnaði sem er álitinn kýklópur af fiskunum. Sagan. Sögu Svamps Sveinssonar er hægt að rekja allt til ársins 1993 þegar þættirnir Rocko's Modern Life voru fyrst sendir út í Bandaríkjunum en einn af framleiðendum þáttanna var Stephen Hillenburg teiknari og sjávarlíffræðingur en hann naut þess að vinna við báðar starfsgreinar. Eftir að sýningum þeirra þátta lauk árið 1997 byrjaði hann að vinna að Svampi (en þó eru til skissur frá árinu 1996). Hann myndaði lítinn hóp með hönnunarstjóranum Derek Drymon og handritshöfundnum (story editor) Merriwether Williams. Fyrsti þátturinn var sendur út árið 1999. Á þessum tíma voru þættirnir Skriðdýrin (Rugrats) á hátindi frægðar sinnar og margar aðrar ódýrar teiknimyndir búnar að renna sitt skeið á enda. Upphaflega var vænst til þess að Svampur Sveinsson, með óvandaðan teiknistíl, einfalda kímni og orðaleiki ólíkt klósettkímninni sem einkenndi Skriðdýrin yrði ein af þeim þáttaröðum en nokkrum dögum eftir fyrstu sýningar ruku áhorfstölur upp og það tók um eitt ár fyrir Svamp Sveinsson að toppa áhorfstölur Skriðdýranna en það er eflaust að þakka skemmtilegri rödd Svamps og stíl þáttanna. Önnur þáttaröðin hóf göngu sína með betri teikningum og enn betri þáttum og þá varð heiminum ljóst að Svampur Sveinsson hefði rutt brautina fyrir þroskaðri kímnihú í teiknimyndum og hafði mikil áhrif á þætti eins og Invader Zim sem voru einnig sýndir á Nickelodeon. Eftir hryðjuverkin á Bandaríkin, 11. september 2001 fengu þættirnir enn meira áhorf en nokkurn tíman áður og Svampur Sveinsson varð vinsælli en nokkru sinni fyrr en sumir telja að þættirnir hafi hjálpað börnum og jafnvel fullorðnum að jafna sig eftir áfallið. Árið 2002 var einnig gott í upphafi og vinsældir þáttanna miklar og margir sígildir þættir urðu til í þriðju þáttaröðinni sem byggðist á sömu hugmyndum og önnur þáttaröðin en Hillenburg var farinn að hugsa um að hætta að vinna að þáttunum en þegar það spurðist út að það ætti að gera kvikmynd sem nokkurskonar lokaþátt árið 2004 mótmæltu aðdáendur þáttanna hástöfum og þáttaröðin var lengd til ársins 2003. Áhorfstölur voru enn háar í Bandaríkjunum en í lok sumarsins 2004 tilkynnti forstjóri Nickelodeon það að þættirnir ættu eftir að halda áfram án Hillenburg. Derek Drymon hefur tekið við framleiðslunni en það er ein af þeim litlu breytingum sem orðið hafa á framleiðsluliðinu. Veturinn 2004 var svo kvikmyndin um Svamp Sveinsson frumsýnd í Bandaríkjunum. Deilur. Svampur Sveinsson hefur vakið upp ýmsar deilur, rétt eins og margir aðrir þættir sem Nickelodeon hefur sýnt, t.d. Ren og Stimpy en vinsældir þáttanna hafa gert deilurnar mun háværari. Þessar deilur hafa aðallega átt sér stað í Bandaríkjunum. Rétt eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 voru þættirnir bendlaðir við hryðjuverk. Ákveðið var að breyta einum þætti þar sem átti að sprengja veitingastaðinn Klemmabita. Í einum þætti þriðju seríu ættleiða Svampur og Pétur hörpuskel og voru þeir þar með sakaðir um samkynhneygð en þær ásakanir reyndust ósannar þar sem framleiðendur þáttanna segja þá kynlausa. Öfgafull, kristin samtök í Bandaríkjunum hafa einnig nýlega sakað „We Are Family Foundation“ um að dreifa jákvæðum áróðri um samkynhneygð með myndbandi sem þeira hafa dreift í þarlendum skólum þar sem m.a. Pétur og Svampur koma fram. Talsmaður samtakanna segir hinsvegar að þeir sem hafa haldið því uppi ættu að heimsækja lækni og fá stærri lyfjaskammt en myndbandinu var ætlað að kenna börnum kærleika og virðingu fyrir náunganum. Svampur Sveinsson hefur orðinn vinsæll meðal eldri áhorfenda og hefur verið sýndur á MTV og álíka stöðvum. Margir halda því jafnvel fram að vegna þess að þættirnir eru svona vinsælir meðal fullorðinna (og þá sérstaklega karlmanna), hljóti þeir að vera slæmir. Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson. Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson (fæddur 940) var lögsögumaður Alþingis árin 985-1001. Á þeim tíma risu upp deilur milli kristinna og heiðinna. Þorgeir var þá leiðtogi síðarnefndra, en leiðtogi kristinna Síðu-Hallur. Sagt er að til að komast að niðurstöðu hafi Þorgeir lagst undir feld í nokkurn tíma og síðan ákveðið að Ísland skyldi vera kristið, en leyfa útburð barna, át á hrossakjöti og blót ef það væri gert í laumi. Sagnfræði. Sagnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á sögu fyrirbæra, atburða, einstaklinga, hópa, svæða og samfélaga. Sagnfræðirannsóknir byggja á markvissri og skipulagðri heimildarýni, þar sem heimildum er eftir atvikum skipt í frumheimildir og eftirheimildir. Sagnfræðirannsóknir greinast eftir aðferðafræði og því sjónarhorni sem beitt er, en einnig eftir því hvert viðfangsefni rannsóknarinnar er. Sagnfræði er ýmist talin til hugvísinda eða félagsvísinda. Barnamosi. Barnamosi (fræðiheiti: "Sphagnum") er ættkvísl mosa sem eru afar rakadrægir. Íslenska heitið er komið til af því að hann var settur undir hjá ungbörnum og dró í sig þvag þegar þau migu undir. Hann hefur einnig notagildi eins og að vera jarðvegsumbót, einangrun, gleypir, og eldsneyti. Dæmi voru til þess að hann væri notaður sem nokkurs konar dömubindi með því að vefja hann í léreft og sem sáraumbúðir (í mosanum er bakteríudrepandi efni). Barnamosi vex aðalega á norðurhveli jarðar í freðmýri, en einnig er að finna tegundir (þótt þær séu færri) á suðurhveli jarðar. Electric Six. Electric Six er sextett frá Detroit í Bandaríkjunum stofnaður árið 1996 (þá sem The Wildbunch) sem spilar blöndu af þungarokki, fönki og diskótónlist. Meðlimir. Hljómsveitin samastóð upprunalega af Dick Valentine (söngur), Rock and Roll Indian (gítar), Surge Joebot (gítar), Disco (bassi), M (trommur) og Tait Nucleus (hljóðblöndun). Mjólkursamsalan. Mjólkursamsalan, skammstafað MS, er íslenskt samvinnufélag í eigu Auðhumlu sem sinnir sölu og vinnslu á mjólk og mjólkurafurðum. MS varð til í núverandi mynd árið 2005 við sameiningu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og Mjólkurbús Flóamanna. Frá árinu 1994 hefur fyrirtækið lagt mikið kapp á störf í þágu íslenskrar tungu. Emmessís. Emmessís ehf. er framleiðslu- og dreifingarfyrirtæki sem framleiðir og selur margar tegundir af ís, frostpinnum, íssósum og öðrum frosnum matvælum. Emmessís er staðsett í sömu byggingu og MS við Bitruháls 1 í Reykjavík. Fiðla. Þær nótur sem strengir fiðlunnar eru stilltir á. Fiðla er strengjahljóðfæri með fjórum strengjum. Það er fimmund á milli allra strengjanna og sá dýpsti er stilltur á G fyrir neðan mið-C. Hinir eru, að neðan, D A og E. Fiðla er minnsta hljóðfærið í fiðlufjölskyldunni og það sem hefur hæsta tónsviðið. Hin hljóðfærin eru lágfiðla, selló og kontrabassi. Tónlist fyrir fiðlu er vanalega skrifuð í g-lykli. Hljóðfærið. Fiðla er eins konar boginn, kúptur viðarkassi (búkur) með sveigðri spýtu sem stendur fram úr öðrum endanum (háls). Neðst (þ.e. næst fiðluleikaranum) á búknum er oftast hökubretti sem á hvílir haka og stundum kinn fiðluleikarans. Rétt hjá hökubrettinu er strengjabretti þar sem strengirnir eru festir niður. Stundum eru þar stilliskrúfur til að stilla fiðluna með og eru strengirnir þá festir í þær, en ef ekki eru þeir festir beint í holur á brettinu. Þaðan liggja strengirnir fram fiðluna, yfir eins konar viðarbrú sem heldur þeim uppi (stól) og þaðan yfir fingrabrettið, plötu sem byrjar á miðjum búknum og liggur áfram eftir hálsinum. Þar sem fingrabrettinu sleppir lenda strengirnir á lítilli upphækkun og liggja þaðan inn í snigilinn, skreyttan enda hálsins þar sem stilliskrúfurnar eru. Til hliðar við stólinn, sitt hvoru megin, eru F-holur þar sem hljóðið kemur út úr búknum. Innan í búknum eru meðal annars sál og bassabiti sem eiga stóran þátt í að framkalla hljóðið sem úr fiðlunni kemur. Spilun. Leika má á fiðlu á tvennan hátt: með því að strjúka boga yfir fiðluna eða með því að plokka strengina með fingrunum (en það kallast pizzicato), hvorttveggja með hægri hendi. Er hrynjandinni þannig stjórnað. Tónhæð er stjórnað með því að þrýsta streng niður á fingrabrettið á réttum stað með viðeigandi fingri vinstri handar. Þannig styttist ómandi hluti strengsins (sá hluti sem sveiflast frjáls milli tveggja snertipunkta) sem aftur ræður því hvaða tónn hljómar. Sé enginn strengur snertur kallast það að leika lausa strengi, þ.e. G, D, A eða E (sjá nótnamynd). Saga. Fiðlan á rætur sínar að rekja mjög langt aftur í söguna og mörg hljóðfæri af svipaðri gerð hafa verið til í Evrópu og víðar mjög lengi. En fiðlan sjálf, þetta hljóðfæri sem við þekkjum í dag, var ekki fundin upp fyrr en á 16. öld. Það var á Ítalíu og er oftast talið verk Antonio Stradivari sem er þó ekki alveg satt. Nútímafiðlan var í þróun á hans tíð, en ekki er hægt að segja að einn maður hafi fundið hana upp. Frá því á barokktímanum hefur fiðlan verið eitt mikilvægasta hljóðfærið í sígildri tónlist til að spila laglínur. Hlutur hennar varð mjög stór á klassíska tímanum og enn meiri á þeim rómantíska. Í dag má segja að hlutur hennar hafi minnkað, þrátt fyrir að vera enn meiri en flestra hljóðfæra, þegar tónskáld hafa farið að prófa sig meira áfram með að fara nýjar leiðir með ný hljóðfæri. Þjóðlagafiðlur eru stundum eilítið öðruvísi en þær sem notaðar eru í síglidri tónlist, en þær eiga oft jafnvel enn lengri sögu þar sem áður voru notuð eldri hljóðfæri sem voru fyrirmyndir fiðlunnar, en síðar hefur verið farið að nota bara breyttar útgáfur af fiðlum. Þótt rannsóknir séu af skornum skammti er vitað að fiðlur voru smíðaðar á Íslandi öldum saman og langt fram eftir 19. öld, ekki sízt í Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslu. Skapaðist að vissu marki sín fiðlusmíðahefðin í hverri sveit þar sem slíkar smíðar voru stundaðar. Morfeos. Morfeus ("„sá sem myndar / mótar / formar“") er guð eða persónugervingur drauma í grískri goðafræði. Í ættartölum guðanna sem voru skrifaðar snemma á klassíska tímanum, er hann sonur svefnguðsins Hypnosar, bróður Þanatosar sem er persónugervingur dauðans, en báðir eru þeir „synir næturinnar“. Lyfið morfín dregur nafn sitt af honum. Vikivaki. Vikivaki er forn hringdans sem stundaður hefur verið á skemmtunum um öll Norðurlönd frá miðöldum til okkar daga. Orðið "vikivaki" er notað ýmist um dansinn, kvæðin sem sungin eru undir dansinum eða „gleðir“ - skemmtanir þar sem slíkur dans er stundaður. Þekktasti vikivaki nútímans er eflaust dansinn sem er stiginn á Ólafsvöku í Færeyjum við sagnakvæðið "Orminn langa" síðustu helgina í júlí ár hvert. Kvæðin. Vikivakakvæði hafa yfirleitt viðkvæði en stuðlar og höfuðstafir eru óreglulegir. Á Ólafsvöku stendur einn maður á miðju gólfi og kveður en allir taka undir í viðkvæði. Dansinn. Vikivaki er oft í heimildum einungis kallaður „dans“ og vikivakakvæði „danskvæði“. Vikivaki er hringdans, þar sem þátttakendur haldast í hendur eða hver um axlir annars og stíga tvö dansspor til vinstri og eitt til hægri, með ýmsum breytum, svo sem að stappa í gólfið í áttunda hverju spori. Þegar löng sagnakvæði eru sungin undir er gjarnan stigið fastar í gólfið þegar kemur að dramatískum augnablikum í sögunni. Dæmi um þekkta vikivaka eru t.d. "Ásukvæði", "Hani, krummi, hundur, svín", "Ormurinn langi", "Ólafur liljurós", "Stjúpmóðurkvæði", "Tófukvæði" og "Tunnan valt". Reykjavíkurflugvöllur. Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur í Vatnsmýri í Reykjavík. Flugrekstur hófst þar árið 1919 við mjög frumstæðar aðstæður. Bretar gerðu svo varanlegan flugvöll þar í síðari heimsstyrjöld sem Íslendingar fengu full yfirráð yfir í stríðslok. Innanlandsflug hefur síðan þá haft miðstöð sína á vellinum og einnig gerðu Loftleiðir út þaðan til 1962 en þá var farið að nota Keflavíkurflugvöll fyrir millilandaflug. Árið 2008 fóru 426.971 flugfarþegar um völlinn í innanlandsflugi og 36.918 í millilandaflugi (Grænland og Færeyjar). Melbourne. Melbourne er höfuðborg ástralska fylkisins Victoriu. Eitt frægasta sérkenni borgarinnar er það að hún er ein af mjög fáum borgum heimsins sem hafa enn sporvagna í notkun. Á stór-Melbourne svæðinu búa um þrjár og hálf milljónir manna. Svæðið er hinsvegar mjög mörg sveitarfélög og í Melbourne-borg sjálfri (sem er miðborgin) búa einungis 46.000 manns. Í gegn um borgina liggur áin Yarra. Saga. Borgin var stofnuð árið 1835 af tveimur hópum frjálsra manna (ólíkt mörgum öðrum áströlskum borgum sem flestar voru stofnaðar sem fanganýlendur). Til að byrja með var hún einungis smábær, en þegar gull uppgötvaðist í Victoriu og hún var gerð að sjálfstæðri nýlendu með Melbourne sem höfuðborg, óx borgin hratt og á níunda áratug nítjándu aldar varð hún næst-stærsta borg breska heimsveldisins. Þegar Samveldið Ástralía var stofnað árið 1901 var Melbourne gerð höfuðborg hins nýja samveldis og hélt hún því hlutverki til stofnunar Canberra 1927. Menning. Melbourne er ein helsta menningarborg Ástralíu. Þar er árlega haldin kvikmyndahátíð, þaðan koma margir heimsfrægir tónlistarmenn og hljómsveitir (m.a. Nick Cave og DC) og hún er ein helsta kvikmyndaframleiðsluborg Ástralíu. Mikil gróska er líka í íþróttum í Melbourne og eru þar mjög mörg íþróttalið (t.d. eru 9 af 16 liðum í úrvalsdeildinni í áströlskum fótbolta þaðan). Ólympíuleikarnir voru haldnir þar 1956 og árlega fer þar fram ástralski Formúlu 1 kappaksturinn. Í borginni eru svo þar að auki sjö háskólar, höfuðstöðvar margra fyrirtækja og margt fleira. Borgin hýsti Heimsveldisleikana árið 2006 og fóru þeir fram á MCG, Melbourne Cricket Ground. Vinnusálfræði. Vinnusálfræði fæst við hegðun fólks á vinnustöðum. Vinnusálfræði er tengd klínískri sálfræði, félagssálfræði og fleiri þáttum eins og lögum og jafnrétti kynjanna. Aðalviðfangsefni vinnusálfræðinga er að nýta sálfræðilega þekkingu og aðferðir til að stafsmenn og fyrirtæki nái árangri. Vinnusálfræðingar nota sálfræðileg próf til að mæla þekkingu, hæfileika, getu og aðra eiginleika fólks í ýmsu skyni tengt vinnu og vinnustöðum, t.d. vegna ráðningar, stöðuhækkunnar, eða til að mæla starfsánægju. Vinnusálfræði er bæði fræðilegt og hagnýtt fag. ISO 3166-1. ISO 3166-1 er sá hluti ISO 3166 staðalsins sem skilgreinir tveggja og þriggja stafa kóða (kallaðir alpha-2 og alpha-3) auk kenninúmers fyrir lönd og pólitískt afmörkuð svæði. Staðallinn var fyrst gefinn út árið 1974 af Alþjóðlegu staðlastofnuninni. __TOC__ Tenglar. 1 Gunnar Gunnarsson. Gunnar Gunnarsson (18. maí 1889 – 21. nóvember 1975) var einn helsti rithöfundur Íslendinga á 20. öld. Hann var á tímabili meðal mest lesnu rithöfunda í Danmörku og Þýskalandi. Æviágrip. Gunnar var bóndasonur frá Valþjófsstað í Fljótsdal. Hann fluttist að Ljótsstöðum í Vopnafirði með foreldrum sínum vorið 1896 og bjó þar til 18 ára aldurs. Móðir Gunnars lést árið 1897 þegar hann var aðeins átta ára. Dauði móðurinnar hafði afdrifarík áhrif á Gunnar og hefur af mörgum fræðimönnum verið talinn lykillinn að ævi hans og verkum. Gunnar byrjaði ungur að skrifa kvæði og smásögur, en 17 ára gamall gaf hann út sínar fyrstu bækur, ljóðakverin Móðurminningu og Vorljóð. Honum reyndist ómögulegt að mennta sig á hefðbundinn hátt sökum fátæktar, en árið 1907 innritaðist hann í lýðháskólann í Askov á Jótlandi í Danmörku, þar sem hann stundaði nám í tvö ár. Þar tók hann þá ákvörðun að verða rithöfundur og ákvað jafnframt að skrifa á dönsku til þess að geta höfðað til stærri hóps lesenda. Haustið 1909 fluttist hann til Árósa þar sem hann bjó um veturinn og reyndi að framfleyta sér með því að selja blöðum og tímaritum ljóð og smásögur auk þess sem hann hélt fyrirlestra um Ísland í ungmennafélögum í nágrenninu. Árið 1910 fluttist Gunnar til Kaupmannahafnar. Eftir tvö erfið ár gaf hann út fyrsta bindi "Sögu Borgarættarinnar" (d. "Af Borgslægtens Historie"), og náði þá að koma sér á kortið sem rithöfundur. Sagan kom út í fjórum bindum næstu þrjú árin. Fyrstu tvö bindin fengu fremur dræmar viðtökur og seldust lítið en með þriðja bindinu, "Gesti eineygða" ("Gæst den enöjede") sló Gunnar í gegn. Sagan var gefin út í endurskoðaðri heildarútgáfu árið 1915 og seldist upp frá því jafnt og þétt, alls hefur hún komið út í yfir 120.000 eintökum á dönsku. Fyrri heimsstyrjöldin fyllti Gunnar bölsýni sem endurspeglast í skáldsögum hans frá þeim tíma, en á árunum 1920 til 1940 gaf hann út fjölmargar ritgerðir um samfélag, félagsleg vandamál og sameiningu norðurlanda. Hann flutti fjölmarga fyrirlestra á Norðurlöndum og í Þýskalandi, en hluti af ritgerðum hans var gefið út í bókinni "Det Nordiske rige". Árið 1939 flutti hann aftur til Íslands eftir að hafa fest kaup á jörðinni Skriðuklaustri í Fljótsdal árið áður. Þar lét hann byggja mikið hús, sem enn stendur og er í dag fjölsótt safn til minningar um hann. Árið 1940, meðan Gunnar var í Þýskalandi vegna fyrirlestraraðar sem hann flutti þar í landi, átti hann fund með kanslara Þýskalands, Hitler. Gunnar mun vera eini íslendingurinn sem átti fund með Hitler. Árið 1948 fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann hófst handa við að þýða sín eigin rit og hafði lokið því skömmu áður en hann lést árið 1975. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál, og var hann um tíma nefndur í tengslum við Nóbelsverðlaunin, en hann hreppti þau ekki. Þekktustu verk Gunnars auk Borgarættarinnar eru Fjallkirkjan, Aðventa, Svartfugl og Vikivaki. Hann var mjög hrifinn af Íslendingasögum, en hann þýddi Grettis sögu Ásmundarsonar yfir á dönsku og gaf hana út þar í landi og skrifaði skáldsöguna Fóstbræður um samskipti landnámsmannana Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs Hróðmarssonar. Árið 1911 gaf Gunnar út ljóðasafnið Digte, sem tileinkað var ástinni í lífi hans og lífsförunauti, Franziscu Antoniu Josephine Jörgensen (4. apríl 1891) frá Fredericia á Jótlandi. Faðir hennar var járnsmiður en móðir hennar af bæheimskum aðalsættum. Þau gengu í hjónaband þann 20. ágúst 1912. Hún dó tæplega ári á eftir honum. Þau voru bæði jarðsett í kirkjugarðinum í Viðey, en kirkjugarðinn þar töldu þau jafnhelgan lúterskum mönnum og kaþólskum - Gunnar var lúterskur, en Franzisca var kaþólsk. Gunnarsstofnun. Árið 1997 var stofnun komið á fót um arfleið Gunnars Gunnarssonar, sem er rekin frá Skriðuklaustri. Hlutverk Gunnarsstofnunar er tilgreint í reglum hennar og lýtur fyrst og fremst að því að leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og ævi Gunnars Gunnarssonar og reka dvalarstað fyrir lista og fræðimenn. Einnig á stofnunin að stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi. Íslenska ríkið fékk Skriðuklaustur að gjöf frá hjónunum með gjafabréfi dagsett 11. desember 1948. Stofnunin hefur haldið ýmsar sýningar, t.d. var sýning um hreindýr og hreindýraveiðar árið 2001, árið 2002 var haustsýning um útilegumenn og útlaga. Sumarið 2002 vann Gunnarsstofnun að gerð margmiðlunardisks um íslensk miðaldaklaustur ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum og stofnunum. Fornleifarannsókn hófst í júní 2002 á þeim stað er munkaklaustur stóð að Skriðu 1493-1552 og stendur hún enn. Nóbelsverðlaun. Gunnar Gunnarsson var fjórum sinnum tilnefndur til Nóbelsverðlauna í bókmenntum. Alfred Noreen, prófessor við Uppsalaháskóla, tilnefndi hann árin 1918, 1921 og 1922, en Gunnar þótti, að mati Nóbelsnefndarinnar, ekki hafa náð nægum þroska sem höfundur til að hljóta verðlaunin. Borgarbyggð. Borgarbyggð er sameinað sveitarfélag á Vesturlandi með nokkrum þéttbýliskjörnum; Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi og er stærsta sveitarfélag á Íslandi, sem stendur við sjó, en byggir ekki afkomu sína að neinu leyti á sjávarútvegi. Sameining. Sveitarfélagið varð til þegar Borgarnesbær, Hraunhreppur, Norðurárdalshreppur og Stafholtstungnahreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag 11. júní 1994. Síðar, 7. júní 1998, sameinuðust Álftaneshreppur, Borgarhreppur og Þverárhlíðarhreppur Borgarbyggð. 23. apríl 2005 var svo kosið um sameiningu við Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhrepp, Kolbeinsstaðahrepp og Skorradalshrepp. Öll sveitarfélögin samþykktu sameiningu nema Skorradalshreppur, þar var kosið í annað sinn 4. júní sama ár og sameiningartillagan felld í annað sinn. Hin fjögur sveitarfélögin sameinuðust þó og tók sú sameining gildi 10. júní í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. Staðsetning. Borgarbyggð nær allt yfir alla Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar að Skorradalshreppi undanskildum, það er að segja frá frá norðanverðum Skarðsheiði í suðri, að Eyja- og Miklaholtshreppi í norðri og að Holtavörðuheiði í austri. Atvinnuvegir. Aðalatvinnuvegir Borgarbyggðar eru landbúnaður, þjónusta og iðnaður, (bygginga, málm og matvælaiðnaður). Meirihluti atvinnustarfsemi Borgarbyggðar fyrir utan landbúnað fer fram í Borgarnesi. Menntun. Í Borgarbyggð eru þrír grunnskólar; Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskólinn á Varmalandi, Grunnskóli Borgarfjarðar (varð til við sameiningu Grunnskólans á Kleppjárnsreykjum og Grunnskólans á Hvanneyri) og fjórir leikskólar (fimm með útibúi Klettaborgar í Bjargslandi, Borgarnesi), Klettaborg í Borgarnesi, Hraunborg á Bifröst, Andabær á Hvanneyri og Leikskólinn Varmalandi. Auk þess eru tveir háskólar í sveitarfélaginu, Háskólinn á Bifröst (áður Viðskiptaháskólinn og þar áður Samvinnuháskólinn Samvinnuskólinn) og Landbúnaðarháskóli Íslands (áður Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og þar áður Bændaskólinn á Hvanneyri). Borgarbyggð á aðild að Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Sveitarstjórnarkosningar 2010. Kjörtímabilið 2006-2010 voru meirihlutaskipti tíð í Borgarbyggð. Við upphaf þess og lok þess mynduðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur meirihluta, þess á milli störfuðu Sjálfstæðisflokkur og Borgarlisti (sameiginlegt framboð félagshyggjufólks úr Samfylkingu, Vinstri grænum og annarra utan flokka) saman auk þess sem um nokkurra mánuða skeið árið 2009 starfaði þjóðstjórn allra þriggja flokkanna. Í aðdraganda kosninga 2010 tóku Samfylkingarfélagið í Borgarbyggð og svæðisfélag Vinstri grænna sameiginlega ákvörðun um að slíta samstarfinu í kringum Borgarlistann og bjóða fram undir eigin merkjum. Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 buðu því fram Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn auk Svarta listans, sem barðist fyrir auknu gegnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þegar úrslit kosninganna lágu fyrir var ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks héldi velli. Fyrst gerðu tilraun um myndum meirihluta Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn. Þær viðræður báru ekki árangur og Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn gengu til meirihlutasamstarfs undir forystu Páls Brynjarssonar bæjarstjóra. Oddviti Sjálfstæðisflokksins, B. Bjarki Þorsteinsson er formaður byggðarráðs og Ragnar Frank Daníelsson, oddviti Vinstri Grænna forseti bæjarstjórnar. Le Corbusier. Le Corbusier (fæddur Charles-Edouard Jeanneret, 6. október 1887 – dáinn 27. ágúst 1965) var svissneskur arkitekt. Hann fæddist í bænum Le Chaux-de-Fonds í svissnesku Júrafjöllunum en þar er mikil framleiðsla á klukkum. Faðir Le Corbusiers vann við að skreyta og grafa í klukkur og sonurinn ætlaði að feta sömu braut. Hann hóf nám í listaskóla bæjarins og tók að þjálfa sig í bæði leturgreftri og skreytingum. Fyrstu ár. Le Corbusier sýndi snemma mikla hæfileika sem teiknari og var áhugasamur um myndlist. Það var þó ekki fyrr en listmálarinn og myndhöggvarinn Charles L´Eplattenier, kennari við listaháskólann, vakti áhuga hans á arkitektúr sem Le Corbusier lét sér detta í hug að hann myndi eiga eftir að sinna öðru en klukkum í framtíðinni. Tæplega átján ára gamall fékk hann sitt fyrsta verkefni, að hanna og smíða villu fyrir einn af kennurum listaskólans. Þremur árum síðar hafði hann hannað tvær villur til viðbótar í Le Chaux-de-Fonds. Sem ungur listaskólanemi varð hann fyrir miklum áhrifum af nýjum stefnum og straumum á listasviðinu og var bæði þekktur sem listmálari og myndhöggvari þótt arkitektúrinn yrði hans aðalstarf. Næstu árin ferðaðist hann mikið um, fór meðal annars til Ítalíu, Ungverjalands, Austurríkis, Frakklands og Þýskalands og hitti fræga hönnuði sem höfðu mikil áhrif á hann. Fyrstu teikningar að hinum svokölluðu Dominohúsum Le Corbusiers komu fram árið 1914, en þar notaði hann járnbenta steinsteypu og súlur eða burðarbita sem settir voru niður á grunnplötu hússins og báru síðan uppi næstu plötu fyrir ofan. París. Árið 1917 settist hann að í París og bjó þar æ síðan. Í París kom hann fram með róttækar hugmyndir. Hann vildi láta rífa fjölda húsa á bakka Signu þar sem honum þótti of þröngt; götur mjóar og allt eins og í völundarhúsi. Hann sagði húsin væru óþægilegir bústaðir, þau gætu valdið fólki heilsutjóni og þar væri mikil eldhætta. Hann vildi reisa stór og mikil hús, nánast skýjakljúfa og tryggja að gatnakerfið yrði í samræmi við kröfur nútímans. Í París kynntist hann listamanninum Amédée Ozenfant og saman skrifuðu þeir stefnuyfirlýsingu púrismans, "Aprés le cubisme", árið 1918. Fimm punktar Le Corbusiers. Hinir svokölluðu fimm punktar eða meginatriði í arkitektúr eru tengd nafni Le Corbusier: Í fyrsta lagi notkun járnbentrar steinsteypu, öðru lagi þakgarðar, í þriðja lagi opin rými, í fjórða lagi að hafa glugga fremur lága en lárétta og láta þá jafnvel ná á milli burðabitanna og loks framhliðar húsa sem hægt var að hafa opnar eða lokaðar, allt eftir óskum en það var mögulegt með tilkomu járnbentu steypubitanna sem héldu plötunni uppi og þar var ekki nauðsynlegt að veggirnir bæru þungann. Húsgagnahönnun. Le Corbusier er líka mjög þekktur fyrir húsgögnin sín, "Fauteuil grand comfort" (stóll mikilla þæginda), er þar fremstur í flokki. Hann var hannaður 1928 og er enn framleiddur í dag. Stóllinn var fáanlegur með ýmis konar áklæði, en kýrhúð var vinsælust. Dymbilvika. Dymbilvika ("páskavika", "kyrravika", "dymbildagavika") er vikan fyrir páska og síðasta vika lönguföstu. Hún hefst á pálmasunnudag og lýkur á laugardeginum fyrir páskadag. Í kristinni trú er venjan að tileinka þessa viku kyrrð og íhugun guðspjallanna. Á páskadag hefst svo páskavikan. Dymbilvika heitir einnig öðru nafni efsta vika, þ.e. síðasta vikan fyrir páska. Nafnið kyrravika bendir svo á að í þessari viku skyldu menn vera hljóðari og hæglátari en nokkru sinni endranær og liggja á bæn. Dymbildagar. Dymbildagar eru síðustu þrír dagarnir fyrir páska: skírdagur, föstudagurinn langi og hvíldardagurinn á laugardag ("triduum sacrum"). Þá var hringt inn til messu með tréskellum, svonefndum klöprum ("tinnibulum"), í stað klukkna og draga þessir dagar líklega íslenskt nafn sitt af því (dymbill). Á þessum tíma voru einnig ljós deyfð í kirkjum við messur eða þau slökkt í vissri röð. Heitið „dymbildagar“ er eldra en það heiti sem nú er þekktara: „dymbilvika“ sem fyrst kemur fyrir á 15. öld. Kenningar um orðið dymbill. Dymbilvika mun draga nafn sitt af áhaldinu "dymbill" sem var einhverskonar búnaður til að gera hljóð kirkjuklukkna drungalegra og sorglegra (dumbara), þegar hringt var til guðsþjónustu á þessum síðustu dögu föstunnar. Helst er talið að dymbillinn hafi verið trékólfur, sem settur var í kirkjuklukkur í stað málms, svo hljóðið deyfðist. Þó gæti dymbillinn einnig hafa verið trékylfa til að berja klukkurnar með, eftir að járnkólfurinn hafði verið bundinn fastur. En einnig eru sagnir um einhverskonar tréklöprur framan á kirkjuþili, sem notaðar hafi verið í klukkna stað þessar vikur. Orðið dymbill hefur einnig verið haft um háan ljósastjaka, samkvæmt Árna Magnússyni, en ljósastjaki þessi á að hafa staðið á kirkjugólfi með fjórum örmum og þrem ljósum á hverjum auk eins í toppi. Skyldi ljós þessi tákna Krist og postulana og voru notuð í stað ljósahjálma í þessari viku, svo að dimmleitara væri í kirkjunni en ella. Þessi orðskýring Árna þykir samt ósennileg. Dalai Lama. "Þessi grein fjallar um embætti Dalai Lama, fyrir umfjöllun um núverandi Dalai Lama sjá greinina Tenzin Gyatso" Dalai Lama (á tíbetsku: ཏཱ་ལའི་བླ་མ་; nánast borið fram sem: "taa la’i bla ma") er embætistitill eins aðalleiðtoga lamasiðar, helstu gerðar búddisma í Tíbet. Í þeirri grein búddisma eru prestar og munkar nefndir lama (kennari) og "Dalai Lama" er æðstur kennimanna í Gelug-reglu tíbetskrar búddista. Dalai Lamarnir voru einnig valdamestu stjórnmálaleiðtogar Tíbet frá því á sautjándu öld fram til ársins 1951 er Kínverjar hertóku Tíbet. Þegar Dalai Lama deyr þá hefst leit að eftirmanni hans því að samkvæmt trú tíbetskra búddista endurholdgast Dalai Lama sem lítill drengur og á þessi hefð rætur aftur til fimmtándu aldar. Drengir sem eru fæddir rétt eftir andlát Dalai Lama eru kannaðir og fyrir þá eru lögð próf. Þegar hinn endurborni Dalai Lama þykir fundinn er viðkomandi drengur sendur í klaustur og bíður hans þar löng og mikil þjálfun og menntaferill. Hingað til hafa verið fjórtán Dalai Lamar og sá fyrsti fæddist árið 1391 e. Kr. Flestir Tíbetar líta á Dalai Lama sem endurholdgun búddans Avalokiteshvara sem í Tíbet er nefndur "Chenrezig", སྤྱན་རས་གཟིགས་, búdda kærleikans og miskunnseminnar, og sýna þeir leiðtoga sínum mikla virðingu. Núverandi Dalai Lama er Tenzin Gyatso. Hann fæddist 4. júlí 1935 í Norðaustur-Tíbet og er hann er fjórtánda endurholdgun Dalai Lama og er þjóðhöfðingi og andlegur leiðtogi flestra Tíbeta. Árið 1989 hlaut Dalai Lama friðarverðlaun Nóbels fyrir að stuðla að friðsamlegri baráttu Tíbeta fyrir sjálfstæði frá Kína en Dalai Lama hefur ávallt neitað að beita ofbeldi í baráttunni fyrir bættum hag landa sinna og frelsun Tíbet. Hann hefur haft mikil áhrif á fjölda fólks alls staðar í heiminum með boðskap sínum og persónuleika. Sérhver Dalai Lama er sögð vera sama sálin klædd nýju holdi. Dalai Lama á Íslandi. Dalai Lama kom til Íslands 2009 og dvaldi þar í þrjá daga og hélt fyrirlestur í Laugardalshöll. Hann kom þann 31. maí 2009 og fór af landi 3. júní 2009. Hann tók þátt í samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju þar sem fulltrúar allra stærstu trúfélaga landsins voru saman komnir. Hann fór einnig í heimsókn í Háskóla Íslands og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt prófessorum af hugvísindasviði. Hann heimsótti líka Alþingi og sat á fund með utanríkismálanefnd Alþingis og ræddu um málefni Tíbets, umhverfis- og mannréttindamál. Þann 2. júlí 2009 hélt hann fyrirlestur um lífsgildi, viðhorf og lífshamingju og svaraði spurningum áhorfenda í Laugardalshöll. Dalai Lama var mjög snortinn eftir heimsóknina til Íslands og þakkaði fyrir góðar móttökur. Indland. Lýðveldið Indland er annað fjölmennasta land jarðarinnar og það sjöunda stærsta að flatarmáli. Þar býr rétt yfir einn milljarður manns. Á síðustu 20 árum hefur Indland vaxið mikið bæði hvað varðar fólksfjölda og áhrif á svæðinu. Í dag er indverska hagkerfið það fjórða stærsta í heiminum, ef verg þjóðarframleiðsla er mæld út frá kaupmáttarjafnvægi, hagvöxtur þar var sá annar hæsti í heiminum árið 2003. Indland er langfjölmennasta lýðræðisríki heimsins og vaxandi hernaðarveldi, það hefur yfir að ráða kjarnorkuvopnum og einum stærsta herafla heimsins. Indland er 3,3 milljónir ferkílómetrar. Það er töluð 200 tungumál á Indlandi. Landið er í Suður-Asíu með 7000 km langa strandlengju við Indlandshaf. Indland á landamæri að Pakistan, Kína, Mjanmar (áður Búrma), Bangladess, Nepal, Bútan og Afganistan. Srí Lanka, Maldíveyjar og Indónesía eru nærliggjandi eyríki í Indlandshafi. Indland hefur verið heimili margra elstu siðmenninga veraldar og hefur fætt af sér fern af stærstu trúarbrögðum nútímans: hindúisma, búddhisma, jainisma og sikhisma. Landið var hluti af Breska heimsveldinu fram til 1947, þegar það hlaut sjálfstæði. Saga. Fyrir um 9000 árum síðan fluttist fólk til Indlands sem var nefnt Indusdals-siðmenningin um 3300 f.Kr. Á eftir fylgdi Vedic-siðmenningin sem lagði grunninn að Hindúisma og indverskri menningu. Á þriðju öld f.Kr. sameinaði Ashoka keisari mikinn hluta Suður-Asíu, Maurya keisaradæmið. Við endalok keisaradæmisins árið 180 f.kr hófst stríðsástand sem stóð í tæpa öld. Á tímabilinu 100 f.Kr til 1100 e.Kr, skiptust margir mishæfir leiðtogar um keiarakrúnuna þ.á m. Chalukyas, Cholas, Pallavas, og Pandyas. Í Suður-Indlandi á þessum tíma blómstruðu vísindi, listir og skrift var orðin afbragðs góð og vel þekkt. Margir keisarar réðu í Indlandi um árið 1000. Nokkur þessara rikja voru Mughal, Vijayanagara, og Maratha Keisaraveldin´. Bretar innlimuðu Indland sem nýlendu árið 1856. Í byrjun 20. aldarinnar hófu milljónir fólks að mótmæla friðsamlega t.d. með því að framfylgja ekki óréttlátum lögum breta. Einn leiðtogi mótmælandanna var Mahatma Gandhi, sem beitti friðsamlegum mótmælum sem nefnd var "ahisma", sem þýðir ekkert ofbeldi. Þann 15. ágúst 1947 hlaut Indland sjálfstæði undan breska konungsveldinu. Stjórnarskrá Indlands var formlega tekin í notkun þann 26. janúar 1950. Fyrsti lýðræðislega kosni leiðtogi Indlands var forsetisráðherrann Jawaharlal Nehru. Stærstu borgir. Taflan sýnir tíu stærstu borgir á Indlandi og hvaða ríki þær tilheyra. Norður-svæðið. Norður-svæðið (enska: "Northern Territory") er svæði í miðjum norðurhluta Ástralíu. Það er fámennast af öllum fylkjum og svæðum Ástralíu með tæpa tvöhundruð þúsund íbua. Þar eru einungis þrjú byggðarlög sem eitthvað kveður að, það eru höfuðborgin Darwin á norðurströndinni, Alice Springs í suðurhluta svæðisins og Katherine aðeins fyrir sunnan Darwin. Upphaflega var Norður-svæðið hluti af nýlendunni Suður-Ástralíu (sem nú er fylki), en 1911 var það tekið af því og gert að sjálfstæðu svæði. Svæðið er mjög harðbýlt, meirihluti þess er þakinn eyðimörk og mjög lítið ræktarland er. Þar eru þó líka sumar af frægustu náttúruperlum Ástralíu, svo sem Uluru (eða Ayres-klettur), sem er líka einn helgasti staður frumbyggja svæðisins og í norðurhluta svæðisins er Kakadu þjóðgarðurinn. Helstu atvinnuvegir svæðisins eru ferðaþjónusta og námugröftur. Einmánuður. Einmánuður er sjötti mánuður ársins í gamla norræna tímatalinu og síðasti vetrarmánuðurinn. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið að því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið "eindagi" sem þýðir "síðasti dagur". Fyrsti dagur einmánaðar er helgaður piltum eins og harpa stúlkum og þorri og góa húsbændum og húsfrúm og víðast kallaður "yngismannadagur". Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning. Heitdagur. Ludvig Harboe (1709 – 1783) var danskur prestur, Hólabiskup 1741 til 1745 og jafnframt Skálholtsbiskup eitt ár frá 1744 til 1745 og Sjálandsbiskup frá 1757. Venja var að haldnar væru þrjár samkomur á ári í hverjum hrepp til að ræða sameiginleg mál eins og fátækratíund og fjallskil. Ein var að hausti önnur á lönguföstu og þriðja eftir vorþing. Á Norðurlandi var samkoman á föstunni haldin fyrsta dag einmánaðar og hann nefndur "heitdagur" en þá var einkum safnað heitum fyrir fátæka. Árin 1741-45 fóru þeir Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson Thorcillius í eftirlitsferð til Íslands að undirlagi Jóns og með samþykki Danskra stjórnvalda og í framhaldi lögðu þeir til ýmsar breytingar á helgidagahaldi á landinu. Var þá heitdagur eitt af því sem aflagt var með konunglegri tilskipun 29. maí 1744 og norðlendingum skipað að flytja hann yfir á næst sunnudag er fólk kæmi almennt til messu. Var það með þeim rökum að ekki tíðkaðist þessi siður annarstaðar í Danaveldi. Norðlendingar rituðu konungi ítarlega greinargerð og bænarskjal árið 1755 um að fá að halda deginum en því var hafnað. Nokkur skipti var reynt að endurvekja einmánaðarsamkomu á Norðurlandi upp úr aldamótunum 1900 og dæmi eru líka þekkt að fólk sendi fátækum nágrönnum sínum mat á þessum degi þegar harðæri var. Vorverk í einmánuði. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu "Atli" sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður. Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann géri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna. Góa. Góa er fimmti mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og hefst á sunnudegi í átjándu viku vetrar, eða 18. til 24. febrúar. Fyrsti dagur góu er nefndur "konudagur" og var dagur húsfreyjunnar eins og fyrsti dagur þorra var dagur húsbóndans. Heitið er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar. Síðasti dagur góu nefnist "góuþræll". Góublót. Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi nærri á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu. Nokkuð var ort um Góu á 17. - 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að góu var færður rauður ullarlagður. Á síðari tímum hefur komist á sú hefð sums staðar á landinu að halda góugleði í tengslum við góu, á sama hátt og þorrablót í tengslum við Þorra. Uppruna góu og þorrans er að finna í Orkneyingasögu. Einnig er fjallað um persónurnar Þorra konung og Gói dóttur hans í "Frá Fornjóti ok hans ættmönnum" í Fornaldarsögum Norðurlanda. Músíktilraunir. Músíktilraunir eru hljómsveitakeppni sem Hitt Húsið heldur árlega til að veita ungum íslenskum hljómsveitum og tónlistarfólki tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri. Norræna tímatalið. Norræna tímatalið er það tímatal sem notað var af Norðurlandabúum þar til júlíska tímatalið tók við sem almennt tímatal, og raunar lengur. Tímatalið og mánaðaheitin miðast við árstíðir sveitasamfélagsins og skiptast í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur, fremur en daga, og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Með þessum hætti hefjast mánuðirnir þannig á ákveðnum vikudegi, fremur en á föstum degi ársins. Talið í vikum. Árið var talið 52 vikur eða 364 dagar. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var skotið inn einni aukaviku, svokölluðum sumarauka, sjöunda hvert ár. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær svonefndar veturnætur og var sumarið alls því 26 (27) vikur og tveir dagar. Allar vikur sumars hefjast á fimmtudegi, en vetrarvikurnar á laugardegi. Með þessu móti verður veturinn styttri en sumarið, eða 25 vikur og 5 dagar. Talið í mánuðum. Í mánuðum taldist árið vera 12 mánuðir þrítugnættir og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumaraukinn taldist heldur ekki til neins mánaðar en hann lenti á milli haustmánaðar og gormánaðar. Í Íslendingasögum er algengt orðalag að tala um „"þau missiri"“ þegar átt er við heilt ár, en orðið ár kemur hins vegar varla eða ekki fyrir þegar rætt er um tíma. Norræna tímatalið hefur verið lífseigt að ýmsu leyti. Í Danmörku voru gömlu mánaðaheitin löguð að nýja tímatalinu og á Íslandi eru ýmsar hátíðir haldnar sem tengjast því. Sveitarfélagið Hornafjörður. Hornafjörður er sveitarfélag á suðausturlandi. Sveitarfélagið varð til 6. júní 1998 við sameiningu allra sveitarfélaga Austur-Skaftafellssýslu: Hornafjarðarbæjar, Bæjarhrepps, Borgarhafnarhrepps og Hofshrepps. Í sveitarstjórn í Hornafirði árið 2002-2006 átti Sjálfstæðisflokkurinn 3 menn, Framsóknarflokkurinn 3 og Krían, samtök óháðra og félagshyggjufólks 1 mann. Í sveitarstjórnarkosningunum 2006 voru þrír flokkar í framboði, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin. Framsóknarflokkurinn fékk þrjá menn kjörna, en Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tvo hvor flokkur. Framsóknarflokkur og Samfylking mynduðu meirihluta og varð Sjálfstæðisflokkurinn því í minnihluta í Hornafirði í fyrsta skipti í mörg ár. Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 voru fjórir flokkar í framboði, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Framsóknarflokkurinn fékk fjóra menn kjörna og eru því með hreinan meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo menn kjörna og Samfylkingin einn. Vinstri grænir náðu ekki inn manni. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar er Hjalti Þór Vignisson. Skerpla. Skerpla er áttundi mánuður ársins samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hún hefst á laugardegi í fimmtu viku sumars, eða 19. til 25. maí samkvæmt gregoríanska tímatalinu. Harpa (mánuður). Harpa, einnig nefnd "hörpumánuður" og "hörputungl" í 17. aldar rímhandritum og "gaukmánuður" í Snorra-Eddu, er sjöundi mánuður ársins og fyrsti sumarmánuðurinn í gamla norræna tímatalinu. Kemur næstur á eftir einmánuði síðasta mánuði vetrar. Harpa hefst á næsta fimmtudegi eftir 18. apríl. Fyrsti dagur hörpu er jafnframt haldinn hátíðlegur sem sumardagurinn fyrsti. Eins er hann nefndur "yngismeyjardagur" og þeim helgaður rétt eins og fyrsti dagur einmánaðar var helgaður og nefndur "yngissveinadagur", góa kallaður "konudagur" og helgaður húsmæðrum og fyrsti dagur þorra nefndur "bóndadagur" og helgaður húsbændum. Heimildir um nafnið harpa. Í elstu heimildum um fornu norrænu mánaðarnöfnin, Bókarbót frá 12. öld og Snorra-Eddu frá 13. öld er hörpu ekki getið. Aðeins í Snorra-Eddu eru allir mánuðirnir með nöfn og heitir fyrsti mánuður sumars þar "gaukmánuður". Að vísu eru ekki nema fjögur nöfn sameiginleg í þessum heimildum en það eru, gormánuður, þorri, gói og einmánuður. Þrjú þau síðastnefndu koma einnig fyrir í fleiri handritum. Fleiri nöfn finnast í rímnahandritum frá 17. öld en aðeins tvö þeirra náðu einhverri fótfestu en það voru fyrstu tveir mánuðir sumars, harpa og skerpla. Ekki er vitað hvernig þau nöfn komu til né hvað þau merktu. Hugsanlega vísar nafnið harpa til skáldlegrar hörpu vorsins, en á 17. öld voru vor oft vond og mikill fellir fjár og gæti nöfnið harpa því frekar verið skilt "herpingi" og skerpla "skerpu" og hvorttveggja merkt hörku. Hátíð í upphafi hörpu. Hátíðir í sumarbyrjun eru áræðalega mjög gamlar þótt ekki séu margar öruggar heimildir til um þær. Í Ynglinga sögu er getið um "sumarblót" í ríki Óðins konungs og í Egils sögu og Ólafs sögu helga er minnst á "sumarblót" bænda í Noregi. Adam frá Brimum lýsir á 11. öld höfuðblóti Svía um vorjafndægur í Uppsölum. Um sumarblót á Íslandi sést einungis getið í Vatnsdæla sögu en þar virðist ekki vera verið að lýsa almennri venju enda tekið fram að um einkablót Ljót á Hrolleifsstöðum. Örugg heimild um sumarglaðning sést ekki fyrr en í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar nefna þeir sumardaginn fyrsta sérstaklega sem sumarhátíð þar sem fólk gerði vel við sig í mat og drykk. Um miðja 19. öld þegar skipulega er byrjað að safna alþýðu heimildum kémur fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið mesta hátíð næst á eftir jólunum. Sumargjafir hafa því sennilega tíðkast lengi á og kringum upphaf hörpu og sumardaginn fyrsta. Pax Romana. "Pax Romana" („hinn rómverski friður“ á latínu) eða Rómarfriðurinn er friðartímabil sem íbúar Rómaveldis upplifðu í yfir tvær aldir. Yfirleitt er talað um að "Pax Romana" hafi staðið frá 27 f.Kr., Ágústus Caesar lýsti miklum borgarastríðum í Rómaveldi lokið, til 180 e.kr., þegar Markús Árelíus keisari dó. António de Oliveira Salazar. António de Oliveira Salazar (28. apríl, 1889 — 27. júlí, 1970) var forsætisráðherra Portúgals frá 1932 til 1968 og leiðtogi Þjóðernishreyfingarinnar. Salazar fæddist í Santa Comba Dão. Eftir nám gerðist hann prófessor við háskólann í Coimbra. Hann varð fjármálaráðherra Portúgals árið 1928 og forsætisráðherra landsins árið 1932. Árið 1933 kynnti hann til sögunnar nýja stjórnarskrá sem gaf honum nánast ótakmörkuð völd og hafði Portúgal þar með stigið sín síðustu skref í áttina að því að verða einræðisríki. Þegar forseti Portúgals António de Fragoso Carmona afhenti Salazar völdin í landinu 1932 var Salazar studdur af ýmsum hreyfingum í landinu. Eftir fyrri heimsstyrjöldina (þar sem Portúgalar börðust með bandamönnum) reis herinn upp og batt þannig enda á fyrsta lýðveldið. Tveimur árum síðar var Salazar gerður að fjármálaráðherra og náði hann óvenjufljótt tökum á fjármálaóreiðu landsins og landið var rekið með tekjuafgangi í fyrsta skipti í marga áratugi. Það var þessi árangur sem ruddi leið hans til valda þar sem hann var studdur af hernum, konungssinnum, kirkjunni og efri miðstéttinni. Salazar kynnti Portúgölum 'Estado Novo' (bókstaflega Nýja Ríkið). Grunnur einræðisstjórnar hans var stöðugleiki þar sem hástéttirnar nutu sín á kostnað hinna fátækari. Þrátt fyrir akademískan bakgrunn sinn var menntun ekki í forgangi hjá Salazar og því var ekki fjárfest í henni. Þrátt fyrir stórtæka leynilögreglu, sem kallaðist PIDE, hélt einræðisstjórn Salazars ekki sama tangarhaldi á þjóðinni og margar aðrar herforingjastjórnir í Evrópu á þessum tíma, líkt og Franco á Spáni. Stjórn Salazars var ávallt talin fasísk, þrátt fyrir að vera það ekki í augum forsætisráðherrans. Sjálfur bannaði Salazar fasistaflokk Portúgals þar sem hann taldi flokkinn of „heiðinn“. Hins vegar verður ekki litið framhjá því að Salazar virti bæði Mussolini og Hitler. Meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð reyndi Salazar að sigla á milli skers og báru. Rétt eins og nágranni hans, Franco, tók hann hvorki afstöðu með nasistum né bandamönnum í stríðinu, þrátt fyrir að leyfa bandamönnum afnot af Asóreyjum. Helsta ástæða þess að Portúgal tók ekki afstöðu með nasistum var til að stefna ekki nýlendum landsins í hættu. Salazar aðstoðaði hins vegar öxulveldin, eikum með því að senda þeim wolframstál gegnum Sviss. Árið 1945 voru nýlendur portúgala Asóreyjar, Madeira, Grænhöfðaeyjar, São Tomé og Principe, Angóla, Portúgalska Gínea og Mósambík í Afríku, Goa Damão og Diu á Indlandi, Maká í Kína og Portúgalska Tímor í suðaustur Asíu. Salazar reyndi sem hann gat að halda völdum yfir þessum nýlendum sínum þar sem þær, fremur en nokkuð annað, gerðu landið að heimsveldi. Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar reyndust þessar nýlendur landsins, og þá sérstaklega í Afríku, honum erfiðar. Portúgalski herinn neyddist til að berjast við uppreisnarmenn í nýlendunum auk þess sem mörg vesturlönd fyrirlitu landið fyrir harða nýlendustefnu sína á sama tíma og þau voru sjálf að slaka á sinni stefnu Efnahagslega var Portúgal staðnað. Salazar byggði efnahag landsins á nýlendum sínum í stað samvinnu við nágrannalönd sín og sá gróði sem sú stefna hans hefði getað haft í för með sér brann upp í sívaxandi umsvifum hersins í þessum löndum er hann reyndi að berja niður uppreisnir heimamanna. Árið 1968 féll Salazar af stóli - í orðsins fyllstu merkingu og sennilega í kjölfar heilablóðfalls - og forseti landsins, Américo Tomás, neyddist til að setja hann af sem forsætisráðherra og Marcelo Caetano tók við. Salazar lést í Lissabon tveimur árum síðar. Portúgalska. Portúgalska er rómanskt tungumál sem m.a. er talað í Portúgal, Brasilíu, Angóla, Mósambík, Grænhöfðaeyjum og Austur-Tímor. Portúgalska er 5.-7. algengasta tungumál heimsins og sú staðreynd að Brasilíumenn, sem eru 51% af Suður-Ameríku, tala portúgölsku merkir að það er algengasta tungumál Suður-Ameríku, en ekki spænska. Nokkrar setningar og orð. Oi! / E aí! / Olá = Halló! Desculpe / Perdão = Afsakið, fyrirgefðu Eu sou do Brasil/Portugal/Islândia = Ég er frá Brasilíu/Portúgal/Íslandi Eu não falo português = Ég tala ekki portúgölsku Você fala inglês? / Tu falas inglês? = Talar þú ensku? Lissabon. Lisbon (Lisboa á portúgölsku) er staðsett 38°43' norður, 9°8' vestur, sem gerir hana að vestustu höfuðborg á meginlandi Evrópu. Hún er jafnframt staðsett á vesturhluta Portúgals, við Atlantshafið og þar sem áin Tagus rennur í haf. Heildarsvæði borgarinnar er 84,6 km². Ólíkt mörgum stórborgum eru borgarmörk Lissabon þröngt skilgreind utan um sögufræga hluta borgarinnar. Þetta gerir það að verkum að allmargar borgir eru í kringum Lissabon, t.d. Loures, Odivelas, Amadora og Oeiras, þrátt fyrir að tilheyra með réttu Lissabon. Hinn sögufrægi hluti Lissabon nær yfir sjö mjög brattar hæðir (jafnvel vélhjól komast ekki alltaf upp þær). Vesturhluti borgarinnar samanstendur af einum stærsta náttúrugarði í þéttbýli í Evrópu (garðurinn er nálægt 10 ferkílómetrar að flatarmáli) A Portuguesa. A Portuguesa er þjóðsöngur Portúgals. Hann var skrifaður af Henrique Lopes de Mendonça (texti) og Alfredo Keil (tónlist) eftir endurvakningu landsins þegar Breta lögðu afarskilmála sína fyrir Portúgali (þar sem kveðið var á um brotthvarf Portúgala frá Angóla og Mósambík). A Portuguesa var tekinn upp sem þjóðsöngur landsins þegar fyrsta lýðveldið var stofnað í landinu árið 1910 og tók þar með við af 'O Hino da Carta'. Titill þjóðsöngsins merkir Portúgalar (í kvenkyni) í merkingunni 'söngur Portúgals'. Jorge Sampaio. Jorge Fernando Branco de Sampaio (fæddur 18. september 1939 í Lissabon í Portúgal) er fyrrverandi forseti Portúgals, kjörinn öðru sinni þann 14. janúar 2001. Sampaio fæddist í Lissabon þann 18. september 1939 og er af gyðingaættum. Á meðan Sampaio var ungur bjó hann bæði í Bandaríkjunum og Englandi vegna starfa föður síns, sem var læknir. Sampaio hóf stjórnmálaferil sinn í lagaskóla Lissabon. Hann átti þátt í andófi gegn fasistastjórn landsins og var forseti stúdentasamtaka Lissabon milli 1960 og 1961. Fernando Pessoa. Fernando António Nogueira Pessoa (13. júní 1888 – 30. nóvember 1935) var portúgalskt ljóðskáld og er af mörgum talinn eitt helsta ljóðskáld 20. aldar. Pessoa fæddist í Lissabon. Faðir hans lést úr berklum þegar Pessoa var ennþá barn að aldri. Eftir að faðir hans lést giftist móðir hans João Miguel Rosa, ræðismanni Portúgals í Durban, Suður-Afríku, og þangað fluttist fjölskyldan. Pessoa lærði ensku í Durban og Höfðaborg og skrifaði sín fyrstu verk á ensku undir miklum áhrifum frá William Shakespeare og John Milton. Hann flutti aftur til Lissabon þegar hann var 17 ára til að nema við háskólann í borginni. Stúdentaverkfall gerði hins vegar þær fyrirætlanir að engu og hann hóf að vinna fyrir kaupsýslumann sem ritari og skjalaþýðandi. Ágúst Borgþór Sverrisson. Ágúst Borgþór Sverrisson (f. 1962) er íslenskur smásagnahöfundur. Ágúst Borgþór hefur gefið út fimm smásagnasöfn, eina ljóðabók og eina skáldsögu. Ágúst Borgþór hefur einnig verið virkur pistla- og greinahöfundur, bæði í dagblöðum og á netinu. Lystarstol. Lystarstol eða anorexía (lat. "anorexia nervosa") er sjúkdómur sem einkennist af skorti á matarlyst en orsakir þess eru geðröskun sem leiða til brenglaðrar sjálfsmyndar á þá leið að sjúklingurinn telji sig ranglega vera of þungan eða feitan. Lystarstol er átröskun þar sem sá sem henni er haldinn telur að hann sé of þungur þegar hann er í raun við, eða jafnvel töluvert undir kjörþyngd. Algengt viðmið fyrir lystarstol er að einstaklingurinn sé 15 kílóum undir kjörþyngd. Það eitt og sér er hins vegar ekki nægjanlegt fyrir greiningu þar sem aðrar ástæður geta verið fyrir þyngdartapi einstaklings (streita og þunglyndi hafa til dæmis einnig í för með sér breytingar á matarlyst). Lystarstolssjúklingur bregst alla jafnan við minnstu þyngdaraukningu (raunverulegri eða ímyndaðri) með mikilli hræðslu. Þessi skynjun er þekkt sem „brengluð sjálfsskynjun“ og veldur þeim sem henni er haldinn miklum kvíða og getur leitt til áráttu-þráhyggju hegðunar tengdri mat og þyngd. Hegðun viðkomandi í kjölfarið einkennist oftast af mikilli líkamsrækt, notkun hægðarlyfja og megrun með verulega skertri inntöku hitaeininga. Matarlyst lystarstolssjúklings hverfur ekki heldur yfirvinnur hræðslan við þyngdaraukningu einfaldlega lystina. Þau svæði sem lystarstolssjúklingar beina vanalega athygli sinni að eru rass, mjaðmir, læri og brjóst og þeir telja þau vera stór. Stundum hefur átröskunin í för með sér að tíðir stöðvast. Sumir lystarstolssjúklingar sýna einnig hegðun sem er einkennandi fyrir lotugræðgi, þar sem þeir taka átköst og kasta svo öllu upp á ákveðnu tímabili. Þyngd sumra lystarstolssjúklinga er svo lítil að leggja þarf þá inn á sjúkrahús og jafnvel að mata þá með valdi svo þeir svelti sig ekki í hel. Skilgreining lystarstols samkvæmt DSM-IV. Einstaklingar með þessa átröskun halda þyngd sinni fyrir neðan meðalþyngd með æfingum, með því að stjórna inntöku matar og með öðrum aðferðum. Gerðir lystarstols. Restricting Type: Á meðan á tímabili lystarstols stendur hefur viðkomandi ekki sýnt einkenni lotugræðgi eða uppkasta (svo sem að hjálpa sér við uppköst eða notkun hægðarlyfja, diuretics eða stólpía). Binge-Eating/Purging Type: Á meðan á tímabili lystarstols stendur hefur viðkomandi reglulega sýnt einkenni lotugræðgi eða uppkasta (svo sem að hjálpa sér við uppköst eða notkun hægðarlyfja, diuretics eða stólpía). Lystarstol er dæmi um röskun sem algengast er að finna hjá ákveðnum hópi. Lystarstolssjúklingar eru oft hvítar stúlkur á aldrinum 13 til 20 ára af ágætum heimilum. Stúlkurnar eru yfirleitt greindar og haldnar fullkomnunaráráttu sem lýsir sér í miklum kröfum til sjálfs síns. Karlar eru aðeins um 5 – 10% lystarstolssjúklinga. Tíðni röskunarinnar er talin vera um 1%. Það er mikilvægt að hafa í huga að lystarstol finnst hjá yngri hópi, hjá körlum sem og öðrum kynþáttum en einskoðrast ekki við hvítar stúlkur á aldrinum 13 til 20 ára. Rannsóknir benda til þess að röskunin geri æ meira vart við sig hjá börnum og sé að verða algengari hjá körlum. Sum þessara einkenna geta lagast ef einstaklingur jafnar sig á sjúkdómnum. Önnur, sérstaklega beinvandamál, geta verið viðvarandi. Ástæður lystarstols. Oft er sjálfsmynd lystarstolssjúklinga brothætt og telja sumir hana ástæðu fyrir því að þeir beini athygli sinni að líkama sínum. Oft er um að ræða tilfinningalegar þarfir sem ekki eru uppfylltar, fjölskyldubönd eru veik, þeir eiga í erfiðleikum með að umgangast aðra og eru vinafáir eða þeir eru í kynferðislegum samböndum sem þeir eru ekki ánægðir í. Athyglisvert er að margir lystarstolssjúklingar hafa verið misnotaðar sem börn og þjást af öðrum röskunum til viðbótar við lystarstolið. Þar sem margir lystarstolssjúklingar gera miklar kröfur til sín eru margir þeirra einnig á því að þeir uppfylli ekki þær kröfur. Oftast er þessi sjálfsmynd þeirra röng þar sem þeim gengur vel í vinnu eða skóla. Þessar miklu og óraunhæfu kröfur og sú tilfinning að þeir sýni ekki nægjanlega getu geta þó haft einhver áhrif á röskunina. Hún gefur þeim þá jafnvel færi til að beina athygli sinni annað, að líkamanum og því hvernig þeir geta sýnt fram á framúrskarandi árangur á því sviði. Verið getur að þeir líti á það sem sérstakan hæfileika sem þeir geta haft stjórn á þegar allt annað hefur brugðist. Oft greinast þeir með milt þunglyndi en líklegt er að það sé fremur afleiðing röskunarinnar er orsök hennar. Streita er talin geta „kveikt“ lystarstol en nauðsynlegt er talið að aðrir þættir séu þegar til staðar hjá einstaklingnum (svo sem skert sjálfsmynd). Líkt og ávallt má ekki gleyma því að ofantalið gildir ekki um alla lystarstolssjúklinga, margir þeirra eiga góða fjölskyldu, eru í samböndum sem þeir eru ánægðir í og hafa ekki verið misnotaðir. Áhrif fjölmiðla. Sú kenning hefur lengi verið uppi að fjölmiðlar eigi sinn þátt í lystarröskunum unglingsstúlkna. Kenningin byggir á því að fjölmiðlar haldi að unglingum óraunhæfum hugmyndum um útlit. Bent er á til stuðnings kenningunni að kvenkyns fyrirsætur séu yfirleitt nokkuð fyrir neðan kjörþyngd. Það kemur kannski ekki á óvart að margar fyrirsætur greinast með átraskanir. Ef kenningin er rétt er einnig ljóst að fjölmiðlar leika stórt hlutverk í því að viðhalda lystarstoli. Rétt eins og það er erfitt fyrir reykingarmann að hætta þegar allir reykja í kringum hann ætti það að vera erfitt fyrir þann sem haldinn er lystarstoli að breyta hegðun sinni þegar að honum er stöðugt haldið ímyndinni um grannt fólk. Nýverið hafa þó komið fram kenningar um að lystarstol eigi sér erfðafræðilegar orsakir. Tölvuvæðingin hefur haft alvarleg áhrif meðal lystarstolssjúklinga. Æ algengara er að lystarstolssjúklingar komi sér upp vefsíðum með spjallrásum þar sem þeir styrkja hver annan í viðhorfum sínum og hegðun. Meðferð. Lystarstol er hægt að lækna en meðferð er bæði erfið og tekur langan tíma. Því fyrr sem tekið er á röskuninni, því líklegra er að hægt sé að lækna hana. Ein ástæða þess að erfitt er að lækna lystarstol er að sjúklingarnir eru oft í mikilli afneitun, þeir neita oft annaðhvort að eitthvað sé að eða þá að þeir viðurkenna það og fullyrða að nákvæmlega ekkert sé að þeim „lífsstíl“ sem þeir hafa valið sér. Vandinn er að margir lystarstolssjúklingar trúa þessu. Fyrir þeim er ekkert til sem heitir að vera of léttur og þeir útiloka allar vísbendingar um að eitthvað sé að. Yfir 10% allra lystarstolssjúklinga deyja af völdum sjúkdómsins, vanalega vegna hjartabilunar eða lágs kalíummagns líkamans. Lotugræðgi. Lotugræðgi ("bulimia nervosa") er sjúkdómur af sálrænum toga. Þeir sem þjást af lotugræðgi taka nokkurskonar átköst, það er að segja neyta mikils matar á mjög skömmum tíma. Þegar lotugræðgi-sjúklingur borðar þá raðar hann í sig matföngum og oft mjög miklu magni í einu og losar sig svo við allt með því að framkalla uppköst (til dæmis með því að reka puttann í kok sér), notast við laxerandi hægðarlyf, stólpípur, megrunarpillur, stundar mikla líkamsrækt eða föstur - eða annað þessu líkt — til að minnka magn hitaeininga. Einnig tyggja sumir sjúklingar aðeins matinn og spýta honum svo út úr sér. Orsakir sjúkdómsins. Talið er að orsakir lotugræðgi séu að mestu leyti þær sömu og valda lystarstoli. Rétt eins og lystarstols-sjúklingar þá hafa þeir sem þjást af lotugræðgi mjög lágt sjálfsálit. Talið er að staðlaðar ímyndir fjölmiðla hafi mikil áhrif á þá, því að þeir eru, rétt eins og lystarstols-sjúklingar, afar uppteknir af þyngd sinni — og sjálfsmynd þeirra snýst mikils til eingöngu um líkamann og útlit hans. En öfugt við þá, sem þjást af lystarstoli, gera þeir sér oft grein fyrir því að hegðun þeirra er óeðlileg. Lotugræðgi-sjúklingar þjást oft einnig af öðrum sjúkdómum og rannsóknir hafa bent til þess að í fjölskyldum þeirra leynast oft aðrir geðsjúkdómar sem og áfengisneysla. Því telja sumir taugaboðefnið serótónín tengjast lystarstoli. Helstu einkenni. Eitt helsta einkenni lotugræðginnar er að sjúklingarnir hafa alls enga stjórn á neyslu sinni þegar köstin standa yfir. Lífsstíll þeirra er oftar en ekki algjörlega aðlagaður að átröskuninni. Þeir sem þjást af lotugræðgi reyna til dæmis að halda hegðun sinni leyndri, og vegna skammarinnar þá fylgir henni oft einmanakennd, þunglyndi og lítið sjálfsálit. Oft fela sjúklingar mat á ólíklegustu stöðum og koma sér upp forða sem þeir ætla sér síðan að nota þegar þeir taka átkast. Lotugræðgi-sjúklingar hafa jafnframt mikinn áhuga á því að tala um megrun og megrunartengt efni. Þeir einir eru greindir með lotugræðgi sem taka regluleg átköst og sýna af sér slíka hegðan að minnsta kosti tvisvar í viku, þrjá mánuði í röð. Ekki er hægt að þjást bæði af lystarstoli og lotugræðgi. Ef sjúklingur greinist með lotugræðgi og lystarstol þá fær hann greininguna „Lystarstol með einkennum átkasta“. Talið er að um 0,5 – 2% unglingsstúlkna og ungra kvenna uppfylli greiningarviðmið lotugræðgi. Algengast er að sjúkdómurinn komi fram á miðjum unglingsaldri. Afskaplega sjaldgæft er að lotugræðgi finnist hjá karlmönnum. Undanfari lotugræðgi er oft megrun og þeir sem þjást af lotugræðgi eru oft meðalþungir eða rétt yfir meðalþyngd. Þeir, sem þjást af lotugræðgi, svelta sig stundum milli þess sem þeir taka átköst og því getur lotugræðgi leitt til dauða, jafnvel þó að það sé mun ólíklegra en þjáist sjúklingur af lystarstoli. Meðferð. Meferð við lotugræðgi beinist vanalega að því að rjúfa tengslin milli átkasta og föstu. Auk þess hafa þunglyndislyf verið notuð og lyfin, ásamt sálfræðimeðferð, hafa oft gefið góða raun. Hugræn atferlismeðferð virðist vera gagnlegasta sálfræðimeðferðin við lotugræðgi og niðurstöður benda til þess að langtímaáhrifa hennar gæti hjá um helmingi sjúklinga og að hún gagnist a.m.k. að einhverju leyti hjá þeim sem eftir eru. DSM-IV. DSM stendur fyrir Diagnostic and Statistical Manual of mental disorders, eða Handbók um greiningu og upplýsingar geðsjúkdóma. Orðið geðsjúkdómar er í sjálfu sér rangnefni þar sem orðið felur í sér að geð, eða hugur, sé eitthvað sem er aðskilið frá líkamanum, og sé þess vegna ekki efni heldur einhvers konar andlegt. Ef svo væri er m.a. ljóst að sálfræðingar og geðlæknar stæðu frammi fyrir mun stærra vandamáli en þeir í raun gera (þó svo að það sé nægjanlega stórt fyrir). Ef geðsjúkdómar fælu eitthvað andlegt í sér er ljóst að mun erfiðara væri að rannsaka það en raunin er oftast. Auk þess er afskaplega hæpið að andlegur hlutur, sem þá er ekki efni, bregðist við lyfjagjöfum, eins og raunin er með t.a.m. þunglynt fólk. En af hverju er þá talað um andlega sjúkdóma, eða geðsjúkdóma. Ástæðan er einföld, menn hafa ekki náð að leysa vandamálið með hugann. Þrátt fyrir að vandamálið virðist ef til vill augljóst í fyrstu er lausnin langt í frá einföld (allavegana hafa menn ekki ennþá komið auga á hana). Mýmargir sálfræðingar, heimspekingar, geðlæknar og fólk af fleiri stéttum hefur sett fram kenningar um samband huga og líkama en niðurstaðan er engan vegin ljós. Sálfræðin er þannig eitt síðasta fagið sem ennþá glímir við drauga tvíhyggjunnar (dualism), þ.e. þá kenningu að hugur og líkami sé ekki eitt og hið sama. Það er því af illri nauðsyn sem hugtakið geðsjúkdómar og önnur líkt og andleg röskun er notuð. Að sjálfsögðu gildir það sama um þessa bók. Til að uppfylla viðmið um almenna kvíðaröskun verður einstaklingurinn að upplifa a.m.k. þrjú af ofantöldum sex einkennum í ákveðinn tíma. Viðmiðin eru sex og ekki skiptir máli hvert af þeim þremur einstaklingurinn upplifir. Það merkir svo að tveir einstaklingar gætu þjáðst af almennri kvíðaröskun án þess þó að eiga neitt einkenni sameiginlegt samkvæmt DSM kerfinu. Það er ólíklegt að þeir ættu ekki a.m.k. eitt einkenni sameiginlegt en það sem máli skiptir er að það er mögulegt að þeir eigi það ekki og uppfylli samt báðir greiningarviðmið fyrir almenna kvíðaröskun. Annar einstaklingurinn gæti þannig átt við einbeitingarleysi að stríða ásamt því að vera sífellt þreyttur og pirraður á meðan hinn einstaklingurinn finnur til streitu auk þess að upplifa vöðvaspennu og svefntruflanir. Þannig er ekkert af þessum einkennum nauðsynlegt til að fá greiningu og eitt einkenni (t.a.m. eirðarleysi) er nægjanlegt fyrir greiningu. Hér verður þó að slá varnagla. DSM kerfið hefur verið endurbætt á síðustu árum og áratugum. Hönnun þess og viðmið taka mið af nýjustu rannsóknum. Þar sem þekking okkar á geðsjúkdómum er hins vegar takmörkuð hlýtur DSM kerfið að vera það einnig, þrátt fyrir að við viljum trúa því að kerfið sé sífellt að batna. Vegna þess verður hins vegar að skoða hvert tilfelli fyrir sig. Þannig er mögulegt að einstaklingur teljist þjást af almennri kvíðaröskun þrátt fyrir að hann uppfylli færri en þrjú af ofantöldum einkennum. DSM kerfið er langt í frá óbrigðult og það ber aðeins að nota sem leiðarvísi í greiningum en ekki lokadóm um geðraskanir. Saga DSM-IV. Um miðja 19. öld var fyrst reynt að skilgreina geðsjúkdóma í Bandaríkjunum. Ekki var fyrsta skilgreiningin burðug, en hún takmarkaðist við geðveiki. Undir lok aldarinnar hafði mönnum þó tekist aðeins betur upp þar sem flokkarnir voru orðnir aðeins fleiri, þ.á m. þunglyndi (melancholia), geðhæð (mania), vitfirring (dementia), drykkjusýki (dipsomania) og flogaveiki (epilepsy). Í upphafi 20. aldarinnar var hins vegar reynt að skilgreina geðsjúkdóma betur í Bandaríkjunum og niðurstaðan voru nokkur flokkunarkerfi geðsjúkdóma, þ.á m. ICD-6 kerfi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). ICD stóð fyrir Classification of Diseases, eða flokkun sjúkdóma. Árið 1952 kom svo DSM-I kerfið út og byggðist það að miklu leiti á ICD-6 kerfinu. Kerfið byggði jafnframt á þeirri hugmynd að geðsjúkdómar væru viðbrögð persónuleikans við líffræðilegum-, félagslegum- og sálfræðilegum þáttum og að skoða þurfti einstaklinginn sem persónu. DSM-I og síðar DSM-II var hins vegar undir þá galla sett að þau innihéldu ekki skýrar skilgreiningar á geðsjúkdómum sem nægðu fyrir klíníska greiningu. Í byrjun 9. áratugarins kom svo DSM-III kerfið út sem byggðist á víðtækri yfirferð og breytingum á fyrri kerfum. Kerfið hafði m.a. skýr greiningarviðmið og margása kerfi. Sjö árum síðar kom út endurbætt útgáfa kerfisins, DSM-III-R (r-ið stóð fyrir revision, eða endurskoðun), þar sem bætt hafði verið úr greiningu og öðrum og smávægilegum göllum fyrri kerfisins. DSM-IV kerfið kom svo út árið 1994 og var þar tekið mið af nýjum rannsóknum og kenningum. Árið 2000 kom svo út endurbót á því kerfi, DSM-IV-TR, þar sem tekið var mið af nýjum rannsóknum, sérstaklega rannsóknum á heilanum. Engar endurbætur voru gerðar á flokkum kerfisins en þær voru hins vegar endurbættar. Það að greina geðsjúkdóma getur haft í för með sér vandamál. Eitt snýr að greinandanum. Líkt og allir sjúklingar eru ólíkir eru allir þeir sem greina þá ólíkir. Mismunandi stefnur í sálfræði og því mismunandi þjálfun og viðhorf sálfræðinga merkja að möguleiki er á misjafnri greiningu. Með skýru og skýrt afmörkuðu kerfi ætti möguleikinn á þessu að minnka. Eitt vandamál lýtur að stimplun (labeling) sjúklinga. Með stimplun er átt við að um leið og sjúklingur fær ákveðna greiningu, s.s. geðklofa, er mögulegt að sú greining liti líf viðkomandi. Meðferðaraðilar geta þannig farið að líta á viðkomandi sem geðklofa í stað þess að setja einstaklinginn í stærra samhengi og sama getur átt við um aðra, s.s. fjölskyldu viðkomandi, atvinnurekanda o.s.frv. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að einstaklingur er ekki geðklofi, heldur er geðklofi sjúkdómur sem einstaklingurinn þjáist af og getur vissulega haft alvarleg áhrif á líf hans. Það er hins vegar rangt að setja samasemmerki milli einstaklings og þess sjúkdóms sem hann á við að glíma. Einstaklingurinn er að sjálfsögðu allt annað en sjúkdómurinn. Fáir myndu einnig setja samasemmerki milli einstaklings og krabbameins. Það sama á að gilda um geðsjúkdóma. DSM kerfið greinir flokkar enda ekki fólk, kerfið flokkar geðsjúkdóma sem fólk þjáist af. Því er í sjálfu sér rangt að tala um hann geðklofann og hann alkóhólistann og rétt að segja einstaklingur sem þjáist af geðklofa og einstaklingur sem þjáist af alkóhólisma. DSM kerfið byggir á flokkum. Þannig eru lyndisraskanir yfirflokkur innan geðraskana með undirflokka eins og Einskautaþunglyndi og tvískautaþunglyndi. Einskautaþunglyndi hefur svo undirflokkana óyndi og alvarlegt þunglyndi og tvískautaþunglyndi undirflokkana Bipolar I, Bipolar II og... Til að falla í ákveðinn flokk, líkt og óyndi þarf einstaklingur, eins og áður segir að uppfylla ákveðin viðmið. Þetta hefur verið gagnrýnt á þeim forsendum að það virðist sem skilin milli flokka séu skýr, eða á einum punkti á meðan þetta gerist ekki svona. Þannig sé þunglyndi betur lýst sem geðsjúkdómur á ákveðnum ási. Það er hins vegar erfitt að koma auga á hvernig þannig mat ætti að fara fram. Sumir telja DSM kerfið, eða jafnvel hugtakið geðsjúkdómar yfir höfuð, leið til að flokka óæskilega einstaklinga sem víkja frá því sem fjöldinn ákveður að sé eðlilegt. Þannig líta þeir svo á að hugtakið geðsjúkdómur sé stimpill á þá einstaklinga sem eru öðruvísi, hvort sem þeir hafa kosið að vera það eða ekki. Hugtök eins og hugtakið minnisglöp sé einfaldlega notað til að stimpla einstakling sem t.d. á erfitt með að muna ákveðna hluti og sem þarf ekki endilega að fela í sér röskun eða frávik frá hinu eðlilega. Eftir allt eiga vel flest okkar erfitt með að muna hluti á stundum. Þeir benda á að einstaklingar eru flokkaðir eftir hlutum eins og "mér finnst ég svo þungur" sem fela í sér huglæga túlkun á meðan fremur eigi að líta til hlutlægs veruleika. Þetta viðhorf er ágætt upp að ákveðnu marki, það þjónar sem ákveðinn stuðari á greiningu. Vissulega víkur sumt, og reyndar margt fólk frá því sem er eðlilegt. Það má fullyrða jafnvel þó svo að ekki sé neitt staðalhugtak til yfir "eðlilegt". Það að segja að flestir eða allir þeir sem þjáist af geðsjúkdómum víki einfaldlega frá hinu eðlilega án þess að um geðsjúkdóm sé að ræða væri hins vegar jafn röng fullyrðing og að segja að þar sem enginn er fullkomlega eðlilegur þá þjást allir af geðsjúkdómum. Gott er hins vegar að hafa þetta í huga við lestur bókarinnar, þó ekki sé nema til að gagnrýna þetta viðhorf. Í sumum tilfellum má einnig velta því fyrir sér hvort það eigi ekki við rök að styðjast, s.s. þegar kemur að persónuleikaröskunum þar sem menn greinir á um hvað persónuleikaröskun sé. Það eru ekki aðeins sálfræðingar og geðlæknar sem nota DSM kerfið í starfi sínu. Aðrir, eins og meðferðarfulltrúar, nota það einnig. Nám í sálfræði eða geðlæknisfræði hjálpar vissulega til við notkun DSM kerfisins en það sem skiptir ekki síður máli er að einstaklingurinn hafi hlotið þjálfun í notkun DSM kerfisins og kunni að nota það. DSM kerfið er margása flokkunarkerfi (multiaxial classification system) sem byggir á fimm ásum sem ætlað er að gefa sem besta lýsingu á geðsjúkdóminum og tengdum atriðum. Á ási I eru flestir þeir geðsjúkdómar sem DSM kerfið skilgreinir. Hægt er að setja þar fleiri en einn sjúkdóm, s.s. þunglyndi og kvíða. Meðal þeirra sjúkdóma sem finnast á ási I eru: Aðlögunarraskanir (Adjustment Disorders), kvíðaraskanir (Anxiety Disorders), geðklofi og aðrar sikkótískar raskanir (schizophrenia), lyndisraskanir (mood disorders), hugrænar raskanir (Cognitive Disorders), Impulse Control Disorders, Factitious Disorders, Dissociative Disorders, Somotoform Disorders, átraskanir (Eating Disorders), kynferðisraskanir (Sexual and Gender Identity Disorders), svefnraskanir, fíkniefnaraskanir (substance related disorders) og raskanir sem eru helst greindar á yngir árum einstaklingsins. Á ási II eru persónuleikaraskanir og hugrænar fatlanir (mental retardation). Báðar raskanirnar koma fram í barnæsku eða á unglingsárum og fylgja einstaklingnum í gegnum lífið. Með því að hafa persónuleikaraskanir og hugrænar fatlanir á ási II er m.a. tryggt að tekið sé tillit til þeirra í greiningu og því í meðferð. Hugræn fötlun felur í sér litla greind og takmarkaða hæfileika til að læra nýja hluti. Til að greinast með hugræna fötlun þarf einstaklingur að greinast með 70 á greindarprófi eða lægra (meðalgreind er 100). Félagslegir, sálfræðilegir og umhverfislegir þættir sem geta haft streituvaldandi áhrif á einstaklinginn. Meðal þessara þátta eru fátækt, fáir vinir, atvinnuleysi og slæmt samband við maka. Almennt mat á virkni einstaklingsins. Matið er einkunn frá 0 til 100 þar sem lág tala merkir að einstaklingurinn hefur lága virkni og gæti verið hættulegur sjálfum sér og öðrum en há tala stendur fyrir góða virkni. Fíkn. Fíkn eða "ávanabinding" er hugtak sem notað er yfir áráttu til að endurtaka skemmandi hegðun. Einstaklingur sem haldinn er fíkn er sagður vera fíkill. Mörg lyf valda ástandi sem fela í sér aukna þörf til þess að fá meira af lyfinu, auka þol einstaklingsins fyrir því svo hann þarfnast hærri skammta, og valda sársauka, kvíða og óþægindum þegar töku lyfjanna er hætt. Þannig áhrif kallast fráhvarfseinkenni. Hugtakið fíkn er einnig notað yfir aðra hegðun sem felur eingöngu í sér sálfræðilega hegðun, s.s. fjárhættuspil eða fíkn í klám. Deilt er um hvort of mikið át teljist til fíknar. Einstaklingar sem breyta mataræði sínu skyndilega upplifa oft fráhvarfseinkenni og það kallar á spurninguna hvort efni í mat, s.s. sykur, geti valdið fíkn. Meðal þeirra lyfja sem valda fíkn eru: Áfengi, heróín, kókaín, kódín og nikótín sem sumir telja það efni sem sumir telja mest vanabindandi efnið. Flest lyf hafa örvandi áhrif en sum hafa þó róandi áhrif. Einstök lyf hafa bæði róandi og örvandi áhrif. Fíkn er talin eitt helsta heilbrigðisvandamálið um allan heim enda ljóst að hegðun margra ræðst af fíkn þeirra auk þess sem fíklar koma víða við sögu í heilbrigðiskerfinu. Almennt er gerður greinarmunur á líkamlegri og sálfræðilegri fíkn. Líkamleg fíkn leiðir til líkamlegra einkenna þegar neyslu er hætt og sálfræðileg fíkn til sálfræðilegra einkenna. Líkamleg áhrif efnis hefur í för með sér líkamlega vanlíðunartilfinningu þegar neyslu efnis er hætt. Sálfærðileg fíkn felur í sér vellíðunartilfinningu og þörf fyrir áframhaldandi neyslu til að forðast vanlíðunartilfinningu. Ekki er endilega víst að erfiðara sé að slökkva sálfræðilega fíkn en líkamlega. Það hversu lengi það tekur einstakling að vera háður vímugjafa veltur bæði á vímugjafanum, það hve oft hans er neytt sem og einstaklingnum sjálfum. Sem dæmi segja sumir alkóhólistar að þeir hafi ánetjast áfengi við fyrsta sopann á meðan flest fólk getur drukkið áfengi í félagsskap annarra án þess að teljast vera fíklar. Wernicke-Korsakoff heilkenni. Wernicke-Korsakoff heilkenni er einnig þekkt sem áfengistengd elliglöp (e. alcohol-related dementia) og er sérstaklega algengt meðal áfengissjúklinga. Weknicke-Korsakoff heilkenni stafa af B1-vítamínsskorti og er því fylgifiskur vannæringar. Einkenni Wernicke-Korsakoff heilkennis er framvirkt minnisleysi, það er að sjúklingurinn á erfitt með eða er jafnvel ómögulegt að færa nýjar upplýsingar úr skammtímaminni í langtímaminni. Wernicke-Korsakoff heilkenni felur einnig í sér lélega stjórn á vöðvum. Ef einstaklingur greinist snemma með sjúkdóminn er mögulegt að meðhöndla sum vægari einkenni hans. Viðkomandi þarf þá að hætta að drekka og honum er gefið B1-vítamín. Erfitt getur verið að meðhöndla önnur einkenni líkt og minnisleysi. Ef einstaklingurinn hefur þjáðst lengi af sjúkdóminum getur verið ómögulegt að meðhöndla einkenni hans. Lifrarbólga. Lifrarbólga felur í sér að lifrin bólgnar. Lifrarbólga getur varað í nokkurn tíma og helsta orsök hennar er áfengisneysla. Ef neyslu áfengis er haldið áfram getur hún leitt til skorpulifrar. Einkenni lifrarbólgu eru m.a. ógleði og uppköst, hiti, minni matarlyst, verkir í kvið og gulusótt. Lifrarbólga er greind með blóðprufu. Stofnar. Lifarabólgar skiptist í A, B og C stofna. Skorpulifur. Skorpulifur (lat. "cirrhosis", dregið af gríska orðinu κιρρος, "kirrhos" „gulbrúnn“) felur í sér að lifrarvef er skipt út fyrir óvirkan örvef. Þrátt fyrir að nokkrir þættir geti valdið skorpulifur er algengasta ástæða þess ofneysla áfengis. Einkennin fela, eins og í lifrarbólgu, m.a. í sér ógleði og uppköst, minni matarlyst og gulusótt, en auk þess blæðingar, þyngdartap og aukna næmi fyrir lyfjum. Þar sem ekki er hægt að skipta út örvef þá beinist meðferð aðallega að því að hefta framrás sjúkdómsins. Koffín. Koffín (áður kaffín enska "caffeine") er beiskjuefni ("alkaloid") sem finnst meðal annars í kaffibaunum, tei, kakóbaunum, kólahnetum og guarana og er náttúrulegur hluti þessara efna. Kaffín hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið, hjartað og öndun. Það hefur einnig þvaglosandi áhrif. Kaffíni er svo einnig bætt í sum matvæli, líkt og kókdrykki, hvort sem það er til að bæta bragðið eða gera þá sem drekka kókdrykkina háðari þeim. Einnig eru til kaffínpillur sem voru afar vinsælar hjá stúdentum. Kaffín í sínu hreinasta formi er hins vegar afskaplega beiskt, hvítt duft. Magn kaffíns í matvælum. Venjulegur kaffibolli inniheldur 100 til 200 milligrömm af koffíni og skyndikaffi (espresso) um 100 milligrömm. Afar mismuandi kaffínmagn getur verið í tei eða frá 20 til yfir 100 milligrömm í hverjum tebolla. Magn kaffíns í kakói er hins vegar um 5 milligrömm í bolla. Í lítilli kókdós (33 sentilítrar) er magn koffíns allt að 100 milligrömm, eða á við einn kaffibolla. Kaffínpillur innihalda vanalega jafn mikið koffín og einn kaffibolli hver. Líffræðileg áhrif kaffíns. Kaffín er talið verka á heilann með því að hamla adenósín viðtaka. Þegar adenósín tengist raftaka taugafrumu hægir það á virkni hennar. Slíkt gerist t.d. í svefni. Kaffínsameindin getur bundist viðtökunum og þannig hindrað adenósín í að komast að þeim, sem merkir að ekki getur hægst á virkni frumunnar. Í kjölfarið seytir fruman adrenalíni sem veldur m.a. auknum hjartslætti og blóðþrýstingi, auknu blóðflæði til vöðva og minni til húðar og innri líffæra. Auk þessa eykur kaffín magn taugaboðefnisins dópamíns í heila. Kaffín hverfur fljótt úr heilanum og, öfugt við t.d. áfengi, eru áhrif þess skammvinn. Kaffín truflar ekki einbeitingu (sumir segja þvert á móti) og annað hugarstarf. Mikil neysla kaffíns getur valdið tilhliðrun. Þegar inntöku þess er svo hætt er líkaminn ofurnæmur fyrir adenósín sem veldur því að blóðþrýstingur fellur mikið og sem leiðir til höfuðverkjar ásamt öðrum einkennum. Of mikil neysla kaffíns getur leitt til vímu. Einkenni þess eru m.a. eirðarleysi, taugaveiklun, svefnleysi, niðurgangur og meltingartruflanir. Þessi einkenni geta komið fram eftir aðeins 250 milligrömm. Meira en 1 gramm á dag getur leitt til vöðvakippa, sundurlausra hugsana og tals auk hjartsláttartruflana. Kaffíneitrun getur leitt til einkenna sem líkjast felmstursröskun (panic disorder) og almennri kvíðaröskun. Nikótín. Nikótín er lýtingur sem finnst í jurtum af náttskuggaætt, aðallega tóbaki og kókajurt, en í minna mæli í tómötum, kartöflum, eggaldinum og grænum pipar. Nikótín er öflugt taugaeitur og er var áður notað sem skordýraeitur. Í litlu magni virkar það örvandi á spendýr. Nikótín er þannig einn af þeim þáttum sem gera tóbaksreykingar ávanabindandi. Nikótín er örvandi efni og mikilvægur þáttur í fíkn þeirra sem reykja. Þrátt fyrir að mestur hluti nikótíns í sígarettu brenni upp í hitanum sem myndast í sígarettunni og að magn nikótínsins sé þannig lítið, er það nægjanlegt til að valda fíkn. Magn nikótíns sem fer út í líkamann úr hverri sígarettu veltur á nokkrum þáttum, s.s. gerð tóbaksins og hvort sígarettan er með síu. Að meðaltali tekur það nikótín um sjö sekúndur að ná til heilans og nikótínið skilst aúr líkamanum á innan við tveimur tímum. Nikótínfíkn veldur þó aðeins vægum fráhvarfseinkennum hjá flestum og sjaldgæft er t.d. að fólk vakni á næturnar þegar áhrif síðustu sígarettu þverra. Ópíöt. Ópíöt eru efni sem örva viðtakanema á frumuhimnum mismunandi fruma sem staðsettar eru víða í miðtaugakerfinu. Þetta veldur meðal annars tilfinningaleysi, ofkælingu og slökun. Af þessum sökum eru ópíöt oft notuð sem verkjastillandi lyf. Helstu ópíötin eru morfín og heróín, en einnig má nefna kódín, metadón og petidín. Ópíöt eru mjög vanabindandi efni sem fólk getur myndað mikið þol við. Því þurfa neytendur efnanna sífellt að auka skammtastærð til þess að ná fram sömu virkni og áður. Ófrískar konur sem taka ópíöt geta jafnframt gert barn sitt háð efninu. Eftir fæðingu þarf barnið því áfram að fá efnið til þess að fá ekki fráhvarseinkenni (sem geta verið hættuleg). Smám saman er þó hægt að minnka efnaskammtinn og að lokum hætta að gefa það. Heróín. Heróín var fyrst búið til úr morfíni árið 1874. Heróín er tilheyrir svokölluðum "hörðum" efnum, efnum þar sem einstaklingurinn myndar mikið þol og sláandi fráhvarfseinkenni þegar töku efnisins er hætt. Heróín veldur miklum líkamlegum áhrifum og alvarlegum fráhvarfseinkennum þegar inntöku efnisins er hætt. Kókaín. KókaínKókaín er vímugjafi og öflugt fíkniefni. Kókaín er eitt áhrifamesta náttúrulega örvandi efnið. Það er búið til úr blöðum kókajurtarinnar sem finnst á hásléttum Andesfjalla í Suður-Ameríku. Upphaflega var kókaíns neytt sem deyfilyfs í Þýskalandi um miðja 19. öldina og var notað sem slíkt nokkuð fram á síðustu öld, sérstaklega meðal tann- og augnlækna. Hættur við neyslu. Það er mikil hætta fólgin í því að nota kókaín, hvort heldur það er tekið gegnum nef, sprautað eða reykt. Stórir skammtar kókaíns geta valdið flogi og dauða vegna öndunartruflana, heilablóðfalli, blæðingum eða hjartabilunum. Ekki er til mótefni sem hægt er að nota ef of stórir skammtar kókaíns eru teknir. Langmest vex af kókaplöntunni í fjöllum Bólivíu og í Peru en til fjölda ára hafa kókalauf verið flutt í stórum stíl til Kólumbíu þar sem mesta fullvinnsla kókaíns hefur verið til margra ára, vegna mjög sterkra stöðu kókaínsframleiðinda er þar. En var um bil ekkert svo góð í Bólivíu vegna sterkra ýtaka Bandaríska hersins og Bandarísku DEA þar í landi. Virðast þar vera að gerast miklar breytingar á því, með tilkomu á eignaupptöku ríkisins á eigum bandarískra ríkisborgara, og útskúfun þeirra og slit á stjórmálasambandi ríkjanna. Ýmislegt bendir til þess að þeir sem reykja eða sprauta sig með kókaíni séu í meiri hættu en þeir sem taka það í gegnum nefið. Þeir sem reykja það þjást oft af öndunarerfiðleikum og verkjum í brjósti sem tengjast lungnavandmálum og blæðingum. Að auki er meiri hætta á ávanabindingu ef kókaínið er reykt en ef það er tekið í gegnum nefið. Þeir sem sprauta sig eru í mun meiri hættu við að fá sjúkdóma sem breiðast út með blóðblöndun, s.s. eyðni. Mikil notkun kókaíns í gegnum nef getur hins vegar brennt upp brjóskið sem aðskilur nasaholin og jafnvel valdið því að það hverfur. Notkun kókaíns. Kókaín hefur stundum verið kallað „fíkniefni ríka fólksins“ vegna þess að það þykir dýrt miðað við mörg önnur fíkniefni. Notkun kókaíns hefur verið mikil í Bandaríkjunum og ræðst það af nokkrum þáttum s.s. efnahag Bandaríkjanna og nálægð landsins við Suður-Ameríku. Tilkoma krakks jók neyslu kókaíns gífurlega í Bandaríkjum og árið 1982 er talið að 5,6% bandarísku þjóðarinnar hafi notað kókaín. Kókaín hefur ekki verið það efni sem mikið er hefur verið notað hérlendis, en síðustu ár hefur verið vart við gífurlega aukningu á notkun kókaíns á Íslandi. Þarf ekki nema að líta til þess hve ótrúlega mikið magn hefur verið tekið af Yfirvöldum síðustu 2-3ár. Einnig hefur það kókaín sem lagt hefur verið hald á hérlendis síðustu ár, verið áberandi sterkt eða allt að 93-95% styrkleika sem er með því hreinasta sem mælist, þar sem að lámark íblöndunarefnis í hreinu efni er ávallt á bilinu 3-5% til að efnið sé meðfærilegra til inntöku um nef eða á annann hátt. Kókaín hefur þótt mjög dýrt á Íslandi og mun dýrara en til að mynda amfetamín sem er annað örvandi fíkniefni. Síðustu ár hafa reykingar efnisins í formi freebase aukist á Íslandi, en lítlar vísbendingar hafa fundist um krakk notkun á Íslandi. Munur þessara tveggja er í fljótubragði sá að freebase er efnasamband kókaínjóða og almoníaks. Krakk er aftur á móti efnasamband kókaínjóða og natróni, verkar á svipaðann hátt hvað varðar hækkun hitastigs eða vinnslu. Þessi er samt meira notuð þar sem mjög auðvelt er að komast yfir natrón, en erfitt getur verið að komast svo auðveldlega yfir Almoníak. Talið er að Krakk sé meira ávanabindandi auk þess hafi mjög fljótlega mikil áhrif á taugakerfi, svo og eðlilega hreifingu útlima. Áhrifin eru varanlegur skaði. Freebase er talið ekki skemma eins hratt og hafa minni varanleg áhrif, þó svo ljóst sé að efnið sem slíkt hafi ávallt slæm áhrif á líkama á allann hátt. Krakk. Krakk er hreint kókaín blandað natróni eða ammoníaki og vatni og hitað til að fjarlægja saltsýru kókaíns og þannig vinnst hækkað brunaþol efnisins og nýtni þess. Krakk er oftast reykt með þar til gerðri krakkpípu. Þegar blandan þornar upp verður lítið magn vatns eftir í krakkinu sem svo sýður og brestur (enska: "Crack") en nafn efnisins er dregið af hljóðinu sem myndast. Ofskynjunarlyf. Ofskynjunarlyf eru flokkur lyfja sem breyta skynjun, hugsun og tilfinningum vegna áhrifa þeirra á taugakerfið. Ofskynjunarlyf hafa verið notuð í þúsundir ára og eru í dag notuð í rannsóknir, meðferð eða misnotuð sem vímuefni. Mismunandi er hvernig menn flokka ofskynjunarlyf þar sem lyfin hafa mismunandi virkni. Þekktasta ofskynjunarlyfið er líklegast LSD (e. "lysergic acid diethylamine") en meskalín, sem er unnið úr kaktusi, er einnig vel þekkt. Fyrir utan truflun á skynjun geta ofskynjunarlyf framkallað alvarleg kvíðaköst, þunglyndi, geðrof og tilfinningu um að viðkomandi sé að missa stjórn á hlutunum. Ofskynjunarlyf geta einnig valdið skyndiverkun löngu eftir að þau eru tekin inn, svokallað endurlit (e. flashback) þar sem áhrif lyfsins koma aftur fram. Meðferð. Meðferði við töku ofskynjunarlyfja felur m.a. í sér lyf við geklofa ef psychotic er til staðar. Eins og með önnur lyf þá er algengt að fólk noti þau til að bæta samskipti sín við aðra og því er mikilvægt að meðferð taki á þeim samskiptum eða samskiptaleysi. Sigmund Freud. Sigmund Freud (6. maí 1856 – 23. september 1939) var austurrískur geðlæknir og taugafræðingur. Hann er upphafsmaður sálgreiningar og kenningar hans hafa haft mikil áhrif á hugmyndir almennings um sálarlífið. Æviágrip. Freud fæddist í Freiberg í Austurrísk-Ungverska keisaradæminu (nú Příbor í Tékklandi) árið 1856. Fjölskylda hans flutti til Vínar þegar hann var fjögurra ára gamall og þar bjó hann þangað til nasistar hernámu borgina árið 1938. Freud var gyðingur að uppruna en var þó alla tíð yfirlýstur trúleysingi. Freud var talinn góður nemandi, en þrátt fyrir það var hann lengi að ljúka háskólanámi. Hann nam læknisfræði við háskólann í Vín og smíðaði kenningar í taugalífeðlisfræði. Hann átti í erfiðleikum með að velja námsgrein en læknisfræðin varð að lokum fyrir valinu. Á námsárum sínum kynntist hann Josef Breuer sem var læknir og lífeðlisfræðingur. Saman ræddu þeir um sjúkdómstilfelli og átti einn af sjúklingum Breuers eftir að hafa mikil áhrif á Freud. Sjúklingurinn var kallaður Anna O. í dagbókum Freuds og þjáðist af því sem á þeim tíma var nefnt sefasýki. Sefasýki Önnu O. lýsti sér þannig að hún gat ekki talað sitt eigið móðurmál, þýsku, en gat talað á ensku og frönsku. Hún gat heldur ekki drukkið vatn, og var tímabundið lömuð. Engar þekktar líffræðilegar skýringar lágu að baki þessum sjúkdómseinkennum, svo talið var að þau væru sálræn. Breuer hafði komist að því að ef hann dáleiddi hana gat hún munað eftir hlutum sem hún mundi ekki eftir annars og að eftir dáleiðsluna voru sjúkdómseinkennin horfin. Freud fór síðar til Parísar til náms hjá hinum virta taugasérfræðingi Jean-Martin Charcot sem m.a. rannsakaði sefasýki og notaði dáleiðslu. Árið 1886 sneri Freud aftur til Vínar, giftist og opnaði einkastofu þar sem hann sérhæfði sig í tauga- og heilasjúkdómum. Hann reyndi fyrst að nota dáleiðslu en komst síðar á þá skoðun að hann gæti fengið sjúklinga til að opna sig með því að láta þá leggjast á sófa og tala um hvaðeina sem þeim kom í hug með nokkurs konar frjálsu flæði. Þetta er kallað frjáls hugrenningaraðferð. Síðan greindi hann það sem sjúklingarnir höfðu sagt eða munað og reyndi með því að finna út hvaða atburður hefði valdið einkennum fólks. Árið 1900 gaf Freud út bókina "Túlkun drauma" (de: "Die Traumdeutung") og setti fram kenningar sínar um hinn dulvitaða huga. Ári síðar gaf hann út bókina "Psychologischen Mittwochs-Vereinigung" þar sem hann setti fram þær kenningar að gleymska eða mismæli (sem nú kallast á ensku „freudian slip“) væri alls ekki eitthvað út í bláinn heldur væri birtingarmynd dulvitundarinnar og hefði einhverja merkingu. Síðar setti hann fram þær kenningar að kynhvötin væri það sem helst mótaði sálfræði einstaklingsins og að hún væri jafnvel til staðar hjá ungabörnum. Þessar kenningar hneyksluðu fólk þegar þær komu út árið 1905. Frægasta kenning hans er um Ödipusarduldina. Samkvæmt kenningunni laðast drengir kynferðislega að móður sinni og öfunda föður sinn eða hata. Síðar setti Freud fram svipaða kenningu um stúlkur, Elektruduld, þar sem hann hélt fram að allar stúlkur þjáðust af reðuröfund. Árið 1902 var Freud útnefndur prófessor við háskólann í Vín. Hann safnaði að sér mörgum stuðningsmönnum sem aðhylltust kenningar hans og hjálpuðu til við útbreiðslu þeirra um heiminn. Síðar kom upp skoðanaágreiningur í hópnum og sumir nánustu fylgismenn hans (líkt og Alfred Adler og Carl Jung) klufu sig frá hópnum. Freud reykti mikið, u.þ.b. 20 vindla á dag, og fékk hann krabbamein í kjálka árið 1923 og gekkst undir margar aðgerðir vegna þess. Freud skrifaði margar bækur og orðstír hans barst víða. Árið 1933 breiddist nasisminn út um Evrópu og verk Freuds lentu í bókabrennum nasista. Þar sem Freud var gyðingur litu nasistar til hans með litlum velvilja. Vegabréfið var tekið af honum en vegna mikils þrýstings erlendis frá var honum leyft að halda úr landi og flúði hann þá til Englands. Þar lést hann í september árið 1939, sama mánuð og Heimsstyrjöldin síðari braust út. Sigmund Freud austurríkismaður og einn þekktasti sálfræðingur allra tíma. Var talsmaður þess að starfsemi líkamans mætti skýra út frá efna- og eðlisfræðilegum lögmálum. Lærði dáleiðslu hjá franska taugalækninum Jean Martin Charcot. Þróaði aðferð sem kallaðist frjáls hugrenningaaðferð. Hugrenningar sjúklings gefa sálgreinanda vitneskju um innihald dulvitundar. Með dulvitund er átt við þær hugsanir, viðhorf, óskir, hvatir og tilfinningar sem við höfum ekki beinan og greiðan aðgang að. Dulvitund lykilhugtak í kenningu Freuds. Eftirmæli og gagnrýni. Kenningar Freuds hafa lengi verið mjög umdeildar. Helsta gagnrýnin er að hugmyndir hans séu óprófanlegar og geti því ekki talist vísindalegar. Eitt grundvallarhugtakið í Persónuleikakenningu Freuds, dulvitundin, er til dæmis samkvæmt skilgreiningu nokkuð sem ekki er hægt að rannsaka með beinum hætti. Sumir telja líka að kenningin gangi ekki röklega upp. Almennt má segja að nútímasálfræðingar hafni kenningum Freuds eða styðjist að minnsta kosti ekki við þær. Kenningar hans hafa þó enn nokkur áhrif innan sumra annarra félagsvísinda og í geðlæknisfræði. Staða hans er líka nokkuð sterk í bókmenntafræði, en sálgreining er stundum notuð sem undirstaða bókmenntatúlkunar. Kenningar Freuds hafa líka haft gífurleg áhrif á hugmyndir almennings um sálarlíf manna. The Physical Mechanism of Forgetfulness. Í þessari bók talar Freud um gleymsku og segir að það séu tveir athyglisverðir eiginleikar þegar kemur að gleymsku. Annar þeirra er þegar athygli manns beinist í aðra átt frá umræðuefninu. Hinn er, þegar maður getur ekki rifjað eitthvað upp, að þá á maður ekki að hugsa um það í langan tíma, og á endanum kemur það aftur í kollinn á manni. The Interpretation of Dreams. Þetta er ein af frægustu bókum Freuds. Þegar Freud fór að grúska í sálfræði þá fór hann að sálgreina fólk, og ein leið til að sálgreina fólk var í gegnum drauma þess. Þegar sjúklingur hans sagði frá draumi, leiddi það oft í sálarlíf einstaklings. Ofskynjanir taldi hann það sama því þær höfðu oft eitthvað að segja um það sem er í gangi í dulvitund sjúklingsins. Hann hélt fram að draumar og ofskynjanir voru hluti af óskum sem manneskjan vildi fá uppfylltar, eins og dagdraumar. T.d. draumar um dauða ástvina eða fjölskyldumeðlima væru yfirleitt duldar óskir einstaklings um að viðkomandi myndi deyja. Bókin kom fyrst út í 600 eintökum og það upplag seldist upp á 8 árum. Það var ekki mikið talað um ritið, en það fékk lélega dóma í sálfræðitímaritum. Einn Gagnrýnandi sagði að “ógagnrýnir hugar myndu með ánægju taka þátt í þessu leikriti með hugmyndum og myndu síðan enda í draumórum og óskipulagi”. Bókin varð samt sem áður vinsælli þegar seinni útgáfan kom út 10 árum seinna. Bókin hefur alls verið gefin út átta sinnum, seinast 1929. Hún var þýdd á ensku og rússnesku, og sex önnur mál fyrir 1938. The Psychopathology of Everyday Life. Þessi bók tekur á því sem við gerum dags daglega, og hvernig það tengist sálinni. Eins og gleymskubókin, þá fjallar þessi bók um að gleyma réttum nöfnum og erlendum orðum. Við gleymum þeim ekki einungis, heldur að við munum vitlausa mynd þeirra aftur. Freud talar líka um “accidental slips of the tongue” sem myndi vera á íslensku mismæli. Í dag er talað um þetta sem freudísk mismæli, í höfuðið á honum. Hann heldur þar fram að tungubrjótar sem þessir eru ekki tilviljanir, heldur að dulvitundin sé að reyna að segja að meðvitundin vill ekki segja þessi orð. Svipað með “slips of the pen” sem eru ritvillur. Sumt af þessu gæti verið ástæðan fyrir mislestri: Forgangsspurningar, langvarandi vanar, undirbúningur þess sem les, staða þess sem les eða núverandi ástand, eitthvað sem vekur varnir þess sem les eða persónulegar hvatir (skv. Freud). Síðan kynnir Freud eina frægustu kenningu sína í ritinu, sem er kenning um ödipusarduldina. The Ego and the Id. Í þessari bók segir Freud frá þeim hugmyndum sínum að huganum sé skipt í þrennt og frá upphafi yfirsjálfs (e. superego). Í þessari bók má finna kenningar Freuds um það hvernig hugurinn starfar. Þar er einnig að finna skýra mynd Freuds af meðvitund og dulvitund. Meðvitundin á að vera það sem við gerum og vitum af, en dulvitundin á að vera það sem gerist í huganum á okkur sem við erum ekki vör við, og hefur þar af leiðandi áhrif á meðvitundina. Ef einstaklingur ræðst á einhvern annan í reiðiskasti á götu úti, þá finnum við bara reiðina gagnvart manneskjunni sem verið er að ráðast á, við vitum ef til vill ekki að manneskjan sem ráðist er á, lagði árásarmanninn í einelti á yngri árum. Bókin talar líka um sjálf (e. ego), það (e. id) og yfirsjálf (e. superego). Samkvæmt Freud er sjálfið meðvitund okkar, þaðið er hvatastöð okkar, sem sagt það lætur stjórnast af hvötunum (lífshvöt og dauðahvöt), en yfirsjálfið er siðgæðisvörður hugans. Togstreita milli þaðsins og yfirsjálfsins getur leitt til þess að ýmiss konar varnarhættir séu teknir upp. Beyond the Pleasure Principle. Í sálgreiningu er gert ráð fyrir því að andleg atvik sé hægt að rekja til vellíðunarlögmálsins, en það er sú kenning að allt sem við gerum er ákveðið af ánægju. Albert Bandura. Albert Bandura (1925 -) fæddist í Norður-Kanada. Bandura hlaut doktorsnafnbót frá háskólanum í Iowa árið 1952 og það var þar sem hugur hans fór að hneigjast æ meira að kenningum atferlissinna og námskenningum þeirra. Ári síðar hóf hann kennslu við Stanford-háskólann. Þrátt fyrir að aðhyllast kenningar atferlissinna var Bandura ósammála sumum atferlissinnum sem töldu að nám gæti aðeins farið fram með beinni skilyrðingu. Þvert á móti taldi Bandura að óbein skilyrðing og herminám væri einnig mikilvægt. Bóbó-dúkkan. Bandura er meðal annars þekktur fyrir rannsóknir sínar á ýgi. Hann bendir á að ýgi mótist í samfélagi og iðulega með herminámi, þar sem hermt er eftir öðrum sem sýna svipaða hegðun. Fræg er tilraun Bandura sem sýndi hvernig herminám getur skýrt ýgi barna, jafnvel í nokkrum smáatriðum. Gagnrýni á Bandura. Norski sálfræðingurinn Jan Smedslund Jan Smedslund, hefur gagnrýnt kenningu Bandura um eigin getu (self efficacy) fyrir að vera ekkert nema sjálfsögð sannindi sem þurfi ekki að raunprófa. Bandura bendir á móti á að kenningin um eigin getu sé hluti af heildarkenningu um áhugahvöt, félagsnámskenningu, sem meðal annars er teflt fram gegn einföldum styrkingarkenningum. Það skiptir félagsnámskenningu engu máli hvort eigin geta sé raunvíst eða röklegt hugtak. Það geta því verið meðmæli með kenningu að hún sé augljóslega sönn. En í því sambandi er líka rétt að muna hve margt á að vera sjálfsögð sannindi en reynist eitthvað annað þegar á hólminn er komið. Það eru til dæmis sjálfsögð sannindi að Akkiles nær aldrei skjaldbökunni. Eða hvað? Er kannski sjálfsagt að hann nái henni? Hver er aftur skilgreiningin á sjálfsagt? Carl Rogers. Carl Ransom Rogers (8. janúar 1902 – 4. febrúar 1987) var áhrifamikill bandarískur sálfræðingur. Ævisaga. Carl Rogers fæddist í Chicago. Hann lærði til prests en ferð til Peking breytti lífsviðhorfum hans og hann fór að efast um trúarskoðanir sínar. Eftir útskrift innritaðist Rogers í klíníska sálfræði í Kólumbíu háskóla þar sem hann hlaut doktorsnafnbót árið 1931. Þegar Roger vann á "Rochester Society for the Prevention of Cruelty to Children" fór hann að þróa eigin kenningar. Árið 1942 skrifaði Rogers sína fyrstu bók, "Counseling and Psychotherapy". Árið 1945 var honum boðið að setja upp eigin meðferðarmiðstöð við háskólann í Chicago. Þar gaf hann út helsta verk sitt um einstaklingsmiðaða meðferð (Client-Centered Therapy), þar sem hann setur fram kenningar sínar. Kenningar Rogers beinast að sjúklingnum og eru því að nokkru í samræmi við kenningar Freuds. Á meðan Freud leggur hins vegar oft áherslu á það slæma í manninum gengur kenning Rogers út frá því að maðurinn sé í grunnatriðum góður og heilbrigður og því er góð andleg heilsa hið eðlilega ástand og slæm andleg heilsa er frávik frá því. Kenningin er einnig nokkuð einföld, ólíkt til dæmis kenningum Freuds. Kenningin byggir á lífskrafti þar sem öll dýr reyna að nýta getu sína eftir fremsta megni og ef það tekst ekki er þar ekki um að ræða skort á áhuga. Dæmi um þennan lífskraft segir Roger þörfina fyrir ást og umhyggju, sköpunarkraftur mannsins sem hann taldi vera mjög mörg dæmi um. Hann er þó frægastur fyrir meðferðarform sitt sem vanalega er kölluð einstaklingsmiðuð meðferð (e. "client centered"). Líkt og margt sem Roger gerði varð meira að segja nafnið tilefni til deilna. Sálfræðingar spurðu í undrun hvort ekki væru allar meðferðir einstaklingsmiðaðar. Árið 1964 samþykkti hann að taka við rannsóknarstöðu í Kaliforníu. Hann veitti meðferð, hélt fyrirlestra og skrifaði allt til dauðadags. Húmanísk meðferð. Húmanískar kenningar hafa verið kallaðar þriðja aflið í sálfræðinni vegna þess að þær komu fram sem andsvar við bæði atferlishyggjunni og sálaraflshyggjunni. Húmanískir sálfræðingar töldu atferlissinna leggja ofuráherslu á það mælanlega, hegðun, og fórna þannig því sem helst einkenndi manninn, tilfinningar hans og hugsanir. Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt með sálaraflssinum samþykktu húmanískir sálfræðingar ekki skoðanir þeirra. Þeir töldu sálaraflsfræði of determiniska, þ.e. að duldar hvatir mannsins höfðu of mikil áhrif á hegðun hans. Ólíkt sálaraflssinnum einbeita húmanískir sálfræðingar sér einnig að núverandi ómeðvituðu tilfinningum og leggja áherslu á að einstaklingurinn axli þá ábyrgð sem felist í því að þroskast sem mannseskja. Húmanískir sálfræðingar telja alla menn reyna að öðlast self-actualization, þ.e. að ná því að vera allt sem þeir geta orðið. Þeir leggja áherslu á að maðurinn þroski ást sína, sjálfsmynd og möguleika til fullnustu. Maðurinn sé heild og hann verði að umgangast sem heild. Húmanískar meðferðir eru client-centered. Ein af máttarstoðum meðferðarinnar er að maðurinn reyni að þroskast á öllum þeim sviðum sem hann getur. Meðferðin gengur út frá því að maðurinn sé góður og að annað sé tilkomið vegna þess að hann hefur orðið fyrir hindrunum á leið sinni að self-actualization, og því sé hann ekki í sambandi við eigin tilfinningar. Carl Rogers, einn helsti forvígismaður húmanískrar meðferðar, lagði mikla áherslu á að meðferðaraðilinn hlustaði á það sem einstaklingurinn segði, viðurkenndi skoðanir og vandamál einstaklingsins og sýndi samhygð (empathy). Meðferðaraðilinn hjálpar þannig sjúklingnum til að hjálpa sér sjálfum. Í Gestalt meðferð, sem stundum er talin til húmanískrar meðferðar, er lögð áhersla á að einstaklingurinn samþykki eigin ábyrgð á tilfinningum sínum. Fjölskyldumeðferð, sem byggir á svipuðum forsendum leggur áherslu á að fjölskyldan sé samverkandi heild þar sem allir einstaklingar hennar beri ábyrgð á að leysa úr vandamáli sjúklingsins. Hugræn meðferð. Hugrænar meðferðir eru notuðar af klínískum sálfræðingum í meðferð m.a. vegna þunglyndis, kvíðaraskana og fælni. Grunnhugmyndin á bakvið meðferðirnar er að fækka neikvæðum hugsunum eða útrýma þeim og koma í staðinn inn jákvæðum hugsunum sem gerir þeim þunglynda lífið auðveldara. Lyf eru oft notuð meðfram meðferðunum. Á ensku er nefnast þessar meðferðir "cognitive therapy" (CT) eða "cognitive behavior therapy" (CBT). Kenningar. Þær kenningar sem liggja til grundvallar hugrænna meðferða eru að mörgu leiti líkar þeim hugmyndum sem liggja að baki kenningum sálaraflssinna. Hugrænar kenningar snúast, eins og nafnið bendir til, um hugarstarf einstaklingsins, rétt eins og sálaraflskenningar. Það er hins vegar mikilvægur greinarmun kenningunum tveimur. Á meðan sálaraflskenningar leggja mikla áherslu á duldar hvatir, væntingar og þrár leggja þeir sem aðhyllast hugrænar kenningar áherslu á það hvernig fólk tekur við upplýsingum, hvernig það vinnur úr þeim og hvernig þær liggja til grundvallar túlkun einstaklingsins á umhverfinu. Kenningar hugfræðinga snúast um það að maðurinn safni, geymi, breyti og túlki í sífellu ytri upplýsingar. Hugsanirnar eru lykillinn að líðaninni. Einnig er gert ráð fyrir því að upplýsingarnar séu að megninu til meðvitaðar og meðferðin byggir vanalega á hugsunum sem eru til staðar í stað þess að leita orsaka í fyrri reynslu mannsins. Dæmi um þetta er að fólk gerir sér í flestum tilfellum grein fyrir því að það hefur lítið sjálfstraust og sjálfstraustið mótast af mörgum þáttum. Einstaklingurinn hefur t.d. túlkað athugasemdir annarra, hann hefur túlkað mótlæti sem vanmátt o.s.frv. Með því að viðurkenna að hann hefur e.t.v. túlkað upplýsingar á rangan hátt, eða lagt of mikla merkingu í upplýsingarnar og að hann hafi því brugðist á rangan hátt við þeim, líkt og athugasemdum annarra, getur hann bætt sjálfstraustið. Kenningin leggur áherslu á að hugsanir einstaklingsins hafi haft áhrif á tilfinningar hans, öfugt við sálaraflssinna sem leggja oft áherslu á að tilfinningar (líkt og Ödipusarduld) hafi áhrif á hugsanir, og með því að breyta þessum hugsunum getur einstaklingurinn breytt tilfinningum sínum. Meðferðir. Í hugrænum meðferðum er það lykilatriði að einstaklingurinn geri sér grein fyrir eigin hugsunum sem hafa neikvæð áhrif á hann, endurskoði þær og "skipti þeim út" fyrir jákvæðari hugsanir og sem eru meira í takt við raunveruleikann. Hugfræðingar hafa oft náð góðum árangri í meðferðum. Meðal þekktra hugrænna meðferða, er rational emotive therapy Albert Ellis og hugræn meðferð Arons Becks, sem hóf starf sitt sem sálgreinandi, við þunglyndi, en þær hafa það að markmiði að minnka, eða útrýma neikvæðum hugsunum. Ellis setti kenningu sína upphaflega fram árið 1962. Hann telur að óæskileg eða skemmandi hegðun (e. maladaptive behavior) sé afleiðing þess að fólk fylgi ónákvæmum og röngum ályktunum (e. irrational beliefs). Dæmi um þess háttar ályktanir er: "Til þess að verða elskaður þarf mér að ganga einstaklega vel í lífinu". Ályktanir sem þessar geta stjórnað lífi einstaklinga og valdið því að þeir verði nánast aldrei ánægðir með lífið. Samkvæmt þessu eru það ekki atburðirnir sjálfir sem valda vanlíðan heldur túlkun einstaklinga á atburðunum. Ellis kallar þetta A-B-C módelið. Fólk hefur ákveðna skoðun (e. believe) um ákveðinn atburð (e. activating event) og sú skoðun hefur einhverja afleiðingu fyrir einstaklinginn (e. consequence). Einstaklingar gera sér ekki alltaf grein fyrir þeim atburðum sem hafa áhrif á skoðanir þeirra en þeir eru meðvitaðir um afleiðinguna. Ef túlkun þeirra á atburðinum er röng eða ýkt þá veldur afleiðingin vanlíðan, s.s. í formi kvíða eða þunglyndis. Samkvæmt Aaron T. Beck er þunglyndi m.a. tilkomið vegna rangs náms (e. faulty learning), röngum ályktunum og ónógrar aðgreiningar ímyndunaraflsins og raunveruleikans. Einstaklingur byrjar snemma á ævinni á að túlka heiminn og að mynda sér kenningar um það hvernig hann virkar. Þunglyndur einstaklingur hefur mistúlkað heiminn og reglurnar, og skoðanir einstaklingsins á atburðum, eigin verðleikum og samböndum við aðra, eru skekktar vegna rangra hugmynda. Þær hugmyndir kallar Beck hugrænt líkan þunglyndis (e. cognitive model of depression). Einstaklingur með þunglyndi eignar sér jafnframt sökina þegar eitthvað fer úrskeiðis. Dæmi um það væri þunglyndur einstaklingur sem sækir um vinnu. Ef hann fær höfnun gæti hann sagt "Ég er asni. Ég hefði mátt vita að ég hafði ekkert að gera með að sækja um þetta starf." Þannig beinist útkoman að honum sjálfum en ekki ytri aðstæðum, s.s. eins og þeirri staðreynd að 100 aðrir sóttu um vinnuna og tveir voru taldir færari en hann. Líkt og áður segir hefur meðferð Becks reynst mjög gagnleg og þá sérstaklega þegar hún er notuð ásamt lyfjameðferð. Meðferð með hugrænni meðferð tekur tíma að virka, oft marga mánuði. En með þolinmæði og góðum meðferðaraðila getur meðferðin verið mjög mikilvægt tól til að komast á rétt spor til betra lífs. Undirgrein hugrænnar meðferðar er notuð til að vinna á áráttu-þráhyggjuröskun, en þar er einnig notuð klassísk skilyrðing. Slík meðferð hefur verið notuð til að sigrast á áráttu-þráhyggjuröskun með góðum árangri. Atferlismeðferð. Atferlismeðferð er ein tegund sálfræðimeðferðar. Hún er notuð til að meðhöndla ýmsar tegundir af geðröskun og hegðunarvandamálum. Meðferðin byggist á að nota klassíska og virka skilyrðingu til að breyta hegðun fólks. Atferlismeðferð hefur gefist vel á ýmsum sviðum, svo sem til að meðhöndla fælni og áráttu-þráhyggjuröskun. Virk skilyrðing. Í virkri skilyrðingu er gengið út frá því að einstaklingurinn sé virkur í umhverfinu, það er hann er hluti af umhverfinu. Hver hegðun á sér þannig afleiðingu og sú afleiðing hefur áhrif á hvort, og þá hversu oft, einstaklingurinn endurtekur þá hegðun. Þær afleiðingar sem auka eða styrkja þá hegðun sem þær fylgdu kallast styrkjar. Hegðun sem leiðir til styrkir eykst en önnur hegðun minnkar. Dæmi um þetta er rotta í tilraunabúri (sem einnig hefur verið kallað Skinnerbúr, kennt við sálfræðinginn B. F. Skinner) þar sem slá er á einum vegg búrsins. Ef rottan styður framfótunum á slána kemur matur niður í lítinn dall. Virkið (það er virka hegðunin) er það sem rottan gerir rétt fyrir styrkinn, það er sú hegðun að styðja framlöppunum á slána. Afleiðingin, hér maturinn, veldur því að rottan fer að styðja mun oftar á slána en áður. Ef maturinn hættir að fylgja því að ýta á slána mun rottan fljótlega hætta því. Þá er talað um slokknun hegðunarinnar. Ef aftur er farið að styrkja hegðun sem búið var að slökkva mun hún aukast mun hraðar en það tók í fyrstu að koma henni á. Þegar spá á fyrir um breytingar á hegðun verður því að taka mið af styrkingarsögu lífverunnar. Styrkingarsaga er einfaldlega það hvernig hegðun lífverunnar var styrkt í fortíðinni og hún hefur áhrif á núverandi hegðun lífverunnar og breytingar á henni í framtíðinni. Nauðsynlegt er að að ákveða hvaða styrkjar eru áhrifaríkastir og auðveldast að koma á. Styrkingarsnið vísar til mynsturs styrkjanna, svo sem hvort þeir fylgi hverri svörun, annarri hvorri, í tíunda hvert skipti og svo framvegis. Einnig geta styrkingarsnið byggst á ákveðnum tíma á milli styrkja í stað fjölda svarana. Því er greint á milli tveggja styrkingarsniða, tímastyrkingar og hlutfallsstyrkingar. Sálfræðileg kenning. Sálfræðileg kenning er kenning sem sett er fram um sálfræðilegt efni, og er byggð á rannsóknum og fyrri athugunum. Það er engin ein leið til að setja fram kenningu. Vísindamenn reyna þó að sjálfsögðu að miða kenningar við fyrri athuganir og nota svo einhvers konar sköpunargáfu og hugarflug til að útvíkka fyrri kenningar og koma þannig með hugsanlega og, í flestum tilfellum, líklega útskýringu á því af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Einn mikilvægasti þáttur kenningar verður að vera sá að það sé hægt að afsanna hana með tilraun. Kenningar sem ekki er hægt að afsanna með tilraun teljast ekki til fullgildra kenninga. Dæmi um blátt áfram kenningu sem auðvelt er að prófa er: "xxx". Dæmi um kenningu sem ekki er hægt að prófa er: "Allt súkkulaði hverfur þegar enginn horfir á það og verður svo aftur til aftur um leið og einhver horfir aftur á það." Það er ómögulegt að afsanna þessa kenningu. Það verður samt að gera sér grein fyrir því að ef ekki er hægt að afsanna tilgátu þá getur hún vel verið sönn. Það eina er að hún er ekki vísindaleg. Vísindamenn eiga einnig að vera hlutlausir þegar þeir setja fram kenningar. Þetta atriði er ekki alltaf staðreynd þar sem ákvarðanir vísindamann litast að sjálfsögðu að fyrri reynslu þeirra. Almennt gildir að því einfaldari sem kenningar eru, því betra. Auðveldara er að prófa kenningu sem hefur fáar breytur en kenningu sem hefur margar. Kenning sem hefur fáar breytur til að kann eitthvað atriði, s.s. A hefur áhrif á B, er jafnframt betri en kenning sem hefur margar breytur, að því gefnum að þær útskýra hið sama. Tilgáta. Tilgáta er staðhæfing sem ætluð er sem skýring á tilteknu fyrirbæri. Vísindaleg tilgáta er prófanleg og dregin af tiltekinni kenningu. Raunprófanir á tilgátum eru notaðar til að styðja eða hrekja kenningu. Notkun í aðferðafræði og tölfræði. Í aðferðafræði og tölfræði er talað um núlltilgátu (H0) annars vegar og aðaltilgátu (H1) hins vegar. Núlltilgátan segir til um að engin tengsl séu á milli þeirra breyta sem í hlut eiga. Aðaltilgátan er aftur á móti að þessi tengsl séu til staðar. Emil Kraepelin. Emil Kraepelin (fæddur 15. febrúar 1856, dáinn 7. október 1926) var þýskur sálfræðingur sem reyndi að bera kennsl á geðsjúkdóma með því að skoða og hópa saman mynstur og einkenni sjúkdóma. Vinna Kraepelin. Kraepelin reyndi ekki að greina eða hópa sjúkdóma saman eftir því hversu lík einkenni sjúkdómanna voru, líkt og forverar hans höfðu gert, enda var það gagnsleysi slíkra aðferða sem fékk Kraepelin til að þróa hið nýja greiningarkerfi sitt. Kraepelin gaf sér þá forsendu að líkamlegur afbrigðileiki væri undirliggjandi fyrir hvern sjúkdóm og var þess fullviss að vísindamenn myndu einhverntíma finna meinafræðilega ástæðu fyrir hvern geðsjúkdóm. Eitt meginatriði aðferðar hans var að gera sér grein fyrir því að nánast hvaða einkenni sem er gat birst í öðrum sjúkdómum. Sem dæmi getur nánast hvert einkenni geðklofa einnig birst í tvískautaþunglyndi, þrátt fyrir að þau séu ekki eins algeng þar. Hann gerði sér einnig grein fyrir því að það sem aðgreinir sjúkdóm er ekki eitt sérstakt einkenni hans heldur mynstur einkenna. Þannig byggðist kerfi Kraepelins á því að þekkja sjúkdóma með því að sjá einkennamynstur þeirra. Það að þekkja sjúkdóma á einkennamystri þeirra er mikilvægt þegar orsakir sjúkdóms eru ekki ljósar, líkt og í geðklofa. Með því að skoða DSM-IV kerfið sem og ICD kerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar má sjá að þetta atriði Kraepelins, að ákvarða sjúkdóm út frá einkennamynstri, er einmitt það sem notað er í dag og finnst einnig í öðrum kerfum. Kraepelin renndi einnig stoðum undir þá kenningu að geðklofi og tvískautaþunglyndi gengi í erfðir með því að sýna fram á að geðklofi væri algengari meðal ættingja geðklofa en annarra. Kraepelin skrifaði einnig um mynstur geðklofa og tvískautaþunglyndis. Þar sagði hann að í geðklofa er algengast að geðheilsu sjúklingsins hraki og virkni hans minnki, á meðan tvískautaþunglyndi sé slitróttari sjúkdómur þar sem sjúklingi batni og versni á víxl. Þessi lýsing er rétt þar sem geðklofi er sjúkdómur þar sem einstaklingi hrakar á meðan sveiflurnar eru meiri í tvískautaröskun. Kraepelin er fyrstur talinn hafa gert fullnægjandi grein fyrir "manic-depression", sem nú hefur verið skipt í þunglyndi og tvískautaröskun, og geðklofa sem hann gaf nafnið "dementia praecox". Hann var einnig félagi Alois Alzheimers sem bar kennsl á Alzheimer sjúkdóminn. Felmstursröskun. Felmsturskast er helsta einkenni felmstursröskunar. Þau eru alvarleg og algeng tímabil (fjögur eða fleiri í viku) kvíða þar sem sá sem verður fyrir þeim telur að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast, s.s. að hann sé að fá hjartaáfall. Felmsturskast er oft svo alvarlegt og án nokkurar augsjáanlegrar sálfræðilegrar ástæðu að sumir læknar töldu þau áður fyrr í raun merki um að eitthvað annað væri í rauninni að. Margir þeir sem upplifa felmstursköst hraða sér á spítala þegar þeir upplifa þau þar sem þeir eru þess fullvissir að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast og þeir telja ástæðuna vera líkamlega, s.s. hjartaáfall. Tíðni felmstursröskunar er 1 - 2% af hundraði og þau eiga sér þau eigi sér stað hjá öllum aldurshópum, þrátt fyrir að vera algengust hjá yngri aldurshópum (milli tvítugs og fertugs). Felmstursraskanir eru um tvisvar sinnum algengari hjá konum en körlum. Felmstursköst geta haft mikil áhrif á þolandann sem og þá sem nálægt honum eru. Ástæður. Það eru þrjár megin kenningar um ástæður felmstursraskana: efnafræðileg ferli í heilanum, oföndun og sálfræðileg svörun. Kenningar um efnafræðileg ferli er studdar þeirri staðreynd að ákveðin efni, s.s. natríum valda felmstursköstum. Þeir sem þjást af felmstursröskun þurfa smærri skammta af natríumi en þeir sem ekki þjást af henni. Annað lyf, þríhringja geðdeyfðarlyfið impramín (eða Tofranil) deyfir felmsturskast. Þessi staðreynd rennir nokkrum stoðum undir kenninguna um efnafræðileg ferli heilans sem orsakavald felmstursraskana. Oföndunarkenningin byggir á þeirri staðreynd að oföndun getur valdið nokkurs konar felmsturskasti. Hugmyndin er sú að fólk með felmstursröskun geti ofandað án þess að gera sér grein fyrir því og að sú oföndun komi felmsturskastinu af stað. Menn greinir hins vegar á hvort þetta geti verið ástæðan fyrir sumum felmstursköstum eða öllum. Kenningin um sálfræðilega afturverkun byggir á þeirri staðreynd að þeir sem þjást af felmstursröskunum er oft meira umhugað um heilsuna en öðrum og að þeir séu því uppteknari af líkamlegri svörun sinni, sérstaklega þeirri sem tengd er felmstursröskuninni. Kenningin er sú, líkt og í almennri kvíðaröskun, að þeir oftúlki líkamlega svörun og hún auki á eða valdi felmsturskastinu. Meðferð. Algengustu meðferðirnar eru lyfjameðferð og hugræn atferlismeðferð. Atferlismeðferð hefur gefið góða raun og tilkoma sýndarveruleika er líkleg til að auka enn á gagnsemi hennar. Anxiolytic lyf, líkt og benzodiazepines, hafa ekki sama gagn og þau gera í almennri kvíðaröskun. Þríhringja geðdeyfðarlyfið impramín hefur mikið verið notað en hefur óþægilegar aukaverkanir. Paroxetine (eða Seroxat) sem er lyf sem líkist hinu vel þekkta þunglyndislyfi Prozac, er árangursríkara og hefur færri aukaverkanir. Hugrænar meðferðir byggjast á því að sýna þolendum að einkennin sem hafa svo alvarlegar afleiðingar fyrir þá eru auðveldlega skýranleg, s.s. að aukinn hjartsláttur sé ekki merki um hjartaáfall eða annað jafn alvarlegt. Oft er einnig sýnt fram á hvernig oföndun getur komið af stað kasti (að sjálfsögðu er einstaklingurinn látinn anda aftur í poka þar til kastið er liðið). Þessi einfalda sýnikennsla virðist skila árangri við að minnka einkenni. Kynlífsraskanir. Kynlífsraskanir kallast þeir erfiðleikar og geðraskanir sem tengjast kynlífi. Kynhvöt er flókið ferli sem felur í sér líffræðilegar, hugrænar og hegðunarlegar breytingar og sem er undir áhrifum frá samfélaginu. Kynferðisleg örvun er örvun einstaklings, líkamlegri og andlegri. Fullnæging er þegar líkamleg örvun nær hámarki, líffræðilegar breytingar verða og losun kynferðislegrar spennu. Tegundir. Kynlífsröskun er tíð vandamál með kynferðislegan áhuga eða viðbragð sem veldur einstaklingnum vandræðum eða streitu. Þrátt fyrir að kynhvöt eigi sér orsök í líffræðilegu ferli (s.s. sykursýki) virðist kynlöngun manna harla misjöfn. Lítil kynlöngun einstaklings þarf þess vegna ekki að merkja það að eitthvað sé að. Einstaklingur sem einungis stundar kynlíf einu sinni í mánuði getur verið fullkomlega ánægður með það. Í þess háttar tilfellum er bara vonandi að makinn sé það einnig. Alvarlegri er því ónæg kynferðisleg örvun. Ónæg kynferðisleg örvun birtist meðal annars í því að karlmaður nær ekki nægri stinningu fyrir mök eða getur ekki haldið henni meðan á mökum stendur. Í konum er vandamálið vanalega að konur nái ekki að blotna nægjanlega mikið, fyrir eða á meðan samförum stendur, sem veldur því að samfarir verða erfiðar eða sársaukafullar. Vandræði við ris eða að blotna ekki nægjanlega mikið getur einskorðast við einn aðila en það getur einnig komið fyrir einstaklinginn alltaf. Algengast er að karlinn nái ekki að halda risi í sumum tilfella en möguleiki er að það gerist alltaf. Þessi vandamál aukast yfirleitt með aldrinum. Það að geta ekki haldið reisn er ástæða meiri en helmingi karlmanna sem leita til sérfræðings vegna kynlífsraskana. Kynlífsraskanir geta verið fylgifyllar annarra raskana, s.s. þunglyndis eða kvíða. Einnig geta sum lyf haft áhrif á kynhvöt einstaklinga. Mýmargar ástæður eru fyrir kynlífsröskunum. Orsakarinnar getur verið að finna í persónuleika, uppeldi, skorti á upplýsingum eða ranghugmyndum eða misnotkun. Aðrar ástæður eru m.a. slæmt samband, framhjáhald, skortur á kynlífsreynslu, aldur, streita, kvíði og áfengi eða fíkniefni. Oft er um að ræða persónuleg vandamál, kvíða, skort á hæfni til samskipta eða einhver vandræði í sjálfu sambandi einstaklingsins. Rannsóknir beinast æ meira að frammistöðukvíða karlmanna. Frammistöðukvíði er þegar karlmaður er hræddur um að frammistaða hans verði ekki fullnægjandi og sá ótti veldur því að hún er það ekki. Fullnæging - bæði kyn geta upplifað vandamál við fullnægingu. Karlar geta upplifað of brátt sáðlát en konan getur átt í erfiðleikum með að fá fullnægingu. Of brátt sáðlát karlmanns er sennilega algengasta form kynlífsraskana. Afleiðing þess fyrir karlmenn geta t.d. verið tilfinning um vanmátt á kynlífssviðinu. Seinkað sáðlát er hins vegar þegar karlmaðurinn á í erfiðleikum með að fá sáðlát. Bæði getur verið um að kenna líffræðilegum þáttum og andlegum. Dæmi um það er ef karlmaðurinn hefur tvíræðar tilfinningar til hins aðilans eða þá að orsakanna getur verið að leita í uppeldi viðkomandi, s.s. ef hann hefur verið alinn upp við að kynlíf sé eitthvað „óheilbrigt“. Helsta röskun kvenna er fullnægingarröskun, þ.e. vandamál við að fá fullnægingu þrátt fyrir kynferðislega spennu. Fyrir konur virðist það algengara að vandræði við að fá fullnægingu sé fyrir lífstíð fremur en að hún sé tímabundin. Það er með öðrum orðum erfitt fyrir konu sem hefur náð að fá eðlilegar fullnægingar að snú því við. Það getur þó gerst, s.s. ef henni hafi verið nauðgað. Annað dæmi um kynlífsröskun er "dyspareunia" þar sem einstaklingur finnur fyrir verkjum í kynfærum fyrir, á meðan eða eftir samfarir. Konur geta einnig upplifan "vaginismum" þar sem ósjálfráðir kippir í ytri hluta legganga gerir samfarir erfiðar. Þegar hugað er að kynlífsröskunum verður að hafa það í huga að það sem telst eðlilegt fyrir einn aðila getur verið röskun fyrir annan. Fólk upplifir kynlíf á mismunandi hátt og kynlöngun og tími fullnægingar er mismunandi. Einnig verður að hafa það í huga að vandamál í kynlífinu geta verið af öðrum toga en að ofan er getið. Sem dæmi geta geðsjúkdómar, s.s. þunglyndi og kvíði haft mikil, og oft tímabundin, áhrif á frammistöðu einstaklings og er þá að sjálfsögðu ákjósanlegast að beina meðferð að þeim sjúkdómum áður en ráðist er í kynlífsraskanir. Ef einstaklingur greinist með sjúkdóm á ási I í DSM-IV fær hann enda ekki greiningu á kynlífsröskun. Meðferð við kynlífsröskunum. Meðferð við kynlífsröskunum byggir yfirleitt á samþættingu sálaraflskenninga, hugrænnar atferlismeðferðar og fjölskyldumeðferðar. Eins og svo oft reynist það mörgum erfitt að leita sér meðferðar við vandamálum í kynlífinu og eru án efa nokkrir þættir sem því valda. Það er án efa erfitt fyrir einstaklinga að viðurkenna að hann eigi við vandamál að stríða á þessu sviði og eins getur einstaklingur kosið að hunsa vandamálið í þeirri von að það lagist. Vegna þessa er það auðvitað mikilvægt að meðferðaraðili hlusti vel á það sem einstaklingurinn segir og sýnir því skilning. Nauðsynlegt er að fá eins ítarlegar upplýsingar og mögulegt er, s.s. um það hvenær vandamálið hófst, hvenær það kemur fyrir, áhrif þess og það hvaða orsakir einstaklingurinn sjálfur telur vera. Meðferð byggir oft á því að par sé saman í meðferð (þar sem um par er að ræða). Ástæða þess er að vandamáli getur átt upptök sín í samskiptum aðilanna, að það er líklegra til að leysast með góðri samvinnu auk þess sem það hefur að sjálfsögðu áhrif á báða aðilana. Þannig er nauðsynlegt að fá viðhorf hins aðilans við vandamálinu, hvaða áhrif það hefur á hann og hvaða orsök hann telur fyrir því. Þó getur stundum verið nauðsynlegt fyrir meðferðaraðila að hitta annan aðilann í einu t.d. til að fá upplýsingar um atriði sem hann getur ekki rætt við þegar hinn er viðstaddur, s.s. framhjáhald eða kynferðisóra. Í sumum tilfellum getur annar aðilinn einnig neitað að taka þátt í meðferð með hinum aðilanum. Meðferð byggir vanalega á því að einstaklingum er kennd samskiptatækni, reynt er að minnka áhyggjur og kvíða þeirra, s.s. frammistöðukvíða og að beina athyglinni að hinum aðilanum og þeirri ánægju sem hægt er að fá út úr kynlífi. Atferlis- og hugrænar meðferðir. Meðferð Masters og Johnson er ekki svo ólík meðferðum atferlissinna. Atferlissinnar búa oft til þrepakerfi þar sem einstaklingnum er leyft að snerta aðeins ákveðna líkamshluta fyrst og svo er fleirum bætt við. Margir atferlissinnar hafa jafnframt tekið upp aðferðir Masters og Johnson og þróað þær áfram innan sinna marka, s.s. með herminámi. Auk þess hafa margir þeirra tekið slökun inn í meðferðir. Merferðaraðilar eru auk þess farnir að taka aðra þætti inn í meðferðir. Dæmi um það eru kynlífsórar manna. Kynlífsórar geta enda gegnt mikilvægu hlutverki í því að örva fólk og gera því ljóst hvað það vill í kynlífinu. Árangur kynlífsmeðferðar. Þeir rannsakendur sem hafa kannað árangur kynlífsmeðferða hafa fengið afar mismunandi niðurstöður. Vandamálið liggur ekki hvað síst í því að skilgreining á árangri er oft ábótavant of fáar fylgnirannsóknir eru gerðar. Þetta felur að sjálfsögðu í sér að samanburður á meðferðum er varla til staðar og því erfitt að ákvarða hvaða meðferð hentar best. Kynlífsraskanir. Helsta einkenni þessa flokks er röskun á kynferðislegri virkni. Þetta getur falið í sér vanhæfni til að fá fullnægingu, sársauka við kynmök, óbeit á kynlífi eða ýkt viðbrögð eða áhugi á kynlífi. Útiloka verður að lyf valdi röskuninni fyrir greiningu og einkennin verða að hafa áhrif á daglega virkni einstaklingsins. Kynlífsröskun vegna almenns læknisfræðilegs ástands. Þegar það eru sannanir fyrir því að almennt læknisfræðilegt ástand er eina lífeðlisfræðilega ástæða kynlífsraskana er þessi greining viðeigandi. Kyngervi. Kyngervi er ein af grunnstoðum persónuleikans og vísar til þess hvort einstaklingurinn upplifir sig sem karlkyns eða kvenkyns. Hugtakið vísar þannig yfirleitt til þeirrar skoðunar sem og hegðunar sem fólk sýnir og sem er einkennandi fyrir annað hvort kynið. Börn verða meðvituð um það á unga aldri hvoru kyninu þau tilheyra og eftir það er afskaplega erfitt að breyta kyngervi þeirra. Það er nauðsynlegt að átta sig á því að kyngervi hefur ekkert að gera með kynhneigð þar sem kynhneigð vísar til þess hvoru kyninu einstaklingurinn laðast að en kyngervi hvoru kyninu einstaklingurinn telur sig tilheyra. Kyngervi ræðst af mörgu. Það sem hefur áhrif á hana er sennilega líkamlegur þroski, félagslegt umhverfi og hormónar sem hafa áhrif á líkamann. Kyngervi tengist líkamlegu útliti, löngunum og því hvoru kyninu viðkomandi telur sig tilheyra. Kyngervisröskun í börnum. Börn sem ekki hafa náð kynþroska geta hæglega verið óörugg með það hvoru kyninu þau tilheyra. Stúlkur geta haldið því fram að þau séu, eða vilji vera, strákar og öfugt. Börn geta haldið því fram að kynfæri þeirra eigi eftir að breytast síðar á ævinni og jafnvel sýnt fyrirlitningu á eigin kynfærum. Fæstir foreldrar líta á þetta sem vandamál í upphafi, svo sem ef stúlka heimtar að hár hennar sé klippt stutt. Með tímanum geta foreldrar hins vegar farið að hafa áhyggjur og leitað til sérfræðinga með þá spurningu hvort eitthvað sé að barninu þeirra. Það þarf þó alls ekki að vera að barn sem sýnir hegðun sem er dæmigerð fyrir hitt kynið sé haldið kyngervisröskun og verður að sjálfsögðu að skoðast í hverju tilfelli fyrir sig. Rannsakendur greinir á um það hvort barn sem sýni hegðun dæmigerða fyrir hitt kynið sé líklegt til að „verða“ samkynhneigt þegar fram líður. Þessi spurning leiðir hins vegar aftur að spurningunni um það hvort samkynhneigð sé ásköpuð eða áunnin. Og þrátt fyrir að líklegra sé að barn sem sýnir hegðun sem er dæmigert fyrir hitt kynið verði samkynhneigður einstaklingur stendur eftir spurningin um orsök og afleiðingu. Sýnir barnið dæmigerða hegðun hins kynsins af því að það er samkynhneigt eða verður það samkynhneigt af því að það sýnir hegðunina. Kynímyndunarröskun í fullorðnum. Áður fyrr var það talið að upplifa sig í röngum líkama geðsjúkdómur, en í dag er ekkert samfélag geðlækna sem viðurkenna það sem geðrænan kvilla, heldur líkamlegan fæðingargalla. Transsexual einstaklingar upplifa mikla þörf til að leiðrétta kyn sitt til að samsvara kynímynd sinni. Tölur um transfólk eru lágar. Þær benda til þess að einn af hverjum 30.000 körlum og ein af hverjum 100.000 konum í sumum löndum Evrópu óski eftir kynleiðréttingu. Hins vegar er mikill ágreiningur um það hvort þessar tölur séu réttar. Transsexual einstaklingur er sá sem lætur leiðrétta kyn sitt, með hormónameðferð og skurðaðgerð á kynfærum. Transkonur (einstaklingar sem fæðast líffræðilega karlkyns og láta leiðrétta kyn sitt í kvenkyn taka inn estrógen sem m.a. veldur því að brjóstin stækka og breyting verður á líkamsfitu. Transmenn (einstaklingar sem fæðst líffræðilega kvenkyns og láta leiðrétta kyn sitt í karlkyn) takatestósterón sem veldur minnkun brjósta, stækkun snípsins, auknum vexti líkams- og andlitshára og breytingu á líkamsfitu. Með skurðaðgerð er líffræðilegt kyn leiðrétt. Blætisdýrkun. Algengasta blætisdýrkunin snýr að fótum. Blætisdýrkun (eða fetishismi) er hugtak sem venjulega er notað um kynferðisáráttu tengda ákveðnum hlutum eða líkamspörtum sem oft er talinn óvenjuleg. Hugtakið var upphaflega myndað á 18. öld og var það notað yfir fyrri stig trúar þar sem hlutir hafa yfirnáttúruleg völd yfir mönnum. Sigmund Freud tók síðar upp orðið og notaði yfir hvöt sem beinist að ákveðnum hlutum eða afmörkuðum hluta manneskju. Þar sem um er að ræða dauða hluti koma málefni blætisdýrkunar sjaldan fyrir opinberlega. Fyrir kemur þó að blætisdýrkun gangi svo langt að stela hlutum sem þeir svo nota til að fá útrás fyrir kynhvöt sína. Dæmi um þess háttar hluti eru notaðar kvenmannsnærbuxur. Algengt er að blætisdýrkendur laðist að gúmmíi, annaðhvort þar sem einstaklingurinn klæðist gúmmífötum eða maki hans. Blætisdýrkun er langvinnandi og fræðimönnum hefur reynst erfitt að útskýra hann. Blætisdýrkendur leita sjaldan meðferðar. Þegar það gerist er það oft vegna þess að þeir hafa verið skikkaðir til þess, s.s. af yfirvöldum eða mökum. Meðferð hefur gefið einhvern árangur þar sem hlutir sem blætisdýrkendur sækjast eftir eru paraðir við fráreiti líkt og raflost. Klæðskiptablæti. Klæðskiptablæti (e. transvestic fetishism) er ákveðin tegund blætisdýrkunar sem einkennist af því að vilja klæðast fötum hins kynsins í þeim tilgangi að örvast kynferðislega. Tíðni notkunarinnar getur verið afar misjöfn, allt frá því að klæðast fötum hins kynsins af og til og til þess að klæðast þeim alltaf. Nánast undantekningarlaust er um gagnkynhneigða karlmenn að ræða sem klæðast kvenmannsfötum. Ekki er alltaf hægt að sjá þetta þar sem karlmenn klæðast stundum kvenmannsundirfötum innan undir eigin fötum. Oft fróa karlmenn sér þegar þeir klæðast þessum fötum. DSM-IV skilgreinir röskunina aðeins í gagnkynhneigðum karlmönnum. Röskunin kemur oftast fram á unglingsárum. Þrátt fyrir að sumir fræðimenn bendi á það sé ýmislegt sameiginlegt með kynskiptum og klæðskiptingum þá er áberandi munur á milli raskananna. Þar er helst að líta til þess að kynskiptar vilja breyta kynfærum sínum og eiga líf sem meðlimur hins kynsins. Þeir upplifa ekki kynferðislega örvun þegar þeir klæðast fötum hins kynsins á meðan það gildir oft um klæðskiptinga sem þó eru fullkomlega sáttir við eigið kyn. Rannsóknir benda til þess að klæðskiptar eigi erfiðara með persónuleg samskipti og séu sjálfstæðari en þeir sem ekki eru klæðskiptar. Sálfræðingar leggja áherslu á nokkrar nálganir; sálaraflskenningar, skilyrðingu og líffræðilegt fornæmi og gefa mismunandi skýringar á hegðuninni, þ.á m. brengluð samskipti einstaklingana við foreldra. Kvalalosti. Tvær bundnar stúlkur í leður(líkis)fatnaði. Leður getur verið áhugaefni blætisdýrkenda Kvalalosti (eða sadismi) felst í því að fá kynferðislega ánægju út úr því að kvelja, binda eða niðurlægja hinn aðilann í kynlífi. Kvalalosti er nátengdur ýmiss konar blætisdýrkun og fer yfirleitt fram sem einhvers konar hlutverkaleikur. Þeir sem leggja stund á slíkt kynlíf gera það yfirleitt eftir ströngum reglum til að tryggja að samþykki gagnaðilans sé fyrir hendi og til að koma í veg fyrir slys. Gagnaðilinn er sá sem haldinn er sjálfspíningarhvöt (masókisma). Alþjóðlega heitið sadismi er dregið af nafni franska rithöfundarins Marquis de Sade sem var þekktur fyrir skáldsögur sem lýstu á opinskáan hátt þeirri kynferðislegu nautn sem felst í kvalalosta. Sjálfspíningarhvöt. Sjálfspíningarhvöt (eða masókismi) merkir, eins og nafnið gefur til kynna, eigin niðurlægingu og sársauka. Kynórar masókista snúast vanalega um einhvers konar niðurlægingu, líkt og að vera barðir, píndir eða nauðgað, þ.e. að vera undir annan aðila komnir. Gægjuhneigð. Gægjuhneigð (eða voyeurismi) byggir á að fylgjast með öðrum aðilum, eða liggja á gægjum, vanalega ókunnugum og vanalega fólki sem er að stunda kynlíf. Gægjuhneigð er röskun sem ekki er líkamlega skemmandi en getur sært blygðunarkennd þeirra sem fyrir henni verða. Sá sem haldinn er gægjuhneigð finnur til mikillar hvatar til að njósna um aðra og hann fær útrás fyrir kynhvöt sína með því að gera eitthvað sem er bannað. Sá sem gægist fróar sér stundum á meðan hann liggur á gægjum eða eftir það. Það getur gerst á mörgum stöðum, t.d. við glugga, á almenningsstöðum o.s.frv. Einstaka sinnum lætur sá sem gægist fórnarlömbin vita af nálægt sinni og reynir jafnvel að nálgast þau en það er í undantekningartilvikum. Algengara er að hann leggi á flótta ef upp um hann kemst. Margir þeirra karlmanna sem nást fyrir gægjur eru giftir. Sannanir eru um að hvötin aukist þegar einstaklingurinn finnur fyrir mikilli streitu. Frotteurismi. Frotteurismi er það þegar einstaklingur örvast kynferðislega af því að nudda líkama sínum eða kynfærum upp við aðra manneskju sem hefur ekki samþykkt það. Nuddið getur verið gagnvart ákveðnum líkamshluta eða ekki. Yfirleitt er um að ræða unga karlmenn sem nudda sér upp við kvenmenn og það á sér yfirleitt stað við aðstæður þar sem er mikil mannþröng. Það á sér oft stað ásamt öðrum kynlífsröskunum svo sem strípihneigð. Oftast forðar einstaklingurinn sér áður en athæfi hans uppgötvast eða viðkomandi nær að gera mál út úr því. Strípihneigð. Strípihneigð er kynlífsafbrigði, sem lýsir sér þannig, að þeir, sem eru haldnir strípihneigð, bera kynfæri sín fyrir ókunnugum, koma þeim þannig á óvart og fá þannig kynferðislega örvun. Vanalega bera karlmenn kynfæri sín fyrir konum og börnum. Striplingurinn er yfirleitt sauðmeinlaus að öðru leyti. Striplingurinn finnur oft til sektar yfir því sem hann gerir. Hann finnur þó jafnframt til hvatar til að bera sig og þegar þær tilfinningar verða nægjanlega sterkar gerir hann það. Atferlismeðferðir og sálaraflsmeðferðir eru notaðar sem meðferð, en árangur þeirra er óljós. Geðklofi. Geðklofi er alvarlegur geðsjúkdómur sem felur í sér breytingu á hugsun, hegðun og tilfinningum. Algengi geðklofa er 0,6 - 1% og sjúkdómurinn er jafn algengur hjá báðum kynjum. Þessar tölur merkja að nálægt 50 milljónum manna þjáist af geðklofa í heiminum. Sjúkdómurinn kemur vanalega fyrr fram hjá körlum, jafnvel á unglingsaldri. Fyrstu einkenni geðklofa geta haft dramatísk áhrif á aðstandendur geðklofans þar sem þau geta vikið algerlega frá fyrri persónuleika einstaklingsins. Fólk sem þjáist af geðklofa upplifir oft hræðilegar ofskynjanir og ranghugmyndir, svo sem að einhver sé að reyna að drepa það. Tal geðklofasjúklinga er oft samhengislaust. Einnig geta líkamseinkenni þeirra verið flöt og svipt öllum tilfinningum. Einkennin gera það oft að verkum að annað fólk hræðist geðklofa og fordómar í garð geklofa eru miklir. Oft er hægt að halda sjúkdómnum niðri en flestir þeirra sem greinast með geðklofa þjást þó af honum ævilangt, þó svo að nokkur hluti nái fullum bata. Upprunalegt nafn sjúkdómsins merkir "splundraður hugur" og vísar til alvarlegrar röskunar á hugsunum sem eru helsta einkenni geðklofa. Íslenska nafn sjúkdómsins, geðklofi, veldur oft misskilningi. Algengt er að fólk telji geðklofa fela í sér einhvers konar breytingu á huganum, að einstaklingar sem þjást af geðklofa hafi klofinn huga og geti þannig jafnvel verið margir persónuleikar í einu. Sá sjúkdómur sem fólk á þar við kallast dissociative identety disorder. Sá sjúkdómur á enda afskaplega fátt sameiginlegt með geðklofa þar sem geðklofi felur langt í frá í sér að einstaklingurinn þrói með sér einhvern annan persónuleika. Rannsóknir manna á sjúkdóminum beinast í æ ríkari mæli að magni dópamíns í heila og því hvort orsök sjúkdómsins liggi þar. Lyf sem breyta upptöku dópamíns í heila minnka einkenni geðklofa. Einkenni geðklofa eru flokkuð í jákvæð og neikvæð einkenni Saga geðklofa. Frásagnir af geðklofa má finna allt til ársins 2000 fyrir Krist. Það var hins vegar Emil Kraepelin sem fyrst skilgreindi geðklofa. Upprunalegt heiti sjúkdómsins var "dementia praecox", sem þýða má sem snemmær vitglöp. Ástæða nafngiftarinnar var sú að Kraepelin beindi rannsóknum sínum helst að ungu fólki sem þjáðist af geðklofa fremur en eldra. Það var svo Eugene Bleuler sem fyrstur kom fram með hugtakið geðklofi og var hugmyndin sú að vísa í skort á samvirkni milli hugsanaferlis og skynjunar. Bleuler var einnig fyrstur til að lýsa sumum einkennum geðklofa sem neikvæðum. Einkenni geðklofa. Einkennum geðklofa er skipt í jákvæð og neikvæð einkenni. Ástæða skiptingarinnar hefur ekkert að gera með það hvort einkennin séu jákvæð fyrir einstaklinginn eða ekki heldur er ástæðan sú að lyfjameðferð gagnast mun betur fyrir einstaklinga sem helst þjást af jákvæðum einkennum heldur en þeirra sem helst þjást af neikvæðum og batahorfur þeirra einstaklinga, svo sem viðbragð við lyfjagjöf, eru mun betri en þeirra sem helst þjást af neikvæðum einkennum. Jákvæð einkenni. Ofskynjanir: Ofskynjanir geta falið í sér heyrnar-, sjón- eða snertiofskynjanir. Það að heyra raddir sem aðrir heyra ekki er eitt algengasta einkenni geðklofa. Efni þeirra getur verið mismunandi, allt frá athugasemdum til þess að vara einstaklinginn við öðru fólki, atburðum eða stöðum ásamt því að skipa einstaklingnum að gera eitthvað. Geðklofar geta heyrt margar mismunandi raddir og þær geta verið frá fólki sem þeir þekkja sem og frá upphugsuðum einstaklingum. Rannsóknir á heila geðklofa, framkvæmdar með PET skanna, sýna að þegar einstaklingur með geðklofa heyrir ímyndaðar raddir þá eru sömu svæði heilans virk og þegar hann heyrir raunverulegt tal. Ranghugmyndir: Ranghugmyndir eru undarlegar hugmyndir sem víkja frá fyrra hugsanamynstri einstaklingsins og ómóttækileika fyrir upplýsingum sem gefa annað til kynna en það sem einstaklingurinn telur. Ranghugmyndir eiga sér þannig ekki neina raunverulega ástæðu eða sönnun. Ranghugmyndir geta verið mismunandi. Einstaklingurinn getur talið að einhver vilji drepa sig, eða þá að hann getur talið að hann sé í raun og veru einhver frægur. Truflun á hugsunum: Truflun á hugsunum felur í sér hugsanir sem víkja frá því sem eðililegt getur talist. Hugsanir geta komið og farið skyndilega, að því er virðist án allra tengsla. Einbeitingarskortur getur verið algengur, upp að því marki að einstalingurinn getur ekki haldið athygli sinni á neinu nema í skamma stund. Einnig geta geðklofar átt í vandræðum með að gera sér grein fyrir því hvað er viðeigandi við ákveðnar aðstæður. Allt þetta gerir samtal við geðklofann erfitt og veldur oft félagslegri einangrun. Neikvæð einkenni. Neikvæð einkenni eru skortur á hreyfigetu eða framkomu, áhrif á athygli og einbeitingu, minni og nám og geta falið í sér félagslega hlédrægni, skerta hreyfigetu og skort á tilfinningum og frumkvæði eða framtakssemi. Oft er einkennum lýst þannig að þau séu flöt eða sljó. Andlit geðklofa geta verið svipbrigðalaus, rödd hans getur verið eintóna og líkamstjáning hans að því er virðist án allra tilfinninga. Skortur á áhuga, frumkvæði og framtakssemi getur valdið því að geðklofinn geri ekki neitt dögunum saman. Þrátt fyrir að meðferðaraðilar eigi auðvelt að greina á milli geðklofa og multiple personality disorder eiga þeir oft erfitt með að aðgreina hann frá öðrum geðsjúkdómum. Það ræðst af því að einkenni geðklofa skarast oft við einkenni annarra geðsjúkdóma, og þá sérstaklega persónuleikaraskanir eða áráttu-þráhyggjuröskun. Psychotísk einkenni geðklofa geta sést í öðrum röskunum, svo sem geðhæð og vímuefnamisnotkun og neikvæð einkenni eru mörg hver einnig dæmigerð einkenni þunglyndis. Hugtakið schizoaffective disorder er notað þegar einstaklingur þjáist af þeim hugsanaröskunum sem tengjast geðklofa ásamt persónuleikaröskun, sem fylgja tvískautaröskun eða þunglyndi. Öfugt við flesta aðra sjúkdóma snúa sjúklingar með geðklofa ekki til venjulegs ástands þar sem þeir geta tekið upp fulla virkni sína án þess að þurfa að nota lyf. 1. Stjarfageðklofi (e. "catatonic"). Þessi flokkur einkennist af truflun á hreyfingu. Sjúklingurinn er hreyfingalaus og bregst ekki við áreiti frá umhverfinu, svo sem leiðbeiningum annarra. Auk þess getur stjarfageðklofi sýnt skyndilega kippi. Stjarfageðklofi getur einnig falið í sér að viðkomandi er kyrr í sömu stöðu í langan tíma. Eitt einkenni sem stundum sést er vaxhreyfanleiki þar sem hægt er að móta stöðu einstaklingsins eftir eigin höfði. Stjarfageðklofi einkennist þannig af líkamlegum einkennum. 2. Ofsóknargeðklofi (e. "paranoid"). Ofsóknargeðklofi er algengari meðal karlmanna en kvenna og upphaf hans er oftast þegar einstaklingurinn er 15 til 34 ára. Ofsóknargeðklofar þjást stöðugt af tilfinningu um að fylgst sé með þeim, þeir séu eltir eða jafnvel ofsóttir. Ofsóknargeðklofar þróa með sér ranghugmyndir þar sem þeir þurfa að verja sig gegn þeim sem ofsækja þá. Í þó nokkrum tilfellum þarf að leggja inn ofsóknargeðklofa. Það er engin lækning við ofsóknargeðklofa en hægt er að halda honum niðri og minnka eða hætta ranghugmyndum með lyfjum. Algengt vandamál er að ofsóknargeðklofar neiti að taka lyfin sín sem veldur því að þeir falla aftur í sama farið. Orsakir ofsóknargeðklofa eru ekki ljósar en talið er að sjúkdómurinn gangi í erfðir. Streita veldur ekki ofsóknargeðklofa en hún hefur áhrif á þróun og alvarleika hans. Áður en sjúkdómurinn brýst að fullu fram eru einkenni hans oft ljós fjölskyldumeðlimum geðklofans. Meðal algengra einkenna eru ráðaleysi, taugaveiklun, undarleg hegðun, afskiptaleysi og reiði. 3. Óreiðugeðklofi (e. disorganized). Óreiðugeðklofi einkennist af samhengislausu tali, ofskynjunum og ranghugmyndum, undarlegri hegðun, félagslegri einangrun og litlum tilfinningum. Ofskynjanirnar og ranghugmyndirnar geta haft þema en ólíkt því sem á sér stað í ofsóknargeðklofa eru þær yfirleitt samhengislausar. Hegðun þeirra með óreiðugeðklofa er oft lýst sem heimskulegri eða barnalegri. Sjúkdómurinn kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 25 ára aldur. Þunglyndi eða psychosis í fjölskyldu er talið auka líkur á því að barn greinist síðar með óreiðugeðklofa. 4. Ósundurgreindur geðklofi (e. undifferentiated). Í ósundurgreindum geðklofa uppfyllir einstaklingurinn skilgreiningu fyrir geðklofa en fellur þó ekki í þrjá áðurnefnda flokka eða getur mögulega fallið í fleiri en einn án þess að hægt sé að gera á milli þeirra. Nauðsynlegt er að reyna að staðsetja sjúklinga í einhverjum þriggja flokkanna áður en þeir eru skilgreindir með ósundurgreindan geðklofa. 5. Residual geðklofi. Þá hefur einstaklingurinn verið skilgreindur með geðklofa en er laus við psychotísk einkenni. Einstaklingar í þessum hópi sýna hins vegar oft áfram einhver einkenni svo sem félagslega einangrun og litlar tilfinningar. Orsakir geðklofa. Það er engin ein ástæða geðklofa. Flestir sjúkdómar eru tilkomnir vegna margra þátta, svo sem erfðafræðilegra, atferlis- og umhverfisþátta og það sama gildir um geðklofa. Talið er að einstaklingar hafa í sér nokkurs konar "auðveldleika" fyrir geðklofa, það er að genafræðilegar ástæður liggi að baki geðklofa. Þó er talið að eitthvað þurfi til að kveikja geðklofann, það er að segja, eitthvað utanaðkomandi þarf að hafa áhrif á einstaklinginn og koma geðklofanum þannig af stað. Þetta getur falið í sér atburði, svo sem dauðsfall ættingja eða ástarsorg eða eitthvað annað. Meðferð við geðklofa byggir á því að minnka einkenni sjúkdómsins og gera þeim sem af honum þjást það kleift að lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi. Arfgengi. Geðklofi er algengur í sumum fjölskyldum. Ættingjar geðklofa eru frekar í hættu á að fá geðklofa en þeir sem ekki eiga ættingja með geðklofa og hættan er meiri eftir því sem einstaklingarnir eru líkari hvor öðrum genalega. Ef annar eineggja tvíbura hefur geðklofa eru 40 - 50% líkur á því að hinn hafi einnig geðklofa. Ef annað foreldri þjáist af geðklofa eru um 10% líkur á að barnið hafi einnig geðklofa. Eins og áður segir er algengi geðklofa um eða innan við 1%. Rannsóknir á einstaklingum sem ekki hafa verið aldir upp hjá raunverulegum foreldrum benda einnig til þess að orsökin sé genafræðileg en ekki uppeldisleg. Sú staðreynd að börn geðklofa eru jafn líklegt til að fá geðklofa hvort sem þau alast upp hjá fósturforeldrum eða raunverulegum foreldrum styður þá kenningu enn fremur. Genarannsóknir gefa til kynna að mörg gen leiki hlutverk í geðklofa. Rannsóknir hafa helst beinst að litningum 13 og 6 en þeir hafa ekki verið staðfestir. Taugafræði. Sú kenning hefur komið fram að geðklofi sé taugafræðilegur sjúkdómur þar sem þróun heilans á meðgöngu valdi sjúkdóminum. Það að sjúkdómurinn komi ekki fram fyrr en eftir kynþroska er þá meðal annars útskýrt með því að taugakerfi líkamans nái á einhverjum tíma ekki að valda þeirri streitu sem oft er til staðar í lífinu. Til stuðnings þessari kenningu hefur verið sýnt fram á það að vandamál við meðgöngu og fæðingu auki líkurnar á geðklofa tvö- til þrefalt og því meiri, eða fleiri, sem vandamálin eru því meiri líkur eru á að barnið fái geðklofa. Veirusýking mæðra á meðgöngu hefur einnig verið tengd geðklofa. Það er áhugavert að fleiri börn fæðast með geðklofa seint um vetur eða á vori en á öðrum árstímum. Veirusýkingar eru enda algengari á veturna og rennir það stoðum undir kenninguna. Fræðimenn eru hins vegar flestir á því máli að veirusýking mæðra á meðgöngu sé aðeins ein möguleg orsök geðklofa og sé ábyrg fyrir litlum hluta hjá þeim sem greinast með geðklofa. Formgerð heila sumra geðklofa virðist frábrugðin venjulegum heila og á það jafnt við um konur og karla. Rannsóknir hafa sýnt að þriðja heilahol geðklofasjúklinga er oft óeðlilega stórt og stærðina er ekki hægt að skýra með þáttum eins og aldri eða meðferð. Ástæðan er talin vera vegna einhvers sem gerist á fósturskeiði barnsins en hvað er ekki vitað. Þar sem aukin stærð virðist hafa komið fram þegar einkenni geðklofans koma fyrst í ljós er víst að stækkað heilahvel er ekki afleiðing sjúkdómsins. Athuga verður hins vegar að þessi afbrigðileiki heilauppbyggingar er ekki til staðar hjá öllum geðklofasjúklingum, heldur benda rannsóknir til þess að hún verði aðeins hjá um þriðjungi þeirra. Að sama skapi á hún sér einnig stað hjá einstaklingum sem ekki þjást af geðklofa. Sumir rannsakendur halda því ennfremur fram að hún sé aðallega tengd neikvæðum einkennum geðklofa en sú tilgáta hefur ekki verið sönnuð. Rannsóknir á þessari óvanalegu heilabyggingu líða að nokkru leyti fyrir það að aðeins er hægt að skoða heila geðklofa gaumgæfilega eftir að þeir deyja og því er ekki hægt að rannsaka hana á sama tíma og hegðun og hugsunum geðklofans er könnuð. Ný tækni í heilaskönnun ætti hins vegar að geta varpað mun betra ljósi á þetta atriði sem og önnur. GABA. Rannsóknir hafa leitt í ljós litla virkni ákveðinna heilafrumna sem sjá um að framleiða boðefni, sérstaklega gammasýru (GABA) og hafa m.a. það hlutverk að hamla virkni annarra heilafrumna. Gammasýran tengist stjórnun á móttöku skynupplýsinga heilans. Rannsóknir hafa sýnt að magn þessara taugaboðefna hjá geðklofum er óeðlilega lágt. Því er talið að þessi taugaboðefni geri það að verkum að heili geðklofa bregðist við of mörgum áreitum í umhverfinu og hafi ekki hæfileikann til að útiloka skynáreiti sem ekki eru endilega nauðsynleg honum. Dópamínkenningin. Rannsóknir hafa leitt í ljós að geðklofi tengist of miklu magni dópamíns í taugamótum (þ.e. þar sem tveir taugungar mætast og senda boð á milli). Dópamín eykur næmi taugunga í heila fyrir áreiti. Aukið næmi fyrir utanaðkomandi áreitum kemur að gagni fyrir einstaklinga þegar þeir þurfa að taka vel eftir umhverfinu, svo sem þegar hætta steðjar að þeim. Fyrir geðklofa þá eykur dópamínmagn á truflun þeirra. Lyf gegn geðklofa (svo sem clozapine) hafa enda mörg þá virkni að minnka upptöku dópamín í taugamótum og þau minnka einkenni sjúkdómsins, sérstaklega jákvæð einkenni hjá meirihluta sjúklinga. Einstaklingur sem þjáist af geðklofa og tekur lyf sem eykur magn dópamíns, svo sem amfetamín, verður verri af sjúkdómi sínum. Lyfið getur jafnvel ýtt undir geðklofalík einkenni hjá fólki sem ekki þjáist af geðklofa. Lyfjameðferð. Þær meðferðir sem taldar eru gagnslausar eru skurðaðgerð, raflostsmeðferð og insight-oriented sálaraflsmeðferð. Þumalputtaregla segir að einn þriðji þeirra sem upplifa psychotic episodes muni ná sér að fullu með eða án meðferðar, þriðjungur muni lifa nokkuð sjálfstæðu lífi fái þeir meðferð og þriðjungur mun ekki ná að lifa sjálfstæðu lífi þrátt fyrir meðferð. Lyf hafa verið gefin við geðklofa síðan á sjötta áratugnum og þau hafa til muna bætt líf einstaklinga með geðklofa. Lyfin minnka í flestum tilfellum sturlunar einkenni geðklofa og bæta til muna virkni meirihluta þeirra sem þjást af geðklofa. Lyf lækna þó ekki geðklofa heldur einungis halda þau honum í flestum tilfellum niðri og þá sérstaklega jákvæðum einkennum hans. Lyf við geðklofa hafa hins vegar sýnt takmarkaða virkni á neikvæð einkenni geðklofa. Í auknum mæli er farið að gefa lyf í sprautuformi, sem hafa mun lengri virkni en lyf í töfluformi og gera það að verkum að einstaklingurinn þarf ekki að taka lyfin sín daglega. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem margir geðklofar eiga það til að hætta á lyfjum upp á sitt einsdæmi á einhverjum tíma. Lyfjarannsóknir beinast ekki hvað síst að því að auka líftíma þessara lyfja (þannig að hægt sé að gefa þau sjaldnar með sömu virkni) og að minnka aukaverkanir þeirra. Í dag eru margvíslega aðferðir notaðar til að minna geðklofa á lyf og að fylgjast með lyfjatöku þeirra. Pillubox þar sem hver dagur er merktur eru algeng, lyf eru oft gefin með máltíðum og tæki sem láta vita hvenær eigi að taka lyf eru einnig algeng. Ekkert lyf við geðklofa er laust við aukaverkanir þó vissulega séu þær mismiklar eftir lyfjum. Sumar eru tiltölulega meinlausar á meðan aðrar eru alvarlegri. Dæmi um aukaverkanir eru þreyta, eirðarleysi, þyngdaraukning, vöðvakippir og titringur og óskýr sjón. Flest þessara einkenna hverfa ef skammtur er minnkaður eða ef breytt er um lyf. Dæmi um lyf með alvarlega aukaverkun er lyfið clozaril, sem veldur minnkun hvítra blóðkorna í blóði þess sem tekur lyfið og sem merkir að fylgjast þarf vel með sjúklingnum. Annað langtíma einkenni lyfja við geðklofa er Tardive dyskinesia (TD) sem felur í sér ósjálfráðar taugahreyfingar, oftast kringum og í munni. Tardive dyskinesia á sér stað hjá 15 - 20% þeirra geðklofa sem fengið hafa eldri lyf við geðklofa í mörg ár en getur einnig komið fram hjá þeim sem taka ný lyf við geðklofa, þrátt fyrir að líkurnar til þess séu mun minni. Einkenni tardive dyskinesia eru í flestum tilfellum mild og í sumum tilfellum verður sjúklingurinn sjálfur ekki einu sinni var við þau. Þar sem þunglyndi er algengur fylgifiskur geðklofa þá þurfa margir geðklofar einnig að taka þunglyndislyf. Að sjálfsögðu þarf að gáta þau lyf sem geðklofar taka og velja þunglyndislyf út frá því. Lyf við geðklofa eru ekki líkleg til að verða ávanabindandi. Sá misskilningur er oft ríkjandi að lyf við geðklofa séu einhvers konar "spennitreyja hugans", það er að þau séu notuð til að ná sjúklingnum hálfvegis út úr heiminum. Vissulega má nota lyf við geðklofa á þann hátt en aðeins ef farið er yfir venjulegan skammt. Markmið lyfjanna er að sjálfsögðu að hjálpa geðklofasjúklingnum en ekki að kýla þá kalda með lyfjum. Mismunandi er hversu lengi lyfjameðferð varir. Sumir þurfa aðeins lyf í skamman tíma á meðan aðrir þurfa að taka lyf alla ævi. Algengt er að geðklofar hætti að taka lyfin sín og geta ástæðurnar fyrir því verið margar. Stundum telja sjúklingar ástand sitt ekki það alvarlegt að þeir þurfi að taka lyf. Fyrir kemur að fjölskyldumeðlimir gera sér ekki grein fyrir sjúkdómnum og ráðleggja mönnum að hætta að taka lyfin. Stundum fylgjast læknar ekki nægjanlega vel með því að lyfjagöf sé fylgt eftir eða þá að þeir hlusta ekki nægjanlega vel á kvartanir sjúklingsins og óskir um að prófa ný lyf. Einnig kemur fyrir að geðklofar telji aukaverkanir alvarlegri en sjúkdóminn sjálfan og hætta þess vegna á lyfjunum. Þar sem misnotkun vímuefna er nokkuð algeng hjá geðklofum er einnig algengt að þau trufli virkni lyfjanna. Endurhæfing. Með endurhæfingu er lögð áhersla á félagslega og verklega þætti til að hjálpa sjúklingum að yfirvinna vandamál sem tengjast þessum sviðum. Endurhæfingaráætlanir geta falið í sér ráðleggingar um störf, starfsnám, lausnir við vandamálum, notkun samgangna og kennslu í því að fara með peninga. Í stuttu máli, flest það sem er nauðsynlegt til að lifa sjálfstæðu lífi meðal fólks utan hins verndaða umhverfis sjúkrahúsa. Einstaklingsbundnar meðferðir. Einstaklingsbundin meðferð byggir á reglulegum samtölum sjúklings og meðferðaraðila, hvort heldur geðlæknis, sálfræðings eða félagsráðgjafa. Meðferðin getur beinst að vandamálum í lífi sjúklingsins, reynslu hans, hugsunum, tilfinningum eða samböndum. Markmið meðferðarinnar er að einstaklingurinn nái að skilja frekar sjálfan sig og vandamál sín. Rannsóknir sýna að meðferðir sem byggja á stuðningi við sjúklinginn og sem beinast að vandamálum hans gefa góða raun fyrir geðklofa. Einna algengust meðferða er hugræn atferlismeðferð. Mikilvægt er þó að muna að þess háttar meðferð kemur ekki í staðinn fyrir lyfjameðferðir heldur eru góð viðbót eftir og á meðan lyfjameðferð hefur verið beitt. Fjölskyldumeðferðir. Geðklofar eru oft settir í umsjá fjölskyldu sinnar eftir að hafa útskrifast af sjúkrahúsum og því er mikilvægt að fjölskyldumeðlimir læri allt það sem þeir geta um sjúkdóminn og hvaða vandamálum hann veldur. Mikilvægt er að fjölskyldumeðlimir læri það hvernig minnka megi líkurnar á því að sjúklingnum hraki aftur, svo sem með því að gera sér grein fyrir þeim stuðningi sem þeim sjálfum býðst sem og hættunni á því að einstaklingurinn hætti að taka lyfin sín. Kennsla í því hvernig best er að leysa vandamál kemur t.d. að góðum notum og er líklegri til að auðvelda líf sjúklingins. Auk þess er mikilvægt að fjölskyldumeðlimir styrki jákvæða hegðun einstaklingsins og láti hann vita hvað þeim finnst. Líkt og aðrir gera geðklofar sér nefnilega ekki alltaf grein fyrir því hvað er æskileg hegðun. Fjölskyldumeðlimir sem gera sér ekki grein fyrir sjúkdóminum, einkennum hans og því hvernig eigin viðbrögð eru og eiga að vera eru líklegir til að auka á streitu einstaklingsins og því á líkur þess að sjúklingnum hraki. Dæmi eru um að fjölskyldumeðlimir hafi getað spáð fyrir um tímabil geðklofaeinkenna betur en sjúklingurinn sjálfur, svo sem með því að fylgjast með svefnvenjum hans eða breytingum á tali. Slíkt eykur að sjálfsögðu líkurnar á því að hægt verði að koma í veg fyrir tímabil einkenna. Sjálfshjálparhópar. Sjálfshjálparhópar fyrir geðklofa og fjölskyldur þeirra eru mikilvægir. Hóparnir styrkja samheldni einstaklinga og hjálpa þeim að gera sér grein fyrir því að þeir standi ekki einir, að aðrir séu í sömu sporum. Í sjálfshjálparhópum geta geðklofar og fjölskyldumeðlimir einnig fengið ráð frá öðrum sem hafa verið í sömu sporum. Þrátt fyrir að flestir leiti til sjálfshjálparhópa eftir að þeir hafa útskrifast og eru að fóta sig á ný í lífinu er gagnsemi þeirra ekki eingöngu bundið við það hlutverk. Þeir geta verið mikilvægir þrýstihópar í ýmsum málum og geta unnið að því að breyta viðhorfum fólks til sjúkdóma, sem gerir það því oft auðveldara fyrir fjölskyldumeðlimi ef sjúkdómur bankar uppá hjá þeim. Sjálfshjálparhópar, sem í upphafi hafa ef til vill haft það helst á stefnuskrá sinni að sýna samhyggð og stuðning, geta þannig þróast í það að veita upplýsingar og útrýma fordómum. Stuðningur við geðklofa getur komið úr öðrum áttum en þeim sem minnst er á hér að ofan. Prestar og vinir geta haft sitt að segja þegar kemur að því að sinna eða hjálpa geðklofa. Almennt gildir að því meiri sem stuðningurinn er og því betur sem aðrir skilja sjúkdóminn og það hvað geðklofinn gengur í gegnum, því betri eru horfurnar fyrir hann og því minni líkurnar á því að honum hraki. Þetta breytir því þó ekki að þrátt fyrir að geðklofi fái alla þá meðferð sem hann getur er ennþá hætta á að honum hraki. Batahorfur. Í um það bil þriðjungi tilfella þjáist sjúklingur af psychotic tímabili í nokkra mánuði og nær sér svo að fullu án meðferðar. Einkenni geðklofa minnka oft síðar á ævinni og tengist það minnkuðu dópamínmagni heilans. Geðklofi er ólæknanlegur en hægt er að meðhöndla hann með antipsychotic lyfjum. Hann er því oft borinn saman við sykursýki, sem er ólæknanleg en hægt er að halda í skefjum með insúlíni. Lyf við geðklofa geta haft óþægilegar aukaverkanir, svo sem truflað hreyfiskyn, og margir sjúklingar hætta að taka lyfin sín. Niðurstöður hafa gefið til kynna að insight-oriented sálaraflsmeðferð, þar sem einstaklingurinn er beðinn að skilja orsakir hugarástands síns, er tilgangslaus og getur jafnvel haft neikvæð áhrif. Batalíkur geðklofa hafa batnað síðustu áratugi. Þrátt fyrir að engin meðferð sé til sem lækni geðklofa er nauðsynlegt að muna það að margir sem fá meðferð geta lifað nokkuð eðlilegu lífi þrátt fyrir sjúkdóminn. Frekari rannsóknir, þróun lyfja og meðferðarform ættu að auka líkurnar á bata geðklofasjúklinga. Þegar fylgst hefur verið með geðklofum í langan tíma er ljóst að afar mismunandi er hvernig þeir spjara sig. Sumir þættir virðast auka líkurnar á bata geðklofasjúklinga, svo sem ef einstaklingurinn hefur lifað sjálfstæðu lífi í samfélaginu áður og stundað vinnu. Þekking okkar á sjúkdóminum takmarkar hins vegar þær ályktanir sem við getum dregið af þessum staðreyndum. Ljóst er að þörf er á frekari rannsóknum á þessum sjúkdómi sem hefur svo alvarleg áhrif á líf þeirra sem af honum þjást. Það er há tíðni sjálfsvíga meðal geðklofa og flest þeirra eiga sér stað á fyrstu árum eftir greiningu. Geðklofi og lyf. Tvennt sérstaklega getur "kveikt" geðklofa: Lyf og streita. Þá er átt við að geðklofinn komi fram þegar einstaklingur er undir miklu álagi eða neytir efna í miklum mæli. Lyf sem geta þannig aukið líkur á að geðklofi komi fram eru örvandi lyf (svo sem kókaín og amfetamín), ofskynjunarlyf (svo sem LSD) og jafnvel marijúana. Það hefur einnig vakið athygli að meirihluti geðklofa reykja. Á meðan algengi reykinga eru um 25% þá er talan hjá geðklofum allt að þrisvar sinnum hærri. Það getur verið sérstaklega erfitt fyrir geðklofa að hætta að reykja, þar sem fráhvarfseinkennin geta ýtt undir einkenni geðklofans. Það hefur einnig vakið athygli að geðklofar eru síður líklegri til að deyja úr lungnakrabbameini. Ekki er víst hver ástæðan fyrir því síðara er en hún getur legið í genum einstaklingsins eða í auknum líkum geðklofa á að deyja fyrir aldur fram. Aðrar kenningar um geðklofa. Á sjöunda áratugnum komu fram kenningar um að geðklofar væru í raun og veru ekki veikir heldur endurspegluðu þeir öfgar fjölbreytileika mannfólksins og það, ásamt því að þeir næðu ekki að aðlagast samfélaginu nægjanlega vel, ylli því að þeim væri komið fyrir á hælum. Þessi nálgun er hluti mun viðameiri spurningar: hvað er heilbrigt og hvað ekki? Á meðan þær spurningar eru þarfar og eiga í flestum tilfellum rétt á sér gera þær lítið fyrir geðklofa í sjálfu sér. Geðklofi er sjúkdómur sem finnst í öllum samfélögum og prósenta þeirra sem taldir eru þjást af geðklofa er sömuleiðis svipuð alls staðar, burtséð frá menningu. Þau rök renna stoðum undir þá staðhæfingu að geðklofi sé í raun sjúkdómur sem gangi, a.m.k. að einhverju leiti, í erfðir. Geðklofi og sjálfsvíg. Geðklofar eru í sérstaklega mikilli hættu á að fremja sjálfsvíg og talið er að allt að 10% þeirra sem þjást af geðklofa fremji sjálfsvíg, sérstaklega ungir karlmenn sem þjást af geðklofa. Engin ein ástæða er fyrir þessu en mikilvægar ástæður eru án efa sú kvöl sem oft fylgir sjúkdóminum og sú breyting á lífi einstaklinga sem hann hefur í för með sér. Geta börn verið með geðklofa? Þar sem geðklofi er líffræðilegur sjúkdómur þá geta börn, strangt til tekið, verið með geðklofa. Sjúkdómurinn kemur hins vegar ekki fram fyrr en síðar. Sumir telja ákveðin persónueinkenni barna, svo sem undarlegt tal, vera merki um geðklofa en afar fá börn upplifa ofskynjanir eða þær óeðlilegu ranghugmyndir sem finnast í geðklofa. Eru geðklofar vanalega ofbeldisfullir? Fólk með geðklofa eru ekki alla jafna hættulegir öðrum og hafa rannsóknir sýnt að ofbeldisverknaðir mælast ekki í meira hlutfalli hjá þeim en fólki án geðraskana. Margir geðklofar kjósa enda að halda sig til hlés og blanda ekki geði við aðra. Hins vegar eru nokkrir þættir sem auka líkurnar á því að geðklofar sýna ofbeldishegðun og eru þeir mikilvægustu hvort þeir hafi sýnt ofbeldisfulla hegðun áður en þeir greindust með geðklofa og það hvort þeir misnoti áfengi. Í því tilviki er mikilvægt að muna það að áfengi eykur einnig líkur á ofbeldisverkum þeirra sem ekki hafa greinst með geðklofa. Sjálfsmorð. Kort yfir sjálfsmorðstíðni í heiminum. Sjálfsmorð (eða sjálfsvíg) er sá verknaður að ráða sér bana með eigin hendi. Sjálfsmorð er ein algengasta dánarorsök á vesturlöndum og árlega fyrirfer sér um hálf milljón manna út um allan heim, og þar að auki gera um fimm milljónir manna tilraun til sjálfsvígs á hverju ári. Löggjöf. Viðhorf til sjálfsvíga eru mismunandi eftir löndum, bæði með tilliti til menningar og trúarbragða. Viðhorf á vesturlöndum ráðast t.d. að miklu leyti af kristinni trú en samkvæmt henni er sjálfsvíg synd, en sumir hafa viljað lesa út helvítisvist ef menn ráða sér bana. Í lúterstrú hefur helvítisvistin þó verið afskrifuð á síðustu áratugum. Í Bandaríkjunum eru sjálfsvíg skilgreind sem glæpur og á sumum vesturlöndum var það svo langt fram eftir síðustu öld. Það þykir mörgum kaldhæðnislegt að viðurlög við sjálfsvígi skuli hafa verið dauðarefsing. Í flestum löndum er enn glæpur að aðstoða fólk við að stytta sér aldur, en sum lönd eru þó farin að leyfa líknarmorð að einhverju marki. Í Jónsbók segir í kafla um þá, sem níðingsverk gera: „Ef maður týnir sér sjálfum, þá taki erfingi hálft með slíku skilorði, sem fyrr segir um önnur óbótamál, en hálft standi undir umsjá konungs umboðsmanns til slíkrar miskunnar, sem konungur vill á gera eftir atvikum." Konungur kaus að minnsta kosti stundum að nota þessi úrræði á fyrirbyggjandi hátt en ekki ívilnandi. Þannig lagði hann undir sig hið svokallaða "hengigóss", eftir að Ásgrímur Sigurðsson á Hofi í Öræfum stytti sér aldur um 1645. Orsakir sjálfsvíga. Umfjöllun um orsakir sjálfsvíga getur aldrei orðið tæmandi. Hver einstaklingur hefur eigin ástæður sem hann telur nægjanlegar til að svipta sig lífi og hvert tilvik verður að skoða í samhengi við einstaklinginn. Þrátt fyrir þetta eru nokkrar algengar skýringar á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Fyrsta tilraunin til að skrifa um sjálfsvíg á vísindalegan hátt var gerð af Emile Durkheim í lok 19. aldar. Margar niðurstaðna hans eru enn í fullu gildi en auknar rannsóknir ásamt breyttu þjóðfélagsmynstri hafa einnig útvíkkað og breytt niðurstöðunum. Eftirfarandi atriði eru algeng meðal þeirra sem fyrirfara sér: Viðkomandi er kominn á eftirlaun, hann er atvinnulaus, fráskilinn, barnlaus, býr einn. Sjálfsvíg eru einnig algengari meðal fátækra, en athuga verður að fátækt er ekki bein orsök sjálfsvíga. Algengt er að fólk sem fyrirfari sér þjáist af geðsjúkdómum, lang algengast er þunglyndi. Ekki eingöngu fólk sem þjáist af geðsjúkdómum fremur sjálfsvíg. Fólk sem þjáist af banvænum sjúkdómum kýs stundum að fyrirfara sér í stað þess að ganga í gegnum miklar þjáningar. Í sumum löndum Evrópu (t.d. Sviss) hafa sjálfsmorð einstaklinga sem þjást af banvænum sjúkdómum verið leyfð við mjög ákveðnar aðstæður. Í þeim tilfellum er oft talað um líknardráp. Menningarleg viðhorf geta stundum verið orsakaþáttur. Í Japan tíðkuðust lengi sjálfsvíg samúræja sem litu á það sem meiri auðmýkingu fyrir sig og fjölskyldu sína að halda lífi við ýmsar aðstæður, svo sem ef þeir brugðust leiðtoga sínum eða voru teknir til fanga. Aðferðin kallast seppuku, eða kviðrista, og byggðist á því að einstaklingur skar magann á sér frá einum enda til annars. Sjálfsvíg Japana eru þó fæst með þessum hætti í dag. Herforingjar og hermenn japanska hersins í síðari heimstyrjöldinni sviptu sig stundum lífi á sambærilegan hátt. Hermenn fórna stundum eigin lífi fyrir félaga sína eða málstað, til að mynda með því að fleygja sér yfir handsprengju í skotgröf. Slíka fórn má telja sem sjálfsvíg, en þeim fylgir sjaldan vanheiður. Sjálfsvígsaðferðir. Aðferðir til sjálfsvíga eru afar mismunandi eftir löndum og fer mjög eftir aðgengi að lyfjum, efnum, tækjum og tólum. Þannig kjósa margir að fyrirfara sér með gasi á Englandi, þar sem gaseldavélar eru algengar, en í Bandaríkjunum er nokkuð algengt að fólk noti skotvopn. Nokkrir frægir einstaklingar hafa framið sjálfsmorð með aðstoð blásýru. Tilraunir til sjálfsvíga. Margfalt fleiri gera tilraun til sjálfsvíga án þess að það takist. Sambandið á milli sjálfsvígstilrauna og sjálfsvígs er e.t.v. flóknara en það lítur út fyrir í fyrstu. Tilraunir til sjálfsvígs eru ekki endilega misheppnaðar sjálfsvígstilraunir, þ.e. þær fela ekki endilega í sér fullan ásetning um að fyrirfara sér. Margir fræðimenn líta annað hvort á sjálfsvígstilraunir sem nokkurs konar aðferð til að gera upp hug sinn, eða sem nokkurs konar ákall á hjálp. Sjálfsvíg er enda stór ákvörðun og ólíkt flestum ákvörðunum er óhægt að skipta um skoðun þegar verknaðurinn er framinn. Þannig er hægt að líta á a.m.k. sumar sjálfsvígstilraunir sem tilraun sem ætlað var að mistakast og hefur það markmið að styrkja eða letja einstaklinginn í þeirri ákvörðun sinni að falla fyrir eigin hendi. Það sem bendir til þess að tilraun til sjálfsvígs séu tilraunir til að gera upp hug sinn er tvennt. Í fyrsta lagi nota flestir þeir sem gera tilraun til sjálfsvígs til þess aðferðir sem eru ekki líklegar til að leiða til dauða og í öðru lagi gera margir tilraun til sjálfsvígs við aðstæður þar sem afar líklegt er að einhver komi þeim til bjargar. Það er áhugavert að þó svo að fleiri karlar falli fyrir eigin hendi eru fleiri konur sem reyna sjálfsvíg en karlar. Konur nota hins vegar oft „vægari“ aðferðir, t.d. lyf, á meðan karlmenn nota aðferðir sem eru líklegri til að heppnast, eins og að hengja sig eða skjóta. Þrátt fyrir að margir sem reyna sjálfsvíg vilji í raun ekki fyrirfara sér, og noti aðferðir sem ólíklegt er að leiði til dauða, þá eru þeir engu að síður í mikilli hættu. Og ekki má gleyma því að meira en helmingur þeirra sem fremja sjálfsmorð hafa reynt það a.m.k. einu sinni áður. Tíðni sjálfsvíga. Talið er að sjálfsvíg séu mun fleiri en opinberar tölur gefa til kynna og eru helstu ástæður þess að opinberar tölur passa ekki við rauntíðni sjálfsvíga taldar félagsleg andstaða við sjálfsvíg ásamt því að erfitt getur verið að meta hvort einstaklingur sem deyr hafi haft fullan ásetning um að deyja. Af þessum sökum bera að skoða tölur um sjálfsvíg og samanburð sjálfsvíga eftir löndum afar varlega. Tíðni sjálfsvíga er kynbundin. Tilraunir til sjálfsvíga eru tíðari meðal kvenna, en sjálfsvíg karla eru árangursríkari. Helstu áhættuhópar eru fólk á bilinu 15–24 ára, eldri karlmenn og miðaldra konur. Á Íslandi er tíðni sjálfsvíga meðal ungra karla mjög há eða að meðaltali um 19 karlar á hverja 100.000 karla árlega, sem er nokkuð hærra en meðaltal annars staðar á vesturlöndum. Athuga ber þó að tölurnar eru villandi, en mun færri en 19 ungir karlar fyrirfara sér árlega þar sem fjöldi ungra karla á Íslandi er um ferfalt lægri. Ungar íslenskar konur fyrirfara sér hins vegar síður en jafnöldrur þeirra á vesturlöndum eða um 2 stúlkur á hverjar 100.000 stúlkur árlega. Af þessum tölum sést að ungir íslenskir karlar eru margfalt líklegri til að falla fyrir eigin hendi en kvenkyns jafnaldrar þeirra. Annar þáttur við sjálfsvíg á vesturlöndum er að þau koma oft í bylgjum. Árið 1991 varð sprenging í tíðni sjálfsvíga á Íslandi meðal ungs fólks, en það ár hafði verið mikil umræða um sjálfsvíg innan þess hóps. Sjálfsvíg ungs fólks á Norðurlöndum eru yfirleitt fleiri en jafnaldra þeirra sunnar í álfunni. Því hafa rannsóknir manna að nokkru leyti beinst að árstíðabundnu þunglyndi sem mögulegum þætti í fjölda sjálfsvíga norðarlega í heiminum. Forvarnir, aðstoð og meðferð. Forvarnir gegn sjálfsvígum eru mjög víða stundaðar. Á Íslandi eru það Landlæknir og ýmis samtök sem standa fyrir forvörnum gegn sjálfsvígum. Einnig eru starfrækt víða í heiminum gjaldfrjáls símanúmer sem einstaklingar geta hringt inn allan sólarhringinn, líklegast alltaf nafnlaust, þar sem þeir geta rætt við þjálfað starfsfólk um vandamál sín, þar með talin sjálfsvígshugsanir og -atferli. Á Íslandi starfrækir Rauði kross Íslands slíkt númer, 1717. Meðferð við sjálfsvígshugsunum og -atferli felst í því að reyna uppræta hugsanirnar sem valda einstaklingnum kvöl og fá hann til að íhuga sjálfsvíg, en ekki er um að ræða beina meðferð við sjálfsvígshugsunum og/eða -atferli. Sem dæmi, ef orsökin er þunglyndi, er veitt meðferð við þunglyndi. Það að fá einstaklinga til að samþykkja meðferð getur hins vegar verið erfitt, sérstaklega hjá þeim sem hafa þjáðst af þunglyndi lengi, vonleysi um að það stoði nokkuð og eru gagnteknir af þeirri hugsun að lífið sé tilgangslaust. Þetta eru algengustu ástæðurnar. Ef ástand einstaklingsins er alvarlegt getur reynst nauðsynlegt að leggja hann inn á stofnun til að varna honum að ráða sér bana. Kristni. Samkvæmt kristni hefur Kristur frelsað manninn með blóði sínu og sú staðreynd merkir í raun að við erum eign guðs og þess vegna megi maðurinn ekki vera sjálfsbani. Kaþólsk trú leggur sérstaka áherslu á að það gangi gegn vilja guðs að skapa sér sjálfur aldur og að sjálfsmorð feli í sér mikla synd. Búddismi. Samkvæmt búddisma er hluti af því að lifa að þjást og sú þjáning á sér upphaf sitt í þrá. Því er það eitt meginmarkmið búddatrúarmanna að minnka þá þrá, og í kjölfarið þjáninguna. Þar sem sumir búddistar trúa á endurfæðingu telja þeir að það breytir litlu fyrir manninn að ráða sér bana. Hann endurfæðist einfaldlega í öðrum líkama og þjáningin heldur áfram. Gyðingdómur. Í gyðingdómi er sjálfsvíg ein alvarlegasta synd sem maðurinn getur framið. Hins vegar er leyfilegt að fyrirfara sér ef ein af eftirtöldum þremur ástæðum er fyrir hendi: Ef einhver neyðir mann til að drepa annan, til að guðlasta eða til hórdóms eða sifjaspella. Norræn goðafræði. Í menningu norrænna manna léku örlögin stærsta hlutverkið hvað varðar hlutskipti manna í lífinu, trúarlega er því sjálfsmorð einstaklinga aðeins séð sem einn þáttur í framvindu örlagana. Í heiðnum fjölgyðistrúarbrögðum er dauðinn sjaldnast séður sem „tabú“ eða andstæður lífinu, líkt og í eingyðistrúarbrögðum (kristni, gyðingdóm og íslam) heldur er hann séður sem eðlilegur og mikilvægur hluti af því. Skýringarstíll. Þessi atriði ráða eflaust mestu um það hvort skýringarstíll telst jákvæður eða neikvæður. Neikvæður skýringarstíll. Einstaklingur sem notar innri, almennar og langvinnar ástæður fyrir atburðum hefur neikvæðan skýringarstíl. Það kemur kannski ekki á óvart að þunglyndir einstaklingar nota einmitt þessar útskýringar, að ekkert gangi upp og þeir geti allt eins gefist upp. Það ber hjálpaleysi merki. Að kenna innri ástæðum um eitthvað (s.s. „ég er ómögulegur“) er merki um lágt sjálfstraust. Að nota almennar ástæður er til merkis um að viðkomandi telji sama gilda um öll önnur svið lífs hans. Að telja þær langvinnar dregur úr virkni og áhuga einstaklingsins, það er tilgangslaust að reyna ef þú telur hlutina alltaf eiga eftir að verða þér jafn slæmir. Jákvæður skýringarstíll. Það að nota ytri, takmarkaðar og skammvinnar ástæður er merki um jákvæðni. Ytri ástæður eru til merkis um að ekkert sé að þér, takmarkaðar að jafnvel þó eitthvað gangi illa er það á takmörkuðu sviði lífsins og þarf alls ekki að gilda um önnur svið og skammvinnar að hlutirnir geta og muni sennilega breytast. Þessi atriði eru einmitt þau sem hugrænar meðferðir byggja á, að leiðrétta rangan skýringarstíl þannig að einstaklingurinn öðlist jákvæðari sýn á lífið. Streita. Hugtakið streita vísar til neikvæðrar tilfinningalegrar líðanar með tengdum hegðunar- og líffræðilegum breytingum sem tengjast skynjun einstaklingsins á atburðum eða hlutum. Streita er andstæða slökununar. Streituvaldar eru þeir atburðir sem vekja upp þessi viðbrögð. Ítarlegri lýsing. Það má orða það sem svo að það hvernig einstaklingurinn skynjar aðstöðu sína, s.s. atburði, hefur áhrif á hegðun hans og líffræðilega virkni. Því neikvæðar sem einstaklingurinn skynjar aðstöðu sína, því meiri líkur eru á því að hann finni til streitu. Þetta þýðir jafnframt að tveir einstaklingar geta skynjað sama atburð á mismunandi hátt þannig að einn einstaklingur getur orðið stressaður vegna einhvers sem veldur ekki streitu hjá öðrum einstaklingi. Dæmi um það er að einn nemandi getur stressast upp fyrir próf, s.s. vegna þess að hann telur námskeiðið of erfitt eða að hann telur sig ekki hafa lært nægjanlega vel undir það á meðan annar nemandi hlakkar til sama prófs, s.s. vegna þess að hann lítur á það sem áskorun. Það hvort einstaklingur skynjar atburð sem streituvaldandi veltur á því hvaða augum hann lítur atburðinn og hvaða úrræðum hann telur sig búa yfir. Það er ýmislegt sem hefur áhrif á það hvernig atburðir eru skynjaðir. Dæmi um það er skapgerð, seigla, varnarhættir og félagslegur stuðningur. Það eru bæði sálfræðilegir, félagslegir og líkamlegir þættir sem hafa áhrif á streitu. Streitueinkenni. Einkenni streitu geta verið margvísleg. Dæmi um einkenni sem geta gefið til kynna streitu eru: Einbeitingarleysi, tilfinning um að ráða ekki við aðstæður, lítið sjálfstraust, vandræði með svefn eða svefnleysi, hár blóðþrýstingur, höfuðverkur, meltingartruflanir, aukin áfengisneysla, breytt mataræði, flótti frá félagslegum og atvinnulegum skyldum. Einstaklingur þarf vanalega að þjást af einum eða fleiri ofantöldum einkennum til að teljast þjást af streitu. Stuðningsmeðferð. Vegna þess að flest viðbrögð við streitu fela í sér tilfinningu um ófullnægjandi getu og félagslega einangrun er hægt að hjálpa mörgum sem þjást af streitu með stuðningsmeðferð (e. "supportive therapy") þar sem m.a. er hlustað á sjúklinginn og hann hvattur til að takast á við vandamál. Bæði sálaraflssinnar og húmanískir sálfræðingar leggja mikla áherslu á stuðningsmeðferð. Lyf. Mörg lyf eru á markaðnum til að aðstoða fólk við að minnka streitu. Róandi lyf eru gagnleg, sérstaklega ef þau eru notuð ásamt stuðningsmeðferð. Ætíð verður þó að hafa í huga að lyf draga í mörgum tilfellum úr einkennum en eru ekki meðferð í sjálfu sér. Slökunarmeðferð. Slökunarmeðferð er hægt að nota á margar raskanir en hún er sérstaklega áhrifarík þegar kemur að streitu. Félagslegur stuðningur. Einstaklingur sem finnst hann búa við félagslegan stuðning telur sig vera hluta af hópi einstaklinga sem hann getur reitt sig á. Það hefur verið sýnt fram á að einstaklingar sem njóta lítils félagslegs stuðnings hugsa um hluti og takast á við þá á neikvæðari hátt en þeir sem njóta mikils félagslegs stuðnings. Félagslegur stuðningur er ekki eingöngu mikilvægur þegar við upplifum mótlæti eða streitu, hann er mikilvægur til að hindra mótlæti og streitu. Þannig getur það að tala um áhyggjur við einhvern sem maður þekkir um leið og maður finnur fyrir áhyggjum hindrað það að þær valdi streitu. Fjölskyldan er einnig sérstaklega mikilvæg þegar kemur að félagslegum stuðningi. Margir kvarta yfir því að foreldrarnir nenni einfaldlega ekki að hlusta á þá, eða þá að þeir þori ekki að minnast á eitthvað við foreldrana. Það ætti að koma á óvart að margir foreldrar kvarta einmitt yfir því að mörg börn tali ekki við þá um áhyggjur sínar, þau einfaldlega vilji það ekki. Oft er þetta einfaldlega spurning um fyrsta skrefið. Það að foreldri viti að barn þess er stressað vegna einhvers, s.s. vegna skóla eða sambands, útskýrir margt fyrir því um hegðun barnsins. Stjarfageðklofi. Stjarfageðklofi (e. catatonic schizophrenia) er tegund geðklofa sem einkennist af hreyfitruflunum, s.s. vaxhreyfanleika (waxy flexibility) þar sem viðkomandi er lengi í þeirri stöðu sem hann er settur í. Einnig getur einstaklingurinn framkvæmt furðulegar sjálfviljugar hreyfingar og stellingar, kæki eða andlitsgrettur eða hann getur endurtekið það sem sagt er. Einnig neikvæðni (negativism), þ.e. andstaða við fyrirmæli eða að neita að tala og stundum árásargirni. Stundum þarf að hjálpa sjúklingnum að borða og sjá um sig. Lyfjameðferð getur dregið úr einkennum. Geðvefrænir sjúkdómar. Geðvefrænir sjúkdómar eða sálvefrænir sjúkdómar (somatoform disorders (somatoform = bodylike)) fela í sér líkamleg einkenni sem ekki er hægt að skýra með þekkingu okkar á líkamlegri virkni. Misræmi á milli hugar og líkama getur valdi geðvefrænni svörun. Sjúkdómurinn er erfiður að því leyti að alvarlegt er þegar viðkomandi hefur í raun líkamlegan sjúkdóm. Lyf eru almennt ekki notuð til lækninga á geðvefrænum sjúkdómum en samtalsmeðferðir hjá sálfræðingum eða geðlæknum hafa borið bestan árangur. Sem dæmi um geðvefræna sjúkdóma má nefna höfuðverki sem engar líkamlegar útskýringar finnst á. Mígreni var lengi talinn geðvefrænn sjúkdómur en svo er ekki í dag. Hambrigði. Almenn röskun, hambrigði (Borderline)Fólk sem þjáist af þessu sýnir mikinn óstöðugleika, sem felur í sér miklar skapsveiflur, óstöðuga sjálfsímynd og hvatvísi. Þegar þessir eiginleikar sameinast verður það til þess að einstaklingurinn á í mjög óstöðugum samböndum. Þetta fólk sveiflast í skapinu frá kvíða, þunglyndi og bráðlyndis frá nokkrum klukkutímum til nokkurra daga. Tilfinningar þeirra virðast alltaf vera í stanslausum árekstrum við umheiminn og þau eru þá líklegri til að fá reiðisköst sem brýst stundum út í líkamlegri árásargirni og ofbeldi. En jafn oft beina þau reiðinni inn á við og skaða sig sjálf. Margir virðast truflaðir af djúpri tilfinningu af tómleika. Margir skaða sjálfan sig til að takast á við tómleikann innra með sér og það koma upp mörg tilfelli þar sem þetta fólk reynir að svipta sig lífi. Þetta fólk fer oft í stormasöm ástarsambönd með fólki sem það elskar ekki, það óvirðir sambandið og verður hamstola þegar kröfum þess er ekki mætt, en vilja þó ekki losa sig úr sambandinu og eru mjög háð því, lamað af ótta við að vera eitt. Stundum skera þau sig til að koma í veg fyrir að hinn aðilinn fari frá því. Saga vefhugbúnaðarfyrirtækja á Íslandi. Það má segja að vefiðnaðurinn á Íslandi hafi orðið til með tilkomu myndrænna vafra um eða upp úr 1994. Fyrstu árin var mikill tilraunabragur á þeim vefsvæðum sem voru gerð, enda netnotkun ekki orðin almenn og væntur ávinningur fyrirtækja af því að eiga vefsíðu á þessum tíma var oftast afar lítill. Í fyrstu kynslóð íslenskra vefsvæða voru vefir listamanna, (grafískra) hönnunarfyrirtækja, og útflutningsfyrirtækja mest áberandi, og opinberir eða hálf-opinberir aðilar á borð við Ferðamálaráð og Útflutningsráð stóðu að fjármögnun og skipulagningu samstillra kynningarvefja fyrir ákveðna útflutningsgeira. Einhver fyrstu veffyrirtækin voru Miðheimar og Íslenska menntanetið en aðalstarfssemi þeirra var rekstur internetþjónustu fyrir einstaklinga og fyriræki. Hjá þeim var heimasíðugerðin aukabúgrein. Svipaða sögu var að segja um flest veffyrirtæki á þessum árum, t.d. var Auglýsingastofa Reykjavíkur að meginþræði hefðbundin auglýsingastofa sem fékkst við prentmiðlun. Því má segja að "vefauglýsingastofan" Qlan sem Tómas Jónsson og Guðmundur Ragnar Guðmundsson stofnuðu hafi verið fyrsta sérhæfða veffyrirtækið, þó líftími hennar hafi verið fremur skammur. Smátt og smátt spruttu upp fyrirtæki með starfsemi sem snerist um vefhönnun og hugbúnað tengdan vefsíðugerð og vefumsjón. Þessi fyrirtæki bættust við hinn ört vaxandi upplýsingatækniiðnað á Íslandi á síðari hluta tíunda áratugarins. Athyglisbrestur. Athyglisbrestur með ofvirkni (alþjóðleg skammstöfun: ADHD) er taugasjúkdómur sem veldur einbeitingarskorti og oftast ofvirkni. Venjulega kemur athyglisbrestur fyrst fram í bernsku en um 60% barna sem greinast með athyglisbrest halda einkennum fram á fullorðinsaldur. Um 5% jarðarbúa glíma við athyglisbrest. ADHD er alþjóðleg skammstöfun sem merkir athyglisbrestur með ofvirkni. Einnig er til athyglisbrestur án ofvirkni, alþjóðleg skammstöfun hans er ADD. Lesblinda og athyglisbrestur eiga sér í sumum tilvikum orsakasamband og greiningar á lesblindu eru oft rökstuddar á þeim grundvelli að vegna athyglisbrests hafi einkenni lesblindu gert vart við sig. Oft geta hljóðbækur hjálpað einstaklingum með ADHD eða ADD við nám. Hljóðbókasafn Íslands veitir þeim sem hafa greiningar á athyglisbresti eða athyglisbresti með ofvirkni aðgang að hljóðbókum. Andleg heilsa. Andleg heilsa (e. mental health) er hugtak, sem öðru fremur er notað til að lýsa því hvernig fólki líður, hvort það getur hugsað eðlilega eða rökrétt og hversu vel það er til þess fallið að takast á við atburði í lífi sínu. Ákjósanlegt telst að hafa fullkomna heilsu, hvort sem hún er andleg eða líkamleg. En talið er að enginn einstaklingur búi alltaf við fullkomna andlega heilsu allt sitt líf. Einstaklingurinn er hluti af umhverfi sínu og hann hefur langt í frá stjórn á öllu því sem þar gerist. Þegar á móti blæs eru auknar líkur þess að hann upplifi streitu, s.s. þegar honum finnst hann ekki hafa stjórn á því sem er að gerast í lífi hans. Útlitsfræði. Útlitsfræði eða svipfræði er það að meta persónuleika og tilfinningar út frá líkamanum og þá sérstaklega út frá andlitinu. Þannig töldu talsmenn útlitsfræðinnar að hægt væri að „lesa“ persónuleika manna út frá ytra útliti þeirra. Með öðrum orðum lýsti ytra útlitið innri gerð. Nú er hins vegar vitað að sambandið milli ytra útlits annars vegar og persónuleika, langana, hvata o.s.frv. er ekkert. Ekkert er hægt að segja um það hvort ljótur eða fallegur einstaklingur sé góður eða slæmur eða hvort stór maður er betri en lítill. Því er útlitsfræðin dæmigerð hjáfræði eða gervivísindi. Höfuðlagsfræði. Höfuðlagsfræði er sú iðja að reyna að dæma persónuleikaþætti manna út frá höfuðlagi þeirra. Kenningin að baki höfuðlagsfræði var sett fram af Franz Joseph Gall á fyrri hluta 19. aldar. Höfuðlagsfræði er nú jafnan talin til hjáfræða. Forsendur höfuðlagsfræði. Á þeim tíma sem höfuðlagsfræðin varð til vissu menn að hugarstarfsemi var bundin við heilann. Menn töldu einnig að menn byggju yfir ýmsum aðskildum hæfileikum. Fylgjendur höfuðlagsfræði töldu að þess vegna hlyti hver hæfileiki að samsvara tilteknu heilasvæði, og því þroskaðri sem hver hæfileiki væri, því stærra væri heilasvæðið. Á þessum tíma bjuggu menn ekki yfir tækni til að skoða lifandi heilavef (en það er nú til að mynda gert með heilaskönnun). Þeir sem aðhylltust höfuðlagsfræði töldu aftur á móti að stærð höfuðkúpunnar hlyti að ráðast af stærð þeirra heilasvæða sem hún umlyki. Því væri hægt að skoða höfuðkúpuna til að álykta um stærð heilasvæða og þar með hæfileika manna (Aldís Unnur Guðmundsdóttir og Jörgen L. Pind, 2003). Saga höfuðlagsfræði. Hugmyndum Galls um að finna mætti persónuleika manna út frá höfuðlagi var nánast strax hafnað af öðrum fræðimönnum. Johann Caspar Spurzheim tók aftur á móti grunnhugmyndir Galls, einfaldaði þær og úr því varð til höfuðlagsfræði. Höfuðlagsfræði varð nokkuð vinsæl meðal almennings þessa tíma (Leahey, 2004). Höfuðlagsfræði lifði um margt ágætu lífi allt fram á síðari hluta síðustu aldar. Þjóðverjar notuðu þessi fræði í síðari heimsstyrjöldinni til þess að flokka gyðinga eftir útliti. Þeir báru höfuðkúpur gyðinga saman við höfuðkúpur apa og töldu sig hafa sýnt fram á að höfuðkúpur gyðinga væru mun líkari höfuðkúpum apa en höfuðkúpur aría, það er einstaklinga af hvíta kynstofninum. Með þessu reyndu þeir að sanna að gyðingar væru mun skyldari öpum en aríar (tilvísun vantar). Áhrif á sálfræði nútímans. Þótt kenningin um höfuðlagsfræði hafi aldrei náð neinni verulegri fótfestu innan sálfræði var hún samt sem áður merkileg að því leyti að hún var ein fyrsta alvarlega tilraunin til að staðsetja hugræna starfsemi í heilanum. Sálfræðingar, og aðrir vísindamenn sem rannsaka hug og heila, eru nú almennt sammála þeirri hugmynd að einhver sérhæfing eigi sér stað á milli heilasvæða (Aldís Unnur Guðmundsdóttir og Jörgen L. Pind, 2003). Franz Anton Mesmer. Franz Anton Mesmer (fæddur 23. maí 1734 - 5. mars 1815) var þýskur læknir sem hóf að kanna áhrif segulmagns á líkamann. Kenning hans fólst í því að innra segulmagn líkamans gæti haft áhrif á fólk og læknað það. Síðar kom í ljós að sá bati sem margir sjúklingar Mesmers sýndu eða virtust sýna var tilkominn af öðrum völdum eða vegna dáleiðslu (sem einnig hefur verið kölluð sefjun). Varnarhættir. Í kenningum Sigmunds Freud eru varnarhættir sjálfsins ferli sem bæla átök milli þaðsins og yfirsjálfsins. Þessir varnarhættir krefjast sálarorku og því meiri eftir því sem togstreitan milli þaðsins og yfirsjálfsins er meiri. Dæmi um varnarhætti. Afneitun (e. "denial") er að halda ytri atburðum frá meðvitund. Ef einstaklingurinn á erfitt með að meðhöndla einhverja aðstöðu getur hann notað afneitun til þess einfaldlega að neita tilvist hennar. Einstaklingurinn getur bæði neitað atburði eða þeim tilfinningum sem tengjast honum. Dæmi um afneitun er ef maður sem skuldar pening í banka lætur sem hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af skuldinni og heldur í stað þess áfram að eyða peningum. Afturhvarf eða bakrás (e. "regression") er að hverfa aftur til hegðunar sem einkennist af minni þroska (fyrra þroskastigi). Samkvæmt kenningunni gæti t.d. fullorðinn einstaklingur sem byrjar að sjúga puttann hafa orðið fyrir afturhvarfi til munnstigs. Andhverfing (e. "reaction formation") er að breyta óviðunandi hvöt í andstæðu sína. Dæmi um þetta er einstaklingur sem finnur til hvata gagnvart eigin kyni og, í stað þess að viðurkenna þær hvatir, tekur að hata samkynhneigða. Bæling (e. "repression") leitast við að gera óæskilegar hugmyndir, minningar, tilfinningar eða skyndihvatir ómeðvitaðar. Þannig geta sársaukafullar tilfinningar sem skapast af togstreitu milli vellíðunarlögmálsins og veruleikalögmálsins togast niður í dulvitundina. Þar virðast þær gleymdar en geta þó haft áhrif á atferli og sálarlíf. Frávarp (e. "projection") er að sjá sínar eigin óviðunandi kenndir í öðrum. Til dæmis gæti gift kona sem langar til að sofa hjá samstarfsmanni sínum farið að fylgjast náið með hegðun eiginmanns síns og sýna afbrýðisemi. Göfgun (e. "sublimation") er umbreyting kynferðislegra eða árásargjarnra eðlisávísana í félagslega samþykkt form. Sálarorkan fær þá útrás í starfsemi sem stjórnast ekki af eðlisávísunum. Til dæmis gæti einstaklingur fengið útrás fyrir árásarhvöt með því að yrkja ljóð. Kenningin segir að göfgun geti fremur en ýmsir aðrir varnarhættir stuðlað að geðheilbrigði. Réttlæting (e. "rationalization") er að réttlæta eigin hvatir eða hegðun með því að leita skýringa í öðru fólki eða ytri aðstæðum. Til dæmis gæti nauðgari réttlætt fyrir sér verknaðinn með því að hugsa sem svo að fórnarlambið hafi verið fáklætt og þar með boðið nauðguninni heim. Samsömun (e. "identification") felur í sér að taka upp persónueinkenni annarra til að leysa úr eigin tilfinningalegum vanda. Tilfærsla (e. "displacement") er að beina tilfinningu og viðhorfum að einhverju sem getur þjónað sem staðgengill fyrir annað. Dæmi um það er að sýna reiði gagnvart einstaklingi sem hefur ekki orsakað reiðina, t.d. vegna þess að sá sem reiðin ætti að beinast að er of ógnvekjandi. Maður sem hefur verið skammaður af yfirmanni sínum í vinnunni og sparkar í hundinn þegar hann kemur heim hefur orðið fyrir tilfærslu á tilfinningum sínum. Vitsmunavörn (e. "intellectualization") er að skapa sér fjarlægð frá erfiðleikum með því að meðhöndla þá eins og hvert annað viðfangsefni fyrir vitsmunina. Til dæmis gæti krabbameinssjúkur maður sökkt sér ofan í fræðilegt lesefni um sjúkdóminn. Fráreiti. Fráreiti er, öfugt við styrkjandi áreiti, eitthvað sem við teljum óþægilegt eða sársaukafullt. Þegar fráreiti fylgir hegðun er ólíklegra að hegðunin eigi sér stað í framtíðinni en ef fráreiti er ekki til staðar. Refsing (punishment) er annað dæmi. Dæmi um fráreiti er þegar rottu er gefið raflost þegar hún sýnir ákveðna hegðun, s.s. ef hún styður framlöppunum á slá. Annað dæmi er að rassskella krakka þegar þeir gráta. Ef virkt fráreiti er fjarlægt eftir að hegðun á sér stað er talað um neikvæða styrkingu (negative reinforcement). Ef það er t.d. slökkt á rafstraumi þegar rotta stendur á afturfótunum mun hún standa mun oftar á afturfótunum. Ef eiginkona hættir að rífast eftir að eiginmaðurinn vaskar upp er hann mun líklegri til að vaska oftar upp. Jákvæðu áhrifin fyrir viðkomandi felast þannig í því að fráreitið er ekki lengur til staðar eftir að hegðun kemur fram og það þjónar því sem styrkir. Ef fráreiti er ekki lengur til staðar þegar hegðun er sýnd er mun líklegra að hegðunin aukist í framtíðinni. Sumir atferlissinnar líta neikvæðum augum á fráreiti. Ástæðan er sú að áreitið sem styrkti upphaflegu hegðunina (s.s. að horfa á fótbolta í stað þess að vaska upp) hefur ekki verið fjarlægt, þrátt fyrir að neikvæða áreitið hafi vissulega verið fjarlægt (rifrildið). Áreitið sem upphaflega styrkti hegðunina er ennþá til staðar og það getur því ennþá haft áhrif á hegðunina. Fólk gerir sér ekki oft fyrir áhrifum fráreitis og refsingar sem og því að refsing getur verið varasöm. Eins og áður segir er refsing það þegar óþægileg afleiðing fylgir röngu viðbragði (s.s. rassskellur þegar barn öskrar). Refsingin getur verið áhrifarík, þ.e. hún getur minnkað öskrið, en þó án þess að hún kenni nýja hegðun. Þegar einungis refsing er notuð er ekki víst hvaða hegðun tekur við af þeirri sem reynt er að slökkva. Það getur þannig alveg eins verið að grátur taki við af öskri. Refsing ein og sér kennir ekki nýja hegðun og þannig er í mörgum tilfellum gagnlegra að nota jákvæða styrkingu (s.s. að styrkja barnið þegar það öskrar ekki ef því mislíkar eitthvað). Það getur verið erfitt að aðgreina neikvæða styrkingu og jákvæða. Ef maður er svangur og er svo gefið að borða. Er maturinn sem þú færð styrkir fyrir það að vera saddur eða er það að minnka hið neikvæða, þ.e. hungrið, merki um neikvæða styrkingu? Raymond Carver. Raymond Carver (25. maí 1938 - 2. ágúst 1988) var bandarískur smásagnahöfundur og ljóðskáld. Carver, Raymond Listi yfir sálfræðinga. Hér að neðan er listi yfir sálfræðinga og aðra sem haft hafa veruleg áhrif á sálfræði. Listanum er raðað í stafrófsröð eftir eftirnafni. Einnig er hægt að sjá sjálfvirkan lista í stafrófsröð eftir eiginnafni. John Broadus Watson. John Watson (1878 — 1958) var bandarískur sálfræðingur. Hann fæddist í Suður-Karólínu þar sem hann ólst upp á bóndabýli. Faðir hans var drykkfelldur og yfirgaf fjölskylduna þegar hann var 13 ára. Þrátt fyrir að hann hafi að eigin sögn ekki verið góður námsmaður gekk hann í Furman-háskóla þegar hann var 16 ára. Þar hlaut hann mastersgráðu fimm árum síðar og fór í doktorsnám í sálfræði og heimspeki við háskólann í Chicago. Hann bjó við mikla fátækt á þessum árum og fjármagnaði m.a. námið með því að þjóna til borðs, hreinsa tilraunastofur og fóðra rottur. Hann gafst fljótlega upp á heimspekinni og hlaut doktorsnafnbót í sálfræði árið 1903. Fimm árum síðar gerðist hann prófessor við Hopkins-háskóla. Hann hafði þá þegar þróað hugmyndir sínar um mannlegt atferli og lagði stund á líffræði, lífeðlisfræði og kynnti sér hegðun dýra. Í námi sínu varð hann fyrir greinilegum áhrifum af rússneska vísindamanninum Ivan Pavlov. Hann hóf að rannsaka hegðun barna og fór að þróa kenningar um að mennirnir fylgdu sömu lögmálum og dýrin, þeir væru einfaldlega flóknari eða þróaðri. Hann taldi öll dýr vera ekkert annað en flóknar vélar sem brugðust við aðstæðum með taugaboðum sem voru skilyrt með reynslu. Árið 1913 gaf hann út grein þar sem hann gerði grein fyrir hugmyndum sínum og sem urðu mikilvægar í þeirri grein sálfræðinnar sem þá var að slíta barnsskónum, atferlisfræðinnar. Greinin hét "Sálfræði eins og atferlissinninn sér hana" (e. "Psychology as the Behaviorist Views It"). Þessi grein, atferlisfræðin, var í meginatriðum gjörólík stefnum sálfræðinnar sem hafði einkennst af sálaraflskenningum Freuds og fylgismanna hans. Watson taldi viðhorf þess síðarnefnda enda komast ansi nálægt dulspeki. Í stað þess var lögð áhersla á að skoða það mælanlega og sett var fram sú kenning að hægt væri að draga ályktanir um menn út frá rannsóknum á dýrum, enda á atferlisfræðin margt að rekja til þróunarkenningar Darwins. Árið 1920 lauk ferli hans sem háskólaprófessors skyndilega í kjölfar hneykslis. Upp frá því lagði hann stund á auglýsingamennsku þar sem hann notaði reynslu sína af sálfræði og mannlegu atferli. Litli Albert. Watson er frægur fyrir rannsókn sína á "Litla Albert", 11 mánaða gömlum strák. Með því að nota skilyrðingu náði Watson að kalla fram hræðsluviðbragð barnsins með því að para hvíta rottu við hátt hljóð. Hræðsla drengsins við rottur alhæfðist fljótlega yfir á kanínur, pelsa og jólasveinagrímur. Þrátt fyrir að tilraunin sé á mörkum þess að vera siðleg, miðað við nútímaskilning þess orðs, hafði hún mikil áhrif á skilning manna á ýmsum sviðum sálfræðinnar. Tengill. Watson, John Broadus Watson, John Broadus Burrhus Frederic Skinner. Burrhus Frederic Skinner (20. mars 1904 — 18. ágúst 1990) var bandarískur sálfræðingur sem oft er talinn upphafsmaður róttækrar atferlishyggju. Kenningar hans höfðu mikil áhrif á sálfræði á 20. öld en voru mjög gagnrýndar fyrir miðja öld, meðal annars vegna þess að aðferðir hans þóttu ómannúðlegar, en mikilvægi hans hefur aukist á síðari tímum, til dæmis innan hugfræði. Æviágrip. Skinner fæddist í smábænum Susquehanna í Bandaríkjunum. Eftir að skólagöngu hans lauk ákvað Skinner að gerast rithöfundur en skrifaði lítið. Hann starfaði sem afgreiðslumaður í bókabúð þar sem hann komst m.a. í kynni við sálfræðikenningar Pavlovs og Watsons. 24 ára skráði hann sig í framhaldsnám í sálfræði við Harvard-háskóla. Skinner bjó til svokallað Skinnerbúr þar sem hann gat mælt viðbrögð rotta. Þar komst hann að því að hegðun rottanna stjórnaðist af afleiðingum sínum. Í framhaldinu setti Skinner fram kenninguna um virka skilyrðingu. Skinner fékk svo rannsóknarstyrk og gat þannig einbeitt sér að rannsóknum sínum. Þær birti hann árið 1938 í bók sinni "Hegðun lífvera" (en: "The Behavior of Organisms"). Þegar Skinner var 32 ára fékk hann starf sem kennari í Minnesota. Í Heimsstyrjöldinni síðari vann hann að rannsóknum á því hvernig ætti að fá dúfur til að stjórna flugskeytum. Þeim rannsóknum var hætt vegna þess að herinn fór að einbeita sér að ratsjám, en Skinner hélt þó áfram rannsóknum sínum á dúfum. Árið 1948 var Skinner boðin staða við Harvard þar sem hann hélt fyrirlestra fyrir nýnema. Fyrirlestrarnir voru síðan gefnir út í bókinni "Science and Human Behavior" árið 1953. Af honum er sögð sú saga að dag einn árið 1953 hafi hann farið með dóttur sinni í skólann til að fylgjast með henni í stærðfræðitíma (það var feðradagur). Þar sá hann að aðferðir kennarans brutu í bága við nánast allar kenningar Skinners um árangursríkt nám. Í virkri skilyrðingu ræðst hegðunin af afleiðingum sínum. Umbuna verður fyrir rétta hegðun en hundsa ranga hegðun. Í skólanum voru viðbrögð við því sem nemendur gerðu aftur á móti handahófskennd, að mati Skinners. Sumir nemendur lærðu hratt og spændu í gegnum verkefni, sumir skildu lítið og gátu ekki leyst verkefnin. Þar sem kennarinn þurfti að hafa umsjón með tuttugu til þrjátíu nemendum gat hann ekki fylgt þeim öllum og nemendurnir fengu svörin seint, jafnvel ekki fyrr en næsta dag. Skinner hóf að einbeita sér að því hvernig menn læra og hvernig best væri að kenna þeim. Þremur árum síðar hafði hann búið til forrit þar sem verkefni voru bútuð niður eftir getu fólks og forritið líktist helst kennara sem hlýddi einum nemanda yfir í einu, sem virtist augljós framför frá þrjátíu manna bekk. Í byrjun voru gefnar vísbendingar sem smám saman fækkaði eftir því sem námsefnið þyngdist. Rannsóknir hans vöktu mikla athygli en vegna skorts á peningum, og sérstaklega vegna vanþróaðrar tölvutækni, náði það ekki mikilli útbreiðslu. Árið 1968, sama ár og Skinner gaf út bók um nám, var framleiðslu efnisins hætt. Á síðari árum sneri Skinner sér að heimspekilegri vangaveltum og hann var virkur í ræðu og riti allt þar til hann lést. Áhrif Skinners voru mikil og hann er einn af frægustu sálfræðingum 20. aldar. Hann hafði mikil áhrif á sálfræðina og átti sinn þátt í að beina sjónum þeirra frá sálaraflskenningum og frá hinu dularfulla innra sálarlífi þess tíma og í átt að því mælanlega: Hegðun mannsins. Skinner gagnrýndur. Hugmyndir Skinners og annarra atferlissinna voru nær allsráðandi í sálfræði á fyrri hluta 20. aldar. Um miðbik aldarinnar fóru þó að heyrast gagnrýnisraddir. Málfræðingurinn Noam Chomsky er líklega einn þekktasti gagnrýnandi Skinners. Hann taldi að lögmál atferlissinna gætu ekki skýrt hvernig fólk lærði tungumál, og væru því ekki nægjanleg til að skýra allt mannlegt nám. Þessi atburður er oft talinn marka upphaf annarrar stefnu innan sálfræðinnar, hugfræðinnar. Tenglar. Skinner, B.F. Skinner, B.F. Ívan Petrovítsj Pavlov. Ívan Petrovítsj Pavlov ("Иван Петрович Павлов") (14. september 1849 - 27. febrúar 1936), sonur Peter Dmitrievich Pavlov, var rússneskur lífeðlisfræðingur. Hann er aðallega þekktur fyrir rannsóknir sínar á klassískri skilyrðingu, sem einnig hefur verið kölluð "pavlovsk skilyrðing". Árið 1904 hlotnuðust honum Nóbelsverðlaunin vegna rannsókna sinna á meltingu. Fjölskylda, menntun. Pavlov fæddist í borginni Ryazan, í Rússlandi, í stóran systkinahóp og var hann elstur af ellefu systkinum. Faðir hans var prestur og var það lengi vel ætlun hans að verða prestur. Hann byrjaði í prestaskóla í heimaborg sinni þar sem hann hann kynntist raunvísindum sem síðar urðu hans líf og yndi. Árið 1870 innritaðist Pavlov í efnafræði og lífeðlisfræði í Keisaralegu læknaakademíunni í St. Pétursborg. Hann lauk kandidatsnámi þaðan árið 1875 með hæstu einkunn. Hann ákvað að halda áfram með námið og kláraði aftur með hæstu einkunn árið 1879. Hann lauk doktorsprófi árið 1883. Árið 1890 var honum boðið að reka lífeðlisfræðideild Stofnun tilraunalæknisfræða, sem hann þáði. Hann stjórnaði deildinni í 45 ár, allt þar til hann féll frá. Þann tíma var þessi deild ein mikilvægasta rannsóknarstöð í lífeðlisfræði. Árið 1890 var Pavlov skipaður prófessor í lyfjafræði í Læknisfræðiakademíu hersins. Pavlov var meðal þeirra sem drógu í efa aðferðir samtímamanna á sálfræðisviðinu og var ósáttur með hversu óvísindalegar þær voru. Pavlov var lífeðlisfræðingur að mennt og leit á sjálfan sig sem vísindamann. Pavlov hafði einnig með mjög sterkar stjórnmálaskoðanir: Hann var mjög mótfallinn stjórnmálalegu ástandi í heimalandi sínu og var hann einnig lítt hrifinn af bolsévikum og þeirra skoðunum en þrátt fyrir það var ríkið iðið við að styðja við bakið á honum. Klassísk skilyrðing. Einn af hundum Pavlovs á Pavlovssafninu Pavlov uppgötvaði skilyrðingu fyrir tilviljun; hann var að rannsaka meltingarkerfi hunda þegar hann uppgötvaði að munnvatnsframleiðsla hundana jókst áður en maturinn var kominn í munninn á þeim. Hann breytti áherslunni í rannsókninni og fór að rannsaka þetta fyrirbæri betur. Þessar rannsóknir áttu sér stað í kringum 1890–1900, en vestrænir vísindamenn komust ekki yfir nein heildstæð gögn fyrr en árið 1927 að bók á ensku um rannsóknirnar var gefin út. Þeir höfðu þó áður komist yfir einstakar þýðingar. Í klassískri skilyrðingu er óskilyrt áreiti, það er áreiti sem vekur sjálfkrafa upp tiltekið óskilyrt svar án þess að til þurfi nám, parað við hlutlaust áreiti. Pörunin veldur því að áreitið fer einnig að vekja fram svörun. Fyrrum hlutlausa áreitið kallast nú skilyrt áreiti og svarið sem það vekur upp kallast skilyrt svar. Frægasta dæmið um þetta eru án efa hundar Pavlovs. Ef kjötduft er sett á tungu hunda mun munnvatnsframleiðsla þeirra aukast ósjálfrátt. Kjötduftið er því í þessu tilfelli óskilyrt áreiti og munnvatnsframleiðslan óskilyrt svar. Ef ljós er kveikt eða bjöllu er hringt (hlutlaust áreiti) áður en kjötduftið er gefið parast ljósið eða bjölluhljómurinn við kjötduftið og verður að skilyrtu áreiti. Þegar ljósið eða bjallan eru birt ein og sér vekur það upp skilyrt svar, það er munnvatnsframleiðsla hundanna eykst, og það án þess að þeim sé gefið kjötduftið. Athyglisvert er að íhuga að markmið Pavlovs með hundatilrauninni var ekki að rannsaka lærdómshæfileika dýra heldur var hann upphaflega að skoða meltingarstarfsemi hunda. Heimildir. Pavlov, Ivan Petrovich Pavlov, Ivan Petrovich Klassísk skilyrðing. Klassísk skilyrðing, einnig kölluð pavlovsk skilyrðing eða viðbragðsskilyrðing, er einföld tegund náms. Fyrstur til að lýsa slíku námi var Ivan Petrovich Pavlov, nóbelsverðlaunahafi í lífeðlisfræði. Í klassískri skilyrðingu er óskilyrt áreiti, það er áreiti sem vekur sjálfkrafa upp tiltekið óskilyrt svar án þess að til þurfi nám, parað við hlutlaust áreiti. Pörunin veldur því að áreitið vekur einnig svörun. Það sem áður var hlutlaust áreiti kallast nú "skilyrt áreiti" og svarið sem það vekur kallast "skilyrt svar". Frægasta dæmið um þetta eru án efa hundar Pavlovs. Ef kjötduft er sett á tungu hunda mun munnvatnsframleiðsla þeirra aukast ósjálfrátt. Kjötduftið er því í þessu tilfelli óskilyrt áreiti og munnvatnsframleiðslan óskilyrt svar. Ef ljós er kveikt eða bjöllu er hringt (hlutlaust áreiti) áður en kjötduftið er gefið parast ljósið eða bjölluhljómurinn við kjötduftið og verður að skilyrtu áreiti. Þegar kveikt er á ljósinu eða bjallan látin óma vekur það skilyrt svar, það er: munnvatnsframleiðsla hundanna eykst, og það án þess að þeim sé gefið kjötduftið. Ef hljómun bjöllunnar eða kviknun ljóssins er endurtekið oft án kjötduftsins verður svokölluð slokknun, það er skilyrt svar hundanna, munnvatnsframleiðslan, verður smám saman minni. Þetta þýðir þó ekki að hundarnir hafi gleymt að bjölluhljómur eða ljós paraðist við mat. Það nægir að gefa þeim kjötduft einstaka sinnum til þess að þeir byrji aftur að seyta munnvatni við það að bjallan glymji. Fall (stærðfræði). Í stærðfræði á orðið fall yfirleitt við vörpun, þ.a. fyrir sérhvert stak í formengi vörpunarinnar er til eitt og aðeins sitt stak í bakmengi. Stundum eru þó orðin „fall“ og „vörpun“ notuð sem samheiti. Föll eru mikilvæg í öllum magnbundnum vísindinum. Fallafræðin fjallar um föll. Skilgreining. Fall "f", með formengi "A " og bakmengi "B", lýsir tengslum á milli tveggja breytistærða, "óháðu breytunnar" "x" og "háðu breytunnar" "y": formula_1. Fall "f " úthlutar þá sérhverju staki "x" í "A" nákvæmlega einu staki í "B", sem við táknum með "f(x)", og segjum þá að "f" taki gildið "f(x)" í "x". Til að tilgreina nákvæmlega hvað fallið er verður að gefa til kynna hvaða gildi úr "B" fallið tekur í sérhverju staki í "A". Athugið að fleiri en eitt stak í "A" geta tekið sama gildið í "B". Sem dæmi, ef bæði formengi og bakmengi falls "f" eru mengi allra rauntalna, þá úthlutar "f" sérhverri rauntölu "x" annarri rauntölu, sem er þá táknuð "f(x)". Við segjum þá að "f" taki gildið "f(x)" í "x". Myndmengi falls inniheldur öll hugsanleg gildi í bakmenginu sem "f" getur varpar einhverju staki formengisins í. M.ö.o. er myndmengi falls "f" mengi allra staka "y" í bakmengi þegar til er stak "x" í formenginu þ.a. "f(x) = y". Fall er sagt eintækt ef sérhver tvö ólík stök í formenginu taka ólík gildi í myndmenginu. Ef myndmengi og bakmengi falls eru það sama segjum við að fall sé átækt. Fall er sagt gagntækt ef það er bæði „átækt“ og „eintækt“. Myndræn líking. Fall mætti líta á sem nokkurskonar ímyndaða stærðfræðilega „vél“. Líkt og aðrar vélar tekur hún eitthvað inn á sig, og skilar einhverju frá sér - bílvélar sem dæmi taka inn bensín og loft og skila frá sér hreyfiorku og hita. Dæmi um fall f, sem tvöfaldar sérhverja tölu x: f(x) = 2x, þ.a. f(4) = 8, en þar er „4“ inntak fallsins, og „8“ úttakið. Fallið sjálft er jafngilt aðgerðinni 2•x, þar sem „•“ tákna margföldun. Fastaföll. Fastaföll eru einföldustu föll sem hægt er að hugsa sér. Það eru föll þar sem öll stök í skilgreiningarmenginu taka sama gildið. Sem dæmi má taka raunfallið "f": R → R;"f(x):= 1", þ.e. fall sem úthlutar öllum rauntölum tölunni 1. Margliðuföll. Margliðufall er af gerðinni "f:" R → R: formula_2 þar sem "n" er náttúrleg tala og stuðlarnir eru rauntölur eða tvinntölur. Myndræn framsetning. Línurit er myndræn framsetning á ferli falls, nánar tiltekið á tvenndunum ("x", "y"), en algengast er að nota rétthyrnt hnitakerfi, þar sem óháða breytan markast af "x-ás", en sú háða af "y-ás". Suður-Ástralía. Suður-Ástralía er eitt af sex fylkjum Ástralíu. Fylkið nær yfir miðjan suðurhluta meginlandsins. Hún var upprunalega hluti Nýja-Suður Wales nýlendunnar en varð árið 1836 sjálfstæð nýlenda. Þá tilheyrði henni Norður-svæðið sem hlaut sjálfstæði árið 1911. Höfuðborg fylkisins er Adelaide og íbúar þess rúm ein og hálf milljón. Landslagið er að stóru leyti fjöll og gróðurlítil svæði, jafnvel eyðimerkur mjög norðarlega. Á svæðunum í kringum tvo (St. Vincent og Spencer) og Murrayána í suðvesturhluta fylkisins er þó afar frjósamt land. Þar er meðal annars helsta vínræktarsvæði Ástralíu enda loftslagið mjög svipað því sem gerist við Miðjarðarhaf. Helstu atvinnuvegir fylkisins eru þjónusta og iðnaður. Tasmanía. Tasmanía er eyja suður af Ástralíu. Tasmaníufylki er eina fylki Ástralíu sem ekki er á meginlandinu en því tilheyrir auk sjálfrar Tasmaníu 334 smáeyjar. Tasmanía er 62.409 ferkílómetrar að stærð eða rúmlega helmingur af stærð Íslands. Hæsta mold Tasmaníu er tindur fjallsins Mount Ossa í 1 617 metra hæð frá sjó. 240 km eru frá Tasmaníu til Ástralska meginlandsins þar sem stist er. Á Tasmaníu býr tæp hálf milljón manns og er höfuðborgin Hobart. Nafn eyjunnar er dregið af nafni Hollenska landkönnuðarins Abel Tasman sem kom þangað fyrstur Evrópumanna. Evrópumenn settust þar fyrst að árið 1803 og aðeins 22 árum síðar, eða 1825, varð eyjan að sjálfstæðri nýlendu Breta. Stór hluti eyjunnar er þakinn sorfnum fjöllum sem eru flest skógi vaxin. Helstu atvinnuvegir Tasmaníu hafa í gegn um tíðina verið skógarhögg og námagröftur. Þessir atvinnuvegir eiga þó undir högg að sækja í dag þar sem umhverfisvernd er mjög mikil á eyjunni og þar eru stórir þjóðgarðar. Þar var einmitt fyrsti Græningjaflokkur heims stofnaður, Sameinaði Tasmaníuhópurinn, árið 1971 til að berjast gegn virkjunarframkvæmdum. Mary Donaldsson, krónprinsessa Danmerkur kemur frá Tasmaníu. Atferlishyggja. Atferlishyggja (einnig nefnd atferlisstefnan innan sálfræði) er bæði til innan sálfræði og þeirrar greinar heimspekinnar sem nefnist hugspeki. Atferlishyggja í sálfræði. Innan sálfræði er atferlishyggja stefna. Þeir sem aðhyllast atferlishyggju telja að til þess að sálfræði nýtist sem vísindagrein verði að notast við hlutlægar mælingar. Þær geta verið lífeðlislegar, sjáanlegar eða munnlegar. Munnleg hegðun er notuð til marks um það sem gerist innra með fólki, líkt og tilfinningar og hugsanir. Hlutlægar mælingar eru grundvöllur þess að meta megi árangur í meðferð eða framvindu sjúklinga. Atferlishyggjan náði að hluta til vinsældum vegna mótstöðu sinnar við kenningar sálaraflssinna. Atferlissinnar töldu sálaraflskenningar of flóknar og óljósar auk þess sem það er ekki hægt að sannreyna þær. Róttæk atferlishyggja. Í róttækri atferlishyggju er notast við hlutlægar mælingar. Miðað er að því að virknigreina hegðun og sjá hverjir undanfarar og afleiðingar hegðunar eru. Með tilliti til þessa er reynt að breyta eða móta hegðun. Róttækir atferlissinnar skoða styrkingarsögu lífveru og þekkja þau lögmál sem tengja saman áreiti og svörun til að geta skilið hegðun lífverunnar. Meðal þeirra sálfræðinga sem aðhylltust róttæka atferlishyggju voru Burrhus Frederic Skinner og John Broadus Watson. Atferlishyggja í hugspeki. Atferlishyggja er einnig til í hugspeki. Þar eru hugarferli skilgreind út frá atferli eða tilhneigingum til hegðunar. Hugsanlega má segja að það sé verið að smætta hugarferli í atferli og tilhneigingar til hegðunar auk þess sem finningum er hafnað. Samkvæmt atferlishyggjunni er það að hafa hug í raun að hafa ákveðna getu og ákveðnar tilhneigingar. Samkvæmt þessu er allt tal um sálarlíf bara dulbúið tal um hegðun og tal um langanir annarra er merkingarlaust nema að svo miklu leyti sem það snýst um hegðun annarra. Heimspekingurinn Rudolf Carnap var atferlishyggjumaður. Hann vildi þýða allt tal um hugarferli yfir í tal um atferli. Kenningin varð ekki langlíf innan hugspekinnar og fáir sannfærðust. Atferlishyggja í hugspeki átti að vera kenning um "hvað hugarferli séu", ólíkt atferlishyggju í sálfræði sem var fyrst og fremst kenning um að ekki bæri að rannsaka hugarferli heldur hegðun (þótt sumir atferlissinnar í sálfræði héldu því raunar einnig fram að hugsun "væri" hegðun). Sumir heimspekingar hafa talið að atferlishyggjan sé í raun miklu frekar kenning um hvernig megi greina eða skilja orðaforðann sem við notum yfir hugarferli, heldur en kenning um hugarferlin sjálf. Kanada. Kanada er annað stærsta landið í heiminum að flatarmáli, og þekur nyrðri hluta Norður-Ameríku. Kanada er ríkjasamband, sem samanstendur af tíu fylkjum og þremur sjálfstjórnarsvæðum. Kanada er lýðræðisríki en í konungssambandi við Bretland. Það var upprunalega myndað með Bresku Norður-Ameríku lögunum frá 1867 og kallað „sjálfstjórnarsvæðið Kanada“. Opinber tungumál eru enska og franska. Yfirlit. Höfuðborg Kanada er Ottawa, þar situr löggjafarþing landsins og þar búa líka yfirlandstjóri Kanada, sem er fulltrúi Elísabetar Bretadrottningar, formlegs þjóðarleiðtoga Kanada, og forsætisráðherrann. Vegna þess að ríkið er upprunalega sameining breskra og franskra nýlendna er Kanada meðlimur í bæði Breska samveldinu og „La Francophonie“. Kanada er formlega tvítyngt ríki: Franska er töluð mestmegnis í austurfylkjunum Quebec, New Brunswick, austur-Ontario og í ákveðnum samfélögum Atlantshafsmegin og í vestri. Enska er töluð alls staðar annars staðar nema í smærri samfélögum og meðal innfæddra. Fjórir stærstu stjórnmálaflokkarnir halda flestum, ef ekki öllum, sætum á þinginu. Kanada er tæknilega þróað og iðnvætt ríki, sem er sjálfbært í orkuframleiðslu, þökk sé stórum náttúrulegum birgðum af jarðefnaeldsneyti, ásamt kjarnorku- og vatnsorkuframleiðslu. Efnahagur þess hefur lengi treyst sérstaklega á náttúrulegar auðlindir og viðskipti, þá sérstaklega við Bandaríkin. Þrátt fyrir að fjölbreytni hafi yfirleitt aukist mikið í kanadísku efnahagslífi þá eru enn þá mörg héruð, sem treysta á vinnslu og sölu náttúrulegra auðlinda. Nafn. Nafnið „Canada“ er talið hafa átt uppruna sinn úr Huron-Iroquoi orðinu "kanata", sem þýðir „þorp“, „byggð“ eða „kofaþyrping“. Það vitnar til Stadacona, sem var byggð, þar sem nú stendur borgin Quebec. Kort, sem gerð voru af evrópskum landnámsmönnum, sýna að nafnið "Kanadaá" var gefið ánni, sem rennur í gegnum Ottawa og Saint Lawrence ánni, sem rennur sunnan við Montréal. Líkleg tilgáta bendir til þess, að áin hafi fengið nafn sitt eftir litlu þorpi, og aðliggjandi landi, sem stóð á bakka hennar. Söguágrip. VinlandUpphaflegir íbúar Kanada (þekktir í Kanada sem Fyrstu Þjóðirnar) hafa búið þar í að minnsta kosti 10.000 ár. Fyrsta heimsókn Evrópubúa varð í kringum árið 1000 eftir Krist, þegar Víkingar námu þar land, kölluðu Vínland og settu á fót byggð í stuttan tíma. Frakkar námu svo land við Saint Lawrence ánna og Kanada Atlantshafsmegin á 16. og 17. öld. Frakkland afsalaði því nær öllu Nýja Frakklandi, eins og þeir nefndu það, til Bretlands, ásamt Akadíu og svæðinu þar sem nú liggja Quebec og Ontario, með Parísarsáttmálanum 1763. Bretland kom á fót nýlendunum Nýja-Skotland, Lægra Kanada og Efra Kanada. Nýlendur, sem nú svara til fylkjanna Nýja-Skotland, New Brunswick og Prince Edward Island voru settar á laggirnar fljótlega eftir það. Efra og Lægra Kanada voru síðan sameinuð til að mynda Kanadafylkið. Bretonhöfði var seinna sameinaður Nýja-Skotland. Fyrir og eftir Bandaríska frelsisstríðið yfirgáfu margir þeir sem hliðhollir voru Bretum Nýlendurnar Þrettán til að setjast að í Kanada. Aðrir landnemar á þessum uppvaxtartíma komu frá Evrópu, þá sérstaklega frá Bretlandseyjum. 1. júlí 1867 fengu þrjár nýlendur - Kanadafylki, Nýja-Skotland og New Brunswick - eigin stjórnarskrá frá Bretum („Bresku Norður-Ameríku“ lögin) og þar með var myndað „sjálfstjórnarsvæðið Kanada“. Það samanstóð af fylkjunum Nýja-Skotland, New Brunswick, Quebec (fyrrum Austur-Kanada) og Ontario (fyrrum Vestur-Kanada). Heitið Ríkjabandalagið á við um þessi sameiningarlög frá 1867. Aðrar breskar nýlendur og sjálfstjórnarsvæði gengu fljótlega eftir þetta í bandalag við Kanada: eftir 1880 innihélt Kanada það svæði, sem að það nær yfir í dag fyrir utan Nýfundnaland og Labrador, sem sameinaðist 1949. Westminister lögin frá 1931 gáfu Kanada opinberlega fulla sjálfstjórn. Stjórnarskrá Kanada var svo formlega stofnað árið 1982. Á seinni helmingi 20. aldar hafa tvær alsherjaratkvæðagreiðslur verið haldnar í frönskumælandi Quebec til að lýsa yfir sjálfstæði („sjálfstjórn“) frá Kanada, árin 1980 og 1995. Í fyrri atkvæðagreiðslunni kusu 60% á móti sjálfstæði; en í þeirri seinni voru eingöngu 50.6% á móti. Margir telja að þriðja slík atkvæðagreiðsla sé væntanleg. Landafræði. Kanada nær yfir nyrðri helming Norður-Ameríku. Það á landamæri að Bandaríkjunum í suðri og í norð-vestri (Alaska). Landið nær frá Atlantshafi og Davissundi í austri til Kyrrahafs í vestri; af því er kjörorð landsins dregið. Í norðri eru svo Beuforthaf og Norðuríshaf. Síðan 1925 hefur Kanada átt tilkall til hluta norðurheimskautasvæðisins á milli 60. og 141. lengdargráðu vestur (); það er að segja, að tilkall Kanada til landsvæðis nær alveg upp að Norðurpól. Nyrðsta byggð Kanada (og heimsins) er Kanadíska herstöðin "Alert" á norðurenda Ellesmereeyjar — breiddargráða 82.5°N — aðeins 834 kílómetra frá Norðurpólnum. Kanada er næststærsta land í heiminum eftir landsvæði, á eftir Rússlandi og þekur um 41% af Norður-Amerísku heimsálfunni. Hins vegar liggur stór hluti Kanada á norðurheimskautasvæðinu, og hefur það því aðeins fjórða stærsta "nothæft" land á eftir Rússlandi, Kína og Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þéttleiki byggðar er aðeins um 3,2 manns á ferkílómetra, sem er mjög lágt samanborið við önnur lönd. Til samanburðar má þó geta að þéttleiki byggðar á Íslandi er tæplega 3 á ferkílómetra. Áttatíu prósent íbúa Kanada búa innan við 200 kílómetra frá landamærum Bandaríkjanna, þar sem að loftslagið er mest temprað og land er ræktanlegt. Þéttbýlasta svæði landsins er dalurinn sem afmarkast af Stóru vötnunum og Saint Lawrence ánni að austan. Fyrir norðan þetta svæði er hinn breiði Kanadíski skjöldur, en hann er klettalag, sem er jökulsorfið eftir síðustu ísöld. Þetta klettalag er nú þakið þunnu, steinefnaríku jarðvegslagi, og er skorið af vötnum og ám, en yfir 60% af stöðuvötnum heims eru staðsett í Kanada. Kanadíski skjöldurinn umlykur Hudsonflóa. Kanadíski skjöldurinn nær að strönd Atlantshafs við Labrador, meginlandshluta fylkisins Nýfundnaland og Labrador. Eyjan Nýfundnaland, austasti hluti Norður-Ameríku, er við mynni Saint Lawrenceflóa, sem er heimsins stærsti árós, og fyrsta landsvæðið, sem numið var af evrópubúum. Atlantshafsfylkin skaga austur á við frá syðri strönd Saint Lawrenceflóa, á milli flóans í norðri og Atlantshafs í suðri. Fylkin New Brunswick og Nova Scotia eru aðskilin af Fundyflóa, sem gengur úr Atlantshafinu til norðausturs. Þar eru mestu sjávarfallabreytingar (munur flóðs og fjöru) í heiminum. Minnsta fylki Kanada er Prince Edward Island. Vestur við Ontario, eru hinar breiðu og flötu Kanadísku sléttur, sem ná yfir fylkin Manitoba, Saskatchewan og Alberta, og ná allt að Klettafjöllunum, en þau liggja á milli fylkjanna Alberta og Bresku Kolumbíu. Gróður í norðurhluta Kanada dvínar eftir því sem norðar dregur frá barrskógum yfir í freðmýri og svo loksins í norðurskautsgróðurleysið (túndru) nyrst. Norðan við meginland Kanada er geysilegur eyjaklasa, sem að hefur að geyma nokkarar af stærstu eyjum jarðar. Kanada er fræg fyrir kalt loftslag. Vetur getur verið óvæginn víða í landinu, með hættu á hríðarbyljum og hitastigi niður undir -50 °C í nyrstu hlutum þess. Strandfylkið Breska Kólumbia er undantekning frá þessu og nýtur mun mildari vetra en restin af landinu, vegna nálægðar við sjó. Í þéttbygðustu svæðunum spanna sumrin frá mildu yfir í frekar hátt hitastig, þar sem að hiti í Montreal getur náð vel yfir 30 °C og í Iqaluit í Nunavut allt upp í 15 °C. Í Vancouver er hitastig yfirleitt á milli 0 til 25 °C allt árið um kring, en aftur á móti á sléttunum fer það allt niður í -40 °C á veturna og upp í 35 °C á sumrin. Íslenska Vefstofan. Íslenska vefstofan var íslenskt veffyrirtæki, stofnað árið 1998. Árið 1997 seldu eigendur IO-InterOrgan-fyrirtækið til Íslensku auglýsingastofunnar. Nafninu var haldið þar til eftir að (fyrrum eigendur) Bragi Halldórsson og Gunnar Grímsson hættu þar störfum á árinu 1998 eða 1999. Síðar var eigendum fjölgað, meðal komu Flugleiðir og Síminn inn sem eigendur. Þá fékk fyrirtækið nafnið Íslenska vefstofan. Árið 2000 úthýstu Flugleiðir tölvudeild sinni og stofnaði Skyggni annars vegar og fjórir starfsmenn vefþróunar höfu störf hjá Íslensku vefstofunni. Um það bil ári eftir stofnun var Skíma, veffyrirtæki Símans, innlimað í Íslensku vefstofuna gegn hluta í félaginu. Helstu verkefni Íslensku vefstofunnar voru fyrir þessa tvo eigendur fyrirtækisins framan af auk fjölda annarra verkefna tengt smærri viðskiptavinum. Eftir víðfrægt gagnatap vegna tölvubilunar árið 2003 sameinuðust Íslenska vefstofan og Origo undir merkjum þess síðarnefnda. Origo. Origo er íslenskt vefhugbúnaðarfyrirtæki og eitt af dótturfyrirtækjum TM Software. Fyrirtækið er með þróunardeildir sem vinna í Java, .Net og Delphi og hjá því starfa rúmlega 30 manns. Auglýsingastofa Reykjavíkur. Auglýsingastofa Reykjavíkur hf. var í hópi fyrstu fyrirtækja Íslands til að vinna vefsíður fyrir fyrirtæki og opinbera aðila. Fyrstu þreifingar fyrirtækisins í heimasíðugerð byrjuðu árið 1995 og voru frá upphafi í nánu samstarfi við opinbera, eða hálf-opinbera aðila á borð við Ferðamálaráð og Samtök iðnaðarins. Megin áherslan var á smíði og rekstur sérhæfðra kynningarvefsvæða (vefgátta) sem báru nöfn eins og "Iceland Travel Web" og "North Atlantic Solutions", en þar voru kynnt þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi. Inni á þessum gáttum áttu fjöldamörg fyrirtæki sinn fyrsta vísi að heimasíðum, fyrirtæki á borð við Úrval-Útsýn, Samvinnuferðir-Landsýn, Borgarplast, Marel, o.fl. Á þessum tíma kostaði leiga á.is-léni vel yfir tíu þúsund krónur á mánuði, og sökum þess hversu ungur og ómótaður vefurinn var sem kynningarmiðill á þessum árum, þá veigruðu jafnvel stærstu fyrirtæki sér við því að fjárfesta í eigin léni. Auglýsingastofan var alla tíð fremur smá í sniðum, mest átta starfsmenn sumarið 1996, og vefhönnunin og -smíðin var aldrei nema lítill hluti af starfsemi fyrirtækisins. Haustið 1996 ákváðu þáverandi eigendur auglýsingastofunnar að skipta rekstrinum á milli sín. Kristján hélt áfram rekstri hefðbundinnar auglýsingastofu undir sama nafni, en Hermann flutti með þann hluta rekstursins sem sneri að vefsíðugerðinni út í Sundaborg og stofnaði Íslensku Internetþjónustuna, sem síðar sameinaðist Hugviti. Auglýsingastofa Reykjavíkur var rekin áfram í sísmækkandi mynd eitthvað fram yfir árið 2000 og fékkst aldrei aftur að neinu marki við vefsíðugerð. Sjá (fyrirtæki). Sjá ehf. er fyrirtæki sem sérhæfir sig í prófun á viðmóti, kerfisprófunum, aðgengisúttektum fyrir fatlaða, þarfagreiningu, útboðum og ráðgjöf. Sálfræðimeðferð. Miklar deilur hafa staðið um hvers konar sálfræðimeðferð sé áhrifaríkust til að meðhöndla geðraskanir, og hvort þær séu yfirleitt áhrifaríkari en engin meðferð eða gervimeðferð. Þekkt eru svokölluð Dúdúfuglsáhrif, eða sú niðurstaða sumra rannsókna að allar tegundir sálfræðimeðferðar virki jafn vel. Sálfræðingur. Sálfræðingur er lögverndað starfsheiti samkvæmt lögum nr. 40 23. maí 1976. Að öllu jöfnu er krafist framhaldsmenntunar í sálfræði eða sálfræðilegri uppeldisfræði, sjá og. Dúdúfuglsáhrif. Dúdúfuglsáhrifin er sú niðurstaða sumra rannsókna að allar tegundir sálfræðimeðferðar við geðröskunum virki jafn vel. Nafnið er komið úr bókinni Lísu í Undralandi, þar sem ein sögupersónan, dúdúfugl, segir að allir hafi unnið, og því þurfi allir að fá verðlaun. Dúdúfugl. Dúdúfugl (fræðiheiti: "Raphus cucullatus") var metrahár ófleygur fugl af dúðaætt sem átti heimkynni sín á eynni Máritíus. Tegundin, sem dó út árið 1681 lifði á ávöxtum og bjó sér til hreiður í jörðinni. Fyrsta myndin sem birtist á prenti þar sem dúdúfugl sést. Myndin er frá um 1601 Farartæki. Farartæki eru flokkuð sem "ólífrænn flutningsmáti". Þau eru oftast nær gerð af mannahöndum (Bátar, Reiðhjól, Vélhjól, Lestar, Bílar og Flugvélar) en stundum hafa náttúrulega tiltæk efni verið notuð, svo sem ísjakar, fljótandi trjástofnar og þess háttar. Samgöngur eru oft stundaðar með farartækjum auk þess sem menn labba eða hlaupa til samgangna. Hjáfræði. Hjáfræði, einnig kölluð gervivísindi'", eru hugmyndakerfi sem fylgjendur þeirra telja til vísinda, en aðrir telja að séu einungis eftirlíking þeirra. Áráttu-þráhyggjuröskun. Áráttu-þráhyggjuröskun (enska: "Obsessive-compulsive disorder", skammstafað "OCD") er kvíðaröskun sem felur í sér endurteknar og óvelkomnar hugsanir, hugmyndir og „huglægar myndir“, sem valda kvíða, streitu og öðrum óþægindum. Hugsanirnar og hugmyndirnar valda því að einstaklingurinn fer að hegða sér á einhvern óeðlilegan hátt til að forðast það að það sem felist í hugsununum eða hugmyndunum geti orðið að veruleika. Lýsing á einkennum. Áráttu-þráhyggjuröskun felur í sér endurteknar hugsanir, hugmyndir og „huglægar myndir“ (e. mental images) sem valda streitu og óþægindum og „troða“ sér upp á einstaklinginn. Þessar hugsanir og hugmyndir eru kallaðar þráhyggjur. Þeir sem upplifa þráhyggjurnar gera sér yfirleitt grein fyrir því að þær eru óraunhæfar en geta einfaldlega ekki barist á móti þeim, og það að berjast á móti þeim getur jafnvel gert hlutina ennþá verri, því að þá eiga þráhyggjurnar það til að koma frekar fram - vegna þess, að það að reyna að hugsa ekki um eitthvað felur í sér að hugsa um það sama. Oft eykur það á alvarleika þráhyggjunnar að hún tengist einhverju sem einstaklingnum finnst skammarlegt, dæmi um það er mjög trúaður einstaklingur sem finnur hjá sér hvöt til að endurtaka blótsyrði. Afleiðing þráhyggjanna er það sem kallað er árátta, en árátta er hegðun eða hugsun, sem ætlað er að sporna gegn því að þráhyggjurnar verði að veruleika. Sé áráttuhegðunin ekki framkvæmd, veldur það miklum kvíða. Árátta getur snúist upp í "ritual" og finnst viðkomandi þá að hann þurfi að framkvæma áráttuhegðunina í ákveðinn fjölda skipta og á ákveðinn hátt svo ekkert fari úrskeiðis, en annars getur hann þurft að byrja að nýju. Einnig getur þróast fyrirbæri sem lýsir sér þannig að ákveðnar tölur eru „góðar“ og aðrar „slæmar“, verður þá að endurtaka ákveðnar athafnir í ákveðinn fjölda skipta - fjöldinn er jafn einhverri af „góðu“ tölunum. Algeng þráhyggja felur í sér hugsanir um sýkla og hreinlæti. Áráttan felst þá í hreinsandi hegðun, svo sem að þvo sér um hendurnar í hvert sinn sem sá sem af röskuninni þjáist telur sig hafa komist í færi við sýkla. Hegðun sem þessi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Mörg dæmi eru um að hegðun fólks sem hefur fundið til þessarar hvatar, að þvo sér í sífellu um hendurnar, hafi gengið út í öfgar þannig að það hefur þvegið sér þangað til skinnið eyddist og einungis bert kjötið var eftir. Þrátt fyrir að hlutir sem slíkir gerist hættir fólk sjaldnast athæfinu og heldur áfram að þvo sér. Algengast er að árátta feli einnig í sér þráhyggju en þó eru til tilfelli þar sem ekki er um þráhyggju að ræða. Þá getur þráhyggja verið til staðar án verulegrar áráttu. Kvíði er oft vanmetinn þáttur í áráttu- og þráhyggjuröskun. Og oft er erfitt að greina á milli áráttu og þráhyggju og kvíða. Oft kemur í ljós í greiningarferli að kvíði stjórnar áráttum og viðheldur hegðun. Greiningarviðmið. Viðkomandi þarf að hafa einkenni áráttu tengd þráhyggju í nokkurn tíma til að geta talist hafa áráttu-þráhyggjuröskun. Áráttu-þráhyggjuröskun hefur áhrif á tvo til þrjá einstaklinga af hverjum 100. Algengast er að einkenni komi fyrst fram í bernsku eða á unglingsárum. Ástæður, rætur og meðferð. Í ljós hefur komið að áráttu-þráhyggjuröskun á sér líkamlegar rætur, en um er að ræða skort á serótóníni á ákveðnum stöðum í heilanum. Ákveðin þunglyndislyf hafa reynst vel til að minnka þráhyggjur og á sama tíma vinna á þunglyndi einstaklingsins, ef það er til staðar, en oftast er lyfjum beitt á sama tíma og sálfræðimeðferð. Atferlismeðferð - sem er oftast notuð sem sálfræðimeðferð í tilvikum áráttu-þráhyggjuröskunar - getur minnkað áráttuhegðun en hefur ekki jafn mikil áhrif þegar kemur að því að minnka þráhyggjuhugsanir. Það að blanda saman lyfjameðferð og sálfræðimeðferð hefur reynst skila einna bestum árangri. Einnig hefur listmeðferð haft mikil áhrif og oft skilað miklum árangri. Sérstaklega á það við um yngri einstaklinga, sem oft eiga erfitt með að útskýra líðan sína með orðum. Batahorfur eru mjög góðar; um 70-80% þeirra sem greinast með áráttu-þráhyggjuröskun fá góðan eða fullan bata eftir um 10-12 vikna meðferð. Algengt að röskunin taki sig upp aftur, svo sem þegar einstaklingurinn er undir streitu. Til að hamla því að röskunin taki sig upp aftur, þá getur verið nauðsynlegt að einstaklingurinn breyti matarræði, hreyfi sig meira, taki vítamín og stundi slökun. Einnig getur verið gagnlegt að læra nýjar aðferðir til að takast á við streitu. Góður og reglulegur svefn er einnig höfuðatriði. Sé heilbrigt líferni stundað (sbr. hér að framan), þá er mjög líklegt að viðkomandi geti lífað góðu og eðlilegu lífi. Áráttu-þráhyggjuröskun er talin vera ættgeng að einhverju leyti. Þunglyndi og aðrar raskanir geta ýtt undir þráhyggjur, hvort sem þær hafi verið til staðar eða ekki. Einnig getur þunglyndi og aðrar raskanir orðið til útfrá áráttu-þráhyggjuröskun. Mikið álag og/ eða áfall getur sett af stað ferli sem leiðir til áráttu -þráhyggjuröskunar. Þeir sem hafa það sem kalla má fullkomnunarpersónuleika virðast líklegri til að þróa með sér áráttu-þráhyggjuröskun. Þannig einstaklingar eru samviskusamir, hafa miklar áhyggjur af því að víkja frá hinum almennu reglum samfélagsins og setja sjálfum sér og öðrum miklar kröfur. Það getur verið að í sumum tilfellum hafi þessir einstaklingar ekki náð að uppfylla eigin kröfur og viðmið og að þeir yfirfæri þær því á eitthvað ákveðið. Á hinn bóginn eru ekki nándar allir þeir sem þjást af áráttu fullkomnunarsinnar. Auk þess er líklegra að fullkomnunarsinnar þjáist af þunglyndi en áráttu. Sjálfshjálparbækur. Margir sálfræðingar og geðlæknar mæla með eftirfarandi bókum fyrir þá sem þjást af áráttu-þráhyggjuröskun, en einnig fyrir ættingja þeirra. Lewis Carroll. Ljósmynd af Lewis Carroll sem hann tók sjálfur, með aðstoð. Charles Lutwidge Dodgson (27. janúar 1832 – 14. janúar 1889), betur þekktur undir höfundarnafninu Lewis Carroll, var breskur heimspekingur, rökfræðingur, stærðfræðingur, ljósmyndari, prestur og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir það að hafa skrifað bókina "Lísa í Undralandi", og framhald hennar "Gegnum spegilinn", ásamt skopljóðinu "Snarksveiðin" og bullljóðið "Jabberwocky". Hann hafði dálæti á orðaleikjum, rökvillum, þrautum og ævintýrum, og hæfni hans hefur heillað fólk á öllum aldri. Verk hans hafa verið vinsæl frá því að þau voru gefin út og hafa haft víðtæk áhrif á barnabækur. Margir 20. aldar rithöfundar hafa orðið fyrir verulegum áhrifum af verkum Lewis Carroll, til dæmis Jorge Luis Borges og James Joyce. Félög hafa verið stofnuð víða um heim til þess að rannsaka og kynna verk Lewis Carrolls, svo sem í Englandi, Bandaríkjunum, Japan og Nýja Sjálandi. Æviágrip. Charles Lutwidge Dodgson fæddist í Cheshire á England. Faðir hans, Charles Dodgson, var prestur í kirkjunni í Daresbury, litlu þorpi rúmlega 11.2 km frá Warrington. Fjölskylda hans var fyrst og fremst ensk, en þó átti hann einhverjar rætur að rekja til Írlands. Fjölskyldan var íhaldssöm og trúuð, og flestir forfeðra Dodgsons voru úr klassískum efri-miðstéttum kirkjunnar og hersins. Langafi hans, einnig Charles Dodgson að nafni, var biskup, og afi hans, enn einn Charles Dodgson, hafði verið kafteinn í hernum. Hann lést í bardaga árið 1803 og lét eftir sig tvo kornunga syni. Eldri sonurinn, Charles, sniðgekk herinn og gerðist prestur. Hann stundaði nám við Westminster og síðar við Christ Church, Oxford. Hann hafði mikla stærðfræðihæfileika og útskrifaðist með gráður í guðfræði og stærðfræði. Hann hefði getað átt mjög litríkan feril sem vísindamaður, en þess í stað giftist hann frænku sinni árið 1827 og tók stöðu í einangraðri kirkjusókn. Charles Lutwidge Dodgson var þriðji af ellefu systkinum — sjö stelpur og fjórir strákar. Hann var elsti strákur fjölskyldunnar og öll hin systkini hans komust upp, sem þótti óvenjulegt á þeim tíma. Fjölskyldan var mjög náin. Þegar Charles var 11 ára fékk faðir hans stöðu í Croft-on-Tees í norðurhluta Yorkshire, og öll fjölskyldan flutti í þessa stærri kirkjusókn þar sem þau bjuggu næstu 25 árin. Faðir hans fékk nokkrar stöðuhækkannir innan kirkjunnar: hann gaf út bók með predikunum sínum, þýddi Tertullian, varð erkidjákni Ripon dómkirkjunnar, og skipti sér af trúardeilum sem voru að sundra ensku kirkjunni. Hann hallaðist að Ensk-Kaþólisisma og heillaðist af Tractarian hreyfingunni. Eðli kvöldlæga áreitisins verður líklega aldrei þekkt með vissu, en það getur verið að hann hafi verið að tala um einhverskonar kynferðislega misnotkun. Burtséð frá þessu stundaði hann nám sitt af mikilli kostgæfni, en R.B. Mayor, stærðfræðikennarinn hans, sagði að hann hefði ekki séð lofsverðari pilt á sinni tíð í Rugby. Ritverk. Að auki hélt hann dagbækur frá Janúar 1855 til Desember 1897, en dagbækur hans hafa verið gefnar út af The Lewis Carroll Society í níu bindum. Rafrænir textar. Carrol, Lewis Carrol, Lewis Carrol, Lewis Carrol, Lewis Carrol, Lewis Carrol, Lewis Lísa í Undralandi. Myndskreyting sem sýnir Lísu, hérann og óða hattarann í teboði sem átti ekki að taka enda. Lísa í Undralandi (e. "Alice's Adventures in Wonderland") er skáldsaga eftir breska heimspekinginn Lewis Carroll. Á frummálinu var hún fyrst gefin út árið 1865. Bókin er sú fyrsta bókin í bókaröð sem segir frá uppátækjum ungrar stúlku að nafni Lísa, sem hefur ögn frjórra ímyndunarafl en flestir þora að viðurkenna. Sagan er uppfull af þrautum, rökvillum og mótsögnum og öðrum heimspekilegum vangaveltum höfundarins. Sagt er að sagan um Lísu hafi verið sögð í fyrsta skiptið um borð í árabát, en þar kepptist Carroll við að halda litlum frænkum sínum uppteknum með því að spinna söguna. Þegar sagan var svo skrifuð tók hún á sig nýjar víddir. Sagan. Aðalsögupersóna sögunnar er Lísa, 10 ára gömul stelpa sem ákveður að elta hvíta kanínu í mittisjakka með úr niður um holu í jörðinni, á þeim forsendum að hún myndi þá ekki hafa áhyggjur af því framar að detta niður tröppurnar heima hjá sér, annars vegar, og hins vegar að henni þótti afar forvitnilegt að vita hvers vegna kanínan var að drífa sig svo mikið. Þegar að ofan í holuna er komið rekst Lísa á alls kyns kynjaverur, þar á meðal óðan hattara og hjartadrottninguna, æðsta spilið í spilastokknum, sem hefur einkennilegar nautnir af því að láta afhausa alla þá sem þóknast henni ekki. Undraland er nafn þessara heims sem hún "datt" (eða, betur sagt, elti hvítu kanínuna ofan í) í, og sá heimur er kallaður Undraland, út af öllu því sem að er þarna. Til dæmis skælbrosandi köttur, klikkaði hattarinn, gervi skjaldbakan, dúdúfuglinn og hvíta, talandi kanínan í mittisjakkanum. Athygli. Skynfæri fólks gera því unnt að nota upplýsingar um umhverfið til að stýra hegðun sinni. Í umhverfinu er þó svo gífurlegt magn áreita að fólk getur aðeins unnið úr litlu broti af því á hverjum tíma. Athygli gerir fólki kleift að veita tilteknum upplýsingum forgang við úrvinnslu. Með því að beina athyglinni að ákveðnum þáttum er því hægt að velja úr þær upplýsingar sem eru líklegar til að skipta máli fyrir hegðun, og að sama skapi hundsa þær sem skipta ekki máli. William James. William James (11. janúar 1842 — 26. ágúst 1910) var frumkvöðull í bandarískri sálfræði, þessi læknisfræðimenntaði bandaríkjamaður var fyrstur til að setja upp tilraunastofu í sálfræði í Bandaríkjunum. Hann skrifaði eina fyrstu kennslubókina í sálfræði, Principles of Psychology sem hann skrifaði eftir að hafa kennt við Harvard háskólann. Hann var meðal annars annar höfundur hinnar þekktu James-Lange kenningu. Bróðir hans var Henry James, rithöfundur. Tenglar. James, William Ástæða. Ástæða einhvers er það sem fólk telur að útskýri hvers vegna eitthvað er eins og það er. Ástæða hegðunar er til dæmis það sem fólk telur að réttlæti tiltekna hegðun (hér þarf réttlætanlegt ekki endilega að vera notað í merkingunni siðferðislega rétt). Hegðunin sem um ræðir er því ávallt viljastýrð. Í síðara tilvikinu gefur ástæðan til kynna tilgang, en ekki í fyrra tilvikinu. Vísindaleg sálfræði snýst um að finna orsakaskýringar, en alþýðusálfræði gefur aðallega ástæðuskýringar. Greinarmunurinn er aftur á móti vandasamur því hægt er að líta á ástæður sem orsakir, líkt og sumir heimspekingar hafa leitt rök að í athafnafræði. Orsök. Orsök er annar tveggja aðila orsakavensla sem geta verið á milli hluta eða atburða; hinn aðili orsakavenslanna nefnist afleiðing. Orsökin er sögð "valda" afleiðingunni; segja má að hún sé nægjanlegt skilyrði afleiðingarinnar. Að öllu jöfnu má segja að ef orsökin gerist eða eigi sér stað, þá gerist afleiðingin líka eða hún á sér stað. Yfirleitt er orsök talin fara á undan afleiðingunni í tíma. Orsök hegðunar. Orsök hegðunar leiðir einfaldlega til hennar, óháð því hvort hægt sé að réttlæta hegðunina með orsökinni. Gerandi þekkir ekki alltaf orsakir hegðunar sinnar. Dæmi um orsakaskýringu: Af hverju er Jóna með Nonna? Af því að þegar Jóna sér eða hugsar um Nonna þá eykst virkni randkerfisins og adrenalín flæðir um líkamann. Vísindaleg sálfræði snýst um að finna orsakaskýringar, en alþýðusálfræði gefur aðallega ástæðuskýringar. Greinarmunurinn er samt vandasamur og erfiður vegna þess að ástæður geta verið orsakir, eins og sumir heimspekingar hafa leitt rök að í athafnafræði. IDN-lén. IDN-lén er Internetlén með forskeytinu „xn--“ en slík lén á skv. tilmælum IANA að umkóða úr Unicode af biðlaranum, útkoman verður að þegar notandinn biður um lén, t.d. „köttur.is“ er það umkóðað í „xn--kttur-jua.is“ áður en það er sent til nafnaþjónsins, útkoman er kerfi sem er samhæft við það gamla en þó er hægt að nota aðra stafi en a-z, 0-9 og - eins og upprunalega takmörkunin var, - er þó ekki hægt að nota í byrjun og enda léns. IDN-lén hafa hins vegar ekki náð miklum vinsældum þar sem mest notað vafrinn, Internet Explorer frá Microsoft styður ekki þá tegund léna auk ýmissa póstforrita. Mozilla Firefox, Opera, Apple Safari o.fl. styðja þau hins vegar. 1. júlí 2004 hóf ISNIC að úthluta IDN-lénum undir þjóðarléninu .is. Dæmi um íslenskt IDN-lén er. Hegðun. a> hefur verið notað til að rannsaka atferli dýra. Hegðun eða atferli er látæði tiltekinnar lífveru, ytra framferði hennar, og getur verið bæði meðvitað og ómeðvituð, viljastýrt sem og sjálfvirkt. Hegðun lífvera ræðst af taugakerfi þeirra. Sé taugakerfið flókið er hegðun lífverunnar það líka. Flókin taugakerfi bjóða einnig upp á fleiri tækifæri til þess að breyta hegðun lífverunnar með námi. Stundum er talað um hegðun dauðra hluta, s.s. tölvu, en menn greinir á um hvort það sé rétt notkun á hugtakinu þar eð hegðun krefst geranda og ekki eru allir sammála um að dauðir hlutir séu gerendur í þeirri merkingu. Heilaskönnun. Mynd af mannsheila, tekin með MRI-skanna. Heilaskönnun er tækni til að taka myndir af lifandi heila, annað hvort formgerð hans eða virkni. Heilaskönnun er til að mynda notuð í læknisfræði, taugavísindum og sálfræði. Á seinni hluta 20. aldar komu fram tæki sem gerðu mönnum kleift að skoða í þaula heila mannsins og skoða virkni hans. Tæki til heilaskönnunar (einnig þekkt sem heilaskimun) eru margs konar og notagildi þeirra mismunandi, en þessi byltingarkennda rannsóknaraðferð gerir læknum kleift að staðsetja heilaskemmdir fyrir lát sjúklingsins auk þess að kortleggja líffæri heilans og fylgjast með virkni heilans við vinnslu á verkefnum sem sjúklingnum er sett fyrir. Eðlilega er reynt að forðast óþægindi og óæskilegan skaða í garð sjúklinganna sem af notkun tækjanna gæti hlotist og eru tækin öll skaðlaus ef farið er eftir ákveðnum vinnureglum. Eins og áður hefur komið fram eru til margar mismunandi gerðir tækja til heilaskimunar en frægast þeirra er ef til vill CAT-skanninn sem var fundinn upp árið 1971, en í stuttu máli virka tækin þannig að fjöldi tvívíðra mynda er raðað saman með hjálp tölva til að búa til þrívíddar líkan sem hægt er að skoða frá öllum hliðum. Ólympíuleikvangurinn í München. Ólympíuleikvangurinn í München var byggður fyrir Ólympíuleikana árið 1972. Nú er hann notaður undir frjálsíþróttakeppnir, tónleika og fótboltaleiki. Bayern München og 1860 München hættu að nota leikvanginn sem heimavöll árið 2005 vegna þess að í sameiningu byggðu þau nýjan leikvang sem ber nafnið Allianz-Arena. Leikvangurinn ber samtals 69.100 manns sem skiptist niðu í 57.000 í sæti, 12.000 í stúku og 100 fyrir fólk sem er bundið við hjólastól. Evra. Evran (€; ISO 4217 kóði: EUR) er gjaldmiðill í 17 af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Ein evra skiptist í 100 sent. Evrunni er stjórnað af Evrópska seðlabankanum í Frankfurt í samvinnu við seðlabanka aðildarríkja. Lönd sem nota evru sem gjaldmiðil. Löndin sem nota evru sem gjaldmiðil eru oftast nær kölluð evrulöndin eða evrusvæðið. Seðlar og mynt. Evran varð opinberlega til 1. janúar 1999 en þá aðeins sem rafrænn gjaldmiðill þar sem gengi gömlu gjaldmiðlanna var fryst. Seðlar og mynt komu hins vegar í umferð 1. janúar 2002. Gefin er út mynt í upphæðum 0,01€, 0,02€, 0,05€, 0,10€, 0,20€, 0,50€, 1€ og 2€ og seðlar í upphæðum 5€, 10€, 20€, 50€, 100€, 200€ og 500€. útlit seðlanna er eins í öllum aðildarríkjum á meðan framhliðar myntarinnar er eins en bakhliðarnar mismunandi eftir útgáfulöndum. Stækkun Evrusvæðisins. Stækkun evrusvæðisins er í stöðugri framþróun. Öll 27 ríki sambandsins, að Bretlandi og Danmörku undanskyldu, eru skuldbundin því að taka upp evru á einhverjum tímapunkti. Einnig munu allir framtíðarmeðlimir ESB taka upp evru. Því er ljóst að að minnsta kosti 8 ríki til viðbótar stefna að upptöku evru í nánustu framtíð. Í Danmörku hefur verið lagt til að kosið verði um aðild að myntbandalaginu fyrir júní 2011. Verði upptaka evru samþykkt í Danmörku í þjóðaratkvæðagreiðslu gætu Danir tekið upp evru mjög hratt þar sem ríkið uppfyllir öll skilyrði fyrir upptöku. Danir gætu því orðið 18. ríki ESB sem gerist aðili að Evrusvæðinu. Fyrir utan mögulega inngöngu Danmerkur á myntsvæðið er búist við að Lettland og Litháen verði næst til að taka upp evru, líklega árið 2013 en nágrannar þeirra Eistland tók upp evru 1. janúar 2011. Porto. Porto, áður Portucale, er borg í norðurhluta Portúgals, við nyrðri bakka Douro árinnar og liggur að Atlantshafi. Porto er önnur stærsta borg Portúgals og höfuðborg norðurhlutans. Veðurfarið í Porto er milt. Sumur eru heit, allt uppí 40 gráður, en hitastigið er þó lægra en í flestum borgum í suðurhlutanum og inn til landsins, þökk sé köldum vindum sem blása af Atlantshafinu. Sjálft nafn landsins, Portúgal, er tilkomið vegna borgarinnar sem jafnframt er fyrsta höfuðborg landsins. Að auki eru púrtvín nefnd eftir borginni (p. "Vinho do Porto"), þrátt fyrir að framleiðsla þeirra fari fram í annarri borg, Vila Nova de Gaia, sem aðskilin er Porto af Douro ánni. Douro. Douro (á latínu Durius, spænsku Duero og portúgölsku Douro) er ein stærsta á Portúgals og Spánar. Áin á upptök sín nálægt Soria á Spáni og rennur til Porto í Portúgal, þar sem hún mætir hafi. Heildarlengd árinnar er 765 km, og aðeins er hægt að ferðast á skipum um hana á þeim hluta sem rennur um Portúgal. Talið er að nafn árinnar komi frá keltnesku þjóðflokkunum sem byggðu svæðið áður en Rómverjar náðu þar yfirráðum. Orðið „drw“ er keltneskt orð yfir á. Tagus. Tagus (latína: "Tagus", spænska: "Tajo", portúgalska: "Tejo") er stærsta á Íberíuskagans. Áin er 1.038 km að lengd, þar af eru 716 kílómetrar á Spáni, 47 kílómetrar hennar þjóna sem landamæri landanna tveggja og þeir 275 kílómetrar sem eftir standa eru í Portúgal. Upptök Tagus árinnar eru í Fuente de García, í Albarracín fjöllunum og hún mætir hafi í Lissabon. Évora. Évora er borg í samnefndu héraði í austurhluta Portúgal. Hún er staðsett í Alentejo í suðurhluta Portúgal. Hún er höfuðborg, og jafnframt stærsta borg, Alto Alentejo héraðsins. Staðsetning borgarinnar er 38°06';07°54' og stendur hún í 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Braga. Kort sem sýnir staðsetningu Braga. Braga er borg í norðvesturhluta Portúgals, í Minho héraðinu. Þegar rómverjar réðu landinu var hún höfuborg Calaecia hérðasins og hét þá Bracara Augusta. Faro. Faro er bæði borg og hérað í suðurhluta Portúgal. Í Faro er stjórnsýsla Algarve svæðisins og íbúar borgarinnar eru um 55.000. Flestar byggingar borgarinnar voru byggðar skömmu eftir jarðskjálftann í landinu árið 1755. Algarve. Algarve er heitið á landsvæði í suðurhluta Portúgal þar sem m.a. er að finna bæina Faro, Lagos og Sagres. Stjórnsýsla svæðisins er í Faro, sem státar af eigin flugvelli. Algarve-svæðið nær yfir 5.412 ferkílómetra þar sem um 350.000 manns búa. Þessi tala hækkar í yfir milljón um hásumar vegna hins ótrúlega fjölda ferðamanna sem heimsækja svæðið. Helsta aðdráttarafl Algarve-svæðisins eru hreinar strendur, hlýtt miðjarðarhafsloftslag og lágt verðlag. Sá hluti strandlengjunnar sem vísar til suðurs er um 155 kílómetrar, og 52 kílómetrar af þeirri strönd tilheyra svæðinu. Íberíuskaginn. Íberíuskaginn er skagi í suðvesturhluta Evrópu. Portúgal, Spánn, Andorra og breska nýlendan Gíbraltar eru öll á Íberíuskaganum. Að suðri og austri umlykur Miðjarðarhafið skagann og í norðri og vestri Atlantshafið. Á norðausturhluta skagans tengja Pýreneafjöllin hann við Evrópu. Skaginn er alls 582 860 km² að stærð. Gíbraltar. Gíbraltar er landsvæði við norðurhluta Gíbraltarsunds undir stjórn Bretlands í suðvesturhluta Evrópu með landamæri að Spáni. Á Gíbraltar er Gíbraltarhöfði sem myndar annan hluta af súlum Herkúlesar og tengir Norður-Atlantshafið við Miðjarðarhafið. Espinho. Espinho er bæði heitið á sveitarfélagi og bæ suður af Porto, Portúgal. Íbúar eru rétt yfir 10.000 og tilheyra Aveiro héraðinu. Helsta lifibrauð heimamanna er ferðamannaþjónusta, auk þess sem bærinn státar af spilavíti. Vila Nova de Gaia. Vila Nova de Gaia er borg og bæjarfélag í Portúgal, einnig þekkt undir nafninu Santa Marinha. Borgin tilheyrir Porto héraðinu og er staðsett sunnanmegin við Douro ána. Íbúatala er 289.000. MDMA. MDMA (3,4-metýlendíoxýmetamfetamín), best þekkt undir nöfnunum alsæla eða e-pilla, er tilbúið fenetýlamín sem orkar á heilann á þann hátt að ýta snögglega undir framleiðslu á serótóníni. Það veldur skynjunaráhrifum hjá neytandanum, til dæmis einlægni, sæluvímu og góðri tilfinningu. Sumir neytendur finna fyrir meiri snertiáhrifum sem að gerir snertingu almennt ánægjulegri. Þrátt fyrir almennar sögusagnir um annað, hefur lyfið ekki almenn kynorkuaukandi áhrif. Sökum hæfni lyfsins til að hjálpa við að draga úr hræðslu við sjálfskoðun hefur það reynst nytsamlegt í ýmisskonar meðferðartilgangi, þá sérstaklega áfallaröskun. Það hafa orðið til nokkur dauðsföll í notkun MDMA, þá sérstaklega vegna ofurhita og serótónín heilkennis. Brátt vökvatap getur verið áhætta hjá sumum sem að eru líkamlega virkir á meðan áhrifum stendur og þeim sem gleyma að drekka vatn, því að lyfir getur hulið venjulega skynjun á þreytu eða þorsta. Hið mótstæða getur líka komið fyrir, þegar notandinn drekkur of mikið vatn sem að getur valdið natríumskorti. Mesta hættan stendur samt að því önnur lyf geta verið blönduð saman við (svo sem PMA, DXM eða amfetamín) töflurnar sem að síðan eru seldar sem hrein alsæla. Langtímaáhrif lyfisins eru ekki vel þekkt og sitja undir miklum ágreiningi. MDMA er þekkt undir ýmsum götunöfnum, eins og "adam", "alsæla", "e-pilla", "ella", "e", "helsæla", "XTC", "M&M" eða "smartís". Saga. Sótt var um einkaleyfi á MDMA aðfangadag jóla 1914 af þýska lyfjafyrirtækinu Merck, tveimur árum eftir að það var fyrst búið til. Á þeim tíma var Merck á kerfisbundinn hátt að búa til og sækja um einkaleyfi á ýmsum lyfjasamböndum sem að hægt væri að nýta í læknisfræðilegum tilgangi, og sökum þess lá MDMA gleymt í áraraðir. Þrátt fyrir orðróm um annað, var MDMA aldrei notað til að bæla matarlyst né sem örvandi efni handa hermönnum á stríðstímum. Samt sem áður stundaði Bandaríski herinn rannsóknir á bannvænum skömmtum lyfsins á miðjum sjötta áratugnum. Það var gefið nafnið EA-1475. Niðurstöður þessara rannsókna komu ekki fyrir almannasjónir fyrr en árið 1969. MDMA var fyrst kynnt fyrir almenningi af Dr. Alexander Shulgin, á sjöunda áratugnum, sem að ráðlagði notkun þess við meðferðir og kallaði það „glugga“ (hann uppgötvaði það þegar hann var að leita að efnum með svipuð ofskynjunaráhrif og önnur efni sem að unnin voru úr múskati). Það var notað í meðferðarlegum tilgangi af bandarískum sállæknum (þá sérstaklega á vesturströndinni) vegna einlægnisáhrifa þess þangað til að það var gert ólöglegt árið 1985. Lyfið var fyrst þekkt á íslandi í kringum 1992, þegar fyrsta eintakið var gert upptækt af lögreglunni, og jókst fyrst í vinsældum meðal áhugamanna danstónlistar, þá aðallega innan reifmenningarinnar, en síðan barst notkun þess meira á meðal almennings. Eitthvað virðist hafa dregið úr vinsældum þess síðar. Framboð og neysla. MDMA er yfirleitt tekið í töfluformi. Töflurnar eru til í mörgum „tegundum“, yfirleitt merktar með tákni á töflunni sjálfri. Þessar tegundir hafa yfirleitt lítið að gera með innihaldið því að hver sem er getur framleitt töflur með sama tákni og aðrar þekktar tegundir. Töflur seldar ólöglega, innihalda ekki alltaf eingöngu hreint MDMA. Töflur á svarta markaðinum hafa stundum fundist innihalda skyld efni líkt og MDEA, MDA og MBDB, og stundum algerlega óskild geðvirk efni eins og amfetamín, DXM, efedrín, PMA, koffín, ketamín og önnur. Þó að ofskömmtun af MDMA sé sjaldgæf, þá eru (stundum lífshættuleg) viðbrögð við áðurnefndum bætiefnum vel þekkt. MDMA virðist vera eitt af algengustu blönduðu efnum á götunni í dag. Hins vegar virðist það vera ólíklegra að það komi blandað frekar en að það hafi einfaldlega verið skipt út fyrir önnur efni sem að síðan eru seld sem MDMA. Þrátt fyrir að nákvæm greining á Alsælutöflum þarfnast þróaðra rannsóknarstofutækja eins og gasgreiningartækis, er hægt að nota ónákvæmara próf sem að mælir lýting (alkaloid), svokölluð „Marquis svörun“. Taugafræðileg áhrif. Serótónín er eitt af efnasamböndunum í líkamanum sem að ábyrgt fyrir hugarástandi og geðþótta. Það er talið að MDMA valdi því að serótónínbirgðir í heilanum dembi stórum skömmtum af seratóníni inn í taugamót heilans á meðan vímunni stendur (4—6 klukkutímar), sem að veldur aðaláhrifum vímunnar. Auk þess, eykur MDMA magn dópamíns og noradrenalíns. Fyrir utan hættu sem stafar af óhreinum efnum eru aðaláhættur neyslu Alsælu ofnæmisáhrif, sem eru mjög sjaldgæf, og vökvatap. Eins og mörg amfetamínskyld efni getur MDMA falið líkamleg viðbrogð við þorsta og þreytu, sérstaklega ef að notandi er dansandi eða að öðru leiti líkamlega virkur í langan tíma án þess að neyta vatns. Í kyrrsetumeðferð eru tíðni vökvataps ekki mælanleg. Sérfræðingar ráðleggja reglubundnum notendum, í líkamlega virku félagslegu umhverfi, að vera meðvitaðir um vatnsneyslu sína. Enda þótt vökvatap sé óæskilegt, þá er lítill hópur notenda áhyggjufullur yfir ofdrykkju vatns og natríumlækkun í blóði sem getur valdið heilabólgu. Það er þetta sem að olli dauða breska táningsins Leah Betts, sem er eitt fyrsta vel þekkta dauðsfallið tengt notkun MDMA. Langtímaáhrif. Langtímaáhrif eru ennþá frekar óþekkt og mikið umrædd meðal vísindamanna. Sumar tilraunir benda til að langvarandi neysla í stórum skömmtum geti valdið skemmdum á serótónínfrumum í heilanum, hugsanlega í gegnum upptöku dópamíns inn í serótónínfrumurnar, þar sem að það breytist við efnaskipti í vetnisperoxíð, sem að veldur tæringarskemmdum á innviði frumunar. Þessi áhrif hafa sést í rottuheilum, þar sem að serótónínfrumur dýra sem að gefin hafa verið mjög stórir skammtar af MDMA, yfirleitt einum eða tveimur stærðargráðum meira en venjulegur mannlegur skammtur, hafa yfir langvarandi tíma visnað og orðið gagnslausar. Það hefur stutt undir þessa tilgátu að þegar gefin eru lyf sem að hafa sérhæfð áhrif á endurupptökuhemil seratóníns (þau bindast við endurupptökuop seratónínfrumna og þar af leiðandi loka fyrir aðgöngu dópamíns, og alls annars, inn í frumuna), með eða rétt á eftir MDMA, virðist það algerlega koma í veg fyrir skemmdir á þessum frumum í rottum sem að gefnar höfðu verið MDMA. Af þessum ástæðum taka margir notendur þannig lyf á meðan, og rétt eftir að hafa tekið, MDMA til að reyna að koma í veg fyrir taugaskemmdir. Þessi lyf eru yfirleitt geðdeyfðarlyf eins og Prozac eða Zoloft. Það má benda á, samt sem áður, að notkun MDMA saman við annan flokk geðdeyfilyfja, þá sérstaklega mónóamínoxídasahemla (td. Aurorix eða Rimarix), er stranglega óráðlegt vegna hættu á serótónínveiki. Það er líka til tilraunagögn sem að benda á að langtíma neytendur alsælu eigi við minnisvandamál að stríða. Hvort sem áður, eru svoleiðis rannsóknir bundnar ákveðnum vandamálum sökum þess að notendur alsælu eru líklegir til að taka önnur vímuefni með alsælunni. Þetta veldur erfiðleikum við að sýna fram á afdráttarlausan orsakavald fyrir þessu vandamáli. MDMA og lögvaldið. MDMA var formlega sett í hóp ólöglegra fíkniefna á íslandi árið 1986 með viðbótum nr. 016/1986 við reglugerðum um ávana- og fíkniefni. Kaup og sala á MDMA á Íslandi varða sektum eða fangelsi allt að 6 árum skamkvæmt "V. kafla. 13. grein" sömu reglugerðar, ásamt "III. kafla" almennra hegningalaga. Ljósmyndun. Ljósmyndun er aðferð til að festa á varanlegt form myndir af umhverfinu með ljósmyndavél. Notast er við vélræna, ljósfræðilega, efnafræðilega og/eða stafræna aðferð við að safna endurköstuðu ljósi í stuttan tíma með linsu og varpa því á ljósnæman flöt, t.d. filmu inni í myndavélinni. Með eftirvinnslu á ljósnæma fleti myndavélarinnar (framköllun á filmu) fæst ljósmynd sem „tekin“ var með myndavélinni. Orðið "ljósmyndun" er samsett úr orðunum "ljós" og sögninni "mynda" og felst merkingin í því að "búin er til mynd af ljósinu". Fyrstu ljósmyndirnar. Nútíma ljósmyndatækni má rekja til franska uppfinningamannsins Joseph Nicéphore Niépce en hann hóf að gera tilraunir árið 1793 með aðferðir til að gera sjónrænar myndir. Fyrstu verk hans dofnuðu fljótt en honum tókst loksins að gera varanlega mynd árið 1824. Aðferðirnar kröfðust þess að sólin var notuð til að framleiða myndina en þær tóku um 8 klst eða lengur í framkvæmd og var aðferðin því bara notuð til að festa á mynd fasta hluti eins og t.d. byggingar. Árið 1829 byrjaði hann samningsbundið samstarf við listamanninn og efnafræðinginn Louis-Jacques-Mandé Daguerre um að betrumbæta aðferðina. Eftir dauða Niépce 5. júlí 1833, þá hélt Daguerre áfram starfi sínu og tókst loksins ætlunarverk sitt. Sellulósufilmur. Sellulósur fyrir ljósmyndafilmur voru teknar í notkun árið 1887 og voru það bæði Hannibal Goodwin og Eastman Company sem skráðu leyfi fyrir filmuvöruna. Goodwin hins vegar kærði Eastman Kodak Company fyrir brot á einkaleyfinu sínu og vann málið en seldi síðan einkaleyfin til þeirra. Þessi aðferð var síðan grundvöllurinn fyrir þróun kvikmyndafilmunnar. Myndir teknar með þessari aðferð þurfa samt að fara í framköllun áður en hægt er að sjá efni myndarinnar skýrt. Fyrsta litmyndin. Fyrsta myndin í lit var tekin rétt eftir aldamótin 1900 en uppfinningin var einkaleyfisvarin árið 1903 og sett á markað 1907. Frönsku bræðurnir Louis Jean og Auguste Marie Louis Nicholas Lumière voru miklir uppfinningamenn og faðir þeirra rak ljósmyndastofu þar sem þeir unnu. Þeir fengu því mikinn áhuga á ljósmyndun og fundu upp margvísleg tól sem urðu mikilvægir hlekkir í þróunarsögu ljósmynda og kvikmynda. Litfilman Autochrome Lumière var sú eina sem var á markaðnum þar til 1935 þegar Kodak setti Kodachrome á markaðinn. Sú vörulína er enn í framleiðslu og er talin með þeim fremri vörutegundum vegna fínna korna og líflegra lita. Stafræn ljósmyndun. Frá árinu 2000 hefur stafræn ljósmyndun að mestu komið í stað ljósmyndunar á filmu, en þá er notuð örflaga í stað filmunnar áður til að safna ljósi frá myndefninu og ljósmagn og litur hverrar myndeiningar er geymt stafrænt í minniskorti myndavélarinnar. Hefur þann kost að mögulegt að skoða myndina skömmu eftir að hún er tekin og flytja hana í tölvu vinna hana með stafrænni myndvinnslu. Asóreyjar. Frá eyjunni São Jorge á Asóreyjum. Asóreyjar (portúgalska: Açores) er níu eyja eyjaklasi í miðju Norður-Atlantshafinu sem tilheyrir Portúgal. Austasta eyjan er um 1.370 kílómetra frá Lissabon en sú vestasta um 1.940 kílómetra frá Nýfundnalandi í Norður-Ameríku. Eyjarnar heita Santa Maria (austast), Sao Miguel, Terdeira, Gracosa, Sao Jorge, Pico, Faial, Corvo og Flores (vestast). Þær teljast til Portúgal en njóta sjálfsstjórnar. Þær dreifast á meira en 600 km svæði, sem gerir yfirráðasvæði þeirra yfir 1.1 milljón km². Eldvirkni er á þeim öllum nema Santa Maria. Fjallið Pico á Picoeyju er hæsta fjall Portúgals. Reyndar eru eyjarnar sjálfar toppar hæstu fjalla heims, ef mælt er frá hafsbotni. Þrátt fyrir að margir telji eyjarnar vera nefndar eftir gáshauk (Açor á portúgölsku) hefur fuglinn aldrei átt heima á eyjunum. Sumir telja nafnið eldri mynd af orðinu azures (fleirtalan af orðinu blár) vegna þess að eyjarnar virðast bláar úr fjarska. Asóreyjar fundust árið 1427 og tólf árum síðar hófst landnám þar. Í fyrstu var aðallega um að ræða fólk frá Algarve og Alentejo en síðar fólk utan Portúgals. Eyjarnar hlutu sjálfsstjórn árið 1976 (Região Autónoma dos Açores). Frá því að eyjarnar fengu sjálfstjórn hefur framkvæmdavaldið verið í Ponta Delgada, löggjafarvaldið í Horta og dómsvaldið í Angra do Heroísmo. Núverandi forseti sjálfsstjórnarsvæðanna er Vasco Cordeiro. Þann 31. desember 2002 voru íbúar eyjanna 238.767 sem gera 106 manns á km². Fögur hugsun. Fegurð hugans ("A Beautiful Mind") er kvikmynd sem fjallar um ævi stærðfræðingsins, hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans John Nash. Stafræn ljósmyndun. Stafræn ljósmyndun er ljósmyndun með stafrænum ljósmyndavélum, sem nota myndflögu í stað filmu til að taka myndir. Forsaga stafrænna myndavéla. Stafrænar myndavélar eiga uppruna sinn að rekja til myndbandstækisins og voru þróaðar út frá þeirri tækni. Myndbandstækið var fundið upp árið 1951 og virkar þannig að lifandi myndum er breytt í stafræn merki og vistaðar á segulband. Bæði sjónvarpsupptökuvélar og stafrænar myndavélar nota CCD (Charged Coupled Device) til að nema litbirtu og styrkleika. Á 7. áratug 20. aldar hætti NASA að nota hliðstæð merki og hóf notkun á stafrænum merkjum til að kortleggja yfirborð tunglsins og sendi því stafrænar myndir til jarðar. Á þessum tíma hóf hið opinbera (í Norður-Ameríku) að innleiða stafræna tækni og stuðlaði það að framförum í þróun á tækninni á bakvið stafrænnar mynda­töku. Fyrstu stafrænu myndavélarnar. Árið 1972 fékk Texas Instruments fyrsta einkaleyfið á filmulausri myndavél en það var ekki fyrr en í ágúst 1981 að Sony gaf út Sony Mavica, fyrstu stafrænu kyrrmyndavélina sem fór á markað. Myndirnar voru vistaðar á mini disk og síðan settar í myndlesara sem var tengdur við sjónvarpsskjá eða litaprentara. Þessi myndavél var samt ekki talin sönn stafræn myndavél þrátt fyrir að hún hafi byrjað stafrænu myndavélabyltinguna því að þetta var myndbandsupptökuvél sem tók frystiramma. Myndavélarisinn Kodak hóf þátttöku sína í kapphlaupinu í miðjum 8. áratugnum, stuttu eftir veitingu einkaleyfisins til Texas Instruments, og þróaði myndavélanemar sem umbreyttu ljósi í stafrænar myndir og árið 1986 tókst fyrirtækinu að finna upp fyrstu megamynddeplanemana sem gat vistað 1,4 milljónir mynddepla. Árið eftir gaf Kodak út 7 vörur sem höfðu eitthvað með stafræna ljósmyndun að gera og árið 1990 þróuðu þeir Photo CD kerfið þar sem hægt var að setja stafrænar ljósmyndir á geisladisk til einfaldrar skoðunar. Almennur markaður. Fyrstu stafrænu myndavélarnar sem komu á almennan markað sem hægt var að tengja við heimatölvu gegnum serialkapal voru Apple QuickTake 100 myndavélarnar þann 17. febrúar 1994 en Kodak var ári eftir og gaf út Kodak DC40 myndavélina 28. mars 1995. Kodak, ásamt Kinko og Microsoft, hófu aðgerðir til að kynna stafrænu ljósmyndatæknina til almennings og setja upp söluturna þar sem fólk gat búið til Photo CD geisladiska og ljósmyndir. IBM hóf samstarf við Kodak um að þróa myndavélaskiptanet sem byggðist á Internetinu. Hewlett Packard var fyrsta fyrirtækið til að framleiða bleksprautuprentara sem prentuðu litmyndir og var það rúsínan í pylsuendanum sem leyddi til þess að stafræna myndavélabyltingin náði til almennings. Myndnemarnir. CCD myndnemarnir eru algengastir á meðal þeirra sem notaðir eru venjulega í stafrænum myndavélum. Þegar ljóseindir snerta yfirborð CCD nemans, þá orsakar það hreyfingu rafeinda og þær safnast í þéttunum. Rafeindunum er síðan raðað eftir með venjulegum rafpúlsum og numdar af rafrás sem flytur rafeindirnar í hverjum depli í þétti, mælir og magnar upp rafspennuna. Þéttarnir eru síðan tæmdir. Þessi tegund myndnema er miklu betri en ljósmyndafilma þar sem CCD nemarnir bregðast við 70% af ljósinu sem fellur á flötinn en ljósmyndafilman nær eingöngu um tveim prósentustigum sem gerir það að verkum að fyrrnefndu nemarnir voru teknir upp af stjarnfræðingum. Gagnageymslubúnaður. Margir staðlar eru til yfir minniskortin sem geyma ljósmyndirnar stafrænt og eru þau misgóð. Öll þessi kort hafa mismunandi aðferðir til að geyma myndirnar en þær eru of margar til að rekja hérna. Í upphafi voru þessi kort afar lítil miðað við það sem hægt er að fá í dag. Fyrir nokkrum árum fylgdi venjulega með eitt 4ja megabæta minniskort í stafrænum myndavélum sem var alls ekki nóg en í dag er hægt að fá minniskort allt að 4 gígabæti að stærð, eða jafnvel með meira rými en það. Kostir stafrænnar ljósmyndunar. Helstu kostirnir við stafræna ljósmyndun er t.d. að hægt er að skoða myndirnar án þess að bíða eftir að filmurnar eru framkallaðar og ef eitthvað er að myndinni, þá er hægt að taka aðra í staðinn. Fleiri kostir eru í boði eins og að eingöngu þarf að borga fyrir prentun á myndunum sem takast, stafrænar geymsluaðferðir eru ódýrari en á filmu, stafrænar myndavélar eru minni en jafn góðar myndavélar sem nota filmu, notkun á stafrænni myndavél reynist vera ódýrari en venjuleg myndavél yfir lengri tíma litið og CCD myndnemarnir geta numið innrautt ljós með því að breyta ákveðinni stillingu á meðan venjulegar myndavélar þurfa sérstaka filmu fyrir verkið. Síðast en ekki síst, þá er hægt að taka miklu fleiri myndir án þess að skipta yfir í annað minniskort og hefur geymsluplássið í stafrænum minniskortum verið að aukast verulega undanfarin ár. Gallar stafrænnar ljósmyndunar. Þrátt fyrir alla þessa yndislegu kosti, þá fylgja samt með gallar. Öllum tækjum fylgir orkunotkun og eru stafrænar ljósmyndir ekki enn þá hagnýtar í þeim efnum. Þar að auki eru það mjög fáar stafrænar myndavélar sem geta tekið betri myndir en ódýrari venjulegar myndavélar. Stafræn tækni býður líka upp á misnotkun vegna þess að það er sífellt auðveldara að falsa myndir með fáum verksummerkjum og gæti það t.d. grafið undan orðspori fólks eða valdið öðrum skemmdarverkum. Ívarp. formula_2 fyrir öll "x" í formula_3 ef formula_3 er hlutmengi í formula_5. Fallgildi ívarpsins er stök í mengi fastapunkta fallsins og ívarp er skv. skilgreiningu gagntækt fall. Queensland. Queensland er fylki í norðaustur Ástralíu. Það er næststærsta fylki landsins og það þriðja fjölmennasta með tæpar 3,8 milljónir íbúa. Höfuðborg fylkisins er Brisbane sem stendur við Kyrrahafsströndina. Fylkinu tilheyrir Kóralrifið mikla sem er eitt stærsta og lengsta kóralrif í heimi. Þar er líka einn helsti ferðamannastaður Ástrala, Gullströndin ("enska" Gold Coast). Evrópubúar settust fyrst að í Queensland árið 1824 þegar fanganýlenda var stofnuð í Moretonflóa en til að byrja með taldist svæðið hluti af Nýja Suður Wales. Árið 1859 varð svo til nýlendan Queensland, þó með aðeins öðrum landamærum en í dag. Um skamman tíma tilheyrði hluti eyjunnar Nýju Gíneu (þar sem í dag eru Papúa Nýja Gínea og hluti af Indónesíu) Queensland. Qantas, stærsta flugfélag Ástralíu, var upphaflega stofnað til að fljúga milli staða í strjálbýlum hlutum fylkisins. Vetni. Vetni er frumefni með efnatáknið H (upphafsstafur orðsins "hydrogen" frá grísku orðunum "ὕδωρ" "hudōr" í merkingunni „vatn“ og "γεννάω" "gennaō" í merkingunni „ég skapa“, „ég framkalla“) og er númer eitt í lotukerfinu. Við staðalaðstæður er það litlaust, ómálmkennt, lyktarlaust, eingilt og mjög eldfimt tvíatóma gas. Vetni er léttasta og algengasta frumefnið í alheiminum. Það finnst í vatni og í öllum lífrænum efnasamböndum. Vetni verkar á efnafræðilegan hátt við næstum hvaða annað frumefni sem til er. Er stjörnur eru í meginröð sinni, er uppistaða þeirra mestmegnis vetni í formi rafgass. Þetta frumefni er notað í framleiðslu á ammóníaki, sem gas í loftför, sem annarskonar eldsneyti og nýlega sem orkugjafi fyrir efnarafla. Í rannsóknarstofum er vetni framleitt við efnahvörf sýru á málma eins og sink. Vetni er yfirleitt framleitt í stærri stíl í iðnaði með gufuumvarpi náttúrulegs gass. Rafgreining vatns er einföld aðferð en hagfræðilega afkastalítil í fjöldaframleiðslu. Vísindamenn eru enn að rannsaka nýjar aðferðir til vetnisframleiðslu. Ein aðferð innifelur notkun grænna þörunga. Önnur aðferð sem að lofar góðu felst í breytingu úrefni lífefna, eins og þrúgusykurs (glúkósa) eða sorbitols, sem að hægt er að gera við lágt hitastig með notkun nýs efnahvata. Almennir eiginleikar. Vetni er léttasta frumefnið því að algengasta samsæta þess — einvetni (1H) — sem er 99.98% af öllu vetni, er samsett úr einungis einni róteind og einni rafeind. Við staðalaðstæður myndar vetni tvíatóma gas sem nefnist vetnisgas (táknað H2) sem samanstendur af sameindum sem hafa tvær vetnisfrumeindir hver. Vetnisgas hefur suðumark 20.27 K og bræðslumark 14.02 K. Undir gríðarlegum þrýstingi, eins og finnst í kjarna stórra gashnatta, breytist vetni í vökvakenndann málm (sjá málmkennt vetni). Undir næstum algeru þrýstingsleysi eins og finnst í útgeimnum, finnast vetnisatóm mestmegnis ein og sér, einfaldlega vegna þess að það er engin leið fyrir þau að sameinast öðrum vetnisatómum; ský af H2 eru tengd stjörnumyndun. Þetta frumefni spilar vægamikið hlutverk í að knýja alheiminn í gegnum róteindakeðjuna og kolefnishverfuna. Þetta eru kjarnasamrunaferli sem að skila af sér gríðarlegu magni orku með því að sameina tvær vetnisfrumeindir í eina helínfrumeind. Vetnisfrumeindin. "Vetnisfrumeind" er frumeind vetnisfrumefnis. Hún er samsett af einni neikvætt hlaðinni rafeind dreifð yfir jákvætt hlaðna róteind sem að er kjarni vetnisfrumeindarinnar. Rafeindin er bundin róteindinni með Coulombskrafti. Notkun. Hægt er að brenna vetni í brennsluhreyflum og flota af vetnisknúnum bílum er haldið uppi af Chrysler-BMW (sjá Vetnisbíll). Verið er að athuga vetnisknúna efnarafla sem leið til að útvega orku með minna útrennsli en með því að brenna vetni í brennsluhreyflum. Á Íslandi stendur yfir framtak til að draga úr notkun á olíu með því að nota vetni í hennar stað. Litín. Litín, stundum nefnt líþíum, liþín, litíum eða lítíum (frá gríska orðinu λίθος, "liþos" sem merkir „steinn“) er frumefni með efnatáknið Li og er númer þrjú í lotukerfinu. Í hreinu formi er litín mjúkur, silfurgrár málmur sem tærist og missir gljáann við snertingu við loft eða vatn. Það er léttasta fasta efnið og er aðallega notað í varmaflutningsefnum, í rafhlöðum og í geðstillandi efnasamböndum. Almenn einkenni. Litín er léttast allra málma og hefur hálfan eðlismassa vatns. Það er silfraður málmur og svo mjúkt að hægt er að skera það með beittum hníf. Eins og allir alkalímálmar hefur litín einungis eina gildisrafeind. Það tapar þeirri rafeind auðveldlega og breytist þá í jákvætt hlaðna jón með ysta rafeindahvelið tómt. Sökum þess hvarfast litín auðveldlega í vatni og finnst því ekki eitt og sér í náttúrunni. Þrátt fyrir það er það ekki jafn hvarfgjarnt og hið efnafræðilega svipaða frumefni natrín. Þegar því er haldið yfir eldi, gefur það frá sér sláandi fagurrauðan lit, en þegar það brennur kröftuglega verður það skínandi hvítt. Ef það kemst í snertingu við vatn eða loft kviknar í því. Þetta er eini málmurinn sem að hvarfast við nitur við stofuhitastig. Litín hefur háa eðlisvarmarýmd, 3582 J/(kg·K), og stórt hitastigssvið í vökvaformi sem veldur því að það er mjög nytsamlegt efni. Varúðarráðstafanir. Litín í hreinu formi er gríðarlega eldfimt og stafar af því svolítil sprengihætta í snertingu við loft og þá sérstaklega vatn. Erfitt er að slökkva litínelda, þarf til þess sérstök efni sem hönnuð eru til þess að slökkva í þeim. Litín er einnig tærandi og þarf að meðhöndla það á sérstakan hátt til að koma í veg fyrir snertingu við húð. Geyma skyldi litín í óhvarfgjörnu efnasambandi eins og til dæmis nafta eða kolvatnsefni. Litínefnasambönd gegna engu líffræðilegu hlutverki og eru talin örlítið eitruð. Þegar það er notað sem lyf, verður að fylgjast mjög varlega með styrk Li+ í blóði. Natrín. Natrín (natríum eða sódi) er frumefni með efnatáknið Na og er númer ellefu í lotukerfinu. Natrín er mjúkur, vaxkenndur, silfurlitaður og hvarfgjarn alkalímálmur. Efnið finnst ríkulega í náttúrulegum efnasamböndum (þá sérstaklega halíti). Efnið er mjög hvarfgjarnt, brennur með gulum loga, tærist í snertingu við súrefni og bregst kröftuglega við snertingu við vatn sem veldur því að það þarf að geyma það í olíu. Almenn einkenni. Eins og aðrir alkalímálmar er natrín mjúkt, létt, silfurhvítt og hvarfgjarnt efni sem að finnst aldrei eitt og sér í náttúrunni. Natrín flýtur á vatni og leysir það einnig upp í vetnisgas og hýdroxíðjónir. Ef það er sallað niður í duft kviknar það fyrirvaralaust í vatni. Það kviknar hinsvegar ekki í lofti undir 388° K. Undir gríðarlegum þrýstingi skilur natrín við staðlaðar reglur um breytingu yfir í vökvaform. Flestir málmar þurfa meiri varmaorku til að bráðna undir þrýstingi en þeir þurfa við staðalþrýsting. Þetta er sökum þess að sameindunum er pakkað þéttar saman og hafa minna pláss til hreyfinga. Við þrýsing í kringum 30 GPa (300.000-faldur staðalþrýstingur) fer bræðslustig natríns að lækka. Við 100 GPa bráðnar það við stofuhita. Ein líkleg skýring á þessari furðulegu hegðun natríns er sú að það hefur eina frjálsa rafeind sem er ýtt nær hinum tíu rafeindunum þegar það er undir þrýstingi, sem að neyðir það í víxlverkun sem er yfirleitt ekki til staðar. Á meðan það er undir þrýstingi tekur natrín á sig nokkrar undarlegar kristallsgerðir sem benda til þess að það gæti haft óvenjulega eiginleika, eins og til dæmis ofurleiðni eða ofurstreymi (Gregoryanz o.fl., 2005). Beryllín. Beryllín eða beryllíum (úr grísku: βήρυλλος; „beryll“) er frumefni með efnatáknið Be og er númer fjögur í lotukerfinu. Það er eitrað og tvígilt frumefni. Beryllín er stálgrár, sterkur, léttur en samt brothættur jarðalkalímálmur, sem er aðallega notaður sem hersluefni í málmblöndur. Í náttúrunni finnst beryllín í efnasamböndum í steindum á borð við beryl (akvamarín, smaragður) og krýsóberyl. Beryllín er fremur sjaldgæft efni þar sem það myndast ekki við hefbundna sólstjörnukjarnamyndun heldur aðeins við Miklahvell og síðar vegna áhrifa geimgeisla á geimryk. Efnið nýtist ekki neinum lífverum svo vitað sé. Beryllínryk tærir lífræna vefi og getur valdið lífshættulegu ofnæmi í lungum, beryllíneitrun. Einkenni. Beryllín hefur hæsta bræðslumark allra léttra málma. Það er einstaklega stíft (um helmingi stífara en stál). Það hefur mikla hljóð- og hitaleiðni og er besti hitaleiðarinn af málmum miðað við þyngd. Beryllín oxast ekki greiðlega í lofti við staðalhita og staðalþrýsting. Notkun. Vegna þess hve beryllín er gagnsætt röntgengeislum eru hreinar beryllínflögur gjarnan notaðar í geislaglugga í röntgenlömpum. Vegna þess hve það er stíft, létt og með hátt bræðslumark er beryllín notað í hluta geimfara og eldflauga. Helín. Helín eða helíum (frá gríska orðinu ἥλιος "helios" sem þýðir „Sólin“) er frumefni með efnatáknið He og er númer tvö í lotukerfinu. Það er litlaus, lyktarlaus, bragðlaus, skaðlaus og óvirk eðallofttegund. Suðu- og bræðslumark þess er það lægsta á meðal frumefnanna. Að undanskildum öfgakenndum aðstæðum, er það aðeins til í gasformi. Það er næstalgengasta frumefnið í alheiminum, en á Jörðinni finnast stórar birgðir af því eingöngu í jarðgasi. Það er notað við lághitafræði, í djúpsjávaröndunartækjum, til að blása upp blöðrur og sem hlífðargas í margvíslegum tilgangi. Bór. Bór (úr arabísku, لاعقشا "buraq", eða persnesku, بورون "burah", sem eru heiti á steindinni bóraxi) er frumefni með efnatáknið B og er númer fimm í lotukerfinu. Bór er þrígilt frumefni, sem mikið finnst af í málmgrýtinu bóraxi og úlexíti. Til eru tveir fjölgervingar af bór; formlaus bór er brúnt duft en málmkenndur bór er svartur. Málmkenndur bór er mjög hart efni, í kringum 9,3 á Mohs kvarðanum, en slæmur leiðari við stofuhita. Hann finnst aldrei einn og sér í náttúrunni. Bór er mikilvægt næringarefni fyrir jurtir sem þjást af bórskorti í vissri tegund af jarðvegi. Of mikið magn bórs getur líka verið plöntum skaðlegt. Sem snefilefni hefur bór reynst vera forsenda heilsu í rottum og gert er ráð fyrir því að það gildi einnig um önnur spendýr þótt ekki sé vitað nákvæmlega hvaða hlutverki það gegnir. Vestur-Ástralía. Vestur-Ástralía er stærsta fylki Ástralíu, það nær yfir um það bil þriðjung meginlandsins. Íbúarnir búa langflestir í suðvesturhluta fylkisins, þar sem meðal annars er höfuðborgin Perth en í henni og nágrenni hennar búa um ein og hálf milljón af tæpum tveimur milljónum íbúa fylkisins. Ástæðan fyrir þessu er sú, að megnið af því stóra landflæmi sem Vestur-Ástralía er, er gróðurlaus eyðimörk. Suðvesturhornið er hinsvegar gróðursælt, sem og nokkrir afmarkaðir blettir á norðurströndinni. Bretar settust fyrst að í Vestur-Ástralíu, þegar þeir byggðu flotastöð þar sem í dag er Albany, árið 1826 en nýlendan varð ekki til fyrr en fanganýlendan við Svansá var stofnuð árið 1829 en nú eru þar Perth og Freemantle. Helstu atvinnuvegir fylkisins eru, eins og víðar í Ástralíu, námugröftur og landbúnaður, en þar að auki er að finna í Vestur-Ástralíu jarðgas sem er mikilvæg útflutningsvara. Neon. Neon er frumefni með skammstöfunina Ne og er númer tíu í lotukerfinu. Litlaust og nærri óvirkt eðalgas. Neon gefur frá sér auðþekkjanlegan rauðan ljóma þegar það er notað í rafeindalömpum eða neonljósaskiltum. Það finnst í mjög smáum skömmtum í andrúmsloftinu. Flúor. Flúor eða flúr (Latína "fluere", sem þýðir „að flæða“) er frumefni með efnatáknið F og er númer níu í lotukerfinu. Flúor er eitraður, grængulur, eingildur og gaskenndur halógen. Það er eitt efnahvarfgjarnast og rafeindadrægst allra frumefnanna. Í hreinu formi er það stórhættulegt og veldur efnabruna við snertingu við húð. Flúoríð dregur úr tannskemmdum og því er flúoríði gjarnan bætt í tannkrem og jafn vel í drykkjarvatn (sjá: flúorbæting). Súrefni. Súrefni (eða ildi) er lit- og lyktarlaust frumefni með efnatáknið O og er númer átta í lotukerfinu. Súrefni er afar algeng lofttegund, ekki bara á jörðu heldur líka annars staðar alheiminum. Við yfirborð jarðar bindast tvær súrefnisfrumeindir saman til að mynda tvíatóma súrefni (súrefni á sameindarformi táknað með O2 oftast einfaldlega kallað ‚súrefni‘). Talið er að starfsemi blágerla með tilheyrandi súrefnisfrmleiðslu og koldíoxíðbindingu hafi umbreytt andrúmslofti jarðar fyrir um tveimur og hálfum til þremur milljörðum ára, en fyrir þann tíma var það súrefnissnautt. Allsgnægt þess í seinni tíð hefur mestmegnis komið frá jarðneskum plöntum, sem að gefa frá sér súrefni við ljóstillífun. Í efri hluta andrúmslofsins er einnig að finna einatóma súrefni (táknað O) og óson sem er þríatóma súrefni (O3). Kolefni. Kolefni er frumefni með efnatáknið C og er númer sex í lotukerfinu. Fullerín (sem kennt er við Buckminster Fuller) er gert úr sameindum kolefnisatóma á nanómetrakvarða. Einfaldasta form þess er úr sameindum, sem eru þannig, að 60 kolefnisatóm eru tengd saman og mynda kúlu, sem að svipar til fótbolta. Þetta minnir á kúlu-einingahúsin, sem hönnuð voru af Buckminster Fuller á sínum tíma og þaðan kemur nafnið. Kinrok samanstendur af litlum grafítsvæðum. Þessi svæði eru dreifð af handahófi þannig að heildarbyggingin er jafnátt. Glerkennt kolefni er jafnátt og sterkt sem gler. Ólíkt venjulegu grafíti eru grafísku lögin ekki hagrætt eins og blaðsíður í bók heldur eru þau krumpuð saman eins og pappír. Koltrefjaefni eru svipuð glerkenndu kolefni. Við sérstaka meðhöndlun (strekking á lífrænum trefjum sem svo eru kolaðar) er hægt að hagræða kolefnisflötunum í sömu stefnu og trefjarnar. Hornrétt á trefjaröxulinn vantar stefnu á kolefnafletina. Kolefni finnst í öllum lífrænum verum og er undistaða lífrænnar efnafræði. Þessi málmleysingi hefur einnig þann áhugaverða efnafræðilega eiginleika að geta bundist við sjálfan sig og margar tegundir annarra efna, og myndar þannig nærri 10 milljón þekkt efnasambönd. Sameinað við súrefni myndar það kolsýru sem að er lífsnauðsynleg fyrir gróður. Sameinað við súrefni og vetni getur það myndað mörg efnasambönd, þar á meðal fitusýrur sem að eru nauðsynlegar lífi, og estra, sem að gefa mörgum ávöxtum bragð sitt. Samsætan kolefni-14 er mikið notað við aldursákvörðun með geislakolum. Liður (stærðfræði). Jafnan 12 = 1 + 2 + 3 + 6 sýnir tiltekna liðun tölunnar 12, en liðirnir eru 1, 2, 3, og 6. Breiðnefur. Breiðnefur (fræðiheiti: "Ornithorhynchus anatinus") er spendýr af ættinni breiðnefsætt. Þar sem breiðnefurinn hefur enga spena þrátt fyrr að vera spendýr þá nærast afkvæmi hans með mjólk sem ungviðin sækja í út um húðina líkt og hjá mjónefjum (fræðiheiti: Tachyglossus aculeatus). Breiðnefurinn er síðasta eftirlifandi tegund nefdýraættbálksins ásamt mjónefjum. Í lok 18. aldar barst skinn af furðulegri skepnu til London frá Ástralía. Breiðnefur eða eins og landnemar í Ástralíu kölluðu dýrið,vatnamoldvörpu“ og síðar meir var dýrinu gefið nafnið Ornithorhyncus, þ.e. „fuglsnef“. Það er vísindaheitið yfir þessar lífverur en hér á Íslandi nefnist dýrið breiðnefur. Dýrið er því með gogg og sundfit eins og fugl, skríður um og verpir eggjum eins og dýr af skriðdýraætt. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er hann spendýr og má sjá að breiðnefurinn er með loðinn feld sem er tákn spendýra. Þegar átti að greina dýrið og í hvaða flokki það ætti heima komust vísindamenn saman um það um spendýr er að ræða þrátt fyrir að líta ekki út eins og slíkt. Þrátt fyrir það er má sjá í hópi spendýra eru gjörólíkar lífverur, ljón, fílar og menn. Heimkynni. Breiðnefurinn lifir hvað helst í ám í Eyjaálfu. Dýrið syndir í ám í austanverðri Ástralíu. Þó svo að þetta sé aðal heimkynni dýrsins er breiðnefurinn ekki útbreiddur um Ástralíu. Einnig hefur dýrið verið á slóðum eyjunnar Tasmaníu eins og má greina útfrá myndinni hér til hliðar. Þar sem dýrið flokkast undir að vera vatnadýr og þarf stöðugt að hafa aðgang af vatni getur breiðnefurinn ekki lifað hvar sem er. Í vatni á breiðnefurinn auðvelt með að athæfa sig. Feldur hans er vatnshrindandi og syndir hann um ár og vötn auðveldlega þar sem tær hans hafa þróað með sér sundfit. Útlit. Breiðnefur í öllu sínu veldi Útlit breiðnefsins verður að teljast mjög sérkennilegt sem varð til þess að þegar vísindamenn kynntu þetta spendýr fyrir heiminum töldu margir að um grín væri að ræða.Dýrið svipar til kanínu í feld og stærð. Breiðnefurinn er með loðinn feld sem er ekki það sérkennilega í útliti breiðnefsins því dýrið er með sundfit fyrir fætur og stórt flatt nef eins og önd. Þegar vísindmenn fengu á borð til sín dýrið kom það verulega á óvart að dýrið hafði ekki hart fuglsnef heldur var mjúkur og leðurkenndur. Mataræði. Fæða breiðnefsins er fjölbreytt en leitast hann hvað helst að nærast á allskyns smádýrum. Þau finnur hann á árbotninum og einnig nærist hann á allskyns vantaskordýrum m.a. skákröbbum, vatnarækjum, sniglum, ormum, halakörtum og smáfiskum. Fæðuöflun. Breiðnefurinn býr sér til bæli við ár- og vatnaárbakka. Í bæli sínu er breiðnefurinn mikið og þá sérstaklega yfir daginn og á næturnar. Í ljósaskiptum fer hann á ferðina í matarleit sem hann finnur á þessum slóðum. Þar líkist hann mikið til fæðuöflun fiska því þeirra helsti tími er einnig í ljósaskiptunum. Þó svo að þeirra helsti tími í fæðuöflun sé við ljósaskiptin geta þeir einnig verið virkir í fæðuöflun yfir daginn í þoku og rigningu. Victoria. Victoria er fylki í suðausturhluta Ástralíu. Það er næstminnsta fylki landsins (það minnsta á meginlandinu), en líka það næstfjölmennasta með rúmar 5 milljónir íbúa. Höfuðborg fylkisins er Melbourne, næststærsta borg Ástralíu þar sem búa um 70% íbúa fylkisins. Evrópumenn settust fyrst að þar árið 1829 þar sem í dag er bærinn Portland og sex árum síðar settist fólk að í Melbourne. Bæði þessi byggðarlög voru stofnuð af frjálsum mönnum en voru ekki fanganýlendur eins og flest fyrstu byggðarlög Breta í Ástralíu. Victoria tilheyrði upphaflega Nýja Suður Wales en hlaut sjálfstæði sem nýlenda árið 1851 sem er sama árið og gull uppgötvaðist þar, og gullæði hófst. Fylkið er mjög gróðursælt og meirihluti þess er skógi þakinn. Í fylkinu er hluti af áströlsku ölpunum. Norðurlandamæri fylkisins liggja eftir Murrayá sem er næstlengsta á Ástralíu (sú lengsta er þverá hennar Darling). Efnahagur fylkisins byggist enn að miklu leyti á námagreftri þar sem grafið er eftir gulli eða kolum. Síðari tíma þróun hefur þó verið sú að ferðamannaþjónusta er farinn að skipta meira og meira máli. Formengi. Formengi, frámengi, óðal eða skilgreiningarmengi (sjá samheiti innan stærðfræðinnar) falls er mengi allra ílaga fallsins. Sé gefið fall "f": "A " → "B", þá er "A" formengi fallsins "f", en "B" bakmengi. Formengi er oft táknað með "D" (enska domain) og formengi tiltekins falls "f" táknað með formula_1. Í stað þess að sýna formengið með þessum hætt má einnig rita: "f"("x") = 1/"x", þar sem "x" ≠ 0 For- og bakmengi eru oft sama mengið, en ef myndmengi falls er sama mengi og bakmengið, er fallið sagt átækt. Darwin (Ástralía). thumb Darwin er höfuðborg Norður-svæðisins í Ástralíu. Þar búa rúm hundrað þúsund manns, tæpur helmingur þeirra sem búa á svæðinu. Borgin er staðsett á norðurströndinni við Tímorhaf. Skipverjar á könnunarskipinu H.M.S. Beagle voru fyrstir Evrópumanna til að sjá hafnarstæðið sem borgin liggur við árið 1839, og nefndu höfnina Darwin eftir Breska vísindamanninum Charles Darwin en hann hafði silgt með skipinu og gert miklar rannsóknir, þar á meðal hinn fræga samanburð á lífríki Galapagoseyja. Það var árið 1869 sem 135 manns stofnuðu þar byggð á vegum suður-ástralskra yfirvalda, en Norður-svæðið tilheyrði Suður-Ástralíu á þeim tíma. Sú byggð var nefnd Palmerston og það var ekki fyrr en 1911 þegar svæðið hlaut sjálfstæði frá Suður-Ástralíu að borgin fékk opinberlega nafnið Darwin. Í seinni heimsstyrjöldinni, árið 1942, gerðu Japanir loftárás á borgina og létust 243 af 2000 íbúum borgarinnar á þeim tíma. Árið 1974 eyddist svo meirpartur borgarinnar í fellibylnum Tracy og 50 manns létust. Borgin byggðist þó upp á enn á ný og er nú fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Stærstu atvinnuvegir borgarinnar eru þjónusta við ferðamenn og námagröftur. Þar er líka stór herstöð sem hefur stækkað mjög á undanförnum árum vegna þátttöku Ástralíuhers í friðargæslu á Austur-Tímor. Þrátt fyrir smæð er Darwin afar fjölmenningarleg borg. Hún hefur einstaklinga af 75 mismunandi þjóðernum, og um fjórðungur íbúanna eru frumbyggjar eða Torressundseyjaskeggjar. Þar er eini háskóli Norður-svæðisins, Charles Darwin háskóli. Jarðalkalímálmur. Jarðalkalímálmar eru þeir málmar, sem eru í efnaflokki 2 í lotukerfinu. Þeir eru: beryllín, magnesín, kalsín, strontín, barín og radín nefnd eftir oxíðum þeirra, jarðalkölunum: beryllínoxíð, magnesínoxíð, kalk, strontínoxíð og barínoxíð. Þessi efni voru nefnd jarðalkalí sökum millistigseðlis þeirra á milli alkalí (oxíð af alkalímálmum) og oxíða sjaldgæfra jarðmálma. Magnesín. Magnesín stundum kallað magnín, magníum, eða magnesíum (úr latínu: "magnesium" eftir gríska héraðinu Magnesíu; orðin magnesít og mangan eru af sömu rót) er frumefni með efnatáknið Mg og er númer tólf í lotukerfinu. Magnesín er áttunda algengasta frumefnið og myndar 2% af jarðskorpunni. Það er líka þriðja algengasta uppleysta efnið í sjónum. Þessi jarðalkalímálmur er aðallega notaður sem blendingsefni í ál-magnesín málmblöndur. Magnesín er ellefti algengasti málmurinn í mannslíkamanum. Magnesínjónir eru nauðsynlegar frumum þar sem þær leika stórt hlutverk við myndun pólýfosfata á borð við adenósín þrífosfat (ATP), deoxýríbósakjarnsýru (DNA) og ríbósakjarnsýru (RNA). Hundruð ensíma þurfa því á magnesínjónum að halda. Magnesín er líka í miðju blaðgrænusameinda og er því oft bætt í áburð. Magnesín finnst ekki hreint í náttúrunni vegna þess hve auðveldlega það hvarfast við loft og vatn. Það brennur með björtum hvítum loga og er þess vegna notað í leifturljós. Hin stórkostlegu örlög Amélie Poulain. Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain (íslenska: "Hin stórkóstlegu örlög Amélie Poulain") eða bara Amélie er frönsk kvikmynd. Handritshöfundur og leikstjóri var Jean-Pierre Jeunet. Myndin var frumsýnd árið 2001, aðalhlutverkið lék Audrey Tautou. Heilaga rómverska ríkið. Heilaga rómverska ríkið (þýska: Heiliges Römisches Reich, ítalska: Sacro Romano Impero, latína: Sacrum Romanum Imperium) er formlegt heiti á þýska keisaraveldinu. Ríkið var stjórnarsamband hertogadæma og furstadæma á landsvæði núverandi Þýskalands og að nokkru utan þess svæðis (s.s. Austurríki, Sviss, Norður-Ítalía). Heilaga rómverska ríkið myndaðist við Verdun-samninginn 843 og var lagt niður 1806 á tímum Napoleonstríðanna, er Austurríki myndaðist sem eigið keisaraveldi og Þýska bandalagið (Rínarsambandið) var stofnað. Merking heitisins. Þegar Karlamagnús var krýndur keisari frankaríkisins mikla, þá var ekki verið að skapa nýtt ríki, heldur að endurnýja Rómaveldi. Ástæðan fyrir því er sú að í bók Daníels í Biblíunni kemur fram að það ættu að koma fram fjögur stórveldi fyrir endalok heimsins. Rómaveldi var fjórða stórveldið og því fannst Karlamagnúsi mikilvægt að Rómaveldi héldi áfram að vera til. Við keisarakrýningu hans árið 800 var ríkið því endurnýjað, þrátt fyrir það að Austrómverska ríkið (Býsans) væri enn við lýði. Ríki Karlamagnúsar kallaðist frankaríkið. Þegar því var skipt 843, varð vesturhlutinn að Frakklandi (konungsríki), en austurhlutinn kallaðist rómverska ríkið (keisararíki). Orðið heilagur var ekki notað fyrr en löngu seinna, á konungslausa tímanum (Interregnum) á miðri 13. öld. Verdun samningurinn. Skipting frankaríkis Karlamagnúsar með Verdun-samningnum Skipting þessi markaði upphaf hins heilaga rómverska ríkis (þýska ríkinu). Árið 855 var milliríkinu skipt upp. Norður-Ítalía varð þá hluti af þýska ríkinu og varð keisari þýska ríkisins samtímis konungur Langbarðalands. Fyrirkomulag þetta hélst allt til 16. aldar. Niðurlönd lentu um síðir einnig í þýska ríkinu. Konungskjör. 1803 voru erkibiskupsdæmin lögð niður og misstu biskuparnir þá kjörgengið. Í stað þeirra var fjórum nýjum furstum bætt við, en aðeins þremur árum síðar var heilaga rómverska ríkið lagt niður. Þar með var embætti kjörfurstanna orðið gagnslaust. Kjörfurstarnir völdu ávallt konung, ekki keisara. Konungarnir urðu að eiga náin samskipti við páfa hverju sinni og réðist þá hvort páfi samþykkti að krýna þá til keisara. Í mörgum tilfellum var það ekki gert. Konungar og keisarar ríkisins. Listi þessi nær yfir konunga og keisara hins heilaga rómverska ríkis frá 843 – 1806, er ríkið var lagt niður. Í nokkrum tilfellum var konungslaus tíð, er drottning réði ríkjum sem eiginkona látins konungs eða móðir ómyndugs konungs. Tímabilið 1254-1273 var með öllu konungslaust og kallast Interregnum á þýsku. Á þessum tíma voru þrír erlendir þjóðhöfðingjar taldir sem konungar ríkisins, en þeir koma nær ekkert við sögu í ríkinu sjálfu og stigu varla fæti inn fyrir landamærin. Þjóðhöfðingjar þessir voru enda með öllu áhrifalausir og eru ekki taldir með í þýskum upptalningum yfir konunga ríkisins. Í allmörgum tilfellum eru til gagnkonungar, þ.e. að tveir konungar ríktu samtímis í ríkinu. Það er tilkomið af því að aðalkonungurinn var óvinsæll, þannig að nýr konungur var valinn sem gagnkonungur. Ekki er allir gagnkonungar með í listanum. Listi konunganna hefst með Verdun-samningunum, en konungarnir mörkuðu heiti sín við Karlamagnús. Samkvæmt þýskum upptalningum er Karlamagnús Karl I. Sonur hans, Lúðvík hinn guðhræddi er þá Lúðvík I. Synir hans þrír eru Karl hinn sköllótti (Karl II.), Lúðvík hinn þýski (Lúðvík II) og Lóþar. Því er fyrsti konungur þýska ríkisins Lúðvík II (Lúðvík hinn þýski), ekki Lúðvík I. Sama gildir fyrir heitið Karl. Fyrsti konungur þýska ríkisins með þessu heiti er sem sé Karl III. Uppstoppun. Uppstoppun er sú list að breyta eða endurgera hræ dýrs í sýningar- eða rannsóknartilgangi. Yfirleitt eru hryggdýr valin til uppstoppunar, þó eru aðrar tegundir dýra stundum stoppaðar upp. Uppstoppunaraðferðum hefur fleygt fram á 20. öld sem og gæðum verkana. Verdun-samningurinn. Verdun-samningurinn var samningur um skiptingu hins mikla Evrópuveldis Karlunga milli þriggja sona Lúðvíks guðhrædda Frankakeisara, árið 843. Samningurinn, sem gerður var í Verdun í Frakklandi, batt enda á átök bræðranna um yfirráð yfir ríkinu eftir lát föður þeirra þar sem Lóþar hafði staðið einn gegn bandalagi yngri bræðra sinna. Lát Lúðvíks keisara og borgarastyrjöld. Áður en hann dó hafði Lúðvík guðhræddi gert syni sína að konungum hvern í sínu ríki: Karl sköllótta yfir Akvitaníu, Lúðvík þýska yfir Bæjaralandi og Lóþar yfir Ítalíu. Þessi skipting var meðal annars niðurstaðan af átökum keisarans við syni sína eftir tilraunir hans til að gera Karli sköllótta, syni af seinna hjónabandi, jafn hátt undir höfði og hinum tveimur. Þegar Lúðvík keisari síðan dó árið 840 gerði elsti sonur hans, Lóþar, kröfu um að erfa keisaratignina og þar með yfirráð yfir löndum bræðra sinna. Þetta leiddi til borgarastyrjaldar og bandalags milli yngri bræðranna tveggja gegn eldri bróður sínum. Þegar yngri bræðurnir tveir, Lúðvík og Karl, sóru eið árið 842, gegn Lóþari, sá hann sér ekki annan kost en semja. Skipting Evrópu. Við samninginn í Verdun var ríkinu skipt þannig að Karl fékk svæði sem gróflega svarar til Frakklands, Lúðvík fékk svæði sem samsvarar Hinu heilaga rómverska keisaradæmi og Lóþar fékk miðhlutann, sem svarar til Norður-Ítalíu, Provence, Búrgúndí, Elsass, Lothringen ("Lóþar-ingen"), og Niðurlanda. Samningurinn hafði afgerandi áhrif á þá ríkjaskiptingu sem gilt hefur í Evrópu til okkar daga. Nefdýr. Nefdýr (fræðiheiti: "Monotremata") eru ættbálkur spendýra sem er þekktastur fyrir að verpa eggjum í stað þess að fæða lifandi afkvæmi eins og hinir tveir núlifandi ættbálkar spendýra; legkökuspendýr og pokadýr. Aðeins fjórar tegundir eru eftir í tveimur ættkvíslum, ein í breiðnefjakvíslinni (Ornithorhynchidae) og þrjár í mjónefjakvíslinni (Tachyglossidae). Flekakenningin. Flekakenningin, eða landrekskenningin er kenning sem ætlað er að útskýra rek meginlandanna. Fleka- og landrekskenningin hefur verið rakin til þýska vísindamannsins Alfred Wegener en einnig til John Tuzo Wilson. Tectonic plates (surfaces are preserved) Samkvæmt þessari kenningu skiptist jarðskorpan í allnokkra jarðfleka og fljóta þeir ofan á möttlinum og eru á hreyfingu hver gagnvart öðrum. Á flekaskilum færast tveir flekar í sundur og við það þrýstist bergkvika upp á yfirborð jarðar (hvort sem er ofan- eða neðansjávar) og myndar nýtt land. Á flekamótum þrýstast hins vegar tveir flekar saman. Þegar annar flekinn fer undir hinn getur myndast djúpsjávarrenna. Í því tilfelli er a.m.k. annar flekinn úthafsfleki. Ef tveir meginlandsflekar mætast myndast svokölluð fellingafjöll. Ástæðan fyrir því að mismunandi jarðfræðileg fyrirbæri myndast er sú að úthafsflekar eru mun eðlisléttari en meginlandsflekar. Sjónvilla. Sjónvilla er hugtak haft yfir fyrirbæri sem sökum virkni heilahluta sjónkerfisins birtast furðulegan eða villandi hátt. Um að ræða svo kallaðar tálmyndir og blekkingar. Tví. Tví er tungumál sem talað er af um 6 milljón manns í vestur-Afríkuríkinu Gana, það er akan-mállýska en akan tilheyrir svo kva fjölskyldunni. Listi yfir kjarnorkuknúin skip í einkaeigu. Eftirfarandi skip eru kjarnorkuknúin og í einkaeigu. Ísbrjótar. Kjarnorkuknúin Ál. Ál (sjaldan alúminíum) er frumefni með efnatáknið Al úr bórhópi lotukerfisins með sætistöluna 13. Ál er silfurlitaður og sveigjanlegur tregur málmur. Það leysist almennt ekki í vatni. Það myndar 8% massa jarðskorpunnar og er þar með algengasti málmurinn og þriðja algengasta frumefni hennar á eftir súrefni og kísli. Ál er svo hvarfgjarnt að það kemur ekki fyrir hreint í náttúrunni en finnst í meira en 270 mismunandi efnasamböndum. Ál er jafnan unnið úr súráli með álbræðslu. Efnið er þekkt fyrir léttleika og viðnám sitt gegn tæringu (vegna fyrirbæris er nefnist hlutleysing). Ál og álblöndur eru aðalsmíðaefni flugvéla og íhluta í margvísleg önnur flutningatæki og byggingar þar sem not eru fyrir léttleika, varanleika og styrk. Ál er einnig mikið notað í drykkjardósir. Vegna hvarfgirni þess er það gagnlegt sem hvati eða bætiefni í ýmsar efnablöndur og er þannig til dæmis notað í ammoníumnítrat-sprengiefni til að auka sprengikraft. Einkenni. Ál er mjúkur, endingargóður, léttur, mótanlegur málmur með útlit allt frá því að vera silfurgljáandi til þess að vera matt grátt, eftir sléttleika yfirborðsins. Ál er óeitrað, óseglandi og óneistandi. Það er óleysanlegt í vínanda en getur leyst í vatni við sérstakar aðstæður. Brotstyrkur hreins áls er 7-11 MPa en vissra álblandna 200-600 MPa. Ál hefur um það bil þriðjung eðlismassa og stífni stáls. Það er teygjanlegt og það má vélvinna, steypa og útpressa auðveldlega. Tæringarþol getur verið afbragðsgott vegna þunns yfirborðslags áloxíðs sem myndast þegar málmurinn kemst í snertingu við andrúmsloft en lag þetta kemur í veg fyrir frekari oxun. Sterkustu álblöndurnar eru minnst tæringarþolnar vegna galvanískra efnahvarfa við eir. Tæringarþol áls minnkar einnig oft mikið komist það í snertingu við ýmsar saltlausnir en einkum þó við aðra málma. Álfrumeindir raðast í framhliðar-miðjaða tenings- (FMT) kristalsgrind. Ál hefur háa stöflunar-galla-orku upp á um það bil 200 mJ/m². Ál er einn fárra málma sem heldur silfurkenndum gljáa einnig þegar það er á formi fíns dufts og er það því mikilvægur þáttur í silfurmálningu. Fægður álspegill hefur mest endurvarp allra málma á 200-400 nm (útfjólubláa) sviðinu og 3000-10000 nm (út-innrauða) sviðinu en á 400-700 nm sýnilega sviðinu lýtur það naumlega í lægra haldi fyrir tini og silfri og á 700-3000 nm sviðinu (nær-innrauða sviðinu) fyrir silfri, gulli og eiri. Ál er góður varma- og rafleiðari, miðað við þyngd tvöfalt betri rafleiðari en eir. Ál getur virkað sem ofurleiðari; markofurleiðarahitastig þess er 1,2 K og marksegulsvið um það bil 10 mT. Samsætur. Ál hefur níu samsætur með massatölur frá 23 til 30. Aðeins 27Al (stöðug samsæta) og 26Al (geislavirk samsæta, 2 = 7.2 × 105 ár) koma fyrir í náttúrunni. Hinsvegar er 27Al 99.9+ % þeirra samsætna sem koma fyrir í náttúrunni. 26Al verður til við splundrun argons í lofthjúpnum fyrir tilverknað geimgeisla-róteinda. Hagnýt not hafa fundist fyrir álsamsætur við aldursgreiningu sets í úthöfunum, manganhnökra, jöklaíss, kvars í berginnskotum og loftsteinum. Hlutfall 26Al og 10Be hefur verið notað til að rannsaka hlutverk flutnings, setmyndunar, setmyndunartíma og veðrunar á tímakvarðanum 105 til 106 ár. Geimættað 26Al var fyrst notað við rannsóknir á tunglinu og loftsteinum. Eftir að brot losna frá loftsteinum verða þau fyrir áköfu geimgeislunarálagi á ferð sinni um geiminn og þannig verður til verulegt magn 26Al. Þegar loftsteinabrotin falla til jarðar hættir þessi framleiðsla og má því nýta hrörnun þess til að ákvarða jarðneskan aldur brotsins. Rannsóknir á loftsteinum hafa enn fremur leitt í ljós að 26Al var tiltölulega algengt þegar sólkerfið varð til. Flestir loftsteinafræðingar telja að orkan sem losnaði við hrörnun 26Al hafi valdið því að sum smástirni bráðnuðu og sundurgreindust eftir að þau urðu til fyrir 4,55 milljörðum ára. Birtingarform í náttúrunni. Í jarðskorpunni er ál algengasta efnið (8,13% miðað við massa) og þriðja algengasta frumefnið á eftir súrefni og kísli. Vegna þess hve gjarnan það myndar efnasambönd með súrefni kemur það þó nær aldrei fyrir hreint, heldur í oxíðum eða sílíkötum. Feldspör, algengasti hópur steinefna í jarðskorpunni, eru álsílíköt. Hreinan álmálm má finna sem minniháttar þátt á stöðum þar sem súrefni hefur lágan hlutgufuþrýsting, svo sem innan í ákveðnum eldfjöllum. Enda þótt ál sé afar algengt og útbreitt frumefni er málmurinn ekki unninn úr algengustu álsteindunum. Nær allur álmálmur er framleiddur úr málmgrýtinu báxíti. Báxít kemur fyrir sem veðrunarafurð berggrunns úr kísli með litlu járninnihaldi í hitabeltisloftslagi. Eru báxítnámur af þessum sökum flestallar á breiðu belti í kringum miðbaug. Almennt. Vegna þess hversu ál kemur sjaldan fyrir hreint var það áður fyrr álitið vera eðalmálmur verðmætara en gull. Árið 1884 var ál dýrara en silfur, gull eða platína. Ál hefur verið fjöldaframleitt í rétt rúmlega 100 ár. Ál er mjög hvarfgjarn málmur sem myndar háorku-efnatengi við súrefni. Í samanburði við aðra málma er erfitt að vinna það úr málmgrýtinu, svo sem báxíti, vegna orkunnar sem þarf til að draga það út úr súráli, öðru nafni áloxíði (Al2O3). Til dæmis er bein afoxun með kolefni, eins og gert er við framleiðslu járns, ekki möguleg því ál er sterkara afoxunarefni en kolefni. Álið þarf því að vinna með rafgreiningu, sú vinna á sér oftast stað í álveri. Í því ferli er súrálið leyst upp í bráðnu krýolíti. Álið dregst að öðru skautinu þannig að eftir stendur hreinn málmurinn. Rekstrarhiti kerjanna er 950-980 °C, sem er mun lægra en bræðslumark áloxíðs sem er 2.000 °C. Krýolít finnst sem bergtegund á Grænlandi en til iðnaðarnota hefur því verið skipt út fyrir tilbúið efni. Krýolít er efnasamband áls, natríns og kalkflúoríða: Na3AlF6. Áloxíðið (hvítt duft) er fengið með því að hreinsa súrál í Bayer-ferlinu eftir Karl Bayer. (Áður fyrr var Deville-ferlið ríkjandi hreinsunaraðferð). Rafgreiningin kom í stað Wöhler-ferlisins sem fólst í afoxun vatnsfirrts álklóríðs með kalíni. Bæði rafskautin sem notuð eru í rafgreiningu áloxíðs eru kolefni. Þegar málmgrýtið er bráðið geta jónir þess ferðast frjálst. Hvarfið við bakskautið er Áljónin afoxast hér (rafeindum er bætt við). Álmálmurinn sekkur þá til botns og er fjarlægður. Kolefnisforskautið oxast og þannig losnar koltvísýringur. Forskautunum í afoxunarkeri þarf að skipta út reglulega því þau eyðast í ferlinu. Bakskautin oxast hinsvegar ekki því fljótandi álið í kerinu heldur súrefni frá þeim. Bakskaut eyðast engu að síður, aðallega vegna rafefnafræðilegra ferla. Eftir 5-10 ár, eftir strauminum sem notaður er í rafgreiningunni, þarf að endursmíða kerið vegna bakskautsslits. Álframleiðsla með rafgreiningu með Hall-Héroult-ferlinu er mjög orkufrek, en allir aðrir ferlar hafa reynst dýrari eða verri fyrir umhverfið. Meðalorka á massaeiningu í álframleiðslu í heiminum er 15±0,5 kílóvattstundir á kg framleidds áls (52-56 MJ/kg). Nýjustu bræðslur ná um það bil 12,8 kWh/kg (46,1 MJ/kg). (Þetta má bera saman við hvarfvarmann, 31 MJ/kg, og Gibbsorku hvarfsins, 29 MJ/kg. Afoxunarlínustraumar fyrir eldri tæknir eru 100-200 kA, allranýjustu álverum vinna við um það bil 350 kA. Fréttst hefur af tilraunum með 500 kA ker. Endurheimt málmsins með endurvinnslu er orðinn mikilvægur hluti áliðnaðarins. Í endurvinnslu er brotamálmurinn bræddur en til þess þarf aðeins 5% orkunnar sem þarf til að vinna ál úr álgrýti. Umtalsverður hluti, allt að 2-15% ílagsins, tapast hinsvegar sem sori (öskukennt oxíð). Lítið bar á endurvinnslu þar til seint á 7. áratugnum, þegar vaxandi notkun drykkjardósa vakti almenning til vitundar um hana. Er nú svo komið að á Norðurlöndum, þar sem endurvinnsla álumbúða er mest í heiminum, skila sér um það bil 85% þeirra. Í Bandaríkjunum er endurvinnsla hinsvegar mun skemmra á veg komin eða tæp 60% og mætti loka nokkrum álverum ef hlutfallið væri þar hið sama og á Norðurlöndum. Raforka er 20-40% kostnaðarins við álframleiðslu, eftir staðsetningu álvera. Þeim er helst komið fyrir þar sem gnótt er ódýrrar raforku, svo sem (í röð eftir framleiðslumagni): Alþýðulýðveldinu Kína, Rússlandi, Bandaríkjunum, Quebec og Bresku Kólumbíu í Kanada, Ástralíu, Brasilíu, Noregi, Indlandi, Flóaríkjunum, Suður-Afríku og á Íslandi. Árið 2005 var Alþýðulýðveldið Kína efst með tæpan fimmtung heimsframleiðslunnar. Sama ár taldist álframleiðsla Íslendinga 721.000 tonn eða 2,2% heimsframleiðslunnar. Síðastliðin 50 ár hafa Ástralir gerst meiriháttar framleiðendur súrálgrýtis og áls. Ástralir framleiddu 62 milljónir tonna báxíts árið 2005. Áströlsku námurnar líða fyrir tiltekin úrvinnsluvandamál, sumar þeirra hafa hátt kísilinnihald, en í staðinn hafa þær þann kost að vera grunnar og auðunnar. Álvinnsla á Íslandi. a>s á Reyðarfirði meðan það var í byggingu. Á Íslandi hófst álvinnsla árið 1969 með gangsetningu álvers Íslenska álfélagsins, ISAL. Framleiðslan fyrsta árið var 33.000 tonn. Eigandi félagsins var svissneska álfyrirtækið Alusuisse sem árið 2000 var keypt af kanadíska álfyrirtækinu Alcan, sem nú heitir Rio Tinto Alcan. Hinn 11. júní árið 1998 var gangsett álver Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði. Eigandi þess er bandaríska álfyrirtækið Century Aluminium. Í júní 2007 var svo gangsett álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Það er í eigu bandaríska álrisans Alcoa. Fyrsti ársfjórðungur 2008 var fyrsti ársfjórðungur þar sem ál fór fram úr sjávarafurðum í verðmæti vöruútflutnings, með 37,7% heildar. Þá er því spáð að álútflutningur verði rúmlega 30% heildarútflutningstekna Íslands fyrir árið 2008 sem er 70% aukning frá fyrra ári þegar hann var 17,8%. Árið 2009, þegar Fjarðaál verður komið í fulla framleiðslugetu, er því spáð að hlutfallið fari vel yfir 30%. Þar með hefur Ísland langmesta álframleiðslu allra landa sem hlutfall útflutningstekna. Oxunarástand eitt. Álhalíð eru yfirleitt á forminu AlX3, það er AlF3, AlCl3, AlBr3, AlI3 og svo framvegis Klasar. Í tímaritinu "Science" 14. janúar 2005 var greint frá því tekist hefði að fá klasa 13 álfrumeinda (Al13) til að hegða sér eins og joðfrumeind og að 14 álfrumeindir (Al14) hefðu hegðað sér eins og alkalímálmur. Vísindamennirnir bundu einnig 12 joðfrumeindir við Al13-klasa og bjuggu þannig til nýjan flokk fjöljoðíðs. Sagt er að þessi uppgötvun gefi kost á nýrri aðferð við flokkun lotukerfisins: ofurfrumeindir. Almenn not. a> frá 1951 með skel úr áli. Ál er mest notaði málmurinn að frátöldu járni og málmblöndum byggðum á því. Heimsframleiðslan árið 2008 var 35 milljónir tonna, meiri en nokkurs annars málms nema járns (1000 milljónir tonna). Tiltölulega hreint ál er aðeins notað þar sem tæringarþol og/eða vinnanleiki skiptir meira máli en styrkur eða harka. Setja má þunnt lag af áli á flatt yfirborð með eðlisfræðilegri gufuhélun eða (miklu sjaldnar) efnafræðilegri gufuhélun eða öðrum efnafræðilegum aðferðum til að búa til ljóshúðun og spegla. Þegar húð úr hreinu áli er búin til með þessum hætti endurvarpar hún sýnilegu ljósi vel (um það bil 92%) og mið- og út-innrauðu afar vel (allt að 98%). Hreint ál hefur lágan togstyrk, en bæta má aflfræðilega eiginleika þess mikið með varma-vélrænni vinnslu, einkum eldherðingu. Ómissandi íhlutir í flugvélar og eldflaugar gerðir úr álblöndum vegna hás styrks-massa-hlutfalls þeirra. Ál myndar greiðlega blöndur með mörgum frumefnum svo sem eiri, sinki, magnesíni, mangani og kísli (til dæmis dúrál). Nú til dags eru nær öll efni sem eru kölluð ál í daglegu tali í rauninni blöndur. Til dæmis er hinn algengi álpappír blanda úr 92-99% áli. Álblöndur notaðar í byggingarhluti. Álblöndur með breiðu úrvali eiginleika eru notaðar í verkfræðilegum byggingum. Blöndurnar eru flokkaðar með talnakerfi (ANSI) eða með heitum sem gefa til kynna helstu innihaldsefni blöndunnar (DIN og ISO). Styrkur og ending álblandna eru mjög mismikil, ekki aðeins vegna íblöndunarefnanna heldur vegna hitameðhöndlunar og framleiðsluferla. Þekkingarskortur á réttum aðferðum hefur stundum valdið hönnunargöllum í byggingum og í kjölfarið vantrausti á ágæti áls sem byggingarefni. Ein veruleg takmörkun álblandna sem byggingarefni er þreytu-styrkur þeirra. Ólíkt stáli hafa álblöndur ekkert vel skilgreint þreytumark sem þýðir að þreytubrot á sér stað á endanum jafnvel vegna mjög lítils lotubundins álags. Þetta þýðir að verkfræðingar verða að meta álagsmynstur mannvirkisins og hanna útfrá ákveðnum líftíma en ekki óendanlegum. Annar mikilvægur eiginleiki álblandna er viðkvæmni þeirra fyrir hita. Það flækir verkstæðisvinnuferli sem fela í sér hitun að ólíkt stáli bráðnar ál án þess að verða fyrst rauðglóandi. Þetta veldur því að notkun gasbrennara til að móta ál útheimtir nokkra sérkunnáttu því ekki er hægt að sjá hversu nærri efnið er því að bráðna. Í álblöndum þróast einnig innri spennur vegna hitunaraðgerða eins og suðu og steypu. Vandinn við álblöndur í þessu tilliti er lágt bræðslumark þeirra, sem veldur því að hlutir úr þeim aflagast frekar fyrir áhrif spenna vegna hitameðhöndlunar. Ná má fram stýrðri spennuminnkun meðan á framleiðslu stendur með því að hitameðhöndla hlutina í ofni og kæla þá síðan smám saman – í reynd glóða spennurnar. Lágt bræðslumark álblandna hefur ekki útilokað notkun þeirra í eldflaugaiðnaðinum, ekki einu sinni við smíði brennsluhólfa þar sem lofttegundir ná 3500 K hita. Í Agena efristigs-eldflaugina var notað ál með afturvirkri kælingu í vissa íhluti stútsins, þar með talið koksvæðið þar sem hitaálagið er mest. Álrafleiðslur. Samanborið við eir hefur ál 65% rafleiðninnar miðað við rúmmál en 200% miðað við massa. Eir er hefðbundið efni í rafleiðslur í húsum. Á sjöunda áratugnum var ál umtalsvert ódýrara en eir og var því tekið að nota það í húsarafleiðslur í Bandaríkjunum, enda þótt festibúnaður hafi oft ekki verið gerður fyrir álvír. Í sumum tilvikum olli hærri varmaþenslustuðull álsins misþenslu milli hans og festinganna sem voru úr öðrum málmi sem olli því á endanum að vírinn losnaði. Einnig hefur hreint ál tilhneigingu til að skríða undir stöðugum þrýstingi (því meira sem hitinn er hærri) sem veldur einnig losi festinga. Síðast en ekki síst hækkaði rafviðnám festingarinnar vegna galvanískrar tæringar. Allt olli þetta ofhitnun og losi á festingum og það aftur eldsvoðum. Byggingamenn tóku að forðast álvíra og í mörgum sveitarfélögum var notkun þeirra bönnuð í nýbyggingum í mjög smáum stærðum. Þar kom að nýjar festingar komu fram sem hannaðar voru til að losna hvorki né ofhitna. Þær voru merktar „Al/Cu“ í fyrstu en nú „CO/ALR“. Nýjar málmblöndur, hannanir og aðferðir eru nú notaðar fyrir álvíra með álúttökum. Ál hefur alloft verið notað í vöf rafhreyfla af ofangreindum ástæðum. Eir hefur þó haldið stöðu sinni á þessu notkunarsviði vegna þess að í rafhreyflum er mikilvægt að hámarka rafleiðni per rúmmál. Álblöndur eru oft notaðar í háspennulínur. Saga. Forn-Grikkir og Rómverjar notuðu álsölt sem litfesti við fatalitun og sem herpir þegar bundið var um sár; álún er ennþá notað sem herpiefni (til að stöðva blæðingar). Árið 1761 lagði Guyton de Morveau til að grunngerð álúns yrði kölluð "alumine". Árið 1808 greindi Humphry Davy fyrstur manna málmkennt grunnefni álúns sem hann nefndi fyrst "alumium" og síðar "aluminum". Friedrich Wöhler er almennt eignaður heiðurinn af því að hafa fyrstur manna einangrað ál (á latínu "alumen", álún) árið 1827 með því að blanda vatnsfirrtu álklóríði saman við kalín. Danski eðlis- og efnafræðingurinn Hans Christian Ørsted hafði þó fyrstur búið málminn til tveimur árum áður (í óhreinni mynd) og má því einnig telja hann hafa uppgötvað hann. Enn fremur uppgötvaði Pierre Berthier ál í súrálgrýti og vann það úr því. Frakkinn Henri Etienne Sainte-Claire Deville endurbætti aðferð Wöhlers árið 1846 og lýsti endurbótum sínum í bók sem kom út árið 1859, en helsta bótin var notkun natríns í stað hins umtalsvert dýrara kalíns. Áður en Hall-Héroult-ferlið var þróað var einstaklega erfitt að vinna ál úr hinum ýmsu málmgrýtum. Fyrir vikið var hreint ál verðmætara en gull. Álstangir voru sýndar við hlið frönsku krúnudjásnanna á Heimssýningunni 1855 og Napóleón III var sagður hafa látið mestu heiðursgesti sína snæða af áldiskum, meðan aðrir máttu gera sér silfurborðbúnað að góðu. Ál var valið í tind Washington-minnismerkisins árið 1884 þegar 30 grömm kostuðu dagslaun verkamanns við verkið; ál var álíka verðmætt og silfur. Cowles-fyrirtækin magnframleiddu ál í Bandaríkjunum og Englandi með aðstoð bræðsluofna á borð við bræðsluofn Carls Wilhelms Siemens árið 1886. Charles Martin Hall í Ohio í Bandaríkjunum og Paul Héroult í Frakklandi þróuðu hvor í sínu lagi Hall-Héroult-rafgreiningarferlið sem gerði vinnslu áls úr málmgrýti ódýrari og er nú ríkjandi vinnsluaðferð um allan heim. Með Hall-Héroult-ferlinu er ekki hægt að fá fram ofurhreint ál beint. Árið 1888 var Pittsburgh Reduction Company stofnað, nú þekkt sem Alcoa, með ferli Halls og fjárstuðningi Alfred E. Hunt. Árið 1889 var ferli Héroults notað í Sviss við framleiðslu hjá Aluminium Industrie, nú Alcan, og árið 1896 í Skotlandi hjá British Aluminium, nú Luxfer Group og Alcoa. Þegar kom fram á árið 1895 var farið að nota málminn sem byggingarefni svo sem í hvolfþak Aðalritarabyggingarinnar í Sydney í Ástralíu. Í sjóherjum margra landa er ál notað í yfirbyggingu skipanna. Þó hefur eldsvoði árið 1975 í USS Belknap sem eyðilagði ályfirbyggingu þess að innan, sem og tjón í orrustum á breskum skipum í Falklandseyjastríðinu valdið því að margir sjóherir hafa skipt yfir í skip sem alfarið eru gerð úr stáli. Önnur nýleg þróun í gerð herskipa er að smíða þau úr koltrefjum. Verð á áli hefur fallið mikið í kjölfar hnattrænnar bankakreppu síðla árs 2008. Ál í náttúrunni og lífverum. Ál er eitt fárra frumefna sem koma fyrir í ríkum mæli í náttúrunni sem virðast ekki hafa neitt hlutverk í lífverum. Ál á formi hinna ýmsu salta (fosfata og sílíkata) er innihaldsefni ýmissa plantna og ávaxta sem taka umrædd sölt upp úr jarðveginum með vatni. Á það einkum við sé jarðvegurinn súr. Ál í matvælum. Í flestum matvælum má finna ál sem snefilefni. Að meðaltali innbyrðum við 25 mg áls á dag með matnum á formi hinna ýmsu salta. Sé hann matreiddur með mataráhöldum úr áli (súr matvæli leysa ál) og geymdur í álpappír, getur þessi tala tvö- til þrefaldast. Ál er einnig sett í matvæli sem málmur á örsmæðarformi og í meiri mæli sem álsílíköt (seólít). Álsílíkat er þannig innihaldsefni matarlitar (E173), bökunarvara, lyftidufts, smurosts og niðurlagðs súrs grænmetis. Þá er það notað gegn kekkjamyndun í kaffihvítti, matarsalti og grænmeti. Áhrifa-litarefni sem innihalda ál eru notuð sem naglalakk, í hjúp sætra bökunarvara og í kökuskreytingar. Álsambönd finnast í vörum til líkamshirðu (sólarolíu, svitalyktareyði og tannkremi), lyfjum sem lækka sýrustig magans (Antacida), niðurgangslyfjum (Kaolín, Attapulgite, Bolus) og mörgum blóðfitulækkandi lyfjum (álklórfíbrat). Einnig finnst það í úrgangi sem fellur til við framleiðslu áls, pappírs, glers, postulíns og vefnaðarvöru. Áhrif áls á mannslíkamann. Álsambönd geta valdið skorti á blóðrauða (blóðleysi) því þau setjast á sömu geymsluprótein og járn. Það getur haft áhrif á efnaskipti í beinum, flýtt fyrir gigt, valdið truflunum á taugakerfi svo sem minnis- og málörðugleikum, sleni og árásargirni. Það leiðir með tímanum í öllu falli af sér lifrar- og nýrnaskaða (en við því eru til ráð). Ál truflar efnaskipti kalsíns, króms, járns, flúors, eirs, magnesíns, fosfats, kísils, sinks og fjörefnanna B6 og D. Samkvæmt nýjustu rannsóknum þýsku áhættumatsstofnunarinnar er engin fylgni milli upptöku áls úr mat og Alzheimer-sjúkdómsins, ólíkt því sem ýmsar fyrri rannsóknir höfðu gefið til kynna. Fáein prósent íbúafjöldans bregðast við áli með sterkum ofnæmisviðbrögðum. Við notkun svitalyktareyða fá þau útbrot, við neyslu matar sem eldaður var í álpottum eða -pönnum fá þau meltingartruflanir og eiga erfitt með að taka upp næringarefnin; við neyslu lyfja með álinnihaldi kasta þau upp og/eða sýna önnur eitrunareinkenni. Flórens. Flórens (ítalska: Firenze) (hefur einnig verið nefnd Fagurborg á íslensku) er sögufræg borg á Ítalíu og höfuðstaður Toskanahéraðs, auk þess að vera höfuðstaður samnefndrar sýslu. Á endurreisnartímanum var borgin borgríki og síðar höfuðborg hertogadæmisins Toskana. Hún er fræg fyrir að hafa alið marga helstu snillinga endurreisnarinnar á sviði vísinda, heimspeki og lista, svo sem Leonardo da Vinci, Galileo Galilei, Michelangelo Buonarroti og Niccolò Machiavelli. Borgin liggur á hásléttu rétt sunnan við Appennínafjöllin, við Arnófljót í frjósömum dal þar sem áður var mýri. Íbúafjöldi borgarinnar er um 370.000 og atvinnulíf byggir fyrst og fremst á verslun, framleiðsluiðnaði og ferðaþjónustu. Fótboltalið borgarinnar heitir "Fiorentina" og heimavöllur þess er íþróttavöllur borgarinnar, "Campo di Marte". Í borginni er alþjóðaflugvöllur (IATA: FLR), almennt kallaður "Peretola" eftir hverfinu þar sem hann er, en formlega kenndur við landkönnuðinn Amerigo Vespucci. Verndardýrlingur borgarinnar er Jóhannes skírari og er skírnarkirkja honum helguð fyrir framan dómkirkjuna, "Santa Maria del Fiore", sem almennt er kölluð "Il Duomo". Hátíð borgarinnar er því Jónsmessan og þá er efnt til veglegrar flugeldasýningar. Kort sem sýnir staðsetningu Flórens á Ítalíu Rómversk nýlenda. Flórens var upphaflega stofnuð sem rómversk hermannanýlenda ("Florentia"), árið 59 f.Kr., í lítt heilsusamlegri mýri við Arnófljótið. Etrúski aðallinn bjó þá í þorpum á borð við Fiesole í hæðunum fyrir ofan borgina þar sem loftið var betra. Miðbær borgarinnar ber enn merki þeirrar reglulegu og hefðbundnu götumyndar sem einkenndi allar rómverskar borgir. Borgríkið. Á miðöldum var borgin um skeið hluti af veldi Býsans. Hún var varla nema smábær fram á 10. öld þegar hún tók að vaxa sem iðnaðar- og verslunarborg. Á síðmiðöldum var hún, líkt og aðrar borgir Ítalíu, svið átaka milli Gvelfa og Gíbellína. Í Flórens varð málstaður Gvelfa ofaná. Þeir voru „borgaralegri“ og studdu kirkjuna gegn keisaranum, en átök milli borgara og aðalsins áttu eftir að verða leiðarhnoða í stjórnmálasögu borgarinnar. Lýðveldistíminn og Endurreisnin. Horft yfir gamla miðbæinn frá "Uffizi"-safninu. Hægra megin sést í "Il Duomo" en vinstra megin er kirkjan "Orsanmichele". Í miðjunni sést í hvolfþakið á grafhvelfingu Mediciættarinnar við "San Lorenzo" Árið 1252 kom borgin sér upp eigin gjaldmiðli, flórínunni, og skaust brátt upp fyrir helstu keppinauta sína, borgirnar Písa og Siena. Á 14. öld var borgin orðin blómleg iðnaðarborg þar sem gildi hinna ýmsu iðngreina kepptust um völd og áhrif. Stuttu eftir aldamótin 1300 var holræsum borgarinnar lokað og búið til kerfi þar sem áveita skolaði úrgangi um holræsin út í ána. Á svipuðum tíma, eða 1321, var komið á fót "Studium Generale", eða háskóla þar sem Giovanni Boccaccio kenndi, meðal annarra. Þetta sama ár lést einn þekktasti sonur borgarinnar, Dante Alighieri, í útlegð í Ravenna. Árið 1296 var hafist handa við að reisa stóra dómkirkju í takt við aukinn styrk borgarinnar. Hún var hönnuð af Arnolfo di Cambio og átti að verða stærsta dómkirkja heims. Bygging hennar gekk hægt og kirkjuskipið var fyrst tilbúið árið 1418. Þá var haldin samkeppni um hönnun hvolfþaksins þar sem Filippo Brunelleschi fór með sigur úr býtum. Bygging hvolfþaksins, sem er stærsta hvolfþak heims ef miðað er við byggingu án stoðkerfis eins og járnabindingar, tók átján ár, en kirkjan var vígð 25. mars 1436. Svarti-dauði gekk yfir borgina árið 1348 og af áætluðum 80.000 manna íbúafjölda er ætlað að um 25.000 hafi lifað pláguna af. Brátt tóku sterkar fjölskyldur eins og Albiziættin, Strozziættin og Mediciættin að takast á um völdin innan borgarráðsins. Í þessari valdabaráttu beittu þær neti áhangenda og mútum, og mikil áhersla á ytri merki auðs og valds skapaði frjóan jarðveg fyrir listamenn. Mediciættin, sem hafði hagnast af fjármálastarfsemi, náði yfirhöndinni þegar Kosímó eldri varð leiðtogi lýðveldisins árið 1434. Þegar sonarsonur Kosímós, Lorenzo „hinn mikilfenglegi“, varð leiðtogi borgarinnar, var Flórens í raun orðin að nokkurs konar ættarveldi. Lorenzo varð einn helsti verndari listamanna á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo og Sandro Botticelli. Ásakanir um spillingu og ólifnað leiddu til byltingar árið 1494 undir stjórn svartmunksins Girolamo Savonarola. Á þeim tíma hóf Machiavelli feril sinn sem opinber starfsmaður í þjónustu hins endurreista lýðveldis. Hertogadæmið. Mediciættin komst brátt aftur til valda og Savonarola var brenndur á báli á torginu fyrir framan stjórnarhöllina "Palazzo Vecchio" árið 1498. Margir fyrrum áhangendur fjölskyldunnar, eins og Michelangelo, voru óánægðir með endurkomu hennar og litu orðið á þá sem einræðisherra. Mediciættin var aftur rekin frá völdum árið 1527 og lýðveldið endurreist. Með stuðningi keisarans og páfa náði hún þó aftur völdum og var frá 1537 hertogar af Flórens, og frá 1569 stórhertogar í Toskana, sem var þeirra erfðaveldi næstu tvær aldirnar, eða þar til ættin dó út. Fyrsti stórhertoginn, Kosímó I lét reisa hina miklu skrifstofubyggingu "Uffizi" (skrifstofurnar), eftir teikningum arkitektsins Giorgio Vasari. Vasari byggði einnig langan gang sem tengdi "Palazzo Vecchio" og "Uffizi" yfir "Ponte Vecchio" saman við "Palazzo Pitti" (sem var bústaður hertogans eftir að eiginkona hans Eleónóra af Tóledó keypti hana). Þannig gat Kosímó ferðast á milli án þess að þurfa að fara út á götu. Gangurinn hýsir stórt safn sjálfsmynda eftir ýmsa listamenn, að stofni til frá 17. öld. Síðasti meðlimur ættarinnar, Anna María Lovísa af Medici, arfleiddi borgina að listaverkasafni fjölskyldunnar til þess að það myndi laða að ferðamenn. Yfirráð Austurríkis og sameining Ítalíu. Árið 1737 gekk hertogadæmið í arf til austurríska konungdæmisins og var hluti þess þar til sameining Ítalíu átti sér stað um miðja 19. öld. Toskana varð árið 1861 hluti af ítalska konungdæminu og Flórens tók árið 1865 við hlutverki höfuðborgar ríkisins af Tórínó þar til Róm varð höfuðborg fimm árum síðar. Á 18. og 19. öld varð borgin vinsæll viðkomustaður ferðamanna og fastur liður í "Grand Tour" breskra og franskra aðalsmanna á slóðir klassískrar menningar. Listalíf blómstraði á kaffihúsum borgarinnar undir lok 19. aldar og í byrjun tuttugustu aldar varð "fútúrisminn" leiðandi stefna í myndlist og skáldskap, en hann gagnrýndi einkum borgirnar Flórens og Feneyjar sem „borgir fortíðarhyggjunnar“. Fasisminn og Heimsstyrjöldin síðari. Mússólíní komst til valda á Ítalíu árið 1922. Valdatíð hans einkenndist til að byrja með af umfangsmikilli endurnýjun borga eins og Flórens. Á þessum tíma var meðal annars reist lestarstöð borgarinnar "Stazione Santa Maria Novella". Í stríðinu varð borgin fyrir loftárásum bandamanna og Þjóðverja sem eyðilögðu meðal annars allar brýr borgarinnar nema "Ponte Vecchio", en hlífðu annars helstu byggingum. Borgin var hersetin af Þjóðverjum 1943 til 1944 og barist var hús úr húsi. Flóðið 1966. 4. nóvember árið 1966 flæddi Arnófljót yfir bakka sína eftir tveggja daga stórrigningar og færði borgina í kaf. Fjöldi ómetanlegra listaverka grófust í braki og leðju en stór hópur sjálfboðaliða auk ítalska hersins vann mikið starf við björgun þeirra. Þessi atburður varð meðal annars til þess að borgin hefur verið miðstöð rannsókna og náms í forvörslu listaverka síðan. Borgarhverfin. Á 14. öld var borginni skipti í fjögur hverfi sem heita eftir höfuðkirkjum hvers borgarhluta: "Santa Maria Novella", "San Giovanni", "Santa Croce" og "Santo Spirito". Með vexti borgarinnar hafa þessi hverfi þanist út, svo nú væri réttara að tala um þau sem borgarhluta. Augljóslega skiptist borgin nú í miklu fleiri hverfi og í daglegu tali er venja að tala um gömlu rómversku miðborgina ("Centro Storico") sem sérstakt hverfi. Borgarmúrar Endurreisnartímans eru nú horfnir að mestu leyti og hraðbraut liggur í stað þeirra umhverfis miðborgina. Flest borgarhliðin eru þó enn standandi og hluti múranna á Oltrarno. Borgin hefur vaxið langt út frá hinni reglulegu hringlaga endurreisnarborg og fyllir út í dalverpin til norðvesturs og suðausturs. Centro Storico. Aðaldyr "Palazzo Vecchio" með "Perseif" í forgrunni og "Davíð" í bakgrunni. Gamli rómverski miðbærinn er greinilegur á korti af borginni þar sem hann er reglulegur ferhyrningur og allar götur hans liggja beinar eftir höfuðáttunum. Eina sveigða gatan ("via Torta") markar útlínur hringleikahússins, en að öðru leyti eru þar engar menjar um rómverskan uppruna. Á þessum litla bletti standa meðal annars "Il Duomo" (ásamt skírnarkirkjunni "Battistero di San Giovanni" og klukkuturninum), "Palazzo Vecchio" og kirkjurnar "Orsanmichele" og "La Badia". Á torginu framan við "Palazzo Vecchio" ("Piazza della Signoria") getur að líta meðal annars hinar frægu styttur "Davíð" eftir Michelangelo, "Júdit og Hólófernes" eftir Donatello og "Perseif" eftir Benvenuto Cellini. Venjan er að telja einnig árbakkann með ríkislistasafninu "Gli Uffizi" og "Ponte Vecchio" til miðbæjarins. Gríðarlegur fjöldi ferðamanna fer um þennan borgarhluta, eða um hálf milljón á viku á háannatíma. Santa Croce. Mynd af "Santa Croce" sem sýnir framhlið kirkjunnar og torgið. Klaustrið er sambyggt við kirkjuna hægra megin. Santa Croce er einn fjögurra hefðbundinna borgarhluta Flórens og inniheldur þannig hverfin "Gavinana", "Viale Europa" og "Galluzzo" auk hluta "Oltrarno" og "Santa Croce". Kirkjan er fransiskanakirkja og er enn í fullri notkun. Í kirkjunni er mikið af listaverkum eftir Giotto, Cimabue, Luca della Robbia og Donatello, meðal annarra. Kirkjan og klaustrið skemmdust mikið í flóðinu 1966. Nálægt kirkjunni er gamla fangelsið "Il Bargello" sem nú hýsir listaverkasafn borgarinnar. Aðrir athyglisverðir staðir í hverfinu eru t.d. "Piazzale Michelangelo" og kirkjan "San Miniato" „hinum megin“ við ána, auk vísindasögusafnsins þar sem hægt er að sjá mælitæki Galileos. Santo Spirito. Santo Spirito liggur að öllu leyti „hinum megin“ við ána og nær yfir, auk "Santo Spirito", "Isolotto", "Legnaia", "Soffiano" og "Ugniano". Þar er meðal annars hægt að skoða fræga myndröð Masaccios, sem margir telja upphafsmann þeirra vatnaskila sem urðu í málaralist á Endurreisnartímanum, í Brancacci-kapellunni í kirkjunni "Santa Maria del Carmine". Á þessu svæði getur að líta heillegasta hluta gömlu borgarmúranna og virkið "Belvedere". Santa Maria Novella. Santa Maria Novella nær einnig yfir hverfin "Statuto", "Rifredi", "Careggi", "Peretola", "Novoli" og "Brozzi". Kirkjan er gömul dóminíkanakirkja og stendur við skeiðvöll borgarinnar, sem ekki er lengur í notkun. Rétt hjá kirkjunni er samnefnd lestarstöð. Nálægt lestarstöðinni er kirkjan San Lorenzo með sambyggðu grafhýsi Medicifjölskyldunnar og samnefndum markaði. Aðeins lengra frá, við "via Cavour", stendur Medicihöllin. Langt utar, en þó í sama borgarhluta, er flugvöllurinn "Peretola" eða Vespucci-flugvöllur. San Giovanni. San Giovanni inniheldur einnig hverfin "Campo di Marte", "Le Cure", "Coverciano" og "Bellariva". Í hverfinu eru kirkjurnar "San Marco" með freskum eftir Fra Angelico og "Santissima Annunziata", og gamla munaðarleysingjahælið "Spedale degli Innocenti" með skreytingum eftir Luca della Robbia. Við sama torg og munaðarleysingjahælið stendur Akademían þar sem frumgerð "Davíðs" eftir Michelangelo stendur. Í "Campo di Marte" er íþróttavöllur borgarinnar og heimavöllur fótboltaliðsins "Fiorentina". Þar er einnig önnur aðal lestarstöð borgarinnar. Íþróttir. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er ACF Fiorentina. Liðið hefur tvisvar orðið italskur meistari (1956 og 1969), fimm sinnum bikarmeistari (síðast 2001) og sigraði í Evrópukeppni bikarhafa 1961 (vann þá Glasgow Rangers). Liðið komst í úrslit í sömu keppni 1962, en tapaði þá fyrir Atlético Madrid. Liðið komst einnig í úrslit í Evrópukeppni meistaraliða 1957 (tapaði þá fyrir Real Madrid) og í úrslit í Evrópukeppni félagsliða 1990 (tapaði þá fyrir Juventus. Matargerð. Toskana er auðvitað frægt fyrir matargerð, en sagt er að frönsk matargerðarlist eigi upptök sín í því þegar Katrín af Medici giftist Hinriki II Frakkakonungi 1533 og flutti með sér flokk matsveina frá Flórens. Við borgina eru sérstaklega kenndir réttirnir "trippa alla fiorentina" (soðnar kýrvambir) og "bistecca fiorentina" (þverhandarþykk T-bein steik af chianina nauti, grilluð án krydds). Auk þess eru í borginni framleiddar margar gerðir san giovese víns og ólífuolíu. Frægustu börn borgarinnar. Meðal þekkra einstaklinga frá Flórens eru hinir ýmsu meðlimir Medici-ættarinnar. Listinn er ekki endanlegur. Ísrael. thumb Ísraelsríki "(hebreska:" מדינת ישראל, "Medinat Yisra'el; arabíska:" دولة اسرائيل, "Daulat Isra'il)" er land í miðausturlöndum fyrir botni Miðjarðarhafs, stofnað 1948. Landið er lýðveldi með þingbundinni stjórn og er yfirlýst gyðingaríki. Flestir íbúanna eru gyðingar en stór minnihlutahópur íslamskra, kristinna og drúsa araba býr einnig í landinu. Zíonismi naut vaxandi fylgis eftir helförina, sem leiddi til stofnunar Ísraelsríkis, en talsverð ólga hefur verið á svæðinu og í nágrannaríkjum allar götur síðan. Deilt um stöðu hernumdu svæðanna sem eru Gólanhæðir, Vesturbakkinn og Gazaströndin. Á þeim tveimur síðastnefndu hefur Heimastjórn Palestínumanna nokkur völd formlega séð þó að ísraelsk stjórnvöld ráði þar mestu í rauninni. Nafnsifjar og ísraelski fáninn. Heitið „Ísrael“ á rætur sínar að rekja til hebresku biblíunnar, Tanakh (Gamla testamenntið í raun), þar sem Jakob er nefndur Ísrael af dularfullum andstæðingi sínum í glímukeppni (sbr. "Jakobsglíman" úr fyrstu bók Móse 32:22–32: „Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.“). Ísrael þýðir „sá sem hefur glímt við Guð“. Þjóðin sem getin var af Jakob var síðan kölluð „börn Ísraels“ eða „Ísraelsmenn“. Fólkið er almennt kallað Gyðingar eftir son Jakobs sem hét Júda („Yehudah“ á hebresku en gyðingur er „Yehudim“ á hebresku). Ísraelska flaggið er tengt hefðum Gyðinga. Hvíti bakgrunnurinn táknar hreinleika. Bláu línurnar eftir jöðrum flaggsins uppi og niðri samsvara útliti bænasjala Gyðinga sem eru hvít með bláum röndum. Í miðjunni er svo stjarna Davíðs. Egyptaland. Arabíska lýðveldið Egyptaland (eða Egiptaland) (arabíska: مصر (); umritað: "Miṣr") er land í Norður-Afríku. Austasti hluti landsins, Sínaískagi, brúar bilið milli Norður-Afríku og Suðvestur-Asíu. Í norðri á landið strandlengju að Miðjarðarhafi og í austri að Rauðahafi, auk landamæra að Líbíu í vestri, Súdan í suðri og Ísrael í austri. Egyptaland er eitt fjölmennasta ríki Afríku og Austurlanda nær. Íbúar landsins eru rúmlega 82 milljón talsins og meirihluti þeirra býr á um það bil 40.000 ferkílómetra svæði við bakka Nílar en þar er eina yrkjanlega landið. Um helmingur Egypta býr í þéttbýli, mest á svæðunum í kringum Kaíró, Alexandríu og aðrar stórborgir við Nílarósa. Sahara-eyðimörkin þekur drjúgan hluta landsins og er fremur strjálbýl. Egyptaland státar af einni elstu siðmenningu sögunnar, Egyptalandi hinu forna, og er frægt fyrir mörg merk minnismerki þess. Til marks um það eru pýramídarnir í Gísa og fornar rústir á borð við Þebu, hin miklu hof í Karnak og Dalur konunganna í borginni Lúxor, en í þeirri borg er rúmlega helmingur allra fornminja heims. Egyptaland nútímans er álitið efnahagslegt og menningarlegt stórveldi arabaheimsins. Landafræði. Egyptaland er 29. stærsta land í heimi og er 1.002.450 ferkílómetrar að stærð. Það liggur á breiddargráðunum 22° og 32°N og lengdargráðunum 24° og 36°A. Vegna þurrs loftslags landsins hefur þétt byggð myndast í kringum ána Níl, í Nílardal og við Nílarósa. Um 99% íbúanna búa á aðeins 5,5% landsvæðisins. Landið á landamæri að Líbíu í vestri, Súdan í suðri og Gaza-ströndinni og Ísrael í austri. Útaf mikilvægri landlegu Egyptalands á mörkum tveggja álfa skipar það veigamikinn hernaðarlegan sess í alþjóðastjórnmálum. Súesskurðurinn sem liggur í gegnum landið tengir Miðjarðarhaf við Rauðahaf og er mjög mikilvæg siglingaleið. Loftslag. Mestu rigningaskeiðin í Egyptaland eru á veturna. Sunnan af Kaíró er meðalúrkoma ekki nema 2-5 mm á ári jafnvel með einhverra ára millibili. Á skika við norðurströndina getur meðalúrkoma þó orðið árlega allt að 410 mm, mest milli október og mars. Snjókoma er tíð á Sinaífjalli og í sumum borgum við norðurströndina. Meðalhiti er milli 27 °C og 32 °C á sumrin en á veturna milli 13 °C og 21 °C. Á vorin berast að sunnan svonefndir khamsín-vindar og bera með sér sand og ryk. Þeir geta hækkað hitann í eyðimörkinni svo um nemur. Fyrir byggingu Aswan-stíflu flæddi Níl árlega og endurnýjaði jarðveginn. Þetta gaf landinu stöðuga uppskeru í gegnum árin. Hækkun sjávaryfirborðs gæti haft alvarleg áhrif í för með sér fyrir Egyptaland að mati loftslagsfræðinga. Lýðfræði. Egyptaland er fjölmennasta ríki Austurlanda nær og þriðja fjölmennasta land Afríku með yfir 79 milljónir íbúa. Á árunum 1970-2010 fjölgaði íbúum landsins ört vegna umbóta í heilsugæslu og landbúnaði. Þegar Napóleon réðst inn í landið árið 1798 var áætlaður íbúafjöldi aðeins þrjár milljónir. Árið 1939 bjuggu 16,5 milljónir í Egyptalandi. Flestir íbúar landsins búa við ána Níl, við Nílarósa og í nánd við Súesskurðinn. Um 90% íbúanna aðhyllast íslam en restin er að mestu kristin og tilheyrir koptísku rétttrúnaðarkirkjunni. Egyptar eru yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar, eða 99% en restin er skipuð nokkrum minnihlutahópum. Ber þá helst á Abözum, Tyrkjum, Grikkjum, Bedouin-Aröbum, Siwium og Núbíum. Einnig er umtalsverður fjöldi flóttamanna í Egyptalandi, áætlaður á bilinu 500.000 til 3.000.000. Flóttamenn frá Palestínu eru um 70.000 og frá Írak um 150.000 en óvíst er hversu margir eru í stærsta flóttamannahópnum frá Súdan. Á árum áður voru öflug minnihlutasamfélög Gyðinga og Grikkja í Egyptalandi en þau hafa nú að stærstu leyti lagst af. Gæðamiðlun. Gæðamiðlun ehf var íslenskt veffyrirtæki stofnað snemma árs 1997 af Stefáni Baxter og Sverri Hreiðarssyni. Enskt nafn fyrirtækisins var QCN ("Quality Content Network") og endurspeglaði upphaflega viðskiptahugmynd stofnendanna um útrás með hugbúnað sem átti að leiða saman framleiðendur, auglýsendur og áhorfendur fjölmiðlaefnis yfir netið. Þegar ljóst varð að ekki reyndist grundvöllur fyrir upprunalegu viðskiptahugmyndinni sneru starfsmenn fyrirtækisins í auknum mæli að hönnun og smíði vefsvæða, sem í fyrstu hafði verið hugsað sem aukabúgrein. Gæðamiðlun staðsetti sig framan af sem framleiðslu- og þjónustuaðila fyrir auglýsingastofur sem þurftu að koma kynningarefni viðskiptavina sinna í birtingu á vefnum. Fljótlega varð ljóst að lítill vaxtarbroddur var í þeim viðskiptum og stefnan var tekin á beinar sölur til fyrirtækja og stofnana á öllum þáttum hönnunar og smíði vefsvæða. Megnið af þeirri hugbúnaðarvinnu sem Gæðamiðlun seldi var sérsniðin að hverju verkefni fyrir sig, og eina margnýtanlega hugbúnaðareign fyrirtækisins var gagnainnsláttar- og vefumsjónartólið DataWeb. Gæðamiðlun var einnig fyrsti umboðsaðili vefverslunarhugbúnaðar frá InterShop í Þýskalandi og setti m.a. upp vefverslanir fyrir Griffil, Bóksölu stúdenta. Starfsemin. Fyrsta eitt til eitt og hálfa árið var fyrirtækið til húsa í lítilli þriggja herbergja leiguíbúð, sem hafði áður verið notuð undir arkitektastofu, á annarri hæð á Laufásvegi 19. Í ágúst 1998 fluttist Gæðamiðlun í um 250 fm. húsnæði á efstu hæð Ægisgötu 7 og var þar allt til vorloka 2000. Um mitt ár 1998 voru starfsmenn Gæðamiðlunar um átta talsins, en með tilkomu Kjartans Guðbergssonar sem sölumanns og vaxandi áhuga fyrirtækja á nýtingu Internetsins, óx fyrirtækið jafnt og þétt, þannig að starfsmenn voru orðnir um 25 um mitt ár 1999. Vorið 2000 voru starfsmenn um 35 talsins. Eignarhald. Upphaflegir eigendur Gæðamiðlunar voru Aðalheiður Jakobsen, Þormóður Jónsson og Stefán Baxter. Sumarið 1998 bættust Sverrir Hreiðarsson og Kjartan Guðbergsson í hóp eigenda en Þormóður Jónsson gaf eftir sinn hlut. Snemma árs 1999 Keypti Frjáls fjölmiðlun (sem þá átti meðal annars Vísi.is) um fjórðungs hlut í Gæðamiðlun, en síðar það ár eignaðist EJS hf rétt tæp 50% með kaupum á hlut Aðalheiðar og Frjálsrar fjölmiðlunar. Starfslok. Í mars árið 2000 var tekin ákvörðun um að sameina Gæðamiðlun og auglýsingastofu Gunnars Steins Pálssonar, GSP almannategnsl, og búa til við sameininguna fyrirtæki sem veitti "heildarlausnir" á sviði samskipta markaðsfyrirtækja við viðskiptavini sína. Hið nýja fyrirtæki fékk nafnið Mekkano og tók formlega til starfa í maí/júní árið 2000. Átæk vörpun. Átæk vörpun er vörpun þar sem bakmengið og myndmengið eru eitt og sama mengið. Dæmi: fallið "f"("x") ="x"3, með rauntalnaásinn sem for- og bakmengi, er átækt, því myndmengið er einnig rauntalnaásinn. Fallið formula_1, með mengi heiltalna sem for- og myndmengi, er ekki átækt því myndmengið inniheldur aðeins sléttar tölur. Vörpun, sem er bæði eintæk og átæk kallast gagntæk vörpun. Eintæk vörpun. Vörpun sem er bæði eintæk og átæk kallast gagntæk vörpun. Þrepasönnun. Gott er að líkja þessu við domino rallý. Ef að við sýnum fram á að fyrsti dominóinn detti, þá getum við áætlað að sá næsti muni falla, og þá getum við sýnt fram á að þeir muni allir detta. Dæmi. fyrir allar náttúrlegar tölur "n". Köllum rökyrðinguna formula_2, og getur hún skilað sönnu eða ósönnu gildi. Skref 1. Sönnum að þetta gildi fyrir formula_3. Þar sem að summa fyrstu 0 náttúrlegu talnanna er 0, og formula_4, telst þetta sannað. Þó er umdeilt hvort 0 sé tekin með í mengi náttúrulegra talna en á sama hátt og ofan má sýna fram á að yrðingin gildir um formula_5. Skref 2. Við áætlum nú að yrðingin sé sönn fyrir "n" = "m", þ.e. Það sem sanna átti. Það sem sanna átti er íslenskun á latnesku setningunni "quod erat demonstrandum" (skammstafað QED), sem gjarnan er notuð í stærðfræði og skyldum vísindagreinum til þess að tákna að sönnun sé lokið og að niðurstaðan sé ótvíræð. Bókstafleg þýðing orðanna er „það sem var til sönnunar“. Þetta er oft táknað með ferningi, ýmist fylltum eða holum, formula_1. Kísill. Kísill er frumefni með efnatáknið Si og er númer fjórtán í lotukerfinu. Fjórgildur málmungur, kísill er ekki jafn hvarfgjarn og efnafræðileg hliðstæða þess, kolefni. Kísill er annað algengasta frumefnið í jarðskorpunni sem að samanstendur af 25,7% kísil ef mælt er eftir þyngd. Það finnst í leir, feldspati, kvars og sandi, þá aðallega í formi kísiltvíoxíðs (þekkt einnig sem kísl) eða sílikata (efnasambönd sem að innihalda kísil, súrefni og málma). Krikket. Krikket er hópleikur sem leikinn er af tveimur liðum í einu sem samanstanda af ellefu leikmönnum hvort. Leikurinn kemur upphaflega frá Englandi og er einkum vinsæll í löndum Breska samveldisins. Krikket er vinsælasta íþróttin í mörgum löndum Suður-Asíu, þ.á m. Indlandi, Pakistan, Bangladesh og Sri Lanka. Hver krikketleikur getur tekið frá sex tímum til 5 eða 6 daga, með viðeigandi tepásum. Leikurinn byggir á 42 reglum sem Marylebone Krikketklúbburinn hefur þróað ásamt helstu krikketþjóðunum. Lið geta samþykkt að breyta reglunum í ákveðnum leikjum eða við ákveðnar aðstæður. Slíkar breytingar felast einkum í leikuppbyggingu og staðsetningu á leikvanginum. Markmið leiksins. Krikket er leikinn með kylfu og bolta og markmið leiksins er að skora fleiri stig (runs) en andstæðingurinn. Hverjum leik er skipt í lotur. Meðan á lotu stendur slær annað liðið á meðan hitt kastar boltanum og hleypur á milli hafna. Það lið sem kastar reynir að lágmarka stig andstæðingsins og á sama tíma að losna við leikmenn þess. Sérhver leikmaður slær þangað til hann er úr leik. Leikmaður sem er úr leik má ekki taka þátt í yfirstandandi lotu aftur. Það lið sem slær hefur alltaf tvo leikmenn inni á vellinum. Þegar 10 af 11 leikmönnum liðsins eru þannig úr leik má liðið ekki gera og lota þess því liðin. Fyrirliði liðsins getur einnig bundið enda á lotu liðsins. Krikket á Íslandi. Krikketíþróttin hefur ekki átt miklum vinsældum að fagna á Íslandi, en hefur þó verið iðkuð hér lítilega. Erfitt er að segja með fullri vissu hvenær krikket var fyrst spilað hér á landi. Í heimildum um íþróttaiðkun heldra fólks í Reykjavík og á Akureyri um og fyrir aldamótin 1900 er getið um knattleik, sem hugsanlegt má telja að hafi verið krikket. Raunar má víða finna frásagnir af keppni í krikket hérlendis alla tuttugustu öldina, en að öllum líkindum er þar um misskilning að ræða þar sem nafnið krikket er oft ranglega notað um íþróttina croquet, þar sem keppendur slá kúlur í gegnum lítil hlið með hjálp tréhamra. Nokkuð hefur verið um að fólk af erlendu bergi brotið hafi reynt að stunda krikket hér á landi. Má þar nefna starfsfólk breska sendiráðsins og í seinni tíð nýbúa af asískum uppruna, s.s. Indverja, Pakistana og fólk frá Sri Lanka. Innfæddir Íslendingar hafa sömuleiðis reynt sig við þessa erfiðu íþrótt. Í kringum árið 2000 voru stofnuð krikketfélög bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi. Kepptu þau sín á milli um óopinbera Íslandsmeistaratign í greininni. Á vegum íslensku krikketfélaganna hafa komið hingað til lands nokkur bresk keppnislið í krikket og hafa heimsóknir þeirra stundum hlotið nokkra umfjöllun erlendra fjölmiðla. Þannig sagði íþróttastöðin Eurosport frá komu hóps Breta til Íslands sem léku krikket við heimamenn að næturlagi í íslensku miðnætursólinni og á jökli, en hvort tveggja var talið einstakt í krikketsögunni. Evrópska krikketsambandið hefur sömuleiðis stutt með ráðum og dáð við bakið á íslenskum krikketiðkendum, meðal annars með veglegum gjöfum á keppnisbúnaði og með því að senda sérfróðan krikketkennara til að leiðbeina börnum í Stykkishólmi. Veðrátta er þó tvímælalaust það sem háir krikketiðkun á Íslandi hvað helst, því krikket verður ekki með góðu móti spilað í vindi eða votviðri. Málmungur. Málmungar ásamt málmum og málmleysingjum, mynda einn af þremur flokkum af frumefnum þegar flokkað er eftur jónunar- og tengieiginleikum. Þeir hafa eiginleika sem að eru mitt á milli málma og málmleysingja. Það er engin ein leið til að skilja að málmunga frá sönnum málmi en það er algengast að málmungar séu hálfleiðarar frekar en leiðarar. Frumefni. Frumefni er efni sem öll önnur efni eru samsett úr og ekki er hægt að skipta því niður í smærri einingar með efnafræðilegum aðferðum. Grunneining frumefnis er frumeind (atóm) og eru allar frumeindir frumefnis með sömu sætistölu (fjöldi róteinda í kjarna) en geta haft mismunandi fjölda nifteinda og kallast þá (samsætur). Saga Íslands. Saga Íslands er saga byggðar og menningar á Íslandi, sem er stutt miðað við sögu landa á meginlandi Evrópu. Landnám hófst seint á 9. öld eftir Krist og byggðist landið fljótt, einkum frá Noregi (en einnig Bretlandseyjum). Landið tilheyrði engu ríki þar til Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með undirritun Gamla sáttmála árið 1262/64. Noregur og Ísland urðu svo hluti af Danaveldi 1380. Samhliða þjóðernisvakningu víða um Evrópu ágerðist þjóðhyggja og sjálfstæðisbarátta Íslendinga eftir því sem leið á 19. öldina og lauk með því að Ísland hlaut fullveldi 1. desember 1918. Danski konungurinn hélt þó áfram að vera konungur Íslands þar til Lýðveldið Ísland var stofnað 17. júní 1944 og varð þá að fullu sjálfstætt. Sögu langra tímabila má greina niður í styttri tímabil eftir víðtækum stjórnarfarslegum, tæknilegum og félagslegum breytingum sem má afmarka með nokkuð skýrum hætti. En því fer þó fjarri að hægt sé að ákvarða endanlega hvaða atriði skipti mestu máli í sögu Íslands þannig að allir séu sammála. Þannig hefur ein athugun á 11 námsbókum í Íslandssögu á grunnskólastigi leitt í ljós að aðeins 12% nafngreindra einstalinga eru konur á sama tíma og 93% höfundanna eru karlar. Sem dæmi sé gjarnan fjallað um landnámsmanninn Ingólf Arnarsson, sem fyrstur byggði Ísland, og Hallveigar konu hans sé lítið getið. Landmyndun. Ísland er á skilum Norður-Ameríku- og Evrasíuflekanna, á svokölluðum heitum reit og er þar því mikil jarðvirkni. Flekarnir tveir stefna hvor í sína áttina með nokkurra millímetra hraða á ári. Elstu hlutar Íslands urðu til fyrir um 20 milljónum árum síðan. Til samanburðar má nefna að talið er að Færeyjar hafi orðið til fyrir um 55 milljónum árum, Asóreyjar um 7 milljónum árum og Hawaii eyjar innan við milljón árum síðan. Yngstu berglög Íslands á suðvesturhorni og á miðhálendinu eru ekki nema um 700 þúsund ára gömul. Jarðsagan skiptist niður í ísaldir eftir hitastigi og veðurfari. Síðasta jökulskeið er talið hafa hafist fyrir um 70 þúsund árum og lokið fyrir um 10 þúsund árum síðan. Á meðan því stóð huldi stór ísjökull landið og mótuðu skriðjöklar firði og dali landsins. Landafundir. Áður en Ísland var byggt á 10. og 11. öld er talið mögulegt að þar hafi menn haft dvalarstað um stundarstakir. Sagt er að maður að nafni Pýþeas frá Massailíu (Marseille í Frakklandi) hafi ferðast norður um höf á 4. öld f.Kr. og fundið eða haft afspurnir af eyju sem hann nefndi "Thule" eða "Ultima Thule", hafa menn leitt líkum að því að hér gæti hann verið að tala um Ísland en lítið er hægt að fjölyrða frekar um það. Þess er getið í Íslendingabók Ara fróða að írskir munkar, svonefndir papar, hafi numið hér land á ofanverðri 8. öld. Um þetta leyti ritaði keltneskur munkur, Dicuil að nafni, um ferðir munka á norðlægum slóðum og ætla menn að hann hafi meðal annars verið að tala um Ísland. Þessu til stuðnings hefur verið bent á að til eru nokkur örnefni með vísanir í papa, til dæmis Papey en á móti kemur að engar fornleifar hafa fundist sem staðfesta með óumdeilanlegum hætti veru papa hér á landi. Norðmaðurinn Naddoður er sagður hafa komið til Íslands og sagði hann frá landi sem hann nefndi Snæland þegar hann sneri aftur heim. Svíinn Garðar Svavarson og Náttfari, frjálsir menn, eiga einnig að hafa komið til landsins samkvæmt Landnámu. Garðar sneri aftur heim en Náttfari varð eftir ásamt ambátt einni og þræl og urðu því fyrstu eiginlegu landnámsmenn Íslands. Hrafna-Flóki Vilgerðarson er einnig talinn hafa heimsótt landið. Hann mun hafa eytt tveimur árum á Íslandi og hafa haft með sér kvikfé sem drapst vegna þess að honum yfirsást að heyja fyrir veturinn. Gaf hann landinu nafnið Ísland. Landið numið. Saga Íslands hefst samkvæmt hefðbundinni söguskoðun með landnámi Ingólfs Arnarsonar um 870 því þá hefst jafnframt skipulagt landnám Íslands. Ingólfur kaus sér búsetu í Reykjavík og er talið að skálarúst sem fannst við Aðalstræti nálægt aldamótunum 2000 geti hafa verið híbýli hans. Hann nam land frá ósum Ölfusár til ósa Brynjudalsár og „öll nes út“. Hann er jafnan talinn fyrsti landnámsmaðurinn og miðað við ártalið 874, því þá er hann talinn hafa byggt bæ sinn. Fornleifarannsóknir á síðustu árum benda þó til þess að mannabyggð hafi verið hér töluvert fyrr. Fyrstu landnámsmennirnir helguðu sér lönd, sumir mjög stór. Þegar öll lönd höfðu verið helguð hélt fólk áfram að setjast að og nema lönd, þá með leyfi þeirra sem höfðu áður helgað sér þau, stundum gegn greiðslu. Í Landnámabók, sem er helsta heimildin um landnám Íslands en var ekki skrifuð fyrr en meira en tveimur öldum eftir að því lauk, eru taldir upp rúmlega 400 landnámsmenn. Uppruni landnámsmanna. Lengst af hefur verið talið að langflestir landnámsmanna hafi komið frá Noregi, nokkrir frá Danmörku og Svíþjóð og fáeinir frá Bretlandseyjum og þá yfirleitt afkomendur norrænna manna sem þar höfðu búið í 1-2 kynslóðir, auk þess sem einhverjir landnámsmanna hefðu kvænst og einnig hefðu þeir tekið með sér eitthvað af þrælum frá Bretlandseyjum. Nýlegar erfðafræðirannsóknir benda til þess að líklega hafa um 80% karla sem hingað komu verið af norrænum uppruna en aðeins um helmingur kvenna. Þetta þýðir að Íslendingar eru að meira en þriðjungi breskir að uppruna. Þessa sést hins vegar lítinn stað í íslenskri tungu og menningu. Ástæður þess að landnámsmenn fluttust hingað eru einkum taldar tvær. Í fyrsta lagi voru landþrengsli í Noregi, sem raunar hefur einnig verið talin ein helsta ástæða víkingaferðanna, og ónumið land í vestri þar sem hægt var að helga sér stór landsvæði hefur þá freistað margra. Auk þess mun ríkismyndun Haraldar hárfagra í Noregi hafa haft áhrif, margir höfðingjar sættu sig ekki við að vera undir veldi hans. Þjóðveldið. Stundum er talað um þjóðveldistímann, frá stofnun Alþingis 930 fram til þess er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262, sem gullöld Íslendinga, þótt Sturlungaöldin sé raunar oft undanskilin. Víst er að miðbik þessa tímabils, eftir lok sögualdar og fram á síðari hluta 12. aldar, var tiltölulega friðsælt og hagsælt tímabil í Íslandssögunni, árferði virðist hafa verið tiltölulega gott og engar sögur fara af meiriháttar innanlandsátökum, öfugt við það sem segja má um hin Norðurlöndin; í Noregi geisaði til að mynda nær stöðug borgarastyrjöld megnið af 12. öld. Á 13. öld snerist þetta hins vegar við. Söguöld. Flestar Íslendingasögurnar segja frá atvikum sem eiga að hafa gerst á tímabilinu frá því á síðari hluta landnámsaldar og fram til 1030 eða þar um bil. Þetta var mikill umbrotatími, landið var fullnumið og farið að þrengjast um sumstaðar en stjórnskipulag og réttarkerfi ekki fullmótað og mönnum gekk misjafnlega að beygja sig undir það. Íslendingar voru líka mikið í ferðum til útlanda, sigldu til Noregs á konungsfund eða til að versla og fóru í víkingaferðir til Bretlandseyja og tóku þar þátt í bardögum og ránsferðum. Margar Íslendingasagna gerast að hluta til erlendis. Sögurnar eru flestar skráðar 200-300 árum eða meira eftir að atburðir sem þær segja frá gerðust og geta því ekki talist örugg heimild. Sumt er líka stutt af öðrum heimildum, svo sem fornleifarannsóknum. Sögurnar gefa líka mikilvægar upplýsingar um hugmyndir 13. aldar Íslendinga um mannlíf og landshætti á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Goðar og goðorð. Á landnámsöld urðu til stjórnareiningar sem nefndust goðorð og áttu sér ekki eiginleg landfræðileg mörk. Um var að ræða eins konar bandalag bænda við goðana, en hverjum bónda var skylt að fylgja einhverjum goða sem þeim var frjálst að velja sjálfir. Fylgismenn goðans voru kallaðir þingmenn hans. Goðinn var fulltrúi bændanna á héraðsþinginu og gætti hagsmuna þeira. Goðorðin voru 36 við stofnun Alþingis en var síðar fjölgað um þrjú og voru goðar eftir það 39. Stofnun Alþingis. Landnámsmenn gerðu sér fljótt grein fyrir því að einhvers skipulags væri þörf, ekki síst til að leysa úr deilumálum sem upp komu þegar landsmönnm fjölgaði og þrengdist um svigrúm. Þeir voru líka vanir þinghaldi úr heimalöndum sínum. Því komu staðbundin þing fljótlega til sögunnar og eru Kjalarnesþing í landnámi Ingólfs og Þórsnesþing á Snæfellsnesi talin elst, enda byggðust svæðin í kringum þau mjög snemma. Brátt sáu menn þó að heppilegast væri að hafa eitt þing fyrir allt landið og árið 930 var Alþingi stofnað sem löggjafarsamkunda og æðsti dómstóll Íslendinga. Er það talið elsta starfandi þing í heiminum í dag, þótt hlé hafi orðið á þinghaldi á 19. öld. Málverk af Alþingi við Þingvelli Alþingi var valinn staður á Þingvöllum við Öxará. Þingvellir lágu vel við samgöngum úr öllum landshlutum ein einnig kann það að hafa ráðið nokkru um staðarvalið að Þingvellir voru í landnámi Ingólfs; sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Sá sem fór með goðorð Ingólfs kallaðist allsherjargoði og hafði það hlutverk að helga þingið eða setja það og slíta því. Skipulag þingsins. Æðsta stofnun þingsins var lögrétta, sem setti ný lög, fjallaði um mál og nefndi menn í fimmtardóm, sem var eins konar yfirréttur, eftir að honum var komið á um 1005, en einnig störfuðu á þinginu fjórir fjórðungsdómar, einn fyrir hvern landsfjórðung. Í henni sátu 48 goðar (eða goðorðsmenn) á miðpalli og hafði hver þeirra tvo ráðgjafa, annar sat fyrir framan hann og hinn fyrir aftan, þannig að í raun sátu 146 menn í lögréttu. Lögsögumaður var æðsti og eini launaði embættismaður þingsins og var hann kosinn af lögréttu þriðja hvert ár. Lögin voru ekki til skrifuð, enda var ritöld ekki hafin, en fyrir stofnun alþingis höfðu Íslendingar sent mann sem Úlfljótur hét til Noregs til að kynna sér lög þar og sagði hann manna fyrstur upp lög á Þingvöllum. Þau voru sniðin eftir Gulaþingslögum í Noregi, enda munu flestir landnámsmenn hafa komið af því svæði. Þekkt eru nöfn allra lögsögumanna frá upphafi og þar til embættið var lagt niður 1271. Árið 965 var ákveðið að skipta landinu í fjórðunga. Þrjú héraðsþing eða vorþing voru í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi, þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða vegna þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað en raunar var Norðlendingafjórðungur fjölmennasti fjórðungurinn. Vorþingin voru haldin í maí ár hvert. Þegar goðar komu heim frá alþingi héldu þeir svo leiðarþing en þar voru eingöngu gefnar skýrslur um það sem gerst hafði á þinginu. Kristnitaka. Flestir landsnámsmanna voru ásatrúar en nokkrir kristnir og höfðu þeir flestir kynnst kristinni trú og látið skírast á Bretlandseyjum. Fæstir virðast þó hafa viðhaldið trú sinni lengi hér og enginn landnámsmanna reisti kirkju en ásatrúarmenn reistu víða hof og blótuðu þar. Samkvæmt heimildum var það Þorvarður Spak-Böðvarsson sem byggði fyrstu kirkjuna í Neðri-Ási í Hjaltadal um 984. Um svipað leyti sendi Haraldur blátönn saxneskan biskup, Friðrek að nafni, til Íslands til kristniboðs og var Skagfirðingurinn Þorvaldur víðförli með honum í för. Fleiri kristniboðar komu hingað á næstu árum og varð þeim nokkuð ágengt. Þekktastur þeirra var Þangbrandur. Honum tókst að kristna austfirska höfðingjann Síðu-Hall og aðra í kjölfarið, þar á meðal Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason. Ólafur Tryggvason Noregskonungur var mjög áhugasamur um að kristna Ísland — með góðu eða illu. Á Alþingi sumarið 1000 (þó líklega fremur árið 999 samkvæmt rannsóknum dr. Ólafíu Einarsdóttur) voru flokkar bæði kristinna manna undir forystu þeirra Gissurar og Hjalta og heiðinna fjölmennir og stefndi í vopnaviðskipti. Þó tókst að afstýra blóðsúthellingum og ákváðu Íslendingar að taka kristni að ráðum Þorgeirs ljósvetningagoða. Þessu voru þó að sögn settar þær undantekningar að Íslendingar máttu ennþá blóta leynilega, bera út börn og eta hrossakjöt, en hafi slíkar undantekningar verið gerðar í raun hurfu þær fljótt úr sögunni. Biskupsstólar og klaustur. Næstu árin voru hér ýmsir förubiskupar en árið 1056 var Ísleifur Gissurarson vígður biskup Íslands og Skálholtsstóll stofnaður. Árið 1096 eða 1097 fékk sonur hans, Gissur Ísleifsson, sem tók við af föður sínum, komið því fram að tíund var tekin upp en það var skattur á eignir Íslendinga sem skiptist í fernt. Fjórðung fengu prestar, fjórðung fengu kirkjur til viðhalds, fjórðungur rann til biskups og síðasti fjórðungurinn fór til þurftarmanna. Þar sem kirkjur voru yfirleitt á höfuðbólunum sem höfðingjar áttu og þeir voru margir vígðir menn og voru sjálfir prestar þýddi þetta að þeir fengu í raun helminginn af tíundinni. Stuðlaði það að auðsöfnun þeirra en átti eftir að valda miklum deilum síðar (Sjá Staðamálin). Norðurland var fjölmennasti landsfjórðungurinn og þótti Norðlendingum þeir afskiptir með biskup og vildu líka halda eftir innan fjórðungsins tekjum sem runnu til Skálholts. Árið 1106 var orðið við óskum þeirra og annar biskupsstóll stofnaður á Hólum í Hjaltadal. Fyrsti Hólabiskup var Jón Ögmundsson. Hann stofnaði þegar skóla á Hólum og efldi menntun en skóli var einnig í Skálholti, svo og í klaustrum og víðar, svo sem í Haukadal og Odda á Rangárvöllum. Fyrsta klaustrið var stofnað á Þingeyrum í Húnaþingi 1133 og var það munkaklaustur af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur (1155) og Hítardalsklaustur (1155), en það síðastnefnda var skammlíft. Klaustrin voru auk biskupsstólanna helstu menntasetur landsins og í sumum þeirra voru góð bókasöfn. Þar voru skrifaðar upp bækur og þegar leið á þjóðveldisöld fór þar fram umfangsmikil sagnaritun. Margar helstu gersemar íslenskra handrita eru skrifaðar í klaustrum. Lög þjóðveldisins. Með aukinni menntun hófst ritöld á Íslandi. Samkvæmt því sem Ari fróði segir rituðu Hafliði Másson og aðrir lögbókina Hafliðaskrá (sem innihélt m.a. Vígslóða) á heimili Hafliða á Breiðabólstað í Vesturhópi veturinn 1117-1118 og er það fyrsta fyrsta þekkta ritið á íslensku. Stuttu seinna var Íslendingabók Ara fróða rituð. Lagasafn þjóðveldisaldar kallaðist seinna Grágás en þar er ekki um eiginlega lögbók að ræða. Refsingar skiptust í þrjá flokka. Þessar refsingar kölluðust útlegð, fjörbaugsgarður og skóggangur. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn voru í raun útskúfaðir úr þjóðfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist. Kirkjan hafði einnig yfir refsingum að ráða og gátu biskupar meðal annars bannfært menn. Sturlungaöld. Þegar leið á 12. öld fór stöðugleiki og grunnur íslenska samfélagsins, sem byggðist á jafnvægi milli höfðingja, að raskast. Goðorð erfðust og gengu kaupum og sölum og völdin söfnuðust á færri hendur en áður. Þessi þróun hófst í Skagafirði og Árnesþingi og er hugsanlegt að stofnun biskupsstóla í þessum héröðum hafi haft einhver áhrif á það. Segja má að Ísland hafi smátt og smátt orðið samsafn laustengdra borgríkja, þó án skýrra landfræðilegra marka. Bændur og búalið neyddust til að beygja sig undir vald stórbænda, sem seildust eftir æ meiri völdum. Um leið lenti höfðingjum æ oftar saman og átökin urðu víðtækari. Í erjum og orrustum sögualdar höfðu bardagamenn hverju sinni yfirleitt ekki verið nema nokkrir tugir (fræðimaðurinn Jón Ólafsson frá Grunnavík lýsti á 18. öld efni Íslendingasagna í þremur orðum: „Bændur flugust á“) en á Sturlungaöld voru háðar stórorrustur á íslenskan mælikvarða, þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir manna börðust. Ýmiss konar bandalög urðu til og griðrof og svik urðu algeng. Aðdragandi. Sturlungaöld er kennd við Sturlu og afkomendur hans, Sturlunga, sem framan af áttu heimkynni á Vesturlandi, en aðrar helstu ættir Sturlungaaldar voru Haukdælir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Svínfellingar á Austurlandi og Ásbirningar í Skagafirði, auk þess sem Vatnsfirðingar og Seldælir á Vestfjörðum eru oft nefndir til. Hin eiginlega Sturlungaöld er raunar ekki talin hefjast fyrr en um 1220 en ræturnar liggja þó lengra aftur og segja má að fyrsta vísbendingin um rósturnar sem í vændum voru megi sjá í deilum Hvamm-Sturlu Þórðarsonar við Pál Sölvason um 1180. Sturla var höfðingi á uppleið sem ætlaði sér stóra hluti og lét ekki hlut sinn fyrir neinum. Hann þótti sýna mikla óbilgirni í deilum sínum við Pál en þeim lauk með því að Jón Loftsson í Odda, leiðtogi Oddaverja og mikill sáttasemjari, úrskurðaði í málum þeirra og bauðst um leið til að fóstra Snorra, yngsta son Sturlu. Á næstu áratugum var nokkuð um erjur og deilur og eru þekktust átök þeirra Guðmundar dýra Þorvaldssonar á Bakka í Öxnadal og Önundar Þorkelssonar í Lönguhlíð, sem lauk með Önundarbrennu 1197. Rétt eftir aldamótin 1200 lét svo Ásbirningahöfðinginn Kolbeinn Tumason kjósa Guðmund Arason til biskups á Hólum og taldi að hann yrði sér leiðitamur en það var öðru nær. Með þeim varð brátt fullur fjandskapur sem lauk með falli Kolbeins í Víðinesbardaga 1208. Ættmenn hans héldu þó áfram fjandskap við biskup og var hann á stöðugum hrakningi um landið og til útlanda næstu áratugi. Einnig má nefna víg Hrafns Sveinbjarnarsonar (1213), sem dró langan hefndarhala á eftir sér. Snorri og Sturlungar. Hvamm-Sturla átti þrjá syni; Þórð, Sighvat og Snorra, sem allir urðu valdamiklir goðorðsmenn, Þórður á Snæfellsnesi, Snorri í Borgarfirði og Sighvatur fyrst í Dölum og síðar í Eyjafirði. Þeir voru mjög áberandi í átökum Sturlungaaldar, einkum Snorri og Sighvatur, ásamt Sturlu syni Sighvats og Kolbeini unga, leiðtoga Ásbirninga og Gissuri Þorvaldssyni, foringja Haukdæla. Snorri var í Noregi á árunum 1218-1220, gerðist þar handgenginn Skúla jarli Bárðarsyni og tókst á hendur það hlutverk að gera Ísland að skattlandi Noregs. Upphaf Sturlungaaldar er gjarna miðað við heimkomu Snorra til Íslands 1220 en hann aðhafðist þó fátt til að sinna hlutverki sínu næstu árin, heldur stundaði ritstörf og er talið að hann hafi skrifað sín helstu stórvirki á þeim árum. Nóg var þó um átök: Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans fóru í Grímseyjarför 1222 til að hefna fyrir víg Tuma Sighvatssonar. Björn bróðir Gissurar Þorvaldssonar var drepinn á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1221 af Oddaverjum. Synir Hrafns Sveinbjarnarsonar brenndu Þorvald Vatnsfirðing inni árið 1228 til að hefna fyrir föður sinn og synir Þorvaldar reyndu að hefna hans í Sauðafellsför 1229 en voru sjálfir felldir nokkrum árum síðar. Sturla Sighvatsson fór í suðurgöngu til Rómar árið 1233 til að gera yfirbót fyrir sig og föður sinn vegna illrar meðferðar á Guðmundi Arasyni biskupi í Grímseyjarför. Á heimleið kom hann við í Noregi og var þá falið af Hákoni konungi að taka að sér það verk sem Snorri hafði ekki sinnt, sem sé að koma Íslandi undir konung. Sturla lét þegar til sín taka þegar heim kom, hóf þegar að auka við veldi sitt og tókst meðal annars að hrekja Snorra frænda sinn og Órækju son hans úr landi. Hann lagði svo til atlögu við Gissur Þorvaldsson og tókst að ná honum á sitt vald í Apavatnsför en Gissur slapp undan og þeir Kolbeinn ungi tóku höndum saman og í Örlygsstaðabardaga, fjölmennasta bardaga sem háður hefur verið á Íslandi, féllu feðgarnir Sighvatur og Sturla. Árið 1239 sneri Snorri heim frá Noregi þrátt fyrir bann konungs. Konungur áleit hann landráðamann við sig og sendi Gissuri Þorvaldssyni boð um að flytja Snorra til Noregs eða drepa hann ella. Gissur fór að Snorra í Reykholti og lét drepa hann þar haustið 1241. Þórður kakali og Gissur jarl. Þórður kakali, sonur Sighvats Sturlusonar, hafði verið í Noregi en sneri heim 1242 og á næstu árum tókst honum með skæruhernaði gegn Kolbeini unga, sem hafði lagt undir sig allt veldi föður hans og bræðra, að efla styrk sinn. Hápunktur þeirra átaka var Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar, árið 1244. Kolbeinn lést ári síðar og Þórður felldi arftaka hans, Brand Kolbeinsson, í Haugsnesbardaga árið 1246. Hann réði eftir það öllu Norðurlandi og frá 1247-1250 var hann valdamesti maður landsins því konungur hafði kyrrsett Gissur Þorvaldsson í Noregi. En árið 1250 kallaði konungur Þórð til Noregs og kyrrsetti hann en Gissur kom heim 1252. Óvinir Gissurar reyndu að brenna hann inni í Flugumýrarbrennu 1253 en tókst ekki, þótt kona hans og synir létust í brennunni. Næstu árin gekk á með skærum og bardögum, vígum og níðingsverkum. Landsmenn voru orðnir mjög þreyttir á átökum höfðingja og sögðu jafnvel að þeir vildu helst engan höfðingja hafa yfir sér. Gissur kom heim með jarlsnafnbót en hún dugði honum lítið. Þorgils skarði, sonarsonur Þórðar Sturlusonar, var drepinn 1258, síðastur af hinum herskáu leiðtogum Sturlunga, en föðurbróðir hans, Sturla Þórðarson sagnaritari, lifði eftir og skráði sögu Sturlungaaldar. Loks kom þar 1262 að Íslendingar samþykktu að ganga Noregskonungi á hönd og þar með lauk þjóðveldistímanum. Austfirðingar samþykktu þetta raunar ekki fyrr en 1264 en þó er alltaf miðað við 1262. Samningurinn sem þá var gerður hefur gengið undir nafninu Gamli sáttmáli og eru elstu varðveittu handrit hans frá 15. öld. Á síðustu árum hefur komið fram sú kenning að Gamli sáttmáli, að minnsta kosti í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, sé alls ekki frá 13. öld, heldur hafi hann verið saminn á 15. öld til að styrkja málstað íslenskra höfðingja vegna ágreinings um verslun við Noregskonung. Skattlandið Ísland. Á 13. öld var mikið ritað af samtímasögum og heimildir um atburði aldarinnar eru því mun betri en um aldirnar sem á eftir fóru en þó hefur töluvert varðveist af skjölum af ýmsu tagi, auk þess sem annálar voru ritaðir, en þeir eru oft mjög stuttorðir um mikla atburði. Hreyfimynd sem sýnir útbreiðslu svarta dauða á korti af Evrópu Þótt einstakir höfðingjar söfnuðu miklum auð á 14. og 15. öld fór ástandið almennt versnandi. Þar kom margt til, svo sem kólnandi veðurfar (Litla ísöldin svokallaða hófst um miðja 15. öld), eldgos og ýmis óáran og ekki síst Svarti dauði, sem gekk á Íslandi 1402-1403 og felldi stóran hluta landsmanna. Fjöldi jarða lagðist í eyði, leiguverð lækkaði og mikill skortur var á vinnuafli, ekki síst til sjósóknar svo að minna aflaðist af fiski, sem var helsta útflutningsvaran. Í lok 15. aldar (1494-1495) gekk svo önnur afar mannskæð sótt um landið, Plágan síðari. Breytingar á stjórn og þingi. Með Gamla sáttmála féllust Íslendingar á að greiða Noregskonungi skatt gegn því að hann tryggði frið og reglulegar siglingar til landsins; þó hefur sú kenning komið fram að ákvæðið um siglingar hafi ekki komið inn fyrr en mun seinna því að á 13. öld hafi Íslendingar ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af siglingum til landsins. Í samtímaheimildum er heldur ekkert minnst á ákvæði um siglingar. Í framhaldi af þessu voru lög þjóðveldisins endurskoðuð og árið 1271 sendi Magnús lagabætir Noregskonungur Íslendingum nýja lögbók, Járnsíðu, sem vakti þó enga hrifningu og var ekki samþykt í heild fyrr en 1273. Óánægja var þó áfram mikil og konungur lét þá semja nýja lögbók, Jónsbók (kennd við lögsögumanninn Jón Einarsson gelgju), sem samþykkt var 1281 eftir nokkrar deilur og var í gildi í margar aldir og nokkur ákvæði jafnvel enn í dag. Þótt sambandið við Noregskonung hafi líklega litlu sem engu breytt fyrir almenning, nema hvað friður komst á í landinu, breyttist ýmislegt í stjórnskipun Íslands með tilkomu konungsvaldsins. Goðar höfðu ekkert vald lengur en í þeirra stað komu embættismenn. Sýslumenn, sem komu úr röðum helstu höfðingja og auðmanna landsins, tóku við héraðsstjórn og sáu um innheimtu skatta, dóma og refsingar, löggæslu og fleira. Yfir þeim var hirðstjóri, æðsti embættismaður konungs á landinu. Framan af voru hirðstjórarnir oftast íslenskir. Töluverðar breytingar urðu líka á Alþingi. Lögrétta var að vísu áfram löggjafarstofnun og hélt því valdi til 1662, að nafninu til að minnsta kosti, en tók nú einnig við hlutverki dómstóls því fjórðungsdómar og fimmtardómur voru lagðir niður. 36 menn voru valdir til setu í lögréttu og kölluðust þeir lögréttumenn. Í stað lögsögumanns kom lögmaður, sem setti þingið og sleit því, stýrði störfum lögréttunnar og valdi menn til setu í lögréttu ásamt sýslumönnum. Helsta deilumálið í lok 13. aldar snerist um yfirráð yfir kirkjustöðum, staðamál síðari svokölluð, og tókst Árni Þorláksson Skálholtsbiskup, sem kallaður var Staða-Árni, þar á við veraldlega höfðingja. Þeim málum lauk með sættagerð í Ögvaldsnesi í Noregi og má segja að kirkjan hafi haft betur. Hún fékk vald í málefnum kirkna og presta og kirkjuréttar- og siðferðismálum og í kjölfarið óx vald hennar og eignir. Norska öldin. Fjórtánda öldin hefur verið kölluð Norska öldin í sögu Íslendinga því þá voru tengsl Íslands og Noregs mikil. Ýmsir norskir embættismenn og biskupar gegndu embætti á Íslandi og verslun við Noreg var mikil, ekki síst eftir að mikill kippur kom í skreiðarverslun og útgerð. Vísir að fiskiþorpum byggðist upp á sumum helstu útgerðarstöðum Íslands og skreið tók við af vaðmáli sem helsta útflutningsvaran. Íslendingar urðu stöðugt háðari siglingum útlendinga til landsins; þeir höfðu átt góðan skipastól á landnámsöld og fram eftir öldum en erfitt var að endurnýja hann og skipunum fækkaði smátt og smátt, þannig að utanríkisverslunin færðist öll í hendur útlendinga og þá fyrst til Norðmanna. Þetta kom sér illa, til dæmis þegar siglingar lögðust niður að mestu í nokkur ár æa meðan og eftir að Svarti dauði geisaði í Noregi um miðja 14. öld. Drög að samningnum um Kalmarsambandið Með stofnun Kalmarsambandsins 1397 varð Ísland svo hluti af ríki Margrétar Valdimarsdóttur og því næst Eiríks af Pommern, sem náði yfir Danmörku, Svíþjóð og Noreg. Þá fluttist þungamiðja konungsvalds í Noregi til Danmerkur og tengsl Íslendinga við Noreg minnkuðu mikið og rofnuðu endanlega um 1428. Enska og þýska öldin. Snemma á 15. öld hófst svo það tímabil sem hefur verið kallað Enska öldin, þegar verslun og önnur samskipti við Englendinga voru meiri en við aðrar þjóðir og Englendingar sigldu mikið til Íslands til að kaupa skreið og fleira og selja Íslendingum varning, auk þess sem ensk fiskiskip stunduðu veiðar við Ísland. Ekki gekk þetta allt þó slétt og fellt fyrir sig, heldur ekki þótt allmargir Englendingar gegndu hér biskupsembætti á 15. öld og voru þeir skipaðir af páfa en ekki erkibiskupi. Innanlandsátök á Íslandi á þessum öldum voru oft tengd verslun við útlendinga og yfirráðum yfir útgerðarstöðum því að skreiðarútflutningur var helsta auðlindin. Til dæmis hefur verið sett fram sú kenning að þegar íslenskir höfðingjar fóru að Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi árið 1433 og drekktu honum hafi það verið pólitísk aðgerð að undirlagi Englendinga og jafnvel Jóns Vilhjálmssonar Craxton Hólabiskups, sem var enskur. Helsti bandamaður hans var Loftur ríki Guttormsson en Þorvarður sonur hans var annar foringjanna í aðförinni að Jóni Gerrekssyni. Annálar og aðrar heimildir greina oft frá átökum milli Englendinga og íslenskra höfðingja, til dæmis í Rifi á Snæfellsnesi 1467, þegar Englendingar drápu Björn Þorleifsson hirðstjóra. Kristján 1. Danakonungur lokaði þá Eyrarsundi fyrir enskum skipum, auk þess sem hann hvatti þýska Hansakaupmenn til Íslandssiglinga. Við það hófust átök um einstakar hafnir á Íslandi milli Englendinga og Þjóðverja og er 16. öldin oft kölluð Þýska öldin. Danakonungur og Englandskonungur sömdu um leyfi fyrir Englendinga til að versla og veiða við Ísland en Íslendingar gengu í berhögg við þann samning með Píningsdómi 1490. Englendingar hættu þó ekki Íslandssiglingum og voru hér viðloða fram á miðja 17. öld. Á seinni hluta 15. aldar fóru biskupar að láta meira til sín taka en áður og skipta sér meira af veraldlegum málefnum, ekki síst siðferðisefnum, og var tilgangurinn þá oft að ná sem mestum eignum undir sjálfa sig og kirkjuna. Ýmsir höfðingjar höfðu gert sig seka um skyldleikagiftingar eða önnur brot og reyndu biskupar þá að fá eignir dæmdar af þeim. Þekktar eru til dæmis deilur Gottskálks Nikulássonar við Jón Sigmundsson lögmann, Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups við Torfa Jónsson í Klofa og síðar Björn Guðnason í Ögri og deilur Jóns Arasonar við Teit Þorleifsson lögmann. Höfðingjarnir reyndu að takast á við biskupana, meðal annars með Leiðarhólmssamþykkt 1513, en það bar takmarkaðan árangur. Siðaskiptin. Kristján konungur 3. innleiddi mótmælendatrú í Danmörku 30. október 1536 en ekki verður séð að hann hafi gert neitt til að afla henni brautargengis á Íslandi næstu árin. Áhrif Lúthers voru þó þegar farin að berast til landsins og Þjóðverjar,sem stunduðu veiðar og verslun hér við land, eru sagðir hafa reist lútherska kirkju í Hafnarfirði þegar 1533. Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti, sem var orðinn aldraður, hafði í þjónustu sinni nokkra unga menn sem menntaðir voru erlendis og höfðu kynnst mótmælendahreyfingunni þar og hrifist af henni þótt þeir flíkuðu ekki skoðunum sínum þegar biskup var nærstaddur. Einn þeirra var Oddur Gottskálksson, sonur Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups. Hann kom heim frá námi í Þýslandi 1535, þá um tvítugt, og hófst fljótt handa við að þýða Nýja testamentið á íslensku og segir sagan að hann hafi oft verið við iðju sína úti í fjósi. Nýja testamenti Odds var prentað í Hróarskeldu 1540 og er það elsta varðveitta prentaða verkið á íslensku. Annar ungur menntamaður sem hafði kynnst lútherskunni í Þýskalandi var Gissur Einarsson. Árið 1539 valdi Ögmundur hann sem eftirmann sinn en sá brátt eftir því, þegar skoðanir Gissurar komu berlega í ljós. Vorið 1541 komu svo danskir hermenn undir stjórn Christoffer Huitfeldt til landsins, handtóku Ögmund og fluttu hann með sér út en aðhöfðust ekkert gegn Jóni Arasyni og var Ísland því skipt milli mótmælenda og kaþólskra næstu árin. Það var ekki fyrr en eftir dauða Gissurar 1548, þegar Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum, fór á stúfana og reyndi að leggja Ísland allt undir sig og koma á kaþólsku að nýju sem tekið var í taumana. Jón og synir hans tveir voru handteknir og teknir af lífi í Skálholti 7. nóvember 1550. Eru siðaskiptin oftast miðuð við þann dag þótt þau hafi orðið í Skálholtsbiskupsdæmi átta árum fyrr. Við siðbreytingu fluttust allar eigur kirkjunnar í hendur Danakonungs og ítök og áhrif Dana jukust til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, og lauk þeirri þróun með tilkomu einokunarverslunarinnar 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin. Löggjöf varð strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur Stóridómur, sem var ströng löggjöf í siðferðismálum. Eitt meginatriðið í því að breiða út hinn nýja sið var að gera guðsorðið aðgengilegt á íslensku. Jón Arason hafði flutt fyrstu prentsmiðjuna til landsins um 1530 en þegar Guðbrandur Þorláksson varð biskup 1571 hljóp vöxtur í bókaútgáfu, þó fyrst og fremst guðsorðabóka, og árið 1586 kom út Guðbrandsbiblía, fyrsta biblíuþýðingin á íslensku. Einokun og einveldi. 17. og 18. öldin voru hörmungartímar í íslenskri sögu, veðurfar var hart, grasspretta oft léleg, hafís lagðist að landi og illa fiskaðist og eldgos og önnur óáran gekk yfir. Ekki var þó mikið um ófrið í landinu, að frátöldum Spánverjavígunum 1615 og svo Tyrkjaráninu 1627, þegar sjóræningjar frá Alsír gerðu strandhögg á nokkrum stöðum og þó mest í Vestmannaeyjum, drápu nokkra tugi manna en rændu á fjórða hundrað, fluttu með sér til Alsír og seldu í þrældóm. Nokkrir þeirra komust þó á endanum aftur heim til Íslands og er Guðríður Símonardóttir þeirra þekktust. Sumarið 1783 urðu Skaftáreldar, þá gusu Lakagígar í einhverju mesta eldgosi sem orðið hefur á sögulegum tíma. Áhrifin urðu skelfileg. Um 75% búfjár landsmanna féll vegna öskufalls, eiturgufa og grasbrests og fimmtungur landsmanna, eða um 10.000 Íslendingar, dóu úr hungri og harðræði í kjölfarið. Hallæri þetta kallaðist Móðuharðindi. Einokunarverslun. 17. öldin hófst með því að einokunarverslun var komið á árið 1602. Danakonungur hafði á sínum tíma hvatt Þjóðverja til Íslandsverslunar til að vinna gegn áhrifum Englendinga en nú voru Danir sjálfir farnir að láta meira til sín taka í verslun en áður og konungur veitti borgurum Kaupmannahafnar, Helsingjaeyrar og Málmeyjar (sem þá tilheyrðu Danaveldi) einkarétti á Íslandsverslun gegn tiltölulega vægu afgjaldi. Í raun voru margir dönsku kaupmannanna leppar þýskra Hansakaupmanna. Skip annarra þjóða héldu þó áfram að koma að landinu til veiða hundruðum saman og Íslendingar versluðu mikið við þau á laun. Lítið var gert við því framan af. Verslunin var í höndum ýmissa verslunarfélaga og samtaka á einokunartímanum og fljótlega var tekinn upp einn taxti fyrir allt landið sem varð að fara eftir. Árið 1684 var komið á umdæmaverslun, þannig að einstakir kaupmenn tóku ákveðnar hafnir á leigu, og og eftir það var refsað grimmilega fyrir ef einhvern verslaði við erlenda kaupmenn eða verslaði við annan kaupmann en hann átti að versla við. Verslunartaxtanum var líka breytt svo að hann varð Íslendingum meira í óhag en áður og hafði þó þótt slæmur fyrir. Sú breyting gekk þó til baka 1702 og þá voru viðurlög við brotum líka milduð. Árið 1742 fór verslunin í hendur Hörmangarafélagsins svonefnda, sem virðist hafa staðið sig illa og hefur fengið afar slæm eftirmæli hjá Íslendingum. Konungur yfirtók verslunina 1759, seldi hana aftur á leigu 1764 en yfirtók hana öðru sinni 1774 og hafði hana á sinni könnu þar til einokuninni var aflétt 1787. Þá tók fríhöndlunin við, sem var þó ekki algjört verslunarfrelsi, því Íslendingar máttu einungis versla við þegna Danakonungs. Lengi framan af höfðu kaupmenn hér einungis viðdvöl á sumrin, þeir komu með skipum sínum snemma sumars og einungis var hægt að versla við þá þar til þeir sigldu út á haustin. Margir byggðu þó vörugeymslur sem jafnframt voru verslunarbúðir og í hallærum kom það fyrir að yfirvöld létu brjóta upp kaupmannsbúðir til að nálgast matbjörg sem þar var að finna og útdeila til sveltandi almúgans. Árið 1777 var þó ákveðið að kaupmenn skyldu hafa hér fasta búsetu en nokkrir voru raunar sestir hér að áður. Einveldi og upplýsing. Hlutverki Alþingis sem löggjafarsamkomu lauk þegar Íslendingar samþykktu erfðaeinveldið á Kópavogsfundinum 1662. Erfðahyllingin var þó varla annað en formsatriði. Um svipað leyti var hæstiréttur stofnaður í Kaupmannahöfn og þá var alþingi ekki lengur æðsti dómstóllinn, hlutverk þess var í rauni einungis að vera millidómstig. Stiftamtmaður varð æðsti fulltrúi konungs á Íslandi en raunar sátu stiftamtmenn oftast í Kaupmannahöfn en amtmenn og landfógeti fóru með vald þeirra á Íslandi. Tímabilið frá siðaskiptum til upplýsingaraldar (um 1770) er oft kallað lærdómsöld. Þessi tími einkenndist þó ekki síður af ýmiss konar hjátrú og hindurvitnum. Á seinni hluta 17. aldar voru nokkrir Íslendingar brenndir á báli fyrir ástundun galdra. Þó kom upp mikill áhugi, ekki síst erlendis, á íslenskum fornritum og gömlum bókum og fór Árni Magnússon víða um land og safnaði handritum, bæði skinnbókum og pappírshandritum, og flutti til Kaupmannahafnar. Sumar þeirra töpuðust reyndar í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728 en flestar björguðust. Árni fór líka um allt landið á árunum 1702-1710 ásamt Páli Vídalín þeirra erinda að skrá ítarlega upplýsingar um hverja einustu bújörð. Afrakstur þess verks er "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns". Þeir skráðu margt fleira um landshagi og létu árið 1703 gera fyrsta íslenska manntalið, sem er fyrsta heildarmanntal yfir heila þjóð sem gert var í heiminum en tilgangur þess var fyrst og fremst að komast að því hver væri fjöldi ómaga og þurfamanna á landinu. Töldust Íslendingar vera 50.358 talsins en fjórum árum síðar fækkaði þeim um þriðjung í Stórubólu 1707. Upp úr miðri öldinni hélt upplýsingarstefnan innreið sína á Íslandi og þótt á brattann væri að sækja þegar hörmungar dundu yfir þjóðina, ekki síst í Móðuharðindunum á 9. áratug aldarinnar, reyndu ýmsir að koma á framförum í landbúnaði og garðrækt, auk þess sem Innréttingar Skúla Magnússonar voru tilraun til þess að nútímavæða íslenskan iðnað sem gekk ekki alveg sem skyldi. Ýmislegt var þó gert í framfara- og fræðslumálum og bæði danskir áhugamenn um umbætur á Íslandi og ýmsir íslenskir mennta- og embættismenn reyndu að ýta undir framfarir á ýmsum sviðum. Sjálfstæðisbaráttan. Þótt Íslendingar gengju Noregskonungi á hönd árið 1262 má segja að þeir hafi að mestu leyti ráðið sér sjálfir næstu aldirnar. Það er ekki fyrr en með siðaskiptunum sem áhrif Dana á innanlandsmál fara að aukast verulega og ná svo hámarki með upptöku einveldis 1662. Eftir það verður þess stundum vart að Íslendingar fari fram á að vera settir jafnt og aðrir þegnar Danakonungs en hvergi er þó hægt að segja að örli á neinum óskum um sjálfstæði. Þótt oft sé talað um illa meðferð Dana á sárafátækum íslenskum almúga er sannleikurinn sá að oftar en ekki voru það íslenskir höfðingjar og stórbændur sem sjálfir fóru illa með landa sína. Upphaf sjálfstæðisbaráttu. Með upplýsingarstefnunni og þó ekki síður þegar þjóðernisstefnu óx fiskur um hrygg í Evrópu á fyrri hluta 19. aldar efldist þjóðerniskennd Íslendinga. Áhugi á sögu Íslands, íslensku máli og fornbókmenntum jókst til muna og glæddi þjóðerniskenndina. Tæpast er þó hægt að tala um eiginlega sjálfstæðisbaráttu á fyrri hluta aldarinnar, þótt Jörundur hundadagakonungur lýsti landið að vísu sjálfstætt í skammvinnu valdaráni sínu sumarið 1809. Alþingi, sem orðið var valdalaust og hafði varla annað hlutverk en að dæma í málum sem þangað var vísað úr héraði, hafði verið lagt niður árið 1800 og Landsyfirréttur stofnaður í staðinn. Þótt flestir gerðu sér grein fyrir því að sjálfstæði Íslands væri ekki raunhæft á þessum tíma var krafan um umbætur sterk. Í kjölfar þjóðernisvakningar og stjórnmálahræringa suður í Evrópu hófu Íslendingar að berjast fyrir endurreisn Alþingis og láta sig dreyma um sjálfstæði þjóðarinnar. Skáld og ungir menntamenn voru þar framarlega í flokki og má þar nefna til Jónas Hallgrímsson og Fjölnismenn. Alþingi var svo endurreist í Reykjavík 1845, að vísu aðeins sem ráðgjafarþing. Þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848 urðu ákveðin straumhvörf og þá má segja að hin eiginlega sjálfstæðisbarátta hafi hafist. Jón Sigurðsson birti þá "Hugvekju til Íslendinga" og lýsti þar rökum fyrir því að Íslendingar ættu að fá að ráða sér sjálfir. Vísaði hann þar í Gamla sáttmála, þar sem Íslendingar hefðu gengið í samband við Noreg sem frjálst land með ákveðnum skyldum og réttindum og skyldi öll stjórn og lög vera innlend. Þar sem Danakonungur hefði nú afsalað sér einveldi hlyti Gamli sáttmáli aftur að vera genginn í gildi og Íslendingar gætu því ekki heyrt undir danskt þing eða ríkisstjórn. Baráttan ber árangur. Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík sumarið 1851 að frumkvæði dönsku stjórnarinnar og þegar Jón Sigurðsson lagði þar fram frumvarp byggt á "Hugvekjunni" og ljóst að það yrði samþykkt ákvað fulltrúi konungs, Trampe greifi, að slíta fundi í nafni konungs. Jón mótmælti og þingmenn tóku undir með orðunum: „Vér mótmælum allir.“ Eftir þennan fund var Jón óumdeildur leiðtogi í baráttu Íslendinga fyrir auknum réttindum. Hann barðist líka af mikilli atorku fyrir verslunarfrelsi og benti á slæm áhrif einokunarinnar. Árangurinn varð sá að verslun við Ísland var frjáls öllum þjóðum frá 1. apríl 1855. Árið 1874 fengu Íslendingar svo sína fyrstu stjórnarskrá og var haldin mikil hátíð á Þingvöllum í ágúst um sumarið, þar sem Danakonungur heimsótti Ísland í fyrsta sinn en Jóni Sigurðssyni var ekki boðið. Þá fékk Alþingi löggjafarvald með konungi, sem hafði neitunarvald og beitti því stundum, og fjárveitingavald, og Íslendingar höfðu því fengið takmarkaða sjálfsstjórn. Landshöfðingi var skipaður til að fara með æðstu stjórn landsins í umboði konungs og er tímabilið til 1904 kallað landshöfðingjatímabilið. Upphaf þéttbýlismyndunar og vesturfarir. Um leið urðu hægfara framfarir í atvinnulífi. Þéttbýlismyndun hófst og innlend kaupmannastétt varð til. Á síðari hluta aldarinnar fóru Íslendingar að gera út þilskip. Skútuöldin var þó ekki ýkja löng - hápunktur hennar var á árunum 1890-1910 - og víða fóru menn nánast beint af árabátum á togara úr stáli en togaraútgerð hófst þó ekki fyrr en í upphafi 20. aldar; fyrstur var togarinn Coot, sem keyptur var til landsins 1905. Undir lok 19. aldarinnar fylltust Íslandsmið af breskum togurum sem veiddu nánast uppi í landsteinum og spilltu oft fiskimiðum árabátanna. Tiltölulega litlar breytingar urðu á sveitabúskap á 19. öld. Að vísu fjölgaði búfénaði nokkuð, einkum sauðfé, en á móti kom að eftir mannfelli og harðindi 18. aldar hófst fólksfjölgun. Íslendingum, sem voru 47 þúsund árið 1801, fjölgaði um nærri 40% til 1850 svo að litlu meira var til skiptanna en áður. Sauðfjárfjölgunin byggðist líka mest á aukinni nýtingu á óræktuðu beitilandi, sem var möguleg í góðu árferði, en þegar nýtt kuldaskeið hófst milli 1850-60, um leið og skæður fjárkláðafaraldur barst til landsins, þrengdist hagur fólks verulega. Um leið var aldursskipting landsmanna með þeim hætti að mjög margt fólk var á giftingar- og barneignaaldri. Fátæku fólki var gert erfitt fyrir að stofna fjölskyldu; öreigagiftingar voru bannaðar, sem þýddi til dæmis að fólk sem hafði þegið sveitarstyrk á síðustu tíu árum mátti ekki giftast. Einnig var mjög erfitt að fá jarðnæði og í þeim fáu sjávarþorpum sem orðin voru til var litla vinnu að hafa fyrr en útgerð fór að aukast, auk þess sem hömlur á rétti fólks til að setjast að í þurrabúðum við sjó voru enn strangar. Þetta varð til þess að vinnuhjú voru hlutfallslega hvergi fleiri í Evrópu en á Íslandi og þar sem fólk fékk ekki giftingarleyfi varð hlutfall lausaleiksbarna einnig mjög hátt. Harðindi gengu yfir landið, einkum norðan- og austanlands, á síðasta þriðjungi aldarinnar, og var það að öllum líkindum eitthvert kaldasta tímabil Íslandssögunnar. Þessi harðindi ýttu mjög undir flutninga fólks til Ameríku eftir 1870. Öskjugosið 1875 varð til þess að auka á landflóttann og flutti fólk aðallega til Manitoba í Kanada og nyrstu fylkja Bandaríkjanna. Á síðasta áratug 19. aldar batnaði árferðið á ný og um leið dró mjög úr vesturferðum. Heimastjórnartímabilið. Heimastjórn fengu Íslendingar 1904 og varð Hannes Hafstein fyrsti ráðherrann. Heimastjórnartíminn var framfaratími þótt vissulega setti heimsstyrjöldin fyrri með tilheyrandi vöruskorti og dýrtíð svip á síðari hluta hans. Miklar breytingar urðu á atvinnuháttum, vélbáta- og togaraöldin hófst og Íslendingar eignuðust eigin skipafélag, Eimskipafélag Íslands, og eigin banka, Landsbanka Íslands og síðan Íslandsbanka (eldri), en með honum kom erlent fjármagn til landsins. Fyrstu dagblöðin hófu útkomu og sæsími var lagður til landsins, svo að fréttir utan úr heimi bárust nú samdægurs til landsins. Bílar komu til landsins og miklar framfarir urðu í vegagerð. Reykjavík varð að höfuðborg landsins, þangað fluttist fjöldi fólks. Jafnframt urðu framfarir í landbúnaði, rjómabú og sláturhús risu víða og bændur fóru í auknum mæli að framleiða matvæli til sölu á markaði en ekki aðeins til heimaneyslu. Verslun óx og dafnaði og fjöldi smárra iðnfyrirtækja var stofnaður. Menntamál breyttust líka mjög til batnaðar. Með fræðslulögunum 1907 var öllum börnum tryggð að minnsta kosti fjögurra ára skólaganga þeim að kostnaðarlausu. Unglingaskólum og verkmenntaskólum af ýmsu tagi var komið á laggirnar og árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður. Félags- og stjórnmál tóku miklum breytingum, grunnur var lagður að núverandi flokkakerfi, fjöldi verkalýðs- og stéttarfélaga var stofnaður og konur fengu kosningarétt og kjörgengi árið 1915. Fyrstu stjórnmálaflokkar landsins voru stofnaðir árið 1916, það voru Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn. Stofnun þeirra markaði upphaf fjórflokkakerfisins sem einkennir íslensk stjórnmál. Fullveldi. Þann 1. desember árið 1918 varð Ísland svo fullvalda ríki með eigin þjóðfána en var þó áfram í konungssambandi við Danmörku. Alþingi fékk óskorað löggjafarvald en Danir fóru áfram með utanríkismál og landhelgisgæslu. Lýðveldi var svo stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 og féll þá samband Íslands við Danmörku alfarið úr gildi. Sveinn Björnsson var kosinn fyrsti forseti Íslands. Meðal áhrifamestu manna í íslensku þjóðlífi á fyrri hluta 20. aldarinnar var Thor Jensen, kaupmaður og útgerðarmaður, sem rak fyrirtækið Kveldúlf. Synir hans urðu margir hverjir þjóðþekktir, má þar helst nefna Ólaf Thors, sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Íslands, Kjartan Thors sem varð framkvæmdastjóri Kveldúlfs, og Thor Thors, fyrsta fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Tengdasynir Thors voru líka kunnir og áhrifamiklir, til dæmis Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands, Gunnar Viðar, bankastjóri Landsbanka Íslands, og Hallgrímur Hallgrímsson, forstjóri olíufélagsins Skeljungs. Sonur Ólafs Thors, Thor Ó. Thors, varð framkvæmdastjóri Íslenskra aðalverktaka og tengdasonur Ólafs, Pétur Benediktsson, bankastjóri Landsbankans. Hæstiréttur Íslands kom fyrst saman árið 1920 og sama ár var stjórnarskránni breytt þannig að þingmönnum var fjölgað í 42 og ákveðið að Alþingi skyldi koma saman árlega. Árið 1930 var haldið upp á þúsaldarafmæli alþingis með Alþingishátíðinni. Kreppan mikla hafði skollið á haustið 1929 og náði nú til Íslands. Atvinnuleysi á landinu jókst og til óeirða kom 9. nóvember 1932 við Góðtemplarahúsið við Tjörnina, sem hefur jafnan verið nefnt Gúttóslagurinn. Meirihluti fjórða áratugarins var erfiður Íslendingum, togaraútgerðin var rekin með tapi sem leystist ekki fyrr en gengi íslensku krónunnar var fellt árið 1939 og krónan aftengd breska pundinu og þess í stað tengd bandaríska dollaranum. Seinni heimsstyrjöldin hófst með innrás Þýskalands í Pólland í september 1939 en nokkrum mánuðum síðar, í apríl 1940, réðust Þjóðverjar á Danmörku og hertóku. Lýðveldið Ísland. Íslendingar slitu einhliða stjórnarsambandi sínu við Dani og tók ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands gildi þann 17. júní árið 1944. Sem sjálfstætt ríki stóð Ísland nokkuð vel í samanburði við önnur lönd eftir hildarleik seinni heimsstyrjaldarinnar. Bandaríkjamenn fengu að hafa herstöð á Miðnesheiði og gerður var varnarsamningur á milli landanna tveggja. Ísland hlaut, eins og önnur Evrópulönd hliðholl Bandamönnum, styrk í formi Marshall-aðstoðarinnar. Styrkurinn skipti sköpum og á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina var Áburðarverksmiðja ríkisins byggð og fjöldi togara keyptur til þess að styrkja íslenskan sjávarútveg. Stefna stóriðju varð mjög áberandi í efnahagsstefnu stjórnvalda og á miðjum sjótta áratugnum var samið um bygginu Búrfellsvirkjunar til þess að sjá Álverinu í Straumsvík fyrir rafmagni. Öryggismál voru mest áberandi í utanríkisstefnu Íslands eftir seinna stríð og við upphaf kalda stríðsins. Ísland var ekki meðal stofnríkja Sameinuðu þjóðanna, þegar þau voru stofnuð þann 24. október 1945 en tæpu ári seinna samþykkti Alþingi að sækja um aðild og í nóvember 1946 varð Ísland að aðildarríki. Ríkisstjórn Alþýðuflokks- og Framsóknarflokks taldi öryggi landsins best borgið með umdeildri inngöngu í NATO 1949 og varnarsamningi við Bandaríkjamenn. Til að tryggja efnahag landsins var stoðum rennt undir sjávarútveginn með útfærslu íslensku landhelgarinnar. "Landhelgismálið" varð þó að torleystri milliríkjadeilu milli Breta og Íslandinga og leiddi til "Þorskastríða" milli ríkjanna. Mikilvægum áfanga í samgöngum á Íslandi var náð árið 1974 þegar hringveginum var lokið með byggingu Skeiðarárbrúar. Kjördæmakerfinu var gjörbreytt árið 1959 þegar þau 28 ein- og tvímenningskjördæmi, sem verið höfðu frá því að Alþingi var endurreist 1843, voru lögð niður. Í staðinn tók við hlutfallskosning í átta kjördæmum. Breytingin var gerð af Viðreisnarstjórninni, stjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem sat við völd á Íslandi frá 1959 til 1971. Hún endurspeglaði þá þéttbýlisvæðingu sem átt hafði sér stað á 20. öld og átt enn eftir að aukast. Frá árinu 1940 til 1970 fjölgaði Reykvíkingum úr 43.841 í 109.238 (149%) á sama tíma og Íslendingum fjölgaði úr 120.264 í 204.042 (70%). Viðreisnarstjórnin vann að því að leggja af það haftakerfi sem komið var á laggirnar á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Evrópusamvinna Íslands hófst formlega er Ísland gekk í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) þann 5. mars 1970. Hafist var við byggingu Hallgrímskirkju strax við lok seinni heimsstyrjaldar. Meðal þekktustu listamanna Íslands var án efa Einar Jónsson myndhöggvari. Einar hjó fjölmargar styttur sem eru þekkt kennileiti í Reykjavíkurborg í dag, svo sem styttuna af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli og styttuna af Jóni Sigurðssyni við Austurvöll. Listasafn Einars Jónssonar var opnað 1923 og var þá fyrsta listasafn landsins. Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955. Hann hafði þá gefið út þekktustu verk sín, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkuna. Handritamálinu lauk árið 1971 eftir að Danir sættust um að afhenda Íslendingum Sæmundareddu og Flateyjarbók. Málmleysingi. Málmleysingjar, ásamt málmum og málmungum, mynda einn af þremur flokkum af frumefnum þegar flokkað er eftur jónunar- og tengieiginleikum. Þessir eiginleikar stafa af þeirri ástæðu að málmleysingjar eru einstaklega rafeindadrægir. Það er að segja, þeir bæta við sig gildisrafeind frá öðrum atómum mun fúslegari heldur en að gefa frá sér slíka rafeind. Eðallofttegund. Eðallofttegundir (einnig eðalgastegundir eða eðalgös) er heiti yfir safn frumefna í 8. efnaflokki lotukerfisins. Þessi efnaflokkur inniheldur helín, neon, argon, krypton, xenon og radon. Þessar lofttegundir voru áður fyrr flokkaðar sem "óvirkt gas", en það hugtak er ekki alveg rétt því að sum þeirra taka þátt í efnahvörfum. Annað eldra hugtak var "sjaldgæft gas", þrátt fyrir að efnin samsvari góðum hluta andrúmslofts jarðar (0.93% eftir rúmtaki og 1.29% eftir þyngd). Sökum óhvarfgirni þeirra voru eðallofttegundir ekki uppgötvaðar fyrr en árið 1868 þegar helín var uppgötvað, með litrófsrita, í sólinni. Einangrun helíns á jörðu beið þar til ársins 1895. Eðallofttegundirnar hafa mjög veika aðdráttarkrafta milli atóma, og þar af leiðandi mjög lágan bræðslupunkt og suðupunkt. Það útskýrir hvers vegna þau eru öll í gasformi undir eðlilegum kringumstæðum, jafnvel þau sem hafa meiri atómmassa en mörg fastra efna. Efnasambönd eðallofttegunda. Í öllum eðallofttegundum eru "s" og "p" rafeindahvelin fullsetin (það er, 8 rafeindir á ysta hveli) og mynda þau þar af leiðandi ekki efnasambönd auðveldlega. Er atómin verða stærri er neðar í flokknum dregur, verða þau eilítið hvarfgjarnari. Sýnt var fram á árið 1962 að xenon getur bundist flúori til að mynda efnasamböndin XeF2, XeF4 og XeF6. Radon hefur einnig bundist flúori til að mynda radon-flúrsalt (RnF) sem í föstu formi glóir með gulum bjarma. Krypton getur einnig bundist flúori til að mynda KrF2 og skammlífar örvaðar tvíliður (enska: "excimer") af Xe2 og eðalgas-halíðum eins og XeCl eru notaðar í örvaða tvíliðuleysa. Uppgötvun argonflúrsalts (ArF2) var tilkynnt árið 2003. Árið 2002 voru uppgötvuð efnasambönd þar sem úran binst argoni, kryptoni eða xenoni. Þetta bendir til þess að eðallofttegundir gætu myndað efnasambönd með öðrum málmum. Lotukerfið hefur að geyma tómt svæði undir radoni, með sætistöluna 118. Þetta gefur til kynna, enn sem komið er, tilvist óþekktrar eðallofttegundar, sem tímabundið hefur verið nefnd Ununoctín. German. German er frumefni með efnatáknið Ge og er númer 32 í lotukerfinu. Þetta er gljándi, harður, silfurhvítur málmungur sem er efnafræðilega líkur tini. German myndar stóran hóp lífrænna málmsambanda og er mikið notað sem hálfleiðari í transistorum. Arsen. Arsen er frumefni með efnatáknið As og er númer 33 í lotukerfinu. Þetta er eitraður málmungur sem er til í þremur fjölgervingsformum; gulur, svartur og grár. Arsen og efnasambönd þess eru meðal annars notuð í meindýraeitur, illgresiseyða, skordýraeitur og í ýmsar málmblöndur. Jón Steinar Gunnlaugsson. Jón Steinar Gunnlaugsson var dómari við Hæstarétt Íslands. Hann var skipaður í þá stöðu 29. september 2004 og lét af störfum 1. október 2012. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1967 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1973. Bræðslumark. Bræðslumark fasts efnis er það hitastig þar sem efnið breytist úr föstu formi yfir á vökvaform. Ólíkt suðumarki er bræðslumark mestmegnis óháð þrýstingi. Þegar breytingin er úr vökvaformi yfir í fast form, er það ýmist kallað frostmark eða storknunarmark. Sem dæmi er frostmark kvikasilfurs, sem flestir þekkja aðeins á fljótandi formi, 234,32 K (−38,83 °C), en frostmark vatns er núll á selsíuskvarða. Flest efni mynda kristalla við að breytast úr vökvaformi í fast form. Þó geta nokkur efni, eins og til dæmis gler, breyst í fast form án þess að kristallast. Þannig efni eru kölluð formlaus efni. Grafít er það efni sem hefur hæstu staðalaðstæður. Það bráðnar við 3948,0 á Kelvin (3674,9 °C). Suðumark. Suðumark efnis er það hitastig þar sem að meginhluti efnisins breytist úr vökvaformi yfir í gas. Vökvi getur breyst í gas við hitastig sem að eru lægri en suðumark við uppgufun. Uppgufun er þó aðeins yfirborðsferli, þar sem að eingöngu sameindir staðsettar nálægt yfirborði gas/vökva ná að gufa upp. Suða er á hinn bóginn heildarferli þannig að sameindir hvar sem er í vökvanum geta gufað um, og myndað gufubólur. Suðumark samsvarar því hitastigi þar sem gufuþrýstingur efnis samsvarar umhverfisþrýstingi. Þess vegna er suðumark háð þrýstingi. Yfirleitt eru suðumörk gefin út miðað við staðalþrýsting (101325 Pa eða 1 loftþyngd). Við efri hæðarmörk, þar sem loftþrýstingur er lægri, er suðumark einnig lægra. Suðumark eykst við aukinn þrýsting, þar til markpunkti er náð þar sem eiginleikar lofttegunda og vökva verða ekki aðgreindir. Suðumark getur ekki hækkað upp fyrir markpunktinn. Á sama hátt lækkar suðumark við minnkandi þrýsting þar til þrípunkti er náð. Suðumark fer ekki niður fyrir þrípunktinn. Ferlið við að breytast frá vökva yfir í gas þarfnast varma sem kallaður er hamskiptavarmi (eða dulvarmi). Þegar varma er bætt við vökva við suðumark, fer hann allur í hamskiptin. Þar af leiðandi haggast hitastigið ekki þrátt fyrir að varma hafi verið bætt við. Orðið dulvarmi er stundum notað til að útskýra þennan "hverfandi" varma sem bætt er við án þess að hitastig breytist. Vegna þess að við suðumark má bæta varma við án hitabreytingar, er varmarýmd vökvans því sem næst óendanleg. Útfrá sjónarhorni víxlverkana milli sameinda er suðumarkið sá punktur þar sem fljótandi sameindir öðlast næga varmaorku til að rjúfa hina ýmsu aðdráttarkrafta sem halda þeim föstum í vökvanum (svo sem tvískauts-tvískauts-aðdrátt, augnabliks-tvískauts-tvískauts-aðdrátt og vetnistengi). Því gefur suðumarkið vísbendingu um styrk þessara aðdráttarkrafta. Suðumark vatns er 100°C við staðalþrýsting. Á tindi Everestfjalls er þrýstingurinn í kringum 260 millibör þannig að suðumark vatns þar er um 69°C. Kelvin. Kelvin er SI-mælieining fyrir hita og ein af sjö grunneiningum SI-kerfisins, táknuð með K. Er skilgreind útfrá núllpunkti sínum sem samsvarar alkuli og einu kelvin sem er er 1/273,16 af þrípunkti vatns. Saga. Einingin var kynnt til sögunnar árið 1954 á 10. fundi Conférence Générale des Poids et Mesures (samþykkt 3, CR 79) hún er nefnd eftir breska eðlis- og verkfræðingnum William Thomson, 1st Baron Kelvin. Celsíuskvarðinn er nú skilgreindur út frá kelvin, en 0 °C samsvara 273,15 kelvin, sem aftur er bræðslumark vatns við staðalaðstæður. Ritháttur. Orðið kelvin sem SI-eining er skrifað með litlum staf nema í byrjun setningar, táknið K er þó ávallt hástafur og aldrei skáletrað, bil er á milli tölunnar og táknsins líkt og með aðrar SI-einingar. Ekki er talað um „gráður á kelvin“ né heldur er gráðumerkið notað, þetta stafar af því að kelvin er, ólíkt Fahrenheit og Celsíus, mælieining en ekki kvarði. Þó var skrifað „gráður á Kelvin“ og „°K“ frá því einingin var upprunalega kynnt til sögunnar árið 1954 þar til árið 1967 þegar því var breytt á 13. fundi CGPM (samþykkt 3, CR 104). Antímon. Antímon er frumefni með efnatáknið Sb (Latína: "Stibium") og er númer 51 í lotukerfinu. Þetta er málmungur til í fjórum samsætum. Stöðuga samsæta antímons er sem blá-hvítur málmur. Gult og svart antímon eru óstöðugir málmleysingjar. Notað í eldvarnir, málningu, postulín, glerung, gúmmí og í margar tegundir málmblanda. Tellúr. Tellúr er frumefni með efnatáknið Te og er númer 52 í lotukerfinu. Brothættur, silfurhvítur málmungur sem að lítur út eins og tin, tellúr er efnafræðilega skylt seleni og brennisteini. Það er aðallega notað í málmblöndur og sem hálfleiðari. Pólon. Pólon er frumefni með skammstöfunina Po og er númer 84 í lotukerfinu. Sjaldgæfur geislavirkur málmungur, pólon er efnafræðilega svipað tellúr og bismút og finst í úran málmgrýti. Pólon hefur verið rannsakað vegna hugsanlegra nota við hitun á geimförum. Langtímaefling. Langtímaefling er styrking tengsla á milli tveggja taugafrumna. Langtímaefling er talin undirstaða minnis í heilanum. Fyrirbærið var fyrst fundið í dreka, heilastöð í randkerfinu, af Terje Lømo árið 1966. Þrípunktur. Þrípunktur er í eðlisfræði þær hita- og þrýstingsaðstæður sem gefið efni getur samtímis verið í storku-, fljótandi- og gasham í varmafræðilegu jafnvægi. Sem dæmi er þrípunktshiti vatns nákvæmlega 273,16 kelvin eða 0,01 °C og 611,73 pasköl (um 6 millibör), en þrípunktur vatns er einmitt notaður til að skilgreina kelvinkvarðann (sem er SI grunneining). Dreki (heilastöð). Dreki er heilastöð í randkerfinu (í gagnaugablaði mannsheilans sem meðal annars er talin gegna mikilvægu hlutverki í ljósu minni. Hlutverk drekans hefur ekki síst uppgötvast vegna rannsókna á sjúklingum með heilaskemmdir. H.M. er einn þekktasti sjúklingurinn með heilaskemmd í dreka. Samskynjun. Samskynjun er þegar áreiti sem venjulega skynjast með einu skynfæri skynjast með fleiri skynfærum. Dæmi um þetta er að sumt fólk finnur bragð að tónum eða finnst bókstafir eða tölur hafa lit. H.M.. H.M. (réttu nafni Henry Gustav Molaison; 26. febrúar, 1926 – 2. desember, 2008), er einn þekktasti sjúklingurinn með heilaskemmd í dreka. Heilaskemmdin hafði alvarleg áhrif á minni hans. Flogaveiki, heilaskurðaðgerð og minnisbilun. H.M. þjáðist af alvarlegri flogaveiki sem ungur maður, og árið 1953 var hann sendur til heilaskurðlæknisins William Scoville, en sá skar burt hluta gagnaugablaðs beggja heilahvela, þar á meðal drekann, í tilraunaskyni til að lækna flogaveikina en eðli flogaveiki var ekki jafn vel þekkt á þessum tíma og í dag. Eftir aðgerðina þjáðist H.M. af miklu framvirku minnisleysi, það er, hann gat ekki myndað nýjar langtímaminningar, að minnsta kosti ekki ljósar minningar („meðvitað minni“). Skammtímaminni hans var aftur á móti óskert, sem og flestar langtímaminningar sem hann hafði myndað fyrir aðgerð. Hann gat því til að mynda haldið uppi samræðum við menn en gleymdi aftur á móti jafnóðum hvað hafði farið þeim á milli. Hefði samtalið verið truflað í nokkrar mínútur mundi hann ekki eftir því að það hefði átt sér stað. H.M. kunni að leika á píanó, og í hvert skipti sem hann spilaði eitthvað tiltekið lag, fór honum fram við það. Hann gat einnig lært að lesa stafi á hvolfi. Þetta var honum mögulegt því að ákveðinn hluti minnisins, aðferðaminnið (e. procedual memory), skemmdist ekki í aðgerðinni. Raunar virtist heilaskemmdin aðeins hafa áhrif á ljóst minni en ekki á dulið minni. H.M. gæti hugsanlega verið ein mest rannsakaða manneskjan í sögu sálfræðinnar, og einkenni minnisleysis hans með tilliti til heilaskemmdar hans hefur á margan hátt varpað ljósi á það hvernig eðlilegt minni virkar. Saga H.M. var kveikjan að söguþræði myndarinnar Memento. Eins og H.M. getur aðalsöguhetja hennar, Leonard, ekki myndað nýjar minningar. Leiðarljós. "Leiðarljós" (Guiding Light (upprunalega The Guiding Light)) er sápuópera sýnd á Bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS, þátturinn á skv. Heimsmetabók Guinness met sem sú sápuópera sem lengst hefur verið útvarpað, en hann byrjaði í útvarpi 25. janúar 1937 og var yfirfærður í sjónvarpsform 30. júní 1952. Þann 1. arpíl árið 2009 var hætt framleiðslu þáttana. Vökvi. Vökvi er efnafasi og efni í vökvaformi og er sagt "fljótandi". Flest föst efni verða að vökva við nægjanlega háan hita, þ.e. við bræðslumark sitt. Vatn og kvikasilfur eru vökvar við stofuhita. Svonefndar lagarmálseiningar, t.d. lítri, mæla rúmtak vökva. Vökvar teljast kvikefni og mynda yfirborð í opnum geymum, gagnstætt lofttegundum. Fosfór. Fosfór er frumefni með efnatáknið P og er númer fimmtán í lotukerfinu. Fosfór er fjölgildur málmleysingi í niturflokknum og finnst oftast nær í ólífrænum fosfatsteinum og í öllum lifandi frumum en ekki í hreinu formi í náttúrunni. Hann er mjög hvarfgjarn, á sér margar birtingarmyndir og er nauðsynlegur öllum lífverum. Fosfór gefur frá sér dauft ljós er hann binst við súrefni. Orðið fosfór er komið úr grísku, og þýðir í raun ljósberi: "phôs" sem þýðir „ljós“, and "phoros" sem þýðir „sá sem ber eða beri“ - þ.e.a.s. ljósberi. Forngrikkir kölluðu reikistjörnuna Venus fosforos. Fosfór til almennrar nota er helst að finna í áburði, en einnig í sprengiefni, eldspýtum, flugeldum, meindýraeitri, tannkremi og þvottaefni. Brennisteinn. Brennisteinn er frumefni með efnatáknið S og er númer sextán í lotukerfinu. Sem víðfundinn, bragðlaus, lyktarlaus, fjölgildur málmleysingi, er brennisteinn best þekktur í formi gula kristalla en finnst jafnframt einnig sem súlfíð og súlfat. Það er aðallega á eldfjallasvæðum sem að það finnst í sinni eiginlegu mynd. Það er mikilvægt efni í öllum lifandi verum og er uppistaða í fjölda amínósýra og finnst þar af leiðandi einnig í mörgum prótínum. Það er aðallega notað framleiðslu á áburði, en er líka mikið notað við framleiðslu á byssupúðri, hægðarlyfjum, eldspýtum, skordýraeitri og sveppaeyði. Brennisteinn var unnin á Íslandi á 19. öld, t.d. í Brennisteinsfjöllum. Selen. Selen er frumefni með efnatáknið Se og er númer 34 í lotukerfinu. Þetta er eitraður málmleysingi sem er efnafræðilega skyldur brennisteini og tellúr. Það finnst í nokkrum mismunandi myndum en eitt þeirra er stöðugt, grátt málmkennt form sem leiðir rafmagn betur við ljós en myrkur og er þar af leiðandi notað í ljósnema. Þetta efni finnst í súlfíðgrýti eins og pýríti (sem einnig er þekkt sem brennisteinskís). Selen í lífverum. Selen er nauðsynlegt öllum lífverum og vinna þær það meðal annars úr sólarljósi og fæðu. Nauðsynlegt hefur reynst að sprauta stórann hluta lamba á Íslandi með seleni og E-vítamíni, svo þau líði ekki skort þegar þau fara úr á beit í fyrsta sinn. Selenskortur í sauðfé kallast fjöruslen eða stíuskjögur, en sjúkdómurinn sá dregur nafn sitt af því að sauðfé var og er víða beitt á fjörur. Ef ær stunda fjörubeit of langt fram í meðgönguna vilja lömbin verða slöpp. Atómstöðin/Núlleinn. Atómstöðin/Núlleinn ("Atóm/Núlleinn") var stofnað við sameiningu auglýsingastofunnar Atómstöðvarinnar sem starfaði að hluta við vefhönnun og uppsetningu vefja, og hugbúnaðarfyrirtækisins Núlleinn á Íslandi, sem um tíma hafði stundað vefsmíði undir merkinu Disill. Fyrirtækin voru bæði upprunalega stofnuð árið 1999. Megináhersla Atóm/Núlleins í dag er þróun vefumsjónarkerfisins Disils, þjónusta, sérforritun, vef- og hugbúnaðarráðgjöf auk hönnunar og vinnslu margmiðlunar- og markaðsefns fyrir fyrirtæki. 2009 Sameinaðist Atómstöðin vefþjónustufyrirtækinu IGM. Sameinað félag fékk nafnið Atómstöðin. Í júní 2011 sameinast svo Atómstöðin hönnunarfyrirtækinu Skapalón. Atómstöðin/Skapalón er til húsa að Sætúni 8 í Reykjavík. Starfsemin. Atom01 hefur frá upphafi einbeitt sér að þróun veflægs hugbúnaðar með tækni frá Microsoft sem grunn. Í dag þjónustar Atómstöðin/Skapalón mörg af stærri fyrirtækjum landsins. Áherslan hefur alla tíð verið þróun á hugbúnaði númer eitt, tvö og þrjú en einhver verkefni krefjast einnig hönnunar. Samstarfsaðilar. Samstarfsaðilar eru fjölmagir, allt frá endursöluaðilum til þróunaraðila með leyfi til að byggja við Disil. Eignarhald. Atómstöðin / Skapalón er að stærstu leiti í eigu starfsmanna. Klór. Klór (Gríska "chloros", sem þýðir „fölgrænn“), er frumefni með efnatáknið Cl og er númer sautján í lotukerfinu. Klórgas er græn-gult, er tveimur og hálfum sinnum þyngra en loft, hefur svo mjög óþægilega kæfandi lykt og er gríðarlega eitrað. Það er kraftmikið oxunar-, bleiki- og sótthreinsunarefni. Sem annar helmingur matarsalts og annarra efnasambanda, er gnægð þess að finna í náttúrunni. Er það einnig nauðsynlegt flestum stigum lífs, mannslíkamanum meðtöldum. Markús Örn Antonsson. Markús Örn Antonsson (fæddur 25. maí 1943) er forstöðumaður Þjóðmenningarhússins og fyrrum borgarstjóri í Reykjavík. Markús útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1965. Hann var fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu á fyrstu árum þess, 1966-1970. Markús Örn var borgarfulltrúi í Reykjavík 1970-1985 og forseti borgarstjórnar 1983-1985. Hann var borgarstjóri í Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 16. júlí 1991 til 17. mars 1994. Markús Örn gegndi tvívegis embætti útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins; árin 1985-1991 og 1998-2005. Hann var sendiherra Íslands í Kanada 2005-2008 og tók við embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhússins 1. september 2008. Halógen. Halógenar (eða "söltungur", "saltmyndarar", frá grísku "hals" sem þýðir „salt“ og „skapari“) eru hópur efna í flokk 17 í lotukerfinu sem samanstendur af: Flúori, klóri, brómi, joði og astati. Þessi efni eru tvíatóma efnasambönd í sínu nátturulega ástandi. Þeir þurfa eina rafeind til viðbótar til að fylla ysta rafeindahvolf sitt og hafa þar af leiðandi ríka tilhneigingu til að mynda neikvæða jón með hleðslu -1. Sölt sem að innihalda þessar jónir eru kölluð halíð. Halógenar eru mjög hvarfgjarnir og geta sem slíkir verið hættulegir, jafnvel lífshættulegir, lífverum í nógu stórum skömmtum. Bæði klór og joð eru notuð sem sótthreinsunarefni í vatn og sundlaugar, opin sár, eldhúsvörur og þess háttar. Efnin drepa gerla og aðrar skaðlegar örverur og eru þar af leiðandi notuð við dauðhreinsun. Hvarfgirni þeirra eru notuð í bleikingu. Klór er virka efnið í bleikiklór sem notaður er við þvott og er einnig notaður við framleiðslu á flestum pappírsvörum. Halíðjónir bindast við eitt vetnisatóm til að mynda vetnishalíð sýrur sem er hópur sérlega sterka sýra. Allar þeirra eru rammar nema flúorsýra, HF. Halógenar geta bundist við hvorn annan til að mynda samhalógen sambönd. Mörg tilbúin lífræn efnasambönd, eins og plastfjölliður, og einnig sum náttúruleg efnasambönd, innihalda halógena; þau eru þekkt sem "halógenuð" efnasambönd. skjaldkirtilshormón innihalda joðatóm. Klórjónir gegna lykilhlutverki í heilastarfsemi með því að miðla málum í ferli hömlusendisins GASS ("gamma-amínósmjörsýra"). Á móti kemur að talið er að bróm og flúor sé ekki nauðsynlegir fyrir efnaskipti manna en flúor er samt notað til þess að styrkja glerung tanna manna. Snorri Sturluson. Snorri Sturluson séður með augum listamannsins Christian Krogh. Myndin birtist í útgáfu af Heimskringlu frá 1899. Snorri Sturluson (1179 – 23. september, 1241) var íslenskur sagnaritari, skáld og stjórnmálamaður. Hann var mikilvirkur fræðimaður og meðal annars höfundur Snorra-Eddu. Hann var einnig höfundur Heimskringlu er segir sögu norsku konunganna og hefst þar á hinni goðsagnakenndu Ynglinga sögu og rekur síðan sögu konunganna fram til samtíma síns. Einnig er talið líklegt að hann sé höfundur Egils sögu Skallagrímssonar. Snorri bjó lengst af í Reykholti í Borgarfirði. Uppruni. Snorri var yngsti sonur Sturlu Þórðarsonar goða í Hvammi í Dölum og síðari konu hans Guðnýjar Böðvarsdóttur. Albræður hans voru þeir Þórður og Sighvatur og hann átti líka tvær alsystur og fjölda hálfsystkina. Þegar Snorri var þriggja ára bauð Jón Loftsson í Odda, sonarsonur Sæmundar fróða, honum fóstur eftir að hafa verið fenginn til að skera úr erfðadeilu sem Hvamm-Sturla átti í og ólst Snorri því upp á því mikla fræðasetri sem Oddi var á þeim tíma og hlaut þar menntun sína. Auðsöfnun og völd. Jón, fóstri Snorra, dó þegar hann var 18 ára en hann varð samt áfram í Odda. Sæmundur sonur Jóns og Þórður bróðir Snorra komu því til leiðar nokkru síðar að Snorri giftist Herdísi, dóttur Bersa auðga á Borg á Mýrum og fékk hann með henni mikið fé og goðorð föður hennar þegar hann lést árið 1202. Þau bjuggu fyrst í Odda, frá 1202 á Borg á Mýrum en árið 1206 flutti Snorri í Reykholt en Herdís varð eftir á Borg. Þegar Snorri komst yfir Reykholt jókst auður hans og áhrif og ekki síður þegar Þórður föðurbróðir hans lét honum eftir hálft goðorð sitt sem hann átti í Borgarfirði, og fleiri goðorð eignaðist hann að fullu eða hluta. Gerðist hann þá höfðingi mikill, því að eigi skorti fé, segir Sturla Þórðarson bróðursonur hans í Íslendinga sögu. Hann var lögsögumaður tvisvar, 1215-1218 og 1222-1231. Sturlungaöld. Sumarið 1218 sigldi Snorri frá Íslandi til Noregs. Skúli jarl Bárðarson var þá valdamesti maður í Noregi, enda var Hákon konungur aðeins 14 ára. Snorri dvaldi hjá Skúla jarli um veturinn og urðu þeir miklir vinir. Var Snorri gerður að hirðmanni konungs og naut mikillar hylli. Einnig heimsótti Snorri Eskil Magnússon og konu hans Kristínu Njálsdóttur í Skara um sumarið 1219. Þau voru bæði skyld konungsættinni og gáfu Snorra góða sýn inn í sögu Svíþjóðar. Þegar Snorri fór heim 1220 gaf Skúli jarl honum skip og margar aðrar gjafir. Höfðu þeir Skúli og Hákon konungur þá farið fram á að Snorri leitaðist við að koma Íslandi undir vald Noregskonungs. Heimkoma Snorra er vanalega talin marka upphaf Sturlungaaldar en þó virðist hann ekki hafa gert ýkja margt næstu árin til að uppfylla óskir konungsins og jarlsins. Sennilega hefur mikið af starfsorku hans árin eftir heimkomuna farið í að skrifa stórvirkin sem einkum hafa haldið nafni hans á lofti, Eddu, Egilssögu og Heimskringlu. Hann var enginn ófriðarmaður þótt áhrifa hans gætti víða á bak við tjöldin í róstum þessa tímabils. Sturla bróðursonur hans var aftur á móti orðinn fyrirferðarmikill, ekki síst eftir heimkomu sína úr suðurgöngu árið 1235, þar sem hann kom við í Noregi og hafði þar gerst lendur maður Hákonar konungs og tekið að sér að koma Íslandi undir hann, enda þótti konungi Snorra lítið hafa orðið ágengt. Sturla hrakti Snorra frá Reykholti 1236 og árið eftir, þegar Snorri hafði yfirgefið Þorleif Þórðarson frænda sinn rétt fyrir Bæjarbardaga, sigldi hann til Noregs. Þar höfðu þó aðstæður breyst því Skúli jarl og Hákon konungur voru orðnir ósáttir. Snorri var í Noregi tvo vetur en 1239, eftir að frést hafði af óförum Sturlunga í Örlygsstaðabardaga, vildi Snorri snúa heim en konungur bannaði það. "Út vil eg", sagði Snorri, hafði orð konungs að engu og sneri heim. Stuttu eftir heimför Snorra gerði Skúli jarl misheppnaða uppreisn gegn Hákoni konungi, sem lauk með því að Skúli var veginn. Konungur taldi Snorra landráðamann við sig og fékk Gissur Þorvaldsson það hlutverk að senda Snorra út til Noregs eða drepa hann ella. Sumarið 1241 dó Hallveig kona Snorra og upphófust þá deilur um arf milli Snorra og sona Hallveigar, Klængs og Orms, sem voru jafnframt bróðursynir Gissurar. Klængur og Gissur fóru að Snorra í Reykholti og lét Gissur menn sína vega hann 23. september 1241. Var það Árni beiskur sem hjó Snorra banahöggið. Stytta af Snorra Sturlusyni eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland var reist við Reykholtsskóla árið 1947 og er hún afsteypa af styttu sem er í Bergen. Fjölskylda. Snorri var tvíkvæntur. Fyrri kona hans (g. 1199) var Herdís Bersadóttir (d. 1233), en eins og áður segir er talið að hún hafi orðið eftir á Borg þegar Snorri fór í Reykholt og skildu þau síðar. Börn þeirra voru Hallbera, sem fyrst giftist Árna óreiðu Magnússyni og síðar Kolbeini unga og skildi við báða menn sína, og Jón murti (eða murtur) Snorrason, sem þótti efnilegur en dó í Noregi 21. janúar 1231 af áverka sem hann fékk í drykkjuróstum. Seinni kona Snorra var Hallveig Ormsdóttir (um 1199 - 25. júlí 1241). Faðir hennar, Ormur Jónsson Breiðbælingur, var goðorðsmaður á Breiðabólstað í Fljótshlíð og sonur Jóns Loftssonar fóstra Snorra. Hún var ekkja er þau Snorri gerðu með sér helmingafélag 1224 og átti tvo unga syni en börn þeirra Snorra dóu öll ung. Snorri átti einnig nokkur börn með frillum sínum. Þar á meðal voru Órækja Snorrason, Ingibjörg fyrri kona Gissurar Þorvaldssonar og Þórdís, seinni kona Þorvaldar Snorrasonar í Vatnsfirði. Bróm. Bróm (Gríska "bromos", sem þýðir „ódaunn“), er frumefni með efnatáknið Br og er númer 35 í lotukerfinu. Bróm er rauður, rokgjarn halógenvökvi við stofuhitastig sem að hefur hvarfgirni mitt á milli klórs og joðs. Þetta efni er skaðlegt lífrænum vefjum og gufa þess ertir augu og kverkar. Joð. Joð (Enska: "iodine", sem kemur úr gríska orðinu "iodes", sem þýðir „fjólublár“), er frumefni með efnatáknið I og er númer 53 í lotukerfinu. Þetta er óuppleysanlegt efni sem að er nauðsynlegt sem snefilefni fyrir lífverur. Efnafræðilega séð er joð minnst hvarfgjarnt af öllum halógenunum og einnig hið rafeindagæfasta af málmkenndu halógenunum. Joð er aðallega notað í læknisfræði, rotvarnarefni, ljósmyndnun og í litarefni. Joð var fyrst einangrað 1811 af Bernard Courtois frá Frakklandi. Joð er stálgrátt, fast efni sem glampar á; í loftkenndu formi er það fjólublátt. Joð er geislavirkt efni. Astat. Astat er frumefni með efnatáknið At og er númer 85 í lotukerfinu. Þetta geislavirka efni verður til við náttúrulegar ástæður við hrörnun úrans og þóríns og er þyngst halógenanna. Stjórnmálamaður. Stjórnmálamaður er einstaklingur sem hefir starfa í stjórnmálum, s.s. bæjar- eða borgarfulltrúi, bæjar- eða borgarstjóri, þingmaður, forsætisráðherra o.þ.h. Fleirtala. Fleirtala er hugtak í málfræði og tala, sem gefur oftast til kynna fleiri en eitt fyrirbæri. Mörg orð hafa tvær eða jafnvel fleiri mismunandi fleirtölur eins og orðið kleinuhringur sem getur bæði verið „kleinuhringir“ eða „kleinuhringar“ í fleirtölu. Til að sjá fleiri dæmi má skoða listann yfir mismunandi rithætti íslenskra orða. Listi yfir fleirtöluorð í íslensku. Sum orð í íslensku eru fleirtöluorð, en það eru orð sem ekki eru til í eintölu. Tvennt ber að varast við fleirtöluorð. Í fyrsta lagi þegar talað er um þau með tölulýsingarorðum upp að fimm (sbr.: einir, tvennir, þrennir, fernir og svo fimm), þá er ekki sagt tvær buxur, heldur tvennar buxur, þrennar buxur, fernar buxur en svo er auðvitað talað um fimm buxur, því tölulýsingarorð er ekki til um fimm og yfir. Í öðru lagi er orðið "báðir" ekki notað með fleirtöluorðum, heldur "hvor(ir) tveggja". Orð eins og sokkar og skór, ef átt er við par, eru einnig fleirtöluorð. Talað er um tvenna skó, ef átt er við tvö pör, og tvenna skokka ef átt er við fjóra sokka þar sem tveir og tveir eru samstæðir, þ.e. eiga saman. Eintala. Eintala er hugtak í málfræði. Eintala er tala, sem gefur til kynna eitt. Gyðingar. Gyðingar eru þjóð, menningarhópur og trúarlegur söfnuður sem á rætur að rekja til Hebrea í Austurlöndum nær til forna. Menningarheimur Gyðinga, þjóðarvitund þeirra og trú eru tengd nánum böndum. Zíonismi á djúpar rætur í gyðingdómi. Fólk sem gengist hefur gyðingdómi á hönd, það er að segja trúskiptingar, er jafnrétthátt öðrum Gyðingum innan söfnuðanna og hefur stundum í sögu Gyðinga myndað meirihluta þjóðarinnar. Algengast er nú á dögum að fólk fæðist inn í gyðingdóm, enda eru ströng skilyrði fyrir því að taka trúna. Gyðingar eru minnihlutahópur í öllum löndum fyrir utan Ísrael. Þeir hafa verið ofsóttir í aldanna rás og náðu þær ofsóknir hámarki með helförinnni. Fyrir stofnun Ísraelsríkis árið 1948 höfðu Gyðingar í tvígang átt eigið ríki. Sökum flókinna tengsla þjóðarvitundar, trúar og ætternis er vandkvæðum bundið að kasta tölu á Gyðinga sem þjóð en áætlaður fjöldi Gyðinga í dag er á milli 12 og 15 milljónir, þar af búa flestir í Bandaríkjunum og Ísrael. Gyðingar og Gyðingdómur. Fram til átjándu aldar féllu hugtökin Gyðingur og Gyðingdómur nánast alveg saman. Með tilkomu gyðinglegrar upplýsingar, Haskala, varð róttæk breyting á sjálfsmynd margra Gyðinga og litu þeir eftirleiðis á sig sem hluta þjóðarinnar án þess að vera iðkendur gyðinglegrar trúar eða fylgismenn hefða hennar. Stríð. Stríð, styrjöld eða ófriður er útbreidd vopnuð átök milli ríkja, þjóða, þjóðarbrota eða annarra stórra skipulagðra hópa manna, stundum í kjölfar formlegrar stríðsyfirlýsingar. Stríð standa yfir í mjög mislangan tíma, frá fáum dögum til áratuga. Vegna skilgreiningarinnar á stríði teljast ýmis átök sem eru í daglegu tali nefnd stríð ekki til stríðs í skilningi alþjóðalaga og alþjóðlegra sáttmála. Til dæmis telst Falklandseyjastríðið ekki vera stríð í þeim skilningi, heldur vopnuð átök, þar sem Argentína gaf aldrei út formlega stríðsyfirlýsingu. Sömuleiðis er stríðið gegn hryðjuverkum ekki stríð í tæknilegum skilningi því hryðjuverkahópar eru ekki aðilar af því tagi sem hægt er að lýsa stríði á hendur. Nú til dags heyrir það til algerra undantekninga að formlegar stríðsyfirlýsingar séu gefnar út. Til eru margs konar undirgreinar stríðs og má þar nefna innrásarstríð, þreytistríð, skæruhernað, borgarastríð og hryðjuverkastríð. Geisli (rúmfræði). Formúlur. Formúlur forma tengdar geisla þeirra, hér er formula_1 = geisli, formula_3 = ummál, formula_4 = flatarmál og formula_5 = rúmmál. Aríi. Aríi er hugtak komið frá "arya" í sanskrít og avesta. Arya þýðir göfugur. Ein af merkingum þess á við hóp af fólki sem rót allra indó-evrópsku tungumálana (fólkið sem þekkt er sem prótó-Indó-Evrópumenn) er sprottin frá. Það hefur einnig verið talið að þetta fólk hafi myndað sérstakt þjóðarbrot þ.e. „Aríarnir“ líkt og Max Müller og fleiri notuðu hugtakið á 19. öldinni. Af þessari ástæðu hefur hugtakið almennt orðið nokkurs konar samnefnari yfir alla Indó-Evrópumenn. Müller minntist þó sérstaklega á það að hans notkun á hugtakinu ætti við hóp sem sameinaður væri í gegnum tungumál en ekki ákveðið ætterni. Hugtakið er einkum notað á málfræðilegum forsendum í nútímanum og á þar við fjölskyldu indó-írönsku (stundum kölluð indó-arísku) tungumálana. Önnur merking á við aríska kynstofninn, kynstofn sem talin er vera beinn afkomandi hins upprunarlega aríska þjóðarhóps. Þessi merking var og er enn ríkjandi í kenningum um yfirburði hins evrópska kynþáttar („hvíti maðurinn“), sem margar hverjar hafa einnig dreift sér til Norður-Ameríku og Indlands. Samkvæmt hugmyndafræði nasista í seinni heimstyrjöldinni var germanski kynþátturinn álitinn hreinasti fulltrúi aríska kynstofnsins, með semíska kynstofnin í beinni mótstöðu gegn sér en hreinustu fulltrúar semíta voru gyðingar. Nasisminn hélt því fram að aríski kynstofninn og afkomendur hans væri eini kynstofninn sem væri fær um að "skapa" framsækna siðmenningu, á meðan aðrir kynþættir væru aðeins færir um að "viðhalda" menningu sinni innan sama þróunarrammans. Þessi hugmynd var og er enn styrkt í gegnum samanburð á framförum evrópskrar siðmenningar á sviðum vísinda, tækni og félagslegrar uppbyggingar miðað við frumstæða menningarheima þeldökku kynþátta Afríku og Ameríku. Því hefur einnig verið haldið fram að hugtakið "arya" hafi upphaflega verið ætlað að lýsa ættbálkum sem voru bundnir málfræðilegilegum böndum en ekki gegnum ákveðin ættboga. Í seinni tíð hefur hugtakið verið notað almennt til að lýsa virðingu og göfuglyndi bæði í hindúisma (afkomandi vedísku trúarinnar) og búddisma. Argon. Argon er frumefni með efnatáknið Ar og er númer átján í lotukerfinu. Í andrúmsloftinu er um það bil 1% argon. Almenn einkenni. Argon er 2.5 sinnum uppleysanlegra í vatni heldur en nitur sem að hefur um það bil sömu leysni og súrefni. Þetta mjög svo stöðuga efni er lit- og lyktarlaust í bæði vökva- og gasformi. Engin þekkt sönn efnasambönd argons eru þekkt, sem er ein af ástæðum þess að það var áður kallað óvirkt gas. Vísindamenn við Háskólann í Helsinki lýstu myndun argon flúrsýru (HArF), sem er mjög óstöðugt efna samband vetnis, flúors og argons, árið 2000, en það hefur ekki verið staðfest af öðrum. Þó að engin "efna"sambönd af argon séu enn staðfest, getur argon myndað holefni í vatni þegar argonatóm festast í grind af vatnssameindum. Útreikningar á tölvum hafa sýnt fram á nokkur argonsambönd sem ættu að vera stöðug en hafa enga þekkta leið til efnasmíði sem stendur. Krypton. Krypton er frumefni með efnatáknið Kr og er númer 36 í lotukerfinu. Litlaust eðalgas, krypton finnst í mjög smáu magni í andrúmsloftinu. Það er einangrað með því að þátta loft í vökvaformi og er notað mikið með öðrum eðalgösum í flúrljós. Krypton er í flestöllum tilfellum algerlega óvirkt en er vitað að það myndar stundum efnasambönd með flúor. Krypton getur einnig myndað holefni með vatni þegar kryptonatóm eru föst í grindverki af vatnssameindum. Xenon. Xenon er frumefni með efnatáknið Xe og er númer 54 í lotukerfinu. Litlaust, lyktaralaust, og mjög þungt eðalgas, xenon finnst í andrúmslofti jarðar í örlitlum skammti og var uppistaða eins fyrsta efnasambands eðalgasa sem að búið var til. Xenon, þegar það er notað í ljósaperur, gefur frá sér ljós sem er mjög líkt dagsbirtu. Það er orðið vinsælt í aðalljósum bifreiða og er í ljósaperunum sem eru notaðar í Friðarsúlu Yoko Ono í Viðey. Radon. Radon er frumefni með skammstöfunina Rn og er númer 86 í lotukerfinu. Geislavirkt eðalgas sem að myndast við niðurbrot radíns, radon er eitt þyngsta gasið og talinn mikill heilsuskaði. Stöðugasta samsætan er Rn-222 sem að hefur helmingunartíma upp á 3,8 daga og er notað við geislameðferðir. Radon getur safnast fyrir í húsum fólks og valdið lungnakrabbameini, sem að er talið valda um 20.000 dauðföllum í Evrópusambandinu árlega. Listi yfir frumefni eftir nafni. __NOTOC__ Listi yfir frumefni eftir sætistölu. Listi yfir frumefnin í sætistöluröð og efnin flokkuð með litum eftir gerð frumefna. Nafn hvers efnis, efnatákn þess, lota, flokkur, atómmassi (eða stöðugasta samsætan), eðlismassi, bræðslumark og suðumark eru gefin fyrir hvert efni, einnig hver uppgötvaði það og hvenær. Taflan var afrituð af ensku Wikipediu, þýdd og staðfærð. Alkalímálmur. Alkalímálmar eru efnaflokkur í 1. flokki lotukerfisins. Í honum eru frumefnin litín, natrín, kalín, rúbidín, sesín og fransín. Þeir eru mjög hvarfgjarnir og finnast því sjaldan sem aldrei hreinir í náttúrunni. Alkalímálmar eru silfurgljáandi, mjúkir málmar með lágan eðlismassa. Þeir bindast auðveldlega við halógena þar sem þau mynda jónísk sölt og við vatn þar sem þau mynda sterklega basísk hýdroxíð. Þessi efni hafa eina rafeind í ysta hveli, þannig að besta leiðin frá orkufræðilegu sjónarmiði til að ná fullu rafeindahveli er að tapa þessari einu rafeind og mynda þá jákvætt hlaðna jón. Vetni, með bara eina rafeind, er stundum sett efst í flokk 1 en er samt ekki alkalímálmur; heldur er náttúruleg staða þess tvíatóma gas. Að fjarlægja einu rafeind þess þarfnast talsvert meiri orku heldur en að fjarlægja ytri rafeind alkalímálma. Eins og með halógena, þarf bara eina rafeind til að fylla ysta hvel vetnisatóms, þannig að undir sumum kringumstæðum getur það hagað sér eins og halógen, og myndað neikvæða hýdríð jón. Tvísambönd hýdríðs við alkalímálma og suma hliðarmálma hafa verið mynduð. Undir öfgakenndum þrýstingi, eins og finnst í kjarna Júpíters, gerist vetni málmkennt og hegðar sér eins og alkalímálmur ("sjá málmkennt vetni"). Tregur málmur. Tregir málmar eru í lotukerfinu málmar á milli málmunganna og hliðarmálmanna, bræðslumark þeirra er almennt lægra en hliðarmálmanna, þeir eru einnig mýkri. Tregu málmarnir eru: ál, gallín, indín, tin, þallín, blý og bismút. Efni 113 til 116 eru einnig tímabundið í þessum flokki en þau eru ununtrín, ununquadín, ununpentín og ununhexín. Styrkir. Styrkir er áreiti sem fylgir tiltekinni hegðun sem eykur líkurnar á að hún endurtaki sig. Þegar hegðun eykst á þennan hátt kallast það styrking. Árni Sigfússon. Árni Sigfússon (f. 30. júlí 1956 í Vestmannaeyjum) er bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hann er sonur Sigfúsar J. Árnasonar Johnsen og Kristínar S. Þorsteinsdóttur, kvæntur Bryndísi Guðmundsdóttur, talmeinafræðingi og eiga þau fjögur börn: Aldísi Kristínu, Védísi Hervöru, Guðmund Egil og Sigfús Jóhann. Hann lærði stjórnsýslufræði við Háskólann í Tennessee, BNA. Systkini Árna eru Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarstofu, Gylfi Sigfússon, forstjóri Hf Eimskipafélags Íslands, Margrét Sigfúsdóttir, innanhússarkitekt, Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár og Sif Sigfúsdóttir, borgarfulltrúi og markaðsstjóri Viðskiptadeildar HÍ. Árni var borgarfulltrúi í Reykjavík í þrettán ár, 1986 - 1999. Hann gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík í nokkra mánuði árið 1994 er hann tók við af Markúsi Erni Antonssyni 3 mánuðum fyrir kosningar til að freista þess að halda borginni. Það tókst ekki gegn sameinuðum R-lista þrátt fyrir mesta fylgi Sjálfstæðisflokksins í kosningum frá upphafi. Við tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem varð borgarstjóri í stað hans. Árni sat í stjórn Heimdallar árin 1976 - 1979 og var formaður 1981 - 1983. Hann gegndi formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) á árunum 1987 - 1989 og hefur starfað sem framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins og framkvæmdastjóri og forstjóri Tæknivals. Árni hefur verið bæjarstjóri í Reykjanesbæ og oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn þar frá því í júní 2002. Hjörleifur Hróðmarsson. Hjörleifur Hróðmarsson var fóstbróðir Ingólfs Arnarsonar sem er talinn fyrsti landnámsmaður Íslands. Þeir Hjörleifur og Ingólfur eru sagðir hafa verið frændur, föðurfeður þeirra vora bræður sem yfirgáfu Þelamörk fyrir víga sakir. Langafi þeirra var Hrómundur Gripsson, sögufrægur fornkappi. Synir hans voru Björnólfur, faðir Arnar föður Ingólfs, og Hróaldur, faðir Hróðmars föður Hjörleifs. Systir Ingólfs Arnarsonar, Helga Arnardóttir, var síðan gift Hjörleifi. Hjörleifur hét upphaflega Leifur. Í Landnámu segir svo: „en Leifr fór í hernað á Írlandi ok fann þar jarðhús mikit; þar gekk hann í, ok var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maðr helt á. Leifr drap þann mann ok tók sverðit ok mikit fé af honum; siðan var hann kallaðr Hjörleifr.“ Hjörleifur kom að sögn með Ingólfi til Íslands og hafði vetursetu við Hjörleifshöfða á Suðurlandi en var svo veginn af tveimur írskum þrælum er hann hafði tekið í víking á Bretlandseyjum. Drápu þessi Írar húskarla Hjörleifs og tóku konur býlisins með sér til Vestmannaeyja (nefndar svo vegna atburðar þessa en íbúar Bretlandseyja voru jafnan kallaðir Vestmenn). Ingólfur sinnti skyldum fóstbróður og fann Íra þessa í Vestmannaeyjum, sótti að þeim og drap en frelsaði konurnar. Hann hafði séð að bátinn vantaði og grunaði því að þeir hefðu farið til eyjanna. Hjörleifur vildi ekki blóta, öfugt við Ingólf, og þegar Ingólfur sá lík hans sagði hann að svona færi fyrir þeim sem ekki vildi tilbiðja Þór: „Og sé ég svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.“ Metan. Metan(prump) er lyktarlaust og litlaust gas sem er léttara en andrúmsloftið. Það myndast við rotnun lífræns úrgangs við loftfirrðar aðstæður og finnst í eða nálægt mýrum, blautlendi, gömlum urðunarsvæðum og gömlu skóglendi. Eiginleikar. Efnaformúla metans er CH4 og mólmassi þess er 16.043 g/mól. CH4 + 2O2 → CO2 + 2H2O Þessi bruni metans myndar mikinn hita og þar af leiðandi er hægt að nota það sem eldsneyti. Þegar súrefni er ekki mikið myndast kolmónoxíð. Metan er ekki mjög hvarfgjarnt, nema með flúor, klórið og fleiru. Þau hvörf sem metan tekur þátt í eru skiptihvörf. Metan inniheldur 75% CH4, 15% etan (C2H6) og 5% af öðrum kolvatnsefnum, eins og própan (C2H8) og bútan (C4H10). Bræðslumark metans er -183 °C og suðumark er -164 °C. Það leysist ekki vel í vatni. Metan í andrúmslofti. Metans fyrirfinnst í veðrahvolfinu bæði á Norður -og Suðurheimsskautunum. Líftími þess í veðrahvolfinu er um tólf ár. Metan dregur í sig geislun á bilinu 3300-2800 cm-1 og 1400-1200 cm-1. Aukning metans í andrúmslofti var 20 ppbv á ári til 1998 og minnkaði í 8 ppbv á ári 2003. Þetta hefur talið vera vegna bætts viðhalds og viðgerða á gasbrunnum og leiðslukerfum í löndum fyrrverandi Sovétríkjanna. Árið 2003 losaði metan 1,7 W/m2 til gróðurhúsaáhrifa. Metan er það kolvatnsefni sem er í hæstum styrk í andrúmsloftinu. Blandhlutfall þess er 1,8 ppmv. Á flestum stöðum er algengast að kolvatnsefni með meiri mólmassa eru í minna hlutfalli en metan í andrúmsloftinu. Oxunarhvarf metans er hægara en hjá öðrum kolvatnsefnum og líftími þess í andrúmslofti er um tíu ár. Oxun metans gefur af sér koldíoxíð sem loka stöðuga sameind úr mörgum hvörfum. Losun. 30-40% af heildarlosun metans er talin vera vegna náttúrulegra aðstæðna sem er þá fyrsta leiðin hér að ofan og vegna jórturdýra. Talið er fram að 60% af metanlosun sé vegna mannlegra aðgerða sem eru þá til dæmis jarðefnaeldsneytisframleiðsla, hrísgrjónaræktun og lífmassabrennsla. Náttúruleg losun metans í andrúmsloftið er um 190 Tg á ári. Blautlendi og mýrar eru um 76% af þessari losun, termítar um 11%, höf um 8% og metanhýdröt um 5%. Þessi hlutföll eru fyrir allan heiminn en eru mjög breytileg eftir löndum og svæðum innan þeirra. Eyðing. Þegar metan fer út í andrúmsloftið tekur það um tíu ár að eyðast aftur. Það getur gerst með mismunandi aðferðum sem á ensku eru kallaðar „sinks“. Jafnvægið á milli metanlosunar og metaneyðingar skilgreinir styrk metans í andrúmslofti. Algengasta leiðin er oxun sem gerist vegna tilstilli hýdroxíl radikala (OH) sem eru í andrúmsloftinu. Metan hvarfast við OH og þá verður til CH3 og vatn í veðrahvolfi andrúmsloftsins. Metan er fjarlægt í litlum mæli með oxun við OH radikala í heiðhvolfi. Þessar tvær oxanir valda um 90% metaneyðingu í andrúmslofti. Tvær aðrar leiðir eru þekktar, upptaka metans með örverum í jarðvegi (7%) og hvarf metans við klóríð atóm í hafi. Sem gróðurhúsalofttegund. Metan er 20 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð og gleypir innrauða geislun sem annars myndi fara úr veðrahvolfinu og út í geim. Þetta er ástæða þess að metan er talin vera gróðurhúsalofttegund. Mælingar á styrk metans í andrúmslofti hafa verið gerðar með greiningu loftbólna inn í jökulbreiðum. Þessar mælingar gefa til kynna að styrkur metans er í hámarki í dag miðað við síðustu 400.000 ár. Frá 1750 hefur meðaltal styrks metans í andrúmslofti aukist um 150%, frá um 700 ppbv í 1,745 ppbv árið 1998. Á síðasta áratug hefur styrkur metans haldið áfram að aukast en heildaraukning metans hefur minnkað. Í lok 8. áratugsins var aukningin um 20 ppv á ári en í lok 9. áratugsins var hann um 9-13 ppbv á ári. Frá 1999 til 2002 hefur styrkur metans haldist stöðugur í kringum 1751 ppbv. Metan er um 9% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Eyðing ósonlagsins. Cl + CH4-> HCl + CH3 Klóríð er talin vera ein hvarfgjarnasta tegundin í heiðhvolfinu sem hvetur til ósoneyðingar. Þannig tekur metan þátt í eyðingu ósonlagsins. Framleiðsla. Rúta sem gengur fyrir metani Hægt er að framleiða gas úr lífmassa með nokkrum aðferðum og fá þá út eldsneyti eða rafmagn. Metan sem lífeldsneyti er til dæmis notað á bíla. Gösun er aðferð til að búa til gas úr föstum lífmassa með efnafræðilegum aðferðum. Grunnurinn fyrir gösun er að heit gufa og súrefni hvarfast við fastan lífmassa. Þetta ferli gerist ekki auðveldlega og hitastig þarf að vera frá nokkur hundruð gráðum á Celsius og yfir þúsund gráður á Celsius. Þrýstingur getur verið aðeins fyrir ofan loftþrýsting sem er 1 atm og upp í 30 atm. Gösun byrjar þannig að rokgjörn efni eru leyst upp úr fasta lífmassanum. Rokgjörnu efnin og það sem eftir var af lífmassanum fara í gegnum hvörf með gufu og súrefni sem leiðir að lokum af sér framleitt gas. Þetta framleidda gas er blanda af brennanlegum þáttum, koldíoxíði og vatni. Meiri meðhöndlun getur gefið hreinna gas með því að brjóta niður brennanlegu þættina enn meira. Út úr þessu ferli fæst þá metangas sem hægt er að nota sem eldsneyti. Notkun. Vötn með fljótandi metani á Títan, tungli Satúrnus Metan getur verið notað sem eldsneyti með bruna. Við bruna þarf súrefni, ástandsbreytingu og þá losnar orka. Metan er aðalhluti jarðgass og þegar það hvarfast við súrefni myndast koldíoxíð, vatn og orka. CH4 + 2O2 → CO2 + 2H2O + orka Varminn sem losnar hér er mismunur efnafræðilegrar orku upprunalegs eldsneytis og súrefnis og efnafræðilegrar orku koldíoxíðs og vatns. Þessi mismunur er þá kallaður orkuinnihald eldsneytis, metans. Við brennslu 16 tonna af metani fást 44 tonn koldíoxíðs. Þar sem orkuinnihald jarðgass er 55 Gj/t þá losna 2,75 tonn af koldíoxíði við framleiðslu 55 GJ af varma eða orku. NASA hefur verið að þróa vél í eldflaug sem gengur fyrir fljótandi metani en hún er ekki tilbúin til notkunar. Kosturinn við metan er að það er til víða í sólkerfinu, Títan sem er tungl Satúrnus er með vötn og ár af fljótandi metani. Andrúmsloft Júpíters, Satúrnus, Úranus og Neptúnus innihalda öll eitthvað af metani. Kosturinn við metanið er að það er öruggara en fljótandi vetni þar sem það er ekki eitrað og geymist við hærra hitastig líka eða -161.6 °C. Kraftur vélarinnar í prufuskoti í Mojave eyðimörkinni var 7.500 pund. Orkugildi Metans. 1 Nm3 hauggas = 0,57 Nm3 af 97% hreinu metani = 0,41 kg af 97% hreinu metani = 5,8 kWh af hráorku. Einnig er 1 Nm3 af hreinsuðu metani jafnt og 1,12 l af 95 oktan bensíni. Áhætta. Þar sem engin lykt er af metani er lyktarefni sett saman við það ef leki skyldi verða í bifreiðum. Metan er heldur ekki eitrað og af því það er léttara en loftið gufar það snöggt upp við leka. Ef geymsluflöskur hitna mikið stafar sprengihætta af metani þar sem rúmmál þess eykst. Engin dæmi eru um slys af völdum metaneldsneytis. Metan á Íslandi. Metangasi er safnað á urðunarstað í Álfsnesi og notað sem eldsneyti á bíla. Hauggasið sem myndast þar er blanda af nokkrum lofttegundum, meðal annars metani (55%) og koldíoxíði (42%). Söfnun. Lóðrétt safnrör eru sett með um það bil 25 metra millibili á urðunarrein með jarðvegi þar sem yfirborð er slétt. Þessi safnrör eru 65 mm, breið og þéttboruð götum. Rörin eru tengd í þrjár safnkistur sem eru í 20 feta skipagámum með rörum úr plasti. Safnkisturnar eru tengdar við dælustöð þar sem gasið er sogað úr haugnum þannig að súrefni komi þó ekki með inn úr andrúmslofti. Hreinsun. Til þess að hægt sé að nota hauggas sem eldsneyti þarf að aðskilja metanið úr því. Það er hægt að gera með þremur aðgerðum sem heita ísogsaðferð (PSA), síuaðferð og þvegilsaðferð. Þvegilsaðferð er notuð í Álfsnesinu. Þar er hreinsistöð notuð til að skilja metanið frá með vatni, það er þá þurrkað í daggarmark -30 °C og þjappað á flöskur sem fara svo á áfyllingarstöð. Þrýstingur við aðskiljunina er um 30 bör, við flutninginn um 260 bör og á eldsneytisgeymslum hámark 200 bör. Hreinleiki þessa metans er um 95-98%. Dreifing. N1 hf. selur metan á Íslandi og það er stöð við Bíldshöfða í Reykjavík. Áfylling bíla tekur lengri tíma en þegar venjulegt bensín eða dísilolía er notað en er gerð á svipaðan hátt. Metangasið er mælt í Nm3 eða normalrúmmetrum. Þessi eining er einnig notuð við verð, kr/Nm3. Framleiðsla. Óhreinsað hauggas er hægt að nota til rafmagnsframleiðslu með mótorum. Samstarf hefur verið á milli Metan hf. og Orkuveitu Reykjavíkur um metangasknúið orkuver með uppsett afl 840 kW og framleiðsla er áætluð um 4,3 GWh/ár. Gasvél er knýjuð með hauggasi sem er með um 50-55% metan. Með þessu fæst hreinna afgas heldur en þegar umfram hauggasi hefur verið brennt í brennara og losað til að fá minni gróðurhúsaáhrif. Hægt er að nota hauggas sem orkugjafa í iðnaði en þá þarf iðnaðurinn að vera frekar nálægt urðunarstaðnum. Samsstarf hófst með Metani hf. og Borgarplasti hf. árið 2002 til að skoða notkun hauggass fyrir iðnað. Niðurstaða verkefnisins var að metangasið væri góður kostur, sérstaklega hvað varðar umhverfi starfsmanna. Múli, bílaréttingar og sprautun ehf. hefur rekið metanþurrkklefa framleiddan á Ítalíu frá árinu 2004 til bílasprautunar. Þannig nota þeir aðeins íslenska orku, metan, jarðvarma og rafmagn. Metaneldsneyti á Íslandi. Metaneldsneyti hefur verið notað til að knýja bíla á Íslandi frá árinu 2000. Eldsneytið er 95-98% hreint metan. Minni hávaði er frá metanknúðum bifreiðum og mengun er töluvert minni. Koldíoxíð myndast við brennslu metangass í bílvél en þá er verið að flytja koldíoxíð sem hefði hvort eð er orðið til á urðunarstaðnum út í andrúmsloftið. Heildaraukning koldíoxíðs í andrúmslofti er því engin og á móti kemur líka að koldíoxíð sem hefði myndast í venjulegri bifreið sparast. Þessi sparnaður er um það bil 260 g koldíoxíð á km. Úblástursefni eru í töluvert minna magni við brennslu metans en bensíns eða dísel. Koldíoxíð er 20% minna í metanbílum en venjulegum bílum. Metanbílar. Volkswagen Tourino Ecofuel, 2008 gerð Mercedes-Benz 170 NGT BlueEFFICIENCY metanbíll Í Reykjavík eru nokkrir Volkswagen EcoFuel bílar í notkun hjá Sorpu. Þeir ganga fyrir metani og eru þrefalt langdrægnari en eldri kynslóðir. Árið 2006 voru um 60 metanbílar í notkun á höfðuborgarsvæðinu. Íslensk stjórnvöld í Reykjavík nota einnig nokkra metanbíla. Tvær nýjar tegundir komu hingað árið 2006 og voru VW Caddy EcoFuel og VW Touran Trendline EcoFuel. Þeir eru með tvíbrennihreyfil sem gengur bæði fyrir metani og bensíni til vara. Caddy gerðin getur farið 430 km á hverri fyllingu af metani og Touran 310 km. Þessir nýju bílar eru kraftmeiri og plássmeiri en eldri gerðir. Hér á landi hefur ríkið fellt niður 240.000 kr af vörugjaldi bíla sem ganga fyrir metani til þess að ýta undir notkun þeirra. Sparnaður við að aka metanbíl miðað við bensínbíl er 50 kr á hverja eldsneytiseiningu. Þar sem metan er framleitt á Álfsnesi er það innlendur eldsneytisgjafi og því yrði gífurlegur gjaldeyrissparnaður ef fleiri metanbílum yrði skipt út fyrir bensínbíla. Umhverfislegur sparnaður af metanbílum er mikill. Það er 90% minni útblástur koldíoxíðs úr metanvél samanborið við bensínvél. Einnig er 60% minna köfnunarefnisoxíð sem losnar við bruna metans en við bruna koldíoxíðs. Sót og ryk er 80% minna úr metanvél en dísilvél. Það þyrfti um 120 metanbíla til að ná að menga jafn mikið og venjulegur fólksbíll sem gengur fyrir eldsneyti. Verð metanbíla er svipað og á hefðbundnum bílum og eiga þeir ekki að vera mikið dýrari en venjulegir bensín- og dísilbílar. Samkvæmt frétt frá September 2008 hefur metanbílum fjölgað mikið og á annað hundrað metanbílar eru skráðir á Íslandi. Flestir þessara bíla eru Volkswagen bílar. Langdrægni bíla eykst líka með hverri árgerð sem er framleidd og árið 2009 á að koma ný gerð sem heitir VW Passat EcoFuel og á að komast 420 km á hverri metanfyllingu og 400 km á bensíntanknum. Metanframleiðslan á Álfsnesi er sögð duga sem eldsneyti á um 2.500-3.500 fólksbíla ef fullum afköstum yrði náð árið 2012. Einnig mun áfyllingarstöðvum fjölga eftir því sem metanbílarnir verða fleiri á götum höfuðborgarsvæðisins, í dag er ein. Ölgerðin á þrjá metanbíla sem eru Caddy og Touran, eins og bílarnir sem Sorpa fékk 2006. Gallín. Gallín er frumefni með efnatáknið Ga og er númer 31 í lotukerfinu. Sjaldgæfur, mjúkur og silfurkenndur tregur málmur, gallín er brothætt fast efni við lágt hitastig en breytist í vökvaform rétt fyrir ofan stofuhita og bráðnar í hendi. Það finnst í örlitlum mæli í báxíti og sinkgrýti. Það gegnir mikilvægu hlutverki í efnasambandinu gallín arsen sem að notað er sem hálfleiðari, mest áberandi í ljóstvistum. Indín. Indín er frumefni með efnatáknið In og er númer 49 í lotukerfinu. Þessi sjaldgæfi, mjúki, þjáli og auðsambræðanlegi tregi málmur er efnafræðilega svipaður áli eða gallíni en lítur samt meira út eins og sink (þessi málmur finnst aðallega í sinkgrýti). Hann er einkum notaður til að mynda þunn smurningslög (í seinni heimsstyrjöldinni var hann mikið notaður til að þekja kúlulegur í afkastamiklar flugvélar). Tin. Tin er frumefni með efnatáknið Sn (frá latneska heitinu fyrir tin, "Stannum") og er númer 50 í lotukerfinu. Þessi silfurkenndi, þjáli tregi málmur, sem að hvorki oxast í lofti né tærist auðveldlega, er notaður í margskyns málmblöndur og einnig til að þekja önnur efni til varnar tæringu. Tin er fyrst og fremst fengið úr steintegundinni cassiterite þar sem það finnst sem oxíð. Eiríkur rauði Þorvaldsson. Eiríkur rauði (d. um 1006) var fyrstur til að nema land á Grænlandi og var faðir Leifs Eiríkssonar. Eiríkur fæddist í Noregi og var sonur Þorvaldar Ásvaldssonar, en kallaður „rauði“ vegna hárlitarins. Þeir feðgar flæmdust frá Noregi vegna vígamála. Sigldu þeir þá til Íslands og nam Þorvaldur land á Dröngum á Ströndum. Samkvæmt því sem segir í "Eiríks sögu rauða" kvæntist Eiríkur Þjóðhildi, dóttur Jörundar Úlfssonar skjálga, og flutti þá suður í Haukadal í Dölum, ruddi þar land og bjó á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni. Eiríki gekk illa að lynda við aðra menn og var hann rekinn úr Haukadal eftir að hann var dæmdur sekur vegna vígaferla. Þá fór hann í eyna Brokey á Breiðafirði en var einnig rekinn þaðan fyrir vígaferli og varð útlagi að nýju 982. Ákvað hann um þær mundir að leita lands vestan Íslands en maður nokkur, sem Gunnbjörn Úlfsson hét, hafði talið sig hafa séð eyju norðan Íslands og nefndi Gunnbjarnarsker. Samkvæmt Eiríks sögu rauða varði hann þremur árum útlægur í að kanna strönd Grænlands. Sneri hann svo aftur til Íslands og sagði miklar og fagrar sögur af þessu nýfundna landi. Árið 985 hafði hann svo safnað fjölmennu liði og sneri með því aftur til Grænlands og stofnaði tvær nýlendur á vesturströndinni, Eystribyggð og Vestribyggð. Í Eystribyggð reisti hann stórbýlið Brattahlíð fyrir sig og sína, nálægt þar sem Narsarsuaq stendur nú. Eiríkur var þá orðinn háhöfðingi Grænlands. Í upprunalegum leiðangri Eiríks voru 25 skip, sennilega knerrir, en aðeins 14 komust til Grænlands. Hin 11 ýmist fórust í ofsaviðri eða sneru til baka. Tilgátubær Eiríks rauða. Tilgátubær Eiríks rauða hefur verið reistur á Eiríksstöðum í Haukadal með hliðsjón af rannsóknum fornleifafræðinga á rústum sem þar hafa verið grafnar upp og rannsakaðar. Sólskjálftafræði. Sólskjálftafræði er undirgrein sólfræðinnar, jarðskjálftafræðinnar og stjarneðlisfræðinnar sem fæst við rannsóknir á þrýstingsöldum sem eiga uppruna sinn í sólinni. Þeir sem leggja stund á greinina kallast sólskjálftafræðingar. Hugmyndin á uppruna sinn í kenningu sem Christian Andreas Doppler setti fram árið 1842 og er nefnd Doppler áhrifin. Stjarneðlisfræðingar geta með hjálp sólskjálftafræðinnar þróað mjög nákvæmar lýsingar á innri gerð sólarinnar. Fundið var út að ytra iðuhvolf og innra geislunarhvolf sólarinnar snúast á mismunandi hraða sem veldur því að aðalsegulsvið sólarinnar verður til og að iðuhvolfið hefur straumstróka af rafgasi þúsundir kílómetra undir yfirborðinu. Einnig er hægt að nota fræðina til að nema sólbletti sem eru á hliðinni andspænis jörðinni. Blý. Blý er frumefni með efnatáknið Pb (frá latneska heitinu fyrir blý, "Plumbum") og er númer 82 í lotukerfinu. Það er mjúkur, eitraður, þungur og þjáll tregur málmur. Blý er bláhvítt þegar það er nýsneitt en tærist yfir í daufgráan lit við snertingu vð loft vegna oxunar. Blý er notað í byggingargerð, blýsýrurafgeyma, byssukúlur, og sem partur af lóðmálmum, pjátri og sambræðanlegum málmblöndum. Blý hefur hæstu atómtölu allra stöðugra efna (þess má geta að Bismút-209 hefur helmingunartíma milljarðfaldan þekktan aldur alheimsins og er stundum talið sem stöðugt, þessvegna er bismút stundum talið hafa hæsta atómtölu allra stöðugra efna). Sagan. Talið er að blý hafi verið notað af mönnum frá því 3000 f.k. og notuðu forn Rómverjar blý i vatnslagnir, orðið pípari á ensku „plumber“ kemur af latneska orðinu „plumbum“ sem þýðir blý. Á miðöldum varð blý notað í þök, kistur, tanka og ræsi og í styttur og skraut. Blý var einnig notað í samskeyti á gluggaskreytingum í kirkjugluggum. Í dag er blý ekki mikið notað í þök lengur þar sem það er of dýrt og meira er notað af kopar og plast efnum eins og polythane, þar sem eituráhrif blýs eru orðin vel þekkt. Þó eru lög af blýi notuð innan í tanka með tærandi vökvum eins og sýru sem myndi éta sundur aðra málma. Þar sem blý er þyngri málmur en járn eða kopar, þá er hann notaður til að gera lóð sem ekki mega vera of umfangsmikil. Sem dæmi eru það sökklar við veiðar og stígvél hjá kaförum. Víngerðarmenn í forn Rómverska ríkinu vildu ekki nota neitt annað en blý í sín áhöld. Þeir notuðu það til að kremja vínber. Þeir kröfðust þess að nota blý potta eða blý klædda kopar katla, því þeir ryðguðu minna og töldu þá gefa betra bragð. Í Rómversku uppskriftabókinni Apician, sem talið er að séu uppskriftir frá 1-5. öld eru 20% af 450 uppskriftum bragðbættar með blýi. Fólk notaði frá miðöldum sýru frá blýi eða „blýsykrur“ eins og það var kallað sem sætuefni í mat eða vín. Blý var mikið notað í forna Rómaveldinu. Var notað við lagnir og borðbúnað, skartgripi og smápeninga. Að lokum komu fram margar aukaverkanir á fólki og suma Rómverja grunaði að það væri samband milli málmsins og veikindanna en menningin breyttist aldrei, og sumir sagnfræðingar trúa því að margir meðal heldri borgara Rómar hafi þjáðst af blýeitrun Þallín. Þallín er frumefni með efnatáknið Tl og er númer 81 í lotukerfinu. Þessum mjúka, gráa, þjála trega málmi svipar til tins en hann aflitast við snertingu við loft. Þallín er mjög eitrað og er notað í nagdýra- og skordýraeitur, en sökum þess að það er krabbameinsvaldandi, hefur notkun þess verið dregin saman eða hætt algerlega í mörgum löndum. Það er líka notað í innrauða skynjara. Bismút. Bismút er frumefni með efnatáknið Bi og er númer 83 í lotukerfinu. Efnið er þungur, brothættur, hvítkristallaður, þrígildur tregur málmur, sem hefur bleikan litblæ og líkist efnafræðilega arsen og antimon. Hann er mest mótseglandi allra málma. Bismút hefur minnstu varmaleiðni allra frumefna fyrir utan kvikasilfur. Blýlaus bismút efnasambönd eru notuð í snyrtivörur og í læknisaðgerðum. Þéttleiki byggðar. Þéttleiki byggðar er hugtak yfir meðaldreifingu íbúa ákveðins svæðis. Venjulega er hún mæld í fjölda íbúa á ferkílómetra. Breyta. Breyta er eiginleiki í efnislegu eða huglægu kerfi sem getur tekið fleiri en eitt sjáanlegt gildi. Breyta er því andstæða fasta, sem tekur aðeins eitt gildi og er því alltaf eins. Þegar breytur eru notaðar með tölum og táknum eins og formula_1 kallast það stæða. Inna (vefkerfi). Inna er miðlægt, vefrænt upplýsingakerfi framhaldsskóla á Íslandi og inniheldur upplýsingar um stóran hluta þess sem við kemur skólagöngu flestra nema í íslenskum framhaldsskólum s.s. námsferil, skólasókn og stundatöflu. Þrátt fyrir að Inna sé aðallega hugsað sem upplýsingakerfi ber það örlítinn vott af því að vera fjarvinnukerfi en möguleikar kerfisins í þeim efnum eru mjög takmarkaðir. Kerfið er þróað í verktöku af Skýrr fyrir Menntamálaráðuneytið en það var fyrst tekið í notkun árið 2001. Undirkerfi. Inna skiptist í tvo hluta sem hafa sitt hvorn tilganginn. Annað er til að stjórna og breyta upplýsingum fyrir hönd skóla en hitt er fyrir nemendur. Inna fyrir skóla. Starfsmenn skóla, s.s. áfangastjórar, kennarar og námsráðgjafar notast við sérstakt kerfi þar sem þeir geta séð upplýsingar um alla nemendur sína og síns skóla auk þess sem þeir geta breytt upplýsingum um þá nemendur, merkt inn fjarvistir og skráð einkunnir svo eitthvað sé nefnt. Útgáfunúmer þessa hluta er nú 1.0. Inna fyrir nemendur. Nemendur hafa sér aðgang að kerfinu þar sem þeir komast í upplýsingar um sig og sína skólagöngu og geta breytt námsáætlun svo eitthvað sé nefnt. Þessi hluti kerfisins er enn ókláraður. Deilur. Ýmsar deilur um Innu hafa sprottið upp en þær hafa aðallega snúist um stöðugleika og gæði kerfisins og þá aðallega nemendahlutanum sem talinn er vera óvandaður og illa settur fram. Dæmi um þetta er ógilt öryggisskírteini sem oftast er varað við þegar nemandi opnar forsíðu kerfisins auk þess sem ýmsir forritunargallar leynast enn í nemendakerfinu. Staðlaráð Íslands. Staðlaráð Íslands er ráð sem skv. lögum hefur það hlutverk að staðfesta alþjóðlega staðla og annast gerð íslenskra staðla í samvinnu við hagsmunaaðila, svo sem hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, samtök og fyrirtæki. Staðlaráð er fulltrúi Íslands í alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO og IEC og evrópsku staðlasamtökunum CEN, CENELEC og ETSI og þátttakandi í norrænu stöðlunarsamstarfi INSTA. "samtök sem vilja nýta sér staðla." Staðlaráð tekur ekki efnislega afstöðu til staðla og ákveður ekki hvað skuli staðlað. Ákvarðanir um það eru teknar af þeim sem eiga hagsmuna að gæta og þeir greiða fyrir verkefnin. Sönn íslensk sakamál. Sönn íslensk sakamál er sakamálaþáttur framleiddur af Hugsjón sem sýndur var í Sjónvarpinu í febrúar og mars 2001 og árið 2002. Hugsjón hefur endurnýjað framleiðsluna í samstarfi við Skjáeinn og hafa þættirnir [átta talsins] verið sýndir á Skjáeinnum frá árinu 2012 Endurhljóðblönduð útgáfa af laginu „Over“ af breiðskífunni Portishead með Portishead var notað sem stef þáttarins. Meðaltal. Meðaltal er aðferð til að einfalda talnagögn niður í eina tölu en með henni er stefnt að því að finna miðsækni í ákveðnu þýði. Þetta er framkvæmt með því að finna summu talnanna sem um ræðir og deila þeim með fjölda þeirra. Aðferðin virkar þó eingöngu vel þegar fyrrnefndar tölur dreifast jafnt yfir talnabilið (þ.e.a.s. í normalkúrfu). Önnur leið til þess að finna tölu sem er lýsandi fyrir þýði er að reikna út miðgildið. Skilgreining. formula_1. Vegið meðaltal mengis "n" staka með tilheyrandi mengi jákvæðra vigtarstuðla Dæmi. formula_6 Fjöldi talnanna er 3 svo að við vitum að formula_7 formula_8 Meðaltalið af 2, 6 og 7 er þá 5. Brisbane. Brisbane að næturlagi 2004. Horft yfir Brisbaneá. Brisbane er höfuðborg ástralska fylkisins Queensland. Íbúar Brisbane sjálfrar eru tæp milljón en um 1,7 milljónir búa í borginni og útborgum hennar til samans.Hún er sú höfuðborg ástralskra fylkja sem vex hraðast, sem dæmi óx hún um 10,5% á fimm árum frá 1998 til 2003. Borgin liggur meðfram bökkum Brisbaneár rétt fyrir innan Moretonflóa í suðurhluta fylkisins. Borgin er nefnd eftir ánni sem er nefnd eftir Brisbane lávarði sem var landsstjóri Nýja Suður Wales árið 1823 þegar svæðið var fyrst kannað. Árið 1824 var fanganýlenda stofnuð í Redcliffe við fyrrnefndann flóa en aðeins ári síðar flutti hún suður stutt frá þar sem borgin er núna. Sú nýlenda var stofnuð sem eins konar fangelsi innan fangelsis, fyrir fanga sem brutu af sér meðan þeir voru að afplána dóma í Ástralíu. Lengi var almenningi bannað að flytjast nálægt fanganýlendunni og það var ekki fyrr en árið 1842 sem það var leyft, en þá óx íbúafjöldinn hratt. Þegar Queensland hlaut sjálfstæði frá Nýja Suður Wales árið 1859 var Brisbane gerð höfuðborg. Þróun var það var hins vegar enn mjög hæg og það var meira að segja reyndar ekki fyrr en 1902 að hún varð formlega borg. Margir skólar á háskólastigi eru á Brisbane-svæðinu, þeirra á meðal Queenslandháskóli og kaþólski háskólinn í Ástralíu. Þar eru að auki ýmsar rannsóknarstofnanir, en ríkisstjórn Queensland hefur markvisst verið að reyna að laða slíka starfsemi til fylkisins. Faxasker. Faxasker er um 10 m hátt sker norðan við Ystaklett við Heimaey í Vestmannaeyjum. Skerið að mestu gróðurlaust því algengt er að brimi yfir það í vondu veðri. Neyðarskýli er á skerinu og viti. Skýlinu var komið fyrir þarna vegna stórs sjóslyss sem varð við skerið 1950. Báturinn sem lenti í slysinu hét Helgi og fórust allir sem um borð voru eða 10 manns. Tveir menn komust upp á skerið en náðust ekki þaðan í tæka tíð. Tvíhöfði (tvíeyki). Tvíhöfði er tvíeyki þeirra Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarrs. Þeir eru grínistar og hafa verið vinsælir sem slíkir á Íslandi. Norn (tungumál). Norn var tungumál ættað úr fornnorrænu sem talað var á Hjaltlandi og í Orkneyjum áður en lágskoska fór að taka þar yfir á 15. öld. Málið var þó notað eitthvað fram á 18. öld en ekki er nákvæmlega vitað hvenær það dó út. Kalín. Kalín eða kalíum (latína: "kalium" úr arabísku: القَلْيَه‎ "al-qalyah" „jurtaaska“, orðið alkalí er af sömu rót) er frumefni með efnatáknið K og er númer nítján í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, silfurhvítur málmkenndur alkalímálmur sem í náttúrunni finnst aðeins sem jónískt salt, bundinn öðrum frumefnum í sjó og mörgum steinefnum. Kalín er nauðsynlegt fyrir virkni fruma í öllum lífverum og finnst því í vefjum bæði dýra og jurta, sérstaklega í jurtafrumum þar sem mestur þéttleiki kalíns er í ávöxtum. Kalín oxast fljótt í lofti, er mjög hvarfgjarnt, þá sérstaklega í snertingu við vatn, og líkist natríni efnafræðilega. Almenn einkenni. Kalín hefur minni eðlismassa en vatn og er annar léttasti málmurinn á eftir litíni. Það er mjúkt, fast efni sem að hægt er að skera auðveldlega með hníf og er silfrað á litinn þegar yfirborðið er tært. Það oxast hratt þegar það kemst í snertingu við loft og verður því að geyma það í jarð- eða steinolíu. Líkt og aðrir alkalímálmar hvarfast kalín af miklum krafti í vatni og myndar þá vetni. Ef því er dýft í vatn getur kviknað í því sjálfkrafa. Sölt þess gefa frá sér fjólubláan lit ef þau eru sett í eld. Rúbidín. Rúbidín (úr latínu: "rubidus", „dökkrauður“) er frumefni með efnatáknið Rb og er númer 37 í lotukerfinu. Þetta er mjúkt, silfurhvítt málmkennt frumefni í hópi alkalímálma. Náttúruleg samsæta rúbidíns, 87Rb, er lítilsháttar geislavirk. Rúbidín er gríðarlega hvarfgjarnt með svipaða eiginleika og önnur frumefni í flokki 1 eins og til dæmis að brenna fyrirvaralaust ef það kemst í snertingu við loft. Nafnið er dregið af því að það logar rauðfjólubláum loga. Það var fyrst uppgötvað með litrófsgreiningu árið 1861. Rúbidín nýtist ekki neinum lífverum svo vitað sé en það er tekið upp af lifandi frumum á sama hátt og kalín. Það er í 23. sæti yfir algengustu frumefni jarðskorpunnar. Það er því álíka algengt og sink og algengara en kopar. Einkenni. Rúbidín bráðnar við 39,3 °C. Líkt og aðrir alkalímálmar hvarfast það hratt við vatn. Efnahvarfið er venjulega það útvermið að það kveikir í vetnisgasinu sem verður til. Rúbidín hefur líka sést brenna fyrirvaralaust í snertingu við loft. Líkt og hinir alkalímálmarnir myndar það kvikasilfursmelmi með kvikasilfri og getur myndað málmblöndu með gulli, sesíni, kalíni og natríni. Notkun. Rúbidín er lítið notað í iðnaði en eiginleikar efnisins eru nýttir við rannsóknir og þróun á sviði efnafræði og rafeindatækni. Það er stundum notað sem ódýr valkostur við sesín í mælitækjum. Það er stundum notað í flugelda til að gefa fjólubláan loga. Sesín. Sesín eða sesíum (úr latínu: "caesius", „himinblár“) er frumefni með efnatáknið Cs og er númer 55 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur silfur-gulllitaður alkalímálmur sem er einn af fimm málmum sem að eru í vökvaformi við stofuhita. Sesín er þekktast fyrir notkun þess í atómklukkum. Sesín er fyrsta frumefnið sem uppgötvaðist með litrófsgreiningu 1860 þar sem það þekktist af tveimur björtum bláum línum. Einkenni. Sesín er silfrað-gylltur, mjúkur og sveigjanlegur málmur sem hefur lægsta jónunarorku allra frumefna. Það er sjaldgæfast ógeislavirku alkalímálmanna fimm (fransín er sjaldgæfasti alkalímálmurinn en það hefur engar stöðugar samsætur). Sesín, gallín, fransín, rúbidín og kvikasilfur eru einu málmarnir sem eru í vökvaformi við stofuhita. Sesínhýdroxíð (CsOH) er mjög sterkur basi sem ætir gler auðveldlega. Þegar sesín hvarfast við kalt vatn verður sprenging. Það hvarfast líka við ís yfir -116 °C. Sesín á sér 39 þekktar samsætur með atómmassa frá 112 til 151. Einungis ein af þessum samsætum, 133Cs, er stöðug í náttúrunni. Flestar hinar samsæturnar hafa helmingunartíma frá nokkrum dögum að nokkrum sekúndum. Samsætan 137Cs verður til við geislun í kjarnorkusprengingum og í kjarnorkuverum. Frá 1945 hefur nokkuð magn 137Cs farið út í andrúmsloftið, mest í Tsjernóbylslysinu 1986. Þaðan fellur það til jarðar sem geislavirkt ofanfall en helmingunartími þess er 30,17 ár. Notkun. Helsta notkun sesíns er í borvökva í olíuiðnaðinum vegna þess hve það er þétt, en jafnframt lítið geislavirkt. Sesín er líka notað í atómklukkur sem halda nákvæmni sinni í þúsundir ára. Frá 1967 hefur grunneining tíma í alþjóðlega einingakerfinu byggt á eiginleikum sesíns. Fransín. Fransín er frumefni með efnatáknið Fr og er númer 87 í lotukerfinu. Þetta er mjög geislavirkur alkalímálmur sem að finnst í úran- og þóríngrýti. Saga og almenn einkenni. Þetta frumefni, sem nefnt er eftir Frakklandi, var uppötvað árið 1939 af Marguerite Perey frá Curie stofnuninni í París. Fransín er þyngsti alkalímálmurinn og verður til við alfahrörnun aktiníðs. Einnig er hægt að framleiða það með því að láta róteindir dynja á þóríum. Þó að það verði til í náttúrunni í úrangrýti, er áætlað að það séu eingöngu til um 30 grömm af fransíni í jarðskorpunni. Það er óstöðugast af fyrstu 101 frumefnunum og hefur hæstu jafngildu þyngd allra frumefna. Það eru þekktar 41 samsæta af fransíni. Sú langlífasta, 223Fr, er dóttursamsæta 227Ac, hefur helmingunartíma upp á 22 mínútur og er eina samsæta fransíns sem að finnst í náttúrunni. Allar samsætur fransíns eru gríðarlega óstöðugar og þess vegna hafa eiginleikar þess eingöngu verið mældir með geislaefnafræðilegum hætti. Örfáar myndir hafa verið teknar af fransíni en aðeins af mestmegnis 200.000 atómum í hvert sinn. Myndirnar voru teknar með því að fanga atómin og nota sérstaka flúrljómunarmyndavél. Kalsín. Kalsín eða kalsíum (úr latínu: "calcis", „kalk“) er frumefni með efnatáknið Ca og er númer 20 í lotukerfinu. Kalsín er mjúkur grár jarðalkalímálmur sem að er notaður sem afoxari í útdrætti á þóríni, sirkoni og úrani. Þetta er einnig fimmta algengasta frumefnið í skorpu jarðar. Það er líka fimmta algengasta uppleysta jónin í sjó á eftir natríni, klóríði, magnesíni og súlfati. Vegna þess hversu hvarfgjarnt kalsín er finnst það ekki hreint í náttúrunni. Það er algengast í steinefnum eins og kalsíti, dólómíti og gifsi. Kalk sem er eitt form kalksteins er aðallega myndað úr kalsíti. Kalsín er nauðsynlegt lífverum þá sérstaklega í lífeðlisfræði fruma. Kalsín er uppistaðan í beinum og er því algengasti málmurinn í mörgum dýrum. Einkenni. Kalsín er hvarfgjarn, silfurlitaður málmur sem oxast auðveldlega í snertingu við loft og myndar þá gráhvíta oxíð- og nítríðhúð. Það er mjúkur málmur, en þó ekki eins mjúkt og t.d. blý. Einar Már Guðmundsson. Einar Már Guðmundsson (fæddur 18. september 1954 í Reykjavík) er íslenskur rithöfundur og skáld. Árið 1995 hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Englar alheimsins. Árið 2012 hlaut hann Norræn bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir framlag sitt til bókmennta. Ferill. Einar Már stundaði nám í Menntaskólanum við Tjörnina og lauk stúdentsprófi þaðan 1975. Hann nam síðan bókmenntir og sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk B.A.-prófi 1979. Hann stundaði framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla en hann bjó í Kaupmannahöfn í sex ár. Fyrstu bækur hans voru ljóðabækurnar "Sendisveinninn er einmana" og "Er nokkur í Kórónafötum hér inni?" árið 1980, en hann er þó þekktari sem skáldsagnarhöfundur. Handritið að fyrstu skáldsaga hans, "Riddarar hringstigans," hlaut fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni sem Almenna bókafélagið efndi til árið 1982 í tilefni 25 ára afmælis síns og var bókin gefin út sama ár. Þekktasta bók hans er skáldsagan "Englar alheimsins", sem komið hefur út á ýmsum tungumálum. Kvikmynd gerð eftir sögunni var frumsýnd árið 2000 og skrifaði Einar handritið að henni. Hann skrifaði einnig ásamt Friðrik Þór Friðrikssyni handrit að myndunum "Börn náttúrunnar" og "Bíódagar". Einar Már var áberandi í umræðunni í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og í búsáhaldabyltingunni, skrifaði fjölda greina í blöð og hélt ræður á útifundum. Tvær síðustu bækur hans, "Hvíta bókin" og "Bankastræti núll", tengjast þessu og þar er fjallað mjög um þjóðfélagsmál, útrás og ýmsar brotalamir í samfélaginu. Þýðingar. Bækur hans hafa verið þýddar á norsku, færeysku, grænlensku, sænsku, dönsku, finnsku, þýsku, ensku, ítölsku, spænsku, búlgörsku, eistnesku, galísku, hollensku, slóvensku og kóresku. Einar Már Guðmundsson hefur þýtt bækur eftir Ian McEwan á íslensku. Tengt efni. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs frá Íslandi Strontín. Strontín eða strontíum (nefnt eftir skoska þorpinu Strontian) er frumefni með efnatáknið Sr og er númer 38 í lotukerfinu. Strontín er mjúkur, silfurhvítur eða gulleitur jarðalkalímálmur sem er mjög hvarfgjarn. Þessi málmur gulnar við oxun og finnst helst í formi strontínsúlfíðs (selestíni) og strontínkarbónats (strontíaníti). 90Sr-ísótópurinn er til staðar í geislavirku ofanfalli og hefur um 28 ára helmingunartíma. Fínn strontínsalli brennur af sjálfu sér með snertingu við loft við stofuhita. Strontín er 15. algengasta efni jarðskorpunnar. Breski efnafræðingurinn Adair Crawford tók fyrstur eftir því í málmgrýti úr blýnámum í skosku hálöndunum, nálægt þorpinu Strontian. Thomas Charles Hope gaf efninu nafn sitt eftir þorpinu. Eiginleikar. Strontín er mjög hvarfgjarn málmur sem hvarfast við snertingu við loft og vatn og finnst þess vegna einungis í efnasamböndum. Strontín er mýkra en kalsín og jafnvel enn hvarfgjarnara í vatni, en við þau efnahvörf verður til strontínhýdroxíð og vetni. Við bruna í lofti myndar það bæði strontínnítríð og strontínoxíð. Hreint strontín er geymt í steinolíu til að koma í veg fyrir oxun. Rokgjörn strontínsölt brenna með rauðum loga og eru notuð við gerð blysa og í leifturljós. Notkun. Strontín er aðallega notað í gler fyrir litasjónvörp til að koma í veg fyrir röntgengeislun frá bakskautslampanum. Mannslíkaminn tekur strontín upp eins og kalsín og fellir það inn í beinabygginguna. Vegna þessara eiginleika eru geislavirkir ísótópar strontíns meðal annars notað í geislameðferð við beinkrabbameini. Barín. Barín eða baríum (úr grísku: βαρύς, „þungur“) er frumefni með efnatáknið Ba og er númer 56 í lotukerfinu. Það er mjúkt, silfrað málmkennt frumefni. Barín er jarðalkalímálmur og bráðnar við mjög hátt hitastig. Það finnst aðallega í steindinni baríti og sem baríumkarbónat en aldrei hreint í náttúrunni vegna þess hve það hvarfast hratt við súrefni og vatn. Efnasambönd þessa málms eru notuð í litlum mæli í málningu og við glersmíði. Barínsambönd brenna með grænum loga og eru notuð í flugelda. Barín er notað vegna eðlisþyngdar sinnar í olíubrunnum. Það er stundum notað sem skuggaefni vegna þess að það stöðvar röntgengeisla. Eiginleikar. Barín er mjúkur og sveigjanlegur málmur. Einföld barínsambönd eru þekkt fyrir mikla eðlisþyngd. Það hvarfast hratt við loft sem er útvermið efnahvarf. Það hvarfast líka hratt við veika sýru, alkohól og vatn. Við hátt hitastig hvarfast barín líka við klór, nitur og vetni. Barín nemur oxíð, klóríð og súlfíð úr minna hvarfgjörnum málmum. Listi yfir þekktar tilraunir. Eftirfarandi er listi yfir þekktar tilraunir og aðrar sögufrægar rannsóknir. "Hér á mikið eftir að þýða, svo endilega hjálpaðu til!" Hagfræði og stjórnmálafræði. Tilraunir Sólmiðjukenningin. Sólmiðjukenningin er í stjörnufræði sú kenning, sem og stjarnfræðilegt líkan, þar sem sólin er miðja alheimsins og/eða sólkerfisins. Sögulega hefur þessi kenning staðið mót jarðmiðjukenningunni, sem heldur því fram að Jörðin sé miðja alheimsins. Kópernikus var fyrstur til að halda fram sólmiðjukenningunni á nýöld en hún var fyrst sett fram af forngríska stjörnufræðingnum Aristarkosi frá Samos á 3. öld f.Kr. Á 16. öld kom Nikulás Kópernikus með stærfræðilíkan af sólkerfinu sem sýndi að jörðin væri miðja þess. Á næstu öldum var líkanið þróað af Johannes Kepler og seinna kom Galíleó Galílei með stuðning við kenninguna frá athugunum hans frá stjörnukíki sem hann sjálfur fann upp. 1920 var síðan sýnt fram á að sólin er ekki miðja alheimsins, heldur hluti af vetrarbraut sem er ein af biljónum í alheiminum. Þetta sýndi meðal annars Edwin Hubble sem þróaði Hubble-geimsjónaukan. Saga kenningarinnar. Staða jarðarinnar og sólarinnar hefur lengi verið deilt um. Með því að horfa upp í himininn, og horfa í kringum sig, virðist sem jörðin standi í stað og því er ekki skrýtið að forfeður okkar hafi talið að það væri sólin sem fer í kringum jörðina en ekki öfugt. Deilt hefur verið um sólmiðjukenninguna löngu fyrir Kópernikus og enn er fólk sem trúir því enn að jörðin sé miðja alheimsins þrátt fyrir vísindalegar athuganir. Forngrikkir. Hinn allra fyrsti til að setja fram sólmiðjukenninguna var Aristarkos frá Samos, forngrískur stjörnufræðingur. Aristarkos reiknaði stærð jarðarinnar og reiknaði einnig stærð og fjarlægð tunglsins og sólarinnar. Aristarkos gerði ráð fyrir að jörðin snerist um möndul sinn og einnig á sporbaug í kringum sólina. Kenningin hlaut ekki vinsælda meðal Grikkja. Grikkir áttu ekki sjónauka og var því erfitt að sanna kenninguna, en einnig var kenningin talin guðlast. Ríkjandi viðhorf Grikkja var markhyggja og passaði þessi kenning Aristarkos því ekki við það viðhorf. Upprunalegi texti Aristarkos um kenninguna hefur ekki fundist en til eru upplýsingar um hann í skrifum samtímanna hans eins og Arkímedesar. Kópernikus. Á 16. öld lagði Nikulás Kópernikus fram öfluga umræðu um sólmiðjukenninguna. Kópernikus tók fram heimspekilegu flækjurnar við kenningu sína en lagði fram ítarlegar upplýsingar um stjarnfræðilegar athuganir hans og setti upp töflur sem sýndi fram á stöður stjarna og plánetna í fortíðinni og framtíðinni. Með þessu náði Kópernikus að heimfæra sólmiðjukenninguna úr heimspekilegum vangaveltum yfir í útreiknanlega stjörnufræði, þrátt fyrir að spár hans um framtíðarstöður plánetanna voru ekki alveg réttar. Kópernikus vitnaði í verk Aristarkosar í "De Revolutionibus", sem hann gaf út árið 1506 og kláraði 1540. Hann gerði sér því grein fyrir að hann væri ekki sá fyrsti með þessa kenningu. Kópernikus setti fram kenningu sína í sátt við kirkjuna á þeim tíma og tileinkaði bók sína til Páli III páfa. Nokkrum árum eftir að bókin var gefin út predikaði Jón Kalvín að sólin færði sig ekki, heldur væri það jörðin sem færi í kringum sólina. Jarðmiðjukenningin. Jarðmiðjukenningin er í stjörnufræði sú kenning að jörðin sé miðja alheimsins og að sólin, tunglið og fastastjörnur snúist umhverfis hana. RFC 2550. RFC 2550 („Y10K and Beyond“) er RFC aprílgabb gefið út 1. apríl 1999 þar sem 10.000 vandamálið og mögulegar lausnir á því eru ræddar. RFC aprílgabb. RFC aprílgöbb eru gefin út á hverju ári af Internet Engineering Task Force síðan 1989 en það fyrsta kom út 1973. IP-samskiptareglur. IP-samskiptareglur eða IP ("Internet P'"rotocol" sem merkir „Netsamskiptareglur“) er grunnstaðall yfir samskipti á 3. lagi OSI lagakerfisins. Í hnotskurn. IP byggist á því að öll tengd tæki séu hluti af fyrirfram skilgreindu neti, sem er tengt beint saman (tæki þarf aldrei að tala í gegnum annað net til að tala við tæki á sama neti og það sjálft). Hvert tæki hefur svokallað vistfang (eða IP-tölu) sem einkennir það tæki á neti. Saga IP. Saga IP er ákaflega samþýtt sögu stærsta IP nets í heimi; Internetsins. IP var upphaflega hannað sem útfærsla á hugmyndum um svokölluð jafningjanet. Jafningjanet voru hönnuð sem bilanaþolin lausn fyrir netkerfi tölva, þar sem hvert og eitt tæki á netinu er hluti af netinu, ekki "jaðartæki". Það er því engin skilgreind miðja í kerfinu, aðeins IP net sem tengjast saman og mynda eitt stórt net. Ef eitt eða fleiri net detta út skiptir það ekki miklu máli fyrir virkni hinna netanna, nema að því leytinu til að ekkert samband er við netin sem duttu út, né net "hinum megin" við þau. T.d. ef net A er tengt í net B, sem síðan tengist neti C, er ekkert samband milli A og C ef B dettur út. Það voru sérfræðingar á vegum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sem hönnuðu staðalinn. IP-staðallinn var hugsaður þannig að hann ætti að mynda tölvunet sem þyldi kjarnorkustyrjöld. Internetið var í fyrstu hernaðarnet, en þróaðist síðan út í að vera samskiptatæki fyrir háskóla. Á Íslandi. Árið 1986 kom ungur íslendingur að nafni Maríus Ólafsson, MSc., frá námi í Kanada. En þar hafði hann lagt stund á mastersnám í tölvunarfræði, en hann var þá þegar útskrifaður stærðfræðingur frá Háskóla Íslands. Í Kanada kynntist Maríus IP netum og kom með hugmyndina til Íslands. Í upphafi taldi fólk hugmyndina fáránlega, en árið eftir, 1987, var í samstarfi Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnunar komið á línu til útlanda, sem tengdist Interneti. Samtök um rannsóknarnet á Íslandi, SURÍS, voru stofnuð og hafist var handa um að tengja háskóla og rannsóknarstofnanir á Íslandi við þessa nýjung. Á sama tíma mynduðust samtök slíkra neta á norðurlöndum, NORDUnet.. SURÍS stofnaði netið ISnet, sem seinna var sameinað NORDUnet. Í hinum norðurlöndunum byggðust upp öflug háskóla- og rannsóknarnet fyrir opinbert fé, enda urðu kostir þeirra fljótt ljósir. Á Íslandi varð þetta því miður ekki raunin, og varð því SURÍS að afla sér tekna með sölu á Internettengingum til fyrirtækja í einkarekstri. Árið 1995 hætti Háskóli Íslands að rekstri ISnet og sérfyrirtæki, Internet á Íslandi hf., INTÍS tók við rekstrinum, ásamt úthlutunum léna undir .is-þjóðarléninu. Netið var síðan selt fjarskiptafyrirtækinu Íslandssíma, nú Vodafone, árið 1999. Uppbygging IP neta og talna. IP tala er 32 bita (4 x 8 bita) tala á tvíundarkerfi sem samanstendur af tveimur hlutum; nethluta og tækishluta. Fyrri hlutinn tilgreinir á hvaða neti tækið er, seinni hlutinn einkennir tækið á því neti. Tölurnar eru yfirleitt skrifaðar og sagðar í daglegu máli á tugakerfi. Gefum okkur IP töluna 130.208.77.254. Í tvíundarkerfinu útleggst það síðan sem 10000010 11010000 01001101 11111110. Í þessari tvíundartölurunu felst bæði netnúmer og númer tækisins á því neti. En hvar liggja skilin? Hér komum við inn á eitt af helstu atriðunum sem hafa haldið IP á lífi sem mest notaða samskiptamáta milli tækja sem komið hefur fram. Nefnilega sveigjanleikinn. Mörkin milli netnúmers og tækisnúmers geta nefnilega legið hvar sem er á þessum 32 bitum. Skiptingin ræðst aðeins og eingöngu af því hversu stórt net rekstraraðilinn telur sig þurfa undir tækin sem eiga að vera á umræddu neti. Gefum okkur nú að við teljum okkur þurfa að taka frá öftustu 8 bitana sem tækjanúmer (sem gefur okkur möguleika á 256 tækjanúmerum á umræddu neti.) Niðurstaða þessi er fengin með því að gefa sér að bitarnir 8 sem við gáfum okkur sem tækisnúmer geti allir verið annað hvort 0 eða 1. Hér höfum við því klassíska röðun, átta mismunandi bitar sem allir geta tekið gildin 0 eða 1. Möguleg gildi eru því formula_1. Rétt er að tala fram að 0 er líka tala. Ef tækjanúmerin eru sett fram í tugakerfi geta þau því verið í menginu]0-255[(ath. opið mengi, bæði 0 og 255 eru inni í menginu). Á hverju neti er ein tala tekin frá til þess að einkenna netið (lægsta talan) og önnur fyrir útvarp (e. "broadcast") til allra tækja á netinu (efsta talan). Nothæfar tölur á netinu eru því formula_2, eða mengið]1-254[. Stöldrum nú aðeins við. Nú höfum við tæki, einkennt með tölunni 10000010 11010000 01001101 11111110. Við höfum ákveðið að tækjanúmershlutinn af tölunni skuli vera 8 bitar. Við höfum því 24 bita eftir fyrir netnúmershlutann. Þar sem netnúmershlutinn er alltaf fyrsti hluti tölunnar getum við því gefið okkur að netnúmerið sé 10000010 11010000 01001101 (fyrstu 24 bitar tölunnar). Allar IP tölur sem byrja á þessum 24 bitum eru því hluti af þessu neti. Snúum þessu nú yfir á tugakerfi. Talan 10000010 11010000 01001101 snýst yfir á 130 208 77, sem er yfirleitt skrifað 130.208.77 í þessum fræðum. Þar sem IP tölur (bæði neta og tækja) eru 4 x 8 bitar fyllum við út með núllbitum og fáum út 130.208.77.0. Til þess að glöggva okkur enn betur á þessu skulum við finna útvarpstölu netsins. Hún er, eins og áður sagði, ætíð hæsta talan í netinu. Netnúmerið er 10000010 11010000 01001101 00000000, sem er lægsta talan í netinu (fyrstu 24 bitarnir eru netið, við látum einfaldlega alla 8 tækjanúmersbitana vera 0 og fáum þannig lægsta númerið), það er því netnúmer. Á sama hátt látum við alla bitana vera 1 til að fá hæsta númerið. Það er því 10000010 11010000 01001101 11111111, eða (þar sem 11111111 í tvíundarkerfi er 255 í tugakerfi), 130.208.77.255. Við höfum því töluna 130.208.77.254 á netinu 130.208.77.0 með útvarpstöluna 130.208.77.255. IPv6. Sá IP staðall sem hefur mest verið notaður frá upphafi internetsins hefur útgáfunúmerið 4 (IPv4). Síðan frá upphafi 10. áratugarins fóru menn að hafa áhyggjur af þeim takmörkunum sem IPv4 hafði og byrjuðu því að leggja drög að nýjum staðli, IPv6. Meginumbótin með þeim staðli er að IP-tölum er fjölgað umtalsvert. Radín. Radín er frumefni með skammstöfunina Ra og er númer 88 í lotukerfinu. Það er næstum algerlega hvítt í útliti, en sortnar við snertingu við loft vegna oxunar. Radín er jarðalkalímálmur, sem finnst í örlitlum mæli í úrangrýti. Það er gríðarlega geislavirkt. Stöðugasta samsæta þess, Ra-226, hefur 1602 ára helmingunartíma og hrörnar í radongas. Þróunarsálfræði. Þróunarsálfræði snýst um að útskýra hugræna eiginleika og hæfileika með því að líta á þá sem afleiðingu aðlögunar, aðlögunar sem hægt er að útskýra út frá kenningum um náttúruval. Hliðastæðar aðferðir eru notaðar til að útskýra virkni ónæmiskerfisins og hjartans, sem dæmi. Þróunarsálfræði styður kenningu sem kallast á ensku "massive modularity hypothesis", en í henni er því haldið fram að mannsheilinn hafi marga samverkandi hluta sem vinna saman og að þessir hlutar hafi þróast með náttúruvali. Dæmi um þetta er sjón, heyrn, og minni, en lítt er deilt um að þessir eiginleikar hafi þróast með náttúruvali. Hins vegar er mun meira deilt um t.d. tungumálanám og makaval. Þróunarsálfræði á rætur sínar að rekja til hugrænnar sálfræði og þróunarlegrar líffræði, en þróunarsálfræði byggir einnig mikið á dýrafræði, gervigreindarfræðum, hátternisfræði og fleiri greinum. Heilsusálfræði. Heilsusálfræði er nýlegt fag, náskylt klínískri sálfræði, og er runnið undan rifjum hennar. Heilsusálfræði aflar og nýtir sér sálfræðilega þekkingu til að sinna viðfangsefnum sínum, en þau eru helst að stuðla að góðri heilsu og koma í veg fyrir sjúkdóma, jafna stöðu fólks í heilsufarslegu tilliti, finna út hverjir eru í mestri hættu að fá sjúkdóma og af hverju, finna út hvers konar hegun og reynsla leiðir til góðrar eða slæmrar heilsu, fræða almenning og heilbrigðisstarfsfólk og stuðla þannig að betri heilsu og koma í veg fyrir sjúkdóma, kanna hvernig sjúkdómar hafa áhrif á einstaklinga, og hjálpa veikum og dauðvona að lifa betra lífi. Rannsóknir í heilsusálfræði eru gerðar með spurningalistum, viðtölum, tilraunum og aðgerðum sem ætlað er að ná fram breytingum (e. action research). Innan heilsusálfræði eru bæði nýttar formlegar og óformlegar leiðir til að ná fram þeim breytingum (á hegðun fólks, kerfum ofl.) sem sóst er eftir hverju sinni. Heilsusálfræðilegar spurningar eru til dæmis: „Hvernig er hægt að fá þá sem hreyfa sig of lítið til að hreyfa sig meira?“, „Hvernig er hægt að hjálpa sjúklingum með alnæmi að lifa betra lífi?“ og „Hvaða áhrif á geðheilsu og á líf fólks hefur barátta við krabbamein?“. Réttarsálfræði. Réttarsálfræði snýst um hagnýtingu sálfræði innan réttarkerfisins í tengslum við ýmis afbrotamál og réttarhöld yfir meintum afbrotamönnum. Meðal þekktra íslenskra réttarsálfræðinga er Gísli H. Guðjónsson. Gagnhyggja. Gagnhyggja (gagnsemishyggja, notahyggja, pragmatismi og hentistefna ("hentistefna" er einnig samheiti lýðhyggju), stundum kölluð verkhyggja og í eldra máli athafnaheimspeki) er heimspekikenning um sannleikann sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna á fyrri hluta 19. aldar. Hún fjallar í stuttu máli um að; "það sem gengur upp er satt". Mikilvægir þættir kenningarinnar eru þrásækni afleiðinga, gagnsemi og hagkvæmni sannleikans. Gagnhyggjan afneitar því að hugmyndir og vitsmunir gefi nákvæma mynd af raunveruleikanum og því andstæð kenningum formhyggju og skynsemishyggju. Staðfesti tilraun tilgátu, þá er hún rétt ef allt gengur upp, gagnhyggjumenn nota þó mismunandi aðferðir við tilraunir á tilgátum. Amtsbókasafnið á Akureyri. thumb Amtbókasafnið er almennings bókasafn á Akureyri. Það er elsta stofnun Akureyrarbæjar. Í kjallara nýbyggingarinnar eru um 7 kílómetrar af hilluplássi. Á efri hæðum bókasafnsins eru bækur til útláns, lestrarsalur og skrifstofur. Að auki er rekið lítið mötuneyti í nýbyggingunni. Þar sem Amtsbókasafnið stendur núna stóð áður Brekkugata 19. Amtsbókasafnið á Akureyri er nær 200 ára gömul stofnun. Eftir að hafa verið á húsnæðishrakningi í 140 ár fékk safnið loks viðunandi húsnæði við Brekkugötu 17 sem síðan hefur stækkað og er allt hið glæsilegasta. Segja má að saga safnsins hefjist árið 1791 þegar Stefán Þórarinsson amtmaður stofnaði Hið norðlenska lestrarfélag. Það félag lagðist af en Grímur Jónsson, amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal, tók við keflinu og stofnaði Eyfirska lesfélagið árið 1825. Tveimur árum síðar, árið 1827, var Amtsbókasafnið formlega stofnað. Helsti bókakostur safnsins voru bækur úr Hinu norðlenska lestrarfélagi og bókagjafir sem margar hverjar komu frá Danmörku. Fyrsti amtsbókavörðurinn vann kauplaust og skaut jafnframt skjólshúsi yfir safnið. Þetta var Andreas Mohr sem bjó í Hafnarstræti 11, húsi sem nú er jafnan kallað Laxdalshús. Það er elsta hús Akureyrar. Eftir að Mohr hætti sem amtsbókavörður var safnið á hrakhólum. Ekki rættist úr fyrr en 1849. Næsti viðkomustaður safnsins var Aðalstræti 40 þar sem safnið var í tíu ár. Það var um tíma einnig í Aðalstræti 46 og var loks flutt í nýtt þing- og varðhaldshúsi Akureyrarkaupstaðar í Búðargili árið 1875. Húsið var neðst í gilinu en það stendur ekki lengur. Friðbjörn Steinsson varð bókavörður. Lengi vel voru notendur fáir, aðeins um 20 til 30 fastagestir komu reglulega á safnið. Árgjald til lántöku bóka voru tvær krónur, sem námu um dagslaunum verkamanns á þeim tíma. Bókakosturinn var ekki við allra hæfi, sér í lagi ekki almennings en fæstar bókanna voru á íslensku. Mest var um bækur á dönsku en einnig voru bækur á þýsku, grísku og latínu. Árið 1894 var ákveðið að lána bækur endurgjaldslaust og við það jókst lestur mikið. Árgjaldið hafði fælt almenning frá mun meira en gert var ráð fyrir. Allar götur síðan þá hefur verið endurgjaldslaust fyrir bæjarbúa að fá lánaðar bækur. Kaflaskil urðu í sögu safnsins þegar Akureyrarkaupstaður eignaðist það árið 1905. Kaupstaðurinn eignaðist safnið með því skilyrði að byggt yrði utan um það eldtraust geymsluhús auk lestrarstofu en mörg ár liðu þar til það varð að veruleika. Safnið var um þetta leiti í Samkomuhús bæjarins. Þar var þó opnuð lesstofa í fyrsta sinn í sögu safnsins. Samkvæmt gestabókum voru námsmenn tíðir gestir á safninu sem og kennarar. Nokkrir gegndu stöðu amtsbókavarðar. Þekktastur er Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi, sem hóf þar störf árið 1925 og gegndi hann embættinu í 27 ár. Árið 1930 var safnið flutt Í Hafnarstræti 53, gamla barnaskólann á Akureyri. Davíð bjó einnig í húsinu á þeim tíma. Þá var fólki farið að leiðast flutningar safnsins fram og til baka og árið 1933 vakti Matthíasarnefnd Stúdentafélags Menntaskólans athygli á því að 100 ára afmæli Matthíasar Jochumsonar þjóðskálds nálgaðist og tilvalið væri að byggja hús undir safnið af því tilefni. Sigurður Guðmundsson skólameistari og Steindór Steindórsson kennari sátu fund með byggingarnefnd Akureyrarbæjar og báru upp erindið. Samþykkt var að hefja undirbúning að byggingu safnahúss sem átti að bera nafnið Matthíasarbókhlaða. Auk þess sem húsið átti að vera bókhlaða bæjarins var einnig gert ráð fyrir að í framtíðinni yrði þar náttúrusafn og listasafn. Efnt var til samkeppni um teikningu að húsinu og hlutu tveir ungir arkitektar 1. verðlaun, þeir Bárður Ísleifsson og Gunnlaugur Halldórsson. Ákveðið var að húsið skyldi standa við Brekkugötu en einnig kom til greina að fá lóð á milli Hafnarstrætis og Bjarmastígs skammt frá ráðhústorginu. Þegar hófst fjársöfnun fyrir byggingunni. Húsið átti að kosta 110 þúsund krónur en þar sem 10 til 15 þúsund krónur vantaði upp á þótti ekki ráðlegt að taka lán og ráðast strax í framkvæmdirnar. Þess í stað var fjárfest í húsi við Hafnarstræti 81 þar sem bókasafnið var í 20 ár, uppi á 2. hæð. Það hús stendur við Sigurhæðir Matthíasar Jochumsonar. Eftir að Árni Jónsson tók við sem safnvörður árið 1960 jukust vinsældir safnsins. Árni stóð fyrir breytingum, meðal annars jók hann aðgengi með því að setja bækur í opnar hillur þannig að fólk gat tekið sér nægan tíma í að velja sér bækur í stað þess að fá þær afhendar yfir afgreiðsluborðið. Árni lengdi einnig opnunartíma safnsins til muna, það hafði aðeins verið opið einn til þrjá daga í viku en Árni opnaði safnið alla virka daga, fyrst um sinn frá 14 til 19. Enn jókst aðsóknin, hún tvöfaldaðist fljótlega og rúmlega það. Tveimur árum áður en Árni tók við, hafði Bæjarstjórn Akureyrar samþykkt að byggja loks hús fyrir safnið í tilefni 100 ára afmælis Akureyrarbæjar árið 1962. Leitað var til arkitektanna sem unnu samkeppnina 1935 og lögðu þeir fram alveg nýja og nútímalega hugmynd að bókhlöðu sem jafnframt var mun stærri en gamla tillagan. Það var 29. júní árið 1963 að nýja tillagan var samþykkt eftir bollaleggingar fram og til baka á fundum byggingarnefndarinnar. Flestir voru ánægðir með breytinguna sem gerð var á húsinu frá teikningunum árið 1933. Þó ekki Davíð Stefánsson. Hann lét bóka í fundargerð sem sést hér að “eins og nefndarmenn vita hef ég alltaf verið því andvígur að flatt þak sé haft á bókhlöðunni og svo er einnig um meginhluta bókasafnsnefndar og flestalla bæjarmenn sem ég hef talað við um mál þetta.” Davíð sagði einnig: “Ég vil að það sé ljóst öllum aðilum að öll þessi ár sem ég hef beitt mér fyrir smíði nýrrar bókhlöðu, hef ég vænst þess, fyrir hönd bæjarbúa, að hér rísi listræn og fögur bygging, en ekki hús í hversdagslegum kassastíl.” Davíð var sannspár hvað þakið varðaði. Það hefur oft valdið vandræðum en flestir eru sammála um að húsið sé fallegt. Hið nýja húsnæði var vígt þann 9. nóvember árið 1968 við hátíðlega athöfn. Bjarni Einarsson bæjarstjóri tók á móti byggingunni fyrir hönd Akureyrarbæjar með stuttri ræðu. Eftir það voru meðal annars flutt ávörp og bæjarbúum var boðið að skoða húsið sem Morgunblaðið kallaði veglegasta, vandaðasta og glæsilegasta hús sinnar tegundar á Íslandi. Safnið var gríðarleg búbót fyrir Akureyrarbæ og naut strax mikilla vinsælda. Lánþegum fjölgaði og safnkosturinn margfaldaðist. Nokkrum áratugum síðar hafði starfsemin enn sprengt utan af sér húsnæðið. Amtsbókasafnið er annað af tveimur skylduskilabókasöfnum á Íslandi sem þýðir að það á að minnsta kosti eitt eintak af öllum bókum sem prentaðar eru á Íslandi fara til safnsins. Þetta er gríðarlega mikið magn á hverju ári og því er safnkosturinn fljótur að stækka. Þrengslin í bókhlöðinni voru yfirþyrmandi og safnið varð að taka á leigu húsnæði í bænum til að geyma bækur og blöð sem minna voru notuð. Auk þess stækkaði skjalasafnið óðum. Árið 1987 var ákveðið að byggja við safnið og efnt var til samkeppni um viðbygginguna. Alls bárust 25 tillögur en Guðmundur Jónsson arkitekt hlaut heiðurinn. Í úrskurði dómnefndar segir að hann hljóti 1. verðlaun fyrir frábæra byggingarlist. Tillaga hans hafi verið snilldarleg aðlögum að núverandi húsi í hlutföllum, meðferð einstakra flata og efnisvali. Markmið höfundar, að túlka á stílfærðan hátt meginhugsun að baki núverandi húsi, skili sér á sanfærandi hátt í nýbyggingunni. Glæsileiki einkenni útlit byggingarinnar í fullu samræmi við núverandi hús. Dómnefndin var sammála í öllum atriðum um hvaða tillaga var best en hana skipuðu Gunnar Ragnars, forseti bæjarstjórnar, Sigríður Stefánsdóttir bæjarfulltrúi, Ágúst Berg, húsameistari Akureyrarbæjar og þeir Björn Halldórsson og Ormar Þór Guðmundsson frá Arkitektafélagi Íslands. Akureyrarbær sá fyrir sér að Amtsbókasafnið ætti að verða nokkurskonar menningarsetur bæjarins þegar ákveðið var að byggja við safnið. Gert var ráð fyrir fjölnýtisal í húsinu þar sem átti að vera svið fyrir litlar leiksýningar og tónleika. Einnig átti að vera myndlistarsalur í húsinu. Eftir nokkurra ára hönnunarvinnu eftir upphaflegu tillögunni var niðurstaða Akureyarbæjar að endurskoða verkefnið. Niðurstaðan var að Guðmundur hannaði húsið aftur út frá vinningstillögu sinni. Í úrskurði dómnefndar segir meðal annars að tillaga Guðmundar sameini “núverandi hús og nýbyggingu í listræna heild án þess að núverandi hús glati nokkru af sérkennum sínum.“ Enn leið langur tími þar til framkvæmdir hófust en það var árið 2001. Viðbyggingin var svo tekin í notkun í byrjun mars árið 2004. Í ræðu sinni við vígslu viðbyggingar Amtsbókasafnsins sagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri meðal annars að Amtsbókasafnið gegni lykilhlutverki í fjölgun bæjarbúa, því menntun, menning og þjónustuþættir sveitarfélaga ráði miklu um það hvar fólk vill búa. Bókasöfn hafi gjarnan verið kölluð háskóli alþýðunnar en í nútímasamfélagi þjóni þau ekki síður hlutverki eins konar akbrautar út á upplýsingahraðbrautina og opna íbúum sveitarfélagsins greiða leið að nútímanum. Kristján kallaði Amtsbókasafnið einnig andans orkuver og sagði að það auki lífsgæðin, styrkti lýðræðið, efldi andann, bæti frítímann og er því í kraftmiklum samhljómi við kjörorð bæjarins – Akureyri, öll lífsins gæði. Frá því Amtsbókasafnið komst í viðunandi húsnæði árið 1968 hefur starfsemin vaxið og dafnað jafnt og þétt. Þar er nú góð aðstaða til tölvunotkunar og einnig veitingastaður. Þá hýsir safnahúsið Héraðsskjalasafn Akureyrar. Amtsbókasafnið, elsta stofnun Akureyrar, á traustan sess í bæjarlífinu og hafa vinsældir þess aukist meðal ungra sem aldinna ár hvert. Safnið fylgist vel með nýjungum og það breytist í takt við tíðarandann en það mun halda áfram að bjóða gesti sína velkomna eftir besta megni, eins og alltaf, um ókomin ár. Gagnkvæmni. Samkvæmt kenningunni um félagsleg skipti (social exchange theory) eru öll, eða nær öll, mannleg sambönd byggð á gagnkvæmni (reciprocity). Samböndum er viðhaldið á þann hátt að maður gefur bæði og þiggur. Gagnkvæmnisreglan (reciprocity principle) segir til um að ef fólki finnst einhver gerir eitthvað fyrir sig þá verði það að gera eitthvað á móti. Í venjulegum aðstæðum virkar gagnkvæmisreglan yfirleitt til góðs, því hún eykur samhjálp og tryggir sambönd. Hún getur samt einnig verið notuð annarra, ekki jafn góðra, verka. Tökum dæmi úr matvöruverslun. Oft er þar fólk sem býður þeim sem koma í búðina upp á smakk. Ef fólk þiggur smakkið á það afar erfitt með að labba bara í burtu án þess að kaupa neitt af sölumanninum. Þar sem sölumaðurinn gerði því greiða (gaf litla gjöf) finnst fólki það skuldbundið til að endurgjalda greiðann. Annað dæmi er um fólk í Hare Krishna samfélaginu, sem gefur fólki á opinberum stöðum gjöf, svo sem blóm. Ef fólk reynir að neita að skila blóminu til Krishna-fólksins neitar það að taka við því, en biður e.t.v. fólk um að gefa pening til Krishna-samfélagsins. Fólkið sem þáði gjöfina, jafnvel það sem ekki vildi hana, var líklegra til að gefa pening! Manni þarf því ekki að finnast mikið til greiðans koma til að finnast maður þurfa að endurgjalda hann. Ýmislegt annað hægt að nefna, svo sem jólakort frá hjálparstofnunum, Tupperware-kynningar þar sem maður fær litla gjöf, drykkur á bar fyrir kynlíf og margt fleira. Rannsóknir hafa sýnt að oft er endurgjaldið margfalt meira en upphaflegi greiðinn. Í einni rannsókn var vitorðsmaður rannsakandans látinn kaupa kók handa sumum þátttakendum en ekki öðrum. Allir sem fengu kók þáðu það (annað hefði undir þessum kringumstæðum verið talið dónalegt). Vitorðsmaður var því næst látinn segja þátttakanda að hann væri í sölukeppni um það hver gæti selt flesta happdrættismiða og spurði hvort þátttakandinn vildi kaupa af sér einn eða fleiri miða. Það var ekki nóg með það að þeir sem fengu kók keyptu fleiri happdrættismiða heldur skipti engu máli hvort þeim líkaði vel eða illa við vitorðsmanninn, nokkuð sem undir öðrum kringumstæðum getur skipt miklu, sem sýnir hvað gagnkvæmnisreglan er öflug. Að auki keyptu þeir miða fyrir að meðaltali fimmfalt andvirði kókflöskunnar sem þeim hafði verið gefin! Ef til vill eru óþægindin sem fylgja því að finnast maður vera skuldbundin einhverjum svo mikið að maður er einnig tilbúinn til að gera mikið til að losna við þau. Door-in-the-face. Til að gagnkvæmnisreglan virki þarf ekki endilega að gefa gjafir heldur geta greiðarnir verið af ýmsum toga. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólki finnst einhver bakka með kröfur sínar er það oft einnig til í að bakka með sínar eigin kröfur. Þetta tengist ákveðinni tækni sem kallast door-in-the-face. Hún virkar á þann hátt að sendandi fortöluboða biður viðtakanda þeirra fyrst um eitthvað mjög mikið sem hann er í raun viss um að viðtakandi hafni, en biður þá í staðinn viðtakanda minni bónar. Við það er viðtakandi líklegri til að samþykkja minni bónina heldur en ef sendandi hefði einungis beðið hennar, án stærri bónarinnar fyrst. Door-in-the-face aðferðina er hægt að skýra með vísun í gagnkvæmisregluna. Fólki finnst sendandi hafa bakkað með kröfur sínar með því að biðja nú um minni greiða. Því finnst fólki það vera skyldugt til að gera sendanda fortöluboðanna greiða á móti, með því að samþykkja minni bón hans. Það sem styður þessa skýringu á áhrifum door-in-the-face er að ef einn sendandi biður stærri bónarinnar en annar biður minni bónarinnar virkar tæknin ekki eins vel. Viðtakendum finnast þeir ef til vill ekki "skulda" seinni sendandanum greiða, þar sem hann gerði þeim ekki greiða með því að minnka kröfurnar. Annað sem passar við þessa skýringu er að því meiri munur sem er á stóra og litla greiðanum, það er því meira sem sendandinn virðist bakka með kröfur sínar, því líklegra er fólk til í að samþykkja minni bónina (því finnst það skulda meira). Upphaflegi greiðinn má þó ekki vera fáránlega stór, því þá finnst fólki frekar eins og verið sé að spila með sig. Eitt sem er áhugavert við door-in-the-face er að fólk sem lendir í því að samþykkja að gera sendanda fortöluboða minni greiðann í door-in-the-face er einnig líklegra til að vilja gera sams konar greiða aftur og til að standa við greiðann. Það er einnig í flestum tilfellum ánægðara með þann kost sem það valdi en fólk sem fellst á sama kost án þess að hafa verið boðinn verri kostur áður. Þetta gæti að hluta skýrst vegna perceptual contrast principle, þ.e.a.s. að manni finnist minni greiðinn vera enn minni ef maður miðar hann við stærri greiðann heldur en ef maður hefur ekkert til að miða við. Einnig gæti hluti skýringarinnar verið að fólki finnst í þessu tilfelli það hafa eitthvað haft að segja með útkomuna, að það hafi sjálft fengið flytjanda fortöluboðanna til að bakka og hafi því "unnið" að einhverju leyti. Low-balling. Low-balling er það þegar sendandi fortöluboða, yfirleitt sölumenn, bjóða fólki kostakvör á ákveðinni vöru. Þeir láta oft líta út fyrir að þetta lága verð sé sérstaklega gert fyrir viðtakanda fortöluboðanna ("special price, just for you"). Þegar viðtakandi fortöluboðanna hefur ákveðið að festa kaup á vörunni dregur sendandi boð sitt í land, og yfirleitt er látið líta út fyrir að þetta sé vegna einhverra utanaðkomandi aðstæðna (t.d. "yfirmaður minn bannaði mér að selja þetta svona ofsalega ódýrt"). Hugsanlegt er að gagnkvæmnisreglan geti að einhverju leyti skýrt af hverju low-balling virkar. Fólki gæti fundist sendandi vera að gera þeim greiða með því að lækka verðið sérstaklega fyrir það. Þegar utanaðkomandi aðstæður koma í veg fyrir að sendandinn geti í raun gert það sem þeir sögðust ætla að gera finnst fólki þeim samt skulda "vingjarnlega sölumanninnum" eitthvað, þetta var jú ekki honum að kenna, og kaupir vöruna. That's-not-all. That's-not-all aðferðin virkar á þann hátt að sendandi fortöluboða, yfirleitt sölumaður, býður viðtakanda einhverja vöru og nefnir verð. Áður en viðtakanda gefst tækifæri á að ákveða hvort hann vilji kaupa vöruna á því verði bætir sendandinn við að "þetta sé ekki allt" heldur fái sendandi eitthvað aukalega með fyrir sömu upphæð. Þetta eykur líkurnar á því að fólk kaupi vörurnar umfram það að sama verð væri kynnt en inni í því væri strax settur allur pakkinn, bæði það sem kynnt var í that's-not-all tækninni sem "standard" inni í verðinu og það sem var svo "aukalega". Sálfræðinemar halda kökubasar. Fólk spyr hvað kökurnar kosti og er tjáð að þær kosti 75 sent hver. Eftir stutt samtal á milli sálfræðinemanna "ákveða" þeir að innifalið í verðinu séu tvær litlar kexkökur (that's-not-all). Fólk keypti frekar kökur ef þetta var sett svona upp heldur en ef því var strax sagt að pakki með einni köku og tveimur kexum kostaði 75 sent. Gagnkvæmnisreglan gæti skýrt þetta. Með því að láta líta út fyrir að sendandi sé að gera viðtakanda greiða með því að láta hann fá meira fyrir peninginn en hann ætlaði fyrst að gera finnst viðtakandi hann þurfa að gera eitthvað í staðinn og kaupir því frekar vöruna. Gagnkvæmisreglan er greinilega mjög innprentuð í fólk. Með því að gera fólki greiða er hægt að láta það gera manni stærri greiða, jafnvel þótt því hafi ekkert til þess komið sem maður gerði fyrir það. Það er líklegra til að standa við greiðann, er tilbúnara með að gera manni greiða aftur og er ánægðara með að gera manni greiða en ef maður hefði ekki gert neitt fyrir það. Margt óprúttið fólk hefur því nýtt sér þetta til að græða á grunlausu fólki, og það getur verið erfitt að verja sig fyrir þeim. Það er til dæmis bæði óþægilegt að þiggja en gefa ekki eða neita að þiggja. En ekki má gleyma því að gagnkvæmnisreglan virkar líka í hina áttina, ef einhver gerir eitthvað á þinn kostnað má gera eitthvað á hans, eða auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Þegar sölumenn ætla næst að gefa eitthvað getur því verið ágætt að endurskilgreina stöðuna. Ef maður fattar að það er í raun ekki verið að gera eitthvað fyrir mann heldur er verið að reyna að notfæra sér mann, ætti maður bara að notfæra sér sölumennina, þiggja gjöfina frá þeim og henda þeim síðan öfugum út. Hobart. Hobart er höfuðborg ástralska eyfylkisins Tasmaníu. Hún stendur á bökkum ósa Derwentár á suðausturhluta eyjunnar. Í Hobart búa u.þ.b. 175 þúsund manns, en ef íbúar nágrannasveitarfélaganna eru reiknaðir með þá reiknast þeir vera nærri 205 þúsundum. Borgin var upphaflega stofnuð sem fanganýlenda árið 1803, en hún flutti síðar, eða árið 1804, þar sem borgin stendur núna og er þar með næstelsta borg Ástralíu. Vegna staðsetningar sinnar óx borgin mjög hratt í tengslum við siglingar til Suðurskautslandsins og vegna hvalveiða. Í Hobart eru ýmsar menntastofnanir, svo sem Tasmaníuháskóli, elsta spilavíti Ástralíu og einnig elsta leikhús landsins. Jörundur hundadagakonungur varði síðustu ævidögum sínum í Hobart og lést þar. Kawaii. Kawai'i (可愛い) er japanska og þýðir bókstaflega dásamlegt eða krúttlegt. Kawaii er oft notað yfir eitthvað sem að er ákaflega sætt og ósjálfbjarga og getur t.d. átt við um dýr og manneskjur og þá sérstaklega í yngri kantinum. Þó kawaii tákni eitthvað sem er "sætt" þýðir það ekki endilega að kynþokkafull manneskja falli undir skilgreininguna nema í einstaka undantekningartilfellum. Fólk gefur hvoru öðru "kawaii" gjafir sem tákn um vináttu og fyrirtæki nota "kawaii" teiknimyndapersónur til að gera vörur sínar og þjónustu meira aðlaðandi og til að gera ímynd sína frjálslegri. Kettlingar geta t.d. fallið undir þessa skilgreiningu og einnig ýmsar teiknimyndapersónur eins og til dæmis Halló Kisa (en. Hello Kitty) og Pikachu í Pokémon svo eitthvað sé nefnt. Nýja-Sjáland. Nýja-Sjáland er land í Eyjaálfu. Það samanstendur af tveimur eyjum, Norðurey og Suðurey, auk fjölda minni eyja. Evrópumenn komu þangað fyrst 1642 og voru það Hollendingar sem gáfu landinu nafn eftir Sjálandi í Hollandi. Fyrir bjuggu þar maóríar sem komu þangað einhverntíman á milli 1250 og 1300 e.Kr. en á þeirra tungumáli kallast landið Aotearoa, oftast þýtt sem „land hins langa hvíta skýs“. Maóríar gengu Breska heimsveldinu á hönd 1840 með Waitangi-friðarsamningnum. Mikill meirihluti núverandi íbúa Nýja Sjálands eru af evrópskum uppruna og enska er opinbert tungumál. Tæplega 15% íbúa eru maóríar. Nýja Sjáland er í Tasmanhafi í Suður-Kyrrahafi um 1500 kílómetrum austan við Ástralíu og um 1000km sunnan við Nýju Kaledóníu, Fídjieyjar og Tonga. Hæsta fjall Nýja Sjálands heitir Mount Cook. Í gegnum tíðina hefur ein helsta útflutningsvara Nýja Sjálands verið ull en það hefur breyst á síðustu áratugum. Efnahagur landsins er enn mjög háður alþjóðamarkaði með landbúnaðarvörur. Búastríðið. Búastríðið á við um tvö stríð sem háð hafa verið, það fyrra á árunum 1880-1881 og hið síðara 11. október 1899-1902, í bæði skiptin milli Búa og Breta í Suður-Afríku. Fyrra stríðið varð þegar Búar risu upp gegn Bretum þegar þeir innlimuðu Transvaal og það síðara vegna mikilla gullfunda síðar á því svæði og reyndu Bretar þá að innlima Búaveldið í annað sinn. Því lauk með Vereeniging sáttmálanum. Nautnahyggja. Nautnahyggja eða sældarhyggja er sú kenning að aðeins ánægja sé góð út af fyrir sig eða hafi gildi í sjálfri sér. Ólík afbrigði nautnahyggju skilgreina ánægju með ólíkum hætti. Hún getur til dæmis verið bæði andleg og líkamleg. Tvö afbrigði nautnahyggju eru sálfræðileg ánægjuhámörkun annars vegar og siðfræðileg nautnahyggja hins vegar. Hin síðari byggir stundum á hinni fyrri. Meðal þeirra heimspekinga sem taldir eru hafa aðhyllst nautnahyggju í einni eða annarri mynd eru Aristippos, Evdoxos, Epikúros og Jeremy Bentham. Evdoxos virðist hafa haldið fram sálfræðilegri nautnahyggju og ef til vill einnig siðfræðilegri nautnahyggju, Aristippos hélt fram róttækri siðfræðilegri nautnahyggju og ef til vill einnig sálfræðilegri nautnahyggju, en Epikúros hélt einungis fram siðfræðilegri nautnahyggju. Heimildir. Mautner, T. (2000). "The Penguin dictionary of philosophy". London: Penguin Books. Elísabet 2. Bretadrottning. Elísabet 2. (fullt nafn: "Elizabeth Alexandra Mary", fædd 21. apríl 1926) er drottning og þjóðhöfðingi Antígva og Barbúda, Ástralíu, Bahamaeyja, Barbados, Belís, Kanada, Grenada, Jamaíku, Nýja Sjálands, Papúu Nýju Gíneu, Sankti Kristófer og Nevis, Sankti Lúsíu, Sankti Vinsent og Grenadíneyja, Salómonseyja, Túvalú, og Bretlands. Þar að auki er hún höfuð breska samveldisins, æðsti yfirmaður ensku biskupakirkjunnar og breska heraflans og lávarður Manar. Þessum embættum hefur hún gegnt síðan faðir hennar Georg 6. lést árið 1952. Hún er þjóðhöfðingi um 125 milljón manna. Elísabet var eldri dóttir Alberts hertoga af York og konu hans, Elísabet Bowes-Lyon. Þegar hún fæddist var ekkert sem benti til þess að hún yrði framtíðarþjóðhöfðingi Bretlands. Ríkisarfinn var eldri bróðir föður hennar, Játvarður prins af Wales, og allir bjuggust við að hann gengi í hjónaband og eignaðist börn. Hann varð að vísu konungur 1936 en sagði af sér seinna sama ár og þá varð faðir Elísabetar konungur, þvert gegn vilja sínum, og tók sér nafnið Georg 6. Elísabet stóð þá næst til ríkiserfða þar sem hún átti engan bróður. Hún fékk þó ekki titilinn prinsessa af Wales. Eiginmaður hennar er Filippus prins, hertogi af Edinborg, og gengu þau í hjónaband 1947. Þau eru bæði afkomendur Kristjáns 9. Danakonungs og Viktoríu Bretadrottningar. Saman eiga þau fjögur börn en þau eru í aldursröð: Karl, prins af Wales, (sem er ríkisarfi), Anna prinsessa, Andrés prins, hertogi af York og Játvarður prins, jarl af Wessex. Skandín. Skandín er frumefni með efnatáknið Sc og er númer 21 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, silfraður, hvítur hliðarmálmur sem að finnst í sjaldgæfum steintegundum frá Skandinavíuskaganum og það er stundum flokkaður með yttrín sem lantaníð. Heimspeki. Heimspeki er glíman við grundvallarspurningar um veruleikann, tilvist og stöðu mannsins í alheiminum. Þeir sem fást við heimspeki kallast heimspekingar og reyna þeir meðal annars að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, merkingu og tilvísun, skilning, þekkingu, skoðun, vísindi, skýringu, lögmál, tegund, samsemd, eðli, eiginleika, orsök, rök, vensl, nauðsyn, möguleika, lög, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, athöfn, atburð, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást, fegurð, list og svona mætti lengi áfram telja. En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum. Hún er ekki einber opinberun einhverrar skoðunar, heldur er hún ætíð rökstudd, jafnvel þótt stundum séu rökin ósögð og undanskilin og þau verði að lesa á milli línanna. Við þetta má bæta að heimspeki er ekki bara samansafn spurninga sem raunvísindin eiga eftir að svara, því túlkun á niðurstöðum vísindanna getur beinlínis oltið á heimspekilegri afstöðu sem liggur tilraunum og túlkun þeirra til grundvallar. Þess vegna geta vísindin einfaldlega ekki svarað öllum spurningum heimspekinnar án þess að gefa sér svörin. Á hinn bóginn mætti segja að heimspekin sé sjálf ákveðin grein eða ákveðinn þáttur vísindanna eða framhald þeirra; hún hefur sjálf eitthvað fram að færa til heildarmyndar okkar af sjálfum okkur og heiminum, lífinu og tilverunni. Heimspekilegar bókmenntir einkennast öðru fremur af röksemdafærslum, sem eru notaðar til að setja fram kenningar um viðfangsefni heimspekinnar. Þessar röksemdafærslur fela yfirleitt í sér hugleiðingar um andstæð eða gagnstæð viðhorf og meinta galla á þeim. Upphaflega náði hugtakið "heimspeki" yfir mun víðara svið viðfangsefna en það gerir í dag. Til dæmis veltu forverar Sókratesar fyrir sér spurningum um uppruna og myndun alheimsins, eðli efnisheimsins og uppruna tegundanna. Þessar vangaveltur urðu að endingu að grunni náttúruvísindanna, sem nefndust áður „náttúruheimspeki“ eða „náttúruspeki“. Með tilkomu háskólanna tók heimspekin á sig mynd fræðigreinar en frá og með 20. öld hefur hún einkum þrifist innan veggja háskólanna. Óformlega getur orðið „heimspeki“ vísað til almennrar heimsmyndar eða tiltekinnar siðferðissannfæringar eða skoðunar. Orðsifjar. Orðið „heimspeki“ kann að vera tökuþýðing úr þýsku enda svipar því til orðsins „Weltweisheit“ hvað samsetningu varðar. Það orð er ekki lengur í almennri notkun í þýsku. Áður fyrr þekktist einnig orðið „ástarspekt“ en það var þýðing á gríska orðinu φιλοσοφία ("fílo-sofía"). Af forngríska orðinu er komið enska orðið „philosophy“, líkt og skyld orð í öðrum málum. Orðið merkir „ást á visku“. Í nútímasamhengi er það notað til að vísa til orðræðna um hvað er til, hvað þekking er (og hvort hún er möguleg) og hvernig maður ætti að lifa lífinu. Skilgreining. Það hefur reynst afar erfitt að finna skilgreiningu á heimspeki vegna þess hve margvíslegar hugmyndir hafa verið kallaðar heimspeki. Eigi að síður má reyna að lýsa einkennum hennar að einhverju marki. "Penguin Dictionary of Philosophy" skilgreinir heimspeki sem rannsókn á „almennustu og mestu grundvallarhugtökum og -lögmálum sem eru fólgin í hugsun, athöfnum og raunveruleikanum“. "Oxford Dictionary of Philosophy" tekur í sama streng. "Oxford Companion to Philosophy" lýsir heimspeki meðal annars sem kerfisbundinni og gagnrýninni rökhugsun um eðli heimsins almennt, um réttmæti skoðana manns og breytni manns í lífinu. Flestir heimspekingar eru sammála um að aðferð heimspekinnar felst í rökrænni orðræðu, enda þótt sumir heimspekingar hafi dregið í efa að maðurinn sé fær um rökhugsun, eins og henni er venjulega lýst. "The Penguin Encyclopedia" segir að heimspeki sé frábrugðin vísindunum að því leyti að spurningum heimspekinnar sé ekki hægt að svara með tilraunum og athugunum og frábrugðin trúarbrögðum að því leyti að heimspekin leyfi ekki blinda trú eða opinberun. Um þetta má þó deila. Til dæmis segir í "Oxford Dictionary of Philosophy": „Andi greinarinnar á síðari hluta 20. aldar... kýs fremur að sjá heimspekilegar vangaveltur sem framhald af bestu venjum allra sviða vitsmunalegrar athugunar.“ Markmið heimspekinnar, samkvæmt "Penguin Dictionary of Philosophy", er „hlutlaus öflun þekkingar hennar sjálfrar vegna“. Undirgreinar heimspekinnar. Það er ekkert almennt samkomulag um hverjar séu megingreinar heimspekinnar. Í bókinni "The Story of Philosophy" telur Will Durant rökfræði, þekkingarfræði, siðfræði, fagurfræði og frumspeki sem megingreinar hennar en þessi svið heimspekinnar skarast á marga vegu og margar heimspekilegar hugmyndir falla ekki ljúflega í neinn þessara flokka. Sérhver undirgrein hefur sínar eigin grundvallarspurningar. Saga heimspekinnar. Sögu vestrænnar heimspeki er venjulega skipt í þrjú megintímabil: fornaldarheimspeki, miðaldaheimspeki og nýaldarheimspeki. Sumir heimspekingar hafa haldið því fram að nýtt tímabil sé hafið, „póstmóderníska“ tímabilið. Austræn heimspeki var lengst af óháð vestrænni heimspeki. Fornaldarheimspeki. Forngrískri heimspeki er venjulega skipt í þrjú tímabil: forvera Sókratesar, klassíska heimspeki og helleníska heimspeki. Einnig er oft talað um rómverska heimspeki sem sérstakt tímabil þótt rómversk heimspeki sé í raun vart annað en áframhald hellenískrar heimspeki innan Rómaveldis. Þá er tíminn frá 3. öld stundum nefndur síðfornöld og heimspeki þess tíma heimspeki síðfornaldar. Forverar Sókratesar. Tímabil forvera Sókratesar einkenndist af frumspekilegum vangaveltum og tilraunum til þess að finna „uppsprettuna“, það sem lægi veruleikanum til grundvallar. Meðal mikilvægra heimspekingar þessa tímabils eru Þales, Anaxímandros, Anaxímenes, Pýþagóras, Herakleitos, Xenófanes, Parmenídes, Zenon frá Eleu, Melissos, Empedókles, Anaxagóras, Levkippos og Demókrítos. Á grundvelli greiningar á sögninni „að vera“ leiddi Parmenídes rök að því að ekki væri til neinn mismunur og þar með væru hreyfing og breyting einungis tálsýn. Fornmenn sjálfir álitu rök Parmenídesar sýna að tilraunir fyrstu heimspekinganna (Þalesar, Anaxímandrosar, Anaxímenesar) til þess að finna einhverja "eina" uppsprettu sem útskýrði margbreytileika heimsins væru dauðadæmdar. Í kjölfarið komu fram "fjölhyggjukenningar" sem áttu að koma til móts við Parmenídes að einhverju leyti. Uppspretturnar voru nú taldar fleiri en ein (frumefnin fjögur (eða „ræturnar“ fjórar) hjá Empedóklesi, og ótalmörg „samkynja“ efni hjá Anaxagórasi) og samspil þeirra átti að útskýra margbreytileika heimsins og möguleikann á hreyfingu og breytingu en sjálfar voru uppspretturnar taldar „parmenídískar“ verundir í einhverjum skilningi, varanlegar og óbreytanlegar. Heimildir okkar um skoðanir, kenningar og rök þessara manna eru afar brotakenndar en ekkert heildsætt rit um heimspeki hefur varðveist frá þessum tíma. Klassísk heimspeki. Mestar heimildir eru frá klassíska tímabilinu en mikilvægustu heimspekingar tímabilsins voru Sókrates, Platon og Aristóteles. Þeir síðastnefndu eru meðal áhrifamestu heimspekinga sögunnar og eru þeir hugsuðir sem hvað mest hafa mótað heimspekina og viðfangsefni hennar. Sagt er að Sókrates hafi fyrstur fengist við siðfræði en þó virðist Demókrítos (sem var samtímamaður Sókratesar) einnig hafa gert það. Í ritum Platons er persónan Sókrates svo látinn halda fram ýmsu öðru en því sem talið er að hinn sögulegi Sókrates hafi haldið fram og veldur það erfiðleikum að segja með vissu hvaða skoðanir hinn raunverulegi Sókrates hafði. Einkum virðist mega eigna honum tvennt. Annars vegar að enginn sé vísvitandi illur; hins vegar að dygð sé þekking. Platon var lærisveinn Sókratesar. Hann fékkst við nánast öll svið heimspekinnar en frægust kenninga hans er sennilega frummyndakenningin. Platon taldi að efnisheimurinn væri hverful og léleg eftirlíking af fullkomnum heimi óhlutbundinna frummynda. Raunveruleg þekking hlyti að vera þekking á frummyndunum. Aristóteles var nemandi Platons. Hann fékkst við svo að segja öll svið heimspekinnar og er heimspeki hans afar kerfisbundin. Aristóteles fékkst einnig við vísindi og stundaði meðal annars rannsóknir í líffræði, líffærafræði, dýrafræði, veðurfræði, stjörnufræði, sálfræði, hagfræði og stjórnmálafræði. Hann fann upp rökfræði sem fræðigrein. Siðfræði Aristótelesar hefur verið endurlífguð á 20. öld og haldið á lofti meðal annars af G.E.M. Anscombe, Philippu Foot, Alasdair MacIntyre og Rosalind Hursthouse. Hellenísk heimspeki. Hellenísk heimspeki er strangt tekið einungis heimspeki helleníska tímans, þ.e. frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.o.t. (í heimspeki er miðað við dauða Aristótelesar árið síðar) til ársins 31 f.o.t., en orðið er stundum einnig notað um rómverska heimspeki og heimspeki síðfornaldar enda urðu ekki skörp skil í sögu heimspekinnar með endalokum helleníska tímans. Meðal mikilvægustu hugsuða og skóla þessa tímabils eru Zenon frá Kítíon, Krýsippos, Arkesilás, Karneades, Epikúros, Pyrrhon, Panætíos, Póseidóníos, Epiktetos, Seneca, Markús Árelíus og Sextos Empeirikos. Nýplatonistinn Plótínos er venjulega talinn til síðfornaldar. Á hellenískum tíma blómstruðu einkum þrír skólar: epikúrismi, stóuspeki og efahyggja. Epikúrismi. Epikúrisminn var heimspeki Epikúrosar en Epikúros var undir miklum áhrifum frá Demókrítosi. Epikúros hélt fram rammri efnishyggju og varði eindahyggjuna (atómismann) sem Levkippos og Demókrítos höfðu fyrstir sett fram. Hann hélt því einnig fram að ánægjan væri hin æðstu gæði en Epikúros taldi að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju og að í öllu skyldi gæta hófs. Stóuspeki. Upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kítíon en Krýsippos var annar mikilvægur málsvari hennar. Stóumenn voru efnishyggjumenn en þó ekki eins afdráttalausir og epikúringar. Þeir kenndu að lífinu skyldi lifað í samræmi við náttúruna og örlögin. Stóumenn voru að vissu leyti algyðistrúar og töldu að heimurinn allur væri guðlegur, hann væri gegnsýrður af skynseminni, "logos", en það hugtak fengu þeir frá Herakleitosi. Þeir kenndu að dygðin væru einu gæðin og að löstur væri eina bölið, allt annað væri hlutlaust og hvorki bætti við eða drægi úr hamingju manns. Þetta viðhorf mildaðist er fram liðu stundir, meðal annars hjá Panætíosi og Póseidóníosi sem blönduðu stóuspekinni áhrif frá Platoni. Stóuspekin var gríðarlega vinsæl í Rómaveldi og hafði mikil áhrif á menn eins og Cíceró og Seneca og Markús Árelíus voru stóískir heimspekingar. Á nýöld hafði stóuspekin talsverð áhrif á Baruch Spinoza. Efahyggja. Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.o.t., sagði skilið við akademíuna (sem hafði orðið að efahyggjuskóla á 3. öld f.o.t. en var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri "raunverulegur" efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes. Heimspeki síðfornaldar. Á 3. öld fékk heimspeki Platons öflugan nýjan málsvara í Plótínosi. Þessi heimspeki er nú nefnd nýplatonismi. Nýplatonisminn hafði gífurleg áhrif á kristnina og kristna hugsuði. Evrópsk miðaldaheimspeki. Með falli Vestrómverska ríkisins hófust miðaldir og dögun kristinnar heimspeki, íslamskrar heimspeki og gyðinglegrar heimspeki. Á miðöldum varð til kristin skólaspeki, með höfundum á borð við Ágústínus kirkjuföður, Boethius, heilagan Anselm frá Kantaraborg, Robert Grosseteste, Albertus Magnus, Roger Bacon, Bonaventure, Thomas Aquinas, John Duns Scotus, William af Ockham, Nikulás af Cusa og Francisco Suárez. Heimspekingarnir í kristnu skólaspekihefðinni og heimspekingar innan annarra meginstrauma vestrænna trúarbragða, svo sem gyðinglegu heimspekingarnir Saadia Gaon og Maimonides, og íslömsku heimspekingarnir Avicenna, Al-Ghazali og Averroes áttu margvísleg samskipti. Þessar trúarhefðir fengust við spurningar um tengsl mannsins við guð. Heimspeki þessa tímabils einkennist af greiningu á eðli og eiginleikum guðs; frumspekilegum pælingum um verundir, eðli og tilfallandi eiginleika, form og skiptanleika; og rökfræði og málspeki. Austræn heimspeki. „Austræn heimspeki“ vísar til þeirra heimspekihefða sem áttu uppruna sinn á Indlandi, í Persíu, Miðausturlöndum og Kína. Uppruni hindúískrar heimspeki má rekja til veddískra pælinga (um 1500 f.o.t.) um alheiminn og Rta - alheimsskipulag. Meðal annarra megintexta sem snerta á heimspekilegum efnum eru "Upanishads" og "Bhagavad Gita", frá því um 1000 f.o.t. til 500 f.o.t. Um svipað leyti þróuðust shramana skólarnir, þeirra á meðal jainismi og búddismi. Í Persíu komu kenningar Saraþústra fram um 900 f.o.t., en þær voru grundvöllur írönsku greinar indo-írönsku heimspekihefðarinnar. Í Kína komu "Tao Te Ching" Lao-Tse og rit Konfúsíusar fram um 600 f.o.t., um svipað leyti og forverar Sókratesar hófu að rita um heimspeki í Grikklandi. Endurreisnartíminn. Á endurreisnartímanum bárust grísk handrit í auknum mæli úr austri vestur til Ítalíu. Handritunum fjölgaði með falli Konstantínópel og Austrómverska ríkisins árið 1453. Í kjölfarið jókst þekking á grískri heimspeki til muna í Vestur-Evrópu. Mikilvægustu höfundarnir voru Platon og Aristóteles og ýmsar heimildir um stóuspeki og epikúrisma en ekki síst rit Sextosar Empeirikosar. Grísk efahyggja hafði þónokkur áhrif á ýmsa hugsuði, meðal annars Michel de Montaigne (1533 – 1592) og Francisco Sanches (1551 – 1623). Miðaldaheimspeki hafði einkum snúist um rök frá kennivaldi og greiningu á fornum textum með aðstoð aristótelískrar rökfræði. Á endurreisnartímanum komu fram fjölmargar nýjar hugmyndir sem dróu í efa kennivaldið. Roger Bacon (1214 – 1294?) var meðal fyrstu höfundanna sem hvöttu til þess að kennivaldið yrði reynt með tilraunum og á grundvelli skynseminnar. Niccolò Machiavelli (1469 – 1527) ögraði hefðbundnum hugmyndum um siðferði. Francis Bacon (1561 – 1626) skrifaði til stuðnings vísindalegum aðferðum í heimspekilegum athugunum. Rökhyggja og raunhyggja. a> (1596 – 1650) er oft nefndur faðir nútímaheimspeki René Descartes (1596 – 1650), sem oft er nefndur faðir nútímaheimspeki, lagði til að heimspekin byrjaði með róttækri efahyggju um möguleikann á öruggri þekkingu. Árið 1641, í "Hugleiðingum um frumspeki", notfærði hann sér þessa aðferðafræðilegu efahyggju með það að markmiði að freista þess að finna traustan grundvöll þekkingar. Hann valdi sem grundvöll heimspeki sinnar hina frægu fullyrðingu "cogito ergo sum" („ég hugsa, þess vegna er ég“). Síðan reyndi hann að endurbyggja kerfisbundna þekkingu á þessari meintu óvéfengjanlegu staðreynd. Nálgun hans varð þekkt sem rökhyggja og hafði áhrif á heimspekinga eins og Baruch Spinoza, Gottfried Leibniz og Christian Wolff sem voru einnig rökhyggjumenn. John Locke (1632 – 1704) brást við vinsældum rökhyggjunnar í bók sinni "An Essay Concerning Human Understanding", sem kom út árið 1689. Þar setti hann fram einhvers konar náttúruhyggju á grundvelli vísindalögmála. Rit Davids Hume, "A Treatise of Human Nature", (1739 – 1740) sameinaði náttúruhyggju anda efahyggjunnar og þessi tvö stef saman sameinuðu þá hefð innan heimspekinnar sem varð þekkt undir nafninu raunhyggja. Aðrir merkir raunhyggjumenn voru Thomas Hobbes og George Berkeley. Til einföldunar er stundum sagt að deilan milli rökhyggju- og raunhyggjumanna hafi öðru fremur snúist um spurninguna hvort fólk hefði einhverjar svonefndar „áskapaðar hugmyndir“ eða ekki. Raunhyggjumenn svöruðu þeirri spurningun neitandi en rökhyggjumenn játandi. Spurningin hefur vaknað á ný í öðrum búningi í kjölfar kenninga bandaríska málvísindamannsins Noams Chomsky. Á 17. og 18. öld fór trúarleg heimspeki ekki með stórt hlutverk í togstreitu veraldlegrar heimspeki, enda þótt fræg tilraun Berkeleys til að hrekja kenningar Isaacs Newton sé undantekning. Meðal áhrifamikilla trúarlegra hugsuða þessa tíma voru Blaise Pascal, Joseph Butler og Jonathan Edwards. Meðal annarra mikilvægra höfunda, sem passa ekki í þessi mót, voru Jean-Jacques Rousseau og Edmund Burke. Þessir einstaklingar eru forboði um þá aðgreiningu og sérhæfingu á ólíkum sviðum heimspekinnar sem átti sér stað á tuttugustu öld. Kenningar um ríkisvaldið. Hobbes og Locke settu báðir fram kenningar um samfélagssáttmála. Slíkar hugmyndir komu fyrst fram hjá Platoni sem færði rök fyrir slíkri kenningu í samræðunni "Kríton" en gagnrýndi hana síðar í "Ríkinu". Epikúros hafði einnig haldið fram kenningu um samfélagssáttmála en eigi að síður voru kenningar um samfélagssáttmála ekki mjög áhrifamiklar fyrr en Hobbes gaf út rit sitt "Leviathan" árið 1651 en æ síðan hafa kenningar um samfélagssáttmála notið töluverðra vinsælda. Hobbes taldi að ríkisvald yrði til með þeim hætti að fólk í ríki náttúrunnar gæfi eftir hluta af náttúrulegum réttindum sínum til þess að njóta aukinnar verndar. Locke taldi, ólíkt Hobbes, að samfélagssáttmálinn gilti einungis um tiltekna tegund ríkisvalds og að þegnarnir gætu komið sér saman um að breyta eða afnema ríkisvaldið. Locke lagði áherslu á rétt þegnanna til uppreisnar gegn hvers kyns ofríki. Heimspekingarnir Jean-Jacques Rousseau (1712 – 1778) og Immanuel Kant (1724 – 1804) settu einnig fram kenningar um samfélagssáttmála og höfðu ásamt Hobbes og Locke töluverð áhrif, meðal annars á stofnfeður Bandaríkjanna. Á 20. öld er bandaríski heimspekingurinn John Rawls (1921 – 2002) að líkindum frægasti kenningasmiðurinn sem nýtti sér hugmyndina um samfélagssáttmála. Kant og Kóperníkusarbyltingin í heimspeki. Immanuel Kant samdi rit sitt "Gagnrýni hreinnar skynsemi" ("Kritik der reinen Vernunft") (1781, 2. útg. 1787) til þess að reyna að sætta raunhyggju og rökhyggju og veita nýjan grundvöll til rannsókna í frumspeki. Sjálfur sagði Kant að rit Humes hefði vakið sig af kreddublundi. Ætlun Kants með þessu verki var að líta á hvað við vitum og íhuga síðan hvað hlyti að vera satt um hvernig við vitum það. Stór hluti þessa verkefnis fólst í að afhjúpa takmörk mannlegrar þekkingar. Kant tók Evklíð sér til fyrirmyndar en játaði að endingu að hrein skynsemi nægði ekki til að uppgötva öll sannindi. Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Schelling og Arthur Schopenhauer héldu starfi Kants að einhverju leyti áfram. Heimspeki 19. aldar. Árin 1789 – 1815 voru mikill umbrotatími í sögu Evrópu. Bylting og stríð breyttu menningu álfunnar og gerðu mögulegar verulegar efnahagslegar og pólitískar breytingar. Evrópsk heimspeki átti þátt í að móta hugmyndafræðina að baki mörgum breytinganna en varð jafnframt fyrir áhrifum vegna þessara breytinga. Þýska hughyggjan. Heimspeki Kants, sem er nefnd forskilvitleg hughyggja, varð seinna sértækari og almennari, í höndunum á þýsku hughyggjumönnunum. Þýsk hughyggja náði vinsældum í kjölfarið á útgáfu G.W.F. Hegels á "Fyrirbærafræði andans" ("Phänomenologie des Geistes") árið 1807. Í ritinu heldur Hegel því fram að markmið heimspekinnar sé að koma auga á mótsagnirnar sem blasa við í mannlegri reynslu (sem verða til, meðal annars, vegna þess að menn viðurkenna bæði að sjálfið sé virkt, huglægt vitni og óvirkur hlutur í heiminum) og að losa okkur við þessar mótsagnir með því að samræma þær. Hegel sagði að sérhver staða (thesis) skapaði eigin andstöðu (antithesis) og að úr þeim tveimur yrði til niðurstaða (synthesis), ferli sem er þekkt sem „hegelsk þrátt“. Meðal heimspekinga í hegelsku hefðinni eru Ludwig Andreas Feuerbach og Karl Marx. Aðrir straumar í heimspeki 19. aldar. Um miðbik 19. aldar kom fram mikil gagnrýni á hegelska heimspeki frá danska heimspekingnum Søren Kierkegaard (1813 – 1855), sem einnig gagnrýndi dönsku kirkjuna fyrir innantóm formlegheit. Kierkegaard er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar sem varð vinsæl heimspekistefna á 20. öld. Heimspeki Kierkegaards er stundum lýst sem „kristilegri tilvistarspeki“ eða „tilvistarspekilegri sálarfræði“. Annar mikilvægur hugsuður á síðari hluta aldarinnar var Friedrich Nietzsche (1844 – 1900). Nietzsche var einnig gagnrýninn á þýska hughyggjumenn sem og á viðteknar siðferðishugmyndir og á trúarbrögðin. Frægasta hugmynd Nietzsches er hugmynd hans um „ofurmennið“, sem hefur sig upp yfir „þrælasiðferðið“ og skilgreinir forsendur eigin tilvistar. Breski heimspekingurinn John Stuart Mill (1806 – 1873) hélt áfram raunhyggjuhefðinni þar í landi en árið 1843 kom út eftir hann ritið "Rökkerfi" ("A System of Logic") þar sem hann setti fram fimm lögmál um aðleiðslu, sem áttu að varpa ljósi á orsakavensl. Lögmálin eru nefnd aðferð Mills. Í siðfræði setti Mill fram nytjastefnuna sem er leikslokasiðfræði í anda Jeremys Bentham en hugmyndin hafði upphaflega komið fram hjá David Hume. Nytjastefnan varð gríðarlega vinsæl siðfræði í hinum enskumælandi heimi og var ríkjandi kenning fram á síðari hluta 20. aldar. Mill varði frjálshyggju í ritinu "Frelsið" ("On Liberty"), sem kom út árið 1859, og mælti fyrir kvenréttindum í ritinu "Kúgun kvenna" ("The Subjection of Women"), sem kom út árið 1869 og markaði upphaf feminískrar frjálshyggju. Ameríska gagnhyggjan. Seint á 19. öld varð til ný heimspeki í nýja heiminum. Charles Sanders Peirce (1839 – 1914) og William James (1842 – 1910) eru taldir frumkvöðlar þeirrar stefnu sem nefnist gagnhyggja (e. pragmatism), sem kynnti til sögunnar það sem síðar nefndist verkhyggja, það er að segja sú hugmynd að það sem sé mikilvægt fyrir góða (vísindalega) kenningu sé gagnsemi hennar en ekki hversu vel hún endurspeglar raunveruleikann. Meðal hugsuða innan þessarar hefðar eru John Dewey, George Santayana og C.I. Lewis. Heimspekingarnir Henri Bergson og G.E. Moore voru um margt sama sinnis og gagnhyggjumennirnir enda þótt þeir séu venjulega ekki sjálfir taldir til gagnhyggjumanna. Á 20. öld hefur gagnhyggjan átt málsvara á borð við Richard Rorty og Hilary Putnam sem hafa farið með hana á nýjar brautir. Heimspeki 20. aldar. 20. öldin einkenndist af klofningi heimspekinnar í rökgreiningarheimspeki og svonefnda meginlandsheimspeki en hvor tveggja á rætur sínar að rekja til ákveðinnar þróunar í heimspeki seint á 19. öld. Meginlandsheimspekin sótti einkum innblástur sinn til þýsku hughyggjunnar og til hugsuða á borð við Sören Kierkegaard (1813 – 1855), Friedrich Nietzsche (1844 – 1900), Franz Brentano (1838 – 1917) og Edmund Husserl (1859 – 1938). Hún blómstraði í fyrstu einkum á meginlandi Evrópu og hlaut þaðan nafnið. Rökgreiningarhefðin spratt upp úr tilraunum heimspekinga til að finna traustari grunn fyrir rökfræðina og til að smætta alla stærðfræði í rökfræði sem og frá áhuga þeirra á máli og merkingu. Rökgreiningarheimspekingar sóttu sumir innblástur sinn í enska raunhyggjuhefð, meðal annars til Davids Hume (1711 – 1776) og Johns Stuarts Mill (1806 – 1873), enda þótt mikilvægir hugsuðir rökgreiningarhefðarinnar kæmu frá meginlandi Evrópu. Rökfræðin í fyrirrúmi. Þegar Bertrand Russell og Alfred North Whitehead gáfu út ritið "Principia Mathematica" árin 1910 – 1913 varð stærðfræðileg rökfræði miðlæg í frumspekilegum rökræðum en slíku hlutverki hafði hún ekki gegnt áður. Áður höfðu Bernard Bolzano og Gottlob Frege hafist handa við að skapa rökfræðinni traustari grundvöll en það var ekki fyrr en "Principia" kom út sem heimspekingar fóru að gefa þessu verkefni gaum. Stærðfræðileg rökfræði var frábrugðin aristótelískri rökfræði í nokkrum mikilvægum atriðum. Til dæmis var fullyrðing sem leiddi af sér aðra sanna fullyrðingu talin vera sönn fullyrðing, hvort sem tilgátan var rétt eða ekki. Með auknum áhuga á stærðfræðilegri rökfræði reis rökfræðileg raunhyggja til vinsælda ásamt skyldum stefnum, sem áttu allar sameiginlegt að treysta á reynsluathuganir. Heimspekingar á borð við Rudolf Carnap (1891 – 1970) og Karl Popper (1902 – 1994) álitu einungis sannreynanlegar eða hrekjanlegar fullyrðingar vera ósvikna heimspeki. Allt sem ekki var hægt að leiða af prófanlegum fullyrðingum var álitið vera hjátrú eða kredda. Fyrirbærafræði og túlkunarfræði. Á sama tíma og rökfræðin var að ryðja sér rúms í Ameríku og á Bretlandi varð til önnur hreyfing á meginlandi Evrópu. Undir áhrifum frá Franz Brentano þróaði Edmund Husserl nýja aðferð til að rannsaka mannleg vandamál í ritum sínum "Röklegar rannsóknir" ("Logische Untersuchungen") (1900 – 1901) og "Hugmyndir um hreina fyrirbærafræði og fyrirbærafræðilega heimspeki" ("Ideen zu einer reinen Phänomenologie und phänomenologischen Philosophie") (1913). Aðferðin, sem nefnist fyrirbærafræði, var notuð til að rannsaka smáatriði mannlegrar reynslu og meðvitundar til þess að komast að mestu grundvallar staðreyndum um mannlega tilvist. Rannsóknin fól ekki einvörðungu í sér athuganir á því hvernig heimurinn kemur okkur fyrir sjónir heldur einnig athuganir á hugsunum manns og hvar og hvernig þær verða til. Martin Heidegger (1889 – 1976) og Maurice Merleau-Ponty (1908 – 1961) þróuðu þessa aðferð áfram. Heidegger víkkaði út rannsóknarsvið fyrirbærafræðinnar til að koma orðum að heimspekilegri túlkunarfræði. Túlkunarfræði er aðferð við að túlka sögulega texta með því að leiða hugann að því hvaða hugsanir höfundurinn hljóti að hafa hugsað að gefnum þeim áhrifum sem höfundurinn var líklegur til að hafa orðið fyrir á sínum tíma og í sínu umhverfi. Heidegger lagði áherslu á tvö ný atriði í heimspekilegri túlkunarfræði: Að lesandinn nemur merkingu textans í nútímanum og að verkfæri túlkunarfræðinnar megi nota til að túlka meira en bara texta (til dæmis „félagslegan texta“). Hans-Georg Gadamer (1900 – 2002) og Paul Ricoeur (1913 – 2005) lögðu síðar sitt af mörkum til heimspekilegrar túlkunarfræði. Tilvistarspeki. Um miðja 20. öld þróaðist tilvistarspekin eða existentíalisminn í Evrópu, sem var vinsæl heimspeki með rætur að rekja til 19. aldar í verkum Sørens Kierkegaard og Friedrichs Nietzsche. Tilvistarspekin þróaðist einkum í Frakklandi og Þýskalandi. Kierkegaard, sem var danskur heimspekingur og er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar, hélt því fram að sannleikur væri huglægur, í þeim skilningi að það sem er mikilvægast lifandi veru eru spurningar er varða innri tengsl hennar við tilvistina. Hlutlægur sannleikur (til dæmis í stærðfræði) er mikilvægur en ótengd hugsun eða athugun getur aldrei fyllilega hent reiður á mannlegri tilvist. Nietzsche hélt því fram að mannleg tilvist væri „viljinn til valds“, þrá eftir fullkomnun eða mikilleika. Framúrskarandi einstaklingar finna upp eigin gildi og skapa þær kringumstæður þar sem þeir skara fram úr. Hugmyndir Kierkegaards um riddara trúarinnar og Nietzsches um ofurmennið eru dæmi um þá sem skilgreina eðli eigin tilvistar. Á grundvelli þessara hugmynda hafnar tilvistarspekin hugmyndinni um mannlegt eðli en reynir þess í stað að laða fram getu hvers og eins til að lifa raunverulega, eða með öðrum orðum er hver manneskja fær um að skilgreina og ákvarða eigið líf. Helsti málsvari tilvistarspekinnar var Jean-Paul Sartre (1905 – 1980), einkum í ritinu ' ("L'être et le néant") (1943). Aðrir áhrifamiklir tilvistarspekingar voru Albert Camus (1913 – 1960), Simone de Beauvoir (1908 – 1986) og Karl Jaspers (1883 – 1969). Rökgreiningarhefðin. Um miðja 20. öldina var ekki ríkjandi samkomulag í Ameríku og Bretlandi um einhverja eina meginhugmynd í heimspeki, líkt og áður hafði verið en almenna heimspekilega aðferð má greina í þeirri heimspeki sem þar var stunduð á þeim tíma. Árið 1921 gaf Ludwig Wittgenstein út bókina "Rökfræðileg ritgerð um heimspeki" ("Tractatus Logico-Philosophicus"). Heimspeki hversdagsmáls varð til sem viðbragð við þessari bók og var haldið á lofti af Gilbert Ryle, J.L. Austin og nokkrum öðrum. Þeir heimspekingar sem aðhylltust heimspeki hversdagsmáls áttu mörg almenn viðhorf sameiginleg með ýmsum eldri heimspekingum (til dæmis Jeremy Bentham, Ralph Waldo Emerson og John Stuart Mill) og var sá rannsóknarvettvangur sem einkenndi heimspeki í enskumælandi löndum á síðari hluta aldarinnar. Þeir gerðu ráð fyrir að gátur á einu sviði heimspekinnar væri hægt að leysa óháð gátum á öðrum sviðum heimspekinnar. Heimspekin er því ekki sameinuð heild, heldur mengi óskyldra vandamála. Meðal merkra heimspekinga sem hafa fallist á þetta almenna viðhorf að einhverju eða öllu leyti eru P.F. Strawson, Donald Davidson, Hilary Putnam, John Rawls, Noam Chomsky og meginlandsheimspekingurinn Mikhail Bakhtin. Ýmis teikn eru á lofti um að yfirvofandi sé umbreyting í heimspeki í enskumælandi löndum. Á grundvelli athugasemda um iðkun heimspekinnar sem Wittgenstein gerði í síðara stóra riti sínu, "Rannsóknum í heimspeki" ("Philosophische Untersuchungen") (1953), þar sem hann bendir á að góð nálgun við heimspeki hljóti sjálf að vera byggð á nákvæmum athugunum á merkingu máls, hefur nýr hópur heimspekinga tekið upp á sína arma aðferðafræðilega efahyggju. Þessa verður meðal annars vart í verkum W.V.O. Quine og Wilfrids Sellars sem sameinast um náttúruhyggju, heildarhyggju (í andstöðu við megnið af því sem telst til rökgreiningarheimspeki), verkhyggju og afneitun hluthyggju í anda Platons. Rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki. Nútímaheimspeki, sem hófst seint á 19. öld og fram til 7. áratugar 20. aldar, einkenndist af síauknum klofningi á milli „meginlandshefðarinnar“ og „rökgreiningarhefðarinnar“ sem var ríkjandi í hinum enskumælandi heimi. Hefðirnar virðast í grundvallaratriðum ólíkar en þó eiga þær sameinlegar rætur. Báðar hafna þær kartesísku hefðinni og raunhyggjuhefðinni sem höfðu verið ríkjandi í heimspeki síðan snemma á nýöld og hvor um sig hafnar einnig þráhyggjunni um sálfræðilegar skýringar sem lék um heimspeki hughyggjunnar. Það sem liggur rökgreiningarhefðinni til grundvallar er það viðhorf (sem Ockham varði upphaflega) að mistök í heimspeki verði til vegna misskilnings sem stafar af tungumálinu. Við ímyndum okkur að sérhvert orð (til dæmis „skalli“, „tilvist“) samsvari einhverju í raunveruleikanum. Samkvæmt kenningum rökgreiningarheimspekinga er sönn merking venjulegrar setningar „hulin af málfræðilegu formi þeirra“ og við verðum að þýða þær á yfir á rétt form (sem nefnist rökform) til þess að skýra þær. Vandinn, sem enn er óleystur, er að ákvarða hvert hið rétta rökform hljóti að vera. Sumir heimspekingar (í kjölfarið á Gottlob Frege og Bertrand Russell) hafa fært rök fyrir því að táknmál rökfræðinnar sýni okkur rétt rökform venjulegra setninga. Meginlandsheimspekin, í höndunum á fyrirbærafræðingum á borð við Edmund Husserl og Maurice Merleau-Ponty, þróaðist í aðra átt vegna áhuga síns á meðvitundinni. Viðhorf sem liggur þessum skóla hugsunar til grundvallar er að hugræn fyrirbæri hljóti að hafa íbyggni: Þau beinast að hlutum sem eru utan við og óháðir huganum sjálfum. Þannig er atlaga að kartesísku tvíhyggjunni um hugveru og hlutveru mikilvægt stef í fyrirbærafræði. En þessu viðhorfi deila rökgreiningarheimspekingar. Svipuð hugmynd (en þó af öðrum uppruna) er það viðhorf sem nefnist úthyggja og John McDowell og Gareth Evans hafa haldið á lofti. Úthyggjan segir að eiginnöfn ("Sókrates", "George Bush") vísi beint til þeirra sem bera nöfnin og að enginn skilningur eða huglæg merking hafi milligöngu um merkingu þeirra. Hugsunin „Sókrates er vitur“ felur því Sókrates sjálfan í sér og það er engin spurning um hvort við getum í grundvallaratriðum haft á röngu að standa um tilvist ytri heims. Mistök af því tagi eru bókstaflega vitleysa. Ef spurningin er hvort Eiffelturninn eða London væri til væri merkingarbær, þá yrðum við að fallast á möguleikann á að þessi nöfn væru merkingarlaus og þar með að spurningin væri ekki merkingarbær hvort sem er. Þetta er keimlíkt þeim stefum sem meginlandshugsuðir á borð við Heidegger hugleiddu en þeir færðu rök fyrir því að hneyksli heimspekinnar væri ekki að enn væri ekki búið að sanna tilvist ytri heims, heldur að farið væri fram á slíkar sannanir og þær reyndar hvað eftir annað. Að hafa trú á raunveruleika hins ytri heims gerir ráð fyrir að til sé verund sem tilheyrir ekki heiminum. En við erum "í" heiminum. Björn Jónsson á Skarðsá. Björn Jónsson á Skarðsá (1574 – 29. júní 1655) var lögréttumaður en einkum þekktur sem höfundur Skarðsárannáls. Hann var sonur Jóns Jónssonar bónda á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd í Skagafirði og Guðrúnar Ketilsdóttur en missti föður sinn átta ára gamall og ólst upp hjá Sigurði Jónssyni lögmanni af Svalbarðsætt, bróður Magnúsar prúða. Hann bjó á Skarðsá í Skagafirði frá 1605 til dauðadags og varð lögréttumaður árið 1616. Hann lést úr steinsótt. Björn var óskólagenginn en eftir hann liggja meðal annars skýringar á lögbókum og samantekt um Tyrkjaránið. Þorlákur Skúlason biskup fékk hann til að rita annála og er sagt að hann hafi fengið tólf ríkisdali árlega fyrir ritunina. Skarðsárannáll er ein af helstu heimildum um atburði á Íslandi frá 1400 til 1640. Ögmundur Pálsson. Ögmundur Pálsson (d. 13. júlí (?) 1541) var biskup í Skálholti frá 1521 til 1541 og var síðasti kaþólski biskupinn þar, en áður prestur, skipstjóri og síðan ábóti í Viðeyjarklaustri. Ögmundur var sonur Páls Guðmundssonar og Margrétar Ögmundsdóttur, sem bjuggu „fyrir vestan“, eins og segir í heimildum. Móðir hans var dóttir Ögmundar, sonar Eyjólfs mókoll Halldórssonar í Haukadal í Dýrafirði. Hálfbróðir Ögmundar var Eyjólfur mókollur Magnússon, faðír Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups og Ingibjargar, móður Eyjólfs mókolls Gíslasonar í Haga á Barðaströnd. Ögmundur stundaði nám í Englandi og á Niðurlöndum. Hann varð prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð og prófastur í Rangárþingi 1504 og hélt þeim embættum til 1515 er hann varð ábóti í Viðey. Hann var jafnframt skipherra á "Þorlákssúðinni", skipi Skálholtsstaðar. Þegar Árni Snæbjarnarson ábóti í Viðey dó 1515 varð Ögmundur ábóti þar. Þau fjögur ár sem hann gegndi ábótastarfinu auðgaði hann klaustrið að jörðum; hann keypti jarðir, fékk klaustrinu dæmdar jarðeignir og gerði einnig próventusamninga sem færðu því jarðir og aðrar eignir. Árið 1518 bar það til í Viðey að Erlendur Þorvarðarson frá Strönd í Selvogi, sveinn og systursonur Stefáns Jónssonar biskups, vó mág sinn, Orm Einarsson í Saurbæ á Kjalarnesi, en þeir höfðu átt í deilum um heimanmund Ragnheiðar konu Orms, systur Erlendar. Talið er að þessi atburður hafi átt þátt í að Ögmundur varð biskup; Stefán hafi viljað friðmælast fyrir hönd systursonar síns og fengið stuðning Ögmundar gegn því að styðja hann sem eftirmann sinn. Stefán dó snemma um veturinn og var Ögmundur kjörinn biskupsefni snemma árs 1519. Eftirmaður hans í ábótaembættinu var Helgi Jónsson, prestur í Hvammi í Norðurárdal. Ögmundur fór utan 1520 til að fá biskupvígslu en var ekki vígður fyrr en 1521 í Niðarósi. Kom hann svo aftur heim 1522. Hann var hirðstjóri yfir Skálholtsbiskupsdæmi og rak bú að Krossi um skeið. Ögmundur lét af biskupsembætti 1540 nema að nafninu til, þá líklega kominn á áttræðisaldur, eftir að hafa sjálfur valið Gissur Einarsson sem eftirmann sinn. Hann fluttist þá að Haukadal í Biskupstungum og átti þar heima síðan. Christoffer Huitfeldt, sendimaður Danakonungs, handtók Ögmund á heimili Ásdísar systur hans á Hjalla í Ölfusi 2. júní 1541. Hann var færður út í skip og fluttur áleiðis til Danmerkur, en andaðist á leiðinni. Gaggenau (fyrirtæki). Gaggenau er þýskt iðnfyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu eldhústækja, aðallega eldunartækja. Fyrirtækið er staðsett í samnefndum bæ í vesturhluta Baden-Württemberg, í jaðri Svartaskógar. Saga fyrirtækisins. Verksmiðja til að framleiða nagla og hamra var stofnsett í bænum Gaggenau árið 1683 með leyfi frá Ludwig Wilhelm von Baden ("Tyrkja-Lúðvík"), markgreifa af Baden-Baden. Skömmu áður hafði uppgötvast járngrýti í nálægum dal árinnar Murg, sem rennur í Rínarfljót. Í Iðnbyltingunni varð verksmiðjan smám saman þekkt fyrir nýsköpun á sviði framleiðslu stálvöru, svo sem reiðhjóla, kolaofna og gasofna. Árið 1961 komst fyrirtækið í eigu Georg von Blanquet sem gerði það að merki sem sérhæfði sig í framleiðslu nútíma eldunartækja. Papúa Nýja-Gínea. Papúa Nýja-Gínea er eyríki í eyjaálfu í Kyrrahafi fyrir norðan Ástralíu sem tekur yfir eystri helming eyjunnar Nýju-Gíneu. Landið varð til við sameiningu nokkurra svæða undir stjórn Ástralíu og hlaut síðan sjálfstæði árið 1975. Þar hafa oft verið ættbálkaerjur en víða á hálendinu eru afar frumstæðir ættbálkar sem enn lifa á steinöld. Anime á Íslandi. Anime var löngum lítt þekkt í íslenskri menningu og líklegast þekkja margir enn ekki til þess. Með mikilli netvæðingu á Íslandi og auknu aðgengi að kvikmyndum í gegnum netið fór að bera á því að ýmsir höfðu áhuga á þessu og spjallrásir á IRC-inu voru búnar til að spjalla um sameiginlegt áhugamál þeirra, anime. Teiknimyndasögur urðu síðan aftur mjög vinsælar þegar margar þeirra urðu kvikmyndaðar, það varð til þess að bókasöfn fóru að kaupa einstaka mangabækur. Nexus, sem sérhæfir sig í teiknimyndasögum, vísindaskáldsögum, borðspilum og fleiru því tengdu byrjaði einnig að bjóða upp á mikið úrval. Fyrir vikið þekkir stór hluti ungmenna á Íslandi nú til anime. Myndbandaleigur og verslanir. Nokkrar myndbandaleigur luma á þáttum og myndum og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þar ber helst að nefna verslunina Nexus á Hverfisgötu í Reykjavík sem tekur einnig það að sér að selja sérpanta DVD-diska og myndbönd til eignar. Einnig voru nokkrar þáttaraðir vinsælar á íslenskum myndbandaleigum í upphafi 10. áratugsins. Þær voru flestar gefnar út af Manga Entertainment í Evrópu. Þar ber einna hæst þáttaröðin Dominion Tank Police. Internetið. Flestir þeir sem hafa áhuga á að horfa á efni fyrir eldri aldurshópa ná oftast í það á Internetinu þrátt fyrir ákveðna óvissu um höfundarrétt en á Íslandi hefur myndast nokkurskonar netsamfélag þar sem dreifing og deiling á anime-efni og öðru slíku s.s. manga-myndasögum og Japönskum tölvuleikjum fer fram. Stærstur hluti þeirra sem stunda slíkt gera það í gegn um IRC-spjallkerfið á rásinni [irc://irc.ircnet.is/#Anime.is #Anime.is] á IRCnet en eftir að íslenskar internetþjónustur hættu að rukka sérstaklega fyrir netumferð til útlanda hefur BitTorrent átt vaxandi vinsældum að fagna en þar áður voru nokkrir lokaðir Direct Connect tengipunktar starfandi sérstaklega fyrir íslenska anime-aðdáendur. Anime í íslensku sjónvarpi. Nokkrar anime-þáttaraðir og kvikmyndir hafa verið sýndar í íslensku sjónvarpi en megnið af þeim hefur verið barnaefni. Listi yfir anime í íslensku sjónvarpi. Hér fyrir neðan er listi yfir nokkrar þáttaraðir sem sýndar hafa verið á Íslandi. Tóbaksreykingar. a> (lón) 5. Reykelsi 6. Bong Tóbaksreykingar er það að kveikja í kurluðum tóbakslaufum í einhverri mynd og anda að sér reyknum sér til nautnar. Tóbakið er oftast pappírsvafnar sígarettur (sem er algengast), vindlar (laufvafnir) eða þá að tóbakið er reykt úr einhvers konar pípu. Frumbyggjar Norður-Ameríku tóku fyrstir manna að reykja tóbak, en tóbaksplantan á uppruna sinn að rekja til heimahaga þeirra í Suður- og Norður-Ameríku. Á tímum landafundanna miklu komust evrópumenn í kynni við tóbak og tóbaksreykingar og fluttu siðinn með sér heim til sín. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru reykingar algengastar í Austur-Asíu en þar reykja tveir af hverjum þremur karlmanna. Í Vestur-Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada hefur aftur á móti dregið úr reykingum, og er það aðallega vegna vitneskjunnar um skaðsemi þeirra, því vitað er að reykingar hafa slæm áhrif á heilsu manna. Áhrif á heilsu. Tóbaksreykingar eru vanabindandi og líkaminn verður mjög auðveldlega háður nikótíni. Tóbaksreykur inniheldur krabbameinsvaka og er talinn vera einn helsti orsakavaldur lungnakrabbameins, en einnig krabbamein í barkakýli og tungu. Yfir 3000 efni finnast í tóbaksreyk, og eru öll skaðleg heilsu manna. Beint samband er á milli þess tíma sem einstaklingur reykir sem og því magni sem hann reykir og hættunni á að hann fái lungnakrabbamein. Ef einstaklingur hættir að reykja aukast líkur þess að lungun jafni sig og því lengur sem hann er án tóbaks því meiri eru lífslíkurnar. Reykingar auka einnig líkurnar á hjartasjúkdómum og nokkur efni í tóbaki leiða til þrengingar æða og valda æðastíflu og þar með hjartaáfalli. Önnur efni í tóbaksreyk leiða til hærri blóðþrýstings og sum efni í reyknum eyðileggja auk þess slagæðar og eru þess valdandi að kólestról sest á innanverða æðaveggi sem eykur líkurnar á hjartaáfalli. Óbeinar reykingar. Lengi vel gerðu menn sér ekki grein fyrir því hve hættulegar reykingar voru. Nýlega hafa menn þó beint sjónum sínum að óbeinum reykingum og þeim skaða sem þær geta valdið. Óbeinar reykingar fela í sér hættu, en vísindamenn greinir á um hve alvarleg hún er. Árið 2002 skoðuðu 29 vísindamenn frá 12 löndum margar þeirra rannsókna sem fjölluðu um hættu tóbaksreykinga með tilliti til krabbameins. Niðurstöður vísindamannanna var að óbeinar reykingar væru einnig krabbameinsvaldandi. Hera Hjartardóttir. Hera Hjartadóttir eða Hera (fædd 1. apríl 1983) er íslenskur tónlistarmaður en er búsett á Nýja Sjálandi. Hún söng upphaflega aðeins á ensku en hefur þó einnig samið og sungið lög á íslensku. Hera spilar oftast nær frumsamda tónlist í trúbadorastíl, ein með gítar eða með annan gítarleikara með sér en einnig hefur hún sungið lög eftir Megas og Bubba Morthens svo eitthvað sé nefnt. Hafið þennan dag (2003). Hafið þennan dag var fyrsta plata Heru sem var á íslensku. Þar má meðal annars heyra lög eftir Megas og Bubba Morthens sem ferðaðist með henni um Ísland ári áður en platan kom út. Don't play this (2005). Don't play this er fimmta sólóplata Heru en þar syngur hún aðeins lög eftir sjálfa sig á ensku. Platan kom út í september en var þó seld í forsölu á tónleikum hennar á skemmtistaðnum NASA við Austurvöll föstudaginn 5. ágúst. Grundarfjörður. Grundarfjörður er bær á norðanverðu Snæfellsnesi á Íslandi, í miðjum firði umkringdur fjöllum, en vestanmegin við hann liggur Kirkjufell. Bærinn er á milli Stykkishólms og Ólafsvíkur. Helstu atvinnuvegir í Grundarfirði eru sjómennska og fiskvinnsla. Skipaumferð hefur aukist til muna á Grundarfirði, enda þykja og fjörðurinn sjálfur með eindæmum skjólgóð. Viðlegukantur norðurhafnarinnar var stækkaður árið 2002. Saga. Grundarfjörður hefur verið mikilvægur verslunarstaður í margar aldir, og er það bæði því að þakka að bærinn býr yfir góðri höfn sem og legu hans mitt á Snæfellsnesinu. Elstu heimildir um verslun á Grundarfirði eru frá landnámsöld þegar skip komu í Salteyrarós (sem að öllum líkindum er þar sem nú á tímum heitir Hálsvaðall vestur við Kirkjufell). Á þessu svæði er margar fornminjar að finna, sem gefur til kynna mikil umsvif á víkingaöld. Grundarfjarðarkaupstaður var forn kaupstaður sem stóð á Grundarkampi við botn fjarðarins og hafa þar fundist rústir frá ýmsum tímum. Verslun þar jókst verulega á 15. öld og eftir einokunarverslunina óx Grundarfirði fiskur um hrygg og var verslunarstaðurinn löggiltur sem einn af sex fyrstu kaupstöðum landsins með lagasetningu árið 1786. Þá var Grundarfjarðarkaupstaður gerður að höfuðstað Vesturamtsins og átti að vera miðpunktur verslunar og þjónustu í amtinu. Þessi lög voru einkennileg vegna þess að ekki mátti stunda verslun í vesturamti nema hafa borgararéttindi í Grundarfirði. Fyrsti skipulagsuppdráttur á Íslandi og líklega sá eini hérlendis byggður með borgarskipulagi er af Grundarfjarðarkaupstað. Finna má merki um þessa byggð á Grundarkampi. Mikið segir um byggð á Snæfellsnesi í Íslendingasögunni "Eyrbyggju". Peder Hansen Resen. Peder Hansen Resen (17. júní 1625 – 1. júní 1688) var danskur sagnfræðingur sem meðal annars átti stóran þátt í útgáfu íslenskra fornrita, svo sem "Snorra-Eddu" og "Völuspár", í Kaupmannahöfn á 17. öld. Einnig stóð hann að útgáfu gamalla norrænna lögbóka, en er þó einkum frægur fyrir Danmerkurlýsingu sína, "Atlas Danicum". Æviágrip. Peder Resen var sonur Hans Hansen Resen, Sjálandsbiskups. Hann útskrifaðist með próf í guðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1645 og fór þá í hefðbundna námsreisu ásamt m.a. Rasmusi Bartholin til Hollands og Frakklands þar sem hann lagði stund á lögfræði og textafræði ("fílólógíu"). Eitt ár dvaldi hann í Padúa á Ítalíu og lærði lög. 1657 varð hann prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn. Árið 1664 gerði konungur hann að borgarstjóra Kaupmannahafnar og 1669 að assessor í hæstarétti. Hann þjáðist af liðagigt síðustu ár sín og lést, barnlaus, í Kaupmannahöfn. Útgáfustarfsemi. Peder Resen hafði mikinn áhuga á útgáfu fornra norrænna lögbóka og gaf út 1675 "norsku Hirðskrána" og ýmsar gamlar danskar lögbækur í tengslum við lögfræðikennslu sína við háskólann. Hann varð fyrstur til að gefa út á prenti íslensku fornritin "Snorra-Eddu", "Hávamál" og "Völuspá" (1665), auk orðabókarinnar "Lexicon Islandicum" (1683) eftir Guðmund Andrésson. H H Parmesan. Parmesan (ítalska: Parmigiano-Reggiano) er harður ítalskur ostur gerður úr kúamjólk og er af gerðinni "grana" („korn“) sem heitir svo af því að fullþroskaður ostur er kornóttur. Osturinn dregur nafn sitt af framleiðslusvæði hans umhverfis borgirnar Parma og Reggio-Emilia í Pódalnum á Norður-Ítalíu, þ.e.a.s. svæðið þar sem parmaskinka er einnig framleidd. Heiti ostsins er skrásett vörumerki í eigu samtaka framleiðenda í borgunum tveim ("Consorzio del Formaggio Parmigiano-Reggiano"). Heiti ostsins er auk þess verndað af reglugerð Evrópusambandsins nr. 2081/92 um upprunamerkingar á matvælum. Þetta þýðir m.a. að ostar sömu gerðar sem ekki eru framleiddir í borgunum tveim og samkvæmt staðli samtakanna bera heitið „grana“ eins og t.d. hinn þekkti „grana padano“ ostur. Orðið „parmesan“ er líklega komið inn í íslensku úr frönsku. Merkingar og gæðavottun. Hjól af parmesanosti í geymslu. Framleiðsla ostsins. Heimildir eru til um að ostur af þessari gerð hafi verið framleiddur á svæðinu allt frá því á 13. öld (til dæmis í "Tídægru" Boccaccios) en líklegt er að hann hafi orðið til í þessari mynd nokkrum öldum áður. Venja er að segja fæðingarstað hans vera í Bibbiano í nágrenni Reggio-Emilia. Mjólkin í ostana kemur úr kúm sem ræktaðar eru í hinum frjósama Pódal sunnan árinnar þar sem er gnægð vatns og saltlög, en salt er notað við framleiðsluna. Vegna þess hve lágt dalurinn liggur (hlutar hans eru neðar en sjávarmál) helst hann rakur yfir sumartímann þegar gras sviðnar í öðrum héruðum Ítalíu. Kýrnar eru flestar núorðið af frísversku kyni en upprunalega mjólkin í parmesan kemur úr rauðum kúm sem Langbarðar hafa líklega flutt með sér á svæðið á miðöldum. Þessar kýr eru ósérhæfðar (ræktaðar fyrir bæði mjólk, kjöt og og sem vinnudýr) en gefa aðeins af sér einn þriðja af þeirri mjólk sem hollensku kýrnar gefa. Osturinn er unninn með hefðbundum aðferðum; hleyptur með ostahleypi unnum úr kálfsmögum og saltaður, og síðan látinn þroskast í minnst tvö ár, en að jafnaði þrjú ár. Ólífuolía er reglulega borin utaná ostinn til að mynda skorpu. Neysla. Venjan er að rífa parmesan út á pastarétti (ekki þó sjávarréttapasta) og ofnrétti. Osturinn myndar gott mótvægi við rauðvín og er oft borinn fram í bitum, t.d. þegar smakka á óþroskað vín. Osturinn er venjulega skorinn (eða flísaður) með stuttum hjartalaga ostahníf. Parmesan er uppistaðan í pestómauki, ásamt basil og hnetum. Osturinn þornar við geymslu og er vel neysluhæfur þótt hann verði gamall og harðni. Ef hann er geymdur við stofuhita á hann til að „svitna“ og getur myndast mygla utaná honum sem nær þó ekki inn vegna þess hve osturinn er þéttur í sér. Best er að geyma hann í pappír, svo sem smjörpappír. París. a> er eitt af táknum Parísarborgar París (franska: Paris, áður Lutèce úr Latínu: Lutetia) er höfuðborg Frakklands og höfuðstaður héraðsins Île-de-France. Íbúafjöldinn í borginni er 2.153.600 (2005) á höfuðborgarsvæðinu búa 12.067.000 íbúar. Borgin byggðist upp út frá eyju í ánni Signu þar sem er hinn sögulegi miðbær og dómkirkjan Notre Dame. Saga borgarinnar. Þegar Rómverjar lögðu undir sig Gallíu árið 52 f.Kr. bjó gaulverskur ættflokkur á svæðinu sem Rómverjar kölluðu Parisii. Rómverjar nefndu sína borg "Lutetia". Um Krists burð hafði borgin breiðst yfir á vesturbakka Signu þar sem núna er Latínuhverfið, og fengið nafnið "París". París var höfuðborg Mervíkinga frá árinu 508. Á 9. öld varð borgin fyrir ítrekuðum árásum víkinga en umfangsmesta umsátrið um borgina fór fram undir stjórn Reginherusar nokkurs, sem sumir vilja meina að sé Ragnar loðbrók, sem rændi borgina þann 28. mars árið 845 og fékk mikið lausnargjald fyrir að hafa sig á brott. Á 11. öld breiddist borgin yfir á austurbakkann og óx hratt næstu aldirnar. Árið 1257 var Sorbonne-háskóli stofnaður með sameiningu nokkurra skóla sem fyrir voru. Loðvík XIV færði aðsetur konungsins frá borginni til Versala árið 1682. 1789 hófst franska byltingin með því að Parísarbúar réðust á fangelsið Bastilluna 14. júlí. Fransk-prússneska stríðið 1870 endaði með sigri Prússa og umsátri um borgina. Í umsátrinu var Parísarkommúnan stofnuð, en gafst upp eftir tvo mánuði. Eftir þetta stríð voru breiðgötur Parísar búnar til með því að rífa hluta gömlu borgarhverfanna, meðal annars til þess að auðveldara væri að koma her inn í borgina. Borgin átti visst blómaskeið undir lok 19. aldar þegar menningarlíf blómstraði þar. París var hernumin af Þjóðverjum 1940 og frelsuð af bandamönnum í ágúst árið 1944. 1968 átti stúdentauppreisnin sér stað í París. Mervíkingar. Mervíkingar (franska: Mérovingiens'") voru konungsætt Frankaríkisins frá 5. öld þar til Karlungar tóku við 751. Ættin dregur nafn sitt af Meroveusi, sem var leiðtogi Franka um miðja 5. öld og varð áberandi með sigrum Hildiríks I, sonar hans, yfir Alamönnum, Vísigotum og Söxum. Klóvis I, sonur hans, vann endanlegan sigur yfir Alamönnum, tók upp kristna trú og tók sér aðsetur í París. Á 7. öld var staða konungs orðin að miklu leyti táknræn vegna þess hversu mikið vald var í höndum greifa sem fóru með varnir ríkisins. Hið eiginlega pólitíska vald lá orðið í höndum brytans ("maior domo") sem var orðið arfgengt embætti í höndum Karlunga. Eftir að Karl hamar vann frægan sigur á márum við Poitiers árið 732 varð til stuðningur við að sonur hans Pípinn III yrði konungur. Árið 751 var síðasti Mervíkingurinn, Hildiríkur III, svo settur í klaustur og Pípinn varð fyrsti konungurinn af ætt Karlunga. Karlungar. Karlungar voru konungsætt Frankaríkisins frá 751 þar til ríkinu var skipt með Verdun-samningnum árið 843. Karlungar ríktu síðan í ríkjunum þremur sem urðu til við samninginn; í Frakklandi þar til Kapetingar tóku við 987, í miðríkinu Lóþaringen til 887 og í hinu Heilaga rómverska ríki til 911. Stofnandi ættarveldisins er venjulega talinn Arnúlfur af Metz, biskup af Metz á síðari hluta 7. aldar. Hann varð valdamikill eftir að hafa stutt Klóþar II í að sameina konungsríki Franka (Ástrasíu, Nevstríu og Búrgúndí). Sonur hans, Ansugisel, giftist Beggu, dóttur Pípins eldra, hallarbryta og varð sjálfur bryti eftir hann. Sonur hans Pípinn II náði völdum í ríkjunum þremur og sigraði konunginn, Þjóðrík III þegar hann reyndi að bola honum frá. Þar með var embætti hallarbrytans orðinn í raun valdamesta embætti ríkisins. Sonur Pípins, Karl hamar, náði svo miklum vinsældum (hjá páfa, meðal annarra) eftir sigur hans yfir márum í orrustunni við Poitiers 732 að syni hans, Pípin III tókst að velta síðasta Mervíkingnum úr sessi og verða Frankakonungur 751. Sonur Pípins III og þekktasti konungur Karlunga, Karl mikli eða Karlamagnús, varð konungur eftir bróður sinn Karlóman árið 771. Sonur hans, Lúðvík guðhræddi, reyndi að sætta metnað þriggja sona sinna, en eftir dauða hans börðust þeir innbyrðis sem endaði með skiptingu ríkisins samkvæmt Verdun-samningum 843. Eugene Wesley Roddenberry. Eugene Wesley Roddenberry (19. ágúst 1921 - 24. október 1991) er best þekktur fyrir að hafa skapað Star Trek. Hann fæddist í borginni El Paso í Texas-fylki, Bandaríkjunum. Hann fór í flugherinn árið 1941 og varð flugmaður. Eftir að hann hætti herþjónustu vann hann áfram sem flugmaður hjá Pan Am flugfyrirtækinu en síðan vann hann hjá lögreglunni í Los Angeles frá 1949 til 1956. Ákvað hann síðan að gerast handritshöfundur og samdi handrit fyrir marga vinsæla þætti á 6. áratugnum og reyndi m.a. að koma af stað vísindaskáldsöguþáttum en flestir þeirra komust ekki langt. Hann gifti sig tvisvar yfir ævina og átti tvö börn með fyrri eiginkonu sinni, Eileen Rexroat, og eitt barn með þeirri seinni, Majel Barret, sem hefur mikið komið við sögu í Star Trek heiminum. Eftir lát hans, var hluti af brenndum líkamsleyfum hans sendur út í geiminn og var þar í 6 ár. Mörg fyrirbæri eru skýrð í höfuðið á honum og má m.a. nefna smástirnið 4659 Roddenberry, gígur á Mars, og hraðbraut í El Paso. Ebichu. Oruchuban Ebichu (おるちゅばんエビちゅ) er anime sem er byggt á manga eftir Risa Ito og fjallar um gæluhamsturinn Ebichu sem einbeitir sér að því í lífinu að hjálpa 25 ára kvenkyns eiganda sínum að giftast, þar sem hann heldur því fram að eftir 25 ára aldurinn sé fólk ekki lengur ungt. Líkt og South Park í Bandaríkjunum, hefur þessi þáttaröð vakið athygli fyrir að sprengja ýmis siðferðisleg mörk en í þáttunum er mikið um ofbeldi, slæmt orðbragð og kynlíf, en þrátt fyrir það flokkast þeir ekki sem s.k. hentai, vegna þess að aðalundiröldur þáttanna eru kímni og kaldhæðni. Azumanga Daioh. Azumanga Daioh eða einfandlega Azumanga eru japanskar myndasögur (manga) sem voru færðar yfir í teiknimyndaform (anime) árið 2002. Myndasögurnar byggjast upp á stuttum sögum sem birtust i tímaritinu "Dengeki Daioh" en voru síðar gefnar út sem heildstæðar bækur. Anime-þáttaröðin var send út í 5 mínútna brotum virka daga og sem 25 mínútna heildstæðir þættir um helgar þannig að sýndir voru 130 5 mínútna þættir og 26 25 mínútna þættir í heildina. Einnig voru framleiddar tvær stuttmyndir byggðar á þáttunum; önnur var lítið kynningarbrot sem var á geisladiski sem fylgdi með tímariti um manga og er aukaefni á diski 6 í DVD-safninu sem var gefið út af ADV Films þar sem mörgum þáttum er steypt saman í einn þannig að úr varð 5 mínútna löng stuttmynd en hin var Azumanga Web Daioh sem var upphaflega gefin út á heimasíðu sjónvarpsþáttanna og er skipuð allt öðrum raddleikurum en í upprunalegu sjónvarpsþáttunum. Titillinn er samsetning og er frekar erfitt að þýða beint en hann inniheldur nafn tímaritsins sem myndasögurnar voru birtar í og nafn höfundarins, Kiyohiko Azuma. Söguþráður. Þættirnir og myndasögurnar ganga ekki endilega út á söguþráðinn þó hann sé vissulega til staðar og fjalla um þrautir og uppákomur daglegs lífs í japönskum framhaldsskóla. Aðalpersónur þáttanna eru 6 skólastelpur og 2 kennarar en meðal mikilvægra aukapersóna eru hryllilegur sögukennari og stelpa sem virðist vera skotin í Sakaki, einni af aðalpersónunum. Lesendur og áhorfendur fylgjast með kattaþráhyggju Sakaki, erfiðleikum Chyo-chan með að passa inn í mun eldri aldurshóp en hennar eigin og ýmsum öðrum persónulegum málum persónanna eins og sumarfríum, prófum og íþróttamótum og þó að það sé yfirleitt aðeins fylgst með hversdagslífi persónanna koma þó reglulega inn ýmis súrrealísk atriði eins og fyrsti draumur ársins hjá hverri persónu. Persónur. 4 af aðalpersónunum í Azumanga komust á lista yfir 100 mestu kvenhetjur ársins 2002 í tímaritinu Newtype. Osaka lenti í 7. sæti, Chiyo-chan 11. sæti, Sakaki 21. og Yomi í 78. sæti. Samkvæmt því voru aðalpersónur þáttanna næstvinsælustu kvenkyns persónur í japönskum teiknimyndum það árið. Aðalpersónur. 280px Indónesía. Indónesía er ríki í Suðaustur-Asíu sem samanstendur af 17.508 eyjum í Malajaeyjaklasanum. Það er stærsta ríki heims sem telst til eyjaklasa og fjórða fjölmennasta ríki heims. Indónesía er jafnframt það ríki þar sem flestir múslimar búa. Indónesía er þó ekki íslamskt lýðveldi. Höfuðborg landsins er Djakarta. Landamæri þess liggja að Papúu-Nýju Gíneu, Austur-Tímor og Malasíu. Önnur nágrannaríki eru Singapúr, Filippseyjar, Ástralía og Andaman- og Níkóbareyjar sem tilheyra Indlandi. Landið eins og það er í dag varð til þegar nýlendur Hollendinga í Suðaustur-Asíu, Hollensku Austur-Indíur, fengu sjálfstæði á fimmta áratug tuttugustu aldar. Árið 1975 tóku Indónesar yfir austurhluta eyjunnar Tímor, en vesturhluti eyjunnar var fyrir hluti af Indónesíu. Austur-Tímor hlaut svo sjálfstæði á ný á árunum 1999 til 2002. Í Indónesíu búa mörg þjóðarbrot sem sum hver berjast fyrir sjálfstæði, svo sem í Aceh og Papúu (áður Irian Jaya). Þessi staðreynd endurspeglast í kjörorði landsins "Sameining í fjölbreytni". Saga. Indversk skip hafa frá fornu fari siglt í verslunarferðir alla leið til Afríku. Þetta skip er frá 800 e.o.t. Steingervingar af "Homo erectus" sem er einnig þekktur sem "Javamaðurinn" benda til þess að Indónesía hafi verið byggð mönnum fyrir tveim milljónum til 500.000 árum. Ástrónesíumenn, sem eru meirihluti af íbúum Indónesíu komu frá Tævan um 2000 f.Kr. og hröktu hina innfæddu Melanesíubúa til austurhéraða landsins. Mjög góð skilyrði til ræktunar eru í Indónesíu og hrísgrjónarækt undir vatni hófst þar á áttundu öld f.Kr. Verslun var mikil við ríki á Indlandi og í Kína. a> í Indónesíu. Þessi jurt var einu sinni ein eftirsóttasta varan í alþjóðaviðskiptum og laðaði fyrstu evrópsku nýlenduveldin til Indónesíu. Frá sjöundu öld dafnaði ríkið Srivijaya en veldi þess byggðist á verslun og áhrifum af hindúisma og búddisma. Milli áttundu og tíundu aldar, risu og hnigu á eyjunni Jövu ríkin Sailendra sem var landbúnaðarsamfélag sem byggðist á búddisma og Mataram sem var hindúaríki. Þessi samfélög skildu eftir sig stór helgilíkneski eins og Borobudur og Prambanan. Hindúakonungsdæmið Majapahit var stofnað á Austur-Jövu seint á 13. öld og undir stjórn Gajah Mada þá náðu áhrif þess yfir stóran hluta Indónesíu. Þetta tímabil er oft talið gullöld í sögu Indónesíu. Fyrstu merki um útbreiðslu Íslam í Indónesíu eru frá 13. öld á Norður-Súmötru. Smám saman breiddist múslímasiður út og varð ríkjandi trúarbrögð á Jövu og Súmötru í lok 16. aldar. Fyrstu Evrópubúarnir komu til Indónesíu árið 1512 þegar portúgalskir verslunarmenn undir forustu Francisco Serrão reyndu að einoka uppruna múskatblaða og cubebpipars á Malukueyjum. Síðar komu hollenskir og breskir verslunarmenn og árið 1602 stofnuðu Hollendingar Hollenska Austur-Indíafélagið og urðu voldugastir Evrópumanna á eyjunum. Hollenska Austur-Indíafélagið varð gjaldþrota og leystist upp árið 1800. Ríkisstjórnin í Hollandi setti þá á stofn nýlenduna Hollensku Austur-Indíur. Snorra-Edda. Snorra-Edda er bók í fjórum hlutum, Prologus, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal, rituð af Snorra Sturlusyni á 13. öld. Prologus fjallar um upphaf ásatrúar og er hann einungis stuttur formáli að bókinni. Á eftir honum kemur Gylfaginning en þar ræðir hinn fáfróði Gylfi konungur við Óðin um ásatrú. Þessi kafli er á samtalsformi eins og oft tíðkaðist um kennslubækur að fornu. Því næst er komið að Skáldskaparmálum en þar spjallar Snorri um heiti í skáldskap. Síðasti kaflinn er Háttatal en það er 102 erinda kvæði til Skúla jarls og Hákons konungs. Hver vísa er undir sínum hætti. Snorra-Edda er mikilvægasta heimild sem við höfum í dag um norræna goðafræði og fornan átrúnað. Hún var hins vegar upprunalega skrifuð sem kennslubók í skáldskap og þjónaði næstu aldirnar mikilvægu hlutverki á því sviði. Nýja-Gínea. Nýja Gínea (eða Papúa) er eyja fyrir norðan Ástralíu sem varð viðskila frá meginlandi Ástralíu þegar flæddi yfir svæðið sem nú heitir Torressund um 5000 f.Kr.. Umdeilanlegt er hvort hún tilheyri Eyjaálfu eða Asíu. Nýja-Gínea er skipt eyja. Hið sjálfstæða ríki Papúa Nýja Gínea er austurhlutanum, en á vesturhlutanum eru héruðin Papúa og Vestur Irian Jaya sem tilheyra Indónesíu. Nýja-Gínea er næststærsta eyja heims. Á henni er hæsta fjall Eyjaálfu (telji maður eyjunna til hennar), Carstenz pýramíðinn (eða Puncak Jaya). Kristín Svíadrottning. a>)Kristín Svíadrottning (8. desember 1626 – 19. apríl 1689) var drottning Svíþjóðar frá láti föður síns Gústafs 2. Adolfs sem féll í orrustu við Lützen, 16. nóvember 1632 þar til hún afsalaði sér embættinu til Karls 10., frænda síns, árið 1654. Hún giftist aldrei, aðhylltist í laumi kaþólska trú og fékk því framgengt að Karl, frændi hennar, var kjörinn eftirmaður hennar af sænska þinginu. Hún flutti til Rómar eftir afsögn sína og lést þar. Æviágrip. Eftir lát föður síns varð Kristín, þá ekki sex ára gömul, drottning undir forsjá móður sinnar Maríu Eleónóru af Brandenburg. Árið 1636 var hún þó tekin af móður sinni, meðal annars vegna deilna milli Maríu og ríkiskanslarans, Axels Oxenstierna sem þá sneri heim frá orrustuvöllunum í Þýskalandi. Oxenstierna tók þá að sér forsjá drottningar þar til hún tók sjálf við stjórnartaumunum við átján ára aldur 1644 og hann var áfram áberandi við völd þar til henni tókst að ýta honum til hliðar og skipa Johan Adler Salvius að ríkisráði árið 1648. Hún stóð fast gegn tilraunum þingsins til að fá hana til að velja sér mannsefni og fékk því framgengt 1650 að þess í stað var frændi hennar, Karl Gústaf, systursonur Gústafs 2., kjörinn eftirmaður hennar á stéttaþinginu. Árið 1654 tilkynnti hún þinginu fyrirætlan sína að afsala sér embætti til eftirmanns síns. Strax eftir konungsskiptin, 6. júní sama ár, hélt hún af stað til Þýskalands. Undir árslok 1655 var hún komin til Rómar, þar sem Alexander 7. var nýorðinn páfi. Henni var tekið með kostum og kynjum, og settist að í Villa Farnese, en hún var févana og þegar það varð opinbert, kólnuðu viðtökurnar. Næstu ár ferðaðist hún meðal annars til Frakklands og Þýskalands og einnig til Svíþjóðar, þar sem henni var markvisst gert erfitt fyrir. Árið 1668 flutti hún endanlega til Rómar og lést þar févana og áhrifalaus, en vinsæl meðal menntamanna og ferðamanna í borginni. Tilly. Johan Tzerclaes Tilly (febrúar, 1559 – 30. apríl 1632) var hershöfðingi í her furstans af Bæjaralandi og síðar yfir keisaraher hins Heilaga rómverska ríkis í Þrjátíu ára stríðinu. Hann þótti gætinn hershöfðingi, sérstaklega miðað við hinn unga undirmann sinn, Pappenheim, og hann náði ekki sama árgangri í herförum sínum og helsti keppinautur hans, Albrecht von Wallenstein, yfirhershöfðingi keisarahersins til 1634. Tilly féll í orrustu gegn Gustavi Adolf II þegar sá síðarnefndi fór með her sinn yfir ána Lech. Afleiðingarlögmálið. Afleiðingarlögmálið er lögmál um hvernig lífverur læra af afleiðingum hegðunar sinnar. Það var fyrst sett fram af Edward Lee Thorndike árið 1911 í bókinni" Animal Intelligence". Nokkuð einfaldað má setja afleiðingarlögmálið fram á þann hátt að líkur á hegðun sem veiti dýri ánægju aukist en að líkur á hegðun sem valdi dýri óþægindum minnki. Með ánægjulegum fyrirbærum á Thorndike við það sem dýr gerir ekkert til þess að forðast og reynir jafnvel að öðlast, en óþægileg fyrirbæri vísa til þess sem dýr reynir yfirleitt að forðast (Thorndike, 1911). Haraldur hárfagri. Haraldur I Noregskonungur eða Haraldur hárfagri (um 850 – 933) var konungur yfir Noregi á landnámsöld og er hans getið í mörgum Íslendingasögum, þar með talinni Egils sögu Skalla-Grímssonar. Valdabarátta hans er sögð hafa verið ein ástæða þess að Ísland og aðrar eyjar í norðanverðu Atlantshafi byggðust á þeim tíma. Persóna Haraldar. Í Haraldar sögu hárfagra er Haraldi lýst sem mjög ástríðufullum manni sem lét fátt stöðva sig í að ná því markmiði sínu að verða konungur yfir Noregi. Hann er sagður hafa verið af konungum kominn í margar kynslóðir. Faðir hans var Hálfdan svarti sem var konungur yfir Upplöndum. Faðir Hálfdanar svarta var Guðröður veiðikonungur og faðir hans Hálfdan mildi og matarilli, sem var konungur yfir Vestfold og Raumaríki, sonur Eysteins (mein)frets, Hálfdanarsonar hvítbeins, Ólafssonar trételgju. Ættfærsla Haraldar og raunar tilvera hans sjálfs hefur þó á síðari árum verið dregin í efa, enda er hann hvergi nefndur í samtímaheimildum og raunar ekki getið um hann í heimildum fyrr en 250 árum eftir að hann var uppi. Haraldur er í sögununum talinn einungis tíu vetra þegar faðir hans drukknaði á vatninu Randarfirði er ísinn brast undan honum þar sem hann var á heimleið. Haraldur tók þá við konungdómi eftir föður sinn. Viðurnefni. Eins og kemur fram víða, til dæmis í Egils sögu og Haraldar sögu hárfagra, var hann kallaður Haraldur lúfa á því tímabili sem hann stefndi að því að gerast einvaldur Noregs vegna þess að hann neitaði að skera hár sitt og skegg á meðan á því stóð. Þegar hann lauk því síðan var hár hans skorið og hann kallaður Haraldur hárfagri. Í eldri heimildum (frá 11. öld) er viðurnefnið hins vegar notað yfir Harald harðráða. Kynsæld Haralds. Hann eignaðist fjöldamörg börn með ótal frillum og leiða má líkur að því að ekki séu til traustar heimildir um þau öll. Þórður Víkingsson, sem var landnámsmaður á Alviðru í Dýrafirði, hefur verið sagður sonur hans en sú ættfærsla hefur verið dregin mjög í efa, meðal annars af Guðbrandi Vigfússyni. Valdabarátta. Haralds saga hárfagra í Heimskringlu gerir valdasögu Haralds rækilegust skil af rituðum heimildum. Snemma í sögunni greinir frá því þegar hann sendi menn sína til að fara til Eiríks konungs af Hörðalandi og biðja um hönd dóttur hans sem hét Gyða. Hún neitaði hins vegar að fórna meydómi sínum fyrir Harald þar sem henni þótti hann vera of mikill smákóngur og sagði einnig að hún myndi ekki játast honum fyrr en hann hefði náð að setja allan Noreg á sitt vald. Hirðmönnum Haralds fannst þetta vera óþarflega djarflega orðað hjá henni en Haraldur tók þessu svari hennar vel og sagði að það væri eflaust rétt hjá henni að hann hefði átt að vera byrjaður að leggja undir sig önnur fylki og sagði svo hin fleygu orð: „Þess strengi eg heit og því skýt eg til guðs þess er mig skóp og öllu ræður að aldrei skal skera hár mitt né kemba fyrr en eg hefi eignast allan Noreg með sköttum og skyldum og forráði en deyja að öðrum kosti.“ og má segja að það hafi verið upphafið á sameiningu alls Noregs undir stjórn hans. Orustur og völd. Haraldur byrjaði eftir þetta að taka yfir önnur fylki og hafði engin vettlingatök þar á, brenndi til dæmis bæi. Þar á eftir skipaði hann jarla yfir hvert fylki sem skyldu fara með umboð fyrir hann og fengu þeir einn þriðja hlut skattpeninga síns fylkis og tóku yfir óðalsbæi. Í kjölfar þessa er sagt að margir hafi séð sig neydda til að flýja, annaðhvort til landa sem þegar var búið að nema eða ónuminna landa og eyja í Atlantshafi, svo sem Færeyja, Íslands og Orkneyja. Haraldar saga og Egils saga greina síðan frá ýmsum orustum og bardögum sem ekki tóku enda fyrr en Haraldur hafði lokið ætlunarverki sínu, sem var að ráða yfir öllum Noregi, en raunar réði hann aldrei nema hluta núverandi Noregs, þ.e. Víkinni (svæðinu kringum Óslófjörðinn), Suður- og Vestur-Noregi, en bandamenn hans, Rögnvaldur Mærajarl og Hlaðajarlar í Þrændalögum réðu norðvestanverðum Noregi að Hálogalandi. Innanverðum Austur-Noregi, Hálogalandi, Nordland, Troms og Finnmörku réði Haraldur alls ekki. Hann fór líka í víking vestur um haf að því er segir í Landnámu og lagði undir sig Hjaltland og meira af Suðureyjum en nokkur annar Noregskonungur. En er hann fór til baka herjuðu á eyjarnar "Írar ok Skotar ok víkingar". Þegar konungur frétti þetta sendi hann Ketil flatnef að vinna aftur eyjarnar. Ketill setti Björn austræna son sinn yfir eignir sínar í Noregi og fór svo og vann hann eyjarnar og gerðist höfðingi yfir en galt ekki skatt til konungs svo sem ætlað var. Haraldur hirti þá eignir Ketils í Noregi og rak Björn burt. Efri ár Haralds og dauði. Þegar Haraldur var kominn á efri ár settist hann í helgan stein og lét einn af sonum sínum, Eirík blóðöx, taka við ríkinu en þar sem Eiríkur átti bræður upphófst valdabarátta á milli þeirra eftir að Haraldur dó. Eiríkur hélt þó velli um sinn eða þar til hálfbróðir hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, sem hafði verið í fóstri hjá Aðalsteini konungi á Englandi, sigraði Eirík sem flúði sjálfur til Englands á meðan Hákon tók yfir Noreg. Körfuknattleikur. Körfuknattleikur (eða körfubolti) er hóp- og boltaíþrótt sem leikin er af tveimur fimm manna liðum. Markmið hvors liðs er að skora körfu hjá andstæðingnum og koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái knettinum og skori körfu. Körfubolti er áhorfendavæn íþrótt að því leytinu að þetta er innanhússíþrótt, leikin á tiltölulega litlum leikvelli, aðeins eru tíu leikmenn á vellinum samtímis, og þeir nota stóran bolta sem auðvelt er að fylgja eftir. Að auki eru leikmenn yfirleitt ekki með neinar líkamshlífar, sem gerir viðbrögð þeirra sýnilegri. Þetta er ein vinsælasta íþróttin í Bandaríkjunum, og er einnig vinsæl í öðrum heimshlutum, svo sem í Suður-Ameríku, Evrópu, Asíu, og fyrrum Sovétríkjum, þá sérstaklega í Litháen. Upphaf körfuknattleiks. Körfuknattleikur er óvenjulegur að því leyti að íþróttin var í raun búin til af einum manni. Árið 1891 vantaði dr. James Naismith, kanadískan prest í KFUM háskóla í Springfield, Massachusetts, innanhússleik sem sameinaði þrek og þokka, til að hafa ofan af fyrir ungum mönnum yfir veturinn. Sagan segir að eftir að búið var að hafna öðrum hugmyndum, þar sem þær þóttu of ruddalegar eða henta illa inni í litlum íþróttasal, hafi hann skrifað nokkrar grunnreglur, neglt upp ferskjukörfu á vegg íþróttasalarins og fengið nemendur sína til að hefja leik í hinni nýju íþrótt. Fyrsti opinberi leikurinn fór fram þar þann 20. janúar 1892. Körfubolti naut vinsælda frá upphafi og í gegnum KFUM dreifðist íþróttin fljótt um gjörvöll Bandaríkin. Þrátt fyrir að hafa upphaflega staðið að þróun og útbreiðslu köfuknattleiks leið varla áratugur þar til KFUM var farið að reyna að hindra iðkun íþróttarinnar, þar sem grófur leikur og ófriðlegir áhorfendur virtust spilla fyrir upphaflegu markmiði KFUM með íþróttinni. Önnur áhugamannafélög, háskólar og síðar atvinnumannafélög fylltu fljótlega upp í það tóm. Körfuknattleikur var upphaflega leikinn með fótbolta. Þegar sérstakir boltar voru útbúnir fyrir íþróttina voru þeir upphaflega „náttúrulega“ brúnir á litinn. Það var ekki fyrr en á öndverðum sjötta áratug 20. aldar að Tony Hinkle - sem sóttist eftir bolta sem leikmenn og áhorfendur ættu auðveldara með að sjá - kynnti til sögunnar appelsínugula boltann sem nú er algengastur. Háskólakörfubolti og fyrstu deildirnar. Naismith átti sjálfur mikinn þátt í að festa háskólaleikinn í sessi, en hann var þjálfari hjá Kansas háskóla í sex ár áður en hinn nafntogaði þjálfari Phog Allen tók við af honum. Amos Alonzo Stagg, lærisveinn Naismiths, kynnti körfuboltann til sögunnar hjá Chicago háskóla, og Adolph Rupp, fyrrum nemandi Naismiths í Kansas, náðum miklum árangri sem þjálfari Kentucky háskóla. Fyrstu háskóladeildirnar voru stofnaðar upp úr 1920 og fyrsta landsmótið, National Invitation Tournament í New York, fór af stað 1938. Háskólaboltinn riðaði næstum til falls í kjölfar veðmálahneykslis á árunum 1948-1951, þegar tugir leikmanna úr bestu liðunum voru bendlaðir við að hagræða úrslitum leikja. Upp úr 1920 voru hundruð atvinnuliða í borgum og bæjum Bandaríkjanna. Það var lítið sem ekkert skipulag á atvinnumannaleiknum. Leikmenn stukku óheft á milli liða, og lið léku í vöruskemmum og reykmettuðum danssölum. Deildir byrjuðu og hættu, og lið eins og New York Rens og Original Celtics léku upp undir tvöhundruð leiki á ári á ferðalögum sínum. Körfuknattleikssamband Íslands. Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, var stofnað þann 29. janúar 1961, þrátt fyrir mikla andstöðu annarra sérsambanda. Í fyrstu stjórn KKÍ voru Bogi Þorsteinsson, sem var kjörinn formaður, Benedikt Jakobsson, Matthías Matthíasson, Magnús Björnsson, Kristinn V. Jóhannsson, Ásgeir Guðmundsson og Helgi V. Jónsson. Bogi var formaður KKÍ í tæp níu ár samfleytt; frá stofnfundinum fram að aðalfundi 1. nóvember 1969, þegar hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Lið 20. aldarinnar. "Sjá aðalgrein: Lið 20. aldarinnar" Snemma árs 2001 voru úrvalslið 20. aldar í karla- og kvennaflokki tilkynnt. Í hvoru liði voru 12 leikmenn. Einnig voru valdir þjálfarar og dómarar aldarinnar. Pétur Guðmundsson var valinn leikmaður aldarinnar í karlaflokki, en Anna María Sveinsdóttir í kvennaflokki. NBA deildin. NBA deildin, National Basketball Association, var stofnuð árið 1946. Þar voru sett undir sama hatt bestu lið atvinnumannaliðin, og leiddi þetta til töluverðrar vinsældaaukningar íþróttarinnar. Önnur atvinnumannadeild, American Basketball Association (ABA) var stofnuð árið 1967 og átti um skeið í harðri samkeppni við NBA deildina, allt til ársins 1976 þegar deildirnar sameinuðust. Fjögur lið úr ABA hófu þátttöku í NBA, en hin liðin voru leyst upp. Í dag telur NBA deildin 30 lið, þar af eitt í Kanada. Alþjóðlegur körfuknattleikur. Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, var stofnað árið 1932 af átta þjóðum: Argentínu, Tékkóslóvakíu, Grikklandi, Ítalíu, Lettlandi, Portúgal, Rúmeníu og Sviss. Körfuknattleikur var fyrst með á Ólympíuleikum árið 1936, þó kynningarmót hafi verið haldið árið 1904. Bandaríkin hafa lengst af einokað þessa keppni, en landslið þeirra hafa aðeins þrisvar orðið af titlinum. Fyrsta skiptið sem það gerðist var í mjög umdeildum úrslitaleik í München árið 1972 gegn Sovétríkjunum. Heimsmeistaramót karla var fyrst haldið 1950 í Argentínu. Þremur árum seinna var fyrsta heimsmeistaramót kvenna haldið í Chile. Árið 1989 ákvað framkvæmdastjórn FIBA að heimila atvinnumönnum þátttöku á Ólympíuleikum. Á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 tóku atvinnumenn því í fyrsta skipti þátt. Yfirburðir Bandaríkjamanna voru algjörir á leikunum í Barcelona, en strax á næstu leikum var þetta orðið erfiðara og önnur landslið náðu þeim að áratug liðnum. Árið 2002 endaði lið, eingöngu skipað NBA leikmönnum, í sjötta sæti á heimsmeistaramótinu í Indianapolis, á eftir Serbíu og Svartfjallalandi, Argentínu, Þýskalandi, Nýja Sjálandi og Spáni. Á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 komust Bandaríkjamenn aðeins í þriðja sæti á eftir Argentínu og Ítalíu. Konur kepptu fyrst í körfuknattleik á Ólympíuleikunum 1976. Sterkustu þjóðirnar voru Bandaríkin, Brasilía og Ástralía. Vinsældir körfuknattleiks á heimsvísu endurspeglast í þeim fjölda þjóða sem eiga fulltrúa í NBA deildinni, sem óhætt er að halda fram að sé sterkasta körfuboltadeild heims. Meðal þeirra „erlendu“ leikmanna sem leikið hafa í NBA eru Emanuel Ginobili frá Argentínu; Vlade Divac og Peja Stojakovic frá Serbíu; Toni Kukoc og Drazen Petrovic frá Króatíu; Andrei Kirilenko frá Rússlandi; Arvydas Sabonis og Sarunas Marciulionis frá Litháen; Dirk Nowitzki og Detlef Schrempf frá Þýskalandi; Carlos Arroyo frá Puerto Rico; Yao Ming frá Kína; Steve Nash frá Kanada; Luc Longley frá Ástralíu; Pau Gasol frá Spáni og Íslendingarnir Pétur Guðmundsson og Jón Arnór Stefánsson. Jón Arnór hefur reyndar ekki leikið í NBA deildarkeppninni, en var hins vegar samningsbundinn Dallas Mavericks tímabilið 2003-2004. Reglur og reglugerðir. Markmið leiksins er að skora fleiri stig en andstæðingurinn með því að henda knetti ofan frá í gegnum körfuhring andstæðinganna, og reyna að koma í veg fyrir að þeir geti svarað í sömu mynt. Tilraun til að skora kallast skot, eða skottilraun. Tvö stig eru gefin fyrir heppnað skot, þrjú stig fyrir körfu sem skoruð er utan þriggja stiga línunnar (6,75 metrum frá körfunni), og eitt stig fyrir hvert heppnað vítaskot. Tímaákvæði, leikhlé og leikmannaskipti. Í meistaraflokki er leiknum skipt í fjóra leikhluta sem eru tíu mínútur hver (12 mínútur í NBA). Ef staðan er jöfn í lok venjulegs leiktíma er jafnan gripið til framlengingar sem stendur í fimm mínútur. Leikirnir taka þó mun lengri tíma en sem svarar þessu, þar sem klukkan er aðeins látin ganga á meðan boltinn er í leik. Klukkan, sem látin er ganga niður, er t.d. stöðvuð þegar boltinn lendir utan vallar eða ef dæmd er villa. Hálfleikur er 15 mínútna langur, og hlé á milli leikhluta stendur í tvær mínútur. Í yngri flokkum gilda oft önnur tímaákvæði. Leikhlé og leikmannaskipti eru leyfð í leiknum. "Leikmannaskipti" eiga sér stað þegar leikmaður yfirgefur völlinn, og sest á varamannabekkinn, og annar kemur inn í hans stað. "Leikhlé" er þegar þjálfari annars liðsins biður um að leiktíminn sé stöðvaður svo hann og lið hans geti ráðið ráðum sínum á svæði varamanna. Leikhlé stendur í eina mínútu samkvæmt alþjóðlegum reglum, en ýmist 100, 60 eða 20 sekúndur í NBA deildinni. Fjöldi leikhléa er takmarkaður. (Skv. alþjóðlegum reglum má hvort lið taka tvö leikhlé í fyrri hálfleik, þrjú í þeim seinni, og eitt í hverri framlengingu sem grípa þarf til. Í NBA má hvort lið taka sex 100/60 sekúndna leikhlé í öllum leiknum, en ekki fleiri en þrjú í síðasta leikhlutanum, og þrjú 100/60 sekúndna leikhlé í hverri framlengingu, auk eins 20 sekúndna leikhlés í hvorum hálfleik.) Tæki. Einu nauðsynlegu tækin í körfuknattleik eru völlur, tvær körfur á spjaldi, og körfubolti. Í keppni er nauðsynlegt að hafa til staðar leikklukku til að hafa stjórn á leiktímanum. Í alvöru mótum, s.s. Íslandsmóti, landsleikjum og í atvinnudeildum, þarf oft að hafa fleiri tæki til staðar. Þar á meðal er skotklukka, ritaraborð og hávær flauta eða bjalla tengd leikklukku. Boltinn sem notaður er í karlaflokki skal vera á bilinu 749 til 762 millimetrar í ummál, 238 til 242 mm í þvermál, og vega á bilinu 567 til 624 grömm. Kvennaboltinn er minni, og skal ummál hans vera 724-737 mm, þvermálið 230-235 mm, og þyngdin 510-567 grömm. Knettinum leikið. Í körfuknattleik er knetti aðeins leikið með höndum og má senda, henda, blaka, rúlla eða rekja í hvaða átt sem er innan takmarkana sem settar eru í leikreglunum. "Sending" er þegar leikmaður hendir boltanum til samherja. "Knattrak" er þegar leikmaður dripplar (skoppar) boltanum viðstöðulaust, hvort sem hann hleypur, gengur eða stendur kyrr. Hvorki er leyfilegt að sparka viljandi í boltann né kýla hann með hnefa, og hann verður að vera innan marka leikvallarins. Að hlaupa með boltann án þess að drippla honum er óleyfilegt og kallast "skref". Sömuleiðis er "tvírak" eða "tvígrip" óleyfilegt, þ.e. að drippla með báðum höndum eða hefja knattrak að nýju eftir að hafa gripið boltann í kjölfar fyrra knattraks. Ekki má setja höndina undir boltann í knattraki, það kallast "sóp". Í elstu flokkum gilda tímaákvæði um að koma knetti af varnarvelli yfir á sóknarvöll, það að vera í takmarkaða svæðinu (oftast kallað "teigur"), og að reyna skot á körfu. Að eiga við knöttinn þegar hann er á niðurleið eftir skottilraun, og er allur fyrir ofan körfuhringinn, er óleyfilegt og kallast "knatttruflun". Villur. Villa dæmd á leikmann.Villa er brot á leikreglum þegar um er að ræða ólöglega snertingu við mótherja og/eða óíþróttamannslega hegðun. Oftast er varnarmaður í hlutverki hins brotlega, en sóknarmenn geta líka brotið af sér. Venjulegar villur kallast persónuvillur. Leikmenn sem brotið er á fá knöttinn aftur til innkasts, eða þeir fá að taka vítaskot ef brotið var á þeim í skottilraun. Eitt stig er gefið fyrir að hitta úr vítaskoti, frá vítalínu sem er 4,5 metra frá körfunni. Ef lið brýtur oftar en fjórum sinnum af sér í einum leikhluta (skv. alþjóðareglum og NBA reglum) fá mótherjarnir að taka vítaskot í hvert sinn sem villa er dæmd það sem eftir lifir leikhlutans. Þó eru aldrei gefin vítaskot þegar dæmd er sóknarvilla. Sóknarvillur, tvívíti og tæknivillur eru ekki taldar til liðsvillna í NBA, öfugt við alþjóðakörfuboltann. Leikmaður eða þjálfari sem sýnir af sér óíþróttamannslega hegðun, svo sem að rífast við dómara, getur fengið dæmda á sig tæknivillu. Fái þjálfari tvær tæknivillur er honum gert að fara til búningsherbergis. Grófar villur, þar sem ekki er reynt að leika knettinum, kallast óíþróttamannslegar villur. Fái leikmaður tvær óíþróttamannslegar villur í sama leiknum skal hann yfirgefa leikstað. Ef leikmaður fær dæmdar á sig fimm villur í sama leiknum (sex villur í NBA) fær hann ekki að taka meira þátt í leiknum. Ef enginn varamaður er gjaldgengur inn á í hans stað, verður lið hans að halda leik áfram manni færri. Þannig getur lið haldið áfram leik með aðeins tvo leikmenn á vellinum. Leikmenn. Í hverju liði eru fimm leikmenn og allt að sjö varamenn. Fjöldi skiptinga í hverjum leik er ótakmarkaður, en leikmannaskipti eru aðeins heimil þegar leikklukkan er stopp. Venjulega leika karlar í stuttbuxum og ermalausri treyju, og skóm með góðum ökklastuðningi. Konur hafa í gegnum tíðina m.a. leikið í pilsi og skyrtu, en í dag leika flestar konur í sams konar búningum og karlar. Dómarar og starfsmenn ritaraborðs. Aðaldómari og einn til tveir meðdómarar dæma leikinn. Á ritaraborðinu eru starfsmenn sem stjórna leik- og skotklukku, halda utan um stigaskor á þar til gerðri skýrslu og gefa til kynna villufjölda einstakra leikmanna. Dómarar leiksins eru venjulega í grárri stutterma treyju og svörtum síðbuxum. Þeir dæma villur, gefa til kynna hvort skoruð karfa er eitt, tvö eða þrjú stig og svo má lengi telja. Stöður. Stundum stillir þjálfarinn upp þriggja bakvarða sókn, skiptir þá öðrum framherjanna eða miðherjanum út fyrir bakvörð. Skottilraun. Algengasta aðferðin við að skjóta knettinum og sú aðferð sem helst er mælt með, er þar sem boltanum er haldið með báðum höndum, en skotið með því að hreyfa úlnlið skothandarinnar snöggt niður á við þannig að boltinn færist fram á fingurna. Skotið klárast svo með því að boltinn rennur fram af fingurgómunum um leið og úlnliðurinn klárar sína hreyfingu. Handleggurinn stendur beint út frá líkamanum í 40° horni upp á við, hefur þannig byrjað að réttast út frá líkamanum við upphaf skottilraunarinnar og er beinn í lokin þegar boltanum er sleppt. Þegar hreyfingunni er lokið hefur höndin farið 180° frá því að hún studdi við boltann og „lafir“ nú sem dauð væri. Sending. Sending er aðferð til að koma boltanum frá einum leikmanni til annars. Flestar sendingar eru þannig að leikmaður tekur eitt skref fram á við til að auka styrk sendingarinnar og fylgir á eftir með báðum höndum til að tryggja nákvæmni hennar. Grunnsendingin er brjóstsending. Boltinn er sendur frá bringu sendandans að bringu þess sem sendingin er ætluð. Helsti kostur þessarar sendingar er að hún tekur stuttan tíma, þar sem sendandinn reynir að senda eins beint og mögulegt er. Annars konar sending er gólfsending. Hér skoppar boltinn í gólfið u.þ.b. 2/3 vegalengdarinnar frá sendandanum. Eins og brjóstsendingin, á þessi sending að fara frá bringu að bringu og skal vera eins bein og hægt er, t.d. ætti boltinn ekki að vera farinn að leita niður aftur, eftir að hafa lent í gólfinu, áður en móttakandinn grípur hann. Á þennan hátt tekur sendingin stysta mögulega tíma. Það tekur lengri tíma að gefa svona sendingu en venjulega brjóstsendingu, en það er erfiðara fyrir mótherjana að komast inn í sendinguna á löglegan hátt. Þannig er þessi sending oft notuð þegar þröngt er á þingi, eða ætlunin er að senda fram hjá mótherja. Ein sending er notuð til að senda yfir höfuð andstæðings. Þá heldur sendandinn boltanum fyrir aftan höfuð sér og sendir boltann yfir sig og andstæðinginn. Þessi sending drífur lengra en venjuleg brjóstsending. Meginsjónarmið góðrar sendingar er að erfitt sé fyrir andstæðingana að komast inn í hana. Af þeim sökum eru langar bogasendingar yfirleitt ekki reyndar og sendingar þvert yfir völlinn eru afar fátíðar. Hæð. Það telst körfuknattleiksmanni tvímælalaust til tekna að vera hávaxinn. Í atvinnudeildum eru flestir karlmenn yfir 180 cm háir, og flestar konur yfir 170 cm. Í atvinnudeildum karla eru bakverðir yfirleitt lægstu menn vallarins, en geta þó verið ansi hávaxnir. Framherjar eru flestir yfir tveir metrar á hæð. Margir miðherjar og einstaka framherjar eru meira en 210 cm háir. Hæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi eru Manute Bol og Gheorghe Muresan, báðir 231 cm háir. Múhameð. Múhameð (محمد "Muhammad") er, samkvæmt íslam, síðasti spámaður Guðs á jörðinni. Hann var uppi frá 570 til 632. Uppvaxtarár Múhameðs. Múhameð ásamt fylgjendum á leið til Mekka. Erkienglarnir Garbíel, Míkael, Ísafil og Arail eru einnig með á myndinni. Múhameð spámaður fæddist 20. apríl árið 570 í Mekka, faðir hans hafði dáið áður en hann fæddist svo hann var alinn upp af afa sínum Abd al-Muttalib. Móðir Múhameðs dó þegar hann var 6 ára gamall og afi hans þegar hann var 8 ára. Eftir að afi hans dó var honum komið í fóstur hjá frænda sínum Abu Talib voldugum ættbálkahöfðingja í Mekka. Elsta mynd sem til er af Múhammeð Múhameð átti seinna eftir að fylgja frænda sínum í verslunarleiðangra og fræðast um umheiminn. Múhameð giftist auðugri ekkju sem hét Khadijah árið 595, þau áttu saman fimm börn, fjórar dætur og einn son; öll börnin voru fædd áður en hann byrjaði að kenna íslam. Byrjar að kenna íslam. Árið 610 fékk Múhameð vitrun frá erkienglinum Gabríel sem sagði honum að hann væri spámaður Guðs og bæri að breiða út boðskap hans, þrem árum seinna byrjaði Múhameð að predika opinberlega í Mekka, flestir sem á hann hlustuðu virtu hann ekki viðlits en nokkrir hlustuðu á hann og hann byrjaði að safna um sig litlum hóp fylgjenda. Þegar fylgjendum Múhameðs fjölgaði fóru ættbálkaleiðtogarnir í Mekka að óttast að hann gæti ógnað stjórn þeirra yfir Mekka. Bæði kona Múhameðs og frændi dóu árið 619 en eftir dauða frændans naut hann ekki lengur verndar Hashim ættbálksins. Flóttinn frá Mekka. Árið 622 eftir fjölda hótana og ofsókna flúðu Múhameð og fylgjendur hans frá Mekka til Medina þar sem hann aflaði sér margra fylgismanna. Þessi flótti er kallaður Hijira, það er við þessa dagsetningu sem múslimar miða dagatal sitt EH (Eftir Hijira). Óvinsemd milli Mekka og Medina óx stöðugt, árið 624 réðst Múhameð með hóp 300 múslima á úlfaldalest frá Mekka. Árásin mistókst og íbúar í Mekka ákváðu að senda lítinn her til Medina til að útrýma múslimum. 15. mars árið 624 börðust múslimar og íbúar Mekka nálægt Badr. Þó að herlið Mekka væri tvöfalt fjölmennara tókst múslimum að vinna sigur. Snýr vörn í sókn. Múslimar álitu að sigurinn við Badr hefði unnist fyrir tilskipan Allah, eftir sigurinn rak Múhameð alla gyðinga út úr borginni og eftir það voru nánast allir íbúar Medina múslimar. Árið 625 réðst Abu Sufyan hershöfðingi frá Mekka á Medina með 3000 menn, þó að Abu Sufyan hefði unnið bardagann þá missti hann of marga menn til þess að elta múslimana inn í Medina. Árið 627 réðst Abu Sufyan aftur á Medina, hann fékk hjálp frá gyðingaættbálknum Banu Qurayza sem Múhameð hafði rekið út úr Medina. En Múhameð hafði látið grafa skurð í kringum Medina og tókst að verjast öllum árásum Abu Sufyan. Eftir bardagann var öllum karlmönnum og táningsdrengjum úr Banu Qurayza ættbálknum slátrað og konurnar og börnin voru seld sem þrælar. Snýr aftur til Mekka. Árið 628 voru múslimar orðnir svo voldugir að Múhameð þorði að snúa aftur til Mekka sem friðsamur pílagrímur. Með honum í för voru 1600 múslimar. Eftir nokkrar samningaviðræður var samningur undirritaður í smábænum al-Hudaybiyah nálægt Mekka, sem gaf múslimum leyfi til að ferðast til Mekka í pílagrímsferðir. Samingurinn var rofinn árið 630 og Múhameð réðst á Mekka með yfir 10.000 menn. Þegar íbúar Mekka sáu fjölda liðsmanna Múhameðs þá gáfust þeir upp án nokkurrar mótspyrnu. Átta árum eftir að Múhameð flúði frá Mekka sneri hann aftur sem sigurvegari. Múhameð dó 8. júní árið 632, 63 ára gamall eftir skammvinn veikindi (talið er að hann hafi þjáðst af malaríu). Rúmum 100 árum eftir dauða hans höfðu múslimar lagt undir sig stór landsvæði allt frá miðausturlöndum til Spánar. Breiddargráða. Breiddargráða sem gjarnan er táknað með φ (fí), gefur upp afstöðu staðsetningar á jörðinni eða öðrum hnetti norðan eða sunnan miðbaugs. Breiddargráða er hornrétt mæling á staðsetningu þannig að hornið er 0° við miðbaug, en 90° við báða pólanna. Aðrar breiddargráður sem að eru mikilvægar eru krabbabaugur (einnig kallaður hvarfbaugur nyrðri; breiddargráða 23°27′ norður) og steingeitarbaugur (einnig kallaður hvarfbaugur syðri; breiddargráða 23°27′ suður); Norður heimskautsbaugur (66°33′ norður), og Suður heimskautsbaugur (66°33′ suður). Eingöngu á breiddargráðum á milli hvarfbauganna getur sólin náð hæsta punktinum á himni. Eingöngu innan heimskautsbauganna (breiddargráður stærri en 66°33′ til norðurs eða suðurs) er miðnætursól sjáanleg. Allar staðsetningar á gefinni breiddargráðu eru sagðar samsíða, þar sem að þær eru á samsíða fleti, og allir slíkir fletir eru samsíða miðbaug. Breiddargráðulínur aðrar en miðbaugur eru smærri hringir á yfirborði jarðar: Þeir eru ekki gagnvegir sökum þess að stysta lína milli tveggja punkta á sömu breiddargráðu krefst þess að fjarlægjast miðbaug. Breiddargráða skilgreinir lauslega hita- og veðurfarstilhneigingar, heimskautaljós, ríkjandi vindáttog öðrum eðlislegum einkennum landfræðilegra staðsetninga. Hverri breiddargráðu er skipt upp í 60 mínútur, sem hver um sig er svo skipt í 60 sekúndur. Breiddargráða er því rituð á forminu 64° 05′ 20" N (breiddargráða ráðhúsklukkuturnsins í Garðabæ). Annar ritmáti er að nota gráður og mínútur, og brot úr mínútu, t.d. 64° 05,297′ N (sami punktur). Stundum er skipt út Norður/Suður viðskeytinu þannig að mínus merki tákni suður. Breiddarbaugar. Hægt er að draga óteljandi marga hringi umhverfis jörðina með þeim hætti sem lýst er að ofan, á bilinu [-90°, 90°]. Þessir hringir eru kallaðir breiddarbaugar, og eru þeir misstórir - ummál þeirra er næstum núll við pólanna, en jöfn ummáli jarðar við miðbaug. Íslam. Íslam (arabíska: الإسلام "al-islām"), einnig nefnt Múhameðstrú, er eingyðistrú og er guð þeirra nefndur Allah á arabísku og rekur uppruna sinn til arabíska spámannsins og stríðsherrans Múhameðs sem var uppi á 6. og 7. öld eftir Krist. Fylgjendur íslams kallast "múslimar". Íslam er af abrahamískum stofni og eru talin næst fjölmennustu trúarbrögð heims á eftir kristni. Í samanburði við önnur trúarbrögð sækir múhameðstrú einna mest til gyðingdóms þar sem lifað er eftir reglum svo sem hvað varðar matarvenjur, föstu á ákveðnum tímum, umskurn á kynfærum, reglulegar bænir og fleira. Margir trúarsiðir í íslam eru upprunnir úr heiðnum trúarbrögðum araba frá því fyrir tíma Múhameðs. Íslam er ekki einungis trúarbrögð heldur er þeim oft lýst sem allsherjar lífsreglum sem eru alhliða og taka til allra þátta lífs múslima, bæði félagslegra, efnahagslegra, siðferðislegra og andlegra. Stjórnskipan, réttarfar, löggjöf, refsingar og almennar lífsvenjur múslima taka mið af trúartextum íslams og lífi spámannsins Múhameðs. Íslam er stundum nefnd múhameðstrú á íslensku. Samsvarandi heiti voru notuð í flestum Evrópumálum en eru nú óðum á undanhaldi. Ástæðan er sú að múslimar (fylgjendur íslam) álíta hugtakið „múhameðstrú“ vera rangt og í raun móðgun við trúaða múslima þar sem þeir trúa ekki á Múhameð heldur álíta að Guð hafi valið hann sem spámann og sendiboða. Hugtakið „múhameðstrú“ hefur skapast sem samsvörun við hugtakið „kristin trú“. Á Vesturlöndum hefur mikil gagnrýni á íslam komið fram á síðustu árum. Gagnrýnendur íslams segja það eiga lítið erindi við nútímann, vestrænt lýðræði, jafnrétti kynjanna, kristið siðferði og fleira. Íslam hefur borist til vesturlanda og Íslands með innflytjendum og flóttamönnum frá löndum múslima, sem oft flýja fátækt, hernað og kúgun í eigin löndum. Allmargir múslimar á vesturlöndum hafa átt í erfiðleikum með að samlagast í þessum nýju þjóðfélögum sínum og ekki er óalgengt á síðustu árum að trúarsiðir og lífsvenjur hafi orðið íhaldssamari en í heimalöndunum. Múslimar. Múslimar (Arabíska: مسلم) eru fylgjendur íslams, en orðið þýðir bókstaflega sá sem "sýnir undirgefni" eða "hlýðir" Guði. Það er algengur misskilningur að Múslimar kallist líka Múhameðstrúarmenn, en þessi tvö heiti hafa ekki sömu merkingu fyrir þá sem eru Múslimar. Þeir fylgja að vísu leiðsögn Múhammed spámanns en þeir trúa á Guð og tilbiðja Guð, skapara alheimsins. Múslimi trúir að Guð sé einn (án milliliða) og þess vegna verðskuldar aðeins Guð (Allah á Arabísku) tilbeiðslu. Hann trúir líka að Guð hafi sent öllum þjóðum jarðar þessi skilaboð gegnum spámenn (frá Adam til Muhammeðs) og að í Kóraninum sé lokaopinberun Guðs til manna. Múslimi lifir í undirgefni við vilja Guðs því hann trúir að með þessum hætti öðlist hann innri frið og hamingju í þessu lífi og ekki síst eftir dauða, í himnaríki. Orðsifjar. Á arabísku kemur orðið "múslimi" úr þriggja stafa rótinni S-L-M, sem hefur merkinguna "friðsamleg undirgefni; að gefa sig; að hlýða; friður". Önnur arabísk orð sem eru dregin af S-L-M rótinni: "Islām" sem þýðir "undirgefni/hlýðni," það er að segja undirgefni við Guð. Múslimar greinast í mörg trúfélög, langstærst þeirra eru sjía-múslimar og súnní-múslimar. Bænahús múslima heita moskur. Talið er að fjöldi múslima í heiminum í dag sé 1,57 milljarðar, þar af búa 38 milljónir múslima í Evrópu og 2,4 milljónir í Bandaríkjunum. Múslimar á Íslandi eru um 400 samkvæmt Hagstofu Íslands. Orðsifjar. Á arabísku kemur orðið "Islām" úr þriggja stafa rótinni "S-L-M", sem hefur merkinguna „undirgefni; að gefa sig; að hlýða“. Islām þýðir bókstaflega „undirgefni/hlýðni,“ það er að segja undirgefni við Allah, sem er nafn guðs í íslam. Trú. Múslímar trúa því að Guð (á arabísku "Allah"; einnig á arameísku "Alaha") hafi opinberað boðskap sinn til manna fyrir Múhameð spámanni sem uppi var í Arabíu 570-632 (samkvæmt gregoríanska tímatalinu). Þeir trúa því einnig að aðrir spámenn Guðs, þar á meðal Adam, Nói, Abraham, Móses og Jesús (sem þeir kalla Isa) hafi fengið opinberanir frá honum. Múslimar trúa því að Múhameð sé síðasti og mesti spámaðurinn eða „innsiglið“. Opinberanir hans munu endast fram að Dómsdegi. Elsta mynd sem til er af Múhameð Aðalrit múslíma er "Kóraninn" en þeir trúa því að hann hafi verið skrifaður af Múhameð beint eftir Gabríel erkiengli samkvæmt boði Guðs. "Kóraninn" er samkvæmt múslímum óbrengluð orð Guðs (ólíkt Biblíu kristinna manna, sem á að vera texti venjulegra manna innblásinn af Guði) og var opinberaður á arabísku. Mikið er lagt upp úr því í samfélögum múslima að fólk geti lesið (og helst talað) arabísku og þar með lesið "Kóraninn" á frummáli. Múslimar trúa því að hluti af guðspjöllunum, Torah og spádómabækur Gyðinga hafi, þrátt fyrir heilagan uppruna þeirra, verið vantúlkaðar og spillt af manna völdum. Frá þessu sjónarhorni er Kóraninn leiðrétting á heilögum ritum Gyðinga og kristinna manna og lokaopinberun. Múslímar álíta að íslam sé í aðalatriðum sú sama trú sem aðrir spámenn og sendiboðar Guðs hafa opinberað mönnum allt frá Adam og Abraham. Kóraninn kallar Gyðinga og kristna (og það hugtak er einnig á stundum notað um aðra trúarflokka) „fólk bókarinnar“. Grundvallartrúarjátningu íslam er að finna í "šahādatān" („tvær erfðaskrár“, á arabísku: لا إله إلا الله ومحمد رسول الله): "lā ilāhā illā-llāhu; muhammadur-rasūlu-llāhi"— „Það er enginn guð nema Guð (Allāh); Múhameð er spámaður Guðs (Allah).“ Til að gerast múslimi verður að hafa þessa setningu yfir (á arabísku) og trúa henni í vitna viðurvist. Það er ekki hægt að neyða neinn til að gerast múslimi, einungis sá sem virkilega óskar þess getur orðið það. Fyrir utan Kóraninn eru frásagnirnar um gerðir og ummæli Múhameðs, sem nefndar eru hadith, mikilvægustu undirstoðir trúarskoðana og réttarkerfis múslima. Fimm stoðir íslam. Sumir halda því fram að sjötta stoðin sé óformlega til, en umdeilt er hver hún ætti þá að vera. Meðal annars er haldið fram að hún sé klausturmeðferð og munkadómur eða heilagt stríð. Þeir sem ekki eru sammála því að hún sé til telja margir að tilvist sjöttu stoðarinnar sé villutrú. Guð. Arabíska orðið "Allāh", eða Guð, skrifað með skrautskript. Grundvallarhugmynd íslam er að Guð er einn og óskiptanlegur (á arabísku "tawhid"). Þessi eingyðistrú er bókstafleg og algjör. Guð er skapari heims, á jörðina og segir um hvaða lög skuli gilda (á arabísku sharía). Engar múslímskar myndir eru eða geta verið til af Guði þar sem þær mundu leiða til hjáguðadýrkunar, eðli Guðs gerir það einnig útilokað að skapa tví- eða þrívíða mynd af honum. Allar súrurnar, nema ein, hefjast á „Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama“ sem lýsir eðli hans ásamt þeim 99 nöfnum sem hann er nefndur í "Kóraninum". Saga. Yfirráðasvæði kalífatsins árið 750 Árið 610 fékk Múhameð (samkvæmt múslimum) kall sitt sem spámaður í helli nokkrum stutt frá Mekka. Honum á þá að hafa verið falið það verkefni að opinbera þann texta sem í dag er kallaður "Kóraninn" og boða stranga eingyðistrú þar sem kjarninn var koma dómsdags þar sem fólk yrði reist úr dauðanum, ranglátir myndu brenna í vítislogum Allah en réttlátir hefðu vísa vist í paradís hans. Mikið er til af heimildum um líf Múhameðs og fyrstu ár íslams, færðar í rit einni til tveimur öldum eftir dauða hans. Samtímaheimildir eru helst vers kóranins, en mikið af þeim höfðu verið rituð niður um og eftir dauða Múhameðs. Helstu heimildir, og þær virtustu meðal múslima, eru Kóraninn (sem var fyrst skráð eftir dauða Múhameðs) sjálfur, Hadith textarnir (eða hefðirnar) og Sira (fyrsta ritið um ævi Múhameðs). Ef þessi rit eru lesin í samhengi má sjá glögglega flesta meginatburði á upphafstíma íslams og hvernig og hvers vegna vitranir Múhameðs koma fram. Þetta er mjög frábrugðið sagnfræði kristinna manna, búddista og annarra trúarhópa þar sem lítið er til af sagnfræðilegum heimildum öðrum en trúartextum. Söguhefðir shía og súnnímúslima um upphafstíma íslam er ýmsum atriðum allólíkar og grundvöllur klofnings safnaðanna. Múhameð fékk fáa fylgismenn í upphafi, og aðallega úr lægri stéttum samfélagsins, en Múhameð sjálfur tilheyrði yfirstéttinni í Mekka, sem meðal annars stjórnaði hofinu Kaba. Árið 622 voru Múhameð og fylgismenn hans neyddir til að flýja til borgarinnar Medína. Í kjölfar þess taka Múhameð og fylgismenn hans upp vopnaða baráttu og herja á yfirstéttina í Mekka og samfélög gyðinga í og kringum Medína. Meðal annars með ránum og mannvígum tókst Múhameð og fylgismönnum hans að beygja undir sig fleiri og fleiri ættbálka á Arabíuskaganum. Þegar Múhameð lést árið 632 náði veldi hans og þar með veldi íslam yfir bróðurpart Arabíu. Þegar hann lést tók vinur hans Abu Bakr við völdum en næstu tveir kalífar (leiðtogar hins íslamska ríkis) voru skyldmenni Múhameðs. Á þessum tíma stækkaði yfirráðasvæði íslamska ríkisins, sem nefnt hefur verið Kalífatið, mjög mikið og varð að mjög stóru heimsveldi. Fjórði kalífinn var hins vegar tengdasonur Múhameðs, ‘Āli ibn Abī Ṭālib, og deilan um réttmæti valda hans eru undirrótin að skiptingu múslima í sjía og súnní. Sjía-múslimar trúa því að þeir sem á undan honum voru hafi verið ólögmætir vegna þess að Múhameð hafi nefnt hann sem eftirmann sinn á dánarbeði sínu, en súnníar eru ósammála þessu. Kalífatið náði hámarki sem eitt ríki um 750. Það klofnaði í fleiri ríki í raun, en hinir nýorðu múslimar Tyrkir náðu völdum yfir nokkurn veginn öllu landsvæðinu á elleftu öld með Ottómanska veldinu. Fjölmennasta nútímaríki þar sem meirihluti íbúa eru múslimar er Indónesía. Kort sem sýnir áætlað hlutfall múslima eftir löndum. Rauði liturinn táknar hér sjía og sá græni súnní, drekkt litar sýnir hlutfall Gagnrýni á íslam hefur aukist á vesturlöndum og um allan heim á undanförnum árum í kjölfar þess að hryðjuverkahópar múslima fremja hryðjuverk í nafni íslams og Allah, og telja sig gera það samkvæmt boði Kóranins. Enn fremur hefur verið gefin út fjöldi bóka og rita á vesturlöndum sem fjalla um íslam og Múhameð og þá sér í lagi hið ofbeldisfulla eðli íslam og hina blóðugu baráttu sem liggur að baki tilurðar þess. Lengdargráða. Lengdargráða (oft táknað með λ (lambda)), lýsir staðsetningu á jörðinni austan eða vestan við núllbaug sem gengur í gegnum Greenwich Royal Greenwich Observatory í Greenwich á Englandi. Hverri lengdargráðu er skipt upp í 60 mínútur, sem hver um sig skiptist í 60 sekúndur. Lengdargráða er því rituð á forminu 18° 55′ 04" V (Lengdargráða vegamóta Hafnargötu og Suðurgötu á Siglufirði). Annar ritmáti er að nota gráður og mínútur, og brot úr mínútu, t.d. 18° 55,145′ V (sami baugur). Stundum er skipt út Austur/Vestur viðskeytinu þannig að mínus merki tákni vestur, en þó er það því miður ekki óþekkt að einhverjir noti mínus fyrir austur. Ástæðan fyrir því að notað er frekar vestur fyrir mínus er til þess að láta núllbaug tákna Y-ás á Kartísku hnitakerfi, þ.e. að allt austan við núllbaug er í plús á X-ásnum. Tiltekna lengdargráðu má sameina við tiltekna breiddargráðu til þess að gefa nákvæma staðsetningu á yfirborði jarðar. Ólíkt breiddargráðu, sem hefur alltaf c.a. 111 km bil, þá er lengdargráða vegalengd á bilinu 0 til 111 km; þ.e. formula_1km (111 km margfaldað við kósínus breiddargráðunnar). Á pólunum er vegalengdin milli lengdargráðna enginn, en hann er mestur um miðbaug. Lengdargráðu í tilteknum punkti má finna með því að reikna tímamismuninn milli þess punkts og Alheimstímapunktsins (UTC) í Greenwich. Þar sem að það eru 24 klukkustundir í einum degi, og 360 gráður í hring, þá er tilfærsla sólar á himni 15 gráður á klukkustund (360°/24 klst = 15°/klst); þannig að ef að tímabelti sem að einhver er í er þremur tímum á undan UTC, þá er viðkomandi nálægt 45° lengdargráðu (3 klst × 15°/klst = 45°). Það er "nálægt" en ekki "á" vegna þess að punkturinn kann að vera hvar sem er í tímabeltinu, og tímabelti eru ákvörðun á pólitískan máta, þannig að miðjur þeirra og jarðarmörk liggja oft ekki á lengdarbaugum með 15° mismun. Til þess að reikna þetta á þennann máta, afturámóti, þarf tímamælitæki (t.d. klukku) sem er stillt á UTC, og svo þarf að finna staðartíma með því að athuga gang sólar eða með stjörnufræðilegri athugun. Lína allra punkta á sömu lengdargráðu er kölluð lengdarbaugur, og er hálfur hringur frá norðurpól til suðurpóls (180° af hring). Lengdarbaugar. Hægt er að draga óteljandi marga hringi umhverfis jörðina með þeim hætti sem lýst er að ofan, á milli pólanna. Þessir hringir eru kallaðir lengdarbaugar, og eru þeir allir jafnir að stærð. Þeir koma allir saman á tveimur punktum, á norðurpólnum og suðurpólnum. Yttrín. Yttrín (eftir sænska bænum Ytterby) er frumefni með efnatáknið Y og er númer 39 í lotukerfinu. Yttrín er silfraður, málmkenndur hliðarmálmur. Það er algengt í lantaníðagrýti en finnst aldrei í hreinu formi. Eina stöðuga samsæta yttríns, 89Y, er líka sú eina sem finnst í náttúrunni. Tvö efnasambönd þess eru notuð í ljómefni til að gera rauða litinn í litasjónvörpum og ljóstvistum. Yttrín er líka notað í rafskaut, raflausnir, rafsíur, leysigeislatæki og ofurleiðara. Einkenni. Yttrín er gljáandi, silfurlitur, kristallskenndur málmur. Það er fyrsti málmurinnn í fjórðu lotu d-blokk lotukerfisins. Hreinn yttrínmassi er tiltölulega stöðugur vegna oxíðfilmu (Y2O3) sem myndast utaná honum. Fínrifið yttrín er hins vegar mjög óstöðugt og hvarfast auðveldlega við loft. Yttrínsvarf getur brunnið fyrirvaralaust með snertingu við loft í yfir 400 °C hita. Sirkon. Sirkon er frumefni með efnatáknið Zr og er númer 40 í lotukerfinu. Gljáandi, hvítgrár, sterkur hliðarmálmur sem að líkist títan, sirkon er aðallega unnið úr steintegundinni zirkon og hefur mikið tæringaþol. Sirkon er aðallega notað í kjarnorkuofna sem nifteindagleypir og í tæringaþolnar málmblöndur. Mekka. Miðja moskunnar helgu í Mekka. Mekka er borg í Sádí-Arabíu. Múslimar telja hana heilaga og ætlast er til af þeim að þeir fari í pílagrímsför ("hadsjí") í það minnsta einu sinni um ævina, hafi þeir möguleika á því. Á hverju ári koma rúmlega 3 miljónir pílagríma til Mekka. Jón Gnarr. Jón Gnarr (áður Jón Gunnar Kristinsson) (fæddur 2. janúar 1967), leikari, útvarpsmaður og skemmtikraftur er borgarstjóri Reykjavíkur fyrir hönd Besta flokksins. Æviágrip. Jón Gnarr á að baki farsælan feril sem leikari, listamaður og grínisti. Hann sá um útvarpsþáttinn "Tvíhöfða" á X-inu, Radíó, Radíó X og Rás 2 ásamt Sigurjóni Kjartansyni. Þar áður stjórnaði hann öðrum útvarpsþætti, "Heimsenda" á Rás 2 árið 1994, auk þess sem hann hefur leikið í ýmsum sjónvarpsþáttum svo sem "Limbó", "Fóstbræðrum", "Næturvaktinni", "Dagvaktinni" og "Fangavaktinni" auk ýmissa kvikmynda, til dæmis "Maður eins og ég" og "Íslenski draumurinn". Besti flokkurinn. Árið 2009 stofnaði Jón Besta flokkinn sem bauð fram í borgarstjórnarkosningunum 29. maí 2010 í Reykjavík og fékk flokkurinn 6 af 15 borgarstjórnarfulltrúum kjörna. Fljótlega ákváð flokkurinn að ganga til viðræðna við Samfylkinguna um meirihluta, sem og varð. Jón Gnarr var kjörinn borgarstjóri í Reykjavík á fundi nýrrar borgarstjórnar 15. júní 2010. Týr. Týr er einhentur guð hernaðar í norrænni goðafræði, en einnig goð himins og þings. Hann missti höndina þegar æsir plötuðu Fenrisúlfinn til að láta binda sig með galdrakeðjunni Gleipni og gera þannig Miðgarð að öruggari stað fyrir mannkynið. Týr er sonur Óðins. Hann var hugprúðastur og djarfastur allra ása og eru af honum margar sagnir. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna og ákölluðu hann áður en þeir lögðu til atlögu í bardaga. Týsdagur var nefndur eftir ásnum. Hvernig Týr missti höndina. Fenrisúlfur var eitt af ógurlegum afkvæmum Loka. Meðan hann var lítill hvolpur höfðu æsir bara gaman að honum en hann stækkaði hratt og varð að risavöxnum úlfi sem ógnaði öllum sem komu nálægt honum og Týr var sá eini sem þorði að fóðra hann. Því hafði einnig verið spáð að Fenri myndi vinna ásum óbætanlegt tjón svo þeir urðu að finna leið til að halda honum í skefjum. Þeir fengu því dverga til að smíða fjötur sem nefndist Gleipnir og gæti haldið úlfinum. Fjöturinn leit sakleysislega út, mjög lítill og þunnur, en var í raun búinn göldrum. Úlfinn grunaði að æsir væru að reyna að plata sig og neitaði að láta binda sig nema einhver ásanna myndi leggja hönd sína í munn hans. Týr var sá eini sem þorði að leggja höndina sína að veði og galt fyrir hugrekki sitt með henni, Fenrisúlfurinn beit af höndina og heitir þar úlfliður hvar höndin hrökk af. Fenrisúlfur stendur síðan bundinn í Jötunheimum til ragnarraka. Ragnarök. Í Ragnarökum berst Týr við hundinn Garm sem var bundinn fyrir Gnipahelli í Hel. Týr er vanur að berjast við úlfkynjaða óvætti og berst hraustlega en er Garmur er sterkari en hann og gleypir hann. Áður en Týr gefur upp öndina í kviði Garms stingur hann sverði sínu í hjarta hundsins innanfrá og drepur hann. Gleipnir. Gleipnir er galdrakeðja sem æsir notuðu til að binda Fenrisúlf. Sagan af tilkomu Gleipnis. Eftir að Fenrir hafði slitið tvo hlekki sem æsir komu á hann, ákváðu þeir að leita hjálpar hjá dvergi nokkrum sem var víðkunnur galdrameistari. Skírnir boðberi Freys var sendur til neðanjarðarsmiðju dvergsins til að fá hann til að smíða galdra fjötur fyrir æsi. Dvergurinn féllst á að taka verkið að sér en bað Skírni um að koma aftur eftir mánuð, því að það tæki nokkuð langan tíma að afla efnispartanna sem þyrfti í fjötrana. Skírnir kom aftur að mánuði liðnum og spurði dverginn um fjötrana. Dvergurinn sagði: „Fjöturinn er fullbúinn og ég skal segja þér úr hverju hann er gerður. Ég hef sett hann saman úr sex efnispörtum svo haglega tengdum, að hvergi hattar fyrir.“ „Hverjir eru þessir frábæru efnispartar?“ spurði Skírnir. Hann er gerður úr dyn kattarins, skeggi konunnar, rótum bjargsins, sinum bjarnarins, anda fisksins og af fugls hráka. „Ekki fæ ég trúað þessu,“ mælti Skírnir. „Enginn hefur nokkurn tíma heyrt getið um dyn af hlaupi kattarins og ekki hafa konur skegg né fiskar andardrátt né björg rætur. Þessir hlutir eru einfaldlega ekki til.“ „Þess vegna tók mig mánuð að finna þá“ mælti dvergurinn. Skírnir sneri aftur til Valhallar með örþunnan þráðinn fullur efasemda. Æsir voru ekki síður vantrúaðir þega Skírnir sneri aftur með fjöturinn, en Óðinn ákvað að reyna hann samt sem áður vegna orðspors dvergsins. Æsirnir plötuðu Fenri til að koma með sér til fjarlægs staðar sem kallaður var Lyngvi. Þegar þeir komu til Lyngva, spurðu þeir Fenri hvort hann væri ekki til í að reyna að slíta smá band sem þeir hefðu haft með sér, til að prófa styrk sinn. Úlfurinn sagði: „Mér líst þannig á þennan dregil að enga frægð muni ég hljóta af að slíta svo mjótt band.“ En úlfinn grunaði að bandið væri gert með einhverjum töfrum, svo að hann fékkst ekki til að setja það á sig, nema einhver ásanna myndi legga hönd sína í munn hans að veði. Enginn ásanna nema Týr þorði að leggja hönd sína í munn Fenris. Þegar Fenrir áttaði sig á að Gleipnir var gerður með göldrum, beit hann tönnunum saman og höndina af Tý. Þegar ljóst var að máttur Gleipnis var svo mikill að Fenrir gat ekki slitið hann, drógu æsir endann á þræðinum í gegnum hellu eina sem nefnist Gjöll, og festu helluna langt niður í jörð. Þá tóku þeir stórt bjarg og skutu enn lengra, það hét Þviti, og höfðu það fyrir festarhælinn. Þar mun Fenrisúlfur liggja til Ragnaraka. Efnatákn. Efnatákn frumefnanna eru skammstafanir sem notaðar eru til að einfalda framsetningu ritaðra efnaformúla. Þessar skammstafanir eru ákveðnar af Alþjóðasamtökum um fræðilega og hagnýta efnafræði (enska: "International Union of Pure and Applied Chemistry", skammstafað "IUPAC"). Star Trek. Star Trek er bandarískur vísindaskáldsagnabálkur sem spannar um 725 þætti, 11 kvikmyndir, hundruð bóka og margt annað sem hefur verið gefið út og er byggt á þessari ímyndaðri veröld Gene Roddenberrys. Þessi veröld á að sýna okkur að mannkynið getur unnið saman og unnið að sameiginlegu markmiði. Þættirnir taka á ýmsum þjóðfélagslegum vandamálum með hefðbundum aðferðum vísindaskáldsögunnar. Star Trek heimurinn gengur út á það að mannkynið hefur, ásamt íbúum fleiri reikistjarna, sameinast í United Federation of Planets (oft kallað Federation í þáttunum) og vinna þar með saman að þeim vandamálum sem koma upp. Helstu einkenni þáttanna er afnám gjaldmiðla (þ.e.a.s. peninga), kynjamisréttis, kynþáttahaturs og síðan eru sjúkdómar sjaldgæfir. Upphafið og fyrsta Star Trek þáttaröðin. Árið 1964 gerði Roddenberry þriggja ára þróunarsamning við fyrirtækið Desilu sem síðar var keypt af fyrirtækinu Gulf+Western sem síðar sameinaðist fyrirtækinu Paramount Pictures. Leitin að sýningaraðila hófst og var prufuþátturinn The Cage, með þáverandi kærustunni hans, Majel Barret, sem „númer eitt“, framleiddur og hann lagður fyrir stjórnendur margra sjónvarpsstöðva. NBC sjónvarpsstöðin hafnaði þættinum í fyrstu en voru hrifnir af hugmyndinni svo þeir létu framleiða annan prufuþátt sem hét Where No Man Has Gone Before. Sú hugmynd var samþykkt og hófst framleiðsla á þáttaröðinni Star Trek, sem síðar var kölluð The Original Series til aðgreiningar frá öðrum Star Trek þáttaröðum. Hún var fyrst sýnd reglulega árið 1966 eða þremur árum eftir að bresku vísndaskáldsögu-þáttunum Doctor Who hófu göngu sína og er það eina vísindaskáldsögu-þáttaröðin sem er langlífari en Star Trek. Roddenberry vildi forðast klisjulegar hannanir og frumstæðar brellur sem voru notaðar við framleiðslu fyrri vísindaskáldssagna eins og eldflaugar, þotuútblástur en Matt Jeffries, listrænn leikstjóri þáttanna, þurfti að berjast við Roddenberry til að halda hönnun skipsins eins einfalda og hægt var. Hönnun Jeffries þurfti að fara í gegnum hundruð breytinga áður en sæst var við undirskála og sívalningshönnunina sem skipahönnunin notar í dag. The Original Series (kölluð "TOS") náði því miður ekki þeim vinsældum sem var krafist og var framleiðslu hætt á henni eftir 3 tímabil. Hins vegar komust framleiðendurnir að því að miklir peningar streymdu inn vegna endursýninga á þáttunum og var því ákveðið að framleiða fleiri þætti sem áttu að bera nafnið og áttu sýningar að hefjast árið 1978 en það varð ekkert úr því vegna vinsælda kvikmyndarinnar en þess í stað var ákveðið að setja saman nokkur handrit og framleiða kvikmyndina. Star Trek: The Animated Series. Teiknimyndaþættir voru í bígerð áður en til kvikmyndarinnar kom en þeir kölluðust og ljáðu flestir leikararnir úr fyrri Star Trek þáttaröðinni leikraddir í þessari Filmation framleiðslu, fyrir utan Walter Koenig (sem lék Pavel Chekov), þar sem ekki voru nægir fjármunir til að ráða alla leikarana. Tilgangurinn með teiknimyndaþáttunum var sá að halda áfram með söguna þar sem TOS hætti en nú yrðu engin takmörk hvað varðar leikmuni, sérsniðna búninga fyrir leikara eða dýrar tæknibrellur. Var hann í gangi í 2 tímabil (1973-1974) þar til framleiðslu var hætt og voru framleiddir tuttugu og tveir 30 mínútna þættir. Gene Roddenberry bað sérstaklega, rétt fyrir dauða sinn, um að þeir myndu ekki teljast sem opinber hluti Star Trek línunnar en ekki er vitað hvort að það sé ástæðan fyrir því að Paramount gerði það. Star Trek: The Next Generation. Ný Star Trek þáttaröð, (kölluð "TNG"), fór í framleiðslu og var sýnd á árunum 1987 til 1994 og var þá geimskipið Enterprise, um öld eftir kaftein Kirk, undir stjórn Jean-Luc Picard (leikinn af Patrick Stewart). Þáttaröðin var eingöngu framleidd fyrir endursýningarnar og náði því takmarki að vera sú Star Trek þáttaröð, fyrr og síðar, sem var oftast endursýnd. Ólíkt "TOS", þá fjallaði hún meira um tímaferðalög, persónuumfjöllun, náttúruhamfarir, sögur sem fjölluðu ekki um kynningu á nýjum geimverum og auk þess reynir áhöfnin oftar en gamla áhöfnin að grípa til friðsamlegra lausna á aðstæðum sem koma upp. Árið 1991 endaði framlag Gene Roddenberrys til Star Trek vörulínunnar með andláti hans en framleiðsla þáttanna hélt áfram næstu 3 árin undir stjórn Rick Bermans en þá var meira um hasar og ágreining. Kvikmyndir. 5 kvikmyndir voru framleiddar í viðbót með upprunalega "TOS" leikarahópnum í aðalhlutverki þrátt fyrir að framleiðsla á TNG þáttunum var komin langt á veg. Það var ekki fyrr en 1994 að báðir hóparnir léku í kvikmyndinni að "TNG" hópurinn tóku alveg yfir og léku síðan í 3 Star Trek kvikmyndum í viðbót. "TOS" hópurinn lék því í sjö myndum og "TNG" hópurinn fjórum. Star Trek: Deep Space Nine. (skammstöfuð "ST:DS9") hóf göngu sína 1993 og var fyrsta Star Trek þáttaröðin sem Gene Roddenberry kom ekki nálægt og sú eina (hingað til) sem ekki snýst um ákveðið geimskip, heldur geimstöð staðsetta nálægt ormagöngum rétt hjá sólkerfinu Bajor. Auk þess að vera á mörkum Sambandsins og yfirráðasvæði Kardassanna, þá leiða ormagöngin í gammafjórðunginn sem opnar fyrir fleiri möguleg samskipti við ókunnar tegundir geimvera og fyrirbæra. Aðaláhersla þáttaraðanna eru stríð, trúarbrögð, stjórnmál og önnur málefni en þetta er fyrsta Star Trek þáttaröðin þar sem ákveðið stríð er svona mikill ráðandi þáttur í þróun söguþráðarins. Fyrstu tímabilin einkenndust að könnun geimsins og lífið á stöðinni en þegar leið á þáttaröðina var meira af hasar og stjórnmálakenndu ferli þar sem Yfirráðið (The Dominion) sóttist eftir völdum yfir öllum fjórðungnum sem leiddi til stríðs. Þáttaröðin var í gangi í sjö tímabil og hafa margir þáttanna vakið upp pælingar fólks hvað varðar stöðu trúarbragða gagnvart vísindum. Star Trek: Voyager. Um tveim árum eftir upphaf "Star Trek: Deep Space Nine", árið 1995, var hleypt of stokkunum þáttaröð sem hét og fjallaði hún um geimskipið USS Voyager sem er undir stjórn Kathryn Janeway, en þá var brotið blað í sögu Star Trek með því að hafa kvenkyns persónu í aðalhlutverki. Voyager festist í deltafjórðungnum, 75 þúsund ljósárum frá heimkynnum sínum í alfafjórðungnum, og myndi taka áhöfnina 75 ár að komast heim ef þau myndu ekki finna einhverja leiðarstyttingu. Gáfu þessar aðstæður áhafnarinnar handritshöfundunum tækifæri til að kynna nýjar tegundir geimvera til sögunnar eins og líffæra-stelandi "Vidiiunum", ákveðnu Borgverjunum og hliðarvíddarlegu Tegund 8472. Þáttaröðin var sýnd til árið 2001, eða í samtals 7 tímabil. Star Trek: Enterprise. Venjulega þegar nýjar Star Trek þáttaraðir hafa verið framleiddar, er alltaf farið lengra í framtíðina en eftir að "TNG" hóf göngu sína hefur tímalínan verið óslitin. Það gerðist hins vegar í söguþræðinum á þáttaröðinni Enterprise, sem hóf göngu sína árið 2001, að ytri tími sögunnar hefst 10 árum áður en "Sambandið" var stofnað. Fyrstu tvö tímabilin fjalla um fyrstu kynnin við aðrar verur og fyrstu skrefin í könnun geimsins og voru flestir þættirnir sjálfstæðir. Í þriðja tímabili hófst óslitin saga sem snerist eingöngu um eitt markmið, en þó var nokkrum sjálfstæðum söguþráðum blandað inn í til að krydda söguna og í fysta skiptið sem þættirnir báru nafnið Star Trek: Enterprise. Fjórða tímabilið mun vera þekkt sem framhaldstímabilið, þar sem flestir þættirnir í henni eru í mörgum hlutum og tengist það líklega því að þáttaröðin hefur verið afpöntuð og eru því eingöngu fáir þættir eftir ósýndir. Ástæðan fyrir þessari afpöntun er talin vera lágt áhorf og slæmt gengi 10. Star Trek kvikmyndarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem að framleiðsla á Star Trek þáttaröð hefur verið hætt áður en framleiðandi lýkur henni. Auk þess mun í fyrsta sinn í 18 ár, vera engin frumsýnd þáttaröð vera í gangi næsta tímabil. Saga. Saga getur átt við hverskyns frásögn hvort sem hún er í rituðu eða töluðu formi. Orðið merkir líka það sem gerst hefur í fortíðinni (stundum kallað "Saga" með stóru s-i eða saga"n" með ákveðnum greini) eða frásögn af einhverju sem gerst hefur í fortíðinni (stundum kallað "saga" með litlu s-i). Í þessum tveimur síðari merkingum er orðið yfirleitt eintöluorð en í fyrstu merkingunni getur það komið fyrir í fleirtölu. Sagnfræði er síðan sú fræðigrein sem fæst við rannsóknir á sögunni í merkingunni atburðir fortíðar. Frásagnarfræði fæst við rannsóknir á frásögnum, gerð þeirra og byggingu, en margar aðrar fræðigreinar fást við sögur í einhverri mynd, til dæmis þjóðfræði, bókmenntafræði, textafræði, guðfræði og svo framvegis. Orðsifjar og útskýring á orðinu. Orðið saga kemur úr fornnorska orðinu "saga", sem sjálft kemur úr frum-germanska orðinu "*sago". Orðið er samstofna fornenska orðinu "sagu" (en þaðan kom enska orðið "saw" sem merkir „málsháttur“), fornháþýska orðið „saga“ (þaðan kom þýska orðið „Sage“), forndanska „saghæ“, fornsænska „sagha“, færeyska „søga“, nýnorska „soge“, Jóska „save“ (sem þýðir „sögn“ eða „frásögn“), sænsk mállýska „sagu“. Mögulega skylt litháíska orðinu „pasanka“. Orðið saga er í íslensku notað um ýmislegt annað en frásögn, svo sem lögsögu, en þá er átt við umráðarétt einhvers í daglegu máli. "Saga" er skylt orðinu að "segja", sem dæmi má nefna íslenska orðið "fiskisaga" (samanber orðatiltækið „Fljótt flýgur fiskisagan“) sem merkir að sagt er frá fiskigöngu, hvar fisk sé að finna. Þá er hugtakið "lygasaga" sömuleiðis notað sem gefur til kynna að sögur hafi verið álitnar annað hvort sannnar eða ósannar. Áður var talað um lögsögu sem „upplestur laga“ við Alþingi (sjá lögsögumaður) og umráðaréttur hans lögsaga. Orðið saga í þessu tilfelli á beinlínis við hverskyns orðræðu algjörlega óháða innihaldinu. Í daglegu máli, þegar orðið stendur eitt og sér, er þó oftast átt við bókmenntalega eða fræðilega sögu (frásögn). Gríska orðið "historia" (könnun og frásögn af henni), latneska orðið "res gestae" („hlutir sem hafa gerst”) og þýska orðið "Geschichte" (af sögninni geschehen: gerast, sbr. dönsku sögnina ske) ná báðum þessum meiningum. Fræðileg sagnfræði. Sagnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á samfélögum manna og þróun þeirra í tímans rás. Lagt er hlutlægt mat á sögulegar heimildir (ritheimildir, fornleifar o.s.frv.) og setur atburði í samhengi við tíma svo hægt sé að skoða framvindu sögunar og staðsetja atburði í tíma og rúmi. Sagnfræði afmarkar gjarnan viðfangsefni sitt eftir menningarsamfélögum, tímabilum og staðsetningu. Saga mannkyns fjallar til að mynda um upphaf siðmenningar og þróun allt til okkar daga. Saga 19. aldar er saga atburða og lýsing á samfélögum heimsins á þeim tíma, þ.e. hundrað ára tímabili eftir gregorísku tímatali. Jarðsaga er undirgrein jarðfræðinnar og greinir frá þróun jarðarinnar. Í sagnaritun setur sagnfræðingur fram niðurstöðu rannsókna sinna í samfelldri frásögn. Þá reynir hann að endurskapa sögulegt samhengi þeirra heimilda sem hann hefur rannsakað og setur fram tilgátu um tiltekna sögulega framvindu. Fyrir upplýsinguna voru mörkin milli þess hvað talið var raunverulegt og óverulegt töluvert óskýr. Eftir því sem maðurinn taldi sig færan um að geta greint þar á milli varð til skáldsagan. Allt annað var bundið ófrávíkjanlegum lögmálum um hvað gæti gerst og hvað ekki, hvað hefði gerst og hvað ekki. Japönsk teathöfn. Japönsk teathöfn (sadō, 茶道) er helgiathöfn undir áhrifum frá Zen-búddisma þar sem beiskt, grænt te er lagað fyrir lítinn hóp gesta og drukkið. Að læra að framkvæma teathöfnina er mjög erfitt og það tekur mörg langan tíma, jafnvel heila lífstíð en hún er mjög vinsælt áhugamál í Japan þar sem fólk fer í sérstaka skóla og námskeið til að læra siðina. Í sumum heimahúsum er sérstakt teherbegi til að framkvæma teathöfnina. Tókýó-turn. Tókýó-turn (japanska: 東京タワー (umritað: "Tōkyō tawā")) er járnturn í Minato-hverfinu í Tókýó. Hann er 332.6 metra hár og hönnun hans er byggð á Eiffelturninum í París. Tōkyō tawā er í vídeó leikur Midnight Club 2. Tókýó. Tókýó (japanska: 東京, Tōkyō,) er höfuðborg Japans og einnig stærsta borg landsins. Höfuðborgarsvæði Tókýó er einnig það stærsta í heimi en um 33.750.000 manns eiga heima þar og þar af eiga 12.000.000 manna heima í sjálfri borginni þó fólksfjöldinn sé töluvert meiri þar sem mikill fjöldi fólks stundar vinnu og viðskipti innan hennar. Í borginni eru óvenju fáir skýjakljúfar miðað við aðrar stórborgir en það útskýrist að mestu leyti af byggingareglum vegna jarðskjálfta. Hús eru yfirleitt ekki hærri en 12 hæðir en Tókýó Midtown er stærsti skýjakljúfur borgarinnar, 248 m hátt. Hæsta mannvirki borgarinnar er aftur Himnatréð (Tokyo Skytree), 634 metra hátt, og slær þar með út Tókýó-turninn, en hann er 'einungis' 333 m hár. Stofnun. Tókýó var byggð upphaflega árið 1457 og hét þá Edó (江戸). Eftir því er Edó-tímabilið nefnt. Tokugawa-einveldið hófst síðan árið 1603 og ríkisstjórnin fluttist þangað þannig að Tókýó varð þar með óopinber höfuðborg á meðan aðsetur keisarans og formleg höfuðborg Japans var enn í Kýótó. Nafnaskipti. Í september árið 1868 lauk svo einveldinu og Meiji (明治) keisari skipaði svo fyrir að Edó skyldi vera kölluð Tókýó sem þýðir "höfuðborg í austri" og flutti varanlegt aðsetur sitt þangað en þó var höfuðborgin aldrei flutt þangað lagalega en það hefur valdið deilum um það hvort Kýótó eða Tókýó sé höfuðborgin. Fyrir stríð og á stríðstímum. Borgin varð fyrir miklum skemmdum árið 1923 þegar 70.000 manns létu lífið í miklum jarðskjálfta, Stóra Kantó jarðskjálftanum (関東大震災 Kantou daishinsai), sem reið yfir og einnig í seinni heimstyrjöldinni þegar gerðar voru miklar árásir á borgina og nágrenni hennar með þeim afleiðingum að fólksfjöldinn helmingaðist. Eftir stríð. Eftir stríðið tóku Bandamenn við stjórn borgarinnar og nokkrum bandarískum herstöðvum var komið fyrir í kring um borgina, þ.m.t. Yokota-flugstöðin. Á 6. áratug 20. aldar varð mikil efnahagsuppsveifla í Japan sem líkja mátti við sprengingu. Japan varð leiðandi í ýmsum iðngreinum s.s. málmiðnaði, skipasmíði, bifreiðaiðnaði og rafeindaiðnaði og Tókýó var búin að jafna sig eftir stríðsárin árið 1964 þegar sumarólympíuleikarnir voru haldnir þar. Á 8. áratugnum urðu miklir flutningar út sveitum í Japan til borganna og Tókýó var eitt af stærstu dæmunum um það. Borgin stækkaði hratt á 9. áratugnum og varð ein viðamesta borg í heimi en efnahagsbólan sem hafði byggst upp sprakk á 10. áratugnum með slæmum afleiðingum þó borgin héldi enn velli sem efnahagsleg höfuðborg Austur-Asíu en Hong Kong og Singapúr sækja að henni að því leyti. 20. mars 1995 framdi trúarlegi hryðjuverkahópurinn Aum Shinrikyo hryðjuverkaárás með saríngasi í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar en það olli dauða 12 manns og særði þúsundir manna alvarlega. Landfræði. Tókýó er byggð á meginlandinu í Tókýó-flóa og á nokkrum eyjum úti í honum. Landamerki borgarinnar ná Chiba-héraði í austi, Yamanashi-héraði í vetsti, Kanagawa-héraði í suðri og Saitama-héraði í norðri. Borgarhverfi. Tókýó er skipt niður í 23 borgarhverfi sem hvert hefur sína eigin stjórn. Núverandi skipting varð til eftir Seinni heimstyrjöldina eftir sameiningu. Borgarhverfin hafa viðskeytið "-ku". Hverfi. Borginni er einnig skipt niður í minni hverfi. Dæmi um hverfi eru verslunarhverfin Akihabara, Ginza og Harajuku. Eyjar. Eyjarnar sem tilheyra Tókýó liggja frá Tókýó-flóa og um 1.000 km á haf út. Þær hafa sjálfstæða stjórn að meiru leyti en borgarhverfin en heyra samt sem áður undir borgarstjórnina. Vestur-Tókýó. Fyrir utan borgarhverfin eru fleiri sjálfstæðar borgir á höfuðborgarsvæðinu sem gegna oftast nær hlutverki svefnbæja þó nokkrar þeirra hafi sjálfstæðan efnahag að nokkru leyti. Þær eru flestar vestan við borgarhverfin og sá hluti er því kallaður Vestur-Tókýó. Hér fyrir neðan er listi yfir nokkrar þeirra. Trúmál. Tókýó er þekkt fyrir ýmsa trúarlega staði sem tengjast japönskum trúarbrögðum t.d. Shinto-hof (Dæmi: Meiji-hofið 明治神社 Meiji Jinja og Yasukuni-hofið 靖国神社 Yasukuni Jinja) og Búddahof. Borgin er einnig þekkt fyrir að vera undir meiri áhrifum frá öðrum trúarbrögðum en tíðkast yfirleitt í Japan, s.s. Kristni og Íslam en í borginni er Moska (Tókýó-moskan) og nokkrar kirkjur (t.d. Dómkirkja Heilags Nikulásar og Dómkirkja Heilagrar Maríu). Menntun. Í Tókýó eru flestir virtustu háskólar í Japan. Þeir eru yfirleitt kallaðir „stóru háskólarnir sex“ en þeir eru Háskólinn í Tókýó, Keio-háskóli, Meiji-háskóli, Rikkyo-háskóli eða Háskóli Heilags Páls og Waseda-háskóli. Íþróttir. Í Tókýó eru mörg atvinnulið í knattspyrnu s.s. FC Tokyo (FC東京) og Tokyo Verdy 1969 (東京ヴェルディ1969) en þau spila bæði í Japönsku J-deildinni. Auk þess eru í borginni tvö atvinnulið í hafnabolta; Yakuruto Suwarozu (ヤクルトスワローズ) og Yomiuri-Jaiantsu (読売ジャイアンツ). Japanska súmóglímusambandið (日本相撲協会) er með höfuðstöðvar sínar í borginni en á Ryogoku Kokugikan leikvanginum eru haldin opinber mót í súmóglímu í janúar, maí og september. Borgin stendur einnig vel að vígi í öðrum íþróttum, s.s. blaki, júdó, karate, tennis og sundi en framhaldsskólar borgarinnar halda utan um skipulagða íþróttastarfsemi ungmenna í gegn um klúbbastarf. Í borginni eru reglulega haldin stór mót í ýmsum íþróttagreinum. Fjármál og efnahagur. Flest fyrirtæki í Japan eiga höfuðstöðvar í Tókýó og mörg stór alþjóðleg fyrirtæki reka þar útibú s.s. bankar, fjármálastofnanir og iðn-, fjölmiðla- og símafyrirtæki. Vegna góðærisins á öldinni sem leið er Tókýó ein helsta efnahagsmiðstöð Asíu. Almenningssamgöngur. Almenningssamgangnakerfi Tókýó er eitt víðfeðmasta í heimi og neðanjarðarlestakerfi Tókýó vel þekkt fyrir kraðakið þegar er mikið að gera og á sumum stöðvum þurfa menn með hvíta hanska að ýta fólki í lestirnar en það hefur skapað mikið vandamál með karlmenn sem káfa á kvenfólki en það varð til þess að það eru hafðir sérstakir vagnar fyrir konur á kvöldin og á háannatímum. Neðanjarðarlestakerfið er rekið af nokkrum fyrirtækjum ásamt borginni sjálfri. Borgin rekur einnig strætisvagnakerfi út frá neðanjarðarlestarkerfinu. Flugsamgöngur. Borginni tengjast nokkrir alþjóðaflugvellir; Narita-flugvöllur, Haneda-flugvöllur og Chofu-flugvöllur. Haneda-flugvöllur stendur á landfillingu úti í Tókýó-flóa. Merkisstaðir. Meðal merkisstaða í Tókýó eru Keisarahöllin, Disney-garðurinn, Tókýó-turn og Meiji-hofið. Danska. Danska (danska: dansk;) er norrænt tungumál af germanskri grein indóevrópsku málaættarinnar. Nú á dögum er danska aðallega töluð af þeim sem búa í Danmörku, þ.e. íbúum á Jótlandi, eyjunum Fjóni og Sjálandi og um 130 smáeyjum að auki. Danska er einnig töluð á svæðum í Norður-Þýskalandi nálægt landamærum Danmerkur og Þýskalands og hún er kennd í skólum á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Færeyjar og Grænland eru með heimastjórn í ríkjasambandi við Danmörku en á Íslandi er danska kennd af sögulegum ástæðum (Ísland var undir danskri stjórn fram til 1944). Danskan fór að mótast sem eigið mál aðgreint frá fornnorrænu á 13. öld en það er frá og með fyrstu Biblíuþýðingunni 1550 sem hún aðgreinist verulega frá sænsku og verður eigið mál. Það er þó enn mun auðveldara fyrir svía og dani að skilja ritað mál hvors annars en talmál. Nútíma danska einkennist af sterkri tilhneigingu til að sleppa mörgum hljóðum í framburði sem gerir hana erfiða að skilja fyrir útlendinga. Þjóðtungur eða mállýskumunur. Ef farið væri eftir venjulegum reglum um skilgreiningu á sjálfstæðum málum mundu skandinavísku málin, danska, norska og sænska vera álitin mállýskuafbrigð af sameiginlegu tungumáli. Af sögulegum (meðal annars mörgum og löngum stríðum milli danaveldis og svía á 16. og 17. öld) og pólitískum ástæðum hafa þó skapast sérstakar reglur fyrir hvert mál um málfræði og orðaforða. Mælendur á dönsku, norsku og sænsku geta skilið megnið af máli hvers annars en kannanir sýna að Norðmenn eiga mun auðveldara með að skilja bæði dönsku og sænsku en Svíar og Danir hvorir aðra. Söguágrip. Fornausturnorræna er í Svíþjóð nefnd "rúnasænska" og í Danmörku "rúnadanska", þó að fram á 12. öld hafi sama mál verið talað á báðum landsvæðunum. Málin eru nefn "rúnamál" vegna þess að allt ritmál sem til er frá þessum tíma er rúnaletur. Megnið af fornnorrænu rúnasteinunum eru áletraðir með yngra Fuþark stafrófinu sem einungis hafði 16 bókstafi. Vegna þess að svo fáa stafi var um að velja var hver stafur notaður fyrir mörg hljóð. Til dæmis var sérhljóðið "u" einnig notað fyrir "o", "ø" og "y", og rúnin "i" var notuð fyrir "e". Ein af þeim breytingum sem aðgreindi fornausturnorrænu (rúna- sænsku og dönsku) var hljóðbreyting tvíhljóðsins "æi" (fornvesturnorræna "ei") í einhljóðið "e", eins og í "stæin" yfir í "sten". Þetta sést á rúnasteinunum þar sem á þeim eldri stendur "stain" og yngri "stin". Einnig breytist "au" eins og í "dauðr" yfir í "ø" eins og í "døðr". Á sama hátt breyttist tvíhljóðið "øy" (fornvesturnorræna "ey") yfir í "ø". Á miðöldum breytist smám saman við ritun latínutexta á Norðurlöndum "ae" í æ – og einnig stundum í a' –. Samsetningin "aa" varð á sama hátt að aa, og "oe" varð oe. Þessir þrír bókstafir urðu á dönsku æ, å og ø. Dönsk tunga var fyrir og um ár 1000 mikið töluð í norðausturhluta Englands. Á þeim tíma var tungumál norrænna manna nefnd dönsk tunga hvort sem þeir komu frá Danmörku, Noregi eða Svíþjóð. Nútímadanska einkennist mjög af áhrifum frá þýsku (ekki minnst lágþýsku) og einnig frönsku. Þýsk orð komu inn í málið þegar á miðöldum gegnum verslunarsamskipt við hansakaupmenn. Einnig var algengt að danskir handverksmenn færu til Evrópu í leit að þjálfun og vinnu og urðu þeir að læra þýsku til að geta haft samskipti við fólk. Þegar þeir sneru heim héldu þeir oft áfram að nota fræðiorð sem þeir höfðu lært erlendis og tengdust iðn þeirra. Frönsk áhrif voru sterk innan dómskerfisins og stjórnkerfisins og franska leikhúsið, myndlist og tónlist leiddu af sér mörg tökuorð sem nú eru álitin fullkomlega eðlileg í dönsku, eins og orðin genre og bureau. Danska tók greiðlega við öllum þessum nýju orðum, oft þar sem hliðstæð heiti voru ekki til í dönsku. Stafsetningin hélst yfirleitt óbreytt en framburður og beyging tökuorðanna varð smám saman dönsk. Mállýskur. Stöðluð danska ("rigsdansk" eða "rigsmål") byggir á þeim mállýskum sem talaðar voru í og kringum Kaupmannahöfn. Mállýskumunur var áður mjög áberandi í dönsku hafur nú mikið minnkað og allar mállýskurnar hafa mjög aðlagast ríkisdönskunni. Mállýskurnar eru flokkaðar í: Østdansk („austurdanska“), Ødansk („eyjadanska“) og Jysk („jóska“) Sögulega séð er Austurdanska það sem nú er suðursænska mállýskan skánska og mállýskan sem töluð var á eyjunni Bornhólm. Skánn, ásamt héruðunum Blekinge og Halland, voru hluti af Danmörku til 1658. Þó margt sé enn líkt í skánsku og bornhólmsku hafa báðar mállýskurnar í reynd aðlagast sitt hverju ríkismáli. Bornhólmskan hefur til dæmis þrjú kyn nafnorða öfugt við samkyn og hvorugkyn í venjulegri dönsku. Framburður. Hljóðkerfið í dönsku er nokkuð sérstakt. Sérhljóðar eru margir, 12 að tölu, og með mismunandi lengd eru í dönsku 24 sérhljóða fónem. Nútímadanska einkennist af tilhneigingu til að sleppa hljóðum í talmáli. Að telja á dönsku. Danska talnakerfið er byggt á grunneiningunni tuttugu eins og í frönsku ólíkt öðrum norrænum málum. Þetta þýðir að 20 (tyve) er grunnurinn: Tres (stytting á tresindstyve) þýðir þrisvar sinnum 20, það er 60; firs (stytting á firsindstyve) þýðir fjórum sinnum 20 það er 80. Halvtreds þýðir (3 - 1/2) sinnum 20 (bókstaflega, „hálfur þriðji“, það er tvisvar sinnum 20 plús helmingur af 20), það er 50; halvfjerds þýðir (4 - 1/2) sinnum 20, það er 70; og halvfems þýðir (5 - 1/2) sinnum 20, það er 90. 10-Ti, 20-Tyve, 30-Tredive, 40-Fyrre, 50-Halvtreds, 60-Tres, 70-Halvfjerds, 80-Firs, 90-Halvfems, 100-Hundrede Ritmál. Danska notar latneska stafrófið að viðbættum þremur bókstöfum: æ, ø, og å. Danska og norska nota sömu stafrófsröð. Breytingar voru gerðar á stafsetningu 1948 þar sem bókstafurinn „å“ (sem þegar var notaður í norsku og sænsku) var tekinn upp í stað „aa“. Í nöfnum er gamla stafsetningin stundum enn notuð (til dæmis er Ålborg stundum stafað Aalborg). A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, V, W, X, Y, Z, Æ, Ø, Å. Björn Malmquist. Björn Malmquist er fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum. Hann er fæddur á Akranesi 1964 og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Akranesi árið 1985. Lauk BS-prófi frá Háskóla Íslands 1992 og MA-prófi í fjölmiðlafræði frá Wayne ríkisháskólanum í Detroit, Michigan árið 1997. Hann hefur starfað sem blaðamaður á ýmsum miðlum, meðal annars sem útvarpsmaður á fréttastöð í Bandaríkjunum.Björn tók við stöðu forstöðumanns Ríkisútvarpsins á Austurlandi sumarið 2002 og gengdi því fram til maí 2005 þegar hann flutti til Bandaríkjanna. Björn Malmquist er kvæntur Kristínu Briem, sjúkraþjálfara og doktorsnema við ríkisháskólann í Delaware. Börn þeirra eru Finnur Helgi Malmquist (f. 1997) og Edda Katrín Malmquist (f. 1999). Nerima. Loftmynd sem sýnir hluta af Nerima Nerima (練馬区) er eitt af 23 borgarhverfum í Tókýó og var stofnað 1. ágúst 1947. Hverfið er þekkt fyrir daikon-hreðkur og skrúðgarða. Sívaliturn. Sívaliturn er sívalur turn, sem stendur við Købmagergade (áður Kjødmangergade) í miðborg Kaupmannahafnar í Danmörku. Turninn var byggður sem stjörnuathugunarstöð í stjórnartíð Kristjáns IV, á árunum 1637 til 1642 ásamt Þrenningarkirkjunni og fyrsta háskólabókasafninu. Upp turninn liggur, í stað tröppugangs, breiður vegur, 209 metrar að lengd sem fer sjö og hálfan hring um turninn þar til komið er á toppinn. Í dag er turninn vinsæll viðkomustaður ferðamanna og vettvangur fyrir ýmsar uppákomur, tónleika og fleira. Bygging turnsins. Heimildir sýna að konungurinn, Kristján IV, hefur tryggt sér landareignina þar sem turninn og Þrenningarkirkjan stendur nú, þegar árið 1622. Árið 1635 var farið að huga að byggingu og stjörnufræðingur konungs Christian Longomontanus stakk þá upp á byggingu stjörnuathugunarstöðvar. Hollendingar höfðu byggt slíkan turn við háskólann 1633 og Kristjáni hefur eflaust verið umhugað um að taka áfram upp þráðinn í stjörnuathugunum eftir Tycho Brahe og Úraníuborg. Auk þess nýttust slíkar rannsóknir beint við sjóferðir, þar sem siglt var eftir stjörnunum um nætur, og ekkert skorti á áhuga konungs á því sviði. Ákveðið var að turninn skyldi byggður í tengslum við Þrenningarkirkjuna og fyrsta háskólabókasafnið. Byggingameistari fyrir alla bygginguna var valinn Hans van Steenwinkel yngri, sonur hins konunglega byggingameistara. Hann lést í miðju verki árið 1639 og við tók Hollendingurinn Leenart Blasius. Byggingarefnið í grunninn kom úr virkisveggnum og múrsteinar frá Hollandi. Hornsteinn turnsins var lagður 7. júlí 1637. Byggingin tafðist oft sökum peningaleysis. Árið 1640 var hafist handa við að innrétta toppinn sem stjörnuathugunarstöð. Hönnunin byggðist á Úraníuborg Brahes á Hveðn. Byggingu turnsins lauk árið 1642, en byggingu kirkjunnar fyrst árið 1656 og háskólabókasafnsins árið 1657. Vegurinn sem liggur upp turninn hefur líklega verið byggður af hagnýtissjónarmiði, til að hægara væri að koma upp þungum stjörnuskoðunartækjum og flytja hluti sem áttu að enda á háskólabókasafninu, sem tengdist turninum. Sú saga að Kristján IV hafi viljað geta farið upp í turninn í hestvagni á því líklega ekki við rök að styðjast, en ekki er vitað einu sinni hvort hann kom nokkurn tíma þangað upp. Efst í turninum er lítið líkan af sólkerfinu sem Ole Rømer mun hafa smíðað er hann dvaldi í París. Stjörnuathugunarstöðin. 1685 var stjörnufræðingurinn Ole Rømer, gerður að yfirmanni stjörnuathugunarstöðvarinnar. Eftir lát hans 1710 tók nemandi hans, Peder Horrebow, við og síðar Christian Horrebow. Stöðin átti sitt síðasta blómaskeið undir stjórn Thomas Bugge 1777 til 1815 en fljótlega varð ljóst að hún hentaði ekki lengur hlutverki sínu og 1861 var ný stjörnuathugunarstöð opnuð á Øster Vold og öll tækin flutt þangað. 1927 var svo ný stjörnuathugunarstöð opnuð í turninum á vegum borgarinnar, sem þá hafði tekið við rekstri turnsins, í þetta sinn fyrir áhugamenn. Áletrun á turninum. Efst á framhlið turnsins er áletrun sem er nokkurskonar myndagáta, hönnuð af Kristjáni IV sjálfum. eða: Hinn rétta kennisetning og réttlætið leiði Guð í hjartað á hinum krýnda Kristjáni 4, árið 1642. Grafarþögn. Grafarþögn er spennusaga eftir Arnald Indriðason, sem út kom árið 2001. Þýsk þýðing eftir Bernard Scudder hlaut Gullrýtinginn árið 2005. Jón Arnór Stefánsson. Jón Arnór Stefánsson (fæddur 21. september 1982 í Skövde í Svíþjóð) er íslenskur körfuknattleiksmaður. Yngri flokkar. Jón Arnór lék alla yngri flokka með KR áður en hann fór í "high school" í Bandaríkjunum. Skólinn sem hann var í úti fór hins vegar ekki alveg eftir settum reglum og því þurfti Jón Arnór að yfirgefa skólann fyrr en til stóð. 1999-2000: Íslandsmeistari. Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum lék Jón Arnór með KR í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik vorið 2000, og átti drjúgan þátt í að liðið varð Íslandsmeistari það ár. Hann skoraði átta stig að meðaltali á 17,4 mínútum í leik, aðeins sautján ára gamall. 2000-2001: Besti nýliðinn. Þetta var fyrsta tímabil Jóns Arnórs í úrvalsdeild, en þá lék hann 30,2 mínútur að meðaltali í leik, skoraði 16,8 stig, tók 3,2 fráköst, gaf 3,6 stoðsendingar og stal boltanum 2,1 sinni í þeim 20 leikjum sem hann lék. Hann var í kjölfarið valinn besti nýliði úrvalsdeildar það árið. 2001-2002: Besti leikmaðurinn. Jón Arnór bætti um betur á þessari leiktíð, lék 34,5 mínútur að meðaltali, skoraði 20,7 stig, gaf 4,8 stoðsendingar, tók 6,1 frákast, var með 2,6 stolna bolta og 1,25 varið skot í 20 leikjum. Að auki var hann með 40% þriggja stiga nýtingu. Þetta dugði til að hann var valinn besti leikmaður deildarinnar. 2002-2003: Atvinnumaður í Þýskalandi. Nú tók atvinnumennskan við. Jón Arnór gekk til liðs við þýska úrvalsdeildarliðið Trier. Þar lék hann 24 deildarleiki og skoraði 13,5 stig að meðaltali á 29,7 mínútum. Hann var einnig með 2,9 fráköst, 2,8 stoðsendingar og 1,4 stolna bolta. 2003-2004: NBA. Jón Arnór söðlaði heldur betur um sumarið 2003 og samdi við NBA liðið Dallas Mavericks. Þar með var hann annar Íslendingurinn, á eftir Pétri Guðmundssyni, til að komast á mála hjá NBA liði. Þrátt fyrir að hafa, að margra mati, staðið sig vel á undirbúningstímabilinu fékk Jón Arnór aldrei að spreyta sig í deildarleik. Hann lék þó í nokkrum sumarmótum sumarið 2004, en ákvað í samráði við stjórnendur félagsins að framlengja ekki samninginn að svo stöddu. 2004-2005: Rússland og Evrópukeppnin. Það voru nokkur vonbrigði fyrir Jón að fá ekki að spila í NBA deildinni, og hann ákvað því að semja við rússneska liðið Dynamo St. Peterburg. Jón Arnór var valinn í byrjunarlið Evrópuúrvalsins í, þar sem hann skoraði 10 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu á 21 mínútu. Hann lék stórt hlutverk undir lok leiksins, en lið hans tapaði þó fyrir Heimsúrvalinu 102-106. Lið Jóns Arnórs tók þátt í FIBA Europe League og þann 28. apríl 2005 varð Jón fyrsti íslenski körfuknattleiksmaðurinn til að verða Evrópumeistari með liði sínu, þegar Dynamo St. Peterburg vann BC Kyiv. Jón Arnór lék í 29 mínútur og skoraði níu stig. Í undanúrslitaleiknum gegn BC Khimki skoraði hann 14 stig og tók fjögur fráköst á 35 mínútum. Dynamo vann alla leiki sína í Evrópukeppninni. 2005-2006: Ítalía. Sumarið 2005 samdi Jón Arnór við ítalska félagið Carpisa Napoli. Áður höfðu lið á Spáni og í Bandaríkjunum sýnt honum áhuga. Napoli varð bikarmeistari þann 19. febrúar eftir sigur á Lottomatica Roma í framlengdum úrslitaleik, 85-83. Jón Arnór lék 35 mínútur í leiknum, skoraði níu stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Liðið komst í undanúrslit um ítalska meistaratitilinn og tapaði þar fyrir ClimaMio Bologna í fimm leikjum; 3-2. 2006-2007: Spánn. Í júlíbyrjun 2006 skrifaði Jón Arnór undir þriggja ára samning við spænska félagið Pamesa Valencia. Um haustið meiddist hann á ökkla í landsleik gegn Lúxemborg og í kjölfarið meiddist hann á læri. Hann lék tiltölulega lítið með liðinu og skildu leiðir í febrúar 2007. 2006-2007:...og Ítalía aftur. Þann 12. febrúar 2007 samdi Jón Arnór við ítalska liðið Lottomatica Roma til loka tímabilsins 2008. Vistaskiptin tóku þegar gildi og hélt Jón Arnór til Ítalíu daginn eftir að samningurinn var undirritaður. Fjölskyldan. Jón Arnór er einn fimm systkina sem eru öll íþróttamenn. Elst er Íris Birgis Stefánsdóttir. Elsti bróðir Jóns er Ólafur Stefánsson, landsliðsfyrirliði í handbolta til margra ára, næstur í röðinni er Eggert Stefánsson, knattspyrnumaður, næstyngst systkinanna er Stefanía Stefánsdóttir, tennisleikari, og yngstur er Jón Arnór. Pétur Guðmundsson. Pétur Karl Guðmundsson'", fæddur 30. október 1958 í Reykjavík, var fyrstur evrópskra körfuknattleiksmanna til að ganga til liðs við NBA lið. Það var árið 1981 sem hann var valinn í þriðju umferð nýliðavalsins og samdi í kjölfarið við Portland Trail Blazers. Seinna lék hann með Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs. Pétur, sem er 218 cm hár, var einnig atvinnumaður í Argentínu í stuttan tíma og einnig í Englandi. Á Íslandi lék hann með Val, ÍR, Tindastóli og Breiðabliki, skoraði að meðaltali 21,7 stig í 82 leikjum. Hann lék 53 A-landsleiki, en megnið af sínum ferli var hann útilokaður frá landsliðinu samkvæmt reglum FIBA, rétt eins og aðrir atvinnumenn í íþróttinni. Í byrjun árs 2001 var Pétur kjörinn leikmaður 20. aldarinnar í karlaflokki, og um leið leikmaður í liði aldarinnar. Títan. Títan er frumefni með efnatáknið Ti og er númer 22 í lotukerfinu. Þetta er léttur, sterkur, gljáandi, tæringaþolinn (þar með talið þol gagnvart sjó og klór) hliðarmálmur með silfurhvítann, málmkenndan lit. Títan er notað í sterkar, jafnframt léttar, málmblöndur (þá aðallega með járni og áli) og algengasta efnasamband þess, títandíoxíð, er notað í hvít litarefni. Títan finnst í margvíslegum steintegundum en aðaluppspretta þess eru rútíl og ilmenít, sem eru víða dreifð um jörðina. Til eru tvö fjölgervisform þess og fimm náttúrulegar samsætur; Ti-46 til Ti-50, þar sem Ti-48 er algengasta samsætan (73,8%). Einn af þekktustu einkennum títans er það að það er jafn sterkt og stál en er helmingi léttara. Eiginleikar títans eru efnafræði- og eðlisfræðilega svipaðir sirkoni. Vanadín. Vanadín (eða vanadíum) er frumefni með efnatáknið V og er númer 23 í lotukerfinu. Þetta er sjaldgæft, mjúkt og sveigjanlegt frumefni sem að finnst blandað við ýmsar steintegundir og er notað aðallega til að framleiða sumar málmblöndur. Frumefnið er eitt af þeim 26 frumefnum sem fyrirfinnast að jafnaði í lífverum. Saga. Vanadín var uppgötvað í Mexíkó árið 1801 af Andrés Manuel del Río. Hann kallaði efnið „brúnt blý“. Króm. Króm er frumefni með efnatáknið Cr og er númer 24 í lotukerfinu. Almennir eiginleikar. Króm er stálgrár, harður málmur sem að tekur á sig mikinn gljáa, er sambræðanlegur með erfiði, og er þolinn gagnvart tæringu og mettingu. Eiginleikar tengdir rafmagni. Algengustu oxunartölur króms eru +2, +3 og +6, þar sem +3 er sú stöðugasta. +4 og +5 eru frekar sjaldgæfar. Krómefnasambönd með oxunartöluna +6 eru kraftmiklir oxarar. Leifur Sigfinnur Garðarsson. Leifur Sigfinnur Garðarsson, fæddur 23. febrúar 1968, er einn þekktasti körfuknattleiksdómari Íslands fyrr og síðar. Hann lauk dómaraprófi árið 1987 og dæmdi sinn fyrsta leik 6. nóvember sama ár. Árið 1993 tók hann alþjóðlegt dómarapróf á Ítalíu. Leifur dæmdi u.þ.b. 100 leiki á alþjóðlegum vettvangi, 389 leiki í úrvalsdeild og hátt á níunda hundraðið samtals. Hann lagði flautuna á hilluna fyrir haustið 2004. Leifur sat í dómaranefnd KKÍ í 14 ár, þar af 11 ár sem formaður. Leifur lék u.þ.b. 100 leiki með meistaraflokki Hauka í körfuknattleik og varð bikarmeistari með liðinu 1985 og 1986. Hann var auk þess fyrirliði drengjalandsliðsins í körfuknattleik á keppnisferðalagi um Svíþjóð árið 1984. Á ferli sínum sem knattspyrnumaður lék Leifur um 60 leiki með FH og Þór Akureyri í 1. deildinni. Hann lék um 20 leiki með ÍK úr Kópavogi sumarið 1991 og skoraði sex mörk. Þjálfaði og lék með Sindra á Hornafirði í 4. deild sumarið 1992. Hefur starfað við knattspyrnuþjálfun í hartnær 20 ár hjá FH, KR, Sindra og Þór Akureyri. Var aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara FH 2004 og 2005. Haustið 2005 var Leifur ráðinn aðalþjálfari Fylkis í úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Þaðan var hann svo rekinn 28. ágúst 2008. Þann 29. september sama ár var hann ráðinn þjálfari Víkings í Reykjavík sem lék þá í 1. deild. Hann stýrði liðinu svo til sigurs í 1. deild 2010 en var svo sagt upp störfum hjá félaginu 3. mars 2011. Sven Hassel. Sven Hassel (fæddur 19. apríl, 1917) er danskættaður hermaður og rithöfundur sem hefur skrifað skáldsögur sem eru að hluta til sjálfsævisögulegar, byggðar á reynslu hans í heimsstyrjöldinni síðari. Í bókunum sínum lýsir Hassel stríðinu í gegnum fyrstu-persónu sögumann með sama nafn og hann. Bækurnar lýsa ævintýrum 27. (Refsi) skriðdrekaherdeildar sem samanstendur af dæmdum glæpamönnum og hermönnum sem hafa komið fyrir herrétt. Fyrir utan Sven, eru það t.d. Legjónarinn (fyrrv. meðlimur frönsku útlendingaherdeildarinnar), risastór maður sem ber nafnið Lilli, svartamarkaðsbraskarinn Porta, riðilstjórinn Gamlingi og Julius Heide, maður sem trúir á Foringjann og Flokkinn. Þeir berjast á flestum vígstöðvum frá norðanverðu Finnlandi til Rússlands. Sýn Hassels á stríð er slæm: Hermenn berjast aðeins til að lifa af, fólk er drepið óvart eða af lítilfjörlegum ástæðum, Prússneskir foringjar hóta mönnum sínum stöðugt með herrétti, og pirraðir hermenn drepa foringja sína stundum til að losna við þá. Danskur fréttamaður, Erik Haaest, hefur eytt mörgum árum í að reyna að "fletta ofan af" Hassel. Haaest heldur því fram að Hassel hafi eytt lengstum hluta af stríðinu í hertekinni Danmörku, og að þekking hans á stríði komi frá dönskum SS mönnum sem hann hafi hitt eftir stríðið. Bækur eftir Sven Hassel. Hassel, Sven Miðbaugur. Á ferðamannastöðum er skiltum gjarnan komið fyrir til þess að merkja miðbaug. Miðbaugur er stórbaugur, sem liggur umhverfis reikistjörnu og skiptir henni í tvö jafn stór hvel, norður- og suðurhvel. Miðbaugsplanið er þannig mitt á milli skauta hnattarins og hornrétt á möndulinn. Breiddargráða miðbaugs er 0°, samkvæmt skilgreiningu. Punktar á miðbaug ferðast hraðar vegna möndulsnúnings en allir aðrir punktar á hnettinum. Oftast er átt við miðbaug jarðar, en ummál jarðar um miðbaug er um 40.070 km. Sólin er þverlæg miðbaug (beint fyrir ofan) á hádegi á dögum jafndægurs. Enn fremur er hver einasti dagur um 12 tímar að lengd á miðbaug. Að næturlagi virðast allar stjörnur ferðast í hálfhring, með miðpunkt á sunnanverðasta eða norðanverðasta punkti sjóndeildarhringsins. Á milli jafndægurs í mars og september er norðurhvel jarðar hallandi að sólu að punkti sem kallast nyrðri hvarfbaugur, eða krabbabaugurinn, sem er nyrsti punktur sem sólin getur verið þverlæg. Sambærilegur staður á suðurhveli heitir syðri hvarfbaugur, eða steingeitsbaugurinn. Sólin er beint ofan við þessa staði á sumar- og vetrarsólstöðum (sem víxlast eftir jarðhvelum). Árstíðir á hitabeltissvæðum og við miðbaug eru mjög frábrugnar árstíðum í tempruðum loftslögum eða pólsvæðum. Á mörgum hitabeltissvæðum eru þekktar tvær meginárstíðir - þurkutíð og blauttíð, en flestir staðir alveg við miðbaug eru blautar árið um kring. Þrátt fyrir þetta geta árstíðir verið fjölbreyttar, enda spila margir þættir inn í, svo sem fjarlægð frá úthöfum og hæð yfir sjávarmáli. Sumir loftslagsfræðingar skilgreina loftslagið umhverfis miðbaug sem miðbaugsloftslag, frekar en eingöngu hitabeltisloftslag, ef að mismunurinn á meðalhitastigi á heitustu og köldustu mánuðum er minni en eða jöfn 3°C. Loftslagsfræðingurinn Vladimir Köppen skilgreindi upprunalega árslega hitafarsbreytingu upp á 5 °C sem miðbaugsloftslag, og setti stafinn „i“ eftir viðeigandi tveggja stafa flokkun ("Af", "Am", "Aw" eða "As") þessarra loftslaga sem passa við þennan staðal, en þröskuldinum var síðar breytt í 3 °C, að hluta til þess að minnka muninn á „miðbaugs“ og „hitabeltis“ loftslagsgerðunum, með tilliti til flatarmáls. Ef að tiltekinn staður uppfyllir ekki skilyrðin fyrir stafinn „i“, þá er ekki bætt við þriðja staf í loftslagsflokkuninni. Miðbaugur sést sem rauð lína. "Brennipunktur" sólar miðast við sumarsólstöður á norðurhveli. Ljósmagn ekki í raunverulegu hlutfalli. Fornar mælingar. Fólk hefur velt fyrir sér ummáli jarðar síðan á tímum Forn-Grikkja, enda töldu þeir flestir hverjir víst að jörðin væri í formi kúlu; þó svo að sú skoðun hafi fallið í ónáð í nokkrar aldir síðar meir. Platon taldi að ummál jarðar væri um 40.000 mílur, eða um 64.000 km. Arkímedes sagði það vera nær 50.000 km, en hvorugur færði fram neina útreikninga máli sínu til stuðnings. Aftur á móti var Grikki sem bjó í Egyptalandi á svipuðum tíma að nafni Eratosþenes að leitast eftir nákvæmari skilgreiningu. Aðferð Eratosþenesar. Út frá þessum mælingum og þekktu staðreyndum fann hann að þar sem að munurinn á norð-suðlægri staðsetningu þessarra staða var 1/50 úr hring, og að vegalengdin var 500 mílur, þá var vegalengdin formula_1 mílur, eða um 40.200 km, sem er alls ekki fjarri lagi. Hins vegar var þetta í raun happa-mæling, þar sem að nokkrar villur voru gerðar, sem lögðust saman og útrýmdu hvorri annarri: Syene liggur ekki á nyrðri hvarfbaug, heldur um 60 km norðan við þá línu; vegalengdin frá Syene að Alexandríu er nær 729 km; Syene liggur um 3°30' austur af Alexandríu, og munurinn á breiddargráðum Syene og Alexandríu er 7°05', en ekki 7°12'. Aðferð Póseidóníosar. Póseidóníos hét annar grískur spekingur sem velti þessum hlutum fyrir sér. Hann tók eftir því að tiltekin stjarna var ósýnileg frá flestum stöðum á Grikklandi, en rétt strauk sjóndeildarhringinn í Rhódos. Hann fór þá til Alexandríu og mældi hæð stjörnunnar yfir sjóndeildarhringinn, og fann að hún var 1/48 úr hring. Hann giskaði þá á að fjarlægðin til Rhódos þaðan væri um 800 km, og reiknaði því ummál jarðar sem formula_2 km, sem var heldur ekki fjarri lagi. Seinni tímar. Annar grískur heimspekingur „leiðrétti“ útreikninga Póseidóníosar, og ákvarðaði þá ummál jarðar sem 29000 kílómetra, sem var sú tala sem að Ptolemajos notaðist við í heimskortum sínum, og hafði það mikil áhrif á kortagerðarmenn miðalda. Þá er hægt að áætla að Kristófer Columbus hafi miðað við þess lags kort, og talið að það væru ekki nema um 5000 kílómetrar til Asíu frá Evrópu ef að siglt var í vesturátt. Það var ekki fyrr en á 15. öld sem að hugmyndir um stærð jarðar voru endurskoðaðar. Flæmskur kortagerðarmaður að nafni Mercator enduráætlaði stærðir Miðjarðarhafs og Evrópu með þeim afleiðingum að jörðin „stækkaði“, að skilgreiningunni til. Ófærufoss. Ófærufoss er tvískiptur foss í ánni Nyrðri-Ófæru þar sem hún fellur ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinn var náttúruleg brú (steinbogi), sem hrundi í ána í vorleysingum vorið 1993. Steinbogi sá var úr hrauni og var ofan af Eldgjárarmi, og hafði sigið niður, en áin svo grafið sig undir og í gegn. Framhald blágrýtislags þess sem myndaði steinbogann er að finna í vegg gjárinnar sunnan Ófæru. Nýhil. Nýhil er íslensk jaðarbókaútgáfa og félag ungra ljóðskálda sem hefur vakið athygli með nýstárlegum ljóðaupplestrum. Fagurfræði hópsins markast ýmist af samfélagslegri gagnrýni eða framúrstefnutilraunum í ljóðlist. Alþjóðleg ljóðahátíð Nýhils fór fram í sjötta sinn Norræna húsinu haustið 2010. Þá rak forlagið um tíma ljóðabókabúð í Kjörgarði við Laugaveg. Dietrich Buxtehude. Diderik Buxtehude (um 1637 – 9. maí 1707) var barokktónskáld og organisti frá Helsingjaborg á Skáni, sem þá var undir stjórn Dana. Síðar á ævinni notaðist hann við þýska útgáfu nafns síns og kallaði sig Dietrich Buxtehude. Hann varð organisti 1657 við Maríukirkju í Helsingjaborg. Svíar fengu Skán við friðarsamningana í Hróarskeldu 1658 og tveimur árum síðar sótti hann um sem organisti á Helsingjaeyri í kirkju sem þjónaði þýska minnihlutanum í bænum. Þaðan barst orðstír hans til Þýskalands og 1668 varð hann organisti í Maríukirkju í Lýbiku (Lübeck) og starfaði þar til dauðadags. Hann hafði mikil áhrif á tónskáld barrokktímans eins og Händel og Bach sem varð fyrir sterkum áhrifum frá honum. Þorsteinn Hallgrímsson (f. 1942). Þorsteinn Hallgrímsson (jafnan kallaður Doddi Hallgríms) (fæddur 25. júlí 1942) var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í körfuknattleik. Hann lék með SISU í Danmörku á sjöunda áratug síðust aldar. Doddi fæddist 25. júlí 1942 og var yngsti leikmaður fyrsta landsliðs Íslands í körfuknattleik, tæplega 17 ára gamall. Leikurinn, sem var gegn Dönum, fór fram í Kaupmannahöfn 16. maí 1959. Þorsteinn varð margoft Íslandsmeistari með ÍR, meðal annars fimm ár í röð á árunum 1960 – 1964. Með landsliðinu lék Doddi venjulega stöðu bakvarðar eða jafnvel framherja en lék sem miðherji á keppnisferðalagi um Danmörku og Noreg um áramótin 1974 – 1975. Hann er því eini leikmaðurinn sem hefur afrekað það að spila allar stöður á vellinum með íslenska landsliðinu í körfuknattleik. Doddi var valinn besti leikmaður 1. deildar karla, forvera úrvalsdeildarinnar, árin 1969 og 1971. Teitur Örlygsson. Teitur Örlygsson (f. 9. janúar 1967) er einn sigursælasti körfuknattleiksmaður Íslands frá upphafi. Á árunum 1984-2002 vann hann tíu titla með liði sínu, UMFN. Teitur lék allan sinn feril með liði UMFN, ef undan er skilinn veturinn 1996-1997, en þá lék hann með Larissa í Grikklandi. Hann lék samtals 405 deildarleiki og skoraði í þeim 6.579 stig, eða 16,2 stig að meðaltali í leik. Mest skoraði hann 21,2 stig að meðaltali, veturinn 1995-1996. Teitur er handhafi flestra Íslandsmeistaratitla í úrvalsdeildinni í körfuknattleik, en Agnar Friðriksson, ÍR, vann einnig tíu titla í 1. deild karla, forvera úrvalsdeildarinnar, á árunum 1962-1977. Titillinn "Leikmaður ársins" í úrvalsdeild hefur fallið Teiti í skaut fjórum sinnum á ferlinum (1989, 1992, 1996 og 2000), og er hann efstur á þeim lista. Hann var einnig valinn 11 sinnum í úrvalslið úrvalsdeildar, og verður að teljast ólíklegt að nokkur nái að skáka honum þar. Þá var Teitur kjörinn í lið 20. aldarinnar, sem tilkynnt var snemma árs 2001, sem byrjunarliðsmaður. Gísli Oddsson. Gísli Oddsson (1593 – 2. júlí 1638) var biskup í Skálholti frá 1632 til dauðadags. Æviágrip. Gísli var sonur Odds Einarssonar Skálholtsbiskups og Helgu Jónsdóttur. Hann gekk í Skálholtsskóla og fór til frekara náms í Kaupmannahöfn 1613. Hann varð kirkjuprestur í Skálholti 1616 og rektor í Skálholtsskóla 1621. Hann varð formlega aðstoðarmaður föður síns 1629 og officialis (staðgengill biskups) eftir lát hans. Hann var kjörinn biskup á Alþingi 29. júní 1632. Gísli kvæntist 1622 Guðrúnu Björnsdóttur, dóttur Björns Benediktssonar sýslumanns á Munkaþverá og Elínar konu hans, dóttur Staðarhóls-Páls og Helgu Aradóttur. Þau voru barnlaus. Áður hafði Gísli átt barn með Gróu Eyjólfsdóttur en það dó ungt. Undur Íslands. Gísli ritaði stutta bók um undur Íslands ("De mirabilis Islandiæ") þar sem er að finna mikinn fróðleik um ýmis fyrirbrigði á himnum og þjóðtrú Íslendinga á 17. öld, og segir höfundur í inngangi að það hafi að geyma „lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi eg óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll og happasæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum.“ Ritið ber þess merki að vera ritað undir áhrifum raunhyggju, en er jafnframt gegnsýrt eldri heimsmynd. Með ritinu ætlaði Gísli mögulega að bæta við "Íslandslýsingu" föður síns. Gissur Einarsson (biskup). Gissur Einarsson (um 1512 – 24. mars 1548) var biskup í Skálholti frá 1540 og fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Gissur var sonur Einars Sigvaldasonar á Hrauni í Landbroti og Gunnhildar Jónsdóttur. Hann var í Skálholtsskóla hjá Ögmundi Pálssyni, sem hafði mikið álit á honum og sendi hann til frekara náms í Hamborg. Þar komst hann í kynni við mótmælendahreyfingum í Norður-Þýskalandi. Hann var vígður til prests skömmu eftir heimkomuna 1538, settist að í Skálholti og var þar í hópi með nokkrum öðrum ungum menntamönnum sem hneigst höfðu til lúthersku, þar á meðal Oddi Gottskálkssyni. Ögmundur kaus Gissur sem eftirmann sinn árið 1539 og er ekki ljóst hvort hann vissi þá af skoðunum Gissurar. Konungur staðfesti valið í Kaupmannahöfn árið eftir. Gissur fór þá heim og tók við skyldustörfum biskups en þegar lútherska hans kom berlega í ljós virðist Ögmundur hafa séð eftir valinu og virðist hafa haft í hyggju að reyna að fá hann dæmdan úr embætti. Áður en til þess kæmi kom Christoffer Huitfeldt til landsins með danskan herflokk, handtók Ögmund 2. júní 1541 á Hjalla í Ölfusi og flutti hann um borð í skip, þar sem hann lést á leið til Danmerkur. Gissur var svo formlega vígður til biskups í Kaupmannahöfn haustið 1542. Gissur þýddi kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. yfir á íslensku og kom á lútherstrú í biskupsdæmi sínu. Ekki voru allir viljugir til að samþykkja siðbreytinguna og margir prestar sögðu af sér en hvergi kom þó til átaka eða blóðsúthellinga. Gissur og Jón Arason Hólabiskup gerðu með sér samkomulag og létu hvor annan í friði og var Ísland því hálflútherskt og hálfkaþólskt á árunum 1542-1550. Gissur reyndi mikið að breyta ýmsum kaþólskum siðum og venjum og lét meðal annars taka niður krossinn helga í Kaldaðarnesi, sem mikill átrúnaður hafði verið á. Ekki löngu síðar veiktist hann og dó og voru margir sannfærðir um að það stafaði af vanhelgun krossins. Gissur skildi eftir heitkonu í Skálholti, Guðrúnu Gottskálksdóttur systur Odds félaga síns, þegar hann fór út að taka biskupsvígslu, en þegar hann kom aftur sumarið 1543 var hún þunguð eftir kirkjuprestinn í Skálholti og vildi ekkert með Gissur hafa þótt hann vildi fyrirgefa henni. Hann reið þá vestur á firði og bað Katrínar, dóttur Eggerts Hannessonar hirðstjóra á Núpi í Dýrafirði, og Guðrúnar Björnsdóttur. Brúðkaup þeirra var haldið í Skálholti 7. október 1543. Þau áttu tvö börn sem bæði dóu nýfædd. Eftir lát Gissurar 1548 giftist hún aftur Þórði Marteinssyni presti í Hruna, syni Marteins Einarssonar eftirmanns Gissuarar. Gísli Jónsson (biskup). Gísli Jónsson (latína: Gilbertus Ionas Islandus) (um 1515 – 3. september 1587) var biskup í Skálholti frá 1558. Hann var sonur Jóns Gíslasonar prests í Hraungerði og Gaulverjabæ í Flóa og fylgikonu hans, Vilborgar Þórðardóttur. Hann lærði hjá Ögmundi Pálssyni í Skálholti og hélt síðan til Þýskalands. Hann var prestur í Skálholti frá 1538 og var einn af siðaskiptamönnunum þar í tíð Ögmundar. Hann varð prestur í Selárdal í Arnarfirði frá 1546 en hrökklaðist til Danmerkur undan Jóni Arasyni sem bar upp á hann guðlast, uppreisn gegn kirkjulögum og boðun villutrúar. Hann kom þó aftur til Íslands 1551 og fór aftur í Selárdal en var kosinn biskup 1556. Veitingarbréfið er dagsett 28. febrúar 1558. Gísli reyndi að bæta úr brýnni þörf fyrir sálma í anda lúterstrúar og þýddi talsvert en af vanefnum. Hann gaf út sálmabók 1558 og er aðeins til eitt eintak af henni svo vitað sé. Gísli reyndi að uppræta ýmsar menjar kaþólskunnar og lét meðal annars kljúfa og brenna krossinn helga frá Kaldaðarnesi, sem Gissur Einarsson hafði flutt heim að Skálholti. Kona hans var Kristín Eyjólfsdóttir (f. um 1515), yngsta dóttir Eyjólfs mókolls Gíslasonar í Haga á Barðaströnd. Árið 1535 eignaðist hún dóttur, Guðrúnu, með Gísla bróður sínum, sem einnig hafði barnað Þórdísi systur þeirra. Gísli flúði úr landi og sneri ekki aftur en systurnar flúðu í Skálholt á náðir Ögmundar biskups og var engu þeirra refsað fyrir sifjaspellin. Í Skálholti kynntust þau Kristín og Gísli. Á meðal barna þeirra voru Helga kona Erasmusar Villadtssonar skólameistara í Skálholti og seinast prests á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Guðrún kona Gísla Sveinssonar Skálholtsráðsmanns og sýslumanns á Miðfelli, Stefán prestur í Odda, Árni prestur í Holti undir Eyjafjöllum og Vilborg kona Þorvarðar Þórólfssonar á Suður-Reykjum. Þórður Þorláksson. Þórður Þorláksson og Guðríður Gísladóttir á málverki eftir óþekktan listamann frá um 1697 Þórður Þorláksson (14. ágúst 1637 – 17. mars 1697) var biskup í Skálholti frá 1674. Hann hafði mikinn áhuga á náttúruvísindum, jarðfræði og landafræði. Hann flutti prentverkið frá Hólum til Skálholts og varð fyrstur til að láta prenta fornrit á Íslandi. Þórður var sonur Þorláks Skúlasonar biskups á Hólum og Kristínar Gísladóttur. Hann lærði í Hólaskóla og fór til Kaupmannahafnar til frekara náms. Var skólameistari í Hólaskóla 1660 til 1663 en fór svo utan, stundaði nám við háskólana í Rostock og Wittenberg, heimsótti París og sneri aftur um Belgíu og Holland. 1669 dvaldist hann á Stangarlandi í Noregi hjá Þormóði Torfasyni. Hann var vígður biskup 25. febrúar 1672 og tók við embætti við lát Brynjólfs Sveinssonar. Þorlákur samdi, áður en hann varð biskup, Íslandslýsingu ("Dissertatio chorographico-historica de Islandia") sem fyrst var prentuð í Wittemberg 1666. Til eru eftir hann landakort af bæði Íslandi og Grænlandi. Hann fékk prentverkið flutt til Skálholts og gerði fyrstur tilraun til að prenta íslensk fornrit, meðal annars fyrstu prentuðu útgáfu "Landnámu" 1688. Hann er og sagður hafa endurbætt prentverkið mikið. Hann gerði einnig tilraunir með kornrækt í Skálholti. Kona Þórðar var Guðríður (1651-1707), dóttir Vísa-Gísla Magnússonar sýslumanns á Hlíðarenda. Synir þeirra voru Þorlákur skólameistari í Skálholti og Brynjólfur Thorlacius Þórðarson sýslumaður í Rangárvallasýslu og bóndi á Hlíðarenda. Biskup. Biskup (áður skrifað "byskup") er titill embættismanna í hinum ýmsu kristnu kirkjum, og hlutverk þeirra mismunandi eftir kirkjudeildum. Orðið "biskup" (επισκοπος) á uppruna sinn að rekja til gríska orðsins "episkopos" sem þýðir sá sem skyggnist um, eða hefur eftirlit með eða einu orði "skyggnari", en það er einnig gamalt heiti á biskupi í íslensku. Biskupar voru einnig nefndir "klerkagoðar" í skáldamáli. Fyrst eftir siðaskiptin voru biskupar á íslandi nefndir "súperintent". "Lýðbiskup" (eða "ljóðbiskup") voru undirbiskupar nefndir hér áður fyrr, og voru undirmenn erkibiskups. Biskupsdæmi eru misvaldamikil og oft fer vald biskupa eftir trúarlegu hlutverki þeirra og hefðum. Í sumum kirkjudeildum (svo sem þeim rómversk-kaþólsku og rétttrúnaðarkirkjunni) eru til fleiri en ein gerð biskupa, sem hafa mismunandi valdsvið, til dæmis erkibiskupar og patríarkar. Páfinn í Róm er formlega rómversk-kaþólski biskup Rómaborgar og jafnframt æðsti biskup rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Meðal þess sem biskupar sjá oft um er að vígja presta og guðshús og stjórna ýmsum athöfnum. Valur Ingimundarson. Valur Snjólfur Ingimundarson'", fæddur 20. febrúar 1962, er fyrrverandi landsliðsmaður í körfuknattleik. Valur hóf að æfa körfuknattleik 15 ára gamall með liði UMFN. Hann lék með meistaraflokki félagsins í úrvalsdeild til ársins 1988, en þá gekk hann til liðs við Tindastól frá Sauðárkróki. Með þeim lék hann í fimm ár og skipti svo aftur í sitt gamla félag, UMFN. Þar vann hann tvo Íslandsmeistaratitla og fór í kjölfarið til Danmerkur í nám. Þegar hann sneri aftur, tók hann við þjálfun Tindastóls næstu fjögur árin, og kom þeim m.a. í úrslit Íslandsmótsins 2001. Þar töpuðu hans menn fyrir UMFN. Haustið 2002 tók Valur við þjálfun Skallagríms frá Borgarnesi. Liðið féll um vorið í 1. deild, en vann þá deild ári seinna. Vorið 2006 kom Valur Skallagrími í úrslit Íslandsmótsins þar sem liðið tapaði fyrir UMFN. Hann vék úr þjálfarastólnum ári seinna þegar Skallagrímur tapaði óvænt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar fyrir liði UMFG. Vorið 2007 tók Valur sér svo frí frá þjálfun en haustið 2008 snéri hann á heimaslóðir og tók við liði Njarðvíkur aftur og enduðu þeir í 5. sæti á hans fyrsta ári en duttu út í 8-liða úrslitum fyrir erkifjendunum í Keflavík. Valur er stigahæstur allra leikmanna í úrvalsdeild frá upphafi, hefur skorað 7.355 stig í 400 leikjum, eða 18,2 stig að meðaltali. Hann var valinn besti leikmaður úrvalsdeildar árin 1984, 1985 og 1988, og var auk þess valinn fimm sinnum í úrvalslið deildarinnar. Þá var hann valinn í lið aldarinnar, sem tilkynnt var snemma árs 2001, sem byrjunarliðsmaður. Valur er næstleikjahæsti leikmaður landsliðsins, lék 164 leiki á árunum 1980-1995. Einar Bollason. Einar Gunnar Bollason, fæddur 6. nóvember 1943, er fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í körfuknattleik. Hann hefur einnig verið formaður KKÍ, setið í nefndum á vegum sambandsins, dæmt og starfað við fjölmiðla tengt körfuboltanum. Um skeið var Einar bæði landsliðsþjálfari og formaður KKÍ á sama tíma. Körfuboltaferillinn. Einar hóf feril sinn með ÍR árið 1958 en skipti yfir í KR nokkrum árum síðar. Hann hætti að leika körfuknattleik vegna sjúkdóms snemma á áttunda áratugnum, en dró fram skóna aftur 1976 og lék með KR í þrjú ár til viðbótar. Hann lék auk þess örlítið með Haukum, þegar hann þjálfaði þá 1983-1984. Einar þjálfaði Þór Akureyri, og lék með liðinu, í lok sjöunda áratugarins. Árið 2001 var Einar kjörinn þjálfari 20. aldarinnar af 50 manna nefnd sem einnig valdi leikmenn og dómara aldarinnar. Einar var auk þess kjörinn í lið 20. aldarinnar sem varamaður. Á þjálfaraferlinum þjálfaði Einar alla þá sem voru valdir í karlalið aldarinnar og báða dómarana. Sá eini sem Einar hafði ekki þjálfað var þjálfarinn sem lenti í öðru sæti; Friðrik Ingi Rúnarsson. Geirfinnsmálið. Þann 26. janúar 1976 var Einar hnepptur í varðhald, grunaður um hlutdeild í hvarfi Geirfinns Einarssonar. Nokkur ungmenni, þeirra á meðal Erla, hálfsystir Einars, bentu á hann, Valdimar Olsen, Sigurbjörn Eiríksson og Magnús Leopoldsson. Það varð til þess að Einar sat saklaus í einangrun í 105 daga í Síðumúlafangelsinu. Hestamennskan. Einar stofnaði, ásamt fleirum, fyrirtækið Íshesta haustið 1982. Íshestar sérhæfa sig í hestaferðum fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda. Mangan. Mangan (eftir heiti gríska héraðsins Magnesíu) er frumefni með efnatáknið Mn og er númer 25 í lotukerfinu. Það kemur fyrir hreint í náttúrunni, oft með járni og í ýmsum steindum. Hreint mangan er mikilvægt fyrir framleiðslu á málmblendum, einkum ryðfríu stáli. Manganfosfatmeðferð er notuð gegn ryði og til að koma í veg fyrir tæringu í stáli. Mangan kemur fyrir í ýmsum litum eftir oxunartölu þess og er þannig notað sem litaduft í málningu. Permanganöt alkalí- og jarðalkalímálma eru öflugir oxarar. Mangandíoxíð er notað í bakskaut rafhlaða. Mangan(II) jónir eru hjálparefni fyrir mörg ensím í flóknum lífverum þar sem þær eru nauðsynlegar til að afeitra súperoxíð sindurefna. Sem snefilefni er mangan öllum þekktum lífverum nauðsynlegt. Í of miklu magni veldur það manganeitrun sem meðal annars getur valdið taugakerfi spendýra varanlegum skaða. Almennir Eiginleikar. Mangan er gráhvítur málmur sem líkist járni. Þetta er harður og mjög stökkur málmur, illa sambræðanlegur en oxast auðveldlega. Mangan þarf sérstaka meðhöndlun til að verða seglandi. Algengustu oxunartölur mangans eru +2, +3, +4, +6 og +7. Samt sem áður hafa oxunartölur frá -3 til +7 sést. Mn2+ keppir oft við Mg2+ í líffræðilegum kerfum. Efnasambönd sem innihalda mangan +7 eru öflugir oxunarmiðlar. Notkun. Mangan er ómissandi í framleiðslu á járni og stáli sökum brennisteinsbindingar-, afoxunar- og málmblendishæfileika þess. Stálframleiðsla, ásamt járnframleiðsluhluta hennar, er orsök um það bil 85% til 90% allrar eftirspurnar eftir mangani. Með öðrum notum er mangan lykilhluti í framleiðslu á ódýru ryðfríu stáli og einstökum algengum álblöndum. Mangan(IV) oxíð (mangantvíoxíð) er notað í upprunalegu útgáfunni af þurrhlöðnum rafhlöðum og einnig sem efnahvati. Mangan er notað til að aflita gler (fjarlægir græna slikju sem járn veldur) og, í hærri efnastyrk, til að framleiða fjólublátt gler. Manganoxíð er brúnt litarefni sem hægt er að nota í framleiðslu á málningu og er einn af efnaþáttunum í náttúrulega litarefninu úmbru. Kalínpermanganat (KMnO4-) er öflugur oxari notaður sem sótthreinsunarefni í læknisfræði og efnafræði. Körfuknattleikssamband Íslands. Körfuknattleikssamband Íslands (skammstafað KKÍ) var stofnað 29. janúar 1961. Í fyrstu stjórn KKÍ voru Bogi Þorsteinsson, sem var kjörinn formaður, Benedikt Jakobsson, Matthías Matthíasson, Magnús Björnsson, Kristinn V. Jóhannsson, Ásgeir Guðmundsson og Helgi V. Jónsson. Bogi var formaður KKÍ í tæp níu ár samfleytt; frá stofnfundinum fram að aðalfundi 1. nóvember 1969, þegar hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stofnaðilar voru Körfuknattleiksráð Reykjavíkur, Íþróttabandalag Suðurnesja, Íþróttabandalag Hafnarfjarðar, Íþróttabandalag Keflavíkur, Íþróttabandalag Akureyrar og Íþróttabandalag Vestmannaeyja. Forseti stofnþingsins var Benedikt G. Waage, þáverandi forseti Íþróttasambands Íslands. Fyrsti stjórnarfundur hins nýja sambands var haldinn 1. febrúar 1969 og var verkaskipting eftirfarandi: Bogi Þorsteinsson var formaður, Benedikt Jakobsson varaformaður, Matthías Matthíasson gjaldkeri, Kristinn V. Jóhannsson fundarritari og Magnús Björnsson bréfritari. Það kostaði mikla baráttu að fá að stofna KKÍ, því sum sérsamböndin sem fyrir voru, til dæmis Handknattleikssambandið, beittu sér sérstaklega gegn því. Í viðtalið við Björn Leósson, árið 1993 segir Bogi Þorsteinsson að þar hafi menn strax verið hræddir við samkeppnina. Fjórtán einstaklingar hafa gegn stöðu formanns KKÍ, og er Hannes Sigurbjörn Jónsson núverandi formaður sambandsins. Núverandi framkvæmdastjóri er Friðrik Ingi Rúnarsson. Aðalstyrktaraðili KKÍ er Domino´s og nefnast efstu deildir karla og kvenna eftir fyrirtækinu, Domino´s deild karla og Domino´s deild kvenna Landhelgi. Landhelgin er hér sýnd gul. Kortið byggir ekki á raunverulegri fyrirmynd og hlutföll þess eru röng. Landhelgi er er það hafsvæði undan strönd ríkis þar sem ríkið hefur fullveldisyfirráð líkt og á landi. Friðsamlegar skipaferðir eru þó leyfilegar í landhelginni án sérstaks leyfis yfirvalda þó að þau geti sett fyrirmæli um ákveðnar siglingarleiðir. Það á við jafnt um kaupskip sem og herskip þó að erlend herskip verði að tilkynna yfirvöldum strandríkisins um förina áður en það kemur inn í landhelgina. Um kjarnorkuknúin skip og önnur skip sem geta valdið hættu á umhverfisspjöllum gilda sérstakar reglur, þau mega ekki fara inn í landhelgi ríkis nema með sérstöku leyfi þess. Þessar reglur eru settar fram í Hafréttarsáttmála S.þ. og þar er ríkjum heimilað að taka sér allt að 12 sjómílna landhelgi út frá svonefndri grunnlínu. Þegar minna en 24 sjómílur eru á milli ríkja er almenna reglan að miðlínan á milli þeirra marki skilin en sterk rök þarf til að víkja frá þeirri reglu. Ryðfrítt stál. Ryðfrítt stál er stál, þ.e. málmblanda járns og kolefnis, með að minnsta kosti 11,5% króminnihald. Eins og nafnið gefur til kynna ryðgar ryðfrítt stál mjög lítið samanborið við venjulegt stál. Harry Brearley fann það upp árið 1913 í Brown-Firth-rannsóknastofunni í Sheffield á Englandi. Hann hafði verið að rannsaka leiðir til að draga úr tæringu í byssuhlaupum, þegar hann tók eftir því að prufa, sem hann hafði hent, ryðgaði ekki. Háu oxunarviðnámi ryðfrís stáls í lofti við staðalhitastig er yfirleitt náð með því að hafa króminnihald þess meira en 12% (eftir þyngd). Krómið myndar lag af króm(III)oxíði (Cr2O3) þegar það kemst í snertingu við súrefni. Þetta lag er of þunnt til að vera sjáanlegt, sem þýðir að málmurinn helst gljáandi. Það er hinsvegar vatnshelt og loftþétt, sem verndar málminn innan við lagið. Þegar málmurinn rispast þannig að lagið rofnar myndast það tiltölulega fljótt aftur. Þetta fyrirbæri er kallað óvirknun og sést einnig í öðrum málmum, til dæmis áli. Þegar ryðfríir stálpartar eins og rær og boltar eru skrúfaðir saman, geta oxíðlögin skrapast af. Þegar þau myndast að nýju geta þau snertst og verða áhrifin þá svipuð því að partarnir hafi verið soðnir saman. Innsævi. Innsævi er það hafsvæði sem er innan landhelgi ríkis, þ.e. innan svonefndrar grunnlínu sem ríkið hefur markað sér. Skipgengar ár, vötn, innhöf og skipaskurðir innan ríkisins teljast einnig til innsævis og einnig allar hafnir þess við ströndina. Sumir skipaskurðir sem notaðir eru sem alþjóðlegar siglingarleiðir falla þó ekki undir innsævi. Á innsævinu hefur ríkið algjöran fullveldisrétt líkt og á landi, það getur til dæmis tekið sér fulla lögsögu yfir þeim erlendu skipum sem stödd eru á hafsvæðinu. Erlend skip mega ávallt leita hafnar í neyðartilvikum en að öðru leyti hafa skip engan sjálfkrafa rétt til að leita hafnar nema um það hafi sérstaklega verið samið milli ríkisins þar sem skipið er skráð og hafnarríkisins. Almennt er skipum þó heimilt að leita hafnar nokkuð frjálslega þar sem flest ríki hafa skrifað undir þjóðréttarsamninga þess efnis. Árni Þorláksson. Árni Þorláksson, oftast nefndur Staða-Árni (1237 – 17. apríl 1298) var biskup í Skálholti frá 1269. Helsta heimildin um ævi hans og störf er "Árna saga biskups". Árni var sonur Þorláks Guðmundssonar gríss og Halldóru Ormsdóttur. Hann var hjá Brandi Jónssyni meðan hann var ábóti í Þykkvabæ. Þegar Brandur var kosinn biskup á Hólum fór Árni með honum í vígsluferðina til Noregs og komst þá í kynni við Magnús konung lagabæti og fór vel á með þeim síðan. Hann fór svo með Brandi til Hóla. Þá hafði hann aðeins hlotið djáknavígslu. Þegar Brandur dó eftir aðeins eitt ár á biskupsstóli vígði Sigvarður Skálholtsbiskup Árna til prests og fékk honum staðarforráð á Hólum þar til Jörundur biskup tók við embættinu 1267. Jörundur sendi Árna suður í Skálholt til halds og trausts Sigvarði biskupi, sem orðinn var aldraður, og þegar Sigvarður dó 1268 var Árni kosinn biskup og vígður í Niðarósi 1269, rúmlega þrítugur að aldri. Hann gegndi embættinu í nærri 30 ár og andaðist í Björgvin. Árni var mikil skörungur í kirkjustjórn og gjörbreytti mörgu þar en hann var ekki fjáraflamaður að sama skapi og auðgaði ekki stólinn að jörðum á sama hátt og Jörundur biskup Hólastól. Kristniréttur og staðamál. Árni setti nýjan kristnirétt 1275 sem við hann er kenndur og krafðist yfirráða kirkjunnar yfir kirkjustöðum (staðamál síðari). Stóðu miklar deilur um þau mál næstu árin, sem lauk með því að ákveðið var að biskup skyldi hafa yfirráð yfir þeim stöðum sem kirkjan ætti hálfa eða meira. Auðugustu kirkjustaðirnir urðu svokölluð erkibiskupslén. Má því segja að Árni hafi unnið nærri fullan sigur í þeim átökum sem Þorlákur helgi hóf gegn Jóni Loftssyni, langafa Árna. Helsti stuðningsmaður Árna í baráttunni við höfðingjaveldið var Runólfur Sigmundsson ábóti í Þykkvabæjarklaustri en þeir höfðu báðir verið nemendur Brands Jónssonar í klaustrinu. Harðasti andstæðingur biskups var aftur á móti Hrafn Oddsson hirðstjóri en hann lést 1289. Þá tók Þorvarður Þórarinsson við en var Árna biskupi ekki jafnerfiður viðfangs og Hrafn hafði verið og fór svo að málum var skotið í dóm konungs. Árni Helgason (d. 1320). Árni Helgason ((?) – 21. janúar 1320) var biskup í Skálholti frá 1304. Foreldrar hans voru Helgi Loftsson bóndi í Skál á Síðu og Ásbjörg Þorláksdóttir kona hans, systir Árna Þorlákssonar (Staða-Árna) Skálholtsbiskups, sem tók nafna sinn til sín og menntaði hann. Árni Helgason var orðinn prestur í Skálholti fyrir 1288, því það ár fór hann til Noregs með móðurbróður sínum. Staða-Árni dó í Björgvin 1298 en vegna deilna erkibiskups og kórbræðra liðu sex ár þar til Árni Helgason var valinn arftaki hans. Í biskupstíð Árna, árið 1309, brann kirkjan í Skálholti þegar eldingu laust niður í hana. Gekkst biskupinn þá fyrir því að safnað var fé um allt land til kirkjubyggingar. Hann sigldi svo til Noregs að kaupa kirkjuvið og gekk þetta allt vel fyrir sig svo að ný kirkja, sem kölluð hefur verið Árnakirkja, var vígð 1311. Hún brann árið 1526. Árni Ólafsson. Árni Ólafsson mildi (d. um 1425?) var biskup í Skálholti á 15. öld. Árni er ýmist talinn sonur Ólafs Péturssonar hirðstjóra eða Ólafs Þorsteinssonar í Fellsmúla í Landssveit, og fleiri tilgátur hafa reyndar verið nefndar. Vitað er að hann var í Noregi 1403 og var þá orðinn munkur, hvort sem hann hefur fyrst gengið í klaustur í Noregi eða á Íslandi. Hann gekk í þjónustu höfðingjans Hákonar Sigurðssonar á Giska 1404 og þjónaði síðar ekkju hans, Sigríði Erlendsdóttur, og fór með henni suður til Rómar. Þar var hann skipaður skriftafaðir norrænna manna. Eftir að heim til Noregs kom var hann skriftafaðir eða heimilisprestur frú Sigríðar og seinni manns hennar á Giska. Þegar fréttist af láti Jóns Skálholtsbiskups fór Árni suður til Flórens og hitti þar Jóhannes páfa 23. (sem raunar er ekki viðurkenndur páfi) og fékk hjá honum bréf til Jóhannesar biskups í Lýbiku (Lübeck) um að vígja skyldi Árna til biskups í Skálholti. Var það gert 10. október 1413 og er Árni þá nefndur kanoki af Ágústínusarreglu. Um leið hitti hann Eirík konung af Pommern og fékk hjá honum hirðstjóravald á Íslandi. Hann kom heim 1415 á eigin skipi og var þá ótvírætt valdamesti maður landsins því auk hirðstjóraembættis og Skálholtsbiskupsstóls var hann í raun einnig Hólabiskup því Jón Tófason kom ekki til landsins fyrr en 1419. Fleiri umboð og embætti hafði hann. Árni virðist hafa verið glæsimenni, mikill íþróttamaður og góður sundmaður, höfðinglegur og í kunningsskap við margt helsta tignarfólk Norðurlanda á sinni tíð. Hann hafði miklar tekjur af embættum sínum en einnig mikinn tilkostnað, var manna gjöfulastur, vinsæll og gestrisinn, veitti vel háum sem lágum og var vegna örlætis síns kallaður Árni hinn mildi. Var sagt að hann hefði látið smíða mikinn silfurbolla til að skenkja gestum. Bollinn var hátt í 3 kíló að þyngd og kallaðist "Gestumblíður". Honum hélst ekki vel á fé og gekk illa að standa í skilum við konung með afgjald af Íslandi. Hann fór til Noregs á skipi sínu 1419 og árið 1420 er hann í Danmörku og viðurkennir þar að skulda Eiríki konungi þrjú þúsund gamla enska nóbela og skuldbindur sig til að vera í Björgvin þar til skuldin sé greidd að fullu. Eftir það er í rauninni ekkert vitað um Árna og hugsanlega dó hann í hálfgerðu skuldafangelsi í Björgvin. Efnahagslögsaga. Efnahagslögsagan er hér sýnd blá. Kortið byggir ekki á raunverulegri fyrirmynd og hlutföll þess eru röng. Efnahagslögsaga er hafsvæði sem er utan landhelgi ríkis þar sem það hefur sérstök réttindi varðandi nýtingu auðlinda á hafsvæðinu og hafsbotninum. Þetta svæði er einnig kallað fiskveiðilögsaga og mengunarlögsaga vegna þess að strandríkið fer með stjórn fiskveiða á því, hefur einkarétt til hafrannsókna á því og fer með lögsögu vegna verndunar og varðveislu hafsins og hafsbotnsins. Þessum réttindum fylgja einnig skyldur, m.a. þær að koma í veg fyrir ofveiði og mengun innan lögsögunnar. Ríkjum er heimilt að taka sér allt að 200 sjómílna efnahagslögsögu frá grunnlínu, það er 188 mílur frá landhelgi, en ef það rekst á efnahagslögsögu annars ríkis skulu sanngirnissjónarmið ráða því hvar mörkin liggja en algengast er að miðlína milli ríkja sé látin gilda. Í efnahagslögsögu ríkis hafa öll erlend skip rétt til frjálsra siglinga og að auki er hverju ríki frjálst að leggja neðansjávarstrengi á þessum hafsvæðum. Ólíkt landhelginni er ekki litið svo á að ríki hafi fullveldisyfirráð yfir efnahagslögsögunni heldur einungis afmarkaðan einkarétt á nýtingu auðlinda. Efnahagslögsaga er tiltölulega nýtilkomið hugtak í hafrétti, fyrst fór að bera á því á snemma eftir Síðari heimsstyrjöld þegar ýmis ríki lýstu einhliða yfir fiskveiðilögsögu langt út fyrir landhelgi sína. Þetta olli árekstrum, dæmi um það eru hin svonefndu þorskastríð Íslands og Bretlands þar sem Bretum gramdist einhliða útfærslur Íslendinga á fiskveiðilögsögu sinni og töldu hana ekki eiga sér stoð í lögum. Með dómi Alþjóðadómstólsins árið 1982 í máli Túnis gegn Líbýu varð það endanlega ljóst að efnahagslögsaga var orðin að venju í þjóðarétti og síðar það sama ár var það endanlega staðfest með Hafréttarsamningi S.þ. sem að viðurkennir rétt ríkja til 200 mílna efnahagslögsögu. Samningurinn tók þó ekki formlega gildi fyrr en 1994 þegar nógu mörg ríki höfðu fullgilt hann. Þýði. Þýði er hugtak í tölfræði yfir mengi allra talnagagna í ákveðnum hóp. Þegar hluti af þýðinu er tekinn fyrir, kallast það úrtak. Athuga verður að mengi yfir talnagögn geta líka verið þýði og úrtak á sama tíma, eftir því hvernig litið er á það. Dæmi um það er að aldur allra jarðarbúa þýði en aldursdreifing ákveðinnar þjóðar væri úrtak af því. Hins vegar getur aldursdreifing ákveðinnar þjóðar verið þýði og úrtakið væru einstaklingar sem féllu undir ákveðin skilyrði eins og kyn, aldur, búseta eða önnur skilyrði sem sett eru. Þýði er yfirleitt skilgreint sem safn allra þeirra viðfangsefna sem draga á ályktanir um og úrtak er hluti þeirra viðfangsefna. Ekki má rugla saman saman líkindadreifingu og þýði. Oft er talað um líkindadreifingu þýðis en það er ekki þar með sagt að þýðið sé dreifing, það er allt annar hlutur. Úrtak. Úrtak er hugtak í tölfræði yfir hluta af þýði sem tekinn er fyrir og fellur það undir ályktunartölfræði. Þau eru oftast tilviljanakennd en hægt er að setja ákveðin skilyrði og velja tilviljanakennt út úr þeim eða úr öllu þýðinu. Úrtök eru oft tekin fyrir til að "spá fyrir" um heildarmynd þýðisins út frá úrtakinu/úrtökunum eins og t.d. skoðanakannanir. Úrtak er ekki eingöngu notað í ályktunartölfræði. Lýsandi tölfræði lýsir því úrtaki sem unnið er með, svo úrtök eiga við í allri tölfræði. Sé úrtak notað til að draga ályktanir um þýði er talað um ályktunartölfræði. Þurfi „úrtakið“ að falla undir ákveðin skilyrði er í raun verið að þrengja þýðið en ekki úrtakið þó yfir það sé oftast notað hugtakið lagskipt úrtak. National Basketball Association. National Basketball Association, sem í daglegu tali kallast NBA, er almennt talin langsterkasta atvinnumannadeild heims í körfuknattleik. Margir af bestu leikmönnum heims leika í NBA deildinni, enda samkeppnin "töluvert" meiri í þeirri deild en annars staðar. Saga. NBA-deildin var sett á laggirnar í New York borg þann 6. júní 1946, og hét þá Basketball Association of America (BAA). Nafninu var breytt í National Basketball Association haustið 1949 eftir að nokkur lið úr National Basketball League (NBL), deild sem var í samkeppni við BAA, höfðu runnið inn í BAA. Í deildinni voru upphaflega aðeins hvítir leikmenn og þjálfarar en hún varð fyrsta atvinnumannadeildin í Bandaríkjunum þar sem ráðinn var þeldökkur þjálfari (árið 1966), þeldökkur framkvæmdastjóri (1972), og þeldökkur meirihlutaeigandi liðs (2002). Lið. Í NBA deildinni leika nú 30 lið, þar af 29 staðsett í Bandaríkjunum og eitt í Kanada. Boston Celtics er sigursælasta lið deildarinnar en það hefur unnið meistaratitilinn 17 sinnum, Lakers hefur unnið titilinn 15 sinnum og Chicago Bulls 6 sinnum. Los Angeles Lakers eru núverandi meistarar en liðið lék gegn Orlando Magic í úrslitunum 2009 og sigraði í fjórum leikjum gegn einum. Tónfræði. Tónfræði er grein innan tónlistarnáms sem einbeitir sér að skrift og lýsingu tónverka og hefðum tengdum henni. Í tónfræði er nótnaskrift og lestur kennd, tóntegundir og tónstigar skilgreindar og stöðluð orð úr ítölsku, þýsku, frönsku og latínu sem mikið eru notuð í tónlist kennd. Penisillín. Penisillín, pensillín eða pensilín er fúkkalyf af beta-laktam gerð. Það er notað gegn sýkingum af völdum næmra baktería, venjulega Gram-jákvæðra. Orðið "penisillín" er einnig oft notað um önnur beta-laktam sýklalyf sem smíðuð eru út frá penisillíni. Saga. Efnið var fyrst einangrað úr myglusveppnum "Penicillium chrysogenum" (sem áður var kallaður "Penicillium notatum"). Fyrstur til að taka eftir áhrifum myglunnar á bakteríur var ungur franskur læknanemi að nafni Ernest Duchesne árið 1896, en þær athuganir náðu þó aldrei lengra. Árið 1928 (endur)uppgötvaði Alexander Fleming áhrif þess á bakteríur, þegar hann tók eftir eyðu í kring um myglusvepp sem hafði vaxið meðal "Staphylococcus"-kólonía í ræktunarskálum,(en) sem hann hafði skilið eftir um nokkurn tíma á rannsóknastofunni. Hann komst að þeirri niðurstöðu að efni, sem sveppurinn gæfi frá sér, dræpi bakteríurnar. Með hjálp sveppafræðings komst hann að því, að sveppurinn í tilraunafatinu var "Penicillium notatum" og þaðan er nafn sýklalyfsins komið. Einnig fann hann út að penisillín hélst ekki í líkamanum nógu lengi til að vinna bug á bakteríum og hætti því rannsóknum 1931. Uppgötvun hans leiddi síðar til byltinga í læknavísindum 1939 þegar Howard Walter Florey og rannsóknahópur hans við Oxford háskóla sýndu fram á hæfileika þess til að drepa sýkla í mönnum. Þetta leiddi síðar til fjöldaframleiðslu penisillíns. Í síðari heimstyrjöldinni varð penisillínið til þess að bjarga mörgum mannslífum úr liði Bandamanna. Árið 1944 kom það fyrst á almennan markað. Efnisbygging penisillíns var ákvörðuð af Dorothy Crowfoot Hodgkin snemma árið 1940, sem gerði efnasmíð þess mögulega. Hópur vísindamanna í Oxford undir stjórn ástralans Howard Walter Florey og í voru meðal annarra Ernst Boris Chain og Norman Heatley, uppgötvaði aðferð til að fjöldaframleiða lyfið. Florey og Chain deildu nóbelsverðlaununum í læknisfræði 1945 ásamt Fleming fyrir hans störf. Penisillín er nú mest notaða sýklalyfið og er enn notað gegn mörgum Gram-jákvæðum bakteríusýkingum. Stóuspeki. Stóuspeki eða stóismi er heimspekistefna sem kom fram í Aþenu snemma á helleníska tímabilinu. Upphafsmaður hennar var Zenon frá Kítíon. Stóuspekin er ákaflega kerfisbundið heimspekikerfi. Hún leggur áherslu á sjálfsaga og hluttekningaleysi gagnvart tilfinningum. Henni svipar um margt til heimspeki hundingja en Zenon varð fyrir áhrifum frá þeirri heimspeki. Náttúruspeki stóumanna einkenndist af efnishyggju og algyðistrú. Mikilvæg stef í siðfræði stóumanna er skynsemishyggja þeirra, dygðahugtakið og hugmynd þeirra um náttúrurétt. Stóumenn töldu að með því að lifa í samræmi við náttúruna og skynsemina gætu menn öðlast sálarró. Stóumenn náðu töluverðum framförum í rökfræði. Stóuspekin varð langlíf heimspeki og naut töluverðra vinsælda bæði í Grikklandi og síðar í Rómaveldi. Helstu keppinautar hennar voru epikúrismi og akademísk efahyggja. Engin ritverk liggja eftir Zenon sjálfan. Megnið af varðveittum ritum stóumanna er frá ritum rómverskum tíma, einkum frá höfundunum Cíceró (sem var hrifinn af stóuspeki en þó ekki einarður stóumaður sjálfur), Epiktetosi, Senecu og Markúsi Árelíusi. Að auki eru til brot varðveitt úr verkum Krýsipposar og Kleanþesar og annarra grískra stóumanna. Saga. Rekja má stóuspekina til um 300 f.Kr. þegar að upphafsmaður stóuspekinnar, Zenon frá Kítíon varð skipreka og endaði í Aþenu. Þar nam hann heimspeki hjá hundingjum og platonistum. Skólinn sem Zenon stofnaði dróg nafn sitt af steindum súlnagöngum ("stoa poikilê", sem er gríska fyrir súlnaskála eða súlnagöng) við markaði í Aþenu þar sem hann hélt fyrirlestra sína og kenndi lærisveinum sínum. Eftir lát hans tók Kleanþes, lærlingur hans, við skólanum og undir honum lærðu þeir Krýsippos og Antigonos, Makedóníu konungur. Krýsippos var sá sem ásamt Zenoni mótaði stóuspekina hvað mest. Á 1. og 2. öld f.Kr. varð stóuspekin fyrir áhrifum frá platonisma. Helstu málsvarar hennar þá voru Panætíos og Póseidóníos. Útskýring á stefnunni. Stóumenn skiptu heimspekinni í þrennt: náttúruspeki, siðfræði og rökfræði. Náttúruspekin náði m.a. yfir verufræði, frumspeki og eðlisfræði og rökfræðin fól einnig í sér þekkingarfræði stóumanna. Síðar meir var stóuspeki kennd einkum sem siðfræði eða kenning um hvernig menn skildu haga lífi sínu. Siðfræðihluti stóuspekinnar varð því hornsteinn hennar er fram liðu stundir en aðrar greinar hennar svo sem náttúruspeki og rökfræði renndu stoðum undir siðfræðina. Þeir líktu speki sinni oft við bóndabæ þar sem rökfræði er girðingin, náttúrufræði er jörðinn og siðfræði ræktunin. Náttúruspeki. Líkt og epikúringar voru stóumenn efnishyggjumenn. Hryðjuverk. Hryðjuverk er umdeilt hugtak án nokkurar almennt viðurkenndrar skilgreiningar. Algengast er að hryðjuverk sé talið hver sú árás sem af ásetningi er beint gegn almennum borgurum til ógnunar sem framin er í þeim tilgangi að ná fram stjórnmálalegum eða öðrum hugmyndafræðilegum markmiðum. Um það er deilt hverjir fremji hryðjuverk (hvort að ríki geti framið hryðjuverk) og að hverjum þau geti beinst (t.d. hvort að árás á hernaðarleg skotmörk geti verið hryðjuverk). Þarna geta komið upp árekstrar við önnur hugtök á borð við stríð og skæruhernað. Þetta er mjög áþekkt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á hugtakinu. Hryðjuverkarhugtakið hefur breytt nokkuð um mynd á síðari árum, t.d. með tilkomu öflugra alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka sem njóta mikillar hylli á ýmsum svæðum heims eða innan ákveðinna þjóðfélagshópa. Ýmis samtök múslímskra hryðjuverkasamtaka, svo sem al-Kaída og Hamas, hafa valdið miklum mannskaða víða um heim og njóta stuðnings ríkisstjórna í ýmsum löndum, svo sem Sýrlands og Íran. Ýmis samtök umhverfisverndunarsinna á Vesturlöndum hafa einnig gripið til athæfa sem vel er hægt að skilgreina sem hryðjuverk. Eignaspjöll og ýmis mótmæli meðal sumra umhverfisverndunarsamtaka er gagnvert ætlað að hafa áhrif á stjórnvöld og stöðva framkvæmdir sem sumum finnst orka tvímælis og vera eyðilegging á náttúrunni. Flórída. Flórída eða eins og það er stundum kallað; "The Sunshine State" (enska: „sólskinsfylkið“) er fjórða fjölmennasta fylki Bandaríkjanna. Höfuðborg ríkisins heitir Tallahassee en stærsta borgin er Jacksonville eða stórborgarsvæði Miami, eftir því hvernig á það er litið. Aðrar þekktar borgir eru Tampa, Orlando og Fort Lauderdale. Í fylkinu búa yfir 18 milljónir manna. Flórída er vinsæll ferðamannastaður. Í Flórída er hinn geysivinsæli skemmtigarður Disney Land. Fylkinu er skipt upp í 67 sýslur. Þær eru: Alachua County, Baker, Bay, Bredford, Broward, Calhoun, Charlotte, Citrus, Clay, Collier, Columbia, De Soto, Dixie, Duval, Escambia, Flagler, Franklin, Gadsden, Gilchrist, Glades, Gulf, Hamilton, Hardee, Hendry, Hernando, Highlands, Hillsborough, Holmes, Indian River, Jackson, Jefferson, Lafayette, Lake, Lee, Leon, Levy, Liberty, Madison, Manatee, Marion, Martin, Miami-Dade, Monroe, Nassau, Okaloosa, Okeechobee, Orange, Osceola, Palm Beach, Pasco, Pinellas, Polk, Putnam, Santa Rosa, Sarasota, Seminole, St. Johns, St. Lucie, Sumter, Suwannee, Taylor, Union, Volusia, Wakulla, Walton og Washington. Massachusetts. Massachusetts er fylki á norðausturströnd Bandaríkjanna og er hluti af Nýja Englandi. Landamæri þess markast af Rhode Island og Connecticut í suðri, New York í vestri og Vermont og New Hampshire í norðri; þá liggur austurströndin að Atlantshafi. Fylkishöfuðborgin er Boston sem er einnig fjölmennasta borg fylkisins en í fylkinu búa um 6,5 milljónir manna. Massachusetts varð sjötta viðurkennda fylki Bandaríkjanna þann 6. febrúar árið 1788. Úrvalslið 20. aldarinnar í íslenskum körfuknattleik. Körfuknattleikssamband Íslands tilkynnti lið 20. aldarinnar í karla- og kvennaflokki þann 24. febrúar 2001. Nefnd, skipuð 50 körlum og konum, kaus bestu leikmenn í karlaflokki, ásamt því að kjósa bestu þjálfara og dómara síðustu aldar, en 25 manna nefnd sá um valið á kvennaliði aldarinnar. Valið var tilkynnt í hálfleik í bikarúrslitaleikjum karla og kvenna sem fram fóru þennan dag. Lið aldarinnar í karlaflokki. Byrjunarlið karlaliðsins skipuðu Pétur Guðmundsson, sem einnig var valinn leikmaður aldarinnar, Jón Sigurðsson, Valur Ingimundarson, Teitur Örlygsson og Jón Kr. Gíslason. Varamenn voru Þorsteinn Hallgrímsson, Torfi Magnússon, Símon Ólafsson, Kolbeinn Pálsson, Einar Bollason, Guðmundur Bragason og Pálmar Sigurðsson. Lið aldarinnar í kvennaflokki. Byrjunarlið kvennaliðsins skipuðu Anna María Sveinsdóttir, sem einnig var valin leikmaður aldarinnar, Björg Hafsteinsdóttir, Guðbjörg Norðfjörð, Linda Stefánsdóttir og Linda Jónsdóttir. Varamenn voru Hanna Kjartansdóttir, Alda Leif Jónsdóttir, Erla Þorsteinsdóttir, Kolbrún Leifsdóttir, Hafdís Helgadóttir, Emilía Sigurðardóttir og Erla Reynisdóttir. Þjálfarar og dómarar aldarinnar. Einnig voru valdir þjálfarar og dómarar aldarinnar. Þjálfari aldarinnar var Einar Bollason og í öðru sæti var Friðrik Ingi Rúnarsson. Dómari aldarinnar var Jón Otti Ólafsson og í öðru sæti var Leifur Sigfinnur Garðarsson. Lilith. Lilith mesópótamískur næturdjöfull sem hafði mætur á að deyða börn og spilla sæði manna. Í gyðinga goðsögn. Lilith er einnig stundum talin fyrsta kona Adams, sagt er að hún hafi verið hrokafull og ekki vilja vera undir Adam komin og rifist við hann um jafnrétti í kynlífi. Þannig átti hún að hafa flogið til Rauðahafsins og getið um hundrað djöflabörn á dag. Innan kabbalatrúarinnar eru einnig til margar sögur um uppruna Liltiar. Landamæralaust land. Landamæralaust land er eyríki sem deilir ekki eyjunni eða eyjunum sem það er staðsett á með öðru landi, dæmi um land sem er eyríki en ekki landamæralaust er Írska lýðveldið (deilir eyjunni með Bretlandi), stundum er umdeilt er hvort sum lönd eru landamæralaus eða eyríki, eitt slíkt tilfelli er Kúba en Bandaríkin hafa yfirráð yfir Guantanamo-flóa á Kúbu. Ísland er dæmi um landamæralaust land. Herjólfur. Herjólfur hefur verið heiti á þremur ferjum sem gengið hafa á milli Heimaeyjar í Vestmannaeyjum og Þorlákshafnar, og seinna meir Landeyjahafnar. Núverandi Herjólfur, sá þriðji í röðinni, gengur á milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar. Hann var tekinn í notkun árið 1992, og var þar um að ræða margfalt stærra og hraðaskreiðara skip en það sem á undan gekk. Hann tekur um 60 fólksbíla og allt að 388 farþega. Herjólfur er gerður út af Eimskipum, elsta og stærsta skipafélagi landsins. Áfengi. Áfengi eða áfengur drykkur er heiti yfir drykk, sem inniheldur vínanda yfir tilteknum mörkum. Á Íslandi telst drykkur áfengur ef magn hreins vínanda er yfir 2,25% af rúmmáli vökvans. Áfengi hefur verið notað síðan í fornöld af mörgum samfélögum víðsvegar um heiminn, sem hluti af daglegu fæði, í hreinlætis- eða læknisfræðilegum tilgangi, sem slakandi og sælugefandi áhrifavaldur, sem vímugjafi, sem innblástur til lista, sem ástarlyf, og af öðrum ástæðum. Sum not hafa tengst táknrænni eða trúarlegri merkingu, sem dæmi í grískri trú í alsæluhelgisiðum Dionysusar, vínguðsins; í hinu kristna kvöldmáltíðarsakramenti; og páskahátíð gyðinga. Neikvæð áhrif. Óhófleg neysla hefur skaðlega áhrif á líkamann, algengir kvillar eru skorpulifur og áfengissýki. Afleiðingar áfengissýki eru taldar meiriháttar heilbrigðisvandamál hjá mörgum þjóðum. Áhrifin geta haft skaðleg áhrif á félagslega og fjárhagslega velferð neytenda. Geðvirkni áfengis auka líkurnar á banaslysum í umferðinni og ofbeldi. Fólk undir áhrifum áfengis endar stundum í hættulegri eða vafasamri aðstöðu sem ekki hefði gerst ef það hefði verið allsgátt. Jákvæð áhrif. Ýmiss jákvæð áhrif eru tengd hóflegri neyslu áfengis, til dæmis er hófleg neysla rauðvíns talinn draga úr hjartaáföllum. Áfengi er stundum haft sem hluti fæðupýramída. Hófleg neysla er skilgreind á marga vegu, frá einum til þriggja drykkja á dag og þá stundum tekið fram að 1-3 dagar í viku ættu að vera áfengislausir. Þetta er að sjálfsögðu háð því hvernig "einn drykkur" er skilgreindur og hvort um er að ræða konur eða karla. Áfengi og trúarbrögð. Sum trúarbrögð, þá sérstaklega Íslam, Mormónatrú og Nikayagrein Búddhisma, og einstaka flokkar Mótmælendatrúar banna algerlega eða tala á móti neyslu áfengis vegna ýmissa ástæða. Efnafræði. Etanólið (CH3CH2OH) í áfengum drykkjum er næstum alltaf framleitt með gerjun, þ.e. efnaskiptum kolvetnis (yfirleitt sykur) af ákveðnum tegundum gers í fjarveru súrefnis. Þetta ræktunarferli gers við aðstæður sem framleiða vínanda er kallað bruggun. Áfengismagn. Magn vínanda í áfengi er yfirleitt mælt í hundraðshlutum eftir rúmmáli vínanda eða eftir þyngd. Almenn eiming stöðvast við 95,6% etanól því að við það stig er etanól stöðugeima við vatn. Flest ger ræktast ekki þegar styrkleikur vínanda er meiri en 18% m.v. rúmmál, þannig er það hámarksstyrkur gerjaðra drykkja, t.d. borðvína, bjórs og sake. Stofn gerja hefur verið þróaður sem að ná að þola allt upp að 25% vínanda, en þessi stofn var ræktaður til að framleiða etanól sem eldsneyti en ekki í áfengisframleiðslu. Sterkt áfengi (yfir 18%) er framleitt með eimingu gerjaðra afurða, sem eykur vínandamagn og eyðir út sumum aukaefnum sem verða til við gerjun. Mörg vín eru styrkt vín með viðbættu kornvíni til að ná hærra vínandamagni en hægt er með gerjun einni saman. Bragðbæting. Etanól er ágætis leysir fyrir mörg fituefni og ilmolíur, og hjálpar að því leyti til við upplausn margra litar-, bragð- og lyktarefna í áfengi, þá sérstaklega eimaðs áfengis. Þessi bragðefni geta verið til staðar í uppistöðuefni áfengisins, eða bætt við á undan gerjun, undan eimingu, eða áður en tappað er á flöskur. Stundum er bragði náð með því að láta áfengið standa mánuðum eða jafnvel árum saman í tunnum gerðum úr sérstökum viði (oftast eik) eða í flöskum þar sem ilmandi greinum eða jafnvel skordýrum hefur verið stungið inni í. Áfengir drykkir. Góður bar inniheldur yfirleitt úrval bjóra og vína, ásamt algengum sterkum drykkjum eins og vodka, romm, gin, tekíla og viskí. Drykkirnir geta verið blandaðir saman þegar þeir eru bornir fram til að gera hanastél („kokkteil“). Smáir skammtar af óblönduðu áfengi (skot) eru líka algengir, þar sem sætir bragðbættir drykkir og tekíla eru yfirleitt algengastir. Allir drykkir sem innihalda vínanda teljast vera áfengir drykkir, en samkvæmt íslenskum lögum teljast allir drykkir sem innihalda minna en 2,25% vínanda (af rúmmáli) ekki vera áfengi og eru því undanskildir skatti og gjöldum sem lögð eru á slíka drykki. Frigg Fjörgynsdóttir. Frigg Fjörgynsdóttir er höfuðgyðja í norrænni goðafræði, eiginkona Óðins og móðir Baldurs og Hermóðs hins hvata. Nafn hennar merkir ást eða hin elskaða. Frigg veit öll örlög og hún er verndari hjúskapar, fjölskyldu og heimilis. Einkennisgripir hennar eru lyklar, mistilteinn, valshamur og rokkur sem hún notar til að spinna skýin. Frigg býr að Fensölum í Ásgarði. Þar hefur hún ellefu þjónustumeyjar: Fulla, Hlín, Gná, Lofn, Sjöfn, Syn, Gefjun, Snotra, Eir, Vár og Vör. Sögur af Frigg. Af börnum sínum unnu Óðinn og Frigg Baldri mest en hann var bjartastur ása. En þar Frigg vissi öll örlög vissi hún að Baldur var feigur. Til að reyna að vernda hann fékk hún allar skapaðar verur, menn, dýr og jurtir, og alla skapaða hluti úr málmi, tré og steini til að sverja að gera honum aldrei mein. Eftir það gátu goðin skemmt sér við að kasta hlutum að Baldri vitandi það að honum yrði ekki meint að. Því miður uppgötvaði Loki að ein lítil jurt, mistilteinn, hafði ekki svarið Frigg þennan eið því hún hafði álitið hann of ungan til að geta valdið skaða og gat þannig með klækjum drepið Baldur. Að Baldri látnum freistaði Hermóður hinn Hvati þess að fá bróður sinn heimtan frá Hel og var honum tjáð að Baldur fengi að fara ef allir hlutir, bæði lifandi og dauðir fengjust til að gráta hann. Frigg sendi þá erindreka um allan heim til að biðja alla, bæði lifandi sem dauða hluti til að sýna ást sína á Baldri og gráta hann. Allir urðu við þeirri bón, bæði menn, dýr, steinar og málmar, því allir elskuðu Baldur. En að lokum komu sendiboðarnir að gamalli konu sem neitaði að gráta Baldur því aldrei hefði hún elskað hann. Reyndist þetta vera Loki í dulargervi og Baldur mátti því dvelja áfram í Helju. Í annarri sögu af Frigg sést viska og sjálfstæði hennar vel. Tveir ættbálkar áttu í erjum og hélt Frigg með öðrum ættbálkinum en Óðinn með hinum. Eftir að rifist heiftarlega um þetta lofaði Óðinn því að hann myndi láta það lið vinna sem hann sæi fyrst er hann vaknaði næsta morgun, en hann vissi það að rúmið hans lá þannig að hann sæi fyrst sitt mennina í sínu liði. Meðan hann svaf sagði Frigg konunum í sínu lið að greiða hár sitt yfir andlitið svo að þær litu út eins og skeggjaðir karlar. Svo sneri hún rúminu þannig að þær yrðu það fyrsta sem Óðinn sæi er hann vaknaði. Hann var mjög hissa þegar hann vaknaði og spurði hverjir þessir síðskeggjuðu menn væru. Hann hélt loforð sitt og færði ættbálk þeirra sigur og sá að lokum að Frigg hafði valið betra liðið. Baldur. Baldur (norræna: "Baldr") var í norrænni goðafræði annar sonur Óðins á eftir Þór, þar með einn af ásum og bjó á stað sem var kallaður Breiðablik og var á himninum fyrir ofan Ásgarð. Þar var allt tandurhreint og óspillt. Fjölskylduhættir. Kona Baldurs hét Nanna Nepsdóttir og afkvæmi þeirra Forseti. Forseti átti heima nálægt föður sínum á himninum fyrir ofan Ásgarð en í „sal“ eða höll sem kallaðist Glitnir. Glitnir var nokkurs konar „sáttahöll“ þar sem Forseti fyrirgaf sakir eða „sakavandræði“ þeirra sem komu þangað. Nönnu þótti einstaklega vænt um Baldur og jafn vel þó nánast allir í heiminum lofuðu hann og dáðu elskaði hún hann óskaplega mikið en vel er hægt að merkja það af viðbrögðum hennar við útför hans. Dauði Baldurs. Það eru a.m.k. til tvær mismunandi útgáfur af sögninni af dauða Baldurs, aðdraganda hans og afleiðingum. Þær eru ritaðar í Danmörku af Saxo Grammaticus á tólftu öld og á Íslandi af Snorra Sturlusyni á þeirri þrettándu og eru mjög frábrugðnar og þó að útgáfa Saxo Grammarticus sé eldri og eflaust nær upprunnanum þá mun í þessari grein vera stuðst við söguna eins og hún kemur fram í Gylfaginningu Snorra-Eddu vegna þess að stuðst er við hana til kennslu á Íslandi. Í Gylfagynningu segir frá því þegar Baldur fór að fá martraðir og hann vissi að þær væru fyrir dauða sínum. Þetta endaði með því að nánast allt í heiminum, kvikt eða ókvikt sem gæti mögulega skaðað Baldur samdi við Frigg, móður hans, um að veita honum grið. Þessu tók bragðarefurinn Loki af mikilli öfund og vildi leita hefnda. Þar sem hann var mikill hamskiptingur ákvað hann að breyta sér í konu og fá Frigg til að segja sér hvort það væri einn einasti hlutur í heiminum sem hefði ekki samið við Frigg um að veita Baldri skaða og hún svaraði því að vestan við Valhöll yxi mistilteinninn en hann hafði ekki samið um að veita Baldri grið. Þetta gat Loki nýtt sér og flýtti sér vestur fyrir Valhöll, sleit upp mistiltein og fann ás að nafni Höður en hann var mjög sterkur en þó blindur og stóð þar af leiðandi aðeins fyrir utan hópinn sem hafði myndast í kring um Baldur því hann sá hvort eð er ekki neitt. Loki plataði Höð til að skjóta mistilteininum að Baldri en mistilteinninn fór í gegn um Baldur sem hné niður og dó. Þetta olli miklum harmleik meðal ása og ásynja en þau gátu ekki hefnt sín á honum undir eins því Ásgarður var griðastaður sem þýddi að ekki mætti drepa neinn þar hins vegar átti þessi grikkur Loka eftir að hafa slæmar afleiðingar fyrir hann þegar lengra leið á. Útför Baldurs. Útför Baldurs var mjög átakanleg fyrir alla íbúa Ásgarðs og var hún mikilfengleg í alla staði. Skip Baldurs, Hringhorni sem var stærsta skip heimsins var notað við útförina en það fékkst ekki til að reka út á haf fyrr en eftir mikið vesen (væntanlega vegna þess hversu stórt það var) og þegar lík Baldurs var sett í skipið dó Nanna kona hans úr sorg þannig að henni var bætt í skipið líka ásamt hestinum Léttfeta sem var fullbeyslaður. Þór lagði síðan eld að skipinu með hamrinum sínum, mjölni en þá varð hann svo sorgbitinn að hann sparkaði dverg sem hét Litur í skipið og hann brann með eigum Baldurs. För Hermóðs til Heljar eftir Baldri. Ás að nafni Hermóður var sendur af Frigg til að leita Baldurs hjá Hel rétt eftir dauða hans. Þegar hann var kominn á leiðarenda hitti hann fyrir Baldur sitjandi í öndvegi og gisti þar um nóttina. Morguninn eftir grátbað Hermóður Hel um að hleypa Baldri aftur heim í Ásgarð þar sem allir væru að gráta hann og að allir hlutir heimsins gætu gert slíkt hið sama. Hel samdi þá við hann um að ef allir hlutir heimsins myndu gráta Baldur myndi hann fá að snúa aftur til baka. Hermóður reyndi þá að fá alla hluti heimsins til að gráta en hann fann þó tröllkonu í helli sem kallaði sig Þökk en hún vildi ekki gráta Baldur heldur fór með eftirfarandi vísu. Út frá vísunni er vel hægt að geta sér þess til að hér hafi verið Loki á ferð en þetta varð til þess að Baldur gat ekki snúið aftur frá Hel. Hefnd Ásanna. Eins og gefur að skilja voru goðin orðin öskureið yfir þessu og hefndu sín herfilega á Loka sem var núna búinn að fela sig inni í fjalli þar sem hann gat þó séð í allar áttir en breytti sér þó í lax öðru hvoru til að fela sig fyrir hinum ásunum. En þó kom að því að Óðinn komst að því hvar hann var og goðin komu til hans og gátu hefnt sín á honum þar sem hann var ekki lengur í Ásgarði. Ásarnir veiddu Loka þegar hann var í laxlíki og fóru með hann í helli. Þeir sóttu syni Loka og breyttu Vála, öðrum syni loka í varg sem reif Narfa bróður sinn í sundur og bundu Loka við eggsteina með görnum hans sem urðu síðan að járni. Síðan skildu þeir Loka eftir illa farin og bundinn og öðru hvoru drýpur á andlit hans eitur úr snáki en það eru kallaðir jarðskjálftar þegar það gerist s.k. Snorra-Eddu. Auk þess mun Loki ekki snúa aftur fyrr en um Ragnarök. Nóta (tónlist). Í tónlist er grunneiningin kölluð nóta. Annaðhvort er þá verið að tala um ákveðna sveiflutíðni sem hefur fengið nafn, tákn fyrir sveiflutíðni á rituðu formi, lengd tónsins eða samsetning af þessu þrennu. Þessar tíðnir endurtaka sig í svokölluðum yfirtónum (þ.e.a.s yfirtónröðinni) þar sem sveiflutíðnin margfaldast. Þ.a. ef A er 442 Hz er fyrsti tónn í yfirtónaröðinni a (A áttund ofar) 884 Hz og e` (fimmund ofar) annar tónninn í yfirtónaröðinni 1326 Hz. Með því að tvöfalda tíðni nótu fær maður nótuna áttund ofar. (Arnold Schoenberg; "Harmonielehre". 2001) Í vestrænni tónfræði er sveiflutíði nótna oftast táknað með bókstafarunu frá A til G (eða H, útskýring neðar), sem endurtekur sig bæði upp og niður. Þessar sjö nótur eru nú skilgreindar vísindalega sem ákveðin hlutföll af sveiflutíðni nótunnar A. Alþjóðlegur staðall á sveiflutíðni einstrika A (fyrir ofan miðju c) er 440 Hz. Þó eru til dæmi um að hljómsveitir stilli sig örlítið hærra (442 Hz - 445 Hz) til að hljóma bjartari eða noti aðra tíðni til að nálgast hljóm annarra landa eða tímabila sem notuðu aðra viðmiðun. Annað algengt nafnakerfi fyrir nótur er svokallað solfege kerfi. Þar er grunntónn lags kallaður Do, óháð sveiflutíðni hans. Aðrar nótur eru svo lagaðar að gildi grunntónsins, og eru kallaðar Re, Mí, Fa, So, La og Tí. Í Frakklandi eru nótur nefndar eftir solfege kerfinu, þannig að þar er Do það sem á íslensku kallast C algjörlega óháð því hvort það sé grunntónn. Áðurnefndar nótur (do, re, mi, fa, so, la og ti) (geta t.d. verið allar hvítu nóturnar á píanói) mynda dúr skala. Dúr skali ásamt moll skala og 5 öðrum kirkjutóntegundum eru oft nefndir díatónískir skalar. Díatóníksir skalar hafa 7 nótur og tónbil milli aðliggjandi nótna í honum eru heiltónn í 5 tilvikum og hálftónn í tveimur tilvikum (þá er talið með bilið milli 7. og 8. nóturnnar, sem er einnig grunntónn því skalinn endurtekur sig). Í vestrænni tónlist eru gjarnan díatónískir skalar (sérstaklega dúr og moll) hafðir til grundvallar en alls ekki eingöngu, oft skipa lög/tónsmíðar yfir í aðra tóntegund auk þess sem hljómhæfir- og laghæfirmollskalar eru notaðir. Frá og með rómantískatímabilinu á 19. öld) urðu kaflar í krómatískum- og heiltónaskala nokkuð einnig nokkuð algengir. Til að spila allaþessa skala duga ekki hinar 7 nótur sem eru í stökum díatónískum skala og því þarf að bæta við fimm nótum. Það er gert með svokölluðum hálftónum. Hver hálftónn er skilgreind sem fyrra gildi * 12. rót af 2 (1.0594630943593...) og hálftónn fyrir ofan 440Hz A er því 440 × 1.059... ~ 466.16376. Heimildir. Arnold Schoenberg. "Harmonielehre". Universal-Ed., Wien. 2001 Samningur um stjórnarskrá fyrir Evrópu. Samningur um stjórnarskrá fyrir Evrópu, oftast þekktur einfaldlega sem Stjórnarskrá Evrópusambandsins, var þjóðréttarsamningur sem undirritaður var árið 2004 af aðildarríkjum ESB sem þá voru 25. Samningurinn var staðfestur í 18 aðildaríkjum en þegar honum var synjað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Belgíu árið 2005 endaði samningaferlið. Samningurinn tók því aldrei gildi. Samningnum var ætlað að leysa af hólmi fjölda eldri samninga sem mynduðu lagagrundvöll Evrópusambandsins og að einfalda ákvarðanatökuferli innan sambandsins. Pizza. Pizza eða pítsa (einnig flatbaka, en íslenskur ritháttur er pitsa samkvæmt Stafsetningarorðabókinni) er flatur brauðbotn, oftast kringlóttur, hulinn tómatsósu og osti, ásamt annarskonar áleggi ef vill. Osturinn er venjulega mozzarella eða „pizza-ostur“. Hægt er að nota ýmislegt sem álegg ofan á pizzu, til dæmis hakkað kjöt, sneiddar pylsur og annað kjötálegg af ýmsu tagi (t.d. pepperoni eða skinku), ávexti og grænmeti (t.d. ananas, ólífur, banana, tómata, lauk, papriku, hvítlauk og sveppi). Ýmislegt krydd er hægt að nota til að bragðbæta pizzuna enn frekar. Skorpan er venjulega ekki meðhöndluð sérstaklega, en þó er t.d. hægt að krydda hana, olíubera eða jafnvel fylla með osti. Pizzu er hægt að snæða á veitingastöðum, baka hana heima eða kaupa hana tilbúna (oft frosna) í stórmörkuðum. Í mörgum löndum er hægt að panta pizzu með einu símtali og fá hana senda heim að dyrum, nýbakaða og tilbúna til átu. Pizza er venjulega snædd heit. Ósvikin Napólí pizza ('a pizza Napoletana). Samkvæmt "Associazione vera pizza napoletana" er alvöru Napólí-pizzadeig gert úr hveiti, geri og vatni. Til að fá rétta útkomu þarf að nota próteinríkt hveiti, eins og notað er til brauðgerðar fremur en til kökugerðar. Deigið þarf að hnoða í höndunum eða með samþykktri vél. Eftir að deigið hefur hefast þarf að forma það í höndunum, án kökukeflis eða annarra hjálpartækja. Pizzuna þarf að baka í bjöllulaga steinofni sem kyntur er með eldiviði. Hiti ofnsins er á bilinu 400 °C til 450 °C, og pizzan er bökuð í u.þ.b. tvær mínútur. Hún á að vera mjúk, vel bökuð, ilmandi og með mjúka skorpu allan hringinn. Öðruvísi pizzur. Pizza er í raun orðin alþjóðleg, þar sem auðvelt er að láta áleggið falla að smekk hinna ýmsu þjóða. Pizzurnar eru í grunnatriðum eins, en hráefnið getur verið ákaflega fjölbreytt, má þar nefna ansjósur, egg, ananas, eggaldin, lambakjöt, kúskús, kjúkling, fisk og skelfisk, kjöt matreitt á þjóðlegan hátt eins og marokkóskt lambakjöt, kebab eða jafnvel tikka masala kjúkling, og óhefðbundin krydd á við karr'i eða sæta taílenska kryddsósu. Á „hvíta pizzu“ ("pizza bianca") er ekki notuð tómatsósa, en í stað hennar er oft notað pestó eða mjólkurvörur á borð við sýrðan rjóma. Hawaii-pizza er bandarísk uppfinning, en áleggið á henni er yfirleitt tómatsósa, ostur, skinka og ananas. Ýmsir gera grín að Hawaii-pizzunni fyrir að vera afbrigði sem villtist of langt frá sínum ítalska uppruna, en aðrir fúlsa við henni vegna þeirra áhrifa sem sætur ananasinn hefur á bragðið. Pizzur geta ýmist verið með þunnum brauðbotni (á ítalska vísu) eða með þykkara brauði (pönnupizza). Sagan. Ævaforn hefð er fyrir bakstri flatbrauðs í löndunum í kringum Miðjarðarhafið. Þess konar brauð var kynnt fyrir íbúum á suðurhluta Ítalíu af fyrstu grísku nýlenduherrunum. Jafnvel er talið að brauðið eigi rætur að rekja til Persíu. Í bókmenntaheiminum er fyrst minnst á pizzu í þriðju bók "Eneasarkviðu" Virgils. Í fyrstu sögu Rómar, sem Marcus Porcius Cato ritaði, er talað um flata deigskífu með ólífuolíu, jurtum og hunangi, sem bökuð var á steinum. Frekari vísbendingar má finna í rústum Pompei frá árinu 79 eftir Krist, en þar fundu fornleifafræðingar n.k. verslanir sem líkjast nútíma pizzustöðum. Tómaturinn var lengi vel talinn eitraður, eftir að hann barst til Evrópu á 16. öld. En í lok 18. aldar voru jafnvel hinir fátækustu í nágrenni Napólí farnir að nota þá ofan á flata gerbrauðið sitt, og rétturinn varð sífellt vinsælli. Pizzan varð aðdráttarafl á ferðamenn og þeir hættu sér í auknum mæli inn í fátækrahverfi Napólí til að prófa þennan sérrétt heimamanna. Ekki eru heimildir um að ostur og tómatar hafi verið notað saman á pizzu fyrr en seint á 19. öld. Pizzan á Íslandi. Pizza er líklega fyrst nefnd í ferðalýsingu frá Róm sem birtist í vikublaðinu "Fálkanum" 1951, en þar segir svo: „Sums staðar í Róm rekst maður líka á staði, sem heita "pizzeria", þar er sérstaklega framreiddur neapolitanskur matur, sem nefnist pizza, en það er eins konar svellþykk pönnukaka, með ansjósum, olívum, rifnum osti og tómötum í.“ Þann 1. apríl 1960 auglýsti veitingahúsið Naustið í Reykjavík ítalskan matseðil og þar var meðal annars boðið upp á Pizza a la maison. Kann það að hafa verið í fyrsta sinn sem boðið var upp á pizzu á íslenskum veitingastað. Fyrstu uppskriftirnar að pizzum birtust í blöðum vorið 1962 og heimabakaðar pizzur ruddu sér smátt og smátt rúms á næstu árum. Fyrsti íslenski veitingastaðurinn sem bauð að staðaldri upp á pizzu var líklega Smárakaffi við Laugaveg. Þar var meðal annars boðið upp á spaghettipizzu, hamborgarapizzu, ananaspizzu og sígaunapizzu. Á næstu árum fóru nokkrir veitingastaðir að bjóða upp á pizzur og einnig fóru að fást frosnar pizzur og tilbúnir pizzubotnar og pizzudeig í verslunum. Fyrsti eiginlegi pizzuveitingastaðurinn var þó Hornið við Hafnarstræti, sem hóf starfsemi 1979. Þar var raunar fleira en pizzur í boði en staðurinn varð þó fyrst og fremst þekktur fyrir þær og á næstu árum fjölgaði mjög veitingastöðum sem sumir buðu eingöngu upp á pizzur. Íslenskt heiti. Þegar fyrst var farið að baka og selja pizzur á Íslandi héldu þær alþjóðlega heitinu (eða voru kallaðar „pressugerskökur með áleggi“) en þegar stafurinn "z" var felldur út úr íslenskri stafsetningu nema í sérnöfnum af erlendum uppruna kom upp vandamál varðandi heiti pizzunnar. Íslensk málnefnd lagði til heitið flatbaka en það náði lítilli fótfestu. Algengast varð að íslenska heitið pizza annaðhvort sem "pítsa" eða "pitsa" og gefur Íslenskri orðabók báða möguleikana en setur (pizza) innan sviga. Rithátturinn pizza er þó langalgengastur og samkvæmt athugun á íslenskum vefsíðum þann 17. janúar árið 2006 er orðið "pizza" notað um 30 sinnum oftar á íslenskum vefsíðum en orðin "pítsa" eða "pitsa". Búddismi. Búddismi er trúarbrögð og heimspekikenningar sem eru byggð á kenningum Siddhārtha Gátama (á sanskrít, á palí heitir hann Siddhattha Gotama), sem lifði fyrir 2500 árum síðan. Siddharta Gátama hlaut síðar tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Búddisminn náði mikilli útbreiðslu á Indlandi og þaðan til Mið-Asíu, Srí Lanka og Suðaustur-Asíu og einnig til Austur-Asíu, Kína, Mongólíu, Kóreu og Japan. Á síðari áratugum hefur búddismi fengið talsvert fylgi meðal vesturlandabúa, meðal annars á Íslandi.a>. Óvíst er hversu marga má telja sem búddista í heiminum, í mörgum þeirra landa þar sem búddismi hefur mikil áhrif, til dæmis Kína og Japan, telur fólk sig oft til margra trúfélaga samtímis. En sennilega má álykta að fjöldi búddista sé á bilinu 200 til 500 milljónir. Oft er talað um að um 380 milljónir fylgi kenningum Búdda og gerir það búddisma að fjórðu stærstu trúarbrögðum heimsins. Búddistar á austurlöndum hafa ekki notað þetta nafn heldur kallað sig fylgjendur "dhamma/dharma". Þeir tala oft um kjarna trúarinnar sem gimsteinana þrjá: "Búdda", "dhamma/dharma" og "sangha", það er læriföðurinn, kenningin og söfnuðurinn. Til eru mjög mismunandi stefnur innan búddismans sem eru mótaðar af ýmsum siðum og venjum. Helstu greinar búddismans eru theravada (kenning öldunganna) og mahāyāna (stóri vagninn). Stundum er vajrayāna-greinin talin sem sjálfstæð þriðja greinin en oftast er hún talin undirgrein mahayana. Hugtök. Búddistar nota fjölda hugtaka um heimspeki og kenningar sínar. Allmörg þessara orða eru sameiginleg hindúisma en hafa oft ólíka þýðingu sem villir fyrir þeim sem aðeins hafa yfirborðsþekkingu á þessum trúarbrögðum. Flest hugtökin eru komin úr indversku tungumálunum, palí og sanskrít, og eru oftast mismunandi eftir því úr hvoru málinu orðið er tekið. Theravada búddistar nota ætíð palí-orðið en mahayana og aðrar greinar fremur sanskrítar-orðið. Mörg þessara orða eru snarlík en valda þó misklíð ef einungis önnur útgáfan er notuð í yfirliti um búddisma, má þar nefna hugtak það sem notað er um kenningu Búdda, á palí heitir það dhamma en á sanskrít dharma, nirvana á sanskrít heitir nibbana á palí. Sumar greinar mahayana-búddisma nota einnig sérstök hugtök úr öðrum málum fyrir sérstök fyrirbæri í viðkomandi grein. Hvað er búdda? Búdda eða búddha er orð úr indversku tungumálunum palí og sanskrít og þýðir „sá hefur vaknað“. Það er dregið af sögninni "budh" sem þýðir að vakna eða verða meðvitaður og einnig að skilja. Hugtakið búdda á þar af leiðandi ekki eingöngu við þann búdda, "Siddharta Gátama", sem lifði fyrir um það bil 2500 árum síðan og búddisminn er kenndur við. Hugtakið nær yfir alla sem hafa öðlast sanna þekkingu um lífið og tilveruna og hafa þannig losað sig við þjáningar "samsara" (endurfæðingarinnar) og náð "nirvana". Þannig notað hafa margir búddar verið til og enn fleiri eru á leiðinni. Siddharta Gátama áleit sig ekki á nokkurn hátt vera guðlegan eða hafa öðlast innblástur frá neinum guði eða guðum. Búdda verður sá sem hefur séð og skilið hið raunverulega eðli tilverunar og yfirunnið sjálfan sig og þar með losað sig úr greipum hugareitursins. Búddar eru ekki allsmáttugir í stíl við Guð kristinna, múslima eða gyðinga. Mahayana-grein búddismans kennir að allir menn geti orðið búddar óháð kyni, aldri eða stöðu. Gátama Buddha. Sá sem er nefndur sem stofnandi búddismans og sem trúin er kennd við hét Siddharta Gátama (á sanskrít). Fátt er í raun vitað með vissu um hann. Meðal annars er óvíst um hvenær hann lifði. Lengi var það talið að hann hafi lifað milli 623 f.Kr. og 543 f.Kr., margir sagnfræðingar á seinni hluta 20. aldar töldu hann hafa lifað milli 563 f.Kr. og 483 f.Kr. Samkvæmt opinberu tímatali búddista var haldi upp á 2500 ára afmæli Gátama Búdda árið 1956. Samkvæmt helgisögninni fæddist hann í bænum Rummindei (Lumbini á palí) þar sem nú er Nepal og var indverskur prins. Það eru fremur öðru fjórir atburðir og staðir tengdir þeim sem eru mikilvægir í frásögum búddista um líf Gátama Buddha: Fæðing og æskuár í Lumbini í konungsríkinu Kapilavastu, uppvöknun hans undir bodhi-trénu í Bodh Gaya, fyrsti fyrirlestur hans í Saranath og andlát hans og innganga í nirvana í Kusinagar. Þessir fjórir staðir urðu snemma mikilvægir pílagrímastaðir og eru enn. Sögur í máli og myndum um líf búdda hafa verið mikilvægar í trúboði og skilningi á kenningum búddismans. Grunnhugmyndir. Búddismi er ólíkur öðrum trúarbrögðum að því leyti að það er ekki gert ráð fyrir tilvist guðs. Búddistar neita því hins vegar ekki að til séu eða geti verið til andlegar verur sem kalla mætti guði en þær eru óviðkomandi því að binda enda á þjáningu mannanna. Þó svo búddisminn sé oftast skilgreindur sem trúarbrögð er hann öllu fremur heimspeki og lífsmynstur. Búddisminn skilgreinir lífið sem þjáningu og frá henni verður ekki komist vegna þess að allar lífverur eru fastar í hinni eilífu hringrás endurfæðingar. Orsök þjáningarinnar er löngun eða binding. Búddismi kennir rétta breytni og hvernig eigi að forðast misgerðir; hvernig eigi að þjálfa og hreinsa hugann. Takmarkið er að öðlast innra jafnvægi, innsýn, djúpstæða samúð með öðrum og óhlutbundna gleði. Í hugarheimi búddista er þetta ekkert sem hægt er að öðlast með utanaðkomandi hlutum eða áhrifum, það er einungis einstaklingurinn sem sjálfur getur þjálfað hug sinn. Þessar kenningar, sem nefnd eru göfugu sannindin fjögur og áttfalda leiðin eru sameiginlega kallaðar dharma. Þjálfunin felst í því að losa sig frá orsökum þjáningarinnar sem er langanir og það sem nefnt eru „hugareitrið“ (hatur, græðgi, blekking og öfundsýki) og í stað þess að hugsa, tala og bregðast við í samræmi við þessa vanahugsun „vakna upp“ eða „verða uppljóma“ og sjá tilveruna eins og hún er í raun er. Grunnhugsunin er að feta meðalveginn milli meinlætis og nautnafýsnar með þrotlausri baráttu og er það leið við að ná valdi á sjálfum sér og gjörðum sínum. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný og ná nirvāņa. Siðfræði búddista byggir á virðingu fyrir öllu lifandi og látlausum lífsstíl. Huglæg ástundun einbeinist að siðferðilegum sjálfsaga ("sila"), hugleiðslueinbeittni ("samadhi"), fyrirvaralausum kærleika ("mettā") og vísdómi ("prajñā"). Heimsmynd. Helgiathöfn tíbetskra munka í Bodh Gaya í Indlandi Samkvæmt heimsmynd búddista eru öll fyrirbrigði, huglæg jafnt sem hlutlæg, í stöðugri breytingu. Huglæg og hlutlæg fyrirbæri verða til í margbreytilegu og flóknu orsakasamhengi, eftir lengri eða skemmri tíma taka þau að breytast þar til að þau hverfa og birtast í nýju formi. Öll huglæg og hlutlæg fyrirbæri hafa áhrif á önnur fyrirbæri í óendanlegum vef orsaka og afleiðinga. Þetta gildir fyrir öll fyrirbæri nema nirvana, nirvana hefur ekki áhrif á neitt annað og er óbreytanlegt. Vegna þess að öll fyrirbæri eru tengd í óendalegum vef orsaka og afleiðinga hefur tilveran ekkert upphaf. Allar lífverur hafa lifað í óendanlegri keðju af lífum, ekki svo að skilja að ein „sál“ hafi endurfæðst frá einu lífi í annað, heldur að meðvitundin, hugurinn, endurfæðist í samræmi við karma sem hún hefur skapað sér. Hún fer frá einu tilverustigi til annars eftir því sem hún hefur unnið til með breytni sinni á hverju æviskeiði. Karma þýðir „að gera“ og er lögmál orsaka og afleiðinga. Með mikilli einföldun má segja að góðar gerðir uppskeri góðann aðbúnað og slæmar gerðir leiði til slæms aðbúnaðar. Í búddismanum er enginn guð sem dæmir eða verðlaunar, karma er algjörlega ópersónulegur kraftur. Lifandi verur móta sitt eigið líf með hegðun og hugsun. Að skaða aðrar lífverur ber með sér neikvæð áhrif sem móta þjáningar annaðhvort í þessu lífi eða á næstu tilverustigum. Þjáningar heimsins orsakast bæði af skilningsleysi á þessu sambandi og röngum viðbrögðum við erfiðleikum. Af þessu verður sú óendaleg hringrás endurfæðinga og þjáninga sem búddistar nefna samsara. Lífverur endurfæðast á mismunandi gervum allt eftir karma hvers og eins. Sum gervi bera með sér mikla þjáningu og mannverur geta endurfæðst sem dýr. En ekkert þessara tilverustiga er eilíft heldur undirorpið hnignun, dauða og endurfæðingu. Búddistar telja það sérlega jákvætt að endurfæðast sem mannvera því sambandið og jafnvægið milli þjáningar og hamingju í mannlífinu opna möguleika á því að skynja eðli tilverunnar, losa sig úr samsara og ná nirvana. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný. Í kenningum búddismans er lögð mikil áhersla á þolinmæði og æðruleysi, samúð með öllu lifandi og ekki síst ábyrgð og valmöguleikum hvers og eins. Það er einungis einstaklingurinn sem getur haft áhrif á sitt eigin karma. Karmalögmálið eiga búddistar sameiginlegt með hindúum þó þeir skilji það ekki á sama hátt. Meðal annars afneita búddistar algjörlega stéttakerfi hindúa. Göfugu sannindin fjögur. Göfugu sannindin fjögur eru sett upp eins og aðferð læknis: skoða einkenni, finna orsök, athuga líkur og leggja fyrir meðhöndlun. Meðalvegurinn. Sagan um Gádama Búdda segir frá því að hann hafi alist upp í alsnægtum og nautnaumhverfi í Hindúisma. Þegar hann fullorðnaðist snéri hann baki við þessu lífi og einbeitti sér að ýmsum kenningum meinlætamanna, svelti sig og lagði á sig sársaukafullar upplifanir. Engar þessara kenninga veitti honum úrlausn og það var ekki fyrr en hann fór að neyta matar og hætti öllum sjálfspíningum sem hann öðlaðist innsæi. Búdda lýsir þess vegna hinni áttföldu leið sem meðalveginum, lífsstíll þar sem finna má jafnvægi milli meinlætalífs og nautna. Að njóta er ekki andstætt búddískri hugsun, vandamálið er að nautninni fylgir oft að verða háður henni. Að vera háður ytri nautn, hlutum eða upplifunum, til að finna ánægju leiðir til óánægju og jafnvel ofbeldis ef það sem veitir nautnina ekki er lengur aðgengilegt. Í búddismanum skiptir það engu máli hverju maður er háður, grundvallarvandamálið er að halda að ytri atriði geti skapað hamingju til lengdar. Einfaldasta leiði til að losa sig undan því að verða háður einhvers konar ytri atriðum er að halda sig fjarri því sem vekur slíka löngun. Það er meginorsök þess að munkar og nunnur í búddismanum lifa einföldu lífi með mjög fáum persónulegum eigum. Sangha. Taílenskir munkar bíða eftir ölmusu Gátama Búdda stofnaði bæði munka- og nunnureglur með það fyrir augum að halda kenningunni (dhamma) lifandi og til að vera fyrirmynd leikmanna. Þessar munka- og nunnureglur eru kallaðar "sangha". Reglur fyrir hegðun og starf munka og nunna eru skráðar í helgiritinu Tripitaka og eru virtar af flestum greinum búddisma. Þó hafa þær sumar aðlagað þær og lagt til nýjar reglur. Munkar og nunnur yfirgefa fjölskyldur sínar og gefa allar persónulegar eigur og afsegja sér öllu veraldlegu vafstri. Í flestum tilfellum lifa þau eingöngu á gjöfum leikmanna. Margir stunda fræðslu í dhamma/dharma og einstaka munkar og nunnur stunda venjuleg störf. Aðalverk munka og nunna er að vinna að því að ná valdi á hugsunum sínum og tilfinningalífi, aðalverkfærin eru bænir og hugleiðsla. Sangha hefur séð til þess að kenningin hefur lifað af í 2500 ár og mikil virðing er borin fyrir þeim sem velja að lifa sem munkar eða nunnur, enda er sangha talin sem einn af geimsteinunum þremur. Í flestum greinum búddisma er það álitið hið besta mál að snúa aftur til veraldlegs lífs eftir að hafa verið munkur eða nunna í lengri eða skemmri tíma. Í löndum theravada-búddisma hefur það þótt sjálfsagt að flest allir karlmenn gerist munkar um tíma. Nú á tímum láta margir sér nægja að vera munkur í fáeinar vikur eða mánuði og eru þeir þá oft á unglingsaldri. Hlutverk kvenna í sangha. Nunna í Ankor Wat í Kambódíu Eina skiptið sem talað er um að Gátama Búdda hafi skipt um skoðun var þegar hann samþykkti að stofnaðar yrðu nunnureglur. Hann hafði upphaflega verið á móti því en fósturmóðir og frænka hans töluðu um fyrir honum. Allar greinar búddisma hafa munkareglur en ekki hafa allar nunnurelgur. Í theravada-greininni dóu nunnureglurnar út, á Srí Lanka á 11. öld og í Suðaustur-Asíu á 13. öld. Í helgiritinu Tripitaka segir að ný nunna verði að viðurkennast af minnst fimm eldri nunnum svo reglurnar hurfu með öllu og eru engar eiginlegar nunnureglur í theravada-löndunum. Það er þó algengt að eldri konur gerist óformlegar nunnur og búi í klaustrum í allri Suðaustur-Asíu. Á vesturlöndum hafa verið stofnaðar nunnureglur innan theravada-greinarinnar og hefur það verið gert með aðstoð nunna frá öðrum greinum búddismans. Í flestum greinum mahayana-búddisma eru nunnureglur á sama hátt og munkareglurnar, þó þær séu oftast færri og fámennari. Mismunandi greinar. Til eru fjölmargar mismunandi stefnur innan búddismans sem eru mótaðar af ýmsum siðum og venjum. Helstu greinarnar eru theravada („kenning öldunganna“) og mahāyāna („farið meira eða stóri vagninn“). (Theravad-greinin er einnig þekkt sem hinayana, „litla hjólið“. Það heiti er aldrei notað af fylgjendum theravada sjálfum og er álitið vera niðurlægjandi.) Stundum er vajrayāna-greinin talin sem þriðja greinin en oftast er hún talin undirgrein mahayana. Inntak kenninga allra greinanna er þó hið sama það er að segja dhamma/dharma-kenningu Búdda, trúin á endurfæðingu og grunnskilningur á karmalögmálinu. Allar stefnur búddismans leggja áherslu á auðmýkt í daglegu lífi. Theravada. Theravada („kenning öldunganna“) er í meginatriðum íhaldssöm grein búddismans og almennt talin standa næst fornum búddisma. Theravada byggir trúarskilning sinn og framkvæmd einungis á því textasafni á indverska tungumálinu palí sem nefnt er Tripitaka. Þetta eru elstu textar búddismans og eru viðurkenndir af öllum greinum hans. Theravada-greinin er íhaldsamasta grein trúarinnar og segist í alla staði boða upphaflegar og ómengaðar kenningar Gátama Búdda. Í hefð theravada er Búdda upplýstur kennari og leiðsögumaður sem vísar vegin til nirvana en ekki guðleg vera. Mikil virðing er borin fyrir munkum og einungis þeir geta náð uppljómun. Trúarlegt fyrirmynd er svo nefndur arhat, það er sá er sem hefur öðlast fullkomna innsýn, náð uppljómun og losnar því úr endurfæðingarkeðjunni og gengur inn í nirvana. Theravada-greinin er megintrú á Sri Lanka, í Taílandi, Búrma, Kambódíu og Laos. Mahayana. Mahāyāna („farið meira eða stóri vagninn“) varð til á Indlandi fyrir um það bil tvö þúsund árum. Fylgismenn þessarar greinar gangrýndu theravada fyrir að vera of þröngur vegur, að einungis þeir sem hefðu möguleika að verða munkar eða nunnur og gætu notað allan sinn tíma til hugleiðslu gætu náð nirvana. Mahayana-búddistarnir sjá fyrir sér að hægt væri að gefa öllum mönnum möguleika á að ná nirvana. Fyrir mahayana-búddista er það miklu virðingarmeira og eftirsóknarverðara að gerast bodhisattva en verða arhat og ná nirvana sjálfur. Bodhisattva er sá sem er upplýstur en kýs að fresta nirvana og velur að aðstoða aðra í andlegri þróun. Þannig rýfur hann ekki samsara og heldur áfram í hringrás endurfæðingar. Það er innan þess hluta Mahāyāna búddisma sem trúir á endurfæðingu. Í viðbót við Tripitaka-textana nota mahayana-búddistar allmarga seinni tíma helgitexta, allflestir þeirra skráðir um árið 100 e.Kr. Mahayana-búddistar nota hugtök úr fornindverska tungumálinu sanskrít og helgirit þeirra, ásamt Tripitaka, eru upphaflega á því tungumáli. Þar að auki eru ýmsar greinar innan mahayana sem nota hugtök úr öðrum málum. Innan mahayana eru margar greinar sem hafa mjög mismunandi túlkun á ýmsum atriðum kenningarinnar og aðferðum að ná uppljómun. Má þar nefna ýmsar vajrayana-greinar sem einkennast mjög af dulúð og leyndardómum, tíbetskan búddisma sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá vajrayana, zen (sem heitir "Tjan" á kínversku og "sön" á kóresku), sem einkum snýst um hugleiðslu, og grein "hins Hreina lands" sem treystir helst á aðstoð búddans "Amitabha" við að ná nirvana. Mahayana-greinar búddisma eru megintrú eða mikilvæg trúarbrögð í Japan, Kína, Kóreu, Mongólíu og Víetnam. Vajrayāna. Vajrayana („Demantavagninn“) (sem einnig er nefnt "Mantrayana", "Tantrayana", "tantrískur" eða dulhyggju-búddismi) er oft talinn hluti af mahayana-greininni enda hafa þessar greinar sameiginlegan skilning á höfuðatriðum kenningarinnar. Vajrayana hefur þó lagt til andlegar aðferðir sem ekki eru stundaðar af öðrum búddistum. Þar má nefna hugleiðslu sem er beint að ákveðnum þáttum búddatilverunnar og þar sem reynt er að sjá sig sem búdda. Í hugleiðslu fylgjenda vajrayana eru einnig notaðar mandölur og möntrur. Mantra er hljóðsamsetning sem er endurtekin aftur og aftur. Þekktast mantran er sennilega "om mani padme hum" sem oft er þýtt sem „eðalsteinninn í lótusnum“ en samkvæmt seinni tíma fræðimönnum er það helginafn á bodhisattvanum "Avalokiteshvara". Tíbetar trúa því að Dalai Lama sé Avalokiteshvara endurfæddur. Samburður á theravada og mahayana. Meginmunur á þessum tveimur höfuðgreinum kemur meðal annars fram í afstöðu til hversu margir búddar hafi verið til, hvaða tungumál sé rétt að nota fyrir helga texta, fjöldi bodhisattva og ekki síst aðlögunarhæfni að öðrum siðvenjum og nýjum túlkunum og hugmyndum. Mahayana-hefðin segir að tala þeirra sem eru og geta orðið Búddar sé ómæld og að þeir geti aðstoðað trúaða að nálgast nirvana og að leikmenn geti leitað til þeirra í bæn. Theravada-hefðin segir hins vegar að Gátama Búdda og forverar hans séu hinir einu búddar. Þeir eru menn sem hafa orðið andlega upplýstir en þeir eru á engan hátt yfirnáttúrulegir. Gátama Búdda er ekki guð eða guðlegur heldur kennari og lærifaðir um áttföldu leið til frelsunar frá endurfæðingunni. Theravada-hefðin er opin fyrir því að yfirnáttúrulegar og andlegar verur séu til en hvorki þær né búdda geta aðstoðað menn að ná hærri andlegu sviði. Það er einungis á valdi hvers einstaklings að leita eftir andlegri fullkomnum. Mahayana, hins vegar, segir búdda vera andlegar eða nánast guðlegar verur sem geta aðstoðað í andlegri leit og svara bænum. Sumar greinar mahayana, til dæmis zen, leggja þó litla áherslu á þennan þátt búddismans. Theravada-búddistar viðurkenna einungis Maitreya sem komandi „opinberan“ bodhisattva þar sem hann er sá eini sem um er skrifað í hinum heilögu textum sem geymdir eru á palí. Mahayana-hefðin kennir hins vegar að allir menn geti orðið bodhisattva með andlegu þroskaferli gegnum margar endurfæðingar. Viljinn að verða bodhisattva er álitin bera vitni um mikla umhyggju vegna þess að sá sem velur það aðstoðar aðra við að ná nirvana. Mahayana-búddistar virða mjög þá sem velja að fresta því að ná sinni eigin nirvana og velja í þess stað að aðstoða aðra á þeirri leið. Theravada-hefðin leggur hins vegar áherslu á að það sé einungis hver einstaklingur fyrir sig sem geti unnið að eigin andlegum þroska sem endi í nirvana. Af þessari ástæðu er theravada-hefðin oft álitin vera trúarbrögð fyrir fáa útvalda þar sem leikmenn beri lítið úr býtum. Theravada-hefðin leyfir ekki að hefðir og siðir sem ekki er að finna í upphaflegu helgiritunum séu tekin upp í trúna. Það einkennir hins vegar mahayana hversu mikið af hefðum og siðum sem fyrir voru á þeim svæðum þar sem trúin hefur breiðst út hafa verið aðlöguð trúnni. Mahayana notar helgitexta á mörgum tungumálum en theravada-búddistar nota eingöngu palí sem helgimál. Theravada halda einnig fast í það að einu helgitextarnir séu frumtextar Tripitaka á palí, mahayana styðjast á hinn bóginn við fjölda texta á ýmsum tungumálum. Þetta hefur valdið því að theravada-búddismi hefur átt mun erfiðara með trúboð heldur en mahayana, sem hefur af þessum sökum orðið mun algengari grein trúarinnar. Það er meðal annars einkum greinar innan mahyana sem hafa náð fótfestu á vesturlöndum á síðustu áratugum. Í theravada-hefð er lítil áhersla lögð á helgiathafnir og þær sem stundaðar eru hafa fylgt trúnni frá upphafi. Það er því lítill munur á helgiathöfnum theravada-búddista hvar sem þeir eru. Öfugt er farið í mahayana þar sem mikil áhersla er á alls konar helgiathafnir og byggja þær að mestu á siðum og venjum hvers svæðis. Það gerir að mahayana er oft álitin vera mun alþýðlegri trú þar sem form skipti meiru máli en innihald. Þetta gerir einnig að mahayana-trúin er meir og minna uppblönduð af áhrifum frá alþýðutrú og öðrum trúarhefðum. Þó er í raun munurinn á þessum tveimur höfuðgreinum búddismans hvað þetta varðar ekki svo mikill í huga og framkvæmd alþýðufólks, hjá þeim sem fylgja theravada-búddisma er alls kyns hjátrú og gamlar hefðir mikilvægur þáttur í trú og trúarathöfnum. Innan mahayana-greinar búddismans eru fjöldi mjög ólíkra trúarstefna sem deila sín á milli. Má þar nefna: tíbetanskan búddisma, zen (eða Ch'an), nichiren-búddismi og vajrayāna. Innan theravada er hins vegar einungis ein kenning sem kemur í veg fyrir trúardeilur en hindrar um leið að nýjar hugmyndir vaxi fram eða nýir fletir á trúnni séu skoðaðir. Theravada-greinin er því í sjálfu sér íhaldsöm og álíta fylgismenn hennar það vera aðalsmerki því þá fylgi menn kenningum búdda í raun. Fylgjendum mahayana-greinarinnar hefur hins vegar tekist að ná víða með trúboði með því að vera opnir fyrir nýjum hugsunum og áhrifum utanað. Búddismi og tedrykkja. Búddismi hefur haft áhrif á þróun tedrykkju í Austur-Asíu. Grunnatriðin í japanskri teathöfn og kínverskri teathöfn er samhljómur náttúrunnar og rækt við sjálfið auk þess að njóta tes við bæði formlegar og óformlegar aðstæður. Búddismi á Íslandi. Talið er að samtals séu um 1000 búddistar á Íslandi, flestir þeirra ættaðir frá Taílandi og fylgjendur theravada-greininni. Hafa þeir með sér Búddistafélag Íslands sem stofnað var árið 1995. Þeir starfrækja eina búddamusterið á Íslandi, á Vighólastíg 21 í Kópavogi og þar hafa munkar einning aðsetur. Búddhistafélögin Karuna-hreyfingin og Zen-búddistar á Íslandi – Nátthagi fylgja kenningum mahayanstefnunnar en Soka Gakkai á Íslandi byggir á japanskri búddistahefð innan hennar. Hugleikur Dagsson. Hugleikur eða Þórarinn Hugleikur Dagsson eins og hann heitir fullu nafni er íslenskur listamaður fæddur 1977. Foreldrar hans eru Dagur Þorleifsson blaðamaður og rithöfundur og Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur. Hugleikur sá um kvikmyndagagnrýni í útvarpsþættinum "Tvíhöfða". Um stund stjórnaði hann eigin þætti á Radíó sem kallaðist Hugleikur. Þar tók hann á þjóðfélagsmálum af ýmsu tagi. Þátturinn var ekki langlífur en rödd Hugleiks fékk þó áfram að njóta sín í kvikmyndagagnrýni í Tvíhöfða. Hugleikur hefur getið sér gott orð með myndlist og vídeóverkum af ýmsu tagi. Einnig hafa myndasögur hans vakið mikla athygli en þær hafa komið út í bókum sem hann gaf sjálfur út fyrst um sinn en eru nú gefnar út af JPV útgáfu og einnig í blaðinu Grapevine. Þar fær beisk kímnigáfa Hugleiks að njóta sín svo sumum þykir nóg um. Hugleikur myndskreytti einnig kennslubókina Tungutak: Málsaga. Þess má geta að Leikfélagið Hugleikur heitir eftir Hugleiki Dagssyni, en leikfélagið var stofnað af móður hans með fleirum árið 1984. Hugleikur (leikfélag). Hugleikur er leikfélag áhugafólks um leiklist. Það var stofnað í Reykjavík árið 1984. Félagið hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin sem það hefur sýnt eru nánast öll samin af meðlimum hópsins og því alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnaarfinum, í sögu þjóðarinnar og í gullaldarbókmenntunum en nútímaleg minni hafa einnig verið tekin til meðferðar. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins. Hver sem vill getur orðið félagi í Hugleik. Tilgangur félagsins er að skapa vettvang fyrir áhugafólk um leiklist og gefa því tækifæri til að stíga á svið eða starfa að öðrum þáttum leiksýninga. Á umliðnum árum hafa félagar í Hugleik sett upp tugi leikrita í fullri lengd og hundruð stuttverka. Mörg leikrita félagsmanna hafa verið sýnd af áhugaleikfélögum um land allt. Meðal uppsetninga leikfélagsins eru "Sálir Jónanna" (1986), "Stútungasaga" (1993), "Nóbelsdraumar" (1999), "Bíbí og blakan" (2000), "Kolrassa" (2001), "Jólaævintýri Hugleiks" (2005), "Ó, þú...aftur" (2009) og "Rokk" (2010). Hugleikur fékk viðurkenningu á degi íslenskrar tungu árið 2006 og leiksýningin Rokk var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin 2009-10 af Valnefnd Þjóðleikhússins. Aðsetur og æfingarhúsnæði Hugleiks er á Eyjarslóð 9, 101 Reykjavík. Núverandi formaður er Ásta Gísladóttir. Hugleikur Álfsson. Hugleikur var konungur í Svíþjóð í fornöld af ætt Ynglinga, samkvæmt Heimskringlu. Hann var sonur Álfs og Beru. Hugleikur Gautakonungur. Hugleikur (latína: "Chlochilaicus", engil-saxneska: "Hygelac") er í Bjólfskviðu konungur Gauta. Líklegt þykir að fyrirmynd Hugleiks í Bjólfskviðu sé sami víkingur og gerði strandhögg á Fríslandi og féll þar fyrir frankverskum hermönnum árið 512 samkvæmt frankverskum annálum. Hylkjahótel. Hylkjahótel (japanska: カプセルホテル, kapuseru hoteru) eru hótel sem geyma gesti sína ákaflega þétt saman en þeir sofa í u.þ.b. tveggja rúmmetra hylkjum úr plasti eða trefjagleri sem er raðað upp í tvær hæðir. Á hylkjunum er rúða og gluggatjöld sem hægt er að draga fyrir. Farangur og föt eru geymd á stað á hótelinu sem er ekki nálægt hylkjunum. Fötum er oft skipt út fyrir yukata-slopp og geta-skó meðan á dvöl stendur. Þessi aðferð var þróuð í Japan en hefur ekki notið mikilla vinsælda utan landsins en eru ákaflega ódýr miðað við aðra gististaði í landinu en gisting kostar yfirleitt um 2.000-3.000 kr. Fyrsta Hylkjahótelið var opnað Umeda í Osaka árið 1977. Héðinsfjarðargöng. Héðinsfjarðargöng eru tvenn jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með viðkomu í eyðifirðinum Héðinsfirði. Göngin eru 3,9 km (Siglufjörður-Héðinsfjörður) og 7,1 km löng (Héðinsfjörður-Ólafsfjörður). Vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar er í heild 15 km um göngin. Héðinsfjarðargöngin voru opnuð 2. október 2010. Forsaga og útboð verksins. Upphaflega var ætlunin sú að göngin yrðu boðin út með Fáskrúðsfjarðargöngunum á Austurlandi en fallið var frá því og verkefnin boðin út í sitt hvoru lagi í mars 2003. Í júlí sama ár ákvað ríkisstjórn Íslands að hafna öllum tilboðum sem höfðu borist í verkið vegna þenslu í efnahagslífinu og fresta því um óákveðinn tíma. Þetta gramdist íbúum og sveitarstjórnum á Siglufirði og Ólafsfirði sem litu svo á að þingmenn hefðu gefið loforð fyrir Alþingiskosningarnar í maí sama ár um að ráðist yrði í gerð ganganna. Frestunin hafði málaferli í för með sér þar sem Íslenskir aðalverktakar og norska fyrirtækið NCC sem áttu saman lægsta tilboðið í verkið fóru fram á skaðabætur frá Vegagerðinni því ákvörðunin um að hafna öllum tilboðum hefði verið ólögmæt. Kærunefnd útboðsmála leit svo á að ákvörðunin um að hafna tilboðunum hefði verið ólögleg og að Vegagerðin væri skaðabótaskyld. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði Vegagerðina af öllum kröfum sækjenda þann 15. apríl 2005. Á borgarafundi á Siglufirði 19. mars 2005 tilkynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að göngin yrðu boðin út á ný haustið 2005, framkvæmdir gætu hafist um mitt ár 2006 og þeim lyki 2009. Verklok töfðust um ár, aðallega vegna vandamáls með vatn í göngunum. Héðinsfjarðargöng voru vígð 2. október 2010. Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinuðust í sveitarfélagið Fjallabyggð árið 2006. Deilur. Verkefnið var umdeilt bæði vegna kostnaðar og umhverfisáhrifa. Andstæðingar framkvæmdarinnar bentu á að hún þjóni hagsmunum tiltölulega fárra miðað við mikinn kostnað og töldu að önnur samgönguverkefni ættu að vera framar í forgangsröðinni. Aðrir héldu því fram að göngin væru sjálfsögð vegabót, framkvæmdin gæfi Siglfirðingum aukna möguleika í ferðaþjónstu og samvinnu við sveitarfélög í Eyjafirði, auk þess sem framkvæmdin styrki Eyjafjarðarsvæðið í heild. Söngkeppni framhaldsskólanna. Söngkeppni framhaldsskólanna er keppni sem hefur verið haldin á vegum "Félags framhaldsskólanema" frá árinu 1990. Undankeppni er haldin í hverjum skóla fyrir sig og síðan keppa fulltrúar allra skólanna á lokakvöldi keppninnar, sem venjulega er haldið undir lok skólaársins. Enginn einn skóli hefur „einokað“ þessa keppni, öfugt við Gettu betur, en þó hafa fjórir skólar unnið keppnina þrisvar sinnum hver. Hekla. Hekla er 1.491 m hár eldhryggur og er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi og gjarnan kölluð "Drottning íslenskra eldfjalla". Fjallið er í Rangárvallasýslu og sést víða að og er auðþekkjalegt – eins og bátur á hvolfi með breiðar axlir og háan toppgíg. Síðast gaus Hekla í febrúar 2000. Þá var spáð fyrir um eldgosið 15 mínútum áður en það hófst. Hekla er fremur ungt eldfjall og er meginhluti hennar, þ.e. allt háfjallið, talinn vera yngri en 7.000 ára. Fjallið stendur á fremur þykkri jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast. Þarna er því mikil virkni í jarðskorpunni, spenna er hlaðinn í brotbeltinu en undir gosbeltinu liggja kvikuhólf og -þrær. Allstór sprungurein er undir fjallinu sem bendir til þess að gosið hafi á gossprungum áður en fjallið hlóðst upp og kvikuhólf þess myndaðist. Þessi sprunga sést vel á yfirborðinu og hefur oft gosið úr henni, en þó líka úr öxl fjallsins, s.s. utan sprungunnar. Þessari Heklugjá tengjast fleiri gígar sem hafa gosið í áranna rás, sumir einu sinni, aðrir oftar. Fjallið sker sig frá öðrum íslenskum eldfjöllum að því leyti að kvikuhólf hennar er mun dýpra en í öðrum fjöllum landsins, eða á um 11 km dýpi í jarðskorpunni. Forsöguleg gos í Heklu. Einhver mestu hamfaragos á Íslandi áttu sér stað í Heklu fyrir 7000, 4500 og 2900 árum. Þá var gosvirkni í Heklu öðruvísi en nú er. Lengra leið á milli gosa og sprengivirkni þeirra var mun meiri, en eingöngu kom upp kísilrík (súr) gjóska og að öllum líkindum runnu engin hraun í þessum gosum. Ummerki um þessi gos má finna í formi gjóskulaga sem dreifðust yfir stóran hluta landsins, einkum í norðurátt. Það var jarðfræðingurinn Sigurður Þórarinsson sem gaf þessum gjóskulögum nöfn og nefndi þau H5, H4 og H3, en af þeim er H3 mesta og útbreiddasta gjóskulagið. Ummerki hafa einnig fundist um fjórða sprengigosið sem líklega varð fyrir um 3500 árum en það er þó mörgum stærðargráðum minna en hin. Vikurinn frá þessu gosi nefndi Sigurður Þórarinsson upphaflega H2 þar sem hann taldi hann vera yngri en H3 gjóskuna. Síðar kom í ljós að svo var ekki og hefur vikurinn sem myndaðist í þessu gosi síðan gengið undir nafninu Selsundsvikurinn. Eina gos Heklu á sögulegum tíma sem sambærilegt er við þessi forsögulegu gos, er gosið árið 1104 sem einnig var sprengigos, en gjóskufallið frá því gosi lagði t.a.m. byggð í Þjórsárdal í eyði. Gossaga Heklu á sögulegum tíma. Hekla hefur gosið árið 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1510, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Sögur tengdar Heklu. Mikil hjátrú hefur verið tengd fjallinu í gegnum aldirnar. Töldu menn lengst af að Hekla væri inngangur að helvíti eða jafnvel helvíti sjálft. Náttúrufræðingarnir Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson vildu afsanna þetta og voru fyrstir manna til að ganga á fjallið árið 1750. Segir reyndar í Íslandslýsingu Odds Einarssonar að á 16.öld hafi hafi maður einn reynt uppgöngu en þegar hann sá hvernig umhorfs var á toppnum hafi hann orðið vitskertur og ekki lifað lengi eftir það. Tjón í Heklugosum. 2. nóvember 1947 lést Steinþór Sigurðsson í Hekluhrauni, er hann var við rannsóknarstörf og kvikmyndaði hraunstraum. Valt þá glóandi hraunsteinn úr hraunbrúninni, hæfði Steinþór og lést hann samstundis. Prag. Kastalahæðin Hradčany við vesturbakka Moldár Prag (tékkneska: "Praha"; enska: "Prague") er höfuðborg Tékklands og jafnframt stærsta borg landsins. Íbúar eru um 1,2 milljónir, en um 1,9 milljónir búa á stórborgarsvæðinu. Elstu hverfin, þar á meðal kastalinn í Prag, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Prag er af mörgum talin en fegursta borg Evrópu, en þangað streyma milljónir ferðamanna á hverju ári. Lega og lýsing. Prag liggur fyrir miðjum Bæheimi í vesturhluta landsins. Landamærin að Þýskalandi í norðvestri og Póllandi í norðri eru innan við 100 km frá borginni. Áin Moldá rennur frá suðri til norðurs í gegnum miðborgina og skiptir henni í tvennt. Meðan gamla miðborgin er í austurhlutanum, er konungs- og keisarakastalinn (Hradčany) á hæð í vesturhlutanum. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Prag er ákaflega íburðarmikið. Skjöldurinn sjálfur sýnir borgarvegg með þremur turnum. Fyrir miðju stendur borgarhlið opið, en þar er hönd með brugðnu sverði. Borgarveggurinn merkir Prag og var upphaflega silfurlitaður. Friðrik III keisari lét breyta honum í gulllit 1475. Auk þess bætti hann við kórónu sem tvö ljón frá Bæheimi héldu á. Ferdinand III keisari bætti borgarhliðinu við 1649 með höndinni og sverðinu. Það gerði hann í þakklætisskyni fyrir mikla baráttu gegn Svíum í 30 ára stríðinu. Auk þess bætti hann tveimur öðrum kórónum við, sem og ríkiserninum. 1918 féll örninn burt, en þýska ríkið leystist í sundur á þessu ári. Fánar voru settir upp úr tveimur kórónum sem merkja bæina sem sameinuðust borginni 1920. Neðst er borði með áletruninni: PRAGA CAPUT REI PUBLICAE (Prag er konungsborg fólksins). Á kommúnistatímanum var rauð stjarna í skjaldarmerkinu. Síðustu breytingar voru gerðar 1. janúar 1993. Orðsifjar. Prag gengur einnig undir nokkrum gælunöfnum. Algengast er Gullna borgin, en það er aðallega notað í þýskumælandi löndum. Annað heiti er Borg hinna hundrað turna. Það heiti kom fyrst fram á 19. öld er tékkneski stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Bernard Bolzano taldi kirkjuturna borgarinnar. Í dag eru þeir um 500. Enn eitt heitið er Praha matka měst, sem merkir "Prag er móðir allra borga". Upphaf. Slavar settust að á svæðinu á 6. öld e.Kr. á tímum þjóðflutninganna miklu. Smáþorp risu á nokkrum stöðum á núverandi borgarstæði, en það var ekki fyrr en snemma á 9. öld sem kastalinn í Prag reis á hæð fyrir vestan Moldá. Það var Premyslíð-ættin, tékknesk valdaætt, sem reisti sér kastalann, en elstu minjar hans eru frá 850. Þar risu einnig fyrstu kirkjurnar, sem og almenn byggð bænda og borgara. Á austurbakka Moldár risu einnig bæir á svipuðum tíma. Þegar Premyslíð-ættin náði yfirtökum gagnvart öðrum ættum, varð Prag æ mikilvægari. Brátt varð hún að leiðandi stjórnarsetri í landinu. Þegar biskupsdæmi var stofnað í Bæheimi 973 varð Prag biskupssetur og var í fyrstu háð erkibiskupinum í Mainz (til 1344). Á síðari hluta 10. aldar lét Vratislav II fursti reisa sér annan kastala á austurbakka Moldár. Í kjölfarið af því myndaðist þétt byggð milli kastalana, báðu megin við Moldá. Viðarbrýr tengdu bæjarhlutana. Fyrsta steinbrúin, Júditbrúin, var reist síðla á 12. öld, en hún eyðilagðist í flóði á 13. öld. Þar er Karlsbrúin í dag. 1085 leyfði Hinrik IV keisari stofnun konungsríkis í Bæheimi. Markgreifinn Vratislav II varð því krýndur konungur, enda var Vratislav eindreginn stuðningsmaður Hinriks gegn söxum. Krýningin fór fram í Prag, sem þar með varð að eiginlegri höfuðborg. Það var þó ekki fyrr en í kringum 1230-34 að Wenzel I konungur lét víggirða Prag og veita henni almenn borgarréttindi. Sonur Wenzels, Ottókar II konungur, stofnaði aðra borg 1257 er hann veitti Þjóðverjum land og jarðir við suðurjaðar gömlu borgarinnar. Þriðja borgin var stofnuð 1320 fyrir neðan gamla kastalann á vestri bakka Moldár og heitir Malá Strana. Borgir þessar voru ekki formlega sameinaðar fyrr en á 18. öld. Blómaskeiðið. Karlsbrúin er nefnd eftir Karli IV keisara Blómaskeið Prag hófst með krýningu Karls IV sem konung Bæheims 1347. Hann var jafnframt konungur þýska ríkisins (og keisari 1355). Karl hafði það að takmarki að gera Prag að verðugri konungs- og keisaraborg, ekki bara fyrir Bæheim, heldur einnig fyrir þýska ríkið. Hann hóf að reisa og endurreisa margar stórar byggingar. Í raun breyttist borgin meira en nokkurn tíma áður í sögu hennar. Einnig stofnaði hann háskóla í Prag 1348, en það er elsti háskóli Evrópu norðan Alpa. Háskólinn var svo vinsæll að á upphafsárum 15. aldar voru stúdentar orðnir 10 þús (75% þeirra þýskumælandi). Á tíma Karls var Karlsbrúin reist yfir Moldá. Nýir borgarhlutar risu, báðu megin fljótsins. Við dauða Karls 1378 var Prag orðin fjórða stærsta borg Evrópu norðan Alpa (á eftir París, Gent og Brugge) og hafði íbúatalan tífaldast á einni öld. Sonur Karls, Wenzel, hélt áfram verki föður síns, en hann var einnig konungur þýska ríkisins. Blómaskeið borgarinnar endaði árið 1400 er kjörfurstarnir settu Wenzel af sem konung ríkisins. Næstelsti sonur Karls IV varð konungur þýska ríkisins 1410 og sat hann til 1437. Honum tókst þó ekki að endurlífga blómaskeið föður síns, enda rann upp nýtt skeið í sögu Bæheims með hússítastríðinu. Hússítar. Jan Hus var professor við háskólann í Prag og á tíma rektor hans. Hus var í andstöðu við konung landsins, sem studdi páfann í Róm, frekar en páfann í Avignon. 1415 var Hus brenndur á báli fyrir villutrú. Auk þess leitaðist Wenzel konungur við að reka hússíta úr opinberum og kirkjulegum embættum. 1419 gerðu hússítar uppreisn gegn konungi. Upphaf þess var að þeir hentu fulltrúum konungs úr glugga ráðhússins. Sagan segir að þegar Wenzel konungur frétti af þessu hafi hann fengið hjartaáfall og látist þremur vikum síðar. Eftir lát konungs réðust hússítar með offorsi í allar kirkjur og klaustur í Prag og eyðilögðu kaþólska helgigripi. Eftir það var barist í borginni, sem lá hérumbil í rústum eftirá. Borgarar sem studdu keisarann eða kaþólsku kirkjuna voru reknir burt. Í kjölfarið upphófst blóðugt stríð. Farnar voru 5 krossferðir til höfuðs hússítum í Bæheimi, en ekki tókst að sigra þá fyrr en 1434. Allan þann tíma var Prag á valdi hússíta. Vísinda- og listaborg. Prag náði sér ekki eftir hússítastríðin. 1526 braust út eldur í kastalanum og breyddist hann út til hverfanna í hring. Nær allur vesturbakki Moldár, þar á meðal hverfið Malá Strana, brann til kaldra kola. 1546 gerðu íbúar Prag uppreisn gegn nýja Habsborgarkonungnum, Ferdinand I, sem jafnframt var keisari í Vín. Ferdinand hafði ekki áhuga á að flytja til Prag, en sendi herlið til að stilla til friðar. Ári síðar hélt hann innreið sína í borginni og lét hylla sig. En enginn Habsborgarkonungur sat í Prag fyrr en Rúdolf II ákvað að flytja aðsetur sitt þangað 1583. Þar með varð Prag aftur keisaraborg til skamms tíma. Rúdólf bauð Þjóðverjum að setjast að í borginni, sem gerðu það í stórum stíl, ásamt fólki frá ýmsum öðrum þjóðernum. Einnig fengu gyðingar griðastað í borginni. Þannig varð Prag að fjölþjóðaborg, en á hússítatímanum höfðu eingöngu Tékkar búið þar. Rúdolf var mikill aðdáandi vísinda og lista, og bauð þekktum lista- og vísindamönnum í kastalann til sín. Þannig voru stjörnufræðingarnir Tycho Brahe og Jóhannes Kepler hjá Rúdolf í Prag við aldamótin 1600. Sá fyrrnefndi lést reyndar í Prag 1601. 30 ára stríðið. Fulltrúum keisara hent út um glugga í upphafi 30 ára stríðsins 1611 tók keisarinn Matthías við sem konungur Bæheims. Hann hóf þegar í stað að endurreisa kaþólsku kirkjuna í Prag með valdi og gera siðaskiptamönnum erfitt fyrir. Þetta mældist illa fyrir hjá gildunum og almenningi. 1618 var gerð uppreisn í borginni gegn yfirráðum Habsborgar. 23. maí 1618 ruddist múgur manna inn í kastalann og fleygði fulltrúum keisarans út um glugga. Atburður þessi gildir sem upphaf 30 ára stríðsins. Ári síðar lést Mattías keisari og kusu gildin í Prag Friðrik frá Pfalz sem nýjan konung Bæheims. Samtímis varð Ferdinand II af Habsborg keisari þýska ríkisins. Um vorið 1620 var fyrsta orrusta stríðsins háð í Bæheimi er keisaraher Ferdinands, undir stjórn Tillys, gjörsigraði Friðrik konung við Hvítafjall við vesturjaðar Prag. Friðrik flúði úr landi og var kallaður Vetrarkonungurinn þar sem hann sat aðeins einn vetur í Prag. Hann var síðasti konungur Bæheims og síðasti konungur (eða keisari) sem sat í Prag. Í kjölfarið voru mótmælendur í Prag eltir. Sumir voru fangelsaðir, aðrir líflátnir. Enn aðrir flúðu land. Í kjölfarið kom Ferdinand keisari kaþólsku kirkjunni á með valdi. Að öðru leyti kom Prag ekki meira við sögu í stríðinu. En 1635 hittust fulltrúar keisarans og mótmælenda í Prag til að semja um frið í stríðinu. Samningar þess efnis voru undirritaðir 30. maí. Þrátt fyrir það endaði 30 ára stríðið ekki við samninginn, því enn voru Svíar og Frakkar aðilar að stríðinu. Fleiri stríð. 1740 braust út austurríska erfðastríðið. Meðan María Teresía var upptekinn í stríði við Bæjaraland, réðist Friðrik II konungur Prússlands inn í Bæheim 1744 og sat um Prag í þeirri viðleitni að tryggja sér yfirráð yfir Slésíu. Eftir tveggja vikna umsátur féll borgin 16. september. Prússar héldu borginni þó aðeins í fáa mánuði, þar sem Friðrik konungur vildi frekar bíða austurríska hersins í Slésíu. Friðrik hélt Slésíu, en Habsborgarar endurheimtu Prag. Í 7 ára stríðinu reyndi María Teresía að endurheimta Slésíu. Friðrik prússakonungur réðist því inn í Bæheim 1757 með 64 þús manna lið. Við austurjaðar Prag hófst mikil orrusta 6. maí sem prússar sigruðu, við mikið mannfall þó. Þegar Austurríkismenn hörfuðu inn í Prag hóf Friðrik umsátur um borgina. Félli Prag, hefði það trúlega þýtt endalok Maríu. En umsátrið stóð aðeins yfir í hálfan annan mánuð. Þegar austurrískur her sigraði prússa í Saxlandi 18. júní ákvað Friðrik að yfirgefa Bæheim. Prag bjargaðist í það sinnið. 19. öldin. Prag óx mjög í iðnvæðingu 19. aldar. Mikill iðnaður var byggður upp í borginni, sem og í Bæheimi. 1834 var konunglegur tækniskóli stofnaður í Prag, en það er elsti tækniskóli Evrópu. Borgarbúar voru þýskumælandi, enda tékkneska bönnuð sem opinbert mál. Nær allt stjórn- og efnahagskerfið var stjórnað frá Vín. Mikil óánægja var meðal slava. Eftir að engin niðurstaða fékkst í slavaráðstefnunni í Prag í júní 1848 braust út uppreisn í borginni sem stóð yfir í fimm daga (12.-17. júní). Mótmælendur heimtuðu sjálfstæði og gengu berserksgang út um allt. Götubardagar stóðu yfir í nokkra daga. Austurrískir varðliðar urðu að setja upp fallbyssur og umkringja borgina til að ráða niðurlögum mótmælanna. Hin mikla fjölgun í borginni var gífurleg. Árið 1804 voru íbúar 76 þús, en 1869 159 þús. Þúsundir Tékka flykktust til Prag frá nærsveitum. 1855 voru þeir orðnir jafnmargir og íbúar af þýsku bergi brotni. Gyðingar flykktust einnig til Prag. Alla 19. öldina voru þeir milli 8-10% af borgarbúum. Fyrir og eftir aldamótin 1900 var Prag mikil menningarmiðstöð fyrir tónlistarmenn og rithöfunda. Á þessum tíma sömdu Bedřich Smetana og Antonín Dvořák óperur sínar og önnur tónverk. Meðal rithöfunda má nefna Max Brod, Franz Kafka, Felix Weltsch, Oskar Baum og Rainer Maria Rilke. 1882 var háskólanum í borginni skipt upp í tvær máladeildir, þýskumælandi og tékkneskumælandi. Þar með var í fyrsta skipti kennt á tékknesku. Bann stjórnarinnar í Vín um að nota tékkneskt tungumál í Bæheimi var hins vegar ekki afnumið fyrr 1897. Ríkishöfuðborgin. Prag kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. Óánægju gætti hjá austurríska setuliðinu í Prag, sérstaklega þegar leið á styrjöldina. 1918 voru opinber mótmæli hjá þeim daglegt brauð í borginni. Þegar stríðið var tapað komu tékkneskir stjórnmálamenn saman og stofnuðu sjálfstætt ríki 28. október 1918. Slóvakar sameinuðust ríkinu, sem hlaut nafnið Tékkóslóvakía. Prag varð þá að ríkishöfuðborg. Aðeins tveimur árum síðar voru ýmsir nágrannabæir innlimaðir borginni. Íbúatalan stökk þá upp í tæp 700 þús. Heimstyrjöldin síðari. Bíllinn sem Reinhard Heydrich sat í þegar honum var gerð fyrirsát Í mars 1939 innlimuðu Þjóðverjar Bæheim. 15. mars komu þýskir hermenn til Prag og tóku stjórnina í sínar hendur. Borgin var höfuðborg héraðanna Bæheims og Mæri innan þýska ríkisins. Mikil andúð var meðal borgarbúa gagnvart nasistum. Í júní 1942 tókst andspyrnumönnum að myrða Reinhard Heydrich, þýska landstjórann í Bæheimi og einn æðsta embættismann nasista, í fyrirsát. Meðan styrjöldin geysaði varð Prag fjórum sinnum fyrir loftárásum. 5. október 1941 flaug bresk vél yfir borgina og varpaði tveimur sprengjum. 15. nóvember 1944 var 12 sprengjum varpað yfir borgina. Þriðju árásina gerðu Bandaríkjamenn 14. febrúar 1945. 60 flugvélar vörpuðu 152 tonnum af sprengjum á borgina, sem átti sér einskis ills von. Árásin voru mistök af hálfu Bandaríkjamanna, en ætlunin var að gera árás á Dresden, sem liggur í 100 km fjarlægð til norðvesturs. Um 700 manns biðu bana í árásinni. Bandaríkjamenn báðust afsökunar á mistökum sínum. Síðasta árásin var gerð 25. mars 1945, aftur af Bandaríkjamönnum. Að þessu sinni komu flugvélarnar frá Ítalíu og voru 650 talsins. Árásin varaði í 74 mínútur og átti að eyðileggja iðnaðinn í borginni. 235 manns létust og 1360 byggingar skemmdust. 5. maí, tæpri viku eftir að Hitler framdi sjálfsmorð, gerðu íbúar Prag uppreisn gegn þýska setuliðinu. Barist var á götum og ráðist á herstöðvar Þjóðverja. 8. maí gerði þýska setuliðið samning við vopnaða Tékka um brotthvarf sitt, sem var framkvæmt sama kvöld. Rúmlega 40 þús almennir þýskir borgarar urðu eftir. Daginn eftir, 9. maí, hélt rauði herinn innreið sína í Prag. Á næstu dögum fóru fram algjörar nornaveiðar á alla Þjóðverja. Talið er að 27 þús Þjóðverjanna í borginni hafi verið drepnir. Restinn var settur í fangabúðir. Vorið í Prag. 1948 náðu kommúnistar völdum í þinginu í Prag. Við það breyttist landið allt í kommúnistaríki með tilheyrandi skerðingu á lýðræði, prentfrelsi og skoðanafrelsi. 1968 reyndi Alexander Dubček að innleiða nýja tilslökunar- og frjálsræðistefnu í landinu. Endurbætur þessar kölluðust Vorið í Prag. Þetta féll illa í kramið hjá ráðamönnum í Mosvku. 21. ágúst réðust hersveitir Varsjárbandalagsins inn í Prag. Þetta var stærsta hernaðarframkvæmd í Evrópu eftir lok heimstyrjaldarinnar 1945. Heimurinn stóð á öndinni. Sovétmenn drógu allar tilslakanir til baka. Í mótmælaskyni kveikti stúdentinn Jan Palach í sér á Wenzeltorginu í Prag 16. janúar 1969 og lést hann af völdum sára sinna. Aðeins mánuð síðar kveikti Jan Zajíc í sér á sama stað og lést einnig. Flauelsbyltingin. Václac Havel, fyrsti forseti Tékklands Eftir að Ungverjar höfðu opnað járntjaldið til Austurríkis í maí 1989, söfnuðust 3.500 austurþýskir borgarar saman á lóð vesturþýska sendiráðsins. Í kjölfarið máttu 17 þús manns fara yfir til Vestur-Þýskalands. 16. nóvember fóru fram fjölmenn stúdentamótmæli í Prag og lenti stúdentum saman við löggæsluna. 600 manns meiddust. Daginn eftir kölluðu stúdentar eftir ótakmörkuðu verkfalli. Leikarar leikhúsanna í borginni sameinuðust þeim. Eftir það voru mótmæli algeng. 24. nóvember fór fram gríðarlega fjölmennur mótmælafundur á Wenzeltorginu þar sem baráttumaðurinn Václav Havel talaði til fólksins og krafðist afsagnar kommúnistastjórnarinnar. Innan tveggja vikna var farið að rífa niður járntjaldið í landinu. 10. desember fóru stjórnarskiptin fram í þinghúsinu í Prag. Áður en árið var liðið var Alexander Dubček orðin þingforseti og Václav Havel ríkisforseti. 1993 aðskildust Tékkland og Slóvakía í tvö sjálfstæði ríki. Prag varð þá að höfuðborg Tékklands. Íþróttir. Íshokkí og knattspyrna eru höfuðíþróttir borgarinnar Prag. Í báðum greinum eru félögin Sparta Prag og Slavia Prag í algjörum sérflokki. Knattspyrnudeild Spörtu hefur oftar orðið tékkneskur meistari en nokkurt annað félag eða 32 sinnum. Þar af 19 sinnum í gömlu Tékkóslóvakíu og 8 sinnum í Tékklandi (síðast 2010). Auk þess hefur félagið 27 sinnum orðið bikarmeistari (síðast 2008). Besti árangur félagsins á alþjóðlegum vettvangi er þriðja sætið í Evrópukeppni meistaraliða 1992. Knattspyrnudeild Slavia Prag hefur 9 sinnum orðið tékkóslóvakskur meistari og þrisvar tékkneskur meistari (1996, 2008, 2009). Auk þess 7 sinnum bikarmeistari (síðast 2002). Í Prag er árlega haldið Maraþonhlaup, en auk þess hálfmaraþon og Maraþonhlaup eldri borgara. Af öðrum íþróttum má nefna ruðning, en félagið Prag Panthers er þar í sérflokki. Árið 2009 vann félagið Evrópukeppnina, fyrsta lið gömlu austantjaldslandanna sem það hefur afrekað. Byggingar og kennileiti. Gömlu hverfin í Prag eru á heimsminjaskrá UNESCO, þar á meðal Kastalahæðin Hradžin, gamla borgin (Stáre Město), brúarhverfið Malá Strana og nýja borgin (Nové Město). Margar af gömlu byggingunum geyma merkilega sögu. Margir telja miðborg Prag eina fegurstu í heimi. Tékkóslóvakía. Tékkóslóvakía var land í Austur-Evrópu. Árið 1993 var landinu skipt í tvö ríki, Tékkland og Slóvakíu. Osaka. Osaka (大阪市; Ōsaka-shi) er þriðja stærsta borg Japans en íbúafjöldi borgarinnar er um 2,7 milljónir. Fólksfjöldi borgarinnar á vinnutíma er hinsvegar sá næst mesti í landinu á eftir Tókýó. Borgin er staðsett við Osaka-flóa á Honsu-eyju og er ein mikilvægasta hafnar og iðnaðarborg landsins og höfuðstaður Osaka-héraðs. Á Osaka-stórborgarsvæðinu búa um 16,6 milljónir manna. Morfís. MORFÍS eða Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, er ein af þremur stærstu keppnum sem framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í sín á milli. Hinar eru Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna. Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi. Í hverri MORFÍS-viðureign takast á tvö keppnislið skipuð fjórum nemendum frá hvorum skóla. Þeir kallast liðsstjóri, frummælandi, meðmælandi og stuðningsmaður. Val á sigurvegara byggist á rökum liðanna, flutningi, svörum við rökfærslu andstæðinganna og hughrifum dómara. Í hverri keppni eru þrír dómarar. Þeir einir geta hlotið dómararéttindi í MORFÍS sem fara á dómaranámskeið MORFÍS sem haldið er af framkvæmdastjórn MORFÍS ár hvert. Áður en því var breytt í lögum haustið 2006 hlutu þeir einnig dómararéttindi sem kepptu í MORFÍS. Lagabreytingin er ekki afturvirk svo þeir hafa enn dómaréttindi sem höfðu þau fyrir lagabreytinguna. MORFÍS hefur verið með mjög föstu sniði undanfarin ár en raddir þess efnis að fyrirkomulagi keppninnar skuli breytt, til dæmis með breytingum á dómblaði, verða sífellt háværari. Saga keppninnar. Veturinn 1983 til 1984 höfðu átta framhaldsskólar staðið að "Ræðukeppni framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinum" (RFH). Hún þótti heppnast vel og vakti mikla athygli. Í framhaldi af því fóru framhaldsskólar á landsbyggðinni fram á aðild og var MORFÍS stofnað sumarið 1984. Fyrir 1983 var lítil hefði fyrir ræðukeppnum í framhaldsskólum ef frá eru taldir MR og VÍ sem höfðu att kappi árlega um árabil og kallað til dómara frá Junior Chamber-hreyfingunni (sem á þeim tíma notaði aðeins skammstöfunina JC). Haustið 1983 leitaði framkvæmdaráð RFH til JC-hreyfingarnnar um að annast dómgæslu og tóku tveir tengiliðir frá JC Reykjavík að sér að annast hana en öll framkvæmd var í höndum fulltrúa framhaldsskólanna. Þegar líða tók á veturinn fóru að birtast viðtöl við fulltrúa JC í ljóskvakamiðlum og á prenti þar sem þeir kváðust hafa átt frumkvæði að stofnun keppninnar og síðan annast alla framkvæmd hennar. Olli þetta mikilli reiði meðal framhaldsskólanema. Þegar MORFÍS var formlega stofnað í ágúst 1984 virtist ekki ætla að verða úr samvinnu. Nemendur vildu ekki líða sams konar framferði JC og hafði verið árið áður þegar JC eignaði sér heiður af keppninni. Þá bárust skilaboð frá JC um að þeir vildu gjarna sinna dómgæslu áfram, þeir lofuðu betri framkomu og að þeir myndu alfarið skipta um tengiliði við skólana. Þetta var samþykkt með semingi og þá þannig að samtökin legðu aðeins til oddadómara ef skólarnir myndu sjálfir þjálfa fólk til að vera meðdómendur. Þrátt fyrir það héldu JC-menn áfram að eigna sér heiðurin af keppninni. Á landsþingi MORFÍS á Sauðárkróki 1985 var samþykkt að slíta á öll samskipti við JC-hreyfinguna en stofna þess í stað oddadómararáð skipað útskrifuðum fyrrverandi keppendum og dómurum úr framhaldsskólunum. Eftir það var útskrifaður nemandi oddadómari í hverri keppni en meðdómendur enn við nám í framhaldsskóla. Stjórn MORFÍS. Stjórn MORFÍS er kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Á aðalfundi hefur hver skóli eitt atkvæði en allir nemendur eru kjörgengir. Þekktir einstaklingar sem tekið hafa þátt í MORFÍS. Margir þátttakendur í MORFÍS hafa síðan orðið áberandi í stjórnmálum, fjölmiðlum og menningarlífi. Meðal þekktra einstaklinga sem tekið hafa þátt í keppninni má nefna Benedikt Erlingsson, Dag B. Eggertsson, Davíð Þór Jónsson, Guðmund Steingrímsson, Gísla Martein Baldursson, Helga Hjörvar, Illuga Gunnarsson og Stefán Eiríksson. Dómarar. Í venjulegri MORFÍSkeppni eru þrír dómarar með dómararéttindi frá stjórn MORFÍS. Þar til nýlega fengu allir sem tóku þátt í MORFÍS dómararéttindi, auk þeirra sem stóðust árlegt dómaranámskeið MORFÍS. Árið 2006 var lögum MORFÍS breytt á þá vegu að aðeins þeir sem standast dómaranámskeið Morfís hljóta dómararéttindi, áður höfðu þátttakendur einnig hlotið dómararéttindi. Í hverri keppni er einn oddadómari. Löggildir oddadómarar hafa dómararéttindi frá MORFÍS og hafa lokið stúdentsprófi. Oddadómari situr í miðju dómarahópsins, gefur ræðumönnum refsistig á sínu dómblaði og tilkynnir úrslit í lok keppni. Í úrslitum MORFÍS kveða lög á um að allir dómarar skuli vera oddadómarar. Ræðuþjálfarar og ræðulið koma sér saman um þessa þrjá dómara. Samkvæmt nýjum lögum MORFÍS (frá haustinu 2006) skal stjórn MORFÍS úthluta hlutlausum dómurum ef liðum hefur ekki tekist að koma sér saman um þrjá dómara þegar fjórir tímar eru til keppni. Til þessa ákvæðis hefur þurft að grípa ítrekað síðan þá. Eftir að allir ræðumenn hafa lokið máli sínu, dómarar gefið einkunn fyrir alla liði hjá báðum ræðum allra ræðumanna og fundarstjóri sagt til um að eiginlegri keppni sé lokið, fara dómarar afsíðis og reikna úr stigum sínum í svokölluðu dómarahléi. Þar eru öll stig allra dómara lögð saman, refsistig dregin frá, og viðeigandi tölfræði reiknuð út. Að því loknu afhendir fundarstjóri oddadómara fundarstjórn og hann tilkynnir úrslitin í því sem nefnt er „oddadómararæða“. Í þessari ræðu eru heildarmunur liða, sigurlið og ræðumaður kvöldsins (stigahæsti ræðumaður kvöldsins) eða „ræðumaður Íslands“ ef um er að ræða úrslitakeppni Morfís. Þó hefur skapast hefð fyrir því að oddadómarar ræði daginn og veginn, gefi upp ógrynni af áhugaverðri eða óáhugaverðri tölfræði, gefi mat sitt á liðum og keppninni í heildinni, komi með athugasemdir og haldi áhorfendum og keppendum í heljargreipum spennu. Mjög misjafnt er, bæði hvað varðar lengd og eðli, hvernig oddadómarar flytja þessa oddadómararæðu og stundum mætti segja að henni svipi til uppistands. Dómblað og stigagjöf. Hver um sig gefa dómararnir öllum ræðumönnum (frummælanda, meðmælanda og stuðningsmanni) einkunn frá 1-10 fyrir hvora ræðu í fjórum liðum. Oddadómari gefur, einn dómara, refsistig á sínu dómblaði og tilkynnir oft um fjölda refsistiga keppninnar í oddadómararæðu sinni. Venjulega eru heildarstig í Morfískeppni á bilinu 2000-3000 (3 dómarar * sex ræður * 4 liðir * einkunn á bilinu 1-10) en munur milli liða er allt frá örfáum stigum til nokkurra hundraða (stærsti munur Morfíssögunar var rúmlega 900 stig þar sem MR sigraði ME árið 2005) svo misjafnt er hvort refsistig breyta úrslitum keppna. Frægt dæmi eru úrslit Morfís árið 2004 þegar lið Verzlunarskóla Íslands vann lið Menntaskólans við Hamrahlíð með einu stigi. Dæmdur munur var 3 stig, MH í hag, en einn ræðumaður MH (Dóri DNA) talaði sex sekúndum yfir tíma meðan ræðumenn Verzlunarskólans töluðu aðeins tveimur sekúndum yfir tíma. Tveir tímaverðir, einn frá hvorum skóla, starfa við keppnina til að taka tíma ræðumanna og tilkynnir fundarstjóri tíma hvers ræðumanns eftir að dómarar hafa lokið við að dæma hann. 1. Ræða. Í þessum lið er uppsetning og gæði ræðu metin. Þar spila rök, málfar, áhrifamáttur orða, skemmtanagildi og flæði stærst hlutverk. Morfísræður þykja oft hafa einkennandi stílbragð, oft eru myndlíkingar eða sögur hafnar í byrjun ræðu og þeim lokið í lok ræðu með meginmáli á milli. Hefð er fyrir því að inngangur og meginmál sé fyrir svarakafla og að honum loknum komi lokaorð með upphafsorðunum „góðir gestir“. Upphafsorðin er nánast alltaf „Fundarstjóri, dómarar, andmælendur og góðir gestir“ í fyrri ræðum en aðeins „Fundarstjóri“ í seinni ræðum og draga flestir dómarar ræðumenn niður ef svo er ekki. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 4 við útreikning stiga í dómarahléi. 2. Málflutningur. Í þessum lið er öryggi og flutningur ræðumannsins metin. Hvort hann horfir til fólksins eða niður á blaðið, hvernig handahreyfingar koma út, hversu skýrmæltur, sannfærandi, öruggur og áhrifaríkur flutningurinn og ræðumaðurinn er. Oft er hægt að sjá áhrif frá uppistandi, stjórnmálum, rappi, útvarpslestri, kennslu og fleiru í flutningi Morfísræðumanna. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 3 við útreikning stiga í dómarahléi. 3. Svör. Eitt af verkefnum ræðumanns er að svara rökum ræðumanna andstæðinganna, oftast í sérstökum svarakafla. Þetta þykir oft eitt vandasamasta verk ræðumanna og segir að margra mati mikið um eðli ræðumannsins. Svör eru bæði skrifuð fyrir fram og á staðnum. Í dag skrifa flest ræðulið mikið af svörum fyrir fram við þeim rökum sem þeir búast við að andstæðingarnir noti, oft skín þetta í gegn þar sem t.d. svara ræðumenn stundum rökum sem andstæðingarnir kannast ekki við að hafa komið með. Í þessum lið skipta gæði svara, rök, hnitmiðun, málfar, skemmtanagildi, öryggi flutnings, viðbrögð við ófyrirsjáanlegum rökum og þýðing þeirra fyrir rökræðuna í held mestu máli. Fyrri ræða frummælanda, framsöguræða keppninnar, inniheldur engin svör. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 4 við útreikning stiga í dómarahléi. 4. Geðþóttastuðull dómara. Þessi liður er að mestu leyti frjáls dómaranum. Einstök atriði eða persónulegar tilfinningar í garð ræðumannsins geta ráðið öllu fyrir þennan lið og margir dómarar veigra sér ekki við að setja „1“ eða „10“ í þennan lið við lítil tilefni. Hann er ætlaður sem einkunn á almennri tilfinningu dómarans fyrir ræðumanninum. Hvernig ræða, flutningur og svör var dómaranum að skapi og hversu góður honum þótti ræðumaðurinn á heildina litið. Þessi liður er stundum kallaður "Hughrif" og það nafn var notað á tillögu að nýju dómblaði. Deilt hefur verið um hvort gefa megi 0 í þessum lið, þar sem lög Morfís og leiðbeiningar stangast á. Einkunn í þessum lið er ekki margfölduð við útreikning stiga í dómarahléi. Refsistig. Refsistig eru gefin ræðumönnum sem fara út fyrir tímamörk ræðu sinnar. Í framsöguræðu (fyrri ræðu frummælanda) eru þau tímamörk 4-5 mínútur en í öðrum ræðum keppninnar eru þau 3-4 mínútur. 1 refsistig er gefið fyrir hverja sekúndu sem hver ræðumaður fer yfir eða undir þessi tímamörk í ræðu sinni. Meðalstig framsöguræðu. Frummælandi svarar ekki í fyrru ræðu sinni (framsöguræðu) og fær því ekki stig fyrir svör í þeirri ræðu. Til að vega upp á móti þessu var settur inn liður á dómblaðið sem deilir heildarstigum framsöguræðu í 2 (námundað upp ef hálf tala kemur upp) og bætir þeim við heildarstig ræðumannsins. Þessum stigum skal þó ekki bæta við heildarstig keppninnar en það mundi, ólíkt trú margra, geta haft áhrif á úrslit keppninnar. Ef framsöguræða annars liðs er hærra dæmd en hins liðsins eykst sá munur við að bæta meðalstigum framsöguræðu við. Hærra dæmd ræða fær hærri meðalstig. Þannig eykur þetta vægi frummælandans í keppninni og ef samanburður frummælanda var ekki í samræmi við samanburð liðanna getur það breytt úrslitum keppni. Síðan er álitamál hvort þessi áhrif eigi rétt á sér. Breytingartillögur. Fyrstu ár Morfískeppninnar ríkti mikið ósætti með form keppninnar. Eftir það var dómblaði breytt og ríkti nokkuð almennt sátt um keppnina næstu 15 árin eða svo. Síðustu ár hafa síðan sprottið upp fleiri ágreiningsefni um form dómgæslu (dómblaðið), fjölda dómara og val þeirra. Súrínam. Súrínam, einnig þekkt sem Hollenska Gvæjana, er land í Suður-Ameríku. Súrínam á landamæri að Gvæjana í vestri, Frönsku Gvæjana í austri og Brasilíu í suðri. Í norðri liggur landið að Atlantshafi. Höfuðborg landsins heitir Paramaríbó. Landið tilheyrði Hollandi áður fyrr, en hlaut sjálfstæði 25. nóvember 1975. Opinbert tungumál Súrínam er hollenska, en 30% þjóðarinnar talar súrínömsku, sem er blendingsmál sem byggist á ensku. Senegal. Senegal er land í Vestur-Afríku og á landamæri að Máritaníu í norðri, Malí í austri og Gíneu og Gíneu-Bissá í suðri. Auk þess skagar Gambía inn í landið úr vestri. Í vestri liggur Senegal að Atlantshafi. Senegal tilheyrði áður Frakklandi, en hlaut sjálfstæði árið 1959. Gambía. Lýðveldið Gambía er land í Vestur-Afríku. Landið liggur að Atlantshafi í vestri en er annars umlukið Senegal úr öðrum áttum. Gambía tilheyrði áður Bretlandi en hlaut sjálfstæði 18. febrúar 1956. Póstmódernismi. Póstmódernismi er stefna í bókmenntum, byggingarlist, tónlist, hugvísindum og almennri menningu sem tók við af módernismanum. Algeng skilgreining á póstmódernisma er hann sé samheiti margra strauma og stefna sem komu fram á seinni hluta tuttugustu aldar sem viðbrögð við módernismanum, en skilgreining hans er nokkuð á reiki. Í víðum skilningi á hugtakið við ýmsar stefnur í listum og vísindum sem lýsa efasemdum á vísindahyggju og hafa verið tengdar við póststrúktúralisma, fræðilegs viðbragðs við strúktúralisma. Póstmódernismi í bókmenntum einkennist af kaldhæðni og ákveðinni sundurgerð þar sem mörg tímaskeiðum er gjarnan látið ljósta saman og vísað jöfnum höndum til lágmenningar og klassískrar menningar. Alla jafna er hugtakið haft um höfunda sem vinna úr arfleifð módernismans. Umberto Eco er póstmódernískur höfundur en deilt er um hvenær stefnan hefjist, oftast er talað um sjöunda áratuginn og stundum farið aftur a fyrstu áratugi tuttugustu aldar eftir blómatíma framúrstefnunnar og eftir að evrópskur hámódernismi leið undir lok. Póstmódernismi í arkitektúr einkennist af fjölhyggju og sundurgerð þar sem hið nýja stendur við hlið hins gamla og París er dæmi um póstmóderníska borg. Póstmódernísk tónlist einkennist ekki af ákveðnum stíl heldur ægir öllu saman. Dæmi um tónlistarmenn og hljómsveitir sem taldar eru póstmódernískar eru Bítlarnir á síðari hluta ferils síns, svo sem á Hvíta albúminu, Beck, Kraftwerk, Pink Floyd og Frank Zappa. Póstmódernismi í mannlegum fræðum er greining á ákveðnu ástandi í samtímanum sem einkennist af óraunveruleika. Deilt er um hvort þetta ástand hafi liðið undir lok eða ekki en stjórnmálakennismiðurinn Fredric Jameson lýsir póstmódernisma sem „ríkjandi menningarlegri rökvísi síðkapítalismans“. Póstmódernísk fræði eru gjarnan tengd meginlandsheimspeki, póstmódernískir fræðimenn vinna úr arfleifð strúktúralisma og marxisma og taka iðulega virka pólitíska afstöðu gegn þeim einkennum samtíma síns sem þeir greina. Þeir eru jafnan gagnrýnir á svokallaða stórsögu, vefengja algildi og líta á upplýsinguna sem óklárað verkefni. Dæmi um póstmódernískan fræðimann er heimspekingurinn Jean-Francois Lyotard. Upphaflega var hugtakið póstmódernismi fyrst og fremst notað í umræðu um þjóðfélagsbreytingar sem fylgja vexti þjónustu á kostnað iðnaðar í hagkerfum Vesturlanda þar sem firring í marxískum skilningi kemst á nýtt stig og eftirlíking og frumgerð verða illsundurgreinanleg, en í akademísku samhengi var hugtakið fljótlega upp úr 1990 látið ná yfir strauma og stefnur sem voru kennd við póststrúktúralisma. Þessar hugmyndir skutu rótum í vissum greinum hug- og félagsvísindum þar sem strúktúralisma og marxisma höfðu verið áberandi eftir síðari heimsstyrjöldina. Undir lok 20. aldar skrifaði Kristján Kristjánsson heimspekingur greinaflokk í Lesbók Morgunblaðsins um póstmódernisma. Greinarnar vöktu deilur og urðu margir til andsvara. Kristján var gagnrýndur fyrir að skilgreina póstmódernisma of vítt og mála hann of dökkum litum. Hugtökin „póstmódernismi“ og „póstmódernisti“ eru iðulega notuð sem skammaryrði, skollaþýska eða áhrifsorð/slangur og eru þá án merkingar. Andri Snær Magnason. Andri Snær Magnason (fæddur 14. júlí 1973) er íslenskur rithöfundur. Ævi. Andri útskrifaðist frá eðlisfræðibraut Menntaskólans við Sund, nam svo íslensku í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-próf árið 1997. Fyrsta útgefna verk Andra var ljóðabókin "Ljóðasmygl og skáldarán" árið 1995. Eftir fylgdi ljóðabókin "Bónusljóð" og smásagnaheftið "Engar smá sögur". Þekktasta verk Andra er þó líklegast barnabók hans og leikritið "Blái hnötturinn" og hefur bókin verið þýdd á tólf tungumál. Andri gaf einnig út skáldsöguna "LoveStar" sem var metsölubók árið 2002 og hlaut fjölda verðlauna. Í mars 2006 gaf Andri Snær svo út bók sína "Draumalandið - sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð", sem hefur selst gríðarvel og fengið mikla fjölmiðlaathygli. Í bókinni beinir Andri Snær spjótum sínum að stjóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda og hugmyndaleysi í atvinnumálum. Fyrir bókina fékk hann íslensku bókmenntaverðlaunin 2006. Skotland. Skotland (gelíska: Alba) er land í vestur Evrópu og næststærsti hluti Bretlands (hinir hlutarnir eru England, Wales og Norður-Írland). Það hefur eigið þing og heimastjórn frá árinu 1999. Í fornu máli íslensku var Skotland nefnt "Írland hið minna". Skotland var sjálfstætt konungsríki þar til það gekk í konungssamband við England og Írland þegar Jakob 6. Skotakonungur tók við af Elísabetu 1. árið 1603. Skoska þingið var lagt niður 26. mars 1707 og Skotland var formlega sameinað Bretlandi með bresku sambandslögunum 1. maí sama ár þegar Breska konungdæmið var stofnað með eitt þing í Westminster í London. Skoska þingið var svo endurreist í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1999. Það hefur þó ekki völd í utanríkismálum. Íþróttin golf er upprunnin í Skotlandi. Bosnía og Hersegóvína. Bosnía og Hersegóvína, einnig ritað sem Bosnía-Hersegóvína (á heimamálum Bosna i Hercegovina/Босна и Херцеговина) er fjalllent land á vestanverðum Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu. Landið liggur að Króatíu í norðri og vestri og Serbíu í austri og Svartfjallalandi í suðri, auk þess liggur landið að Adríahafi á örstuttum kafla í suðvestri. Nafn landsins er samansett úr nöfnum héraðanna Bosníu og Hersegóvínu, sem mynda landið. Höfuðborg landsins heitir Sarajevó. Í landinu eru þrjú opinber tungumál: bosníska, króatíska og serbneska, sem öll eru slavnesk mál. Bosnía og Hersegóvína tilheyrði Júgóslavíu fram til 5. apríl 1992, þegar landið lýsti yfir sjálfstæði. Stríðin á Balkansskaganum á tíunda áratug 20. aldar. Í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar fylgdi blóðugt stríð við Serbíu og Bosníu-Serba, sem neituðu að viðurkenna sjálfstæðið. Árin 1992-1993 var framið í Bosníu og Hersegóvínu mesta þjóðarmorð í Evrópu síðan 1945. Serbneskar hersveitir myrtu þúsundir Bosníumanna og Króata um alla Bosníu og Hersegóvínu. Í lok stríðsins höfðu yfir 200 þúsund manns verið myrtir og meira en tvær milljónir þurft að flýja heimili sín, þar af um ein milljón úr landi. 21. nóvember 1995 hittust forsetar Bosníu og Hersegóvínu, Króatíu og Serbíu í Dayton, í Ohio í Bandaríkjunum og skrifuðu undir friðarsamning, sem átti að stöðva bardagana í Bosníu og Hersegóvínu í þrjú ár. Lokasamningurinn var undirritaður í París 14. desember 1995. Samningurinn var kallaður Dayton-samningurinn og með honum tókst að binda enda á blóðbaðið í Bosníu og Hersegóvínu. Í stjórnarskrá landsins var því skipt í tvö ríkjasambönd, á milli Bosníumanna og Bosníu-Króata annars vegar, og Bosníu-Serba hins vegar. Liechtenstein. Liechtenstein er fjalllent smáríki í mið-Evrópu, á milli Sviss og Austurríkis. Landið er aðeins 160 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg Liechtenstein heitir Vaduz og opinbert tungumál er þýska. Saga. Liechtenstein var stofnað 1342 sem greifadæmi. Það fékk nafn sitt árið 1719. Á 18. og 19. öld var landið sjálfstætt konungsríki í hinu heilaga, rómverska keisaradæmi og tengt Habsborgurum í Austurríki efnahagslega. Árið 1984 voru samþykkt lög sem veittu konum kosningarétt. Liechtenstein gerði varnarbandalag við Austurríki 1852-1918. Síðar tengdist Liechtenstein Sviss með viðskiptasambandi. Svissneskur franki er gjaldmiðill landsins og tollur og póstþjónusta eru sameiginleg þó Liechtenstein gefi út eigin frímerki. Liechtenstein gekk í EFTA árið 1991. Liechtenstein er eitt tækni- og iðnvæddasta ríki heims og meðaltekjur með þeim allra hæstu í heimi. Náttúra. Upp í hæðum Alpanna eru beitilönd og á Rínarsléttunni er stundaður landbúnaður. Lýðfræði. Lífslíkur í Liechtenstein eru um 75 ár á meðal karla og 82 ár meðal kvenna. Innfæddir íbúar Liechtenstein eru afkomendur Germana (Alemanna), sem settust þarna að 500 e.kr. Um 87% íbúanna eru rómversk-kaþólskar trúar. Stjórnsýsla. Liechtenstein er þingbundið furstadæmi. Núverandi fursti er Hans-Adam II sem ríkt hefur síðan 1989. Á þingi landsins starfa 25 þingmenn sem eru kosnir á fjögurra ára fresti. Furstinn tilnefnir forsætisráðherrann að tillögu þingsins. Vaduz. Vaduz er höfuðborg smáríkisins Liechtenstein. Jakob 6. Skotakonungur. Jakob 6. Skotakonungur eða Jakob 1. konungur Englands, Írlands og Skotlands frá 1603 ("Karl Jakob", enska: "Charles James") (19. júní 1566 – 27. mars 1625) var fyrstur til að sameina undir einn konung öll konungsríkin þrjú á Bretlandseyjum þegar hann tók við völdum eftir lát Elísabetar 1.. Hann var fyrsti enski konungurinn af Stúartættinni. Jakob var sonur Maríu Stúart Skotadrottningar. Hann giftist 1590 Önnu af Danmörku, systur Kristjáns 4. Danakonungs. Benedikt 16.. Benedikt XVI (opinber útgáfa á latínu: "Benedictus PP. XVI"), fæddur 16. apríl 1927 og skírður Joseph Alois Ratzinger var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 2005 til 2013. Hann var kjörinn páfi 19. apríl 2005, 17 dögum eftir fráfall Jóhannesar Páls II. Benedikt var 78 ára þegar hann var kjörinn. Hann varð þar með elsti einstaklingurinn til að ná kjöri sem páfi síðan Klement XII varð páfi árið 1730, einnig 78 ára að aldri. Bennedikt sagði af sér embætti i febrúar 2013 og tók sú afsögn gildi 28. febrúar. Benedikt er fyrsti páfinn sem segir af sér embætti síðan Gregoríus XII gerði það árið 1415 og sá fyrsti sem gerir það sjálfviljugur frá afsögn Selestínusar V árið 1294. Ratzinger var virtur guðfræðingur áður en hann varð erkibiskup af München og kardináli árið 1977. Árið 1981 skipaði Jóhannes Páll páfi II hann æðsta yfirmann þeirrar deildar kaþólsku kirkjunnar sem sér um að viðhalda réttrúnaði. Árið 1998 varð hann svo varaformaður Kardinálaráðsins og 2002 formaður. Ef litið er á fyrri verk og störf Benedikts innan kaþólsku kirkjunnar má sjá að hugsunarháttur hans er um margt líkur hugsunarhætti Jóhannesar Páls II, fyrirrennara hans. Hann virðist mótfallinn því að kirkjan slaki á sinni hefðbundnu andstöðu við fóstureyðingar, getnaðarvarnir og fleira. Val hans á nafninu Benedikt segir hann vera vísun til Benedikts XV sem var páfi meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð og í heilagan Benedikt sem þykir sýna að honum þyki kirkjan standa höllum fæti og að hann ætli sér að reyna að rétta hlut hennar. Járn. Járn (sem í forníslensku var efnt ísarn) er frumefni með efnatáknið Fe og er númer 26 í lotukerfinu. Almennir eiginleikar. Venjulegt járnatóm hefur 56 sinnum meiri massa en venjulegt vetnisatóm. Járn er algengasti málmurinn og er talið tíunda algengasta frumefnið í alheiminum. Jörðin er einnig af mestum hluta búin til úr járni (um 34,6% eftir þyngd). Lög jarðarinnar hafa að geyma mismunandi hlutföll af járni; kjarninn er til að mynda að miklum hluta úr járni meðan skorpan er aðeins um 5% gerð úr því. Það er mögulegt að innri kjarninn sé gerður úr einum járnkristalli þó að það sé líklegra að hann sé blanda af járni og nikkel. Þetta magn járns er talið orsakavaldur segulsviðs jarðar. Efnatákn þess, "Fe" er skammstöfun á latneska heitinu yfir járn, "ferrum". Járn er málmur sem að unninn er úr járngrýti og finnst yfirleitt aldrei í sinni náttúrulegu mynd. Til að ná járni á frumefnaformi, verður að ná út úr því óhreinindum með rýringu. Járn er notað í framleiðslu á stál, sem er ekki frumefni heldur málmblanda, lausn mismunandi málma (og stundum málmleysingja, þá sérstaklega kolefni). Kjarni járns hefur hæstu bindiorku kjarneinda, þannig að það er þyngsta frumefnið sem framleitt er með kjarnasamruna og það léttasta með kjarnaflofnun. Þegar stjarna hefur að geyma nógan massa fer hún að framleiða járn. Þegar járnframleiðsla hefst getur hún ekki lengur framleitt orku í kjarna sínum og verður þá að sprengistjörnu. Heimsfræðileg líkön með opin alheim spá um fyrir stigi þar sem, sökum hægs kjarnasamruna og kjarnaklofnunar, að allt muni breytast í járn. Notkun. Járn með miklu kolefni er ekki hægt að smíða, heyja eða hamra því þá springur það. Það er kallað steypujárn. Smíðajárn inniheldur lítið af kolefni og það verður mjúkt löngu áður en bræðslumarki er náð og þá er hægt að hamra það og teygja. Flugvél. Flugvél er loftfar sem er þyngra en loft. Sem dæmi teljast fis, svifflugur, tvíþekjur, þyrlur og þotur til flugvéla en hvorki loftbelgir né loftskip. Sverrir Jakobsson. Sverrir Jakobsson (f. 18. júlí 1970) er sagnfræðingur. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum við Sund árið 1990, lauk svo B.A.-prófi við Háskóla Íslands 1993 og M.A.-prófi frá Háskólanum í Leeds í Bretlandi. Lauk svo doktorsprófi frá HÍ 2005. Aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 2010. Á menntaskólaárum sínum komst hann ásamt tvíburabróður sínum Ármanni þrívegis í úrslit í Gettu betur og sigraði í keppninni árið 1990. Sverrir var í forsvari fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga og formaður þeirra 1999-2000. Þá var hann formaður Hagþenkis, félags höfunda kennslubóka og fræðirita 2000-2008. Oscar Reutersvärd. Oscar Reutersvärd (1915 – 5. febrúar 2002) var sænskur listamaður sem fékkst við teikningar á ómögulegum hlutum, það er þrívíðum hlutum sem aldrei gætu verið til í þremur víddum. Reutersvärd varð fyrir áhrifum frá skrifum eðlisfræðingsins Rogers Penrose og helgaði sig rannsóknum á þrívíðum þverstæðum eins og endalausa stiganum sem hann uppgötvaði á undan Penrose og M. C. Escher sem gerði hann síðar frægan. Reutersvärd aðhylltist púrisma sem er afsprengi kúbisma og hann teiknaði ekki raunsætt umhverfi kringum formin eins og Escher gerði, heldur hélt sig strangt við rúmfræðileg form, alltaf með sama sjónarhorni (samsíða sjónarhorni eða japönsku sjónarhorni) og gerði meðal annars um 2500 númeraðar myndir af þessum toga. Tengt efni. Reutersvärd, Oscar Kóbolt. Kóbolt er frumefni með efnatáknið Co og er númer 27 í lotukerfinu. Almennir eiginleikar. Kóbolt er hart, silfurhvítt járnsegulefni. Það er oft tengt nikkel og bæði efnin einkenna loftsteinajárn. Spendýr þarfnast smárra skammta af Kóboltsöltum til að lifa. Kóbolt-60, sem er geislavirk samsæta þess, er mikilvægt sporefni og var notað við geislameðferð krabbameins. Kóbolt hefur tvo þriðju segulleiðni járns. Algeng oxunarstig kóbolts eru +2 og +3 og jafnvel +1. Notkun. Co-60 er nytsamlegt sem uppspretta gammageisla að hluta til því að það getur verið framleitt í þekktum stærðum og í mjög stórum stíl með því að láta nifteindir dynja á náttúrulegu Kóbolti í kjarnaofni í ákveðinn tíma. Samsíða sjónarhorn. Kubbur sýndur í samsíða sjónarhorni. Samsíða sjónarhorn eða japanskt sjónarhorn er aðferð við að sýna þrívídd í tvívíðri mynd. Aðferðin á uppruna sinn í Kína og einkennir bæði kínverska og japanska myndlist, en ástæða nafnsins er að það voru japanskar prentmyndir sem höfðu áhrif á evrópska myndlist á 19. öld. Einkenni samsíða sjónarhorns er að það skortir fjarvídd þannig að ef t.d. er horft framan á eitt horn kubbs eru skálínur hliða hans samsíða. Allt það sem er samsíða í því þrívíða rými sem myndað er verður einnig samsíða í myndinni og hlutir minnka ekki eftir því sem fjær dregur. Samsíða sjónarhorn er oft notað í þrívíddarhönnun með aðstoð tölvu. Hreinstefna. Hreinstefna eða púrismi er myndlistarstefna sem spratt út úr kúbismanum. Arkitektinn Le Corbusier og Amédée Ozenfant settu hugmyndafræði stefnunnar fram í bókinni "Après le cubisme" árið 1918. Stefnan setti sig gegn uppbroti myndefnisins og þeirri skreytilist sem þeim þótti kúbisminn vera orðinn. Hún boðaði þess í stað einfaldleika hins rúmfræðilega forms með hreinum litflötum og upphafningu vélrænnar reglufestu. Viðfangsefnin voru gjarnan manngerðir fjöldaframleiddir hlutir. Allah. Allāh (arabíska: اَللَّه;) er arabíska orðið fyrir Guð. Það er notað af múslimum um allan heim og af arabískumælandi kristnum mönnum og gyðingum. Orðið hefur ekki fleirtölu, heldur á það aðeins við um hinn eina allsráðandi, alvitandi Guð samkvæmt skilningi eingyðistrúarbragða. Orðið er notað í arabískri þýðingu biblíunnar, kaþólskir á Möltu nota það, svo og kristnir í Indónesíu. Vømmøl Spellmannslag. Vømmøl Spellmannslag var norsk þjóðlagahljómsveit sem uppi var á síðari hluta 8. áratugarins og fyrri hluta þess níunda á 20. öld. Textarnir fjalla oft á tíðum um menningu, líf og örlög fólks í uppdiktuðum afdal, „Vømmøldalen“, sem að síðustu fer undir vatn þegar Kraftselskapet reisir stíflu. Tónlist hljómsveitarinnar minnir á ýmsar þjóðlagasveitir frá sama tíma sem fengust við þjóðfélagsádeilu í anda vinstrisinnaðrar þjóðernisstefnu, til dæmis íslensku hljómsveitina Þokkabót. Eingyðistrú. Eingyðistrú er sú trú að aðeins sé til einn allsherjar Guð og allt í heimi sé undir hann sett. Útbreiddustu eingyðistrúarbrögðin eru þau abrahamísku, svo sem gyðingdómur, kristni og íslam (sem spruttu upp úr gyðingdóm). Gyðingar og múslimar halda því þó fram að með þrenningarkenningunni hafni kristnir hugmyndinni um einn Guð og geti því ekki talist til eingyðistrúarbragða. Önnur eingyðistrúarbrögð, minna útbreidd í dag, eru meðal annars sóróismi, vissar gerðir og sprotar af hindúisma og fleira. Ingólfur Guðbrandsson. Ingólfur Guðbrandsson (6. mars 1923 – 3. apríl 2009) er einn mesti frumkvöðull Íslands á sviði ferðamála. Hann hefur skipulagt ferðir fyrir Íslendinga um allan heim í áratugi. Eins er Ingólfur mikill tónlistamaður og stjórnaði meðal annars Pólýfónkórnum í mörg ár. Ingólfur var skólastjóri Barnamúsíkskólans 1956-1957. Meðal barna Ingólfs eru Rut Ingólfsdóttir sem er gift Birni Bjarnasyni og Þorgerður Ingólfsdóttir, tónlistarkona og kórstjórnandi Hamrahlíðarkórsins og Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð frá stofnun þeirra. Borgarskjalasafn. Gögn um Ingólf Guðbrandsson - http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/borgarskjalasafn/skjalaskra/einstaklingar/Ing_lfur_Gu_brandsson_%28355%29.pdf Þokkabót. Þokkabót var íslensk þjóðlagahljómsveit sem flutti tónlist í anda vinstrisinnaðrar þjóðfélagsádeilu og þjóðernishyggju á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar. Fyrsta plata sveitarinnar, "Upphafið", kom út árið 1974 og gekk mjög vel, innihélt meðal annars þýðingu á laginu „Litlir kassar“ eftir Peter Seeger, sem varð afar vinsæl, auk annarra slagara sem síðan hafa orðið sígildir, eins og „Nýríki Nonni“. Þær plötur sem síðar komu seldust þó ekki eins vel og hljómsveitin hætti í raun 1976, þrátt fyrir stutta endurreisnartilraun 1978. Árið 1981 kom út önnur útgáfa af af fyrstu plötunni, "Upphafið", sem nefndist "Þjófstart". Þessi plata inniheldur sömu lög og "Upphafið" en að auki lagið „Sveinbjörn Egilsson“. Kristján 4.. Kristján 4. (12. apríl 1577 – 28. febrúar 1648) var kjörinn konungur Danmerkur og Noregs af Ríkisráðinu eftir lát föður síns Friðriks 2. árið 1588, þá aðeins ellefu ára gamall, en var fyrst krýndur þegar hann varð fullveðja 1596. Stjórnartíð hans einkenndist til að byrja með af friði og efnahagslegum uppgangi. Efnahagsstefna hans var í anda kaupauðgisstefnunnar og hann kom á verslunareinokun innan ríkis síns, þótt því væri ekki fylgt hart eftir. Á tímabilinu voru mikil átök við Svía vegna tilrauna þeirra til að koma undir sig Skáni og komast undan Eyrarsundstollinum, helstu tekjulind Danakonunga. Síðustu tvo áratugina fengu Danir svo að kynnast slæmum ósigrum, bæði á orrustuvöllunum í Þýskalandi í Þrjátíu ára stríðinu og í sjóorrustum á Eystrasalti. Kristján var mágur Jakobs 6. Skotakonungs og átti töluverð samskipti bæði við hann og fyrirrennara hans, Elísabetu 1., meðal annars um veiðar enskra duggara á Íslandsmiðum, sem voru mjög umfangsmiklar, bæði á 16. öld og fyrri hluta 17. aldar. Kristján hafði gríðarlegan áhuga á sjóferðum og sjóhernaði og í stjórnartíð hans eignuðust Danir fyrstu nýlendu sína í Austur-Indíum, Trankebar. Fjölskylda. Kristján var þriðja barn og elsti sonur Friðriks 2. Danakonungs af Aldinborgarætt, og konu hans Soffíu af Mecklenburg. Hann giftist árið 1597 Önnu Katrínu af Brandenburg og átti með henni sex börn, þar á meðal ríkisarfann. Fyrir lát hennar 1612 átti hann einn son með Karen Madsdatter. Eftir lát drottningar giftist hann Karen Andersdatter sem ól honum tvö börn, og að síðustu átti hann tólf börn með Kirsten Munk, þar á meðal Leonóru Kristínu sem eyddi síðar tólf árum í Bláturni fyrir drottinsvik í stjórnartíð hálfbróður síns. Konungur skildi síðan við Kirsten Munk, sem var ákærð fyrir framhjáhald og bjó eftir 1629 með Vibeke Kruse sem ól honum tvö börn. Látún. Látún (einnig nefnt messing eða brass) er málmblanda kopars og sinks. Sumar tegundir látúns eru kallaðar brons þrátt fyrir hátt innihald sinks. Látún er verðmætt framleiðsluefni sökum hörku þess og vinnsluhæfni. "Alfa látún", með minna en 38% sink, eru hamranlegt og hægt að vinna með það kalt. "Beta látún", með hærra sinkmagn, er einungis hægt að vinna með hitað, en það er harðara og sterkara. "Hvítt látún", með meira en 45% sink, er of brothætt fyrir daglega notkun. Sumar tegundir látúns eru bætt öðrum málmum til að breyta eiginleikum þeirra. Látún hefur verið þekkt síðan aftur á fornöld, langt áður en að sink eitt og sér var uppgötvað. Það var framleitt með því að bræða kopar saman við kalamín, sem að er sinkgrýti. Við þetta ferli, vinnst sink úr kalamíninu og blandast samstundis við koparinn. Hreint sink er hinsvegar of hvarfgjarnt til að framleiða með eldgömlum málmframleiðsluaðferðum. Í biblíunni er minnst á látún. Málmblanda. Málmblanda er samsetning, annað hvort í lausn eða sem efnasamband, tveggja eða fleirri frumefna, þar sem að minnsta kosti eitt þeirra er málmur og þar sem að niðustaðan er efni með málmkennda eiginleika sem að eru frábrugðnir eiginleikum uppistöðuefnanna. Málmblöndur eru yfirleitt hannaðar til að hafa eiginleika sem að eru eftirsóknaverðari en uppistöðuefni þeirra. Sem dæmi er stál sterkara en járn sem að er eitt aðaluppistöðuefni þess, og látún er endingarbetra en kopar, en fallegra en sink. Ólíkt hreinum málmum hafa málmblöndur ekki einungis eitt bræðslumark. Í stað þess hafa þær bræðslumarkssvið, þar sem að efnið er blanda af storku- og vökvaham. Sérstakar málmblöndur hafa verið hannaðar sem að hafa bara eitt bræðslumark og eru þær kallaðar jafnstorkublöndur. Stundum er málmblanda nefnd einungis eftir undirstöðumálminum, eins og til dæmis 14 karata gull, sem að er blanda gulls og annarra frumefna. Sama gildir um silfur sem að notað er í skartgripi og ál sem að notað er í burðarramma. Nikkel. Nikkel er frumefni með efnatáknið Ni og er númer 28 í lotukerfinu. Almennir eiginleikar. Nikkel er silfurhvítur málmur sem að tekur á sig mikinn gljáa. Það tilheyrir járnhópnum og er hart, þjált og sveigjanlegt. Það finnst bundið við brennistein í milleríti, við arsenik í steintegundinni nikkólít, og við arsenik og brennistein í gersdorffíti. Sökum stöðugleika þess við snertingu við loft og viðmóti þess við oxun, er það mikið notað í mynt, til að málmhúða járn, látún, og þess háttar, í efnafræðitæki, og í málmblöndur, sem nýsilfur. Það er segulmagnað, finnst oft með kóbolti, og finnast bæði með járni úr loftsteinum. Það er einkum verðmætt sökum málmblandna sem að það myndar. Nikkel er eitt af fimm járnsegulmögnuðu frumefnunum. Algengasta oxunarstig nikkel er +2, en 0, +1 og +3 hafa einnig fundist. Notkun. Um það bil 65% af nikkel sem notað er í hinum vestræna heimi er notað í framleiðslu á ástenísku ryðfríu stáli. Önnur 12% eru notuð í hitaþolnar málmblöndur. Afgangurinn, eða um 23%, skiptist á milli stálmálmblandna, endurhlaðanlegra rafhlaðna, efnahvata og annarra efna, myntar, smiðjuvara og húðunar. Þorlákur Runólfsson. Þorlákur Runólfsson (1086 – 1133) var biskup í Skálholti frá 1118. Faðir hans var bróðursonur Halls Þórarinssonar í Haukadal en móðir hans dóttir Snorra Þorfinnssonar í Glaumbæ og hann var því barnabarnabarn Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Þorlákur stundaði nám hjá frændum sínum í Haukadal. Gissur Ísleifsson kaus hann sem eftirmann sinn. Þorlákur færðist undan í fyrstu, meðal annars vegna þess hve ungur hann var, en fór þó út og var vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 28. apríl 1118. Í Hungurvöku er honum þannig lýst að hann hafi verið meðalmaður að vexti, langleitur og ljósjarpur á hár, þokkagóður, en kallaður ekki vænn maður af alþýðu né allskörugur að ávarpi velflestra manna, og þótti ekki líkjast biskupsefni þegar hann kom til útlanda. Þegar hann kom heim til Íslands var Gissur biskup nýlega dáinn og settist Þorlákur að í Skálholti. Ásamt Katli Þorsteinssyni Hólabiskup stóð hann fyrir innleiðingu kristniréttar eldri. Hann hafði skóla í Skálholti eins og fyrirrennarar hans á biskupsstóli og fóstraði Gissur Hallsson frá Haukadal. Hann dó í Skálholti 1133. Þorlákur helgi Þórhallsson. Þorlákur Þórhallsson "helgi" (1133 – 23. desember 1193) vígðist ungur sem prestur, menntaðist síðan í mörg ár erlendis, innleiddi á Íslandi reglu Ágústínusarkanoka og gerðist ábóti en var síðast biskup í Skálholti frá 1178. Hann vann að siðbót á Íslandi og reyndi að innleiða lög og venjur, sem kirkjan beitti sér fyrir í öðrum löndum. Hann var árið 1198 tekinn í helgra manna tölu á Alþingi, og 1984 útnefndi páfastóll hann verndardýrling Íslands. Uppruni. Þorlákur fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Foreldrar hans hétu Þórhallur Þorláksson og Halla Steinadóttir. Einnig eru nefndar tvær dætur þeirra, sem hétu Eyvör og Ragnheiður. Það er að skilja, að þetta hafi verið fremur fátækt fólk, því að „Þorlákur var þá ungur að aldri, er þau brugðu búi sínu, faðir hans og móðir." Hann fylgdi móður sinni, og hún var hjá honum á efri árum sínum. Halla kenndi syni sínum ættvísi og mannfræði. Þórhallur hafði verið farmaður, en að öðru leyti er fátt um foreldra Þorláks vitað, nema ættartölur rekja framætt þeirra. Þær ná ekki til hinna frægustu manna úr sögu landsins, þótt sumir séu allkunnir. Þannig var Þorgils örrabeinsstjúpur langa-langafi Þorláks, sem hefur verið þekkt ætt á Suðurlandi. Að því marki sem "frændur" biskupsins eru nefndir í sögu hans og jarteinum, virðast ýmsir þeirra hafa verið fátækt fólk. Nám og prestsþjónusta. Þorlákur lærði fyrst í Odda hjá Eyjólfi Sæmundssyni fróða. Hann „tók vígslur þegar á unga aldri allar, uns hann varð djákni af Magnúsi biskupi, en hann var þá fimmtán vetra gamall, er biskup andaðist." Magnús Einarsson biskup fórst haustið 1148, og nýr biskup var ekki vígður til Skálholts fyrr en vorið 1152. Á þeim tíma gerðist fátt kennimanna syðra, svo að Björn Gilsson Hólabiskup var fenginn til að vígja hóp manna prestsvígslu á Alþingi. Þar á meðal var Þorlákur, sem hefur vantað mörg ár í venjulegan lágmarksaldur presta, sem var 25 ár. Sú undanþága skýrist sjálfsagt bæði af þessum erfiðu aðstæðum og góðum undirbúningi og hæfni piltsins. Ef hann vígðist sumarið 1152, var hann 19 ára gamall, sem er mikið frávik frá reglunum, og því meira væri það, ef giskað er á eitthvert árið næst á undan. Sem prestur tók Þorlákur sér í fyrstu „lítil þing, fésöm, og hafði þau nokkra stund, og varð honum bæði gott til fjár og vinsælda, af því að nálega unni honum hugástum hvert barn, er hjá honum var." Tíminn leyfir varla, að hann hafi gegnt þessari þjónustu í sérlega mörg ár, þótt misserum kunni að skipta, enda segir það ekki heldur í sögu Þorláks, né eru raktir neinir sérstakir atburðir í sambandi við þennan tíma. Viktorsklaustrið í París árið 1655. Þorlákur fór síðan utan og lærði í París og Lincoln á Englandi. Hann var sex vetur í þessari ferð, sem væntanlega gerðist á árabilinu 1155 – 1160 með litlum vikmörkum í báðar áttir. Eyjólfur fóstri Þorláks dó árið 1158. Hann hafði efni til að styrkja piltinn til siglingar og hefur af sínum föður vitað ýmislegt um nám í Frakklandi. Þess hefur verið getið til, að Þorlákur hafi lært í skóla Viktorsklaustursins í París, sem var frægur og þótti ágætur, en klaustrið heyrði til Ágústínusarreglu, var í strangara lagi og beitti sér fyrir siðbót innan kirkjunnar. Þetta hafa Ásdís Egilsdóttir og fleiri rökstutt. Þar lærðu nokkrir forystumenn í norsku kirkjunni, til dæmis báðir erkibiskuparnir Eysteinn og Eiríkur. Í París var einnig kunnur dómkirkjuskóli. Honum stjórnaði Petrus Lombardus (d. 1160), virtur guðfræðingur og síðast skamma stund biskup í París. Á þessum árum var Róbert de Chesney (d. 1166) biskup í Lincoln, athafnasamur maður og þótti standa framarlega í kirkjulögum. Hann hafði verið kanoki og hafði marga lærða menn í þjónustu sinni. Eftir að Þorlákur kom aftur til Íslands, var hann fyrst „með frændum sínum nokkra vetur og hafði þá mjög góðan fjárhlut með höndum", en ekki leyfir tíminn, að það hafi verið margir vetur. Frændurnir álitu, að hann væri fémaður og forsjármaður um flest og eggjuðu hann að biðja sér virðulegrar ekkju, sem bjó í Háfi í Rangárþingi. Þorlákur fór með þeim þangað, og birtist honum þá í draumi göfuglegur maður í sæmilegum búningi, sem mælti: „Veit eg, að þú ætlar þér hér konu að biðja, en þú skalt það mál eigi upp láta koma, af því að það mun eigi ráðið verða, og er þér önnur brúður miklu æðri huguð, og skaltu engrar annarrar fá." Þegar Þorlákur vaknaði, var hann svo horfinn frá þessu máli, að hann bað sér aldrei konu þaðan í frá. Á þessum tíma hafði sú skipan ekki fest rætur á Íslandi og aðeins að takmörkuðu leyti í næstu löndum, að prestar skyldu lifa einlífi, eins og klaustrafólk. Næst gerðist Þorlákur í sex vetur prestur í Kirkjubæ á Síðu og þjónaði með öðrum presti, sem hét Bjarnhéðinn og var sagður ágætur kennimaður, vitur og vinsæll. „Fór það víða um héruð, hversu ólíkir þeir þóttu flestum mönnum vera í sínum framferðum. Var það þá þegar viturra manna mál, að hvergi myndi vera vænna til að leita en þar, þótt mann þyrfti að ráða til hins mesta vanda á Íslandi...", stendur í "Þorláks sögu". Þessi dvöl í Kirkjubæ hefur verið nálægt árunum 1162 – 1168. Þorlákur "kvaðst aldrei sínu ráði betur hafa unað en þá sex vetur, er hann var í Kirkjubæ." Klausturstofnun á þeim bæ í biskupstíð hans varð honum áreiðanlega gleðiefni. Príor og ábóti. Þorlákur tók árið 1168 þátt í að stofna Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri. Hann var í upphafi príor í klaustrinu, uns hann tók um 1170 vígslu sem ábóti. Þarna var regla Ágústínusarkanoka, sem hafði ekki fyrr verið fylgt á Íslandi. „Menn fóru til kanokaseturs Þorláks ábóta úr öðrum munklífum eða reglustöðum, bæði samlendir og útlendir, að sjá þar og nema góðu siðu, og bar það hver frá, er þaðan fór, að hvergi hefði þess komið, að það líf þætti jafn fagurlega lifað sem þar, er Þorlákur hafði fyrir séð." Á þessum tíma voru líklega hafskipasiglingar til Vestur-Skaftafellssýslu. Höfnin hét Minþakseyri. Á korti frá 1595 finnst hún með réttu eða röngu staðsett vestan Kúðafljóts, en þar stóð klaustrið. Satt getur því verið sagt um útlenda gesti, sem hefði auðveldað Þorláki að fá fréttir frá vinum sínum erlendis og halda sambandi við þá, auk þess sem aðdrættir til klaustursins eftir efnum þess og önnur viðskipti hefðu mátt teljast greið. Á árum Þorláks sem ábóti varð þess vart, að fólk varð heilbrigt eftir blessun hans og yfirsöngva en búfé læknaðist af vatnsvígslum hans. Þorlákur vígði nýjan ábóta eftir sig árið 1178. En frá árinu 1175 hafði hann varla tækifæri til að vera langdvölum í klaustri sínu. Biskupskosning og vígsla. Mynd:Trondheim-cathedral.jpg|thumb|right|275px|Niðarósdómkirkja, sem var í smíðum, þegar Þorlákur vígðist. Stytta hans er Þorlákur var kjörinn biskup á Alþingi 1174, eftir að erkibiskup gerði orð, að kjósa skyldi nýjan Skálholtsbiskup. Einnig voru nefndir í biskupskjörinu Ögmundur Kálfsson ábóti í Flatey og Páll Sölvason prestur í Reykholti. Þorlákur hafði sig lítið í frammi. Þorkell Geirason mælti með honum og sagði: „Meir kostgæfir Þorlákur að gera allt sem best en mæla sem flest." Kosningu var loks skotið til hins fráfarandi biskups, Klængs Þorsteinssonar, sem valdi Þorlák til utanferðar og biskupsvígslu. Þorlákur var ekki vígður fyrr en í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann hafði í fyrstu farið aftur til klausturs síns, en fjárhagir í Skálholti gerðust óhægir og Klængur biskup máttlítill, svo að hann fór loks þangað og hafði þó á biskupsstólnum „mikla skapraun, bæði af viðurvist manna og öðrum óhægindum, þeim er hann átti um að vera, og bar hann þær allar þolinmóðlega." Meðal annars gæti átt við, að Ingveldur Þorgilsdóttir, barnsmóðir og frænka Klæmgs biskups, hafi verið þar viðloðandi, en barneign þeirra var líklega helsta ástæða biskupaskiptanna. Loks dó Klængur 28. febrúar 1176. Hættuspil þótti á þeim misserum að sigla, því að ófriður var á milli Íslendinga og Norðmanna, en Þorlákur tók af skarið sumarið 1177 og kvaðst ekki skelfast ótta vondra manna. Þorlákur tók biskupsvígslu af Eysteini Elendssyni erkibiskupi, en auk hans tóku þátt í henni Eiríkur Ívarsson biskup í Stafangri, sem síðar varð erkibiskup, og Páll biskup í Björgvin. Eysteinn vildi forðast að vígja Íslendingum biskup í trássi við Magnús konung og föður hans, Erling jarl, og bar góð orð á milli. Þeir samþykktu um síðir vígsluna, tóku Þorláki vingjarnlega og skiptust á gjöfum við hann. „Og hafði Sverrir konungur það uppi, er bæði var merkur í máli og spakur að mannviti, að þeim feðgum hefði þá allir hlutir léttast gengið, er þeirra var vingan á milli og Þorlákur var þar í landi, bæði í sóknum og nálega velflest annað." Það mátti Sverrir best vita, því að hann barðist þá til ríkis gegn þeim. Starfsferill. Þorlákur vildi efla kirkjuvald á Íslandi og deildi hart við veraldlega höfðingja, þar á meðal Jón Loftsson í Odda, um forræði yfir kirkjueignum. Kallast það staðamál fyrri. Ítrekað lá nærri, að vopn væru borin á biskup, en óskelfdur var hann jafnan. Honum gramdist, að Jón tók Ragnheiði systur hans frillutaki (sonur þeirra var Páll, eftirmaður Þorláks á biskupsstóli). Loks vægði Jón, og hún var gift Arnþóri austmanni. Aldrei greri þó um heilt á milli Jóns og biskups. Á þessum tíma var Brandur Sæmundsson Hólabiskup. Heimildir greina naumast, að hann hafi blandað sér í átakamál. En árið 1198 tók hann af skarið, að Þorlákur væri heilagur maður. Í biskupstíð Þorláks bannaði kirkjan, að goðorðsmenn fengju prestsvígslu. Hann gekk ríkt eftir siðferðismálum, að menn héldu til dæmis ekki frillur, og við hann eru kennd boð um skriftir. Hann hefur talið fólki hollt að gera allmiklar kröfur til sín, fyrirmæli þessi sem sagt álitin í strangara lagi. Sömuleiðis eru kennd við Þorlák föstuboð. Nokkrir máldagar kirkna eru ennfremur eignaðir honum. Öll þessi skjöl, auk heldur bréf frá Eysteini erkibiskupi, eru prentuð í "Íslensku fornbréfasafni". Einnig tóku gildi árið 1179 samþykktir þriðja kirkjuþingsins í Lateran. Þorláks er einna helst minnst fyrir að reyna að bæta siðu presta og almennings. Þrátt fyrir deilur, þótti hann fara vel með vald sitt, og góður fésýslumaður var hann álitinn. Í biskupstíð Þorláks var 1186 stofnað fyrsta nunnuklaustur á Íslandi, Kirkjubæjarklaustur. Daglegir hættir. Eftir að Þorlákur kom aftur í Skálholt, var fyrsta verk hans „að semja þá af nýju heimamanna siði og hýbýla háttu, þá er héldust um hans daga vel í mörgu lagi". Þótt orðinn væri biskup, hélt hann nálega í öllu kanokareglu, bæði í klæðabúnaði, vökum, föstum og bænahaldi. Hann kenndi prestsefnum, og „jafnan var hann að riti og ritaði ávallt helgar bækur... voru hans varir aldrei kyrrar frá Guðs lofi og bænahaldi..." Á morgnana var vani Þorláks að syngja „fyrst "Credo" og "Pater noster" eftir það, er hann hafði signt sig, og hymnann "Jesu nostra redemptio"... Þá söng hann Gregoriusbæn, á meðan hann klæddi sig, og þar eftir hinn fyrsta sálm úr saltara... En er hann kom til kirkju, söng hann fyrst lof Heilagri Þrenningu. Eftir það lofaði hann með söngvum þá heilaga menn, er kirkjan var vígð, sú er þá var hann í... Síðan las hann Maríutíðir, og eftir það lagðist hann niður fyrir altari allur til jarðar, þá er eigi var heilagt, og bað lengi fyrir allri Guðs kristni, og hvern dag söng hann þriðjung saltara umfram vanasöng sinn, hvort sem hann var heima eða eigi, og söng fleira milli sálma en aðrir menn. Hann söng fyrst "Gloria Patri" af Heilagri Þrenningu, þá næst "Misere mei Deus", þá "Salvum fac Pater et Domine" fyrir öllu kristnu fólki. En ef honum báru til vandamál, söng hann það vers, sem Salómon hinn spaki bað til Guðs á sínum dögum: "Mitte mihi, Domine, auxilium de sancto." En er hann gekk frá matborði, söng hann: "Benedicam Dominum in omni tempore". En er hann afklæddist til svefns, söng hann... "Domine, quis habitabit", og var honum mikið yndi að halda slíkar venjur og vænti, að nokkur mundi eftir hans háttum víkja..." Biskupi „var málið stirt og óhægt", þótt orðin væru sæt og vel saman sett, og var það vinum hans „mikil mannraun". Ef hann stamaði, verður slíks síður vart í söng en mæltu máli. Postulleg vígsluröð. a> sig fyrir valdi hans, sem gerðist árið 1177. Postulleg vígsluröð biskupanna þykir varða miklu í rómversk-kaþólsku kirkjunni. Hún er nokkurs konar „andleg ættartala" allar götur til postulanna. Ekki er hér rakið lengra en svo, að Þorláki megi af eigin raun hafa verið kunnug kirkjustefna fyrirrennara sinna. Á þessum árum snérist hún um allmiklar breytingar, oftast kallaðar umbætur, ekki síst að stemma stigu við stjórnsemi aðals og höfðingja í málefnum kristni og kirkju og bæta siðferði. Andlát. Á biskupsárum sínum bjó Þorlákur við „margfalda vanheilsu", og síðast langaði hann til að „gefa upp biskupsdóminn og ráðast aftur undir hina sömu kanokareglu. En allsvaldandi Guð lét þetta því eigi framgengt verða, að hann sá hreinlífi hans og góðlífi vel nægjast honum til heilagleika, þó að hvergi minnkaði hans tign fyrir manna augum, sú er hann hafði honum gefið". Þorlákur lauk haustið 1193 við að vísitera þann landsfjórðung, sem næstur honum var. En í ferðinni tók hann þá sótt, sem dró hann til bana. Hann „lá þrjá mánuði í rekkju og hafði þunga sótt, en aldrei svo harða verki, að hann mætti eigi fyrir öllu ráð gera og skipa, sem hann vildi". Meðal annars kom til hans Þorvaldur Gissurarson, og reiknaði þá „Þorlákur fyrir kennimönnum og höfðingjum fjárhagi staðarins, og hafði allmikið græðst, meðan hann hafði fyrir ráðið... Sjö náttum fyrir andlát sitt kallar hann til sín lærða menn og lét olea sig, og áður hann væri smurður talaði hann langt erindi, þó honum væri málið erfitt..." Hann lauk ræðu sinni með þessum orðum: „Harmið eigi, þó að skilji vorar samvistir, því að eg fer eftir mínum forlögum. Hefi eg jafnan til lítils fær verið, ef eigi hefðu aðrir mér hjálpað. Er yður lítill skaði að mér, en næst eftir mig mun koma mikill höfðingi. Vil eg yður í því hugga, að eg þykjumst víst vita, að eigi mun Guð mig helvítismann dæma." Síðustu orð Þorláks voru þau, að hann beiddist að drekka. Eftir dauðann þóttu ásjóna hans og augu mjög björt. Hann hafði haft mörg sár stór og smá á líkamanum, en þau voru öll gróin. Lík biskups var borið til kirkju og látið standa í kór í þrjár nætur. Margir voru viðstaddir útförina. Gissur Hallsson talaði yfir moldum biskupsins. Dýrlingur. Þorláksstytta í Kristskirkju í Landakoti. Þorlákur fékk snemma á sig orð sem helgur maður sem gott var að heita á. Hann var tekinn í dýrlinga tölu á Íslandi og áheit á hann leyfð árið 1198. Páll Skálholtsbiskup lýsti því yfir í lögréttu á Pétursmessudag 29. júní. Bein Þorláks voru tekin upp 20. júlí það sama ár. Þá voru komnir í Skálholt þeir Brandur Hólabiskup og Guðmundur prestur Arason, eins og segir í sögu hins síðarnefnda, en hann réð mestu, hvað sungið var við athöfnina. Þorlákur á tvo messudaga á ári: dánardag sinn, Þorláksmessu á vetri 23. desember, og Þorláksmessu á sumri 20. júlí. Þá voru sungnar Þorlákstíðir. Einnig var samin Þorláks saga, sem er til í nokkrum gerðum. Og fjölmörgum sögum um kraftaverk, sem eignuð voru árnaðarorði hans, var safnað saman í Jarteinabækur Þorláks helga. Páll biskup lét gera mikið og vandað Þorláksskrín, sem fór forgörðum eftir siðskipti. Sagt er, að smábrot af helgum dómi biskupsins sé varðveitt í vegg Magnúsardómkirkju í Færeyjum. Búast má við, að kirkjur, sem helgaðar voru Þorláki eða hans var sérstaklega minnst í, svo sem Niðarósdómkirkja, hafi einnig fengið að gjöf einhvern helgan dóm tengdan biskupinum, þótt vitneskju um það skorti. Heilagur Þorlákur þótti vera dýrlingur alls almennings og bera fram árnaðarorð fyrir snauða ekki síður en ríka, eins og hann í jarðlífinu "lagði mikla stund á að elska fátæka menn. Klæddi hann kalna en fæddi hungraða... lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir, tólf eða níu eða sjö, og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerraði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu, áður á brott færi." Sagt er, að sums staðar í Noregi hafi fátækt fólk átt jafnvel auðveldara með að snúa sér til hans en heilags Ólafs konungs. Og í færeyskri þjóðtrú varð heilagur Þorlákur að nokkurs konar jólasveini. Þar var, eins og á Íslandi, venja að kalla 23. desember Þorláksmessu. Jóhannes Páll páfi II. útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands 14. janúar 1984. Þannig lagði hann „réttilega áherslu á, að nærvera trúarinnar mótar" þetta land, sagði Benedikt páfi XVI. Kirkjur helgaðar Þorláki. Þorlákur helgi er verndari Kristskirkju í Reykjavík. Kaþólska kirkjan á Íslandi kennir við hann "heilags Þorlákssókn" í Reyðarfirði, sem var stofnuð 28. júlí 2007 og nær yfir Austur-Skaftafellssýslu og báðar Múlasýslur, en sóknarkirkja og klaustur eru á Kollaleiru. Fyrir siðskipti voru meira en fimmtíu íslenskar kirkjur helgaðar heilögum Þorláki. Hin elsta þeirra mun hafa staðið á Stóra-Hofi á Rangárvöllum, og vígsla hennar tengist jartein, sem fólk áleit vera. Kauptúnið Þorlákshöfn í Árnessýslu dregur nafn af biskupinum. Sagt er, að þar hafi áður verið bærinn Elliðahöfn, en í sjóhrakningi hafi bóndinn heitið á Þorlák að breyta nafninu, ef skip hans næði landi. Hitt kann þó að vera eldra, að bærinn hafi fengið nafn af kirkjunni á þeim stað, sem var helguð Þorláki. Enn ber guðshús þjóðkirkjunnar í Þorlákshöfn heiti hans. Sink. Sink (úr þýsku, "zinke", „hvasst, skörðótt“) er frumefni með efnatáknið Zn og er númer 30 í lotukerfinu. Það er fyrsta frumefnið í flokki 12. Efnafræðilega svipar því til magnesíns af því að jón þess er af svipaðri stærð og eina algenga oxunartala þess er +2. Sink er 24. algengasta frumefnið í jarðskorpunni og á sér fimm stöðugar samsætur. Sink er mest unnið úr málmgrýtinu sinkblendi sem er sinksúlfíð. Stærstu námurnar eru í Ástralíu, Kanada og Bandaríkjunum. Það er unnið með fleytingu, brennslu og úrvinnslu með raflausnarmálmvinnslu. Almennir eiginleikar. Sink er nokkuð hvarfgjarn málmur sem binst við súrefni og aðra málmleysingja og verkar á daufar sýrur með því að losa um vetni. Eina algenga oxunarstig sinks er +2. Notkun. Sink er fjórði algengasti málmurinn í notkun í dag, á eftir járni, áli og kopar í magni tonna framleiddum ár hvert. Málmur. Málmur í skilningi efnafræðinnar er frumefni, sem myndar auðveldlega jónir (katjónir) og hefur málmtengi. Málmar eru einn þriggja meginflokka frumefna sé flokkað eftir jónunar- og bindieiginleikum, ásamt málmungum og málmleysingjum. Í lotukerfinu skilur skálína sem dregin er frá bóri til pólons á milli málma og málmleysingja. Frumefni á þessari línu eru málmungar, stundum kallaðir hálfmálmar; frumefni neðar til vinstri eru málmar; frumefni ofar til hægri eru málmleysingjar. Málmleysingjar eru algengari í náttúrunni en málmar þrátt fyrir að málmar séu aðaluppistaða lotukerfisins. Sumir vel þekktir málmar eru ál, blý, gull, járn, kopar, silfur, sink, títan og úran. Fjölgervingar málma eiga það til að vera gljáandi, þjálir, sveigjanlegir og góðir leiðarar á meðan málmleysingjar (á föstu formi) eru yfirleitt stökkir, skortir gljáa og eru einangrarar. Efnislegir eiginleikar. Málmar hafa ákveðna efnislega eiginleika: þeir eru yfirleitt gljáandi (þeir „ljóma“), hafa háan eðlismassa, eru sveigjanlegir og þjálir, hafa yfirleitt hátt bræðslumark, eru yfirleitt harðir og leiða rafmagn og varma vel. Þessir eiginleikar eru aðallega vegna þess að atómið hefur aðeins laust tak á ystu rafeindum (gildisrafeindum) sínum; af þessum sökum mynda gildisrafeindirnar eins konar „sjó“ í kringum málmjónin. Flestir málmar eru efnafræðilega stöðugir (óhvarfgjarnir), fyrir utan alkalímálma og jarðalkalímálma, sem finnast lengst til vinstri í lotukerfinu. Málmblöndur. Málmblanda er efnablanda með málmkennda eiginleika sem inniheldur að minnsta kosti eitt málmfrumefni. Dæmi um málmblöndur eru stál (járn og kolefni), látún (eir og sink), brons (eir og tin), harðál (ál og eir). Málmblöndur eru sérhannaðar fyrir þær aðstæður sem þær eiga að duga við. Blöð þotuhreyfils getur t.d. innihaldið meira en tíu frumefni. Málmoxíð. Oxíð málma eru basísk; oxíð málmleysingja eru súr. Teygjanleiki. Teygjanleiki er sá efnislegi eiginleiki að geta þolað mikla óafturkræfa bjögun án þess að mynda sprungur eða brotna (eins og til dæmis þegar málmur er dreginn í vír). Það einkennist af því að efnið flæðir undir skúfspennu. "Teygjanlegt" efni er hvaða efni sem er sem að bregst undir skúfspennu. Gull, kopar og ál eru gríðarlega teygjanlegir málmar. Mótanleiki. Mótanleiki er hæfileiki efnis (sérstaklega málma) til afmyndunar eða mótunar án þess að sprungur myndist í því. Mótun fer oftast fram við hömrun eða völsun. Mótanleiki er mikilvægur eiginleiki við plötupressun og þrykkingu plasts og málma. Gull er mótanlegasti málmurinn, á undan áli. ReykjavíkurAkademían. ReykjavíkurAkademían er félag sjálfstætt starfandi fræðimanna sem stofnað var árið 1997. Hlutverk félagsins er vera „akademía“ í merkingunni vísindasamfélag þar sem fólk sem stundar rannsóknir á eigin vegum getur fengið vinnuaðstöðu og stuðning af öðrum í sömu sporum. Tilgangurinn er að skapa umhverfi fyrir þá vísindamenn sem starfa sem einyrkjar eða laustengdir rannsóknar- og kennslustofnunum eins og Háskóla Íslands. Félagið leigir húsnæði á efstu hæðum JL-hússins við Hringbraut í Reykjavík og framleigir skrifstofur til um 100 fræðimanna. Mun fleiri eru þó félagar. Félagið rekur Bókasafn alþýðu (bókasafn Dagsbrúnar) í húsnæðinu við Hringbraut. Félagið stendur fyrir nokkrum ráðstefnum og málþingum um aðskiljanleg efni á hverju ári og heldur semínar á hverjum miðvikudegi þar sem einhver fræðimaður kynnir rannsóknir sínar. Saga félagsins. ReykjavíkurAkademían varð til sem félag sjálfstætt starfandi fræðimanna árið 1997. Til að byrja með var lögð höfuðáhersla á að finna húsnæði fyrir starfsemi félagsins, sem náðist sumarið 1998 þegar Siglingastofnun Íslands flutti út úr JL-húsinu og íslenska ríkið var með bindandi leigusamning við eigendur. Háskóli Íslands hafði þá áður hafnað húsnæðinu. Inn í húsnæðið fluttu þá þegar nokkrir fræðimenn, en fjölmennasti hópurinn til að byrja með voru sagnfræðingar, enda hefð fyrir einyrkjastarfsemi í þeirri grein. Einnig var mikið um að ungir vísindamenn sem voru nýkomnir heim úr námi erlendis nýttu sér aðstöðu félagsins. Lítil fyrirtæki með rannsóknartengda starfsemi nýttu sér einnig aðstöðuna. Merkantílismi. Merkantílismi eða kaupauðgisstefna er sú hagfræðistefna sem var ríkjandi meðal helstu verslunarþjóða heims frá sextándu til átjándu aldar. Hagfræðikenning merkantílisma byggir á því að efnahagsleg velferð ríkja felist í birgðum gulls og silfurs. Kenningin miðar út frá því að heildarauður viðskipta sé óbreytanlegur, þannig að gróði eins merki óhjákvæmilega tap annars. Samkvæmt kenningunni eiga ríkisstjórnir að sjá um virka efnahagsstjórn með því að stuðla að auknum útflutningi og söfnun góðmálma, en draga að sama skapi úr innflutningi, einkum með notkun vörutolla. Þessar hagfræðilegu hugmyndir koma frá þeirri kenningu að auður felst í góðmálaeign. Hugtakið merkantílismi var samið af hagfræðingnum Adam Smith árið 1776 þar sem hann leiddi hugtakið af latnesku orðunum "mercari" sem merkir “að eiga viðskipti” og "merx" sem þýðir “varningur”. Hugtakið var í upphafi aðeins notað af gagnrýnendum kenningarinnar en var fljótt tekið upp af sagnfræðingum sem sögulegt heiti þessarar hagfræðistefnu. Heildun með innsetningu. Heildun með innsetningu (eða "innsetningaraðferð") er aðferð við heildun sem felur í sér að "fela" hluta fallsins undir nýrri breytu. Fallið er svo heildað með þekktri aðferð og breytunni skipt út fyrir upprunalega gildið. formula_1 Í dæminu hér að ofan er breytistærðin "t" sett inn í staðin fyrir gildið "4 + 5x". "t" er svo diffruð til að skipta út "dx": "dt = t' = (4 + 5x)' = 5dx". Þessi aðferð er oft notuð til að koma föllum á form sem er þekkt og þægilegt að heilda. formula_2 Hérna er "t = 4x2 + 1" og þannig "dt = 8x dx". Þessi aðferð hentar einkar vel hér til að einfalda annars illa útlítandi dæmi. Innsetningaraðferð er hægt að nota við ákveðin heildi líkt og óákveðin. formula_3 Athugið að með ákveðin heildi er óþarfi að setja upprunalegu stærðina inn aftur, svo framarlega sem útgildunum(?) sé breytt þannig að miðað sé við nýja breytistærð. Í dæminu hér að ofan er "t = 8x" svo efra markið breytist úr 1 yfir í 8. Nefskattur. Nefskattur er skattur sem leggst jafnt á alla einstaklinga, óháð tekjum eða eignum hvers og eins. Ólíkt tekjuskatti eða eignaskatti, þar sem ákveðið prósentuhlutfall tekna eða eigna er tekið til skatts, þá greiða allir einstaklingar fasta fjárupphæð. Kostir nefskatts eru þeir að álagning er einföld í sniðum og auðvelt er að fylgjast með skattgreiðslum. Auk þess er álagning nefskatts ekki vinnuletjandi líkt og oft er með tekjuskatt. Ókostir nefskatts eru hins vegar þeir að greiðslukvaðir leggjast misþungt á einstaklinga, þannig að þeir tekjulægstu greiða hæst hlutfall tekna og eigna. Vegna þessa misræmis í hlutfallslegri skattgreiðslu þeirra tekjulægstu og tekjuhæstu er sjaldgæft að skattayfirvöld leggi á nefskatt. Nefskattar voru innheimtir í mörgum ríkjum á 19. öld en hafa nú lagst af að mestu. Frægt dæmi um nefskatta eru til dæmis skattur sem áður var innheimtur af kjósendum í sumum hlutum Bandaríkjanna sem leynt eða ljóst var ætlaður til að fæla efnalítið fólk frá því að kjósa. Í Bretlandi eru tvö fræg dæmi um álagningu nefskatts sem í bæði skiptin leiddi til mikils óróa og jafnvel uppþota. Annar var lagður á í tíð Ríkharðs II á 14. öld og hinn í forsætisráðherratíð Margaret Thatcher á 20. öld. Notre Dame. Notre Dame kirkjan í París (oft nefnd Maríukirkjan í París á íslensku) (franska: "Notre Dame de Paris") er dómkirkja í París, höfuðborg Frakklands, helguð Maríu mey. Kirkjan var reist á árunum 1163 til 1345, og stendur á eystri hluta Île de la Cité í París. Kirkjan er ein af vinsælustu kirkjum hér í dag. Skotbakvörður. Skotbakvörður er leikstaða í körfuknattleik. Hún er yfirleitt skipuð lágvaxnari, léttari og sneggri einstaklingi en framherjar. Hann er oftar en ekki besta skyttan í liðinu, en getur einnig keyrt að körfunni. Margir skotbakverðir geta einnig leikið stöðu lítils framherja. Michael Jordan, einn þekktasti körfuknattleiksmaður sögunnar, var skotbakvörður, og hjálpaði til að við skilgreina stöðuna eins og hún er í dag. Aðrir frægir skotbakverðir fyrri tíma eru m.a. Clyde Drexler, Jerry West, Walt Frazier og John Havlicek. Meðal skotbakvarða sem eru að spila í dag má nefna, Kobe Bryant, Tracy McGrady, Ray Allen og Dwyane Wade. Af íslenskum skotbakvörðum má m.a. nefna Pálmar Sigurðsson, Helga Jónas Guðfinnsson, Guðjón Skúlason, Magnús Þór Gunnarsson og Herbert Arnarson. Myndakorkur. Myndakorkur er nokkurskonar spjallþráður sem er aðallega gerður til að senda inn myndir. Bæði er hægt að finna myndir sem eru teiknaðar af notendum eða myndir annars staðar frá. Netþjónarnir sem að hýsa þessa korka geta þurft að sinna mikilli bandvídd en þeir geta verið að anna um 2 TB á mánuði. Þekktir myndakorkar. Futaba Channel er einna þekktastur og er nær allur á japönsku. 4chan er nokkurskonar staðgengill Futaba Channel handa enskumælandi notendum. Útaf mikilli notkun japana á síðunni hefur verið lokað fyrir aðgang frá japönskum netþjónum án sérstaks leyfis. Án efa stærsti flokkurinn innan 4chan er hinn alræmdi b-flokkur sem stendur fyrir slembni (e. random). Hann hentar fyrir nánast hvað sem er. Iichan var staðgengill fyrir 4chan þegar sá vefur lagðist niður tímabundið en hélt síðan áfram eftir að 4chan kom aftur. WAKAchan var síðan staðgengill fyrir Iichan en kom út með miklu meiri framlögum notenda en allir hinir enskumælandi myndakorkarnir síðan voru WAKAchan og Iichan sameinaðir. 5chan var annar myndakorkur aðallega fyrir hentai myndir en stóð ekki lengi uppi. Ringulreið lifði ekki lengi en hún var íslenskur myndakorkur í anda 4chan. Níóbín. Níobín (einnig "kólumbíum") er frumefni með efnatáknið Nb og er númer 41 í lotukerfinu. Sjaldgæfur, mjúkur, grár, sveigjanlegur hliðarmálmur, níóbín finnst í níóbíti og er notað í málmblöndur. Það er notað til að búa til sérstakt stál og í sterk samskeyti. Níóbín var uppgötvað í ýmsum tegundum kólumbítis (nú kallað níóbít) og var fyrst nefnt eftir þessari steintegund. Almenn einkenni. Níobín er gljáandi grár, linur málmur sem að tekur á sig bláleitann blæ þegar það kemst í snertingu við loft við stofuhitastig í langvarandi tíma. Efnafræðilegir eiginleikar níóbíns eru næstum þeir sömu og tantals, sem að finnst fyrir neðan það í lotukerfinu. Þegar það er verkað, jafnvel við meðalhita, verður að hafa það í vernduðum lofthjúp. Níobín byrjar að oxast í lofti við 200°C og oxunarstig þess eru +2, +3 og +5. Notkun. Níóbín hefur ýmis not: það er notað í sumar tegundir af ryðfríu stáli og málmblöndur með ójárnblönduðum efnum. Þessar málmblöndur eru sterkar og eru oft notaðar til byggingar leiðslukerfa. Önnur not; Níóbín breytist í ofurleiðara þegar það er kælt niður á lághitafræðilegt hitastig. Við staðalþrýsting hefur það hæsta markhita allra frumefnaofurleiðara, 9.3 K. Að auki er það eitt af þremur ofurleiðurum frumefna sem að haldast ofurleiðarar í viðurveru sterks segulsviðs (hin tvö eru vanadín og teknetín). Níóbín-tin og níóbín-títan málmblöndur eru notaðar í víra fyrir ofurleiðandi segulstál sem að geta mynda gríðarlega sterk segulsvið. Nifteind. Nifteind er þungeind með enga rafhleðslu og massa upp á 939,6 MeV/c² (1,6749 x 10-27 kg, rétt meiri en róteind). Spuni hennar er ½ og hún flokkast því til fermíeinda. Kjarni allra frumeinda samanstendur af róteinda og nifteindum (fyrir utan algengustu samsætu vetnis, sem að samanstendur ef einungis einni róteind). Nifteind og róteind kallast kjarneindir. Mismunurinn á massa- og sætistölu frumeindar (formula_1) gefur fjölda nifteinda í kjarnanum. Almennir eiginleikar. Fyrir utan kjarnann eru nifteindir óstöðugar og hafa meðallíftíma upp á 866 sekúndur (um 15 mínútur). Þær hrörna, með því að gefa frá sér rafeind og andfiseind, yfir í róteind. Nifteindir í þessu óstöðuga formi eru kallaðar frjálsar nifteindir. Þetta sama hrörnunarferli (betahrörnun) gerist einnig í sumum kjörnum. Eindir innan kjarnans sveiflast á milli nifteinda og róteinda, sem að breytast í hvor aðra við útgeislun og ísog á píeindum. Nifteind er flokkuð sem þungeind og samanstendur af tveimur "niður" kvörkum og einum "upp" kvark. Jafngildi nifteindar í andefni er andnifteind. Sá eiginleiki nifteinda sem skilur þær frá öðrum algengum öreindum er sú staðreynd að þær hafa enga hleðslu. Þessi eiginleiki seinkaði uppgötvun þeirra, gerir þær mjög gegnsmjúgandi, gerir það ókleift að athuga þær beint, og gerir þær mjög mikilvægar sem aðili í kjarnabreytingu. Þrátt fyrir að frumeindir í eðlilegu ástandi eru líka hleðslulausar, eru þær tíuþúsund sinnum stærri en nifteind og samanstanda af flóknu kerfi neikvætt hlaðinna rafeinda, sem að eru dreifðar utan um jákvætt hlaðinn kjarna. Hlaðnar öreindir (eins og til dæmis róteindir, rafeindir og alfaeindir) og rafsegulgeislun (eins og til dæmis gammageislar) tapa orku er þær fara í gegnum efni. Þau beita rafkröftum sem að jóna frumeindirnar sem að þau fara í gegnum. Orkan sem að er tekin af þessari jónun jafngildir orkunni sem að tapast af hlöðnu eindinni, sem að hægist, eða af gammageislanum, sem að er gleypt. Nifteindin, hins vegar, er ósnert af slíkum kröftum; einu kraftarnir sem að hafa áhrif á hana eru sterki- og veiki kjarnakrafturinn sem að koma eingöngu í spilið mjög nálægt frumeindakjarnanum. Að þeim sökum getur frjáls nifteind ferðast langar leiðir áður en að hún lendir í árekstri við frumeindakjarna. Af því að kjarnar hafa mjög lítið þversnið gerast slíkir árekstrar mjög sjaldan. Ef að fjaðrandi árekstur kemur fyrir, gilda venjuleg lögmál yfir skriðþunga á sama hátt og þegar knattsborðskúlur skella saman. Ef að kjarninn sem að slæst í er þungur, bætir hann við sig frekar lítinn hraða. En ef nifteind slæst í róteind, sem að hefur næstum sama massa, kastast hún áfram með stóru broti af upprunalega hraða nifteindarinnar. Á hinn bóginn hægist á nifteindinni sem að því nemur. Aukaskot frá þessum árekstrum geta mælst því að þeir eru hlaðnir og mynda jónun. Þessi óhlaðna náttúra nifteinda gerir það ekki bara erfitt að greina þær heldur einnig að stýra þeim. Hlöðnum eindum er hægt að hraða, hægja á eða stefnubreyta með rafmagni eða segulsviði, sem að hafa næstum engin áhrif á nifteindir (segulsvið hefur örlítil áhrif á frjálsa nifteind sökum segulvægi hennar). Að auki, er eingöngu hægt að fá frjálsar nifteindir í gegnum niðurbrot kjarna; það er engin náttúruleg uppspretta þeirra. Eina leiðin sem að við höfum til að stjórna frjálsum nifteindum er með því að setja frumeindakjarna í veg þeirra svo þær hægist og stefnubreytast eða eru gleyptar í árekstrinum. Þessi áhrif hafa mikilvæga hagnýtingu í kjarnorkuofnum og kjarnorkuvopnum. Föngun frjálsra nifteinda skilar sér oft í nifteindaörvun sem að orsakar geislavirkni. Geisla af frjálsum nifteindum er hægt að fá úr nifteindauppsprettum með nifteindaflutning. Uppgötvun. Árið 1930 komust Walther Bothe og H. Becker í Þýskalandi að því að ef orkumiklar alfaeindir úr póloni féllu á sum létt frumefni, þá sérstaklega beryllín, bór eða litín, myndaðist mjög svo innsækin geislun. Fyrst var haldið að þessi geislun væri gammageislun þrátt fyrir að vera mun innsæknari en áður þekkt gammageislun, og niðurstöðum þessarar rannsóknar var erfitt að túlka á þessum grundvelli. Næsta mikilvæga framlag kom árið 1932 af Irène Joliot-Curie og Frédéric Joliot í París. Þau sýndu fram á að þessi óþekkta geislun féll á paraffín, eða hvaða annað efnasamband sem að inniheldur vetni, skutust út róteindir með mikilli orku. Þetta var í sjálfu sér ekki ósamkvæmt ályktaðri gammageislanáttúru þessarar nýju geislun, en nákvæm hlutfallagreining niðurstaðanna gerði það mjög erfitt að samrýma þá ágiskun. Seinna á sama ári gerði eðlisfræðingurinn James Chadwick í Englandi röð tilrauna til að sýna fram á að gammageislatilgátan væri óverjandi. Hann stakk upp á að þessi nýja geislun samanstæði af óhlöðnum eindum sem að hefðu um það bil sama massa og róteindin og framkvæmdi svo aðra röð tilrauna til að sannreyna tilgátu sína. Þessar óhlöðnu eindir voru svo seinna kallaðar nifteindir. Nýlegar rannsóknir. Tilvist stöðugra klasa af fjórum nifteindum eða fjórneifteindum hefur verið getið til af hópi eðlisfræðinga stýrðum af Francisco-Miguel Marqués frá CNRS Rannsóknastöð í Kjarneðlisfræði. Þessi tilvist er byggð á athugunum á niðurbroti beryllín-14 kjarna. Þetta er sérstaklega áhugavert því að gildandi kenningar segja til um að þessi klasar séu óstöðugir og ættu því ekki að vera til. Fáni Vatíkansins. Fáni Vatíkansins er fullkominn ferningur. Hann er gulur (gylltur) og hvítur (silfraður). Þessir litir tákna liti á lyklum Péturs postula. Fáninn var tekin í notkun 7. júní 1929, en það ár fékk Vatíkanið sjálfstæði. Leikstjórnandi (körfuknattleikur). Leikstjórnandi er ein af fimm leikstöðum í körfuknattleik. Leikstjórnandinn er venjulega minnsti maður liðsins og staðan er líklega sú sérhæfðasta innan liðsins. Leikstjórnandinn stjórnar sókninni, með því að stjórna boltanum og sjá til þess að réttur leikmaður fái hann á réttum tíma. Eftir að mótherjarnir skora, er það venjulega leikstjórnandinn sem kemur með boltann upp völlinn til að hefja nýja sókn. Góð yfirsýn yfir leikvöllinn og hæfileikar til að senda boltann eru nauðsynlegir til að geta spilað stöðuna. Góðir leikstjórnendur eru oft frekar metnir út frá fjölda stoðsendinga en skoraðra stiga. Samt sem áður ætti góður leikstjórnandi að búa yfir áreiðanlegu stökkskoti og að geta skorað af löngu færi. Meðal færustu leikstjórnenda heims í dag má nefna Steve Nash, Chauncey Billups, Jason Kidd, Grant Hill, Allen Iverson, Chris Paul og Derrick Rose. Meðal þekktra leikstjórnenda fyrri tíma eru Magic Johnson, Bob Cousy, Isiah Thomas, Gary Payton og John Stockton. Af íslenskum leikstjórnendum má nefna Jakob Örn SIgurðarson, Jón Kr. Gíslason, Fal Harðarson, Jón Arnór Stefánsson, Jón Arnar Ingvarsson, Tómas Holton, Pál Kolbeinsson, Eirík Önundarson og Friðrik Ragnarsson. Eingildi. Eingildi lýsir frumeindum með aðeins eina gildisrafeind, það er að segja, með gildistöluna 1. Öll frumefni í flokki 1 í lotukerfinu eru eingild. Dæmi um eingild fumefni eru til dæmis vetni og litín. Róteind. Róteind (áður kölluð prótóna) er þungeind með rafhleðslu upp á eina jákvæða einingu (kúlomb) og massann 939,6 MeV/c² (kg, eða um 1836 sinnum massi rafeindar). Spuni hennar er ½ þ.a. hún flokkast sem, fermíeind. Róteind telst stöðug, þar sem lægra mark helmingunartíma hennar er 1035 ár, þ.e. mörgum stærðargráðum meiri en aldur alheims. Til eru kenningar um að róteind hrörni. Kjarni algengustu samsætu vetnisfrumeindarinnar samanstendur af einni róteind. Kjarnar annarra frumeinda eru samsettir úr róteindum og nifteindum sem að haldið er saman af sterka kjarnakraftinum. Fjöldi róteinda í kjarnanum ákvarðar efnafræðilega eiginleika frumeindarinnar og hvaða frumefni það er. Róteind og nifteind kallast kjarneindir. Almennir eiginleikar. Róteindir eru flokkaðar sem þungeindir og eru samsettar úr tveimur "upp" kvörkum og einum "niður" kvark, sem að er líka haldið saman af sterka kjarnakraftinum, og miðlað af límeindum. Jafngildi róteindar í andefni er andróteindin, sem að hefur sömu, en neikvæða, rafhleðslu. Sökum þess að rafsegulkrafturinn er mörgum stærðargráðum sterkari en þyngdaraflið, verður hleðsla róteindarinnar að vera sú sama og gagnstæð hleðslu rafeindarinnar. Að öðrum kosti myndi nettófráhrinding, sökum of mikillar jákvæddar eða neikvæddar hleðslu, valda sjáanlegri útþenslu á alheiminum og á öllu efni sem að haldið er saman með þyngdarafli (plánetur, stjörnur, og svo framvegis). Í efnafræði og lífefnafræði getur hugtakið "róteind" átt yfir vetnisjónina, H+. Í þessu samhengi er róteindargjafinn sýra og viðtakandinn basi. Uppgötvun. Róteindin var uppgötvuð árið 1918 af Ernest Rutherford. Hann tók eftir því að þegar alfaeindum var skotið í niturgas, að sindurskynjararnir sýndu merki um viðurvist vetniskjarna. Rutherford reiknaði út að eini staðurinn sem að vetnið hafi getað komið frá væri nitrið og að þeim sökum hlyti nitur að geyma vetniskjarna. Hann stakk því upp á að vetniskjarninn, sem var vitað að hefði atómtöluna 1, væri öreind. Þessa öreind kallaði hann róteind. Tæknileg not. Róteindir geta verið til í mismunandi spunaástandi. Þessi eiginleiki er notaður í kjarnsegulhermunarrófgreiningu. Í KSH rófgreiningu er efni sett í segulsvið til að mæla skermum róteindanna í kjarna þessa efnis. Þessi skermun kemur til vegna áhrifa frá rafeindunum í kringum kjarnann. Vísindamenn geta þá notað þessar upplýsingar til að fá sameindabyggingu sameindarinnar sem verið er að rannsaka. Oft er reyndar talað um KSH rófgreiningu sem NMR greiningu þar sem það er skammstöfun á ensku orðunum "Nuclear Magnetic Resonance". Kjarneind. Kjarneind er heiti tveggja þungeinda, þ.e. nifteinda og róteinda, sem mynda frumeindakjarnann. Fjöldi kjarneinda í frumeindakjarna nefnist massatala frumeindarinnar, táknuð með "A", því að kjarneindirnar hafa massa sem að mjög nærri einum atómmassa. Fjölda róteinda í kjarnanum nefnist sætistala, táknuð með "Z". Samsætur hafa sömu sætistölu "Z" en ólíka massatölu "A" = "Z" + "N" vegna þess að fjöldi nifteinda, táknaður með "N", er breytilegur. Kjarneðlisfræði fjallar um víxlverkun kjarneinda frumeindakjarnans við aðrar öreindir. Kjarneindir auk rafeinda mynda frumeindir, og þar með sameindir, sem allt efni samanstendur af. Kjarnahvarf veldur breytingu á frumeindakjarna frumeindar eða sameindar, en efnahvarf hefur eingöngu áhrif rafeindirnar. Antoni Grabowski. Antoni Grabowski (11. juni 1857 í Nowe Dobre nálægt 322;mno – 4. juli 1921 í Varsjá) var pólskur efnaverkfræðingur og virkur í Esperanto-hreyfingunni í árdögum hennar. Þýðingar hans skiptu miklu máli við þróun Esperanto sem bókmenntamáls. Menntun og starfsferill. Stuttu eftir fæðingu hans flutti fjölskylda Grabowskis frá Nowe Dobre til Thorn (324;). Sökum fátæktar foreldra sinna varð Grabowski að byrja að vinna stuttu að hafa lokið barnaskóla. Þrátt fyrir það lærði hann fyrir og tók inntökupróf í framhaldsskóla, sem hann stóðst og vel það. Við Nicolaus Copernicusar-skólan í Thorn sýndi það sig að hann var langtum fróðari en flestir jafnaldrar hans og var tvisvar sinnum hækkaður upp um bekk. Árið 1879 bættist fjárhagur fjölskyldunnar og eftir að ljúka stúdentsprófi sínu gat Grabowski stundað nám í heimspeki og náttúrufræði við Háskólann í Breslau (322;aw). Eftir það vann hann sem efnaverkfræðingur í Zawiercie og og á nokkrum öðrum stöðum sem nú eru í Tékklandi, og í Ivanovo-Voznesensk í Rússlandi, 250 km fyrir norðan Moskvu. Á meðan hélt hann áfram rannsóknum sínum á efnafræðilegum vandamálum. Hann varð frægur á meðal sérfræðinga á því sviði um alla Evrópu fyrir ýmsar uppfinningar og tæknilegar nýjunar. Grabowski átti sæti í nefnd sem átti að þýða tæknileg heiti yfir á pólsku. Nokkrum árum síðar eða 1906 kom út bók hans "Słownik chemiczny," sem var fyrsta pólska efnafræðiorðabókin. Aserbaídsjan. Aserbaídsjan er ríki á Kákasusskaga í Kákasusfjöllum við vestanvert Kaspíahaf á mörkum Evrópu og Asíu. Á ensku er það Azerbaijan en á aserbaídsjönsku er það Azərbaycan. Það á landamæri að Rússlandi í norðri, Georgíu í norðvestri, Armeníu í vestri, Íran til suðurs og agnarlítil landamæri við Tyrkland. Um 90% þjóðarinnar eru Aserar. Höfuðborg Aserbaídsjan heitir Bakú eða Bakı á aserbaídsjönsku. Aserbaídsjan er lýðveldi og er þar forseti og forsætisráðherra. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin í Bakú, Aserbaídsjan árið 2012. Olíu er að finna í Aserbaídsjan ásamt jarðgasi. Í Bakú er að finna margar háar byggingar eins og Flame towers, stóra fánastöngin í Bakú og sjónvarpsturninn. FLCL. FLCL eða Furi Kuri (フリクリ, stundum stafsett sem Fooly Cooly) er japönsk teiknimyndaþáttaröð (anime) og myndasaga (manga) sem er mjög óvenjuleg og frumleg að ýmsu leyti. Sagan gengur mjög hratt fyrir sig og er ákaflega súrrealísk á köflum og jafnvel þeir sem eru vanir japönskum teiknimyndum og myndasögum verða fljótt ruglaðir í ríminu þar sem söguþráðurinn er mjög óljós þar sem útidúrar fá að njóta sín til jafns við hinn eiginlega söguþráð. Sagan er yfirfull af ádeilu á samfélagið, alþýðumenningu og aðrar japanskar teiknimyndir og þ.a.l. er mjög erfitt að ná að skilja megnið af efninu án þess að bæði lesa bækurnar og horfa á þættina. Undiralda þáttanna er upphaf unglingsáranna þó svo að kímin og brjálæðið eigi það til að skyggja á það. Söguþráður. Í FLCL segir frá dreng sem heitir Naota og er 12 ára gamall. Hann er að byrja á gelgjuskeiðinu og á heima í bær sem heitir Mabase. Skrýtnir hlutir fara að gerast þegar snarbrjálaður kvenmaður utan úr geimnum sem heitir Haruko Haruhara ekur upp að honum á vespu og kýlir hann í höfuðið með gríðarlega breyttum Rickenbacker bassagítar fyrir örvhenta. Naota. Naota á heima hjá Kamon Nandaba, lostafullum föður sínum og eldgömlum afa sem þjálfar hafnaboltalið bæjarins, í bakaríi fjölskyldunnar. Naota leit mikið upp til Tasuku, eldri bróður síns sem flutti til Bandaríkjanna til að spila hafnabolta en hann er mjög sár yfir því að hann hafði farið en hann kemur aðeins fram í s.k. "flashback-atriðum". Eftir því sem líður á þættina kemur í ljós að Naota ólst upp án móðurímyndar. Auk þess er hann hundeltur af hinni bleikhærðu Haruko Haruhara sem notar nokkurs konar gátt í höfðinu á honum til að flytja stóra hluti yfir miklar vegalengdir. Einnig fylgist maður sem er kallaður Amarao foringi með honum en ásamt aðstoðarkonu sinni, Kitsurubami undirforingja flækist hann í málefni Haruko Haruhara og Medical Mechanica og reynir að bjarga Jörðinni með því að stöðva bæði Haruko Haruhara og Medical Mechanica. Medical Mechanica og N.O.-krafturinn. Verksmiðjan er alls ekki ólík gufustraujárni í útliti. Haruko Haruhara er að berjast gegn "Medical Mechanica" (MM) en fyrirtækið rekur verksmiðjur um gervallan alheiminn, sem líta út eins og risavaxin gufustraujárn. Enginn veit með vissu hvað fyrirtækið framleiðir en einu sýnilegu inn og útgangarnir eru loftventlar sem senda frá sér mikið magn af gufu öðru hvoru og engir starfsmenn eru sýnilegir í kring um bygginguna fyrir utan öryggisverði. Þó er víst að Canti og flest illúðlegri vélmenni sem koma fram eru framleidd af fyrirtækinu. N.O-krafturinn leysist úr læðingi vegna samvinnu heilahvelanna og andlegs álags og lætur ýmis fyrirbrigði koma út úr enni nokkurra persónanna, væntanlega fyrir tilstilli Medical Mechanica og gerir Naota t.d. kleift að sameinast vélmenninu Canti. Þegar það er virkt geta hlutir alls staðar að út heiminum birst í enni viðkomandi og aðeins örfáir þeirra sem búa yfir honum geta stjórnað honum. Vélmennið Canti, bassagítar Naota, Gibson-gítar Atomsks, Atomsk sjálfur og ýmislegt annað í þáttunum verða til vegna N.O-kraftsins. Þegar líður á kemur í ljós að tilgangur verksmiðjanna sé m.a. sá að fletja út þær plánetur sem þær eru á á meðan geimræninginn Atomsk rænir þeim. Þáttur ýmissa persóna. Söguþráðurinn tengist stelpu sem heitir Mamimi en hún var kærasta Tasuku, bróður Naota áður en hann flutti til Bandaríkjanna. Hún er andlega vanheill brennuvargur en hún kveikti t.d. í gamla grunnskóla bæjarins. Ein og vinalaus fer hún að halla sér að öðru eins og kettinum sínum sem hún kallar Ta-kun og Naota sjálfum. Eri Ninamori er bekkjarsystir Naota og dóttir borgarstjórans en hún spilar stórt hlutverk þar sem hún er eina manneskjan sem getur stjórnað N.O.-kraftinum en einhvers konar lífrænt vélmenni sprettur upp úr hausnum á henni. Það er vel hægt að leiða að því líkur að hún sé skotin í honum þar sem hún fær að gista heima hjá honum til að fela sig fyrir fjölmiðlum og hliðrar til atkvæðum í bekkjarkosningu svo þau tvö geti leikið á móti hvoru öðru í skólaleikriti. Naota Nandaba. Aðalpersóna þáttanna. Hann er 12 ára gamall, á mörkum gelgjuskeiðsins og vélmenni spretta upp úr enninu á honum. Mamimi Samejima. Hún er 17 ára og frv. kærasta Tasuku en þar sem hann er ekki til staðar er hún farin að hanga utan í Naota. Hún stundar skóla illa, reykir, er brennuvargur og eyðir miklum tíma undir brú. Það er líklegt að foreldrar hennar séu hafi skilið. Haruko Haruhara. Hún heldur því fram að hún sé 19 ára og er bleikhærður geimbrjálæðingur. Rétt nafn hennar er Raharu Haruha. Hún ekur um á gulri vespu og notar Rickenbacker bassagítar fyrir örvhenta sem vopn. Hún er þerna á heimili Naota-fjölskyldunnar og vinnur sér inn aukapening með því að spila hafnabolta. Hún hefur áður haft kynni við Amarao undirforingja. Kamon Nandaba. Faðir Naota og fyrrverandi blaðamaður en er lausráðinn rithöfundur þegar þættirnir eiga sér stað. Eri Nonamori þegar hún fær að gista heima hjá Naota eina nóttina Eri Ninamori. Hún er tólf ára bekkjarfélagi Naota og bekkjarformaður. Hún virðist skotin í honum og er dóttir borgarstjórans í Mabase, úthverfinu sem þættirnir greast í. Kanchi (eða Canti). Vélmenni sem er með sjónvarpstæki í staðin fyrir höfuð og var framleitt af Medical Mechanica. Amarao foringi. Vinnur fyrir leynilega deild í útlendingaeftirlitinu sem veit að geimverur eru til og reynir að halda því leyndu fyrir almenningi. Haruko Haruhara er stórt vandamál fyrir hann. Hann er með gerviaugabrúnir sem hann heldur að geri hann fullorðinslegri og verndi hann fyrir þeim öflum sem eru í gangi. Í fortíðinni átti hann í svipuðu sambandi við Haruko Haruhara og Naota á við að glíma þegar sagan gerist. Atomsk. Voldugasti geimræningi í Vetrarbrautinni. Kraftar hans eru nógu miklir til að ræna heilum plánetum og hann er í fuglslíki, líkt og Fönix. Amarao heldur því fram að Atomsk sé mannlegur því hann heldur því einnig fram að þau Haruko Haruhara séu elskhugar. Tasuku Nandaba. Stóri bróðir Naota sem flutti til Bandaríkjanna til að spila hafnarbolta. Mamimi heldur því fram að hann beri ást til hennar þar sem hann bjargaði henni þegar kviknaði í gamla grunnskólanum. Auðsjáanlegt er að svo er ekki þar sem hann á aðra kærustu í Bandaríkjunum. Shigekuni Nandaba. Afi Naota. Hann á bakarí og þjálfar hafnaboltaliðið "Mabase Martians". Hann fyrirlítur Mamimi út af áhuga hennar á Tasuku. Junko Miyaji. Sérvitur kennari Naota. Nemendur hennar hafa gefið henni gælunafnið "Miya-Jun". Þættir. Þættirnir eru 6 talsins og samanlagður sýningartími þeirra eru 2 klukkustundir og 30 mínútur en hver þáttur er 25 mínútna langur. Fiðrildi. Fiðrildi eru vængjuð skordýr í ættbálki hreisturvængja sem tilheyra yfirætt hesperioidea eða svölufiðrilda ("papilionoidea"). Margar gerðir fiðrilda eru til og mjög fjölbreyttar. Stærðarmunurinn er oft mikill, en enn meiri er oft munurinn á útliti vængjanna. Sum eru með mjög litríka vængi á meðan önnur hafa dauflita einfalda vængi. Þetta er til þess að verjast rándýrum sem borða þau. Sum fiðrildi ganga jafnvel það langt að líkja eftir, til dæmis, augum á vængjunum. Ævistig fiðrilda eru fjögur: Þau fæðast í eggjum, klekjast sem lirfur, lirfurnar búa á endanum til púpur utan um sig og út úr púpunum koma þær fullmynduð fiðrildi. Á íslensku er oft ruglað saman mölfiðrildum og fiðrildum en það er vegna svipaðs útlits. Öll þau skordýr sem á íslandi lifa að staðaldri og eru kölluð fiðrildi eru í rauninni af ætt mölflugna en eru kölluð fiðrildi á Íslensku. Því er mikill ruglingur á nafngiftum hér á landi. Undir hreisturvængjur falla bara þessar tvær greinar, fiðrildi og mölflugur. Mongólska. Mongólska er þekktasta mongólska tungumálið. Um það bil 5,7 milljónir manna tala hana sem móðurmál. 90% af íbúum Mongólíu tala mongólsku, þar að auku tala mörg af þeim sem búa í Innri-Mongólía tungumálið líka. Í Mongólía er mallýskan sem töluð er af Khalkha fólki sú helsta, og er opinbera mallýska í landi. Ritkerfi. Mongólska var ritað með Uyghur stafrófinu fram til 12. aldar, sem er komið af sogdíaska stafrófinu, sem er svo aftur komið frá arameísku. Á 13.-15. öld var það ritað með kínverskum táknum, arabíska stafrófinu og svo skriftarfomi sem er þróað frá tíbetísku sem kallast Phags-pa. Árið 1931 skiptu Mongólar frá mongólíska stafrófinu (sem er komið frá Uyghur) yfir í latneska stafi vegna þrýstings frá Sovétríkjunum, en svo aftur yfir í kýrilíska stafi árið 1937. Árið 1941 voru sett lög sem gerðu mongólíska stafrófið útlægt, en frá 1994 hefur ríkisstjórn Mongólíu reynt að endurvekja það. Það hafði þó mestallan tímann verið notað í Innri-Mongólíu, sem tilheyrir Kína. Leikstjóri. Leikstjóri er manneskja sér um listræna stjórnun í t.d. leikritum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Hann aðstoðar leikara við leikræna tjáningu og velur stundum þá leikara sem koma til greina í hvert hlutverk. Kúlusúkk. Kúlusúkk er ílangur lakkrís hjúpaður í súkkulaði, framleitt af sælgætisfyritækinu Kólus og heitir eftir staðnum Kulusuk á Grænlandi, en nafnið vísar í lögun sælgætisins og efnivið. GNOME. GNOME (sem stóð upprunalega fyrir "GNU Network Object Model E'"nvironment") er skjáborðsumhverfi fyrir UNIX og lík stýrikerfi. GNOME er hluti af GNU-verkefninu. Byrjað var að vinna að GNOME-verkefninu árið 1997 og var markmið þess að bjóða upp á frjálst skjáborðsumhverfi (einnig þekkt sem gluggaumhverfi, en skal þó ekki rugla saman við gluggakerfi) fyrir Linux stýrikerfið. GNOME er eitt af vinsælustu gluggaumhverfum fyrir Linux stýrikerfi ásamt KDE og Xfce en margar Linux dreifingar eins og til dæmis Ubuntu, Fedora og Debian nota GNOME sem aðalskjáborðsumhverfi. Pappír. Pappír er þunnt, flatt, lífrænt, „lifandi“ efni sem er að mestu leiti gert úr náttúrulegum jurtatrefjum, venjulega úr viði, en stundum eru einnig notaðar aðrar jurtatrefjar eins og bómull, hör, hampur og lín. Á norðlægum slóðum er oftast notaður mjúkviður eins og fura og greni til pappírsframleiðslu en sunnar í Evrópu nota menn frekar harðvið eins og beyki og birki. Það þarf rúmlega tonn af þurrkuðum trjáviði til þess að framleiða eitt tonn af pappír. Tré eru aðallega samansett úr beðmi (cellulose), hálfbeðmi (hemicellulose) og tréni (lignin).Beðmið og hálfbeðmið mynda sjálfar trefjarnar í viðnum en trénið virkar eins og e.k lím milli trefjanna og bindur þær saman. Saga. Orðið "pappír" kemur frá egypska orðinu "papýrus" sem var efnið sem Egyptar til forna notuðu til að skrifa á. Papýrus var unnin úr papýrusreyr og byrjað að nota hann strax um 3000 árum fyrir Krist og einnig stuttu seinna í Grikklandi og Róm. Lengra í norðri notuðu menn kinda- eða kálfskinn, enda gat papýrusreyrinn ekki vaxið í norrænu loftslagi. Í Kína skjalfestu menn gögn á bambus, sem var illmeðfærilegt og þungt. Einnig notuðu menn stundum silki en það var venjulega álitið of dýrt. Flest þessara efna voru fágæt og dýr. Kínverjar fundu upp nýja aðferð við pappírsgerð árið 105 eftir Krist en lúrðu á aðferðunum eins og ormar á gulli. Það var því ekki fyrr en um 600 eK að upplýsingarnar bárust út. Pappír var dýr lúxusvara í gegn um aldirnar, allt þar til gufuknúnar pappírsgerðarvélar komu fram á 19 öld sem gátu gert pappír úr viði. Nú gegnir pappír síminnkandi hlutverki í amstri hversdagsleikans þar sem flest er orðið stafrænt. Þó má gera ráð fyrir að heimurinn verði seint alfarið pappírslaus. Ubuntu. Ubuntu er fullbúið og ókeypis stýrikerfi sem byggir á Linux. Ubuntu miðar að því að vera ókeypis, frjálst og umfram allt notendavænt. Slagorð Ubuntu er á ensku "Linux for Human Beings" (lauslega þýtt sem „Linux fyrir fólk“ eða „Linux fyrir venjulegt fólk“, og vísar til þess hve auðvelt það er í notkun). Ubuntu notfærir sér margt frá Debian-verkefninu eins og APT-pakkakerfið. Ubuntu styðst við GNOME-skjáborðið (hliðarverkefni Ubuntu; Kubuntu, notar KDE og Xubuntu notar XFCE) og er það sniðið að þörfum venjulegs notanda en Ubuntu fylgir vafrinn Mozilla Firefox, tölvupóstforritið Evolution og skrifstofuhugbúnaðurinn OpenOffice.org. Það kemur út ný útgáfa af Ubuntu á hálfs árs fresti, í apríl og október, og fylgir þannig útgáfuáætlun GNOME sem kemur einnig út á sex mánaða fresti (í mars og september). Ubuntu er vinsælasta tegund Linux stýrikerfa samkvæmt vefsíðunni DistroWatch. Nýjasta dreifing Ubuntu kallast "Precise Pangolin" (12.04 LTS) og er svokölluð "long-term support", sem þýðir að uppfærslur eru gefnar út í 5 ár frá útgáfudegi. Saga. Fyrsta útgáfa Ubuntu kom út 20. október 2004 sem skammtímaverkefni eða rótarskot frá Debian GNU/Linux og var markmið verkefnisins að gefa út uppfærslu á hálfs árs fresti. Hugbúnaðarpakkar í Ubuntu byggja á Debian Unstable auk þess sem Ubuntu notar APT til að setja upp forrit líkt og Debian. Jónas Hallgrímsson. a> gerð eftir tveimur skissum Helga Sigurðssonar, læknanema, af Jónasi á líkbörunum. Myndin birtist fyrst á titilsíðu bókarinnar "Ljóðmæli og önnur rit, eftir Jónas Hallgrímsson" 1883 Jónas Hallgrímsson (16. nóvember 1807 að Hrauni í Öxnadal – 26. maí 1845 í Kaupmannahöfn) var íslenskt skáld og náttúrufræðingur. Hann var afkastamikill rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi og var einn af stofnendum tímaritsins Fjölnis. Hann dó í Kaupmannahöfn árið 1845 vegna blóðeitrunar, sem stafaði af fótbroti sem hann hlaut við að detta niður stiga. Jónas var sonur Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests og Rannveigar Jónasdóttur. Hann átti þrjú systkini, Þorstein (1800), Rannveigu (1802) og Önnu Margréti (1815). Á öðru ári fluttist Jónas ásamt fjölskyldu sinni til Steinsstaða í Öxnadal og var það árið 1809. Faðir hans drukknaði í Hraunsvatni árið 1816 og var Jónas þá sendur í fóstur að Hvassafelli í Eyjafirði, þar sem móðursystir hans bjó. Síðar var honum komið til náms hjá séra Jóni lærða Jónssyni í Möðrufelli. Þar hlaut hann kennslu veturinn 1819-20. Jónas var fermdur vorið 1821 heima í Öxnadal. Því næst fór hann í heimaskóla í Goðdölum í Skagafirði þar sem hann stundaði nám veturna 1821-1823 hjá séra Einari H. Thorlacius, tengdasyni Jóns lærða. Þaðan lá leið hans til Bessastaðaskóla og þar var hann við nám í sex vetur til 1829. Að loknu stúdentsprófi starfaði Jónas sem skrifari hjá Ulstrup bæjar- og landfógeta í Reykjavík þar sem hann bjó einnig. Þá starfaði hann sem verjandi í nokkrum málum fyrir landsrétti. Segir sagan að Jónas hafi beðið Christiane Knudsen veturinn 1831-32, en hún hafi hafnað honum. Nám og störf. Jónas hélt til Kaupmannahafnar til náms árið 1832. Hann lagði í fyrstu stund á lögfræði, en skipti síðar yfir í bókmenntir og náttúrufræði og er þekktur fyrir störf sín á þeim sviðum. Hann lauk svokölluðu fyrsta og öðru lærdómsprófi, báðum með 1. einkunn. Jónas fékk styrk úr ríkissjóði til rannsókna á náttúrufari Íslands og vann að því verki árin 1839 - 1842. Eftir það hélt hann til í Danmörku og var þá ýmist í Sórey eða í Kaupmannahöfn. Hann fékk styrk til að skrifa landlýsingu Íslands. Einnig ritstýrði hann Fjölni, sem hann hafði stofnað ásamt nokkrum öðrum Íslendingum á námsárunum. Voru þeir kallaðir Fjölnismenn. Þar birti hann mikið af kvæðum sínum og ritgerðum. Auk þess stundaði hann þýðingar og meðal annars þýddi hann alþýðlega bók um stjörnufræði, sem var gefin út 1842, prentuð í Viðey. Í því riti er að finna mikinn fjölda nýyrða, sem Jónas bjó til, meðal annarra orðin reikistjarna og sporbaugur. Bein Jónasar. Bein Jónasar Hallgrímssonar voru flutt til Íslands frá Assisstentskirkjugarðinum í Kaupmannahöfn árið 1946. Það var iðnjöfur úr Mosfellssveit, Sigurjón Pétursson að nafni, kenndur við Álafoss, sem stóð mest fyrir því að fá bein Jónasar flutt heim. Sigurjón var mikill áhugamaður um Jónas og vildi hann grafa Jónas norður í Öxnadal, þar sem hann var fæddur. Var Sigurjón búinn að standa í miklum rökræðum við fyrirmenn í ríkisstjórn, m.a. Ólaf Thors, þáverandi forsætisráðherra, og Jónas frá Hriflu, sem átti sæti í Þingvallanefnd. Ríkið taldi bein Jónasar vera þjóðareign og að bein hans skyldu grafin í þjóðargrafreit á Þingvöllum, við hlið Einars Benediktssonar. En ríkið virtist ekki hafa peninga til að borga undir uppgröft beina Jónasar og flutning þeirra heim. Sigurjón greiddi fyrir meirihlutann, m.a. greiddi hann undir þjóðminjavörð, Matthías Þórðarson, svo hann kæmist út og gæti byrjað uppgröftinn. Það tók dágóðan tíma, því Matthías þurfti að grafa fyrst upp þá sem lágu ofan á Jónasi. Það voru hjón, sem voru jarðsett um aldamótin 1900 og feðgar jarðsettir 1875. En Jónas dó árið 1845. Loks þegar bein Jónasar komu með Brúarfossi til landsins í október 1946, voru alþingismenn, þ.m.t. þeir sem Sigurjón hafði staðið í deilum við, fastir inni á þingi að setja lög um Keflavíkurflugvöll. Sigurjón nýtti sér tækifærið, fyrst enginn úr Þingvallanefnd eða frá ríkinu var til að taka á móti beinunum, og ók beint norður í land með líkamsleifarnar. Hann ætlaði sér að láta grafa Jónas fyrir norðan, en varð ekki að ósk sinni. Prestar fyrir norðan neituðu að jarðsyngja hann, skv. fyrirskipunum að sunnan. Að endingu stóð kista Jónasar í kirkjunni að Bakka í um viku áður en henni var ekið suður og var svo loks grafin í þjóðargrafreitnum 16. nóvember 1946, sem var fæðingadagur Jónasar og hefur síðar hlotið heitið "Dagur íslenskrar tungu". Stytta af Jónasi eftir Einar Jónsson var afhjúpuð 1907 við Lækjargötu en var síðan færð árið 1947 í Hljómskálagarðinn þar sem hún stendur í dag. Brasilía. Brasilía (portúgalska: "Brasil"), opinberlega Sambandslýðveldið Brasilía (portúgalska: "República Federativa do Brasil") er stærsta og fjölmennasta land Suður-Ameríku og hið fimmta stærsta í heiminum bæði að flatarmáli og fólksfjölda. Landið er 8.514.876,599 km² að flatamáli og teygir sig frá ströndum Atlantshafsins að rótum Andesfjalla og innan landamæra þess er megnið af Amazon-regnskóginum, stærsta regnskógi heims, en einnig víðáttumikil landbúnaðarsvæði. Strandlína Brasilíu er 7367 km löng. Brasilía var portúgölsk nýlenda frá 1500 en síðan 1822 hefur það verið sjálfstætt. Menning. a> var einn áhrifamesti tónlistarmaður Brasilíu á 20. öldinni. Kjarni brasilískrar menningar er kominn úr portúgalskri menningu vegna sterkra tengsla Brasilíu við móðurríkið á nýlendutímanum. Portúgalar breiddu út tungu sína, portúgölsku, byggingarlist sína og kaþólska trú. En menning Brasilíu varð einnig fyrir sterkum áhrifum frá aðfluttu fólki frá öðrum Evrópuríkjum og Afríku auk þess sem eftir leifir af menningu innfæddra frumbyggja. Meðal annarra má nefna nýbúa frá Ítalíu, Þýskalandi, Japan og arabalöndum, sem fluttust í stórum stíl til Suður- og Suðuaustur-Brasilíu. Áhrifa frá brasilískum frumbyggjum gætir á bæði tungu og matarhefðir Brasilíu. Þar gætir einnig áhrifa frá afrískum innflytjendum, sem einnig höfðu áhrif á brasilíska tónlist, dans og trúarbrögð. Listasaga. Brasilísk list hefur frá því á 16. öld þróast í ólíkar áttir, meðal annars Barokk, sem var ríkjandi stíll í landinu fram á 19. öldina, rómantík, nútímalist, expressjónisma, kúbisma, súrrealisma og abstrakt list. Brasilísk kvikmyndasaga á rætur að rekja til upphafs kvikmyndalistar seint á 19. öldinni. Tónlist. Innan brasilískrar tónlistar eru ýmis afbrigði og mörg þeirra eru einkennandi fyrir tiltekna landshluta. Áhrifa gætir frá afrískri og evrópskri tónlist en einnig frá frumbyggjum Brasilíu. Meðal tónlistargreina má nefna samba, MPB, choro, Sertanejo, brega, forró, frevo, maracatu, bossa nova og Axé-tónlist. a>, skáld og rithöfundur er oft talinn merkasti rithöfundur Brasilíu. Meðal þekktra tónlistarmanna má nefna Francisco Manuel da Silva, Antônio Carlos Gomes, Elias Álvares Lobo, Brasílio Itiberê da Cunha, Luciano Gallet, Alexandre Levy, Alberto Nepomuceno, Oscar Lorenzo Fernández, Henrique Oswald, Francisco Mignone, Heitor Villa-Lobos, Camargo Guarnieri, Pixinguinha, Hermeto Pascoal, Antônio Carlos Jobim, Edson Zampronha, João Gilberto, Nara Leão, Elis Regina, Caetano Veloso, Maria Bethânia, Chico Buarque, Jorge Ben Jor, Pato Fu, Marisa Monte, Pitty og Amon Tobin. Bókmenntir. Saga brasilískra bókmennta nær aftur til 16. aldar, til skrifa fyrstu portúgölsku landkönnuðanna. Þeirra á meðal var Pêro Vaz de Caminha. Skrif þeirra voru uppfull af lýsingum á dýraríki og gróðurfari landsins og á háttum innfæddra frumbygggja, sem vöktu mikla furðu meðal evrópskra lesenda og innflytjenda. Í Brasilíu urðu til mikilvægar bókmenntir innan rómantíkurinnar og skáldsagnahöfundar á borð við Joaquim Manuel de Macedo og José de Alencar skrifuðu bækur um ástir og sorgir. Alencar gerði einnig á löngum ferli sínum frumbyggja Brasilíu að söguhetjum í skáldsögunum "O Guarany", "Iracema", "Ubirajara". Matarmenning. a>, réttur úr svínakjöti, svörtum baunum og hrísgrjónum Brasilískur matur er afar fjölbreytilegur og mikill munur eftir landshlutum. Feijoada er talinn þjóðarréttur en einnig má minnast á vatapá, moqueca, polenta og acarajé, sem eru allt hefðbundnir brasilískir réttir. Hversdagslega borða Brasilíumenn mikið af hrísgrjónum og baunum, gjarnan með nautakjöti og saladi og er oft blandað með kassava-hveiti. Oft eru hafðar steiktar kartöflur, steikt kassava eða steiktir bananar í hádegismatur, jafnvel kjötréttir eða steiktur ostur. Þjóðardrykkir Brasilíu er kaffi og cachaça, sem er áfengur drykkur gerður úr sykurreyr og er megin uppistaðan í þjóðarkokteilnum, caipirinha. Margvíslegt sælgæti er til í Brasilíu, svo sem brigadeiro, sem eru súkkulaðifrauðkúlur; cocada og beijinho sem er hvort tveggja kókoshnetusælgæti; og sælgæti, sem kallast „romeu e julieta“ (Rómeó og Júlía) og er gert úr osti með guavasultu, sem kallast goiabada. Úr hnetum er gert paçoca, rapadura og pé-de-moleque. Meðal ávaxta, sem vaxa í Brasilíu, má nefna açaí, cupuaçu, mangó, papaja, kókóbaunir, kasjúhnetur, guava, appelsínur, ástaraldin og ananas. Úr ávöxtum eru gerðir ýmsir blandaðir ávaxtasafar. Ebenezer Henderson. Ebenezer Henderson fæddist 17. nóvember 1784 í litlum bæ í Dunfermline-héraði í Skotlandi og lést 17. maí 1858 skammt þar frá. 19 ára gamall hóf hann guðfræðinám hjá Robert Haldane og tveimur árum síðar, orðin kalvínistaprestur, árið 1805 var hann valinn ásamt sr. John Paterson í trúboðsferð til Indlands. Vandræði komu hinsvegar upp og ferðin var aldrei farin. Fyrst gátu þeir ekki farið frá Englandi þar sem Austur-Indía félagið breska leyfði ekki trúboðum að sigla frá Englandi til Indlands. Þá var ákveðið var að fara með dönsku skipi til einnar nýlendna Dana á Indlandi. Ekki gekk það þó eftir og svo fór að þeir höfðu beðið heilt ár eftir skipinu þegar Henderson ákvað að setjast að í Danmörku og gerðist prestur í Helsingjaeyri, sem var staða sem hann hélt fram til ársins 1817. Á meðan hann gengdi þeirri stöðu ferðaðist hann einnig mikið við að dreifa Biblíum fyrir Breska og erlenda biblíufélagið. Meðal svæðanna sem hann fór til í þeim erindagjörðum voru Lappland, Norður-Þýskaland og Ísland. Bók sem hann skrifaði um dvöl sína á Íslandi 1814-1815 er talin með merkari ferðabókum þar sem öllu er lýst mjög nákvæmlega, einkum jarðfræðitengdum fyrirbærum og hún er skrifuð í Reykjavík að stóru leyti. Eftir að hann hætti störfum í Danmörku og á vegum Breska og erlenda Biblíufélagsins sneri hann aftur til Skotlands, en hélt þó áfram að ferðast mikið og fór meðal annars til Tyrklands og Rússlands, oftast í tengslum við útbreiðslu Biblíunnar. Henderson var þar að auki mikill málamaður og talaði eins óskyld tungumál sem koptísku og dönsku. Hann var líka mikill fylgismaður vísindanna, auk þess að hafa verið kirkjunnar þjónn, og var til dæmis mikill áhugamaður um jarðvísindi. Gamla mjólkursamlagið í Borgarnesi. Gamla mjólkursamlagið í Borgarnesi var hannað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, fyrir Kaupfélag Borgfirðinga. Eftir að Mjólkursamlag Borgfirðinga flutti í stærra húsnæði á Engjaási var byggingavörudeild kaupfélagsins flutt þangað þar til sú starfsemi var flutt annað. Nú til er húsið notað sem samkomuhús. Leikdeild ungmennafélagsins Skallagríms hefur notað húsið undir leiksýningu, ungmenni í Borgarnesi nota húsið undir hljómsveitaræfingar og ýmsar samkomur auk þess sem það er miðstöð Borgfirðingahátíðar þegar hún er haldin ár hvert. Gyðingdómur. Gyðingdómur eru trúarbrögð Gyðinga (sem er þó hugtak sem nær yfir meira en einungis fylgjendur gyðingdóms). Þau eru eingyðistrúarbrögð af abrahamískum stofni, eins og kristni og íslam, en Gyðingdómur er eitt elsta dæmið í sögunni um eingyðistrú og einnig eitt af elstu lifandi trúarbrögðum heims með yfir 4000 ára sögu. Síðustu tvöþúsund árin hefur gyðingdómur ekki haft neina heildarstjórn eða sameiginlegar trúarreglur. Þrátt fyrir þetta hafa allar mismunandi flokkanir og hefðir gyðingdóms haft sameiginlega grundvallarsýn á meginatriði trúarinnar. Það fyrsta og mikilvægasta er trúin á einn almáttugan Guð sem skapaði alheim og heldur áfram að stjórna honum, öll tilbeiðsla annarra guða er bönnuð eins og gerð mynda af honum og að segja nafn hans upphátt. Annað er sannfæring um að Guð hafi valið Gyðinga sem sitt eigið fólk og afhjúpað lögmál sín og reglur gegnum Torah (lögmálið) og gert sáttmála við þá með boðorðunum tíu. Mikilvægur þáttur í gyðingdómi er að stunda fræðimennsku í þessum lögmálum og túlkunum á þeim í Tanakh og öðrum trúarritum og hefðum. Til forna voru gyðingar kallaðir Hebrear. Það búa flestir gyðingar í Bandaríkjunum en í Ísrael er meirihluti íbúanna gyðingar. Maður telst vera gyðingur ef móðir manns eða amma manns er gyðingur. Trúarathafnir. Trúarlíf í gyðingdómi stjórnast af sérstöku almanaki. Fyrir utan sabbat (hvíludaginn) og tunglkomuna er haldið upp á fjölda hátíða, páska, Sukkot og Jom Kippur svo nokkrar séu nefndar. Miðstöð trúarathafna er sýnagógan en guðsþjónustu er hægt að halda hvar sem er, ekki síst í heimahúsum. Hvar sem tíu gyðingar koma saman er hægt að halda svo kallað "minjan" sem er fullgild guðsþjónusta. Sá sem stjórnar guðsþjónustunni kallast rabbínn. Allt lífið stjórnast af trúarlegum reglum með rætur í Tanakh og ritsöfnum sem Mishna og Talmúd. Drengir eru venjulega umskornir ("mila") á áttunda degi og er þá gefið nafn, stúlkum er venjulega gefið nafn í sýnagógunni. Á þrettánda ári verður drengur "bar mitzvah" og er eftir það skuldbundinn að fylgja öllum trúarreglum, stúlkan verður "bat mitzvah" á tólfta ári. Margir gyðingar fylgja ströngum matarreglum sem nefndar eru kosher (að hvorki snæða svín né skeldýr til dæmis, eða blanda blóði og mjólkurmat) og öðrum trúarlegum hreinlætisreglum. Guðþjónustuhús. Bæna- og guðþjónustuhús í gyðingdómi er kallað sýnagóga. Zíonismi. Stjórnmálastefnan zíonismi hefur djúpar rætur í gyðingdómi og grundvallast á trúnni á Fyrirheitna landinu, sem guð gaf afkomendum Abrahams, samkvæmt hebresku bibíunni. Kristni. Kristni er sprottin úr gyðingdómi, en iðkendur beggja tilbiðja guðinn Jahve og deila helgiritinu Gamla testamentinu. Gyðingahatur. Gyðingahatur á við andúð og ofsóknir á hendur Gyðingum í samfélögum, þar sem þeir eru í minnihluta. Nasismi var stjórnmálastefna, sem grundvallaðist á gyðingahatri og stefndi að útrýmingu gyðinga. Helförin var skipulög tilraun til þess að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd. Orðið „júði“ var fyrrum notað yfir gyðinga, en þykir nú niðrandi. Kaupmannahafnarháskóli. Kaupmannahafnarháskóli (danska: "Københavns Universitet") er elsti og stærsti háskóli Danmerkur. Hann var stofnaður í tíð Kristjáns I þann 1. júní 1479. Þar var guðfræði, lögfræði, læknisfræði og heimspeki kennd eftir þýskri forskrift. Í dag eru þar um 37 þúsund nemendur og um 9 þúsund starfsmenn. Alveg fram að siðaskiptunum var háskólinn hluti af rómversk-kaþólsku kirkjunni og hafði biskupinn í Hróarskeldu yfirumsjón með honum. Þá varð háskólinn ríkisrekinn en fram að því var öll stjórnsýsla hans sjálfstæð. Íslendingar tóku fyrst að sækja Kaupmannahafnarháskóla að einhverju ráði nokkru eftir siðaskipti, einkum vegna aukinna tengsla við Danmörku og konungsvaldið. Fram að þeim tíma höfðu þeir sótt háskóla í Þýskalandi og Englandi og héldu því raunar áfram fram yfir aldamótin 1600. Kristján frá Djúpalæk. Kristján frá Djúpalæk (16. júlí 1916 í Skeggjastaðahreppi í N-Múlasýslu – 15. apríl 1994 á Akureyri) var íslenskt skáld. Æviágrip. Kristján var fæddur að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu. Þetta landssvæði er austan Langaness og kallast Langanesströnd eða bara Ströndin af heimafólki og er við Bakkaflóa. Foreldrar Kristjáns voru hjónin Einar Vilhjálmur Eiríksson (1871 – 1937), og Gunnþórunn Jónasdóttir (1895 – 1965). Sem barn sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum unglinga, gegndi ám, gekk rekann og hirti sprek og fjalir, rótarhnyðjur og smámor og bar það upp á malir til þurrkunar svo nota mætti það í eldinn. Og ef heppnin var með mátti stundum finna rauðmaga á klöppunum sem rotast höfðu í brimrótinu. Gómsætt nýmeti. Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri. Um vorið 1937 lést faðir hans og hélt hann þá heim að loknum prófum og vann hjá bróður sínu Sigurði við gerð íbúðarhúss sem hann var að byggja á nýbýlinu Bjarmalandi sem er aðeins steinsnar frá Djúpalæk. Bæði Djúpilækur og Bjarmaland eru núna eyðibýli. Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist og bjó með til dauðadags. Unnur og Kristján hófu búskap í Staðartungu árið 1938. Kristján þótti ekki sérstaklega hneigður til búskapar enda brugðu þau hjónin búi árið 1943 og fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu næstu sex árin. Á þeim tíma vann Kristján aðallega verksmiðjuvinnu sem honum leiddist og hann þoldi illa. Hann fékk útrás við ljóðagerð og varð kunnur af henni og gerðist virkur verkalýðssinni. Þarna hófst einnig vinátta hans og Heiðreks Guðmundssonar skálds sem entist ævilangt. Í lok árs 1949 fluttu Kristján og Unnur til Hveragerðis sem þá var listamannamiðstöð Íslands. Þar bjuggu þau í húsi sem kallað var Bræðraborg eða Frumskógar 6. Um þetta leyti var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og varð eftir því sem árin liðu æ þekktari. En frægðin dugði ekki til, það vantaði salt í grautinn eins og hjá fleiri listamönnum. Hann þurfti fyrir fjölskyldu að sjá og því tók hann að sér ýmsa vinnu. Hann var barnakennari í Hveragerði og Þorlákshöfn, og vann einnig við garðyrkjustörf, húsamálun og ýmislegt fleira. Á Hveragerðisárunum kynntust hjónin meðal annarra Jóhannesi úr Kötlum, Kristmanni Guðmundssyni, Gunnari Benediktssyni, séra Helga Sveinssyni og fleiri mætum mönnum. Þarna bjuggu Kristján og Unnur til ársins 1961 og þar fæddist þeim einkasonurinn Kristján Krisjánsson heimspekingur sem nú er háskólakennari á Akureyri. Árið 1961 fluttu hjónin aftur til Akureyrar og í nokkur ár þar eftir tók Kristján að sér ritstjórn dagblaðsins Verkamannsins ásamt því að kenna í Grunnskóla Akureyrar og sinna ýmsum íhlaupastörfum auk vinnu við ritsmíðar sínar. Nokkur sumur sinnti hann veiðieftirliti með ám í Eyjafirði, Fnjóská, Hörgá og Eyjafjarðará. Kristján fékk margs konar viðurkenningar fyrir ljóðlist sína, svo sem verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, verðlaun úr Rithöfundarsjóði Ríkisútvarpsins og úr Listasjóði Akureyrarbæjar og naut Listamannalauna allt frá 1948. „Kristján frá Djúpalæk er í senn íslenskur sveitamaður og alheimsborgari. Alls konar andstæður hafa togast á um hann: útþrá, heimþrá; breytingagirni, fastheldni; uppreisn, auðmýkt; beygur, dirfska; innileiki, kaldhæðni; alvara, skop; afneitun, trúrækni. Af öllum þessum þáttum er persónuleik hans slunginn og verður því mörgum torskilinn. Hann er skáld myrkursins í leit að ljósinu, skáld lífsblómsins sem stendur skjálfandi andspænis dauðanum og veit þó að hann er „vinur, bróðir“. En umfram allt er hann bara skáld.“ Kristján lést 15. apríl 1994 og var jarðsunginn í Akureyrarkirkju þann 22. apríl. Nokkur ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Slysaskot í Palestínu (Í Víngarðinum) Þýðingar og barnaefni. Dvel ég í draumahöll (Dýrin í Hálsaskógi) Sönglagatextar. Hin fyrstu jól (lag: Ingibjörg Þorbergs) Saknaðarljós Gínu mömmu (lag: Heiðdís Norðfjörð) Martröð á jólanótt. Martröð á jólanótt (e. "The Nightmare Before Christmas") er teiknimynd eftir Tim Burton sem kom út árið 1993. Myndin er byggð á samnefndu ljóði Burtons. Ljóðið. Ljóðið fjallaði um Jóa Beinagrind (e. Jack Skellington), lifandi beinagrind og aðalhrekkjavökugaurinn í Hrekkjavökubæ (Halloweentown) og hvernig honum leiddist alltaf sama rútínan ár hvert. Hann fór því í sorgarhugleiðingum sínum í göngutúr sem endaði með því að hann villtist inn í Jólabæ og kynntist jólunum og heillaðist af þeim. Jói vildi breyta til og fór því og rændi jólasveininum og gerði sjálfann sig að jólasveini. En ekkert fer eins og ætlað er og áform hans verða að algjörri martröð. Gerð myndarinnar. Burton krotaði myndir og var fljótlega kominn með þá mynd af Jóa sem honum líkaði. Burton fannst mjög spennandi að gera myndina úr nokkurskonar brúðum með svokallaðri stop-motion aðferð, en þar eru brúðurnar færðar agnarögn milli myndatöku þannig að útkoman verður hreyfimynd.En Burton fannst hann ekki alveg hæfur til að beint leikstýra myndinni, svo að eftir að hafa fengið Disney til að framleiða myndina, lét hann vini sínum, Henry Selick leikstjórnartitilinn í té. Caroline Thompson skrifaði handritið að myndinni. Við handritinu tók hæfileikaríkur hópur teiknara, myndlistamanna, leikmyndahönnuða, vírgrindagerðarmanna, brúðugerðarmanna, hreyfifræðinga, myndatökumanna og tæknibrellumanna. Myndin er sett upp sem söngleikur, en ólíkt við aðra söngleiki þar sem tónlistaratriðinum er skeytt inn í myndina aðeins til að skreyta hana en ekki til að bæta við söguþráðinn, þá væri "Martröð á jólanótt" illskiljanleg ef að lögin væru með öllu klippt út úr henni. Danny Elfman samdi alla tónlist og lagatexta í verkinu. Upphaflega átti Danny ekki að gera textana líka en var svo ákafur að hann bara slysaðist óvart til að gera það. Á endanum fór það svo til Elfman söng fyrir einnig Jóa (en talsetti annars ekki fyrir hann). Myndin var svo talsett og töluðu Chris Sarandon (hinn talandi Jói), Catherine O'Hara (Silla og Hrellir), William Hickey (Dr. Finklestein), Glenn Shadix (bæjarstjórinn) og fleiri fyrir persónur myndarinnar. Rúnir. a> frá Svíþjóð frá 9. öld. Á hann eru ristar rúnir úr eldri og yngri rúnaröðinni og einnig dulrúnir Rúnir eru fornt stafróf sem notað var í mörgum germönskum málum frá 2. öld þar til þær smám saman viku fyrir latnesku letri. Rúnir voru fyrst og fremst höggnar í stein eða ristar í tré. Elstu rúnir sem fundist hafa eru frá seinni hluta 2. aldar og voru þær algengar næstu þúsund árin um norðanverða Evrópu, einkum á Norðurlöndum. Með útbreiðslu kristni fylgdi latneska stafrófið inn í þjóðfélög germana og notkun rúnaletursins stórminnkaði allt frá 12. öld. Þó var það talsvert notað á Norðurlöndum allt fram á 14. öld og voru rúnir í notkun (einkum til skrauts) á einstaka stað allt fram um lok 19. aldar. Allra elsta rúnaristan, sem þekkt er, er frá því um 150 e.Kr. á greiðu úr horni sem fannst í Vimose á Fjóni. Næst elstu rúnaristurnar eru frá seinni hluta 2. aldar og virðist rúnastafrófið hafa þá þegar verið komið í fastar skorður. Allar ristur frá 2. og 3. öld eru mjög stuttar, eitt eða tvö orð. Flestar þeirra hafa fundist í Suður-Skandinavíu, á Jótlandi, Sjálandi, Fjóni og á Skáni og bendir það til þess að rúnir séu upprunnar þaðan. Fræðimönnum ber ekki saman um hver fyrirmynd rúnanna sé. Þó er talið að fyrirmyndina gæti verið að finna annaðhvort í latneska eða gríska stafrófinu eða í fornum norðurítölskum starfrófum. Hins vegar er ljóst að rúnirnar eru mótaðar af einhverjum sem var kunnugur stafrófum menningarheims Miðjarðarhafsins. Orðsifjar. Uppruni orðsins rún og hugtaksins rúnir er ekki með öllu ljós. Hugsanlega er það komið af forn-germanskri rót, annað hvort rótinni *"rūn"- (sem má finna í gotísku runa) sem þýðir leynd eða samhljóða rót *"rūn"- sem þýðir að rista. Ekki er ólíklegt að hugtakið rúnir sé eldra en stafagerðin og hafi verið notað um spádómsmerki. Afbrigði stafrófsins. Allmörg afbrigði er að finna af rúnum en þau helstu eru svo nefnd eldri rúnaröð eða fuþark hið eldra (sem var í notkun frá 150 til 700 e.Kr.), engilfrísísk rúnaröð eða fuþorc (800 til 1100), yngri rúnaröð eða fuþark hið yngra (sem var í notkun frá 700 fram til 1100) og stungnar rúnir eða miðaldarúnir (1100 til 1500). Stafrófsnafnið Fuþark er dregið af stafrófsröð fyrstu sex táknanna. Rúnirnar voru ekki alltaf skrifaðar frá vinstri til hægri eins venjan er með nútíma-rithátt latnesks stafrófs. Þær gátu verið skrifaðar frá hægri til vinstri, jafnvel að ofan og niður. Þær voru einnig stundum skrifaðar án millibils milli orða og jafnvel fyrst frá vinstri til hægri og næsta lína frá hægri til vinstri. Eldri rúnaröð. Elsta rúnastafrófið sem nefnt er eldri rúnaröðin eða fuþark hið eldra samanstóð af 24 táknum og samsvöruðu þau sennilega nokkurn veginn hljóðkerfi frumnorrænu. Hljóðgildi nokkurra rúnanna er ekki vitað með öruggri vissu en flest táknin eru áþekk samsvarandi latneskum bókstöfum og má með nokkurri vissu vera öruggt um framburð þeirra. Form táknanna — bein strik sem standa lóðrétt eða hallandi — benda til að þau hafi upphaflega verið ætluð til þess að skera, rista eða höggva í fremur harðan flöt en ekki skrifa á skinn né pappír. Engar rúnaristur í tré hafa varðveist frá tímum fornnorrænu þó það hafi sennilegast verið algengasta ristunarefnið og má ætla að það sé vegna þess að tré er forgengilegt. Allar varðveittar áletranir eru ristar í stein, málm, horn eða bein. Greiða úr horni sem fannst í Vimose á Fjóni. Elsta rúnaristanElstu rúnaristurnar eru frá 150 til 200 e.Kr. og fundust í suðurhluta Danmerkur. Í Skandinavíu hafa fundist um 370 af þeim samtals um 700 rúnaristum með eldri rúnaröð sem fundist hafa. Rúnaristur frá því fyrir árið 800 hafa fundist allt frá Bourgogne-héraði í Frakklandi í vestri til Rúmeníu í austri og frá Norður-Þrændalögum í norðri til Bosníu í suðri. Þessar ristur er að finna á vopnum, skartgripum, steinum og áhöldum. Textarnir eru oftast afar stuttir, nöfn, áheit eða stuttir textar (til dæmis ristan á gullhorninu frá Gallehus á Jótlandi: ek hlewagastiR ÷ holtijaR ÷ horna ÷ tawido ÷ Það er: "Ek Hlewagastiz Holtijaz horna tawido" sem þýðir "Ég HlewagastiR HoltijaR (frá Holti eða sonur Holta) gerði hornið". Af þeim 50 rúnasteinum, sem voru reistir sem minnisvarðar fyrir árið 800 og fundist hafa, eru 35 frá Noregi. Rúnaristur má finna um stóran hluta meginlands Vestur-Evrópu þar sem þjóðflutningar germana fóru yfir á 3. til 6. öld. Oftast eru það einstaka gripir sem hafa fundist en sérlega margir skartgripir með rúnaáletrunum hafa fundist í gröfum í suðurhluta Þýskalands frá 6. öld. Yngri rúnaröð. Yngri rúnaröð, efri röðin svo nefnd danska rúnaröðin, neðri norsk-sænska. Norðurgermönsk mál, þar á meðal norræn, tóku miklum breytingum á 6. og 7. öld og um 700 var eldri rúnaröðin einfölduð á þann hátt að táknum var fækkað úr 24 í 16. Þessi nýja rúnaröð, sem nefnd er yngri rúnaröð eða fuþark hið yngra, kemur í notkun nánast samtímis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi svo það er engu líkara en að Norðurlöndin hafi gert með sé samning um að taka upp nýtt letur. Eitt það merkilega við þessa leturbreytingu er að um svipað leyti fjölgar hljóðum í norrænu samkvæmt greiningum málfæðinga svo eiginlega var þörf fyrir fleiri tákn en ekki færri en áður ef hvert hljóð átti að eiga sitt tákn. Hvers vegna þetta gerist er ekki vitað en tengist þeim miklu breytingum sem verða á þessum málum á sama tímabili. Má vera að úr því að 24 tákn voru ekki lengur nægilega mörg til þess að koma til skila öllum hljóðum málsins þá var álitið að samhengi mundi sýna hljóðígildi þeirra stafa sem hefði fleiri en einn hljóðmöguleika. Sennilegt er að auknar samgöngur og verslun á víkingaöld hafi haft í för með sér aukna þörf á ritmáli enda er mikill hluti rúnafunda frá þessum tíma frá verslunarstöðum. Yngri rúnaröðin kemur upphaflega fram í tveimur gerðum, svonefnd dönsk rúnaröð annars vegar og norsk-sænsk hinsvegar, en síðar má finna ýmsar blöndur og útgáfur. Mikill hluti rúnarista frá víkingatímunum eru rúnasteinar og einn sá frægast og sá sem á eru ristar flestar rúnir, 750 talsins, er frá 9. öld í Rök í Austur-Gautlandi í Svíþjóð. Hefst frásögnin á aft uamuþ stonta runaR þaR, það er "Eptir Vémóð/Vámóð standa rúnar þær". Fyrir utan rúnir úr bæði eldri og yngri rúnaröðinni eru á steininum dulrúnir sem ekki hefur tekist að túlka. Tveir miklir rúnasteinar voru reistir í Jelling á Jótlandi um 1050 og urðu upphaf þess sem nánast má líkja við tísku í rúnasteinagerð. Var stærri steinninn reistur fyrir Harald konung Gormsson. Um 220 rúnasteina má finna í Danmörku frá um það bil 700 til 1125. Frá dönsku héruðunum á Skáni barst tískan norður til Svíþjóðar, einkum til Upplands. Ríflega 2500 rúnasteina frá 11. og 12. öld hafa fundist í Svíþjóð, flestir þeirra greinilega gerðir í kristinni hefð. Ýmsar heimildir eru til um nöfn rúna meðal annars þrjú rúnakvæði frá miðöldum sem auðkennd hafa verið sem íslenskt, norskt og engilsaxneskt. Norsku og íslensku kvæðin eru mjög lík og innihalda eitt erindi um hverja rún í yngri rúnaröðinni en það engilsaxneska er nokkuð frábrugðin enda á það við engilsaxnesku rúnaröðina. Miðaldarúnaröðin. Almenn notkun latneska stafrófsins á Norðurlöndum hófst með kristnitökunni, frá um það bil 950 til 1050, en rúnir voru notaðar samhliða um langan aldur. Viðaukar voru gerðir við yngri rúnaröðina svo að í stað 16 tákna voru í upphafi 13. aldar orðin jafn mörg tákn í norræna rúnaletrinu eins og í latneska stafrófinu. Er þessi rúnaröð nefnd miðaldarúnir eða stungnar rúnir. Stafrófsröð rúnanna var líka breytt og fylgdi nú því latneska. Rúmlega 2700 rúnaristur frá um það bil 1100 til 1500 hafa fundist, ríflega helmingur frá Noregi og þar af um 600 frá Bergen. Stór hluti af ristunum eru tengdar kirkjum, í byggingunum sjálfum, á ýmsum helgidómum og á leiðum. Mikið af ristunum hefur fundist við uppgrefti á miðaldabæjum. Er þar einkum um að ræða einföld skilaboð rist á tréfjalir eða bein, eignarmörk verslunarmanna, persónuleg skilaboð og ástarkvæði svo eitthvað sé nefnt. Um 10% allra miðaldarúnarista eru textar á latínu, til dæmis Ave Maria. Norrænir menn höfðu með sér rúnakunnáttu þar sem þeir námu ný lönd í Rússlandi, á Bretlandseyjum (Danalög, Skotlandi, Dublin, Mön), Færeyjum, Orkneyjum, Íslandi og Grænlandi. Einkum var það á Íslandi og Grænlandi sem rúnanotkun hélst lengi. Í kjölfar Svarta dauða á Norðurlöndum um 1350 stórminnkaði rúnanotkun og einungis fáeinar ristur er að finna frá 15. öld og eru þær einkum frá Gotlandi. Rúnir voru þó notaðar áfram á einstaka svæðum, má þar nefna Dala-hérað í Svíþjóð þar sem sérstök útgáfa rúna var notuð til skreytinga allt fram um aldamótin 1900. Engilfrísísk rúnaröð. Um aldamótin 500 þróaðist sérstök rúnaröð hjá Frísum og Engilsöxum, voru í henni upphaflega 26 tákn og síðar viðaukið í 31. Er rúnaröðin ýmist nefnd engilfrísísk, engilsaxísk eða Fuþorc. Fyrstu sex táknin í þessari rúnaröð eru fuþorc. Fundist hafa um 20 rúnaristur af frísískum uppruna og 90 engilsaxískar. Þessi rúnaröð var notuð frá 6. og fram á 10. öld. Risturnar eru einkum á vopnum, skartgripum, kirkjugripum, steinum og sérlega á peningum. Um Fuþorc rúnirnar er einnig fjallað í nokkrum miðaldahandritum, "runica manuscripta", sem annars eru rituð með latnesku letri. Handritaheimildir um fuþorc-rúnaröðina er einnig að finna í rúnakvæðum sem eru svipuð og samsvarandi norræn kvæði. Rúnir á Íslandi. Einungis hafa tæplega hundrað rúnaristur fundist á Íslandi og eru þær elstu frá 10. eða 11. öld og þær yngstu frá síðari hluta 19. aldar. Um 50 af þessum ristum eru á rúnalegsteinum flestar sennilega frá 15. og 16. öld. Þegar á líður 17. öldina er notkun á rúnum almennt hætt en þær voru í nokkrum mæli notaðar til skrauts í útskurði allt til loka 19. aldar. Einungis ein rúnarista hefur fundist á Íslandi frá söguöld. Er það spýtubrot sem fannst í Viðey 1993 og er að öllum líkindum frá 10. eða 11. öld. Er spýtan rist með táknum úr yngri rúnaröðinni. Það eina sem hefur tekist að ráða með nokkurri vissu er lokaorðið "ast", það er ást og hefur textinn sennilega fjallað um það. Hins vegar eru fjölmörg dæmi um rúnir og rúnanotkun í Íslendingasögunum, til dæmis í Egils sögu Skallagrímssonar og Sturlungasögu. Varla er hægt að draga aðra ályktun en að rúnir hafi verið álíka mikið notaðar á Íslandi á söguöld og annars staðar á Norðurlöndum. Tvær af merkustu rúnaristum á Íslandi eru frá 12. öld og um 1200 og sýna þær að rúnir voru notaðar á hversdagshluti og kirkjuskraut eins og annarsstaðar á Norðurlöndum. Er annað tréreka sem fannst í mógröf í Skorradal 1933 og hitt kirkjuhurðin frá Valþjófsstað. Á rekunna er rist „boattiatmik ' inkialt=r ' kærþi'"“ það er „"Páll lét mik, Ingjaldr gerði"“ (Páll lét mig (gera) Ingjaldur gerði (mig)). Rekan er í einu stykki og gerð úr furu, gæti verið norsk að uppruna. Á kirkjuhurðinni frá Valþjófsstað má sjá myndskurð sem sýnir atriði úr þekktri miðaldasögu um franskan riddara og ljón hans sem var honum svo fylgispakt að það lagðist á gröf hans og veslaðist upp af sorg. Á efri kringlunni er ljónið á gröf riddarans og rúnaletur þar sem stendur: „... rikia kYnYng × her grapin × er ua dreka þænna“, það er „.. "ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna".“ Miðaldarúnaröðin hefur verið notuð í nánast öllum þeim rúnaristum sem fundist hafa á Íslandi. Í henni voru 26 tákn og voru mörg afbrigði af einstaka rúnum notuð á Íslandi. Eitt rúnatákn hefur einungis fundist á rúnaristum á Íslandi og á Grænlandi og annað hefur einungis fundist á Íslandi. Rúnir hafa víða fundist á Íslandi, til dæmis í Bjarnarhelli við Hítarvatn á Mýrum. Rúnir á Grænlandi. Ljósmynd af Kingittorsuaq rúnasteininum Um 80 rúnaristur hafa fundist á Grænlandi, af þeim hafa 45 fundist í Eystribyggð og hinar í Vestribyggð með einni undantekningu. Á eyjunni Kingittorsuaq norðvestur af Upernavik á því svæði sem norrænir menn á Grænlandi nefndu Norðursetu hefur einn rúnasteinn fundist. Elsta rúnaristan er álitin vera frá byrjun 11. aldar og er rist á trékefli og fannst við Narsaq í Kujalleq-sveitarfélaginu. Eru rúnir á þremur hliðum keflisins, á einni hlið er öll 16 tákna yngra Fuþark-röðin ristuð. Tvær af rúnunum, B- og R-rúnin, hafa sérstakt grænlenskt form. Á annarri hlið er textinn + o: sa ÷ sa ÷ sa ÷ is ÷ osa ÷ sat + bibrau ÷ haitir ÷ mar ÷ su ÷ is ÷ sitr ÷ o ÷ blan--... sem þýðir "Á sæ, sæ, sæ, es Ása sát. bibrau heitir mær sú es sitr á Bláni / Blánum(?)..." Á þriðju hliðinni eru dulrúnir sem ekki hefur tekist að þýða. Næst elsta ristan er frá upphafi 13. aldar, legsteinn frá Bröttuhlíð sem á er rist: laiþi ink=ibiarkar, það er: "Leiði Ingibjargar". Flestar aðrar rúnaristur eru sennilega frá frá 14. og 15. öld. Meðal merkilegri funda eru ýmis áhöld með rúnaristum sem fundust við uppgröft á Bænum undir sandinum í Vesturbyggð. Einnig má nefna rúnakefli sem fannst í kistu í kirkjugarðinum á Herjólfsnesi. Á keflið er rist: + þæsi: kona: uar: lagþ ÷ firi: borþ: i: grønalaz: haf(e): ær: guþu(e)h: het sem þýðir: "Þessi kona var lagð fyrir borð í Grœnalands hafi, er Guðveig hét". Hefur Guðveig á þennan hátt komist í vígða jörð. Af rúnaristunum má marka að mál norrænna manna á Grænlandi hafi verið íhaldsamt og sú tunga sem landnámsmenn höfðu með sér frá Íslandi og Noregi hafi tekið fremur litlum breytingum. Einnig má sjá að Grænlendingar héldu fast við þau rúnaform sem tíðkuðust á Norðurlöndum um árið 1000 þó svo að þeir hafi skapað ný form fyrir ð-, b-, p- og r-rúnirnar. Um árið 1300 er ekki lengur hægt að tala um eitt norrænt tungumál í Noregi og á landnámssvæðum Norðmanna. Greinilegt er að tunga Grænlendinga og Íslendinga hefur aðskilist en einnig færeyska, hjaltlenska, orkneyska, suðureyska og fleiri mismunandi mállýskur í Noregi. Í Grænlandsannál þeim sem Björn Jónsson á Skarðsá skráði um 1636 er sagt frá Líka-Loðni sem á að hafa verið uppi um miðja 11. öld. Á sumrum fór Líka-Loðinn norður fyrir byggðir og sótti lík sæfarenda og veiðimanna sem höfðu látist fjarri mannabyggðum. Fann hann oft líkin í hellisskútum og fann þar ósjaldan rúnaristur sem sögðu frá afdrifum hinna látnu. Í Sturlungasögu er meðal annars sagt frá Ingimundi presti Þorgeirssyni og förum hans en skip það sem hann ferðaðist á fórst við austurströnd Grænlands og lík hans fannst þar í helli. Hjá honum í hellinum var vaxspjald þar sem mátti lesa með rúnaletri um afdrif hans. Fjölkynngi. Engin efi er á því að rúnir hafi verið tengdar dulmagni og yfirnáttúrlegum öflum frá upphafi. í Hávamálum er sagt frá því að Óðinn sjálfur hafi fyrstur fengið rúnirnar. Hann hékk undir rótum Yggdrasils í níu nætur, stunginn síðusári, þar til rúnirnar birtust honum. Hann tók þær upp og féll síðan niður úr trénu. Fleiri dæmi eru til um að rúnir hafi komið af himnum ofan eða frá æðri máttarvöldum. Það er þó athyglisvert að mjög fá dæmi er að finna þar sem æsir eru nefndir í þeim rúnaristum sem fundist hafa. Það er hins vegar ekkert sem bendir til að rúnir og rúnanotkun hafi í sjálfu sér verið tengt ásum og fornum sið enda hafði kirkjan ekkert við rúnanotkun að athuga fyrstu aldirnar eftir kristnitöku á Norðurlöndum. Sem dæmi um það má nefna að stór hluti af rúnaristum eru tengdar kirkjunni, á kirkjugripum og ekki síst á legsteinum. Þó svo að rúnir hafi aðallega verið notaðar til veraldlegra samskipta þá hafa þær jafnframt frá upphafi verið notaðar til að hafa áhrif á forlögin og yfirnáttúrulega krafta og ekki síst til að rýna inn í framtíðina. Hin fjölmörgu rúnakefli og aðrir hlutir sem fundist hafa þar sem rúnaröðin er rist á tré eða bein benda til þess að því hafi verið trúað að táknin sjálf búi yfir krafti. Oft voru einungis fyrstu stafir rúnastafrófsins, það er FUÞARK, ristir á viðkomandi hlut og hefur það þótt nægja. Um árið 98 lýsti rómverski sagnfræðingurinn Tacitus aðferðum Germana: „Þeir [Germanar] sníða grein af aldintré og hluta í smábúta, er þeir aðgreina með mismunandi merkjum; strá svo bútunum án greinarmunar og af handahófi á hvítt klæði“. Í íslenskum miðaldaritum er á allmörgum stöðum skrifað um blótspán og að „að fella blótspán“ sem sennilega hefur verið athöfn lík þeirri sem Tacitius lýsti. Einnig er talað um í Völuspá að „kjósa hlautvið“. Engar lýsingar eru hins vegar hverskonar merki eða tákn voru rist á kvistina. 3: f u þ a r k (Freysætt) 2: h n i a s (Hagalsætt) 1: t b m l y (Týsætt) Hver rún hafði þá tvær tölur, ættartöluna og raðtöluna. Ýmsar gerðir tákna voru notuð til að skrifa dulrúnirnar, til dæmis kvistrúnir en þær voru þannig gerðar að settir voru kvistir sitt hvoru megin við lóðrétt strik til hægri fyrir ættartöluna og vinstra megin fyrir raðtöluna. Sérstök gerð af rúnum voru svo nefndar bandrúnir og eru það rúnatákn sem samanstanda af tveimur eða fleiri rúnum og voru notaðar frá því fyrir 800 e. Kr. á legsteinum og minnisvörðum. Á Íslandi voru þær notaðar til merkinga á búfénaði, rekaviði og lausamunum allt fram á seinni hluta 19. aldar. Sérstakir galdrastafir þróuðust úr bandrúnum samtímis því sem rúnanotkun til venjulegra skrifta lagðist af. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð er kór starfræktur af nemendum Menntaskólans við Hamrahlíð og er stjórnandi kórsins Þorgerður Ingólfsdóttir Saga. Kórinn var stofnaður í haustbyrjun árið 1967 en þá hafði Menntaskólinn við Hamrahlíð verið starfræktur í um það bil eitt ár. Þorgerður Ingólfsdóttir stofnaði kórinn og hefur stjórnað honum æ síðan. Hún er brautskráður söngkennari frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og lærði einnig tónvísindi og kórstjórn í Bandaríkjunum. Kórinn telur nú um 100 manns. Hamrahlíðarkórinn. Árið 1981 bættist nýr kór við tónlistarsögu menntaskólans. Sá kór var skipaður þeim sem voru brautskráðir en vildu síður hætta að vinna með Þorgerði. Sá kór er kallaður Hamrahlíðarkórinn á meðan hinn kórinn er kallaður Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Kórinn syngur á öllum helstu hátíðum og athöfnum í skólanum, enda styður skólinn vel við bakið á kórnum. Kórinn heldur reglulega tónleika og syngur einnig á Kleppsspítalanum og Borgarspítalanum. Fjölmörg tónskáld hafa samið eða útsett lög sérstaklega fyrir Hamrahlíðakórinn og má þar helst nefna Atla Heimi Sveinsson, Jón Nordal og Þorkel Sigurbjörnsson. Dýrin í Hálsaskógi. Dýrin í Hálsaskógi (norska: "Klatremus og de andre dyrene i Hakkebakkeskogen") er barnaleikrit eftir Norðmanninn Thorbjörn Egner. Kristján frá Djúpalæk þýddi ljóð leikritsins á íslensku. Það var frumsýnt á Íslandi árið 1962 með þeirri þýðingu í Þjóðleikhúsinu. Harry Potter. Harry Potter er söguhetja úr bókum eftir J.K. Rowling. Bækurnar. Harry Potter er bókasería sem inniheldur sjö bækur, skrifaðar af breska höfundinum J.K. Rowling. Bækurnar fjalla um ungan, munaðarlausan dreng, sem elst upp hjá hræðilegu frændfólki sínu, Dursley-fjölskyldunni og ævintýri hans í galdraheiminum, ásamt Ron Weasley, Hermione Granger og fleirum. Á ellefta aldursári fær hann bréf frá Hogwarts, skóla galdra og seiða, þar sem útskýrt er fyrir honum að hann sé galdramaður og megi því sækja skóla í Hogwarts. Bækurnar snúast aðallega um baráttu hans við vonda galdramanninn Voldemort, sem drap foreldra Harrys þegar hann stjórnaði galdraheiminum og var að reyna að losna við „muggana“ (fólk sem getur ekki galdrað) og galdramenn af muggættum. Búnar hafa verið til myndir, tölvuleikir og ýmislegt fleira. Allar sjö bækurnar hafa verið kvikmyndaðar. Fyrsta bókin, "Harry Potter og viskusteinninn", var gefin út árið 1997 og heitir á frummálinu "Harry Potter and the Philosopher's Stone". Síðan þá hafa vinsældir galdrastráksins aukist til muna. Í júní 2008 höfðu verið seldar yfir 400 milljónir eintaka af bókunum og þær þýddar á 67 tungumál og síðustu fjórar bækurnar hafa slegið heimsmet í því að seljast hraðast, allra tíma. Aðalpersónan. Harry James Potter fæddist þann 31. júlí árið 1980. Harry Potter er lítill og mjór, með dökkt og úfið hár. Hann er með græn augu, kringlótt gleraugu og ör á enninu, sem er í laginu eins og elding. Hann er lifandi eftirmynd föður síns, en er með grænu augun frá móður sinni. Foreldrar hans voru James Potter og Lily (Evans) Potter. Harry er þekktur um allan galdraheiminn sem „drengurinn sem lifði af“. Á hrekkjavöku þegar Harry var rúmlega eins árs kom Voldemort, einn verst innrætti galdramaður sem uppi hafði verið, heim til hans með það í huga að myrða hann og móður hans, því hún var af muggaættum. Ástæðan var sú að spákona nokkur hafði spáð fyrir um að drengur sem líklega var Harry myndi einhvern daginn sigra Voldemort, hinn myrka herra. Voldemort mistókst hins vegar að drepa Harry, en foreldrar hans fórnuðu lífi sínu til að reyna að vernda hann. Þegar Voldemort kastaði drápsbölvun á Harry endurkastaðist hún á Voldemort svo að hann missti máttinn og hvarf á braut, nær dauða en lífi. Harry var hins vegar óskaddaður, fyrir utan eldingarlaga örið á enninu sem hann hlaut við bölvunina. Þar með var Harry munaðarlaus og var skilinn eftir hjá móðursystur sinni (Petuniu) og fjölskyldu hennar, ásamt bréfi sem útskýrði það sem gerst hafði. Ættingjar Harrys voru öll muggar, venjulegt fólk án galdrahæfileika, og höfðu sérstaka andstyggð á göldrum og öllu sem var óvenjulegt. Hann bjó við yfirgengilegt harðræði alla bernsku sína og fékk ekki að vita neitt um galdraheiminn. Á ellefta afmælisdegi Harrys komst hann að því hver hann var í raun og veru. Þá um haustið fékk hann að fara í Hogwartsskóla þar sem hann lærði galdra og fjölkynngi. Hann lenti í Gryffindor heimavistinni sem er ein af fjórum heimavistum skólans og er heimavist hinna hugdjörfu. Í Hogwart eignaðist Harry fjöldann allan af góðum vinum og voru bestu vinir hans Ron Weasley og Hermione Granger. Harry keppti með heimavistarliðinu sínu í Quidditch, sem leitari og er Quidditch íþróttaleikur galdramanna og kvenna. Hann var yngsti leikmaðurinn í heila öld til að keppa í innanskólakeppninni. Harry á snæugluna Hedwig sem Hagrid gaf honum í afmælisgjöf þegar hann varð 11 ára. Hedwig fer oft í póstferðir fyrir hann en hún er talin óvenju klár af uglu að vera. Samband Harrys og Dumbledores skólastjóra er mjög sérstakt og virðist oft sem Harry eigi erfitt með að viðurkenna fyrir Dumbledore þegar hann á í vandræðum eða þegar honum líður illa. Samt virðist skólameistarinn alltaf vita nokkurn veginn hvað er að gerast hjá honum og gerir sitt besta til að líta eftir stráknum. Sirius Black er guðfaðir Harrys og eru þeir góðir vinir. Í honum fann Harry föðurinn sem hann man ekkert eftir og í Harry sér Sirius besta vin sinn endurborinn. Remus Lupin var annar af bestu vinum James og kenndi hann Harry í skólanum eitt árið. Hann er varúlfur og það er í raun honum að þakka að Harry og Sirius kynntust. Hann er einn sá besti kennari sem Harry hefur nokkurn tímann haft í skólanum. Töfrasprotar Harrys (11 tommur úr kristþyrnisviði, fjöður úr fönix) og Voldemorts (13 og 1/2 tomma ýviður, fjöður úr fönix) eru tengdir þar sem þeir eru bræðrasprotar og er kjarni þeirra úr fjöðrum af fönixinum Fawkes sem er gælufönix Dumbledores. Þessar tvær fjaðirir eru einu fjaðrirnar sem þessi ákveðni fönix hefur nokkurntíman gefið af sér til töfrasprotagerðar. Harry fékk líka ýmsa aðra af kröftum Voldemorts þegar hann missti máttinn. Því er Harry talsvert máttugri en aðrir jafnaldrar hans og jafnvel fullþroskaðir galdramenn og auk þess talar hann slöngutungu sem er sjaldgæfur hæfileiki meðal galdramanna. Þennan hæfileika hafði Voldemort líka. Á fjórða ári sínu í Hogwart tók Harry þátt í Þrígaldraleikunum sem voru þá haldnir í fyrsta skipti í yfir 100 ár. Hann var yngsti keppandinn og hefði í raun ekki átt að taka þátt en brögðum var beitt til að hann yrði fyrir valinu. Sá sem stóð fyrir því var yfirlýstur stuðningsmaður Voldemorts og sá hann einnig til þess að Harry stæði uppi sem sigurvegari leikanna þar sem bikarinn var leiðarlykill sem flutti hann beina leið til Voldemorts og þjóna hans. Þar var Harry notaður, gegn eigin vilja, í athöfn til að endurreisa hinn myrka herra. Eftir mikið og erfitt einvígi við Voldemort komst Harry þó heilu og höldnu heim til Hogwart þar sem hann gat sagt frá því sem fram hafði farið um kvöldið. Í fimmtu bókinni kemst Harry að því að Sirius á heima í Hroðagerði 12 og að þar hefur Fönixreglan aðsetur. Hann kemst seinna að því að mamma hans og pabbi, ásamt fleiri foreldrum vina hans voru í upprunalegu reglunni. Í Hogwart kemur fimmti kennarinn í Vörnum Gegn Miklu Öflunum síðan Harry hóf nám sitt við skólann. Hún heitir Dolores Umbridge og hefur mikinn aga, sérstaklega á krökkunum úr Gryffindor. Harry, Ron og Hermione stofna Varnarlið Dumbledores, og eiga þau samskipti við hina með gallonum og eru samskipti þeirra haldin í Þarfaherberginu. Eftir nokkuð mikla æfingu hjá Varnarliði Dumbledores, ákveður Harry að fara í Galdramálaráðuneytið og finna spádóminn um hann og Voldemort. Með honum fara nokkrir vinir hans eins og t.d. Ron, Hermione, Neville Longbottom, Ginny og Luna Lovegood. Þá hefur Voldemort sent drápara sína á staðinn og tefja þeir Harry frá spádómnum þangað til Voldemort kemur þangað sjálfur. Þá hefst mikill bardagi, sem endar með því að Sirius deyr. Hogwart. Hogwart - skóli galdra og seiða, er skólinn þar sem sögurnar um Harry Potter eftir Joanne Kathleen Rowling gerast. Skólabyggingin er í risastórum kastala og er skólinn heimavistarskóli. Heimavistirnar eru fjórar: Gryffindor, Ravenclaw, Slytherin og Hufflepuff. Einkunnarorð skólans eru á latínu: "Draco dormiens nunquam titillandus", eða á íslensku: "Aldrei kitla sofandi dreka". Skólastjóri Hogwart fyrstu sex bækurnar um Harry Potter er Albus Dumbledore og aðstoðarskólastjóri er Minerva McGonagall. Saga skólans. Fyrir rúmlega þúsund árum var Hogwartskólinn stofnaður af tveimur galdramönnum og tveimur nornum: Godric Gryffindor, Salazar Slytherin, Rowenu Ravenclaw og Helgu Hufflepuff. Stuttu síðar klauf Slytherin sig frá hinum, þar sem hann vildi að aðeins að nemendur með hreint galdrablóð mættu sitja skólann. Hinir stofnendurnir voru ósammála, þannig að Slytherin yfirgaf skólann. Áður en hann fór byggði hann leyniklefa sem var hinum stofnendunum ókunnur. Klefinn var undir þeim álögum að hann myndi opnast þegar "sannur erfingi Slytherins" myndi ganga í skólann og opna hann. Þá yrði hræðilegu skrímsli sem þar bjó, sleppt lausu, og átti það að hreinsa skólann af "óhreinum nemendum" (þeim sem ættu mugga fyrir foreldra). Gryffindor. Gryffindor er ein af heimavistunum fjórum í skólanum Hogwart í bókunum um Harry Potter eftir Joanne Kathleen Rowling. Hufflepuff. Hufflepuff er ein af heimavistunum fjórum í bókunum um Harry Potter eftir Joanne Kathleen Rowling. Helga Hufflepuff nefndi heimavistina eftir sér. Einkennismerkið prýðir greifingi en merkið það er gult og svart. Feiti Munkurinn er draugur heimavistarinnar og garðyrkjunornin Prof. Sprout er yfir henni. Nemendur í Hufflepuff eru duglegir, réttlátir og traustir. Slytherin. Slytherin er ein af hinum fjórum heimavistum í skólanum Hogwarts, sem segir frá í bókunum um Harry Potter. Galdramaðurinn Salazar Slytherin sem er einn af fjórum stofnendum skólans stofnaði þessa heimavist. Slanga á grænum og gylltum fleti er tákn vistarinnar sem er stjórnað af Severus Snape. Blóðugi baróninn er draugurinn sem fylgir heimavistinni og inngangurinn er hreinn og sléttur steinveggur sem þar af leiðandi er mjög erfitt að finna. Það sem einkennir nemendur í Slytherin er mikill metnaður, svo mikill að þráin eftir völdum hefur leitt marga þeirra til að ganga til liðs við Voldemort. Slytherin er kallaður slóttugur. Ravenclaw. Ravenclaw er ein af heimavistunum fjórum í galdraskólanum Hogwarts í Harry Potter bókunum eftir Joanne Kathleen Rowling. Blár og silfur einkenna heimavistina sem er nefnd eftir galdrakonunni Rowena Rawenclaw sem var ein af fjórum stofnendum skólans. Það er hinn smái Professor Flitwick sem er yfir heimavistnni Ravenclaw og Gráa Frúin er draugurinn sem vaktar hana. Til þess að komast inn í heimavistina þarftu að komast fram hjá málverkinu af Riddaranum. Einkennismerki vistarinnar er örn. Í Ravenclaw eru þeir kláru og skörpu, þeir sem eru fljótir að læra. Stafsetning.is. Stafsetning.is er íslenskt villuleitarforrit fyrir stýrikerfið Mac OS X og er þróað af Steingrími Árnasyni. Forritið les yfir innsleginn texta í flestum Cocoa-forritum auk þess sem það styður einnig Microsoft Word sem er Carbon-forrit. Núverandi útgáfa Stafsetning 2009, og er önnur útgáfa. Blár. Blár hefur bylgjulengd um 420-490 nm. Kisustelpa. Kisustelpa er kona eða stúlka sem líkist ketti, er með kattareyru og stundum skott en hefur að öðru leyti mannslíkama. Þær finnast bæði í japönskum anime-teiknimyndum og manga-myndasögum. Kisustelpur eru annaðhvort klæddar í þar til gerða búninga; með ásett eyru og lúffur sem líta út eins og loppur eða eru hálfir kettir. Þær eru yfirleitt ákaflega sætar (kawaii) og hegða sér frekar eins og kettlingar frekar en fullvaxta kettir. Dæmi um kisustelpur má finna til dæmis í myndasögunum Tokyo Mew Mew (東京ミュウミュウ), Di Gi Charat (デ・ジ・キャラット), .hack, Geobreeders (ジオブリーダーズ) og DearS (ディアーズ). Skyld fyrirbrigði eru t.d. refastelpur og hundastelpur en það er sjaldgæfara að slíkt sjáist. Einnig eru til kattastrákar (sjá td. Fruits Basket フルーツバスケット, Loveless og Hellsing), refastrákar (sjá Inu Yasha 犬夜叉) og hundastrákar (sjá einnig Inu Yasha). Hindúismi. a>, eða Aum, helgasta orð hindúatrúar. Hindúismi (eða hindúatrú) (सनातन धर्म; venjulega kallað "Sanātana Dharma", gróflega þýtt sem „"trúin sem endist"“) eru þriðju fjölmennustu trúarbrögð heims. Þau eru einnig meðal elstu trúarbragða sem enn eru iðkuð, komin af sömu rót og trúarbrögð Forngrikkja og Rómverja. Þau má rekja til indó-evrópsku Veda-menningarinnar um 2000 f.Kr.. Það er þó ekki svo að segja að hindúismi eins og hann kemur fyrir núna sé gamall, heldur hefur hann breyst mikið í gegnum tíðina með hinum ýmsu breytingum á Indlandsskaganum þar sem þau hafa alltaf verið langmest iðkuð. Hindúismi er í raun lífsviðhorf frekar en trúarbrögð, alltént í hefðbundnum vestrænum skilningi. Í hindúisma eru margir guðir og flokkast trúarbrögðin því sem fjölgyðistrúarbrögð en mikilvægara atriði en að dýrka guðina er samt að lifa vel, og að með endurholdgun ná loks nirvana, hinu endanlega stigi sem markar þann áfanga þegar einstaklingurinn losnar úr lífinu. Hindúismi nútímans er oftast flokkaður í saivisma, shaktisma, vaishnavisma og smarthisma. Upp úr hindúisma má svo segja að trúarbrögðin búddismi, jainismi og síkismi hafi sprottið en saman mynda þessi fjögur trúarbrögð flokk dharma trúarbragða. Ýmis fróðleikur. Hakakrossinn er merki sem er kominn úr hindúisma sem sem kanslari Þýskalands Adolf Hitler tók og færði í nýjan búning er nú tákn um blóð og morð. Mjólk. Mjólk er næringarríkur vökvi sem kvenkyns spendýr framleiða í mjólkurkirtlum og sem ungviði kemst að með því að sjúga spena móður sinnar. Undantekning frá þessu eru nefdýr sem eru án spena, en seytla þess í stað mjólkinni út úr holum á kvið sér. Innihald. Dæmi um innihald kúamjólkur er 85 til 90% vatn, 1,5 til 4,0% mjólkurfita, 3,5% mjólkurprótein (ost- og mysuprótein), 4,5% kolvetni og 0,7% steinefni. Þá inniheldur hún hormón og vítamín sem ungviðið þarfnast til að dafna. Í broddmjólk eru próteinsameindirnar mun lengri en í venjulegri hrámjólk og nýtast jórturdýrum best fyrsta sólarhringinn þar sem slímhúð þarmanna er „opnari“ þá en síðar á æviskeiðinu. Mjólkurfita. Mjólkurfitan myndar kúlur og í hverjum lítra af kúamjólk eru um 3 til 4 milljónir slíkra kúlna. Það er hagur mjólkurvinnslunnar að hafa þessar fitukúlur sem stærstar þar sem það er auðveldara að skilja þær frá undanrennu eftir því sem þær eru stærri. Erfitt hefur reynst að strokka smjör hafi mjólk skemmst eða hún innihaldi hátt hlutfall frírra fitusýra. Mjólkurfitan hefur einnig áhrif á bragð mjólkurvara og hún ber með sér fituleysanlegu vítamínin A-, D-, E- og K-vítamín. Mjólkurprótein. Mjólkurprótein í mjólk skiptist í ostprótein (kaseín), sem er um 74 til 80%, og mysuprótein. Mjólkurpróteinin innihalda allar amínósýrur sem teljast lífsnauðsynlegar manninum (þær sem hann framleiðir ekki sjálfur). Við hitun falla próteinin út, eða hlaupa, og þarfnast mysupróteinið mun minni hitunar en kasein. Við ofhitun mjólkur til ostagerðar getur osthlaupið bundið í sig of mikið vatn en þá skemmist osturinn. Í súrri mjólk, þ.e. við um það bil pH 4,6, fellur kaseinið út og myndar samhangandi hlaup. Mjólkursykur. Mjólkursykur er sykrungur og finnst einungis í mjólk en magn hans fylgir mjólkurmagninu sem dýrið framleiðir. Mjólkursykur brotnar niður við sýringu mjólkurinnar. Vítamín. Bæði vatns- og fituleysanleg vítamín finnast í mjólk en þau helstu eru A-, B1-, og B2-vítamín. Steinefni. Mjólk er kalkrík en hún inniheldur einnig natríum, kalí og magnesíum. Natríum-innihald stígur við júgurbólgu. Brjóstamjólk. Flestar mæður gefa börnum sínum brjóstamjólk fyrstu mánuðina frá fæðingu, jafnvel lengur en tvö ár í sumum tilfellum, en oft er skipt yfir í sérstaka barnamjólk (þurrmjólk) í áföngum eða hún notuð samhliða móðurmjólkinni. Á endanum er barnið fært um að drekka „venjulega mjólk“ úr búðum, þ.e. kúamjólk. Á Íslandi er mjög algengt að fólk drekki mjólk fram eftir aldri, en víða annars staðar er það ekki venjan, og fólk jafnvel missir getuna til að brjóta niður laktósann í mjólkinni með aldrinum, þetta nefnist mjólkuróþol. Sumt fólk þjáist af mjólkurofnæmi. Kaplamjólk og ösnumjólk líkjast mjög brjóstamjólk að efnainnihaldi og valda síður óþoli en kúamjólk. Á Íslandi er kaplamjólk stundum notuð handa ungbörnum sem þola ekki kúamjólk og um skeið var kaplamjólk frá Búlandi í Austur-Landeyjum seld í Hagkaupum. Erlendis er bæði kaplamjólk og ösnumjólk stundum notuð handa ungbörnum sem þola aðra mjólk illa. Mjólkurafurðir. Stærsti mjólkurframleiðandi á Íslandi er Mjólkursamsalan í Reykjavík. Germönsk tungumál. Germönsk mál er stærsti undirflokkur indóevrópskra mála. Meðal annarra tilheyra enska, þýska, hollenska og norrænu málin þessum flokki. Engar skriflegar heimildir um forngermönsku eru til og þess vegna er málið óþekkt í dag. En með samnburði á ýmsum germönskum málum hefur málvísindamönnum tekist að endurskapa forngermönsku að miklu leyti. Úr þessu frummáli tóku þau mál sem urðu að germönskum málum nútímans að þróast um sama leyti og germanskar þjóðir fóru að dreifast um Evrópu í kring um upphaf tímatals okkar. Germönskum málum er oftast skipt í norðurgermönsk eða norræn mál, austurgermönsk og vesturgermönsk. Öll austurgermönsk mál eru nú útdauð; heimildir um þau er aðallega að finna í gotneskum Biblíum; þekktust er svokölluð Silfurbiblía sem skrifuð var um árið 500 auk fjölda rúnasteina. Hugtakið Germanía er talið kynnt í latínu af Júlíusi Caesar og að hann hafi tekið það úr gallísku þar sem það merkti nábúar. Germönsku tungumálin eru venjulega rakin til hirðingja sem höfðust við milli Svartahafs og Kaspíahafs en réðust inn til Evrópu og tóku „Þýskaland“ af keltneskumælandi fólki. Eiginleikar. Taka má eftir að nokkrir fyrirnefndu eiginleikanna voru ekki til á frumgermönsku en þróuðust seinna og breiddust út. Sem dæmi má nefna germanst hljóðvarp og sagnorð í öðru sæti. Germönsk tungumál eru misflókin hvað varðar beygingarendingar. Til dæmis á íslensku og í minna magni á þýsku hafa margir beygingareiginleikar úr frumindóevrópsku verið varðveittir. Önnur tungumál, eins og enska, sænska og afríkanska, eru orðin greinandi tungumál og því eru beygingarendingarnar færri. Saga. Talið er að öll germönsk tungumál hafa rætur að rekja til frumgermönsku. Frummál þetta varð til undir áhrifum reglu Grimms og reglu Verners, líklegast á járnöldinni í Norður-Evrópu, eða um árið 500 f.Kr. Því var frumgermanska töluð frá þessu ári. Frumnorræna varð til á 2. öld e.Kr. og var hún þá mjög svipuð frumgermönsku. Önnur gögn benda til þess að frumgermanska hafi verið töluð frá árinu 1700 f.Kr., á bronsöld á Norðurlöndunum. Tenglar. ! Mólýbden. Mólýbden er frumefni með efnatáknið Mo og er númer 42 í lotukerfinu. Almenn einkenni. Mólýbden er silfurhvítur, gríðalega harður hliðarmálmur. Það hefur einnig eitt hæsta bræðslumark hreinna frumefna. Í litlum skömmtum er mólýbden mjög áhrifaríkt við að herða stál. Mólýbden er mikilvægt fyrir næringu plantna og finnst í sumum lífhvötum, þar á meðal sanþín oxíðasa. Notkun. Tveir þriðju af allri notkun mólýbdens er í málmblöndur. Notkun þess jókst gífurlega í fyrri heimstyrjöld þegar mikil eftirspurn eftir volframi dróg úr framboði á því, og hástyrktarstál voru dýr í kaupum. Mólýbden er notað í dag í hástyrktarmálmblöndur og í háhitastál. Sérstök mólýbdenmálmblendi, eins og Hastelloy® eru sérstaklega hita- og tæringarþolin. Mólýbden er notað í hluti í flugvélar og flugskeyti, og einnig í glóðaþræði. Það er einnig notað sem hvati í olíuiðnaði, þá sérstaklega í hvata sem að notaðir eru til að fjarlægja lífrænan breinnistein úr jarðolíuvörum. Mo-99 er notað í kjarnorkuiðnaði. Mólýbden er einnig notað sem appelsínugult litarefni í málningu, blek, plast og gúmmíefni. Mólýbden tvísúlfíð er gott smurefni, þá sérstaklega við hátt hitastig. Mólýbden er einnig notað í rafeindaiðnaði, sem leiðandi málmlag í TFT skjái. Trúarbrögð. Trúarbrögð eru trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni. Víðari skilgreining er að trúarbrögð sé skýring á sambandi mannsins við alheiminn sem hann þrífst í. Trúarbrögð geta verið allt frá stórri skipulagðri stofnun eins og kaþólsku kirkjunni (sem byggir á eingyðistrú, rithefð og sterku félagslegu skipulagi) til trúarbragða ýmissa ættbálka í Afríku og Ástralíu (sem eru fjölgyðistrúar, byggja á munnlegri hefð og hafa yfirleitt fremur óformlegt skipulag) til þeirrar trúar að ekkert guðlegt afl sé til (guðleysi eða sterkt trúleysi, sem ekki má rugla saman við veikt trúleysi eða vantrú). Með fullri vissu má þó segja að flest trúarbrögð feli í sér trú á eitthvert form af guði eða skyldu afli. Fjölmennustu trúarbrögð heims. Séu trúlausir og guðlausir ekki taldir saman sem ein trúarbrögð er í fimmta sæti búddismi með 376 milljónir fylgjenda. Kílógramm. Tölvugerð mynd af frummyndinni fyrir kílógramm. Kílógramm eða kíló er grunneining SI-kerfisins fyrir massa, táknuð með. Kílógrammið var upphaflega skilgreint sem massi 1 lítra af vatni við 4° Celsius og 1 atm (staðalaðstæður þrýstings). Þessi skilgreining olli nokkrum vandkvæðum þar sem þéttleiki vatns er háður þrýstingi og þrýstingur er háður massa (og þannig er skilgreiningin á mælieiningunni orðin háð sjálfri sér). Kílógrammið var því endurskilgreint sem massi ákveðins sívalnings úr Platiníu og Iridíum, sem er geymdur í Bureau International des Poids et Mesures. Algengur misskilningur er að kílógrammið sé mælieining á þyngdar, þegar þyngd er í eðlisfræðilegum skilningi kraftur og er þá mæld í SI-einingunni njúton. Dulritun. Dulritun (eða dulkóðun) er hugtak í dulritunarfræði sem merkir að breyta ódulrituðum texta í dulrit (dulritaðan texta) með ákveðinni dulritunaraðferð; tilgangur dulritunaraðferðarinnar er að gera dulritið óráðanlegt þeim sem búa ekki yfir ákveðnu leyndarmáli sem er kallað dulmálslykill. Dulráðning er notuð til að snúa ferlinu við, en það ferli er oft það hið sama. Dulritun á sér langa sögu og hefur tekið miklum framförum beint eða óbeint tengt stríðsrekstri. Fyrstu dulritunaraðferðirnar voru umskiptidulritanir:en eins og reiknirit Sesars þar sem hverjum staf í texta er hliðrað um ákveðið bil í stafrófinu og verður textinn þar með óskiljanlegur nema viðtakandinn þekki hliðrunina. Auðvelt reyndist þó að brjóta þessi dulmál og hefur þróun dulmála leitt af sér fágaðari dulritunaraðferðir. Frá og með sjöunda áratug 20. aldar hafa dulmál færst út notkun ríkisstjórna og leynifélaga yfir á einkanotendur. Þau eru notuð á hverjum degi og notfæra sér margir þá tækni án þess að gera sér grein fyrir því. Þannig eru tengingar heimabanka yfirleitt dulkóðaðar og öll GSM raddsamskipti eru dulkóðuð (þó ekki smáskilaboð). Einnig hafa önnur almennari samskipti sífellt farið að nýta sér dulkóðun, svo sem spjallforrit og tölvupóstur. Tupac Shakur. Tupac Amaru Shakur (fæddur 16. júní 1971, dáinn 13. september 1996), einnig þekktur sem 2Pac, Pac og Makaveli var einn þekktasti og áhrifamesti rappari í heimi. Ævisaga. Tupac fæddist í Brooklyn, New York 16. júní 1971 og hlaut nafnið Lesane Parish Crooks, sem var síðar breytt í Tupac Amaru Shakur. Móðir hans, Afeni Shakur var meðlimur í The Black Panthers og hafði verið handtekin fyrir að skipuleggja sprengjuárásir. Hún átti yfir höfði sér allt að 300 ára fangelsisdóm en var sýknuð aðeins mánuði fyrir fæðingu Tupac. Tupac ólst upp í mikilli fátækt í fátækrahverfum New York. Hann þurfti, ásamt móður sinni og systur sinni, Sekyiwa, að flakka mikið á milli fátækrahverfa og hæla fyrir heimilislausa og átti því fáa vini. Hann tók þá til við að semja ljóð og halda dagbækur til að hafa ofan af fyrir sér. Tólf ára að aldri gekk Tupac í leiklistarhóp í Harlem og tók að sér hlutverk Travis í leikritinu A Raisin in the Sun. Fimmtán ára gamall flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Baltimore, þar sem hann gekk í leiklistarskóla. Kennarar hans minnast hans sem góðs nemanda sem hafði brennandi áhuga á ljóðlist og austrænum trúarbrögðum og sökkti sér jafnvel í alfræðiorðabækur. Strax á þessum aldri talaði Tupac líka berorða um jafnrétti kynþátta. Í Baltimore hóf Tupac einnig að semja og flytja rapptónlist undir nafninu MC New York. Tveimur árum síðar fluttu Tupac og fjölskylda til Kaliforníu og það var þá sem Tupac komst í slæman félagsskap. Hann fór að selja fíkniefni og komst í alls kyns vandræði en á sama tíma eignaðist hann félaga sem vöktu áhuga hans á rappi. Hann stofnaði rapphljómsveitina Strictly Dope, ásamt Ray Luv og DJ Dize (upptökur þeirra voru síðar gefnar út sem The Lost Tapes árið 2001). Skömmu síðar gekk hann í aðra rapphljómsveit, Digital Underground, og með þeim kom hann fram á hljómplötu í fyrsta sinn. Árið 1991 fékk Tupac tækifæri til að leika í kvikmynd þegar honum var boðið hlutverk í Juice. Hann hlaut góða dóma fyrir leik sinn í myndinni. Í nóvember 1991 gaf Tupac svo út sína fyrstu sólóplötu, 2Pacalypse Now og náði strax vinsældum, þó ekki eins miklum og Tupac hafði vonast til, þar sem lög hans komust ekki í efsta sæti á vinsældarlistum. Platan var harðlega gagnrýnd af sumum og var sögð hvetja til ofbeldis. Tupac gaf út aðra plötu sína, Strictly 4 My N.I.G.G.A.Z., í febrúar 1993. Á plötunni naut hann hjálpar Shock G við útfærslu laga, þar sem það var ekki hin sterka hlið Tupac. Platan náði mun meiri vinsældum en sú fyrsta, seldist í milljónum eintaka og tvö lög af henni komust í efsta sæti á vinsældarlistum. Á sama tíma komst Tupac í kast við lögin í auknum mæli. Í október 1991 var hann stöðvaður af tveimur lögregluþjónum fyrir að fara ólöglega yfir götu. Eftir að hann sagði þeim að fara til fjandans réðust þeir á hann og börðu hann illa. Tupac fór í mál við ríkið og fékk 42.000 dollara í skaðabætur. Tveimur árum síðar kom hann að tveimur lögregluþjónum sem voru að áreita blökkumann og lenti í slagsmálum við þá og skaut þá og særði. Síðar kom þó í ljós að lögregluþjónarnir voru undir áhrifum og með skotvopn sem hafði verið stolið úr sönnunargagnageymslu á sér, og því voru kærur gegn Tupac lagðar niður. Árið 1994 stofnaði Tupac rapphljómsveitina Thug Life, sem gaf út plötuna við litla athygli. Í desember sama ár var Tupac kærður fyrir kynferðisbrot og í ársbyrjun 1995 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi, þrátt fyrir skort á sönnunargögnum og að neita allri sök. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir dómsúrskurðinn var ráðist á Tupac, hann rændur og skotinn fimm sinnum, m.a. í höfuðið. Hann lifði árásina af og var fluttur á sjúkrahús, þar sem hann gekk undir aðgerð. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir aðgerðina útskrifaði hann sig sjálfur af spítalanum og mætti til að heyra dómsuppskurðinn í kynferðisbrotsmálinu. Hann hóf afplánun í febrúar 1995 og skömmu síðar kom plata út hans, Me Against The World. Platan náði gríðarlegum vinsældum og seldist í milljónum eintaka. Tupac er eini tónlistarmaður sögunnar sem hefur komist í efsta sæti vinsældalista á meðan í afplánun. Á meðan hann var í fangelsi giftist hann langtímakærustu sinni, Keisha Morris. Hann stytti sér stundir með að lesa verk Niccolò Machiavelli og samdi sjónvarpsleikritið Live 2 Tell. Eftir átta mánaða fangelsisvist var Tupac sleppt á skilorði eftir að Suge Knight, yfirmaður hljómplötuútgefandans Death Row Records borgaði 1,4 milljón dollara tryggingu fyrir Tupac, gegn því að hann skrifaði undir þriggja plötu samning við Death Row Records. Eftir þetta varð Tupac enn andsnúnari lögunum og yfirvöldum en áður, að margra sögn vegna reiði yfir því að vera settur í fangelsi fyrir glæp sem hann neitaði alltaf að hafa framið. Árið 1996 gaf hann út plötuna All Eyez on Me, sem var fyrsta tvöfalda hljómplata hans, og í raun fyrsta tvöfalda hljómplata af frumsömdu efni í sögu rapptónlistarinnar. Platan seldist í yfir níu milljónum eintaka og margir telja hana meðal bestu platna í sögu rapptónlistar. Þann 7. september 1996, eftir að hafa verið staddur á hnefaleikakeppni í Las Vegas ásamt Suge Knight, var skotið á bíl þeirra og Tupac varð fyrir fimm skotum. Hann var lagður inn á sjúkrahús, þar sem gerðar voru þrjár aðgerðir til að reyna að bjarga lífi hans. Sex dögum síðar, þann 13. september, lést Tupac af sárum sínum, aðeins 25 ára að aldri. Morðið á Tupac er enn þann dag í dag óupplýst. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um hver hafi staðið fyrir morðinu og því hefur jafnvel verið haldið fram að Tupac hafi sett dauða sinn á svið og telja sig margir hafa vísbendingar um það af plötum hans. Tveimur mánuðum eftir morðið kom út platan, sem Tupac hafði tekið upp rétt fyrir dauða sinn. Á plötunni var dauða hans spáð í mörgum lögum og efni plötunnar var að öllu leyti þungt og dimmt yfir því. Platan var sögð hafa verið unnin á aðeins sjö dögum og eitt vinsælasta lag hennar, Hail Mary, tekið upp á hálftíma. Platan seldist í rúmlega fimm milljón eintökum og var uppspretta ýmissa kenninga um að Tupac væri enn á lífi. Árið 1997 komu út kvikmyndirnar Gridlock'd og Gang Related, sem Tupac hafði leikið í skömmu fyrir dauða sinn. Sama ár kom einnig út ljóðabókin The Rose That Grew From Concrete, sem inniheldur ljóð sem Tupac samdi þegar hann var 18-19 ára. Eftir dauða Tupacs hafa komið út fjölmargar plötur með áður óútkomnu efni hans. Einnig hefur verið gerð heimildarmynd um hann, sem kom út í nóvember 2003. Tupac er af mörgum talinn vera einn besti og áhrifamesti rappari allra tíma. Eitt er víst að hann hafði gífurleg áhrif á tónlistarheiminn og þá sérstaklega rapptónlist. Oft er sagt að þegar hlustað er á hvernig Tupac rappaði, er að hann rappaði djúpt úr maganum þ.e.a.s að hljóðið var framkallað með lofti úr maganum eins og oft er sagt. New York-borg. a>. Gatan, sem horft er niður í er Fifth Avenue. New York (enska "New York City", gjarnan skammstafað "NYC") er fjölmennasta borg New York-fylkis, og jafnframt Bandaríkjanna, með ríflega 8 milljónir íbúa af ýmsum þjóðernum. Borgin er 800 ferkílómetrar að stærð og hefur hlotið viðurnefnið „stóra eplið“ (ensku "the Big Apple", sjá listann yfir gælunöfn). New York-borg er miðstöð viðskipta, stjórnmála, samskipta, tónlistar, tísku og menningar og í henni eru einnig aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Borginni er stjórnsýslulega skipt í fimm hluta: Brooklyn, Bronx, Manhattan, Queens og Staten Island. Saga. Áður en Evrópubúar settust að á svæðinu bjuggu Lenape indíánar þar. Fyrsti Evrópumaðurinn sem kom til New York var ítalinn Giovanni da Verrazzano en hann kom þangað árið 1525. Hins vegar yfirgaf hann staðinn strax og skildi ekkert eftir sig. Það var ekki fyrr en árið 1609 að Hollendingar sendu Englendinginn Henry Hudson, sem Hudsonfljótið er nefnt eftir, og byggð Evrópumanna var stofnuð þar árið 1613. Á meðan Hollendingar réðu yfir borginni kallaðist hún "Nýja Amsterdam" en 1664 náðu Bretar borginni á sitt vald og endurskýrðu hana "New York" (sem stundum hefur verið kölluð Nýja-Jórvík á íslensku) til heiðurs Hertoganum af Jórvík. Jórvík eða York á Englandi er aftur leitt af keltneska staðarheitinu Caer Ebroc. 1673 náðu Hollendingar aftur stjórn yfir borginni og kölluðu hana "Nieuw-Oranje" („Nýju Óraníu“) en gáfu hana endanlega frá sér árið 1674. Brooklyn. Kort sem sýnir Brooklyn (með gulu) innan New York borgar. Brooklyn er hluti New York-borgar í Bandaríkjunum. Brooklyn er fjölmennasti borgarhlutinn, með um 2,5 milljónir íbúa. Brooklyn er staðsett á vestasta hluta Long Island. Til norðausturs er Queens. Á alla aðra kanta er Brooklyn umlukið sjó og sundinu East River. Bronx. Kort sem sýnir Bronx (með gulu) innan New York borgar. Bronx er hluti af New York-borg í Bandaríkjunum. Bronx er nyrsti hluti borgarinnar og sá eini sem er á meginlandi Norður-Ameríku. Borgarhlutanum tilheyra einnig nokkrar litlar eyjar á East River og Long Island Sound. Harlem River aðskilur Bronx frá Manhattan. Um 1,3 milljónir manna búa í Bronx. Queens. Kort sem sýnir Queens (með gulu) innan New York borgar. Queens er hluti af New York borg í Bandaríkjunum. Queens er stærsti hluti borgarinnar (þó ekki sá fjölmennasti). Hann er staðsettur á vesturhluta Long Island. Einnig tilheyra Queens nokkrar litlar eyjar, flestar í suðri á Jamaíkaflóa. Íbúar Queens eru rúmlega 2,2 milljónir og talað er um Queens sem þann hluta Bandaríkjanna sem hefur íbúa af flestum þjóðernum. Tveir af fjölförnustu flugvöllum heims, John. F. Kennedy International Airport og La Guardia Airport, eru í Queens, annar syðst og hinn nyrst. Efnahagur borgarhlutans byggist að mestu á ferðamennsku, iðnaði og viðskiptum. Manhattan. Kort sem sýnir Manhattan (með gulu) innan New York-borgar. Manhattan er minnsti en þéttbýlasti hluti New York-borgar í Bandaríkjunum. Manhattan-eyja er 51,8 km² en til hverfisins teljast einnig nálægar minni eyjar og vatnsyfirborð, samtals er Manhattanhverfi 87,5 km² stórt. Manhattan er staðsett á samnefndri eyju, ásamt nokkrum minni eyjum í kring og litlu svæði á meginlandinu. Manhattan-eyja er aðskilin frá New Jersey af Hudson River, sem er stór og mikil á vestan eyjarinnar og frá Long Island af East River, sem er sund á milli Long Island og Manhattan. Manhattan var upphaflega í eigu Indíána eins og reyndar allt land í Bandaríkjunum. Hollendingar keyptu Manhattan af þeim fyrir lítið fé og reistu þar vísi að borg, sem í upphafi hét Neuwe Amsterdam eða Nýja Amsterdam. Nafninu var svo breytt í New York eftir að Bretar náðu öllum völdum á þessum slóðum. Um 1,5 milljón manns býr á Manhattan. Manhattan skiptist í allmörg hverfi og eru Harlem, Chinatown, Little Italy, Tribeca og Greenwich Village meðal þeirra. Á Manhattan eru meðal annars Empire State-byggingin, viðskiptamiðstöðin Wall Street, Broadway og háskólarnir New York-háskóli og Columbia-háskóli. Neðst á Manhattan stóðu tvíburaturnarnir, World Trade Center, sem hrundu til grunna í hryðjuverkaárás þann 11. september árið 2001. Þar sem þeir stóðu er nú kallað Ground Zero. Á Manhattan eru nokkrir almenningsgarðar og er Central Park þeirra þekktastur og stærstur. Innan Central Park er heill dýragarður, skemmti- og veitingastaðir, vötn og tjarnir, göngustígar og hjólabrautir og fleira. Garðurinn er 3,4 km² að stærð. Staten Island. Kort sem sýnir Staten Island (með gulu) innan New York borgar. Staten Island er einn af fimm hlutum New York borgar í Bandaríkjunum. Staten Island er staðsett á samnefndri eyju í suðvesturhluta New York borgar, nálægt höfn borgarinnar. Þar búa aðeins um 460 þúsund íbúar og er því Staten Island langfámennasti hluti borgarinnar. Frá syðsta odda Manhattan til Staten Island gengur ferja, sem er um það bil 20 mínútur á leiðinni í hvora átt. Leið hennar liggur fram hjá Liberty Island, þar sem Frelsisstyttan (The Statue of Liberty) er og taka ferðamenn sér því oft far með þessari ferju. Flagbjarnarholt. Flagbjarnarholt í Landssveit, Rangárvallasýslu stendur uppi í hæð og sést víða að. Bæjarnafnið var í upphafi Flæalda eða Flagalda, en breyttist síðan í Flagvelta og svo í Flagbjarnarholt eins og það heitir í dag. Tvíbýli er að Flagbjarnarholti. Suðurlandsskjálftarnir árið 1896. Ein harðasta jarðskjálfthrina á Suðurlandi sem heimildir eru til um hófst þann 26. ágúst árið 1896. Enginn fyrirvari var þegar þessir skjálftar dundu yfir og var fólk því algjörlega óviðbúið. Þann dag og daginn eftir hrundu bæir, fólk varð víða heimilislaust, missti bústofn sinn og vetrarforða. Fyrsti skjálftinn átti upptök sín í Landssveit og olli mjög miklu tjóni. Þá mynduðust miklar sprungur og er hægt að sjá þær við bæina Flagbjarnarholt og Lækjarbotna. Landbúnaður. Landbúnaður er sú grein atvinnulífsins sem snýst um að yrkja landið og rækta dýr til manneldis. Landbúnaður hefur verið lifibrauð mannkyns allt frá því að maðurinn þróaðist og fékk nægilega greind til að sjá um akuryrkju og húsdýr. Saga landbúnaðar. Landbúnaður varð fyrst til við lok síðustu ísaldar og upphaf nýsteinaldar fyrir um 12 þúsund árum síðan. Talið er að menn hafi tamið hesta fyrir um 4000 árum síðan og hafi þeir verið notaðir til dráttar og reiðar. Áður hafði maðurinn tamið nautgripi og sauðfé til að hafa sem húsdýr og lifðu af þeir Malaví. Malaví er landlukt land í suð-austurhluta Afríku sem liggur á milli Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Helsta einkenni Malaví er Malaví-vatn sem þekur tæplega 1/5 hluta landsins, en samtals er flatarmál Malaví 120 þús. ferkílómetrar. Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í Afríku og búa þar alls 11 milljónir manna. Fólkið lifir helst á landbúnaði og fiskveiðum í Malaví-vatni. Mikil fátækt ríkir í landinu en ríkari lönd keppast við að hjálpa Malavíbúum með því að kenna þeim arðbærari vinnubrögð í landbúnaði og fiskveiðum, ásamt fullorðinsfræðslu. Saga. Mannvistarleifar sem fundist hafa í Malaví eru taldar vera frá að minnsta kosti 8.000 f. Kr. en þær sýna að ættbálkarnir líktust nokkuð því fólki sem býr á Sómalíu-skaga á okkar dögum. Einnig hafa fundist mannvistarleifar og hellaristur frá því um 1.500 f. Kr. og sýna að fólkið var Búskmenn, þó ekki sömu tegundar og er að finna í Ástralíu. Á 15. öld var Maravi-veldið stofnað við suðvesturströnd Malaví-vatns en það var Amaravi (seinna þekkt sem Chewa-fólkið) sem flúði frá því svæði sem nú er Vestur-Kongó. Maravi-veldi stækkaði og náði yfir bæði Mósambík og Sambíu en leið loks undir lok á 18. öld vegna þess að þrælasala og óeirðir innan stjórnarinnar veiktu veldið. Orðið Maravi er talið þýða "ljósgeislar", en þjóðin vann mikið með járn og lýstu járnbræðsluofnarnir upp næturhimininn — af því er nafnið dregið. Við ströndina þar sem nú er Sambía verslaði Maravi-fólkið við evrópsk skip, sérstaklega portúgölsk en einnig við araba. Helst seldu Maravar járn, fílabein og þræla, en þeir ræktuðu einnig hirsi (milet-korn) og kartöflur. Portúgalar juku verslun sína á 16. öld og komu nú í hafnarborgina "Tete". Þeir komu með maís til landsins, svo mataræði Marava breyttist. Maravar seldu Portúgölum þræla sem sendir voru til plantekra í Mósambík og Brasilíu. Angoni-þjóðflokkurinn réðst inn í Maravi-veldið en hann var á flótta undan Zulu-ættbálkinum, undir stjórn Shaka. Einnig flutti Yao-þjóðflokkurinn sig inn á svæðið til að forðast Makua-ættbálkinn sem var að sölsa undir sig norður-Mósambík. Yao skiptum um trú eftir að hafa kynnst arabísku verslunarmönnunum og tóku upp íslam árið 1870, með tilheyrandi höfðingjum og moskum. Frá bænum Nkhotakota, sem er við vesturströnd Malaví-vatns, fluttu Arabarnir á milli 5 og 20 þúsund þræla ár hvert frá 1840. Milli Yao og Angoni þjóðflokkanna ríkti stanslaust stríð, en hvorugri fylkingunni tókst að ná völdum yfir svæðinu. Marövum fækkaði og veldið þurrkaðist loks út, eftir að hafa háð baráttu við þessar tvær ólíku fylkingar. Bresk nýlenda. Skotinn David Livingstone steig fæti í Malaví árið 1859 og settist að við Malaví-vatn. Hann lét byggja öldungakirkjur og stuðlaði að trúboði. Eitt af markmiðum kirkjunnar manna var að stöðva þrælasöluna við Persaflóa en hún tíðkaðist allt fram á lok 19. aldar. Árið 1878 stofnuðu skoskir verslunarmenn, flestir frá Glasgow, verslunarbandalagið African Lakes Company sem átti að útvega trúboðunum vistir og þjónustu. Bretar gerðu Malaví að verndarsvæði sínu árið 1891 og nýlenduna Nýasaland ("Nyasa" þýðir stöðuvatn á Yao-máli) stofnuðu þeir árið 1907. Þetta var því mjög síðbúin nýlenda. Bretarnir héldu völdunum á fyrri helmingi aldarinnar þrátt fyrir uppreisnir Malava. Þó stækkaði sá hópur íbúanna sem höfðu menntað sig í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessi hópur sameinaðist og stofanði Nyasaland African Congress (NAC) árið 1944. 1953 gengu Nýasaland, Norður-Ródesíu (nú Sambía) og Suður-Ródesíu (nú Simbabve) í ríkjasamband (Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands) vegna ákvörðunar Breta. Sjálfstæðisbaráttan. Árið 1958 kom Dr. Hastings Kamuzu Banda tilbaka til heimalands síns eftir að hafa verið við nám í Bretlandi og við störf í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Strax við komuna á flugvöllinn eignaðist hann marga áhangendur sem sáu ekki sólina fyrir honum og héldu fram að hann væri frelsari landsins. Banda var einkum laginn við stjórnstörf og komst til valda sem forseti Nyasaland African Congress, sem átti eftir að verða flokkur hans til dánardags. Nafnið breyttist fljótlega í Malawi Congress Party (MCP). Banda var handtekinn 1959 fyrir stjórnmálaskoðanir og uppsteyti og var færður í fangelsi, en var látinn laus árið eftir til að geta verið við fund í London um sjálfstæði Malaví. MCP vann stórsigur í kosningum um nýtt löggjafarþing árið 1961. Hastings Banda settist í stól forsætisráðherra 1. febrúar 1963 og sambandsríkið leið undir lok 31. desember sama ár. Malaví varð sjálfstætt land í breska samveldinu 6. júlí 1964 og lýðveldi tveimur árum seinna. Banda settist nú í stól forseta og jafnframt var því lýst yfir að einungis einn flokkur stýrði landinu. Árið 1970 lýsti MCP því yfir að Banda yrði forseti landsins til dauðadags og landið sjálft gerði hið sama árið eftir. Ríkti hann síðan í þrjá áratugi, eða til ársins 1997. Ólíkar fylkingar stjórna. Auknar óeirðir og þrýstingur frá malavískum kirkjum og öðrum þjóðum varð til að þess að árið 1993 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ríkistjórnin ætti að vera samsett úr einum flokki eða fleirum og féllu úrslit á þann veg að fólkið vildi sjá fleiri flokka við stjórnartaumana. Frjálsar kosningar voru haldnar 17. maí1994. United Democratic Front (UDF) vann 82 af 177 sætum löggjafarþingsins og forseti flokksins, Bakili Muluzi var valinn forseti landsins. UDF og Alliance for Democracy (AFORD) mynduðu ríkisstjórn en hún rann út í sandinn 1996 – þó héldust nokkrir meðlimir hennar í stjórn. Stjórnarskrá Malaví, sem var samþykkt 1995, frátekur MCP þau sérstöku völd sem flokkurinn hafði og nú fór hagsældarboltinn að rúlla – með tilkomu nýrra stjórnarhátta. 15. júní 1999 voru á ný haldnar frjálsar þingkosningar. Muluzi var endurkosinn forseti landsins, þrátt fyrir að bandalagi MCP og AFORD væri telft fram gegn UDF. Í maí 2004 voru á ný haldnar kosningar og bar Bingu wa Mutharika sigurorð af þeim John Tembo og Gwanda Chakuamba í forsetakosningunum. UDF náði hins vegar ekki að vinna meirihluta þingsæta eins og í tveimur fyrri kosningum. Flokkurinn gat myndað ríkisstjórn með þingflokksformönnnum og nýkjörnum forseta landsins. Hinn síðastnefndi yfirgaf þó flokkinn þann 5. febrúar 2005 og stofnaði eigin flokk; Democratic Progressive Party (DPP). Náttúra. Sigdalurinn mikli liggur eftir Malaví endilöngu frá norðri til suðurs og er Malavívatn meðal annars ofan í þessum sigdal. Beggja vegna við sigdalinn eru hásléttur sem eru að mestu leyti í 900 til 1.200 metra yfir sjó. Hæst teygir Nyika-hálendið í norðri sig upp í 2.600 metra hæð og sunnan við Malaví-vatn er Shire-hálendið sem er í 600 til 1.600 metra hæð. Þar er líka að finna Zomba-fjall og Mulanje-fjall sem eru 2.130 og 3.048 metra há. Alveg syðst í landinu er hæðin 60 til 90 metrar. Vegna þessa hæðarmismunar getur verið nokkur hitamismunur í landinu. Þá er jarðvegurinn frjósamur en ræktunarskilyrði eru þó háð úrkomu. Helst er ræktað te og kaffi á plantekrum, en einnig hrísgrjón, maís, kartöflur, sykurreyr og bómull. Fátt er um stór spendýr í landinu vegna mannmergðar. Helst ber þó að nefna ljón en engir fílar lifa þar. Stór svæði í landinu eru þjóðgarðar sem girtir eru af en vegna fátæktar stelur fólk girðingahlutum svo dýrin sleppa oftar en ekki út. Af búfénaði rækta Malavar einna mest nautgripi og geitur. Malaví-vatn. Malaví-vatn er alls 29 þús. ferkílómetrar að stærð, sem gerir það að þriðja stærsta stöðuvatni í Afríku. Vatnið er talið hafa myndast í sigdalnum mikla fyrir um 40 þúsund árum síðan. Í vatninu og við strendur þess er mikið líf og er byggðin þéttust á bökkum þess og eru þar mörg þorp og bæir, þeirra á meðal Monkey Bay sem er við suðurenda þess. Að vatninu liggja þrjú lönd, auk Malaví eru það Mósambík og Tansanía. Í vatninu eru nokkrar eyjar, flestar austanmegin í því. Einungis tvær þeirra eru byggðar, Likoma og Chizumulu, sem eru hólmlendur Malaví, en allt í kringum þær tilheyrir vatnið Mósambík. Eyjaskeggjar lifa á að rækta banana og mangó auk þess sem þeir veiða úr vatninu. Í báðum eyjunum er rafmagn en það er aftengt eftir klukkan 11 á kvöldin til að spara rafalseldsneyti. Við suðurenda vatnsins rennur Shire-áin úr vatninu en hún er ein af þverám Zambezi-fljótsins. Menn hafa haft miklar áhyggjur af fiskistofnum í vatninu, vegna þess að veiðimenn veiddu helst á eintrjáningum á grunnsævi en ekkert lengra úti á vatninu. Talið er að grunnsjávarfiskar hafi átt undir höggí að sækja en úr því hefur verið bætt með því að koma stórvirkari veiðibátum, sem jafnast á við íslenska báta, út á meira dýpi. Heimamenn hafa fengið hjálp frá Slippstöðinni á Akureyri og var bátur frá þeim afhentur Malövum árið 1993. Einnig hefur Landhelgisgæslan hjálpað þeim við kortlagningu á botni vatnsins á árabilinu 2000 til 2004. Veðurfar og loftslag. Loftslag í Malaví telst vera heittemprað og er regntíminn frá nóvember til apríl en þess á milli er lítil sem engin úrkoma í landinu. Við strendur Malaví-vatns og niður Shire-dalinn er heitt og rakt í regntímabilinu. Í Lilongwe er sá háttur einnig á, þó það sé ekki eins mikill loftraki þar. Frá júní til ágúst er þægilega heitt í kringum vatnið en í öðrum hlutum landsins getur næturkuldinn farið niður í 5° til 14 °C. Í mars 2006 misstu um 8 þúsund manns heimili sín í mið- og suðurhlutum landsins vegna flóða og vatnsveðurs. Stjórnmál. Malaví hefur frá 1994 hlotið lýðræðislega stjórnun. Eftir stjórnarskrársamþykktina 1995 er forsetinn bæði þjóðhöfðinginn og höfuð ríkisstjórnarinnar. Forsetinn er kosinn í almennum kosningum á 5 ára fresti. Jafnframt er varaforseti kosinn á sama tíma. Auka varaforseta getur forsetinn valið sjálfur en hann verður að koma úr öðrum flokki. Forsetinn velur jafnframt ríkisstjórnarmeðlimi úr löggjafarþingi landsins eða utan þess. Löggjafarþingið hefur 193 þingmenn sem eru kjörnir í frjálsum kosningum til 5 ára. Stjórnarskráin tekur tillit til tveggja deilda innan þingsins, öldungadeildar með 80 sæti og neðri deildar. Öldungadeildin hefur þó aldrei komið saman en er hugsuð til þess að ólíkar hópar þjóðfélagsins geti komið kosningamálum sínum á framfæri. Stjórnarskráin tekur tillit til óháðs réttarkerfis. Dómstólakerfi Malaví byggir á enskri mynd og skiptist í þrjú stig; lægri dómstóla, hærri- og áfrýjunardómstól. Stjórnin innan hinna 27 stjórnarsvæða er kosin á 5 ára fresti en þessi stjórnarsvæði skiptast í 3 stærri svæði sem er stjórnað af einu stjórnarhöfði. Fyrstu kosningar innan stjórnarsvæðanna 27 voru 21. nóvember 2004 og vann UDF-flokkurinn 70% sætanna. Þriðju kosningarnar eftir að ríkið fékk fjölflokkastjórn áttu að vera 18. maí 2004 en var frestað um tvo daga eftir áfrýjun til hærri dómstóla frá uppreisnarbandalaginu Mgwirizano ("eining") um ólöglegar atkvæðaskráningar. Kosningaeftirlitsmenn frá ESB og breska samveldinu sögðu þó að kosningar gengju friðsamlega fram. Utanríkismál. Malaví rekur enn þá utanríkisstefnu sem Banda setti í stjórnartíð sinni. Landið hefur góð sambönd við mikilvæg vesturlönd. Náið samband Malaví við Suður-Afríku undir aðskilnaðarstefnunni ("apartheid") hafði slæm áhrif á samband landsins við önnur ríki Afríku en þetta lagaðist þó við endalok apartheid árið 1994. Frá 1985 til 1995 tók landið við meira en 1 milljón flóttamönnum frá Mósambík. Þetta hafði mikil áhrif á hagkerfi Malaví en ýtti þó undir alþjóðlegan stuðning. Árið 1996 sótti fjöldi Rúanda- og Kongómanna um landvistarleyfi. Ríkisstjórnin tók ekki fyrir leyfin en notaði þó hugtakið „hæli í fyrsta landi“ sem átti að þýða að ef fólk hafði leitað hælis í öðru landi fyrst fengi það ekki leyfi. Mikilvæg lönd sem veita fjár til Malaví eru meðal annars Bandaríkin, Kanada, Líbýa, Þýskaland, Ísland, Japan, Holland, Noregur, Finnland, Svíþjóð, Tævan og Bretland. Einnig eru það Alþjóðabankinn, Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn, ESB og Sameinuðu þjóðirnar. Í október 2006 var tilkynnt að söngkonan Madonna væri í Malaví til að sinna munaðarlausum börnum. Þróunarsamvinnustofnunu Íslands (ÞSSÍ) hefur meðal annars byggt framhaldsskóla í landinu en auk þess hafa sjálfboðaliðar og hjúkrunarfræðinemar frá HÍ unnið í landinu. Skemmst er þess að minnast þegar landlæknir fór til starfa í landinu til eins árs. Stjórnarsvæði. "(Tölurnar eru úr manntalinu í september 1998)" Lýðfræði. Upplýsingarit sem sýnir fólksfjölgun í þúsundum frá 1961 til 2003 Malavar eru af Marövum komnir en þeir skiptust í tvær greinar þegar þeir komu á svæðið fyrir um 600 árum síðan. Forfeður Chewa-fólksins tóku sér stöðu við vesturströnd Malaví-vatns á meðan forfeður nyajan-fólksisns settust að við austurströnd þess. Chewarnir eru 90% þeirra sem búa í miðhluta landsins ("Central Region") á meðan nyajan ríkja í suðurhlutanum og tumbuka-fólkið í norðurhlutanum. Í landinu búa einnig Evrópu- og Asíubúar sem komu til landsins til starfa við trúboð. Evrópubúarnir eru flestir bretar eða portúgalir sem komu frá Mósambík á meðan Asíubúarnir eru flestir indverjar. Heilsa. Barnadauði er nú 103 börn á hverja 1000 fæðingu. Yfir 1 milljón börn eru foreldralaus, þar af eru 700 þúsund þeirra foreldralaus vegna þess að foreldrarnir létust úr alnæmi. Samkvæmt útreikningum ríkisstjórnarinnar eru 12,4% íbúa landsins HIV-smitaðir og 90 þúsund látinna árið 2003 létust úr alnæmi Mataræði. Undirstaða mataræðis er maís en undanfarin ár hefur uppskerubrestur verið árviss. Neyðin var þó hvað verst árið 2002 þegar uppskeran reyndist tæp hjá þriðjungi íbúanna. Árið eftir var hún knöpp á 30% íbúanna. Hjálparstofnanir hjálpa fólki landsins með því að dreifa matvælum og munaðarvöru. Ríkisstjórnin hefur einnig ýtt úr vör verkefni sem á að hjálpa fólki að komast í ræktun með því að dreifa maís-fræjum og áburði en verkefnið hefur verið misnotað og varningurinn ekki komist í hendur þeirra sem átti hann eyrnamerktann. Bingu wa Mutharika-stjórnin hætti þessu verkefni með því að draga úr dreifingu áburðar til bænda. Árið 2005 lýsti forsetinn því yfir að í landinu ríkti „þjóðarhörmung vegna matarskorts“. Trúarbrögð. Flestir Malavar eru kristnir og eru 55 af hundraði þeirra mótmælendur, 20% rómversk-kaþólskir. Kristninni er blandað saman við gamlar hefðir sem innibera meðal annars dansa og grímur. 20% íbúa eru múslimar og halda flestir til á ströndum Malaví-vatns. Um 5% íbúa hafa önnur trúarbrögð og stunda dansa og aðra helgisiði. Tónlist. Frá gamalli tíð hafa Malavar verið farandfólk og þess vegna hefur tónlist þeirra dreifst um alla sunnanverða Afríku. Fáir malavískir tónlistarmenn hafa hlotið frægð í útlöndum. Eitt af því sem ýtti undir að erlend tónlist ruddi sér rúms var að hermenn í seinni heimsstyrjöld tóku hana með sér til landsins. Undir lok stríðsins var banjó- og gítartónlist vinsælasta danstónlistin. Á 7. áratug síðustu aldar var afríska kwela-tónlistin hvað vinsælust og stærstu stjörnurnar voru Daniel Kachamba & His Kwela Band. Malavískur djass ruddi sér einnig til rúms með hljómsveitum á borð við Jazz Giants, Linengwe River Band, Mulanje Mountain Band og Chimvu Jazz. Tónlistin líktist þó ekki bandaríska frænda sínum. Í byrjun 8. áratugarins kom rafmagnsgítarinn til landsins og hafði þar með áhrif á tónlistarlíf landans. Inn ruddist bandarískt rokk og ról, sálartónlist og fönk. Á 9. áratugnum komu angar af "sokous"-tónlist frá Austur-Kongó og breyttist í malavísku útgáfuna kwasa kwasa. Á þessum tíma var einnig trúartónlist ("gospel") vinsæl en vinsældir hennar jukust á 10. áratugnum og sérstaklega eftir heimsókn páfans árið 1998. Trúartónlistin var huggun í fátækt landins. Reggítónlist varð einnig vinsæl, sérstaklega við strendur Malaví-vatns. Íþróttir. Vinsælustu íþróttirnar í Malaví eru knattspyrna en einnig þær íþróttir sem hvað mest voru stundaðar í breska heimsveldinu. Knattspyrnan er stunduð á nýplægðum ökrum í sveitum landsins og hefur landið knattspyrnulandslið karla. Konur stunda meira netbolta. Eftir nýlendutíð landsins hafa komið nýjar íþróttir á borð við blak og körfuknattleik. Frjálsar íþróttir og víðavangshlaup hefur þróast eftir að landið varð óháð bretum. Frumkvöðull í því var dr. Harold Salmon, trúboði sem starfaði í Malaví á árunum 1966 til 1968. Þekktasta frjáls-íþróttakempa Malaví er Catherine Chikwakwa sem nú býr og æfir í Þýskalandi. Við háskólann í Malaví eru einnig íþróttamenn og eru íþróttirnar í uppgangi í landinu. Aðrar íþróttir á borð við tennis og veggjatennis eru einnig stundaðar, þó í minna mæli. Áhrifin koma úr sjónvarpi og hlaut veggjatennis-landsliðið þátttökurétt á Samveldisleikunum 2006. Íslenskur landbúnaður. Íslenskur landbúnaður er sú grein atvinnulífsins sem snýst um að yrkja landið og rækta dýr og/eða jurtir til manneldis eða annarra nytja. Bændasamtök Íslands halda saman ólíkum greinum samtakanna og öllum búnaðarsamtökum í landinu. Landbúnaður hefur verið stór hluti af lifibrauði Íslendinga allt frá landnámi og byggðist landið að mestu leyti upp þar sem góð ræktunar- og búskaparskilyrði voru til staðar. Suðurlandsundirlendið, Borgarfjarðarhérað, Fljótsdalshérað, Eyjafjörður, Skagafjörður og Húnavatnssýslur hafa því lengst af verið þéttbýlustu svæði landsins, eða allt þar til fólksflutningarnir til höfuðborgarinnar breyttu því. Jawi. Jawi-stafrófið. Taflan er lesin frá hægri til vinstri, að ofan niður. Jawi er útfærsla á arabíska stafrófinu fyrir malasísk tungumál. Það er annað af tveimur opinberum leturkerfum í Brúnei, og að hluta notað í Malasíu, Indónesíu og Singapúr, einkum í trúarlegu samhengi. Kynning. Jawi-stafrófið hefur verið til í margar aldir á Malaja-svæðinu. Þróun þess hefur verið tengd komu Íslams í heimshlutann. Það samanstendur aðallega af arabískum stöfum en einnig nokkrum sem aðeins eru í Jawi. Jawi-stafrófið er eitt elsta letur sem notað hefur verið til að skrifa Malaj. Það hefur verið í notkun síðan á tíma Pasai íslams, til Súltánadæmisins Malacca, Súltánadæmisins Johur og í Aceh á 17. öld. Sannanir fyrir þessu finnast Terengganu töflunni frá því 1303 e.Kr., á meðan elstu heimildir um rómverskt stafróf eru frá því undir lok 19. aldar. Nas. Nas (Nasir Jones, f. 14. september 1973 í Queens, New York), einnig þekktur sem Nasty Nas, Nas Escobar og Nastradamus, er bandarískur tónlistarmaður og rappari. Ævisaga. Nas, sem heitir fullu nafni Nasir bin Olu Dara Jones, fæddist 14. september 1973 í Queens í New York. Hann er sonur Ann Jones og jazztónlistarmannsins Olu Dara, og á einn yngri bróður, Jabari (oft kallaður "Jungle"). Fjölskyldan bjó í skamman tíma í Brooklyn, en flutti svo til Queensbridge í Queens. Eftir nokkur ár skildu foreldrar Nas og hann ólst upp hjá móður sinni, ásamt bróður sínum. Nas hætti í skóla eftir áttunda bekk og fór að selja fíkniefni á götum New York borgar, ásamt því að mennta sjálfan sig með lestri á afrískri sögu og menningu, Kóraninum, Biblíunni og Five Percent Nation. Árið 1991 kom Nas fram á hljómplötu í fyrsta sinn. Það var í laginu "Live at the Barbeque" á plötu Main Source. Rapphæfileikar hans vöktu mikla athygli í rappheiminum og skömmu síðar bauð MC Serch honum að koma fram í lagi á plötu sem MC Serch var að vinna að. Nas gerði MC Serch að umboðsmanni sínum og árið 1992 skrifaði Nas undir plötusamning við hljómplötuútgefandann Columbia Records. Margir óttuðust að þetta stóra útgáfufyrirtæki myndi spilla hinum hreina New York stíl sem Nas hafði tileinkað sér, en sá ótti reyndist ástæðulaus. Fyrsta plata Nas, Illmatic, kom út árið 1994 við góðar undirtektir. Platan fékk afbragðsdóma og var sögð hreint meistaraverk. Hún er enn í dag talin ein allra besta plata í sögu rapptónlistar. Þrátt fyrir góðar undirtektir seldist platan þó ekki eins vel og vonast hafði verið til. Nas skipti um umboðsmann og réð Steve Stoute í stað MC Serch. Önnur plata Nas, It Was Written, kom út sumarið 1996. Hún var mun poppvænni en fyrri platan. Mörgum líkaði ekki hin nýja stefna sem Nas hafði tekið og átöldu hann fyrir að hafa vikið frá hinum hráa stíl sem hann hafði áður í von um að bæta söluna. Tvö lög af plötunni, "If I Ruled the World" (sem söngkonan Lauryn Hill úr The Fugees kemur fram í) og "Street Dreams", náðu þó miklum vinsældum og vöktu athygli fleiri tónlistarunnenda á Nas. Önnur athyglisverð lög á plötunni eru "The Message" og "I Gave You Power", sem segir sögu út frá sjónarhorni byssu. Nas gekk í hljómsveitina The Firm, ásamt AZ, Foxy Brown og Cormega. Hljómsveitin gerði samning við útgáfufyrirtæki rapparans Dr. Dre, Aftermath Entertainment, og hóf upptökur á plötu hljómsveitarinnar. Cormega var síðar rekinn úr hljómsveitinni eftir að hafa neitað að gera samning við umboðsfyrirtæki Steve Stoute. Í stað hans kom rapparinn Nature. Cormega varð eftir þetta bitur andstæðingur Nas og gagnrýndi hann, Steve Stoute og Nature margoft í lögum sínum. Árið 1997 kom svo út plata The Firm. Platan seldist vel, þrátt fyrir að hafa enga vinsæla smáskífu, en hlaut ekki góða dóma og sneru meðlimir hljómsveitarinnar sér að sólóferlum sínum. Árið 1998 fór Nas að vinna að sinni þriðju sólóplötu, sem átti að heita "I Am... The Autobiography" og vera tvöföld plata. Nas reyndi að finna milliveg hinnar hráu "Illmatic" plötu og hinnar poppvænu "It Was Written". Vinnslu plötunnar lauk í ársbyrjun 1999 og tónlistarmyndband fyrir lagið "Nas Is Like" var tekið upp. En seinni disk plötunnar var lekið á internetið og Nas neyddist til að minnka plötuna í einfalda plötu, sem hlaut nafnið I Am og var gefin út í apríl 1999. Gert var tónlistarmyndband fyrir lagið "Hate Me Now", sem Sean Combs (einnig þekktur sem Puff Daddy og P. Diddy) kom fram á. Í myndbandinu voru Nas og Sean krossfestir á svipaðan hátt og Jesús, sem átti að vera táknrænt fyrir hvernig gagnrýnendur krossfestu Nas fyrir að verða of poppvænn. Eftir tökur á myndbandinu snerist Sean (sem er kaþólskur) hugur um krossfestingu sína og bað um að hún yrði fjarlægð úr myndbandinu. Upphaflega útgáfa myndbandsins var þó afhent MTV tónlistarsjónvarpsstöðinni og sýnd á stöðinni. Sean réðst í bræði sinni inn á skrifstofu Steve Stoute og er sagður hafa ráðist á hann og barið hann í höfuðið með flösku. Steve kærði atvikið en féll frá málinu eftir að hann og Sean sömdu um málið. Columbia Records áætlaði að gefa seinni disk hinnar leknu plötu út í árslok 1999 undir nafninu Nastradamus, en á síðustu stundu ákváðu forsvarsmenn fyrirtækisins að Nas ætti að semja algerlega nýja plötu, sem kom svo út í nóvember. Platan fékk frekar slæma dóma, en þó náði lagið "You Owe Me" (sem söngvarinn Ginuwine kemur fram í) nokkrum vinsældum. Á plötunni er aðeins eitt af lögum upphaflegu plötunnar, "Project Windows" (sem Ronald Isley kemur fram í). Síðar voru leknu lögin notuð ásamt nokkrum öðrum til að gera plötuna The Lost Tapes, sem kom út árið 2002. Eftir útgáfu Nastradamus skiptust Nas og nokkrir aðrir þekktir rappara á "disslögum", þar sem þeir gagnrýndu og gerðu grín hver að öðrum. Þetta hófst með því að í laginu "Nastradamus" var lína ("If you wanna ball till you fall/I can help you with that") sem rapparinn Memphis Bleek tók sem móðgun þar sem hún virtist gera grín að honum, því í einu lagi hans segir hann "I'm'a ball till I fall". Memphis Bleek gerði gagnárás á Nas í laginu "My Mind Right". Árið 2000 gaf Nas, ásamt nokkrum öðrum röppurum frá Queensbridge, út plötuna Nas and Ill Will Records Present QB's Finest. Á plötunni koma meðal annarra fram Mobb Deep, Nature, Littles, The Bravehearts og Cormega, sem hafði náð tímabundnum sáttum við Nas. Á plötunni var gagnárás Nas á Memphis Bleek, þar sem hann nefndi flesta tónlistarmenn hljómplötuútgefandans Roc-a-Fella Records, þar á meðal Jay-Z. Jay-Z svaraði fyrir sig í lagi sínu "Takeover", þar sem hann sagði "Illmatic" einu góðu plötu Nas. Nas gerði gagnárás með laginu "Ether", þar sem hann sakar Jay-Z um að stela texta af plötum hins heitins rappara Notorious B.I.G., ásamt því að vera öfundsjúkur út í sér frægari rappara. Lagið "Ether" var eitt af aðallögum næstu plötu hans, Stillmatic. Stillmatic var af mörgum talin marka endurkomu Nas, þar sem hún þótti líkari fyrstu plötu hans en hinum. Platan seldist vel og nokkur lög af henni komust á vinsældarlista. Athyglisvert lag á plötunni er "Rewind", sem segir sögu afturábak. Jay-Z reyndi að svara fyrir "Ether" með laginu "Supa Ugly". Flestum þótti hann þó ganga of langt, m.a. með því sem jaðraði við hótunum við dóttur Nas. Að lokum sættust þó rappararnir tveir. Á sama tíma lést móðir Nas úr krabbameini, sem tók mikið á hann og fékk hann nánast til að hætta í tónlistarbransanum. Árið 2002 gaf hann þó út plötuna God's Son, sem hlaut góðar undirtektir og afbragðsdóma og seldist vel. Lagið "I Can", sem inniheldur hluta úr "Fur Elise" eftir Beethoven, náði miklum vinsældum. Sjöunda sólóplata Nas kom svo út í nóvember 2004. Það var tvöfalda platan Street's Disciple. Á plötunni koma meðal annarra fram faðir Nas, Olu Dara, og eiginkona hans, söngkonan Kelis, sem hann giftist í janúar 2005. Nas á eina dóttur, Destiny, úr fyrra sambandi. Hann rekur sitt eigin hljómplötufyrirtæki, Ill Will Records, sem er nefnt eftir góðum vini hans sem var myrtur. Norska. Norska ("norsk") er norrænt tungumál, sem talað er í Noregi. Er hluti af germanskri grein indóevrópsku málaættarinnar. Norska hefur þróast úr fornnorrænu svipað hinum vesturnorrænu málunum en hefur orðið fyrir miklum dönskum áhrifum vegna þess að frá 16. og fram á 19. öld var danska eina ritmálið í Noregi. (Danmörk og Noregur voru í ríkjasambandi frá 1380 til 1814). Töluð norska og töluð sænska eru gagnkvæmt skiljanlegar, eins er með dönsku en er það þó ekki eins auðvelt. Hins vegar eru skrifuð norska (sérlega bókmál) og danska afar líkar. Saga. Norska hefur þróast úr frumnorrænu (n. "urnordisk") sem var notað fyrstu 1000 ár okkar tímatals í Skandinavíu. Dæmi um þetta mál má finna víða ritað með rúnum. Á víkingatímanum (u.þ.b. 800-1050) fór þetta mál að skiptast í tvennt, austurnorrænt (sem varð að forndönsku og fornsænsku) og vesturnorrænt, en hið síðarnefnda er oft kallað norræna (sem varð forníslenska og fornnorska). Upp úr 1100 náði latneska stafrófið útbreiðslu í Noregi. Norræna var töluð í Noregi, á Íslandi og í Færeyjum og er það afbrigði sem var talað í Noregi kallað fornnorska (n. "gammelnorsk"). Fornnorska var töluð og skrifuð milli áranna u.þ.b. 750 og u.þ.b. 1350. Árið 1350 dó norska ritmálið nánast út því flestir ritfærir menn dóu úr svarta dauða. Eftir það varð ritmál í noregi eins konar blanda af norsku, dönsku og sænsku. Það er stundum kallað millinorska (n. "mellomnorsk"). Vegna sameiningar Noregs og Danmerkur (sjá Dansk-norska ríkið) og siðakiptanna árið 1536 (þ.e. í Noregi) varð danska smátt og smátt eina ritmálið í Noregi. Noregur var sameinaður Danmörku til ársins 1814 (Noregur fékk þá eigin stjórnarskrá þann 17. maí sem nú er þjóðhátíðardagur Noregs) og fram til ársins 1850 var danska eina opinbera ritmálið í Noregi. Í kringum 1830 hófust umræður um að Noregur ætti að hafa sitt eigið ritmál. Noregur var á þessum tíma í ríkjasambandi með Svíþjóð, milli 1814 og 1905. Þátttakendur í umræðunni skiptust í tvo hópa. Annar hópurinn vildi að Noregur myndi þróa alveg nýtt ritmál á grunni mállýskna landsins. Sá hópur var með Ivar Aasen í fararbroddi og kallaði nýja ritmálið landsmál (n. "landsmål"). Árið 1929 fékk landsmálið opinbera nafnið nýnorska (n. "nynorsk"). Hinn hópurinn vildi gera danska ritmálið „norskulegra“ með að skipta út dönskum orðum fyrir norsk í smátt og smátt. Forsprakki þess hóps var Knud Knudsen. Það mál var kallað ríkismál (n. "riksmål") en árið 1929 ákvað Stórþingið að það skyldi kallast bókmál. Upp úr 1900 reyndu menn að gera landsmálið og ríkismálið líkari hvort öðru og reyna að fá útkomu sem yrði samnorskt ritmál. Til að fá þetta í gegn voru gerðar stórar málabreytingar árin 1917, 1938 og 1959. Samnorskan mætti miklu mótlæti bæði frá bókmáls-/ríkismálsmönnum og nýnorsku-/landsmálsmönnum. Árið 1966 var framkvæmd um sameiningu málanna lögð af. Í dag eru bæði bókmál og nýnorska opinber ritmál í Noregi. Mállýskur. Norskt talmál einkennist af miklum mállýskumun. Það er nánast einstakt í heiminum að mállýskur hafi formlega jafn sterka stöðu eins og þær hafa í Noregi. Þótt skylt sé að nota bæði opinberu málin í skólakerfinu er notkun mállýskna mjög útbreidd hvort heldur er í ríkisútvarpi, á opinberum samkomum eða í einkasamtölum. Þéttbýlismyndunin hefur þó smám saman jafnað út mállýskumuninn en það hefur svo orðið til þess að svæðisbundnum málaafbrigðum hefur fækkað. Helstu mállýskusvæðin nú á dögum eru í Vestur-Noregi. Notkun mállýsku í venjulegu talmáli er jafn algeng hjá þeim sem nota bókmál eins og þeim sem nota nýnorsku sem ritmál. Ritmál. Ritmál eftir sveitarfélögum Um 86.2% nemenda í norskum grunnskólum hafa valið að nota bókmál og um það bil 13.8% nýnorsku. Allir nemendur verða þó að læra bæði málaformin. Þess er krafist að opinberir starfsmenn geti skrifað bæði málin. Af 431 sveitarfélögum í Noregi hafa 160 bókmál sem opinbert ritmál sveitarfélagsins og 114 nýnorsku en 157 sveitarfélög eftirláta einstaklingum sem vinna hjá hinu opinbera að velja form. Málfræðiágrip. Fjöldi kynja nafnorða í norsku eru nokkuð umdeild en eru oftast talin þrjú: karlkyn (k), kvenkyn (kv) og hvorugkyn (h). Nánar tiltekið hefur nýnorska þrjú kyn: karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn, en bókmál getur haft hvort sem er, tvö eða þrjú kyn. Það sem kallast á norsku „radikalt bokmål“ hefur sömu þrjú kyn og nýnorska (og íslenska) en það sem kallast „moderat bokmål“ hefur tvö kyn: samkyn og hvorugkyn (líkt og danska). Almennt er talað um að bókmál hafi þrjú kyn og að kvenkynsorð megi einnig nota eins og karlkynsorð. (Munurinn felst í ákveðnum viðskeyttum greini og lausum óákveðnum greini.) Hermione Granger. Hermione Jean Granger (borið fram [həˈmaɪ.ə.niː]?) er persóna úr bókunum um Harry Potter eftir J.K. Rowling. Hún á að vera fædd 19. september 1979. Hermione gengur í galdraskólann Hogwarts ásamt Harry og Ron. Hermione kynntist ekki galdraheiminum fyrr hún var 11 ára, enda er hún fædd inn í muggafjölskyldu, en foreldrar hennar eru bæði tannlæknar. Hermione er án efa gáfaðasta nornin í árganginum. Hún hefur dálæti á bókum, og er bókasafnið í Hogwartskóla hennar uppáhaldsstaður. Hún er þó ekki eins góð í námsgreinum sem hún getur ekki lesið sér til um og þar með lært, t.d. Quidditch og spádómafræði. Hermione er ein allra mikilvægasta persóna bókaflokksins. Á lokasprettinum nýtur Harry aðstoðar hennar og hefði án efa ekki getað án hennar verið. í kvikmyndunum um Harry Potter er Hermione leikin af Emmu Watson. Hún og Ron Weasley hafa alltaf verið svolítið hrifin af hvort öðru, en einnig borið vott af pirringi í garð hvors annars. Í sjöundu bókinni tekur Hermione loksins af skarið og kyssir Ron í miðjum bardaga í Hogwartskóla. Þau giftast svo, og eignast tvö börn, Hugo og Rose. Voldemort. Lord Voldemort er erkióvinur Harry Potter og persónan sem flestir hræðast svo mikið að þeir þora ekki að nefna nafn hans, er sá sem gerði Harry Potter að því sem hann er. Á ensku heitir hann Tom Marvolo Riddle en kaus að endurraða stöfunum (anagram) í: I am Lord Voldemort og kallar sig því Lord Voldemort eða bara Voldemort. Í íslensku bókunum hefur hann hins vegar verið nefndur Trevor Delgome en þannig er hægt að endurraða stöfunum í Eg er Voldemort (Ég er Voldemort). Hér verður fjallað um lífshlaup þessa myrka og máttuga galdramans. "Athugið! Hér á eftir verður talað um Voldemort sem Tom Riddle'", en það er nafnið hans á ensku." Fyrstu árin. Galdramaðurinn sem kallaður er Lord Voldemort, Hann-sem-má-ekki-nefna, Þú-veist-hver, Myrkri herrann og Tom Marvolo Riddle fæddist árið 1927 í Litlu Hangleton. Móðir hans, sem var norn og afkomandi Salazars Slytherins, varð ástfangin af Tom Riddle, sem var muggi. Tom Riddle bjó á herragarði sem stóð á hæð með útsýni yfir þorpið Litlu Hangleton. Herragarðurinn var einn af stærstu og bestu byggingum á stóru svæði. Móðir Voldemorts fékk Tom Riddle til að verða hrifin af sér við hjálp af göldrum. Dag einn ákvað hún að það væri tímabært að hann myndi elska hana fyrir Þann sem hún var og hætti að brugga honum ástardrykkinn. Tom Riddle yfirgaf hana samstundis, jafnvel þótt hún væri ólétt. Móðir hans dó stuttu eftir að hann fæddist, þannig að hún rétt náði að gefa honum nafn, Tom Riddle, eftir föður sínum, og Marvolo, eftir afa sínum. Voldemort var alinn upp á munaðarleysingjaheimili ásamt öðrum muggum. Albus Dumbeldore kom til hans á munaðarleysingjahælið þegar Voldemort var í kringum 11 ára og sagði honum að hann væri galdramaður og bauð honum inngöngu í Hogwart. Dumbeldore leist ekki á blikuna þegar Voldemort lét hann vita af öllu sem hann hafði gert við hina strákana á hælinu með göldrum. Voldemort trúði því ekki að mamma hans hefði verið norn, þá hefði hún getað haldið sér á lífi. Í Hogwart 1938–1945. Tom Riddle byrjaði nám sitt í Hogwart árið 1938 og var settur í Slytherin heimavistina, en hann varð að fara aftur í munaðarleysingjaheimilið sem að hann hataði í skólafríum. Hann lýsti sér sem "fátækum, en snilldarlegum, fátækum, en þó svo hugrakkur, umsjónarmanni og fyrirmyndarnemanda" þótt hann vissi að það var einn kennari sem dýrkaði hann ekki eins mikið og allir aðrir kennarar. Sá kennari var þáverandi umbreytingarkennarinn, Albus Dumbledore. Tom komst að sögunni um leyniklefann, sem hafði verið byggður af forföður hans, Salazar Slytherin. Leyniklefinn var djúpt í iðrum Hogwartkastala og Slytherin hafði búið þannig um hnútana að aðeins sannur erfingi hans gæti opnað klefann og sleppt lausum hryllingnum sem átti að hreinsa skólann af "öllum sem voru óverðugir þess að galdra". Á þessum var Tom byrjaður að nota nýtt nafn á meðal nánustu vina. Þar sem hann fyrirleit nafnið á muggaföður sínum endurraðaði hann stöfunum í nafninu sínu, Tom Marvolo Riddle. Stafirnir stöfuðu nú "I am lord Voldemort" (Á íslensku heitir hann Trevor Delgome til að stafirnir raðist í "Eg er Voldemort"). Voldemort var nafn sem hann vonaði að "galdramenn hvaðanæva að myndu einn daginn hræðast að nefna." Þá væri hann orðinn "mesti galdramaður í heimi!" Það tók Tom fimm ár að finna út allt sem hann gat um Leyniklefann og finna innganginn og skrímslið sem þar bjó. Skrímslið var basilíuslanga og Tom gat stjórnað henni því hann gat eins og Slytherin sjálfur talað slöngutungu. Tom sendi basilíuslönguna inn í skólann og hún slasaði nokkra nemendur og drap stelpu að nafni Vala sem fannst látin á stelpnaklósettinu. 13. júní 1942 bjó Tom þannig um hnútana að Rubeus Hagrid var sakaður um árásirnar og plataði Tom skólameistarann, Armando Dippet, til að trúa að Hagrid og risastór könguló, Aragog, sem Hagrid átti, væru ábyrgir fyrir árásunum. Tom fékk verðlaun fyrir "sérstaka þjónustu við skólann" en fann að Dumbledore var að fylgjast óþægilega náið með honum. Því taldi hann ekki öruggt að opna leyniklefann aftur á meðan hann var í skólanum. Tom varðveitti hluta af sál sinni í dagbók sem að hann vonaði að myndi, dag einn, láta einhvern hjálpa honum við að "ljúka því göfuga verki sem Slytherin hafði byrjað á". Atburðirnir í Litlu Hangelton 1944-1945. Síðasta ár Toms í Hogwart var 1944 til 45. Hann var umsjónarmaður, nemendaformaður og fékk orðu fyrir galdrahæfileika. Dumbledore sagði seinna að hann hafi sennilega verið snjallasti nemandi sem nokkurn tíma hefði gengið í Hogwart. Sumarið 1945, eftir að hafa klárað skólann, hefndi hann sín á mugganum, föður sínum. Garðyrkjumaður Riddle-fjölskyldunnar, Frank Bryce, sagði lögreglunni seinna að daginn sem Riddle-fjölskyldan var drepin, hefði hann séð unglingspilt, dökkhærðan og fölan, að sniglast í kring um herragarðinn. Daginn eftir fann þjónustustúlka Riddle eldri og aldraða foreldra hans látin í borðstofunni "enn þá í kvöldverðarklæðnaði". Þau voru ísköld og með hræðslusvip, en engin merki um að hafa slasast líkamlega. Riddlefjölskyldan var grafin í kirkjugarðinum í Litlu Hangelton. 1945-1970. Eftir að hafa myrt Hepzibah Smith og rænt tveimur dýrmætustu gripunum hennar fór Tom huldu höfði í nokkur ár. Á þeim tíma ferðaðist hann um heim allan og sökk djúpt í Myrku öflin. Hann átti samneyti við verstu nornir og galdramenn heims og gekkst undir svo margar hættulegar hambreytingar í leit að krafti og ódauðleika. Þegar hann kom aftur og kallaði sig opinberlega Lord Voldemort, gerðu fáir sér grein fyrir því að þetta var myndarlegi og snjalli drengurinn úr Hogwart. Fyrsta upprisa Myrkravaldsins; 1970-1981. Á áttunda áratugnum byrjaði Voldemort að safna fylgismönnum. Margir sem slógust í hóp með honum gerðu það til að fá sneið af þeim völdum sem honum fylgdu, en fleiri og fleiri gerðu það til að forðast hefndir. Árin sem Voldemort styrkti völd sín einkenndust af mannshvörfum og auknum átökum í galdraheiminum. Fylgismenn hans kölluðu sig Drápara (s) og hann leit á þá sem sína "sönnu fjölskyldu". Drápararnir notuðu frjálslega ófyrirgefanlegu bölvanir þrjár á hvern þann sem storkaði þeim eða neitaði að ganga í hópinn. Margir Dráparar sögðu seinna að á þá hefði verið beitt stýribölvun til að láta þá framkvæma morð og grimmdarverk, þrátt fyrir að mörg drápin hefðu bara verið "til gamans". Drápararnir voru merktir með myrkratákninu; hauskúpu með slöngu sem skagaði út úr munninum eins og tunga, sem var brennt innan á vinstri handlegginn. Þeir sendu merkið úr í loftið, formað úr smaragðsgrænum stjörnum í grænu reykjarskýi, eftir að þeir höfðu drepið, sem orsakaði sundrung og hræðslu hvar sem það sást. Voldemort hagnaðist á deilum milli galdraheimsins og risanna, og margir risar bættust í hóp fylgismanna hans og báru ábyrgð á fjöldamorðum á muggum. Gagntekinn af fréttum af drápum, mannshvörfum og misþyrmingum í hræðsluþrungnu andrúmsloftinu, heimilaði Bartemius Crouch, yfirmaður "víkingasveitar galdramálaráðuneytisins", skyggnum () að nota ófyrirgefanlegu bölvaninnar á móti þeim sem voru grunaðir um stuðning við Voldemort. Hann ráðlagði þeim að aflífa, frekar en handtaka grunaða og þeir voru jafnvel framseldir til vitsuganna, án nokkurra réttarhalda. Á þessum tíma var aðeins einn staður óhultur, Hogwart, og margir gátu sér til að þrátt fyrir að Myrkrahöfðinginn segði þetta um Dumbledore, "Hann er forsprakki alþýðunnar, mugga og blóðníðinga", þyrði hann ekki að horfast í augu við hann, enda vissi hann að Dumbledore vann nótt sem nýtan dag til að sporna við honum. Dumbledore stofnaði Fönixregluna á þessum tíma. Það var hópur galdramanna og norna sem börðust á móti Drápurum og Voldemort. Meðal þeirra voru Lily og James Potter, Frank og Alice Longbottom, Sirius Black, Peter Pettigrew og Skröggur illaauga (:en:Mad eye Moody). Þeir voru fáliðaðir miðað við dráparana, og drápararnir myrtu Fönixmeðlimi ásamt allri fjölskyldu þeirra. Lord Voldemort var orðin máttugri en nokkur lifandi galdramaður og hafði nú náð markmiði sínu, að stærsti hluti galdraheimsins gæti ekki nefnt hann á nafn af ótta við hann og sagði í staðinn Þú-veist-hver eða Sá-sem-ekki-má-nefna. Á hátindi ferilsins, árið 1979, heyrði Myrkrahöfðinginn orðróm um að um hann hefði verið gerður spádómur sem sagði til um þann sem gæti drepið hann. Voldemort heyrði aðeins lítinn part úr spánni, að þessi persóna myndi vera fædd í lok júlí og eiga foreldra sem höfðu lifað af þrjár tilraunir til að drepa hann. Voldemort uppgötvaði að hann yrði að finna og drepa þetta barn. Stuttu seinna fæddist Harry Potter, þann 31. júlí. Foreldrar hans, Lily og James Potter, voru meðlimir í Fönixreglunni og höfðu komist undan Voldemort í þrígang. Það var reyndar annar strákur sem kom líka til greina enn það var Neville Langbottom. Samt sem áður ákvað Voldemoort að Harry hlyti að vera barnið sem spádómurinn sagði til um. Voldemort gerði dauðaleit að drengnum, en þau voru vel falinn og honum mistókst. Hvernig sem því líður sveik vinur fjölskyldunnar þau og 31. október, 1981 ruddist Voldemort inn á heimili Potterfjölskyldunnar. Hann drap James og Lily dó einnig þegar hún reyndi að vernda son sinn sem var greinilega næsta fórnarlamb Voldemorts. Þegar Lord Voldemort, magnaðasti galdramaður myrku aflanna sendi drápsbölvunina á Harry Potter, endurkastaðist hún hins vegar á hann sjálfan og gerði hann líkamalausan og kraftlausan. Voldemort flúði. Voldemort dó hins vegar ekki af því að hann hafði tvístrað sál sinni (helkrossar),í sex hluta en Harry varð óvart sá 7undi. Þess vegna var ekki hægt að drepa hann fyrr enn allir helkrossarnir væru ónýtir. Albus Dumbledore. Albus Percival Wulfric Brian Dumbledore er persóna úr bókunum um Harry Potter eftir J.K. Rowling Dumbledore er sagður búa yfir undraverðum hæfileikum og krafti. Maður sem býr yfir ógurlegri visku, maður sem allir treysta, en hefur samt mikið skopskyn. Dumbledore er oftast klæddur fjólublárri skikkju, háum skóm með sylgjum og með stóran galdrahatt sem hann skiptir stundum út fyrir eyrnaskjól. Hann er skólastjóri Hogwarts, skóla galdra og seyða. Hann er einnig formaður Wizengamot galdraréttarins og Galdramannasambandsins. Honum bauðst að setjast í stól Galdramálaráðherra nokkrum sinnum, en hafnaði boðunum. Það varð til þess að Cornelius Fudge settist þar í hans stað en Cornelius leitaði oft til Dumbledores sem er mjög skiljanlegt því hann Dumbledore okkar talinn vera alvitur. Dumbledore er hár og grannur og með langt bogið nef, sem lítur út fyrir að hafa brotnað a.m.k. einu sinni. Hann gengur með hálfmánalöguð gleraugu og er með svo langt silfurlitað skegg, sem einu sinni var rauðbrúnt, að hann bregður því oft undir beltið. Hann er líka með ör fyrir ofan vinstra hnéð sem er fullkomið kort af lestarkerfi Lundúna. Augu hans eru blikandi og blá og góðlátleg. Honum var gefið nafnið Albus Percival Wulfric Brian Dumbledore. Albus kemur úr latínu og þýðir hvítur. Percival var einn af riddurunum við hringborðið og Dumbledore er gamalt enskt orð yfir býflugu. J.K. Rowling höfundur bókanna segist ímynda sér að hann gangi um kastalann hummandi við sjálfan sig. Albus hefur áhuga á kammertónlist. Hann á bróður sem heitir Aberforth, sem er undarlegur maður og rekur krána Glaða villigaltarins í þorpinu Hogsmeade. Eins og er sagt frá í bókinni "The Deathly Hallows" er Dumbledore sonur Percivals Dumbledore, sem var þekktur muggahatari, og Kendru Dumbledore. Albus Dumbledore fæddist um það bil 1840 (gróflega reiknað út frá dagsetningum sem eru gefnar, og gefum við okkur það, að hann sé fæddur 1840, hér á eftir í textanum. Þar gæti því oft skeikað svona 5 árum.) og settist því á skólabekk í Hogwarts, skóla galdra og seiða, árið 1851. Hann var flokkaður í Gryffindor heimavistina. Hann útskrifaðist þá 1858. Dumbledore var mun metnaðargjarnari þegar hann var yngri, og hafði áætlanir um að stjórna samfélagi þar sem galdramenn réðu yfir Muggum, ásamt hinum illa galdramanni Gellert Grindelwald. Eftir að móðir Dumbledores dó, kenndi bróðir hans, Aberforth, honum um dauða hennar og braut á honum nefið í jarðaför Kemdru móðir Dumbledores og Aberforth. Deilur þeira enduðu með einvígi milli hans, Aberforths og Grindelwalds og endaði með því að álög frá einhverjum þeirra lentu á systur Dumbledores, Ariönu og drápu hana. Grindelwald flúði til meginlands Evrópu og var seinna leitaður uppi af Dumbledore og sigraður. Dumbledore hélt eftir sprota Grindelwalds og gerði hann að sínum eigin. Albus gerist kennari í ummyndun og tók seinna við skólastjóratitli, eða um 1970.Hann er talinn vera besti skólatjóri Hogwarts skóla galdra og seiða fyrr og síðar. 1945 sigraði hann hinn myrka galdramann Grindelwald. Dumbledore er helsta stoð og stytta Harrys og trúir honum alltaf. Dumbledore er skemmtilegur karakter, bráðgreindur, en hefur þó alla mannlega eiginleika eins og kímni og hreinskilni. Dumbledore lést árið 1996 í Hogwartskastala. Hann var myrtur af Severusi Snape þáverandi kennara í Vörnum gegn myrku öflunum, fyrrverandi töfradrykkjameistara, drápara og verðandi skólameistara, í bókinni Harry Potter og blendingsprinsinn. Pappírsskutla. Pappírsskutlur (eða skutlur) eru leikfangaflugvélar, búnar til úr pappír. Algengasta gerð pappírsskutlugerðar er líklega útgáfa á hinu japanska origami, það er pappírsbrot. Vinsældum þeirra eru einkum að þakka því hversu einfalt er að læra að búa þær til, þær einföldustu geta verið „tilbúnar“ eftir aðeins sex brot eða svo. Saga. Notkun pappírs við leikfangagerð er talin vera allt að 2000 ára gömul og upprunin í Kína, þar sem flugdrekaflug var vinsæl afþreying. Þrátt fyrir að þeir hafi verið forrennarar nútíma skutlunnar, er ekki hægt að vita fyrir víst hvar sú á uppruna sinn; hönnun þeirra hefur verið í sífelldri breytingu út af hlutum eins og hraða, flughæð og útliti. Elsta þekkta dæmi um að pappírsskutla hafi verið búin er sagt vera frá 1909 en almennara er að tala um að það hafi verið árið 1930, og þá hafi það verið Jack Northrop (annar stofnenda Lockheed flugvélafyrirtækisins) sem hafi búið hana til. Northrop notaði skutlur til að fá hugmyndir fyrir alvöru flugvélar. Gerðir. Óteljandi gerðir skutla eru til. Hér er einungis tveimur slíkum lýst. Rétthyrnt blað, til dæmis af stærð A4, er notað. Leiðbeiningar. Mynd sem lýsir hvernig skal búa til skutlu. Þessa hönnun er síðan hægt að nota sem grunn við það að búa til ýmsar aðrar skutlur. DC-03. Margir hafa haldið því fram að hafa búið til „heimsins bestu skutlu“. Ein slík er DC-03. Hún hefur stóra vængi til svifs og, sem er mjög sjaldgæft í pappírsskutlum, stél. Það eru hins vegar engin heimssamtök um skutlugerð svo enginn getur staðfest eða hrakið þá fullyrðingu. Dursley-fjölskyldan. Dursley-fjölskyldan er frændfjölskylda Harry Potter úr samnefndum bókum eftir J.K. Rowling. Þegar foreldrar Harrys eru myrtir er hann skilinn eftir á dyraþrepinu hjá Dursley fjölskyldunni, rétt tæplega 15 mánaða gamall. Fjölskyldan býr í tveggja hæða húsi númer 4 á Runnaflöt (enska: Privet Drive), Litlu Whinging, (enska: Surrey). Petunia Dursley er móðursystir Harrys og hafði því fyrrum ættarnafnið Evans, rétt eins og Lily, móðir Harrys. Petunia hefur ekki snefil af galdrahæfileikum og hatar galdra. Ástæðan fyrir hati hennar á göldrum er að litla systir hennar Lily fékk bréf um að hún gæti komist inn í Hogwarts. Petunia ákvað að senda Dumbeldore bréf til að vita hvort hún gæti ekki lika komist inn í Hogwarts. Hún fær svar til baka um að hún geti það ekki af því að hún hafi ekki neina galdrahæfileika og fer að líta á galdra sem eitthvað hræðilegt. Þegar hún kemst að því að Lily laumaðist inn í herbergið hennar með Severus Snape og las bréfið slettist upp á vinskapinn milli þeirra og hún hefur hatað systur sína síðan. Petunia er grönn með óvenju langan háls sem hún notar til að kíkja yfir grindverkið og inn í garð nágrannanna, enda er hún forvitin, snobbuð og forpokuð. Harry er neyddur til að kalla Vernon Dursley Vernon frænda, þó að Vernon sé ekki blóðskyldur honum. Vernon deilir galdrahatrinu með konu sinni og er mjög leiðinlegur við Harry. Vernon vinnur í borverksmiðju og er stuttur, feitur og nánast hálslaus. Dudley Dursley er sonur þeirra hjóna og á svipuðum aldri og Harry. Hann er akfeitur, með ljósan lubba og 7 undirhökur. Honum er spillt af foreldrum sínum og fær allt sem hann vill. Hjá Dursley fjölskyldunni býr Harry við mikið harðræði. Foxy Brown. Foxy Brown (f. 6. september 1978) er bandarísk rapptónlistarkona, sem heitir réttu nafni "Inga Marchand". Foxy Brown fæddist í New York og hóf feril sinn árið 1996, 16 ára að aldri, þegar hún söng: "I Shot Ya" á hljómplötu LL Cool J, "Touch Me, Tease Me" á plötu Case, "You're Makin' Me High" á plötu Toni Braxton, "Ain't No..." með Jay-Z og "No One Else" með Total. Sama ár gerði hún samning við hljómplötuútgefandann Def Jam og gaf út sína fyrstu sólóplötu, Ill Na Na. Platan seldist vel en fékk mjög misjafna dóma. Mörgum þótti efni plötunnar heldur gróft miðað við aldur Foxy og kyn, en platan fékk þó víða góða dóma og lögin "I'll Be" (ásamt Jay-Z) og "Get Me Home" (ásamt Blackstreet) náðu miklum vinsældum. Síðar sama ár tók Foxy, ásamt Dru Hill, upp lagið "Big Bad Mama", sem var notað sem kvikmyndartónlist í Def Jam's How to Be a Player. Foxy gekk í rappsveitina The Firm, ásamt AZ, Nas og Cormega (sem var síðar rekinn, en staðgengillinn Nature tók við). The Firm gaf út plötuna árið 1997, en platan hlaut litla athygli og því sneru meðlimirnir sér aftur að sólóferlum sínum. Árið 1999 gaf Foxy út aðra sólóplötu sína, Chyna Doll. Sú plata seldist ekki eins vel og sú fyrsta, en varð þó fyrsta plata kvenrappara til að komast í fyrsta sæti á plötuvinsældarlista Billboard strax í fyrstu viku. Á plötunni var lagið "Hot Spot", sem náði miklum vinsældum. Þriðja plata Foxy Brown kom út árið 2001. Það var platan Broken Silence, sem er sú allra persónulegasta af plötum Foxy. Platan náði miklum vinsældum og hlutu lögin "Candy" (sem söngkonan Kelis syngur einnig), "Oh Yeah" (sem reggae-söngvarinn Spragga Benz syngur) og "BK Anthem" mikla athygli. Foxy var hrósað fyrir góða söngtexta á plötunni. Árið 2003 kom Foxy fram í lagi DJ Kay Slay, "Too Much For Me" og ári síðar gaf hún út smáskífuna "I Need A Man". Hún vann að gerð plötunnar "Ill Na Na 2: The Fever" en útgáfu plötunnar var frestað vegna deilna á milli Foxy og forstjóra Def Jam, Lyor Cohen, og að lokum var samningi Foxy hjá fyrirtækinu sagt upp. Síðar kom Foxy fram í sjónvarpsþætti og sagðist vera að vinna að ýmsum verkefnum, svo sem hlutverki í kvikmynd og raunveruleikaþætti, samningi við annan hljómplötuútgefanda og fleira. Foxy Brown var tilnefnd til Grammy verðlaunanna árið 2003, í flokki kvensólórappara en vann þau þó ekki. Foxy hefur allan sinn feril átt í deilum við rapparann Lil' Kim en hefur árangurslaust reynt að semja við hana. Foxy er gift söngvaranum Spragga Benz. Vallaskóli. Vallaskóli á Selfossi er nýlegur skóli og var hann myndaður við samruna Sandvíkurskóla og Sólvallaskóla á Selfossi. Breytt kennsla. Sumarið 2005 var ákveðið að fella niður bekkjaskiptingar 1. og 2. bekkjar heldur verður kennt í 10 manna hópum sem hafa einn kennara sér til halds og traust. Þó byrjar dagurinn á því að nemendurnir mæti til síns umsjónarkennara. Fyrsti og annar bekkur verður Sandvíkur-megin en eldri bekkir Sólvalla-megin. Þjórsárskóli. Þjórsárskóli er íslenskur grunnskóli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem varð til við samruna Brautarholts- og Gnúpverjaskóla. Skólaárið 1999-2000 byrjaði samstarf skólanna og haustið 2004 fékk skólinn sitt núverandi nafn, og kemur það til vegna nærveru sveitanna til Þjórsár. Skólastjóri skólans er Rut Guðmundsdóttir og eru rúmlega 60 nemendur við hann. Haustið 2004 hlaut skólinn Grænfánann frá Landvernd. Deilur. Miklar deilur hafa verið í sveitarfélaginu varðandi staðsetningu skólans en nú er kennt á tveimur stöðum; yngri börnum í Brautarholti og þeim eldri í Gnúpverjahreppi. Matsmenn frá KÍ höfðu skoðað bæði skólahúsnæðin og gáfu út skýrslu þar sem meðal annars kom fram a að auðveldarar væri að koma húsnæði Gnúpverjaskóla í slíkt horf að allir krakkar sveitarinnar gætu komist fyrir þar. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2006 var því lofað að skólinn yrði á einum stað en slík loforð ýttu undir mikla óánægju hjá íbúum sveitarinnar og klofnuðu bæði skólanefnd og hreppsnefnd varðandi þetta mál. Því var ákveðið, eftir kosningarnar, að slá flutningunum á frest. Torstensonófriðurinn. Torstensonófriðurinn var styrjöld milli Danmerkur og Svíþjóðar sem varði frá því þegar sænski herinn gerði innrás í Danmörku, 12. desember 1643, til 13. ágúst 1645 þegar friðarsamningar voru undirritaðir í Brömsebro á Skáni. Stríðið er kennt við yfirhershöfðingja sænska hersins í Þýskalandi, Lennart Torstenson, þótt það hafi í raun verið runnið undan rifjum sænska ríkiskanslarans Axels Oxenstierna. Framvindan. Afskipti Kristjáns IV af málefnum Þýskalands, þar sem hann reyndi að skapa þriðja bandalagið, Eyrarsundstollurinn, sem hefti útflutning Svía á hergögnum, auk þeirrar slæmu hernaðarlegu stöðu sem Svíar voru í eftir ósigur í Kalmarófriðnum (1611–1613), leiddi til þess að sænska stjórnin ákvað innrás í Danmörku í maí árið 1643. Lennart Torstenson var þá staddur í Olmütz með sænska herinn (sem þá var að mestu skipaður málaliðum) og var skipað af sænsku stjórninni að gera innrás í Jótland. Torstenson réðist svo snögglega inn í Danmörku að engum vörnum varð við komið og herinn lagði undir sig allt Jótland í janúar 1644. Í febrúar réðist Gustav Horn inn í Skán. Sænski flotinn átti svo að flytja hermenn til eyjanna og taka þannig Danmörku alla. Hollendingar, sem voru mjög óánægðir vegna hækkana á Eyrarsundstollinum, gerðu bandalag við Svía og sendu flota til aðstoðar. Þessi fyrirætlan mistókst vegna dirfskulegrar mótstöðu Danakonungs sem hafði nauman sigur í sjóorrustum við Lister Dyb (16. og 21. maí) og Kolberger Heide (1. júlí). Ferdinand III keisari sendi Dönum liðsauka undir stjórn hershöfðingjans Matthias Gallas, en sænski herinn hrakti þá frá Jótlandi. Sameinuðum flota Svía og Hollendinga tókst að lokum að sigra Dani í sjóorrustu við Láland þar sem hirðstjórinn á Íslandi, Pros Mund, stýrði flotanum samkvæmt skipunum stjórnarinnar, en gegn betri vitund. Hann féll þar á skipi sínu "Patientia" sem var fyrsta skipið sem Svíar náðu. Stríðinu lauk með friðarsamningum í Brömsebro sem voru Dönum mjög óhagstæðir. Þeir þurftu meðal annars að láta Svíum eftir eyjarnar Gotland og Saaremaa í Eystrasalti, héruðin Jämtland og Härjedalen sem þá voru hlutar Noregs, og auk þess hið hernaðarlega mikilvæga Halland á Skáni í þrjátíu ár. Eyrarsundstollurinn, helsta tekjulind konungs, var lagður niður. Skilyrði samningsins eru skiljanleg miðað við að Oxenstierna leit ávallt á Dani sem hættulegasta óvin Svíþjóðar, en vegna þess hve skilyrði hans voru Dönum óhagstæð má segja að hann hafi leitt til Svíastríðsins 1657. „Kong Christian stod ved højen mast“. Hluti úr málverki Vilhelms Marstrand (1810–1873) "Christian IV ved Kolberger Heide" Í orrustunni við Kolberger Heide hæfði sænsk fallbyssukúla danska fallbyssu og sendi málmflísar í allar áttir. Kristján IV særðist illa og missti annað augað en stóð þó upp og stýrði liðinu til loka orrustunnar. Konungur lét taka málmflísarnar úr auganu og gera úr þeim eyrnalokka handa sambýliskonu sinni, Vibeke Kruse. Blóði drifin klæði hans voru einnig varðveitt og er hægt að skoða hvort tveggja í Rósenborgarhöll. Þetta atvik var meðal annars gert ódauðlegt í kvæðinu „Kong Christian stod ved højen mast“ úr "Romance af Fiskerne. Et Syngespil i tre Handlinger" eftir Johannes Ewald (1779) og einnig í málverki Vilhelm Marstrand frá 19. öld. Atvikið varð þannig snar þáttur í danskri þjóðernisrómantík. Saaremaa. Saaremaa (á íslensku nefnd Eysýsla) (Þýska og sænska: "Ösel") er stærsta eyjan við Eistland. Eyjan liggur í Eystrasalti, sunnan við eyjuna Hiiumaa við mynni Rígaflóa. Á eyjunni er bærinn Kuressaare með um 15.000 íbúa. Eyjan er stærsta eyjan í Saare-sýslu, "Saaremaa" eða "Saare maakond". Í Eysýslu eignaðist Gunnar á Hlíðarenda atgeirinn. Reykjaskóli. Reykjaskóli eða Héraðsskólinn að Reykjum í Hrútafirði er skóli sem stendur á Reykjatanga við austanverðan Hrútafjörð í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar er einnig staðsett. Kalmarófriðurinn. Sænskt veggteppi sem sýnir Kalmarófriðinn Kalmarófriðurinn var styrjöld milli Danmerkur og Svíþjóðar sem hófst með því að Danir réðust á borgina Kalmar í suðurhluta Svíþjóðar 3. maí 1611 og lauk þegar friðarsamningar voru undirritaðir í Knäred ("Knærød") á Hallandi 20. janúar 1613. Stríðið hófst vegna þess sem Danir litu á sem tilburði Svía til að hefja siglingar norður fyrir Noreg og komast þannig hjá Eyrarsundstollinum, sem var helsta tekjulind Danakonunga. Stríðinu lauk með sigri Dana, sem þó náðu ekki því sem þeir ætluðu sér, sem var að leggja alla Svíþjóð undir Danakonung. Eyrarsundstollurinn. Eyrarsundstollurinn var tollur sem Danir innheimtu af skipum sem fóru um Eyrarsund, milli Norðursjávar og Eystrasalts, yfir línu sem lá á milli Helsingjaeyrar og Helsingjaborgar. Tollinum var komið á af Eiríki af Pommern árið 1429 til höfuðs Hansakaupmönnum. Öll erlend skip þurftu að bíða við Helsingjaeyri eftir að greiða tollinn og þar var reist virkið Krókurinn sem síðar vék fyrir Krúnuborgarhöll. Svíar voru að mestu leyti undanþegnir tollinum, en þó voru vissir vöruflokkar tollaðir og Svíar reyndu t.d. í Torstensonófriðnum að losa um þessi verslunarhöft. Tollurinn var ein helsta og stöðugasta tekjulind Danakonunga og ein af ástæðum þess að konungsvaldið styrktist verulega í Danmörku á 16. og 17. öld. Tekjurnar af tollinum voru nýttar til ýmissa stórframkvæmda á vegum konungs, svo sem kastalabygginga. Tollurinn var afnuminn með Eyrarsundssamningnum 14. mars 1857 vegna mikils þrýstings erlendra ríkja og þá einungis gegn 30 milljón ríkisdala bótum sem þessi ríki (þar á meðal Rússland, Bandaríkin og Tyrkland) þurftu að greiða Dönum. Ætla má að William Shakespeare hafi heyrt um Helsingjaeyri frá enskum sjómönnum sem höfðu þurft að bíða þar eftir tollinum, og þannig fengið hugmyndina að því að láta "Hamlet" gerast í höllinni „Elsinore“. Olomouc. Kort sem sýnir staðsetningu Olomouc í Tékklandi Olomouc (þýska: "Olmütz") er annar tveggja höfuðstaða og samnefnt hérað í Moravíu ("Mæri") í austurhluta Tékklands með um 100.000 íbúa. Í bænum er súla heilagrar þrenningar, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, reist árið 1740. Láland. Láland (danska: "Lolland") er fjórðja stærsta eyja Danmerkur, um 1243 ferkílómetrar að flatarmáli. Eyjan er í Eystrasalti, rétt sunnan við Sjáland, í Stórstraumsamti. Stærsti bærinn er Nakskov með um tíu þúsund íbúa. Aðrir bæir eru Maribo, Sakskøbing og Rødby. Vegasamband á milli Lálands og næstu eyju, Falsturs, er um tvær brýr og ein jarðgöng en ferja gengur á milli Lálands og Langalands. Önnur ferja tengir Láland og Fehmarn, sem er eyja í Schleswig-Holstein í Þýskalandi. Vilhelm Marstrand. Vilhelm Nikolaj Marstrand (24. desember 1810 – 25. mars 1873) var danskur listmálari sem fékkst einkum við myndir af sögulegum eða goðsögulegum atriðum í nýklassískum stíl. Hann fæddist í Kaupmannahöfn, lærði hjá Cristoffer Vilhelm Eckersberg og síðan í Akademíunni. Hann dvaldist á Ítalíu 1836 til 1841. Rósenborgarhöll. Rósenborgarhöll er lítill kastali í endurreisnarstíl í miðborg Kaupmannahafnar. Höllin var byggð af Kristjáni IV á árunum 1606 og 1607 í Konungsgarði, rétt utan við borgarmúrana. Höllin var bústaður ýmissa konunga til 1710. Í dag er höllin minjasafn dönsku krúnunnar og geymir meðal annars krúnudjásnin, auk ýmissa hluta sem tengjast Danakonungum frá 16. öld til vorra daga. Johannes Ewald. Johannes Ewald (18. nóvember 1743 – 17. mars 1781) var danskt leikskáld sem skrifaði á mótum upplýsingarinnar og rómantíkurinnar. Hann er þekktur fyrir kvæðið „Kong Kristian stod ved højen mast“ úr söngleiknum "Fiskerne" frá 1779 sem er sá þjóðsöngur, sem notaður er, þegar einhver úr konungsfjölskyldunni er á staðnum. Þess vegna er þetta kvæði oftast kallað konungssöngurinn. Helstu verk. Ewald, Johannes Trúleysi. a> taldi trúna vera mannlega uppfinningu og að hlutverk hennar væri að uppfylla óskir fólks. Trúleysi er sú afstaða að trúa ekki á yfirnáttúrulegar verur eða öfl, þar með talda guði. Orðið „trúleysi“ er stundum notað sem samheiti fyrir orðið „guðleysi“, þótt það síðarnefnda útiloki ekki endilega trú á yfirnáttúru aðra en guði. Stundum er gerður greinarmunur á "sterku" og "veiku trúleysi". Veikt trúleysi felur þá í sér að trúa ekki á tilvist æðri máttarvalda, svo sem guðs eða guða, en sterkt trúleysi felur í sér sannfæringu um að æðri máttarvöld séu ekki til eða að fullyrðingar um guð séu beinlínis merkingarlausar. Sterkt og veikt trúleysi. Heimspekingar á borð við Antony Flew og Michael Martin hafa greint á milli sterks og veiks trúleysis. Sterkt trúleysi er fólgið í þeirri skoðun að guð eða æðri máttarvöld séu ekki til. Veikt trúleysi er fólgið í öllu öðru guðleysi, allt frá þeirri skoðun að það sé ekki hægt að vita neitt um tilvist guðs til þess að hafa ekki velt fyrir sér hvort guð sé til eða ekki til. Samkvæmt þessari flokkun eru allir þeir trúleysingjar — annaðhvort veikir eða sterkir trúleysingjar — sem eru ekki beinlínis guðstrúar. Þannig mætti samkvæmt þessum greinarmuni skipta öllu fólki í tvo hópa, annars vegar þá sem trúa á guð eða guði og hins vegar þá sem hafa ekki guðstrú (eru ekki þeirrar skoðunar að guð eða guðir séu til); Þeir fyrrnefndu eru þá trúaðir en þeir síðarnefndu trúleysingjar. Síðari hópnum —trúleysingjum — er svo skipt í tvennt, þannig að veikir trúleysingjar eru þeir sem hafa ekki þá skoðun að guð sé til en eru ekki "endilega" heldur þeirrar skoðunar að guð sé ekki til; en sterkir trúleysingjar eru þeir sem hafa ekki þá skoðun að guð sé til en hafa á hinn bóginn þá skoðun að guð sé ekki til. Orðanotkunin "veikt" og "sterkt" trúleysi er tiltölulega ný af nálinni. Samsvarandi skipting í "jákvætt" og "neikvætt" trúleysi hefur stundum verið notuð í heimspeki. Gegn sterku trúleysi er stundum sagt að ef ekki er hægt að vita hvort guð er til eða ekki, þá sé trúleysi líka eins konar trú. Gegn því benda trúleysingjar gjarnan á að ekki allar staðhæfingar séu jafn sennilegar og það eigi við um staðhæfingar um tilvist guðs. Af þessum sökum kjósa sumir trúleysingjar, eins og Richard Dawkins, að greina á milli guðstrúar, veiks trúleysis og sterks trúleysis eftir því hversu sennileg viðkomandi telur að staðhæfingin „Guð er til“ sé. Raðmorðingi. Raðmorðingi er maður sem hefur framið fleiri en þrjú morð, með nokkurra daga millibili eða eftir mánuði jafnvel eftir nokkur ár, og fylgir því eftir í vissu mynstri. Ástæður fyrir slíkum morðum má rekja til áráttuhegðunar sem í mörgum tilfellum en ekki öllum, hefur blossað upp vegna (brenglaðar) æsku morðingjans. Raðmorðingjar drepa oft til að þóknast einhverju sem er rótsett í þeim (frá æsku) en sjaldnast í hagnaðarskyni (eins og til dæmis leigumorðingjar) eða vegna hugmyndarfræðilegra og pólitískra ástæðna (eins og til dæmis hryðjuverkamenn). Raðmorðingjar þekkja sjaldnast fórnarlömb sín, og oft er þessi árátta tengd kynhvöt morðingjans. Tilbúið tungumál. Tilbúið tungumál, stundum nefnd gervimál, eru tungumál gert af einum eða að minnsta kosti fáum mönnum til ýmist sinnar ánægju og yndisauka, til þess að skrifa skilaboð á sem eru aðeins tileinkuð ákveðnum aðilum eða með það að markmiði að einfalda alþjóðleg samskipti. Dæmi um síðast nefnd tungumál eru esperanto, novial, ido, volapük, lojban og interlingua. Þau fyrst nefndu eru oft gerð til þess að liðka um frásagnarform eða skapa raunverulegari umgjörð fyrir ákveðna tilbúna heima. "Almea" Marks Rosenfelders og "Miðgarður" (e. "Middle Earth") J.R.R. Tolkiens eru dæmi um slíka heima. Í þeim eru ótal tungumál með sögu, málfræði, ritmál, talendur og óregluleika. Sum tungumál, eins og málið sem kemur fyrir í Voynich-handritinu, eða Enochíska, tungumál John Dee, virðast þó til komin með það í huga að dylja merkingu skilaboða eða texta, þó án þess að nota dulmál. Pétursey. Pétursey er 274 m hátt móbergsfjall sem stendur stakt austan við Sólheimasand í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Áður var fjallið kallað „Eyjan há“ og eru merki um að eitt sinn hafi það verið umflotið sjó. Við Pétursey stendur hóll sem nefnist Eyjarhóll, hann er talinn vera gamall gígtappi úr blágrýti, myndaður á hafsbotni. Við Pétursey er svæði Hestamannafélagsins Sindra. Nokkrir bæir standa við Pétursey: Eystri-Pétursey, Vestri-Pétursey, Nykhóll, Eyjarhólar. Í Pétursey er allstór skúti sem nefnist Eyjahellir, þar geymdu bændur við Pétursey báta og veiðarfæri. Einnig er uppi í brekku ból kallað Reipaból, þar voru geymd reipi. Einn af bátum sem þar voru geymdir er núna í Byggðasafninu á Skógum undir Eyjafjöllum. Abrahamísk trúarbrögð. Abrahamísk trúarbrögð eru þau trúarbrögð sem rakin eru til ættföðursins Abrahams, sem meðal annars er lýst í Torah (einnig nefnt „lögmál gyðinga“), Biblíunni, og Kóraninum. Þau eru eingyðistrúarbrögð og er haldið fram að þau eigi siðfræði sína að rekja til Abrahams. Þau telja sig einnig dýrka guðinn stundum nefndan Guð Abrahams. Helstu (og þau einu sem ekki er umdeilt að séu slík) abrahamísku trúarbrögðin eru Gyðingdómur, Kristni og Íslam. Command & Conquer. Command & Conquer (skammstafað ýmist C&C eða C'n'C) er röð rauntíma-herkænskutölvuleikja og eins fyrstu persónu skotleiks frá fyrirtækjunum Westwood Studios og Electronic Arts sem keypti Westwood 1998 og lagði það niður árið 2003. Meðal þess sem leikirnir hafa verið þekktir fyrir eru leikin atriði á milli herferða sem voru í öllum leikjunum fram að Renegade, þar sem atriðin voru ekki leikin heldur tölvugerð. Engin slík atriði voru þó í Generals eða Zero Hour. Einnig eru þeir þekktir fyrir tónlistina, sem var - allt fram að Generals - samin af Frank Klepacki. Rétt er að taka fram að vegna fyrrgreindra atriða sem og allt öðruvísi viðmóti og spilunaraðferðum telja sumir aðdáendur Command & Conquer leikjanna Generals í raun ekki C&C-leik nema að nafninu til. Samhengi. Fram að tilkomu Red Alert 2 var almennt talað um leikina sem eina heild, og að í tímaröð kæmu þeir svo: Red Alert, Tiberian Dawn og Tiberian Sun. Red Alert var þá einskonar forleikur Tiberian-leikjanna. Með tilkomu Red Alert 2 urðu tengslin óljósari, en þó ekki ómöguleg, svo margir bíða eftir leiknum Red Alert 3 (sem hefur verið tilkynnt að sé í vinnslu) til að skera endanlega úr um það. Generals og viðbótarpakkinn Zero Hour falla hinsvegar alls ekki inn í þann söguþráð. Renegade gerist á svipuðum tíma og Tiberian Dawn en er í fyrstu persónu, ekki þriðju og skotleikur í stað herkænskuleiks. Söguþræðir. Sökum fyrr greindrar óvissu með samhengi söguþráða Red Alert og Tiberian-söguþráðanna verður greint frá þeim í sitt hvoru lagi. Tiberian. Í Tiberian-leikjunum eru tveir aðilar sem berjast, Global Defence Initiative (GDI - má ef til vill þýða sem Alheimsvarnarbandalagið) sem er herarmur Sameinuðu þjóðanna, og Nod bræðralagið. Árið 1995 hófu að birtast kristallar af gerð algjörlega framandi jörðinni í kringum ána Tíber á Ítalíu og urðu kenndir við hana, tíberíum. Þeir eru mjög nytsamlegir, þar sem þeir virka sem hálfgerðar námur, dragandi úr jörðinni öll steinefnin. Það er hinsvegar líka stórhættulegt og stökkbreytir lífverum. Það er talið hafa komið til jarðarinnar með loftsteini Baráttan um þetta efni er ástæða stríðsins. Bæði öflin vilja nota það, en í sitthvorum tilgangi. Í lok Tiberian Dawn er talið að leiðtogi Nod, Kane, hafi verið drepinn, en í Tiberian Sun kemur í ljós að hann er enn á lífi. Á meðan barist er dreifist tíberíum hratt um jörðina og líf margra eru í hættu, margir stökkbreytast og eru þau stökkbreyttu kölluð hinir gleymdu og mynda öflugan hóp sjálf. Í lok þess og í viðbótarpakkanum Firestorm leiks kemur svo enn eitt aflið fram á sjónarsviðið en það er CABAL, sem áður var aðaltölva Nod. Markmið hans (þar sem CABAL er almennt karlkyns) eru óljós, en GDI og Nod verða að berjast saman gegn honum, fyrir tilverurétti beggja. Red Alert. Skjáskot úr Red Alert 2, þar sem sjást Yuri og Romanov í skrifstofu hins síðarnefnda. Red Alert leikirnir snúast um hálfgert kalt stríð án síðari heimsstyrjaldar. Öflin sem berjast eru Sovétríkin og Bandamenn. Það sem gerist er að Albert Einstein fer aftur í tíman til að stöðva Hitler frá því að komast til valda og fara í stríð. Það sem ekki var gert ráð fyrir, hins vegar, er að þá komu Sovétríkin einfaldlega í staðin og Stalín réðst inn í Evrópu. Síðari heimsstyrjöldin gerist þess vegna í Red Alert, en með öðrum aðilum að berjast, og Þjóðverjum meðal Bandamanna. Stalín nær að taka yfir meirihlutan af Evrópu án þess að Bandaríkin geri í raun nokkuð, en þau eru að nafninu til hlutlaus framanaf, en þar með líka aukandi samstöðu Evrópuþjóða, meðal annars þannig að þær taka upp Evruna. Bandamenn náðu þó að ýta undir óánægju í Sovétríkjunum sjálfum, og þar með byrjaði veldi Stalíns að molna innan frá. Rétt eins og í síðari heimsstyrjöldinni raunverulegu neyðast Bandaríkjamenn svo á endanum að fara beint í stríð þegar árás er gerð á Pearl Harbor á Hawaii. Þá fara þeir að senda vopn og birgðir til Evrópu, og upp úr því snýst stríðið við og Sovétmenn eru hraktir til baka. Bandamenn ná á endanum til Moskvu en á meðan árás þeirra á borgina stendur er Stalín drepinn og utanríkisráðherrann sem tekur strax við af honum semur um algjöra uppgjöf. Þá setja Bandamenn Alexander Romanov í stöðu æðsta yfirmanns Sovétríkjanna. Það er árið 1954 en þá helst friður í næstum tuttugu ár, eða til 1971. Öllum að óvörum ráðast Sovétmenn þá skyndilega á Bandaríkin. Með aðstoð hins dularfulla Yuris ná Sovétmenn að eyðileggja allar kjarnavopnabirgðir Bandaríkjamanna. Einnig hafa þeir á milli stríða byggt upp hóp dyggra bandamanna um heim allan, ríki svo sem Kúba og Lýbía. Notandi meðal annars hugstjórnunartækni Yuris ná Sovétmenn meirihluta Bandaríkjanna fljótt og örugglega undir sitt vald, þar á meðal stjórna þeir forestanum Dungan og herforingjanum Carville. Evrópumenn eru tregir við að láta dragast inn í stríðið, sérstaklega þar sem samskipti þeirra og bandaríkjamanna hafa versnað mjög milli stríða. Stuttu eftir að forsetinn og æðstu hersöfðingjar eru frelsaðir ná þeir þó að tala Evrópuþjóðirnar til eftir að kjarnavopnum Sovétmanna í Póllandi hefur verið eytt. Þá snýst stríðið loks Bandamönnum í hag, en ekki þó eftir að Sovétmenn hafa náð stórum hlutum Evrópu á sitt vald. Sigur Bandamanna má að stóru leyti segja Albert Einstein og hans tækni að þakka, en hann finnur upp ýmsa nýa varnartækni sem og Chronosphere, sem er tæki sem flutt getur hluti á engum tíma milli staða (það sem á ensku kallast "teleport"). Þegar Bandamenn ráðast inn í Moskvu ná þeir Romanov. Aðstoðarmaðurinn Yuri sleppur hins vegar og í ljós kemur að hann hefur verið að stjórna á bak við tjöldin, haft Romanov á valdi sínu með hugstjórnun. Yuri kemur þó stuttu síðar fram í dagsljósið og kemur í ljós að hann hefur verið að byggja hugstjórnunar tæki víða um heiminn og ætlar að taka yfir allan heiminn. Þá þurfa Bandamenn að fara til baka í tímann og sannfæra Sovétmenn um að vinna með sér gegn honum. Það gerist í Yuris Revenge. Generals/Zero Hour. Eins og áður segir eru engin tengsl á milli söguþráða fyrri C&C leikja og Generals og aukapakkans Zero Hour. Generals gerist í nálægri framtíð og söguþráður hans á að vera nokkuð raunsærri en fyrri C&C leikja. Hann lýsir stríði sem brýst út á milli Bandaríkjanna og Kína annarsvegar og alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka sem kallast Global Liberation Army (GLA) hinsvegar. Hugmyndafræði GLA er ekki mjög skýr enda er lögð minni áhersla á söguþráð í þessum Generals en þeim öðrum leikjum seríunnar enda er leikurinn einkum hugsaður fyrir netspilun. Vefsamfélag. Margir aðdáenda Command & Conquer eru mjög dyggir og í kringum leikina hefur alltaf verið mjög virkt vefsamfélag. Þegar Westwood Studios voru til voru sérstakir veffulltrúar fyrir alla leikina sem sáu um að eiga samskipti við samfélagið og láta það vita af því sem var að gerast. Þessi staða sérstaklega fyrir Command & Conquer er ekki til staðar hjá Electronic Arts (þar sem þó eru starfandi veffulltrúar, bara ekki fyrir staka leiki), og stuðningur við spilendur með hlutum eins og uppfærslupökkum hefur minnkað niður í næstum ekki neitt. Samfélagið hefur að ákveðnu leyti tekið það að sér með fyrirbærum eins og XWIS sem er kerfi til netspilunnar rekið af aðdáendum, og Blackhand Studios sem sjá um uppfærslur á Renegade. Þar að auki hefur alltaf verið mjög virkt samfélag breytara (enska: modder) og þeirra sem búa til óopinber borð fyrir leikina og það samfélag hefur haldið velli þrátt fyrir minnkandi stuðning frá framleiðendum. LL Cool J. LL Cool J, réttu nafni James Todd Smith (f. 14. janúar 1968), er bandarískur rappari og leikari og meðal brautryðjenda á sviði rapptónlistar. LL Cool J stendur fyrir „Ladies Love Cool James“. Einkalíf. LL Cool J er fæddur og uppalinn í New York og hóf að semja og taka upp lög í kjallaranum heima hjá sér þegar hann var níu ára. LL Cool J skrifaði og gaf út ævisögu sína árið 1998 og heitir hún I Make My Own Rules. Í henni fjallar hann opinskátt um ýmislegt, gott og slæmt, í lífi sínu, hvernig hann lærði af mistökum sínum og hvernig tónlistarbransinn er fullur af fólki sem reynir að nota sér nýliða. LL Cool J hefur komið á fót sinni eigin tískufatalínu, "James Todd Smith" ot átti einnig þátt í því að koma á fót tískufatalínunni FUBU (For Us, By US). Hann giftist Simone Johnson árið 1995 og saman eiga þau fjögur börn. Tónlistarferill. Ferill hans hófst árið 1994, þegar hann gerði samning við hljómplötuútgefandann Def Jam og gaf út smáskífuna "I Need a Beat", sem vakti mikla athygli meðal rappaðdáenda. Lagið var fyrsta lag Def Jam til að ná miklum vinsældum og seldist í yfir hundrað þúsund eintökum. Eftir góð viðbrögð við laginu hætti LL Cool J í skóla og sneri sér að upptökum á sinni fyrstu sólóplötu sinni. Radio (1985). Radio, kom út árið 1985. Platan fékk góða dóma og var sú fyrsta í sögu rapptónlistar þar sem snið venjulegra sönglaga var notað til að gera poppvænt rapp. Lögin „I Can't Live Without My Radio“ og „Rock the Bells“ náðu miklum vinsældum og urðu til þess að platan seldist í yfir milljón eintökum. Bigger and Deffer (1987). Árið 1987 kom út Bigger and Deffer. Platan innihélt ballöðuna „I Need Love“, sem var meðal fyrstu poppvænu rapplaga til að komast á vinsældarlista. Walking with a Panther (1989). Ekki voru þó allir ánægðir með þessa poppvænu útgáfu rapps, sem sýndi sig þegar þriðja plata hans, Walking with a Panther kom út. Platan innihélt lögin „Going Back to Cali“, „I'm That Type of Guy“, „Jingling Baby“ og „Big Ole Butt“. Mama Said Knock You Out (1990). LL Cool J gaf síðan út Mama Said Knock You Out árið 1990, sem var sú allra grófasta sem hann hafði gefið út. Platan jók vinsældir hans á ný, auk þess að bæta orðspor hans verulega meðal rappaðdáenda. Meðal laga á plötunni er „Around the Way Girl“, sem náði miklum vinsældum. 14 Shots to the Dome (1993). Hann gaf út plötuna 14 Shots to the Dome árið 1993. Sú plata seldist illa og fékk afar misjafna dóma. Mr. Smith (1995). Árið 1995 kom svo út hans sjötta hljómplata, Mr. Smith. Platan seldist í yfir tveimur milljónum eintaka og lögin „Doin' It“, „Loungin“ og „Hey Lover“ (ásamt Boyz II Men) komust á vinsældarlista. Phenomenon (1997). Tveimur árum síðar gaf hann út plötuna Phenomenon. Samnefnt lag náði nokkrum vinsældum. "G.O.A.T." (2000). Árið 2000 þá gaf LL Cool J út plötuna "G.O.A.T.", sem stendur fyrir „greatest of all time“. Komst hún í fyrsta sæti á Billboard listanum og varð platínu plata. LL Cool J þakkaði Canibus fyrir innblástur á plötunni. "10" (2002). Næsta plata LL Cool J's var "10" frá 2002, sem var níunda plata hans og innihélt lögin „Paradise“ ásamt Amerie, „Luv U Better“, framleitt af Neptunes og 2003 dúettinn með Jennifer Lopez "All I Have". "The DEFinition" (2004). "The DEFinition" var gefin út 2004. Platan náði fjórða sæti á Billboard listanum. Framleiðendur voru Timbaland, 7 Aurelius, R. Kelly ásamt öðrum. Aðallag plötunnar var framleitt af Timbaland "Headsprung," sem náði #16 sæti á Billboard Hot 100. "Todd Smith" (2006). Ellefta plata LL Cool J's var "Todd Smith" sem kom út árið 2006. Inniheldur platan samstarf með "112 hljómsveitinni", Ginuwine, Juelz Santana, Teairra Mari og Freeway. "Exit 13" (2008). Í júlí 2006, þá tilkynnti LL Cool J að seinasta plata hans með Def Jam plötufyrirtækinu væri "Exit 13". Upprunalega átt 50 Cent að vera yfirframleiðandi plötunnar. "Exit 13" átt að koma út haustið 2006 en því var frestað um tvö ár til ársins 2008 án 50 Cent sem yfirframleiðanda. Lög sem þeir unnu að saman láku á netið og sum af þeim lögum sem 50 Cent gerði komust á plötuna. LL Cool J myndaði samstarf við DJ Kay Slay í því skyni að gefa út mixplötu sem kallaðist "The Return of the G.O.A.T.". Var þetta fyrsta mixplatan hans í 24 ár og innihélt freestyling eftir LL Cool J ásamt öðrum röppurum. Lagið "Hi Haterz" lak á internetið 1.júní 2008. Lagið inniheldur LL Cool J að rappa við hljóðfæraleik Maino's "Hi Hater". LL Cool J var upphitari fyrir Janet Jackson á Rock Witchu tónleikatferðalagi hennar, komu þau fram í Los Angeles, Chicago, Toronto, og Kansasborg. "NCIS: No Crew Is Superior". Í september 2009, þá gaf LL Cool J út lag tengt "NCIS: Los Angeles" sjónvarpsseríunni og má finna það á iTunes. Lagið byggist á reynslu hans á því að leika NCIS alríkisfulltrúann Sam Hanna og eftir að hafa hitt alvöru NCIS alríkisfullrúa og meðlimi bandaríska sjóhersins. Sjónvarp. LL Cool J byrjaði feril sinn í sjónvarpi í "The Adventures of Pete & Pete" árið 1994. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: Oz, House og 30 Rock. Árið 1995 þá var honum boðið hlutverk í In the House sem Marion Hill sem hann lék til ársins 1999. Hefur hann síðan 2009 leikið eitt af aðalhlutverkunum í, sem NCIS alríkisfulltrúinn Sam Hanna. Kvikmyndir. Fyrsta hlutverk LL Cool J í kvikmyndum var árið 1986 í Wildcats þar sem hann lék rappara. Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við: Toys, Woo, og Deep Blue Sea. Árið 1999 þá lék hann á móti Al Pacino, Cameron Diaz, Dennis Quaid, James Woods og Jamie Foxx í ruðningsboltamyndinni Any Given Sunday. Lék hann síðan á móti Colin Farrell og Samuel L. Jackson í lögreglumyndinni S.W.A.T. sem sérsveitarmaðurinn Deacon „Deke“ Kay. Tenglar. Cool J, LL Halland. right Halland er hérað á vesturströnd Svíþjóðar við sundið Kattegat. Núverandi sýsla eða lén samsvarar nokkurn veginn því sem taldist vera Halland fyrr á tímum. Íbúafjöldi er um 280 þúsund. Saga Hallands. Halland tilheyrði lengst af Danmörku ásamt Skáni og Blekinge, en varð hluti Svíþjóðar með formlegum hætti, ásamt þeim héruðum, með Hróarskeldufriðnum árið 1658. Áður hafði Svíþjóð tryggt sér yfirráð yfir Hallandi með friðarsamningum í Brömsebro sem bundu enda á Torstensonófriðinn. Halland var veikleiki í vörnum Svíþjóðar gagnvart Danmörku, þar sem aðstæður tryggðu Dönum einfalda leið til að ráðast með herlið gegn Gautlandi og loka þannig á aðgang Svía að sjó í vestri. Ásælni Svía í héraðið, þegar þeir stóðu í átökum við Dani á öðrum sviðum, er því skiljanleg og var liður í þeirri áætlun Axels Oxenstierna á 17. öld að skapa Svíþjóð náttúruleg landamæri. Matthias Gallas. Matthias Gallas (16. september 1584 – 25. apríl 1647) var austurrískur herforingi í her keisarans í Þrjátíu ára stríðinu. Hann var einn af þeim sem lögðu á ráðin um morðið á Wallenstein 25. febrúar 1634 og stýrði her Wallensteins til sigurs gegn Svíum í orrustunni við Nördlingen. Honum fórst samt illa í síðari bardögum gegn sænska hernum sem þá var undir stjórn Johans Banér, árið 1638. Hann var sendur af Ferdinand III til að aðstoða Kristján IV gegn her Lennarts Torstensons á Jótlandi en Torstenson hrakti hann burt og rak flóttann til Magdeborgar þar sem Gallas lokaðist inni og slapp síðar naumlega með leifar liðs síns. Hann sagði af sér stjórn hersins og lést árið 1647 í Vín vellauðugur af ránsfeng auk þess hluta sem hann fékk af eigum Wallensteins. G Lesblinda. Lesblinda (lestrarörðugleikar áður kölluð torlæsi, alþjóðaheitið er dyslexía) er erfiðleikar með rituð orð, bæði í lestri og stafsetningu. Það eru til yfir 200 tegundir lesblindu, orsakir lesblindu eru því jafn margar. Orsök lesblindu getur til dæmis verið veikleiki af taugafræðilegum togaeða frávik í afmarkaðri heilastarfsemi. Ónefndar rannsóknir gefa vísbendingu um að þegar lesblindir vinna úr upplýsingum nota þeir annan hluta heilans en þeir sem eru ekki lesblindir. Lesblinda tengist ekki greind og er ekki sjúkdómur, hún lýsir sér sem erfiðleikar við lestur, einnig geta aðrir erfileikar fylgt einsog erfiðleikar við stafsetningu, stærðfræði o.fl. Lesblinda er skilgreind sem sértækar þroskaraskanir sem tengst lestri. Í íslenskri þýðingu ICD-10 flokkunarkerfisins, sem gefið er út af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) eru sértækar þroskaraskanir á námshæfni skilgreindar sem „Sértækar þroskaraskanir á námshæfni geta tengst grunngreinum námsins, lestri, skrift, stafsetningu og stærðfræði“. Einkenni. Einkenni lesblindu eru misjöfn eftir einstaklingum og aldri. Hér að neðan eru nefnd nokkur algeng einkenni. Þau eiga ekki við um alla lesblinda einstaklinga og sumir geta haft einkenni sem ekki eru nefnd hér. Íslenska dyslexíufélagið. Íslenska dyslexíufélagið var stofnað 1994. Stofnendur þess voru nokkrir háskólastúdentar og voru félagar í kringum 250 (félagið starfar ekki lengur). Markmið félagsins var að bæta stöðu fólks með lestregðu og koma í veg fyrir að lestregða verði einstaklingnum að fötlun. Félagið vann að því að ná markmiðum sínum með því að auka þekkingu og skilning á lestregðu; með því að fá bætta námsaðstoð nemenda með lestregðu; með því að veita einstaklingum með lestregðu aðstoð og félagslegan stuðning til að ná tökum á lestri og ritun; aðstoða og leiðbeina foreldrum barna með lestregðu; vinna að því að ávallt séu til í samfélaginu nægjanlega margir leiðbeinendur til að aðstoða þá sem lestregða tefur í námi. Félagið var opið öllum og var hægt að velja um að gerast almennur félagi eða stuðningsfélagi. Félag lesblindra á Íslandi. Félag lesblindra stofnað 2003 er félag sem mun vinna markvíst að því að auka vitund og þekkingu á lesblindu á Íslandi. Betra nám - Upplýsingar og ráðgjöf um lesblindu, athyglisbrest og tengda námsörðugleika. Betra nám tók virkan þátt í innleiðingu Davis aðferðafræðinnar frá árinu 2004 og heldur úti öflugum upplýsingavef um lesblindu og Davis aðferðafræðina. Skyn, félag nemenda með sértæka námsörðuleika. Stofnað árið 2007 af nemendum fyrir nemendur, beitir sér fyrir málefnum sem koma upp innan háskólasamfélagsins og málefnum sem hafa áhrif á það Franska. Franska (franska: "français") er indóevrópskt tungumál af ætt rómanskra tungumála. Málið á uppruna sinn í latínu en Rómverjar lögðu Frakkland undir sig á fyrstu öld f.Kr. en þar voru áður töluð keltnesk mál, og var þróun latínunnar þar áhrifuð að einhverju leiti af þeim. Þróun frönsku var líka áhrifuð af því Germanska tungumáli Franka, sem er uppruni nafnsins "Frakkland", og því franska "France". Rómverjar kölluðu Frakkland "Gallia", og kalla Frakkar Gallíu "Gaule". Franska er töluð víðs vegar í heiminum og er ellefta mest notaða tungumál heims. Hún er móðurmál um 77 milljóna manns, auk þess sem hún er annað tungumál um 51 milljón manns. Hún er upprunin í Frakklandi og töluð þar og víða þar sem Frakkar áttu áður nýlendur. Franska er opinbert tungumál í Frakklandi, Lýðveldinu Kongó, Kanada, Madagaskar, Fílabeinsströndinni, Kamerún, Búrkína Fasó, Malí, Senegal, Belgíu, Rúanda, Haítí, Sviss, Búrúndí, Tógó, Miðafríkulýðveldinu, Kongó, Gabon, Kómoreyjum, Djíbútí, Lúxemborg, Guadeloupe, Martiník, Máritíus, Vanúatú, Seychelleseyjum og Mónakó. Auk þess er hún nokkuð mikið töluð í Alsír, Túnis, Marokkó og fleiri löndum en er þó ekki opinbert tungumál þar. Til eru ýmsar mállýskur af frönsku. Franska einkennist af mörgum rödduðum blísturshljóðum (z) í byrjun orðs oft með joð, kokmæltu r-hljóði og óhreinum sérhljóðum. Sedillan eða krókurinn undir sé er ætlað að tákna að um er að ræða blísturhljóð (s) en ekki lokhljóð (k). Nafnorð hava engvin föll og plúralísering er eins og í ensku, oftast mynduð með essendingu. Nafnorð hava tvö málfræðileg kyn; kvenkyn og karlkyn en ekki hvorugkyn. Lýsingarorð lagast að kynjum og tölum líkt og í íslensku en ólíkt ensku. Greinar eru bæði ákveðnir sem óákveðnir og breytast þeir með kynjum. Óákveðni greinirinn er eins, hvort sem hann stendur við nafnorð í eintölu eða fleirtölu, en sá ákveðni breytist eftir þessu. Kattegat. Kattegat (eða Jótlandshaf) er sund eða flói austur af Skagerrak milli Svíþjóðar og Danmerkur norðan við Sjáland og tengist Eystrasalti um Eyrarsund. Listi yfir Noregskonunga. ATH: Vegna tæknilegra takmarkana virka ekki allir íslenskir stafir á þessum tímaás. Tengt efni. Noregskonungar Konungar Konungar Gormur gamli. Gormur gamli (látinn 958/959) var höfðingi á Jótlandi sem varð konungur Dana og hafði sem slíkur aðsetur í Jalangri (danska: "Jelling"). Samkvæmt íslenskum heimildum var hann barnabarn, eða barnabarnabarn, Sigurðar orms-í-auga sonar Ragnars loðbrókar. Faðir hans er talinn hafa heitið Hörðaknútur og verið Dani eða afkomandi danskra innflytjenda frá Normandí á 10. öld sem gerði kröfu til titils konungs að minnsta kosti hluta Jótlands. Jafnvel er talið að Gormur hafi komið til Danmerkur frá Englandi. Hann var giftur Þyri danabót sem sögð er hafa staðið fyrir gerð Danavirkis á landamærunum við Holtsetaland. Með Gormi byrjar röð danskra konunga formlega og í gegnum hann röktu Danakonungar ætt sína til Ragnars loðbrókar. Vitað er um eldri konunga, sem í það minnsta sumir réðu yfir því sem í dag er Danmörk og hluta Svíþjóðar, en miklar eyður eru í heimildum frá þeim tíma og það er fyrst með Gormi og syni hans Haraldi sem nokkuð er vitað fyrir víst í þeim efnum. Bein Gorms eru talin hafa fundist undir gólfi fyrstu kristnu kirkjunnar sem var reist á Jalangri nálægt tveimur grafhaugum sem venja er að kalla Gormshaug og Þóruhaug. Meðan Gormur var við völd er sagt að Danir hafi verið heiðnir, en sonur hans, Haraldur blátönn, hafi kristnað þá eins og segir á rúnaristum frá hans tíma. Adam frá Brimum segir að Unni erkibiskup frá Englandi hafi reynt að predika í Danmörku og Gormur hafi bannað honum það en sonur hans orðið fyrir áhrifum frá trúboðinu. Jafnvel er talið að Haraldur hafi sjálfur flutt bein foreldra sinna úr upprunalegum gröfum þeirra í kirkjuna, hugsanlega til að bjarga sálum þeirra. Haraldur lét reisa stóran rúnastein með Kristsmynd, Jalangurssteininn, til minningar um foreldra sína. Hafnín. Hafnín er frumefni með efnatáknið Hf og er númer 72 í lotukerfinu. Þetta er gljáandi, silfurgrár, fjórgildur hliðarmálmur sem efnafræðilega líkist sirkoni og finnst einnig í sirkongrýti. Hafnín er notað í volframmálmblöndur fyrir glóðarþræði og í rafskaut. Það er einnig notað sem nifteindagleypir í kjarnorkustýristangir. Almennir eiginleikar. Þetta er gljásilfraður, þjáll málmur sem að er tæringarþolinn og efnafræðilega svipaður sirkoni. Sirkonóhreinindi í hafnín hafa áhrif á eiginleika þess og eru þessi tvö frumefni ein þau tvö erfiðustu til að skilja í sundur. Hinn eini eftirtektaverði munur á milli þessara tveggja efna er sá að hafnín er rétt um tvöfalt eðlisþyngra en sirkon. Hafnínkarbíð er hitaþolnasta efnasamband tveggja frumefna sem þekkt er og hafnínnítríð er hitaþolnast allra nítríða með bræðslumark upp á 3310 °C. Þessi málmur er þolinn gegn hreinum alkalímálmum en halógenar hvarfast við hann og mynda hafnínfjórhalíða. Við hærri hitastig hvarfast hann við súrefni, nitur, kolefni, bór, brennistein og kísil. Systurkjarni þess, Hf-178-2m, er einnig uppspretta orkuríkra gammageisla og er í rannsókn sem hugsanleg orkuuppspretta fyrir gammageislaleysa. Magnús Einarsson. Magnús Einarsson (1098 – 30. september 1148) var biskup í Skálholti frá 1134. Hann var sonur Einars Magnússonar, sem var sonarsonur Þorsteins Síðu-Hallssonar, og var því afkomandi Síðu-Halls í beinan karllegg. Móðir Magnúsar var Þuríður Gilsdóttir. Magnús var kjörinn biskup eftir lát Þorláks Runólfssonar 1133 og vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 28. október 1134. Hann bætti kirkjuna sem Gissur biskup hafði reist í Skálholti og efldi staðinn mjög og keypti til hans jarðeignir, þar á meðal nær allar Vestmannaeyjar. Hann brann inni í Hítardal þar sem hann var við veislu á heimleið úr vísitasíuferð um Vestfirði. Brunnu þar inni 72 menn alls, þar á meðal átta prestar. Hallur Teitsson var kjörinn biskup eftir Magnús en hann andaðist erlendis og fékk ekki vígslu. Klængur Þorsteinsson. Klængur Þorsteinsson (1102 – 28. febrúar 1176) var kjörinn til biskups í Skálholti eftir að fréttist að Hallur Teitsson, sem kjörinn hafði verið biskup eftir að Magnús Einarsson fórst í eldsvoða, hefði dáið í Hollandi 1150. Klængur var sonur Þorsteins Arnórssonar og Halldóru Eyjólfsdóttur og var hann afkomandi Síðu-Halls og Einars Þveræings í föðurætt en móðir hans var frá Reykhólum. Hann var ungur settur til náms í Hólaskóla og mun hafa verið á Hólum eftir það, allt þar til hann varð biskup, eða í hátt á fjórða áratug, og verið þar dómkirkjuprestur og kennari. Hann var vígður biskup í Skálholti af Áskeli erkibiskupi í Lundi 6. apríl 1152. Klængur var lærdómsmaður og skáld gott. Hann er þekktastur fyrir kirkjuna sem hann lét reisa í Skálholti þegar eftir biskupsvígslu sína. Var það timburkirkja og viðurinn til hennar var fluttur frá Noregi á tveimur skipum. Kirkjan þótti vandaðasta hús á Íslandi á sinni tíð en hún brann 1309, þegar eldingu laust niður í hana. Klængur kom líka á fót Þykkvabæjarklaustri og Flateyjarklaustri (síðar Helgafellsklaustri). Hann var vinsæll biskup og virtur. Hann valdi sjálfur eftirmann sinn, Þorlák Þórhallsson. Barnsmóðir Klængs var frænka hans, Yngvildur Þorgilsdóttir, dóttir Þorgils Oddasonar á Staðarhóli í Saurbæ. Hún hafði verið látin giftast gegn vilja sínum en fór frá manni sínum og átti með Klængi dótturina Jóru (d. 1196), fyrri konu Þorvaldar Gissurarsonar í Hruna. Ekki er víst hvort hún fæddist áður en Klængur varð biskup eða eftir að hann hlaut vígslu. Einnig átti Klængur soninn Runólf. Magnús Gissurarson. Magnús Gissurarson (d. 14. ágúst 1237) var biskup í Skálholti frá 1216. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Gissurar Hallssonar og bróðir Þorvaldar Gissurarsonar. Magnús var í fóstri hjá Þorláki helga og var tilnefndur til Hólabiskups móti Guðmundi Arasyni en náði ekki kjöri. Teitur Bersason systursonur hans var kjörinn til biskups í Skálholti 1214 en dó áður en hann var vígður og var Magnús þá kjörinn í hans stað. Synir hans voru Hjalti og Gissur. Magnús Eyjólfsson. Magnús Eyjólfsson (1435 – 1490) var biskup í Skálholti frá 1479. Magnús var sonur Eyjólfs Magnússonar mókolls, bónda á Hóli í Bíldudal, og konu hans Helgu Þórðardóttur frá Bæ á Rauðasandi. Hann varð djákni 1460 og ábóti á Helgafellsklaustri 1470-1477, en þá varð hann biskup. Snemma á biskupstíð sinni sendi Magnús fyrirspurn um það til páfa hverrar ættar selir skyldu teljast og hvort væri óhætt að borða sel á föstunni. Sixtus IV svaraði honum 6. febrúar 1481 og sagði að um föstutímann væri heimilt að borða sævarfisk þann sem almennt væri nefndur selur. Magnús þótti ekki í hópi hinna merkari Skálholtsbiskupa og fer litlum sögum af embættisferli hans. Jón Árnason (1665). Jón Árnason (1665 í Dýrafirði – 8. febrúar 1743) var biskup í Skálholti, lærður og vel að sér í guðfræði, rúmfræði, stærðfræði og söng. Jón var sonur Árna Loftssonar, prests í Dýrafjarðarþingum og víðar, og konu hans Álfheiðar Sigmundsdóttur. Hann var skólameistari Hólaskóla frá 1695 til 1707 en þá varð hann prestur á Stað í Steingrímsfirði. Þann 25. mars 1722 varð hann biskup í Skálholti eftir lát Jóns Vídalín og gegndi því embætti til dauðadags. Hann þótti strangur reglumaður og meðal stjórnsömustu biskupum landsins. Hann var bindindismaður og vildi t.d. hefta innflutning á brennivíni og tóbaki til landsins, en kaupmenn stóðu fast á móti. Hann áminnti marga presta fyrir drykkjuskap og vék ýmsum prestum í biskupsdæmi sínum úr embætti fyrir drykkju og aðra ámælisverða framkomu. Jón var heldur ekki mikið gefinn fyrir fornsögur og veraldlegan skáldskap en var hins vegar fræðimaður á ýmsum sviðum og skrifaði margt. Þegar hann var prestur á Stað samdi hann til dæmis Fingrarím ("Dactylismus ecclesiasticus"). Hann lét prenta margar kennslubækur fyrir skólann í Skálholti í Kaupmannahöfn, hann samdi latneska-íslenska orðabók og skrifaði auk þess fjölda ritgerða og lét eftir sig mikið bréfasafn. Hann þótti einarður og hreinskilinn en strangur kennari og gerði miklar kröfur til siðferðis skólapilta ekki síður en kunnáttu þeirra. Hann var aðgæslumaður í fjármálum og hafði til dæmis ekki ráðsmann, sem var einsdæmi, en vegna erfiðs árferðis var fjárhagur biskupsstólsins þó fremur bágur. Kona Jóns biskups var Guðrún Einarsdóttir (1665 – 1752), dóttir Einars Þorsteinssonar biskups á Hólum og Ingibjargar Gísladóttur fyrri konu hans. Jón Sigurðsson (biskup). Jón Sigurðsson (d. 1348) var biskup í Skálholti frá 1343. Hann var íslenskur og hafði verið munkur en ekkert er vitað um ætt hans og uppruna. Jón sigldi til Noregs 1341, var vígður af Páli erkibiskupi 1343 og kom heim um haustið með skipi til Reyðarfjarðar. Á leiðinni í Skálholt kom hann við í Kirkjubæjarklaustri og vildi svo til að þá dó Agata abbadís. Jón lét brenna nunnu eina í klaustrinu sem hafði „gefist púkanum“ en það er fyrsta galdrabrenna á Íslandi sem getið er um í heimildum. Í Þykkvabæ handtók hann þrjá munka og setti í járn; þeir höfðu barið Þorlák ábóta og hrakið hann burt, orðið berir að saurlífi og jafnvel barneignum. Einn þeirra var Eysteinn Ásgrímsson, höfundur Lilju. Jón biskup varð brátt mjög óvinsæll, hvort sem það var af þessari tiltekt í klaustrunum eða einhverju öðru. Hann þótti mjög harður við landsmenn og hið sama var að segja um Orm Ásláksson Hólabiskup, sem var samtímis honum. Þeir fóru báðir út á sama skipi 1447 og var þá biskupslaust í landinu. Jón kom aftur 1448 en veiktist um haustið og dó skömmu fyrir jól "og varð fáum harmdauður", segir í Árbókum Espólíns. Páll Jónsson (biskup). Páll Jónsson (1155 – 29. nóvember 1211) var biskup í Skálholti frá 24. febrúar 1195. Hann var launsonur Jóns Loftssonar ríka og ólst upp í Odda ásamt Snorra Sturlusyni. Hann lærði í Englandi og gerðist síðan goðorðsmaður og bóndi á Skarði á Landi áður en hann varð biskup. Hann var mikill höfðingi og safnaði að sér listamönnum í Skálholti og lét þá skreyta kirkjuna og gera fagra gripi, bæði fyrir kirkjuna og biskupsstólinn og eins til að senda erlendum höfðingjum. Meðal annars lét hann gera mikla steinkistu handa sjálfum sér. Hann var líka mikill menntamaður og lét rita bækur. Sjálfur var hann mikill söngmaður og þótti bera af öðrum á því sviði. Hann lét lögleiða helgi dýrlinganna Þorláks og Jóns helga. Ætt Páls. Faðir Páls var Jón Loftsson, sonarsonur Sæmundar fróða. Móðir Jóns var Þóra, dóttir Magnúsar konungs berfætts Ólafssonar, en móðir Páls var Ragnheiður Þórhallsdóttir, systir Þorláks biskups hins helga. Kona Páls var Herdís Ketilsdóttir; hún drukknaði í Þjórsá 17. maí 1207 ásamt Höllu dóttur þeirra. Þekktastur barna þeirra er Loftur biskupssonur, sem svo var jafnan kallaður og kemur nokkuð við sögu í Sturlungu. Steinkistan. Við rannsóknir í kirkjugarðinum í Skálholti, í ágúst 1954, fannst steinkista, sem talin var kista Páls biskups, því ekki er kunnugt að neinn annar maður hafi verið greftraður þar í steinkistu. Var þessi fundur talinn með merkilegri fornleifafundum á Íslandi frá upphafi. Kistan var opnuð mánudaginn 30. ágúst að viðstöddum prestum og öðru stórmenni. Fannst í henni heilleg beinagrind og krókur af biskupsstaf. Stefán Jónsson (biskup). Stefán Jónsson (d. 16. október 1518) var biskup í Skálholti frá 1491 og hélt þar skóla. Stefán var sonur Jóns Egilssonar, bryta í Skálholti, og varð prestur 1472. Hann var menntaður erlendis, meðal annars í Frakklandi. Árið 1482 var hann kominn heim og varð hægri hönd Magnúsar biskups Eyjólfssonar í Skálholti og varð svo biskup eftir lát hans. Hann tók til hendinni á biskupsstólnum, enda ekki vanþörf á þar sem fyrirrennarar hans tveir höfðu verið litlir framkvæmdamenn en þar á undan höfðu erlendir biskupar haldið Skálholt um langa hríð og sumir þeirra komu aldrei til landsins eða höfðu skamma viðdvöl. Stefán lét meðal annars gera miklar umbætur á dómkirkjunni, sem orðin var nær tveggja alda gömul, og lét gera miklar girðingar og göngustíga í Skálholti og var því stundum kallaður grjótbiskup. Hann hafði líka hafskip í förum til að flytja varning Skálholtsstóls milli landa. Um hann segir í Biskupasögum að hann hafi verið mikið ljúfmenni við alþýðu en harður við flysjunga og sakafólk og mikilmenni sem settu sig á móti honum. Honum lenti líka fljótt saman við höfðingja og þá fyrst við Orm Jónsson sýslumann í Klofa og Ingibjörgu Eiríksdóttur konu hans og fékk þau dæmd fyrir aðstoð við sakamann. Síðar deildi hann hart við Torfa Jónsson í Klofa, son Ingibjargar af fyrra hjónabandi, og var ástæðan sú sama, Torfi tók að sér menn sem biskup átti sökótt við og hélt þá í forboði hans svo að engum refsingum varð yfir þá komið, auk þess sem þeim biskupi bar á milli um tíundargreiðslur og fleira. Deilurnar voru harðar og er sagt að Torfi hafi oftar en einu sinni reynt að fara að biskupi og taka hann höndum en ekki haft erindi sem erfiði. Stefán átti líka í miklum deilum um eignir og völd við Björn Guðnason í Ögri, mág Torfa, og er sagt að hann hafi komið með 300 manna lið í Ögur sumarið 1517 en Torfi hafi haft jafnfjölmennt lið eða meira. Sættust þeir þá og dóu báðir ári síðar. Björn og Jón Sigmundsson lögmaður stóðu 1513 að Leiðarhólmssamþykkt, sem beint var gegn ofríki biskupanna, Stefáns og Gottskálks Nikulássonar. Stefán biskup auðgaði Skálholtsstað og sjálfan sig verulega og lét eftir sig meðal annars 480 hesta, 360 stikur vaðmáls, 512 stikur af góðu klæði, 21 stykki af varningsklæði, 840 stikur lérefts og hálfa vætt silfurs. Ekki er víst hvort skólahald hafði verið í Skálholti í tíð fyrirrennara Stefáns en vitað er að hann hélt þar skóla, enda vel lærður og kenndi sjálfur. Hann stofnaði líka Skriðuklaustur. Hann þótti allt að því meinlætamaður í lífsháttum, át aldrei kjöt utan jóladag og páska og aldrei hvítan mat nema á sunnudögum, drakk aldrei öl svo að á honum sæist, reið aldrei heisti á skeið og var aldrei við konu kenndur. „Hann var harður í refsingum við alla sakamenn, með innsetningum og hýðingum og öðrum harðindum, svo margir kjöru heldur dauða. Ekki þar um fleira,“ segir Jón Egilsson í Biskupaannálum. Ólafur Gíslason (biskup). Ólafur Gíslason (7. desember 1691 – 2. janúar 1753) var biskup í Skálholti frá 23. apríl 1747. Hann fæddist í Ytri-Njarðvík, sonur Gísla Ólafssonar lögréttumanns. Honum var upphaflega boðið Hólabiskupsdæmi 1744 en hann hafnaði því og skoraðist einnig undan þegar honum var boðið Skálholtsbiskupsdæmi ári síðar að undirlagi Ludvigs Harboe. Að lokum fékkst hann til að taka við stólnum, fékk veitingu 24. mars 1747 og var vígður í Kaupmannahöfn mánuði síðar. Ólafur lét reisa nýtt skólahús í Skálholti. Jón Halldórsson (biskup). Jón Halldórsson (d. 2. febrúar 1339) var biskup í Skálholti á 14. öld. Hann er yfirleitt talinn hafa verið norskur en vitað er að móðir hans hét Freygerður og það nafn er eingöngu þekkt úr íslenskum heimildum, sem kann að benda til þess að hann hafi verið af íslenskum ættum en uppalinn í Björgvin í Noregi, þar sem Kári bróðir hans var einnig munkur. Hann ólst upp í klaustri dóminíkana í Björgvin, gekk ungur í reglu þeirra og lærði á vegum þeirra bæði guðfræði í París og kirkjurétt í Bologna á Ítalíu, var talinn mjög vel lærður og talaði svo mjúklega latínu sem móðurmál sitt. Hann var valinn biskup eftir lát Gríms Skútusonar og vígður 1. ágúst 1322. Hann sat í Noregi um veturinn en kom til Íslands 1323; „kom út Jón biskup Freygerðarson“, segir í Flateyjarannál. Hann kom á ýmsum mikilvægum umbótum í kirkjurétti á Íslandi, en var einkum minnst sem predikara og sagnamanns. Til er safn af sögum sem hafðar eru eftir honum sem margar hverjar sverja sig í ætt við skemmtisögur golíarða frá Suður-Evrópu eins og finna má í verkum Francesco Petrarca og Giovanni Boccaccio. Veturinn 1338-1339 var hann í Björgvin og dvaldi í klaustrinu þar sem hann hafði alist upp. Þar veiktist hann og dó á kyndilmessu 1339. Hann þótti hafa verið einn hinn röggsamlegasti þeirra útlendu biskupa sem hér voru. Giovanni Boccaccio. Giovanni Boccaccio (16. júní 1313 – 21. desember 1375) var ítalskur rithöfundur frá Flórens, lærisveinn Petrarca og einn af helstu höfundum Endurreisnartímans á Ítalíu. Hann er einkum frægur fyrir "Tídægru" (ítalska: "Decamerone"), sem er safn skemmtisagna sem sumar hverjar eiga sér uppruna í alþýðilegri sagnahefð. Boccaccio, Giovanni Francesco Petrarca. Francesco Petrarca (1304 – 19. júlí 1374) var ítalskur rithöfundur, skáld og fræðimaður. Hann er, ásamt Dante Alighieri, álitinn upphafsmaður endurreisnarinnar. Hann fæddist í Arezzo í Toskana og fluttist ungur til Flórens. Faðir hans var ásamt Dante dæmdur í útlegð og Petrarca ólst því upp í Avignon í Frakklandi. Hann lærði í Montpellier og Bologna. Hann er einkum þekktur fyrir ljóð ort á ítölsku og ýmis rit á latínu um aðskiljanleg efni eins og sögu, guðfræði og siðfræði. Þekktastur er hann fyrir að hafa ort á ítölsku en langmest af ritum hans er þó á latínu, enda var hann ötull talsmaður rannsókna á ritum fornmanna og er þannig frumkvöðull fornmenntastefnunnar sem varð einkenni endurreisnarinnar. Tenglar. Petrarca, Francesco Jakobínarína. Jakobínarína á tónleikum árið 2006. Jakobínarína er íslensk hljómveit sem var stofnuð í lok árs 2004 af félögunum Gunnari Bergmann Ragnarssyni, sem syngur, Hallberg Daða Hallbergssyni, sem spilar á gítar, Ágústi Fannari Ásgeirssyni, sem spilaði á gítar en leikur nú á hljómborð, Sigurði Möller Sívertsen, sem leikur á trommur og Björgvini Inga Péturssyni sem plokkar bassann. Þeir spiluðu á nokkrum tónleikum og tóku svo þátt í Músíktilraunum 2005 þar sem þeir unnu. Eftir Músiktilraunir bættist einn í hópinn, Heimir Gestur Valdimarsson. Hann var áður í hljómsveitinni Lödu Sport og spilar á gítar. Þeir hafa nú gefið út þrjár smáskífur með lögunum His Lyrics are disastrous, Jesus og This is an advertisment. Jakobínarína hefur notið mikillar hylli og hefur spilað á þremur seinustu Airwaves hátíðum og tólistarhátíðinni South by Southwest í Texas við miklar undirtektir. Hafa þeir luku upptökum á fyrstu breiðskífu sinni, The First Crusade, í byrjun árs 2007 en hún kom ekki út fyrr en í september 2007 vegna samningaörðuleika. Í febrúar 2008 tilkynnti mbl.is að hljómsveitin væri hætt og héldu þeir lokatónleika sína þann 8. mars 2008. Niccolò Machiavelli. Niccolò Machiavelli (3. maí 1469 – 21. júní 1527) var ítalskur heimspekingur, rithöfundur og stjórnmálamaður sem er einkum þekktur fyrir kenningar sínar í stjórnmálafræði sem hann setti fram í bókinni "Furstinn" (um 1513), en einnig fyrir ljóð og leikverk. Hann fæddist í Flórens og hóf feril sinn sem opinber starfsmaður í þjónustu lýðveldisins frá 1494 til 1512 og ferðaðist um Evrópu sem sendifulltrúi. Þegar Mediciættin náði aftur völdum var hann ákærður fyrir þátttöku í samsæri gegn þeim, settur í fangelsi og pyntaður. Leó X, nýi Medici-páfinn, fékk hann lausan og hann settist þá að í sveit utan við San Casciano, nærri Flórens, þar sem hann helgaði sig ritstörfum. Við hann er kennd (með réttu eða röngu) sú stjórnmálaheimspeki sem gengur út á að tilgangurinn helgi meðalið. Stjórnmálaheimspeki Machiavelli. Rit Machiavelli um stjórnspeki (þá helst "Furstinn", þar sem hann heldur sig við umræðu furstadæma) lýsa með skarpskyggni og raunsæi stjórnmálalífi þess tíma, verk hans má þó yfirfæra á nútíma stjórnmál. Ólíkt heilögum Tómasi —sem taldi það vera í eðli mannsins að uppfylla tilætlanir Guðs— þá segir hann eðli mannsins einkennast af eigingirni, fégirni og grimmd. Meginmarkmið landstjórnar er að auka vald landsins og stjórnendur þess ættu ávallt að sniðganga siðferðisreglur, lög og loforð þegar kemur að því að tryggja og auka völd, þeir lúti þó einni reglu og hún er að tryggja hagsmuni ríkisins. "Furstinn" (m.ö.o. stjórnendurnir) ætti því að sitja einn um völd og láta trú og annað ekki trufla sig. Furstinn ætti að virða eðli þegna sinna en notfæra sér þörf þeirra fyrir öryggi og vernd. Velferð þeirra er honum þó algjört aukaatriði, nema það henti til valdaaukninga. Í ritinu "Orðræðan" metur hann á svipaðan hátt ýmis stjórnkerfi og kemst að raun um að lýðveldi sé líklegast besta og stöðugasta kerfið ef það nýtur stuðnings þegnanna. Tenglar. Machiavelli, Niccolò Machiavelli, Niccolò Machiavelli, Niccolò Machiavelli, Niccolò 1527. a>. Hluti af málverki eftir Santi di Tito. Raunprófun. Raunprófun er að leggja eitthvað undir dóm reynslunnar, gjarnan með rannsókn. Yfirleitt er þetta gert til þess að afla þekkingar sem ekki er hægt að öðlast á annan hátt. Þegar reynt er að raunprófa það sem hægt væri að komast að á annan hátt, svo sem með rökfærslu, kallast það gerviraunprófun. Compiere. Compiere er hugbúnaður fyrir stjórnun viðskiptatengsla (CRM) og auðlindastjórnun (ERP) fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Hugbúnaðurinn vinnur sem þjónn og biðlarar og byggir á J2EE umhverfinu (skrifaður með forritunarmálinu Java) og notaði upphaflega aðeins Oracle gagnagrunn en er til í útgáfum sem styðja meðal annars bæði PostgreSQL og MySQL. Compiere er frjáls hugbúnaður og gefinn út með Mozilla leyfinu. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (enska: "Eurovision Song Contest"; franska: "Concours Eurovision de la Chanson")- er á talmáli oft nefnd einfaldlega "Eurovision", er árleg söngvakeppni send út í sjónvarpi og útvarpi milli þjóða sem hafa ríkissjónvarpsstöðvar sem eru í Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva. Hún var fyrst haldin árið 1956. Nafnið getur verið nokkuð villandi þar sem aðild að sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva er ekki bundin við að stöðin sé rekin í evrópsku landi. Nokkur lönd utan Evrópu svo sem Ísrael og Marokkó hafa sent fulltrúa sína í keppnina. Framlag Íslands til Söngvakeppninnar. Ísland tók fyrst þátt árið 1986 og sýnir taflan hér að neðan nafn lags og flytjanda og það sæti sem framlagið hlaut í lokakeppninni. Rutherfordín. Rútherfordín er frumefni með efnatáknið Rf og er númer 104 í lotukerfinu. Þetta er gríðarlega geislavirkt gervifrumefni og hefur stöðugasta samsæta þess helmingunartíma rétt undir 70 sekúndum. Að þessum ástæðum er þetta frumefni ekkert notað og lítið vitað um það. Rutherfordín er fyrsta frumefnið handan aktaníða og er spáð fyrir um að hafa svipaða efnafræðilega eiginleika og hafnín. Saga. Rutherfordín (nefnt í höfuðið á Ernest Rutherford) var að sögn fyrst myndað árið 1964 af Sameinuðu Kjarnorkurannsóknarstofnuninni (Joint Nuclear Research Institute) í Dubna í Rússlandi. Vísindamenn þar létu hraðaðar 113 til 115 MeV neon jónir dynja á plútoni og lýstu því yfir að þeir hefðu fundið kjarnaklofningsför, á sérstakri tegund af gleri, með smásjá sem að gaf vísbendingu um tilvist nýs frumefnis. Árið 1969 mynduðu rannsóknarmenn við Berkeley frumefnið með því að láta kalifornín-249 og kolefni-12 skella saman með mikili orku. Þessi sami hópur skýrði einnig frá því að þeim hefði verið ókleyft að endurtaka tilraun Rússnesku vísindamannanna. Þetta olli ágreiningu við nafngift frumefnisins; sökum þess að Rússarnir héldu því fram að það hefði fyrst verið uppgötvað í Dubna, stungu þeir upp á Dubnín (Db), ásamt Kurchatovín (Ku), til heiðurs Igor Vasilevich Kurchatov (1903-1960), fyrrum yfirmanns kjarnorkurannsókna Sovétríkjanna. Bandaríkjamenn, á hinn bóginn, stungu upp á Rutherfordín (Rf) til að heiðra Ernest Rutherford, þekktum kjarneðlisfræðingi frá Nýja Sjálandi. Hið alþjóðlega samband efnafræðifélaga tók upp Unnilquadín (Unq) sem tímabundið nafn fyrir þetta frumefni. Árið 1997 var deilan leyst og núverandi nafn tekið upp. Jalangurssteinninn. Stóri Jalangurssteinninn er annar tveggja rúnasteina í Jalangri ("Jelling") í Danmörku. Hann var reistur af Haraldi blátönn um 965 til minningar um foreldra sína Gorm gamla Danakonung og Þyri danabót. Báðir steinarnir, grafhaugarnir og kirkjan í Jalangri voru sett á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1994. Í Jalangri er upplýsingamiðstöð, „Kongernes Jelling“, þar sem fjallað er um staðinn og sögu hans. Friðrik 5. kjörfursti. Friðrik 5. (16. ágúst 1596 – 29. nóvember 1632) kjörfursti í Pfalz og konungur Bæheims var erfingi Friðriks 4. kjörfursta í Pfalz í hinu Heilaga rómverska ríki og tók við af föður sínum árið 1610. Árið 1619 var hann kjörinn konungur í Bæheimi á kjörþingi þar sem meirihluti þátttakenda var mótmælendatrúar, en Friðrik var kalvínisti. Þegar Friðrik tók við konungdæmi í Bæheimi, sneru stuðningsmenn hans við honum baki, þar sem þeim þótti hann hafa yfirgefið varðstöðu sína í Pfalz við Rínarfljót gegn Spánverjum sem ætluðu sér innrás í Holland. Hann ríkti sem konungur eitt ár í Bæheimi og var krýndur haustið eftir, en tapaði landinu til Ferdinands af Styrju aðeins tveimur mánuðum síðar í orrustunni við Hvítufjöll 1620, og síðar einnig Pfalz sem herir keisarans unnu árið 1622 með fulltingi Spánverja. Hann neyddist því til að flýja í útlegð til Hollands og eyddi þar síðustu árum sínum í Haag við að afla stuðnings við kröfu sína um konungdóm í Bæheimi. Friðrik var giftur Elísabetu Stúart, dóttur Jakobs 6. Skotakonungs og systurdóttur Kristjáns 4. Danakonungs. Elsti sonur þeirra, Karl Lúðvík 1., varð kjörfursti í Pfalz og ríkti yfir stærstum hluta þess sem áður voru lönd föður hans eftir Vestfalíufriðinn 1648. Friðrik 5. Danakonungur. Friðrik 5. (31. mars 1723 – 13. janúar 1766) var konungur Danmerkur frá 1746. Faðir hans, Kristján 6. var þunglyndur og trúhneigður og Friðrik ólst upp á ströngu píetísku heimili. Friðrik hneigðist hins vegar til lífsins lystisemda svo mjög að faðir hans íhugaði að svipta hann sjálfsforræði. Hann átti við alkóhólisma að stríða þannig að stjórn ríkisins var öll í höndum ráðherra í leyndarráði konungs og yfirhirðmarskálksins, Moltkes greifa. Hann stofnaði konunglegu dönsku listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1754. Kjörfursti. Sjö kjörfurstar hins heilaga rómverska ríkis Kjörfursti (þýska: "Kurfürst") voru meðlimir kjörþingsins sem valdi keisara hins Heilaga rómverska ríkis. Oftast voru þeir sjö talsins: fjórir veraldlegir og þrír andlegir. Veraldlegu kjörfurstarnir voru konungur Bæheims, greifinn af Pfalz, hertoginn af Saxlandi og markgreifinn af Brandenburg. Andlegu kjörfurstarnir voru erkibiskuparnir í Mainz, Trier og Köln. Í Þrjátíu ára stríðinu var hertoganum af Bæjaralandi bætt við og árið 1692 varð hertoginn af Braunschweig-Lüneburg kjörfursti. Bæheimur. Bæheimur sýndur sem hluti af Tékklandi Bæheimur (tékkneska: "Čechy", þýska: "Böhmen") er hluti Tékklands og nær yfir um tvo þriðju hluta landsins (hinir hlutarnir eru Mæri og Slésía). Bæheimur var áður sérstakt konungsríki með Prag sem höfuðborg og hluti af hinu Heilaga rómverska ríki. Adelaide. Adelaide er höfuðstaður og stærsta borg Ástralska héraðsins Suður-Ástralíu. Hún stendur á Fleurieuskaga og er fimmta stærsta borg Ástralíu. Borgin er sjávarborg á eystri strönd St. Vincent hafsins og fjallsins Lofty Ranges. Dreifbýli borgarinnar nær 20km frá ströndinni að rætum fjallsins. Áætlaður íbúarfjöldi borgarinnar er meiri en 1,28 milljónir. Borgin er nefnd til heiðurs drottningunni Adelaide sem var kona Konungsins Vilhjálms IV sem stofnaði borgina árið 1836 fyrir nýlenda frjálsra Breta í Ástralíu. Ofurstinn Vilhjálmur Light hannaði borgina og valdi henni stað við ánna Torrens á svæði sem að Kaurna ættbálkurinn bjó áður á. Borgin er þekkt fyrir margar hátíðir, íþróttaviðburði, mat, vín, menningu og langar strendur. Hún hefur háa einkunn í lífsgæði fyrir það að vera á topp 10 lista í úttekt The Economist. JetX. JetX er íslenskt leiguflugfélag. Félagið rekur 4 þotur, 3 af gerðinni McDonnell Douglas MD-82 (DC-9-82) og 1 Boeing 737-800 Tækniþjónusta SAS sér um viðhald vélanna en þær voru keyptar notaðar frá SAS. Snæfellsjökull. Snæfellsjökull (1.446 m) er smár jökull vestast á Snæfellsnesi og sá eini á því. Undir Snæfellsjökli er virk eldstöð (eldkeila) sem hefur myndast við mörg gos, síðast fyrir um 1.750 árum. Rekja má gossögu hans 700 þúsund ár aftur í tímann og flest gosin í toppgígnum hafa ýmist verið sprengigos eða hraungos. Frá ísaldarlokum hefur gosið yfir 20 sinnum í og við jökulinn og voru þrjú gosanna mikill þeytigos, fyrir 8000 árum, 4000 árum og 1750 árum. Háahraun heitir lítil tota af síðast nefnda hrauninu og hylur mestalla suðurhlíð Snæfellsjökuls. Hægt er að sjá fjallið frá Reykjavík, Reykjanesi og stórum hluta Vesturlands á sólríkum dögum. Ýmislegt. Flatmál Snæfellsjökuls er 11 km2 og hann er 1446 m hár en jökullinn minnkaði um helming á síðustu öld. Gígskálin er um 200 m djúp, hæsti hluti jökulsins er suður- og austurbarmur hennar. Hæst bera jökulþúfurnar þrjár; syðst og vestust er Vesturþúfa (1442 m), nokkru norðar og austar Miðþúfa (1446 m) en fyrir norðan og austan hana er Norðurþúfa (1390 m). Frá Reykjavík sjást Miðþúfa og Vesturþúfa. Glöggskyggnir þykjast sjá að jökullinn hafi hopa hratt undanfarin áratug svo að greina megi gígskálina þar sem hún liggur undir jökultoppnum. Snæfellsjökull er sögusvið bókarinnar "Leyndardómar Snæfellsjökuls" eftir Jules Verne, en söguhetjan ferðast að miðju jarðarinnar frá jöklinum. Einnig gerist skáldsagan "Kristnihald undir Jökli", eftir Halldór Laxness, á þessum slóðum. Snæfellsjökull er hluti af þjóðgarðinum Snæfellsjökli sem stofnaður var 28. júní árið 2001. Hjálmar Árnason. Hjálmar Árnason (fæddur 15. nóvember 1950) er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og skólameistari. Árin 1995-2003 var hann þingmaður Reykjaneskjördæmis og 2003-2007 fyrir Suðurkjördæmi. Hjálmar varð stúdent frá MH 1970 og er með kennarapróf frá KHÍ (1979), BA próf í íslensku frá HÍ (1982) og gráðu í skólastjórnun frá Kanada (1990). Hjálmar hefur starfað sem kennari í bæði grunn- og framhaldsskólum og var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1985 - 1995. Fyrir utan skóla og stjórnmálastörf hefur Hjálmar verið viðriðinn sjómennsku, fjölmiðlun og löggæslustörf. Eftir að hafa lent í þriðja sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir Suðurkjördæmi á eftir Guðna Ágústssyni og Bjarna Harðarsyni tilkynnti Hjálmar 21. janúar 2007 að hann myndi hætta í stjórnmálum að kjörtímabilinu loknu. Síðan hefur Hjálmar starfað við Keili á Vallarheiði. Tantal. Tantal er frumefni með efnatáknið Ta og er númer 73 í lotukerfinu. Tantal er sjaldgæfur, harður, blágrár, gljáandi hliðarmálmur sem er mjög tæringarþolinn og finnst í málmgrýtinu tantalít. Tantal er notað í skurðlækningaáhöld og í ígræðslur vegna þess að líkamsvökvar verka ekki á það. Tantal er nefnt eftir Tantalosi í grískri goðafræði Almennir eiginleikar. Tantal er grár, þungur, þjáll og gríðarlega harður málmur. Hann er auðframleiðanlegur, mjög sýruþolinn og er einnig góður hita- og rafleiðari. Það má benda á það að við hitastig undir 150 °C er tantal næstum algerlega ónæmt gegn efnaskaða, meira að segja gegn hinu mjög svo tærandi kóngavatni. Einu sýrurnar sem að verka á það er flúorsýra og aðrar sýrublöndur sem að innihalda flúor jónir og frjálst brennisteinsþríoxíð. Aðeins volfram og renín hafa hærra bræðslumark (3290 K). Tantal hefur einnig hæstu rafrýmd, samkvæmt rúmmáli, allra efna og er þar af leiðandi mikið notað í þétta. Notkun. Tantal er aðallega notað, í duftformi, í framleiðslu á rafíhlutum, þá aðallega tantalþéttum, sem að eru mjög smáir miðað við rafrýmd. Sökum þessara stærðar- og þyngdaryfirburða, eru þessir þéttar gríðarlega mikið notaðir í farsíma, símboða, einkatölvur og raftæki í farartæki. Tantal er einnig notað til að framleiða ýmiss konar málmblöndur sem að hafa hátt bræðslustig, eru sterkar og hafa góðan sveigjanleika. Blandað við aðra málma er það einnig notað til að smíða karbíðverkfæri fyrir málmvinnslu og í framleiðslu á ofurmálmblöndum í þotuhreyfla, hluti í efnavinnslu, kjarnorkuofna og hluta í flugskeyti. Það er sveigjanlegt og er hægt að draga það í fíngerðan vír sem að notaður er sem glóðarþráður fyrir uppgufanarmálma eins og ál. Sökum þess að það er algerlega ónæmt gagnvart líkamsvökvum og veldur ekki ertingu, er það víða notað í framleiðslu á skurðlækningaáhöldum. Tantaloxíð er notað til að framleiða gler með háan brotstuðul fyrir myndavélalinsur. Hljómskálagarðurinn. Hljómskálinn Hljómskálagarðurinn er lystigarður í miðborg Reykjavíkur nefndur er eftir Hljómskálanum sem í honum stendur. Hluti Tjarnarinnar er einnig innan garðsins. Í Hljómskálagarðinum eru nokkrar styttur, þeirra á meðal stytta af Jónasi Hallgrímssyni, sem áður stóð við Lækjargötu og önnur af Bertel Thorvaldsen en sú stóð upprunalega á Austurvelli. Aðstaða er í garðinum til þess að grilla og leiksvæði fyrir börn. Upphaf hljómskálagarðsins var árið 1901 þegar tekið var frá land fyrir garðinn. Árið 1908 var sett fram fyrstu tillögur um útlit garðsins og sex árum síðar voru fyrstu trén í garðinum gróðursett. Hljómskálinn var byggður 1923 og garðurinn hlýtur nafn sitt af honum. Hljómskálinn er jafnframt fyrsta hús landsins sérstaklega byggt fyrir tónlist og fyrsti hljóðfæraskóli landsins var starfræktur í skálanum 1922. Garðurinn var tónlistarstaður átaksins Inspired by Iceland, þann 1. júlí 2010. Aðdragandi og fyrstu tillögur. Einar Helgason garðyrkjufræðingur hafði frumkvæði að því árið 1901 að boða til fundar í Hótel Íslandi um málefni Tjarnarsvæðisins. Þar var samþykkt að skora á bæjarstjórnina að tryggja að ekkert yrði gert til að spilla fyrir að gerður yrði skemmtistígur og lystigarður umhverfis Tjörnina. Slíkar hugmyndir höfðu þá verið settar fram í ræðu og riti næstu ár á undan. Viðbrögð bæjarstjórnar voru á þá leið að banna gerð mannvirkja meðfram þeim hlutum Tjarnarbakkans sem óbyggðir væru. Ekki treysti bærinn sér til að setja fjármagn í lystigarðsgerð að sinni, en að slíkt kæmi til greina síðar. Sumarið 1908 dvaldist í Reykjavík danskur húsameistari, Fr. Kiörboe að nafni, en hann starfaði við byggingu Safnahússins. Kynni tókust með honum og Knud Zimsen bæjarverkfræðingi og unnu þeir saman uppdrætti að skemmtigarði við suðurenda Tjarnarinnar. Tillögur þeirra félaga gerðu ráð fyrir að garðurinn næði yfir nokkurn veginn það svæði sem síðar varð, en að auki vildu þeir útbúa landfyllingu við norðvestanverðan Skothúsveg. Þar skyldi rísa garðskáli með veitingasölu og bátabryggju. Með austur- og vesturjaðri garðsins átti að gróðursetja tré og reisa steinveggi þeim til skjóls. Milli veggjanna skyldu svo rísa litlir torfkofar með sætum. Á grunni þessarra hugmynda skrilgreindi bæjarstjórn lóð fyrir lystigarð snemma árs 1909. Lítið varð þó úr framkvæmdum að sinni. Fáni Ástralíu. Fáni Ástralíu er þjóðfáni Ástralíu, hann er blár með fána Bretlands í efri stangarreit eins og margir fánar fyrrverandi nýlendna Breta (sem er kallað Blái hakafáninn (enska: "Blue Ensign")). Í neðri stangarreit er sjöarma stjarna, Samveldisstjarnan, þar sem 6 armanna tákna upprunaleg fylki Ástralíu en sá sjöundi svæðin og fylki sem kunna að verða til í framtíðinni. Á hinum helming fánans er svo tákn fyrir suðurkrossinn. Fáninn var sameining fjögurra svipaðra vinningstillagna í hönnunarkeppni þjóðfána fyrir Ástralíu árið 1901 þegar hún sameinaðist í eitt ríki. Fáninn varð þó ekki opinber þjóðfáni fyrr en árið 1953. Fleiri fánar en þessi eru opinberir fánar Ástralíu, alls eru þeir 26. Þeirra á meðal er fáni frumbyggja Ástralíu og fáni Torressunds eyjaskeggja. Kóngavatn. Kóngavatn (latína: "aqua regia") er gríðarlega tærandi, rjúkandi gulur vökvi. Það er myndað af blöndu af einum hluta saltpéturssýru og þremur hlutum saltsýru. Það er eitt af fáum virkum efnum sem að geta leyst upp gull og platínu. Ber það nafn sitt af þessum eiginleika að geta leyst upp eðalmálma (konunglega málma). Sumir málmar, eins og til dæmis tantal og aðrir jafn óvirkir málmar, standast þó snertingu við það. Kóngavatn er notað í ætingu og sumar rannsóknaraðferðir. Kóngavatn hefur ekki góðan endingartíma og þarf því að blanda það saman rétt fyrir notkun. Saga. Jabir Ibn HayyanHandrit frá miðöldumHöfundur óþekktur Saltsýra var fyrst uppgötvuð í kringum árið 800 af Persneska gullgerðarmanninum Jabir Ibn Hayyan (Geber), með því að blanda matarsalti saman við brennisteinssýru. Uppgötvun Jabirs á gulluppleysandi kóngavatni ýtti undir átak gullgerðarmanna við leit þeirra að viskusteininum. Ferli. Kóngavatn leysir upp gull, jafnvel þótt að hvorug sýran, sem það er myndað úr, geri það fyrir sig, sökum þess að saman vinnur hver sýran sitt verk. Saltpétursýra er öflugur oxari, sem reyndar leysir upp örlítið magn (næstum ómælanlegt) af gulli, sem að myndar gulljón. Úr saltsýrunni fæst ofgnótt klórjóna, sem að bindast við gulljónirnar og minnka þannig magn þeirra í lausninni. Þetta gerir saltpétursýrunni kleyft að halda áfram oxuninni, þar til að allt gullið hefur verið leyst upp eða þar til allar klórjónir saltsýrunnar hafa bundist við gulljón. Andrés Önd. Andrés Önd (enska: "Donald (Fauntleroy) Duck") er teiknimynda- og teiknimyndasögupersóna úr smiðju Walt Disney samsteypunnar. Hann er persónugerð önd í svörtum og bláum matrósafötum, með sjóliðahatt. Hann er skapstór og uppstökkur. Byrjun ferilsins. Andrés birtist fyrst í stuttteiknimyndinni "the wise little hen" árið 1934, en sú mynd var hluti af "the Silly Symphonies" sem Disney samsteypan gaf út. Það var Dick Lundy sem teiknaði Andrés sem birtist í þættinum sem aukapersóna, en þá var hann slánalegri á að líta en þó auðþekkjanlegur. 1936 var hann endurhannaður og fékk þá nánast á sig núverandi útlit. Í janúar 1937 var hann svo aðalsöguhetja í þætti í fyrsta skipti. Afmælisdagurinn. Til eru nokkrar tillögur að afmælisdegi Andrésar og er engin þeirra „opinber afmælisdagur“ hans. Í myndinni "the three Caballeros" sem kom út 1945 er sagt að Andrés eigi afmæli á föstudeginum þrettánda. Þá kemur helst til greina 13. október, en það er sá dagur næst á undan útkomu myndarinnar sem féll á föstudag þrettánda. Í myndinni "Donald's Happy Birthday" frá 1949 kemur fram að afmælisdagurinn hans hafi verið 13. mars. Núna er dagurinn 9. júní yfirleitt talinn vera afmælisdagur Andrésar, en það er dagurinn þegar fyrsta myndin um hann kom út. Samkvæmt Don Rosa, einum þekktasta teiknara Disney, er Andrés fæddur árið 1920. (Myndasögurnar (viðfangsefni Don Rosa) eiga að gerast einhvern tíma um 1947-1951.) Frægðin. Andrés Önd er eflaust þekktastur fyrir teiknimyndasögurnar sem byrjuðu snemma en upphaflega voru þær bara fjögurra ramma dagblaðabrandarar eftir Bob Carp og Al Taliaferro sem voru höfundarnir að Andrésínu, kærustunni hans, og Ripp, Rapp og Rupp, litlu frændunum, en frægustu teiknimyndasögurnar um hann eru eftir Carl Barks sem hannaði Andabæ og marga af íbúum hans. Vinsælasti nútímateiknarinn er án efa Don Rosa en hann er þekktur fyrir nákvæm smáatriði í teikningum og mikla þekkingu á viðfangsefninu. Fjölskylda. Hann á systur sem heitir Della duck sem er móðir Ripps, Rapps og Rupps. Mamma hans og pabbi heita Rasmus Önd og Hortensía Aðalönd. Andrés Önd er rosalega óheppin önd en hann er mesti óhappa-fíkillinn í bransanum. Shoemaker-Levy 9. Shoemaker-Levy 9 (formlega kölluð D/1993) var halastjarna sem rakst í nokkrum brotum á reikistjörnuna Júpíter á milli 16. júlí 1994 og 22. júli 2004, Thích Quảng Đức. Minnismerki Thích Quảng Đức, þar sem hann brann a> gerð sem hann kom í sést í bakgrunninum Thích Quảng Đức (1897 – 11. júní 1963 í Saigon í Víetnam) (quốc ngữ: "Thích Quảng Đức"; Chữ Nôm: "釋廣德") var búddamunkur frá Huế í Víetnam sem framdi sjálfsmorð með sjálfsíkveikju á miðdegi 11. júní 1963 á fjölförnum gatnamótum í Saigon í Víetnam til að mótmæla kúguninni sem búddistar þurftu að þola undir stjórn forsætisráðherra landsins, Ngô Đình Diệm, sem var kaþólskrar trúar. Forsetafrú hans, Ngô Đình Nhu, hafði það að segja um atburðinn að hún myndi klappa sæji hún aðra „munkagrillsýningu“, þessi ummæli urðu til þess að hún fékk viðurnefnið „drekakonan“. Ástæður fyrir sjálfsíkveikjunni. Ríkisstjórnin varð ekki við þessum beiðnum, sem varð til þess að Thích Quảng Đức framdi sjálfsíkveikju sína. Eftir dauða hans var hann brenndur og sagt er að hjarta hans hafi ekki viljað brenna, fyrir vikið er það talið heilagt. Áhrif í menningu. Árið 1992 notaði rokkhljómsveitin Rage Against The Machine myndina á umslagi samnefndri frumraunar þeirra. Tékkneska. Tékkneska (tékkneska: "čeština") er indóevrópskt tungumál af ætt vesturslavneskra tungumála. Hún er náskyld pólsku og slóvakísku. Tékkneska er opinbert tungumál Tékklands og er auk þess töluð af Tékkum um allan heim. Um 12 milljón manns tala tékknesku. Tékkneska er heldur flókið tungumál og því eiga margir erfitt með að læra hana. Málfræðin er flókin. Fallorð og sagnir beygjast. Orðaröð er mjög frjálsleg og mjög mikið er um forskeyti. Ritháttur. Tékkenska er rituð með latneska stafrófinu, en auk þess eru nokkrir sérstakir stafir. Það eru mjúku samhljóðarnir ď, ť, ň, ž, š, č, ř, löngu sérhljóðarnir á, é, í, ó, ú/ů, ý og mjúki sérhljóðinn ě. Athugið að farið er með "ch" sem sérstakan staf. Framburður. Framburður er nokkuð erfiður þar sem tékkneska hefur mörg hljóð sem reynast útlendingum, m.a. Íslendingum, erfið. Tékkneska hefur eitt hljóð sem er talið vera einstakt í heiminum. Það er hljóðið ř, borið fram svipað og "hrzh". Auk þess geta verið fjölmargir samhljóðar í röð og heilu orðin geta jafnvel verið án sérhljóða (dæmi: "čtvrthrst, smrt, scvrkl, zmrzl"). Hér að neðan er útskýrður framburður þeirra hljóða sem eru ekki eins og í íslensku Nafnorð. Í tékknesku fallbeygjast nafnorð í sjö föll: nefnifall, þolfall, þágufall, eignarfall, ávarpsfall, staðarfall og tækisfall. Nafnorð hafa einnig kyn (karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn) og tölu (eintölu og fleirtölu). Lýsingarorð. Líkt og nafnorð taka lýsingarorð í tékknesku einnig kyn og tölu og þau fallbeygjast í sömu sjö föll. Persónufornöfn. Í tékknesku er persónufornöfnum oftast sleppt. Þau eru einkum notuð til áherslu. Persónufornöfnin fallbeygjast. Sagnorð. Einnig er til nokkur fjöldi óreglulegra sagna. Töluorð. Tölurnar 1 og 2 eru mismunandi eftir kynjum. Aðrar tölur eru eins í öllum kynjum. Talan 1 tekur með sér eintölu. Tölurnar 2, 3 og 4 taka með sér fleirtölu. Talan 5 og hærri tölur taka með sér fleirtölu í eignarfalli. Mohs kvarði. Mohs kvarðinn flokkar efni eftir viðnámi þeirra við að vera rispað af harðara efni. Þessi kvarði var búinn til af steindafræðingnum Friedrich Mohs og er eitt af nokkrum skilgreiningum á hörku í raunvísindum. Mohs byggði kvarðann á tíu auðfáanlegum steintegundum. Efni eru staðsett á kvarðann með því að finna harðasta efnið sem að þau geta rispað. Taflan hér fyrir neðan sýnir samanburð við reyndarhörku mælt með hörkumæli. Mohs kvarðinn er einfaldur raðarkvarði, því að kórundum er í reynd tvisvar sinnum harðari en tópas og demantur fjórum sinnum harðari en það, þrátt fyrir að þessi efni koma hvert á eftir öðru á Mohs kvarðanum. Guð. Guð (oftast ritað með lágstaf, þ.e. guð, og stundum ritað gvuð sem hljóðlíking á framburði) er yfirnáttúruleg vera, sem oft er æðsta vera í trúarbrögðum og jafnvel almáttug. Helstu kenningarnar um guð eru: eingyðistrú, fjölgyðistrú, frumgyðistrú og algyðistrú. Eingyðistrú gerir ráð fyrir einum guði, sem oftast er almáttugur og skapari veraldar; dæmi um þetta er kristni. Fjölgyðistrú getur haft fjöldann allan af guðum og sinna þeir jafnan mismunandi hlutverkum (frjósemisguð eða stríðsguð t.d.) og hafa valdaskipti og jafnvel yfirguð, dæmi um þetta er ásatrú. Frumgyðistrú telur guð vera afl eða kraft af einhverju tagi, stundum frumhreyfil sem kemur gangverki heimsins af stað. Dæmi um þetta er guðshugmynd Aristótelesar. Algyðistrú er sú kenning að guð sé allt og sé alls staðar, dæmi um þetta er hindúasiður. Íslenska þjóðkirkjan játar trú á heilaga þrenningu: guðinn Jahve, son hans Jesú Krist og heilagan anda, sem biblían fjallar um. Orðsifjar og notkun í íslensku. Orðið guð er bæði til í hvorugkyni og karlkyni í íslensku og er notað bæði sem sér- og samnafn. Goð og guð eru náskyld hugtök, goð er þó oftar notað um guðlegar verur í fjölgyðistrú, til dæmis í ásatrú. Upphaflega skildust þessar tvær myndir að vegna hljóðvarps. Stöð 2. Stöð 2 er íslensk sjónvarpsstöð sem hefur verið starfandi frá því 9. október 1986. Stöðin var stofnuð að frumkvæði Jóns Óttars Ragnarssonar matvælafræðings og Hans Kristjáns Árnasonar hagfræðings. Valgerður Matthíasdóttir (Vala Matt) gekk svo til liðs við þá og var áberandi í útlitshönnun og dagskrárgerð stöðvarinnar frá upphafi. Stöð 2 er rekið af 365 miðlum. Nýju útvarpslögin 1986. Í stóra BSRB verkfallinu haustið 1984 lagðist nánast öll starfsemi RÚV niður og upp spruttu nokkrar ólöglegar útvarpsstöðvar. Í kjölfarið var farið að huga að endurskoðun útvarpslaga í menntamálaráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur. Ný lög, sem leyfðu einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, voru samþykkt á Alþingi 13. júní 1985 og tóku gildi í ársbyrjun 1986. Fram að þeim tíma höfðu verið starfandi á Íslandi tvær útvarpsstöðvar og ein sjónvarpsstöð, Rás 1 og Rás 2 og Ríkissjónvarpið. Stofnun Stöðvar 2. Stöð 2 fór í loftið 9. október þetta sama ár sem áskriftarstöð með ruglaðri dagskrá þar sem þurfti að kaupa lykilnúmer og slá inn í myndlykil til að afrugla útsendinguna. Jón Óttar var sjónvarpsstjóri og þau Vala Matt voru áberandi á skjánum þessa fyrstu daga stöðvarinnar. Dagskráin var byggð upp á aðkeyptu afþreyingarefni, leiknu íslensku skemmtiefni og fréttum. Erfiðlega gekk að fá fjárfesta til að taka þátt í starfseminni til að byrja með. Í byrjun árs 1987 voru áskrifendur um fimm þúsund, en voru orðnir tæplega þrjátíu þúsund fyrir árslok. Á sama tíma fjölgaði starfsfólki og stöðin fór í samkeppni við RÚV um dagskrárgerðarfólk og fréttamenn, sem þótti fáheyrt. Barnatíminn. Barnatíminn er fastur liður Stöðvar 2. Alla virka daga hefst hann klukkan 16:00 og endar 17:30. Hann er líka sýndur um helgar frá 07:00 til 12:00. Á helgidögum er líka sýndur barnatími þegar börnin borða páskaeggin sín eða bíða eftir jólum. Einkennismerki barnatímans er hoppandi grænn fugl sem kynnir næsta þátt. Einnig sjást bregða fyrir kettir og fleiri dýr þegar þátturinn er kynnntur. Barnatími Stöðvar 2 sýnir bæði þætti fyrir þau yngstu og þau eldri börnin. Taugafruma. Taugafrumur eru þær frumur taugakerfisins sem flytja taugaboð. Aðalhlutar taugafrumu eru þrír: griplur, taugabolur og taugasími. Taugaboð. Griplur taugafrumu taka við boðum frá öðrum taugafrumum. Slík boð geta verið bæði örvandi og hamlandi. Ef fruman nær örvunarþröskuldi verður svokölluð boðspenna í frumunni, það er rafboð berast niður eftir símanum að taugaendum hennar. Í taugaendunum eru svokallaðar símahirslur sem innihalda taugaboðefni. Við rafboðin springa símahirslurnar og taugaboðefnin berast á næstu taugamót, það er þar sem taugafruman mætir annarri taugafrumu. Þessi taugaboðefni geta svo annað hvort hamlað eða örvað seinni frumuna, allt eftir gerð taugaviðtaka þeirra. Cristiano Ronaldo. Cristiano Ronaldo (fullt nafn Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro, fæddur 5. febrúar 1985) er portúgalskur knattspyrnumaður. Ronaldo er framliggjandi miðjumaður og hægri kantmaður. Hann hóf feril hjá Sporting Lissabon en var síðan keyptur til Manchester United þar sem hann gerði garðinn frægan. Hann leikur nú með spænska liðinu Real Madrid en hann var keyptur til liðsins frá United á 80 milljónir punda í júní 2009, og er Ronaldo því dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Hann var kjörinn knattspyrnumaður ársins af FIFA árið 2008. Leikni Ronaldo með boltann er mikil og er hann jafnvígur á báða fætur og getur því spilað báðum megin á vellinum. Hann er þekktur fyrir skærin sem hann tekur og fær bæði hrós og gagnrýni fyrir þau. Á öðru tímabili sínu hjá Manchester breyttist leikstíllinn úr einmenningsleik í liðsleik en líklega er Maradona ein af fyrirmyndum hans hvað varðar sólun og skæri. Ævi. Ronaldo fæddist þann 5. febrúar 1985 kemur frá Funchal á Madeira-eyjum. Hann var yngsti sonur foreldra sinna, Maria Dolores dos Santos Aveiro og José Dinis Aveiro. Hann fékk seinna nafn sitt í höfuð á þáverandi Bandaríkjaforseta Ronald Reagan, en Reagan var í miklu uppáhaldi hjá föður Ronaldo. Ronaldo á einn eldri bróður, Hugo, og tvær eldri systur, þær Elma og Liliana Cátia. Sporting CP. Þegar Ronaldo var tólf ára var hann farinn að hlaupa af sér fullorðna menn og gat því hæglega spilað með eldri flokkum í félagi sínu. Ferilinn hóf hann hjá Nacional en fór fljótlega til Sporting Lissabon og í fyrsta leik sínum skoraði hann tvö mörk, draumabyrjun hjá liðinu sem hann hafði alla tíð haldið með. Alex Ferguson tók eftir honum í æfingaleik sem Manchester United spilaði við Sporting og fékk strax áhuga á að fá hann til liðs við Manchester United. Lærisveinar hans sögðu við hann að hann yrði að kaupa þennan dreng og svo fór að hann var keyptur haustið 2003. Manchester United. Ronaldo varð fyrsti Portúgalinn í herbúðum United þegar hann var keyptur á £12.24 milljónir punda árið 2003. Hann bað um treyju númer 28 (númerið hans hjá Sporting) en Ferguson sagði að hann skildi bera treyju nr. 7. Fyrsti leikur Ronaldos fyrir Manchester United var gegn Bolton Wanderers í 4-0 sigri. Hans fyrsta mark var hins vegar úr aukaspyrnu gegn Portsmouth þann 1. nóvember 2003 í 3-0 sigri þeirra rauðklæddu. Fyrsti titill Ronaldos kom í hús þegar Manchester United urðu bikarmeistarar leiktíðina 2003-04. Síðan þá hefur hann unnið ensku úrvalsdeildina 3 sinnum, deildarbikarinn og samfélagsskjöldinn tvisvar og urði Evrópumeistari- og heimsmeistari félagsliða einu sinni. Þann 11. júní 2009 samþykkti Manchester United kauptilboð Real Madrid í Ronaldo upp á 80 milljónir punda eða 17 milljarða íslenskra króna. Ronaldo er framliggjandi miðjumaður og hægri kantmaður. Treyja hans er númer 7 en margir hafa einmitt borið þetta númer hjá liðinu, til dæmis David Beckham og Eric Cantona. Leikni Ronaldo með boltann er mikil og er hann jafnvígur á báða fætur og getur því spilað báðum megin á vellinum. Hann er þekktur fyrir skærin sem hann tekur og fær bæði hrós og gagnrýni fyrir þau. Á öðru tímabili sínu hjá Manchester breyttist leikstíllinn úr einmenningsleik í liðsleik en líklega er Maradona ein af fyrirmyndum hans hvað varðar sólun og skæri. Ronaldo var kjörinn knattspyrnumaður ársins 2008 af FIFA. Ferill með landsliði Portúgals. Fyrsti landsliðsleikur Ronaldo var fyrir Portúgal gegn Kasakstan haustið 2003 og skoraði hann eina mark liðs síns í upphafsleik Evrópumeistaramótsins 2004 gegn Grikkjum. Ronaldo er fyrirliði portúgalska landsliðsins. Jón Laxdal Halldórsson. Jón Laxdal Halldórsson (fæddur 7. júní 1933 á Ísafirði, Íslandi; dáinn 15. maí 2005 í Kaiserstuhl, Sviss) var leikari og leikstjóri. Hann var þekktur undir nafninu Jón Laxdal. Hann var tólfta barn Halldórs Friðgeirs Sigurðssonar frá Arnardal og Svanfríðar Albertsdóttur frá Ísafirði. Hann lærði við leiklistarskóla Þjóðleikshússins og Max-Reinhardt-Seminar í Vín. Jón Laxdal lék m.a. Garðar Hólm í Brekkukotsannál (1972) og bóndann Steinar í Paradísarheimt, sem báðar voru gerðar eftir skáldsögum Halldórs Laxness. Jón rak eigið leikhús í Kaiserstuhl í Sviss sín síðustu ár. Jón Sigurðsson (forseti). Jón Sigurðsson (17. júní 1811 - 7. desember 1879), oft nefndur Jón forseti, var helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Til þess að minnast hans var fæðingardagur hans valinn sem sá dagur sem Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 og sem þjóðhátíðardagur Íslendinga þegar Lýðveldið Ísland var stofnað þann 17. júní árið 1944. Uppeldi og nám. Jón Sigurðsson fæddist 17. júní árið 1811 á Hrafnseyri í Arnarfirði á Vestfjörðum. Hann fæddist á Bótolfsvöku (á laugardegi). Hann var skírður í höfuðið á móðurafa sínum, Jóni Ásgeirssyni. Faðir hans var Sigurður Jónsson, prestur og móðir hans Þórdís Jónsdóttir, húsfreyja. Jón átti tvö systkini: Jens og Margréti. Margrét ól manninn á Vestfjörðum og gerðist bóndi á Steinanesi í Arnarfirði. Jens fluttist síðar til Reykjavíkur og gerðist kennari og rektor Lærða skólans. Á uppvaxtarárunum stundaði Jón nám hjá föður sínum. Jón fluttist til Reykjavíkur átján ára gamall og tók stúdentspróf árið 1829 með ágætiseinkunn. Í Reykjavík vann hann í verslun föðurbróður síns, Einars Jónssonar, og þannig kynntist hann verðandi eiginkonu sinni Ingibjörgu, sem var dóttir Einars. Vorið 1830 réðist Jón til starfa sem biskupsritari hjá Steingrími Jónssyni, biskupi Íslands í Laugarnesi. Steingrímur átti stæðilegt bókasafn og fékk Jón afnot af því. Þar vaknaði áhugi hans á sögu Íslands og menningu. Jón hélt til Kaupmannahafnar árið 1833 til náms og þar bjó hann til æviloka. Í fyrstu nam hann málfræði en þá fékk hann styrk frá gjafasjóði Árna Magnússonar og sneri sér að lestri íslenskra bókmennta og seinna sögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk þó aldrei prófi. Hann vann sem málvísindamaður hjá Árnasafni. Sem slíkur var hann fenginn til að aðstoða færeyska prestinn Hammershaimb við að gera færeyskt ritmál og réð því að færeysk stafsetning tekur mið af uppruna orða miklu fremur en framburði. Þá var hann aðalmaðurinn á bak við tímaritið Ný félagsrit allan tímann sem það kom út á árunum 1841-73. Jón var kosinn þingmaður Ísafjarðarsýslu árið 1844 og sótti hann Ísland heim á ný árið 1845 til þess að geta setið á Alþingi. Jón sat sem forseti Alþingis árin 1849-53, einn og hálfan mánuð árið 1857 og loks frá 1867-77. Viðurnefnið "forseti" fékk hann hins vegar vegna þess að hann var frá 1851 forseti Hafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags. Á tímabilinu sem Jón var þingmaður kom Alþingi saman annað hvert ár og stóð í sex vikur. Jón gat því búið í Kaupmannahöfn en komið heim og sótt þing. Einn helsti stuðningsmaður heima í héraði var varaþingmaður Jóns, Magnús Einarsson á Hvilft í Önundarfirði og segir í skrifum Lúðvíks Kristjánssonar, fræðimaður, að berlega sé ljóst að Magnús á Hvilft er maðurinn sem Íslendingar eiga að þakka hina traustu forystu í baklandi Jóns á Vestfjörðum og gaf honum undirstöðu til sinnar kröftugu sjálfstæðisbaráttu. Eiginkona Jóns var Ingibjörg Einarsdóttir, sem sat í festum heima á Íslandi í tólf ár frá 1833 en þau giftust loks þegar hann kom heim á þingið 1845 þann 4. september. Nokkur aldursmunur var á hjónunum, hún var sjö árum eldri. Hjónin voru bræðrabörn en eignuðust engin börn. Þau ólu upp systurson Jóns, Sigurð Jónsson, frá því hann var átta ára. Þau fluttust saman til Kaupmannahafnar og bjuggu lengst á Øster Voldgade 8 (sem núna heitir Øster Voldgade 12 (Jónshús)), en þar voru þau frá árinu 1852 til andláts Jóns 1879. Götuna kölluðu Íslendingar "Austurvegg". Sjálfstæðisbaráttan. Frá Danmörku átti Jón í samskiptum við fjölda Íslendinga bréfleiðis. Varðveist hafa yfir 6.000 sendibréf til Jóns frá um 870 bréfriturum. Jón var sérlega iðjusamur og tilbúinn að gera samlöndum sínum ýmsa greiða. Hann var í ágætri stöðu til áhrifa í Kaupmannahöfn og leituðu margir til hans, meðal annars til þess að biðja um lán. Fyrir vikið varð Jón vinsæll meðal Íslendinga. Einn helsti samstarfsmaður Jóns var nafni hans Jón Guðmundsson, ritstjóri. Hann var stundum kallaður skuggi Jóns Sigurðssonar. Konungur Danmerkur afsalaði sér einveldi árið 1848 og við það tækifæri ritaði Jón „Hugvekju til Íslendinga“ þar sem hann hvatti Íslendinga til baráttu fyrir sjálfstæði. Greinin birtist í Nýjum félagsritum það ár. Rök hans voru þau að við afnám einveldisins væri Ísland orðið að sjálfstæðu landi, líkt og fyrir Gamla sáttmála. Á þjóðfundinum 1851 lagði hópur Íslendinga fram mótfrumvarp við frumvarp Danakonungs um stjórnskipun Íslands. Jørgen Ditlev Trampe, stiftamtmaður Danakonungs á Íslandi, neitaði frumvarpinu framgöngu og brást þá Jón við og mótmælti framgöngu Trampe. Undir tóku viðstaddir með hinum fleygu orðum „Vér mótmælum allir“. Þessi atburður er talin marka þau tímamót að þaðan af var Jón talinn óumdeildur leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar. Eftir þjóðfundinn ganga sögur um að dönsk yfirvöld vildu ráða Jón af dögum en seinni rannsóknir benda til þess að ekkert sé til í því. Jón beitti sér fyrir verslunarfrelsi, m.a. með útgáfu ritgerðar um verslun á Íslandi sem kom út árið 1843 þar sem hann vísar í verk Adam Smiths. Þrátt fyrir afnám einokunarverslunar 1787 var verslun við aðra en þegna Danakonungs áfram bönnuð. Á legsteini Jóns í Hólavallagarði stendur „"Stein þenna reistu honum landar hans 1881"“. Jón lést 7. desember 1879 eftir langvinn veikindi. Ingibjörg eiginkona hans lést níu dögum seinna og eru þau bæði grafin í Hólavallagarði. Minning Jóns. Húsið, sem Jón og Ingibjörg kona hans bjuggu í í Kaupmannahöfn, er á Øster Voldgade 8 og heitir Jónshús. Það er í eigu íslensku ríkisstjórnarinnar og er rekið sem safn í minningu hans. Við Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns, er einnig rekið Safn Jóns Sigurðssonar. Stytta af Jóni, eftir Einar Jónsson, stóð upphaflega fyrir framan Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu og var afhjúpuð 10. september 1911 af Kristjáni Jónssyni ráðherra. Styttan var flutt árið 1931 á Austurvöll fyrir framan Alþingishúsið, líkt og fyrst var lagt til. 17. júní er einnig haldinn hátíðlegur þar sem minningu Jóns er haldið á lofti. Jóns er getið í sögulegu skáldsögunni "Þegar kóngur kom" eftir Helga Ingólfsson. Afréttur. Afréttur er heiðarland notað til að beita búfé að sumri, s.s. sauðfé og hrossum. Þessi svæði eru friðuð fyrir beit á vetrum, vorum og seinnipart hausts og er það gert með því að smala afréttinn. Smalamenn kallast fjallmenn sunnan heiða en gangnamenn norðan heiða. Á Íslandi eru flestir afréttir inni á miðhálendinu en einnig eru afréttir milli dala/fjarða á norður- og vesturlandi. Miðheimar. Miðheimar er íslenskt veffyrirtæki sem hét upphaflega "centrum.is". Það var fyrsta almenna internetveitan á Íslandi og sú fyrsta sem bauð uppá SLIP-aðgang fyrir vefinn. Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Róbert Viðar Bjarnason stofnuðu "centrum.is" árið 1993 en þá voru fyrir Íslenska menntanetið og netaðgangur á vegum Hafró og Háskóla Íslands. Þjónustan byggðist á einni Linuxtölvu (Slackware Linux á 25 MHz 486 með 4 MB vinnsluminni). Tenging við umheimin var með innhringibeini (e. "dial-up router") sem keyrði á 9600 bit á sekúndur. Innhringing var á tveimur mótöldum með 1200 eða 2400 bita hraða (plús þjöppun). Árið 1994 tók fyrirtækið Miðheimar yfir reksturinn. Ævintýri Tinna. Ævintýri Tinna (almennt kallaðar Tinnabækurnar á íslensku) (franska: "Les Aventures de Tintin") er flokkur teiknimyndabóka eftir belgíska myndasöguhöfundinn og listamanninn Georges Remi sem hann skrifaði undir dulnefninu Hergé. Á frummálinu er útgefandi bókanna Casterman en Fjölvi hefur gefið hann út á íslensku, en þýðandi þeirra flestra er Loftur Guðmundsson. Einnig hafa verið gefnar út teiknimyndir um Tinna og félaga, og Steven Spielberg hefur leikstýrt leikinni bíómynd eftir "Leyndardómi Einhyrningsins". Ævintýri Tinna hafa náð vinsældum um allan heim og eru eitt af þjóðarstoltum Belga. Tinni. Tinni (franska: "Tintin") er aðalpersóna bókana og, ásamt hundinum Tobba, sú eina sem er í öllum bókunum. Hann er ungur rannsóknablaðamaður frá Belgíu og sú atvinna hans er mikilvæg í flestum bókunum. Í langflestum bókunum klæðist hann brúnum buxum, hvítum sokkum, brúnum skóm og blárri peysu með hvítri skyrtu innanundir. Hann er með ljóst, rauðleitt hár. Sköpun persónunnar er miðuð við árið 1929 en hann var þá byggður á eldri persónu Hergés, Totor, sem var skáti í sögum sem komu út á árunum 1926-1929. Framan af er ævintýragjörn hetja sem bjargar alltaf deginum. Í síðustu sögunum gerist það frekar að hann lendi í vandræðum og bjargi hlutunum svo. Tobbi. Tobbi (franska: "Milou") er hundur Tinna sem fylgir honum í öllum hans ævintýrum. Hann er af gerð af terrier-hundi. Verandi hundur getur hann ekki talað og á þar af leiðir ekki venjuleg samskipti við aðrar persónur. Þó eru mjög sterk bönd milli hans og Tinna og skilja þeir hvorn annan mjög vel. Hugsanir Tobba birtast stundum í talblöðrum, en hann er eina persónan sem lesendur fá að sjá eitthvað af hugsununum hjá. Honum líkar áfengi vel, en er illa við köngulær. Skafti og Skapti. Skafti og Skapti (franska: "Dupont et Dupond") eru leynilögreglumenn sem eru með öllu óhæfir í sínu starfi. Þeir eru mjög líkir að öllu leyti en algjörlega óskyldir. Þeir ganga báðir í svörtum jakkafötum, með svartan kúluhatt og staf, en þegar þeir eru á ferðum sínum reyna þeir oft að klæðast þjóðlegum búningum sem þeir halda að láti þá falla betur inn í hópinn. Þeir eru báðir með svart hár og hálfskalla og svart yfirvaraskegg sem eru örlítið ólík í laginu, en það er eini munurinn á útliti þeirra. Þeir ruglast mjög í tali og er það, ásamt almennri heimsku þeirra, algeng undirstaða brandara í bókunum. Kolbeinn kafteinn. Kolbeinn kafteinn (franska: "Capitaine Haddock") kynntist Tinna í bókinni Krabbinn með gylltu klærnar sem áfengissjúkur skipstjóri. Meðal annars með hjálp Tinna nær hann að yfirvinna áfengissýkina og þeir verða bestu vinir. Kolbeinn er á miðjum aldri, dökkhærður með alskegg. Hann klæðist jafnan svörtum buxum og jakka, blárri rúllukragapeysu með mynd af akkeri á og skipstjórahúfu. Eitt af hans helstu persónueinkennum eru blótsyrði hans. Hann blótar mjög mikið, oft með vísunum í sjómennsku. Á íslensku koma blótsyrðin oft fram í löngum, stuðluðum, runum. Frá því við lok bókarinnar um Fjársjóð Rögnvaldar rauða býr hann á sínu forna ættarsetri Myllusetri. Prófessor Vilhjálmur Vandráður. Prófessor Vandráður (franska: "Professeur Tryphon Tournesol") var seinasta aðalpersónan til að vera kynnt. Hann kom fyrst fram í Fjársóði Rögnvaldar rauða og við enda hennar flutti hann á Myllusetur til Kolbeins kapteins. Hann er afar heyrnarsljór uppfinningamaður sem finnur oft upp brjálæðislega hluti svo sem hátíðnihljóðsvopn og pillu til að lækna áfengissýki. Hann klæðist oftast svörtum buxum og jakka, hvítri skyrtu, svörtu bindi, grænum hatti og víðum grænum frakka. Hann er með svart skegg og hár, og hálfskalla. Einn þeirra muna sem hann er alltaf með á sér er pendúll sem hann notar til að finna alls kyns hluti. Brandarar í sögunum eru oft byggðir á því þegar Vandráður misheyrir eitthvað á skoplegan hátt. Hugmyndafræði. Tinnabækurnar eru oft sagðar sýna skoðanir höfundarins, Hergé, á mjög augljósan hátt. Sagt hefur verið um Tinna að hann hafi verið hetjan sem hinn unga Hergé hefði dreymt um að verða. En persónu Tinna mætti lýsa sem venjulegum manni sem kemur upp um vondu karlana og sigrast á öllum erfiðleikum. En þó Tinni sé næsta fullkominn, þá hafa samferðamenn hans flestir augljósa galla. Einkum á það við um hinn drykkfellda Kolbein kapteinn sem Tinni þarf oft að bjarga úr vandræðum. Mikið af vandræðunum sem Tinni lendir í eru framfærð og mótuð af skoðunum Hergé, og Tinni hefur samúð og hjálpar þeim sem skapari hans leit á sem hjálparþurfi. Fyrstu bækurnar eru augljóslega mjög litaðar af heimssýn Hergé; þær eru t.d. á móti bæði Bandaríkjunum og Sovétríkjunum en fylgjandi nýlendustefnu Evrópu. Bækurnar voru, líkt og andinn í Belgíu á þeim tíma, mjög þjóðernissinnaðar. Þegar "Blái Lótusinn" kom út hafði stefna Hergé breyst nokkuð þar sem samúðin var með Kínverjum gegn Japönum og vesturlandabúum og afskiptum þeirra í Kína. "Veldissproti Ottókars konungs" er augljóslega á móti Nasistum en sögurnar sem fylgdu í kjölfarið voru hlutlausar þar eð Belgía var hersetin af Þjóðverjum. Þær bækur sem á eftir komu eru ekki mjög pólítískar, en í "Tinna og Pikkarónunum" verður Tinni fyrst beinn þátttakandi í atburðarás, ekki bara áhorfandi og rannsakandi. Þar tekur hann þátt í byltingu sem verður að teljast ansi pólitísk. Teiknimyndaþættir. 22 af 25 Tinnabókunum voru gefnar út sem teiknimyndaþættir, og það sem við köllum "Tinnamyndirnar" eru í raun oftast tveir sjónvarpsþættir í einni mynd. Kvikmyndin um Tinna. Árið 2011 var frumsýnd kvikmynd eftir Tinna-sögunum. Myndinni er leikstýrt af Steven Spielberg en er framleidd af Peter Jackson. Myndin notast við blandaða tækni leikinna atriða og tölvugrafíkur í þrívídd. Fyrirhugað er að gera alls þrjár myndir. Heimsminjaskrá UNESCO. Heimsminjaskrá UNESCO er skrá yfir staði (t.d. skógur, fjall, stöðuvatn, eyðimörk, bygging eða borg) sem hafa verið útnefndir heimsminjar innan alþjóðlegrar heimsminjaáætlunar UNESCO ("International World Heritage Programme"). Tilgangur skrárinnar er varðveisla staða sem teljast sérstaklega merkilegir frá menningarlegu og/eða náttúrufræðilegu sjónarmiði og eru taldir hluti af menningararfi mannkyns. Áætluninni var hleypt af stokkunum af UNESCO 16. nóvember 1972. Skráin innihélt 981 stað um allan heim árið 2013. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að vera mjög Evrópumiðuð og eins fyrir hið stranga verndunarsjónarmið sem liggur henni til grundvallar og er skilyrði fyrir að staður sé tekinn á listann. Þetta síðasta atriði leiddi til stofnunar Lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf árið 2008. 190 lönd hafa undirritað samninginn um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Hann er því einn viðteknasti alþjóðasamningur heims. Aðildarríkin tilnefna atriði á heimsminjaskrána og tilnefningar eru metnar af Alþjóðaráði um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) og Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN). Þessir aðilar mæla síðan með tilnefningum við Heimsminjaráðið skipað fulltrúum 21 aðildarlands sem kjörnir eru af allsherjarþingi UNESCO. Tónlistarfræði. Tónlistarfræði snýst í meginatriðum um athugun á tónverkum. Tónfræðingar spyrja sig spurninga á borð við, "hvað er tónlist?" og "hvaða áhrif hefur hún á okkur?" Undirgreinar tónlistarfræðinnar eru t.d. dýratónlistarfræði þar sem hljóð dýra og söngur fugla til að mynd eru rannsökuð. Tónlistarfræði er oft ruglað saman við Tónfræði, sem einbeitir sér að venjum við skrift og lýsingu tónlistar. Tónstigi. Tónstigi er haft um röð af nótum sem er raðað eftir hæð. Munurinn á tónstiga og tóntegund er sá að tónstiginn hefur enga ákveðna stöðu og/eða grunntón. Tónstigar innihalda mismargar nótur og bilið milli þeirra er misstórt. Vestræn tónlist. Hljómhæfur og laghæfur moll eru líka töluvert notaðir, þó minna í popp tónlist, einkum sá laghæfi. Hljómhæfur moll er eins og hreinn moll nema með stórri sjöund. Laghæfur moll er eins og hreinn moll með stórri sexund og stórri sjöund þegar hann er spilaður upp en eins og óbreyttur hreinn moll á leiðinni niður. Talið er auðveldara að syngja laghæfan moll og vilja því sumir frekar kalla hann sönghæfan moll á íslensku. Afbrigði af laghæfum moll sem er eins og hreinn moll með stórri 6und og 7und (í rauninni dúr með lítilli 3und) hvort sem hann er spilaður upp eða niður er stundum kallaður djassmoll og eins og nafnið bendir til notaður í djasstónlist. Krómatískur skali og heiltónaskali koma einnig stundum fyrir, þó oftast bara nokkrir taktar í senn í vestrænni tónlist. Kirkjutóntegundir. Einnig teljast hýpófrýgískur, hýpómixólýdískur og hýpólókrískur tónstigi til kirkjutóntegunda. Brennisteinssýra. Brennisteinssýra, H2SO4 er römm sýra, sem hefur mólmassann 98,1 g/mól. Hún er leysanleg í vatni í öllum styrkleikum. Þegar miklu magni af SO3 (g) er bætt út í brennisteinssýru myndast H2S2O7, sem er kallað rjúkandi brennisteinssýra (enska: fuming sulfuric acid) eða oleum. Brennisteinssýra er mikið notuð bæði í efnahvörfum sem og í iðnaði, þar er hún það mikið notuð að hún er mest framleidda iðnaðarefnasambandið. Hún er einkum notuð í áburðarframleiðslu, málmgrýtisvinnslu, efnasmíðar og olíuvinnslu. Vötnunarhvarf brennisteinssýru er gífurlega útvermið. Ef vatni er bætt út í sýruna getur það hæglega soðið, þetta þýðir að alltaf á að setja sýruna út í vatn, ekki öfugt. Hluti af þessum vanda er vegna þess að vatn flýtur ofan á sýrunni vegna minni eðlisþyngdar. Þar sem vötnun brennisteinssýrunnar er hagstæð varmafræðilega er hún mjög hentug til ýmissar þurrkunar. Hún er til dæmis notuð til þess að þurrka hina og þessa ávexti. Brennisteinssýra er svo vatnssækin að hún bókstaflega rýfur vetnis- og súrefnisatóm úr öðrum efnum. Til dæmis mun það að blanda saman brennisteinssýru og glúkósa (C6H12O6) gefa af sér kolefni og vatn (sem þynnir sýruna). Hvarfið er C6H12O6 → 6C + 6H2O. Súrt regn inniheldur meðal annars brennisteinssýru. Völuspá. Völuspá er kvæði tengt norrænni goðafræði og í dag ein helsta heimild um hana. Í Völuspá er sagt frá sögu heimsins, allt frá sköpun hans til ragnaraka. Hún samanstendur af 67 vísum ortum undir fornyrðislagi. Völuspá er hluti Eddukvæða og varðveitt í Konungsbók Eddukvæða frá árinu 1270. Þrátt fyrir að Völuspáin er almennt tengd goðafræðinni má sjá fjölda tilvitnana í kristna trú, s.s. um fæðingu Jesú Krists. Því má leiða líkum að því að höfundur hafi velt fyrir sér bæði norrænu goðafræðinni og kristnu trúnni. Fosfólípíð. Fosfólípíð er flokkur lípíða sem samanstendur af fosfati og alkóhóli auk fitusýruhala. Það er aðeins til ein gerð fosfólípíða með sfingósínhala og hún kallast sfingómýelín. Fosfólípíð eru uppistaðan í frumuhimnum. Frumuveggur. Frumuveggur er verndar- og styrktarhjúpur utan um frumuhimnuna og þ.a.l. ysti hluti frumna, sem hafa hann. Flestar plöntur eru með frumuvegg og nokkrir sveppir og bakteríur einnig. Uppistaðan í frumuveggjum er oftast trefjar úr beðmi eða sellulósa. Frumukjarni. Frumukjarni (eða kjarni) er það frumulíffæri sem geymir erfðaefni heilkjörnunga og stjórnar úrvinnslu erfðaupplýsinga. Orlando Gibbons. Orlando Gibbons (1583 – 5. júní 1625) var enskt tónskáld, einkum frægur fyrir kammerverk sín fyrir sembal og víólur, madrígala og sálma. Hann fæddist í Oxford. Jakob I gerði hann að organista í Chapel Royal sem þá var í Whitehall árið 1615. Eitt af þekktustu verkum hans er madrígalinn "The Silver Swan" frá 1612. Karl 1. Englandskonungur. Karl 1. (19. nóvember 1600 – 30. janúar 1649) var konungur Englands, Írlands og Skotlands frá 27. mars 1625. Hann var sonur Jakobs Skotakonungs og Önnu af Danmörku, dóttur Friðriks 2.. Hann stóð í átökum við breska þingið sem taldi hann stefna að einveldi. Karl tapaði Biskupastríðinu gegn Skotum 1639 og 1642 hófst borgarastríð þegar Karl gerði tilraun til að handtaka fimm þingmenn breska þingsins grunaða um landráð. Borgarastríðinu lauk með fullkomnum ósigri stuðningsmanna Karls og stofnun lýðveldis. Karl var dreginn fyrir rétt, dæmdur og hálshöggvinn. Steinadalur (Ströndum). Steinadalur er dalur sem gengur inn úr Kollafirði á Ströndum. Upp úr dalnum liggur vegur nr. 690 um Steinadalsheiði yfir í Gilsfjörð þar sem Dalasýsla og Barðastrandarsýsla mætast. Á bænum Steinadal er stundaður hefðbundinn sauðfjárbúskapur. Veiðileysufjörður (Ströndum). Veiðileysufjörður á Ströndum er lítill fjörður milli Kaldbaksvíkur og Reykjarfjarðar, oftast kallaður Veiðileysa. Samnefndur bær stendur við botn fjarðarins. Þjóðsaga er um tilurð nafnsins, að kerlingin Kráka hafi misst tvo syni sína þar í róðri og eftir það lagt það á fjörðinn að þar veiddist aldrei bein úr sjó. Bæjarhreppur (Strandasýslu). Bæjarhreppur, áður Hrútafjarðarhreppur, var lengi syðsta sveitarfélagið á Ströndum og náði frá Holtavörðuheiði í botni Hrútafjarðar norður að Stikuhálsi milli Hrútafjarðar og Bitrufjarðar í norðri. Hinn 1. janúar 2012 varð Bæjarhreppur svo hluti af Húnaþingi vestra og er nú í lögsagnarumdæmi sýslumannsins á Blönduósi. Dálítið þorp er á Borðeyri. Guðmundur Andrésson. Guðmundur Andrésson (um 1615 – 1654) var íslenskur málfræðingur, höfundur orðabókarinnar "Lexicon Islandicum". Æviágrip. Guðmundur var ættaður frá Bjargi í Miðfirði. Hann stundaði nám við Hólaskóla en varð síðar djákni og kenndi. Hann kom sér fljótlega í vandræði vegna kveðskapar, meðal annars gegn Þorláki Skúlasyni biskup, og samdi ritgerðina "Discursus oppositionis" gegn Stóradómi. Fyrir þetta var hann handtekinn og færður til Kaupmannahafnar af Henrik Bjelke, höfuðsmanni. Í Kaupmannahöfn var Guðmundur settur í Bláturn en var síðan náðaður af konungi 24. desember 1649 fyrir orð Ole Worm. Ári síðar fékk hann inni í Kaupmannahafnarháskóla. Á árunum 1650-54 samdi hann íslensku orðabókina "Lexicon Islandicum", með latneskum skýringum. Hún kom út í Kaupmannahöfn árið 1683. Orðabókin er talin vera merk heimild um íslenskan orðaforða á fyrri hluta 17. aldar og áfangi í íslenskri orðabókargerð. Hann bjó til prentunar "Völuspá" með skýringum, en bæði þessi rit voru gefin út eftir dauða hans af Peder Hansen Resen. Guðmundur lést í Kaupmannahöfn árið 1654, dánarörsökin var kólera. Annað. Skáldsagan "Brotahöfuð" eftir Þórarin Eldjárn fjallar um ævi Guðmundar Andréssonar. Bláturn. Bláturn var turn á Kaupmannahafnarhöll í Danmörku og var reistur í tíð Kristjáns 4.. Nafnið er tilkomið vegna blýklæðningar sem var á þaki turnsins. Turninn var notaður sem fangelsi frá því fljótlega eftir að hann var reistur og þar til hann var rifinn 1731 með höllinni til að rýma fyrir Kristjánsborgarhöll. Eftir það var nafnið Bláturn notað yfir annað fangelsi sem var rifið árið 1848. Guðmundur Andrésson var fangelsaður í Bláturni fyrir fjölkvæni árið 1649. Leonóra Kristína Ulfeldt, dóttir Kirsten Munk og Kristjáns IV, sat inni í Bláturni frá 1663 til 1685 fyrir drottinsvik og skrifaði þar endurminningar sínar, "Jammersminde" sem á íslensku nefnast "Harmaminning Leonóru Kristínar í Bláturni" í þýðingu Björns Th. Björnssonar). Hryggjarstykki. Hryggjarstykki var handrit sem innihélt sögu Noregskonunga og var ritað af Eiríki Oddssyni um 1150-1170. Það er nú týnt. Efni Hryggjarstykkis var byggt að hluta á munnlegum frásögnum fólks sem upplifði þá atburði sem hún segir frá, þ.e. sögu Haraldar gilla, Magnúsar blinda og annarra þeirra sem þátt tóku í norska innanlandsófriðnum frá 1130. Hlutar "Hryggjarstykkis" voru teknir upp í önnur rit, svo sem "Heimskringlu". Sámsey. Sámsey ("Samsø" á dönsku) er dönsk eyja í Kattegat, milli Jótlands og Sjálands. Þar búa um 4400 manns í 22 bæjum. Eyjan er meðal annars þekkt fyrir kartöflurækt. Sagnaritarinn Þormóður Torfason gerðist sekur um morð á verti nokkrum í Sámsey árið 1672 á leið heim frá Íslandi. Fyrir þetta var hann dæmdur til dauða, en var síðan náðaður. Falstur. Falstur (danska: "Falster") er eyja við suðurströnd Sjálands í Danmörku. Hún tengist Sjálandi með Stórstraumsbrúnni og Farøbrúnni um Farø. Í vestri tengist hún Lálandi með tveimur brúm og göngum undir Gullborgarsund. Á Falstri búa um 44.000 manns í yfir tuttugu bæjarfélögum. Stærsti bærinn er Nykøbing Falster með tæplega 17.000 íbúa. Járnviður. Járnviður (þýska: Dänischer Wohld, danska: Jernved) er nes í Suður-Slésvík milli Akarnfurðu og Kílarfjarðar nærri landamærum Danmerkur og Þýskalands. Svæðið hefur fyrrum verið þakið þykkum skógi. Höfuðstaður þess er Gettorf. Stralsund. Stralsund er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Mecklenborg-Vorpommern með 58 þús íbúa. Borgin er þrungin sögu og tilheyrði áður fyrr þýska ríkinu, Svíþjóð, Prússlandi og Austur-Þýskalandi. Miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Stralsund er hafnarborg við Eystrasalt nyrst í sambandslandinu. Hún liggur gegnt eyjunni Rügen ("Ré") og gengur stór stálbrú yfir sundið Strelasund. Næstu borgir eru Rostock til suðvesturs (60 km) og Szczecin ("Stettin") í Póllandi til suðausturs (100 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar hvítur örvaroddur á rauðum grunni. Fyrir ofan er hvítur kross. Örvaroddurinn er vísandi um heiti borgarinnar, en "Strela" merkir "ör" eða "oddur". Þannig hét litli hólmurinn Stralow fyrir framan borgina (heitir Dänholm í dag). Merki þetta kom fyrst fram 1265 og var opinberlega aftur tekið upp 1939. Orðsifjar. Slavneski bærinn Stralow og hólmurinn Strela þar fyrir framan merkja "ör" eða "oddur" (getur einnig merkt "árkvísl"). Borgin fékk því heitið Stralsund, en með heitinu –sund er meint sundið milli borgarinnar og eyjarinnar Rügen. Það heitir þó enn Strelasund í dag. Á íslensku hefur borgin verið kölluð Stræla. Miðaldir. Á svæði sem nú er Stralsund bjuggu áður slavnesku þjóðflokkarnir ranar og vindar, en þeir voru meðal síðustu þjóðflokka í Mið-Evrópu til að kristnast. 1168 sigraði Valdimar I Danakonungur rana í orrustu. Ranar og vindar bjuggu í smábænum Stralow, sem stóð á samnefndri eyju í Strelasundi. Eftir kristnitöku tók fólk að streyma til bæjarins, einnig Danir. Seinna bættust Þjóðverjar við. Stralsund hlaut borgarréttindi 1234. Leyfisplaggið er enn til og er til sýnis í safni í borginni. Stralsund varð hafnarborg, en fiskveiðar voru mikill atvinnuvegur. Aðallega var veidd síld. Með aukinni verslun gerðust borgarbúar of nærgöngulir við hafnarborgina Lübeck. 1249 birtist floti frá Lübeck og réðist á Stralsund, sem var lögð í eyði. Þegar hún var byggð upp aftur, risu margar byggingar sem enn standa í dag, ekki síst kirkjurnar þrjár í miðborginni. 1278 gerði Stralsund fyrsta samning við Lübeck. Sá samningur var endurnýjaður og snemma á 14. öld varð Stralsund að Hansaborg. Þetta mislíkaði Dönum, sem sjálfir reyndu að byggja upp siglingaleiðir og verslunarsambönd. Til átaka kom og sátu Danir og bandamenn þeirra m.a. um Stralsund 1316 til að þvinga borgina til að láta af verslun sinni. Það mistókst og stóð borgin jafnvel sterkari eftirá. Seinna á 14. öld var háð verslunarstríð milli Hansasambandsins og Dani. Hansamenn hertóku Kaupmannahöfn til skamms tíma og stóðu uppi sem sigurvegarar. Friðarsamningarnir voru gerðir í Stralsund 1370. Hansasambandið stóð á hátindi sínum. 1429 voru Danir enn í stríði við Hansakaupmenn. Danskur floti réðist á Stralsund, rændi og brenndi borgina. En borgarbúar náðu að skrapa saman skipum og sigruðu Dani í sjó- og landorrustu. Fyrir vikið breyttu þeir nafni hólmans fyrir framan borgina úr Strela í Dänholm ("Danahólmur"). Siðaskipti og 30 ára stíðið. Stralsund 1640. Mynd eftir Matthäus Merian. Frá og með 1523 var lúterstrú predikuð í borginni. Siðaskiptin fóru þó ekki fram fyrr en tveimur árum síðar, er hópur manna ruddist í kirkjur og klaustur til að eyðileggja helgimyndir. Borgin dafnaði þó enn, bæði sem verslunar- og siglingaborg. Síðla á 16. öld gekk Stralsund þó úr Hansasambandinu og verslaði aðallega við Svía. Í upphafi 30 ára stríðsins var Stralsund hlutlaust. En 1626 hrakti keisaraherinn Dani úr Mecklenborg, þannig að Stralsund fannst sér verulega ógnað. Þá var tekið upp á því að reisa víggirðingar um borgina, en á meðan hertók keisaraherinn Wismar og síðan Rostock. 1628 voru allar nærsveitir, ásamt eyjunni Rügen á valdi keisarahersins. Þá gerðu borgarbúar leynilegan verndarsamning við Dani og Svía, sem sendu hermenn til Stralsund. Snemmsumars 1628 kom Wallenstein sjálfur á vettvang og lét gera umsátur um borgina sem stóð í rúma tvo mánuði. En sökum þess að liðsauki barst frá Svíþjóð og sökum óhagstæðs veðurs, ákvað Wallenstein að hörfa frá. Stralsund var því með fáum borgum sem stóðust áhlaup keisarahersins í 30 ára stríðinu. 10. september kom Gústaf Adolf II sjálfur til borgarinnar. Hann lét gera upp öll varnarvirki, setti upp herstöð og fór síðan suður til að berjast við keisaraherinn. Stralsund var í höndum Svía næstu þrjár aldir. Í höndum Svía. Eftir dauða Gústafs Adolfs á vígvellinum reyndu fulltrúar keisara nokkrum sinnum að endurheimta borgina, en án árangurs. Borgin kaus sér fulltrúa sem sendir voru til Vestfalíu til að taka þátt í friðarsamningum 30 ára stríðsins. Krafa þeirra var sjálfstæði, en það var ekki samþykkt. Stralsund var gefin Svíum og innlimuð í sænska Pommern. 1675 réðust Svíar inn í Brandenborg, en voru hraktir til baka. Í kjölfarið á því náðu Danir fótfestu á eyjunni Rügen. Íbúar Stralsund mynduðu eigin her 1678 og tókst að hrekja Dani burt á ný. En kjörfurstinn í Prússlandi, Friðrik Vilhjálmur, gerði þá umsátur um ‘sænsku’ borgina og skaut með fallbyssum úr ytri höfninni. Borgin gafst upp. Eftir samninga fengu Svíar að fara burt, en kjörfustinn innlimaði borgina í Brandeborg. Yfirráð Prússa varaði þó aðeins í ár, því Prússar neyddust til að skila borginni. Norðurlandaófriðurinn mikli hófst árið 1700. Þar börðust Svíar við bandalag milli Rússa, prússa og saxa, en biðu lægri hlut. Bandalagsherinn birtist við borgardyr Stralsund haustið 1711, en varð frá að hverfa í janúar á næsta ári vegna óhagstæðs veðurs. 1715-16 var setið um Stralsund á ný og að þessu sinni féll borgin í hendur bandamönnum. Danir réðu því borginni næstu þrjú árin, þar til friður var saminn milli Dani og Svía 1720. Næstu 87 árin var friðar- og uppgangstími fyrir borgina. Þegar Gústaf Adolf IV komst til valda í Svíþjóð, ákvað hann að taka úr gildi sérlög í Stralsund og láta sænsk lög gilda þar. Borgin átti að verða sænsk að öllu leyti. Þetta var gert í janúar 1807. Skömmu áður hafði Svíakonungur slitið samskipti sín við Napoleon og gengið í bandalag með Englendingum og Rússum. Í kjölfarið réðist Napoleon til austurs og inn í Prússland. Hann hertók Berlín og sendi her til sænska Pommern og birtist hann við Stralsund í lok janúars. Frakkar fóru hins vegar austar og létu borgina að mestu í friði. Gústaf Svíakonungur kom sjálfur til Stralsund 12. júní 1807 og gerði bandalag við Blücher herforingja (sem seinna sigraði Napoleon við Waterloo). En í ágúst birtust Frakkar á nýjan leik og sátu um borgina. Svíar og prússar hörfuðu og eftirlétu Frökkum borgina, sem hertóku hana fyrirhafnarlaust. 1809 dró til stórorrustu í borginni. Prússinn Freiherr von Schill náði að taka borgina af Frökkum, þegar hann réðist inn í hana. En Frakkar söfnuðu liði stuttu síðar og gerði slíkt hið sama. Eftir mikla götubardaga við mikið mannfall, féll Stralsund aftur í hendur Frakka. 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að Svíar ættu að missa lönd sín sunnan Eystrasalts. Stralsund var því sett undir stjórn Prússlands. Nýrri tímar. a> að fá sér bjór í Stralsund árið 2006 Við eigendaskiptin á borginni yfirgáfu allir Svíar Stralsund, en Prússar þrömmuðu inn. Fyrsta verk þeirra var að skipuleggja yfirráð sín og framkvæma manntal. 1815 bjuggu þar 13 þús manns. Með breytingunni missti borgin mikið af verslunarsamböndum sínum og minnkaði skipastóllinn talsvert. Það tók marga áratugi að mynda nýjar verslunarleiðir. Um miðja 19. öld varð skipasmíðin einnig stór atvinnuþáttur. Járnbrautin kom mjög seint til borgarinnar. Það var ekki fyrr en 1863 sem leið til Berlínar og Stettin var opnuð. Stralsund kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. Í heimstyrjöldinni síðari var borgin herlaus og óvarin. 1944 voru loftárásir áætlaðar fyrir Rostock. En sökum óhagstæðs veður var árásin gerð á Stralsund í staðin. 110 bandarískar flugvélar gerðu alls þrjár árásir og eyðilagðist stór hluti borgarinnar. Um 800 manns týndu lífi, nær allt óbreyttir borgarar. Nasistar víggirtu borgina snemma 1945. En þegar Sovétmenn nálguðust, flúðu allir hermenn 1. maí. Seinna sama dag hertóku Sovétmenn borgina bardagalaust. Hún var í sovéska hernmámshlutanum. 1949 var sambandslandið Mecklenburg stofnað og var Stralsund hluti af því. 1985 náði íbúafjöldinn hámarki með 75 þúsund manns (er 58 þús í dag). Viðburðir. Gorch Fock hin eldri er safnaskip í dag Byggingar og kennileiti. Í miðborg Stralsund eru um 800 byggingar friðaðar. Hér er um íbúðarhús, verslanir, opinberar byggingar og kirkjur að ræða. 2002 var miðborgin öll sett á heimsminjaskrá UNESCO. Listi yfir heimspekinga. Listi yfir heimspekinga, hér er þeim raðað (á að gíska) í tímaröð. Í þokkabót er smá lýsing eða kennimerki við nokkra þeirra. Listi yfir asíska heimspekinga. Heimspekingar Þales. Þales (á grísku: Θαλης) frá Míletos (u.þ.b. 625 f.Kr. – 543 f.Kr.) hann og fylgismenn hans voru nefndir Míletosmenn eftir bænum sem hann bjó í, bærinn er í Litlu Asíu við Miðjarðarhafið þar sem Tyrkland er nú. Hann er einn af forverum Sókratesar og er oftast talinn fyrstur grískra heimspekinga. Hann var einn af sjö spekingum Grikklands. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann fæddist eða lést, en hann spáði fyrir um sólmyrkva sem átti sér stað 585 f.Kr. svo hann var lifandi á 9. áratug 6. aldar f.Kr. Þales komst að þeirri niðurstöðu að efnisheimurinn væri gerður úr einum grunnþætti og að sá grunnþáttur væri vatn. "Miðað við sinn tíma var það byltingakenndur hugsanaháttur." Anaxímandros. Anaxímandros (á grísku: Αναξίμανδρος) (u.þ.b. 610 f.Kr. – 546 f.Kr.) var jónískur náttúruspekingur frá Míletos og lærlingur Þalesar (þ.a.l. einn af Míletósmönnum). Lítið er vitað um líf hans og störf en hann er stundum kallaður fyrsti kortagerðamaðurinn þar sem hann var líklegast fyrstur til að gera kort af hinum þekkta heimi, í þeim tilgangi að átta sig á því að jörðin héngi „óstudd“ í geimnum. Hann trúði ekki á hugmyndir Þalesar um að sjórinn héldi jörðinni uppi því þá þyrfti eitthvað að halda uppi sjónum o.s.frv. (sjá vítaruna). Hann gerði tilraun til að lýsa heiminum í hnotskurn og hélt því fram að þar sem það væru svo margir mismunandi hlutir í heiminum þá gætu þeir ekki allir hafa sprottið út frá einu aðgreindu fyrirbæri (eins og vatni sbr. kenning Þalesar), „hið óbundna og óendanlega“ ("apeiron"), hafði ávalt verið til og með eilífri hreyfingu skapað andstæður í sjálfum sér (heitt og kalt o.s.frv.). Í miðju hins óendanlega í andstæðunum myndaðist efnismassi (jörð). Efnismassinn hrörnar og endurmyndast síðan aftur og aftur. Hann ímyndaði sér jörðina sem sívalning („trommu“) frekar en það sem almennt var haldið, að jörðin væri flöt, sem var bylting í sjálfu sér. Hann hélt því einnig fram að maðurinn hafði þróast, líklegast frá fiskum, með því að aðlagast umhverfinu. Þó ekki væri um náttúruval að ræða í kenningu hans þá er hann talinn af mörgum fyrsti málsvari þróunarkenningarinnar. Gagnagrunnur. Gagnagrunnur er safn upplýsinga sem er geymt í tölvu á skipulagðan hátt til þess að forrit geti svarað spurningum um gögnin. Hugbúnaðurinn sem heldur utan um gagnagrunninn er kallaður gagnasafnskerfi. Oft er ekki gerður greinamunur á þessu tvennu, heldur er bara talað um gagnagrunn og er þá átt við bæði hugbúnaðinn og gögnin. Fræðigreinin sem fæst við gagnagrunna nefnist gagnasafnsfræði. Til eru mismunandi gagnalíkön, þ.e. aðferðir til að skipuleggja gögnin. Eitt slíkt líkan byggist á því að safna upplýsingum um sérhvern hlut í eina færslu og raða síðan þessum hlutum í tré eða stigveldi og nefnist það stigskipt gagnalíkan. Vinsælast er þó venslalíkanið sem byggist á því að raða upplýsingum í töflur. Langbylgjustöðin á Gufuskálum. Langbylgjustöðin á Gufuskálum er 412 m hátt, vírstyrkt útvarpsmastur og annar af tveimur langbylgjusendum Ríkisútvarpsins (Hin langbylgjustöðin er á Eiðum). Sendirinn er 300 kW og sendir á 189 kHz. Mastrið er hæsta mannvirki af sinni tegund í Vestur-Evrópu og var reist árið 1963 fyrir LORAN-C staðsetningarkerfi Breta og Bandaríkjamanna en var breytt til að hýsa langbylgjusendi RÚV árið 1997. Efnagreining. Efnagreining er greining sýna til þess að fá skilning á efnainnihaldi þeirra og byggingu Gerðir. Uppistaðan er nútímaefnagreiningu er magnbundin. Hægt er að skipta henni niður í nokkur ólík svið. Til dæmis er hægt að greina sýni með tilliti til magns af einu tilteknu frumefni eða magni frumefnis í stökum virkum hóp. Seinni aðferð er sérstaklega hentug fyrir líffræðileg kerfi. Sameindirnar sem byggja upp lífið innihalda kolefni, vetni, nitur og fleiri frumefni í mörgum mjög flóknum byggingum. Aðferðir. Fjöldi þeirra aðferða sem hægt er að beita til þess að greina efni í sundur eða magn þeirra er ótrúlegur. hérna eru nokkrar aðferðir. Pjongjang. Pjongjang (enska: "Pyongyang", kóreönsk hljóðskrift "P'yŏngyang", Hanja "平壤", Hangeul "평양") er höfuðborg Norður-Kóreu og stærsta borg landsins. Pjongjang liggur á ánni Taedong og samkvæmt manntalinu árið 2008 er íbúafjöldi borgarinnar 3.255.388. Pjongjang er eina borgin í Norður-Kóreu með töluverðu magni af rafljósum. Ríkisstjórn Norður-Kóreu leyfir útlendingum að sjá aðeins ákveðna hluta borgarinnar í samræmi við áróðursstefnu þeirra. Mannréttindi í Norður-Kóreu hafa verið dæmd „hörmuleg“ af Amnesty International og þrátt fyrir áróðursstefnuna eru merki um fátækt landsins augljós í Pjongjang. Flekklaus hótel standa tóm ásamt skrifstofum og öðrum byggingum, fáir bílar og önnur ökutæki eru á götum borgarinnar og ef farið er af opinberu leiðinni er ómalbikaðar götur og fátækrahverfi að finna. Norður-Evrópa. Norður-Evrópa er hugtak yfir svæði sem ekki er greinilega afmarkað landfræðilega. Norðurhluti Evrópu getur verið allt svæðið norðan Alpafjalla eða Norðurlönd ásamt Bretlandseyjum. Samkvæmt seinni skilgreiningunni tilheyra 12 lönd Norður-Evrópu. Norðurlandaráð. Fánar Norðurlandanna og fáni opinbers samstarfs Norðurlandanna. Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þingmanna Norðurlandanna sem var stofnað árið 1952 eftir seinni heimsstyrjöldina. Á þinginu sitja 87 fulltrúar frá norrænu löndunum fimm og sjálfstjórnarsvæðunum þremur. Fulltrúarnir eru skipaðir af viðkomandi þingi eftir tillögum stjórnmálaflokka og eru þannig ekki lýðræðislega kjörnir. Starf Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar grundvallast á Helsingforssamningnum sem undirritaður var 1962 og hefur verið uppfærður nokkrum sinnum síðan. Aðalskrifstofa Norðurlandaráðs er í Kaupmannahöfn á sama stað og Norræna ráðherranefndin. Sendinefnd hvers lands hefur jafnframt sérstaka skrifstofu eða starfsmenn hjá þingi viðkomandi lands. Störfum Norðurlandaráðs er stýrt af forsætisnefnd. Frá árinu 1996 hefur Norðurlandaráðsþing verið haldið árlega á haustin. Árið 2012 hélt Norðurlandaráð auk þess í fyrsta sinn árlegan Þemafund ráðsins. Milli þinganna eru haldnir fundir um einstök málefni. Stjórnmálastarf Norðurlandaráðs fer fram í nefndum og hópum sem eru myndaðir af stjórnmálaflokkum. Núverandi forseti Norðurlandaráðs er norska þingkonan Marit Nybakk. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur og er því er útdeilt á Norðurlandaráðsþingi sem haldið er á hverju hausti. Tilkynning og afhending á verðlaunum Norðurlandaráðs fer fram á Norðurlandaráðsþingi. Svansmerkið hefur verið merki Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar frá árinu 1985. Það er hannað af finnska listamanninum Kyösti Varis. Norðurlandaráð æskunnar tengist starfi Norðurlandaráðs og heldur sitt þing samtímis Norðurlandaráðsþingi. Saga. Áróðursmynd frá 19. öld fyrir Skandinavisma, stefnu sem boðaði sameiningu skandinavísku ríkjanna.Samskipti Norðurlandanna hafa, í aldanna rás, einkennst bæði af samstarfi og átökum. Skandinavismi var stefna á 19. öld sem hvatti til sameiningar ríkjanna í Skandinavíu en varð aldrei ríkjandi stefna í löndunum. Norrænt samstarf var þó til staðar á nokkrum afmörkuðum sviðum, eins og í tilviki Norræna myntbandalagsins. Í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar reyndu Norðurlöndin að koma á nánu samstarfi sín á milli en í fyrstu var um misheppnaðar tilraunir að ræða, líkt og í tilviki norræns varnarbandalags sem aldrei varð að veruleika. Þó náðist það í gegn 1952 að Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Ísland samþykktu að búa til Norðurlandaráð, stofnun þar sem norrænir þingmenn gætu hist reglulega og rætt samstarf landanna og skyld málefni. Fyrsta þing Norðurlandaráðs var haldið ári síðar 1953 í Kaupmannahöfn. Áhrif Sovétríkjanna á Finnland gerðu það að verkum að Finnar gátu ekki verið með frá upphafi en eftir andlát Jósefs Stalíns breyttist staðan og Finnland varð meðlimur í Norðurlandaráði 1955. Ýmis skref voru stigin í nánara norrænu samstarfi þessi fyrstu ár Norðurlandaráðs, s.s. lög um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, Norræna vegabréfasambandið og norrænn samningur um almannatryggingar. Ýmis önnur áform um norrænt samstarf náðu hins vegar ekki fram að ganga á fyrstu áratugum Norðurlandaráðs, líkt og áform um sameiginleg efnahags- og tollabandalög. Norðurlandaráð átti snemma frumkvæði að menningarsamstarfi Norðurlandanna, meðal annars með veitingu verðlauna til norrænna listamanna. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962, Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs frá 1965 og Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs síðan 2002 (reglulega frá 2005). Auk þess hefur Norðurlandaráð veitt Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs frá 1995 fyrir starf í þágu náttúru og umhverfis. Ákveðið var á Norðurlandaráðsþingi 2012 að veita einnig Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og verða þau veitt í fyrsta sinn á Norðurlandaráðsþingi 2013. Høgni Hoydal, þingmaður frá Færeyjum, flytur ræðu á þingi Norðurlandaráðs.Samþykkt var 1970 að Færeyjar og Álandseyjar fengju að hafa sína fulltrúa í Norðurlandaráði. Fulltrúar Grænlands bættust við 1984 og þar með var Norðurlandaráð samsett fulltrúum fimm ríkja og þriggja sjálfstjórnarsvæða. Samstarfið tók breytingum á áttunda áratugnum, Danir gengu í Evrópubandalagið (síðar ESB) 1972 en ári áður var stofnað til samstarfsvettvangs ríkisstjórna Norðurlandanna, Norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur átt mjög náið samstarf við Norðurlandaráð allt frá upphafi og er starfsemi stofnananna raunar samþætt að ýmsu leyti. Skrifstofa forsætisnefndar Norðurlandaráðs var opnuð í Stokkhólmi 1971 en með flutningi skrifstofu Norðurlandaráðs 1996 hafa skrifstofur ráðsins og Norrænu ráðherranefndarinnar verið undir sama þaki í Kaupmannahöfn. Eðli starfsemi Norðurlandaráðs þróaðist með stofnun flokkahópa í ráðinu 1973 en áður hafði þingmönnum aðeins verið deilt upp í sendinefndir ríkjanna. Árið 1977 var síðan samþykkt að ræður þingmanna skyldu túlkaðar eftir mótmæli finnsks þingmanns árið áður sem ákvað að tala finnsku, þrátt fyrir að það bryti í bága við fundarsköp. Endalok Kalda stríðsins breyttu stöðunni að ýmsu leyti á Norðurlöndunum og nálægum svæðum. Svíar og Finnar gengu í ESB 1995 en Norðmenn höfðu hafnað aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu árið áður. Ýmsum þóttu þá vera blikur á lofti í samstarfi Norðurlandanna en það hélt áfram þrátt fyrir það. Samstarfið útvíkkaðist hins vegar að vissu leyti og Norðurlandaráð hóf samvinnu við ýmsa nágranna sína í austri, svo sem Eystrasaltsríkin, nálæga hluta Rússlands og lýðræðisöfl í Hvíta-Rússlandi. Fulltrúar þessara svæða hafa meðal annars setið þing Norðurlandaráðs og tekið þátt í ýmsu öðru samráði. Norræna ráðherranefndin. 270pxNorræna ráðherranefndin var stofnuð 1971 og er samstarfsstofnun ríkisstjórna Norðurlandanna. Starf Norrænu ráðherranefndarinnar er hluti opinbers samstarfs Norðurlandanna sem hófst formlega 1952 með stofnun Norðurlandaráðs. Forsætisráðherrar Norðurlandanna bera ábyrgð á samstarfinu en fela hins vegar norrænum samstarfsráðherrum sínum að fara með ábyrgðina. Ráðherranefndin er í raun ekki ein nefnd heldur nokkrar nefndir. Norrænir fagráðherrar funda í ráðherranefndum nokkrum sinnum á ári um málefni sem falla undir verksvið ráðuneytanna, fyrir utan ráðherra utanríkis- og varnarmála, sem standa utan Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna ráðherranefndin hefur yfirumsjón með ýmsum norrænum verkefnum. Meðal þess sem fellur undir starf Norrænu ráðherranefndarinnar er upplýsingaveitan Halló Norðurlönd sem ætluð er einstaklingum og fyrirtækjum sem þarfnast upplýsinga um flutning, nám eða störf á Norðurlöndunum. Þá tekur nefndin þátt í rekstri Nordjobb sem er norræn atvinnumiðlun fyrir 18-28 ára ungmenni á Norðurlöndunum sem leita sér að sumarvinnu í öðru norrænu landi. Ýmsar norrænar samstarfsstofnanir eða verkefni heyra annað hvort undir eða starfa með Norrænu ráðherranefndinni. Þar má nefna menntaáætlun Nordplus, Norrænu félögin, Norrænu menningargáttina, Norðurlönd í brennidepli, NordForsk og Norræna sumarskólann. Norræna ráðherranefndin sendir einnig frá sér ýmis upplýsingagögn, til að mynda og sem kemur út á hverju ári og inniheldur ýmis tölfræðigögn sem varða samfélagshorfur á Norðurlöndunum. Fram að 1971. Formlegt norrænt samstarf mótast og þróast smám saman allan sjöunda áratuginn. Frá 1989. Eyrarsundsbrúin milli Danmerkur og Svíþjóðar gaf tilefni til frekara afnáms stjórnsýsluhindrana milli Norðurlanda. Framkvæmdastjórar Norrænu ráðherranefndarinnar. Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar 2007-2013 Guðleysi. Guðleysi er sú afstaða að trúa ekki á eða tilbiðja guði né æðri máttarvöld eða sú afstaða að hafna tilvist þeirra. Orðið „guðleysi“ getur einnig verið samheiti orðsins „trúleysi“ en stundum er sá greinarmunur gerður á trúleysi og guðleysi að guðleysi sé eingöngu skortur á trú á guð eða guði (eða sú skoðun að guð sé ekki til) en trúleysi sé skortur á trú á bæði guði og alla aðra yfirnáttúru (eða sú skoðun að guð og öll önnur yfirnáttúra sé ekki til). Þegar talað eru um guðleysi sem "skort á trú" á guð eða guði er það stundum nefnt veikt guðleysi en þegar það felur í sér þá skoðun "að guð eða guðir séu hreinlega ekki til" er það stundum nefnt sterkt guðleysi. Veikt og sterkt guðleysi. Munurinn á veiku og sterku guðleysi er mikilvægur. Sterkt guðleysi felur í sér veikt guðleysi en "ekki" öfugt. Þennan mun má skýra með hliðstæðu dæmi af ótrúarlegum toga: Maður nokkur er ekki þeirrar skoðunar að Eiffel-turninn sé 400 m hár; en þótt hann hafi ekki þá skoðun að Eiffel-turninn sé 400 m hár er þó ekki þar með sagt að hann hljóti að vera þeirrar skoðunar að Eiffel-turninn sé "ekki" 400 m hár. Það er nefnilega ekki nauðsynlegt að sérhver maður hljóti að vera annaðhvort þeirrar skoðunar að Eiffel-turninn sé 400 m hár eða þeirrar skoðunar að hann sé ekki 400 m hár; sumir hafa aldrei heyrt á Eiffel-turninn minnst og hafa enga skoðun á málinu. Veikir guðleysingjar eru eins og þeir sem hafa hvorki þá skoðun að Eiffel-turninn sé 400 m hár né þá skoðun að hann sé ekki 400 m hár, nema hvað skoðanir veikra guðleysingja snúa að tilvist guðs: Þeir hafa ekki þá skoðun að guð sé til en ekki heldur þá skoðun að guð sé ekki til. Ef einhver er á hinn bóginn á þeirri skoðun að Eiffel-turninn sé "ekki" 400 m hár, heldur sé hann annaðhvort hærri eða lægri, þá má segja að sá hinn sami eigi það sameiginlegt með þeim fyrrnefnda að hann hefur ekki þá skoðun að turninn sé 400 m hár; báðir eiga það sameiginlegt að hafa ekki þá skoðun að turnin sé 400 m hár en sá síðarnefndi er beinlínis þeirrar skoðunar að turninn sé "ekki" 400 m hár. Síðarnefndi maðurinn er eins og sterkur guðleysingi, sem eins og veiki guðleysinginn hefur ekki þá skoðun að guð sé til en hefur á hinn bóginn þá skoðun ólíkt veika guðleysingjanum að guð sé ekki til. Rétt eins og þeir sem ekki hafa heyrt minnst á Eiffel-turninn hafa enga skoðun á því hvað hann er hár hafa þeir sem aldrei hafa heyrt minnst á guði enga skoðun á því hvort guð eða guðir eru til eða ekki til. Í þessum skilningi er stundum sagt að allir fæðist guðlausir, því að ungabörn teljast til veikra guðleysingja þar sem þau hafa ekki heyrt minnst á guði og skortir hugtakið. Árnes. Árnes er eyja í Þjórsá, sem skiptir ánni í tvo ála, meginálinn sem rennur að vestan og minni álinn sem rennur austanmegin. Eitt sinn var Árnesið landfast til vesturs en áin ruddi sér leið gegnum haftið einhvern tímann eftir landnám og varð þá til Búðafoss. Austan eyjunnar er Hestafoss. Í Árnesi má sjá þingrústir og einnig vestan árinnar í landi Minna-Hofs. Þarna er talið að þing Árnessýslu hafi verið á sínum tíma en sýslan dregur einmitt nafn sitt af eyjunni. Þjórsá. Þjórsá er lengsta á Íslands, alls 230 km löng. Hún er jökulá að uppruna sem á meginupptök sín í Hofsjökli og rennur í suður til sjávar vestan Þykkvabæjar. Í hana falla fjölmargar dragár og lindár. Þjórsá er sýslumörk Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er sóttvarnarlína hvað varðar búfjárveikivarnir. Merking. Orðið "þjór" merkir "naut" og er Þjórsá því Nautsá. Orðið "þjór" kemur nokkrum sinnum fyrir í fornritum, en lifir nú einungis í örnefnum. Í nágrannamálunum eru til samsvarandi orð: danska - tyr, sænska - tjur, latína - taurus, írska - tarbh. Íslendingar tóku upp úr írsku orðið „tarfur“, og hefur það ef til vill rutt orðinu „þjór“ úr málinu. Samgöngur. Tvær brýr eru á ánni, önnur á þjóðvegi nr. 1 neðan við Þjórsártún og hin við Sandafell rétt neðan Sultartangavirkjunar. Gamla brúin við Þjótanda var tekin í notkun árið 1895 og endurgerð nokkru neðar árið 1949. Nýja brúin, sem leysti þá gömlu af hólmi, var tekin í notkun árið 2003 og er tæpur kílómetri á milli þeirra. Nokkur vöð eru á ánni, þau helstu eru Nautavað við Þjórsárholt og Hagavað við bæinn Haga. Gamla Sprengisandsleiðin lá inn Gnúpverjaafrétt og yfir Þjórsá á vaði á móts við Sóleyjarhöfða, sem er austan árinnar. Þarna vestan ár er fjallkofi fyrir fjallmenn Gnúpverja, sem kallast Bólstaður. Fossar. Í Þjórsá eru margir fagrir fossar. Sé talið ofan frá er röðin eftirfarandi: Kjálkaversfoss, Dynkur, Gljúfurleitarfoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Minna-Núps flúðir, Búðafoss og Hestfoss sitt hvoru megin við Árnes og að lokum Urriðafoss. Eyjar. Árnes og Hagaey eru meðal stærstu eyja í ánni. Eyjan Viðey (gengur einnig undir heitinu Minnanúpshólmi) hefur nýlega verið friðuð og er sérstök vegna gróskumikils birkiskógar. Fiskigengd. Miklar nytjar eru af veiði í Þjórsá en þar er einkum stunduð netaveiði. Í ánni lifa þær fisktegundir sem algengar eru í ám og vötnum landsins, lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Flundra hefur einnig veiðst í Þjórsárósi. Í Þjórsá og þverám hennar er að finna einn af stærri laxastofnum landsins og góður stofn sjóbirtings gengur á vatnasvæðið. Þar eru einnig staðbundin bleikja og urriði. Mestur hluti villtra laxa sem ganga á vatnasvæðið er alinn upp í Þjórsá sjálfri. Selir ganga upp í Þjórsá, allt upp að Urriðafossi, til lax- og silungsveiða. Virkjanir. Í Þjórsá eru fimm vatnsaflsvirkjanir: Búrfellsstöð, Sultartangastöð, Hrauneyjafossstöð, Sigöldustöð og Vatnsfellsstöð. Búðarhálsvirkjun er í byggingu og áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrir 31. desember 2013. Á teikniborðinu eru þrjár til viðbótar; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Alþjóðaklósettstofnunin. Alþjóðaklósettstofnunin er alþjóðleg samtök tileinkuð vandamálum er varða klósett og hreinlæti. Stofnunin er með aðsetur í Singapúr. Aðildarstofnanir um allan heim eru 17. Á hverju ári frá 2001 er haldin alþjóðleg ráðsefna um klósett, World Toilet Summit, en samtökin standa einnig fyrir alþjóðlegum vörusýningum eins og World Toilet Expo & Forum sem haldin verður í Bangkok árið 2006. Stofnunin stendur að því að 19. nóvember er haldinn hátíðlegur sem alþjóðlegi klósettdagurinn. Argentína. Argentína er land í Suður-Ameríku sunnaverðri. Það afmarkast af Andesfjallgarðinum í vestri og Atlantshafi í austri. Lönd, sem liggja að Argentínu eru Chile í vestri, Paragvæ og Bólivía í norðri, Brasilía og Úrúgvæ í norðaustri. Argentína gerir kröfu til Falklandseyja (sem Argentínumenn nefna Malvinaseyjar), Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyja og loks til hluta af Suðurskautslandinu. Landið er næststærst að flatarmáli í Suður-Ameríku og hið áttunda í röðinni í heiminum. Cristina Fernandez de Kirchner er forseti landsins frá árinu 2007. Yfirréttur. Yfirréttur á Alþingi var frá 1593 æðsta dómstig á Íslandi, samkvæmt konungstilskipun frá 1563. Áfram var heimilt að skjóta málum til konungs og, eftir 1732 til hæstaréttar Danmerkur. Árið 1800 var landsyfirréttur stofnaður í Reykjavík og tók við hlutverki yfirréttar. Það var hlutverk hirðstjóra og síðar amtmanns að nefna 24 menn í yfirdóm. Christoffer Huitfeldt. Christoffer Huitfeldt ("Kristófer Hvítfeldur", um 1501 – 8. nóvember 1559) var flotaforingi í danska flotanum, meðlimur danska ríkisráðsins, og hirðstjóri, meðal annars á Íslandi árin 1541-1542. Hann fór ásamt fleirum gegn Kristjáni II og var skipherra í Greifastríðinu. Hann studdi Kristján III til ríkis og þáði ýmis lén af honum fyrir. Framganga hans við að innleiða siðaskiptin í Danmörku hefur líklega orðið til þess að hann fékk Ísland að léni árið 1541, en síðan Stafangur í Noregi 1543. 1553 varð hann meðlimur í danska ríkisráðinu. Handtaka Ögmundar biskups. Huitfeldt kom til Íslands á skipi sínu stuttu eftir 20. maí 1541 til að taka höndum Ögmund Pálsson biskup sem konungur áleit ábyrgan fyrir morðinu á fógetanum Diðriki frá Minden, í Skálholti 10. ágúst 1539. Þeir Gissur Einarsson, valinn eftirmaður Ögmundar, hittust í Kópavogi 31. maí. 2. júní komu Danir að Hjalla í Ölfusi, handtóku Ögmund og fluttu í skipið. Á Alþingi um sumarið bar Huitfeldt upp óskir konungs um „landshjálpina“, eða sérstakan skatt sem Gissur reiðir strax fram (600 lóð silfurs fyrir Skálholtsstifti) en Jón Arason ekki fyrr en árið 1545. Með það fer Huitfeldt á skipi sínu með Ögmund fanginn til Danmerkur 5. júlí, eða þar um bil. Ögmundur hefur líklega látist í hafi 13. júlí. Dóná. Kort sem sýnir farveg Dónár. Dóná (þýska: "Donau", slóvakíska: "Dunaj", ungverska: "Duna", króatíska: "Dunav", búlgarska og serbneska: "Дунав", úkraínska: "Дунай") er næstlengsta fljót Evrópu á eftir Volgu. Upptök fljótsins eru í Svartaskógi í Suður-Þýskalandi, þar sem árnar Brigach og Breg koma saman við Donaueschingen, og rennur Dóná í suðaustur eina 2850 km leið að Svartahafi um Dónárósa í Rúmeníu. Dónárósar. Dónárósar (rúmenska: "Delta Dunării") eru ósar Dónár í héraðinu Dobrogea í Rúmeníu og Odessa Oblast í Úkraínu. Ósarnir eru stærstu varðveittu árósar í Evrópu, 3446 km² að flatarmáli. Landafræði. Á hverju ári stækka ósarnir um 40 metra út í Svartahaf vegna framburðar fljótsins. Nærri borginni Tulcea greinist fljótið í þrjár ár áður en það rennur út í hafið: Chilia, Sulina og Sfantu Gheorghe en margar smærri greinar skipta ósunum upp í sef, mýrar og skóga, sem sum hver fara undir vatn vor og haust. Um 44 km utan við ósana er Snákeyja sem tilheyrir Úkraínu, en Rúmenía gerir tilkall til. Árið 2004 hóf Úkraína að skipuleggja skipaskurð frá Svartahafi til Úkraínska hluta ósanna. Evrópusambandið krafðist þess að verkefninu yrði hætt þar sem það gæti skaðað lífríki vatnsins. Rúmenía hefur hótað að kæra Úkraínu fyrir Alþjóðadómstólnum í Hag. Lífríki. Í ósunum lifa um 1200 plöntutegundir, 300 fuglategundir auk 45 tegunda ferskvatnsfiska í ám og vötnum. Að auki verpa þar milljónir farfugla frá Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu, Asíu og Afríku. Dónárósar eru á heimsminjaskrá UNESCO frá 1991. Meira en tveir þriðju hlutar ósanna eru stranglega verndað svæði. Menning. Um 15.000 manns búa í árósunum. Flestir lifa af fiskveiðum með hefðbundum kajökum úr viði. Í ósunum er samfélag lippóvana, fylgjenda Gamla siðar í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni sem flýðu þangað undan trúarofsóknum í Rússlandi árið 1772. Höfuðstaður lippóvana í árósunum er bærinn Vilkovo í úkraínska hlutanum. Freddie Mercury. Freddie Mercury (5. september 1946 – 24. nóvember 1991), aðalsöngvari og tónskáld bresku hljómsveitarinnar Queen. Hann fæddist sem Farrokh Bulsara í Stone Town á Sansibar en það er miðbær stærsta bæjarins, Zanzibar City. Foreldrar hans voru indverskir parsar (af írönskum ættum) og Freddie er sagður Indverji í fæðingarvottorði sínu. Hann gekk í heimavistarskólann St. Peters í Panchgani nálægt Mumbai á Indlandi. Þar lærði hann meðal annars að spila á píanó og kom í fyrsta sinn fram á sviði þar með skólahljómsveitinni The Hectics, en í henni voru fjórir skólafélagar hans auk hans sjálfs. Hann var enn í þeim skóla er hann tók upp nafnið Freddie og jafnvel foreldrar hans fóru fljótlega að nota það. Hann kom til Englands 18 ára gamall og tók próf í listum og grafískri hönnun frá Ealing Art College og fetaði þar í fótspor Pete Townshend. Freddie Mercury hafði sterka og áferðarfallega rödd, sem hann hafði mjög á valdi sínu. Raddsviðið var einnig óvenju vítt, eða nálægt þrjár og hálf áttund, en venjulegur maður ræður við tæplega tvær. Hann samdi mörg af frægustu lögum Queen, til dæmis Bohemian Rhapsody, Somebody to love og We are the Champions. Lagasmíðar hans eru sérstæðar og gætir þar áhrifa úr ýmsum áttum. Þær byggja á sterkri laglínu, samhljóm og flókinni hljómsveitarútsetningu. Þegar Queen ákvað að gefa út lagið Bohemian Rhapsody árið 1975, sögðu allir þeim að það væri allt of langt (nálægt tvöfalt lengra en popplög almennt). Freddie gaf einum vina sinna, sem var plötusnúður á útvarpsstöð, eintak af prufuplötu með laginu og sagði honum að það væri handa honum persónulega og mætti hann ekki útvarpa því. En vinurinn stóð ekki við það, heldur útvarpaði laginu 14 sinnum á einum degi. Eftir það var lagið spilað á öllum stöðvum í óstyttri útgáfu og sló alveg í gegn. Eftir þetta varð Queen í hópi forystuhljómsveita áttunda áratugarins og áfram. Freddie hannaði skjaldarmerki hljómsveitarinnar Queen. Efst er fuglinn Fönix að rísa upp úr eldi. Miðpunktur merkisins er stafurinn Q og kóróna inni í honum. Tvö ljón standa til hliðar, krabbi liggur ofan á bókstafnum og neðarlega sitja svo tveir blómálfar. Þau tákna stjörnumerki hljómsveitarmeðlima. Brian (f. 19. júlí) er krabbinn, ljónin eru Roger (f. 26. júlí) og John (f. 19. ágúst) og blómálfarnir eru tákn meyjarmerkisins, en það er Freddie sjálfur (f. 5. september). Merkið var fyrst notað á Queen-albúminu, síðar var það endurhannað og notað á A Night at the Opera. Hann gaf út tvö sólóalbúm: Mr. Bad Guy (1985) og Barcelona (1988). Seinni platan var unnin í samvinnu við katalónsku sópransöngkonuna Montserrat Caballé. Samvinna þeirra, sem var hin fyrsta sinnar tegundar, kom mjög á óvart, en náði vinsældum og margir hafa fetað í þau fótspor. Eitt frægasta lag hans sem sólóista var endurútgáfa lagsins „The Great Pretender“ (1987), sem Platters höfðu gert frægt. Freddie hneigðist að báðum kynjum en kom aldrei út úr skápnum. Vinkona hans og kærasta í sex ár var Mary Austin, en sambandi þeirra lauk er hann sagði henni frá kynhneigð sinni. Þau voru samt nánir vinir áfram og hann arfleiddi hana að húsinu sínu, sem metið var á 18 milljónir punda er hann lést sem og stefgjöldum af lögum hans. Síðasti karlkyns kærasti hans var Jim Hutton. Þeir bjuggu saman í síðustu átta árin, sem Freddie lifði. Jim hjúkraði honum í veikindum og var hjá honum þegar hann dó. Þann 23. nóvember 1991 tilkynnti Freddie opinberlega að hann væri með eyðni (AIDS). Daginn eftir fékk hann hægt andlát, umkringdur vinum og fjölskyldu. Hann hafði haldið mikilli leynd yfir sjúkdómi sínum og aðeins þeir sem stóðu honum næstir vissu að hann var að dauða kominn. Lík hans var brennt í Kensal Green Cemetery. Líkbrennslan fór fram að sið saraþústratrúar, sem var trú hans (persneski minnihlutinn í Indlandi er þeirrar trúar). Ekki er vitað hvar ösku hans er að finna. Jamie Hewlett. Jamie Hewlett (f. 1962) er breskur myndasöguhöfundur, einna þekktastur fyrir að hafa teiknað Tank Girl og Gorillaz. Tank Girl birtist fyrst sem röð í tímaritinu Deadline árið 1988. Sögurnar voru skrifaðar af Alan Martin og síðar Peter Milligan. Hewlett teiknaði síðar fyrir breska myndasögublaðið 2000AD, meðal annars söguna "Hewligans Haircut" ásamt Milligan. Árið 1999 skapaði hann persónur fyrir sýndarhljómsveitina Gorillaz, sem þeir Damon Albarn úr Blur bjuggu til. Silfurskotta. Silfurskotta (fræðiheiti: "Lepisma saccharina") er skordýr af kögurskottuættbálki. Tegundin er sú eina í "lepisma" ættkvíslinni. Almennt er litið á silfurskottur sem meindýr þó þær hafi engin áhrif á heilsu manna og skemmdirnar sem þær valdi á hýbílum þeirra séu hverfandi. Fullvaxnar silfurskottur eru á milli 7–12 mm langar og er nafn þeirra dregið af silfurgráum litnum. Líffærafræði. Silfurskottur eru lítil, ljósfælin, ófleyg skordýr sem eru meðal manna þekktasta tegund Kögurskottna ættbálksins, þau nærast einkum á plöntuafurðum, kolvetnum, sykri og sterkju og eru nú algengastar í híbýlum manna, en lifðu áður fyrr í laufhrúgum, trjáberki eða í litlum rifum. Peter Melander. Peter Melander greifi af Holzappel (17. maí 1585 – 17. maí 1648) var hershöfðingi yfir sameinuðum her keisara hins heilaga rómverska keisaradæmis og kaþólska bandalagsins frá árinu 1647 þar til hann lést af sárum sínum í Ágsborg eftir orrustu gegn herjum Frakka og Svía, undir stjórn Carls Gustavs Wrangel og Turenne, nálægt Zusmarshausen. Melander var af kalvínistafjölskyldu frá Hessen og hóf feril sinn í þjónustu Hollands. Síðar varð hann herforingi yfir her Vilhjálms V af Hesse-Cassel og vann sigra á herjum kaþólska bandalagsins 1634. 1640 lét hann af stjórn hersins, gekk í þjónustu keisarans og varð herforingi 1642. Í júlí 1647 tók hann við yfirstjórn keisarahersins af Matthias Gallas og hélt til Bæheims. Eftir að bæverski herinn yfirgaf hann vegna deilna milli hans og Gronsfelds herforingja í her kaþólska bandalagsins, sneri hann aftur í átt til Dónár þar sem hann mætti fransk-sænska hernum í orrustu þar sem hann særðist til ólífis. Melander, Peter Friðrik af Óraníu. Friðrik Hinrik ásamt fjölskyldu sinni á málverki eftir Gerrit van Honthorst, 1647 Friðrik Hinrik af Óraníu (29. janúar 1584 – 14. mars 1647) var yngsta barn Vilhjálms þögla og fæddist í Delft í suðurhluta Hollands sex mánuðum áður en faðir hans var myrtur. Hann tók við stjórn Hollands af bróður sínum Mórits af Nassau 1625. Friðrik vann nokkra mikilvæga sigra á her spænsku Niðurlanda þegar hann hertók Hertogenbosch 1629, Maastricht 1632, Breda 1637, Sas van Gent 1644 og Hulst 1645. Síðustu æviár sín rauf hann bandalag sitt við Frakkland og samdi um frið við Spánverja. Veikindi hans komu þó í veg fyrir að friðarsamkomulagið, sem batt endi á áttatíu ára stríðið milli Spánar og Hollands, yrði undirritað fyrr en í Münster í ársbyrjun 1648, eftir lát hans. Hannibal Sehested. Hannibal Sehested (1609 – 23. september 1666) var ríkisstjóri Noregs og rentumeistari Danakonungs. Hann giftist 6. nóvember 1642 Christiane, dóttur Kristjáns 4. og Kirsten Munk. Sehested var sonur Claus Maltesen Sehested, hirðstjóra á Eysýslu og fæddist þar í Arensborg (Kuressaare). Þegar faðir hans lést 1612 fylgdi hann móður sinni til Jótlands. Hann gekk í skóla á Sórey og ferðaðist til Englands, Hollands, Frakklands, Þýskalands og Spánar. Hann gerðist síðan hirðmaður konungs og varð meðlimur í danska ríkisráðinu 1640. 1642 var hann gerður að ríkisstjóra Noregs með Akurshús að léni. Ríkisstjóri Noregs. Sem ríkisstjóri reyndi Sehested að gera Noreg, og þar með sjálfan sig, eins óháðan Danmörku og hægt var. Hann hófst þegar handa við umbætur á innheimtu skatta, dómskerfinu og landvörnum. Í Torstensonófriðnum (sem í Noregi nefnist "Hannibalfeiden") sótti hann tvisvar gegn Gautaborg en varð að snúa aftur í bæði skiptin. Eftir stríðið hélt hann áfram umbótatilraunum og reyndi að skapa Noregi aukið sjálfræði gagnvart stjórninni í Kaupmannahöfn. Honum tókst að fá leyfi til stofnunar norsks flota með þrjátíu skipum og fékk meira vald til að ráðstafa tekjum konungs af landinu. 1646 samþykkti konungur að hann fengi að halda helming tekna til að standa straum af kostnaði. Hluta fésins nýtti hann til að afla sjálfum sér eigna í Noregi. Þessar aðgerðir öfluðu honum margra óvina í danska ríkisráðinu, einkum í hópnum kringum Corfitz Ulfeldt. Fall Sehesteds. Í nóvember 1647 kom til uppgjörs þar sem Sehested laut í lægra haldi fyrir Ulfeldt, sem fékk það í gegn að norskir hirðstjórar skyldu hér eftir greiða tekjur sínar beint til rentukammersins í Kaupmannahöfn. Þegar Friðrik 3. tók við embætti, gerði Sehested allt sem í hans valdi stóð til að tryggja sér stuðning hins nýja konungs. Enn var mikil andstaða við hann í ríkisráðinu og upp kom kvittur um að ekki væri allt með felldu í reikningshaldi stjórnarinnar í Akurshúsum. Í ágúst 1650 setti Anders Bille fram klögubréf gegn honum og í kjölfarið var reikningshaldið rannsakað. Rannsóknin leiddi í ljós að yfir 90.000 ríkisdali vantaði upp á uppgefnar skatttekjur. Sehested gekkst við ásökununum og bauðst til þess að greiða bætur. Hann missti embætti sitt, öll lén og stöðu sína í ríkisráðinu. Svíastríðið. Þrátt fyrir þessar yfirsjónir, fékk Sehested leyfi til að ferðast frá Danmörku, og næstu ár flakkaði hann um Evrópu og reyndi meðal annars að komast í þjónustu Spánar. Vorið 1657 reyndi hann aftur að ná eyrum konungs, vegna Svíastríðsins, en konungur neitaði að veita honum áheyrn. Sumarið 1658, eftir lát Kirsten Munk, hlaut hann aftur náð fyrir augum konungs og var í Kaupmannahöfn þegar Karl 10. Gústaf gekk á land við Korsør. Hann yfirgaf borgina til að sækja konu sína, en var handtekinn af Svíum í Hróarskeldu. Hann reyndi að miðla málum við Carl Gustav, með litlum árangri. Hann sór þá Svíakonungi trúnað. Þessar athafnir hans urðu til þess að honum var vantreyst bæði af Svíum og Dönum, en þó náði hann að koma sér aftur í mjúkinn hjá Friðriki 3. og átti stóran þátt í friðarsamkomulaginu 26. maí 1660. Síðustu ár. Þegar einveldið var tekið upp í Danmörku studdi hann konung eindregið í því máli, gegn sínum gömlu fjendum í ríkisráðinu. Að launum hlaut hann stöðu ríkisskattstjóra, sæti í ríkisstjórn og við hæstarétt, auk stöðu í ríkisráðinu. Enn var hann skuldum vafinn og tilraunir konungs til að aðstoða hann fjárhagslega mistókust. Hann áleit bandalag við Frakkland réttu leiðina fyrir Danmörku, móti Christan Rantzau sem vildi bandalag við keisarann. Hann lést í sendiför í París. Kögurskottur. Kögurskottur (fræðiheiti: "Thysanura") er einn helsti ættbálkum skordýra, um 300 milljón ára gamall. Eitt þekktasta afbrigði kögurskottna er silfurskotta. Súlur. Súlur er fjall í Eyjafirði. Halldór Blöndal. Halldór Blöndal (fæddur þann 24. ágúst, 1938) var forseti Alþingis frá árinu 1999 til ársins 2005 og fyrrum landbúnaðar- og samgönguráðherra. Hann gegndi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 28 ár, á árunum 1979-2007. Halldór var samgönguráðherra í átta ár, frá 1991 til 1999, meðan landsmenn farsímavæddust og tengdust internetinu. Á árunum 1991-1995 var hann hvort tveggja landbúnaðar- og samgönguráðherra. Á vorþingi, að loknum Alþingiskosningum 1999, var hann kjörinn forseti Alþingis. Hann beitti sér fyrir gerð og samþykkt langtíma áætlunar í vegamálum, lagði niður Ríkisskip og breytti Pósti og Síma í tvö hlutafélög. Halldór útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri 1959, hvar hann hafði ritstýrt Gambra og skólablaðinu Muninn. Halldór sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1965-1969 og í fjölda ára í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Klaus Rifbjerg. Klaus Rifbjerg (f. 15. desember 1931) er danskur rithöfundur sem ólst upp á Amager í Kaupmannahöfn. Hann notar æsku sína sem efnivið í margar bækur sínar. Með "Amagerdigte" sem kom út árið 1965 gerðist hann þátttakandi í þeirri einföldu ljóða- og skáldsagnagerð sem réði ríkjum á 7. og 8. áratugnum. Þekktasta verk hans er líklega þroskasagan "Den kroniske uskyld" frá 1958. Edward Fleming gerði kvikmynd eftir bókinni árið 1985. Bókin var lengi vel vinsælt lesefni í dönskunámi. Auk þessara bóka hefur Rifbjerg gefið út yfir 120 ljóða- og smásagnasöfn, skáldsögur, leikrit, söngleiki, kvikmyndahandrit o.s.frv. Klaus Rifbjerg er kunnur sem ötull málsvari dönskunnar. Hann fékk árið 1967 gullna lárviðarkransinn („De gyldne laurbær“), og 1970 fékk hann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Hann stýrði um skeið bókaforlaginu Gyldendals forlag, en er nú búsettur á Spáni. Rifbjerg, Klaus Rifbjerg, Klaus Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru ein fimm verðlauna sem Norðurlandaráð veitir árlega. Verðlaunin eru veitt einu bókmenntaverki skrifuðu á máli eins Norðurlandanna. Verðlaunin geta hlotið skáldsögur, leikverk, ljóðabækur, smásögur eða ritgerðir. Verðlaunin voru sett á fót árið 1962 og er úthlutað af Norðurlandaráði á hverju ári. Upphaflega voru verðlaunin 50.000 danskar krónur en frá 1995 hafa þau verið 350.000 danskar krónur. Valið fer þannig fram að Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð tilnefnir hvert tvö verk. Frá 1985 hafa Færeyjar, Grænland og samíska málsvæðið tilnefnt eitt verk hvert og árið 2011 öðluðust Álandseyjar sama rétt. Fyrsti Færeyingurinn sem fékk verðlaunin var William Heinesen árið 1965, en hann var þá tilnefndur fyrir Danmörku. Nils-Aslak Valkeapää hefur einn Sama fengið verðlaunin, árið 1991. Tilkynnt er um sigurverk verðlaunanna og þau afhent á Norðurlandaráðsþingi. Íslenskir rithöfundar hafa sjö sinnum hlotið verðlaunin, síðast Gyrðir Elíasson árið 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Diego Velázquez. Diego Rodríguez de Silva y Velázquez (6. júní 1599 – 6. ágúst 1660), venjulega kallaður Diego Velázquez, var spænskur listamaður og hirðmálari Filippusar IV í Madríd. Velázquez var framúrskarandi portrettmálari, og er talinn einn fremsti listamaður barrokktímans. Þekktasta verk hans, hópmyndin "Las Meninas", er af mörgum álitin fullkomnasta og flóknasta mannamynd vestrænnar myndlistar. Franski heimspekingurinn Michel Foucault taldi verkið marka tímamót í sögu Vesturlanda þar sem það gerir áhorfandann að aðalpersónu verksins. Velázquez hefur haft mikil áhrif til okkar daga. Hægt er að greina áhrif hans í verkum Francisco Goya og Édouard Manet. Þekktir 20. aldar listamenn eins og Pablo Picasso og Francis Bacon hafa gert eigin útgáfur af verkum hans. Volfram. Volfram (stundum skrifað wolfram) eða þungsteinn er frumefni með efnatáknið W og er númer 74 í lotukerfinu. Volfram er mjög harður hliðarmálmur sem að er stálgrár yfir í hvítan á litinn. Volfram finnst í nokkrum steintegundum, þar á meðal volframíti og scheelíti, og er markvert fyrir kröftuga efniseiginleika sína. Í hreinu formi er það notað aðallega í raffræðilegum tilgangi, en mörg efnasambönd og málmblöndur þess eru víða notuð (þá aðallega í glóarþræði í ljósaperur og í framúrstefnulegar ofurmálmblöndur). Almennir eiginleikar. Hreint volfram er stálgrár yfir í tinhvítan á litinn og er harður málmur. Það er hægt að saga það í sundur með járnsög þegar það er mjög hreint (það er stökkt og erfitt til vinnslu í óhreinu formi) og er að öðru leyti unnið með því að móta, teygja eða pressa það. Þetta frumefni hefur hæsta bræðslumark (3422 °C), lægsta gufuþrýsting og hæsta togþol, við hitastig yfir 1650 °C, allra málma. Viðmót þess við tæringu er framúrskarandi og virka eingöngu ólífrænar sýrur á það, og þá bara rétt aðeins. Volfram myndar verndandi oxíð við snertingu við loft. Þegar það er blandað í litlum mæli við stál, eykur það styrk stálsins all verulega. Notkun. Volfram er málmur með stórt notkunarsvið. Mest er það notað í volframkarbíð (W2C) í sindruðum harðmálmum. Sindraðir harðmálmar eru slitþolin efni sem að notuð eru í málmiðnaði, námugreftri, olíu- og byggingariðnaði. Volfram er einnig mikið notað í glóðaþræði í ljósaperur og útvarpslampa, ásamt rafskautum, vegna þess að hægt er að draga það í fíngerðann vír með hátt bræðslumark. Malí. Lýðveldið Malí (franska: "République du Mali") er landlukt land í Vestur-Afríku og annað stærsta Vestur-Afríkulandið. Malí á landamæri að Níger til austurs, Búrkína Fasó og Fílabeinsströndinni til suðurs, Gíneu til suðausturs, og Senegal og Máritaníu til vesturs. Í norður teygir landið sig inn í Sahara-eyðimörkina þar sem það mætir syðri landamærum Alsír. Flestir íbúanna búa í suðurhluta landsins, þar sem renna árnar Senegalfljót og Nígerfljót. Í norðurhlutanum er hin goðsagnakennda borg Timbúktú. Saga. Mandéfólk settist að í Sahelsvæðinu við jaðar Sahara á miðöldum og þar urðu til nokkur stórveldi s.s. Ganaveldið, Malíveldið og Songhæveldið. Lykilþáttur í myndun þessara ríkja var Saharaverslunin með gull, salt og þræla og Timbúktú var lykiláfangastaður á verslunarleiðunum um Vestur-Sahara og miðstöð kóransfræða. Borginni hnignaði með hnignun verslunarinnar, einkum eftir innrás frá Marokkó árið 1591 og á eftir fylgdi röð konungsríkja sem ekkert varð þó jafnstórt og Songhæveldið hafði verið. Frakkar sóttu inn á þetta svæði eftir 1880 og svæðið var lagt undir Franska Súdan eftir nokkra andspyrnu árið 1898 og stjórnað (mest óbeint með því að nýta þær valdastofnanir sem fyrir voru) sem hluta af Frönsku Vestur-Afríku. Með samþykkt nýrra grunnlaga í Frakklandi fékk svæðisþingið völd til að mynda ríkisstjórn með framkvæmdavald í þeim málum sem heyrðu undir þingið árið 1956. Full heimastjórn gekk í gildi 25. nóvember 1958. 4. apríl 1959 myndaði Franska Súdan Malísambandið ásamt Senegal og fékk fullt sjálfstæði 20. júní 1960. 20. ágúst sama ár klauf Senegal sig úr sambandinu. 22. september lýsti Franska Súdan yfir stofnun Lýðveldisins Malí og sagði sig úr Franska samveldinu. Stærsti stjórnmálaflokkur Frönsku Súdan var Union Soudanaise du Rassemblement Democratique Africain. Þegar landið fékk sjálfstæði gerði forsetinn Modibo Keita stjórn landsins að flokksræði og hóf að þjóðnýta lykiliðngreinar í sósíalískum anda og tók upp náin stjórnmálatengsl við Austurblokkina, en efnahagsleg hnignun sem fylgdi í kjölfarið fékk stjórnina til að taka aftur upp CFA-franka og draga úr miðstýringu árið 1967. 19. nóvember var gerð herforingjabylting og við stjórn landsins tók herforingjaráð undir stjórn Moussa Traore. Herforingjastjórnin reyndi að koma á efnahagslegum umbótum en tókst illa upp vegna innanlandsátaka og þurrka. Ný stjórnarskrá gekk í gildi 1974 sem kvað á um flokksræði og borgaralega ríkisstjórn en herforingjarnir sátu samt áfram við völd. Þegar forsetakosningar voru haldnar árið 1979 fékk Moussa Traore 99% atkvæða. 1980 braut ríkisstjórnin á bak aftur stúdentamótmæli og þrjár tilraunir til valdaráns. 1985 kom til stuttrar styrjaldar við Búrkína Fasó út af Agacher-ræmunni. Á 9. áratugnum hóf ríkisstjórnin röð af efnahagslegum umbótum í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn en þær aðgerðir ollu óánægju meðal almennings sem þurfti að þola neikvæðar afleiðingar þeirra. Ríkisstjórn Traores reyndi að bregðast við með því að auka stjórnmálalegt frjálsræði án þess að hverfa frá flokksræði en óánægjan fór áfram vaxandi og 1990 mynduðust stjórnarandstöðuhreyfingar. Fjölgun túarega í norðurhlutanum jók enn á spennuna. Ótti við að stuðningur myndaðist við aðskilnaðarhreyfingu túarega í norðrinu leiddi til þess að stjórnin barði niður öll merki um andspyrnu í norðrinu. Formlegur friðarsamningur var undirritaður 1991 en átök héldu samt áfram. Kröfur um aukið lýðræði leiddu til frekari óeirða og 26. mars 1991, eftir fjögurra daga mótmæli, handtók hópur herforingja, undir stjórn Amadou Toumani Touré, Traore forseta og ógilti stjórnarskrána. Mynduð var borgaraleg nefnd sem skipaði borgaralega ríkisstjórn. Drög að nýrri stjórnarskrá voru samin sem gerðu ráð fyrir fjölflokkakerfi. Í janúar og febrúar 1992 voru haldnar kosningar til þings, forseta og sveitarstjórna. Alpha Oumar Konaré var kjörinn forseti. Í þingkosningum 1997 vann flokkur hans 80% þingsæta. Í forsetakosningunum 2002 gat Konaré ekki boðið fram þar sem hann hafði setið tvö kjörtímabil og eftir klofning innan flokks hans vann Touré forsetakosningarnar sem óháður frambjóðandi. Landafræði. Malí er 24. stærsta land heims. Það er því ámóta stórt og Suður-Afríka og tólf sinnum stærra en Ísland. Það er landlukt og loftslag er heittemprað og þurrt. Landslag í Malí er að mestu flatt norðurhlutinn, sem tilheyrir Saharaeyðimörkinni, er hæðóttur og hulinn sandi. Í suðurhlutanum eru gresjur umhverfis Nígerfljótið. Sandsteinsklettarnir Adrar des Ifoghas eru í norðausturhlutanum. Mestur hluti landsins er í Saharaeyðimörkinni þar sem þurr og rykmettaður vindur myndast á þurrkatímanum. Malí býr yfir þó nokkrum náttúruauðlindum og þar fer fram vinnsla á gulli, úrani, fosfötum, kaólíníti, salti og kalki. Skipting í stjórnsýsluumdæmi. Malí skiptist í átta héruð ("régions") og eitt umdæmi ("district"), 49 sýslur ("cercle") og 288 löggæsluumdæmi ("arrondissements"). Stjórnmál. Amadou Toumani Toure, forseti Malí, heldur ræðu í Washington árið 2003. Malí er lýðveldi með fjölflokkakerfi og forsetaræði þar sem forseti Malí er bæði þjóðhöfðingi og höfuð ríkisstjórnarinnar. Núverandi stjórnarskrá landsins er frá 1992 og kveður á um að forsetinn, sem kjörinn er til fimm ára í senn, geti eingöngu setið í tvö kjörtímabil samfleytt. Á þinginu ("Assemblée Nationale") sitja 160 fulltrúar sem kjörnir eru til fimm ára í senn; 147 kjörnir í einmenningskjördæmum og 13 fulltrúar kjörnir af malískum ríkisborgurum erlendis. Átta flokkar eiga fulltrúa á þingi. Þeir stærstu eru "Alliance pour la Démocratie en Mali-Parti Pan-Africain pour la Liberté, la Solidarité et la Justice" með 53 fulltrúa og "Rassemblement pour le Mali" með 46 fulltrúa. Báðir þessir flokkar eru aðilar að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Efnahagslíf. Klettasalt frá Timbúktú var eitt sinn undirstaða Malíveldisins. Malí er eitt af fátækustu löndum heims. 65% af landsvæðinu er eyðimörk eða eyðimerkurjaðar og nokkur langvarandi þurrkatímabil hafa gengið þar yfir á 20. öld. Landbúnaður er að mestu bundinn við svæðið umhverfis Nígerfljót. Um 10% þjóðarinnar eru hirðingjar en 80% lifa af landbúnaði og fiskveiðum. Iðnaður byggist að mestu á vinnslu landbúnaðarafurða. Helstu útflutningsvörur landsins eru baðmull og kvikfjárafurðir en námavinnsla fer ört vaxandi. Efnahagslíf Malí er afar viðkvæmt fyrir verðsveiflum á baðmullarmörkuðum og landið er mjög háð erlendri fjárhagsaðstoð sem árið 1995 var tæpar 600 milljónir bandaríkjadala. Erlendar skuldir landins árið 1998 voru 3,1 milljarður bandaríkjadala. Árið 1982 hóf landið röð efnahagsumbóta sem skiluðu miklum árangri í byrjun en síðan hægði á þeim og landið þurfti á mikilli fjárhagsaðstoð að halda 1987 til að koma í veg fyrir hrun. Í kjölfar samninga við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann 1988 hefur ríkisstjórn Malí einfaldað rekstrarumhverfi fyrirtækja og aflétt verðstjórnun í nokkrum skrefum. Um leið var hafist handa við einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Menning. Um helmingur íbúa Malí eru mandéfólk. Túaregar í norðurhlutanum eru um einn tíundi hluti íbúafjöldans. Um 90% íbúanna eru súnnímúslimar. Frönskulæsi er ekki mjög útbreidd og bundin við þéttbýlið. Margir íbúa eru þó læsir á N'Ko sem er stafróf útbreiddasta Afríkumálsins, bambara, eða arabísku. Margir íbúa Malí hafa numið í kóranskóla á borð við Sankoreháskóla í Timbúktú, sem er einn af elstu háskólum heims. Tónlistarmaðurinn Salif Keïta og söngkonan Déné Issébéré eru frá Malí. Sigur Rós. Sigur Rós er íslensk síðrokks hljómsveit, hún er á heimsvísu ein frægasta hljómsveit sem Ísland hefur alið af sér og hefur selt yfir milljón plötur í allt. Saga. Sveitin var stofnuð í ágúst 1994 af þeim Jóni Þóri Birgissyni (Jónsa), Georg Hólm og Ágústi Ævari Gunnarssyni. Nýfædd systir Jónsa hlaut nafnið Sigurrós Elín Birgisdóttir og þaðan er nafn hljómsveitarinnar komið. Undir merkjum Smekkleysu tóku þeir upp og gáfu út fyrstu plötu sína: "Von" árið 1997. 1998 kom út platan "Von brigði" sem innihélt endurhljóðblandanir ýmissa tónlistarmanna á lögunum af "Von". Kjartan Sveinsson gekk til liðs við sveitina fyrir upptökur næstu plötu Sigur Rósar sem var "Ágætis byrjun", hún kom út á Íslandi árið 1999 og vakti strax gríðarmikla athygli bæði heima og erlendis. Í könnun sem gerð var meðal almennings á Íslandi í tengslum við bók Dr. Gunna "Eru ekki allir í stuði?" var hún valin besta íslenska platan frá upphafi. Hróður sveitarinnar barst einnig til útlanda, "Ágætis byrjun" var gefin út í Bretlandi árið 2000 í gegnum Fat Cat Records og síðar einnig í Norður-Ameríku í gegnum MCA Records. Í apríl og maí 2001 fór sveitin fyrst í tónleikaferðalag um Norður-Ameríku og varð uppselt á flesta tónleikana um leið enda hafði mikil umfjöllun verið um sveitina í amerískum fjölmiðlum. Hljómsveitin kom einnig fram með Radiohead um þetta leyti og átti tvö lög sem notuð voru í Hollywoodmyndinni "Vanilla Sky". Hljómsveitin vakti sérstaka athygli eftir "Ágætis byrjun" fyrir allsérstæða notkun Jónsa á sellóboga á rafmagnsgítar og þau hljóð sem þannig myndast. Ágúst trommari hætti með hljómsveitinni eftir upptökurnar á "Ágætis byrjun", í staðinn kom Orri Páll Dýrason. Árið 2002 kom næsta plata sveitarinnar út sem oftast er vísað til sem "()" en hún er í raun nafnlaus. Á henni eru átta lög sem einnig eru nafnlaus opinberlega en þau eru þekkt undir þeim vinnuheitum sem hljómsveitin notar fyrir þau. "()" var fyrsta platan sem sungin var alveg á "vonlensku", tilbúnu tungumáli sem að hljómar svipað og íslenska en þýðir ekki neitt. Platan var einnig sú fyrsta sem Sigur Rós tók upp í eigin stúdíói sem þeir höfðu komið sér upp í gamalli sundlaug við Álafoss í Mosfellsbæ. Árið 2013 kom hljómsveitin fram í þáttaröðinni um Simpsonfjölskylduna. Heimskort. Heimskort er kort af yfirborði Jarðarinnar gert með einhvers konar kortavörpun. Vestur-Afríka. Að auki eru Kamerún, Grænhöfðaeyjar, Tsjad, Kongó, Miðbaugs-Gínea, Gabon, Máritanía, Saó Tóme og Prinsípe og Vestur-Sahara oft talin hlutar Vestur-Afríku. Á þessu svæði hafa komið upp söguleg afrísk stórveldi, eins og Malíveldið, Songhæ og Ganaveldið. Vesturbyggð. Vesturbyggð er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum. Það varð til 11. júní 1994 við sameiningu fjögurra sveitarfélaga: Barðastrandarhrepps, Rauðasandshrepps, Bíldudalshrepps og Patrekshrepps. Sameiningartillagan var felld í kosningum á Tálknafirði og eru nú tvö sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð. Sveitarfélagið nær yfir alla suðurfirði Vestfjarða frá Arnarfirði að Kjálkafirði, að Tálknafirði undanskildum. Til Vesturbyggðar teljast byggðakjarnarnir Birkimelur á Barðaströnd, Bíldudalur og Patreksfjörður og sveitirnar Barðaströnd, Breiðavík, Hænuvík, Ketildalir, Látrar, Rauðisandur og Suðurfirðir. Fyrrum voru sex hreppar á suðursvæði Vestfjarða: Barðastrandahreppur, Ketildalahreppur, Patrekshreppur, Rauðasandshreppur, Suðurfjarðahreppur og Tálknafjarðarhreppur. 1599. a> Svíakonungur.a> í London. Það var byggt þetta ár. 1550. a> konungur, gerði eftir að hann hafði verið sviptur embætti og hnepptur í varðhald. Líbería. Lýðveldið Líbería er lítið ríki á vesturströnd Afríku með landamæri að Síerra Leóne, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Nýlega hafa geisað þar tvær borgarastyrjaldir (1989-1996 og 1999-2003) sem hafa hrakið stóran hluta íbúanna á vergang og lagt efnahag landsins í rúst. Ungbarnadauði er algengur í Líberíu og árið 2006 var hann hvergi í heiminum algengari en um 66 dauðsföll voru þá á hver þúsund börn. Komu Fílabeinsströndin og Síerra Leóne næst. Saga. Ríkið Líbería á rætur sínar að rekja til þeldökkra Bandaríkjamanna sem stofnuðu nýlendu þar árið 1822 á vegum "American Colonization Society" í anda nokkurs konar endurheimtar fyrirheitna landsins. Tengslin við Bandaríkin hafa því verið sterk. Jarðskjálfti. Jarðskjálfti er í jarðskjálftafræði titringur eða hristingur í skorpu jarðar. Upptök jarðskjálfta verða oftast á flekamótum eða flekaskilum. Við jarðskjálfta losnar spenna sem myndast vegna núnings milli jarðskorpu fleka. Þessi spenna getur hafa verið að safnast upp í hundruð ára en losnar á einu augnabliki með fyrrgreindum afleiðingum. Einkenni. Á jörðu verða jarðskjálftar á hverjum degi, þó svo að við tökum ekkert eftir þeim. Þetta er mjög eðlilegt vegna jarðskorpuhreyfinga, einkum á mótum tveggja jarðskorpufleka. Meirihluti allra jarðskjálfta eru litlir (undir 5 á Richter-skala) og valda engu tjóni en aðrir eru stærri og í kjölfar þeirra geta fylgt margir smærri skjálftar, svokallaðir eftirskjálftar. Jarðskjálftum fylgir hinn kunnuglegi titringur auk þess sem sprungur geta komið í jörðina og mannvirki geta skemmst eða jafnvel hrunið, flóðbylgjur geta farið af stað og skriðuföll bæði í sjó og á landi geta farið af stað. Flestum stórum skjálftum fylgja fyrirskjálftar og eftirskjálftar. Þetta er vegna spennunar sem byggist upp í skorpuflekanum og sú spenna hefur einmitt tilhneygingu til að hrinda af stað skjálftahrinu sem byggist upp af fyrir- og eftirskjálftum. Þar sem allir flekar tengjast saman utan um jörðina geta jarðskjálftar á einum stað hrundið af stað keðjuverkun sem hægt er að sjá um allan hnöttinn. Manngerðir skjálftar. Jarðskjálftar geta orðið af manna völdum vegna sprenginga eða niðurdælingar vatns í jarðsprungur. Monróvía. Monróvía er höfuðborg Líberíu. Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar er 465.000. Borgin er hafnarborg sem stendur á nesi, milli Atlantshafsins og Mesuardoár. Borgin heitir eftir 5. forseta Bandaríkjanna James Monroe. Stanley Kubrick. Stanley Kubrick (26. júlí 1928 – 7. mars 1999) var bandarískur kvikmyndaleikstjóri. Myndir hans eru taldar hafa markað tímamót í kvikmyndasögu 20. aldar. Notkun hans á klassískri tónlist í myndum sínum einkenndi stíl hans. Meðal þekktustu mynda hans eru "Dr. Strangelove" (1964), ' (1968) og "A Clockwork Orange" (1971). Kvikmyndaskýrsla. Kubrick, Stanley Fylkið. "Fylkið" (enska: "The Matrix") er kvikmynd sem var fyrst sýnd í kvikmyndahúsum 31. mars 1999. Hún naut strax mikillar hylli og er í dag talin á meðal bestu vísindaskáldskaparkvikmynda sem framleiddar hafa verið. Myndin fjallar í megindráttum um efni sem lengi hefur verið kvikmyndagerðarmönnum hugleikið, þ.e. hvernig það væri ef vélarnar myndu stjórna mannkyninu. Myndina má flokka sem vísindaskáldskap, með tilvísunum í japanskar teiknimyndir, myndasögur, kung-fu-myndir, trúarlegar hugmyndir og heimspeki. Leikarar og leikstjórar. Aðalleikarar eru Keanu Reeves, sem Neo; Laurence Fishburne sem Morpheus; Carrie-Ann Moss sem Trinity; Joe Pantoliano sem Cypher og Hugo Weaving sem Smith fulltrúi (e. "Agent Smith"). Leikstjórar myndarinnar eru bræðurnir Larry og Andy Wachowski. Áður en þeir gerðu "The Matrix" voru þeir nánast óskrifað blað ("tabula rasa") í kvikmyndaheiminum en höfðu þó getið sér gott orð fyrir mynd sína Bound. Bræðurnir eru frá Chicago og eru margar vísanir í heimaborg þeirra í myndinni, aðallega í ýmsum götunöfnum. Wachowski-bræðurnir eru miklir áhugamenn um myndasögur, kung-fu og japanskar teiknimyndir og þykir það sjást á heildaryfirbragði og útliti myndarinnar. Söguþráður. "Fylkið" fjallar um tímann þegar vélarnar hafa tekið völdin. Mennirnir hafa sprengt upp himininn og til að fá þá orkulind sem er nauðsynleg eftir tap sólarorkunnar taka vélarnar á það ráð að tengja mennina í sýndarheim, „Draumaheiminn“, og nýta sér líkamsvarma þeirra til að vinna orku. Þó lifir ekki allt mannkynið í Draumaheiminum því um 250.000 manna samfélag lifir nálægt kjarna Jarðar, í hinum raunverulega heimi. Markmið samfélagsins er að binda enda á stríðið milli vélanna og mannkyns, þ.e. að frelsa mannkynið úr viðjum Draumaheimsins. Aðalpersóna Fylkisins er tölvurefurinn Neo, sem lifir í Draumaheiminum og hefur alltaf fundið á sér að eitthvað sé galið við heiminn. Morpheus er skipstjóri á skipinu Nebúdkadnesar, einu af skipum flota hins raunverulega heims. Hann telur að Neo sé hinn eini, frelsari mannkyns og því tekur hann Neo úr Draumaheiminum og sýnir honum sannleikann. Inni í Draumaheiminum standa svokallaðir fulltrúar (e. "agents") vörðinn. Fulltrúarnir eru einfaldlega tölvuforrit sem geta tekið sér búsetu í líkama hvers sem er. Myndin snýst um baráttu áhafnar Nebúkadnesars og fulltrúanna. Að lokum er lokabardagi milli æðsta fulltrúans, Smith, og Neo og fer svo að Neo eyðir Smith. Fylkið á heimsvísu. "Fylkið" þénaði alls um 32 milljarða íslenskra króna á heimsvísu. Miklar vinsældir myndarinnar gátu af sér meira efni um Draumaheiminn á ýmsum formum. Tvær aðrar kvikmyndir voru framleiddar í framhaldi af þeirri fyrstu, "The Matrix Reloaded" og "The Matrix Revolutions", sem gagnrýnendur hafa yfirleitt talið mun síðri en frumburðinn. Wachowski-bræður halda því stöðugt fram að kvikmyndunum hafi alltaf verið ætlað að vera þríleikur en að kvikmyndaverið, Warner Brothers, hafi aðeins samþykkt að gera eina. Hins vegar þykir mikill munur á eðli myndanna þriggja benda til þess að hún hafi aðeins átt að vera ein. Áður en "The Matrix Reloaded" var gefin út voru þó gerðar 9 stuttar japanskar teiknimyndir, sem áttu að gefa ítarlegri upplýsingar um eðli Draumaheimsins og hafa myndirnar níu yfirleitt saman gengið undir nafninu "The Animatrix". Einnig hafa verið gefnar út myndasögur og tveir tölvuleikir, "Enter the Matrix" og "The Matrix Online". Heimspeki og trúarbrögð. Heimspeki og tilvísanir í trúarbrögð eru eitt helsta aðdráttarafl myndarinnar. Í Fylkinu er velt upp spurningum um ýmsa þætti í sálarlífi manna. Tekið er á sömu spurningum og myndir eins og t.d. "The Truman Show" hafa tekið á, þ.e. hvenær eitthvað getur talist raunverulegt. Fólkið utan Draumaheimsins í myndinni reynir að frelsa íbúa Draumaheimsins úr prísundinni sem Draumaheimurinn er og sýna þeim hinn raunverulega heim. Áhorfandinn er hins vegar knúinn til að velta fyrir sér hvort Draumaheimurinn sé ekki raunveruleiki þeirra sem þar búa, hvort að hinn raunverulegri heimur sé eitthvað raunverulegri í þeirra augum. Persónan Neo í myndinni hefur augljós samkenni með Jesú í kristni. Neo heitir fullu nafni Thomas A. Anderson. Á latínu þýðir Anderson mannssonur, Neo þýðir nýr og Tómas var sá postuli sem efaðist í Biblíunni. Hér er komin tilvísun í líf Krists, þ.e. Neo er fyrst um sinn Tómas, hann efast um eðli heimsins og veit að ekki er allt með felldu en þegar hann er færður úr Draumaheiminum verður hann hinn nýi (Neo) mannssonur (Anderson). Neo verður frelsari mannkynsins og í myndinni deyr hann meira að segja og vaknar svo aftur upp frá dauðum. Að lokum má þess geta að í myndinni segir persónan Choi beint við Neo:,Þú ert frelsari, maður, minn eigin Jesús Kristur” (e. "„You’re my saviour, man, my own personal Jesus Christ“"). Myndin byggir einnig mikið á bókinni "Simulacres et Simulation" eftir Jean Baudrillard sem upprunalega var gefin út 1983. Í bókinni er talað um gerviheiminn sem er í kringum okkur og að raunveruleikinn sé ekki til, eða gleymdur. Hann talar mikið um Ljósrit án upprunalegs eintaks. Þegar Morpheus segir: „Welcome to the desert of the real“ er verið að vitna beint í bókina. Bókin sést í myndinni, Neo notar hana til að geyma diskana sína og opnast bókinn beint á kaflann „On Nihilism“ sem reyndar er aftarlega í bókinn en ekki í miðjunni eins og sýnt er í myndinni. Tæknibrellur. "Fylkið" hefur getið sér gott orð fyrir tæknivinnu. Blátjaldstæknin er mikið notuð í myndinni, ásamt víratækni til að gera leikurunum kleift að svífa um loftin eins og í heimi án þyngdarafls. Síðan hefur kvikmyndatakan notið mikillar hylli og hún þykir vera mjög frumleg. Við vinnslu myndarinnar fann yfirmaður tæknibrellna, John Gaeta, ásamt Wachowski-bræðrunum upp nýja kvikmyndatökutækni sem nefnist skottími. Skottími er notaður í atriðum þar sem myndavélin er látin snúast gríðarlega hratt í um 360°. Framleiðendum myndarinnar varð snemma ljóst að ekki var hægt að nota venjulega Panasonic-kvikmyndatökuvél til að ná atriðunum, því hún gat ekki farið nógu hratt. Á einum tímapunkti datt Wachowski-bræðrunum í hug að festa tökuvélina við eldflaug til að ná nauðsynlegum hraða, en yfirmaður kvikmyndatöku, Bill Pope, samþykkti það ekki. Lausnin var að raða yfir 200 stafrænum myndavélum upp, sem voru stilltar til að smella á fyrirfram ákveðnum tíma og síðan var römmunum sem myndavélarnar tóku raðað upp í flæðandi hreyfimynd. Hreyfimynd er ekkert annað en safn af römmum og því er ekkert öðruvísi að taka margar ljósmyndir á sekúndu og raða þeim upp (þess má geta að hefðbundinn fjöldi ramma á sekúndu er 24). Þessi tækni hlaut nafnið skottími, eins og áður var getið. Verðlaun og viðurkenningar. Á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2000 var myndin tilnefnd til fjögurra verðlauna og hlaut hún þau öll. Zach Staenberg hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi klippingu, Dane Davis hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi hljóðklippingu, John Gaeta, Janek Sirrs, Steve Courtley og Jon Thum hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi tæknibrellur og að lokum hlutu John T. Reitz, Gregg Rudloff, David E. Campbell og David Lee verðalun fyrir besta hljóð í kvikmynd. Auk þessara verðlauna hlaut myndin ýmis verðlaun víðsvegar um heiminn, m.a. verðlaun Akademíu vísindaskáldskapar, ævintýra- og hryllingsmynda, Saturn-verðlaunin, fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn. Skjálftamiðja. Skjálftamiðja jarðskjálfta er sá punktur á yfirborði jarðar sem er beint fyrir ofan upptök hans. Sahara. Sahara er önnur stærsta eyðimörk heims (á eftir Suðurskautslandinu) og nær yfir 9.000.000 km² svæði, eða allan norðurhluta Afríku. Hitinn í eyðimörkinni getur náð 57°C yfir daginn og farið undir frostmark á nóttunni. Sahara er um 2,5 milljón ára gömul. Nafnið kemur frá arabíska orðinu yfir eyðimörk; صحراء (). Sahara skiptist milli landanna Marokkó, Túnis, Alsír, Líbýu, Vestur-Sahara, Máritaníu, Malí, Níger, Tsjad, Egyptalands og Súdan. Hún nær samfellt 4.000 km frá Atlantshafi í vestri að Rauðahafi í austri, ef Nílardalur er undanskilinn. Frá Miðjarðarhafi og Atlasfjöllum í norðri þangað sem hún mætir sléttunum í Mið-Afríku eru 2000 km. Þar verða skilin milli eyðimerkur og gróðurlendis smám saman ógreinilegri. Á þessu svæði, sem þekur 27% af álfunni, búa um 2,5 milljónir manna með ólíka menningu, bændur, hirðingjar, veiðimenn og safnarar. Helstu þjóðarbrotin eru Túaregar, Saravar, Márar, Tíbúfólkið, Núbíumenn og Kanúrífólkið. Helstu borgir eru Núaksjott í Máritaníu, Algeirsborg í Alsír, Timbúktú í Malí, Agadez í Níger, Ghat í Líbýu og Faya í Tsjad. Í Sahara er víða að finna vatn í jörðu, og þar er fjölbreytt dýralíf. Gufuskálar. Gufuskálar eru við útjaðar þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, nálægt Hellissandi. Langbylgjustöðin á Gufuskálum sendir á 189 kHz. (Hin langbylgjustöðin er á Eiðum.) Þar er einnig æfingasvæði fyrir björgunarsveitir Slysavarnafélagssins Landsbjargar. Æfingaaðstaða fyrir björgunarsveitir er mjög góð. Á Gufuskálum er einnig starfræktur útivistarskóli fyrir unglinga á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Á Gufuskálum hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð frá 1994. Landnámsmaðurinn Ketill gufa Örlygsson var um kyrrt á Gufuskálum einn vetur samkvæmt Landnámu. Búið var þar til ársins 1948 og var þar þá yzta býlið í Neshreppi utan Ennis. Útgerð var mikil frá Gufuskálum líkt og fleiri stöðum á Snæfellsnesi. Vítt og breitt eru þar minjar og merki um sjávarútveg og byggð fyrri alda. Lendingarnar voru í víkinni niður af bænum. Aðalvörin var Gufuskálavör. Lengd varinnar er um 70 metrar og var hún rudd í stórgrýti og hellulögð. Djúpar raufar eru í sjávarklappirnar, merki um kili bátanna, sem voru dregnir þar á land og hrundið fram á víxl. Yfir 200 forn byrgi eru í jaðri Bæjarhrauns ofan þjóðvegarins þar sem talið er að fiskur hafi verið geymdur og þurrkaður. Byrgin eru topphlaðin og falla mjög vel inn í hraunlandslagið og því erfitt að sjá þau frá veginum. Írsk örnefni á þessum slóðum eru fjögur: Írskubúðir eru nokkru sunnar, vestur af Gerðubergi og Kvarnahrauni. Þar eru rústir, sem voru kannaðar 1998. Þær reyndust vera frá níundu öld. Íraklettur er við ströndina skammt frá vörinni, en Írskabyrgi og Írskrabrunnur eru nokkru vestar, niður af Smáhrauni. Brunnurinn er 16 þrep niður að vatni. Hann týndist í nokkra áratugi en fannst 1989 aftur og sandur hreinsaður úr honum. Írskabyrgi er vestur af brunninum. Þar standa reisulegir veggir. Lagið á byrginu líkist kirkju. Austurgafl er bogamyndaður og inngangur á vesturgafli. Milli Bæjarhraunsins og þjóðvegarins, og víðar á svæðinu, eru margar rústir ókannaðar. Allt svæðið er friðað með öllum rústum og mannvirkjum. Í landi Gufuskála, á svokölluðum Gufuskálamóðum, var gerður flugvöllur árið 1945. Þaðan var áætlunarflug í rúman áratug, þar til vegasamband komst á fyrir Jökul. Um Gufuskálamóður fellur Móðulækur. Hann getur orðið býsna vatnsmikill þegar miklar leysingar eru í Snæfellsjökli. Lóranstöð var reist árið 1959 og rekin af Pósti og síma til ársloka 1994. Nú er þar langbylgjustöð Ríkisútvarpsins og mastrið sem nú er næsthæsta, en lengi var hæsta mannvirki í Evrópu, 412 m. Það er notað fyrir sendingar stöðvarinnar, sem sendir út á 189 kHz. Frá 1970 hefur verið þar veðurathugunarstöð. Árið 1997 fengu Slysavarnarfélag Íslands og Landsbjörg Gufuskála til afnota fyrir þjálfunarbúðir við leit og björgun. Árið 1999 hófst þar eiginleg starfsemi félaganna, sem voru um það leyti sameinuð í ein samtök undir nafninu: “Slysavarnafélagið Landsbjörg”. Miklar breytingar og lagfæringar hafa átt sér stað á húsnæði og aðstöðu til að mæta kröfum um alhliða þjálfunaraðstöðu. Aðstaðan er nú mjög góð. Þar eru tvær velbúnar kennslustofur, setustofa, útiæfingasvæði fyrir alhliða þjálfun og tvær samtals 30 manna svefnpokaíbúðir. Þar er einnig 70 manna matsalur með setustofu auk gistirýmis í 8 fullbúnum íbúðum fyrir samtals 60 manns. Þjálfunarbúðirnar eru notaðar af björgunarsveitum samtakanna, kvenna- og unglingadeildum, Björgunarskólanum, lögreglu og slökkviliðum. Jafnframt gefst félagsmönnum kostur á að leigja orlofsíbúðir, þegar laust er, ýmist eina helgi eða viku í senn. Auk þess er útivistarskóli samtakanna staðsettur á Gufuskálum yfir sumartímann, en hann er ætlaður ungu fólki með áhuga á útivist og fjallamennsku og þá eru þeim einnig kennd hin fjölmörgu undirstöðuatriði björgunarstarfa til sjós og lands. Saga. Gufuskála er getið í fornbréfasafninu árið 1274. Lengi var tvíbýli á Gufuskálum og átti konungur annan helming og kirkjan á Staðastað hinn helminginn. Á báðum helmingunum voru þurrabúðir og er talið að þær hafi verið allt að átta. Á 15. öld voru allt að 14 búðir á Gufuskálum og mátti hver hafa eitt skip. Lendingarnar á Gufuskálum þóttu hættulegar vegna brims. Síðasti ábúandinn á Gufuskálum var Þuríður Elínborg Þorbjarnardóttir en hún bjó á Gufuskálum til 1948 og komst þá jörðin í eigu ríkissjóðs. Árið 1950 var gerður flugvöllur á Gufuskálamóðum en hann er nú aflagður. Árin 1959 var byggð þar lóran fjarskiptastöð sem nú er aflögð. Gufuskálaland er innan landamerkja Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Landlukt land. Land telst landlukt ef það hefur ekki strandlengju að sjó. Í heiminum eru 43 landlukt lönd, og þar af eru tvö, Úsbekistan og Liechtenstein, tvílandlukt'", það er að segja að þau eiga eingöngu landamæri að landluktum löndum. Atlasfjöll. thumb Atlasfjöll eru 2400 km langur fjallgarður í norðvesturhluta Afríku sem liggur meðfram ströndum Marokkó, Alsír og Túnis, og skilur Atlantshafið og Miðjarðarhafið frá Sahara-eyðimörkinni. Gíbraltarhöfði er hluti fjallgarðsins. Hæsti tindurinn er Jbel Toubkal (4167 m) í suðvesturhluta Marokkó. Í Atlasfjöllum búa aðallega berbar og arabar. Atlasfjöllin eru fellingafjöll sem mynduðust við árekstur Afríkuflekans og Norður-Ameríkuflekans fyrir 66,5-1,8 milljónum ára. Marokkó. Marokkó er konungsríki í Norður-Afríku með strandlengju meðfram Atlantshafi í vestri og Miðjarðarhafi í norðri. Landamæri liggja að Vestur-Sahara í suðri, og Alsír í austri, en landamærin að Alsír eru lokuð. Marokkó gerir tilkall til landsvæðisins Vestur-Sahara sem hefur verið undir marokkóskri stjórn að meira eða minna leyti síðan 1975, en þau yfirráð hafa ekki verið viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Sé Vestur-Sahara talin til Marokkó, eru ennfremur landamæri við Máritaníu til suðausturs, en annars liggja Marokkó og Máritanía ekki saman. Jbel Toubkal. Jbel Toubkal 4.167 m hár fjallstindur í suðvestur Marokkó og hæsti tindur Atlasfjalla. Hann er staðsettur 63 km suður af borginni Marrakech í Toubkal þjóðgarðinum. Ido. Ido er tilbúið tungumál sem líkt og esperanto er ætlað að vera alþjóðatunga, annað tungumál á eftir móðurmáli. Ido var búið til snemma á tuttugustu öld. Það er reglulegt tungumál og án framburðarvandkvæða og órökvísi sem einkennir náttúruleg mál. Lunginn úr orðaforða Ido er fenginn úr indóevrópskum tungumálum. Kolskeggur Hámundarson. Kolskeggur Hámundarson (10. öld) var bróðir Gunnars á Hlíðarenda, líklega lítið eitt yngri en hann. Frá þeim bræðrum segir í Njáls sögu. Kolskeggur fylgdi jafnan Gunnari og virðist hafa litið á hann sem foringja í einu og öllu. Hann barðist með Gunnari í mörg skipti og meðal annars í bardaganum við Eystri-Rangá, þar sem Hjörtur bróðir þeirra féll. Leiðir þeirra Gunnars og Kolskeggs skildi þegar Gunnar neitaði að halda af landi brott í þrjú ár og sneri til baka. Þá viðhafði Kolskeggur þau ummæli að hann væri ekki slíkt lítilmenni að ganga á bak orða sinna. Ennfremur sagði hann við Gunnar að hann myndi aldrei aftur til Íslands snúa, því að hann myndi fregna Gunnar dauðan. Kolskeggur fór fyrst til Víkurinnar í Noregi, þaðan til Danmerkur og var þar með Sveini konungi tjúguskegg. Loks hélt hann þaðan til Miklagarðs. Þar giftist hann og kristnaðist og var væringjaforingi. Hann bjó í Miklagarði til dauðadags. Kári Sölmundarson. Kári Sölmundarson (um 970 - um 1030 eða lengur hugsanlega) var mikill kappi og bardagamaður. Hann var hirðmaður Sigurðar jarls í Orkneyjum er hann hitti þá Njálssyni, Helga og Grím, í kröppum leik er þeir lágu undir árásum skoskra víkinga. Voru það Grjótgarður og Snækólfur, synir Moldans úr Dungalsbæ og frændur Melkólfs skotakonungs, sem sumir telja að hafi verið Malcolm II Keneðsson. Kári veitti þeim bræðrum og vó Snækólf en Helgi Grjótgarð og báðust þá aðrir griða. Urðu þeir eftir það óaðskiljanlegir og fór Kári með þeim til Íslands. Kári var sonur Sölmundar Þorbjörnssonar, bónda á Hólum í Hrunamannahreppi, en afi hans, Þorbjörn jarlakappi hafði keypt þar land af Má Naddoðarsyni. Kári gekk að eiga Helgu Njálsdóttur og var hann því mágur Njálssona. Eftir það var hann með Skarphéðni og Helga og Grími í öllum þeirra stórræðum, sem leiddu til Njálsbrennu. Meðal annars átti hann hlut að máli er Höskuldur Hvítanessgoði var drepinn saklaus. Börn Kára og Helgu voru Þorgerður, Ragnheiður, Valgerður og Þórður Kárason (eldri), sem brann inni á Bergþórshvoli með afa sínum og ömmu. Kári slapp einn úr brennunni og loguðu þá hár hans og klæði, segir sagan. Eftir brennuna fór Kári víða og elti uppi brennumenn og drap þá hvern á fætur öðrum. Voru þá bandamenn hans Þorgeir skorargeir, frændi Njáls, og Björn í Mörk, (Björn að baki Kára). Barst leikurinn allt til Bretlandseyja, þar sem Kári hjó Kol Þorsteinsson „og nefndi höfuðið tíu er það fauk af bolnum“ segir Njála. Á meðan Kári var erlendis í þessum erindagjörðum dó Helga Njálsdóttir, kona hans. Næsta sumar kom Kári til Íslands og brutu þeir skip sitt við sandana sunnanlands. Menn komust af en töpuðu varningi sínum. Þá sagði Kári að nú skyldi reyna drengskap Flosa á Svínafelli, en það var næsti bær við slysstaðinn. Gengu þeir yfir sandana og komu að Svínafelli. Þar tók Flosi á móti þeim stórmannlega. Þekkti hann strax Kára og féllust þeir í faðma. Síðar gekk Kári að eiga Hildigunni Starkaðardóttur, sem áður var gift Höskuldi Hvítanessgoða, sem Kári hafði verið með í að drepa. Hildigunnur var bróðurdóttir Flosa. Er hjónaband þeirra af bókmenntafræðingum túlkað sem fyrirgefning eftir illvirki á báða bóga, en þau höfðu bæði átt um sárt að binda eftir þessa hildarleiki alla og að segja má hvort af annars völdum. Hildigunnur og Kári bjuggu á Breiðá, sem á miðöldum fór algjörlega undir jökul ásamt mörgum fleiri bújörðum. Börn þeirra voru Starkaður, Þórður (yngri) og Flosi. Kaldbakshorn. Kaldbakshorn er 508 m hátt fjall sem gnæfir yfir Kaldbaksvík á Ströndum. Fremst í fjallinu er þverhníptur hamar sem nær út að sjó. Framarlega í hamrinum er lóðrétt gjá sem er kölluð Svansgjá. Sagt er að Svanur á Svanshóli hafi sést ganga þar í fjallið þegar hann fórst við fiskveiðar undan Kaldbaksvík. Einnig er sagt að úr gjánni liggi göng undir fjallgarðinn að Svanshóli í Bjarnarfirði. Sveinn tjúguskegg. Sveinn tjúguskegg (~960 – 3. febrúar 1014) varð einn konungur Danmerkur um 986 en hafði áður verið konungur með föður sínum, Haraldi blátönn, um nokkurra ára skeið. Ekki er vitað hver móðir Sveins var en faðir hans var að minnsta kosti tvíkvæntur. Þeir feðgarnir urðu ósæáttir og leiddi Sveinn uppreisn gegn föður sínum sem leiddi til þess að hann var hrakinn frá völdum en Sveinn varð einn konungur. Haraldur flúði á náðir Jómsvíkinga og dó í Jómsborg ekki löngu síðar. Samkvæmt Saxo Grammaticus var hann særður til ólífis með ör frá Pálna-Tóka. Þá segir sagan að Jómsvíkingar hafi rænt Sveini og krafist þyngdar hans í gulli sem lausnargjalds, en danskar konur hafi þá látið skartgripi sína fyrir konunginn. Eftir þetta sóru Jómsvíkingar Sveini trúnað í erfidrykkju eftir Harald. Þessar frásagnir Saxo eru þó ekki taldar ýkja trúverðugar. Orrustan við Svoldur. Sveinn var víkingakonungur og fór í víking til Englands bæði fyrir og eftir að hann varð konungur. Í för með honum var Ólafur digri sem síðar varð konungur Noregs. Sveinn hafði tekið við Noregi eftir föður sinn, en Hákon Sigurðarson Hlaðajarl fór í raun með öll völd. Hákon varð þó með tímanum óvinsæll og þegar Ólafur Tryggvason hélt til Noregs frá Englandi tókst honum að ná undir sig völdum, drap Hákon og varð konungur. Systir Sveins, Þyri, var þá gift Búrisláf konung Vinda en var ósátt við þann ráðahag. Hún skildi við hann en hélt til Noregs og giftist Ólafi í óþökk Sveins. Þegar Ólafur var á heimleið eftir að hafa krafist heimanmundar Þyri í Pommern, sátu þeir fyrir honum, Sveinn mágur hans, Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl og Ólafur skotkonungur úr Svíþjóð við eyjuna Svoldur. Í sjóorrustunni stökk Ólafur Tryggvason fyrir borð og týndist. Sveinn tók þá aftur við ríki í Noregi, en Eiríkur jarl og bróðir hans Sveinn fóru þó með öll völd annars staðar en í Víkinni. Innrásin í England. Sveinn tjúguskegg. Lágmynd í Swansea Guildhall í Wales. Sveinn réðist inn í England 1003 vegna þjóðernishreinsana Aðalráðs ráðlausa, Englandskonungs, á norrænu fólki í Danalögum. Gunnhildur, systir Sveins, hafði þá verið drepin af mönnum Aðalráðs. Aðalráður sá sér þann kost vænstan að semja um frið og Sveinn innheimti hátt lausnargjald, Danagjöld, fyrir að hafa sig á brott. Árið 1013 gerði Sveinn allsherjar innrás í England, ásamt Knúti syni sínum, með það að markmiði að leggja landið undir sig. Þegar Sveinn réðst á London er sagt að íbúar borgarinnar hafi rifið brúna yfir ána Thames (sbr. barnagæluna "London bridge is falling down") til að reyna að hindra framrás víkinganna. Sveinn þurfti að hörfa, en næstu mánuði lagði hann undir sig allt England, nema London, þar sem Aðalráður hélt sig. Þegar Aðalráður flúði til Normandí síðla árs 1013 varð Sveinn formlega konungur Englands. Hann naut þess þó ekki lengi því að einungis fimm vikum síðar lést hann í Gainsborough. Hann var fyrst lagður til hvílu í dómkirkjunni í Jórvík en seinna voru jarðneskar leifar hans fluttar í Hróarskeldudómkirkju. Eftirmenn Sveins. Fyrri kona Sveins var Gunnhildur, hertogadóttir frá Póllandi, og áttu þau synina Harald 2. og Knút ríka. Seinni kona hans var Sigríður stórráða drottning í Svíþjóð og var dóttir þeirra Ástríður, móðir Sveins Ástríðarsonar. Haraldur, elsti sonur Sveins, tók við ríki í Danmörku. Bróðir hans, Knútur, sem hafði verið með Sveini í víking á Englandi sneri heim með flotann, en Haraldur vildi ekki hafa hann í Danmörku með allan þennan her. Aðalráður sneri í millitíðinni aftur heim til Englands og reyndi að komast aftur til valda ásamt syni sínum, Játmundi járnsíðu. Knútur hélt þá flotanum til Englands, barðist við þá og hafði sigur að lokum. Auknefni konungsins vísar líklega til yfirvaraskeggs sem skipt er í miðju, sem var í tísku í Englandi á þessum tíma, en ekki til tvískipts hökuskeggs. Saxo Grammaticus. "Ei skal ég heldur láta iðni Íslendinga liggja í þagnargildi. Sökum þess hve hrjóstrug er feðrajörð þeirra, hafa þeir orðið að lifa hófsömu lífi, og leggja þeir í vana sinn að safna þekkingu um afrek annarra og gera hana lýðum ljósa, bæta þeir sér þannig veraldlega fátækt sína með auðlegð andans. Þykir þeim góð skemmtan að fræðast um það, er sögulegt gerist með öllum þjóðum, og skrá það til arfs handa þeim, er eftir koma, og sýnist þeim eigi minni heiður að segja frá stórvirkjum annarra en sjálfir vinna þau. Fjárhirslur þeirra, sem eru fullar af kostugum sögum um viðburði fortíðarinnar, hefi ég gaumgæfilega rannsakað, og eigi alllítinn hluta af verki þessu hefi ég grundvallað sögum þeirra, því ég hefi ekki álitið það ósamboðið virðingu minni að nota þá sem heimildarmenn, þar eð ég vissi, hversu vel fornöld var þeim kunn." — Um Íslendinga, þýðing á textabroti eftir Saxo Grammaticus 13. öld Saxo Grammaticus (f. 1150 d. 1220) (Saxi málspaki) var danskur sagnaritari sem skrifaði sögu Danmerkur, "Gesta Danorum", í sextán bindum. Hann hefur líklega starfað hjá Absalon, sem var biskup í Hróarskeldu og síðar erkibiskup í Lundi. Að öðru leyti er afar lítið vitað um Saxo, utan það sem hann segir sjálfur í bók sinni. „Grammaticus“ (= málfræðingur) er viðurnefni sem honum var gefið síðar, vegna þess hve vel hann skrifar á latínu. Gufuþrýstingur. Gufuþrýstingur (einnig eimþrýstingur eða uppgufunarþrýstingur) er þrýstingur efnis í gufuformi (hlutþrýstingur ef gufan er úr fleiri en einu efni). Við ákveðið hitastig, fyrir gefið efni, er til þrýstingur þar sem gufuform þessa efnis er í jafnvægi við vökva- og fast form þess. Þetta er mettunarþrýstingur (eða mettunareimþrýstingur) þessa efnis við það hitastig. Efni með háan gufuþrýsting við venjulegt hitastig er kallað "rokgjarnt". Vökvar. Þegar hlutþrýstingur hvaða vökva sem er samsvarar gufuþrýstingi þess, er vökvinn að hluta til uppgufaður: vökvinn og gufan eru í jafnvægi. Við fast hitastig, ef þrýstingurinn er lækkaður, breytist þetta jafnvægi í hag gasforms efnisins: Vökvinn gufar algerlega upp. Ef að þrýstingurinn er á hinn bóginn aukinn, gerist hið andstæða: Gufan þéttist á endanum yfir í vökva. Við fastan þrýsting en breytilegt hitastig, veldur lækkandi hitastig því að öll gufan þéttist í vökva, en hækkandi hitastig veldur því að vökvinn gufar algerlega upp. Við ákveðinn þrýsting er suðumark efnis það hitastig sem þarf til að gufuþrýstingur efnisins í "vökvaformi" samsvari umhverfisþrýstingi. Hægt er að seinka þessu uppgufunar- og þéttunarferli og er það þá hvert um sig kallað yfirhitun og yfirmettun. Föst efni. Þegar umhverfisþrýstingurinn jafngildir gufuþrýstingi fasts efnis, er fasta- og gufuformið í jafnvægi. Fyrir neðan það hitastig breytist gufan í fast efni; og fyrir ofan, þurrgufar fasta efnið (það er, breytist beint í gufuform án þess að bráðna fyrst). Við hvaða þrýsting sem er, er þar af leiðandi þurrgufunarstig efnis það hitastig sem að gufuþrýstingur efnisins "í föstu formi" jafngildir umhverfistþrýstingi. Tengsl. Það mætti taka það fram að gufuþrýstingur efnis í vökvaform getur verið (og "er" yfirleitt) frábrugðinn gufuþrýstingi sama efnis í föstu formi. Ef hitastigið er þannig að gufuþrýstingur vökvaformsins sé hærri en fasta formsins, gufar vökvinn upp, en gufan breytist í fast efni (vökvinn er að "frjósa"). Aftur á móti ef hitastigið er þannig að gufuþrýstingur vökvaformsins sé lægri en gufuþrýstingur fasta formins, gufar fasta efnið upp en gufan þéttist í vökva (fasta efnið er að "bráðna"). Við það hitastig sem að jafnar báðar gufuþrýstingstölurnar, er jafnvægi milli fasta- og vökvaformsins. Þetta hitastig er kallað bræðslumark efnisins. Vatn. formula_1 þar sem að hitastig er í gráðum Celsíus og þrýstingurinn "p" er í paskölum. Hægt er að fá gefinn gufuþrýstinginn með því að leysa þessa jöfnu fyrir "p". Lögmál Raoults segir hér um bil til um gufuþrýsting vökvablandna. Faðir vor. Faðir vor (eða faðirvor eða faðirvorið) er líklega þekktasta bænin í Kristni. Bænin er í Biblíunni, nánar tiltekið í Mattheusarguðspjalli, 6. kapítula, versum 9-13. Hugtakið "faðir vor" á við Guð. Á grísku. Bænin á grísku sem hefur verið þýdd á önnur mál. Endurkvæmt fall. Endurkvæmt fall er fall sem kallar á sjálft sig beint eða óbeint, endurkvæm föll eru mikið notuð í fallaforritun því þau koma í stað venjulegra lykkja. Dæmi. Í þessu C99 forriti eru tvö föll, rfactorial og factorial skilgreind, það fyrra reiknar aðfeldi tölunnar 5 á endurkvæman hátt en það seinna reiknar það sama með for-lykkju. Berlín. Berlín er höfuðborg Þýskalands og einnig stærsta borg þess með tæpar 3,48 milljónir íbúa en flestir hafa íbúarnir verið 4,3 milljónir, fyrir síðari heimsstyrjöld. Borgin er einnig sú næstfjölmennasta innan Evrópusambandsins á eftir London ef miðað er við opinber borgarmörk. Berlín stendur við árnar Spree og Havel í norðaustanverðu Þýskalandi og er umlukt sambandslandinu Brandenborg, en borgin sjálf er sjálfstætt sambandsland. Upphaf og miðaldir. Upphaf Berlínar má rekja til 13. aldar en þá eru til staðar tveir bæir gegnt hvor öðrum við ána Spree. Þeir hétu "Berlin" og Cölln. Berlin er dregið af slavneska orðinu "berl", sem merkir mýri eða votlendi. Heitið hefur ekkert með birni að gera eins og margir halda, þó að í dag sé björn í skjaldarmerki og fána borgarinnar. Bærinn Cölln var nefnur eftir borginni Köln við Rín. 1307 sameinuðust bæirnir og mynduðu borgina Berlin-Cölln. Aðrir núverandi borgarhlutar eru þó eldri. Til dæmis kemur Spandau fyrst við skjöl 1197 og Köpenick 1209 en þetta voru sjálfstæðar borgir allt fram í byrjun 20. aldar. Uppgangur og styrjaldir. 1415 varð Friðrik I af Hohenzollern-ætt kjörfursti Brandenborgar (og þar með Berlínar). Hohenzollern-ættin átti eftir að ríkja í Berlín sem hertogar, kjörfurstar, konungar og keisarar allt til 1918. 30 ára stríðið á 17. öld hafði geigvænlegar afleiðingar fyrir Berlín. Barist var utan borgar sem innan, aðallega gegn keisaraliðinu. Þriðjungur allra bygginga skemmdust og íbúafjöldinn minnkaði um helming. Eftir stríð náði borgin sér þó furðu hratt. Íbúum fjölgaði, ekki síst er Friðrik Vilhjálmur (kallaður "Der grosse Kurfürst"), bauð frönskum húgenottum hæli í borginni. Þá risu nokkur frönsk hverfi. Árið 1700 var fimmtungur borgarbúa franskur. Einnig komu innflytjendur frá Bæheimi og Póllandi. Berlín sem höfuðborg Prússlands. Árið 1701 krýndi Friðrik III sig til konungs og kallaðist þá Friðrik I. Prússland myndaðist sem konungsríki og varð Berlín þá höfuðborg. Sonur Friðriks I, Friðrik Vilhjálmur, gerði Prússland að stórveldi. Íbúatalan jókst úr 55 þúsund í 100 þúsund í hans tíð. Hann fjölgaði hermönnum úr 5 þúsund í 26 þúsund. Árið 1740 tók sonur hans við, Friðrik II. Hann hernam Slesíu í Póllandi, var einn af sigurvegurunum í 7 ára stríðinu og fékk viðurnefnið "Der Grosse" ("Hinn mikli"). Eftir sigur Napoleons á Prússum í orrustunum við Jena og Auerstedt var leiðin greið til Berlínar. Napoleon og herlið hans þrammaði í gegnum hið nýreista Brandenborgarhlið og hertók borgina. Frakkar urðu hins vegar til þess að menning borgarinnar tók stökk upp á við. Mynduð var borgarstjórn, Humboldt-háskólinn var stofnaður, fyrsta dagblaðið hóf göngu sína. Í iðnbyltingunni um miðja 19. öld óx Berlín hratt. 1838 var fyrsta járnbrautin lögð frá Berlín og gekk hún til Potsdam. Íbúafjöldinn margfaldaðist. Árið 1819 voru íbúar rétt um 200 þúsund en náðu einni milljón 1877. 1871 var Vilhjálmur Prússakonungur krýndur til keisara í Versölum. Það með varð Berlín að keisaraborg en það stóð aðeins í 37 ár. Við tap Þýskalands í heimstyrjöldinni fyrri var keisaraveldið lagt niður. Við tók Weimar-lýðveldið. Weimar-lýðveldið. Skömmu eftir að Weimar-lýðveldið var stofnað, voru borgarmörkin útvíkkuð talsvert. Sjö nágrannaborgir voru sameinaðar Berlín, svo sem Köpenick og Spandau. Íbúafjöldinn fór í 3,8 milljónir, talsvert meira en er í dag. Þrátt fyrir háar stríðsskaðabætur sem Þýskaland þurfti að greiða eftir heimstyrjöldina fyrri, var Berlín menningarleg heimsborg. Tími þessi kallast "Die Goldene Zwanziger" ("Hinn gullni 3. áratugur") og einkenndist hann af mikilli kvikmyndagerð, leikhússýningum, listaviðburðum og næturlíf. Næturlíf þessa tíma eru gerð góð skil í kvikmyndinni Cabaret frá 1972. Einnig áttu vísindin mikla uppsveiflu á þessum tíma í borginni. Meðan menningarlífið stóð í blóma, urðu mikil tíðindi í stjórnmálum. Þjóðarflokkur Hitlers (NSDAP) varð æ vinsælli. Hinn aldni ríkisforseti, Paul von Hindenburg, sá sig tilneyddan til að veita Hitler kanslaraembættið í janúar 1933. Mánuð seinna brann ríkisþinghúsið (Reichstag) í Berlín. Hitler leysti þá þingið upp og flokkur hans hrifsaði til sín völdin. Endalok Weimar-lýðveldisins var staðreynd. Í hönd fór eitt grimmasta tímabil í sögu Þýskalands. Þriðja ríkið og heimstyrjöldin síðari. Strax við valdatöku Hitlers upplifðu gyðingar í borginni sínar fyrstu ofsóknir. Hundruðir flúðu land, ekki síst vísindamenn (til dæmis Lise Meitner, Albert Einstein). Þrátt fyrir þetta voru Ólympíuleikarnir haldnir í Berlín 1936. Nóttina 9.–10. nóvember var kveikt í öllum bænahúsum gyðinga í borginni. Þúsundir gyðinga voru handteknar og verslanir þeirra eyðilagðar. Af upphaflega 75 þúsund gyðingum í borginni, lifðu aðeins 1.200 þeirra þriðja ríkið af. 1939 hófst heimstyrjöldin síðari. Strax ári seinna varð Berlín fyrir fyrstu loftárásum Breta. Skemmdir voru takmarkaðar í upphafi. En þegar Bandaríkjamenn tóku þátt í loftárásunum urðu skemmdirnar gífurlegar. Hitler stjórnaði ríkinu að mestu úr neðanjarðarbyrgi sínu (nálægt Potsdamer Platz) í skjóli fyrir öllum árásum. Loftárásum linnti ekki fyrr en Rússar stóðu fyrir borgardyrunum í apríl 1945 en þá var verulega tekið að halla á stríðsgæfu Þjóðverja. Rússar hertóku borgina eftir ákafa götubardaga. Hitler sjálfur framdi sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi sínu 30. apríl. 2. maí gafst borgin upp. Berlín var þá rjúkandi rúst. Um fimmtungur allra bygginga voru gjöreyðilagðar (600 þúsund íbúðir), þar af helmingur í miðborginni. Eftirstríðsárin. a> var landamærastöð milli bandaríska og rússneska hernámssvæðisins í Berlín Eftir lok stríðsins var Berlín skipt upp í fjóra hluta á milli hernámsveldanna. Sovétmenn voru í austurhluta borgarinnar en Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn í vesturhlutanum. Yfirmenn herjanna mynduðu sameiginlega borgarstjórn. En brátt kom upp missætti milli herveldanna. Í júní 1948 fór svo að Sovétmenn lokuðu öllum götum og lestarteinum sem lágu í kringum hernámssvæði bandamanna. Þar sem vesturhluti Berlínar var sem eyja í sovéska hernámshlutanum í Þýskalandi, varð hann með öllu einangraður. Matar- og eldsneytisskortur gerði vart við sig í vesturhluta Berlínar. Því tóku Bandaríkjamenn á það ráð að fljúga með matvæli og nauðsynjavörur til borgarinnar. Þessi aðgerð kallaðist "Luftbrücke" ("Loftbrú"). Tempelhof-flugvöllur varð því að nokkurs konar lífæð borgarinnar. Þegar Sovétmenn sáu að lokanir þeirra skiluðu ekki tilætluðun árangri, var umferðinni hleypt á aftur. Kalda stríðið var í algleymingi. 1949 var Sambandsríki Þýskalands stofnað með höfuðborg í Bonn. Aðeins nokkrum mánuðum seinna var Alþýðulýðveldi Þýskalands stofnað. Austur-Berlín varð höfuðborg Austur-Þýskalands, en Vestur Berlín var aðeins eitt af sambandríkjum Vestur-Þýskalands. 1961 hóf austurþýska stjórnin að reisa múr meðfram gjörvöllum landamærum ríkjanna tveggja. Var þá einnig reistur múr umhverfis Vestur-Berlín. Tilgangur múrsins var að varna því að fólk frá Austur-Þýskalandi kæmist til vesturs en tugþúsundir manna yfirgáfu Austur-Þýskaland árin áður. Með tilkomu Berlínarmúrsins var einangrun Vestur-Berlínar fullkomnuð. Aðeins tveimur árum seinna kom John F. Kennedy, Bandaríkjaforseti, í heimsókn til Vestur-Þýskalands. Í þeirri för kom hann einnig til Berlínar. Á stórum útifundi fyrir framan ráðhúsið lét hann þessi sögufrægu orð falla: „"Ich bin ein Berliner"“ ("Ég er Berlínarbúi"). 1989 fóru gríðarlarlegar mótmælaöldur fram í ýmsum austurþýskum borgum. Eftir að Gorbachev, forseti Sovétríkjanna, hélt ræðu í Austur-Berlín um að flóttamönnum frá Austur-Þýskalandi, sem flúðu land í gegnum Ungverjaland og Tékkóslóvakíu, yrðu ekki stöðvaðir, fór mikill neisti um íbúa Berlínar, bæði í austri og vestri. Fólk fór að safnast saman við Berlínarmúrinn. Sumir hömruðu í hann og aðrir klifruðu upp á hann. Í nóvember var ákveðið að létta á ferðabanni og hluti múrsins var opnaður. Samstundis streymdu þúsundir manna yfir til Vestur-Berlínar. Næstu daga voru ýmsar landamærastöðvar opnaðar, bæði í Berlín og annars staðar í Þýskalandi. Fall múrsins var staðreynd. Þó voru löndin bæði ekki sameinuð fyrr en á næsta ári. 1991 var ákveðið að flytja þýska þingið aftur til Berlínar. Sá flutningur fór fram allt til ársins 1999. Berlín var þar með aftur orðin að höfuðborg sameinaðs Þýskalands. Íþróttir. Berlín er Ólympíuborg. Þar voru Sumarólympíuleikarnir haldnir árið 1936, meðan þriðja ríkið var við lýði. Borgin sótti um leikana fyrir árið 2000 en þá varð Sydney fyrir valinu. Mörg íþróttafélög eru starfandi í Berlín. Þekktasta knattspyrnufélag borgarinnar er Hertha Berlin en það hefur tvisvar orðið þýskur meistari, 1930 og 1931. Heimavöllur liðsins er Ólympíuleikvangurinn sjálfur. Íslenski knattspyrnumaðurinn Eyjólfur Sverrisson lék með félaginu 1996-2002. Næst Herthu í vinsældum kemur 1. FC Union Berlin, sem er úr austurhluta Berlínar og leikur á Stadion an der Alten Försterei. Veturinn 2012/2013 munu félögin leika í sömu deild, þeirri næstefstu, þar sem að lið Herthu Berlínar féll úr efstu deild vorið 2012. Ólympíuleikvangurinn er árlega notaður fyrir úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Á honum fór einnig fram úrslitaleikur í HM í knattspyrnu árið 2006, en þá vann Ítalía Frakkland. Helsta handboltaliðið er Füchse Berlín. Besti árangur liðsins er þriðja sætið í þýsku deildinni (tvisvar). Tveir Íslendingar eru í liðinu: Dagur Sigurðsson (þjálfari) og Alexander Petersson. Allt frá 1974 hefur verið haldið Maraþonhlaup í borginni ("Berlin-Marathon"). Núverandi heimsmet í greininni á Haile Gebrselassie, en hann setti það í hlaupinu í Berlín 2008. Byggingar og kennileiti. Flestar þekktar byggingar Berlínar eru í borgarhlutanum Mitte, enda var hann miðborg Berlínar fyrir skiptingu, en einnig miðborg Austur-Berlínar fyrir sameiningu. Þekktasta bygging borgarinnar er Brandenborgarhliðið. Það er jafnframt orðið að þjóðartákni Þjóðverja eftir fall Berlínarmúrsins. Múrinn var aðeins í nokkra metra fjarlægð frá hliðinu, sem stóð austan við múrinn, þannig að það myndaði nokkurs konar botnlanga í miðborg Austur-Berlínar. Skammt norður af hliðinu stendur hið fræga ríkisþinghús ("Reichstag"). Það var reist sem þinghús á keisaratíma Prússlands og þar var Weimar-lýðveldið stofnað. Þegar bruninn í húsinu átti sér stað 1933, notaði Hitler sér hann sem átyllu til að auka völd sín og mynda þriðja ríkið. Þinghús þetta er næstvinsælasti ferðamannastaður Þýskalands, á eftir dómkirkjunni í Köln. Við Friedrichstrasse stóð varðstöðin Checkpoint Charlie. Hún var landamærastöð milli bandaríska og sovéska hernámssvæðanna á tíma kalda stríðsins. Safnaeyjan Museumsinsel er eyja í ánni Spree í miðborginni. Þar eru fjöldi safnhúsa, svo sem Pergamonsafnið ("Pergamonmuseum"), Bodesafnið ("Bodemuseum"), Altes Museum og Alte Nationalgalerie. Einnig er á eyjunni dómkirkjan í Berlín (Berliner Dom) og gamla þinghús Austur-Þýskalands ("Palast der Republik"), sem var rifið 2008. Gendarmenmarkt er stórt bílalaust torg rétt sunnan við breiðgötuna Unter den Linden. Það er af mörgum talið fegursta torg borgarinnar. Þar eru franska dómkirkjan ("Französischer Dom"), þýska dómkirkjan ("Deutscher Dom") og tónlistarhúsið Konzerthaus. Alexanderplatz er stórt og mikið umferðartorg í austurhluta borgarinnar. Þar stendur sjónvarpsturninn en hann er hæsta bygging borgarinnar. Þar nálægt er einnig rauða ráðhúsið ("Rotes Rathaus"), sem var ráðhús Austur-Berlínar meðan borgin var skipt. Það þjónar enn sem aðalráðhús borgarinnar. Aðra markverða staði og byggingar í Austur-Berlín má nefna Nicolai-hverfið, bænahús gyðinga (Neue Synagoge), stríðsminnisvarðann Neue Wache og leifar Berlínarmúrsins við aðaljárnbrautarstöðina. Miðborg Vestur-Berlínar var í kringum torgið Breitscheidplatz og breiðgötuna Kurfürstendamm. Við Breitscheidplatz er minningarkirkjan Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche sem eyðilagðist í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Turn hennar hefur staðið síðan sem minnisvarði um hrylling stríðsins. Gegnt kirkjunni er verslunarmiðstöðin Europacenter. Þar rétt hjá er dýragarður Vestur-Berlínar, Zoologischer Garten, en hann er elsti dýragarður Þýskalands. Aðrir merkir staðir í Vestur-Berlín eru Pfaueninsel í Zehlendorf, virkið Zitadelle í Spandau, Charlottenburg-kastali, Ólympíuleikvangurinn í Berlín, sigursúlan við breiðgötuna þar sem hin árlega gleðiganga (Love Parade) fer fram, og brúin Oberbaumbrücke í Kreuzberg. Jarðsögutímatal. Jarðsögutímatal er yfirlit yfir tímabil jarðsögunnar. Það er stigskipt og samanstendur af tímaskeiði, tíma, tímabili, öld og aldabili. Hver öld, eða hvert aldabil, sem nær yfir marga tugi eða hundruð milljóna ára, einkennist af mjög mismunandi skilyrðum og einstökum vistkerfum. T.d. lifðu risaeðlur einungis á miðlífsöld, spendýrin hafa verið ríkjandi á nýlífsöld o.s.frv. Ásaskóli. Ásaskóli í Gnúpverjahreppi er elsti heimavistar-barnaskóli landsins, byggður 1923. Hann er í landi Ása, á eyrum Kálfár. Í Ásaskóla er nú búið og hafa miklar endurbætur verið gerðar á húsnæðinu, sem var í niðurníðslu. Gnúpverjaskóli tók við af honum sem grunnskóli sveitarinnar árið 1986. Húsnæðið. Á lofti skólans var heimavistin og vistarverur barnanna. Þau dvöldust að jafnaði í skólanum í tvær vikur í senn. Á neðri hæð eru eldhús, skólastofur og salur. Úti var stór flöt og áhorfendapallar í brekkunni fyrir ofan. Steindafræði. Steindafræði er undirgrein jarðfræðinnar sem fæst við rannsóknir á efnafræði, kristalbyggingu og eðliseiginleikum (þ.á m. ljósfræði) steinda. Þau ferli sem stuðla að myndun og eyðingu steinda eru einnig meðal viðfangsefna steindafræðinnar. Þeir sem leggja stund á greinina kallast steindafræðingar. Georg Agricola er álitinn upphafsmaður steindafræðinnar. Frá árinu 2004 eru yfir 4.000 tegundir steinda viðurkenndar af alþjóðasteindarfræðisamtökunum (IMA). Af þessum steindum eru 150 taldar vera algengar en aðrar 50 sagðar koma einstöku sinnum fyrir. Afgangurinn flokkast til mjög sjaldgæfra steinda. Steind. Steind (eða steinefni eða steintegund) er í steindafræði náttúrlegt efnasamband sem myndast við jarðfræðilegt ferli. Hugtakið nær ekki aðeins yfir efnasamsetningu heldur einnig yfir uppbyggingu. Samsetning steinda getur verið allt frá hreinum frumefnum og einföldum söltum, allt upp í flókin silíköt sem geta haft þúsundir þekktra afbrigða (lífræn sambönd eru venjulega undanskilin). Bergtegundir eru flokkaðar eftir því hvernig steindir þær hafa að geyma. Steindir eru alltaf með sömu efnasamsetningu og jafna kristallauppbyggingu sem endurtekur sig í það óendanlega. Náttúruminjaskrá. Náttúruminjaskrá er listi yfir öll friðlýst svæði á Íslandi og mörg önnur merkileg svæði sem hafa ekki enn verið friðlýst. Hún er birt í Stjórnartíðindum og staðfest af ráðherra. Náttúruverndarráð hefur einnig gefið skrána út í sérriti til að kynna friðlýstu svæðin, en ekki síður þau sem áhugi er á að verði friðlýst svo að fólk geti stuðlað að verndun þeirra. Tunglið. Tunglið, eða máninn, er eini fylgihnöttur jarðar. Meðalfjarlægð tungls og jarðar er 384.403 km og þvermál þess er 3.476 km. Það hefur "bundinn möndulsnúning", þ.e. tunglið snýr alltaf sömu hlið að jörðinni. Tunglið fer einn hring umhverfis jörðina á u.þ.b. einum mánuði og á hverri klukkustund færist það miðað við fastastjörnunar, um 0,5° á himinhvelfingunni, eða um fjarlægð sem er u.þ.b. jöfn sýndarþvermáli þess. Tunglmyrkvi verður þegar tunglið fer inn í alskugga jarðar, þ.a jörðin skyggir á sólu frá tunglinu séð. Uppruni. Ekki eru menn allir sammála um hvernig tunglið myndaðist. Ótal misgáfulegar hugmyndir eru til um uppruna þess og verður fjallað um þær fjórar sem taldar eru mest líklegar hér á eftir. Samansöfnunarkenningin. Einfaldasta kenningin er sú að tunglið og jörðin hafi myndast saman fyrir óralöngu, strax og sólkerfið tók að myndast og tunglið byrjað að snúast um jörðu strax frá upphafi. Hún verður reyndar að teljast í ólíklegri kantinum þar sem efnasamsetning hnattanna er svo ólík að þeir geta ekki hafa myndast úr sama efninu. Hremmikenningin. Önnur kenningin gengur út á það að tunglið hafi myndast sjálfstætt, en komið of nálægt jörðu. Við það festist það á sporbraut um jörðina og hefur ekki losnað síðan. Þessi kenning er líka í ólíklegra lagi, því ef hún stæðist, ætti jörðin að bera merki um að jarðskorpan hefði rifnað í sundur og gríðarleg eldgos hefðu geysað um alla jörðina. Þau ummerki hafa ekki fundist, allavega ekki ennþá og er mjög ólíklegt að þau finnist nokkurn tíman. Það er þó ekki hægt að útiloka þennan möguleika því við getum ekki afsannað slík eldsumbrot vegna flekahreyfinganna. Jarðskorpan endurnýjar sig sem gerir það að verkum að gömul jarðlög, ekki síst jarðlög frá þeim tíma er tunglið myndaðist, hafa annað hvort eyðst eða eru undir nýrri jarðlögum og er því nánast ógerlegt að rannsaka þau. Klofningskenningin. Klofningskenningin gerir ráð fyrir að jörðin hafi upphaflega verið án fylgihnatta, svo hafi hún skyndilega byrjað að snúast svo hratt að hluti jarðar hafi losnað og myndað tunglið. Þetta þykir þó óhugsandi. Ef hnöttur færi að snúast það hratt að hann klofnaði er útilokað að annar hlutinn færi á braut um hinn, heldur myndu þeir báðir losna úr þyngdarsviði hvors annars. Ein útgáfan af þessari kenningu gerir ráð fyrir að annað brotið sé tunglið og hitt mars. Árekstrarkenningin. Sú kenning er tiltölulega ung en hún kom fyrst fram árið 1975 og segir að fyrirbæri á stærð við Mars hafi rekist á jörðina af gríðarlegu afli með þeim afleiðingum að kjarnar þeirra runnu saman, en bráðinn möttull aðkomuhnattarins hafi lekið út í geiminn og storknað á braut um jörðu. Stærð hnattarins sem keyrði inn í jörðina hefur haft mikil áhrif á hana og talið er að möndulhalli hennar hafi að einhverju leiti ráðist af því. Í dag er árekstrarkenningin sú kenning sem mönnum finnst líklegust. Ytri gerð. Þegar fyrstu stjörnufræðingarnir fóru að pæla í tunglinu, tóku þeir eftir að yfirborð þess skiptist í ljós og dökk svæði og töldu vera lönd og höf. Enn í dag er talað um höf þegar talað er um dökku svæðin, þrátt fyrir að þau séu það ekki í orðsins fyllstu merkingu. Höfin mynduðust þegar stórir loftsteinar rákust á tunglið með það miklum krafti að þeir náðu í gegnum jarðskorpuna og inn í möttul sem þá var fljótandi. Við það lak hraun úr gatinu og þakti hluta af hnettinum. Þetta þýðir að dökku svæðin hafa myndast fyrir meira en þremur milljörðum árum síðan, því samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á sýnum sem geimfarar tóku með sér frá tunglinu, lauk eldvirkni á tunglinu þá. Ljósu svæðin (hálendi) á tunglinu eru fjöll og gígar. Þau eru um 4-4,3 milljarða ára gömul og þekja stærsta hluta yfirborðs tunglsins, eða 84%. Bergtegund sem kallast anortosít veldur hvíta litnum á hálendi tunglsins. Þessi bergtegund inniheldur frumefnin ál kalsíum og kísil. Fjöllin eru elsti hluti tunglsins, öfugt við jörðina. Þetta á sér þá útskýringu að þegar tunglið var nýmyndað gaus það eins og jörðin og við það mynduðust fjöll. Bakhlið tunglsins er nánast bara hálendi en það er vegna þess að aðdráttarafl jarðar er svo mikið að þegar tunglið var að myndast sigu öll þungu efnin inn í miðju sem er 2,5 km frá rúmfræðilegri miðju þess. Þetta kallast bundinn möndulsnúningur. Það er einnig ástæða þess að við sjáum aðeins aðra hlið tunglsins. Innri gerð. Tunglið hefur u.þ.b. 70 km þykka skorpu. Hún er samsett úr fjölmörgum frumefnum, t.d. úrani, þóríum, kalíum, súrefni, kísli, magnesíum, járni, títan, kalsíni, áli og vetni. Undir henni er svo möttull. Hann er gerður að mestu leyti úr sílíkati. Möttullinn er nánast allt rúmmál tunglsins, svo segja má að tunglið sé að mestu úr sílíkati. Ekki eru menn alveg vissir um hvort kjarninn er fljótandi eða fastur, en menn telja þó frekar að hann sé fljótandi. Ástæðan fyrir því er sú, að nokkrir “tunglskjálftamælar” sem var komið fyrir á tunglinu, sýndu að þegar loftsteinn rakst á það fóru P-bylgjurnar sem mynduðust við áreksturinn í gegnum tunglið en ekki S-bylgjurnar. Kvartilaskipti. right Sólin skín ávallt á helming tunglsins (nema í tunglmyrkvum) og þess vegna sjáum við aðeins þann hluta tunglsins. Þegar talað er um fullt tungl þýðir það að sólin skín akkúrat á þann helming tunglsins sem við sjáum frá jörðinni. Þegar sólin skín á hina hliðina er talað um nýtt tungl. Fyrsta kvartil er þegar tunglið er að vaxa, en er ekki orðið hálft. Á öðru kvartili er það einnig vaxandi, en þá er það meira en hálft. Ef tunglið er á þriðja kvartili þýðir það að það er byrjað að minnka, en komið niður í að verða hálft tungl og loks þegar tunglið er á fjórða kvartili er það orðið minna, en helmingurinn sem lýsir og minnkar.. Tunglferðir. Draumurinn um að maður kæmist á tunglið varð að veruleika þann 21. júlí 1969 þegar menn um borð í geimferjunni Apollo 11 stigu á tunglið. Fyrstur til þess að vinna þetta afrek var Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong og annar var Edwin Aldrin, sem einnig var um borð í Apollo 11. Þeir tóku margar myndir af tunglinu og útsýninu þaðan. Þeir söfnuðu líka ryki og bergi og komu með til jarðar til rannsókna. Þetta átti eftir að vera mjög fróðlegt fyrir vísindamenn og aðra sem þyrstu í að vita meira um tunglið, upphaf þess, gerð og jafnvel endalok þess. Alls hafa 12 menn stigið fæti á tunglið, allir á árunum 1969-1972. Þessir tólf menn voru um borð í 6 Apollo geimförum. Apollo geimförin samanstóðu af þremur hlutum: stýrieiningu, þjónustueiningu og tunglfari. Áður en Apollo geimförin hófu sig á loft höfðu menn þó náð að koma mannlausum geimförum til tunglsins og safnað sýnum. Þetta voru sovésk geimför sem kölluðust Luna-geimför, og það fyrsta lenti á tunglinu árið 1959. Ári síðar lenti bandarísk geimferja þar og svo aftur árið 1966 með Lunar-Orbiter verkefninu. Lunar-Orbiter hjálpaði til við val á lendingarstað Apollo geimfaranna með því að taka fyrstu hágæða myndir af yfirborði tunglsins.. Jarðvegur. Mynd sem sýnir algengan þverskurð af jarðvegslögum Jarðvegur er jarðlag eða setlag úr steindum og lífrænum efnum. Þykkt jarðvegs getur verið frá sentímetrum upp í meira en metra á yfirborði lands. Uppistöðuefni jarðvegs eru bergbrot og steindir, lífræn efni, vatn og loft. Jarðvegsgerðir eru mismunandi eftir hlutföllum þessara uppistöðuefna. Loft sem er fast í holrýmum á milli agna, utan á ögnum og í vatni í jarðveginum, getur verið allt að helmingur af rúmmáli hans. Innihald bergbrota og steinda í jarðveginum er flokkað eftir kornastærð t.a.m. í sand (grófast), silt og leir (fínast). Hlutfall þessara agna ræður að mestu leyti flokkun og einkennum jarðvegsins. Íslenskur jarðvegur. Íslenskur jarðvegur er ríkur af eldfjallaösku og kallast hann eldfjallajörð eða "Andosol", en slíkur jarðvegur finnst eingöngu á eldvirkum svæðum jarðar og er því illa samanburðarhæfur við jarðveg meginlandanna. Íslenskur jarðvegur hefur sérstaka eiginleika sem hafa t.a.m. áhrif á hvernig hann rofnar. Hann hefur litla samloðun, en getur gleypt í sig mikið magn af vatni. Þessi eiginleiki magnar upp frostverkun, sem veldur jarðskriði, og skriðuföllum auk myndunar ísnála og þúfnalandslags. Lítil samloðun jarðvegsins gerir hann viðkvæman gagnvart regndropum sem skella á honum og rennandi vatni, sérstaklega þegar jarðvegurinn er þegar mettaður af vatni. Jarðvegurinn er yfirmettaður á veturna og á vorin þegar frosið lag kemur í veg fyrir brottrennsli vatnsins. Vindrof eykst einnig vegna lítillar samloðunnar, uppsöfnunar agna af siltstærð, og lítillar eðlisþyngdar jarðvegsagnanna. Sérstaklega grófra gjóskukorna (1 g/cm3). Gull. Gull er frumefni með efnatáknið Au (latína: "aurum") og er númer 79 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, gljáandi, gulur, þungur, hamranlegur og linur hliðarmálmur sem er ónæmur gegn flestum efnum en hægt er að vinna á honum með klór, flúor og kóngavatni. Gull finnst sem molar eða sem gullkorn í grjóti og í árseti. Gull er einn af myntmálmunum. Gull var áður fyrr notað sem seðlafótur margra þjóða og er einnig notað í skartgripagerð, tannlækningar, og í rafeindavörur. ISO gjaldmiðilstákn þess er XAU. Gull er æðstu verðlaun á íþróttamótum, en annað sætið færir silfur og það þriðja brons. Orðið "gull" (í fleirtölu) var áður fyrr notað yfir barnaleikföng. Saga og notkun. Gull er aðlaðandi og mjög verðmætur málmur, sem þekkst hefur í a.m.k. 5500 ár. Gull finnst stundum sjálfstætt í náttúrunni en finnst þó venjulega í sambandi við silfur, kvars (SiO2), kalsít (CaCO3), blý, tellúr, sink eða kopar. Gróflega áætlað er um 1 millígramm af gulli uppleyst í hverju tonni af sjó, en vinnsla á því úr sjó myndi þó ekki svara kostnaði. Áætlað hefur verið að hægt væri að koma öllu gulli sem þegar hefur verið hreinsað, fyrir í tening sem væri 20 metrar á kant. Gull er mótanlegast og teygjanlegast allra málma. Eina únsu af gulli er hægt að fletja út í þynnu sem er um 5 metrar á kant. Þynnur af gulli eru notaðar í gyllingu handverks og listmuna. Þykkt einnar slíkrar þynnu getur verið um 0,000127 millimetrar, eða um 400 sinnum þynnri en mannshár. Hreint gull er lint og er venjulega blandað saman við aðra málma eins og silfur, kopar, platínu eða palladíum til að auka styrkleika þess. Gullblöndur eru notaðar til framleiðslu skartgripa og skrautmuna, í tannfyllingar og í smámynt. Magn gulls í málmblöndu er mælt með mælieiningu sem nefnist karat. Eitt karat samsvarar 1 hluta af 24, þannig að í 18 karata gullhring eru 18 hlutar af hreinu gulli og 6 hlutar af íblöndunarefnum. Gull er góður leiðari hita og rafmagns og tærist ekki í andrúmslofti. Því er hægt að nota gull í rafmagnstengla og rafrásir. Gull endurspeglar einnig innrauðri geislun mjög vel, sem gerir það nothæft til varnar geimflaugum og skýjakljúfum gegn hita sólarinnar. Hægt er að nota gyllta spegla til framleiðslu sjónauka sem næmir eru fyrir innrauðu ljósi. Geislavirk samsæta gulls (198Au) er notuð við geislameðferð gegn krabbameini. Gull-natríum-þíósúlfat (AuNa3O6S4) er notað í meðferð við gigt. Gullklórsýra (HAuCl4) er notuð til varðveislu ljósmynda með því að skipta út silfuratómunum sem þegar eru til staðar í ljósmyndum. Hraun. Hraun er bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 - 1200 °C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun. Tegundir hrauna. Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum. Storknun og myndanir. Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg. Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru "Aa-lava" (apalhraun) og "Pahoehoe" (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun. Carl Sagan. Carl Sagan við stofnun samtakanna Planetary Society árið 1980. Carl Edward Sagan (9. nóvember 1934 - 20. desember 1996) var bandarískur stjörnufræðingur og boðberi vísindanna og vísindalegrar hugsunar. Hann er upphafsmaður stjörnulíffræðinnar og hvatti mjög til þess að leitað yrði að vitsmunalífi utan jarðar. Hann er heimsfrægur fyrir bækur sínar um vísindi og fyrir sjónvarpsþættina Cosmos sem náðu gríðarlegum vinsældum um allan heim. Carl Sagan fæddist í Brooklyn í New York þann 9. nóvember 1934. Hann stundaði nám við Chicago-háskóla þar sem hann hlaut BS gráðu árið 1955 og Meistaragráðu árið 1956 í eðlisfræði. Doktorsgráðu hlaut hann síðan árið 1960 í stjörnufræði og stjarneðlisfræði. Hann kenndi við Harvard-háskóla þangað til árið 1968 þegar hann flutti sig yfir til Cornell-háskóla. Sagan varð prófessor við Cornell-háskóla árið 1971 þar sem hann stjórnaði rannsóknarstofu. Hann lagði af mörkum til allra ómannaðra könnunargeimferða sólkerfisins. Hann fékk þá hugmynd að senda meðferðis alheimsskilaboð í einni geimferðanna sem fara átti út fyrir sólkerfið. Skilaboðin var reynt að hafa þannig að allt vitsmunalíf utan jarðar ætti að geta ráðið í þau og skilið þau. Fyrstu skilaboðin sem send voru á þennan hátt voru á gullhúðuðum platta sem sendur var með geimfarinu Pioneer 10. Meðal frægra bóka sem Carl Sagan skrifaði má nefna vísindaskáldsöguna Contact, sem samnefnd kvikmynd með leikkonunni Jodie Foster í aðalhlutverki, var byggð á. Sagan glímdi um árabil við mergmisþroska sem leiddi hann til dauða. Hann lést úr lungnabólgu á Fred Hutchinson-krabbameinsrannsóknarstöðinni í Seattle í Washington eftir að hafa undirgengist þrjár mergígræðslur. Tenglar. Sagan, Carl Sagan, Carl Sagan, Carl Godfrey Harold Hardy. Godfrey Harold Hardy (7. febrúar 1877 – 1. desember 1947) var breskur stærðfræðiprófessor, kunnur fyrir verk sín í talnafræði og stærðfræðigreiningu. Hardy var meðal fremstu stærðfræðinga á fyrri hluta 20. aldarinnar. Einkum er hann kunnur á meðal leikmanna fyrir að hafa skrifað bókina „Málsvörn stærðfræðings“ þar sem hann útskýrir eðli og markmið hreinstærðfræðinnar. Hardy, Godfrey Harold Blátjald. Blátjald við gerð myndarinnar Spiderwick Chronicles Blátjald er tækni sem er mikið notuð við kvikmyndagerð og í sjónvarpi. Blátjaldið sjálft er einlitt efni, sem virkar þannig að ef t.d. leikarar eru látnar standa fyrir framan það er hægt, með tæknivinnu, að skeyta inn hvaða bakgrunnsmynd sem er, ramma eða hreyfimynd, í staðinn fyrir einlita efnið. Blátjaldstæknin er t.d. notuð af veðurfréttamönnum. Veðurfréttmenn standa fyrir framan efnið og sjá aðeins það, á meðan tæknimenn sjónvarpstöðvanna setja veðurkort inn í staðinn fyrir blátjaldsefnið og því virðist sjónvarpsáhorfandanum sem fréttamaðurinn standi fyrir framan veðurkortið. Í raun stendur veðurfréttamaðurinn fyrir framan blátjald og sér ekki kortið sem sjónvarpsáhorfendurnir sjá. Tæknin er einnig mikið notuð við kvikmyndagerð, enda mjög hentug aðferð til að setja leikara t.d. ofan á bíl á 140 km. hraða eða láta þá hrapa fram af kletti, án þess að þurfa áhættuleikara e.þ.h. Mismunandi litir eru notaðir en algengast er að tala um blátjald því að tjaldið er oftast blátt, þegar um kvikmyndagerð er að ræða. Yfirleitt er notað tjald í grænum eða bláum lit en ástæða þess er að þeir litir eru fjærst húðlitnum. Skottími. Skottími (oftast þekkt undir nafninu bullet-time) er tækni við kvikmyndatöku sem miðar að því að hægja á atburðarásinni sem tekin er. Tæknin var fullkomnuð við gerð myndarinnar The Matrix árin 1997 - 1998 en í þeirri mynd er tæknin mikið notuð. Nafnið skottími vísar í með tækninni er hægt að láta byssukúlu ferðast á þeim hraða að áhorfendur geti séð feril hennar. Skottími virkar þannig að safni af stafrænum myndavélum er raðað upp á fyrirfram ákveðinn hátt og síðan eru þær forritaðar til að taka mynd, þ.e. ramma, á þann hátt að hægt sé að skapa myndavélahreyfingu af atburðinum sem verið er að taka upp með því að raða römmunum sem myndavélarnar hafa tekið upp. Hægt er svo að skeyta inn römmum í myndavélahreyfinguna og þannig lengja enn frekar atriðið, þ.e. hægja á atburðarásinni. Í skottíma er einnig notað blátjald þannig að hægt sé að setja myndavélahreyfinguna inn í töluvteiknað umhverfi. Í raun er verið að nota grunntækni hreyfimyndarinnar í skottíma, því hreyfimynd er í raun aðeins safn af römmum sem eru teknir nokkrum sinnum á sekúndu (algengast 24 rammar á sekúndu) og því kemur það út á eitt að festa rammana með mismunandi myndavélum og raða þeim svo saman í tölvu. Þrepun. Þannig má sýna fram á ýmsa eiginleika náttúrulegra talna með því að sýna fyrst fram á að eiginleikinn gildi um minnsta stakið 1 og sýna síðan að gildi eiginleikinn um einhverja tölu formula_4, sem er kallað "þrepunarforsenda", gildir hann líka um formula_7. Dæmi: Sýna á að formula_8 fyrir allar tölur náttúrulegar tölur formula_4. Við höfum þá sýnt að fullyrðingin gildir um allar náttúrulegar tölur formula_4. Hlutmengi. a> þar sem "A" er hlutmengi "B" Hlutmengi er mengi "A", sem venslað er öðru mengi "B" þannig að "A" hefur öll sín stök sameiginleg með "B", táknað "A" ⊆ "B". Öll mengi eru hlutmengi í sjálfu sér og sammengi allra hlutmengja tiltekins mengis er mengið sjálft. Stök veldismengis tiltekins mengis eru öll hlutmengi þess, þ.m.t. tómamengið, sem er hlutmengi í öllum mengjum. Ef mengi "A" er hlutmengi í "B" og mengið "B" hefur a.m.k. eitt stak umfram "A", kallast mengið "A" "eiginlegt hlutmengi" í "B", táknað með "A" ⊂ "B". Gagntæk vörpun. Gagntæk vörpun er vörpun, sem er bæði eintæk og átæk. Gagntæk föll eiga sér ávallt vel skilgreinda andhverfu. Dæmi: Ef fallið formula_1, þar sem "A" er formengi og "B" bakmengi, er gagntækt þá er til annað fall formula_2, með þann eiginleika að fyrir sérhvert stak "x" í "A" þá er formula_3. Sömuleiðis gildir um sérhvert stak "y" í "B" að formula_4. Rafeind. Rafeind (áður kölluð elektróna) er neikvætt hlaðin létteind, sem ásamt kjarneindum myndar frumeindir. Sígilt líkan af frumeind gerir ráð fyrir að rafeindir fari á miklum hraða umhverfis kjarnann. Massi rafeindar er aðeins um 1/1500 af massa róteindar. Rafeindir haldast á ákveðnum rafeindahvolfum umhverfis kjarnann (sjá rafeindahýsing). Jáeind er andeind rafeindarinnar og deilir því öllum eiginleikum hennar nema hleðslunni, sem er jákvæð. Austurvöllur. Nýja Kökuhúsið við Austurvöll árið 1975 Austurvöllur er torg í miðborg Reykjavíkur. Á miðjum Austurvelli er stytta af Jóni Sigurðssyni, sjálfstæðishetju íslensku þjóðarinnar, hún snýr að Alþingishúsinu sem er einnig við Austurvöll. Austurvöllur er vinsæll samkomustaður Reykvíkinga á góðviðrisdögum. Þar hafa mótmæli oft átt sér stað sökum þess að Alþingi er þar nærri. Austurvöllur afmarkast af götunum Vallarstræti, Pósthússtræti, Kirkjustræti og Thorvaldsensstræti. Síðastnefnda gatan er einmitt nefnd eftir Bertel Thorvaldsen, en stytta af honum stóð lengi á miðjum Austurvelli. Nú stendur stytta af Jóni Sigurðssyni þar sem hún stóð áður. Í kring um Austurvöll standa margar af merkari byggingum borgarinnar, þar á meðal Alþingishúsið, Hótel Borg og Landssímahúsið (en þar voru höfuðstöðvar Póst og síma lengst af) og Dómkirkjan í Reykjavík. Austurvöllur er vinsæll meðal ungra Reykvíkinga á góðviðrisdögum. Ástæða þessa er sú að nokkur kaffihús, sem eru í byggingunum við Vallarstræti og Pósthússtræti, hafa borð og stóla utandyra þegar veður leyfir. Einnig er mikið setið á grasinu á Austurvelli sjálfum þegar þannig stendur á. Austurvöllur var öllu stærri áður fyrr. Í upphafi 18. aldar náði Austurvöllur vestan frá Aðalstræti og austur að læk, norðan frá Hafnarstræti og suður að Tjörn. Mótmæli við Austurvöll. Mikil hefð er fyrir því að mótmæla við Austurvöll. Ein fyrstu mótmæli sem þar áttu sér stað voru mótmæli vegna "símamálsins" svonefnda árið 1905 en þá söfnuðust þúsundir saman við Austurvöll. Mörgum árum seinna áttu miklar óeirðir sér stað á Austurvelli miðvikudaginn 30. mars 1949, þegar til stóð að samþykkja þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í NATO. Við það tækifæri beitti lögreglan táragasi. Mótmæli "Radda fólksins". Mótmæli á Austurvelli 24. janúar 2009 Í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008, hófust mótmæli á vegum Radda fólksins á Austurvelli, en forsvarsmaður þeirra var trúbadúrinn Hörður Torfason. Fyrstu mótmælin fóru fram þann 11. október 2008, og fóru fram alla laugardaga þar til ríkisstjórn Geirs Haarde sagði af sér. Helstu kröfur þeirra voru afsögn ríkisstjórnar, bankastjórnar seðlabankans og stjórnar fjármálaeftirlits. Dómkirkjan í Reykjavík. Dómkirkjan í Reykjavík er embættiskirkja biskups Íslands og þar með höfuðkirkja hinnar Lúthersku þjóðkirkju Íslands sem og sóknarkirkja nokkurra elstu hverfa Reykjavíkur. Hún er staðsett við Austurvöll, og við hlið hennar er Alþingishúsið. Frá endurreisn Alþingis 1845 hefur sú hefð haldist að þingsetning hefst með messu í Dómkirkjunni og þaðan leiðir dómkirkjuprestur svo þingmenn til Alþingis. Saga. Upphaflega var ákveðið að reist skyldi dómkirkja í Reykjavík árið 1785 í kjölfar suðurlandsskjálfta sem ollu mjög miklum skemmdum í Skálholti. Þá var einnig ákveðið að hún skyldi einnig vera sóknarkirkja Reykvíkinga og koma í stað Víkurkirkju, sem þá var orðin of lítil og illa farin. Upphaflega átti að reisa hina nýju kirkju utan um þá gömlu, en árið 1787, þegar átti að fara að hefja þá vinnu kom í ljós að það var ekki hægt af ýmsum ástæðum og henni var því valinn staður örstutt frá þar sem nú er Austurvöllur. Alls kyns vandræði komu upp, og það var ekki fyrr en árið 1796 að hin nýja Dómkirkja í Reykjavík var vígð. Kirkjan dugði þó ekki vel, árið 1815 var hún ekki talin hæf til messuhalds og hún var tekin algjörlega í gegn árið 1817. Tveimur árum síðar var svo byggt við kirkjuna, bæði skrúðhús og líkhús. Svo var það 1846-1848 að aftur var kirkjan stækkuð. Hún var bæði hækkuð og byggt við hana. Lítið var gert í henni þangað til árið 1878, en þá var hún í algjörri niðurníðslu. Upp úr því var hún algjörlega tekin í gegn á ný og endurvígð á næsta ári. Síðan þá hefur henni verið haldið við nokkuð reglulega, nú síðast var turninum breytt í upprunalegt horf. Benín. Benín er ríki í Vestur-Afríku og var áður kallað "Lýðveldið Dahómey" eftir konungsríkinu Dahómey sem Frakkar lögðu undir sig 1892-1894. Landið á stutta strandlengju við Benínflóa, sem áður var þekktur viðkomustaður þrælasala, og dregur nafn sitt af honum. Landið á landamæri að Tógó í vestri, Nígeríu í austri og Búrkína Fasó og Níger í norðri. Höfuðborgin er Porto Novo en aðsetur stjórnarinnar er í Cotonou. Nafn. Nafnið Benín var ekki valið út af Konungsríkinu Benín (eða Benínborg) sem var þar sem Nígería er nú, heldur heitir landið eftir Benínflóa sem strönd landsins liggur að. Í Benín var hið öfluga konungsríki Dahómey og landið hét það til ársins 1975 þegar nafninu var breytt til að gæta hlutleysis gagnvart ólíkum þjóðflokkum í landinu (Dahómey var fyrst og fremst konungsríki Fonfólksins). Saga. Konungsríkið Dahómey var stofnað á 17. öld með samruna nokkurra þjóðflokka á sléttunni við Abómey hugsanlega vegna þess þrýstings sem stafaði frá starfsemi evrópskra þrælasala við ströndina. Menning konungsríkisins var hernaðarleg og drengir fengu herþjálfun frá unga aldri. Dahómey var líka frægt fyrir úrvalssveitir herkvenna sem voru nefndar "Ahosi" eða „mæður okkar“ á málinu fongbe. Þessi áhersla á herþjálfun gerði það að verkum að Dahómey var kallað „litla svarta Sparta“ af evrópskum höfundum eins og Richard Francis Burton. Mannfórnir voru algengar þar sem þrælar og stríðsfangar voru afhöfðaðir við hátíðleg tækifæri. Dahómey tók þátt í hinni blómlegu þrælaverslun og gerðist byssuríki sem seldi þræla fyrir evrópsk vopn. Ströndin var kölluð „þrælaströndin“ þar sem þrælar voru aðalútflutningsvaran á þessu svæði. Þrælasölunni hnignaði engu að síður frá stofnun Dahómey og fjöldi þræla minnkaði stöðugt, meðal annars vegna mannfórnanna, og síðar vegna þess að þrælasala varð ólögleg í flestum Evrópuríkjum. Síðasta portúgalska þrælaskipið sigldi frá Benínflóa árið 1885. Auk Dahómey voru ýmis önnur samfélög á því svæði sem síðar varð Benín, þar á meðal margir þjóðflokkar sem töluðu jórúbamál og voru í samskiptum við skylda hópa þar sem Nígería er nú. Þessir þjóðflokkar áttu oft í stríði við Dahómey þótt sumir þeirra væru hluti af konungsríkinu. Um miðja 19. öld tók Dahómey að missa tök sín á svæðinu sem gerði Frökkum kleift að leggja landið undir sig (með hjálp Jórúba) árið 1892. 1899 varð landið hluti af nýlendunni Frönsku Vestur-Afríku, sem Dahómey. 1958 fékk landið heimastjórn sem "Lýðveldið Dahómey" og fullt sjálfstæði fylgdi 1. ágúst 1960. Næstu tólf árin fylgdu átök milli ólíkra þjóðflokka. Í hverjum landshluta komu fram leiðtogar eins og Sourou Apithy, Hubert Maga og Justin Ahomadegbé. 1970 sættust þeir á að stofna forsetaráð eftir að ofbeldisverk höfðu truflað kosningarnar það ár. 1972 var forsetaráðinu steypt af stóli með valdaráni hersins undir stjórn Mathieu Kérékou. Hann kom á marxísku stjórnkerfi undir herforingjastjórn og landið var endurnefnt "Alþýðulýðveldið Benín". 1979 var herforingjastjórnin leyst upp og kosningar haldnar. Seint á 9. áratugnum tók Kérékou að færa stjórnkerfi landsins í átt til markaðsbúskapar eftir miklar efnahagsþrengingar. 1991 tapaði hann kosningum fyrir Nicéphore Soglo en vann aftur árið 1996 og með naumindum 2001. 2006 bauð hann sig ekki fram vegna takmarkana á lengd stjórnartíma forseta, og hlaut mikið lof fyrir að reyna ekki að breyta stjórnarskránni til að geta setið lengur líkt og svo margir aðrir afrískir forsetar höfðu gert. Stjórnmál. Í Benín er forsetaræði þar sem forseti Benín er bæði þjóðhöfðingi og höfuð ríkisstjórnarinnar og er kosinn í almennum kosningum til fimm ára í senn. Núverandi stjórnkerfi er skipað í stjórnarskránni frá 1990 en áður var stjórnkerfið í marx-lenínískum anda. Á þingi Benín sitja 83 þingmenn úr nokkrum stjórnmálaflokkum sem eru kosnir til fjögurra ára í senn. Landafræði. Benín er Vestur-Afríkuríki sem liggur frá bugðu á Nígerfljóti að Benínflóa sem er hluti Gíneuflóa í Atlantshafinu. Landið er nokkurn veginn jafnhátt alls staðar og stærstur hluti þess eru mýrlendar eða skógi vaxnar hásléttur. Í norðurhlutanum eru þurrar gresjur. Flestir íbúanna búa nálægt ströndinni í suðri þar sem stærstu borgirnar, Porto Novo og Cotonou eru. Ouemefljót rennur eftir miðu landinu í suðurátt. Loftslagið í Benín er heitt og rakt með tiltölulega lítilli úrkomu miðað við önnur Vestur-Afríkuríki. Stærsta borgin, viðskiptamiðstöð landsins og aðsetur stjórnarinnar er Cotonou. Hafnarbærinn Ouidah sem áður var mikilvægur þrælamarkaður, er hin andlega höfuðborg þeirra sem aðhyllast vúdútrú. Abómey, fyrrum höfuðborg Dahómey, er enn aðsetur konungs Fonfólksins. Skipting í stjórnsýsluumdæmi. Benín skiptist í tólf umdæmi ("départements") og 77 sveitarfélög. Upphaflega voru umdæmin sex en 1999 var hverju þeirra skipt í tvennt. Nýju umdæmin sex eru ekki með neinn höfuðstað. Efnahagslíf. Efnahagslíf Benín er enn frumstætt og byggist að mestu á sjálfsþurftarbúskap, baðmullarframleiðslu og staðbundinni verslun. Landsframleiðslan hefur vaxið um 5% á ári að jafnaði síðustu ár en fólksfjölgunin hefur jafnað þann vöxt að mestu. Verðbólga hefur hjaðnað síðustu ár. 2001 hóf ríkisstjórnin einkavæðingarferli meðal annars vegna þrýstings frá erlendum lánadrottnum. Menning. Í Benín búa nokkrir tugir þjóðflokka með tungumál sem tilheyra öllum þremur afrísku málaættunum; níger-kongómál, níló-saharamál og afróasísk mál. Þau síðastnefndu eru töluð af Hásamönnum sem flestir búa í norðurhlutanum en níló-saharamálin eru töluð af Dendimönnum sem eru afkomendur þeirra sem stofnuðu Songhæveldið meðfram Nígerfljóti. Stærsti einstaki þjóðflokkurinn er Fonfólkið sem telur um 1,7 milljónir manna en þar á eftir koma hinir ýmsu hópar Jórúbamanna (um 1,2 milljónir). Meirihluti landsmanna aðhyllist hefðbundin trúarbrögð, ýmist andatrú eða vúdútrú sem talin er hafa borist til Brasilíu og Karíbahafsins frá strandhéruðum Benín. Íslam og Kristni eiga sér stóra hópa fylgjenda (um 15% íbúa landsins hvor). Tógó. Lýðveldið Tógó er ríki í Vestur-Afríku, með landamæri að Gana í vestri, Benín í austri og Búrkína Fasó í norðri. Suðurströnd þess er við Benínflóa þar sem höfuðborgin, Lomé, er staðsett. Ströndin þar var áður kölluð „Þrælaströndin“ og var þekkt sem viðkomustaður evrópskra þrælasala. Lomé. Lomé er höfuðborg Tógó. Áætlaður íbúafjöldi (1998) er 700.000. Borgin stendur við Benínflóa, sem er hluti af Gíneuflóa, og er aðal iðnaðar- og hafnarborg landsins, auk þess að vera aðsetur stjórnarinnar. Búrkína Fasó. Búrkína Fasó er landlukt land í Vestur-Afríku með landamæri að Malí í norðri, Níger í austri, Benín í suðaustri, Tógó og Gana í suðri og Fílabeinsströndinni í vestri. Landið hét "Efri-Volta" til ársins 1984 þegar því var breytt í "Búrkína Fasó", sem merkir „land hinna uppréttu“ á tungumálunum moré og dioula sem eru tvö stærstu mál innfæddra. Landið fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1960. Núverandi forseti, Blaise Compaoré, komst til valda eftir hallarbyltingu árið 1987. Saga. Hefðbundnir leirkofar í suðausturhluta landsins. Landið var byggt veiðimönnum og söfnurum frá 12000 til 5000 f.Kr. Minjar um þá, tæki gerð úr tinnu, fundust í norðvesturhluta landsins árið 1973. Fastir bústaðir komu fram á sjónarsviðið milli 3600 og 2600 f.Kr. Járn, brenndur leir og slípaðir steinar sem fundist hafa eru frá 1500 til 1000 f.Kr. Minjar um bústaði Dogona er að finna í norður- og norðvesturhluta landsins en þeir yfirgáfu þetta svæði milli 15. og 16. aldar og settust að í klettunum í Bandiagara. Leifar af háum veggjum hafa fundist í suðvesturhlutanum, líkt og á Fílabeinsströndinni, en ekki er vitað hverjir reistu þá. Á 15. og 16. öld var Búrkína Fasó efnahagslega mikilvægt svæði fyrir Songhæveldið sem ríkti yfir svæðinu umhverfis Nígerfljót. Á þeim tíma kom Mossaveldið fram, riddarar frá þorpunum á vatnasviði Volta, sem náði að leggja undir sig stór svæði. Höfuðborg Mossaveldisins var Ouagadougou. Þetta ríki var sigrað af Frökkum eftir langvinnar styrjaldir árið 1896. Yfirráð nýlenduherranna voru meira að nafninu til en í reynd og framan af ríkti óvissa um hvaða landsvæði tilheyrði hverjum. Á ráðstefnu 14. júní 1898 skiptu Bretar og Frakkar landinu á milli sín. Andspyrna gegn Frökkum hélt áfram í um fimm ár en þegar Efri-Volta var innlimuð í nýlenduna Efra Senegal og Níger 1904 var henni að mestu lokið. Menn frá Búrkína Fasó voru kvaddir í senegalska fótgönguliðið í Fyrri heimsstyrjöld og 1915-1916 hófst Volta-Bani-stríðið þar sem íbúar vesturhluta Búrkína Fasó og austurhluta Malí börðust gegn nýlendustjórninni í blóðugustu uppreisn sem nýlendustjórn Frakka hafði lent í. Skömmu síðar bundu Túaregar og bandamenn þeirra í norðurhlutanum endi á vopnahléð sem þeir höfðu gert við nýlendustjórnina. Vegna ótta við uppreisnir ákvað nýlendustjórnin að skilja landið frá Efra Senegal. Nýja nýlendan var nefnd Efri-Volta og François Charles Alexis Édouard Hesling varð fyrsti landstjóri hennar. Hesling hóf mikla vegagerð og reyndi að auka baðmullarframleiðsluna, en aðferðir hans, sem byggðu á valdboði, virkuðu ekki og efnahagur landsins staðnaði. Nýlendan var leyst upp 5. september 1932 og landinu skipt milli Fílabeinsstrandarinnar, Frönsku Súdan og Níger. Bróðurparturinn fór til Fílabeinsstrandarinnar. Skiptingin var tekin aftur í kjölfar mikillar andúðar á nýlendustjórninni í kjölfar Síðari heimsstyrjaldar og 4. september 1947 var Efri-Volta aftur búin til með landamærin frá 1932. 11. desember 1958 fékk landið heimastjórn sem Lýðveldið Efri-Volta. Fullt sjálfstæði frá Frakklandi varð að veruleika 1960 og fyrsti forseti landsins var Maurice Yaméogo. Fljótlega bannaði Yaméogo alla aðra stjórnmálaflokka en sinn eigin. 1966 var gerð herforingjabylting eftir langvinn mótmæli og verkföll námsmanna og verkafólks. Forseti herforingjastjórnarinnar var Sangoulé Lamizana sem leiddi nokkrar herforingjastjórnir og blandaðar stjórnir allan 8. áratuginn. 1977 var ný stjórnarskrá samþykkt og ári síðar var Lamizana lýðræðislega kjörinn forseti með miklum mun. 1980 var aftur gerð herforingjabylting leidd af Saye Zerbo sem setti upp stjórnarráð herforingja og ógilti þar með stjórnarskrána. Tveimur árum síðar var honum steypt af stóli af Jean-Baptiste Ouédraogo og ári síðar gerði Thomas Sankara hið sama. Sankara var, ásamt Blaise Compaoré, fulltrúi róttækari afla innan stjórnarráðsins. 1984 stóð Sankara fyrir því að nafni landsins var breytt úr Efri-Volta í Búrkína Fasó. Sankara bjó til „þjóðarráð byltingarinnar“, sem þónaði hlutverki þings, og „nefndir til verndar byltingunni“ sem þjónuðu hlutverki pólitísks lögregluliðs. Á jóladag 1985 kom til átaka milli Búrkína Fasó og Malí yfir Agacher-ræmunni á landamærum ríkjanna þar sem eru miklar auðlindir í jörðu. Stríðinu lauk eftir fimm daga og 100 manns féllu. Spennan milli verkalýðsfélaganna og nefndanna, sem sums staðar voru lítið annað en vopnaðir glæpahópar, jókst og 5. október 1987 var Sankara myrtur og Blaise Compaoré tók við völdum. Compaoré tók margar af ákvörðunum Sankaras aftur og leyfði m.a. hægrisinnaða flokka á þinginu. Stjórnmál. Stjórnarskrá Búrkína Fasó er frá 2. júní 1991. Þar er kveðið á um forsetaræði þar sem forsetinn, sem kosinn er til sjö ára, getur leyst þingið upp. Árið 2000 var kjörtímabil forseta minnkað í fimm ár sem tók gildi eftir kosningarnar 2005. Stjórnlagadómstóll komst þá að því að þessi takmörkun ætti ekki við sitjandi forseta á þáverandi kjörtímabili, Blaise Compaoré, þar sem hann hefði þegar verið forseti árið 2000. Hann var endurkjörinn með miklum mun í kosningunum. Þing Búrkína Fasó skiptist áður í tvær deildir: þjóðþingið (neðri deild) og fulltrúaþingið (efri deild), en efri deildin var lögð niður árið 2002 og því er löggjafinn aðeins þjóðþingið þar sem 111 fulltrúar sitja kjörnir til fimm ára í senn. Landafræði. Stærstur hluti Búrkína Fasó er rofslétta þar sem landslagið bylgjast lítillega, með nokkrum stökum hæðum, leifum af fjallgarði frá forkambríumtíma. Í suðvestri eru hins vegar sandsteinsfjöll þar sem hæsti tindur landsins, Ténakourou, rís 749 metra yfir sjávarmál. Meðalhæð yfir sjávarmáli í Búrkína Fasó er 400 metrar. Landið er hlutfallslega flatt. Þrjár þverár Voltafljóts renna í gegnum landið sem áður dró nafn sitt af þeim: Mouhoun (áður Svarta Volta), Nakambé (áður Hvíta Volta) og Nazinon (áður Rauða Volta). Aðeins er rennsli í tveimur fljótum árið um kring: í Mouhoun og Komoé sem rennur í suðvestur. Hlutar landsins eru á vatnasviði Nígerfljóts. Vatnsskortur er oft vandamál, sérstaklega í norðurhlutanum. Loftslag er aðallega hitabeltisloftslag með tvær skýrt aðgreindar árstíðir: regntímabil sem varir í fjóra mánuði frá maí til september og þurrkatímabil sem varir í átta. Á þurrkatímabilinu blæs harmattan, þurr staðvindur frá Sahara, yfir landið. Landið er heitast og þurrast á eyðimerkurjaðrinum (Sahel) í norðri, en kaldara og votara í suðri og suðvestri. Efnahagslíf. Verg landsframleiðsla á mann í Búrkína Fasó er með því lægsta sem gerist og landið er 28. fátækasta ríki heims. 32% landsframleiðslunnar er í landbúnaði þar sem 80% íbúanna vinna. Landbúnaður er aðallega kvikfjárrækt, en í suður- og suðvesturhlutanum er stunduð jarðrækt, einkum á dúrru, perluhirsi, maís, jarðhnetum, hrísgrjónum og bómull. Vegna mikils atvinnuleysis er útflutningur fólks mikill. Sem dæmi má nefna að þrjár milljónir manna frá Búrkína Fasó búa á Fílabeinsströndinni. Samkvæmt Seðlabanka Vesturafríkuríkja senda hinir brottfluttu tugi milljarða evra til heimalandsins á hverju ári. Þetta ástand hefur líka leitt til spennu í nágrannaríkjunum. Menning. Stærsta einstaka þjóðarbrotið sem býr í Búrkína Fasó eru Mossi sem mynda 40% af íbúafjölda landsins en 60% íbúanna tilheyra svo yfir 60 þjóðarbrotum, þau stærstu eru Gurunsi, Senufo, Lobi, Bobo, and Fula. Tungumál þessara þjóða tilheyra tveimur greinum Níger-Kongómálaættarinnar: Gurmálum og Mandémálum. Um helmingur íbúa landsins eru múslimar, 30% kristnir og aðrir aðhyllast hefðbundin afrísk trúarbrögð. Í Ouagadougou er haldin árlega önnur stærsta menningarhátíð Afríku: Festival panafricain du cinéma et de la télévision de Ouagadougou (FESPACO). Efri-Volta. Efri-Volta var nafn Búrkína Fasó til 4. ágúst 1984. Nafnið vísar til þess að landið inniheldur efri hluta árinnar Volta, sem skiptist í árnar Svörtu Volta (nú Mouhoun), Hvítu Volta (nú Nakambé) og Rauðu Volta (nú Nazinon). Allar árnar eiga upptök sín í landinu en renna síðan um Gana út í Gíneuflóa. Litirnir í fána Efri-Volta vísuðu til nafna fljótanna. Volta. thumb Volta er fljót í Vestur-Afríku. Fljótið verður til úr samruna fljótanna Mouhoun (áður "Svörtu Volta"), Nakambé (áður "Hvítu Volta") og Nazinon (áður "Rauðu Volta") sem öll eiga upptök sín í Búrkína Fasó en renna saman í Gana og renna til sjávar í Gíneuflóa. Voltavatn er stærsta manngerða vatn heims og er uppistöðulón stíflunnar Akosombo í Gana. Fílabeinsströndin. Fílabeinsströndin er land í Vestur-Afríku með landamæri að Líberíu og Gíneu í vestri, Malí og Búrkína Fasó í norðri og Gana í austri. Í suðri á landið strandlengju að Gíneuflóa. Landið er einn af stærstu útflytjendum kaffis, kakós og pálmaolíu í heimi. Barnadauði er næstmestur á Fílabeinsströndinni, en hann er mestur í Líberíu þar sem hann er um 66 dauðsföll á hver þúsund börn. Síerra Leóne er í þriðja sæti. Gana. Lýðveldið Gana er ríki í Vestur-Afríku með landamæri að Fílabeinsströndinni, Búrkína Fasó og Tógó og strönd að Gíneuflóa í suðri. Gana var áður bresk nýlenda og hét þá "Gullströndin", en nafninu var breytt þegar landið fékk sjálfstæði 1957. Nafnið vísar til Ganaveldisins frá miðöldum, þótt það hafi raunar aldrei náð til núverandi Gana. Höfuðborg Gana er Accra og búa þar um 2.2 milljónir manna en í landinu í heild búa tæplega 18 milljónir manna en á eftir henni eru Kumasi í Ashanti héraði og Tamale í norðurhlutanum. Helstu auðlindir Gana er gull sem einkum er að finna í miðhlutanum í kringum Kumasi. Voltavatn er stærsta manngerða vatn heims og er uppistöðulón stíflunnar Akosombo í Volta í Gana sem og mikilvæg samgönguleið. Gíneuflói. Gíneuflói er gríðarmikill flói þar sem vesturströnd Afríku mætir Suður-Atlantshafinu. Strandlengjan við flóann nær frá Harper í Líberíu að Port-Gentil í Gabon. Suðurströnd Vestur-Afríku norðvestan við flóann var áður kölluð "Efri Gínea" og ströndin norðaustan við flóann "Neðri Gínea". Nafnið "Gínea" er það heiti sem berbar gáfu svæðinu sunnan Sahara og þýðir „svertingjaland“. Það lifir í nöfnum Afríkulandanna þriggja, Gíneu, Miðbaugs-Gíneu og Gíneu-Bissá, auk Nýju Gíneu í Suðaustur-Asíu. Í flóanum eru Benínflói og Bíafraflói. Nígerfljót, Volta og Kongófljót renna í Gíneuflóa. Grænhöfðaeyjar. Grænhöfðaeyjar eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi undan vesturströnd Afríku. Eyjarnar voru óbyggðar þegar Portúgalar uppgötvuðu þær á 15. öld og gerðu þær að miðstöð fyrir þrælaflutninga. Eyjarnar heita eftir Grænhöfða ("Cap-Vert") í Senegal. Íslendingar hafa veitt Grænhöfðaeyjum verulega þróunaraðstoð. Georgía. Georgía (georgíska: საქართველო; Sakartvelo) er evrasískt land í Kákasusfjöllum, við austurströnd Svartahafs. Georgía á landamæri að Rússlandi í norðri, Tyrklandi og Armeníu í suðri og Aserbaídsjan í austri. Georgía liggur í Austur-Evrópu og Vestur-Asíu en á flest öll stjórnmálaleg og menningarleg tengsl við Evrópu. Á því svæði sem nú til dags þekkist sem Georgía hefur einatt verið búið síðan snemma á steinöld. Í fornöld voru þar konungsríkin Kolkis og Íbería, sem lögðu drög að menningu Georgíu. Löndin tóku upp kristna trú snemma á 3. öld og sameinuðust í eitt ríki árið 1008. Georgía gekk í gegnum tímabil sem einkenndust af upplausnum og uppbyggingum þar til að landið brotnaði niður í nokkrar minni einingar á 16. öld. Rússaveldi tók smám saman yfir land Georgíu á árunum 1801-1866. Lýðveldið Georgía var skammlíft lýðræðisríki á árunum 1918-1921, á árunum fyrir rússnesku byltinguna. Það féll í hendur Sóvétríkjanna árið 1922. Georgía hlaut svo sjálfstæði á ný árið 1991 og eftir borgarastyrjöld og efnahagskreppur náðist tiltölulegt jafnvægi á síðari hluta 10. áratugsins. Árið 2003 fór fram bylting sem nefndist Rósarbyltingin og fór alfarið án blóðsúthellinga. Komst þá að völdum ný ríkisstjórn sem stefndi að því að ganga í Atlantshafsbandalagið. Tilraunir nýju ríkisstjórnarinnar til að koma aðskildu svæðunum aftur undir stjórn Georgíu hafa orðið til þess að erjur hafa orðið á milli Rússlands og Georgíu. Landslag Georgíu er allt frá því að vera hálent í Kákasusfjöllum, til þess að vera heittemprað við strandlengjuna við Svartahaf, sem dregur að túrista. Landbúnaður nær aftur til fornaldar og er enn þá mikilvægur þáttur í efnahag landsins. Í Georgíu er fulltrúalýðræði, skipulagt sem samræmt, nokkurs konar forsetalýðveldi. Georgía er meðlimur í Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðs, Samveldis sjálfstæðra ríkja, Alþjóðaviðskiptastofnaninnar og Svartahafsefnahagssamvinnusamtakanna, og hefur áhuga á að ganga í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Orðsifjar. Forngrikkir og Rómverjar kölluðu Austur-Georgíumenn Íbera og Vestur-Georgíumenn Kolka. Georgíumenn kalla sjálfa sig Kartvelebi (ქართველები), landið sitt Sakartvelo (საქართველო) og tungumálið sitt Kartuli (ქართული). Samkvæmt biblíunni er forfaðir kartvelska fólksins Kartlos, barnabarnabarn Jafets sonar Nóa. Öll lönd heims nema Armenía þekkja landið sem Georgíu. Minnst er á Georgíu og Georgíumenn í fjölmörgum ritum frá miðöldum. Það hefur verið ranglega gert ráð fyrir því að nafn landsins sé komið frá St. George, verndara landsins. Það hefur einnig verið haldið að nafnið koma frá fornpersneska orðinu "gurj" eða "gorg", sem merkir glæsilegt (enska: gorgeous) á frumindóevrópskum málum. Einnig hefur verið haldið að Grikkir hafi nefnt landið Georgíu vegna landbúnaðarlegra auðlinda þess, því að Georgía (γεωργία) merkir búskapur á grísku. En þrátt fyrir það er uppruni nafnsins enn þá óljós og umdeildur. Saga. Saga Georgíu og georgísku þjóðarinnar nær 5000 ár aftur í tímann. Georgía á fornöld. Tvö konungsríki voru í Georgíu á fornöld, sem Rómverjar og Forngrikkir þekktu undir nöfnunum Íbería og Kolkis. Þessi tvö konungsríki voru meðal fyrstu þjóða heims til að taka upp kristna trú, árið 319 eða 337 samkvæmt nýlegum rannsóknum. Í gríski goðafræði var Kolkis staðsetning gullna reyfisins sem Jason og aragóarfararnir leituðu að í Argonautica, hetjusögu Apolloníosar frá Ródos. Möguleg ástæða þess að gullna reyfið hafi orðið hluti að goðsögninni gæti verið sú að á þessum tíma notuðu Georgíumenn reyfi til að sía gullryk úr ám. Kolkis, sem innfæddir nefndu "Egrisi" eða "Lazica", átti oft í erjum við Persíu og Austrómverska ríkið, sem nokkrum sinnum náðu að leggja Vestur-Georgíu undir sig. Fyrir vikið sundruðust konungsríkin í nokkur minni umdæmi rétt fyrir upphaf miðalda. Þetta auðveldaði fyrir Aröbum að ráðast inn í Georgíu á 7. öld. Á 11. öld voru uppreisnakenndu umdæmin frelsuð og sameinuðust í nýju georgísku konungsríki. Í byrjun 12. aldar stækkaði landsvæði Georgíu, og náði það nú yfir nokkurn hluta Suður-Kákasusfjalla og næstum alla norðurströnd þess svæðis sem nú er Tyrkland. Georgía á miðöldum. Konungsríkið Georgía á hernaðarlegum hápunkti sínum. Georgíska konungsríkið náði hápunkti sínum á tólftu öld og í byrjun þeirrar þrettándu. Þetta tímabil hefur oft verið nefnt "gullöld Georgíu" eða "endurreisnartímabil Georgíu". Þrátt fyrir það var endurreist konungsríkið stuttlíft og að lokum réðust Mongólar inn í það árið 1236. Upp frá því börðust ýmsar stjórnir innan héraða landsins fyrir sjálfstæði frá Georgíska konungsríkinu þar til það sundraðist á 15. öld. Nágrannaríkin notfærðu sér stöðuna í landinu og á 16. öld réðust Persnesku og Ottómönsku heimsveldin hver um sig inn í austur- og vesturhéruð Georgíu. Leiðtogar þeirra héraða sem héldu áfram hálfgerðri sjálfstjórn skiplögðu uppreisnir við allmörg tilefni. Seinni innrásir Persa og Tyrkja drógu enn meir úr mætti konungsríkja og héraða á svæðinu. Vegna stríða við nágrannaríki drógst svo úr íbúafjölda Georgíu að hann fór niður í 250.000 manns á tímabili. Georgía innan Rússaveldis. Alexander I, rússakeisari á árunum 1801-1825 Árið 1783 skrifuðu Rússland og georgíska konungsríkið Kartli-Kakheti undir milliríkjasamning sem tryggði það að Rússar vernduðu Kartli-Kakheti. Þetta hindraði þó ekki innrás Persa í Tíblisi árið 1795. Þann 22. desember 1800 skrifaði Paul I rússakeisari undir yfirlýsingu þess að Georgía (Kartli-Kakheti) yrði hluti af Rússaveldi að beiðni Georgs XII, þáverandi konungs Georgíu. Þann 8. janúar 1801 skrifaði hann svo undir úrskurð þess að Kartli-Kakheti yrði hluti af Rússaveldi, sem var staðfest af Alexander I rússakeisara þann 12. september 1801. Aðalsættir Georgíu viðurkenndu ekki úrskurðinn fyrr en í apríl 1802 þegar að Knorring hershöfðingi safnaði þeim saman í Dómkirkju Tbilisi og þvingaði fólkið til að sverja eið við keisarakrúnu Rússa. Þeir sem að voru á móti þessu voru tímabundið handteknir. Sumarið 1805 sigruðu rússneskir hermenn persneska herinn við Askerani fljót nálægt Zagam og björguðu Tbilisi frá hertöku. Árið 1810 innlimaði Alexander I rússakeisari Konungsríkið Imereti eftir að hafa herjað stutt stríð. Síðasti imeretíski kongurinn og síðasti Bagrationinn Solomon II dóu í útlegð árið 1815. Á árunum 1803 til 1878 voru þónokkur stríð herjuð gegn Íran og Tyrklandi, og fyrir vikið voru nokkur svæði innlimuð sem hluti af Georgíu. Þau svæði eru Batumi, Akhaltsikhe, Poti og Abkhazía og eru þau nú stór hluti af Georgíu. Furstadæmið Guria var afnumið árið 1828 og Samegrelo (Mingrelia) árið 1857. Svaneti-svæðið var smám saman innlimað á árunum 1857-1859. Stutt sjálfstæði og Sovétstjórn. Þann 26. maí árið 1918 á meðan að rússneska borgarastyrjöldin stóð sem hæst lýsti Georgía yfir sjálfstæði. Georgíski alþýðuflokkurinn bar sigur úr býtum í lýðræðislegum kosningum. Talið var að flokkurinn væri skipaður Mensevítum og var leiðtogi flokksins, Noe Zhordania, gerður forsætisráðherra. Árið 1918 braust út stríð á milli Georgíu og Armeníu í þeim hlutum Georgíu sem voru að mestmegnis innbyggðir af Armenum, sem tók enda vegna afskipta frá Bretum. Í febrúar 1921 var ráðist á Georgíu af Rauða hernum. Georgíski herinn tapaði orrustunni og þurftu meðlimir ríkisstjórnarinnar að flýja land. Þann 25. febrúar 1921 kom Rauði herinn til höfuðborgarinnar Tbilisi og kom á laggirnar kommúnískri leppstjórn, sem stjórnað var af georgíska Bolsjevíkanum Filipp Makharadze. Sóvétríkin tóku svo yfir landinu eftir uppreisnina árið 1924. Georgía var gerð hluti af Transkákasíska SFSR-sambandinu sem sameinaði Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan. TSFSR-sambandinu var svo aftur skipt niður í þær einingar sem það áður var, sem gerði Georgíu að Sósíalíska Sovétlýðveldinu Georgíu. Hinn georgíski Ioseb Jughashvili (betur þekktur sem Jósef Stalín) var áberandi á meðal rússneskra bolsjevíka, sem risu til valda innan Rússaveldis eftir Októberbyltinguna árið 1917. Stalín átti eftir að gegna valdamestu stöðu Sovétríkisins. Á árunum 1941 til 1945, á meðan Seinni heimstyrjöldin stóð á, börðust nærri því 700.000 Georgíumenn með Rauða hernum í baráttunni gegn Nasistum. Einnig börðust einhverjir með þýska hernum. Um 350.000 Georgíumenn fórust á vígvöllum Austur vígstöðvanna. Á þessum tímapunkti var Téténum, Ingussu, Karötsjum og Balkörum frá Norður-Kákasus-svæðinu vísað úr landi, og sendir til Síberíu vegna meints samstarfs við Nasista. Lýðveldi þeirra voru því afnumin og hlaut Sósíalíska Sovétlýðveldið Georgía nokkuð af landsvæði þeirra í stuttan tíma, til ársins 1957. Á 7. áratugnum jókst andóf gegn Rússum og stuðningur við sjálfstæði Georgíu. Á meðal georgískra andófsmanna voru Merb Kostava og Zviad Gamsakhurdia efst á baugi. Andófsmenn voru ásóttir af sovésku ríkisstjórninni og var starfsemi þeirra harkalega bæld niður. Langflestir meðlimir georgískra andófshreyfinga voru fangelsaðir af sovéskum yfirvöldum. Landafræði. Georgía stendur við Svartahaf og á landamæri að Rússlandi, Aserbaídsjan, Armeníu og Tyrklandi og er á breiddargráðu 42'00°N og 43'30°A á bauganetinu. Georgía er staðsett í Kákasusfjöllum og er því að stórum hluta hátt yfir sjávarmáli, en við strandlengjuna er láglendi. Hæsti punktur landsins er Shkharafjall, sem er 5201 metrar. Veðurfar er breytilegt, við strandlengjuna er miðjarðarloftslag, í austurhluta landsins eru heit sumur, en einkar kaldir vetrar. Þjóðarbrot. Fjöldinn allur af þjóðarbrotum eru í landinu. Þrjú sjálfsstjórnarsvæði eru í Georgíu. Í norðvesturhluta landsins er Abkhazía, Ajaría í suðvesturhlutanum og Suður-Ossetía í norðurhlutanum. Stór hluti íbúa þessara svæða hafa sérstaka menningu og tungumál. Um 70% íbúa Georgíu eru Georgíumenn að uppruna, um 8% eru Armenar, Rússar eru rúmlega 6% og Aserar tæplega 6%. Um 3% eru Ossetíumenn, tæp 2% eru Abkhazar og 5% tilheyra öðrum þjóðarbrotum. Rúm 17% íbúanna eru á aldrinum 0-14 ára, rúm 66% á aldrinum 15-64 ára og 16.5% yfir 65 ára aldri. Lífslíkur eru 76 ár. Tungumál. Opinbert tungumál Georgíu er georgíska og er það móðurmál rúmlega 70% íbúa. Málið fellur undir suðurkákasísku tungumálafjölskylduna. Uppruni georgísku er óljós, en líkist málið ekki neinu af helstu tungumálum heims. Málið hefur stafróf sem rekja má til 5. aldar. Fleiri tungumál eru töluð í Georgíu, oft af minnihlutahópum. Rússneska er móðurmál 9% íbúanna, armenska er móðurmál 7% þeirra og 6% tala aserísku. Abkazar segja abkasísku opinbert mál Abkhazíu og í Suður-Ossetíu er töluð ossetíska. Trúarbrögð. Í Georgíu eru flestir íbúanna kristnir og tilheyra georgísku-, rússnesku- eða armensku rétttrúnaðarkirkjunni. Tæpur fimmtungur íbúanna eru múslimar, þá fyrst og fremst Aserar, Ajaríumenn og Kúrdar. Um tveir fimmtu hlutar íbúanna tilheyra ekki neinum ákveðnum trúarbrögðum. Atvinna. Landbúnaður og þjónusta eru ásamt iðnaði helstu atvinnuvegir Georgíu. Meðal helstu landbúnaðarafurða eru te og ávextir. Georgía er auðug af jarðefnum og má þar nefna mangan, kol, járn og marmara. Helstu iðngreinar eru framleiðsla úr stáli og öðrum málmum, tóbaksiðnaður og víngerð, en vín er meðal helstu útflutningsvara landsins. Við landbúnað starfa 40% íbúanna, 20% við iðnað og 40% við þjónustu. Stjórnarfar. Í Georgíu er lýðveldi sem hefur verið alveg frá því að landið fékk sjálfstæði eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991. Núverandi forseti er Mikheil Saakashvili og núverandi forsætisráðherra er Zurab Noghaideli. Kanaríeyjar. Kanaríeyjar eru eyjaklasi í Atlantshafinu, og er spænsk sjálfstjórnarsvæði og er fjærsta svæði Evrópusambandsins. Eyjurnar eru staðsettar úti fyrir vesturströnd Norður-Afríku (100 km vestur af Marokkó og Vestur-Sahöru). Önnur spænsk sjálfstjórnarsvæði í Afríku eru borgirnar Ceuta og Melilla. Marokkó hefur gert tilkall til allra þessara svæða. Sjávarstraumarnir sem koma frá Kanaríeyjunum leiddu oft skip til Ameríku á nýlenduöldinni. Nafnið kemur úr latínu, "Insularia Canaria", sem merkir "Hundaeyjar". Höfuðborgarstaða eyjunnar er deild á milli tveggja borga: Santa Cruz de Tenerife og Las Palmas de Gran Canaria, sem eru líka höfuðborgir héraðanna Santa Cruz de Tenerife og Las Palmas. Þriðja stærsta borg Kanaríeyjanna er San Cristóbal de La Laguna (heimsminjaskrá UNESCO) á eyjunni Tenerífe. Venus (reikistjarna). Venus er önnur reikistjarnan frá sól og sú sjötta stærsta. Er ein af fjórum innri reikistjörnum. Sporbraut Venusar er sú sem kemst næst því að vera hringlaga af öllum reikistjörnunum og nemur skekkjan frá hringlögun einungis einu prósenti. Þvergöngur Venusar eru tiltölulega sjaldgæfar og líður oft rúm öld á milli þeirra. Venus er nefnd eftir hinni rómversku gyðju Venus, sem var gyðja ástar og fegurðar. Nafnið er líklega komið til vegna birtu og lit Venusar séð frá jörðu en hún hefur þótt afar falleg. Fyrirbæri á yfirborði Venusar hafa verið nefnd kvenkyns nöfnum (með nokkrum undantekningum þó). Í kínverskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hún kölluð "Málmstjarnan", byggt á frumefnunum fimm. Venus hefur þekkst síðan á forsögulegum tíma. Hún er bjartasti hlutur á himinhvelfingunni fyrir utan sólina og tunglið. Eins og Merkúríus var algengt að hún væri talin vera tveir aðskildir hlutir, þ.e. morgunstjarnan Eosphorus og kvöldstjarnan Hesperus. Grísku stjörnufræðingarnir vissu þó betur. Venus á sér nokkur heiti á íslensku. Þau eru: Blóðstjarna, Friggjarstjarna, Glaðastjarna, Kvöldstjarna og Morgunstjarna'". Líf. Vegna ofangreindra þátta var talið að neðan við þykka skýjahulu sína væri Venus mjög lík jörðinni og að þar væri jafnvel líf að finna. Frekari rannsóknir hafa þó leitt í ljós að í mörgum veigamiklum atriðum er Venus gjörólík jörðinni og líklega sú reikistjarna innan sólkerfis okkar sem er hvað fjandsamlegust öllu lífi. Þrýstingur lofthjúpsins við yfirborð Venusar er 90 loftþyngdir. Þetta er nokkurn veginn sami þrýstingur og á 1 km dýpi í höfum jarðarinnar. Lofthjúpurinn er að mestu leyti gerður úr koltvíoxíði (CO₂) og honum má skipta í nokkurra kílómetra þykk lög sem samsett eru úr brennisteinssýru. Það eru þessi skýjalög sem valda því að ókleift er að skoða yfirborð reikistjörnunnar með sjónaukum. Þéttur lofthjúpur Venusar hefur valdið þar svokölluðum gróðurhúsaáhrifum, sem hafa valdið yfirborðshita upp á 450 °C. Hitastigið er í raun tvisvar sinnum hærra en á Merkúríusi þrátt fyrir næstum í tvöfalt meiri fjarlægð frá sólinni. Lengd dags á Venusi er fjandsamleg lífríki eins og þróast hefur á jörðinni. Einn dagur á Venus (einn snúningur plánetunnar um sjálfa sig) er ígildi 243 daga á jörðu. Árið er styttra á Venusi en dagurinn, það tekur plánetuna aðeins 224 daga að snúast um sólu. Venus á sér mörg samheiti í íslensku. Má þar til dæmis nefna:" Blóðstjarna", "Friggjarstjarna", "Glaðastjarna", "Kvöldstjarna" og "Morgunstjarna". Loftþyngd. Loftþyngd er mælieining fyrir þrýsting, táknuð með atm. Mælieiningin "loftþyngd" á uppruna sinn í mælingum á loftþrýstingi með kvikasilfursloftvog og er skilgreind út frá staðalaðstæðum, sem sá þrýstingur sem 760 mm lóðrétt kvikasilfurssúla veldur á undirlagið. Breytingar í loftþrýstingi eru mældar í einingunni millimetra kvikasilfurs, táknaður með "mmHg", en sú mælieining hefur síðar hlotið nafni "torr". Loftþyngd er ekki SI-mælieining, en ein loftþyngd jafngildir 101325 paskölum, þ.e. 1 atm = 760 torr = 1013,25 hPa. Steinn, skæri, blað. Steinn, skæri, blað (einnig "‚blað, skæri, steinn‘" eða "‚steinn, skæri, pappír‘" eða "‚skæri, blað, steinn‘" og aðrar samsetningar af þessum orðum) er vinsæll fingraleikur sem er er kunnur um heim allan, og stundum notaður á sama hátt og peningakast, teningakast eða úrtalningarvísur. Úrtalningavísur eru t.d. úllen, dúllen, doff og ugla sat á kvisti og eru notaðar til að velja einn úr hóp, þótt úrslitin séu raunar ekki alveg handahófskennd. "Steinn, skæri, blað" er talinn upprunninn í Kína, og hafa borist þaðan, eða frá Japan, til Vesturlanda á 19. öld. Leikurinn. Tilgangurinn er að vinna hönd andstæðingsins. Ef báðir sýna sömu hönd er jafntefli. Stundum er leikurinn leikinn þannig að sá sem vinnur tvo leiki af þremur vinnur, eða sá sem vinnur flesta af vissum fjölda leikja. Strumparnir. Strumparnir (áður einnig kallaðir skrýplarnir) eru bláar skáldsagnaverur sem búa inni í sveppum í skógi einhvers staðar í Evrópu. Þeir eru rúmlega 40 cm að hæð. Þeir voru upphaflega teiknaðir af belgíska teiknaranum Peyo en Hanna-Barbera Productions gerði seinna vinsæla sjónvarpsþætti um þá sem Laddi talsetti á íslensku. Ævintýri Strumpana birtust fyrst sem framhaldssögur í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi. Strumparnir slógu í gegn í Evrópu seint á 8. áratug 20. aldar og árið 1979 tryggði Bókaútgáfan Iðunn sér útgáfuréttinn að teiknimyndasögunum en hljómplötuútgáfann Steinar rétt að vinsælli tónlist sem gefin var út á plötu. Hvorugur aðilinn vissi af hinum og voru nafngiftir því ekki samræmdar, teiknimyndapersónurnar hétu strumpar en á plötunni kölluðust þær skrýplar og söng Halli (Haraldur Sigurðsson) með þeim. Strumpanafnið varð þó ofan á þegar frá leið. Þeir eru til:p Níger (land). Níger er landlukt land í Vestur-Afríku sunnan Sahara, með landamæri að Nígeríu í suðri, Malí í vestri, Alsír og Lýbíu í norðri og Tsjad í austri. Landið dregur nafn sitt af Nígerfljóti sem rennur gegnum suðvesturhluta þess. Níger er eitt af fátækustu löndum heims og efnahagur þess byggist að mestu á sjálfsþurftarbúskap, kvikfjárrækt og vinnslu á úrani sem stendur undir 72% af útflutningstekjum landsins. Nígerfljót. thumb Nígerfljót er stórt fljót í Vestur-Afríku. Það rennur 4000 km leið í hálfhring frá Gíneu, um Malí, Níger, Benín og Nígeríu þar sem það rennur um mikla ósa, sem voru nefndir Olíufljótin, út í Gíneuflóa. Nígería. Nígería er land í Vestur-Afríku með landamæri að Benín í vestri, Tsjad í austri, Kamerún í suðaustri og Níger í norðri, og strönd að Gíneuflóa í suðri. Nígería er fjölmennasta land Afríku. Alexander McCall Smith. Alexander McCall Smith (fæddur 1948 í Simbabve) er rithöfundur og prófessor í lögfræði við Edinborgarháskóla. Hann fæddist í Simbabve og lærði í Bulawayo áður en hann fór til Skotlands til að læra lögfræði. Hann kenndi um skeið við Háskólann í Botsvana áður en hann settist að í Edinborg þar sem hann býr nú. Hann hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir skáldsöguna Kvenspæjarastofa No. 1 ("The No. 1 Ladies' Detective Agency") sem gerist í Botsvana. Fimm af skáldsögum hans um kvenspæjarann Precious Ramotswe hafa komið út á íslensku. Ritverk. Smith, Alexander McCall Norður-Afríka. Að auki eru Asóreyjar, Kanaríeyjar, Madeira, Erítrea og Eþíópía oft talin til Norður-Afríku. Til Norðvestur-Afríku (eða Magreb) teljast Marokkó, Alsír, Túnis og Líbýa. Strandhéruð þessara ríkja voru kölluð Barbaríið af Evrópubúum fram á 19. öld. Líbýa og Egyptaland eru oft talin til Miðausturlanda. Sínaískaginn, sem er hluti Egyptalands, er auk þess talinn til Asíu, fremur en Afríku. Máritanía. Íslamska lýðveldið Máritanía er land í Norður-Afríku, en er stundum einnig talið til Vestur-Afríku þar sem það tilheyrir bæði Magreb-svæðinu og Sahel-svæðinu. Það á strandlengju að Atlantshafi í vestri og landamæri að Vestur-Sahara í norðri, Alsír í norðaustri, Malí í austri og Senegal í suðri. Ríkið dregur nafn sitt af hinu forna konungsríki Berba, Máretaníu. Gínea. Lýðveldið Gínea er land í Vestur-Afríku með landamæri að Gíneu-Bissá og Senegal í norðri, Malí í norðaustri, Fílabeinsströndinni í suðaustri, Líberíu í suðri og Síerra Leóne í suðvestri. Nafnið er dregið af því heiti sem áður var notað um alla vesturströnd Afríku sunnan Sahara og norðan Gíneuflóa, kemur úr máli Berba og merkir „land hinna svörtu“. Áður hét landið Franska Gínea. Stærsta borgin er höfuðborgin Kónakrí. Landið er stundum kallað Gínea-Kónakrí til aðgreiningar frá Gíneu-Bissá. Síerra Leóne. Lýðveldið Síerra Leóne er land í Vestur-Afríku með strönd að Atlantshafi og landamæri að Gíneu í norðri og Líberíu í suðri. Nafnið kemur úr portúgölsku og merkir „Ljónafjöll“. Höfuðborgin, Freetown, var stofnuð af frelsuðum þrælum frá Nova Scotia árið 1792. Barnadauði er þriðji mestur í Síerra Leóne, er er hann mestur í Líberíu þar sem hann er um 66 dauðsföll á hver þúsund börn. Á Fílabeinsströndinni er barnadauði næst mestur. Gabon. Gabon er land í Vestur-Afríku (stundum þó talið til Mið-Afríku) með strönd að Atlantshafi (Gíneuflóa) í vestri og landamæri að Miðbaugs-Gíneu, Kamerún og Lýðveldinu Kongó. Frá því landið fékk sjálfstæði frá Frökkum 17. ágúst 1960 hafa aðeins tveir forsetar ríkt þar nánast einráðir. Omar Bongo var þar samfellt við völd frá 1967 til dauðadags árið 2009 og því þaulsætnasti þjóðhöfðingi Afríku. Snemma á 10. áratug 20. aldar tók Gabon upp fjölflokkakerfi og nýja lýðræðislega stjórnarskrá. Tiltölulega lítill fólksfjöldi og miklar náttúruauðlindir hafa gert það að verkum að Gabon er eitt af auðugustu ríkjum þessa heimshluta. Saga. Elstu grafirnar á Lopezhöfða eru taldar vera yfir 8000 ára gamlar og geyma steinaldarverkfæri fyrstu íbúa Gabon. Pygmíar fluttust til landsins seint á 2. árþúsundinu f.Kr. og viku síðan fyrir bantúmönnum þegar þeir síðarnefndu tóku að breiðast út um álfuna. Annars er lítið vitað um sögu Gabon fyrir komu Evrópumanna. Portúgalskir landkönnuðir komu fyrst til Gabon á 15. öld og skírðu landið "Gabon" eftir orðinu "gabao" sem er tegund klæðnaðar. Strönd Gabon varð síðan miðstöð fyrir þrælaverslunina og á 16. og 17. öld bættust ensk, frönsk og hollensk kaupskip við þau portúgölsku. Milli 1839 og 1841 gerðu Frakkar samninga við höfðingja þeirra ættbálka sem bjuggu við ströndina um að svæðið yrði franskt verndarsvæði. Árið 1849 var borgin Libreville stofnuð af föngum sem frelsaðir höfðu verið af þrælaskipi. 1885 gerðu Frakkar landið að nýlendu og frönsk stjórn hófst 1903. Árið 1910 var Gabon gert hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Árið 1959 var Franska Miðbaugs-Afríka lögð niður og Gabon, Tsjad, Mið-Afríkulýðveldið og Vestur-Kongó fengu sjálfstæði árið eftir. Í fyrstu kosningunum buðu tveir listar fram en hvorugur þeirra fékk nægilegan meirihluta. Leon M'Ba varð forsætisráðherra. Í kjölfarið var ákveðið að sameina listana og í kosningunum 1961 bauð einn listi fram og M'Ba varð forseti. Fyrir kosningarnar 1964 var kosningakerfinu breytt og aðeins listi M'Ba gat uppfyllt kröfurnar. Tilraun til valdaráns hersins sem fylgdi í kjölfarið var hrundið af frönskum hersveitum. Í öðrum kosningum sama ár fékk listi M'Ba öruggan meirihluta þingsæta og M'Ba var forseti til 1967 þegar hann lést og varaforsetinn Omar Bongo tók við. Í mars 1968 afnam Omar Bongo fjölflokkakerfið og kom á flokksræði. Við upphaf 10. áratugarins kom upp mikil óánægja með stjórnarfar og efnahag landsins sem leiddi til fjöldamótmæla og verkfalla. Í kjölfarið var komið á fjölflokkakerfi með nýrri stjórnarskrá. Spennan hélst enn mikil og þegar Bongo var endurkjörinn forseti árið 1993 með 51% atkvæða neitaði stjórnarandstaðan að viðurkenna úrslitin. Alvarlegar óeirðir leiddu til þess að stjórn og stjórnarandstaða gerðu með sér samning, Parísarsamkomulagið, árið 1994 sem leiddi til myndunar þjóðstjórnar. Bongo var endurkjörinn með miklum mun í kosningum 1998 og 2005. Landafræði. Gabon á strönd að Atlantshafi og nokkuð breið slétta liggur upp af vogskorinni ströndinni. Vestasti oddi landsins er Lopezhöfði sem myndar suðurmörk Gíneuflóa. Fljótið Ogooué hlykkjast um landið sem er að stærstum hluta flóðslétta þess. Það rennur út í Atlantshafið rétt sunnan við Port Gentil. Stærsta þverá Ogooué er Ivindo. Önnur fljót eru Komo sem rennur í Gabonvík sunnan við Libreville og Nyanga. Eftir því sem innar dregur í landið hækkar það og endar í fjöllum þar sem eru upptök helstu þveráa Ogooé. Mikið hefur verið lagt í að vernda náttúrulegt umhverfi landsins og árið 2002 tilkynnti stjórn Gabon um stofnun þrettán þjóðgarða. Suður- og austurhluti landsins eru gresja. Skipting í stjórnsýsluumdæmi. Kort sem sýnir skiptingu Gabon. Stjórnmál. Gabon er lýðveldi með forsetaræði á grundvelli stjórnarskrárinnar frá 1961 sem var breytt árið 1975 og endurskrifuð árið 1991. Þingið skiptist í tvær deildir og þar sitja 120 þingmenn sem kjörnir eru til fimm ára í senn. Forsetinn er kjörinn í almennum kosningum til sjö ára í senn. Hann útnefnir síðan forsætisráðherra, ráðherra og dómara í hæstarétt. Í Gabon hefur verið fjölflokkakerfi frá árinu 1991, en langstærsti flokkurinn er gabonski demókrataflokkurinn sem hefur verið við völd frá því landið fékk sjálfstæði. Stjórnarandstöðuflokkar eru leyfðir en hafa engan raunverulegan möguleika til að komast til valda. Forsetinn hefur mikil völd og getur meðal annars leyst upp þingið og lýst yfir neyðarlögum og skipt um ríkisstjórn. Efnahagslíf. Efnahagslíf í Gabon er blómlegra en hjá mörgum nágrannaríkjum þess og landsframleiðsla á mann er um fjórum sinnum hærri en meðaltalið í Afríku sunnan Sahara. Ríkidæmi landsins stafar aðallega af olíuvinnslu úr sjó utan við strönd landsins, en olía stendur undir 80% af verðmæti útflutnings. Gabon var fullgildur meðlimur OPEC frá 1975 til 1995. Helstu náttúruauðlindir í Gabon eru olíulindir, mangannámur og timbur. Gjaldfelling CFA-frankans 12. janúar 1994 leiddi til verðbólguskots sem gekk yfir á tveimur árum með hjálp Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Landið græddi á hækkun olíuverðs undir lok 10. áratugarins en síðan þá hefur framleiðslan minnkað. Menning. Í Gabon búa um fimmtíu þjóðflokkar með sérstakt tungumál og siði sem þó eru smám saman á undanhaldi. Langstærsti þjóðflokkurinn er Fang, en aðrir stórir hópar eru Myene, Bakota, Eshira, Bapounou og Okande. Öll málin eru bantúmál en franska er opinbert tungumál landsins. Eitt af einkennistáknum Gabon eru grímur með sérstöku lagi fyrir hvern þjóðflokk. Um tveir þriðju hlutar íbúa Gabon eru kristnir en andatrú frá því fyrir komu Evrópubúa er talin vera trúarbrögð um 20% landsmanna. Gínea-Bissá. Lýðveldið Gínea-Bissá er land í Vestur-Afríku og eitt af minnstu löndum álfunnar. Það á strönd að Atlantshafi í vestri og landamæri að Senegal í norðri og Gíneu í suðri og austri. Landið var áður portúgölsk nýlenda og hét Portúgalska Gínea, en við sjálfstæði var nafni höfuðborgarinnar Bissá bætt við nafnið til að koma í veg fyrir rugling við Gíneu. Madeiraeyjar. Madeiraeyjar eru lítill eyjaklasi undan vesturströnd Norður-Afríku sem tilheyrir Portúgal á milli 32º 22' 20 og 33º 7' 50" breiddargráðu og 16º 16' 30 V og 17º 16' 39" V lengdargráðu. Tvær byggðar eyjar eru í eyjaklasanum; Madeira er stærri eyjan 741 km² og Porto Santo sú minni, aðeins 42 km². Að auki eru þrjár óbyggðar smáeyjar kallaðar Ilhas Desertas og aðrar þrjár óbyggðar eyjar, kallaðar Selvageneyjar, sem eru nær Kanaríeyjum en Madeira. Portúgalar uppgötvuðu eyjarnar árið 1418. Þær eru nú sjálfstjórnarhérað innan Portúgal. Eyjarnar draga nafn sitt af lárviðarskógi ("madeira" þýðir „viður“ á portúgölsku) sem er á undanhaldi á suðurhluta Madeira. Skógurinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Eyjarnar eru einnig frægar fyrir samnefnt vín sem er styrkt vín, mikið notað í matargerð. Kamerún. Kamerún er land í Vestur-Afríku (oft fremur talið til Mið-Afríku) með landamæri að Nígeríu, Tsjad, Mið-Afríkulýðveldinu, Lýðveldinu Kongó, Gabon og Miðbaugs-Gíneu. Landið á strönd að Gíneuflóa í vestri. Landið varð til sem sambandslýðveldi við sameiningu "Frönsku Kamerún" og hluta "Bresku Kamerún" árið 1961 sem sameinuðust formlega í eitt ríki árið 1972. Atlantshaf. thumb thumb Atlantshaf er annað stærsta úthaf heims (á eftir Kyrrahafinu) og nær yfir um fimmtung yfirborðs jarðar. Nafnið er dregið af nafni títansins Atlas sem myndar súlur Herkúlesar beggja megin Gíbraltarsunds. Hafið markast af Norður- og Suður-Ameríku í vestri og Evrópu og Afríku í austri. Hafið tengist Kyrrahafinu um Norður-Íshafið í norðri og Drakessund í suðri. Að auki tengir skipaskurður höfin yfir Panamaeiðið. Í austri mætir Atlantshafið Indlandshafi við 20. lengdargráðu austur. Atlantshafið greinist frá Norður-Íshafinu með línu sem liggur frá Grænlandi, um Ísland og Svalbarða að Noregi og frá Suður-Íshafinu við 65. breiddargráðu suður. Í Atlantshafinu er fjöldinn allur af innhöfum, flóum og sundum. Meðal þeirra helstu eru Karíbahaf, Mexíkóflói, Lawrenceflói, Miðjarðarhaf, Svartahaf, Norðursjór, Grænlandshaf, Noregshaf og Eystrasalt. London. London (stundum á íslensku Lundúnir) er höfuðborg Englands og Bretlands. Í London hefur verið byggð í meira en tvö árþúsund. London er jafnframt ein fjölmennasta borg Evrópusambandsins og þar búa um 7,5 milljónir íbúa. Allt að 14 milljónir manna búa í London ásamt úthverfum. London er heimsborg í þeim skilningi að hún er einn af leiðandi viðskipta-, stjórnmála- og menningarkjörnum heimsins og hefur verið um árabil. Í dag hefur borgin gríðarleg áhrif á heimsvísu og er þekkt fyrir fjármálastarfsemi sína, næturlíf, tísku og listir. Í London er sannkallað fjölmenningarlegt samfélag, yfir 300 mismunandi tungumál eru töluð þar. Á stóra Lundúnasvæðinu eru fjórir staðir á heimsminjaskrá UNESCO: Tower of London, söguleg byggð Greenwich, Konunglegi grasagarðurinn og svæðið umhverfis Westminsterhöll, Westminster klaustur og kirkju heilagrar Margrétar. Nálægt London eru fimm alþjóðaflugvellir sem eru algengir viðkomustaðir ferðamanna. Í borginni eru margir frægir ferðamannastaðir s.s. Westminsterhöllin, Tower-brúin, Buckinghamhöll og Big Ben auk heimsfrægra safna eins og Þjóðminjasafn Bretlands og Listasafn Bretlands. Thames-áin rennur gegnum borgina. Borgarstjóri Lundúna er Boris Johnson sem tók við embætti af Ken Livingstone þann 4. maí 2008. Uppruni London. Talið er að Rómverjar hafi sest að, þar sem nú er London, um 43 e.Kr., í kjölfar innrásarinnar í Bretlandi, og nefnt byggð sína "Londinium". Þó er talið víst að uppruni nafnsins sé eldri en keltneskur en Keltar voru fyrir í landinu þegar Rómverjar komu. Um 61 e.Kr. réðist keltneski ættbálkurinn Iceni, undir stjórn Boudicu drottningu, á borgina og brenndi til kaldra kola. Uppúr árinu 100 hafði orðið töluverður uppvöxtur og var London þá orðin stærri en Colchester, helsta vígi Rómverja á Englandi. Næstu aldirnar stækkaði London og náði 60 þúsund manna íbúatölu áður en borgin tók að hnigna samfara hnignun Rómaveldis og á 5. öld var hún nánast yfirgefin. Um 600 höfðu Engilsaxar gert nýtt aðsetur, kallað "Lundenwic", í u.þ.b. 1 km fjarlægð frá gamla rómverska virkinu, á svipuðum slóðum og þar sem nú er Covent Garden. Þar var líklegast höfn við mynni Fleet-árinnar fyrir fiskveiðar og verslun. Verslun jókst þar til hrikalegt bakslag kom árið 851, þegar varnir nýju borgarinnar brugðust algerlega gegn máttugum víkingum sem rændu borgina og brenndu hana svo til grunna. Víkingatíminn stóð stutt. Tuttugu árum seinna samdi Alfreð mikli, nýi konungur Englands, um frið við víkinga og færði borgina aftur á sinn upprunalega stað, inn fyrir rómversku virkisveggina, og kallaði borgina "Lundúnaborg" (e. "Lundenburgh"). Upprunalega borgin varð síðan "Ealdwīc" („gamlaborg“), nafn sem notað er enn þann dag í dag sem Aldwych. Í kjölfarið, undir stjórn ýmissa konunga, dafnaði London og varð mikilvæg alþjóðleg verslunarborg og stjórnmálalegt aðsetur. Árásir víkinga hófust aftur seint á 10. öldinni og náðu hámarki um 1013 þegar þeir sátu um borgina undir stjórn danska konungsins Knúts og neyddu enska konunginn Aethelred til að flýja. Í endurárás skömmu síðar, náði her Aethelred að vinna sigur á víkingum með því að toga niður "London Bridge" með danska setuliðinu á henni og enn einu sinni var London komin á réttan kjöl. Canute tók við ensku krúnunni árið 1017 og stjórnaði borg og landi allt fram til 1042. Við dauða Canute komst krúnan aftur undir engilsaxneskt vald undir ráðvöndum stjúpsyni hans Edward játara, sem endurstofnaði Westminster Abbey ("Westminster klaustur") og stækkaði höllina í Westminster. Á þessum tíma var London orðin stærsta og efnaðasta borgin á öllu Englandi en þrátt fyrir það var aðalaðsetur stjórnarinnar enn í Winchester. Normannar og miðalda London. Í kjölfar sigurs í orrustunni við Hastings var Vilhjálmur bastarður, þáverandi hertogi af Normandy, krýndur konungur Englands, í nýlega kláruðu Westminster klaustri, á jóladag 1066. Vilhjálmur veitti borgurum London ákveðin forréttindi á meðan á byggingu kastala í suðvestur horni borgarinnar stóð, til að halda borgurunum góðum. Þessi kastali var síðar stækkaður af öðrum konungum sem Tower of London og gegndi fyrst hlutverki sem konunglegt aðsetur en síðar sem fangelsi. Árið 1097 byrjaði Vilhjálmur 2. að byggja Westminster salinn, nálægt klaustrinu með sama nafni. Salurinn varð grunnurinn að nýju höllinni í Westminster, sem var aðalaðsetur aðalsins á miðöldum. Westminster varð fljótlega aðsetur konunglega dómsstólsins og stjórnvalda og er það enn þann dag í dag. Á meðan var nágrannaborgin Lundúnaborg miðstöð viðskipta og verslunar og dafnaði undir eigin stjórn. Á endanum uxu borgirnar saman og mynduðu undirstöðu nútíma London. London tók við af Winchester sem höfuðborg Englands á 12. öld. Hörmungar skullu á þegar svarti dauði geisaði um miðja 14. öldina en þriðjungur borgarbúa lét lífið í farsóttinni. En London slapp að mestu við innrásir og borgarastríð á miðöldum, ef frá er skilin bændabyltingin árið 1381. Endurreisn og nýöld. Eftir vel heppnaðan sigur á spænska sjóhernum árið 1588, gerði stjórnmálalegur stöðugleiki London kleift að stækka og dafna enn meir. Árið 1603, varð Jakob 6. konungur bæði Englands og Skotlands. And-kaþólsk stefna hans og grimmileg lög voru almúganum ekki að skapi og gerðu hann afar óvinsælan. Þann 5. nóvember 1605 var gerð tilraun til að ráða hann af dögum. Svarti dauði olli miklum usla í London snemma á 17. öldinni sem leiddi af sér pláguna miklu í London sem stóð frá 1665 – 1666. Þetta var síðasta stóra plágan í Evrópu, hugsanlega að þakka brunanum mikla sem fylgdi strax í kjölfarið og breiddist um viðarhús London eins og eldur í sinu og drap líklegast flestar smitberandi rottur. Endurbygging borgarinnar tók síðan yfir tíu ár. Í dag. Þann 6. ágúst 2011 brutust óeirðir út í mörgum hverfum í London vegna dauða Mark Duggan, manns sem var skotinn til bana af lögreglunni. Skýring. Skýring London er óviss vegna háttar á sem borgin hefur vaxið. Miðborgin í London er Lundúnaborg (e. "City of London") sem heitir oft „"the City"“ eða „"the Square Mile"“ í daglegu tali. Borgarsvæðið stækkaði margfalt á Viktoríutímabilinu og aftur á millistríðsárunum, en staðnæmdist á fimmta áratugnum vegna Seinni heimsstyrjaldarinnar. Síðar hættu uppbyggingar vegna takmarkanir af borgarstjórninni sem sem eru hannaðar til að hindra uppbyggingar uppi í sveiti. Lundúnaborg liggur í miðju Stór-Lundúnasvæðisins og er umkringd af mörgum borgarhlutum. Þessu svæði er stjórnað af yfirvaldi Stór-Lundúnasvæðisins. Það er líka annað svæði, þéttbýli Stór-Lundúnasvæðisins, sem nær yfir svæði stærri en Stór-Lundúnasvæðið. Útan við þetta liggja margar borgar, bæir og þorp frá hverjum ferðast vinnuferðalangar daglega, þetta svæði heitir vinnuferðalangabelti Lundúna. Fjörutíu prósent Stór-Lundúnasvæðisins liggur í London-póstumdæminu og hefur orðið „London“ í heimilisfangi. London-símanúmersvæðið nær yfir líkt svæði, enda þótt notu ekki sum svæði í Stór-Lundúnasvæðinu London-símanúmer. Stundum er M25-hraðbrautin notuð til að útskýra London-svæðið og landamæri Stór-Lundúnasvæðisins eru í samræmi við hraðbrautina á nokkrum stöðum. Stor-Lundúnasvæðið skiptist í innri og ytri London fyrir tölfræðilegan tilgang, og oft er talið um svæðin Norður-, Suður-, Austur- og Vestur-London. Metropolitan Police-svæði er því umdæmi stjórnað af Metropolitan Police-lögregluliðinu og er harkalega í samræmi Stór-Lundúnsvæðið. Nútímalegi miðpunktur borgarinnar er Charing Cross, en Rómverjar merktu miðpunkt rómversku borgarinnar "Londinium" með steini. Er enn hægt að sjá þennan stein í Cannon Street. Borgarhlutar. Það eru mikil nágrenni í Lundúnasvæðinu og líka mikil heiti notuð til að lýsa þessi svæði (til dæmis Bloomsbury, Knightsbridge, Mayfair, Whitechapel og Fitzrovia). Þessi eru annaðhvort óformleg heiti eða gömlu heiti þorpanna og bæjanna sem eru núna í samliggjandi þéttbýlum. Þessi heiti hafa verið í notkun samkvæmt venju en það eru ekki opinber landamæri til að afmarka þessi svæði. Stór-Lundúnasvæðið skiptist í þrjátíu og þrjá borgarhluta. Þetta kerfi er síðan 1965. Skemmtun. Margir skemmtistaðir í London eru staðsettir á West End-svæðinu í Westminsterborg. Leicester Square er torg í West End umkringt af mörgum kvikmyndahúsum og þar eru haldnar alþjóðlegar frumsýningar kvikmynda. Nálægt torginu er Piccadilly Circus sem er þekkt fyrir stórar rafmagnsauglýsingar. Þar eru mörg leikhús og barir, krár, næturklúbbar og veitingahús. Í grenndinni er Chinatown, kínverska hverfið í London, og austan megin við það er Covent Garden, verslunarhverfi þar sem eru margar sérverslanir. Konunglegi ballettinn (Royal Ballet), Enski þjóðarballettinn (English National Ballet), Konunglega óperan (Royal Opera) og Enska þjóðaróperan (National English Opera) eru öll staðsett í London og sýna í leikhúsunum Royal Opera House, Coliseum, Sadler’s Wells og Royal Albert Hall auk þess sem þau fara með sýningar um Bretland. Í Islington er gatan Upper Street, sem nær 1,6 km norður frá Angel og er með fleiri bari og veitingahús en nokkur önnur gata í Bretlandi. Fjölsóttasta verslunarhverfið í Evrópu er Oxford Street, verslunargata næstum 1,6 km að lengd, sem gerir hana lengstu verslunargötu í heimi. Þar eru margar búðir og deildaverslanir, til dæmis Selfridges. Harrods-deildaverslunin er í Knightsbridge, sem liggur suðvestan megin við Oxford Street. Hönnuðirnir Vivienne Westwood, Galliano, Stella McCartney, Manolo Blahnik, Jimmy Choo og fleiri vinna í London. Lista- og tískuskólarnir í London eru frægir um allan heim enda er London alþjóðleg tískumiðstöð eins og París, Mílanó og New York. Minjasöfn og listasöfn. Mörg minjasöfn, listasöfn og önnur samtök eru staðsett í London. Náttúrugripasafnið (um líf- og jarðfræði), Vísindasafnið og Victoria og Albert-safnið (um hönnun og tísku) eru öll saman í „safnahverfinu“ í South Kensington. Þjóðminjasafn Bretlands er staðsett í Bloomsbury og hýsir söfn frá um allan heim. Þjóðbókasafn Bretlands við St Pancras er þjóðbókasafn Bretlands og hýsir yfir 150 milljónir hluta. Það eru líka víðtæk listasöfn í borginni, sérstaklega á Listasafni Bretlands og á listasöfnum Tate Britain og Tate Modern. Samgöngur. London er með viðamikið samgangnakerfi og samgöngur eru einar af fjórum stefnusviðum sem borgarstjórni London sér um. Hins vegar er fjárhagseftirlit borgarstjórnans takmarkað, til dæmis stjórnar hann ekki þunglestarkerfinu, en frá og með nóvember 2007 tók hann stjórn yfir North London Railway og London Overground. Transport for London er fyrirtæki sem stjórnar almenningssamgangnakerfinu, sem er eitt af fjölsóttustu samgangnakerfunum í heimi, en hefur vandamál með stíflun og áreiðanleika. Það er núna mikil fjárfesting til að leysa þessi vandamál: 7 milljarðar breskra punda hafa verið gefnir til að bæta kerfinu á undan byrjun Ólympíuleikanna ársins 2012 (sem tekur sér stað aðallega í Stratford). Samgangnakerfið í London hefur verið nefnt besta í heimi. Að fara á reiðhjól verður vinsælla í London. London Cycling Campaign er herferð sem biður fyrir betri aðstaða fyrir hjólreiðamenn í borginni. Járnbrautir. Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar er í miðju samgangnakerfisins og er með ellefu leiðir sem tengja saman. Það er elsta, lengsta og fjölsóttasta neðanjarðarlestakerfið í heimi, og var stofnað árið 1863. Kerfið var með fyrstu rafmögnuðu neðanjarðarjárnbrautina í heimi sem hét City & South London Railway, og var tekin í notkun árið 1890. Um það bil 3 milljónir manna ferðast daglega í neðanjarðarlestkerfinu, eða um 1 milljarðar ferða árlega. Neðanjarðarlestakerfið þjónar miðborg Lundúna og mörgum úthverfum í norðurhluta borgarinnar, en í suðurhlutanum er víðtækt úthverfalestkerfi. Annað lestakerfi, sem heitir Docklands Light Railway (eða DLR) og notar minni og léttari lestir, opnaði árið 1987. Þetta kerfi nær yfir Austur-London og Greenwich, báðumegin við Thames-ána. Ferju- og milliborgajárnbrautir ná ekki í gegnum miðju borgarinnar, heldur ná þær að fjórtán endastöðvum í kringum sögulega miðju borgarinnar. Það er ein undantekning, það er að segja Thameslink-lestin sem First Capital Connect stjórnar, með endastöðvar í Bedford, Brighton og Moorgate. Frá tíunda áratugnum hefur aukið álag á léttlestarkerfið og neðanjarðarlestkerfið gert að verkum að kröfur hafa orðið háværari, sérstaklega frá viðskiptalífinu og Bæjarstjórn Lundúnaborgar, um að Crossrail-verkefninu verið hrint í framkvæmd, en það er þunglestarkerfi sem liggur frá austri til vesturs og kostar 10 milljarða breskra punda. Leyfi fékkst fyrir verkefninu í október árið 2007. Eurostar háhraðalestir tengir St Pancras-lestarstöð við Lille og París í Frakklandi og Brussel í Belgíu. Strætisvagnar. Strætisvagnakerfi Lundúna er eitt hið stærsta í heimi. Það starfar allan sólarhringinn, með 8.000 strætisvagna, 700 leiðir og 6 milljónir farþega daglega. Árið 2003 voru ferðir 1,5 billjónir, sem eru fleiri en í neðanjarðarlestakerfinu. Árlegar tekjur eru 850 milljónir breskra punda. Flugvellir. London er stór alþjóðleg flugmiðstöð og hefur stærstu borgarlofthelgi heimsins. Átta flugvellir hafa orðin „"London-flugvöllur"“ í nafni sínu en megnið af flugumferðinni fer um fimm flugvelli. London Heathrow-flugvöllur er fjölsóttasti flugvöllurinn í heimi og þar eru höfuðstöðvar British Airways. Fimmta flugstöðvarbyggingin var opnuð í mars 2008 og sjötta flugstöðvarbyggingin er í undirbúningi. London Gatwick-flugvöllur hefur ámóta mikla umferð og þangað fljúga nokkur ódýr flugfélög. Bæði London Stansted-flugvöllur og London Luton-flugvöllur þjóna ódýrum og fljótum flugfélögum. London City-flugvöllur er minnsti flugvöllurinn í London og er aðallega fyrir viðskiptaferðamenn. Útþensla flugvallanna í London er mikið ágreiningsmál. Einar Benediktsson. Einar Benediktsson (oft nefndur Einar Ben'") (31. október 1864 – 21. janúar 1940) var skáld, ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og mikill athafnamaður. Einar er talinn í hópi nýrómantískra skálda og samdi mikil ljóð með hátimbruðu yfirbragði. Orðin: „"Aðgát skal höfð í nærveru sálar"“ eru úr ljóði hans "Einræður Starkaðar, III". Ævi og ferill. Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir, húsmóðir. Einar gekk í Lærða Skólann í Reykjavík þaðan sem hann varð stúdent 1884. Hann fór því næst til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem lögfræðingur úr Hafnarháskóla 1892. Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, "Dagskrá", árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið "Landvörn" samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna "Þjóðin" (1914-15), "Þjóðstefna" (1916-17) og "Höfuðstaðurinn" (1916-17). Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð. Á árunum 1907-21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910-17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917-21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesi, þar sem hann lést 1940. Einar var grafinn í þjóðargrafreit á Þingvöllum. Þorsteinn Gíslason. Þorsteinn Vilhjálmur Gíslason (26. janúar 1867 – 20. október 1938) var íslenskt skáld, ritstjóri og þýðandi. Þorsteinn vakti máls á stofnun íslensks háskóla. Hann var fylgjandi aðskilnaði við Danmörku og fylgdi Valtý Guðmundssyni að málum gegn heimastjórnarmönnum en síðar breyttist það. Þorsteinn las norræna tungu og bókmenntir við Kaupmannahafnarháskóla en var meinað að þreyta próf því skólinn viðurkenndi ekki íslenskar bókmenntir eftir 1500. Þorsteinn var ritstjóri "Sunnanfara" (með Einari Benediktssyni), "Bjarka" (með Þorsteini Erlingssyni), "Skírnis", "Óðins", "Lögréttu" og "Morgunblaðsins". Þorsteinn þýddi sálma, þar á meðal sálm 19 og 524 fyrir íslenska sálmabók. Hann þýddi einnig verk eftir Björnstjerne Björnson, Fjodor Dostojevskí, Emile Zola, Rudyard Kipling, Guy de Maupassant, Walter Scott, Gunnar Gunnarsson og Henrik Ibsen. Þorsteinn var faðir Gylfa Þ. Gíslasonar, menntamálaráðherra 1956-1971, og Vilhjálms Þ. Gíslasonar, útvarpsstjóra 1953-1967. Barnabörn hans voru Þorsteinn Gylfason, Þorvaldur Gylfason, Vilmundur Gylfason, Þór Heimir Vilhjálmsson, Yrsa Ingibjörg Vilhjálmsdóttir og Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Allt þjóðþekktir Íslendingar. Silkiormur. Silkiormur (fræðiheiti: "Bombyx mori") er lirfa mölfiðrildis og er notaður við framleiðslu á náttúrulegu silki. Silkiormar borða eingöngu mórberjalauf. Þeir eru upprunnir í norðurhluta Kína. Silkiormurinn dregur nafn sitt af því að hann spinnur um sig lirfuhýði úr hrásilki. Hýðið er gert úr einum heilum, 300 til 900 metra löngum silkiþræði. Silkiormar éta nær stanslaust dag og nótt og vaxa þar með mjög hratt. Þegar höfuð þeirra dökknar merkir það að þeir muni brátt skipta um ham. Eftir um fjögur hamskipti verða líkamar þeirra gulleitir sem merkir að þeir séu í þann mund að fara að hjúpa sig með silki. Ef fiðrildislirfan fær óáreitt að vaxa, étur hún sig út úr hýðinu og klippir þræðina í sundur, svo silkið verður ónothæft. Silkiormarnir eru því oftast drepnir með því að setja þá í heitt vatn. Það gerir það líka auðveldara að rekja úr silkiþræðinum. Ormurinn sjálfur er oft étinn. Fullorðið mölfiðrildi silkiormsins hefur verið ræktað til silkiframleiðslu og er ófleygt. Það er kallað silkifiðrildi. Erfðamengi silkiormsins hefur verið rannsakað í þaula vegna efnahagslegs mikilvægis hans. The Rasmus. The Rasmus er finnsk rokkhljómsveit stofnuð 1994. Fyrsta plata hennar, "Peep", kom út 1996. Tíu árum síðar, 2006 léku þeir á færeysku tónlistarhátíðinni Summarfestivalurin. Hljómsveitarmeðlimir. Eitt eiga meðlimirnir sameiginlegt - þeir eru allir fæddir 1979. Áskell erkibiskup. Áskell (um 1100 – 1181/82) var erkibiskup í Lundi af jósku ættinni Thrugot sem kepptu við ættina Hvide um völd í Danmörku. Áskell var sendur til náms í Hildesheim á Saxlandi. Við heimkomuna var hann gerður dómprófastur við kirkjuna í Lundi, þar sem Össur, föðurbróðir hans, var erkibiskup. Eftir orrustuna í Fótavík þegar Eiríkur eimuni varð konungur, var hann gerður að biskup í Hróarskeldu. Honum lenti þó brátt saman við konung og tók þátt í uppreisn gegn honum, sem endaði með ósigri þar sem Áskeli var gert að greiða sekt. Áskell tók við embætti erkibiskups Norðurlanda eftir lát Össurs 1137. Hann er sagður hafa vígt dómkirkjuna í Lundi árið 1145. Hann sagði af sér embætti 1177 og Absalon tók við. EVE Online. EVE Online er íslenskur fjölnotendanetspunaleikur, þróaður og rekinn af fyrirtækinu CCP. Kynþættir. Það eru fimm kynþættir í EVE Online. Amarr. Amarr eru útbreiddasti kynþátturinn af öllum, réttara sagt ráða þeir yfir 40% af virkum sólkerfum. Stórveldinu er stjórnað af einum höfuðpaur og fimm undirstjórnendum, þessir fimm stjórna undir nafni höfuðpaursins þarsem hann nær ekki að vera á öllum stöðum á sama tíma. Minmatar. Minmatar voru eitt sinn þrælar Amarr veldisins, Amarr notuðu sérstakar ígræðslur sem stjórnuðu heilastarfsemi Minmatar kynþáttsins. Eftir þó nokkur ár í þrælkun bráust út stríð og hefur Minmatar náð að frelsa sig og sína að mestu og eru nú með hæsta fjölda af sínu kyni af öllum fjórum. Stjórn Minmatar veldisins er á víð og dreif og eru flestir í litlum glæpasamtökum sem hefna sín á Amarr-þjóðinni. Caldari. Caldari er samfélag byggt upp af úrvals viðskipta- og stríðsmönnum, Caldari-kynþátturinn samanstendur af mörgum risastórum fyrirtækjum og mörgþúsund minni. Caldari þjóðin er vön stríði og þekkt fyrir sína hæfileika til að lifa af. Markaðnum er að stórum hluta stjórnað af Caldari og hafa nokkur fyrirtæki horfið sporlaust sem þeim leist ekki vel á Stjórn Caldari ríkisins er byggð upp af hinum fyrrnefndu risa fyrirtækjum þarsem stjórnendur þeirra ráða öllu. Gallente. Gallente er þjóð byggð upp á draumum og hafa margir ræst, þjóðin er vel þekkt fyrir list sína í að smíða skip sem líta býsna vel út og sum hafa jafnvel betri tækni en hjá öðrum. Caldari-þjóðin átti eitt sinn fast sæti í stjórn Gallente en var hrakin í burtu og Gallente urðu sjálfstæð þjóð. Stjórn Gallente byggist upp af nokkrum risafyrirtækjum og nokkrum smáum. Jove. Jove er eini kynþátturinn sem leikmenn geta ekki valið að spila, Jove eru tæknilega langlengst komnir af öllum kynþáttum í Eve en eru jafnframt fámennastir. Jove hafa í gegnum tíðina breytt erfðamengi sínu gríðalega svo að þeir teljast varla mennskir en sem aukaverkun herjar á þá banvænn sjúkdómur sem hindar fjölgun þeirra. Klósigar. Klósigar (latína: "Cirrus") eru ein gerð háskýja sem tilheyra blikum, þau eru samansett úr ískristöllum og myndast í yfir 7 kílómetra hæð og eru, vegna þess hve hátt þau liggja, fyrstu skýin sem roðna við sólarupprás. Þegar þau eru bogin upp í annan endann nefnast þau vatnsklær. Þessi ský myndast við hægt hitauppstreymi (um 0,3s) og við skil loftmassa eða í kjölfar rigningar eða þrumuveðurs. Þegar á himnum myndast klósigar segja menn: "Hann hrísar loftið". Katrín Fjeldsted. Katrín Fjeldsted (fædd 6. nóvember 1946) er stjórnmálamaður og heimilislæknir. Foreldrar hennar eru Jórunn Viðar (f. 1918) tónskáld og Lárus Fjeldsted (f. 1918, d. 1985) forstjóri. Katrín er gift Valgarði Egilssyni og eiga þau fjögur börn saman; Jórunni Viðar (f. 1969), Einar Véstein (f. 1973; d. 1979), Véstein (f. 1980) og Einar Stein (f. 1984). Katrín lauk stúdentsprófi frá MR árið 1966 og kandidatspróf frá læknadeild HÍ árið 1973. Hún hélt síðan áfram í sérfræðinámi til heimilislækninga í Bretlandi og lauk því 1980. Katrín hefur meðal annars verið borgarfulltrúi, í borgarráði, formaður heilbrigðisráðs, formaður heilbrigðisnefndar, varaformaður umhverfisnefndar og umhverfismálaráðs, í stjórn Sorpu, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og fleira. Katrín sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn kjörtímabilið 1999-2003 auk þess sem hún hefur setið í landbúnaðarnefnd, iðnaðarnefnd, félagsmálanefnd, umhverfisnefnd, heilbrigðis- og trygginganefnd og allsherjarnefnd. Kjörtímabilið 2003-2007 var hún 2. varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og tók nokkrum sinnum sæti á þinginu. Maríutása. Maríutása (latína: "Cirrocumulus") eru ein tegund háskýja og flokkast einnig sem bólstraský. Gráblika myndast í 6 til 12 km hæð úr klósigum eða bliku þegar hitauppstreymi nær hraðanum 1s. Af þeim sökum eru maríutásur nánast alltaf innan um klósiga og blikuský. Blika. Blika (latína: "Cirrostratus") er ein gerð háskýja, þau myndast í 6–12 km hæð og eru þunn, samfelld háskýjabreiða sem boðar oft komu regnsvæðis, og koma þá gráblika og regnþykkni með úrkomu í kjölfar hennar. Sól sést í gegnum bliku, og myndast þá stundum rosabaugur kringum hana er geislar hennar brotna í ískristöllunum. Orðatiltækin; „mér líst ekki á blikuna“ og „það eru blikur á lofti“, vísa til þess að blikur eru fyrirboðar veðurbreytinga. Ólafur pái Höskuldsson. Ólafur "pái" Höskuldsson (10. öld) var sonur Höskuldar Dala-Kollssonar stórbónda og höfðingja á Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu og ambáttar hans, Melkorku Mýrkjartansdóttur. Melkorka neitaði að tala og héldu menn að hún væri mállaus, en þegar Ólafur var nokkurra ára kom faðir hans að þeim þar sem Melkorka sagði syni sínum sögur í hvammi fyrir neðan bæjarhólinn. Kom þá í ljós að hún var konungsdóttir frá Írlandi. Ólafur var látinn heita eftir Ólafi feilan bónda í Hvammi í Hvammssveit, en hann var móðurbróðir Höskuldar og dó skömmu áður en Ólafur pái fæddist. Frá 7 ára aldri var hann í fóstri hjá Þórði godda á Goddastöðum í Laxárdal og mannaðist vel. Ólafur pái var skartmaður mikill þegar hann óx úr grasi og var það orsök viðurnefnisins, sem Höskuldur faðir hans gaf honum. Hálfbræður hans voru Þorleikur og Bárður og hálfsystir hans var Hallgerður langbrók og var hann því mágur Gunnars á Hlíðarenda. Er Ólafur var átján vetra fór hann í frægðarför til Írlands að finna Mýrkjartan afa sinn, sem tók honum vel og gerði honum mikinn sóma. Einnig hlaut hann mikinn sóma af Haraldi Eiríkssyni Noregskonungi, sem hafði hann í miklum metum og kom hann stórríkur til baka úr för sinni að tveimur árum liðnum. Ólafur pái kvæntist Þorgerði Egilsdóttur Skallagrímssonar frá Borg á Mýrum. Voru þau fyrst um vetur á Höskuldsstöðum með Höskuldi, en bjuggu svo á Goddastöðum þar sem Ólafur var fóstraður. Síðar bjuggu þau í Hjarðarholti, sem er norðan Laxár gegnt Höskuldsstöðum og byggði Ólafur þar fyrstur manna. Þegar þau fluttu lét Ólafur reka búsmalann á milli bæjanna og náði hjörðin í óslitinni röð á milli Goddastaða og Hjarðarholts, en það er alllöng leið. Börn þeirra Ólafs og Þorgerðar voru synirnir Kjartan, Steinþór, Halldór, Helgi og Höskuldur og dæturnar Bergþóra, Þorbjörg og Þuríður. Auk þess fóstruðu þau Bolla, son Þorleiks, og voru þeir jafnaldrar Kjartan og Bolli. Þeir voru miklir vinir, en þó gerðist Bolli banamaður Kjartans vegna ástamála þeirra og Guðrúnar Ósvífursdóttur. Var Kjartan veginn við stein nokkurn uppi á Svínadal og heitir þar Kjartanssteinn. Frá öllum þessum persónum og atburðum segir í Laxdæla sögu. Laxdæla saga. Laxdæla saga, eða Laxdæla eins og hún er stundum kölluð, segir frá landnámi Auðar (Unnar) djúpúðgu í Dalasýslu, fólki sem með henni kom og afkomendum þeirra, sem margir bjuggu í Laxárdal og dregur sagan nafn af því. Helstu persónur sögunnar eru Guðrún Ósvífursdóttir og frændurnir og fóstbræðurnir Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson og hvernig mál þróuðust með slíkum hætti að Bolli sveik Kjartan og gerðist síðar banamaður hans. Netjuský. Netjuský (latína: "Altocumulus") eru ein gerð miðskýja og myndast í 2.400–6.100 m hæð. Glerstrendingur. Glerstrendingur eða prisma er gegnsær hlutur oftast úr gleri eða plasti, sem notaður er til að kljúfa hvítt ljós með ljósbroti. Þegar ljós fer úr lofti í gler þá breytir það um hraða og stefnu (ljósbrot) vegna þess að það fer mishratt í gegnum efni eftir bylgjulengd ljóssins. Með glerstrendingi má sjá litróf ljóss, eins og gerist þegar regnbogi myndast við ljósbrot í vatnsdropum. Með því að nota innspeglun í glerstrendingum má nota þá sem spegla í ljóstækjum, t.d. í myndavélum. Silfurberg (enska "Iceland spar") var mikið notað í ljóstækjum fram á miðja 20. öld. Súrdoði. Súrdoði (kallast stundum fóðureitrun í sauðfé) er efnaskiptasjúkdómur vegna orkuskorts sem leggst á mjólkurkýr. Fyrstu 8 vikur mjaltaskeiðs síns er kúnum einkum hætt við sjúkdómnum en einnig eru til þær kýr sem fá sjúkdóminn við lok meðgöngu. Sjúkdómurinn einkennist af lystarleysi, sérstaklega á kjarnfóður, deyfð, minnkandi nyt, hor og hangandi eyrum. Auk þess er væg acetonlykt af andardrættinum og mjólkinni. Til að komast hjá því mikla tjóni sem sjúkdómurinn getur valdið er best að meðhöndla kúna sem fyrst. Þetta er gert með sykurhrífandi barksterum (einnig kallað súrdoðahormón), auk þess sem kalk, magnesíum og glúkósi er gefið í æð. Þetta ætti að draga úr deyfð kýrinnar. Væg tilfelli er hægt að lækna með því að hella sykurlegi í kúna, svokölluðum framsóknardropum. Höskuldur Dala-Kollsson. Höskuldur Dala-Kollsson var stórbóndi og héraðshöfðingi í Dalasýslu snemma á 10. öld og bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal. Bærinn er vestarlega í dalnum, sunnan Laxár. Höskuldur var sonur Kolls, sem Laxdæla ættfærir ekki en er sagður sonur Veðrar-Gríms Ásasonar hersis í Sturlubók Landnámu, og Þorgerðar, dóttur Þorsteins rauðs sem verið hafði konungur í Skotlandi, en Skotar drápu. Amma Þorgerðar var Unnur (Auður) djúpúðga, landnámskona í Hvammi í Dölum. Hálfbróðir Höskulds var Hrútur Herjólfsson. Koma þeir bræður allnokkuð við sögu í Laxdælu og Njálu. Höskuldur tók ungur við búi er faðir hans lést og gerðist snemma voldugur í héraði. Kona hans var Jórunn, dóttir Bjarnar landnámsmanns í Bjarnarfirði á Ströndum og þótti hún góður kvenkostur. Hún var systir Svans galdramanns, þess sem síðar gekk í Kaldbakshorn. Börn þeirra voru Þorleikur, Bárður, Hallgerður, sem kölluð var langbrók, og Þuríður. Höskuldur fór í Noregsleiðangur til að afla sér húsaviðar. Í þeirri för keypti hann ambátt, sem virtist vera heyrnarlaus og mállaus, en var samt verðlögð á við 3 aðrar. Með henni eignaðist Höskuldur son, sem nefndur var Ólafur, eftir Ólafi feilan, ömmubróður sínum, sem þá var nýdáinn. Ólafur Höskuldsson var mjög bráðger og er hann var liðlega tveggja ára komst Höskuldur að því, að ambáttin bæði heyrði og talaði, er hann kom að þar sem hún sat niðri við Laxá og sagði syni sínum sögur. Sagði hún Höskuldi þá að hún héti Melkorka og væri dóttir Mýrkjartans Írakonungs, en víkingar höfðu rænt henni þegar hún var 15 ára. Þegar þetta var hefur hún verið innan við tvítugt að öllum líkindum. Eftir þetta setti Höskuldur hana til bús á Melkorkustöðum innar í Laxárdal, sunnan ár, vegna þess að illa fór á með Jórunni og Melkorku og höfðu þær slegist, svo að Höskuldur varð að ganga á milli. Þórður goddi á Goddastöðum bauð Höskuldi fóstur og tók hann við Ólafi páa til fósturs er hann var 7 ára, þó að Melkorku líkaði illa og þætti fóstrið of lágt eins og segir í Laxdælu. Hrútur hálfbróðir Höskulds var fæddur og fóstraður í Noregi, en kom út og settist að á Kambsnesi, rétt utan Laxárdals. Höskuldur og Hrútur deildu um móðurarf sinn og vildi Höskuldur ekkert greiða Hrúti og sat yfir fé hans. Eitt sinn er Höskuldur var af bæ kom Hrútur þar og hafði á brott með sér tuttugu naut, en skildi jafn mörg eftir. Fimmtán húskarlar Höskulds veittu honum eftirför, en svo lauk viðskiptum þeirra að af þeim féllu fjórir en hinir voru allir sárir og báðu sér þá griða. Eftir þetta var samið á milli þeirra bræðra og greri um heilt á milli þeirra. Er Höskuldur fann elli fara fast að sér, kallaði hann til sín Þorleik og Bárð og bað þá þess að Ólafur pái yrði arfgengur til jafns við þá. Þessu þverneitaði Þorleikur og þar við sat, þrátt fyrir samþykki Bárðar. En Höskuldur nýtti rétt sinn og gaf Ólafi 12 aura gulls, en það voru hringur og gullrekið sverð. Þetta mislíkaði Þorleiki ákaflega en svo varð þó að vera, því að þetta voru lög. Eftir þetta dó Höskuldur og héldu synir hans mikla veislu eftir hann og segir sagan að sú veisla sé næstfjölmennasta veisla sem haldin hafi verið á Íslandi í þá daga. Er fjöldi boðsmanna sagður hafa verið níu hundruð (stór, = 1080 manns). Greiddi Ólafur pái ríflega þriðjung kostnaðar á móti bræðrum sínum, þó svo að hann væri sviptur arfi. Lalli Johns (kvikmynd). "Lalli Johns" er kvikmynd um smáglæpamanninn "Lalla Johns". Þorfinnur Guðnason fylgdi Lalla eftir í nokkurn tíma til að mynda hann við daglegt amstur. Myndin vakti mikla athygli árið 2001 þegar hún var sýnd í Háskólabíó við mun meiri aðsókn en íslenskar heimildamyndir eiga að venjast í kvikmyndahúsum. Í myndinni fylgjumst við með Lalla þar sem hann flækist á milli kráa, Litla Hrauns og félagsstofnanna. Næst ætlar hann þó að bæta sig, hætta að dópa, drekka og brjóta af sér. Árið 2001 hlaut Þorfinnur Guðnason, leikstjóri myndarinnar Menningaverðlaun DV fyrir kvikmyndagerð. Québec. Québec (borið fram [kebɛk]?) er stærsta fylki Kanada samkvæmt landssvæði og annað fjölmennasta, á eftir Ontario, með 7.568.640 íbúa (samkvæmt Hagstofu Kanada í janúar 2005). Þetta er um 24% af íbúafjölda Kanada. Aðaltungumál Quebec og eina opinbera tungumálið er franska og býr þar meginhluti frönskumælandi íbúa Norður Ameríku. Quebec er eina fylkið þar sem enska er ekki opinbert tungumál, og aðeins eitt af þremur fylkjum þar sem að franska er opinbert tungumál (hin tvö eru New Brunswick og Manitoba). Höfuðborgin er Québecborg (einfaldlega kölluð „Québec“ á frönsku) og stærsta borgin er Montréal. Hringskyrfi. Hringskyrfi er smitandi húðsjúkdómur í búfé sem orsakast af sveppum ("Tricophytus verrucosum"). Oft smitast fólk af sjúkum dýrum og myndast hárlausir blettir á líkama sjúklings en einnig fylgir kláði smitinu. Hringskyrfi á Íslandi. Hringskyrfi er ekki landlægur sjúkdómur á Íslandi en að minnsta kosti fimm aðskild tilfelli hafa komið upp. Fyrstu þrjú hafa reynst koma með innfluttum gripum eða útlendu vinnufólki. Veikin er tilkynningaskyld á Íslandi. Hringskyrfi í Þerney. Sumarið 1933 voru flutt til landsins nokkrir holdagripir frá Skotlandi og var þeim komið fyrir í Þerney til sóttvarna. Skömmu seinna fór að koma fram hringskyrfi á dýrunum fimm. Veikin lagðist á nautgripi bóndans þar og heimilisfólkið, en ekki var staðfest að sauðfé og hross hafi veikst. Öllu búfé var síðan slátrað, nema einum kálfi sem var tekinn úr karinu og geymdur í eldhúsi húsmóðurinn þar til hann var fluttur að Blikastöðum í Mosfellssveit, þar sem hann var alinn um skeið. Ítarleg sótthreinsun fór fram á gripahúsum og gengu þær eftir og tókst að uppræta sjúkdóminn í þetta sinn. Kálfurinn, sem nefndur var Brjánn var notaður til undaneldis víða um land og út af honum kom Galloway-hjörðin í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Brjánn smitaðist ekki af hringskyrfi og var því hægt að nota hann víða um land. Atvik í Eyjafirði. Síðsumars árið 1966 var heimilisfólk að Grund (Eyjafjarðarsveit í Hrafnagilshreppi vart við hringskyrfi í kúm á bænum. Talið var að smitið hafi borist með erlendum vinnumanni sem sinnti fjósaverkum á bænum. Smitið breiddist hratt út í hreppnum vegna samgangs nautgripa á fleiri bæjum. Auk þess varð vart við hringskyrfi í sauðfé og hrossum auk þess sem stór hópur manna fékk útbrot. Það tókst að komast fyrir meira smit með girðingum og niðurskurði á gripum. Þriðja tilfellið. Um mitt sumar 1987 komu til landsins tveir unglingar frá Svíþjóð til að sinna sveitaverkum að Mið-Grund í Vestur-Eyjafjallahreppi. Stúlkan tók til hendinnar í fjósinu, en tók síðan fljótlega eftir því að hún var með rautt, hringlaga útbrot á handlegg. Eitthvað fórst fyrir að hún færi til læknis til athugunar svo hún náði að smita alla gripina í fjósinu. Það uppgötvaðist þó ekki fyrr en þremur mánuðum síðar þegar átti að klippa kýrnar. Dýralæknir staðfesti smitið. Sýkingin fór að smitast um þetta svokallaða Holtshverfi, þar sem fleiri bæir en Mið-Grund voru með nautgripi. Ágætlega gekk þó að uppræta sjúkdómnum, sem hvort eð var virtist ekki hrjá skepnurnar. Tilfelli á Norðurlandi 2007-2008. Í september 2007 var hringskyrfitilfelli staðfest á nýjan leik í Eyjafirði. Sáust þá einkenni á grip sem kom til slátrunar. Ekkert var fleira viðhafst í málinu þar sem aðrir gripir á búinu reyndust ekki sýktir. Í nóvember fannst sjúkdómurinn á næsta bæ. Þá fannst veikin í Skagafirði í febrúar 2008. Saharaverslunin. Saharaverslunin var mikilvæg verslunarleið milli Miðjarðarhafslandanna og Vestur-Afríku frá 8. öld fram á þá 16. Saharaeyðimörkin er illfært flæmi sem skilur hagkerfi Miðjarðarhafssvæðisins frá hagkerfi Vestur-Afríku, svo að rétt er að spyrja hvernig slík verslun hefur getað þrifist. Fernand Braudel benti á (í bókinni "The Perspective of the World") að slík svæði (eins og t.d. Atlantshafið) eru ferðarinnar virði aðeins í undantekningartilvikum, eða þegar hagnaðurinn er meiri en tapið. En ólíkt Atlantshafinu var Saharaeyðimörkin alla tíð vettvangur viðskipta milli fólks í smærra samhengi. Verslunin byggðist á úlfaldalestum þar sem notaðir voru drómedarar. Dýrin voru fituð í nokkra mánuði á Magrebsvæðinu eða Sahelsvæðinu áður en lestin var mynduð. Samkvæmt landkönnuðinum Ibn Battuta, sem ferðaðist með úlfaldalest á 14. öld var meðalstærð slíkra lesta um þúsund dýr, en sumar náðu upp í 12.000 dýr. Fyrir úlfaldalestunum fóru vel launaðir leiðsögumenn af þjóð Berba sem þekktu eyðimörkina vel og gátu tryggt öryggi lestarinnar fyrir öðrum hirðingjum. Afkoma úlfaldalestanna var ótrygg og krafðist vandlegs skipulags. Hlauparar voru sendir á undan lestinni til vinjanna á leiðinni til að sækja vatn fyrir lestina meðan hún var enn nokkrar dagleiðir frá, þar sem ekki var hægt að flytja vatn sem dygði alla leiðina. Elsta Saharaverslunin. Styttri verslunarleiðir kringum Nílardal hafa verið í notkun frá fornu fari, en ferðalög yfir Sahara voru erfið áður en úlfaldar voru teknir í notkun sem burðardýr. Hlutir sem hafa fundist langt frá þeim stöðum þar sem þeir voru framleiddir gefa vísbendingu um verslun, einkum í vesturhluta eyðimerkurinnar þar sem hún er þrengst. Einnig eru merki um slík tengsl í bókmenntum frá klassíska tímanum. Hugsanlegt er að borgin Aoudaghost í Máritaníu hafi orðið til í tengslum við þessa fyrstu verslun á 5. öld. Hellamyndir sunnan Sahara af hestum sem draga stríðsvagna hafa fengið menn til að álykta að hestar kunni að hafa verið notaðir, en engar svo gamlar beinagrindur af hestum hafa fundist. Stríðsvagnar eru auk þess ólíkleg flutningstæki vegna þess hversu litlir þeir voru. Elstu merki um tamda úlfalda á svæðinu eru frá því á 3. öld. Þeir voru notaðir af Berbum og gáfu möguleika á reglulegum ferðum yfir Saharaeyðimörkina þvera, en reglulegar verslunarleiðir fóru ekki að þróast fyrr en með útbreiðslu Íslam í Norður-Afríku á 7. og 8. öld. Tvær aðalleiðir urðu til; Önnur lá um vesturhluta eyðimerkurinnar frá því svæði sem nú er Marokkó að Nígerfljóti. Hin leiðin lá frá svæði sem nú er í Túnis að svæðinu kringum Tsjadvatn. Þessar leiðir voru tiltölulega stuttar og buðu upp á net lífsnauðsynlegra vatnsbóla sem mörkuðu leiðina ófrávíkjanlega. Lítt austar, í suðurhluta Líbýu var engin leið vegna skorts á vatnsbólum og hættu á sandstormum. Leið sem lá frá Nígerfljóti að Egyptalandi var í notkun fram á 10. öld þegar hún var lögð niður vegna þess hve hættuleg hún var. Saharaverslunin á miðöldum. Vöxtur Ganaveldisins á því svæði sem nú er í suðurhluta Máritaníu fylgdi vexti Saharaverslunarinnar. Miðjarðarhafssvæðið skorti gull en framleiddi salt, þar sem Vestur-Afríkulöndin áttu nóg af gulli en vantaði salt. Þrælaverslunin var líka mikilvæg þar sem fólk sunnan Sahara var selt sem húsþrælar norður og Vestur-Afríkuríkin keyptu þjálfaða hermenn að norðan. Margar verslunarleiðir urðu til, en þær mikilvægustu enduðu við Sijilmasa þar sem nú er Marokkó og Ifriqua þar sem nú er Túnis. Í þessum (og öðrum) borgum Norður-Afríku komust kaupmenn Berba í kynni við Íslam og snerust til þeirrar trúar. Þegar á 8. öld ferðuðust múslimar til Gana þar sem margir tóku Íslam og líklegt þykir að verslun við Ganaveldið hafi notið þess. Kringum 1050 hertók Ganaveldið Aoudaghost, en nýjar gullnámur við borgina Bure drógu úr verslun við þá borg en juku verslun við Sósóa sem síðar stofnuðu Malíveldið. Líkt og Gana, var Malí múslímskt konungsveldi, og innan þess hélt gull-salt verslunin áfram. Önnur, minna mikilvæg verslunarvara voru þrælar, kólahnetur úr suðri, og þrælaperlur og pontur (kuðungar sem voru notaðir sem gjaldmiðill) úr norðri. Það var á tímum Malíveldisins sem stóru borgirnar við Nígerfljót, svo sem Gao og Djenné, blómstruðu og Timbúktú varð þekkt um alla Evrópu fyrir auðæfi sín. Í Vestur-Afríku urðu til mikilvægir verslunarstaðir á svæðinu mitt á milli skógarins og sléttunnar; Sem dæmi má nefna Begho og Bono Manso (þar sem nú heitir Gana) og Bondoukou (þar sem nú heitir Fílabeinsströndin). Borgir á vestari leiðunum voru áfram mikilvægar, svo sem Oudane, Oualata og Chinguetti þar sem nú heitir Máritanía, meðan Túaregabæirnir Assodé og Agades blómstruðu við eystri leiðina þar sem nú er Níger. Eystri verslunarleiðin leiddi til þróunar hins langlífa Kanem-Bornuveldis á svæðinu kringum Tsjadvatn. Þessi verslunarleið var ekki eins ábatasöm og varð einungis mikilvæg þegar umrót var í vestri, eins og meðan á innrásum Almóhada stóð. Hnignun Saharaverslunarinnar. Siglingar Portúgala eftir vesturströnd Afríku opnuðu nýjar leiðir til verslunar milli Evrópu og Vestur-Afríku. Snemma á 16. öld höfðu Evrópubúar komið sér upp stöðvum á ströndinni og viðskipti við hina ríkari Evrópubúa urðu brátt mikilvægari en nokkuð annað fyrir íbúa Vestur-Afríku. Efnahagslegt og pólitískt mikilvægi Norður-Afríku minnkaði að sama skapi, meðan verslunarleiðin yfir Sahara var áfram löng og áhættusöm. En mesta áfallið sem verslunin varð fyrir var Marokkóstríðið 1591-2. Marokkó hélt með her yfir eyðimörkina og réðist á Timbúktú, Gao og aðra verslunarstaði, eyðilagði byggingar og rak velmegandi borgara í útlegð. Þessi truflun leiddi til snögglega minnkandi mikilvægis þessara borga og andúðar sem dró verulega úr viðskiptum. Saharaverslunin hélt samt áfram í mjög smækkaðri mynd, en aðrar verslunarleiðir til strandar Vestur-Afríku urðu sífellt auðfarnari, sérstaklega eftir innrás Frakka á sahelsvæðið við lok 19. aldar og byggingu járnbrauta inn í landið sem fylgdi í kjölfarið. Lagt var á ráðin um járnbraut frá Dakar til Algeirsborgar um Níger, en hún var aldrei lögð. Þegar þjóðirnar á svæðinu fengu sjálfstæði eftir 1960 var norður-suðurleiðin skorin sundur af landamærum ríkja. Stjórnir ríkjanna voru andsnúnar þjóðernisvakningu túarega og gerðu þannig litla tilraun til að viðhalda eða endurvekja Saharaverslunina. Uppreisn túarega við lok 20. aldar og borgarastyrjöldin í Alsír ollu enn fremur truflunum á leiðunum og lokun margra vega. Í dag eru nokkrir malbikaðir vegir sem liggja um eyðimörkina og fáir flutningabílar sjá um Saharaverslunina sem felst aðallega í viðskiptum með salt og eldsneyti. Hefðbundnar slóðir eru nú að mestu lausar við úlfalda, en styttri leiðir frá Agades til Bilma og Timbúktú til Taoudenni eru enn notaðar, sjaldan en reglulega. Einstaka túaregar nota enn hefðbundnu verslunarleiðirnar og ferðast með úlfalda allt að 1.500 kílómetra leið og sex mánuði ársins með salt úr eyðimörkinni sem þeir selja við jaðarinn. Miðjarðarhaf. Miðjarðarhaf er innhaf sem tengist Atlantshafinu um Gíbraltarsund. Hafið markast af þremur heimsálfum; í norðri af Evrópu, í austri af Asíu og í suðri af Afríku. Hafið nær yfir 2.5 milljón ferkílómetra stórt svæði. Ísraelsmenn til forna nefndu Miðjarðarhafið "Hafið mikla", þar sem það var eina þekkta heimshafið á þeirra tíma. Nafnsifjar. Nafnið "Miðjarðarhaf" kemur úr latínu "mediterraneus" ("medius", miðja + "terra", jörð). Rómverjar kölluðu það "Mare Nostrum" („okkar haf“). Landafræði. Miðjarðarhafið tengist Atlantshafi um Gíbraltarsund í vestri og Marmarahafi og Svartahafi um Bosporussund og Dardanellasund í austri. Súesskurðurinn tengir Miðjarðarhaf við Rauðahaf yfir Súeseiðið í Egyptalandi. Gíbraltarsund. Gervihnattamynd af Gíbraltarsundi, hægri hliðin snýr inn að Miðjarðarhafi Gíbraltarsund (sem á íslensku hefur verið nefnt Stólpasund eða Njörvasund) er sund sem skilur Atlantshafið frá Miðjarðarhafinu. Norðan sundsins er Gíbraltarhöfði og Spánn í Evrópu, en sunnan þess er Marokkó í Afríku. Breidd sundsins er um 14 km og dýpið er allt að 300 m. Gíbraltarhöfði. thumb thumb Gíbraltarhöfði er höfði á Gíbraltar við norðurhluta Gíbraltarsunds. Grikkir töldu hann aðra af Súlum Herkúlesar. Jarðfræði. Höfðinn er um 6 km² klettur úr kalksteini sem varð til fyrir um 55 milljón árum á Júratímabilinu þegar Afríkuflekinn rakst á Evrópu. Miðjarðarhafið varð þá að vatni sem þornaði svo upp. Fyrir um 5 milljónum ára braust svo Atlantshafið í gegnum Gíbraltarsund með þeim afleiðingum að Atlantshafið flæddi inn og fyllti hið forna uppþornaða vatn og Miðjarðarhafið varð til. Setberg. thumb Setberg er í setbergsfræði ein af þremur aðaltegundum bergs (ásamt storkubergi og myndbreyttu bergi). Á meðal setbergs er krítarsteinn, kalksteinn, sandsteinn og leirsteinn Þegar storkuberg hefur veðrast og molnað í sundur berast hin uppleystu efni með fljótum til hafs. þar sest bergmynslan fyrir sem möl, sandur og leir. Sandur og leir þjappast síðan saman með tíð og tíma og myndar fast berg sem nefnist setberg. Kalksteinn. Kalksteinn er setberg gert út steinefninu kalsíti. Dakar. Dakar er höfuðborg Senegal með um 2,4 milljónir íbúa (þar af 1 milljón í sjálfri borginni). Borgin stendur á Grænhöfða á vesturströnd Senegal. Hún var stofnuð árið 1857 og hafði þá myndast utanum franskt virki á höfðanum. Hún óx hratt sem mikilvægur áfangastaður í versluninni við Evrópu og yfir Atlantshafið Grænhöfði. Grænhöfði (franska: "Cap-Vert", portúgalska: "Cabo Verde") er vestasti hluti meginlands Afríku. Grænhöfði er klettanes sem skagar vestur í Atlantshafið frá sandströndinni í Senegal. Höfuðborg landsins, Dakar, stendur á suðurenda höfðans. Nafn Grænhöfðaeyja er dregið af nafni höfðans. Portúgalar gáfu bæði höfðanum og landinu nafnið "Cabo Verde". Kanslari Þýskalands. Kanslari Þýskalands (þýska: "Bundeskanzler" (1867-1871, 1949-), "Reichskanzler" (1871-1949)) er formaður ríkisstjórnar Þýskalands og því æðsti maður framkvæmdavalds sambandsríkisins. Hann velur sér ráðherra og ákvarðar stefnu ríkisstjórnarinnar. Kanslarinn er í raun valdamesti stjórnmálamaður landsins en formlega er hann þriðji maður í virðingarröðinni á eftir forseta og þingforseta. Staða hans er sambærileg stöðu forsætisráðherra á Íslandi. Kanslarinn er kjörinn af sambandsþinginu til eins kjörtímabils (4 ára) í senn og hefur sambandsþingið eitt vald til að setja hann af fyrir lok kjörtímabilsins með vantraustsyfirlýsingu. Núverandi kanslari er Angela Merkel og er hún fyrsta konan sem gegnir embættinu. Samkvæmt þýskri málvenju bætist viðskeytið "-in" við "Bundeskanzler" sé kanslarinn kona og er Merkel því titluð "Bundeskanzlerin". Kanslarar hafa farið fyrir ríkisstjórnum Þýskalands frá 1867, en titillinn á rætur að rekja til embættismanna í hinu heilaga rómverska ríki á miðöldum. Freknur. Freknur eru litlir melanínblettir á húð sums fólks með ljósa húð. Þær eru algengastar á rauðhærðu fólki. Ský. Ský er sýnilegur massi samþjappaðs vatns eða ískristalla í andrúmsloftinu á Jörðinni eða annarri reikistjörnu. Þau endurvarpa öllum sýnilegum bylgjulengdum ljóss og eru því hvít, en geta virðst grá eða jafnvel svört ef þau eru það þykk að ljós nær ekki í gegnum þau. Vatnsdropar í skýjum eru að jafnaði 0,01 mm í þvermál og verða því sýnilegir þegar þeir safnast saman og mynda ský. Ský á öðrum reikistjörnum en Jörðinni eru oft úr öðrum efnum en vatni (t.d. metani) en það fer þó eftir umhverfisaðstæðum. Skýjamyndun. 2. Hitastig loftsins breytist ekki heldur tekur til sín meiri raka og mettast þannig. Ský eru þung. Vatnið í venjulegu skýi getur vegað mörg milljón tonn en þar sem rúmmálið er líka mikið reynist nettó þéttleiki vatnsgufunnar það lítill að loftstreymi yfir og undir skýjunum getur haldið þeim uppi. Flest ský myndast þegar vatnsgufa þéttist í kringum "þéttimiðju" sem ýmist getur verið reykur, gas, aska eða salt. Í yfirmettuðum tilvikum geta vatnsdropar einnig virkað sem þéttimiðja. Flugslóðar eru dæmi um manngerð ský, sem myndast út útblæstri þotuhreyfla. Gerðir skýja. Ský skiptast í háský, miðský, lágský og háreist ský. Botsvana. Lýðveldið Botsvana er landlukt ríki í suðurhluta Afríku með landamæri að Suður-Afríku í suðri, Namibíu í vestri, Sambíu í norðri og Simbabve í norðaustri. Landið var áður hluti breska verndarsvæðisins Bechuanaland. Upprunalega ætluðu Bretar sér að færa landið undir Ródesíu eða Suður-Afríku, en andstaða tsvana (bantúmanna) leiddi til þess að það var áfram undir breskri stjórn þar til það varð sjálfstætt ríki 1966. Efnahagslífið er nátengt Suður-Afríku og byggist aðallega á nautgriparækt og námagreftri, einkum demantanámum. Ceuta. Ceuta er agnarlítið spænskt sjálfstjórnarhérað sunnan megin við Gíbraltarsund á norðurströnd Magrebsvæðisins. Á arabísku heitir það سبتة ("Sabtah" á hefðbundinni arabísku, "Sebta" í Marokkó). Yfir Ceuta gnæfir hæðin Monte Hacho þar sem stendur virki spænska hersins. Monte Hacho er oft talið vera syðri súla Herkúlesar (en stundum er það talið vera Jebel Musa). Maghreb. MaghrebMagreb er sá hluti Norður-Afríku sem liggur norðan við Saharaeyðimörkina og vestan við Nílardal. Magreb þýðir „vestur“ á arabísku. Svæðið nær yfir löndin Marokkó, Alsír og Túnis (Barbaríið) og oft einnig Líbýu og Máritaníu. Íbúar svæðisins (arabar og berbar) voru almennt kallaðir márar af Evrópubúum. Flugslóði. Flugslóði, slóði eða flugvélarslóði er manngerður slóði úr ískristöllum og vatnsdropum, sem myndast hefur úr vatnsgufu í útblæstri þotna eða vænghringiðum hátt í andrúmsloftinu. Rauðahaf. Samsett gervihnattarmynd af Rauðahafinu; Arabíuskaginn sést til hægri, Sínaískaginn efst uppi og Afríka og Nílardalurinn vinstra megin Rauðahaf (arabíska: البحر الأحمر "Baḥr al-Aḥmar, al-Baḥru l-’Aḥmar"; hebreska: ים סוף "Yam Suf"; tígrinja: ቀይሕ ባሕሪ "QeyH baHri") er flói eða innhaf úr Indlandshafi, á milli Afríku og Arabíuskagans í Asíu. Hafið tengist Indlandshafi í suðri um Adenflóa. Í norðri skagar Sínaískaginn inn í hafið. Hvorum megin við hann eru Akabaflói og Súesflói sem leiðir að Súesskurðinum. Hafið er 1900 km langt, en ekki nema 300 km breitt þar sem það er breiðast. Hafið nær yfir um 450.000 km² svæði. Alsír. Alsír er land í Norður-Afríku og stærsta ríkið í Afríku. Það á landamæri að Túnis í norðaustri, Líbýu í austri, Níger í suðaustri, Malí og Máritaníu í suðvestri og Marokkó og Vestur-Sahara í vestri. Nafn landsins er dregið af nafni Algeirsborgar og kemur úr arabísku "al-jazā’ir" sem merkir „eyjarnar“ og á við fjórar eyjar sem lágu undan borginni þar til þær urðu hluti meginlandsins 1525. Etnísk átök á 20. öld. Etní er hópur fólks sem býr á afmörkuðu landssvæði, talar sama tungumál og finnur fyrir sterkri, nánast þjóðernislegri, samkennd. Etnískur hópur hefur sameiginlega sögu, menningu og hefðir og lítur því á sig sem ókljúfanlega einingu sem orðið hefur til fyrir mildi örlaganna. Þannig hafa etnískir hópar, líkt og þjóðir, stofnunarmýtur. Stofnunarmýta þjóðar eða etnísks hóps er hugmynd hópsins um það hvernig hann er til kominn og er þar talið til það sem hópurinn kýs að muna eftir en hinu sleppt sem gæti valdið sundrung. Í raun má segja að meginmunurinn á þjóð í nútímaskilningi og etnískum hópi séu (óumdeild) yfirráð yfir ákveðnu landsvæði og viðurkenning alþjóðasamfélagsins á því, það er að segja að hópurinn ráði yfir (þjóð)ríki. Strax við stofnun sjálfstæðs Alsírsks ríkis 1962 er tekið fram í raunverulegri stjórnarskrá landsins að það sé arabískt og islamskt. Hocine Aït Ahmed, berbísk stríðshetja úr Alsírstríðinu, reis upp og stofnaði flokk félagshyggjuafla (fr. le front des forces socialistes, FFS). Með flokki sínum leiddi hann síðan 10 mánaða uppreisn gegn stjórn Ben Bella. Ástæðan fyrir uppreisninni var sú sama og hefur ýtt undir margar aðrar uppreisnir Berba á Alsír, nefninlega tilburðir stjórnvalda til að arabavæða alsírsku þjóðina. Arabavæðingin hófst þó ekki af fullum krafti fyrr en á 8. áratugnum og fólst meðal annars í því að stöðluð arabíska varð ein opinbert tungumál Alsírs í stað frönsku áður og meðvitað átak var gert í því að útrýma tungu og menningu Berba úr alsírska menntakerfinu. Barátta alsírskra Berba fyrir viðurkenningu á máli sínu og menningu hefur þróast mest hjá þeim sem fóru í útlegð eða fluttust til Frakklands fyrr á 20. öldinni. Þar unnu þeir meðal annars að stöðlun tungumáls síns, breiddu út hugmyndina um berbíska þjóð í Frakklandi og unnu að útgáfu á heimsbókmenntum og kennslubókum á berbísku. Því má segja að Berbar hafi svarað arabavæðingu í Alsír með sinni eigin berbavæðingu. Vorið 1980 sýður upp úr milli berbíska minnihlutans í Kabylíu og stjórnvalda vegna viðleitni stjórnvalda til að arabískuvæða Alsír. Eftir miklar óeirðir og allsherjarverkfall í héraðinu varð útkoman sú að „berbismi“ hafði fest sig í sessi sem pólitískt afl. Í kjölfarið spretta upp fjölmörg berbísk menningarfélög í Frakklandi og ber þar helst að nefna menningarhreyfingu Berba (fr. Mouvement Culturel Berbère, MCB) sem stofnuð var á 9. áratug síðustu aldar og heimsþingi Amazigh (fr. Congrès Mondial Amazigh, CMA), stofnað á 10. áratugnum. Bæði þessi félög eru enn starfandi í dag og halda meðal annars úti heimasíðum. Öllu alvarlegri átök áttu sér stað vorið 2001 eftir að ungur Berbi lét lífið í haldi lögreglu. Óeirðirnar og allsherjarverkföllin sem brjótast út í kjölfarið eru einfaldlega kölluð „svarta vorið“ og hefur verið lýst sem intifada Berba i Kabylíu. Þó svo að ofbeldið sem tengt er við „svarta vorið“ sé aðallega bundið við Kabylíu hefur því verið haldið fram að „neyðin sem kom fram hjá hinum ungu mótmælendum [hafi ekki verið] einstök reiði Kabylíska minnihlutans, heldur reiði heillar kynslóðar Alsíringa sem höfðu alist upp í Alsír þar sem dýrðir þjóðfrelsisstríðsins voru fjarlæg minning, hverra eina föðurlandshyggja ákvarðaðist af félags- og efnahagslegri útskúfun [e. marginalisation] og ofbeldi borgarastríðs.“ Átök Frakka og Alsíringa 1954-1962 hafi verið bæði sjálfstæðisátök og etnísk átök, þar sem Alsíringar (sem skiptast í Araba og Berba) tóku saman höndum gegn frönskum yfirráðum. En jafnvel þó svo að franskir landnámssinnar (fr. Les colons) hafi barist jafnt gegn bæði Alsíringum og frönskum yfirvöldum, sem þeir töldu of hógvær, er ekki hægt að líta á þá sem sérstakan etnískan hóp þar sem þeir skildu sig frá frönsku yfirvöldunum aðeins að pólitísku leyti. Þar sem markmið Berba er ekki að segja sig úr lögum við Alsír og stofna sjálfstætt ríki er óhætt að halda því fram að einn meginmunur átakanna '54-'62 og síðari uppreisna Berba sé sá að í þeim fyrrnefndu var barist fyrir sjálfstæði þjóðar en í hinum til að viðhalda menningarlegum séreinkennum, það er að segja önnur voru þjóðernisátök en hin etnísk átök. Algeirsborg. Algeirsborg (eða Álfgeirsborg) (franska: Alger, arabíska الجزائر al-jazā’ir, „eyjarnar“) er höfuðborg Alsír og stærsta borg landsins með um þrjár milljónir íbúa. Lítill rómverskur bær (Icosium) stóð á þessum stað í fornöld, en núverandi borg var stofnuð árið 944 af Buluggin ibn Ziri. Frá því á 16. öld var borgin miðstöð sjóræningja (sbr. Barbaríið) og naut nær algers sjálfstæðis þótt hún væri hluti Ottómanaveldisins að nafninu til. Adenflói. thumb Kort af Adenflóa frá lokum 19. aldar Adenflói er flói sem gengur inn úr Arabíuhafi, hann afmarkast af Horni Afríku og suðurströnd Jemen á Arabíuskaganum við inngang sinn í austri og „Tárahliðinu“ (Bab-el-Mandeb) við inngang sinn að Rauðahafinu í vestri. Þau lönd sem liggja að honum eru Sómalía í suðri, Jemen í norðri og Djíbútí við botn hans í vestri. Flóinn er allt upp í 1.000 kílómetra langur og 150-440 km breiður, dýpt hans mest 5.029 m við inngang hans, 3.478 m við miðju hans og 874 m við botn hans, hann er umlukinn af háum fjöllum en þau í Jemen eru allt upp í 2,5 km há og þau í Sómalíu upp í 2,1 km á hæð. Flóinn er mjög mikilvægur sem hluti af flutningsleið olíu frá Persaflóa til Vesturlanda um Súesskurðinn. Sómalía. Sómalía (sómalska: "Soomaaliya"; arabíska: الصومال, "As-Sumal") er land í Austur-Afríku með landamæri að Djíbútí, Eþíópíu og Kenýa og strandlengju við Adenflóa í austri. Þar hafa geisað margar borgarastyrjaldir frá 1977 og stjórnmálaástandinu nú er réttast lýst sem stjórnleysi, þar sem landið hefur enga viðurkennda miðstjórn, gjaldmiðil eða nokkuð annað það sem einkennir ríki. Norðvesturhluti landsins lýsti árið 1991 yfir sjálfstæði sem "Sómalíland" og hefur haldist þannig, þótt engin erlend ríkisstjórn hafi viðurkennt aðskilnaðinn. Árið 1998 lýstu svo nokkrir höfðingjar yfir stofnun sjálfráða Púntlands í norðausturhlutanum, sem skyldi vera hluti af sambandsríkinu Sómalíu. Í reynd hvíla öll völd í Sómalíu því í höndum stjórna Sómalílands, Púntlands og einstakra stríðsherra. Fyrri stjórn landsins situr nú í útlegð í Naíróbí. Naíróbí. Naíróbí er höfuðborg Kenýa og ein af stærstu borgum álfunnar með um þrjár milljónir íbúa. Nafnið kemur úr máli masaja, "Enkarenairobi", sem merkir „köld vötn“. Borgin var stofnuð 1899 sem birgðastöð fyrir Úganda-járnbrautina milli Mombasa og Úganda. 1900 kom upp faraldur í borginni og hún var brennd til grunna. Eftir það var hún endurbyggð og varð höfuðstaður Bresku Austur-Afríku og síðan höfuðborg þegar Kenýa fékk sjálfstæði árið 1963. Drómedari. Drómedari (fræðiheiti: "Camelus dromedarius") er stór úlfaldi sem er auðþekktur frá kameldýri á því að hann hefur aðeins eina kryppu, en kameldýrið tvær. Drómedarinn er auk þess háfættari en kameldýrið og getur hlaupið hraðar en er ekki eins harðger. Drómedarinn kemur upphaflega frá Asíu og Norður-Afríku og hefur verið taminn nokkrum öldum fyrir Krist. Hann dó út í Norður-Afríku um þúsund fyrir Krist, en var svo fluttur inn aftur þegar Persar réðust inn í Egyptaland á 6. öld f.Kr.. Á 3. öld var hann orðinn útbreiddur sem burðardýr og reiðskjóti og gerði Saharaverslunina mögulega. Kenía. Kenía (stundum ritað Kenýa) er land í Austur-Afríku með landamæri að Eþíópíu í norðri, Sómalíu í austri, Tansaníu í suðri, Úganda í vestri og Súdan í norðvestri og strönd við Indlandshaf. Höfuðborg landsins er Naíróbí. Landafræði. Kenía liggur við austurströnd Afríku. Miðbaugur liggur í gegnum norðurhluta þess. Landið er að miklu leyti hálent, en láglent við strendur. Í vesturdalnum eru mörg stór og afar djúp stöðuvötn, þ.á m. Tanganyikavatn sem er annað dýpsta stöðuvatn heimis. Nyrst við landamæri Eþíópíu er mjög stórt vatn sem nefnist Turkanavatn. Í eystri sigdalinum eru grunn og afrennslulaus vötn. Ástæðan fyrir að vötnin þar eru grynnri er sú að þykk lög af eldfjallaösku hafa sest í austurdalnum. Í Keníu má finna stærstu fjöllum í heimi, Kilimanjaro og Kenýufjall, bæði eldfjöll, þar sem það fyrra er enn virkt. Kenía er 580.000 ferkílómetrar að stærð og íbúadreif er 48 íbúar á ferkílómeter. Höfuðborgin Nairobi er í 1800 metra hæð. Í Kenía velur folk sér bústað eftir gæðum náttúrunnar. Flestir hinna 28 milljón íbúa í Kenía búa í suðurhluta landsins í grennd við höfuðborgina Nairobi og við landamæri Úganda hjá Viktoríuvatni. Þar eru góðar jarðir og nægileg úrkoma til að stunda akuryrkju. Það búa líka margir við strandlengjuna. Aðeins örfá prósent íbúanna í Kenýu borga nokkurn skatt. Allir hinir eru smábændur sem stunda sjáfsþurfarbúskap eða hafa ofan af fyrir sér innan á óopinbera geirans í borgunum. Kenía er þróunarland og lífskjör þar eru afar ólík því sem gerist á Íslandi. Þegar Kenýubúar fara til vinnu sinnar í borgunum koma þeir ekki á bíl, hjóli eða vespu! Heldur fótgangandi. Sundum eru samt teknar rútur eða strætisvagnar en flestir ganga saman í stórum hópum inn í miðborgina og svo aftur heim um kvöldið. 99 prósent af Keníubúum eru af mismunandi þjóðarbrotum blökkumanna. Í landinu búa 80.000 arabar, 50.000 hvítir menn og 40.000 manns af asíuættum. Næstum því hvert þjóðarbrot hefur sitt eigið tungumál en til að einfalda þann vanda hefur Svahílí verið gert að ríkismáli. Svahílí er bantúmál sem blandast hefur við smá arabísku og ensku. Landamæri Tansaníu og Kenýu voru upphaflega alveg bein. Fyrir hundrað arum fengu landamærin þá lögun sem þau eru núna. Kenía var þá ensk nýlenda en Tansanía þýsk. Viktoría Englandsdrottning breytti landamærunum þegar hún gaf þýska keisaranum, frænda sínum Kilimanjaro í afmælisgjöf. Kenía varð sjálfstætt ríki 1963. Mjög margir starfa við landbúnað í Kenía. Landbúnaðinum er skipt í þrennt: smábú, stórbú og hefðbundin búfjárrækt. Langflestir vinna á smábúum. Smábændur rækta mest maís, sem er uppistaða fæðu venjulegs Kenía búa. Smábændur rækta líka baunir, maniok, durra, hirsi og kál. Þeir halda líka flestir kýr, kindur og geitur. Stórbúin eru hins vegar oftast í eigu hlutafélaga eða einstakra ríkra keníubúa. Afurðirnar þaðan eru ætlaðar til sölu. Þá er um að ræða: kaffi, te og ananas. Þeir sem lifa á hinni hefðbundnu búffjárrækt eru þjóðarbrotin sem stunda að mestu sjálfþurftabúskap. Í Kenýu eru um 50 mismunandi þjóðir. Fyrsti forseti landsins var Jomo Kenyatta. Hann var af fjölmennustu þjóðinni kíkújú. Á meðan hann ríkti naut sú þjóð ýmissa forréttinda. Af því hlutust pólistískar óeirðir í landinu. Áður en Kenía varð sjálfstætt ríki þá ríkti mikið ósætti í samfélaginu en nú eiga þau að starfa saman í einu ríki. Nú á dögum er Kenía með friðsamlegari löndum í Afríku, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Austur-Afríka. Að auki eru Búrúndí, Rúanda, Madagaskar, Malaví, Mósambík og Súdan oft talin til Austur-Afríku. Hlutar Austur-Afríku eru þekktir fyrir fjölda stórra villidýra eins og fíla, gíraffa, ljóna, sebrahesta og nashyrninga, þótt þeim fari fækkandi. Landslag Austur-Afríku einkennist af Sigdalnum mikla og hæstu tindum álfunnar, Kilimanjaro og Kenýafjalli. Sahel. Kort sem sýnir Sahelbeltið í Afríku. Sahel (úr arabísku ساحل "sahil" „strönd“ eða „jaðar“) er svæði í Afríku sem liggur á mörkum Sahara og gróðurlendisins í suðri sem er kallað Súdan. Svæðið er aðallega gresja og nær frá Atlantshafinu að Horni Afríku og frá hálfþurru graslendi að hitabeltisgresju. Á miðöldum risu þarna mörg stór konungsríki sem högnuðust á Saharaversluninni. Sahel landsvæðið í Afríku ratar stundum í fréttirnar hér á landi, oftast vegna þurrka. Sahel er í raun hið víðáttumikla steppusvæði Afríku (norðan miðbaugs) og markast af suðurjaðri Sahara eyðimerkurinnar og hinna frjósömu frumskóga nær miðbaug. Úrkoma sem fellur á Sahel svæðið er einkum á regntímanum frá júní og fram í september. Magn úrkomunnar er þó afar breytilegt eftir árum og stundum bregst hún alfarið með tilheyrandi hörmungum. Sahel svæðið er sunnan Sahara eyðimerkurinnar og í gróðurfarslegu tilliti einkennist það af gras- og runnategundum sem þola vel þurrk. Þar er regntíminn að jafnaði 6-12 vikur á sumri og úrkomumagnið misjafnt frá ári til árs. Þegar úrkoma bregst þá flýr fólk í stórumhópum og hörmungar hafa dunið á íbúum þessa svæðis og verður þá fréttamatur sem einkennist af stórum flóttamannabúðum og vannærðum íbúum og deyjandi börnum. Hjálparsamtök hafa unnið mjög gott starf á þessu svæði, en vandinn er meiri og rætur hans dýpri. Íbúar jarðar bera þarna talsverða ábyrgð, en með hlýnandi loftslagi hefur orðið svokölluð eyðimerkurvæðing ("desertification") þar sem framrás Sahara á svæðið hefur orðið og búsvæði íbúa svæðisins hafa þrengst, þetta hefur leitt til átaka þar sem íbúar að norðan hafa flúið suður á bóginn og farið inn á svæði fólks sem ekki er aflögufært. Þessir fólksflutningur og átök hafa svo aukið vandann. Norðvestur-Afríka. Hugtakið Norðvestur-Afríka er oft notað um löndin í norðvesturhluta Afríku í staðinn fyrir hugtök eins og Magreb, sem þýðir „vestur“ á arabísku og þykir því of Arabíumiðað. Barbaríið, Magreb og Tamazgha eru önnur heiti á sama svæði, þótt blæbrigðamunur sé á merkingu þeirra. Túnis. Túnis (الجمهرية التونسية) er land í Norður-Afríku með landamæri að Alsír í vestri og Líbýu í austri. Það er austasta landið á Atlasfjallgarðinum. Fönikíumenn stofnuðu þar borgina Karþagó í fornöld og landið varð síðar rómverska skattlandið Afríka. Nafnið Túnis er talið koma úr máli Berba og merkja höfði. Kvöldþátturinn. Kvöldþátturinn var sjónvarpsþáttur sem var sýndur á sjónvarpsstöðinni Sirkus árið 2005. Umsjónarmaður þáttarins var Guðmundur Steingrímsson. Hann var á dagskrá alla virka daga klukkan 10 á kvöldin, en á föstudögum var endursýnt það besta úr þáttum vikunnar. Þátturinn var að vissu marki byggður á spjallþáttum sem vinsælir eru í ýmsum löndum svo sem The Tonight Show og The Late Show, en stærsta fyrirmyndin var líklega þátturinn The Daily Show með þáttastjórnandanum Jon Stewart sem gengur út á pólitískar háðsádeilur með gagnrýnum undirtón. Túnis (borg). Túnis er höfuðborg Túnis og stendur vestan megin við Túnisvatn. Íbúafjöldi er um 674.100 (2004). Rústir Karþagó eru hinum megin við vatnið. Medínan í Túnis er á heimsminjaskrá UNESCO. Sunnanverð Afríka. Kort sem sýnir þau lönd sem teljast til sunnanverðrar Afríku. Á svæðinu eru miklar námur þar sem unnið er gull, úran og demantar. Leiðarminni. Leiðarminni (einnig nefnt mótíf eða stef) er stuttur, áberandi hluti tónverks sem kemur fyrir aftur og aftur. Mótíf getur verið mikilvæg laglína, ákveðin hljómaframvinda eða áberandi hrynur. Mið-Afríka. Að auki eru Angóla, Búrúndí, Kamerún, Miðbaugs-Gínea, Gabon, Kongó, Rúanda, Saó Tóme og Prinsípe og Sambía oft talin til Mið-Afríku. BACH-mótífið. BACH-mótífið er mótíf sem samanstendur af nótunum "B-A-C-H" í þessari röð. Þetta fjögurra nótna mótíf hefur verið notað af ýmsum tónskáldum, oftast til heiðurs Johann Sebastian Bach. Fyrsta þekkta dæmið um notkun þess er hins vegar í verki eftir Jan Pieterszoon Sweelinck, sem hafði þegar verið dáinn í 56 ár þegar J. S. Bach fæddist. Þó er sá möguleiki fyrir hendi að hann hafi gert það til heiðurs eldri meðlimum Bach ættarinnar, en þeir voru margir hverjir tónlistarmenn. Bach sjálfur notaði mótífið í fúgu í seinasta hluta "Die Kunst der Fuge" (BWV 1080), verki sem hann lauk ekki fyrir dauða sinn árið 1750. Það birtist einnig, í minna mikilvægum hlutverkum, í nokkrum öðrum verka hans. Fúga fyrir hljómborð í F-dúr eftir einn sona Bachs, líklega annaðhvort Carl Philipp Emanuel Bach eða Johann Christian Bach, inniheldur líka mótífið en það var ekki fyrr en á 19. öld þegar áhugi á Bach og verkum hans kviknaði á ný að farið var að nota það reglulega. Ef til vill vegna þess að Bach sjálfur notaði það í fúgu er það oft notað af tónskáldum í fúgum eða öðrum flóknum kontrapunktískum tónsmíðum. Johann Sebastian Bach. a>, tveimur árum áður en hann lést Johann Sebastian Bach (21. mars 1685 – 28. júlí 1750) var þýskt tónskáld og orgelleikari. Hann er talinn til helstu tónskálda Barokk-tímabilsins og í raun allrar vestrænnar tónlistar. Hann er þekktastur fyrir hin veraldlegu verk sín, svo sem Brandenborgarkonsertana og Aría á G-streng, en hann var þar að auki eitt afkastamesta kirkjutónskáld allra tíma. Hann var orðinn kirkjuorgelleikari 17 ára gamall og var í miklum metum sem slíkur, en kom sér ekki alls staðar vel. Um nám hans og uppvöxt er vitað að hann mun fyrst hafa lært eitthvað hjá föður sínum, sem dó þegar Johann Sebastian var 9 ára gamall. Skömmu síðar dó móðir hans einnig. Þá fór hann til eldri bróður síns, sem hét Johann Christoph Bach og var orðinn orgelleikari við Mikjálskirkjuna í Ohrdruf. Hjá honum lærði hann formlega til 15 ára aldurs. Eftir það fór hann til Lüneburg og gæti hafa verið í námi hjá Georg Böhm, en það er ekki vitað fyrir víst. 17 eða 18 ára varð hann orgelleikari í Neue Kirche í Arnstadt og var þar í tvö ár. Hann hafði þar tvöfalt hærri laun en eftirmaður hans fékk og segir það sína sögu um mat manna á honum. Um tvítugt lagði hann á sig langa göngu til þess að sjá og heyra einn mesta orgelsnilling þessa tíma, Dietrich Buxtehude, sem spilaði í Lübeck og varð fyrir miklum áhrifum af honum. Eftir að starfi hans í Arnstadt lauk, fór hann til Mühlhausen, en þar var laus staða orgelleikara við Blasíusarkirkjuna. Þar var hann í um það bil eitt ár og á þeim tíma giftist hann. Kona hans var Maria Barbara Bach og voru þau þremenningar að skyldleika. Nú lá leið hans til Weimar og starfaði hann þar til 1717 eða í 9 ár. Eftir það var hann í Köthen í sex ár og svo að síðustu í Leipzig, en þar starfaði hann við fjórar kirkjur allt til dauðadags 1750. Heimild. Bach, Johann Sebastian Djenné. Djenné (Dienné eða Jenne) er borg við ána Bani í suðurhluta Malí. Íbúafjöldi er um 12.000 (1987). Hún er fræg fyrir sérstæða byggingarlist úr leirhleðslum, einkum moskuna sem var endurbyggð árið 1907. Á miðöldum var borgin miðstöð verslunar og menningar og einn af áfangastöðum Saharaverslunarinnar. Miðbærinn og moskan eru á heimsminjaskrá UNESCO frá 1987. Seychelles-eyjar. Seychelles-eyjar (eða Seychelleyjar) eru eyríki í Indlandshafi um 1600 km austan við meginland Afríku og norðaustan við Madagaskar. Önnur eyríki sem liggja nærri Seychelles-eyjum eru Máritíus og Réunioneyja í suðri og Kómoreyjar í norðaustri. Eyjarnar eru um 115 talsins, þar af 33 byggðar. Indlandshaf. Indlandshaf er þriðja stærsta úthaf jarðar og þekur um 20% af yfirborði hennar, eða 73.556.000 km². Það markast af suðurströnd Asíu í norðri (Indlandsskaga), Arabíuskaganum og Afríku í vestri, í austri af Malakkaskaga, Sundeyjum og Ástralíu og í suðri af Suður-Íshafinu. Það greinist frá Atlantshafinu við 20. lengdargráðu austur og frá Kyrrahafi við 147. lengdargráðu austur. Nyrsti punktur Indlandshafs er í Persaflóa. Eyríki í Indlandshafi eru Madagaskar, Kómoreyjar, Seychelleseyjar, Maldíveyjar, Máritíus og Srí Lanka. Indónesía er við jaðar þess. Garður. Garður er áætlað rými, oftast utandyra, sem áætlað er fyrir plöntur og annars konar náttúru, ræktun þeirra kallast garðyrkja. Gramm. Gramm er einn þúsundasti hluti af kílógrammi og grunneining massa í cgs-kerfinu, táknuð með g. Grammið var grunneining í metrakerfinu eins og það var notað áður fyrr. Kílógramm er SI grunneining massa. Mól. Mól er grunnmælieining SI-kerfisins fyrir efnismagn, táknuð með mol. Eitt mól er skilgreint sem sá fjöldi agna sem samsvarar fjölda frumeinda í 12 grömmum af kolefnissamsætunni 12C. Þessi fjöldi er kenndur við ítalska vísindamanninn Amadeo Avogadro og nefnist Avogadrosartala (stundum einnig "tala Loschmidts"). Í einu móli eru u.þ.b. 6,0221415 · 1023 einingar. Deilur vegna mólsins. Lengi vel voru eðlisfræðingar og efnafræðingar ósammála um hvernig bæri að skilgreina mól. Samtök eðlisfræðinga skilgreindu mól sem þann fjölda súrefnisatóma sem höfðu massann 16 g í gasi af 16O, en samtök efnafræðinga skilgreindu mól sem þann fjölda súrefnisatóma sem hefði massann 16 g í náttúrulegu súrefni. Þar sem súrefni kemur fyrir á jörðinni sem fleiri en ein samsæta var nokkur munur á þessum skilgreiningum. Þar að auki breytist samsætuhlutfall súrefnis í náttúrulegu súrefni með tímanum sem gerir það að verkum að skilgreining út frá náttúrulegu súrefni verður háð ákveðnum tímapunkti. Sá ágreiningur hefur nú verið lagður til hliðar og báðar fylkingarnar styðjast við skilgreininguna sem getur í upphafi greinarinnar. Alþjóðlegi móldagurinn. Alþjóðlegi móldagurinn er 23. október. Bandarísku mólsamtökin (á ensku: "National Mole Day Foundation") halda ráðstefnu ár hvert þann 23. október kl. 06:02 (e.h.) til að fagna skilgreiningu mólsins. 1 mól er u.þ.b. 6,02 · 1023 einingar og því var ákveðið að halda ráðstefnuna kl. 6:02 (e.h.) þann 23. október (10.23 skv. bandarískri ritvenju). Eðlismassi. Eðlismassi, þéttni, eðlisþéttni eða (efnis)þéttleiki er hlutfall massa og rúmmáls fyrir efni sem er samleitt í því magni sem til athugunar er, táknaður með "ρ". SI-mælieining er kílógramm á rúmmetra (kg/m3). þar sem "m" er massinn en "V" rúmmál. Eðlismassi efnis er "efniseiginleiki", öfugt við eðlisþyngd, en er háður ástandi efnisins, s.s. hita og þrýstingi. Þetta á einkum við efni í gasham. Daniel Defoe. Daniel Defoe (1660 – 24. apríl 1731) var enskur rithöfundur og blaðamaður, einna frægastur fyrir skáldsöguna "Róbinson Krúsó". Defoe er almennt álitinn upphafsmaður ensku skáldsögunnar, þótt deilt sé um þá fullyrðingu. Æviágrip. Daniel Defoe hét upphaflega Daniel Foe (hann bætti síðar 'De' sem skrauti fyrir framan ættarnafnið um 1703) og fæddist í Stoke Newington í London. Foreldrar hans voru utankirkjufólk í öldungakirkjunni og hann hlaut menntun í utankirkjuskóla í Stoke Newington þar sem faðir hans vildi að hann gerðist prestur. Hann gaf það upp á bátinn og fór út í viðskipti. Hann giftist árið 1684 Mary Tuffley, dóttur ríks kaupmanns, og átti með henni sjö börn. Stjórnmál og viðskipti. Hann tók þátt í Monmouthuppreisninni gegn hinum kaþólska Jakobi II 1685. Hann gerðist stuðningsmaður Vilhjálms af Óraníu og gekk í her hans 1688. Hann hóf kaupmennsku sem gekk illa og hann varð gjaldþrota 1692 en tókst að reisa sig við með stjórnmálaráðgjöf og skrifum og að síðustu 1696 með stöðu framkvæmdastjóra í þakflísaverksmiðju í Tilbury (sem fór á hausinn 1703). Í skrifum sínum mælti hann með stofnun seðlabanka (sem gerðist 1694), tryggingarfélaga, sparisjóða, eftirlauna og nýjum lögum um gjaldþrot. Blaðamennska og njósnir. Frægur háðsbæklingur Defoes, "The shortest way with the dissenters", þar sem hann apaði málflutning breskra íhaldsmanna gegn utankirkjufólki varð til þess að hann var handtekinn og settur í gapastokk 31. júlí 1703. Af því tilefni gaf hann út óð til gapastokksins "Hymn to the Pillory". Eftir þrjá daga var hann settur í Newgatefangelsi en Robert Harley, jarl af Oxford og Mortimer samdi um lausn hans gegn því að hann gerðist njósnari. Hann stofnaði tímaritið "A Review of the Affairs of France" 1704 sem studdi stjórn Harleys og kom út á þriggja vikna fresti. Tímaritið kom út til 1713. Þegar Harley sagði af sér 1708 skrifaði Defoe til stuðnings Godolphin og síðan aftur til stuðnings Harley og íhaldsmönnum. Þegar íhaldsmenn féllu frá völdum við lát Önnu Bretadrottningar hélt Defoe áfram njósnum fyrir viggana. Hann gerðist þannig uppljóstrari stjórnarinnar við vikublað jakobíta. Upp um hann komst 1722 og hann neyddist til að hætta blaðamennsku. Ritstörf. 1715 hafði hann gefið út heilræðakverið "The Family Instructor", en frægasta skáldsaga hans, "Róbinson Krúsó", kom út 1719 og segir frá manni sem verður skipreika á eyðieyju. Hugsanlega byggði hann söguna á reynslusögu sjóræningjans Alexanders Selkirk sem varð skipreika á eyjaklasanum Juan Fernández við Chile, og kom út 1712. 1720 skrifaði hann "Captain Singleton" og frásögn af Plágunni miklu í Bretlandi 1665. 1722 kom skáldsagan "Moll Flanders" út, frásögn í fyrstu persónu um fall og endurlausn konu í Englandi 17. aldar. 1724 kom svo út "Roxana, The Fortunate Mistress", önnur skáldsaga þar sem kona er söguhetjan. Eftirmæli. Auk skáldsagna og blaðaskrifa skrifaði Defoe ævisögur frægra glæpamanna. Öll skrif hans beindust fyrst og fremst að nýlæsu alþýðufólki þess tíma. Blaðaskrif hans hafa aflað honum þess heiðurs að vera af sumum talinn faðir gulu pressunnar. Það er þó einkum fyrir skáldsöguna "Róbinson Krúsó" sem Defoe er minnst, en hún var lengi vel talin fyrsta skáldsagan rituð á enska tungu. Síðan hafa ýmsir orðið til að benda á eldri skáldsagnahöfunda. Daniel var einn af boðberum upplýsingarinnar. Tenglar. Defoe, Daniel Defoe, Daniel Newgatefangelsi. Gamla Newgatefangelsi sem var rifið í lok 18. aldar Newgatefangelsi er eitt af sögufrægustu fangelsum Bretlands. Það var fyrst byggt í Newgate, London, árið 1188 að skipun Hinriks II og síðan stækkað mikið 1236. Það var notað í ýmsum tilgangi, meðal annars fyrir glæpamenn sem biðu aftöku. Gamla fangelsið var svo rifið og nýtt fangelsi byggt frá 1770 til 1778 samkvæmt teikningum George Dance. Í Gordonsuppþotunum 1780 var kveikt í húsinu og margir fangar fórust en um 300 sluppu. Það var endurbyggt tveimur árum síðar. Nýja Newgatefangelsið á 19. öld 1783 voru gálgarnir í London færðir frá Tyburn og komið fyrir fyrir utan Newgatefangelsi sem varð til þess að þar söfnuðust reglulega saman stórir hópar áhorfenda að aftökum. Frá 1868 voru aftökur framkvæmdar innan fangelsismúranna. 1902 var fangelsið rifið og dómshúsið Old Bailey reist á sama stað. Fangelsið kemur fyrir í mörgum skáldsögum Charles Dickens, þar á meðal "Barnaby Rudge", "Glæstar vonir" og "Oliver Twist". Auk þess kemur það fyrir í "Moll Flanders" eftir Daniel Defoe og "The Great Train Robbery" eftir Michael Crichton. Hlutverki einnar álmu þess sem geðveikrahæli var lýst í miklum smáatriðum í "The System of the World" eftir Neal Stephensson. Jörundur hundadagakonungur lenti tvisvar í Newgatefangelsi kringum 1820 vegna skulda, áður en hann var sendur til Tasmaníu. Riða. Riða er arfbundinn, ólæknandi smitsjúkdómur í sauðfé, minkum og geitum. Hún er talin smitast með próteini, svokölluðu príoni. Einnig eru kenningar um að riða sé vírus-tengdur sjúkdómur eða vegna eitrunar í umhverfi. Einkenni í sauðfé. Riðuveik kind, með kláðariðu, setur upp kryppu, er þunnholda Sama kind, skallablettir á mölum sjást Riðuveikin getur hreiðrað um sig í smituðum gripum og ekki gert vart við sig fyrr en árum eftir smit. Þetta ræðst af riðu-arfgerðum sem liggja í erfðaefni dýranna. Skemmdir verða á heilanum eftir langa meðgöngu og leiða til einkenna frá taugakerfinu, s.s. ótta, öryggisleysis og fælni, kláðatilfinningu í húð, kippum og titringi eða stjórnleysi vöðva - eins konar lömun. Fjárglöggir menn sem þekkja hjörðina sína vel taka fyrst eftir breytingum á hegðun dýranna. Málrómurinn „breytist“, kvörtunarhljóð heyrist í jarminu. Styggar og hnarreistar kindur geta orðið sljóar, spakar kindur verða styggar og margar verða órólegar eða óttaslegnar. Þeim finnst vont að láta þrengja að sér og kippa sér jafnvel frá garðanum og standa dágóða stund úti á miðju gólfi, eins og þær séu að hvíla sig eftir sjokk. Annað af fyrstu einkennunum geta líka verið að kindurnar sperra dindilinn þegar þær eru snertar, sumar snarast á hliðina ef tekið er í horn og aðrar geta dottið við snögg hljóð eða hreyfingar. Sumar riðukindur virðast sjá illa, labba á og bera framfæturnar hátt eins og maður með blindrastaf. Riðukind bregst óeðlilega við venjulegu fjárstússi, þær berjast um eins og brjálaðar ef þeim er haldið auk þess sem hárfínan titring er hægt að greina í vöðvunum. Átlyst riðukinda er mikil, það er eins og þær éti og drekki meira en „venjulega“ en samt leggja þær af og veslast upp. Þetta kemur til vegna þess að veikin leggst á meltingarveginn. Smitleiðir. Riðan er óvenjulegur sjúkdómur. Smitefnið er ekki þekkt, en líklegt þykir að það sé smitandi próteini, s.k. "príon". Príon hefur breyst úr venjulegu próteini í sýkt, en eðlileg prótein myndast í flestum vefjum dýra, mest er þó að finna í heilanum. Ekki er vitað með vissu um hlutverk þessa próteins en sumir telja að það hafi mikilvægt hlutverk í miðlun taugaboða, dægursveiflum og öldrun. Smitandi prótein getur leynst á mörgum stöðum, sérstaklega í dýrahræjum. Einnig geta munnvatn, hildir, augnvessi og blóð borið smitið með sér. Þekkt er eitt tilfelli þar sem burðarhjálp manns bar smit milli tveggja kinda. Hann bar því smitefnið með sér í næstu kind og er talið að hún hafi smitast í gegnum fæðingarveginn. Ekki er auðvelt að losna við smit úr jarðvegi og fjárhúsum. Hræ þarf að grafa á viðurkenndum stað og fjárhús og réttir þarf að sótthreinsa áður en nýtt fé er tekið á bæinn, en á Íslandi eru þær reglur að öllu fé af bænum þarf að farga, ef kind greinist með riðu. Allar fyrrgreindar aðgerðir koma ekki í veg fyrir að riðan spretti upp aftur á sama bæ, jafnvel áratugum seinna. Sauðfjárriða og aðrir príonsjúkdómar. Smitefni sauðfjárriðu og Creutzfeldt-Jakob (CJD) sjúkdóms er náskylt. Sett hefur verið fram tilgáta um að sauðfjárriða geti borist í menn í gegnum neyslu á heila, mænu og augum af sauðfé. Íslenskar rannsóknir benda ekki til þess að riðusmit berist í fólk, tíðni CJD er lág hérlendis þó riða hafi verið landlæg í 130 ár. Annar prionsjúkdómur sem kallast Kuru og leggst á menn kom fyrst fram í Papúa Nýju Gíneu um miðja 20. öldina. Þessi tegund af prion sjúkdómi smitaðist með því að fólk borðaði heila og aðra líkamshluta fólks sem var látið. Þetta var hluti af athöfn sem var framkvæmd til að votta hinum látna virðingu. Þessi athöfn var svo bönnuð á siðari hluta 5. áratugarins. Saga. Fyrstu heimildir um riðu í heiminum eru frá árinu 1732 þegar riða fannst á Bretlandseyjum en hún var einnig þekkt í nokkrum löndum Evrópu. Þá þegar hafði fólk áttað sig á því að veikin væri ólæknandi, ef marka má grein sem birtist í þýsku riti árið 1759. Lækning. Engin lækning er til við veikinni en í staðinn er gripið til þess að lóga öllum dýrum á bænum og nálægum bæjum sem gætu hafa sýkst. Einnig fer fram hreinsun gripahúsa og förgun alls fóðurs, s.s. heyi, til að uppræta smitið. Einnig er þeim ráðum beitt að hafa jarðir gripalausar í einhver tíma, t.d. 2 ár, til að losna almennilega við smit. Þó er þetta gagnlítil aðgerð, því riðan getur allt eins sprottið upp aftur á sama bæ - jafnvel þó næsti bær við hliðina hafi aldrei lent í riðu og ganga þá kindur beggja bæjanna saman á fjöllum allt sumarið og eru ekki aðskildar fyrr en um haustið. Turninn í Hanoi. thumb Turninn í Hanoi (eða Turnarnir í Hanoi) er stærðfræðileikur eða þraut sem samanstendur af borði með þremur áföstum prikum og "n" hringjum (oftast 8) með mismunandi þvermál, í upphafi þrautarinnar eru allir hringirnar á einu priki raðaðir eftir stærð með þann stærsta neðst. Markmið þrautarinnar er svo að koma þeim öllum á annað hvort hinna prikanna en aðeins má þó færa einn hring í einu, og ekki má setja hring ofan á minni hring. Vestur-Sahara. Vestur-Sahara er svæði í Norður-Afríku með landamæri að Marokkó, Alsír og Máritaníu, og strönd að Atlantshafi í vestri. Landið laut stjórn Spánar frá seinni hluta nítjándu aldar til ársins 1975. Um leið og Spánverjar drógu sig til braust út stríð þar sem sjálfstæðishreyfing heimamanna, Maritanía og Marokkó bitust um völdin. Árið 1979 tóks Marokkómönnum að leggja undir sig mestallt landið. Frelsishreyfing Vestur-Sahara hefur til þessa dags haldið áfram baráttu fyrir sjálfstæði, en stór hluti þjóðarinnar býr í flóttamannabúðum í Alsír. Lars von Trier. Lars von Trier (f. 30. apríl 1956) er danskur kvikmyndaleikstjóri, meðal annars þekktur, ásamt Thomas Vinterberg, Kristian Levring og Søren Kragh-Jacobsen, sem upphafsmaður Dogme95 hreyfingarinnar í kvikmyndagerð sem kallaði eftir einfaldleika í frásagnarstíl og tæknilegri úrvinnslu kvikmyndarinnar. Madagaskar. Madagaskar er landamæralaust land í Indlandshafi undan austurströnd Afríku. Madagaskar er fjórða stærsta eyja heims, og þar lifa fimm prósent allra plöntu- og dýrategunda heimsins. 80% þeirra eru eingöngu til á Madagaskar. Meðal þess sem helst einkennir eyjuna eru lemúrar og baobabtré. Raf. Baltic amber inclusion - Psylloidea Raf er steingerð trjákvoða sem er stundum notuð í skartgripi. Raf er hálfgagnsætt gul- eða brúnleitt efni og rann úr barrtrjám í Eystrasaltslöndum fyrir ísöld. Flest raf er um 30-90 milljón ára gamalt. Rafmagn dregur heiti sitt af rafi. Tsjad. Tsjad (arabíska: تشاد, "Tašād"; franska: "Tchad") er landlukt land í Mið-Afríku. Það á landamæri að Líbýu í norðri, Súdan í austri, Mið-Afríkulýðveldinu í suðri, Kamerún og Nígeríu í suðvestri og Níger í vestri. Landið er að stærstum hluta í Saharaeyðimörkinni. Í norðurhluta þess er Tíbestí-fjallgarðurinn, stærsti fjallgarður Sahara. Nafn landsins er dregið af nafni Tsjadvatns. Máritíus. Lýðveldið Máritíus er eyríki í Indlandshafi, um 900 km austan við Madagaskar. Auk Máritíus, eru eyjarnar St. Brandon, Rodrigues og Agalegaeyjar hluti ríkisins. Máritíus er hluti af Mascarenhas-eyjaklasanum ásamt frönsku eyjunni Réunion, sem liggur 200 km í suðvestur. Namibía. Namibía er land í sunnanverðri Afríku, með strandlengju að Atlantshafinu í vestri og landamæri að Angóla og Sambíu í norðri, Botsvana í austri og Suður-Afríku í austri og suðri. Namibía var þýsk nýlenda sem hét Þýska Suðvestur-Afríka fram að Fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir hana var henni stjórnað, fyrst af Bretum og síðan Suður-Afríku, til 1990. Höfuðborgin heitir Windhoek. Saga. Elstu merki um menn í Namibíu er mikið magn af hellamálverkum, þau elstu frá því fyrir um 25.000 árum. Búskmenn eru taldir vera fyrstu íbúar landsins líkt og í Botsvana og Suður-Afríku. Þeir lifðu flökkulífi sem veiðimenn og safnarar. Fyrir um 2.000 árum fluttust Namar til landsins, en þeir tala Koisanmál líkt og Búskmenn og á 9. öld fluttu Damarar (sem líka tala Koisanmál) til landsins. Fyrstu evrópsku landkönnuðirnir sem komu til Namibíu voru Portúgalirnir Diogo Cão (1485) og Bartholomeu Diaz (1488) en þeir hættu sér ekki langt inn í landið út af Namíbeyðimörkinni. Landnám Bantúmanna og Búa. Aðflutningur Bantúmanna hófst á 17. öld eða þar um bil þegar Hereromenn fluttust til Namibíu með nautgripahjarðir sínar. Á fyrri hluta 19. aldar komu svo Búar til Namibíu. Þeir gerðu samkomulag við Nama um að hrekja Hereromenn, sem þá voru að sækja suður á bóginn, norður. Þeir settust að þar sem Windhoek stendur nú, á jaðri lands Hereromanna. Blandaðir afkomendur þeirra og innfæddra Nama voru kallaðir Bastar. Þeir stofnuðu borgina og fríríkið Rehoboth á síðari hluta aldarinnar. 1793 ákváðu hollensk stjórnvöld í Höfðanýlendu að taka yfir stjórn Walvis Bay þar sem þar var eina hafnarstæðið á Beinaströndinni við Namíbeyðimörkina. Þegar Bretar hertóku nýlenduna 1797 tóku þeir líka við stjórn Walvis Bay, en landnám Evrópumanna var bundið við þetta litla svæði á ströndinni. Undir þýskum yfirráðum. Þegar kapphlaupið um Afríku hófst á síðari hluta 19. aldar varð Namibía þýsk nýlenda sem nefndist Þýska Suðvestur-Afríka fyrir utan Walvis Bay sem var áfram undir yfirráðum Breta. Andspyrna Nama undir stjórn Hendrik Witbooi og nefnd Hottentottauppreisnin í fjölmiðlum þess tíma var brotin á bak aftur 1894. Árið 1908 uppgötvuðust demantanámur í Namibíu og fjöldi evrópskra innflytjenda margfaldaðist. Nýir landnemar voru hvattir til þess að ræna landi frá innfæddum og þröngva þeim til nauðungarvinnu. Samskiptum landnema og innfæddra hrakaði því mikið sem náði hápunkti þegar Herero og Namaqua-þjóðarmorðið átti sér stað 1904-1908. Suðvestur-Afríka. Í Fyrri heimsstyrjöldinni hertók Suður-Afríka Þýsku Suðvestur-Afríku og 17. desember 1920 var landið lýst breskt umdæmi af Þjóðabandalaginu. Eftir Síðari heimsstyrjöldina ætluðust Sameinuðu þjóðirnar til þess að svæðið félli undir alþjóðlega nefnd, en Suður-Afríka neitaði. Landið var samt aldrei formlega innlimað í Suður-Afríku en hvíti minnihlutinn í Suðvestur-Afríku, eins og landið hét, átti fulltrúa á þingi Suður-Afríku. Þegar nýlenduveldin hófu að veita afrísku nýlendunum sjálfstæði á 7. áratugnum jókst þrýstingur á Suður-Afríku að gefa Suðvestur-Afríku eftir. Eftir kvartanir annarra ríkja ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að afturkalla umdæmi Suður-Afríku frá tímum Þjóðabandalagsins. Í kjölfarið hófst andspyrna gegn yfirráðum Suður-Afríku á vegum South West Africa People's Organization (SWAPO). Sjálfstæðisbaráttan og sjálfstæði. 1971 kvað Alþjóðadómstóllinn upp úr með að stjórn Suður-Afríku í Namibíu væri ólögleg en Suður-Afríka neitaði að gefa yfirráð sín eftir. 1978 reyndu Vesturlönd að eiga milligöngu um diplómatíska lausn vandans en Suður-Afríka lét halda kosningar í landinu í trássi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna og hélt áfram að stjórna landinu. Málið var í járnum þar til ákveðið var á fundi Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev árið 1988 að Kúba myndi draga herlið sitt frá Angóla um leið og Suður-Afríka drægi sitt lið frá Namibíu og 22. desember 1988 voru New York-samningarnir undirritaðir. Þeir fólu í sér annars vegar samning Kúbu og Angóla og þríhliða samning milli Kúbu, Angóla og Suður-Afríku þar sem Suður-Afríka samþykkti að láta Sameinuðu þjóðunum stjórn Namibíu eftir. Í fyrstu kosningunum eftir sjálfstæði, kosningum til stjórnlagaþings í nóvember 1989, fékk SWAPO yfir 50% atkvæða. 1990 var ný stjórnarskrá tekin upp og Sam Nujoma, formaður SWAPO, varð fyrsti forseti Namibíu. 1. mars 1994 tók Namibía við stjórn Walvis Bay og nítján eyja við ströndina. Sansibar. Sansibar er eyja úti fyrir strönd Tansaníu (íbúafjöldi: 800.000 (áætl. 1994); flatarmál: 1.554 km²). Stundum er vísað til Sansibar og nálægu eyjanna Mafia og Pemba sem Kryddeyja, þótt það sé oftast notað sem heiti á hluta Molukkaeyja í Indónesíu. Stærsti bærinn á Sansibar er Zanzibar City, en miðbær hans, Stone Town, er á heimsminjaskrá UNESCO. Efnahagslífið byggist á framleiðslu krydds (negull, múskat, kanill og pipar meðal annars) og ferðaþjónustu. Saga Sansibar. Tansanía varð til við sameiningu sjálfstæðu ríkjanna Tanganjika og Sansibar árið 1963. Heiti nýja ríkisins er myndað úr fyrstu stöfunum í heitum aðildarríkjanna. Stjórnmál Sansibar. Sansibar er sjálfstjórnarhérað í Tansaníu og hefur sitt eigið þing og forseta sem taka ákvarðanir um málefni sem varða eyjuna. Miðbaugs-Gínea. Miðbaugs-Gínea er land í Mið-Afríku og eitt af minnstu ríkjum álfunnar. Það á landamæri að Kamerún í norðri og Gabon í suðri, og strandlengju við Gíneuflóa í vestri þar sem eyjarnar Saó Tóme og Prinsípe liggja til suðvesturs. Landið var áður spænska nýlendan "Spænska Gínea". Landinu tilheyra nokkrar stórar eyjar, þar á meðal Bioko þar sem höfuðborgin Malabó (áður "Santa Isabel") stendur. Saó Tóme og Prinsípe. Saó Tóme og Prinsípe eru tveggja eyja eyríki í Gíneuflóa undan strönd Vestur-Afríku. Eyjarnar eru 140 km frá hvor annarri og í um 250 og 225 km fjarlægð frá strönd Gabon. Báðar eru hluti af röð eldfjalla. Syðri eyjan, Saó Tóme, er nær nákvæmlega á miðbaug. Breska Kólumbía. Breska Kólumbía er vestasta fylki Kanada. Það var sjötta fylkið til að ganga í fylkjasambandið (sjöunda ef yfirráðasvæðin eru tekin með). Fólksfjöldi í fylkinu árið 2005 var 4.219.968. Breska Kólumbía er þekkt fyrir einstaka náttúrufegurð og mikla strandrisafuruskóga. Tenglar. ! Suður-Afríka. Suður-Afríka (Lýðveldið Suður-Afríku) er land í suðurhluta Afríku og nær yfir suðurodda álfunnar. Það á landamæri að Namibíu, Botsvana, Simbabve, Mósambík og Svasílandi. Lesótó er sjálfstætt ríki innan landamæra Suður-Afríku. Árið 2009 eru konur með 45% þingsæta vegna kynjakvóta en þær voru 2,7% fyrir 15 árum síðan. Þetta er mikil breyting en þó er talað um kynjakvóta sem stjórnmálaskjól. Magnús lagabætir. Magnús lagabætir (Magnús 6.) (1. maí 1238 – 9. maí 1280) var konungur Noregs frá 1263 til dauðadags. Hann tók við af föður sínum Hákoni gamla þegar hann lést í Orkneyjum 16. desember 1263. Uppruni og kvonfang. Magnús var yngri sonur Hákonar gamla Hákonarsonar og Margrétar Skúladóttur. Hann ólst upp í Björgvin. Bróðir hans, Hákon ungi, dó 1257 og þá varð Magnús næstur til ríkiserfða, nítján ára að aldri. Sama ár gerði faðir hans hann að meðkonungi sínum. Þann 11. september 1261 giftist hann Ingibjörgu, dóttur Eiríks plógpenings Danakonungs, sem var myrtur 1250, og höfðu menn föður hans numið hana á brott úr klaustrinu sem hún dvaldist í til að láta hana giftast Magnúsi. Síðar áttu Norðmenn og Danir lengi í togstreitu vegna arfs sem Norðmenn töldu Ingibjörgu bera eftir föður sinni. Þau voru krýnd þegar eftir brúðkaupið og Magnús fékk Ryfylki í Noregi sér til uppihalds en hafði annars engin völd fyrr en eftir að faðir hans lést í herför sinni til Suðureyja tveimur árum síðar og Magnús varð konungur. Utanríkisstefna. Magnús fylgdi ekki útþenslustefnu föður síns, heldur gekk til friðarsamninga við Alexander 3. Skotakonung. Með Perth-sáttmálanum 1266 lét hann Suðureyjar og Mön af hendi við Skota en fékk í staðinn 4000 merkur silfurs og loforð um árlegt afgjald, 100 merkur, sem Skotar hættu þó fljótt að greiða. Í staðinn viðurkenndu Skotar yfirráð Norðmanna yfir Orkneyjum og Hjaltlandi. Magnús átti góð samskipti við Englendinga en samskiptin við Skotlands voru stirðari, einkum eftir að Skotar hættu að greiða afgjaldið sem samið hafði verið um. Þegar á leið vildi Magnús þó bæta sambandið og í því skyni samdi hann meðal annars um hjónaband sonar síns og erfingja, Eiríks, og Margrétar dóttur Alexanders 3. Samskipti Magnúsar og svila hans, Valdimars Birgissonar Svíakonungs, voru einnig góð og á sjöunda áratug 13. aldar voru landamæri Noregs og Svíþjóðar opinberlega ákveðin í fyrsta sinn. Valdimar var settur af 1275 og flúði fyrst til Noregs. Magnús brást við og hélt með flota til Svíþjóðar, þar sem hann reyndi að koma á sáttum á milli Valdimars og Magnúsar hlöðuláss, bróður hans, sem orðinn var konungur, en án árangurs. Hélt Magnús þá heim til Noregs á ný án þess að skærist í odda. Samskiptin við Danmörku voru erfiðari vegna deilunnar um arf eftir Eirík plógpening en þó kom aldrei til átaka. Magnús var áhugamaður um utanríkismál, átti í miklum bréfaskiptum og öðrum samskiptum við marga konunga og fursta og lét sendiboða sína fara víða í ýmsum erindum og færa erlendum þjóðhöfðingjum gjafir. Einn helsti erindreki hans var Loðinn leppur, sem meðal annars fékk Jónsbók samþykkta á Íslandi en var einnig sendur til Túnis og Egyptalands og jafnvel enn lengra. Lagabætur Magnúsar. Viðurnefni sitt fékk Magnús af því að hann samræmdi löggjöf í Noregi með nýjum lögbókum 1274 og 1276. Áður hafði hver landshluti haft sín lög. Hann lét gera lögbókina Járnsíðu handa Íslendingum (lögtekin 1271-1274) en hún mætti andstöðu og lét hann þá semja Jónsbók í staðinn sem var lögtekin 1281 og notuð í heild sinni fram á 18. öld. Á þessum tíma höfðu mjög fá ríki samræmda löggjöf fyrir allt landið, raunar aðeins Sikiley og Kastilía. Löggjöf Magnúsar byggðist á þeirri hugmynd að glæpur væri brot gegn ríkisvaldi fremur en einstaklingi og dró þar með úr vægi hefndarinnar. Hún jók einnig vald konungsins og gerði hann að æðsta dómsvaldi. Réttindi og skyldur höfðingja, embættismanna og hirðmanna voru skilgreind og æðstu hirðmennirnir fengu titla, barón og riddari eftir evrópskri fyrirmynd. Einnig voru ríkiserfðir fastákveðnar. Jón rauði, erkibiskup í Niðarósi, mótmælti því að löggjöf Magnúsar færi inn á valdsvið kirkjunnar og varð löng togstreita milli konungs og kirkju sem lauk með sættagerð í Túnsbergi 1277. Magnús byggði upp her í Noregi, lið 1200 manna sem voru þó ekki stöðugt í herþjónustu en gátu brugðist við með skömmum fyrirvara og voru vel þjálfaðir. Ævilok. Magnús veiktist í Björgvin vorið 1280 og dó 9. maí. Hann hefur almennt fengið goð eftirmæli og er minnst sem konungs sem beitti lögunum fremur en sverðinu. Hann var friðsamur og forðaðist stríðsátök og harðar deilur en kaus að tryggja stöðugleika. Skömmu eftir að Hákon faðir Magnúsar dó fékk hann Sturlu Þórðarson sagnaritara til að skrifa sögu hans. Árið 1278 fól Magnús Sturlu svo að skrifa sína eigin sögu en aðeins brot úr henni er varðveitt. Magnús og Ingibjörg áttu tvo syni, Eirík prestahatara og Hákon hálegg, sem báðir urðu konungar Noregs. Eirikur tók við ríkjum þegar faðir hans dó en var þá aðeins tólf ára. Ingibjörg drottning var ekki formlega útnefnd ríkisstjóri en hafði þó mikil áhrif og þau urðu enn meiri eftir að Eiríkur var fullveðja. Mið-Afríkulýðveldið. Mið-Afríkulýðveldið er landlukt land í Mið-Afríku, með landamæri að Tsjad í norðri, Súdan í austri, Kongó og Lýðveldinu Kongó í suðri og Kamerún í vestri. Landið liggur rétt norðan við miðbaut, á milli vatnasviðs Kongófljóts, Tsjadvatns og vatnasviðs Hvítu Nílar. Áður var það frönsk nýlenda sem hét Oubangui-Chari og var stjórnað út frá hagsmunum franskra plantekrueigenda. Fyrstu þrjá áratugina eftir að landið fékk sjálfstæði 1960 var það undir herforingjastjórnum. Borgaraleg stjórn tók við völdum 1993. Sambía. Sambía er landlukt land í suðurhluta Afríku með landamæri að Lýðveldinu Kongó í norðri, Tansaníu í norðaustri, Malaví í austri, Mósambík, Simbabve, Botsvana og Namibíu í suðri, og Angóla í vestri. Landið dregur nafn sitt af Sambesífljóti. Það hét áður Norður-Ródesía. Kómoreyjar. Kómoreyjar (til 2002 Íslamska sambandslýðveldið Kómoreyjar) er ríki þriggja eyja undan strönd austanverðrar Afríku, á milli norðurodda Madagaskar í Indlandshafi og Mósambík. Eyjaklasinn er í norðurenda Mósambíksunds milli Mósambík og Madagaskar. Önnur nálæg lönd eru Tansanía í norðvestri og Seychelles-eyjar í norðaustri. Eyjarnar eru þrjár eldfjallaeyjar; Grande Comore (opinbert heiti Ngazidja), þar sem höfuðborgin Móróní stendur, Moheli (Mwali) og Anjouan (Nzwani). Eyjan Mayotte er hluti af eyjaklasanum og gera Kómoreyjar tilkall til hennar, en íbúar Mayotte hafa kosið að vera áfram hluti Frakklands. Landið er það þriðja minnsta í Afríku. Nafnið er dregið af arabíska orðinu قمر "qamar", tungl. Menning og saga eyjanna er fjölbreytt þar sem saman koma áhrif frá ólíkum menningarsvæðum. Kómoreyjar eru eina Afríkuríkið sem er í senn aðili að Afríkusambandinu, Alþjóðasamtökum frönskumælandi fólks, Samtökum um samvinnu íslamskra ríkja, Arababandalaginu og Indlandshafsráðinu. Mayotte. Mayotte er franskt sjálfstjórnarsvæði í Kómoreyjaklasanum við norðurenda Mósambíksunds í Indlandshafi, á milli Madagaskar og Mósambík. Hún er líka kölluð Mahoré, einkum af þeim sem vilja sameinast Kómoreyjum. Mayotte var eina eyjan í eyjaklasanum sem kaus að halda tengslunum við Frakkland í þjóðaratkvæðagreiðslum 1974 og 1976. Víxlunarröðun. Víxlunarröðun eða bóluröðun er einfalt röðunarreiknirit að stærðargráðu n², í sínu einfaldasta formi virkar það með því að fara formula_1 sinnum yfir fylki af stærð n og víxla stök sem eru stærri en næsta stak á undan, en röðunin dregur einmitt nafn sitt af „víxluninni“. Vegna einfaldleika reikniritsins er það oft fyrsta reikniritið sem kennt er í tölvunarfræði. Gagnsemi. Víxlunarröðun er afar einfalt reiknirit en nær gagnslaust sökum flækjustigs af stærðargráðu "O(n2)". Víxlunarröðunin betrumbætt. void vixlunarrodun(int tolur, const int staerd) Hvíta Níl. Hvíta Níl er fljót í Afríku og önnur aðalþverá Nílar (hin er Bláa Níl). Áin á upptök sín í Viktoríuvatni og heitir þar Viktoríu-Níl. Hún rennur í vestur í gegnum Úganda, Kyogavatn og Albertsvatn þar sem nafn hennar breytist í Alberts-Níl. Þaðan rennur hún norður til Nimule þar sem hún rennur inn í Súdan. Þar er hún kölluð Fjalla-Níl þar sem hún rennur yfir flúðir og inn á sléttuna, í gegnum fenin í Sudd og um No-vatn þar til hún mætir Bláu Níl við Kartúm og myndar Níl. Leiðin frá Viktoríuvatni að Kartúm er um 3.700 km löng. Stóru vötnin. Gervihnattamynd af Stóru vötnunum í Afríku. Sumir kalla einungis Viktoríuvatn, Albertsvatn og Edwardsvatn "Stóru vötnin", þar sem þau eru þau einu sem tæmast út í Hvítu Níl. Tanganjikavatn og Kivuvatn eru hluti af vatnakerfi Kongófljóts. Landsvæðið við stóru vötnin. Á svæðinu við stóru vötnin eru löndin Rúanda, Búrúndí og Úganda, auk hluta Lýðveldisins Kongó, Tansaníu og Kenýa. Svæðið er eitt af þeim þéttbýlustu í heimi, en áætlað er að 107 milljónir manna búi þar. Vegna eldvirkni er svæðið við stóru vötnin með bestu ræktarlöndum í Afríku og vegna hæðarinnar er loftslagið temprað, þótt svæðið sé við miðbaug. Gínea (heimshluti). Gínea er sögulegt heiti á þeim heimshluta sem liggur umhverfis Gíneuflóa í Afríku. Gínea nær frá hitabeltinu í suðri að Sahel-svæðinu, við jaðar Sahara í norðri. Þetta svæði var með þeim fyrstu í Afríku sunnan Sahara sem Evrópubúar komust í kynni við. Umfangsmikil verslun með gull, fílabein og þræla skapaði mikið ríkidæmi á svæðinu og nokkur öflug konungsríki urðu þar til á 18. og 19. öld eins og Dahómey og Asante-sambandið. Þessi ríki voru miðstýrð, fjölmenn og tæknilega þróuð, og veittu mikla mótspyrnu þegar Evrópuríkin hófu að leggja álfuna undir sig. Stór hluti þessa svæðis var því ekki gerður að evrópskum nýlendum fyrr en undir lok 19. aldar. Nafnið "Gínea" kemur úr máli berba, í gegnum portúgölsku og merkir „land hinna svörtu“. Gíneu var oft skipt í "Neðri Gíneu", sem náði yfir suðurhluta Nígeríu, Benín, Tógó og inn í Gana, og "Efri Gíneu", sem er mun fámennara svæði, og nær yfir Fílabeinsströndina og Gíneu-Bissá. Evrópskir kaupmenn gáfu hlutum strandlengjunnar við Gíneuflóa heiti eftir höfuðútflutningsvöru hvers staðar. Eystri hlutinn við Benín og Nígeríu var nefndur "Þrælaströndin", þar sem nú er Gana var kallað "Gullströndin" og vestan við Gana var "Fílabeinsströndin", sem nú er nafn ríkis á sömu slóðum. Enn vestar, við Líberíu og Síerra Leóne, var ströndin kölluð "Kornströndin" eða "Piparströndin". Hvíta-Rússland. Hvíta-Rússland (hvítrússneska: Белару́сь, Biełaruś; rússneska: Белару́сь (áður: Белору́ссия)) er landlukt ríki í Austur-Evrópu. Það á landamæri að Póllandi í vestri, Litháen í norðvestri, Lettlandi í norðri, Rússlandi í austri og Úkraínu í suðri. Höfuðborg Hvíta-Rússlands er Minsk, aðrar stórar borgir eru Brest, Grodno, Gomel, Mogilev, Vitebsk og Bobruisk. Um þriðjungur landsins er þakinn skógi, landbúnaður og iðnaður eru helstu atvinnugreinar landsins. Moldóva. Lýðveldið Moldóva (eða Moldavía) er landlukt land í Austur-Evrópu með landamæri að Rúmeníu til vesturs og Úkraínu til norðurs, austurs og suðurs. Í landinu búa 4,3 milljónir manna og stærð þess nemur um þriðjungi Íslands. Höfuðborgin heitir Kíshínjov (á rúmensku Chisinau (kíaíná). Tveir þriðju landsmanna eru Rúmenar og rúmenska er opinbert mál. Margir rúmensku íbúanna vilja að landið sameinist Rúmeníu. Moldavía er dæmigert landbúnaðarland. Þar eru meðal annars stór ræktarlönd með vínþrúgum til vínframleiðslu og rósum fyrir ilmefnaiðnaðinn. Sankti Helena. Sankti Helena (sem stundum hefur verið nefnd Elínarey eða Elínareyja á íslensku) er nafn á eyju í Atlantshafi, en vísar einnig til breskrar stjórnsýslueiningar, sem nær yfir, auk Sankti Helenu, eyjarnar Ascension og Tristan da Cunha. Sankti Helena er líklega frægust fyrir að hafa hýst Napóleon Bónaparte síðustu ár hans í útlegð. Úganda. Úganda er landlukt land í Austur-Afríku með landamæri að Kenýa í austri, Súdan í norðri, Lýðveldinu Kongó í vestri, Rúanda í suðvestri og Tansaníu í suðri. Suðurhluti landsins nær yfir stóran hluta Viktoríuvatns. Nafn Úganda er dregið af konungsríkinu Búganda sem er eitt fimm konungsríkja landsins (hin eru Toro, Nkore, Busoga og Bunyoro). Höfuðborgin Kampala er í suðurhluta landsins, í Búganda. Páskaeyja. Páskaeyja (pólýnesíska: Rapa Nui, spænska: Isla de Pascua) er eyja í Suður-Kyrrahafi sem tilheyrir Chile. Eyjan er 3.515 km frá meginlandinu og 2.075 km frá næstu byggðu eyju, Pitcairn. Íbúafjöldi er 3.791 (skv. manntali 2002) og af þeim búa 3.304 í höfuðborginni Hanga Roa. Eyjan er fræg fyrir stórar steinstyttur (moai) sem eru um fjögurra alda gamlar. Þær eru 887 talsins á eyjunni. Þótt oft sé talað um þær sem „steinhöfuð“ hafa þær raunar búk, en nokkrar hafa sigið svo aðeins höfuðin standa uppúr. Sammengi. a> af sammengi "A" og "B" (lesið „A sam B“) Til hamingju með fallið. Til hamingju með fallið er hljómplata með Megasi frá 1996. 1749. Goethehaus í Frankfurt, fæðingarstaður Johanns Wolfgangs von Goethe. 1743. Georg 2. í orrustunni við Dettingen. 1736. María Teresía og Frans 1. með börnum sínum. 1733. a> komst alla leið til Kína. 1720. Skopmynd sem lýsir því sem gerðist þegar Suðurhafsbólan sprakk. „The Headlong Fools Plunge into South Sea Water.“ 1709. a> lagði svo að Feneyingar gátu leikið sér á ísnum. a>. Málverk eftir Denis Martens yngri. Tansanía. Tansanía (svahílí: "Jamhuri ya Muungano wa Tanzania") er land í Austur-Afríku með landamæri að Kenýa og Úganda í norðri, Rúanda, Búrúndí og Lýðveldinu Kongó í vestri, og Sambíu, Malaví og Mósambík í suðri. Í austri á það strönd að Indlandshafi þar sem liggja eyjarnar Sansibar, Mafia og Pemba. Áður hafði landsvæðið fengið sjálfstæði frá Bretum 1960 sem Tanganjika, en 1963 sameinaðist það Sansibar og Tansanía varð til. Nafnið er myndað úr fyrstu stöfunum í nöfnum aðildarríkjanna tveggja. Til 1996 var höfuðborgin stærsta borg Tansaníu, Dar es Salaam, en þá var þjóðþingið flutt til Dódómu sem er nú formlega höfuðborg. Saga. Í Tansaníu er að finna einhver elstu merki um menn og Olduvaigjáin í norðurhluta landsins er stundum kölluð „vagga mannkyns“. Í Tansaníu hafa fundist steingerðar leifar eftir "Paranthropus" og "Australopithecus". Laetolisporin sem talin eru elstu þekktu merki um menn, fundust í Tansaníu árið 1978. Fyrir um 10.000 árum er talið að í Tansaníu hafi búið samfélög veiðimanna og safnara sem töluðu kojsan-mál. Fyrir 5-3000 árum er talið að fólk sem talaði kúsmál hafi flust þangað úr norðri og flutt með sér tækni til landbúnaðar; kvikfjárrækt og akuryrkju. Fyrir um 2000 árum hófst flutningur bantúmanna til Tansaníu. Þessir hópar fluttu með sér tækni til járnvinnslu. Síðar hófst flutningur hirðingja frá norðri sem tala nílótísk tungumál. Þessir fólksflutningar stóðu allt fram á 18. öld. Hefðbundinn bátur með latínusegli á Sansibar. Frá 1. árþúsundinu e.Kr. var öflug verslun milli strandhéraða Tansaníu og Persíu og Arabíu. Með komu íslam varð tungumál íbúanna fyrir áhrifum frá arabísku og svahílí varð til. Borgir og bæir urðu til í kringum verslunina með fram ströndinni og á eyjunum kringum Sansibar og Kilwa. Frá 13. og fram á 15. öld efldust þessar borgir eftir því sem siglingum fór fram á Indlandshafi og áttu viðskipti með vörur allt frá Indlandi og Kína. Snemma á 14. öld kom Ibn Battuta til Kilwa og sagði hana bestu borg veraldar. 1498 kom Vasco da Gama fyrstur Evrópubúa til austurstrandarinnar og um 1525 höfðu Portúgalir lagt alla strandlengjuna undir sig. Yfirráð Portúgala stóðu til loka 18. aldar þegar arabar frá Óman hófu að koma sér þar fyrir. Á þeim tíma varð Sansibar miðstöð þrælaverslunar á svæðinu. 1880 var meginlandshluti Tansaníu, Tanganjika, hluti af Þýsku Austur-Afríku. Eftir ósigur Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöldinni lýsti Þjóðabandalagið landið breskt umdæmi. Í Síðari heimsstyrjöldinni var þar herstöð og birgðageymsla breska hersins. Árið 1960 varð Julius Nyerere ráðherra Tanganjika og varð fyrsti forsætisráðherra Tansaníu þegar landið fékk sjálfstæði 1961. 1964 fékk Sansibar sjálfstæði sem soldánsdæmi en almenn uppþot gegn soldáninum leiddu til sameiningar landanna tveggja 26. apríl 1964. Nyerere tók upp afríska jafnaðarstefnu með hugmyndafræðinni "Ujamaa" sem fól meðal annars í sér þjóðnýtingu nokkurra lykilatvinnugreina og flokksræði þar sem einungis flokkur Nyerere, Chama Cha Mapinduzi, var leyfður. 1979 reyndi stjórn Úganda undir forystu Idi Amin að leggja héraðið Kagera undir sig sem leiddi til stríðs sem lauk með því að her Tansaníu steypti Idi Amin af stóli. 1985 lét Nyerere af völdum og Ali Hassan Mwinyi tók við sem forsætisráðherra. Flokksræði lauk með stjórnarskrárbreytingu árið 1992 en Chama Cha Mapinduzi hefur unnið allar kosningar síðan. Landafræði. Tansanía er 31. stærsta land heims. Í norðri og vestri á það landamæri við stóru vötnin, Viktoríuvatn og Tanganjikavatn. Í norðvesturhlutanum er fjallendi þar sem Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, stendur. Í miðju landinu er háslétta þar sem eru gresjur og ræktarland. Í austri liggur strönd Tansaníu að Indlandshafi þar sem er heitt og rakt. Rétt utan við ströndina eru eyjarnar Sansibar, Mafia og Pemba. Í Tansaníu eru nokkrir heimsþekktir þjóðgarðar, þar á meðal Serengeti-þjóðgarðurinn, Ngorongoro-gígurinn og Gombe-þjóðgarðurinn. Skipting í stjórnsýsluumdæmi. Arusha-hérað · Dar es Salaam-hérað · Dodoma-hérað · Iringa-hérað · Kagera-hérað · Kigoma-hérað · Kilimanjaro-hérað · Lindi-hérað · Manyara-hérað · Mara-hérað · Mbeya-hérað · Morogoro-hérað · Mtwara-hérað · Mwanza-hérað · Pemba Norður · Pemba Suður · Pwani-hérað · Rukwa-hérað · Ruvuma-hérað · Shinyanga-hérað · Singida-hérað · Tabora-hérað · Tanga-hérað · Suður · Sansibar Norður · Sansibar Vestur Stjórnmál. Julius Nyerere var fyrsti forseti Tansaníu Forseti Tansaníu og meðlimir þjóðþingsins eru kjörnir með almennri kosningu til fimm ára í senn. Forsetinn útnefnir forsætisráðherra sem skipar í ríkisstjórn. Síðustu þing- og forsetakosningar í Tansaníu voru haldnar árið 2005. Þingið starfar í einni deild og þar sitja 295 þingmenn. Eins og stendur er stjórnarflokkurinn, CCM, með 93% þingsæta. Lög sem þingið samþykkir gilda ekki á Sansibar nema í nokkrum sérstaklega skilgreindum málaflokkum. Á Sansibar er sérstakt þing sem setur lög um alla aðra málaflokka en þá sem varða samband ríkjanna. Þar sitja 76 þingmenn. Á báðum þingunum eru sérstök sæti tekin frá fyrir þingkonur; 20% sæta allra flokka á þjóðþinginu og fimmtán sæti á þingi Sansibar. Í Tansaníu eru fimm dómstig þar sem koma saman hefðir úr ættarsamfélaginu, íslam og breskri réttarvenju. Æðsta dómstigið er áfrýjunardómstóll sem tekur við áfrýjunum frá efstu dómstigum bæði á meginlandinu og á Sansibar nema í málum er varða íslömsk lög eða stjórnarskrána. Efnahagslíf. Uppistaðan í efnahagslífi Tansaníu er landbúnaður sem stendur undir um helmingi landsframleiðslunnar, 85% af útflutningsverðmæti og 90% af atvinnu. Vegna loftslags og legu er þó einungis hægt að nýta 4% landsins sem akurlendi. Iðnaður er að mestu bundinn við vinnslu landbúnaðarafurða og framleiðslu léttra neysluvara. Á 10. áratug 20. aldar hefur málmvinnsla vaxið, aðallega á gulli. Framleiðsla á jarðgasi á eyjunni Songo Songo hófst árið 2004 og mest af því er nýtt til rafmagnsframleiðslu í Dar es Salaam. Nýlegar umbætur í efnahagskerfinu hafa örvað fjárfestingar og vöxt fyrirtækja en jafnframt hefur gengið illa að sjá landinu fyrir nægri raforku þar sem langtímaþurrkar undanfarin ár hafa minnkað framleiðni vatnsaflsvirkjana. Menning. Flestir íbúar Tansaníu tala bantúmál og svahílí er opinbert tungumál landsins. Hirðingjar sem tala nílótísk mál eru masajar og lúó-mælandi fólk. Einn hópur á Sansibar telur sig vera Shirazi, afkomendur fólks frá Persíu sem flutti íslam til eyjunnar á miðöldum. Um þriðjungur íbúa Tansaníu eru múslimar, um þriðjungur er kristinn og um þriðjungur aðhyllist hefðbundin afrísk trúarbrögð. Á Sansibar eru aftur á móti 99% íbúanna múslimar. 1704. Forsíða fyrsta tölublaðs "The Boston News-Letter". 1703. Erlendis. a> (þá Buckingham House) um 1710. 1702. John Churchill, fyrsti hertoginn af Marlborough. 1701. Erlendis. a>, stiftamtmaður á Íslandi og yfirmaður danska flotans. Réunion. Réunion (franska: "La Réunion") er frönsk eyja í Indlandshafi austan við Madagaskar, um 200 km suðvestan við Máritíus. Íbúafjöldi er um 750.000. Landafræði. Réunion er 63 km löng, 45 km breið og 2150 km² að flatarmáli. Hún er staðsett á heitum reit. Þar eru tvö stór eldfjöll; dyngjan "Piton de la Fournaise" og útdauða eldfjallið "Piton des Neiges", sem jafnframt er hæsti tindur eyjunnar (3070 m). Efnahagur. Aðalútflutningsvara Réunion er sykur. Ferðaþjónusta er einnig drjúg tekjulind. Lesótó. Konungsríkið Lesótó (eða Lesóthó) er landlukt land í sunnanverðri Afríku, umlukt Suður-Afríku á allar hliðar. Áður hét það Basútóland og var undir stjórn Breta. Þegar Suður-Afríkusambandið varð til 1910 hófst vinna við að sameina Basútóland sambandinu. Íbúarnir voru hins vegar mótfallnir sameiningu og þegar kynþáttaaðskilnaður var lögleiddur í Suður-Afríku, stöðvaðist sameiningarferlið alveg. Landið var svo nefnt Lesótó þegar það fékk fullt sjálfstæði frá Bretum 4. október 1966. Nafnið þýðir nokkurn veginn „land þeirra sem tala sótó“. Angóla. Angóla er land í sunnanverðri Afríku með strönd að Atlantshafi og landamæri að Namibíu í suðri, Sambíu í austri og Lýðveldinu Kongó í norðri. Útlendan Kabinda er auk þess við landamæri Kongó. Angóla var áður portúgölsk nýlenda með umtalsverðar náttúruauðlindir, meðal annars olíu og demanta. Landið átti í stöðugri borgarastyrjöld frá því að það fékk sjálfstæði árið 1975 til ársins 2002. Kosningar voru síðast haldnar í landinu árið 2008. Svasíland. Konungsríkið Svasíland er landlukt smáríki í sunnanverðri Afríku með landamæri að Suður-Afríku og Mósambík. Landið heitir eftir svasímönnum. Undir lok 19. aldar gerði Suður-Afríska Lýðveldið í Transvaal tilkall til svæðisins, en náðu ekki að leggja það undir sig. Eftir Búastríðið varð landið að bresku verndarsvæði þar til það fékk sjálfstæði 6. september 1968. Mósambík. Mósambík er land í sunnanverðri Afríku með landamæri að Suður-Afríku, Svasílandi, Tansaníu, Malaví, Sambíu og Simbabve. Landið fékk sjálfstæði 1975, eftir vopnaða baráttu, og var í bandalagi við Sovétríkin á tímum Kalda stríðsins. Árið 1982 hófst borgarastyrjöld sem stóð til 1992. Mósambík er frá 1995 hluti af breska samveldinu þótt það hafi ekki verið bresk nýlenda, heldur portúgölsk. Árið 1990 var samþykkt ný stjórnarskrá í landinu, en samkvæmt henni er landið nú lýðræðisríki. Árið 1994 voru fyrstu frjálsu kosningarnar haldnar í landinu og var Joaquim Chissano kjörinn forseti með 53% atkvæða. Ísland hefur rekið sendiráð í Mósambík frá árinu 2001. Mósambík er á austurstönd sunnanverðrar Afríku frá 10°30´ suður á 27° suður með 2500 km strandlengju sem liggur að Indlandshafinu og Mósambík-sundinu milli meginlandsins og Madagaskar. Að norðan liggur Tanzanía, að sunnan Swaziland og Suður-Afríka og í vestri eru 3 ríki, Malawi, Zimbabwe og Zambía sem eiga landamæri að Mósambík. Landamærin í Afríku urðu flest til á skrifborðum nýlenduveldanna í Evrópu fyrir einum 100 árum. Það er varla til land í Afríku sem hefur aðeins einn þjóðflokk innan sinna landamæra og mörg tungumál eru töluð í nærri öllum Afríku-ríkjum (nema Swasilandi). Á svipaðan hátt voru nærri allir þjóðflokkar álfunnar klofnir af landamærum. Mósambík er engin undantekning frá þessari landamæraóreglu. Mósambík er 802.599 km² og skiptist í 3 svæði landfræðilega: lágslétturnar sem eru u.þ.b. 44% af landinu, hærra sléttlendi í 200-500 metra hæð u.þ.b. 17% af landinu og restin af Mósambík er fjallendi uppí 2000 metra u.þ.b. 39% af landinu. Í norður- og miðhéruðum Mósambík er hitabeltisloftslag en í suðurhéruðunum er loftslagið heittemprað. Þrátt fyrir breytileika í veðurfari eru tvær árstíðir einkennandi fyrir allt landið. Regntíminn, en þá er heitt, byrjar í október og honum lýkur í mars. Þurrkatíminn er kaldari og nær hann frá apríl til september. Árlegur meðalhiti landsins er á bilinu 22–26 °C en breytileiki er nokkur milli árstíða og landshluta. Heitast er í norðurhluta landsins á regntímanum en þá nær hitinn að jafnaði allt að 45 °C að degi til. Ársúrkoma er háð landslagi en hún er að meðaltali á bilinu 800–1400 mm. Um þriðjungur landsins er fjallendi, að meðaltali um 1000 metrar yfir sjávarmáli, en þar er mesta úrkoman. Hásléttur, 400–600 metra yfir sjávarmáli, þekja annan þriðjung. Að öðru leyti er landið láglent en á því svæði er úrkoma minnst. Eru þar tvö þurrkatímabil árlega sem stundum dragast á langinn og hafa valdið hungursneyðum. Meðfram strandlengjunni er hins vegar mikill raki allt árið. Frjósömustu landsvæðin liggja með fram stærstu fljótunum en Zambesi-fljótið er stærst og sögufrægast þessara fljóta. Það á upptök sín í Sambíu en rennur fyrst í vestur til Angóla og svo aftur til Sambíu áður en það nær Mósambík þar sem það fellur í Indlandshaf. Í Zambesi-fljótinu eru tvö af stærstu, manngerðu uppstöðulónum heims. Það eru Karibalónið, sem liggur við landamæri Sambíu og Simbabves, og Cahora Bassa-lónið í Tete-héraðinu í Mósambík. Lónin þjóna bæði stórum vatnsaflsvirkjunum. Þjóðfélag Mósambík er einstök blanda af afrískum, arabískum, indverskum og portúgölskum áhrifum, - maturinn er kryddaðri, tónlistin jazzaðri og takturinn almennt afslappaðri en hjá enskumælandi nágrönnum landsins s.s Malaví og Swasilands. Mósambík skiptist upp í 11 héruð og hvert hérað hefur eigin höfuðstað en skiptist í enn frekar í sveitarfélög. Mikill munur er á menningu nyrst og syðst í Mozambique. Makua-Lomwe-fólkið er fjölmennasti þjóðernishópur landsins (37%) og hann skiptist í tvo skylda hópa sem búa í norðurhluta Mósambík. Tonga-fólkið, sem m.a. skiptist í Ronga og Shangan, er næstfjölmennast (23%) en það býr í suðurhluta Mósambík og í nágrenni höfuðborgarinnar Mapútó. Tonga-fólkið hefur orðið fyrir mestum evrópskum áhrifum. Það er á meðal þeirra sem trúboðar hafa haft hvað mest áhrif.. Í miðhluta Mósambíks býr fólk sem tilheyrir þjóðernishópnum Lavere Zambezi (11%). Svo er líka Shona-fólkið. Það er það fólk sem mest ber á í miðhluta Mósambíks (9%), en það er skylt Shona-fólkinu í Simbabve sem er fjölmennasti þjóðernishópur þess lands. Eins og ég sagði áðan þá er mikill munur á nyrstu og syðstu héruðunum. Í nyrðstu eru arabísk áhrif áberandi og syðst portúgölsk. Til sveita er mikið dansað og sungið. Kallast hún hefbundna tónlist og dans, sem er ríkjandi í suðurhluta Mósambík, marrabenta og einkennist af miklum mjaðmasveiflum. Íbúar Mozamique eru 21,8 milljónir og fólksfjölgun þar er 1,8%. Lífslíkurnar í Mozambique er helmingi lægri en hér á Íslandi, það er miðað við að íbúar í Mozambique nái aðeins 42 ára aldri en á Íslandi er miðað við að maður nái 80 ára aldri. Lífslíkur Mozambique eru líka lægri en í öðrum Afríkuríkjum í grendinni t.d. lífslíkur í Uganda eru 49 árs aldur og í Namibíu 51 árs aldur. Ungbarnadauði í Mozambique er frekar mikill og deyja um 96 börn af hverjum 1000 áður en þau verða eins árs og 164 börn af hverjum 1000 ná ekki 5 ára aldri. Flest börn deyja úr svelti, niðurgangi og vatnsskorti. Mozambique er í 19. sæti á lista Sameinuðu þjóðanna með flestu dauðföllin undir 1 árs. Helstu atvinnuvegir í Mosabique eru fiskveiðar, rafvirkjun. En flestir Í Mosambique stunda sjálfsþurftabúskap. Í Mozambique eru töluð um 20 tungumál. Flestir tala mál sem tilheyra málaflokknum sínum. Opinbera tungumálið í Mósambík er Portúglaska. Þegar Mósambík varð sjálfstætt ríki undan ný-lendustjórn Portúgala var portúgalskan valin sem hið opinbera tungumál þótt að aðeins 15% tali hana daglega. Afrísk mál, málískur og ættbálkarungumál eru algeng eins og Swahili, Makhuwa, Bantu og Sena. Allir skóla eru kenndir á portúgölsku og því þarf maður að kunna portúgölsku til að geta gengið í þá. Árið 2000 var fjöldi nemenda í 1. til 5. Bekk u.þ.b. 2 milljónir eða meiri en nokkru sinni í sögu landsins. Stúlkur eru aðeins 45% af heildarfjölda nemenda í 1. bekk en hlutfall þeirra fer lækkandi þegar ofar dregur í skólakerfinu. Aðeins 33% þeirra nemenda, sem stunda nám sem samsvarar efstu bekkjum grunnskólans á Íslandi, eru stúlkur. Rúmlega 60% þjóðarinnar eru ólæs og óskrifandi, þar af eru 77% meðal kvenna og 42% meðal karla. Þá hefur æska sveitanna mun verri aðgang að skólum en borgarbörn og á það sérstaklega við framhaldsskóla. Aðeins 0,6% stúlkna og 1,4% drengja til sveita fá menntun á skólastigum sem samsvara efri bekkjum grunnskóla (8.–10. bekk) á Íslandi miðað við 8,2% stúlkna og 16,4% drengja í borgum. Læsi fullorðinna er nú 43,2% og læsi ungs fólks (15-24 ára) 29,5%. Kistni er ráðandi trúarbrögð þótt nokkuð stór svæði séu byggð múhameðstrúarmönnum og eitthvað sé um og sálnatrú eða andahyggja í afskekktum héruðum. Mósamvík fékksjálfstæði 1975, eftir vopnaða baráttu, og var í bandalagi við Sovétríkin á tímum Kalda stríðsins. Árið 1982 hófst borgarastyrjöld sem stóð til 1992. Mósambík er frá 1995 hluti af breska samveldinu þótt það hafi ekki verið bresk nýlenda, heldur portúgölsk. Árið 1990 var samþykkt ný stjórnarskrá í landinu, en samkvæmt henni er landið nú lýðræðisríki. Árið 1994 voru fyrstu frjálsu kosningarnar haldnar í landinu og var Joaquim Chissano kjörinn forseti með 53% atkvæða. Mósambík er lýðveldi með 250 manna löggjafarþing sem kosið er í almennum kosningum fimmta hvert ár. Forsetinn er þjóðhöfðingi landsins og jafnframt yfirmaður ríkisstjórnarinnar Simbabve. Simbabve (eða Zimbabwe) er landlukt land í sunnanverðri Afríku á milli ánna Sambesí og Limpopo. Það á landamæri að Suður-Afríku í suðri, Botsvana og Namibíu í vestri, Sambíu í norðri og Mósambík í austri. Landið var áður kallað "Suður-Ródesía" og síðan aðeins "Ródesía" frá 1965 til 1980 þegar það var nefnt Simbabve eftir fornri höfuðborg Monomotapaveldisins á 15., 16. og 17. öld. Simbabve hófst sem hluti af breska konungsveldinu nýlenda Ródesíu. Í dag lýtur Simbabve stjórn forsætisráðherra Morgan Tsvangirai, með forsetanum Robert Mugabe sem aðalmaðurinn Simbabve eins skemmtilega og það er orðað. Mugabe hefur verið við völd síðan langa stríðið fyrir sjálfstæði landsins. Regla hans hefur einkennst af lélegum efnahag, Óðaverðbólga og útbreidd skýrslur um mannréttindabrot. Hrun hagkerfis þjóðarinnar, útbreidd fátækt og atvinnuleysi hefur aukið stuðning við forsætisráðherra Morgan Tsvangirai og samþykkti lýðræðishreyfingin að hann myndi stjórna með forseta landsins Robert Mugabe. Þingeyri. Þingeyri. Séð ofan af Sandafelli yfir þorpið. Akfær vegur er upp á fellið. Þingeyri er þéttbýlisstaður í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Þorpið stendur við sunnanverðan Dýrafjörð, á eyri undir Sandafelli, og er talinn draga nafn sitt af Dýrafjarðaþingi sem á árum áður var haldið á eyrinni. Á Þingeyri bjuggu 260 manns 1. janúar 2011 en í öllum Dýrafirði bjuggu þá um 330 manns. Þingeyrarhreppur var áður sérstakt sveitarfélag en sameinaðist fimm öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum 1. júní 1996. Þingeyri var verslunarstaður um langan aldur og þar er meðal annars vörugeymslu- eða pakkhús frá 18. öld. Kauptún fór að myndast þar um miðja 19. öld og var þar þá meðal annars bækistöð bandarískra lúðaveiðimanna sem veiddu á Íslandsmiðum. Aðalatvinnuvegur er og hefur verið sjávarútvegur og þjónusta við hann og elsta starfandi vélsmiðja landsins, stofnuð 1913, er á Þingeyri. Ferðaþjónusta er einnig vaxandi atvinnugrein. Grunnskólinn á Þingeyri fagnaði 110 ára afmæli þann 27. nóvember 2007. Bygging Þingeyrarkirkju hófst 1909 og var hún vígð 9. apríl 1911. Hún er teiknuð af Dýrfirðingnum Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt en altaristöfluna málaði Þórarinn B. Þorláksson listmálari. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ólst að hluta til upp á Þingeyri hjá afa sínum og ömmu. Rúanda. Rúanda er lítið landlukt land í Mið-Afríku við Stóru vötnin. Það á landamæri að Úganda, Búrúndí, Lýðveldinu Kongó og Tansaníu. Rúanda er frjósamt, hæðótt land og hefur verið kallað „þúsund hæða landið“ ("pays des mille collines"). Það er með þéttbýlustu löndum álfunnar. Landið varð hluti af Þýsku Austur-Afríku 1895, en varð að belgísku verndarsvæði eftir fyrri heimsstyrjöldina þar til það fékk sjálfstæði 1962. 1994 komst þjóðarmorðið í Rúanda í heimsfréttirnar þar sem hundruð þúsunda voru drepin á örskömmum tíma. Árið 2008 varð rúandska þingið það fyrsta í heiminum með konum í meirihluta. Þær vinna í öllum starfstéttum og aukin völd kvenna hafa meðal annars leitt til þess að forn feðraveldislög hafa verið afnumin. Borgarastyrjöldin. 1990 varð borgarastyrjöld í Rúanda á milli þjóðarbrotana Hútú sem voru í ríkistjórn og Tútsí sem voru andspyrnusinnar. Tútsí voru ljósir í yfirliti og hávaxnir og þar með líkari belgum. Hútú voru þeldökkir og ólíkari belgum. Belgar létu Tútsí við störf þegar Rúanda var undir Belgíu en þegar belgarnir fóru létu þeir Hútú fá völdin. Hútú menn ákváðu að hefna sín á Tútsí mönnum og ætluðu hreinlega að drepa alla Tútsí menn í landinu. Í apríl 1994 var flugvél forsetans skotin niður og varð upphaf þjóðarmorðana. Útvarpsstöð sem var kölluð "Hutu power" eða "Kraftur Hútú" var mjög áhrifamikil á Hútú mennina og hvatti þá til þess að drepa alla Tútsí menn og líka Hútú menn ef þeir voru að hýsa eða reyna að hjálpa Tútsí mönnum. Vestrænar þjóðir gerðu lítið sem ekkert til þess að hjálpa hvernig ástandið var þarna og hafa margar afríkuþjóðir fordæmt vestrænar þjóðir eftir þessi hræðilegu þjóðarmorð. Talið er að um 800 þúsund manns hafið látið lífið í þessum átökum. Búrúndí. Búrúndí (áður Úrúndí) er lítið landlukt land í Mið-Afríku við stóru vötnin. Það á landamæri að Rúanda í norðri, Tansaníu í suðri og austri, og Lýðveldinu Kongó í vestri. Stór hluti vesturlandamæranna liggur við Tanganjikavatn. Nafnið er dregið af bantúmálinu kírúndi. Búrúndí er mjög þéttbýlt og fátækt land. Átök milli þjóðarbrota hútúa og tútsímanna hafa valdið því að í landinu hefur staðið borgarastyrjöld frá 1993. Erítrea. Erítrea er land í Austur-Afríku með landamæri að Súdan í vestri, Eþíópíu í suðri og Djíbútí í austri. Landið á langa strandlengju við Rauðahafið. Nafnið Erítrea er einfaldlega ítalska útgáfa gríska heitisins yfir Rauðahafið, "ΕΡΥΘΡΑΙΑ". Bretar tóku við stjórn landsins af Ítölum 1941. Landið varð síðan sambandsríki Eþíópíu með eigið þing en síðan innlimað 1960. Þá hófst vopnuð sjálfstæðisbarátta sem stóð þar til landið fékk sjálfstæði 1993. Mannskætt stríð blossaði upp milli ríkjanna 1998 út af landamæradeilum, og lauk formlega með Alsírsáttmálanum 2000. Melilla. Melilla er spænsk útlenda og sjálfstjórnarhérað á norðurströnd Afríku. Svæðið var fríhöfn þar til Spánn gekk í Evrópusambandið. Marokkó gerir tilkall til svæðisins. Djíbútí. Djíbútí (arabíska:: جيبوتي, "Ǧībūtī" Sómalska: "Jabuuti") er land í Austur-Afríku á því svæði sem nefnist horn Afríku. Það á landamæri að Erítreu í norðri, Eþíópíu í vestri og suðri, og Sómalíu í suðaustri. Auk þess á Djíbútí strandlengju við Rauðahafið og Adenflóa. Einungis 20 km (12 mílur)breitt sund skilur á milli Djíbútí og Jemen á Arabíuskaganum. Höfuðborg djíbútí er Djíbútí Saga. Djíbútí fékk sjálfstæði frá Frökkum 27. júní árið 1977. Djíbútí er arftaki Frönsku-Sómalíu,sem var stofnuð í fyrri hluta 20. aldar vegna áhuga Frakka á Horni Afríku. Súdan. Súdan er land í Norður-Afríku og stærsta ríki álfunnar. Súdan á landamæri að Egyptalandi í norðri, Erítreu og Eþíópíu í austri, Suður-Súdan í suðri, Úganda og Kenýa í suðaustri, Lýðveldinu Kongó og Mið-Afríkulýðveldinu í suðvestri, Tsjad í vestri og Líbýu í norðvestri. Súdan á strandlengju að Rauðahafi. Höfuðborgin heitir Kartúm. Árið 2011 klauf Suður-Súdan sig úr landinu, en íbúar þar eru mestmegnis kristnir. Eþíópía. Eþíópía (eða Etíópía) (amharíska: ኢትዮጵያ (latneskun: "Ityop'iya")) er landlukt land í Austur-Afríku við horn Afríku með landamæri að Erítreu og Djíbútí í norðri, Súdan í vestri, Kenýa í suðri og Sómalíu í austri. Landlukt háslétta með fjallgarði í miðið sem er skipt í tvennt af Great Rift dalnum. Bláa Níl, meginkvísl Nílar rennur úr Tana Hayk vatni í norðvesturhluta landsins. Eþíópía er næst fjölmennasta ríki Afríku, með yfir 94 milljón íbúa, og með tíunda stærsta landsvæði álfunnar, með 1.100.000 km2. Höfuðborgin er Addis Ababa. Landið er fjölmennasta landlukta land í heimi. Opinbert heiti landsins er: Sambandslýðstjórnarlýðveldið Eþíópía (Ityop'iya Federalawi Demokrasiyawi Republik). Landið er sambandslýðveldi 9 þjóðríkja. Í landinu eru meira en 70 mismunandi þjóðflokkar: Oromo telja 40%, Amhara og Tigre 32%, Sidamo 9%, Shankella 6%, Somali 6%, Afar 4%, Gurage 2%, og aðrir telja 1%. Íbúarnir eru mjög ólíkir innbyrðis. Oromo, Amhara og Tigrean fólkið er meira en þrír fjórðu landsmanna. Þar er töluð Amharíska og ýmis staðbundin mál, eins og Oromifa og Tigrinya. Múslímar eru 45-50% landsmanna, eþíópískur rétttrúnaður, 35-40%, náttúrutrú 12%, annað 3-8%. Eþíópía á sér einna lengsta þekkta sögu allra Afríkulanda og er talin ein elsta þjóð í afríku. Hún var eina ríkið sem hélt sjálfstæði sínu í slagnum um Afríku, allt þar til Ítalir réðust inn í landið 1936. Breskar og eþíópískar hersveitir sigruðu Ítali 1941 og Eþíópía fékk aftur sjálfstæði 1944. Sjá einnig. Um forsætisráðherra Eþíópíu Hailemariam Desalegn Vestur-Kongó. Vestur-Kongó eða Kongó-Brazzaville (má ekki rugla saman við Austur-Kongó sem áður hét "Saír") er land í Mið-Afríku. Það á landamæri að Gabon, Kamerún, Mið-Afríkulýðveldinu og Austur-Kongó, og strandlengju að Gíneuflóa. Vestur-Kongó var áður frönsk nýlenda sem hét "Mið-Kongó" og fékk sjálfstæði 1960. Sómalíland. Sómalíland (sómalska: "Soomaaliland") er fyrrum breskt yfirráðasvæði í norðvesturhluta Sómalíu við horn Afríku. Í maí 1991 samþykktu ættbálkarnir á svæðinu að lýsa yfir sjálfstæðu lýðveldi sem nú inniheldur sex af átján héruðum Sómalíu, eða svæðið milli Djíbútí, Eþíópíu og Adenflóa. Höfuðborgin er Hargeisa. Sómalíland hefur ekki verið viðurkennt af neinni ríkisstjórn. Engu að síður hefur þetta ríki haldist stöðugt. Það hefur átt í átökum við Púntland (sem lítur á sig sem fylki í ríkjasambandi Sómalíu fremur en sjálfstætt ríki) um héruðin Sanaag og Sool. Svæði sem stjórn Sómalílands gerir tilkall til Líbýa. Líbýa eða Líbía (arabíska: ليبيا, umritað Lībiyyā) er land í Norður-Afríku með strandlengju við Miðjarðarhaf, á milli Egyptalands og Alsír og Túnis, með landamæri að Súdan, Tsjad og Níger í suðri. Höfuðborgin heitir Trípólí. Austur-Kongó. Austur-Kongó ("République Démocratique du Congo, þýtt sem Lýðræðislega Lýðveldið Kongó") er land í Mið-Afríku og þriðja stærsta land álfunnar. Það hefur áður heitið Belgíska Kongó, Kongó-Kinsasa og Saír (til 1997). Það á landamæri að Vestur-Kongó í vestri, Mið-Afríkulýðveldinu og Súdan í norðri, Úganda, Rúanda, Búrúndí og Tansaníu í austri, og Sambíu og Angóla í suðri. Aðgangur að sjó er um 40 km breiða ræmu við Gíneuflóa. Henry Mancini. Henry Mancini, fæddur Enrico Nicola Mancini, (16. apríl 1924 - 2. júní 1994) var þekkt tónskáld og útsetjari, einkum þekktur fyrir kvikmyndatónlist sína og tónlist við sjónvarpsþætti. Hann vann metfjölda Grammy-verðlauna, þeirra á meðal verðlaun fyrir æviframlag sitt árið 1995. Mancini fæddist í Cleveland í Ohiofylki í Bandaríkjunum en ólst upp í West Aliquippa í Pennsylvaníu. Hann lést í Beverly Hills í Kaliforníu. Hann var kvaddur í herinn í síðari heimsstyrjöld en tókst að fá sig fluttan úr fótgönguliðunum í hljómsveitina. Verkin sem hann er þekktastur fyrir eru „Moon River“ (úr myndinni "Breakfast at Tiffany's" frá árinu 1961) og þemalög myndanna "Bleiki pardusinn" og "Charade" sem báðar komu út árið 1963. Hann er oft sagður hafa samið tónlistina við myndina um "Smáfólkið", en hún var í raun eftir annan djasspíanista, Vince Guardi. Valdar kvikmyndir. Mancini, Henry Horn Afríku. Horn Afríku er skagi í Austur-Afríku sem teygist út í Arabíuhaf og myndar suðurströnd Adenflóa. Á skaganum sjálfum er sómalska héraðið Púntland en önnur lönd á svæðinu við Horn Afríku eru Djíbútí, Eþíópía og Erítrea. Hugtakið var einkum notað af fjölmiðlum í kringum Ogadenstríðið milli Eþíópíu og Sómalíu 1977-1978. Stór-Sómalía er stjórnmálastefna sem miðar að því að sameina sómali sem búa í Kenýa, Sómalíu og Eþíópíu, í eitt ríki við Horn Afríku. Afríka sunnan Sahara. Afríka sunnan Sahara eru öll þau lönd í Afríku sem ekki teljast til Norður-Afríku. Á 19. öld var talað um þennan heimshluta sem „hið myrka meginland“, eða „svörtustu Afríku“, að hluta vegna hörundslitar íbúanna, en einnig vegna þess að stórir hlutar þessa svæðis höfðu ekki verið kannaðir eða kortlagðir. Súdan (heimshluti). Súdan er sá hluti Afríku sem nær frá Malí (sem eitt sinn var kallað "Franska Súdan") á Sahel-svæðinu við jaðar Sahara að regnskógunum í hitabeltinu fyrir sunnan. Á þessu svæði rignir meira en á Sahel-svæðinu, svo það hentar betur til landbúnaðar. Nafnið kemur úr arabísku, "bilâd as-sûdân" („land hinna svörtu“). Kongó (heimshluti). Nafnið Kongó er dregið af heiti bakongómanna, þjóðflokks sem býr í kringum Kongófljót. Fljótið og þverár þess renna frá upptökum sínum í gegnum annan stærsta regnskóg heims (á eftir Amasónfrumskóginum). Tvö ríki, Kongó og Lýðveldið Kongó, draga nafn sitt af fljótinu og þar stóð hið víðfeðma Kongóveldi frá 14. öld til 17. aldar. Kongófljót. Kongófljót og aðrennslissvæði Kongófljót er stærsta fljót Mið-Afríku og annað lengsta fljót Afríku (á eftir Níl). Það er 4.380 km langt. Ef Chambesifljót er talið upptök fljótsins, verður það 4.700 km langt. Fljótið og þverár þess renna í gegnum stærsta regnskóg heims á eftir Amasónfrumskóginum (sem er miklu stærri) og annað stærsta vatnasvið heims. Á milli 1971 og 1997, þegar Austur-Kongó hét formlega "Saír" ("Zaïre"), kölluðu þarlendir fljótið Saírfljót ("Zaïre-fljót"). Upptök fljótsins eru í fjöllunum vestan við Sigdalinn mikla í Austur-Afríku og í Tanganjikavatni og Mweruvatni sem renna í Lualabafljót sem verður að Kongó neðan við Boyomafossa. Kongófljót rennur í vesturátt frá Kisangani rétt fyrir neðan fossana, sveigir síðan í suðvestur og rennur framhjá Mbandaka, sameinast Ubangifljóti og rennur í Malebobugðunua þar sem Kinsasa og Brazzaville standa gegnt hvor annarri á árbökkunum. Þaðan mjókkar áin og rennur um flúðir í djúpum gljúfrum (Livingstonefossa) framhjá Matandi og Boma og út í hafið við strandbæinn Muanda. SI grunneining. Alþjóðlega einingakerfið (SI kerfið) hefur sjö grunneiningar, sem allar aðrar eðlisfræðilegar mælieiningar byggjast á. Barein. Barein er landamæralaust land og eyja í Persaflóa úti fyrir strönd Sádí-Arabíu í vestri og Katar í suðri. Landið tengist Sádí-Arabíu með vegbrú og í bígerð er að byggja brú til Katar einnig. Landið tilheyrir heimsálfunni Asíu. Óman. Óman er land á suðausturströnd Arabíuskagans með landamæri að Sameinuðu arabísku furstadæmunum í norðvestri, Sádí-Arabíu í vestri og Jemen í suðvestri. Óman á strandlengju að Arabíuhafi í suðri og Ómanflóa í austri. Jemen. Jemen er land á sunnanverðum Arabíuskaganum með landamæri að Sádí-Arabíu og Óman, og strandlengju við Rauðahaf og Adenflóa. Landið hefur yfirráð yfir eyjaklasanum Sokotra um 350 km suður frá strönd Jemen við horn Afríku. Saga Jemen. Jemen er fornt menningarríki sem hagnaðist á verslun með krydd. Rómverjar kölluðu landið "Arabia felix" („hin hamingjusama Arabía“) vegna ríkidæmis landsins. Jemen varð hluti af Persaveldi á 6. öld. Á 15. öld var hafnarborgin al-Moka ("Mokka") við Rauðahaf meginútflutningshöfn kaffis í heiminum. Norður-Jemen öðlaðist sjálfstæði frá Tyrkjaveldi árið 1918, en Bretar héldu Suður-Jemen sem verndarsvæði kringum hafnarborgina Aden við mynni Rauðahafs. Bretar drógu sig þaðan út árið 1967 í kjölfar hrinu hryðjuverka og Suður-Jemen varð kommúnistaríki sem studdi byltingarhópa í Norður-Jemen. Löndin tvö voru formlega sameinuð sem Jemen 22. maí 1990. Landstjórnarumdæmi. Jemen skiptist í 21 landstjórnarumdæmi ef sveitarfélagið Sana er talið með. Arabíuskaginn. Arabíuskaginn, eða einfaldlega Arabía, er skagi í Suðvestur-Asíu á mörkum Asíu og Afríku. Skaginn teygist út í Indlandshaf og markast af Rauðahafi að Akabaflóa í vestri, Arabíuhafi í suðri og Ómanflóa og Persaflóa í norðaustri. Arabíufskaginn liggur á eigin jarðfleka, Arabíuflekanum. Sádí-Arabía nær yfir stærstan hluta skagans og flestir íbúanna búa þar og í Jemen. Á skaganum eru miklar olíulindir og þar eru helgustu borgir múslima, Mekka og Medína, báðar í Sádí-Arabíu. Henry Purcell. Henry Purcell (10. september 1659 (?) – 21. nóvember 1695) var breskt barokktónskáld. Tónlist hans var einstök og hann notaði ýmsa þætti úr ítalskri og franskri tónlist sem hann blandaði við enska tónlist fyrri tíðar. Æviágrip. Purcell fæddist í Westminster og komst í kórinn í Royal Chapel þar sem hann lærði að syngja og skrifa nótur. Elsta þekkta verk hans er óður til konungsins frá 1670. 1676 var hann gerður að organista við Westminster Abbey. Hann samdi fjölda verka við leikrit, óperettur og óperur, meðal annars við verk John Dryden og Thomas Shadwell. Eitt af frægustu verkum hans er óperan "Dido and Aeneas". Helsta verk Purcells er talið vera "Te Deum and Jubilate", fyrsti lofsöngurinn sem saminn er á enska tungu með undirleik hljómsveitar. Verkið var flutt árlega í Pálskirkjunni í London til 1712 þegar það var flutt til skiptis við "Utrecht Te Deum and Jubilate" eftir Georg Friedrich Händel til 1743 þegar "Dettingen Te Deum" Händels tók við. Purcell lést aðeins 36 ára að aldri eftir veikindi, hugsanlega berkla. Ekkja hans gaf út mörg verka hans að honum látnum, þar til hún lést 1706. John Steinbeck. John Ernst Steinbeck yngri (27. febrúar 1902 – 20. desember 1968) var bandarískur rithöfundur. Hann er einna þekktastur fyrir skáldsöguna "Þrúgur reiðinnar" (1939) sem fékk Pulitzer verðlaunin ári seinna, 1940. Önnur þekkt verk eftir hann eru "Mýs og menn" (1937) og "Austan Eden" (1952). Skáldsögur hans voru raunsæjar og gagnrýnar og fjölluðu oft um fátækt verkafólk. Hann var höfundur samtals 27 bóka, þar af skrifaði hann 16 skáldsögur og 5 smásagnasöfn. John Steinbeck hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1962. Uppeldisár. John Ernst Steinbeck yngri fæddist 27. febrúar 1902 í Salinas, Kaliforníu. Hann var af þýskum og írskum ættum. Afi John Steinbeck, Johann Adolf Großsteinbeck stytti ættarnafnið í Steinbeck þegar hann fluttist búferlum til Bandaríkjanna. Bóndabær fjölskyldunnar í Heiligenhaus, Mettmann, Norðurrín-Vestfalíu, Þýskalandi heitir enn í dag Großsteinbeck. Faðir John, John Ernst Steinbeck eldri vann sem fjársýslumaður í Monterey sýslu. Móðir hans hét Olive Hamilton og var kennari. Foreldrar hans voru trúuð og kirkjurækin. Móðir John deildi ástríðu hans á lestri og skrift og las oft og tíðum upp úr Biblíunni fyrir hann frá unga aldri. Áhrif trúarlegs bakgrunns má sjá víða í ritum hans. Í inngangi einu verka hans sagði John Steinbeck: „Some literature was in the air around me. The Bible I absorbed through my skin. My uncles exuded Shakespeare, and Pilgrim's Progress was mixed with my mother's milk.” Hann bjó í litlu dreifbýlu bæjarfélagi í gróðursælu umhverfi sem var upphaflega við útmörk landnámsbyggðar. Á sumrin vann hann á nálægum bóndabæjum og síðar með flökkufólki á Spreckels búgarðinum. Þar kynntist hann harðari ásýndum flökkulífsins og myrkari hliðum mannlegs eðlis sem komu fram í mörgum bóka hans, þ.á.m. "Mýs og menn". Steinbeck var iðinn við að kanna nánasta umhverfi sitt en hann notaði heimaslóðirnir oft sem sögusvið. Fyrsta hjónaband og börn. Árið 1919 útskrifaðist Steinbeck frá framhaldsskólanum í Salinas og sótti Stanford-háskóla með hálfum hug þar til hann hætti án þess að útskrifast 1925. Hann ferðaðist til New York til að eltast við draum sinn að gerast rithöfundur og framfleytti sér með ýmsum óhefðbundnum störfum. Honum mistókst að fá verk sitt útgefið og snéri við til Kaliforníu þremur árum seinna og vann um tíma í fiskeldi og sem leiðsögumaður í Tahoe City í Kaliforníu. Á því tímabili kynntist hann fyrri konu sinni, Carol Henning. Þau giftust í janúar 1930. Mestan hluta kreppunnar miklu bjuggu Carol og Steinbeck í litlu húsi sem faðir hans átti í Pacific Grove, Kaliforníu. Eldri fjölskyldumeðlimir útveguðu honum frían eldivið, pappír fyrir handritin hans og nauðsynleg peningalán seinni hluta 1928 sem gaf Steinbeck svigrúm til að hætta íþyngjandi lagervinnu í San Francisco og einbeita sér að sinni iðn. Árið 1935 kom út "Tortilla Flat", fyrsta heppnaða skáldsagan hans sem kom honum úr tiltölulegri fátækt og gaf honum færi á að byggja sumarhús í Los Gatos. Árið 1940 fylgdi Steinbeck vini sínum og áhrifavaldi Ed Ricketts sjávarlíffræðingi í sjóleiðangur um Kaliforníuflóa til að safna lífrænum sýnum. Bókin "The Log from the Sea of Cortez" er byggð á þessum leiðangri. Carol slóst með í för en þau áttu í erfiðleikum í hjónabandinu á þessum tíma og sóttu um skilnað undir lok ársins 1941 en á þeim tíma var Steinbeck að vinna við handritið að bókinni. Annað hjónaband. Í mars árið 1943 gekk skilnaður Steinbeck og Carol endanlega í gegn og seinna í sama mánuði giftist hann Gwyndolyn „Gwyn“ Conger. Þau eignuðust tvö börn sem eru einu afkomendur Steinbeck – Thomas Myles Steinbeck (fæddur 1944) og John Steinbeck IV (1946-1991). Árið 1943 vann Steinbeck sem stríðsfréttamaður í seinni heimsstyrjöldinni en ári síðar særðist hann af völdum sprengjubrota og hætti í kjölfarið störfum og snéri heim. Árið 1947 ferðaðist Steinbeck til Sovétríkjanna í fyrsta skiptið ásamt þekktum ljósmyndara, Robert Capa. Þeir heimsóttu Moskvu, Kíev, Tíblisi, Batumi og Stalíngrad og voru með fyrstu vestrænu íbúunum til að heimsækja marga hluta Sovétríkjanna eftir kommúnistabyltinguna. Steinbeck skrifaði um reynslu þeirra í bókinni "A Russian Journal" sem var myndskreytt með ljósmyndum Robert Capa. Bókin var gefin út 1948, sama ár og Steinbeck var kosinn inn í bandarísku listaakademíuna. Í maí 1948 snéri Steinbeck við til Kaliforníu eftir að náin vinur hans, Ed Ricketts, lenti í alvarlegu slysi þar sem lest keyrði á bílinn hans. Ricketts dó nokkrum klukkutímum fyrir komu Steinbeck. Í þessari sömu ferð bað Gwyn, konan hans, um skilnað. Steinbeck reyndi að telja henni hughvarf en skilnaðurinn gekk endanlega í gegn í ágúst sama ár. Samkvæmt eigin frásögn gekk Steinbeck í gegnum slæmt þunglyndi það sem eftir lifði árs. Síðustu ár og dauði. Í júní 1949 hitti Steinbeck Elaine Scott, leikhússtjóra, á veitingastað í Carmel, Kaliforníu. Steinbeck og Scott giftust í desember 1950 innan við viku eftir að Elaine Scott hafði gengið frá skilnaði við leikarann Zachary Scott. Þetta var þriðja hjónaband Steinbeck sem hélst allt þar til hann lést 1968. Árið 1966 ferðaðist Steinbeck til Tel Aviv til að heimsækja samyrkjubú stofnað í Ísrael af afa hans. John Steinbeck lést úr hjartaáfalli í New York 20. Desember 1968. Hann var 66 ára gamall og hafði reykt stóran hluta ævinnar. Krufning staðfesti að dánarorsökin væri kransæðastífla. Líkið var brennt samkvæmt hans eigin ósk og ker sem innihélt ösku hans var á endanum jarðsett þann 4. Mars 1969 í fjölskyldugrafreitnum í kirkjugarðinum í Salinas þar sem foreldrar hans voru grafin. Þriðja konan hans, Elaine, var jarðsett á sama stað árið 2004. Stuttu fyrir dauða sinn hafði Steinbeck skrifað til síns læknis að hann fyndi sterkt fyrir því að ekkert tæki við af líkamlegum dauða og að það þýddi endirinn á tilvistinni. Ritferill. Fyrsta skáldsaga John Steinbeck hét "Cup of Gold" og var gefin út 1929. Hún byggir lauslega á æviskeiði sjóræningjans Henry Morgan sem rommtegundin Captain Morgan heitir eftir. Bókin fjallar að mestu leyti um árás og rányrkju Henry Morgan á borgina Panama og leitin að konunni sem var fallegri en sólin en samkvæmt orðrómi átti hún heima þar. Titill bókarinnar er skírskotun til Panamaborgar. Eftir "Cup of Gold" skrifaði Steinbeck þrjú styttri verk á tímabilinu 1931 til 1933. The "Pastures of Heaven", gefin út 1932, samanstóð af tólf samofnum sögum um dal nærri Monterey sem spænskur liðþjálfi uppgötvaði er hann var elta uppi indíánaþræla sem höfðu flúið úr ánauð. Árið 1933 gaf Steinbeck út "The Red Pony", 100 blaðsíðna verk sem fjallaði um minningar hans af æskuslóðum. Þriðja bókin "To a God Unknown" fylgir eftir lífi jarðareiganda og fjölskyldu hans í Kaliforníu. Bókin tekur á málefnum eins og hvernig trú hefur mismunandi áhrif á fólk og samband bóndans við jörðina sína. Steinbeck hlaut fyrst almenna hylli fyrir "Tortilla Flat" (1935). Bókin er um líf heimilis- og stéttarlausa ungra manna í Monterey eftir fyrri heimsstyrjöldina rétt fyrir áfengisbannið í Bandaríkjunum. Rótlaust líferni sögupersónanna sem snúa baki við hefðbundnu lífi bandarísks samfélags gengur út á vín og smáþjófnaði þar sem hópsamstaðan virðist eina dyggðin. Gerð var samnefnd mynd eftir bókinni 1942 þar sem Spencer Tracy, Hedy Lamarr og John Garfield, vinur Steinbeck, léku aðalhlutverkið. Nokkrar af næstu bókum Steinbeck fjölluðu um fólk sem hafði orðið illa út úr þurrkum með tilheyrandi uppskerubresti á svokölluðu Dust Bowl tímabili rétt eftir kreppuna miklu sem leiddi til mikilla fólksflutninga bænda og verkafólks til Kaliforníu í leit að betra lífi. "In Dubious Battle", "Mýs og menn" og "Þrúgur reiðinnar" eru dæmi um Dust Bowl skáldsögur sem Steinbeck skrifaði. "Mýs og menn" og "Þrúgur reiðinnar" nutu mikilla vinsælda. "Mýs og menn" var sett á svið í New York og hlaut mikið lof þar sem Broderick Crawford lék Lennie, þroskaheftan en líkamlega kraftmikinn verkamann og Wallace Ford lék félaga hans, George. Steinbeck skrifaði handritið að verkinu en neitaði alla tíð á meðan á sýningum stóð að sjá flutning þess í New York og útskýrði fyrir leikstjóranum, George S. Kaufman, að í huga hans væri leikritið fullkomið og að horfa á flutning þess á leiksviði gæti aðeins valdið honum vonbrigðum. Steinbeck átti seinna eftir að skrifa tvö önnur leikverk, "The Moon is Down" og "Burning Bright". Bíómynd var gerð eftir "Mýs og menn" tveimur árum eftir útgáfu bókarinnar þar sem Lon Chaney lék Lennie og Burgess Meredith lék George. Myndin fékk fjórar óskarstilnefningar. Steinbeck fylgdi vinsældunum eftir með "Þrúgur reiðinnar" árið 1939 en hún byggðist á fréttagreinum sem hann hafði skrifað í San Francisco. Skáldsagan fékk Pulitzer verðlaunin og hefur af mörgum verið talið hans best verk. Gerð var eftirtektarverð mynd eftir bókinni sem John Ford leikstýrði. Henry Fonda lék í henni og fékk hann óskarstilnefningu sem besti leikarinn í aðalhlutverki. Þrátt fyrir vinsældir bókarinnar var hún umdeild vegna pólitískra skoðanna Steinbeck, gagnrýnin sýn hans á kapítalisma og samúð hans á bágborinni stöðu verkafólks. Þetta leiddi til andstöðu gegn höfundinum, sérstaklega á heimaslóðum. Bókin var sögð óviðeigandi og lýsa kringumstæðum á heimahögum á villandi hátt sem leiddi til þess að hún var bönnuð í almenningsskólum og bókasöfnum á heimaslóðum í ágúst 1939. Banninu var aflétt í janúar 1941. Vegna þessara hörðu viðbragða skrifaði Steinbeck í kjölfarið: „The vilification of me out here from the large landowners and bankers is pretty bad. The latest is a rumor started by them that the Okies hate me and have threatened to kill me for lying about them. I'm frightened at the rolling might of this damned thing. It is completely out of hand; I mean a kind of hysteria about the book is growing that is not healthy.“ Tilvísanir. Steinbeck, John Steinbeck, John Fjöldatala. Fjöldatala, fjöldi eða stétt er hugtak í mengjafræði, sem er mælikvarði á fjölda staka í tilteknu mengi "M", oft táknuð með | "M" | eða "card"("M"). Stærðræðilegri framsetning á fjöldatölu teljanlegs mengis er að talan "n" er "fjöldatala" mengisins formula_1 þá og því aðeins að til sé gagntækt fall "f" á hlutmengi náttúrulegra talna, þ.e. formula_2. Dæmi: talan formula_3 fjöldatala mengisins formula_4. Ef slík vörpun finnst ekki þá er mengið "A" sagt óteljanlegt. Fjöldatala mengja með óendanlegan fjölda staka táknuð með hebreska tákninu formula_5 (framburður "alef"). Fjöldatala mengi náttúrulegra talnan er táknuð með formula_6, sem jafnframt er fjöldatala allra óendanlegra, teljanlegra mengja. Til eru óendanlega mörg talnamengi, sem hafa stærri fjöldatölu en formula_6, en þau eru óteljanleg, t.d. mengi rauntalna, sem hefur fjöldataöluna formula_8. (Fjöldatala mengis rauntalnanna er stundum nefnd "fjöldatala samfellunnar", táknuð með formula_9.) Augsljóslega gildir að formula_6 Samfellutilgátan segir að ekki sé til fjöldatala formula_14, þ.a. formula_6 < formula_14 < formula_8. Ekki er til nokkurt mengi sem inniheldur allar hugsanlegar fjöldatölur, því veldismengi slíks mengis hefði hærri fjöldatölu en mengið sjálft. Með því að bæta fjöldatölu veldismengisins í "mengi allra fjöldatalna", væri komið nýtt mengi með hærri fjöldatölu en uppaflega mengið og síðan koll af kolli. Fjöldatala er stundum kölluð höfuðtala mengis. Grænland. Grænland (grænlenska: "Kalaallit Nunaat"; danska: "Grønland") er stærsta eyja jarðar, 2,2 milljónir km2, sem ekki telst heimsálfa útaf fyrir sig. Grænland er staðsett milli Norður-Íshafsins og Atlantshafsins, austan við Kanadíska eyjaklasann. Landfræðilega tilheyrir Grænland Norður-Amerísku heimsálfunni en menningar- og stjórnarfarslega Evrópu, nánar tiltekið Íslandi, Noregi og Danmörku. Höfuðborgin er Nuuk, á dönsku "Godthåb". Grænland er sjálfsstjórnarsvæði innan dönsku ríkisheildarinnar. Um 81 prósent landsins er þakið jökli. Nánast allir Grænlendingar búa í byggðum við firði á suðvesturhluta eyjunnar þar sem er talsvert mildara veðurlag en annars staðar. Grænland hlaut heimastjórn frá Dönum árið 1979 og í nóvember árið 2008 var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu að landið fengi aukna sjálfstjórn. Flestir Grænlendinga hafa bæði inuíta og norræna forfeður og tala grænlensku (Kalaallisut) sem móðurmál. Um 50 þúsund manns tala grænlensku en það eru fleiri en mælendur allra annarra eskimó-aleutískra mála samanlagt. Um 20% íbúa Grænlands eru af dönskum uppruna og hafa dönsku að móðurmáli. Bæði þessi mál eru opinberar tungur, hin formlega gerð grænlensku sem er kennd í skólum og notuð sem ritmál er aðallega mótuð úr vestur-grænlenskum mállýskum. Grænland var ein af norsku krúnunýlendunum allt fram til 1814 þegar það varð formlega dönsk nýlenda, þó svo að Noregur og Danmörk hafi verið sameiginlegt konungdæmi um aldir, allt frá 1536. Þann 5. júní 1953 varð Grænland hluti af Danmörku sem danskt amt. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1978 fékk Grænland heimastjórn sem tók gildi 1. maí 1979. Þjóðhöfðingi Grænlands er Margrét II, Danadrottning. Þann 25. nóvember 2008 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Grænlandi um aukna sjálfstjórn landsins. 76% voru fylgjandi því. Þann 21. júní 2009 lýstu Grænlendingar yfir fullum sjálfsákvörðunarrétti í málum er tengjast réttarfari, stefnumótun og náttúruauðlindum. Þá voru Grænlendingar viðurkenndir sem aðskilin þjóð samkvæmt alþjóðalögum. Danska ríkið heldur eftir stjórn utanríkis- og varnarmála. Landafræði. Að flatarmáli telst Grænland vera 2.099.988 km², og af því er 1.799.992 km² (85,7%) þakið jökli. Fjarlægðin frá nyrsta odda, Kap Morris Jesup, að þeim syðsta, Hvarfi, eru 2.650 km. Strandlínan telst vera 39.330 km, og er það nánast sama vegalengd og ummál jarðar við miðbaug. Hæsta fjall á Grænlandi er Gunnbjörnsfjall (um 3700 m) á austurströndinni, mitt á milli Ammassalik og Scoresbysunds. Milli Blossville Kyst sunnan við Scoresbysund og Rits við Aðalvík vestast á Hornströndum eru einungis um 290 km. Allar byggðir eru við strandlengjuna og flestar þeirra á suðvesturströndinni. Á Grænlandi eru fjögur sveitarfélög: Kujalleq, Qaasuitsup, Qeqqata og Sermersooq. Helstu þéttbýlissvæði á Vestur-Grænlandi eru Aasiaat, Ilulissat, Kangaatsiaq, Qasigiannguit, Qeqertarsuaq, Upernavik, Uummannaq, Maniitsoq, Nuuk, Paamiut, Sisimiut, Ivittuut, Nanortalik, Narsaq, Qaqortoq; á austurströndinni Ammassalik, Ittoqqortoormiit og einungis eitt á Norður-Grænlandi Qaanaaq. Norðaustur-Grænland, hluti Norður-Grænlands og stór hluti Austur-Grænlands er utan sveitarfélaga og er þar stæsti þjóðgarður í heimi, um það bil 972.000 km² að flatarmáli. Enginn jökull er á allra nyrsta hluta Grænlands Peary Land, loftslagið er oft of þurrt til þess að snjór geti myndast. Áætlað er að ef allur Grænlandsjökull bráðnaði mundi yfirborð úthafa hækka um meira en 7 metra. Á árabilinu milli 1989 og 1993 boruðu vísindamenn ofan í Grænlandsjökul þar sem hann er hvað þykkastur og náðu þeir upp 3,2 km löngum borkjarna. Skoðun laga og efnagreining á kjarnanum hefur kollvarpað mörgum kenningum um veðurfar og veðurþróun. Það hefur nefnilega komið í ljós að sú veðursaga sem hægt er að lesa úr kjarnanum nær um það bil 100.000 ár aftur í tímann og sýnir að loftslags- og hitabreytingar hafa verið mun meiri og gerst miklu snöggar en áður var talið. Lífríki. Heimskautaloftslag einkennir að sjálfsögðu lífríki Grænlands að fáeinum svæðum undanteknum, t.d. Narsarsuaq, syðst á landinu. Við suðvesturströndina er aðeins hlýrra vegna þess að þangað nær angi af Golfstraumnum. Hitastig inni á jökli nær allt niður að –70 °C á vetrum og upp að frostmarki á sumrin. Plöntur. Á þeim svæðum sem ekki eru þakin jökli er dæmigerður túndrugróður. Nánast enginn hágróður en hins vegar grös og mosar. Um 500 tegundir plantna hafa fundist og er þá burtséð frá þeim tegundum sem sáð eða plantað hefur verið. Dýralíf. Átta tegundir spendýra lifa á landi þó að ísbirnir séu oftar á ís á hafi úti en á landi. Hreindýr eru algeng á Vestur-Grænlandi, sauðnaut og hreysikettir ("Mustela erminea") eru algengir á norðausturhluta Grænlands. Heimskautarefir, sem eru í tveimur litaafbrigðum hvítir eða bláir, eru algengir um alla strandlengjuna. Úlfar lifa hér og þar á norður og norðausturhluta Grænlands, allt suður að 70°. Pólhérar eru algengir víða um landið. Kragalæmingjar ("Dicrostonyx torquatus") eru einu nagdýrin sem eru upprunaleg. Fimm tegundir sela lifa í hafinu við Grænland. Þær eru hringanóri, landselur, vöðuselur, blöðruselur og kampselur. Þar að auki rostungar ("Odobenus rosmarus) sem eru náskyldir selum. Fimmtán tegundir hvala lifa við Grænland, þar á meðal langreyður, steypireyður, búrhvalur, hrefna, hnísa, náhvalur og hnúfubakur. Um 230 tegundir fugla hafa sést á Grænlandi og eru þar af um 60 tegundir varpfugla. Nefna má hrafn, rjúpu, snæuglu, lunda, fálka, æðarfugl, haftyrðil og álku. Saga. Á þúsundum ára námu fámennir hópar land á Grænlandi að norðan. Komu þeir frá Asíu yfir hafísinn frá Alaska og norðurhluta Kanada. Á tímaskeiðinu 2400 f.Kr. fram að 2000 f.Kr. bjó þar svonefnd Independence I-menning (nefnt eftir Independencefirði). Flest allir fundir tengdir þessu skeiði hafa verið gerðir lengst í norðri á Peary Land. Einkum virðist sauðnautaveiði hafa verið mikilvæg. Independence II-menningin var uppi frá 8. öld f.Kr. til 1. aldar f.Kr. Á öldunum 1400 f.Kr. fram til 500 f.Kr. fluttu nýir hópar frá Kanada til Grænlands. Þetta menningarskeið er nefnt Saqqaq-menningin og íbúarnir tóku sér búsetu allt frá Upernavik í norðri til núverandi Nuuk í suðri. Þetta fólk bjó til steinlampa, boga og skutla. Það virðist einnig hafa haft með sér hunda. Enn er víða að finna fornleifar frá þessu menningarskeiði. Um 500 f.Kr. fluttist svo nefnt Dorset-fólk, þetta skeið einnig er nefnt Tunit-menning, inn frá norðri að nýju inn á sama svæði og hér að ofan er umtalað. Af fornminjafundum frá þessum menningarheimi má nefna stóra steina sem virðast hafa verið notaðir sem vörður til að vísa veg, fígúrur tálgaðar i stein og nálar gerðar úr rostungstönnum. Lýðfræði. Íbúar Grænlands voru 56.375 árið 2005 og langflestir Inuítar upprunnir þaðan sem í dag er Kanada. Síðustu hópflutningarnir áttu sér stað um miðja 19. öld. Í bænum Nuuk á Vestur-Grænlandi búa allmargir sem eru af evrópskum ættum. Grænland er mjög strjálbýlt, en þar býr einn maður að meðaltali á hverja 0,14 ferkílómetra af íslausu landi. 91% íbúanna búa á Vestur-Grænlandi, 1,6% á Norður-Grænlandi og 6,3% á Austur-Grænlandi. Um 20% íbúanna eru fæddir utan Grænlands. 98% íbúanna eru Lútherstrúar og tilheyra dönsku þjóðkirkjunni. Á Grænlandi bera margir þýsk ættarnöfn svo sem Fleischer, Kleist og Kreutzmann. Þau eru komin frá þýskum trúboðum sem störfuðu þar lengi og tóku sér ýmist innfæddar konur eða ættleiddu innfædd börn. Jean Charles de Menezes. Minnisvarði um Jean Charles de Menzes, við Stockwell neðanjarðarbrautarstöðina. Jean Charles de Menezes (7. janúar 1978 – 22. júlí 2005) var brasilískur rafvirki, upprunalega frá Minas Gerais í Brasilíu en hann bjó í Tulse Hill í Suður-London þegar hann var skotinn til bana af lögreglunni í Stockwell neðanjarðarbrautarstöðinni vegna gruns um að hann væri hryðjuverkamaður á leið að fremja sjálfsmorðsárás í lestinni en þetta gerðist rúmum tveimur vikum eftir að 4 sjálfsvígssprengingar urðu 56 að bana í London þann 7. júlí og degi eftir að tilraunir voru gerðar til álíka árása. Menezes reyndist ekki hafa nein sprengiefni á sér og hafði engin tengsl við hryðjuverkahópa. Atburðarásin. Ekki er enn fyllilega ljóst hvað gerðist en flest í upprunalegu lýsingu lögregluyfirvalda á atburðarrásinni hefur nú verið afsannað í kjölfar þess að skjölum og ljósmyndum frá innra eftirliti lögreglunar ("Independent Police Complaints Commission") var lekið í fjölmiðla 16. ágúst. Að morgni 22. júlí var lögreglan að fylgjast með íbúðablokk við Scotia Road vegna mögulegra tengsla hússins við árásirnar daginn áður en í bakpokunum sem árásarmönnunum tókst ekki að sprengja fannst meðal annars miði með heimilisfangi þessa húss. Húsið er þriggja hæða og í því eru níu íbúðir með sameiginlegan inngang og bjó Menezes í einni þeirra. Í kringum 9:30 hélt hann af stað til vinnu, lögreglumaður á vettvangi bar ranglega kennsl á hann sem einn af hryðjuverkamönnunum sem leit stóð yfir að en hafði einungis ljósmyndir til að styðjast við og náði ekki að taka upp myndband sem hann gæti sent stjórnstöð lögreglunnar sakir þess að hann var að „létta á sér“ þegar þetta gerðist. Engu að síður barst vopnuðum lögreglumönnum á Stockwell stöðinni „staðfesting“ á því að Menezes væri í raun hinn grunaði hryðjuverkamaður Hussain Osman þegar hann kom á stöðina u.þ.b. hálftíma eftir að hann yfirgaf heimili sitt. Á upptökum öryggismyndavéla sem lýst er í skjölum innra eftirlitisins sem lekið var í fjölmiðla sést að Menezes gekk rólega inn á stöðina, tók sér eintak af ókeypis dagblaði, borgaði fyrir farið í gjaldhliðinu og fór svo niður rúllustigann. Þegar hann kom niður hljóp hann síðasta spölinn að lestinni sem þá var við brautarpallinn og settist í sæti sem sneri að pallinum. Nánast samstundis og hann hljóp af stað barst lögreglumönnum á staðnum hin vitlausa greining á því hver þetta væri og héldu á eftir honum og hrópuðu eitthvað að honum þar sem eitthvað var minnst á lögreglu. Menezes stóð þá upp og gekk á móti þeim en einn lögreglumannannna tók þá utan um hann og ýtti honum aftur í sætið, sá lögreglumaður sagði í vitnisburði sínum að þá hafi hann heyrt byssuskot mjög nálægt vinstra eyra sínu og að hann hefði svo verið dreginn í gólfið. Tveir lögreglumenn skutu Menezes alls 11 skotum af stuttu færi, sjö þeirra lentu í höfði hans, eitt í öxl og þrjú hæfðu ekki. Margt í þessari atburðarás stangast á við þá útgáfu af sögunni sem haldið var fram af lögreglunni frá því fljótlega eftir að þetta gerðist. Mestu munar um að samkvæmt henni áttu óeinkennisklæddir lögreglumenn að hafa nálgast Menezes fyrir utan stöðina og kynnt sig sem lögreglumenn og að þá hafi hann hlaupið af stað inn og m.a. stokkið yfir gjaldhliðið í leiðinni en nú er talið að maðurinn sem vitni sáu stökkva yfir hliðið hafi sennilega verið einn lögreglumannanna sem veittu Menezes eftirför. Einnig var því haldið fram að hann hafi verið í þykkri vetrarúlpu sem hafði vakið grunsemdir um að hann væri mögulega að fela sprengiefni innanklæða en ljóst er af frásögnum vitna og ljósmyndum að hann var í raun í bláum gallajakka og hafði að auki ekki með sér neina bakpoka eða töskur. Viðbrögð. Lögregluyfirvöld í London báðust afsökunar á atvikinu daginn eftir að það átti sér stað en réttlættu einnig aðgerðir sínar og sögðu þá stefnu að „skjóta til að drepa“ vera nauðsynlega í vissum tilfellum og að henni hafi verið rétt beitt í þessu tilviki. Aðrir lýstu yfir áhyggjum vegna þessarar stefnu, t.d. Múslimaráð Bretlands. Fjölskylda Menezes neitaði að taka við afsökunarbeiðnum og ítrekaði þá skoðun sína að dauði Menezes væri afleiðing af vanhæfni lögreglunnar og krafðist þess að Sir Ian Blair lögreglustjóri Lundúnalögreglunnar segði af sér. Yfirvöld í Brasilíu fylgdust með málinu og sendu fulltrúa til London til að fylgjast með rannsókninni. Menezes, Jean Charles de Alberta (fylki). Alberta er eitt af fylkjum Kanada. Það er nefnt í höfuðið á prinsessu Louise Caroline Alberta (1848-1939), fjórðu dóttur Viktoríu Bretadrottningu. Louise prinsessa var einnig eiginkona Sir John Campbell, sem að var yfirlandsstjóri Kanada frá 1878-1883. Höfuðborg Alberta er Edmonton. Fjölmennasta borgarsvæði þess, Calgary, er einnig miðdepill efnahags Alberta og er staðsett í suðurhluta fylkisins. Fólksfjöldi árið 2004 var 3.183.312. 81% af íbúum Alberta búa í þéttbýli og 19% i dreifbýli. Calgary-Edmonton gangurinn er þéttbýlasta svæði fylkisins og eitt það þéttbýlasta í allri Kanada. Geirfugl. Geirfugl (fræðiheiti: "Pinguinus impennis") er útdauð fuglategund af álkuætt. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins. Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Lengst lifði geirfuglinn af við Ísland, en síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir í Eldey 3. júní 1844. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna. Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands, en hann fékkst á uppoði í London 1971 að undangenginni landssöfnun. (Sjá "Geirfuglsmálið".) Gerhard Schröder. Gerhard Fritz Kurt Schröder (fæddur 7. apríl 1944 i Mossenberg-Wöhren / Lippe í Þýskalandi) var Kanslari Þýskalands frá 27. október 1998 – 22. nóvember 2005. Við af honum í því embætti tók Angela Merkel. Schröder, Gerhard Listi yfir þjóðtungur Indlands. Á Indlandi er talaður mikill fjöldi ólíkra tungumála. Yfirleitt er talað um þrjátíu aðskilin tungumál og 2000 mállýskur. Stjórnarskrá Indlands nefnir hindí og ensku sem opinber tungumál fyrir þjóðstjórnina. Auk þeirra eru 22 viðurkenndar þjóðtungur sem ríkin mega taka upp með opinberum hætti til einhverra nota, og einnig nota í samskiptum milli miðstjórnarinnar og stjórna einstakra ríkja og fyrir próf í opinberri þjónustu. Ætlunin var að enskan hætti að vera "opinbert tungumál" árið 1965. Eftir það átti hún að hafa stöðu sem „aukalegt opinbert tungumál“ (með sömu stöðu og hindí) þar til réttkjörin nefnd myndi taka ákvörðun um algera færslu yfir til hindí. En vegna mótmæla frá ýmsum ríkjum, svo sem Tamíl Nadú þar sem útbreiðsla hindí er mjög takmörkuð, er tvítyngisástandið enn viðvarandi. Í kjölfarið á hraðri iðnvæðingu landsins og sterkum fjölmenningarlegum áhrifum á efnahagslífið hefur enskan haldið stöðu sinni sem vinsæl og virk samskiptaleið innan stjórnarinnar og í viðskiptalífinu. Allar hugmyndir um að losna við hana hafa verið lagðar á hilluna. Brúnei. Soldánsdæmið Brúnei, Brúnei Darussalam eða einfaldlega Brúnei er smáríki á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu með strandlengju að Suður-Kínahafi en að öðru leyti algerlega umlukt Austur-Malasíu. Brúnei er ríkt land, en olíu- og gasframleiðsla stendur undir nær helmingi landsframleiðslunnar. Soldánsdæmið er gamalt og átti sitt blómaskeið frá 15. til 17. aldar. Landið var breskt verndarsvæði frá 1888 til 1984. Sýrland. Sýrland er land fyrir botni Miðjarðarhafs með landamæri að Líbanon, Ísrael, Jórdaníu, Írak og Tyrklandi. Deilt er um landamærin við Ísrael (Gólanhæðir) og Tyrkland (Hatay). Höfuðborgin, Damaskus, er eitt af elstu lifandi borgarsamfélögum heims, en talið er að borgin hafi verið stofnuð um 2500 f.Kr. Stúdíó Sýrland. Stúdíó Sýrland er eitt helsta hljóðverið á Íslandi. Það er helst notað við hljóðupptöku fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefni og upptöku á tónlist. Meðal tónlistarmanna sem hafa notað það eru Björk Guðmundsdóttir, Sigur Rós, Quarashi, Írafár og Blur. Meðal sjónvarps- og kvikmyndatengds efnis sem hefur verið tekið upp þar eru Strumparnir, Íslenski draumurinn og Með allt á hreinu. Hindí. Hindí (हिन्दी) er indískt tungumál talað á norður- og mið-Indlandi. Hindí er ríkismál á Indlandi ásamt ensku. Af mállýskum má nefna hindústaní, kraj, kanújí, búndelí, bangarú, avadí, baqelí og sjatisqarbí. Nafnorð hafa þrjú föll: nefnifall, andlagsfall og ávarpsfall, og tvö kyn, karlkyn og kvenkyn. Hindí er það tungumál á Indlandi sem flestir eiga að móðurmáli. Engan tiltekin greini er að finna í málinu. Enga kyngreiningu er að finna í persónufornöfnum þriðju persónu. Sagnorð kynbeygjast, persónubeygjast og tölubeygjast. Verslunarmannahelgi. Verslunarmannahelgi er helgin á undan frídegi verslunarmanna, fyrsta mánudegi ágústmánaðar, sem er almennur frídagur á Íslandi. Helgin er mikil ferðahelgi meðal Íslendinga og haldnar eru útihátíðir víða um landið. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er á meðal þeirra en einnig hefur skapast hefð fyrir hátíðarhöldum á Akureyri, Neskaupstað og Siglufirði svo eitthvað sé nefnt. Helgin er þekkt fyrir mikla áfengisneyslu landsmanna. Saga. Upphaflega var frídegi verslunarmanna komið á af Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og hann ætlaður starfsfólki verslana að danskri fyrirmynd, en þá var ekki gert ráð fyrir neinu sérstöku orlofi starfsfólks. Fyrsti frídagur verslunarmanna var haldinn hátíðlegur í Reykjavík 13. september árið 1894 nokkrum árum síðar var hann fluttur að byrjun ágúst. Verslunarmannafélagið hefur frá upphafi staðið fyrir sérstakri hátíðardagskrá þennan dag. Vegna þess að frídagur verslunarmanna fellur á mánudag eftir helgi verður þar með til löng helgi. Mikinn hluta 20. aldar var þetta mesta ferðahelgi ársins og ýmsar hátíðardagskrár víða um land voru felldar saman við hana, s.s. þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Svipað „upphaf sumarfría“ er til um allan heim og er arfur frá þeim tíma þegar allt verkafólk í einu landi tók orlof á nánast sama tíma. Eine kleine Nachtmusik. Eine kleine Nachtmusik („lítið næturljóð“) eða Serínaða fyrir strengi í G-dúr eins og verkið í raun heitir, er ein frægasta og vinsælasta tónsmíð Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Hún er skrifuð árið 1787 í Vínarborg. Verkið er merkt sem K. 525 í Köchel-skránni yfir verk Mozarts. Serínaðan var samin fyrir strengjakvartett (tvær fiðlur, lágfiðlu og selló), með möguleikanum á kontrabassa spilandi sömu rödd og sellóið. Nú til dags er verkið oft flutt af stærri strengjasveit. Upphafsstef fyrsta kaflans er eitt af þekktustu stefjum sem til eru í vestrænni klassískri tónlist. Fyrsti kafli. Fyrsti kaflinn er Allegro-kafli í Sónötuformi. Hann byrjar á agressífu stefi sem festir grunntóntegundina (G-dúr) vel í sessi og þar á eftir kemur rólegra stef í D-dúr, fortónstóntegund G-dúrs. Framsetningunni lýkur svo í D-dúr og er endurtekin. Úrvinnslan hefst í D-dúr og snertir á d-moll og C-dúr áður en verkið fer aftur í G-dúr fyrir lokaframsetninguna. Í lokaframsetningunni er eru helstu stefin úr frumframsetningunni spiluð í G-dúr og endar í kaflinn þeirri tóntegund. Annar kafli. Annar kaflinn er rómansa með hraðamerkingunni andante. Hann er í C-dúr (undirfortónstóntegund G-dúrs) og rondó-formi sem setja má upp sem ABACA. Fyrsta stefið (A) er tignarlegt og lagrænt. Á eftir því kemur annað stefið (B) sem er hrynrænna en það fyrsta. Því næst kemur fyrsta stefið aftur og á eftir því þriðja stefið (C) sem er dekkra en hin tvö og kemur aðeins við í c-moll. Því næst kemur A-stefið í þriðja sinn til að ljúka kaflanum af. Þriðji kafli. Þriðji kaflinn er menúett og tríó (ABA) og danslegur eftir því. Hann er í grunntóntegundinni G-dúr og er alegretto að hraða. Kaflinn hefur tvö stef, menúett og tríó. Hann byrjar á menúettnum, því næst kemur tríóið og svo er menúettinn endurtekinn. Hann endar, eins og hann byrjar, í G-dúr. Fjórði kafli. Fjórði og seinasti kaflinn er sónöturondó. Hann er sannur lokakafli og líflegur líkt og fyrsti kaflinn. Í framsögunni er flakkað milli tveggja stefja. Í úrvinnslunni er flakkað milli nokkurra tóntegunda og endar í G-dúr. Stefin tvö koma svo aftur í lokaframsetningu og kaflinn endar á hala þar sem fyrsta stefið kemur aftur fyrir. Fimmti kafli? Samkvæmt skrá Mozarts sjálfs á verkum sínum hefur verkið fimm kafla. Annar kaflinn, samkvæmt hans skráningum, á að vera menúett og tríó og var lengst af talinn glataður. Tónlistarfræðingurinn Alfred Einstein hefur hins vegar lagt til að menúett í Píanósónötu í b, K.498a, sé í raun hinn týndi kafli. Síðan þá hefur menúettinn verið spilaður af strengjakvartettum, þó svo að tónlistarfræðingar séu ekki á eitt sáttir um hvort Einstein hafi haft rétt fyrir sér. Túvalúeyjar. Túvalúeyjar eru eyríki á eyjaklasa í Kyrrahafi miðja vegu milli Ástralíu og Hawaii. Sameinuðu arabísku furstadæmin. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru sambandsríki sjö furstadæma á suðausturhorni Arabíuskagans. Furstadæmin eru Abú Dabí, Adsman, Dúbæ, Fúdsaíra, Ras al-Kaíma, Sjarja og Úmm al-Kúvaín. Þau eiga landamæri að Sádí-Arabíu og Óman og strönd að Persaflóa. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru þriðji stærsti olíuframleiðandinn við Persaflóa, á eftir Íran og Sádí-Arabíu. Jórdanía. Jórdanía, konungsríki hasemíta (arabíska: أردنّ; umritun: "ʼUrdunn") er land í Miðausturlöndum með landamæri að Sýrlandi í norðri, Írak í norðaustri, Sádí-Arabíu í austri og suðri og Ísrael og Vesturbakkanum í vestri. Það deilir strandlengju með Ísrael við Akabaflóa og Dauðahaf. Líbanon. Líbanska lýðveldið eða Líbanon er land fyrir botni Miðjarðarhafs í Miðausturlöndum með landamæri að Sýrlandi í austri og norðri og Ísrael í suðri. Fönikumenn bjuggu í Líbanon á milli 3000 og 539 f.Kr. og hafa fundist meira en 7000 ára gömul merki um menningu í Líbanon. Kartúm. Kort sem sýnir staðsetningu Kartúm í Súdan Kartúm (arabíska: الخرطوم al-Ḫarṭūm „fílsrani“) er höfuðborg Súdan og höfuðstaður ríkisins Kartúm. Borgin stendur þar sem Hvíta Níl mætir Bláu Níl, verður að Níl og rennur í gegnum Egyptaland í átt til Miðjarðarhafsins. Sádí-Arabía. Sádí-Arabía er konungsríki sem nær yfir stærstan hluta Arabíuskagans með landamæri að Írak, Jórdaníu, Kúveit, Óman, Katar, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Jemen, með strönd að Persaflóa í austri og Rauðahafi í vestri. Áætlaður mannfjöldi í landinu er 27,5 milljónir, landið er u.þ.b. 2.150.000 km² að stærð. Sádí-Arabía er stundum nefnt „Land hinna tveggja heilögu moskna“ og er þá átt við moskurnar í Mekka og Medina, sem eru tveir helgustu staðir íslam. Stofnandi konungsríkisins, fyrsti konungur þess og sá sem ber ættarnafn það sem landið er kennt við var Abdul-Aziz bin Saud (betur þekktur sem Ibn Saud á Vesturlöndum). Á 18. og 19. öld barðist Al Saud-fjölskyldan við nokkrar aðrar stór-fjölskyldur um yfirráð á Nejd-hásléttunni á Arabíuskaganum. Eftir að Ibn Saud hafði náð Ríad liðu þrír áratugir þangað til að Sádí-Arabíska konungsveldið var stofnað með aðstoð Breska heimsveldisins. Helsta stoð Sádí-Arabíska efnahagsins er útflutningur olíu. Sádí-Arabía er stærsti útflutningsaðili heimsins og leiðandi aðili í OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja. Um 90% af útflutningi Sádi-Arabíu er olía og tekjur af sölu olíu eru um 75% af landsframleiðslu. Ghawar er talin vera stærsta olíulind heimsins, áætlað er að um ¼ af olíu þeirri sem notuð er í dag komi þaðan. Kúveit. Kúveit er land við strönd Persaflóa með landamæri að Írak og Sádí-Arabíu. 90% útflutningstekna koma af olíu. Mið-Austurlönd. Heimskort sem sýnir staðsetningu Mið-Austurlanda (græn). Samsett gervihnattamynd sem sýnir Miðausturlönd Miðausturlönd er heiti á svæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs og Arabíuskaganum frá Rauðahafi í vestri að Persaflóa í austri. Svæðið inniheldur frjósama hálfmánann þar sem mörg stór menningarríki hafa risið í gegnum tíðina. Helstu tungumál sem töluð eru á svæðinu eru arabíska, persneska, hebreska, kúrdíska og tyrkneska. Sumir kjósa að nota heldur heitið "Suðvestur-Asía" þar sem Mið-Austurlönd þykir miðast um of við sjónarhól Evrópubúa en oftast er þó ekki um samheiti að ræða. Að auki eru Norður-Afríkuríkin og Afganistan oft talin til Mið-Austurlanda af menningarlegum og sögulegum ástæðum. Katar. Katar er smáríki í Mið-Austurlöndum á nesi sem skagar út í Persaflóa út frá Arabíuskaganum. Katar á einungis landamæri að Sádí-Arabíu en í bígerð er að reisa brú til eyjunnar Barein. Vegna olíuauðs er Katar eitt ríkasta land í heimi. Katar fékk þann 3.desember það stóra verkefni að halda heimstaramótið í knattspyrnu 2022. Teknetín. Teknetín er frumefni með skammstöfunina Tc og er númer 43 í lotukerfinu. Dimitri Mendeleev sagði fyrir til um marga af eiginleikum frumefnis 43, sem hann kallaði ekamangan, langt áður en það var uppgötvað. 1937 varð samsæta þess, Tc-97, fyrsta gervifrumefnið sem framleitt var og tók þar af leiðandi nafn sitt af gríska orðinu "τεχνητος", sem að þýðir "tilbúið" eða "framleitt". Mest allt teknetín sem framleitt er í dag er aukaafurð samruna úran-235 í kjarnaofnum og er unnið úr eldsneytisstöngum. Engin samsæta teknetíns hefur helmingunartíma lengur en 4.2 milljón ár (Tc-98) þannig að mæling þess í rauðum risum 1952 ýtti undir þá kenningu um að stjörnur gætu framleitt þyngri frumefni en járn. Á jörðu finnst teknetín eingöngu í úrangrýti sem afurð sjálfklofnunar; magn þess er agnarsmátt en samt mælanlegt. Almenn einkenni. Teknetín er silfurgrár, geislavirkur málmur sem líkist mjög platínu. Það er hins vegar yfirleitt fengið sem grátt duft. Staða þess í lotukerfinu er á milli reníns og mangans og, eins og sagt fyrir samkvæmt lotureglunni, eru eiginleikar þess mitt á milli þessara tveggja frumefna. Þetta frumefni er óvenjulegt meðal léttari frumefnanna sökum þess að það hefur engar stöðugar samsætur og er þar af leiðandi mjög sjaldgæft í náttúrunni. Málmform teknetíns tærist hægt og rólega í röku lofti. Oxíð þess eru TcO2 og Tc2O7. Algeng oxunarstig þess eru 0, +2, +4, +5, +6 og +7. Það er uppleysanlegt í kóngavatni, saltpéturssýru og óblandaðri brennisteinssýru en er ekki uppleysanlegt í saltsýru. Málmform þess er örlítið meðseglað, sem að þýðir að segulskaut þess samstillast við ytra segulsvið þrátt fyrir að teknetín sé ekki yfirleitt segulmagnað. Geislalæknisfræði. Tc-99m („m“ gefur til kynna að þetta sé hálfstöðugur systurkjarni, "‚metastable‘ á ensku) er notað sem samsæta í geislalæknisfræði, til dæmis sem geislavirkt sporefni sem að læknistæki geta þá mælt í líkamanum. Það gegnir því hlutverki vel því að það gefur frá sér vel mælanlega 140 keV gammageisla, og hefur stuttan 6.01 klukkustunda helmingunartíma. Þegar Tc-99m er blandað saman við tin binst það við rauð blóðkorn og gerir það kleift að kortleggja röskun í blóðrásarkerfinu. Tvífosfatjón með Tc-99m bindast við kalsínset í skemmdum hjartavöðva, sem hjálpar til við að segja til um skemmdir eftir hjartaáfall. Brennisteinskvoðulausn af Tc-99m er hirt af miltanu og gerir það mögulegt að mynda það líffæri. Hægt er að halda geislavirkri mengun við geislagreiningu í lágmarki. Þó að Tc-99m er nokkuð geislavirkt (sem að gerir það kleift að mæla það í litlu magni) hefur það stuttan helmingunartíma, og hrörnar þar af leiðandi fljótlega í Tc-99 sem er minna geislavirkt. Í því formi sem að það er gefið hreinsast báðar samsætur þess fljótlega út úr líkamanum (yfirleitt eftir nokkra daga). Iðnaður. Tc-99 hrörnar næstum eingöngu við betahrörnun og gefur frá sér betaeindir með stöðuga lága orku og enga meðfylgjandi gammageislun (Tc-99m gefur aftur á móti frá sér gammageisla en engar betaeindir). Enn fremur, sökum þess að helmingunartími þess er mjög langur, minnkar þessi útgeislun frekar lítið með tímanum. Það er einnig hægt að vinna það úr geislaúrgangi í mjög hreinu formi, bæði efnafræðilega og sem samsæta. Af þessum sökum er það staðalbetagjafi og notað til að kvarða mælitæki. Líkt og renín og palladín, er hægt að nota teknetín sem hvata. Í sumum efnahvörfum, eins og til dæmis vetnissviptingu ísoprópanóls, er það mun virkara en bæði hin tvö efnin. Geislavirkni þess er þó hindrun í því að finna almenn not fyrir það. Tsjadvatn. Gervihnattamynd af Tsjadvatni frá 2001 þar sem vatnið sjálft er blátt og gróðurþekjan á gamla vatnsgrunninum er græn. Fyrir ofan eru myndir sem sýna breytinguna frá 1973 til 1997. Tsjadvatn er stórt, grunnt stöðuvatn í miðri Afríku. Vatnið skiptist á milli landanna Tsjad, Kamerún, Níger og Nígeríu, en stærstur hluti þess er í vesturhluta Tsjad. Það er gríðarlega mikilvægt vatnsforðabúr fyrir svæðið umhverfis það. Áin Sjarí er stærsta áin sem rennur í vatnið og flytur 90% vatnsins. Strendur vatnsins eru að mestu leyti mýrar, og í vatninu er mikið af litlum eyjum, fljótandi eyjum og leirum. Vatnið er einungis sjö metra djúpt þar sem það er dýpst og er því mjög viðkvæmt fyrir smávægilegum breytingum á hæð vatnsborðsins. Stærð þess breytist því eftir árstímum. Í vatninu lifa meðal annars krókódílar og flóðhestar. Vatnið er talið vera leifar innhafs sem hefur þakið 300.000 km² svæði fyrir sex þúsund árum. Þegar Evrópubúar mældu vatnið fyrst 1823 var það eitt af stærstu stöðuvötnum heims. Vatnið hefur minnkað mjög mikið frá því um miðja 20. öld vegna minnkandi rigninga. Líklegt þykir að það muni minnka enn frekar, eða hverfa jafnvel með öllu á 21. öld. hlkkkjjkhkj Níl. Samsett gervihnattarmynd af ánni Níl og Nílarósum Níl (arabíska: النيل "an-nīl") er annað tveggja stærstu fljóta heims. Nafnið kemur úr grísku "Νειλος" (Neílos) en Grikkir kölluðu ána einnig "Αιγυπτος" (Ægyptos) sem er uppruni nafns Egyptalands. Forn-Egyptar kölluðu fljótið "iteru". Deilt er um hvort Níl eða Amasónfljót eigi að teljast lengsta fljót heims. Kampala. Mynd sem sýnir Kampala-héraðið í Úganda Kampala er höfuðborg Úganda og samnefnt hérað. Íbúafjöldinn var 1.208.544 árið 2002 og borgin er því stærsta borg landsins. Borgin stendur í 1.189 metra hæð yfir sjávarmáli. Kampala er höfuðstaður héraðsins og konungsríkisins Búganda. Nálægt borginni eru alþjóðaflugvöllurinn í Entebbe og höfnin Port Bell á strönd Viktoríuvatns. Borgin óx í kringum virki sem Frederick Lugard reisti árið 1890 fyrir Breska Austur-Afríkufélagið. Árið 1962 tók borgin við af Entebbe sem höfuðborg. Stór hluti borgarinnar eyðilagðist þegar Idi Amin var steypt af stóli 1979. Idi Amin. Idi Amin Dada Oumee (~1925 – 16. ágúst 2003) var forseti Úganda frá árinu 1971 til 1979. Valdatíð hans þótti einkennast af mikilli grimmd þar sem talið er að hundruð þúsundir Úgandabúar hafi verið pyntaðir og myrtir. Idi Amin stundaði markvissar kynþáttaofsóknir gegn þjóðarbrotum atsjólímanna, langómanna og fleirum. Entebbe. Entebbe er borg í Úganda með rúmlega 90.000 íbúa. Hún stendur við strönd Viktoríuvatns nærri höfuðborginni Kampala. Entebbe er líklega þekktust fyrir alþjóðaflugvöllinn Entebbe þar sem Ísraelsher frelsaði eitt hundrað gísla um borð í Air France-vél þann 4. júlí 1976. Viktoríuvatn. Viktoríuvatn er eitt af stóru vötnunum í Afríku. Það er 68.870 ferkílómetrar að flatarmáli og annað stærsta stöðuvatn jarðarinnar að umfangi, en þar sem það er tiltölulega grunnt er það ekki nema sjöunda stærsta vatn heims miðað við rúmmál og inniheldur 2.760 rúmkílómetra af vatni. Viktoríuvatn er upptök lengstu þverár Nílarfljóts, Hvítu Nílar. Vatnið liggur á hásléttu í vesturhluta Sigdalsins mikla og er undir stjórn Tansaníu, Úganda og Kenýa. Í vatninu eru meira en þrjú þúsund eyjar sem margar eru byggðar. Þar á meðal eru Sseseeyjar í Úganda í norðvesturhluta vatnsins, sem eru vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Sigdalurinn mikli. Sigdalurinn mikli er gríðarstórt misgengi á plötuskilum Afríkuflekans, Arabíuflekans og Indlandsflekans. Norðurhluti misgengisins myndar dal árinnar Jórdan við botn Miðjarðarhafs, um Galíleuvatn og Dauðahaf að Akabaflóa og gegnum Rauðahaf. Syðri hlutinn teygist frá Adenflóa og klofnar í þrennt við Afardældina á horni Afríku. Eystra misgengið myndar úthafshrygg meðfram flekaskilunum en vestari helmingurinn heldur áfram inn í land og klýfur eþíópísku hásléttuna í tvennt. Eftir það (við Stóru vötnin) skiptist sigdalurinn í eystri og vestri sigdalinn sem liggja hvor sínum megin við Viktoríuvatn. Sigdalurinn endar svo við ósa Sambesífljóts í Mósambík. Sambesí. Sambesí eða Sambesífljót er fjórða lengsta fljót í Afríku og það stærsta sem rennur í Indlandshaf. Vatnasvið þess er 1.329.965 km² að stærð, eilítið minna en helmingur vatnasviðs Nílar. Sambesí er 2.750 km langt. Það á upptök sín í Sambíu, rennur svo gegnum Angóla og síðan eftir landamærum Simbabve og Sambíu til Mósambíkur þar sem það rennur út í Indlandshaf. Í Sambesí eru Viktoríufossar, eitt af stærstu vatnsföllum heims, en aðrir stórir fossar eru Chavumafossar við landamæri Sambíu og Angóla, og Ngonyefossar í vesturhluta Sambíu. Allt fljótið er einungis brúað á fjórum stöðum: við Chinyingi, Viktoríufossa, Chirundu og Tete. Viktoríufossar. Viktoríufossar eru með glæsilegustu fossum heims. Fossarnir eru staðsettir í ánni Sambesí sem á þeim stað myndar náttúruleg landamæri milli Sambíu og Simbabve. Fossarnir eru um 1,5 kílómetri á breidd og 128 metrar á hæð. Þeir eru allsérstæðir að því leyti að vatnið fellur ofan í gjá fyrir neðan fossana og þaðan eftir mjórri rás út. Þetta gerir það að verkum að hægt er að standa hinum megin gjárinnar og horfa beint á fossana. Skoski landkönnuðurinn og trúboðinn David Livingstone heimsótti fossana árið 1855 og gaf þeim nafnið Viktoríufossar, eftir Viktoríu drottningu. Á máli innfæddra hétu þeir hins vegar Mosi-oa-Tunya „þrumandi reykur“. Fossarnir eru hluti af tveimur þjóðgörðum; Mosi-oa-Tunya-þjóðgarðurinn er í Sambíu og Viktoríufossaþjóðgarðurinn er í Simbabve. Fossarnir eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lúsaka. Lúsaka er höfuðborg Sambíu. Borgin stendur á hásléttu (í 1.400 metra hæð yfir sjávarmáli) sunnan megin í miðhluta landsins. Íbúar voru 1.640.000 talsins árið 2002. Borgin var stofnuð af evrópskum landnemum árið 1905. Nafnið er dregið af nafni þorps sem áður stóð þar og hét Lusaaka eftir þorpshöfðingjanum. Vegna þess hve borgin var miðsvæðis, tók hún við af Livingstone sem höfuðborg bresku nýlendunnar Norður-Ródesíu árið 1935. Árið 1964 var hún gerð að höfuðborg sjálfstæðrar Sambíu. Norður-Ródesía. Norður-Ródesía var breskt verndarsvæði í sunnanverðri Afríku. Nýlendan varð til við sameiningu Norðvestur- og Norðaustur-Ródesíu sem bæði voru hlutar Ródesíu og undir stjórn Breska Suður-Afríkufélagsins. Bresk stjórn tók við 1923 þar til landið hlaut sjálfstæði sem Sambía 24. október 1964. Norður-Ródesía gekk inn í Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands þegar það var búið til árið 1953, en þegar ríkjasambandið liðaðist í sundur seint árið 1963 varð Norður-Ródesía aftur sérstakt svæði þar til það hlaut sjálfstæði árið eftir. Breska Suður-Afríkufélagið. Breska Suður-Afríkufélagið (enska: British South Africa Company) var verslunarfélag sem Cecil Rhodes stofnaði til að styrkja landnám og efnahagsþróun í sunnanverðri Afríku á tímum kapphlaupsins um Afríku. Félagið fékk konunglega réttindaskrá árið 1889. Fyrirmynd félagsins var Breska Austur-Indíafélagið. Félagið kom sér upp eigin her og sigraði matabelemenn og sjónamenn fyrir norðan Limpopofljót. Í þessum átökum notuðu Bretar Maxim-vélbyssuna í fyrsta skiptið í hernaðarátökum. Félagið lagði undir sig stórt svæði sem fyrst var kallað Sambesía og síðan Ródesía. Árið 1914 var réttindaskráin endurnýjuð með því skilyrði að landnemar fengju aukin pólitísk réttindi. 1923 kaus Bretland að endurnýja ekki réttindaskrána og gerði þess í stað Suður-Ródesíu (sem í dag heitir Simbabve) að sjálfstjórnarnýlendu og Norður-Ródesíu (sem í dag heitir Sambía) að verndarsvæði. Limpopofljót. Limpopofljót er fljót sem kemur upp í Suður-Afríku, rétt norðvestan við Jóhannesarborg, og rennur um 1.600 kílómetra leið í austurátt út í Indlandshaf. Það er annað lengsta fljótið í þessum heimshluta. Áin rennur í stóran sveig norðaustur og norður, svo austur og loks suðaustur þar sem það myndar náttúruleg landamæri milli Suður-Afríku og Botsvana í norðvestri, síðan Suður-Afríku og Simbabve í norðaustri, áður en það rennur inn í Mósambík. Ródesía. Ródesía var nafn Simbabve meðan það var enn bresk nýlenda. Landið hét áður Suður-Ródesía um tíma þegar "Ródesía" var notað um svæði sem inniheldur það land sem nú heitir Sambía, auk Simbabve. Nafnið er dregið af nafni breska athafnamannsins Cecil Rhodes sem átti stóran þátt í landvinningum Evrópuríkja í sunnanverðri Afríku. Upphaflega landið Ródesía varð til árið 1888 þegar Rhodes fékk námaréttindi frá innfæddum höfðingjum við vafasamar kringumstæður. Norður-Ródesía (nú Sambía) greindi sig frá Suður-Ródesíu árið 1910. Suður-Ródesía var áfram bresk nýlenda og varð brátt þekkt sem einfaldlega Ródesía. Sambandsríkið. Þegar Afríkuríkin fengu sjálfstæði eitt af öðru, bjuggu Bretar til Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands sem náði yfir löndin sem nú heita Sambía, Simbabve og Malaví sem þá hétu Norður-Ródesía, Suður-Ródesía og Nýasaland. Sambandsríkið var formlega leyst upp 1. janúar 1964 þegar Malaví og Sambía fengu sjálfstæði. Suður-Ródesía var áfram bresk nýlenda og hét eftir það aðeins Ródesía. Einhliða sjálfstæðisyfirlýsing. Bretar tóku upp stefnu sem fól í sér að Ródesía fengi ekki sjálfstæði fyrr en almennu lýðræði yrði komið á í stað hvítrar minnihlutastjórnar. Stjórn landsins var þá í höndum ródesíska framvarðarins, undir formennsku Ian Smith. 11. nóvember 1965 lýsti stjórn hans einhliða yfir sjálfstæði. Þessi aðgerð var fordæmd af alþjóðasamfélaginu og Sameinuðu Þjóðirnar settu viðskiptabann á Ródesíu, að undirlagi Breta. 2. mars 1970 sleit stjórn Smiths formlega öll tengsl við bresku krúnuna og lýsti yfir stofnun lýðveldis. Kjarrstríðið. Eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna fór fram vopnuð barátta á vegum stjórnmálaflokkanna ZANU („Zimbabwe African National Union“) og ZAPU („Zimbabwe African People's Union“). Þetta varð þekkt meðal hvítra íbúa sem Kjarrstríðið (enska: „Bush War“). Stjórnin hafði yfirhöndina lengi vel, eða þar til nýlendustjórninni lauk í Mósambík 1975. ZANU gerði þá bandalag við FRELIMO og fékk þjálfun, vopn og menn send yfir landamærin. Fyrstu almennu kosningarnar. Í kjölfarið á miklum alþjóðlegum þrýstingi frá bæði Bandaríkjunum og Bretlandi, og samkomulagi við hófsamari þjóðernissinnaða flokka, voru fyrstu meirihlutakosningarnar haldnar í landinu í apríl 1979 þar sem UANC („United African National Council“) vann meirihluta. Abel Muzorewa varð forsætisráðherra 1. júní 1979. Nafni landsins var þá breytt í Simbabve. Samkomulagið í Lancasterhöll. Þótt kosningarnar 1979 hefðu verið lýðræðislegar, þá tóku hvorki ZANU og ZAPU þátt í þeim þar sem þessir flokkar voru bannaðir. Vegna þessa var nýja stjórnin ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Breska ríkisstjórnin (undir stjórn Margaret Thatcher) sendi öllum málsaðilum boð um að mæta á friðarráðstefnu í Lancasterhöll í London síðla árs 1979. Í London undirrituðu málsaðilar friðarsamkomulag sem fól í sér að Bretar tóku við stjórn landsins um stutt skeið árið 1979 og veittu síðan Simbabve/Ródesíu sjálfstæði 1980 í kjölfar fyrstu alhliða kosninganna í landinu, þar sem Robert Mugabe og flokkur hans ZANU, unnu. 18. apríl 1980 fékk landið formlega sjálfstæði sem Simbabve. Nafni höfuðborgarinnar var breytt úr Salisbury í Harare tveimur árum síðar. Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands. Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands var skammlíft hálf-sjálfstætt ríki í sunnanverðri Afríku frá 1953 til 1963. Aðildarríki þess var breska nýlendan Suður-Ródesía og verndarsvæðin Norður-Ródesía og Nýasaland. Sambandið var líka þekkt undir heitinu Mið-Afríkusambandið. Sambandsríkið var stofnað 1. ágúst 1953. Takmarkið var að reyna að fara milliveg milli nýsjálfstæðu svörtu sósíalísku ríkjanna og hvítu minnihlutastjórnanna sem ríktu í Angóla, Suður-Afríku og Mósambík. Á endanum liðaðist sambandsríkið í sundur vegna þess að afrískir þjóðernissinnar vildu meiri pólitísk völd en hvítu landnemarnir voru tilbúnir til að samþykkja. Sambandsríkið lagðist formlega af 31. desember 1963 þegar Norður-Ródesía hlaut sjálfstæði frá Bretlandi sem Sambía og Nýasaland fékk sjálfstæði sem Malaví. Eftir var þá aðeins Suður-Ródesía sem eftir það var kallað Ródesía og síðan Simbabve frá 1980. Etoumbi. Etoumbi er bær í Cuvette-Ouest héraði í norðvesturhluta Vestur-Kongó. Flestir íbúar hans hafa viðurværi sitt af veiðum í nálægu skóglendi. Í Etoumbi hefur fjórum sinnum komið upp ebólafaraldur nýlega, að því er talið er vegna þess að íbúarnir hafa borðað kjöt af dýrum sem fundist hafa dauð í skóginum. Árið 2003 létust 120 úr ebóla og eftir að vírusinn skaut aftur upp kollinum í maí 2005 var bærinn settur í sóttkví. Dar es Salaam. Höfnin í Dar es Salaam. Dar es Salaam (دار السلام), áður Mzizima, er stærsta borg Tansaníu og fyrrum höfuðborg landsins. Íbúafjöldi var áætlaður tvær og hálf milljón árið 2003. Borgin er hafnarborg við Indlandshaf, aðalhöfn Tansaníu og höfuðstaður samnefnds héraðs. Þaðan eru fluttar út vörur eins og kaffi, baðmull, sísaliljuhampur og húðir. Frá 1973 hefur staðið yfir flutningur höfuðborgar Tansaníu til Dódómu sem er meira miðsvæðis. Enn er flutningnum ekki að fullu lokið og Dar es Salaam er enn helsta borg Tansaníu. Árið 1998 var bandaríska sendiráðið í Dar es Salaam sprengt í loft upp. Al-Kaída lýsti ábyrgð á sprengingunum. Dódóma. Dódóma er opinber höfuðborg Tansaníu og höfuðstaður Dódómahéraðs. Íbúafjöldi var 324.347 við manntal árið 2002. Árið 1973 var ákveðið að færa höfuðborgina frá Dar es Salaam til Dódómu þar sem hún er meira miðsvæðis. Þjóðþing Tansaníu flutti þangað árið 1996 en margar stofnanir eru enn í gömlu höfuðborginni. Kilimanjaro. Kort sem sýnir hæðarmun á Kilimanjaro og nágrenni Kilimanjaro er fjall í Tansaníu. Á því er hæsti tindur Afríku, Uhurutindur, sem er 5.895 metra hár. Kilimanjaro er virkt eldfjall. Umhverfis fjallið er 753 km² þjóðgarður, Kilimanjaroþjóðgarðurinn, sem opnaði 1977. Upprunalega átti Viktoría Englandsdrottning Kilimanjaro vegna þess að þá var fjallið í Kenía en hún gaf fjallið til Þýska keisarans í afmælisgjöf svo landamærin breyttust. Þess vegna er fjallið nú í Tansaníu sem Þýski keisarinn átti en ekki í Kenía. Rafhlaða. Fjórar endurhlaðanlegar rafhlöður af hinni algengu stærð „AA“. Rafhlaða (eða batterí) er tæki sem geymir orku og gerir hana aðgengilega á formi rafstraums. Slík geymsla á rafstöðu-formi er hagnýt til vissra sérhæfðra nota (í þétti) en flestar rafhlöður eru gerðar úr rafefnafræðilegum tækjum svo sem einni eða fleiri galvanískum sellum, eða nú nýjast brunasellum og kunna að byggja á enn öðrum gerðum af tækni í framtíðinni. Rafhlöðuiðnaðurinn veltir 180 milljörðum króna á ári. Gera má ákveðinn greinarmun á rafhlöðu og rafgeymi. Samkvæmt venjulegri málnotkun er rafgeymirinn stærri og má líta svo á að hann sé settur saman úr stökum rafhlöðum. Þennan greinarmun má gera tæknilegan með því að skoða spennuna. Stakar rafhlöður eða „sellur“ gefa yfirleitt spennu á bilinu 1,5-4,5 V. Hlutur sem gefur meiri spennu en það er örugglega settur saman úr stökum sellum og má kalla hann rafgeymi. Dæmi er blýsýrurafgeymir, eða bílrafgeymir, sem notaður er í bíla. Hann er settur saman úr allnokkrum „sellum“ og gefur 12 V spennu. Saga. Vissar vísbendingar eru til á formi "Bagdad-rafhlöðunnar"—frá því einhvern tíma milli 250 f.Kr. og 640 e.Kr.—um að galvanískar sellur hafi verið notaðar til forna. Hafi svo verið, varðveittist sú þekking ekki og hefur því engin samfelld tengsl við þróun nútíma rafhlaða. Ágiskunin um að þessi tæki kunni að hafa gefið rafstraum er sennileg en ósönnuð, eins og einnig á við um tæki sem uppgötvast hafa í egypskum gröfum og haldið er fram að hafi verið rafhlöður. Fyrstur á síðari tímum til að búa til rafhlöðu er talinn hafa verið Benjamin Franklin. Árið 1748 varpaði hann fram hugtakinu "rafhlaða" ("battery") til að lýsa þeim einfalda þétti sem hann gerði þá tilraunir með, sem var röð hlaðinna glerplatna. Eldri merking orðsins „battery“ var „barsmíð“ sem er tilfinningin sem menn fá af raflosti úr apparatinu. Á þessum tímum var skemmtunin sem fólst í raflosti ein af fáum notum fyrir þessa tækni. Aðrir tilraunamenn bjuggu til rafhlöður úr allnokkrum raðtengdum Leyden krukkum. Skilgreiningin var síðar víkkuð svo hún tæki til hneppa rafefnafræðilegra sella og þétta. Voltaíski staflinn var efnafræðileg rafhlaða sem ítalski eðlisfræðingurinn Alessandro Volta þróaði árið 1800. Volta rannsakaði hrifin sem mismunandi málmar ollu þegar þeir voru settir í saltvatn. Árið 1801 sýndi Volta Napoléon Bonaparte voltaísku selluna (sem aðlaði hann síðar fyrir uppgötvanir sínar). Luigi Galvani, maðurinn sem uppgötvaði líffræðilegt rafmagn, rannsakaði sömu hrif með tveimur stykkjum úr sama málmi lögðum í saltvatn. Vísindasamfélagið á þessum tíma kallaði þessa rafhlöðu"stafla", "safnara", af því hann hélt hleðslu, eða "tilbúið rafurmagnstól". Sumir rafhlöðurannsakendur á fyrsta skeiðinu kölluðu tækið "þyngdarsellu" því þyngdaraflið hélt súlfötunum tveimur aðgreindum. Heitið "krákufótarsella" var einnig oft notað vegna lögunar sink-rafskautsins sem notað var í rafhlöðurnar. Árið 1800 notuðu William Nicholson og Anthony Carlisle rafhlöðu til að greina vatn í vetni og súrefni. Sir Humphry Davy rannsakaði þessi efnafræðilegu hrif á sama tíma. Davy rannsakaði aðgreiningu efna (sem kallað er rafgreining). Árið 1813 bjó hann til paraða rafhlöðu úr 2.000 plötum í kjallara Konunglega félagsins í Bretlandi sem náði yfir 82,6 m². Af þessari tilraun ályktaði Davy að rafgreining væri sú verkan í voltastaflanum sem framleiddi rafmagn. Árið 1820 endurbætti brezki rannsakandinn John Frederic Daniell voltaísku selluna. Daniell-sellan var saman sett úr eir- og sink -plötum og eir- og sink-súlfötum. Hún var notuð til að knýja ritsíma og dyrabjöllur. Milli áranna 1832 og 1834 framkvæmdi Michael Faraday tilraunir með ferrít-hring, galvanímæli, og tengda rafhlöðu. Þegar rafhlaðan var tengd eða aftengd sýndi galvanímælirinn viðbragð. Faraday kom einnig fram með lögmálið um hreyfanleika jóna í efnahvörfum rafhlaða. Árið 1839 þróaði William Robert Grove fyrstu brunaselluna sem framleiddi raforku með því að tengja saman vetni og súrefni. Grove þróaði aðra gerð rafsellu með því að nota rafskaut úr sinki og platíni. Þessi rafskaut voru sett hvort í sína sýruna sem aðgreindar voru með himnu. Á 7. áratug 19. aldar þróaði Georges Leclanché í Frakklandi rafhlöðu úr kolefni og sinki. Hún var blaut sella þar sem rafskauti var stungið ofan í rafvaka-vökva. Hún var sterkbyggð, auðveld í framleiðslu og entist vel í geymslu. Endurbætt útgáfa sem kölluð var þurrsella var síðar gerð með því að einangra selluna og breyta fljótandi rafvakanum í blautt deig. Leclanché-sellan er ein gerð af aðal- (einnota) rafhlöðu. Á 7. áratug 19. aldar fann Raymond Gaston Plant upp blýsýrurafhlöðuna. Hann setti tvær þunnar blýplötur með gúmmíplötum á milli ofan í þunna brennisteinssýru og bjó þannig til auka- (endurhlaðanlega) rafhlöðu. Upprunalega uppfinningin entist þó illa í geymslu. U.þ.b. árið 1811 þróaði Émile Alphonse Fauré ásamt félögum sínum rafhlöður þar sem jákvæði plöturafvakinn var gerður úr blöndu af blý-oxíðum. Þau höfðu hraðara viðbragð og hærri nýtnistuðul. Árið 1878 var loftsellurafhlaðan þróuð. Árið 1897 rannsakaði Nikola Tesla léttbyggða karbíð-sellu og súrefnis-vetnis-geymslusellu. Árið 1898 fékk Nathan Stubblefield samþykki fyrir rafhlöðueinkaleyfi (US600457) sem lýsti rafvakaspólu sem hefur verið kölluð „jarðarrafhlaða“. Árið 1900 þróaði Thomas Edison nikkel-rafhlöðuna. Árið 1905 þróaði Edison nikkel-járn-rafhlöðuna. Eins og allar rafefnafræðilegar sellur gaf rafhlaða Edisons straum rafeinda sem streymdu allar í sömu átt, sem þekkt er sem jafnstraumur. Á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar þróuðu Samuel Ruben og Philip Rogers Mallory kvikasilfurs-selluna. Á 6. áratugnum þróaði Russell S. Ohl þynnu úr kísli sem gaf frá sér frjálsar rafeindir. Á 6. áratugnum endurbætti Ruben alkalín-mangan rafhlöðuna. Árið 1954 bjuggu Gerald L. Pearson, Daryl M. Chapin og Calvin S. Fuller til hneppi allmargra slíkra þynna og sköpuðu þannig fyrstu sólarrafhlöðuna. Árið 1956 þróaði Francis Thomas Bacon vetnis-súrefnis-brunaselluna. Árið 1959 þróaði Lewis Urry litlu alkalín-rafhlöðuna á rannsóknastofu Eveready rafhlöðufyrirtækisins í Parma, Ohio. Á 7. áratugnum fundu þýskir rannsakendur upp blýsýrurafhlöðu með hlaupkenndum rafvaka. Duracell kom fram árið 1964. Heimagerðar rafhlöður. Nota má nánast hvaða vökva eða rakan hlut sem ber nógu margar jónir til að vera rafleiðandi sem rafvakann í sellu. Til gamans eða sýnikennslu má setja tvö rafskaut í sítrónu, kartöflu, glas með gosdrykk o.s.frv. og framleiða þannig lítils háttar rafstraum. Þegar þetta er skrifað (2005) er „tveggja-kartaflna-klukkur“ víða að finna í föndur- og leikfangaverzlunum. Þær eru gerðar úr tveimur sellum, hvorri úr sinni kartöflunni (eða sítrónu o.s.frv.), hvor með tveimur ífestum rafskautum, sem tengdar eru í röð og mynda þannig rafgeymi með næga spennu til að knýja stafræna klukku. Engin hagnýt not eru fyrir heimagerðar rafhlöður af þessari gerð því þær framleiða mun minni straum og eru mun dýrari á hverja framleidda orkueiningu en fjöldaframleiddar rafhlöður, vegna þess hve ávöxturinn eða grænmetið endist stutt. Framtíðin. Frumrannsóknir benda til að rafhlöður byggðar á nanótækni sem notast við kolefnisnanórör verði tvöfalt endingarbetri en hefðbundnar rafhlöður eins og við þekkjum þær. Verið er að þróa nýja gerð rafhlaðna sem kölluð er Power Paper. Það er þunn, sveigjanleg rafhlaða sem gerð er með því að prenta „blek-sellur“ á svo að segja hvaða yfirborð sem er. Samsetning rafhlaðna. Rásatákn fyrir rafhlöðu (+ og - tákn eru valfrjáls) Sellurnar í rafgeymi má bæði tengja með hliðtengingu eða raðtengingu eða bæði. Hliðtengd samröðun sellna hefur sömu spennu og ein rafhlaða en getur gefið hærri straum (summa straumanna frá öllum sellunum). Á hinn bóginn gefur raðtenging sama nafnstraum og ein sella en spennan er summa spenna allra sellnanna. Hagnýtustu rafefnafræðilegar rafhlöður, svo sem 9 V vasaljósarafhlöður og 12 V bílrafgeymar, eru af raðtengdri gerð. Vandinn við hliðtengdar rafhlöður er að ef ein sella afhleðst hraðar en næsta sella við, flæðir straumur úr fullu sellunni yfir í þá tómu þannig að orka fer til spillis og hætta skapast á ofhitnun. Enn verra er að ef ein sella skammhleypist vegna innri galla leiðir það til þess að næsta sella við afhleðst með hámarksstraumi yfir í þá gölluðu sem leiðir til ofhitnunar og hugsanlega sprengingar. Hliðtengdar sellur eru þess vegna venjulega útbúnar rafrás til að verja þær gegn þessum vandamálum. Bæði í rað- og hliðtengdum gerðum jafngildir orkan sem geymd er í rafhlöðunni summu orku allra sellnanna. Frá fræðilegum sjónarhóli má líta á rafhlöðu sem kjör spennulind raðtengd við viðnám sem er kallað innra viðnám rafhlöðunar. Spennulindin er aðallega háður efnafræði rafhlöðunnar, ekki því hvort hún er tóm eða full. Þegar rafhlaða tæmist eykst innra viðnám hennar. Þegar rafhlaðan er tengd við álag (t.d. ljósaperu), sem hefur sitt eigið viðnám, er spennan yfir álagið háð stærðum innra viðnáms rafhlöðunnar og viðnámi álagsins. Þegar rafhlaðan er ný er innra viðnám hennar lítið þannig að spennan yfir álagið er næstum því jafngilt spennu spennulindarinnar (gefið að álagsviðnámið sé töluvert stærra heldur en innra viðnám rafhlöðunar, sem er yfirleitt tilvikið). Þegar rafhlaðan tæmist eykst innra viðnám hennar, minnkar spennan yfir álagsviðnámið og sömuleiðis geta rafhlöðunnar til að gefa frá sér afl til álagsins. Algengar rafhlöðugerðir. * Ýmiss konar rafhlöður * Frá sjónarhóli notandans má flokka rafhlöður í tvennt - endurhlaðanlegar og einnota. Báðar gerðir eru mikið notaðar. Einnota rafhlöðum, sem einnig eru kallaðar aðalsellur, er ætlað að vera notaðar einu sinni, þar til efnahvörfin sem gefa af sér rafstrauminn eru uppurin og er rafhlöðunni þá hent. Þessi gerð er mest notuð í litlum, meðbærum tækjum sem annaðhvort draga lítinn straum, aðeins notuð í skamma stund í senn, eða eru notuð þar sem langt er í annarskonar aflgjafa. "Sjá einnig: úrgang." Öðru máli gegnir um endurhlaðanlegar rafhlöður eða aukasellur sem hlaða má að nýju eftir að hafa tæmzt. Það er gert með því að setja á þær ytri rafstraum sem veldur því að efnahvörfin sem eiga sér stað þegar rafhlaðan er notuð gerast afturábak. Tæki sem gefa slíkan straum eru kölluð hleðslutæki eða endurhleðslutæki. Elsta mynd endurhlaðanlegrar rafhlöðu sem enn er í notkun er blauta sellan, blýsýrurafhlaðan. Sú rafhlaða er sérstök fyrir það að í henni er vökvi í óþéttum umbúðum, sem þýðir að halda verður rafhlöðunni uppréttri og loftræsta vel svo sprengifimu lofttegundirnar súrefni og vetni sem rafhlöðurnar gefa frá sér þegar þær ofhlaðast, safnist ekki fyrir. Blýsýrurafhlaðan er einnig mjög þung miðað við þá raforku sem hún geymir. Þrátt fyrir það gera lágur framleiðslukostnaður og hár hnykkstraumur að verkum að hún er mikið notuð þar sem þyngd og auðveld meðhöndlun skipta ekki mestu. Algeng gerð blýsýrurafhlöðu er nútíma bílrafgeymirinn. Hann getur gefið u.þ.b. 10.000 Watta afl við 12 V nafnspennu (þó raunveruleg opinnar-rásar spennan sé nær 13,7 V) og hámarksstraum upp á 450-1100 amper. Rafvaki rafgeymisins er brennisteinssýra sem getur valdið alvarlegu líkamstjóni ef hún slettist á húð eða í augu. Dýrari gerð blýsýrurafgeymis kallast hlauprafhlaða (eða „hlaupsella“). Í henni er rafvakinn úr hálfföstu efni til að hindra leka. Meðal annarra meðbærra endurhlaðanlegra rafhlaðna má nefna nokkrar „þurrsellu“-gerðir, sem eru einangraðar einingar og því gagnlegar í tækjum á borð við farsíma og fartölvur. Sellur af þessari gerð (í röð vaxandi aflþéttleika og verðs) eru m.a. nikkel-kadmín (nicad eða (NiCd), nikkel-málm-hýdríð (NiMH) og liþín-jóna (Li-Jón) sellur. Algengar rafhlöðustærðir. Ath.: 6 V, 9 V, og 12 V rafhlöður eru oft gerðar úr fleiri en einni 1.5 V sellu sem eru raðtengdar. "Sjá rafefnafræðileg sella." Gildandi evrópskur staðall er IEC 60086-1 "Aðalrafhlöður - 1. hluti: Almennt" (BS397 Í Bretlandi). Gildandi bandarískur staðall er ANSI C18.1 "Bandarískur landsstaðall fyrir þurrsellur og rafhlöður - Tilgreiningar". Ítarlegt safn greina um margar hliðar rafhlaðna og notkun þeirra í meðbærum tækjum má nálgast á Rýmd rafhlöðu. Geta rafhlöðu til að geyma hleðslu er oft táknuð með amperstundum (1 A·h = 3600 kúlomb). Ef rafhlaða getur gefið eins ampers straum í eina klukkustund hefur hún rýmd upp á 1 A·h. Ef hún getur gefið 1 A í 100 klst., þá er rýmd hennar 100 A·klst. Á sama hátt jafngilda 20 A í 2 klst. 40 A·klst. rýmd. Meðan segja má að rafhlaða sem getur gefið 10 A í 10 klst. hafi rýmd upp á 100 A·klst., þá framkvæma framleiðendur flokkunina ekki þannig. Rafhlaða sem flokkuð er sem 100 A·klst. mun sennilegast ekki gefa 10 A í 10 klst. Rafhlöðuframleiðendur nota staðlaða aðferð við að flokka rafhlöður sínar. Flokkunin byggist á prófunum sem fara fram í 20 klst. með afhleðsluhraða upp á 1/20 (5%) af væntri rýmd rafhlöðunnar á klukkutíma. Þannig er rafhlöðu sem flokkuð er sem 100 A·klst. ætlað að gefa 5 A í 20 klst. Nýtni rafhlöðu fer eftir afhleðsluhraðanum. Þegar rafhlaða afhleðst við 5% afhleðsluhraða á klst. nýtist orka hennar betur en ef hún afhleðst hraðar. Til að reikna út 5% afhleðsluhraða rafhlöðu skal taka amperstundaflokkun framleiðandans og deila í hana með 20. Segjum t.d. að AA-sella sé flokkuð sem 1300 mA klst. (milliamperstundir). 5% afhleðslustraumurinn sem þessi flokkun er leidd út frá er þá 1300 mA·klst. / 20 klst. = 65 mA. Sprenging í rafhlöðu. Við óheppilegar aðstæður geta rafhlöður sprungið, t.d. ef þær ofhitna vegna skammhlaups. Slík sprenging er yfirleitt afleiðing mannlegra mistaka (svo sem ef einnota rafhlaða er endurhlaðin eða rafgeymi úr bíl er skammhleypt) eða bilunar í rafhlöðunni. Í bílarafgeymum er líklegast að sprenging eigi sér stað þegar honum er skammhleypt þannig að mjög mikill straumur myndast. Skammhlaupsbilun í rafgeymi sem er hliðtengdur öðrum rafgeymum (t.d. með startköplum) getur valdið því að næsta rafgeymir við losi hámarksstraum yfir í bilaða rafgeyminn sem veldur þá ofhitnun og hugsanlega sprengingu. Þegar bílarafgeymar eru endurhlaðnir losa þeir auk þess vetni sem er hásprengifim lofttegund. Magnið er venjulega mjög lítið og dreifist fljótt. Þegar hins vegar rafgeymir er tengdur öðrum með startköplum getur hár straumurinn valdið hraðri losun vetnis sem getur síðan kviknað í út frá neista (svo sem þegar startkaplarnir eru fjarlægðir). Þegar einnota rafhlaða er endurhlaðin hratt kann sprengifim blanda vetnis og súrefnis að myndast hraðar en hún getur losnað út úr rafhlöðunni, sem veldur hækkun þrýstings og mögulega sprengingu. Í verstu tilfellum kann rafhlöðusýran að sprautast af krafti út úr rafhlöðuumbúðunum og valda líkamstjóni. Sé rafhlöðu fleygt í eld kann það einnig að valda sprengingu vegna gufumyndunar inni í lokuðum umbúðum rafhlöðunnar. Ofhleðsla, sem er það að hlaða rafhlöðu umfram þá raforku sem hún ber, getur einnig leitt til þess að hún springi, leki eða skemmist varanlega. Hún kann einnig að valda skemmdum á hleðslutækinu eða tækinu sem ofhlaðna rafhlaðan er síðar notuð í. Chinguetti. Chinguetti (arabíska: شنقيط) er bær í norðvesturhluta Máritaníu á Adrarhásléttunni austan við bæinn Atar. Bærinn var stofnaður við lok 13. aldar sem miðstöð í Saharaversluninni og var orðinn að helstu menningarmiðstöð svæðisins eftir upphaf 17. aldar. Helstu byggingar eru moskan, virki frönsku útlendingaherdeildarinnar og hár vatnsturn. Bærinn var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Adrarhásléttan. Adrarhásléttan er háslétta í Saharaeyðimörkinni í norðurhluta Máritaníu. Hún var þéttbyggð á nýsteinöld. Þornun svæðisins og framsókn eyðimerkurinnar hefur varðveitt mikið af fornleifum, einkum nokkra steinhringi og síðari tíma bæinn Azougui, þar sem byggð hefur staðið frá 7. öld. Hásléttan er þekkt fyrir gjár og síbreytilegar sandöldur. Byggð er aðallega í bænum Atar sem er höfuðstaður Adrarhéraðs. Aðrir bæir á hásléttunni eru Choum, Chinguetti og Oudane. Atar. Atar (arabíska: أطار) er bær í norðvesturhluta Máritaníu og höfuðstaður Adrarhéraðs. Hann er líka stærsti bærinn á Adrarhásléttunni. Þar eru meðal annars flugvöllur, minjasafn og moska sem var byggð árið 1674. Núaksjott. Núaksjott (arabíska: نواكشوط "eða" انواكشوط) er höfuðborg Máritaníu og langstærsta borg landsins. Áætlaður íbúafjöldi var 881 þúsund árið 1999. Borgin er stærsta borgin í Sahara, ef undan eru skildar borgirnar norðan Atlasfjalla og í Nílardal. Borgin er hafnarborg við strönd Atlantshafsins. Hún var bara lítið fiskiþorp til 1957 þegar hún var valin sem höfuðborg Máritaníu. Írak. Lýðveldið Írak er land í miðausturlöndum sem nær yfir það svæði þar sem áður var Mesópótamía á milli ánna Efrat og Tígris og suðurhluta Kúrdistans. Það á landamæri að Kúveit og Sádí-Arabíu í suðri, Jórdaníu í vestri, Sýrland í norðvestri, Tyrkland í norðri og Íran í austri. Írak á mjóa strandlengju í Umm Quasr við Persaflóa. Fyrir fyrri heimsstyrjöldina tilheyrði Írak ottómanska veldinu, eftir hana liðaðist það í sundur. Á millistríðsárunum var Írak í umsjá Bretlands í umboði Þjóðarbandalagsins. Það hlaut sjálfstæði 3. október 1932. Á árunum 1980-88 geisaði stríð á milli Íraks og Írans. Persaflóastríðið var háð 1991 eftir að Írak hafði ráðist á Kúveit. Ný tímabundin ríkisstjórn var kjörin í janúar 2005, í kjölfar innrásarinnar í mars 2003, sem leidd var af Bandaríkjamönnum og Bretum og kom Ba'ath flokknum og leiðtoga hans Saddam Hussein frá völdum. Abú Dabí. Abú Dabí (arabíska: أبوظبي "ʼAbū Ẓaby") er stærst þeirra sjö furstadæma sem mynda Sameinuðu arabísku furstadæmin. Abú Dabí er líka samnefnd borg í furstadæminu sem einnig er höfuðborg landsins. Borgin stendur nyrst á T-laga eyju í Persaflóa á vesturströndinni miðri. Áætlaður íbúafjöldi var um ein milljón árið 2000, þar sem um 80% íbúanna eru með erlent ríkisfang. Sjeik Khalifa bin Zayed Al Nahayan, emír, er erfðafursti í Abú Dabí. Hann er einnig forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Lada Sport (hljómsveit). "Lada Sport" er Íslensk hljómsveit sem á rætur að rekja til Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð af þeim Haraldi Leví Gunnarssyni og Stefni Gunnarssyni sumarið 2002 eftir að önnur hljómsveit sem þeir voru í leystist upp. Hljómsveitin spilaði poppað rokk undir áhrifum Nada Surf, Dinosaur Jr. og The Flaming Lips og varð hvað þekktust fyrir þá stefnu. Lada Sport lenti í 2. sæti í músíktilraunum árið 2004 og gaf í framhaldi út stuttskífuna Personal Humour. Upphaf. Árið 2002 leystist upp hljómsveitin Ekkasog en innan hennar voru þeir Haraldur Leví Gunnarsson og Stefnir Gunnarsson. Í framhaldi var stofnuð ný hljómsveit sem fékk nafnið Lada Sport. Mjög fljótt unnu þeir sér upp tónleikaprógram af frumsömdum ósungnum lögum og fóru að spila á öllum þeim stöðum sem buðust í Hafnarfirði á þeim tíma. Um jólin 2002 óskaði Haraldur eftir bassaleikara í gegnum samskiptasíðuna hugi.is. Friðrik Sigurbjörn Friðriksson, reykvíkingur, sem þá var meðlimur hljómsveitarinnar Íbúfen, svaraði auglýsingunni og byrjaði í framhaldi af því að æfa með hljómsveitinni árið 2003. Fyrstu tónleikar Lödu Sport sem tríó voru hluti af fimmtudagsforleik Hins Hússins. Þegar hér er komið sögu voru öll lög, sem hljómsveitin hafði samið, enn ósungin og beinskeitt gítardrifin rokklög. Hljómsveitin spilaði við öll tækifæri sem henni gefast og Haraldur Leví notfærði sér öll sín tengsl í Hafnarfirðinum til þess. Hingað til hafði Lada Sport aðeins æft í bílskúr foreldra Haralds en þurfti þegar líða tók á veturinn að færa sig um set þar sem æfingarnar voru farnar að aukast. Þá fengu þeir aðstöðu á vegum Hafnarfjarðarbæjar, gamalt bifreiðaverkstæði sem hafði verið innrétt með nokkrum herbergjum gagngert fyrir hljómsveitir að æfa í. Þessi æfingaraðstaða hét Músík & Mótor. Þegar hausta tók byrjaði Stefnir meðvitað að þjálfa strák að nafni Heimi Gest sem gítarleikara til að koma honum inn í hljómsveitina, sem varð svo raunin í árslok 2003. Hljómsveitin hafði nokkrum sinnum reynt að fá til sín söngvara en ekkert gengið í þeim efnum og í kringum áramótin fór Stefnir að fikta við það sjálfur á æfingum samhliða gítarleiknum. Þau lög sem samin voru í ársbyrjun 2004 hentuðu þeim stíl sem Stefnir hafði kosið að syngja með og fyrsta lagið sem tekið var upp hét „Blame It on the Dead Guy“. Músíktilraunir, Personal Humour og 2004-2005. Í framhaldi af hversu fljótt Lada Sport náði að þétta sig upp í ársbyrjun 2004 ákváðu þeir að sækja um þátttöku í músíktilraunum, sem haldnar voru á vegum Hins Hússins. Hljómsveitin var sett á annað tilraunkvöldið af fimm sem haldin voru í Tjarnarbíói og komst hún áfram á vali dómnefndar. Á úrslitakvöldinu, sem haldið var í Austurbæ, spilaði hljómsveitin í beinni á Rás 2 og þrátt fyrir vandamál með gítarmagnara lenti Lada Sport í 2. sæti. Þeir sáu á eftir 1. sætinu til hinnar mjög svo ungu hljómsveitar Mammút en Tony the Pony frá Húsavík fékk það þriðja. Eftir músíktilraunir streymdu lögin út úr Stefni, sem fram að þessu hafði séð um allar lagasmíðar einn síns liðs. Um sumarið 2004 var komið að því að reyna koma út tónlistinni í einhvers konar föstu formi. Haraldur hafði komið sér upp aðstöðu í fyrrnefndum bílskúr foreldra sinna þar sem upptökur á fyrstu plötu Lada Sport, "Personal Humour" fóru fram. Um verslunarmannahelgina var hljómsveitinni boðið að spila á Bindindismótinu í Galtalæk. Þar kynntust strákarnir hljómsveitinni Tony the Pony betur sem leiddi af sér ferð norður á land til Akureyrar og Húsavíkur seinna það haust. Platan "Personal Humour" kom út í 200 eintökum í september og upplagið var fjármagnað og gefið út af þeim sjálfum. Í árslok 2004 missti hljómsveitin æfingaraðstöðu sína í Músík & Mótor og var hún þá þvinguð til að troða sér aftur inn í títtnefndan bílskúr, þar sem drög að nýjum lögum urðu til. Verðlaunum músíktilrauna árið áður, tímar í Stúdíó Sýrlandi var varið í upptökur á laginu „Summertime in Outer Space“ snemma 2005 en það var Axel Flex Árnason sem sá um upptökur og eftirvinnslu. Það var þó ekki fyrr en þegar draga fór á vorið sem Lada Sport fann sér nýtt æfingarpláss í Garðabænum. Þrátt fyrir lög eins og „Summertime in Outer Space“ og „Royal Suits & Wine“ reyndist mjög erfitt fyrir hljómsveitina að athafna sig á nýja staðnum. Æfingum fór að fækka og Heimir Gestur ákvað að kúpla sig út til þess að ganga til liðs við hljómsveitina Jakobínarína, sem hafði nokkrum dögum áður sigrað músíktilraunir. Sín á milli voru þrír eftirstandandi meðlimir Lada Sport sammála um að bandið væri hætt. Haraldur fékk í byrjun sumars 2005 Helga Rúnar Gunnarsson til liðs við sig til að reyna stofna nýja hljómsveit. Fljótlega þróaðist þetta þó þannig að Lada Sport ákvað að halda áfram með Helga innanborðs. Upptakan af laginu „Summertime in Outer Space“ fór að hljóma á útvarpsstöð X-ins og spilað var á nokkrum tónleikum það sumar með bandið í þessari mynd. Nýr gítarleikari og árið 2006. Líkt og með Heimi Gest á undan hafði Stefnir, án þess að láta Harald og Friðrik vita byrjað að þróa nýtt tónlistartengt samband við gítarleikarann Jón Þór Ólafsson, þá meðlim hljómsveitarinnar Isidor. Æfingar hófust með Jóni, sem kom í stað Helga Rúnars á nýjum stað og með nýjum áherslum. Hljómsveitin leigði herbergi með annarri hljómsveit Helga Rúnars, Benny Crespo's Gang í Tónlistarþróunarmiðstöðin úti á Granda í Reykjavík haustið 2005. Til urðu á þessum tíma nokkur ný lög þar sem Jón Þór var farinn að taka við nokkrum línum í söngnum. Hljómsveitin hélt áfram að spila reglulega á tónleikum, þar á meðal kíkti hún aftur norður á land það haust sem og spilaði í fyrsta sinn á Iceland Airwaves hátíðinni. Í kringum jólin 2005 var svo hrært í myndband við lagið „Royal Suits & Wine“ þar sem Katrína Mogensen söngkona Mammút söng með Stefni. Vorið 2006 dróg Lada Sport töluvert úr tónleikahaldi og það var svo ekki fyrr en í byrjun sumars sem margt small saman, undir miklum áhrifum frá hljómsveitinni The Flaming Lips samdi Jón Þór lagið „Love Donors“. Lag sem varð núllpunktur plötu sem kæmi svo út rúmlega ári seinna. Vel víraðir með nýjar hugmyndir í pokahorninu byrjaði hljómsveitin að spila á tónleikum með svokölluðu „Playbacki“, þar sem hljóðgervlar og allskonar aukahljóð sem bandið gat ekki framkallað sjálft var látið flakka af tölvu sem Haraldur hafði umsjón með. Fyrstu slíku tónleikarnir voru haldnir í Vestmannaeyjum um mitt sumar. Þegar hér er komið sögu voru Stefnir og Jón Þór meðvitað farnir að skipta á milli sín lagasmíðum Lada Sport. Hljómsveitin spilaði seinna um haustið aftur á Iceland Airwaves hátíðinni fyrir fullum sal á staðnum Grand Rokk, þar sem Faktorý er nú til húsa. Þegar fór að dragast nær jólum römbuðu strákarnir á lag á miðri æfingu sem þeir ákváðu að yrði að vera jólalag. Birgir Örn Árnason, félagi hljómsveitarinnar og meðlimur hljómsveitarinnar Ókind, var þá kallaður til og laginu „A Night in Christmastown“ snarað inn á „teip“. Lagið var gefið út fyrir jólin 2006. Það sem eftir var af árinu hélt hljómsveitin áfram að púsla saman lögum fyrir plötuútgáfu. Upptökur, Time and Time Again og „endalokin“. Þegar árið 2007 var gengið í garð var Lada Sport í óða önn að leggja drög að hvernig þeir ættu að fara að því að taka upp sína fyrstu stóru plötu. Einu kynni bandsins af alvörugefnum upptökustjóra var við Axel Flex Árnason og lá beint við að hann myndi bara sjá um þetta. Í febrúar var byrjað að taka upp fyrstu lögin fyrir það sem myndi verða að plötunni "Time and Time Again". Hljómsveitinni hafði boðist að spila á tónleikum í Austin, TX í Bandaríkjunum samhliða tónlistarhátíðinni South by Southwest sem fór fram um miðjan mars. Hún þáði boðið og fékk útlistað fríu fari til New York á vegum Loftbrúar Icelandair. Þegar komið var aftur heim var strax rennt í seinni törn upptökuferlisins. Hljómsveitin átti fund með Rúnari Júlíussyni varðandi útgáfu á plötu sinni sem endaði með því að Lada Sport skrifaði undir útgáfusamning við útgáfufélag Rúnars, Geimstein. Rétt fyrir seinna holl upptökuferlisins bað Friðrik, Jón og Stefni um að semja eitt lag til viðbótar fyrir plötuna, eitt svokallað sumarlag. Meira að segja varð bónin svo nákvæm að hann bað þá um að hafa það í stíl við eitt vel valið lag með hljómsveitinni Built to Spill. Nokkrum dögum seinna höfðu Jón og Stefnir kokkað upp lagið „The World Is a Place for Kids Going Far“ sem varð að fyrri útvarps smáskífu plötunnar "Time and Time Again". Lagið náði 1. sæti á lista Radíó Reykjavík sem og 2. sæti hjá X-inu í nokkrar vikur. Platan "Time and Time Again" kom loks út þann 9. júní á vegum Geimsteins. Hljómsveitin fékk boð um að hafa lag í mynd Gunnars B. Guðmundssonar, Astrópíu. Lagið sem varð fyrir valinu var „Last Dance Before an Execution“ en Júlíus Kemp framleiðandi myndarinnar leikstýrði tónlistarmyndbandi við lagið. Þriðja árið í röð spilaði Lada Sport á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni, í þetta sinn á Nasa við Austurvöll. Hljómsveitin æfði nú í mjög litlu æfingarrými í Hafnarfirði með hljómsveitinni Vicky. Nokkur lög voru samin það sem eftir var af ári og ákveðið var að reyna byrja strax að taka upp demo eða prufutökur af þessum nýju lögum til að það yrði ekki eins langt í næstu stóru plötu. Farið var í tvær ferðir suður til Keflavíkur í upptökuver Geimsteins til að koma þessu niður í tölvu. Stór áform voru gerð um hvert skildi fara á næstu plötu þrátt fyrir að í raun var farið að stirðna mjög á milli ákveðna meðlima bandsins. Ekkert varð úr þessum áformum og stuttu seinna ákveður Jón Þór að segja sig lausan frá hljómsveitinni. Þar með hættir Lada Sport formlega með lokatónleikum á skemmtistaðnum Organ í júní 2008. Eftirfari. Eftir að Lada Sport hætti störfum fór Jón Þór að einbeita sér að hinu verkefninu sínu Dynamo Fog, með Arnari Inga úr Isidor og Axel Flex Árnasyni upptökustjóra, sem seinna Sindri Eldon gekk til liðs við á bassa í stað Axels. Haraldur Leví stofnaði sína eigin plötuútgáfu, Record Records. Stefnir gerði sitt langtímaverkefni Japanese Super Shift að fullmannaðri hljómsveit, sem Friðrik sogaðist svo inn í á bassa. Snemmsumars árið 2009 byrjuðu Jón Þór og Haraldur með útvarpsþáttinn Sonic á X-inu. Þegar líða fór á árið fóru þeir að henda sín á milli hugmynd um að koma Lada Sport aftur í gang. Hugmyndum var fleygt fram en ekkert varð af þeim. Það er svo ekki fyrr en í mars 2010 sem Friðrik ýtti á alla meðlimi bandsins að koma sér saman og taka upp eitt lag sem samið hafði verið áður en hljómsveitin lagði upp laupana. Allir sem einn féllust þeir á það og tvö lög voru á endanum tekin upp, „Love Is Something I Believe In“ og „What If Heaven Is Not for Me?“ í upptökuveri Haralds undir stjórn Arons Þórs Arnarssonar. Um miðjan júní kom svo út 7" vínyl platan "Love Is Something I Believe In", sem inniheldur tvö fyrrnefnd lög. Í framhaldi spilaði Lada Sport á tveimur tónleikum, á þeim síðari með langtíma vinahljómsveitum, Bob og Coral í ágúst 2010. Hraun (hljómsveit). Hraun er íslensk hljómsveit sem var stofnuð 16. júní árið 2003 þegar hljómsveitarmeðlimir komu saman með engum fyrirvara og spiluðu í partýi á kaffihúsinu Kaffi Vín. Hljómsveitin umbreyttist fljótt og fór að spila meira frumsamið efni. Varð sveitin reglulegt húsband á grasrótartónlistarstaðnum Café Rósenberg auk þess að leika reglulega tónleika á kaffihúsinu Langa Manga á Ísafirði. Hljómsveitin hefur gefið út fjórar jólaplötur auk partýplötu ("Partýplatan partý"). Fyrsta plata með frumsömdu efni sveitarinnar kom út hjá plötufyrirtækinu Dimmu 11. júní 2007 og ber nafnið "I can't believe it's not happiness". Platan var m.a. plata vikunnar á Rás 2 sumarið 2007. Útgáfutónleikar voru haldnir í Þjóðleikhúskjallaranum. Í desember 2007 komst Hraun í fimm sveita úrslit hljómsveitakeppninnar "The next big thing" sem BBC World Service stendur fyrir. Þar léku þeir í útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar fyrir fjögurra manna dómnefnd og sal áhorfenda. Önnur plata sveitarinnar, "Silent Treatment", kom út 12. júní 2008. Útgáfutónleikar voru haldnir á Rúbín 16. júní 2008 og mættu um 350 manns. Allur ágóði af tónleikunum rann til styrktar íslenska geitastofninum. Gedda. Gedda (fræðiheiti: "Esox lucius") er stór ferskvatnsfiskur sem er algengur í ám og vötnum í Norður-Evrópu, Rússlandi og Norður-Ameríku. Hún finnst einnig í ísöltu vatni, til dæmis umhverfis Gotland. Hún verður yfirleitt um hálfur metri að lengd, en þó hafa veiðst geddur sem eru einn og hálfur metri og 26,5 kg að þyngd. Hún getur orðið allt að þrjátíu ára gömul. Geddan er alæta og hikar ekki við að ráðast á dýr sem eru næstum jafnstór henni sjálfri. Hún étur aborra, froska, andarunga og fleiri fiska og dýr. Hún lifir einkum í stöðuvötnum og fljótum sem eru nógu straumhörð til að botnfrjósa ekki. Eini náttúrulegi óvinur geddunnar er maðurinn og aðrar geddur. Atómmassi. Atómmassi frumefnis (einnig þekktur sem hlutfallslegur atómmassi, meðalatómmassi eða atómþyngd) er meðal-atómmassi allra samsæta frumefnisins eins og þær koma fyrir í tilteknu umhverfi, vegið út frá algengi samsætanna. Í lotukerfinu eru þær yfirleitt listaðar eftir algengi þeirra í jarðskorpu og andrúmslofti jarðar. Í tilfelli tilbúinna frumefna er kjarneindafjöldi stöðugustu samsætunnar tilgreindur innan sviga sem atómmassinn. Atómmassi samsætu er hlutfallslegur massi samsætunnar mælt á mælikvarða þar sem kolefni-12 hefur atómmassann nákvæmlega 12. Engar aðrar samsætur hafa heiltölumassa, bæði vegna þess að nifteindir og róteindir eru misþungar sem og vegna massafráviks af völdum bindiorku. Það er þó smávægilegt miðað við massa kjarneindar og því má ávallt rúnna atómmassa samsætu að næstu heiltölu og fá þannig réttan fjölda kjarneinda. Fjölda nifteinda má þá fá með því að draga sætistöluna frá. Mynstrið í fráviki atómmassanna frá massatölum sínum er sem hér greinir: frávikið byrjar jákvætt í vetni-1, verður svo strax neikvætt og nær lágmarki við járn-56, hækkar síðan og verður aftur jákvætt hjá þungu samsætunum, með vaxandi atómtölu. Þetta samsvarar eftirfarandi: kjarnaklofnun frumefnis sem er þyngra en járn gefur frá sér orku meðan kjarnaklofnun frumefnis sem er léttara en járn þarf orku. Hið gagnstæða á við um kjarnasamruna - samruni þar sem myndunarfrumefnið er léttara en járn gefur frá sér orku en samruni þar sem myndunarfrumefnið er þyngra en járn þarf orku. Áþekk skilgreining á við um sameindir; í tilfelli þeirra er talað um sameindamassa. Sameindamassa efnis má reikna með því að leggja saman atómmassa atómanna sem efnið er gert úr margfaldað með hlutföllum frumefnanna sem gefin eru í efnaformúlunni. Áþekkan formúlumassa má reikna fyrir efni sem mynda ekki sameindir. Beinn samanburður og mælingar á mössum atóma og sameinda er fenginn með massalitrófsgreiningu. Eitt mól af efni inniheldur ávallt atóm- eða sameindamassa efnisins, talið í grömmum.. T.d. er atómmassi járns 55,847 og því er massi eins móls af járni 55,847 g. Saga. Fyrir 7. áratuginn lá önnur viðmiðun til grundvallar skilgreiningunni á atómmassa, þ.e. súrefni (O). Ástæðan fyrir því vali var að súrefni er algengasta efnið í efnasamböndum yfirleitt. 16O er algengasta samsæta þess, með 8 róteindum og 8 nifteindum. Gallinn var hinsvegar sá að í náttúrulegu súrefni er einnig að finna 17O og 18O í eilitlum mæli. Efnafræðingar notuðust við mælikvarða þar sem þessarri náttúrulegu blöndu var ánafnaður atómmassinn 16. Eðlisfræðingar kusu hinsvegar að ánafna sömu tölu, 16, samsætunni 16O hreinni. Mælt á þann mælikvarða hafði náttúrulegt súrefni atómmassann 16,0044917. Gerð var málamiðlun sem byggir á samsætunni 12C. Með henni var komið til móts við kröfu eðlisfræðinga um að byggja á hreinni samsætu jafnframt því sem tölurnar urðu svipaðar því sem verið hafði á mælikvarða efnafræðinganna (atómmassi náttúrulegs O er 15,9994). Hugtakið "atómþyngd" hefur stundum verið notað fyrir atómmassa, en reynt er að forðast það af því það felur í sér hugtakarugling. Eðlisfræðileg skilgreining þyngdar er massi hlutar sinnum þyngdarhröðun jarðar sem hefur víddina kraftur. IUPAC notast þó enn við staðalatómþyngd sem táknar hlutfallslegan meðalatómmassa frumefnis. Ýsa. Ýsa (fræðiheiti: "Melanogrammus æglefinus") er fiskur sem er algengur á grunnsævi á norðurhveli jarðar. Hún lifir á 10-200 metra dýpi og er útbreidd í Norður-Atlantshafi. Hún er náskyld þorski og verður allt að metri að lengd og 20 kíló að þyngd. Hún er blágrá að lit, með svarta rönd eftir síðunni og skeggþráð á neðri góm. Fæða ýsu er fjölbreytileg, hún étur ýmis botndýr s.s. skelja, snigla og marflær og smáfiska eins og sandsíli, loðnu og spærling. Heimkynni. Ýsa er í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hún í Norður-Íshafi og Barentshafi og allt suður í Biskajaflóa. Við Grænland er hún sjaldséð en í Norðvestur-Atlantshafi er hún frá Nýfundnalandi til Hatterashöfða í Bandaríkjunum. Ýsan finnst allt í kringum Ísland. Hún er mun algengari við sunnan- og vestanvert landið en í kalda sjónum norðanlands og austan. Oft er mikið um ýsu við Ingólfshöfða, Dyrhólaey og Vestmannaeyjar auk Faxaflóa, í Breiðafirði og við Ísafjarðardjúp. Ýsan er grunnsævis- og botnfiskur sem lifir á 10-200 metra dýpi og stundum dýpra á leir- og sandbotni. Fæða. Ýsuseiðin éta einkum ýmis smákrabbadýr eins og ljósátu, rauðátu. Fullorðin ýsa étur frekar ýmis konar fiskmeti, mest loðnu, en fæða hennar er mjög margvísleg. Hún étur botndýr eins og krabba og lindýr, einnig smáfiska eins og sandsíli, smásíld og spærling étur, sem og rækju, fiskseiði, síldarhrogn og fleira. Mörg rándýr leggjast á ýsuna. Þar má nefna háf, þorsk, löngu, lúðu og fleiri stóra fiska. Selir og smáhveli láta hana ekki heldur í friði. Vöxtur og lífssaga. Hrygningin stendur yfir í rúma tvo mánuði eða frá apríl til maíloka. Fjöldi eggja er frá þúsund og upp í milljón, fer allt eftir stærð hrygnunnar. Eggin eru sviflæg, vatnstær og um 1,5 mm í þvermál. Klak tekur um 12-14 daga og er lirfan um 4,5 mm við klakið. Ýsuseiðin leita til botns 2-3 mánaða gömul og eru þau þá 4-5 cm löng. Bæði eggin og lirfurnar berast með straumum vestur og norður með landinu, og jafnvel stundum austurfyrir. Fyrstu æviár sín vex ýsan tiltölulega hratt. Hún getur verið orðin um 20 cm þegar hún er eins árs og á öðru aldursári rúmlega 30 cm. Yfirleitt er hún veidd á milli 50-65 cm löng, en stærsta ýsan sem hefur verið veidd við Ísland reyndist 112 cm. Lengd ýsu eftir aldri er nokkuð mismunandi eftir því hvort hún elur aldur sinn í hlýja sjónum sunnanlands eða þeim kalda norðanlands. Einnig verða ýsur í hlýja sjónum fyrr kynþroska en þær í kalda sjónum. Yfirleitt verður hún kynþroska 3-4 ára gömul. Ýsan getur orðið a.m.k. 15 ára gömul, og er hámarksþyngd hennar talin vera um 14 kg. Ýsan er flokkuð eftir stærð og kölluð eftir því, smáýsa kallast sú ýsa sem er á bilinu 25-45 cm, miðlungs – eða kurlýsa er 45-60 cm stór og stórýsa er stærri en 60 cm. Ýsur lengri en 80 cm eru samt sem áður sjaldséðar. Ýsuveiðar við Ísland. Ýsan er að langmestu leyti veidd í botnvörpu og á línu. Ýsuafli íslenskra skipa á Íslandsmiðum var um 109 þúsund tonn árið 2007. Ýsa veiðist allt árið en þó mest á hrygningartíma eða í apríl og maí. Ýsa er vinsælasti matfiskur á Íslandi og er árleg ýsuneysla innanlands um 5.000 tonn eða um 5% af heildarafla. Fiskur. Fiskar eru hryggdýr sem dvelja í vatni og anda með tálknum. Flestir fiskar eru með kalt blóð en sumar tegundir háffiska og túnfiska eru með heitt blóð. Af fiskum finnast yfir 29 þúsund tegundir, svo þeir eru fjölbreyttasti hópur hryggdýra. Algengt er að skipta fiskum í vankjálka ("Agnatha", til dæmis steinsugur), brjóskfiska ("Chondrichthyes" - háffiskar og skötur) og beinfiska ("Osteichthyes"). Flokkunarfræðilega eru helstu hópar fiska af samhliða þróunarlínum og innbyrðis tengsl milli tegunda eru mjög umdeild. Fiskar eru af öllum stærðum, allt frá 16 metra löngum hvalháfum að "Schindleria brevipinguis" sem er aðeins um 8 mm. Ýmsar óskyldar tegundir vatnadýra bera fisksheiti, svo sem smokkfiskur, en þær eru ekki raunverulegir fiskar. Önnur vatnadýr, eins og hvalir, líkjast fiskum en eru í raun spendýr. Þótt flestir fiskar lifi aðeins í vatni og séu með kalt blóð þá eru undantekningar frá báðum þessara einkenna. Fiskar úr nokkrum ólíkum hópum hafa þróað með sér hæfileika til að lifa á landi um lengri tíma. Sumir þessara láðs- og lagarfiska, eins og eðjustökkullinn, geta lifað og farið um á landi í nokkra daga í senn. Auk þess geta sumar tegundir fiska haldið háum líkamshita að vissu marki. Innvermnir beinfiskar eru allir í undirættbálkinum "Scombroidei" sem inniheldur meðal annars geirnef og túnfisk og eina tegund af „frumstæðum“ makríl ("Gasterochisma melampus"). Allir háfiskar af hámeraætt geta haldið jöfnum hita og vísbendingar eru um að þessi hæfileiki sé til staðar í ættinni "Alopiidae" (skottháfum). Varmajöfnunin er mismikil eftir tegundum, allt frá geirnefnum sem heldur aðeins hita á augum og heila, að túnfiskum og hámerum sem halda jöfnum hita yfir 20 °C fyrir ofan umhverfishita vatnsins. Þótt innverming íþyngi efnaskiptunum er talið að hún feli í sér vissa kosti eins og meiri samdráttarkraft vöðva, örari vinnslu í taugakerfinu og hraðari meltingu. Fiskar eru mikilvæg fæða manna á mörgum menningarsvæðum og fiskveiðar eru stundaðar alls staðar þar sem fiska er að finna. Í fiskeldi eru fiskar ræktaðir til manneldis. Vatnadýr eins og skeldýr eru kölluð skelfiskur í tengslum við matargerð. Fiskar eru líka veiddir og ræktaðir til skemmtunar og hafðir til skrauts í garðtjörnum og fiskabúrum. Sú vísindagrein sem rannsakar fiska sérstaklega heitir fiskifræði en fiskar eru viðfangsefni ýmissa annarra fræðigreina eins og sjávarlíffræði, vistfræði og lífeðlisfræði. Vistfræði. Fiskar finnast í öllum vistkerfum vatns, bæði ferskvatni, söltu vatni og ísöltu vatni, á grynningum og neðarlega í hafdjúpunum. Í nokkrum vötnum með mjög hátt saltinnihald, eins og Dauðahafinu og Great Salt Lake í Bandaríkjunum finnast engir fiskar. Búsvæði. Fiskar eru stundum flokkaðir eftir þeim stað í vatni sem þeir halda sig mest. Þetta atriði hefur mikil áhrif á bæði lag, veiðiaðferð og fæðuval fiska: Uppsjávarfiskar eru feitir fiskar sem lifa venjulega í torfum, eins og til dæmis síld og loðna, og nærast á svifi; Botnfiskar lifa á sjávarbotninum, einir eða í litlum hópum. Botnfiskar marka sér yfirráðasvæði á botninum sem þeir verja fyrir öðrum fiskum og eru gjarnan ránfiskar. Dæmi um botnfiska eru keila og þorskur; Djúpsjávarfiskar lifa á miklu dýpi þar sem nánast ekker ljós er og þrýstingur vatnsins er mikill. Djúpsjávarfiskar eru gjarnan með ljósfæri sem lýsa með lífljómun; Miðsjávarfiskar eru fiskar sem færa sig á milli botns og uppsjávar, til dæmis eftir tíma dagsins. Fæðuval. Svartdjöfull er með lýsandi agn á höfðinu. Uppsjávarfiskar eins og sardínur lifa venjulega á svifi sem þeir sía úr sjónum með hjálp tálknblaðanna um leið og þeir anda. Nokkur stór sjávardýr hafa sama fæðuval eins og skíðishvalir og vissar tegundir háfiska, en flestir hinna stærri uppsjávarfiska eru kjötætur sem éta aðra fiska, smokka og krabbadýr. Þótt flestir botnfiskar séu ránfiskar þá eru sumir þeirra jurtaætur eða grotætur sem lifa á leifum annarra dýra sem finnast á botninum. Sumir lifa í samlífi með öðrum sjávardýrum, venjulega stærri ránfiskum, og nærast á matarleifum eða sníkjudýrum á roði hýsilsins. Sumir djúpsjávarfiskar, og eins sumir strandfiskar, nota sprota út úr höfðinu sem agn til að veiða bráð sína. Þessar tegundir eru með gríðarmikinn skolt til að grípa bráðina þegar hún kemur nógu nálægt. Æxlun. Flestir fiskar æxlast með kynæxlun og eru eggbærir þar sem eggin (hrognin) frjóvgast utan líkama móðurinnar og foreldrarnir annast seiðin yfirleitt ekki. Hjá þeim tegundum sem lifa í torfum gjóta hrygnurnar í vatnið þar sem torfan heldur sig og hængarnir sleppa sæðinu á sama tíma. Hjá nokkrum uppsjávarfiskum fljóta hrognin um við yfirborðið og geta orðið fæða svifdýra og sunddýra; af þessum sökum er nauðsynlegt að hrygnan hrygni miklum fjölda hrogna. Hjá öðrum tegundum sökkva hrognin niður á botn eða er hrygnt við botninn þar sem frjóvgun á sér stað. Í þeim tilvikum er ekki þörf á jafnmiklum fjölda hrogna. Lífshlaup ála sem hrygna í söltu vatni en þroskast í ferskvatni. Til eru samt undantekningar frá öllum þessum einkennum; Nokkrar tegundir fiska (til dæmis áll) æxlast í fersku vatni en þroskast í söltu vatni. Hvað kynin varðar þá eru einnig til tvíkynja fiskar (ættin "Sparidae") sem skipta um kyn meðan á æxlun stendur. Hvað umönnun seiðanna varðar þá eru áhugaverð dæmi um slíkt, til dæmis hjá sæhestum þar sem karlinn safnar saman frjóvguðum hrognum og ungar þeim út. Margar siklíður geyma seiðin í munninum, ýmist bæði kynin eða til skiptis, til að vernda þau fyrir rándýrum. Meirihluti fisktegunda er vissulega eggbær, en það eru bæði til eggfósturbærir og fósturbærir fiskar þar sem fóstrið þroskast í kvið móðurinnar. Hvíld. Fiskar sofa ekki heldur skipta milli vökuástands og hvíldarástands. Þegar fiskur er í hvíld virðist hann fullkomlega hreyfingarlaus þrátt fyrir að hann hreyfi sig í raun mjög hægt til að halda jafnvægi í vatninu. Fiskar eru ekki með augnlok þannig að augu þeirra eru alltaf opin. Sumar tegundir færa sig niður á botn vatnsins eða árinnar og aðrar fela sig í holum til að verjast rándýrum. Göngur. a> er úthafsgöngufiskur og sú fiskitegund sem telur flesta einstaklinga. Á Íslandsmið koma þrír síldarstofnar sem hegða sér á ólíkan hátt varðandi göngur. Margar tegundir fiska (aðallega uppsjávarfiskar) færa sig reglulega milli búsvæða; Daglega færa þessar tegundir sig milli yfirborðs og botns og árlega synda þær vegalengdir sem geta verið frá nokkrum metrum að nokkrum hundruðum kílómetra. Álar færa sig um set á nokkrum árum. Oftast eru þessar göngur farnar til æxlunarsvæða eða ráðast af æti. Nokkrar tegundir túnfiska ganga árlega norður og suður eftir hafinu eftir hitastigi sjávar. Fiskar eru flokkaðir eftir göngumynstri í sjógandandi fiska sem ganga milli sjávar og ferskvatns, fljótagöngufiska sem ganga milli ferskvatnskerfa, til dæmis úr á í vatn og öfugt, og úthafsgöngufiska sem ganga milli búsvæða í sjó. Sjógangandi fiskar skiptast aftur í vatnagöngufiska sem lifa í sjó en æxlast í fersku vatni, sjógöngufiska sem lifa í ám en æxlast í sjó, og tvíátta fiska sem flytja milli sjávar og ferskvatns einhvern tíma á æviskeiðinu, en ekki til að æxlast, heldur venjulega af líkamlegum ástæðum (vegna þroskaferils fisksins). Sá vatnagöngufiskur sem mest hafa verið rannsakaður er laxinn sem klekst út efst í ám, þroskast í ánni og syndir til sjávar þegar vissum aldri er náð. Í hafinu stækkar hann og síðan snýr hann aftur "í sömu ána" sem hann fæddist í til að æxlast. Margir stofnar laxa hafa mikið menningarlegt og efnahagslegt gildi þannig að ánum sem þeir sækja hefur verið breytt með sérstökum laxastigum sem hjálpa fiskinum að komast yfir hindranir og ganga ofar í ána. Best rannsakaða dæmið um sjógöngufiska eru evrópski állinn sem gengur um sex þúsund kílómetra í Þanghafið (í miðju Atlantshafinu) til að hrygna og gengur í gegnum gríðarlegar myndbreytingar á leið sinni. Lirfurnar ganga síðan til baka sem glerálar og þroskast í ám Evrópu. Flokkun. Fiskar eru af samsíða þróunarlínum, þannig að hver grein sem inniheldur alla fiska inniheldur líka ferfætlinga sem ekki eru fiskar. Elstu þekktu fiskarnir (og þar með elstu þekktu hryggdýrin) komu fram á kambríumtímabilinu fyrir um 510 milljónum ára. Sumir fornlíffræðingar telja keilutönnunga til frumstæðra fiska þar sem þeir eru seildýr. Nánari flokkun er að finna í greinninni um hryggdýr. Þróun fiska. Teikning af "Pikaia" eins og hann kann að hafa litið út. Enn er ekki alveg ljóst hvenær fiskar komu fram í þróunarsögunni en líklegt er að það hafi verið á kambríum-tímanum. Fiskar virðast ekki hafa verið fjölmennur hópur dýra til að byrja með og því skilið eftir sig fáa steingervinga. Þetta breyttist þó með tímanum og fiskar urðu ríkjandi dýrategund í hafinu og þróuðust meðal annars yfir í landdýr eins og froskdýr, skriðdýr og spendýr. Fiskar voru fyrstu hryggdýrin. Myndun hreyfanlegs kjálka virðist hafa ráðið úrslitum um útbreiðslu fiska þar sem kjálkalausir fiskar hafa skilið eftir sig fáa afkomendur. Steinsugur kunna að vera fulltrúi þessara kjálkalausu fiska. Steingervðir brynháfar eru fyrstu dæmin um kjálka hjá fiskum en þeir eru frá því seint á sílúrtímabilinu fyrir rúmum 400 milljón árum. Ekki er ljóst hvort aðalkosturinn við hreyfanlegan kjálka sé aukinn bitkraftur, betri öndunarhæfileikar eða blanda af hvoru tveggja. Fiskar eru annar fjölmennasti hópur dýra talið í fjölda tegunda. Aðeins liðdýr telja fleiri tegundir, að hluta vegna fjölda tegunda skordýra. Sumir ætla að fiskar kunni að hafa þróast út frá skepnu sem líktist möttuldýrum, en lirfur þeirra líkjast fiskum að mörgu leyti. Fyrstu forfeður fiskanna gætu hafa haldið lirfuforminu þar til þeir urðu fullvaxta, þótt það gæti líka hafa gerst í hina áttina. Hugsanleg dæmi um elstu fiska eru vankjálkar eins og "Haikouichthys ercaicunensis" og "Pikaia". Líkamsgerð fiska. Líkamsgerð fiska er að stórum hluta aðlögun að eiginleikum vatnsins, sem er mun þéttara en loft, inniheldur tiltölulega lítið af uppleystu súrefni og dregur í sig meira ljós en loftið gerir. Fiskar eru flestir með ugga og hreistur í roðinu. Fiskar eru auk þess með sundmaga sem heldur þeim réttum og gerir þeim kleift að fljóta upp og niður í vatninu án þess að þurfa að synda til þess. Lögun fiska. Nær allir fiskar hafa straumlínulagaðan líkama sem skiptist í haus, skrokk og sporð (styrtlu og sporðblöðku) þótt skiptingin sé ekki alltaf sýnileg. Hausinn nær frá trjónunni, sem er fremsti hlutinn frá augunum að fremsta hluta efri kjálkans, að tálknlokinu sem ver tálknin, yfir kinnina sem nær frá auganu að tálknloksbeininu. Neðri kjálkinn afmarkar kverkina. Aðrir hlutar geta verið á hausnum, eins og skeggþræðir sem stundum líkjast veiðihárum. Margar tegundir fiska eru með fjölbreytta sprota eða gadda á hausnum. Nasaholur fiska tengjast ekki munnholinu heldur eru misdjúpar skálar. Uggarnir. Eitt af því sem helst einkennir fiska eru uggar sem fiskurinn notar til að synda með. Lögun og samsetning ugga er mjög breytileg eftir fiskum og á sumum hafa einstaka uggar þróast í eitthvað allt annað, til dæmis lýsandi agn á höfðinu á kjaftagelgjum og sogskál á kviðnum hjá hrognkelsum. Helstu uggar fiska eru bakuggar, sem geta verið allt að þrír talsins, sporðblaðkan sem kemur aftur úr styrtlunni og flestir fiskar nota til að knýja sig áfram, gotraufaruggi sem er staðsettur aftan við gotraufina, eyruggar sem venjulega eru rétt aftan við tálknlokið og kviðuggar sem venjulega eru fyrir neðan eyruggana. Margir fiskar hafa auk þess fituugga rétt aftan við bakuggana. Roðið. Skinnið á fiskum er kallað roð. Á flestum fiskum er roðið hreistrað en mismikið eftir tegundum. Gerðir hreisturs skiptast í skráptennur sem einkenna skötur og háfiska, tígullaga hreistur sem einkennir meðal annars geddur, disklaga hreistur sem einkennir meðal annars síld og silung, og kamblaga hreistur sem einkennir karfa. Hreistrið hefur þróast út frá brynvörn fornfiska eins og brynháfa. Hægt er að lesa aldur fisksins í árhringjum á disklaga og kamblaga hreistri. Hliðarrákin sem liggur langsum eftir líkama fisksins er skynfæri sem skynjar hreyfingu og titring í vatninu. Meltingarkerfið. Með tilkomu kjálka gátu fiskar farið að éta mun fjölbreyttari fæðu, þar með talið jurtir og aðrar lífverur. Fiskar taka fæðuna inn í gegnum munninn og hún er síðan brotin niður í vélindanu. Þegar hún kemur í magann er hún brotin niður frekar og, hjá mörgum fiskum, unnin áfram í fingurlaga pokum sem heita skúflangar. Líffæri eins og bris og lifur framleiða ensím og ýmis efni til meltingarinnar meðan fæðan flyst eftir meltingarveginum. Görnin lýkur síðan við úrvinnslu fæðunnar og upptöku næringarefna. Brjóskfiskar og frumstæðir beinfiskar eru með spíralgörn þar sem fæðan er áfram unnin. Öndunarkerfið. Flestir fiskar anda með tálknum sem eru fest við tálknbogagrindur úr brjóski eða beini sitt hvorum megin við kokið. Tálknin eru gerð úr tálknþráðum sem hver inniheldur tálknblöð sem aftur innihalda net háræða. Þetta gefur mikinn flöt fyrir skipti súrefnis og koltvísýrings. Fiskar anda með því að draga súrefnisríkt vatn inn um munninn og dæla því gegnum tálknþræðina. Blóðið í háræðunum rennur í öfuga átt við vatnið þannig að loftskiptin fara fram með gagnstreymi. Þeir þrýsta síðan súrefnissnauðu vatninu út um tálknopin á kokinu. Margir brjóskfiskar og flestir beinfiskar sjúga vatnið inn um munninn en til dæmis háfiskar verða að synda stöðugt til að halda gegnumstreymi vatns um tálknin. Tálknopin eru hulin beinþynnum sem nefnast tálknlok. Sumir fiskar, eins og lungnafiskar, hafa þróað með sér líffæri sem nefnist völundarhús sem gerir þeim kleift að lifa af í súrefnissnauðu umhverfi eða vatni sem þornar stöðugt upp. Þessir fiskar eru með sérhæfð líffæri sem virka eins og lungu. Loft berst til þessa líffæris úr munni fisksins um rör. Sumir lungnafiskar eru svo háðir því að fá súrefni úr lofti að þeir kafna ef þeir ná ekki að komast upp á yfirborðið. Blóðrásarkerfið. Fiskar eru með lokað blóðrásarkerfi með hjarta sem dælir blóðinu í hringrás um líkamann. Blóðið fer frá hjartanu í tálknin, þaðan um allan líkamann og aftur að hjartanu. Í flestum fiskum er hjartað fjórskipt: bláæðastokkur, forhólf, slegill og slagæðarkúla. Þrátt fyrir að hafa fjóra hluta er hjarta fiska aðeins með tveimur hólfum. Bláæðastokkurinn er þunnur belgur þar sem blóðið safnast úr æðum fisksins áður en það flæðir yfir í forhólfið sem er stórt vöðvahólf. Forhólfið virkar eins og ventill sem hleypir blóðinu yfir í slegilinn sem er þykkt vöðvahólf sem sér um sjálfa dælinguna. Hann dælir blóðinu út um slagæðarkúluna sem tengist við meginslagæðina þaðan sem það rennur út í tálknin. Þveitikerfið. Líkt og mörg vatnadýr þveita fiskar niturúrgangi sínum í formi ammóníaks. Hluti úrgangsins fer út í vatnið um tálknin. Annar hluti fer um nýrun, líffæri sem sía úrgang úr blóðinu. Nýrun hjálpa fiskum við að halda magni ammóníaks í líkamanum stöðugu. Sjávarfiskar hafa tilhneigingu til að missa vatn með himnuflæði. Hjá sjávarfiskum safna nýrun úrgangsefnum og skila eins miklu vatni og hægt er aftur til líkamans. Hið gagnstæða gerist hjá vatnafiskum sem taka stöðugt upp vatn. Nýru ferskvatnsfiska eru sérhönnuð til að dæla út miklu magni útþynnts þvags. Sumir fiskar hafa sérhæfð nýru sem geta breytt um aðferð og gera þeim kleift að lifa bæði í söltu og fersku vatni. Brjóskfiskar halda efnajafnvæginu við með því að halda eftir miklu magni af þvagefnum. Þessi efni gera það að verkum að kjöt þessara fiska er eitrað ef það er ekki verkað sérstaklega (með kæsingu). Taugakerfið. Fiskar eru með háþróað taugakerfi sem er miðstýrt af heila sem í fiskum nefnist kvarnir. Kvarnirnar skiptast í nokkra hluta. Fremsti hlutinn ræður þefskyni fisksins. Ólíkt flestum hryggdýrum vinnur stórheili fiska fyrst og fremst með þefskyn þeirra en ber ekki ábyrgð á öllum sjálfráðum hreyfingum. Sjónblöðin vinna úr upplýsingum frá augunum meðan mænukylfan stjórnar innyflunum. Flestir fiskar eru með háþróuð skynfæri. Nær allir dagfiskar hafa góð augu með litasjón sem er að minnsta kosti jafngóð og manna. Margir fiskar hafa auk þess sérhæfða efnanema sem gefa þeim öflugt þef- og bragðskyn. Fiskar skynja bragð á mörgum stöðum líkamans. Þeir eru með eyru inni í höfðinu en heyra ekki vel með þeim. Aftur á móti hafa fiskar hliðarrák sem gerir þeim kleift að nema vatnsstraum og titring og skynja þannig hreyfingu annarra dýra í vatninu. Sumir fiskar, eins flestir brjóskfiskar og leirgeddur til dæmis, hafa skynfæri sem skynja veikan rafstraum. Aðrir, eins og hrökkáll, geta framleitt eigið rafmagn. Vöðvakerfi. Flestir fiskar hreyfa sig með því að draga saman til skiptis vöðvapör sitt hvorum megin við hrygginn. Þessir samdrættir mynda S-laga sveigjur sem færast aftur eftir skrokknum. Þegar þær ná sporðinum verður til afturhnykkur sem, ásamt uggunum, færir fiskinn áfram. Uggar fisksins virka eins og stýriskambur flugvélar. Uggarnir auka einnig yfirborð halans og gefa aukinn kraft í hreyfinguna. Straumlínulaga skrokkur fisksins dregur úr vatnsviðnámi þegar hann syndir áfram. Þar sem líkamsvefurinn er þéttari en vatnið þarf fiskurinn að bæta upp muninn eða sökkva ella. Þess vegna hafa flestir beinfiskar sundmaga sem stjórnar floti þeirra. Æxlunakerfið. Laxahrogn eru álitin herramannsmatur á mörgum stöðum. Hrogn fiska frjóvgast ýmist utan eða innan líkamans eftir tegundum. Venjulega hrygnir kvenfiskurinn og seiðin klekjast út utan líkama hennar. Fóstur slíkra eggbærra fiska þroskast með því að nærast á eggjahvítu í egginu. Lax er dæmi um eggbæran fisk. Hjá eggfósturbærum fiskum haldast eggin inni í líkama hrygnunnar eftir frjóvgun og hvert fóstur þroskast í eigin eggi. Seiðin fæðast síðan sem „lifandi afkvæmi“, líkt og flest spendýr. Sumar tegundir fiska, eins og sumir háfiskar, eru fósturbærar þannig að fóstrið þroskast inni í líkama móðurinnar en fær nauðsynlega næringu í gegnum hana fremur en úr egginu. Ónæmiskerfið. Ónæmislíffæri fiska eru mismunandi eftir tegundum. Vankjálka skortir raunverulega eitla þannig að þeir treysta á eitlavefi í öðrum líffærum til að framleiða ónæmisfrumur. Rauðar blóðflögur, átfrumur og plasmafrumur eru til dæmis framleiddar í fornýranu og sumir staðir í iðrunum (þar sem kornfrumur þroskast) líkjast frumstæðum beinmerg í slímálum. Brjóskfiskar (skötur og háfiskar) hafa þróaðara ónæmiskerfi en vankjálkar. Þeir eru með þrjú sérhæfð líffæri sem eru einstök fyrir þennan flokk og hýsa hefðbundnar ónæmisfrumur (kornfrumur, eitilfrumur og plasmafrumur). Þeir eru líka með greinilegan hóstakirtil og vel þróað milta (mikilvægasta ónæmislíffæri þeirra) þar sem ýmsar gerðir eitilfruma, plasmafruma og átfruma verða til og eru geymdar. Brjóskgljáfiskar (til dæmis styrjur) framleiða kornfrumur í massa sem tengist heilahimnunni og hjarta þeirra er oft hulið vef sem geymir eitilfrumur, grisjufrumur og lítið magn átfruma. Mikil blóðfrumumyndum fer fram í nýrum brjóskgljáfiska þar sem rauð blóðkorn, kornfrumur, eitilfrumur og átfrumur þroskast. Líkt og hjá brjóskgljáfiskum eru helstu ónæmisvefir beinfiska nýrun (sérstaklega fornýrað) þar sem margar ónæmisfrumur eru geymdar. Að auki eru beinfiskar með hóstakirtla, milta og dreifð ónæmissvæði í slímvefjum (til dæmis í roði, tálknum, iðrum og kynkirtlum). Líkt og í ónæmiskerfi spendýra er talið að rauð blóðkorn, dauffrumur og kornfrumur séu hýst í miltanu meðan eitilfrumur eru helsta tegundin sem finnst í hóstakirtlinum. Sjúkdómar. Fiskar fá sjúkdóma, rétt eins og aðrar lífverur. Fiskasjúkdómar geta valdið miklum skaða í fiskeldi eða skrautfiskaræktun. Sjúkdómar í fiski eru flokkaðir eftir ástæðu í bakteríusýkingar, sveppasýkingar, sníkla (til dæmis hringorma), vírussjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, sjúkdóma af völdum ástands vatnsins (umhverfissjúkdómar) og skortssjúkdóma eða eftir þeim líffærum sem verða fyrir sjúkdómnum. Meðferð við sjúkdómum í fiski er með ýmsum hætti og fer eftir bæði sjúkdómnum og umhverfisaðstæðum. Fiskar í menningunni. Fiskar meðal fæðutegunda sem málaðar eru á vegg grafhýsis egypsks faraós. Mikilvæg fæða manna. Fiskar eru mikilvæg fæða ýmissa spendýra, eins og til dæmis bjarndýra, hvala og ekki síst manna. Fiskar hafa frá örófi alda verið mönnum gríðarlega mikilvæg uppspretta fæðu og ein af ástæðum þess að margar elstu mannabyggðir sem finnast eru við ár og vötn. Fiskur er mikilvæg uppspretta ýmissa nauðsynlegra næringarefna og mikil neysla fisks er talin geta unnið gegn ýmsum sjúkdómum eins og til dæmis hjartasjúkdómum (sjá fiskur (matargerð)). Hæsta hlutfall fisks í fæðu manna er í Austurlöndum fjær, og þá sérstaklega í Japan. Stærsti fiskmarkaður heims er Tsukiji í Tókýó þar sem verslað er með um 10 þúsund tegundir fiska og annarra vatnadýra sem nú til dags berast alls staðar að úr heiminum. Þróun tækni til fiskveiða, frá þríforkinum að frystitogurum, hefur haft áhrif á viðgang menningarsvæða. Gott dæmi um það er mikil fjölgun íbúa Íslands með þilskipaútgerð fyrst og síðan vélbátaútgerð á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Tækniþróunin hefur ekki síst miðað að því að auka bæði magn og gæði aflans og jafnframt að hlífa þeim fiskum sem mikilvægastir eru fyrir viðgang stofnsins. Fiskeldi er stundað bæði í sjó og ferskvatni á ýmsum tegundum fiska. Með árunum hafa verið gerðar tilraunir til að ala sífellt fleiri tegundir. Með fiskeldi er hægt að minnka áhættuna við framleiðslu fiskafurða og hugsanlega draga úr ágangi í villta stofna. Sjúkdómar gera þó oft mikinn usla í fiskeldi og ýmis umhverfisáhrif fylgja umfangsmiklu eldi. Hættur sem steðja að fiskistofnum. Þrátt fyrir skilvirkari veiðitækni hefur gríðarleg sókn manna í fiskistofna, samfara auknum fólksfjölda og aukinni veiðigetu, haft þau áhrif að draga verulega úr styrk margra tegunda og útrýmt öðrum. Talið er að á síðustu hundrað árum hafi líffræðilegur fjölbreytileiki vatna, fljóta og úthafanna minnkað gríðarlega, bæði vegna ofveiði og mengunar. Skilningur á vistkerfum vatnasvæða hefur aukist á sama tíma og reynt hefur verið að koma á sjálfbærri nýtingu þar sem stofnarnir skaðast ekki við veiðarnar. Reynt hefur verið að koma á og framfylgja banni við ýmsum tegundum veiðarfæra eins og reknetum og botnvörpum vegna verndunarsjónarmiða. Mesta hættan sem steðjar að fiskistofnum í dag er þó mengun vatnsins af mannavöldum. Iðnbyltingin og gríðarleg fólksfjölgun í heiminum hafa haft í för með sér stóraukið útfall úrgangsefna í höf og vötn sem skapar hættu á eitrun og eyðileggingu heilla vistkerfa með alvarlegum afleiðingum fyrir manninn sjálfan (sjá ofauðgun). Mengunarslys þar sem til dæmis olía eða geislavirkur úrgangur sleppur út í vatn af mismiklum óvilja valda hruni í vistkerfum sem hugsanlega ná sér aldrei eftir. Alvarleg slys af því tagi eru þó tiltölulega sjaldgæf. Jafnvel þótt sjálfir fiskarnir geti sloppið við neikvæð áhrif mengunar getur hún engu að síður haft mikil áhrif á þá óbeint með því að eitra fæðukeðjuna eða eyðileggja búsvæði þeirra (til dæmis kóralrif). Fiskar í list og trúarbrögðum. Fiskar koma fyrir í forsögulegri myndlist ásamt öðrum fæðutegundum manna. Fiskar koma fyrir sem tákn í fornum trúarbrögðum. Dæmi um þetta er fiskurinn sem gleypti kynfæri Ósíríss. Fiskar koma fyrir sem tákn frjósemi bæði kvenna og karla í trúarbrögðum Babýlóníumanna, Forn-Egypta og Indverja. Í frumkristni varð fiskurinn tákn Jesúss, þar sem upphafsstafirnir í gríska nafninu „Jesús Kristur guðs son frelsari“ ("Ιησους Χριστος Θεου Υιος Σωτηρ", "Iesous Kristos Þeou Yios Soter") mynda orðið „fiskur“ (gríska: "Ιχθυς", "Ikþys"). Táknið var notað sem kennimark meðal kristinna manna á tímum trúarofsóknanna í Rómaveldi. Vegna þessa og vegna þeirra sagna Nýja testamentisins sem fjalla um fiska (kraftaverkið varðandi fiskana og brauðin og orð Jesúss við fiskimennina Símon Pétur og Andrés bróður hans „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða“) urðu til þess að fiskar fengu dulfræðilega merkingu í kristni ýmist sem tákn Krists eða kristinna manna almennt. Í kyrralífsmyndum flæmskra listamanna og annarra norður-evrópskra listamanna eru fiskar algengir meðal annarra matvara, oft sem allegóría. Í japönskum náttúrulífsmyndum voru fiskar líka algengt myndefni. Merki um mikilvægi fiskveiða fyrir efnahag Íslands má líka sjá í verkum margra íslenskra listamanna frá því um og fyrir miðja 20. öld. Sem dæmi má nefna fræga myndröð Kjarvals í Landsbankahúsinu (sem stundum er kölluð "Lífið er saltfiskur"). Jean-Philippe Rameau. Jean-Philippe Rameau (25. september 1683 – 12. september 1764) var franskt barokktónskáld. Hann tók við af Lully sem helsti óperusmiður Frakklands. Veðurkóngur. Veðurkóngur var fyrsta útgefna verk fjöllistarhópsins Kosijama. Lagið var gefið út í lok árs 2000 eða sama ár og fjöllistarhópurinn var stofnaður. Sniðmengi. a> af sniðmengi "A" og "B" (lesið „A snið B“) Sem dæmi er sniðmengi mengjanna formula_10 og formula_11 mengið formula_12 Ef sniðmengi tiltekinna mengja er tómt eru mengin sögð sundurlæg. Bæjarins bestu (hljómsveit). Bæjarins bestu er íslensk rapp-hljómsveit sem stofnuð var upp úr 2000 af þeim Daníel Ólafssyni (Deluxe) og Halldóri Halldórssyni (Dóra DNA). Seinna bættist rapparinn Kjartan Atli Kjartansson (Kamalflos, Kájoð) í hópinn. Saga. Þeir gáfu út diskinn "Tónlist til að slást við" sem seldist ágætlega. Frægasta lagið á disknum var Í Klúbbnum og var myndbandið við lagið mikið spilað. Einnig þótti titillag plötunnar vera afar gott. Báðir rapparar sveitarinnar hafa unnið rímnastríð og tvisvar sinnum mæst í úrslitum. Dóri DNA hefur unnið keppnina tvisvar en Kájoð einu sinni. Þeir þykja með betri frjálsrímurum Íslands. Allir meðlimir Bæjarins Bestu hafa tekið þátt í Morfís og komst Halldór í úrslit með MH en Kjartan tók þátt fyrir hönd FG meðan Daníel tók þátt fyrir MS. Brennisóley. Brennisóley (fræðiheiti: "Ranunculus acris") er blóm af sóleyjaætt sem finnst út um allt í Evrópu, Asíu, Afríku og Norður-Ameríku, meðal annars á Grænlandi og Íslandi. Brennisóley verður 30-100 cm á hæð. Hún vex í graslendi, á engjum og í fjallshlíðum í allt að 2.400 metra hæð. Blómið er gult með fimm krónublöð. Safi jurtarinnar inniheldur ranúnkúlín sem breytist í eiturefnið prótó-anemónín við vatnsrof. Þetta veldur því að grasbítar á beit forðast hana en geta hins vegar étið hana sé hún þurrkuð (t.d. við slátt og verkun í hey). Langtímasnerting getur valdið roða og neysla bólgum í maga. Á Íslandi. Á Íslandi blómgast brennisóleyjar í maí til júní og finnast um nánast allt land (m.a. í Surtsey), í fjalllendi finnst hún oft upp í 900 metra hæð en er hæst fundin í 1100 metra hæð á Litlahnjúk við Svarfaðardal. Súesskurðurinn. Súesskurðurinn er 163 km langur skipaskurður yfir Súeseiðið í Egyptalandi. Skurðurinn nær frá Port Saíd við Miðjarðarhafið að Súesflóa í Rauðahafi. Skurðurinn er gríðarlega mikilvæg siglingaleið þar sem hann gerir skipum kleift að sigla milli Asíu og Evrópu án þess að þurfa að fara kringum Afríku. Framkvæmdir hófust 25. apríl 1859 og lauk 17. nóvember 1869 en þá var hann formlega opnaður. Penistone. Penistone er vinabær Grindavíkur í Englandi. Bærinn er í Suður-Yorkshire, 10 km suðvestan við Barnsley. Jonzac. Jonzac er vinabær Grindavíkur í Frakklandi. Þar eru dótturfyrirtæki SÍF; Nord-Morue og kæligeymslur þeirra fyrir útflutning Íslendinga á saltfiski staðsettar. Þaðan er saltfiski dreift niður til Spánar, Ítalíu og Grikklands. James Watt. James Watt (1736-1819) var skoskur uppfinningamaður. Endurbætur hans á gufuvélinni gegndu lykilhlutverki í iðnbyltingunni. Hann var fæddur í Greenock í Skotlandi árið 1736 en bjó og starfaði í Birmingham á Englandi. Margar af greinum hans eru geymdar í bókasafninu í Birmingham. Goðsagan um að Watt hafi fundið upp gufuvélina eftir að hafa horft á ketil móður sinnar sjóða yfir eldi, er ekki sönn. Gufuvélin var þegar til en uppfinningar Watts gerðu hana afkastameiri og nýtanlegri í iðnaði. Tenglar. Watt, James Nicolas Léonard Sadi Carnot. Nicolas Léonard Sadi Carnot (1796-1832) var franskur stærðfræðingur sem gaf fyrstur manna, fullnægjandi fræðilega skýringu á virkni varmavéla (Carnot-hringrásin) og lagði þar með grundvöllinn að öðru lögmáli varmafræðinnar. Rudolf Clausius. Rudolf Julius Emanuel Clausius (2. janúar 1822 - 24. ágúst 1888) var þýskur eðlis- og stærðfræðingur. Clausius var einn af frumkvöðlum varmafræðinnar. Í mikivægustu ritgerð hans, „Um aflfræðilegu kenninguna um varma“, sem birtist árið 1850, var í fyrsta sinn gerð grein fyrir grunnhugmyndum annars lögmáls varmafræðinnar. Árið 1865 kynnti Clausius svo hugtakið um óreiðu. Clausius, Rudolf Clausius, Rudolf Fahd bin Abdul Aziz al-Saud. Fahd bin Abdul Aziz al-Saud, (arabíska: فهد بن عبد العزيز آل سعود), (líklega fæddur 1923 – 1. ágúst 2005) var konungur og forsætisráðherra Sádí-Arabíu og höfuð Saud-ættarinnar. Hann var frá Ríad. Fahd varð konungur árið 1982 þegar hálfbróðir hans, Khalid bin Abdul Aziz al-Saud, lést. Hann hafði þá þegar haft stjórnartaumana í hendi sér lengi þar sem Khalid hafði lítinn áhuga á stjórnmálum. Fahd fékk síðan hjartaáfall árið 1995 og gat eftir það ekki sinnt opinberum skyldum sínum. Hálfbróðir hans, Abdullah bin Abdul Aziz al-Saud, var því ríkisstjóri þar til Fahd lést og Abdullah tók formlega við konungstign. Abdullah bin Abdul Aziz al-Saud. Abdullah bin Abdul Aziz al-Saud (arabíska: عبد الله بن عبد العزيز السعود), (fæddur 1924), er konungur Sádí-Arabíu frá 1. ágúst 2005. Hann tók við af hálfbróður sínum Fahd konungi. Faðir hans var Ibn Saud, stofnanda konungsríkisins. Ibn Saud eignaðist 37 syni, Abdullah er sá fimmti sem tekur við konungsdæminu. Abdullah aðhyllist Salafi-túlkun á súnní-hreyfingu íslam. Ævi. Abdullah konungur var fæddur í Ríad, höfuðborg Sádí Arabíu, árið 1924. Móðir hans var Fahda bint Asi Al Shuraim af Shammar-ættbálknum, áttunda eiginkona Ibn Sauds. Abdullah vann sig upp metorðastigann innan sádí-arabíska konungsdæmisins og var orðinn aðstoðar-forsætisráðherra í júní 1982. Abdullah hefur verið giftur 30 konum og á með þeim a.m.k. 20 dætur og 15 syni. Persaflói. Persaflói (persneska: خلیج پارس, arabíska: الخليج الفارسی) er flói sem teygist í vestur inn af Ómanflóa á milli Írans ("Persíu") og Arabíuskagans. Persaflói tengist Ómanflóa um Hormússund. Í vestri liggja árósar Sjatt al-Arab sem er mynduð úr samruna ánna Tígris og Efrats. Flóinn er 989 kílómetrar að lengd. Hann er grunnur og nær aldrei meira en 60 metra dýpi. Nafnið "Persaflói" hefur tíðkast síðan í fornöld. Eftir 1960 tóku Arabaríkin upp nafnið "Arabíski flóinn", en flest lönd og alþjóðastofnanir kalla hann Persaflóa. Lönd með strandlengju að Persaflóa (stundum kölluð „Persaflóaríkin“) eru Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía, Katar, Barein, Kúveit og Írak. Margar litlar eyjar eru í flóanum. Persaflóaríkin eru gríðarlega mikilvæg uppspretta hráolíu og olíuiðnaðurinn er ríkjandi iðnaður á svæðinu. Karþagó. a> og fleiri komu í verk Karþagó (úr fönísku: QRT HDŠT, með sérhljóðum: "Qart-Hadasht", „Nýjaborg“) var borg í Norður-Afríku austan megin við Túnisvatn beint á móti borginni Túnis. Hún var stofnuð um 814 f.Kr. af Föníkum (Púnverjum) en íbúar Karþagó eru einmitt nefndir "Púnverjar". Borgin varð miðstöð verslunar við Miðjarðarhafið á 6. öld f.Kr. og lenti því á móti fyrst Forngrikkjum í Sikileyjarstríðunum á 5. og 4. öld f.Kr. og síðan Rómverjum í púnversku stríðunum á 3. og 2. öld f.Kr. Þriðja púnverska stríðið endaði með því að borgin beið algeran ósigur og Rómverjar lögðu hana í rúst. Á síðari hluta 2. aldar e.Kr. óx hún sem höfuðstaður rómverska skattlandsins Afríku. Borgin varð síðan hluti af veldi Býsans þar til hún féll fyrir arabískum innrásarherjum undir lok 7. aldar. Tadsjikar. Tadsjikar eru eitt af helstu þjóðarbrotum Mið-Asíu. Þeir búa flestir í Afganistan, Tadsjikistan, Úsbekistan og Pakistan. Að auki er stór hópur tadsjískra flóttamanna í Íran og öðrum löndum heimsins. Tadsjikar eru afkomendur fornra íranskra þjóðflokka, svo sem baktra, sogda og parþa, sem settust að í Mið-Asíu í fornöld. Tadsjikar tala flestir persnesku og eru súnnítar. Uppruna tadsjika sem „þjóðar“ má rekja til Samaníðaríkisins á 9. og 10. öld. Samarkand. Samarkand (úsbekíska: Самарқанд, persneska: سمرقند) (íbúafjöldi: 400.000) er önnur stærsta borg Úsbekistans og höfuðstaður Samarkandhéraðs. Meirihluti íbúa borgarinnar eru tadsjikar. Borgin var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 2001. Borgin er ein af elstu byggðu borgum heims. Hún dafnaði sem einn af áfangastöðunum á Silkiveginum milli Kína og Evrópu. Moska. Moska (arabíska مسجد "masǧid", fleirtala "masaǧid") er íslömsk helgibygging, einkum hugsuð sem bænahús og fyrir Kóranrannsóknir, en ekki fyrir hluti eins og giftingar og skírnir. Fyrsta moska heims var Kaba í Mekka og fyrsta moskan í Medínu var hús spámannsins Múhameðs. Einkenni á moskum eru turninn ("manāra") þaðan sem múeðíninn kallar til bænar, vatnsker eða brunnur til hreinsunar fyrir bænina, útskot ("miḥrāb") í þeim vegg sem snýr í átt að Mekka og jafnvel predikunarstóll ("minbar") þar við hliðina þar sem imaminn heldur föstudagsræðuna. Guðsþjónustuhús múslima heitir moska. Orðið merkir „staður þar sem fallið er fram“, þ.e. til bæna. Við flestar moskur er einn eða fleiri turnar sem kallast miaret. Í hvert skipti sem kallari hrópar úr turni mosku kemur fólk til að biðjast fyrir. Áður en menn fara inn í mosku lauga þeir hendur, andlit, handleggi, höfuð og fætur í vatni forgarði moskunnar. Þvotturinn er táknrænn — menn hreinsa bæði líkama og sál áður en þeir biðjast fyrir. Inni í moskunni eru menn berfættir en með höfuðfat. Á gólfinu er teppi. Í stærri moskum er bænagjörðin stjórnað af sérstökum stjórnanda eða leiðtoga sem kallast imam en í rauninni getur hver fullorðinn karlmaður stjórnað bænagjörð ef þörf krefur. Seglskúta. Seglskúta, seglskip, seglbátur eða kjölbátur er skip sem notast við segl til að láta vindinn knýja sig áfram. Seglskútur áttu sitt blómaskeið á skútuöld, þegar þær urðu gríðarlega stórar og voru ráðandi tækni í alþjóðaviðskiptum og sjóhernaði. Stærstu skipin urðu til á 18. og 19. öld en um miðja 19. öld tóku gufuskip og síðar vélbátar við. Saga siglinga. Segl voru notuð til að knýja áfram stærri og minni skip frá alda öðli og voru notuð samhliða árum og stjökum. Með því að notast við segl var hægt að smíða miklu stærri skip en hægt var að knýja áfram með árum eingöngu. Seglskip voru notuð fyrir farþegaflutninga, vöruflutninga, póstflutninga og sem herskip. Gríðarlegar sjóorrustur voru háðar á seglskipum á skútuöld og sjóræningjar herjuðu á kaupskip og fiskiskip á fjölförnum skipaleiðum. Að sigla seglskipi útheimtir þekkingu á seglbúnaðinum og jafnvel litlar skútur þurfa áhöfn þar sem menn taka að sér ákveðin verk um borð. Þegar siglt er allan sólarhringinn er áhafnarmeðlimum skipað niður á vaktir og skipsbjalla notuð til að gefa merki um vaktaskipti. Þjálfun sjómanna var gríðarlega mikilvæg á skútuöld, ekki síst vegna þess að sjómenn á fiskiskipum og kaupskipum voru stundum kallaðir til að þjóna á herskipum í stríði. Nú til dags eru seglskip aðallega notuð sem skemmtibátar þótt stærri seglskip séu enn notuð til vöruflutninga á Indlandshafi og seglbátar séu enn notaðir til fiskveiða um allan heim. Hásigld skip eru fyrst og fremst notuð sem skólaskip til þjálfunar og sem sýningargripir, en fæstar skútur í dag eru með toppsegl. Siglingatækni. Norska fullbúna skipið "Christian Radich" undir seglum. Vindstigakvarðinn var saminn á 19. öld og miðaðist við þarfir seglskipa, einkum stærri skipa sem sigldu um úthöfin. Fyrir slík skip gat verið jafnhættulegt að lenda í logni og reka stjórnlaust með hafstraumum, eins og að lenda í stormi og hætta á að eyðileggja seglbúnaðinn. Aðalvandinn við að sigla stórum seglskútum á áætlunarleiðum er síbreytileiki vindsins. Þannig getur skipi verið ógerlegt að komast tiltekna leið vegna þess að ekki er hægt að beita seglum þannig. Í fornöld og á miðöldum var jafnvel stórum seglskipum róið með árum ef þurfti. Stærri árabátar voru auk þess með seglbúnað til að létta erfiðið um borð þannig að skilin milli seglbáta og árabáta geta verið breytileg; munurinn liggur í því hvor aðferðin (róa eða sigla) er mest notuð, þannig að t.d. langskip er seglskip, en galeiða er áraskip þótt báðar tegundirnar séu búnar bæði árum og seglum. Um leið og gufuvélin kom fram á sjónarsviðið og síðar díselvélar með skrúfu var farið að nýta vélarafl í bland við seglin. Jafnvel með lítilli vél er hægt að sigla skipinu á móti vindi auk þess sem það er auðveldara að beita skipinu á þröngum leiðum, við landsteina eða í höfnum. Fyrir tilkomu hjálparvéla voru dráttarbátar stundum notaðir til að draga stærri seglskip út á sjó úr höfn og fram hjá skerjum. Nú til dags eru flest seglskip búin hjálparvél, ýmist díselvél innanborðs eða með utanborðsmótor. Gerðir seglskipa. Margar ólíkar tegundir af seglskútum eru til, en þær eiga þó allar ýmislegt sameiginlegt. Allar hafa þær skrokk og seglbúnað (siglutré, segl og stög). Kjölur og kjölfesta mynda svo mótvægi við hliðarátakið þegar vindurinn blæs í seglin og koma í veg fyrir að bátnum hvolfi. Hverrar tegundar skútan er ræðst af því hvernig þessum hlutum er komið fyrir í hönnun skipsins. Jón Baldvin Hannibalsson. Jón Baldvin Hannibalsson (fæddur 21. febrúar 1939) er íslenskur stjórnmálamaður. Hann var þingmaður Reykjavíkur 1982 – 1998, formaður Alþýðuflokksins 1984 – 1996, fjármálaráðherra Íslands frá 1987 – 1988 og utanríkisráðherra Íslands 1988 – 1995. Sendiherra í Washington í Bandaríkjunum og síðar í Helsinki í Finnlandi. Foreldrar Jóns voru Hannibal Valdimarsson, ráðherra, og Sólveig Ólafsdóttir, húsmóðir. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Jón er með MA-gráðu í hagfræði frá Edinborgarháskóla. Hann stundaði framhaldsnám við Stokkhólmsháskóla og Miðstöð Evrópufræða við Harvard-háskóla. Hann útskrifaðist einnig með próf í uppeldis- og kennslufræðum HÍ 1965. Jón starfaði framan af við blaðamennsku og kennslu. Jón kenndi í Hagaskóla í Reykjavík 1964 – 1970 og var skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 1970 – 1979. Hann vann sem blaðamaður við Frjálsa þjóð 1964 – 1967 og var ritstjóri Alþýðublaðsins 1979 – 1982. Jón var kærður til lögreglu vegna meintrar kynferðislegrar áreitni, í formi einkabréfa, við unga frænku eiginkonu sinnar árið 2005 en kærunni var vísað frá. Kæran var tekin upp aftur við embætti saksóknara. Í það skiptið snerist hún um að Jón hefði „sært blygðunarkennd“ viðtakanda bréfsins. Þessu máli var líka vísað frá. Málið komst svo í kastljós fjölmiðla vorið 2012 þegar tímaritið "Nýtt líf" birti hluta bréfanna ásamt viðtali við stúlkuna, sem hafði fengið bréfin send. Ráðning Jóns sem gestafyrirlesara við Háskóla Íslands 2013 var afturkölluð, þegar umræða um bréfamálið fór aftur af stað í bloggheimum. Alþýðuflokkurinn. Alþýðuflokkurinn var íslenskur jafnaðarmannaflokkur stofnaður árið 1916 í þeim yfirlýsta tilgangi að vera stjórnmálaafl verkalýðsfélaganna í landinu, flokkurinn hafði þrisvar forsætisráðuneytið og átti aðild að stofnun Samfylkingarinnar 1998 og var þar með lagður niður. Á starfstíma sínum var Alþýðuflokkurinn í meiri en helmingi af ríkisstjórnum landsins. Fyrst átti Alþýðuflokkurinn þátt í Stjórn hinna vinnandi stétta 1931-1940. Lengsta ríkisstjórnarseta Alþýðuflokksins var í Viðreisnarstjórninni á árunum 1959-1971. Aðalmálgagn Alþýðuflokksins var Alþýðublaðið sem kom út frá árinu 1919 til 1997. Saga Alþýðuflokksins. Alþýðuflokkurinn var formlega stofnaður í Reykjavík 12. mars árið 1916 sem stjórnmálaarmur Alþýðusambands Íslands. Helstu hvatamenn að stofnun hans voru Ólafur Friðriksson, Jón Baldvinsson, Ottó N. Þorláksson og Jónas Jónsson frá Hriflu (sem þó gekk ekki í flokkinn). Á stofnfundinum voru fulltrúar frá sjö verkalýðsfélögum úr Reykjavík og Hafnarfirði. Stefna flokksins var í anda jafnaðarstefnunnar (sósíaldemókrata) og stofnuð voru félög jafnaðarmanna um allt land. Flokkurinn tók fyrst þátt í kosningum 1916 en fékk engan þingmann kjörinn. Fyrsta flokksfélag flokksins var Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur stofnað 1917. 1926 gekk flokkurinn í Alþjóðasamband jafnaðarmanna. Stjórnarþátttaka. Fyrir kosningarnar 1923 og 1927 átti Alþýðuflokkurinn í óformlegu samstarfi við Framsóknarflokkinn sem fólst í því að vera ekki með gagnframboð í kjördæmum. Enda var þingmaður Framsóknarflokksins, Jónas frá Hriflu, einn af stofnendum flokksins. Fyrsta stjórnarþátttaka Alþýðuflokksins var auk þess í Stjórn hinna vinnandi stétta með Framsóknarflokknum. Ákveðin verkaskipting var með flokkunum þar eð Framsóknarflokkurinn höfðaði til sveita og Alþýðuflokkurinn til hins ört vaxandi þéttbýlis. Lengsta samfellda stjórnarþátttaka Alþýðuflokksins var þó með Sjálfstæðisflokknum í Viðreisnarstjórninni 1959 til 1971. Alþýðuflokkurinn átti aðild að stjórn Þorsteins Pálssonar 1987 sem sprakk að við lá í beinni útsendingu 1988 og síðan í þeim „vinstristjórnum“ sem fylgdu í kjölfarið undir forsæti Steingríms Hermannssonar. Síðast átti Alþýðuflokkurinn aðild að Viðeyjarstjórninni með Sjálfstæðisflokki 1991-1995. Þá var Jón Baldvin Hannibalsson, formaður flokksins, utanríkisráðherra og átti meðal annars stóran þátt í því að Ísland gerðist aðili að EES og varð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna. Klofningur. Margoft í sögu flokksins varð klofningur, bæði til vinstri eða í kjölfar sameiningartilrauna flokka á vinstri vængnum og eins í tengslum við tiltekin málefni. Kommúnistaflokkur Íslands klofnaði út úr honum árið 1930. Árið 1937 var Héðinn Valdimarsson rekinn úr flokknum fyrir að reyna að stofna til samfylkingar með kommúnistum í trássi við samþykktir flokksins. Það ár stofnuðu Héðinn og kommúnistar Sameiningarflokk Alþýðu - Sósíalistaflokkinn. Á árunum 1940-42 skildi á milli Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins. Ákveðið var á sambandsþingi að Alþýðusambandið myndi starfa sjálfstætt til þess að geta höfðað til kjósenda allra flokka. Talið var óhollt hugsjónum verkalýðsbaráttunni um bætt kjör og réttindi að spyrða ASÍ of fast við tiltekinn stjórnmálaflokk. Árið 1956 gekk fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, og þáverandi formaður Alþýðusambands Íslands Hannibal Valdimarsson úr Alþýðuflokknum ásamt öðrum í málfundafélagi jafnaðarmanna og stofnaði Alþýðubandalagið ásamt Sósíalistaflokknum. Árið 1983 bauð fyrrverandi menntamálaráðherra Alþýðuflokksins, Vilmundur Gylfason, sig fram til Alþingis undir merkjum Bandalags jafnaðarmanna. Að síðustu, árið 1994, klauf Jóhanna Sigurðardóttir ásamt Ágústi Einarssyni sig út úr Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka. Fylgi. Þrátt fyrir að taka þátt í meira en helmingi allra ríkisstjórna frá stofnun lýðveldis varð Alþýðuflokkurinn aldrei sú valdastofnun á Íslandi sem systurflokkar hans á hinum Norðurlöndunum urðu (Sósíaldemókratar í Danmörku, Sósíaldemókrataflokkurinn í Finnlandi, Verkamannaflokkurinn í Noregi og Sænski sósíaldemókratíski verkamannaflokkurinn í Svíþjóð). Mest fékk flokkurinn 22% atkvæða í kosningunum 1978 (á sama tíma og Alþýðubandalagið fékk sitt mesta sögulega fylgi) en kjörfylgi flokksins var oftast í kringum 15%. Endalok. Í borgarstjórnarkosningum 1994 og 1998 bauð flokkurinn fram ásamt Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og Samtökum um kvennalista undir nafni R-listans. Árið 1998 gekk flokkurinn inn í Samfylkinguna. Þessalía. Kort sem sýnir Þessalíu á Grikklandi. Þessalía (gríska: Θεσσαλια) er eitt af þrettán héruðum Grikklands og skiptist í fjögur umdæmi. Höfuðstaður héraðsins er Larissa. Héraðið er í miðhluta landsins og á landamæri að Makedóníu í norðri, Epírus í vestri, Sterea Hellas eða Mið-Grikklandi í suðri og Eyjahafi í austri. Norður. Norður er ein af höfuðáttunum fjórum. Norður er andspænis suðri og er á áttavita táknuð með 0°, á venjulegu korti er norður upp. Stefnuásinn norður-suður er hornréttur á stefnuásinn austur-vestur. Norður er höfuðátt höfuðáttanna ef svo mætti segja, því að allar hinar áttirnar eru mældar út frá norðri. Suður. Suður er ein af höfuðáttunum fjórum. Suður er andspænis norðri og er á áttavita táknuð með 180°, á venjulegu korti er suður niður. Stefnuásinn norður-suður er hornréttur á stefnuásinn austur-vestur. Vestur. Vestur er ein af höfuðáttunum fjórum. Vestur er andspænis austri og er á áttavita táknuð með 270°, á venjulegu korti er vestur til vinstri. Stefnuásinn austur-vestur er hornréttur á stefnuásinn norður-suður. Austur. Austur er ein af höfuðáttunum fjórum. Austur er andspænis vestri og er á áttavita táknuð með 90°, á venjulegu korti er austur til hægri. Stefnuásinn austur-vestur er hornréttur á stefnuásinn norður-suður. Höfuðátt. Höfuðátt er ein af aðaláttunum fjórum, norður, suður, vestur og austur, þær samsvara eftirfarandi gráðum á áttavita: norður 0°, austur: 90°, suður: 180°, vestur: 270°, hinar áttirnar sem eiga sér nafn eru milliáttirnar. Rúten. Rúten (einnig rúteníum, rúþen eða rúþeníum) er frumefni með efnatáknið Ru og er númer 44 í lotukerfinu. Þetta er sjaldgæfur hliðarmálmur í platínuflokknum, finnst í tengslum við platínugrýti og er notaður sem hvati í sumum platínumálmblöndum. Almenn einkenni. Rúten er fjölgildur, harður, hvítur málmur sem tilheyrir platínuflokknum. Það hefur fjórar kristalsgerðir, tærist ekki við stofuhita, en oxast með sprengikrafti. Rúten leysist upp í bráðnum alkalímálmum, er ónæmt fyrir sýru en ekki halógenum við hátt hitastig eða hýdroxíðum. Í smáum skömmtum getur rúþen aukuð hörku platínu og palladíns. Tæringarþol títans eykst merkjanlega ef bætt er við rúteni í litlu magni. Hægt er að málmhúða þennan málm með annaðhvort raffellingu eða sundurliðingu við hita. Ein rúten-mólybden málmblanda hefur fundist sem að er ofurleiðandi við 10.6 K. Oxunarstig rútens eru á bilinu +1 til +8. -2 er einnig þekkt. Algengustu oxunarstigin eru +2, +3 og +4. Notkun. Rúten er notað í platínu- og palladínmálmblöndur sökum góðra herðunareiginleika sinna, sem að svo eru notaðar til að framleiða gríðarlega slitþolna raftengla. 0.1% af rúten í títanblöndu eykur styrk þess hundraðfalt. Rúten er einnig fjölhæfur hvati: Hægt er að kljúfa vetnissúlfíð með ljósi með því að nota vatnslausn af CdS hlöðnum af rútenoxíði. Þetta klofnunarferli getur verið nytsamlegt til að afnema H2S úr öðrum efnum í olíuhreinsistöðvum og í öðrum iðnaðarferlum. Sum rútensambönd gleypa ljós yfir allt sjánlega litrófið og eru nú mikið rannsökuð í alls kyns hugsanlega sólarorkutækni. Platínuflokkur. Platínuflokkurinn er flokkur sex málmgerðra frumefna með svipaða efnis- og efnafræðilega eiginleika. Þessi flokkur samanstendur af rúþen, ródín, palladín, osmín, iridín og platínu. Þessir hliðarmálmar skipa ferkantað svæði sem að skerst af flokkum 8, 9 og 10, og lotum 5 og 6. Strangt til tekið hafa frumefnin í lotu 4 (járn, kóbolt og nikkel) marga svipaða efnislega (hár eðlismassi og bræðslumark) og efnafræðilega eiginleika (hvatar og flókin efnasambönd). Það er því ekki á hreinu af hverju þessi frumefni eru ekki talin mað í platínuflokknum. Saga. Platína og platínuríkar málmblöndur hafa þekkst í náttúrunni í langan tíma. Þótt að platína hafi verið notuð af innfæddum ameríkönum fyrir landafundi Kólumbusar, var fyrst getið til hennar í Evrópu árið 1557 í skrifum ítalska hugvísindamannsins Julius Caesar Scaliger (1484-1558) sem lýsing á dularfullum málmi er fannst í mið-amerískum námum á milli Darién (Panama) og Mexíkó ("þar til nú óbræðanlegur af neinni spænskri list"). Spánverjar kölluðu málminn "platina", eða „litla silfrið“, þegar þeir rákust á það fyrst í Kólumbíu. Þeir litu á platínu sem óæskileg óhreinindi í silfrinu sem að þeir voru að grafa eftir. Eiginleikar. Hvataeiginleikar þessara sex platínuhópsmálma eru framúrskarandi. Slit- og tæringarþol platínu gera það vel hæft í framleiðslu á skartgripum. Aðrir aðgreinandi eiginleikar eru sem dæmi þol gagnvart efnafræðilegri sókn, frábærir háhitaeiginleikar, og stöðugir rafmagnsfræðilegir eiginleikar. Allir þessi eiginleikar hafa verið notaðir á einn eða annan hátt í iðnaði. Notkun. Platína, platínumálmblendi, og iridín eru notuð sem deigluefni til að rækta einstaka kristalla, þá sérstaklega oxíð. Efnafræðiiðnaðurinn notar talsvert magn af annaðhvort platínu- eða platínu-ródín málmblöndu-hvata í grisjuformi til að hvata hlutaoxun ammoníaks til að gefa af sér köfnunarefnisoxíð, sem notað er sem hráefni í áburð, sprengiefni og saltpéturssýru. Í seinni árum hafa nokkrir málmar í platínuflokknum aukust í þýðingu sem hvatar í gervilífrænni efnafræði. Rúþentvísýringur er notað sem húðun á títanforskautum sem að notuð eru í framleiðslu á klór og vítissóta. Platínuhvatar eru notaðir í vinnslu á hráolíu, bætingu og öðrum ferlum sem að notuð eru við framleiðslu á há-oktan bensíni og arómatískum efnasamböndum í olíuiðnaði. Síðan 1979 hefur bílaiðnaðurinn komið fram sem aðalneytandi málma í platínuflokknum. Palladín, platína og ródín hafa verið notuð sem oxunarhvatar í hvarfakútum til að vinna útblástur úr bílum. Stórt svið af platínuflokksmálmblöndum er notað í lágspennu og lágorku snerta, þunn- og þykkfilmu rafrásum, snertispennunemum, bræðsluofnsíhluti og rafskaut. Núllbaugur. Núllbaugur (einnig Greenwich-núllbaugur, Greenwich-baugur eða grunnbaugur lengdar) er sá lengdarbaugur sem allir aðrir lengdarbaugar jarðarinnar eru miðaðir við, hann hefur lengdargráðuna 0 og liggur í gegnum Royal Greenwich Observatory í Greenwich á Englandi. Daglínan (sem er ekki bein eins og núllbaugurinn) er svo staðsett í námunda við 180. lengdargráðu. Saga. Ólíkt breiddargráðu er enginn náttúruleg miðlína fyrir lengdargráður á borð við miðbaug, þannig að velja þurfti viðmiðunarpunkt. Breskir landfræðingar og vísindamenn völdu að nota Greenwich, en aðrir punktar voru valdir víða um jörðina, þar á meðal Ferro, Róm, Kaupmannahöfn, Jerúsalem, St. Pétursborg, Písa, París og Philadelphia. Árið 1884 var að frumkvæði Chester A. Arthurs forseta Bandaríkjanna haldin Alþjóðleg núllbaugsráðstefna þar sem meðal annars var ákveðið að öll lönd heims skyldu nota Greenwich sem núllbaug. San Domingo (nú Dóminíska lýðveldið) greidda atkvæði á móti ályktuninni og Frakkland og Brasílía sátu hjá. Frakkland tók ekki upp Greenwich-núllbaug fyrr en 1911. Alþjóðlega núllbaugsráðstefnan. Alþjóðlega núllbaugsráðstefnan (enska: "International Meridian Conference") var ráðstefna sem haldin var í október 1884 í Washington, D.C. í Bandaríkjunum að frumkvæði forseta Bandaríkjanna Chester A. Arthur til að ákveða hver ætti að vera núllbaugur jarðarinnar, niðurstaðan m.a. var sú að Greenwich-núllbaugurinn skyldi tekinn upp sem alþjóðlegur núllbaugur. Daglínan. thumb Daglínan er ímynduð hlykkjótt lína á yfirborði jarðar sem liggur að mestu um ±180 lengdargráðu, hún liggur á móti núllbaugi. Vestan daglínunnar og austan hennar er sitt hvor dagurinn. Ef vestan hennar er 1. janúar á tilteknu ári, þá er 31. desember ársins á undan austan hennar. Því gætu farþegar skemmtiferðaskips sem sigldi frá vestri til austurs fagnað sömu áramótunum tvisvar. Hins vegar gætu farþegar annars skemmtiferðaskips, sem sigldi í vestur, alfarið misst af þessum sömu áramótum. Andesfjöll. thumb Andesfjöll (spænska: "Cordillera de los Andes") eru um 7000 km langur og 500 km breiður fjallgarður sem liggur eftir vesturhluta Suður-Ameríku, meðalhæð hans er 4000 m. Klettafjöll. Klettafjöll eru um 4800 km langur fjallgarður, þau liggja frá Bresku Kólumbíu í Kanada í norðri til Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum í suðri. Hæsti tindur þeirra er Mount Elbert sem nær 4401m.h.y.s. Alpafjöll. Alpafjöll eða Alparnir (nefnd Mundíufjöll til forna eða Fjall) eru fjallgarður sem teygir sig frá Austurríki og Slóveníu í austri til Ítalíu, Sviss, Liechtenstein og Þýskalands til Frakklands í vestri. Hæsta fjall Alpanna er Hvítfjall, 4808 m hátt, á landamærum Frakklands og Ítalíu. Alparnir eru fellingafjöll, þ.e. fjöll sem orðið hafa til þegar tveir (eða fleiri) jarðflekar rákust saman. Appalachiafjöll. Appalachiafjöll eru fjallgarður í Norður-Ameríkhu sem liggur frá Nýfundnalandi og Labrador í Kanada til Alabama í Bandaríkjunum. Hæsta fjall fjallgarðsins er Mt. Mitchell í Norður-Karólínu, 2.040 metra hátt. Kákasusfjöll. Kákasusfjöll eru fjallgarður milli Svartahafs og Kaspíahafs, þau eru venjulega álitin suðausturmörk Evrópu. Himalajafjöll. Himalajafjöll eru fjallgarður í Asíu, sem liggur frá austri til vesturs og er hæsti fjallgarður heims. Þau aðskilja Indlandsskaga frá Tíbesku hásléttunni og ná yfir fimm lönd, Pakistan, Indland, Kína, Bútan og Nepal. Jarðsaga. Himalajafellingin hóf að myndast fyrir um 40-50 milljónum ára þegar Indlandsflekinn, á hraðri ferð í norður, klessti upp í Evrasíuflekann. Fyrir um 40-37 milljónum ára hófst lokun Teþyshafsins norðan og austan við Indlandsflekann en upplyfting á Himalajafjöllunum hófst fyrir um 35-33 milljónum ára. Stór hluti lyftingar Himalajafjallanna hefur átt sér stað á síðustu 10 milljónum ára og lyftingin í dag er mikil, um 5-10 mm á ári, en Indlandsflekann rekur enn um 5 cm á ári til norðurs. Myndun Himalajafjallanna hefur haft gífurleg áhrif á loftslag á jörðinni. Í Mið-Asíu hefur orðið til regnskuggi vegna þeirra og loftslag orðið þurrt meginlandsloftslag. Íran. Íran (persneska: ایران) er land í Mið-Austurlöndum með landamæri að Aserbaídsjan, Armeníu og Túrkmenistan í norðri, Pakistan og Afganistan í austri, Tyrklandi og Írak í vestri og strandlengju að Persaflóa í suðri. Þótt landið hafi verið kallað Íran að minnsta kosti frá tímum Akamenída, en allt til ársins 1935 var landið nefnt gríska nafninu Persía á Vesturlöndum. 1959 tilkynnti Mohammad Reza Pahlavi að bæði nöfnin skyldu notuð. 1979 var gerð bylting í landinu sem leiddi til klerkastjórnar Ayatollah Khomeinis og stofnunar íslamska lýðveldisins Íran (جمهوری اسلامی ایران). Nafnið Íran þýðir „land aríanna“. Suðvestur-Asía. Heimskort sem sýnir Suðvestur-Asíu (græn). Suðvestur-Asía er heiti á suðvesturhluta Asíu og nær yfir Mið-Austurlönd meðal annars. Reynt hefur verið að taka hugtakið í notkun í staðinn fyrir heitið „Mið-Austurlönd“ þar sem það þykir of Evrópumiðað, en eins og er eru hugtökin ekki samheiti. Vestur-Asía er almennt notað yfir þetta svæði þegar talað er um fornleifar og sögu þess. Anatólía, Arabía, Austurlönd nær og Mesópótamía eru allt hlutar Suðvestur-Asíu. Anatólía. Anatólía, Anatólíuskaginn (úr grísku: ανατολή "rísandi sól" eða "austur") eða Litla-Asía (úr latínu: "Asia Minor") er stór skagi í Suðvestur-Asíu sem í dag samsvarar Asíuhluta Tyrklands. Margar þjóðir og þjóðflokkar hafa sest að í Anatólíu eða lagt hana undir sig í gegnum tíðina. Elstu menningarsamfélög á svæðinu eru frá nýsteinöld (Katal Hújúk). Bygging Tróju hefst á nýsteinöld en heldur áfram á járnöld. Helstu þjóðir sem hafa búið á Anatólíuskaganum eru Hattar, Lúvar, Hittítar, Frýgverjar, Kimmerar, Lýdíumenn, Persar, Keltar, Túbalar, Moskar, Grikkir, Pelasgar, Armenar, Rómverjar, Gotar, Kúrdar, Býsansmenn og Seljúktyrkir. Í dag tala flestir íbúar skagans tyrknesku, en stór hópur talar kúrdísku. Persneska. Persneska (فارسی), (kallað fârsi í Íran, Afganistan og Tadsjikistan), tadsjikíska (mállýska í Mið-Asíu) eða dari (annað nafn á málinu í Tadsjikistan og Afganistan), er tungumál sem talað er í Íran (Persíu) Tadsjikistan, Afganistan, Úsbekistan, vesturhluta Pakistan, Barein og víðar. Persneska, eða mállýskur hennar, eru opinber tungumál í fyrstu þremur löndunum. Yfir 75 milljónir manna hafa persnesku að móðurmáli. Persneska tilheyrir indó-evrópsku málaættinni. Ástralasía. Kort sem sýnir umfang Ástralasíu Ástralasía er svæði innan Eyjaálfu sem inniheldur Ástralíu, Nýja Sjáland, Nýju Gíneu og margar smærri eyjar á svæðinu sem flestar tilheyra austurhluta Indónesíu. Nafnið var upprunalega smíðað af Charles de Brosses í bókinni "Histoire des navigations aux terres australes" (1756). Hann fékk það frá latínunni yfir suður-Asíu (en hluta svæðisins má telja hvort sem heldur til Eyjaálfu eða Asíu) og aðgreindi svæðið frá Pólýnesíu og suðausturhluta Kyrrahafsins ("Magellanica"). Ástralasía er stundum notað sem nafn á Ástralíu og Nýja Sjálandi saman, þar sem ekkert orð er til yfir þau tvö lönd ein. Frá stjórnmálalegu og menningarlegu sjónarmiði er hugtakið ansi merkingarlítið, þar sem að þó að Ástralía og Nýja Sjáland séu bæði nokkuð rík og aðallega enskumælandi og að mörgu leyti mjög lík, eiga þau lítið sameiginlegt með öðrum löndum á svæðinu. Hugtakið er óvinsælt á Nýja Sjálandi út af áherslunni sem það þykir leggja á Ástralíu og virðist gefa í skyn að svæðið sé í Asíu. Í staðin er notað hugtakið "Eyjaálfa", þó merking þess sé þó nokkuð ólík. Ástralía jafnvel oft ekki talin hluti af Eyjaálfu, þegar orðið er notað á þennan hátt. Frá líffræðilegu sjónarmiði, hins vegar, er Ástralasía mjög ákveðið svæði með sameiginlega þróunarsögu og margar plöntu- og dýrategundir sem hvergi finnast annars staðar, sumar sem finnast um allt svæðið, aðrar takmarkaðar við ákveðna hluta Ástralasíu en með sameiginlega forfeður. Líffræðilega aðskilnaðarlínan frá Asíu er Wallace-línan, sem er mörk flekanna tveggja. Súlavesí og Lombok eru austanmegin við línuna, Ástralasíumegin, en Borneó og Balí vestanmegin, Asíumegin. Áður hefur Ástralía verið notað sem nafn á sameiginlegum liðum Ástralíu og Nýja Sjálands. Til dæmis var þetta gert árið 1905 þegar löndin tvö sameinuðu bestu tennisleikmenn sína til að keppa til Davis bikarsins og á Ólympíuleikunum árin 1908 og 1912. Aleuteyjar. Aleuteyjar eru (ef til vill komið úr tjúktísku af "aliat", sem þýðir „eyja“) er röð eldfjallaeyja sem mynda eyjahrygg í norður-Kyrrahafi og ná um 1900 km vestur frá vestasta hluta Alaska að Kamtsjakaskaga. Mestur hluti hryggsins telst til bandaríska fylkisins Alaska en allra vestasti hlutinn tilheyrir Rússlandi. Eyjarnar mynda hluta af Eldhringnum í Kyrrahafi. Eyjarnar má skilgreina bæði sem hluta Norður-Ameríku og Eyjaálfu. Indóevrópsk tungumál. Indóevrópsk tungumál eru ætt 443 tungumála og mállýskna sem um þrír milljarðar manna tala. Þessari málaætt tilheyra flest tungumál Evrópu og Vestur-Asíu, sem tilheyra sömu ættkvísl. Nútímamál sem tilheyra þessari ætt eru t.d. bengalska, enska, franska, þýska, hindí, persneska, portúgalska, rússneska og spænska (hvert með fleiri en 100 milljón málhafa). Íslenska er einnig Indóevrópskt tungumál. Ættkvíslir. Auk þessara hefðbundnu tíu greina sem hér eru taldar eru nokkur útdauð tungumál sem lítið er vitað um. Satem-mál og Kentum-mál. Indó-evrópskum tungumálum er oft skipt í "satem-mál" og "kentum-mál" eftir því hvernig uppgómmæltu hljóðin þróuðust. Hægt er að sjá muninn á því hvort fyrsta hljóðið í orðinu yfir „hundrað“ er með lokhljóð (t.d. latína: "centum") eða önghljóð (t.d. hindí: "satám"). Almennt séð eru „austrænu“ málin (slavnesku og indó-írönsku málin) satem-mál, en „vestrænu“ málin (germönsku, ítölsku og keltnesku málin) eru kentum-mál. Satem-kentum mállýskumörkin skilja að annars náskyld mál eins og grísku (kentum) og armensku (satem). Austurlönd nær. Gervihnattamynd sem sýnir löndin fyrir botni Miðjarðarhafs. Austurlönd nær er almennt notað sem heiti á svæði í Suðvestur-Asíu sem nær yfir botn Miðjarðarhafs (Ísrael, Jórdaníu, Sýrland og Líbanon), Anatólíu (í Tyrklandi) og Mesópótamíu (Írak og austurhluti Sýrlands) og írönsku hásléttuna (í Íran). Þótt Egyptaland sé að stærstum hluta í Norður-Afríku, er það almennt talið hluti austurlanda nær. Þetta svæði skarast að stórum hluta við það svæði sem kallað er Mið-Austurlönd. Slavnesk tungumál. Slavnesk tungumál eru hópur skyldra indóevrópskra mála sem töluð eru af Slövum, mest í Austur-Evrópu, á Balkanskaganum, í Mið-Evrópu og Norður-Asíu. Samanburður nokkurra orða. * Ródín. Ródín er frumefni með efnatáknið Rh og er númer 45 í lotukerfinu. Þetta er sjaldgæfur silfurhvítur, harður hliðarmálmur í platínuflokknum, finnst í platínugrýti og er notaður málmblendi með platínu og sem hvati. Almenn einkenni. Ródín er harður, silfurhvítur og endingagóður málmur með háan endurvarpsstuðul. Ef það er smám saman kælt niður úr glóandi heitu ástandi, breytist það í snertingu við súrefni í seskíoxíð, sem að svo við hækkandi hitastig breytist aftur yfir í málminn. Ródín hefur bæði hærra bræðslumark og lægri eðlismassa en platína. Það er ónæmt gagnvart öllum sýrum nema kóngavatni, sem að leysir það upp. Notkun. Aðalnot þessa frumefnis er sem málmblendisefni til að herða platínu og palladín. Þessar málmblöndur eru notaðar í bræðsluofnavöf, fóðringar í glertrefjaframleiðslu, snertispennunema, rafskaut fyrir kerti í flugvélar, og í deiglur fyrir rannsóknastofur. Önnur not; Afganistan. Afganistan (dari: افغانستان, Afġānistān) er landlukt land í Mið-Asíu eða Suðvestur-Asíu og er stundum talið til Mið-Austurlanda þar sem það liggur á írönsku hásléttunni. Afganistan á landamæri að Íran í vestri, Pakistan í suðri og austri, Túrkmenistan, Úsbekistan og Tadsjikistan í norðri og Kína í austasta hluta landsins. Hluti hins umdeilda Kasmírhéraðs, sem Indland og Pakistan gera tilkall til, er við landamæri Afganistan. Nafnið Afganistan þýðir „"Land Afgananna"“. Segja má að Afganistan sé mitt á milli Vestursins og Austursins, frá örófi alda hefur fólk ferðast í gegnum landið í ýmsum erindagjörðum, t.d. verslun eða fólksflutningar. Þess vegna er Afganistan ákaflega menningarlega fjölbreytt land. Þar býr fjöldi þjóðarbrota. Landið er talið hafa töluvert mikilvægi vegna staðsetningar og hafa ófáir innrásarherir gert innreið sína í landið. Að sama skapi hafa þarlendir höfðingjar byggt sér stórveldi. Árið 1747 stofnaði Ahmad Shah Durrani Durrani-keisaradæmið með höfuðborgina sem Kandahar. Síðar meir var Kabúl gerð að höfuðborg og stór landsvæði töpuðust til nágrannaríkja. Á 19. öld var Afganistan leppríki í pólitískum valdahrókeringum milli Breska heimsveldisins og Rússneska keisaraveldisins. Þann 19. ágúst 1919 varð Afganistan sjálfstætt eftir þriðja stríðið við Bretana fyrir sjálfstæði. Allt frá lokum áttunda áratugarins hefur verið stríð eða stríðsástand í Afganistan. Árið 1978 réðust Sovétríkin inn í landið og þá hófust átök sem áttu eftir að endast í áratug. Á tíundaáratugnum komust Talíbanar til valda, hópur mjög öfgasinnaðra múslima og þar fékk Osama bin Laden griðastað á tímabili. Eftir hryðjuverkin 11. september 2001 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að senda alþjóðlegar öryggissveitir til landsins. Mið-Asía. Kort sem sýnir eina mögulega skilgreiningu Mið-Asíu. Mið-Asía er stórt landlukt svæði í Asíu. Svæðið er ekki skýrt afmarkað og ýmsar skilgreiningar notaðar. Á þessu svæði hafa lifað hirðingjaþjóðir og saga þess tengist náið Silkiveginum. Almennt er að telja Úsbekistan, Túrkmenistan, Tadsjikistan, Kirgistan og Kasakstan til Mið-Asíu. Þetta er sú skilgreining sem notuð var af leiðtogum þessara ríkja skömmu eftir að þau fengu sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Rétt fyrir fall Sovétríkjanna gaf UNESCO út mun víðari skilgreiningu á Mið-Asíu sem byggir á náttúru og veðurfari. Samkvæmt henni tilheyra Mið-Asíu, auk fyrrgreindra ríkja, vesturhluti Kína, Púnjabhérað, norðurhlutar Indlands og Pakistans, norðausturhluti Írans, Afganistan og Rússland sunnan við barrskógabeltið. Milliáttir. og er þá hringnum lokað. Þannig eru áttaheitin 32 alls, 4 höfuðáttir og 28 milliáttir. OpenOffice.org. OpenOffice.org er frjáls skrifstofuhugbúnaður sem byggir á StarOffice. Forritið er ókeypis og hægt að sækja það af Internetinu án greiðslu. OpenOffice.org er til á mörgum tungumálum og fyrir ýmis stýrikerfi eins og Microsoft Windows, BSD, Unix, Linux, eComStation og Mac OS X. OpenOffice.org getur lesið og skrifað fjölda skjalasniða, þar á meðal flest skjalasnið sem Microsoft Office notar. Saga. Grunnurinn að OpenOffice.org var þróaður af þýska fyrirtækinu StarDivision sem var stofnað á 9. áratugnum. Aðalvara þeirra var ritvinnsluforritið StarWriter sem var fyrsti myndræni ritþórinn sem var þróaður fyrir stýrikerfið DOS. Seinna setti SD skrifstofuhugbúnaðinn StarOffice á markað en það var forritað í hlutbundnu umhverfi sem var þróað innanhúss hjá fyrirtækinu. Þetta auðveldaði þróun hugbúnaðarins fyrir ólík stýrikerfi án mikilla tilfæringa. Árið 1999 keypti Sun Microsystems StarDivision og ári síðar gáfu þeir út hluta frumkóðans undir nafninu OpenOffice.org með tvenns konar notendaleyfi; LGPL (GNU Lesser General Public License) og SISSL (Sun Industry Standard Source License). Tilgangurinn með þessu var að nýta sér kosti opinnar hugbúnaðarþróunar til þess að OpenOffice.org næði að verða raunhæfur valkostur við Microsoft Office sem þá hafði algera yfirburðastöðu á markaði. StarOffice var áfram þróað samhliða sem hefðbundinn leyfisskyldur hugbúnaður. Nokkrar lausnir sem aðrir höfðu þróað fyrir StarOffice, eins og til dæmis leiðréttingarforrit, var ekki hægt að gefa út með OpenOffice.org þar sem StarDivision átti ekki höfundaréttinn en þessar lausnir komu áfram út með StarOffice. Eiginleikar og skjalasnið. Hugbúnaðurinn inniheldur nokkur þétt samhæfð forrit; meðal annars ritvinnslu, töflureikni, teikniforrit, glæruforrit, gagnagrunnsviðmót og fleira. Eigið skjalasnið OpenOffice.org var upphaflega það sama og hjá StarOffice (.sd*) sem var í grundvallaratriðum XML-snið þjappað með Java Archive þjöppunarhugbúnaðinum. Síðar var þetta snið þróað áfram og kallað OpenOffice-snið (.sx*). Frá útgáfu 2.0.3 hefur OpenOffice.org notað alþjóðlega skjalastaðalinn Open Document Format (.od*) sem eigið skjalasnið. Afleiddur hugbúnaður. IBM heldur úti útgáfu af OpenOffice sem kallast Lotus Symphony, en það er formsett inní Eclipse-vinnuumhverfið. Lotus Symphony fáanlegt sem ókeypis niðurhal af vef IBM. Jafngild þyngd. Jafngildismassi (eða jafngild þyngd) er atómmassi frumefnis eða efnahóps deilt með gildinu sem það hefur í efnasambandi. Sem dæmi, vetni, með atómmassann 1,00794 og gildi 1, hefur jafngildismassa upp á 1,00794. Súrefni hefur atómmassa upp á 15,9994 og gildið 2 og hefur þess vegna jafngildismassann 7,9997. Frumefni geta tekið á sig mismunandi jafngildismassa eftir efnasambandi. Til dæmis járn (atómmassi 55,845) hefur jafngilda þyngd 27,9225 ef það er tvígilt í efnasambandinu, en 18,615 ef það er þrígilt. Hægt er að reikna jafngildismassa fyrir fleiri efni en frumefni. Sem dæmi, karbónat-efnahópurinn (CO3) hefur samanlagðan atómmassa 76,0083 og er tvígilt í efnasamböndum, þannig að jafngildismassi þess er 38,00415. Efnaflokkur. Efnaflokkur er flokkur frumefna sem deila með sér svipuðum efnis- og efnafræðilegum einkennum sem breytast stig af stigi frá öðrum enda flokksins til hins. Efnaflokkar voru uppgötvaðir áður en lotukerfið var búið til, en í því eru efni flokkuð eftir efnafræðilegum eiginleikum. Sumir efnaflokkar svara nákvæmlega til flokka í lotukerfinu. Þessu veldur sameiginleg frumeindarsvigrúmsstaða. Hliðarmálmur. Hliðarmálmar eru þau 38 frumefni í flokki 3 til 12 í lotukerfinu. Eins og með alla málma, eru hliðarmálmar þjálir og sveigjanlegir, og leiða rafmagn og hita. Hið áhugaverða atriði við hliðarmálma er að gildisrafeindir þeirra (þær rafeindir sem að tengjast við önnur frumefni) eru til staðar í fleiri en einu rafeindahveli. Þetta er ástæðan fyrir því af hverju þessi efni hafa oft mörg almenn oxunarstig. Þrjú frumefni eru eftirtektarverð í hliðarmálmafjölskyldunni: Járn, kóbolt og nikkel. Þetta eru einu frumefnin sem að þekkt eru sem að gefa frá sér segulsvið. Oddur Gottskálksson. Oddur Gottskálksson (1514/1515 – 1556) var meðal siðaskiptamanna í Skálholti og sá sem þýddi Nýja testamentið á íslensku. Síðar varð hann lögmaður. Hann mun einkum hafa stuðst við þýska þýðingu Lúters frá um 1530 en einnig latneskar þýðingar. Hafði hann lokið við þýðingu Mattheusarguðspjalls þegar hann hvarf frá Skálholti, hugsanlega vegna þess að upp um hann komst. Hann lauk svo við þýðinguna og hélt til Danmerkur þar sem hann fékk leyfi konungs til að láta prenta hana eftir að fræðimenn við Kaupmannahafnarháskóla höfðu lagt blessun sína yfir verkið. Prentuninni lauk 12. apríl 1540. Nýja testamentisþýðing Odds er fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku. Oddur þykir hafa unnið stórvirki með þýðingu sinni, sem seinna var tekin nær óbreytt inn í Guðbrandsbiblíu og hefur líklega haft veruleg áhrif á þróun íslenskrar tungu. Stíllinn þykir lipur og þjáll, orðaforðinn auðugur og málfarið ótrúlega gott, ekki síst miðað við það að Oddur ólst að mestu leyti upp erlendis. Hann hafði að sjálfsögðu heldur engar orðabækur eða önnur hjálpartæki að styðjast við. Oddur hélt svo áfram að þýða aðra trúarlega texta og var sumt af því prentað. Nýja testamenti Odds kom þó ekki út aftur sem sjálfstætt rit fyrr en 1988. Um sama leyti var Gissur Einarsson, vinur Odds, sem var líka heitbundinn Guðrúnu systur hans, í Kaupmannahöfn að taka biskupsvígslu og urðu þeir samferða heim til Íslands um sumarið. Næstu árin bjó Oddur á Reykjum í Ölfusi og fékkst aðallega við þýðingar og fræðistörf en kemur lítið við sögu siðaskiptanna. Páll Hvítfeldur hirðstjóri setti Orm Sturluson af sem lögmann 1552 og var Oddur þá kjörinn lögmaður norðan lands og vestan í hans stað en er þó ekki talinn hafa tekið við embættinu fyrr en 1554. Hann bjó lengst af á Reykjum en síðast á Reynistað í Skagafirði. Þegar Oddur var á leið til Alþingis snemma sumars 1556 var hann nærri drukknaður á Norðlingavaði í Laxá í Kjós, komst þó á land en dó næstu nótt. Oddur var sagður hæglátur maður og friðsamur og virðist fremur hafa viljað sinna fræðistörfum en sækjast eftir mannvirðingum. Fylgikona hans var Þuríður stóra Einarsdóttir, sem áður hafði fylgt Þórði Einarssyni (d. 1530) presti í Hítardal og síðan Sigmundi Eyjólfssyni (d. 1537), sem kjörinn var 1536 til að taka við Skálholtsstól af Ögmundi biskupi, móðurbróður sínum, og tók vígslu en lést áður en hann tók við stólnum. Þau Oddur áttu einn son sem fluttist til Noregs og dó þar barnlaus. Armenía. Armenía (armenska: Հայաստան, "Hayastan", eða Հայք, "Hayq") er landlukt land í sunnanverðum Kákasusfjöllum á milli Svartahafs og Kaspíahafs. Það á landamæri að Tyrklandi í vestri, Georgíu í norðri, Aserbaídsjan í austri og Íran í suðri. Armenía er aðili að Evrópuráðinu og SSR. Náttúrufar. Armenía er vanalega talin til Asíu landfræðilega, en er oft talin til Evrópulanda af menningarsögulegum ástæðum. Landslagið er að mestu fjöllótt og er þar mikið um ár og en lítið skóglendi. Veðurfarið er hálanda álfulegt, heit sumur og kaldir vetur. Landið rís 4.095 metra yfir sjávarmáli á fjallinu Aragats og lægsti punktur 400 m yfir sjávarmáli. Fjallið Ararat sem Armeníumenn líta á sem tákn lands síns er hæsta fjallið á þessum slóðum og var hluti af Armeníu allt til ársins 1915, þegar það féll í hendur Tyrkjum. Armenía er nú að kljást við umhverfisvandamál. Þeir hafa stofnað umhverfisvarnarráð og taka skatta fyrir loft- og vatnsmengun og losun gegnheils úrgangs og það sem að þeir græða af því á að nota til umhverfisvarnar. Armenía hefur áhuga að vinna með meðlimum Samveldis sjálfstæðra ríkja (SSR), sem er 12 ríkja hópur gamalla sóvéskra ríkja og með meðlimum annarra þjóða, um umhvefisvandamál. Armenska stjórnin er að vinna að því að loka kjarnorkuverinu í Madzamor nærri höfuðborginni strax og aðrar leiðir til rafmagnsframleiðslu bjóðast. Melanesía. Melanesía (komið úr grísku: „svartar eyjar“) er svæði í Eyjaálfu sem nær vestur frá Kyrrahafi að Arafurahafi fyrir norðan og norð-austan Ástralasíu. Hugtakið var upprunalega notað af Jules Dumont d'Urville árið 1823 til að aðgreina þjóðernislega og landfræðilega kynþátt og hóp eyja frá Pólýnesíu og Míkrónesíu. Í dag er kynþáttagreining d'Urvilles talin röng þar sem hún tekur ekki tillit til menningarlegrar, tungumálalegrar og erfðafræðilegrar fjölbreytni og í dag er hugtakið aðeins notað sem hentugur landfræðilegur merkimiði. Þar að auki nota Fídjíeyjar, Papúa Nýja Gínea, Salómonseyjar, Vanúatú og Nýja Kaledónía(sem, lagalega séð, er franskt yfirráðasvæði) heitið til að lýsa sér því það endurspeglar sameiginlega sögu þeirra sem nýlendur og stöðu í heiminum. Míkrónesía (svæði). Míkrónesía (komið frá grísku orðunum μικρόν = lítið og νησί = eyja) er svæði sem telst til Eyjaálfu og er í Kyrrahafi. Fyrir vestan svæðið eru Filippseyjar, Indónesía fyrir suðvestan, Melanesía og Papúa Nýja-Gínea fyrir sunnan og Pólýnesía fyrir suðaustan og austan. Mírkónesía samanstendur af hundruðum lítilla eyja á stóru svæði í vesturhluta Kyrrahafs. Pólýnesía. a> sem er skilgreindur sem Pólýnesía Pólýnesía (komið frá grísku orðunum "poly" = margt og "nesos" = eyja) er stórt svæði í Kyrrahafi sem inniheldur meira en 1000 eyjar og telst til Eyjaálfu. Upprunalega átti hugtakið við allar eyjurnar í Kyrrahafinu en í dag er það notað, landfræðilega, yfir þríhyrning með hornin Hawaii, Nýja Sjáland og Páskaeyju. Hinir helstu eyjahóparnir innan þessa þríhyrnings eru Samóa, Tonga, og hinar ýmsu eyjakeðjur sem mynda Frönsku Pólýnesíu. Mannfræðilega á hugtakið hins vegar við um einn hinna þriggju hluta Eyjaálfu, hinir verandi Míkrónesía og Melanesía, þar sem allir frumbyggjarnir tilheyra einum hóp menningar og mannfræðilega eftir aldir af þjóðflutningum um hafið. Eftirfarandi eyjar eða eyjahópar eru ýmist ríki eða svæði sem eru pólýnesísk að menningu. Sumar eyjanna sem teljast pólýnesískar eru fyrir utan þríhyrninginn sem er notaður til að skilgreina svæðið sjálft. Alfasundrun. Alfasundrun er form geislavirkar sundrunar þar sem að atómkjarninn sendir frá sér alfaeind og breytist í kjarna með massatölu fjórum lægri og sætistölu tveimur lægri en fyrir var. Takið eftir að alfaeind er helínkjarni og að bæði massatala og sætistala geymast. Alfasundrun er hægt að hugsa sem kjarnaklofningur þar sem að móðurkjarninn skiptist í tvo dótturkjarna. Alfasundrun er í grundvallaratriðum skammtafræðilegt smugferli. Í sumum geislavirkum efnum, þegar betasundrun gerist með alfasundrun, myndast helíneind. Vegna alfasundrunar, kemur næstum allt helín sem að framleitt er í heimunum í dag úr neðanjarðarsetlögum hafa að geyma steintegundir sem að innhalda úran eða þórín. Það kemur svo upp á yfirborðið sem aukaafurð við vinnslu á jarðgasi. Benelúxlöndin. Benelúxlöndin er heiti sem er notað yfir Belgíu, Holland og Lúxemborg sameginlega, nafnið er dregið af nöfnum landanna á tungum heimamanna, België, Nederland og Luxembourg og var upprunalega notað sem heiti yfir Benelúx efnahagssambandið en er núna notað sem almennt heiti yfir löndin þrjú. Marilyn Monroe. Marilyn Monroe (1. júní 1926 – 5. ágúst 1962), fædd Norma Jeane Mortenson en skírð Norma Jeane Baker, var bandarísk leikkona á 20. öld. Sviðsframkoma hennar, fegurð og dularfullur dauðdagi gerði hana að eftirminnilegu kyntákni og síðar popp-tákni. Hún hóf feril sinn sem fyrirsæta eftir að eiginmaður hennar fór í stríð. Hún fékk samning við kvikmyndaver árið 1946. Í fyrstu fékk hún aðeins örsmá hlutverk í nokkrum kvikmyndum en varð fræg eftir að hún lék í myndum eins og "The Asphalt Jungle" og "All About Eve". Árið 1953 var hún orðin stjarna í Hollywood, fræg fyrir að leika "heimsku ljóskuna" í bíómyndum, hlutverk sem hún festist í. Hún var tilnefnd til nokkurra verðlauna, þar á meðal Golden Globe fyrir "Some Like it Hot" árið 1959 og fékk tilnefningu fyrir myndina "Bus Stop" frá árinu 1956. Síðustu ár ævi sinnar glímdi hún við veikindi og vandamál í einkalífi og varð fræg fyrir að vera sérstaklega erfið að vinna með. Þegar hún dó, árið 1961, aðeins 36 ára, eftir að taka of stórann skammt af sterkum verkjalyfum, fór fólk að geta sér til um hvort hún hefði verið myrt. Meðal annars hefur því verið fleygt að Kennedy-fjölskyldan hafi átt þátt í dauða hennar en ekkert hefur sannast um það. Árið 1999 var hún valin sjötta stærsta kvenstjarna allra tíma af Kvikmyndastofnun Bandaríkjanna. Æska og uppruni. Þótt Marilyn yrði um síðir ein frægasta konan í kvikmyndaheiminum, voru æska og uppvaxtarár hennar fábrotin. Hún fæddist á fæðingardeild héraðssjúkrahússins í Los Angeles þann 1. júní árið 1926 og hlaut nafnið Norma Jeane Mortensen, en sleppti oftast seinna e-inu í Jeane. Amma hennar, Della Monroe Grainger, breytti nafni hennar síðar í Norma Jeane Baker. Norma var þriðja barn Gladys Pearl Baker (fædd Monroe). Á fæðingarvottorði Normu stendur að faðir hennar hafi verið norðmaðurinn Martin Edward Mortenson, sem hafði verið giftur Gladys en þau höfðu skilið að borði og sæng áður en Gladys varð ólétt að Normu. Gladys tókst ekki að sannfæra móður sína um að taka barnið að sér og kom því þess vegna til Wayne og Idu Bolender frá Hawthorne, þar sem Norma bjó þar til hún var sjö ára gömul. Bolender-hjónin voru mjög trúuð og drýgðu litlar tekjur sínar með því að vera fósturforeldrar. Í sjálfsævisögu sinni, (e. "My Story"), segist Marilyn hafa haldið að Ida og Wayne væru blóðforeldrar sínir, þar til Ida sagði henni, frekar illkvittnislega, að svo væri ekki. Eftir dauða Marilyn hélt Ida því fram að þau Wayne hefðu hugleitt að ættleiða hana, en til þess hefðu þau þurft samþykki Gladys. Gladys heimsótti Normu Jeane á hverjum sunnudegi samkvæmt ævisögunni en kyssti hana aldrei eða faðmaði að sér — Marilyn sagði að hún brosti ekki einu sinni. Dag einn tilkynnti Gladys Normu að hún hefði keypt handa þeim húsnæði og tók hana til sín. Nokkrum mánuðum síðar fékk Gladys taugaáfall og var flutt með valdi á geðsjúkrahús. Marilyn rifjar það upp að Gladys hafi „öskrað og hlegið“ þar til hún var flutt á brott. Vinkona Gladys, Grace McKee, tók Normu þá að sér en 1935, þegar Norma var níu ára, giftist Grace manni að nafni Goddard og sendi þá Normu á fósturheimili. Næstu árin flakkaði hún á milli fósturheimila, sumir segja að hún hafi átt viðkomu á 12 ólíkum heimilum og hafi verið misnotuð og vanrækt. Hins vegar eru engar sannanir fyrir því að hún hafi búið á svo mörgum stofnunum og við svo bág kjör og má vera að hún alla tíð ýkt þau atvik sem settu mark sitt á æsku hennar. Í september 1941 fór Norma Jean aftur til Goddard-fjölskyldunnar og kynntist þar syni nágrannans, James Dougherty. Goddard-fjölskyldan var á leiðinni að flytja á austurströnd Bandaríkjanna og vildu ekki taka Normu Jean með. Þau töldu því Normu og James á að ganga í hjónaband svo að Norma þyrfti ekki að fara á fósturheimili að nýju, því hana skorti tvö ár upp á sjálfræðisaldur. Þau giftust 19. júní 1942 og var Norma Jean rétt orðin 16 ára en James var 21 árs. Faðerni. Enn er óvíst hver var raunverulegur faðir Marilyn var en flestir telja þó að það hafi veri Martin E. Mortensen. Gladys giftist honum þann 11. október árið 1924, tveimur árum áður en Norma fæddist. Þau skildu að borði og sæng eftir aðeins sex mánaða hjónaband en Gladys sótti ekki um lögskilnað fyrr en ári eftir fæðingu barnsins og gekk skilnaðurinn í gildi 15. október 1928. Ævisöguritarinn Donald H. Wolfe skrifar í bók sinni "The Last Days of Marilyn Monroe" að Norma hafi sjálf trúað því að Charles Stanley Gifford, sölumaður hjá RKO Pictures, myndverið þar sem Gladys vann, hafi verið faðir hennar. Á fæðingavottorðið hennar segir að Mortensen sé faðirinn þótt þau væru þá skilin að borði og sæng. Í viðtali sagði James Dougherty, fyrsti eiginmaður Marilyn, að hún hafi í raun og veru trúað að Gifford væri faðir hennar. Frægðin. Myndin af Marilyn sem fór í tímaritið Yank" Fyrirsætuferill. Andlit Marilyn Monroe skóp henni vissulega örlög og allt til þessa dags, nær hálfri öld eftir lát hennar, hefur fólk áhuga á lífi hennar og dauða. James Dougherty, eiginmaður hennar, var í flutningasveitum bandaríska hersins í seinni heimstyrjöldinni og á meðan fór hin unga Norma Jean að vinna í hergagnaverksmiðju. Þar tók ljósmyndarinn David Conover mynd af henni sem var birt með grein í hermannablaðinu "Yank". Hann sá strax möguleika hennar sem fyrirsætu og hún skrifaði undir samning við umboðsskrifstofuna The Blue Book Modelling. Norma Jean varð ein af vinsælustu Blue Book-fyrirsætunum og myndir af henni birtust á forsíðum margra blaða. Eiginmaður hennar vissi ekki af þessu nýja starfi konu sinnar fyrr en hann sá skipsfélaga sinn dást af mynd af Normu í tímariti. Dougherty skrifaði þá fjölmörg bréf til konunnar sinnar og sagði henni að hún yrði að hætta fyrirsætustörfum þegar hann sneri heim. Hún ákvað þá að skilja við hann og lét verða af því þegar hann sneri heim árið 1946. Upphaf leikferils. Velgengi Marilyn sem fyrirsæta varð til þess að Ben Lyon, yfirmaður hjá 20th Century Fox, kom henni á blað hjá myndverinnu og undirbjó prufutökur. Hann var hrifinn af útkomunni og kallaði hana „næstu Jean Harlow“. Hún skrifaði undir hefðbundinn sex mánaða samning með byrjunarlaun upp á 125 bandaríkjadali á viku. Lyon stakk upp á að breyta nafni hennar úr Norma í eitthvað sem hentaði leikkonu betur. Þeim datt í hug nafnið „Carole Lind“ en Lyon fannst það ekki henta heldur. Eina helgi bauð hann henni með sér heim til sín þar sem þau fundu henni nýtt nafn. Norma dýrkaði leikkonuna Jean Harlow og ákvað að nota eftirnafn móður sinnar (Monroe) eins og Harlow. Lyon fannst þó hvorki Jean Monroe né Norma Monroe virka. Hann stakk upp á Marilyn af því að honum fannst Norma minna á leikkonuna Marilyn Miller og árið 1946 „fæddist“ Marilyn Monroe. Marilyn lék mjög lítið á fyrsta samningstímabili sínu hjá Fox, heldur lærði hún um hár, snyrtivörur, búninga, leik og lýsingu. Hún lét lita hár sitt ljóst og klippti það stutt. Sögusagnir hafa lengi gengið um að hún hafi einnig farið í fegrunaraðgerð. Þegar samningur hennar rann út ákváðu starfsmenn hjá Fox að endurnýja hann og á næstu sex mánuðum kom hún fram í litlum hlutverkum í tveimur myndum; "Scudda Hoo! Scudda Hay!" og "Dangereous Years" (báðar frumsýndaar árið 1947). En kvikmyndirnar féllu ekki í góðan farveg í kvikmyndahúsum og því ákvað Fox að semja ekki við Marilyn í þriðja sinn. HÚN henti sér að fullu inn í fyrirsætustarfið að nýju en gaf ekki kvikmyndaferilinn upp á bátinn. Í millitíðinni sat hún oft fyrir nakin á meðan hún leitaði að kvikmyndahlutverkum. Árið 1947 var hún valin hin fyrsta „Miss California Artichoke Queen“ á hinu árlega ætiþistillshátíðinni í Castroville. Marilyn Monroe í myndinni The Asphalt Jungle árið 1950Árið 1948 skrifaði Marilyn undir sex mánaða samning við Columbia Pictures. Þar kynntist hún Natöshu Lytess aðal-leikþjálfanum hjá myndverinu á þeim tíma. Hún vann með Marilyn um nokkurra ára skeið. Marilyn hlaut aðalhlutverkið í söngleikjamyndinni "Ladies of the Chorus" það sama ár. Gagnrýnendur voru hrifnir af leik Marilyn en myndin var ekki vinsæl í kvikmyndahúsum. Hún fékk aukahlutverk í myndinni "Love Happy" árið 1949 og vakti aðdáun framleiðenda myndarinnar. Þeir sendu hana til New York til þess að taka þátt í auglýsingaferð fyrir myndina. Á þessum tíma hitti hún Johnny Hyde, einn af helstu umboðsmönnunum í Hollywood. Hann útvegaði henni áheyrnarprufu hjá leikstjóranum John Huston sem lét hana hafa hlutverk í myndinni "The Asphalt Jungle" þar sem hún lék unga hjákonu glæpamanns. Gagnrýnendum fannst leikur hennar frábær og hún var stuttu seinna kominn með annað hlutverk sem frú Caswell í "All About Eve". Hyde útvegaði henni líka nýjan samning við Fox til sjö ára, skömmu áður en hann lést árið 1950. Marilyn skráði sig í UCLA árið 1951 og stundaði þar nám í bókmenntum og listum en hélt þó áfram að leika í nokkrum kvikmyndum inn á milli. Upprennandi stjarna. Árið 1952 kom upp hneyksli þegar ein af myndunum af Marilyn þar sem hún hafði setið fyrir nakin var birt í dagatali. Fjölmiðlar veltu því fyrir sér hver konan í einni mynd var og nafn Marilyn kom oft upp. Forstjórar Fox veltu því fyrir sér hvað þeir ættu að gera og Marilyn stakk upp á því að segja sannleikann að þetta væri í raun og veru hún en láta fólk vita að það hafi verið það eina sem hún gat gert fyrir peninga á þeim tíma. Almenningur fann til með Marilyn og hneykslið gerði hana bara vinsælli. Marilyn Monroe og Keith Andes í myndinni Clash by Night árið 1952 Hún komst á forsíðu tímaritsins "Life" árið 1952 þar sem hún var umtöluð í Hollywood. Í maí hið sama ár komst hún á forsíðu "True Experiences" þar sem sögur barnæsku hennar voru ræddar og Marilyn var auglýst sem "Öskubuska". Einkalíf hennar varð einnig aðaltal Hollywood og fólk velti því fyrir sér hvort hún ætti í sambandi við hafnabolta-leikmanninn Joe DiMaggio. Velgengni sem leikkona. Í júní 1952 kom út kvikmyndin "Clash by Night" þar sem Marilyn lék eitt af aðalhlutverkunum. Myndin varð mjög vinsæl á meðal áhorfenda og gagnrýnendur voru enn á ný heillaðir upp úr skónum af leik Monroe. Marilyn sem hafði verið vinsæl á meðal fjölmiðla síðustu mánuði dró inn mikið af fólki sem vildu sjá leikkonuna leika. Marilyn lék einnig í tveimur öðrum kvikmyndum sem fóru í kvikmyndahús í júlí það ár. Hið fyrra var "We're Not Married", gamanmynd þar sem Marilyn lék keppanda í fegurðarkeppni en hin seinni var dramamyndin "Don't Bother to Knock" þar sem hún lék aðalhlutverkið. Hún lék barnapíu sem hótar að drepa barnið sem hún sér um. Myndin fékk slæma dóma og gagnrýnendum fannst hún langdreginn og melódramatísk. Í september kom svo út myndin "Monkey Business" þar sem Marilyn lék eitt af aðalhlutverkunum ásamt stórstjörnunum Cary Grant og Ginger Rogers. Marilyn var með eitt lítið atriði í myndinni "O. Henry's Full House" en hún var samt auglýst sem ein af aðalleikurunum. Þetta sýndi hversu stór stjarna Marilyn var að verða. "Niagara". Daryl F. Zanuck, bandarískur framleiðandi, hafði séð Marilyn og fannst hún vera hæf til þess að leika í nýrri "femme fatale" mynd sem hét "Niagara" sem fjallaði um konu sem langaði að drepa eiginmann sinn. Á meðan á tökum stóð kom í ljós að Marilyn var með mikinn sviðsskrekk og leikstjórinn reddaði henni þjálfa sem róaði hana klukkutímum saman fyrir hvert atriði. Þó að leikur Marilynar hafi fengið góða gagnrýni þá þótti framkoma hennar á frumsýningu myndarinnar barnaleg og dónaleg. Blaðadálkur Louellu Parsons talaði um slæma hegðun hennar og hún sagði að Joan Crawford hefði rætt dónaskapinn hennar opinberlega og að hún væri óviðeigandi sem leikkona og kona almennt. Marilyn klæddi sig oft í glannalega kjóla og hún birtist líka á forsíðu fyrsta tölublaðs "Playboy" þar sem myndir af henni voru birtar þar á meðal nokkrar af henni allsberi. "Gentlemen Prefer Blondes". Næsta mynd hennar á eftir Niagara var "Gentlemen Prefer Blondes" árið 1953 þar sem hún lék aðalhlutverkið ásamt Jane Russell. Hún lék Lorelei Lee, ljóshærða dansmær í von um að verða rík, hlutverk sem krafðist þess af henni að leika, dansa og syngja. Marilyn og aukaleikkona hennar urðu góðar vinkonur og Jane lýsti henni seinna sem feiminni og mikið gáfaðri en fjölmiðlar héldu fram. Hún vann oft lengur en hinir leikararnir og æfði danssporin sín klukkutímum saman. Leikstjórinn kvartaði samt undan því að hún mætti alltaf sein. Jane Russell tók eftir því að hún var oft mætt á réttum tíma en hún var með svo mikinn sviðsskrekk að hún læsti sig inni í skiptiklefanum sínum og reyndi að gera sig klára. Russell fór þá að fylgja Marilyn inn á sviðið til þess að hjálpa henni. Á frumsýningu myndarinnar settu Marilyn og Jane fótspor og handaför sín í steypuna fyrir utan kvikmyndahúsið eins og var hefð með stórar myndir í Hollywood. Gagnrýnendur gáfu henni góða dóma fyrir leik sinn og myndin varð mjög vinsæl og heildartekjurnar voru meira en tvisvar sinnum það sem kostaði að búa hana til. Útgáfa hennar af laginu „Diamonds are a Girl's Best Friend“ er ennþá heimsfræg og margar söngkonur hafa flutt lagið þar á meðal Kylie Minogue. Vandamál með staðalímyndina. Í byrjun 6. áratugs 20. aldar reyndi Marilyn stöðugt að losa við ímyndina hennar sem "heimska ljóskan" sem fylgdi henni hvert sem hún fór. Í viðtalið við "New York Times" sagði hún frá hvernig henni langaði að þroskast sem leikkona með því að leika alvarlegri hlutverk. Natasha Lytess, leikþjálfinn hennar, reyndi að redda henni einhver hlutverk hjá leikstjórum sem hún þekkti en það vildi enginn ráða hana. Framleiðandi myndarinnar "The Egyptian", Darryl F. Zanuck, sem var gamall vinur hennar neitaði jafnvel að setja hana í prufu. Hún fékk hlutverk í myndinni "River of No Return" sem gerðist í villta vestrinu. Hún lék á móti sveitasöngvaranum Robert Mitchum sem þurfti að vera sáttasemjari á milli hennar og leikstjórans Otto Preminger sem rifust út í eitt. Hann kvartaði undan því að Marilyn reyndi of miki á leikþjálfann sinn sem hún hlustaði meira á en hann. Á endanum töluðu þau ekki við hvort annað sem gerði það næstum því ómögulegt að halda áfram tökum. Haustið 1953 fékk hún hlutverk á móti Frank Sinatra í myndinni "The Girl in Pink Tights" sem hún var rekinn frá út af því að hún mætti sjaldan á vinnustaðinn. Marilyn giftist Joe DiMaggio í janúar 1954 í San Francisco. Þau fóru í brúðkaupsferð til Japan stuttu eftir það. DiMaggio eyddi miklum tíma að vinna í Japan að spila hafnabolta svo að Marilyn flaug til Kóreu og skemmti yfir 13.000 bandarískum hermönnum. Marilyn sagði í viðtali að sú reynsla hafi hjálpað henni að sigra sviðshrollinn hennar. Þegar hún kom aftur til Hollywood í mars 1954 þá fór hún aftur til Fox og fékk hlutverk í söngleiknum "There's No Business Like Show Business". Myndin var óvinsæl og fékk hræðilega dóma. Leikur Marilyn var rakkaður niður af gagnrýnendum og flutningur hennar á lögunum var sagður hlægilegur. Monroe sagði í viðtali að henni hafði leiðst á meðan að tökum stóð enda hafði hún aðeins gert myndina út af því að forstjórar Fox sögðu að það væri eina leiðin fyrir hana að fá aðalhlutverkið í "The Seven Year Itch". "The Seven Year Itch". Í september 1954 tók Marilyn upp myndina "The Seven Year Itch" sem var byggð á vinsælu Broadway leikriti. Eitt af atriðunum sem hún tók upp var skotið fyrir utan neðanjarðarlestarstöð í New York þar sem stór múgur af fólki fylgdist með. Í atriðinu stóð Marilyn fyrir ofan grindur á lestarstöðinni á meðan lestin keyrði fram hjá og vindurinn skaut upp pilsinu hennar. Fólk mætti með myndavélar og atriðið varð frægasti sena myndarinnar. Einn af þeim sem voru í áhorfendunum var Joe DiMaggio, eiginmaður hennar, sem var brjálaður yfir kringumstæðunum. Þegar tökum lauk sótti DiMaggio um skilnað og þau reyndu bæði að forðast fjölmiðla í lengri tíma eftir það. Monroe hafði verið boðið mikið af hlutverkum en hún neitaði af því að henni fannst þau of lítil og hún fór þá frá Hollywood í nokkurn tíma. Upprennandi stórstjarna. Milton Greene var frægur ljósmyndari í Hollywood sem tók margar frægar myndir af Marilyn á ferli sínum. Þau urðu mjög góðir vinir og hún lét hann vita af skapraunum hennar vegna lágra launa hjá Fox og lélegum hlutverkum sem henni var boðið. Hún hafði fengi 18.000 bandaríkjadali fyrir "Gentlemen Prefer Blondes" en Jane Russell var borgað meira en 100.000 dali. Hún hélt því fram að hún gæti fengið mikið hærra kaup ef hún færi í burtu frá myndverinu. Milton hætti störfum árið 1954 og veðsetti húsið sitt til þess að hjálpa henni og leyfði henni að búa hjá fjölskyldu sinni á meðan þau reyndu að finna nýja stefnu fyrir ferillinn hennar. Leikþjálfun og ný ást. Monroe hitti nýjan leikþjálfa það ár sem hét Constance Collier og hjálpaði henni töluvert. Collier benti Marilyn á það að hún væri með alla réttu hæfileikana til þess að leika í kvikmyndum en ekki á sviði. Collier gat ekki aðstoðað Marilyn lengi þó út af því að hún dó stuttu eftir að þær byrjuðu að vinna saman. Marilyn leitaði þá til Lee Strasberg sem var frægur leikþjálfi og hafði unnið með mörgum öðrum leikurum áður. Í maí 1955 fór hún að vera með leikritahöfundinum Arthur Miller sem hún kynntist í New York og hann bauð henni svo út að borða stuttu seinna. Joe DiMaggio, fyrrverandi eiginmaður hennar, vildi þá byrja aftur með henni og fylgdi henni á frumsýningu myndarinnar "The Seven Year Itch". Hann hélt líka upp á afmæli hennar með því að halda stórt afmælisteiti en hún stormaði út eftir stórt rifrildi í miðri veislunni. Þau héldu sig í burtu frá hvort öðru í lengri tíma eftir það. Á meðan hún lærði hjá Actors Studio í New York þá fann hún það út að sviðsskrekkur var stærsta vandamálið hennar sem hún átti mjög erfitt með að vinna bug á. Hún sat alltaf aftast í tímunum til þess að forðast athygli. Hún og vinkona sín í bekknum Maureen Stapleton léku út byrjunaratriðið frá leikritinu Anna Christie sem Marilyn átti erfitt með. Hún mundi aldrei línurnar sínar í æfingum fyrr en hún sýndi fyrir framan hina nemenduna þegar allt gekk vel. Allir í herberginu klöppuðu á endanum og Marilyn þótti frábær. Strasberg sagði seinna að af öllum nemendum hans hafi aðeins tveir staðið upp úr, sá fyrri var Marlon Brando og sú seinni var Marilyn Monroe. Endurkoma til Fox. Þegar "The Seven Year Itch" kom út og varð mjög vinsæl þá ákváðu forstjórar Fox að fara aftur í viðræður við Marilyn og draga upp hugsanlegann samning. Marilyn skrifaði undir samning á gamlársdag 1955 til sjö ára. Marilyn átti að gera fjórar myndir á næstu árum og fyrirtækið sem Marilyn hafði stofnað stuttu fyrir það (Marilyn Monroe Productions) myndi fá 100.000 bandaríkjadali fyrir hverja mynd og prósentu af ágóðanum fyrir sig. Marilyn myndi líka fá að vinna fyrir önnur myndver og hún var með rétt til þess að neita að leika í mynd sem hana langaði ekki að leika í. "Bus Stop". "Bus Stop" var fyrsta myndin sem Marilyn lék í undir nýja samningnum hennar hjá Fox. Monroe lék Chérie sem var fátæk kráarsöngkona og varð ástfangin af kúreka. Leikur Marilyn þótti góður og ganrýnandi hjá "New York Times" skrifaði að Marilyn hafði loksins reynst vera leikkona. Leikstjóri myndarinnar Joshua Logan sagði að Marilyn hafi komið honum á óvart og verið algjör stórstjarna á meðan á tökum stóð. Logan stakk upp á því að Marilyn ætti að vera tilnefnd til Óskars fyrir hlutverk sitt en það gerðist ekki. Hún var samt tilnefnd til Golden Globe. Á þeim tíma komst það í fjölmiðla að Marilyn átti í sambandi við Arthur Miller og þau voru of kölluð "séníið og stundaglasið" í blöðunum. Monroe var oft hvött af fólki hjá Fox að fara frá Miller út af því að stjórnvöld yfirheyrðu hann út í eitt út af stjórnmálaskoðunum hans en hann var kommúnisti. Þau giftust 29. júní, 1956. "The Prince and the Showgirl". Þegar hún kláraði "Bus Stop" var Marilyn valin í aðalhlutverkið í myndinni "The Prince and the Showgirl" sem var leikstýrð af Laurence Olivier sem lék einnig aðalhlutverk. Olivier fannst Marilyn vera fyndin gamanleikkona sem þýddi að hún væri líka frábær leikkona að hans sögn. Olivier var ekki hrifinn af leikþjálfa Marilyn og á meðan tökum stóð í Englandi fannst hann hún reyna of mikið á hana. Olivier sagði seinna að Marilyn hafi verið „yndisleg“. Leikur Marilyn fékk fagnaðaróp gagnrýnenda sérstaklega í Evrópu þar sem hún vann ítölsku verðlaunin David di Donatello sem er ítalska útgáfan af óskarnum. Hún fékk líka tilnefningu til BAFTA verðlaunanna árið 1957. Seinni myndir. Ár leið þangað til að hún fór að leika á ný en hún eyddi því ári með eiginmanni sínu. Þau eyddu frítíma sínum á Long Island og hún varð ólétt og missti fóstrið snemma. "Some Like it Hot". Eftir að Miller hvatti hana að snúa til baka til Hollywood ákvað Marilyn að taka við hlutverki í myndinni "Some Like it Hot". Gamanmyndin var leikstýrð af Billy Wilder sem valdi hana í hlutverk „Sugar Cane“ á móti stórleikurunum Tony Curtis og Jack Lemmon. Monroe var sérstaklega erfið við tökurnar á myndinni af því að hún neitaði að hlusta á það sem leikstjórinn sagði og heimtaði að allskonar atriði yrðu endurtekinn þangað til hún var sátt. Marilyn varð góð vinkona Jack Lemmons og þau töluðu oft lengi saman eftir tökur en henni líkaði illa við Tony Curtis sem hafði lýst ástaratriðinu þeirra með því að segja að það hafi verið eins og að kyssa Hitler. Monroe komst að því að hún var ólétt á meðan að tökum stóð í október 1958 en missti fóstur aftur í desember. Myndin þótti vel heppnuð og var tilnefnd til sex óskarsverðlauna og varð sígild undireins. Marilyn fékk Golden Globe verðlaun fyrir leik sinn sen Sugar Cane en allar stjörnur myndarinnar urðu mjög vinsælar á meðal áhorfenda eftir að hún gefinn út í kvikmyndahúsum. Billy Wilder sagði í viðtali að Marilyn hafi verið mjög þreytandi og að hefði þurft að kenna henni að mæta á réttum tíma. "Let's Make Love" og "The Misfits". Á meðan hún lék í "Bus Stop" var henni boðið hlutverk í nýrri mynd sem George Cukor ætlaði að leikstýra. Hún féllst á að leika í myndinni sem átti að heita "Let's Make Love" en hún heimtaði breytingar á handritinu sem eiginmaður hennar Arthur Miller skrifaði. Gregory Peck átti upprunalega að leika á móti Marilyn en hann hætti eftir að honum líkaði ekki nýja handritið. Yves Montand fékk endanlega hlutverkið eftir að leikarar á borð við Cary Grant, Charlton Heston og Rock Hudson höfðu hafnað. Marilyn og Arthur urðu vinir Montands og tökum tókst vel þangað til Miller þurfti að fara til Evrópu í viðskiptaferð. Þá hóf Marilyn að mæta seint á ný og fór stundum heim í miðri töku. Þetta lagaðist þegar Montand talaði við Marilyn og lét hana horfast í augu við vandamálið. Myndin gekk illa í kvikmyndahúsum og fékk slæma dóma. Á þessum tíma versnaði heilsa Marilynar mikið og hún hóf að ganga til sálfræðings sem sagði í viðtali eftir að hún dó að hún hafi kvartað undan svefnleysi. Hún fór til margra lækna og náði sér í óhoflegt úrval af verkjalyfjum og svefntöflum. Samkvæmt sálfræðingnum var hún orðin fíkill árið 1959 og sama hvað hún reyndi gat hún ekki hætt að taka lyfin. Sálfræðingurinn reyndi að hjálpa henni að losna við fíknina með því að minnka magnið sem hún tók af lyfjum. Árið 1960 tók Marilyn að sér hlutverk Roslyn Tabor í myndinni "The Misfits" þar sem hún lék á móti Clark Gable og öðrum stórum Hollywood leikurum. Myndin var skrifuð af Arthur Miller og var byggð á smásögu um fráskilda konu og aldraðan kúreka í Nevada sem Miller hafði skrifað árið 1956. Monroe átti erfitt með að leika á meðan á tökum stóð enda var hún orðin háð töflunum sem hún var að taka og drakk áfengi í óhófi. Í ágúst 1960 þurfti að senda Marilyn á spítala þar sem hún sat inni í 10 daga. Fjölmiðlarnir héldu því fram að hún hefði verið nær dauða en þau vissu ekki afhverju hún var veik. Þegar hún fór aftur til Nevada og kláraði myndina var samband hennar og Millers mikið verra og þau rifust út í eitt. Margir af hinum leikurunum kvörtuðu einnig undan veikindum og Clark Gable var dáinn innan tíu daga eftir að tökum lauk og Marilyn var farin frá eiginmanni sínum. Gangrýnendum fannst myndin slæm og hún var flop í kvikmyndahúsum þó að fólk hafi síðan hrósað leik Clarks og Marilyn miðað við kringumstæður og veikindi. "Something's Got to Give". Árið 1962 hóf Marilyn að leika í myndinni "Something's Got To Give" sem George Cukor leikstýrði. Þegar byrjað var að kvikmynda var Marilyn mjög veik með háan hita. Framleiðandi myndarinnar Henry Weinstein tók eftir því að hún leit hræðilega út á meðan að hún gerði sig klára fyrir næsta atriði hennar. Þann 19. maí það ár mætti hún í afmælisveislu John F. Kennedy þáverandi forseta Bandaríkjanna í New York. Mágur forsetans hafði stungið upp á því að hún myndi fara upp á sviðið og hún söng afmælissönginn fyrir hann sem var sýndur í beinni útsendingu út um öll Bandaríkin. Þetta atriði er enn í dag mjög frægt og er hægt að finna út um allt á internetinu. Þegar Marilyn sneri aftur í vinnuna var hún strax rekinn enda hafði hún aðeins mætt tólf sinnum en hún átti að hafa mætt 35 daga. Myndverið, Fox, kærði hana svo og forstöðumaður fyritækisins Peter Levathes gaf út yfirlýsingu kvartandi að stjörnur væru orðnar ofdekraðar og að fangarnir væru farnir að reka fangelsið í staðinn fyrir verðina. Eftir að hafa verið rekin fór Marilyn í margar myndatökur og viðtöl við tímarit eins og "Cosmopolitan", "Vogue" og "Life". Myndirnar sem hún tók fyrir "Vogue" voru mjög djarfar og hún var nakin á nokkrum þeirra. Viðtal hennar við "Life" varð hennar síðasta og hún ræddi samband sitt við aðdáendur sína og vandamál hennar við það að samsama sig við stjörnuna hennar og kyntákn hennar. Síðustu vikur lífi hennar eyddi hún með því að leita að nýjum hlutverkum í bíómyndum og umræður hófust um nýjann samning við Fox. Nýji samningurinn hennar var upp á eina milljón bandaríkjadali fyrir tvær myndir en Marilyn hélt áfram að fara í prufur fyrir margar myndir sem hún fékk ekki. Allan Whitey Snyder, maðurinn sem hún eyddi miklum tíma með síðasta hluta lífs síns, lýsti hegðun Marylinar síðustu viku lífs hennar sem frábærri. "Hún leit aldrei betur út" sagði hann og talaði um hversu glöð hún var að hafa snúið blaðinu við. Dauðinn og afleiðingar. Lögreglan var kölluð á vettvang klukkan fjögur að morgni þann 5. ágúst árið 1962 eftir að ráðskona Marilyn hafði hringt á neyðarlínuna og tilkynnt hana látna. Lögreglumaðurinn kom að líki leikkonunnar þar sem hún lá nakinn í rúminu sínu með hendina á símtólinu og fullt af lyfseðilsskyldum lyfjum á náttborðinu. Yfir tólf milligröm af sterkum lyfjum fundust í maganum á henni og læknirinn sagði að dánarorsök hennar hefði verið of stór skammtur af lyfjum í einu. Jarðarför hennar fór fram þann 8. ágúst í kirkjugarði í Kaliforníu. Stofnandi "Playboy", Hugh Hefner lét taka frá reitinn við hliðin á Marilyn fyrir sjálfan sig þar sem hann mun láta grafa sig þegar hann deyr. Samsæriskenningar. Margar kenningar hafa komið upp síðan Marilyn dó um hvort hún hafi verið myrt. Margir trúa því að ráðskonan hafi drepið Marilyn en aðrir hafa gengið svo langt og haldið því fram að sjálfur forseti Bandaríkjanna hafi banað henni. Jack Clemmons, lögreglumaðurinn sem var fyrstur á vettvang trúði því að ráðskona Marilyn, Eunice Murray hafi átt eitthvað að gera við dauða hennar. Honum fannst það sérstakt að Murray hafði sett þvott í þvottavélina snemma um morguninn og þegar hann spurði hana var hún mjög taugaveikluð þegar hún talaði. Murray hélt því fram að hún hafði tekið eftir því að svefnherbergishurð Marilynar var læst um miðnætti nóttina áður og þegar hún bankaði á hurðina svaraði enginn. Þá hringdi hún í Dr. Engelberg sem var sálfræðingur Marilynar. Engelberg mætti á staðinn og bankaði á hurðina hjá Marilyn en ekkert svar barst svo að hann fór upp að glugganum hjá henni og sá hana liggja þar hreyfingarlausa. Hann braut gluggann og kom sér inn og fann út að hún var dauð. Murray beið þá í fjórar klukkustundir þangað til hún hringdi í lögregluna og í millitíðinni setti hún í þvottavélina. Krufningarskýrslan sýndi að Marilyn hafði gleypt að minnsta kosti 50 töflur í einu en það var ekkert vatn í krönunum í húsinu hennar. Einkenni taflanna sem hún hafði tekið vantaði alveg allstaðar og lík hennar leit út eins og hún hefði ekki tekið neinar pillur. Kennedy bræðurnir komu upp í máli Marilyn og það kom í ljós að síðasta símtal hennar var til forsetans. Samkvæmt vini hennar, Robert Slatzer, hafði Marilyn planað að halda blaðamannafund á mánudaginn eftir helgina til þess að ræða samband sitt við Kennedy bræðurna. Hún var líka búin að panta tíma með lögfræðingi sínum rétt fyrir blaðamannafundinn til þess að breyta erfðarskránni sinni. Einkalíf. Marilyn var gift þrisvar sinnum, fyrst James Dougherty, næst hafnaboltaspilaranum Joe DiMaggio og síðast Arthur Miller. Fólk hefur haldið því fram að Marilyn hafi verið viðhald bæði John F. Kennedy og Robert F. Kennedy. Marlon Brando hefur einnig haldið því fram að hafa haft ástarsamband með Marilyn í ákveðinn tíma. James Dougherty. Marilyn giftist James Dougherty þann 19. júní árið 1942 þegar hún var aðeins sextán ára gömul. Dougherty sagði frá í bókinni sinni "To Norma Jeane with Love, Jimmie" að þau hafi verið ástfangin en hún þráði frægðina meira en hann og þráin hennar tældi hana í burtu. Árið 1953 skrifaði hann stutta grein fyrir blaðið"„Photoplay“" þar sem hann sagði frá að hann hefði ætlað að fara frá henni en hún hafði hótað að fyrirfara sér svo að hann ákvað að vera áfram hjá henni. Dougherty hélt því fram þangað til hann dó að hann hefði búið til karakterinn hennar Marilyn og að myndverin hefðu neytt hana til þess að skilja við hann. Það hefur þó komið fram að hann hefði skilið við hana eftir að hann kom til baka frá stríðinu út af því að hún neitaði að hætta fyrirsætustörfum. Dougherty var kvæntur á ný mánuðum eftir að hann skildi við Marilyn. Joe DiMaggio. Marilyn Monroe og Joe DiMaggio í Japan í brúðkaupsferðinni þeirra Marilyn hitti Joe DiMaggio árið 1952 eftir að sameiginlegur vinur setti upp stefnumót. Þau giftust í janúar 1954 og fóru síðan í brúðkauðsferð til Tokyo. Á meðan þau voru þar var Marilyn beðin um að fljúga til Kóreu til þess að skemmta hermönnum þar sem hún skemmti í fjóra daga. Þegar þau sneru til baka til Bandaríkjanna fór hjónabandið strax í vaskinn. Þegar hún tók upp fræga pilsatriðið í "The Seven Year Itch" var Joe DiMaggio einn af mörgum áhorfendum og hann varð brjálaður af reiði. Þau rifust mikið eftir það atriði og hún sótti um skilnað stuttu seinna eftir að hafa verið gift í minna en eitt ár. Stuttu seinna reyndu þau aftur að hefja samband og hann hélt afmælisveislu fyrir hana árið 1961 í húsinu sínu en þau voru aldrei par aftur. Eftir að hún dó þá sá hann um jarðarförina hennar og lét senda sex rauðar rósir til hennar þrisvar sinnum í viku í meira en tuttugu ár eftir lát hennar. Arthur Miller. Marilyn giftist Arthur Miller þann 29. júní árið 1956 sem hún hafði kynnst árið 1950. Eftir brúðkauðið fóru hinu nýgiftu hjón í ferð til London og heimsóttu vinafólk sitt Laurence Olivier og Vivien Leigh þar sem breskir fjölmiðlar urðu óðir í Marilyn. Brúðkaup þeirra var mjög hefðbundið gyðingabrúðkauð en Marilyn sem hafði áður verið kristin skipti um trú fyrir hann. Því hefur verið haldið fram að hún hafi verið í sambandi með Tony Curtis þegar hún fór aftur til Bandaríkjanna og tók upp "Some Like it Hot". Curtis hélt því seinna fram að fóstrið sem Marilyn missti þá hafði verið hans en ekki Millers. Þau skildu þann 24. janúar árið 1961 og hann var kvæntur á ný stuttu seinna. Kennedy-bræðurnir. Þann 19. maí árið 1962 söng Marilyn afmælissönginn fyrir John F. Kennedy í beinni sjónvarpsútsendingu í New York. Fatahönnuðurinnn Jean Louis hannaði kjóll sérstaklega fyrir hana sem var seinna seldur á uppboði árið 1999 fyrir rúmar 1.26 milljónir bandaríkjadala. Margir hafa haldið því fram að Marilyn hafi átt í sambandi við John F. Kennedy og Robert F. Kennedy sem voru báðir giftir. Sumir hafa jafnvel sagt að Kennedy bræðurnir hafi myrt Marilyn með því að dæla í hana lyfjum. Sú kenning var aldrei tekin alvarlega af lögreglunni enda fundust engin sönnunargögn sem studdu hana. Robert Kennedy var engu að síður í Kaliforníu daginn sem Marilyn dó 4. ágúst árið 1962. Í dægurmenningu. Marilyn er átrúnaðargoð margra enn í dag og oft tilvitnað í í auglýsingum, kvikmyndum, tísku og fleiru. Margar leikkonur þar á meðal Anna Faris hafa endurleikið atriði Marilynar í "The Seven Year Itch" og margar stórstjörnur sérstaklega Madonna hafa farið í myndartökur og stillt sér upp eins og Marilyn hafði gert áður. Margar ævisögur hafa verið skrifaðar um Marilyn sem hafa orðið metsölubækur út um allan heim. Margir frægir söngvarar þar á meðal Lady Gaga og Jon Bon Jovi hafa sungið um Marilyn og nokkrar óperur hafa verið skrifaðar um hana. Marilyn er oft mjög vinsæl á meðal eftirherma og það eru oft margar "Marilynar" á gleðigöngum. Heimildir. Greinin er að hluta til þýdd frá ensku útgáfunni en það er einnig búið að bæta við ákveðnum atburðum frá lífir Marilynar og heimildirnar eru sýndar í listanum fyrir neðan. http://en.wikipedia.org/wiki/Marilyn_monroe Monroe, Marilyn Selsíus. Selsíus eða Celsíus er hitakvarði, þar sem hiti er táknaður með °C eða ℃ (U+2103 í Unicode). Nefndur eftir sænska stjörnufræðingnum Anders Celsius, sem skilgreindi hann fyrst 1742. Kvarðinn er nú skilgreindur þannig að 0,01 °C samsvarar þrípunkti vatns og ein gráða á selsíus er 1/273,16 af muninum milli alkuls og þrípunkt vatns. Þessi skilgreining var tekin upp árið 1954 á 10. fundi Conférence Générale des Poids et Mesures, en á honum var einingin kelvin einnig skilgreind. Upprunalega var þó kvarðinn skilgreindur þannig að 100 °C samsvöruðu frostmarki vatns og 0 °C samsvöruðu suðumarki þess við, bæði við staðalþrýsting, þessu var breytt árið 1747 og kvarðanum snúið við þannig að 0 °C samsvöruðu frostmarkinu og 100 °C suðumarkinu. Arabíuhaf. thumb Arabíuhaf er sá hluti Indlandshafs sem er á milli Indlandsskaga og Arabíuskagans, mesta breidd þess er um 2.400 km, og mesta dýpt þess er 4.652 m. Evrasía. Evrasía er landsvæði sem samanstendur af heimsálfunum Evrópu og Asíu. Stundum er svæðið talin ein heimsálfa, stundum ein ofurheimsálfa og stundum er það talið hluti af ofurheimsálfu ásamt Afríku. Evrasíski jarðskorpuflekinn nær yfir alla Evrópu og mestan hluta Asíu fyrir utan Indlandsskaga og Arabíuskaga, um helming Íslands og allra austasta hluta Síberíu. "Evrasía" er einnig notað í alþjóðastjórnmálum sem hlutlaus leið til að tala um samtök eða mál sem tengjast fyrrum Sovétríkjum. Fyrrum Sovétlýðveldi. Þau eru öll, að Eystrasaltslöndunum undanskildum, í Samveldi sjálfstæðra ríkja sem stundum er litið á sem einskonar „arftaka Sovétríkjanna“, þrátt fyrir að vera einungis samstarfsvettvangur, ekki sambandsríki eins og Sovétríkin voru. Söguheimur. Söguheimur er skáldaður heimur þar sem að saga á sér stað. Slíkur heimur getur verið ýmist alfarið skapaður frá grunni eða byggður á raunveruleikanum að einhverju leyti. Tilgangur slíkra heima er sá, að gefa höfundi skáldverksins ótakmarkað svigrúm til listrænnar sköpunar, hvort sem það er í formi bókmennta, sjónvarpsþátta, tónlistar, leiklistar eða spunaspila, svo dæmi séu nefnd. Söguheimar í skáldsögum. Þekktasti söguheimur í skáldsögu er án efa Miðgarður eða Middle Earth í sögum J.R.R. Tolkiens, en sá heimur á ekkert skylt við raunveruleikan þó svo að margt í þeim heimi eigi sér samsvörun í raunveruleikanum, og heimurinn er byggður að mjög miklu leyti á norrænni goðafræði. Dæmi um þekkta heima sem byggja á raunveruleikanum eru heimurinn í Harry Potter bókunum og heimur H.P.Lovecrafts, sem byggir á Bandaríkjunum c.a. 1920, en bætir við ýmsum ógnvekjandi fyrirbærum á borð við uppvakninga, djöfla o.fl. Narnía heimurinn byggir á Evrópu á miðöldum en bætir við göldrum og ýmsum forneskjulegum verum. Framtíðarlegir heimar í skáldskap eru margir - söguheimarnir í bókunum Bicentennial Man og I, Robot eftir Isaac Asimov og heimur Neal Stephensons sem kemur fram m.a. í Snow Crash og The Diamond Age eru dæmi um það. Söguheimar í sjónvarpi og kvikmyndum. Margir mjög þekktir söguheimar hafa komið fram í kvikmyndum og sjónvarpi. Þeirra þekktastur er líklega Star Wars heimurinn, sem er heil uppspunin stjörnuþoka sem ber þó mörg einkenni þeirrar stjörnuþoku sem við lifum í. Star Trek og Babylon 5 sýna sýn höfunda þeirra þáttasería á framtíð mannkynsins. Söguheimar sem eru nær okkur í tíma eru til dæmis kaldastríðsheimar Tom Clancy í bókum og myndum hans um Jack Ryan og Ian Flemming um Breska spæjarann James Bond. Söguheimar í tónlist. Ýmsir hljómlistamenn hafa notast við sérstaka söguheima í tónverkum sínum, sérstaklega í söngleikjum og óperum. Gott dæmi um þetta er hljómsveitin Ayreon. Söguheimar í spunaspilum. Spunaspil hafa verið grundvöllur fyrir gerð margra söguheima. Þekktir söguheimar í spunaspilum eru Forgotten Realms heimur Dungeons & Dragons spilsins og framtíðarheimurinn í Cyberpunk og Shadowrun spilunum. Margir einstakir spunaspilsstjórnendur skapa sína eigin söguheima, en dæmi um tilbúinn heim eftir Íslending er Calara eftir Kára Emil Helgason. Söguheimar í tölvuleikjum. Margir tölvuleikir gerast í söguheimum sem eiga sér litla hliðstæðu í veruleikanum. Dæmi um víðtæka söguheima sem skapaðir hafa verið fyrir tölvuleiki eru Warcraft og Starcraft heimarnir sem skapaðir hafa verið af Blizzard tölvuleikjaframleiðandanum. Fjölmörg fleiri dæmi eru til, sérstaklega á sviði fjölspilunarleikja á netinu (MMORPG). Eyja. Eyja er landslagsþáttur sem er minna en meginland en stærra en sker og umkringt vatni. Dæmi um eyjar eru Ísland, Bretlandseyjar, Nýja Sjáland og Alkatraseyja. Flokkun á eyjum í Breiðafirðinum. Eyjar: Stærsta flokkinn skipa hinar venjulegu eyjar. Enginn ágreiningur er um hvað tilheyri þessum flokki. Þær eru þó mjög misjafnar að stærð og lögun. Hólmar: Þeir ganga næst eyjum að stærð. Flaga: Munurinn á hólma og flögu er ekki stærð eða flatarmál heldur lögun. Flagan er í flestum tilfellum mun lægri en hólminn. Klettar: Þeir eru ekki allir gróðurlausir og má telja nokkra þeirra tii eyja og hefur það löngum verið gert. Sker: Sker er sá flokkur sem er hvað þunnskipaðastur, þó þau skipti nokkrum tugum. Skerjum skiptu menn í flokka hér áður fyrr. Helstu flokkarnir samkvæmt breiðfiskri málvenju eru þessir. Klettur er hæsta tegund skerja. Hann fer ekki í kaf um venjulegar stórstraumsflæðar. Boði: er ein tegund skerja. Hann er oftast langur eða mjór. Þegar hann er hringlaga eða hnattlaga er hann oftast nefndur hnöttótti boðinn. Venjulega er boðinn aðeins vaxinn slýi, sölvum eða hrúðurkörlum. Þeir standa oftast fjarri öðrum og eru þá skerja hættulegastir. Ef þeir standa saman með skömmu millibili eru þeir oftast nefndir hleinar. Þó er venjulega talað um hleina við eyjar eða annað þurrlendi. Hnúa eða hnúfa: er samskonar tegund skerja og boðinn, nema hvað hún er ævinlega minni. Hlein eru boðar nefndir sem standa nálægt hverjum öðrum. Tangi (Bergsveinn lýsir honum ekki nánar). Flúra er lág tegund skerja sem kemur upp úr sjó um venjulegar stórstraumsfjörur. Ummál hennar er venjulega lítið. Oftast er hún vaxin þangi, sölvum eða slýi. Grunn er lægst og kemur ekki úr sjó nema um lægstu fjörur eða alls ekki. Aðeins sjást bylta sér á því rauðbrún, þrekvaxin þarablöð sem gefa til kynna það sem undir býr. Grunn eru skerja hættulegust. Þórunn Valdimarsdóttir. Þórunn Erlu og Valdimarsdóttir fædd 25. ágúst 1954 er alin upp í Reykjavík, íslenskur rithöfundur og sagnfræðingur. Hún hefur skrifað rúmlega 20 bækur, ótal greinar og unnið þætti fyrir útvarp og sjónvarp um söguleg efni. Hún vakti fyrst almenna athygli fyrir þriðju bók sína, ævisöguna "Snorri á Húsafelli" árið 1989. Þórunn er stúdent frá MH 1973, nam sagnfræði í Lundi Svíþjóð 1973-74 og sat í listaháskóli San Miguel de Allende Mexíkó 1977-78. Cand. mag. í sagnfræði frá H.Í 1983 og hefur síðan stundað ritstörf. Á tvo syni með Eggerti Þór Bernharðssyni, Gunnar Theodór 090182 og Valdimar Ágúst 090892. Tengt efni. - Fyrstu verð¬laun í örverka¬samkeppni Bjarts og Emelíu Örsögur í BJARTI OG FRÚ EMELÍU 1, 1992. - Menningarverðlaun DV STÚLKA MEÐ FINGUR. Söguleg skáldsaga. Forlagið 1999. Mál og menning 2000. PublishAmerica 2004. - Viðurkenning Félags bókasafns- og upplýsingafræða fyrir bestu frumsömdu fræðibók ársins 2006 UPP Á SIGURHÆÐIR. JPV 2006. - Rauða hrafnsfjörðin. DAGUR KVENNANNA. ÁSTARSAGA. Nóvella skrifuð með Megasi. Uppheimar 2010. Tilnefnd til ísl. bókmenntaverðlaunanna fyrir SNORRA Á HÚSAFELLI. SÖGU FRÁ ÁTJÁNDU ÖLD. Tilnefnd til menningarverðlauna DV ALVEG NÓG. Skáldsaga. Tilnefnd til menningarverðlauna DV STÚLKA MEÐ FINGUR. Söguleg skáldsaga. Tilnefnd til ísl. bókmenntaverðlaunanna fyrir KRISTNI Á ÍSLANDI. Einn af 5 aðalhöfundum í 4 binda verki. Sagnfræði. Alþingi 2000. Tilnefnd til Norðurlandaverðlauna 2000 FLICKA MED FINGER. Söguleg skáldsaga. PublishAmerica 2004. Tilnefnd til ísl. bókmenntaverðlaunanna UPP Á SIGURHÆÐIR. SAGA MATTHÍASAR JOCHUMSSONAR. Tilnefnd til ísl. bókmenntaverðlaunanna KALT ER ANNARS BLÓÐ. Krimmi. Tilnefnd til heiðursverðlauna Hagþenkis UPP Á SIGURHÆÐIR. SAGA MATTHÍASAR JOCHUMSSONAR. Sagnfræði. Tilnefnd sem einn af 5 bestu titlum ársins 2008 LOFTNET KLÓRA HIMIN. Ljóðabók. Tilnefnd til ísl. bókmenntaverðlaunanna MÖRG ERU LJÓNSINS EYRU. Krimmi. Einar Kárason. Einar Kárason (f. 24. nóvember 1955) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hann byrjaði á því að birta ljóð í tímaritum undir lok áttunda áratugarins, en fyrsta skáldsagan hans, "Þetta eru asnar Guðjón", kom út árið 1981. Árið 1983 sló hann svo eftirminnilega í gegn með skáldsögunni "Þar sem djöflaeyjan rís" sem varð fyrsta bókin í þríleik um líf alþýðufjölskyldu í Reykjavík á eftirstríðsárunum. Eftir Djöflaeyjunni hefur verið gert vinsælt leikrit og samnefnd kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson (1996). Einar fylgdi velgengni „eyjabókanna“ eftir með fjölskyldusögu úr samtímanum um Killiansfólkið, "Heimskra manna ráð" og "Kvikasilfur". Árið 1998 kom út "Norðurljós", söguleg skáldsaga sem gerist á 18. öld, og frá 2001 hafa komið út eftir hann þrjár sögulegar skáldsögur sem allar snúast um atburði Sturlungaaldar, "Óvinafagnaður", "Ofsi" og "Skáld". Einar hefur hlotið ýmis verðlaun og tilnefningar fyrir skrif sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin 2008. Þá hefur hann fjórum sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (1987, 1996, 2005 og 2010). Guðbergur Bergsson. Guðbergur Bergsson (f. 16. október 1932 í Grindavík) er íslenskur rithöfundur og þýðandi úr spænsku. Skáldsagan, "Tómas Jónsson, metsölubók", sem kom út árið 1966, vakti athygli sem tímamótaverk og er oft talin fyrsta móderníska skáldsagan á íslensku. Verk hans hafa verið þýdd á búlgörsku, dönsku, eistnesku, finnsku, frönsku, litháísku, norsku, spænsku, ensku og þýsku. Guðbergur er sérlegur heiðursborgari Grindavíkur. Faðir Guðbergs starfaði sem sjómaður á veturna og trésmiður á sumrin í Grindavík þar sem Guðbergur ólst upp. Þegar Guðbergur fæddist stóð kreppan mikla yfir, og þótt að heldur hrörlegt hafi verið í Grindavík segir hann að andrúmsloftið hafi verið gott. Guðbergur vann við sjómennsku á yngri árum en útskrifaðist svo með kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1955. Því næst ferðaðist hann til Spánar þar sem hann útskrifaðist með próf í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona árið 1958. Guðbergur starfaði á fyrri hluta tíunda áratugarins sem listagagnrýnandi hjá vikublaðinu Helgarpósturinn. Árið 1992 kom út bókin "Guðbergur Bergsson; metsölubók" sem er eins konar viðtalsbók Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur við Guðberg og jafnframt tilvísun í "Tómas Jónsson, metsölubók". "Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar", sem kom út 1997 er svo eins konar sjálfsævisaga Guðbergs. Guðbergur hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Svaninn árið 1991 og fyrir skáldævisöguna Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar árið 1997. Guðbergur hlaut Norræn verðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar árið 2004. Guðbergur fékk Riddarakross Afreksorðunnar frá Spánarkonungi. Árið 1994 var frumsýnt leikrit eftir Viðar Eggertsson sem hann skrifaði upp úr Tanga-bókum Guðbergs, "Það sefur í djúpinu", "Hermann og Dídí" og "Það rís úr djúpinu". Viðar leikstýrði sýningunni sjálfur og fékk Menningarverðlaun DV 1995 fyrir hvort tveggja. Þjóðleikhúsið sýndi verkið sem nefndist Sannar sögur af sálarlífi systra. Þórbergur Þórðarson. Þórbergur Þórðarson (12. mars 1888 á Hala í Suðursveit – 12. nóvember 1974 í Reykjavík) var íslenskur rithöfundur. Hann ólst upp í sveit og fór ungur til Reykjavíkur til að vinna á skútu. Árið 1924 kom út fyrsta stóra bók hans, "Bréf til Láru", sem olli gríðarlegu uppnámi og gerði Þórberg þjóðfrægan og illræmdan á einni nóttu. Ævi. Foreldrar Þórbergs hétu Þórður Steinsson (1854-1926) og Anna Benediktsdóttir (1863-1940) og bjuggu þau á bænum Hala í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu. Hann átti tvo yngri bræður, Steinþór (f. 1892) og Benedikt (f. 1896), og eina systur, Guðnýju (f. 1890). Foreldrar hans tjáðu honum að hann hefði fæðst 1889, ári seinna en ritað var í bækur og tók Þórbergur að miða við það ártal. Sem barn var hann sagður veiklulegur og þoldi illa erfiðisvinnu. Þess vegna ákvað faðir hans að Steinþór, yngri bróðir hans tæki við búinu. Þórbergur hlaut framan af litla formlega menntun meðal annars sökum þess að hann þurfti sjálfur að sjá fyrir sér. Árið 1906 fluttist hann að Vitastíg 9 í Reykjavík og gerði vistarbandssamning við Runólf Guðmundsson húseiganda. Runólfur sá honum fyrir mat, skotsilfri og húsnæði en þess í stað réðst Þórbergur sem kokkur á skútuna „Seagull“ og Kútter Hafstein. Árið 1909 skildust leiðir Þórbergs og Runólfs og hóf Þórbergur nám við Kennaraskólann en varð fljótt afhuga því og hóf nám utanskóla við Menntaskólann í Reykjavík. Þórbergur þurfti sjálfur að sjá sér farborða og var hann oft fátækur og hungraður á námsárum sínum. Árið 1911 kynnist hann Sólrúnu Jónsdóttur og varð ástfanginn af henni en móðir hennar vildi ekki gifta dóttur sína manni sem gat ekki séð fyrir henni. Vorið 1913 reyndi hann við gagnfræðipróf og féll. Hann hélt þó ótrauður áfram og sótti fyrirlestra við Háskóla Íslands sem voru opnir öllum. Hann fékk þó ekki að taka próf. Árið 1919 giftist Sólrún Steinþóri Pálssyni sjómanni án þess þó að þau felldu saman hugi og eignuðust þau son saman. Sólrún tók þó upp ástarsamband við Þórberg 1922 og varð ófrísk af hans völdum ári seinna. Í febrúar 1924, sama ár og "Bréf til Láru" kom út, eignuðust þau dóttur sem kennd var við Steinþór. Þórbergur kenndi við Iðnskólann á árunum 1918-25 sem og við Verslunarskólann á árunum 1921-25. Á sama tíma fékk Þórbergur áhuga á dulspeki og guðspeki og ferðaðist til London, Parísar og Kaupmannahafnar árið 1921 til þess að kynna sér dulspekiefni nánar. Stjórnmálaskoðanir hans hneigðust til vinstri og ritaði hann ýmsar greinar til varnar Sovétríkjunum. Árið 1925 fékk Þórbergur mikinn áhuga á esperanto. Hann giftist Margréti Jónsdóttur þann 1. október 1932. Haustið 1933 réð Þórbergur sig sem blaðamann Alþýðublaðsins. Þórbergur var heiðursfélagi í Skaftfellingafélaginu og Rithöfundafélaginu. Hann var kosinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1974, stuttu áður en hann lést úr heilablóðfalli á Landspítalanum í Reykjavík þann 12. nóvember 1974 og var hann þá kominn með Parkinsons-veiki. Þann 30. júní 2006 var Þórbergssetur, safn til minningar um Þórberg, opnað á Hala í Suðursveit. Gyrðir Elíasson. Gyrðir Elíasson (fæddur 4. apríl 1961) er íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Gyrðir hefur hlotið ýmsar viðurkennningar, og þar á meðal bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir bók sína, "Milli trjánna". Gyrðir er austfirðingur að uppruna en ólst upp á Sauðárkróki. Faðir hans, Elías B. Halldórsson, var myndlistarmaður, og einnig báðir bræður hans, Sigurlaugur Elíasson og Nökkvi Elíasson. Gyrðir gaf út fyrstu ljóðabók sína, "Svarthvít axlabönd", árið 1983 og fyrsta skáldsagan, "Gangandi íkorni", kom út 1987. Gyrðir þykir góður stílisti og eru bækur hans mjög ljóðrænar. Útgáfa ljóðaþýðinganna „Flautuleikur álengdar“, sem út komu árið 2008 hjá Uppheimum, markaði tuttugu og fimm ára rithöfundarafmæli hans. Gyrðir býr í Reykjavík. Hann er kvæntur og á þrjú börn. Ólafur Davíðsson. Ólafur Davíðsson (26. janúar 1862 – 6. september 1903) var íslenskur náttúrufræðingur og þjóðfræðingur. Hann lærði náttúrufræði í Kaupmannahafnarháskóla en fór þá þegar að snúa sér að þjóðfræðum, m.a. á Árnasafni. 1897 fór hann aftur til Íslands og var kennari á Möðruvöllum í Hörgárdal og stundaði samhliða þjóðsagnasöfnun og fræðistörf. Ólafur drukknaði í Hörgá ókvæntur og barnlaus. Medúsa. Medúsa (gríska: Μεδουσα, "drottning") er skrýmsli í grískri goðafræði sem breytti fólki í stein með augnaráðinu. Hún var ein af gorgónunum. Hún var drepin af Perseifi með aðstoð Aþenu og Hermesar. Við það stökk vængjaði hesturinn Pegasos úr höfði hennar. Medúsa (fjöllistahópur). Medúsa var hópur listamanna sem rakti rætur sínar til Breiðholtsins árið 1979 og stóð til um 1986 þegar flestir meðlimir voru farnir að sinna öðrum málum. Hópurinn gaf út mikið af bókum og hljómsnældum þar sem höfundar sáu sjálfir um alla þætti útgáfunnar. Hópurinn kenndi sig við súrrealisma, hreyfingu upprunna í Frakklandi sem gaf frá sér sína fyrstu stefnuyfirlýsingu 1924 undir forystu skáldsins André Breton (1896-1966). Meðlimir Medúsu fengust við myndlist, ljóðlist og tónlist og skipulögðu uppákomur þar sem ljóð voru lesin upp við undirleik hljómsveitarinnar Fan Houtens Kókó þar sem Matthías Magnússon var aðalsöngvari, Ólafur Jóhann Engilbertsson spilaði á bassa, Einar Melax hljómborð og Þór Eldon á gítar. Medúsuhópurinn rak á þessum tíma sýningarsalinn Skruggubúð í Suðurgötu, skúr við hliðina á Hjálpræðishernum sem var síðan rifinn til að stækka bílastæðin þar. 1983 tóku Einar Melax og Þór Eldon þátt í myndun súpergrúppunnar KUKL. Bragi Ólafsson. Bragi Ólafsson (f. 11. ágúst 1962) er íslenskt ljóðskáld, leikskáld, rithöfundur og tónlistarmaður. Hann var í hljómsveitunum Purrki Pillnikk og Sykurmolunum og var einn af stofnendum Smekkleysu. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, "Dragsúg", árið 1986. Svava Jakobsdóttir. Svava Jakobsdóttir (4. október 1930 í Neskaupstað – 21. febrúar 2004) var íslenskur rithöfundur og leikskáld. Hún er líklega þekktust fyrir smásögur sínar og skáldsöguna "Leigjandinn" sem kom út 1969 og var eitt sinn túlkuð sem ádeila á veru hersins á Íslandi eða sem tvískipt heimsmynd Kalda stríðsins. Öðrum þræði þykja skrif Svövu endurspegla reynsluheim kvenna gjarnan á kaldhæðinn hátt. Svava átti sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið árin 1971 – 1979. Árið 2001 var hún sæmd riddarakross Fálkaorðunnar fyrir „störf í þágu lista og menningar.“ Ævi. Svava fæddist á Neskaupsstað þar sem faðir hennar var sóknarprestur, ung að árum fluttist hún með fjölskyldu sinni til Saskatchewan í Kanada þaðan sem fjölskylda hennar sneri aftur til Íslands 1940. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949. Árið 1950 birtist fyrsta smásaga hennar „"Konan í kjallaranum"“ í smásagnakeppni tímaritsins Líf og list og vann hún fyrstu verðlaun. Því næst stundaði hún stuttlega nám í Háskóla Íslands áður en hún hélt til Bandaríkjanna til náms við Smith College í Northampton í Massachusetts og lauk B.A.-gráðu í enskum og amerískum bókmenntum árið 1952. Ennfremur sótti hún framhaldsnám í forníslenskum bókmenntum við Somerville College í Oxford í Englandi frá 1952 til 1953. Þann 11. júní 1955 giftist hún Jóni Hnefli Aðalsteinssyni. Svava starfaði í utanríkisráðuneytinu og í íslenska sendiráðinu í Stokkhólmi 1955 til 1960. Hún kenndi við Barna- og unglingaskólann á Eskifirði 1963 til 1964. Árið 1965 eftir kom fyrsta bók hennar, smásagnasafnið "12 konur" út. Svava tók sér starf sem blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsins 1966 til 1969. Árin 1968 til 1971 settist hún í stjórn Rithöfundarfélags Íslands og starfsmaður við dagskrárdeild RÚV 1969 til 1970. Svava var fulltrúi Íslands í samráðshóp sem gerði úttekt á menningarsamstarfi Norðurlandanna á grundvelli norræna menningarmálasamningsins 1972 til 1978. Hún var varamaður í stjórn Norræna hússins í Reykjavík 1979 til 1984 og í safnráði Listasafns Íslands 1979 til 1983. Hún var fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980 til 1983. Hún var í stjórn Máls og menningar 1976 til 1979 og átti einnig sæti í fulltrúaráði þess. Hún var í Rithöfundaráði 1978 til 1980. Hún sat einnig í stjórn Leikskáldafélags Íslands 1986 til 1990. Svava var fulltrúi Íslands í listkynningu Scandinavia Today í Japan 1987. Þingstörf. Svava sat tvö kjörtímabil á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið (árin 1971 – 1979). Hún sat einnig í Rannsóknaráði ríkisins 1971 til 1974 og var varamaður 1978 til 1979. Hún var ennfremur varamaður í Norðurlandaráði 1971 til 1974 og aðalmaður þess 1978 til 1979. Svava var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árin 1972, 1974, 1977 og 1982. Friðrik Þór Friðriksson. Friðrik Þór á Edduverðlaununum 2007 Friðrik Þór Friðriksson (fæddur 12. maí 1954) er íslenskur kvikmyndaleikstjóri og kvikmyndagerðarmaður. Friðrik hóf feril sinn með gerð stuttmynda og heimildarmynda sér í lagi Rokk í Reykjavík og Kúrekar norðursins við góðar undirtektir. Mynd hans Brennu Njáls saga þótti umdeild enda sýnir hún eingöngu bókina brenna. Hann stofnaði ásamt öðrum Íslensku kvikmyndasamsteypuna árið 1987. Þekktasta mynd hans er Börn náttúrunnar frá 1991 sem fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna. Friðrik hefur unnið tölvuvert með rithöfundunum Einari Má Guðmundssyni og Einari Kárasyni. Árið 2006 lék Friðrik aukahlutverk í mynd Lars von Triers Direktøren for det Hele. Pakistan. Íslamska lýðveldið Pakistan (Úrdú: اسلامی جمہوریۂ پاکستان "islāmī jamhūriya i pākistān") er land í Suður-Asíu. Það er sjötta fjölmennasta ríki heims og næstfjölmennasta ríki heims þar sem flestir íbúar eru múslimar. Landið liggur að Indlandshafi í suðri, Íran í vestri, Afganistan í norðvestri, Kína í norðri og Indlandi í austri. Dímítríj Sjostakovítsj. Dímítríj Dímítrívítsj Sjostakovítsj (rússneska: Дмитрий Дмитриевич Шостакович) (25. september 1906 – 9. ágúst 1975) var rússneskt tónskáld uppi á sovíettímabilinu. Hann er einna þekktastur fyrir sinfóníur sínar og strengjakvartetta, fimmtán talsins hver um sig. Akabaflói. a>. Akabaflói sést hægra megin við skagann. Akabaflói er stór flói í Rauðahafi á milli Sínaískaga og Arabíuskaga. Lönd sem eiga strandlengju að Akabaflóa eru Egyptaland, Ísrael, Jórdanía og Sádí-Arabía. Flóinn er 24 km breiður þar sem hann er breiðastur og 160 km langur. Við norðurenda flóans eru borgirnar Taba í Egyptalandi, Elíat í Ísrael og Akaba í Jórdaníu. Jarðfræðilega er Akabaflói hluti af Sigdalnum mikla. Sínaískagi. Sínaískagi (arabíska: شبه جزيرة سيناء, "Shibh Jazirat Sina") er þríhyrndur skagi sem skagar út í Rauðahaf og tilheyrir Egyptalandi. Hann afmarkast af Miðjarðarhafinu í norðri, Súesflóa og Súesskurðinum í vestri og Akabaflóa og landamærum Egyptalands og Ísraels í austri. Sínaískagi er sá hluti Egyptalands sem tilheyrir Suðvestur-Asíu, en aðrir hlutar landsins eru í Norður-Afríku. Skaginn er að mestu leyti eyðimörk. Á suðurhluta skagans er Sínaífjall þar sem Móses tók samkvæmt Biblíunni við steintöflum með boðorðunum tíu. Sigdalurinn mikli liggur austan megin við skagann. Hermann Hesse. Hermann Hesse (2. júlí 1877 í Calw í Þýskalandi – 9. ágúst 1962 í Montagnola í Sviss) var þýskur rithöfundur. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1946. Tengill. Hesse, Hermann Hesse, Hermann Súeseiðið. Súeseiðið er 113 km breitt eiði sem tengir saman heimsálfurnar Afríku og Asíu (Sínaískaga) og skilur á milli Miðjarðarhafs og Rauðahafs (Súesflóa). Gegnum eiðið liggur 163 km langur skipaskurður, Súesskurðurinn. Þar eru stöðuvötnin Great Bitter Lake, Little Bitter Lake, Manzala-vatn og Timsah-vatn, öll tengd saman með skurðinum. Þar eru hafnarborgirnar Port Saíd (Miðjarðarhafsmegin) og Súes (Rauðahafsmegin). Port Saíd. Port Saíd (arabíska: بور سعيد (umritað: "Būr Saʻīd")) er hafnarborg á Miðjarðarhafsströnd Egyptalands, nyrst á Súeseiðinu við norðurenda Súesskurðsins. Íbúafjöldi er um hálf milljón. Efnahagslíf borgarinnar byggir á fiskveiðum og iðnaði, eins og efnaiðnaði, matvælaiðnaði og tóbaksvinnslu. Borgin er líka mikilvæg útflutningshöfn fyrir aðrar egypskar vörur, eins og bómull og hrísgrjón. Hún er líka eldsneytisstöð fyrir skip sem fara um Súesskurðinn. Port Saíd er fríhöfn og vinsæll sumardvalarstaður. Austan megin við skurðinn liggur systurborg Port Saíd, Port Fúad. Daglegar ferjur tengja borgirnar. Súesflói. Súesflói (arabíska: "Khalij as Suways") er sá vestari af tveimur norðurendum Rauðahafsins þar sem það skiptist við Sínaískaga. Hinn endinn liggur í Akabaflóa. Flóinn er 175 km langur að hafnarborginni Súes í norðurendanum, og liggur í sigdal sem hefur myndast fyrir um 40 milljón árum. Mörkin milli Afríku og Asíu liggja eftir miðjum flóanum og gegnum Súeseiðið. Eiði. Eiði, landbrú eða grandi er mjó landræma, sem tengir tvo stærri landmassa. Eiði henta vel til skipaskurðagerðar og liggja margir þekktir skipaskurðir einmitt í gegnum eiði, þar á meðal Panamaskurðurinn sem tengir Atlantshafið og Kyrrahafið gegnum Panamaeiðið og Súesskurðurinn sem tengir Miðjarðarhafið og Rauðahafið gegnum Súeseiðið. Súes. Súes (arabíska: السويس (umritað: "as-Suwais")) er hafnarborg í Egyptalandi nyrst í Súesflóa við suðurenda Súesskurðsins. Íbúafjöldi er um 460 þúsund. Borgin er í 135 km fjarlægð frá Kaíró. Bærinn var lagður í rúst og yfirgefinn í Sex daga stríðinu 1967, en endurbyggður eftir að skurðurinn opnaði að nýju 1975. Sund (landslagsþáttur). Sund er ræma vatns sem liggur milli tveggja landmassa og tengir tvo stærri vatnsmassa saman, andhverfa sunds er eiði. Kaíró. Kaíró (arabíska: القاهرة, (umritað: "al-Qāhirah")) er höfuðborg Egyptalands. Hún er fjölmennasta borg Afríku og þrettánda fjölmennasta borg heims, með 15 milljón íbúa. Borgin stendur á bökkum Nílar, og á eyjum úti í ánni rétt sunnan við þann stað þar sem hún skiptist í þrennt og rennur út í Nílarósa. Borgin liggur skammt frá höfuðborg Forn-Egypta, Memfis, sem var stofnuð um 3100 f.Kr.. Þar sem Kaíró stendur nú var fyrst byggt rómverskt virki kringum árið 150. Elsti hluti borgarinnar er á austurbakka árinnar en brýr tengja nú við borgarhlutana Gísa og Imbabah vestan megin árinnar. Kaíró er ein elsta borg í heimi. Panamaeiðið. Panamaeiðið er eiði sem aðskilur Norður- og Suður-Ameríku. Álfurnar höfðu verið aðskildar frá því á Krít, þegar Pangea brotnaði upp. Þegar töluvert var liðið á plíósen-tímabilið, fyrir um 3,5 milljónum ára, varð til landbrú á milli meginlandanna þegar karabíska flekann rak til austurs og Panamaeiðið varð til. Áhrif opnunar Panamaeiðsins var afar mikil á fánur Suður- og Norður-Ameríku, þar sem tegundablöndunin mikla átti sér stað. Áhrif myndunar Panamaeiðsins á loftslag á jörðinni voru mikil þar sem selta Atlantshafsins jókst og Golfstraumurinn fór af stað með djúpsjávarmyndun á mörkum Norður-Atlantshafs og Norður-Íshafs. Leiddi þetta til kólnunar á norðurhveli jarðar og vísaði veginn fyrir komu ísaldarinnar. Þvermál. Með Þvermáli er átt við mestu fjarlægð milli tveggja punkta á yfirborði hlutar. Í rúmfræði á þvermál hrings við er lengd línu frá einum punkti á hringferlinum að öðrum í gegnum miðpunkt hringsins. Þvermál mengis í firðrúmi er minnsta yfirtala allra firða milli tveggja staka mengisins, þ.e. ef "A" er mengi í firðrúmi þá er talan sup "þvermál" mengisins "A". Rzeszów. Rzeszów er 23. stærsta borg Póllands og höfuðborg Podkarpackie sýslu. Dauðahaf. a> (mið mynd) og Dauðahaf (neðst á mynd). Dauðahaf eða Saltisjór (arabíska: البحر الميت,hebreska ים המלח) er lægsti sýnilegi punkturinn á yfirborði jarðar; yfirborð þess liggur 417,5 metra undir sjávarmáli. Það liggur á landamærum Ísraels, Vesturbakkans og Jórdaníu, í Sigdalnum mikla. Vatnið er dýpsta salttjörn heims. Það er 76 km að lengd, allt að 18 km breitt og 400 metra djúpt þar sem það er dýpst. Dauðahafið hefur ekkert afrennsli, þannig að allt sem í það rennur gufar upp. Albertsvatn. Albertsvatn eða Albert Nyanza (eða Mobutu Sese Seko-vatn) er nyrst af Stóru vötnunum í Afríku og sjöunda stærsta vatn álfunnar. Það er staðsett nokkurn veginn á miðju meginlandinu, á landamærum Úganda og Lýðveldisins Kongó. Vatnið er 160 km langt, 30 km breitt og dýpst 51 metri. Yfirborð þess er 619 metra yfir sjávarmáli. Albertsvatn er hluti af vatnakerfi efri hluta Nílar. Meginaðrennsli vatnsins eru Viktoríuníl sem rennur þangað úr Viktoríuvatni, og Semlikiá sem rennur úr Játvarðsvatni inn í mýrarnar við suðurenda Albertsvatns. Úr Albertsvatni rennur Alberts-Níl sem heitir Fjalla-Níl eftir að hún rennur inn í Súdan. Breski landkönnuðurinn Samuel White Baker varð fyrstur Evrópumanna til að finna vatnið og gaf hann því nafnið í heiðursskyni við Albert prins, eiginmann Viktoríu drottningar, en hann var þá nýlátinn. Síðar var vatnið opinberlega nefnt Mobutu Sese Seko-vatn í Saír og er ennþá nefnt því nafni í Austur-Kongó. Bengalflói. Bengalflói er þríhyrnt hafsvæði eða gríðarstór flói í norðausturhluta Indlandshafs á milli Indlandsskaga og Andamaneyja við Malakkaskaga. Við norðurenda flóans er indverska ríkið Vestur-Bengal, sem flóinn dregur nafn af, og landið Bangladess. Í suðvestri er eyjan Srí Lanka (áður Seylon) og Andaman- og Níkóbareyjar marka flóann til austur. Austan megin við flóann eru Mjanmar (áður Búrma) á Malakkaskaga, en austan megin við Andamaneyjar, við strönd Taílands, er Andamanhaf. Helstu ár sem renna í flóann norðanmegin eru Gangesfljót, Meghna og Brahmaputra, og suðvestanmegin Mahanadi, Godavari, Krishnafljót og Kaveri. Norðaustanmegin rennur fljótið Ayeyarwaddy út í flóann frá Mjanmar. Fljótin Ganges, Meghna og Brahmaputra renna öll um sömu árósa þar sem Sundarban fenjaviðarskógarnir eru. Malakkaskagi. Malakkaskagi er langur skagi í Suðaustur-Asíu og syðsti punktur meginlands Asíu. Mjótt sund, Malakkasund, skilur suðurhluta skagans frá eyjunni Súmötru. Í austurátt, hinum megin við Suður-Kínahaf, er eyjan Borneó. Malakkaskagi er grennstur við Kraeiðið, þar sem einungis 44 km skilja Andamanhaf frá Taílandsflóa. Suður-Asía. Öll þessi lönd eru aðilar að Samstarfi Suður-Asíuríkja SAARC. Landfræðilega afmarkast þessi heimshluti af Himalajafjöllum í norðri og Arabíuhafi og Bengalflóa í suðri. Vesturmörk hans eru almennt talin liggja við Hindu Kush-fjallgarðinn á landamærum Pakistans og Afganistan. Jarðfræðilega er þessi heimshluti á eigin jarðfleka; Indlandsflekanum, sem var aðskilinn frá Evrasíu þar til hann rakst á Evrasíuflekann og Himalajafjöll urðu til. Venesúela. Venesúela (spænska: "República Bolivariana de Venezuela") er land í norðurhluta Suður-Ameríku með strönd að Karíbahafi og Atlantshafi í norðri og landamæri að Gvæjana í austri, Brasilíu í suðri og Kólumbíu í vestri. Úti fyrir strönd Venesúela eru eyríkin Arúba, Hollensku Antillaeyjar og Trínidad og Tóbagó. Englafossar, hæsti foss heims 979 metar að hæð finnast í Canaimaþjóðgarðinum í suðausturhluta Venesúela Kaspíahaf. Kaspíahaf séð utan úr geimnum. Kaspíahaf er salt stöðuvatn á mörkum Evrópu og Asíu og það stærsta sinnar tegundar í heiminum. Það þekur 371 þúsund km² svæði. Lönd sem eiga strandlengju að Kaspíahafi eru Rússland að norðan og norðvestan, Aserbaídsjan að vestan, Íran að suðvestan og sunnan, Túrkmenistan og Kasakstan að austan. Óðinn. Óðinn (norræna: "Óðinn") er æðstur guða í norrænni og germanskri goðafræði, þar sem hann er guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn er andinn og lífskrafturinn í öllu sem hann skapaði. Með Víli og Vé skapaði hann himin, jörð, Ask og Emblu. Óðinn lærði rúnirnar þegar hann hékk og svelti sjálfan sig í níu nætur í Aski Yggdrasils, þá lærði hann líka Fimbulljóðin níu. Á jörðinni birtist Óðinn mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt eða hettu og gengur þá undir mörgum nöfnum. Hann getur haft hamskipti hvenær sem er og sent anda sinn í fugls- eða dýrslíki erinda sinna og hann getur ferðast til dauðraheims ef honum hentar. Óðinn ríður hinum áttfætta Sleipni og tveir úlfar fylgja honum, sem bera nöfnin Geri og Freki, einnig á hann tvo hrafna, Huginn og Munin, sem flytja honum tíðindi. Í Valhöll koma til hans vopndauðir menn. Óðinn var sífellt að sækjast eftir meiri visku. Hann gekk til Mímis við Mímisbrunn einn daginn. Hann vildi fá að drekka úr brunni hans og fékk það í skiptum fyrir annað auga sitt. Óðinn átti spjót sem gerði honum fært að ráða gangi bardaga og því var gott að heita á hann í stríði. Börn og barnsmæður. Óðinn var, líkt og höfuðguð margra annarra goðafræða, duglegur við að eignast börn og það með mörgum mismunandi einstaklingum. Nafnsifjar. Nafn hans samanstendur af liðunum óð og inn. Óð merkir vit og sál, jafnvel orka og lífskraftur en -inn merkir dróttinn í þessu tilfelli og merkir Óðinn því dróttinn lífskraftsins. Hann kallar sig mörgum öðrum nöfnum, svo sem Alföður, Valföður, Bölverkur, Síðhöttur, Vegtamur, Grímnir og Herjafaðir. Æsir eignast skáldamjöðinn. Þegar æsir og vanir sömdu frið spýttu þeir allir hráka sínum í ker og sköpuðu þannig spakvitran jötun, Kvasir að nafni. Síðar drápu tveir dvergar Kvasi, blönduðu blóði hans saman við hunang og bjuggu þannig til skáldamjöðinn sem fyllti þrjú stór keröld. Jötuninn Suttungur rændi af þeim miðinum og faldi hann í fjalli einu. Óðinn fór þangað til að reyna að ná miðinum og skreið inn í fjallið í ormslíki. Þar lá hann í þrjár nætur með dóttur Suttungs sem gætti mjaðarins og fékk hana til að gefa sér þrjá sopa af miðinum. Í hverjum sopa tæmdi hann eitt kerjanna. Hann flaug svo í arnarlíki heim í Ásgarð og spýtti þar miðinum í ker. Þannig eignuðust goðin skáldskaparmjöðinn. Óðin var þó eltur á leið sinni til Ásgarðs og var næstum því klófestur. Lét hann þá spýju ganga aftur af sér til að létta á sér á fluginni sem dugði honum til að sleppa inn í Ásgarð áður en hann var gripinn. Við þetta er kennt að kalla leirburð (það sem er illa kveðið) "aftur af Óðni". Betasundrun. Betasundrun er form geislavirkar sundrunar, sem sendir frá sér betaeind (annað hvort rafeind eða jáeind). Þegar um er að ræða rafeind, er sundrunin kölluð "beta mínus" (β−), en þegar um er að ræða jáeind, er hún kölluð "beta plús" (β+). Ferli. Ólíkt β− sundrun, getur β+ sundrun ekki gerst fyrir utan kjarna, því að massi nifteindar er meiri en massi róteindar. β+ sundrun getur því aðeins gerst í atómkjarna með háa bindiorku og fer sú orka beint í ferlið, sem breytir róteind í nifteind. Saga. Rannsóknir á betahrörnun gáfu fyrstu vísbendinguna um tilvist fiseindar. Árið 1911 gerðu Lise Meitner og Otto Hahn tilraunir, sem sýndu fram á að orka rafeindar, sem varð til við betasundrun, hafði samfellt frekar en sundurlaust orkuróf. Þetta var sýnilega í mótsögn við lögmálið um varðveislu orkunnar, því að það virtist svo sem að orka tapaðist við betasundrun. Annað vandamál var það að eftir hrörnun varð spuni nitur-14 atóms einn, sem var í mótsögn við spá Ernest Rutherfords um spuna ½. Í frægu bréfi, sem skrifað var af Wolfgang Pauli árið 1930, stakk hann upp á að betasundrun gæfi frá sér nýja rafhlutlausa eind, sem hann kallaði "nifteind" (enska: "neutron"), og að hún hefði hingað til einfaldlega ekki mælst. Árið 1931 endurskírði Enrico Fermi nifteindina og kallaði fiseind (enska: "neutrino"). Svo árið 1934 gaf hann út mjög árangursríkt líkan yfir betasundrun, þar sem fiseindir voru skapaðar. Í sumum kjörnum er orkulega komið í veg fyrir betasundrun, og í sumum af þessum tilfellum getur kjarninn orðið fyrir tvívirkri betasundrun. Betasundrun getur talist sem truflun eins og lýst er í skammtafræði, og fylgir því hinni Gullnu reglu Fermis. Kasakstan. Kasakstan (kasakska: Қазақстан, alþjóðlega hljóðstafrófið: /qɑzɑqˈstɑn/; rússneska: Казахстан, alþjóðlega hljóðstafrófið: /kəzʌxˈstan/) er stórt land sem nær yfir mikinn hluta Mið-Asíu. Hluti landsins er vestan Úralfljóts og telst til Evrópu. Landamæri Kasakstans liggja að Rússlandi, Kína og Mið-Asíuríkjunum Kirgistan, Úsbekistan, Túrkmenistan og strandlengju Kaspíahafsins. Kasakstan var áður Sovétlýðveldi en er nú aðili að SSR. Saga Kasakstans. Kasakstan var í upphafi nokkurs konar stórveldi hirðingja. Orðið "Kasak" (Kazakh, Қазақ, Казах) sem merkir „frjáls maður“ eða "hirðingi" á rætur að rekja til tyrknesku. Orðið "stan" merkir „(föður)land“. Nafn landsins gæti því þýtt "Hirðingjaland". Fornaldarsaga. Árið 500 f.Kr. bjuggu Sakar í Suður-Kasakstan. Sakar voru hirðingjar sem ríktu á svæðum frá Altay til Úkraínu. Þó svo að Sakar væru herskárir, urðu þeir að lúta í lægra haldi fyrir Alexander mikla. Í grafhýsi rétt utan við Almaty fundust frægar fornleifar, sem nefndar hafa verið „gullni maðurinn“. Þessi „gullni maður“ er sakneskur stríðsmaður í ljómandi gylltum einkennisbúningi og þykir merkilegur gripur í Kasakstan, sem og í allri Mið-Asíu. Gengis Khan. Árið 1130 lét Gengis Khan, keisari Mongólíu, útrýma búddisma úr Mongólíu og Norður-Kína. Gengis Khan og heimsveldi Mongólíu lagði undir sig Kasakstan og Mið-Asíu með stærsta her heims á þeim tíma. Í hernum voru yfir 150.000 hermenn. Rétt eftir að Gengis Khan lést, skiptist heimsveldið á milli sona hans og sá sem varð leiðtogi Kasakstans hét Chaghatai. Þrjár hirðir í Kasakstan. Forfeður Kasaka voru Mongólar og Úsbekar. Á 16. öld yfirtóku Kasakar mongólska hirð í Norður-Kasakstan sem hét Gullhirðin. Kasakar voru sameinaðir í þrjár hirðir. Þessar hirðir voru Mikilhirðin í Suður-Kasakstan, Miðhirðin í Mið- og Norðaustur-Kasakstan, og Lítilhirðin í Vestur-Kasakstan. Hver hirð var leidd af 3 Khanum. Titlar þeirra voru "axíal", "bi", og "batýr". Árin 1690 til 1720 voru tímar stóráfalla í Kasakstan. Oyratur, frá Mongóliu, lýsti Kasakstan, eða hirðunum þremur stríði á hendur. Hirðirnar þrjár gátu ekki varið sig, svo það eina sem Kasakr gátu var að biðja um aðstoð frá Rússlandi. Kasakstan undir stjórn Rússa. Á meðan Tsar réði Rússlandi var landið sífellt að stækka og yfirtaka önnur landsvæði. Þegar Oyratur tók yfir Kasakstan, hafði Kasakstan engan annan valkost en að leita til Rússlands um hjálp gegn Oyratur. Hirðirnar þrjár hétu Rússlandi hollustu sína árið 1731. Þegar Oyratur var bugað árið 1742 innlimaði Rússland Kasakstan. Að lokum, þegar hirðirnar þrjár vildu ekki lengur vera hluti af Rússlandi, varð mikil uppreisn í Kasakstan. Um milljón Kasaka var drepin í þessari uppreisn, en landið var enn hluti af Rússlandi. Árið 1861 sendi Rússland landflótta fólk til Kasakstans. Taras Shevchenko, úkraínskur listamaður og rithöfundur sem vildi frelsa Úkraínu, var á meðal þeirra. Meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð voru slæmir tímar í Kasakstan. Fleiri uppreisnir fóru fram, um 150.000 manns lét lífið og um 200.000 flutti til Kína. Kommúnismi og Sovétríkin. Árið 1917, rétt eftir að Rússar yfirtóku Kasakstan, reyndi Alasj Órda að mynda flokk sem hét Þjóðernissinnaflokkur Kasakstans til að frelsa Kasakstan á ný. Borgarastyrjöldin í Kasakstan var hörmuleg fyrir Kasaka. Með tíð og tíma ákvað Alasj Órda að vera með Stalín og bolsévíkum í Rússlandi. Þegar Kommúnistaflokkur Kasakstans (CPK) náði yfirráðum yfir Kasakstan, þegar borgarastyrjöldinni var lokið, voru Alasj Órda og allir í Þjóðernissinnaflokki Kasakstans myrtir að fyrirskipan Stalíns og Kommúnistaflokks Kasakstans. Margt fólk í Kasakstan var myrt í stjórnartíð Stalíns. Margir aðrir fluttu til Kína og Mongólíu. Kasakstan varð Sovétlýðveldi árið 1936. Stalín og Bækónur Skotpallur. Minnismerki í Astönu til að heiðra fólk sem var myrt í vinnubúðum í Kasakstan Stalín sendi þúsundir manna til Kasakstans á árunum 1936 til 1940 til að byggja upp verksmiðjuborgir í Kasakstan. Frá 1940 til 1950 var margt fólk frá Sovétlýðveldinum sent til Kasakstans til að vinna í kolanámanum eða vinnubúðunum. Margar kolanámur og vinnubúðir voru staðsettar hjá borgum eins og Karaganda og Úst-Kamenogórsk. Árið 1953 varð Nikita Kruschev forseti í Sovétríkjunum. Hann lét loka vinnubúðum í Sovétríkjunum en í staðinn byrjaði hann „Jómfrúarlandaáætlun“ til að græða steppuna í Kasakstan. Yfir 250.000 km² lands, einkum í Norður-Kasakstan, var uppskorið á meðan „Jómfrúarlandaáætlunin“ var í gildi. Meðan á Kalda stríðinu stóð létu Sovétríkin byggja „Bækónur Skotpallinn“ í Suðvestur-Kasakstan. Hann var eins og sá í Nevada í Bandaríkjunum. Gerðar voru kjarnorkutilraunir og tilraunir til þess að skjóta eldflaugum upp í geim. Árið 1989 voru mestu mótmæli í öllu Sovétríkjunum í Kasakstan. Margt fólk alls staðar í Kasakstan mótmælti. Mótmælendur fylgtu liði undir nafninu „Nevada-Semey Hreyfing“, og árið 1989 hættu Sovétríkin kjarnorkutilraunum sínum. En enn í dag eru eldflaugum skotið upp í geim frá Kasakstan og geimfarar eru enn að læra í Bækónur skotpallinum. Nazarbaev og Lyðveldið Kasakstans. Árið 1989 varð Nursúltan Nazarbaev kjörinn forseti í Kasakstan. Árið 1991 féllu Sovétríkin. Nazarbaev vildi ekki að fara úr Sovétríkjunum, en það gerðist engu að síður og hann samþykkti það. Þann 16. desember 1991 varð Kasakstan að lýðveldinu Kasakstan. Höfuðborg Kasakstans var núna Aqmola, sem var bara lítil kolanáma. Margt fólk hélt að Nazarbaev væri ruglaður að gera þetta, en þetta var hluti af Kasakstan 2030 áætlun hans. Aqmola var gefið nafnið Astana, sem þýðir á kasöksku „Höfuðborg“. Kasakstan í dag. „Hvíta húsið“ í Astönu, þar sem forseti landsins býr. Kasakstan er núna lýðveldi í Mið-Asíu og 9. stærsta land í heimi. Höfuðborgin er Astana, sem liggur í mið-steppanum í Norður-Kasakstan. Auðvaldið er hægt og rólega að taka yfir efnahagsmál Kasakstans. En Kasakstan svipar enn til Sovétríkjanna gömlu. Nazarbaev er enn forseti Kasakstans og hann hefur verið forseti landsins síðan Kasakstan varð lýðveldi árið 1991. Það er auðséð að honum er annt um landið enda hefur hann gert margt fyrir það. Samt sem áður veltir fólk fyrir sér þeirri staðreynd að hann er valdamesti maður landsins og telur fólk að hann sé að verða að einræðisherra. Heilsa forsetans er ekki góð í dag. Talið er að hann verði allur innan tíðar og líklegt þykir að dóttir hans verði forseti við frávik hans. Stjórnmál. Þann 16. desember 1986 þegar Kasakstan var enn hluti Sovétríkjanna var Gennadý Kólbin forseti landsins. Hann var ekki kasakskur heldur rússneskur. Mikhaíl Gorbatsjev, þáverandi aðalritari sovéska kommúnistaflokksins tilnefndi Gennadý Kólbin sem forseta Sovétlýðveldisins Kasakstans. Mikhaíl Gorbatsjev vissi af mikilli spillingu innan Kommúnistaflokks Kasakstans. Það varð upphlaup í Kasakstan, vegna þjóðernis Gennadýs Kólbins. Í Almaty fóru fram fræg mótmæli sem nefnd voru Djeltóksan, sem merkir „desember“ á kasöksku. Í mótmælunum létu fáir lífið, en margir slösuðust. Í Almaty er minnisvarði við Respúblika Alangý sem heitir Djeltóksan 1986. Þann 22. júní 1989 varð Nazarbaev forseti Kasakstans. Hann hefur verið forseti alla tíð síðan að Kasakstan varð lýðveldi árið 1991. Sara Alpýsóvna eiginkona hans er mjög atorkusöm í efnahagsmálum landsins og er hún einnig forstjóri „líknarmálasjóðs fyrir börn“. Þau eiga þrjár dætur og sú elsta, Dariga Nazarbayeva, er forstjóri ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar í Kasakstan. Ríkisstjórn. Kasakstan er lýðveldi bundið við stjórnarskrá. Forseti landsins er þjóðhöfðingi og getur hann beitt neitunarvaldi. Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórn Kasakstans. Núverandi forsætisráðherra er Karim Masimov, en hann var kjörinn 1. janúar 2007. Þing Kasakstans skiptist í tvær deildir, neðri deild (madjílis) og efri deild (öldungadeild). Fylki. Kasasktan er stórt land, sem skiptist í 17 fylki og 3 borgir. Borgirnar eru Almaty, Astana, og Bækónur. Landafræði. Kasakstan er 9. stærsta land í heimi og liggur það í Mið-Asíu. Í Suður-Kasakstan er eyðimörk hjá Sjimkent og einnig í Norður-Kasakstan. Þar er líka stór steppa í nálægð við Astönu og Karaganda. Alatáfjöll liggja að landmærum Kasakstan og Kirgistan hjá Almaty. Hæsti tindurinn er um 4.572 m hár. Í Vestur-Kasakstan hjá Kaspíahafi er láglendi. Í Kasakstan eru hvirfilvindar mjög algengir, sérstaklega yfir láglendinu í Vestur-Kasakstan. Kasakstan liggur að Kaspíahafi og hefur landamæri að Aserbaídsjan og Íran. Efnahagsmál. Olía hefur verið afar mikilvæg fyrir efnahag Kasakstans. Kasakstan hafði yfir 66.320.000.000 kr. í tekjur af olíu árið 1996. Nazarbaev vildi leggja þjóðartekjurnar fyrir. Margt fólk í Kasakstan sem vinnur í olíuiðnaðinum býr í Vestur-Kasakstan í borgum eins og Aktá og Atýrá. Kasakar segja að Atýrá sé olíu-höfuðborgin í Kasakstan. Það eru mörg fyrirtæki í Kasakstan, bæði frá Evrópu og Ameríku og jafnvel Japan. Almaty er fjármálamiðstöð Kasakstans. Auðvaldið. Í Kasakstan í dag eru yfirstétt, borgarastétt og lágstétt eins og vera ber í auðvaldskerfi. Borgarastéttin þénar einungis um 30.000 kr. mánaðarlega. Yfirstéttin býr einkum í fjallahéruðum, í risastórum húsum, en þénar þó einungis eins og millistéttarfólk í Evrópu. Lágstéttin býr við kröpp kjör í Kasakstan. Pípulagnir eru slæmar og íbúðir litlar. En það er ekki áalgeng sjón í bæjum Kasakstan. Kazakhstan 2030. „Kazakhstan 2030“ er áætlun Nazarbaevs um að gera Kasakstan að auðugu landi. Nazarbaev vill reyna að selja mikla olíu og laða fyrirtæki frá öllum heimshornum til Kasakstans. Þegar maður fer til Kasakstans getur maður séð kröfuspjöld sem á stendur „Kazakhstan 2030“ alls staðar í Kasakstan. Peningur. Tenga er gjaldeyrir Kasakstans. Tenga kemur úr orðinu "dengi" í rússnesku sem þýðir bara "peningur". Þann 15. nóvember 1993 hætti ríkisstjórn Kasakstans að nota rúblur og tenga var tekin í notkun í Kasakstan. Landbúnaður. Landbúnaður í Kasakstan er mjög háður olíu og búskap. Yfir 70% landsins eru ræktarjarðir og bóndabæir. Mest er ræktað af hveiti í Kasakstan. Þess vegna er bjór í Kasakstan mjög ódýr. 0,5 lítrar af bjór kosta einungis 200TГ (100 kr.) í dúkan, sem er kasakstön verslun. Ávextir og grænmeti er ræktað í sveitinni í Kasakstan, en ávallt selt á markaði í borgunum, eins og í Silóný Basar (grænn markaður). Alþjóðaleg dýr í Kasakstan eru hestar og rollur. Þjóðernishópar. Einungis um 53% íbúa Kasakstan eru fæddir í Kasakstan. Síðan Kasakstan samþykkti rússneskt aðhald, hafa Rússar flust um alla Kasakstan. Í stærstu borgum Kasakstans, eins og Astana og Almaty og í Norður-Kasakstan, er mest af rússnesku fólki, og eru Rússar stundum fjölmennari en Kasakar. En í bæjum eins og Sjimkent og Túrkistan eru um 80% íbúanna Kasakar. Í Kasakstan býr enn þá fólk frá því að Stalín senti fólk frá Sovétríkjunum í vinnubúðir til Kasakstans, eins og téténskt, úkraínskt, úsbekskt og jafnvel hvít-rússneskt fólk. Gyðingar frá Þýskalandi sem flúðu Þýskaland í seinni heimsstyrjöldinni búa þar líka. Tungumál. Kasakska er opinbert tungumál í Kasakstan, en ekki allir tala hana sem búa eða eru innfæddir í Kasakstan. Rússneska er reyndar töluð meira en kasakska í Kasakstan. Í fyrirtækjum er rússneska opinber tungumál. Kasakska er aldrei töluð í fyrirtækjum. En í ríkisstjórninni er alltaf töluð kasakska vegna þess að Nazarbaev vill að kasakska yrði opinbert tungumál í Kasakstan. Í borgum eins og Almaty og Astana, sem eru mjög alþjóðlegar, er rússneska töluð meira en kasakska. En ef maður fer í sveitina í Suður-Kasakstan til borga eins og Sjimkent og Túrkistan, mun maður heyra einungis kasöksku. Menntun. Skólar í Kasakstan voru á rússnesku. Síðan árið 1991 eru skólar bæði á rússnesku og kasöksku. Í sumum skólum er bara annaðhvort rússneska eða kaskaska töluð. Alþjóðlegir skólar eru stundum á ensku, en venjulega á rússnesku. Það er skóli líka í Túrkistan sem er á tyrknesku. Læsi í Kasakstan er 99,5%. Allt fólk getur lesið kýrilliska og latneska stafrófið og sumir getur lesið arabíska stafrófið. Börn í Kasakstan byrja leikskóla þegar þau eru 5 eða 6 ára gömul. Árið 2004, voru 100 leikskólar í Kasakstan, og 135.856 börn sem ganga í leikskólan, (eða 63% barna í Kasakstan sem eru 5 til 6 ára gömul). Þau kenna bæða kasöksku og rússnesku sem tungumál í leikskólum, þó rússneska sé töluð meira oftast. Eftir leikskóla, hefst grunnskóli og þá þar á eftir menntaskóli. Nemendur klára menntaskóla á aldrinum 18, og fer svo í háskóla. Það eru margir háskólar í Kasakstan, sérstaklega í Almaty. Menning. Menning í Kasakstan verður fyrir áhrifum af Rússlandi, Mongólíu, og Tyrklandi. Tákn um fullkomnun í kasaskri menningu er hirðingalegur lífsstíll. Kúlutjöld eru enn þá mjög almenn í sveitinni og er líka tákn kasöksku menningarinnar. Kasakskt fólk er líka mjög gestrisið og er alltaf glatt við að sjá útlendinga sem eru með áhuga á Kasakstan. Matur. Besjbarmak er þjóðarmaturinn Kasakstan. Það er með hveitimjöli undir hestakjöti. Te er líka mjög almennt í Kasakstan, og er mjög ódýrt. Þjóðardrykkurinn í Kasakstan er kúmis, sem er mjólk frá geitum. Það eru margar kjörbúðir í borgum þar sem fólk getur keypt ávexti, kjöt og fleira. Trúarbrögð. Íslam er útbreiddast trúarbragða í Kasakstan. Kaskastan hefur aldrei verið mjög trúað land. Nær 47% íbúar í Kasakstan eru múslimar en einungis 3% er íbúanna eru trúuð. Því er eins farið með önnur trúarbrögð. Gyðingar frá Rússlandi búa einnig í Kasakstan, einkum í borgunum Almaty og Pavlódar. Kristindómur og búddismi eru líka í Kasakstan, en ekki jafn útbreidd. Samfélagið í Kasakstan er undir áhrifum af íslam. Það er auðséð hvernig Kasakstan verður fyrir áhrifum af íslam, til dæmis í kasöksku; á kasöksku heilsar maður með orðunum "Assalam alaikum". Þetta er almenn kveðja í íslömskum löndum. Tónlist. Tónlist í Kasakstan í dag er blanda af popp og hefðbundni tónlist. Dombra, sem er kasakskur gítar, er enn þá notaður í lögum í dag, bæði í poppi og hefðbundnu. Tónlist frá Kasaksktan er ekki almenn í Kasakstan, af því að margir í Kasakstan finnast tónlist frá Rússlandi, Englandi og Bandaríkjunum skemmtilegri. Hér fyrir neðan geturðu hlustað og horft á tónlistarmyndbönd frá Kasakstan og einnig smellt á hljómsveit til að lesa meira um þær. Samgöngutæki. Air Astana flugvél Fokker-50 í Sjimkent Flugfélag Kasakstans er Air Astana. Ef maður vill fara til Kasakstan frá Evrópu verður maður að fljúga með KLM frá Amsterdam, Lufthansa frá Frankfurt, Turkish Airlines frá Istanbul, Air Astana frá London eða Moskvu, eða Aeroflot. Air Astana flýgur til næstum allra áfangastaða í Kasakstan. Járnbrautarlestir eru líka algeng samgöngutæki í Kasakstan. Hægt er að fara frá Almaty til Astönu á 20 klukkutímum. Einnig eru til hópferðabílar í Kasakstan en þeir eru ekki jafn almennur ferðamáti eins og járnbrautarlestir og flugvélar. Í borgum er hægt að ná í leigubíl með því að veifa hendinni við veginn. Leigubílar eru ekki á vegum hins opinbera heldur einkareknir. Þetta er ódýr og mjög almennur ferðamáti í borgum eins og Almaty. Túrkmenistan. Túrkmenistan er land í Mið-Asíu með landamæri að Afganistan, Íran, Kasakstan og Úsbekistan og strandlengju við Kaspíahaf. Túrkmenistan var áður Sovétlýðveldi og er aðili að Samveldi sjálfstæðra ríkja. Úsbekistan. Úsbekistan er tvílandlukt land í Mið-Asíu með landamæri að Kasakstan í vestri og norðri, Kirgistan og Tadsjikistan í austri og Afganistan og Túrkmenistan í suðri. Úsbekistan er lýðveldi að nafninu til en sumir hafa lýst landinu sem lögregluríki. Tjáningarfrelsi er verulega skert. Samveldi sjálfstæðra ríkja. Samveldi sjálfstæðra ríkja (SSR) (rússneska: Содружество Независимых Государств (СНГ) er ríkjasamband tólf fyrrum Sovétlýðvelda: Armeníu, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlands, Kasakstan, Kirgisistan, Moldóvu, Rússlands, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Úkraínu og Úsbekistan. Sambandið varð til við upplausn Sovétríkjanna og tilgangur þess var að auðvelda aðskilnað lýðveldanna. Ýmsir hafa þó haldið því fram að sambandið sé tæki Rússlands til að viðhalda áhrifum sínum í lýðveldunum. Frá stofnun hafa SSR-ríkin gert með sér marga samninga sem varða samstarf á sviði efnahagsmála, varnarmála og utanríkisstefnu. Kort sem sýnir SSR-ríkin. Þau ná yfir nær allt það svæði sem áður tilheyrði Sovétríkjunum. Sambandið var stofnað 8. desember 1991 af leiðtogum Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Tadsjikistan. Tadsjikistan (tadsjikíska: Тоҷикистон) er land í Mið-Asíu með landamæri að Afganistan, Kína, Kirgistan og Úsbekistan. Nafnið er dregið af heiti þjóðarbrots Tadsjika. Svalbarði. Svalbarði (norska: Svalbard) er eyjaklasi í Norður-Íshafi fyrir norðan meginland Evrópu. Þrjár af eyjunum eru byggðar: Spitsbergen, Bjørnøya og Hopen. Noregur fer með stjórn mála á eyjunum samkvæmt Svalbarðasamningum frá 1920 en hann kveður einnig á um að allir aðilar að samningnum (nú yfir 40 talsins) skulu hafa rétt til að nýta auðlindir Svalbarða og að hann skuli vera herlaust svæði. Nú á dögum eru það eingöngu Rússar sem nýta sér þetta ákvæði og stunda kolanám á Svalbarða. Einnig hafa íslensk stjórnvöld vísað í þetta ákvæði varðandi fiskveiðar sínar í grennd við Svalbarða. Mön (Írlandshafi). Mön er eyja í Írlandshafi í miðjum Bretlandseyjaklasanum. Hún er í konungssambandi við Bretland en nýtur fullrar sjálfstjórnar varðandi flesta hluti og telst ekki vera hluti af Bretlandi. Löggjafarþing eyjunnar, Tynwald, hefur starfað óslitið frá því í kringum 978. Íbúar eyjarinnar eru nefndir "Manverjar" á íslensku. Suður-Íshaf. Suður-Íshaf er hafið sem umlykur Suðurskautslandið. Mörk þess eru ákveðin af Alþjóða sjómælingastofnuninni við 60. breiddargráðu suður. Áður var talað um að Atlantshaf, Indlandshaf og Kyrrahaf næðu að strönd Suðurskautslandsins. Reiðhjól. Skýringarmynd sem sýnir nöfn á hlutum reiðhjóls. Reiðhjól, oft einfaldlega kallað hjól, er farartæki sem knúið er áfram af vöðvum hjólreiðamannsins. Hjólreiðar eru stundaðar sem ferðamáti, sem íþrótt, og til afþreyingar og útivistar. Þegar farið er á lágum hraða, sem til dæmis 1-15 km/klst, er reiðhjólið orkusnjallasti farartæki sem er almennt í boði. Samanburðarrannsóknir sem hafa fylgst með venjulegt fólk yfir áratugi og borið saman heilsufar og dánarlikur hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem hjóla til samgangna lífa talsvert lengur. Dánarlikur á tímabílinu voru 30% lægri hjá þeim sem hjóla, en öðrum eftir að hafa leiðrétt fyrir ýmsar aðrar breytur svo sem önnur likamsrækt, samfélagsleg staða, kyn og fleira. Ökutæki sem eru í grunnin hönnuð eins og reiðhjól, en hafa hjálparmótor eru flokkuð sem tegund af reiðhjólum, kölluð pedelecs á ensku, háð nokkrum skilyrðum samkvæmt tilskipun ESB, 2002/24. Skilyrðin eru: Vélin er bara er virkur ef stigið er á pedölunum, hámarksafl vélar er 250 W, og ennfremur minnki aflið úr vélinni eftir sem hraðinn aukist, uns vélin veiti enga aðstoð við 25 km hraða. Saga reiðhjólsins á Íslandi. Hjól sem gekk undir nafninu velociped eða veltipétur á Íslandi, sbr. á dönsku nefndist hjólið veltepetter. Knud Zimsen segir frá því í endurminningum sínum, að Guðbrandur Finnbogason verslunarstjóri hafi átt fyrsta reiðhjólið, sem kom til Íslands. Hjólagrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því, og þess vegna ekki hægt að hjóla upp í móti. Þetta hjól er nú á Þjóðminjasafninu. Guðmundur Sveinbjörnsson átti annað hjól af svipaðri gerð. 1892-1893 bættust tvö önnur hjól við, átti Teitur Ingimundarson úrsmiður annað, en Elías Olsen bókhaldari hitt. Var framhjólið á því mjög stórt, en aftari hjólið sáralítið. Tók það hinum mjög fram, enda safnaðist fólk saman til að horfa á hann aka á því umhverfis Austurvöll. Þessi hjól voru kölluð "veltipétur" eða "Velociped". Og í blaðagrein einni "hraðfóti". San Marínó. San Marínó (ítalska: "Serenissima Repubblica di San Marino") er örríki í Evrópu, landlukt innan Ítalíu. Ríkið er í Appennínafjöllunum, á mörkum héraðanna Emilía-Rómanja og Marke og umlykur eitt fjall, sem heitir Monte Titano. Öll byggðin er í hlíðum og á toppi þessa fjalls. Ríkið var stofnað árið 301 af járnsmiðnum heilögum Marínusi og er því eitt af elstu núlifandi lýðveldum heims. Íbúar eru um 32 þúsund og landið er í efnahagslegu tilliti algerlega háð Ítalíu. Mónakó. Furstadæmið Mónakó (franska: Principauté de Monaco; mónakóska: Principatu de Munegu) er borgríki og annað minnsta ríki heims. Það er innan landamæra Frakklands með strandlengju að Miðjarðarhafi við frönsku rívíeruna. Það takmarkast við borgina Mónakó og ströndina framan við hana en varla er nokkurt óbyggt svæði innan landamæra ríkisins og þar er enginn landbúnaður stundaður. Land ríkisins hefur þó stækkað svolítið á síðari árum vegna landfyllinga út í sjó. Staðhættir. Séð yfir Mónakó. Monte Carlo lengst til vinstri, þá La Condamine, Monaco-Ville og Fontvieille. Mónakó er þéttbýlasta land heims og eitt af örríkjum Evrópu. Það dregur nafn sitt af grísku nýlendunni Mónoíkos sem Föníkar stofnuðu þar nálægt á 6. öld f.Kr. Borgin er fræg fyrir að Formúla 1 er oft haldin á götum borgarinnar. Mónakó skiptist í fjögur hverfi: Austast er Monte Carlo, sem er þéttbýlast og þar er meðal annars spilavítið fræga; La Condamine, umhverfis höfnina; Monaco-Ville, elsta hverfið, þar sem furstahöllin er; og vestast Fontvieille, sem er að miklu leyti reist á landfyllingum. Þar er önnur höfn. Efnahagur. Spilavítið, Monte Carlo Casino, var stofnað 1856 til að ráða bót á efnahagsvanda sem skapaðist þegar Grimaldiættinn tapaði meginhluta lenda sinna, og byggingu hússins lauk 1863. Það skilaði fljótt miklum hagnaði og árið 1869 var hætt að leggja tekjuskatt á íbúa Mónakó því tekjur af spilavítinu dugðu. Allar götur síðan hefur Mónakó verið vinsælt skattaskjól og spilavítið hefur lengst af verið aðaltekjulind furstafjölskyldunnar og ríkisins þótt ferðamannaiðnaðurinn verði stöðugt mikilvægari. Þetta veldur því að húsnæðisverð er afar hátt í furstadæminu og hvergi eru hlutfallslega fleiri auðmenn. Mikill hluti þeirra sem starfa í Mónakó býr hins vegar utan landamæra furstadæmisins og um 48.000 manns koma þangað daglega til starfa frá Frakklandi og Ítalíu og fara heim á kvöldin. Tvær hafnir eru í Mónakó og mikill fjöldi af skemmtisnekkjum og bátum hefur þar bækistöðvar sínar, auk þess sem fjöldi stórra skemmtiferðaskipa kemur þar við. Saga. Mónakó er furstadæmi og hefur Grimaldi-ættin setið þar við völd frá 1297, þegar Francesco Grimaldi og menn hans hertóku virki sem þar var, þó ekki óslitið því Genúamenn hröktu Grimaldi þaðan nokkru síðar. Árið 1419 var Mónakó undir yfirráðum Konungsríkisns Aragóníu en þá keypti Grimaldi-ættin svæðið og árið 1612 fór Honore 2. að kalla sig fursta af Mónakó. Hann leitaði nokkru síðar á náðir Loðvíks 13. Frakkakonungs vegna ásóknar Spánverja og gerðist lénsmaður hans. Varð furstadæmið, ásamt héröðunum Menton og Roquebrune, sem tilheyrt höfðu því síðan á 14. öld, þá franskt verndarsvæði. Það var innlimað í Frakkland í byltingunni, 1793, fékk sjálfstæði að nýju 1814 en á Vínarfundinum 1815 var það gert að verndarsvæði Konungsríkisins Sardiníu. Það varð svo aftur franskt verndarsvæði um miðja öldina. Um svipað leyti lýstu Menton og Roquebrune yfir sjálfstæði og sameinuðust síðan Frakklandi. Við það minnkaði land Mónakó um 95% en Frakkar greiddu furstanum í staðinn rúmar fjórar milljónir franka og viðurkenndu sjálfstæði Mónakó árið 1861. Albert fursti og Charlene furstynja. Furstar Mónakó voru einvaldar allt til 1911, þegar ný stjórnarskrá gekk í gildi. Furstinn hefur þó enn mikil völd. Rainier 3. tók við af föður sínum, Loðvík 2., árið 1949 og stýrði furstadæminu til 31. mars 2005, þegar hann lét völdin í hendur sonar síns, Alberts, vegna sjúkleika og lést svo sex dögum síðar. Albert 2. tók þá við furstadæminu. Hann giftist suður-afrísku sunddrottningunni Charlene Wittstock 1. júlí 2011. Stjórnarskrá Mónakó var breytt 2002 vegna erfðamála en Albert prins var þá hálffimmtugur, ókvæntur og átti ekki skilgetin börn. Verði furstahjónunum ekki barna auðið mun Karólína prinsessa, eldri systir Alberts, því erfa ríkið við lát hans eða eldri sonur hennar, Andrea Casiraghi. Kulborðseyjar. Kulborðseyjar (enska: "Windward Islands") eru syðstu eyjarnar í Antillaeyjaklasanum í Karíbahafi og draga nafn sitt af því að þær eru meira kulborðs en Hléborðseyjar (enska: "Leeward Islands"), þar sem ríkjandi vindátt er sunnanátt. Nafnið var líka notað yfir breska nýlendu frá 1833 til 1960 sem náði yfir eyjarnar Grenada, Sankti Lúsíu, Sankti Vinsent, Grenadíneyjar, Barbados (til 1885 þegar hún varð sérstök nýlenda), Tóbagó (til 1889 þegar hún sameinaðist Trinídad) og Dóminíku (frá 1940, en áður tilheyrði hún Hléborðseyjum). Lýðveldið Makedónía. Lýðveldið Makedónía er land á Balkanskaga í suðaustanverðri Evrópu sem varð til við upplausn Júgóslavíu 1991. Nafngiftin er mjög umdeild vegna þess að Makedónía er einnig nafn á stærra landsvæði sem að lýðveldið er hluti af en tekur einnig til hluta Grikklands og Búlgaríu. Makedónía er einnig nafn á héraði í Grikklandi nútímans. Það eru einkum Grikkir sem að mótmæla því að "Makedónía" komi fyrir í nafni ríkisins þar eð þeir telja heitið vera grískt, einnig óttuðust þeir fyrst að hið nýja ríki kynni að gera tilkall til svæða sem nú eru innan landamæra Grikklands. Makedónía er landlukt, liggur að Grikklandi í suðri, Búlgaríu í austri, Serbíu í norðri og Albaníu í vestri. Grenada. Grenada er eyríki í suðausturhluta Karíbahafsins og nær yfir, auk eyjunnar Grenada, syðri Grenadíneyjar. Það er norðan við Trínidad og Tóbagó og sunnan við Sankti Kristófer og Nevis. Grenada er hluti Kulborðseyja sem eru syðstar Antillaeyja. Álandseyjar. Álandseyjar eða Áland (sænska: "Åland"; finnska: "Ahvenanmaa") eru sjálfstjórnarsvæði undir finnskum yfirráðum á Eystrasalti mitt á milli Svíþjóðar og Finnlands. Álandseyjar telja í heildina um 6.500 eyjar og sker en hinir sænskumælandi íbúar búa langflestir á stærstu eyjunni, Fasta Åland. Það var samkvæmt ákvörðun Þjóðabandalagsins árið 1921 sem Álandseyjar fengu sjálfsstjórn en áður höfðu íbúar eyjanna sóst eftir því að segja skilið við Finnland og verða hluti af Svíþjóð. Margir Álandseyingar vilja kjúfa sig frá Finnlandi og gerast sjálfstætt land. Stjórnmálaflokkurinn Ålands Framtid eða Framtíð Álandseyja berst hart fyrir því og hlaut 1.069 atkvæði (8,1 %) í þingkosningunum á Álandseyjum 2007 og fékk 2 þingmenn af 30. Stjórnsýsla. Stjórn Álandseyja er í höndum landshlutastjórnar sem ber ábyrgð gagnvart löngþingi Álandseyja. Landstjóri er fulltrúi finnsku ríkisstjórnarinnar. Að auki eiga Álandseyjar einn fastan fulltrúa á finnska þinginu. Francis Drake. Sir Francis Drake (um 1540 – 28. janúar 1596) var enskur sjóræningi og stjórnmálamaður á Elísabetartímanum. Hann stundaði sjórán (með leyfi drottningar) og herjaði á spænsk skip í Karíbahafi þar sem hann varð frægur fyrir að ná Silfurlestinni við Nombre de Dios árið 1573. Hann var fyrsti Englendingurinn sem sigldi umhverfis jörðina 1577 til 1580 á skipi sínu "Gullnu hindinni" og var sleginn til riddara við heimkomuna. Hann var varaaðmíráll yfir enska flotanum sem sigraði Flotann ósigrandi árið 1588. Athafnir hans áttu þátt í að auka vald breska flotans á Atlantshafinu og brjóta á bak aftur einokun Spánverja á verslun og flutningi góðmálma frá Nýja heiminum. Hann varð þjóðhetja í Englandi í lifanda lífi, en lést að lokum úr blóðkreppusótt eftir nokkra erfiða ósigra gegn Spánverjum í Karíbahafi. Tenglar. Drake, Francis Drake, Francis Nombre de Dios. Nombre de Dios (spænska: "nafn guðs") er hafnarbær á Atlantshafsströnd Panama við mynni Río Chagres. Bærinn var upphaflega stofnaður sem spænsk nýlenda árið 1510 af Diego de Nicuesa og var fyrsta byggð Evrópumanna á Panamaeiðinu. Bærinn var alla tíð illa staðsettur við hliðina á mýri og illverjanlegur árásum. Hann var fram á 17. öld viðkomustaður spænska Gullflotans og Silfurlestarinnar, múldýralestar sem flutti góðmálma úr námum inni í landi. 1572 rændi enski sjóræninginn Francis Drake bæinn og náði Silfurlestinni á sitt vald árið eftir. Á 17. öld tók Portobello við hlutverki áfangastaðar Gullflotans. Bærinn er enn til, en er nú miklu minni en hann var á 16. öld. Fyrir gerð Panamaskurðarins var Nombre de Dios fyrsti áfangastaður skipa sem fóru erfiða leið yfir Panamaeiðið um röð áa og stöðuvatna. Höfn bæjarins er fræg fyrir mikinn fjölda skipsflaka sem liggja þar. Panama. Panama (spænska: "Panamá") er syðsta landið í Mið-Ameríku. Panama er mjótt land sem tengir saman Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. Það á landamæri að Kosta Ríka í vestri og Kólumbíu í austri. Skipaskurður yfir Panamaeiðið, Panamaskurðurinn, hefur verið mikill áhrifavaldur í sögu landsins. Stjórnarfar. Panama er stjórnskráarbundið lýðræði með framkvæmdarvald, stjórnað af forseta sem er kosinn til fimm ára í senn. Hann hefur löggjafar- og dómsyfirvald. Landinu er skipt í níu héruð og þrjú frumbyggjasvæði, sem kölluð eru "cormacas". Hagkerfi. Hagkerfi Panama hefur þróast hratt en dómskerfi þess hefur verið slappt. Bandaríkjadollarinn er skiptimynt Panama. Saga. Panama varð sjálfstætt ríki 3. nóvember 1903 en hafði áður verið undir stjórn Kólumbíu. Glæpatíðni. Panama er talið nokkuð öruggt miðað við önnur lönd í Mið-Ameríku þegar kemur að glæpum en tíðni glæpa þar er talin hærri en í flestum öðrum löndum í Mið-Ameríku. Tíðni ofbeldisglæpa í Panama jókst mikið í kringum 2007 en lögreglan í Panama beitti sér gegn þeim og náði árangri. Í júní 2010 hafði morðtíðni lækkað og hélt því áfram því sem lengra gekk á árið. 2011 fór einnig að fækka glæpum tengdum byssum, líkt og vopnuðum ránum. Þrátt fyrir það hækkaði tíðni einfalds þjófnaðar og voru snjallsímar vinsælt skotmark. Þrjú héruð í Panama með stærstu borgunum höfðu hæstu tíðni glæpa: Panamaborg, Colon og Chiriqui. Tvívirk betasundrun. Tvívirk betasundrun er form geislavirkar sundrunar, þar sem tvær nifteindir í atómkjarnanum klofna í róteindir og tvær rafeindir og tvær andfiseindir. Þetta ferli er táknað sem "ββ". Ferli. Í β− sundrun, hrörna óstöðugir kjarnar með því að breyta nifteind úr kjarnanum í róteind og gefa frá sér rafeind og andfiseind. Til að gera betasundrun mögulega, þarf kjarninn sem að breyst er í að hafa hærri bindiorku en upprunalegi kjarninn. Í sumum kjörnum, eins og til dæmis german-76, hefur kjarninn sem er einni atómtölu hærri en það, lægri bindiorku og kemur það því í veg fyrir β− sundrun. Á hinn bóginn, hefur kjarninn sem að er tveimur atómtölum fyrir ofan, selen-76, hærri bindiorku og er því tilfelli tvívirkt betasundrunarferli mögulegt. Fiseindalaus tvívirk betasundrun. Ferlinu sem að lýst er að ofan er einnig þekkt sem tvífiseinda tvívirk betasundrun, því að gefur það frá sér tvær fiseindir. Ef að fiseindir eru Majorana-eindir, sem að þýðir að andfiseindin og fiseindin eru sama eindin, þá er möguleiki fyrir hendi að fiseindalaus tvívirk betasundrun gerist. Í því ferli eyðast báðar fiseindirnar skömmu eftir að þær verða til, þannig að samtals hreyfiorka rafeindanna tveggja er nákvæmlega munurinn á bindiorku upprunalegu og endanlegu kjarnanna. Stungið hefur verið upp á nokkrum tilraunum til að leita að fiseindalausri tvívirkri betasundrun, vegna þess að staðfesting á henni myndi gefa til kynna að fiseindir væru vissulega Majorana-eindir og væri því hægt að reikna út massa þeirra. Miltisbrandur. Miltisbrandur er smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar "Bacillus anthracis". Hann kemur fyrir í villidýrum og húsdýrum en getur smitast yfir í fólk sem kemst í snertingu við smituð dýr, hræ eða mikið magn af miltisbrandsgróum. Enn eru engin dæmi um að sýkt fólk beri smit. Miltisbrandur finnst um allan heim, en er þó fyrst og fremst algengur hjá jurtaætum þó hann geti borist í menn og fugla. Sýkillinn getur myndað dvalargró. Gróin geta lifað áratugum saman í jarðvegi, einkum rökum og súrum. Við jarðrask á stöðum þar sem sýkt dýr voru urðuð geta gróin borist í menn og dýr. Gróin sem eru 2-6 míkron í þvermál geta sest á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Við hagstæð skilyrði inn í hýsli vakna gróin af dvalanum og bakterían tekur að fjölga sér. Þekkt eru 89 afbrigði af miltisbrandi. Einkenni miltisbrands. Einkennin fara eftir því hvernig smit hefur borist inn í líkamann, hvort það hefur komið í gegnum meltingarveg, húð eða öndunarveg. Ef smit hefur borist í dýr vegna smitunar í jarðvegi þá berst sýkillinn inn í blóðrás og sogæðakerfi um meltingarveg og milta bólgnar og skemmist vegna dreps. Af því er nafnið miltisbrandur dregið. Ef smit hefur borist í gegnum húð þá myndast kýli sem rofnar síðar. Kýlið er með svörtum sárbotni vegna dreps. Algengast er að smit berist í menn á þann hátt ef þeir meðhöndla sýkt dýr eða ull, kjöt og skinn af dýrum sem hafa dáið úr miltisbrandi. Ef sporar sýkilsins berast í öndunarveg geta þeir borist þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Miltisbrandur á Íslandi. Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum frá Afríku. Miltisbrandur hefur á íslensku einnig verið nefndur miltisbruni, miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Sjúkdómsins varð síðar vart af og til. Miltisbrandur kom upp í Ölfusi 1965. Í desember árið 2004 kom upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Miltisbrandur í hernaði. Það hafa verið gerðar miklar tilraunir með notkun miltisbrands í hernaðar- og hryðjuverka tilgangi en hann hefur þó ekki verið mikið notaður á því sviði. Þess eru þó dæmi þar sem gró miltisbrands voru send til Bandaríkjanna með almennum pósti, svo að fimm létu lífið og 17 aðrir sýktust. 1241. Rústir Corfe-kastala. Þar var fjársjóðsgeymsla og fangelsi Englandskonunga á 13. öld. a>. Hann var páfi í sautján daga. 1600. a> voru algeng fyrr á öldum. 1598. a> og móðir tólf barna hans. 1595. Landkönnuðurinn Alvaro de Mendaña de Neyra. Tanganjikavatn. Tanganjikavatn er stórt stöðuvatn í Mið-Afríku og eitt af Stóru vötnunum. Það er talið vera elsta stöðuvatn heims á eftir Bajkalvatni í Síberíu. Vatnið er í vestari grein Sigdalsins mikla. Það er annað stærsta vatn álfunnar, þekur 32.900 km² svæði. Það er að jafnaði 570 m djúpt en 1.470 m djúpt þar sem það er dýpst. Dýpt vatnsins veldur því að minni hluti þess skiptist út við uppgufun og regn. Stærsti hlutinn af djúpi vatnsins er svokallað steingervt vatn með lítið súrefnisinnihald. Vatnið skiptist á milli Austur-Kongó, Búrúndí, Tansaníu og Sambíu. Fiskveiðar í vatninu eru gríðarlega mikilvæg atvinnugrein, og áætlað er að um ein milljón manna sé háð þeim um viðurværi sitt. Tanganjikavatn séð utan úr geimnum. 1592. a> páfi. Mósaíkmynd frá því um 1600. Kýraugastaðasamþykkt. Kýraugastaðasamþykkt eða Kýraugastaðadómur voru fyrirmæli til presta í Skálholtsbiskupsdæmi sem samþykkt voru á prestastefnu Odds Einarssonar á Kýraugastöðum í Landsveit í Rangárþingi vorið 1592. Tilgangur samþykktarinnar var að færa almennt siðferði nær lútherskum rétttrúnaði og útrýma ýmsum venjum úr kaþólskum sið. Helstu atriði sem fram voru sett voru að afleggja skyldi gamlar bænir og signingar, að þeir sem ekki sæktu kirkju skyldu kærðir fyrir sýslumanni, að þeir sem ekki vildu læra spurningakver og annan kristilegan lærdóm skyldu settir út af sakramenti, að hestaat, smalabúsreiðir og kvöldvökur skyldu bannaðar á helgidögum og að ástundun hvers kyns galdurs varðaði sviptingu sakramentis, þó að um lækningagaldur væri að ræða. Orkneyjar. Orkneyjar eru eyjaklasi 16 km norðan við Katanes, sem er hérað á norðurodda Skotlands. Orkneyjar eru um 70 talsins, en aðeins 20 þeirra eru í byggð. Stærsta eyjan er Meginland ("Mainland") og höfuðstaðurinn þar og stærsti bær eyjanna er Kirkjuvogur ("Kirkwall"). Þar búa 7000 manns. Í Kirkjuvogi er dómkirkja Magnúsar helga. Auk Kirkjuvogs er eini eiginlegi bærinn Straumnes við vesturenda Meginlands, en þar búa 2000 manns. Bretlandseyjar. Bretlandseyjar eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi úti fyrir strönd meginlands Evrópu. Helstu eyjarnar eru Stóra-Bretland (sem skiptist milli Englands, Skotlands og Wales), Írland og margar fleiri minni eyjar. Samtals eru eyjarnar yfir sex þúsund talsins og eru samtals 315.134 km² að flatarmáli. Eystrasalt. Eystrasalt (eða forníslenska heiti hið eystra salt) er haf í Norður-Evrópu sem markast af Skandinavíuskaganum og dönsku eyjunum í vestri, vesturströnd Norður-Evrópu í austri og norðurströnd Mið-Evrópu í suðri. Hafið tengist við Norðursjó um Skagerrak og Kattegat, sem það tengist um Eyrarsund, Litla-Belti og Stóra-Belti við Danmörku. Hafið tengist auk þess Hvítahafi með Hvítahafsskurðinum og beint út í Norðursjó um Kílarskurðinn. Úr norðanverðu Eystrasalti teygjast tveir langir flóar; Helsingjabotn og Kirjálabotn. Milli Eistlands og Lettlands er svo Rígaflói. Eystrasalt er 415 þúsund ferkílómetrar að stærð og er mjög grunnt (57 metra djúpt að meðaltali og 459 metrar þar sem það er dýpst). Vegna mikils árflaums er saltmagnið í hafinu mjög lágt, sem veldur því að það leggur oft á vetrum. Lönd við Eystrasalt. Löndin sem eiga aðgang að Eystasalti eiga með sér samstarf í Eystrasaltsráðinu, en auk þeirra eru Ísland, Noregur og Evrópusambandið aðilar að ráðinu. Eyrarsund. Eyrarsund er mjótt sund sem skilur Danmörku og Svíþjóð, á milli Sjálands og Skánar. Sundið er einungis 4,5 km breitt þar sem það er grennst milli borganna Helsingjaborgar og Helsingjaeyrar. Eyrarsund tengir Eystrasalt við Norðursjó (um Kattegat og Skagerrak) og er ein af fjölförnustu skipaleiðum heims. Frá 1429 til 1857 innheimtu Danir Eyrarsundstoll af öllum skipum sem sigldu um sundið. Ef skipin stoppuðu ekki var skotið á þau úr fallbyssum frá Helsingjaeyri og Helsingjaborg. Tollur var líka innheimtur við hin sundin milli Eystrasalts og Norðursjávar; Litla-Belti og Stóra-Belti. Eyrarsundsbrúin yfir sundið milli Kaupmannahafnar og Málmeyjar var opnuð 1. júlí árið 2000. Baarle. Baarle er bær í gamla hertogadæminu Brabant, á landamærum Hollands og Belgíu. Hann skiptist milli sveitarfélaganna Baarle-Nassau í Hollandi og Baarle-Hertog í Belgíu. Skiptingin milli landanna er mjög flókin og átta hollenskar útlendur og 22 belgísk innskotssvæði liggja í bænum meðfram landamærunum. Skiptingin helgaðist af eignarhaldi á einstökum lóðum. Dæmi eru um að hús standi á miðjum landamærunum. Hveðn. Hveðn (danska: "Hven", sænska: "Ven") er sænsk eyja í Eyrarsundi, miðja vegu á milli Skáns og Sjálands en þó nær Svíþjóð. Hún telst tilheyra Skáni og er nú hluti af Landskrona kommun. Eyjan er 7,5 km² að stærð og þar búa um 370 manns. Hveðn var miðstöð stjörnufræðingsins Tycho Brahe sem byggði hér stjörnuathugunarstöð sína, sem nendist Stjörnuborg, og höllina Úraníuborg. Eyjan er hæst 39 metrar yfir sjávarmáli og er brött fram í sjó. Milt loftslag og leirkenndur jarðvegur gera það að verkum að eyjan hentar vel til jarðræktar, er t.d. eini staðurinn í Svíþjóð þar sem hægt er að rækta dúrum-hveiti. Þar hefur um nokkra ára skeið einnig verið stunduð vínrækt. Helstu atvinnuvegir á eyjunni eru ferðaþjónusta, fiskveiðar, siglingar og landbúnaður. Áður var tígulsteinagerð í eynni. Höfuðstaður Hveðnar heitir Tuna og liggur á eyjunni miðri. Önnur þorp eru fiskiþorpið Kyrkbacken á vesturströndinni og Bäckviken á austurströndinni þangað sem ferjan gengur frá Landskrona. Frá Kaupmannahöfn ganga einnig ferjur til Bäckviken. Saga. Hveðn var upphaflega hluti af eiði sem tengdi Skán við Sjáland, en við lok síðustu ísaldar jókst vatnsmagnið mikið þar sem síðar varð Eystrasalt. Þá rauf sjórinn eiðið og reif með sér mikið af landi sem nú eru leirur við strendur Danmerkur og Svíþjóðar. Tycho Brahe átti Hveðn og reisti þar Stjörnuborg og Úraníuborg um 1576, en Friðrik II fjármagnaði byggingu þeirra. Eyjan varð eftir það fastur viðkomustaður hefðarfólks frá Evrópu sem kom þangað til að hitta stjörnufræðinginn. Þangað kom meðal annarra Oddur Einarsson 2. mars árið 1585. Brahe lenti upp á kant við Kristján IV árið 1599 og flutti til Prag. Þar sem eyjan taldist til Skáns tilheyrði hún Danmörku lengst af. Við Hróarskeldufriðinn varð Skánn hluti af Svíþjóð, en Hveðn fylgdi ekki sjálfkrafa með. Er sagt að sænski konungurinn Karl X Gústaf hafi sagt „Får jag inte Ven, bryter jag freden“ („Fái ég ekki Hveðn, rýf ég friðinn“ — í Danmörku er þessari tilvitnun gjarnan fylgt eftir með: „Hann fékk Hveðn, en rauf "samt" friðinn“). 1660 fengu Svíar svo Hveðn í hendur. Eyjaklasi. Eyjaklasi er landslagsþáttur sem samanstendur af þyrpingu eyja, slíkar þyrpingar myndast oft á heita reiti eða rísa upp úr neðansjávarhryggjum, eða af öðrum ástæðum, svo sem vegna rofs og setmyndunar. Atlantshafshryggurinn. Atlantshafshryggurinn er neðansjávarhryggur fyrir miðju Atlantshafinu, hann tegir sig frá 87° N til Bouveteyju. Á honum er bæði eldvirkni og jarðskjálftavirkni. Í Norðuratlantshafi markar hryggurinn skil tveggja jarðskorpufleki, N-Ameríkuflekans og Evrasíufleki. Atlantshafshryggurinn gengur þvert yfir Ísland frá Reykjanesi og norður í Öxarfjörð. Eyðimörk. Eyðimörk er í landafræði svæði þar sem úrkoma er minni en 250 mm á ári og einkennast af litlum gróðri, slík svæði þekja um það bil einn þriðja af jörðinni. Köld svæði Suðurskautslandsins og Grænlands eru eyðimerkur vegna kulda. Orðið "eyðimörk" er þó oftar notað um svæði þar sem úrkoma er tvöfalt minni en uppgufun. Einnig geta jarðlög verið svo gropin að úrkoma nýtist ekki gróðri og þau verða gróðurvana af þeim sökum. Stærstu eyðimerkurnar. Taflan sýnir tíu stærstu svæði jarðarinnar sem flokkuð eru undir eyðimerkurhugtakið, annaðhvort vegna skorts á úrkomu eða vegna kulda nema hvort tveggja sé. Alþjóðaflugvöllurinn í Kansai. Alþjóðaflugvöllurinn í Kansai (IATA: KIX, ICAO: RJBB) (関西国際空港 "Kansai Kokusai Kūkō") er alþjóðaflugvöllur, byggður á manngerðri eyju (landfyllingu) í Osaka-flóa, suður af borginni Osaka í Japan. Köttur. Köttur eða hús-eða heimilisköttur (fræðiheiti: "Felis silvestris catus") er undirtegund villikatta (fræðiheiti: "Felis silvestris") sem er tegund lítilla rándýra af ætt kattardýra. Kettir eru rökkurdýr og kjötætur sem hafa lifað sem húsdýr í mörg þúsund ár. Forn-Egyptar hófu að nota ketti til að halda músum og öðrum nagdýrum frá kornbirgðum. Kettir eru eitt vinsælasta gæludýr heims. Kettir eru mjög hæf rándýr og vitað er til þess að þau veiði yfir 1.000 dýrategundir sér til matar. Hægt er að kenna köttum að hlýða einföldum skipunum og þeir hafa getu til þess að læra á einföld tæki eins og hurðarhúna. Kettir notast við fjöldann allan af dýratáknum í samskiptum við ketti og önnur dýr, þeir mjálma, mala, hvæsa, urra og gagga. Rannsóknir benda til þess að samskipti á milli katta og manna séu töluvert þróuð. Kettir eru einnig ræktaðir og látnir keppa á kattasýningum þar sem veitt eru verðlaun fyrir fallega og hæfileikaríka ketti. Karldýr katta kallast högni eða fress, kvendýrið læða eða bleyða og afkvæmin kettlingar. Hreinræktaðir kettir eru innan við eitt prósent af köttum, en til eru tugir tegundarafbrigða og litbrigða. Til dæmis eru til hárlausir kettir sem nefnast Sfinxar og rófulausir kettir sem nefnast Manx. Kettir á Íslandi. Líkt og víða annars staðar eru kettir vinsæl gæludýr á Íslandi. Ekki er vitað með vissu hversu marga ketti er að finna á Íslandi en mjög gróflega má áætla að þeir séu um 30 þúsund. Árið 1976 var Kattavinafélag Íslands stofnað. Í dag rekur það Kattholt sem er heimili fyrir týnda ketti. Árið 2005 bárust um 500 „óskilakettir“ til Kattholts. Þann 23. ágúst 2005 setti umhverfisráðuneytið reglugerð um kattahald í Reykjavík. Ermarsund. Ermarsund er sund í Atlantshafi á milli meginlands Evrópu (Frakklands) og eyjunnar Stóra-Bretlands og tengir Norðursjó við Atlantshafið. Nafnið kemur úr frönsku; La Manche'", „"ermin"“. Á ensku er það kallað English Channel. Það er um 560 km langt og breiðast 240 km, en mjóst 34 km, á milli borganna Dover og Calais. Árið 1988 var byrjað að grafa lestargöng undir Ermarsundið og voru þau opnuð 1994 og tengja saman England og Frakkland. Göngin eru 50,5 km löng. Um þau fara hraðlestir sem kallast Eurostar. Í sundinu eru Ermarsundseyjar, nær Frakklandi. Syllingar og franska eyjan Ouessant mynda vesturmörk sundsins. TNT N.V.. TNT N.V. er flutningafyrirtæki sem býður upp á hraðflutninga, lagerumsjón og póstþjónustu. Hjá fyrirtækinu vinna yfir 55.000 manns í 64 löndum en fyrirtækið þjónar yfir 200 löndum. TNT á Íslandi. Íslandspóstur er umboðsaðili fyrir TNT á Íslandi og sér um dreifingu og móttöku sendinga fyrir fyrirtækið undir nafninu TNT hraðflutningar. Singapúr. Singapúr (einfölduð kínverska: 新加坡共和国; pinjin: Xīnjiāpō Gònghéguó, malasíska: Republik Singapura; tamílska: சிங்கப்பூர் குடியரசு) er borgríki á eyju við suðurodda Malakkaskaga í Suðaustur-Asíu. Hún liggur sunnan við malasíska héraðið Johor og norðan við Riau-eyjar í Indónesíu. Nafnið er dregið af malasíska orðinu "singa" sem merkir "ljón" og sanskrít "pura" sem merkir "borg". Singapúr gengur líka undir sínu gamla malasíska nafni Temasek. Suður-Evrópa. Kýpur er landfræðilega ekki hluti af Evrópu, heldur Asíu, en er oft talið með Evrópulöndum vegna stjórnmálalegra og menningarlegra tengsla. Beaufort-kvarðinn. Beaufort-kvarðinn eða vindstigakvarðinn er mælikvarði á vindstyrk þar sem vindhraði er flokkaður í 12 vindstig. Kvarðinn var hannaður árið 1806 af Francis Beaufort, breskum sjóliðsforingja og vindstigin voru skilgreind út frá sjólagi. Upprunalegi kvarðinn miðaðist ekki við vindhraða heldur aðstæður á sjó miðað við seglskútur, allt frá „rétt nægilegt til að stýra“ að „ekkert segl getur staðist“. Kvarðinn var aðlagaður aðstæðum á landi frá því á 6. áratug 19. aldar og vindstigin bundin við snúninga á vindmæli. Hlutfallið milli vindstiga og snúninga var þó ekki staðlað fyrr en 1923 og mælikvarðanum var breytt lítillega síðar til að hann hentaði veðurfræðingum betur. Í dag eru hvirfilvindar stundum mældir samkvæmt kvarðanum með vindstig 12-16. Áður var algengast að nota vindstig í veðurspám, en Veðurstofa Íslands gefur nú vindhraða í metrum á sekúndu (m/s). Barkskip. Barkskip eða barkur er stórt seglskip, yfirleitt með þrjú möstur: messansiglu (afturmastur), stórsiglu og framsiglu, auk þess að vera með bugspjót og fokkur. Tvær fremri siglurnar eru með rásegl en messansiglan er með gaffalsegl (messansegl). Djúnka. Djúnka (eða júnka) er kínversk gerð af seglskipi. Nafnið kemur úr malasísku: "djong" eða "jong". Djúnkan kom fyrst fram á sjónarsviðiði á Han-tímabilinu (um 220 f.Kr. til 200 e.Kr.). Þær voru hápunkturinn á siglingatækni síns tíma og eru enn notaðar. Djúnkur eru með þannig segl að hægt er að sigla beitivind. Seglin eru skorin í sveig og eru með langbönd úr bambus sem gerir þau bæði mjög sterk og meðfærileg þar sem auðvelt er að rífa þau eða hagræða þeim eftir vindstyrk. Skipsskrokkurinn var upphaflega smíðaður úr tekki. Djúnkur voru með afturstýri (meðan skip í Evrópu notuðust við hliðarstýri) og voru með lausan kjöl og hliðarkjöl. Lest djúnkunnar var skipt í vatnsþétt hólf svo skipið héldist á floti þótt leki kæmi að því. Djúnkur voru notaðar til fiskveiða, flutninga og í hernaði. Stórir flotar af djúnkum (um 300 skip frá níu mastra niður í þriggja mastra) voru notaðir af kínverjum við könnun Indlandshafs á 15. öld. Þær léku lykilhlutverk í verslun á Indlandshafi og Kyrrahafi fram á 19. öld. Kuggur. Kuggur var seglskipsgerð (kaupskip) sérhönnuð fyrir vöruflutninga sem á 12. öld voru mest notuðu skipin í Norður-Evrópu. Á tímum krossferðanna bárust þeir til Miðjarðarhafsins, þar sem þeir leiddu til þróunar karavellunnar og karkarans, sem urðu lykilþáttur í landkönnun Portúgala og Spánverja á 15. og 16. öld. Kuggurinn er beinn afkomandi knarrarins og var notaður af Hansakaupmönnum (Hansakuggur) í Norðursjó og Eystrasalti. Hann var allt að tíu metra langur, smíðaður úr eik, og líkt og knörrinn breiður og hár, með súðbyrðing og notaði hliðarstýri og eitt ferhyrnt rásegl. Engin dæmi eru um afturstýri í Evrópu fyrr en um 1240 en eftir það hafa slík stýri verið sett á kugga. Hann átti það samt sameiginlegt með Miðjarðarhafsskipum að vera með beinan skut og var með bein kjöltré. Á kuggnum gátu verið afturkastali og jafnvel lítill framkastali við bugspjótið til að verjast sjóræningjum. Suðurkeilan. Suðurkeilan er landsvæðið syðst í Suður-Ameríku. Venjulega er átt við Argentínu, suðaustur Brasilíu, Chile, Úrúgvæ og Paragvæ. Helstu tungumálin á svæðinu eru spænska og portúgalska auk frumbyggjamála. Palladín. Palladín er frumefni með efnatáknið Pd og er númer 46 í lotukerfinu. Þetta er sjalfgæfur, stálhvítur hliðarmálmur í platínuflokknum og er unninn úr kopar- og nikkelgrýti. Það er aðallega notað sem hvati í iðnaði og í skartgripi. Almenn einkenni. Palladín er mjúkur, stálhvítur málmur sem að efnafræðilega líkist platínu. Það tærist ekki í snertingu við loft og hefur lægstan eðlismassa og bræðslumark af öllum málmunum í platínuflokknum. Það er mjúkt og sveigjanlegt þegar það er dregið og eykst í styrk og hörku þegar það er unnið kalt. Hægt er að vinna efnafræðilega á palladíni með brennisteinssýru og saltpéturssýru en það leysist hægt upp í saltsýru. Þessi málmur hvarfast einnig ekki við snertingu við súrefni við venjulegt hitastig. Þessi málmur hefur þann óvenjulega eiginleika að geta drukkið í sig 900 sinnum eigið rúmmál af vetni við stofuhita. Það er getið til um það hugsanlega myndi palladínhýdríð (Pd2H) en það er ekki ljóst ennþá hvort að þetta sé sannkallað efnasamband. Algeng oxunarstig palladíns eru +2, +3 og +4. Má þó geta að nýlega hafa verið gerð tilbúin palladínefnasambönd þar sem að palladínið hefur oxunarstigið +6. Notkun. Þegar það er fínlega skipt, er palladín góður hvati og er notað til að hraða vetnisbindingar- og vetnissviptingarferlum, svo og einnig í klofning á jarðolíu. Það er einnig málmblandað og notað í skartgripi. Önnur not má nefna; Slúppa. Slúppa eða slúffa er seglskúta með einu mastri sem ber þríhyrnt stórsegl (bermúdasegl) og fokku eða genúasegl, auk aukahluta eins og belgsegls. Stórseglið er fest eftir endilöngu mastrinu og dregið upp í topp, og fest á bómu að neðan. Stundum er sett laust bugspjót á slúppur til að hámarka nýtingu seglbúnaðarins. Slúppur eru til í ýmsum stærðum, allt frá smábátum upp í skip til úthafssiglinga. Þær eru mjög meðfærilegar og sérhannaðar til þess að sigla beitivind. Þessir eiginleikar gera slúppur að vinsælum byrjendaskútum. Slúppur eru einnig geysivinsælir keppnisbátar og hægt er að sjá það nýjasta og besta í hönnun slúppa í keppninni um Ameríkubikarinn. Áður var heitið slúppa notað um skip sem voru með allt að þrjú möstur. Meistari Jakob. Meistari Jakob er barnagæla, þýðing á frönsku barnagælunni "Frère Jacques" og jafnan sungin við sama lag. Loft. Loft er heiti gasblöndu í andrúmslofti jarðar. Oftast er átt við þurrt loft, þ.e. loft án vatnsgufu. Loft, sem inniheldur vatnsgufu, nefnist rakt loft. Efnasamband. Efnasamband er myndað af tveimur eða fleiri frumefnum þar sem að fast hlutfall ákveður samsetningu, og flokkast með frumefnum til hreinna efna til aðgreiningar frá efnablöndum. Sem dæmi er tvívetnismónoxíð (betur þekkt sem vatn, H2O) efnasamband sem samanstendur af tveimur vetnisfrumeindum fyrir hverja súrefnisfrumeind. Almennt séð, þarf þetta fasta hlutfall að vera til sökum efnislegra eiginleika, frekar en handahófskennt val af mannavöldum. Þess vegna eru efni eins og látún, ofurleiðarinn YBKS, hálfleiðarinn ál-gallín-arsen, eða súkkulaði talin sem efna- eða málmblöndur frekar en efnasambönd. Skýrt einkenni efnasambands er að það hefur efnaformúlu. Formúlur lýsa hlutfalli frumeinda í efni, ásamt fjölda frumeinda af hverju frumefni fyrir sig í efninu (af þessum ástæðum er formúlan fyrir etýlen C2H4, en ekki CH2). Formúlan segir ekki til um hvort að efnis sé sett saman úr sameindum; til dæmis, natrínklóríð (matarsalt, NaCl) er jónískt efnasamaband. Efnasambönd geta verið í margvíslegu efnisástandi. Flest efnasambönd eru í föstu formi. Sameindaefnasambönd eru einnig til í vökva- eða gasformi. Öll efnasambönd brotna niður í smærri efnasambönd eða einstakar frumeindir af þau eru hituð upp að ákveðnu hitastigi (kallað sundurleysishitastig). Öllum efnasamböndum sem að lýst hefur verið, bera með sér einstakt talnaheiti sem kallast CAS númer. Storkuhamur. Storkuhamur (eða fast efni) er efnisástand efnis, sem að lýsir sér með mótstöðu við aflögun og breytingu á rúmmáli. Sú grein eðlisfræði sem að snýst um föst efni er kölluð "storkufræði" og er tegund af þéttefnisfræði. Linus Torvalds. Linus Benedict Torvalds (fæddur 28. desember 1969 í Helsinki í Finnlandi) er finnskur tölvunarfræðingur þekktastur fyrir að hafa skrifað stýrikerfiskjarnann Linux. Linus lærði við Háskólann í Helsinki á árunum 1988 til 1996 og býr nú í Bandaríkjunum. Everestfjall. Everest er hæsta fjall jarðar, alls 8.844,43 metrar yfir sjávarmáli skv. opinberum mælingum kínverska ríkisins frá október 2005. Tindur þess er í Tíbet en fjallshryggurinn neðan hans aðskilur Nepal og Tíbet, þ.e.a.s. að landamæri þeirra liggja um hrygginn. Fyrstu menn á fjallið. Fyrstu menn á tindinn voru Ný-Sjálendingurinn Edmund Hillary og nepalskur leiðsögumaður hans, Tenzing Norgay, og náðu þeir tindinum 29. maí 1953 um 11:30 að morgni. Þetta var níundi breski leiðangurinn. Íslendingar á Everest. Fyrstu Íslendingarnir til að klífa Everest voru þeir Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon sem komust á tind fjallsins að morgni 21. maí 1997 Þann 16. maí 2002 komst Haraldur Örn Ólafsson á tind Everest en það var lokahluti leiðangurs hans sem fólst í því að komast á norður og suður heimskautin og hæstu tinda allra heimsálfa. Svo má bæta við einu heimsmeti íslendinga sem seint verður slegið. Aðeins er vitað um 4 íslendinga sem hafa reynt að komast á Everest, og allir 4 komust á tindinn. Engin þjóð hefur leikið þetta eftir. Silfur. Silfur er frumefni með efnatáknið Ag (skammstöfun á latneska orðinu yfir silfur, "argentum") og er númer 47 í lotukerfinu. Silfur er mjúkur, hvítgljáandi hliðarmálmur sem hefur hæstu raf- og hitaleiðni allra málma og finnst í steindum og einnig í hreinu formi. Það er notað í mynt, skartgripi, borðbúnað og ljósmyndun. Almenn einkenni. Silfur er mjög sveigjanlegur og þjáll (rétt harðara en gull, eingildur myntmálmur með skínandi hvítan málmgljáa. Það hefur hæstu rafleiðni allra málma, jafnvel hærri en kopar, en sökum verðs hefur það ekki náð sömu vinsældum og kopar í rafmagnsverki. Hreint silfur hefur einnig hæstu hitaleiðni, hvítasta litinn, og hæstu endurkasthæfni ljóss (það er samt slæmur endurkastari útfjólublás ljóss), og lægsta snertiviðnám allra málma. Silfurhalíð eru ljósnæm og eru markverð fyrir áhrif ljóss á þau. Silfur er stöðugt í lofti og vatni, en tærist í snertingu við óson, vetnissúlfíð eða loft sem inniheldur brennistein. Algengustu oxunarstig silfurs er +1, en nokkur +2 efnasambönd eru þekkt. Notkun. Aðalnot silfurs eru sem eðalmálmur og halíðsölt þess, þá sérstaklega silfurnítrat, eru mikið notuð í ljósmyndun (sem að er stærsti notandi silfurs). Önnur not fyrir silfur má nefna sem; Óson. Óson (O3) er fjölgervingsform súrefnis. Sameindin samanstendur af þremur súrefnisfrumeindum, eða einni fleiri en stöðugra form súrefnis, O2. Óson er litlaust gas við staðalaðstæður. Það myndar dökkbláan vökva við hitastig undir -112 °C og dökkblátt fast efni undir -193 °C. Óson er öflugt oxunarefni. Það er einnig mjög óstöðugt og brotnar niður í venjulegt súrefni í gegnum hvarfið "2O3 → 3O2". Þetta ferli gerist hraðar eftir því sem að hitastig og þrýstingur eykst. Óson er gríðarlega tærandi, eitrað og algengur mengunarvaldur. Það hefur skarpa, megna lykt. Það er til staðar í litlum skammti yfir allt andrúmsloft Jarðar. Það myndast einnig úr O2 við afhleðslu rafmagns við eldingu og við háorku rafsegulgeislun. Sum raftæki mynda nógu mikið óson til að það lyktast. Þetta á sérstaklega við um tæki sem að nota háa spennu, eins og sjónvörp og ljósritara. Rafmagnshreyflar sem nota bursta geta einnig myndað óson við endurtekið neistaflug innan í hreyflinum. Stórir hreyflar, eins og þeir sem notaðir eru í lyftur eða vökvadælur, mynda meira óson en minni hreyflar. Óson var uppgötvað af Christian Friedrich Schoenbein árið 1840. Ósonlagið. Mesta samansöfnun ósons í andrúmsloftinu er í heiðhvolfinu, við svæði sem að einnig nefnist ósonlagið. Þar síar það út góðan hluta af útfjólubláu ljósi frá sólinni sem að öðrum kosti myndi vera skaðlegt lífi á jörðinni. Magn ósons í andrúmsloftinu er yfirleitt mælt í Dobson einingum. Óson notað í iðnaði er mælt í milljónarhlutum og prósenta eftir massa eða þyngd. Renín. Renín er frumefni með efnatáknið Re og er númer 75 í lotukerfinu. Þetta er silfurhvítur, sjaldgæfur, þungur og fjölgildur hliðarmálmur sem efnafræðilega líkist mangani og er notað í sumar málmblöndur. Renín er fengið sem aukaafurð við hreinsun mólýbdens. Þetta var síðasta náttúrulega frumefnið sem að uppgötvað var og tilheyrir tíu dýrustu málmum á Jörðinni. Almennir eiginleikar. Renín er silfurhvítur málmur, með mikinn gljáa, og hefur eitt hæsta bræðslumark allra frumefna, á eftir volfram og kolefni. Það er einnig með hæsta eðlismassann, á eftir platínu, iridíni og osmíni. Oxunarstig reníns má telja, -1, +1, +2, +3, +4, +5, +6 og +7. Oxunarstig +7, +6, +4, +2 og -1 eru þó algengust. Það er yfirleitt keypt í formi dufts, en hægt er að þétta það i´fast form með því að valsa og sindra það í lofttæmi eða í vetnisandrúmslofti. Þegar renín er hert er það sveigjanlegt og er þá hægt að beygja það, vefja það í vafninga, eða valsa það. Renín-mólýbden málmblöndur eru ofurleiðandi við 10 K. Notkun. Þetta frumefni er notað í platínu-renín hvata sem að eru þá aðallega notaðir í framleiðslu á blýlausu, háoktana bensíni og í háhita ofurmálmblöndur sem að notaðar eru í þotuhreyfla. Saga. Renín (Latína "Rhenus" sem að þýðir „Rín“) var síðasta náttúrulega frumefnið sem uppgötvað var. Tilvist áður óuppgötvaðs frumefnis í þessari stöðu í lotukerfinu var spáð fyrir af Henry Moseley árið 1914. Það er yfirleitt talið hafa verið uppgötvað af Walter Noddack, Ida Tacke, og Otto Berg í Þýskalandi. Árið 1925 tilkynntu þau að þau hefðu fundið frumefnið í platínugrýti og í kólumbíti. Þau fundu einnig renín í gadoliníti og mólýbdenglans. Árið 1928 náðu þau að vinna eitt gramm af frumefninu með því að vinna 660 kg af mólýbdenglans. Þetta ferli var svo flókið og dýrt í rekstri að framleiðslu var hætt þangað til snemma árið 1950 að tungsten-renín og mólýbden-renín málmblöndur voru búnar til. Fundin voru mikilvæg not fyrir þessar málmblöndur í iðnaði að eftirspurn eftir reníni unnu úr mólýbdenglanshluta dílótts koparbergs jókst gífurlega. Tilvist. Renín finnst nátturulega hvorki í frjálsu formi né sem efnasamband í aðgreindum steintegundum. Það er víða dreift yfir skorpu jarðar í um 0,001 miljónarhluta. Renín er unnið úr mólýbden reykrörsdufti úr koparsúlfíðgrýti. Sumt mólýbdengrýti hefur að geyma á milli 0,002% til 0,2% renín. Málmform reníns er framleitt með því að rýra ammoníak perrenít með vetni við hátt hitastig. Samsætur. Náttúrulegt renín er blanda af einni stöugri samsætu og einni geislavirkri samsætu með mjög langan helmingunartíma. Það eru þekktar 26 aðrar óstöðugar samsætur. Varúðarráðstafanir. Lítið er vitað um eituráhrif reníns og skyldi það því vera meðhöndlað varlega. Oxunartala. Oxunarstig eða oxunartala er skilgreind sem summa neikvæðra og jákvæðra hleðslna í frumeind, sem að óbeint gefur til kynna fjölda rafeinda sem að hún hefur tekið eða gefið af sér. Oxunartala er hentugt nálgunarhugtak þegar unnið er með flókin rafefnafræðileg ferli sem að auðveldar fyrir að fylgjast með rafeindum og hjálpar til við að tryggja að þær hafi varðveist. Þetta er sérstaklega nytsamlegt í framsetningu á flóknum hálfhvörfum í oxun-afoxunarhvörfum. Frumeindir eru skilgreindar með oxunartölu núll, sem að þýðir að þær eru raffræðilega hlutlausar. Jákvæðar róteindir í kjarnanum halda jafnvægi við neikvæða rafeindaskýið sem að umlykur þær, þar sem sami fjöldi er af báðum. Ef að frumeind gefur af sér rafeind, hefur hún fleiri róteindir en rafeindir og verður jákvætt hlaðin. Þessi jón er sögð hafa oxunartölu +1. Aftur á móti ef að frumeindin tekur við rafeind, verður hún neikvætt hlaðin og fær því oxunartöluna −1. Af þessu má sjá að ef frumeind, eða jón, gefur af sér rafeind við efnahvörf eykst oxunarstig þess um eitt, en ef hún tekur við rafeind minnkar oxunarstig hennar um eitt. Framsetning. Oxunartölur eru táknaðar í efnaheitum með rómverskum tölustöfum innan sviga strax á eftir nafni frumefnisins. Til dæmis, járnjón, með oxunarstigið +3 er táknað sem "járn(III)". Mangan með oxunarstig +7, og finnst í manganoxíði, er gefið nafnið mangan(VII)oxíð. Ástæðan fyrir því að oxunartölur eru hafðar með nafninu er eingöngui til að skilja á milli mismunandi efnasambanda með sama frumefni. Jákvæð eða neikvæð hleðsla jónarinnar er ekki skilgreind því hún skiptir ekki máli í þessu sambandi. Reglur um oxunartölur. Stundum er ekki strax augljóst frá sameindarformúlu einni saman hvað oxunartala jóna og frumeinda er í þeirri formúlu. Til dæmis, í Cr(OH)3 eru engar oxunartölur til staðar en samt er augljóst að jónatenging á sér stað. Svo haldið sé áfram með fyrra dæmið, Cr(OH)3. Í þessu tilfelli hefur súrefnið oxunartölu -2 (ekkert flúor og engin O-O bönd til staðar), og vetnið hefur +1 (bundið við súrefni). Samanlagt hefur þá hýdroxíðþrenningin hleðslu upp á 3 * (-2 + 1) = -3. Sökum þess að efnasambandið er hlutlaust, hlýtur því Cr að hafa hleðsluna +3. Jón (efnafræði). Jón (eða fareind) er frumeind eða hópur frumeinda með rafhleðslu. Jón sem hefur fleiri rafeindir í rafeindahveli sínu en róteindir í kjarnanum er neikvætt hlaðin jón og er stundum nefnd anjón frá gríska orðinu ἀνω ("anο") sem þýðir „upp“ (líka "forjón" og "mínusjón") því hún laðast að forskautum. Jákvætt hlaðin fareind hefur færri rafeindir en róteindir og er kölluð katjón frá gríska orðinu κατά ("kata") sem þýðir „niður“ (líka "bakjón" og "plúsjón") því hún laðast að bakskautum. Ummyndun frumeindar úr óhlaðinni frumeind yfir í jón og jónunarástand er kallað "jónun". Þegar jónum og rafeindum er hópað saman til að mynda hlutlausar frumeindir er það kallað "jónfang". Ein- og fjölatóma jónir eru táknaðar með hávísi þar sem plús eða mínus merki gefur til kynna hleðslu og fjölda rafeinda gefinn eða tekinn. Til dæmis: H+, SO3-2. Jónunarspenna. Orkan sem þarf til að skilja rafeind, í lægsta orkuþrepi sínu, frá frumeind eða gassameind með lægri hleðslu, er kölluð "jónunarspenna". "N"ta jónunarspenna frumeindar er orkan sem þarf til að skilja "N"tu rafeind hennar eftir að fyrstu "N - 1" rafeindirnar hafa þegar verið skildar frá. Hver jónunarspenna er töluvert hærri en sú næsta á undan. Sérstaklega hækkar hún eftir að rafeindasvigrúm hefur verið tæmt og næsta rafeind því tekin af innra rafeindasvigrúmi sem er fullt. Af þessum ástæðum hafa jónir tilhneigingu til að myndast á þann hátt að ysta mögulega rafeindasvigrúm þeirra sé fullt. Til dæmis hefur natrín eina "gildisrafeind" í ysta hveli sínu og finnst því oftast í jónaðri mynd með eina glataða rafeind, sem Na+. Á hinum væng lotukerfisins hefur klór sjö gildisrafeindir og vantar eina upp í fullt rafeindasvigrúm. Því finnst klór yfirleitt í jónuðu formi með eina aukarafeind, sem Cl-. Sýrustig. Sýrustig lausna er mælikvarði á styrk vetnisjóna í lausninni, en vökvi er því súrari sem sýrustigið er lægri tala (núll er lægst). Saga. Michael Faraday setti fyrst fram kenningu um jónir í kringum 1830, til að lýsa hluta þeirra sameinda sem löðuðust annaðhvort að forskauti eða bakskauti. Á hinn bóginn var gangi þeirra ekki lýst fyrr en árið 1884 af Svante August Arrhenius í doktorsritgerð við háskólans í Uppsölum. Kenning hans var ekki viðtekin í fyrstu, en hann hlaut að lokum Nóbelsverðlaun í efnafræði árið 1903 fyrir hana. Orðsifjar. Kvenkynsorðið "jón" er dregið af enska orðinu "ion" sem Faraday tók frá gríska orðinu "ἰόν", sem er lýsingarháttur nútíðar í hvorugkyni af sögninni "ἰέναι" sem þýðir „að fara“. Fareind er annað orð sem hefur verið notað yfir jónir og virðist gerð þess einnig tengjast gríska orðinu. Einnig er orðið "raf" notað um jón þó það eigi oftast við um steingerða trékvoðu. Hunang. Hunang er gulleitur seigfljótandi sætur vökvi sem býflugur og önnur skordýr vinna úr blómasafa, plöntusafa og safa sem önnur skordýr sem sjúga plöntur seyta. Hunang er notað í matargerð, til að brugga mjöð og við náttúrulækningar. Til eru margar tegundir af hunangi, en bragð þess mótast öðru fremur af umhverfi býflugnabúsins, t.d. því hvaða tegundir blómplantna eru ríkjandi í næsta nágrenni. Lengi vel var hunang nær eina sætuefnið sem notað var í Evrópu. Frumeindakjarni. a>ir. Atómkjarninn samanstendur af róteindunum og nifteindunum. Frumeindakjarni (atómkjarni eða kjarni'") er massamesti hluti frumeindar og eru samsettur úr róteindum og nifteindum. Rafeindir frumeinda ganga á rafeindaahvelum umhverfis kjarnann. Samsetning. Fjöldi róteinda í frumeindakjarna er kölluð sætistala og segir til um hvaða frumefni frumeindin er. Sem dæmi, kjarni með eina róteind (sem er eini kjarninn sem getur haft engar nifteindir) myndar vetnisfrumeind, kjarni með sex róteindir myndar kolefni og kjarni með átta, súrefni. Fjöldi nifteinda ákvarðar samsætu frumefnisins. Ákveðin tengsl eru á milli fjöldi róteinda og nifteinda; í léttum kjörnum eru þær næstum jafnmargar, en í þyngri kjörnum eru nifteindir fjölmennari. Tölur þessara tveggja einda ákvarða kjarnategundina ("kirni"). Róteindir og nifteindi hafa næstum sama massa og samanlagður fjöldi þeirra, massatalan, er næstum sama og atómmassi frumeindar. Massi rafeindanna er frekar lítill samanborið við massa kjarnans. Geisli kjarneindar (nifteindar eða róteindar) er að stærðargráðunni 1 fermí. Hann er hægt að nálga með þriðju rót af massa sinnum 1,2 fm, er minni en 0,01% af geisla frumeindarinnar. Þéttleiki kjarnans er því meiri en trilljón sinnum en frumeindarinnar í heild. Einn rúmmillimetri af kjarnefni, ef það væri þjappað saman, myndi hafa massa í kringum 200.000 tonn. Nifteindastjörnur eru gerðar úr slíku efni. Þó að jákvætt hlaðnar róteindir beyti fráhrindandi rafsegulkraft á hvora aðra, eru fjarlægðirnar milli kjarneindanna nógu lítill til að sterka víxlverkunin (sem að er sterkari en rafsegulkrafturinn en minnkar ört með fjarlægð) yfirgnæfi þann fyrri. (Kraftur þyngdaraflsins er hverfandi, 1036 veikari enn rafsegulkrafturinn). Uppgötvun kjarnans. Uppgötvun rafeindarinnar var fyrsta vísbending þess að frumeindir hefðu innri byggingu. Þessi bygging var fyrst hugsuð samkvæmt Plómubúðingslíkaninu, þar sem að litlar, neikvætt hlaðnar rafeindir voru festar í stóra, jákvætt hlaðna kúlu. Ernest Rutherford og Ernest Marsden, uppgötvuðu í hinni frægu gullþynnutilraun þeirra árið 1911 að sumum alfaeindum, frá radínlind, var endurvarpað af gullþynnu. Þetta leiddi til viðurkenningu á líkani Borhs, sem að var plánetulíkan þar sem að rafeindir eru á braut um lítinn kjarna á sama hátt og plánetur snúast í kringum sólina. Kjarnalíkön. Þungur kjarni getur haft að geyma hundruð kjarneinda og er því hægt að nálgast hann sem klassískt kerfi, frekar en skammtafræðilegt. Í dropalíkaninu sem að leiðir út frá því, hefur kjarninn orku sem að kemur hluta til af yfirborðsspennu og að hluta til af raffráhrindingu róteindanna. Dropalíkanið getur einnig endurskapað mörg einkenni kjarnans, eins og til dæmis almenna tilhneigingu bindiorkunar við að fylgja massatölu, sem og kjarnasamruna. Yfir þessari klassísku mynd liggja þó skammtafræðiáhrif, sem að hægt er að lýsa með skeljarlíkani kjarnans, sem þróað var af miklum hluta af Mariu Goeppert-Mayer. Samkvæmt þessu líkani eru kjarnar með ákveðinn fjölda nifteinda og róteinda (töfratölurnar 2, 8, 20, 50, 82, 126...) eru sérstaklega stöðugir, því að skeljar þeirra eru fylltar. Kjarnahvörf stjarna. Vegna þess að sumir kjarnar eru stöðugari en aðrir, fylgir það að hægt er að leysa af hólmi orku í kjarnahvörfum. Sólin er knúin af kjarnasamruna, þar sem að tveir kjarnar skella saman og mynda stærri kjarna. Mótstæða ferlið er kjarnaklofnun, sem að keyrir kjarnorkuofna. Sökum þess að bindiorka kjarnaeinda er við hámark fyrir meðalstóra kjarna (í kringum járn), er hægt að losa um orku með því að bræða saman léttum kjörnum eða sundra þyngri kjörnum. Frumefni upp að járni eru mynduð í stjörnum við röð af samrunaþrepum, eins og til dæmis róteindakeðju, kolefnishverfu og þríhelínshvarf. Þyngri og þyngri frumefni eru framleidd þrep fyrir þrep yfir þróunarferil stjörnu. Sökum þess að bindiorka hverrar kjarneindar nær hámarki í kringum járn, losnar eingöngu um orku í samrunaferlum undir því stigi. Sköpun þyngri kjarna kostar orku, og eru þeir því að yfirgnæfandi hluta myndaðir í sprengistjörnum, þar sem að losast um gríðarlegt magn orku. Kjarnahvörf á jörðu. Kjarnahvörf gerast náttúrulega á Jörðinni og eru í reynd nokkuð algeng. Alfa- og betasundrun eru algeng og þungir kjarnar, eins og til dæmis úran klofna. Það er jafnvel til eitt þekkt dæmi um náttúrulegan kjarnakljúf, sem að var virkur í Okio í Gabon í Afríku fyrir 1,5 milljörðum árum síðan. Rannsóknir í dag. Stór hluti rannsókna í dag í kjarneðlisfræði snýst um rannsóknir á frumeindakjörnum við öfgakenndar aðstæður, eins og háann spuna og örvunarorku. Kjarnar geta einnig haft öfgakennda lögun (líkt og amerískur fótbolti) eða öfgakennt hlutfall milli nifteinda og róteinda. Tilraunamenn geta búið til svoleiðis kjarna með því að hvetja til samruna á tilbúinn hátt eða með kjarneindaflutningshvörfum, sem að nota jónageisla úr hröðlum. Geislar með jafnvel meiri orku er hægt að nota til að skapa kjarna við háhitastig, og það eru til vísbendingar um að þessar tilraunir hafi ollið hamskiptum úr venjulegu kjarnaefni yfir í nýjan ham, kvarka-límeindarafgas, þar sem að kvarkar blandast hvor við annann, í stað þess að vera deilt niður í þrenningar, eins og þeir eru í nifteindum og róteindum. Þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar. Hræðslubandalagið (Upphaflega nefnt Umbótabandalagið eða Bandalag umbótaflokkanna af stofnendum sínum) var kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í Alþingiskosningunum 24. júní 1956. Flokkarnir gerðu með sér samkomulag um að stilla ekki fram frambjóðendum gegn hvor öðrum í sömu kjördæmum. Nýta átti kjördæmaskipunina til að ná meirihluta þingmanna án þess að hafa meirihluta kjósenda á bak við sig. Það mistókst naumlega því að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur fengu 25 þingmenn af 52 en hefðu þurft 27 til að fá hreinan meirihluta. Þennan fjölda þingmanna fengu flokkarnir tveir út á 33,9% atkvæða en höfðu fengið samanlagt 37,5% atkvæða og 22 þingmenn í kosningunum árið 1953. a) Í Alþingiskosningunum 1953 munaði litlu að Sjálfstæðisflokkurinn næði hreinum meirihluta þingmanna, þrátt fyrir að fá einungis 37,1% atkvæða. Í nokkrum fámennum landsbyggðarkjördæmum þurfti Sjálfstæðisflokkurinn aðeins samtals örfá hundruð atkvæða til viðbótar við það fylgi sem hann fékk, til að vinna 6 þingmenn, sem hefði gefið honum 27 þingmenn og þar með hreinan meirihluta þingmanna í heildina. b) Í Alþingiskosningunum 1953 fékk Alþýðuflokkurinn, í fyrsta skipti í meira en 20 ár, einungis einn kjördæmakjörinn þingmann. Ef kjör þessa eina þingmanns í Reykjavík hefði brugðist, hefði flokkurinn heldur ekki fengið þá 5 uppbótarþingmenn sem hann fékk samhliða kjördæmakjörna þingmanninum og þar með þurrkast út af Alþingi, þrátt fyrir að hafa fengið 15,6% atkvæða. c) Það sem rak Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn til að mynda Bandalag umbótaflokkanna / Hræðslubandalagið, var viljinn til að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar og einnig (aðallega frá Alþýðuflokknum komið) að geta útilokað Sósíalistaflokkinn eða Alþýðubandalagið frá stjórnarþáttöku, en Sósíalistar höfðu fyrr á árinu 1956 tekið höndum saman með forseta Alþýðusambands Íslands og fyrrum formanni Alþýðuflokksins, Hannibal Valdimarssyni og öðrum í málfundafélagi jafnaðarmanna og myndað Alþýðubandalag sem kosningabandalag. Hræðslubandalagið stefndi að uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Bandalagið var stofnað í kjölfar þess að Framsóknarflokkurinn rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn 27. mars 1956. Að loknum Alþingiskosningunum 1956 myndaði Hræðslubandalagið (þ.e. Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur) stjórn með Alþýðubandalaginu 24. júlí undir forystu Hermanns Jónassonar, formanns Framsóknarflokksins. Þrátt fyrir að formaður Alþýðuflokksins, Haraldur Guðmundsson, hefði lýst því yfir að stjórnarsamstarf við Alþýðubandalagið kæmi ekki til greina. Þann 4. desember 1958 slitnaði upp úr samstarfi flokkanna í bandalaginu, eftir að hafa fært landhelgina út í 12 mílur 1. september 1958, án þess þó að hafa lokið málinu gagnvart Bretum. Alþýðuflokkurinn, undir forystu Emils Jónssonar myndaði stjórn með hlutleysi Sjálfstæðisflokks 23. desember 1958. Ekki var varnarsamningum sagt upp þó að því hefði verið stefnt. Malasía. Malasía (malasíska: Malaysia) er land í Suðaustur-Asíu. Það skiptist milli tveggja landsvæða; Vestur-Malasíu á Malakkaskaga og Austur-Malasíu á eyjunni Borneó, með Suður-Kínahaf á milli. Vestur-Malasía á landamæri að Taílandi í norðri, og mjótt sund skilur það frá Singapúr í suðri. Austur-Malasía á landamæri að Brúnei í norðri og Indónesíu í suðri. Kjarneðlisfræði. Kjarneðlisfræði er undirgrein eðlisfræðinnar sem fæst við rannsóknir á kjarna frumeinda. Þeir sem leggja stund á greinina kallast kjarneðlisfræðingar. Saga. Geislavirkni var fyrst uppgötvuð árið 1896 af franska vísindamanninum Henri Becquerel er hann vann með sjálflýsandi efni. Þessi efni glóa í myrkri eftir að ljós hefur skinið á þau og hann hélt að glóðin sem að mynduð var í bakskautslömpum af röntgengeislum gæti á einhvern hátt verið tengd þessu sjálflýsandi fyrirbæri. Þannig að hann prófaði að vefja framköllunarplötu í svartan pappír og setja alls kyns sjálflýsandi steintegundir ofan á. Allar niðurstöður voru neikvæðar þangað til að hann prófaði að nota úransölt. Ólíkt hinum efnunum, svertu þessi efni plötuna. Það kom fljótlega í ljós að sortnun plötunnar hefðu ekkert að gera með sjálflýsandi efni, því að platan sortnaði líka ef að efninu var haldið í myrkri. Auk þess svertu líka ósjálflýsandi sölt úrans, og jafnvel málmkennt úran, plötuna. Þarna var augljóslega á ferðinni ný tegund geislunar sem að gæti farið í gegnum pappír og orsakað því að platan sortnaði. Fyrst um sinn virtist sem að þessi nýja geislun væri svipuð og hinu nýuppgötvuðu röntgengeislar. Hinsveger uppgötvuðu Becquerel, Pierre Curie, Marie Curie, Ernest Rutherford og fleiri við frekari rannsóknir að geislavirkni væri talsvert flóknari en það. Til dæmis var það fundið að raf- eða segulsvið gæti skipt slíkri útgeislun í þrjá mismunandi geisla. Sökum skorts á betri nöfnum, voru geislunum gefin nöfn eftir fyrstu þremur bókstöfunum í gríska stafrófinu: Alpha, beta og gamma. Halda þeir þessum nöfnum enn í dag. Það var strax augljóst frá átt rafsegulkraftanna að alfageislar væru jákvætt hlaðnir, betageislar neikvætt hlaðnir, og gammageislar óhlaðnir. Frá stærð hliðarsveigju þeirra var einnig augljóst að alfaeindir væru mun þyngri en betaeindir. Með því að hleypa alphageislum í gegnum þunna glerhimnu og hremma þá í úrhleðslulampa, gátu vísindamenn rannsakað útgeislunarróf gassins sem að safnaðist, og sanna loksins að alphaeindir væru í reynd helínkjarnar. Aðrir vísindamenn sýndu fram á að betageislum og bakskautsgeislum svipaði á, og það sama með gammageisla og röntgengeisla. Þessir vísindamenn uppgötvuðu einnig að mörg önnur frumefni hafa geislavirkar samsætur. Geislavirkni hjálpaði einnig Marie Curie til að einangra radín frá baríni. Vegna þess hve þessi tvö efni svipar efnafræðilega hefði verið erfitt að skilja þau að á annan hátt. Hættur geislavirkni og geislunar voru ekki viðurkenndar strax. Tekið var snemma eftir bráðri geislaveiki, en það ályktað, líkt og með eld, að ef ekki væri tekið skjótlega eftir neinum áhrifum væri engin hætta á ferðum. Enn fremur gerðu menn sér ekki ljóst að ef geislavirkt efni væri meðtekið af líkamanum gæti það haldið áfram að senda frá sér geislun á meðan það var inn í líkamanum, sem oft olli krabbameini og öðrum alvarlegum vandamálum. Margir læknar og fyrirtæki byrjuðu að markaðsetja geislavirk efni sem undralyf. Eitt sérstaklega skelfilegt dæmi var stólpípumeðferðir með radíni. Áður en Mari Cure dó, talaði hún á móti slíkum meðferðum, og varaði við að áhrif geislunar á líkamann væru ekki vel skilin. Massatala. Massatala (A) er samanlagður fjöldi róteinda og nifteinda í frumeindakjarna. Massatala er einstök fyrir hverja samsætu frumefnis og er skrifuð á efti nafni frumefnisins eða sem hávísir vinstra meginn við efnatákn þess. Til dæmis, kolefni-12 (12C) hefur 6 róteindir og 6 nifteindir í kjarnanum. Fullt samsætutákn myndi einnig hafa sætistöluna (Z) sem lágvísi beint undir massatölunni: formula_1. Athygli má samt vekja á að þetta er óþarft, því að það er beint samband á milli sætistölu og efnatákns, þannig að þetta er sjaldan notað, nema þegar þarf að sýna fjölda róteinda í kjarna, til dæmis í kjarnahvörfum. Rafknúið farartæki. Rafknúið farartæki er farartæki sem knúið er áfram með rafhreyfli eða -hreyflum. Farartækið kann að vera á hjólum eða búið skrúfu knúinni með snúningsrafhreyfli, eða í tilfelli farartækja sem ganga eftir teinum, með línuhreyfli. Raforkan sem gefur hreyflunum afl kann að vera fengin með beinni tengingu við raforkuver á landi, eins og títt er um raflestir; úr efnaorku sem geymd er í farartækinu í rafgeymum eða díselolíu; úr kjarnorku, í kjarnorkukafbátum og flugmóðurskipum; eða framúrstefnulegri uppsprettum svo sem kasthjóli, vindi eða sólarorku. Saga. Umbreyting rafafls í mekanískt afl hófst með lítilli járnbrautarlest sem knúin var örsmáum rafhreyfli sem Thomas Davenport smíðaði árið 1835. Árið 1838 smíðaði Skoti að nafni Robert Davidson rafknúna járnbrautarlest (sem kalla mætti „rafreið“ sbr. „eimreið“) sem náði 6 km hraða á klst. Í Englandi var gefið út einkaleyfi fyrir notkun teina til að leiða rafstraum árið 1840 og áþekk einkaleyfi voru gefin út í Bandaríkjunum handa Lilley og Colten árið 1847. Milli áranna 1832 og 1839 (nákvæmt ártal er óþekkt) fann Robert Anderson í Skotlandi upp fyrsta grófa rafknúna vagninn sem knúinn var með einnota aðalsellum. Þegar kom fram á 20. öld voru rafbílar og raflestir algengar og það svo að rafbílar voru meirihluti bíla sem seldir voru almenningi. Rafknúnar lestir voru notaðar til að flytja kol upp úr námum þar eð hreyflarnir gengu ekki á hið verðmæta súrefni í námunum. Þar sem ekki eru neinar jarðefnaauðlindir í Sviss knúði það á um snemmbæra rafvæðingu járnbrautanets landsins. Rafknúin farartæki voru á meðal fyrstu bílanna og áður en léttir, aflmiklir sprengihreyflar komu til sögunnar áttu rafbílar mörg hraða- og vegalengdarmet snemma á 20. öld. Þeir voru framleiddir af Anthony Electric, Baker Electric, Detroit Electric, Lohner og fleirum. Virkni. Algengast er að rafknúin farartæki séu beintengd við orkuuppsprettu sína í gegnum raforkunetið. Vegna þeirra innviða sem það krefst og takmörkunar á ferðafrelsi eru flest beintengd farartæki í eigu opinberra aðila eða stórfyrirtækja. Betur er fjallað um þær tegundir samgangna í segulsvifbrautum, jarðlestum, sporvögnum, lestum og rafstrætó. Fræðileg tegund rafknúins farartækis er einkahraðreið, blendingur bíla og lesta ætlaður fyrir sjálfstæðar ferðir. Í flestum kerfum kemur aflið úr snúningsrafhreyfli. Þó eru í sumum lestum hreyflar sem hafa svo að segja verið "flattir út" og knýja lestina áfram með beinni verkan á sérstaklega þar til gerða braut. Það nefnast línuhreyfilslestir. Oft eru þær jafnframt segulsviflestir og svífa yfir teinunum með segulkrafti. Á það skal bent að svifið og krafturinn sem knýr lestina áfram eru óháð hrif: knúningur áfram krefst ávallt ytra afls en Inductrack gefur kost á svifi við litla ferð án ytra afls. Kostir. Ástæður þess að rafhreyflar eru notaðir til að knýja farartæki eru góð stýring, há nýtni og einföld mekanísk gerð. Rafhreyflar ná oft yfir 90% umbreytingarnýtni yfir allan hraða- og aflúttaksskalann og þeim má stjórna af nákvæmni. Rafhreyflar geta gefið kraftvægi þegar þeir hreyfast ekki, ólíkt sprengihreyflum og þurfa því ekki niðurgírun til að stilla af hraða hreyfils og farartækis. Þar með er ekki þörf fyrir gírkassa, kraftvægisbreyti eða mismunadrif. Rafhreyflar búa einnig yfir þeim óvenjulega eiginleika að geta umbreytt hreyfiorku aftur yfir í raforku, með afturverkunarhemlun. Með því má minnka bæði hemlaslit og orkueyðslu. Efnarafalar. Efnaorka er algengasti óháði orkugjafinn. Henni er umbreytt í raforku, sem er síðan stýrt og hún gefin knúningshreyflunum. Efnaorka er yfirleitt á formi dísilolíu eða bensíns. Eldsneytinu er yfirleitt umbreytt í rafmagn með rafali sem knúinn er með sprengihreyfli eða annarskonar varmavél. Þessi aðferð er þekkt sem dísil-rafmagns- eða tvinn-knúningur. Önnur mynd umbreytingar úr efna- í raforku er rafefnafræðileg. Það meðtelur brunasellur og rafhlöður. Með því að sleppa hinum mekaníska millilið eykst nýtnin mjög mikið umfram ferlið efnaorka-varmaorka-mekanísk orka-raforka-mekanísk orka sem rætt var að framan. Það helgast af því að hærri carnot-nýtni fæst með því að oxa eldsneytið beint og sleppa óþörfum orkuumbreytingum. Enn fremur má auðveldlega snúa orkuumbreytingu efnafræðilegra rafhlaða við og geyma raforku á efnafræðilegu formi. Vandamál. Þrátt fyrir hærri nýtni hrjá raf-efnafræðileg farartæki tæknileg vandamál sem hindra að þau komi í stað farartækja byggðra á hinni flóknari, grófari og sóðalegri varmavél. Auðveldara hefur reynzt að skala varmavélar upp. Þannig eru stærstu rafalar einatt knúnir með varmavélum. Brunasellur eru brothættar, viðkvæmar fyrir mengun og þurfa ytri hvarfefni svo sem vetni. Í rafhlöður þarf há-hreinsuð, óstöðug efni sem kunna að vera hættuleg umhverfinu og verður að endurvinna til að draga úr umhverfisáhrifum þeirra og hámarka sjálfbærni. Báðar tæknir hafa lægri orku og aflþéttleika en varmavélar. Í sérstaklega stórum rafknúnum farartækjum, þ.e. kafbátum og flugmóðurskipum má hafa kjarnakljúf í stað díselvarmavélarinnar. Kjarnakljúfurinn framleiðir varma sem knýr gufutúrbínu sem knýr rafal sem framleiðir rafstraum til rafhreyfilsins. Allmargar tilraunir hafa verið gerðar með að nota orkugeymslu á formi kasthjóls í rafknúnum farartækjum. Kasthjólið geymir orku á formi snúnings sem er breytt yfir í rafmagn með rafali, sem framleiðir rafstraum til rafhreyfilsins. Það kann að virðast skrýtið að umbreyta snúningsorku yfir í raforku og umbreyta henni svo aftur yfir í snúningsorku, en kasthjól þurfa að snúast mjög hratt svo að orkan verði nógu mikil. Auðveldara er að nota rafmagn til að umbreyta hreyfingunni í afl sem hentar til að knýja farartækið áfram. Tegundir farartækja. Meðal annarra léttra rafknúinna fólksflutningatækja má nefna rafknúna hjólastóla, Segway HT, rafknúin bifhjól, reiðhjól með rafstuðningi, golfvagna og nágrennisrafbíla. Meðal rafknúinna vinnufarartækja má nefna tæki til þungavinnu, gaffallyftara og allmargar aðrar gerðir þjónustu- og stuðningsfarartækja. Meðal farartækja sem aðeins eru til tilrauna, eða er ætlað að sanna að tiltekin tækni sé möguleg, má nefna sólknúin farartæki svo sem sólbíla, rafaþon, fljúgandi Heliosfrumgerðina og nokkur eldflaugarknúin kerfi svo sem jónaþeytinn. Rafbílar. Til er tvenns konar hönnun rafbíla: Rafhlöðu-rafknúin farartæki eða RRF, sem umbreyta efnaorku í raforku í rafhlöðum; og tvinnbílar sem umbreyta efnaorku í raforku með sprengihreyfli og rafali. Srí Lanka. Alþýðulýðveldið Srí Lanka (sinhala: ශ්රී ලංකා tamílska: இலங்கை), áður þekkt sem Seylon til 1972 er eyríki út af suðausturströnd Indlandsskaga. Í landinu hafa verið um tveggja áratuga skeið hörð innanlandsátök milli stjórnarinnar og Tamíltígra. Maldíveyjar. Maldíveyjar eru eyjaklasi baugeyja í Indlandshafi, suð-suðvestur af Indlandsskaga. Baugarnir eru 26 talsins með 1.196 kóraleyjum. Eyjarnar voru mikilvægur áfangastaður í siglingum araba um Indlandshaf. Þar fannst mikið af pontum sem voru notaðar sem gjaldmiðill í Asíu og Austur-Afríku. Ermarsundseyjar. Ermarsundseyjar eru nokkrar eyjar í Ermarsundi úti fyrir strönd Normandí í Frakklandi. Þær skiptast í tvö umdæmi: Guernsey og Jersey. Bæði umdæmin eru breskar krúnunýlendur þótt hvorugt þeirra sé hluti af Bretlandi. Þau voru formlega hluti af hertogadæminu Normandí frá því á 10. öld. Við Parísarsáttmálann 1259, þegar Bretar létu Normandí af hendi við Frakka, voru þau áfram undir konungum Bretlands sem hluti af titlinum „hertoginn af Normandí“. Elísabet II er þannig hertogi yfir Ermarsundseyjum, fremur en drottning þeirra. Eyjarnar eiga ekki fulltrúa á breska þinginu, heldur hefur hvor þeirra eigið löggjafarþing. Eyjarnar eru hluti tollabandalags Evrópubandalagsins en teljast þó ekki í Evrópusambandinu. Umdæmið Jersey. Sunnan við Jersey er eyjan Chausey sem tilheyrir Frakklandi. Bangladess. Alþýðulýðveldið Bangladess (bengalska: গণপ্রজাতন্ত্রী বাংলাদেশ) er land í Suður-Asíu með landamæri að Indlandi og Mjanmar og strönd að Bengalflóa. Landið nær yfir austurhluta héraðsins Bengal þaðan sem það dregur nafn sitt. Við skiptingu Indlands eftir 1940 varð það hluti af Pakistan sem Austur-Pakistan. Eftir blóðuga sjálfstæðisbaráttu fékk landið sjálfstæði frá Pakistan árið 1971. Arúba. Arúba er eyja í Karíbahafi, rétt norðan við Paraguaná-skaga í Venesúela. Eyjan er hluti af Konungsríkinu Hollandi sem skildi sig frá Hollensku Antillaeyjum árið 1986. Loftslag á eyjunni er þurrt, ólíkt öðrum eyjum í Karíbahafi, sem hefur gert hana að vinsælum ferðamannastað. Nepal. Sambandslýðveldið Nepal er í Himalajafjöllum milli Kína (Tíbet) og Indlands. Það var lengi vel eina konungsríki hindúa í heiminum en konungsveldið var afnumið af nepalska þinginu 28. maí 2008. Hæsti tindur veraldar er staðsettur á landamærum Nepals og Kína. Nepal er landlukt land sem einkennist af háum fjallstindum í norðri og hásléttu í suðri. Suðurhluti Nepals er fjósamur til ræktunar og þar er mjög þéttbýlt. Mikil rigning er í Nepal, sérstaklega þegar monsún-rigningarnar skella á Himalajafjöllunum. Landamæri Nepals í norðri liggja að Kína en í suðri, austri og vestri að Indlandi. Nepal er 147.181 ferkílómetrar að stærð og fólksfjöldi þar er um 30 milljónir. Meirihluti íbúa í Nepal er hindúar en sögulega er landið tengt búddhisma. Nepal var einveldi í margar aldir og ríktu konungar af Shah ætt frá 1768 en þá sameinaði Prithvi Narayan Shah mörg minni konungsdæmi í eitt ríki. Áratuga borgarastríð leitt af kommúnistaflokki Nepals og nokkurra vikna fjöldamótmæli allra stjórnmálaflokka í Nepal urðu til þess að 22. nóvember 2005 var samþykkt samkomulag í tólf liðum sem var til þess að einveldi var lagt niður og lýðveldi stofnað 28. maí 2008. Fyrsti forseti Nepals Ram Baran Yadav tók við völdum 23. júlí 2008. Bahamaeyjar. Samveldi Bahamaeyja er eyríki á eyjaklasa sem telur um 700 eyjar og sandrif í Atlantshafi, rétt austan við Flórídaskaga í Bandaríkjunum, fyrir norðan Kúbu og Karíbahafið og vestan við Turks- og Caicoseyjar. Talið er að Kristófer Kólumbus hafi fyrst lent í Nýja heiminum á eyjunni San Salvador í eyjaklasanum. Ferðaþjónusta stendur ein undir 60% af vergri landsframleiðslu Bahamaeyja. Austur-Indíur. Austur-Indíur er hugtak sem var notað yfir löndin í Suður- og Suðaustur-Asíu. Þau ná yfir það sem var Bresku Indíur, Pakistan, Indland, Bangladess, Mjanmar, Srí Lanka og Maldíveyjar, auk Taílands, Malasíu og Indónesíu, sem hét Hollensku Austur-Indíur áður en það fékk sjálfstæði. Til Austur-Indía teljast einnig Íranshluti Balúkistan, Indókína, Filippseyjar, Brúnei, Singapúr og Austur-Tímor. Austurlönd fjær. Austurlönd fjær er hugtak sem stundum er notað um Suðaustur-Asíu og Austur-Asíu. Stundum er það einnig látið ná yfir austurhluta Rússlands og vesturhluta Kyrrahafs. „Austurlönd fjær“ er oft notað sem samheiti fyrir Austur-Asíu og telur þá löndin Kína (utan Tíbet og Sinkiang) og Tævan, Japan, Kóreu og Víetnam. Að auki eru oft talin með löndin í Suðaustur-Asíu: Kambódía, Malasía, Mjanmar og Taíland. Það er líka notað í víðari merkingu og nær þá einnig yfir lönd í vesturhluta Kyrrahafsins, svo sem Indónesíu og Filippseyjar, en aldrei Ástralíu eða Nýja-Sjáland. Filippseyjar. Lýðveldið Filippseyjar (tagalog: "Repúbliká ng̃ Pilipinas"), er ríki í Suðaustur-Asíu og fimmta stærsta eyríki heims. Eyjaklasinn samanstendur af 7.107 eyjum og er fjarlægðin frá meginlandi Asíu 1.210 km. Filippseyjar fengu sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1946 eftir að hafa verið hernumdar af Japönum í heimstyrjöldinni síðari. Lega og lýsing. Þúsundir smáeyja liggja dreifðar um gjörvallan eyjaklasann. Aðeins 3.144 (af 7.107) eyjanna bera heiti og af þeim eru 880 í byggð. Eyjarnar mynduðust við hreyfingu tveggja jarðfleka, Evrasíuflekans og Filippseyjaflekans. Því eru fjölmörg eldfjöll á eyjunum og eru mörg þeirra virk og hættuleg. Orðsifjar. Árið 1542 sigldi spænski landkönnuðurinn Ruy López de Villalobos til eyjanna Samar og Leyte í miðhluta eyjaklasans. Hann nefndi þær Islas Filipinas (Eyjar Filippusar) eftir Filippusi krónprins á Spáni, sonar Karls V keisara. Filippus varð síðar Spánarkonungur Filippus II. Nafngjöfin breiddist síðan út til alls eyjaklasans. Mannfjöldi og mannflokkar. Á Filippseyjum búa rúmar 92 milljónir manna en þar með er landið tólfta fjölmennasta ríki heims. Höfuðeyjan Lúson, sem er á stærð við Ísland, er ein og sér með 46,2 milljónir íbúa og er fimmta fjölmennasta eyja heims. Að sama skapi eru Filippseyjar þriðja fjölmennasta eyríki heims (á eftir Indónesíu og Japan). Þéttleiki landsins alls er 333 íbúar á km2, sem er álíka mikið og í Japan. Talið er að íbúar Filippseyja hafi í upphafi komið frá Tævan og tilheyri mannflokki Kyrrahafseyja. Síðar hafi fólk frá Kína blandast þeim. Auk þess hefur fólk komið frá Malasíu og Arabíu. Íbúar eyjanna í dag skiptast í tugi flokka og er mynstur þeirra nokkuð flókið. Flestir tilheyra ættflokki tagalog á Lúzón, 28%, en næstfjölmennastir eru cebuanó með 13%. Aðrir eru fámennari. Af öðru mannfólki eru Spánverjar, Kínverjar og Indverjar fjölmennastir. Tungumál. Mjög snemma var spænskum nýlenduherrum ljóst að til að geta átt eðlileg samskipti við íbúa landsins (sem og mismunandi ættflokkar sín á milli), varð að tala sameiginlegt tungumál. Því varð spænska að höfuðmáli eyjanna. 1863 varð spænska skyldufag í öllum skólum landsins. Þegar Bandaríkjamenn eignuðust eyjarnar 1901 tapaðist kunnátta í spænsku hratt. Að sama skapi tók enska við og breiddist hratt út. Á fjórða áratug 20. aldar ákvað landstjórnin að búa til nýtt tungumál sem allir íbúar Filippseyja gætu sætt sig við. Tagalog var undirstaða nýja málsins en það fékk heitið filipínó. 1973, þegar Marcos var forseti, var gefin út stjórnarskrá sem gerði ráð fyrir tveimur þjóðtungum í landinu, filipínó og ensku. Spænskan var endanlega felld niður. Nýjasta stjórnarskráin frá 1987 staðfesti þetta en gerði ráð fyrir að spænska og arabíska væru valmöguleikar sem erlend mál. Um þriðjungur íbúa Filippseyja tala filipínó sem móðurmál (fyrsta mál). Aðrir íbúar tala einnig filipínó en ekki sem fyrsta mál og í mörgum tilfellum ekki einu sinni sem annað mál. Trú. Filippseyjar er stærsta kristna land Suðaustur-Asíu. 81% landsmanna eru kaþólikkar, en kaþólska kirkjan barst með Spánverjum til eyjanna á 16. öld. Hins vegar kristnaðist landið ekki fyrr en í lok 17. aldar. Nær allt þjóðfélagið í landinu er undir áhrifum kaþólskrar trúar. Verið er að búa til stærstu Maríustyttu heims á Filippseyjum, en hún mun verða 102 m há (6 m hærri en frelsisstyttan í New York). Næststærsti trúarhópur landsins eru múslímar með 5%. Eftir það koma nokkrar mótmælendakirkjur. Önnur trúarbrögð, eins og búddismi og hindúismi, hafa ekki náð festu í landinu að ráði. Fáni og skjaldarmerki. Þjóðfáni Filippseyinga er nauðalíkur þeim tékkneska, nema hvað rauði og hvíti liturinn hafa víxlast. Fáninn samanstendur af þremur reitum. Efst er blátt, neðst er rautt en frá vinstri sker sig hvítur þríhyrningur inn í hina litina. Í hvíta hlutanum er gul sól og þrjár gular stjörnur. Fáni þessi var fyrst dreginn að húni 1898 eftir uppreisn Filippseyinga gegn Spánverjum. Hvíti þríhyrningurinn táknar jafnrétti og bræðralag. Blái reiturinn merkir frið, sannleik og sanngirni. Rauði reiturinn merkir föðurlandsást og kjark. Sumir segja að litirnar hafi verið valdir úr fána Bandaríkjanna af þakklæti fyrir aðstoðina við að hrekja Spánverja burt. Sólin stendur fyrir frelsi og héruðin átta sem voru til 1898. Stjörnurnar þrjár tákna hina þrjá aðalhluta sem Filippseyjar samanstendur af (Lúson, Mindanaó og Visayas-svæðið þar á milli). Upphaflega var fáninn aðeins í notkun í tvö ár en 1901 tók fáni Bandaríkjanna við. 1919 fengu Filippseyingar þjóðfánann opinberlega aftur og hefur hann verið það síðan, með þeirri undantekningu að Japanir bönnuðu hann 1941-43 meðan þeir hertóku eyjarnar í heimstyrjöldinni síðari. Blái liturinn hefur breyst örlítið en hann var ljósblár til að byrja með (er dökkblár núna). Skjaldarmerkið er með sömu liti og þjóðfáninn, nema hvað þeir raðast í kringum hvítan hringlaga reit. Í honum er sól en stjörnurnar þrjár eru í hvíta reitnum fyrir ofan. Auk þess er ljón í rauða reitnum en það stendur fyrir yfirráð Spánverja frá miðri 16. öld til 1898. Í bláa hlutanum er amerískur skallaörn sem tákn fyrir Bandaríkin (skallaörninn er í innsigli Bandaríkjanna). Stjórn. Á Filippseyjum er lýðræði með forsetastjórn. Forseti landsins er með víðtæk völd. Hann kallar saman þingið, sem samanstendur af tveimur deildum. Í efri deild sitja þingmenn í sex ár í senn en í neðri deild þrjú ár. Kosningar eru skylda almennings, þótt ekki séu beittar refsingar fyrir að svíkjast um. Listi yfir forseta Filippseyja frá upphafi. Tímabilið 1901-1935 er forsetalaust, enda stjórnuðu Bandaríkjamenn landinu. Stjórnsýslueiningar. Filippseyjum er skipt niður í 80 sýslur (tagalog: lalawigan). Þær eru svo flokkaðar saman í 17 héruð. Höfuðborgarsvæðið er sér svæði og er ekki með í þessum tölum. Sýslunum er stjórnað af sýslustjóra en þeir hafa ekki umráð yfir stærri borgum. Í þeim ráða borgarstjórar og borgarstjórnir. Sérstakt hérað er heimastjórnarsvæði múslíma á Mindanaó en þar fer eigin heimastjórn með stjórn allra helstu mála. Her. Stjórn Filippseyja rekur her en hann samanstendur af landher, flota og flugher. Alls eru 113 þúsund manns í hernum. Engin herskylda er í landinu. Gjaldmiðill. Í landinu er notaður filippínskur pesó. 1 pesó jafngildir 100 centavos (einnig ritað sentimos). Pesóinn var innleiddur af Spánverjum í upphafi. Þótt Bandaríkjamenn hafi stjórnað landinu í nokkra áratugi, var pesóinn látinn standa. Þegar Filippseyjar urðu sjálfstætt ríki 1948 var enn notast við pesó en auðkenndur við nafn landsins. Stytting filippínska pesóins er PHP. Upphaf. Elstu mannvistarleifar á Filippseyjum hafa verið aldursgreindar upp á 1,7 milljónir ára og tilheyra fornaldarmanninum homo erectus. Elstu merki um nútímamanninn í landinu eru 67 þúsund ára gömul. Ekki er vitað hvaðan hann kom. En elstu ættbálkar Filippseyja komu til eyjaklasans fyrir um 40 þúsund árum. Þeir kallast negritos en talið er að hinn þekkti forni ættbálkur aeta sé af honum kominn. Báðir þessir ættbálkar eru orðnir mjög fámennir á Filippseyjum. Fyrir um 6000 til 2.500 árum f.Kr. fluttist fólk aftur í stórum stíl til eyjanna. Þetta voru ættbálkar malaio-pólýnesa, sem einnig settust að á Kyrrahafseyjum. Fólk þetta kom með tungumál til Filippseyja en talið er að nær öll tungumál eyjanna séu upprunnin frá þessum ættbálkum. Á öldunum e.Kr. hófu ættbálkarnir viðskiptasambönd við nágrannalönd eins og Kína og Japan. Frá og með 9. öld reistu nokkrar þjóðir viðskiptabækistöðvar á eyjunum, svo sem Malæjar og Indónesar en einnig Indverjar (að minnsta kosti frá 9. öld til 12. aldar). Elstu rituðu heimildir Filippseyja er koparplatan frá Laguna. Hún er rituð á máli sem er sambland af sanskrít, fornjavönsku, fornmalasísku og gömlu tagalog. Kaupmenn frá Malasíu og Indónesíu fluttu íslam til Filippseyja. 1380 hóf arabinn Sarif Maqdum trúboðsstörf í Mindanaó. Honum og eftirmönnum hans var nokkuð ágengt. Nokkur soldándæmi voru stofnuð á Mindanaó og nágrannaeyjum í suðri Filippseyja. 1475 kvæntist prins frá Malakka (múslími) innfæddri prinsessu frá Mindanaó og hóf þegar að breiða út íslam. Á svipuðum tíma stofnuðu múslímar bæinn Manila á Lúson. Næstu öld var íslam víða útbreidd en náttúrutrú var þó enn höfuðtrúarbrögð eyjaskeggja allt fram að komu Spánverja á 16. öld. Magellan. Minnisvarði á eyjunni Mactan, þar sem Ferdinand Magellan lést í bardaga 16. mars 1521 kom Magellan siglandi til Filippseyja en hann var á fyrstu hnattsiglingu sögunnar. Hann var fyrsti Evrópubúinn (ásamt áhöfn hans) sem barði Filippseyja augum. Á þessum tíma var Magellan aðeins með 150 menn eftir af mannskap sínum, því afföllin höfðu verið mikil á siglingunni. Magellan kom til nokkurra eyja í suðurhluta eyjaklasans. Á eyjunni Homonhon helgaði hann eyjarnar Spáni en Magellan sigldi fyrir hönd Spánarkonungs, þótt sjálfur væri hann Portúgali. Spánverjar áttu í fyrstu vinsamleg samskipti við eyjaskeggja og náðu meira að segja að kristna marga þeirra, sérstaklega á Cebu. Einn höfðingjanna á nágrannaeyjunni Mactan neitaði hins vegar að taka kristni, hvað þá að gangast undir Spánarkonung. Því ákvað Magellan að fara þangað með mannskap og neyða spænska yfirvaldið á höfðingjann en nafn hans var Lapu Lapu. Í bardaganum sem fylgdi féll Magellan hins vegar, enda var við ofurefli að etja. Spænska nýlendan. Þrátt fyrir fall Magellans var Spánarkonungur sér meðvitaður um nýju eyjarnar og sendi fjóra leiðangra þangað milli 1525 – 1542. Síðasti leiðangurinn var undir stjórn Ruy López de Villalobos en hann kom til eyjanna Samar og Leyte 1542. Hann gaf þeim heitið Las Islas Filipinas (Eyjar Filippusar) eftir spænska erfðaprinsinum sem síðar varð Filippus II. 1565 kom Miguel Lopez de Legazpi til eyjanna milli Lúson og Mindanaó og stofnaði fyrstu spænsku nýlendurnar. Spánn tók Filippseyjar hins vegar ekki formlega til eignar fyrr en 1569. Í kjölfarið var farið í könnunarleiðangra norður með eyjunum og komu Spánverjar til Manilaflóa ári síðar. Þar réðu Múhameðstrúarmenn ríkjum. Í orrustunni við Manila sigruðu Spánverjar þá, en drógu sig engu að síður til baka. Ári síðar, 1571, fór Legazpi með heilan flota (17 skip) með 120 Spánverjum og mörg hundruð hermönnum innfæddra til Manila til að herja á soldándæmið þar. Í orrustunni við Bankusay 3. júní gjörsigruðu Spánverjar, bæði sökum þess að þeir voru mannfleiri og búnir miklu betri vopnum. Í ágúst á sama ári stofnaði Legazpi borgina Manila formlega, þótt þar hafi innfæddir og múslímar búið áður (byggðin hét þá Maynilad) en Legazpi brenndi hana niður til kaldra kola. Spánverjar reistu borgarmúra og virki en sökum góðs hafnarlægis varð Manila brátt höfuðstaður spænsku nýlendunnar á Filippseyjum. Legazpi sjálfur varð fyrsti spænski landstjórinn. Brátt náðu Spánverjar stjórn á öllum eyjum Filippseyja en ekki gekk það áfallalaust fyrir sig. Innfæddir gerðu oft uppreisn, svo sem 1586 í Pampanga, 1588 í Tondo og 1603 í Sangley. Auk þess eyðilögðu fellibyljir, jarðskálftar og eldgos nokkrar nýlendur. Árið 1641 varð til dæmis stórgos í eldfjallinu Parker á Mindanaó sem olli miklum skaða. Hollendingar gerðu Spánverjum einnig lífið leitt með sjóránum á siglingaleiðum til eyjanna. Oft voru sjóorrustur háðar milli landanna hingað og þangað við eyjarnar. 1646 reyndu Hollendingar að hertaka Filippseyja en Spánverjar náðu að verjast í fimm sjóorrustum við La Naval de Manila. Spánverjar töluðu um undrið mikla og halda enn þann dag í dag upp á sigur þeirra á Hollendingum. Kristniboð. Með Spánverjum komu munkar og kristniboðar til Filippseyja og hófu að kristna hina innfæddu. Í kristniboðinu var reynt að endurtaka ekki það sem gerðist í Suður-Ameríku, þ.e. að kristna íbúana með sverði og valdi, heldur með fortölum og loforðum. Munkarnir þýddu þar að auki kaþólsk rit á Baybay-málið til að gera trúna aðgengilegri fyrir marga innfædda ættbálka. Þetta bar mikinn árangur. Fólk gekk kaþólsku kirkjunni á hönd, bæði innfæddir og múslímar. 1611 var kaþólskur háskóli stofnaður í Manila (Universidad de Santo Tomas) en hann er elsti nústarfandi háskóli Asíu. Aðeins í suðri tókst kristniboðið ekki sem skyldi. Á Mindanaó og Súlúeyjum viðhélst íslam og er ríkjandi þar enn í dag. Fræðimenn telja að hefðu Spánverjar ekki numið Filippseyja, hefðu eyjarnar allar orðið íslamskar eins og Malasía og Indónesía. Verslun. Helsta tekjulind Spánverja á Filippseyjum var verslun við Kína. Mikið magn af vörum voru flutt þaðan til Manila, svo sem silki, en þaðan var það sent áfram til Mexíkó (sem einnig var spænsk nýlenda), aðallega til hafnarinnar í Acapulco. Í staðinn var mikið magn af silfri sent frá Mexíkó til Filippseyja sem borgun fyrir kínverskar vörur. Talið er að árlega hafi um 50 tonn af silfri verið flutt frá Mexíkó til Filippseyja og áfram til Kína. Skipin gengu því fram og til baka með vörur en siglt var yfir Kyrrahafið. Fyrir vikið voru Filippseyjar settar undir stjórn landstjórans í Mexíkó. Verslun þessi lokkaði marga sjóræningja, sem og Englendinga, sem reyndu að hagnast á auðlegð verslunarinnar. Aldrei var verslun þessi þó sérlega hagsæld, heldur var hún oft á tíðum rekin með einhverjum halla. Á tímabili íhugaði Spánarkonungur að yfirgefa eyjarnar sökum þessa en af því varð þó ekki. 1762 –64 reyndu Englendingar að ráðast inn í Filippseyja en á þeim árum stóð 7 ára stríðið yfir í Evrópu. Á tímabili náðu Englendingar Manila á sitt vald, sem og nokkrar eyjar. Í suðri gengu múslímar á lagið og juku yfirráð sín, enda Spánverjar uppteknir í stríði við Englendinga. Í friðarsamningum í París 1764, sem markaði endalok stríðsins, var Englendingum gert að skila Manila og eyjunum sem þeir höfðu tekið til Spánverja. Eftir stríðið var farið að nota landbúnaðinn í æ meiri mæli til útflutnings til að drýgja tekur eyjanna. Þannig var mikið ræktað af tóbaki en einnig talsvert af kryddi, svo sem pipar. Þjóðarvakning. 1821 sleit Mexíkó sig laust frá Spáni og varð sjálfstætt ríki. Filippseyjar voru því færðar undir beina stjórn Spánar. Samtímis stöðvaðist verslunin milli Kína og Mexíkó. Strax ári síðar gerðu hermenn af mexíkönskum uppruna uppreisn, þar sem þeir neituðu að afhenda Spánverjum vopn sín. Þeir kölluðu sig "filipinos" og voru þeir fyrstu sem það gerðu. Hugtakið filipino breiddist síðan með tímanum út til alls landsins. Með opnun Súesskurðarins 1867 var auðveldara að versla við þjóðir Austur-Asíu. Að sama skapi fór hugmyndafræði Evrópulanda að berast til Filippseyja. 1850 stofnaði Pedro Pelaez hreyfingu sem krafðist þess að kaþólska kirkjan losaði um tökin sín á íbúum landsins og yrði sett undir landstjórnina. Auk þess krafðist hún jafnrétti innfæddra og Spánverja (eða fólks af spænsku bergi brotnu). 1868 varð Carlos Maria de la Torre landstjóri Spánverja á Filippseyjum. Hann hóf þegar í stað að umbylta landinu. Ritskoðun var afnumin og frelsi aukið. Þrátt fyrir það gerðu prestar innfæddra uppreisn 1871 en þeir kölluðu sig Gomburza. Uppreisnin var barin niður og leiðtogar hennar teknir af lífi. Frjálslyndir menn hófu að yfirgefa eyjarnar. Í Evrópu voru samtök stofnuð af útfluttum Filippseyingum sem kröfðust sjálfstjórnar og atkvæðarétt í spænska þinginu. Í Evrópu gerði belgíska stjórnin tilboð um að kaupa Filippseyjar 1875 og keisarinn í Berlín gerði annað tilboð 1885. Spánverjar höfnuðu báðum boðum. 1892 stofnaði læknirinn og heimspekingurinn José Rizal stjórnmálaflokkinn La Liga Filipina og krafðist umbóta. Hann var handtekinn og sendur í útlegð til Mindanaó. Filippínska uppreisnin. 1892 stofnaði Andrés Bonifacio mótmælendahreyfinguna Katipunan, sem óx hratt. Þremur árum síðan var ákveðið að láta til skarar skríða gegn Spánverjum. Allsherjar uppreisn hófst 1896 og var í upphafi nokkuð árangursrík. Rizal var hins vegar handtekinn aftur og tekinn af lífi. Hann er er þjóðhetja Filippseyja í dag, ásamt Andrés Bonifacio. Tvær deildir innan Katipuan áttu hins vegar í erjum með tilheyrandi upplausn. Þegar formaður annarrar deildarinnar, Emilio Aguinaldo, lét taka Bonifacio af lífi 1897, náðu Spánverjar undirtökunum aftur. Aguinaldo og stuðningsmenn hans drógu sig til baka og stofnuðu fyrsta lýðveldi Filippseyja, Biak-na-Bato. Á sama ári var samið um vopnahlé við Spánverja og Bonifacio fór sjálfviljugur í útlegð til Hong Kong meðan uppreisnin hélt áfram annars staðar í landinu. 25. apríl 1898 sagði Spánn Bandaríkjunum stríð á hendur fyrir stuðning hinna síðarnefndu í Kúbu, sem enn var spænsk nýlenda. 1. maí réðust bandarísk herskip á flotahöfn Spánverja í Manila og gjöreyddu henni á skömmum tíma. Aguinaldo sneri þá aftur til Filippseyja og stjórnaði aðgerðum gegn Spánverjum á landi. 12. júní lýsti Aguinaldo yfir sjálfstæði Filippseyja. Fyrsta bráðabirgðastjórnin hittist í Malolos á Lúson, því Manila var enn að hluta til á valdi Spánverja. Í júlí var setið um Manila bæði af Filippseyingum og Bandaríkjamönnum. Annars staðar í landinu var enn barist og fóru Spánverjar nær alls staðar halloka. Manila féll 14. ágúst og gáfust Spánverjar upp fyrir Bandaríkjamönnum, sem í kjölfarið stofnuðu herstjórn í borginni. Í friðarsamningum í París í desember var kveðið svo á um að Bandaríkin yfirtækju Filippseyjar, Púertó Ríkó og Gvam af Spánverjum fyrir 20 milljónir dali. Bandaríkjastjórn. 21. janúar 1899 gaf bráðabirgðastjórnin út stjórnarskrá og 23. janúar var lýðveldið formlega stofnað. Það stóð þó stutt yfir. 4. febrúar skutu Bandaríkjamenn filippínskan hermann til bana fyrir að fara inn á yfirráðasvæði þeirra. Þetta leysti nýtt stríð úr læðingi, því Filippínar gerðu uppreisn gegn Bandaríkjamönnum. Stríð þetta stóð yfir í tvö ár. Talið er að allt að ein milljón almennra borgara Filippseyja hafi látist í átökum. 1901 náðu Bandaríkjamenn að handsama Aguinaldo. 20. apríl bað hann vopnabræður sína um að hætta öllu viðnámi gegn ofureflinu. 29. apríl gáfust því herir Filippseyinga upp, en nokkrir hópar skæruliðar héldu árásum sínum áfram í um áratug. Sömuleiðis gerðu múslímar í suðri Bandaríkjamönnum lífið leitt en fram að þessu höfðu þeir verið hlutlausir. Filippseyjar urðu í apríl 1901 að bandarískri nýlendu og varð enska að þjóðtungu í landinu. William Taft var sendur til eyjanna til að stofna borgaralegu stjórn, sem leysa ætti herstjórnina af. 1901 var hæstiréttur stofnaður, filippínskt tveggja deilda þing skömmu síðar. Fyrstu kosningar fóru fram 1907. Árið 1913 varð Woodrow Wilson forseti Bandaríkjanna. Hann breytti utanríkisstefnunni þannig að í stað þess að líta á Filippseyjar sem hluta Bandaríkjanna, vildi hann stuðla að sjálfstæði eyjanna. Næstu árin stóð undirbúningur yfir, samafara því að byggðir voru upp innviðir þjóðfélagsins, svo sem menntun, þjónusta, heilbrigðiskerfi, og fleira. 1934 voru sett lög þess efnis að undirbúa sjálfstæði Filippseyja inna tíu ára. Samfara þessu fengu eyjarnar sjálfstjórn en bandarískar herstöðvar fengu að vera í landinu áfram. 1937 fengu konur bæði kosningarétt, sem og framboðsrétt. Undirbúningur sjálfstæðis gekk ekki áfallalaust fyrir sig en heimstyrjöldin síðari batt enda á allar slíkar áætlanir í bili. Herseta Japana. Bandarísk herskip í Manila brenna eftir loftárás Japana 7. desember réðust Japanir á Pearl Harbour á Havaí. Degi síðar réðust þeir á Filippseyjar í samræmdum loftárásum. Nokkrar bandarískar herstöðvar voru eyðilagðar á Lúson, þar af helmingur lofthers þeirra. Sama dag gengu japanskir hermenn á land í Lúson á sex mismunandi stöðum. Á skömmum tíma náðu Japanir að hertaka stóran hluta landsins meðan Bandaríkjamenn, undir stjórn Douglas McArthurs, létu undan síga eftir mikla bardaga. Í apríl 1942 gáfust Bandaríkjamenn og Filippseyingar upp á Bataan-skaga við Manilaflóa. Japanir neyddu tugþúsundir hermanna til að ganga 100 km leið til San Fernando en atburður þessi gekk sem "Dauðagangan í Bataan" í söguna. Í sex daga gengu bandarískir og filippínskir hermenn vatns- og vistalausir í sólinni. Japanir skutu alla til bana sem helltust úr lestinni og frömdu aðra stríðsglæpi á þeim. Um tíu til sextán þús manns létust, margir úr þorsta, en flestir voru drepnir. Á næstu mánuðum voru nokkrar skæruliðahreyfingar stofnaðar af innfæddum sem börðust gegn japanska setuliðinu. Japanir sjálfir stjórnuðu með mikilli grimmd og frömdu ýmsa stríðsglæpi. Þeir drápu innfædda með ýmsum hætti í stórum stíl, pyntuðu þá, nauðguðu og brenndu suma jafnvel lifandi til bana. Í október 1943 leyfðu Japanir stofnun lýðveldis meðal Filippseyinga. José P. Laurel varð forseti lýðveldisins en Japanir voru alltaf með í ráðum. Almenningur studdi þessa stjórn því ekki. Það var ekki fyrr en í október 1944 að Bandaríkjamenn hófu gagnsókn á Filippseyjum undir stjórn McArthurs. Það tók þá fimm mánuði að ná eyjunum aftur á sitt vald. Hins vegar héldu Japanir Manila í föstum greipum, sem stórskemmdist í bardögum. Bandaríkjamenn náðu henni ekki fyrr en við allsherjar uppgjöf Japana í september 1945. Ekki gáfust allir Japanir upp. Nokkrir tórðu í frumskógum eyjanna. Sá síðasti kom ekki fram fyrr en 1974. Talið er að um ein milljón Filippseyinga hafi látið lífið í hersetu Japana. Milli 1945 og 1949 fóru fram stríðsréttarhöld yfir japönskum yfirmönnum á Filippseyjum og voru æðstu yfirmennirnir dæmdir til dauða. Sjálfstæði. Á seinni árum stríðsins var útlagastjórn Filippseyinga mynduð í Bandaríkjunum undir stjórn Sergio Osmeña. Í febrúar 1945 var stjórn þessi formlega sett til valda á eyjunum. 4. júlí 1946 fékk Filippseyjar formlega sjálfstæði. Bandaríkjamenn sömdu um viðskipti við eyjarnar, sem og yfirráðarétt yfir 23 herstöðvum til 99 ára. Sá tími var síðar styttur í 25 ár, með vali á fimm ára framlengingu. Á sjötta áratugnum fluttu fátækir bændur í stórum stíl suður til Mindanaó, með stuðningi stjórnarinnar. Þetta leiddi til átaka við múslíma á eyjunni, en ófriður við þá átti eftir að standa yfir til loka 20. aldar. 1963 gerðu Filippseyjar tilkall til héraðsins Sabah, norðaustast á Borneó, en á því ári leystu Bretar upp verndarsvæði sitt þar. Sabah var hins vegar sameinað Malasíu, en deilur landanna um þetta hérað standa enn. Alræði. Í desember 1965 var Ferdinand Marcos kosinn forseti Filippseyja og endurkosinn 1969. Marcos hafði upp áætlanir um að hernema héraðið Sabah á Borneó en íslamskir nýliðar í hernum neituðu að taka þátt í aðgerðunum. Þetta leiddi til fjöldamorðs á þeim. Í kjölfarið stofnuðu múslímar þjóðarhreyfingu sem hafði það markmið að stuðla að sjálfstæði á Mindanaó og öðrum suðlægum eyjum. Marcos var ásakaður um spillingu en fyrstu mótmæli gegn honum hófust í Manila 1970 og stóðu yfir í tvö ár. Í september 1972 setti Marcos neyðarlög og hóf ofsóknir á hendur öllum þeim sem mótmæltu stjórn hans. Tugþúsundir voru handteknir og prentfrelsi var afnumið. Hann setti nýja stjórnarskrá þar sem hann hlaut aukin völd. Í raun tók hann sér alræðisvöld. Múslímar sömdu áætlun um sjálfstjórn á Mindanaó en Marcos hafnaði henni. Neyðarlögin voru ekki afnumin fyrr en 1981. Á sama ári fóru fram kosningar en þær fóru fram undir ströngu eftirliti Marcosar, sem sigraði með miklum yfirburðum. Talað var um meiriháttar kosningasvindl. 1983 var leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Benigno Aquino, myrtur og var herinn sakaður um ódæðið. Eftir enn eitt kosningasvindl 1987 hópuðust rúmlega milljón Filippseyinga á götur Manila og kröfðust afsagnar Marcosar. Kaþólska kirkjan, sem hafði mikil ítök í landinu, studdi þessar kröfur. Í kjölfarið breiddust mótmælin út um allt land. Þegar herinn neitaði skipunum Marcosar um að stöðva mótmælin, sá Marcos sig tilneyddan til að flýja land og fór til Havaí 25. febrúar 1986. Sama dag varð Corazón Aquino, ekkja hins myrta Benigno Aquino, forseti landsins. Síðustu ár. Í stjórnartíð Aquino var ný stjórnarskrá samin, sem var lík þeirri sem Marcos hafði tekið úr gildi. Filippseyjar urðu lýðveldi á ný með forseta sem æðsta mann stjórnarinnar. Aquino þurfti að fást við nokkrar tilraunir til að steypa henni af stóli. Hún var hins vegar tryggilega studd af æðsta herforingja landsins, Fidel V. Ramos, sem 1992 varð fyrsti kjörni forseti landsins sem var mótmælendatrúar. 1989 hlutu múslímar á Mindanaó loks sjálfstjórn, sem þó fékkst ekki viðurkennt meðal allra skæruliða múslíma eða kristinna manna. Skærur milli aðilanna héldu því áfram. 1991 varð stórgos í eldfjallinu Pínatúbó á Lúzón. Meðalhiti í heiminum lækkaði við það um 1,5° í fleiri mánuði en gosið í Pínatúbó var eitt allra mesta gos 20. aldar. Tugir þúsundir manna voru fluttir burt úr nánd við eldfjallið. Samt sem áður biðu 875 manns bana í gosinu. Tvær aðalherstöðvar Bandaríkjanna eyðilögðust í gosinu. Þar af leiðandi neitaði stjórn landsins að framlengja samning sinn við Bandaríkin. Því yfirgáfu allir bandarískir hermenn landið, þeir síðustu í september 1992. Árið 1999 frömdu maóistar á Filippseyjum fjölda hryðjuverka á Lúson. Þúsundir manna létu lífið. Að sama skapi héldu átökin við múslíma í suðri áfram. Þeir frömdu einnig ýmis hryðjuverk víða í landinu. Þau verstu voru framin 2005, þar á meðal í Manila. 2006, í forsetatíð Gloria Macapagal-Arroyo, reyndi hluti hersins að ræna völdum. Arroyo lýsti yfir neyðarástandi, sem stóð frá 24. febrúar til 3. mars. Ár og vötn. Fjölmargar ár eru á Filippseyjum, en flestar þeirra eru litlar. Stærsta áin heitir Cagayan (eða Rio Grande de Cagayan) nyrst á Lúson og er hún 505 km löng. Fellibyljir. Filippseyjar liggja á leið fellibylja (filipínó: bagyo), sem koma að austan frá Kyrrahafi. Fellibyljatíminn er frá júlí til október. Árlega fara að meðaltali níu hitabeltisstormar og fellibyljir um eyjarnar og koma yfirleitt að landi á austurhluta eyjanna, sérstaklega á Lúson. Þrátt fyrir að Manila sé á vesturströnd Lúson, þá kemur fyrir að borgin lendi í fellibyl með alvarlegum afleiðingum. Mestur fjöldi fellibylja sem skollið hafa á Filippseyjum á einu ári voru nútján árið 1993. Fæstir hafa þeir verið fjórir. Versti fellibylurinn sem skollið hefur á eyjarnar var Thelma í nóvember 1991 en í honum létust rúmlega fimm þúsund manns. 1.200 annarra var saknað. Orkumál. Helstu orkugjafar Filippseyja eru olía, jarðgas, viður og kol. Á eyjunni Palawan er stórt jarðgassvæði. Gasið er leitt um sjó og land 500 km leið til Batangas City á Lúzon. Gasið er að mestu notað í orkuver á Manila-svæðinu sem alls framleiða 8 GW. Þar með hefur innflutningþörf landsins á olíu og gasi minnkað gríðarlega. Á síðustu áratugum hafa vatnsorka og jarðvarmi bæst við. Stærsta vatnsorkuver landsins er við Agusfljót á Mindanaó en það framleiðir 418 MW. Filippseyjar eru næstmesti notandi jarðvarmaorku í heimi (á eftir Bandaríkjunum), enda fyrirfinnst jarðvarmi nær alls staðar í landinu. Árið 2010 var notkunin 1.904 GW, en það er 27% af rafmagnsnotkun landsins. Aðeins Ísland er með hærra hlutfall (30%). Vindorkan hefur einnig nýlega bæst við. Við Ilocos Norte var vindorkuver tekið í notkun 2002 sem framleiðir 40 MW. Til stendur að smíða tvö sjávarfallaorkuver í landinu. Samgöngur. Jeepney er mjög vinsælt farartæki á Filippseyjum Á eftir bifreiðinni eru ferjur langmest notaða samgöngutæki á Filippseyjum. Alls staðar eru ferjuhafnir sem sigla til allra stóru eyjann í eyjaklasanum en einnig til smærri eyja. Flugsamgöngur eru einnig mikið notaðar. Í landinu eru 85 almennir flugvellir. Helsta flugfélag landsins er Philippine Airlines en það flýgur til langt út fyrir landsteinana. Ólíkt öðrum asískum löndum er járnbrautarkerfið frekar lítið á Filippseyjum. Það samanstendur nær eingöngu af einni línu á Lúson, frá San Fernando yfir Manila og til Legazpi. Áætlanir eru uppi um að stækka netið mjög á næstu árum og þá einnig á Panay og Mindanaó. Sérfyrirbæri á Filippseyjum er hinir svokölluðu Jeepneys. Það eru stækkaðir og umbreyttir Willisjeppar sem Bandaríkjamenn skildu eftir við brottför sína. Jeepneys eru nokkurs konar smárútur eða stórir bílar sem fólk getur hoppað upp í að vild. Margir þeirra eru því troðfullir. Heilbrigðismál. Á Filippseyjum eru skráð 2.400 sjúkrahús og 90 þúsund læknar. Þetta gera einn lækni á hverja 833 íbúa. Flest sjúkrahúsin búa þó við fjárskort og eru því ekki búin bestu tækjum. Meðhöndlun sjúklinga er ókeypis þjónusta en sjúklingar verða þó að greiða fyrir lyfin sjálfir. Menntun. Samkvæmt innlendum stofnunum eru 93,4% landsmanna læsir og er það jafnt milli kynja. Rúmlega 2000 háskólar (eða skólar á háskólastigi) eru í landinu öllu. Elsti þeirra er Santo Tomas háskólinn í Manila en hann var stofnaður 1611. Þar með er hann elsti nústarfandi háskóli Asíu. Bókmenntir. Stærstur hluti bókmennta landsins hefur verið ritaðar á spænsku, enda komu fram margir rithöfundar á 19. öld meðan Spánverjar réðu yfir eyjunum. Helstu rithöfundar landsins, svo sem Pedro Paterno, þjóðhetjan José Rizal, Marcelo del Pilar og Francisco Balagtas rituðu allir á spænsku. Helsti rithöfundar landsins sem rituðu á filipínó eru áðurnefndur Balagtas og Patricio Mariano. Vefnaður. Dæmigerður innlendur vefnaður er þekktur hjá nokkrum ættflokkum. Itneg-fólkið er þekkt fyrir ofin teppi, kölluð Binakol. Mynstrið er þannig úr garði gert að það býður upp á missýn, eftir því hvernig á það er horft. Ga‘dang-fólkið vefur með perluskrauti sem ofinn er í klæðin eða teppin. Aðrir ættbálkar, svo sem Ilongot-fólkið, notar ekki bara perlur, heldur líka nef stórra fugla, harða plöntuhluta og málma. Á Mindanaó er gjarnan fléttað með þráðum Abaca-plöntunnar. Afurðin er þekkt víða í heiminum sem Manila-hampur. Íþróttir. Ein útbreiddasta íþróttagrein alþýðunnar er sípa. Hér er um nokkurs konar fótboltatennis að ræða, þ.e. nota þarf fæturna til að koma bolta, yfirleitt gerður úr pálmablöðum, yfir net. Vinsælustu klassískar íþróttir eru körfubolti og bardagaíþróttir. Í körfubolta eru Filippseyingar margfaldir asískir meistarar. Besti árangur þeirra á HM er þriðja sætið. Á eyjunum eru ýmsar bardagaíþróttir stundaðar af kappi en þær eru mjög mismunandi eftir greinum. 2009 gaf Arroyo forseti út lög sem gáfu íþróttinni Modern Arnis stöðu sem þjóðaríþrótt og þjóðarbardagaíþrótt. Knattspyrna er ung íþrótt, enda var eyjunum stjórnað af Bandaríkjamönnum til 1946. Íþróttin er langt á eftir körfuboltanum í landinu. Filippseyjar hafa tekið þátt í Ólympíuleikunum síðan 1924 (París), fyrir utan 1980 er landið hunsaði leikana í Moskvu vegna áhrifa frá Bandaríkjunum. Filippseyjar voru fyrsta hitabeltislandið til að taka þátt í vetrarólympíuleikum. Stærsta íþróttahátíð eyjanna kallast Palarong Pambasa en hún hefur verið haldin síðan 1948. Þetta er nokkurs konar skólakeppni í ýmsum íþróttagreinum. Keppt er í fótbolta, golfi, bogfimi, badminton, hafnabolta, skák, fimleikum, tennis, sundi, borðtennis, taekwondo, frjálsum og blaki. Matargerð. Á Filippseyjum er gjarnan borðað balut, þ.e. frjótt egg með hálfstálpuðu fóstri Matargerð á Filippseyjum er nokkurs konar sambland af spænskum, mexíkönskum, kínverskum, indverskum, japönskum og bandarískum áhrifum. Á eyjunum er mikið borðað af fiski og sjávarafurðum, oftast með hrísgrjónum en þau eru höfuðfæða eyjaskeggja. Fiskurinn er tilreiddur á ýmsan hátt og jafnvel borðaður hrár (kryddaður). Af kjöti er svínið vinsælt, nema meðal múslíma í suðri. Þjóðarrétturinn er adobo, sem gjarnan er gerður úr svínakjöti, en einnig úr naut eða kjúklingi. Auk kryddtegunda er edik, sojasósa eða kókosmjólk sett í hann, allt eftir því héraðinu. Langar núðlur tákna langlífi og eru gjarnan borðaðar á afmælisdögum. Vinsæll forréttur (eða snakk) er balut en það er frjótt egg, steikt eða soðið. Í egginu er hálfstálpað fóstur sem þykir mikið gómsæti. Þannig er eggjahvítan eða rauðan fyrst sogin út en síðan er harði hlutinn borðaður (fóstrið). Í eldri tíð trúðu menn að balut yki kynhvötina. Filippseyingar borða ekki með prjónum, heldur með hnífapörum. Þó aðallega með gaffli og skeið. Úti á landi er einnig borðað með fingrunum. Heimsminjar. Þrír staðir á Filippseyjum eru á heimsminjaskrá UNESCO menningarlegs eðlis. Efnishamur. a> fyrir dæmigert efni sem kemur fyrir sem fast efni, vökvi og gas. Efnishamur eða efnafasi í efnafræði er þrýstings- og hitastigsháð ástand efna. Hamur efnisins stjórnar stórsæjum eiginleikum (þ.e. eiginleikar mikils magns efnisins svo sem vatn í glasi eða steinn) þess og er afleiðing af víxlverkun einda efnisins hver við aðra á smásæjum skala (þ.e. eiginleikar þeirra sameinda og frumeinda sem efnið er samansett úr). Fasarnir vökvi, gas og fast efni eru þekktastir. Minna þekkt eru sem dæmi rafgas og kvarka-límeindarafgas, Bose-Einstein þétting og oddskiptaeindaþétting, sérstætt efni, vökvakristall, ofurstraumefni og ofurþéttefni og einnig meðseglunar- og járnseglunarhamir segulmagnaðra efna. Skilgreining. Jafnvel þótt að hugtakið hamur sé víða notað í eðlisvísindum, er ekki auðvelt að skilgreina það nákvæmlega. Áður en kynnt verður almenn skilgreining, verða hér gefin dæmi um tvo algenga hami: fyrst, hina venjulegu storku-, vökva- og gashamir efna; í öðru lagi meðseglunar- og járnseglunarhami segulmagnaðra efna. Dæmi 1: Storku-, vökva- og gashamir. Vatn (H2O) er samansett af vatnssameindum, sem hvert um sig er súrefnisfrumeind tengd saman við tvær vetnisfrumeindir. Við stofuhitastig eru sameindirnar þétt þjappaðar saman og víxlverka veiklega. Þær tolla ekki saman og geta runnið hvor fram hjá annarri eins og sandkorn í stundaglasi. Þessi stórsæja hegðun vatnssameinda gefur af sér þá eðliseiginleika vatns sem allir þekkja. Vegna þess að sameindirnar mynda ekki fasta byggingu, hefur vatn ekkert ákveðið form, og aðlagast að hverju því íláti sem það er sett í. Sökum þess að sameindirnar eru mjög svo nálægt hver annarri, veitir vatn viðnám við samþjöppun; ef reynt er að kreista vatnsblöðru, finnur maður að það er næstum ómögulegt að minnka rúmmál hennar, ólíkt venjulegri loftblöðru. Ef ytri aðstæðum er breytt örlítið, eins og til ef hitastigið er lækkað, verða engar skyndilegar breytingar á vatninu. Kalt vatn hegðar sér mestmegnis á sama hátt og volgt. Þjappanleiki þess breytist örlítið með hitastigi, en helst mjög lágur. Á hinn bóginn, ef að hitastig þess er lækkað niður fyrir ákveðið mark, verður á skyndileg og stórbrotin breyting. Sameindirnar stilla sér skyndilega saman til að mynda sexhyrnda grind og tapa eiginleika sínum til að renna sér fram hjá hvorri annarri. Kerfið í heild sinni stífnar og getur þá haldið lögunn sinni (þó er hægt að beygja, eða brjóta það í mola, ef að nógu miklum krafti er beitt). Þetta er storkuhamur vatns, almennt þekktur sem ís. Þegar efnið breytist úr vökvaham yfir í storkuham er talað um að efnið frjósi (ef farið er í hina áttina er talað um að efnið bráðni) og er þetta fyrirbæri þekkt sem "hamskipti". Önnur tegund hamskipta, þekkt sem suða, verður til er hitastig vatns í vökvaformi er hækkað yfir ákveðið mark. Vatnið fer skyndilega í gasham, þar sem það er kallað gufa. Í gasham eru sameindirnar á dreif langt frá hvorri annarri og víxlverkast gríðarlega veiklega. Eins og vökvi hefur gas ekkert fast form, en ólíkt vökva hefur það lítið viðmót við samþjöppun vegna þess að það er nóg rúm fyrir sameindirnar að færast nær hvorri annarri. Ólíkt vökva, sem að myndar poll á botninum á íláti, breiðir gas úr sér og fyllir allt mögulegt rúm í sama íláti. Hægt er að nota aðra eðliseiginleika, ekki bara hitastig, til að framkalla þessi hamskipti. Sem dæmi er hægt að breyta vökva í gas með því eingöngu að minnka þrýsting, eða, á samsvarandi hátt, auka rúmmál. Eins og áður var getið hafa litlar breytingar ekki mikil áhrif; hamskipti gerast snögglega þegar breytingin fer yfir ákveðið magn. Dæmi 2: Segulhamir. Annað dæmi um hami er í segulmögnuðum efnum. Í þessum efnum hefur hver frumeind segulvægi sem að myndar örlítið segulsvið sem að vísar í ákveðna stefnu. Frumeindunum er frjálst að snúast þannig að segulsvið þeirra getur vísað hvert sem er, en sökum segulsviðs nærliggjandi segulvægja hafa þau tilhneigingu til að stilla sér í röð við hvert annað. Við hátt hitastig, og í fjarveru ytra segulsviðs, stillir hvert segulvægi sér upp við aðeins fáeina nágranna, þannig að þau vísa í handahófskenndar áttir. Í því ástandi er ekkert hreint segulsvið, það er að segja engin seglun. Þetta er þekkt sem meðseglunarhamur. Ef að hitastigið er lækkað niður fyrir ákveðið mark, kallað Curie hitastig, raða segulvægin sér skyndilega upp yfir stór svæði (yfirleit fleiri þúsund frumeindir). Innann þessara svæða, kölluð segulsvæði (einnig "segulhólf" og "segulóðal") vísa næstum öll segulvægin í sömu átt. Þetta er þekkt sem sjálfseglun. Þessi skyndilega birting segulsvæða er tegund hamskipta, og er nýi hamurinn þekktur sem járnseglun. Almenn skilgreining á hömum. Almennt séð eru tvö ástönd kerfis í mismunandi ham ef að það er skyndileg breyting í eðliseiginleikum þeirra er þau breytast úr öðru ástandinu yfir í hitt. Aftur á móti eru tvö ástönd í sama ham ef hægt er að breyta þeim yfir í hvort annað án þess að nokkrar skyndilegar breytingar eigi sér stað. Mikilvægt atriði er að mismunandi tegundir hama eru tengdir við mismunandi eðlisstærðir. Þegar rætt var um storku-, vökva- og gashami, var talað um stífni og þjöppunarleika, og áhrif mismunandi þrýstings og rúmmáls, því að þetta eru viðeigandi eiginleikar þegar rætt er um föst efni, vökva og gas. Á hinn bóginn, þegar rætt var um með- og járnseglun, var litið á seglun, því það er það sem skilur af járnseglunarhaminn frá meðseglunarhamnum. Nokkur önnur dæmi um hami verða gefin í næsta hluta. Ekki eru allar eðlisstærðir viðeigandi þegar horft er á ákveðin kerfi. Til dæmis þjónar það almennt ekki neinum tilgangi að bera saman seglun fljótandi vatns og seglun íss. Í þessum skilningi, fer það algerlega eftir því hvaða mælistærðum er verið að horfa eftir, hvað „hamur“ er, og öfugt. Það er þessi hugmynd sem að hjálpar til við að gera hamahugtakið almennara og ná yfir ýmis fleiri fyrirbæri. Á tæknilegu máli er hamur svæði í breytusviði varmafræðilegra breyta þar sem að frjáls orka er greinandi. Svo lengi sem frjálsa orkan er greinandi, eru allir varmafræðilegir eiginleikar (eins og til dæmis óreiða, varmarýmd, seglun og þjappanleiki) skaplegir, því hægt er að tjá þá samkvæmt frjálsri orku og afleiðum hennar. Til dæmis er óreiða fyrsta afleiða frjálsrar orku með tilliti til hitastigs. Þegar kerfi skiptist úr einum ham yfir í annann, er yfirleitt til staðar stig þar sem að frjáls orka er ógreinandi. Þetta stig er kallað hamskipti. Sökum þessarar ógreiningar, eru frjálsu orkurnar hvoru megin við hamskiptin tvö mismunandi föll, þannig að varmafræðilegir eiginleikar haga sér á annan hátt eftir hamskiptin. Sá eiginleiki sem að er mest oft skoðaður í þessu samhengi er varmarýmd. Á meðan hamskipti standa yfir, getur varmarýmd verið óendanleg, breyst skyndilega í annað gildi, eða haft ósamfellu í afleiðu sinni. "Möguleg línurit yfir varmarýmd (C) á móti hitastigi (T) við hamskipti." Austur-Tímor. Austur-Tímor er ríki í Suðaustur-Asíu. Það nær yfir eystri hluta eyjunnar Tímor, sem er stærst Litlu-Sundeyja, útlenduna Oecussi-Ambeno í vestari hlutanum (sem tilheyrir Indónesíu) og eyjarnar Atauro og Jaco. Landið hét áður Portúgalska Tímor þar til Indónesar gerðu innrás í landið 1975. Þeir héldu því til 1999 þegar landið fékk sjálfræði með fulltingi Sameinuðu þjóðanna. Landið fékk svo fullt sjálfstæði 20. maí 2002. Suðaustur-Asía. Suðaustur-Asía er hluti Asíu austan við Indlandsskaga, á mörkum tveggja jarðfleka: Ástralíuflekans og Evrasíuflekans. Þar er því mikil jarðskjálfta- og eldvirkni. Indlandsskagi. Eyjan Srí Lanka telst landfræðilega hluti skagans. Panamaskurðurinn. thumb Panamaskurðurinn er 82 km langur skipaskurður sem liggur um Panamaeiðið og tengir saman Atlantshafið og Kyrrahafið. Vegna þess hve S-laga Panama er er Atlantshafið vestan meginn við skurðinn og Kyrrahafið austan meginn við hann. Svendborg. Svendborg er næststærsti bærinn á Fjóni í Danmörku. Íbúafjöldi var 27.573 árið 2004. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi frá Valdimar sigursæla 25. febrúar árið 1253, en elsta varðveitta hús bæjarins, Anne Hvides Gaard, er frá því um 1560. Ödipusarduld. Ödipusarduld er sú hugmynd sálgreinisins Sigmunds Freuds að á tilteknu skeiði á lífsleiðinni, reðurstiginu, hafi allir strákar dulda kynferðislega löngun til móður sinnar og vilji að sama skapi drepa föður sinn. Nafnið er dregið frá grísku þjóðsögunni um Ödipús konung í Þebu sem drap föður sinn og giftist móður sinni óafvitandi. Sagan er einkum þekkt frá leikriti forngríska harmleikjaskáldsins Sófóklesar, "Ödipús konungur". Ís (vatn). Ís eða klaki er vatn í föstu formi. Hamskiptin eiga sér stað þegar vatn í vökvaformi er kælt niður fyrir 0 °C (273,15 K, 32 °F) við staðalþrýsting. Ís getur myndast við hærri hitastig við aukinn þrýsting, og helst sem vökvi eða gufa niður að -30 °C við lægri þrýsting. Ís sem myndaður er við hærri þrýsting hefur öðruvísi kristallagerð heldur en venjulegur ís. Ís, vatn og gufa geta verið til saman við þrípunktinn, sem að fyrir þetta kerfi er 273,16 K og þrýstingur 611,73 Pa. Óvenjulegt séreinkenni íss við eina loftþyngd er það að fasta formið er um 8% minna þétt en vatn í vökvaformi. Ís hefur eðlismassann 0,917 g/cm³ við 0 °C, en vatn 0,9998 g/cm³ við sama hitastig. Vatn er þéttast, nákvæmlega 1,00 g/cm³ við 4 °C og verður minna þétt er vatnssameindirnar byrja að mynda sexhyrnda ískristalla er hitastigið fellur niður í 0 °C (Til gamans má geta að orðið „kristall“ á uppruna sinn í gríska orðinu yfir frost). Þetta kemur af því að vetnistengingar myndast milli vatnssameindanna, sem að raða upp sameindunum á óhagkvæmilegri hátt (eftir rúmmáli) þegar vatnið er frosið. Þetta veldur því að ís flýtur á vatni, sem að er mikilvægur þáttur í veðurfari Jarðar. Sem kristallskennt fast efni, er ís talinn sem steinefni. Roald Amundsen. Roald Engelbregt Gravning Amundsen (16. júlí, 1872 – 18. júní?, 1928) var norskur landkönnuður sem varð frægur fyrir könnun heimskautasvæðanna. Hann stýrði Suðurskautsleiðangrinum 1910–1912, sem var sá fyrsti til að ná Suðurpólnum. Hann var af fjölskyldu norskra útgerðarmanna og skipstjóra í Borge nálægt Osló í Noregi. Hann heyrði um ferð Fridtjof Nansens yfir Grænland árið 1888 og las líka æviágrip breskra landkönnuða og ákvað að verða sjálfur landkönnuður. Fyrstu leiðangrarnir. Amundsen gekk til liðs við Belgíska Suðurskautsleiðangurinn (1897–1899) sem annar stýrimaður. Skip þeirra, "Belgica", varð það fyrsta sem eyddi heilum vetri á Suðurskautslandinu. Skipstjóri var Adrien de Gerlache. Um borð var einnig bandarískur læknir, Frederick Cook. Cook þessi bjargaði áhöfninni frá skyrbjúg, sem reyndist mikilvæg lexía fyrir framtíðarleiðangra Roalds. Árið 1903 stjórnaði Amundsen fyrsta leiðangrinum sem fór norðvesturleiðina frá Atlantshafi til Kyrrahafs ásamt sex öðrum á skipinu "Gjøa". Leið þeirra lá um Baffinsflóa, Lancaster- og Peel-sund, James Ross-sund og Rae-sund og voru þeir tvö ár við rannsóknir á landi og ís á svæði umhverfis það sem nú kallast Gjoa Haven í Nunavut í Kanada. Tenglar. Amundsen, Roald Amundsen, Roald Amundsen, Roald Amundsen, Roald Reiptog. Reiptog (einnig reipitog í daglegu máli og örsjaldan reipdráttur) er íþrótt þar sem tvö lið reyna með sér krafta sína, leikurinn fer oftast þannig fram að tvö lið raða sér á sinn hvorn enda reipis, sem ætti að vera um 10 sentímetrar í þvermál. Heildarþyngd liðsins ætti að falla innan marka þess flokks sem keppt er í, eða hvort lið vera svipað að þyngd. Miðja reipisins er merkt með einhverjum hætti og tvö merki um fjórum metrum frá miðju reipisins í hvora átt. Miðja reipisins er svo staðsett þannig að hún er beint yfir merki á jörðinni. Hvort lið reynir svo að toga hitt þannig að merkið sem er nær andstæðingnum fari yfir miðlínuna. Stundum eru reglurnar þannig að ef einhver úr öðru hvoru liðinu fellur telst það lið hafa tapað. Reiptog var Ólympíugrein frá 1900 til 1920 og hefur verið hluti af Heimsleikunum. Alþjóða reiptogssambandið skipuleggur heimsmeistarakeppni í reiptogi milli landsliða annað hvert ár. Mið-Evrópa. Mið-Evrópa er hluti Evrópu sem liggur á milli Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu. Hugtakið hefur verið skilgreint á ýmsan hátt í gegnum tíðina þar sem það er ekki skýrt landfræðilega afmarkað. Almennt telst þetta svæði telja löndin Pólland, Tékkland, Slóvakíu, Ungverjaland, Rúmeníu og Slóveníu. Eftir fall Járntjaldsins hefur færst í vöxt að telja Alpalöndin, Þýskaland, Sviss, Austurríki og Liechtenstein, til Mið-Evrópu, fremur en Vestur-Evrópu. Stundum eru Balkanlöndin Króatía, Bosnía-Hersegóvína, Svartfjallaland,Serbía, Búlgaría, Albanía og Lýðveldið Makedónía talin til Mið-Evrópu en það er þó sjaldgæft. Hugmyndin um Mið-Evrópu byggir einkum á sameiginlegri sögu svæðisins, í andstöðu við "austrið": Tyrkjaveldi og Rússneska keisaradæmið. Allt til Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru þessi lönd einnig í andstöðu við "vestrið" vegna íhaldssemi og andstöðu við frjálslyndishugmyndir í stjórnmálum. Fyrst eftir Seinni heimsstyrjöld náðu lýðræðishugmyndir yfirhöndinni í Þýskalandi og Austurríki, en á þeim sama tíma féll hugmyndin um Mið-Evrópu algerlega í skuggann af skiptingunni í Austur- og Vestur-Evrópu, eftir því hvort löndin voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna eða ekki. Stundum er sagt að Mið-Evrópa sé það sem Austur-Evrópubúar líti á sem Vestur-Evrópu, og Vestur-Evrópubúar líti á sem Austur-Evrópu. Barbados. Barbados er eyríki á mörkum Karíbahafs og Atlantshafs, austast Litlu-Antillaeyja. Næstu nágrannaríki eru Sankti Vinsent og Grenadíneyjar og Sankti Lúsía í vesturátt. Barbados er 434,5 km norðaustur af strönd Venesúela. Eyjan er 430 km² að flatarmáli og er aðallega mynduð úr kóral og kalksteini. Hún er láglend en nokkuð hæðótt inni við miðju. Staðvindar eru ríkjandi. Barbados er eitt af þeim löndum þar sem lífskjör eru hvað best. Eyjan er vinsæll ferðamannastaður. Dahómey. Dahómey var afrískt konungsríki Fon-fólksins, staðsett þar sem nú er Benín. Konungsríkið var stofnað á 16. öld og lifði fram undir lok 19. aldar þegar Frakkar frá Senegal lögðu það undir sig og gerðu það að hluta Frönsku Vestur-Afríku. Konungsríkið dafnaði á þrælaversluninni við Evrópumenn og varð eitt af svokölluðum byssuríkjum Vestur-Afríku. Ríkið var mjög miðstýrt. Konungurinn var dýrkaður sem guð og hann átti formlega allt land sem hann skattlagði. Frakkar lögðu Dahómey undir sig 1892-1894. Flestir þeirra hermanna sem börðust gegn her konungsins voru þó Afríkubúar, svo sem Jórúbar, sem voru alls ekki mótfallnir því að Frakkar tækju yfir. Þegar Frakkar höfðu unnið sigur í orrustu við síðasta konunginn, Behanzin, í nóvember árið 1892 kveikti hann í höfuðborginni Abómey og flýði norður á bóginn. Kúrdar. Kúrdar eru þjóðarbrot af indó-evrópskum uppruna sem búa í fjallahéruðum Tyrklands, Íraks og Írans og í minna mæli í Sýrlandi og Armeníu. Tungumál þeirra, kúrdíska, er indó-evrópskt tungumál. Þeir eru álitnir afkomendur Meda sem Heródótos talar um. Gríski sagnaritarinn Xenófon talar um þá í verki sínu "Austurför Kýrosar" sem „Kardúka“, fjallabúa sem réðust á her hans um 400 f.Kr. Kúrdar eru um 30-35 milljónir og eru þar með stærsta ríkislausa þjóðarbrot heims. Sumir þeirra berjast fyrir auknu sjálfræði og stofnun ríkis kúrda. Kúrdar eru flestir súnnítar en fyrir útbreiðslu íslam aðhylltust þeir sóróisma. Margir þeirra tóku afstöðu með Íran í stríðinu milli Írans og Íraks sem leiddi meðal annars til ofsókna gegn þeim í Írak. Blóðbaðið í Bologna. Blóðbaðið í Bologna var ein mannskæðasta hryðjuverkaárás sem gerð hefur verið á Ítalíu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og með þeim síðustu í hrinu hryðjuverka sem gekk yfir landið frá 1969 og tengdist vopnaðri baráttu öfgahópa á vinstri og hægri væng stjórnmálanna kenndri við "blýárin" („anni di piombo“). Morguninn 2. ágúst 1980 klukkan 10:25 sprakk tímasprengja, sem geymd var í yfirgefinni tösku í biðsalnum á lestarstöðinni í Bologna. Þetta var á háannatíma og stöðin full af ferðamönnum og fólki á leið í sumarfrí. 85 létust og yfir tvö hundruð særðust. Sprengjan var úr blöndu TNT og Hexagen-sprengiefnis. Upphaflega var árásin tengd við Rauðu herdeildirnar, vopnuð samtök vinstrimanna, en rannsókn lögreglunnar leiddi síðan til handtöku tveggja ungra nýfasista, Valerios Fioravantis og Francescu Mambro, sem voru dæmd í lífstíðarfangelsi þótt þau hafi alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Hægt er að sjá merki um sprenginguna á sprungu í vegg lestarstöðvarinnar. Klukka á torginu fyrir framan stöðina sýnir stöðugt tímann 10:25 til minningar um sprenginguna. Róska. Ragnhildur Óskarsdóttir (31. október 1940 – 13. mars 1996) best þekkt undir listamannsnafninu Róska var íslensk listakona, kvikmyndagerðarkona, kommúnisti og femínisti. Hún lærði myndlist og kvikmyndagerð í Prag og Róm á Ítalíu þar sem hún bjó lengst af. Eitt af einkennismerkjum hennar eru hárauðar varir sem koma fyrir í mörgum myndum hennar. Hún gerði eða átti þátt í gerð myndanna "L'impossibilità di recitare Elettra oggi" (1970), "Sóley" (1982) og "Ólafur Liljurós" meðal annarra, auk sjö heimildamynda um Ísland fyrir ítalska ríkissjónvarpið (RAI) á áttunda áratugnum. Hún var þekkt fyrir róttækar stjórnmálaskoðanir sínar, sem komu einnig skýrt fram í verkum hennar, var meðlimur í Æskulýðsfylkingunni og tók þátt í að ráðast inn í sjónvarpssal Keflavíkursjónvarpsins á Keflavíkurstöðinni árið 1969 og úða þar málningu á linsur tökuvélanna. Í Róm var hún virkur þátttakandi í hópum vinstrimanna og anarkista og tók meðal annars þátt í fjögurra mánaða setuverkfalli ásamt manni sínum Manrico Pavolettoni í smábænum Fabbrico nálægt Reggio Emilia á Norður-Ítalíu árið 1968. Mani pulite. Mani pulite (ítalska: "hreinar hendur") er heiti á röð réttarhalda sem komu í kjölfarið á rannsókn dómsvaldsins á Ítalíu á spillingu í ítölskum stjórnmálum á árunum 1992 og 1993. Það kerfi mútugreiðslna og spillingar hjá stjórnmálamönnum og aðilum í atvinnulífinu sem rannsóknin leiddi í ljós var kallað Tangentopoli ("Mútuborgin") af fjölmiðlum. Réttarhöldin leiddu til endaloka stjórnarflokkanna tveggja, kristilegra demókrata (sem hafði setið í öllum ríkisstjórnum Ítalíu frá stríðslokum) og Ítalska sósíalistaflokksins. Nær heil kynslóð ítalskra stjórmálamanna hvarf af vettvangi í kjölfarið, sem meðal annars ruddi brautina fyrir fyrsta kosningasigur Silvios Berlusconis árið 1994. Ríkir munkar í fátæku klaustri. Tangentopoli gekk út á það að stjórnmálaflokkar skiptu með sér embættum og stöðum hjá hinu opinbera eftir ákveðnu kerfi sem átti að tryggja þeim stöðuveitingar sem væru nokkurn veginn í samræmi við fylgi. Þetta olli því að oft völdust óhæfir einstaklingar til að gegna stöðum hjá ítalska ríkinu og í ríkisfyrirtækjum. Þessir einstaklingar lentu auk þess í aðstöðu sem gerði þeim kleift að hagnast persónulega á „greiðum“ við einstaklinga og fyrirtæki. Einn meðlimur Ítalska sósíalistaflokksins orðaði það svo að „munkarnir eru ríkir, en klaustrið fátækt“ (sem er umsnúningur á því sem sagt var um reglu heilags Frans á miðöldum). Evran var tekin upp sem gjaldmiðill í bankakerfinu á Ítalíu árið 1999. Stjórnmálaástandið á Ítalíu frá stríðslokum einkenndist af því sem fréttaskýrendur kölluðu „stöðugan óstöðugleika“. Ríkisstjórnir sátu að meðaltali einungis ellefu mánuði, en sami stjórnmálaflokkurinn, Kristilegi demókrataflokkurinn, var samt alltaf stærsti flokkurinn og stýrði öllum ríkisstjórnum, þar sem það þótti óhugsandi að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Ítalski kommúnistaflokkurinn, kæmist til valda í NATO-landi. Stjórnin var að nafninu til vinstri-miðjustjórn, en eina raunverulega stjórnarandstaðan var vinstra megin við hana. Á hægri vængnum voru litlir öfgaflokkar eins og Þjóðfélagshreyfing Ítalíu ("Movimento sociale italiano" - "MSI") sem kenndu sig við nýfasisma. Ýmsar blikur voru þó á lofti í upphafi tíunda áratugarins sem gáfu von um breytingar. Ríkisstjórnin hafði hafið það verk að einkavæða ríkisfyrirtæki og koma fastari böndum á efnahagslífið í tengslum við Efnahags- og myntbandalag Evrópu sem taka átti gildi með Maastricht-sáttmálanum 1. nóvember 1993. Árið 1993 var kosningakerfinu á Ítalíu auk þess breytt úr hlutfallskosningu í meirihlutakosningu til að reyna að auðvelda myndun stöðugra ríkisstjórna. Upphaf málsins. "Mani pulite" hófust með því að rannsóknardómarinn Antonio Di Pietro lét handtaka Mario Chiesa fyrir mútuþægni þann 17. febrúar 1992. Chiesa var þá forstjóri elliheimilis í Mílanó og meðlimur í ítalska sósíalistaflokknum. Aðrir meðlimir flokksins, eins og Bettino Craxi formaður og fyrrverandi forsætisráðherra, höfnuðu því við þetta tækifæri að spilling væri útbreidd í ítölskum stjórnmálum og héldu því fram að mál Chiesa væri einangrað tilvik. Eftir nokkra mánuði í fangelsi og eftir að lögreglan hafði gert upptækar allar eignir Chiesa (sem voru umtalsverðar), hóf hann að gefa út yfirlýsingar sem tengdu marga þekkta stjórnmálamenn við spillingu og mútugreiðslur sem Chiesa hafði sjálfur átt þátt í, meðal annars með fjármunum frá ítölsku mafíunni. Þetta gerði dómurunum kleift að víkka rannsóknina út. Útvíkkun rannsóknarinnar. 5. apríl 1992 voru haldnar þingkosningar á Ítalíu. Kristilegir demókratar og sósíalistaflokkurinn misstu töluvert fylgi en stjórnin hélt naumlega velli. Atkvæði kjósenda dreifðust mikið, t.d. á hið nýstofnaða Norðurbandalag, og erfitt reyndist að mynda starfhæfa stjórn. 22. apríl voru átta stjórnendur stórfyrirtækja handteknir í tengslum við rannsóknina, grunaðir um að hafa beitt mútum til að fá verkefni frá ríkisfyrirtækjum eins og orkufyrirtækinu ENI. Í byrjun maí sama ár var svo farið að óska leyfis ítalska þingsins til að handtaka þingmenn grunaða um spillingu. Einkum sneri þetta að þingmönnum stjórnarflokkanna, en stjórnarandstöðuþingmenn voru líka teknir. Leiðtogar flokkanna reyndu hvað þeir gátu til að hafna allri ábyrgð og skella skuldinni á þá handteknu. Þetta varð síðan til þess að þeir grunuðu voru meira en viljugir til að koma fram með yfirlýsingar gegn eigin flokksleiðtogum og segja þá meðseka. Ástandið á Ítalíu allri var vægast sagt undarlegt. Yfir fimm þúsund af öllum stigum þjóðfélagsins voru tekin til rannsóknar og hver handtakan rak aðra. Smátt og smátt vatt lögreglan ofanaf víðtæku kerfi spillingar og neti mútugreiðslna meðal stórfyrirtækja, ríkisforstjóra, ráðherra og þingmanna. Dómaramorðin í Palermó. 23. maí 1992 var Giovanni Falcone, rannsóknardómari sem fékkst við baráttuna gegn mafíunni, myrtur í Palermó ásamt konu sinni, með bílasprengju. Strax fóru af stað samsæriskenningar um að morðið hefði verið fyrirskipað af spilltum stjórnmálamönnum, en síðari rannsóknir leiddu í ljós að ekkert var til í því. Skömmu síðar, 19. júlí, var samstarfsmaður Falcones, Paolo Borsellino, drepinn með sama hætti. Þessi mafíumorð virkuðu eins og olía á eld hvað almenningsálitið á Ítalíu varðaði. Áhrif á stjórnmálin. Í sveitarstjórnarkosningunum 14. desember 1992 biðu demókratar og sósíalistar afhroð og fengu helmingi færri atkvæði en í fyrri kosningum. Daginn eftir fékk Craxi afhenta sína fyrstu dómskvaðningu og tveimur dögum síðar samþykkti þingið fjárlög og einkavæðingaráform stjórnarinnar. Í lok janúar, árið eftir, óskaði Craxi eftir að hafin yrði þingrannsókn á fjárreiðum allra stjórnmálaflokka, en innan við mánuði síðar neyddist hann til að segja af sér formennsku í flokknum vegna málsins. 5. mars 1993 reyndi ríkisstjórnin, undir forystu demókratans Giuliano Amato, að koma í gegn nýjum lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka sem hefðu haft í för með sér nokkurs konar sakaruppgjöf fyrir meirihluta þeirra sem nú lágu undir ásökunum um spillingu. Þáverandi forseti Ítalíu, Oscar Luigi Scalfaro, neitaði að skrifa undir lögin vegna þess að hann taldi þau stríða gegn stjórnarskránni. Aðeins viku síðar komst upp um ólöglega sjóði upp á milljónir bandaríkjadala í eigu ENI. Fleiri handtökur fylgdu í kjölfarið. Í apríl hafnaði þingið fjórum sinnum umsókn um niðurfellingu þinghelgi Bettinos Craxis. Þrír ráðherrar sósíaldemókrata sögðu í kjölfarið af sér ráðherraembætti í mótmælaskyni. Í annarri umferð sveitarstjórnarkosninganna 6. júní hrundi fylgið af stjórnarflokkunum, sósíalistar hurfu nær algerlega og Norðurbandalagið breyttist úr litlum andspyrnuflokki í sterkt stjórnmálaafl á mörgum stöðum á Norður-Ítalíu. Cusani-réttarhöldin. 20. júlí þetta sama ár framdi fyrrum forstjóri ENI, Gabriele Cagliari, sjálfsmorð í fangelsi. Stuttu síðar skilaði eiginkona hans 6 milljörðum líra af ólöglegu fé. Í millitíðinni hófust réttarhöld yfir Sergio Cusani sem var millistjórnandi hjá, Montedison, fjárfestingafyrirtæki á sviði orkumála, fyrir röð af mútugreiðslum til ENI. Leyfi fékkst til að sjónvarpa beint frá réttarhöldunum, og þeir stjórnmálamenn sem ásakaðir höfðu verið um spillingu, kallaðir inn sem vitni. Sérlega eftirminnileg var yfirheyrslan 17. desember þegar fyrrum forsætisráðherra, Arnaldo Forlani, sem verið hafði fjármálastjóri demókrataflokksins, birtist greinilega taugaveiklaður á sjónvarpsskjánum og kvaðst ekki muna eftir því hvort hann hefði tekið við ólöglegum fjármunum. Bettino Craxi var hins vegar rólegur og viðurkenndi að flokkur hans hefði tekið við 93 milljónum dala af ólöglegu fé. „Það gerðu það allir“, var réttlæting hans, og reyndar kom í ljós að svo til allir þeir flokkar sem þá voru á þingi höfðu tekið við slíku fé vísvitandi. Sumir þeirra komu þó mun verr út úr réttarhöldunum en aðrir. Einkum voru það stjórnarflokkarnir sem komu illa út. Kristilegir demókratar höfðu verið við völd á Ítalíu óslitið frá stríðslokum og voru almennt taldir bera mesta ábyrgð á því hvernig komið var á meðan ungir flokkar, eins og Norðurbandalagið, vörðu sig með því að þetta hefðu verið einu framlögin sem þeim hefðu staðið til boða. Cusani var dæmdur til átta ára fangelsisvistar. Nokkru áður samþykkti þingið lög sem drógu mjög úr möguleikum dómsvaldsins til að óska eftir niðurfellingu þinghelgi. Nýjar vígstöðvar. Rannsóknin tók síðan enn nýja stefnu í apríl 1994 þegar 80 meðlimir efnahagsbrotalögreglunnar og 300 aðilar úr atvinnulífinu voru handteknir fyrir mútugreiðslur og mútuþægni. Nokkrum dögum síðar viðurkenndi ritari bílaframleiðandans Fiat, Cesare Romiti, spillingu innan fyrirtækisins með bréfi til dagblaðsins Corriere della sera. Í kosningunum í mars 1994 fór Silvio Berlusconi, þekktur athafnamaður frá Mílanó, „fram á völlinn“ (eins og hann orðaði það sjálfur), að sumir telja til þess að firra sig og fyrirtæki sín frekari rannsókn af hálfu saksóknara. Grunsemdir höfðu fallið á hann meðal annars þegar bróðir hans viðurkenndi að hafa greitt nokkrum sveitarstjórnarmönnum mútur. Kosningabandalagið sem Berlusconi fór fyrir (Polo della libertà) vann kosningarnar og 13. júlí kom stjórn hans í gegn reglugerð sem kom í veg fyrir fangelsisdóma fyrir öll nema alvarlegustu spillingarbrot. Sjónvarpið sýndi myndir af ríkisforstjórum sem höfðu orðið uppvísir að spillingu, labba út úr fangelsi. Þetta olli almennri reiði. Við það bættist að dómararnir sem höfðu staðið fyrir rannsókninni óskuðu eftir lausn frá störfum á þeirri forsendu að þeir yrðu að virða lög ríkisins, en gætu ekki dæmt eftir lögum sem stríddu gegn samvisku þeirra með þessum hætti. Almenningsálitið olli því að reglugerðin var snarlega dregin til baka. Craxi flýr land. Eftir því sem rannsókninni miðaði jukust líkurnar stöðugt á því að Bettino Craxi yrði handtekinn. Bettino Craxi var í huga almennings nokkurs konar táknmynd spillingarinnar í ítölskum stjórnmálum. Um alla Róm mátti lesa veggjakrot á við „"Dentro Bettino, fuori il bottino"“ („Inn með Bettino, út með þýfið“). Álit almennings á Craxi lýsti sér vel í mótmælum þegar hann kom eitt sinn út af hótelinu þar sem hann bjó í Róm og mannfjöldinn fyrir utan henti í hann smápeningum og söng „"Bettino, prendi anche queste"“ („Bettino, taktu þessa líka“) við lagið Guantanamera. Í maí flýði hann land og flutti í glæsihýsi sitt í Hammamet í Túnis. Stríðið milli Berlusconis og Di Pietro. Nú hófst hálfgert stríð milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Öðrum megin voru dómararnir að rannsaka fjárreiður Fininvest, fyrirtækjasamsteypu forsætisráðherrans, og á móti sendi ríkisstjórnin skoðunarmenn sína inn á skrifstofur dómaranna til að leita að merkjum um óreiðu og spillingu. Brátt komu fram ásakanir á hendur Di Pietro sem urðu til þess að hann sagði af sér embætti dómara. Árið eftir leiddi opinber rannsókn til þess að hann var hreinsaður af áburðinum. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, fyrst sem óflokksbundinn í stjórn Romanos Prodis (1996-1998) og síðan með sína eigin stjórnmálahreyfingu: Italia dei Valori. 22. desember 1994 sagði ríkisstjórn Berlusconis af sér, þar sem hún stóð frammi fyrir vantrauststillögu. Í kjölfarið fylgdu dómskvaðningar og kærur á hendur Berlusconi og samstarfsmönnum hans vegna tengsla við mál ENI og Montedison, en Berlusconi stóð hríðina af sér, meðal annars vegna fyrninga. Eftir árið 1994 jókst stöðugt hættan á því að glæpirnir sem voru til rannsóknar fyrndust og dómsvaldið óskaði eftir auknum fjárveitingum til rannsóknarinnar. Ekki var orðið við þessum óskum, hvorki af kosningabandalagi Berlusconis, né kosningabandalagi vinstri- og miðflokka (Ólífubandalagið) sem tók við. Að lokum runnu frekari rannsóknir út í sandinn og meintir glæpir fyrndust. Gagnrýni. "Mani pulite" hófst vegna þess sem að mörgu leyti eru sérstakar aðstæður á Ítalíu þar sem dómsvaldið getur hafið rannsókn fyrir eigið frumkvæði. Ríkissaksóknaraembættið er hluti dómsvaldsins undir eftirliti framkvæmdavaldsins og saksóknarar njóta sömu réttinda og dómarar. Aðgreining valds er mjög djúpstæð í kerfinu og það eina sem tengir á milli þriggja greina ríkisvaldsins (að minnsta kosti samkvæmt kenningunni) eru stjórnarskráin og forseti lýðveldisins, sem er „fulltrúi einingar þjóðarinnar“ og „vörður stjórnarskrárinnar“. Dómarar eru kjörnir af öðrum dómurum og nefndum á vegum dómsvaldsins á grundvelli formlegra hæfniskrafna. Þetta hefur gefið tilefni til ásakana um að dómsvaldið reki (vinstrisinnaða) stjórnmálastefnu í andstöðu við framkvæmdavaldið (kenningin um „rauðu hempurnar“). Þessar ásakanir hafa verið uppistaðan í gagnrýni á réttarhöldin og rannsóknina. Craxi varði sig með þessu allt þar til hann lést í útlegð árið 2000 og Berlusconi hefur haldið þessu sjónarmiði á loft í hvert sinn sem hann hefur staðið frammi fyrir grun um spillingu. Alsatíska. Alsatíska (franska: Alsacien, þýska: Elsässisch) er alemannísk mállýska sem töluð er í Elsass-héraði í austur Frakklandi, þar á meðal í Strassborg. Fornenska. Fornenska (Englisc) var germanskt tungumál sem varð til úr máli Saxa og Engla, sem komu til Englands nokkru eftir að Rómverjar hurfu þaðan. Saxar og Englar komu frá Neðra-Saxlandi og Slésvík. Germanskur uppruni. Mestu áhrif að mótun fornensku í orðaforða og myndun setninga komu frá arfleifð germanskra mála. Eins og mörg germönsk mál var sterk fallbeyging í fornensku. Hún beygðist í fjórum föllum; nefnifalli, þolfalli, þágufalli, eignarfalli. Auk þess var tækisfall stundum notað í fornensku. Fornenskar bókmenntir. Merkar bókmenntir eru til á fornensku, t.d. Bjólfskviða. Meðal helstu rithöfunda má nefna Alfreð mikla, öðru nafni Elfráð ríka og Ælfric eða Elfrík munk. Fornenska og íslenska. Fornensku svipar til nútíma íslensku að mörgu leyti en nútíma enska varð fyrir miklum áhrifum frá frönsku eftir að Normannar náðu völdum á Englandi 1066. Frísneska. Útbreiðsla frísnesku hér sýnd á korti. Frísneska er germanskt tungumál sem talað er í Hollandi, Þýskalandi og á örlitlu svæði rétt við landamæri Þýskalands vestast á Jótlandsskaga í Danmörku. Antígva og Barbúda. Antígva og Barbúda eru tveggja eyja eyríki á mörkum Karíbahafs og Atlantshafsins. Þær eru hluti af Litlu-Antillaeyjum. Nærliggjandi eyjar eru Guadeloupe í suðri, Montserrat í suðvestri, Sankti Kristófer og Nevis í vestri og Saint-Barthélemy í norðvestri. Trínidad og Tóbagó. Trínidad og Tóbagó eru eyríki í Karíbahafi, rétt undan norðurströnd Venesúela. Ríkið heitir eftir tveimur stærstu eyjunum, Trínidad og Tóbagó, en eyjaklasanum tilheyra um 21 minni eyjar. Eyjarnar eru sunnan við Grenada sem er hluti af Kulborðseyjum í Litlu-Antillaeyjaklasanum og eru stundum taldar með þeim. Landhelgi eyjanna mætir meðal annars landhelgi Gvæjana, Venesúela og Barbados. Trínidad er stærsta og fjölmennasta eyjan í eyjaklasanum. Eyjarnar voru numdar af indíánum frá Suður-Ameríku fyrir að minnsta kosti sjö þúsund árum. Þær urðu spænsk nýlenda eftir heimsókn Kólumbusar 1498 og landnám Spánverja eftir 1530. Á 18. öld byggðust eyjarnar fólki alls staðar að frá Evrópu, Afríku og öðrum Karíbahafseyjum. Bretar hertóku eyjarnar í Napóleonsstríðunum 1797 og juku innflutning þræla. Þrælahald var afnumið 1838. Eftir efnahagsuppgang vegna olíuvinnslu á 6. áratugnum urðu eyjarnar hluti af Vestur-Indíasambandinu 1958 og fengu sjálfstæði 1962. Landið varð lýðveldi innan Breska samveldisins 1976. Ljósanótt. Ljósanótt er hátíð, sem árlega er haldin í Reykjanesbæ fyrstu helgi septembermánaðar. Hátíðin er kennd við ljós þau sem notuð eru til að lýsa upp Keflavíkurberg, sem er sá hluti Hólmsbergs, sem snýr að víkinni, Keflavík. Hátíðin var fyrst haldin haustið 2000. Haldnar eru sýningar af ýmsu tagi, tónleikar, sýningar og margs konar samkomur. Verslanir hafa ýmiss konar tilboð og margt er sér til gamans gert. Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöldinu, en þá er samkoma á Myllubakka, þar sem þekktar hljómsveitir skemmta á meðan dimmir. Þegar myrkur er skollið á eru ljósin á Berginu kveikt og síðan er flugeldasýning. Bergið blasir við frá Myllubakka og sjá áhorfendur því vel þegar ljósin eru kveikt. Frumkvöðull Ljósanætur var Steinþór Jónsson, bæjarstjórnarmaður og hótelstjóri á Hótel Keflavík. Haldin er samkeppni um lag Ljósanætur og er lagið flutt á hátíðinni hverju sinni. Kristófer Kólumbus. Kristófer Kólumbus (1451 – 20. maí 1506) (katalónska: "Cristòfor Colom", ítalska: "Cristoforo Colombo", spænska: "Cristóbal Colón", portúgalska: "Cristóvão Colombo") var evrópskur landkönnuður og kaupmaður. Ferð hans til Nýja heimsins 1492 (sem hann áleit austurströnd Asíu og nefndi því Vestur-Indíur) var fyrsta skjalfesta ferð Evrópubúa til Ameríku, eftir að norrænir menn höfðu gefið landnám þar upp á bátinn. Hún markaði upphafið að umfangsmiklu landnámi Evrópubúa vestanhafs. Fyrsta Ameríkuferð Kólumbusar. Kristófer Kólumbus taldi að hægt væri að komast að Asíu með því að halda vestur yfir Atlantshafið en flestir voru á því að sjóleiðin þangað lægi í austurátt. Ástæðan fyrir því að leitað væri að sjóleið til Asíu var sú að Evrópumenn, sem versluðu mikið við lönd eins og Indland og Kína, þurftu að finna aðra leið en í gegnum Miðausturlönd þar sem deilur og rígur voru milli Evrópumanna og múslíma. Kólumbus sóttist eftir stuðningi Jóhannesar II konungs Portúgals árið 1484 til að láta á þessa kenningu sína reyna en Jóhannes hafði ekki áhuga. Kólumbus hélt þaðan til konungs og drottningar Spánar, þeirra Ferdínands og Isabellu árið 1486 og samþykktu árið 1492 að styrkja ferð hans þrátt fyrir að hafa synjað í fyrstu. Kólumbus útvegaði sér þrjú skip, Niña, Pinta og Santa María. Fyrsta ferð Kólumbusar af fjórum til Ameríku hófst 3. ágúst árið 1492. Kólumbus óttaðist á tímapunkti að uppreisn yrði meðal áhafnarinnar þar sem mikil óánægja og áhyggjur voru meðal hennar eftir að í ljós kom að Kólumbus hafði misreiknað lengd ferðarinnar og að auki villtust skipin um tíma. Þann 12. október komst Kólumbus og föruneyti þó loks að landi er þeir komu að Bahamaeyjum í Karíbahafi og nefndi Kólumbus hana San Salvador. Á San Salvador hitti áhöfnin frumbyggja sem samkvæmt Kólumbusi voru friðelskandi og vinalegir. Kólumbus skrifaði í dagbók sína 12. október 1492 að margir frumbyggjana væru með ör á líkömum sínum og þegar hann tjáði sig með merkjum til að komast að því hvað gerst hefði, sögðu frumbyggjarnir að fólk frá nálægum eyjum hefðu komið til San Salvador til að reyna að taka þá til fanga en þeir vörðu sig sem best þeir gátu. Kólumbus taldi að fólk frá meginlandinu kæmi til að setja þá í þrælkun enda taldi þá geta orðið mjög góða þjóna þar sem þeir hlýddu öllu sem áhöfnin sagði mjög snögglega. Kólumbus taldi að það gæti reynst mjög auðvelt að gera frumbyggjana kristna þar sem ekki virtist vera að þeir hefðu neina trú fyrir. Kólumbus taldi að ríkið Cipangu, eða Japan, væri í nágrenni San Salvador en þar átti einmitt allt að vera morandi í gulli og silfri. Því dvaldi Kólumbus ekki lengi á San Salvador. Hann silgdi milli nokkurra smáeyja í þeirri von að finna Cipangu alveg þangað til hann kom að Kúbu sem hann taldi þá vera Cipangu. Fljótlega var hann samt kominn á þá skoðun að þetta land sem hann var á væri í Cathay, eða Kína, en það var einnig rangt. Kólumbus fann aldrei Cipangu. Þann 16. janúar 1943 sneri Kólumbus tilbaka, ásamt hluta af upphaflegu áhöfninni. Heimförin gekk erfiðlega fyrir sig en meðal annars missti Kólumbus Sankti Maríu og skip hans Niña varð viðskila við Pintu á leiðinni. Niña náði þó til bæjarins Santa Maria á Asoreyjum þann 18. febrúar og svo til Evrópu 4. mars. Kólumbus hlaut frægð fyrir ferð sína og uppgötvun og var því gerður að landstjóra yfir eyjunum sem fundust. Tengill. Kólumbus, Kristófer James Cook. James Cook (27. október 1728 – 14. febrúar 1779) var breskur landkönnuður og kortagerðarmaður sem fór þrjár langar ferðir Kyrrahafsins á árunum 1768 til 1779 þegar íbúar Hawaii drápu hann í átökum vegna stolinna léttabáta. Cook varð fyrstur Evrópubúa til að kanna margar Kyrrahafseyja, eins og Páskaeyju. Ferðir hans juku mjög á þekkingu Evrópubúa á Kyrrahafinu og urðu hvatinn að stofnun breskrar fanganýlendu á Ástralíu á síðari hluta 18. aldar. Æska. Hinn skoskættaði James Cook fæddist þann 27. október árið 1728 í þorpinu Marton nálægt Middlesborough á Englandi, annar átta systkina. Faðir hans og alnafni var landbúnaðarverkamaður á sveitabæ þar í grenndinni. Er Cook var átta ára gamall kostaði yfirmaður James eldri drenginn í fimm ára nám í hverfisskólanum. Árið 1745, eftir nokkur ár sem aðstoðarmaður föður síns, fór hann í læri hjá matar- og vefnaðarvörukaupmanni í nálægum fiskibæ þar sem hann vann sem búðardrengur, en þar er talið að hafið hafi fyrst heillað hann. Eftir átján mánuði var honum orðið algerlega ljóst að búðarstarfið hentaði sér ekki, svo hann strauk til sjós og gerðist lærlingur hjá útgerðarmanninum John Walker í Whitby í þrjú ár. Þar fór hann í fyrstu sjóferðina, átján ára gamall, og hóf að leggja stund á siglingafræði, stærðfræði, stjörnufræði o.þ.h. námsgreinar sem áttu eftir að hjálpa honum að vinna sín mörgu og merku afrek síðar meir. Er lærlingstímanum var lokið vann Cook á kolaverslunarskipum í Eystrasalti um nokkurt skeið, eða framt til ársins 1755 er hann gekk til liðs við konunglega sjóherinn. Þar þótti hann afar efnilegur og var brátt gerður að aðstoðarstýrimanni. Sérlega þótti hann góður í kortlagningu og var m.a. fenginn til að kortleggja sundið frá Quebec til sjávar í Sjö ára stríðinu (1756-1763). Í því stríði þjónaði Cook á herskipunum Eagle og Pembroke og þegar friður komst loks á eyddi hann fjórum árum í að kortleggja strandlínu Nýfundnalands og Labrador. Snemma kom í ljós að James hinn ungi hafði mikla leiðtogahæfileika að bera, auk þess sem hann var ákveðinn og metnaðarfullur, jafnvel dálítið skapstór. Þetta sést m.a. af orðum hans um að hann ætlaði „...ekki einungis að fara lengra en nokkur maður hefur áður farið, heldur eins langt og ég held að mögulegt sé fyrir manninn að fara.“ Fyrsti Kyrrahafsleiðangurinn. Árið 1768 fór Cook í fyrsta Kyrrahafsleiðangur sinn af þremur, en fyrir þessar ferðir er hann einna frægastur, enda afar afdrifaríkar. Leiðangurinn var farinn á vegum breska flotamálaráðuneytisins og Konunglega breska vísindafélagsins og opinber tilgangur hennar var að sigla til Tahiti og mæla hve langan tíma það tæki Venus að skyggja algerlega á sólu í væntanlegum sólmyrkva þar. Upphaflega átti land- og stjörnufræðingurinn Alexander Dalrymple að stjórna leiðangrinum, en flotamálastjórninni þótti reynsla hans í siglingum ekki næg og því varð Cook fyrir valinu. Hann lagði af stað í ágúst á skipinu Endeavour (gamalt kolaskip frá Whitby) og fór suður um Hornhöfða og þaðan út á Kyrrahafið. Ferðalangarnir fengu heldur dræmar viðtökur frá eyjarskeggjum Tahítí í fyrstu, en stuttu síðar hafði viðhorf þeirra umturnast og þeir tóku Cook og mönnum hans fagnandi. Þeir luku öllum mælingum í júní 1769 og yfirgáfu þá eyna með túlkinn Túpía, félaga drottningarinnar Púríu, með sér. Ferðinni var þó ekki nærri því lokið. Nú hófst annar hluti hennar, sem Cook fékk ekki að vita um fyrr en á Tahiti er hann opnaði leynilegt innsigli frá flotamálaráðuneytinu. Þar var hann beðinn um að athuga hvað hæft væri í sögusögnunum um hið mikla óþekkta landsvæði „Terra Australis“ sem er latína og þýðir bókstaflega „Land suðursins.“ Cook hafði ekki krónómeterúr í ferðinni, en treysti aðallega á dómgreind sína og siglingakunnáttu, auk nokkurra handbóka. Hann sló eign sína á nágrannaeyjar Tahítí, sem hann nefndi Félagseyjar, og hóf svo leitina umsvifalaust. Hann sigldi fyrstur Evrópubúa til Nýja-Sjálands. Hálft ár fór í að kortleggja strandlínu eyjarinnar til að fullvissa sig um að hún tilheyrði ekki Ástralíu, eða Nýja-Hollandi eins og landið var kallað allt fram á átjándu öld, og er sundið milli Nýja-Sjálands og Ástralíu nefnt Cooks sund eftir honum. Ekki gat hinn rúmlega fertugi sæfari þó farið mikið inn fyrir landsteinana vegna óvinveittra frumbyggja sem þar bjuggu. Þegar Nýja-Sjáland hafði verið kortlagt í hörgul, var röðin komin að austurhluta Ástralíu, en hana kortlagði Cook einnig fyrstur Evrópubúa. Frumbyggjarnir vörnuðu honum einnig landgöngu þar, en í staðinn eignaði hann Bretlandi stóran hluta strandarinnar og skýrði hana Nýja-Suður-Wales. Einnig sigldi hann inn hinn fræga Botanyflóa. Því næst var förinni heitið til Nýju Guineu sem einnig var kortlögð til að ganga í skugga um að hún tiheyrði ekki meginlandi Ástralíu. Til þess þurfti að sigla gegnum hið torfæra Torressund. Á leið frá eyjunni lenti skipið í miklum hremmingum í Kóralrifinu mikla, en atvikið seinkaði leiðangrinum um tæpar sjö vikur. Eftir allar þessar könnunarferðir og mælingar taldi James víst að hið umtalaða Terra Australis væri einfaldlega Nýja-Holland og lagði því af stað aftur til Englands. Heimleiðin lá gegnum Batavíu (nú Jakarta) þar sem stór hluti áhafnarinnar lést úr malaríu, suður fyrir Góðravonahöfða og þaðan upp til Bretlands þar sem áhöfnin steig á land í Plymoth þann tólfta júlí 1771. Þetta fullkomnaði hnattsiglingu Cooks, fyrstu hnattsiglingu Breta á aðeins einu skipi. Eftir heimkomuna var James fagnað eins og hetju og hann gerður að sjóliðsforingja. Bandaríski grasafræðingurinn Joseph Banks, er hafði verið með honum í för, hlaut jafnvel enn meiri athygli, en hann varð síðar forseti Vísindafélagsins. Annar Kyrrahafsleiðangurinn. Cook dvaldi ekki lengi í heimalandinu, heldur lagði hann af stað í næsta -leiðangur strax árið 1772. Þrátt fyrir að hann hefði siglt árangurslaust um nær allt Suður-Kyrrahaf, neitaði Konunglega breska vísindafélagið (og þá aðallega Dalrymple) enn að afskrifa tilvist hins dularfulla Terra Australis og setti Cook að fara enn sunnar og austar og halda leitinni áfram. James sigldi af stað frá Plymoth þann 13. júlí, fimm dögum eftir fæðingu sonar síns, Georges, með 193 manna áhöfn á skipunum Adventure, sem Tobias Furneux stýrði, og Resolution, þar sem Cook var sjálfur skipstjóri. Skipin fóru suður fyrir Góðravonahöfða, inn í heimskautabeltið og svo út úr því aftur áður en komið var að landi á Nýja-Sjálandi í mars 1773. Skipsklukkur voru nú í fyrsta sinn verið um borð, en þær gáfu nákvæman tíma og gerðu sjómönnunum kleift að átta sig á lengdarbaugunum. Cook sigldi yfir Kyrrahafið þvert og endilangt í leit að Suðurlandinu mikla og fór sunnar en nokkur Evrópumaður á undan honum. Hann var þá kominn ansi nálægt Suðurskautslandinu, sem var ekki uppgötvað fyrr en á 19. öld, en neyddist til að snúa við vegna hafíss og vistaskorts. Þrátt fyrir að hafa ekki náð til Antartíku kom enski skipstjórinn þó víða annars staðar við, s.s. á Páskaeyjum, Cooks-eyjum, Tonga, Marquesaeyjum og Nýja-Sjálandi auk þess sem hann heimsótti Tahiti tvisvar og tók þaðan með sér tvo túlka, Omai og Oddity (Túpía hafði dáið úr Malaríu). Evrópa var meðvituð um tilvist flestra þessara eyja, en með útreikningum sínum, kortum og frásögnum gaf Cook henni í fyrsta sinn nánari útlistun á þeim auk almenns yfirlits yfir Kyrrahafið. Í síðustu leitarferðinni um Kyrrahafið kom Cook að Suður-Georgíu. Hann skýrði eyna Samlokuland eftir vini sínum John Sandwich lávarði, yfirmanni flotamálaráðuneytisins og upphafsmanni samlokunnar. Að lokum hélt hann til Suður-Atlanthafs og sannaði þar með endanlega að sögusagnirnar um Terra Australis væru eintóm bábilja. Leiðangrinum lauk í júlí 1775, en vegalengdin jafngilti nær þremur hringjum umhverfis miðbaug. Aðeins fjórir menn fórust í allri ferðinni, sem má að stórum hluta þakka þeirri ákvörðun James Cook að hafa c-vítamínríkt fæði um borð í skipunum til að forðast skyrbjúg. Er hann kom heim var Cook var hann orðinn þekktur maður, jafnt í siglingageiranum sem hjá almenningi. Hann fékk inngöngu í Konunglega vísindafélagið og hlaut þar verðlaun fyrir afrek sín. Honum var boðið að hætta í flotanum og verða yfirmaður Greenwich-spítalans. Þetta samþykkti James með semingi og aðeins með því skilyrði að hann mætti snúa aftur ef tækifæri gæfist. Sjórinn hefur þó eflaust enn heillað hinn 47 ára gamla landkönnuð því næsta ferð hans hófst minna en ári eftir að þeirri síðustu lauk. Þriðji Kyrrahafsleiðangurinn. Þriðja og síðasta ferð Cooks (1776-1779) var farin undir því yfirskini að koma enni Omai aftur í hendur Tahitibúa, en höfuðtilgangur hennar var að gera það sem svo mörgum hafði mistekist, fara norðvesturleiðina frá Kyrrahafinu til Atlantshafsins. Cook fór aftur á skipinu Resolution en hafði nú með sér skipið Discovery. Enn og aftur sigldi hann suður fyrir Góðravonahöfða og inn á Kyrrahafið en nú var förinni heitið norður eftir örskamma dvöl í Nýja Sjálandi. Ekki leið á löngu uns leiðangursmenn rákust á stóran eyjaklasa. Þessar eyjar höfðu verið uppgötvaðar af spænskum sjómanni um miðja 16. öld, en Spánverjum hafði verið afar umhugað um að halda tilvist þeirra leyndri. Það tókst vel, raunar svo vel að eyjurnar gleymdust allt þar til Cook fann þær aftur í febrúar 1778. Þessar eyjar skýrði hann Samlokueyjur (reyndar þýddar sem Sandvíkureyjar á íslensku). Þær eru þó betur þekktar undir sínu núverandi nafni, Hawaii-eyjar. Skipin fóru einn réttsælis hring í kringum klasann í rannsóknarskyni áður en áhöfnin gekk á land á stærstu eynni. Evrópumennirnir hittu einmitt á Makahiki, mikla uppskeruhátið eyjarskeggja til heiðurs guðinum Lono. Hringferð hans kringum Hawaii eyjar var í samræmi við hátíðarskrúðgönguna og skipið Resolution líktist ýmsum helgimunum tengdum hátíðarhöldunum. Eyjarskeggjar töldu Cook því vera Lono, en það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Eftir dvölina á Hawaii hélt James upp með vesturströnd Norður-Ameríku uns hann fann Beringssund, en sigla þurfti gegnum það til að ná til Atlantshafsins. Í sundinu varnaði hafís honum vegar og eftir þrjár tilraunir áttaði hann á sig að sigling yfir sundið væri ómöguleg. Hann rannsakaði strendurnar umhverfis sundið í nokkurn tíma en sneri svo aftur til Hawaii. Á bakaleiðinni rakst Cook á vestasta hluta Norður-Ameríku sem var áður ókunnur stærstum hluta Evrópu, en töluverður fjöldi Rússa hafði sest þar að. Á leiðinni hafði hann m.a. kortlagt vesturströnd Norður-Ameríku allt norður með Alaska, auk þeirra fjölmörgu eyja er var að finna á Kyrrahafinu. Með kynnunum við rússnesku landnemana, og sínum eigin rannsóknum, tókst James að brúa bilið milli spænskra og rússneskra rannsókna á Kyrrahafssvæðinu. Það var ekki fyrr en í annarri heimsókn Cooks til Hawaii-eyja sem hann áttaði sig almennilega á stærð og mikilvægi eyjanna, þó það hafi einnig verið í þeirri ferð sem hann lét lífið. Dauði. Eftir um mánaðarlanga dvöl ákvað Cook að snúa sér aftur að könnun norðurhluta Kyrrahafsins þar sem Makahiki hátíðin var á enda og eyjarskeggar höfðu ekki tekið honum eins vel og í fyrra skiptið. Vegna viðgerða á skipinu Resolution neyddist hann þó til að staldra aðeins við á ströndinni Kealakekua. Aðfaranótt þrettánda febrúar 1779 stálu nokkrir innfæddra einum af bátum skipsins Discovery. Þetta mislíkaði Cook og félögum sem reyndu að taka til fanga kóng innfæddra. Nú skullu á átök sem neyddu hina evrópsku sjómenn til að hörfa aftur til skips. Cook flýði síðastur og hann var komin langleiðina er högg höfðingjans Kalanimanokahoowaha hæfði hann. Cook féll við og reis svo strax upp aftur, en þá var það of seint. Fjölmargar hnífsstungur eyjarskeggja skullu á honum og lét hann lífið skjótt. Hinir áhafnarmeðlimirnir komust við illan leik í bátana. Maður að nafni Clerke tók við stjórninni, en dó í hafi eftir aðra árangurslausa tilraun til að finna norðvesturleiðina og á endanum voru það skipverjarnir Gore og King sem náðu höfn á Englandi í ágúst árið 1780. Tenglar. Cook, James Cook, James Willem Barents. Willem Barents (~1550 – 20. júní 1597) var hollenskur landkönnuður, frægur fyrir könnunarleiðangra sína til Norður-Íshafsins. Takmark hans var að finna norðausturleiðina frá Evrópu til Austur-Asíu. Á ferðum sínum sá hann meðal annars Svalbarða og Bjarnarey. Hann gerði þrjár árangurslausar tilraunir frá árinu 1594 til 1597 og lést sjálfur í síðustu ferðinni eftir að þeir höfðu setið fastir í ísnum fyrir norðan Novaja Semlja og verið þannig fyrstir manna til að eyða heilum vetri á Norðurheimskautsvæðinu. Tenglar. Barents, Willem Guido frá Arezzo. Guido frá Arezzo (einnig Guido Arentinus, Guido da Arezzo og Guido Monaco) (991/992 – eftir 1033) var kenningasmiður tónlistar frá miðöldum. Hann er talinn upphafsmaður nútíma nótnaskriftar, sem tók við af naumakerfinu; ritgerð hans, "Micrologus", var önnur mest dreifða fræðilega ritgerð um tónlist á miðöldum (á eftir skrifum Boethiusar). Guido var munkur af Benediktsreglu frá ítalska borgarríkinu Arezzo. Nýlegar rannsóknir hafa dagsett ritgerð hans, "Micrologus", frá árinu 1025 eða 1026. Af því að Guido tók það fram í bréfi sem hann skrifaði að hann hafi verið 34 ára gamall þegar hann skrifaði hana, hefur fæðingarár hans verið talið annaðhvort 991 eða 992. Fyrri hluta ferils hans var varið við klaustrið í Pomposa, við strönd Adríahafs, nærri Ferrera. Meðan hann var þar, tók hann eftir erfiðleikum sem að söngvarar áttu í við að muna gregoríska söngva. Hann fann upp aðferð til að kenna söngvurum að læra söng sinn á stuttum tíma, og varð fljótlega frægur um alla norður-Ítalíu. Samt sem áður varð hann fyrir fjandskap hinna munkanna í klaustrinnu, sem olli því að hann flutti til bæjarins Arezzo, þar var ekkert klaustur en þó stór hópur söngvara, sem þörfnuðust þjálfunar. Á meðan á dvöl hans í Arezzo stóð, þróaði hann nýja kennslutækni, þar á meðal nótnaskriftina og „do-re-mí“ (Díatóníska) tónstigann, þar sem að nöfn einstakra nótna voru tekin úr upphafsatkvæðum sjö erinda sálmsins "Ut queant laxis" (í upphafi var „do“ kallað „ut“). Þetta getur hafa verið byggt á fyrri verkum hans í Pomposa, en bænasöngvabók sem hann skrifaði þar er nú týnd. "Micrologus" ritið, skrifað við dómkirkjuna í Arezzo, inniheldur kennsluaðferðir Guidos eins og hann hafði þróað þær á þeim tíma. Það dró fljótlega að sér athygli Jóns XIX páfa, sem bauð Guido í heimsókn til Rómar. Það er líklegast að hann hafi farið þangað árið 1028, en sneri þó fljótlega aftur til Arezzo, sökum heilsubrests. Ekkert er vitað um hann eftir þann tíma nema það að hann kláraði þar bænasöngvabók sína árið 1030. Í aðferð Guidos, var það einföld staðsetning lína sem að gerði þeim sem lásu nótnaskrift kleyft að vita hvar á tónstiganum ætti að syngja einstakar nótur. Orka. Orka er grundvallarstærð sem hvert eðlisfræðilegt kerfi hefur að geyma. Orka er skilgreind sem magn "vinnu" sem þarf til að breyta ástandi eðlisfræðilegs kerfis. Til dæmis þarf "K" = ½"mv"² vinnu til að hraða byssukúlu frá núll hraða í hraða "v" — og kallast því stærðin ½"mv"² hreyfiorka byssukúlunnar. Önnur dæmi eru raforkan sem geymd er í rafhlöðu, efnaorkan sem er í matarbita eða bensíni, varmaorka vatnshitara, stöðuorka upphækkaðs vatns á bak við stíflu og hreyfiorka bíls á ákveðnum hraða. Það er auðveldlega hægt að breyta orku úr einni mynd yfir í aðra. Sem dæmi, ef rafhlaða er notuð til að knýja rafmagnshitara, breytist efnaorka í raforku, sem svo aftur breytist í varmaorku. Eða, með því að láta upphækkað vatn renna niður á við, breytist stöðuorka þess í hreyfiorku hreyfils, sem svo breytist í raforku með hjálp rafals. Orkuvarðveislulögmálið segir að í lokuðu kerfi haldist heildarorka kerfisins, sem samsvarar samanlögðum hlutorkugildum þess, föst. Þetta lögmál stafar af tímahliðrunarsamhverfu eðlisfræðilegra ferla, sem merkir að þeir eru óháðir byrjunartíma. Alþjóðlegar og skyldar einingar. Alþjóðlega SI-einingin fyrir bæði orku og vinnu er júl ("J"), sem að skýrð er til heiðurs James Prescott Joule og rannsóknum hanns á vinnugildi varma. Í grunndvallaratriðum er 1 J skilgreint sem 1 newton-metri og, samkvæmt grunneiningum SI kerfisins, er 1 J það sama og 1 kg m2 s−2. Orkueiningin sem notuð er í kjarneðlisfræði er rafeindarvolt ("eV"). Eitt eV jafngildir 1,60217653×10−19 J. Taka má fram að snúningsátak, sem yfirleitt er tjáð í newton-metrum, hefur sömu stærð og er það ekki tilviljun: snúningsátak upp á einn newton-metra beitt á eina bogamálseiningu þarf nákvæmlega eitt júl (newton-metra) af orku. Aðrar orkueiningar. Meðal breskra og bandarískra eininga fyrir bæði orku og vinnu má telja fet-pund-kraft (1,3558 J), bresku varmaeininguna (Btu) sem hefur nokkrar mismunandi skilgreiningar í kringum 1055 J og hestaflsstund (2,6845 MJ). Algeng orkueining til að mæla raforku, svo sem á rafmagnsreikningum, er kílóvattstund (kW h). Varmaorkueiningin kaloría er aðallega notuð í næringarfræði og jafngildir þeim varma sem þarf til að auka hita eins gramms af vatni um 1°C við 1 loftþyngd. Þessi skilgreining gefur nokkuð misjöfn gildi eftir hitastigi vatnsins. Þetta veldur því að til eru nokkrar einingar sem hafa sama nafnið, „hitaeining“, en lítillega misjöfn orkugildi. Oft er miðað við að hita vatnið um 1 °C frá 14,5 °C í 15,5 °C. Þá jafngildir ein kaloría u.þ.b. 4,186 J. Vegna smæðar einingarinnar er í daglegu tali oftast talað um kílókaloríur. Algengt að þær séu kallaðar kaloríur sem eykur enn á ruglinginn. Vinna. Þessi jafna segir að vinna (formula_2) jafngildi heildi innfeldis krafts (formula_3) á hlut og örsmæðarstaðsetningar hlutsins (formula_4). Varmi. "Varmi" er orkugildi sem tengist breytingu á hitastigi eða efnisástandi efnis. Í efnafræði er varmi magn orku sem gefið efnaferli gleypir í sig (innvermið efnahvarf) eða lætur frá sér (útvermið efnahvarf). Samband varma og orku er svipað og vinnu og orku. Varmi flæðir frá svæðum með hærra hitastig yfir í svæði með lægra hitastig. Allt efni hefur ákveðið magn innri orku sem er mælikvarði á tilviljunarkennda hreyfingu frumeinda og sameinda þeirra. Þessi innri orka er í beinu hlutfalli við hitastig hlutarins. Þegar tveir hlutir með mismunandi hitastig komast í varmasnertingu, deila þeir með sér innri orku þar til hitastig þeirra jafnast. Algengt er að varma sé ruglað saman við innri orku, en það er munur á þeim: varminn sem flæðir frá umhverfinu í kerfið ásamt vinnunni sem umhverfið framkvæmir á kerfið jafngildir aukningu innri orku þess. Varmaorka getur flutzt á þrjá vegu: með varmaleiðni, varmaburði og geislun. Varðveisla orkunnar. Fyrsta lögmál varmafræðinnar segir að samanlagt innstreymi orku inn í kerfi verður að jafngilda samanlögðu útstreymi ásamt aukningu innri orku þess. Þetta lögmál, "orkuvarðveislulögmálið" svokallaða, er eitt mest notaða og mikilvægasta lögmál eðlisfræðinnar, en er þó iðulega brotið tímabundið (líkindafræðilega) í skammtafræði. Setning Noethers tengir varðveislu orkunnar við tímaóbreytni eðlisfræðilegra lögmála. Dæmi um breytingu og varðveislu orku er pendúll. Á hæsta punkti hans er hreyfiorkan núll og stöðuorkan í hámarki. Við lægsta punkt er hreyfiorkan í hámarki og jafngildir lækkun stöðuorkunnar frá hápunkti. Ef gengið er út frá því að ekkert viðnám sé til staðar varðveitist orkan og pendúllinn sveiflast að eilífu. (Í reynd varðveitist sú orka sem tiltæk er fyrir stórsæja hreyfingu aldrei fullkomlega þegar kerfið breytir um stöðu; vegna áhrifa viðnáms breytist hún smám saman í varma). Annað dæmi er sprenging þar sem efnafræðileg stöðuorka breytist leifturhratt í hreyfiorku og varma. Hreyfiorka. Hreyfiorka er sú orka sem felst í hreyfingu hlutar. Jafnan segir að hreyfiorkan (formula_6) jafngildi heildi innfeldis hraða (formula_7) hlutar og örsmæðarskriðþunga hans (formula_8). formula_12 er samanlögð orka hlutarins formula_13 er orka kyrrstöðumassans. Liðir raðarinnar frá 2. lið að telja lýsa fráviki hreyfiorkunálgunar Newtons frá hinu afstæðilega gildi. Stöðuorka. Stöðuorka kerfis er orka sem stafar af kröftum sem verka á milli eininga þess og afstöðu þeirra. Kraftarnir geta verið rafkraftur, segulkraftur eða þyngdarkraftur. þar sem krafturinn milli hlutanna breytist eingöngu með vegalengd (formula_17) og er heildað eftir línu sem tengir hlutina saman. Stefna kraftsins milli tveggja hluta er í átt breytingar stöðuorku og stærð hans er í beinu hlutfalli við breytingahraðann (afleiðuna). Stór kraftur tengist miklum stöðuorkumun miðað við gefna vegalengd, lítill kraftur litlum. Þessar tvær skilgreiningar, stöðuorku útfrá á krafti og krafts útfrá stöðuorku, sýna hvernig hugtökin kraftur og stöðuorka eru nátengd. Tveir hlutir sem beita hvor annan krafti hafa stöðuorku, hvor í kraftsviði hins. Ef kerfi samanstendur af tveim hlutum sem beita hvor annan krafti, kemur fram í því stöðuorka. Vegna þess að allir kraftar eru fall af vegalengd, mun sérhver breyting á innbyrðis afstöðu kerfis með stöðuorku annaðhvort minnka hana eða auka. Þegar stöðuorka kerfis minnkar, breytist hún í aðra tegund orku, t.d. hreyfiorku. „Geyma“ má stöðuorku svo sem þyngdarstöðuorku, fjöðrunarorku, efnaorku, kyrrstöðumassaorku eða raforku og leysa síðar úr læðingi. þar sem "m" e massi hlutarins, "g" þyngdarhröðun jarðar og "h" hæð hlutarins frá núllpunkti. Hann má skilgreina eftir hentugleikum. Fyrir hlut sem fellur alla leið til jarðar er yfirborð jarðar eðlilegur núllpunktur. Fyrir vatn í fossi getur verið eðlilegra að skilgreina yfirborð hylsins sem fossinn fellur í sem núllpunkt; hreyfiorka vatnsins rétt áður en það fellur í hylinn jafngildir í góðri nálgun hreyfiorku þess á fossbrúninni plús stöðuorku þess þar, reiknað frá yfirborði hylsins. Í raunhæfum reikningum er "absolút" gildi stöðuorku yfirleitt aldrei gagnleg stærð, heldur mismunur stöðuorkugilda í tveimur punktum. Innri orka. Innri orka er hreyfiorkan sem tengist hreyfingu sameinda og stöðuorkan sem tengist snúnings-, titrings- og raforku atómanna í sameindunum. Innri orka kerfis er eitt ástandsfalla þess. Jacques Cartier. Jacques Cartier (31. desember 1491 – 1. september 1557) var franskur landkönnuður sem er almennt álitinn einn af mikilvægustu könnuðum Kanada. Hann kannaði einkum það svæði í Austur-Kanada sem síðar átti eftir að verða þungamiðja landnáms Evrópubúa þar. Hann fór þrjár ferðir til Kanada 1534, 1535-1536 og 1541-1542. Upphaflegt takmark hans var að finna norðvesturleiðina til Asíu. Í því skyni kannaði hann Nýfundnaland og sigldi upp Lawrence-fljót, hitti innfædda og helgaði land Frakkakonungi. Ferdinand Magellan. Ferdinand Magellan (1480 – 27. apríl 1521; portúgalska: Fernão de Magalhães; spænska: Fernando eða Hernando de Magallanes) var portúgalskur landkönnuður í þjónustu Spánarkonungs. Hann varð fyrsti Evrópubúinn til að sigla vesturleiðina til Asíu, fyrstur Evrópubúa til að sigla yfir Kyrrahafið og fyrstur til að stjórna leiðangri umhverfis hnöttinn, þótt hann hafi sjálfur ekki verið meðal þeirra sem luku leiðangrinum þar sem hann var drepinn í orrustu við innfædda á Filippseyjum rúmlega ári áður en síðasta skipið náði höfn á Spáni 6. september 1522. Magellansund á suðurodda Suður-Ameríku er nefnt eftir honum, en sjálfur nefndi hann það Allraheilagrasund. Magellan uppgötvaði líka Magellan skýin tvö, stóra og litla, sem eru stjörnuþokur sem sjást sunnan miðbaugs. Ævisaga. Kort sem sýnir leiðangur Magellans umhverfis jörðina Magellan fæddist í Sabrosa 1480. Hann átti tvö systkini, bróðir hans Diogo de Sousa, og systir hans Isabel. Foreldrar hans dóu þegar hann var tíu ára. Ungur að aldri byrjaði Magellan að hafa áhuga á landa og stjörnufræði, sumir segja að Martin Behaim hafi kennt honum. Þegar Magellan var tvítugur fór hann fyrst á sjó og árið 1505 var hann sendur til Indlads með Portúgalanum Francisco de Almeida til þess að setja upp her og sjóstöðvar á leiðinni. Það var þar sem Magellan upplifaði sín fyrstu átök, þegar kóngur neitaði að borga þeim. Þá réðust lið Almeidas á þá og tóku yfir múslimsku borginni Kilwa sem heitir núna Tanzania. Árið 1506 sigldi hann um Austur-Indland að Maluku eyjunumog barðist í mikla bardaganum við Diu, febrúar 1509. Árið 1510 fékk hann stöðuhækkun sem skipstjóra, en hann stalst til þess að sigla til austurs án leyfis og var í refsingarskyni lækkaður í tign og neyddur til þess að fara aftur til Portúgal. Árið 1511 var Magellan sendur til Morokkó þar sem hann barðist í bardaganum við Azamor (28-29 Ágúst 1513) þar meiddist hann á hné þegar hann var að berjast við Moorish-Morokkó virkið. Þó að hann væri særður og fékk fullt af medalíum var hann ásakaður um ólögleg skipti við íslömsku Moors. Hann hafði líka verið í deilum við Almeida (þegar Magellan fór úr hernum án samþykkis). Almeidan gaf lélega skýrslu af honum í portúgölskum réttarhöldum. Magellan byrjaði að skipuleggja ferðina sína og Charles konungur gaf honum gífurlega mikið af peningum og fyrir þann pening keypti Magellan 5 skip, Trinidad, San Antonio, Concepcion, Victoria og Santiago. Trinidad var skip Magellans. 10 Ágúst 1519 fóru skip Magellans frá höfninni í Selville, Suður frá Guadalquivir vatninu til San Lucar de Barrameda og þei voru þar í 5 vikur. Á leið til Norð-Vesturs sigldi áhöfnin til Equador 13 Febrúar 1521 og 6. Mars komu þeir til Marianas og 16. Mars komu þeir til Homonhom í Filipseyjunum aðeins með 150 menn í áhöfninni eftir. Magellan náði samskiptum við infædda vegna þess að túlkurinn þeirra skildi tungumál þeirra. Friður þeirra við þá var víst ekki mikill því að Magellan var drepinn í bardaganum við Mactan 27 Apríl 1521. Sjötta September 1522 kom Juan Sebastián de Elcano með restina af áhöfn Magellans til Spánar eftir þriggja ára ferð. Tenglar. Magellan, Ferdinand Magellan, Ferdinand Laos. Laos (formlegt nafn: "Alþýðulýðveldið Laos", á laosku: "Sathalanalat Paxathipatai Paxaxon Lao", bókstaflega „Alþýðulýðveldi Lao fólksins“) er land í Suðausturasíu. Landið hefur hvergi aðgang að hafi. Í norðvestur á landið landamæri að Myanmar (Burma), í norður að Kína, í austur að Víetnam, í suður að Kambódíu og í vestur að Taílandi. Saga landsins er rakin aftur til konungsríkisins Lan Xang eða "Miljón fíla landið" sem var við lýði frá fjórtándu fram að átjándu öld. Laos var frönsk nýlenda í rúmlega hálfa öld en fékk sjálfstæði 1949. Þá tók við borgarastyrjöld sem stóð fram til 1975 þegar hreyfing kommúnista, Pathet Lao, náði völdum í landinu. Árið 1986 var landið opnað fyrir einkaframtaki og erlendum fjárfestingum. Laos er þó enn talið til þeirra landa sem búa við minnst efnahagslegt og pólitískt frelsi. Þrátt fyrir þetta hefur hagvöxtur verið gríðarmikill síðustu árin og jókst um 7.2% árið 2006, Landbúnaður er aðalatvinnugrein og starfa um 80% landsmanna við sjálfsþurftarbúskap. Íbúar landsins skiptast upp í fjölmörg þjóðarbrot, en um það bil 70% tilheyra Lao-fólkinu. Orðsifjar. Nafn landsins á laosku er "Lao", en þegar Frakkar gerðu landið að nýlendu sinni bættu þeir við fleirtölu s-i við nafnið, enda var landið þá uppskipt í fleiri konungsveldi. Sögubrot. Pha That Luang í Vientiane, tákn Laos. Laos rekur sögu sína aftur til konungsríkisins Lan Xang sem skapaðist á 14. öld. Á 18. öld óx síömsku konungsveldinu mjög fiskur um hrygg og lögðu undir sig stærsta hluta þeirra svæða sem höfðu verið undir stjórn Lan Xang (þó þau væru þá uppskipt í fleiri minni konungsveldi). Frakkar voru þá að leggja stóran hluta Suðausturasíu undir sig snérust gegn auknum áhrifum Síam. Tókst þeim að hrekja síamska herinn vestur fyrir Mekong-fljótið og sköpuðu Laos sem svæði innan Frönsku Indókína 1893. En stærsti hluti þess sem hafði verið Laos og þar sem um 80% laómælandi bjuggu varð hluti af Taílandi og er enn. Frakkar breyttu nafni höfuðborgarinnar úr Vieng Chang í Vientiane. Japan hernam landið í nokkur ár í seinni heimsstyrjöldinni og lýst var yfir sjálfstæði landsins 1945 en Frökkum tókst fljótlega að ná völdum aftur. Laos varð formlega sjálfstætt 1949 en það var ekki fyrr en 1954 sem það varð í raun sjálfstætt sem þingbundið konungsríki og var Sisavang Vong vígður konungur. Árið 1951 var kommúnistahreyfingin Pathet Lao stofnuð undir forystu Souphanouvong prins, sem kallaður var "rauði prinsinn". Pathet Lao tók völdin 1954 í tveimur héruðum í norðurhluta landsins. Næstu tveir áratugirnir einkenndust af borgarastyrjöld og valdaránum. Þrátt fyrir að Laos væri aldrei formlega hluti af Víetnamstríðinu varð það illileg fyrir áhrifum frá því. Milli 1971 og 1973 felldi bandaríkjaher fleiri sprengjum yfir Laos en voru felldar í seinni heimsstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Samanlagt felldu þeir yfir 2 miljóna tonna af sprengjum yfir landið og er enn verið að finna þær. Eftir sigur kommúnista í Víetnam hóf Pathet Lao mikla sókn og tókst 1975 að ná völdum í öllu landinu. Áætlað að nærri 300 000 flóttamenn hafi flúið til Taílands eftir valdtöku kommúnista. Eftir valdatökuna fékk landið formlega nafnið Alþýðulýðveldið Laos og gerðir voru samningar sem heimiluðu Víetnam að hafa her í landinu og hafa yfirsjón um stjórn þess. Laos varð mjög einangrað og hafði nánast einungis viðskipti við Víetnam. Harðlínu kommúnismi var þó aldrei allsráðandi, til dæmis voru tilraunir til að koma á samyrkjubúum fljótlega lagðar af. Viðhorf kommúnista í Laos urðu fljótlega mjög frábrugðin annarra kommúnista, búddismi var því sem næst gerð að ríkistrúarbrögðum og mikil áhersla lögð á sýna fram á að í raun væri búddisminn sósíalískur. Allt frá því að áhrif Víetnam fóru að minnka upp úr miðjum níunda áratugnum og sérlega eftir að landið gekk í ASEAN árið 1997 hefur efnahags og samfélagslíf gjörbreyst. Landafræði. Kort sem sýnir landslag Laos Laos er 235 000 ferkílómetrar að flatarmáli, heldur stærra en Bretland. Að stærstum hluta er það skógi vaxið fjallaland, hæsta fjallið er Phou Bia 2817 metra hátt, um 70% af landinu er fjöll eða hásléttur. Fljótið Mekong fylgir að mestu vesturlandamærunum að Taílandi en Annamít fjallgarðurinn (sem nefndur er Phou Luag í Laos) myndar landamæri gegn Víetnam í austri. Í landinu er hitabeltisloftslag og monsúnrigningar. Rigningatíminn stendur yfir frá maí fram til nóvember og þurrkatíð frá desember fram til apríl. Höfuðborgin og stærsta borgin í Laos er Vientiane, aðrar stærri borgir eru Luang Prabang, Savannakhet og Pakse. Fjallasýn í Vang Vieng í norður Laos Skógarsvæðin í Laos eru þau helstu sem eftir eru í allri Suðausturasíu og þekja um 40% af landinu. Þess vegna er lífríki landsins einstaklega fjölbreytt. Þar er meðal annars hægt að finna stórann hluta af þeim Asíu fílum ("Elephas maximus") sem enn eru til villtir, einnig er þar að finna Indókínverska tígrisdýrið ("Panthera tigris corbetti") og hinn risavaxna gáruxa ("Bos gaurus"). Ríkisstjórnin ákvað 1993 að 21% landsins eiga að vernda sem sérstaklega mikilvæg fyrir fjölbreytni lífríkisins, ætlunin er að þessi svæði verði gerð að þjóðgörðum síðar. Íbúar. Í engu landi í Suðaustur Asíu búa jafn margar þjóðir og þjóðflokkar og í Laos. Allt eftir því hvernig reiknað er eru þær taldar vera 48 eða 65. Ýmiss háttur hefur verið hafður á að flokka þessi þjóðarbrot saman. Á áttunda áratugnum flokkuðu yfirvöld þá í þrjá hópa, "Lao Loum" (láglendisbúa), "Lao Theung" (hæðabúa) og "Lao Soung" (fjallabúa). Þessi greining var byggð á pólitískum forsendum og hefur nú verið yfirgefin þó að margir noti hana enn og oft megi sjá hana í bókum um Laos. Nú er flokkað eftir hinum þremur stóru tungumálafjölskyldum sem flest tungumálin tileyra - Ástró-Taí, Ástró-Asísk og Sínó-Tíbetönsk mál. Um helmingur íbúana hafa laosku að móðurmáli, um 15% tala önnur mál af Taí-Lao málaætt, en allir hinir hóparnir eru mun minni. Af þeim má nefna Khmu, Hmong, Lu, Phuan, So, Katang, Akha, Tai Dam og Yao. Þar að auki er um eitt prósent íbúa af kínverskum eða víetnömskum ættum. Theravada búddismi er höfuðtrú og hefur nánast stöðu sem ríkistrú. Þar að auki er andatrú og forfeðradýrkun algeng sérlega hjá minnihlutahópunum. Fáeinir kristnir eru í borgunum og múslimar við landamærin að Burma. Trúboð er litið illu auga af yfirvöldum og er háð ströngu eftirliti. Efnahagslíf. "Songthaew eru algengir jafnt innanbæjar sem til lengri ferða. Kommúnistastjórnin í Laos tók upp nýja efnahagsstefnu 1986 með því að minnka miðstýringu og leyfa einkaframtak í efnahagsmálum. Við það tók efnahagslífið mikinn kipp og hefur árlegur hagvöxtur á árunum 1988 til 2006 verið að meðaltali 6%. Sérlega er þetta áberandi í stærri bæjunum, Vientiane, Luang Prabang og Savannakhet. Efnahagslífið er nánast algjörlega undirlagt hinum ríku og voldugu nágrönnum, Taílandi, Víetnam er sérstaklega Kína. a> fljótið. Fljótin eru mikilvægar samgönguæðar í Laos. Samgöngur eru þau afar erfiðar, vegakerfið í mjög slæmu ástandi, mest eru þetta moldarvegir sem verða algjörlega ófærir á rigningartímanum. Lestarkerfi er ekkert til og flugsamgöngur takmarkaðar. Mikið af flutningum fer fram á fljótunum sérlega á Mekongfljótinu. Sjálfsþurftarbúskapur stendur enn fyrir um helmingi af vergum þjóðatekjum og um 80% af íbúunum hafa sína afkomu innan þess. Hrísgrjónaræktun er aðal landbúnaðargreinin og er um 80% ræktaðs land notað undir það, Hvergi er til eins mörg afbrigði af hrísgrjónum eins og hér og yfirvöld hafa unnið með alþjóðlegum stofnunum frá 1995 við að safna inn fræjum af þeim þúsundum tegunda sem eru ræktaðar í Laos. Fyrir utan landbúnað er námugröftur, aðallega kopar og gull, en einnig rafmagnsútflutningur mikilvægur þáttur í erlendum viðskiptum landsins. Ferðamannaþjónusta er í hröðum vexti og eru það einkum ferðamenn frá Kína og Taílandi á ferð. Vöntun á alls konar menntafólki stendur mjög í vegi allra framfara. Samkvæmt rannsókn sem gerð var a vegum Alþjóðabankans 2005 býr 37% allra mennaðra Laosbúa erlendis og setur það Laos í fimmta versta sæti í heiminum hvað þetta varðar. Menntun. Menntunarkerfið í Laos er mjög skammt komið. Þegar landið fékk sjálfstæði frá frökkum var einungis örlítill hópur tengdur aðalsmönnum sem hafði einhverja formlega menntun ef undantekin er klausturmenntun munka og nunna. Það var ekki fyrr en um 1960 sem farið var að byggja upp menntakerfi að nútímasniði. Eftir valdatöku Pathet Lao 1975 flúðu flestir þeirra sem höfðu eihverja æðri menntun þar á meðal margir betur menntaðir kennarar. Í núverandi skólakerfi er fimm ára grunnskóli skylda og eru nánast 70% hvers árgangs sem ljúka honum. Þrátt fyrir það er áætlað að um helmingur Laosbúa séu ólæsir. Eftir grunnskóla geta nemendur haldið áfram í þriggja ára viðbótarnám og svo þaðan í þriggja ára menntaskólanám. Það eru hins vegar innann við 10% sem ná þangað. Í landinu er einungis einn háskóli. Fjölmiðlar. Allir fjölmiðlar í Laos eru í eigu ríkisins og undir strangri ritskoðun. Einungis tvö dagblöð eru í landinu, burtséð frá útgáfum á frönsku og ensku, og fáein tímarit. Þau koma öll út í mjög fáum eintökum og flestir Laosbúar sjá aldrei dagblað. Ríkið rekur einnig útvarps og sjónvarpsstöð. Engar bækur má gefa út án þess að þær hafi farið í gegnum ritskoðunarkerfið. Hins vegar eru engar hömlur á innflutningi á tímaritum og bókum. Interneti er nánast óþekkt, það er einungis á fáeinum stöðum, sérlega í Vietiane og þá fyrir ferðamenn, þar sem netið er aðgengilegt. Taíland. Konungsríkið Taíland (stundum ritað Tæland) er land í Suðaustur-Asíu, með landamæri að Kambódíu og Laos í austri, Taílandsflóa og Malasíu í suðri og Mjanmar og Andamanhafi í austri. Taíland er einnig þekkt undir nafninu Síam, sem var opinbert nafn landsins til 11. maí 1949. Orðið "taí" merkir „frelsi“ í taílensku. Saga. Mismunandi menningar hafa verið við sögu í Taílandi frá tímum Baan Chiang menningarinnar. En þrátt fyrir það hefur taílensk menning alltaf verið undir miklum áhrifum frá indverskri og kínverskri menningu, vegna landfræðilegrar legu þess. Fyrsta síamska ríkið er talið vera konungsríkið Sukhothai, stofnað árið 1238, fylgjandi hruni Kmeraveldisins á 13.-15. öld. Öld síðar féll konungsríkið Sukhothai alfarið í skugga stærra konungsríkis, Ayutthaya, sem sett var á laggirnar um miðja 14. öld. Eftir að Ayutthaya herjaði á Angkor árið 1431, innleiddist mikið af Hindúa- og Kmeravenjum í síamska menningu. Eftir hrun Ayutthaya árið 1767, varð Thonburi höfuðborg Taílands í stuttan tíma undir stjórn Taksin konungs. Árið 1782 hófst núverandi skeið í sögu Taílands (Ratthanakosin), og fylgdi því stofnun Bangkok sem höfuðborgar Chakri konungsættarinnar, undir stjórn Rama I. Á 16. öld byrjuðu evrópskir landkönnuðir að streyma til Taílands. Þrátt fyrir það, var Taíland eina suðausturasíska landið sem þurfti aldrei að lúta nýlendustjórn. Helstu ástæður þess eru að á 19. öld voru mjög hæfir stjórnendur yfir landinu, sem að nýttu þá spennu og samkeppni sem ríkti á milli Frakka og Breta. Því varð landið hlutlaust í öllu því nýlendukapphlaupi sem ríkti í Suðaustur-Asíu á þeim tíma. Þrátt fyrir það, varð landið fyrir miklum vestrænum áhrifum á seinni hluta 19. aldar. Varð það til þess að miklar umbreytingar áttu sér stað og Taílendingar gáfu eftir þremur suðrænum umdæmum, sem seinna urðu norðurmalasísk fylki. Árið 1932 átti sér stað bylting án blóðsúthellinga, sem varð til þess að þingbundin konungsstjórn varð i landinu. Á meðan að seinni heimsstyrjöldin stóð yfir, var Taíland í bandalagi með Japönum. Eftir stríð gekk hinsvegar Taíland í bandalag með Bandaríkjamönnum. Taíland gekk í gegnum ýmissar byltingartilraunir sem framvinduðust í lýðræði á 19. öld. Genúasegl. Genúasegl, genúa eða genúafokka er stórt stagsegl sem er notað á slúppum og er stærra en venjuleg fokka sem er aldrei stærri en þríhyrningurinn sem markast af framsiglustaginu, þilfarinu (eða bugspjótinu) og mastrinu. Genúasegl er með afturskaut sem nær aftur fyrir mastrið og fellur þannig yfir stórseglið að hluta. Í kappsiglingum er misjafnt hvaða reglur gilda um genúasegl, en algengt er að takmarka hversu mikið stærri þau mega vera miðað við áðurnefndan þríhyrning (150%, 130% o.s.frv.). Genúasegl tekur meiri vind en venjuleg fokka og eykur þannig hraða bátsins. Á móti kemur að erfiðara er að venda þar sem færa þarf seglið fram fyrir mastrið og strekkja það aftur hinum megin sem skapar hættu á að það flækist í stögunum eða mastrinu. Klippari. Klippari var hraðskreitt fjölmastra seglskip sem var notað á 19. öld. Klipparar voru yfirleitt grannir, sem takmarkaði flutningsgetu þeirra, og auk þess litlir miðað við seglskip 19. aldar, en með hlutfallslega mikinn seglflöt. Klipparar voru flestir smíðaðir í skipasmíðastöðvum í Bandaríkjunum og Bretlandi og voru notaðir á siglingaleiðum frá Bretlandi til nýlendnanna í austri og yfir Atlantshafið og á leiðinni frá New York til San Francisco fyrir Hornhöfða á tímum gullæðisins. Kútter. Kútter (úr ensku: "cutter") er venjulega lítið þiljað seglskip með eitt eða tvö möstur þar sem stórseglið er (gaffalsegl eða þríhyrnt segl), stundum gaffaltopp, minnst tvö framsegl og bugspjót að framan. Þessi tegund seglskips sem er upprunnin á Englandi var einnig vinsæl á Íslandi frá lokum 19. aldar og fram á 20. öld. Þeir gátu verið mjög stórir, og sumir voru með litla messansiglu að aftan. Þeir voru í notkun langt fram á vélbátaöld og fengu sumir vél og stýrishús síðar á lífsleiðinni. Vélbátar með sama lagi og stýrishúsið að framan, upprunnir á Englandi, voru líka kallaðir kútterar. Pólska. Pólska er indóevrópskt tungumál af ætt slavneskra tungumála. Það er opinbert tungumál í Póllandi og er eitt mest talaða vesturslavenska tungumálið. Pólska er rituð með latnesku letri með fáeinum stöfum í viðbót. Málið er talað um mest allt Pólland. Elstu textar eru frá 12. öld. Föll eru sjö en ásamt þeim fjóru sem við þekkjum úr íslensku eru ávarpsfall, staðarfall og tækisfall. Nefnifall og ávarpsfall falla oft saman. Sagnorð beygjast í persónum og tölum. Langskip. Horft framan á Ásubergsskipið (mikið endurbyggt). Langskip voru seglskip sem saxar og norrænir menn notuðu sem herskip og til að sigla upp ár og leggja upp á grynningar þegar þeir herjuðu á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu fram til loka Víkingaaldar. Skipin voru lág, mjó og rennileg, súðbyrt með kjöl, hliðarstýri og eitt mastur með ferhyrndu rásegli. Þeim var bæði siglt og róið með árum. Langskip ristu grunnt og hentuðu því vel til að sigla í grunnu vatni, til að sigla upp á strönd og til að bera yfir farartálma. Þessir sömu eiginleikar gerðu að þau hentuðu síður til úthafssiglinga. Knörrinn var því notaður til landkönnunar og landnáms á eyjunum í Atlantshafi, en hann var bæði hærri og breiðari. Brigantína. Brigantína er seglskip með tvö möstur. Framsiglan er með þversegl og messansiglan með gaffalsegl, andstætt briggskipi, þar sem bæði möstrin eru með þversegl. Brigantínan hefur einnig verið kölluð skonnortubrigg. Kassúbíska. Kassúbíska er indóevrópskt tungumál af ætt slavneskra tungumála. Kassúbíska er rituð með afbrigði af Latnesku letri. Osmín. Osmín er frumefni með efnatáknið Os og er númer 76 í lotukerfinu. Þetta er harður, stökkur, grá-blár eða svart-blár hliðarmálmur sem tilheyrir platínuflokknum og hefur hæstu eðlisþyngd allra náttúrulegra frumefna. Almenn einkenni. Osmín í málmformi er gríðarlega eðlisþungur. Það er gráblátt eða svarblátt, stökkt og gljáandi, jafnvel við hátt hitastig, en er erfitt í framleiðslu. Auðveldara er að framleiða osmín í duftformi, en ef það kemst í snertingu við loft myndar það osmín tetroxíð (OsO4), sem er eitrað. Oxíðið er einnig öflugt oxandi efni, gefur frá sér sterka lykt og sýður við 130°C. Sökum gríðarlega hás eðlismassa, er osmín yfirleitt talið vera þyngsta þekkta frumefnið, rétt þyngra en iridín. Þessi málmur hefur hæsta bræðslumark og lægsta gufuþrýsting allra efna í platínuflokknum. Algeng oxunarstig osmíns eru +3 og +4, en fundist hafa oxunarstig frá +1 til +8. Notkun. Sökum gríðarlega eituráhrifa oxíðs þess, er osmín sjaldan notað í hreinu formi, og er í staðinn oft blandað saman við aðra málma sem notaðir eru svo í slitþolna hluti. Osmínmálmblöndur eru gríðarlega harðar og ásamt öðrum platínuflokksmálmum næstum eingöngu notað í odda á lindarpennum, plötuspilaranálar, kúluvölur og rafsnerta. Osmín tetroxíð hefur verið notað í fingrafarsgreiningu og til að lita fituvefi á sýnisglerum smásjáa. Blanda 90% platínu og 10% osmíns er notað í ígræðslur, eins og til dæmi hjartagangráða og staðgengla fyrir lungnaslagæðalokur. Tetroxíðið (og skylt efnasamband, kalínosmat) eru mikilvægir oxarar í efnasmíði. Saga. Osmín (gríska "osme" sem þýðir „lykt“) var uppgötvað árið 1803 af Smithson Tennant í London í Englandi, ásamt iridíni í leifum upplausnar platínu í kóngavatni. Tilvist. Þessi hliðarmálmur finnst í iridosmíni, sem að er náttúruleg málmblanda iridiíns og osmíns, og í platínuríku straumvatnsseti í Úralfjöllum, og Norður- og Suður-Ameríku. Það finnst einnig í nikkelgrýti við Sudbury, Ontario ásamt öðrum málmum í platínuflokknum. Jafnvel þó að upphæð platínumálma í þessu grýti sé lítil, gerir stór upphæð nikkelgrýtis sem unnið er með, hagkvæmt að vinna þessa málma úr því. Efnasambönd. Osmín tetroxíð (OsO4) Samsætur. Osmín hefur sjö náttúrulegar samsætur, og af þeim eru 5 stöðugar: Os-187, Os-188, Os-189, Os-190, og (algengust) Os-192. Os-184 og Os-186 hafa ótrúlega langan helmingunartíma og er almennt hægt að telja þær því stöðugar líka. Os-187 er dótturkjarni Re-187 (helmingunartími 4,56×1010 ár) og er oft mælt í hlutfalli Os-187/Os-188. Þetta hlutfall, ásamt hlutfalli Re-187/Os-187, hefur verið víða notað til að aldursgreina jarðneskt grjót, og einnig grjót úr loftsteinum. Það má þó geta þess, að mest þekktu not osmíns í aldursgreiningu efna hefur verið saman með iridíni, til að aldursgreina ákveðin leirlög sem merkja þann tíma er risaeðlurnar dóu út fyrir 65 milljón árum síðan. Varúðarráðstafanir. Osmín tetroxíð er baneitrað efni. Þéttleiki osmíns í lofti, allt niður að 10-7 g/m³, getur valdið lungnateppu, húð- eða augnskemmdum. Skonnorta. Skonnorta er seglskip með tveimur eða fleiri möstrum með gaffalseglum, þar sem fremsta mastrið er styttra en hin, bugspjót og stagsegl. Flestar skonnortur eru með gaffalsegl og þríhyrnt toppsegl. Fullbúin skonnorta er með þrjú framsegl. Þær voru fyrst notaðar af Hollendingum á 16. og 17. öld. Skonnortur gátu verið mjög mismunandi að stærð. Stærsta skonnorta sem smíðuð hefur verið var "Thomas W. Lawson", smíðuð 1902, sem var 120 metrar að lengd, með sjö möstur og 25 segl. Afbrigði af skonnortum eru "toppseglsskonnorta", sem er með tvö rásegl á fokkumastrinu (yfirtoppsegl og undirtoppsegl) og "bramseglsskonnorta" sem er með þrjú (bramsegl, yfirtoppsegl og undirtoppsegl). Skonnortur á Íslandi. Skonnortur voru algeng sjón við Íslandsstrendur við lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar þar sem Frakkar notuðu þær á Íslandsmiðum. Eina skonnortan sem nú er í notkun á Íslandi er hvalaskoðunarbáturinn "Haukur" frá Húsavík sem var áður eikarvélbátur en breytt í tvímastra skonnortu árið 2002. Skype. Skype er forrit sem byggist á VoIP-símaþjóni. Forritið var skrifað af höfundum P2P skráardeilingarforritsins Kazaa, Janus Friis og Niklas Zennström. Hægt er að nota Skype til IP-símasamskipta milli tveggja tölva, eða á milli tölvu og síma. Forritið keyrir á Windows 2000, XP og Vista. Einnig á ýmsum Linux dreifingum sem notast við x86 örgjörva, Mac OS X eða PDA lesara með lófatölvum. Snjóflóð. Snjóflóð verða þegar snjófarg rennur niður brekku eða fjallshlíð. Ástæður snjóflóða eru margar, en oftast eru það veðrabreytingar og hvassviðri sem valda flóðunum. Einnig geta jarðskjálftar eða gjörðir manna ýtt af stað snjóflóði. Mest er hættan þegar blautum snjó kyngir niður á annað frosið snjólag. Þessi tvö lög eiga erfitt með að bindast saman og því rennur hið efra niður.Í flestum tilvikum fara snjóflóð af stað í halla sem nemur 25 til 60 gráðum. Á Íslandi eru snjóflóð algengasta dánarorsök af völdum nátturuhamfara. Fyrsta heimild um snjóflóð er frá 1118 og síðan þá er getið 680 dauðsfalla vegna snjóflóða, en listinn hér að neðan nær einungis til heimilda um þau flóð sem hægt er að finna á Veðurstofu Íslands eða Vef Alþingis. Auk tímarits og blaða greina. Leónska. 251px251pxLeónska (leónska: „llionés“) er indóevrópskt tungumál af ætt rómanskra tungumála. Málið á uppruna sinn í alþýðulatínu. Hún er móðurmál um 25.000 manns á Spáni og Portúgal í Suðvestur-Evrópu. Leónska tilheyrir rómanskum málum, eins og ítalska, spænska, franska og portúgalska. Tokkaríska. Tokkaríska er ein af minnst þekktu greinum indóevrópskra tungumála. Hún skiptist í tvö tungumál: Tokkarísku A (agnísku, túrfönsku, karasjarísku eða austurtokkarísku) og Tokkarísku B (kútsjönsku eða vesturtokkarísku). Þau voru töluð af Tokkörum í Tarímdældinni (sem nú er Sinkiang í Kína) í Mið-Asíu á 6. öld til 8. aldar þegar þau dóu út fyrir áhrif frá úígúrum sem tóku að sækja inn í Tarímdældina um 800. Tokkarísku málin og tokkaríska stafrófið voru óþekkt þar til handrit rituð á tokkarísku uppgötvuðust fyrir tilviljun í byrjun 20. aldar. Efni þessara handrita er einkum þýðingar helgar á búddískum sanskrít-textum en auk þess er um að ræða ýmis skjöl úr klaustrum búddamunka, reikninga og verslunarbréf. Jörundur Hilmarsson hóf að gefa út tímarit á Íslandi sem fjallaði eingöngu um Tokkarísk fræði árið 1987 ("Tocharian and Indo-European Studies"), en þegar hann lést 1992 fluttist útgáfa þess til Danmerkur. Jörundur hóf einnig ritun orðsifjaorðabókar tokkarískunnar sem Málvísindastofnun gaf síðan út í sérriti sem nefnist "Materials for a Tocharian Historical and Etymological Dictionary" og inniheldur drög að þeirri bók, en Jörundur lauk ekki við hana fyrir andlát sitt. Búrma. Búrma eða Búrmasambandið (áður Burma eða Sambandsríkið Mjanmar) er stærsta ríkið á meginlandi Suðaustur-Asíu. Það á landamæri að Alþýðulýðveldinu Kína í norðri, Laos í austri, Taílandi í suðaustri, Bangladess í vestri og Indlandi í norðvestri. Það á strönd að Andamanhafi í suðri og Bengalflóa í vestri. Landinu hefur verið stýrt að meira eða minna leyti af herforingjastjórn frá árinu 1962. Saga. Á fimmtu öld fyrir Krist var stofnað konungsríki í þorpinu Tagaung en það er staðsett við efri hluta Irawadifljótsins, um það bil 160 km norðan núverandi Mandalay. Þar ríktu fimmtíu konungar af sömu ætt þar til tatarar réðust inn í landið úr norðri og lögðu það undir sig. Þá flúði afkomandi síðasta konungsins suður til Sri Khettara og stofnaði nýtt konungsríki meðal Pyu-ættbálksins. Á svipuðum tíma kom fólk af þjóðflokki Mon-Kmera (annaðhvort kallað Mon eða Talaing (indverska: Telegana)) frá Indlandi og settist að í óshólmum Irawadi. Þetta fólk flutti með sér búddatrú. Á fyrstu öld fyrir Krist komst konungsríki Pyu undir stjórn Mon. Frændi 27. Pyu-konungsins safnaði saman fólki af Pye ættbálki og leiddi í tólf ára göngu til Pagan, þar sem annað fólk af ættbálki Pyu hafði setzt að. Þar varð til hin fræga Paganhöfðingjaætt en mestur konunga hennar var hinn 42. (Anawrahta)sem ríkti á blómaskeiði ríkisins á 11. öld. Pagan ríkið leið undir lok á 13. öld með innrás Mongóla. Innrás Mongóla og ríkið skiptist upp í lítil furstadæmi. Ríkið var sameinað á ný af höfðingjaætt Ava sem ríkti í Ava (nærri núverandi Mandalay) árin 1364-1555. Höfðingjaætt Toungoo ríkti árin 1486-1752. Þekktastur konunga hennar var Bayinnaung sem ríkti árin 1651-1681. Undir hans stjórn varð Búrma að öflugasta og virtasta ríki Suðaustur-Asíu. Árið 1767 kom til styrjaldar við nágrannaríkið Tæland. Toungoo-ættin missti völdin aftur til Mon höfðingjaættarinnar sem endurreisti ríki sitt í Pegu. Monættin lagði meðal annars undir sig Arakan (1785) og Manipur og Assan (1819). Búrmanir háðu þrjár styrjaldir við Breta, 1824-26, 1852 og 1885 sem enduðu með ósigri Búrmana og innlimun landsins í breska heimsveldið. Betar fluttu árið 1886 síðasta konung Mon-ættarinnar, Thibaw (1878-1885), til Indlands og gerðu Búrma að indversku héraði. Búrma fékk eigin stjórnarskrá árið 1937 og var aðskilið frá Indlandi. Fimm árum síðar fóru Bretar brott áður en Japanir gerðu innrás í landið. Japanska hernámið stóð fjögur ár. Bretar hröktu Japani á brott 1945 og leiðtogi Búrmana, Bogyoke Aung San forseti hóf baráttu fyrir sjálfstæði landsins. Hann var myrtur skömmu áður en Búrma lýsti yfir sjálfstæði. Hinn 2. maí 1962 stýrði Ne Win hershöfðingi valdatöku hersins til að koma í veg fyrir skiptingu ríksins og settist að völdum. Stjórn hans þjóðnýtti alla mikilvægustu atvinnuvegi og leyfði aðeins einn stjórnmálaflokk. Selfoss. Selfoss er þéttbýliskjarni í Sveitarfélaginu Árborg og stendur á bökkum Ölfusár, sunnan Ingólfsfjalls. Selfyssingar eru nú tæplega 7000 að tölu. Saga. Selfoss var lengst af venjulegur sveitabær í Sandvíkurhreppi. Nafn sitt dregur bærinn af flúðum neðan Selfosskirkju sem kallast "Selfoss", vegna selagengdar í ánni. Þéttbýlið tók á sig mynd í kringum Ölfusárbrúna, þegar á smíði hennar stóð, og seinna meir í kringum Mjólkurbú Flóamanna. Hinn 1. janúar 1946 var bærinn gerður að sérstökum hreppi, "Selfosshreppi", ásamt nánasta umhverfi sínu, enda hafði íbúum fjölgað verulega áratugina á undan. Auk Sandvíkurhrepps lögðu Hraungerðishreppur og Ölfushreppur land til hins nýja hrepps. Kaupstaðarréttindi fékk Selfoss 18. maí 1978. 20 árum síðar, hinn 7. júní 1998 sameinaðist Selfosskaupstaður Sandvíkurhreppi, Eyrarbakkahreppi og Stokkseyrarhreppi undir merkjum "sveitarfélagsins Árborgar". Ferjur. Bóndinn í Kaldaðarnesi hafði einkarétt á ferju yfir Ölfusá frá því um 1200. Hvenær ferja við Laugardæli kom er ekki vitað, en í Jarðabók Árna Magnússonar frá árinu 1709 kemur fram að þessi ferja sé til staðar. Við afnám einokunarverslunarinnar 1787 jókst umferð um Laugardælaferju en þá hófust líka deilur um hvar lögboðin ferja skyldi vera á ánni. Var úrskurðað að hún skyldi vera í Laugardælum. Ferjan sjálf tók land vestan í svokölluðum Ferjuhól við Svarfhól, þar sem nú er golfvöllur Selfoss. Ölfusárbrú. Á þinginu 1879 var veitt 100 þúsund krónum til brúargerðar á Þjórsá og Ölfusá. Tryggvi Gunnarsson bauð í og fékk verkið. Með honum var Vaughan & Dymond-málmsmíðafyrirtækið í Newcastle upon Tyne. Tilboð Tryggva og Vaughan & Dymond hljóðaði upp á 66.000 kr. 1889 fór Tryggvi að undirbúa komu brúarinnar og uppsteypu stöplanna lauk á höfuðdag 1890. Þetta sama sumar var reist íbúðarhús Tryggva, sem þá var kallað "Brohús" en gengur nú undir nafninu Tryggvaskáli. Síðsumars 1890 var brúarefninu sjálfu uppskipað á Eyrarbakka og flutt um veturinn á hjarni að Selfossi. Þann 15. júní 1891 hófst brúarsmíðin af alvöru og var brúin síðan vígð 8. september 1891. Margir sóttu Selfoss heim, meðal annars frá Eyrarbakka og jafnvel austan yfir Þjórsá. Magnús Stephensen landshöfðingi flutti tölu og að lokum var Brúardrápa Hannesar Hafstein flutt. Árið 1944 kom mjólkurbíll frá Reykjavík með annan í togi og þoldi brúin ekki þyngdina svo annar brúarstrengurinn slitnaði. Brúin hékk á brúarstrengjunum vestanmegin og var síðar hífð upp og gert við hana til bráðabirgða. Úr járnbitum brúarinnar gömlu var seinna smíðað burðarvirkið undir hringsvið Þjóðleikhússins, og stendur það enn. Farið var að byggja nýja brú við hlið þeirrar gömlu og sú gamla loks rifin. Nýja brúin, sem enn þjónar sínum tilgangi, var tekin í notkun 22. desember 1945. Er hún 84 metra löng milli stöpla. Vegir. Frá Selfossi að Ingólfsfjalli var lagður vegur 1891. Sama ár var Vegagerðin við vegavinnu í Kömbum og er það grunnurinn að Hellisheiðarvegi eins og hann er í dag, þó annað vegarstæði sé komið í Kömbunum sjálfum. Þjóðvegur 1, eða Suðurlandsvegur liggur gegnum Selfoss, kemur yfir brúna og fer austur úr Tryggvatorgi. Í gegnum Selfoss kallast vegurinn Austurvegur og er aðalumferðaræð bæjarins. Niður Eyrarveg liggur Eyrarbakkavegur frá hringtorginu við brúna (Tryggvatorgi) og allt niður að Óseyri og Þorlákshöfn eða hér um bil. Rétt austan Selfoss er síðan Gaulverjabæjarvegur, eða Bæjarhreppsvegur. Liggur hann til suðurs frá þjóðveginum, rétt austan hesthúsabyggðar Selfyssinga. Víetnam. Víetnam er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Alþýðulýðveldinu Kína í norður, Laos í norðvestur og Kambódíu í suðvestur, og strandlengju að Suður-Kínahafi. Íbúar landsins eru 85 milljónir, og er það 13. fjölmennasta ríki heims. Sjávarútvegur. Hlutfall sjávarútvegs af vergri landsframleiðslu Víetnams árið 2005 var 4%. Árið 2002 var framleiðsla sjávarútvegsins um 1,4 milljón tonn til manneldis en 1 milljón tonn í fóðurframleiðslu o.fl. Framleiðsla alls var hins vegar komin upp í 3,5 milljónir tonna árið 2006. Strandlengja Víetnams er 3260 km og skiptist veiðisvæðið í fjóra aðalhluta; við Tonkinflóa (ásamt Kína), Mið-Víetnam, Suðaustur-Víetnam og við Suðvestur-Víetnam (ásamt Kambódíu og Taílandi) sem er hluti af Taílandsflóa. Á þessu svæði eru yfir 80 hafnir sem hafa burði til að taka við vélknúnum bátum sem voru 81 þúsund árið 2003. Þær eru hins vegar misstórar og ekki allar eru fullbúnar fyrir þróaðan sjávarútveg og lendir mikill hluti aflans í staðbundnum bæjar- og þorpsmörkuðum á verulega gamaldags hátt. Vinnslustöðvar rísa þó hratt við hafnirnar og ísunaraðferðum fleygir áfram á vissum stöðum. Veiðar alveg við ströndina eru mjög mikilvægar fyrir fátækari hlið sjávarútvegsins. Um 30 þúsund óvélknúnir bátar og kanóar starfa þar og um 45 þúsund litlir vélknúnir, en enginn notast við höfn heldur er unnið beint af ströndinni. Helstu veiðarfæri eru net, lína og gildrur. Floti Víetnam þegar veitt er á grunnsævi aðeins lengra frá ströndum þess samanstendur af um 20 þúsund vélknúnum bátum sem eru nánast allir úr viði. Mest eða um 30% er veitt í botnvörpur, 26% í nætur og 18% í net. Mikilvægustu tegundir Víetnams eru rækja, túnfiskur, smokkfiskur, karfi, skelfiskur og litlar uppsjávartegundir. vatnarækt í Víetnam er einnig mikilvægur hluti fiskframleiðslunnar og eru mikilvægar tegundir meðal annars steinbítstegundir, risa rækjur, humar, krabbi, karfi og tilapia. Innanlandsveiðar utan eldis reka svo lestina en ferskvatnsveiðar voru mikilvægar fyrir efnahag landsins áður fyrr. Ofnýting hafði slæm áhrif á þann iðnað, þó að Mekong áin sé ennþá mikilvægur hluti af fiskframleiðslu í Víetnam. Kirgisistan. Kirgisistan eða Kirgistan, sjaldnar Kirgísía (kirgisíska: Кыргызстан, "Kirgizstan") er landlukt land í Mið-Asíu með landamæri að Kína, Kasakstan, Tadsjikistan og Úsbekistan. Kirgisistan var Sovétlýðveldi til 1991 þegar landið fékk sjálfstæði. Forseti landsins, Askar Akajev, sagði af sér 4. apríl 2005 í kjölfar túlípanabyltingarinnar. Eftirmaður hans, Kurmanbek Bakiyev, neyddist einnig til að segja af sér og flýja land í kjölfar blóðugra uppþota árið 2010. Héruð í Kirgisistan. Kirgisistan skiptist í sjö héruð (kirgisíska: областтар, "oblasttar") sem héraðsstjórar stjórna. Höfuðborgin, Bishkek, og önnur stærsta borgin, Osh, eru sjálfstæðar með sömu stjórnsýslulegu stöðu og héruðin. Hvert hérað skiptist í nokkur umdæmi ("raion") með umdæmisstjórum sem ríkisstjórnin skipar. Sveitahéruð ("ayıl ökmötü") með allt að 20 smáþorpum hafa sinn eigin kjörna sveitarstjóra og sveitarstjórn. Heimastjórnarsvæði Palestínumanna. Grænu svæðin sýna þau svæði innan Vesturbakkans og Gasastrandarinnar sem voru undir stjórn Heimastjórnar Palestínumanna árið 2007. Heimastjórnarsvæði Palestínumanna eru þrjú svæði (Vesturbakkinn, Gasaströndin og Austur-Jerúsalem) í Palestínu sem eru að nafninu til undir stjórn heimastjórnar Palestínumanna sem stefnir að stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna á þessum svæðum í samræmi við ákvæði Oslóarsamkomulagsins. Stjórn Ísraels gerir þó tilkall til svæðanna og þau eru í reynd undir stjórn Ísraelshers. Flest aðildarríki Sameinuðu þjóðanna vilja því tala um þessi svæði sem „hernumin svæði“, en Ísraelsstjórn og bandamenn hennar vilja tala um þau sem „umdeild svæði“. Þessum svæðum er stundum ruglað saman við "hernumdu svæðin" sem Ísrael hertók í Sex daga stríðinu 1967 og telja, auk Vesturbakkans og Gasastrandarinnar, Gólanhæðir sem Sýrlendingar gera tilkall til og Sínaískaga sem var skilað aftur til Egyptalands. Kambódía. Kambódía er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Taílandi í vestri, Laos í norðri og Víetnam í austri. Í suðri á landið strandlengju að Taílandsflóa. Opinbert nafn landsins á khmer er 150px, umskrifað með latneskum bókstöfum: "Preăh Réachéanachâkr Kâmpŭchea", þ.e. "Konungsríkið Kambódía". Í daglegu tali nefna landsmenn landið „Kampútsea“. Á vesturlöndum er hins vegar nafnið „Kampútsea - Kampuchea“ tengt stjórnatíma Rauðu khmeranna 1975–79. Íbúafjöldi er rúmlega 13 miljónir. Höfuðborg og jafnframt stærsta borg landsins er Phnom Penh. Flestir íbúar Kambódíu eru theravada búddhistar en þar búa auk þess allmargir múslimar sem nefndir eru Cham, Kínverjar, Víetnamar og aðrir minnihlutahópar. Landslag og atvinnulíf einkennist mjög af tveimur miklum vatnakerfum, Mekong-fljótinu og Tonle Sap-fljótinu. Fyrir utan að hrísgrjónaræktunin er mjög háð þessum vatnakerfum eru fiskveiðar í þeim ein aðalundirstaða í mataræði almennings. Fyrir utan landbúnað og fiskiveiðar eru helstu atvinnugreinar í Kambódíu saumur á fatnaði til útflutnings, ferðaþjónusta og byggingarstarfsemi. Nafn. Íslenska nafnið "Kambódía" er komið af franska nafninu "Cambodge" sem er afbökun á nafni innlendra "Kampútsea" (stafað á ensku og frönsku og fleiri málum "Kampuchea"). Það þýðir afkomendur Kambu en það er samkvæmt fornri sköpunarsögu Khmera sjálfur forfaðir þeirra. Nafnið Kampútsea hefur verið notað í það minnsta frá 12. öld og er enn það nafn sem íbúarnir nota. Á tuttugustu öld var oft skipt um opinbert nafn allt eftir stjórnmálaástandi hvers tíma. Meðan landið var undir franskri stjórn var það einungis hérað í Frönsku Indókína, "protectorat français sur le Cambodge". Eftir sjálfstæðið árið 1953 hét landið opinberlega á frönsku "Royaume du Cambodge" ("Konungsríkið Kambódía") fram til ársins 1970. Frá árinu 1970 fram til ársins 1975 kallaði stjórn Lon Nol landið "République khmère" ("Lýðveldi Khmera"). Rauðu Khmerarnir kölluðu landið "Kampuchéa Démocratique" ("Lýðræðislega Kampútsea") frá árinu 1975 fram til ársins 1979. Eftir innrás Víetnama árið 1979 og fram til árins 1989 kölluðu ráðamenn landið "République populaire du Cambodge" ("Alþýðulýðveldið Kambódía"). Frá árinu 1989 til árins 1993 hét landið "Etat du Cambodge" ("Kambódíska ríkið"). Og frá 1993 heitir það að nýju "Royaume du Cambodge" ("Konungsríkið Kambódía"). Söguágrip. Í hátt í 2000 ár hefur menningarheimur suðaustur Asíu einkennst af sterkum straumum frá Kína annars vegar og Indlandi hins vegar. Lengi vel var Kambódía miðstöð í þessum menningarheimi, móttakandi áhrifa og umskapandi og áhrifavaldur. Allt frá hindúískum og búddískum konungsríkjum Funan og Chenla á fyrstu frá á áttundu öld eftir Krist og hinu mikla Angkor-veldi á níundu öld og fram að lokum fimmtándu aldra réðu valdamenn Kambódíu yfir stærsta hluta þess svæðis sem nú er Taíland, Víetnam og Laos. Khmer-veldið stóð sem hæst á 12. öld á stjórnartíma Jayavaram VII og má enn sjá merki þess í musterisbygginunum miklu í Angkor Wat og Bayon, hins vegar er ekki mikið eftir af höfuðborg ríkisins Angkor Thom sem á sínum tíma var stærsta borg í heimi. Musterið Angkor Wat Frá 16. öld fór veldi Kambódíu hnignandi og lögðu annars vegar konungar Taílands og hins vegar konungar Víetnam undir sig stóran hluta þess sem áður heyrði til landsins og var búið khmer-talandi íbúum. Seint á nítjándu öld og að hluta til rétt eftir aldamótin 1900 lögðu Frakkar undir sig landið og gerðu að nýlendu, hluta af svo nefndri Frönsku Indókína. Japanir hernámu landið í seinni heimstyrjöldinni. Síðan tók við margra áratuga barátta, fyrst fyrir sjálfstæði frá Frakklandi, sem náðist árið 1953. Þá tók fljótlega við borgarastyrjöld og barátta við bandarískt herlið í því sem nefnt hefur verið Seinna Indókínastríðið en þekktara er meðal almennings sem Víetnamstríðið. Helsti ráðamaður í Kambódíu á árunum frá árinu 1954 fram til árins 1970 var Sihanouk prins. Árin 1975 til 1979 réðu Rauðu khmerarnir (Khmer Rouge) yfir öllu landinu. Þetta var harðsnúin kommúnistahreyfing undir forystu Pol Pots sem ætlaði að hreinsa landið frá erlendum áhrifum og skapa jafnréttisríki sveitamanna. Sú umbyltingartilraun endaði með blóðbaði, áætlað er að minnsta kosti 1,5 milljónir kambódíumanna hafi verið drepnir eða dáið úr hungri og illri meðferð á valdatíma rauðu khmeranna og býr landið enn að afleiðingum þessara hörmunga. Her Víetnama réðist inn í Kambódíu árið 1979 og tókst að hrekja Rauðu khmerana frá völdum en settu fylgismenn sína á valdastól. Skæruliðabardagar héldu þó áfram í stórum hluta landsins þar til Rauðu khmerarnir endanlega gáfust upp árið 1999. Í landinu ríkir nú formlega lýðræðislegt stjórnskipulag en þrátt fyrir miklar framfarir á mörgum sviðum er spilling af öllu tagi mikið vandmál á öllum sviðum þjóðfélagins. Hun Sen, núverandi forsætisráðherra, hefur verið helsti ráðmaður Kambódíu allt frá innrás Víetnama 1979. Frá 1979 til 1990 var hann utanríkisráðherra en tók einnig við embætti sem forsætisráðherra árið 1985 og hefur verið það síðan. Landlýsing. Kort af Kambódíu Kambódía er heldur stærra en Ísland að flatarmáli eða um 180.000 km², um 450 km frá norðri til suðurs og um 580 km frá austri til vesturs. Miðhluti landsins einkennist af mikilli setlagasléttu í kring um Tonle Sap vatnið og samnefnt fljót og efri hluta Mekongfljótsins. Í norður hækkar landið í um 500 m hæð í Dangrek fjallgarðinum þar sem landamærin við Taíland liggja. Austan við Mekong í norðri hækkar landið upp í skógi þakið fjallasvæði sem halda áfram inn í Laos og Víetnam. Í suðvesturhluta landsins eru tvö hálendissvæði, Krâvanh (Kardimommu) fjöllin og Dâmrei (Fíla) fjöllin. Fyrir norðaustan Fílafjöllin er hæsta fjall í Kambódíu, Phnom Aôral, sem rís í 1813 metra hæð. Mjótt láglendissvæði er meðfram Taílandsflóa. Þorp við Tonle Sap á rigningartímanum Vatnakerfi Mekong-fljóts og Tonle Sap-fljóts eru mjög afgerandi fyrir landslag og náttúru. Mekong-fljótið á upptök á hásléttu Tíbets og rennur út í Suður-Kínahaf, Khone fossarnir eru á landmærum Laos og Kambódíu og loka fyrir skipaferðir fyrir ofan og neðan fossana. Mekong-fljótið rennur í 510 km suður og síðan suðaustur í gengum Kambódíu. Mekong-fljótið og Tonle Sap-fljótið mætast við Phnom Penh. Á regntímanum, sem oftast stendur yfir frá miðjum maí fram í byrjun október eykst vatnsmagnið í Mekong svo gífurlega að straumur Tonle Sap-fljóts snýst við og vatnið rennur upp í vatnið Tonle Sap. Við það stækkar vatnið frá 3100 km², sem það er á þurrkatímum, upp í 7800 km². Þegar hættir að rigna snýst straumurinn við á nýtt. Þetta árlega fyrirbæri gerir vatnasvæði Tonle Sap að afar merkilegu og sérstöku lífríki. bæði er þar mikill fjöldi fiskitegunda og mikið magn af fiski. Veðurfar. Monsúnvindar stjórna veðurfari í Kambódíu og eru þar tvær megin árstíðir. Frá miðjum maí fram í októberbyrjun er ráðandi suðvestan vindar sem bera með sér mikla úrkomu. Frá miðjum nóvember fram að miðjum mars er vindáttin einkum úr norðaustri og og er þá oftast frekar léttskýjað og lítil úrkoma. Það er frekar heitt allt árið um kring, í kaldast mánuðinum, janúar, er meðalhiti um 28 °C og um 35 °C í apríl. Mikill munur er á úrkomu í landinu, um 5000 mm á fjallasvæðum suðvestanlands en einungis 1270–1400 mm á láglendissvæðinu í miðju landinu. Þrír fjórðu hlutar árlegar úrkomu fellur á rigningartímanum. Lífríki. Fíll og tígrisdýr, teikning frá 1911 Láglendissvæðið sem nær yfir stóran hluta Kambódíu er að miklu leiti þakið hrísgrjónaökrum og annarri akuryrkju. Þar eru þó einnig skógarsvæði og graslendur. Eftir því sem hærra dregur taka við skógarsvæði og gresjur þar sem grastegundir vaxa sem ná allt að 1,5 m hæð. Hálendissvæðin í norðri og suðri eru þakin miklum skógum þar sem trén verða allt að 45 m á hæð. Í skógarsvæðunum í norðaustur lifði til skamms tíma mikill fjöldi villtra dýra eins og á nálægum svæðum í Laos og Víetnam. Styrjaldir og óheft veiði hefur gengið hart á flest stofna dýra á þessu svæði. Þar má þó enn finna Asíu fíla ("Elephas maximus"), Indókínverska tígrisdýrið ("Panthera tigris corbetti"), hlébarðar ("Panthera pardus"), svartbirni ("Ursus thibetanus"), sólbirni ("Helarctos malayanus"), hinn risavaxna gáruxa ("Bos gaurus") og fjöldi hjartardýrategunda. Nashyrningum, bæði af tegundunni Rhinoceros sondaicus og Dicerorhinus sumatrensis, er hins vegar búið að útrýma. í skógunum er að finna fjölda fuglategunda, meðal annars hinir villtu forfeður taminna hænsna, bankívahænsnin (Gallus gallus). Lýðfræði. Andstætt öðrum löndum í Suðaustur-Asíu hefur yfirgnæfandi meirihluti íbúa Kambódíu (um 90 %) sama móðurmál og telja sig til sömu menningar og eru þeir nefndir Khmer. Aðrir þjóðflokkar eru Víetnamar, Kínverjar, Cham (múslimar) og þar að auki allmargir hópar frumbyggja. Tungumálið khmer sem er móðurmál flestra íbúa Kambódíu er eitt helsta mál í mon-khmer tungumálfjölskyldunni sem er undirætt af ástró-asísku tungumálaættinni. Af frumbyggjamálunum eru katu, mnong og stieng mon-khmer mál en jarai og rhade eru ástrónesísk. Trúarbrögð. Búddha-munkar á bæn Flestir af þjóð Khmera eru Theravada búddistar eða um 95 % íbúa. Fram að árinu 1975 var búddismi opinber ríkistrú í Kambódíu. Rauðu khmerarnir bönnuðu með öllu öll trúarbrögð og helgiathafnir og myrtu fjölda munka og eyðilögðu að mestu skipulag búddismans í landinu. Sú stjórn sem Víetnamar komu að völdum studdi búddisma þó svo að það væri mjög takmarkaður stuðningur en theravada búddismi var endurreist sem opinber ríkistrú árið 1993. En 20 ára lægð hefur verið erfið að yfirvinna, trúin er langt því frá jafn áhrifarík og hún var fyrir árið 1975 hvorki í heimssýn almennings né í menningar og menntamálum. Frumbyggjaþjóðflokkarnir fylgja forfeðradýrkun og andatrú en Víetnamarnir og Kínverjarnir eru flestir fylgjandi mahayana-búddisma og dóisma. Einnig eru sumir Víetnamarnir kaþólskir eða fylgja Cao Dai. Minnihlutahópurinn Cham eru múslimar af sunní-gerð. Menntun. Sögulega séð hefur formleg menntun í Kambódíu einungis farið fram í búddamusterunum og þar með einungis ætluð karlmönnum. Samkvæmt hefð theravada búddista eiga allir karlmenn að helga sig trúnni um tíma og gerðu það allflestir drengir í nokkra mánuði þó svo að einungis fáeinir gerðust munkar ævilangt. Margir drengir fara enn í trúarnám í musteri þó það sé ekki nema nokkrar vikur eða mánuði. Á tíma frönsku nýlendustjórnarinnar voru einungis fáeinir skólar í landinu og einungis miðaðir að börnum aðalsmanna og kennsla öll á frönsku. Það var hins vegar ekki fyrr en eftir að landið fékk sjálfstæði 1953 sem tekið var við að byggja upp nútíma skólakerfi þó svo að einungis lítill hluti barna færu í skóla. Eftir valdatöku Rauðu khmeranna 1975 var öll formleg menntun lögð af, öllum menntastofnunum lokað og flestir kennarar drepnir og þeir sem undan komust flúðu flestallir land. Það var því mikið átak að hefja uppbyggingu skólakerfisins að nýju á níunda og tíunda áratug tuttugustu aldar. Nú er svo komið að um 90% allra barna eru innrituð í sex ára skyldugrunnskóla en einungis um 50% þeirra ljúka skólaskyldunni. Enn færri halda áfram upp á mennta- og iðnskólastig. Það er þó mikil uppbygging á öllum skólastigum. Á síðustu árum hefur sprottið upp fjöldi stofnana sem kalla sig háskóla en gæði kennslu í flestum þeirra er ekki sérlega mikil. Ólæsi er enn mikið vandamál en samkvæmt könnunum eru nærri 40% allra kvenna eldri en 15 ára ólæsar og um 30% karla. Atvinnulíf. Kambódía er eitt af fátækustu löndum heims og um 40 % íbúa þéna undir fátækramörkunum 1,35 bandaríkjadollar á dag 2006. Langflestir íbúar landsins lifa af landbúnaði og fiski og stunda um 70 % allra fullorðinna sjálfsþurftarbúskap. Hrísgrjónarækt er þar í sérflokki, aðalfæða og var lengi aðalútflutningsvara. Hrísgrjónaakrar þekja stærstan hluta ræktaðs lands en talið er að einungis 13 % flatarmáli landsin sé ræktanlegt. Enn er að finna víða um land mikið magn af sprengjum frá Víetnamstríðinu svo nefnda og er það stórt vandamál í akuryrkju. Um 1970 voru um þrír fjórðu hlutar alls lands í Kambódíu þaktir skógi en um árið 2000 hafði skóglendi minnkað í um það bil helming landsins. Þrátt fyrir að yfirvöld reyni opinberlega að hindra og stjórna skógarhöggi er enn þá mikið höggvið af skógi á svæðunum nálægt Taílandi annars vegar og Víetnam hins vegar. Þetta er mikið vandamál og hluti af almennri spillingu í landinu. Kambódía hefur haft mikinn efnahagsvöxt síðasta áratuginn eða um 5 % á ári. Það er einkum textíliðnaður og ferðamannaþjónusta sem hefur vaxið. Textíliðnaðurinn er nánast eingöngu fatasaumur og var fataútflutningur 2008 94 % af heildarútflutningi landsins. Stærsti hluti textíliðnaðar í Kambódíu er í eign kínverskra fyrirtækja en um tveir þriðjuhlutar framleiðslunnar er flutt út til Bandaríkjanna. Ferðamannaþjónusta er í hröðum vexti og eru það einkum ferðamenn frá Suður-Kóreu og Víetnam á ferð en auk þess vaxandi fjöldi vesturlandabúa. Árið 2005 komu um 1,4 milljónir ferðamanna til landsins en árið 2008 komu 2,1 milljón. Langflestir þessara ferðamanna fara til Siem Reap til að skoða Angkor Wat en einnig margir á sólarstrendur í Sihanoukville. Samgöngur. Umferð á Þjóðvegi númer 1 Vegir í Kambódíu voru afar illa farnir eftir sprengjuárásir bandaríkjahers á sjötta og sjöunda ártug 20. aldar og ekki bætti skæruhernaður og borgarstyrjöld sem stóð allt fram á tíunda áratuginn. Aðalumferðaræðar hafa tekið miklum framförum síðustu tíu árin og eru nú helstu vegir malbikaðir og geta borið mikla umferð. Bílaeign vex ört þó svo að mótorhjól séu mun algengari, bæði til fólks og vöruflutninga. Meirihluti íbúa hafa þó engin vélknúin faratæki heldur fara fótgangandi eða nota reiðhjól. Einungis tvær járnbrautir eru í landinu, hefjast þær báðar í Phnom Penh og gengur önnur til Sihanoukville en hin til Sisophon skammt frá landamærunum að Taílandi. Lestarnar fara stopult og eru á allan hátt óáreiðanlegar. Vatnakerfi Mekong og Tonle Sap fljótanna hafa verið helstu flutningaleiðir landsins og gegna enn mikilvægu hlutverki. Mekong-fljótið er skipafært allt frá árósum í Suður-Kínahafi og upp að Khone Pha Pheng fossunum á landamærunum við Laos. Það fer þó allt eftir árstíma hversu stórum skipum er fært upp fljótin. Í Kambódíu eru tvær meginhafnir, Phnom Penh og Sihanoukville. Phnom Penh er þar sem fljótin Bassac, Mekong og Tonle Sap mætast. Höfnin þar getur tekið 8000 tonna skipum á rigningartímanum og allt að 5000 tonna skipum á þurrkatímanum. Í landinu eru fjórir stærri flugvellir. Sá stærsti er í Siem Reap í næsta nágrenni við Angkor Wat og þjónar hann yfirgnæfandi meirihluta ferðamanna til landsins. Pochentong flugvöllurinn í Phnom Penh er næst stærstur en flugvellirnir í Sihanoukville og Battambang eru mun minni. Gervigreind. a> notar skynjara og ályktanir til að stjórna hreyfingum sínum. Gervigreind er vitræn hegðun véla og sú grein tölvunarfræði sem leitast við að búa hana til og nefnist hún þá einnig gervigreindarfræði. Helstu kennslubækur um gervigreind skilgreina fagið sem "„rannsókn á og hönnun vitrænna geranda“, þar sem greindur gerandi er kerfi sem skynjar umhverfi sitt og framkvæmir aðgerðir sem hámarka möguleika þess á árangri. John McCarthy sem setti hugtakið fyrstur fram árið 1956 skilgreinir það sem „þau vísindi og verkfræði sem snúast um að búa til greindar vélar.“ Fagið var stofnað á grundvelli þeirrar staðhæfingar að kjarnaeiginleika manna, greindinni - merkingu orðsins "sapiens" í "Homo sapiens" = „hinn vitiborni maður“ - megi lýsa svo nákvæmlega að láta megi vél líkja eftir henni. Það kallar fram heimspekileg umhugsunarefni um eðli hugans og takmörk vísindalegs hroka sem verið hafa efni goðsagna, skáldskapar og heimspeki síðan í fornöld. Gervigreind hefur gefið mönnum tilefni til geypilegrar bjartsýni, orðið fyrir lygilegum áföllum og er í dag ómissandi hluti tækniiðnaðarins þar sem hún leysir mörg erfiðustu verkefnin í tölvunarfræðum. Gervigreindarrannsóknir eru svo tæknilegar og sérhæfðar að sumir gagnrýnendur harma „tvístrun“ fagsins. Undirgreinar gervigreindar hverfast um tiltekin viðfangsefni, beitingu tiltekinna verkfæra og um gömul fræðileg ágreiningsefni. Helstu viðfangsefni gervigreindar snerta eiginleika svo sem röksemdafærslu, þekkingu, skipulagningu, nám, samskipti, skynjun og getuna til að hreyfast úr stað og meðhöndla hluti. Almenn gervigreind (eða „sterk gervigreind“) er ennþá langtímatakmark (sumra) rannsókna. Saga gervigreindar. Um miðja 20. öld hófu nokkrir vísindamenn að nálgast smíði greindra véla með nýjum hætti með því að nýta sér nýlegar uppgötvanir í taugafræði, nýja stærðfræðikenningu um upplýsingar, nýjan skilning á stjórn og stöðugleika sem nefndist stýrifræði og umfram allt uppgötvun er nefndist tölva, vél sem byggðist á hlutbundnu inntaki stærðfræðilegrar röksemdafærslu. Fag nútíma gervigreindarrannsókna var stofnað á ráðstefnu í Dartmouth-háskóla sumarið 1956. tölvur leystu orðaverkefni í algebru, sönnuðu rökfræðisetningar og töluðu ensku. Þessir spádómar og margir svipaðir rættust ekki. Vanmetið var hve erfið sum viðfangsefnanna voru. Árið 1974 brugðust stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi við gagnrýni hins enska Sir James Lighthill og vaxandi þrýstingi á báðum þingum um að beina fjármagni frekar í vænlegri verkefni með því að fella niður framlög til allra tilraunakenndra grunnrannsókna á gervigreind. Þar með hófst hinn svokallaði fyrri gervigreindarvetur. Snemma á 9. áratugnum gengu gervigreindarrannsóknir í endurnýjun lífdaga með góðum árangri sérfræðingakerfa á markaði (tegund gervigreindarhugbúnaðar sem líkti eftir þekkingu og greinigetu eins eða fleiri mennskra sérfræðinga). Árið 1985 náði markaður fyrir gervigreindarafurðir einum milljarði dala og opinbert fé tók að streyma til fagsins að nýju um allan heim. En í kjölfar þess að markaður fyrir Lisp-vélina hrundi aðeins nokkrum árum síðar árið 1987 datt gervigreind að nýju úr tízku og síðari gervigreindarveturinn hófst. Á 10. áratugnum og fyrstu árum 21. aldar náði gervigreind mesta árangri sínum þó það færi að mestu leyti ekki hátt. Gervigreind var tekin upp í öllum tækniiðnaðinum þar sem hún leysti erfiðustu viðfangsefnin í flutningafræðum, gagnagreftri, sjúkdómsgreiningu og á mörgum fleiri sviðum. Nokkrar ástæður voru fyrir þessum árangri: lygilegt reikniafl nýjustu tölva (sjá lögmál Moores), meiri áherzla á að leysa sérhæfð undirverkefni, ný tengsl sem uppgötvuðust milli gervigreindar og skyldra sviða, og síðast en ekki sízt aukin áherzla rannsakenda á vandaðar stærðfræðiaðferðir og nákvæm vísindaleg vinnubrögð. Gervigreindarfræði. Gerður er greinarmunur á mannlegri hugsun og hegðun annars vegar og rökrænni eða skynsamri hugsun eða hegðun hins vegar. Sá sem tapar í skák hefur gert sig sekan um að beita ekki rökrænni hugsun og því tapað, hann hefur engu að síður beitt mannlegri hugsun, mannleg hugsun og hegðun er ekki alltaf skynsamleg. Það er rétt að leiða aðeins hugann að hugtakinu „hugsun“ og þá væntanlega fyrir þá sem telja hugsun aðeins framkvæmanlega af lífræðilegum heilum. Hugsun er að sjálfsögðu efnaflutningur á milli eininga þar sem hver eining er sjálfstæð en án heildarinnar væri einingin gagnslaus líkt og maur án bús, það eru tækin sem hugsun notar. Við þurfum að líta á hugsun með opnum huga, meðvitund í örheimi er öðruvísi en meðvitund okkar. Ef við teljum að það þurfi hugsun til þess að tefla, aka bíl, þekkja andlit, semja ljóð, spá fyrir um veður, spá fyrir um hlutabréfamarkaðinn, sjúkdómsgreina, spila á hljóðfæri, semja tónlist, mála listaverk o.s.frv., þá hljótum við að samþykkja að tölvur hugsi því allt þetta hafa tölvur gert. Tölvur geta þó ekki framkvæmt þá hugsun sem þarf til þess að elska, reiðast eða hata, einfaldlega vegna þess að við skiljum ekki nákvæmlega þessar tilfinningar og hver og einn upplifir þær með mismunandi hætti. Tengimöguleikar líffræðilegs taugakerfis er eins og gefur að skilja mjög stór tala og því má leiða líkur að því að ekkert okkar hafi nákvæmlega sömu forsendur þó niðurstöður séu líkar. Tölvur geta enn sem komið er ekki framkvæmt hugsanir sem innifela sjálfstæðar tilfinningar. Kerfi sem hugsa eins og fólk. Hugfræði (cognitive science), sem er fremur grein innan sálfræðinnar en tölvunarfræðinnar, fjallar um þessa hlið gervigreindar þar sem skoðun á mönnum og dýrum með sálfræðilegum og atferlisfræðilegum tilraunum og sjálfsskoðun eru grundvöllur kenninga um hugsun og samskipti véla og manna. Kerfi sem hugsa rökvíst. Aristóteles var fyrstur til þess að skilgreina „rétta hugsun“, þ.e. hugsun sem er rökfræðilega rétt og er því upphafsmaður rökfræðinnar. Nútímarökfræði á upphaf sitt að rekja til 19. aldar og liggur á mörkum heimspeki og stærðfræði. Um miðbik 20. aldar voru komin fram forrit sem gátu leyst vandamál sem sett voru fram með rökfræðilegum hætti. Meginvandamálið hér er að það er ekki auðvelt að breyta óformlegum upplýsingum í rökfræðilegt form, sér í lagi ef upplýsingarnar eru minna en 100% öruggar. Annað vandamál er að það er mikill munur á því að geta leyst vandamál í raunveruleikanum og að setja upp formlegar aðferðir sem útskýra hvernig þau megi leysa. Kerfi sem hegða sér eins og fólk. Ekki hefur verið lögð mikil áhersla innan gervigreindar á að standast Turingprófið, einfaldlega vegna þess að krafan um að hegða sér eins og fólk hefur aðeins þýðingu þegar gervigreindarforrit hafa samskipti við fólk og er sá þáttur þá jafnan aðeins hýðið utanum kerfið sem sjaldnast er hannað með manninn sem fyrirmynd. Kerfi sem hegða sér skynsamlega. Að hegða sér skynsamlega þýðir að hegða sér með þeim hætti að það leiði til þess að settum markmiðum sé náð að gefnum forsendum. Þessi skilgreining gervigreindar hefur með það að gera að hanna skynsama gjörendur (rational agents). Að hugsa rökrænt getur verið þáttur í því er að hegða sér skynsamlega, skynsamir gjörendur þurfa hins vegar líka að geta brugðist við umhverfinu af skynsemi í tilfellum þar sem aðferðir rökrænnar hugsunar koma ekki að notum. Sem dæmi um slíkt má nefna tilfelli þar sem rökræn hugsun gefur enga niðurstöðu eða gefur ekki niðurstöðu innan tímamarka. Gervitauganet eru vissulega byggð á þekkingu okkar á starfsemi heilans, hvernig við lærum og hvernig við notfærum okkur það sem við lærum. Í mörgum tilfellum eru þau notuð í dag við lausn vandamála sem vélar geta leyst en maðurinn ekki. Við beitum gervitauganetum á þröng svið og nýtum okkur þá kosti sem tölva hefur umfram manninn, sem er hraði í meðhöndlun gagna. Gervigreind á Íslandi. Á Íslandi eru rannsóknir á gervigreind að færast í aukana. Árið 2005 var fyrsta rannsóknarsetur Íslands á sviði gervigreindar opnað:. Sama ár var stofnað „“. Til samans má búast við að þessar tvær stofnanir auki þekkingu og áhuga á málefnum gervigreindar á Íslandi og myndi frjórri farveg fyrir rannsóknir á því sviði en áður. Fram að þeim tíma hafði þó verið eitthvað um gervigreindartengd rannsóknarverkefni hérlendis. M.a. hafði Dr. Magnús S. Magnússon fengið viðurkenningar fyrir hugbúnað sinn THEME sem notar gervigreindaraðferðir til að greina mynstur. Árið 1998 tók til starfa fyrirtækið sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði gervigreindar og þá sérstaklega gervitauganetum og mynsturrannsóknum. Gervitauganet sem fyrirtækið hefur smíðað hafa verið notuð til greiningar á misferlum og mynsturrannsóknum misferla í milliríkjaviðskiptum með plastkort í Evrópu ásamt innanlandsviðskiptum í Bretlandi, Ítalíu og Tyrklandi. Árin 2007 og 2008 sigruðu fulltrúar Íslands í keppni um besta gervigreindarkerfið á ráðstefnu AAAI, alþjóðasamtaka um gervigreind, sem er stærsta gervigreindarráðstefna heims. Íslenska sigurliðið skipuðu, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og bæði árin auk Gylfa Þórs Guðmundssonar seinna árið. Árið 2005 var stofnað á Íslandi fyrirtækið sem hannar hugbúnað sem getur sinnt m.a. markaðsrannsóknum með aðstoð gervigreindar. Á árinu 2008 var svo stofnað fyrirtækið IceMedix sem ætlað er að nota gervigreind til að framlengja eða líkja eftir þekkingu sérfræðilækna. Þorsteinn Geirsson er verkefnastjóri beggja fyrirtækja. Fyrirtækið CCP, sem stofnað er á Íslandi og hefur þar kjarnastarfsemi sína, hefur á að skipa sérfræðingum í gervigreind tölvuleikja. CCP hefur styrkt keppni Háskólans í Reykjavík um svokalla „bílskúrsgervigreind“. Handhafi hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2008 var dr. Ari Kristinn Jónsson tölvunarfræðingur. Meðal annars á Ari að verulegu leyti heiðurinn af þeim gervigreindarhugbúnaði hjá NASA sem stjórnaði Deep Space One-geimfarinu árið 1999 og könnunarjeppunum sem lentu á Mars árið 2004. Frá árinu 2008 er Ari deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Bútan. Konungsríkið Bútan er lítið landlukt land í Himalajafjöllunum á milli Indlands og Kínverska alþýðulýðveldisins. Landið er mjög fjalllent. Suður-Kórea. Suður-Kórea eða Lýðveldið Kórea er land í Austur-Asíu. Það þekur syðri hluta Kóreuskaga og á landamæri að Norður-Kóreu nálægt 38. breiddargráðu. Kórea var eitt ríki til ársins 1948 þegar landinu var skipt í Kóreustríðinu. Maður frá Suður-Kóreu er á íslensku kallaður "Suður-Kóreumaður" eða "Suður-Kórei". Austur-Asía. Austur-Asía er gróflega skilgreind sem sá heimshluti þar sem menningaráhrifa Kína hefur mest gætt og hefðbundin kínverska, konfúsíusismi, mahajana búddismi og taóismi breiðst út. Þetta svæði skarast við það sem skilgreint hefur verið sem Austur-Asía á landfræðilegum forsendum, sem eru þau ríki sem venjulega eru talin til Austur-Asíu. Stundum eru Víetnam (af menningarlegum ástæðum) og Mongólía (af landfræðilegum ástæðum) líka talin til Austur-Asíu. Sjaldnar eru austurhluti Rússlands og Singapúr talin til þessa heimshluta. Vitus Bering. Vitus Jonassen Bering (ágúst 1681 - 19. desember 1741) var danskur heimskautakönnuður, fæddur og uppalinn í Horsens á Jótlandi. Hann réðst til starfa í flota Péturs mikla Rússakeisara árið 1703 og var í þjónustu hans til æviloka. 1710 til 1712 var hann í Azovshafsflotanum og barðist í stríði Rússa og Tyrkja. Hann giftist rússneskri konu og varð skipstjóri og leiðangursstjóri í könnunarleiðöngrum í Norður-Íshafinu. Félagar hans í rússneska sjóhernum og rannsóknarleiðöngrunum þekktu hann undir nafninu Ivan Ivanovich. Fyrsti leiðangur hans hófst árið 1725. Þá var viðfangsefnið það að finna út hvort Síbería væri landföst við Alaska. Árið 1728 staðfesti þessi leiðangur að á milli meginlandanna væri sund og hlaut það síðar nafn hans og var nefnt Beringssund. Árið 1737 fór hann í annan könnunarleiðangur á sömu slóðir til þess að kortleggja landið nánar. Leiðangurinn var á leið til baka frá Alaska árið 1741, þegar vistaskortur tók að hrjá þá og dóu nokkrir menn úr skyrbjúgi (að því er talið var) og þar á meðal Bering. Í ágúst árið 1991 fann dansk-rússneskur leiðangur gröf Berings og fimm annarra leiðangursmanna og voru þeir grafnir upp og fluttir til Moskvu. Þar tókst réttarlæknum að ráða í útlit Berings í lifanda lífi. Ennfremur kom í ljós, að tennur hans báru engin merki um skyrbjúg og virðist því dánarorsökin hafa verið önnur en hingað til hefur verið talið. Árið 1992 voru lík Berings og hinna fimm grafin öðru sinni á Beringseyju. Langur tími leið áður en mönnum varð fullljóst gildi rannsókna hans. Cook skipstjóri (Captain Cook) leiddi í ljós hversu nákvæmur athugandi Bering hafði verið. Nú bera nafn hans Beringssund, Beringseyja (þar sem hann dó og er jarðsettur), Beringshaf og Berings landbrúin. Norður-Asía. Norður-Asía er hluti Asíu sem nær yfir hluta Síberíu í Asíuhluta Rússlands. Gasaströndin. Gasaströndin er mjótt landsvæði í Mið-Austurlöndum við botn Miðjarðarhafsins og er ekki viðurkennt sem hluti neins sjálfstæðs ríkis "de jure". Það dregur nafn sitt af Gasaborg sem er stærsta borgin á svæðinu. Langflestir íbúanna eru Palestínumenn og svæðið er að nafninu til undir stjórn heimastjórnar Palestínumanna, en svæðin kringum landnemabyggðir Ísraelsmanna, helstu vegir og landamæri eru undir stjórn Ísraelshers. Gasaströndin er eitt þeirra svæða sem Ísraelar hertóku í Sex daga stríðinu 1967. Samkvæmt Oslóarsamkomulaginu frá 1993 heyrir Gasaströndin undir heimastjórn Palestínumanna og er ásamt Vesturbakkanum hluti heimastjórnarsvæða Palestínumanna. 15. ágúst 2005 hóf ríkisstjórn Ariels Sharon niðurrif landnemabyggða og brottflutning gyðinga og herstöðva Ísraelshers frá Gasaströndinni. Ísrael mun þó halda stjórn yfir hafsvæðinu undan ströndinni og mjórri landræmu með fram landamærunum við Egyptaland. Vesturbakkinn. Vesturbakkinn er landsvæði á vesturbakka árinnar Jórdan sem er ekki viðurkennt sem hluti af neinu sjálfstæðu ríki "de jure". "De facto" er svæðið að hluta undir takmarkaðri stjórn heimastjórnar Palestínumanna og að hluta undir stjórn Ísraelshers. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum ber landsvæðinu að vera, líkt og Gasaströndin, hluti af heimastjórnarsvæði Palestínumanna, og stjórn Ísraelshers því tæknilega séð hernám. Meirihluti íbúa svæðisins eru Palestínumenn en töluverður fjöldi gyðinga býr í landnemabyggðum á svæðinu. Svæðið var hernumið af Ísrael í Sex daga stríðinu 1967, en aðeins Austur-Jerúsalem var formlega innlimuð í Ísrael. Andamanhaf. Andamanhaf er hafsvæði í Indlandshafi, suðaustan við Bengalflóa og markast af Andamaneyjum og Níkóbareyjum í vestri, strönd Mjanmar í norðri og strönd Taílands í austri. Í suðri tengist hafið Suður-Kínahafi um Malakkasund milli Indónesíu og Malasíu. Andamanhaf er um 1200 kílómetra langt frá norðri til suðurs, og 650 kílómetra breitt og þekur 797.700 ferkílómetra svæði. Meðaldýpt þess er 870 metrar en dýpst er það 3.777 metrar. Taílandsflói. Taílandsflói er flói í Suður-Kínahafi (Kyrrahafi). Umhverfis hann eru löndin Malasía, Taíland, Kambódía og Víetnam. Flóinn þekur um það bil 320 þúsund ferkílómetra stórt svæði. Suðurmörk flóans eru miðuð við beina línu sem nær frá Bai Bung-höfða á suðurodda Víetnam (rétt sunnan við ósa árinnar Mekong) að borginni Kota Baru á austurströnd Malasíu. Suður-Kínahaf. Suður-Kínahaf er hafsvæði í Kyrrahafi sem markast gróflega af Malakkaskaga í vestri, Borneó í suðri, Indókína og Kína í norðri og Filippseyjum og Taívan í austri, hafið er um 3.500.000 km² að flatarmáli Hinar agnarlitlu Suður-Kínahafseyjar eru þúsundir talsins og skiptast milli ríkjanna sem eiga strandlengju að hafinu. Indókína. Kort frá 1886 af Indókína Indókína er stór skagi í Suðaustur-Asíu. Skaginn dregur nafn sitt af því að hann liggur austan við Indland og sunnan við Kína og telst til beggja menningarsvæða. Borneó. thumb Borneó er eyja í Suðaustur-Asíu og þriðja stærsta eyja heims, 743.330 km² að stærð. Hún skiptist milli ríkjanna Malasíu, Indónesíu og Brúnei. Iridín. Iridín er frumefni með efnatáknið Ir og er númer 77 í lotukerfinu. Þetta er þungur, gríðarlega harður, stökkur, silfurhvítur hliðarmálmur sem tilheyrir platínuflokknum, er notað í hástyrkleika málmblöndur, og finnst í náttúrulegum málmblöndum ásamt platínu og osmíni. Iridín er þekkt fyrir að vera tæringaþolnasta þekkta frumefnið og tengsl þess við endalok risaeðlanna. Það er notað í háhitatæki, rafmagnsnerta og sem hersluefni fyrir platínu. Almenn einkenni. Iridín er silfurhvítur málmur sem tilheyrir platínuflokknum og líkist platínu en hefur þó örlítið gulan blæ. Sökum gríðarlegar hörku og stökkleika, er erfitt að móta og vinna iridín. Þetta er tæringarþolnasti málmur sem þekktur er. Ekki er hægt að leysa það upp með neinni sýru, ekki einu sinni kóngavatni. Þó er hægt að leysa það upp með bráðnum söltum, eins og tildæmis NaCl og NaCN. Mældur eðlismassi þessa frumefnis er rétt minni en osmíns, sem af þeim sökum er skráð sem eðlisþyngsta frumefnið. Hinsvegar hafa tölvuútreikningar gefið áreiðanlegri tölur en mælingar og sýna fram á að eðlismassi iridíns sé 22650 kg/m³ á móti 22610 kg/m³ fyrir osmín. Ekki er því hægt að velja endanlega á milli þeirra eins og stendur. Algengasta oxunarstig iridíns er +4, þó að +2, +3, og +6 þekkist einnig. Saga. Iridín var uppgötvað árið 1803 af Smithson Tennant í London í Englandi, ásamt osmíni í dökklituðum leifum upplausnar platínu í kóngavatni. Það var nefnt eftir latneska heitinu yfir regnboga, "iris", vegna þess hversu sterklega lituð sölt þess eru. Blanda af 90% platínu og 10% iridíni var notuð árið 1889 til að smíða stöðluðu metrastöngina og kílógramm þyngdina, sem varðveitt eru af Alþjóðlegu voga- og mælingaskrifstofunni rétt hjá París. Metrastöngin var leyst af hólmi sem staðalskilgreiningin á lengd árið 1960 (sjá krypton) og er hún því núna minjagripur, en kílógrammlóðið er enn notað sem alþjóðlegur staðall. KT-mörkin, sem merkja endalok krítartímabilsins og byrjun tertíertímabilsins, fyrir 65 milljón árum síðan, einkennast af þunnu lagi af iridínríkum leir. Hópur vísindamanna, með Luis Alvarez í forsvari, kom fram með þá kenningu að þetta iridín ætti ójarðneskan uppruna, og væri komið úr lofsteini eða reikistjörnu sem rekist hefði á Jörðina við Yucatan skagann. Þessi kenning er nú víða samþykkt sem orsök þess að risaeðlurnar dóu út. Þrátt fyrir það hafa Dewey M. Mclean og aðrir fært rök fyrir því, að iridínið hafi í staðinn komið frá eldgosum, því að kjarni Jarðar er ríkur af iridíni. Tilvist. Iridín finnst óblandað í náttúrunni, með platínu og öðrum málmum úr platínuflokknum, á straumvatnsseti. Náttúrulegar iridínmálmblöndur teljast osmiridín og iridosmín, sem hvort tveggja eru blöndur af iridíni og osmíni. Það er unnið sem aukaafurð í námu og við framleiðslu á nikkeli. Iridín er sjaldgæft á Jörðu en er frekar algengt í loftsteinum. Samsætur. Til eru tvær náttúrulegar samsætur iridíns, og margar geislasamsætur. Sú stöðugasta þeirra er Ir-192 með helmingunartíma 73,83 daga. Ir-192 betasundrast í platínu-192, en flestar hinna geislasamsætanna sundrast yfr í osmín. Varúðarráðstafanir. Iridín málmur er yfirleitt óeitraður sökum óhvarfgirni sinnar en efnasambönd iridíns ætti þó að telja baneitruð. Vágar. Vágar eða Vágoy er þriðja stærsta eyjan í Færeyjum. Hún liggur sunnan og vestan við Straumey og er næstvestust allra eyjanna, aðeins Mykines er vestar. Íbúar Vága voru 3050 þann 1. janúar 2011 og hefur farið heldur fjölgandi á síðustu árum. Á eynni er eini flugvöllur Færeyja. Hæsta fjallið á eynni er Árnafjall (722 m.) Á Vágum eru tvö stærstu stöðuvötn Færeyja, Sørvágsvatn eða Leitisvatn og Fjallavatn. Lögun Vága er oft sögð minna á hundshaus og er þá Fjallavatn auga hundsins en Sørvágsfjörður kjafturinn. Fjöldi hólma og skerja er í kringum eyna. Byggðir. Byggðirnar á eynni eru Sørvágur, Bøur, Gásadalur), Miðvágur, Sandavágur og Vatnsoyrar, en síðastnefnda byggðin hefur nokkra sérstöðu því hún er sú eina í öllum Færeyjum sem ekki er við sjó, heldur á strönd Sørvágsvatns. Þarna var raunar engin byggð fyrr en 1921, þegar þrjár fjölskyldur settust þar að. Bøur og Gásadalur eru á vesturströnd eyjarinnar og var Gásadalur án vegasambands við umheiminn allt til 2004, en þá voru vígð göng þangað. Tvær aðrar afskekktar byggðir fóru í eyði á síðustu öld, Víkar 1910 og Slættanes 1964. Þær voru báðar á norðvestanverðri eynni og er nú sá hluti hennar allur óbyggður. Svo var raunar einnig áður því þessar byggðir voru báðar stofnaðar á 19. öld. Í Sandavági var stórbýlið Steig, sem var gert að lögmannssetri árið 1555 og bjuggu flestir lögmenn Færeyja þar eftir það, allt þar til embættið var lagt niður 1816. Síðasti lögmaðurinn á Steig var Jørgen Frants Hammershaimb og þar fæddist sonur hans, V.U. Hammershaimb, prestur og málfræðingur, sem lagði grunn að færeyska ritmálinu. Minnisvarði um hann er á Steig. Samgöngur. Á eynni er eini flugvöllur Færeyja, Vágaflugvöllur og eru Vágar því viðkomustaður flestra sem til Færeyja koma. Völlurinn var lagður af Bretum í síðari heimsstyrjöldinni en eftir að henni lauk var völlurinn lítið sem ekkert notaður í tuttugu ár. Hann var svo endurnýjaður á sjöunda áratugnum og gerður að alþjóðaflugvelli. Vegna flugvallarins voru Vágar öryggissvæði á heimsstyrjaldarárunum og þurftu íbúar annarra eyja sérstakt leyfi til að fara þangað. Mestallt herlið Breta á eyjunum var staðsett á Vágum, aðallega á Vatnsoyrum, og voru íbúar þorpsins fluttir burt á meðan hernámið stóð yfir. Fyrstu neðansjávargöngin í Færeyjum, milli Vága og Straumeyjar, voru opnuð árið 2002. Þau eru um 4900 m löng. Gásadalur. Gásadalur (framburður: [ˈɡ̊ɔasaˌd̥ɛalur], íslenska: Gæsadalur) er bær í Vágum (Vogum) í Færeyjum, vestan við Bø (Bæ). Hann liggur út með Mykinesfirði og er umkringdur hæstu fjöllum á eyjunni. Gásadalur var lengi eina þorpið í Færeyjum sem var án vegasambands við aðra bæi. Áður en jarðgöng voru grafin, var engin leið til Gásadals nema með þyrlu eða fótgangandi. Pósturinn varð að bera póstinn yfir fjallið þrisvar í viku. Þegar danska kvikmyndin "1700 metrar frá framtíðinni" kom út, varð hann heimsþekktur. Frá árinu 2003 hefur verið hægt að ganga í gegnum jarðgöngin (ef vasaljós gleymist ekki) og frá árinu 2005 geta íbúar Gásadals, sem eiga lykil, farið akandi á bíl. Jarðgöngin sjálf eru 1.410 metrar að lengd. Þau verða opnuð almennri umferð árið 2006, þegar allri vinnu við þau lýkur. Íbúarnir segja að hefðu jarðgöngin ekki komið, væri bærinn horfinn, en þrátt fyrir það er óvíst hvort Gásadalur vex aftur. Meirihluti íbúanna er 60 ára eða eldri og engin börn eru lengur í Gásadal. Samkvæmt sögu Gásadals hefur bærinn fengið nafn eftir konu í Kirkjubø (Kirkjubæ), sem kölluð var Gæsa. Hún hafði borðað kjöt á föstunni þó svo að það væri bannað. Því voru allar eigur hennar gerðar upptækar og hún varð að flytja til dalsins í Vogum. Önnur saga, sem er trúlegri en hin, segir, að nafnið sé dregið af grágæsum, sem hafa löngum flogið til Gásadals á sumrin. Aðrar sögur fjalla að mestu um huldufólk. Í Gásadal er engin kirkja. Því eru guðsþjónustur haldnar í skólanum. Áður en kirkjugarðurinn var byggður árið 1873, var fólk grafið í Bæ og borið yfir fjallið. "Líksteinn" á leiðinni þangað var staður, þar sem líkmennirnir hvíldu sig. Á leiðinni til Bæjar er líka uppspretta, sem heitir Keldan vígda, þar sem prestur nokkur skírði óvenjulega sjúkt barn, sem þurfti að leita læknis í Bæ. Mexíkó. Mexíkó (spænska: Estados Unidos Mexicanos) er lýðveldi sambandsríkja í Norður-Ameríku. Mexíkó á landamæri að Bandaríkunum í norðri, Kyrrahafinu í vestri og suðri, Mexíkóflóa og Karíbahafi í austri og Belís og Gvatemala í suðaustri. Landið samanstendur af 31 fylki auk höfuðborgarinnar, Mexíkóborgar, sem er ein sú fjölmennasta í heimi. Landið þekur tæplega tvær milljónir ferkílómetra, og er 14. stærsta landi heims að flatarmáli, það fimmta stærsta í Norður- og Suður-Ameríku. Íbúafjöldi er 114.658.000 og er landið því 11. fjölmennasta land í heiminum, og jafnframt fjölmennasta spænskumælandi þjóðin. Mexikó hefur verið aðildarríki OECD síðan 1994, og er jafnframt eina aðildarríkið í Mið-Ameríku og Suður-Ameríku. Mexíkó er nýlega iðnvædd þjóð en er nú með 11. stærsta efnahag heims eftir vergri landsframleiðslu. Efnahagur landsins byggist mjög á viðskiptum við NAFTA löndin, (e. North American Free Trade Association), og er þjóðin mjög tengd Bandaríkjunum efnahagslega. Mexíkóska byltingin. Mexíkóska bytingin hófst árið 1910 og henni lauk árið 1920. Hún hófst undir stjórn Francisco I. Madero og var þetta vopnuð barátta gegn Porfirio Díaz sem var þá búinn að vera langan tíma við nvöld. Tími Maderos á valdastóli var mjög stuttur. Hann tók við völdum árið 1911 en var myrtur árið 1913 ásamt varaforseta sínum, José María Pino Suárez, af hershöfðingjanum Victoriano Huerta og hans mönnum. Með tímanum breyttist byltingin yfir í það að verða borgarastyrjöld. Þessi átök eru oft talin vera mikilvægasti félags- og stjórnmálalegi atburður álfunnar. Eftir að baráttan var búin að standa yfir í langan tíma ákváðu leiðtogar hennar að gera nýja stjórnarskrá árið 1917. Eftir það átti byltingunni að ljúka, en hún stóð yfir allt til 1920, með litlum átökum þó. Sagnfræðingar vilja svo meina að byltingin hafi endað með dauða Venustiano Carranza sem gerði stjórnarskrá hersins árið 1920. Byltingin sjálf leiddi til þess að nýr stjórnarflokkur var búinn til árið 1929 en hann hét Partido Nacional Revolucionario. Hann var svo endurnefndur árið 1946 og þá kallaður Partido Revolucionario Institucional, betur þekktur sem PRI og undir ýmsum leiðtogum hafði PRI flokkurinn völdin í ríkinu í höndum sér til ársins 2000. Beringssund. Beringssund er sund sem er afmarkað af Desnjév-höfða (austasta hluta Asíu) og Prince of Wales-höfða (vestasta hluta Ameríku), sundið er um 85 km breitt og dýpt þess er um 30-50 m, það tengir Tjúktahaf (Chukchi-haf, hluti af Norður-Íshafinu) í norðri og Beringshaf (hluti af Kyrrahafinu) í suðri. Sundið er nefnt eftir danska landkönnuðinum Vitus Bering sem fór yfir það árið 1728. Í miðju sundinu eru Diomedes-eyjar, litla og stóra og eru 4 km. á milli þeirra. Litla Diomedes-eyja tilheyrir Alaska og er því hluti af Bandaríkjunum. Á henni er lítið þorp að vestanverðu og búa þar um 150 manns. Stóra Diomedes-eyja tilheyrir Rússlandi og er óbyggð fyrir utan fámenna herstöð. Á milli eyjanna eru landamæri Rússlands og Bandaríkjanna og alþjóðlega daglínan og er því sitt hvor dagurinn á eyjunum tveimur. Desnjév-höfði. Desnjév-höfði (rússneska: "Mys Dezhneva") er austasti hluti Asíu og sá höfði sem afmarkar Beringssund til vesturs. Höfðinn er nefndur eftir rússneska landkönnuðinum Semion Dezhnev sem uppgvötaði hann árið 1648. Undir höfðanum að norðvestanverðu er austasta byggð Asíu, lítið 800 manna þorp, sem heitir Uelen. Kúsjanaveldið. Kúsjanaveldið var ríki sem stóð á 1. öld til 3. aldar og var á hátindi veldis síns um 105-250. Það náði frá Tadsjikistan að Kaspíahafi til Afganistan og teygði sig niður eftir Gangesfljóti. Ríkið var stofnað af Kúsjönum, ættkvísl úr Júesí þjóðflokknum frá Sinkíang í Kína, sem hugsanlega voru skyldir Tokkörum. Ríkið átti í viðskiptum við Rómverja, Sassanída í Persíu og Kína og var um skeið miðstöð samskipta milli austurs og vesturs. Tokkarar. Tokkarar voru indó-evrópsk þjóð sem bjó í Tarímdældinni, þar sem nú er sjálfstjórnarhéraðið Sinkíang í norðvesturhluta Kínverska alþýðulýðveldisins. Menning þeirra stóð frá 1. árþúsundinu f.Kr. til 8. aldar e.Kr. Til eru ritaðir textar á tokkarísku frá 6. öld. Nám. Nám er tiltölulega varanleg breyting á hugsun, hegðun og heilastarfsemi lífveru sökum reynslu hennar. Prince of Wales-höfði. Prince of Wales-höfði (enska: "Cape Prince of Wales") er vestasti hluti Ameríku og sá höfði sem afmarkar Beringssund til austurs. Tjúktahaf. Tjúktahaf (rússneska: Чукотское море, enska: Chukchi Sea) er hafsvæði í Norður-Íshafi á milli Tjúktaskaga og Alaska. Beringssund tengir það við Beringshaf og Kyrrahaf. Vesturmörk þess eru við Wrangel-eyju og austurmörk við Beaufort-haf. Tjúktahaf þekur um 595 þúsund ferkílómetra svæði og einungis er hægt að sigla um það í fjóra mánuði á ári. Meira en helmingur hafsins er innan við 50 metrar á dýpt. Hafið heitir eftir Tjúktum sem búa við strendur þess. Aðal hafnarbærinn er Uelen í Rússlandi með um 800 íbúa. Jersey. Jersey er eyja í Ermarsundi undan strönd Normandí, og annað tveggja umdæma Ermarsundseyja. Umdæminu tilheyra, auk Jersey, óbyggðu eyjarnar Minquiers og Ecréhous. Bretland hefur umsjón með utanríkismálum og varnarmálum eyjanna, en þær eru þó ekki hluti af breska konungdæminu heldur hertogadæminu Normandí, en Bretadrottning ber einnig titilinn hertogynjan af Normandí. Jersey hefur því sitt eigið löggjafarþing. Íbúar Jersey eru um 90.000. Yfir helmingur þeirra eru aðfluttir. Guernsey. Guernsey (eða Gvernsey) er eyja í Ermarsundi og annað tveggja umdæma Ermarsundseyja. Umdæminu tilheyra, auk Guernsey, eyjarnar Alderney, Sark, Herm, Jethou, Brecqhou, Burhou og fleiri smáeyjar. Bretland hefur umsjón með utanríkismálum og varnarmálum eyjanna, en þær eru þó ekki hluti af breska konungdæminu heldur hertogadæminu Normandí, en hertoginn af Normandí er einn af titlum Bretadrottningar. Guernsey hefur því sitt eigið löggjafarþing. Íbúar Guernseyjar eru um 65.000 talsins. SQL. SQL (skammstöfun fyrir „Structured Query Language“) er mjög algengt fyrirspurnarmál sem notað er til að búa til, vinna með og sækja gögn úr gagnagrunnum. Málið er ANSI og ISO staðlað en framleiðendur gagnagrunnskerfa útfæra SQL oft á mismunandi hátt, stundum með því að útfæra ekki allt sem staðallinn skilgreinir, og stundum með því að bæta við eiginleikum sem ekki eru tilgreindir í staðlinum. Auk þess bjóða margir framleiðendur gagnagrunnskerfa sérstök stefjumál mál svo sem SQL fyrir Oracle og Transact-SQL fyrir Microsoft SQL Server. Þessi mál eru gjarnan notuð til að búa til föll og stefjur sem keyra í grunninum sjálfum. Dæmi. SQL skipanir skilgreina ekki hvernig á að framkvænma ákveðnar aðgerðir, heldur hvað eigi að gera. Dæmi um mjög einfalda SQL skipun er Ofangreind skipun sækir gögn úr töflunni vidskiptamenn. Engar takmarkanir eru setta við því hvaða færslur eru sóttar, þannig að allar færslurnar sem eru í töflunni verða sóttar. Ekki er gerð nein krafa um í hvaða röð færslurnar eiga að koma þannig að þær geta komið í hvaða röð sem er, og röðin getur hæglega breyst frá fyrirspurn til fyrirspurnar. myndi hins vegar alltaf skila færslum í röð eftir heimili og innan heimilisfangs í nafnaröð. Einnig takmarkar þessi fyrirspurn færslur við þá sem búa í póstnúmeri 101. Til þess að útbúa töflur notum við create skipunina. Lykilorð eins og CREATE geta verið hvort heldur sem er í há eða lágstöfum. Hér er búin tafla sem heitir vidskiptamenn og sett á hana þau skilyrði að dálkur sem kallast vskm_numer sé lykill að færslum í töflunni. Einnig er sett það skilyrði að nafn verður alltaf að vera tilgreint. Gögn eru sett inn í töflur með INSERT skipunum. Dæmi. Abel Tasman. Abel Janszoon Tasman (1603 – október 1659) var hollenskur landkönnuður, þekktastur fyrir leiðangra sína austurleiðina til Kyrrahafsins árin 1642 og 1644, í þjónustu Hollenska Austur-Indíafélagsins. Þetta voru fyrstu ferðir Evrópumanna til eyjanna Van Diemenslands (sem nú heitir Tasmanía) og Nýja-Sjálands. Hann kortlagði einnig stóra hluta Ástralíu. Hlutverk hans var að kanna Nýja-Holland (Ástralíu) og sjá hvort það væri hluti stóra meginlandsins "Terra australis incognita" („óþekkt land í suðri“) sem menn töldu að væri til. Austur-Indíafélagið vonaði að hann myndi þannig uppgötva nýtt, áður óþekkt meginland, og náttúruauðlindir þess. Kort sem sýnir leiðirnar sem Tasman fór. Francis Galton. Francis Galton (16. febrúar 1822 í Birmingham á Englandi – 17. janúar 1911), breskur mannfræðingur, landkönnuður, uppfinningamaður, tölfræðingur, frumkvöðull í arfbótum og upphafsmaður þeirra vísinda er rannsaka greind. Móðir hans var hálfsystir föður Charles Darwin en faðir hans auðugur bankamaður. Strax í barnæsku sýndi Galton einstaka hæfni, t.d. orðinn læs og skrifandi fyrir þriggja ára aldur og gat vitnað í kviður Hómers sex ára. Þrátt fyrir þetta veganesti út í lífið varð hann uppreisnarseggur á unglingsárum. Að lokum hóf hann nám í læknisfræði. Hluti námsins var að fást við lyfjagerð og hann ákvað að prófa öll lyf á sjálfum sér. Við 18 ára aldurinn urðu kaflaskipti í lífi Galtons því þá ákvað hann að reyna fyrir sér í stærðfræði við Cambridge háskólann í Englandi. Honum gekk ekki eins vel og hann hafði vonast til. En meðan á dvöl hans stóð fékk hann hugmyndina að svokallaðri normalkúrfu. Hún útskýrist þannig að meðalmennskan er algengust á öllum sviðum, t.d. í hæð og greind, en algengið minnkar síðan í báðar áttir frá meðaltali. Það eru t.d. fáir afburðagreindir. Galton var sá fyrsti til að hefja rannsóknir á mismuni einstaklinga, með tilliti til greindar. Hann beitti þróunarkenningu Darwins, frænda síns, óspart við rannsóknir sínar. Galton hafði mikla trú á erfðaþáttum og hélt því fram að umhverfi og uppeldi einstaklingsins skipti engu máli, allt erfðist. Ein af rannsóknum Galtons fólst í því að kanna hvort að frægir menn myndu eignast fræga syni. Hann komst að því að 48 af hverjum 100 frægum feðrum eignuðust fræga syni. Það sem Galton er einna frægastur fyrir í dag eru greindarvísitölu próf sem hann fann upp. Einnig er hann þekktur fyrir að vera frumkvöðull í ýmis konar rannsóknum og má þar nefna tvíburaðaferðina sem er könnun á tvíburum sem eru aldir upp á sitthvorum staðnum. Þannig má sjá hvort vegi meiri, erfðir eða umhverfi. Dulvitund. Dulvitund (undirvitund eða undirmeðvitund) í almennri notkun, er hugtak sem fjallar um hugsanir, viðhorf, hvatir, óskir og tilfinningar sem viðkomandi er ekki meðvitaður um. Ýmsir fræðimenn hafa fjallað um hugtakið á undan Sigmundi Freud, en hann lagði þó mesta áherslu á það. Hann taldi að í dulvitundinni, eða undirmeðvitundinni lægi rót alls vanda falin. Snúast því kenningar hans flestar um þennan mikilvægasta hluta sálarlífsins að hans mati, með einum eða öðrum hætti. Hann hélt því fram að öllu sem okkur þætti óþægilegt að hugsa um væri ýtt niður í undirvitundina en þar héldi það samt sem áður áfram að hafa áhrif á hegðun okkar og líðan er þær reyna að brjóta sér leið upp úr undirvitundinni. Birtingarform þessa eru m.a. draumfarir, mismæli og kækir. Wilhelm Wundt. Wilhelm Wundt er oft talinn upphafsmaður vísindalegrar sálfræði Wilhelm Wundt (16. ágúst 1832 í Neckarau í Baden – 31. ágúst 1920) var þýskur sálfræðingur. Æviágrip. 19 ára gamall ákvað Wundt að fara á læknisfræðibraut því að þar var hægt að læra um mannlegt atferli og sálarlíf, nokkuð sem hann hafði mikinn áhuga á. Hann útskrifaðist síðan úr læknisfræðinámi með hæstu einkunn árið 1856. Wundt fékk áhuga á lífeðlisfræði, einkum lífeðlisfræði skynjunar, þar sem hann taldi að hún gæti aukið skilning manna á sálarlífinu. Wundt varð dósent við háskólann í Heidelberg. Árið 1858 gerðist hann aðstoðarmaður Hermanns von Helmholtz. Þar skrifaði hann "Framlag til kenningar um skyntúlkun" árin 1858 – 62. Wundt beitti sér fyrir því að viðfangsefni sálfræðinnar væru rannsökuð með tilraunaaðferð raunvísinda. Margir rekja upphaf sálfræðinnar til Wilhelms Wundts þar sem hann var sá fyrsti til að stofna rannsóknarstofu þar sem sálfræðileg viðfangsefni voru tekin til skoðunar. Rannsóknarstofuna stofnaði hann í Leipzig í Þýskalandi árið 1879. Wundt var frumkvöðull á mörgum sviðum sálfræðinnar og var meðal þeirra fyrstu til að gefa út bæði kennslubækur og tímarit sem fjölluðu um sálfræði. Þess vegna hefur hann fengið viðurnefnið „faðir sálfræðinnar“. Wilhelm Wundt kom fram með formgerðarstefnuna. Hún fól í sér að viðfangsefni sálfræðinnar ætti að vera meðvituð hugarstarfssemi og það ætti að rannasaka hana með sjálfsskoðun. Atferlissinnar eru þó algjörlega á móti sjálfsskoðun meðal annars af því að menn geta ekki verið hlutlægir þegar þeir rannsaka sjálfa sig og eiga þá til að sveigja niðurstöðurnar að eigin væntingum. Sjálfsskoðun er ekki lengur notuð. Wundt lést árið 1920 og hafði þá skrifað um 500 bækur og greinar tengdar sálfræði og er formgerðarstefna sú stefna sem að er kennd við hann. Hermann Ebbinghaus. Hermann Ebbinghaus (24. janúar 1850 - 26. febrúar 1909) fæddist í Barmen í Þýskalandi. Hann lærði heimspeki við Háskólann í Bonn og útskrifaðist með Doktorsgráðu þaðan 1873. Hann hafði mikinn áhuga á sálfræði og hóf að gera tilraunir á því sviði. Árið 1885 gaf hann út bókina "Um minni" þar sem að hann birti niðurstöður sínar varðandi minni. Í tilraunum sínum rannsakaði hann minni með því að gera tilraunir á sjálfum sér. Þetta verk er talið tímamótaverk í sálfræði og hafði mikil áhrif á tilrauna sálfræði. Greindarvísitala. Árið 1912 kom þýski sálfræðingurinn William Stern fram með þá hugmynd að hægt væri að reikna út greindarvísitölu út frá greindarprófum. Hann reiknaði greindarvísitölu út frá prófi sem franski sálfræðingurinn Alfred Binet hafði búið til. Þetta gerði Stern með ákveðinni formúlu; með því að deila í aldursstig (greindaraldur) sem prófið sýndi með lífaldri próftakans. Talan sem kom út átti að sýna hæfni fólks til að læra og hvar það stóð miðað við jafnaldra sína. Sáleðlisfræði. Sálareðlisfræði fæst við að rannsaka sambandið milli áreitis og skynjunar með vísindalegum aðferðum. Í kringum árið 1860 hóf maður að nafni "Gustav Theodor Fechner" fyrstur manna rannsóknir á sálfræðilegum efnum með vísindalegum aðferðum og er hann því oft nefndur faðir sáleðlisfræðinnar. Annar sem lagði líka grunninn var "Ernst Heinrich Weber", en hann reið á vaðið í sáleðlisfræðilegum mælingum. Fechner rannsakaði sambandið á milli áreitis og skynjunar. Hann var fjöllærður maður og hélt því fram að allir hlutir væru gæddir einhvers konar sál. Hann setti fyrir sig það verkefni að kanna tengsl milli styrks áreita annars vegar og styrks skynjunar hinsvegar. Þessa fræðigrein sína nefndi hann svo sáleðlisfræði og það nafn hefur haldist fram til dagsins í dag. Sáleðlisfræði er líka nefnd skynfræði vegna þess að hún fjallar aðallega um skynnæmi. Flaska. Flaska er lítið ílát með háls sem er mjórri en meginhlutinn auk stút efst á hálsinum sem er oftast hringlaga og er oft lokað með tappa. Flöskur eru oftast gerðar úr gleri, plasti eða áli og eru venjulega notaðar til að geyma vökva til dæmis vatn, mjólk, gosdrykki, vín, eldsneyti og svo framvegis Neðst á flösku er botn hennar, þ.e. flöskubotninn. Undir honum er stundum böðlastaup sem er dæld sem gengur upp í botninn. Upp af botninum tekur við bolur flöskunnar, en þar sem hún mjókkar upp á við eru axlir hennar (sbr. axlafull flaska). Þá tekur við háls og efst er stúturinn. Kvikasilfur. Kvikasilfur er frumefni með efnatáknið Hg (dregið af gríska orðinu ύδράργυρος, „vökvasilfur“) og er númer 80 í lotukerfinu. Þetta er þungur, silfraður hliðarmálmur sem er eitt af aðeins tveim frumefnum (og eini málmurinn) sem að eru vökvar við stofuhita (hitt frumefnið er bróm). Kvikasilfur er notað í hitamæla, loftvogir og önnur vísindaleg mælitæki. Það er yfirleitt unnið úr steintegundinni sinnóber (kvikasilfursúlfíð, "HgS"). Kvikasilfur er baneitrað, heilaskaðandi efni og er notkun þess því takmörkuð með mengunarvarnarlögum í mörgum löndum. Almenn einkenni. Kvikasilfur er frekar slæmur hitaleiðir en góður rafleiðari. Kvikasilfur myndar auðveldlega málmblöndur við næstum alla algenga málma, þar á meðal gull, ál og silfur en ekki járn. Öll þessi málmblendi eru kölluð amalgam. Það hefur einnig samfellda varmaþenslu, er minna hvarfgjarnt en sink og kadmín og leysir ekki vetni úr sýrum. Algeng oxunarstig þess eru +1 og +2. Örfá dæmi af +3 þekkjast þó einnig. Notkun. Ýmis not: kvikasilfursrofar, kvikasilfursker fyrir natrínhýdroxíð (vítissóda) og klórframleiðslu, rafskaut í sumum tegundum rafgreiningar, kvikasilfursrafhlöður, hvata, illgresiseyða (framleiðslu hætt 1995), skordýraeitur, amalgam fyllingar, og vökvaspegilssjónauka. Saga. Kvikasilfur var þekkt meðal Kínverja og hindúa til forna og hefur fundist í egypskum grafhýsum frá 1500 f.Kr.. Í Kína, Indlandi og Tíbet var kvikasilfur talið lengja líf, laga beinbrot og halda mönnum við góða heilsu. Forn-Grikkir notuðu kvikasilfur í smyrsl og Rómverjar notuðu það í snyrtivörur. Í kringum 500 f.Kr. var farið að nota kvikasilfur í amalgöm með öðrum málmum. Indverska orðið yfir gullgerðarlist er "rassayana" sem þýðir „vegur kvikasilfursins“. Gullgerðarlistamenn töldu oft kvikarsilfur sem fyrsta efnið sem myndaði alla aðra málma. Hægt var að framleiða mismunandi málma með því einu að breyta magni og gæðum brennisteins í kvikasilfrinu. Hreinastur þessara málma var gull og þurfti kvikasilfur til að umbreyta grunn- (eða óhreinum) -málmum í gull. Þetta var megintakmark gullgerðarlistar fyrir annað hvort efnislegan eða andlegan ábata. Hg er nútímaefnatákn kvikasilfurs. Það er dregið af orðinu "hydragyrum", sem er latnesk staðfæring á gríska orðinu ύδράργυρος, "hydragyros" sem er samsett orð sem þýðir "vatn" og "silfur" — því að það er vökvi líkt og vatn en samt silfurlitt. Íslenska heitið er einnig fengið úr þessari merkingu gríska orðsins. Nokkrir þekktir einstaklingar hafa látist úr kvikasilfurseitrun og má þar nefna til dæmis konu Martin Bormanns eins helsta aðstoðarmans Hitlers. Efnið var notað í hattagerð í Englandi og urðu hattagerðarmenn alvarlega veikir sem er hugsanlega uppruni enska máltækisins „"mad as a hatter"“ („brjálaður eins og hattari“). Efnasambönd. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hægt er að nota rafmagnsneista til að fá eðalgös til að mynda efnasambönd með kvikasilfurgufu. Þessum efnasamböndum er haldið saman af van der Waals kröftum og mynda, HgNe, HgAr, HgKr, og HgXe. Lífræn kvikasilfursefnasambönd eru einnig mikilvæg. Meþýlkvikasilfur er hættulegt efnasamband sem finnst víða sem mengunarvaldur í grunnvatni og ám. Samsætur. Til eru sjö stöðugar samsætur kvikasilfurs og er Hg-202 það algengasta (29,86%). Langlífustu geislasamsæturnar eru Hg-194 sem hefur helmingunartímann 444 ár, og Hg-203 með 46,612 daga. Flestar hinar geislasamsæturnar hafa helmingunartíma undir einum degi. Varúðarráðstafanir. Hreint kvikasilfur í vökvaformi er örlítið eitrað, á meðan gufuform þess, efnasambönd og sölt eru baneitruð og því hefur verið haldið fram að þau valdi heila- og lifrarskaða við inntöku, innöndun eða snertingu við húð. Aðalhættan sem stafar af hreinu kvikasilfri er að við staðalþrýsting, vill kvikasilfur oxast sem myndar kvikasilfuroxíð og að ef það er látið falla eða hreyft við því, myndar það örsmáa dropa, sem að eykur yfirborð þess verulega. Kvikasilfur er eitur sem safnast fyrir í vefjum líkamans og er tekið upp í gegnum húð, öndunar-, maga- og garnavefi. Ólífrænt kvikasilfur er minna eitrað en lífræn efnasambönd þess (sameindir sem innihalda kolefni). Jafnvel þó það sé mun minna eitrað en lífræn efnasambönd þess, veldur þó hreint kvikasilfur samt sem áður miklum umhverfismengunar- og hreinsunarvandamálum vegna þess að kvikasilfur myndar lífræn efnasambönd í lífverum. Eitt hættulegasta efnasamband kvikasilfurs, dímeþýlkvikasilfur, er svo eitrað að aðeins örfáir míkrólítrar á húð geta valdið dauða. Rómverskir tölustafir. Rómverskir tölustafir er talnakerfi sem rætur sínar að rekja til Rómaveldis og var aðlagað frá etrúskum tölustöfum. Kerfinu sem notað var til forna var örlítið breytt á miðöldum til að mynda kerfið sem notað er enn í dag. Rómverskir tölustafir eru víða notaðir í dag í tölusettum listum, klukkum, blaðsíðunúmerum á undan aðalefni bókar, tölusetningu framhaldsmynda, tölusetningu ritverka í meira en einu bindi, kaflanúmer í bók og tölusetningu sumra íþróttaleika, eins og til dæmis Ólympíuleikanna. Einnig eru rómverskir tölustafir iðulega notaðir til þess að tákna ártöl, svo sem útgáfuár bóka. Reglur um rómversku tölurnar eru þannig, að sé stafur með lægra gildi á undan staf með hærra gildi, þá er sá lægri dreginn frá hinum hærri. Annars er lagt saman. Þannig er til dæmis IV = 4 og LXXXVII = 87 (50+10+10+10+5+2). Ártalið 1964 er MCMLXIV (1000+900+60+4) og 2005 er MMV. Það er dálítið á reiki hvort notaðir eru hástafir eða lágstafir. Þó eru þeir stundum notaðir saman til þess að tákna margfeldi, þannig að til dæmis mM þýðir 1000 sinnum 1000 (sem sagt milljón), en MM er summan 1000 plús 1000 (sem sagt 2000). Fyrir upplýsingar um reikning með rómverskum tölustöfum, sjá rómverskur reikningur og rómversk talnagrind. Línuleg algebra. Línuleg algebra er grein innan stærðfræðinnar sem lýtur að rannsóknum á vigrum, vigurrúmum, línulegum vörpunum og línulegum jöfnuhneppum. Þar sem vigurrúm eru mikilvæg í nútíma stærðfræði er línuleg algebra mikið notuð, bæði í hreinni algebru og í fallagreiningu. Línuleg algebra hefur ennfremur víðtækt notagildi í hnitarúmfræði, náttúruvísindum og félagsvísindum, þar sem oft er hægt að umrita ólínuleg líkön í línuleg líkön, til dæmis með beitingu velda, róta eða logra. Smolensk. Smolensk (rússneska: "Смоленск;", hvítrússneska: "Смаленск") er borg í vesturhluta Rússlands við ána Dnépr. Borgin er höfuðstaður sýslunnar Smolensk Oblast. Íbúafjöldi árið 2003 var 351.100 manns. Nafn borgarinnar er dregið af nafni árinnar Smolnja en uppruni þess nafns er á huldu. Hugsanlega er það dregið af "smola" sem merkir bæði tjara og trjákvoða. Grenitré vaxa umhverfis borgina og hún var eitt sinn miðstöð fyrir vinnslu og verslun með trjákvoðu. Annar möguleiki er gamla slavneska orðið "smol" sem merkir „svört jörð“. Alfred Binet. Alfred Binet (f. 11. júlí 1857 í Nice, d. 18. október 1911 í París) var franskur sálfræðingur. Alfred átti mikinn þátt í þróun rannsókna í sálfræði og var mikill byltingarsinni í greindarprófum. Hans fyrsta verkefni í sambandi við það var að búa til greindarpróf fyrir börn á grunnskólaaldri. Prófið átti að greina gáfur barnanna til að hlífa hinum minna gefnu fyrir skólagöngu sem er ofviða þeirra gáfum. Þau próf sem hann prófaði eru ekki ósvipuð þeim sem eru notuð í dag. Greindarprófin hafði hann verið að þróa í einhvern tíma og hafði m.a. rannsakað greindarpróf Francis Galtons og lagði þau fyrir tvær dætur sínar sem voru einungis þriggja og fimm ára á þeim tíma. Binet komst t.d að því að í sumum tilvikum stóð eldri dóttirin sig betur heldur en fullorðnir. Augljóslega er greind barna og fullorðna ekki fólgin í gerð taugakerfisins og skynjunarhæfni, en þessi þættir höfðu verið lykilatriði í greindarprófi Galtons. Eftir margar rannsóknir komst Binet að því að aldur fólks skipti sköpum í greindarprófum sem þessum og að greind fælist í æðri hugarstarfsemi en ekki t.d. skynjunarhæfileikum eins og Galton hafði lagt áherslu á. Til eru 5 mismunandi verkefni fyrir börn á mismunandi aldri. Binet notaði þau til að finna út greindaraldur barna. T.d. ef 7 ára barn leysir öll verkefni fyrir 6 ára, 4 fyrir 7 ára, 2 fyrir 8 ára og 1 fyrir 9 ára. Við tökum það verkefni sem barnið svaraði öllu réttu, en það var 6 ára. Síðan bætast við fimmtungur árs fyrir hvert rétt leyst verkefni. Greindaraldur barnsins er því 7 og 2/5 eða 7,4. Síðar meir notaði sálfræðingurinn William Stern þessa aðferð Binets til þess að reikna út greindarvísitölu fólks. Stern reiknaði greindarvísitöluna með því að deila greindaraldri í lífsaldur og margfaldaði það með 100. Rétt er að benda á að Lewis Terman endurbætti þessa jöfnu með því að margfalda með 100 til að fá út prósentutölu. Próf Binets og Termans eru fyrirmyndir annarra greindarprófa sem nú eru notuð. Prófin voru þýdd yfir á öll möguleg tungumál og þar á meðal íslensku af Matthíasi Jónssyni og voru þau lögð fyrir um 4.000 íslensk börn á aldrinum 2-16 ára í kringum 1950. Gleymskukúrfa. Gleymskukúrfan var búin til af Hermann Ebbinghaus. Hún er byggð á niðurstöðum tilrauna og sýnir hversu hratt við gleymum. Hún sýnir t.d. fram á að að fyrst eftir nám er gleymskan mest. Hrekjanleiki. Hrekjanleiki (eða afsannanleiki) er mikilvægt hugtak innan vísindaheimspeki. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að sé staðhæfing eða kenning ekki gædd þeim eiginleikum að vera afsannanleg, þá sé hún tvímælalaust óvísindaleg. Til að staðhæfing teljist hrekjanleg þarf að vera möguleiki á því að athugun leiði í ljós að staðhæfingin sé ósönn. Til að mynda er setningin; „allar krákur eru svartar“ hrekjanleg því að ein athugun getur leitt í ljós að til sé hvít kráka, sem gerir þá staðhæfinguna ósanna. "Hrakhyggjumenn" fullyrða að hver sú kenning sem ekki er hrekjanleg sé algjörlega óvísindaleg. Til að mynda halda fylgjendur Karls Popper því fram að sálkönnunarkenningin sé dæmi um hugmyndafræði frekar en vísindi. Sálkönnuður gæti talið sjúkling sinn vera í afneitun varðandi kynhneigð sína og talið afneitunina vera sönnun þess að hann sé samkynhneigður; stundi hann kynlíf með konum er það einfaldlega talinn máttarstólpi afneitunarinnar. M.ö.o., það er engin leið fyrir sjúklinginn að sýna sálkönnuðnum, á sannfærandi hátt, að hann sé ekki samkynhneigður. Þetta er það sem að Popper kallaði lokaðan hring. Slík staðhæfing, að sjúklingurinn sé samkynhneigður, er ekki hrekjanleg innan sálkönnunarinnar. Staðhæfingar sem ekki eru hrekjanlegar teljast því, samkvæmt hrakhyggjumönnum, ekki til vísinda heldur hjáfræða. Kaupmáttarjöfnuður. Kaupmáttarjöfnuður (KMJ) er aðferð til að reikna út annars konar gengi milli gjaldmiðla tveggja landa. Kaupmáttarjöfnuður mælir hversu mikið hægt er að kaupa af vörum og þjónustu miðað við alþjóðlegan mælikvarða (venjulega Bandaríkjadal eða alþjóðadal) þar sem verðlag getur verið mjög breytilegt frá einu landi til annars. Kaupmáttarjöfnuður er notaður við samanburð á lífsgæðum milli landa. Verg landsframleiðsla (VLF) er upphaflega reiknuð í gjaldmiðli þess lands, sem leiðir af sér að allur samanburður felur í sér að umreikna þarf miðað við gengi. Notkun raungengis er álitin óraunhæf þar sem það endurspeglar ekki ólíkt verðlag í löndunum sem borin eru saman. Munurinn á kaupmáttarjöfnuði og raungengi getur verið umtalsverður. Skilgreining. KMJ er gengi sem er reiknað út frá jöfnuði kaupmáttar tiltekins gjaldmiðils miðað við annan gjaldmiðil. KMJ tekur mið af því að sum vara eins og fasteignir, þjónusta (t.d. heilbrigðisþjónusta) og þungar verðlitlar vörur (möl, korn) eru ýmist ekki hluti af viðskiptum milli landa eða eru með flutningskostnað sem eykur endanlegt verð þeirra umtalsvert. Verðmunur þessara vara kemur því ekki fram í raungenginu. Ólíkt „raun“-gengi sem ræður verði gjaldmiðla á hinum opinbera markaði er KMJ reiknaður út frá hlutfallslegu virði gjaldmiðils byggt á verði „innkaupakörfu“ sem hægt er að kaupa fyrir gjaldmiðilinn í því landi þar sem hann er notaður. Venjulega er horft á verð á mörgum vöruflokkum sem eru vegnir miðað við mikilvægi þeirra í hagkerfinu. Algengast er að reikna KMJ miðað við vöruverð á einhverju VLF-svæði, miðað við verð sambærilegrar vöru í Bandaríkjunum og komast þannig að gengi miðað við bandaríkjadal. Þegar VLF er þannig umreiknuð fæst betri mælikvarði á lífsgæði á tilteknum svæðum. Dæmi. Verg landsframleiðsla á mann í Kína um það bil 1.400 bandaríkjadalir, en um 6.200 dalir ef byggt er á kaupmáttarjöfnuði. Í Japan er VLF á mann um það bil 37.600 dalir, en aðeins 31.400 dalir ef miðað er við KMJ. Lönd eftir landsframleiðslu (nafnvirði). Þetta eru tveir listar yfir efnahagslíf í löndum heims eftir vergri landsframleiðslu (VLF) þeirra miðað við gengi gjaldmiðla þeirra á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði eða opinbert gengi þeirra. Fyrri listinn var gefinn út af Alþjóðabankanum í júlí 2005 fyrir VLF byggt á raungengi árið 2004. Seinni listinn er gefinn út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í apríl 2005 og inniheldur vænta niðurstöðu fyrir árið 2005. Lönd eftir landsframleiðslu (KMJ). Þetta er listi yfir lönd heimsins eftir vergri landsframleiðslu (VLF), sem er verðgildi allrar framleiddrar vöru og þjónustu innan landsins tiltekið ár. Verðgildið í dölum er dregið af reiknuðum kaupmáttarjöfnuði og gildir fyrir árið 2004. Í töflunni eru allar aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna og Taívan (Lýðveldið Kína), auk eftirtalinna svæða: Evrópubandalagið, Hong Kong (Kína), Maká (Kína), Hollensku Antillaeyjar (Holland) og Púertó Ríkó (BNA). Sumar tölurnar voru reiknaðar út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og aðrar af bandarísku leyniþjónustunni sem skapar eilítið ósamræmi. Note. Inniheldur ekki Hong Kong, Maká eða svæði sem eru undir stjórn Lýðveldisins Kína (Taívan, Pescadores, Quemoy og Matsú). Sefasýki. Sefasýki nefnist það afbrigði taugaveiklunar sem lýsir sér í líkamlegum einkennum svo sem lömun, blindu eða tilteknu minnisleysi án þess að nokkur líkamleg orsök finnist. Sálfræðingurinn Sigmund Freud er jafnan tengdur við þessa geðröskun, en hann komst að þeirri niðurstöðu að orsök hennar væri að finna í dulvitaðri andlegri togstreitu, oftar en ekki kynferðislegri, sem mætti oftast rekja til barnæsku einstaklingsins. Rannsóknir Freuds á sefasýki leiddu til sálfræðistefnu sem kallast sálgreining. Sigmund Freud starfaði með JEan Martin Charcot sem var fyrstur manna til að líta á sefasýki sem raunverulegan sjúkdóm en á þessum tíma horfði fólk á sefasýkissjúklinga með fyrirlitningu. Sefasýki er af mörgum talin vera rusl-greining, þ.e.a.s., þeir sem ekki greinast með annað eru taldir vera með sefasýki. ISNET93. Mynd sem lýsir því mjög gróflega, hvernig hnitakerfið liggur yfir Íslandi ISNET93 (eða ISN93) er viðmiðunarhnitakerfi vegna GPS mælinga sem tekið var upp fyrir Ísland af Landmælingum Íslands árið 1993. Kerfið er hornsönn Lambert-keiluvörpun. Mælikvarði vörpunarinnar er 1:1 á breiddargráðunum 64°15' og 65°45' norður. Skurðpunktur ásanna er hornréttur í 65° norður og 19° vestur, og hefur sá skurðpunktur hnitin (500000, 500000), gefið upp á hnitaforminu (norður, austur), og hnitin eru í metrum talin, og fara hnitin minnkandi til vesturs og suðurs. Viðmiðunarhnitakerfið byggist á jarðmiðjukerfinu ITRF93.6 (enska: "International Terrestrial Reference Frame 1993.6"), sporvölunni GRS-80 (enska: "Geodetic Reference System 1980), og niðurstöðum GPS mælinga sem framkvæmdar voru árið 1993. Þetta þýðir að Z-ás kerfisins fellur saman við snúningsás jarðar, en X- og Y-ásarnir spanna miðbaugsflötinn. X-ásinn liggur í fleti Greenwich núllbaugsins, en Y-ásinn er hornréttur á X-ásinn til austurs. GPS mælingarnar fóru fram á 119 mælistöðvum, sem mynda ÍSNET93, og er þeim dreift út um allt land. Jarðrek má greina með því að skoða tilfærslu þessarra punkta frá upphaflegum mæligildum, og sökum jarðreks og annarra jarðfræðilegra og stjarnfræðilega þátta þarf að endurnýja grunnstöðvanetið á nokkurra ára fresti. Næsta íslenska grunnstöðvanetið eftir ISNET93 er ISNET05. David Livingstone. David Livingstone (19. mars 1813 – 1. maí 1873) var skoskur landkönnuður og trúboði sem var uppi á Viktoríutímabilinu. Hans er einkum minnst fyrir könnun Sambesí og fund Viktoríufossa og fund hans með Henry Morton Stanley við Tanganjikavatn árið 1871. Þá var Livingstone í síðasta leiðangri sínum að rannsaka upptök Hvítu Nílar sem hann áleit jafnvel vera í Tanganjika eða Lualaba, sem í raun er upptök Kongófljóts. Livingstone var hatrammur andstæðingur þrælasölu og þeirra grimmdarlegu þrælaveiða sem arabar frá Egyptalandi, Sansibar og Persíu stunduðu í Austur-Afríku á tímum leiðangra hans. Dagbækur hans og bréfasafn sem Stanley flutti til London eftir fund þeirra í bænum Ujiji við Tanganjikavatn áttu mikinn þátt í því að Bretar settu þrýsting á bandamenn sína í þessum löndum að banna þrælasölu með öllu. Hólmlenda. Hólmlenda (eða útlenda/innlenda) er svæði sem tilheyrir ákveðnu ríki en tengist því ríki ekki landfræðilega (eyjar eru ekki meðtaldar) og er því umlukið öðru ríki eða ríkjum. Gott dæmi er svæðið umhverfis rússnesku borgina Kalíníngrad sem tilheyrir Rússlandi en er aðskilið frá því af landsvæði sem tilheyrir Póllandi og Litháen. Hólmlenda er ekki alltaf innlenda þar sem svæðið er ekki endilega umlukið einu ríki heldur getur komið fyrir á landamærum tveggja eða fleiri ríkja. Kalíníngrad á til dæmis landamæri að bæði Litháen og Póllandi og strönd við Eystrasalt og er því ekki innlenda í neinu ríki. Norðurpóllinn (leikhús). Norðurpóllinn er leikhús og menningarmiðstöð við Norðurslóð á Seltjarnarnesi, stofnað í byrjun árs 2010. Í janúar 2011 höfðu um 15.000 manns lagt leið sína í Norðurpólinn. Leikhúsið er eingöngu rekið með sjálfsaflafé. Saga. Starfsemi Norðurpólsins hófst í janúar 2010 í húsi sem áður hýsti starfsemi Borgarplasts. Húsið er 1100 fm iðnaðarhúsnæði sem byggt var árið 1996. Norðurpóllinn er rekið af einkahlutafélaginu Alheimurinn ehf. Stofnendur vour Arnar Ingvarsson, Gríma Kristjánsdóttir, Guðjón Pálmarsson og Íris Stefanía Skúladóttir en í janúar 2011 kom Búi Bjarmar Aðalsteinsson inn í starfsemina í stað Guðjóns. Stefna. Í leikhúsinu er vettvangur fyrir alla starfsemi tengda listum. Auk aðstöðu til sýninga er vinnuaðstaða fyrir listamenn í húsinu. Leikhúsið gerir ekki greinarmun á listamönnum eða áhorfendum og miðar að því að ná til sín sem flestra. Helsta markmiðið er að stækka vettvang leikhússins og efla menningu og listir. „Allt er hægt“ eru einkunnarorð leikhússins. Norðurpóllinn er eitt af fáum einkareknum leikhúsum á Íslandi. Auk þess er það einstakt fyrir þær sakir að vera svo kallað verksmiðjuleikhús eða verksmiðja sem hefur verið breytt í leikhús. Slík leikhús hafa notið mikilla vinsælda í Evrópu. Sýningar. Fyrsta frumsýning í leikhúsinu var þann 17. febrúar og var það uppsetning leikfélags Menntaskólans við Sund á "Aladdín". Í kjölfarið fylgdi leiksýning byggð á bók Andra Snæs Magnasonar, "LoveStar", í uppsetningu Herranætur, leikfélags Menntaskólans í Reykjavík. Fyrsta frumsýning atvinnuleikhóps var þann 24. apríl 2010. Það var uppsetning á leikverkinu "Glerlaufin" eftir Philip Ridley. Sýningin var í leikstjórn Bjartmars Þórðarsonar. Í leikhópnum voru Jóel Sæmundsson, Ólafur S.K. Þorvaldz, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og Vigdís Másdóttir. Sýningin Fjalla-Eyvindur sem sýnd var í Norðurpólnum hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlauna starfsárið 2010-2011. Það var fyrir bestu sýningu og bestu leikkonu í aðalhlutverki. Suðurheimskautið. Suðurheimskautið (Suðurpóllinn eða Suðurskautið) er sá punktur, syðst á Jörðinni, þar sem að allir lengdarbaugar koma saman. Ásamt Norðurpólnum er hann sá punktur á jarðkringlunni sem er fjarlægastur miðbaug. Roald Amundsen komst fyrstur manna á Suðurheimskautið, þann 15. desember 1911. Segulsuður. Skammt frá hinum landfræðilega suðurpól er segulsuður sem er sá punktur á jörðinni þar sem allar línur jarðsegulsviðsins beinast 'upp á við' í átt að segulnorðri. Staðsetning segulsuðurs er alltaf að færast og þarf sífellt að endurreikna nákvæma staðsetningu. Óaðgengipóllinn - landfræðileg miðja. Sá staður á suðurheimskautslandinu þar sem jafn langt er í allar áttir til strandar suðurhafsins kallast óaðgengipóllinn. Mun erfiðara er að komast að honum en hinum landfræðilega pól sem er í tæplega 900km fjarlægð. Fyrsti hópur gangandi manna komst á pólinn þann 20. janúar 2007 eftir sjö vikna för en menn komust fyrst að honum 1958, þá á vélsleðum. Tanganjika. Fáni lýðveldisins Tanganjika frá 1962 til 1964. Tanganjika var ríki í Austur-Afríku innan Breska samveldisins, og hét í höfuðið á Tanganjikavatni sem myndaði vesturlandamæri þess. Það var hluti af nýlendunni Þýsku Austur-Afríku þar til Bretar lögðu hana undir sig í Fyrri heimsstyrjöldinni. Þeir stýrðu svo landinu þar til það fékk sjálfstæði 9. desember 1961. Árið 1964 sameinaðist það Sansibar í ríkinu Tansaníu. Nafnið Tansanía er myndað úr fyrstu stöfum nafnanna Tanganjika og Sansibar. Bólivía. Bólivía er landlukt land í Suður-Ameríku með landamæri að Brasilíu í norðri og austri, Paragvæ og Argentínu í suðri, og Síle og Perú í vestri. Landið var hluti af veldi Inka þar til Spánverjar lögðu það undir sig 1525. Eftir það var Bólivía kölluð "Efri Perú" og heyrði undir spænska landstjórann í Líma þar til landið lýsti yfir sjálfstæði 1809. En árið 1825 var lýðveldið Bólivía stofnað en nafn landsins er í höfuðið á Símoni Bólívar. Bólivía framleiðir um 80% af heimsframleiðslu brasilíuhnetna. Vatnsstríðin í Cochabamba. Cochabamba mótmælin árið 2000, einnig þekkt sem Cochabamba vatnstríðsin, var röð af mótmælum sem áttu sér stað í Cochabamba, þriðju stærstu borg Bólivíu, frá desember 1999 til apríl 2000 til að bregðast við einkavæðingu á vatni borgarinnar til fyrirtækisins Semapa. Þá ákvaðu stjórnvöld að gefa einkaaðilum einkarétt á vatnsbólum og læstu brunnum í þorpunum svo fólk kæmist ekki í þá. Erlend fjáfestingarfélög höfðu beytt miklum þrýsting til að hækka vatnsverð vegna framkvæmda sem þau höfðu ráðist í við byggingu á stíflum. Það var til þess að upp gaus mikil reiði á meðal almennings sem fékk ekki nóg af vatni. Þegar þetta gerðist lýsti ríkistjórn Bólivíu yfir herlögum og handtók og lét drepa nokkra mótmælendur. Einnig voru útsendingar útvarpsstöðva stoppaðar. Mótmælin voru aðalega skipulögð af Coordinadora samtökunum til að verja aðgang fólks að vatni. Tugir þúsunda manna sem börðust við lögreglu. eftir nokkurn tíma og mikin þrýsting frá borgurunum var einkavæðing vatnsréttindanna tekin af aftur þann 10 apríl árið 2000 þegar stjórnvöld komust að samkomulagi við Coordinadora. Kákasus. Elbrusfjall er hæsti tindur Kákasusfjalla. Kákasus er svæðið milli Svartahafs og Kaspíahafs og inniheldur Kákasusfjöll og láglendið umhverfis þau. Almennt er að telja til Kákasus löndin Armeníu, Georgíu, Aserbaídsjan og norðurhlíðar fjallanna í Rússlandi: Krasnódar, Stavrópol og sjálfsstjórnarhéruðin Adygea, Kalmikía, Karasjaí-Sjerkessía, Kabardínó-Balkaría, Norður-Ossetía, Ingúsetía, Téténía og Dagestan. Þrjú lönd á svæðinu gera tilkall til sjálfstæðis en eru ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu: Abkasía, Nagornó-Karabak og Suður-Ossetía. Landfræðilega er Kákasus hluti Asíu en er oft talið til Evrópu af sögulegum og menningarlegum ástæðum. Uelen. Uelen er lítill bær í sjálfstjórnarhéraðinu Tjúkotka undir norðvestanverðum Desnjév-höfða, sem er austasti oddi Asíu, austast á Tjúktaskaga. Höfðinn er vestan við Beringssund. Bærinn er á sömu breiddargráðu og Bolungarvík. Íbúar Uelen eru tæplega 700 manns (2004). Þorpið stendur á malareyri, sem aðskilur Norður-Íshafið að norðan og stórt lón að sunnan. Lónið er um 12 km á lengd og 2 km á breidd, en eyrin er tæpur hálfur kílómetri á breidd. Uelen er frægt fyrir útskornar töflur úr þverskorinni rostungstönn og útskornar heilar tennur, en mikið er af rostungum á þessu svæði. Daglínan er á miðju Beringssundi, skammt austan við þorpið og má því segja að dagurinn byrji í Uelen. Lönd eftir landsframleiðslu á mann (KMJ). Þetta er listi yfir lönd heimsins eftir vergri landsframleiðslu (VLF) miðað við kaupmáttarjöfnuð (KMJ) á mann fyrir árið 2004, eða verðmæti allrar vöru og þjónustu sem framleidd var í landinu það ár, deilt með meðaltali íbúafjölda sama ár. Verðgildi VLF í dölum er hér reiknað út frá kaupmáttarjöfnuði. Slíkir útreikningar eru framkvæmdir af ýmsum stofnunum, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Pennsylvaníu-háskóla og Alþjóðabankanum. Þar sem tölurnar byggja að hluta til á áætluðum gildum, geta niðurstöður verið ólíkar eftir því hvaða stofnun á í hlut. Stundum er þessi munur umtalsverður. Kaupmáttarjöfnuður byggir á áætlun fremur en hörðum staðreyndum og ætti að notast með varúð. Samanburður á auðlegð þjóðanna er líka oft unninn miðað við nafnvirði landsframleiðslunnar, sem endurspeglar ekki ólíkt verðlag í löndunum. (Sjá Lönd eftir landsframleiðslu (nafnvirði).) Kostirnir við að nota nafnvirði eru þeir að minni áætlunar er þörf og það endurspeglar með meiri nákvæmni þátttöku íbúa landsins í efnahagslífi heimsins. Almennt séð dreifast tölurnar minna sé miðað við kaupmáttarjöfnuð, en ef miðað er við nafnvirði. Taflan inniheldur öll aðildarlönd Sameinuðu þjóðanna, 191 að tölu, auk Taívan (Lýðveldið Kína) og eftirfarandi svæða: Evrópubandalagið, Hong Kong (Kína), Maká (Kína), Hollensku Antillaeyjar (Holland) og Púertó Ríkó (BNA). Sumar tölurnar voru reiknaðar út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og aðrar af bandarísku leyniþjónustunni sem skapar eilítið ósamræmi. Svartahaf. Kort af Svartahafi þar sem helstu borgir eru merktar inn. Svartahaf er innhaf á mörkum Evrópu og Litlu-Asíu sem þekur um 450 þúsund km² svæði. Það er 1.154 kílómetrar að lengd og 610 kílómetrar á breidd. Mesta dýpt þess er 2.200 metrar. Það tengist við Miðjarðarhaf um Bospórussund, Marmarahaf og Dardanellasund, og við Asóvshaf, sem er innhaf úr Svartahafi, um Kretj-sund. Stærstu hafnarborgirnar við hafið eru Ódessa og Sevastópol og eru þær báðar í Úkraínu. Lönd eftir landsframleiðslu á mann (nafnvirði). Þetta er listi yfir lönd heimsins eftir vergri landsframleiðslu á mann að nafnvirði fyrir árið 2004, eða verðgildi allrar vöru og þjónustu sem framleidd var í landinu á tilteknu ári, deilt með meðaltali fólksfjölda sama ár. Þessar tölur taka ekki tillit til ólíks verðlags í mismunandi löndum og niðurstaðan getur verið mjög breytileg frá einu ári til annars eftir sveiflum í gengi gjaldmiðils viðkomandi lands. Slíkar sveiflur geta valdið því að sæti lands á listanum getur breyst mikið frá einu ári til annars, jafnvel þótt svo til enginn munur sé á lífskjörum íbúanna. Því ætti að nota þessar tölur með varúð. Samanburður á auðlegð þjóðanna er líka oft framkvæmdur á grundvelli kaupmáttarjöfnuðar (KMJ) til að gera ráð fyrir ólíku verðlagi í löndunum. ("Sjá greinina" Lönd eftir landsframleiðslu á mann (KMJ).) Með því að nota kaupmáttarjöfnuð er farið framhjá vandamálinu við gengissveiflur, en sú aðferð hefur líka galla. KMJ endurspeglar ekki verðgildi framleiðslunnar á heimsmarkaði og þarfnast auk þess meiri áætlunar en VLF á mann. Almennt séð er dreifing talna miðað við kaupmáttarjöfnuð minni en ef miðað er við nafnvirði. Taflan inniheldur 180 aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem upplýsingar eru til. GRS-80. GRS-80 (enska: "Geodetic Reference System 1980") er sporvala sem notuð er í landfræðilegum kúluhnitamælingum, sem hefur þau einkenni að hálfur langás sporvölunnar, formula_1, þyngdarstuðull jarðar miðað við jarðarmiðju er formula_2, aflfræðilegur formstuðull jarðar er formula_3, og meðal hornhraði jarðar er formula_4. Frá þessu er hægt að reikna að pólfletja sporvölunnar er formula_5 Jamaíka. Jamaíka er eyríki í Karíbahafi, 150 kílómetra sunnan við Kúbu og 280 kílómetra vestan við eyjuna Hispaníólu (Haítí og Dóminíska lýðveldið). Eyjan er 240 km að lengd og 80 kílómetra breið. Áður var hún spænsk nýlenda sem nefndist "Santiago" þar til Bretar hertóku hana árið 1655. Íbúar eyjarinnar eru flestir afkomendur afrískra þræla sem voru fluttir þangað til að vinna á sykurplantekrum. 1958 varð hún hluti af Sambandsríki Vestur-Indía, en lýsti síðan yfir sjálfstæði árið 1962. Belís. Belís er lítið land á austurströnd Mið-Ameríku við Karíbahaf, með landamæri að Mexíkó í norðvestri og Gvatemala í vestri og suðri. Nafn landsins, og fyrri höfuðborgarinnar Belísborgar, er dregið af Belísá. Belís hét áður Breska Hondúras til ársins 1973. Landið fékk sjálfstæði 1981. Í Belís þrífst fjölbreytt menning og mörg tungumál, en enska er opinbert tungumál landsins. Innan Mið-Ameríku hefur Belís mikla sérstöðu og er skyldara ríkjum Karíbahafsins sem einnig eru fyrrum nýlendur Breta. Höfuðborg Belís er Belmopán en Belís er þéttbýlasta borgin og helsta hafnarborg landsins. Tonga. Konungsríkið Tonga (eða Vináttueyjar) er eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi á milli Nýja-Sjálands og Hawaii. Það er sunnan við Samóa og austan við Fídjieyjar. Eyjarnar eru 169 talsins og þar af 96 byggðar. Tonga hefur aldrei verið nýlenda en var breskt verndarríki frá 1900 til 1970. Salómonseyjar. Salómonseyjar eru landamæralaust land í Suður-Kyrrahafi, austan við Papúu Nýju-Gíneu og norðan við Vanúatú. Eyjaklasinn telur fleiri en 990 eyjar sem samanlagt eru yfir 28 þúsund ferkílómetrar að stærð. Gvæjana. Samvinnulýðveldið Gvæjana er land á norðurströnd Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela í vestri, Súrínam í austri, Brasilíu í suðri, og strandlengju við Atlantshafið í norðri. Landið er vesturhluti heimshlutans Gvæjana, sem merkir "Land hinna mörgu vatna". Hollendingar lögðu svæðið fyrst undir sig á 16. öld en Bretar tóku yfir árið 1796 þótt Hollendingar næðu landinu aftur eitt ár 1802-1803. Landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1966. Opinbert tungumál í landinu er enska. Lítill minnihluti talar frumbyggjamál en kreólaútgáfa af ensku er útbreidd. 80% af landsvæði Gvæjana eru vaxin frumskógi. Dóminíka. Samveldið Dóminíka er eyja sem er hluti Litlu-Antillaeyjum, mitt á milli tveggja franskra yfirráðasvæða; Guadeloupe í norðri og Martinique í suðri. Eyjan var byggð Karíbum þegar Kristófer Kólumbus kom þangað í fyrstu ferð sinni 1493. Hún dregur nafn sitt af spænska orðinu yfir sunnudag. Eyjan er þekkt fyrir mikla óspillta náttúrufegurð, regnskóga og ógrynni af sjaldgæfum jurtum, fuglum og dýrum. Efnahagur eyjarinnar byggir að miklu leyti á ferðaþjónustu. Samóa. Samóa eða Samóaeyjar er eyríki og eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi. Áður var ríkið þekkt sem Þýska Samóa frá 1900 til 1914 og síðan Vestri-Samóa frá 1914 til 1997. Í eyjaklasanum eru tvær stórar eyjar, Upolu og Savai'i, sem saman mynda 96% af flatarmáli eyjanna, og sjö smáeyjar. Nárú. Nárú er landamæralaust land í Suður-Kyrrahafi. Það er eitt af minnstu sjálfstæðu ríkjum jarðarinnar, bæði hvað varðar landrými og fólksfjölda. Efnahagslíf landsins byggði áður á fosfatnámum. Þegar þær runnu til þurrðar var reynt að skapa nýjan grundvöll með því að gera eyjuna að skattaparadís en því lauk að mestu í júlí 2004. Þróunarkenningin. Forsíða fyrstu útgáfu af "Uppruni tegundanna". Þróunarkenning Darwins (sem áður fyrr einnig nefnd framþróunarkenningin) er kenning í líffræði um uppruna og þróun eða framþróun dýrategunda. Hún var fyrst sett fram í bókinni Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin sem kom út árið 1859. Samkvæmt þróunarkenningu Darwins koma allar lífverur af sama stofni en vegna nátturuvals hafa þær þróast í mismunandi tegundir og lífverur. Charles Darwin benti á að maðurinn væri náskyldur dýrum og þess vegna væri hægt að skýra hátterni hans á sama veg og hægt er að útskýra hátterni dýra. Það er oft kallað lögmálið um líffræðilega samfellu. Lögmálið um líffræðilega samfellu nær einnig til sálfræðilegra eiginleika sem sést á tilraunum Darwins til að bera saman tilfinningar manna og dýra. Þær komu fram í riti hans "Um látbrigði tilfinninga manna og dýra." Grundvallarhugmynd. Í þróunarkenningu Darwins kom einnig fram kenning hans um náttúruval. Þar lagði hann áherslu á að einstaklingar sömu tegundar væru frá náttúrunnar hendi misjafnlega í stakk búnir til þess að takast á við umhverfið. Þess vegna verða alltaf sumir undir í lífsbaráttunni og hinir hæfustu lifa af. Einstaklingar með eiginleika sem auka líkur á því að þeir komist af eru sem sagt líklegri til að eignast fleiri afkvæmi. Og þannig verða þessir hagstæðu eiginleikar smá saman meira áberandi hjá tegundinni í heild. Saga. Charles Robert Darwin fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury, Englandi. Hann er ætíð kenndur við náttúrufræði, en þekktastur er hann fyrir kenningu um þróun lífs á jörðu, sem á Íslandi er ávallt kölluð þróunarkenningin, en einnig er hún kölluð darwinismi. Hann gaf út bókina "Uppruni tegundanna" árið 1859 þar sem hann reyndi að sanna að allt líf á jörðinni ætti sameiginlegan uppruna. Árið 1871 gaf hann út bókina "Hvernig maðurinn kom til" en hún fjallaði um hugmyndir hans um uppruna mannsins. Darwin sannaði að allar lífverur á jörðinni eru komnar af sömu forfeðrum og hafa þróast á löngum tíma jarðsögunnar til að falla sífellt betur inn í ríkjandi umhverfi. Á árunum 1831 til 36 fór Darwin í siglingu um Kyrrahafið, til að kanna strönd Suður Ameríku og nokkrar Kyrrahafseyjar. Hann hélt nákvæma skrá um lífverur sem urðu á vegi hans og birti niðurstöður sínar árið 1859 í ritinu On the Origin of Species by Means of Natural Selection or The Preservation of Favoured Races in The Struggle for Life. Þar setur Darwin fram þróunarkenninguna og hugmyndir sínar um náttúruval. Þróunarkenning Darwins olli miklu uppnámi, einkum meðal kirkjunnar manna, því að hún stangaðist á við hugmyndir þeirra um sköpunarsögu Biblíunnar. Kenningar Darwins hafa þó staðið að mestu óhaggaðar og hafa styrkst með síðari tíma rannsóknum. Byltingin sem þróunarkenning Darwins olli er ein sú frægasta sem um getur í vísindasögunni. Kenning hans hefur vakið upp svo mikinn fjölda skrifa og málaferla að það er engu líkt. Eitt frægasta dæmið um það eru Aparéttarhöldin sem haldin voru í Tennessee í Bandaríkjunum árið 1925 gegn kennaranum John T. Scopes. Hann var ákærður og dæmdur fyrir að kenna þróunarkenningu Darwins í trássi við lög ríkisins. Áþekkur dómur féll í Arkansas 1965. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað, m.a. 1968 og 1975, að lög sem banna kennurum að fræða nemendur um þróunarkenninguna séu andstæð stjórnarskránni. Nú á dögum er þróunarkenning Darwins almennt viðurkennd sem sagnfræðileg og líffræðileg staðreynd. Hugmyndir hans hafa verið þróaðar áfram með frekari rannsóknum í erfðafræði og lífefnafræði og eru ómissandi þáttur í lífvísindum okkar daga. Normaldreifing. Normaldreifing, einnig kölluð Gauß-dreifing eftir Carl Friedrich Gauß, er dreifilíkan sem sýnir áætlaða dreifingu tölulegra upplýsinga úr stóru úrtaki (t.d. einkunna í stórum bekk, hæð og þyngd fólks), og gegnir mikilvægu hlutverki í ýmsum fræðum. Einnig er talað um normalkúrfu, þar sem skírskotað er til grafsins sem sýnir dreifinguna. Höfuðsetning tölfræðinnar segir að fyrir nægilega mörg tilfelli munu öll gögn normaldreifast. Normalkúrfan hefur þá eiginleika að meðaltal, miðgildi og tíðasta gildi stakanna sem hún lýsir eru öll í miðju hennar, þ.e. er sama talan. Það sem veitir kúrfunni notagildi er að ávallt er jafnstórt hlutfall staka innan tiltekins fjölda staðalfrávika frá meðaltalinu. Þannig eru um 68,26% stakanna innan bilsins frá mínus einu upp í plús eitt staðalfrávik frá meðaltalinu, um 95,44% staka eru innan ± tveggja staðalfrávika frá meðaltali og 99,72% innan ± þriggja. Z-gildi. Hægt er að umbreyta mælingum sem fylgja normalkúrfunni í svonefndar staðaleinkunnir, einnig kallaðar z-einkunnir eða z-gildi. Staðaleinkunn greinir frá því hver staða mælingar er gagnvart normalkúrfunni. Z-einkunnir eru í raun staðalfrávik; +1z táknar þannig eitt staðalfrávik fyrir ofan meðaltal, og -2z táknar tvö staðalfrávik fyrir neðan meðaltal. formula_14, þar sem x er mælingin sem á að breyta í Z-einkunn, en x̅ er meðaltal allra mælinganna og s staðalfrávik þeirra. Normalkúrfa sem er mæld í z-gildum, þar sem staðalfrávik er 1 og meðaltal er 0, kallast stöðluð normalkúrfa. Sankti Lúsía. Sankti Lúsía er sjálfstætt eyríki á frjósamri og hálendri eldfjallaeyju; í Litlu-Antillaeyjaklasanum á mörkum Karíbahafs og Atlantshafs. Ríkið sem telur 166.000 íbúa, byggir á þingræðibundnu lýðræði en í konugssambandi við Breska samveldið. Landlýsing. Eyjan er 616 km2 að stærð og er hluti af Windward eyjaklasanum í Karíbahafi. Eyjan er sunnan við Sankti Vinsent og Grenadíneyjar og norðan við Martinique. Sankti Lúsía hefur verið í Breska samveldinu frá 1979. Hún er frjósöm og hálend eldfjallaeyja; hæsti tindur: Gimie, 959 m. Á eyjunni er hitabeltisloftslag. Höfuðborgin er Castries. Íbúar. Íbúar (2009) eru um 166. 267. Íbúarnir eru aðallega af afrískum uppruna og Kaþólska kirkjan er ríkjandi trú, en þar er einnig stór hópur mótmælenda. Enska er opinbert tungumál, en Kwéyòl, franskur Creole, er einnig víða töluð, og margir eyjaskeggjar tala einnig franska eða spænska. Saga. Kristófer Kólumbus hefur líklega séð til eyjarinnar árið 1502. Bretum mistókst í fyrstu tilraun þeirra að nýlenduvæða eyjuna upphafi 17. aldar. Eyjan var síðar byggð af frökkum sem gerðu samning við eyjaskeggja árið 1660. Bretar og Frakkar deildu um Sankti Lúsíu en því lauk með því að bretar tryggðu sér völd árið 1814. Eyjan varð þá hluti af nýlendum Bretlands á Kulborðseyjum. Þegar nýlendan var leyst upp árið 1958-62 varð Sankti Lúsía hluti af Sambandsríki Vestur-Indía. Árið 1967 fékk Sankti Lúsía nokkurt sjálfstæði sem eitt af sex ríkjum í Sambandsríki Vestur-Indía. Þann 22. febrúar árið 1979 hlaut Sankti Lúsía fullt sjálfstæði og er það þjóðhátíðardagur eyjarinnar. Hagkerfi. Hagkerfi byggir að miklu leyti á útflutningi landbúnaðarafurða (banana, kakó og annarra landbúnaðarvara úr hitabeltinu) og ferðaþjónusta. Sankti Lúsía hefur laða að erlenda fjárfestingu einkum í bankastarfsemi og létts iðnaðar, olíuhreinsunar og flutninga. Bandaríkin og Frakkland eru helstu viðskiptaríki. Stjórnarfar. Samkvæmt stjórnarskrá landsins frá 1979 er landið er þingræðibundið lýðræði. Á þjóðþinginu eru tvær deildir: öldungadeild með 11 þingsæti og Neðri deild (House of Assembly) með 17 sæti. Forsætisráðherra leiðir ríkisstjórnina. Sankti Lúsía er í Breska Samveldinu og hefur því þjóðhöfðingja samkvæmt konungssambandi við Stóra-Bretland og Norður Írland. Sankti Lúsía hefur alið flesta nóbelsverðlaunahafa miðað við höfðatölu. Það eru þeir Sir Arthur Lewis sem fékk nóbelsverðlaun í hagfræði 1979, og Derek Walcott sem fékk nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1992. Þeir eru báðir fæddir 23. janúar, en ekki sama ár. Ágúst H. Bjarnason. Ágúst H. Bjarnason (20. ágúst 1875 – 22. september 1952), var doktor í sálfræði. Foreldrar hans voru Hákon Bjarnason, kaupmaður á Bíldudal og Jóhanna K. Þorleifsdóttir. Ágúst var frumkvöðull í kennslu í sálarfræði og ritun bóka um sálarfræði á Íslandi. Hann samdi meðal annars fyrstu bókina um sálarfræði á íslensku. Menntun. Ágúst lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1894. Bylting varð í sögu sálfræði og heimspeki á Íslandi þegar Ágúst hélt svo ásamt Guðmundi Finnbogasyni til náms í Hafnarskólann í sálarfræði og heimspeki. Þeir luku báðir meistaraprófi árið 1901 og luku svo doktorsprófi árið 1911. Báðir höfðu þeir sálfræði sem aðalgrein. Lærifaðir Ágústs hét Harald Hoffding en hann var heimspekiprófessor við Hafnarháskólann og samdi gagnmerka kennslubók, Psykoligi I omrids, sem var ein helsta kennslubók í sálfræði á vesturlöndum, en hún kom út árið 1882. Doktorsritgerð Ágústs fjallaði um franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau. Kennsla, skriftir og skólastjórnun. Ágúst ritaði fjölda greina en hans kunnasta og áhrifamesta rit er "Yfirlit yfir sögu mannsandans", sem byggðist á fyrirlestrum Hannesar Árnasonar og kom út í Reykjavík í fimm bindum á árunum 1905–1915, og síðar í endurskoðaðri, en ófullgerðri, útgáfu undir nafninu "Saga mannsandans" á árunum 1949-1954. Ágúst var skipaður prófessor í heimspeki árið 1911 við Háskóla Íslands. Hann var rektor skólans 1918 og 1928 og skólastjóri Gagnfræðaskóla Reykjavíkur 1928 til 1944. Ágúst samdi bækur bæði fyrir heimspeki og sálfræði en bók hans "Almenn sálarfræði" sem kom út árið 1916 var fyrsta íslenska frumsamda sálfræðibókin. Í bókinni er meðal annars komið inn á bakgrunn sálfræðinnar í heimspeki, rannsóknaraðferðir greinarinnar, einstök rannsóknarsvið eins og sáleðlisfræði Fechners, minnisrannsóknir Ebbinghaus og kenningar James og Lange um eðli tilfinninga. Bókin var byggð á kennslu hans í skólanum. Hann samdi einnig merkilegt rit um tilfinningar og kom að rannsóknum um dulræn fyrirbæri. Áhrif heimspeki á sálfræði. Áhrif heimspeki á sálfræði eru margvísleg og raunar má segja að sálfræðin hafi þegið viðfangsefni sitt í arf frá heimspekinni. Heimspekin, sem slík, er miklu eldri grein en sálfræðin, sem er ekki nema rétt rúmlega hundrað ára gömul en heimspekingar hafa verið að störfum í meira en 2500 ár. Því fram á 19. öld töldu margir að ekki væri hægt að rannsaka hugann með hinni vísindalegu aðferð en á hinn bóginn hafa heimspekingar ætíð fengist við sálina mannshugann og skyld viðfangsefni líka. Forngríski heimspekingurinn Aristóteles, sem var uppi (384-322 f.Kr.), setti fram ýmsar kenningar, t.d. um eðli sálarinnar, minni og skynjun, og eru margar af kenningum hans í fullu gildi enn þann dag í dag. Til forna settu margir heimspekingar fram kenningar sem kynnu að vera flokkaðar sem sálfræðilegar kenningar í dag eða á mörkum sálfræði og heimspeki. Þó höfðu þessir fornu spekingar ekki mikil áhrif á nútímasálfræði en heimspekingar seinni tíma höfðu umtalsverð áhrif. Þar fer fremstur í flokki franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1650). Hann gerði skýran greinarmun á sál og líkama og gekk út frá því að líkamsstarfsemi mætti skýra með vélrænum lögmálum. Hann færði einnig rök fyrir því að sálin væri af allt öðru tagi en efnisheimurinn. Hún laut engum vélrænum lögmálum, hana þurfti að kanna með sjálfsskoðun og íhugun. Hann taldi einnig að dýr væru algjörlega sálarlaus og mætti þá útskýra tilveru þeirra einungis út frá vélrænum lögmálum. Descartes reyndi einnig að staðsetja sálina í manninum, hann komst að þeirri niðurstöðu að hún væri í heilakönglinum enda væri hann svolítið sér á báti í heilanum - enginn vissi hvaða tilgangi hann gegndi og hann er eina heilalíffærið sem er ekki til í tvöföldu upplagi. Þar vildi Descatres meina að heimili sálarinnar væri. Hugmyndir hans lifa góðu lífi innan sálfræðinnar í dag. Bresku heimspekingarnir John Locke (1632-1704) og John Stuart Mill (1806-1873) notuðu kenningar Aristótelesar til að rekja mannlega þekkingu og töldu hana vera samspil skynjunar og hugtengsla. Þeim fannst einnig að meðvitundin ætti að vera aðalviðfangsefni sálfræðinnar. Kíribatí. Kíribatí er eyríki í Suður-Kyrrahafi. Því tilheyra um 33 baugeyjar sem eru dreifðar um 3.500.000 ferkílómetra svæði nálægt miðbaug. Kíribatí (borið fram /kiribas/) er gilbertísk umritun á „Gilberts“, en eyjarnar voru áður hluti Gilbertseyja. Sankti Vinsent og Grenadíneyjar. Sankti Vinsent og Grenadíneyjar er eyjaklasi í Karíbahafi og hluti Kulborðseyja, syðst í Litlu-Antillaeyjaklasanum. Eyjarnar urðu hluti af Sambandsríki Vestur-Indía 1958 þar til það hrundi 1962. Eyjarnar urðu síðastar Kulborðseyja til að fá sjálfstæði 1979. Litlu-Antillaeyjar. Litlu-Antillaeyjar eru eyjaklasi í Antillaeyjaklasanum sem, ásamt Bahamaeyjum, mynda Vestur-Indíur. Litlu-Antillaeyjar eru löng röð lítilla eyja sem liggur frá norðri til suðurs og myndar austurmörk Karíbahafsins við Atlantshaf. Litlu-Antillaeyjum er stundum skipt í Kulborðseyjar (suður) og Hléborðseyjar (norður) þar sem ríkjandi staðvindar blása frá suðri til norðurs. Hléborðseyjar. Hléborðseyjar eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Þær eru nefndar Hléborðseyjar þar sem ríkjandi staðvindar blása frá suðri til norðurs svo þær eru hléborðs miðað við syðri eyjarnar; Kulborðseyjar. Hléborðseyjar var heiti á breskri nýlendu sem taldi eyjarnar Antígva, Barbúda, Bresku Jómfrúreyjar, Montserrat, Sankti Kristófer, Nevis, Angvilla og (til 1940) Dóminíku, frá 1671 til 1816 og aftur frá 1833 til 1960. Nýlendan hét Sambandsnýlenda Hléborðseyja ("Federal Colony of the Leeward Islands") frá 1871 til 1956 og Hléborðseyjaumdæmi ("Territory of the Leeward Islands") frá 1956 til 1960. Hin örsmáa og fjarlæga Fuglaeyja ("Isla Aves") er stundum talin með til hægðarauka. Ólíkar skiptingar. Skiptingin milli Hléborðseyja og Kulborðseyja er mismunandi í munni Breta, Spánverja, Hollendinga og Þjóðverja: Í enskumælandi löndum er venjulega miðað við að skiptingin liggi milli Dóminíku og Martinique, en í spænskumælandi löndum eru eyjarnar milli Jómfrúreyja suður að Trínidad og Tóbagó (að þeim meðtöldum) kallaðar Kulborðseyjar og eyjarnar við strönd Venesúela kallaðar Hléborðseyjar. Að auki er staðbundið (t.d. á Bresku Jómfrúreyjum) að telja eyjarnar frá Jómfrúreyjum að Dóminíku til Kulborðseyja. Antillaeyjar. Antillaeyjar eru eyjarnar í Karíbahafi eða Vestur-Indíur, utan Bahamaeyjar. Almennt er gerður greinarmunur á Stóru-Antillaeyjum, norðan við Karíbahafið, sem telja Kúbu, Jamaíku, Hispaníólu og Púertó Ríkó, og Litlu-Antillaeyjum sem eru austurmörk Karíbahafsins og skiptast í Hléborðseyjar og Kulborðseyjar og eyjarnar undan strönd Venesúela. Landfræðilega eru eyjarnar taldar til Norður-Ameríku, en af menningarlegum og sögulegum ástæðum eru Stóru-Antillaeyjar talin með Rómönsku Ameríku. Stóru-Antillaeyjar. Stóru-Antillaeyjar eru eyjaklasi á norðurmörkum Karíbahafsins, og telst til Vestur-Indía, ásamt Litlu-Antillaeyjum og Bahamaeyjum. Sankti Kristófer og Nevis. Sambandsríkið Sankti Kristófer og Nevis (eða Sankti Kitts og Nevis'") er tveggja eyja eyríki í Karíbahafi. Eyjarnar eru hluti Hléborðseyja, sem eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Höfuðborg sambandsríkisins heitir Basseterre og er ásamt aðsetri alríkisstjórnarinnar staðsett á stærri eyjunni, Sankti Kristófer. Nevis ("Nuestra Señora de las Nieves") er staðsett 3 km suðaustur af stærri eyjunni. Áður var breska nýlendan Angvilla hluti af sambandinu, sem þá hét Sankti Kristófer-Nevis-Angvilla. Nálægustu eyjar eru Angvilla, Saba, Saint Barthélemy og Saint Martin í norðnorðvestur, Antígva og Barbúda í norðaustur, Montserrat í suðvestur og Saint Croix í vestur. Vanúatú. Lýðveldið Vanúatú (bislama: "Ripablik blong Vanuatu"; enska: "Republic of Vanuatu"; franska: "République de Vanuatu") er eyríki í Suður-Kyrrahafi, 1.750 km austan við Ástralíu og 500 km norðaustan við Nýju-Kaledóníu, vestan við Fídjieyjar og sunnan við Salómonseyjar. Eyjaklasinn telur 83 eyjar. Hann hét Nýju-Suðureyjar ("New Hebrides") á nýlendutímanum. Upphaflega voru eyjarnar byggðar Melanesum. Á 18. öld hófu Evrópubúar að setjast þar að og 1880 gerðu bæði Bretland og Frakkland tilkall til yfirráða yfir hlutum eyjanna. 1906 settu löndin þar upp sameiginlegt yfirráðasvæði. Á 8. áratugnum jókst þrýstingur á sjálfstæði sem fékkst árið 1980. Platína. Platína er frumefni með efnatáknið Pt og er númer 78 í lotukerfinu. Þetta er þungur, þjáll, linur, verðmætur og gráhvítur hliðarmálmur, sem er einnig mjög tæringarþolinn og finnst í nikkel- og kopargrýti og að auki í náttúrulegu formi. Platína er notuð í skartgripi, tækjabúnað í rannsóknarstofur, rafsnerta, tannlækningar og mengunarvarnakerfi bíla. Almenn einkenni. Í hreinu formi er platína fallega silfurhvít, lin og hamranleg. Hún er einnig tæringarþolin. Hvataeiginleikar allra sex málmanna í platínuflokknum eru framúrskarandi (blanda súrefnis og vetnis springur í viðurvist platínu). Sökum þessara hvataeiginleika er platína notuð í hvarfakúta í útblásturskerfum bíla. Slit- og tæringarþol platínu gerir hana vel tilfallna í skartgripagerð og verðmætari en gull. Verð platínu breytist eftir framboði en er yfirleitt tvöfalt meira en gulls. Fágæti platínu á 18. öld varð til þess að Lúðvík XVI frakkakonungur lýsti því yfir að hún væri eini málmurinn sem að hæfði kóngi. Aðrir markverðir eiginleikar teljast vörn við efnaskaða, frábærir háhitaeiginleikar, og stöðugir rafmagnsfræðilegir eiginleikar. Allir þessir eiginleikar hafa verið notaðir á einn eða annan hátt í iðnaði. Platína oxast ekki í snertingu við loft við hvaða hitastig sem er en getur tærst af cýaníði, halógenum, brennistein og lút. Hún leysist hvorki upp í salt- né saltpéturssýru en er þó uppleysanleg með kóngavatni. Algeng oxunarstig platínu eru +2, +3 og +4. Saga. Platína dregur nafn sitt af spænska orðinu "platina" sem þýðir „lítið silfur“. Platína og platínumálmblöndur hafa þekkst í náttúrulegu formi í langan tíma. Þó að hún hafi verið notuð af innfæddum ameríkönum fyrir landafundi Kólumbusar, var fyrst getið til hennar í Evrópu árið 1557 í skrifum ítalska hugvísindamannsins Julius Caesar Scaliger sem lýsing á dularfullum málmi er fannst í mið-amerískum námum á milli Darién (Panama) og Mexíkó ("þar til nú óbræðanlegur af neinni spænskri list"). Spánverjar kölluðu málminn "platina", eða „litla silfrið“, þegar þeir rákust á það fyrst í Kólumbíu. Þeir litu á platínu sem óæskileg óhreinindi í silfrinu sem að þeir voru að grafa eftir, og hentu henni. Platína var svo loksins uppgötvuð af stjarnfræðingunum Antonio de Ulloa and Don Jorge Juan y Santacilia, sem báðir voru tilkvaddir af Filipus V spánarkonungi til að verða samferða landfræðilegum leiðangri til Perú, sem að stóð frá 1735 til 1745. Ulloa sá þar "platina del pinto", sem var óvinnanlegur málmur sem fannst með gulli í Nýju-Granada (Kólumbía). Á leiðnni til baka til Spánar var skip hans tekið af Bresku sjóræningjaskipi. Þó að farið hafi vel um hann í Englandi, hann var jafnvel gerður meðlimur að Konunglega Vísindafélaginu, var honum ókleyft að skrifa um þennan óþekkta málm þangað til árið 1748. Áður en að það gerðist þó, einangraði Charles Wood frumefnið árið 1741. Merki gullgerðarlistar yfir platínu (til vinstri) var gert með því að tengja saman merki silfurs og gulls. Í langan tíma var metrinn skilgreindur sem fjarlægð milli tveggja lína á stöng úr platínu-iridín málmblöndu. Er þessi stöng enn geymd hjá Bureau International des Poids et Mesures í Sèvres í Frakklandi. Sívalningur úr sömu málmblöndu er þó enn þann daginn í dag notaður sem skilgreiningin á kílógrammi og er geymt í sama húsi og metrastöngin. Platína er einnig notuð í skilgreiningunni á staðalvetnisskauti. Tilvist. Platína finnst oft í hreinu formi og blandað saman við iridín sem platiniridín. Platínuarseníðið, sperrýlít, er stór uppspretta platínu í tengslum við nikkelgrýti í Sudbury í Ontario. Samsætur. Náttúruleg platína samanstendur af fimm náttúrulegum samsætum, og einni geislasamsætu, Pt-190, sem hefur gríðarlega langan helmingunartíma (6 milljarði ára). Til er fjöldi geislasamsætna, þar sem sú stöðugasta, Pt-193, hefur helmingunartíma 50 ár. Varúðarráðstafanir. Platína er yfirleitt óeitruð sökum óhvarfgirni sinnar en efnasambönd platínu teljast baneitruð. Efnasambönd platínu finnast mjög sjaldan í náttúrunni. Þíðjökull. Þíðjökull (eða tempraður jökull) er jökull þar sem hiti jökulsins er við frostmark vatns, en slíkir jöklar eru utan heimskautasvæðanna. Hiti gaddjökla er ávallt neðan frostmarks vatns. S-blokk. S-blokk lotukerfisins samanstendur af tveimur fyrstu flokkum þess: alkalímálmum og jarðalkalímálmum ásamt vetni og helíni. Í grunnstöðu allra frumefna í þessari blokk, er orkuríkasta rafeindin í s-svigrúmi. Frumefni s-blokkar eru sterkir afsýringar, fyrir utan helín sem er efnafræðilega óvirkt. Heimslitafræði. Heimslitafræði er grein innan trúfræði sem fæst við endalok alheimsins eða mannkyns. P-blokk. P-blokk lotukerfisins samanstendur af síðustu sex flokkum þess fyrir utan helín. Í grunnstöðu allra frumefna í þessari blokk, er orkuríkasta rafeindin í p-svigrúmi. P-blokkin inniheldur alla málmleysingja og málmunga ásamt nokkrum málmum. D-blokk. D-blokk lotukerfisins samanstendur af flokkum frumefna sem að í grunnstöðu hafa orkuríkastu rafeindina í d-svigrúmi. Frumefni í d-blokk eru einnig þekkt sem "hliðarmálmar". F-blokk. F-blokk lotukerfisins samanstendur af frumefnum sem í grunnstöðu hafa orkuríkastu rafeindina í f-svigrúmi. Ólíkt hinum blokkunum, fylgir hefðbundin skipting f-blokkar lotum svipaðra sætistalna frekar en flokki svipaðra rafeindaskipana. F-blokk hefur því að geyma lantaníða og aktiníða. G-blokk. G-blokk lotukerfisins samanstendur af frumefnum sem í grunnstöðu hafa orkuríkastu rafeindina í g-svigrúmi. Ekki hafa ennþá fundist frumefni sem að tilheyra g-blokk, en tilvist þeirra hefur verið spáð fyrir af þrautreyndu skammtafræðilegu líkani. Epikúros. Epikúros (341 f.Kr. á eynni Samos í Grikklandi – 270 f.Kr. í Aþenu í Grikklandi) (gríska: "Ἐπίκουρος") var grískur heimspekingur og upphafsmaður epikúrismans, einnar vinsælustu heimspekistefnunnar á helleníska tímanum. Ævi. Foreldrar Epikúrosar voru Neókles og Kærestrate. Þau voru bæði aþenskir borgarar en fluttust til aþensku nýlendunnar á eynni Samos í Eyjahafinu. Samkvæmt Apollodóros (að sögn sagnaritarans Díogenesar Laertíosar, sjá X.14-15) fæddist hann á sjöunda degi gamelíonmánaðar á þriðja ári 109. ólympíutíðar, þegar Sósígenes var arkon (þ.e. í febrúar árið 341 f.Kr.). Hann sneri aftur til Aþenu átján ára gamall til þess að hljóta herþjálfun. Hann dvaldi með föður sínum í Kólofon eftir að Perídikkas hafði rekið aþensku nýlendubúana burt frá Samos vegna uppreisnar þeirra í kjölfar andláts Alexanders mikla (u.þ.b. 320 f.Kr.). Hann varði næstu árum í Kólofon, Lampsakos, og Mýtilene, þar sem hann stofnaði skóla 32 ára að aldri og hóf að laða til sín nemendur. Í arkonstíð Anaxíkratesar (307-306 f.Kr.) sneri hann á ný aftur til Aþenu þar sem hann stofnaði skólann sem varð þekktur undir nafninu Garðurinn, en skólinn dró nafn sitt af garðinum þar sem kennslan fór fram, u.þ.b. miðja vegu milli súlnaganganna Stoa poikile og Akademíunnar, skólans sem Platon hafði stofnað. Epikúros lést á öðru ári 127. ólympíutíðar, er Pýþaratos var arkon, þá 72 ára gamall. Skóli Epikúrosar. Epikúros leyfði konum og þrælum að taka þátt í skóla sínum. Vinsældir skólans jukust og hann varð ásamt stóuspeki og efahyggju einn þriggja meginskóla heimspekinnar á hellenískum tíma og hann hélt velli fram á keisaratímann í Róm. Í Róm var skáldið Títus Lúcretíus Carus helsti málsvari stefnunnar. Hann samdi kvæðið "Um eðli hlutanna" ("De rerum natura"), epískt ljóð í sex bókum, sem var ætlað að auka vinsældir stefnunnar og laða að nýja fylgjendur. Kvæðið fjallar einkum um náttúruspeki epikúrismans. Rómverski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Cíceró var önnur mikilvæg heimild um epikúrisma, enda þótt hann sé afar gagnrýninn á epikúrismann. Díogenes frá Önóanda er einnig mikilvæg heimild. Í bænum Herculaneum hefur bókasafn, sem tengdafaðir Júlíusar Caesars, Lucius Calpurnius Piso Caesoninus, átti og hefur verið nefnt Papýusbúgarðurinn, varðveist undir öskulagi frá eldgosinu í Vesúvíusi árið 79. Þar hafa fundist mörg verk eftir Fílódemos, epikúring sem var uppi seint á hellenískum tíma, og brot verka Epikúrosar sjálfs, sem bera vitni um varandi vinsældir skólans. Enn er unnið að því að ráða í og ritstýra þeim texta sem þar hafa fundist. Eftir að Constantinus fyrsti gerði kristni að ríkistrú Rómaveldis féll epikúrisminn í ónáð. Kenning Epikúrosar um að guðirnir létu sig mannleg mál ekki varða hafði ávallt rekist á við hugmyndir abrahamískra trúarbragða um guð. Guð og kenningar heimspekinnar voru í grundvallaratriðum ósamrýmanlegar. Sem dæmi um þetta má nefna að í talmúdískum bókmenntum er orðið fyrir villutrúarmann „apikouros“. Skólinn gekk í gegnum langt tímabil hnignunar og óvinsælda. Hins vegar lífguðu vísindamenn upp á eindahyggjuna á 18. og 19. öld. Seint á 20. öld gekk epikúrisminn sjálfur í endurnýjun lífdaga. Kenningar. Kenningar Epikúrosar voru frábrugðnar kenningum annarra grískra hugsuða tímabilsins og voru einnig frábrugðnar kenningum eldri spekinga en byggðu eigi að síður á mörgum atriðum í heimspeki Demókrítosar. Líkt og Demókrítos var Epikúros eindahyggjumaður og trúði að heimurinn væri á endanum myndaður úr örsmáum efnislegum eindum sem voru nefnd ódeili (atóm) og sem flugu í gegnum tómarúm. Allt sem gerist er afleiðing af árekstrum ódeilanna, sameiningu þeirra þegar þær loða hver við aðra án tilgangs eða markmiðs með hreyfingu þeirra. Í þekkingarfræði lagði Epikúros lagði áherslu á skynjun og skynreynslu. Lúcretíus segir að hann hafi verið einn af fyrstu grísku hugsuðunum sem braust undan guðsótta og guðsdýrkun, sem var algeng á hans tíma, en Epikúros játaði jafnframt að trúarlegar athafnir væru gagnlegar sem leið til íhugunar um guðina og til þess að nota þá sem dæmi um hið ánægjulega líf. Heimspeki Epikúrosar byggir á þeirri kenningu að öll gæði og allt böl séu afleiðingar skynjunar. Ánægjulegar skynjanir eru góðar. Sársaukafullar skynjanir eru slæmar. Þótt Epikúros hafi oft verið misskilinn og talinn hafa mælt fyrir hóflausum eltingaleik við ánægju var kenning hans þó sú að hin æðstu gæði séu fólgin í lausn undan sársauka (jafnt líkamlegum sársauka sem andlegum). Þótt Epikúros hafi talið gott að leitast við að vera ánægður var hann þó ekki nautnahyggjumaður í nútímaskilningi. Hann varaði við því að eltast óhóflega við ánægju vegna þess að slíkt leiðir oft til sársauka. Til dæmis varaði Epikúros við því að eltast of ákaflega við ástina þar eð slíkt leiðir oft til óróleika og sársauka. Rökin mætti ef til vill nefna „timburmannarökin“. Að eiga sér góða vini sem maður getur reitt sig á er hins vegar eitt mikilvægasta atriðið í ánægjulegu lífi. Epikúros trúði því einnig (andstætt Aristótelesi) að dauðinn væri ekki slæmur. Samkvæmt kenningu Epikúrosar eru gæði og böl (í formi ánægju og sársauka) afleiðingar af skynjunum okkar. Án skynjunar er ekkert böl. Þegar maður er á lífi finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er ekki dauður. Þegar maður deyr finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er dauður og þar sem dauði er tortíming getur hann ekki skynjað neitt lengur. Þar af leiðandi segir Epikúros að „dauðinn er okkur ekkert“. Andsætt stóumönnum sýndu epikúringar stjórnmálaþáttöku engan áhuga, enda töldu þeir slíkt einungis leiða til áhyggja og óróleika. „Lifðu lífinu í einangrun!“ var ráð Epikúrosar. Líkja má garði hans við kommúnur nútímans. Margir hafa leitað hælis frá skarkala samfélagsins með því að einangra sig frá samfélaginu. Ein þekktasta kennisetning epikúrismans, sem lýsir epikúrismanum í hnotskurn er λάθε βιώσας eða "laþe biōsas" (Plútarkos "De latenter vivendo" 1128c; Flavius Philostratus "Vita Apollonii" 8.28.12), sem merkir „lifðu í laumi“, þ.e. komdu þér í gegnum lífið án þess að draga athygli að sjálfum þér, lifðu lífinu án þess að leita dýrðar, auðs eða valda, án frægðar og njóttu litlu hlutanna, eins og matar og vinskapar o.s.frv. Arfleifð. Ýmis atriði úr heimspeki Epikúrosar hafa gengið aftur eða dúkkað upp hjá ýmsum hugsuðum og heimspekistefnum í sögu Vesturlanda. Bölsvandinn (sem er stundum nefndur þverstæða Epikúrosar er fræg rök gegn tilvist guðs. Epikúros var einn af fyrstu heimspekingunum sem útskýrði réttlætishugtakið á grundvelli samfélagssáttmála. Hann skilgreindi réttlæti sem samkomulag um að „valda ekki skaða og verða ekki fyrir skaða“. Tilgangurinn með því að búa í samfélagi með öðrum þar sem lög gilda og refsing er við lagabrotum er sá að vernda borgarana frá skapa svo að maður sé frjáls til þess að leita hamingjunnar. Af þessum sökum eru lög, sem leggja mönnum ekki lið til þess að leita hamingjunnar, ranglát. Lýðræðislegir hugsuðir frönsku byltingarinnar tóku þessa hugmynd upp síðar og aðrir, líkt og John Locke, sem skrifaði að fólk ætti rétt á „lífi, frelsi, og eignum“. Locke taldi að líkami manns væri eign manns og því myndi eignarréttur manns tryggja öryggi manns sjálfs jafnt sem eigna manns. Þessi hugsun lifði áfram í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna af stofnfeðrum Bandaríkjanna svo sem Thomas Jefferson sem skrifaði að menn ættu rétt á „lífi, frelsi og að leita hamingjunnar“. Epikúros var einnig mikilvægur innblástur fyrir Friedrich Nietzsche. Nietzsche getur um mætur sínar á Epikúrosi víða í ritum sínum, m.a. í "Hinum hýru vísindum", "Handan góðs og ills" og í einkabréfum sínum til Peters Gast. Nietzsche laðaðist m.a. að getu Epikúrosar til að viðhalda glaðværu heimspekilegu viðhorfi þótt hann stæði frammi fyrir líkamlegum sársauka. Nietzsche þjáðist einig af völdum ýmissa sjúkdóma um ævina. Eigi að síður taldi hann að hugmynd Epikúrosar um hamingjuna sem lausn undan sársauka og óróleika væri og passíf og neikvæð. Díogenes Laertíos. Díogenes Laertíos, ævisagnaritari grískra heimspekinga, af sumum talinn hafa fengið eftirnafn sitt frá bænum Laerte í Kílíkíu en aðrir telja nafn hans komið frá rómverska ættarnafninu Laertii. Ekkert er vitað um ævi Díogenesar. Hann hlýtur að hafa verið uppi eftir Sextos Empeirikos (uppi um 200 e.Kr.), sem hann getur um, og á undan Stefanosi frá Býzantíon (uppi um 500 e.Kr.), sem vitnar í hann; sennilega snemma á 3. öld e.Kr. Líklegt þykir að hann hafi verið að störfum á tímum Alexanders Severusar (222-235) og eftirmanna hans. Skoðanir Díogenesar sjálfs eru einnig ókunnar. Sumir telja að hann hafi verið kristinn; en líklegra þykir að hann hafi verið epikúristi. Verkið sem hann er þekktur fyrir, "Ævisögur merkra heimspekinga", var ritað á grísku og til þess að gera grein fyrir ævisögum og kenningum grískra heimspekinga. Verkið er ógagnrýnið á heimildir og ófágað í framsetningu, en hefur þónokkuð gildi eigi að síður enda veitir það okkur innsýn í einkalíf grísku vitringanna. Af þeim sökum mun Montaigne hafa fullyrt að hann vildi gjarnan að til hefðu verið tólf Laertíosar í stað eins. Díogenes skiptir efninu í tvennt sem hann nefnir jóníska skólann og ítalska skólann; skiptingin byggir ekki á traustum rökum. Ævisögur fyrri hlutans hefjast á Anaximandrosi, og enda á Kleitomakkosi, Þeófrastosi og Krýsipposi; Síðari hllutinn hefst með Pýþagórasi, og lýkur með Epikúrosi. Sókratíski skólinn, með sínum fjölmörgu afbrigðum, er flokkaður með jónísku heimspekinni; Eleumennirnir og efahyggjumennirnireru á hinn bóginn flokkaðir með ítalska skólanum. Öll síðasta bókin er tileinkuð Epikúrosi og inniheldur þrjú afar áhugaverð bréf, stíluð á Heródótos, Pýþókles og Menókeif. Helstu heimildir Díogenesar voru rit sagnaritaranna Díódesar frá Magnesíu og Favorinusar. Fram kemur hjá Burlaeusi (Walter Burley, 14. aldar munkur) í riti hans "De vita et moribus philosophorum" ("Um ævir og siði heimspekinganna") að texti Díogenesar hafi verið meiri vöxtum en það sem nú er varðveitt. Auk ævisagna heimspekinganna ritaði Díogenes verk í bundnu máli um fræga menn undir ýmsum bragarháttum. Krýsippos. Krýsippos frá Soli (forngríska: Χρυσιππος) (280 – 207 f.Kr.) var nemandi Kleanþesar og síðar arftaki hans sem stóíska skólans í heimspeki (232-204 f.Kr.). Hann var einn áhrifamesti hugsuður stóuspekinnar og átti mestan þátt í að gera stóuspekina að vinsælustu heimspekinni bæði í Grikklandi og Róm um aldir. Krýsippos var afkastamikill rithöfundur. Verk hans munu hafa verið um 700 talsins en ekkert er varðveitt að undanskildum brotum sem síðari tíma höfundar vitna í svo sem Cicero, Seneca og fleiri. Sagan segir að Krýsippos hafi dáið úr hlátri eftir að hafa séð asna éta fíkjur. Hveragerðisbær. Hveragerði er kaupstaður í vestanverðri Árnessýslu, staðsett undir Kömbum, rétt austan Hellisheiðar. Þéttbýlismyndun byrjaði með stofnun "Mjólkurbús Ölfusinga" sem hóf starfsemi 1930, en Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 og fékk kaupstaðarréttindi árið 1987. John Hanning Speke. John Hanning Speke (4. maí 1827 – 15. september 1864) var breskur landkönnuður sem fór í þrjá fræga könnunarleiðangra til Austur-Afríku og varð fyrstur til að setja fram þá kenningu að upptök Hvítu Nílar væru í Viktoríuvatni. Leiðangrar með Richard Burton. Fyrstu tveir leiðangrar Spekes voru undir forystu Richards Francis Burtons. Hann hafði verið liðsforingi í breska hernum á Indlandi, líkt og Burton, en var laus úr herþjónustu, og hugsaði sér að leggja landkönnun fyrir sig. Fyrsti leiðangurinn var farinn til Sómalíu árið 1854. Þar særðust þeir í bardaga við innfædda og voru teknir höndum, en síðan sleppt. 1856 var Burton fenginn til þess af Konunglega landafræðifélaginu ("Royal Geographic Society") í Bretlandi að stýra leiðangri inn í landið til að freista þess að finna upptök Nílar. Þeir Speke lögðu upp frá Sansibar og ferðuðust inn í landið, fyrst vestur og síðan norðvestur þar til þeir komu að Tanganjikavatni. Burton áleit jafnvel að það gæti verið upptök Nílar, en þar heyrðu þeir líka af öðru stóru vatni sem lægi norðar. Burton var þá orðinn of veikur til að halda áfram svo það varð Speke sem fyrstur sá Viktoríuvatn. Þeir virðast hafa bundið fastmælum að bíða með yfirlýsingar í London þar til þeir væru báðir komnir þangað og tilbúnir til að kynna niðurstöður sínar. Leiðangurinn til Búganda. Þegar Speke kom aftur til London, á undan Burton, hélt hann strax fyrirlestur hjá landafræðifélaginu sem olli miklum æsingi. Félagið ákvað að kosta nýjan leiðangur, að þessu sinni undir stjórn Spekes, til að komast að því hvort þetta nýja vatn væri upptök Nílar. Speke valdi sér skoskan liðsforingja, James Augustus Grant, að förunaut, þar sem þeir Burton voru nú orðnir svarnir óvinir. Þeir Grant lögðu upp frá Sansibar í október 1860 og ferðuðust landleiðina vestan megin við Viktoríuvatn, án þess að hafa það stöðugt fyrir augum (sem átti eftir að valda Speke miklum vandræðum síðar). Þarna kynntust þeir konungsríkjunum Bunjoró og Búganda og konunginum Mútesa I. Eftir dvöl við hirð Mútesa, héldu Speke og Grant áfram ferð sinni að norðurenda Viktoríuvatns þar sem þeir sáu Ripponfossa. Þar næst héldu þeir landleiðina eftir ánni (án þess að fylgja henni alla leið) og náðu til Gondokoro í Súdan þar sem þeir hittu Samuel Baker. Þaðan héldu þeir svo aftur til Englands. Gagnrýni á athuganir Spekes. Stærsti gallinn við leiðangur Spekes var að athuganir hans skorti nákvæmni og hann fylgdi þeim ám og vötnum sem hann sá ekki vandlega eftir til að sannreyna hvernig þau tengdust. Ónákvæmari niðurstöður höfðu svo sem oft verið teknar góðar og gildar, en nú var svo komið að Burton og fleiri andstæðingar Spekes í Konunglega landafræðifélaginu nýttu sér þetta óspart til að ófrægja þá kenningu hans að upptök Nílar væru í Viktoríuvatni. Sumir stungu jafnvel upp á því að Viktoríuvatn væri ekki eitt vatn, eins og Speke hélt fram, heldur mörg lítil vötn, og byggðu þar á því hvað athuganir Spekes voru brotakenndar. Burton gældi svo enn við þá hugmynd að Tanganjikavatn væri hin eiginlegu upptök Nílar. Speke gat auk þess ekki sýnt fram á að áin sem rann úr Viktoríuvatni um Ripponfossa, tengdist Níl, þar sem hann hafði ekki fylgt ánni eftir. Árið 1864 var ákveðið að halda kappræður í félaginu, þar sem þeir Burton og Speke myndu rökræða þessi ágreiningsefni, en sama dag og umræðurnar áttu að fara fram féll Speke fyrir skoti úr eigin byssu þar sem hann var á veiðum á landareign frænda síns. Margir töldu að um sjálfsmorð hefði verið að ræða, en vitnisburðum sjónarvotta bar saman um að þetta hefði verið slys. Sannprófun athugana Spekes. Um nokkurt skeið voru kenningar Spekes vart teknar trúanlegar í Englandi og efasemdarmennirnir höfðu náð yfirhöndinni í landafræðifélaginu. 14. mars 1864 hafði Samuel Baker uppgötvað Albertsvatn og sannreynt að Níl rann um það vatn. Konunglega landafræðifélagið ákvað að fá David Livingstone til að sannreyna þessar kenningar og komast í eitt skipti fyrir öll að því hver væru upptök Nílar, en Livingstone fór of langt vestur og lagðist á endanum fyrir veikur á bökkum Tanganjikavatns, þar sem blaðamaðurinn Henry Morton Stanley fann hann 1871. Það var svo annar leiðangur Stanleys sem staðfesti að hugmyndir Spekes hefðu í meginatriðum verið réttar. Stanley gat staðfest að engin tenging væri frá Tanganjikavatni til Nílar, að Viktoríuvatn var eitt stórt vatn (hann sigldi umhverfis það) og að áin sem rann úr Viktoríuvatni var Hvíta Níl. Heimildir. Speke, John Hanning Speke, John Hanning Gísli H. Guðjónsson. Gísli Hannes Guðjónsson (fæddur 26. október 1947) er prófessor í réttarsálfræði við King's college í Lundúnum og rannsóknarprófessor við Háskólann í Reykjavík. Gísli er þekktur víða um heim fyrir rannsóknir sínar og einn fárra íslenskra sálfræðinga sem hefur náð frama erlendis. Hefur hann einkum beitt rannsóknaraðferðum sínum við greiningu á áreiðanleika vitna. Charles Darwin. Charles Darwin 51. árs; ljósmynd frá 1859 eða 1860. 1859 útgáfan af "Uppruni tegundanna". Charles Darwin (12. febrúar 1809 — 19. apríl 1882) var breskur náttúrufræðingur sem þekktastur er fyrir kenningu sína um þróun lífvera vegna náttúruvals. Æska. Darwin fæddist í Shrewsbury á Englandi. Hann fæddist inn í ríka fjölskyldu en var faðir hans Robert Darwin einn hæst launaði héraðslæknir síns tíma. Afi hans var læknirinn, náttúrufræðingurinn og ljóðskáldið Erasmus Darwin sem hafði sett fram vísi að þróunarkenningu undir lok 18. aldar. Frá æsku hafði Darwin áhuga á lífríki jarðar og safnaði hann gjarnan fuglaeggjum, skeljum og ýmsum öðrum hlutum sem tengdust náttúrufræði. Darwin átti auðvelt með að læra en hafði ekki sérstaklega gaman af því, honum leiddist þó aldrei að stúdera náttúruna eða hluti sem tengdust henni. Hann stundaði nám í læknisfræði í Edinborg á árunum 1825—1827 og var það honum traustur grunnur í líffræðirannsóknum hans í framtíðinni. Hann gafst þó snemma upp á læknisfræðinni vegna þess að hann gat ekki verið viðstaddur aðgerðir sem framkvæmdar voru án deyfingar. Faðir hans sendi hann þá til Cambridge þar sem ætlunin var að hann lyki við B.A.-gráðu og lærði síðan til prests. Í Cambridge tók hann þátt í vísindatilraunum af miklum krafti og áhuga og kynntist við það mönnum eins og grasafræðingnum Steven Henslow og jarðfræðingnum Adam Sedgwick. Það var síðan Henslow sem mælti með Darwin í hnattsiglinguna með HMS Beagle, sem er talinn einn afdrifaríkasti viðburður í lífi Darwins. Ferðir með Beagle. Hann tók sér stöðu um borð sem ólaunaður vísindamaður til þess að rannsaka lífríki framandi slóða. Ferðin með skipinu hófst árið 1831 og endaði með að taka 5 ár, sigldu þeir meðal annars til stranda Suður-Ameríku, Tahiti, Nýja-Sjálands, Suður-Afríku og Galapagos eyjanna þar sem Darwin er talinn hafa gert sínar merkustu uppgvötanir. Darwin sagði síðar sjálfur að ferðin hefði verið einn mikilvægasti atburður lífs síns. Hann hóf ferðina ný útskrifaður úr háskóla 22 ára að aldri en þegar hann snéri aftur úr henni þá var hann orðinn virtur náttúrufræðingur og þekktur fyrir viðamikið safn af munum sem hann hafði safnað í ferðinni. Ferðin veitti honum mikla reynslu sem nýttist honum í rannsóknum sem hann framkvæmdi síðar. Partur af rannsóknum hans tengdist meðal annars ræktun en hann hafði mikinn áhuga á því hvernig hægt var að rækta dýr líkt og hunda og dúfur. Á meðan ferðinni stóð hélt hann sambandi við fjölskyldu og vini með bréfa sendingum, en hann fékk jafnframt fréttir að heiman frá föður sínum og systrum. Darwin sendi í fyrstu heim jarðfræðiskýrslur sínar sem hjálpuðu mikið til við að útskýra þróun jarðfræðistöðu jarðarinnar. Hann trúði að heimurinn breyttist smám saman en ekki í stórum hamförum eins margir trúðu á þessum tíma. Hann gerði einnig mikilvægar líffræðilegar uppgötvanir fljótlega þótt hann hafi ekki áttað sig á mikilvægi þeirra strax. Til dæmis fann hann steingervinga útdauðra tegunda og ævaforna kuðunga í hlíðum Andesfjallana. Hann vissi ekki hvernig þetta hefði komið til en var viss um að kenning FitzRoys um að þetta væru tegundir sem Nói hefði ekki komið fyrir í Örkinni sinni væri ekki sönn. Síðari ár. Eftir að hann kom heim frá heimsförinni með Beagle gaf hann út rit sín og rannsóknir sem hann gerði á The Beagle og gerði það hann frægan og vinsælan ferðahöfund. Hann starfaði eftir það í einrúmi heima hjá sér sem sjálfstæður vísindamaður, en það gátu fáir gátu gert á Viktoríutímum Englands. Robert faðir hans borgaði uppihald Charles og allan kostnað og því þurfti Charles aldrei að leita sér að launaðri vinnu. Mikilvægasta kenning Darwins tengdist þó skorti, en það var kenningin um náttúruval. Þegar náttúruval er að verki fæðast fleiri einstaklingar en geta komist af og því lifa aðeins þeir hæfustu. Þeir fjölga sér og geta af sér fleiri „hæfa“ einstaklinga. Kenning hans um náttúruval og þróun olli miklu fjaðrafoki enda var kirkjan bálreið út í hann fyrir að kalla mannveruna apa. Það má teljast merkilegt að á þeim tíma sem kenning hans kom út þá fékk hún mikla umfjöllun í þjóðfélaginu en það má meðal annars rekja til minnkandi áhrifa kirkjunnar þegar kom að útgáfu bóka. Þegar bókin kom út fékk hún meðal annars mikla umfjöllun vegna þess að ekki var komið í veg fyrir að hún væri gefin út og almenningur gat skoðað kenninguna og hugsað út í hana. Innan við áratug seinna hafði ókyrrðin þó nánast gengið yfir og hann gaf út þrjú verk sem hjálpuðu við að leggja nýjan grunn í sálfræði. Það voru verkin "Afkoma mannsins" sem fjallaði um þá kenningu að öll persónueinkenni mannskepnunar og jafnvel háþróaðir sálfræðilegir hæfileikar á borð við hugrekki, samúð, skynsemi og rökhugsun, mætti finna í frumformi sínu í öðrum dýrategundum. Því væri engin ástæða til að segja að maðurinn hafi ekki þróast í átt að núverandi mynd. "Um látbrigði tilfinninga manna og dýra" sagði síðan að dýr sýndu tilfinningar líkt og menn en aðeins með látbrigði og þessvegna gætu sálfræðingar rannsakað atferli dýra til þess að komast að sálfræðilegum upplýsingum um menn. Darwin hafði mikil áhrif á sálfræði með áherslu sinni á fjölbreytni einstaklinga og hvatti þannig menn enn frekar til þess að rannsaka einstaklinga og atferli þeirra í staðinn fyrir staðlaðar fjöldarannsóknir sem einbeittu sér, sér í lagi að meðaltölum og tölfræði sem á engan hátt endurspegla sálfræðilega starfsemi í mönnum. Almenn áhrif Darwins urðu þó sérstaklega mikil hjá breskum og amerískum sálfræðingum, sem einbeittu sér aðallega að atferlum og hegðun og mælingum. Ef nefna á nöfn sem Darwin hafði áhrif á má nefna William James, James Angell, John Dewey, Edward Thorndike og Robert Woodworth. Hann giftist frænku sinn Emmu Wedgwood árið 1839. Þau eignuðust 10 börn gengu þau í gegnum þá sorg að missa þrjú börn, eitt andaðist við fæðingu,annað lést fyrir tveggja ára aldur en það þriðja lést á tíunda aldurs ári. það var í raun grimm áminning um hvernig lífið gengi í raun fyrir sig en eins og kenning hans hélt fram að aðeins þeir hæfustu lifa af. Charles Robert Darwin lést 19. apríl 1882. Innan fárra stunda bárust fréttirnar um lát hans til Lundúna og var ákveðið að hann skyldu jarðsettur í Westminster Abbey eins og mörg stórmenni Breta, þar á meðal Isaac Newton um það bil hálfri annarri öld fyrr. Stuttu eftir dauða Darwins kom fram í sviðsljósið skóli af félagslegum darwinisma sem dró boðskap sinn aðallega frá hugsuninni um að „hinir hæfustu komist af“. Fylgismenn félagslegs darwinisma töldu þannig að ef hver og einn berðist aðeins fyrir sjálfan sig myndi félagsheildinn herðast og verða sterkari. Þessar hugmyndir samræmast á engan hátt hugsunarhætti Darwins. Tengt efni. Darwin, Charles Þjóðréttarsamningur. Þjóðréttarsamningur er bindandi gerningur sem aðilar þjóðaréttarins gera sín á milli og ætlað er að skapa rétt eða leggja skyldur á samningsaðila. Aðilar geta bæði verið ríki og alþjóðastofnanir. Meginheimild þjóðaréttarins með almennum reglum á þessu sviði er Vínarsamningur um milliríkjasamninga frá 1969 en hann tók gildi 1980 þegar tilskilinn fjöldi ríkja hafði fullgilt hann og tekur hann aðeins til samninga sem samþykktir hafa verið eftir það en reyndar er litið svo á að með samningnum hafi verið skráðar þegar gildandi venjur og því bindi hann ríki án tillits til aðildar að honum og þá einnig samninga fyrir 1980. Hundasund. Hundasund er það sund sem hundar synda, það fer þannig fram að hundurinn liggur á bringunni með höfuðið upp úr vatni og sparkar loppunum sitt á hvað aftur til að knýja sig áfrám. Orðið er þó oftast notað yfir það þegar menn synda eins og hundar, og eru þá sagðir synda hundasund, hundasund er ekki viðurkennd íþróttagrein af Alþjóða sundsambandinu og er oftast notað af fólki sem kann ekki önnur sund eða til að hvíla líkamann á öðrum sundum, t.d. bringusundi og skriðsundi. Alþjóða sundsambandið. Alþjóða sundsambandið (franska: "Fédération Internationale de Natation", "FINA") er alþjóða íþróttasamband sem skipuleggur og setur reglur um sund, listsund, dýfingar og vatnapóló, sambandið á á höfuðstöðvar sínar í Lausanne í Sviss. Staðsetningarhyggja. Staðsetningarhyggjan er kenning í sálfræði og heimspeki sem gengur út á að hægt sé að staðsetja sálfræðilega starfsemi í heilanum. Staðsetningarhyggjan hefur átt misjöfnu gengi að fagna frá því að hún var fyrst sett fram fyrir 200 árum. Franz Joseph Gall setti fyrstur fram kenningu um að unnt væri að greina 27 mismunandi hæfileika á heilaberkinum. Sú kenning féll fljótt í ónáð en meginhugmyndin hefur staðist tímans tönn. Sérfræðingar hafa deilt um hvort heilinn vinni sem ein heild eða hvort hlutarnir séu tiltölulega sjálfstæðir og enn eru skiptar skoðanir um hve langt beri að ganga í staðsetningarhyggju. Árangurslögmálið. Árangurslögmálið er lögmál sem segir til um að hjá dýrum verði þær svaranir tíðari sem hafa jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir dýrið en aðrar svaranir hverfi smám saman. Lögmálið var sett fram af dýrasálfræðinginum Edward L. Thorndike á 19. öld sem gerði rannsóknir á gáfum katta og leiddi út frá þeim lögmálið. Richard Francis Burton. Richard Francis Burton (19. mars 1821 – 19. október 1890) var breskur landkönnuður, þýðandi, rithöfundur og Austurlandafræðingur. Hann varð frægur fyrir ævintýralega könnunarleiðangra sína um Mið-Austurlönd og Austur-Afríku sem hann skrifaði um margar bækur, og einnig fyrir þýðingar sínar á ritum eins og "Þúsund og einni nótt" og "Kama Sútra". Þekktustu ferðir hans voru þegar hann ferðaðist, dulbúinn sem pastúni, til Mekka, ferðir hans um Austur-Afríku ásamt John Hanning Speke til að leita upptaka Hvítu Nílar, og heimsókn hans til Brigham Young í Salt Lake City. Hann var annálaður málamaður og skylmingamaður. Að síðustu gekk hann í bresku utanríkisþjónustuna og varð ræðismaður í Damaskus, Fernando Po og Trieste. Hann var aðlaður af Viktoríu Bretadrottningu árið 1886. Tenglar. Burton, Richard Francis Burton, Richard Francis Burton, Richard Francis Damaskus. Damaskus (arabíska: دمشق Dimashq opinberlega, ash-Sham الشام í almennu tali) er höfuðborg Sýrlands og er talin elsta byggða borg heims. Núverandi íbúafjöldi er áætlaður um tvær milljónir. Borgin liggur í um 80 km frá strönd Miðjarðarhafsins, við ána Barada. Hún stendur á hásléttu, 680 metra yfir sjávarmáli. Henry Morton Stanley. Sir Henry Morton Stanley (29. janúar 1841 – 10. maí 1904) var bandarískur blaðamaður og landkönnuður af velskum uppruna. Hann varð frægur fyrir leiðangra sína til Afríku, fund sinn með David Livingstone 1871 og ferð sína eftir Kongófljóti frá upptökum þess við Tanganjikavatn í Austur-Afríku til ósanna við Atlantshaf. Stanley barðist með báðum aðilum í Þrælastríðinu og gerðist eftir það blaðamaður á "New York Herald" 1867. Eftir ferð og greinaskrif frá Mið-Austurlöndum, fékk hann það verkefni að finna David Livingstone sem enginn vissi þá hvað orðið hefði af. Stanley lagði upp frá Sansibar með gríðarlegan útbúnað þar sem ekkert var til sparað. Fundum þeirra bar saman í bænum Ujiji á bökkum Tanganjikavatns 10. nóvember 1871 þar sem hann sagðist hafa mælt hina frægu setningu „Doktor Livingstone, vænti ég?“ („"Dr. Livingstone, I presume?"“). "New York Herald" og "Daily Telegraph" fjármögnuðu annan leiðangur Stanleys 1874, til að finna upptök Hvítu Nílar, sem Livingstone taldi vera fljótið Lualaba, en John Hanning Speke hafði talið vera Viktoríuvatn. Ferð Stanleys staðfesti að engin tenging var milli Tanganjikavatns og Nílar, og með því að sigla umhverfis Viktoríuvatn á gufuknúnum báti sínum "Lady Alice" komst hann að því að vatnið var gríðarstórt og að eina áin sem úr því rennur að ráði rann um Ripponfossa þaðan sem hún rennur í Albertsvatn. Stanley staðfesti þar með að hugmyndir Spekes um upptök Nílar væru réttar. Eftir þessa ferð hélt hann leiðangrinum áfram með því að reyna að sigla eftir Lualabafljóti. Hann kom að ósum Kongófljóts við Boma 12. ágúst 1877. Leiðangurinn hafði þá staðið í hartnær þúsund daga og nánast enginn eftir lifandi af þeim sem lagt höfðu upp með honum. Tenglar. Stanley, Henry Morton Stanley, Henry Morton Lútetín. Lútetín er frumefni með efnatáknið Lu og er númer 71 í lotukerfinu. Þetta er málmkennt frumefni úr lantaníðhópnum sem finnst yfirleitt saman með yttríni og er stundum notað í málmblöndur og sem hvati í margvíslegum efnaferlum. Ef samhenginu milli blokka í lotukerfinu og efnaflokkar er stranglega fylgt væri hægt að flokka lútetín sem hliðarmálm en það er þó almennt flokkað sem lantaníð. Almennir eiginleikar og notkun. Lútetín er silfurhvítur, tæringarþolinn, þrígildur málmur sem er nokkuð stöðugur í snertingu við loft og er þyngst og harðast allra lantaníða. Lútetín hefur hæstu spinntölu allra frumefna, eða 7. Dýrt er að fá þetta frumefni í nothæfu magni og hefur það því fá almenn not. Þrátt fyrir það, er hægt að nota lútetín sem hvata í klofningu á jarðolíu, einnig er hægt að nota það í vetnisbindingu og fjölliðun. Saga. Lutetín (úr "Lutetia" sem er latneska heitið yfir París) var óhátt uppgötvað árið 1907 af franska vísindamanninum Georges Urbain og austurríska steindafræðingnum Carl Auer von Welsbach. Fundu þeir báðir lútetín sem óhreinindi í steintegundinni ytterbía, sem að var talið var, af svissneska efnafræðingnum Jean Charles Galissard de Marignac og fleirum, samanstanda eingöngu af frumefninu ytterbín. Aðgreining lútetíns frá ytterbíni Marignacs var fyrst lýst af Urbain og hlaut hann því þann heiður að nefna það. Hann valdi nöfnin neoytterbín ("nýja ytterbín") og lútesín yfir hið nýja frumefni en neoytterbín var að lokum breytt aftur í ytterbín og árið 1949 var stafsetningu frumefnis 71 breytt í lútetín. Welsbach stakk upp á "kassíopín" fyrir frumefni 71 (eftir stjörnumerkinu Kassíópeia) og "albebaranín" sem nýja nafnið á ytterbíni en þessum uppástungum var hafnað (þó að margir Þýskir vísindamenn kalla en frumefni 71 kassíópín). Tilvist. Lútetín finnst næstum alltaf í bland við aðra lantaníða en næstum aldrei eitt og sér. Það er mjög erfitt að skilja það frá öðrum frumefnum og er sjaldgæfast af öllum náttúrulegum frumefnum. Þar af leiðandi er það eitt af dýrustu málmunum, og kostar grammið af því nær sex sinnum meira en gull. Hagkvæmasta vinnsla lútetíns er úr fosfatsteintegundinni mónasít: (Ce, La, o.s.frv)PO4 sem samkvæmt innihaldi telst um 0,003% lútetín. Einungis nýlega hefur hreinn lútetínmálmur verið einangraður og er gríðarlega erfitt að útbúa. Það er skilið af frá öðrum lantaníðum með jónskiptum (afoxun vatnsfirts LuCl3 or LuF3 með annað hvort alkalímálmi eða jarðalkalímálmi). Samsætur. Náttúrulegt lútetín samanstendur af einni stöðugri samsætu, Lu-175 (97,41% náttúruleg gnægð). 33 geislasamsætum hefur verið lýst, og er sú stöðugasta Lu-176 sem að hefur helminungartíma 3,78 × 1010 (2,59% náttúruleg gnægð), Lu-173 með helmingunartíma 3,31 ár, og Lu-173 með helmingunartíma 1,37 ár. Allar aðrar geislasamsætur hafa helmingunartíma sem er minni en 9 dagar og flestar af þeim minni en hálf-tíma. Samsætur lútetíns spanna atómmassa frá 149,973 (Lu-150) upp að 183,961 (Lu-184). Aðal sundrunarháttur þess á undan algengasta stöðugu samsætunni, Lu-175 er rafeindahremming (ásamt örlitlu magni af alfasundrun og róteindageislun) og aðalsundrun eftir það er betasundrun. Aðaldótturefni á undan Lu-175 eru samsætur frumefnis 70 (ytterbín) og aðaldótturefni á eftir er samsætur frumefnis 72 (hafnín). Varúðarráðstafanir. Líkt og aðrir lantaníðar er lútetín talið hafa lítil eituráhrif en skyldi þó höndla það, og efnsambönd þess, með varkárni. Stafar eld- og sprengihætta af málmdufti þess. Lútetín þjónar engum líffræðilegum tilgangi í mannslíkamanum en er þó talið örva efnaskipti. Lúcretíus. Títus Lúcretíus Carus (uppi um 98 f.Kr. – 55 f.Kr.) var rómverskt skáld and heimspekingur. Meginverk hans er "De Rerum Natura" eða "Um eðli hlutanna", sem er af flestum talið vera meðal mestu meistaraverka latnesks kveðskapar - dýpra verk en kvæði annarra skálda og hugmyndaríkara en verk nokkurs heimspekings. Ævi Lúcretíusar. Lítið er vitað um ævi Lúcretíusar. Ein heimildin er þýðing heilags Hýerónýmusar á verki Evsebíosar "Chronicon". Hýerónýmus bætir við vitnisburði frá Súetóníusi en umfjöllun Hýerónýmusar telst raunar ekki vera mjög örugg heimild. Samkvæmt Hýerónýmusi, fæddist Lúcretíus árið 94 f.Kr. og lést 43 ára að aldri. Hann segir að Lúcretíus hafi orðið vitstola af ást og að verkið hafi verið ritað er líðan Lúcretíusar varð betri inn á milli, og að seinna hafi Lúcretíus fyrirfarið sér. Þessar staðhæfingar um ævi Lúcretíusar hafa verið dregnar í efa af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi leggur epikúrisminn sem Lúcretíus útlistar í kvæði sínu mikla áherslu á skynsemi og rétta dómgreind og hvetur menn til að halda sig frá allri rómantík; í öðru lagi viðist líklegt að Hýerónýmus, sem var einn af kirkjufeðrunum, hefði viljað grafa undan heimspeki Lúcretíusar, sem felur í sér vantrú á hvers kyns handanlíf eftir dauðann og á guði sem láta sig mál manna varða. Cíceró gefur í skyn í einu bréfa sinna til bróður síns að þeir hefðu einu sinni lesið kvæði Lúcretíusar. Eftir þetta er ekki minnst á Lúcretíus í heimildum fyrr en Aelius Donatus gerir það í ævisögu Virgils þar sem hann segir að Virgill hafi hlotið "toga virilis" þann 15. október, 55 f.Kr. og bætr við að það hafi gerst „sama dag og skáldið Lúcretíus lést.“ Hafi Hýerónýmus á réttu að standa um aldur Lúcretíusar þegar hann dó (43 ára), þá getum við ályktað út frá öðrum vitnisburði sem segir að Lúcretíus hafi andast 55 f.Kr. að hann hafi fæðst árið 98 f.Kr. Eina örugga staðreyndin um ævi Lúcretíusar er hins vegar sú að hann var annað hvort vinur eða skjólstæðingur of Gaiusar Memmíusar, en honum tileinkaði hann verkið "Um eðli hlutanna". Sumir telja að verkið sé óklárað, en Hýerónýmus segir að Cicero hafi „lagað“ það - sem getur þýtt að hann hafi ritstýrt því til útgáfu. "Um eðli hlutanna". Enda þótt "Um eðli hlutanna" sé álitið eitt af meistaraverkum latneskra bókmennta myndu flestir fræðimenn þó segja að stílfræðilega hefði latneskur hetjulags-kveðskapur náð hámarki sínu með Virgli. "Um eðli hlutanna" er hins vegar gríðarlega mikilvægt vegna áhrifa sinna á Virgil og önnur rómversk skáld. Megintilgangur verksins er að frelsa hugi manna frá hindurvitnum og ótta við dauðann. Markmiðinu er náð með hjálp epikúrisma, en kvæði Lúcretíusar er ein besta og fyllsta varðveitta heimildin um heimspeki Epikúrosar. Í verkinu er víða vísað til stjórnmálaástandsins í Róm á tímum Lúcretíusar og borgarastríðsins. Lúcretíus fer varlega í kennslunni til þess að styggja ekki hefðakæra Rómverja og setur rólega fram umdeildari og byltingarkenndari atriði kenningarinnar. Í "Um eðli hlutanna" er lögð minni áhersla á siðfræði en fyrri epikúringar höfðu gert í ritum sínum, en Lúcretíus miðlar náttúruspeki þeirra og sálfræði af kostgæfni. Lúcretíus var fyrsti epikúringuinn sem ritaði á latínu og e.t.v. sá fyrsti sem ritaði í bundnu máli. Heimildir. Textinn byggður á lauslegri þýðingu af ensku Wikipedia. Umritun grískra og latneskra nafna á íslensku. Umritun grískra og latneskra nafna á íslensku er aðferð við að rita grískan og latneskan texta með íslenskum bókstöfum. Gríska er skrifuð með öðru stafrófi og öðru letri og því er þörf á umritun grískra nafna er þau eru rituð á íslensku. Mörgum þykir einnig ritháttur latneskra nafna óþjáll og vilja gjarnan laga nöfnin að íslensku. Þetta er vandasamt einkum vegna þess að meðferð fornra nafna verður óreiðukennd og ruglingsleg ef ekki er fylgt eftir neinni reglu við umritun nafna. Almenna reglan. Almenna reglan sem íslenskir fornfræðingar og íslenskufræðingar hafa komið sér saman um varðandi meðferð fornra nafna er sú að æskilegt sé að halda rithætti á nöfnum fornmanna (eins og annarra) eins nálægt þeirra eigin rithætti og kostur er. Þetta þýðir að fylgja skal eftir tiltölulega einföldum reglum um umritun grískra stafa til þess að hægt sé að rita grísk nöfn "eins og þau eru skrifuð á grísku" með íslensku stafrófi, og rita skal latnesk nöfn eins og þau eru rituð á latínu. Í erlendum málum, svo sem ensku, frönsku, þýsku og ítölsku sem og í norðurlandamálunum, norsku, sænsku og dönsku og fleiri málum hafa myndast hefðir og venjur um meðferð einstakra nafna. Nöfnin eru oft stytt eða þeim breytt til að laga þau að hverju máli fyrir sig. Vandinn við þessa aðferð er einkum sá að ekki er hægt að fylgja neinni einfaldri reglu um þessar nafnabreytingar. Ekki er mælt með þessari aðferð á íslensku. Grískir stafkrókar. Í umritun grískra stafa gilda eftirfarandi reglur Athugasemdir um meðferð grískra nafna. Þegar Rómverjar rituðu grísk nöfn með sínu letri löguðu þeir nöfnin að latínu. Þannig hafa grísk nöfn síðan borist inn í ensku. Platon varð t.a.m. Plato á latínu og heitir það enn á ensku og ýmsum öðrum málum og á sama hátt varð Epikúros að Epicurus á latínu og heitir það enn á ensku og ýmsum öðrum málum. Á íslensku skal hins vegar rita Platon og Epikúros samkvæmt reglum um umritun grískra stafa. Í öðrum tilfellum hefur enskan þegið í arf nafnabreytingar frá öðrum málum, svo sem frönsku og þýsku. Þannig er t.d. talað um skáldið Hesiod á ensku (Hesiodus á latínu) en Hesíodos á íslensku. Undantekningar eru frá reglunum á íslensku eins og í öðrum málum. Skapast hefur föst venja um ritun nokkurra nafna, t.d. Hómer og Esóp (sem með réttu ættu að heita Hómeros og Æsópos á íslensku). Rétt er að hafa í huga að þetta eru "undantekningar" en ekki reglan. Ef eins væri farið með önnur grísk nöfn ætti skáldið Æskýlos t.d. að heita Eskýl á íslensku. Ekki er mælt með nafnabreytingum af þessu tagi enda þótt lítið sé hægt að gera þegar hefðin hefur náð tökum á nafni eins og t.d. nafni Hómers. Að lokum er rétt að geta þess að fyrir endinguna -eus í grísku (t.d. Perseus, Þeseus, Zeus) hefur verið notuð endingin -eifur á íslensku (sbr. Perseifur, Þeseifur og Seifur). Latnesk nöfn. Ekki þarf að umrita latnesk nöfn líkt og grísk nöfn. Auðvelt er að fylgja meginreglunni og rita latnesk nöfn á íslensku eins og þau eru rituð á frummálinu. Stundum fer vel á því að hafa broddstafi í áhersluatkvæðum en mælt er með því að hafa fjölda broddstafa í lágmarki. Undantekningin frá reglunni um meðferð latneskra nafna er tvíhljóðinn "au" sem er oft umritaður "á" á íslensku. sbr. Ágústus, Ágústínus og Markús Árelíus. Þá er "ae" í latínu stundum ritað "æ" á íslensku. Nokkur tilhneiging ríkir til þess að rita k eða s á íslensku í stað c á latínu, t.d. Kató, Kalígúla og Seneka í stað Cató, Calígúla og Seneca og Sesar og jafnvel Síseró í stað Caesar og Cíceró. Þetta skal forðast, enda er engin þörf á breytingu þar sem alsiða er að rita erlend (nútíma) nöfn á íslensku með c (t.d. er ritað Bill Clinton en ekki Bill Klinton). Fastar venjur hafa myndast um ritun nokkurra latneskra nafna líkt og grískra nafna. Þannig heitir skáldið Vergilíus Virgill á íslensku og Eneas í Eneasarkviðu Virgils heitir ekki Æneas eins og hann ætti að heita samkvæmt reglunni. Ekki er mælt með frekari breytingum í þessa átt. Þótt einhver hafi heyrt getið um skáldin Hóras og Óvíd eru þau samt sem áður nægilega óþekkt til þess að fullyrða megi að ekki sé föst venja að nota styttar útgáfur nafna þeirra. Deila má um hvort föst venja sé að rita Sesar en Cíceró er útgefinn höfundur á íslensku og líklegt þykir að þegar Caesar verður þýddur verði nafn hans ekki ritað Sesar úr því að nafni Cícerós var ekki breytt. Auk þess er nú þegar víða ritað Caesar á íslensku og því æskilegra að halda þeim rithætti. Sum latnesk nöfn, líkt og grísk nöfn, eru endingarlaus í ensku og öðrum málum, t.d. "Sallust", "Ovid" og mörg fleiri. Þessi nöfn hafa eigi að síður upprunalega endingu sína á íslensku, þ.e. Sallústíus og Óvidíus. Nokkrar þumalfingursreglur. Ekki er alltaf ljóst hvort menn eigi að teljast Grikkir eða Rómverjar. Rómverska heimsveldið náði yfir gríðarlega stórt svæði og innan þess bjuggu og störfuðu menn af ýmsum þjóðernum og sem töluðu ýmis mál önnur en grísku eða latínu. Um forna rithöfunda skal fylgja þeirri reglu að hafi viðkomandi ritað á grísku, þá er farið með nafn hans eins og grískt nafn, en hafi viðkomandi ritað á latínu skal fara með nafnið sem latneskt nafn. Lúkíanos var til að mynda Sýrlendingur sem ritaði á grísku og því er farið með nafn hans eins og nafn Grikkja. Sagnaritarinn Pólýbíos ritaði um sögu Rómar en á grísku og því er farið með nafn hans líkt og grísk nöfn. Undantekningin frá þessari reglu er Markús Árelíus sem heldur latneskum einkennum nafns síns þrátt fyrir að hafa skrifað á grísku. Júlíus Caesar. Júlíus Caesar, stundum ritað Júlíus Sesar, 12. eða 13. júlí um 100 f.Kr. – 15. mars 44 f.Kr.) var rómverskur herforingi, sagnaritari, stjórnmálamaður og síðar einvaldur í Róm. Yfirlit. Gaius Júlíus Caesar var fæddur í Róm um 100 f.Kr. og var myrtur 44 f.Kr. Hann var af júlíönsku ættinni sem var ein tignasta og elsta patríseaættin í Róm til forna. Caesar var upphaflega auknefni manna af júlíönsku ættinni. Síðan hefur nafnbótin Caesar verið höfð um alla Rómarkeisara. Caesar var stjórnmálamaður, herforingi og rithöfundur. Hann var leiðtogi alþýðunnar þrátt fyrir að vera af höfðingjaættum. Caesar klifraði metorðastigann í Róm. Hann varð árið 68 f.Kr. kvestor, árið 62 f.Kr. pretóri og ári seinna landsstjóri á Spáni. Árið 59. f.Kr. var Caesar kjörinn ræðismaður. Caesar fetaði í fórspor Gracchusarbræðra og lét afhenda ríkisjarðir til fátækra og hermanna og lækka tollheimtu í skattlöndum um þriðjung. Til að almenningur gæti fylgst með gerðum öldungaráðsins lét Caesar gefa út blöð sem voru fest á veggi borgarinnar. Þrístjórnarbandalag. Árið 59 f.Kr. myndaði Caesar þrístjórnarbandalag með Pompeiusi og Crassusi þar sem að eðlilegu fulltrúalýðræði var vikið til hliðar og bandalagið varð allsráðandi. Bandalagið var treyst með því að Pompeius giftist Júlíu dóttur Caesars. Andstæðingar þrístjórnarinnar áttu á hættu að missa líf sitt. Crassus var mesti auðjöfur í Rómaborg og lagði hann fram hið pólitíska auðvald til að múta og var hann mjög óvinsæll maður vegna ríkidæmis síns. Crassus fékk skattlandið Sýrland, Pompeius Spán og Caesar varð landsstjóri í Gallíu árið 58 f.Kr. að afloknu ræðismannsári sínu. Hernám Gallíu. Caesar hélt til Gallíu í hernað og lagði hann þar grundvöll að Evrópu. Rómverjar höfðu náð fótfestu í Narbónsku Gallíu og stefndu að því að hafa þar hernaðar- og menningalega bækistöð og skattland sem var nauðsynlegur stökkpallur til frekari útþennslu norður á bóginn og austur fyrir Rín. Caesar gersigraði Gallíu handan Alpa, núverandi Frakkland, á sjö árum 58-52 f.Kr. Tiltölulega auðveldur sigur Caesars yfir Göllum átti sér langan aðdraganda. Gallastríðið var einskonar innbyrðis borgarstyrjöld þar sem tekist var á um samskipti við menningarsvið Miðjarðarhafsins en hluti gallísku þjóðarinnar var þegar orðinn þátttakandi í viðskiptakerfi Miðjarðarhafsins og aðlagaður rómverskri menningu. Því átti Caesar öfluga bandamenn í Gallíu. Gallar voru sundurskiptir í nokkra þjóðahópa og óteljandi smáþjóðir sem vildu halda sjálfstæði sínu. Þegar Caesar tók við stjórn Gallíu var vaxandi ólga þar vegna ásóknar germannskra þjóða vestur um Rín. Lagði Caesar áherslu á verndarhlutverk sitt fyrir Galla en með því var hann líka að hindra að Gallar og Germanar færu að vinna saman. Borgarsamfélög voru farin að myndast í Gallíu og réðu höfðingjar þar sem voru undir rómverskum áhrifum og kom Caesar sér vel við þá. Þannig söfnuðu höfðingjar liði á hættutímum og út frá borgunum byggði Caesar upp valdakerfi. Þegar Caesar réðst inn í Belgíu fór hann með menn sína norður með Rín og lék grátt germanskar þjóðir til að hræða þá svo að þeir kæmu Belgum ekki til hjálpar. Þegar að kom að Ermasundi í baráttunni við Belga fór hann með flokk yfir til Bretlands og vann sigur yfir Britonum, var það líka gert svo að þeir skiptu sér ekki að því sem var að gerast á meginlandinu. Þegar Caesar hafði náð stuðningi mikils hluta gallísku þjóðarinnar og ákvað hann að kalla saman þjóðþing og koma á fót ríkisstofnun sem gæti framkvæmt pólitískar skipanir hans. En hernaður Caesars og liðs hans hafði verið miskunnarlaus og fjöldi manns tekinn af lífi og aðrir færðir í þrælkun. Því áttu margir harma að hefna og brátt gaus upp uppreisn gegn Rómverjum í Gallíu. Uppreisnarmenn með Vercingetórix, sem var höfðingjasonur, í broddi fylkingar, börðust út í sveitunum og skildu eftir sig sviðna jörð svo að Rómverjar gátu ekki aflað sér vista. En Caesari, með aðstoð germansks riddaraliðs, tókst að bæla uppreisnina niður. „Talið er að þriðjungi Galla hafi verið útrýmt. Caesar skildi eftir sig blóðuga slóð, hann barði niður þá siðmenningu sem var fyrir á staðnum með því hreinlega að fremja þjóðarmorð og hugsun hans var ekki sú að breiða út latneska menningu, heldur að fullnægja eigin framagirnd.“ Caesar boðaði til friðarfundar með germönsku höfðingjunum, handtók þá og sendi svo hersveitir sínar til að brytja karla, konur og börn í spað. Þessi hryllingur varð til þess að Cató mótmælti í Róm – ekki af mannúðarástæðum, heldur af pólitístkum ástæðum. „Það var á þennan hátt, með ofbeldi og þjóðarmorðum, sem Gallía og keltneski heimurinn voru innlimuð í rómverska menningarheiminn“. Caesar skrifaði bók um Gallastríðið sem stóð í 7 ár. Þar réttlætir hann gerðir sínar og er bókin varnarit vegna ásakana frá Róm um að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt og verið með óþarfa hernað. Hann segir að sóknir hans og innlimun hafi verið varnarstríð til að bæla niður vandamál í landinu. „Bókin er áróðursrit, full af dulbúnu sjálfhóli til að sanna eigið ágæti, göfugmennsku, hógværð, ráðdeild og kænsku.“ Í "Rómaveldi" eftir Will Durant segir „Gallastríð Sesars er ekki einungis varnarrit: Skýrleiki frásagnarinna og hinn fágaði einfaldleiki hefur skipað því á tignarsess í latneskum bókmenntum“. Þrístjórnarbandalagi slitið. Gosbrunnur með styttu af Caesari Á meðan dvöl Caesars í Gallíu stóð gliðnaði þrístjórnarbandalagið í sundur. Crassus, sem hafði verð skipaður landssjóri í Sýrlandi, vildi ná frama og vinna lönd sem herforingi eins og Caesar og Pompeius. Parþía lá austan við Sýrland og þangað hélt Crassus með her en féll í orrustunni við Carrhae 53. f.Kr. Pompeius, sem var landsstjóri á Spáni, sat í Róm og hafði snúist á sveif með höfðingjum þar sem lýðssinnar voru farnir að verða uppvöðslusamir. Pompeius studdi öldungaráðið í því að Caesar skyldi leysa upp her sinn er landsstjóratíma hans í Gallíu lyki. Caesar neitaði þessu og árið 49 f.Kr. hélt hann með her sinn í heimildarleysi yfir Rubicon-fljót, sem skilur að Gallíu Císalpínu og Ítalíu. Við þessa ákvörðun sína mælti Caesar hin fleygu orð: „teningunum er kastað“ [ālea iacta est] og átti við að nú skyldi hann gera upp við Pompeius. Caesar hélt til Rómar með her sinn en Pompeius hörfaði til Balkanskaga þar sem hann kom sér upp herliði. 48. f.Kr. Hélt Caesar á eftir honum og háðu þeir orrustu við Farsalos á Grikklandi og hafði Caesar sigur. Pompeius flúði til Egyptalands þar sem hann var veginn af mönnum faraós þegar hann gekk þar á land; það gerðu þeir til að reyna að tryggja sér stuðning Caesars. Egyptland. Caesar sigldi til Alexandríu á eftir Pompeiusi. Þar reyndi hann að miðla málum systkinanna Ptólemajosar og Kleópötru sem gerðu bæði tilkall til krúnunar. Caesar kom Ptólemajosi konungnum frá og setti Kleópötru í hásætið. Kleópatra og Caesar eignuðust sonin Ptólemajos Caesar og gekk hann undir heitinu Caesaríon (Litli Caesar). Caesar sneri aftur til Rómar ásamt Kleópötru og Litla Caesari eftir að hafa sigrað í orrustu í Litlu Asíu þar sem hann „kom, sá og sigraði“. Þegar að Caesar hafði sigrað alla stuðningsmenn Pompeiusar efndi hann til sigurgöngu um Róm og kom Kleópatra opinberlega fram við hlið hans. Caesar var giftur Calpúrníu og bjó með henni í Róm en hann var líka í sambandi við Kleópötru sem bjó í einkahöll handan Tíberfljóts. Kleópatra vildi að Caesar stofnaði konungsveldi Rómar og settist að í Alexandríu þar sem að hún yrði drottning. Einvaldur. Árið 46 f.Kr. hafði Caesar náð öllu Rómveldi á sitt vald og lét hann öldungaráði gefa sér alræðisvald til 10 ára. Tveimur árum síðar tók hann sér alræðisvald til æviloka sem urðu í mars sama ár. Caesar var snjall stjórnmálamaður og kom á ýmsum umbótum í stjórnkerfinu. Hann fjölgaði í öldungaráðinu upp í 900 og tilnefndi nýja öldunga sem voru honum hliðhollir úr ýmsum þjófélagshópum og úr ýmsum skattlöndum. Hann lækkaði skatta í skattlöndum, skipti löndum milli hermanna sinna og fátækra. Hann reyndi að stemma stigu við þrælahaldi með lögum. Hann sendi tugi þúsunda fátækra borgara í Róm, sem landnema til nýlendna sinna. Hinum fátæklingunum veitti hann vinnu við byggingaframkvæmdir. Hann tók upp tímatal með egypsku sniði sem var nefnt, júlíanska tímatalið og er dagatalið þar með fellt að gangi sólarinnar í stað tunglsins. 365 dagar eru í árinu og hlaupársdagur fjórða hvert ár. Hann tryggði gengi gjaldmiðils með því að slá mynt úr gulli og setti reglur um vexti og gjaldþrot. Hann kom á skipulagi og stjórn í Rómaveldi. Fyrirsát og víg Caesars. Nokkrir fyrrum félagar Caesars óttuðust að hann ætlaði sér að afnema lýðveldið og skipa sjálfan sig konung. Þeir lögðu því á ráðin með að ryðja honum úr vegi áður en að það yrði um seinan. Í mars 44 f.Kr., þegar Caesar var á leið inn í öldungaráðið, var honum veitt fyrirsát og hann stunginn til bana. Á meðal samsærismanna var Brútus sonur hjákonu Caesars. Sagan segir að þegar Caesar sá Brútus meðal samsærismanna hafi hann mælt á forngrísku „και συ τεκνον?“, sem útleggst á íslensku „"einnig þú, barn?"“. en samkvæmt öðrum heimildum féll hann án þess að mæla orð. Shakespeare leggur Caesari í munn lokaorðin ódauðlegu „"Et tu, Brute?"“, sem er latína og þýða má „"þú líka, Brútus?"“. Sálgreining. Almennt: Til að fá innsýn inn í sálgreiningu sem meðferðarform, menntunarkröfur, starfs- og siðareglur sálgreina á Íslandi, ofl. má benda á Sálgreining (þýska: "psychoanalyse") er sálfræðistefna sem byggist m.a. á verkum Sigmund Freud frá um 1900, en megininntak stefnunnar er að atferli manna stjórnist m.a. af öflum sem eru þeim lítt meðvituð og nefndi Freud þau dulvitund og hvatir. Stefnan hefur haft mikil áhrif innan sálfræði, geðlæknisfræði, heimspeki, bókmenntafræði, félags- og hugvísinda. Upphaf. Freud setti fyrstur fram kenningar um sálgreiningu, en uppruna þeirra má m.a. rekja til dvalar hans í París á árunum 1885-1886 hjá franska taugalækninum Jean Martin Charcot. Þar kynntist Freud sefasjúklingum, sefasýki, og dáleiðslu sem meðferðaraðferð. Freud hélt aftur til Vínar og opnaði þar sína eigin læknastofu. Sefasýki er afbrigði taugaveiklunar sem lýsir sér sem líkamleg einkenni sálrænna veikinda. Sjúklingur getur m.a. blindast, misst heyrn og lamast. Framan af reyndi Freud að beita dáleiðslu til lækningar á þessu ástandi en gafst þó fljótt upp á þeirri aðferð. Í gegnum vinnu sína lærðist Freud að sumar gerðir taugaveiklunar mætti rekja til sálrænna áfalla, m.a. í bernsku. Í fyrstu notaði Freud dáleiðslu í meðferð sinni en fór síðan að telja að samtalsmeðferð gæti skilað betri árangri. Samtalsmeðferðarformið sem hann notaði nefnist frjáls hugrenningaraðferð og fólst m.a. í að láta sjúklinginn leggjast á bekk og tala hug sinn. Þetta gat í sumum tilfellum leitt til þess, að mati Freuds, að fólk hreinsaði huga sinn af erfiðum minningum eða af því sem lá á samvisku þess. Sálgreining Freuds. Sálgreining Freuds er í senn heiti á persónuleikakenningu Freud og meðferðarforminu sem hann beitti. Í seinni útgáfum af líkani Freuds um hugann voru m.a. hugtökin þaðið, sjálfið og yfirsjálfið grundvallandi. Samkvæmt kenningu Freud er þaðið aðsetur grunnhvata, sérstaklega kynhvatarinnar, og stjórnast af svokölluðu vellíðunarlögmáli. Vellíðunarlögmálinu er framfylgt þegar hvötunum er sinnt. Yfirsjálfið er "siðgæðisvörður" persónuleikans. Milli þaðsins og yfirsjálfsins er eilíf togstreyta. Sem dæmi má nefna það að hvötin til að stunda kynlíf er alltaf í (dulvituðum) huga manna en það gengur gegn siðferðislegum gildum samfélagsins að fólk fái útrás kynhvatar sinnar hvar og hvenær sem er. Sjálfið er síðan nokkurs konar miðstöð persónuleikans, eða meðvitund, og stjórnast af raunveruleikalögmálinu, sem í munni Freuds er nokkurn veginn jafngildi rökrænnar hugsunar. Sjálfið reynir að fá útrás hvata þaðsins en á þann hátt sem þóknast yfirsjálfinu. Orsakalögmál Freud byggjast þó á því að hegðun okkar og skapgerð sé stjórnað m.a. af ómeðvituðum öflum í dulvitundinni. Þetta þýðir að margt í mannlegri breytni eigi rót í ómeðvituðum sálrænum ferlum eða sálrænni ætlan en get m.a. birst mismælum okkur, gleymsku, einhverju sem við „fáum á heilann“, vanrækslu, o.s.frv. Dulvitund er, eins og orðið gefur til kynna, eitthvað sem við erum okkur ekki meðvituð um og getum þvi átt erfitt með að henda reiður á. Samkvæmt kenningunni, stjórna hvatir dulvitundinni, en í upphafi nefndi Freud þessar hvatir libido (sem er latina og merkir: „ég þrái“) og sem taugasérfræðingur taldi hann þær tengjast og mótast af tilfinningu okkar fyrir líkamanum oog þá einkum þeim hlutum hans sem eru næmastir fyrir örvun. Hann taldi þránna eða lífshvötina því hafa eitthvað með kynhvötina að gera. Hvatakenningin breyttist síðan þannig að Freud gerði ráð fyrir tveimur andstæðum öflum: Dauðahvöt og lífshvöt. Lífhvötin birtist helst í þránni til að bindast öðrum, m.a. í gegnum kynhvötina, en dauðahvötin í árásarhvöt sem m.a. raungerðist í stríði og og ófriði milli manna. Freud var þróunarsinni og kenningar hans mótast m.a. af kenningum Darwin vellíðunarlögmál. Freud taldi því að hvatirnar bæru m.a. vitni um dýrslegar leifar uppruna okkar (Darwinsismi) og mótuðust af vellíðunarmarkmiðum vellíðunarlögmálsins. Hvatir mannsins fylgja honum allt frá fæðingu, og meira að segja á bernskuskeiði telur Freud að kynhvöt sé vöknuð. Þá skiptir hann kynhvöt barna í mismunandi stig s.s. munn og kynfærastig, en útfrá þessari hugmynd um kynhvöt barna kemur Ödipusarduldin til sögunnar, en hún segir að á ákveðnum aldri laðist drengir kynferðislega að mæðrum sínum. Drengir þróa þá með sér óttablandna virðingu fyrir feðrum sínum, vegna hræðslu við afbrýðissemi föðursins. Þetta kallast vönunarótti, því drengir hræðast að verða geldir af föður sínum skyldi hann komast að hrifningu sonar síns á konu sinni. Þetta gæti einnig verið dulin ástæða þess að drengir líta oft upp til feðra sinna og reyna að líkjast þeim á ákveðnum skeiðum. Álíka duld er hjá stelpum, nema með öfugum formerkjum. Nefnist það Elektruduld. Þessar hvatir birtast í persónuleikalíkani Freuds þar sem hann telur persónuleikann þrískiptan: Sjálfið, yfirsjálfið og það. Sjálfið er miðstöð ákvarðana og eins konar sáttasemjari milli þess og yfirsjálfsins. Þaðið er hið dýrslega í okkur og á í eilífri baráttu við yfirsjálfið sem geymir hinu samfélagslegu boð og bönn, hvað sé réttast að gera og hvað sé rangt. Hafi yfirsjálfið alltaf yfirhöndina, og aldrei er fengin útrás fyrir því sem menn vilja samkvæmt því, þá getur það birst í taugaveiklun eða öðrum geð/sálrænum kvillum. Það er því ekki alltaf endilega rétt það sem yfirsjálfið segir sjálfinu að gera, og verður mannskepnan einhvern tímann að fá útrás hvata sinna. Gagnrýni. Sumir gagnrýnendur, líkt og Juliet Mitchell, hafa stungið upp á að grunnhugmynd Freuds - það að meðvitaðar hugsanir okkar og aðgerðir séu drifnar áfram af ómeðvituðum hugsunum og hræðslu - skuli hafnað vegna þess að hún óbeint segir að við getum tæplega sett fram alhliða né hlutlægar kenningar um heiminn og séu því of takmarkaðar til að hjálpa til við að skilja og útskýra mannlega hegðun. Freud hefur verið gagnrýndur af feministum fyrir að hafa verið barn síns tíma og haft óþroskaðar hugmyndir um kynþroska og sálarlíf kvenna. Karl Popper setti út á rannsóknaraðferðir Freud og hélt því fram að kenning Freuds um dulvitundina sé ekki hægt að rengja og sé þar með ekki vísindaleg. Hann hins vegar mótmælti ekki að öllu leyti þeirri hugmynd að það séu ferlar í huga okkar sem við ekki vitum af. Dr. J. Von. Schneidt setti fram með þá hugmynd að kenningar Freuds væru runnar undan rifjum kókaínneyslu hans. En kókaín var nýjung á þessum tíma og á tilteknu skeiði reyndi Freud að nota kókaín til að takast á við krefjandi störf og til að auka afköst sín. Jafnvel þó að kókaínneysla geti aukið kynferðislegan áhuga og þráhyggjuhugsun þá er það mjög takmarkandi að telja að stórbrotið kenningarframlag eins byltingarkenndasta hugsuðar vestrænnar hugmyndasögu, manns sem voru veitt hin virtu Goethe verðlaun fyrir stílsnilli, hafi einvörðungu mótast af kókaínneyslu hans á mjög takmörkuðu tímabili ævi hans. Freud lagði kókaínið til hliðar þegar hann fór að gera sér grein fyrir þeim miklu sálrænu áhrifum neyslunnar á mannshugann. Gavin DeGraw. Gavin DeGraw er bandarískur söngvari sem hlotnaðist fyrst frægð á árunum 2003 til 2004. Ævi. Gavin er fæddur 4. febrúar 1977 og bjó í æsku í South Fallsburg í New York-fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Hann gaf út sinn fyrsta disk, „Chariot“ árið 2003, en einnig hafði lag hans „I don't want to be“ verið notað sem upphafsstef í unglinga-sápunni „One Tree Hill“ sem sýnd var á The WB í Bandaríkjunum en á SkjáEinum á Íslandi. Breiðskífur. DeGraw, Gavin David Gray. David Gray (fæddur 13. júní 1968) er breskur tónlistarmaður þekktastur fyrir lög sín "Babylon", "This Years Love", "Sail Away" og "The One I Love". Ævisaga. David er fæddur 13. júní 1968 í Sale í norðurhluta Manchester-borgar. Um 9 ára aldur fluttist hann með fjölskyldunni til Pembroke-skíris í Wales en sneri til baka til Englands á fullorðinsárunum og settist þá að í norðurhluta landsins til að læra við Liverpool-háskóla. Írar og Wales-búar einkenna aðdáendur hans vegna þess hve mikið hann kom fram á Írlandi og í Wales. Í eitt af fyrstu skiptunum sem hann kom fram í Írlandi kynntist hann Pat Ingoldsby, þekktum írskum gamanleikritahöfundi. Sjónvarpsþátturinn "No Disco", sem spilaði óskalög áhorfenda, tók Gray upp á arma sína og lék tónlist hans. Í einum slíkum þætti sá Ingoldsby David í fyrsta sinn. Lagið var "Coming Down". Árið 1992 komst David á samning hjá Hut Records í Stóra-Bretlandi og Caroline Records í Bandaríkjunum. Árið eftir kom fyrsta platan út og hét hún "A Century Ends". Platan einkennist af þjóðlagagítar og sorglegum textum Davids. Næsta plata var "Flesh" en hún kom út árið 1994. Sú fyrri hafði ekki selst í mörgum eintökum, en það stoppaði ekki lagasmíðar Davids. Eftir útgáfu fyrstu plötunnar fór David á tónleikaferðalag með Shawn Colvin. Flesh vakti mikla athygli en hann missti samt samninginn við Hut Records. Aftur á móti bauðst honum samningur við EMI útgáfufyrirtækið. Næsta plata í röðinni var "Sell Sell Sell", sem kom út í takmörkuðu upplagi. David lagði aftur upp í langferð, en í þetta skipti hitaði hann upp fyrir ekki minni hljómsveitir en Radiohead og Dave Matthews Band. Samt sem áður kviknaði ekki glæðan í hlustendum og plötukaupendum. Eitthvert volæði hefur komið í David því hann sagði upp samningi sínum við EMI. David safnaði saman vinum sínum Clune og Tim Bradshaw, sem hafa unnið saman síðan, árið 1998 og réðust þeir í upptökur á nýrri plötu. Þeir unnu í svefnherbergi Gray í London og söfnuðu fjármunum til vinnunar. Loks gáfu þeir plötuna, "White Ladder", út undir eigin merkjum, sem IHT Records. Þetta var platan sem kom honum á toppinn. En þó ekki strax, því það var ekki fyrr en árið 2000 sem hún fór á topp breska vinsældarlistans. Þar er að finna þekktustu lög hans, lög á borð við „This Years Love“, „Sail Away“ og „Babylon“. 2001 kom fimmta breiðskífa hans út; „A New Day at Midnight“. Þessi plata sat efst á vinsældalistum líkt og sú sem á undan kom, en einnig sú nýjasta, „Life in Slow Motion“ sem kom út í september 2005. Þróun tónlistarinnar. Fyrri hluta ferils síns spilaði David mest þjóðlagatónlist og var þá mest með þjóðlagagítar. Á "Sell, Sell, Sell" er David farinn að reyna við rokktónlist og jafnvel raftónlist. Á "White Ladder", er meira leitað út í popp-tónlist og hljóðgervill mikið notaður. Ef vel er hlustað er jafnvel hægt að heyra umferðarnið í bakgrunni nokkurra laga. Við "Life in Slow Motion" vann Marius De Vries við framleiðslu, en hann hefur meðal annars unnið með Madonnu og Björku. Lantaníð. Lantaníð eru hópur 15 sjaldgæfra jarðmálma, frá lantan til lútetín, með sætistölurnar 57 til 71. Lantaníðahópurinn er nefndur eftir lantan. Allir lantaníðar eru f-blokkar frumefni fyrir utan lútetín. Til eru aðrar framsetningar á lantaníðum sem innihalda ekki annað hvort lantan eða lútetín. Lantaníðar eru efnafræðilega svipaðir hver öðrum, skandín og yttrín og einnig aktiníðum. Lantaníðar eru yfirleitt staðsettir fyrir neðan aðatöflu lotukerfisins rétt eins og neðanmálsgrein. Full framsetning á lotukerfinu sýnir stöðu lantaníða mun greinilegar. Draumatúlkun Freuds. Draumakenning Freuds er kenning sem hann setti fram um drauma, sem sögð hefur verið sú áhrifamest sem sett hefur verið fram um slíkt. Freud ritaði um efnið 900 blaðsíðna bók sem nefnist Draumatúlkun ("Die Traumdeutung"). Niðurstöður voru byggðar á ótal draumafrásögnum, hans eigins og annarra, sem hann rýndi nánar í. Megininntak kenningarinnar er að draumar séu táknrænar svalanir bældra hvata; draumar endurspegla þrár og hvatir dreymanda. Þær hvatir sem stangast á við siðferði dreymanda eru síðan bældar niður með á dulbúinn hátt. Hver draumur fyrir sig er tvíþátta. Annars vegar er hið ljósa inntak, draumurinn eins og hann birtist dreymanda, og hins vegar hið dulda inntak, sem leynist bak við það ljósa og veitir vísbendingu um merkingu draumsins. Til að túlka hið dulda inntakið beitti Freud frjálsum hugrenningum. Þá veltir dreymandinn sérhverju atriði fyrir sér og rekur allt sem honum dettur í hug. Engu má sleppa svo greining takist; hið minnsta smáatriði getur sagt til um veigamikla merkingu. Samkvæmt Freud eru hugrenningarnar ekki handhófskenndar heldur markvissar og veita þær allar einhverjar vísbendingu um túlkun eða ráðningu draumsins. Margir hafa gagnrýnt draumakenninguna og velt fyrir sér að hvaða marki hún standist. Sú spurning leitar einnig á hvort hægt sé að prófa kenninguna með nánari, vísindalegri hætti og hvort hún eigi einhverja samleið með kenningum sem byggjast á meiri þekkingu á eðli svefnsins. Draumakenning Freuds er talin vera gloppótt kenning, en eins og allt efni Freuds markar hún viss þáttaskil í rannsóknum á draumum. Minnistilraunir Ebbinghaus. Hermann Ebbinghaus var fyrstur manna til að rannsaka minni mannsins á vísindalegan hátt. Hann áorkaða mörgu yfir ævi sína. Meðal annars bjó hann til gleymskukúrfu sem er ennþá í fullu gildi í dag. Einnig bjó hann til sparnaðareinkunnina. Gleymskukúrfan felur í sér að við gleymum allt að 80% sem við lærum. Hann sagði að fyrstu klukkustundirnar gleymdum við hraðar en næstu sólarhring, því þá helst minnið nokkuð stöðugt. Hann hélt líka að það sem okkur þætti ómerkilegt væri mun erfiðara að muna. Þessi atriði eru viðurkennd í dag. Fólk hefur gagnrýnt hvernig hann fór að á sínum tíma, en þar eigum við við að hann lék bæði hlutverk rannsakandans og þátttakandans. Merkustu niðurstöður hans eru að endurtekning sé grundvallaratriði í minni og fari eftir þeim tíma sem liðið hefur frá því að námið átti sér stað. Hann rannsakaði þessa kenningu með því að leggja á minnið lista af merkingarlausum þriggja stafa orðum frá 8-64 skipti. Ef hann las eitthvað oft var hann líklegri til að muna það daginn eftir. 100X = 10 – 6/10 = 40% Guðmundur Finnbogason. Guðmundur Finnbogason (6. júní 1873 – 17. júlí 1944) var íslenskur heimspekingur, fæddur á Arnarstapa við Ljósavatn. Hann var sonur Guðrúnar Jónsdóttur (1843-1900) og Finnboga Finnbogasonar (1843-1886). Líf og störf. Guðmundur lauk stúdentsprófi vorið 1896 frá Lærða Skólanum. Sama ár, 1896, hóf hann nám í heimspeki við Hafnarháskóla, sem hann lauk með meistaraprófi árið 1901, en hann hafði sálfræði sem aðalgrein. Meðal lærifeðra Guðmundar í Kaupmannahöfn voru Harald Høffding (1843-1931) og Alfred Lehmann (1858-1921). Árin 1901-1902 ferðaðist Guðmundur um nokkur Norðurlönd og safnaði upplýsingum um stöðu kennslu í þeim löndum, eftir að hafa fengið styrk til verksins, en eftir þessa könnun skrifaði hann fyrstu bók sína, "Lýðmenntun", þar sem hann fjallaði um hugmyndir sínar um hvernig standa ætti að barnafræðslu á Íslandi, og kom bókin út árið 1903. Sama ár skilaði Guðmundur skýrslu til Alþingis um þessa ferð sína og tillögur um úrbætur í menntamálum. Árin 1903-1904 ferðaðist Guðmundur svo um Ísland til að rannsaka hvernig kennslu var háttað í landinu og skrifaði hann svo skýrslu um málið. Árið 1907 var svo samþykkt frumvarp á Alþingi um fræðslu barna og ungmenna, en frumvarpið var að mestu byggt á frumvarpi sem Guðmundur samdi fyrir stjórnina. Árin 1905-1906 fékkst Guðmundur við ritstjórn Skírnis og þýðingar. Meðal annars þýddi hann fyrirlestur William James um „ódauðleikann“ sem kom út árið 1905. Sama ár birti hann grein í Skírni um bók James, "The Varieties of Religious Experience", og árið 1906 þýddi hann grein eftir Henri Bergson sem nefnist "Um listir". Árin 1908-1910 vann Guðmundur að doktorsritgerð sinni með einum eða öðrum hætti. Ritgerð Guðmundar hét „"Den sympatiske forstaaelse"“ eða "Samúðarskilningurinn". Hún vakti mikla athygli fræðimanna, enda um afar frumlegt verk að ræða auk þess sem hún er fyrsta íslenska doktorsritgerðin sem telja má sálfræðilega ritsmíð. Hún fjallar um það að skilningur manna á sálarlífi annarra sé svokallaður samúðarskilningur og að fólk hermir eða líkir ósjálfrátt eftir sálarástandi, röddu og svipbrigðum annarra. Guðmundur varði ritgerð sína við Hafnarháskóla árið 1911. Um svipað efni og hann fjallaði um í doktorsritgerðinni skrifaði hann líka bókina "Hugur og heimur" sem kom út árið 1912. Um svipað leyti og Guðmundur varði ritgerð sína var Háskóli Íslands stofnaður og þá um leið prófessorsembætti í heimspeki við skólann, sem hann sótti um, en Ágúst H. Bjarnason fékk, og gerðist þá Guðmundur aðstoðarbókavörður við Landsbókasafnið. Guðmundur starfaði við Háskóla Íslands sem prófessor í sálfræði 1918-1924 og var einnig háskólarektor 1920-1921. Hann kenndi námskeið í hagnýttri sálfræði auk þess sem hann gerði sálfræðitilraunir með stúdentum. Þá var hann ritstjóri Skírnis 1905-1907, 1913-1920 og 1933-1943. Árið 2006 gaf Jörgen L. Pind (2005) út ævisögu Guðmundar, sem nefnist "Frá sál til sálar". Ævisagan fjallar um ævi og störf Guðmundar, en einnig er fjallað rækilega um kenningu hans um "samúðarskilninginn". Verk og bækur. Guðmundur þýddi verk A.N. Whitehead „"An Introduction to Mathematics"“ og kom það út sem "Stærðfræðin" 1931. Fjarðabyggð. Fjarðabyggð er sveitarfélag á Mið-Austurlandi. Það varð til 7. júní 1998 við sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðarkaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps. 8. október 2005 var samþykkt í kosningum að sameina Fjarðabyggð, Mjóafjarðarhrepp, Austurbyggð og Fáskrúðsfjarðarhrepp undir merkjum Fjarðabyggðar og tók sú sameining gildi 9. júní 2006 í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. Mikill uppgangur er í sveitarfélaginu, sérstaklega á Reyðarfirði þar sem verið er að reisa álver á vegum Alcoa. Töluverð íbúafjölgun hefur fylgt framkvæmdunum en mest eru það þó erlendir verkamenn. Hagvísindi. Adam Smith (1723–1790), höfundur bókarinnar "Auðlegð þjóðanna", er talinn helsti frumkvöðull nútímahagvísinda. Hagvísindi er flokkur fræðigreina sem fæst í víðum skilningi við auðlindastjórnun, efnahag og viðskipti og dreifingu gæða. Megingreinar hagvísindanna eru hagfræði og viðskiptafræði en stundum eru aðrar greinar taldar með sem varða efnahag og auðlindir svo sem: umhverfis- og auðlindafræði, mennta- og menningarstjórnun, heilbrigðisstjórnun og stjórnsýslufræði. Í hagvísindum er ein meginforsendan að gæði eru takmörkuð, hvort sem um ræðir efnisleg eða huglæg gæði, nefnt skortur. Í ljósi þessa er það verkefni hagkerfisins að dreifa vörum á sem hagnýtastan eða réttlátastan hátt. Í svokölluðu sjálfstýrðu eða frjálsu hagkerfi er það hagnýtingin í krafti samkeppninnar sem leitað er eftir, í miðstýrðu hagkerfi er oftast leitað eftir ákveðnu markmiði, t.d. því að jafna dreifingu lífsgæða en hægt er að fara milliveginn með blönduðu hagkerfi. Hagfræði. Hagfræði rannsakar efnahagsleg viðskipti og grundvallarreglur efnahagslegrar þróunar, orsök velmegunar, myndun framleiðslu, dreifingu aðfanga (varnings og framleiðsluþátta) í þjóðfélaginu, orsök hagkreppu, skatta, atvinnu og atvinnuleysi, verðlag og fátækt. Grunntilgátan er að gæði og aðföng séu takmörkuð. Þannig neyðast neytendur til að velja milli vinnuframlags og neyslu (hagsýnt lögmál). Í þessu samhengi þýðir skortur það að sá kostur sem valinn er útilokar alla aðra möguleika. Hagfræðingar kalla það fórnarkostnað. Þjóðhagfræðin leggur áherslu á val einstaklinga og hópa. Þar sem miðað er við hvatningu, vild og nyt sem ráði útkomunni. Rekstrarhagfræðin, sem er önnur megingreinin innan hagfræðinnar, rannsakar heildarsamhengi efnahagslegs árangurs eftir skynsömum ákvörðunum einkaaðila sem geta til dæmis verið heimili eða fyrirtæki. Innra skipulag fyrirtækja fellur hins vegar undir viðskiptafræðina. Hins vegar skoðar þjóðhagfræði hagkerfið í heild sinni, það er að segja áhrif og tengsl milli framleiðslu, tekna, fjárfestinga, atvinnu eða atvinnuleysis, verðlags og verðlagsbreytinga (verðbólgu og verðhjöðnunar). Viðskiptafræði. Viðskiptafræði fjallar um rekstur einkaaðila, til dæmis fyrirtækis eða einstaklings. Greinin skiptist í nokkrar megingreinar: stjórnun, reikningshald og markaðsfræði. Umhverfis- og auðlindafræði. Umhverfis- og auðlindafræði fjallar um umhverfi, auðlindir og tengsl þeirra við hagstjórnun og reynir að greina orsakir og afleiðingar umhverfis- og auðlindanýtingar. Mennta- og menningarstjórnun. Menntastjórnun fjallar stefnumótun í menntamálum, rekstur menntastofnana og þátt menntunar í verðmætasköpun. Menningarstjórnun fjallar um menningarleg verðmæti, meðferð þeirra og tengsl við efnahagsleg verðmæti. Heilbrigðisstjórnun. Heilbrigðisstjórnun fjallar um stefnumótun í heilbrigðismálum, rekstur heilbrigðiskerfa, og dreifingu takmarkaðra gæða í heilbrigðisþjónustu. Stjórnsýslufræði. Stjórnsýslufræði fjallar um opinbera stjórnsýslu og tengslin milli opinberrar stefnumótunar og þróunar efnahagsmála. Saga hagvísindanna. Elstu rit um hagvísindi eru rit forngrískra höfunda. Í "Hagstjórninni" fjallar Xenofon meðal annars um heimilshald og landbúnað, þrælahald, menntun. Heimspekingurinn Platon fjallaði meðal annars um framleiðsluöflin, eignir, menntun og dreifingu gæða í ritum sínum "Ríkinu" og "Lögunum" og það gerði Aristóteles einnig í bók sinni "Stjórnspekinni". Á miðöldum fjölluðu Tómas frá Aquino og Duns Scotus einnig um hvað væri sanngjarnt verð og fleira. Skotinn Adam Smith er hins vegar talinn helsti brautryðjandi nútímalegra hagvísinda. Hann skrifaði hina frægu bók "Auðlegð þjóðanna" (e. "An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations") sem kom út árið 1776. Í henni gagnrýndi hann kaupskaparstefnu ("merkantílisma") sem var algeng pólítisk stefna í þá daga sem snerist í stórum dráttum um það að leggja áherslu á útflutning en lágmarka innflutning. Bókin hlaut góðar viðtökur víða um heim, ekki síst á Bretlandi og Bandaríkjunum. Ljóstillífun. a> sem er mest notaður til ljóstillífunar Ljóstillífun er það lífefnafræðilega ferli sem plöntur, þörungar, sumar bakteríur og einstaka frumdýr nota til að vinna orku úr sólarljósi til að framleiða næringu. Ljóstillífun er mjög mikilvæg lífríki jarðar þar sem nær allar lífverur þar treysta beint eða óbeint á þá orku sem til verður við ljóstillífun, einnig mynda nær allar lífverur sem stunda ljóstillífun súrefni sem aukaafurð. Lífverur sem eru færar um ljóstillífun eru kallaðar frumbjarga lífverur Ljóstillífun í plöntum. Í plöntum eru það grænukorn frumna plantnanna sem fanga orku sólarljóssins. Þessi grænukorn eru staðsett í frumum plantna og gefa þeim græna litinn. Þetta nægir þó ekki til að lýsa til fullnustu ljóstillífunarferlinu. Í raun skiptist ljóstillífunin í tvö ferli sem eru kölluð ljósháð kerfi (ligth reaction) og ljósóháð kerfi (dark reaction eða Calvin cycle). Í ljósháða kerfinu er notast við ljóseindir (photons) til að búa til ATP úr ADP (fosfathópur er hengdur á ADP sem hefur þá þrjá fosfathópa í stað tveggja). Ferlið hefst á því að blaðgrænan (chlorophyll), sem staðsett er í thylakoid himnukerfinu (staflar af thylakoid heita grönur) í grænukornunum, gleypir ljóseind og örvar þetta blaðgrænuna sem getur þannig gefið af sér rafeind. Þessi rafeind er flutt með rafeindaflutningskeðju í thylakoid himnukerfinu. Það sem myndast við þetta ferli er NADPH+, róteind (H+) og ATP. Ljósóháða kerfið notar svo þetta ATP, NADPH og róteindina (H+) til að búa til sykrur úr CO2. Ljósóháða kerfið gerist í merg grænukornanna, svokölluðu stroma. Þrátt fyrir nafnið gengurt ljósóháða kerfið aðeins þegar ljóss nýtur við því þau ensím sem nauðsynleg eru við myndun sykra úr CO2 notast við ATP-ið og NADPH-ið sem kemur út úr ljósháða kerfinu. Þessum ensímum er ekki komið fyrir á „lager“ og því ganga kerfin bara samhliða. Til eru þrjú megin ljóstillífunarferli í plöntum; C3 (sem er lang algengast), C4 og CAM (algengt í þykkblöðungum). Flokkur (lotukerfið). Flokkur í lotukerfinu er lóðréttur hópur frumefna. Það eru 18 flokkar í lotukerfinu. Það er engin tilviljun að sumir þessara flokka svara nákvæmlega til efnaflokkar: lotukerfið var upprunalega búið til til að raða upp þeim efnaflokkum, sem þekktir voru á þeim tíma, í skiljanlegt form. Nútímalegri útskýring á mynstri lotukerfisins er sú að frumefni í hverjum flokki hafa svipaða uppsetningu á ysta rafeindahveli frumeinda sinna. Sökum því að efniseiginleikar stýrast mestmegnis af víxlverkun ystu rafeinda hverrar frumeindar, hefur það tilhneigingu til að gefa frumefnum í sama flokki svipaða efnislega- og efnafræðilega eiginleika. Flokkatölur. Til eru þrjár leiðir til að tölusetja flokka lotukerfisins, ein notar arabíska tölustafi en hin tvö nota rómverska tölustafi. Upprunalega voru flokkarnir númeraðir með rómverskum tölustöfum, en arabíska kerfið var síðan lagt fram af Alþjóðlegu sambandi efnafræðifélaga (IUPAC) til að koma í stað hinna tveggja gömlu rithátta, sem að þóttu ruglandi. Það er töluverður ruglingur í gangi með gömlu kerfin (gamla IUPAC og CAS kerfið) sem að blandaði saman rómverskum tölustöfum og bókstöfum. Í gamla IUPAC kerfinu voru stafirnir A og B notaðir til að skipta lotukerfinu í vinstri (A) og hægri (B) helminga, á meðan CAS kerfið notaði sömu stafi til að merkja aðalhóp frumefna (A) og hliðarfrumefni (B). Fyrra kerfið var mest notað í Evrópu á meðan það síðara var mest notað í Ameríku. Nýja IUPAC kerfið var þróað til að taka við af þessum tveimur kerfum og forðast miskilning. Boma. Boma er hafnarborg í Austur-Kongó í héraðinu Bas-Congo. Íbúafjöldi árið 1984 var 197.617 manns. Borgin var höfuðborg Belgísku Kongó frá 1. maí 1886 til 1926 þegar hún var flutt til Léopoldville (Kinsasa). Mið-Ameríka. Mið-Ameríka er sá hluti Norður-Ameríku sem liggur á milli suðurlandamæra Mexíkó og norðvesturlandamæra Kólumbíu í Suður-Ameríku. Sumir landfræðingar skilgreina Mið-Ameríku sem stórt eiði og landfræðilega eru hlutar Mexíkó frá Tehuantepec-eiðinu stundum taldir til Mið-Ameríku; þ.e. mexíkósku fylkin Chiapas, Tabasco, Campeche, Yucatán og Quintana Roo. Almennara er þó að telja til Mið-Ameríku löndin milli Mexíkó og Kólumbíu. Fornfræði. Fornfræði eða klassísk fræði er fræðigrein sem fjallar um sögu, menningu og arfleifð klassískrar menningar Grikkja og Rómverja. Viðfangsefni fornfræðinga eru margvísleg og vinnubrögð þeirra einnig. Innan fornfræðinnar vinna fræðimenn ýmist að sagnfræði, heimspeki, bókmenntasögu eða málvísindum að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina. Einkum er það málakunnátta í forngrísku og latínu, sameiginleg þekking á bókmenntum og öðrum heimildum fornaldar og þjálfun í klassískri textafræði sem sameinar ólíka fornfræðinga. Tímabilið sem fornfræðin fjallar um nær í grófum dráttum frá um 2000 f.Kr. er hópar grískumælandi fólks streymdu inn í Grikkland, til loka fornaldar um 500 e.Kr. eftir hrun Vestrómverska ríkisins. Fornfræðingar vinna náið saman með fornleifafræðingum einkum í rannsóknum á elsta tímabilinu en einnig á síðari hlutum tímabilsins. Undirgreinar. Eitt eftirtektarverðasta einkennið á fornfræði er margbreytileiki innan greinarinnar, bæði er varðar viðfangsefni og eins aðferðir. Megináherslan hefur ávallt verið á Grikkland hið forna og Rómaveldi en fornfræðingar, einkum fornaldarsagnfræðingar, fást í síauknum mæli við aðrar menningarþjóðir umhverfis Miðjarðarhafið, bæði í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Textafræði og textarýni. a> á frummálinu (forngrísku) í fræðilegri útgáfu textans. Neðanmáls eru textafræðilegar og handritafræðilegar skýringar í svonefndum "apparatus criticus". Frá upphafi hefur textafræði verið kjarninn í fornfræðinni. Segja má að textafræði sé rannsókn á textum í víðum skilningi: Uppruna þeirra, miðlun þeirra, merkingu þeirra og samhengi. "Klassísk" textafræði er textafræði forngrískra og latneskra texta. Klassísk textafræði er enn kjarninn í menntun og þjálfun fornfræðinga. Ein skilgreining klassískrar textafræði lýsir henni sem „vísindagrein sem fjallar um allar leifar klassískrar fornaldar, einkum texta á forngrísku eða latínu. Viðfangsefni greinarinnar er því hinn grísk-rómverski eða klassíski heimur að því marki sem varðveittar eru um hann ritaðar heimildir.“ Fornfræðingar fást auðvitað einnig við önnur tungumál, þar á meðal línuletur A, sanskrít, hebresku, arabísku og mörg fleiri og einnig línuletur B, sem er forngrísk táknskrift sem er eldri en gríska stafrófið. Áður en prenttæknin var fundin upp voru textar afritaðir í handritum en dreifing handrita gat verið tilviljanakennd. Afleiðing þessa er sú að margar ólíkar útgáfur sama textans eru varðveittar í handritum. Auk þess að leita skilnings á merkingu texta í því samhengi sem þeir voru skrifaðir vinna fornfræðingar að því að bera saman ólíkar útgáfur textanna og reyna að finna „réttan“ texta eða komast að minnsta kosti eins nærri upphaflegum texta og mögulegt er. Þessi hluti textafræðinnar kallast textarýni. Að lokum er textinn gefinn út með handritafræðilegum- og textafræðilegum skýringum. Þessi hluti fornfræðinnar lýtur að uppruna textanna og miðlun þeirra. Oft eru þessi atriði í textafræði og textarýni óaðskiljanleg spurningum um túlkun textans. Þess vegna eru mörkin stundum óljós á milli textafræði og textarýni annars vegar og bókmenntasögu og túlkunarfræði hins vegar. Því getur verið erfitt að komast að óhlutdrægri niðurstöðu til dæmis þegar textinn fjallar um trúarbrögð, stjórnmál eða heimspeki enda veltur þá túlkun textans oft að jafnmiklu leyti á þeirri heildarmynd sem menn hafa eins og heildarmyndin veltur á túlkun á einstökum textum. Bókmenntasaga og bókmenntarýni. Fornfræðingar rannsaka ekki klassíska texta eingöngu út frá textafræðinni og með aðferðum hennar. Þeir reyna einnig að segja bókmenntasögu Forn-Grikkja og Rómverja. Sumir rannsaka bókmenntirnar sem slíkar og beita bókmenntarýni. Segja má að auk textafræðinnar séu klassískar bókmenntir hornsteinn klassískra fræða. Fornfræðingar sem fást einkum við klassískar bókmenntir sérhæfa sig gjarnan enn frekar. Margir fást eingöngu við annaðhvort grískar bókmenntir eða latneskar bókmenntir, sumir sérhæfa sig í kveðskap en aðrir einbeita sér að textum í óbundnu máli, sumir rannsaka einkum leikritun, epískan kveðskap eða lýrískan kveðskap en aðrir ræðumennsku eða sagnaritun. Fornaldarheimspeki. Rætur vestrænnar heimspeki eru í forngrískri heimspeki. Sú heimspekihefð sem hófst með Þalesi frá Míletos í upphafi 6. aldar f.Kr. á sér órofa sögu í gegnum miðaldir til vorra daga. Heimspekingar á borð við Sókrates, Platon og Aristóteles og jafnvel stefnur á borð við stóuspeki, epikúrisma og efahyggju höfðu gríðarleg áhrif á hugsuði miðalda, endurreisnartímans og nýaldar og gera enn nú á tímum. Þeir hafa að mörgu leyti mótað spurningarnar sem spurðar eru innan vestrænnar heimspeki og orðræðuna um þær. Sem fræðigrein er fornaldarheimspeki sameiginlegt sérsvið innan fornfræði og heimspeki. Hún fjallar um heimspeki fornaldar, einkum gríska og rómverska heimspeki og arfleifð hennar í nútímaheimspeki og hugmyndasögu. Þeir sem fást við heimspeki fornaldar nálgast viðfangsefnið bæði frá sjónarhóli og með aðferðum fornfræðinnar og heimspekinnar. Fyrsta verk fornfræðingsins eða heimspekisagnfræðingsins er að leggja mat á textann sem er varðveittur, hvernig rétt útgáfa textans lítur út og hvað hann merki í sögulegu samhengi. Næst er að leggja mat á þær hugmyndir og þau rök sem heimspekingar fornaldar héldu fram og hvaða máli þau skipta í nútímanum. Þannig fást fræðimenn við fornaldarheimspeki með aðferðum textafræðinnar en fjalla jafnframt um heimspekina sem heimspeki og leggja gagnrýnið mat á hana sem slíka. Fornaldarsaga. Venusarhofið við Villa Adriana í Tívolí. Sumir fornfræðingar byggja á sögulegum frásögnum í rituðum heimildum og styðjast við niðurstöður klassískrar textafræði og sögulegra málvísinda, fornleifafræði og listasögu til þess að afla þekkingar á sögu og menningu fornþjóða. Þeir rannsaka bæði ritaðar heimildir og fornleifar til að segja sögu fornaldar. Því miður eru heimildir oft af skornum skammti og því er lítið vitað um marga hluti, atburði og þjóðfélagshópa. Þannig reyna fornfræðingar nú að fylla í eyðurnar til að öðlast skilning á lifnaðarháttum og aðbúnaði kvenna í fornöld, þræla og ýmissa annarra hópa. Annar vandi er sá að heimildir eru oft rýrari um suma hluti en aðra. Til dæmis var Sparta nokkurs konar stórveldi í Grikklandi hinu forna, en tiltölulega fáar heimildir eru til um Spörtu. Á hinn bóginn eru miklu fleiri heimildir um helsta andstæðing Spörtu, Aþenu. Á sama hátt varð útþensla Rómaveldis til þess að færri heimildir eru til um eldri menningu, til dæmis Etrúra. Nálgun fornaldarsagnfræðinga er marvísleg. Sumir fást einkum við hagsögu en aðrir einbeita sér að menningarsögu eða trúarbragðasögu, þ.e. rannsaka og segja sögu fornþjóðanna út frá menningarlegum eða trúarlegum hugtökum (til dæmis sæmd og skömm, réttindi, guðdómleiki, dýrkun og fórnarsiðir). Fornleifafræði. Kórintískur smápeningur frá 4. öld f.Kr. Ólíkt textafræðingum sem rannsaka bókmenntir og málsögu og varðveittar ritaðar heimildir Forn-Grikkja og Rómverja, rannsaka fornleifafræðingar í klassískri fornleifafræði varðveittar efnislegar leifar fornaldar. Auk Grikklands hins forna og Rómaveldis fást fornleifafræðingar meðal annars við Mesópótamíu og Egyptaland og ýmislegt annað. Fornleifarnar sem fornleifafræðingar grafa úr jörðu geta verið allt frá heilum hofum til lítilla hluta eins og örvarodda og smápeninga. Myntfræði er sérgrein innan klassískrar fornfræði. Listasaga. Sumir listasagnfræðingar einbeita sér að þróun listar í fornöld. List Grikkja og Rómverja hefur haft ómælanleg áhrif á vestræna menningu. Þeir hafa venjulega hlotið þjálfun í klassískri fornleifafræði auk þess að hafa að baki menntun í listasögu. „Klassík“. Fornfræðin, sem nefnist einnig klassísk fræði (sbr. e. „classics“), fjallar um klassíska fornöld. Orðið „klassík“ er komið af latneska lýsingarorðinu "classicus" sem merkir eitthvað „sem tilheyrir yfirstéttinni“. Orðið kemur fyrst fyrir hjá rómverska rithöfundinum Aulusi Gelliusi, sem var uppi á 2. öld. Í riti sínu "Noctes Atticae" ("Attíkunætur" 19.8.15) lýsir hann rithöfundi nokkrum sem svo að hann sé "classicus scriptor, non proletarius" („hástéttarhöfundur en ekki lágstéttarhöfundur“). Þessi venja hófst hjá Grikkjum en þeir röðuðu gjarnan höfundum sínum og menningarfyrirbærum í tignarröð. Orðið sem þeir notuðu var "kanon", sem þýðir mælistika. Höfundar sem töldust tilheyra „kanonunni“ kallast „kanonískir“ höfundar. Þeir varðveittust frekar en aðrir höfundar því þeir þóttu miklu frekar þess verðir að vera afritaðir. Á endurreisnartímanum varð til vestræn „kanona“ sem þótti endurspegla það besta í vestrænni menningu. Klassísk menntun, þ.e. menntun sem byggist á lestri klassískra („kanonískra“) höfunda, var lengi talin besta fáanlega þjálfun fyrir góða borgara, einkum þá er ætluðu sér frama í stjórnmálum. Hún var talin innræta nemendunum vitsmunalega og fagurfræðilega tilfinningu fyrir „því besta sem hefur verið hugsað og sagt í heiminum“. Rómverski stjórnmálamaðurinn, heimspekingurinn og rithöfundurinn Marcus Tullius Cicero sagði að „allar bókmenntir, allar heimspekiritgerðir og allar raddir fornaldarinnar væru fullar af dæmum til eftirbreytni og án bókmenntanna ljóss myndu þau öll liggja óséð í myrkri“. Vestræna „kanonan“ varð til í fornöld. Gríska „kanonan“ sem hafði verið til frá dögum alexandrísku fræðimannanna en latneska „kanonan“ varð ekki til fyrr en seint á 1. öld e.Kr. Æ síðan hefur „kanonan“ verið miðlæg í klassískum fræðum og hugvísindum almennt. En aðferðir fornfræðinnar eiga sér einnig rætur í klassískri fornöld, engu síður en viðfangsefnin. Fornar rætur málfræði og bókmenntarýni, textafræði og textarýni. Málfræði og bókmenntarýni eiga sér rætur meðal í klassískri fornöld Grikklands hins forna hjá höfundum eins og Platoni og Aristótelesi. Uppruna textafræðinnar og textarýninnar má hins vegar rekja að minnsta kosti aftur til alexandríska fræðimanna á hellenískum tíma, ekki síst Zenódótosar, Aristófanesar frá Býzantíon og Aristarkosar frá Samóþrake, sem voru allir að störfum í bókasafninu í Alexandríu. Þeir ritstýrðu textum klassískra grískra bókmennta, m.a. texta höfunda á borð við Hómer, Hesíódos, Pindaros, Platon og Demosþenes auk annarra. Þeir beittu m.a. málvísindalegum aðferðum og bókmenntarýni til að leggja mat á textana sem þeir rannsökuðu og gerðu athugasemdir við þá í útgáfum sínum en breyttu þeim ekki. Þannig voru til dæmis ljóðlínur sem þeim þótti grunsamlegar merktar en látnar vera áfram í textunum. Önnur bókasöfn voru starfrækt í Grikklandi hinu forna til dæmis í Pergamon. Málfræðirannsóknum alexandrísku fræðimannanna var haldið áfram, meðal annars af Apolloníosi Dyskolosi og Díonýsíosi Þrax og síðar hjá Rómverjum, meðal annars hjá Marcusi Terentiusi Varro. Heimspekingar, einkum stóuspekingar, fengust einnig við málfræði og bókmenntir. Á 1. öld f.Kr. samdi Díonýsíos frá Halikarnassos ýmsar ritgerðir um mælskufræði. Rit hans "Um orðaskipan" (Περι Συνθησεως Ονοματων) fjallaði um orðaröð í mismunandi gerðum kveðskapar. "Um eftirlíkingu" (Περι Μιμησεως) fjallar um bestu fyrirmyndirnar í ólíkum bókmenntagreinum og hvernig bæri að líkja eftir þeim. Hann samdi einnig skýringarrit við ræður attísku ræðumannanna (Περι των Αττικων Ρητορων) sem fjallaði einkum um stíl og efnistök Lýsíasar, Ísajosar og Ísókratesar. Verkið "Um hinn aðdáunarverða stíl Demosþenesar" (Περι λεκτικης Δημοσθενους δεινοτητος) fjallaði um stíl Demosþenesar sérstaklega. Tveir mikilvægir bókmenntarýnar 1. aldar e.Kr. voru Longínos og Quintilianus. Verk Longínosar, "Um hið háleita" (Περὶ ὕψους), fjallar einkum um áhrifamátt góðra bókmennta og er ásamt riti Aristótelesar, "Um skáldskaparlistina", mikilvægasta rit fornaldar um bókmenntarýni. Marcus Fabius Quintilianus var rómverskur kennari í mælskufræði. Hann samdi rit um menntun og vitsmunalegt uppeldi ræðumanna en í ritinu, "Um menntun ræðumannsins" ("Institutio oratoria"), er að finna margvíslega umfjöllun um bæði grískan og latneskan kveðskap, sagnaritun, heimspeki og ræðumennsku. Mat Quintilianusar á fornum höfundum hefur verið afar áhrifamikið og var snar þáttur í mótun smekks nútímamanna á verkum fornaldar, ekki síst latneskra höfunda. Síðfornöld og miðaldir. Í síðfornöld var hnignun klassískrar menningar samfara hnignun Vestrómverska ríkisins og að einhverju leyti tilkomu kristninnar. Seint á 4. öld var grískukunnátta í Vestrómverska ríkinu æ sjaldgæfari. Til að ráða bót á þeim vanda réðust lærðir menn í það verkefni að þýða mikilvæga texta grískra höfunda yfir á latínu. Boethius hófst handa við að þýða rökfræðiritgerðir Aristótelesar og lauk við nokkrar þýðingar auk þess sem hann samdi skýringarrit við nokkur rita Aristótelesar. Á miðöldum voru grískir höfundar nær algerlega óþekktir í vestri nema af þeim fáu ritum sem til voru latneskum þýðingum. Þau voru lesin á miðöldum og voru þau, ekki síst þýðingar Boethiusar á rökfræðiritum Aristótelesar, kjarninn í menntun allra lærðra manna ásamt ýmsum latneskum málfræðiritgerðum eftir höfunda eins og Aelius Donatus og Priscianus. En rit Aristótelesar urðu líka kjarninn í skólaspekinni. Auk þessara rita voru lesin latnesk rit höfunda á borð við Cíceró, Sallústíus og Lucanus. Megnið af þeim latneskum bókmenntum sem nú eru varðveittar var afritað og varðveitt í klaustrum. Meðan þekking Vestur-Evrópumanna á klassískri fornöld hékk á bláþræði á frummiðöldum voru klassískar menntir í miklum blóma í Austrómverska ríkinu. Þar voru grísk rit lesin, afrituð, rannsökuð og varðveitt og grískur kveðskapur og mælskulist var kennd í skólum. Frá Konstantínópel bárust handrit til Miðausturlanda þar sem þau voru þýdd yfir á sýrlensku og arabísku, einkum á heimspeki- og fræðitextum. Undir lok 12. aldar og í byrjun 13. aldar hafði ástandið breyst í Austrómverska ríkinu, sem átti nú í vök að verjast gagnvart erlendum innrásarherjum. Endurreisnin og nýöld. Á 14. öld og snemma á 15. öld fóru að berast æ fleiri grísk handrit að austan. Aukin kynni Vestur-Evrópumanna af grískum bókmenntum og fræðum, sem héldust í hönd við hnignun Austrómverska ríkisins, leiddu til nýs tíma í sögu Vestur-Evrópu, endurreisnartímans. Í fyrstu voru ritin þýdd úr arabísku, yfir á latínu, síðan úr grísku yfir á latínu og loks yfir á þjóðtungurnar. Um miðja 15. öld var prenttæknin fundin upp og jók það mjög á útbreiðslu klassískra bókmennta. Grískar og latneskar bókmenntir voru nú aðgengilegar öllum menntuðum mönnum alls staðar í Evrópu. En handritin höfðu ekki öll sama textann og því varð á ný þörf á aðferðum textafræðinnar og textarýninnar. Enn fremur var ekki alltaf sami textinn í prentuðum bókum og þeim handritum sem komu í leitirnar eftir að textinn hafði verið prentaður. Handritafræðin varð til seint á 17. öld. Á nýöld unnu fræðimenn að því að bera saman ólík handrit sömu verka, komast að því hver tengslin eru á milli handritanna og ritstýra svo útgáfum ritanna með eins upprunalegum texta og mögulegt er. Á 19. öld var farið að gefa út útgáfur rita með textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum. Samtíminn. Nú á dögum eru til fræðilegar útgáfur flestra texta klassískra bókmennta ásamt textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum. Þó eru enn handrit og papýrusbrot sem hafa ekki verið borin saman við þann texta sem liggur til grundvallar mörgum útgáfum. Fornfræðingar vinna enn að því að ritstýra textum og beita bæði textarýni og aðferðum handritafræðinnar til að ákvarða réttan texta. Flestir „kanonískir“ höfundar hafa nú verið þýddir yfir á þjóðtungurnar. Fjölmargir textar utan „kanonunnar“ svonefndu eru þó enn ófáanlegir í fræðilegum útgáfum og eru enn óþýddir, ekki síst textar frá síðfornöld. Auk þess að ritstýra fræðilegum útgáfum klassískra texta og gefa út þýðingar fjalla fornfræðingar fræðilega um klassískar bókmenntir og bókmenntasögu og beita bókmenntarýni. Þeir fást einnig við fornaldarsögu, fornleifafræði og fornaldarheimspeki. Á 20. öld hafa margir háskólar komið á samvinnu milli fornfræðideilda og annarra deilda, svo sem sagnfræði-, fornleifafræði-, heimspeki-, bókmenntafræði- og málvísindadeilda. Fornfræðingar. Eftirfarandi er listi yfir mikilvæga fornfræðinga. Frægir „fornfræðingar“. Fjölmargt fornfræðimenntað fólk hefur um tíðina öðlast frægð og frama utan klassískra fræða. Málvísindi. Málvísindi er sú grein vísindanna sem fæst við rannsóknir á tungumálum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast málvísindamenn. Erfitt er að henda á því reiður hvert er nákvæmt viðfangsefni málvísinda því þau tengjast nánast öllum fræðum um manninn að einhverju leyti. Tvískiptingar og tungumál. Söguleg og samtímaleg málvísindi Söguleg málvísindi fást við sögu ákveðins tungumáls eða tungumálafjölskyldu á einhverju tímabili, breytingar á einstökum þáttum þeirra eða formgerðum. Samtímaleg málvísindi fást aftur á móti við rannsóknir á tungumáli á ákveðnu stigi í tíma. Kennileg og hagnýtt málvísindi Kennileg málvísindi eru líka kölluð almenn málvísindi og fást við að setja fram kenningar til að lýsa tungumálum almennt eða einstökum tungumálum. Í hagnýttum málvísindum er þessum kenningum svo beitt á öðrum sviðum, t.d. við tungumálakennslu. Málvísindi í samhengi við aðra hluti og sérstæð málvísindi Einnig eru til undirgreinar málvísinda sem fást við tungumálið í ýmsu samhengi, t.d. félagslegu; félagsmálvísindi, málnotkunarfræði og rannsóknir á máltöku falla undir þennan hluta. Sérstæð málvísindi eru hins vegar rannsóknir á tungumálum sem taka ekki tillit til neinna utanaðkomandi þátta. Erfitt er að gefa málvísindum ákveðinn stað innan til dæmis sviða á borð við hugvísindi, raunvísindi eða félagsvísindi. Það er bæði vegna þess að menn eru ekki á eitt sáttir um hvar þau eiga heima en einnig er augljóst að erfitt er að færa fræðigrein sem fæst við allt frá eðlisfræðilegum eigindum málhljóða til félagslegra áhrifa í málnotkun í einhvern ákveðinn bás. Rannsóknarsvið kennilegra málvísinda. Umfjöllunarefni þessara sviða skarast töluvert og sum eru umdeild. Engu að síður hefur hvert svið sín eigin hugtök sem hafa mikla þýðingu í rannsóknum. Osama bin Laden. Osama bin Laden árið 2010. Usāmah bin Muḥammad bin ‘Awaḍ bin Lādin (f. 10. mars 1957, d. 2. maí 2011) (arabíska: أسامة بن محمد بن عوض بن لادن), betur þekktur sem Osama bin Laden eða Usama bin Laden, (arabíska: أسامة بن لادن) er stofnandi Al-Kaída, hryðjuverkasamtaka súnní-íslamista. Samtökin hafa komið nálægt fjölmörgum árásum á borgaraleg jafnt sem hernaðarleg skotmörk úti um allan heim, þar á meðal eru árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001 sem að urðu að minnsta kosti 2.752 manns að bana. Osama taldi sig og samtök sín berjast fyrir hagsmunum múslima; ein krafa hans var sú að bandarískur her færi frá Sádi-Arabíu en í því landi er að finna tvo helgustu staði í íslam. Bandaríkin drógu heri sína frá Sádi-Arabíu 2003 en ekki er ljóst hvort að ákvörðun um það hafði þegar verið tekin fyrir 11. september 2001. Osama var eftirlýstasti maður vesturlanda og hétu bandarísk stjórnvöld 50 milljónum bandaríkjadala í verðlaun handa hverjum þeim sem veitti upplýsingar sem leiddu til handtöku hans. Dvalarstaður hans var óþekktur en oftast var talið að hann væri í felum í hinu róstusama pakistanska héraði Waziristan, sem er við landamæri Afganistan, eða nálægt hinum pakistanska smábæ Chitral. Árið 2011 fengu Bandaríkjamenn veður af því að hann dveldist í ákveðnu húsi í borginni Abbottabad í Pakistan, sem er um 75 km norður af Islamabad. Nokkrum mánuðum síðar fengu þeir fulla vissu fyrir því og létu til skarar skríða að skipun Bandaríkjaforseta aðfaranótt 2. maí. Sérsveit gerði árás og eftir snarpan 40 mínútna skotbardaga féll Osama bin Laden. Bandaríkjamenn höfðu lík hans á brott með sér út á flugmóðurskip á Arabíuhafi sunnan við Pakistan. Gengið var frá líkinu að hætti Múhameðstrúarmanna og því svo sökkt í sjóinn. Rökgreiningarheimspeki. Rökgreiningarheimspeki eða analýtísk heimspeki er ríkjandi heimspeki í hinum enskumælandi heimi. Hún varð til í upphafi 20. aldar en á rætur að rekja aftur til loka 19. aldar. Upphafsmenn rökgreiningarheimspekinnar voru þýski heimspekingurinn Gottlob Frege (1848-1925) og bresku heimspekingarnir G.E. Moore (1873 – 1958) og Bertrand Russell (1872 – 1970). Rökgreiningarhefðin spratt upp úr tilraunum heimspekinga til að finna traustari grunn fyrir rökfræðina og til að smætta alla stærðfræði í rökfræði sem og frá áhuga þeirra á máli og merkingu. Rökgreiningarheimspekingar sóttu sumir innblástur sinn í breska raunhyggjuhefð, meðal annars til Davids Hume (1711 – 1776) og Johns Stuarts Mill (1806 – 1873), enda þótt ýmsir mikilvægir hugsuðir rökgreiningarhefðarinnar kæmu frá meginlandi Evrópu. Ein afleiðing þessa var sú að rökfræði og málspeki urðu miðlæg viðfangsefni í heimspeki allt frá upphafi 20. aldar, enda þótt þau gnæfi ekki lengur yfir heimspekinni. Ýmsir skólar í heimspeki eiga uppruna sinn í fyrsta skeiði rökgreiningarheimspekinnar, sem fékkst einkum við tungumál og rökfræði. Meðal þeirra eru: rökfræðileg raunhyggja, rökfræðilegur atómismi, rökfræðihyggja and heimspeki hversdagsmáls. Rökgreiningarheimspekingar síðari tíma hafa meðal annars fengist við siðfræði (svo sem Philippa Foot, R.M. Hare, og J. L. Mackie), stjórnmálaheimspeki (svo sem John Rawls og Robert Nozick), fagurfræði (svo sem Arthur Danto), trúarheimspeki (svo sem Alvin Plantinga og Richard Swinburne), málspeki (svo sem W.V.O. Quine, Hilary Putnam, Donald Davidson, David Kaplan, John Searle og Saul Kripke), hugspeki (svo sem Donald Davidson, John Searle, Daniel Dennett og Paul Churchland) og athafnafræði (svo sem Elizabeth Anscombe og Donald Davidson). Analýtísk frumspeki hefur einnig orðið fyrirferðamikil (svo sem hjá P.F. Strawson, Saul Kripke, David Lewis og Peter van Inwagen). Skilgreiningar á rökgreiningarheimspeki. Hugtakið rökgreiningarheimspeki er margrætt en í grófum dráttum má greina á milli þrenns konar skilgreininga á rökgreiningarheimspeki: (a) skilgreininga út frá tiltekinni kenningu, (b) skilgreininga út frá aðferðafræði, og (c) skilgreininga út frá hefðinni. Skilgreiningar út frá tiltekinni kenningu. Kenningarnar sem oftast eru sagðar vera kjarninn í rökgreiningarheimspekinni eru rökfræðileg raunhyggja og rökfræðilegur atómismi. Í aðeins víðari merkingu á hugtakinu telst heimspeki hversdagsmáls, heimspeki heilbrigðrar skynsemi eða einhver blanda af ofantöldu til rökgreiningarheimspeki. Þessi orðanotkun var eðlileg þangað til á 6. áratug 20. aldar. Fram að þeim tíma höfðu flestir rökgreiningarheimspekingar fengist við áþekk efni og haft áþekkar kenningar. Aftur á móti er þessi orðanotkun æ meira villandi, enda eru mjög fáir rökgreiningarheimspekingar eftir sem tilheyra einhverri þeirra hreyfinga sem áður töldust til rökgreiningarheimspeki. Skilgreiningar út frá aðferðafræði. „Aðferðafræði” rökgreiningarheimspekinnar er almenn aðferð við iðkun heimspekinnar. Upphaflega aðferðin fólst í rökgreiningu eða hugtakagreiningu. Seinna tók málgreining við sem meginaðferðafræði innan rökgreiningarheimspekinnar. Nú um stundir leggja rökgreiningarheimspekingar áherslu á skýrleika og nákvæmni í framsetningu heimspekilegra vandamála og í viðureigninni við þau, á röksemdafærslur og vitnisburð umfram mælskulist, og á að forðast margræðni. Þetta hefur leitt til þess að mörg viðfangsefni heimspekinnar eru betur fallin til sérhæfingar og nákvæmnisvinnu og hefur einnig gert skrif margra heimspekinga mun tæknilegri en þau voru áður. Leiða má líkum að því að þessi þróun hafi einnig gert að verkum að heimspekin hafi mun síður „lífsspekilegu“ víddina (sem fjallar til dæmisum tilgang lífssins og svo framvegis), sem oft er kennd við heimspeki. Gagnrýnendur rökgreiningarheimspekinnar benda gjarnan á þetta. Á hinn bóginn hefur þessi þróun eflt heimspekina sem fræðigrein og aukið mátt hennar, bætt rökræðugrundvöllinn og dregið úr líkununum á því að heimspekingar tali hverjir fram hjá öðrum. Skilgreiningar út frá hefðinni. Hefð rökgreiningarheimspekinnar hófst seint á 19. öld og um aldamótin með Gottlob Frege, Bertrand Russell, G. E. Moore, og Ludwig Wittgenstein við upphaf 20. aldar og henni tilheyra allir sem vinna í anda og að arfleifð þeirra sem og þau verk rökgreiningarheimspekinga sem hafa birst síðan. Hún einkennist fyrst og fremst af tilhneigingu til þess að skýra heimspekileg mál og gátur með greiningu og beitingu rökfræðinnar, þ.e. með aðferðinni sem lýst er í (2) að ofan. Tengsl við meginlandsheimspeki. Hugtakið „rökgreiningarheimspeki“ vísar til þess að rætur þessarar heimspeki liggi að nokkru leyti í hugmyndinni um „rökgreiningu“ frá upphafi 20. aldar. Hugtakið hefur einnig verið notað til að greina að „rökgreiningarheimspeki“ frá annars konar heimspeki, einkum „meginlandsheimspeki“. Síðarnefnda heimspekin vísar einkum til evrópskrar heimspeki eftir Immanuel Kant Kant hefur verið innblástur bæði meginlandsheimspekingum og rökgreiningarheimspekingum en er venjulega ekki flokkaður sem meginlandsheimspekingur sjálfur né heldur sem rökgreiningarheimspekingur. Annað hugtakið (rökgreiningarheimspeki) gefur til kynna heimspekilega aðferð, en hitt hugtakið (meginlandsheimspeki) gefur hins vegar til kynna landfræðilegan uppruna. Af þessum ástæðum er greinarmunurinn afar villandi. Margir af upphafsmönnum rökgreiningarheimspekinnar, Gottlob Frege, Ludwig Wittgenstein, Rudolf Carnap, og rökfræðilega raunhyggjan (Vínarhringurinn og Berlínarhringurinn), og pólsku rökfræðingarnir voru allir að störfum (a.m.k. hluta ævinnar) á meginlandi Evrópu. Í dag er stór hluti heimspekinnar í Þýskalandi, á Norðurlöndum og víða á meginlandi Evrópu rökgreiningarheimspeki. Á hinn bóginn fást gríðarlega margir í enskumælandi löndum við meginlandsheimspeki, oft í bókmenntafræði- eða menningarfræðideildum innan veggja háskóla. Sumir telja að greinarmunurinn sé gagnslaus: Ekkert viðfangsefni meginlandsheimspekinnar er ófært um að vera rannsakað með hefðbundnum aðferðum og tólum rökgreiningarheimspekinnar. Hugtakið „meginlandsheimspeki“, myndi þá ef til vill, líkt og „Grísk heimspeki“, gefa til kynna ákveðið tímabil eða tiltekinn hóp heimspekilegra skóla eins og t.d. þýsku hughyggjuna, marxisma, sálgreinningu sem heimspeki, tilvistarstefnu, fyrirbærafræði og póst-strúktúralisma. Formleg mál og náttúruleg tungumál. Markmið rökgreiningarheimspekinnar er að skýra og leysa heimspekileg vandamál með því að rannsaka og skýra tungumálið, sem er notað til að setja vandamálin fram. Þetta hefur borið nokkurn árangur, meðal annars: nýtíma rökfræði, greinarmunurinn á skilningi og merkingu í greinargerð fyrir eðli merkingar, ófullkomleikasetningu Kurts Gödel, lýsingarhyggju Bertrands Russell, hrekjanleikakenningu Karls Popper og merkingarfræðilegu kenninguna um sannleikann, sem Alfred Tarski setti fram. Það eru tveir rauðir þræðir í gegnum alla rökgreiningarhefðina. Annars vegar viðleitni til að skilja tungumál með hjálp táknlegrar rökfræði. Með öðrum orðum, að setja fram gátur heimspekinnar á formlegan máta með einum eða öðrum hætti. Hins vegar viðleitni til að skilja heimspekilegar hugmyndir með ítarlegri og nákvæmri rannsókn á því náttúrulega tungumáli, sem er notað til að setja þær fram – oftast með þó nokkurri áherslu á heilbrigða skynsemi í meðförum erfiðra hugtaka. Þessar tilhneigingar togast stundum á en stundum bæta þær hver aðra upp. Eins og frægt var Ludwig Wittgenstein í upphafi hallur undir þá aðferð að beita formlegum málum til þess að leysa heimspekileg vandamál en endaði á greiningu á náttúrulegum málum. Sókrates. Sókrates (forngríska Σωκράτης) (4. júní, 469 f.Kr. – 7. maí 399 f.Kr.) var grískur heimspekingur frá Aþenu. Hann fæddist á meðan gullöld Aþenu stóð. Allt sem er vitað um hann kemur aðallega úr ritum Platons (aðrar heimildir eru Aristófanes og Xenófon). Við hann er kennd „sókratísk kaldhæðni“. Andstætt forverum sínum, náttúruspekingunum, fór hann að íhuga frekar náttúru samfélags og siða þess (þessir heimspekingar eru stundum kallaðir forverar Sókratesar). Þrátt fyrir að vera skynsemdarhyggjumaður eins og flestir samtímamenn hans (sófistarnir) þá var hann mjög andsnúinn geðþóttastefnu sem einkenndi suma þeirra og var sjálfur heittrúaður, en sófistar höfðu á tímum Pelópsskagaófriðarins gagnrýnt trúarbrögð, siði og reglur ríkisins. Með ítarlegri skoðun á þessum málum segja margir að Sókrates hafi verið upphafsmaður siðfræðinnar. Spurningar eins og; „Hverskonar líf er þess virði að því sé lifað?“, „Hvað er vinátta?“, „Hvað er réttlæti?“ drógu athygli spekinganna að nýjum málefnum og margir helstu hugsuða Aþenu urðu lærisveinar hans (þó svo að hann hafi sjálfur sagt að hann hefði enga lærisveina). Meðal þeirra voru Platon og Xenofon. Æviágrip. Vitneskja okkar um Sókrates er einkum fengin úr þremur samtíma heimildum: samræðum Platons og Xenofons (sem voru báðir lærisveinar og vinir Sókratesar og rituðu um hann verk að honum látnum) og leikriti Aristófanesar, "Skýjunum" sem var fyrst sett á svið 423 f.Kr. og svo í endurskoðaðri útgáfu 416 f.Kr. meðan Sókrates var enn á lífi. Sjálfur ritaði Sókrates ekkert. Auk þessara samtímaheimilda veitir Aristóteles (384 f.Kr. – 322 f.Kr.) einhverjar upplýsingar um Sókrates og Díogenes Laertíos (uppi seint á 2. öld) ritaði ævisögu hans, sem er varðveitt. Sókrates fæddist í Aþenu annaðhvort árið 470 f.Kr. eða 469 f.Kr. Hann lést í Aþenu árið 399 f.Kr. eftir að hann hafði verið dæmdur sekur fyrir að spilla ungdómnum og kynna nýja guði til sögunnar. Í gamanleik Aristófanesar kemur Sókrates fyrir sem fræðari og rugludallur sem kennir nemendum sínum að gera verri rök betri og beita brögðum til þess að losna undan skuldum. Leikrit Aristófanesar eru hins vegar háðsádeilur sem endurspegla almenningsálitið í Aþenu á 5. öld f.Kr. Þau eru þess vegna fremur heimild um hvaða augum samborgarar Sókratesar litu hann en hvaða speki hann kenndi sjálfur og hvernig hann kenndi hana. Platon segir að faðir Sókratesar hafi heitið Sófróniskos og móðir hans Fænarete og að hún hafi verið ljósmóðir. Sókratesi er lýst sem ljótum manni og lágvöxnum en hraustum. Eiginkona hans hét Xanþippa og var mun yngri en hann. Hún átti með honum þrjá syni, Lamprókles, Sófróniskos og Menexenos. Í samræðunni "Krítoni" gagnrýnir Kríton Sókrates vin sinn fyrir að yfirgefa syni sína þegar Sókrates neitaði að þiggja hjálp vina sinna til þess að flýja úr fangelsinu. Í samræðum Platons er Sókrates oft kaldhæðinn viðmælandi en einlægur í leit sinni að visku. Í eldri samræðunum, sem eru taldar endurspegla að einhverju leyti heimspeki Sókratesar sjálfs, er Sókrates fyrst og fremst gagnrýninn hugsuður sem leitar skilgreininga á siðfræðilegum hugtökum en hefur engar kenningar sjálfur. Í yngri samræðum Platons hefur Sókrates á hinn bóginn ýmsar kenningar, jafnt um siðfræði og önnur viðfangsefni, en alment er talið að þær séu kenningar Platons. Það er óljóst hvaða atvinnu Sókrates hafði. Fornar heimildir segja að Sókrates hafi verið steinhöggvari eins og faðir hans. En það eru einnig vísbendingar um að hann hafi ekki haft neina atvinnu. Í "Samdrykkjunni" eftir Xenofon er Sókrates sagður hafa helgað sig alfarið því sem hann taldi mikilvægast í lífinu, það er að segja ástundun heimspekinnar. Í leikriti Aristófanesar þiggur Sókrates borgun fyrir kennslu sína en Sókrates mun hafa andmælt þessu og öðru í leikriti Aristófanesar og í ritum Platons ("Málsvörn Sókratesar" og "Samdrykkjan") og Xenofons hafnar hann því alfarið að hann hafi nokkurn tímann þegið greiðslu fyrir kennslu sína og raunar heldur hann því fram í "Málsvörn Sókratesar" eftir Platon að hann hafi aldrei kennt og bendir á fátækt sína máli sínu til stuðnings. Í nokkrum að samræðum Platons er minnst á herþjónustu Sókratesar. Sókrates virðist hafa barist í liði Aþeninga í þremur orrustum: við Potidaju, Amfipólis og Delíum. Í "Samdrykkjunni" segir Alkibíades frá hreysti og hugrekki Sókratesar í orrustunum við Potidaju og Delíum og segir hann hafa bjargað lífi sínu í þeirri fyrri (219e-221b). Framgöngu Sókratesar í orrustunni við Delíum er einnig getið í samræðunni "Lakkesi" (181b). Og í "Málsvörn Sókratesar" eftir Platon líkir Sókrates málaferlunum við herþjónustuna og segir að ef kviðdómendur telji að honum beri að hörfa frá ástundun heimspekinnar ættu þeir einnig að halda því fram að hermenn ættu að hörfa ef þeir sjá fram á að bíða ósigur og láta lífið í orrustu. Hin sókratíska aðferð. "Hin sókratíska aðferð" sem svo hefur verið kölluð eftir aðferð Sókratesar í leit að svörum við spurningum sínum, felst í því að spyrja viðmælanda sinn spurninga og leiða í ljós mótsagnir í skoðunum hans. Með þessari aðferð fær hann fólk til að átta sig á hvað er rangt við sannfæringu þeirra (eða rétt) og hversu mikið (eða lítið) það raunverulega veit. Með þessu sagðist hann fæða visku hjá fólki og kallaði sig því „ljósmóður viskunar“. Aðferðin leiðir líka í ljós sameiginlegar grundvallarreglur samfélagsins sem við köllum siðareglur, þetta er líklegast ein af ástæðum þess að Sókrates er kallaður upphafsmaður eða faðir siðfræðinnar. Cíceró. Marcus Tullíus Cíceró (106-43 f.Kr.) Marcus Tullíus Cíceró (3. janúar 106 f.Kr. – 7. desember 43 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður, heimspekingur og rithöfundur, og er almennt talinn meðal bestu höfunda á latínu í óbundnu máli. Æviágrip. Cíceró fæddist í bænum Arpínum og lést í Formía á flótta undan óvinum sínum. Að sögn Plútarkosar var Cíceró einstaklega vel gefinn og frambærilegur nemandi. Honum var einkar annt um kveðskap, en hafði þó áhuga á flestum fræðum. Cíceró starfaði undir Gnaeusi Pompeiusi Strabo og Luciusi Corneliusi Súlla á árunum 89-88 f.Kr. Cíceró ræðismaður. a>" („Hvílíkir tímar! Hvílíkir siðir!“) Cíceró flytur ræðu gegn Catilínu Cíceró var "novus homo" sem bókstaflega þýðir "nýr maður" en þannig voru þeir nefndir sem voru fyrstir í sinni fjölskyldu til að eiga sæti í öldungarráðinu. Árið 63 f.Kr. varð Cíceró aukinheldur fyrsti nýi maðurinn í um þrjá áratugi til þess að verða ræðismaður. Það eina markverða sem hann gerði á embættisári sínu var að koma upp um og bæla niður Samsæri Catilínu. Lucius Sergius Catilína hafði uppi áform um að ræna völdunum í Róm. Cíceró tryggði "senatus consultum de re publica defendenda" sem var yfirlýsing af hálfu öldungarráðsins um að herlög væru í gildi (kallaðist einnig "senatus consultum ultimum") og hrakti Catilínu úr borginni með ræðu sem hann flutti í þinginu þar sem hann réðst harkalega gegn Catilínu. Catilína flýði en skildi eftir bandamenn sína sem áttu að koma af stað uppreisn að innan meðan Catilína réðst á borgina að utan með her sem hafði verið safnað saman meal fylgismanna Súllu í Etrúríu. Cíceró lét taka þessa bandamenn Catilínu af lífi eftir að þeir höfðu játað á sig glæpi sína fyrir framan gervallt öldungaráðið, án dóms og laga en að tillögu þingsins. Útlegðin. Árið 58 f.Kr., tókst Publius Clodíus Pulcher sem verið hafði svarinn óvinur Cícerós síðan Cíceró bar vitni gegn honum í "Bona dea" hneykslinu, að láta setja lög um að hver sá sem hefði látið taka af lífi rómverskan borgara án dóms og laga fengi hvorki vatn né eld í Róm, m.ö.o. yrði útlægur. Lögin voru afturvirk og giltu því einnig um Cíceró. Cíceró fór í útlegð til Makedóníu. Hann varð mjög þunglyndur í útlegðinni og íhugaði að svipta sig lífi. Eftir um það bil ár sneri Cíceró aftur til Rómar en þá höfðu vinir hans í Róm fengið öldungaráðið til að kalla Cíceró aftur heim. Á móti honum tók fjöldi fagnandi Rómverja. Árið 50 f.Kr. magnaðist spennan milli Pompeiusar og Júlíusar Caesar. Cíceró studdi Pompeius en reyndi að forðast það að styggja Caesar um of. Þegar Caesar hélt með her sinn inn í Ítalíu árið 49 f.Kr. flúði Cíceró Róm. Caesar reyndi án árangurs að sannfæra hann um að snúa aftur. Í júní sama ár yfirgaf Cíceró Ítalíu. Árið 48 f.Kr. var Cíceró meðal stuðningsmanna Pompeiusar við Farsalos. Eftir ósigur Pompeiusar í orrustunni við Farsalos náðaði Caesar Cíceró. Í febrúar árið 45 f.Kr. lést Túllía, dóttir Cícerós. Andlát hennar fékk mjög á Cíceró en hann náði sér aldrei almennilega eftir það. Andstaðan við Marcus Antonius og andlát. Það kom Cíceró gjörsamlega í opna skjöldu þegar Caesar var ráðinn af dögum 15. mars árið 44 f.Kr. Í bréfi til Treboníusar, eins samsærismannanna, kvaðst Cíceró gjarnan hafa viljað vera í þeirra flokki. Á þeim glundroðatíma sem fylgdi í kjölfar morðsins á Caesari reyndi Cíceró að láta til sín taka á ný í stjórnmálunum. Hann varð fjandmaður Marcusar Antóníusar, sem hafði verið hægri hönd Caesars, og varð það til þess að þegar Oktavíanus (síðar nefndur Ágústus), Marcus Aemilius Lepidus og Antóníus stofnuðu með sér þremenningasamandið síðara sem svo er nefnt heimtaði Antóníus að nafn Cícerós yrði á lista yfir þá sem skyldi taka af lífi. Oktavíanus og Lepidus féllust á það og þar með voru örlög Cícerós ráðin. Hann var drepinn á flótta 7. desember 43 f.Kr. Höfuð hans og hendur voru hafðar til sýnis á torginu í Róm, líkt og Maríus og Súlla höfðu báðir gert við óvini sína. Cíceró var eina fórnarlamb þremenninganna sem var hafður til sýnis með þessum hætti eftir andlát sitt. Plútarkos segir að Fulvía, eiginkona Antóníusar, hafi tekið höfuð Cícerós, togað út tungu hans og rekið hana í gegn með teini og sagt að loksins þegði Cíceró, en Cíceró hafði meðal annars svívirt Fúlvíu í ræðum sínum. Ræður. 88 af ræðum Cícerós voru ritaðar niður en einungis 58 þeirra hafa varðveist. Ræðurnar veita einstaka innsýn í stjórnmálabaráttuna í Róm á síðustu árum og áratugum lýðveldisins. Stjórnmálaræður. (The "Pro Marcello", "Pro Ligario", and "Pro Rege Deiotaro" kallast einu nafni „caesarísku ræðurnar“). Grísk heimspeki. __NOINDEX__ Grísk heimspeki er, eins og nafnið gefur til kynna, heimspeki frá Grikklandi eða heimspeki stunduð á grísku. Venjulega er hugtakið notað til þess að nefna gríska fornaldarheimspeki og þá yfirleitt til aðgreiningar frá rómverskri heimspeki, en grísk heimspeki á sér einnig lengri sögu í Grikklandi. Heimspeki fornaldar á Vesturlöndum á upphaf sitt í Grikklandi. Þar varð til rík og samfelld heimspekihefð sem Rómverjar þáðu í arf (sjá grein um rómverska heimspeki). Segja má að sú heimspekihefð sem upprunnin er í Grikklandi eigi sér samfellda sögu allt fram okkar samtíma í gegnum rómverska heimspeki, miðaldaheimspeki, heimspeki endurreisnartímans og nýaldarheimspeki á 17. og 18. öld. Alkajos. Alkajos frá Mýtilene (fæddur um 620 f.Kr.) var grískt lýrískt skáld og eldri samtímamaður skáldkonunnar Saffóar. Sagt var að þau hefðu átt í ástarsambandi en þau skiptust á kvæðum. Hann var yfirstéttarmaður og bjó í borginni Mýtilene sem var meginborgin á eynni Lesbos. Hann tók þátt í stjórnmálum og stjórnmálaátökum borgarinnar. Alkajos studdi málstað yfirstéttarinnar gegn „harðstjórum“ sem tóku völdin í Mýtilene í nafni alþýðunnar. Hann varð af þeim sökum að eyða töluverðum tíma í útlegð frá borginni. Hann var sagður hafa sæst við Pittakos, leiðtoga flokks alþýðunnar, og hafa að lokum snúið aftur til Lesbos. Dánarár hans er óþekkt. Þegar ljóðum hans var ritstýrt og þau gefin út í Alexandríu á helleníska tímanum fylltu þau tíu bókrollur. Kveðskapur Alkajosar hefur einungis varðveist í tilvitnunum síðari tíma höfunda. Af þessum sökum er erfitt að leggja mat á kveðskap hans. Efni kvæðanna, sem voru samin á eólískri mállýsku, var af ýmsu tagi: sálmar til heiðurs guðunum; athugasemdir um hernað eða stjórnmál, stundum nokkuð persónuleg; og að lokum ástarsöngvar og drykkjuvísur, þ.e. kveðskapur af því tagi sem hefði verið lesinn upp á samdrykkjum. Fræðimenn í Alexandríu voru á einu máli um að Alkajos hefði verið næstbesta skáldið af hinum hefðbundnu „kanónísku“ níu lýrísku ljóðskáldum. Brotin sem eru varðveitt eru allnokkur, en auk þess hermdi rómverska skáldið Quintus Hóratíus Flaccus eftir Alkajosi á latínu, en Alkajos var ein af fyrirmyndum Hóratíusar. Þetta gefur okkur einhverja hugmynd um helstu einkenni kveðskapar Alkajosar. Mímnermos. Mímnermos frá Kólofon, var grískt skáld, uppi um 630 – 600 f.Kr. Hann var uppi á þeim glundroðatímum þegar jónísku borgirnar í Litlu Asíu áttu í fullu fangi með að halda sjálfstæði sínu gagnvart konungum Lýdíu. Í einu af varðveittu broti úr verkum hans er vísað til baráttu grísku borgríkjanna. Þar ber hann saman „kvenleika“ samtímamanna sinna við hugrekki þeirra sem höfðu sigrað lýdíska konunginn Gýges. En mikilvægustu ljóð hans voru elegíur þar sem hann ávarpar flautuleikara að nafni Nanno. Þeim var safnað saman í tvær bækur sem nefndar voru eftir henni. Mímnermos var fyrstur til að semja ástarkvæði undir elegískum brag. Kvæði hans voru sungin yfir flautuleik, og skáldið Hippónax segir að hann hafi notað „fíkjutrjáa laglínuna“, sem var sögð vera sérstök laglína. Samkvæmt Hesykkíosi var lagið spilað undir mannfórnum á Þargelíu hátíðinni. Hippónax. Hippónax frá Efesos var grískt skáld. Árið 540 f.Kr. rak harðstjórinn Aþenagóras Hippónax frá Efesos. Hann hélt til Klasómenæ þar sem hann varði því sem eftir var ævinnar í fátækt. Höggmyndasmiðirnir Búpalos og Aþenis frá Kíos gerðu grín að Hippónaxi vegna útlits hans og skapgerðargalla, en hann hefndi sín á þeim með því að hæðast að þeim í fjölmargum satírum sínum. Sagt var að þeir hefðu hengt sig líkt og Lýkambes og dætur hans þegar skáldið Arkílokkos frá Paros réðst gegn þeim í kveðskap sínum, en Arkílokkos var forveri og fyrirmynd Hippónaxar. Hann var grófur í hugsun og orðaforði hans dónalegur og ruddalegur, hann skorti þokka og góðan smekk, og hann vísar oft til mála sem einungis vöktu áhuga þeirra sem þekktu til þeirra. Þetta kom allt í veg fyrir að hann nyti vinsælda á Attíkuskaganum, þar sem Aþena liggur. Á hinn bóginn naut hann vinsælda meðal alexandrískra fræðimanna en þeir gáfu út verk hans í tveimur eða þremur bókum. Hippónax var talinn höfundur háðsádeilunnar og sagt var að hann hefði búið til sérstakan bragarhátt, kólíambann, sem kemur í stað hefðbundinnar endingar á jambískri ljóðlínu. Hann orti á jónískri mállýsku. "Þessi grein er lausleg þýðing á grein úr ensku Wikipedia sem byggir á grein úr Encyclopedia Britannica frá 1911" Antífon. Antífon frá Rhamnos á Attíkuskaganum (uppi 480 – 403 f.Kr.) var fyrstur hinna tíu Attísku ræðumanna. Antífon var ræðumaður og stjórnmálamaður sem gerði það að atvinnu sinni að semja ræður. Deilt er um það hvort hann sé sá hinn sami Antífon og var sófisti og samtímamaður Sókratesar. Hugsanlega var hann sá Antífon sem samdi verkið "Um sannleikann", þar sem fyrst er rætt um ferningshring eins og Aristóteles getur um í 2. kafla fyrstu bókar "Eðlisfræðinnar". Antífon tók virkan þátt í stjórnmálum í Aþenu og var dyggur stuðningsmaður fámenninsstjórnarsinna. Hann átti þátt í valdaráni hinna Fjögurhundruð árið 411 f.Kr. Þegar lýðræði var komið á aftur árið 403 f.Kr. var hann sakaður um landráð og dæmdur til dauða. Sagnaritarinn Þúkýdídes (viii. 68) hafði mikið álit á honum. Segja má að Antífon hafi fundið upp pólitíska mælskufræði, en hann ávarpaði ekki lýðinn sjálfur nema í réttarhöldunum yfir sér. Hann hafði einkum atvinnu af því að semja ræður fyrir þá sem ekki gátu það sjálfir en þurftu á að halda í réttarhöldum, en sérhver maður þurfti að flytja eigið mál í réttinum án hjálpar. Fimmtán af ræðum Antífons eru varðveittar að hluta eða í heild. Tólf þeirra eru taldar vera skólaæfingar um réttarhöld sem aldrei fóru fram. Þeim er skipt í fernur, en hver ferna inniheldur tvær soknarræður og tvær varnarræður. Þrjár ræður voru notaðar í raunverulegum réttarhöldum. Allar ræðurnar fjalla um morðmál. Antífon er einnig sagður hafa samið hndbók um mælskufræði en hún er ekki varðveitt. Antífon heldur því fram að náttúruleg lög séu mannkyni nauðsynleg, en að lög sem eru einungis mannasetningar séu einungis viðbætur sem byggja á samkomulagi borgaranna. Hann bætir við að mannasetningarlög komi beinlínis í veg fyrir að menn fari eftir náttúrulegum lögum. Francis MacDonald Cornford. Francis Macdonald Cornford (27. febrúar 1874 – 3. janúar 1943) var enskur fornfræðingur og skáld. Hann var félagi á Trinity College, Cambridge frá árinu 1899 og gegndi kennslustöðu við háskólann frá árinu 1902. Hann varð Laurence Professor of Ancient Philosophy árið 1931. Í bók sinni "Thucydides Mythistoricus" frá árinu 1907 færði hann rök fyrir því að Saga Pelópsskagastríðsins einkenndist af tragískum skoðunum höfundarins, Þúkýdídesar. Ef til vill er Cornford þó betur þekktur fyrir verk sitt "Microcosmographia Academica" frá árinu 1908, sem er sígild háðsádeila á háskólapólitík rituð af manni sem tók þátt í þeim. Bókin er heimild fyrir mörgum fleygum setningum, svo sem: "doctrine of unripeness of time". Cornford var einnig mikilvægur fræðimaður um fornaldarheimspeki. Rit hans "Plato's Cosmology: The Timaeus of Plato" frá árinu 1935 er enn eitt mikilvægasta skýringarritið við samræðuna "Tímajos" eftir Platon og "Plato's Theory of Knowledge: The Theaetetus and Sophist of Plato" frá 1935 er enn mikilvægt skýringarrit við samræðurnar "Þeætetos" og "Fræðarann" eftir Platon. Meðal annarra rita hans um fornaldarheimspeki og fornfræði má nefna "Greek Religious Thought From Homer to the Age of Alexander" frá árinu 1923, "Before and After Socrates" frá árinu 1932, "Plato and Parmenides" frá 1939, "From Religion to Philosophy" frá 1957 Cornford kvæntist skáldinu Frances Cornford (fædd Darwin), og skáldið John Cornford var sonur þeirra. Gregory Vlastos. Gregory Vlastos (27. júlí 1907 – 12. október 1991) var fræðimaður um fornaldarheimspeki, einkum gríska heimspeki og höfundur margra bóka um Platon og Sókrates. Vlastos fæddist í Istanbúl, þar sem hann læðri til B.A. gráðu við Robert College en þaðan hélt hann til Harvard University og hlaut doktorsgráðu þaðan árið 1931. Þegar hann hafði kennt um árabil við Queen's University í Kingston, Ontario í Kanada flutti hann sig yfir til Cornell University í bænum Ithaca í New York fylki árið 1948. Hann var Stuart Professor í heimspeki við Princeton University frá árinu 1955 til ársins 1976 og síðan Mills Professor í heimspeki við University of California, Berkeley fram til ársins 1987. Hann hlaut styrk frá MacArthur stofnuninni árið 1990. Vlastos beitti gjarnan nútímarökfræði til að setja fram gátur og vandamál fornra heimspekinga á eins skýran hátt og mögulegt var. Óhætt er að fullyrða að fáir fræðimenn hafi átt jafnríkan þátt og Vlastos í að gera fornaldarheimspeki að lifandi undirgrein í fornfræði og heimspeki. Werner Jaeger. Werner Jaeger (30. júlí 1888 – 9. október 1961) var þýskur fornfræðingur. Jaeger fæddist í Lobberich, í Þýskalandi. Hann gekk í skóla í Lobberich og í menntaskóla í Gymnasium Thomaeum í Kempen áður en hann hélt háskólanáms í Marburg. Hann hlaut doktorsgráðu frá Humboldt háskólanum í Berlín árið 1911 fyrir ritgerð um "Frumspeki" Aristótelesar. Einungis 26 ára gamall varð Jaeger prófessor við háskólann í Basel í Sviss. Einu ári síðar fluttist hann til Kiel og tók við samskonar stöðu þar. Þar var hann þar til árið 1921 en þá sneri hann aftur til Berlínar. Jaeger bjó í Berlín fram til ársins 1936, en þá fluttist hann til Bandaríkjanna vegna óánægju með stjórn Hitlers. Í Bandaríkjunum tók hann við stöðu prófessors við University of Chicago og gegndi henni til ársins 1939, en þá yfirgaf hann háskólann Chicago og fór til Harvard University í Cambridge, Massachusetts. Hann bjó í Cambridge til dauðadags. Ef til vill er hann best þekktur fyrir ritið "Paideia", sem er ítarlegt yfirlitsrit um bæði upphaf og síðari tíma viðhorf Forn-Grikkja til eðli menntunar, en Jaegar vonaðist til að ritið myndi hjálpa til þess að endurreisa siðferðishneigð Evrópu, sem hann taldi spillta, til grísks upphafs síns. Ritverk. Jaeger Jaeger Norðurheimskautið. Mynd sem sýnir hvernig sumarís á Norðurskautinu hefur minnkað. Norðurheimskautið eða Norðurpóllinn er sá punktur á yfirborði sérhverrar plánetu, sem nyrstur er. Til eru ýmsar skilgreiningar á norðurheimskautinu, en hér verður eingöngu fjallað um hið landfræðilega norðurheimskaut. Landfræðilega norðurheimskautið, eða norðurpóllinn, er sá staður á Jörðinni þar sem norðurendi jarðmöndulsins eða snúningsássins sker yfirborð jarðar. Þessi staður er í Norður-Íshafi og er umlukinn norðurheimskautssvæðinu. Aðrar skilgreiningar gefa aðra staðsetningu, en í öllum tilvikunum er póllinn þó í Norður-Íshafi. Ekki verður fjallað um hinar skilgreiningar norðurheimskautsins hér, vegna þess að þær eiga frekar við um segulskautið. Þau lönd, sem liggja næst norðurheimskautinu eru Grænland (Danmörk), í 716 kílómetra fjarlægð og Ellesmereeyja (Kanada) í 756 kílómetra fjarlægð. (Báðar vegalengdirnar mældar í Google Earth.) Skilgreining. Norðurheimskautið er mjög nálægt þeim stað þar sem snúningsás jarðar sker yfirborðið. Þessi punktur er skilgreindur sem breiddargráðan 90°N. Hvert sem farið er út frá þessum punkti er stefnan ávallt í suður og hvaðan sem komið er í stefnu á þennan punkt er stefnan norður. Á þessum stað er dýpi Norður-Íshafsins 4.087 metrar. Á síðustu öld var póllinn skilgreindur nákvæmlega þar sem snúningsás Jarðar mætir yfirborðsfleti hennar, en fljótlega urðu stjörnufræðingar varir við að snúningsásinn er ekki alveg fastur, heldur hreyfist örlítið til með sveiflutíma sem er um það bil 435 dagar. Þessi óregla er kennd við Chandler, sem uppgötvaði hana og kallast á ensku "Chandler wobble". Þetta uppgötvaðist með því að bera snúning jarðar saman við fastastjörnur á himni séð frá norðurpólnum. Leiðangrar á Norðurpólinn. Fyrsti leiðangur á pólinn er almennt viðurkennt að verið hafi för Roberts Edwin Peary, en með honum voru í för Matthew Henson og 4 inúítar, þeir Ootah, Seegloo, Egingway og Ooqueah, en þeir komust nálægt pólnum þann 6. apríl 1909. Sagnfræðingar telja að Peary hafi í raun talið sig vera á pólnum, en nákvæm greining á gögnum Pearys, sem gerð var 1996 bendir til þess að hann hafi átt um 40 kílómetra ófarna þegar hann taldi sig kominn alla leið. Samkvæmt því hefur hann komist norður á 89°50'N svona um það bil. Fyrsta óumdeilda för manna yfir norðurpólinn var flug könnuðarins Roalds Amundsen og Lincolns Ellsworth í loftfarinu Norge, en hönnuður þess og flugstjóri var Ítalinn Umberto Nobile. Þeir flugu frá Svalbarða til Alaska árið 1926. Þann 3. maí 1952 lentu þeir Joseph O. Fletcher, William P. Benedict og Albert P. Crary í fyrsta sinn flugvél á norðurpólnum. Tveir þeir fyrrnefndu voru bandarískir herflugmenn, en sá síðastnefndi vísindamaður. Bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Nautilus (SSN-571) sigldi undir norðurskautið þann 31. ágúst 1958 og þann 17. mars 1959 kom bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Skate (SSN-578) úr kafi upp í gegnum íshelluna á norðurskautinu. Fyrstur manna til að komast á norðurskautið á yfirborði jarðar, svo að óumdeilt sé, var Ralph Plaisted, en hann vann afrekið þann 19. apríl 1968. Kröfur til yfirráða. Á síðustu árum (frá 1999) hafa lönd eins og Rússland og Kanada farið að gera tilkall til norðurpólsins (eða svæða alveg að honum) með mismunandi röksemdafærslu, sem er ákaft mótmælt af löndum eins og Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum. G.E.M. Anscombe. Gertrude Elizabeth Margaret Anscombe (18. mars 1919 – 5. janúar 2001) (þekkt sem Elizabeth Anscombe, skrifaði undir nafninu G. E. M. Anscombe) var enskur rökgreiningarheimspekingur, guðfræðingur og nemandi Ludwigs Wittgenstein. Hún vann mikið verk í siðfræði, einkum með því að endurvekja áhuga á dygðasiðfræði, en einnig vann hún að hugspeki, athafnafræði, rökfræði og merkjafræði. Í grein hennar „Siðfræði nútímans“ frá 1958 kom orðið „consequentialism“ (leikslokasiðfræði eða afleiðingasiðfræði á íslensku) fyrst fyrir í ensku máli. Æviágrip. Gertrude Elizabeth Margaret Anscombe fæddist hjónunum Gertrude Elizabeth Anscombe og Alan Wells Anscombe 18. mars 1919, í Limerick á Írlandi (þar sem faðir hennar hafði starfað í hernum). Hún brautskráðist frá Sydenham High School árið 1937 og hélt þaðan í háskólanám í „Mods & Greats“, þ.e. í fornfræði, fornaldarsögu og heimspeki, við St Hugh's College í University of Oxford. Þaðan brautskráðist hún árið 1941. Á fyrsta ári sínu í háskólanum játaðist hún rómversk kaþólksri trú og var æ síðan dyggur kaþólikki. Hún giftist Peter Geach, sem einnig hafði játast kaþólskri trú, hafði einnig verið nemandi Wittgensteins og varð þekktur breskur heimspekingur. Þau eignuðust þrjá syni og fjórar dætur. Þegar Anscombe hafði útskrifast frá Oxford hlaut hún rannsóknarstyrk til námsvistar við Newnham College, Cambridge frá 1942 til 1945. Við Cambridge hóf hún að sækja fyrirlestra Ludwigs Wittgenstein. Hún varð áhugasamur nemandi, og fannst „læknandi“ aðferðir Wittgensteins hjálpa henni að losna undan heimspekilegum flækjum á þann hátt sem þjálfun hennar í hefðbundinni heimspeki gat ekki gert. Að lokinni námsvist hennar í Cambridge hlaut hún rannsóknarstyrk til veru í Sommerville College, Oxford, en hún hélt áfram að ferðast til Cambridge einu sinni í viku allt skólaárið 1946-1947, ásamt samnemanda sínum W. A. Hijab, til þess að geta sótt kennslustundir hjá Wittgenstein um trúarheimspeki. Hún varð einn af eftirlætisnemendum Wittgensteins og einn af hans nánustu vinum (Monk [1990] 497-498). Anscombe heimsótti Wittgenstein oft eftir að hann yfirgaf Cambridge árið 1947, og ferðaðist til Cambridge í apríl árið 1951 til að heimsækja hann á dánarbeðinu. Wittgenstein útnefndi hana, auk Rush Rhees og Georg Henrik von Wright, sem umsjónarmenn ritverka sinna, og eftir að hann lést árið 1951 bar hún ábyrgð á ritstjórn, þýðingum, og útgáfu margra handrita og minnisbóka Wittgensteins. Anscombe var um kyrrt í Sommerville College frá 1946 til 1970. Sem ungur heimspekiprófessor öðlaðist hún fljótt orðstír sem skæður rökræðumaður. Vinir C. S. Lewis, svo sem George Sayer og Derek Brewer, sögðu að rökræða hennar við Lewis árið 1948 (um rökin fyrir tilvist Guðs í þriðja kafla bókar hans "Miracles") hefði verið svo niðurlægjandi fyrir Lewis að hann hafi alfarið látið af guðfræði deilum og snúið sér að annars konar skrifum m.a. barnabókum. Anscombe andmælti þessari lýsingu á rökræðunni, og kvaðst ekki muna eftir neinum kala hjá Lewis, hvorki í rökræðunum sjálfum né við kvöldverðinn sem þau snæddu saman nokkrum vikum seinna. En hvaða tilfinningar sem Lewis hefur haft virðist öllum viðstöddum ljóst (þ.m.t. Lewis) að rök hans höfðu verið rústuð, og Lewis endurskrifaði að verulegu leyti þriðja kafla "Miracles" til þess að taka til greina andmæli Anscombe. Hún var einnig þekkt fyrir að vera viljug til þess að mæta rammri opinberri deilu í nafni kaþólskrar trúar sinnar. Árið 1956, meðan hún var rannsóknarfélagi við Oxford University, andmælti hún ákvörðun Oxford um að veita Harry S. Truman heiðursdoktorsnafnbót, en hún fordæmdi hann sem fjöldamorðingja vegna ákvörðunar hans um að beita kjarnorkuvopnum á Hiroshima og Nagasaki. Hún hneykslaði frjálslynda samstarfsmenn sína með greinum þar sem hún varði andstöðu kaþólsku kirkjunnar við fóstureyðingum og getnaðarvörnum. Hún var einnig handtekin tvisvar sinnum fyrir að mótmæla fyrir utan fóstureyðingarstöð í Bretlandi. Anscombe var kjörin prófessor í heimspeki við Cambridge University árið 1970 en þeirri stöðu gegndi hún til starfsloka árið 1986. Á síðari árum átti Anscombe við hjartasjúkdóm að stríða og var næstum því öll í bílslysi árið 1996. Síðustu árum sínum varði hún í Cambridge í umsjá fjölskyldu sinnar. Hún lést 81 árs að aldri þann 5. janúar 2001, í viðurvist eiginmanns síns og fjögurra barna þeirra. Ritverk. Árið 1942 varð Anscombe framhaldsnemi við University of Cambridge, þar sem hún kynntist Ludwig Wittgenstein. Hún varð síðar einn helsti túlkandi hans. Árið 1959 skrifaði hún ítarlegan inngang að riti hans "Tractatus Logico-Philosophicus" frá því fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Þýðing hennar á öðru meistaraverki hans, "Rannsóknum í heimspeki" (1953), er enn aðalþýðingin á ensku; Hún þýddi einnig ýmis önnur minni verka Wittgensteins. Meðal hennar eigin bóka eru "Intention" frá 1957 og þrjú ritgerðasöfn, sem birtust árið 1981: "From Parmenides to Wittgenstein"; "Metaphysics and the Philosophy of Mind"; og "Ethics, Religion and Politics". Ritgerð hennar „Modern Moral Philosophy“ („Siðfræði nútímans“), sem birtist árið 1958, olli straumhvörfum í siðfræði. Þar hélt Anscombe fram aristótelískri dygðasiðfræði gegn tveimur ríkjandi straumum í siðfræði, skyldusiðfræði annars vegar (þar sem meginkenningin var siðfræðikenning Immanuels Kant, og leikslokasiðfræði hins vegar (þar sem meginkenningin var nytjastefna Johns Stuarts Mill. Síðan þá hefur dygðasiðfræðin rutt sér til rúms í nútímasiðfræði og nýtur aukinna vinsælda. Anscombe bjó einnig til orðatiltækið "brute facts" (blákaldar staðreyndir), til aðgreiningar frá stofnunum. Hugtakið gegndi mikilvægu hlutverki hjá bandaríska heimspekingnum John Searle og í málgjörðarkenningu. Tengill. Anscombe, Elizabeth Anscombe, Elizabeth Ytterbín. Ytterbín er frumefni með efnatáknið Yb og er númer 70 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, silfraður sjaldgæfur jarðmálmur í flokki lantaníða og finnst í steintegundunum gadólíníti, mónasíti og xenótími. Ytterbín er oft tengt saman við yttrín og önnur skyld frumefni, og er notað í sumar tegundir stáls. Náttúrulegt ytterbín er blanda sjö stöðugra samsæta. Almennir eiginleikar. Ytterbín er mjúkt, mótanlegt og frekar teygjanlegt frumefni sem hefur silfraðan gljáa. Sem sjaldgæfur jarðmálmur er það auðleysanlegt með ólífrænum sýrum, hvarfast hægt í vatni og oxast í lofti. Ytterbín hefur þrjú fjölgervingsform sem kölluð eru alfa, beta og gamma og hafa umskiptingarstig við -13°C og 795 °C. Betaformið er til við stofuhita og hefur hliðarsetna kristallsgerð á meðan háhita gammaformið hefur miðjusetna kristallagerð. Undir eðlilegum kringumstæðum hefur betaformið málmkennda rafleiðni, en breytist í hálfleiðara við 16.000 loftþyngdir. Viðnám þess er tíu sinnum meira við 39.000 loftþyngdir en fellur síðan snarlega niður í einn tíunda af viðnámi þess við stofuhitastig við 40.000 loftþyngdir. Notkun. Ein samsæta ytterbíns hefur verið notuð sem geislauppspretta í flytjanlegar röntgengeislavélar þegar rafmagn er ekki við hendi. Málmform þess er einnig notað til að bæta kornastærð, styrkleika og aðra efniseiginleika ryðfrís stáls. Ytterbín málmblöndur hafa verið notaðar við tannlækningar. Það eru fáein önnur not fyrir þetta efni, til dæmis í formi jóna í ljósmagnara leysa. Saga. Ytterbín var uppgötvað af Svissnesska efnafræðingnum Jean Charles Galissard de Marignac árið 1878. Marignac fann nýjann þátt í jarðtegund sem þekkt var sem erbía og kallaði það ytterbía (eftir sænska bænum Ytterby þar sem að þessi nýi þáttur í erbia fannst). Hann grunaði að ytterbía væri efnasamband nýs frumefnis, sem hann kallaði svo ytterbín (sem var reyndar fyrsti sjaldgæfi jarðmálmurinn sem að uppgötvaður var). Árið 1907 aðskildi franski efnafræðingurinn Georges Urbain ytterbía í tvo hluta, neóytterbía og lútesía. Neóytterbía varð seinna þekkt sem frumefnið ytterbín og lútesía sem frumefnið lútetín. Á svipuðum tíma, og algerlega óháð, einangraði Auer von Welsbach þessi sömu frumefni úr ytterbía en kallaði þau alderbaraníum og kassíópeium. Ekki var hægt að ákvarða efnis- og efnafræðilega eiginleika ytterbíns fyrr en 1953 þegar það var fyrst framleitt í frekar hreinu formi. Tilvist. Ytterbín finnst ásamt öðrum sjaldgæfum jarðmálmum í nokkrum sjaldgæfum steintegundum. Það er yfirleitt unnið úr mónasítssandi (~0,03% ytterbín). Það er frekar erfitt að skilja að ytterbín frá hinum sjaldgæfu jarðmálmunum en jónskipti- og leysiefnisútdráttaraðferðir þróaðar seint á 20. öld hafa einfaldað aðskilnað. Þekkt efnasambönd ytterbíns eru sjaldgæf og eru ekki enn vel auðkennd. Samsætur. Náttúrulegt ytterbín samanstendur af sjö stöðugum samsætum, Yb-168, Yb-170, Yb-171, Yb-172, Yb-173, Yb-174, and Yb-176, þar sem Yb-174 er sú algengasta (31,8% náttúruleg gnægð). 22 geislasamsætum hefur verið lýst, og sú stöðugasta af þeim er Yb-169 sem hefur helmingunartíma 32,026 daga, Yb-175 með helmingunartíma 4,185 data, og Yb-166 með helmingunartíma 56,7 klukkustundir. Allar hinar geislasamsæturnar hafa helmingunartíma undir tveim klukkustundum og langflestar af þeim undir 20 mínútur. Ytterbín hefur einnig 6 systurkjarna, þar sem sá stöðugasti er Yb-169m (helmingunartími 46 sekúndur). Samsætur ytterbíns spanna atómmassa frá 150,955 (Yb-151) upp að 179,952 (Yb-180). Aðal sundrunarháttur þess á undan algengasta stöðugu samsætunni, Yb-174 er rafeindahremming og aðalsundrun eftir það er betasundrun. Aðaldótturefni á undan Yb-174 eru samsætur frumefnis 69 (túlín) og aðaldótturefni á eftir er samsætur frumefnis 71 (lútetín). Varúðarráðstafanir. Þó svo að ytterbín sé frekar stöðugt, skal þó geyma það í lokuðum ílátum til að vernda það frá lofti og raka. Öll efnasambönd ytterbíns skyldi telja baneitruð þó að fyrstu rannsóknir bendi til að takmörkuð hætta stafi af þeim. Efnasambönd ytterbíns geta þó valdið ertingu á húð og í augum og hugsanlega vansköpun. Af málmdufti þess stafar eld- og sprengihætta. Textafræði. a> á frummálinu (forngrísku) í fræðilegri útgáfu textans. Neðanmáls eru textafræðilegar og handritafræðilegar skýringar í svonefndum "apparatus criticus". Textafræði er fræðigrein sem rannsakar texta og tungumál í rituðum heimildum. Upphaflega merkti hugtakið ást (á grísku "philo-") á orðum og bókmenntum (á grísku "-logia" af "logos" sem þýðir „orð“) og átti við um fræðigreinina sem í dag kallast klassísk textafræði. Innan akademískrar hefðar ýmissa þjóða merkir hugtakið „textafræði“ í víðum skilningi rannsókn á tungumáli og bókmenntum þess og því sögulega og menningarlega samhengi sem þarf til að skilja bókmenntaverk og aðra texta tungumálsins. Þannig felur textafræði í sér rannsókn á málfræði, mælskufræði og sögu tiltekins tungumáls auk þess að fela í sér túlkun á höfundum þess. En svo víður skilningur á hugtakinu er orðinn fremur sjaldgæfur nú um mundir og hugtakið „textafræði“ er einkum farið að merkja rannsókn á textum út frá sjónarhóli sögulegra málvísinda. Upphaflega var hugtakið notað annars vegar um rannsókn á "klassískum textum", þ.e. textum á klassísku málunum grísku og latínu, og hins vegar um rannsóknir á og ritskýringar við biblíuna. Síðar var farið að beita aðferðum textafræðinnar á þjóðtungurnar. Þannig vísar nú "íslensk textafræði" til textafræðilegra rannsókna á íslenskum textum en "klassísk textafræði" til textafræðilegra rannsókna á "klassískum textum", þ.e. á grísku og latínu. Klassísk textafræði er ein meginuppistaðan í menntun og þjálfun fornfræðinga. Samanburðarmálvísindi. Samanburðarmálvísindi eru sameiginleg undirgrein textafræðinnar og málvísinda. Þau rannsaka tengsl á milli ólíkra tungumála. Líkindi á milli sanskrít og evrópskra tungumála uppgötvuðust fyrst á 18. öld og gátu af sér hugleiðingar um tungumál sem væri sameiginlegt foreldri beggja. Nú nefnist það Frum-indóevrópska. Á 19. öld leiddi áhugi textafræðinga á fornum tungumálum þá til rannsóknar á tungumálum sem þá þóttu „framandi“ vegna þess að talið var að þau gætu aukið skilning okkar á eldri tungumálum. Samanburður á málfræði og beygingarfræði grísku og latínu hefur aukið þekkingu okkar á sögu og þróun þessara tungumála svo mjög að segja má að við þekkjum gríska og latneska málsögu að vissu leyti betur en fornmenn sjálfir. Textarýni. Textafræði felur einnig í sér textarýni að nokkru leyti, þ.e. tilraunir til að finna upphaflegan texta fornra höfunda með rannsóknum og samanburði á handritum. Rannsóknir á höfundi textans, ritunartíma hans, og útbreiðslu eru ómissandi fyrir textarýninn en byggja um leið á niðurstöðum textarýninnar. Oft eru þessi atriði í textafræði og textarýni óaðskiljanleg spurningum um túlkun textans. Þess vegna eru mörkin á milli textafræði og bókmenntasögu og túlkunarfræði oft óljós. Því getur verið erfitt að komast að óhlutdrægri niðurstöðu þegar textinn fjallar um trúarbrögð, stjórnmál eða heimspeki enda veltur þá túlkunin oft að jafnmiklu leyti á þeirri heildarmynd sem við höfum eins og heildarmyndin veltur á einstökum túlkunum. Sólartími. Sólartími er tímakvarði þar sem sá tími sem sólin er á hvirfilpunkti sínum samsvarar hádegi, hann er hægt að mæla með sólúri. Tvígildislögmálið. Tvígildislögmálið er lögmál í rökfræði sem staðhæfir að "sérhver staðhæfing P sé annaðhvort sönn" eða "ósönn". Gæta verður þess að rugla ekki tvígildislögmálinu saman við lögmálið um annað tveggja (e. law of the excluded middle) eða mótsagnarlögmálið. Í hefðbundinni rökfræði jafngildir tvígildislögmálið þeirri niðurstöðu að engin staðhæfing sé hvorki sönn né ósönn. Staðhæfing sem virðist hvorki vera sönn né ósönn er óákvarðanleg. En vandinn er þá ekki rökfræðilegur heldur þekkingarfræðilegur, þ.e.a.s. vandinn liggur þá í því að ekki er hægt að "vita" hvort staðhæfingin er sönn eða ósönn, en ekki í því að staðhæfingin sé ef til vill hvorki sönn né ósönn. Í annars konar rökfræði, til dæmis marggildisrökfræði, getur P haft fleiri sanngildi en einungis „satt“ eða „ósatt“, til dæmis "hlutlaust" sanngildi og þar með verið hvorki sönn né ósönn. Ef til vill er frægasta dæmið um að heimspekingur telji staðhæfingar geta haft hlutlaust sanngildi að finna í 9. kafla verksins "Um túlkun" ("De Interpretatione") eftir Aristóteles en þar virðist hann gera undantekningu á tvígildislögmálinu varðandi staðhæfingar um framtíðina og segja að þær geti verið hvorki sannar né ósannar; þó ber að hafa í huga að umdeilt er hvernig á að skilja þann kafla. "Sjá einnig grein um skyld lögmál." Hringrif. Hringrif (eða baugey) er lágrisin kóraleyja sem finnst í hitabeltishöfum og samanstendur af kóralrifi sem umlykur lægð. Lægð þessi getur verið hluti rísandi eyju en, en er oftast hluti hafsins (þ.e. lón), en sjaldnar afmarkað ferskt-, ísalt, eða mjög salt vatn. Tvígildislögmálið og skyld lögmál. Í rökfræði eru tvígildislögmálið, lögmálið um annað tveggja og mótsagnarlögmálið öll tengd, en þó ekki eitt og sama lögmálið. Hér er fjallað eilítið um muninn á þeim. Tvígildislögmálið er mesta grundvallarlögmálið. Í raun er hægt að leiða út lögmálin tvö sem frumsendur með reglum formlegrar rökfræði, að tvígildislögmálinu gefnu. Á hinn bóginn er ekki hægt að setja tvígildislögmálið fram á þennan hátt, enda gerir hefðbundin rökfræði einfaldlega ráð fyrir að staðhæfingar séu annað hvort sannar eða ósannar. Hvers vegna gæti munurinn skipt máli? Náin tengsl eru á milli þessara lögmála (t.d. leiðir lögmálið um annað tveggja af tvígildislögmálinu og mótsagnarlögmálinu), en í ákveðnum tilvikum gætum við viljað halda því fram að þau gildi ekki öll. Einkum er því stundum haldið fram að tvígildislögmálið eða lögmálið um annað tveggja gildi ekki. Staðhæfingar um framtíðina. Sumir heimspekingar vilja á hinn bóginn halda því fram að P sé hvorki sönn né ósönn "í dag", enda er enn óráðið hvort það verður sjóorrusta á morgun. Þeir myndu þess vegna segja að tvígildislögmálið gildi ekki í slíkum tilvikum: P er hvorki sönn né ósönn. Þetta virðist vera afstaða Aristótelesar en fræðimenn deila raunar um hvernig bera að skilja orð hans. (En þótt P sé ef til vill hvorki sönn né ósönn, þá "þarf" það ekki "nauðsynlega" að þýða að P hafi eitthvert annað sanngildi, til dæmis "hlutlaust" sanngildi eða að P sé "sanngildislaus"). Þetta er hins vegar umdeilt. Innsæisrökfræði hafnar lögmálinu um annað tveggja. Óskýrleiki. Með öðrum orðum P og ekki-P. Þetta brýtur gegn mótsagnarlögmálinu og tvígildislögmálinu. Aftur á móti er einungis að hluta til um höfnun á þessum lögmálum að ræða. Ef P væri 100% sönn, þá væri ekki-P 100% ósönn, og það er engin mótsögn vegna þess að P og ekki-P gildir ekki lengur. Lögmálinu um annað tveggja er aftur á móti haldið, vegna þess að P og ekki-P felur í sér P eða ekki-P, þar eð „eða“ er opið. Einu tvö dæmin þar sem P og ekki-P er ósatt (þ.e. þegar P er annaðhvort 100% sönn eða ósönn) eru sömu dæmin og tvígildisrökfræðin telur ósönn, og sömu reglur gilda. Thomas Rowlandson. Thomas Rowlandson (júlí 1756 – 22. apríl 1827) var enskur listmálari og skopteiknari. Verk. Thomas Rowlandson Bless. Bless (1988-1991) var íslensk hljómsveit sem varð til upp úr hljómsveitinni S.H.Draumur árið 1988, en S.H.Draumur hafði þá nýlega gefið út síðustu plötuna sína sem heitir einmitt Bless. Hljómsveitina skipuðu þeir Gunnar Hjálmarsson (Dr. Gunni) og Birgir Baldursson sem áður höfðu verið í S.H.Draumi og Ari Eldon sem hafði verið í Sogblettum. Seinna kom gítarleikarinn Pétur Heiðar Þórðarson (Dýrið Gengur Laust) í bandið. Ari og Birgir hættu báðir í Bless eftir skrautlega hljómleikaferð hljómsveitin fór um Norður Ameríku haustið 1990. Gunni fór þá á bassa, Pétur varð einráður á gítar og Logi tók við trommukjuðunum eftir Birgir Baldursson. Bless lagði upp laupana 1991 en hafði þá gefið út tvær plötur, 7-laga plötuna "Melting" 1989 og LP-plötuna "Gums" 1990. Gums sem gefin var út á ensku fyrir útlendan markað hefði að öllum líkindum fengið betri áheyrn ef sungið hefði verið á íslensku. Einnig komu út nokkur lög á ýmsum safnplötum, m. a. kannski besta lag hljómsveitarinnar "Heimavistin Helvíti" sem kom út á safnplötu á vegum Skífunnar 1991 og er nú með öllu ófáanleg. Reykjarfjörður (Ströndum). Reykjarfjörður á Ströndum er fjörður í Árneshreppi, norðan við Veiðileysufjörð og sunnan við Trékyllisvík. Vegurinn í Reykjarfjörð var opnaður árið 1965, en hann er venjulega ófær yfir háveturinn. Við fjörðinn eru eða hafa verið þrjú lítil þorp; Kúvíkur sem voru verslunarstaður fyrr á öldum eru við fjörðinn sunnanverðan. Djúpavík með síldarverksmiðjunni er innarlega í firðinum. Yst við fjörðinn norðanverðan er svo Gjögur sem var mikilvæg hákarlaverstöð á 19. öld. Á Gjögri er flugvöllur og er flogið þangað reglulega allan ársins hring. Ísalt. Ísalt (eða hálfsalt) vatn er vatn sem er saltara en ferskvatn en ekki eins salt og sjór, það getur myndast þegar sjór blandast ferskvatni t.d. við árósa. Ísalt vatn inniheldur milli 0,5 og 30 grömm af salti á hvern lítra af vatni (skrifað 0.5-30‰). Árós. Árós (eða ármynni eða mynni) er staður á strönd þar sem á rennur út í sjó og ferskvatn blandast hafinu og myndar ísalt vatn. Prómill. Prómill er einn tíundi af prósenti eða einn hluti af þúsund, það er táknað með ‰ (U+2030 í Unicode). Hádegi. Hádegi dags að staðartíma á sér stað klukkan 12:00, á sólartíma samsvarar það hinsvegar þeim tíma sem sólin er á hvirfilpunkti sínum (mitt á milli sólarupprásar og sólarlags). Hvirfilpunktur. Hvirfilpunktur (eða himinhvirfill eða hápunktur himins) er sá punktur himins, sem er beint fyrir ofan athuganda (með stjörnuhæð +90°). Gagnstæður punktur nefnist ilpunktur, en báðir punktarnir eru á hábaugi. Saga sálfræðinnar á Íslandi. Sálfræði var fyrst kennd við Háskóla Íslands árið 1911 en ekki var um B.A.-nám að ræða. Kennslan var á vegum Heimspekideildar háskólans. Bylting varð í sálfræðinámi á Íslandi þegar Ágúst H. Bjarnason fór ásamt Guðmundi Finnbogasyni til Danmerkur í nám við Hafnarháskóla. Ágúst varð prófessor í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands árið 1911 og samdi meðal annars fyrstu frumsömdu íslensku kennslubókina í sálfræði en bókin heitir "Almenn sálfræði". Kennsla til B.A.-prófs hófst ekki fyrr en árið 1971 og lög um sálfræðinga voru sett 1976. Það var ekki var fyrr en árið 2001 sem Háskóla Íslands útskrifaði fyrstu nemendurna sem lokið höfðu sérstöku framhaldsnámi í sálfræði til starfsréttinda, svonefndu Cand.psych.-prófi. Sálfræðifélag Íslands var stofnað árið 1954. Anno Domini. Anno Domini (íslenska: „Á því herrans ári“), eða Anno Domini Nostri Iesu Christi („Á ári herra vors Jesú Krists“), venjulega skammstafað AD eða A.D. (á íslensku er oftast talað um e.Kr. (eftir Krist)), er notað til að tákna ár kristins tímatals. Orðin "anno domini" standa í tímasviptifalli ("ablativus temporis") sem er notað til að gefa til kynna "á hvaða tíma" eitthvað gerist. Það sem gerist "anno domini" 1998 gerist "á ári herrans" 1998, þ.e. á 1998da ári herrans. Samkvæmt kerfinu er því ártalið raðtala rétt eins og dagar mánaðarins. Orðasambandið er nú orðið hefðbundið í notkun með júlíska tímatalinu og gregoríska tímatalinu. Það skilgreinir ártal á grundvelli meints árafjölda frá fæðingu Jesú. Ár fyrir upphaf tímatalsins eru tilgreind með skammstöfunum f.Kr. (fyrir Krist). Á latínu er notuð skammstöfunin a.C.n. (sem stendur fyrir "Ante Christum Natum" og þýðir „fyrir fæðingu Krists“) og á ensku BC („Before Christ“). Stundum er notast við skammstafanirnar CE og BCE á ensku en þær standa fyrir „the Common era“ og „Before the Common era“. Kristna tímatalið er eina tímatalið í almennri notkun á Vesturlöndum og er algengasta tímatalið sem notað er í alþjóðaviðskiptum og vísindum. Saga kristins tímatals. "Anno Domini" tímatalið var fundið upp af munki að nafni Dionysius Exiguus eða Dionýsíus litli. Hann var að störfum í Róm um árið 525 og lagði grunninn að kristnu tímatali er hann vann að því að framlengja töflur um páska komandi ára fyrir páfann. Nákvæmni kerfisins. Flestallir fræðimenn eru sammála um að Dionysius hafi ekki haft á réttu að standa í útreikningum sínum á fæðingarári Jesú, og að Jesú muni í raun réttri hafa fæðst á tímabilinu milli 8 f.Kr. og 4 f.Kr. Jesús hlýtur að hafa fæðst í síðasta lagi fyrir dauða Heródesar mikla en hann lést árið 4 f.Kr. Um þetta er ekki mikið deilt, enda krefst kristin guðfræði þess ekki að fæðingarár Jesú hafi verið árið 1. Kólumbía. Kólumbía er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela og Brasilíu í austri, Ekvador og Perú í suðri og Panama í norðvestri. Það á strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafinu í vestri. Tenzing Norgay. Tenzing Norgay (maí 1914 – 9. maí 1986) var nepalskur sérpi sem tók þátt í sjö ferðum á Everestfjall, þar á meðal þeim leiðangri sem fyrst náði á tindinn 29. maí 1953 og var undir stjórn sir John Hunt. Þeir Edmund Hillary voru fyrstir manna til að ná á tind fjallsins, sem er í 8850 metra hæð. Vasco da Gama. Vasco da Gama (um 1469 – 24. desember 1524) var portúgalskur landkönnuður sem fyrstur fann sjóleiðina austur um Afríku til Indlands og Kína, og ruddi brautina fyrir landvinninga og áhrif Portúgala á Indlandshafi. Hann var sendur af Emanúel I frá Portúgal til að reyna að finna beina leið að hinum verðmætu mörkuðum Asíu og finna kristna menn sem sagt var að byggju í Austurlöndum fjær. Vasco fór þrjár ferðir til Indlands, árin 1497, 1502 og 1524, kom þar upp verslunarstöðvum og gerði samninga við höfðingja á þeim stöðum sem hann kom, sem áttu að tryggja Portúgölum aðgang að versluninni. Fram að þeim tíma höfðu arabar setið einir að verslun við Evrópu. Hann lést í síðustu ferð sinni, stuttu eftir að hann kom að landi í Kalkútta. Ferðir Vasco da Gama leiddu einnig til þess að Portúgalar tóku að koma sér upp föstum bækistöðvum á ströndum Afríku. Tsjeng He. a> sem er talin eiga að sýna flota Tsjeng He. Tsjeng He (hefðbundin kínverska: 鄭和 einfölduð kínverska: 郑和 pinjin: Zhèng Hé; fæðingarnafn: 馬三寶 / 马三宝; pinjin: Mǎ Sānbǎo; arabískt nafn: Hajji Mahmud) (1371 – 1435) var kínverskur landkönnuður. Hann var múslimi frá Junnan í suðurhluta Kína og var tekinn höndum og geldur þegar her Ming-veldisins lagði héraðið undir sig. Tsjeng He lærði í keisaralegum skóla og varð flotaforingi í þjónustu Jongle-keisarans. Hann stýrði flota af djúnkum í mörgum ferðum um Indlandshaf þar sem hann sigldi allt til Egyptalands eftir Rauðahafi og inn Persaflóa. Pétur Gunnarsson. Pétur Gunnarsson (fæddur 15. júní 1947) er íslenskur rithöfundur, skáld og þýðandi. Hann er þekktur fyrir skáldsögur sínar eins og Andra-bækurnar, "Punktur punktur komma strik", "Ég, um mig, frá mér, til mín", "Persónur og leikendur" og "Sagan öll", en eftir þeirri fyrstu var gerð vinsæl kvikmynd árið 1980. Hann hefur einnig gefið út ljóðabækur, átti texta á plötunni "Lög unga fólksins" (1977) og tók þátt í að semja barnaleikritið "Grænjaxla". Síðustu þrjár skáldsögur hans; ' (2000), ' (2002) og ' (2004) eru sögulegar skáldsögur. Pétur var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf og framlag til íslenskra bókmennta í janúar 2011. Norðursjór. Norðursjór (eða Englandshaf) er hafsvæði í Atlantshafinu sem markast af meginlandi Evrópu, Bretlandseyjum, Danmörku og Noregi. Norðursjór tengist við Eystrasalt í austri um Skagerrak og Kattegat, Stóra-Belti og Litla-Belti. Að sunnanverðu er tenging um Dover-sund og Ermarsund sem leiðir út í Atlantshafið aftur og að norðanverðu endar Norðursjór þar sem Noregshaf hefst. Latneskar bókmenntir. Latneskar bókmenntir eru bókmenntir Rómverja skrifaðar á latínu. Tímabilum latneskra bókmennta er yfirleitt skipt í „gullaldarlatínu“, eða Gullöld latneskra bókmennta, sem dekkar nokkurn veginn tímann frá upphafi fyrstu aldar f.Kr. út miðja fyrstu öld okkar tímatals, og „silfuraldarlatínu“, sem dekkar það sem eftir er klassíska tímans eða út aðra öld okkar tímatals. Eftir það er talað um "síðlatínu", þ.e.a.s. latínu síðfornaldar, og er hún einkum rannsökuð til að varpa ljósi á þróun rómönsku málanna úr latínu. Á þessu eru þó undantekningar, svo sem Ágústínus frá Hippó.) Eftir Ágústínus og Boethíus er talað um miðaldalatínu (en þeir Ágústínus og Boethíus eru ýmist taldir síðustu fornmennirnir eða fyrstu miðaldamennirnir í þessu samhengi). Miðaldalatínan nær til endurreisnartímans en latína eftir endurreisnartímann nefnist nýlatína. Kirkjulatína var fyrirferðamikil á miðöldum en er strangt tekið ekki flokkuð eftir tímabili heldur mun fremur eftir viðfangsefni og höfundum. Helstu höfundar. Hér að neðan getur að líta yfirlit yfir helstu höfunda eftir tímabilum og bókmenntagreinum. Helstu verk eru gefin til kynna þar sem við á. Fjölgervi. Fjölgervi er sá eiginleiki frumefna, eða efnasambanda þeirra, að geta verið til í tveimur eða fleirum mismunandi myndum. Fjölgervi kemur fram sökum mismunandi uppbyggingu efnatenginga frumefna eða efnasambanda af sömu gerð. Lýsir þetta sér yfirleitt í mismunandi kristallagerð þessara efna. Alþekkt dæmi um fjölgervi frumefna eru sem dæmi fosfór (sem til er í mörgum litum, eins og til dæmis rauðum, gulum og fjólubláum), súrefni (O2 og O3), kolefni (grafít, demantur, knattkol, og fleiri) og brennisteinn. Sökum þess að fjölgervi á eingöngu við um uppbyggingu efnatenginga milli efna skyldi ekki rugla því saman við efnisástand efna, eins og til dæmis vatn, sem til getur verið sem gufa, vatn og ís. Þessi efnisástönd eru ekki fjölgervingar, því að þau koma fram sökum breytinga í tengslum milli sameinda vatns frekar en efnistengingu vatnssameindanna sjálfra. Sjaldgæfur jarðmálmur. Sjaldgæfur jarðmálmur er þversagnakennt nafn yfir frumefni í hópi 17 frekar algengra frumefna sem samanstendur af skandíni, yttríni og lantaníðum. Lantaníðinn prómetín, sem ekki finnst í náttúrunni, er þó yfirleitt ekki talinn til sjaldgæfra jarðmálma. Sjaldgæfir jarðmálmar draga nafn sitt af því að þegar þeir voru uppgötvaðir var gríðarlega erfitt að vinna þá úr þeim steintegundum sem þeir fundust í og voru sökum þess taldir vera sjaldgæfir. Frumefnisform sjaldgæfra jarðmálma eru járngráir, yfir í silfurgljáandi, málmar sem eru yfirleitt mjúkir, mótanlegir, og teygjanlegir og yfirleitt hvarfgjarnir, þá sérstaklega við aukið hitastig eða þegar þeir eru sem fínkornótt duft. Auk þess leysast þeir allir upp í sýru og mynda þá lausn þríhlaðinna jóna. Aðaluppsprettur sjaldgæfra jarðmálma eru steinefnin bastanasít, mónasít og lóparít ásamt laterískum, jónaaðsogandi leirum. Eins og getið var til áður getur nafnið „sjaldgæfur jarðmálmur“ verið frekar misvísandi – gnægð þessara frumefna í jarðskorpunni varar frá seríni, sem er 25. algengasta frumefnið af 78 algengum frumefnum (60 milljónahlutar, algengara en blý), niður í túlín og lútetín, sem að eru óalgengust þeirra (0,5 milljónahlutar). Hagar. Hagar hf. er fyrirtæki í eigu Baugs Group hf.. Fyrirtækið á birgða -og dreifingamiðstöðina Aðföng, íslensku verslunarfyrirtækin sem voru upphaflega í eigu Baugs og auk þess nokkur önnur sem hafa bæst við seinna meir. Perú. Perú er land í vesturhluta Suður-Ameríku, með landamæri að Ekvador og Kólumbíu í norðri, Brasilíu í austri, Bólivíu í austri, suðaustri og suðri og Chile í suðri. Í vestri liggur landið að Kyrrahafinu. Í Perú var vagga Inkaveldisins þar til Francisco Pizarro lagði það undir Spán 1532 til 1536. Síðasti Inkaleiðtoginn, Túpac Amaru var þó ekki drepinn fyrr en 1572. Hvíldarspenna. Hvíldarspenna er ástand sem taugafrumur eru í þegar þær eru ekki að senda boð - en þá er spennan um -70 mV. Í hvíldarspennu opnast kalíum og natríum göng. Afskautun. Afskautun er þegar spenna í taugafrumu fer niður fyrir hvíldarspennuna - fellur sumsé niður fyrir -70 mV. Heilarit. Heilarit er mælikvarði á heildartaugavirkni heilans, einkum heilabarkar. Þau eru venjulega tekin af höfuðkúpu en það kemur fyrir að þeim er beint af heilaberki. Það sem skiptir máli við túlkun ritsins er tvennt, annars vegar sveifluvídd og hins vegar tíðni bylgnanna. Þessi heilarit veita einnig ákveðnar upplýsingar um starfsemi heilans. Það hefur komið í ljós með þessum heilaritum að í svefni má greina fimm stig, breytileg eftir dýpt svefns og hvort draumar komi fram. Einnig hafa ritin komið sér vel við kortlagningu flogaveiki, heilaæxla og heilaskemmda. Nú á dögum er hægt að rannsaka heilann með þessum hætti og hægt að sjá mismunandi starfsemi í ólíkum hlutum heilans. Heilarit eru gróf mæling á heilavirkni, þau mæla virkni á stóru svæði og gefa ekki nákvæma hugmynd um hvaða svæði eru virk við ákveðna hegðun. Hans Berger var fyrstur til að nota heilarit í rannsóknum árið 1930. Mýlisslíður. Flestar taugafrumur hafa mýlisslíður sem er fituvefur umhverfis taugasímann og er þykkt þess ólík eftir taugum. Mýlisslíður hafa áhrif á leiðsluhraða taugaboða og vernda taugasímana. Frumur með þykkt mýlisslíður flytja taugaboð hraðar en frumur með þunnt mýlisslýður en slíðrið virkar sem einangrun sem eykur boðhraðann. Á mýlisslíðrinu eru göt eða mót með reglulegu millibili sem kölluð eru Ranvier-mót og á milli þeirra hoppa taugaboðin hraðar en ella. Mýlisslíður finnst aðeins í "æðri" dýrum. Frumurnar sem mynda slíðrið eru tvenns konar stoðfrumur, annars vegar fágriplufrumur (e. oligodendrocytes) sem mynda mýlisslíður í miðtaugakerfinu og Schwann-frumur sem mynda slíðrið í úttaugakerfinu. Hrörnun slíðursins veldur truflun í leiðni tauganna. Afleiðingin er MS-sjúkdómurinn svonefndi, "multiple sclerosis". Einnig geta eitranir af völdum þungmálma valdið skaða á slíðrinu með svipuðum afleiðingum. PET-skanni. PET-skanni (skammstöfun af "positron emission tomography") eða jáeindaskanni er tegund heilaskanna sem notaður er til að fylgjast með virkni heilans, svo sem við úrlausnir á ákveðnum verkefnum. Skanninn nemur glúkósanotkun heilasvæða, en heilinn notar glúkósa sem orkugjafa við starfsemi sína. Slíkar mælingar má nota til að útbúa myndir af heilanum þar sem mismunandi litir tákna tiltekin stig virkni. Taugamót. Venjuleg taugamót samanstanda af símaenda (e. axon terminal), taugamótaglufu (e. synaptic cleft) og griplunibbu (e. dendritic spine).Taugamót er svæðið þar sem boðskipti taugafrumna fara fram. Nánar tiltekið á þetta yfirleitt við um símaenda taugasíma taugafrumunnar sem sendir boðin, griplunibbu á griplu taugafrumunnar sem tekur við þeim, og taugamótaglufuna sem er bilið á milli þeirra. Smættun. Smættun er það kallað þegar eitthvert fyrirbæri er útskýrt algerlega og fullkomlega með meiri grundvallarhugtökum. Dæmi um vel heppnaða smættun er t.d. greinargerð nútímavísinda fyrir varma sem „engu nema hreyfingu sameinda“. Hrifrit. Hrifrit (e. "event-related potential (ERP)") er sérstök tegund af heilaritum. Heilaskemmd. Heilaskemmd getur orsakast af ýmsum ástæðum, t.d. vegna súrefnisskorts, hluta af rannsókn (þá er heilaskemmdin búin til af vísindamönnum), eða vegna skurðaðgerðar sem er gerð í því skyni að breyta hegðun sjúklingsins. Þegar heili dýra er skemmdur í rannsóknarskyni er skoðaður árangur dýrsins í ákveðnum prófum miðað við próf sem voru gerð fyrir heilaskemmd. Afar sjaldgæft er að heili manna sé skemmdur viljandi, það er þá alltaf í því skyni að reyna að bæta hegðun sjúklingsins þegar allt annað hefur brugðist. Heilaskemmdir manna geta haft áhrif á bæði vitsmuni og persónuleika. Hjá dýrum getur komið fram breytt hegðun. Starfræn segulómmyndun. Starfræn segulómmyndun (fMRI) er notkun á MRI til að mæla virkni í heila eða mænu. Mælingin er þó óbein og byggir fremur á breytingum á blóðflæði og súrefnisnotkun sem talin er fylgja breytingum í taugavirkni. Aðalkostur starfrænnar segulómmyndunar er að hún krefst ekki inngrips, það er vefir líkamans skaddast ekki. Starfræn segulómmyndun hefur aftur á móti ekki sérlega góða tímaupplausn, það er erfitt getur verið að fylgjast náið með því hvernig virknin breytist með tíma. Aftur á móti er rýmdarupplausn þokkaleg, það er hægt er að staðsetja virknina nokkuð návæmlega í taugakerfinu. Fídjieyjar. Fídjieyjar (eða Fijieyjar) er landamæralaust land í Suður-Kyrrahafi, austan við Vanúatú, vestan við Tonga og sunnan við Túvalú. Ríkið er á eyjaklasa sem í eru yfir 800 eyjar, þar af 100 byggðar, en meirihluti íbúanna býr á tveimur stærstu eyjunum, Viti Levu og Vanua Levu. Nafnið kemur úr tongverska nafninu yfir eyjarnar, sem er dregið af fídjeyska orðinu "Viti". Grískar bókmenntir. Grískar bókmenntir eiga sér langa sögu. Fyrstu grísku bókmenntirnar voru kviður Hómers, "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða", samdar á síðari hluta 8. aldar f.Kr. en ritaðar niður í Aþenu á 6. öld f.Kr. Síðan á 8. öld f.Kr. eiga grískar bókmenntir sér langa samfellda sögu, jafnt í bundnu máli sem óbundnu. Sennilega er tímabilið fram að hellenískum tíma árið 323 f.Kr. þó frjóasta skeið grískra bókmennta en þá höfðu Grikkir fundið upp flest þau bókmenntaform sem þeir unnu með. Grikkir fundu upp leikritun og rituðu bæði harmleiki og gamanleiki, þeir rituðu um fortíð sína jafnt sem samtíð sína og heimspeki og hvers kyns fræði jafnt og skáldaðar sögur. Einungis lítill hluti er varðveittur af því sem Grikkir skrifuðu í fornöld. Forngrískar bókmenntir. Forngrískar bókmenntir eru bókmenntir Forngrikkja frá upphafi til loka fornaldar. Oftast er átt við klassískar bókmenntir en kristnar bókmenntir eru undanskildar. Snemmgrískar bókmenntir. Snemmgrískar bókmenntir eru bókmenntir snemmgrísks tíma, þ.e. frá 8. öld f.Kr. fram að klassískum tíma um 480 f.Kr. Elstu varðveittu bókmenntir Grikkja eru kviður Hómers, "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða". Talið er að kviður Hómers hafi verið samdar undir lok 8. aldar f.Kr. en þær byggðu á munnlegum kveðskap sem hafði tíðkast lengi. Ekki er vitað hvenær þær voru fyrst ritaðar. Kviður Hómers eru söguljóð (eða epískur kveðskapur) en þær urðu bókmenntalegur bakgrunnur allra grískra bókmennta. Annað meginskáld þessa tímabils var Hesíódos. Enda þótt kvæði hans, "Goðakyn" og "Verk og dagar", hafi sama bragform og skáldamál og kviður Hómers er viðfangsefni þeirra þó annað; þau eru gjarnan talin eins konar uppfræðuslukvæði. Kvæði Hesíódosar eru talin hafa verið samin undir lok 8. aldar f.Kr. Í fornöld var gjarnan litið svo á að Hómer og Hesíódos hafi verið samtímamenn. Á snemmgrískum tíma voru einnig samin lýrísk kvæði undir ýmsum bragarháttum. Þetta voru kvæði sem voru gjarnan sungin við undirleik lýru eða annarra hljóðfæra. Lýrískur kveðskapur gegndi margvíslegu félagslegu hlutverki: hann gat til dæmis verið afþreying á samdrykkjum eða vettvangur fjölmiðlunar á opinberum hátíðum, þar sem pólitískri hugmyndafræði var komið á framfæri. Meðal helstu höfunda snemmgrísks lýrísks kveðskapar voru Arkílokkos, Alkajos, Saffó, Alkman, Hippónax, Fókylídes, Mímnermos, Íbykos, Semonídes frá Amorgos, Símonídes frá Keos, Stesikkoros, Týrtajos og Sólon. Grísk leikritun varð einnig til á snemmgrískum tíma en hún átti eftir að blómstra á klassískum tíma. Klassískar grískar bókmenntir. Á klassískum tíma blómstruðu ýmis bókmenntaform, svo sem lýrískur og elegískur kveðskapur, leikritun, bæði harmleikir og skopleikir, hjarðkveðskapur, sagnaritun, mælskulist og heimspeki. Eftir því sem á leið mynduðust ákveðnar venjur, til að mynda er vörðuðu mállýskur í ákveðnum bókmenntagreinum. Þannig myndaðist sú hefð að kórljóð í aþenskum harmleikjum væru á dórísku en ekki attísku. Mikilvægustu lýrísku skáldin á þessum tíma voru Pindaros og Bakkýlídes en mikilvægustu harmleikjaskáldin voru Æskýlos, Sófókles og Evripídes en mörg önnur skáld sömdu harmleiki, sem voru afar vinsælir í Aþenu, svo sem Agaþon. Varðveittir eru 25 harmleikir í heilu lagi en auk þess eru varðveitt fjölmörg brot úr öðrum harmleikjum. Venjan er að skipta sögu skopleikja í þrjú tímabil en þau eru gamli skopleikurinn (5. öld f.Kr.), miðskopleikurinn (400 – 323 f.Kr.) og nýi skopleikurinn (323 – 263 f.Kr.) Aristófanes er eina varðveitta skopleikjaskáldið sem samdi skopleiki á tímum gamla skopleiksins svonefnda. Alls eru varðveittir ellefu skopleikir eftir Aristófanes en auk þess eru varðveitt fjölmörg brot úr skopleikjum eftir aðra höfunda, þar á meðal Menandros, sem var talinn bestur þeirra sem sömdu á tíma nýja skopleiksins. Á þessum tíma rituðu einnig merkustu sagnaritarar Fonrgrikkja. Heródótos frá Halikarnassos er gjarnan nefndur faðir forngrískrar sagnaritunar. Hann ritaði um sögu "Persastríðanna" á jónísku en er fram liðu stundir áttu flestar bókmenntir í lausu máli eftir að vera ritaðar á attísku, mállýsku Aþeninga. Sagnaritarinn Þúkýdídes frá Aþenu skrifaði samtímasögu um "Pelópsskagastríðið". Hann þrengdi nokkuð viðfangsefni sagnaritunar svo að hún varð nánast eingöngu stjórnmál- og styrjaldarsaga. Auk Heródótosar og Þúkýdídesar má nefna Xenofon en hann ritaði um lok Pelópsskagastríðsins í "Grikklandssögu" sinni. Tók hann upp þráðinn þar sem frásögn Þúkýdídesar lýkur (um 411 f.Kr.) en Þúkýdídesi entist ekki aldur til að ljúka sögu sinni. Xenofon ritaði ekki eingöngu um Grikklandssögu heldur samdi hann einnig ýmis rit um heimspeki, svo sem "Minningar um Sókrates". Heimspekin varð ein af höfuðgreinum grískra bókmennta í óbundnu máli. Þó höfðu heimspekingar á borð við Parmenídes og Empedókles áður sett fram heimspeki sína í bundnu máli. Merkasti ritsnillingur grískrar heimspeki var Platon en hann var einnig merkasti heimspekingur fornaldar ásamt nemanda sínum Aristótelesi. Grísk mælskulist blómstraði á klassíska tímanum. Varðveittar eru fjölmargar ræður, bæði ræður sem fluttar voru á pólitískum vettvangi og ræður sem fluttar voru fyrir dómstólum auk sýningaræðna en þær voru einkum ætlaðar til skemmtunar. Helstu varðveittu ræðuhöfundarnir eru Antífon, Andókídes, Lýsías, Ísókrates, Ísajos, Æskínes, Lýkúrgos, Demosþenes, Hýpereides, Deinarkos og Demades. Hellenískar bókmenntir. Helstu forngrísku skáldin á hellenískum tíma voru Þeókrítos, Kallímakkos og Apolloníos frá Ródos. Þeókrítos var uppi um 310 til 250 f.Kr. Hann var upphafsmaður svonefnds hjarðkveðskapar, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á aðrar bókmenntagreinar. Á þessum tíma var Gamla testamentið þýtt á grísku en þýðingin er oftast nefn sjötíumanna þýðingin. Merkasti sagnaritari þessa tímabils var Pólýbíos. Rómverska tímabilið. Á þessum tíma blómstruðu ýmiss konar fræði, svo sem landafræði, heimspeki, sagnaritun. Merkustu sagnaritararnir voru Tímajos, Díodóros frá Sikiley, Díonýsíos of Halikarnassos, Appíanos og Arríanos. Einnig blómstraði ævisagnaritun; þar má nefna Plútarkos, sem ritaði ævisögur ýmissa stjórnmálamanna og herforingja, og Díogenes Laertíos sem ritaði ævisögur heimspekinga. Meðal heimspekinga sem rituðu á þessum tíma má nefna Plútarkos, læknana Galenos og Sextos Empeirikos og nýplatonistann Plótínos. Þá má nefna Lúkíanos sem var mesti stílsnillingur þessa tíma. Segja má að rit hans "Sannar sögur" hafi verið eins konar undanfari vísindaskáldsagna síðar meir. Á þessum tíma var Nýja testamentið samið á forngrísku. Forseti. Forseti er titill sem æðstu menn í mörgum félagasamtökum, fyrirtækjum eða ríkjum bera. Völd forseta eru mjög misjöfn eftir ríkjum. Þar sem þingræði tíðkast eru þau yfirleitt frekar takmörkuð og embættið fyrst og fremst táknrænt en þar sem forsetaræði tíðkast eru þau mun meiri. "Forsetaefni" er haft um þann sem er í framboði til forseta. Orðsifjafræði. Orðið er samsett þýðing á latnesku orðunum "prae" (fyrir) og "sedere" (að sitja) og þýðir einfaldlega „sá sem er í forsæti“ og hefur upphaflega átt við þann sem fer með stjórn á fundi eða samkomu. Sú merking á enn þá við hvað varðar forseta þjóðþinga, t.d. forseta Alþingis. Nú á dögum er það þó oftar notað fyrir einhvern sem fer með framkvæmdavald af einhverju tagi. Lýðræði og einveldi. Forseti er algengur titill þjóðhöfðingja í lýðveldum. Slíkir forseta geta verið kjörnir beint af þjóðinni, valdir af þingi eða kjörmannafundi. Einræðisherrar taka sér þennan titil líka oft. Baugsmálið. Baugsmálið nefnist málaferli ríkissaksóknara á hendur eigendum Baugs Group hf. og öðrum, auk umræðu um pólítísk tengsl við málið og annað. Samfara þessu hefur borið á Baugi Group í umfjöllun fjölmiðla vegna hins svonefnda fjölmiðlafrumvarps 2004 og kaup Baugs á fyrirtækjum erlendis og innlendis. Upphaf. Málið kom fyrst fram í fjölmiðlum þegar Jón Gerald Sullenberger, eigandi fyrirtækisins Nordica lagði fram kæru á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni þáverandi stjórnarformanni Baugs. Jón Gerald naut við undirbúning kærunnar aðstoðar Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns. Forsaga þess var sú að Jón Gerald þekkti Jónínu Benediktsdóttur og bað hana um að finna fyrir sig lögmann á Íslandi. Jónína snéri sér til Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem gefur Jóni Steinari meðmæli sín með þeim orðum að „hann er innvígður og innmúraður“. Það er almennt álitið að þar hafi Styrmir verið að vísa til vináttu Jóns Steinars við formann Sjálfstæðisflokksins og þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði af þeim sökum húsleit í Skútuvogi 7 í Reykjavík þann 28. ágúst 2002 þar sem höfuðstöðvar Baugs voru. Í framhaldi af þessu lagði lögmaður Baugs, Hreinn Loftsson, fram athugasemdir við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann sagði húsleitina ólögmæta. Jón Ásgeir gaf svo út fréttatilkynningu rúmlega viku seinna þar sem hann ásakaði Jón Gerald um að skáldað ákæruna og var harðorður gagnvart vinnubrögðum ríkislögreglustjóra. Þá var framkvæmd önnur húsleit, nú í höfuðstöðvum SMS verslunarfélagsins í Færeyjum sem Baugur átti helmingshlut í og ákæru Baugs um ógildingu fyrri húsleitar hafnað. Niðurstaða Héraðsdóms var kærð til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá. Undir lok árs 2003 voru eignir Baugs Group í fyrirtækjum í Bretlandi einu 39 milljarðar. Breytingar innan stjórnar Baugs. Umfjöllunin olli miklum taugatitringi meðal Baugsmanna. Tryggvi Jónsson hætti sem forstjóri Baugs og hóf störf sem forstjóri Heklu bílaumboðs. Jón Ásgeir tók við af honum. Guðfinna S. Bjarnadóttir og Þorgeir Baldursson sögðu sig úr stjórn Baugs í mars 2003 vegna þess að trúnaðarupplýsingum, fundargerðir stjórnarinnar, hafði verið lekið til Fréttablaðsins og birt þar. Jón Ásgeir sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem hann tók fyrir að vera heimildarmaður Fréttablaðsins. Ákærur. Ákærurnar voru fjörutíu og eru fyrir eftirfarandi meint lögbrot: fjárdrátt, umboðssvik, tollsvik, rangfærslu skjala, brot gegn: lögum um hlutafélög, hegningarlögum, lögum um bókhald og gegn lögum um ársreikninga. Á 18 ákæruliðum voru hins vegar slíkir ágallar að mati Héraðsdóms Reykjavíkur, að dómurinn vísaði málinu í heild sinni frá dómi. Ríkislögreglustjóri kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem að kvað upp sinn úrskurð í málinu 10. október. Samkvæmt þeim úrskurði var ákæruliðum 1-32 vísað frá dómi en eftir standa 8 (33-40) ákæruliðir sem að fjalla um meint brot á lögum um ársreikninga og almennum hegningarlögum og einnig á tollalögum og skjalafals-ákvæðum í almennu hegningarlögunum. Þessum ákæruliðum var vísað til efnismeðferðar í héraðsdómi. Ekki er enn ljóst hvort að ríkislögreglustjóri hyggst gefa út nýja og endurskoðaða ákæru vegna þeirra ákæruliða sem vísað var frá. Nýjast. Í lok september 2005 stóðu gífurlegar deilur á milli Fréttablaðsins (sem er að hluta til í eigu Baugs) annars vegar og Morgunblaðsins hins vegar um meint afskipti Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins af upphafi málsins og einnig vegna birtingar Fréttablaðsins á tölvupósti á milli Styrmis, Jóns Geralds Sullenbergers og Jónínu Benediktsdóttur, sem Morgunblaðið telur vera stolin gögn. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur kveðið upp lögbannsúrskurð að beiðni Jónínu, sem kveður á um að bannað sé að birta eða vitna til þessara gagna. Málalyktir. Tæpum sex árum eftir húsleitina sem markar upphaf málsins, lauk málaferlum með lokadómi hæstaréttar þann 5. júní 2008 og staðfesti hann dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Tryggvi Jónsson var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt og fleiri brot. Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Gerald Sullenberger voru dæmdir í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að gefa út „tilhæfulausan kreditreikning“ sem breytti bókhaldsstöðu Baugs. Christine Korsgaard. Christine Marion Korsgaard (fædd 1952 í Chicago í Illinois) er bandarískur heimspekingur sem fæst einkum við siðfræði og sögu hennar, tengsl siðfræði og frumspeki, hugspeki, og spurningar um samsemd sjálfsins, bæði í einkalífi fólks og með tilliti til skyldna almennt. Korsgaard hefur verið prófessor í heimspeki við Harvard University síðan 1991. Korsgaard hlaut B.A. gráðu frá University of Illinois og doktorsgráðu frá Harvard. Hún var nemandi Johns Rawls. Korsgaard kennir einkum siðfræði og og heimspekisögu. Hún hefur kennt við University of Chicago, University of California í Santa Barbara og Yale. Hún gekk til liðs við Harvard árið 1991. Hún hefur einnig verið gistiprófessor við University of California í Berkeley og University of California í Los Angeles (UCLA). Árið 1996 gaf Korsgaard út bókina "The Sources of Normativity" ("Rætur skyldunnar"), sem var endurskoðuð útgáfa á Tanner fyrirlestrum um mannleg gildi. Sama ár kom einnig út safn áður birtra greina hennar um siðfræði Immanuels Kant og kantískar nálganir í siðfræði samtímans, "Creating the Kingdom of Ends". Árið 2002 hélt hún Locke fyrirlestrana við University of Oxford um "Self-Constitution: Agency, Identity, and Integrity". Þessa fyrirlestra má nálgast á vefsíðu Korsgaard. Tengill. Korsgaard Korsgaard Simon Blackburn. Simon Blackburn (fæddur 1944) er breskur heimspekingur og þekktur fyrir tilraunir sínar til að auka vinsældir heimspekinnar. Hann brautskráðist með B.A. gráðu í siðfræði (þ.e. heimspeki) árið 1962 frá Trinity College, Cambridge. Hann er nú prófessor í heimspeki við Cambridge University og er félagi á Trinity College. Hann hefur áður kennt víða m.a. á Pembroke College, Oxford, University of Oxford og University of North Carolina sem Edna J. Koury prófessor. Blackburn hefur gefið út nokkrar vinsælar bækur um heimspeki, þ.á m. "Think" (1999), sem er inngangur að heimspeki, "Being Good" (2001), sem er inngangur að siðfræði og "Truth" (2005). Hann er einnig höfundur bókarinnar "Lust" (2004), sem tilheyrir bókaflokki um Dauðasyndirnar sjö, og "The Oxford Dictionary of Philosophy" (1994), sem er orðabók um heimspeki sem hann tók sjálfur saman. Hann er einnig tíður gestur í breskum fjölmiðlum, t.d. á BBC í þættinum Radio 4's "The Moral Maze". Blackburn er aftur á móti einnig afar virtur innan háskólasamfélagsins, ólíkt ýmsum öðrum sem hafa reynt að auka vinsældir heimspekinnar, og er meðal annars þekktur fyrir að vera leiðandi hugsuður innan siðfræðihefðar Davids Hume. Blackburn var aukinheldur ritstjóri tímaritsins "Mind" og upphasmaður „quasi-realisma“. Meðal fræðilegri verka hans eru "Spreading the Word" (1984), sem er kennslubók um kenningar um sannleika og merkingu, og "Ruling Passions" (1998), þar sem hann setur fram siðfræðikenningu sína í anda Humes. Tengill. Blackburn Blackburn Jaakko Hintikka. Jaakko Hintikka (fæddur 12. janúar 1929) er rökfræðingur og heimspekingur, fæddur í Vantaa í Finnlandi. Hann er prófessor við Boston University. Hintikka vann Rolf Schock verðlaunin í rökfræði og heimspeki árið 2005 „vegna brautryðjendastarfs síns og framlags til rökgreiningar á háttahugtökum, einkum hugtökunum "þekking" og "skoðun"“. Hann er talinn vera upphafsmaður formlegrar þekkingarfræðilegrar rökfræði og brautryðjandi á sviði merkingarfræði í háttarökfræði, sem lagði til formlega merkingarfræði, efnislega hliðstæða merkingarfræði Sauls Kripke. Hintikka er einnig mikilvægur ritskýrandi verka Ludwigs Wittgenstein. Hintikka er mikilvirkur höfundur, og er höfundur eða meðhöfundur yfir þrjátíu bóka og meira en 300 fræðilegra ritgerða um stærðfræðilega og heimspekilega rökfræði, þekkingarfræði, málspeki og vísindaheimspeki. Verk hans hafa verið þýdd á níu tungumál. Hann var aðalritstjóri tímaritsins "Synthèse" () frá 1962 til 2002 auk þess að vera ráðgjafi í ritstjórn annarra tímarita. Hann var fyrsti varaforseti Fédération Internationale des Sociétés de Philosophie, varaforseti Institut International de Philosophie (1993–1996), og meðlimur í American Philosophical Association, alþjóðlegra samtaka um sögu og heimspeki vísindanna, meðlimur í Association for Symbolic Logic og stjórnarmeðlimur í Philosophy of Science Association. Heimildir. Greinin er lausleg þýðing á færslu úr ensku Wikipedia sem byggir á upplýsingum frá Jaakko Hintikka. Hintikka, Jaakko Gilbert Harman. Gilbert Harman (f. 1938) er heimspekingur, sem hefur birt greinar um margvísleg efni í siðfræði, þekkingarfræði, frumspeki, málspeki og hugspeki. Hann er þekktur fyrir þá skoðun, að heimspeki og vísindi séu nátengd, líkt og leiðbeinandi hans í doktorsvekefni hans, Quine, og einnig fyrir vörn sína fyrir siðfræðilegri afstæðishyggju. Síðasta og greinarbesta umfjöllun hans um siðfræðilega afstæðishyggju er að finna í bókinni "Moral Relativism and Moral Objectivity" (Oxford: Blackwell, 1996). Tengill. Harman Harman Peter Frederick Strawson. Peter Frederick Strawson (fæddur 23. nóvember 1919 í London - 13. febrúar 2006) er heimspekingur sem er oft kenndur við heimspeki hversdagsmáls sem er straumur innan rökgreiningarheimspeki. Hann var Waynflete prófessor í frumspekilegri heimspeki við University of Oxford frá 1968 til 1987. Strawson varð fyrst fyrir grein sína „On Referring“ sem birtist árið 1950. Í greininni gagnrýndi hann lýsingarhyggju Bertrands Russell (sjá einnig ákveðnar lýsingar). Meðal mikilvægra skrifa Strawsons eru: "Introduction to Logical Theory", "Individuals: An Essay in Descriptive Metaphysics", "The Bounds of Sense: An Essay on Kant’s Critique of Pure Reason" og "Entity and Identity". Strawson var aðlaður árið 1977, og er því einnig þekktur sem Sir Peter Strawson. Sonur hans, Galen Strawson, er einnig heimspekingur. Tenglar. Strawson, Peter Frederick Strawson, Peter Frederick Gaius Maecenas. Gaius eða Cilnius Maecenas (70 f.Kr. - 8 f.Kr.) var einkavinur og ráðgjafi Ágústusar auk þess að vera bakhjarl margra ungra skálda. Nafn hans varð táknrænt fyrir valdamikla og auðuga velgjörðarmenn listamanna. Tacítus ("Ann." 6. 11) vísar til hans sem „Cilniusar Maecenasar“. Það er hugsanlegt að „Cilnius“ hafi verið ættarnafn móður hans. Sem náinn vinur og ráðgjafi Ágústusar öðlaðist Maecenas nánast stöðu sem næstráðandi þegar Ágústus var fjarri. Á seinni árum kom fram stirðleiki í vináttu þeirra, sennilega að einhverju leyti vegna þess að Ágústus hélt við konu hans, Terentíu. Þegar Maecenas lést útnefndi hann Ágústus einkaerfingja sinn. Sennilega er Maecenas frægastur fyrir stuðning sinn við ung skáld. Það útskýrir hvers vegna nafn hans hefur orðið að samheiti fyrir velgjörðarmenn listamanna á mörgum tungumálum. Sagt er að hann hafi uppgötvað skáldið Hóratíus og styrkt Virgil sem samdi Búnaðarbálk ("Georgica") til heiðurs honum. Maecenas gaf Hóratíusi villu í sabínsku fjöllunum. Skáldin Propertíus, Varíus Rufus, Plotíus Tucca, Valgíus Rufus og Domitíus Marsus voru einnig skjólstæðingar hans. Maecenas samdi einnig sjálfur kvæði og ritaði bækur. Um tuttugu brot eru varðveitt úr verkum hans. Sagt er að meðal verka hans hafi verið samræður á borð við "Samdrykkjuna" og ljóðið "In Octaviam" („Gegn Octavíu“) en óljóst er um hvað ljóðið fjallaði. Apolloníos Dyskolos. Apolloníos Dyskolos (uppi á 2. öld) er talinn einn mikilvægasti málfræðingurinn í Grikklandi til forna. Hann fékk viðurnefnið „dyskolos“ sem þýðir „erfitt að gera til geðs“ vegna reiðilegrar skapgerðar hans. Hann var einnig sagður mjög „analýtískur“ í hugsun. Apolloníos skrifaði mikið um orðflokka. Fjórar af tuttugu bókum hans sem nefndar eru í forna alfræðiritinu "Suda" eru varðveittar: "Um setningafræði", "Um atviksorð", "Um samteningar í málfræði" og "Um fornöfn". Æviágrip. Lítið er vitað um ævi Apolloníusar annað en að hann var sonur Mnesiþeifs og bjó ævilangt í Alexandríu. Kenningar. Apolloníos byggði að miklu leyti á verkum Aristarkosar og Díonýsíosar Þrax, en hann var meðvitaðri en Díonýsíos um stóísk áhrif. Hann þáði flokkun orða í átta orðflokka í arf frá Aristarkosi og Díonýsíosi en skilgreindi suma að nýju. Hann taldi til að mynda að fornöfn væru ekki einungis staðgenglar nafnorða og lýsingarorða heldur taldi hann að þau vísuðu til verunda sem hefðu enga eiginleika. Öll setningafræði Apolloníosar byggir á greiningu hans á tengslum nafnorða og sagnorða. Hann greindi á milli áhrifssagna og áhrifslausra sagna og þolmyndar sagna. Hann lagði grunninn að okkar skilningi á hugtökunum "frumlag", "andlag" og "fallstjórn". Apolloníos og sonur hans, Ælíos Herodíanos, höfðu gríðarleg áhrif á síðari tíma málfræðinga. Bækur Apolloníusar og Díonýsíosar Þrax mynduðu grunninn sem öll málvísindi í Býsansríkinu byggðu á og höfðu mikil áhrif á Priscianus, síðasta mikilvæga málfræðinginn í fornöld. Bandý. Bandý er innanhúss hóp- og boltaíþrótt spiluð með plastkylfum þar sem markmiðið er að koma lítilli plastkúlu (kölluð bandýkúla) í mark andstæðingsins. Í bandý eru sex menn í liði, þar af einn markmaður og hafa þeir allir fyrir utan markmanninn kylfu til að stjórna og skjóta kúlunni, en markmaðurinn ver markið með höndum og fótum. Leikmenn mega ekki viljandi nota hendur eða höfuð til að stjórna kúlunni, en leyfilegt er að snerta hana einu sinni í einu með fótunum (oftast til að stoppa hana), en ekki má skora mörk með fótunum eða gefa kúluna með þeim. Núverandi Íslandsmeistari í bandý er Bandýfélag Kópavogs. Völlur. Algengast er að bandývöllur sé 40 metrar að lengd og 20 metrar að breidd en einnig er leyfilegt að spila á 36 · 18 m velli og 44 · 22 m velli. Völlurinn skal afmarkaður af 50 cm háu spjaldi með rúnnuðum hornum. Leiktími. Leiktími er 3 · 20 mínútur með 10 mínútna hléum, leiktími er stöðvaður ef dómari stöðvar leikinn og heldur áfram þegar leikurinn byrjar aftur. Leikmenn. Hvert lið má hafa mest 20 leikmenn þar af 6 á vellinum í einu, skiptingar eru leyfðar hvenær sem er í leiknum og hefur hvert lið ótakmarkaðar skiptingar. Búningar. Leikmenn skulu vera í samstæðum búningum sem samanstanda af treyju, stuttbuxum og hnésokkum, einnig skulu þeir vera í innanhússíþróttaskóm, Ísland. Íslandsmeistaramót hafa verið haldin frá árinu 2005, þar sem leiknir voru styttri leikir en venja er. Laugardaginn 26. september 2009 hófst formleg deildarkeppni í fyrsta sinn með leiki í fullri lengd og voru fjögur lið skráð til keppni. Bandýfélag Kópavogs stóð uppi sem sigurvegari fyrsta tímabilið. Bandaríkjadalur. Bandaríkjadalur, bandarískur dalur eða dollari er gjaldmiðill Bandaríkjanna. Hann er einnig notaður víða sem varasjóðsmynt, en slík notkun utan Bandaríkjanna leiddi meðal annars til þess að gullfótur Bandaríkjadals var lagður niður 1971 (Bretton Woods-kerfið), þar sem orðnar voru til meiri birgðir af dölum utan Bandaríkjanna, en öllum gullforða þeirra nam. Árið 1995 voru yfir 380 milljarðar dala í umferð, þar af tveir þriðju utan Bandaríkjanna. 2005 var þessi tala komin í 760 milljarða og áætlað að á milli helmingur og tveir þriðju séu í umferð utan Bandaríkjanna. Algengasta táknið fyrir Bandaríkjadal er „dollaramerkið“ ($). ISO 4217-táknið fyrir Bandaríkjadal er USD. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar einnig táknið US$ fyrir gjaldmiðilinn. Mörg lönd nota heitið "dalur" eða "dollar", en nafnið er dregið af orðinu "dalur" ("Taler" á þýsku). Ekvador, El Salvador og Austur-Tímor, auk yfirráðasvæða Bandaríkjanna, nota Bandaríkjadal sem opinberan gjaldmiðil. Að auki hafa Bermúda, Bahamaeyjar, Panama, Líbería og nokkur önnur lönd bundið sína gjaldmiðla við Bandaríkjadal á genginu 1:1. Gjaldmiðill Barbados er sömuleiðis bundinn við gengið 2:1. Listi yfir íslenska heimspekinga. Hér að neðan er listi yfir íslenska heimspekinga í stafrófsröð. Íslenskir heimspekingar Heimspekingar Þorsteinn Gylfason. Þorsteinn Gylfason (12. ágúst 1942 í Reykjavík á Íslandi – 16. ágúst 2005 í Reykjavík) var íslenskur heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Hann fékkst einkum við stjórnmálaheimspeki, hugspeki og málspeki. Foreldrar Þorsteins voru Gylfi Þ. Gíslason, prófessor og ráðherra, og Guðrún Vilmundardóttir. Bræður Þorsteins voru Vilmundur Gylfason og Þorvaldur Gylfason, prófessor. Þorsteinn var ókvæntur og barnlaus. Nám og störf. Þorsteinn brautskráðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1961 og hélt þaðan í nám til Bandaríkjanna. Hann lauk námi í heimspeki frá Harvard háskóla árið 1965 en stundaði framhaldsnám og rannsóknir í heimspeki við Magdalen College í Oxford háskóla á Bretlandi árin 1965-1971. Þorsteinn kenndi heimspeki við Háskóla Íslands frá því að byrjað var að kenna þar heimspeki til B.A.-prófs. Hann hóf að kenna við skólann árið 1971, varð lektor árið 1973, dósent árið 1983 og prófessor árið 1989. Hann var mikill nýyrðasmiður og bjó til mörg orð sem notuð eru um heimspeki á íslensku. Þorsteinn var líka mikilvirkur þýðandi og þýddi fjölda heimspekiverka og ljóða. Hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1997 fyrir bók sína "Að hugsa á íslenzku". Þorsteinn var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu af Forseta Íslands árið 1994. Þorsteinn stofnaði ritröðina Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags og ritstýrði henni í 27 ár. Hann stofnaði einnig ritröðina Íslensk heimspeki ("Philosophia Islandica") sem er einnig gefin út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi. Þorsteinn var forstöðumaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands árin 1982-1991 og var kjörinn heiðursfélagi í Félagi áhugamanna um heimspeki á aðalfundi þess þann 17. mars 2004. Þakkarræðu Þorsteins má nálgast á. Í ræðunni fjallar Þorsteinn m.a. um heimspekiáhuga sinn frá bernsku. Reikistjarna. Reikistjarna (jarðstjarna eða pláneta) er heiti yfir tiltölulega stórt, hnöttótt geimfyrirbæri á sporbaug um sólstjörnu, sem er þó ekki stjarna sjálft. Reikistjörnurnar í okkar sólkerfi eru átta stærstu fylgihnettir sólar: Merkúr, Venus, jörðina, Mars, Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus frá sólu talið. Hugtakið „reikistjarna“ hafði enga nákvæma vísindalega skilgreiningu fyrr en árið 2006 og var umdeilt fram að því. Flestar voru reikistjörnurnar taldar níu frá árinu 1930, en Alþjóðasamband stjarnfræðinga ákvað 24. ágúst 2006 skilgreiningu á reikistjörnum, sem fól það í sér að Plútó telst ekki lengur reikistjarna, heldur dvergreikistjarna. Þær fjórar, sem næstar eru sólu, kallast "Innri reikistjörnur", en hinar kallast "ytri reikistjörnur" eða gasrisar og liggur smástirnabeltið milli þeirra. Nafnsifjar orðsins „reikistjarna“. Í dag er orðið „planet“ í ensku venjulega ekki notað um sólstjörnur eða hnetti sem hafa ekki sporbaug um sólstjörnu. Þ.a.l. myndi enginn telja tunglið eða sólina til plánetu í dag. Nafnsifjar orðsins „pláneta“. Orðið pláneta er ættað af gríska orðinu πλανήτης (umritað: planētēs) sem þýðir flakkari. Reikistjörnur utan sólkerfisins. Gliese 581 c er reikistjarna utan sólkerfisins í um 20 ljósára fjarlægð frá jörðu og sýnist lífvænleg. Amasónfljót. Amasónfljót (spænska og portúgalska: "Río Amazonas") er fljót í Suður-Ameríku og stærsta fljót jarðar mælt í vatnsmagni. Fljótið flytur jafnmikið vatn og Nílarfljót, Jangtse og Mississippifljót samanlagt. Úr fljótinu rennur því fimmti hluti alls ferskvatns sem rennur í úthöfin. Ásamt Níl er Amasónfljót einnig lengsta fljót jarðar. Stærstur hluti fljótsins er í Brasilíu. Fjarlægasta þekkta uppspretta þess er í 3.700 metra hæð uppi í Andesfjöllum í héraðinu Arequipa í Perú. Lengd fljótsins er 6.400 km og í það renna yfir 200 þverár með vatnasvið upp á 6.915.000 km² sem eru um 40% af stærð Suður-Ameríku. Meðal þekktustu þverána eru Rio Negro, Rio Madeira, Tapajós og Xingu. Fljótið rennur út í Atlantshafið við austurströnd Brasilíu um árósana Rio del Mar. Hægt er að sigla skipum upp fljótið allt að Iquitos í Perú. 1541-1542 sigldi spænski landkönnuðurinn Francisco de Orellana upp fljótið. Það var í þessari ferð sem það fékk nafn sitt, þar sem Orellana skrifaði að stríðskonur hefðu ráðist á þá, sem minntu hann á amasónur fornaldar. Bardaginn var við Tapujasindíána, þar sem bæði karlar og konur taka þátt í bardögum. Í Amasónfljóti lifa yfir 2000 tegundir fiska, frá hrökkálum til blóðþyrstra píranafiska. Kúba. Lýðveldið Kúba er eyríki á mörkum Karíbahafs, Mexíkóflóa og Atlantshafs. Ríkinu tilheyra eyjarnar Kúba (sú stærsta af Stóru-Antillaeyjum), Isla de la Juventud ("Æskueyjan") og ýmsar smærri eyjar. Nafnið kemur úr máli taínóindíána "cubanacán" sem merkir miðsvæði. Norðan við Kúbu eru Bahamaeyjar, austan megin eru Turks- og Caicoseyjar, í vestri Mexíkó, í suðri Cayman-eyjar og Jamaíka, og Haítí í suðaustri. Viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Kúbu hefur verið í gildi frá árinu 1962 og er það enn í gildi. Kúbverska byltingin. Tilgangurinn með byltingunni var sá að losna við einræðisherran Fulgencio Batista. Bandaríkjamenn völdu Batista til að stjórna Kúbu og notuðu landið eins og þeim sýndist. Almenningur græddi ekkert á stanslausu peningastreymi Bandaríkjamanna inn í Kúbu og mikil fátækt ríkti í landinu. Í dag. Enn ríkir viðskiptabann á milli Bandaríkjanna og Kúbu og hefur það verið í gildi frá árinu 1962. Kúba er enn þá kommúnistaríki og er bróðir Fidel Castro, Raul Castro, tekinn við sem forseti landsins þar sem að Fidel hefur ekki lengur heilsu til þess. Á Kúbu er ríkisrekið velferðarkerfi. Skólasókn í grunnskóla er skylda og öll menntun er ókeypis. Velferðarkerfið felur í sér heilsu- og slysatryggingar, fæðingarorlof og eftirlaun. Heilbrigðisþjónusta er ókeypis fyrir sjúklinga. Aðgangur að læknum er góður en skortur hefur verið á lyfjum vegna viðskiptabannsins. Nú er aðgangur að lyfjum betri vegna þess að landið hefur þróað sinn eigin lyfjaiðnað. Stjórnvöld á Kúbu hafa verið gagnrýnd fyrir að vera ólýðræðisleg og brjóta mannréttindi með því að vakta, fangelsa og taka af lífi pólitíska mótmælendur. Mikilvægasta tekjulind Kúbu alla tuttugustu öldina var útflutningur sykurs. Undanfarin ár hefur þó dregið verulega úr sykurútflutningnum. Fall kommúnismans og upplausn Sovétríkjanna hafði skelfilegar afleiðingar fyrir efnahag Kúbu. Landið var háð aðstoð og ódýrri olíu frá Sovétríkjunum. Sovétríkin niðurgreiddu einnig kúbverskan sykuriðnað með því að borga meira fyrir sykurinn en nam heimsmarkaðsverði. Tóbak frá Kúbu og kúbanskir vindlar álitið meðal þess besta í heimi. Ferðaþjónustan hefur eflst og landið hefur yfir að ráða stærstu nikkelbirgðum heims. Samstarf og viðskipti við Suður-Ameríku og Evrópusambandið hafa aukist og landið kaupir ódýra olíu af Venesúela. Landið hefur einnig viðskipti við Kína. Níkaragva. Níkaragva (eða Nikaragúa) er land í Mið-Ameríku með landamæri að Hondúras í norðri og Kosta Ríka í suðri. Það á strönd að Kyrrahafi í austri og Karíbahafi í vestri. Uprunni nafnsins Níkaragva er nokkuð óskýr en sú kenning er uppi að það sé dregið að nafninu Nicarao sem þýðir höfðingi á máli innfæddra og orðinu Agua sem þýðir vatn á spænsku. Um 6 milljónir manna búa í Níkaragva og um fjórðungur þjóðarinnar býr í höfuðborginni, Managua sem er þriðja stærsta borg Mið-Ameríku. Í Níkaragva er fjölþjóðasamfélag og koma íbúar þess að idíjána ættbálkum ættuðum frá Moskító ströndinni (Mosquito Coast), Evrópu, Asíu, Afríku og Mið-Evrópu. Opinbert tungumál landsins er spænska en innfæddir ættbálkar á austur ströndinni tala einning Miskito, Sumo, Rama og Creole ensku. Landframleiðsla á mann er um 1000 bandaríkjadollarar (USD). Um 48% þjóðarinna lifa undir fátækrarmörkum. 79% þjóðarinnar lifa á minna en tveimur bandaríkjadölum á dag. 27% þjóðarinnar er vannærð. Samkvæmt Global Finance er landið í 48. Sæti yfir fátækustu lönd í heiminum. Land & Þjóð. Spánverjar tóku yfir Níkaragva á 16 öld. Níkaragva varð sjálfstætt ríki árið 1821. Á milli 1960 og 1970 skall á borgarastyrjöld. Fyrir borgarastyrjöldina var landið eitt það ríkasta og þróaðasta í Mið-Ameríku. Vegna borgarastyrjaldarinnar og jarðskjálfta sem reið yfir landið árið 1972 varð Níkaragva annað fátækasta landið í Suður-Ameríku. Saga. Árið 1909 gerðu Bandaríkjamenn innrás í Níkaragva. Landið þótti verðmætt vegna staðsetningar þess. Bandaríkjamenn höfðu áhuga á að grafa skipaskurð þar til þess að stytta þeim ferðir til Suður-Ameríku frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn afhentu völdin í landinu til Anastasio Somoza sem varð einræðisherra í Níkaragva til ársins 1979. Somoza ættin varð alræmd í heiminum fyrir spillingu, þjófnað og hrottaraskap. Árið 1961 var stofnuð svo kölluð FSLN-hreyfing (Frente Sandinista de Liberación Nacional). Meðlimir hennar kölluðu sig Sandinista (Sandinistas). Leiðtogi hreyfingarinnar var Daniel Ortega. Árið 1974 hóf hreyfingin baráttu við Somoza veldið og borgarstyrjöld brast út árið 1978. Somoza naut stuðnings Bandaríkjanna þar til að menn hans myrtu bandarískan blaðamann. FSLN –hreyfingin nær að hrekja Somoza frá völdum og hann flýr landið. Daniel Ortega var kosin forseti Níkaragva í lýðræðislegum kosningum árið 1984. Árið 2006 var hann síðan endurkjörin sem forseti landsins og er enn þann dag í dag. Árið 1990 varð Violeta Chamorro forseti Níkaragva og einnig fyrsti kvenforsetin í Suður-Ameríku. Söguleg málvísindi. Söguleg málvísindi er vísindagrein sem er undirgrein málvísinda og fjallar aðallega um það hvernig tungumál breytast með tímanum. Dóminíska lýðveldið. Dóminíska lýðveldið er land á eystri hluta eyjunnar Hispaníóla sem er ein Stóru-Antillaeyja í Karíbahafi með landamæri að Haítí í vestri. Hispaníóla er næststærst eyjanna í eyjaklasanum (á eftir Kúbu) og liggur vestan við Púertó Ríkó og austan við Kúbu og Jamaíku. Íbúarnir nefna eyjuna oft Quisqueya, sem er nafn hennar á máli taínóindíána. Landið heitir eftir höfuðborginni Santo Domingo. Eftir rúmar 3 aldir þar sem Spánverjar réðu yfir landinu, með nokkrum árum þar á milli undir stjórn Frakka og Haítimanna fékk Dóminíska lýðveldið sjálfstæði sitt þann 16. ágúst árið 1865. Orðsifjafræði. Orðsifjafræði er undirgrein sögulegra málvísinda sem fæst við uppruna orða. Þeir sem leggja stund á greinina kallast orðsifjafræðingar. El Salvador. El Salvador er land í Mið-Ameríku með landamæri að Gvatemala í norðvestri og Hondúras í norðaustri og strönd að Kyrrahafi í suðri. Landið er það þéttbýlasta á meginlandi Ameríku. Borgarastríð. Borgarastríðið í El Salvador (1979 – 1992) voru átök á milli hers ríkisstjórnar El Salvador, sem studdur var af Bandaríkjunum, og uppreisnarmanna í bandalaginu Farabundo Martí National Liberation Front (FMLN). En það var bandalag fimm vinstrisinnaðra skæruliðahópa. Kúba og önnur kommúnistaríki studdu við uppreisnarmennina. Veruleg spenna og ofbeldi höfðu verið til staðar áður en að borgarastríðið skall á og varði í tólf ár. Borgarastríð El Salvador er önnur lengsta borgarastyrjöld í Suður-Ameríku en sú lengsta var í Guatemala. Átökunum lauk árið 1990. Ekki er vitað hve margir hurfu á meðan stríðinu stóð en meira en 75 þúsund manns voru drepnir. Árið 1979 tók herforingjastjórnin við völdum í El Salvador. Það er að segja, hún steypti af stóli þáverandi forseta El Salvador, Carlos Humberto Romero hershöfðingja. Bæði öfgasinnaðir hægri- og vinstrimenn voru á móti nýju ríkisstjórninni. Spenna jókst og landið var á barmi uppreisnar. Illa þjálfaðir hermenn hers El Salvador tóku þátt í kúgun og morðum. Það eftirtektarverðasta var El Mozote fjöldamorðin í desember 1981. Á næstu tveimur árum (1982 – 1983) voru um það bil átta þúsund óbreyttir borgarar myrtir af herliði stjórnvalda. Um 1985 var minna um morð af völdum herliðanna en við og við var manneskja drepin og skilin eftir fyrir alla að sjá með þeim tilgangi að halda þeim hræddum við hvað gæti gerst ef þau snérust gegn þeim. Dauðasveitum ríkisins hafði tekist að gereyða mörgum stéttarfélögum og stjórnmálasamtaka. Þeir sem lifðu af neyddust til að flýja landið eða bætast í lið við skæruliðahópana. Í lok áratugsins hafði lífskjörum íbúanna dregist saman um 30% frá árinu 1983. Fæstir höfðu aðgang að hreinu vatni eða heilsugæslu. Atvinnuleysi varð um það bil 50% og kaupmáttur lækkaði um 54% frá árinu 1979 fyrir þá sem héldu vinnu. Á þessum tólf árum var hömlulaus mannréttindabrot framin bæði af ríkisstjórninni og vinstrisinnuðum skæruliðahermönnum. Umboðið lýsti því yfir að þeir sem frömdu þessi mannréttindabrot yrðu fjarlægðir úr stjórnvalda-eða herstöðu. Borgarastyrjöldinni lauk árið 1992 og hapultepec Peace Accords varð einn af helstu stjórnmálaflokkunum. Hringadróttinssaga. Hringadróttinssaga (enska: "The Lord of the Rings") er saga eftir J. R. R. Tolkien sem kom út í þremur bindum árin 1954 og 1955. Bindin heita Föruneyti hringsins, Tveggja turna tal og Hilmir snýr heim. Hvert bindi skiptist í tvær bækur og því samanstendur sagan af sex bókum alls. Hringadróttinssagan gerist í heimi sem Tolkien skapaði, og sá heimur er einnig bakgrunnur bókanna um Hobbitinn, Silmerillinn og fleiri. Þorsteinn Thorarensen þýddi allar bækurnar á íslensku. Hringadrottinssaga hefur verið kvikmynduð þrisvar sinnum: ein teiknimynd hefur verið gerð, ein sjónvarpsmynd og nú síðast gerði nýsjálenski leikstjórinn Peter Jackson kvikmyndaþríleik sem kom út á árunum 2001 til 2004. Sagan fjallar, í stuttu máli, um hobbitann Fróða Bagga sem erfir dularfullan hring eftir frænda sinn og fóstra, Bilbó Bagga, þegar Bilbó bókstaflega hverfur á 111 ára afmælinu sínu. Seinna kemur í ljós að þessi hringur var sköpunarverk Saurons, sem tókst næstum því að ná undir sig öllum Miðgarði fyrir mörgum öldum, en þegar Sauron glataði hringnum missti hann allan mátt og flúði burt sem veikur skuggi og veldi hans hrundi til grunna. En nú er Sauron byrjaður að eflast aftur og Fróði þarf að fara ásamt garðyrkjumanni sínum Sóma og fleiri hobbitum til Mordor að eyða hringnum eina. En það eru fleiri að berjast gegn Sauroni, t.d. Aragorn sonur Araþorns, erfinginn að krúnu Gondors, Legolas sonur Þrændils, erfingi að krúnu Myrkviðar, áður Mikli-Græniskógur, Gimli sonur Glóins, hefði getað orðið erfingi að krúnunni í Moría og Gandalfur vitki, sem ber einn álfahringanna þriggja. Miðgarður (Tolkien). Miðgarður (enska: "Middle-earth") er ein þriggja heimsálfa í heiminum sem J. R. R. Tolkien skapaði um sögur sínar, meðal annars Hringadróttinssögu og Hobbitanum sem gerast í norð-vestur hluta Miðgarðs. Nafnið kemur úr norrænni goðafræði þar sem Miðgarður er sá hluti heimsins sem menn byggja. Miðgarður er líka oft notað yfir allt land í þessum heimi og stundum jafnvel yfir heiminn allan, en hann heitir þó Arda Forsætisráðherra. Forsætisráðherra er venjulega höfuð ríkisstjórnar í flestum löndum þar sem höfuð ríkisstjórnar er ekki þjóðhöfðingi. Kosta Ríka. Kosta Ríka (eða Kostaríka) er land í Mið-Ameríku með landamæri að Níkaragva í norðri og Panama í suðri, og strönd að Kyrrahafi í vestri og Karíbahafi í austri. Kosta Ríka er eitt fárra landa í heiminum með engan her og það fyrsta sem lagði niður her sinn með stjórnarskrárbreytingu 1949. Landið er stundum kallað Sviss Mið-Ameríku. Saga. Fyrir komu Kólumbusar tilheyrðu indíánar þessa svæðis miðsvæðinu milli Andesfjallamenningarinnar og Miðameríkumenningarinnar. Íbúar töluðu tsibtsönsk mál. Fyrsti Evrópubúinn sem kom til landsins var Kristófer Kólumbus árið 1502. Við komu Evrópubúa stráféllu íbúarnir vegna bólusóttar og annarra sjúkdóma og evrópskir landnemar lögðu landið undir sig. Á nýlendutímanum var Gvatemalaborg stærsta borg Mið-Ameríku og vegna fjarlægðar frá þeim miðpunkti var Kosta Ríka afskipt af nýlendustjórninni og jafnframt fátækasta nýlenda Spánar á svæðinu. Að hluta til stafaði þessi fátækt af skorti á innlendu vinnuafli sem hægt var að nota sem þræla. Vegna þessa var líka meira jafnræði meðal íbúa Kosta Ríka en í öðrum Mið-Ameríkulöndum. 1821 tók Kosta Ríka þátt í sjálfstæðisyfirlýsingu nokkurra Mið-Ameríkulanda, varð hluti af Mexíkó undir stjórn Agustín de Iturbide og síðar Sambandslýðveldi Mið-Ameríku. 1824 var höfuðborgin flutt frá Cartago til San José. 1838 lýsti landið yfir sjálfstæði. 1948 komst José Figueres Ferrer til valda eftir blóðuga borgarastyrjöld, en eftir það hefur landið notið meiri friðar og stöðugleika en nágrannalöndin. Eraserhead. Eraserhead (í Frakklandi gefin út sem "The Labyrinth Man") er kvikmynd frá árinu 1977 eftir David Lynch, en hann er handritshöfundur hennar og leikstjóri. Myndin er öll tekin í svarthvítu, og er næsta súrrealísk, en ber sterkan svip af þeim verkum Lynch sem á eftir fygldu, þó hún sé einstök í höfundaverki hans. Myndin hlaut lélega dóma í fyrstu, en hefur síðan eignast stóran aðdáendahóp og hefur haft áhrif á marga listamenn, og margið hrósað henni, jafnt Charles Bukowski og Stanley Kubrick. Aðalleikari myndarinnar er Jack Nance en hann leikur "Henry Spencer" sem býr í niðurníddu iðnaðarhverfi og eignast ásamt Mary afar afmyndað barn utan hjónabands. Henry neyðist til þess að giftast kærustu sinni "Mary" sem er leikin af Charlotte Stewart. Hún flytur síðan inn til hans, en tekur svo upp á því að fara sí og æ aftur heim til móður sinnar til að sofa vegna þess að hún þolir ekki hvæs og grát barnsins, og umönnun þess lendir alfarið á Henry. Svo sýnist hann fari að dreyma mjög hryllilegan draum. Myndin var 5 ár í vinnslu. Púertó Ríkó. Samveldið Púertó Ríkó er sérstakt sambandssvæði Bandaríkjanna, staðsett austan við Dóminíska lýðveldið í norðausturhluta Karíbahafs. Eyjan er minnst Stóru-Antillaeyja en svæðið telur einnig minni eyjar og rif, þar á meðal Mona, Vieques og Culebra. Eyjan er um það bil 1/11 af Íslandi að flatarmáli en íbúafjöldinn er meira en tífaldur fjöldi Íslendinga. Þéttleiki byggðar er því um 120 faldur þéttleiki byggðar á Íslandi. Púertó Ríkó hefur áheyrnarfulltrúa á bandaríska þinginu. Sjálfstæðisflokkur Púertó Ríkó hefur barist fyrir sjálfstæði svæðisins. Hondúras. Hondúras er land í Mið-Ameríku með landamæri að Gvatemala í vestri, El Salvador í suðvestri, Níkaragva í suðaustri og strönd að Kyrrahafi (Fonseca-flóa) í suðri og Karíbahafi (Hondúrasflóa) í norðri. Gvatemala. Gvatemala er land í Mið-Ameríku með landamæri að Mexíkó í norðri, Belís í norðaustri og Hondúras og El Salvador í suðaustri, og strönd við bæði Kyrrahaf og Karíbahaf. Þjóðarhljóðfæri Gvatemala er marimban. Þekktust Gvatemalabúa utan landsteinana er án efa nóbelsverðlaunahafinn Rigoberta Menchú. Er hún þekktust fyrir að vekja athygli á stöðu frumbyggja í landinu, en á þeim frömdu stjórnvöld skipulegt þjóðarmorð í borgarastríðinu í Gvatemala sem hófst árið 1960 en lauk árið 1996 með friðarsamningi milli stjórnvalda og skæruliða. Gvatemala er þekkt um víða veröld fyrir náttúrufegurð sína og gott kaffi. Jólaeyja. Jólaeyja (eða Jólaey) er lítil (135 km²) eyja undir yfirráðum Ástralíu. Eyjan er í Indlandshafi, 2.360 km norðaustan við Perth og 500 km sunnan við Djakarta í Indónesíu. Íbúar eru um 1600. Höfuðstaður Jólaeyju nefnist Flying Fish Cove, eða The Settlement The Offspring. The Offspring er bandarísk pönkrokk hljómsveit frá Orange County í Kaliforníu. Sveitin var stofnuð árið 1984 og innihélt þá söngvarann og gítarleikarann Dexter Holland, Kevin "Noodles" Wasserman sem einnig lék á gítar, bassagítarleikarann Greg K., trommarann Ron Welty og bakraddasöngvarann Higgins. Árið 2003 kom Atom Willard inn í hljómsveitina í stað Ron Welty. Griplur. Griplur eru stuttir, greinóttir þræðir, sem eru móttökutæki taugafrumu. Þær ganga út úr taugabolnum. Hver taugafruma hefur nokkrar griplur, öðrum megin á frumunni. Hinum megin gengur einn taugasími út úr frumubolnum og er hann mun lengri en griplurnar (allt að nokkrir tugir sentimetra að lengd). Griplur taka á móti boðum frá öðrum taugafrumum. Cooks-eyjar. Cooks-eyjar (eða Cookseyjar) eru sjálfstjórnarríki í Suður-Kyrrahafi í frjálsu sambandi við Nýja-Sjáland. Eyjarnar eru fimmtán talsins og samtals um 240 km² að stærð. Eyjarnar heita eftir James Cook skipstjóra sem sá þær árið 1770. Þær voru gerðar að bresku verndarríki árið 1888, en árið 1900 var stjórn eyjanna færð undir Nýja-Sjáland. Ferðaþjónusta er höfuðatvinnuvegur eyjanna. Síle. Lýðveldið Chile, stundum ritað Síle (spænska:), er land í Suður-Ameríku á langri ræmu milli Andesfjalla og Kyrrahafsins. Í norðri liggur landið að Perú, Bólivíu í norðaustri, Argentínu í austri og Drakesund í suðurhlutanum. Kyrrahafið mótar landamæri landsins að fullu í vestri, þar sem að strandlengjan er yfir 6,435 kílómetra á lengd. Yfirráðasvæði Chile nær til Kyrrahafsins sem felur í sér Juan Fernández eyjurnar, Sala y Gómez Islands, Desventuradas eyjurnar og Páskaeyjar sem er staðsett í Pólýnesíu. Chile gerir tilkall til 1.250.000 km² af Suðurskautslandinu. Óvanaleg lögun Chile - 4.300 km á lengd og að meðaltali 175 km á breidd - er orskök þess að landið hefur fjölbreytilegt loftslag, eða allt frá heimsins þurrustu eyðimörk - Atacama - í norðri, í gegnum miðjarðarhafsloftslag í miðju landsins, til snjóþaktra Andesfjalla í suðri, ásamt jöklum, fjörðum og lækjum. Eyðimörkin í norðri er rík af steinefnum og þá aðallega kopar. Lítið landsvæði í miðju Chile er ríkjandi hvað varðar mannfjölda og landbúnað. Það er einnig miðpunktur menningar og stjórnmála þaðan sem að landið þandist út á 19. öld, þegar það innlimaði svæði í norðri og suðri. Í suðri er mikið um skóga og graslendi en þar finnst einnig röð eldfjalla og lækja. Suður-ströndin er völundarhús fjarða, víka, skurða, hlykkjóttra skaga og eyja. Andesfjöllin eru á austurlandamærum landsins. Orðsifjar. Torres del Paine, í Suður-Chile. Til eru ýmsar kenningar um uppruna orðsins „"Chile"“. Samkvæmt einni kenningu kölluðu Inkarnir frá Perú, sem hafði mistekist að sigra Mapuche-mennina, dal fjallsins Akonkagúa "Chili" eftir "Tili", höfðingja ættbálks sem réð ríkjum þar á tímum innrásar Inkanna. Önnur kenning bendir á að Akonkagúadalur og Kasmadalur í Perú séu sviplíkir, en þar var bær og dalur sem hét "Chili". Aðrar kenningar segja að nafnið „Chile“ eigi rætur sínar að rekja til orðs Mapuche-manna "Chilli" sem getur þýtt „þar sem landið endar“, „innsti staður Jarðar“ eða „mávar“; eða frá quechua orðinu "chin", „kuldi“, eða aímaríska orðinu "tchili" sem þýðir „snjór“. Önnur merking sem rakin er til "Chilli" er hljóðlíkingin "cheele-cheele", sem er eftirlíking Mapuche-manna af kvakhljóði fugla. Spænsku landvinningamennirnir fréttu af þessu nafni frá Inkunum og þeir fáu sem lifðu af leiðangur Diegos de Almagro suður frá Perú árið 1535-36 kölluðu sig „mennina frá Chilli“. Saga. Fyrir um 10.000 árum settust frumbyggjar Ameríku að í frjóum dölum og með fram stöndum þessa lands sem nú er þekkt sem Chile. Veigrunarorð. Veigrunarorð, fegrunarheiti, skrautyrði (eða skrauthvörf) eru allt orð sem notuð eru yfir tjáningu sem er ætlað að vera þægilegri fyrir áheyrandann en tjáningin sem hún kemur í staðinn fyrir. Pitcairn. Pitcairn er eyja og fjögurra eyja eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi. Aðeins næststærsta eyjan, Pitcairn, er byggð. Hinar heita Henderson, Ducie og Oeno. Eyjarnar eru eina breska nýlendan sem eftir er í Kyrrahafi. Eyjarnar eru þekktastar fyrir að hafa verið numdar af uppreisnarmönnum af skipinu "Bounty" og þeim Tahítíbúum sem fylgdu þeim. Á Pitcairn búa einungis níu fjölskyldur, eða um fimmtíu manns, og eru eyjarnar því fámennasta „land“ heims (þótt það sé ekki sjálfstætt). Flestir hafa íbúar eyjanna verið 233, árið 1937. Árið 2004 lenti samfélagið á eyjunum í miklum vandræðum þegar 7 karlar á eyjunum voru kærðir fyrir að nauðga mörgum stúlkum á barnsaldri þar og í ljós kom að það virðist hafa viðgengist þar að fullorðnir karlar nauðgi stelpum allt niður í 10-11 ára aldur. 6 þeirra fengu dóma og var sá síðasti látinn laus árið 2009. Paragvæ. Paragvæ er landlukt land í Suður-Ameríku með landamæri að Argentínu í suðri og suðvestri, Brasilíu í norðaustri og Bólivíu í norðvestri. Nafnið er dregið af nafni Paragvæfljóts og kemur úr tungumálinu gvaraní og er myndað úr orðunum "para" („haf“), "gua" („til“ eða „frá“) og "y" („vatn“). Það merkir því „vatn sem fer til sjávar“ og átti upphaflega aðeins við um byggðina í Asúnsjón við fljótið. Úrúgvæ. Úrúgvæ er land í Suður-Ameríku með landamæri að Brasilíu í norðri, Argentínu í vestri (við Río de la Plata) og strönd að Suður-Atlantshafinu í suðri og austri. Um helmingur íbúanna býr í höfuðborginni Montevídeó. Carl Craig. Carl Craig (fæddur 1969) er tónlistarmaður frá Detroit í Bandaríkjunum. Hann semur einkum raftónlist ("techno") og er af mörgum talinn vera einn mikilvægasti tónlistarmaðurinn af annarri kynslóð raftónlistarmanna í Detroit. Carl Craig hefur nálgast raftónlistina í gegnum innblástur frá ýmsum áttum, þ. á m. frá jazz-tónlist og soul-tónlist. Carl Craig hefur gefið út margar vinsælar hljómplötur undir ýmsum nöfnum, svo sem BFC, Psyche, Paperclip People, 69, Designer Music and og Innerzone Orchestra. Undir síðastnefnda listamannanafninu gaf hann út lagið „Bug in a Bassbin“ árið 1992, en lagið átti storan þátt í því að færa drum and bass tónlist frá áhrifum „hardcore“ og „ragga“ tónlistar. Carl Craig stofnaði eigið útgáfufyrirtæki sem nefnist Planet e, en fyrirtækið hefur gefið út - auk tónlistar Craigs sjálfs - plötur eftir marga fræga raftónlistarmenn, svo sem Kevin Saunderson, Alton Miller and Kenny Dixon Jr. (einnig þekktur sem Moodymann). Carl Craig var framkvæmdastjóri listahátíðarinnar Detroit Electronic Music Festival árin 2000 og 2001. Skipuleggjendur hátíðarinnar sögðu honum upp eftir hátíðina 2001 en um það urðu miklar deilur innan raftónlistarsenunnar í Detroit og leiddi til fyrirferðamikillar áróðursherferðar fyrir hans hönd. Árið 2003 vann Craig sigur að hluta í málaferlum gegn „Pop Culture Media“, skipuleggjendum hátíðarinnar, vegna samningsbrots. Eitt af því sem gerir stíl Carls Craig einstakan og skilur hann að frá hefðbundnari raftónlist frá Detroit er endurhljóðblöndun hans á hvers kyns danstónlist og jazz-lögum. Þetta hefur átt þátt í að hleypa af stað nýjum straumum í raftónlist sem fela í sér aukna blöndu ferskra hljóða. Virðisaukaskattur. Virðisaukaskattur (VASK, VSK eða VAT fyrir enska heitið "value added tax") er skattur lagður á sölu þjónustu og varnings. VASK-urinn er óbeinn skattur sökum þess að skatturinn er innheimtur af seljanda vöru eða þjónustu en ekki þeim sem borgar skattinn. Virðisaukaskatturinn er uppfinning Maurice Lauré. Virðisaukaskattur var tekinn upp á Íslandi 1. janúar 1990. Hann var lengi vel 24,5% af flestum vörum og þjónustu en í upphafi árs 2010 var hann hækkaður í 25,5%. Til eru tvær tegundir af virðisauaskatt: innskattur og útskattur. Segjum að einhver verslunareigandi eigi matvöruverslun og kaupi mjólk hjá MS. Þá er innskattur virðisaukaskatturinn sem MS þarf að borga. Hins vegar er útskattur það sem fyrirtæki verslunaseigandans þarf að borga. Ef maður reiknar innskatt - útskatt fær maður út tölu sem heitir skil. Juan Atkins. Juan Atkins (fæddur 9. desember 1962) er bandarískur tónlistarmaður. Honum er einkum eignað að vera upphafsmaður raftónlistar, nánar tiltekið techno tónlistar í Bandaríkjunum, sem stundum er nefnd Detroit techno enda ólust þeir Atkins og félagar hans Derrick May og Kevin Saunderson, sem einnig höfðu mikil áhrif á þróun raftónlistar í Bandaríkjunum, upp í Detroit í Michigan fylki. Atkins hefur sjálfur sagt að útvarpsþáttur Charles „Electrifyin' Mojo“ Johnson hafi haft mikil áhrif á hann. Electrifyin' Mojo, sem var plötusnúður í Detroit, spilaði einkum raftónlist eftir þýsku hljómsveitina Kraftwerk, hljómsveitina Parliament og Prince. Atkins og vinur hans Derrick May settu saman hljóðblöndu sem þeir báðu Electrifyin' Mojo að útvarpa en hófu síðar að semja eigin tónlist. Í Washtenaw Community College kynntist Atkins Rick Davis en þeir tóku upp plötu saman undir nafninu Cybotron. Atkins bjó til hugtakið „techno tónlist“ til að lýsa tónlist þeirra. Hann var þá undir áhrifum frá verkum framtíðarsinnans og rithöfundarins Alvins Toffler, en frá honum þáði hann lánuð nöfnin „cybotron“ og „metroplex“ (sem varð heiti útgáfufyrirtækis sem Atkins stofnaði). Atkins hefur notað orðið ‚techno‘ til að lýsa eldri hljómsveitum sem reiddu sig mjög á hljóðgerfla, svo sem Kraftwerk, enda þótt margir myndu telja bæði tónlist Kraftwerk og fyrstu plötur Atkins, undir nafninu Cybotron, sem Electro tónlist. Í dag er techno talin sérstök tónlistargrein innan rafrænnar danstónlistar. Atkins hóf að gef út undir nafninu "Model 500" árið 1985. Þekktustu lög hans frá þeim tíma eru „No UFO's“, „Night drive“, „Future“ og „Clear“. Hann er enn að gefa út tónlist jafnt eigin tónlist sem annarra hjá útgáfufyrirtæki sínu Metroplex Records. Tenglar. Atkins, Juan Atkins, Juan Norfolkeyja. Norfolkeyja er eyja í Kyrrahafi á milli Ástralíu, Nýja-Sjálands og Nýju-Kaledóníu. Hún tilheyrir Ástralíu. Eyjan er þekkt fyrir Norfolkeyjufuruna, trjátegund sem einkennir eyjuna. James Cook sá eyjuna fyrst og lenti þar árið 1774 og Bretar stofnuðu þar fanganýlendu árið 1788. Rekstur nýlendunnar gekk illa vegna þess hversu afskekkt eyjan er sem gerði alla aðflutninga erfiða. Var fanganýlendan á endanum lögð niður eftir tvær tilraunir árið 1855. Árið 1856 kom hópur flóttafólks frá Pitcairn, afkomendur uppreisnarmanna af Bounty og settist að á eyjunni. 1867 var stofnuð þar melanesísk trúboðsstöð og kirkja var reist 1882. Eyjan hefur nú eigið löggjafarþing, en stjórn Ástralíu er með fulltrúa þar og þing Ástralíu getur látið lög sín gilda fyrir eyjuna að vild. Sneiðmyndataka. Sneiðmyndataka er aðferð til að taka sneiðmyndir af hlutum eins og heila, fótum eða öðrum líkamshlutum en einnig öðrum hlutum. Sneiðmyndirnar er stundum hægt að nota til að búa til þrívíddarmyndir af hlutnum. Mismunandi aðferðir eru notaðar eftir því hverju er sóst eftir og eftir aðstæðum. Nýja-Kaledónía. Nýja-Kaledónía (franska: "Nouvelle-Calédonie", einnig kallað "Kanaky" og "Le Caillou") er eyjaklasi í Suðvestur-Kyrrahafi, um 1 200 km austan við Ástralíu og 1.500 km norðaustan við Nýja-Sjáland. Eyjarnar eru undir yfirráðum Frakklands. Stærsta eyjan er "Grande Terre", en að auki tilheyra umdæminu margar smærri eyjar og rif. Samtals er stærð þeirra 18 575 km². Íbúar töldust vera 245 580 árið 2009, þar af tæplega 100 000 í höfuðborginni Nouméa. Þjóðarlén umdæmisins er .nc. Nýja-Kaledónía var áður svokallað handanhafsumdæmi Frakklands en fékk sérstaka stöðu og meira sjálfræði með svonefndum Nouméa-samningi árið 1998. Ákvæði samningsins gilda til bráðabirgða þar til haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort landið skuli lýst sjálfstætt eða vera áfram hluti Frakklands. Fyrirhugað er að halda þá atkvæðagreiðslu á árunum 2014–2018. Palá. Palá er landamæralaust land í Kyrrahafi, um 500 km austan við Filippseyjar. Eyjarnar voru í umsjá Bandaríkjanna til ársins 1994 þegar þær fengu sjálfstæði. Marshalleyjar. Marshalleyjar eru míkrónesískt eyríki í Vestur-Kyrrahafi, norðan við Nárú og Kíribatí, austan við Sambandsríki Míkrónesíu og sunnan við Wake-eyju. Eyjarnar voru í umsjá Bandaríkjanna til 1979 þegar lýðveldi var stofnað (í sérstöku sambandi við Bandaríkin). Fullt sjálfstæði var staðfest árið 1990. Marshalleyjar gera tilkall til Wake-eyju sem er undir stjórn Bandaríkjanna. Saga. Eyjarnar voru byggðar af Míkrónesum á 2. árþúsundinu f.Kr. en annars er lítið vitað um sögu þeirra. Spænski landkönnuðurinn Alonso de Salazar lenti á eyjunum 1529 en Evrópubúar komu þangað sjaldan næstu aldirnar. Eyjarnar voru nefndar í höfuðið á breska skipstjóranum John Marshall sem kom þangað árið 1788. Spánn gerði tilkall til eyjanna árið 1874. 1885 setti þýskt fyrirtæki upp verslunarbúðir á eyjunum á Jaluit til að kaupa hið verðmæta kopra (þurrkað kókoshnetukjöt) og fyrir milligöngu páfa viðurkenndi Spánn yfirráð Þýskalands gegn bótagreiðslu. Í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar tók Japan yfir stjórn eyjanna. Eftir stríðið lýsti Þjóðabandalagið því yfir að eyjarnar væru japanskt umdæmi. Í síðari heimsstyrjöldinni, árið 1944, lögðu Bandaríkjamenn eyjarnar undir sig og síðar urðu þær hluti af Kyrrahafseyjaverndarsvæði Bandaríkjanna. Til 1958 gerðu Bandaríkjamenn tugi kjarnorkutilrauna á eyjunum og enn standa yfir málaferli vegna heilsufarslegs skaða sem tilraunirnar ollu íbúunum. 1979 fengu eyjarnar heimastjórn og þær gerðust frjálst sambandsland Bandaríkjanna árið 1986 þegar þær urðu fullvalda ríki. Formlegt sjálfstæði fékkst árið 1990 í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. 21. mars 2007 lýsti stjórn eyjanna yfir neyðarástandi eftir að langvarandi þurrkar urðu til þess að ekkert vatn var eftir á eyjunum. Landafræði. Marshalleyjar eru 29 hringrif og fimm stakar eyjar. Stærstu hringrifin og eyjarnar mynda tvo eyjaklasa Ratakeyjaklasann og Ralikeyjaklasann. Tveir þriðju hlutar íbúanna búa á Majúró, sem er jafnframt höfuðborg eyjanna, og Ebeye. Ytri eyjarnar eru strjálbýlli þar sem þar eru minni atvinnutækifæri og líf þar byggir á hefðbundnum veiðum og söfnun. Mestur hluti landsvæðis eyjanna er við sjávarmál. Loftslag á eyjunum er heitt og rakt. Margir hvirfilvindar í Kyrrahafi eiga upptök sín við Marshalleyjar og vaxa eftir því sem þeir færast vestar yfir Maríanaeyjar og Filippseyjar. Marshalleyjar gera tilkall til Wake-eyju sem er undir stjórn Bandaríkjanna. Stjórnmál. Marshalleyjar eru lýðveldi með forsetaræði. Hvert af 24 kjördæmum landsins kýs einn fulltrúa á neðri deild þings eyjanna (nema höfuðborgin Majuro sem kýs fimm fulltrúa). Neðri deildin fer með löggjafarvald. Efri deild þingsins er ráð tólf ættbálkahöfðingja. Fulltrúarnir kjósa síðan forseta. Forseti eyjanna skipar tíu ráðherra ríkisstjórn sem fer með framkvæmdavaldið í umboði þingsins. Efnahagslíf. Uppistaðan í efnahagslífi Marshalleyja er fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Nokkur landbúnaður fer fram á litlum sveitabæjum, aðallega ræktun kókoshneta, tómata, melóna og brauðávaxta. Smáiðnaður er rekinn kringum handverk, fiskvinnslu og framleiðslu kopra. Innan við 10% íbúa vinna við ferðaþjónustu. Marshalleyjar eru ekki aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni og því ekki bundnar af samningum um grundvallarréttindi verkafólks (bann við nauðungarvinnu, bann við barnaþrælkun og réttur verkafólks til að mynda samtök). Bandaríkin reka herflugvöll og skotpall fyrir flugskeyti á Kwajaleinrifi sem veitir nokkrum íbúum atvinnu og skapar leigutekjur af landinu. Menning. Marshalleyingar eru míkrónesar að uppruna sem fluttust til eyjanna frá Asíu fyrir um fjögur þúsund árum. Marshalleyska er það tungumál sem almennt er talað þótt enska sé líka opinbert tungumál eyjanna. Japanska er einnig víða töluð. Nánast allir íbúar eyjanna aðhyllast mótmælendatrú. Marshalleyingar hafa löngum verið færir í siglingum á eintrjáningum og gátu stýrt eftir stjörnunum og kortum gerðum úr skeljum og spýtum. Árlega eru haldnar siglingakeppnir á eintrjáningum og tvíbytnum. Samfélagsgerð Marshalleyja byggist á landareign. Allir eyjarskeggjar eiga rétt á landi í gegnum þá ætt ("jowi") sem þeir tilheyra. Ættarhöfðingjar ("Alap") sjá um daglegan rekstur landsins en ættbálkahöfðingjarnir ("Iroij") stjórna landnotkun og dreifingu afurðanna og setja niður deilumál. Neðstir í virðingarstiganum eru verkamenn ("Rijerbal"). Börn tilheyra ætt móður sinnar. Listi yfir hagfræðinga. 20. öldin. Hagfræðingar Hagfræðingar Íslenski hesturinn. Íslenski hesturinn er hestakyn sem er skylt norska lynghestinum og er af mongólskum uppruna. Víkingar fluttu með sér meðal annars skandinavíska hesta þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en 1000 árum síðan. Íslenski hesturinn er ekki hár í loftinu miðað við mörg önnur hestakyn en aftur á móti er hann óvenju sterkbyggður, heilsuhraustur, þrautseigur og veðurþolinn. Íslenski hesturinn státar af jafnaðargeði og vingjarnlegu eðlisfari og fyrir það hefur hann aflað sér mikillar aðdáunar. Einnig er hann sterkari á taugum heldur en mörg stærri hestakyn. Algengt er að íslenski hross nái 25 til 27 vetra aldri án heilsubrests, en þau getur orðið yfir 30 vetra. Hestar eru félagsverur og vilja vera á beit með öðrum hestum. Íslenskir hestar gera ekki miklar kröfur til fóðurs eða húsaskjóls. Innflutningur hesta til landsins er bannaður vegna sóttvarna og hefur íslenski hesturinn verið einangraður í langan tíma og þróast frá landnámi Íslands. Gangtegundir. Íslenski hesturinn er þekktur fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir; fet, brokk, stökk, tölt og skeið. Tölt, sem er fjórtakta hliðarhreyfing, er ekki einstakt fyrir íslenska hestinn. Töltið finnst í nokkrum hestakynjum í Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og í Asíu. Það sem hins vegar gefur íslenska hestinum sérstöðu, er að enginn annar hestur er sýndur á fimm gangtegundum í keppni og sýningum. Gangtegundirnar eru ekki eðlislægar öllum hestum og er þeim skipt upp í þrjá flokka, alhliða hesta, klárhesta með tölti og klárhesta. Alhliða hestar eru með allar fimm gangtegundirnar. Klárhestar með tölti eru ekki með skeið en hafa allar hinar gangtegundirnar. Klárhestar geta svo aftur fetað, stokkið og brokkað eins og önnur hestakyn, en bjóða ekki upp á tölt og skeið. Hreinir klárhestar eru sjaldgæfir að verða. Yfirleitt er ein gangtegund ríkjandi hjá íslenska hestinum en til eru hestar sem eru jafnvígir á allar gangtegundir. Litir. Íslenski hesturinn hefur yfir 40 grunnliti og hundrað litaafbrigði frá leirljósu að jörpu, frá muskóttu til móvindótts. Algengustu grunnlitir íslenska hestsins eru tveir, rauður og brúnn og er sá rauði algengastur, en í mismunandi blæbrigðum. Mikill fjölbreytileiki í lit er einnig í faxi og tagli íslenska hestsins og ekki er alltaf sami litur á faxi og tagli hestsins. Litur á fótum hestsins getur líka verið breytilegur. Saga íslenska hestsins. Talið er að íslenski hesturinn hafi komið hingað til lands á landnámstímanum og hefur hann aðlagast náttúru og veðurfari á Íslandi mjög vel. Landnámsmenn komu með búfénað með sér frá Evrópu þar á meðal var úrval gæðinga. Hrossin sem landnámsmenn komu með sér voru af ýmsum uppruna þó aðallega germönskum. Heimildum ber ekki saman um hver uppruni íslenska hestsins er en talið er að hann eigi sameiginlegan uppruna með norska lynghestinum og eigi þau kyn ættir sínar að rekja til taminna hrossa í Mongólíu. Einnig kemur fram í heimildum að íslenski hesturinn sé skyldur „equus caballus scandinavicus“ hrossakyni sem var upp í Norður-Evrópu á meðan aðrir telja hann náskyldan breska smáhestinum Exmoor. Þrátt fyrir að íslenski hesturinn hafi verið að blönduðu kyni til að byrja hefur hann þróast síðan á 11. öld án blöndunar við aðra hestastofna og hefur hann því haldið ýmsum eiginleikum sem hafa tapast hjá öðrum hestakynum. Fyrr á tíðum var íslenski hesturinn kallaður „þarfasti þjóninn“. Íslenski hesturinn sá meðal annars um að sækja ljósmóðurina og dró kistuna til kirkju og má því segja að hann hafi fylgt manninum frá vöggu til grafar. En með tímanum og tilkomu bílsins, árið 1904, hefur hlutverk íslenska hestsins breyst úr því að vera burðardýr og ómissandi atvinnu- og samgöngutæki í að vera tómstundagaman en gegnir hann þó enn mikilvægu hlutverki í göngum og leitum á haustin. Sama ár og bílinn kom var fyrsta hrossaræktarfélagið á Íslandi stofnað. Hrossarækt á auknum vinsældum að fagna í dag og er að finna mörg stór hrossaræktarbú um landið ásamt því að fjöldi einstaklinga ræktar hross í smærri stíl. Íslenski hesturinn var fluttur úr landi á fyrri hluta síðustu aldar sem vinnuhestur. Upp úr 1950 hófst útflutningur á reiðhestum. Bókmenntir og íslenski hesturinn. Íslenski hesturinn gegndi mikilvægu hlutverki á tímum víkinga í hernaði og var góður hestur lífsnauðsynlegur stríðsmanni. Hesturinn var tákn um veldi víkinga og var mikil virðing borin fyrir honum og oftar en ekki voru altygjaðir hestar grafnir með stríðsmönnum sínum. Í Íslendingasögum er þess einnig getið að íslenski hesturinn hafi verið gefin sem gjöf til konunga og fyrirmanna. Í norrænni goðafræði skipaði hesturinn stórt hlutverk og var hann meðal annars frjósemistákn og verndari skáldskapar. Hestar voru heilög dýr og var lögð mikil rækt við þá. Frægasti hesturinn úr norrænum goðasögum er án efa hinn áttfætti Sleipnir, hestur Óðins. Enn í dag eru áhrif norrænna sagna að finna í hestasamfélaginu þar sem mörg hestamannafélög og fjöldi hesta bera nöfn sem koma úr goðafræðinni. Þegar kristni var lögtekin, á 10. öld, var bannað að borða hrossakjöt í kristni erlendis, en Íslendingar tóku kristni með nokkrum skilyrðum, meðal annars því að hrossakjötsát væri leyfilegt. Eftir því sem aldirnar liðu náði þessi erlendi hugsanaháttur þó að skjóta rótum á Íslandi, og það að borða hrossakjöt var talið ganga glæpi næst. Einstaka fátæklingar borðuðu hrossakjöt og hirtu ekki um hjátrú en þeir sem gerðu það voru oftar en ekki fyrirlitnir og kallaðir hrossakjötsætur. Útflutningur. Á fyrri hluta síðustu aldar voru íslenskir hestar fyrst fluttir úr landi mestmegnis til Bretlandseyja og Danmerkur. Flestir voru þeir notaðir á bóndabæjum eða í námum. Íslenski reiðhesturinn var fyrst fluttur út 1950 og hafa vinsældir hans vaxið mjög á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku síðan þá. Íslenskir hestar sem hafa verið fluttir út eða fæðst erlendis eru orðnir fleiri en fjöldi hesta á Íslandi, eru þeir meira en hundrað þúsund. Mest hefur verið flutt af íslenska hestum til Þýskalands og Skandínavíu. Útflutningur á íslenska hestinum skapaði verðmæta atvinnugrein, hrossarækt til útflutnings. Hér á landi er að finna mörg stór hrossabú ásamt því að margir einstaklingar rækta hross sér til ánægju. Árið 1906 var haldin fyrsta kynbótasýningin hér á landi og hafa hrossaræktendur síðan þá haft það að leiðar ljósi að bæta íslenska hestinn. Hrossarækt fer að mestu fram á sumrin og er þá stóðhesti komið fyrir í stóðhestagirðingu með hryssum. En aukning hefur verið á undanförnum árum í sæðingu og húsnotkun. Ekvador. Ekvador er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku, með landamæri að Kólumbíu í norðri, Perú í suðri og austri, og strönd að Kyrrahafi í vestri. Galapagoseyjar, sem eru um 965 km frá ströndinni, tilheyra Ekvador. Heiti landsins er dregið af spænska orðinu yfir miðbaug, þar sem landið er á honum. Tölt. Tölt er fjögrra spora gangtegund íslenska hestsins sem lýsir sér þannig að alltaf er einn fótur sem nemur við jörðina sem leiðir til þess að engin „högg“ eru á ganginum. Knapinn situr rólegur í hnakknum og „líður“ hreinlega áfram. Töltið getur verið þó nokkuð hraðskreitt og kallast þá yfirferðartölt. Skeið (gangtegund). Skeið er tvítakta gangur með svifi milli þess að hliðstæðir fætur (hægri- og vinstri fætur) snerta jörðu. Skeið er nokkuð hröð gangtegund og er mest notuð í keppnum, s.s. skeiðkappgreinum og gæðinga-flokki (oft kallaður A-flokkur gæðinga). Miklir skeiðhestar kallast oft vekringar og er þeim "lagt á skeið". Hong Kong. Hong Kong er borg í Kínverska alþýðulýðveldinu. Borgin hefur umtalsvert sjálfstæði sem sérstakt sjálfstjórnarhérað í Kína. Í Hong Kong ríkir markaðshagkerfi sem er með þeim frjálslyndustu í heimi. Borgin var áður leigunýlenda undir stjórn Breta en stjórn hennar fluttist til Kína 1. júlí 1997 undir stefnunni „ein stjórn, tvö kerfi“. Hong Kong á stjórnarskrárbundinn rétt til mikils sjálfræðis, þar á meðal eigin lagakerfis, eigin gjaldmiðils, eigin tollalaga og rétt til að gera alþjóðasamninga, svo sem um flugumferð og innflytjendur. Einungis varnarmál og alþjóðasamskipti eru í höndum stjórnarinnar í Peking. Míkrónesía (ríki). Sambandsríki Míkrónesíu er eyríki í Suður-Kyrrahafi, norðaustan við Papúu Nýju-Gíneu. Ríkið er í sérstöku sambandi við Bandaríkin. Þau eru staðsett í Míkrónesíu, sem nær yfir stærra svæði. Ríkin voru áður í umsjá Bandaríkjanna. Þau tóku upp stjórnarskrá 1979 og fengu sjálfstæði 1986 með sérstökum samningi um samband við Bandaríkin. Eyjarnar eru mjög háðar fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Keisaramörgæs. Keisaramörgæsin (fræðiheiti: "Aptenodytes forsteri") er stærst allra mörgæsa og eina mörgæsategundin sem makast um vetur á Suðurskautslandinu. Keisaramörgæsir éta aðallega átu og önnur krabbadýr, en einnig litla fiska og smokkfiska. Í sínu náttúrulega umhverfi lifa keisaramörgæsir yfirleitt í um 20 ár en geta orðið allt að 40 ára gamlar. Hastings Banda. Dr. Hastings Kamuzu Banda (14. maí 1906 - 25. nóvember 1997) var fyrsti forseti og fyrrum einræðisherra í Malaví. Hastings Banda nam lækningar við Meharry Medical College í Tennessee og seinna við Edinborgar-háskóla til að öðlast lækningaréttar í breskum nýlendum. Við heimkomuna til Nyasalands (nú Malaví) fór hann í framboð gegn sambandsríki Ródesíu og Nýasalands (Central African Federation) og steypti því af stóli. Sambandsríkið lognaðist svo út af árið 1963. Malaví hlaut síðan sjálfstæði árið 1964. Hastings sjálfur valdi nafnið Malaví, en það kom upp frá kortalestri hans þar sem hann fann Maravi-vatn. Hastings varð forsætisráðherra landsins 1. febrúar 1963, forseti landsins 1966 og útnefndi sig loks „Forseta til lífstíðar“ árið 1971. Hann ríkti fram að dánardegi 25. nóvember 1997 en þá lést hann á sjúkrahúsi í Suður-Afríku. Þorgerður Ingólfsdóttir. Þorgerður Ingólfsdóttir (fædd 5. nóvember 1943) er tónlistarkennari og kórstjóri. Hún stofnaði Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og síðar Hamrahlíðarkórinn. Þorgerður hefur haldið tónleika víða um heim með Hamrahlíðarkórunum og hefur lagt ríka áherslu á að kynna íslenska tónlist. Hún var aðalstjórnandi æskukórsins Radda Evrópu sem var viðamesta samstarfsverkefni menningarborga Evrópu árið 2000. Kórinn hélt tónleika um alla Evrópu og frumflutti m.a. tónverkið „...which was the son of“ eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt en verkið er tileinkað Þorgerði. Hún hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín og list þ.á m. íslensku fálkaorðuna og konunglegu norsku heiðursorðuna. Þorgerður hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði tónlistar og situr í ráðgjafanefnd Europa Cantat kórahátíðarinnar, hún á sæti í dómnefnd Ólympíuleikanna í kórtónlist og er fulltrúi Íslands í norrænu tónlistarnefndinni, Nomus. Fjölmörg tónskáld, bæði íslensk og erlend hafa samið verk fyrir Þorgerði og kórana hennar sem hafa frumflutt yfir 100 ný verk. Fyrr- og núverandi meðlimir telja nú eitthvað um 2000 manns. Piparhólmi. Piparhólmi ("danska: Peberholm", "sænska: Pepparholm") er manngerð eyja á Eyrarsundi, rétt sunnan við Salthólma. Eyjan tilheyrir danska sveitarfélaginu Tårnby. Gerð hennar hófst 1995 og var hluti af framkvæmdum við Eyrarsundsbrúna sem kom á járnbrautar- og vegasambandi á milli Kaupmannahafnar í Danmörku og Málmeyjar í Svíþjóð. Brúarsporðurinn Danmerkurmegin er á eynni og þaðan liggja svo akvegur og járnbraut í jarðgöngum yfir á Amager. Eyjan er u.þ.b. 4 kílómetra löng og 200-500 metra breið. Upphaflegar hugmyndir um brúarsmíðina gerðu ráð fyrir því að leggja veginn annaðhvort um Salthólma eða á landfyllingum við þá eyju en það þótti ekki umhverfislega verjandi þar sem að Salthólmi er nokkuð óspilltur og mikilvægt verndarsvæði fugla. Piparhólmi sjálfur er svo náttúrufræðitilraun en engu grasi né öðrum plöntutegundum var komið fyrir þar í framkvæmdunum heldur á plöntu- og dýralíf að festa þar rætur upp á eigið eindæmi undir nánu eftirliti vísindamanna. Til þess að vernda þetta eru allar mannaferðir takmarkaðar mjög á eynni fyrir utan veginn og járnbrautina. Í dag hafa margar sjaldgæfar plöntur, og jafnvel nokkrar sem taldar voru útdauðar, numið þar land en fræ þeirra kunna að hafa legið í dvala í jarðveginum sem notaður var í eynna en hann var fenginn af botni Eyrarsunds. Ludwig van Beethoven. Ludwig van Beethoven (skírður 17. desember 1770 – 26. mars 1827) var þýskt gullaldartónskáld sem bjó mestan hluta ævi sinnar í Vín, Austurríki. Hann var í fararbroddi umskiptatímabils sígildrar tónlistar og rómantíkur. Beethoven nýtur almennt mikils álits og er af mörgum talinn einn af helstu tónskáldum af vestrænum sið. Orðspor hans hefur blásið í brjóst tónskálda, tónlistarmanna og áheyranda sem lifðu hann. Á meðal þekktustu verka hans eru; fimmta, níunda og sjötta sínfónían auk píanóverksins "Fyrir Elísu", "„Pathétique“–sónötunnar" og "Tunglskinssónötunnar". Beethoven fæddist í Bonn, Þýskalandi. Faðir hans hét Johann van Beethoven (1740–1792) og var af flæmskum ættum. Móðir hans hét Magdalena Keverich van Beethoven (1744–1787). Þar til fyrir skömmu var fæðingardagur hans álitinn vera 16. desember sökum þess að hann var skírður 17. desember og börn á þeim tíma voru oftast skírð degi eftir fæðingu. Nútíma fræðimennska getur hinsvegar ekki fallist á slíka ályktun. Fyrsti tónlistarkennari Beethoven var faðir hans. Haítí. Haítí er eyríki á vestari helmingi eyjunnar Hispaníólu með landamæri að Dóminíska lýðveldinu Landið nær auk þess yfir eyjarnar La Gonâve, Tortúga, Les Cayemites og Ile a Vache í Karíbahafi, austan við Kúbu. Haítí var frönsk nýlenda og fyrsta landið í Ameríku til að lýsa yfir sjálfstæði. Þrátt fyrir þennan aldur, er landið eitt af þeim fátækustu á vesturhveli jarðar. Nú ríkir þar stjórnleysi eftir nýlega uppreisn íbúanna gegn forsetanum. Haítí varð fyrir gríðarlegum skemmdum í jarðskjálfta sem varð árið 2010 þann 12. janúar en hann mældist 7,0 á Richter og átti upptök sín rétt frá Port-au-Prince, höfuðborg Haítí. Ísland átti heiðurinn að vera fyrsta þjóðin sem kom til hjálpar til Haíti eftir jarðskjálftann. Franska Pólýnesía. Franska Pólýnesía (franska: "Polynésie française", tahítíska: "Porinehia Farani") er franskt yfirráðasvæði í Suður-Kyrrahafi. Frönsku Pólýnesíu tilheyra nokkrir pólýnesískir eyjaklasar. Frægasta eyjan er Tahítí í Félagseyjaklasanum. Hún er líka fjölmennasta eyjan og þar sem höfuðborgin, Papeete, er staðsett. Montserrat. Montserrat er skógi vaxin, fjallend eyja í Karíbahafi. Hún er hluti af Hléborðseyjum sem aftur eru hluti af Litlu-Antillaeyjum. Kristófer Kólumbus gaf eyjunni nafnið 1493 eftir fjalli á Spáni. Eyjan er stundum kölluð "Smaragðseyjan", bæði vegna þess hve hún er gróin og vegna þess að margir fyrstu landnámsmennirnir komu frá Írlandi. Montserrat er undir yfirráðum Bretlands. 18. júlí 1995 hófst eldgos í Soufriere Hills-eldfjallinu sem enn er ekki lokið. Tveir þriðju íbúa eyjarinnar neyddust til að flýja eyjuna vegna eldgossins. Tókelá. Tókelá eru þrjár baugeyjar í Suður-Kyrrahafi, undir yfirráðum Nýja-Sjálands. Eyjarnar eru stundum kallaðar "Sambandseyjar" eins og nýlendan hét. Eyjarnar voru hluti af breska verndarsvæðinu Gilberts- og Elliseyjum til 1925 þegar stjórn þeirra var færð til Nýja-Sjálands. Heimskaut. Heimskaut eru þeir staðir á yfirborði hnattar, til dæmis stjörnu, reikistjörnu eða tungls, þar sem skurðpunktur er við möndul hnattarins. Þessir skurðpunktar eru alltaf tveir og kenndir við norður og suður. Í kringum heimskaut reikistjarna fellur ljós sólstjörnu á yfirborðið með þrengra horni en það gerir nær miðbaug sem veldur meiri dreifingu ljóssins og minni upphitun yfirborðsins. Á þeim reikistjörnum sem hafa talsverðan möndulhalla nýtur sólar mismikið á heimskautunum eftir því hvar á sporbaugi sínum um sólstjörnuna reikistjarnan er stödd. Það veldur árstíðum sem hafa miklar hitasveiflur í för með sér. Í sólkerfinu eru jörðin og Mars bestu dæmin um reikistjörnur þar sem árstíða nýtur við. Froskar. Froskar (fræðiheiti: "Anura") eru ættbálkur seildýra í froskdýraflokknum sem inniheldur froska og körtur, þó hægt sé að greina milli froska og karta hefur sú aðgreining enga vísindalega stöðu. Froskungi nefnist "halakarta" og er fótalaus með hala og ytri tálkn í fyrstu. Froskaætt. Froskaætt, erkifroskar eða eiginlegir froskar (fræðiheiti: "Ranidae") er ætt froskdýra af ættbálki froska. Foobar2000. foobar2000 er ókeypis tónlistarspilari fyrir Windows stýrikerfi búinn til af Peter Pawlowski. Viðmót forritsins er afar einfalt að gerð. Helsti kostur foobar2000 er að forritið er afar auðvelt að laga að eigin þörfum. Hægt er að fá úrval viðbæta fyrir forritið sem auðvelda meðferð tónlistarskráa, breytingar á þeim og flokkun. Tómatur. Tómatur (mjög sjaldan nefnt rauðaldin) er ber tómatplöntu (fræðiheiti: "Solanum lycopersicum") sem er einær jurt af náttskuggaætt. Tómatplantan verður að jafnaði 1-3 m há. Þótt tómatar séu ber sé litið til grasafræðinnar og þar af leiðandi undirflokkur ávaxta, eru þeir einnig flokkaðir sem grænmeti í næringarfræðinni. Tómatur er fjölær klifurjurt en er oftast ræktaður sem einær. Eins eru til afbrigði sem mynda litla runna í stað þess að klifra upp. Lítil hár á stilknum hjálpa við klifur og geta myndað rót ef þau komast í snertingu við raka. Saga. Ekki er vitað hvenær menn hófu að rækta tómata en elstu merki um slíka ræktun eru frá Mið-Ameríku um 500 f.Kr. Á Íslandi. Tómataræktun hófst á Íslandi í fyrstu gróðurhúsunum sem reist voru og hituð með jarðhita. Árið 1925 birtust fréttir af tómataræktun í stórum stíl í gróðurhúsi Bjarna Ásgeirssonar á Reykjum í Mosfellssveit. Ræktunin þótti gefast vel vegna sumarbirtunnar. Árið 1938 var áætlað að landsframleiðslan næði 40 tonnum. Árið 2011 var tómatuppskeran á Íslandi rúm 1600 tonn. Ræktun. Tómatar eru ræktaðir um allan heim vegna ávaxtanna. Þúsundir kvæma eru afurð aldalangrar valræktunar en geta tómata til að mynda ný afbrigði átti stóran þátt í vinsældum þeirra í upphafi. Ræktaðir tómatar geta verið frá 5 mm berjum að steikartómötum sem eru 10 cm í þvermál. Flest kvæmin gefa af sér rauð aldin um 5-6 cm í þvermál en til eru afbrigði með grænum, gulum, appelsínugulum, fjólubláum og svörtum aldinum. Kína er stærsti tómataframleiðandi heims en þar á eftir koma Bandaríkin, Indland og Tyrkland. Um orðið „tómatur“. Orðið tómatur er komið úr nahúatl en á því máli heitir ávöxturinn "xitomatl". Elstu merki um ræktun hans eru frá Mexíkó um 500 f.Kr. Tómaturinn kom fyrst til Evrópu frá ríki Asteka með Spánverjum sem hófu ræktun hans um 1540. Honum er fyrst lýst í ítölsku grasafræðiriti Pietro Andrea Mattioli árið 1544 og þá kallaður "pomo d'oro" „gullepli“, en undir því nafni gekk ávöxturinn víða fyrst í stað. Af þeim sökum halda menn að tómatafbrigðið sem Evrópubúar kynntust fyrst hafi verið gult. Reynt var að nefna tómatinn á íslensku "rauðaldin", en það nýyrði festist ekki við hann. Sígræn jurt. Sígræn jurt er í grasafræði jurt sem heldur laufum sínum allan ársins hring, jurtir sem halda ekki laufunum allan ársins hring kallast sumargrænar. Sumargræn jurt. Sumargræn jurt er í grasafræði jurt sem heldur ekki laufskrúða sínum allan ársins hring, jurtir sem halda laufunum allan ársins hring kallast svo sígrænar. Kol. Kol er setberg aðallega gert úr kolefni og kolvatnsefni ásamt öðrum efnum, þar á meðal brennisteini. Kol er jarðefnaeldsneyti sem oft er tengt iðnbyltingunni og er enn í dag mesta uppspretta raforku á jörðinnni. Kolavinnsla er í dag mest í Kína en þar á eftir koma Bandaríkin, Indland og Ástralía. Kol er að langmestu leyti notuð til eldsneytis í því landi sem þau eru unnin og heimsverslun með kol er ekki mikil. Hollensku Antillaeyjar. Hollensku Antillaeyjar (eða Hollensku Antillur) (áður Hollensku Vestur-Indíur) eru tveir eyjaklasar í Litlu-Antillaeyjum sem eru sjálfstjórnarsvæði undir Hollenska konungdæminu. Efnahagur eyjanna er mjög háður ferðamennsku og olíu, auk fjármálaþjónustu. Martinique. Martinique (eða Martíník) er eyja í Karíbahafi, hluti af Litlu-Antillaeyjum. Eyjan er franskt umdæmi handan hafsins og hérað í Frakklandi. Eyjan varð frönsk nýlenda árið 1635. Frakkar ráku frumbyggja eyjarinnar burt árið 1660 og fluttu inn þræla frá Afríku til að vinna þar á plantekrum. Joséphine de Beauharnais, kona Napóleons fæddist á Martinique árið 1763, dóttir franskra plantekrueigenda. Gvadelúpeyjar. Kort sem sýnir staðsetningu Gvadelúp í Karíbahafi. Gvadelúpeyjar (franskur framburður: [ɡwadəlup], Anttillísk kreólska: Gwadloup) er eyjaklasi í Karíbahafi, staðsett í Leewardeyjaklasanum og hluti af Litlu-Antillaeyjum. Eyjan er franskt umdæmi handan hafsins og því hluti Frakklands. Kristófer Kólumbus lenti á eyjunum í annarri ferð sinni 1493 og gaf þeim nafnið "Santa María de Guadalupe de Extremadura" eftir Maríulíkneski sem var í klaustri í Guadalupe í Extremadura á Spáni. Stærsta hérað og höfuðborg Gvuadelúp er Basse-Terre. Íbúafjöldi er um 443 þúsund og umdæmið hefur þjóðarlénið .gp. Saga Gvatelúp til 1800. Eyjan var kölluð "Karukera" (Eyja fallegra vatna) af Arawak fólki sem settist þar að um 300 eftir krist. Á 8. Öld komu Karíba frumbyggjar og drápu amer indjána á eynni. Í seinni ferð Kristófers Kólumusar til Ameríku, í nóvember 1493, varð Kristófer fyrsti Evrópubúinn til að stíga fæti á Gvadelúp, til að leita fersks vatns. Leiðangurinn nam land rétt sunnan Capesterre, en enginn settist þar að. Kólumbus er sagður hafa uppgötvað ananas á eyjunni Gvauadelúp árið 1493, þó að ávöxturinn hafði lengi verið ræktaðar í Suður-Ameríku. Hann kallaði það Piña de Indias, sem þýðir indíualdin. Á 17. öld börðust Caribs indjánar gegn spænska landnámsmönnum og yfirveguðu þá. Á næstu öld var eyjan náðu Bretar nokkrum sinnum yfirráðum á eyunni. Efnahagurinn hnignaði þar til sykurviðskipti voru kynnt á síðustu áratugum 17. Aldar.Árið 1763 voru Frakkar voru sigraðir í sjö dagastríðinu og samþykktu kröfur Kanada að láta Bretum eftur Gvadelúp, sem þeir höfðu náð í breskri innrás á Gvadelúpeyjar árið 1759. Árið 1790, í kjölfar Fransku byltinginar, er æðsti embættismaður Gvadelúp neitaði að hlýða nýjum lögum um jöfn réttindi um frelsi fólks eftir litarhafti reyndu þeir að lýsa yfir sjálfstæði, sem olli því að ólga braust út í Pointe-à-Pitre sem lagðist í rúst. Barátta milli konungssina (sem vildu sjálfstæði) og lýðveldissinna (sem voru trúir byltingarkenndu Frakklandi) framkvæmda, endaði með sigri konungssina sem lýstu yfir sjálfstæði árið 1791. Konungssinar neituðu að taka á móti nýjum landstjóra skipuðum í París 1792. Árið 1793,hófst þrælauppreisn, sem gerði efri stéttum nauðsynlegt snúa sér til Breta og biðja þá að hernema eyjuna. Bretland reyndi að eigna sér Gvadelúpeyjar árið 1794, og tókst á að halda stjórn frá 21. apríl þar til desember árið 1794, þegar Victor Hugues fékk Breta til að gefast upp. Hugues frelsaði þrælana. Þeir gerðu uppreisn og kveikti í þeim þræla eigendum sem stjórnuðu sykurplantekrunum. Napoleon Bonaparte braut samkomulagið þann 20. Maí 1802 sem gerði það að verkum að þrælahald hófst í öllum nýlendum breta sem þeir hertóku í frönsku byltingunni, en þetta átti þó ekki við um Gvatelúp, Gvæjana og Haítí. Napoleon sendi því leiðangursher sinn til þess að endurheimta eyjuna frá svörtum uppreisnarmönnum. Louis Delgrès og hópur uppreisnarmanna frömdu sjálfsmorð í hlíðum Matouba eldfjallsins þegar ljóst var að innrásarliðið myndi ná yfirráðum á Gvatilúp og með því gáfust upp. Innrásarliðið drap um það bil 10.000 Gvatelúpbúa í árásinni Kókoseyjar. Kókoseyjar (eða Keeling-eyjar) eru eyjaklasi í Indlandshafi miðja vegu milli Ástralíu og Srí Lanka og eru undir yfirráðum Ástralíu. Í eyjaklasanum eru tvær baugeyjar með samtals 27 kóraleyjum. Þær hétu upphaflega eftir skipstjóranum William Keeling sem uppgötvaði þær árið 1609. Þær voru óbyggðar fram á 19. öld. Andlitsókenni. Andlitsókenni (lat. "prosopagnosia", úr grísku) er dæmi um samband heila og hugarstarfsemi. Það lýsir sér þannig að fólk greinir ekki á milli andlita, sér engan mun á andlitunum og þekkir þess vegna ekki fólk af andlitinu. Þessu veldur galli í heilanum á því svæði sem sér um andlitskenni. Nánar tiltekið er þetta heilaskemmd á gagnaugablaði, oftast á hægra heilahveli. Keren Ann. Keren Ann (fædd Keren Ann Zeidel 10. mars 1974 í Cesarea í Ísrael) er söngvari sem aðhefst aðallega í París í Frakklandi. Fyrstu tvær plöturnar hennar voru sungnar á frönsku, sú þriðja á ensku og sú fjórða á ensku og frönsku. Hún er kominn af rússneskum gyðingaættum í gegnum föður sinn en af javönskum og hollenskum í gegnum móður sína. Hún bjó í Hollandi um tíma að 11 ára aldri, en þá flutti fjölskylda hennar til Frakklands, en hún hélt borgararéttindum sínum í Hollandi. Bermúda. Bermúda (eða Bermúdaeyjar) er breskt yfirráðasvæði í Atlantshafi. Svæðið er skattaparadís. Eyjarnar voru uppgötvaðar snemma á 16. öld, en voru fyrst byggðar þegar skipið "Sea Venture" braut þar árið 1609. Þessi atburður gæti hafa verið innblástur að leikritinu "Ofviðrið" eftir William Shakespeare. Angvilla. Angvilla er nyrst Hléborðseyja í Litlu-Antillaeyjaklasanum í Karíbahafi. Eyjan var áður hluti af bresku nýlendunni Sankti Kristófer-Nevis-Angvilla, en 1980 dró hún sig út úr því og hefur síðan verið sérstakt breskt yfirráðasvæði. Hún var fyrst numin af Bretum árið 1650. Spegilfruma. Spegilfrumur eru taugafrumur í heilanum sem „spegla“ vissa hegðan, bæði þegar einstaklingur framkvæmir vissa athöfn og einnig þegar hann tekur eftir sömu athöfn hjá öðrum einstaklingi. Spegilfrumurnar eru aðallega á svæðum sem notuð eru til að vinna úr tungumáli hjá manninum og eru af mörgum taldar lykillinn að skilningi einstaklings á aðgerðum annarra og til að læra með því að herma eftir. Giacomo Rizzolatti ásamt Leonardo Fogassi og Vittorio Gallese í Parmaháskóla á Ítalíu uppgötvaði spegilfrumurnar fyrir tilviljun á 9. og 10. áratug 20. aldar. Spegilfrumur er að finna í Broca-svæði mannsheilans sem er aðalmiðstöð heilans við upptöku tungumáls en þær er einnig að finna í neðra hvirfilblaði ("inferior parietal cortex"). Talið er að spegilfrumurnar þróist ekki rétt í börnum sem eru með einhverfu og vísbendingar eru um að starfsemi spegilfruma skerðist hjá þeim sem hafa orðið fyrir málstoli. Hvítur dvergur. Hvítur dvergur er geimfyrirbæri, sem myndast vegna þyngdarhruns sólstjarna og má kalla "kulnaða sólstjörnu". Þessar sólstjörnur skortir massann til þess að leysa úr læðingi nægan hita fyrir kjarnasamruna kolefnis. Eftir að stjörnurnar breytast í rauðan risa, á meðan vetnisbruna stendur, losa þær sig við ytri lög sín og mynda hringþoka. Eftir verður hreyfingarlaus þéttur kjarni sem samanstendur aðallega af kolefni og súrefni. Þessi afgangs kjarni þrýtur orku og mun smám saman geisla frá sér rytju orkunnar og kólna. Við þyngdarhrun verður kjarninn afar þéttur og er þetta eitt þéttasta form efnis sem þekkist (109kg.m-3) að undanskildum nifteindastjörnum. Massinn jafngildir um helming massa Sólar og stærðin er rúmleg stærð jarðar. Verði kjarninn þyngri en sem samsvarar 1.4 sólmössum springur sem gerð Ia sprengistjarna. Stjörnuflokkur hvítra dverga er "D". Brjóstvísir. Brjóstvísir (eða uppskrift eða hávísir) er í prentlist tala, tákn eða texti sem er hægra eða vinstra megin við annað tákn og birtist ofar á línunni. Notkun. Brjóstvísar eru notaðir í stærðfræðiformúlum sem veldisvísar, í kjarneðlisfræði til að gefa til kynna massatölu frumeindakjarna og í prentlist til að gefa til kynna neðarmálsgrein. Brjóstvísar í Unicode. Í Unicode eru fjölmörg tákn fyrir brjóstvísa, s.s. ⁰¹²³⁴⁵⁶⁷⁸⁹ fyrir veldisvísa ásamt öðrum táknum eins og ⁺⁻⁼⁽⁾ⁿ og ⁱ. Hnévísir. Hnévísir (einnig undirskrift eða lágvísir) er í prentlist tala, tákn eða texti sem er hægra eða vinstra megin við annað tákn og birtist neðar á línunni. Notkun. Hnévísar eru notaðir í efnaformúlum til að gefa til kynna fjölda atóma, t.d. er efnaformúlan fyrir vatn H2O sem þýðir að vatnssameind er sett saman úr tveimur vetnisatómum og einu súrefnisatómi. Hnévísar í Unicode. Í Unicode eru fjölmörg tákn fyrir hnévísa, s.s. ₀₁₂₃₄₅₆₇₈₉ fyrir tölurnar 0-9 ásamt öðrum táknum eins og ₊₋₌₍ og ₎. Mælskufræði. Mælskufræði (málskrúðsfræði, málskrúðslist, ræðufræði eða retórík) (fræðiheiti: "rhetorica") var fræðigrein í miðaldaskólum ásamt málfræði og rökfræði og flokkast sem ein hinna þriggja frjálsu lista sem nefndar voru einu nafni þrívegurinn ("trivium"). Ein af undirstöðum mælskufræðinnar er að gera sér grein fyrir stílbrögðunum sem notast er við þegar lagt er út af einhverju af mælsku. Í fornöld og á miðöldum var mælskufræði nauðsynlegur undirbúningur öllum þeim sem vildu gerast málafærslumenn. Mælskufræði var grundvallargrein til forna og á miðöldum, og var listin að koma fyrir sig orði og sinna málflutningi fyrir rétti, á þjóðarsamkomum (stjórnmálaumræðum) og til að halda lofræður. Höfuðáherslan var lögð á að orða ræðu sína á þann veg að áheyrendur snerust á sveif með málflytjanda. Elsta gerð mælskufræðinnar er kennsla í réttarræðum, málflutningi. Þessi grein hefst á Sikiley á 5. öld og berst síðan til Aþenu og Rómar. Elsta gríska ritið um mælskufræði sem varðveitt er í heilu lagi er "Mælskufræðin" eftir Aristóteles, samin á síðari hluta 4. aldar f.Kr. en fyrsta latneska kennslubókin í mælskufræði var „"Rhetorica ad Herennium"“ sem var samin um 80 f.Kr. og var lengi ranglega eignuð Cicero. Retorísk spurning. Retorísk spurning (stundum ræðuspurning) kallast stílbragð í mælskufræði sem er lagt fram sem spurning, retorískar spurningar eru notaðar þegar spyrjandinn býst ekki við svari heldur þegar hann vill koma einhverjum upplýsingum til skila (ekki er til dæmis búist við svari við ræðuspurningunni „hví ég Guð?“). Þessar upplýsingar geta verið dulbúnar skipanir („Hversu oft þarf ég að segja þér að taka til í herberginu þínu?“), bónir („Geturðu rétt mér kústinn?“), til að tjá yfirburði spyrjandans í samræðum eða til að ýja að því að aðspurður stígur ekki i vitið („Hversu oft þarf ég að útskýra þetta fyrir þér?“). Rökleysa. Rökleysa (latína: "non sequitur" sem þýðir ‚það fylgir ekki‘) í formlegri rökfræði er röksemd þar sem ályktunina leiðir ekki af forsendunni. Ályktunin getur þó verið sönn en röksemdin er þrátt fyrir það rökvilla. Allar formlegar rökvillur eru ákveðnar gerðir rökleysu. Dæmi um rökleysur. Fyrra dæmið heitir játun bakliðar en seinna dæmið heitir neitun forliðar. Rökleysur sem þessar stafa af því að fólk ruglast í meðferð á gildum ályktunarreglum eins og jákvæðri játunarreglu og neikvæðri neitunarreglu Adsman. Kort af Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Adsman (arabíska: عجمان, alþjóðlega hljóðstafrófið: /ʕʤma:n/) er það minnsta af Sameinuðu arabísku furstadæmunum við mynni Persaflóa. Landsvæði furstadæmisins er aðeins 260 km², eða svæðið kringum borgina og tvær hjálendur, Masfut og Manama, í Hadsarfjöllunum þar sem er stundaður landbúnaður. Íbúafjöldi Adsman er áætlaður um 270 þúsund (2004) og þar af búa flestir í höfuðborginni Adsman. Furstadæmið hefur vaxið bæði að stærð og í efnahagslegu tilliti sökum nálægðarinnar við Dúbæ. Adsman er þekkt fyrir skipasmíðar. einkum smíðar hefðbundinna arabískra seglskipa (dhow). Borgin er staðsett við náttúrulega vík þar sem slippirnir eru. Adsman er undir stjórn fursta af Al Nuaimi-ættinni. Núverandi fursti er Humaid bin Rashid Al Nuaimi (frá 1981) sem stjórnar landinu ásamt krónprinsinum Anmar bin Humaid Al Nuaimi. Efnahagur furstadæmisins hefur vaxið mikið undanfarin ár og byggir nú á framleiðslu neysluvara, fiskveiðum, frísvæðum og flutningum auk hefðbundinna skipasmíða. Dúbæ. Gervihnattamynd af Jumeirah-eyju við ströndina í Dúbæ. Dúbæ (arabíska:دبيّ, alþjóðlega hljóðstafrófið: /ðʊ-'bɪ/) er heiti á furstadæmi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og stærstu borg þess. Flatarmál furstadæmisins er 4.114 km² en heildarflatarmál ríkisins er um 83.600 km². Íbúar furstadæmisins eru 1.141.959 og þar af búa 1.137.376 í borginni. Dúbæ er einn dýrasti staður til að lifa á. Meðalverð íbúða er 250 milljónir íslenskra króna en meðal verðið er aðeins 20-25 milljónir íslenskra króna. Sett hafa verið upp ýmis sérhæfð frísvæði í borginni, eins og Dubai Internet City fyrir fyrirtæki í upplýsingatækni. Borgin er þekkt fyrir manngerðar eyjar, eins og Pálmaeyjarnar og Heiminn. Ómanflói. a> er vinstra megin og Ómanflói hægra megin. Ómanflói er sund sem tengir Arabíuhaf við Persaflóa (um Hormússund). Lönd sem eiga strönd að flóanum eru Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Óman. Hormússund. Hormússund (stundum einnig skrifað Hormuzsund eða Hormuz-sund) er mjótt sund milli Persaflóa og Ómanflóa. Norðan við sundið er Íran en sunnan megin eru Sameinuðu arabísku furstadæmin og hjálenda Óman. Help! Help! er nafnið á fimmtu plötu Bítlanna (e. The Beatles). Hún kom út þann 6. ágúst 1965 í Englandi en þann 13. ágúst í Bandaríkjunum. Eins og fyrri plötur Bítlanna var hún tekin upp í Abbey Road stúdíóinu í London undir stjórn George Martins og var umslagið hannað af Robert Freeman. Fyrstu sjö lögin á plötunni, öll lögin á fyrri hlið upprunalegu vínylplötunnar voru líka í kvikmyndinni "Help!", sem hafði verið frumsýnd stuttu áður. Þessi plata byrjar á laginu „Help!“ eftir John Lennon. Meirihluti laganna á plötunni er eftir Lennon/McCartney. Navassaeyja. Navassaeyja er lítil óbyggð eyja í Karíbahafi, hún er ein af smáeyjum Bandaríkjanna og sú eina þeirra sem ekki er í Kyrrahafinu.Ríkisstjórn Bandaríkjanna gerir tilkall til yfirráða yfir eyjunni og bandaríska fiska- og dýralífsstofnunin hefur umsjón með henni. Kalifornískur athafnamaður að nafni Bill Warren gerir einnig tilkall til eyjunnar, samkvæmt bandarísku Gúanóeyjalögunum. Haítí gerir einnig tilkall til eyjunnar. Landafræði. Navassaeyja er u.þ.b. 5,2 km² að flatarmáli. Hún er staðsett um 160 km sunnan við bandarísku herstöðina við Guantanamo-flóa á Kúbu, og u.þ.b. ¼ leiðarinnar frá Haítí til Jamaíka um Jamaíkasund. Hnit hennar eru 18° 24′0″N og 75° 0′30″V. Landslag eyjunnar samanstendur fyrst og fremst af berum klettum, en þó er nægilegt graslendi fyrir geitahjarðir. Wikivitnun. Wikivitnun (á ensku Wikiquote) er samstarfsverkefni sem svipar til Wikipediu. Verkefnið hefur það markmið að safna saman tilvitnunum. Marblettur. Marblettur eða mar verður vegna blæðingar út í húðvef, oftast af völdum höggs. Fólk sem skortir ýmiss næringarefni sem eru mikilvæg fyrir styrkingu húðar og æða fá oftar marbletti, fái maður oft marbletti við létt högg er vissara að athuga matarræðið. Sogblettur er dæmi um marblett. Munnmök. Munnmök nefnast þær kynlífsathafnir þegar munnur, varir og tunga eru notuð til að örva kynfæri. Slangur. Þegar karlmaður er þiggjandi er talað um að gerandinn "bóni hnúðinn", "gómi einhvern" eða að einhver "láti góma sig". Sumir hafa nefnt þetta "andlitsdrátt" í hálfkæringi. Þegar kona er þiggjandi er talað um að "sleikja einhverja að neðan", "bragða á Brasilíu", "smakka krákuna" eða "sleikja rottuna". Bjarni Þórir Þórðarson. Bjarni Þórir Þórðarson (30. desember 1966 - 5. október 2005 við Thisted í Danmörku), þekktastur undir nafninu Bjarni móhíkani, var íslenskur tónlistarmaður þekktastur fyrir að hafa komið fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík ásamt hljómsveitinni Sjálfsfróun. Bjarni dó aðfaranótt 5. október 2005 í bílslysi við bæinn Thisted í Danmörku. Anne Rice. Anne Rice (fædd Howard Allen O'Brien þann 4. október 1941) er höfundur hryllings– og ævintýrabókmennta sem snúast gjarnan um vampírur, múmíur og nornir. Hún var gift ljóðaskáldinu Stan Rice. Hún átti tvö börn, Christopher og Michelle Rice, en Michelle lést úr hvítblæði 1972. Christopher, sonur hennar, er þekktur fyrir að vera samkynhneigður skáldsagnahöfundur. New Tales of the Vampires. "(Aðrar vampíru sögur sem eru ekki hluti af seríunni að ofan, en tilheyra sömu tilbúnu veröld)" Erótískar bókmenntir skrifaðar undir dulnefninu A. N. Roquelaure. Rice, Anne Rice, Anne Vestri. Vestri eða kúrekamynd er kvikmyndategund og bókmenntategund sem upphaflega kemur frá Bandaríkjunum og segir sögur sem gerast í Villta Vestrinu (og stundum í Mexíkó, Kanada eða óbyggðum Ástralíu á sama tímabili) á síðari helmingi 19. aldar. Kvikmyndir af þessu tagi fjalla oft um einfara, sem venjulega er andhetja; kúreki eða byssumaður, sem ferðast um á hesti. Stundum verður hesturinn önnur aðalpersóna myndarinnar. Fyrsti vestrinn er talinn vera "Lestarránið mikla" frá 1903 sem er aðeins tólf mínútna löng þögul mynd. Gata. Gata er hugtak sem á vanalega við hluta lands í almenningseign sem gerir fólki kleift að ferðast á milli staða. Götur eru yfirleitt í þorpum, bæjum og borgum. Þær eru oftast malbikaðar, en get verið mun einfaldari, til dæmis lagðar möl, eða einfaldlega moldarstígar. Götur eru að mörgu leyti eins og vegir, en þó er margt sem greinir þar í sundur. Dæmi um götur eru göngugötur og sund, sem bílar geta ekki eða illa ferðast um. Aftur á móti er til dæmis þjóðvegurinn vegur, en ekki gata. Hernán Cortés. Hernán(do) Cortés (1485 – 2. desember 1547) var spænskur landvinningamaður sem lagði Mexíkó undir Spán. Hann ákvað ungur að reyna fyrir sér í Nýja heiminum og kom þangað fyrst árið 1506. Hann tók þátt í að leggja Kúbu og Hispaníólu undir Spán og hlaut að launum fyrir það stóra landareign og þræla. Ferðir Francisco Hernández de Córdoba og Juan de Grijalva til Júkatanskaga sannfærðu Cortés um að þar væri gnægð gulls að hafa, svo hann seldi eignir sínar fyrir skip og vistir til að leggja í leiðangur til meginlandsins. 1519 lagði hann upp frá Kúbu í óþökk landstjórans Diego Velázquez de Cuéllar með ellefu skip, 500 menn og fimmtán hesta. Þegar hann kom til Júkatan stofnaði hann staðinn Veracruz og lýsti landið eign Karls V Spánarkonungs. Brátt komu til hans sendimenn frá Montesúma II, keisara Asteka í borginni Tenochtitlán, með gjafir og gull sem þeir vonuðu að myndi halda Spánverjunum burtu, en hafði þveröfug áhrif. Cortés ákvað að reyna að byggja upp veldi í Mexíkó, í stað þess að ræna því sem hann gat og snúa aftur til Kúbu. Hann lét því sökkva öllum skipum leiðangursins, nema einum bát sem átti að halda uppi samskiptum við Spán, og hélt með menn sína inn í landið. Hópurinn kom til hinnar fljótandi borgar Asteka 8. nóvember 1519 og Montesúma bauð þá velkomna. En Cortés gerði kröfur um meira gull, og að musterum Asteka yrði breytt í helgidóma heilagrar Maríu. Hann tók Montesúma höndum sem tryggingu gegn uppreisn. Hann fékk þá boð um að Velázquez landstjóri hefði sent menn til að taka hann höndum fyrir óhlýðni. Hann hélt því með hluta liðs síns aftur til strandar og sigraði Kúbverjana. Þegar Cortés kom aftur til Tenochtitlán komst hann að því að menn hans höfðu drepið nær alla höfðingja Asteka, og að þeir sem eftir lifðu höfðu kjörið nýjan keisara, Cuitláhuac. 1. júlí 1520 reyndi Cortés að laumast með menn sína og hesta burt frá borginni í skjóli nætur. Ráðagerðin mistókst og endaði með stórorrustu þar sem yfir 400 Spánverjar voru drepnir og Cortés sjálfur slapp naumlega. Eftir þetta lét Cortés smíða tólf brigantínur til að setjast um borgina úr efnivið úr skipunum sem þeir höfðu sökkt við ströndina. Þegar umsátrið hófst lagðist bólusótt bæði á Spánverjana og íbúa borgarinnar. Veikin braut aftur baráttuþrek Astekanna og síðasti keisari þeirra Cuauhtémoc gafst upp fyrir Cortés 13. ágúst 1521. Cortés var gerður að landstjóra yfir Nýja Spáni. Sem slíkur reyndi hann að halda uppi reglu og barðist gegn stofnun plantekra, þar sem hann hafði séð hvaða skaða slíkur efnahagur olli á Kúbu og Hispaníólu. Hann sneri að lokum aftur til Evrópu þar sem hann lést í Castilleja de la Cuesta í héraðinu Sevilla á Spáni, vellauðugur maður. Tenglar. Cortés, Hernán Cortés, Hernán ...which was the son of. "...which was the son of" er a capella tónverk fyrir blandaðan kór. Verkið er samið af eistneska tónskáldinu Arvo Pärt í tilefni af alþjóðlega kórverkefninu Raddir Evrópu. Textinn við verkið er upptalning á ættartölu Jesú, rakin frá honum til Guðs. Verkið er tileinkað Þorgerði Ingólfsdóttur en hún var aðalstjórnandi Radda Evrópu. Hispaníóla. Hispaníóla (úr spænsku: "La Española") er önnur stærsta eyjan í Stóru-Antillaeyum. Kristófer Kólumbus kom þangað 1492 og stofnaði þar fyrstu spænsku nýlenduna í Nýja heiminum ári síðar. Eyjan skiptist milli landanna Haítí og Dóminíska lýðveldisins. 1492. Márakonungurinn Boabdil gefst upp fyrir Ferdínand og Ísabellu. Kólumbus tekur land á Hispaníólu. Sid Meier. Sid Meier (fæddur 1954) er þekktur tölvuleikjahönnuður. Hann hefur hannað nokkra af vinsælustu tölvuleikjum allra tíma. Meier hefur margsinnis verið heiðraður fyrir framlag sitt til tölvuleikjaiðnaðarins og er enn í dag talinn meðal stærstu nafnanna í þeim geira. Ferill. Sid Meier stofnaði MicroProse ásamt Bill Stealey árið 1982. Hjá MicroProse hannaði Meier leikinn sem hann er þekktastur fyrir, "Civilization". Meier yfirgaf að lokum MicroProse og stofnaði árið 1996 fyrirtækið Firaxis Games ásamt Jeff Briggs. Í dag gefur Firaxis út herkænskuleiki, en margir þeirra eru endurgerðir eldri leikja Meiers, svo sem "Civilization III" og "Pirates!". Árið 1999 varð Meier annar maðurinn til að komast í Academy of Interactive Arts and Sciences' Hall of Fame. Sá fyrsti var Shigeru Miyamoto frá Nintendo. Meier er hamingjusamur fjölskyldufaðir í Hunt Valley, Maryland. Tilvitnun. „Leikur er röð af áhugaverðum ákvörðunum.“ Tenglar. Meier, Sid 1519. a> sem komst alla leið umhverfis hnöttinn. 1520. a> Teikning úr handriti frá 16. öld. 1518. Erlendis. August 27 – Joan of Naples, queen consort of Naples (b. 1478) Göfugu sannindin fjögur. Hin göfugu sannindi fjögur eru kennd í búddisma sem grunnlífspeki Búdda sem búddísk heimspeki byggir á. 1 True sufferings (Sannindin um þjáningu - sönn þjáning) 2 True origins (Sannindin um uppsprettu - sönn uppspretta) 1515. Erlendis. a>. Mynd úr útgáfunni frá 1515. 1514. Erlendis. a> tekur við handriti þar sem frægum konum er sungið lof. Finnska. Finnska er tungumál rúmlega fimm milljóna manna, aðallega í Finnlandi en einnig í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Finnska tilheyrir flokki finnsk-úgrískra tungumála, en málaflokkurinn nær yfir landsvæði frá Noregi, inn í Síberíu og Karpatafjöll. Þessi málaflokkur nær einnig yfir tungumál eins og ungversku og eistnesku. Saga fólksins og tungumálsins í Finnlandi er mörgum nokkuð viðkvæmt viðfangsefni. Finnska, eins og mörg önnur tungumál, hefur orðið fyrir miklum menningaráhrifum frá öðrum löndum um langt skeið og er enn í þróun. Hin rétta saga tungumálsins er dularfull og jafnframt forvitnileg. Þar til nýlega var því haldið fram að forfeður þeirra Finna, sem nú byggja Finnland, hafi numið þar land fyrir um tvö þúsund árum og hafi komið úr austri. En núverandi tilgátur staðhæfa að Finnland hafi þegar verið byggt fólki fyrir um níu þúsund árum. Finnska virðist eiga rætur að rekja langt aftur til fortíðar. Sú finnska, sem töluð er af innfæddum í dag, er hinsvegar nokkuð nýleg smíð en ritmálið var búið til á 16. öld. Nútímafinnska kom til sögunnar á 19. öld og er sprottin af sterkri hreyfingu þjóðernissinna. Þegar Finnland varð sjálfstætt ríki árið 1917 varð Finnland að ríki þar sem töluð eru tvö tungumál, finnska og sænska. Þessi tvö tungumál teljast nú bæði opinber tungumál Finnlands þrátt fyrir að finnska sé ríkjandi í landinu (um 300 000 hafa sænsku að móðurmáli). Í finnsku er hvorki ákveðinn né óákveðinn greinir. Fleirtala er mynduð með viðskeitinu -t í nefnifalli og þolfalli en -i- í eignarfalli og í öllum öðrum föllum. Ef persónulegu eigendaviðskeiti er bætt við nefnifall eða þolfall í fleirtölu er t-viðskeitið ekki notað og fleirtölumerking látin skiljast af samhenginu. Nafnorð hafa fimmtán föll: nefnifall, þolfall, eignarfall, verufall, deildarfall, áhrifsfall, íverufall, úrferðarfall, íferðarfall, nærverufall, sviptifall, áferðarfall, aðferðarfall, samvistarfall og fjarverufall. Stafsetning er næsta stafrétt, það er að segja lítill sem enginn munur er á því hvernig málið er ritað og talað. a, o og ö eru eins og í íslensku, i er borið fram sem í, e sem i og ä (a með tvípunkti) sem e. Ufsilon er borið fram sem u og u sem ú. B, g og f koma aðeins fyrir í nýlegum tökuorðum, það er að segja þessi hljóð eru alfarið absent í náttúrulegri finnsku. 1511. a>. Hann var af fornri sænskri aðalsætt sem nefnist Natt och Dag. Ásta Sigurðardóttir. Ásta Sigurðardóttir (1. apríl 1930 - 21. desember 1971) var íslenskur rithöfundur og myndlistarkona. Ásta fæddist á Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu. Hún var dóttir Sigurðar Benjamíns Constantínusar Jónssonar og Þórönnu Guðmundsdóttur. Systir Ástu heitir Ástríður Oddný Sigurðardóttir og er tveimur árum yngri en Ásta. Ásta lést árið 1971, eftir langa baráttu við áfengisfíkn. Bækur og náttúra áttu hug Ástu í æsku, bækur þó stærri hlut. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1950. Ásta birti nokkrar af sögum sínum í tímaritum og myndskreytti sjálf. Hún þýddi einnig mikið af erlendum bókmenntaverkum t.d úr spænsku. Ásta birti eina af fyrstu módernísku smásögunum á Íslandi, en sú saga heitir „Í hvaða vagni?“ og birtist í Tímariti Máls og Menningar árið 1953. 1510. Portúgalski landvinningamaðurinn Afonso de Albuquerque. 1505. a> og minnismerki um inngöngu Marteins Lúther. Alþjóðaviðskiptastofnunin. Aðildarríki WTO merkt með grænum lit. Alþjóðaviðskiptastofnunin (enska: "World Trade Organization"; skammstafað "WTO"; Franska: "Organisation mondiale du commerce"; Spænska: "Organización Mundial del Comercio" skammstafað "OMC") er alþjóðastofnun sem hefur umsjón með mörgum samningum sem skilgreina þær reglur sem gilda um viðskipti aðildarríkjanna. Stofnunin var stofnuð árið 1995 og leysti af hólmi GATT-samningana og líkt og sá samningur hefur stofnunin það markmið að reyna að draga úr hömlum á milliríkjaviðskiptum. Höfuðstöðvar WTO eru í Genf í Sviss. Aðalframkvæmdastjóri er Pascal Lamy. Aðildarríkin eru 148, öll verða þau að fylgja grundvallarreglunni um bestukjaraviðskipti en í því felst að samskonar vörur frá mismunandi WTO-ríkjum eiga að fá sömu meðferð í innflutningslandinu (á þessu eru þó undantekningar). WTO er mikið gagnrýnd af andstæðingum hnattvæðingar. Uppruni. Samið var um stofnun WTO á fundi í Marrakesh í Marokkó þann 15. apríl 1994 og tók sá samningur gildi 1. janúar 1995. Stofnunin skyldi leysa af hólmi GATT-samningana ("General Agreement on Tariffs and Trade") sem eru nokkrir viðskiptasamningar sem farið var að gera uppúr síðari heimsstyrjöld til þess að stuðla að aukinni fríverslun. WTO tók þannig uppá sína arma þær reglur og venjur sem höfðu skapast í GATT-kerfinu og fékk það hlutverk að sjá um framkvæmd þeirra og þróa áfram. Hafa ber í huga að GATT var aldrei stofnun og var reyndar aldrei ætlað að vera annað en bráðabirgðalausn þangað til varanlegri stofnun yrði komið á fót. Upphaflega stóð til að koma slíkri stofnun á laggirnar á fimmta áratug 20. aldar og hefði hún hlotið nafnið "International Trade Organization", stofnskrá hennar var samþykkt á fundi í Havana á Kúbu í mars 1948 en Öldungadeild Bandaríkjaþings neitaði svo að fullgilda hana, án Bandaríkjanna hefði lítið gagn verið af svona stofnun og því var alveg fallið frá hugmyndinni. Helmingunartími. Helmingunartími er sá tími sem það tekur helming geislavirks efnis að sundrast. Hugtakið er notað í lyfjafræði og öðrum greinum. Rehabilitating Mr. Wiggles. Rehabilitating Mr. Wiggles eru teiknimyndasögur eftir Neil Swaab um kynferðislega brenglaðan bangsa að nafni Wiggles. Teiknimyndasögurnar snerta á skoplegan hátt á geðveiki, fíkn, kynlífi, mannhatri og vímu. "Rehabilitating Mr. Wiggles" teiknimyndasögurnar hafa birst í ýmsum tímaritum á borð við New York Press og í sérútgefnum safnbókum. Auk þess eru teiknimyndasögurnar birtar á vefsíðu Neil Swaab. Bangsi. Bangsi er tuskudúkka ætluð fyrir börn og eru oftast ímynd einhvers vinalegs dýrs, en algengasta gerðin er fegruð útgáfu af bjarndýri og þaðan er nafnið komið. Bangsi er nokkurskonar vinur og huggari lítilla barna, eitthvað til að faðma og kúra með þegar heimurinn er óblíður eða nóttin grúfir yfir. Oft verður bangsi að vana í fangi barns. Hjálenda. Hjálenda er svæði sem ekki er sjálfstætt ríki og er venjulega aðgreind frá meginlandinu, eða því ríki sem ræður yfir henni. Svæði sem talað er um sem "ósjálfstæðar" hjálendur eru gjarnan umdeild, hersetin, með útlagastjórn eða þar sem er umtalsvert fylgi íbúa við fullt sjálfstæði. Hagfræði. Í kauphöllinni í New York fara verðbréfaviðskipti fram augliti til auglitis. Hagfræði er hluti af hagvísindunum og er þar af leiðandi stundum talin vera félagsvísindagrein. Úthlutun takmarkaðra gæða. Hagfræði fjallar um dreifingu aðfanga (varnings og framleiðsluþátta) sem fullnægja mannlegum þörfum. Grunntilgátan er að gæði og aðföng séu takmörkuð. Þannig neyðast neytendur til að velja milli vinnuframlags og neyslu (hagsýnt lögmál). Í þessu samhengi þýðir skortur það að sá kostur sem valinn er útilokar alla aðra möguleika. Hagfræðingar kalla það fórnarkostnað. Þjóðhagfræðin leggur áherslu á val einstaklinga og hópa. Þar sem miðað er við hvatningu, vild og nyt sem ráði útkomunni. Rannsóknasviðið. Í hagfræðinni er heildar- og deildarhagfræðilegt samhengi og ferli rannsakað. Fjallað er um viðskipti, aðfangadreifingu, orsök velmegunar, myndun framleiðslu, dreifingu velmegunar í þjóðfélaginu, orsök hagkreppu og tengd viðfangsefni, til dæmis fjármál, skatta, atvinnu og atvinnuleysi, lög, fátækt, umhverfisvernd og margt fleira. Sjónarhorn á þátttakendur í hagkerfinu. Í mörgum líkönum hagfræðinnar er miðað við að manneskjan hagi sér rökrétt til að auka velmegun sína. Þessi forsenda kallast "homo oeconomicus" og er vissulega mikil einföldun en fylgismenn þessa líkans telja að órökrétt hegðun einstaklinga jafnast út í heildarskoðun. Nýrri rannsóknarlíkön auka tilgáturnar eða breyta þeim og taka tillit til órökréttar hegðunar í þeirra kenninga um hagsýn hegðun. Hér má nefna leikjafræði og nokkrir vísindamenn hafa hlotið nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir þessa sýn. Auk þess taka nýjustu hagsýn skoðun um þátttakandann tillit til tækifærissinnaðrar hegðunar ("opportunism ", Williamson) og einkennast jafnvel af undirferli og lymsku. Einnig eru kenningar sem taka tillit til andlegrar getu ("bounded rationality", Simon). Með því að víkja frá "homo oeconomicus" og bæta við þessum mannlegu eiginleikum er þróun til hinna nýju stofnanahagfræði. Þar að auki eru rannsóknir svo sem REMM ("resourceful, evaluating, maximizing man", Meckling) sem taka tillit til lærdomskúrfu einstaklinga. Verkfærin í hagfræði. Stærðfræðileg líkön eru mikilvæg í hagfræðinni því mikið er um rökleiðslur og skýrar forsendur. Þau ætlast ekki til að leiða til „mjúkrar“ niðurstöðu. Almenn hagfræðileg líkön eru kennd með einföldum talnareikningi og hliðrun kenniferla svo lítil þörf er á djúpri stærfræðilegri kunnáttu. Austurríski skólinn er meira að segja þeirrar skoðunar að þau líkön sem þess krefjast séu ekki bara óþarfi heldur gagnslaus fyrir hagfræðilega greiningu. Á síðustu árum hefur athyglin meira beinst að hagmælilegum verkefnum. Sérfræðiflokkar. Síðastliðin tugttugu ár hefur verið reynt að tengja þessar tvær hugmyndir. Í dag eru menn þeirrar skoðunar að góð þjóðhagfræðileg greining þurfi að grundvallast á rekstrarhagfræðilegum vísindum. Innan þessara sérfræðiflokka tveggja eru sérgreinar sem taka á ýmsum mannlegum þáttum. Aðferðafræði í hagfræðinni er sérgrein sem kallast hagmæling. Jarðeðlisfræði. Jarðeðlisfræði er undirgrein jarðvísindanna og eðlisfræðinnar sem fæst við rannsóknir á jörðinni. Þeir sem leggja stund á greinina kallast jarðeðlisfræðingar. Plötusamningur. Plötusamningur er samningur sem tónlistarmaður gerir við hljómplötuútgefanda um útgáfu á tónlist hins fyrrnefnda. Veðurfræði. Veðurfræði er sú vísindagrein sem fjallar um veður, þeir sem leggja stund á hana kallast veðurfræðingar. Veðurfræðingar semja m.a. veðurspár, stunda veðurfarsrannsóknir, hanna tölvulíkön til að spá fyrir um veður o.fl. Á Veðurstofu Íslands eru m.a. stundaðar rannsóknir á sviði veðurfræði og gerðar eru veðurspár fyrir Ísland og umhverfi þess. Alþjóða veðurfræðistofnunin er alþjóðleg stofnun á sviði veðurfræði tengdra greina. Brno. Brno (þýska: "Brünn") er næststærsta borg Tékklands. Borgin er staðsett í suðausturhluta landsins, í Móravíu-héraði. Borgin stendur við árnar Svratka og Svitava og er í 190-425 metra hæð yfir sjávarmáli. Íbúar borgarinnar eru um 405 þúsund talsins. Ostrava. Ostrava (þýska: "Ostrau") er þriðja stærsta borg Tékklands. Borgin er staðsett í norðausturhluta landsins, 326 kílómetrum austan við höfuðborgina Prag, um 10 kílómetrum sunnan við landamærin við Pólland og um 50 kílómetrum vestan við landamærin við Slóvakíu. Borgin er liggur í 200-335 metra hæð yfir sjávarmáli, í dal sem nefninst Móravíuhliðið ("Moravská brána" á tékknesku). Borgin þekur 214 ferkílómetra stórt svæði. Íbúar Ostrava eru um 315 þúsund talsins. Ostrava er ein helsta iðnaðarborg Tékklands. Undir borginni eru stórar kolanámur en þeim var öllum lokað eftir fall kommúnismans. Árnessýsla. Árnessýsla er sýsla á Suðurlandi sem staðsett er milli Þjórsár í austri og Hellisheiðar í vestri en nær þó vestur fyrir Svínahraun, niður undir Gunnarshólma. Sýslan einkennist af landbúnaði og ferðaþjónustu, sem eru meginatvinnuvegirnir. Í neðanverðri sýslunni er Flóinn svonefndi, mýrarsvæði milli Þjórsár, Hvítár (neðar Ölfusár) og strandarinnar. Ofar er þurrlendara og fjallendi inn til landsins. Þingvallavatn, stærsta vatn landsins, er í sýslunni, sem og þekktir ferðamannastaðir eins og Gullfoss, Geysir, Þingvellir og Þjórsárdalur. Sýslan dregur nafn sitt af eyju einni í Þjórsá þar sem þing voru haldin til forna. Jeff Buckley. Jeff Buckley (17. nóvember 1966 í Los Angeles í Bandaríkunum – 29. maí 1997 í Wolf River í Tennessee í Bandaríkjunum) var bandarískur söngvari og lagahöfundur. Hann var þekktur fyrir sæluvekjandi þriggja-og-hálfs átthendu rödd og er talinn af gagnrýnendum einn af efnilegustu tónlistarmönnum síns tíma eftir útgáfu hljómplötunnar Grace 1994. Hann drukknaði á hápunkti ferils síns við kvöldsund. Tónlistarmenn og gagnrýnendur gefa enn gaum að verkum hans og stíl. Æska. Hann fæddist í Los Angeles, Kaliforníu og var eini sonur Mary Guibert og Tim Buckley, sem sjálfur var lagahöfundur sem skrifaði seríu af dægur- og djassplötum á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar, sem voru víða lofaðar, rétt fyrir ótímabæran dauða 1975. Buckley var alinn upp af móður hans og stjúpfaðir Ron Moorhead (í nokkur ár) í Suður–Kaliforníu og í og við Orange County. Hann á hálf-bróður að nafni Corey Moorhead. Í bernsku var hann þekktur sem Scott „Scotty“ Moorhead, en um 10 ára aldur ákvað hann að nota fæðingarnafn sitt í minningu föður síns; fjölskyldan kallar hann samt áfram "Scotty". Þegar Jeff var fullvaxta, var hann sagður geta ákvarðað tónhæð nákvæmlega, vegna þess að hann gat hlustað á lag og hermt eftir því fullkomlega. Eftir að hafa spilað á gítar í aðeins fáein ár, gat hann spilað lög eftir Jeff Beck, Rush, Yes, Al DiMeola og Van Halen. Í gagnfræðiskóla spilaði hann í nokkrum heavy metal og framfarasinna rokk hljómsveitum. Einnig vildi hann læra á trommur, en vegna lítilla efna varð hann að notast við kaffi könnur í bílskúrnum og lærði þannig á trommur. Nokkur af hans uppáhaldsböndum í æsku voru Genesis, Yes og Rush. Fjall. Fjall er landslagsþáttur sem gnæfir yfir umliggjandi landslag. Fjall er venjulega hærra og brattara en hæð og fell. Orðsifjar. Orðið "fjall" er dæmi um a-klofningu frá orðinu "fell". Hugtak. Hugtak er óhlutbundin, almenn hugmynd, sem vísar til helstu sameiginda einstakra tegunda, hluta eða fyrirbæra. Handklæði. Handklæði er klæði sem dregur í sig vökva, handklæði eru oftast notuð af fólki til að þurrka sér, t.d. eftir sturtu. Soundhouse Tapes. "Soundhouse Tapes" er EP-plata með Iron Maiden. Hún var tekinn upp á gamlársdag 1978/79. 3 lög eru á henni í mjög hrárri útgáfu en það eru "Prowler", "Invasion" og "Iron Maiden". Fjórða lagið er „Strange World“ en það er demo-útgáfa. Hún var endurútgefin með Best of the Beast. Platan er ein af sjaldgæfustu gripum tengdum Iron Maiden. Hún var aðeins fáanleg í 5.000 eintökum og var aðeins hægt að panta hana í póstkröfu. Þjórsárdalur. Þjórsárdalur er dalur í Árnessýslu á Íslandi sem liggur á milli Búrfells við Þjórsá í austri og Skriðufells í vestri. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Merkisstaðir í Þjórsárdal eru t.d. Stöng, Gjáin, Háifoss, Þjóðveldisbærinn og Vegghamrar. Náttúrufar. Þjórsárdalur skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba, þar sem Fossá rennur í austari dalbotninum og Bergólfsstaðaá (framar Sandá) í hinum vestari. Innst í báðum dölum er Fossalda, en austan við Fossá er Stangarfell. Næsta fjall til suðvesturs er Skeljafell, þar næst Sámsstaðamúli og loks Búrfell. Þjórsá lokar dalinum til suður. Vestan við Fossöldu eru Flóamannafjöll, næst Dímon, Selhöfði, svo Skriðufell og Ásólfsstaðafjall. Undir Hagafjalli eru höfðarnir Bringa og Gaukshöfði og er oft talað um að Þjórsárdalur opnist við þann síðarnefnda. Inni í dalkróknum hjá Ásólfsstöðum og Skriðufelli er mikill skógur, bæði frá náttúrunnar hendi og nýrækt á vegum Skógræktar ríkisins. Þetta er gróðursælasta svæði Þjórsárdals, ásamt Búrfellsskógi. Þó hefur Skógrækt ríkisins staðið fyrir mikilli landgræðslu á "Vikrunum" svokölluðu, meðal annars með lúpínu og grastegundum. Vestan Fossár hafa vikrarnir líka verið græddir upp, mest innan afréttargirðingar Gnúpverja, en þar eru ólíka grastegundir. Framar er meira um melgresi. Í kringum Búrfellsvirkjun og Þjóðveldisbærinn hefur Landsvirkjun grætt upp og er þar meðal annars golfvöllur. Í Gjánni og á Kjóaflöt er gróðursælt, og er einstaklega friðsælt í Gjánni, þar sem Rauðá leikur sér um hamra og gil. Þar er mikið hvannastóð í kringum uppspretturnar, en líka margar tegundir mosa og grasa. Á eyrum Bergólfsstaðaár er nú verið að græða upp með grasi, en hægt er að segja að landið sé gróðursnautt allt frá dalbotni fram að þjóðvegi 32, en þar taka lúpínubreiður við. Eyðing byggðar í Þjórsárdal. Margskonar sögur og munnmæli eru til um eyðingu bæja á Íslandi fyrr á öldum, jafnvel gjöreyðingu heilla kirkjusókna. Þjórsárdalurinn er einn af þeim stöðum sem á slíkar sögur. Lengi hefur þó verið deilt um hvenær og hvers vegna byggðin í dalnum eyddist. Umræða fræðimanna hefur verið lífleg og á tímum einkennst af sterkum ágreiningi um þessi atriði. Eldgos hefur helst verið talið ástæða eyðingar, en kólnandi veðurfar, rýrari landgæði og farsóttir hafa sömuleiðis verið nefndar. Nýlegar kenningar hafa dregið í efa að hægt sé að benda á einhverja eina orsök í hverju tilviki og telja flóknari ástæður liggja að baki. Þjórsárdalur hefur verið viðfangsefni fornleifafræðinga í um 150 ár. Rústir af 12-15 bæjum frá miðöldum og nokkrar yngri hafa verið skoðaðar. Á einni jörð lagðist byggð ekki í eyði fyrr en árið 1693 þegar gaus í Heklu og á tveimur jörðum við mynni dalsins var búið fram á 20. öld. Upphaf rannsókna á eyðibyggð dalsins má rekja til miðrar 19. aldar, þegar Brynjúlfur Jónsson kortlagði fornleifar í dalnum. Hann fann merki um byggð á mörgum stöðum, samdi lýsingar, teiknaði upp grunnmyndir af tóftum, gerði yfirlitskort af horfinni byggð og gaf út í grein árið 1883, en hún markar upphaf skipulegra eyðibýlarannsókna á Íslandi. Brynjúlfur kveikti með þessu áhuga annarra fræðimanna á dalnum. Árið 1890 fór hann ásamt Þorsteini Erlingssyni skáldi og ritstjóra sem gerði fyrstu uppgreftina í dalnum og skömmu síðar fylgdi hann Daniel Bruun, fornleifafræðingi frá danska þjóðminjasafninu, á sömu slóðir. Skrif Bruuns um örlög dalsins vöktu athygli út fyrir landsteinana. Bruun kallaði Þjórsárdal „Pompei Íslands“ og það hafði mótandi áhrif á hugmyndir um eyðingu byggðar í dalnum, en nafngiftin gaf í skyn að hún hefði orðið af skelfilegum og skyndilegum náttúruhamförum. Í raun var lítið sem minnti á Pompei annað en eldfjallagjóskan sem lá yfir öllu. Þjórsárdalsleiðangur 1939. Sumarið 1939 kom leiðangur norrænna forleifafræðinga til Íslands og gerði umfangsmiklar rannsóknir í Þjórsárdal. Verkefnið spratt af áhuga á að rannsaka norræna húsagerð og þróun hennar í gegnum aldirnar, en einnig var áhugi fyrir því að athuga hvenær byggð í dalnum hefði lagst af. Dalurinn sem hafði áður verið frjósamur og fagur, einkenndist nú af sléttum af svartri gosösku. Grafnar voru upp rústir sex bæja, Skallakots, Stangar, Snjáleifartóttar, Áslákstungu fremri, Stórhólshlíðar og Skeljastaða. Ritið „Forntida gårdar i Island“ um uppgröftinn var gefið út í Kaupmannahöfn árið 1943. Í leiðangrinum var stigið mikilvægt skref í rannsóknum bæjarhúsa víkingaaldar og miðalda. Hann er þannig hápunktur mikils brautryðjandastarfs í byggingafornleifafræði á Norðurlöndum. Tveir leiðangursmanna voru ungir stúdentar sem áttu eftir að láta mikið að sér kveða á sviði fornleifa, Kristján Eldjárn, síðar þjóðminjavörður og forseti, og Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, en sá síðarnefndi lagði um þetta leyti grunn að gjóskutímatali, sem hefur reynst eitt helsta aldursgreiningartæki fornleifafræðinga á Íslandi. Í fyrstu hélt Sigurður því fram að allar rústirnar sem skoðaðar voru lægju undir gjóskulagi úr Heklu sem talið var hafa fallið árið 1300 og þá hafi byggð í dalnum lagst af. Þetta rímaði vel við ríkjandi hugmyndir um eyðingu dalsins og fornleifarnar sem komið höfðu í ljós við uppgreftina. Seinni tíma hugmyndir. Seinna endurskoðaði Sigurður greiningu sína á gjóskulaginu og taldi það vera úr fyrsta Heklugosinu sem varð á sögulegum tíma, árið 1104. Hefur það verið ríkjandi skoðun síðan að dalurinn hafi eyðist í því gosi og uppgreftir sem gerðir voru í Gjáskógum og á Sámsstöðum síðar þóttu styrkja þá túlkun. Í kjölfar enduruppgraftar Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar á Stöng hafa hinsvegar komið fram hugmyndir um að þrátt fyrir gríðarlegt gjóskufall árið 1104 hafi það ekki markað endalok byggðarinnar - þó það hafi ef til vill verið upphafið að endalokunum. Ýmsar vísbendingar eru um að byggðin hafi varað fram á 13. öld, bæði gripir sem fundist hafa og vitnisburður jarðvegs um beit. Ein hugmynd um endalok byggðar í Þjórsárdal er að hún hafi staðið höllum fæti vegna hnignandi landgæða, sem Heklugos hafi eflaust átt mikinn þátt í, en að ákvörðunin um að yfirgefa síðustu bæjarstæðin í dalnum hafi verið tekin til að varðveita skóglendið sem þar var. Sé þessi tilgáta rétt má segja að árangurinn hafi orðið góður, því að minnsta kosti eitt hundrað heimili á Suðurlandi sóttu skóg til kolagerðar í Þjórsárdal á 16. öld. Áhugaverðir staðir. Bærinn að Stöng var grafinn upp árið 1939 og var byggt yfir hann svo nú er hægt að sjá þar hvernig eldstæði og annað innbú leit út á söguöld. Göngubrú er yfir Rauðá rétt fyrir neðan Stöng. Frá Stöng er vinsælt að ganga að Gjánni. Þjórsárdalslaug er vestan Fossár, austur undir Rauðukömbum. Þar er heitur hver, og gnótt af heitu- og köldu vatni sem er sjálfrennandi að lauginni. Innar í dalnum er síðan Háifoss, en hann er annar hæsti foss á Íslandi. Skeiða- og Gnúpverjahreppur lét útbúa útsýnispall vestan í Stangarfelli og liggur vegur frá Hólaskógi að honum. Mun neðar í Fossár er Hjálparfoss, sem er tvískiptur foss í kvos einni á móts við Búrfell. Vegghamrar eru berghamrar miðja vegu milli Hallslautar og Rauðukamba. Undir þeim liggur hin forna Sprengisandsleið, og ríða fjallmenn Gnúpverja hér um á leið sinni til fjalls. Það er siður þeirra að senda nýliða hópsins til að setja stein í vörðu sem stendur í syllu einni. Megas (hljómplata). Megas er fyrsta hljómplata Megasar frá 1972. Platan var endurútgefin 1994 og 2002. Mjallhvít. a>Mjallhvít er þjóðsagnapersóna sem er þekkt úr mörgum ævintýrum frá Mið-Evrópu. Sagan er til í mörgum mismunandi útgáfum, þýskar útgáfur innihalda dvergana sjö og spegil drottningar, albönsk útgáfa hefur fjörutíu dreka í stað dverganna og enn aðrar útgáfur hafa ræningja í stað þeirra. Íslendingar kannast helst við útgáfu Grimmsbræðra með dvergunum sjö og spegli drottningar. Hávamál. Hinn hái eða Óðinn. Myndin gerð af sænska listamanninum Georg von Rosen 1886 Hávamál er kvæði úr eddukvæðum. Hávamál merkir "mál hins háa", en hinn hái er Óðinn og er kvæðið lífsspeki hans, og inniheldur hvortveggja hvunndagslegar ráðleggingar og háspekilegt efni. Eina forna eintakið af Hávamáli er að finna í Codex Regius, öðru nafni Konungsbók. Kvæðið er talið vera frá seinni hluta 13. aldar en ekki vita menn neitt um geymd þess fyrr en það kom í eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti 1643, og gaf hann því heitið Sæmundaredda. Einsætt er af ýmsum ritvillum, að Konungsbók er ekki frumrit, heldur eftirrit eldra handrits, sem enginn veit nein deili á. Kvæðið Hákonarmál (c. 960) eftir Eyvind skáldaspilli er elsti ritaði ívitnunarstaður kvæðisins, þ.e. elsta heimild um að þess sé getið. Hávamál er safn fjölda kvæða, allt í allt 164 erindi, sem skiptast í 6 þætti. Bragarháttur Hávamála nefnist ljóðaháttur. Hávamál skipa veglegan sess í trú Ásatrúarfólks. Loðfáfnismál. Næsti stóri hluti Hávamála fjallar um siðferði, siðfræði, um rétta hegðun og reglur um stjórnun. Talað er til Loðfáfnis og dregur þessi hluti nafn sitt af því: Loðfáfnismál, en Loðfáfnir er staðgengill þeirra sem lesa eða hlusta. Ljóðatal. Ljóðatal, síðasti hluti Hávamála, er mjög háreist í háspeki og fjallar um útbreiðslu menntunar og dulspeki Óðins. Í eðli sínu er það listi og lykill að röð af rúnagaldri. Það eru tengsl milli Ljóðatals og Sigrdrífumála, þar sem valkyrjan Sigrdrífa segir frá þeim rúnum, sem hún hefur vald á. Í kaflanum telur Óðinn upp fimbulljóðin níu sem hann hefur lært. Að senda rót með rúnagöldrum á er vel þekkt í norrænum ritum. Til dæmis var það orsök dauða Grettis sterka Ásmundarsonar. A-vítamín. A-vítamín (retínól) er fituleysanlegt vítamín. Það er nauðsynlegt fyrir sjón, ónæmiskerfið, frjósemi, slímhimnur, vöxt og stýringu erfða. A-vítamín fæst úr mat og hægt er að finna töluvert magn í til dæmis lifur, fisk, eggjum og mjólkurvörum, en einnig er töluvert af A-vítamíni í dökkgrænu eða gulu grænmeti. A-vítamín geymist lengi í líkamanum. Það geymist í lifrinni og fituvefjum til notkunar síðar meir. Ráðlagður dagskammtur er um það bil eitt milligramm á dag. Ofneysla á A-vítamíni getur leitt til eitrunar. Það á við ef meira en 15 gramma er neytt á einum degi. Barnshafandi konur verða einnig að gæta varúðar, því stór skammtur af A-vítamíni eykur hættu á vansköpun. Mikill skortur á A-vítamíni getur leitt til sýkinga, náttblindu (og síðar blindu) og jafnvel dauða. A-vítamínskortur er þó heldur sjaldgæfur. 1562. Lágmynd af Götz von Berlichingen. 1563. a> leggur undir sig Älvsborg í sjö ára stríðinu. 1564. a>. Málverk eftir Jacopino del Conte. Noam Chomsky. Noam Chomsky (fæddur 7. desember 1928) er bandarískur málvísindamaður, rithöfundur og virkur þátttakandi í stjórnmálum. Hann er prófessor emeritus í málvísindum við Massachussettes Institute of Technology (MIT). Þar hefur hann starfað síðan 1955. Noam Chomsky hefur gefið út rit og haldið fyrirlestra um málvísindi, heimspeki og stjórnmál. Hann er þekktur fyrir baráttu sína fyrir auknu lýðræði og félagslegu réttlæti. Mikið hefur borið á honum frá því að á Víetnamstríðinu stóð en hann hefur oft gagnrýnt utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Chomsky er gjarnan álitinn einn helsti hugsuður vinstrisinnaðra í Bandaríkjunum en hann forðast þó sjálfur að nota hugtakið „vinstrisinnaður“ um eigin stjórnmálaskoðanir. Sjálfur lýsir hann sé sem anarkista. Árið 1968 gaf Chomsky út bókina "The Sound Pattern of English" ásamt málfræðingnum Morris Halle. Bókin er álitin vera grunnurinn að nútímamálvísindum, þar á meðal hugmyndinni um að tungumálið er meðfæddur eiginleiki („generatíf“ málfræði). Síðan hefur Chomsky talist vera einn fremsti málfræðingur og málvísindamaður nútímans. Samkvæmt Arts and Humanities Citation Index var vitnað í rit Chomskys oftar en í rit nokkurs annars lifandi manns á árunum 1980-1992. Hann er áttundi á lista þeirra sem hefur verið mest vitnað til frá upphafi. Chomsky hefur skrifað yfir hundrað bækur. Í september 2011 var Chomsky öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs á aldarafmæli Háskóla Íslands. Fullt var út úr dyrum í stóra sal Háskólabíós og sömuleiðis í sal 1 þangað sem erindi Chomskys var varpað á tjald. Ennfremur sátu fjölmargir í anddyri Háskólabíós og fylgdust með af skjáum þar. Tengill. Chomsky, Noam Chomsky, Noam Hekluskógar. Loðvíðir og birki við syðri mörk Hekluskóga á Langöldu (milli Gunnarsholts og Keldna) Hekluskógar eru samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Suðurlandsskóga, Landgræðslusjóðs, Skógræktarfélaga Rangæinga og Árnesinga og landeigenda á svæðinu. Verkefnið snýr að því að planta birkiskógi á 90.000 hektara svæði umhverfis Heklu til að hefta fok á lausum jarðefnum, þ.e. ösku, sem fylgja eldgosum. Svæðið nær frá Keldum og Gunnarsholti að Þjórsá og í Þjórsárdal auk þess sem plantað verður í allt að 600 metra hæð í Heklu-hlíðum. Richard Wagner. Richard Wagner á síðari árum Wilhelm Richard Wagner (22. maí 1813 í Leipzig – 13. febrúar 1883 í Feneyjum) var mikilsmegandi þýskt tónskáld, hljómsveitastjóri, tónlista hugmyndafræðingur og ritgerðahöfundur. Hann er helst þekktur fyrir framúrskarandi sinfóníu-óperur („tónlistar drama“) sínar. Tónverk hans voru eftirtektarverð fyrir samfelda kontrapunkts samsetningu, ríkan samhljóm og hljómsveitarútsetningu. Einnig fyrir vandaða notkun leiðsögustefa: þema tengt ákveðnum persónum eða ástandi. Krómatískt (þýska:"Chromatik") tónlistarmál Wagner boðaði þróun síðar í Vínarklassík, þar á meðal öfgakennda krómatík og ótóntegundabundin stíl. Hann breytti tónlistar hugsun með hugmynd sinni um heildarlistaverk (þýska: "Gesamtkunstwerk"), fjórfalda óperuverk hans Niflungahringurinn (1876) var ímynd þessa stíls. Hugmynd hans um leiðsögustef og samþætta tónlistar tjáningu hafði mikil áhrif á kvikmyndatónlist 20. aldar. Wagner var afar umdeild persóna, bæði vegna tónlistar hans og dramatískrar nýbreytni, og vegna þess að hann var hávær andstæðingur evrópska gyðinga. Richard Wagner og Ísland. Útdráttur úr Niflungahringnum var sýndur í Þjóðleikhúsinu á listahátíð sumarið 1994, að frumkvæði Selmu Guðmundsdóttur píanóleikara og Árna Tómasar Ragnarssonar. Meðal þeirra sem voru viðstaddir var Wolfgang Wagner, sonarsonur tónskáldsins, og fleiri leiðtogar óperuhátíðarinnar í Bayreuth í Þýskalandi. Íslenska Wagnerfélagið var formlega stofnað í desember 1995 með það að markmiði að kynna tónlist Richards Wagners og gangast fyrir ferðum á óperuhátíðina í Bayreuth á hverju ári. Félagsmenn eru um 200. Selma Guðmundsdóttir er formaður. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur hefur samið bókina "Wagner og Völsungar. Niflungahringurinn og íslenskar fornbókmenntir", Rvík 2000, 222 bls. Tengill. Wagner, Richard 1523. a> heldur innreið sína í Stokkhólm 1523. 1551. a>. Héðan voru íbúar eyjarinnar fluttir í þrældóm til Líbýu. 1556. Erlendis. a> erkibiskup. Málverk eftir óþekktan listamann. K-vítamín. K-vítamín er fituleysanlegt vítamín. Það er mikilvægt fyrir blóðstorknun. K-vítamín dregur nafn sitt af k-inu í alþjóðlega orðinu fyrir blóðstorknun, "koagulation". Til eru tvær gerðir af K-vítamíni. K1-vítamín (einnig kallað fýtómenadíón) fæst úr grænum plöntum. K2-vítamín (öðru nafni menakínón) verður til vegna gerla í þörmum. Ráðlagður dagskammtur af K-vítamíni er 0,08 milligrömm fyrir karla og 0,065 milligrömm fyrir konur. Undir eðlilegum kringumstæðum fær fólk nóg af K-vítamíni úr mat og er skortur á því sjaldgæfur, ef ungbörn eru undanskilin. Helst er hætta á K-vítamínskorti ef barn er fyrirburi, ef mataræði er mjög einhæft eða vegna töku ákveðinna lyfja. K-vítamínskortur lýsir sér sem aukin hætta á blæðingum. Of mikil neysla K-vítamíns getur skaðað rauðu blóðkornin hjá ungbörnum, en öðrum stafar ekki hætta af of miklu K-vítamíni. 1584. Kort af Roanoke-eyju frá 1584. Hunangsflugur. Hunangsfluga (fræðiheiti: "Bombus") er vængjað og flugfært félagsskordýr af samnefndri ættkvísl af hunangsfluguætt (einnig kölluð býflugnaætt). Hunangsflugur, líkt og býflugur sem þær eru skyldar í gegnum hunangsfluguætt, nærast á blómasafa og safna frjódufti til að fæða afkvæmi sín. Hunangsflugur á Íslandi. Á Íslandi eru þrjár tegundir hunangsflugna; móhumla ("Bombus jonellus") sem hefur líklega verið á Íslandi frá lokum síðustu ísaldar, garðhumla ("Bombus hortorum") sem nam land um 1960 og húshumla ("Bombus lucorum") sem nam land árið 1979. Jarðhumla ("Bombus terrestris") hefur líka haft einhverja viðkomu á landinu. Að auki hafa rauðhumlur ("Bombus hypnorum") nýlega sést á Íslandi og er talið líklegt að þær festi rætur þar. Það er algengur misskilningur að hunangsflugan deyi eftir að hafa stungið en svo er ekki, hún er yfirleytt friðsæl og stingur ekki nema að henni sé ógnað en hún getur stungið oftar en einu sinni. 1554. a> tekin af lífi. Málverk eftir Paul Delaroche. 1521. a> páfi lést sama ár og hann bannfærði Lúther. 1581. Erlendis. a>, mynd frá 1581 eftir Nicholas Hilliard. 1590. a>, sem skemmst hefur setið í embætti allra páfa. 1522. a> þegar hann var að leita sér að nýrri eiginkonu og sendi Holbein í leiðangur til að mála myndir af evrópskum prinsessum. Kristín á að hafa sagt að ef hún væri með tvö höfuð skyldi hún glöð láta Hinrik kóng fá annað þeirra. Bláa Níl. Bláa Níl er önnur aðalþverá Nílar (hin er Hvíta Níl). Hún á upptök sín í Sakala-uppsprettunum norðan við Tanavatn í Eþíópíu í um 1.800 m hæð og rennur þaðan yfir Eþíópíuhásléttuna um allt að 1.500 metra djúpar gjár um 1.600 km langa leið þar til hún mætir Hvítu Níl við Kartúm í Súdan. Bláa Níl heitir svo vegna þess að vatnið í henni er oftast miklu tærara en gráleitt vatnið í Hvítu Níl. Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Ásta Kristjana Sveinsdóttir (fædd 5. október 1969 í Reykjavík á Íslandi) er íslenskur heimspekingur búsettur í San Francisco í Bandaríkjunum. Ásta Kristjana er fjórða íslenska konan, sem hefur lokið doktorsprófi í heimspeki og sú fyrsta, sem lýkur doktorsprófi á sviði frumspeki. Ásta Kristjana tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1989 og hélt svo til háskólanáms í Bandaríkjunum. Hún er BA í stærðfræði og heimspeki frá Brandeis háskóla, 1992, AM í heimspeki frá Harvard háskóla, 1997, og PhD í heimspeki frá Massachusetts Institute of Technology (MIT), 2004. Doktorsritgerð Ástu Kristjönu hét "Siding with Euthyphro: Response-Dependence, Essentiality, and the Individuation of Ordinary Objects". Ásta Kristjana var gistilektor á Vassar College í New York fylki veturinn 2004-2005 og hefur verið lektor í heimspeki í Ríkisháskólanum í San Francisco frá hausti 2005. Ásta Kristjana fæst einkum við frumspeki og hugspeki og efni þar sem frumspeki og aðrar undirgreinar heimspekinnar mætast, svo sem málspeki og þekkingarfræði, siðfræði og fagurfræði. Þverá. Þverá er á sem rennur inn í aðra á við ármót og sameinast henni, en rennur ekki sjálf til sjávar, andstæðan við þverá er árkvísl. Örnefnið Þverá er eitt algengasta árnafn á Íslandi Vilhjálmur Árnason. Vilhjálmur Árnason (fæddur 6. janúar 1953 í Neskaupstað á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1973, B.A.-gráðu í heimspeki og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1978 og hlaut kennsluréttindi árið 1979. Að loknu námi við Háskóla Íslands hélt Vilhjálmur utan í nám. Hann hlaut M.A.-gráðu í heimspeki frá Purdue háskóla í Indiana fylki í Bandaríkjunum árið 1980 og Ph.D.-gráðu frá sama skóla árið 1982. Hann var Alexander von Humboldt styrkþegi í Berlín árið 1993. Veturinn 1976-1977 kenndi Vilhjálmur íslensku við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað. Hann var stundakennari í heimspeki við Menntaskólann við Sund veturinn 1977-1978 og var auk þess leiðbeinandi í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands. Á árunum 1983-1988 var Vilhjálmur stundakennari í heimspeki við Heimspekideild, Guðfræðideild og Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann varð lektor í heimspeki við sama skóla árið 1989, dósent árið 1990 og prófessor árið 1996. Vilhjálmur er Visiting fellow við Clare Hall í Cambridge University á Englandi á vormisseri 2006. Vilhjálmur hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Siðaráðs Landlæknis árin 1998-2000 og hefur verið formaður stjórnar Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1997. Vilhjálmur var varaformaður stjórnar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands árin 1995-1997. Hann er fulltrúi hugvísindasviðs í háskólaráði Háskóla Íslands. Vilhjálmur var ritstjóri Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags frá 1997-2003 (ásamt Ólafi Páli Jónssyni frá 2002) og ritstjóri "Skírnis" árin 1987-1994 (ásamt Ástráði Eysteinssyni frá 1989). Vilhjálmur fæst einkum við siðfræði, bæði fræðilega og hagnýtta siðfræði. Hann hefur birt fræðilegar greinar um þau efni víða, bæði á íslensku og erlendum málum. Bók hans "Siðfræði lífs og dauða" var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Forseta Íslands árið 1993. Hún var gefin út aukin og endurbætt 2003 og kom út í þýskri þýðingu 2005 hjá LIT–Verlag undir heitinu "Dialog und Menschenwürde. Ethik im Gesundheitswesen". Á (landslagsþáttur). Jörðin beggja megin við ána er kölluð árbakki. Á byrjar venjulega sem spræna eða lækur sem myndast yfirleitt af Talað er um að ár hafi ákveðið vatnasvæði sem er það svæði sem vatnið sem í ánni er kemur frá. Eftir því sem lækur verður vatnsmeiri er venjulega byrjað að kalla hann á þó ekki sé til nein vísindaleg skilgreining á hvað telst lækur og hvað teljist á og eftir því sem áin verður stærri og vatnsmeiri er fljótlega byrjað að kalla hana fljót. Ár yfirleitt flokkaðar í þrjá flokka eftir eðli þeirra og rennsli, þ.e. í lindár, dragár og jökulár. Lindár. Lindá kallast á sem hefur upptök sín í lindum eða uppsprettum þar sem vatn sprettur fram úr bergi. Hitastig og vatnsmagn lindáa eru jöfn allt árið og við upptökin leggur þær ekki. Lindár eru tærar og lygnar, auk þess sem bakkar þeirra eru vel grónir. Dragár. Dragár eru bundnar við svæði með fremur þéttum berggrunni. Dragár eiga það sameiginlegt að hafa sér engin sjáanleg upptök. Dragár verða oftast til úr dældum, daladrögum eða sytrum en stækka smátt og smátt þegar neðar dregur. Rennsli dragár er mjög háð úrkomu. Þær geta því verið mjög vatnslitlar einn daginn en stærðar fljót þann næsta. Jökulár. Jökulár koma undan jöklum og verða til við bráðnun jökulíss. Vatnsmagn jökuláa fer því eftir lofthita og eru þær þess vegna mun vatnsmeiri seinnipart sumars heldur en á veturna. 1579. a> gerði árið 1579 og sýnir þá hluta Ameríku sem þá höfðu verið kannaðir. 1589. a>, drottning Frakklands, móðir þriggja Frakkakonunga og tengdamóðir eins. Róbert H. Haraldsson. Róbert Hilmar Níels Haraldsson (fæddur 5. október 1959) er íslenskur heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Róbert lauk B.A.-gráðu í heimspeki og sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1985. Að námi loknu við Háskóla Íslands hélt Róbert til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Róbert nam heimspeki við University of Pittsburgh og lauk þaðan M.A.-gráðu árið 1989 og Ph.D.-gráðu árið 1997. Róbert kenndi við Gagnfræðaskóla Hveragerðis veturinn 1984-1985. Hann kenndi við University of Pittsburgh árin 1988-1991, 1993 og 1996 og var stundakennari við Fósturskóla Íslands árin 1992-1993 og var stundakennari við Háskóla Íslands 1992-1995. Róbert varð lektor í heimspeki við Háskóla Íslands árið 1996 og dósent við sama skóla 2002. Hann hlaut prófessors-nafnbótina þann 1. september 2007. Róbert hefur verið forstöðumaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands frá 2003. Hann hefur verið ritstjóri "Sats", samnorræns tímarits um heimspeki, frá 2001. Róbert var formaður Félags háskólakennara 1999-2002. Hann var ritstjóri "Skírnis" árin 1995-1999 (ásamt Jóni Karli Helgasyni). Róbert fæst aðallega við 19. aldar heimspeki, einkum heimspeki Friedrichs Nietzsche, Ralphs Waldos Emerson, Henrys Davids Thoreau og Johns Stuarts Mill, og tengsl heimspeki og skáldskapar og kvikmynda. Stöng (bær). Þjóðveldisbærinn er eftirlíking af bænum Stöng. Stöng í Þjórsárdal er einn þekktasti bærinn frá þjóðveldisöld. Hans er fyrst getið í Landnámabók og Islendingabók. Í Landnámu er getið Þorbjarnar laxakarls sem á að hafa numið Þjórsárdal allan. Í þremur Landnámugerðum er Gauks í Stöng getið sem afkomanda Þorbjarnar. Þar er elsta heimild um bæjarnafn í Þjórsárdal.. Talið er að bærinn hafi farið í eyði árið 1104 eftir mikið öskugos í Heklu. Þá er talið að byggð í Þjórsárdal hafi alveg lagst af, jafnt á Stöng, Skeljastöðum, sem var framar í dalnum, og fjölda annarra bæja. Árið 1939 var Stangarbærinn grafinn upp og byggt yfir hann svo fólk geti áttað sig á búsháttum á þessum tíma. Bærinn. Framhlið bæjarins snýr í suðvestur. Austarlega á framhlið bæjarins eru einu útidyrnar á bænum, inn úr þeim er gengið beint inn í skálann. Skálinn sjálfur er 17 metra langur og 6 metra breiður. Vestan við útidyrnar er stallur þvert yfir skálann. Á þessum stalli hefur að öllum líkindum staðið veggur úr timbri. Í austurhorni skálans er afmarkað með grjóti ferhyrnt svæði, hugsanlega hefur þetta verið eldiviðar eða verkfærageymsla. Á móti afmarkaða svæðinu er einskonar hola eða þró í gólfinu og er hún hellulögð í botni og á hliðum. Í þessari holu voru fáein dýrabein en engin ummerki um eld svo hún hefur ekki verið notuð til kyndingar eða matreiðslu. Tilgangur þessarar holu er ekki þekktur en samskonar holur hafa fundist í fleiri bæjum. Í skálanum sjálfum eru set meðfram veggjum og hverju seti skipt í fimm hvílurúm. Gólfið í skálanum er ögn niðurgrafið og hefur því verið lægra en við innganginn. Á miðju gólfi er langeldur sem nýttist bæði til kyndingar og matreiðslu. Úr vesturendanum á skálanum er gengið inn í stofu sem er 8 metra löng og 4 metra breið. Meðfram veggjum hafa verið bekkir. Fyrir stafninum á stofunni var pallur og á þessum palli hefur vefstaðurinn staðið þar sem þar fannst töluvert magn kljásteina. Í stofunni fundust líka snældusnúðar sem bendir til þess að þar hafi tóvinna að mestu farið fram. Úr skála er einnig gengið inn í búr sem er 7 metra langt og 2.3 til 2,6 metrar á breidd. Í gólfinu eru för eftir sái sem hafa verið grafnir niður á móhellu. Annað útihús er líka byggt við skálann. Það hús er að öllum líkindum kamar. Eftir endilöngu húsinu eru hlaðnir rennustokkar sitt hvoru megin. Einnig eru þar steinar sem búið er að höggva úr eins og fyrir stöngum sem menn hafa þá setið á meðan þeir sinntu kalli náttúrunnar. Kirkjan. Við bæinn stendur einnig lítil kirkja eða bænahús. Útihús. Við bæinn stendur fjós með 18 básum hvoru megin. Fjósið er uppblásið. Við bæinn er einnig ferhyrnt gerði sem er hlaðið úr torfi og hefur að öllum líkindum verið nátthagi. Við bæinn er líka smiðja og er þessi smiðja ein sú best varðveitta hér á landi. Við fornleifarannsóknir 1992 til 1993 kom í ljós eldri smiðja frá 10. öld en ofan á hana hefur verið reist kirkja, hugsanlega um svipað leyti og nýrri smiðjan sem er frá 11. til 12. öld. Endurgerð. Í tilefni af 1.100 ára afmæli byggðar á Íslandi 1974 var ákveðið að byggja Þjóðveldisbæinn undir Sámsstaðamúla, en hann er eftirlíking Stangarbæjarins. Gjáin. Gjáin er gljúfur í Þjórsárdal með mörgum lindum og fossum. Stærsti fossinn heitir Gjáfoss (eða Gjárfoss). Í Gjánni rennur Rauðá sem sprettur upp í Rauðárbotnum milli Sandafells og Fossheiðar, miklu ofar á afréttinum. Hverfur hún síðan niður í sandinn á Hafinu svokallaða og kemur fram úr jörðinni aftur í Gjánni. Í Gjánni eru fallegar bergmyndanir, stuðlað hraun og móberg. Hraunið nefnist Þjórsárdalshraun og þekur allan dalbotninn neðan við Gjána. Það er hluti af stærra hrauni sem einu nafni nefninst Búrfellshraun og kom upp í gígaröð við Veiðivötn fyrir um 3000 árum. Ætihvönn og gróskumikill blómgróður vex við lindalækina í Gjánni. Bærinn Stöng í Þjórsárdal stendur við Rauðá neðan við Gjána. Áður en Búrfells- og Sultartangavirkjanir voru byggðar, flæddi Þjórsá stundum yfir Hafið og niður í Gjána svo Rauðá (og Fossá) urðu stundum mórauðar í leysingum. Háifoss. Háifoss er foss í Fossárdal á Íslandi, innst í Þjórsárdal, sem er talinn vera annar hæsti foss landsins, 122 metrar á hæð. Við hlið hans er fossinn Granni, en nafnið er dregið af nágrenninu við Háafoss, en ekki vatnsmagninu. Þjóðveldisbærinn. Þjóðveldisbærinn er bær neðan Sámsstaðamúla í Þjórsárdal á Íslandi reistur á árunum 1974–1977. Hann átti að sýna á sem raunverulegastan hátt hvernig stórbýli á söguöld litu út. Hörður Ágústsson teiknaði bæinn með hliðsjón af bæjarrústunum á Stöng í Þjórsárdal og rannsóknum sínum á íslenskri húsagerð á fyrri öldum. Árið 2000 var komið fyrir við bæinn lítilli stafkirkju. Kirkjan er útkirkja frá Stóra-Núpi og þjónar sóknarpresturinn fyrir altari í þeim fáum messum sem haldnar eru þar. Atli Harðarson. Atli Vilhelm Harðarson (fæddur 6. janúar 1960 í Biskupstungum á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og framhaldsskólakennari. Atli hefur lengst af kennt við Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og varð aðstoðarskólameistari skólans árið 2001. Árið 2011 var hann skipaður skólameistari sama skóla. Hann kenndi við Menntaskólann á Laugarvatni árin 1996-1998. Hann hefur einnig fengist við rit- og fræðastörf og skrifað bækur um heimspeki og tölvunarfræði. Menntun. Atli gekk í Barnaskóla Biskupstungna og lauk námi þaðan árið 1974. Hann lauk landsprófi árið 1975 frá Skálholtsskóla og nam eftir það við Menntaskólann á Laugarvatni þaðan sem hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild árið 1979. Að stúdentsprófi loknu hélt hann til Reykjavíkur í háskólanám. Hann nam heimspeki við Háskóla Íslands og lauk B.A.-gráðu í heimspeki og bókmenntum árið 1982. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna. Atli hlaut M.A.-gráðu í heimspeki frá Brown University í Providence á Rhode Island. Hann hefur einnig lokið námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands. Heimspeki. Í heimspeki fæst Atli einkum við stjórnspeki, þekkingarfræði og frumspeki auk sögu heimspekinnar. Sjálfur segir Atli á vefsíðu sinni að hugsun hans hafi orðið fyrir mestum áhrifum frá höfundunum René Descartes, Thomas Hobbes, G.W.F. Hegel og John Stuart Mill og frá rökfræði, rökgreiningarheimspeki og stýrifræði 20. aldar. Á síðu sinni lýsir Atli einnig helstu tilraunum sínum í heimspeki. Þar kemur fram að skrif hans um frumspeki hafi aðallega snúist um samband sálar og líkama og gátuna um frelsi viljans en Atli hefur einnig skrifað um verufræði. Í bókinni "Af jarðlegum skilningi" frá árinu 2001 heldur Atli fram veraldarhyggju í anda skoska heimspekingsins Davids Hume, sem þó er færð í nútímahorf og í þekkingarfræði hefur efahyggja verið Atla hugleikin umfram önnur efni, en Atli telur að ómögulegt sé að hrekja heimspekilega efahyggju. Í stjórnspeki sækir Atli aðallega innblástur í enska frjálshyggju, einkum til sígildra höfunda á borð við John Locke og David Hume en einnig til fornra höfunda eins og Platons og Aristótelesar. Greinar Atla um sögu heimspekinnar hafa einkum fjallað um stjórnspeki Platons og Aristótelesar og um ýmis efni í heimspeki 17., 18. og 19. aldar. Sannleikur. Sannleikur (eða sannleiki) er heimspekilegt hugtak, sem gegnir mikilvægu hlutverki í málspeki og þekkingarfræði, en er auk þess hluti af hversdagslegum orðaforða okkar og er eitt mesta grundvallarhugtak sem við búum yfir. Þegar einhver er sammála fullyrðingu, segir hann að hún sé „sönn“. Þekkingarfræði, sem fjallar um eðli og uppsprettu þekkingar, leitar lausna á fjölmörgum heimspekilegum gátum um „sannleika“ en auk þess er sannleikshugtakið gríðarlega mikilvægt í málspeki og er nátengt merkingarhugtakinu. Þverstæða lygarans. Elsta útgáfan af þverstæðu lygarans er eignuð gríska heimspekingnum Evbúlídes frá Míletos sem mun hafa sagt „maður nokkur segist vera ljúga, er það sem hann segir satt eða ósatt?“ Kandís. Kandís (eða steinsykur) er sælgæti samansett úr stórum sykur-kristöllum. Kandís var áður fyrr selt á þræði á Íslandi og var slíkur kandísstrangi kallaður "sköndull". Litlir einstakir molar voru aftur á móti kallaðir "kandískörtur". Frjálsa hugbúnaðarstofnunin. Frjálsa hugbúnaðarstofnunin (enska: "Free Software Foundation"; skammstafað "FSF") er sjálfseignarstofnun stofnuð í október 1985 af Richard Stallman með það að tilgangi að styðja frjálsu hugbúnaðarhreyfinguna, og þá sérstaklega GNU verkefnið. Paskal. Paskal er SI mælieining fyrir þrýsting, táknuð með Pa. Eitt paskal jafngildir þrýstingi vegna kraftsins eitt newton á hvern fermetra. Einingin er nefnd eftir Blaise Pascal, frönskum stærð-, eðlis- og heimspekingi. Skilgreining. 1 Paskal (Pa) = 1 N/m2 = 1 J/m3 = 1 kg·m–1·s–2 Chilli pipar. Chili pipar (chilipipar) eða eldpipar er ávöxtur plantna af paprikuættkvísl innan náttskuggaættar. Ávextir þessir eru gjarnan nýttir til að krydda mat og fá fram hina einkennandi brennandi tilfinningu sem spendýr upplifa við að innbyrða efnið capsaicin sem einkennir ávexti paprikuættkvíslarinnar. Basilíka. Basilíka eða basil (fræðiheiti: "Ocimum basilicum") er einær jurt af varablómaætt. Basilíka er mikið notuð í matargerð, ýmist fersk eða þurrkuð. Uppruni hennar er í Íran og Indlandi þar sem hún hefur verið ræktuð í meira en 5000 ár. Í dag er hún mest ræktuð í Egyptaland og Bandaríkjunum. Í matargerð. Í matargerð er basílíka bæði notuð þurrkuð og fersk. Mest er hún þó notuð fersk því bragðist breytist mjög við þurrkunina og verður dauft og að margra mati graskennt. Fersk geymist hún í frysti í allt að viku en hægt er að geyma hana ferska til lengri tíma í frysti eða olíu og heldur hún þá bragði sínu vel. Mikilvægt er að setja basilíkuna í við lok eldunar því hún tapar fljótt bragðinu við suðu. Basílíka er notuð í mat víða um heim. Frægust er notkun hennar í miðjarhafsmatargerð þá sérstaklega ítalskri og suður franskri. Hún er þekktust fyrir að vera ein af uppistöðuþáttunum í ítölsku kryddblöndunni pestó en og hana má einnig finna í hinum ýmsu pastasósum því hún fer einkar vel með tómötum. Einnig passar hún vel við hvítlauk og má t.d. finna þá blöndu í frönsku kryddblöndunni pistou. Hún er einnig notuð í Kína og Taiwan í hinar ýmsu súpur auk þess sem vinsælt er að bragðbæta ís með henni. Í menningu. Basilíka á mikinn þátt í menningu ýmissa landa, hvort sem hún er notuð til matar eður ei. Í upprunalandi sínu, Indland, er basílíka talin vera helg jurt. Þar er sagt að sérhver Hindúi skuli leggjast til hinnar hinstu hvílu með basilíkublað á brjóstinu sem er aðgöngumiði hans að himnaríki. Í Indlandi hefur hún líka verið höfð í réttarsölum og menn látnir sverja sannleikseið fyrir framan jurtina. Í Grikklandi á orðið basilíka uppruna sinn. Það kemur af gríska orðinu βασιλευς ("basileus") sem þýðir "konungleg (planta)" og gegnum söguna hafa Grikkir borið mikla virðingu fyrir plöntunni. Sagan segir að basilíka hafi vaxið kringum gröf Jesú þar sem hann reis upp aftur. Þess vegna er basilíka nú notuð þegar vatn er blessað við grískar réttrúnaðarkirkjur og oft eru lifandi basilíkuplöntur hafðar kringum altarið. Í Grikklandi til forna var basilíka tákn haturs. Þjóðsaga segir að basílíka yxi aðeins ef henni væri sáð meðan sá sem sáði henni æpti og öskraði og að lokum mátti einungis höfðinginn tína plöntuna. Á Ítalíu er basilíka hins vegar jurt ástarinnar. Þar settu menn basilíkugrein í hárið til að sýna ást sýna og til að öðlast gæfu ástarmálum. Í Róm til forna þá var basilía nefnd í höfuðið á dreka að nafni Basilíkus og eina leiðin að verjast árása hans var að borða basilíku daglega. Bæði í Rúmeníu og Mexíkó er basílíka einnig tákn ástar. Á fyrrnefnda staðnum gengu menn með basilíkublað í vasanum til að stefnumót yrði gæfurík. Í Rúmeníu gengu menn hins vegar enn lengra og gáfu menn unnustu sinnu basilíku þegar þeir vildu trúlofast henni. Myntur. Minta (fræðiheiti: "Mentha") er ættkvísl plantna af varablómaætt, minta er mikið notuð í matargerð og sem bragðefni í sælgæti. Til eru yfir hundrað tegundir mintu en einingis um 15 þessa eru algengar. Piparminta. Piparminta (piparmenta eða piparmynta) (fræðiheiti: "Mentha x piperita") er ófrjór myntu blendingur sem fenginn er með því að frjóvga Mentha aquatica og Mentha spicata saman. Piparmynta er mikið notuð í te og sem bragefni í sælgæti. Piparmynta inniheldur mikið magn af menthol. Landamæri. Landamæri eru ímynduð mörk milli tveggja ríkja, sem afmarka yfirráðasvæði þeirra. Oft á tíðum liggja þessi mörk meðfram ám, fjallgörðum eða öðrum landfræðilegum fyrirbrigðum, sem henta. Svæðið, sem landamærin liggja á, er kallað landamærasvæði. Flugvellir og hafnir eru oft skilgreind sem landamærasvæði þar sem landamæravarsla fer fram. Árkvísl. Árkvísl er á sem kvíslast út úr annarri á við árhólma, andstæða árkvíslar er þverá. Norðvesturkjördæmi. Norðvesturkjördæmi er eitt af kjördæmum Íslands. Það er fámennasta kjördæmið og hefur 9 sæti á Alþingi, þar af eitt jöfnunarsæti. Kjördæmið varð til þegar fyrrverandi kjördæmin Vesturland, Vestfirðir og Norðurland vestra voru sameinuð með nýrri kjördæmaskipan árið 2000 með þeirri undantekningu að Siglufjörður sem áður tilheyrði Norðurlandi vestra tilheyrir nú Norðausturkjördæmi. Fyrst var kosið samkvæmt nýrri kjördæmaskipan í Alþingiskosningum 2003. Upphaflega var fjöldi þingsæta í kjördæminu ákveðinn 10 sæti en fjöldi á kjörskrá á bak við hvern þingmann var aðeins 2.150 í kosningunum 2003 sem var meira en helmingi minna en í Suðvesturkjördæmi þar sem sami fjöldi var 4.440. Fluttist því eitt þingsæti frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis fyrir Alþingiskosningarnar 2007 í samræmi við ákvæði í kosningalögunum. Sveitarfélög. Eftirfarandi sveitarfélög eru í Norðvesturkjördæmi: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Höfðahreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur. Norðausturkjördæmi. Norðausturkjördæmi er eitt af kjördæmum Íslands. Það hefur 10 sæti á Alþingi, þar af 1 jöfnunarsæti. Kjördæmið var sameinað úr kjördæmunum Norðurlandi eystra og Austurlandi með þeim undantekningum að Siglufjörður sem áður tilheyrði Norðurlandi vestra er í Norðausturkjördæmi en Hornafjörður sem áður var í Austurlandskjördæmi tilheyrir nú Suðurkjördæmi. Kjördæmið var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000. Fyrst var kosið samkvæmt nýrri kjördæmaskipan í Alþingiskosningum 2003. Í báðum þingkosningunum sem fram hafa farið eftir að nýja kjördæmaskipunin var tekin upp hafa úrslitin í Norðausturkjördæmi einkennst af meiri jöfnuði á milli flokka en tíðkast í öðrum kjördæmum, það er sterkasta vígi bæði Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á meðan bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa verið veikari þar en á landsvísu. Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei átt þingmann í kjördæminu né í forverum þess. Kjördæmið hefur sem áður segir verið talið eitt höfuðvígi Framsóknarflokksins sem hefur nær alltaf átt fyrsta þingmann kjördæmisins (og þar áður á Norðurlandi eystra og Austurlandi) og ef ekki þann fyrsta þá annan og stundum báða. Vinstri græn hafa frá stofnun flokksins 1999 einnig fengið mest fylgi í Norðausturkjördæmi (og þar áður á Norðurlandi eystra) en það er heimakjördæmi formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar. Sveitarfélög. Í Norðausturkjördæmi eru sveitarfélögin: Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur. Skipting þingsæta og þingmenn. (*) Á 130. löggjafarþingi lét Tómas Ingi Olrich af þingmennsku. Arnbjörg Sveinsdóttir tók sæti hans á Alþingi. Suðurkjördæmi. Suðurkjördæmi er eitt af kjördæmum Íslands. Það hefur 10 sæti á Alþingi, þar af eitt jöfnunarsæti. Kjördæmið er hið gamla Suðurlandskjördæmi að viðbættum Hornafirði sem áður tilheyrði Austurlandskjördæmi og Suðurnesjum sem áður voru í Reykjaneskjördæmi. Kjördæmið var myndað með nýrri kjördæmaskipan árið 2000, en fyrst var kosið samkvæmt þeirri skipan í Alþingiskosningum 2003. Sveitarfélög. Í Suðurkjördæmi eru sveitarfélögin: Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurkaupstaður, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar. Skipting þingsæta og þingmenn. (*) Árni Ragnar Árnason lést áður en 131. löggjafarþing var sett. Suðvesturkjördæmi. Suðvesturkjördæmi er eitt af kjördæmum Íslands. Það er fjölmennasta kjördæmið og hefur tólf sæti á Alþingi, þar af tvö jöfnunarsæti. Í kjördæminu eru öll sveitarfélög Höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur sem áður voru hluti af Reykjaneskjördæmi. Það var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000, en fyrst var kosið samkvæmt þeirri skipan í Alþingiskosningum 2003. Kjördæmið er stundum kallað Kraginn vegna þess hvernig það umlykur Reykjavík. Upphaflega var ákveðið að ellefu þingsæti skyldu fylgja kjördæminu, en fjöldi kjósenda á kjörskrá fyrir hvert þingsæti var 4.440 í kosningunum 2003 sem var meira en helmingi meira en fjöldi á kjörskrá á bak við hvert þingsæti í Norðvesturkjördæmi. Fyrir Alþingiskosningar 2007 fluttist því eitt þingsæti frá Norðvesturkjördæmis til Suðvesturkjördæmis sem hafði þá tólf þingsæti. Þrátt fyrir flutninginn á sætinu munaði litlu að það sama yrði upp á teningnum í kosningunum 2007 þar sem kjósendum á kjörskrá hafði fjölgað mikið í Suðvesturkjördæmi en fækkað lítillega í Norðvesturkjördæmi. Sveitarfélög. Í Suðvesturkjördæmi eru sveitarfélögin: Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær og Kjósarhreppur. Skipting þingsæta og þingmenn. (*) Á síðasta þingdegi 131. löggjafarþings gekk Gunnar Örlygsson úr Frjálslynda flokknum og til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. (**) Á haustþingi 133. löggjafarþings gekk Valdimar Leó Friðriksson úr Samfylkingunni. á vorþingi 133. þings gekk hann svo til liðs við Frjálslynda flokkinn Reykjavíkurkjördæmi norður. Reykjavíkurkjördæmi norður er eitt af kjördæmum Íslands. Það hefur 11 sæti á Alþingi, þar af tvö jöfnunarsæti. Landskjörstjórn skiptir Reykjavíkurborg niður í tvö kjördæmi og miðar þar við þjóðskrá fimm vikum fyrir kjördag, reynt er að gæta þess að álíka margir búi í hvoru kjördæmi og að þau myndi sem samfelldasta heild. Reykjavík hefur hingað til verið skipt upp í norður og suðurkjördæmi og mörkin liggja í grófum dráttum meðfram Vesturlandsvegi, Miklubraut og Hringbraut. Í kosningunum 2003 voru mörkin látin fylgja Suðurlandsvegi frá gatnamótunum við Vesturlandsveg þannig að Grafarholt lenti í norðurkjördæminu en fyrir kosningarnar 2007 voru mörkin látin liggja um mitt hverfið þannig að það skiptist á milli suður- og norðurkjördæmanna. Kjördæmið var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000. Fyrst var kosið samkvæmt þessari skipan í Alþingiskosningum 2003. Fjöldi kjósenda á kjörskrá á hvert þingsæti var 3.892 í kosningunum 2003. Skipting þingsæta og þingmenn. (*) Árni Magnússon sat á 132. löggjafarþingi en sagði af sér í mars 2006. Þá tók Guðjón ólafur Jónsson sæti Árna sem 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. (**) Þráinn Bertelsson sagði sig úr þinghópi Borgarahreyfingarinnar áður en 137. löggjafarþingi lauk. Á meðan 138. löggjafarþingi stóð gerðist hann meðlimur í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs. (***) Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði af sér þingmennsku á meðan 138. löggjafarþingi stóð. Við hennar sæti tók Mörður Árnason. Reykjavíkurkjördæmi suður. Reykjavíkurkjördæmi suður er eitt af kjördæmum Íslands. Það hefur 11 sæti á Alþingi, þar af tvö jöfnunarsæti. Landskjörstjórn skiptir Reykjavíkurborg niður í tvö kjördæmi og miðar þar við þjóðskrá fimm vikum fyrir kjördag, reynt er að gæta þess að álíka margir búi í hvoru kjördæmi og að þau myndi sem samfelldasta heild. Reykjavík hefur hingað til verið skipt upp í norður og suðurkjördæmi og mörkin liggja í grófum dráttum meðfram Vesturlandsvegi, Miklubraut og Hringbraut. Kjördæmið var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000. Fyrst var kosið samkvæmt þessari nýju kjördæmaskipan í Alþingiskosningum 2003. Fjöldi kjósenda á kjörskrá á hvert þingsæti var 3.887 í kosningunum 2003. Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Skeiða- og Gnúpverjahreppur er sveitarfélag í austanverðri Árnessýslu. Hann tók til starfa 9. júní 2002 eftir að íbúar Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps samþykktu sameiningu hreppanna í kosningum þá um vorið. Náttúrufar. Skeiða- og Gnúpverjahreppur er austasta sveitarfélag í Árnessýslu ofanverðri og liggur hreppurinn upp með Þjórsá allt inn að Hofsjökli. Að vestanverður marka Hvítá hreppamörk. Náttúrufar er margtbreytilegt, allt frá flatlendi Skeiðanna þar sem ágangur Hvítár og Þjórsár hafa mótað landið með flóðum sínum, til holta í Gnúpverjahreppi og fjallendi afréttanna. Stjórnsýsla. Þá eru 5 varamenn í hreppsnefnd. Að auki situr sveitarstjóri hreppsnefndarfundi, en hann er framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins. Gnúpverjahreppur. Gnúpverjahreppur (einnig nefndur Eystri-Hreppur) var sveitarfélag í austanverðri Árnessýslu en sameinaðist Skeiðahreppi 9. júní 2002 og saman mynduðu þeir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Orðsifjar. Nafn sitt dregur hreppurinn af "Gnúpi", eða Núpi. Þar hefur verið kirkjustaður frá því um 1200 og hefur stafsetningin eitthvað bjagast í gegnum árin. Þegar talað var um „Hreppa og Skeið“ var átt við Gnúpverja- og Hrunamannahrepp sem Hreppa, og Skeiðahrepp sem Skeið. Gnúpverja- og Hrunamannahreppur hafa einnig verið kallaðir „Gullhreppar“ vegna heita vatnsins á svæðinu. Til að aðgreina Hreppana tvo voru þeir nefndir Eystri- og Ytri-Hreppur, Gnúpverjahreppur sem sá eystri og Hrunamannahreppur sem sá ytri. Þeir ganga enn þá undir þessum nöfnum að einhverju leyti, sérstaklega af hálfu Árnesinga. Landslag. Landslagið í Gnúpverjahreppi einkennist af holtum og þurrlendi. Fremst í hreppnum er svokölluð Sandlækjarmýri sem þekur landsvæðið milli Skarðsfjalls og Sandlækjarholts fram að Þjórsá í austri. Innar í hreppnum rennur Kálfá og hefur hún upptök sín í Skáldarbúðarásum og ósar í Þjórsá við Stóra-Hof og Bólstað. Þverá rennur í djúpur gili fram af Flóamannaafrétti og rennur í Þjórsá fyrir neðan bæinn Fossnes. Aðrar merkar ár í hreppnum eru Sandá, Fossá og Rauðá, allar í Þjórsárdal. Frá Þjórsárholti fram með Þjórsá að Kálfárós nefnist landið Heiði, eða Hofsheiði. Land þetta er þurrlent, liggur á hrauni og allt sléttlent. Í heiðinni er meðal annars Skaftholtsréttir og íbúðahverfið sem hefur byggst upp í kringum Árnes. Milli bæjanna Haga og Ásólfsstaða gengur fjallið Hagafjall endilangt milli Þverár og Þjórsár. Út úr því stendur höfðinn Gaukshöfði. Frá honum er víðsýnt. Hann markar upphaf Þjórsárdals, og er Búrfell eystra landmerki dalsins. Á svokölluðum Sámstaðamúla liggur Sprengisandsvegur upp á hálendið. Milli hans og Búrfells er síðan Bjarnalón, inntakslónið fyrir Búrfellsvirkjun. Inn af Þjórsárdal er síðan að finna Gnúpverjaafrétt og Skeiðamannaafrétt. Norðan Sandafells er Sultartangalón, kennt við Sultartanga syðst á Búðarhálsi. Sultartangalón er inntakslón Sultartangavirkjunar. Hofsjökull, með Arnarfelli hinu mikla í miðið Nyrst í sveitinni er síðan Hofsjökull og inn við hann Þjórsárver og Arnarfell hið mikla með mikilli náttúrufegurð. Atvinna. Fjárrekstur Gnúpverja haustið 2004, Gaukshöfði í baksýn Fjárrækt. Í Gnúpverjahreppi hefur alltaf verið mikil sauðfjárrækt en hún hefur þó eitthvað dregist saman í umfangi á síðustu árum. Heimildi eru um að uppúr 1881 hafi verið starfrækt fjárræktarfélag í hreppnum en það hefur síðar lognast út af. Núverandi félag var stofnað 1946. Eftir fjárskiptin um miðja síðustu öld (1950-'52) tóku bændur úr hreppnum fé úr Þingeyjarsýslum, svo sem úr Kelduhverfi. Skaftholtsréttir standa í heiðinni fyrir framan Skaftholt og eru þær taldar vera frá 12. öld og þar með elstu hlöðnu réttir á Íslandi. Margan manninn hefur í gegnum tíðina lagt leið sína í Skaftholtsréttir, einkum eftir að þær voru fluttar af fimmtudegi á föstudag. Haustið 2005 var stofnað réttavinafélag til þess að hægt væri að endurhlaða réttirnar, en þær fóru illa í Suðurlandsskjálftunum 2000. Almenningurinn var strax endurhlaðinn eftir skjálftana, en lagfæring dilkanna slegin á frest og hluti þeirra hlaðinn árið 2006. Nautgriparækt í Gnúpverjahreppi hefur aukist síðustu ár, en Nautgriparæktarfélag Gnúpverja er eitt elsta búfjárræktarfélag á Íslandi, stofnað 1904. Bændur eru einnig meðlimir í Búnaðarfélagi Gnúpverja. Ekki hefur farið mikið fyrir hrossarækt í hreppnum, en þó ber að nefna hross á borð við Gulltopp frá Eystra-Geldingaholti, Ögra frá Háholti og Nökkva frá Vestra-Geldingaholti, en tveir síðastnefndu hafa báðir verið fluttir utan til kynbóta. Önnur atvinna. Í hreppnum eru tvær vatnsaflsvirkjanir, Búrfellsvirkjun og Sultartangavirkjun. Auk þess eru áform um að virkja við Núpsfjall með svokallaðri Núpsvirkjun og að virkja fossinn Búða í Holtavirkjun en þessar tvær virkjanir eru ekki komnar á aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fyrstu ár Búrfellsvirkjunar var þar blómlegt atvinnulíf en með bættri tækni og meiri sjálfstýringu hefur heldur fækkað í starfsliðinu þar. Nú sinna starfsmenn Landvirkjunar öllum virkjunum á Þjórsár-Tungnársvæðinu í einu. Í hreppnum hefur verið starfrækt hænsnasláturhús hýsir nú flúðasiglingafyrirtæki sem fer með ferðamenn í flúðasiglingar á Þjórsá og Markarfljóti. Ábótinn ehf rekur internetveitu sem veitir býlum í hreppnum internet-tengingu, auk þess sem þar eru að finna nokkur ferðaþjónustufyrirtæki, sjoppuna og bensínstöðina Árborg og félagsheimilið Árnes, kennt við Árnes í Þjórsá. Þjórsárskóli er að hluta til í Gnúpverjahreppi. Hann hét áður "Gnúpverjaskóli", áður en hann sameinaðist Brautarholtsskóla og þar áður Ásaskóli. Kennsla 4-7. bekkjar fer fram við í Þjórsárskóla í Gnúpverjahreppi hinum forna, en kennsla 1-3. bekkjar í Brautarholti. Eldri nemendur fara út að Flúðum í Flúðaskóla. Eyðibýli. Skilti sem sýnir vegi innan Gnúpverjahrepps Írafár. Írafár er íslensk popphljómsveit stofnuð árið 1998. Meðlimir hennar eru Birgitta Haukdal söngkona, Sigurður Rúnar Samúelsson bassaleikari, Vignir Snær Vigfússon gítarleikari og söngvari, Andri Guðmundsson hljómborðsleikar og Jóhann Bachmann Ólafsson trommari. Selfosskirkja. Selfosskirkja er kirkja á Selfossi sem reist var á árunum 1952 til 1956. Málamiðlanir byrjuðu með því að Selfoss myndaðist innan Laugardælasóknar en þorpsbúum þótti kirkjuvegur sinn vera óþægilega langur og vildu fá sjálfstæða kirkju fyrir þorpið. Lóð undir kirkjuna fékkst nálægt Selfossbæjunum á tanga í Ölfusá árið 1942 og kirkjugarðurinn vígður 2. janúar 1945. Fyrsta skóflustungan að kirkjunni var tekin 7. júní 1952 og var mikill mannfjöldi kominn saman til að grafa fyrir grunni kirkjunnar. Sunnudaginn 25. mars 1956, pálmasunnudag þess árs, var kirkjan síðan vígð við hátíðlega athöfn. Frá því fyrst var hugað að kirkju í hreppnum 23 árum fyrr hafði fólki í hreppnum fjölgað úr 171 í meira en 1000. Skipaðir sóknarprestar við Selfosskirkju hafa aðeins verið fimm: Dr. Sigurður Pálsson (til 1971), sr. Sigurður Sigurðarson (1971-1994), sr. Þórir Jökull Þorsteinsson (1994-2001), sr. Gunnar Björnsson (2001-2009) og sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson (frá 2009). Þjónustunni til aðstoðar var skipaður prestur við Selfossprestakall (Hraungerðis-, Laugardæla-, Selfoss- og Villingaholtssóknir) frá 1. mars 2010, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Fjölmargir prestar hafa verið settir til tímabundinna afleysinga í sóknum prestakallsins. Sund (hreyfing). Sund er íþrótt sem fellst í því að hreyfa sig með ýmsum aðferðum í vatni, án þess þó að snerta botn eða að nota vélarafl. Breska samveldið. Breska samveldið er samband fullvalda ríkja, sem flest öll eru fyrrverandi nýlendur breska heimsveldisins. Elísabet II er þjóðhöfðingi breska samveldisins. Meðal þess sem samveldið stendur fyrir eru Samveldisleikarnir, nærst stærsta alþjóðlega fjölgreina íþróttamótið á eftir Ólympíuleikunum. Dýr. Dýr (fræðiheiti: "Animalia") eru hópur lífvera sem myndar sérstakt ríki: dýraríkið. Dýr eru ófrumbjarga fjölfrumungar, færir um hreyfingu og gerð úr frumum sem hafa ekki frumuveggi (dýrsfrumum). Til eru meira en milljón tegundir af dýrum í um 35 fylkingum. Vöxtur Dýra fer venjulega fram í öllum líkamshlutum og hættir venjulega við kynþroska. Dýr nærast á öðrum lífverum, til dæmis plöntum, öðrum dýrum eða dýraleifum. Flestar þekktar fylkingar dýra komu fram á sjónarsviðið í Kambríumsprengingunni fyrir um 542 milljónum ára. Einkenni. Það er ýmislegt sem aðgreinir dýr frá öðrum lífverum. Sem dæmi má taka að dýr eru heilkjörnungar og oftast fjölfrumungar sem meðal annars aðgreinir þau frá gerlum. Einnig melta þau mat innvortis og hafa ekki frumuveggi sem meðal annars aðgreinir þau frá plöntum. Flest dýr hafa sérhæfð líffæri eins og taugakerfi, meltingarkerfi og vöðva. Fæðing. Fæðing er það ferli hjá dýrum þar sem afkvæmi fer út úr líkama foreldrisins eftir meðgöngu, mismunandi gerðir fæðinga eru eggfóstursfæðing, fósturbær fæðing, og gulfóstursfæðing. Ófrumbjarga lífvera. Ófrumbjarga lífvera er lífvera sem þarfnast lífrænna efna frá frumbjarga lífverum til að safna kolefni sem hún þarfnast til lífs, ólíkt frumbjarga lífverum sem eru sjálfum sér nægar. Öll dýr, sveppir og bakteríur eru ófrumbjarga, einnig eru sumar sníkjuplöntur að hluta til eða að fullu ófrumbjarga. Nútíðarhyggja. Nútíðarhyggja í heimspeki er kenning um tímann sem felur í sér að einungis nútíðin sé til en framtíðin og fortíðin séu ekki til í sama skilningi. Andstæð nútíðarhyggju er eilífðarhyggja sem er sú kenning að liðinn tími jafnt sem ókominn tími sé til í sama skilningi og núið. Önnur kenning (sem fáir heimspekingar hafa haldið fram) er svokölluð vaxtarhyggja um tímann. Samkvæmt henni eru fortíðin og nútíðin til en ekki framtíðin. Nútíðarhyggja er samrýmanleg galileiskri afstæðiskenningu, þar sem tíminn er óháður rúminu, en sennilega ósamrýmanleg afstæðiskenningum af því tagi sem Hendrik Lorentz og Albert Einstein settu fram. Ágústínus kirkjufaðir líkti nútíðinni við hníf sem sker á milli fortíðar og framtíðar og benti á að núið gæti ekki náð yfir tímabil. Þetta virðist liggja í augum uppi, því ef núið næði yfir eitthvert tímabil, þá hlyti það að hafa aðskilda hluta; en hlutarnir yrðu allir að vera til samtímis ef þeir ættu allir að teljast til núsins. Fornir heimspekingar töldu að líðandi stund gæti ekki verið um leið liðinn tími. Þar af leiðandi næði núið ekki yfir neitt tímabil. Sumir heimspekingar leggja til, gegn Ágústínusi, að meðvituð upplifun nái yfir tímabil. William James sagði til dæmis að tíminn væri „sú stutta líðandi stund sem við hefðum beina og ótrúflaða upplifun af“. Ágústínus hélt því fram að guð væri handan tímans og væri til staðar á öllum tímum, í eilífðinni. Hefði James á réttu að standa, þá væri guð í okkur öllum samkvæmt Ágústínusi. Samkvæmt heimspekingnum J. M. E. McTaggart eru tvær leiðir til að vísa til atburða: „A serían“ og „B serían“. Síðari tíma heimspekingar álíta nútíðarhyggju fela í sér þá trú að einungis „A serían“ sé til, og nútíðarhyggjumenn halda því yfirleitt fram að það sé ekkert vit í öðru en að vísa til atburða með fullyrðingum sem hafa ákveðna tíðarmerkingu. Samkvæmt nútíma afstæðiskenningum er hugtakalegur athugandi rúmfræðilegur punktur í bæði tíma og rúmi, við oddinn á ljóskeilu sem sér atburði gerast bæði í tíma og rúmi. Athugandi sér mismunandi atburði gerast samtímis miðað við hreyfingu athugunarpunktsins. Kenningin styðst við þá hugmynd að tíminn nái yfir eitthvert bil og hefur verið staðfest með tilraunum. Á hinn bóginn nær hugtakalegi athugandinn ekki yfir neitt bil, hvorki í tíma né rúmi, þar sem hann er rúmfræðilegur punktur við upphaf ljóskeilunnar, enda þótt viðfang athugunarinnar nái yfir tímabil. Þessi greinin felur í sér þverstæðu þar sem hugtakalegi athugandinn inniheldur ekkert, þótt raunverulegur athugandi þurfi að hafa rúmtak og ná yfir tímabil og vera þar með viðfang athugunar til þess að geta verið til. Þverstæðan er að hluta til leyst í afstæðiskenningunni með því að skilgreina tilvísunarramma þannig að hann nái utan um tækin sem athugandinn notar. Eilífðarhyggja. Eilífðarhyggja er kenning í heimspeki sem felur í sér að fortíðin, nútíðin og framtíðin séu allar jafnraunverulegar. Kenningunni fylgja verufræðilegar skuldbindingar umfram einungis við núverandi atburði eða líðandi stund, sem greina hana skarplega frá nútíðarhyggju. Eilífðarhyggjan er oft talin nátengd „óraunveruhyggju“ um tíðir og tíðarmerkingu. Það er að segja, eilífðarhyggjumenn neita því oft að tíðarorð eins og „fortíðin“, „nútíðin“ og „framtíðin“ vísi til þeirra hluta raunveruleikans sem þau samsvara. Slík orð séu helst notuð sem þægilegar styttingar fyrir orðalag sem lýsir undanfarandi tíma, samtíma eða tíma eftir þann tíma þegar sá sem talar notar órð af þessu tagi í setningu. Óraunveruhyggja um tíðir ásamt eilífðarhyggju og þeirri skoðun að raunveruleikinn sé ekki mótsagnarkenndur er oft nefnd „B seríu“ viðhorfið til tímans. Í tengslum við búddisma er eilífðarhyggjan kenningin um eilífa hluti eða eilíft líf. Hugmyndin um eilífa og ævarandi sál er prýðilegt dæmi um þetta. En Búddismi hafnar eilífðarhyggju auk tómhyggju. Höfnunin er byggð á þeirri hugsun að þegar hlutur er greindur niður í frumþætti sína, þá er enga eilífa hluta eða neina eilífa tilvist að finna. Hvanndalsbræður. Hvanndalsbræður er íslensk hljómsveit sem spilar popptónlist með glettnu ívafi. Hún samanstendur af bræðrunum Rögnvaldi, Vali, Sumarliða, Pétri og Valmari Hvanndal frá Hvanndal við utanverðan Eyjafjörð. Hljómsveitin syngur mikið um sveitina en einnig um lífið og tilveruna. Hvanndalsbræður voru stofnaðir 2003. Meðlimir. Rögnvaldur Hvanndal var meðlimur hljómsveitarinnar frá stofnun hennar fram í júní 2009. Hann lék á gítar og söng. Norðvesturleiðin. Norðvesturleiðin er illfær siglingaleið frá Atlantshafinu til Kyrrahafsins í gegnum norðurheimskautseyjaklasa Kanada. Talið er að siglingaleiðin verði greiðfær á næstu árum vegna hlýnandi loftslags, sem veldur hopi heimskautaíss. Saga og orðsifjar. Frá lokum 15. aldar til 20. aldarinnar reyndu Evrópumenn að finna siglingaleið norður og vestur fyrir Ameríku. Englendingar kölluðu þessa ímynduðu siglingaleið "norðvesturleiðina" en spánverjar kölluðu hana Aniánsund. Leitin að þessu sundi var drifkrafturinn á bak við marga könnunarleiðangra Evrópumanna beggja vegna Norður-Ameríku. Norðvesturleiðina sigldi fyrstur manna Roald Amundsen á 47 tonna síldveiðibát, Gjøa, sem hafði verið breytt til að standast álag ferðarinnar. Siglingin tók þrjú ár og lauk árið 1906. Þá kom Amundsen til bæjarins Eagle í Alaska og sendi símskeyti til að staðfesta afrek sitt. Leiðin sem hann hafði farið var mjög tímafrek og því óhentug og of grunnt var þar sem hann fór um. Norðvesturleiðin var ekki farin á skemmri tíma en einu ári fyrr en 1944 þegar "St. Roch", kanadísk sérstyrkt skonnorta undir stjórn Henry Larsen, komst frá austri til vesturs áður en hafið lagði. Hann sigldi norðar en áður hafði verið gert. Áður höfðu menn siglt frá vestri til austurs á 28 mánuðum. Garðabær. Garðabær (áður Garðahreppur) er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu á milli Kópavogs og Hafnarfjarðar. "Garðahreppur" varð til árið 1878, ásamt Bessastaðahreppi, þegar Álftaneshreppi var skipt í tvo hluta. Var hann kenndur við kirkjustaðinn Garða á Álftanesi. Hafnarfjörður var innan hreppsins fyrstu þrjá áratugina, en var skilinn frá honum þegar hann fékk kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. Sjálfur fékk Garðahreppur kaupstaðarréttindi 1. janúar 1976 og nefndist eftir það "Garðabær". Samhliða þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs þann 20. október 2012, fór fram íbúakosning í Garðabæ og sveitarfélaginu Álftanes og var sameining þeirra í eitt sveitarfélag samþykkt. Hið nýja sveitarfélag heitir Garðabær en um það hafði verið samið fyrir kosningarnar og miðað við tölur Hagstofu frá 1. janúar 2012 munu íbúar sameinaðs sveitarfélags verða um 14.000 talsins. Tekur sameiningin gildi áramótin 2012/2013. Demades. Demades (um 380 – 318 f.Kr.) var aþenskur ræðumaður. Hann fæddist inn í fátæka fjölskyldu og vann um tíma fyrir sér sem sjómaður, en hann reis til virðingar og góðrar stöðu í Aþenu að hluta vegna mælsku sinnar og að hluta vegna óvæginnar skapgerðar sinnar. Hann talaði máli Filipposar II., konungs Makedóníu, í stríðinu gegn Ólynþos og skapaði sér með því óvild og ævarandi óvináttu Demosþenesar, sem hann studdi í fyrstu. Hann barðist gegn Makedóníumönnum í orrustunni um Kæróneiu og var handsamaður. Honum var sleppt ásamt meðföngum sínum eftir að hann hafði heillað Filippos og átti snaran þátt í að semja um frið milli Makedóníu og Aþenu. Hann var áfram í uppáhaldi hjá Alexander mikla, og eftir að honum hafði verið mútað kom hann Demosþenesi og öðrum aþenskum mælskumönnum undan hefnd Alexanders. Það var ekki síst honum að þakka að Alexander kom fram af mildi við Aþenu eftir að hann hafði látið rústa Þebu. Hann var sektaður háum sektum oftar en einu sinni fyrir að styðja málstað Makedóníumanna, enda þótt hann hafi þegið allar mútur sem andstæðingar hans buðu honum; að lokum var hann sviptur borgaralegum réttindum sínum. Honum voru veitt réttindi sín að nýju árið 322 f.Kr. þegar hann var sendur í sendinefnd til Antipaters. Áður en hann hélt af stað sannfærði hann Aþeninga um að fella dauðadóm yfir Demosþenesi og fylgjendum hans, sem flúið höfðu Aþenu. Sendinefndin kom á friði sem var afar óhagstæður Aþeningum. Árið 318 f.Kr., þegar Demades var í öðrum erindagjörðum fyrir Aþeninga, lét Antipater taka hann af lífi í Pella eftir að uppgötvast hafði að hann ætti vingott við Peridikkas sem var andstæðingur Antipaters. Demades var sagður gráðugur og óvæginn, en hann var afar hæfileikaríkur og reyndur ræðumaður. Ein varðveitt ræða er eignuð Demadesi en hún er nær örugglega fölsuð. Súetóníus. Gaius Suetonius Tranquillus (um 75 – 160), betur þekktur sem Súetóníus (stundum nefndur Svetóníus á íslensku), var rómverkur rithöfundur og sagnaritari. Súetóníus vann sem ritari fyrir keisarann Hadríanus, áður en hann var rekinn fyrir að sýna keisaraynjunni Sabínu óvirðingu. Hans er einkum minnst sem höfundar ævisagna fyrstu tólf keisaranna (Caesaranna) í Róm ("De vita Caesarum"), en ævisögurnar hafa verið nýttar sem heimildir í mörgum verkum um sögu Rómar. Súetóníus virðist hafa haldið meira upp á suma keisarana en aðra. Hann virðist til að mynda hafa haft meira álit á Ágústusi en en Neró og Caligúlu. Súetóníus virðist einnig hafa yndi af klúrum gróusögum sem þekktust um þá sem hann fjallar um. Sumar gróusagnanna, sem oftar en ekki snerust um kynlíf og kynhneigðir, gætu hafa átt uppruna sinn í skjölum sem hann hafði aðgang að sem ritari keisarans Hadríanusar og endurspegla því ef til vill viðhorf fólks á 2. öld til fyrrverandi keisara og starfsmanna keisaranna. Súetóníus getur heimilda sinna afar sjaldan. Eitt dæmi þess er þegar hann leggur áherslu á að þeir sem hallmæltu Ágústusi hafi verið óvinir keisarans, svo sem Marcus Antoníus en hans er getið sem vafasamrar heimildar fyrir nokkrum neikvæðum sögum um Ágústus í fjórða kafla ævisögu Ágústusar. Fjöldi beinna tilvitnana í bréfasamskipti Ágústusar og sú staðreynd að hann getur ekki slíka heimilda í síðari köflum verksins virðist gefa til kynna að hann hafi ekki verið rekinn úr starfi sínu við hirð Hadríanusar fyrr en eftir að hann hafði lokið við að skrifa ævisögu Ágústusar. Súetóníus getur á einum stað „Chrestusar“, sem gæti verið tilvísun til „Krists“. Sjá Súetóníus um Jesú. Elsa Andersson. Elsa Andersson (1897 – 22. janúar 1922) var fyrsta sænska konan sem fékk flugpróf. Hún fæddist sem bóndadóttir í Strövelstorp á Skáni. Móðir hennar dó við fæðingu hennar og eldri bróðir hennar flutti til Bandaríkjanna þegar hún var ung að árum. Elsa og fékk snemma áhuga á flugi og byrjaði að læra til flugmanns við Enoch Thulins flugskólann í Ljungbyhed 21 árs gömul og kláraði námið árið 1920. Stuttu eftir að hún fékk flugprófið fór hún til Þýskalands til að læra fallhlífastökk. Eftir það fór hún aftur til Svíþjóðar og lést í sínu þriðja stökki 22. janúar 1922, yfir Askersund eftir að hún hafði átt í vandræðum með að opna fallhíf sína. Heimildir. Andersson, Elsa Nelson Goodman. Nelson Goodman (7. ágúst 1906 – 25. nóvember 1998) var bandarískur heimspekingur, einkum þekktur fyrir að fást við merkingu setninga sem fjalla um óraunveruleika, venslafræði og tilleiðsluvandann. Hann fæddist í Somerville í Maryland í Bandaríkjunum. Hann brautskráðist frá Harvard University árið 1928. Að því loknu rak hann listasafn í Boston í Massachusetts í 11 ár. Goodman hlaut Ph.D.-gráðu í heimspeki árið 1941. Hann gekk í bandaríska herinn og gegndi herþjónustu til loka síðari heimsstyrjaldarinnar. Að stríðinu loknu varði hann 18 árum við University of Pennsylvania í Phildalephiu. Hann var rannsóknarfélagi við Vitsmunavísindastofnunina á Harvard (Center for Cognitive Studies) frá 1962 til 1963 og gegndi stöðu prófessors við ýmsa háskóla frá 1964 til 1967, og var skipaður prófessor í heimspeki við Harvard árið 1968. Goodman setti fram „nýja gátuna um tilleiðslu“, sem svo var nefnd með tilvísun til hins sígilda tilleiðsluvanda Davids Hume. Hann fjallaði fyrst um gátuna í bókinni "Fact, Fiction, and Forecast". Venjulega er hún útskýrð með hugtökunum grauður eða brænn. Tengill. Goodman Goodman Talfólgin athöfn. Talfólgin athöfn er málgjörð sem jafngildir því að fullyrða, spyrja, skipa, lofa og svo framvegis. Hún er athöfn sem er framkvæmd "með því að" segja eitthvað, til aðgreiningar frá talgjörð, þeirri athöfn "að" segja eitthvað, segðinni. Talfólgið inntak. Talfólgið inntak er í grófum dráttum íbyggna ástandið sem liggur að baki talfólgnu athöfninni sem mælandinn framkvæmir, þ.m.t. efnislegt inntak yrðingarinnar og forsendurnar sem gengið er út frá. Stundum er ekki augljóst hvert talfólgna inntakið er: Ef einhver segir „Það er svo sannarlega kalt hérna“ veltur afleiðing fullyrðingarinnar á samhenginu. Það gæti verið að viðkomandi sé einungis að lýsa herberginu og þá er talfólgna inntakið lýsing á hitastigi herbergisins. En ef mögulegt er að breyta aðstæðunum, til dæmis með því að hækka hitann eða loka glugganum, þá getur verið að viðkomandi ætli sér að fá einhvern annan til að gera eitthvað í málinu og þá væri talfólgna inntakið athöfn hinnar manneskjunnar. Þetta er andstætt talvaldandi áhrifum, sem eru fólgin í þeim áhrifum sem yrðing hefur á aðra í heiminum. Vísbendingar um talfólgið inntak. Vísbendingar um talfólgið inntak gefa til kynna hvernig taka beri staðhæfingu, hvert talfólgna inntakið í yrðingunni á að vera, eða hvaða talfólgnu athöfn mælandinn er að framkvæma. Meðal dæma á íslensku eru orðaröð, áhersla, ítónun, háttur sagnarinnar, framkvæmdaryrðingar og samhengi. Á íslensku er vísbendingar um talfólgið inntak ekki alltaf til staðar eða geta verið misvísandi eða óræðar. Stundum eru þær faldar í djúpgerð setningar. Talfólgnar neitanir. Talfólgna neitun má greina að frá staðhæfingarlegri neitun með því að huga að greinarmuninum á „Ég lofa ekki að koma“ og „Ég lofa að koma ekki“. Fyrri fullyrðingin er talfólgin neitun - neitunin ‚ekki‘ neitar loforðinu. Síðari fullyrðingin er staðhæfingarleg neitun. Talfólgnar neitanir breyta venjulega talfólgnu athöfninni. Talvaldandi athöfn. Talvaldandi athöfn er málgjörð sem jafngildir því að sannfæra, hræða, upplýsa einhvern eða fá einhvern til að gera eitthvað eða átta sig á einhverju. Við athuganir á talvaldandi athöfnum er lögð áhersla á áhrifin sem athöfnin hefur á lesandann eða áheyrandann. Ólíkt talfólgnum athöfnum, þar sem meginatriðið er fólgið í málnotkuninni, eru áhrif talvaldandi athafnar í einhverjum skilningi utan við framkvæmd athafnarinnar. Levkippos. Levkippos eða Λευκιππος (5. öld f.Kr.) var upphafsmaður eindahyggjunnar eða atómismans í grískri heimspeki, þ.e. þeirri kenningu að allt samanstandi af óforgengilegum ódeilanlegum frumþáttum sem kallast ódeili (eða atóm). Ekkert af ritum Levkipposar er varðveitt, en kenningar hans eru varðveittar m.a. í ritum nemanda hans og samstarfsmanns Demókrítosar frá Abderu (Sjá grein um Demókrítos fyrir frekari umfjöllun um eindahyggjuna.) Í raun er ógerningur að benda með neinni vissu á efnisleg atriði sem Demókrítos og Levkippos voru ósammála um. Levkippos fæddist í Míletos (sumar heimildir segja í Eleu þar sem heimspeki hans var sögð tengjast kenningum heimspekinganna frá Eleu). Hann var samtímamaður Zenons frá Eleu, Empedóklesar og Anaxagórasar sem tilheyrðu jónísku heimspekihefðinni. Hann féll í skuggann af Demókrítosi sem setti eindahyggjuna fram á kerfisbundinn hátt og samkvæmt Díogenesi Laertíosi (D.L., X. 7) dró Epikúros í efa að hann hefði verið til. Á hinn bóginn eigna Aristóteles og Þeófrastos honum skýrt og greinilega heiðurinn af því að hafa verið upphafsmaður eindahyggjunnar. Lönd eftir stjórnarfari. Þetta er listi yfir lönd heimsins eftir stjórnarfari. Forsetaræði. Í þessum löndum er forsetinn er höfuð framkvæmdavaldsins og sjálfstæður gagnvart löggjafarvaldinu. Listinn telur bæði lýðræðisríki og ólýðræðisleg ríki. Þingræði. Þetta eru lönd þar sem forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins og líka leiðtogi löggjafarvaldsins. Í þessum löndum er gjarnan líka forseti sem hefur táknrænt hlutverk sem þjóðhöfðingi. Þingbundin konungsstjórn. Þetta eru lönd þar sem forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins og leiðtogi löggjafarvaldsins. Þjóðhöfðingi er þingbundinn konungur eða fursti sem einungis beitir táknrænu valdi sínu með samþykki ríkisstjórnarinnar. Hálf-þingbundin konungsstjórn. Þetta eru lönd þar sem forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins, en konungurinn/furstinn hefur töluverð pólitísk völd sem hann/hún getur beitt að eigin frumkvæði. Lönd í Breska samveldinu. Þetta eru lönd með þingbundna konungsstjórn þar sem Elísabetu II Bretadrottning er þjóðhöfðingi yfir sjálfstæðri ríkisstjórn. Drottningin tilnefnir táknrænt landstjóra sem kemur fram fyrir hennar hönd. Forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins og einnig leiðtogi löggjafarvaldsins. Einveldi. Í þessum löndum er konungurinn/furstinn höfuð framkvæmdavaldsins og fer með öll völd. Klerkastjórn. Í þessum ríkjum byggir stjórnarfar á ríkistrú og þjóðhöfðinginn er kosinn af einhvers konar trúarlegu æðstaráði. Flokksræði. Þetta eru lönd þar sem öll pólitísk völd liggja hjá einum stjórnmálaflokki og starfsemi þess flokks blandast meira eða minna saman við starfsemi ríkisins. Aðrir flokkar eru nánast alltaf bannaðir. Herforingjastjórn. Her landsins fer með stjórn þess og framkvæmdavald er í höndum herráðs eða herforingjaklíku. Millibilsástand. Lönd þar sem breytingar á stjórnarfari standa yfir og ekki er hægt að skilgreina að svo stöddu. Sambandsríki. Þetta eru lönd þar sem alríkisstjórn deilir valdi með hálf-sjálfstæðum fylkisstjórnum. Óskipt ríki. Ríki þar sem miðstjórnin deilir hluta af valdi sínu með héraðsstjórnum. Lögmál hugsunarinnar. Þýski heimspekingurinn Leibniz setti lögmálin fram í þessari mynd. Í rökhyggjuhefðinni eru þau almennt talin til skýrra og greinilegra og óvéfengjanlegra frumsenda. Fyrstu tvö lögmálin setti Aristóteles fyrstur fram og skólaspeki miðalda þáði þau í arf. Síðari lögmálin tvö setti Leibniz fyrstur fram. Þau varða mál sem nú eru afar umdeild (t.d. í heimspekilegri umfjöllun um nauðhyggju og umtak). Þetta er í vissum skilningi til marks um það sem átti sér stað í rökfræði á 19. öld og einkum í kjölfarið á þýska rökfræðingnum Gottlob Frege (sem varð fyrir miklum árifum frá þessari framsetningu lögmálanna). "Lögmál" af þessu tagi voru talin vera í grundvallaratriðum mikilvæg af uppeldis- og menntunarlegum ástæðum, fremur en að ögra vitsmununum. Þessa viðhorfs hætti fyrst að gæta einhvern tímann snemma á 20. öld, eins og sjá má af tilvísun Bertrands Russell til þeira í riti frá árinu 1911 (en þá voru þau orðin þrjú). Lögmál hugsunarinnar höfðu mikil áhrif einkum á þýska hugsun. Í Frakklandi gerði túlkunin í "Logique Port-Royal", áhrifamikilli kennslubók um rökfræði, að verkum að lögmálin þóttu ekki eins dularfull. Þýski heimspekingurinn Hegel hafnaði lögmálinu um samsemd óaðgreinanlegra hluta er hann þróaði sína eigin rökfræði (sjá hegelsk rökfræði). Titill bókar George Boole um rökfræði frá árinu 1854, "An investigation on the Laws of Thought" gefur til kynna nýja byrjun. Lögmál þessi eru nú hluti af boolískri rökfræði. Logique Port-Royal. "Logique Port-Royal" (eða "Port-Royal rökfræðin") er þekktara nafn á "La logique, ou l'arte de penser" ("Rökfræðin eða listin að hugsa"), sem var mikilvæg kennslubók um rökfræði, fyrst gefin út nafnlaust árið 1662 af Antoine Arnauld og Pierre Nicole, tveimur nemendum hins janseníska Port-Royal skóla suðvestur af París í Frakklandi. Bókin var rituð á frönsku og varð afar vinsæl. Hún var notuð allt fram á 20. öld sem inngangsbók í rökfræði. Bókin ber merki um mikil áhrif frá cartesískri frumspeki og þekkingarfræði (en Arnauld var, ásamt Thomasi Hobbes, einn helsti heimspekingurinn sem birtar voru mótbárur eftir í bók Descartes "Meditationes de Prima Philosophia" ("Hugleiðingum um frumspeki") ásamt viðbrögðum Descartes). Stundum er vitnað til "Logique Port-Royal" sem fyrirmyndardæmi um hefðbundna setningarökfræði. Lögmálið um samsemd óaðgreinanlegra hluta. Lögmálið um samsemd óaðgreinanlegra hluta (eða lögmál Leibniz) er verufræðilegt lögmál sem þýski heimspekingurinn G.W. Leibniz setti fyrstur manna fram á 17. öld. Lögmálið kveður á um að ef engin leið er til þess að þekkja eða greina í sundur tvo hluti, þá sé um einn og sama hlutinn að ræða. Það er að segja, tvö fyrirbæri, "x" og "y", eru einn og sami hluturinn ef og aðeins ef "x" hefur alla eiginleika sem "y" hefur og enga aðra eiginleika en þá sem "y" hefur. Umdeilanleg beiting lögmálsins. Franski heimspekingurinn René Descartes beitti lögmálinu um samsemd óaðgreinanlegra hluta í ritinu "Meditationes de Prima Philosophia" ("Hugleiðingar um frumspeki") eins og frægt er orðið. Descartes hélt því fram að hann gæti ekki dregið í efa eigin tilvist (hin frægu „Ég hugsa, þess vegna er ég“ rök) en að hann gæti efast um tilvist líkama síns. Af þessu dró hann þá ályktun að persónan Descartes gæti ekki verið eitt og hið sama og líkami Descartes þar eð annað bjó yfir eiginleika sem hitt bjó ekki yfir, það er að segja að vera þekkjanlegt. Gagnrýni. Max Black hefur fært rök gegn lögmálinu um samsemd óaðgreinanlegra hluta í formi gagndæmis. Hann heldur því fram að í samhverfum heimi, þar sem einungis tveir samhverfir knettir eru til, séu knettirnir tveir aðskildir hlutir, þrátt fyrir að þeir hafi alla sömu eiginleikana. Nafnhyggja. Nafnhyggja er afstaða í frumspeki að altök séu ekki til utan hugsunar okkar. Best er að skilja nafnhyggju í tengslum við "hluthyggju um altök". Hluthyggja um altök er sú kenning að orð eins og „grænn“ eða „tré“ vísi til altaks - hugtaks sem nær yfir alla græna hluti eða öll tré - og að altökin séu til óháð hugmyndum okkar um þau. Þessi afstaða er oft kennd við forngríska heimspekinginn Platon (sjá Platon og frummyndakenninguna). Nafnhyggjan heldur því aftur á móti fram að hugtökin sem orðin vísa til eigi sér enga sjálfstæða tilvist utan ímyndunarafls okkar. Meðal málsvara nafnhyggjunnar voru heimspekingarnir William frá Ockham, John Locke, George Berkeley, W.V.O. Quine og Wilfrid Sellars. John L. Austin. John Langshaw Austin (28. mars 1911 – 8. febrúar 1960) var breskur heimspekingur, sem fékkst einkum við málspeki og átti mestan þátt í að þróa kenninguna um málgjörðir. Hann fæddist í Lancaster og var menntaður í Balliol College í Oxford. Hann starfaði í MI6 leyniþjónustunni í síðari heimsstyrjöldinni en að því loknu tók Austin við stöðu prófessors White í siðfræði við University of Oxford. Þáttur hans í sögu breskrar málspeki er afar mikilvægur. Ásamt Ludwig Wittgenstein lagði hann ríka áherslu á að notkun orða skyldi rannsökuð til að varpa ljósi á merkingarhugtakið. Tengt efni. Austin, John L. Austin, John L. Hrunamannahreppur. Hrunamannahreppur (einnig kallaður Ytri-Hreppur) er hreppur í uppsveitum Árnessýslu, liggur austan Hvítár. Í hreppnum er mikil ylrækt, sérstaklega í þéttbýlinu á Flúðum við Litlu-Laxá, enda mikill jarðhiti á svæðinu. Í sveitinni er líka mikil nautgriparækt og er hreppurinn einna fremstur á landinu hvað mjólkurframleiðslu varðar. Á hreppamörkum Hrunamannahrepps og gamla Gnúpverjahrepps rennur Stóra-Laxá sem er mikil laxveiðiá. Mínúta. Mínúta er mælieining fyrir tíma, táknuð með m, en er ekki SI-mælieining. (Algeng íslensk skammstöfun er "mín"). Er venjulega 1/60 af klukkutíma eða 60 sekúndur en getur stundum verið 59 eða 61 sekúnda, sjá hlaupsekúnda. Georg Anton Friedrich Ast. Georg Anton Friedrich Ast (29. desember 1778 – 31. október 1841) var þýskur heimspekingur og fornfræðingur. Hann fæddist í Gotha en var menntaður í háskólanum í Jena. Hann varð stundakennari í Jena árið 1802 og þremur árum seinna 1805 varð hann prófessor í klassískum bókmenntum við háskólann í Landshut þar sem hann starfaði til ársins 1826, en þá var skólinn færður til München. Þar bjó hann til æviloka, en hann lést 1841. Hann fylgdi verki sínu eftir með útgáfu á verkum Platons (í tveimur bindum sem komu út á árunum 1819-1832) ásamt latneskri þýðingu og skýringum. Síðasta verk hans var "Lexicon Platonicum" (í þremur bindum sem komu út á árunum 1834-1839), sem enn er notast við. Auk verka sinna um Platon samdi hann bækur um fagurfræði, sögu heimspekinnar og fornfræði og textafræði. Í verkum sínum um fagurfræði sameinaði hann skoðanir Schellings og Winckelmanns, Lessings, Kants, Herders, Schillers og annarra. Verk hans um sögu heimspekinnar eru prýdd gagnrýninni fræðimennsku fremur en frumlegri hugsun en þykja áhugaverðar fyrir þær sakir að þær endurspegla viðhorfið sem nú er vel þekkt að saga heimspekinnar sé ekki saga einstakra skoðana, heldur hugsunar almennt. Hann var meðal þeirra fyrstu sem settu fram lögmál um þróun hugsunar. Heimild. Ast, Georg Anton Friedrich Ast, Georg Anton Friedrich Ast, Georg Anton Friedrich Hugspeki. Hugspeki er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli hugans, hugarferla, hugrænna eiginleika og meðvitundar. Þessi viðfangsefni fela í sér mörg erfið vandamál og vekja upp erfiðar spurningar og skiptar skoðanir eru um framsetningu þeirra og lausnir og svör við þeim. Segulljós. Segulljós er í stjörnufræði ljósfræðilegt fyrirbrigði sem einkennist af litríkum dansi ljóss á næturhimninum sem orsakast af samverkun hlaðinna einda úr sólvindi og efri lögum andrúmslofts reikistjörnu. Á Jörðinni, Júpíter, Úranus og Neptúnus orsakast segulljós af samverkun sólvinds og segulsviðs reikistjörnunnar sem hrindir honum frá sér nema við segulpólana tvo, suður- og norðurpólinn þar sem sólvindurinn sleppur í gegn og lendir í tilfelli Jarðarinnar á hitahvolfinu og myndar segulljós, þegar fyrirbrigðið á sér stað á suðurhvelinu er það kallað suðurljós en norðurljós á norðurhvelinu. Saybia. Nafn hljómsveitarinnar er komið af ensku orðunum „say“ og „phobia“, þ.e.a.s. talfóbía. Túlín. Tulín er frumefni með efnatáknið Tm og er númer 69 í lotukerfinu. Túlín er hefur bjartan, silfur-gráan gljáa, er auðunnið, og er sjaldgæfast allra sjaldgæfra jarðmálma. Það hefur nokkuð tæringarviðnám í þurru lofti og er vel teygjanlegt. Náttúrulegt túlín samanstendur eingöngu af samsætunni Tm-169. Notkun. Sökum fágæti túlíns hafa ekki fundist mörg not fyrir það í almennum tilgangi. Það hefur verið notað í að smíða leysa en sökum hás framleiðslukostnaðar hafa þeir ekki reynst arðvænlegir. Saga. Túlín var uppgötvað af sænska efnafræðingnum Per Teodor Cleve árið 1879 er hann leitaði af óhreinindum í oxíðum annarra sjaldgæfra jarðmálma. Hann byrjaði á því að fjarlægja öll þekkt óhreinindi erbíu (Er2O3) og eftir ákveðið ferli, vann hann úr því tvö ný efni; eitt brúnt og hitt grænt. Brúna efnið reyndist vera oxíð frumefnisins holmín og var kallað holmía af honum en græna efnið var oxíð áður óþekkts frumefnis. Cleve nefndi oxíðið túlía og frumefni þess túlín eftir Túle, sem er gamalt rómverskt nafn yfir goðsagnakent land í norðri, væntanlega Skandinavíu. Tilvist. Túlín finnst aldrei í hreinu formi í náttúrunni, en finnst þó í litlum mæli í steinum ásamt öðrum sjaldgæfum jarðmálmum. Það er aðallega unnið úr mónasíti (~0,007% túlín) úr straumseti með jónskiptiaðferðum. Engin efnasambönd túlíns eru mikilvæg iðnaði. Samsætur. Náttúrulegt túlín samanstendur af einni stöðugru samsætum, Tm-169 (100,0% náttúruleg gnægð). 31 geislasamsætum hefur verið lýst, og sú stöðugasta af þeim er Tm-171 sem hefur helmingunartíma 1,92 ár, Tm-170 með helmingunartíma 128,6 daga, Tm-168 með helmingunartíma 93,1 daga, og Tm-167 með helmingunartíma 9,25 klukkustundir. Allar hinar geislasamsæturnar hafa helmingunartíma undir 64 klukkustundum og meirihluti þeirra undir 2 mínútur. Ytterbín hefur einnig 14 systurkjarna, þar sem þær stöðugustu eru Tm-164m (helmingunartími 5,1 mínúta), Tm-160m (helmingunartími 74,5 sekúndur), og Tm-155m (helmingunartími 45 sekúndur). Samsætur ytterbíns spanna atómmassa frá 145,966 (Tm-146) upp að 176,949 (Tm-177). Aðal sundrunarháttur þess á undan algengustu stöðugu samsætunni, Tm-169 er rafeindahremming og aðalsundrun eftir það er betasundrun. Aðaldótturefni þess á undan Tm-169 eru samsætur frumefnis 68 (erbín) og aðaldótturefni á eftir er samsætur frumefnis 70 (ytterbín). Varúðarráðstafanir. Túlín hefur hóflegt eitrunarmat og skyldi meðhöndla það með aðgát. Af málmdufti þess stafar eld- og sprengihætta. Ávöxtur. Ávöxtur (eða aldin) er samkvæmt grasafræði þroskað afsprengi egglegs dulfrævings sem umlykur fræ hennar. Í matargerð á hugtakið hins vegar oftast við þá ávexti sem eru sætir og holdugir, t.d. ferskjur, epli og appelsínur. Dæmi um afurðir sem eru ávextir samkvæmt grasafræðilegri skilgreiningu en eru ekki taldir sem slíkir í matargerð eru agúrkur, maís, pipar (t.d. chillipipar), hnetur, eggaldin og tómatar. Ávextir sem ekki innihalda fræ eru nefndir geldaldin. Afsprengi plöntu sem líkist ávexti en flokkast ekki sem ávöxtur er í grasafræði kallað skinaldin. Einær jurt. Einær jurt er planta sem spírar, blómgast og deyr að jafnaði á einu ári. Tvíær jurt. a> er dæmi um "tvíæra jurt". Tvíær jurt er planta sem lifir í 12-24 mánuði. Á fyrsta ári líftíma plöntunnar spírar hún og kemur upp laufum og stofn og leggt svo í dvala yfir vetrarmánuðina, næsta vor eða sumar þroskar hún ávexti, blóm og fræ, og deyr svo. Fjölær jurt. Fjölær jurt er planta sem lifir í meira en tvö ár, þ.e. ber fræ oftar en einu sinni. Ilhas Desertas. Ilhas Desertas eru þrjár óbyggðar eyjar sem tilheyra Madeiraeyjum. Katekólamín. Katekólamín eru efni sem búin eru til úr amínósýrunni týrósíni og gegna hlutverki boðefna eða hormóna. Þrjú þeirra helstu eru adrenalín, noradrenalín og dópamín. Adrenalín er búið til úr noradrenalíni sem aftur er myndað úr dópamíni. "Adrenalín" og "noradrenalín" eru mjög skyld efni í bæði efnauppbyggingu og notkun. Bæði búa líkamann undir mikil átök og tengjast streituviðbrögðum. "Dópamín" er meðal annars talið gegna hlutverki í ýmiss konar fíkn og umbun. Það er líka notað í botnkjörnum, heilakjörnum sem sjá um viljastýrðar hreyfingar, og virðist einnig hafa einhverju hlutverki að gegna í minni, athygli og rökhugsun. George Peter Murdock. George Peter Murdock (11. maí 1897 – 29. mars 1985) var bandarískur mannfræðingur sem sérhæfði sig í samanburðar þjóðháttafræði — þá sérstaklega Afríku og úthafsþjóðfélögum — og félagskenningum (e. social theory). Hann er líklegast hvað þekktastur fyrir þvermenningarlegu könnunina (e. the Cross-Cultural Survey) sem hann stóð fyrir og var verkefni deildar innan Yale háskóla sem fæst við mannleg samskipti (e. Institute of Human Relations). Tilgangurinn var að skrá niður mikið magn mannfræðilegra upplýsinga sem hægt var að sækja fljótlega úr gagnabanka. Murdock, George Peter Blóð-heila-hömlur. Blóð-heila-hömlurnar, einnig kallaðar heilatálmi eða blóð-heilaskilja, sjá um að hleypa aðeins tilteknum efnum úr blóðinu yfir í heilavefinn og halda öðrum efnum úti. Þetta geta til að mynda verið ýmis eiturefni, en einnig koma þær í veg fyrir að hormón sem eiga að virka á líkamann virki líka á heilann. Blóð-heila-hömlurnar geta verið til trafala þegar gefa á sum lyf, þar sem heilinn hleypir ekki lyfjunum að sér. Gísli Marteinn Baldursson. Gísli Marteinn Baldursson (f. 26. febrúar 1972) er íslenskur borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og fyrrverandi dagskrárgerðarmaður í Sjónvarpinu. Hann stundar nám samhliða vinnu sinni í Háskólanum í Edinborg. Ferill. Foreldrar hans eru Baldur Gíslason skólameistari við Iðnskólann í Reykjavík og Elísabet J. Sveinbjörnsdóttir leikskólastjóri. Gísli Marteinn starfaði í Sjónvarpinu frá 1997, fyrst sem fréttamaður en síðar sem dagskrárgerðarmaður. Hann var upphafsmaður þáttarins "Kastljóss", sem hóf göngu sína 3. janúar 2000. Árið 2002 hóf hann að stýra þættinum "Laugardagskvöldi með Gísla Marteini", sem var um árabil vinsælasti spjallþátturinn í íslensku sjónvarpi. Gísli Marteinn var valinn sjónvarpsmaður ársins á Edduverðlaunahátíðinni 2003. Gísli Marteinn var forseti Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands 1991-1992, á tíma sínum í Verzlunarskóla Íslands komst Gísli þrívegis í úrslit Morfís, sigraði keppnina tvívegis og varð ræðumaður Íslands árið 1992, formaður Vöku í Háskóla Íslands 1994-1995, sat í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1994-1996 og í stjórn Stúdentaráðs 1995-1996. Árið 2002 var Gísli Marteinn kjörinn varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, árið 2006 var hann kjörinn borgarfulltrúi fyrir flokkinn en hann skipaði þriðja sætið á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Gísli Marteinn er kvæntur Völu Ágústu Káradóttur íslenskufræðingi og eiga þau tvær dætur. Makaó. Makaó (hefðbundin kínverska: 澳門; einfölduð kínverska: 澳门; pinyin: Aòmén; portúgalska: Macau) er borg í Kína. Borgin myndar samnefnt sérstjórnarhérað á sama máta og Hong Kong. Hún er bæði minnsta (29 km²) og fámennasta (520 400) hérað landsins. Makaó er fjölsóttur ferðamannastaður ekki síst vegna mikils fjölda spilavíta sem er mikilvægasta tekjulindin. Saga. Portúgalar fengu leyfi til verslunar í Makaó árið 1535 og gerðu síðar leigusamning við Kínverja til langs tíma. Nýlendunni var formlega skilað aftur til Kína árið 1999 og hún gerð að sérstjórnarhéraði. Makaó og Hong Kong voru því einu nýlendur Evrópumanna í Kína. Niue. Niue er smáríki í suður-Kyrrahafi. Það hefur sjálfsstjórn en er þó í sambandi við Nýja Sjáland hvað varðar ýmis utanríkismál og þjóðhöfðingja. Bresku Jómfrúaeyjar. Bresku Jómfrúaeyjar (eða Bresku Jómfrúreyjar eða Bresku Meyjaeyjar) eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins. Eyjarnar eru um fimmtíu talsins og eru nyrst í Litlu-Antillaeyjaklasanum. Stærsta eyjan er Tortola þar sem höfuðstaðurinn, Road Town, er. Nokkrar eyjanna eru í einkaeigu, svo sem Necker-eyja sem er í eigu breska auðkýfingsins Richards Bransons. Caymaneyjar. Caymaneyjar eru þrjár eyjar í Vestur-Karíbahafi, á milli Kúbu og Jamaíku. Eyjarnar heita Grand Cayman, Cayman Brac og Little Cayman. Efnahagur eyjanna byggir að langmestu leyti á ferðaþjónustu. Falklandseyjar. Falklandseyjar er lítill eyjaklasi út af Suður-Ameríku, um 500 km til suðausturs frá Argentínu. Þær eru undir stjórn Bretlands en Argentína hefur einnig gert tilkall til þeirra og olli það Falklandseyjastríðinu á milli þjóðanna 1982. Eyjarnar eru nefndar "Falkland Islands" á ensku og "Islas Malvinas" á spænsku. Saga. Það veit enginn með vissu hver raunverulega fann Falklandseyjar fyrst. Almennt er talið að Hollendingur, Sebald de Weert, hafi fyrstur manna stigið fæti á eyjarnar árið 1598. Argentínumenn vilja raunar eigna einum skipstjóra Magellanleiðangursins 1520, Esteban Gomez, heiðurinn, en Bretar telja hins vegar John Davis hafa stigið þar fyrstan á land árið 1592. Það var John Strong sem nefndi sundið sem aðskilur eyjarnar í höfuðið á yfirmanni breska flotans, fimmta vísigreifanum af Falkland, árið 1690; og þaðan er enska nafnið komið. Spænska nafnið Las Malvinas er hins vegar komið frá frönskum sjómönnum sem á 17. öld lögðu oft leið sína til eyjanna. Sjómennirnir komu frá bænum St. Malo, sem varð til þess að Frakkar byrjuðu að nefna eyjarnar Malouines sem Spánverjar aðlöguðu svo í nafnið Malvinas. Bandarískur skipstjóri, Silas Duncan að nafni, átti eftir að reynast mikill örlagavaldur í sögu eyjanna. Árið 1829 réðu Spánverjar yfir eyjunum. Það ár skipaði stjórnin í Buenos Aires þýskættaðan kaupmann, Vernet, að nafni landstjóra á Falklandseyjum. Strax og Vernet hélt til eyjanna skar hann upp herör gegn ólögmætum veiðum við eyjarnar. Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á Vernet var bandaríski fiskibáturinn "Harriet". Svo illa vildi til að bandarískt herskip, "USS Lexington", var statt í Buenos Aires. Samkvæmt beiðni ræðismanns Bandaríkjamanna í Buenos Aires hélt skipið til eyjanna til að krefjast þess að Vernet skilaði því sem hann hafði gert upptækt. Duncan gerði raunar miklu meira en aðeins það, því hann lagði höfuðstað eyjanna, Puerto Soledad í rúst, handtók íbúana og lýsti því yfir að eyjarnar lytu ekki stjórn neins. Aðgerðir Duncans voru ekkert annað en sjóræningjamennska. En á meðan málsaðilar körpuðu um bætur vegna málsins, sáu Bretar sér leik á borði. Breska ríkistjórnin gerði herskip út af örkinni í þeim tilgangi að hertaka eyjarnar, sem þeir gerðu þann 2. janúar 1833 án mikillar mótspyrnu argentínskrar freigátu, sem þar var stödd. Ári síðar var hin gamla nýlenda Breta, Port Egmont, endurbyggð og breski fáninn blakti aftur yfir eyjunum. Þrátt fyrir mótmæli gat hið nýstofnaða ríki Argentínu mjög lítið gert til að hamla gegn yfirgangi breska heimsveldisins. Árið 1843 færði breski landstjórinn á Falklandseyjum, lautinant Richard Moody, höfuðstaðinn aftur til Puerto Soledad og nefndi hann Stanley. Breskir þegnar byrjuðu nú jafnt og þétt að flytjast til eyjanna og um 1884 bjuggu þar um 1400 manns, allir af breskum uppruna. Argentínumenn gerðu áfram tilkalla til eyjanna og 1982 gerðu þeir tilraun til að hertaka þær sem leiddi til Falklandseyjastríðsins. Fjölbrautaskóli Suðurlands. Fjölbrautaskóli Suðurlands er íslenskur fjölbrautaskóli staðsettur á Selfossi. Hann var stofnaður árið 1981 og á rætur sínar að rekja til Iðnskólans á Selfossi, framhaldsdeildanna við Gagnfræðaskólann á Hvolsvelli, Selfossi, Skógum og í Hveragerði og til öldungadeildarinnar í Hveragerði. Núverandi skólameistari er Olga Lísa Garðarsdóttir. Kennsluhúsnæði. Kennsluhúsnæði skólans eru þrjú; Oddi, Hamar og Iða. Oddi er bóknámshús skólans og var tekinn í notkun 1987. Seinni hluti byggingarinnar var tekinn í notkun 1994. Hamar var tekið í notkun 1974 og hafði verið notað við Iðnskólann á Selfossi. Í Hamri eru kenndar húsasmíði, málmsmíði, raf- og bilvélavirkjanagrunnar. Iða er íþróttahús skólans og einnig eru nokkrar kennslustofur í henni. Iða var tekin í notkun haustið 2004 og var þá hætt að kenna íþróttir á framhaldsskólastigi í íþróttahúsi Árborgar við Sólvelli. Auk þess er skólinn með nemendagarða við Eyraveg sem kallast Fosstún. Körfubolta-akademía. Haustið 2005 var sett á laggirnar körfuboltaakademía við skólann og keppir lið skólans í þremur aldursflokkum undir merkjum FSu. Nær allir drengirnir búa á nemendagörðum við Eyraveg. Fótbolta-akademía. Haustið 2006 var sett á laggirnar fótboltaakademía. Handbolta-akademía. Sömu önn og fótboltaakademáin var stofnuð, eða haustið 2006, þá var sett á laggirnar handboltaakademía. Tengill. Suðurlands Villingaholtshreppur. Villingaholtshreppur var hreppur í austanverðum Flóa í Árnessýslu og lá að Þjórsá. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Villingaholtshreppur Gaulverjabæjarhreppi og Hraungerðishreppi undir nafninu "Flóahreppur". Flestir íbúar lifðu af landbúnaði eða sóttu vinnu annars staðar, t.d á Selfossi. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 185. Helsinki. Helsinki á finnsku (Helsingfors á sænsku) er höfuðborg Finnlands og jafnframt stærsta borg landsins með yfir 600 þúsund íbúa. Á öllu Helsinkisvæðinu búa samanlagt 1,3 milljónir íbúa. Helsinki er helsta miðstöð stjórnmála, menningar og vísinda í Finnlandi. Helsinki eða Helsingfors, eins og bærinn nefndist upphaflega, var stofnaður 1550 af Gústaf Vasa, Svíakonungi, sem keppinautur hansakaupstaðarins Tallinn í núverandi Eistlandi. Það var þó ekki fyrr en eftir að Finnland féll í hendur Rússum 1808 og varð að finnska stórfurstadæminu 1809 sem vegur Helsinki fór að dafna. Sem þátt í viðleitni sinni að minnka áhrif sænskrar menningar og tengsla við Svíþjóð ákvað Alexander I, Rússlandskeisari og stórfursti Finnlands, að flytja höfuðborgina frá Turku (Åbo) til Helsinki árið 1812. Við lok 19.aldar hafði meirihluti íbúa Helsinki sænsku að móðurmáli en vegna mikils innflutnings finnskumælandi fólks til borgarinnar hafa hlutföllin snúist við og nú hefur mikill meirihluti borgarbúa finnsku að móðurmáli. Wallace & Gromit. Wallace & Gromit eru breskar persónur sem skapaðar voru af Nick Park og hafa birst í þremur stuttmyndum og einni mynd í fullri lengd eftir hann, mótaðir í leir. Fyrirtækið sem framleiðir myndirnar heitir Aardman Animations. Þann 10. október 2005 brann myndver Aardman og allt sem þar var, þar á meðal öll módel af persónunum. Myndirnar sjálfar eru þó geymdar annars staðar og hafa því ekkert skemst. Wallace. Wallace er handlaginn uppfinningamaður á einhverjum óræðum miðjum aldri. Hann er sköllóttur og klæðist oftast, í það minnsta heima fyrir, brúnum buxum, hvítri skyrtu, rauðu bindi, grænu prjónavesti og svörtum skóm. Hann virðist ekki ná að vinna fyrir sér með uppfinningunum og því taka hann og Gromit að sér ýmis störf önnur, svo sem gluggaþvott í einni mynd þeirra. Hann er mikill aðdáandi osts og hefur sérstakt dálæti á Wensleydale-osti. Þrátt fyrir að vera afar handlaginn má segja að hann stígi ekki alltaf í vitið og á til að vera mjög utan við sig, en þá bjargar Gromit þeim félögunum oftast. Peter Sallis útvegar rödd Wallace. Gromit. Gromit er einkar mannlegur hundur Wallace. Hann getur ekki talað, enda hefur hann engan munn, en það kemur einstaka sinnum fyrir að hann láti frá sér lítið gelt. Þrátt fyrir þetta getur hann vel tjáð sig með því að sýna ýmsa svipi. Hann er ljósbrúnn fyrir utan eyrun, sem eru dökkbrún. Hann er, líkt eigenda sínum, mjög handlaginn og á auðvelt með að setja saman alls konar raftæki, þó hann hafi ekki gert uppfinningarnar að starfi líkt og Wallace. Hann les mikið, oft miklar og djúpar bækur og virðist að mörgu leyti gáfaðari en eigandinn. Geimferðastofnun Bandaríkjanna hefur nefnt eitt vélmenna sinna, ætlað til könnunar á Mars eftir Gromit. Annað. Um félagana hafa verið gerðir tveir tölvuleikir:"Wallace and Gromit in Project Zoo" sem tengist myndinni The Wrong Trousers og kom út árið 2003 og leikur byggður á myndinni þeirra í fullri lengd og með sama nafni, "Wallace & Gromit: The Curse of the Were-Rabbit". Þar að auki hafa verið gefnar út nokkrar teiknimyndabækur með nýjum sögum um þá. Einnig er til mikið af varningi svo sem styttum og dagbókum og þvílíku sem merkt er persónunum. Gaulverjabæjarhreppur. Gaulverjabæjarhreppur eða Bæjarhreppur var hreppur í sunnanverðum Flóa í Árnessýslu sem markaðist af Atlantshafi í suðri, Villingaholtshreppi og Hraungerðishreppi í austri og norðri og Sveitarfélaginu Árborg í vestri. Landslag hreppsins markast af mýri Flóans og lítið er um hóla og hæðir. Í mýrlendinu eru mýradrög og flóar. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 141. Hinn 10. júní 2006 sameinuðust Flóahrepparnir þrír; Gaulverjabæjarhreppur, Villingaholtshreppur og Hraungerðishreppur og mynduðu Flóahrepp. Hraungerðishreppur. Hraungerðishreppur (áður nefndur Hraungerðingahreppur) var hreppur í norðanverðum Flóanum í Árnessýslu, kenndur við kirkjustaðinn Hraungerði. Annar kirkjustaður er í Laugardælum og er sóknarprestur séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson. Íbúafjöldi 1. desember 2005 var 200. 10. júní 2006 sameinaðist Hraungerðishreppur Villingaholtshreppi og Gaulverjabæjarhreppi og mynduðu þeir saman "Flóahrepp". Bláskógabyggð. Bláskógabyggð er sveitarfélag í uppsveitum Árnessýslu, vestan Hvítár. Til vesturs liggur Grímsnes- og Grafningshreppur. Sveitarfélagið varð til 9. júní 2002 við sameiningu Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps að afloknum sameiningarkosningum. Skrifstofa er í félagsheimilinu Aratungu sem stendur við Reykholt. Þéttbýlismyndanir eru í Laugarási, Reykholti og á Laugarvatni. Nafn sveitafélagsins er dregið af landssvæði í kringum Þingvallavatn sem kallast Bláskógar. Grímsnes- og Grafningshreppur. Grímsnes- og Grafningshreppur er sveitarfélag í miðri Árnessýslu. Það varð til 1. júní 1998 við sameiningu Grímsnes- og Grafningshreppa. Hreppurinn liggur að Bláskógabyggð, Hvítá og Sveitarfélaginu Ölfusi. Spurningarmerki. thumb Spurningamerki (táknað ?) er í prentlist greinarmerki sem kemur í stað punkts í enda spurningar. Í ritaðri grísku er semíkomma (;) notuð sem spurningamerki. Öfugt spurningarmerki. thumb Öfugt spurningarmerki (táknað ¿) er í spænskri prentlist greinarmerki sem táknar byrjun spurningar. Helsta ástæða þessa er sú að í báðum málum er mjög sjaldan hægt að sjá á beyginga- eða setningafræði setninga hvort um spurningu er að ræða og tónfall ræður öllu um hvort spurningu eða fullyrðingu er að ræða. Þetta er því mjög til þæginda við lestur því það minnir lesandann á að breyta ítóni. Aðeins sú setning sem er í raun spurning er merkt með spurningarmerkjum, ekki heilar málsgreinar. Á miðöldum voru öfug spurningarmerki stundum notuð til að tákna retorískar eða ósvaranlegar spurningar. Norður-Maríanaeyjar. Norður-Maríanaeyjar eru eyjaklasi í Vestur-Kyrrahafi. Eyjarnar eru, ásamt Gvam, hluti Maríanaeyjaklasans, sem aftur er hluti Míkrónesíu. Landið er samveldisríki í sérstöku stjórnmálasambandi við Bandaríkin. Fjölmiðlafrumvarpið. Fjölmiðlafrumvarpið var frumvarp til laga á Íslandi á árinu 2004. Í frumvarpinu fólust takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlafyrirtækjum. Þannig mátti enginn einn aðili eiga meira en 25% í fjölmiðafyrirtæki. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi af ríkisstjórn Íslands og var samþykkt þar þrátt fyrir mikla andstöðu í þjóðfélaginu. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að staðfesta lögin og vísaði þeim þar með til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í kjölfarið vöknuðu spurningar hvort að forsetinn hefði í raun rétt til að synja málum. Ríkisstjórnin kom í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið (lögin) með því að fá samþykkt frumvarp, sem nam hitt úr gildi. Svokölluð fjölmiðlanefnd menntamálaráðuneytisins skilaði af sér skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi í byrjun mars 2004. Eftir það voru hjólin fljót að snúast og umrætt frumvarp var samþykkt á Alþingi þann 24. mars 2004. Til mótmæla kom utan við skrifstofu forseta Íslands og félagasamtökin Fjölmiðlasambandið sem stofnað var 1998 af stéttarfélögum þar sem starfsmenn fjölmiðla voru félagsmenn í, Blaðamannafélags Íslands, Félags bókagerðarmanna, Félags grafískra teiknara, Starfsmannafélags RÚV, Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Rafiðnaðarsambands Íslands, beitti sér fyrir mótstöðu við frumvarpið afhenti Ólafi Ragnari Grímssyni undirskriftalista 31.752 Íslendinga þar sem skorað var á hann að staðfesta ekki lögin. Annan júní ákvað hann að gera það ekki fyrir vegna þess fjölda sem tók þátt í undirskriftarsöfnuninni. Það var í fyrsta skipti í sögu Íslands að forseti lýðveldisins nýtti sér málskotsrétt sinn í 26. gr. stjórnarskrárinnar og staðfesti ekki lög frá Alþingi og vísaði þeim til þjóðarinnar. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar dró lögin þá tilbaka og setti fram önnur lög sem síðar voru staðfest. Sú framkvæmd ríkisstjórnarinna var gagnrýnd og bent á að ríkisstjórninni hefði borið samkvæmt stjórnarskránni að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna. Fljót. Fljót eru nyrsta byggðalag í Skagafirði austanverðum. Þau skiptast í Austur- og Vestur-Fljót og ná frá Stafá í vestri að sýslumörkum Eyjafjarðarsýslu í austri. Í norðri eru mörkin milli sýslnanna um Almenningsnöf. Stundum eru Flókadalur og Bakkar taldir til Fljótanna, enda var það svæði í Fljótahreppi þegar hann var til, en oftast er þó aðeins átt við víðan dalinn inn af Haganesvík og svæðið norður með Miklavatni, út að Hraunum, sem er nyrsti bær í Fljótum og þar með Skagafjarðarsýslu. Svæðið austan Hópsvatns og út á Haganes og svo meðfram suðurströnd Miklavatns er oft kallað einu nafni Vestur-Fljót. Austur-Fljót eru svo þar fyrir norðan og austan, en innri hluti Fljótadalsins, innan við Stífluhóla, heitir Stífla. Fljótin eru grösug en snjóþung. Þar er allstórt lón eða stöðuvatn, Miklavatn. Þar eru einnig önnur nokkuð stór vötn, Hópsvatn, Flókadalsvatn og Stífluvatn, sem er uppistöðulón sem myndaðist þegar Skeiðsfossvirkjun var byggð. Stífluá rennur (eða rann) um Stíflu, en eftir að kemur niður fyrir Stífluhóla og Skeiðsfossvirkjun heitir hún Fljótaá. Hún rennur í Miklavatn. Grandinn framan við vatnið heitir Hraunamöl. Þaðan og úr Haganesvík var áður mikið útræði og hákarlaveiði. Haganesvík var áður verslunarstaður. Nú rekur Kaupfélag Skagfirðinga útibú á Ketilási, fyrir botni Miklavatns. Þar er líka félagsheimilið Ketilás. Tveir kirkjustaðir eru í Fljótum, Barð í Vestur-Fljótum og Knappsstaðir í Stíflu. Víða í Fljótum er jarðhiti og á Sólgörðum er sundlaug. Þar var áður sjálfstæður skóli en nú er þar útibú frá Grunnskólanum austan Vatna. Háfrónska. Háfrónska (einnig þekkt sem háíslenska) er afrakstur vinnu Belgans "Jozefs Braekmans" (1. maí 1965) og að einhverjuleiti Pétri Þorsteinssyni, og var ætlað að vera endurbætt útgáfa af íslensku sem væri laus við öll tökuorð. Orðasafn með nýyrðum Braekmans er að finna á vefsíðunni „“. Háfrónska dregur nafn sitt af hánorsku (høgnorsk). Upphafið. Samkvæmt Braekman hafði hann frá árinu 1992 smíðað innlend jafnheiti fyrir þau tökuorð sem ekki höfðu hrein samheiti. Árið 2005 stofnaði hann „Miðstöð háfrónska tungumálsins“ vegna þess að hann var hræddur um að ekkert af nýyrðum hans hlyti góðar viðtökur hjá almenningi ákvað hann að búa til táknrænt athvarf fyrir þau. Fram að því hafði hann sent nokkuð margar tilkynningar um nýyrðasmíð sína inn á fréttahópinn is.islenska á Usenet. Hegðun Braekmans í fréttahópi is.islenska vakti litla hrifningu hjá mörgum og sökum þess ákvað hann að afhenda starf sitt í hendur Pétri Þorsteinssyni safnaðarpresti Óháða safnaðarins. Pétur er nú forseti háfrónsku málhreyfingarinnar. Tungumálið hefur ekki opinbera stöðu á Íslandi né annarstaðar og ekki heimildir um neina aðra fylgismenn en Braekmans og Pétur. Málhreinsun. Samkvæmt Braekman er áherslan það sem hann kallar "málgjörhreinsun", sem er að hanns sögn ofstækisfyllsta mynd málhreinsunar. Það er að allt sem hægt er að tjá með mannlegum hljóðum er markmið hreintungusinna, jafnvel landaheiti, mannanöfn og efnaheiti. Málhreinsun hófst á 18. öld við stofnun Hið íslenska lærdómslistafélags 1779 og almennur skilningur á stefnunni vaknaði á 19. öld þegar Fjölnismenn rituðu tímaritið Fjölni. Dæmi um hafrónsk heiti eru staðarheitin Sigurborg (Cairo) og Góðviðra (Buenos Aires) og mannanöfn eins og Hróbjartur Píll (Robert Peel) og Jón Hrísill (John Russell). Ólíkt ríkjandi íslenskri málstefnu, vilja háfrónverjar útrýma jafnvel þeim latnesku og þýsku tökuorðum sem voru til í því sem kallað hefur verið gullaldaríslenska. Háfrónsk heiti á stórum tölum. Forskeyti 'þús-' (þusundfaldur) og 'þurs-' (miljarðfaldur) eru notuð til að smiða heiti á eftirfarandi þrem töluorðum: þús-þursund (þúsund miljarðar, billjón), þurs-miklund (miljarður milljóna, billjarður) and þurs-þursund (miljarður miljarða, trilljón). Formálinn 'X-mælt þúsund' er notaður fyrir tölur hærri en 1018. Í íslensku orðsifjabókinni, uppflettiorðið 'kvinkvilljón' (1030) er þýdd ‘fimmmælt milljón’. Shōgi. Shōgi (将棋), oft kallað japönsk skák, er borðspil sem upprunnið er í Japan. Það er einn af meðlimum skákfjölskyldunnar, en hún nær meðal annars yfir evrópska skák, hið kínverska xiàngqí, og hið kóreska jianggi. Allir þessir leikir eru taldir eiga uppruna sinn að rekja til indverska spilsins chaturanga frá 6. öld. Markmið. Markmiðið er að ná konungi andstæðingsins. Leikmenn og búnaður. Tveir leikmenn, svartur og hvítur (eða 先手 "sente" og 後手 "gote") leika á borði með reitum, sem mynda 9 raðir og 9 dálka. Reitirnir eru einlitir, en ekki svartir og hvítir eins og í evrópskri skák. Flest þessara nafna eru valin til að líkjast nöfnum samsvarandi taflmanna í evrópskri skák, og eru því ekki endilega þýðingar á japönsku heitunum. Nafn hvers taflmanns stendur skrifað á honum með tveimur kanji (kínverskum táknum), vanalega svart. Á bakhliðinni (nema á kóngi og gullhershöfðingja) er svo eitt eða tvö önnur tákn, vanalega rauð, sem tákna nýja stöðu taflmanns sem hefur verið hækkaður í tign. Í stað þess að taflmenn hvers liðs hafi ólíkan lit eru þeir spísslaga og beinast að andstæðingnum. Þannig sést hver ræður yfir hvaða taflmönnum. Kínversku táknin hafa gert það að verkum að mörgum vesturlandabúum virðist of erfitt að læra shōgi. Þess vegna hafa verið framleiddir „vestrænir“ eða „alþjóðlegir“ shōgimenn, þar sem notuð eru önnur tákn sem eru myndrænni og meira lýsandi fyrir hreyfingu hvers leikmanns. Þetta hefur þó aldrei náð miklum vinsældum, þar sem það reynist ekki í raun svo mjög erfitt að læra að þekkja taflmennina í sundur, ekki síst vegna stærðarmunarins. Hér má sjá nöfn taflmannanna bæði á japönsku og íslensku. Japönsku nöfnin eru oft stytt í daglegu tali og þegar gerðar eru skýringarmyndir, en styttu útgáfurnar sjást einnig í töflunni. Uppfærðir biskupar eru oft kallaðir "hestar" og uppfærðir hrókar "drekar", að hætti Japana, auk þess sem silfurhershöfðingjar og gullhershöfðingjar eru oft bara kallaðir "gull" og "silfur". Uppfærð peð eru líka oft kölluð "tokin", rétt eins og í japönsku. Táknin aftan á taflmönnunum, sem tákna nýja stöðu þeirra eftir stöðuhækkun, eru oftast rauð og skrifuð með mjög stílfærðri skrautskrift. Táknin aftan á þeim sem verða að gullhershöfðingjum eru mismunandi skrautskriftarútgáfur af tákninu fyrir gull, 金, og eru því einfaldaðri sem taflmaðurinn er minna virði. Á prenti eru stundum notaðir í þessum tilgangi eftirfarandi tákn: 全 fyrir uppfært silfur, 今 fyrir uppfærðan riddara, 仝 fyrir uppfærða lensu, og 个 fyrir uppfært peð ("tokin"). Önnur leið er að nota einföldun á fyrra tákninu í nöfnum óuppfærðu taflmannanna, þannig: 圭 fyrir uppfærðan riddara, 杏 fyrir uppfærða lensu, hið sama 全 og að ofan fyrir uppfært silfur, og と fyrir "tokin". Uppsetning. Upphafsstaðan í shōgi, séð frá sjónarhorni svarts. Hver leikmaður stillir sínum taflmönnum eins og sagt er hér að neðan og beinir oddi þeirra að andstæðingnum. Aftasta röð lítur því svona út: |L|R|S|G|K|G|S|R|L|. Taflið. Leikmennirnir gera til skiptis, en svartur hefur leikinn. (Orðin „svartur“ og „hvítur“ eru einungis notuð til að greina á milli leikmanna þegar rætt er um leikinn, en eiga ekki við um taflmennina sjálfa, enda hafa þeir engan sérstakan lit.) Þegar einn leikmannanna á leik má hann annaðhvort færa einn manna sinna sem þegar eru á leikborðinu, eða setja inn nýjan mann, sem hann hefur tekið af andstæðingnum fyrr í leiknum. Nánar er fjallað um þetta hér að neðan. Atvinnumenn tefla með skákklukku, líkt og gert er í evrópskri skák. Færsla og dráp. Hver taflmaður hreyfist á mismunandi hátt. Kóngur, hershöfðingjar og peð geta aðeins færst um einn reit í einu. Ef taflmaður andstæðingsins er á mögulegum áfangastað má "taka" það og færa sinn taflmann á reitinn þar sem hann var. Ef hans eigin taflmaður er þar fyrir má hann ekki leika öðrum taflmanni þangað. Riddarinn "stekkur", og hefur það engin áhrif á leik hans hvort annar taflmaður sé staðsettur á milli hans og áfangastaðarins. Hann er eini taflmaðurinn sem getur þetta. Lensa, biskup og hrókur eiga möguleika á að færast eftir beinni línu um hvaða reitafjölda sem er (þó aðeins innan leikborðsins, að sjálfsögðu). Þeir mega þá taka hvern þann mann andstæðingsins sem er á línunni. Aldrei má þó færa þessa taflmenn yfir annan taflmann (vinveittan eða óvinveittan) eða á reit þar sem taflmaður úr sama liði er fyrir. Taflmennina má hreyfa ýmist "beint" (lóðrétt eða lárétt) eða "á ská" (45°). Riddarinn er eina undantekningin á þessari reglu. Kóngur. Kóngur getur færst um einn reit í senn í hvaða átt sem er (lóðrétt, lárétt eða á ská). Gullhershöfðingi. Gullhershöfðingi getur færst um einn reit í senn lóðrétt eða lárétt, auk þess sem hann getur hreyfst áfram á ská. Hann hefur því sex mögulega áfangastaði. Ekki má hreyfa hann aftur á bak á ská. Silfurhershöfðingi. Silfurhershöfðingi getur færst um einn reit í senn á ská (aftur á bak eða áfram) eða beint áfram. Hann hefur því fimm mögulega áfangastaði. Vegna þess að óuppfært silfur á auðveldara með að hörfa aftur en uppfært er mjög algengt að sleppa því að hækka það í tign þegar færi gefst á því (sjá að neðan). Riddari. Riddari "stekkur" áfram á reit sem er tveimur reitum framar og einum reiti lengra til vinstri eða hægri. Hann hefur því val um tvo áfangastaði. Hann getur ekki stokkið til hliðar eða aftur á bak. Þetta er allt gert í einum leik, og telst riddarinn ekki hafa lent á reitunum sem liggja á milli upphaflegs reits hans og áfangastaðarins. Riddarinn er eini taflmaðurinn sem getur hreyfst án tillits til leikmanna sem liggja milli hans og áfangastaðarins. Þó þarf áfangastaðurinn að vera auður reitur eða reitur þar sem maður andstæðingsins stendur (þá er sá maður "tekinn"), eins og gildir um alla aðra taflmenn. Oft er gott að sleppa því að hækka riddarann í tign þegar kostur gefst á því. Þó má ekki sleppa því þegar hann hefur komist í síðustu eða næstsíðustu röð, þar sem hann gæti annars ekkert hreyft sig framar. Eins má ekki setja riddara inn á borðið í síðustu eða næstsíðustu röð af sömu ástæðum (sjá nánar að neðan). Lensa. Lensa getur færst um ótakmarkaðan fjölda auðra reita beint áfram. Hana má ekki færa til hliðar eða aftur á bak. Oft er gott að sleppa því að hækka lensuna í tign þegar kostur gefst á því. Þó er óráðlegt að sleppa því þegar í næstsíðustu röð er komið, og það er óleyfilegt að sleppa því þegar hún er komin í síðustu röð, enda gæti hún annars ekkert hreyft sig framar. Af sömu ástæðum má ekki setja lensu inn á borðið í síðustu röð (sjá nánar að neðan). Biskup. Biskup getur færst um ótakmarkaðan fjölda auðra reita á ská (fjórar áttir). Vegna þess að biskupinn getur ekki fært sig beint til hliðar, fram eða aftur, getur hann einungis komist á helming reitanna á borðinu. Hrókur. Hrókur getur færst um ótakmarkaðan fjölda auðra reita beint áfram, aftur á bak, eða til hliðar. Peð. Peð getur aðeins færst um einn reit í senn beint áfram. Það getur ekki bakkað. Vegna þess að peð getur ekki færst aftur á bak eða til hliðar verður að hækka það í tign þegar það kemst í síðustu röð. Það tapast þó aldrei neitt við að hækka peð í tign, og því borgar sig yfirleitt að hækka það í tign hvenær sem færi gefst á því. Ekki má setja peð inn á borðið í síðustu röð af sömu ástæðum. Tvær aðrar reglur takmarka það hvernig setja má peð inn á borðið (sjá nánar að neðan). Stöðuhækkun. Hér eru taflmennirnir sýndir í upphafsstöðu, nema hvað taflmenn svarts hafa hlotið stöðuhækkun. "Stöðuhækkunarsvæði" hvers leikmanns er í þeim þremur röðum sem lengst eru frá honum, þ.e. svæðið þar sem menn andstæðingsins byrjuðu. Ef taflmaður er færður inn í, innan, eða út af þessu svæði má "hækka hann í tign" að færslu lokinni. Ekki má þó hækka taflmann í tign þegar hann er settur inn á borðið. Stöðuhækkunin er sýnd með því að snúa taflmanninum við þannig að táknið fyrir uppfærða taflmanninn komi í ljós. Ef peð, riddari eða lensa komast í síðustu röðina verður að hækka þau í tign, þar eð þau ættu annars engan mögulegan leik það sem eftir er taflsins. Af sömu ástæðu verður einnig að hækka í tign riddara sem lendir í næstsíðustu röð. Stöðuhækkun taflmanns varir allt þar til andstæðingurinn tekur hann. Þá hverfur taflmaðurinn aftur til fyrra horfs og ef honum er sleppt inn á borðið aftur helst staða hans óhækkuð, jafnvel þótt honum sé sleppt innan stöðuhækkunarsvæðisins. Taflmönnum sleppt inn á borðið á ný. Taflmenn í shōgi eru "teknir" eða handsamaðir fremur en drepnir. Sá sem tekur taflmann hefur hann á hendi, og getur "sleppt" þeim aftur inn á borðið. Þegar hann á leik, velur hann annaðhvort að færa taflmann sem þegar er á borðinu, eða að nota leikinn til að sleppa inn á borðið taflmanni sem hann tók í fyrri leik. Sleppa má taflmönnum á hvaða auða reit á borðinu sem er, og ræður þá sá sem sleppti þeim yfir þeim. Taflmennirnir eru alltaf óuppfærðir þegar þeir eru hafðir á hendi og hækka ekki í tign þegar þeim er sleppt inn á aftur. Til að geta hækkað þá í tign verður að færa þá í annað sinn eins og lýst er í kaflanum um stöðhækkun hér að ofan. Ekki má taka taflmann andstæðingsins með því að sleppa manni á reit hans. Taflmenn hækka heldur ekki í tign við það að þeim sé sleppt inn á borðið innan stöðuhækkunarsvæðisins. Þeir geta samt tekið menn og hækkað í tign í næstu leikjum, eins og þeir gátu áður. Ekki má sleppa peði, riddara, eða lensu í síðustu röðina, þar eð þau ættu þá engan mögulegan leik það sem eftir er taflsins. Eins má ekki sleppa riddara í næstsíðustu röðina. Ekki má sleppa peði í sama dálk og peð í sama liði sem fyrir er á borðinu. ("Tokin" telst ekki peð hér.) Leikmaður sem hefur óuppfært peð í öllum dálkum getur því alls ekki sleppt peði inn á. Þess vegna er algengt að peði sé fórnað til að rýma fyrir öðru sem sleppt er inn á. Ekki má sleppa peði þannig að skák og mát komi strax fram. Þessi regla á aðeins við um peðið, og leyfilegt er að skáka og máta með því að sleppa inn öðrum taflmönnum. Peð sem þegar er á borðinu má hins vegar alveg máta kónginn, og eins má alveg sleppa peði inn á reit sem gerir því kleift að máta í næsta leik. Algengt er að leikmenn skiptist á biskupum, en þeir snúa hver að öðrum á ská yfir borðið. Þannig fá báðir leikmenn biskup í hönd og geta sleppt honum inn seinna. Þetta er, eins og gefur að skilja, betra fyrir þann leikmann sem hefur betri vörn. Skák og mát. Þegar leikmaður færir einn manna sinna þannig að kóngi andstæðingsins gæti verið náð í næsta leik er það kallað að "skáka" kónginum. Þá er sagt að kóngurinn standi í "skák". Ef kóngur leikmanns stendur í skák og engin leið er að koma honum úr henni kallast skákin "mát", og andstæðingurinn hefur þá unnið. Til að segja „skák!“ á japönsku segir maður "„ōte!“" (王手). Þess er þó ekki krafist, og ef andstæðingurinn tekur ekki eftir skákinni og kemur sér ekki úr henni þótt hann geti það, má taka kóng hans í næsta leik og vinna þannig. Skák og mát er kallað "tsume" (詰め) eða "ōtedzume" (王手詰め). Leikslok. Leikmaður sem nær kóngi andstæðingsins vinnur skákina. Í raun gerist þetta afar sjaldan, þar sem leikmenn segja leiknum oftast lokið þegar ljóst er að þeim er ómögulegt að vinna hann (eins og í evrópskri skák). Ef kóngur leikmanns stendur ekki í skák, en ekki er hægt að hreyfa neinn taflmann án þess að hann lendi í skák, telst andstæðingurinn hafa unnið (í evrópskri skák kallast þetta patt og telst jafntefli). Í atvinnumannaleikjum tapar leikmaður strax ef hann framkvæmir ólöglegan leik, þar með talið að sleppa peði inn á óleyfilegan reit. Taflinu getur lokið á tvennan annan hátt: með þrátefli (千日手 "sennichite") og „impasse“ (持将棋 "jishōgi"). Þetta er þó fremur óalgengt. Þrátefli nefnist það þegar sama staða kemur upp fjórum sinnum, og lýkur þá leiknum með jafntefli. Til að staðan teljist sú sama þarf bæði að vera sama staða á borðinu og sömu menn á hendi hvers leikmanns, auk þess að sami leikmaður eigi leik. Skákin kemst í „impasse“ ef báðir kóngar hafa komist í stöðuhækkunarsvæðið hinum megin á borðinu, og hvorugur leikmaður hefur von til þess að máta hinn eða ná betri stöðu. Þá má ljúka leiknum og velja sigurvegara þannig: hver hrókur eða biskup veitir 5 stig og allir aðrir taflmenn nema kóngur 1 stig hver. Stöðuhækkanir eru hundsaðar í stigagjöfinni, en bæði leikmenn á borði og á hendi eru taldir með. Sá leikmaður tapar sem hefur færri en 24 stig, en ef báðir hafa 24 stig eða fleiri er jafntefli. Á áhugamannamótum eru jafnteflisleikir oft taldir sem slíkir í heildarstigagjöfinni, en í atvinnumannamótum kveða reglur yfirleitt á um að slíkir leikir skuli tefldir aftur til að skera úr um sigurvegarann. Þá er liðunum víxlað, þ.e. sá sem var svartur áður leikur nú hvítan, og öfugt, og leikmönnum er gjarnan gefinn minni tími á skákklukkunni. Forgjafir. Þegar misgóðir leikmenn tefla eru oft gefnar forgjafir. Þá er sterkari leikmaðurinn hvítur, en einn eða fleiri taflmanna hans eru fjarlægðir áður en leikurinn hefst, og hvítur fær að byrja. Þeir taflmenn sem voru fjarlægðir eiga nú engan hlut að taflinu lengur, og ekki má sleppa þeim inn á borðið. Einstaka sinnum eru aðrar forgjafir gefnar. Til eru nokkur kerfi til að ákvarða forgjöf út frá stöðumun. Að skrifa upp leiki. Sú aðferð sem notuð er til að skrifa upp shōgileiki á vesturlöndum var búin til af George Hodges árið 1976. Henni svipar til þeirrar aðferðar sem notuð er til að skrifa upp leiki í evrópskri skák, en þó ekki nákvæmlega eins. Dæmi um þetta kerfi er P-8f. Fyrsti stafurinn táknar gerð þess taflmanns sem var færður: P = peð, L = lensa, N = riddari ("knight" á ensku, „kn“ er borið fram sem n), S = silfur, G = gull, B = biskup, R = hrókur ("rook" á ensku), K = kóngur. Á íslensku má vitaskuld nota R fyrir riddara og H fyrir hrók. Fyrir taflmenn sem hafa verið hækkaðir í tign er + bætt fyrir framan einkennisstaf hans, t.d. +P fyrir "tokin" (uppfært peð). Á eftir þessum einkennisstaf kemur tákn fyrir gerð færslunnar: - fyrir venjulegan leik, x fyrir leik þar sem manni andstæðingsins er náð, eða * fyrir leik þar sem manni er sleppt inn á borðið. Næst er skrifaður reiturinn sem taflmaður lenti á. Hann er sýndur með tölustaf sem táknar dálkinn og bókstaf sem táknar röðina, en talið er frá hægri til vinstri og að ofan niður, séð frá sjónarhorni svarts (t.d. er 1a efsti reiturinn lengst til hægri og 9i neðsti reiturinn lengst til vinstri). Þessi aðferð til að merkja reitina komin frá Japan, en þar eru að vísu notaðir japanskar tölur í stað latneskra bókstafa, t.d. heitir reiturinn 2c þar í landi 2三. Ef færsla gerir taflmanni kleift að vera hækkaður í tign er + bætt við til að sýna að stöðuhækkunin var þegin, en = til að sýna að henni var hafnað. Nx7c= sýnir t.d. að riddari tók taflmann á reitnum 7c án þess að þiggja stöðuhækkun. Í tilvikum þar sem fleiri en einn taflmaður af sömu gerð og úr sama liði gæti lent á tilteknum reiti er reitnum sem hann kom frá bætt við skráninguna, rétt á eftir einkennisstaf taflmannsins. Sem dæmi má nefna að í upphafsstöðu borðsins á svartur tvo gullhershöfðingja sem báðir geta færst á reitinn 5h, beint fyrir framan kónginn. Færslan er þá táknuð með G6i-5h fyrir gullið á vinstri hönd kóngsins og G4i-5h fyrir gullið hægra megin. Í leikjum þar sem gefin er forgjöf á hvítur leik fyrst, en þá kemur … í stað leiks nr. 1 hjá svörtum. Shōgiafbrigði. Til eru mörg afbrigði shōgi, ýmist stærri eða minni, allt frá 4×5 reitum upp í 36×36. Þar ber helst að nefna chū shōgi (12×12) og dai shōgi (15×15), sem eru stærri „alvöruútgáfur“ leiksins, en einnig eru til útgáfur með sérstök þemu t.d. wa shōgi (11×11), þar sem allir taflmenn heita eftir einhverjum dýrum, og tori shōgi (7×7), þar sem allir taflmennirnir heita eftir fuglum. Shōgi á Íslandi. Shōgi er rétt að byrja að ryðja sér til rúms á Íslandi. Reglur leiksins komu út á íslensku fyrst (svo vitað sé) árið 1985 í bókinni "Spil og leikir um víða veröld", sem gefin var út af Almenna bókafélaginu. Nú stendur japanska sendiráðið á Íslandi fyrir kennslu í shōgi, og fer hún fram 1. og 3. miðvikudagskvöld hvers mánaðar milli kl. 17 og 19 í sendiráðinu sjálfu að Laugavegi 182. Bandarísku Jómfrúaeyjar. Bandarísku Jómfrúaeyjar (eða Bandarísku Jómfrúreyjar eða Bandarísku Meyjaeyjar) eru eyjaklasi austan við Púertó Ríkó sem tilheyra Bandaríkjunum. Þær eru hluti Hléborðseyja, sem eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Stærstu eyjarnar eru fjórar; St. Thomas, St. John, St. Croix og Water Island. Auk þeirra eru margar smærri eyjar. Saga. Danska Vestur-Indíafélagið settist að á St. Thomas árið 1672, á St. John árið 1694 og keypti svo St. Croix af Frökkum 1733. Árið 1754 urðu Dönsku Vestur-Indíur dönsk krúnunýlenda. Höfuðborgin Charlotte Amalie á St. Thomas fékk nafn sitt 1692 eftir Charlotte Amalie af Hessen-Kassel drottningu Danmerkur, eiginkonu Kristjáns V Dana- og Noregskonungs frá 1670 til 1699. Eyjarnar voru dönsk nýlenda (Dönsku Vestur-Indíur) frá 1754, en í fyrri heimsstyrjöldinni ákváðu Danir að verða við kauptilboði Bandaríkjanna og seldu eyjarnar fyrir 25 milljónir Bandaríkjadala. Dönsk stjórnvöld óttuðust að Bandaríkin tækju eyjarnar með valdi ef svo færi að Danmörk yrði hertekin af Þjóðverjum í stríðinu. Stjórnmál. Bandarísku Jómfrúaeyjar kjósa einn þingmann í fulltrúadeild bandaríska þingsins sem hefur ekki atkvæðisrétt á þinginu. Íbúar eyjanna hafa heldur ekki kosningarétt til forseta Bandaríkjanna. Þekking. Þekking er það ástand að skilja eitthvað og geta hagnýtt sér staðreyndina í einhverjum tilgangi. Það sem við getum þekkt eða vitað eru staðreyndir, sannleikur eða upplýsingar. Öflun þekkingar er nefnd lærdómur. Skilgreining. "Þekkingarhugtakið" er tengt hugtökum á borð við skoðun, sannleika, merkingu, upplýsingum, leiðbeiningum og samskiptum. Í þekkingarfræði, þeirri undirgrein heimspekinnar sem fæst við eðli, uppsprettu og takmörk þekkingar, er þekking jafnan skilgreind sem sönn rökstudd skoðun. Þessi skilgreining kemur fyrst fyrir í samræðunni "Menon" eftir Platon (en Platon hafnaði henni sem ófullnægjandi síðar í samræðunni "Þeætetos"). Nú er almennt talið að þetta séu nauðsynleg en ekki nægjanleg skilyrði þekkingar. Það er umdeilt hvað telst vera þekking, fullvissa eða sannleikur. Um þessi mál deila heimspekingar, félagsvísindamenn og sagnfræðingar. Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein skrifaði "Um fullvissu" – stutt spakmæli um þessi hugtök – þar sem hann rannsakaði tengslin á milli þekkingar og fullvissu. Einn þráðurinn í hugsun hans hefur verið einn helsti innblásturinn að þeirri undirgrein heimspekinnar sem kallast athafnafræði. Réttlætingarvandinn. Lengst af í sögu heimspekinnar var "þekking" talin vera skoðun sem var rökstudd og sönn og fól í sér réttlætta fullvissu. Allar skoðanir sem fólu ekki í sér réttlætta fullvissu voru nefndar einungis "sennilegar skoðanir". Oft skilgreina heimspekingar þekkingu enn sem sanna rökstudda skoðun. Þekkingarfræðin er sú undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli þekkingar, uppsprettu hennar og takmörk. En hvernig getum við sýnt fram á að skoðanir okkar séu þekking? Réttlæting og vitnisburður eru hvort tveggja þekkingarfræðileg einkenni skoðana. Þau eru, með öðrum orðum, eiginleikar sem gefa til kynna að skoðun sé eða kunni að vera sönn. Við gætum reynt að nota önnur þekkingarfræðileg einkenni í skilgreiningunni á þekkingu ef við vildum. Í stað „sannrar rökstuddrar skoðunar“ eða „sannrar skoðunar ásamt vitnisburði“ gætum við sagt að þekking sé „skynsöm sönn skoðun“ eða „réttlætt sönn skoðun“. Munurinn á þessum möguleikum skiptir litlu hér. Aðalatriðið er að til þess að skoðun geti talist vera þekking, verður hún að hafa einhver jákvæð þekkingarfræðileg einkenni. Hún getur ekki verið handahófskennd, tilviljanakennd eða órökrétt. Þekkingarfræðingar fjalla um þessi efni í umfjöllun sinni um réttlætingu skoðana. Einn þekktur skilgreiningarvandi um þekkingu er þekktur sem "Gettier vandinn". Gettier vandinn verður til vegna tiltekinna gagndæma við skilgreiningu þekkingar sem sönn rökstudd skoðun. Gettier gagndæmi eru gagndæmi sem sýna að við tilteknar aðstæður getur maður haft sanna rökstudda skoðun en samt sem áður ekki búið yfir þekkingu. Efahyggja. Þegar vísindamenn eða heimspekingar syrja „Er þekking möguleg?“ eiga þeir við „Hef ég einhvern tímann svo rökstudda og gulltryggða skoðun að ég geti kallað hana þekkingu?“ Heimspekilegir efahyggjumenn segja oft „nei“ eða reyna að sýna fram á að ekki fáist úr því skorið. Heimspekileg efahyggja er annaðhvort sú afstaða að þekking sé ómöguleg þar sem nægjanleg réttlæting skoðana sé ófáanleg eða að það sé ekki hægt að vita hvort þekking sé möguleg né heldur neitt annað þar sem við höfum jafnmikla ástæðu til þess að trúa og til þess að trúa ekki einhverju; og þess vegna verðum við að fresta því að fella dóma. (Sumir efahyggjumenn hafna því að fyrrnefnda afstaðan sé efahyggja, sjá Sextos Empeirikos og pyrrhonismi). Þetta er önnur afstaða en Vísindaleg efahyggja sem er sú vinnuregla að fallast ekki á neina fullyrðingu fyrr en vitnisburður hefur fengist fyrir henni. Félagsfræði þekkingar. Sumar hliðar þekkingar hafa félagsleg einkenni. Þekking er til dæmis eins konar félagsleg verðmæti. Félagsfræði þekkingar rannsakar hvernig tengslunum er háttað á milli samfélagsins og þekkingar. Einstaklingar og menningarsamfélög auka þekkingu sína með reynslu, Athugunum og afleiðslu. Auk félagsfræði þekkingar rannsakar mannfræðin útbreiðslu þessarar þekkingar. Aðrar skilgreiningar. Þekking er „upplýsingar ásamt reynslu, samhengi, túlkun og íhugun. Hún er afurð vandlegrar úrvinnslu upplýsinga sem eru tilbúnar til notkunar við ákvarðanatöku og í athöfnum.“ T. Davenport o.fl., 1998. „Þekking sem er falin í orðum eða táknum er þekking sem hægt er að miðla á formlegu, kerfisbundnu máli. Á hinn bóginn hefur þögul þekking persónuleg einkenni sem gera að verkum að erfitt er að formgera hana og tjá hana öðrum.“ I. Nonaka, 1994 Gerpla. Gerpla getur átt við tvo mismunandi hluti. Poppkorn. Poppkorn (eða popp) er afbrigði af maískorni sem blæs út þegar það er hitað, t.d. í olíu eða í örbylgjuofni og er það kallað að poppa poppið. Poppkorn var fyrst poppað af frumbyggjum Ameríku fyrir þúsundum ára, og er í dag vinsælt snakk. Sankti Pierre og Miquelon. Landslag á Sankti Pierre og Miquelon Sankti Pierre og Miquelon (franska: Saint-Pierre-et-Miquelon) eru nokkrar litlar eyjar sem eru undir frönsku yfirráðasvæði handan hafsins og eru undan strönd Nýfundnalands við Kanada. Eyjarnar eru það eina sem eftir er af nýlendunni Nýja Frakklandi. Franskir og baskneskir fiskimenn námu þar land snemma á 16. öld og notuðu sem miðstöð fyrir þorskveiðar í Norður-Atlantshafi, nokkru áður en Jacques Cartier kom þangað 1536. Ari Magnússon. Ari Magnússon (eða Ari í Ögri) (1571 – 11. október 1652) var sýslumaður á Vestfjörðum og bjó í Ögri við Ísafjarðardjúp og er oftast kenndur við þann stað. Foreldrar Ara voru Magnús Jónsson prúði, sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, og kona hans, Ragnheiður dóttir Eggerts lögmanns Hannessonar. Jón murti móðurbróðir Ara hafði flúið land eftir að hafa orðið mannsbani og sest að í Hamborg og Eggert afi hans dvaldist þar líka síðustu æviárin. Ari átti því nána ættingja þar og var sendur þangað ungur til náms; í erfiljóði segir að hann hafi verið þar í níu ár fyrir tvítugt. Hann mun því hafa verið mjög vel menntaður á síns tíma vísu. Ari var fyrst sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en síðar í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Hann var einnig umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu og mun því hafa verið mjög valdamikill maður og stórauðugur. Hann þótti harður í horn að taka. Einna þekktastur er hann fyrir Spánverjavígin svokölluðu, þegar þrjú basknesk hvalveiðiskip brotnuðu á Reykjarfirði á Ströndum en 83 menn björguðust. Þeir skiptu sér í hópa og dreifðust um Vestfirði. Sumir þeirra voru drepnir í Dýrafirði, Ari stýrði herleiðangri út í Æðey, þar sem átján mönnum var slátrað, en flestir Baskanna þraukuðu um veturinn á Vatneyri við Patreksfjörð og náðu um vorið erlendu fiskiskipi og komust á brott. Konungur hafði fellt þann úrskurð að þeir væru réttdræpir, en alltaf hafa þessi víg þótt heldur nöturleg í Íslandssögunni. Ari er sagður hafa veri einkar höfðinglegur ásýndum, jötunn að burðum og manna hávaxnastur. Kona hans, gift 1594, var Kristín Guðbrandsdóttir (1574-1652), dóttir Guðbrands Þorlákssonar, biskups á Hólum. Börn þeirra voru Magnús sýslumaður á Reykhólum, Þorlákur bóndi í Súðavík, Halldóra kona Guðmundar Hákonarsonar sýslumanns á Þingeyrum, Helga og Jón, skólameistari í Skálholti og síðar lengi prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Wallis- og Fútúnaeyjar. Wallis- og Fútúnaeyjar eru franskt yfirráðasvæði handan hafsins á aðallega þremur eldfjallaeyjum í Suður-Kyrrahafi: Wallis, Fútúna og Alofi. Þær tvær síðastnefndu eru líka kallaðar Heimaeyjar. Auk eyjanna eru nokkur rif sem tilheyra svæðinu. Eyjarnar eru miðja vegu milli Fídjieyja og Samóa. Katla. Mýrdalsjökull. Katla er undir Mýrdalsjökli. Katla er eldstöð sem staðsett er undir Mýrdalsjökli á Íslandi. Katla er stór megineldstöð, ein af stærstu megineldstöðum landsins. Kötlueldstöðin er um 30 km í þvermál og rís hæst yfir 1400 m hæð yfir sjó. Í miðju eldstöðvarinnar er Kötluaskjan, um 100 ferkílómetrar að stærð og allt að 700 metra djúp. í henni er víðast 400-700 m þykkur ís. Askjan skiptist í þrjú vatnasvæði: vatnasvæði Kötlujökuls, Sólheimajökuls og Entujökuls. Kötlugos hafa að meðaltali orðið á 40 til 80 ára fresti og hafa 16 eldgos verið skráð í eldstöðinni síðan menn settust að á Íslandi en þau eru þó líkast til fleiri eða að minnsta kosti 20 talsins. Síðast gaus Katla árið 1918 og því eru miklar líkur á gosi á næstu árum. Katla er ein frægasta eldstöð á Íslandi og alræmd fyrir hinar miklu hamfarir sem fylgja í kjölfar eldgosanna. Við gos bráðnar jökulísinn ofan við gosopið og safnast leysingavatn fyrir undir jöklinum, þangað til að það brýst fram af miklu afli í gríðarlegu jökulhlaupi. Mikið magn af ís, ösku og aur berst með hlaupvatninu og eyðir það öllu sem verður í vegi þess. Mestallur Mýrdalsandur er einmitt myndaður í hinum miklum jökulhlaupum sem hafa orðið í kjölfar Kötlugosa og jökulflóða mögulega. Norn. Nornir voru, í þjóðtrú margra landa, göldróttar konur. Göldróttir karlar kallast galdramenn. Á miðöldum byrjuðu Evrópubúar að líta á nornir (og galdramenn) sem ógn, og þá fóru af stað hinar svokölluðu nornaveiðar. Þorskaætt. Þorskaætt (fræðiheiti: "Gadidae") eru ætt sjávarfiska af ættbálki þorskfiska. Meðal fiska af þorskaætt eru mikilvægir nytjafiskar eins og þorskur, ýsa og ufsi. Þorskfiskar. Þorskfiskar (fræðiheiti: "Gadiformes" eða "Anacanthini") eru ættbálkur geislugga sem telur marga mikilvæga matfiska, eins og þorsk, ýsu og ufsa. þorskfiskar sem nýttir eru í íslenskri efnahagslögsögu eru Geisluggar. Geisluggar (fræðiheiti: "Actinopterygii") eru fiskar og stærsti hópur hryggdýra, með um 27.000 tegundir sem finnast um allt í vatni og sjó. Þeir eru einu dýrin sem hafa sundmaga. Þorskur. Þorskur (fræðiheiti: "Gadus") er almennt heiti yfir fiska af ættkvíslinni "Gadus" af ætt þorskfiska, þótt að í íslensku sé oftast átt við Atlantshafsþorsk ("Gadus morhua"). Þorskur er vinsæll matfiskur með þétt hvítt kjöt. Þorsklifur er brædd í þorskalýsi sem inniheldur A-vítamín, D-vítamín og Ómega-3 fitusýrur. Þorskur er algengur allt í kringum landið. Hann er botnfiskur og er algengastur á 100-400 metra dýpi. Lýsing. Þorskur (Gadus morhua)Þorskur hefur þrjá bakugga og tvo raufarugga‎ Þorskur er straumlínulaga fiskur, kjaftstór og með skeggþráð á höku. Fiskurinn notar skeggþráðinn til að leita að fæðu á sjávarbotni. Litur er breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast eru þorskar gulgráir á baki og hliðum með dökkum deplum. Ungir þorskar eru rauðleitir eða brúnir, þeir lifa gjarnan í þaraskógum og þessir litir falla vel inn í umhverfið þar. Eldri þorskar eru oft gulgráir með dökkum blettum að ofan og á hliðum og ljósari að neðan. Bakuggar þorsks eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og rákin er mjög greinileg. Heimkynni. Þorskurinn lifir í Norður-Atlantshafi. Í eystri hluta hafsins er hann frá Svalbarða í Barentshafi og suður í Biskajaflóa, en í vestri við Grænland og frá Hudsonflóa og Baffinslandi suður til Hatterashöfða í Bandaríkjunum. Ókynþroska smáfiskur er mest fyrir norðvestan, norðan og austan hérlendis, en stærri fiskur er frekar fyrir sunnan og suðvestan land. Lífshættir. Þorskurinn er botnfiskur sem lifir frá nokkurra metra dýpi niður á 600 m eða dýpra. Algengastur er hann á 100-400 m dýpi, á sand- og leirbotni sem og hraun- og kóralbotni. Við suðurströndina verður þorskurinn fyrst kynþroska 3-5 ára en við norðurströndina 4-6 ára. Hrygningin hefst venjulega síðari hluta mars hérlendis og er lokið í byrjun maí, aðallega á grunnum undan Suðurlandi frá Reykjanesi austur í Meðallandsbug. Hún fer fram á um 50-100 m dýpi miðsævis og getur fjöldi eggja verið frá hálfri milljón upp í 10-15 milljónir. Hrygna getur verið að hrygna í 6-8 vikur, í minni skömmtum með 2-3 daga millibili. Klak tekur 2-3 vikur og eru lirfur um 5 mm við klak. Þegar seiðin eru um 5-8 cm löng leita þær botns. Vöxturinn er mjög breytilegur eftir hafsvæðum. Undan Norður- og Austurlandi er algeng lengd í afla 55-70 cm og 1,5-3 kg á þyngd en á vetrarvertíð við Suðvesturland 70-90 cm og 3-7 kg á þyngd, en stærð hans eftir aldri fer mikið eftir ástandi loðnustofnsins við landið. Virðist hann þurfa að ná a.m.k. 50 cm lengd áður en hann verður kynþroska. Getur þorskurinn orðið hátt í tveir metrar á lengd og var sá elsti sem veiðst hefur við Íslandsstrendur 17 ára gamall. Fæða og óvinir. Fæða hans er mjög margvísleg og fer eftir ýmsu. Smáfiskur étur mest hryggleysingja eins og ljósátu, marflær og rækju. Eftir það er loðnan langmikilvægust og einnig étur hann síli, en stærsti þorskurinn étur stærri fisktegundir eins og karfa, smáþorsk, kolmunna o.fl. Fyrir utan manninn er fullorðinn þorskur eftirsótt fæða af sel, hvölum og hákarli. Lirfur og seiðin verða gjarnan fyrir ásókn smáfiska og sjófugla. Innvortis hrjá hann m.a. hringormar, en útvortis eru smákrabbategundir sem geta valdið honum skaða. Nytsemi. Þorskur er langmikilvægasta nytjategund Íslendinga. Verðmæti aflans eru um 35-40% þó hann sé aðeins um 10-15% af heildarafla. Hann veiðist helst í botntroll, á línu og í net en einnig á handfæri og í dragnót, um allt land en mest um vetrartímann. Á síðustu 30 árum hefur aflinn verið frá 160-470 þús. tonn á ári og var heildarafli Íslendinga 2007 187 þús. tonn. Aflamark fyrir 2008/2009 er sett eftir 20% aflareglu og er því 130 þús. tonn. Stærstur hluti þorsksins er saltaður, en svipað mikið er ísað um borð og unnið í landi. Einnig er hann ísfrystur eða fluttur ferskur með flugi. Helstu útflutningsmarkarðir eru Bretland og Spánn, þar næst Portúgal og Holland. Kirkja hins fljúgandi spagettískrímslis. Kirkja hins fljúgandi spagettískrímslis (enska: "Flying Spaghetti Monsterism"; skammstöfun: "FSM") eru gervitrúarbrögð sem ætluð eru sem háðsádeila á hugmyndir sköpunarsinna og vitshönnunarsinna um upphaf lífs og þróun þess. Trúin er aðallega runnin undan rifjum eðlisfræðingsins Bobby Henderson. Áhangendur þessarar trúar kallast pastafarar (vísun í rastafara). Pastafarar trúa því að fljúgandi spagettískrímslið (enska: "The Flying Spaghetti Monster"), einnig kallað Hinn heilagi núðluleiki, hafi í upphafi skapað tré, fjöll og dverg. Fljúgandi spagettískrímslið lét einnig viljandi líta út fyrir að lífið á jörðinni hafi þróast, en það gerði það í raun ekki. Atlantshafsþorskur. Atlantshafsþorskur (fræðiheiti: "Gadus morhua") er vinsæll matfiskur af ættkvísl þorska ("Gadus"). Hann verður allt að tveir metrar á lengd, gulur á hliðina og hvítur á kvið. Hann lifir í grunnsævi frá fjöru að enda landgrunnsins við strendur Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands og Íslands og við vesturströnd Evrópu, allt frá Biskajaflóa að Barentshafi. Kyrrahafsþorskur. Kyrrahafsþorskur (fræðiheiti: "Gadus macrocephalus") er mikilvægur matfiskur af ættkvísl þorska. Hann er með þrjá aðgreinda bakugga og þræði úr neðri kjálka. Að öðru leyti líkist hann Atlantshafsþorski í útliti. Hann finnst við botn landgrunnsins í Norður-Kyrrahafi, frá Gulahafi að Beringssundi og við Aleuteyjar allt að Los Angeles. Hann verður um hálfur metri á lengd. Grænlandsþorskur. Grænlandsþorskur (fræðiheiti: "Gadus ogac") er þorsktegund sem finnst í Norðvestur-Atlantshafi, við vesturströnd Grænlands og Lawrenceflóa. Kjötið er eilítið seigara en á Atlantshafsþorski og því ekki eins eftirsótt. Finnsk-úgrísk tungumál. Finnsk-úgrísk tungumál er málaflokkur sem tilheyrir úrölskum tungumálum og skiptist hann í tvo meginhópa, finnsk tungumál og úgrísk tungumál. Þau sem eru af finnskum stofni eru töluð á svæðinu á milli norður Noregs og Hvítahafs, í Finnlandi, í Eistlandi og í vissum hlutum Rússlands. Aðaltungumálið af finnskum stofni er finnska, en hún hefur 5,5 milljónir mælenda í Finnlandi, Svíþjóð, Rússlandi og Bandaríkjunum. Eistneska hefur um 1 milljón mælenda, aðallega í Eistlandi. Um 25.000 manns tala samísku (áður þekkt sem lappneska) í Norður-Skandinavíu. Helsta tungumálið af úgrískum stofni er ungverska, en hana tala um 11 milljónir manna í Ungverjalandi og aðrar 3 milljónir á nágrannasvæðum. Tvö önnur úgrísk tungumál eru Khanty (eða Ostyak), með 13.000 mælendur og Mansi (eða Vogul) með 3000 mælendur. Bæði síðarnefndu málin eru töluð austan Úralfjalla á svæðinu í kringum ána Ob. Þau mál sem standa eftir innan finnsk-úgríska málahópsins eru töluð í Rússlandi. Kirjálska, vepsíska, ingríska, líflenska og votíska eru töluð á Kólaskaga í norðri og suðureftir í átt að Rígaflóa. Af fyrrnefndum málum er kirjálska útbreiddasta málið með yfir 100.000 mælendur. Vespísku tala um 2000 manns. Mjög fáir tala ingrísku, líflensku og votísku og eru þau líkast til deyjandi tungumál. Auk þessa eru í kringum miðbik árinnar Volgu í Rússlandi töluð mál eins og Mordvin (eða Erza), Mari (eða Cheremis), Údmúrtíska (eða Votyak) og Kami (eða Zyryan). Mordvin er útbreiddasta málið með um 800.000 mælendur, Mari um 600.000 mælendur, Údmúrtíska 500.000 mælendur og Komi um 250.000 mælendur. Þarfanaut Íslands. Þarfanaut Íslands var íslenskur raunveruleikaþáttur veturinn 2005 í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þar sem Gísli Einarsson fór um landið og leitaði að „eftirnauti“ Guttorms úr húsdýragarðinum. Það var svo ákveðið að Eldur 04001 myndi hreppa titilinn „Þarfanaut Íslands“ og varð hann hirðnaut Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins. Hann var síðar felldur vegna geðslagsgalla. Heimshluti. Heimshluti er hér skilgreindur sem svæði sem er stærra en land en minna en heimsálfa. Hvað telst „heimshluti“ er ekki skýrt skilgreint í málinu. Merking orðsins í setningunni „í okkar heimshluta“ t.d. getur átt við um Norðurlöndin, Norður-Evrópu, alla Evrópu eða jafnvel Vesturlönd, eftir því hvert samhengið er. Heimshluti getur verið skilgreindur á grundvelli menningar, náttúrufars, sögu eða annars. Í heimshlutasniðinu hér fyrir neðan er heimsálfunum skipt í nokkra minni heimshluta til hægðarauka. Franska Gvæjana. Franska Gvæjana (franska: "Guyane française") er franskt yfirráðasvæði handan hafsins á norðausturströnd Suður-Ameríku, með landamæri að Brasilíu í suðri og austri, og Súrínam í vestri og liggur að Atlantshafi Í norðri. Árið 2009 bjuggu um það bil 220.000 manns á Frönsku Gvæjana. Höfuðborg Frönsku Gvæjana er Cayenne. Bandaríska Samóa. Bandaríska Samóa er bandarískt yfirráðasvæði í Suður-Kyrrahafi vestan við ríkið Samóa. Eyjunum var skipt með samningi milli Þýskalands og Bandaríkjanna árið 1899. Turks- og Caicoseyjar. Turks- og Caicoseyjar eru tveir eyjaklasar með samtals um þrjátíu eyjar suðaustan við Bahamaeyjar. Eyjarnar eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins. Þær voru undir Jamaíka til 1962 þegar þær urðu krúnunýlenda. Shōgiafbrigði. Ýmis afbrigði shōgi (japanskrar skákar) hafa þróast í gegnum tíðina, en þau spanna allt frá stærstu skákleikjum sem nokkru sinni hafa verið fundnir upp til þeirra allra minnstu. Fáein þessara afbrigða eru enn spiluð nokkuð, en ekkert þeirra er þó nærri eins vinsælt og shōgi sjálft. Taka skal fram að í flestum þessara afbrigða er ekki leyfilegt að sleppa leikmönnum aftur inn á borðið eftir að þeir hafa verið drepnir, en þetta er oft talið mesta sérkenni shōgi. Þessi afbrigði virka því strategískt líkari öðrum skákleikjum, og borðið gisnar smátt og smátt eftir því sem fleiri taflmenn eru drepnir. Forverar nútímashōgi. Einhvers konar skák hafði örugglega komist til Japan á 9. öld, ef ekki fyrr, en elsta varðveitta japanska lýsingin á skákreglum er frá 12. öld, þ.e. frá Heian-tímabilinu. Því miður gefur þessi lýsing ekki nægilega skýra mynd af reglum leiksins, en það hefur þó ekki aftrað fólki frá því að reyna að endurgera þessa fornu útgáfu shōgi, sem venjulega er kölluð Heian shōgi (平安将棋). Taflmennirnir hreyfðu sig eins og í nútímashōgi, en það var enginn hrókur eða biskup. Borðið virðist hafa verið 9×8 eða 8×8 reitir. Uppröðunin er ekki þekkt, en hún var sennilegast eins og nú, nema hvað hrókinn og biskupinn vantaði, og ef borðið var 8×8 reitir hefur aðeins verið einn gullhershöfðingi. Peðunum gæti mögulega hafa verið stillt upp í annarri röð, frekar en þeirri þriðju. Hægt er að segja með vissu að ekki var leyft að setja taflmenn aftur inn á borðið. Á 16. öld var leikurinn orðinn líkari því sem nú gerist: hann var spilaður á 9×9 reita borði með sömu uppstillingu og í nútímashōgi, nema hvað aukataflmaður (svokallaður "drukkinn fíll") stóð beint fyrir framan kónginn. Þessi útgáfa leiksins er þekkt sem shō shōgi (小将棋), sem þýðir „lítið shōgi“. (Þótt 9×9 reita borð kunni að virðast annað en „lítið“, var þetta minnsta shōgiútgáfa þess tíma.) Keisarinn Go-Nara, sem ríkti 1526-1557, tók drukkna fílinn úr leiknum, og talið er að um svipað leyti hafi komið til sögunnar sú regla að setja mætti taflmenn aftur inn á borðið eftir að þeir væru drepnir. Þannig varð til það „venjulega“ shōgi sem spilað er nú. Stærri afbrigði. Til eru allnokkur shōgiafbrigði sem spiluð eru á stærri borðum en 9×9. Þessi afbrigði eru öll frekar gömul, og voru líklegast öll spiluð án endurkomu taflmanna inn á borðið. Talið er að þau stærstu (dai shōgi og upp úr) hafi aldrei verið almennt mikið spiluð, heldur fundu menn þá upp til gamans, til að slá um sig og sýna snilli sína. Leikir allt að Tenjiku dai shōgi virðast þó vel spilanlegir, ef tími er nægur. Sama 12. aldar heimildin og lýsti Heian shōgi lýsir einnig afbrigði sem leikið var á 13×13 reita borði, sem nú er nefnt Heian dai shōgi (平安大将棋). Reglur þessa leiks hafa ekki verið varðveittar í heild sinni frekar en minni útgáfu sama tíma. Vinsælasta stóra shōgiafbrigðið er chū shōgi (中将棋), sem leikið er á 12×12 reita borði. Nafnið merkir "mið-shōgi", og er leikurinn oft kallaður "middle shogi" á ensku. Chū shōgi var fundið upp eigi síðar en á 14. öld (til eru eldri vísanir í það, en ekki er vitað hvort átt var við leikinn í núverandi mynd). Chū shōgi er þekktast fyrir mjög öflugan taflmann sem kallast "ljón" og hreyfist eins og kóngur, en tvisvar í hverri umferð. Leikurinn var enn algengur í Japan í byrjun 20. aldar, en hefur nú að mestu dáið út þar. Hann hefur þó dregið að sér fylgjendur á Vesturlöndum. Aðalritverkið um chū shōgi á ensku er bókin "The Middle Shogi Manual" eftir George Hodges. Önnur miðaldashōgiafbrigði voru wa shōgi (11×11, hugsanlega var leyft að sleppa taflmönnum aftur inn á), dai shōgi (大将棋, „stórt shōgi“, 15×15), tenjiku shogi (天竺大将棋, „stórt indverskt shōgi“, þótt sennilega sé meint að leikurinn sé framandi, ekki indverskur í raun, 16×16), dai dai shōgi (大大将棋, „stórt, stórt shōgi“, 17×17), maka dai dai shōgi (摩訶大大将棋, „gríðarstórt shōgi“, 19×19), og tai shōgi (泰将棋, „víðáttumikið shōgi“, 25×25). Þessi afbrigði eru ekki yngri en frá 17. öld. Tai shōgi var lengi talið heimsins stærsti skákleikur, en árið 1997 fundust heimildir um enn stærra shōgiafbrigði, taikyoku shōgi (大局将棋, „ultimate shōgi“, 36×36). Nýlegasta stóra shōgiafbrigðið er kō shōgi (廣将棋 eða 廣象棋 „breitt shōgi“, 19×19), sem er leikið á go-borði og inniheldur hugmyndir úr kínverskri skák. Það var fundið upp í byrjun 18. aldar. Kō shōgi er óvenjulegt að því leyti, að taflmennirnir eru mjög háðir hvor öðrum og reglur um stöðuhækkun er flóknar. Nútímaafbrigði. Tori shōgi (禽将棋, „fuglashōgi“) var fundið upp í lok 18. aldar. Leikurinn er spilaður á 7×7 reita borði og leyfilegt er að sleppa taflmönnum aftur inn á. Tori shōgi er meðal algengari shōgiaafbrigða. Annað tiltölulega vinsælt shōgiafbrigði er minishōgi (5五将棋), sem er spilað á 5×5 reita borði, en hefur að öðru leyti sömu reglur og venjulegt shōgi. Judkins shōgi er svipað, en er spilað á 6×6 reita borði. Sem dæmi um fleiri nútímashōgiafbrigði má nefna Kyōto shōgi (京都将棋, 5×5), fallbyssushōgi (9×9), míkróshōgi (4×5) og yari shōgi Christians Freeling (7×9). Fótur. Fótur á íslensku er hvortveggja ganglimur (fótleggurinn) og neðsti hluti hans og er hluti af líkama margra hryggdýra, m.a. mannsins. Fóturinn ber þyngd líkamans og er notaður til að ganga á (til hreyfingar). Afturbrennari. Afturbrennari (eða aukabrennir) er íhlutur sem bætt er við suma þotuhreyfla, sérstaklega á herþotum, til að auka kraft vélarinnar. Einu borgaralegu þoturnar sem hafa notað afturbrennara voru Concorde og Tupolev Tu-144 þoturnar. Megintilgangur þess að nota afturbrennara er að fá aukinn kraft í stuttan tíma. Þetta getur átt við í flugtaki eða í stríði. Það virkar þannig að auka eldsneyti berst með lofti frá forþjöppu (túrbínu) og útblástur vélarinnar kveikir síðan í þessu eldsneyti. Þetta gefur mun meiri kraft en krefst einnig mikils eldsneytis. Koltvísýringur. Koltvísýringur (koldíoxíð, koltvíoxíð eða koltvíildi) er sameind samsett úr einni kolefnisfrumeind og tveimur súrefnisfrumeindum, efnaformúla þess er CO2. Í föstu formi kallast það þurrís (eða kolsýruís). Myndast við bruna í súrefnisríku lofti. Koltvísýrungur uppleystur í vatni myndar kolsýru. Við bruna jarðefnaeldsneytis myndast koltvísýringur, sem fer út í andrúmsloftið. Er sú gróðurhúsalofttegund, sem talin er eiga mestan þátt í heimshlýnun. Varast ber að rugla koltvísýringi saman við eitruðu gastegundina kolsýrling (CO). Frumbjarga lífvera. Frumbjarga lífvera er lífvera sem getur framleitt þau lífrænu efni sem hún þarf. Frumbjarga lífverur fá kolefnið, sem þarf í lífrænu efnin, úr koldíoxíði. Orkuna fá þær flestar frá sólinni, en þá kallast þessi efnaframleiðsla ljóstillífun. Sumar bakteríur geta þó notað efni eins og vetnissúlfíð eða járn(II)sambönd sem orkuuppsprettu, og nefnist framleiðslan þá efnatillífun. Sumar lífverur geta nýtt sér orku úr ljósi eða ólífrænum efnum, en þurfa að fá kolefni úr lífrænum efnum. Þær eru ekki flokkaðar sem frumbjarga lífverur, heldur ófrumbjarga. Ófrumbjarga lífverur eru háðar hinum frumbjarga, þar sem öll lífræn efni eru upprunnin hjá þeim síðarnefndu. Hvannadalshnúkur. Hvannadalshnúkur er hæsti tindur eldkeilunnar undir Öræfajökli og jafnframt hæsti tindur Íslands. Samkvæmt nýjustu mælingu er hæð hans 2.109,6 metrar yfir sjávarmáli. Tindurinn er staðsettur innan Skaftafellsþjóðgarðs og er vinsæll hjá fjallgöngufólki, reyndu sem og óreyndu. Tindurinn er ekki flókinn uppgöngu og þarfnast ekki mikillar reynslu eða tækni í fjallgöngum, gangan krefst samt mikils úthalds þar sem gengið er á tindinn og niður aftur á sama deginum. Hækkunin er rúmir 2000 metrar sem er býsna mikil, gangan tekur oftast 12-14 klst í heild. Hvannadalshnúkur hefur tvær almennar uppgönguleiðir. Önnur þeirra er fremur erfið og tæknileg, aðallega fyrir reynda fjallagarpa en hin leiðin er öruggari og mun auðveldari. Síðarnefnda leiðin er mjög vinsæl, sérstaklega nú til dags og verður henni hér lýst. Göngunni er skipt í 3 þrep. Fyrsta þrep er venjuleg en frekar brött ganga frá 100 metrum upp í 1100 metra. Þar er áð og farið í línur. Oftast eru línurnar flokkaðar eftir þrótti og hrausti göngumannanna, þ.e.a.s. þeir með mesta hraðann og úthaldið eru saman í línu, á meðan fólk sem vill taka göngunni fremur rólega eru saman. Með þessu kerfi helst gangan í samræmi við getu hvers og eins. Í hverri línu er einn leiðsögumaður sem gengur fremst, sprungur kunna nefnilega að leynast þegar ofar dregur þar sem gangan er núna einungis á jökli það sem eftir er. Annað þrep er frá 1100 metrum upp í 1800 metra, þessi partur af göngunni er mjög einhæfur og reynir á þolinmæði og viljastyrk þátttakenda. Þessi 700 metra hækkun er gengin einungis á mjallhvítum jöklinum þangað til komið er upp á Öræfajökulinn sjálfan, á jafnsléttu. Þar tekur við þriðja og síðasta þrep þar sem gengið er á jafnsléttu í talsverðan tíma og þangað til að komið er að hnúknum sjálfum. Hann stendur nokkuð sjálfstæður upp úr jöklinum og er um 200 metra hár. Undir hnúknum þarf að setja á sig brodda vegna þess hversu bratt er síðasta spölinn. Af toppi Íslands er gríðarlega fallegt og gott útsýni ef skyggni er gott. Það sést m.a. til Hrútfjallstinda, Þumals og fleiri fjalla ofan Skaftafell sem virka fremur lítil frá þessu sjónarhorni. Eldfjallaaska. Eldfjallaaska er mjög fín aska samsett úr grjóti og steinefnum minna en 2 millimetrar í þvermál sem komið hefur upp úr gíg eldstöðvar. Eldfjallaaska verður til þegar steinar og bergkvika mölna í eldgosi. Eldkeila. Eldkeila er hátt, keilulaga eldfjall samansett úr storknuðu hrauni og eldfjallaösku, þessi fjöll eru brött því hraunið sem myndaði þau var seigfljótandi og harðnaði því skammt frá gígnum. Sé hraunið þunnfljótandi verður keilan flatari og kallast þá dyngja. Eldkeilur á Íslandi eru Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull, Tindfjallajökull og Öræfajökull. Dyngja. Enska orðið yfir dyngju ("Shield volcano") er dregið af Skjaldbreiði, dæmigerðri dyngju. Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi. Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Kjalhraun hjá Hveravöllum og Lyngdalsheiði. Stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja. Ólympusfjall (Mars). Ólympusfjall eða Ólympsfjall (á latínu: "Olympus Mons") er 24 km há dyngja á Mars, staðsett á Þarsis-svæðinu. Það er hæsta fjall reikistjörnunnar og jafnframt hæsta fjall sólkerfisins og þar með hæsta fjall sem vitað er um. Fjallið er um 540 km í þvermál. Í toppi þess er sigdæld, sem er um 85 km löng og 60 km breið. Hún er nálægt 3 km á dýpt og í henni eru gígar eldfjallsins, 6 að tölu. Ólympusfjall nær þó aðeins 25 km yfir meðalhæð yfirborðs Mars, þar sem það stendur í 2 km djúpri dæld, það er afmarkað af virkisbrekku sem er allt að 6 km há, en hún á sér enga líka meðal dyngja Mars. Árið 2004 tók Mars Express geimfarið myndir af hrauni á fjallinu sem var aðeins 2 milljóna ára gamalt, sem gefur til kynna að eldfjallið gæti enn verið virkt. Hawaiieyjar eru dæmi um dyngjur af svipaðri stærðargráðu, en stærð Ólympusfjalls orsakast líklega af því að á Mars eru ekki jarðflekar, og jarðskorpan var þar með föst á ákveðnum stað yfir heitum reit og hið mikla hraun sem kom upp dreifðist ekki yfir stærra svæði. Virkisbrekka. Virkisbrekka er í jarðfræði breytingarsvæði (oftast klettaveggur) milli tveggja svæða sem felur í sér hæðarmismun á skömmu svæði. Virkisbrekkur eru oftast umbreytingarsvæði úr einni gerð setbergs í aðra gerð setbergs af öðrum aldri og samsetningu, virkisbrekkur geta einnig myndast á misgengi þegar hluti jarðskorpunnar lyftist yfir annan. Sigketill. Sigketill eða (gos)askja er dæld á fjalli sem getur myndast við ýmsar aðstæður, oftast myndast þeir þegar eldfjallið fellur saman sökum holrúms sem myndast hefur undir því við tæmingu kvikuþróar þess, en þeir geta einnig myndast við sprengingar í eldfjallinu eða jafnvel við rof eins og í talið er að sigketillinn á Caldera de Taburiente á La Palmaeyju í Kanaríeyjaklasanum hafi myndast. Í sigkötlum er oft að finna vatn. Geimferðastofnun Bandaríkjanna. Geimferðastofnun Bandaríkjanna (enska: "National Aeronautics and Space Administration"; skammstöfun: "NASA") er geimferðastofnun stofnuð árið 1958. Hún ber ábyrgð á geimferðaáætlun Bandaríkjanna og lofthjúpsrannsóknum. Gervigígur. Gervigígur er náttúrufyirbæri sem líkist eldgígi en er án gosrásar. Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir votan jarðveg á borð við mýri eða grunnt stöðuvatn. Vatnið nær að lokast inni í eða undir hrauninu og skapa mikinn gufuþrýsting. Að lokum springur hraunþekjan og eftir verður gíglaga hóll. Gervigígar standa gjarnan margir saman í þyrpingum. Þekktir eru gervigígarnir í Mývatni sem mynduðust þegar Laxárhraun yngra rann fyrir rúmum 2000 árum. Stærstur gervigíganna við Mývatn er Geitey sem nær 30 m hæð yfir vatnsborðið. Rauðhólar ofan við Reykjavík er annað dæmi um gervígíga en þeir mynduðust þegar Leitahraun rann yfir votlendi fyrir um 4700 árum. Gervigígar hafa einnig fundist á Mars og þykir það benda til þess að þar hafi eitt sinn runnið vatn. Marinerdalirnir. Marinerdalirnir eru feiknastórt gljúfrakerfi sem tegir sig eftir miðbaug Mars, þeir eru staðsettir austan við Þarsis-svæðið og teigja sig frá dalakerfi sem kallast Noctis Labyrinthus í vestri til austurs. Landafræði. Gljúfrin eru 4.500 km löng, 200 km breið og 11 km djúp. Gljúfrakerfið er það lengsta í sólkerfinu. Orðsifjar. Marinerdalirnir heita í höfuðið á Mariner áætluninni, en geimfarið Mariner 9 sem var hluti af þeirri áætlun uppgvötaði þá 1972. Þarsis. Þarsis er hálendi á reikistjörnunni Mars staðsett vestan við Valles Marineris gljúfrin. Á því er Þarsisbungan en á henni eru staðsett nokkur stærstu fjöll sólkerfisins. Landafræði. Þarsisbungan nær allt að 10 km hæð og er um 30 milljón km² að flatarmáli Þarsisfjöllin. Þarsisfjöllin eru dyngjur á Þarsis-svæðinu á reikistjörnunni Mars, þær eru, frá norðaustri til suðvesturs: Ascraeusfjall, Pavonisfjall, Arsiafjall og Ólympusfjall. Ascraeusfjall. Ascraeusfjall er rúmlega 11 km há dyngja á reikistjörnunni Mars, það er nyrst Þarsisfjallana á Þarsis-svæðinu. Fyrir sunnan það er Pavonisfjall og sunnan við það er Arsiafjall, stærsta eldfjall í sólkerfinu, Ólympusfjall, er norðaustan við það. Pavonisfjall. Pavonisfjall er um það bil 7 km há dyngja á reikistjörnunni Mars, það stendur mitt á milli Ascraeusfjalls til norðurs og Arsiafjalls til suðurs, stærsta eldfjall í sólkerfinu, Ólympusfjall, er norðvestan við það. Arsiafjall. Arsiafjall er rúmlega 9 km há dyngja á reikistjörnunni Mars, norðan við það er Pavonisfjall og norðan við það er Ascraeusfjall. Stærsta eldfjall í sólkerfinu, Ólympusfjall, er norðvestan við það. Á Arsiafjalli er um 110 km breiður sigketill. Fjallið er næststærsta eldfjall heims að rúmtaki á eftir Ólympusfjalli. Ástríkur gallvaski. Ástríkur gallvaski (franska: "Asterix") er söguhetja í bókum René Goscinny og Albert Uderzo um Ástrík og víðfræg afrek hans. Gefnar hafa verið út bækur, teiknimyndir, kvikmyndir og tölvuleikir um Ástrík og félaga hans á móðurmálinu frönsku sem og fjölda annarra tungumála, þar á meðal íslensku. Saga. Sögusvið Ástríksbókanna er Gallía og ýmsir hlutar Rómverska heimsveldisins um árið 50 f. Krist og má reikna með að persóna Ástríks sá um þrítugt. Hann er smávaxinn og ætíð eins til fara: Í rauðum buxum, svörtum ermalausum bol, með vængjaðan hjálm á höfði og veglegt yfirvaraskegg. Ástríkur er ásamt Sjóðríki seiðkarli rödd skynseminnar í gaulverska bænum sínum, sem tekst að halda sjálfstæði sínu gegn Júlíusi Sesari og Rómarveldi. Með hjálp töfraseyðis sem gefur ofurkrafta tekst Ástríki og öðrum bæjarbúum að hrinda sérhverri árás ofureflisins. Í mörgum bókanna neyðist Ástríkur til að leggja í ferðalög til fjarlægra landa ásamt Steinríki vini sínum, en sögunum lýkur einatt á að þeir snúa aftur að verkefni loknu og er fagnað með veislu. Ástríkur er piparsveinn og er oft vikið að þeirri staðreynd í sögunum, ekki hvað síst í seinni bókunum sem Albert Uderzo samdi einn eftir dauða félaga síns. Í þeim bókum ber mun meira á rómantík og gamansamri umfjöllun um samskipti kynjanna en í fyrri sögum. Tarsis Tholus. a> THEMIS daginn innrauða Mosaic af Tarsis Tholus Tarsis Tholus er um 8 km há dyngja á reikistjörnunni Mars, það er norðaustan við Þarsisfjöllin á Þarsis-svæðinu. Ástríkur og víðfræg afrek hans. Ástríkur og víðfræg afrek hans er teiknimyndabókaflokkur sem var skapaður af rithöfundinum René Goscinny og teiknaranum Albert Uderzo fyrir teiknimyndasögublaðið Pilote. Ástríkur og félagar hans búa í Gaulverjabæ, sem er eini hluti Gallíu (Frakklands) sem Rómarher með Júlíus Sesar í fararbroddi hefur ekki náð að yfirtaka. Þetta er sökum mikils baráttuanda íbúanna og kraftaseyðis sem Sjóðríkur seiðkarl bruggar. Bækur. Ástríksbækurnar eru 34 bækur sem fjalla um Ástrík galvaska og félaga hans í Gaulverjabæ. Fjöldi þeirra voru gefnar út á íslensku á árunum 1974-1983. Þriðjungur bókanna hefur ekki komið út á íslensku. Teiknimyndir. Gerðar hafa verið 8 Teiknimyndir í fullri lengd hafa þær allar komið út á Íslandi með Íslensku tali. Tölvuleikir. Gerðir hafa verið fjöldamargir tölvuleikir um Ástrík og félaga. Enginn þeirra er til á íslensku. Charlotte Amalie af Hessen-Kassel. Charlotte Amalie drottning á efri árum. Charlotte Amalie af Hessen-Kassel (27. apríl 1650 - 27. mars 1714) dóttir Vilhjálms VI af Hessen-Kassel. Kvænist Kristjáni V þann 25. júní 1667 í Nykøbing-kastala á Falstri. Við fráfall Kristjáns 1699 varð Charlottenborg (sem er nefnd eftir henni) aðsetur ekkjunnar fram til dauðadags. 1692 var höfuðaðsetur Danska Vestur-Indíafélagsins á Dönsku Vestur-Indíum nefnt Charlotte Amalie sem síðar varð höfuðborg Bandarísku Jómfrúareyja 1525. a>, þýðanda Nýja testamentisins á ensku. 1573. Hinrik af Anjou kjörinn konungur Póllands. Christian Freeling. Christian Freeling er hollenskur leikjahönnuður. Hann hefur fundið upp ýmis skákafbrigði, m.a. stórskák (Grand Chess) og shōgiafbrigðið yari shōgi. Hann er einnig höfundur spilsins Havannah. Tenglar. – vefur gerður af Christian Freeling og Ed van Zon. Miklagljúfur. Miklagljúfur (enska: "Grand Canyon") er litríkt og bratt árgljúfur myndað af Colaradoánni staðsett að mestum hluta til í Miklagljúfursþjóðgarðinum í Arizona í Bandaríkjunum. Gljúfrið er 466 km langt, 6-26 km breitt og allt að 1.6 km djúpt. Miklagljúfur er eitt af 7 undrum veraldar. Þar eru mörg lög af mold. Það eru líka mörg dýr og áhugaverðar plöntur sem þrífast þarna. Smáeyjar Bandaríkjanna. Allar þessar eyjar eru í Kyrrahafinu nema Navassaeyja sem er í Karabíahafinu, á engum þeirra er föst búseta manna. Þjóðarlén þeirra er .um. Ragnarök. Ragnarök kallast heimsendir í norrænni goðafræði og merkir „örlög goðanna“. Aðalheimildir um ragnarök eru Eddukvæðin: Völuspá og Vafþrúðnismál. Á það hefur verið bent, að margar hugmyndir norræna manna um ragnarök séu til orðnar vegna áhrifa annarra trúarbragða, sérstaklega austrænna. Orðsifjar. Orðið „ragnarök“ merkir bókstaflega goðadómur eða endalok guðanna. Það kemur frá orðunum "rögn" (sem merkir „goð“) og "rök" (sem merkir „endalok“ eða „eitthvað ákveðið“). Um ragnarök. Ragnarök munu þó bera boð á undan sér. Í 51. kafla Snorraeddu, Gylfaginningu stendur: „Þau hin fyrstu að vetur sá kemur er kallaður er Fimbulvetur. Þá drífur snær úr öllum áttum frost eru þá mikil og vindar hvassir. En áður ganga svo aðrir þrír vetur að þá er um alla veröld orrustur miklar. Þá drepast bræður fyrir ágirni sakir, og engi þyrmir föður eða syni í manndrápum eða sifjalist. Svo segir í Völuspá.“ Úlfurinn sem eltir sólinna nær henni og gleypir, sá er elti tunglið nær því einnig, stjörnurnar hverfa af himni. Jörðin öll skelfur, svo fjöll brotna og tré rifna upp með rótum, allir fjötrar og öll bönd slitna svo Fenrisúlfur losnar. Hafið ræðst á landið og við það fer Miðgarðsormur í jötunham og skríður upp á land þar sem hann blæs eitri yfir loft og öll vötn. Fenrisúlfur opnar skoltinn sem er svo ógurlegur að efri kjafturinn er við himinn og sá neðri liggur við jörðina, eldur brennur úr augum hans og nösum. Þeir bræður fara hlið við hlið. Í öllum þessum látum rifnar himininn og Múspellssynir ríða inn með Surt fremstan en á undan honum er mikill eldur, en þegar þeir synir ætla yfir Bifröst brotnar brúin, eins og fyrir var spáð, fara þeir því á völl þann er Vígríður heitir en þar eru Loki ásamt öllum óvinum ása Hrymi, skipstjóra Naglfara, og Hrímþursarnir komnir. Stuttu á eftir Múspellssonum koma Miðgarðsormur og Fernrisúlfur. Heimdallur blæs í Gjallarhorn og vekur goðin, Óðinn ríður til Mímisbrunnar og fær ráð hjá Mími. Æsir gera sig tilbúna til orustu og ganga fram á völlinn. Óðinn fer fremstur með gullhjálm og spjót sitt Gungni og stefnir hann til móts við Fenrisúlf sem tekur sig til og gleypir Óðin. Við hlið Óðins fer Þór og berst hann við Miðgarðsorm sem hlýtur bana, sjálfur deyr Þór vegna eiturs sem ormurinn blæs á hann. Freyr berst við Surt og verður Surtur honum að bana. Hundurinn Garmur er þá orðin laus og berst Týr við hann, báðir falla. Víðar berst svo við Fenrisúlf og stígur í gin hans með skó þeim sem hann tekið hefur hann allar aldir að smíða, með annarri hendi tekur hann í efri kjaft úlfsins og rífur í hann í sundur. Surtur slær eldi yfir jörðina og brennir allan heiminn. Þó eru nokkrir staðir sem komast af, Hoddmímisholt, Gimlé sem er á himnum en þangað fara góðir menn og Náströnd í norðri. Jörðin rís aftur úr hafinu og er þá grænni og fegurri en hún var áður. Einn maður og ein kona, Leifþrasi og Líf, lifa af með því að fela sig í Hoddmímisholti, af þeim eru allir menn komnir. Þeir goðanna sem lifa af eru Víðar og Váli, Móði og Magni Þórssynir og hafa þeir Mjölni. Baldur og Höður koma frá Hel. Þeir setjast niður á Iðavelli þar sem Ásgarður stóð, til að ræða það sem gerst hafur. Þeir finna þar gulltöflurnar sem æsir áttu. Sólin hafði getið af sér eina dóttur sem ekki var ófegurri en móðirin og tekur hún við hlutverki móður sinnar. Gvam. Gvam er bandarískt yfirráðasvæði í Vestur-Kyrrahafi. Eyjan er syðst Maríanaeyja og telst hluti Míkrónesíu. Fyrsti Evrópubúinn sem kom þangað var Ferdinand Magellan árið 1521, en Spánverjar lýstu yfir yfirráðum 1565. Eftir Spænsk-bandaríska stríðið 1898 tóku Bandaríkjamenn yfir stjórn eyjarinnar. Hjólreiðahjálmur. Hjólreiðahjálmur er gerð hjálms sem ætlaðir eru til notkunar á reiðhjóli. Önnur orð notuð um sama hlut eru hjólahjálmur og reiðhjólahjálmur. Hönnun. Hjólreiðahjálmar voru búnir til með það að markmiði að minnka líkur á höfuðmeiðslum við fall af reiðhjóli. Hjálmarnir eru prófaðir með því að láta þá falla úr tveggja metra hæð (að hámarki) með líkön af höfðum inní. Hraðabreytingin er mæld. Árekstrar bifreiða við hjólreiðamenn geta hæglega komið af stað miklu meiri skelli en sem nemur falli úr tveggja metra hæð. Umræða og lögleiðing. Mikill umræða um gagnsemi þess að skylda hjólreiðamenn til þess að nota hjálm hefur verið síðan um 1990, bæði á meðal leikmanna, hjólreiðasamtaka, heilbrigðisstarfsmanna og vísindamanna. Það má segja að sannfærandi rök séu til bæði með og á móti hjálmaskyldu sem koma frá öllum þessum hópum. Reynsla af lögleiðingu hjálmaskyldu í Ástralíu, Nýja Sjálandi og viðar, gefa mikilvægar vísbendingar um gagnsemina. Andstæðingar hjálmaskyldu telja sér hafa sterk rök þar. Fylgjendur hjálmaskyldu benda á skýrslur frá m.a. Ástralíu, sem segja að hjálmaskyldan hafi fækkað höfuðmeiðslum. Andstæðingar benda á að fjöldi hjólreiðamanna fækkuðu á sama tímabíli, líklega að miklu leyti vegna hjálmaskyldunnar, og hefur gleymst að taka tilli til þessa í útreikningunum fylgjenda hjálmaskyldu. Ennfremur fækkuðu höfuðmeiðslum gangandi vegfarenda líka. Í þriðja stað segja efasemdamenn að engin tenging við tímasetningu hjálmskyldu sé sjáanleg á línuritum sem sýna þróun höfuðmeiðsla á hjólreiðamönnum yfir fjölda ára fyrir og eftir lögleiðingu reiðhjólahjálma. Styrkurinn í málflutningi fylgjenda hjálmaskyldu byggir á fjölda vísindagreina um athuganir á litlum, mjög ólíkum hópum af hjólreiðamönnum sem hafa sjálfir kosið að nota hjálma. Frægasta skýrslan, eftir Thompson, Rivara og Thompson (1989) hefur verið harkalega gagnrýnd fyrir galla í aðferðafræði, en Alþjóða heilbrigðisstofnunin (World Health Organisation - WHO) og aðrir treysta á hana og sambærilegar skýrslur. Lög um skyldunotkun á Íslandi. Samkvæmt lög nr. 44 7. maí 1993 um breytingu á umferðarlögum (1987 nr. 50, 30. mars), getur ráðherra "sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar" (72. grein umfðerðarlaga). Gildandi reglur frá 1999 segir að börn yngri en 15 ára eiga að nota hlífðarhjálm vð hjólreiðar, nema ef læknisvottorð um undanþágu liggi fyrir. Snemma á árinu 2005 lagði Samband Íslenskra tryggingafélaga fram tillögu um að skylda alla til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar. Tillagan var rætt í umferðarráði og send til umsagnar. Framtíðin. Framtíðin er annað tveggja nemendafélaga Menntaskólans í Reykjavík og elsta nemendafélag á Íslandi, stofnað árið 1883. Framtíðin varð til við sameiningu "Bandamannafélagsins" og "Nemendafélagsins Ingólfs". Framtíðin var í upphafi stofnuð til að efla mælsku- og ritlist innan skólans en einnig var það stefna félagsins að halda skemmtanir fyrir nemendur. Forsagan. "Bandamannafélagið" var fyrsta nemendafélag Menntaskólans í Reykjavík, stofnað 1. apríl 1867 og var fyrsti forseti þess Valdimar Briem. Félagið var þó lagt niður um nokkurt skeið haustið 1873 en var endurreist tveimur árum síðar. Árið 1878 var nokkrum félagsmönnum Bandamannafélagsins vikið úr félaginu og í kjölfar þess stofnuðu þeir sitt eigið félag Ingólf. 1883 voru þessi tvö félög þó sameinuð aftur og úr varð félagið "Framtíðin". Á vegum Bandamannafélagsins var gefið út tímaritið Fjölsvinnur. Fyrsti útgáfudagur blaðsins var 6. apríl 1867 og voru alls gefnir út níu árgangar af blaðinu. Útgáfa. Félagið Framtíðin gefur út elsta skólablað landsins "Skinfaxa" sem kom fyrst út 6. janúar 1898. Síðan árið 2010 hefur blaðið verið gefið út með "Skólablaðinu", næstelsta skólablaði landsins, og hefur ein ritstjórn annast útgáfu beggja blaðanna. Síðan þá hefur gjarnan verið talað um blöðin tvö sem eitt, "Skólablaðið Skinfaxa". Auk þess gefur það út tímaritið "Loka Laufeyjarson" nokkrum sinnum á ári. Á hverju skólaári hafa tvær ritstjórnir umsjá með útgáfu blaðsins — ein fyrir áramót og ein eftir áramót. Blaðið var fyrst gefið út skólaárið 1996 – 1997 þegar Framtíðin og Skólafélag Menntaskólans í Reykjavík ákváðu að skólablöðum innan veggja skólans skyldi fjölgað en áður höfðu félögin gefið út skólablaðið "Menntaskólatíðindi" í sameiningu. Síðarnefnda blaðið fór undir umsjá Skólafélagsins og Framtíðin skóp "Loka Laufeyjarson". Einu sinni á ári, nánar tiltekið á MR-VÍ-daginn, gefur ritstjórn blaðsins út sameiginlegt blað með "Kvasi", tímariti NFVÍ, og nefnist blaðið "Loki-Kvasir". Blaðinu er dreift í MR og Versló. Starfsemi. Lengi vel einkenndist starf félagsins af pólitískri baráttu og var svo að innan félagsins skiptust menn í pólitískar fylkingar og voru stjórnir kosnar og settar af eftir stjórnmálaskoðunum. Margir stjórnmálamenn hafa byrjað feril sinn innan vébanda félagsins og hefur félagið því stundum verið kallað „elsti stjórnmálaskóli landsins“. Áherslan á stjórnmál minnkaði þó með árunum. Félagið sér um Morfíslið skólans og sá um lið skólans í spurningaþættinum Gettu betur framan af en þurfti að láta það af hendi sökum fjárskorts. Forseti Framtíðarinnar er æðsti embættismaður félagsins og var fyrsti forseti þess Valtýr Guðmundsson. Fyrsti kvenforsetinn var Ingibjörg Pálmadóttir árið 1949 en alls hafa átta stúlkur gegnt embættinu af 146 forsetum. Þrír forsetar Framtíðarinnar urðu síðar forsætisráðherra Íslands og tveir urðu síðar forseti Íslands. Núverandi forseti Framtíðarinnar er Lilja Dögg Gísladóttir. Lafði Godiva. Lafði Godiva (um 980 – 1067) var engilsaxnesk hefðarkona sem sagt er að hafi riðið nakin í gegnum Coventry á Englandi til að fá bónda sinn Leofric jarl af Merkju til að draga úr þeim mikla skatti sem hann lagði íbúa bæjarins. Goðsögnin. Sagan segir að Lafði Godiva hafi verið undurfögur kona Leofric III, jarls af Merkju og lávarðs af Coventry. Íbúar bæjarins máttu þola skort vegna þess mikla skatts sem jarlinn lagði á þá, lafði Godiva fannst nóg um og bað bónda sinn ítrekað að draga úr sköttunum, að lokum varð hann svo þreittur á ítrekuðum beiðnum hennar að hann sagðist muna draga úr skattinum ef hún myndi ríða nakin um götur bæjarins. Lafðin tók hann á orðinu og gerði það eftir að hún hafði gefið út tilkynningu þess efnis að íbúar bæjarins skyldu halda sig innandyra og loka gluggum sínum meðan á reiðinni stæði, sem allir íbúar bæjarins gerðu nema klæðskeri einn sem boraði göt í gegnum gluggahlera sinn. Hann var eftir þetta var þekktur sem gluggagægir og sagt er að hann hafi orðið blindur fyrir vikið. Eftirmálar atviksins voru þeir að Leofric stóð við orð sín og afnam þessa miklu skatta. St. Kilda. St Kilda þorpsvíkin á eyjunni Hirta St Kilda er óbyggður eyjaklasi á Bretlandseyjum og afskekktasti hluti Bretlandseyja, mikilvæg varpstöð sjófugla og er á lista Heimsminjaskrá UNESCO yfir mikilvæga staði, bæði vegna náttúru sem og sögu. Samtals ná eyjarnar yfir 8,546 km². Á St. Kilda er stærsta súlubyggð í heimi, með 60428 pörum 1994-95 og áætluð vera 61340 árið 2000. Þar voru þegar orðin um 50 þús. varppör um 1960. Eyjaklasinn er vestan af Benbecula-eyju í Ytri-Hebrídes eyjaklasanum, og samanstendur af (í stærðarröð) eyjunum Hirta, Soay, Boreray, Dùn, Stac an Armin, Stac Lee og Levenish. Enginn dýrlingur er tengdur eyjunum og er talið að "St Kilda" sé afbökun á orðinu "skildir" sem talið er að víkingar hafi gefið þeim. Árið 1930 voru síðustu íbúar eyjanna fluttir á brott. Fé gengur nú sjálfala á eyjunum. Enn eru þó mannaferðir á þeim, annars vegar vísindamenn sem rannsaka villt sauðfé á Soay og hins vegar starfsmenn ratsjárstöðvarinnar á Hirta, ætluð til að fylgjast með skotflaugatilraunum sem breski herinn er með á áðurnefndri Benbecula-eyju. Eyjarnar eru nú eign skoskra yfirvalda. Soay (St Kilda). Soay er eyja í St Kilda eyjaklasanum við Skotland. Hún er næststærsta eyja klasans og er 968.000 m² að flatarmáli. Nafnið er talið vera afbökun á Sauðey, víkingar munu hafa gefið henni það nafn þegar þeir komu þar sauðfé. Eyjan er einna þekktust fyrir þetta sauðfé sem hefur haldist óbreytt í rúm þúsund ár og er alls ólíkt því sauðfé sem þekkist á Íslandi og víðar. Sauðféð nefnist Soay-sauðfé. Soay-sauðfé. Soay-sauðfé er frumstætt kyn sauðfjár ("Ovis aries") frá eyjunni Soay og er nefnt eftir henni. Því var upphaflega komið þar fyrir af víkingum og hefur síðan þá ekki átt samneyti við annað sauðfé og eru því í raun hið sanna víkingasauðfé. Soay er aftur á móti nefnd eftir sauðfénu og því heitir sauðféð í rauninni "Sauðeyjarsauðfé". Rannsóknir. Sauðféð hefur reikað um í þúsund ár án fjárhirða, náttúrulegra óvina eða samkeppnisaðila um gæði landsins. Því er það fyrirtaks viðfangsefni vísindamanna á ýmsum sviðum og sem dæmi má nefna náttúrulega þróun og stofnfjöldasveiflur. Rannsóknir hafa staðið yfir frá því um 1950. Kynhegðan. Árið 2003 birti hópur vísindamanna frá háskólunum í Stirling og Edinborg niðurstöður sem sýndu fram á að hrútarnir berjast grimmt um hylli ánna, stundum til dauða. Ærnar aftur á móti eru mjög virkar og maka sig með mörgum hrútum. Hrútar með stór horn og stór eistu eru líklegastir til að feðra lömb. Í þeim tilvikum sem fjöldi áa er það mikill að stærsti hrúturinn nær ekki að einoka þær virðast hrútar með minni horn en stór eistu eiga næstmestu möguleikanna. Stærðarbreytingar. Mildir vetur haft þau áhrif að minni einstaklingar lifa nú af vetur sem áður fyrr gerðu út af við þá, afleiðingin af því er sú að meðalstærð sauðfésins hefur minnkað um 5% síðustu 20 ár. Ástríkur (mannsnafn). Ástríkur er íslenskt karlmannsnafn. Project Gutenberg. Project Gutenberg er stafrænt gagnasafn sem byggist á því að gera gögn aðgengileg almenningi í einföldu formi. Stærsta verkefnið eru „e-texts“ sem eru í raun einfaldar textaskrár sem hafa að geyma hvað eina sem er ekki háð hugverkaréttindum. Það var stofnað árið 1971 af Michael Hart. Meðal efnis sem má lesa án endurgjalds hjá Project Gutenberg eru og. Þau íslensku verk sem þarna er að finna hafa komið í gegnum sjálfboðaliðaverkefnið Distributed Proofreaders. Sökum mismunandi regla um hugverkaréttindi eru til nokkrar útgáfur af Project Gutenberg á vefnum. Öll verk sem voru gefin út fyrir 1923 teljast vera almenningseign og njóta ekki lengur hugverkaréttar. Margvíslegar reglur gilda síðan um verk sem hafa verið gefin út eftir þann tíma. Distributed Proofreaders. Distributed Proofreaders (íslenska: "dreifðir prófarkalesarar"; skammstöfun: DP) er sjálfboðaliðaverkefni sem miðar að því að koma prentuðu máli á stafrænt form, meðal annars fyrir Project Gutenberg. DP var stofnað árið 2000 af Charles Frankcs til að styðja við stafræna yfirfærslu bóka sem voru ekki háðar hugverkarétti. Í dag er Distributed Proofreaders (DP) helsta auðlind PG á sviði stafrænna bóka. Allir prófarkalesarar, stjórnendur, forritarar og aðrir eru sjálfboðaliðar. Mörg íslensk verk fara í gegnum þetta verkefni, sjá tenglalista að neðan. Heiðursmannasamkomulag. Heiðursmannasamkomulag (eða heiðursmannaloforð) er óformlegt samkomulag, munnlegt eða skriflegt, milli tveggja aðila sem byggir á heiðarleika þeirra fremur en möguleikanum á að framfylgja því með lögum. Slíkt samkomulag er þannig andstæða lögformlegs samnings. Glíma. Glíma er íslensk íþrótt. Í upphafi viðureignar heilsast glímumenn, taka sér stöðu, taka tökum og stíga. Þegar báðir eru tilbúnir gefur yfirdómari merki, mega þeir þá sækja brögðum hvor gegn öðrum. Markmiðið í hverri viðureign er að veita andstæðingnum byltu með löglegu glímubragði, en halda jafnvægi sjálfur að því loknu. Helsta mót glímunnar er Grettisbeltið hjá körlum og Freyjumenið hjá konum. Grettisbeltið er einn elsti verðlaunagripur hér á landi Glíma flokkast sem fangbragðaíþrótt eins og til dæmis júdó og súmó. Tálknafjörður. Tálknafjörður er fjörður á vestanverðum Vestfjörðum og einn af Suðurfjörðum Vestfjarða. Við fjörðinn stendur samnefnt þorp þar sem 306 manns bjuggu þann 1. janúar 2011. Fjörðurinn er nefndur eftir Þorbirni 'tálkna' úr Suðureyjum við Skotland, sem fyrstur manna nam þar land. Pollurinn. Pollurinn er nokkru utan við kauptúnið Tálkafjörð og uppi í hlíðinni. Pollurinn er í raun þrískiptur, tveir setpottar og einn nokkru dýpri. Búningshús er á staðnum og er því viðhaldið af hreppnum. skíta place þessi pollur Tálknafjör. Tálknafjör er bæjarhátíð Tálknfirðinga sem haldin er síðustu helgina í Júlí, Tálknafjör var haldið í fyrsta sinn árið 2006. Hver á sér fegra föðurland. Hver á sér fegra föðurland er íslenskt ættjarðarljóð eftir Huldu, ort í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem unnu til verðlauna í samkeppni sem efnt var til en hitt verðlaunaljóðið var "Land míns föður" eftir Jóhannes úr Kötlum. Titill ljóðsins er dæmi um retoríska spurningu. Raunar var ljóðið sem nú er alþekkt undir þessu heiti aðeins hluti af verðlaunaljóðaflokki, sem bar heitið "Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944", og hefst á ljóðlínunum „Heill, feginsdagur, heill frelsishagur! Heill, íslenzka ættargrund.“ Þegar verðlaunaljóðin höfðu verið valin var efnt til samkeppni meðal íslenskra tónskálda um lög við hátíðarljóðin og var þeim frjálst að semja lög við allan ljóðaflokk Huldu eða aðeins hluta hans. Fékk Emil Thoroddsen verðlaunin fyrir lag við þriðja hluta ljóðaflokksins. Sá hluti hefst á orðunum „Hver á sér fegra föðurland“ og hefur hátíðarljóðið gengið undir því nafni síðan en aðrir hlutar verðlaunaljóðaflokksins eru nánast gleymdir. Þjóðhátíðarlagið var frumflutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944 og þar las líka Brynjólfur Jóhannesson leikari allan verðlaunaljóðaflokkinn. Land míns föður. "Land míns föður" er íslenskt ættjarðarljóð eftir Jóhannes úr Kötlum, ort í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem unnu til verðlauna í samkeppni sem efnt var til en hitt verðlaunaljóðið var ljóðaflokkurinn "Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944" eftir Huldu en hluti hans, "Hver á sér fegra föðurland", er nú oftast sagður hafa verið verðlaunaljóðið. Ljóð Jóhannesar bar raunar nafnið "Íslendingaljóð 17. júní 1944" en hefur alltaf verið nefnt eftir upphafsorðum sínum. Þegar verðlaunaljóðin höfðu verið valin var efnt til samkeppni meðal íslenskra tónskálda um lög við þau. Þau tvö lög sem talin voru best voru við þriðja og fjórða hluta af ljóðaflokki Huldu en í þriðja sæti var lag Þórarins Guðmundssonar tónskálds við ljóð Jóhannesar. Það var frumflutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944 og þar las líka Jóhannes sjálfur verðlaunaljóð sitt. Bakereyja. Bakereyja er lítil (1,64 km²) óbyggð baugeyja í miðju Kyrrahafi, um 3.100 km suðvestur af Honolúlú. Eyjan er undir yfirráðum Bandaríkjanna og er friðað náttúruverndarsvæði. Reykholt (Borgarfirði). Reykholt er skólasetur, kirkjustaður, prestsetur og gamalt höfuðból í Reykholtsdal í Borgarbyggð á Vesturlandi. Í Reykholti er enn fremur rekið Edduhótel í heimavist skólans á sumrin og þar er einnig rekin Snorrastofa, sem er miðstöð rannsókna í miðaldafræðum. Í Reykholti er Snorralaug, ein elsta heita laug á landinu, sem kennd er við Snorra Sturluson (1178) er þar bjó frá 1206 þar til hann var drepinn þar árið 1241. Snorri mun vera grafinn í Sturlungareit svokölluðum í Reykholtskirkjugarði og er Reykholt með merkari sögustöðum á landinu. Stytta er af Snorra Sturlusyni á hlaðinu fyrir framan skólabyggingu héraðsskólans. Hún er gerð af Gustav Vigeland og gefin þangað af Ólafi, þáverandi krónprins og síðar konungi Norðmanna árið 1947. Héraðsskóli var reistur í Reykholti 1931 og ber aðalbygging hans fagurt vitni um handverk arkitekts hennar, Guðjóns Samúelssonar. Þar eru einnig tvær kirkjur og er sú eldri reist á árunum 1886-1887. Jarðhiti er mikill í Reykholti og er hann notaður til upphitunnar gróðurhúsa, sundlaugar og annarra bygginga á staðnum. Tveir hverir eru þar helstir, Skrifla og Dynkur. Var vatni veitt í Snorralaug úr Skriflu eftir um 120 m löngum stokki og er baðlauga í Reykholti oft getið í gömlum heimildum. Snorralaug er með elstu mannvirkjum sem varðveist hafa hér á landi. Frá lauginn lágu jarðgöng til bæjarhúsa Snorra og hafa þau verið grafinn upp að hluta. Austur-Evrópa. Önnur lönd í Austurblokkinni. mamma Vestur-Evrópa. Kort sem sýnir Vestur-Evrópu eins og hún er oft skilgreind. Grikkland og Kýpur eru meðtalin. Að auki eru oft Ungverjaland, Slóvakía, Tékkland og Slóvenía og stundum líka Grikkland og Kýpur talin með af sögulegum ástæðum. Bessastaðir. Bessastaðir á Álftanesi í Garðabæ á Suðvesturlandi eru aðsetur forseta Íslands. Á Bessastöðum er þyrping nokkurra húsa: Bessastaðastofa, Norðurhús, þjónustuhús og Suðurálma eru portbyggðar byggingar. Suðurálma samanstendur af móttökuhúsi, bókhlöðu og tengibyggingu við þjónustuhús. Bessastaðastofa er elsta húsið á jörðinni. Móttökuhús er byggt við hana árið 1941 og tengt á milli með blómaskála sem nemur við suðurgafl Bessastaðstofu og gerður er eftir hugmynd ríkisstjórafrúarinnar, Georgíu Björnsson. Samsíða móttökuhúsinu er bókhlaðan, sem byggð var árið 1968 og gengt er úr henni í borðsal Bessastaðastofu.Bessastaðakirkja stendur fremst en handan portbyggðu húsanna eru forsetahús og ráðsmannshús. Fjær stendur bílageymsla, sem áður var fjós. Sambyggð hlaða gegnir enn sama hlutverki og áður en hlöðuloftið er nú geymsla. Búskapur var á Bessastöðum til ársins 1968. Bessastaðanes er allstórt og þar má sjá á yfirborði menjar um ýmsa starfsemi. Örnefni vísa til þess að hluta, svo sem Skothús, Prentsmiðjuflöt og Sjóbúðarflöt. Saga Bessastaða nær allt aftur til landnámsaldar, samkvæmt fornleifarannsóknum sem fram fóru á staðnum á 9. og 10. áratug 20. aldar og sem studdar eru rituðum heimildum að nokkru. Bessastaðir hafa ávallt verið mikilvægir í sögu þjóðarinnar og jafnan verið aðsetur höfðingja og háembættismanna. Snorri Sturluson átti jörðina þó svo að óvíst sé að hann hafi nokkru sinni búið þar sjálfur. Eftir víg hans árið 1241, rann jörðin með öllum gögnum og gæðum undir Noregskonung. Hún varð fyrsta jörðin á Íslandi til þess að komast í konungseigu. Hirðstjórar konungs sátu á Bessastöðum og síðar amtmenn og stiftamtmenn ásamt landfógetum. Nafntogaðasti og jafnfram mögulega verst þokkaði hirðstjórinn var Páll Stígsson en meðal merkustu landseta var Magnús Gíslason (amtmaður) sem þótti milt og gott yfirvald. Magnús var fyrsti Íslendingurinn sem gegndi stöðu amtmanns og hann átti frumkvæði að byggingu steinhúsanna tveggja á 18. öld sem enn standa. All veglegir legsteinar þeirra beggja eru múraðir inn í veggi Bessastaðakirkju. Bessastaða er vitanlega getið í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar er getið um að landskuld ýmissa annarra jarða á Álftanesi og leigukúgildi "betalist" í tunnum kola og smjöri. Um Bessastaði sjálfa segir m.a.: "Jarðarinnar dýrleiki þykjast menn heyrt hafa að verið hafi xii [hundruð]. Eigandinn er kóngl. Majestat. Hjer er amptmannsins residens og fóetans þá so til hagar. Landskuld er hjer engin nje hefur verið í nokkur hundruð ár". Bessastaðastofa. Bessastaðastofa var byggð á árunum 1761 til 1766 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Það var danska stjórnin sem lét byggja húsið en ástand eldra embættisseturs var orðið afar bágborið. Kostnaðurinn nam 4.292 ríkisdölum og 77 skildingum. Þar í reiknast ýmis kostnaður sem til féll vegna vandamála sem upp komu á byggingartímanum. Miklu dýpra var niður á fastan grunn og fór jafnmikið grjót í sökkul hússins og í veggi þess, byggingartíminn varð mjög langur og kostnaðarsöm mistök voru gerð við þakið. Engar teikningar hafa fundist af Bessastaðastofu en talið er að húsameistarinn Jakob Fortling hafi teiknað hana. Ólafur Stephensen, stiftamtmaður, sat ekki á Bessastöðum og hann lét staðinn eftir til skólahalds fyrir Lærða skólann sem þá var nefndur Hólavallarskóli árið1805. Eftir það nefndist hann Bessastaðaskóli, allt til ársins 1846 að hann fluttist í Lækjargötu í Reykjavík og heitir nú Menntaskólinn í Reykjavík. Árið 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar í tæp þrjátíu ár. Þá eignaðist Landsbanki Íslands staðinn og tveimur árum síðar var hann seldur. Kaupandi var Skúli Thoroddsen, ritstjóri og alþingismaður. Skúli bjó á Bessastöðum ásamt fjölskyldu sinni í tíu ár. Eftir það bjuggu Jón H. Þorbergsson bóndi, Björgúlfur Ólafsson læknir og Sigurður Jónasson forstjóri í Bessastaðastofu en sá síðastnefndi afhenti ríkinu jörðina að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur. Bessastaðastofa hefur frá byggingu hússins tekið allmiklum breyting í gegnum tíðina, utan sem innan. Fornleifakjallari undir Bessastaðastofu. Að áliðinni 20. öld þótti kominn tími til umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar húsanna á Bessastöðum og kallaði ástand Bessastaðastofu á miklar endurbætur. Af heimildum og fyrri rannsóknum þótti ljóst að vænta mætti þess að mannvistarleifar kæmu í ljós við framkvæmdir en þær hófust árið 1989 undir stjórn Bessastaðanefndar (sem skipuð var um endurbæturnar). Sú varð raunin, en miklu meira en menn óraði fyrir og mannvistarlög voru mörg, hvert ofan á öðru. Að endingu spannaði fornleifarannsóknin á Bessastöðum níu ár og varð ein hin umfangsmesta sem fram hafði farið á Íslandi. Samkvæmt rannsóknum nær búseta á Bessastöðum allt aftur á landnámsöld. Auk mannvirkjaleifa, fannst allmikið af gripum við fornleifarannsóknina á Bessastöðum. Þá öfluðu vísindamenn stærsta safns fornvistfræðilegra gagna sem fundist höfðu í einum uppgreftri hérlendis fram að því. Við upphaf húsaviðgerðarinnar, var kjallarinn undir Bessastaðastofu grafinn út og fornminjum komið fyrir þar, svo sýna mætti áhugasömum. Sá sómi sem fornminjum staðarins er sýndur með gerð fornleifakjallarans og útfærslu hans, má ekki síst þakka velvilja og skilning þáverandi forseta, sem var Vigdís Finnbogadóttir. Fyrirhugaður vínkjallari undir húsinu vék fyrir fornleifakjallaranum og um leið jókst þýðing setursins þar sem unnt varð að sýna gestum forseta raunverulegar menjar um sögu staðarins og veita innsýn að nokkru leyti inn í daglegt líf æðstu embættismanna landsins árhundruð aftur í tímann. Bessastaðanefnd og Þjóðminjasafn Íslands sameinuðust um frágang kjallarans sem sýningarhæfs rýmis og útstillingu muna. Frágangi hans var endanlega lokið um mitt árið 1994. Þarna má skyggnast nokkrar aldir aftur í sögu Bessastaða og meðal annars er gengt meðfram austurvegg bústaðar landfógeta frá fyrstu áratugum 18. aldar og má sjá inn á gólf hússins. Það var gert af bindingsverki og gefið er sýnishorn af því hvernig veggir slíkra bygginga voru gerðir en fyrirmyndin er allgömul og kemur frá Evrópu þó svo að hús úr bindingsverki hafi ekki reynst mjög vel hérlendis né verið endingargóð. Fundnir munir. Flestir brenndu leirmunanna voru brot úr leirkerjum frá 17. - 19. öld en eitt brotanna er frá 15. öld. Meira en 100 brot úr krítarpípum fundust, flest frá 18. öld Pípuhausar voru litlir því tóbak var dýrt. Glerið sem fannst, svo sem glasabrot, sýna stöðu Bessastaða sem höfðingjasetur því annað eins var ekki að finna á bæjum. Elsta glerbrotið var úr mannvistarlagi frá 15. eða 16. öld. Meðal óvenjulegust muna voru lítill tálgukarl úr beini og hafa verið leiddar að því líkar að hér sé um að ræða e.t.v. leikfang barns eða taflmann. Allmargir járnmunir fundust, svo sem naglar, hnífur, sylgja og reisla. Þá má nefna að í fornleifakjallaranum er fallbyssa sem talin er vera frá 15. öld, sem fannst í jörðu á Bessastöðum árið 1888. Trúlega var byssan notuð staðnum til varnar er einnig mögulega til erfðahyllingar þegar við átti. Byssan er trúlega sú næstelsta sem til er hérlendis. Hún er gerð af sex járnhólkum og eru járngjarðir utan um samskeyti þeirra. Mögulega vantar eitthvað á lengd byssunnar. Enn eldri er byssa sem einnig fannst í Bessastaðalandi, en hlaup hennar er gert af járnstöfum sem mynda sívalning sem járngjarðir eru felldar utanum. Sú er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands. Heimildir. Árni Magnússon og Páll Vídalín: "Jarðabók, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn 1703", Prentsmiðjan Oddi, Reykjavík, 1982. Guðmundur Ólafsson: "Bessastaðarannsókn 1987, Aðdragandi og upphaf - uppgraftarsvæði 1-11", Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík, 2010. Helge Finsen og Esbjörn Hiort: "Steinhúsin gömlu á Íslandi", Bókaútgáfan Iðunn, Reykjavík, 1978. "Framkvæmdir á Bessastöðum 1989 - 1998, Skilamat", Bessastaðanefnd, 1999. Internetið. Myndræn framsetning á tengingum hluta Internetsins. Internetið eða netið (óvíða Alnetið) er alþjóðlegt kerfi tölvuneta sem nota IP-samskiptastaðalinn til að tengja saman tölvur um allan heim og myndar þannig undirstöðu undir ýmsar netþjónustur, eins og veraldarvefinn, tölvupóst og fleira. Í daglegu tali er því oft ruglað saman við veraldarvefinn, en hann er bara ein þjónusta af mörgum sem hægt er að nálgast á Internetinu. Internetið hefur orðið vettvangur fyrir alls kyns nýja samskiptatækni (stundum kallaðir nýmiðlar) og hefur haft mikil áhrif á eldri samskiptatækni. Í sumum tilvikum hefur Internetið nánast útrýmt eldri samskiptatækni, eins og t.d. póstsendingum bréfa. Fjölmiðlun fer nú í auknum mæli fram á Internetinu, samhliða ljósvakamiðlum og prentmiðlum. Internetið er upprunnið í Bandaríkjunum og er enn að mestu á forræði þeirra. Internetið er ekki miðstýrt en bandaríska einkafyrirtækið ICANN hefur yfirumsjón með mikilvægustu nafnrýmum Internetsins, IP-talnakerfinu og lénakerfinu, þar á meðal úthlutun rótarléna. Fyrirtækið rekur stofnunina IANA samkvæmt samkomulagi við ríkisstjórn Bandaríkjanna frá 1998 en áður var hún rekin af upplýsingatæknistofnun University of Southern California. Saga. a> spruttu upp um allan heim á 10. áratug 20. aldar. Rannsóknarstofnunin Advanced Research Projects Agency (ARPA eða DARPA) var sett á stofn innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna í kjölfar Spútnikáfallsins 1957 þegar Bandaríkjamenn töldu sig hafa dregist aftur úr Sovétríkjunum í tækniþróun. Eitt af fyrstu verkefnum ARPA var að hanna tækni til að tryggja að samskiptanet Bandaríkjahers þyldu áföll og til að tengja saman tölvur ólíkra höfuðstöðva hersins. J. C. R. Licklider var settur yfir verkefnið árið 1962. Eftirmaður hans, Ivan Sutherland, fékk Lawrence Roberts til að hanna tölvunet með pakkabeiningu sem verkfræðingurinn Paul Baran hafði rannsakað fyrir bandaríska flugherinn. Roberts varð síðan yfirmaður í verkefninu og þróaði fyrstu útgáfuna af því sem síðar varð ARPANET. Netið var sett upp 29. október 1969 milli Kaliforníuháskóla í Los Angeles og Stanford Research Institute í Kaliforníu sem var undir stjórn frumkvöðulsins Douglas Engelbart. Upphaflega notaðist netið við samskiptastaðalinn Network Control Program (NCP) en 1983 skipti ARPANET yfir í IP sem var mun sveigjanlegri staðall. Nafnið „Internet“ var fyrst notað til að lýsa neti byggðu á TCP/IP-samskiptareglunum árið 1974. 1987 varð til NSFNET sem tengdi háskóla í Bandaríkjunum og víðar og opnaði Internetið fyrir almennri notkun. Fyrsta tengingin við netið frá öðru landi var við rannsóknarstofnunina NORSAR í Noregi og University College London um gervihnött árið 1973. Á Íslandi tengdist Hafrannsóknarstofnun EUnet með UUCP-tengingu árið 1986 og Orkustofnun og Reiknistofnun Háskóla Íslands tengdust henni, en fyrsta IP-tengingin við útlönd var frá Tæknigarði við Háskóla Íslands 21. júlí 1989. Áætlaður fjöldi Íslendinga á Internetinu var um 5 þúsund árið 1995 (þar af 3 þúsund virkir) en aðeins 10 tölvur á Íslandi voru nettengdar árið 1988. Upphaflega var Internetið hugsað fyrst og fremst til að tengja saman opinberar stofnanir, rannsóknarstofnanir og háskóla en árið 1988 var opnað fyrir tengingar við net sem rekin voru í hagnaðarskyni. Fyrsta tengingin var við MCI Mail, einkarekna tölvupóstþjónustu sem hafði verið stofnuð árið 1983. Einkareknir þjónustuaðilar urðu til sem buðu upp á tengingu við heimili og fyrirtæki um mótald gegn gjaldi og önnur vinsæl net, eins og Usenet og BITNET, tengdust Internetinu og sameinuðust því síðar. Árið 1990 var ARPANET lagt niður og tengingar þess teknar yfir af NSFNET. Veraldarvefurinn var fyrst kynntur árið 1991 og fyrsti margmiðlunarvafrinn, Mosaic, varð til árið 1993 og Netscape Navigator kom á markað árið eftir. Á þessum tíma var mikil almenn umræða um Internetið og möguleika þess og tölvueign, sem áður takmarkaði notkun, var farin að aukast vegna útbreiðslu Internetsins fremur en öfugt. Netnotkun tvöfaldaðist á hverju ári en um leið var mikill og greinilegur munur á notkun þess á Vesturlöndum og í þróunarríkjum sem hefur aukist með tímanum. Umræðan um framtíðarmöguleika netsins leiddi til þess að fjárfestar fengu ofurtrú á vaxtarmöguleikum tæknifyrirtækja. Fyrirtæki á borð við Microsoft, Yahoo og AOL juku virði sitt gríðarlega á hlutabréfamörkuðum og lítil nýsköpunarfyrirtæki á sviði tækniþróunar áttu greiðan aðgang að fjármagni. Netbólan sprakk svo árin 2000-2001 þegar í ljós kom að væntingar fjárfesta voru ekki í takt við arðsemi fyrirtækjanna sem sum hver gerðu slæma yfirtökusamninga til að viðhalda vexti hvað sem það kostaði, og upp komst um nokkur mál þar sem bókhaldssvikum var beitt til að fegra stöðu fyrirtækja. Niðurstaðan var sú að NASDAQ-vísitalan þar sem tæknifyrirtæki eru fyrirferðamikil féll og trú fjárfesta á framtíð upplýsingatæknifyrirtækja minnkaði mikið. Hlutabréfahrunið olli niðursveiflu í hagkerfum margra vestrænna ríkja. Þegar upp er staðið hafði hrunið þó meiri áhrif á hlutabréfamarkaðina en fyrirtækin sjálf sem flest lifðu það af. Þjóð. Þjóð er hópur fólks með sameiginleg menningarleg einkenni, t.d. sömu sögu eða tungumál og oft á tíðum sameiginlegt ætterni. Þjóð hefur oftast einhverja ljósa eða óljósa þjóðarvitund og einstaklingarnir gera sér almennt grein fyrir að þeir tilheyra ákveðnum hóp og kenna sig jafnan við þjóðina. Þjóðir halda sig oft en ekki alltaf á afmörkuðum landsvæðum og mynda oft ríki með eða án annarra þjóða. Þannig myndast þjóðríki og fjölþjóðaríki. Einnig getur ein og sama þjóðin búið í mörgum ríkjum. Sameinuðu þjóðirnar. Sameinuðu þjóðirnar (S.þ.) eru alþjóðasamtök stofnuð 1945 sem nú hafa 193 aðildarríki. Öll almennt viðurkennd sjálfstæð ríki í heiminum, að Vatíkaninu undanskildu, eru nú meðlimir. Vatíkanið á eina varanlega áheyrnarfulltrúann og getur sóst eftir fullri aðild ef það kýs svo. Höfuðstöðvar samtakanna eru í New York-borg, þar sem aðildarríkin koma saman á reglulegum fundum til að taka ákvarðanir um margs konar mál sem samtökin koma að. Sameinuðu þjóðirnar skiptast í sex stofnanir: allsherjarþingið, öryggisráðið, efnahags- og félagsmálaráðið, gæsluverndarráðið, aðalskrifstofuna og alþjóðadómstólinn. Að auki eru fjölmargar undirstofnanir, t.d. UNICEF og WHO. Valdamesti og mest áberandi embættismaður Sameinuðu þjóðanna er aðalritarinn. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir lok síðari heimsstyrjaldar af sigurvegurum stríðsins í þeirri von að samtökin myndu koma í veg fyrir frekari stríð í framtíðinni vegna sameiginlegra öryggishagsmuna aðildarríkja. Núverandi uppbygging samtakanna ber vott um þær aðstæður sem uppi voru þegar þau voru stofnuð; sérstaklega sér þeirra stað í Öryggisráðinu, þar sem fimm ríki hafa fast sæti og neitunarvald. Þau eru: Alþýðulýðveldið Kína (leysti af hólmi Lýðveldið Kína), Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland (leysti af hólmi Sovétríkin). Ísland. Alþingi Íslendinga samþykkti 25. júlí 1946 að sótt yrði um aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, þann 9. nóvember 1946 voru aðildarumsóknir Íslands, Svíþjóðar og Afganistans samþykktar. 19. nóvember 1946 var Ísland boðið velkomið og Thor Thors varð fyrsti Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Suður-Georgía og Suður-Sandvíkureyjar. Suður-Georgía og Suður-Sandvíkureyjar eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins í Suður-Atlantshafi. Eyjarnar voru áður hluti af umdæmi Falklandseyja til 1985. Einu íbúar eyjarinnar eru breskur herflokkur og breskir vísindamenn sem búa í eina þorpi eyjanna, Grytviken. Þar er safn, og safnverðir þess tveir eru þeir einu sem hafa varanlega búsetu á eyjunum. Historical and modern settlements of South Georgia Island Tenglar. Saga Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyja (á ensku) Propertius. Sextus Aurelius Propertius (fæddur á milli 50 og 45 f.Kr., dáinn um 15 f.Kr.) var rómverskt skáld. Líkt og Virgill og Ovidius var Propertius í hópi þeirra skálda sem nutu stuðnings auðmannsins Gaiusar Maecenasar. Propertius var náinn vinur Ovidiusar og varði mestallri ævinni í Róm. Lítið annað er vitað með vissu um ævi hans. Af verkum Propertiusar eru varðveittar fjórar bækur af kvæðum undir elegískum hætti. Fyrsta prentaða útgáfan af kvæðum Propertiusar kom út í Feneyjum árið 1472. Endaþarmsop. Endaþarmsop (eða bakrauf) er í líffærafræði ytra op endaþarmsins, lokun hans er stjórnað af hringvöðva. Saur er þrýst úr úr líkamanum í gegnum endaþarmsopið við saurlát, sem er aðaltilgangur endaþarmsopsins. Flest dýr hafa rörsmeltingarveg með munn á öðrum endanum og endaþarmsop á hinum. Endaþarmsopið er þekkt undir mörgum slanguryrðum, t.d. sem rassgat eða taðgat. Meltingarkerfi. Meltingarkerfið er í líffærafræði það líffærakerfi dýra sem tekur við mat, meltir hann og vinnur úr honum orku og næringu og skilar því sem eftir verður út sem úrgangsefnum. Heili. Heili er í líffærafræði hryggdýra annar af tveimur hlutum miðtaugakerfisins, en hinn hlutinn er mænan. Ysta lag hans er bleikt, en annars er hann hvítleitur. Hann stjórnar mestöllum líkamanum, með bæði taugaboðum og seytingu efnaboða. Hrygggöng. Hrygggöng (fræðiheiti: "Canalis vertebralis") eru göng u.þ.b. í miðju hryggsúlunnar sem mænan fer í gegnum, þeim var fyrst lýst af Jean Fernel. Lýsa. Lýsa (eða jakobsfiskur eða lundaseiði) (fræðiheiti: "Merlangius merlangus") er hvítur fiskur af þorskaætt sem lifir í Norður-Atlantshafi. Lýsan líkist mest ýsu í útliti og að lit, en er afturmjórri og almennt minni. Lýsan verður yfirleitt 30-50sm að lengd fullvaxin. Hún er botnfiskur sem heldur sig við leir- og sandbotn á 30-200 metra dýpi. Aðalfæða lýsu er smáfiskur, krabbadýr og skeldýr. Fiskurinn er fremur magur og bragðlítill en hentar vel í t.d. fiskibollur. Enníus. Quintus Enníus (239 - 169 f.Kr.) var rithöfundur og skáld á tímum rómverska lýðveldisins og er oft nefndur faðir latnesks kveðskapar. Einungis brot eru varðveitt af verkum hans en áhrif hans á latneskan keðskap voru þ‏ónokkur. Meðal frægari verka Enníusar eru "Epicharmus", "Euhemerus", "Hedyphagetica", "Saturae",og "Annálarnir" ("Annales" á latínu). Í "Epicharmus" setti Enníus fram sýn sína á guðina og gangverk heimsins. Hann segir frá því að hann hafi dreymt að hann hafi verið við dauðann ferðast til staðar guðdómlegrar uppljómunar. Í "Euhemerus" er sett fram guðfræðileg kenning af allt öðru tagi í óbundnu máli þar sem Enníus hendir gaman að öllu saman. Kvæðið sækir fyrirmynd sína til kvæða gríska skáldsins Evhemerosar frá Messene og nokkurra annarra skálda sem fjölluðu um guðfræðileg efni. Samkvæmt kenningunni sem sett er fram í kvæðinu höfðu guðirnir á Ólympsfjalli ekki yfirnáttúruleg öfl sem skiptu sér samt af mannlegum málum, heldur miklir herforingjar, stjórnmálamenn og uppfinningarmenn fyrri tíma sem minnst var eftir dauða sinn á óvenjulegan máta. "Hedyphagetica" þáði stóran hluta af efnivið sínum söguljóði Arkestratosar frá Gela, sem oft var tengt epikúrisma. Ellefu ljóðlínur undir sexliðahætti eru varðveittar og bera þær vott um bragfræðileg einkenni sem skáldið virðist forðast í alvarlegra kvæði sínu "Annálunum". Leyfarnar af sex bókum "Saturae" bera merki um töluverða fjölbreytni í bragfræði. Enníus virðist hafa breytt um brag jafnvel innan sama kvæðisins. Í kvæðinu fjallar Enníus mikið um eigið félagslíf og félagslíf vina sinna meðal rómverskra yfirstéttarmanna og samræður þeirra. "Annálarnir" var söguljóð í átján bókum sem fjallaði um sögu Rómar frá falli Tróju árið 1184 f.Kr. til embættistíðar Catos eldra í embætti censors árið 184 f.Kr.. "Annálarnir" var fyrsta latneska kvæðið sem ort var undir sexliðahætti, þeim brag sem var á grískum söguljóðum. Sexliðahátturinn varð í kjölfarið meginbragurinn á latneskum kveðskap. "Annálarnir" voru notaðir í kennslu rómverskra barna en var að lokum skipt út fyrir "Eneasarkviðu" Virgils. Um 600 línur "Annálanna" eru varðveittar. Tannsteinn. Tannsteinn er í tannlækningum hörnuð tannskán á tönnum, hún myndast sökum nærveru munnvatns, steinefna og ýmiss úrgangs í munninum. Hrjúft yfirborð hans er tilvalinn íverustaður fyrir bakteríur sem ógna heilsu tannholdsins. Tannskán. Tannskán er í tannlækningum gulleit líffilma sem safnast fyrir á tönnunum, hún getur leitt til tannskemmda og tannbólgu, auk þess getur hún safnast saman og myndað tannstein. Juvenalis. Decimus Junius Juvenalis var rómverskt skáld og höfundur satíra seint á 1. öld og snemma á 2. öld. Afar lítið er vitað um ævi hans og fornar ævisögur hans eru almennt ótraustverðar. Juvenalis er m.a. þekktur fyrir að hafa lýst rómverskri alþýðu svo að hún sæktist fyrst og fremst eftir „brauði og leikum“ ("panem et circenses"). Vitað er að hann hafi verið frá Aquinum. Sjálfur lýsir hann sér sem miðaldra manni Þegar fyrsta satíra hans kom út, einhvern tímann á 1. áratug 1.aldar. Ekki er vitað til þess að hann hafi verið að störfum eftir árið 127. Um tíma var hann fátækur og upp á auðmenn Rómaborgar kominn. Hann varð aldrei frægur; eini samtímamaður hans sem getur hans í ljóði er vinur hans, skáldið Martíalis. Varðveitt verk hans eru 16 satírur ortar undir sexliðahætti. Í satírum sínum dregur Juvenalis upp mynd af reiði og fyrirlitningu í garð náungans. Þetta er ómetanleg innsýn í rómverskt gildismat og siðgæði, ef ekki rómverskan raunveruleika. Satírur hans eru oft dónalegar, einkum satíran „Um konur“. Satírurnar veita einnig ómetanlegar upplýsingar um útlendinga í Róm og matarvenjur og skemmtanir ríka fólksins. Juvenalis kann að hafa gegnt herþjónustu undir stjórn Gnaeusi Juliusi Agricola, og leitt herflokk dalmatískra viðbótarhermanna í Bretlandi árið 78. Þekking hans á egypskum siðum gefur vísbendingu um að hann hafi einnig búið í Egyptalandi um tíma, ef til vill í útlegð. Kolmunni. Kolmunni (fræðiheiti: "Micromesistius poutassou") er hvítur fiskur af þorskaætt. Hann finnst í Norður- og Norðaustur-Atlantshafi, allt frá Svalbarða að strönd Norður-Afríku. Hann verður um hálfur metri á lengd og getur náð tuttugu ára aldri. Kolmunni var lítið veiddur fyrir 1980 en er nú orðinn mikilvægur nytjafiskur. Lýsing. Kolmunni er uppsjávarfiskur af þorskaætt. Hann er fremur smávaxinn, rennilegur, lang- og grannvaxinn. Gotraufin er mjög framarlega á stuttum bolnum, en styrtlan er löng og sterk. Hausinn er meðalstór, augu fremur stór og munnurinn í meðallagi. Fiskurinn er yfirmynntur og hefur engan hökuþráð. Bakuggar eru þrír og raufaruggar tveir. Kviðuggar kynjanna eru ólíkir þar sem uggar hængsins hafa mun lengri ytri geisla. Eru þeir fremur smáir og staðsettir nokkuð framan við eyruggana sem eru í meðallagi stórir. Sporðurinn er sýldur og hvasshyrndur, hreistrið er frekar stórt og þunnt. Kolmunninn er silfurgrár á baki, hliðum og á kvið. Mógrá rákin er hátt uppi á bolnum og aðeins sveigð niður aftan til á móts við aftasta bakugga. Munnur hans er svartur að innan og dregur hann nafn sitt af því. Heimkynni. Sú tegund kolmunna er fjallað er um finnst aðallega í Norðaustur-Atlantshafi frá Svalbarða suður til Marokkó og inn í Miðjarðarhaf. Hann finnst einnig við Grænland og undan ströndum Kanada og Bandaríkjanna. Önnur tegund kolmunna er þekkt ("Micromesistius australis") en hún finnst í Suðvestur-Atlantshafi og Suðvestur-Kyrrahafi. Hér við land finnst kolmunni einkum við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina. Lífshættir. Hann er úthafs-, uppsjávar- og miðsjávarfiskur en ungur kolmunni getur verið botnlægur. Hann getur vart kallast torfufiskur en hefur tilhneigingu til að mynda þéttar ræmur. Kynþroska eru þeir algengastir á 300-500 m dýpi en ókynþroska fiskar eru grynnra. Hann finnst þó allt frá yfirborði niður á meira en 1000 m dýpi. Fæða og óvinir. Fæða kolmunna er einkum ljósáta, krabbaflær og fiskseiði. Stærri kolmunnar éta einnig smáa smokkfiska, laxsíldir og annað sem hann hann ræður við. Ránfiskar sem éta kolmunna eru einkum ýmsir stærri fiskar, eins og þorskur, ufsi, lúða og lýsingur. Hvalir éta hann talsvert og finnst oft í honum hvalormur. Oft finnast gróhylki frumdýrs nokkurs í lifur fisksins, sem geta valdið honum miklum skaða. Hrygning. Kolmunninn verður kynþroska 2-7 ára gamall. Aðalhrygningarstöðvarnar eru með landgrunnsbrúninni og við úthafsbankana vestan og norðvestan Bretlandseyja, allt norður undir færeyska landgrunnið. Hrygningin fer fram á 250-450 m dýpi. Hrognasekkir 30 cm langrar hrygnu eru með um 48 þús. egg, sem klekjast út sem 2-3 mm langar lirfur að viku liðinni. Lirfurnar eru sviflægar fram eftir sumri en leita til botn seinni part sumars. Aldur og vöxtur. Vaxtarhraðinn er mikill einkum fyrsta árið og eins árs nær hann 18-20 cm lengd og 50-70 g að þyngd. Um sjö ára aldur er fiskurinn orðinn um 32 cm langur og 200-250 g þungur, og dregur þá verulega úr vaxtarhraðanum. Hængurinn vex að jafnaði hægar og ná ekki jafn mikilli stærð. Hann er talinn ná um 20 ára aldri. Nytsemi. Kolmunni er einn af 10 mest veiddu fisktegundum í heimi. Stofninn er mjög stór og aðallega veiddur í Norðaustur-Atlantshafi í flottroll. Eftir tveggja áratuga hlé hófu Íslendingar aftur miklar veiðar á kolmunna árið 1998 og fór aflinn mest í um 500 þús. tonn, á meðan heildarafli úr stofninum var hátt í 2 millj. tonn. Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið gerðu með sér samkomulag í desember 2005 um veiðar úr kolmunnastofninum. Byggt á því samkomulagi þá var samþykkt á aðalfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndar (NEAFC) í október 2007 að veiðar úr þessum stofni yrðu ekki meiri en 1.250 þús. tonn árið 2008. Hlutur Íslendinga er tæp 203 þús. tonn. Meira en 95% aflans fer í bræðslu en stækkandi hluti er sjófrystur og seldur til manneldis. Helmingur aflans er seldur til Noregs sem fiskifóður. Ólympusfjall (Grikklandi). Ólympusfjall (eða Ólympsfjall) er hæsta fjall Grikklands, 2.917 metra hátt, það er heimili guðanna í grískri goðafræði. Hæsti tindur þess heitir Mitikas, sem þýðir „nef“ á grísku. Ólympsfjall er þekkt fyrir fjölskrúðuga flóru sína, ef til vill þá fjölskrúðugustu í Evrópu, með nokkrum staðbundnum tegundum. Í grískri goðafræði er Ólympsfjall aðsetur Ólympsguðanna tólf, aðalguðanna í grískri goðafræði. Grikkir hugsuðu sér að þar væri kristalhallir þar sem guðirnir bjuggu, m.a. Seifur. Orðsifjar og merking nafnsins "Ólympus" ("Ólympos") eru óþekktar og hugsanlega er uppruni nafnsins ekki indóevrópskur. Keila (fiskur). Keila (fræðiheiti: "Brosme brosme") er nytjafiskur af vatnaflekkaætt, sem er ný ætt, en tilheyrði áður þorskaætt. Hún lifir í Norður-Atlantshafi bæði austan og vestan megin við Ísland. Keilan er löng, með sívalan bol, einn bakugga eftir endilöngu bakinu og einn langan raufarugga, sem báðir eru með einkennandi dökkri rönd yst og hvítum jaðri, auk eyrugga og kviðugga. Sporðurinn er lítill og hringlaga. Hún er með skeggþráð á neðri vör sem skagar eilítið fram fyrir þá efri og rönd eftir bolnum endilöngum. Roðið er þykkt og hreistrið smátt. Hún er móleit á lit sem fer frá rauðbrúnu og yfir í gulbrúnan eftir umhverfi. Yngri fiskar eru með sex ljósar þverrákir á síðunni. Heimkynni, næring og vöxtur. Keilan finnst beggja vegna Norður-Atlantshafsins, við Nýfundnaland og suðurodda Grænlands. Helstu keilumiðin eru við strendur Íslands (út frá Austfjörðum og Snæfellsnesi, á Reykjaneshrygg, við Svalbarða, meðfram strönd Noregs allt frá Múrmansk, norðan við Bretlandseyjar og við Færeyjar. Hún finnst líka í Skagerrak og Kattegat en er sjaldséð þar. Keila er botnfiskur sem heldur sig við grýttan botn í 0-10° heitum sjó á 20-1000 metra dýpi þar sem hún syndir dreift eða í litlum hópum. Hún lifir aðallega á krabbadýrum, litlum botnfiskum og jafnvel krossfiskum. Hún hrygnir tveimur milljónum hrogna í apríl-júlí sem klekjast út eftir tíu daga. Seiðin eru sviflæg og berast með öðru svifi langt út á haf. Þegar fiskurinn er orðinn um 5 sm langur syndir hann djúpt niður á botn. Við Ísland hrygnir keilan við brún landgrunnsins í 5-9° heitum sjó undan Suður- og Suðvesturlandi, en uppeldisstöðvar hennar virðast vera við Norður- og Austurland. Mikilvægustu hrygningarstöðvar keilunnar eru á landgrunni Íslands, Færeyja og Hjaltlandseyja. Keilan er seinvaxta og verður ekki kynþroska fyrr en átta til tíu ára gömul. Þá er hún hálfur metri á lengd og vegur 1-2 kg. Fullvaxin getur hún orðið yfir metri á lengd en í afla er hún oftast 40-75 sm og 0,5-3 kg. Stærsta keilan sem veiðst hefur við Ísland (og líklega í heiminum) var 120 sm á lengd. Hún er talin geta orðið allt að 40 ára gömul. Helstu óvinir keilunnar eru selur og hákarl og aðrir ránfiskar: þorskur, langa og skata. Hringormar geta tekið sér bólfestu í kjöti keilunnar. Veiðar og nytjar. Keilan er vinsæll matfiskur og líkt og aðrir þorskfiskar er hún með hvítt kjöt. Kjötið af keilunni er mjög þétt, fíngert og magurt miðað við kjöt af þorski. Bragðið er sætt og minnir eilítið á humar. Fyrr á öldum var keilan yfirleitt kæst á Íslandi og þótti ekki sérlega góð til matar þótt hún væri eftirsótt víða í Evrópu. Hugsanlega eimir enn eftir af þessu viðhorfi á Íslandi þar sem keila er sjaldgæf í fiskborðum og hlutfallslega ódýr fiskur. Í Noregi og Svíþjóð er keilan eftirsótt söltuð og kæst, en hún er líka borin fram reykt, soðin eða steikt. Helst eru það Norðmenn, Íslendingar og Færeyingar sem veiða keilu og þá aðallega á línu sem aukaafla með öðrum fiski, en stundum slæðist hún í botnvörpur. Í Maine-flóa er hún líka veidd á sjóstöng af sportveiðimönnum. Veiðar á Keilu voru litlar við Ísland fram til 1950 en þá jókst veiðin úr 2000 tonnum að jafnaði í 6000 tonn en náði hámarki 1960 þegar yfir 10.000 tonn veiddust á Íslandsmiðum. Farið var að veiða keiluna skipulega um 1990 og mikilvægi hennar jókst samfara minnkandi þorskafla. Frá sama tíma hafa mælingar bent til minnkandi stofns og undanfarin ár hefur verið mælt með 3.500 tonna veiði á ári. Heildarafli frá 1950 til 2003 samkvæmt tölum frá FAO Heildarafli í heiminum var tæp 22 þúsund tonn árið 2003, en var mestur yfir 50 þúsund tonn árið 1980 sem bendir til þess að ofveiði hafi skaðað stofninn, en ekki er vitað hversu stór heildarstofninn er. Af stofnmælingum Hafrannsóknarstofnunar Íslands að dæma hefur vísitala veiðistofns lækkað frá 1990 en fer hækkandi frá því um 2001 sem gefur tilefni til að ætla að stofninn sé í hægum vexti. Norðmenn veiða langmest af keilu í heiminum, eða 65% af heildaraflanum, en Íslendingar fylgja þar á eftir. Mest af því sem veiðist af keilu er saltað til útflutnings, en lítill hluti er frystur. Keila er ekki á rauða lista IUCN yfir tegundir í hættu, en hún er skráð af bresku samtökunum Marine Conservation Society sem fiskur sem neytendur ættu að forðast að kaupa vegna hættu á ofveiði. Ufsi. Ufsi er almennt heiti fiska af ættkvíslinni "Pollachius" af þorskaætt. Á íslensku heita tegundirnar tvær sem tilheyra ættkvíslinni annars vegar ufsi ("Pollachius virens") og hins vegar lýr ("Pollachius pollachius"). Ufsi er algengur allt í kringum Ísland en lýr fremur sjaldgæfur. Ufsi er líka heiti á fiskum af annarri ættkvísl þorskaættar, "Theragra", en þær tvær tegundir sem tilheyra þeirri ætt eru kallaðar Alaskaufsi og Noregsufsi. Veiðar. Umfjöllun um íslenska ufsastofninn, veiðar og þróun stofnstærðar, er að finna í skýrsluröðinni "Ástand og aflahorfur" sem Hafrannsóknastofnun gefur út. Lýr. Lýr er sjávarfiskur af þorskaætt af sömu ættkvísl og ufsi. Lýr finnst í Vestur-Miðjarðarhafi og Austur-Atlantshafi. Langa. Langa (fræðiheiti: "Molva") er ættkvísl fiska af þorskaætt. Ættkvíslin telur þrjár tegundir, skrokklöngu ("Molva molva") sem oftast er einfaldlega kölluð "langa", blálöngu ("Molva dypterygia") og miðjarðarhafslöngu ("Molva elongata"). Langan er ílöng og getur orðið allt að tveir metrar á lengd. Geddufiskar. Geddufiskar (fræðiheiti: "Esociformes") eru lítill ættbálkur geislugga sem draga nafn sitt af geddunni ("Esox"). Flestir geddufiskar eru ránfiskar sem sitja fyrir bráðinni. Gedduætt. Gedduætt (fræðiheiti: "Esocidae") er ætt fiska af ættbálki geddufiska ("Esociformes"). Ættin inniheldur aðeins eina ættkvísl, "Esox", sem greinist í fimm tegundir. Characiformes. "Characiformes" eru ættbálkur geislugga sem inniheldur meðal annars ætt karplaxa sem margir hverjir eru vinsælir skrautfiskar (tetrur til dæmis) og píranafiska. Fiskar af þessum ættbálki finnast um allt í vötnum í hitabeltinu í Mið-Afríku og Mið- og Suður-Ameríku. Glitfiskar. Glitfiskar eru ættbálkur geislugga sem inniheldur meðal annars loðnu. Í ættbálknum eru þrettán ættir með samtals um 240 tegundir. Stephan G. Stephansson. Minnismerki um Stephan G. Stephansson Stephan G. Stephansson, upphaflega Stefán Guðmundur Guðmundsson (3. október 1853 á Kirkjuhóli í Skagafirði – 9. ágúst 1927 í Alberta í Kanada), var landnemi og ljóðskáld í Vesturheimi. Oftast talinn hafa fylgt raunsæisstefnunni. Æviferill. Stefán fæddist þann 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli og var skírður "Stefán Guðmundur Guðmundsson". Talað er um annan fæðingardag eða jafnvel fæðingarstað í sumum heimildum en það á rætur sínar að rekja til þess að presturinn sem skírði hann í Víðimýrarkirkju fór ekki rétt með í kirkjubókinni. Til fimmtán ára aldurs bjó Stefán í Skagafirði, en fluttist þá í Þingeyjarsýslu og starfaði þar sem vinnumaður. Hann bjó þar allt til þess er hann fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum og systur árið 1873, þá að verða tvítugur. Í fimm ár bjó hann í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum og kvæntist sama ár og hann flutti þaðan náfrænku sinni, Helgu Sigríði Jónsdóttur. Þau áttu saman átta börn, en sex þeirra komust upp. Næst bjó Stefán að Görðum í Norður-Dakóta, í tíu ár. Þar lést faðir hans, en Stefán sá fyrir foreldrum sínum á meðan þau lifðu. Árið 1889 fluttist hann síðan til Albertafylkis í Kanada og bjó þar til dauðadags, en Stefán lést þann 9. ágúst árið 1927, næstum 74 ára. Fyrstu ár Stefáns í Vesturheimi vann hann t.d. við járnbrautalagningu og skógarhögg en hætti því upp úr fertugu og einbeitti sér að búskapnum. Hann afrekaði það sem bóndi að nema land þrisvar og virðist hafa farist það vel úr hendi. Í Wisconsin kallaði Stefán sig Stefán Guðmundsson en í Dakóta var hann skrifaður Stefansson. Þetta leiddi til þess að bréf hans rugluðust við bréf annarra Stefanssona svo Stefán tók upp nafnið Stephan G. Stephansson sem hann varð þekktur undir. Skáldskapur. Fyrsta ljóðakver Stefáns var Úti á víðavangi sem kom út árið 1894. Alls urðu ljóðabækur hans fjölmargar, flestar gefnar út í Reykjavík. Eitthvað af lausamáli eftir hann birtist líka í íslensku blöðunum fyrir vestan. Meginverk hans verður að teljast Andvökur I-VI sem út kom á árunum 1909-1938. Andvökur draga nafn sitt af því að Klettafjallaskáldið, eins og Stefán er oft nefndur, átti erfitt með svefn í Vesturheimi og flest ljóð hans því samin á nóttunni. Vegna þess að mikið af skáldskap Stefáns varð til á nóttunni er slæðingur af villum í ljóðum hans. Stíll hans var allajafna líka nokkuð tyrfinn og yrkisefnin óvenjuleg svo hann hefur ekki átt upp á pallborðið hjá öllum fræðimönnum. Ekki bætir úr skák að hann var á móti því að skýringar fylgdu ljóðum hans, þótti það skemma ljóðið. Atburðaminni. Atburðaminni er undirflokkur ljósa minnisins sem heyrir aftur undir langtímaminni. Atburðaminni er persónulegt minni á einstök atvik. Ef einstakur atburður er minnisstæður þeim sem fyrir honum verður fer minningin um hann í atburðaminni. Talið er líklegt að atburðaminni sé einstakt fyrir mannskepnuna. Merkingarminni. Í merkingarminni býr almenn þekking okkar á veröldinni óháð því hvort við höfum upplifað hlutina sjálf. Merkingarminni hjálpar bæði mönnum og dýrum að afla sér þekkingar á umhverfinu og nýta hana sér til framdráttar. Tulving skilgreindi merkingarminnið sem minni sem gerir einstaklingnum kleift að smíða líkan af veröldinni innra með sér. Merkingarminnið geymir vísast stóran hluta af þeim fróðleik sem við höfum numið á skólabekknum. Minningum í atburðaminni fylgja upplýsingar um hvar og hvenær þær urðu til en almennu þekkingaratriðin í merkingarminni eru laus við slíka persónulega merkimiða. Skemakenning. Með orðinu "skema" er átt við hugræna tákngervingu eða skipulegt þekkingarmynstur í langtímaminninu. Til eru nokkrar gerðir skema. Þar má nefna m.a. sjálfsskema og skema yfir annað fólk, skema yfir hlutverk og skema yfir aðstæður. Frederick Bartlett (1886-1969) stóð á sínum tíma fyrir mjög svo merkum minnisrannsóknum sem bentu til þess að minnið væri stundum með yfirbragð skapandi hugarstarfs. Það þýðir að minnið hjá fólki skapar oft minningar og vefur því inní einhverja ákveðna reynslu eða atburði. Hann notaði meðal annars þjóðsögur frá indíánum í Ameríku og aðrar sögur fyrir tilraunafólk sitt til að lesa og spurði það síðan út í söguna. Eftir það kom í ljós að fólk átti til að sleppa ákveðnum hlutum úr sögunni og bæta inn í söguna einhverju persónulegu sem hafði gerst í lífi þeirra. Frederick Bartlett. Sir Frederick Barlett (fæddur 1886, látinn 1969) var breskur sálfræðingur sem er þekktur fyrir að setja fram svokallaða skemakennkingu um minni. Hann setti fram þá hugmynd að upprifjun minninga væri ætíð lituð af reynsluheimi okkar og þekkingu. Hann leit því ekki á minni sem upprifjun eða endurlífgun á fastmótuðum minnissporum. Mun nær væri að líta á minni sem eins konar endursköpun af fyrri reynslu og háð viðhorfum okkar og þekkingu. Útgefið efni. "Ártöl eru ekki endilega þegar bókin var gefin út upprunalega". Heimildir. Bartlett, Frederick Frönsku suðlægu landsvæðin. Frönsku suðlægu landsvæðin (franska: "Territoire des Terres australes et antarctiques françaises or Terres australes et antarctiques françaises") eru eldfjallaeyjar í suður-Indlandshafi. Þjóðarlén svæðisins er .tf. Geimverusagan. Svo er oft spurt í framhaldi af sögunni: „Er hægt að sýna fram á, að slíkt hafi ekki þegar gerst?“ Svipaðar hugleiðingar áður fyrr. Í annarri hugleiðingu sinni í bókinni "Hugleiðingar um frumspeki", velti Descartes fyrir sér þeim möguleika, til að kanna hvað hann gæti vitað ef hann efaðist um allt, að til sé illur andi, sem starfar við það eitt að blekkja hann. Hvað getur hann þá vitað með vissu, ef allt, sem hann sér, gæti verið blekking? Þessar hugleiðingar leiða í ljós staðhæfinguna „ég er, ég er til“ sem er ávallt sönn á meðan hann getur hugsað hana eða m.ö.o.: „Ég hugsa, því er ég til“. Þessa fleygu línu þekkja margir á latínu sem: „Cogito, ergo sum“. Hugleiðingar af þessu tagi — þ.e.a.s. geimverusagan — hafa dúkkað upp í ýmiss konar vísindaskáldskap. Lausnir og afstöður. Efasemdamenn um möguleikann á þekkingu halda fast í þá afstöðu, að maður geti á engan hátt vitað eitthvað um raunveruleikann, þar sem maður getur með engu móti sýnt fram á, að maður sé ekki bara hugsunin ein, sem illur andi leitast við að blekkja í sífellu. Allt efnislegt eru bara hyllingar, sem hann framkallar, og allt áreiti blekking, sem hann skapar. Sú skoðun hefur verið nútímavædd með hliðsjón af efnishyggju, þar kemur heilabrotið um heila í krukku til skjalanna. Dæmið er áþekkt því, sem kom síðar fram í kvikmyndinni The Matrix. Merkingarfræðileg mótrök. Í bókinni "Reason, Truth, and History" leggur Hilary Putnam fram tillögu, sem sumir telja nægjusama, til að útiloka að maður sé heili í krukku. Hún byggir á því, að heili í krukku gæti aldrei sagt „ég er heili í krukku“ og haft rétt fyrir sér, því hann ætti alltaf við eitthvað annað. Til útskýringar má hugsa sér, að lesandi segi við sjálfan sig að hann sé að lesa þennan texta, en sé í raun liggjandi í rúminu sínu sofandi. Að segja að hann sé að lesa textann væri því ósatt. Með þessu móti telur Putnam sig sýna fram á að slíkar pælingar séu mótsagnakenndar, því orðin sem ég nota í sýndarveruleikanum eiga ekki við í raunveruleikanum. Einnig mætti hugsa sér, að fyrst sýndarveruleikinn er svona líkur raunveruleikanum, þá gæti hann allt eins verið sérstæður raunveruleiki. En hugsi maður sér: „Hugsanlega er ég í svipaðri stöðu og heilabrotið stingur upp á“, þá er ekkert mótsagnakennt við setninguna og rök efasemdamanna um möguleikann á þekkingu gilda enn. Hofsjökull. Hofsjökull er þíðjökull á miðhálendi Íslands staðsettur milli Langjökuls til vesturs og Vatnajökuls til austurs, hann er 925 km² að flatarmáli og 1.765 m hár þar sem hann er hæstur. Hann er þriðji stærsti jökull landsins á eftir Langjökli og Vatnajökli. Hann var áður kenndur við Arnarfell hið mikla og hét þá Arnarfellsjökull en nafni hans var síðan breytt og er hann nú kenndur við Hof í Vesturdal í Skagafirði. Skriðjöklar. Þekktustu skriðjöklar Hofsjökuls eru (talið réttsælis frá Arnarfelli): Múlajökull til suðausturs, Blautukvíslarjökull til suðurs, Blöndujökull til vesturs, Kvíslajökull til vest-norð-vesturs og Þjórsárjökull til austurs. Jökulár. Frá Hofsjökli renna stórar jökulár; Blanda, Þjórsá, Jökulfall, Austari-Jökulsá og Vestari-Jökulsá. Eldvirkni. Mikil megineldstöð og gosaskja (sigketill) leynist undir Hofsjökli. Askjan sést á gervitunglamyndum og kemur vel fram við dýptarmælingar á ísnum. Einnig er tölverð smáskjálftavirkni undir henni sem bendir til þess að þar sé virkt kvikuhólf. Ekki er vitað hvenær askjan varð til og ekki er heldur vitað hvenær síðast gaus innan hennar. Nokkur lítil hraungos hafa orðið í hlíðum Hofsjökuls á nútíma (þ.e. á síðustu 10.000 árum). Gígarnir eru nú huldir jökli en hrauntungur teygja sig út undan jökulröndinni og bera vitni um þessi gos. Bresku Indlandshafseyjar. Bresku Indlandshafseyjar eru sex baugeyjar í Chagos-eyjaklasanum í Indlandshafi, um það bil miðja vegu milli Afríku og Indónesíu. Eyjarnar eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins. Árni Gautur Arason. Árni Gautur Arason (fæddur 7. maí 1975) er íslenskur fyrrverandi markmaður í knattspyrnu Árni Gautur var aðalmarkvörður íslenska landsliðsins í mörg ár. Árni Gautur nam lögfræði við Háskóla Íslands. Ferill. Árni Gautur hefur spilað með Stjörnunni, ÍA, Manchester City í Manchester, Rosenborg í Þrándheimi, Vålerenga í Osló, Thanda Royal Zulu í Richards Bay, Odd Grenland í Skien og Lierse í Lier. Hann hefur orðið alls 5 sinnum meistari úrvalsdeildarinnar norsku, fjórum sinnum með Rosenborg og einu sinni með Vålerenga. Árni Gautur var kosinn markvörður ársins í norsku úrvalsdeildinni tímabilið 2005 af öðrum leikmönnum deildarinnar. Eftir að hafa skilið við Rosenberg spilaði hann sem varamarkmaður Manchester City vorið 2004. Hann spilaði tvo enska deildabikars leiki með liðinu. Í þeim fyrsta, gegn Tottenham var liðið með 3-0 tap í hálfleik. Eftir að Sylvain Distin skallaði í markið var munur liðanna kominn niður í 3-1. Christian Ziege skaut að marki en Árni varði við þverslánna. Gus Poyet gerði sig líklegan til að skalla boltann í tómt markið en Árni varði þá tilraun einnig. Veturinn 2008 ákvað hann að fara til Suður-Afríku til að leika með Thanda Royal Zulu fram á sumar. Í lok ágúst sama ár var svo kynnt að hann væri á förum frá liðinu til Odd Grenland í Noregi. Embla (leitarvél). Embla er leitarvél mbl.is sérsniðin að því að leita í íslensku efni, hún hefur nokkra sérstöðu þar sem hún „kann íslensku“. Með þessu er átt við að Embla leitar ekki bara að innsleginni orðmynd, heldur öllum orðmyndum innsleginna orða, sem dæmi: ef leitað er að orðin „flugvöllur“ skilar Embla niðurstöðum sem innhalda orðmyndirnar „flugvelli“ og „flugvellinum“. Í flóknu máli eins og íslensku getur þetta skipt umtalsverðu máli varðandi gæði og umfang leitarniðurstaðna. Á sama orðasafni byggir Embla tillögur að stafsetningarleiðréttingum t.d. ef um innsláttarvillu er að ræða. Þó þær séu á tíðum hjálplegar geta þessar tillögur líka oft verið skondnar. Einhverju sinni stakk Embla t.d. upp á „ein ladan“ þegar leitað var að „bin laden“. Embla er knúin af leitartækni frá íslenska tæknifyrirtækinu Spurl ehf. sem meðal annars rekur bókamerkjaþjónustuna Spurl.net. Nafnsifjar. Nafnið Embla kemur úr norrænu goðafræðinni, en Askur og Embla voru fyrsta fólkið í sköpunarsögu þess heims, sambærileg við Adam og Evu úr sköpunarsögu kristninnar. Nafnið á leitarvélinni er líka án efa orðaleikur með upphafsstafina mbl (e mbl a) — og tala mbl.is menn um að „embla“ eitthvað þegar leitað er, svipað og að „gúggla“ þegar leitað er á Google. Lífeðlisfræði. Lífeðlisfræði (lat. "physiologia") er undirgrein líffræðinnar sem fæst við starfsemi lífvera. Líffærafræði. Líffærafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við byggingu og skipulag lífvera, henni er svo hægt að skipta í tvær undirgreinar: plöntulíffærafræði og dýralíffærafræði. Plöntulíffærafræði. Plöntulíffærafræði er undirgrein líffærafræðinnar sem fæst við byggingu og skipulag plantna. Dýralíffærafræði. Dýralíffærafræði er undirgrein líffærafræðinnar sem fæst við byggingu og skipulag dýra. Askur og Embla. Í norrænni goðafræði voru Askur og Embla gerð úr tveim trjám sem Borssynir, þ.e. Óðinn, Vili og Vé, fundu á sjávarströndu. Óðinn gaf þeim önd og líf, Vili gaf vit og hræring og Vé gaf ásjónu, mál, heyrn og sjón. Svo gáfu þeir þeim klæði og nöfn, manninum nafnið Askur en konunni Embla, og ólst af þeim mannkynið sem gefinn var Miðgarður til að búa í. Framvirk hömlun. Sálfræðingar telja að hömlun eigi þátt í gleymsku, bæði í STM og LTM. Eldra nám getur haft truflandi áhrif á yngra nám, jafnvel þurrkað það út, og öfugt. Framvirk hömlun er sú truflun sem fyrra nám hefur á síðara nám. Framvirk hömlun hefur verið könnuð með tilraunum, dæmi: rannsóknir Underwoods. Hann lét þátttakendur læra lista af merkingarlausum samstöfum. Eftir sólarhring áttu þeir að rifja hann upp. Í ljós kom að þeir mundu tæp 80% af samstöfunum. Því næst voru sömu þátttakendur látnir læra annan lista með sama hætti. Sú frammistaða var heldur lakari en í hinni fyrstu, um 70%. Þetta var endurtekið þangað til þátttakendurnir höfðu alls lært 20 lista. Minnið varð lakara eftir því sem listunum fjölgaði. Af þessu má sjá að hér eru greinileg áhrif framvirkrar hömlunar. Staðaraðferð. Staðaraðferð (latína: "Ars memoriae") er minnistækni sem Grikkjum og Rómverjum var kennd, með þeim hætti að þeim var kennt að setja hvert tiltekið atriði ræðu í samband við einhvern stað. Svo væri létt að rifja upp ræðuna með því að flakka á milli þeirra staða sem tengdust atriðum ræðunnar í huganum. Aðferðin byggir á því að mynda samband milli orða og hugmynda. Því stórkostlegri sem hugmyndin er, því meiri líkur eru á að viðkomandi muni hana. Dæmi. Dæmi um notkun staðaraðferðar er t.d. að hugsa um þekkta byggingu, til dæmis eitthvað ákveðið hús. Taka þarf tíma til að framkvæma „rölt“ í huganum í gegnum öll herbergin í húsinu. Sérstaklega þarf að taka eftir smáatriðunum, eins og til dæmis rispum eða hverju því sem „stækkar“ hugmyndina. Síðan er gerður listi yfir greinilega hluti sem horft var á og lagðir voru á minnið. Þegar það er búið eru búnar til sýnilegar ímyndanir fyrir hvert orð sem var tekið fyrir og þær settar í ákveðna röð. Til að kalla orðin fram er spurt til dæmis: „Hvað er á hurðinni á svefnherberginu“ eða „hvað er í ofninum“ og þar fram eftir götunum. Framvirkt óminni. Óminni nefnist það minnisleysi sem verður af völdum sjúkdóma, slysa eða sálrænna áfalla. Tvær megintegundir óminnis eru til, "afturvirkt óminni" og "framvirkt óminni". Þeir sem þjást af framvirku óminni eru ófærir um að flytja nýjar upplýsingar úr skammtímaminni yfir í langtímaminni. Þar af leiðandi er mjög erfitt fyrir viðkomandi að læra eitthvað nýtt. Minningar frá atburðum sem urðu áður en óminnið varð, sem sagt fyrir slysið, sjúkdóminn eða áfallið, eru þá geymdar í langtímaminninu og viðkomandi getur rifjað þær upp en minningarnar um það sem henti hann eftir slysið hafa glatast. Sá sem þjáist af framvirku óminni gæti haldið uppi eðlilegum samræðum við aðra manneskju en um leið og samtalinu lýkur gleymir viðkomandi að það hafi átt sér stað. Það er þó merkilegt að þó að sjúklingar geti ekki munað það sem þeim hefur verið sagt eða það sem hefur komið fyrir þá, þá eiga þeir mikið auðveldara með að geyma hæfileika til einhvers í minninu. T.d. ef einhverjum er kennt að spila lag á píanó er hann líklegast búinn að gleyma að honum hafi verið kennt lagið en getur þó spilað það ef hann er beðinn um það. Sá hluti heilans sem hefur verið best rannsakaður þegar kemur að framvirku óminni er drekinn. Hann virðist virka líkt og einskonar hlið sem nýjar minningar þurfa að fara í gegnum áður en þær eru geymdar í langtímaminninu. Ef hann verður fyrir skaða þá hætta nýjar upplýsingar að geta ferðast inn í langtímaminnið. Á meðan eru minningarnar sem fyrir eru í langtímaminninu oftast öruggar þar. Aðferðaminni. Aðferðaminni er minni í undirmeðvitundinni sem hjálpar okkur að gera þá hluti sem við höfum lært áður þannig að við gerum þá í rauninni ósjálfrátt og ómeðvitað. Sem dæmi má nefna að sá sem einhvertíma hefur lært að synda, er syndur alla ævi og eins með þann sem lærir að hjóla. Slys og áföll sem líkaminn eða heilinn lendir í hafa minnst áhrif á aðferðaminnið, sem dæmi má taka sjúklinginn H.M. sem ekki getur myndað nýjar minningar en getur enn þá framkvæmt þá hluti sem hann kunni fyrir áfallið og bætt þá og píanóleikarann Clive Wearing sem finnst hann alltaf vera nývaknaður en hann eins og H.M. getur ekki búið til nýjar minningar þó hann muni fortíðina, þó getur hann enn leikið listavel á píanó. Virkni minnisins byggist á áreiti sem maður verður fyrir, og sendir boð frá sér um hvað gera skuli, ómeðvitað er það framkvæmt af einstaklingnum. Það áætlar hegðunarmynstur persónu, viðbrögð við áreiti og annað því um líkt. Hlutir sem krefjast flókinna hreyfinga og mikillar samhæfingar eru geymdir í aðferðaminninu og eru framkvæmdir eins og áður segir ómeðvitað því þjálfun áður á æviskeiðinu hefur hjálpað persónunni að læra samhæfinguna og aðferðarminnið heldur framkvæmdinni hjá sér í undirmeðvitundinni og við ytra áreiti kallar heilinn það fram og við notum hana ósjálfrátt, hvort sem er við sund lestur eða að hjóla. Minnið er fyrirskipandi og eykur líkur á mismunandi svörun við mismunandi áreiti. Déjà vu. "Déjà vu" hefur einnig verið tengt við geðklofa og gagnaugablaðsflogaköst og sagt hefur að hjá flogaveikum sé "déjà vu" forsmekkur að flogakasti. "Déjà vu" truflar veruleikaskynið því maður skynjar upplifunina bæði sem nýja og gamla. Svo virðist sem flogaveikir upplifi "dejà vu" lengur en aðrir, það getur varað í nokkra sólarhringa en varir annars hjá venjulegu fólki í nokkrar sekúndur eða mínútur. Einnig er hægt að framkalla "déjà vu" með dáleiðslu, t.d. ef dáleiddur maður er látinn heyra ákveðna tónlist sem hann hefur ekki heyrt áður og svo beðinn um að gleyma laginu, finnst honum lagið einstaklega kunnulegt þegar hann vaknar aftur. Afturvirk hömlun. Ein ástæða fyrir því að við gleymum er hömlun. Þegar gleymska verður í skammtímaminni er það vegna þess að yngra nám hefur truflandi áhrif á eldra nám. Það er kallað afturvirk hömlun. Jenkins og Dallenbackh gerðu tilraun á tveim háskólanemum árið 1924 þar sem þeir voru látnir læra utanað lista með tíu merkingalausum samstöfum. Svo var athugaður munurinn á því sem þeir gátu munað af listanum, annars vegar eftir að hafa einungis sofið á milli þess að læra hann og fara svo með hann nokkrum sinnum þegar þeir voru vaktir með reglulegu millibili, og hins vegar þegar þeir lærðu hann að morgni skóladags og þurftu svo að fara með hann nokkru sinnum yfir daginn. Það kom í ljós að nemunum gekk mun betur að muna listann eftir að hafa farið strax að sofa. Það er vegna þess að þegar þeir voru vakandi barst þeim sífellt nýtt nám (utanaðkomandi áreiti) sem hafði truflandi áhrif á eldra námið (listana með samstöfunum). Árið 1969 var önnur rannsókn gerð sem gekk út á að nemendur áttu að læra tölur utanað. Svefntíminn var frá 4 til 8 klukkutímum, og tilraunin var gerð í 12 nætur. Þeir enstaklingar sem sváfu minnst áttu í mestu erfiðleikunum með að muna tölurnar. Geymd. Geymd er eitt þriggja minnisþrepa í kenningum um minni. Geymdin er hið eiginlega minni og getur verið með margvíslegu móti og fer það eftir aðstæðum hversu traust hún er. Ef minnisatriði, t.d. nafn einstaklings, fer inn í langtímaminni getum við sótt það og nefnt viðkomandi á nafn næst þegar við sjáum hann eða hann berst í tal. Ef nafn hans hefur aðeins komið við í skammtímaminninu getum við nefnt viðkomandi á nafn t.d. meðan á samtali við hann eða umræðu um hann stendur en gleymum því síðan. Rannsóknir benda til þess að orð hljóti hljóðgeymd í skammtímaminni þ.e.a.s. þegar kemur að því að muna orð eða bókstafi notist skammtímaminni við framburð þeirra. Minnisvillur í skammtímaminni eru einkum af hljóðrænum toga og tengjast framburði orða. Í langtímaminni er hins vegar algengast að orð hljóti merkingargeymd. Rannsóknir sýna að ef þáttakendur fá nægan tíma til umskrá orðin yfir í langtímaminnið er algengast að þeir rugli saman orðum sem hafa svipaða merkingu, t.d. blað og pappír, refur og úlfur, öskutunna og ruslakarfa. Hins vegar er geymd í langtímaminni ekki alltaf merkingarleg og skammtímaminni notast ekki alltaf hljóðgeymd. Sjón, bragð og lykt geta markað varanleg minnisspor í langtímaminninu. Geymd í langtímaminni getur því tekið á sig ýmsar myndir og rannsóknir sýna að langtímaminnið reiðir sig líka á sjóngeymd. Tengslakenning. Í heimspeki felur tengslakenningin í sér að öll mannleg þekking verður fyrir tilstilli tenginga vissra einfaldra og algildra frumþátta skynjunar. David Hartley átti hugmyndina að henni en James Mill þróaði hana frekar. John Locke sagði að manneskjan fæðist sem óskrifað blað, sbr. "tabula rasa", og að reynslan sé rót mannlegrar þekkingar. Immanuel Kant sagði hinsvegar að þekking þyrfti að vera til fyrir tilstilli skynsemi, hvort sem skynsemin er af himni komin eða þróuð. Hinsvegar í sálfræði felur tengslakenningin í sér að tvö hugtök eru tengd þegar upplifun eins leiðir til áhrifa annars. Þetta er stundum kallað Pavlovsk skilyrðing eða viðbragðsskilyrðing. Ovidius. Publius Ovidius Naso (með broddstöfum: Públíus Óvidíus Nasó, stundum kallaður Óvíð eða Óvíd á íslensku) (20. mars 43 f.Kr. – 17 e.Kr.) var rómverskt skáld. Ovidius er almennt talinn meðal merkustu skálda á latínu, ásamt Virgli og Horatiusi. Kvæði hans, sem voru víða höfð sem fyrirmynd um latneskan kveðskap í síðfornöld, á miðöldum og á endurreisnartímanum, hafa haft mikil áhrif bókmenntir og listir í Evrópu. Kvæði Ovidiusar eru öll ort undir elegískum hætti með tveimur undantekningum: (a) Harmleikur hans "Medea" var undir jambískum þríliðahætti og öfugum þríðliðahætti; verkið hefur glatast en stutt brot eru varðveitt. (b) "Myndbreytingarnar", sem almennt er talið mikilfenglegast verka hans, er ort undir sexliðahætti, þeim brag sem söguljóð voru ort undir, t.d. "Eneasarkviða" Virgils og kviður Hómers. Söguljóð Ovidiusar er ólíkt þeim sem áður þekktust, greinargerð fyrir sögu heimsins frá tilurð hans til samtíma skáldsins í réttri tímaröð. Í kvæðinu koma fyrir margar goðsögur um myndbreytingar úr grísk-rómverskri goðsagnahefð. Ágústus keisari gerði Ovidius útlægan frá Róm árið 8 e.Kr. Ástæðurnar eru ókunnar en Ovidius vísar einungis til þeirra með orðunum "carmen et error" þ.e. kvæði og mistök. Ekki er vitað hvaða kvæði hann átti við eða í hverju mistökin áttu að hafa falist en fræðimenn telja að kvæðið kunni að vera "Ars Amatoria" eða "Listin að elska" en þar kennir skáldið hvernig menn – og konur – skuli bera sig að í ástum. Kennslan þykir fremur frjálslynd og var ekki í takt við siðbótina sem Ágústus vildi innleiða í Róm. Gasrisi. Gasrisi er stór reikistjarna, sem er að mestu gerð gasi, en hefur þó líklega kjarni úr bergi eða málmi. Þegar talað er um að reikistjarna sé að mestu samsett úr gasi er átt við að hún sé samsett úr efnum sem eru við staðalskilyrði gas, en efnin geta verið í öðrum ham eftir aðstæðum á reikistjörnunni, til dæmis er Júpíter að mestu úr vetni í vökvaham. Ólíkt öðrum reikistrjörnum hafa gasrisar ekki greinilegt yfirborð, en þeir hafa allir lofthjúp. Gasrisar sólkerfisins, einnig nefndir "ytri reikistjörnur", eru (frá sólu talið): Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Hinar reikistjörnurnar kallast "innri reikistjörnur". Kvikskurður. Kvikskurður er krufning á lifandi dýri. Krufning. Krufning er að skera upp lífveru, oftast í þeim tilgangi að rannsaka hana vísindalega. Listi yfir akademískar fræðigreinar. __NOTOC__ Eftirfarandi er listi yfir akademískar fræðigreinar en akademísk fræðigrein telst fræðigrein sem er formlega kennd, t.d. við háskóla. Trúarbragðafræði. sjá einnig lista yfir trúarbrögð Enskar bókmenntir. "also see" Literature Virgill. Publius Vergilius Maro (15. október 70 f.Kr. – 19 f.Kr.), betur þekktur á íslensku sem Virgill, var rómverskt skáld, af mörgum talinn mest allra skálda á latínu. Æviágrip. Virgill fæddist í þorpinu Andes, skammt frá Mantua í Gallíu Cisalpinu (þ.e. Gallíu sunnan Alpanna, í dag á norður Ítalíu). Virgill var ekki af rómverskum ættum Eldri verk. Menntun Virgils hófst er hann var fimm ára gamall. Hann var seinna sendur til Rómar að læra mælskufræði, læknisfræði og stjörnufræði en hann gaf þau vísindi fljótt upp á bátinn og helgaði sig heimspekinni. Á þessum tíma, er Virgill var við nám í skóla epikúringsins Siros, hóf hann að yrkja kvæði. Nokkur stutt kvæði sem hafa verið eignuð hinum unga Virgli eru varðveitt en eru almennt ekki talin ósvikin. Eitt þeirra, "Catalepton", er í fjórtán stuttum erindum og einhver þeirra gætu verið eftir Virgil. Annað kvæði sem ber titilinn "Culex" ("Moskítóflugan"), var þegar eignað Virgli á 1. öld. Þessi ljóð öll kallast einu nafni "Appendix Vergiliana". Árið 42 f.Kr., eftir að morðingjar Júlíusar Caesars, Brutus og Cassius, höfðu verið sigraðir var uppgjafahermönnum fengnar jarðir sem höfðu verið teknar eignarnámi og ættarsetur Virgils nærri Mantua var þar á meðal. Hins vegar er talið að Ágústus keisari hafi fengið Virgli jörðina aftur því í fyrsta erindi "Hjarðkvæðisins", sem er samið um árið 42 f.Kr., segir að Tityrus, sem oftast er talinn standa fyrir Virgil sjálfan, hafi komist aftur yfir jörðina vegna íhlutunar Octavíanusar (sem síðar nefndist Ágústus). Virgill komst í innsta hring auðmannsins Maecenasar, einkavinar Octavíanusar, sem reyndi að grafa undan samúð yfirstéttanna með Marcusi Antoníusi og fékk til þess öll helstu skáld samtímans. Eftir að Virgill hafði lokið við "Hjarðkvæðið"varði hann árunum 37-29 f.Kr. í að semja "Búnaðarbálk" sem var saminn til heiðurs Maecenasi. Úr því kvæði er komið orðatiltækið "tempus fugit" („tíminn flýgur”). Octavíanus, sem hafði sigrað Marcus Antoníus í orrustunni við Actíum árið 31 f.Kr. og hlaut tveimur árum síðar virðingartitilinn „Augustus“ frá öldungaráðinu, var þá þegar farinn að reyna að fá Virgil til þess að semja fyrir sig söguljóð til að dásama valdatíð sína. Eneasarkviða. Virgill varð við beiðni Ágústusar með því að semja "Eneasarkviðu" sem tók hann tíu ár. Fyrstu sex bækurnar segja frá Trójukappanum Eneasi sem kemst undan er Trója fellur og heldur á leið til Ítalíu þar sem þau örlög biðu hans að stofna voldugt ríki. Á leið hans rekur stormur hann til Karþagó, þar sem drottningin Dídó, tekur á móti honum og áður en langt um líður verða þau ástfangin. En Júpíter sendir Merkúríus til þess að minna Eneas á örlög sín. Eneas yfirgefur Karþagó en Dídó fremur sjálfsmorð er hún fréttir að hann hafi yfirgefið hana og bölvar Eneasi. Við komuna til Cumae á Ítalíu ráðfærir Eneas sig við véfréttina í Cumae sem segir honum að hann verði að fara til undirheima. Eneas er endurfæddur sem stofnandi Rómaveldis. Fyrstu sex bækurnar eru um margt líkar "Ódysseifskviðu" Hómers og eru innblásnar af henni. Síðari bækurnar sex samsvara hins vegar "Ilíonskviðu" Hómers. Eneas gengur að eiga Laviniu, dóttur Latinusar konungs, en Lavinia var þá þegar lofuð Túrnusi, konungi Rútúla, sem er reittur til reiði og segir Eneasi stríð á hendur. "Eneasarkviðu" lýkur með einvígi á milli Eneasar og Túrnusar, sem Eneas vegur þrátt fyrir að vera beðinn um að sýna miskunn. Ævilok. Virgill ferðaðist með Ágústusi til Grikklands. Þar greið hann hitasótt, sem varð honum að aldurtila. Hann lést við höfnina í Brundisium og skildi eftir sig "Eneasarkviðu" ókláraða. Hann hafði beðið um að Ágústus léti brenna verkið en Ágústus varð ekki við beiðninni. Þess í stað skipaði hann Lucius Varius Rufus og Plotius Tucca ritstjóra verksins og fékk þá til að ganga frá því til útgáfu með eins litlum breytingum og mögulegt væri. Kvæðið ber þess merki á stöku stað þar sem ljóðlínur eru ókláraðar. "Eneasarkviða" varð þegar í stað viðurkennd sem meistaraverk og var innan skamms talið mikilfenglegasta kvæði á latínu. Virgill á seinni tímum. Jafnvel eftir hrun Rómaveldis viðurkenndu menn að Virgill væri eitt merkasta skáld á latínu jafnvel eftir að þeir hættu að lesa hann. Gregoríus frá Tours las Virgil og nokkur önnur rómversk skáld, enda þótt hann vari okkur við því „miðla lygasögum þeirra, svo að við verðum ekki eilífum dauða að bráð.“ Dante gerði Virgil að leiðsögumanni sínum í Helvíti og Hreinsunareldinum í "Gleðileiknum guðdómlega". Virgill er enn talinn meðal fremstu skálda á latínu og "Eneasarkviða" er fastur liður nær alls staðar þar sem klassísk fræði eru kennd. Handritageymd. Verk Virgils eru betur varðveitt en textar annarra rómverskra skálda. Elstu handritin eru frá 4. ög 5. öld og geyma textann með hástafaletri. Þá vitna aðrir höfundar fremur oft í Virgil, m.a. Seneca, Quintilianus og Aulus Gellius. Til skýringarrit, mikið vexti, eftir Servius frá því um 400. Handrit frá 9. og 10. öld eru fjölmörg en fra þeim tíma eru elstu handrit margra annarra höfunda. Útgáfur og þýðingar. – Latneskur texti ásamt handritafræðilegum skýringum. – Latneskur texti "Hjarðkvæðis" Virgils ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 1. og 2. bókar "Búnaðarbálks" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 3. og 4. bókar "Búnaðarbálks" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 1.-6. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 1. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 4. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 4. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 5. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 6. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 6. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 7.-12. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 8. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 9. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 11. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi, handritafræðilegum skýringum og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 11. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Latneskur texti 12. bókar "Eneasarkviðu" ásamt inngangi og textafræðilegum skýringum. – Ensk þýðing í óbundnu máli ásamt latneskum texta. – Ensk þýðing í óbundnu máli ásamt latneskum texta. – Ensk þýðing í óbundnu máli. - Íslensk þýðing í óbundnu máli. Binni. Binni er gælunafn karlmanna sem heita nöfnum sem byrja á Bryn-, svo sem Brynjar og Brynjólfur. Allraheilagramessa. Allraheilagramessa er 1. nóvember. Þá er sameiginlegur minningardagur píslarvotta og messudagur þeirra fjölmörgu helgu manna í kristnum sið sem ekki eiga sér eigin messudag. Allraheilagramessa varð snemma einn af helgustu messudögum íslensku kaþólsku kirkjunnar og var ekki afnumin í þeirri mynd fyrr en árið 1770, eða rúmum 200 árum eftir að evangelísk-lútersk kirkja náði völdum; textar og bænir sem messudeginum fylgdu voru þá jafnframt lögð til næsta sunnudags þar á eftir. Í lögbókum miðalda er kveðið á um ölmusugjafir á allraheilagramessu. Kann sá siður að vera í tengslum við allrasálnamessu daginn eftir, 2. nóvember. Þá gætu þessi ákvæði tengst því að eldri vetrarfagnaður hafi færst yfir á allraheilagramessu eftir að kristni festist í sessi. Upphafið. Hún á sér fornar rætur því vitað er til að messur þar sem beðið var fyrir látnum voru haldnar þegar á 4. öld eftir Krist. En oftast er upphaf allraheilagramessu samt rakið til þess er Pantheonhofinu í Rómaborg var breytt í kirkju og vígsludagurinn - 13. maí árið 609 eða 610 - jafnframt helgaður öllum píslarvottum. Gregoríus III sem gegndi embætti páfa á árunum 731–741 vígði daginn öllum sannhelgum kristnum einstaklingum svo að nú átti hann ekki lengur við píslarvottana eina. Um öld síðar flutti Gregoríus páfi IV hátíðina til 1. nóvember þar sem hún er enn. Til Norður-Evrópu barst hún árið 835. Eldri hátíðir þennan dag. Í mörgum evrópskum löndum, þar á meðal á Íslandi og hinum Norðurlöndunum auk keltneskra landa, var árinu skipt í tvær árstíðir fremur en fjórar, eða í vetur og sumar. Menn töldu tímann í vetrum og nóttum fremur en í árum og dögum. Veturinn, eins og nóttin, var talin koma fyrst; mánaðamót október og nóvember var því tími vetrarbyrjunar, og þar með nýárs. Þá tóku kuldinn og myrkrið við, jörðin sofnaði og dauðinn ríkti. Á Íslandi til forna var í lok október haldin hátíð sem kölluð var veturnætur og þá var haldið dísablót á Norðurlöndum ("disting"). Í norðurhluta Skotlands og á Írlandi er á þessum tíma enn haldin hátíð sem á gelísku heitir "Samhain", hátíð hinna dauðu. Í seinni tíð hefur hún fengið heitið "Hallowe’en". Upphaf vetrar og árs er það sem kallað er "liminal tímabil", einhvers konar millibilsástand sem ríkir á tímum mikilla umskipta. Þá geta menn jafnvel skynjað handanheima; þeir sjá drauga og álfa, og geta spáð í framtíðina. Greinilegt er að andar voru taldir vera á kreiki á bæði Samhain og veturnóttum (sjá til dæmis Þiðranda þátt og Þórhalls). Sökum kristnitökunnar lögðust veturnætur smám saman af. Sömuleiðis hurfu margar gamlar kaþólskar hátíðir við siðaskiptin, eða þegar lúterskur siður tók við af kaþólskri trú. Gömlu hátíðirnar eins og vetrarnætur voru haldnar skömmu eftir sláturtíð og neytti fólk þá vel af því nýmeti sem sláturtíðinni fylgdi enda sjaldnast mikið um slíkt á veturna. Þegar kirkjan tók yfir þessar hátíðir færðust þær yfir á allraheilagramessu og var hún því oft kölluð "sviðamessa". Allrasálnamessa. Kringum árið 1000 varð til önnur hátíð fyrir áhrif trúarlegrar siðvæðingar, kenndrar við Clunyklaustrið í Frakklandi. Þetta var "allrasálnamessa" og var hún sett á 2. nóvember. Hún var einkum ætluð til hjálpar sálum fátækra. Þetta var á sama tíma og kirkjan á Íslandi var að festast í sessi og þessi áhersla hefur því frá upphafi verið partur af kristnum hugmyndaheimi Íslendinga. Á 17. öld þekkist hátíðin í íslensku máli undir nöfnunum „sálnadagur“ og „heilagar sálir“, en í rímtali 1707 er núverandi heiti komið inn og hefur verið það síðan. Líkt og áður fyrr horfir allraheilagramessa til þeirra sem á liðnum öldum, og einnig nær í tíma, hafa styrkt kristnina, það er að segja nafnfrægra trúarhetja og dýrlinga, einkum meðal kaþólskra. En á allrasálnamessu er hugurinn meira bundinn öllum þeim sem við þekktum persónulega og elskum en eru nú fallnir frá. Í íslensku þjóðkirkjunni fara þessir dagar orðið saman, eru eins og einn væri og beðið er fyrir sálum allra látinna. Hrekkjarvaka. Hrekkjavaka nefnist á enskri tungu „"Halloween"“ sem er annar ritháttur fyrir „Hallowe’en“. Hallowe’en er svo stytting á nafninu „All Hallows’“ Evening eða „All Hallows’ Eve“ sem er kvöldið 31. október, vakan fyrir Allraheilagramessu. Hefð myndaðist fyrir því að á Samhain/Hallowe’en væri brennandi kertum komið fyrir í útskornum næpum og á Írlandi og í Skotlandi tíðkaðist að kveikja í bálköstum. Einnig fóru bæði unglingar og fullorðnir á milli húsa klæddir búningum og með grímur, eins og nú tíðkast á öskudegi Íslendinga, og gerðu öðrum gjarnan einhvern grikk í leiðinni. Þegar Írar og Skotar fluttust búferlum til Ameríku á 19. öld fluttist Hallowe’en hátíðin með þeim. Í Bandaríkjunum uxu aftur á móti grasker sem voru mun stærri en næpurnar og auðveldari að skera út. Þannig tóku graskerin við af næpunum sem tákn fyrir Halloween Bandaríkjamanna. Vegna áhrifa frá bandarísku sjónvarpi og kvikmyndum verður æ algengara að Norðurlandabúar haldi upp á hrekkjavöku að bandarískum sið. Ýmsir hafa ýtt undir þessa þróun, til að mynda dagblöð og verslanir. Lítill áhugi virðist þó vera á því að fá krakka í búningum til að ganga um og betla nammi, eins og þeir gera gjarnan á hrekkjavöku í Bandaríkjunum, enda er þegar hefð fyrir slíku hér á öskudaginn. Fremur hafa háskóla- og framhaldskólanemar tekið upp á því að halda ýmiss konar hrekkjavökugrímuböll og grímupartý. Hrekkjavaka Norðurlanda því fyrst og fremst unglingahátíð, rétt eins og Hallowe’en á Írlandi og Skotlandi var forðum. Hrekkjavaka. Hrekkjavaka er hátíðisdagur ættaður úr keltneskri trú þar sem hann hét upphaflega "Samhain" (borið fram sánj á írsku). Drúídar færðu þá þakkir fyrir uppskeruna og boðuðu komu vetursins. Hrekkjavaka er haldin 31. október, kvöldið fyrir Allraheilagramessu. Mörk heima hinna lifandi og hinna dauðu voru óljós þennan dag og draugar og aðrar óvættir voru taldar sveima um og voru því bálkestir kveiktir til að vernda hina lifandi. Drúídarnir dulbjuggu sig til að þekkjast ekki og buðu óvættunum mat og drykk til að friðþægja þær. Hrekkjavöku fylgdu ýmsar hefðir, leifar sumra þeirra lifa í hrekkjavöku nútímans þar sem fólk klæðist grímubúningum og sjá má drauga og aðrar óvættir í skreytingum. Börn ganga oft á milli húsa og biðja um nammi, og fái þau það ekki kasta þau oft eggjum í hús þeirra sem ekki gefa þeim. Aðrir fornir hátíðisdagar annarra trúarbragða voru innlimaðir í hrekkjavöku í kristnum sið. Siðir frá Skotlandi. Hvert keltneskt svæði hafði sína eigin siði, þeir voru þó að megninu til keimlíkir, einkum hvað varðar notkun elds. Eldsraunin. Eldurinn minnir á bálkestina sem Drúídarnir kveiktu. Stöng var fest í loftið og neðan á henni voru epli og logandi kerti á sitthvorum endanum. Fólk reyndi síðan að bíta í eplið án þess að brenna sig. Á síðari tímum hefur kertið verið fjarlægt sökum hættunnar sem fylgir því og í stað eplis er oft að finna sætabrauð, eins og kleinuhring. Vatnsraunin. Sagnir segja frá för Drúída til "Eplalandsins". Þessa er minnst í vatnsrauninni þar sem fólk keppist við að bíta í epli sem fljóta í vatni. Clive Wearing. Clive Wearing (fæddur 1938), Breti, fékk sýkingu í heilann sem orsakaði eitt versta minnisleysistilfelli sem vitað er um. Clive man ekkert sem gerðist fyrir meira en fimm mínútum síðan og hann eyðir hverjum degi í að "vakna" á nokkurra mínútna fresti - en það að hann haldi að hann sé að vakna virðist þó ekki vera vegna minnisleysis heldur vegna ofskynjana. Þegar hann sér konuna sína heilsar hann henni eins og að hann hafi ekki séð hana í marga mánuði. Þetta byrjaði allt árið 1985, þegar Clive var á hátindi ferils síns sem virtur tónlistarmaður í Bretlandi, en þá veiktist hann frekar af einhverskonar flensu sem höfuðverkir fylgdu. Eftir tólf daga var hann svo lagður inn á sjúkrahús þar sem hann var greindur með HSVE ("Herpes Simplex Virus Encephalitis") - herpes sýkingu í heila. Hann var í 16 daga í dái og fékk eitt stórt flogakast. Eftir að hann vaknaði úr dái skrá læknarnir hans að hann hafi verið með skammtímaminni uppá 3 sekúndur, en ekki er vitað hvernig þeir fengu það út. Þegar hann var svo settur í CAT-skanna kom í ljós nokkur svæði í heilanum með óvenju lítinn þéttleika í taugfrumum, sérstaklega í vinstra gagnaugablaði sem teygði sig út í fremri og aftari hluta ennisblaðsins. Önnur skönnun var gerð á heila hans árið 1991 sem sýndi óvenjulega heilastarfsemi í mörgum hlutum heilans. Þó að hann muni ekki eftir sér í menntaskóla, þá hefur hann næga þekkingu á tónlist til að leika á píanó og til að stjórna tónleikum. Konan hans, Deborah, hefur skrifað bók um minnisleysi mannsins síns, sem er nefnd "Forever Today". Chris Isaak. Chris Isaak (fæddur Christopher Joseph Isaak 26. júní 1956 í Stockton í Kaliforníu í Bandaríkjunum) er bandarískur indí rokk, popp, og rokk og ról söngvari, lagahöfundur, og leikari. Tónlist hans má lýsa sem blöndu af kántrí, blús, rokk og róli, pop og brim rokki. Tengill. Isaac, Chris Isaac, Chris Isaac, Chris FreeBSD. FreeBSD er frjálst Unix-líkt stýrikerfi komið af AT&T UNIX upprunalega frá Berkeley Software Distribution (BSD) í gegnum 386BSD og 4.4BSD stýrikerfin. Það keyrir á Intel x86-fjölskyldunni (IA-32) IBM PC-samhæfum tölvum, DEC Alpha, Sun UltraSPARC, IA-64, AMD64, PowerPC, ARM og NEC PC-9801-örgjörvum að ógleymdu Xbox frá Microsoft. Stuðningur við MIPS-örgjörvana er fáanlegur í 8-CURRENT sem á eftir að gefa út. Leiðarvísir í ástamálum II. fyrir ungar stúlkur. Leiðarvísir í ástamálum II. fyrir ungar stúlkur er bæklingur eftir Jónínu Sigríði Jónsdóttur sem var upprunalega gefinn út af Nýja Bókafélaginu árið 1922 og prentaður af Félagsprentsmiðjunni, og svo endurútgefinn 15. september 2005 af Project Gutenberg, enda þá ekki lengur vernduð af höfundarétti, Jóhannes Birgir Jensson sá um þá útgáfu. Í bæklingnum kemur fram hvernig konur eiga að haga sér til að vinna sér hylli karlmanna. Honum er skipt í fimmtán hluta, þar af einn inngang, níu um það hvernig konan á að haga ýmsu í fasi sínu, t.d. göngulagi sínu og klæðaburð og fimm aðra hluta sem fást við gjafir, ókosti þess að hafa ástina að leiksoppi (lauslæti), að velja sér maka, hvenær konan megi ganga í hjónaband og hvernig góð eiginkona eigi að haga sér. Bæklingurinn var gefinn út á sama tíma og annar fyrir karlmennina, Leiðarvísir í ástamálum I. karlmenn af ástmanni Jónínu. Hvað er það, sem gerir konur yndislegar í augum karlmanna? Í þessum hluta sem er inngangur bæklingsins kemur fram tilgangur hans sem er „"að reyna að benda ungum og gömlum kynsystrum mínum á ýmislegt það, er verða mætti þeim til leiðbeiningar í umgengni og samlífi við karlmenn, og einkum hvernig þær eiga að hegða sér og haga til þess að verða yndislegar í þeirra augum."“, seinna í honum er svarað þeirri spurningu sem sett er fram í titli hans: „"Það [...] er blíða hennar og yndisþokki, háttprýði hennar í allri framkomu, bros hennar, augnatillit og málrómur, fótatak og allar hreyfingar, ást hennar og næmur skilningur á öllu því göfgasta í tilverunni, fórnfýsi hennar og sjálfsafneitun, sem glöggast kemur fram hjá mæðrum við börn þeirra.“. Röddin. Í þessum hluta kemur það m.a. fram að kona skuli vanda rödd sína og orðaval og að „"falleg rödd og ljót orð [eigi] ekki saman“. Augun. Í þessum hluta kemur það m.a. fram að „"hið þögla mál augnanna"“ sé öllum elskendum mikilvægt, en það skuli varast að nota það á þá sem konan þekkir ekki, því að augnadaður sé ljótt og „"ósiðsemis-einkenni"“. Einnig kemur fram að á götum úti skal konan ávallt líta djarflega framan í karlmenn en hún megi ekki brosa framan í þá. Brosið. Í þessum hluta kemur m.a. fram að brosið sé mikilvægt tól en forðast skuli að ofnota það, sérstaklega er varað við hinu „"reykvíkska veiðibros[i]"“ sem „"algengt [sé] á vorum dögum"“. Handtakið. Í þessum hluta kemur m.a. fram að handatakið hafi mikla þýðingu í samskiptum kynjanna og að mikið sé hægt að vita um menn útfrá handataki þeirra, einnig kemur fram að „"ef þú vilt láta karlmann finna ylinn frá hjarta þínu, þá skaltu þrýsta hönd hans hlýlega og til þess að gera handtakið enn áhrifameira, líta í augu hans um leið"“. Göngulagið. Í þessum hluta kemur m.a. fram að vanda beri göngulag sitt, kona skuli „"ganga stilt og rólega með jöfnum skrefum og samstiga þeim sem [hún] gengur með, [og vingsa] höndunum eigi mikið, því þú getur [hún] barið náunga [sinn] á götunni, ef fjölmennt er úti"“. Að lita andlitið. Í þessum hluta er andlitslitun útskýrð sem eitthvað sem konur gera til að „"sýnast fallegri en þær eru í raun og veru"“, og megi aldrei nokkurtíman grípa til þess þar sem „"andlit þitt er svo fallegt frá skaparans hendi--þó að þú sért óánægð með það--að þú getur eigi gert það fallegra með gervilitum"“, „"Lauslætiskonan--sem er litljót--á að hafa einkarétt til að ‚smínka‘ sig."“. Ilmvötn. Í þessum hluta kemur m.a. fram að ilmvötn megi nota en í hófi, aldrei skal þó nota hárlit. Klæðaburður og þrifnaður. Í þessum hluta kemur m.a. fram að konan skuli aldrei vera í óhreinum fötum þar sem „"óþrifin kona er andstygð siðaðra manna“, einnig skal ekki ganga í rifnum fötum þar sem það er „"hirðuleysiseinkenni"“. Þar að auki skal konan passa að vera hvorki í fötum sém séu og lítil eða stór og að vera ekki í of stuttu pilsi, þetta á sérstaklega við giftar konur en það þykir ákvaflega óviðeigand þær séu í of stuttum pilsum. Að lokum skulu konur passa sig að ganga ekki í „"hælaháum stígvélum"“ þar sem „"þau skekkja og afskræma líkama [þeirra]"“. Um hirðu líkamans er það sagt að það sé mjög hollt að stunda reglulegar íþróttaæfingar, en við þær verður líkaminn „"fegurri og styrkari, hreyfingarnar mýkri og augað gleggra"“, einnig skal konan passa sig á að þvo sér um hárið minnst einu sinni í mánuði og hirða vel um neglur sínar með því að „"klippa þær með beittum skærum (en eigi naga þær með tönnunum), og jafna síðan með naglaþjöl"“. Að lokum skal konan hirða vel um tennur sínar því „"andramar konur er ekkert spaug að kyssa"“. Ýmislegt um framkomu. Í þessum hluta kemur m.a. fram að á „"öllum samkomum og opinberum stöðum eiga konur að sýna einlæga kurteisi og forðast alla uppgerð og hégóma“, hún skuli einnig eigi gauma sig af verkum sínum eða menntun eða að „"þessi eða hinn sé ástfanginn og elti sig á röndum"“. Einnig skuli hún aldrei hallmæla kynsystrum sínum í áheyrn karlmanna eða bera slúðursögur, hún skuli eigi vera forvitin og skuli ekki spurja um það sem henni varðar ekki um, einnig skulu hún aldrei biðja karlmann að gefa sér sælgæti. Um vímuefni er það sagt að það sé ljótt þegar konur reykja og neyta áfengis í samkvæmum eða á veitingahúsum, það sæmir einnig eigi konum „"að kaupa tóbak í búðum og áfengi getur engin kona verið þekt fyrir að kaupa"“. Gjafir. Í þessum hluta kemur m.a. fram að konan skuli aldrei þiggja gjöf frá karlmanni sem henni sé lítt kunnugur, nema hann sé skyldur henni, slíkt sé að gefa honum of mikið undir fótinn. Hún skal einnig aldrei gefa ljósmyndir af sér nema frændfólki og bestu vinum. Að hafa ástina að leiksoppi. Í þessum hluta kemur m.a. fram að að lauslæti sé „"illgresi í blómgarði ástarinnar"“, konan skuli eigi stunda það ef hún vilji „"verða hamingjusöm í lífinu og landi [sínu] og þjóð [...] til gagns og sóma"“. Hvenær mega konur ganga í hjónaband? Í þessum hluta kemur fram að kona skuli eigi ganga í hjónaband fyrr en unnusti hennar getur aflað henni lífvænlegra tekna og fjár til bústofnunarinnar sem þarf til að byrja búskapinn skuldlaus. Skordýr. Skordýr (fræðiheiti: "Insecta") eru liðdýr í undirfylkingu sexfætla. Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra jarðarinnar með yfir 800.000 þekktar tegundir, fleiri en allir aðrir hópar dýra samanlagt. Þau vísindi að rannsaka skordýr kallast skordýrafræði. Uppbygging. Skordýr búa yfir liðskiptum líkama þöktum ytri stoðgrind, að mestu gerð úr kítíni. Líkaminn skiptist í þrjá hluta, höfuð, frambol og afturbol. Á höfuðinu eru tveir fálmarar og par af samsettum augum auk einfaldari depilauga. Ljóslestur. Ljóslestur (eða ljóskennsl) er tækni sem notuð er til að færa ritað mál af pappír yfir á stafrænt form (e. Optical Character Recognition, OCR). Fyrst er blaðið skannað og fæst þá stafræn útgáfa af því. Að því loknu er hægt að ljóslesa textann, sérútbúið forrit skoðar myndina og greinir mynstur sem það telur vera bókstafi. Forritið skrifar textann svo í skrá eftir óskum notandans. Gæði. Ljóslestur hefur náð góðum árangri með prentaðan texta en á talsvert í land með að geta gert handskrifuðum texta góð skil. Góður árangur er talinn vera 99% nákvæmni. Það þýðir að einungis einn af hverjum hundrað bókstöfum sé rangur. Þetta þýðir þó að talsvert af villum er í stafræna textanum. Íslenskir textar sem eru ljóslesnir lenda oft í því að forritin rugli stundum saman "ö" og "ð", "þ" og "p" skiptast á sætum og fleira. Oft eru búnar til þjálfunarskrár fyrir forritin. Þá er farið handvirkt í gegnum nokkrar blaðsíður og forritið tilgreinir hvaða stafir það er ekki 100% öruggt á og biður notandann að staðfesta réttan staf. Þrátt fyrir þjálfunarskrárnar næst aldrei meira en 99% öryggi nema textinn sé þeim mun einfaldari og geysivel varðveittur á pappírnum. Gæði ljóslesturs fara jafnt eftir gæðum ritsins sem skannað er, gæðum skönnuðu myndarinnar, forriti sem notað er og þjálfunarskrám. Forrit. Eitt forrit hefur yfirburðastöðu á markaðnum, ABBYY FineReader sem er ættað frá Rússlandi. Til eru nokkur ókeypis forrit en ekkert þeirra hefur enn sem komið er viðunandi íslenskustuðning til að nýtast hér á landi. Ljóslestur á Íslandi. Íslandspóstur notar ljóslestur til að flokka bréfapóst sem er með prentaða utanáskrift eftir póstnúmerum. Vélin sem notuð er við flokkunina getur þó ekki lesið allar leturgerðir eða feitletur svo eitthvað sé nefnt. Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn er einnig einn stærsti íslenski aðilinn sem notar ljóslestur. Það notar hann einkum til að gera blöð og tímarit leitarhæf á. Ljóslestur erlendis. Ljóslestur á rætur sínar að rekja aftur til 1950 þegar David Shepard hóf smíði á vél til þess að breyta prentuðum boðum yfir í tölvutæk gögn. Í dag er ljóslestur í gríðarlegri notkun um allan heim, einkum í fjármáladeildum fyrirtækja þar sem reikningar eru ljóslesnir og geymdir í stafrænu formi. Tengt efni. Distributed Proofreaders nýtir sér ljóslestur í vinnu sinni við að koma bókum og ritum á stafrænt form fyrir Project Gutenberg. Þar sem nákvæmnin verður sjaldnast meiri en 99% sjá notendur Distributed Proofreaders um prófarkalestur á textanum svo hann verði boðlegur til birtingar. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn hefur það tvíþætta hlutverk að vera þjóðbókasafn Íslands sem safnar öllu prentuðu íslensku efni og auk þess háskólabókasafn en safnið á stærsta safn fræðirita á landinu. Safnið er bókasafn Háskóla Íslands og því er þjónusta þess við skólann skilgreind með sérstökum samningi. Þess utan er safnið öllum opið. Safnið var opnað 1. desember 1994 eftir sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðunni sem stendur á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur nálægt Hringbraut. Safnkosturinn er um milljón titlar af ýmsu tagi sem skiptist í nokkur söfn: þeirra á meðal eru þjóðbókasafnið, handrit og sérsöfn einstaklinga sem aðeins er hægt að skoða á sérstökum lestrarsal á fyrstu hæð í Þjóðarbókhlöðu, tón- og myndsafn safnar íslenskri tónlist sem hægt er að hlusta á á efstu hæð, og dagblöð og tímarit er hægt að lesa á þriðju hæð. Stærstan hluti fræðirita og bókmenntarita safnsins er hins vegar hægt að skoða í hillum og taka að láni. Starfsmenn safnsins eru tæplega hundrað talsins. Safnið rekur meðal annars upplýsingaþjónustu fyrir skóla og atvinnulíf, landsmiðstöð millisafnalána, bókbandsstofu og skráningardeild. Safnið sér líka um úthlutun ISBN- og ISSN-númera fyrir íslenska bóka- og tímaritaútgáfu og heldur utan um íslenska útgáfuskrá. Á síðustu árum hefur safnið staðið að stórum verkefnum sem ganga út á að veita aðgang að safnkostinum á Veraldarvefnum. Dæmi um slík verkefni eru Gegnir (samskrá íslenskra bókasafna), Tímarit.is (dagblöð og tímarit), Handrit.is (handrit), Vefsafn.is (vefsíður) og The European Library (samleit í spjaldskrám evrópskra bókasafna). Safnið heldur einnig utan um áskriftir ýmissa stofnana að stórum tilvísana- og gagnasöfnum og rafrænum tímaritum. Saga. Á 6. áratug síðustu aldar var farið að ræða um það að óhagkvæmt væri að byggja upp tvö vísindabókasöfn á landinu. Sérstök nefnd undir forsæti Þorkels Jóhannessonar rektors var skipuð til að fjalla um málið og árið 1957 var samþykkt þingsályktunartillaga um að sameina bæri Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið sem allra fyrst í sérstöku húsnæði þar sem Safnahúsið myndi ekki nægja til að svara þörfum sameinaðs bókasafns. Í framhaldi af því var farið að ræða um byggingu sérstaks húsnæðis, „þjóðarbókhlöðu“, nálægt háskólanum og voru menn helst á því að ljúka ætti við bygginguna þjóðhátíðarárið 1974 þegar minnst yrði 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Ákveðið var að safnið yrði „gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín“ á þjóðhátíðinni. Söfnin hófu þá undirbúning og fengu meðal annars erlenda sérfræðinga í hönnun slíkra bókasafna frá UNESCO til ráðlegginga. 1970 var svo samþykkt nánast samhljóða þingsályktun þess efnis byggð á tillögu þjóðhátíðarnefndar sem Gylfi Þ. Gíslason bar fram. Þá var þegar búið að stofna byggingasjóð með reglulegu framlagi af fjárlögum til að fjármagna framkvæmdina. Þjóðargjöfin sem tafðist. Lyktir þjóðhátíðarmálsins þegar nær dró afmælinu urðu þær að hætt var við flestar tillögur þjóðhátíðarnefndar og fjármagn til verkefna skorið verulega niður. Ákveðið var að taka fyrstu skóflustungu að nýrri þjóðarbókhlöðu í stað þess að vígja bygginguna eins og upphaflega var ráðgert. Samið var við arkitektana Þorvald S. Þorvaldsson og Manfreð Vilhjálmsson um hönnun hússins en Arkitektafélag Íslands gagnrýndi að ekki hefði verið haldin samkeppni um hönnunina. Staðsetning bókhlöðunnar á Birkimel nokkurn spöl frá miðju háskólasvæðisins var líka gagnrýnd en þessari lóð hafði verið úthlutað af borginni á 150 ára afmæli Landsbókasafnsins 1968. Þegar leið á árið 1974 varð ljóst að ekki væru til nægir peningar til að hefja framkvæmdir og þar við það sat næstu ár. Árin 1972 og 1975 hafði ríkissjóður tekið aftur framlag sitt til byggingasjóðs. Olíukreppan olli því meðal annars að afkoma ríkissjóðs versnaði næstu árin og ekkert varð því af framkvæmdum þótt viljinn væri fyrir hendi. Bygging hússins. Árið 1977 komst skriður á málið þegar ákveðið var að verja hluta ágóða af sölu þjóðhátíðarmyntar til byggingar þjóðarbókhlöðu. Samningar náðust við Reykjavíkurborg um gatnagerð og skipulag Birkimelssvæðisins og var meðal annars gert ráð fyrir því að færa Melavöllinn um set tímabundið, en áætlað var að hann hyrfi á brott þegar húsið yrði tekið í notkun. Vilhjálmur Hjálmarsson, menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustungu að húsinu 28. janúar 1978. Eftir það var tekinn grunnur og steyptir sökklar og neðsta gólfplatan. Næstu ár var unnið að uppsteypu hússins og Vigdís Finnbogadóttir lagði hornstein að því 23. september 1981. 1983 var húsið nánast fullsteypt. Það ár komu til landsins sérsmíðaðir álskildir sem klæða það að utan. Þótt húsið væri nú nánast fullbyggt var ljóst að töluvert fé vantaði upp á til að ljúka við frágang að innan og utan. Framkvæmdafé var enn skorið niður en 1986 var ákveðið að hluti eignaskatts skyldi renna til byggingarinnar árin 1987-1989. Þetta var kallað „þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu“ en einn af forvígismönnum þess var Sverrir Hermannsson menntamálaráðherra. Raunin varð hins vegar sú að einungis lítill hluti af eignaskattsaukanum rann til byggingarinnar. Samt var það stóraukið fjármagn miðað við fyrri ár. Steininn tók svo úr 1989 þegar ríkisstjórnin samþykkti að helmingur framkvæmdafjár næsta árs skyldi koma frá Happdrætti Háskóla Íslands. Háskólinn mótmælti þessari ráðstöfun á sjálfsaflafé skólans harðlega. Opnun Þjóðarbókhlöðu. Viðeyjarstjórnin ákvað 1991 að setja stóraukið fjármagn í síðustu áfangana til að verkinu lyki á tilsettum tíma sem var áætlað árið 1994. 1991-1994 var unnið hörðum höndum að frágangi hússins að innan. 1. desember 1994, á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins, var byggingin loks vígð og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn tók formlega til starfa. Fyrsti landsbókavörður hins nýstofnaða safns var skipaður Einar Sigurðsson fyrrum háskólabókavörður. Í aðdraganda opnunarinnar var talsvert rætt um að hinu nýja bókasafni væri þröngt skorinn stakkur varðandi rekstur og ætlaðir opnunartímar voru ekki í samræmi við það sem háskólanemar vildu helst. Nemendur hrundu því af stað söfnunarátaki til að safna rekstrarfé fyrir hið nýja safn. Þannig söfnuðust yfir 22 milljónir króna sem safnið fékk að gjöf við opnunina. Við opnun safnsins nam heildarbyggingarkostnaður á þáverandi verðlagi 2,5 milljörðum króna. Yfir helmingur af því fé kom til síðustu fjögur ár byggingartímans. Mikið var rætt um hinn langa byggingatíma og var Þjóðarbókhlaðan borin saman við Kringluna sem opnaði 1987 eftir aðeins þriggja ára framkvæmdir. Var þetta tekið sem dæmi um seinagang í opinberum framkvæmdum. Hlutverk. Hlutverk safnsins er skilgreint í lögum sem leystu af hólmi eldri lög frá 1994 sem aftur leystu af hólmi lög um Landsbókasafn Íslands frá 1969. Í lögunum eru talin upp átján atriði sem teljast til hlutverks safnsins en nánar er kveðið á um það í reglugerð sem menntamálaráðherra setur. Helstu verkefni safnsins eru þau að þaulsafna íslensku efni, varðveita handritasöfn, sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi við Háskóla Íslands og annast alhliða upplýsinga- og þekkingarmiðlun. Safnið nýtur skylduskila á öllu prentuðu efni og hljóðritum sem gefin eru út á Íslandi. Það leitast jafnframt við að safna öllu efni sem tengist Íslandi og íslensku efni sem gefið er út erlendis. Upplýsingatækni verður æ stærri þáttur í rekstri safnsins og meðal helstu verkefna á því sviði eru vefútgáfa íslenskra dagblaða og tímarita (Tímarit.is), söfnun íslenskra vefsíðna, og vefútgáfa íslenskra handrita (Handrit.is) meðal annarra. Þjóðarbókhlaðan. Höfuðstöðvar bókasafnsins eru í Þjóðarbókhlöðunni sem er 13.000 fermetra bygging sem stendur á Birkimel í Vesturbæ Reykjavíkur. Húsið er fjögurra hæða hátt og mjög áberandi þar sem það stendur nálægt Hringbraut. Efstu tvær hæðirnar eru klæddar með rauðum álskjöldum sem voru sérsmíðaðir í Japan. Þjóðarbókhlaðan er reglulegur ferningur með fjórum stigahúsum utanáliggjandi auk inngangs sem tengist aðalbyggingunni með brú þar sem gengið er inn á aðra hæð. Húsið stendur ofaní eins konar dæld eða skál þar sem neðst er grunnt síki fyllt með vatni. Húsið er fjórar hæðir og kjallari. Í kjallara eru bókageymslur og myndastofa. Á fyrstu hæð er aðstaða starfsfólks, skrifstofur, auk lestrarsals fyrir notendur handrita- og skjalasafna og Íslandssafns. Aðalinngangur safnsins er á annarri hæð þar sem er afgreiðsla, upplýsingaborð og handbókadeild, auk skrifstofa. Á þriðju og fjórðu hæð eru svo tímarit og bækur, auk tón- og myndsafns. Í húsinu eru yfir 500 sæti í lestraraðstöðu og nokkrar tölvur til afnota fyrir gesti. Þráðlaust net er í öllu húsinu. Veitingastofa er rekin á annarri hæð. Fyrir framan innganginn er hellulögð skál með vatni í. Landsbókasafn Íslands. Safnahúsið við Hverfisgötu þar sem Landsbókasafnið var staðsett 1908-1994. Landsbókasafn Íslands var þjóðbókasafn Íslands frá stofnun þess (sem "Íslands Stiftisbókasafn") árið 1818 þar til það sameinaðist bókasafni Háskóla Íslands og myndaði Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn í Þjóðarbókhlöðunni 1. desember 1994. Lengst af var safnið staðsett í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem hægt var að panta bækur á lestrarsal. Safnið naut skylduskila á öllu prentuðu efni útgefnu á Íslandi og bjó þar að auki yfir stærsta handritasafni landsins. Safnið var lengst af spjaldskrársafn þar sem bækur voru afgreiddar til notkunar á staðnum en ekki lánaðar út. Fyrstu reglur um stjórn safnsins voru settar 1826 en 1907 voru í fyrsta skipti samþykkt sérstök lög um stjórn safnsins. Lögin um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn felldu úr gildi lög um Landsbókasafn Íslands frá 1969. Saga. Reykjavík um 1869. Dómkirkjan fyrir miðri mynd. Fyrsta tillagan að stofnun almenns bókasafns á Íslandi kom frá danska fornfræðingnum Carli Christian Rafn sem þá var nýgenginn í Hafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags. Hann nefndi í tillögunni bækur sem vissir aðilar myndu vilja gefa til slíkrar stofnunar. Bókmenntafélagið skrifaði Geir Vídalín, biskupi, sem tók að sér að fá leyfi Kansellísins og innrétta háaloft dómkirkjunnar fyrir safnið. Algengt er að miða við dagsetningu svarbréfs Geirs til Bókmenntafélagsins og færslu í bréfabók hans 28. ágúst 1818 þegar talað er um stofndag safnsins. Húsnæðið á dómkirkjuloftinu var ekki tilbúið fyrr en árið 1825 og var safnkostinum, sem Rafn og fleiri höfðu safnað saman fram að því, þá komið þar fyrir. Skýrsla Rafns frá 1826 telur 1545 bindi. 1847 var handritasafn Steingríms Jónssonar biskups sem lést 1845 keypt handa safninu með sérstöku framlagi frá yfirvöldum. Þjóðhátíðarárið 1874 bárust safninu svo margar gjafir. Bókavörður. Enginn sérstakur bókavörður var í safninu til ársins 1848 þegar Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, var ráðinn stiftsbókavörður. Jón samdi fyrstu skrána yfir safnkost bókasafnsins. Gert var ráð fyrir að laun hans væru greidd af fé sem fengist fyrir útlán bóka, en það þótti gefast illa. Þegar fjárveitingavald fluttist til landsins með endurreisn Alþingis 1874 fékk safnið regluleg opinber framlög. Alþingishúsið. 1881 flutti safnið í hið nýbyggða Alþingishús og 1886 voru sett lög um prentsmiðjur þar sem kveðið var á um skylduskil til Landsbókasafnsins. Við þetta stækkaði safnkosturinn ört; Jón Árnason áætlaði hann 20.000 bindi árið 1883 en 1906 var hann orðinn 69.000 bindi. Handritadeild safnsins stækkaði jafnframt ört. Á aldarafmæli safnsins 1918 var safnkosturinn orðinn 100.000 bindi og handritasafnið 7.000 bindi. Safnahúsið. 1895 var ákveðið að reisa stórt steinhús yfir söfn landsins til minningar um hálfrar aldar afmæli endurreists Alþingis. Safnahúsið var reist á árunum 1906-1908 og þangað fluttu inn Landsbókasafnið, auk Landsskjalasafns, Forngripasafns og Náttúrugripasafns, en tvö síðarnefnd söfnin fluttu úr húsnæðinu síðar. "Árbók Landsbókasafns" kom út árlega frá 1945 til 1994. Til 1975 innihélt hún ritaukaskrá safnsins sem hafði komið út reglulega frá 1888. 1979 kom í fyrsta skipti út "Íslenzk bókaskrá". Sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns. 1947 var skipuð nefnd um verkaskiptingu Landsbókasafns og Háskólabókasafns (sem var formlega stofnað 1940). 1956 skipaði Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra nefnd til að skoða möguleika á því að sameina söfnin tvö og í framhaldi af því var farið að tala um byggingu „þjóðarbókhlöðu“ yfir bæði söfnin við háskólann. Upphaflega stóð til að vígja slíka bókhlöðu þjóðhátíðarárið 1974 en vegna fjárhagsörðugleika dróst það og framkvæmdir hófust ekki fyrr en árið 1978. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn opnaði síðan í Þjóðarbókhlöðunni 1. desember 1994. Landsbókaverðir. Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, var fyrsti landsbókavörður landsbókasafns. Gervitauganet. Gervitauganet. Engin samhljóða skilgreining hefur verið samþykkt meðal vísindamanna, en algengast er að skilgreina gervitauganet sem mengi einfaldra vinnslueininga (oft nefndar sellur eða neurons) þar sem heildar hegðun stjórnast af tengingum á milli vinnslueininganna og stuðlum þeirra. Hugmyndin kemur af þekkingu okkar á starfsemi heilans, lífræðilegum tauganetum gerðum úr taugafrumum og taugaendum. Saga gervitauganeta. Fyrsta fræðigreinin um gervitauganet, sem var jafnframt fyrsta fræðigreinin um gervigreind var skrifuð 1943 af Warren McCulloch og Walter Pitts. Þeir settu saman kenningar um virkni og uppbyggingu taugafruma í heilanum, kenningar Russells og Whiteheads um yrðingarökfræði og tölvunarkenningar Alan Turing. Niðurstaða þeirra var líkan af gervitaugafrumum sem hver um sig gátu verið í „kveikt“ ham eða „slökkt“ ham þar sem hami var náð með áreiti tengdra gervitaugafruma. Þeir sýndu fram á að niðurstöðu hvaða reiknanlegs falls "f(x)" sem er mátti ná með neti slíkra gervitaugafruma. Þeir vörpuðu því einnig fram í greininni að slík gervitauganet gætu lært, sem Danold Hebb sannaði að var rétt sex árum síðar með einfaldri uppfærsluaðferð á vigt tenginganna á milli eininganna. Marvin Minsky og Dean Edmonds byggðu fyrstu gervitauganetstölvuna (SNARC) árið 1951 úr 3000 lömpum og afgangssjálfstýringu úr B-24 sprengjuflugvél. Tölvan hafði 40 gervitauganetsfrumur (sellur). Rekja má aðferðafræði bæði samtengingasinna og rökfræðisinna innan gervigreindar til skrifa McCulloch og Pitts. Stærðfræðilegt líkan sellu. Lát gefna sellu k hafa m fjölda inntaka og vikt úttak sellu k er formula_1og vikt formula_2úttak sellu k er formula_3 formula_4 Skot-aðgerð tauganetssellu. formula_5 í módelinu hér að ofan er skot-aðgerð (activation function) sem ákvarðar skotþunga útttaksins. formula_6 Tegundir gervitauganeta. Algengast er að einingar tauganeta sé raðað upp þannig að upplýsingarnar fari í eina átt, svonefnd feed-forward net. Tauganet af þessu tagi eru statisk líkt og sérhæfð tauganeti í auga, eftir að þau hafa lært verður þeim ekki auðveldlega breytt. Þau hafa það sem líkja má við langtímaminni en ekkert skammtímaminni. Þau hafa hins vegar mjög mikla aðlögunarhæfni og geta túlkað gögn sem þau hafa aldrei séð áður. Ef reynt er að bæta við "þekkingu" netanna eftir þjálfun, kemur upp staða sem nefnd er “catastrophic forgetting”. Eina leiðin til þess að þjálfa þau aftur t.d. þegar ný mynstur koma upp sem það getur ekki túlkað, er að bæta þeim við fyrri upplýsingar og þjálfa netið frá grunni. Flækjustuðull gervitauganeta. Flækjustuðull gervitauganeta er veldisfall af fjölda inntaka en hvert inntak er vídd í fylki. Það reynir því mjög á hönnuð netsins að beita rakhnífi Occams því þjálfun gervitauganets með tugi eða hundruð inntaka getur verið gríðarlega tímafrek aðgerð. Þjálfun gervitauganeta. Þjálfun gervitauganeta byggist á því að breyta vigtum tenginganna þar til netið hefur lært að þekkja viðfangsefnið, þetta er ekki svo mjög ólíkt því hvernig við lærum sjálf. Perceptron þálfunarregla niðurstöður úr netinu eru bornar saman við réttar niðurstöður og vikt breytt eftir því. Til eru mjög margar aðferðir við þjálfun gervitauganeta, en sú algengasta er er backpropagation sem Bryson og Ho uppgötvuðu um 1970 en hún er til í ótal útgáfum. Megin inntak hennar er að byrjað er á að setja litla slembitölu fyrir hverja vikt, þjálfunargögnin eru svo keyrð í gegnum netið og úttakið reiknað út. Úttakið er borið saman við rétta lausn og villan send í hina áttina í gegnum netið. Viktin er leiðrétt með delta reglunni, a>, einnig kallað LMS Least Mean Square) þar sem villan er litla delta, alfa er þjálfunar hraðall (learning rate). Þjálfunar hraðallinn segir til um hve stór stökk á að taka í hvert skipti. þetta er endurtekið þar til villan er ásættanleg (ef hún verður það). Fjöldi skipta sem netið fer í gegnum gögnin er nefnd Epochs. Rauðeygði trjáfroskurinn. Rauðeygði trjáfroskurinn (fræðiheiti: "Agalychnis callidryas") er lítill (um 50-75 mm) froskur af lauffroskaætt sem á heimkynni sín í regnskógum Mið-Ameríku. Hornhöfði. Hornhöfði er höfði sem venjulega er talinn syðsti hluti Suður-Ameríku, en ástæðan fyrir vafanum er sú að höfðinn er á eyju í Eldlandseyjaklasanum (Tierra del Fuego), Frowardhöfði er hinsvegar syðsti hluti meginlands Suður-Ameríku. Höfðinn afmarkar Drakesund til norðurs. Drakesund. Drakesund er hafsvæði í Suður-Íshafi milli Hornhöfða, syðsta hluta Suður-Ameríku og Suðurskautslandsins. Stjarneðlisfræði. Stjarneðlisfræði er undirgrein stjörnufræðinnar sem fæst við eðlisfræði alheimsins þ.á m. efnislega eiginleika stjarna og stjörnuþoka á borð við skærleika, þéttleika, hita og efniafræðilega uppbyggingu. Þeir sem leggja stund á stjarneðlisfræði kallast stjarneðlisfræðingar. Samanburðarlíffærafræði. Samanburðarlíffærafræði er undirgrein líffærafræðinnar sem fæst við rannsóknir á því hvernig líkamsbygging mismunandi lífvera svipar til hverra annarra. Greinin er nátengd þróunarlíffræði og þróunarferli. Þeir sem leggja stund á samanburðarlíffærafræði kallast samanburðarlíffærafræðingar. Þróunarlíffræði. Þróunarlíffræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við uppruna og ætterni tegunda, auk þess hvernig þær breytast yfir tíma, þ.e. þróun þeirra. Þeir sem leggja stund á greinina kallast þróunarlíffræðingar. Satúrnus (reikistjarna). Satúrnus er sjötta reikistjarnan frá sólu. Hann er næststærsta reikisstjarna sólkerfisins og einn af gasrisunum. Nefndur eftir rómverska guðinum með sama nafni. Í kínveskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hún kölluð "Jarðstjarnan", byggt á frumefnunum fimm. Satúrnus er frægur fyrir hringi sína sem eru mjög umfangsmiklir og aðallega úr ís og grjóti. Líkt og Júpíter er Satúrnus að mestu leyti gerður úr vetni (75%) og helíum (25%), vatni, metani, ammoníaki og bergi og er því svipaður að samsetningu og upprunalega geimþokan sem sólkerfið myndaðist úr. Innviði Satúrnusar svipar til innviða Júpíters og samanstanda af kjarna úr bergi, lagi úr fljótandi vetni og lagi úr vetni í sameindaformi. Ýmis afbrigði af ís eru einnig til staðar. Satúrnus er með 62 þekkt tungl á braut um sig. Grasafræði. Grasafræði (eða plöntulíffræði eða plöntuvísindi) er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á plöntum. Innan grasafræðinnar eru fjölmargar fræðigreinar sem fást m.a. við æxlun, efnaskipti, vöxt, sjúkdóma og þróun plantna. Þeir sem leggja stund á greinina kallast grasafræðingar. Lífefnafræði. Lífefnafræði er sú undirgrein efnafræði og líffræði sem fjallar um efnahvörf sem eiga sér stað í lífverum, byggingu lífefna á borð við prótín, sykrunga, lípíð og kjarnsýrur, starfsemi þeirra í frumunni og stjórnun hennar. Saga lífefnafræðanna. Rannsóknir á lífefnafræðilegum ferlum eiga sér langa sögu, þrátt fyrir að lífefnafræði sem fræðigrein hafi ekki orðið til fyrr en á 19. öld, þegar þekkingu og rannsóknatækni í efnafræði hafði fleygt nægilega fram til að unnt væri að rannsaka starfsemi einstakra lífefna. Þannig fengust til dæmis bæði René Réaumur og Lazzaro Spallanzani þegar á 18. öld við rannsóknir á meltingu og sýndu fram á að magasafi úr fálka getur melt kjöt utan líkamans. Þeir höfðu hins vegar engin tök á að útskýra hvernig meltingin átti sér stað, það varð að bíða tilrauna Johns Young, sem uppgötvaði magasýrur í byrjun 19. aldar, og Theodors Schwann sem uppgötvaði meltingarensímið pepsín árið 1835. Fyrir miðja 19. öld var almennt álitið að lífefni gætu ekki myndast úr „dauðum“ efnum, heldur eingöngu úr öðrum lifefnum. Með frægri tilraun sinni frá 1828 sýndi Friedrich Wöhler fram á að þvagefni (á þeim tíma vel þekkt efni úr lífverum) getur myndast úr ammóníum sýanati (sem talið var dautt efni). Þar sem sýndi Wöhler fram á að enginn eðlismunur væri á lifandi og dauðu efni. Þessi tilraun er gjarnan talin marka upphaf lífefnafræði. Helstu áfangar í sögu lífefnafræðanna. a>inn er einn af hornsteinum lífefnafræðilegra hvarfarása frumunnar Eggjafræði. Eggjafræði er undirgrein dýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á eggjum, þá sérstaklega fuglseggjum. Til eggjafræðinnar teljast rannsóknir á vaxtarstöðvum fugla og rannsóknir á hreiðrum þeirra. Þeir sem leggja stund á greinina kallast eggjafræðingar. Duldýrafræði. Duldýrafræði er undirgrein dýrafræðinnar sem fæst við dýr sem ekki er sannað að séu til eða dýr sem berast stöku sinnum fregnir af en teljast þó útdauð. Þeir sem leggja stund á greinina kallast duldýrafræðingar. Dýrafræði. Dýrafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á dýrum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast dýrafræðingar. Skriðdýrafræði. Skriðdýrafræði er undirgrein dýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á skriðdýrum og froskdýrum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast skriðdýrafræðingar. Fiskifræði. Fiskifræði er undirgrein dýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á fiskum, þar á meðal beinfiskum, brjóskfiskum (t.d. hákörlum og þvermunnum) og vankjálkum. Fiskifræði er nátengd haffræði og sjávar- og vatnalíffræði. Þeir sem leggja stund á greinina kallast fiskifræðingar. Innan fiskifræðinnar er ákveðin sérgrein sem nefnist stofnstærðarfræði. Sundmagi. Sundmagi er líffæri fiska af geisluggaflokki sem gerir þeim kleift að stjórna flotkrafti sínum, hækka og lækka sig í sjónum eða halda sig á sama dýpi án þess að eyða orku í að synda. Sundmaginn hefur þó þann ókost að fiskurinn getur ekki synt hratt upp á yfirborðið af miklu dýpi án þess að sprengja hann. Fuglafræði. Fuglafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á fuglum, til greinarinnar telst að skoða fugla, flokka þá, rannsaka atferli þeirra, söng og flug. Þeir sem leggja stund á greinina kallast fuglafræðingar. Fènghuáng. Fènghuáng (kínversk tákn: 鳳凰, japanskur framburður: ほうおう hōō, kóreska: 봉황 bong-hwang, víetnamska: Phượng Hoàng) er tegund goðsögulegra kínverskra fugla, sem ríkir yfir öllum öðrum fuglum. Karldýrin eru kölluð fèng (鳳) og kvendýrin huáng (凰). Í nútímanum hefur þessi aðgreining þó að mestu horfið, og fènghuáng orðið að kvenkyns dýri sem gjarnan er parað saman við kínverska drekann, en hann er yfirleitt karlkenndur. Á vesturlöndum er hann oft kallaður kínverskur fönix. Fènghuáng er sagður saman settur úr goggi hana, andliti svölu, háls snáks, bringu gæsar, bak skjaldböku, afturhluta hjartar, og sporði fisks. Fènghuáng er tákn dyggða og náðar, en einnig sameiningar yin og yang. Hann birtist á friðar- og góðæristímum, en felur sig þegar ófriður nálgast. Það er því talið góðs viti og mikið fagnaðarefni að koma auga á hann. Diskur skreyttur myndum af fènghuáng Fènghuáng er á myndum oft sýndur með vængi útbreidda í miðjum klíðum við að ráðast á snáka með klónum. Myndir af honum hafa verið til í Kína í meira en 7000 ár, og eru oft skornar í gimsteina og bornar sem lukkugripir. Í Kína til forna voru myndir af fènghuáng notaðar í skreytingar hjá kóngafólki og í brúðkaupum, ásamt drekum, því að drekinn og fönixinn gátu táknað farsælt samband keisara og keisaraynju (eða eiginmanns og eiginkonu). Þegar hús var skreytt myndum af honum táknaði fènghuáng að tryggð og heiðarleiki byggi í íbúum þess. Nýlenda. Nýlenda er landsvæði sem er undir stjórn fjarlægs ríkis. Nýlendur voru stundum sjálfstæð ríki áður en þau lentu undir stjórn nýlenduveldisins eða landsvæði með óljósa stöðu. Nú til dags er venja að notast við hugtakið hjálenda en orðið "nýlenda" notað yfir hjálendur þar sem íbúar (eða sá hluti þeirra sem ekki hafa flust þangað frá nýlenduveldinu) njóta ekki sömu borgaralegu réttinda og aðrir íbúar nýlenduveldisins. Kverneland. New Holland með Kverneland plóg (þrískera) Kverneland Group var stofnað árið 1879 í Noregi af Ole Gabriel Kverneland (1854 - 1941). Það er í dag einn stærsti plóga og jarðvinnslutækja-framleiðandi í heiminum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í sveitarfélaginu Klepp í Rogaland. Dótturfyrirtæki Kverneland eru meðal annars Vicon, Taarup, Accord og Rau. Strönd. Strönd eða strandlengja er skilgreind sem land sem liggur að sjó, hvort sem það snýr beint að úthafinu eða er falið í vogi eða vík. Ströndin getur verið hamrar sem skaga þverhnípt út í sjó eða aflíðandi sandfjörur. Kuiperbelti. Kuiperbeltið er svæði í sólkerfinu með innri mörk við braut Neptúnusar (sem er 30 AU frá sólinni) og ytri mörk við 50 AU frá sólinni. Kuiperbeltið er ólíkt Oortskýinu ekki skilgreint með kúlulögun heldur sem belti sem liggur í plani, sama plani og jörðin, sólin og flestar reikistjörnurnar. Kuiper beltið er talið eiga uppruna sinn vegna áhrifa Júpíters og sýna útreikningar að á beltinu má líklegast finna hluti á stærð við Mars og jörðina. Yfir 800 hlutir hafa fundist á Kuiperbeltinu, þ.m.t. Plútó og tungl þess Karon og nýlega hafa fundist þar nokkuð stórir hlutir á borð við 50000 Quaoar sem fannst árið 2002 og er helmingi minni en Plútó. Knattspyrnufélagið Þróttur. Knattspyrnufélagið Þróttur var stofnað 5. ágúst 1949 í herbragga við svonefnda Grímstaðavör við Ægissíðu. Stofnendur félagsins voru Halldór Sigurðsson kaupmaður, sem var fyrirmyndin að Tomma í bókum Einars Kárasonar um Djöflaeyjuna, og Eyjólfur Jónsson, síðar lögreglumaður og sundkappi. Þrátt fyrir að vera í það fyrsta einungis knattspyrnufélag hafa Þróttarar keppt í öðrum greinum í gegnum tíðina, þó mest áhersla hafi verið lögð á knattspyrnuna síðustu ár. Félagið var starfrækt í vesturbæ Reykjavíkur til ársins 1969 þegar því úthlutað svæði við Sæviðarsund í póstnúmeri 104. Þar starfaði félagið til 1998 þegar því var formlega veitt svæði í Laugardalnum. Þar hefur félagið nú aðsetur. Formaður Þróttar er Sigurlaugur Ingólfsson, sagnfræðingur. Knattspyrna. Þróttur frá Reykjavík keppti fyrst á Íslandsmótinu í knattspyrnu 1953 og vann báða leiki sína. Þróttur var meðal þeirra sex liða sem kepptu í úrvalsdeild 1955 (fyrsta deildarkeppnin á Íslandi) og varð fyrsta liðið í íslenskri knattspyrnusögu til að sigra hana. Meistaraflokkur karla hjá Þrótti á það met að hafa unnið efstu deild oftast allra liða, en félagið hefur unnið efstu deild 10 sinnum. Þríveigis hefur liðið haldið sér í efstu deild lengur en eitt ár; fyrst 1978-1980 þá 1983-1985og loks 2008 - 2009. Þróttur hefur einu sinni fallið í 3. deildina og lék þar tvö leiktímabil, 1989og 1990. Ásgeir Elíasson hefur þjálfað Þrótt flest tímabil allra þjálfara meistaraflokks eða tíu (1981-1984 og 2000-2005). Þjálfarar síðustu árin hafa verið Magnús Jónatansson (1989-1991), Ólafur Jóhannesson (1992), Ágúst Hauksson (1993-1996), Willum Þór Þórsson 1997-1999, Ásgeir Elíasson 2000-2005, Atli Eðvaldsson 2005-2006, Gunnar Oddsson 2006-2009, Páll Einarsson 2009-2013 og Zoran Milkjovic 2013-. Á síðustu árum hefur Þróttur teflt fram kvennaliði og lék liðið í efstu deild sumarið 2011 en féll. Liðið endurheimti sæti sitt árið eftir og keppti í Pepsi deild kvenna sumarið 2013. Handknattleikur. Strax við stofnun bar á áhuga á handknattleiksdeild innan félagsins, bæði meðal karla og kvenna. Vísir að henni var stofnaður 1951 og voru lið félagsins skráð til keppni strax um það leyti. Árið 1972 varð Óli Kr. Sigurðsson formaður deildarinnar og næstu árin hófst gullöld Þróttar í handboltanum. Meistaraflokkur liðsins komst í efstu deild 1980 og varð bikarmeistari í apríl 1981. Árið eftir komst liðið svo í undanúrslit Evrópubikarkeppninarinnar, en beið að lokum lægri hlut fyrir Dukla frá Prag. En Adam var ekki lengi í paradís því næstu ár lá leiðin niður við með starf meistaraflokks, liðið féll í aðra deild vorið 1986. Á þessum tíma voru helstu burðarásar liðsins farnir, s.s. Sigurður Sveinsson og Páll Ólafsson; sem báðir áttu eftir að gera það gott í atvinnumennskunni næstu ár. Um haustið 1986 var staðan orðið svo slæm að ákveðið var að senda ekki lið í meistaraflokki til leiks. Flokkurinn var síðar endurvakinn, en dofnaði út af aftur og árið 1990 lagðist deildin endanlega út af. Þróttur sendi í fyrsta sinn í mörg ár meistaraflokk karla til leiks á Íslandsmót, árið 2007. Blak. Þróttur sendi fyrst lið til keppni í blaki, kvenna og karla, 1974. Síðan þá hefur liðið skipað sér í fremstu röð blakliða landsins. Karlaliðið hefur orðið Íslandsmeistari 1977, 1981, 1982, 1983, 1984, 1985, 1986, 1987, 1990, 1996, 1997, 1999 og 2009. Auk þess hefur liðið orðið 14 sinnum bikarmeistari, fyrst 1977 og svo 1978, 1981, 1982, 1983, 1985, 1986, 1988, 1990, 1994, 1996, 1997, 1998 og nú síðast 2009. Kvennaliðið varð íslandsmeistari 1983 og svo aftur 2004, 2005, 2006 og 2007. Kvennalið Þróttar hefur orðið bikarmeistari þrisvar 2004, 2005 og nú síðast 2006. Heimild. Jón Birgir Pétursson: "Lifi Þróttur. Knattspyrnufélagið Þróttur. 50 ára saga öflugs knattspyrnufélags". (Reykjavík 1999). Tenglar. Þróttur Þróttur Þróttur Þróttur Marvin Lee Minsky. Marvin Lee Minsky (fæddur 9. ágúst 1927), stundum kallaður á ensku „Old Man Minsky“, er bandarískur vísindamaður á sviði gervigreindar og er einn af stofnendum gervigreindar deildarinnar í MIT (e. MIT's AI laboratory), og höfundur texta um gervigreind og heimspeki. Minsky, Marvin Lee Xenofon frá Efesos. Xenofon frá Efesos (uppi á 2. – 3. öld?) var grískur rithöfundur. Varðveitt verk hans er "Efesossagan um Anþíu og Habrokomes" en það er ein af elstu skáldsögum heims auk þess að vera ein af fyrirmyndum Williams Shakespeare við ritun leikritsins "Romeo and Juliet". Ekki má rugla Xenofoni frá Efesos saman við eldri og frægari nafna sinn frá Aþenu, hermanninn og sagnaritarann Xenofon. Xenofon. Xenofon (á grísku Ξενοφῶν, um 430 – 355 f.Kr.) var aþenskur hermaður, málaliði, sagnaritari og nemandi Sókratesar og er þekktur fyrir rit sín um sögu Grikklands á 4. öld f.Kr., samtöl Sókratesar og lifnaðarhætti í Grikklandi til forna. Æviágrip. Á yngri árum tók Xenofon þátt í herferð Kýrosar yngri gegn eldri bróður sínum, Artaxerxesi II Persakonungi árið 401 f.Kr. Kýros notaði marga gríska málaliða sem voru atvinnulausir eftir að Pelópsskagastríðinu lauk. Kýros mætti Artaxerxesi í orrustunni við Kúnaxa. Grikkirnir báru sigur úr býtum en Kýros lét lífið. Stuttu síðar var herforingi þeirra, Klearkos frá Spörtu, boðinn til friðarviðræðna þar sem hann var svikinn og ráðinn af dögum. Málaliðarnir - hinir tíu þúsund Grikkir - voru á óvinveittu svæði fjarri heimilum sínum, nærri hjarta Mesópótamíu, fjarri hafinu og án leiðtoga. Þeir kusu sér nýja leiðtoga, þar á meðal Xenofon sjálfan, og brutu sér leið norður gegnum land óvinanna, Persanna, Armenanna og Kúrdanna, til Trapezos við strönd Svartahafs og sigldu aftur vestur til Grikklands. Í Þrakíu aðstoðuðu þeir Sevþes II gera sjálfan sig að konungi. Rit Xenofons um leiðangurinn og heimferð Grikkjanna hlaut titilinn "Anabasis" eða "Austurför Kýrosar" á íslensku. "Austurför Kýrosar" inniheldur eina elstu greinargerðina fyrir og greiningu á skapgerð leiðtoga og dæmi um greiningu á leiðtoga sem nefnd hefur verið „merkismannakenningin“. Í greinargerð sinni lýsir Xenofon persónu Kýrosar yngra og segir meðal annars: „Af öllum Persunum sem voru uppi eftir Kýros mikla var hann líkastur konungi og verðskuldaði mest allra konungsveldi.“ Mælt er með lestri sjötta kafla vegna þess að í honum er lýsing á persónuleika fimm sigraðra herforingja sem snerust til liðs við óvininn. Vitnað er í Klearkos sem trúði því að „hermaður ætti að vera hræddari við eigin herforingja heldur en óvininn.“ Menoni er lýst sem manni sem hafði þann metnað helstan að verða ríkur. Agíasar frá Arkadíu og Sókratesar frá Akkeu er minnst fyrir hugrekki þeirra og tillitssemi við vini sína. Xenofon var seinna gerður útlægur frá Aþenu, sennilega vegna þess að hann barðist undir stjórn Agesilásar, konungs Spörtu, gegn Aþenu við Koroneiu. (Það er hins vegar mögulegt að hann hafi þegar verið gerður útlægur fyrir tengsl sín við Kýros.) Spartverjar gáfu honum landeign við Skillos, nærri Ólympíu í Elís, þar sem "Austurför Kýrosar" var samin. Sonur hans barðist fyrir Aþenu við Mantineu meðan Xenofon var enn á lífi. Útlegðardóminum kann því að hafa verið létt af Xenofoni. Xenofon lést í Kórintu, eða ef til vill í Aþenu, en óvíst er um dánardægur hans; það eitt er vitað að hann lifði verndara sinn Agesilás en um hann samdi hann lofræðu. Díogenes Laertíos segir að Xenofon hafi stundum verið þekktur sem „attíska músan“ vegna þess hve sætur stíll hans var. Ritverk. Ritverk Xenofons, einkum "Austurför Kýrosar", eru oft lesin af byrjendum í grískunámi, "Grikklandssaga" hans er ein helsta heimildin fyrir atburðum í sögu Grikklands á árunum 411 til 362 f.Kr. og rit hans um Sókrates, sem eru öll varðveitt, eru einu ritin sem tilheyra bókmenntahefðinni um Sókrates að ritum Platons undanskildum. Að auki er varðveitt stutt ritgerð sem eitt sinn var talin vera eftir Xenofon, en er sennilega ekki ósvikin og er eldri en ritverk Xenofons, um Stjórnskipan Aþenu. Ritgerðin er einungis í handritum með styttri verkum Xenofons, líkt og hann hefði einnig ritað hana. Höfundurinn virðist vera í nöp við lýðræðið í Aþenu og lægri stéttir en færir rök fyrir því að stofnanir Períklesar séu starfi sínu vel vaxnar þótt tilgangurinn sé ómerkilegur. Fremdardýrafræði. Fremdardýrafræði er undirgrein dýra- og spendýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á prímötum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast fremdardýrafræðingar. Spendýrafræði. Spendýrafræði er undirgrein dýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á spendýrum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast spendýrafræðingar. Meðal undirgreina eru fremdardýrafræði, hvalafræði, hestafræði og hundafræði. Hundafræði. Hundafræði er undirgrein spendýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á hundum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast hundafræðingar. Hestafræði. Hestafræði er undirgrein spendýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á hestum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast hestafræðingar. Hvalafræði. Hvalafræði er undirgrein spendýrafræðinnar sem fæst við rannsóknir á hvölum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast hvalafræðingar. Mannfræði. Mannfræði er undirgrein fremdardýrafræðinnar og félagsvísindanna sem fæst við rannsóknir á mönnum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast mannfræðingar. Leonardo da Vinci. Leonardo di ser Piero da Vinci (15. apríl 1452 – 2. maí 1519) var ítalskur endurreisnarmaður; málari, myndhöggvari, arkítekt, vísindamaður, stærðfræðingur, verkfræðingur og uppfinningamaður sem kom inn á ýmis svið, svo sem líffærafræði, tónlist, náttúrufræði, rúmfræði, kortagerð og grasafræði. Hann er sérlega frægur fyrir alls kyns uppfinningar sem hann smíðaði aldrei og fyrir málverk sín, svo sem Monu Lisu og Síðustu kvöldmáltíðina. Honum er lýst sem fullkomnu dæmi endurreisnarmanns, með gífurlega listræna hæfileika sem og sköpunarhæfileika. Hann er talinn einn af merkustu málurum allra tíma. Tenglar. da Vinci da Vinci da Vinci Fiskistigi. Fiskistigi (eða fiskvegur) er mannvirki í ám eins og t.d. við stíflur eða stíflugarða til að aðstoða farfiska að hrygningarstöðvum ofar í ánni. Flestir fiskistigar gera fiskunum kleift að fara í kringum fyristöðuna með því að synda upp „þrep“ með litlum hæðarmun, en fiskistigar draga nafn sitt af þessum þrepum sem minna um margt á stiga. Á Íslandi er oftast talað um "laxastiga" eða "silungastiga", enda ekki gerðir fiskvegir fyrir aðrar tegundir. Ostur. Ostur er mjólkurafurð sem unnin er úr mjólk sem er látin hlaupa. Ostur er viðbit og er að mestu framleiddur úr kúa-, geita- eða sauðamjólk (þó einnig sé til ostur úr kapla- eða jafnvel úlfaldamjólk). Ostagerð er mjög algeng út um allan heim, og sumar þjóðir eru mjög þekktar fyrir ostagerð sína, s.s. Frakkar, Svisslendingar og Ítalir. Ostagerð. Elstu heimildir um ostagerð eru frá Súmerum um 4000 fyrir Krist. Ostagerð á Íslandi. Á Íslandi tíðkaðist ostagerð allt frá landnámsöld og fram á 17.-18. öld þegar hún lagðist að mestu af nema á Austurlandi. Fyrstu ostarnir á Íslandi voru líklega súrmjólkurostar (þ.e.a.s. súrostur). Um miðja 19. öld hófst ostagerð aftur á Íslandi. Á Reykjum í Þingeyjarsýslu var t.d. soðinn mysuostur við hverahita. Móna Lísa. Mona Lisa er eitt af frægustu málverkum allra tíma. Móna Lísa (ítalska og spænska: "La Gioconda"; franska: "La Joconde") er olíumálverk á asparfjöl eftir Leonardo da Vinci. Það er í eigu franska ríkisins og er til sýnis á Louvre-safninu í París. Myndin sýnir konu sem brosir „torræðu“ brosi, sem sumir telja dularfyllsta bros heimsins. Mjólkuróþol. Mjólkuróþol (eða mjólkursykuróþol) er kvilli sem hrjáir sumt fólk sökum þess að líkami þeirra framleiðir of lítið eða ekkert af laktasa, sem er prótín sem brýtur niður mjólkursykur. Mjólkursykurinn fer því alveg, eða að hluta til, ómeltur í gegnum meltingarveginn og niður í ristilinn þar sem ristilgerlar nýta hann með tilheyrandi gerjun og loftmyndun. Þetta veldur uppþembu, magaverkjum, vindverkjum og jafnvel magakrömpum og niðurgangi. Einkennin geta verið svipuð einkennum mjólkurofnæmis, en verða aldrei eins alvarleg. Einstaklingar með mjólkuróþol fá það frekar seinna á ævinni og oftast gerist það þannig að smátt og smátt fer framleiðsla laktasa minnkandi. Einnig er mjög misjafnt eftir kynþáttum hversu algengt mjólkuróþol er, sem eflaust er tengt erfðum. Í vestrænum löndum er tíðnin um 5-10%, en víða í Asíu, Afríku, Suður-Ameríku og meðal amerískra indjána getur tíðnin orðið hátt í 100% hjá fullorðnum einstaklingum. Þegar um óþol er að ræða versna einkennin því meira sem neytt er af fæðunni og sumir þola hana ágætlega í litlu magni. Einstaklingar með mjólkursykuróþol þola stundum betur sýrðar mjólkurvörur, þar sem bakteríur sem bætt er út í slíkar vörur brjóta niður mjólkursykurinn að hluta. Rannsóknir sýna að hæfileikinn til að framleiða laktasa kom fram fyrir nokkur þúsund árum, fyrstu íbúar Evrópu voru með mjólkuróþol en síðari kynslóðir fóru að framleiða laktasa. Úrráð. Hægt er að fá fæðubótarefni í apótekum og heilsuvörubúðum sem hjálpa líkamanum að brjóta niður mjólkursykur og geta því einstaklingar með mjólkuróþol nýtt sér þetta til aðstoðar. Á Íslandi eru það Lactasin og Lactase sem fást án lyfseðils í apótekum. Þau á að taka samhliða neyslu mjólkurvarnings. Heilsuvörubúðir selja álíka vörur. Frumulíffræði. Frumulíffræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á frumum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast frumulíffræðingar. Pál Erdős. Pál Erdős, (26. mars 1913 – 20. september 1996) var sérvitur ungverskur stærðfræðingur. Eftir hann liggja um 1.500 fræðirit, aðeins Euler gaf út fleiri. Erdős, Paul Innkirtlafræði. Innkirtlafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á innkirtlum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast innkirtlafræðingar. Gláka. Skert sjón vegna glákuGláka er heiti notað yfir hóp sjúkdóma sem herja á sjóntaugina og fela í sér tap taugahnoða sökum þrýstings í auganu. Framan við augasteininn er þunnur augnvökvi. Hann skilst út úr æðum í brárbaug, nærir glæruna og berst svo um fíngerðar rásir framan við lithimnuna inn í blóðrásina. Ef rásirnar stíflast eykst þrýstingur inni í auganu og veldur gláku, sem truflar sjón og veldur blindu ef ekki er að gert. Gláku er haldið í skefjum með lyfjum, leisigeislum eða skurðaðgerð. Orðsifjafræði. Orðið "gláka" er komið úr grísku ("glaukos") en það er orð sem Hómer notar um hafið og merkir "ljómandi" eða "silfurlitað"; seinna var það notað um blágrænan lit hafsins, olívulaufa og lit augna. Aþena er stundum kölluð "glaukopis" í Hómerskviðum, en það þýðir bjarteygð. Sjávarlíffræði. Sjávarlíffræði er sú undirgrein líffræðinnar, sem fæst við rannsóknir á dýrum og plöntum, sem eiga kjörlendi sitt í hafvistkerfum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast sjávarlíffræðingar. Þar sem margar fylkingar, ættir og ættkvíslir eiga kjörlendi sitt í vatnsvistkerfum og aðrar á landi flokkar sjávarlíffræði tegundir eftir umhverfi þeirra en ekki eftir hefðbundnum aðferum flokkunarfræðinnar. Halastjarna. Halastjörnur er smá himintungl, sem ganga á sporbaugum um sól. Þær eru úr ís, gasi og ryki og eru taldar hafa orðið til á svipuðum tíma og sólkerfið í heild sinni. Halastjörnur skiptast í tvo hópa eftir umferðartíma sínum um sól. Halastjörnur með stuttan umferðartíma (innan við 200 ár) kallast períódískar stjörnur eða skammferðarhalastjörnur. Þekktasta stjarnan í þessum hópi er Halley eða halastjarna Halleys. Stjörnur með langan umferðartíma (yfir 200 ár) kallast langferðarhalastjörnur. Dæmi um slíka stjörnu er Hale-Bopp. Sporbaugar halastjarna eru yfirleitt mjög ílangir þannig að í sólnánd eru þær mjög nærri sólu, jafnvel langt innan við braut Merkúrs, en í sólfirð hverfa þær út í rökkur útgeimsins utan við braut Júpíters og sjást þá ekki nema í öflugustu stjörnusjónaukum eða alls ekki. Þegar halastjarnan nálgast sól fer ísinn á yfirborði hennar að bráðna og gufa upp og ryk og gas fer að streym frá henni og mynda hjúp umhverfis kjarnann og hala út frá honum. Við þetta verður halastjarnan nógu björt til að greinast í sjónaukum á jörðinni eða sjást með berum augum. Halinn beinist alltaf í átt frá sólu. Stundum er hann tvískiptur, í ryk- og gashala. Orðið halastjarna. Íslenska orðið "halastjarna" á sér ekki hliðstæðu í tungumálum nágrannalandanna. Í fornu máli notuðu menn alþjóðlega heitið "kómeta". Orðið sést fyrst í kvæði sem Harmavottur heitir frá um 1630 og var ort um Tyrkjaránið 1627. Þar er minnst á halastjörnu sem sást árið 1618 og var talin vera einn af mörgum forboðum ránsins. Orðið kómeta (enska: "comet") er komið úr latínu og er þar dregið af gríska orðinu "komē", sem þýðir höfuðhár. Aristóteles notaði fyrstur orðmyndina "komētēs" til að lýsa fyrirbrigðinu sem stjörnu með hár. Hið stjarnfræðilega tákn fyrir halastjörnu () sýnir þar af leiðandi hring með hala sem líkist hári. Uppruni halastjarna. Skammferðarhalastjörnur eru flestar taldar koma frá svonefndu Kuiperbelti, en það er svæði sem inniheldur þúsundir eða milljónir íshnatta rétt fyrir utan braut Neptúnusar. Langferðarhalastjörnurnar eru hins vegar taldar ættaðar úr svonefndu Oortskýi í útjaðri sólkerfisins. Þekktar halastjörnur. Halastjörnur eru oftast kenndar við þá sem uppgötva þær, en meðal þekktra nafna eru: Halley, Shoemaker-Levy, Swift-Tuttle, Hale-Bopp og McNaught. Veirufræði. Veirufræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á veirum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast veirufræðingar. Þörungafræði. Þörungafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á þörungum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast þörungafræðingar. Meinafræði. Meinafræði (eða sjúkdómafræði) er undirgrein líffræðinnar og sérgrein innan læknisfræði sem fæst við rannsóknir á orsökum sjúkdóma og annarra kvilla. Þeir sem leggja stund á greinina kallast meinafræðingar. Meinafræðin sem sérgrein innan læknisfræði tekur að öllu jöfnu 4-5 ár í sérfræðinámi erlendis. Réttarmeinafræðingar kryfja lík þar sem aðdragandi andláts er óljós, eða hefur borið að með voveiflegum hætti. Þeir vinna náið með rannsóknarlöreglu. Nám þeirra tekur eitt ár til viðbótar við sérfræðinámið. Vorið í Prag. Vorið í Prag (tékkneska: "Pražské jaro") var stutt tímabil aukins stjórnmálafrjálsræðis í Tékkóslóvakíu. Það hófst 5. janúar 1968 og var til 20. ágúst sama árs þegar Sovétríkin og aðrar Varsjárbandalagsþjóðir (fyrir utan Rúmeníu) gerðu innrás í landið. Örverufræði. Örverufræði er vísindagrein sem fæst við rannsóknir á örverum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast örverufræðingar'". Til örvera teljast allar smásæjar lífverur, bæði dreifkjörnungar og heilkjörnungar, en einnig teljast veirur og smitbær prótín ("príon") gjarnan til viðfangsefna örverufræðanna. Saga. Finna má þess merki í fornum ritum jaínista að hugsuðir á Indlandi hafi þegar á 6. öld f.Kr. sett fram hugmyndir um tilvist smásærra lífvera og ætlað þeim stað jafnt í jörðu, lofti, vatni og eldi. Heimspekingar frongrikkja hafa að öllum líkindum haft einhverjar spurnir af þessum hugmyndum, en þeir virðast þó ekki hafa tekið þær upp á arma sína og sér þeirra hvergi stað í ritum Hippókratesar og fylgismanna hans, né í öðrum hellenskum fræðiritum. Hins vegar er ekki annað að sjá en rómverski fræðimaðurinn Varró hafi vitað af slíkum hugmyndum og tekið þeim sem sjálfgefnum sannleik þegar hann ræður tilvonandi óðalsbónda frá því að reisa hús sitt í mýrlendi vegna þess að „þar þrífast örsmáar verur sem ekki sjást með berum augum, en komast inn um munn og nasir og valda sjúkdómum“ Örverum bregður ekki fyrir aftur í vestrænum fræðum fyrr en á 16. öld þegar Girolamo Fracastoro setur fram sýklakenningu sína til útskýringar á smitburði farsótta. Kenningar sem byggðu á tilvist örvera nutu þó lítilla vinsælda og þóttu um margt fráleitar, enda trúðu fæstir á tilvist vera sem hvorki var hægt að sjá, heyra né finna. Með tilkomu smásjáa á 17. öld varð loks mögulegt að sjá örverur og var þess þá skammt að bíða að sýnt yrði fram á tilvist þeirra með óyggjandi hætti, en það gerði Antoni van Leeuwenhoek á 8. áratugi 17. aldar. Raunar gerðu bæði Robert Hooke og Athanasius Kircher smásjárathuganir sem í ljósi síðari þekkingar má túlka sem lýsingar á örverum um líkt leyti eða fyrr, en hinar ítarlegu og nákvæmu lýsingar Leeuwenhoeks, ásamt skarpri túlkun hans á því sem fyrir augu bar gera hann að óumdeildum föður örverufræðanna. Þegar komið var fram á 18. öld var tilvist örvera viðurkennd af flestum málsmetandi aðilum í Evrópska fræðamannasamfélaginu og meðfram áframhaldandi smásjárathugunum á umhverfissýnum tóku einstaka fræðimenn að nota örverur í tilraunum. Þar má nefna þá Lazzaro Spallanzani og John Needham, en þeir háðu mikla deilu um Sjálfkviknunarkenninguna og beittu báðir örveruræktum við tilraunir sínar. Það er hins vegar á 19. öld sem örverufræði kemst á legg sem sjálfstæð og ört vaxandi fræðigrein. Meðal helstu frumkvöðla á fyrri helmingi aldarinnar má nefna Christian Ehrenberg sem var frumkvöðull í flokkun örvera og var fyrstur manna notaði orðið "baktería", Jakob Henle sem endurbætti sýklakenningu Fracstoros og lagði grunn að Skilyrðum Kochs og Casimir Davaine sem meðal annars vann brautryðjendarannsóknir á miltisbrandi. Um miðbik aldarinnar kemur Ferdinand Cohn fram á sjónarsviðið og gerir fjölda merkra uppgötvana er lúta að bakteríum, byggingu þeirra og lífeðlisfræði. Hann umbyltir einnig flokkunarkerfi Ehrenbergs og telur bakteríur til plantna fremur en dýra. Á síðari helmingi aldarinnar rennur upp skeið sem stundum er nefnt "gullöld örverufræðanna" og einkennist af örri framþróun í rannsóknatækni og miklum fjölda mikilvægra uppgötvana, einkum varðandi sýkla og smitburð hinna ýmsu farsótta og sýkinga sem plagað höfðu mannkynið öldum saman, en einnig urðu miklar framfarir í hagnýtingu örvera við gerjun á þessum tíma sem byggðu á þeim grunni sem Charles Cagniard de la Tour hafði lagt nokkru áður. Auk risanna tveggja, Louis Pasteur og Robert Koch, má nefna meðal helstu örverufræðinga þessa tímabils Martinus Beijerinck, Sergej Vínogradskíj, John Tyndall og Hans Christian Gram. Gullöldin er venjulega sögð hafa staðið til 1910 eða þar um bil. Undirgreinar. Örverufræðin mynda grunn undir fjölmargar vísindagreinar. Meðal þeirra helstu mætti nefna eftirfarandi. Kynhlutlaust fornafn. Kynhlutlaust fornafn er fornafn sem afhjúpar hvorki né gefur í skyn kyn persónu þeirrar eða hlutar sem talað er um. Landakort. Kort eða landakort er einfölduð útgáfa á rými, sem sýnir fjarlægð hluta innan þess. Þau kort þar sem þrívítt rúm er táknað með tvívíðri mynd eru algengust, einkum landakort og götukort. Hæð eða dýpt korta eru gefin til kynna með mismunandi litum eða hæðarlínum. Þeir sem fást við kortagerð eru kallaðir kortagerðarmenn. Balkanskagi. Balkanskagi (miðaður við Dóná-Sava-Kupa)Balkanskagi er landsvæði í Suðaustur-Evrópu. Landsvæðið er ekki eiginlegur skagi í landfræðilegum skilningi en er þó umlukið höfum að vestan, sunnan og austan. Það dregur nafn sitt af Balkan-fjallgarðinum í Búlgaríu og Serbíu. Alls er landsvæðið 728.000 km². Á Balkanskaga eru yngsti berggrunnur Evrópu. Í norðri eru mörkin miðuð við fljótin Dóná, Sava og Kupa. Í vesturátt er Adríahaf, í suðri Jónahaf, Eyjahaf og Marmarahaf og í austri Svartahaf. Þau lönd sem eru á Balkanskaganum, að öllu leyti eða hluta til, eru Vatnalíffræði. Vatnalíffræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á vatnsvistkerfum inni í landi þ.á m. í vötnum, tjörnum og ám. Þeir sem leggja stund á greinina kallast vatnalíffræðingar. Sveppafræði. Sveppafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á sveppum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast sveppafræðingar. Sníkjudýrafræði. Sníkjudýrafræði er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á snýkjudýrum, hýslum þeirra, og sambandinu á milli þeirra. Þeir sem leggja stund á greinina kallast sníkjudýrafræðingar. Sameindalíffræði. Sameindalíffræði (lat. "biologia molecularis") er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á lífverum á sameindastigi. Þeir sem leggja stund á greinina kallast sameindalíffræðingar. Steingervingafræði. Steingervingafræði er undirgrein jarðfræðinnar, sem fæst við rannsóknir á fornum lífverum byggðum á steingervingum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast steingervingafræðingar. Lífupplýsingafræði. Lífupplýsingafræði eða lífgagnatækni er undirgrein líftækninnar sem snýst um úrvinnslu og framsetningu sameindalíffræðilegra rannsóknagagna með aðferðum hagnýtrar stærðfræði, gagnatækni, tölfræði og tölvunarfræði. Þeir sem leggja stund á greinina kallast lífupplýsingafræðingar. Meðal helstu viðfangsefna lífupplýsingafræðinga má nefna uppsetningu og viðhald gagnabanka, hönnun algóriþma til sérhæfðrar úrvinnslu á raðgreiningargögnum, sérhæfða tölfræðiúrvinnslu á slíkum gögnum, kortlagningu erfðamengja, samröðun kirna- eða amínósýruraða og hönnun þrívíddarlíkana sem sýna byggingu prótína eða kjarnsýra. Warren McCulloch. Warren Sturgis McCulloch (16. nóvember 1899 – 24. september 1969) var bandarískur tauga- og stýrifræðingur sem er þekktastur fyrir að hafa skrifað ásamt Walter Pitts „A logical calculus of the ideas immanent in nervous activity“ sem út kom 1943 en það rit er talið fyrsta vísindaritið sem fjallar um gervigreind. McCulloch, Warren McCulloch, Warren Platon. Platon (forngríska: Πλάτων (umritað "Plátōn")) (um 427 f.Kr. – 347 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og einn áhrifamesti hugsuður sögunnar. Hann var nemandi Sókratesar og kennari Aristótelesar, rithöfundur og stofnandi Akademíunnar í Aþenu. Í löndum þar sem töluð er arabíska, tyrkneska, írönsk mál, eða úrdu mál er hann nefndur "Eflatun", sem þýðir uppspretta vatns og, í yfirfærðri merkingu, þekkingar. Æviágrip. Platon var sonur aþensku hjónanna Aristons og Periktíone (eða Potone). Fornar heimildir herma að raunverulegt nafn Platons hafi verið Aristókles en hann hafi fengið gælunafnið Platon í glímuskóla Aristons glímukappa frá Argos af því að hann var svo þrekvaxinn. Fræðimenn greinir á um hvort sagan sé sönn. Fæðingardagur Platons er ekki þekktur með vissu. Talið er að hann hafi fæðst í Aþenu eða á eynni Ægínu annaðhvort 428 f.Kr. eða 427 f.Kr. Díogenes Laertíos rekur ættir föður hans aftur til Kodrosar, konungs í Aþenu, og Melanþosar, konungs á Messínu en þeir röktu ættir sínar aftur til Póseidons. Langalangafi Peiktíone, móður Platons, var Dropídes, bróðir Sólons, hins fræga löggjafa Aþeninga. Bróðir hennar var Karmídes en föðurbróðir hennar var Krítías. Þeir tóku þátt í harðstjórn þrjátíumenninganna eftir að aþenska lýðræðið hrundi við lok Pelópsskagastríðsins. Platon átti tvo bræður, Adeimantos og Glákon, og eina systur, Potone. Hún var móðir Spevsipposar sem tók við stjórn Akademíunnar eftir andlát Platons. Fornar sögur hermdu að Ariston hafi reynt að koma fram vilja sínum við Peiktíone en hafi ekki haft erindi sem erfiði. Guðinn Apollon á þá að hafa birst honum og sagt honum að láta Peiktíone í friði. Ariston á að hafa gert það en Peiktíone varð samt þunguð af Platoni. Ariston virðist hafa látist þegar Platon var enn ungur að árum en dánarár hans er þó óþekkt. Peiktíone gekk þá að eiga Pýrilampes, móðurbróður sinn. Hann var vinur Períklesar, leiðtoga lýðræðissinna í Aþenu. Pýrilampes átti soninn Demos úr fyrra hjónabandi. Sá var rómaður fyrir fegurð sína. Peiktíone fæddi Pýrilampesi soninn Antífon. Í samræðum Platons bregður ættingjum hans oft fyrir enda þótt hann komi aldrei fram í þeim sjálfur. Eftir Karmídesi er nefnd samræðan "Karmídes" og eftir Krítíasi er nefnd samræðan "Krítías" en Krítías kemur einnig fyrir í samræðunni "Prótagórasi". Adeimantos og Glákon eru aðalviðmælendur Sókratesar í "Ríkinu". Platon dundaði sér við myndlist og skáldskap þegar hann var ungur. Hann samdi bæði lýrísk ljóð, kórljóð og harmleiki. Hann var í þann mund að leggja fram harmleiki sína í leikritakeppni þegar hann heyrði Sókrates tala fyrir framan Díonýsosarleikhúsið. Þá hætti hann við og brenndi harmleiki sína. Platon ferðaðist víða, sennilega til Ítalíu, Sikileyjar, Egyptalands og Kýrenu á Norður-Afríku. Talið er að Platon hafi yfirgefið Aþenu eftir að Sókrates var tekinn af lífi árið 399 f.Kr. en hafi snúið aftur um tólf árum síðar. Þá stofnaði hann Akademíuna í lundi helguðum Hekademosi eða Akademosi rétt utan við borgarmörk Aþenu. Þar var starfræktur skóli allt til ársins 529 e.Kr. þegar Jústiníanus I lét loka skólanum sem hann taldi ógna kristninni. Platon heimsótti Sikiley að minnsta kosti þrisvar sinnum eftir að hann stofnaði Akademíuna. Meginheimildirnar um þessar ferðir eru bréf sem eignuð eru Platoni sjálfum. Óvíst er hvort þau séu ósvikin. Platon lést í Aþenu árið 347 f.Kr., áttræður að aldri. Ritverk. Þegar í fornöld varð til sú hefð að raða verkum Platons saman í fernur eða fjórleiki. Díogenes Laertíos segir að upphafsmaður þessa hafi verið Þrasýllos, fræðimaður og stjörnuspekingur við hirð Tíberíusar keisara. Fjórleikir. Í listanum að neðan eru verk Platons merkt (*) ef ekki er samkomulag almennt meðal fræðimanna um hvort verkið er réttilega eignað Platoni, og (†) ef fræðimenn eru almennt á einu máli um að Platon sé "ekki" talinn raunverulegur höfundur þess. Ómerkt verk eru þau sem fræðimenn eru almennt sammála um að séu ósvikin verk Platons. Fræðimenn vísa einatt til verka Platons með latneskum titli, eins og venja er um klassíska höfunda, og eru því latneskir titlar hafðir innan sviga á eftir íslenskum titlum. Ritunartími. Nákvæmur ritunartími samræðnanna er ekki þekktur né heldur að hve miklu leyti samræðurnar hafa verið endurskoðaðar en örfá ummerki eru um slíkt. Lewis Campbell var fyrstur til að beita stílfræðilegum rannsóknum til að sýna að "Fræðarinn", "Stjórnvitringurinn", "Krítías", "Tímajos", "Fílebos" og "Lögin" væru allar ritaðar á svipuðu skeiði á höfundarferli Platons. Hann sýndi einnig fram á að "Ríkið", "Fædros", "Parmenídes" og "Þeætetos" tilheyrðu öðru skeiði, og hlytu að vera eldri (ef marka má það sem Aristóteles segir í "Stjórnspekinni", að "Lögin" hefðu verið rituð á eftir "Ríkinu"). Venja er að skipta höfundaferli Platons í þrennt: elstu samræðurnar, miðsamræðurnar og yngstu samræðurnar. Blaðsíðutal Stephanusar. Hefð er fyrir því að vísa til verka Platons með blaðsíðutali úr heildarútgáfu Henricusar Stephanusar (Henri Etienne) á verkum Platons sem kom út í Genf árið 1578. Blaðsíðutal þessarar útgáfu er venjulega haft á spássíu textans í öllum nútíma útgáfum og þýðingum á honum. Um þetta má lesa nánar í grein um blaðsíðutal Stephanusar. Heimspeki. Platon var undir miklum áhrifum frá Sókratesi, en einnig öðrum grískum heimspekingum, þar á meðal Herakleitosi, Parmenídesi og pýþagóringum. Frumspeki og þekkingarfræði. Frægasta kenning Platons er frummyndakenningin. Platon taldi efnisheiminn vera lélega eftirlíkingu af óbreytanlegum óhlutbundnum frummyndum sem eru utan tíma og rúms og verða ekki skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Frummyndirnar gegna fjórþættu hlutverki: frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, merkingarfræðilegu og siðfræðilegu. Þær eru raunverulegar og stöðugar verundir, ólíkt efnisheiminum sem er sífellt "verðandi" og "er" aldrei neitt. Af því að þær "eru" í orðsins fylltsu merkingu eru þær viðföng þekkingar en efnisheimurinn er einungis viðfang brigðulla skoðana. Frummyndirnar eru einnig merkingarmið hugtaka og gegna þannig merkingarfræðilegu hlutverki í heimspeki Platons. Að lokum gegna þær siðfræðilegu hlutverki en meðal frummyndanna ríkir stigskipting og efst trónir frummynd hins góða. sem allir góðir hlutir líkjast eða eiga hlutdeild í. Frummyndakenningin kemur fyrir í nokkrum samræðum, m.a. "Fædoni", "Ríkinu", "Samdrykkjunni", "Parmenídesi" og "Tímajosi" Hin svonefnda upprifjunarkenning, sem er sett fram í samræðunni "Menoni", er nátengd frummyndakenningunni. Kenningin kveður á um að allt nám sé upprifjun sálarinnar á meðfæddri þekkingu á frummyndunum. Í sömu samræðu gerir Platon ráð fyrir að þekking sé sönn rökstudd skoðun. Þessi hugmynd hefur verið afar áhrifamikil í nútímaheimspeki en hefur verið afar umdeild á síðari hluta tuttugustu aldar vegna gagnrýni bandaríska heimspekingsins Edmunds Gettier á henni (hinn svonefndi Gettier-vandi). Í samræðunni "Þeætetosi" sem er yngra rit en "Menon" og fjallar um skilgreiningu á þekkingu virðist þó sem hugmyndinni um að þekking sé sönn rökstudd skoðun sé á endanum hafnað sem ófullnægjandi greinargerð (samræðunni lýkur án þess að skýr niðurstaða hafi fengist). Siðfræði. Frummyndakenningin gegndi meðal annars hlutverki siðfræðikenningar en kenningin varð ekki til fyrr en á miðjum ferli Platons. En siðfræði hafði lengi verið Platoni hugleikin. Í elstu samræðunum gælir Platon við þá hugmynd Sókratesar að dygð sé þekking. Í samræðunum "Prótagórasi" og "Lakkesi" reifar Platon hugmyndir sem hafa verið nefndar kenningin um einingu dygðanna. Kenningin kveður á um að dygðirnar séu allar í reynd ein og sama dygðin, nefnilega þekking eða kunnátta af ákveðnu tagi. Birtingarmyndir dygðarinnar eru á hinn bóginn margvíslegar eftir því hvernig aðstæðum er háttað. Þessar ólíku birtingarmyndir dygðarinnar heita hver sínu nafni: hófsemi, hugrekki og þar fram eftir götunum. Önnur túlkun á kenningunni kveður á um að dygðirnar séu aðskildar en hafi maður eina, þá hefur maður aðra, því þekking eða kunnátta er bæði nauðsynleg og nægjanleg forsenda dygðar: sá dygðugi — til dæmis sá hugrakki — verður að búa yfir þekkingu en sá sem býr yfir þekkingu uppfyllir öll skilyrði þess að vera dygðugur — til dæmis hófsamur. Réttlæti er dygð en ranglæti er ekki aðeins löstur, heldur „sjúkdómur sálarinnar“. Ranglæti er hinum rangláta sjálfum skaðlegt og af þeim sökum er verra að vera ranglátur en að vera beittur ranglæti af öðrum. Hugmyndin kom fyrst fram í samræðunni "Gorgíasi" en í "Ríkinu" setur Platon fram kenningu um réttlæti sem heilbrigt sálarástand. Sálarfræði. Platon taldi að sálin væri ódauðleg og endurfæddist í nýjan líkama að lífinu loknu. Hugmyndin um endurfæðingu sálarinnar tengist meðal annars upprifjunarkenningu Platons um sálina sem rædd er í "Menoni". Í "Fædoni" er ódauðleiki sálarinnar til umræðu. Þar er líkamanum meðal annars lýst sem fangelsi sálarinnar. Platon hafði einnig kenningu um þrískiptingu sálarinnar, sem hann setti fram í "Ríkinu" og notaði þar m.a. til að útskýra breyskleika. Þessir þrír hlutar sálarinnar voru skynsemi, löngun og skap. Það er eðli skynseminnar að sækjast eftir sannleika og þekkingu og henni er líka eðlislægt að stjórna. Skapið leitar eftir viðurkenningu og er því er eðlilegt að styðja skynsemina en löngunin leitar eftir ánægju, einkum í formi matar, drykkjar og kynlífs en sækist einnig eftir peningum. Hugmyndina um þrískiptingu sálarinnar er ekki að finna í "Fædoni" og "Menoni" þar sem sálin virðist vera lögð að jöfnu við það sem Platon kallar í "Ríkinu" skynsemishluta sálarinnar. Í "Fædoni" virðist á hinn bóginn margt af því sem gjarnan er talið til sálarlíf mannsins eignað líkamanum, þ.á m. lystin í mat, drykk og kynlíf. Stjórnspeki. Platon setti fram eina fyrstu útgáfu af samfélagssáttmálakenningu í vestrænni heimspeki í ritinu "Krítoni". Samfélagssáttmálakenningar um undirstöður ríkisvalds urðu áhrifamiklar í nýaldarheimspeki hjá höfundum eins og Thomasi Hobbes, John Locke og Jean-Jacques Rousseau. En þekktasta stjórnspekikenning Platons er hugsjón hans um fyrirmyndarríkið sem sett er fram í "Ríkinu". Platon hafði litla trú á lýðræði. Hann taldi að rétt eins sérfræðingar ættu að ráða í þeim málum sem þeir hafa sérfræðiþekkingu á rétt eins og skynsemin ætti að ríkja yfir skapi og löngunum ættu heimspekingar að ráða yfir ríkinu. Meðal heimspekinganna eru bæði konur og karlar sem eiga að baki langt nám í heimspeki og öðrum greinum, sem eru eignalaus og hafa enga eiginhagsmuni. Seinna snerist Platoni hugur og í "Stjórnvitringnum" og "Lögunum" kemur fram önnur sýn á stjórnmál. Þar virðist Platon hafa öðlast aðeins meiri trú á lýðræði og virðist telja hana illskásta kostinn, ekki síst vegna þess að þótt góður og upplýstur einvaldur væri betri stjórnandi væri allt of mikil hætta á að sitja uppi með slæman einvald. Ástin. Kenningar Platons um ástina hafa orðið gríðarlega áhrifamiklar og er hugtakið platonsk ást gjarnan notuð um andleg ástarsambönd tveggja einstaklinga. Hugmyndir Platons sjálfs voru þó örlítið frábrugðnar nútímaskilningi hugtaksins. Platon fjallar um ástina einkum í samræðunum "Samdrykkjunni" og "Fædrosi". Í "Samdrykkjunni" er ástin eða öllu heldur guðinn Eros megin umræðuefnið en hjá Forngrikkjum fól hugtakið ást eða "eros" einkum í sér losta og þrá. Þátttakendur í samdrykkjunni skiptast á að lofa guðinn Eros en þegar röðin er komin að Sókratesi endursegir hann það sem hann kveðst hafa lært af Díótímu, viturri konu frá Mantíneu. Í endursögninni kemur fram að viðfang ástarinnar er hið góða, hið fagra og ódauðleikinn. Fyrst lærir maður að sjá fegurðina í einstökum hlutum eða í einstaklingum, svo í mörgum hlutum. Þá lærir maður að sjá fegurðina í fögrum lifnaðarháttum og síðan fegurðina í vísindum. Að lokum lærir maður að elska fegurðina sjálfa sem er öllum fögrum hlutum sameiginleg. Hún er ekki skynjanleg heldur skiljanleg, enda er hún frummynd. Í "Fædrosi" er ástin sögð vera guðdómleg vitfirring sem kemur yfir mann þegar hann sér fagran hlut og fegurðin sjálf rifjast upp fyrir honum en sálin man eftir fyrri kynnum sínum við fegurðina frá því fyrir jarðlífið. Óritaðar kenningar. Í "bréfum" sínum hafnar Platon því að honum megi eigna kenningar í ritum sínum. Hann segir að kenningar þær sem koma fram í samræðunum tilheyri „Sókratesi ungum á ný“. Í fornum heimildum er þess getið að Platon hafi haft kenningar sem hann skrifaði ekki um í samræðum sínum. Það á meðal er nemandi Platons, Aristóteles, sem segir í "Eðlisfræðinni" (209b): „Það má til sanns vegar færa að greinargerðin sem hann [þ.e. Platon] gefur þar [þ.e. í "Tímajosi"] um þátttakendurna er frábrugðin því sem hann segir í hinum svonefndu "órituðu kenningum" (ἄγραφα δόγματα).“ Orðin "ἄγραφα δόγματα" þýða bókstaflega "óritaðar kenningar". Sumir telja að þær hafi innihaldið merkustu frumspekikenningar Platons sem hann ræddi einungis við nána vini og samstarfsmenn í Akademíunni. Ástæða þess að Platon hélt sumum kenningum sínum leyndum kann að vera sú sem rædd er í samræðunni Fædrosi (276C) þar sem Platon gagnrýnir ritverk almennt og segir þau vera dauðan bókstaf, sem er m.a. ófær um að leiðrétta misskilning. Í sjöunda bréfinu segir Platon einnig að alvarlegir menn sem fjalla um mikilvæg mál gæti þess vandlega að skrifa ekkert um þau (344C). Sagan segir að Platon hafi eitt sinn fjallað um óritaðar kenningar sínar í fyrirlestri opnum almenningi sem hann nefndi "Um hið góða" (Περὶ τἀγαθοῦ), þar sem hann hélt því fram að hið góða (τὸ ἀγαθόν) og hið eina (τὸ ἕν), undirstöðulögmál tilverunnar, væru eitt og hið sama. Ýmsar heimildir greina frá fyrirlestrinum. Þar á meðal Aristoxenos sem lýsir honum þannig: „Menn komu í von um að læra eitthvað um það sem þeir telja mannleg gæði, svo sem auð, heilsu, hreysti og hamingjuna. En þeir urðu furðu lostnir, býst ég við, þegar stærðfræðisannanirnar hófust, með tölum og rúmfræðilíkönum og stjörnufræði og að lokum með yfirlýsingunni Hið góða er Hið eina. Sumir gerðu því lítið úr fyrirlestrinum en aðrir höfnuðu kenningunni.“ Simplikkíos vitnar í Alexander frá Afródisías sem segir að „samkvæmt því sem Platon sagði er undirstaða alls, þ.á m. frummyndanna sjálfra, Hið eina og óákveðin tvennd (ἡ ἀόριστος δυάς), sem hann nefndi Hið stóra og Hið smáa (τὸ μέγα καὶ τὸ μικρόν) [...] um þetta má einnig fræðast hjá Spevsipposi og Xenokratesi og hinum sem voru viðstaddir fyrirlestur Platons um hið góða.“ Þetta kemur heim og saman við það sem Aristóteles segir í "Frumspekinni" (987b og 988a). Áhrif Platons. Platon er einn áhrifamesti hugsuður sögunnar. Alfred North Whitehead komst svo að orði að öll saga heimspekinnar væri einungis röð neðanmálsgreina við Platon. Whitehead átti ekki við að heimspekingar síðari tíma hefðu ekkert mikilsvert haft fram að færa, heldur að þeir hafi í meginatriðum gert það innan þess ramma sem Platon setti heimspekinni. Kenningar Platons hafa í gegnum tíðina bæði verið samþykktar og þeim hefur verið hafnað en meira að segja andmælendur Platons hafa fengist við sömu spurningar og Platon spurði. Heimspeki Platons er oft borin saman við heimspeki Aristótelesar, nemanda hans. Á miðöldum voru rit Aristótelesar þekktari í Vestur-Evrópu og áhrif hans urðu töluvert meiri en áhrif Platons. Í skólaspekinni var Aristóteles einfaldlega nefndur „heimspekingurinn“. Aftur á móti voru rit Platons ætíð þekkt og lesin í Býsansríkinu. Skólaspekingar miðalda höfðu ekki aðgang að ritum Platons (nema í mjög litlum mæli) og kunnu ekki forngrísku. Handrit með samræðum Platons fóru fyrst að berast vestur frá Konstantínópel um einni öld áður en borgin féll í hendur aröbum árið 1453. Georgíos Pleþon Gemistos hafði þau með sér til Ítalíu. Áður höfðu fræðimenn í Vestur-Evrópu einungis þekkt latneskar þýðingar af stuttum köflum úr samræðum Platons og seinna latneskar þýðingar á arabískum þýðingum af ritum Platons. Arabískir fræðimenn sem varðveittu ritin sömdu einnig fjöldamörg skýringarrit við texta bæði Platons og Aristótelesar. Þeirra á meðal voru Al-Farabi, Avicenna og Averroes. Þekking á platonskri heimspeki náði fyrst útbreiðslu í Vestur-Evrópu á endurreisnartímanum. Margir af helstu hugsuðum og vísindamönnum þessa tíma brutust undan áhrifum skólaspekinnar og töldu platonska heimspeki forsendu framfara í listum og vísindum. Vestrænir heimspekingar hafa æ síðan þegið innblástur úr verkum Platons. Áhrifa hans gætir ekki síður í stærðfræði og vísindum. Albert Einstein byggði á hugmyndum Platons um óbeytanlegan veruleika sem undirliggur sífelldum breytingum í heimi sýndarinnar þegar hann andmælti þeirri líkindafræðilegu mynd af heiminum sem Niels Bohr dró upp í túlkun sinni á skammtafræðinni. Aðrir hugsuðir hafa gert uppreisnir gegn hugmyndum Platons. Friedrich Nietzsche réðst til að mynda á siðfræði og stjórnspekikenningar Platons. Stjórnspekikenningar Platons sættu einnig árásum frá Karl Popper sem hélt því fram í riti sínu "Opna samfélagið og óvinir þess" (e. "The Open Society and Its Enemies") (1945) að stjórnspeki Platons í "Ríkinu" væri dæmigerð alræðishugmyndafræði. Og Martin Heidegger andmælti hugmyndum Platons um "veruna". Kuldaofnæmi. Kuldaofnæmi er flokkur sjúkdóma sem eiga það sammerkt að kuldi er orsakavaldur líkamlegs kvilla. Einkenni. Vægari tilfellin lýsa sér einkum í útbrotum sem getur klæjað í. Í versta falli getur sjúklingurinn fengið ofnæmislost sem getur leitt til dauða sökum súrefnisskorts. Læknar vara einkum við því að þeir sem eru haldnir kuldaofnæmi fari í sturtur utandyra, eins og í sundlaugum, þeir geta orðið fyrir blóðþrýstingsfalli sem getur lokað fyrir öndun. Ástæður kuldaofnæmis eru ekki ljósar en grunur beinist helst að erfðum og umhverfisáhrifum. Einnig geta gigtarsjúkdómar, sjálfsofnæmissjúkdómar og krabbamein orsakað svipaða kvilla. Úrræði. Ofnæmistöflur geta slegið á helstu einkenni. Í allra verstu tilvikum getur sjúklingurinn neyðst til þess að flytja í hlýrra loftslag. Flasa. Flasa (fræðiheiti: "Pityriasis capitis") er húðsjúkdómur sem á sér stað þegar meira en eðlilegt magn af dauðum húðfrumum flagnar af höfuðleðrinu. Húðin endurnýjar sig reglulega og dauðar húðfrumur flagna af. Þegar um er að ræða flösu losnar meira magn en eðlilegt er og roði og kláði getur verið í hársverðinum. Notkun á ákveðnum hársnyrtivörum getur í flestum tilfellum haldið flösunni niðri. Flösuþref og psoriasis geta valdið svipuðum einkennum. Orsakir. Eftir því sem stærsta líffæri mannsins, húðin, vex færast húðfrumur æ lengra út þar til þær deyja og flagna af líkamanum. Hjá flestum eru þessar húðagnir það smáar að þær eru ekki sýnilegar mannsauganu. Ákveðnir þættir geta þó valdið því að þetta ferli er mun hraðara, einkum í höfuðleðrinu. Hjá fólki með flösu getur þetta gerst tvisvar sinnum hraðar en venjulegt er. Þetta veldur því að húðfrumurnar losna af í stærri flekkjum, hvítum eða grálitum. Flasa er talin orsakast af samspili nokkurra þátta, misvel þekktra. Algengasta ástæða flösu er sveppurinn Malassezia globosa. Þessi sveppur finnst á húð allra, hvort sem þeir þjást af flösu eður ei. Sveppurinn þarf fitu til að lifa af og finnst því á þeim svæðum þar sem fitukirtlar eru og hár vex, einkum höfuðleðri og andliti. Þegar sveppurinn vex of hratt truflar hann eðlilega endurnýjun húðarinnar og kláði og flasa myndast. Fólki með feitt hár er því hættara við flösu en öðrum, algengur misskilningur er sá að þurrt hár og hársvörður sé viðkvæmari. Hlutfallslega séð eru karlmenn oftar með flösu en konur sem getur bent til þess að karlhormón hafi áhrif. Aðrar ástæður flösu geta verið ofvirkir fitukirtlar, matarofnæmi, óhófleg svitnun, sáputegundir, sveppasýkingar og stress. Flasa getur verið misvirk eftir árstíðum og loftslagi, kaldir þurrir vetur þykja einkum öflugir í að valda eða auka flösu. Vannæring getur valdið flösu, einkum zink-skortur. Meðferð. Ef einkennin eru mikil skal leita til læknis sem getur gefið út lyfseðla fyrir sterkari vörur ásamt leiðbeiningum. Lághitalíffræði. Lághitalíffræði er undirgrein lághitafræðinnar og líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á lífverum, líffærum, lífrænum vef og frumum við lághita. Þeir sem leggja stund á greinina kallast lághitalíffræðingar. Lághitafræði er m.a. notuð í lághitavarðveitingu og lághitaskurðaðgerðun. Lághitafræði. Lághitafræði er undirgrein eðslifræðinnar sem fæst við rannsóknir á lághita. Þeir sem leggja stund á greinina kallast lághitafræðingar. Líffærafræði mannsins. Líffærafræði mannsins er undirgrein líffræði mannsins og líffærafræðinnar sem fæst við rannsóknir á líffærakerfum mannsins. Efni líkamans. Yfir 99% mannslíkamans samanstendur af 13 frumefnum; kolefni, vetni, súrefni, fosfór, kalíum, joð, nitur, brennistein, kalsíum, járn, magnesíum, natríum og klór. Um 60%-70% mannslíkamans er vatn, sem er þá með einföldustu lífrænu efnasamböndunum innan líkamans, en þau flóknu eru sykrur, fita, sterar, hormón, fosfólípið o.fl. Líkaminn þarfnast einnig ýmissa annarra efna fyrir viðhald sem hann fær úr umhverfinu, um er að ræða stein- og fjörefni. Líffræði mannsins. Líffræði mannsins er undirgrein líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á manninum út frá líffræðilegu sjónarmiði. Greinin er nátengd læknisfræði og fremdardýrafræði. Kópavogskirkja. Kópavogskirkja er elsta kirkja Kópavogs. Hún er staðsett á Borgarholti í vesturbæ Kópavogs, oft nefnt Kirkjuholt af íbúum. Kirkjan var reist á árunum 1958-1962. Grunnur hennar var helgaður þann 16. ágúst 1958 og hornsteinn lagður af biskupi Íslands þann 20. nóvember 1959. 16. desember 1963 var kirkjan vígð af Sigurbirni Einarssyni þáverandi biskupi Íslands. Fyrsti sóknarprestur Kópavogskirkju var Gunnar Árnason sem starfaði frá 1962-1971. Árið 1971 hófu þeir Árni Pálsson og Þorbergur Kristjánsson störf. Árni lét af störfum árið 1990 en Þorbergur 1994. Ægir Fr. Sigurgeirsson var sóknarprestur frá 1990 til 2009 en þá tók Sigurður Arnarsson við starfi sóknarprests. Þrír prestar hafa verið settir sóknarprestar við Kópavogskirkju til skemmri tíma, þeir Lárus Halldórsson í 3 mánuði 1971, Guðmundur Örn Ragnarsson í hálft ár 1985-1986 og Guðni Þór Ólafsson 1999-2000. Árið 1955 var vígt orgel í Kópavogskirkju en var selt árið 1962 til Óháða safnaðarins í Reykjavík. Árið 1964 var keypt orgel frá Alfred E. Davis & sön Ltd og var það vígt þann 24.apríl. Það orgel var viðkvæmt og var viðhald þess kostnaðarsamt. 1991 hófst undirbúningur að kaupum á nýju orgeli og var að lokum ákveðið að taka tilboði frá P. Bruhn & Sön Orgelbyggeri. Þann 12. janúar 1997 var nýja orgelið vígt við hátíðlega athöfn. Kirkjuklukkurnar voru settar upp á vígsluári hennar, 1963. Þær eru tvær og vegur sú stærri 330 kíló og hefur tóninn b. Sú minni er 205 kíló og hefur tóninn des. Klukkunum var handhringt allt til ársins 1989 en þá var rafstýring sett upp. Klukkurnar voru steyptar í Þýskalandi hjá Engelbert Gebhard. Ásgeir Long hannaði umgjörð klukknanna en vélaverkstæði Jóhanns Ólafssonar annaðist smíðina. Kirkjan stendur á stað sem nefnir Borgir eða Borgarholt og er umhverfi hennar friðað. Kópavogskirkja er krosskirkja og hefðbundin að því leyti en það eru bogar hennar sem einkenna hana og gera hana sérstaka. Frá kirkjunni er mikið og fagurt útsýni og koma margir þangað til að njóta þess og um leið skoða kirkjuna. Altaristaflan í kirkjunni var sett upp árið 1990 og er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur. Hún er byggð á frásögn í 13. kafla Jóhannesar-guðspjalls um það hvernig Kristur laugaði fætur lærisveina sinna. Listakonan Barbara Árnason gerði ýmsar myndir sem eru í kirkjunni. Gluggarnir í Kópavogskirkju þykja einstaklega fallegir. Þeir voru hannaðir af Gerði Helgadóttur myndhöggvara og voru smíðaðir af gluggasmiðju Oidtmann-bræðra í Þýskalandi. Kópavogskirkja þykir vel heppnuð og vekur athygli bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna og hafa myndir af henni birtst víðsvegar um heiminn. Kirkjan hefur lengi verið tákn Kópavogs og er að finna á merki Kópavogsbæjar. Blaðsíðutal Stephanusar. Blaðsíðutal Stephanusar er staðlað blaðsíðutal ritverka Platons sem á rætur sínar að rekja til útgáfu Henricusar Stephanusar (Henri Estienne) frá árinu 1578 og er haft á spássíunni í öllum nútíma útgáfum og þýðingum á verkum Platons. Útgáfa Stephanusar var í þremur bindum og hafði grískan texta ásamt latneskri þýðingu í dálki við hliðina á gríska textanum. Hverri síðu útgáfunnar var skipt í fimm hluta sem eru auðkenndir með bókstöfunum a, b, c, d og e, þannig að hluti a var efstur á síðunni o.s.frv. Venjan er að vísa til staða í ritum Platons með þessu kerfi. Til dæmis vísar "Samdrykkjan" 172a til upphafs Samdrykkjunnar eftir Platon sem er efst á bls. 172 í útgáfu Stephanusar. Þar sem útgáfa Stephanusar er í þremur bindum hafa fleiri en ein samræða sama blaðsíðutalið en ekkert verk er í fleiri en einu bindi í útgáfu Stephanusar og því kemur sama blaðsíðutalið aldrei fyrir oftar en einu sinni innan sama verksins. Bekker tölur eru sams konar kerfi sem notað er til að vísa til staða í verkum Aristótelesar. Fædros (Platon). "Fædros" er samræða eftir Platon milli Sókratesar og Fædrosar. Yfirlit yfir efni samræðunnar. Fædros verður á vegi Sókratesar þegar hann er á gangi um sveitina utan við Aþenu. Eftir að þeir hafa spjallað smá stund les Fædros upp ræðu eftir Lýsías um ástina. Lýsías hefur skrifað að drengur skuli eiga í ástarsambandi við mann sem ekki er ástfanginn af drengnum, en ekki eiga í sambandi við mann sem er ástfanginn af drengnum. Sókrates dásamar ræðuna með örlítilli kaldhæðni en flytur svo sjálfur ræðu um efnið. Fædros fellst á að ræða Sókratesar sé betri. En Sókrates fordæmir hana hins vegar, vegna þess að ástin er frá guðunum komin ólíkt því sem hann hafði haldið fram. Þá flytur Sókrates aðra ræðu um hvers vegna ástin er góð þar sem því er í raun haldið fram að ástin sé mannssálinni nauðsynleg til þess að komast aftur til himna. Fædros lofar ræðuna og spyr Sókrates hvernig skuli flytja góða ræðu. Þessu fylgir samræða milli Sókratesar og Fædrosar um hvernig sé best að semja ræður. Tenglar. í enskri þýðingu Benjamins Jowett Karmídes (Platon). "Karmídes" er samræða eftir Platon sem fjallar um eðli og nytsemi hófstillingar. Yfirlit yfir efni samræðunnar. Karmídes, hinn ungi og fagri Aþeningur sem samræðan er nefnd eftir, er að ræða við Sókrates og leggur í upphafi til að hófstilling sé að gera hvaðeina rólega og þannig að lítið fari fyrir því. Þessi skilgreining er hrakin, því Karmídes sjálfur fellst á að hófstilling sé að öllu leyti góð og engan vegin slæm; en stundum er betra að gera hlutina hratt og með látum. Þess vegna getur hófstilling - að því gefnu að hún sé alltaf góð - ekki verið það að gera hvaðeina rólega og án láta. Karmídes setur þá fram skilgreiningu á hófstillingu sem hógværð. Sókrates hrekur þessa skilgreiningu einnig og vitnar í fullyrðingu Hómers í "Ódysseifskviðu" að hógværð sé ekki góð þurfandi manni. Og þar sem hófstilling er á endanum alltaf góð getur hún ekki verið hógværð. Þegar hér er komið sögu segir Karmídes Sókratesi frá skilgreiningu sem hann heyrði annan mann halda fram: að skipta sér af sínum eigin málum. Menexenos (Platon). "Menexenos" er sókratísk samræða eftir Platon.Viðmælendur eru þeir Sókrates og Menexenos. Kjarninn í "Menexenosi" er löng útfararræða sem er skopstæling á þeirri sem Períkles flytur í riti Þúkýdídesar um Pelópsskagastríðið. "Menexenos" er sér á báti meðal verka Platons í þessu tilliti; samræðan sjálf þjónar þeim tilgangi einum að koma ræðunni að. Ef til vill af þeim sökum hefur verið dregið í efa að "Menexenos" sé ósvikin samræða Platons. Á hinn bóginn myndu flestir fræðimenn fallast á að hún sé ósvikin. Það sem er ef til vill áhugaverðast við "Menexenos" er að hún er ein af fáum heimildum um aþenskar útfararræður, enda þótt hún sé skopstæling á slíkri ræðu. Lýsis (Platon). "Lýsis" er sókratísk samræða eftir Platon sem fjallar um eðli vináttunnar. Aðalpersónurnar eru Sókrates, drengirnir Lýsis og Menexenos, og Hippoþales, sem er ástfanginn af Lýsis en ástin er óendurgoldin. Sókrates leggur til nokkrar hugmyndir um hið sanna eðli vináttunnar: vinátta líkra einstaklinga; vinátta milli ólíkra einstaklinga; vinátta á milli þeirra sem eru hvorki góðir né slæmir og góðir í tengslum við hið slæma. Á endanum hafnar Sókrates öllum hugmyndunum. Enda þótt ekki sé komist að ákveðinni niðurstöðu er lagt til að réttur hvati að vináttu sé sameiginleg eftirsókn eftir hinu góða og göfuga. Um túlkun. "Um túlkun" (gríska: "Peri Hermeneias", latína: "De Interpretatione") er verk eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles og fjallar aðallega um málspeki og rökfræði. Gríska sögnin "hermeneuein" getur þýtt „að túlka“ eða „fullyrða“ og því vilja sumir gefa verkinu titilinn "Um staðhæfingar". Raunin er hins vegar sú að ekki er vitað hvernig titill verksins er til kominn. Ósennilegt er að hann sé frá Aristótelesi sjálfum. Verkið fjallar að mestu leyti um meðferð einfaldra staðhæfinga og um háttarökfræði, þ.e. rökfræði nauðsynja og möguleika. Í verkinu er komist að mikilvægum niðurstöðum, m.a. um meðferð hugtaka og orða, eins og staðhæfing, nafn, umsögn, neitun, möguleiki og nauðsyn, sem og er mikilvægum afrekum náð, einkum í ljósi þess að í verkinu kemur fyrir fyrsta umfjöllun heimspekings um háttarökfræði. Fyrstu sex kaflarnir snúast um nöfn og orð í tungumálinu, næstu þrír kaflar um undantekningar frá mótsagnarlögmálinu, tvígildislögmálinu og lögmálinu um annað tveggja, þá fjalla tveir kaflar um staðhæfingar og síðustu kaflarnir þrír um háttarökfræði. 9. kafli "Um túlkun" hefur hlotið meiri athygli heimspekinga en restin af verkinu en þar ræðir Aristóteles undantekningu á tvígildislögmálinu og lögmálinu um annað tveggja í ljósi rökfræðilegrar nauðhyggju sem myndi leiða af því að staðhæfingar um framtíðina hefðu ákveðið sanngildi. Dæmið sem Aristóteles tekur er staðhæfingin „Það verður sjóorrusta á morgun“ og hefur það orðið frægt sem „Sjóorrustan“. "Um túlkun" er (annar) hluti af "Organon" ("Verkfærinu"), en svo eru rökfræðirit Aritsótelesar nefnd einu nafni. The Problems of Philosophy. "The Problems of Philosophy" ("Gátur heimspekinnar") (1912) er ein af tilraunum Bertrands Russell til að semja stuttan og aðgengilegan inngang að gátum heimspekinnar. Russell einbeitti sér að gátum sem hann taldi að myndu ögra lesandanum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og skapa umræðu. Hann einblíndi á þekkingarfræði fremur en frumspeki eða siðfræði. auk annarra til að leggja grunninn að heimspekilegum hugleiðingum almennra lesenda jafnt sem fræðimanna. Tilvitnun. „Í því sem á eftir fer hef ég haldið mig við þær gátur heimspekinnar sem ég taldi mögulegt að fjalla um á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, fyrst einungis neikvæð gagnrýni virtist ekki við hæfi. Af þessum sökum fær þekkingarfræði meira pláss en frumspeki í þessu verki og sum viðfangsefni sem heimspekingar ræða mikið um er einungis fjallað um í stuttu máli hér, ef á þau er minnst yfirleitt.“ Gautama Búdda. Búddastytta frá Pakistan 1. öld. Gautama Búdda (um 563 f.Kr. – 483 f.Kr. á Indlandsskaga) (fæddur Siddhārtha Gautama'") var andlegur kenningasmiður. Hann er viðurkenndur af búddistum sem hinn æðsti búdda ("hinn upplýsti"). Ævintýralandið Narnía. Ævintýralandið Narnía (enska: "The Chronicles of Narnia") er ritröð ævintýrabóka eftir C. S. Lewis. Bækurnar eru sjö og fjalla að mestu um fjögur börn sem fyrir tilviljun flækjast í ævintýraheim Narníu, þar sem dýrin geta talað, galdrar eru viðteknir, og hið góða stríðir gegn hinu illa. Sögurnar útskýra á aðgengilegan hátt fyrir börn nokkur af þemunum í kristnum sið. Þó er rétt að taka fram að bækurnar eru skrifaðar svo að hægt er að lesa þær án þess að vera með kristni sérstaklega í huga. Disney-fyrirtækið hefur kvikmyndað Ljónið, nornina og skápinn (2005), Kaspían konungsson (2007) og Siglingu Dagfara (2010). Auk þess er verið að vinna að gerð Frænda töframannsins (2014) og Silfurstólinn (2015). Pauline Baynes myndskreytti fyrstu útgefnu ritröðina. Listi yfir bækurnar í ritröðinni. Tvær aðferðir eru til við að raða bókunum, eftir útgáfuári eða í röðinni sem þær eiga að gerast í. Þegar þær voru fyrst gefnar út voru bækurnar ekki tölusettar, en þegar þær komu fyrst út í Bandríkjunum tölusetti útgefandinn Macmillan þær í útgáfuröð. Þegar HarperCollins bókaútgáfan tók við bókaflokknum raðaði hún þeim upp í þeirri röð sem sögurnar gerast, að tillögu Douglas Gresham, stjúpsonar Lewis. Badminton. Badminton (eða hnit) er íþróttagrein leikin með flugu (einnig nefnd: "fjaðrabolti"), sem slegin er yfir net með badmintonspöðum af tveimur leikmönnum sem keppa hvor gegn öðrum, eða af fjórum leikmönnum sem keppa tveir á móti tveimur. Á mótum er iðulega keppt í fimm flokkum, einliðaleik karla, einliðaleik kvenna, tvíliðaleik karla, tvíliðaleik kvenna og tvenndarleik. Saga. Íþróttin er komin frá Indlandi, barst síðar til Evrópu með enskum liðsforingjum sem gegndu þar herþjónustu. Badminton var fyrst leikið á Englandi árið 1873 undir heitinu "poona". Hertogin af Beaufort hafði áhuga á þessum leik og kynnti hann á herragarði sínum í Gloucesterskíri, "Badminton House". (Badminton merkir "tún Böðmundunga"). Badminton varð fljótlega vinsæl íþrótt og hefur lotið sömu reglum síðan 1901. Hnit. Hnit er dregið af sögninni "að hníta" sem beygðist "hneit-hnitum-hnitið" eða eins og líta, bíta, síga og fjöldi annarra sagnorða. Hnit merkti árekstur að fornu. Á fyrsta stofnþingi Badmintonsambands Íslands var borin fram tillaga um að íþróttin yrði nefnd hnit en hún féll á jöfnum atkvæðum Tvenndarleikur. Tvenndarleikur nefnist það þegar karlmaður og kvenmaður (á hvaða aldri sem er) keppa saman í íþrótt á móti öðru pari sem er einnig skipað karlmanni og kvenmanni. Talað er um tvíliðaleik þegar liðsfélagar eru skipaðir einstaklingum af sama kyni. Tvíliðaleikur. Tvíliðaleikur nefnist það þegar tveir einstaklingar af sama kyni keppa saman í íþrótt á móti öðrum tveim einstaklingum af þessu sama kyni. Talað er um tvenndarleik þegar liðsfélagar eru skipaðir einstaklingum af sitthvoru kyni. Einliðaleikur. Einliðaleikur nefnist það þegar tveir einstaklingar keppa á móti hvor öðrum í íþrótt. Heitið er einkum notað vegna keppni í badmintoni, borðtennis eða tennis. Brynvangar. Brynvangar (fræðiheiti: "Scorpaeniformes" eða "Scleroparei") eru ættbálkur geislugga. Brynvangar eru náskyldir borrum og oft taldir til þeirra. Ættbálkurinn telur fiska eins og hrognkelsi, marhnút og karfa. Katrín Atladóttir. Katrín Atladóttir (fædd 15. september 1980) er fyrverandi íslensk landsliðskona í badmintoni og með BS-gráðu í tölvunarfræði og masters-gráðu í hugbúnaðarverkfræði. Katrín er einnig þekkt sem [katrin.is] á internetinu. Hún er gift og barnlaus. Knattspyrna. Leikmaðurinn í rauðu hefur brotist gegnum vörn hins liðsins og býst til að skjóta knettinum í markið. Knattspyrna (eða fótbolti) er boltaíþrótt þar sem farið er eftir 17 reglum sem voru staðfestar af Alþjóðaknattspyrnusambandinu þegar það var stofnað árið 1886. Knattspyrna er leikin með knetti af tveimur allt að 11 manna liðum (með markmanni) sem reyna að sigra hitt liðið með því að skora fleiri mörk en andstæðingarnir. Til að skora mark þarf að spyrna boltanum inn í mark andstæðinganna. Ef að mark er skorað í eigin mark kallast það sjálfsmark. Leikmenn mega ekki snerta boltann með hönd sinni, en markmaðurinn er undantekning. Hann má verja boltann með höndunum á afmörkuðu svæði sem kallast vítateigur. Leikvöllurinn. Leikurinn skal vera spilaður á grænu undirlagi en annars skal tilkynna mótherja um annað vallarval. Fótboltavöllurinn skal vera rétthyrndur og mörk hans merkt. Tveir lengri hliðar vallarins eru kallaðar "hliðarlínur" og styttri línurnar eru kallaðar "markalínur". Fyrir miðju hliðarlínana liggja tvær jafnlangar línur. Í miðju þeirra er hringur "vallarmiðja" sem hefur 9,15 metra radíus. Hliðarlínur eiga í öllum tilvikum að vera lengri en markalínurnar. Stærð valla í landsleikum er 100-110 metrar að lengd og 64-75 metrar að breidd. Leikir á vegum Knattspyrnusambands Íslands eru spilaðir á völlum með 80 metra breidd og 120 metra lengd að lágmarki. Stærð vallarins má breyta í öðrum tilvikum. Mark á að vera staðsett við miðju markalína. Mark samanstendur af tveimur lóðréttum stöngum sem eru samtengd láréttri stöng efst. Lóðréttu stengurnar "marksúlur", eru 2.44 metrar og lárétta stöngin "markslá" er 7.32 metrar. Bæði marksúlur og markslá eiga að vera að hámarki 12cm að breidd og hvítar að lit. Þær eiga að vera úr við, málmi eða öðru samþykktu efni. Þær eiga að vera rétthyrndar, kassalaga, hringlaga eða spöröskjulaga og mega alls ekki vera hættuleg leikmönnum. Markið í heild sinni verður að vera fast örugglega við jörðu og færanleg mörk má aðeins nota ef þau fullgilda þessu skilyrði. Að auki, eru tvær línur dregnar frá markalínu, 5.5 metra frá marksúlu. Línurnar eru 5.5 metra langar og við enda þeirra er lína samsíða markalínunni. Þetta afmarkaða svæði kallast "markteigur". Tvær línur eru dregnar 16.5 metra frá marksúlu. Línurnar eru 16.5 metra langar og við enda þeirra er lína sem er samsíða markalínunni. Þetta afmarkaða svæði kallast "vítateigur". Við horn vallarins, þar sem markalínur og hliðarlínur mætast skal vera fáni sem er ekki minni en 1.5 metrar. Á sama stað skal vera hornbogi með 1m radíus frá fánanum. Hornfáni við miðlínu er valkvæður. Merkingar mega vera utan vallarins á þessum stað. Boltinn. Boltinn er hringlaga með 68-70cm þvermál og vegur á milli 410 og 450 grömm. Boltinn hefur þrýsting á við 0.6 - 1,1 loftþyngd við sjávarmál. Ef að bolti verður ónothæfur við leik, þá er leikurinn stöðvaður og varabolti er settur á sama stað og boltinn sem varð ónothæfur var á. Ef að taka átti vítaspyrnu, markspyrnu eða álíka, þá er varaboltinn settur inná samkvæmt þeim reglum. Ekki má skipta út bolta án leyfis frá dómara. Boltar sem eru notaðir í keppnum Fifa, þurfa að vera merktir og staðfestir af Fifa. Auk þess eiga allar keppnir Fifa, og knattspyrnusamtaka sem heyra undir hana að nota bolta sem er ekki auglýstur á annan hátt nema með merki kepnarinnar og framleiðandans. Fjöldi leikmanna. Fjöldi leikmana á ekki að vera fleiri en 11 og einn af þeim er markvörður. Ekki er heimilt að byrja leik með færri leikmönnum en sjö. Í keppnum FIFA eða knattspyrnusamtaka sem heyra undir hana, mega að hámarki 3 varamenn vera skipt inná í leikjum. Fjöldi varamanna sem eru heimilaðir á varamannabekk, eru ákvarðaðir af þeim knattspyrnusamtökunum sem við á. Í alþjóðlegum leikjum eru hámark sex leikmenn á varamannabekk, nema samkomulag ríki milli beggja liða sem keppa og dómari viti af ákvörðun liðanna. Í öllum tilfellum á að tilgreina leikmenn á varamannabekk áður en leikur hefst. Þegar leikmanni er skipt inná er dómari fyrst látinn vita af skiptingunni og hann stöðvar leikinn. Hann gefur leikmanni á vellinum merki um að koma að hliðarlínunni og fara útaf. Þegar að leikmaðurinn er farinn útaf fer leikmaðurinn sem skipta á inná á völlinn frá hliðarlínu og við það telst skiptingunni lokið. Leikmanni sem hefur verið skipt útaf tekur ekki frekar þátt í leiknum og allir varamenn fylgja fyrirmælum dómara. Leikur er jafnframt stöðvaður, ef að útileikmaður er færður í markmannstöðu. Fari leikmaður inn á völlinn án leyfis dómara er leikurinn stöðvaður. Dómarinn gefur leikmanninum viðvörun og leikurinn heldur áfram með "aukaspyrnu". Ef að leikmaður skiptir við markmann án leyfis dómara heldur leikurinn áfram, en leikmennirnir tveir eru viðvaraðir. Einungis má skipta inn leikmenn í hópi varaleikmanna. Það er gaman í fótbolta. Búnaður leikmanna. Leikmenn mega ekki bera neinn búnað sem er hættulegur honum sjálfum eða öðrum leikmönnum. Grunnbúnaður leikmanns samanstendur af ermabol, stuttermabuxum, sokkum, skóm og legghlífum. Bolur, stuttermabuxur og ermar bolsins eiga að vera í sama aðal lit. Allir leikmenn liðsins að markmanni undanskildum, eiga að vera í eins búningi. Auk þess er aðildarfélögum KSÍ heimilt að leggja bann við takkaskóm. Ef að legghlífar eru notaðar, þá eiga þær að vera að fullu faldar bak við sokka leikmanns. Markmaður skal bera liti sem aðskilur hann frá öðrum leikmönnum, dómara og aðstoðardómörum. Ef þessum reglum er ekki fylgt er dómara heimilt að vísa leikmanni tímabundið af velli á meðan lausn er fengin á vandamálinu. Dómari. Dómari sér um að reglum fótboltans sé framfylgt á þeim leik sem hann hefur verið skipaður á. Hann stjórnar leik í samvinnu með aðstoðardómara. Honum er heimilt að stöðva, fresta eða hætta við leik vegna utanaðkomandi truflunar eða vegna brota á grunnreglum fótboltans. Hann leggur mat á meiðsli leikmanna og bíður með að senda smávægilega meidda leikmenn af velli. Leikmenn með blæðandi sár er þó ávallt hleypt rakleiðis af velli og fá ekki að koma aftur á völlinn fyrr en blæðing hefur stöðvast. Þegar brot eiga sér stað og liðið sem brotið var á er með boltann leyfir dómari leiknum að halda áfram. Refsað er leikmanni sem brýtur á sér oftar en einusinni í einu, háskalegar athafnir og starfsmönnum sem sýna ekki ábyrgð. Hann hleypir ekki utanaðkomandi persónu á völlinn og setur leik að nýju. Hann er tímastjórnandi leiksins og er oft sá sem er ábyrgur fyrir að senda leikskýrslu til knattspyrnusambandsins. Heimalið leiksins í keppni innan KSÍ eru þó ábyrg að senda leikskýrslur utan úrvalsdeildar karla og kvenna. Allar ákvarðanir dómara eru endanlegar og er ekki breytt nema eftir að dómarinn hafi ráðgefið sig við aðstoðardómara. Heimilt er að notast við tvo aðstoðardómara í leik. Þeir senda merki til dómara. Í þeim tilfellum þegar boltinn fer út fyrir völlinn segja þeir dómara til um hvort liðið eigi kröfu á innkasti, hornspyrnu eða markspyrnu, eftir því sem við á. Þeir láta vita af rangstöðu Þeir láta jafnframt dómara vita af atvikum sem gerast utan vallarins eða eru utan sjónsviðs hans eins og skiptingar eða brot. Aðstoðardómari heyrir undir dómara. Fótboltalið. Í fótbolta er þrenn möguleg úrslit. Í leik þar sem annað liðið hefur skorað fleiri mörk en andstæðingurinn kallast leikurinn unninn, og það lið fær ýmist 2 eða 3 stig fyrir það afrek. Sé leikurinn hinsvegar, með jafn mörgum mörkum frá báðum liðum vallarins kallast jafntefli og bæði lið fá eitt stig. Engin stig eru þó veitt í umferðum eða riðlakeppnum, þar gildir að það lið sem sigrar heldur áfram í næstu umferð og vítaspyrnukeppni er notuð ef leikurinn er jafn. Fótbolti er einn af vinsælustu íþróttum í heimi. Samkvæmt tölum Fifa, sem er yfirstjórn knattspyrnu í heiminum, spila yfir 265 milljónir manna í yfir 200 löndum fótbolta. Skipulagðir leikir eru spilaðir af 38 milljónum um allan heim í meira en 325 þúsund knattspyrnuklúbbum. 207 lönd og sjálfstjórnarsvæði eru meðlimir FIFA. Einungis þarf nokkrar grundvallarreglur og lítinn útbúnað til þess að iðka íþróttina. Nóbelsverðlaunahafinn Albert Camus sagði: "Allt sem ég veit með öryggi um siðferði og ábyrgð, á ég að þakka fótboltanum". Félagslið. Fótbolti er ýmist spilaður í fótboltaklúbbum eða sem áhugamannaíþrótt. Fótboltaklúbbar eru félög sem spila á móti öðrum klúbbum í deild innan síns eigin lands. Oft eru margar deildir í einu landi, þar sem liðunum er skipt eftir því hversu vel liðið spilar. Auk fótboltaliðs starfa hjá félaginu þjálfarar, sjúkraþjálfarar og búningastjóri. Þjálfarar sjá um að kenna leikmönnum um þá tækni og færni sem notuð er í fótbolta. Sjúkraþjálfarar sjá um meiðsli leikmanna og búningastjórn sér um að allir búningar félagsins séu í röð og reglu. Áhugamenn hinsvegar, spila frekar út á skemmtunina og þeim áhuga sem þeir hafa fyrir íþróttinni. Áhugamenn fá ekki greitt fyrir vinnu sína úti á vellinum, ólíkt atvinnumönnum í fótboltaklúbbum. Þessi laun, sem að atvinnumenn fá eru fengin með styrktarsamningum fyrirtækja, verðlaunafé við það að vinna keppnir og í sumum tilfellum fé frá eigendum liðsins. Landslið. Auk félagsliða og áhugamannaliða eru stafrækt landslið. Landslið eru lið, þar sem óskað er eftir kröftum leikmanna sem hafa ríkisborgararétt í viðkomandi landi. Landslið eru stjórnað af knattspyrnusamböndum, hvers lands fyrir sig, sem jafnframt stjórna fyrirkomulagi deildarleikja landsins. Landslið eru skipt upp innan hvers lands eftir aldri. Unglingalið landsliðsins eru ýmist undir 17 ára, undir 19 ára, undir 21 árs og undir 23 ára. Ekki er þörf á að öll þessi landslið séu virk, og í raun er algengast að haldið sé út landsliðum aðeins í undir 17 ára, undir 19 ára og undir 21 árs. Aðalið landsliðs, getur þó alltaf kallað upp leikmenn sem eru á þessum aldri, nema að ákvörðun knattspyrnusambandsins sé önnur. Áhorfendur. Auk þeirra liða sem spila fótbolta eru áhorfendur liða. Áhorfendur eru fólk sem mætir á leikvanga, þar sem liðið spilar til þess að horfa á leikinn og styðja sitt lið. Auk þess er jafnframt til að áhorfendur fylgist með sínum liðum í sjónvarpi, með sjónvarpsútsendingum. Mismikill áhugi er þó á fótboltaliðum eftir kynjum. Fótbolti kvenna er í augum almennings minna umfangs og vinsældir hans minni, en vegna árangurs liða og landsliða hefur áhuginn undanfarið aukist, þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Fordómar. Hugmyndir fólks um kvenleika og karlmennsku eru byggð á áhrifum sameiginlegra hugmynda sem hafa djúpar rætur um margar aldir. Karlmennska er enn tengd við eiginleika fólks eins og dyttni, hugrekki, greind og ákveðni. Kvenleiki, hinsvegar stendur fyrir aðhald, veikleika, tilfinningar og væntumþykju, til dæmis. Þessir tveir flokkar minnka mögulega dreifð mannlegra eiginleika. Þrátt fyrir alla þessa karlmennsku eiginleika hafa athafnir eins og að faðmast, fagna og raða sér í hrúgu verið hluti af fótboltamenningu í margar aldir. Misskilningurinn við þessar rótgrónu fótbolta athafnir, er að samkynhneigð persóna myndi varpa skugga á þessar athafnir með tilfinningum og þrá. Svipaða sögu er að segja um þegar konur uppgötvuðu fyrst fótbolta árið 1920. Frá upphafi voru alltaf karlmenn sem höfðu þá skoðun að íþrótt eins og þessi sem væri líkamleg og ögrandi hentaði ekki konum. Til eru margvísar stofnanir sem bregðast við þessum misskilningi. Fótboltabullur. Ofbeldi í fótbolta hefur verið til frá upphafi hans og verið kennt við fótboltabullur. Þær urðu fyrst að skipulögðum hópum árið 1980 í Ítalíu. Þeir styðja oftast félagið sem er búsett nærri heimili þeirra, því félagið tengist þeim sterkari böndum. Á landsleikjum er ofbeldi þeirra efld af pólítískum ágreiningsmálum. Fjölmiðlar hafa verið gagnrýndir um að gefa fótboltabullum gaum og á þann veg efla ofbeldi í fótbolta. Karfaætt. Karfaætt (fræðiheiti: "Scorpaenidae" eða "Sebastidae") er ætt brynvanga sem telur mestmegnis sjávarfiska, þar á meðal nokkrar af eitruðustu fiskitegundum heims og mikilvæga nytjafiska eins og karfa. Samtals eru 68 ættkvíslir í þessari ætt og yfir 300 tegundir. Broddgeislar í uggum þessara fiska innihalda oft eiturkirtla. Sumir tala um "Scorpaenidae" (eldfiskur o.fl) og "Sebastidae" (karfi o.fl.) sem tvær aðgreindar ættir. Mark (íþróttum). Mark í íþróttum getur annars vegar verið leikmunur eða atburður. Takmarkið er að ekki sé skorað í eigið mark heldur í mark andstæðingsins. Leikmunur. Mark er leikmunur gerður úr tveimur lóðréttum stöngum sem tengdar eru saman efst með láréttri þverslá. Milli neðri enda stanganna er mörkuð lína sem nefnist marklína. Við þessar stengur eru iðulega tengd net til að varna því að boltinn fari of langt í burtu lendi hann í markinu. Atburður. Þegar boltinn fer allur yfir marklínu, milli markstangar og undir markslá, svo fremi sem enginn hafi gerst brotlegur við þær reglur sem gilda í viðkomandi íþrótt áður, er talað um að "mark hafi verið skorað". Marhnútaætt. Marhnútaætt (fræðiheiti: "Cottidae") er ætt brynvanga og telur um 300 tegundir sem flestar lifa í sjó á norðurhveli jarðar. Ættin telur fiska eins og marhnút ("Myoxocephalus scorpius") og grobba ("Cottus gobio"). Karfi. Karfi (fræðiheiti: "Sebastes") er ættkvísl fiska af karfaætt og telur um hundrað tegundir. Flestar þessara tegunda lifa í Norður-Kyrrahafi, en ein tegund lifir í Suður-Kyrrahafi og Suður-Atlantshafi, og fjórar tegundir lifa í Norður-Atlantshafi. Karfar eru mikilvægir nytjafiskar. Við Ísland finnast einkum gullkarfi, djúpkarfi og litli karfi og er oftast átt við gullkarfa þegar talað er um "karfa" á íslensku. Fullorðinn karfi lifir á ljósátu og smáfiski, svo sem loðnu og síld, og fer víða í leit að æti en fæða yngri karfa er einkum ljósáta en einnig krabbadýr og fiskiseiði. Gullkarfi. Gullkarfi (eða stóri karfi eða karfi) (fræðiheiti: "Sebastes marinus") er mikilvægur nytjafiskur af ættkvísl karfa. Hann er fósturbær og fæðir þannig lifandi afkvæmi. Fiskurinn er rauður að lit, dekkri á bakinu en á kviðnum, fremur þunnvaxinn og hár. Gullkarfi lifir í Norður-Atlantshafi og Barentshafi á landgrunninu við Norður-Ameríku, Ísland, Svalbarða og Norður-Evrópu og veiðist yfirleitt á dýpi frá 100 metrum að 500 metrum. Hann verður allt að 90 cm langur, en er algengastur um 35-40 sentímetrar. Tátuflokkur. Tátuflokkur er aldursskipting í keppni í íþrótt þar sem þátttakendur eru kvenkyns og 11 ára eða yngri, samsvarandi flokkur fyrir karlkyns þátttakendur er hnokkaflokkur. Meyjaflokkur. Meyjaflokkur er aldursskipting í keppni í íþrótt þar sem þátttakendur eru kvenkyns og 15 ára eða yngri, samsvarandi flokkur fyrir karlkyns þátttakendur er sveinaflokkur. Sveinaflokkur. Sveinaflokkur er aldursskipting í keppni í íþrótt þar sem þátttakendur eru karlkyns og 15 ára eða yngri, samsvarandi flokkur fyrir kvenkyns þátttakendur er meyjaflokkur. Hrognkelsaætt. Hrognkelsaætt (fræðiheiti: "Cyclopteridae") er ætt fiska af ættbálki brynvanga sem finnast í Norður-Íshafi, Norður-Kyrrahafi og Norður-Atlantshafi. Ættin telur 28 tegundir sem skiptast í sex ættkvíslir. Fiskar af þessari ætt eru kúlulaga og einkennast af hringlaga sogskál á kviðnum. Úr stærri tegundum þesssara fiska, eins og eiginlegum hrognkelsum ("Cyclopterus lumpus"), eru hrognin mjög eftirsótt. Hnokkaflokkur. Hnokkaflokkur er aldursskipting í keppni í íþrótt þar sem þátttakendur eru karlkyns og 11 ára eða yngri, samsvarandi flokkur fyrir kvenkyns þátttakendur er tátuflokkur. Íslandsmeistari. Íslandsmeistari er einstaklingur eða lið sem hefur unnið keppni í vissri íþróttagrein á íslandsmóti, þ.e.a.s. móti sem tekur yfir allt Ísland. Mótin geta tekið allt frá einum degi eða spannað yfir stærstan hluta ársins, allt eftir því um hvaða íþróttagrein er um að ræða eða hverjar reglurnar eru sem lúta að titlinum. Vötnin miklu. Kort af Vötnunum miklu með nöfn þeirra merkt inn á. Vötnin miklu er samheiti yfir fimm stór stöðuvötn á eða við landamæri Kanada og Bandaríkjanna. Vötnin eru stærsti hópur ferskra stöðuvatna á jörðunni og mynda stærsta ferskvatnskerfi í heimi. Á milli Húronvatns og Erievatns er sjötta vatnið, sem er hluti vatnakerfisins, en er ekki talið til stóru vatnanna vegna smæðar sinnar og heitir Lake St. Clair. Að vötnunum miklu liggja eftirtalin fylki: Ontariofylki í Kanada, og Bandaríkjamegin Minnesota, Wisconsin, Michigan, Illinois, Indiana, Ohio, Pennsylvania og New York. Í vötnunum miklu eru um það bil 35 þúsund eyjar. Þeirra á meðal eru eyjarnar Manitoulin eyja í Húronvatni, sem er stærsta eyja í stöðuvatni á jörðunni, og Isle Royale í Miklavatni, sem er stærsta eyjan í stærsta stöðuvatninu. Hvor þessara eyja um sig hefur síðan fjöldamörg stöðuvötn. Vötnin miklu eru mikilvægar samgönguæðar og fara miklir flutningar eftir þeim með skipum. Auk þess eru þau gífurlegt ferskvatnsforðabúr og hafa mikil temprandi áhrif á loftslag með því að draga úr sumarhitum og vetrarfrostum. Skynsamur gjörandi. Skynsamur gjörandi er hugtak í heimspeki og gervigreindarrannsóknum notað yfir aðila sem framkvæmir þá aðgerð sem hann telur líklegasta til árangurs að gefnum þeim forsendum (þekkingu) sem hann hefur um umhverfið. Kontrapunktur. Kontrapunktur er aðferð við að tvinna saman tvær eða fleiri laglínur svo að þær hljómi vel saman. Orðið er búið til úr latnesku setningunni "punctus contra punctum", sem þýðir bókstaflega punktur á móti punkti en punktarnir tákna nótur. Kontrapunktur varð til á endurreisnartímabilinu (aðrar gerðir fjölröddunnar voru þó þegar fyrir hendi), en náði einna mestum hæðum á barokktímabilinu með mönnum eins og Johann Sebastian Bach sem skrifaði meðal annars "Die Kunst der Fuge" sem nýtir kontrapunkt út í ystu æsar. Tónlistarform svo sem fúga og kanón eru næstum eingöngu byggð á kontrapunkti. Sykurmolarnir. Sykurmolarnir var íslensk hljómsveit, stofnuð árið 1986 í framhaldi af stofnun Smekkleysu SM. Stofnendur Sykurmolanna voru Bragi Ólafsson, Björk Guðmundsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Einar A. Melax, Friðrik Erlingsson og Sigtryggur Baldursson. Fyrsta útgáfa þeirra var smáskífa með lögunum "Ammæli" og "Köttur". Fyrsta stóra platan þeirra hét "Life's Too Good" og naut mikilla vinsælda um allan heim. Sykurmolarnir voru einnig þekktir sem The Sugarcubes. Stóru plötur þeirra voru "Life's Too Good" 1988, "Here Today, Tomorrow, Next Week! (Illur arfur, íslensk útgáfa)" 1989, og "Stick Around for Joy", 1991, auk safnplatnanna "It's It" og "The Great Crossover Potential". Hljómsveitin hætti störfum 1992. Einar Örn Benediktsson. Einar Örn Benediktsson (fæddur 29. október 1962) var einn stofnenda sjálfstæðu hljómplötuútgáfunnar Gramm árið 1981. Einar Örn var söngvari hljómsveitarinnar Purrks Pillnikk. Einar vermdi 2. sætið á lista Besta flokksins í Reykjavík í sveitastjórnarkosningunum árið 2010. Hann náði kjöri og situr því í borgarstjórn Reykjavíkur, ásamt fimm flokkssystkynum sínum. Einar Örn var söngvari í hljómsveitinni Kukl frá 1983 til 1986. Kukl gaf út "The Eye" og "Holidays in Europe". Eftir Kukl var Einar Örn einn af stofnendum Smekkleysu SM og meðlimur Sykurmolanna. Árið 2003 gaf hann út plötuna "Ghostigital" ásamt Curver og starfa þeir saman í dag sem hljómsveitin Ghostigital. Víðar (norræn goðafræði). Víðar eða Viðar (forníslenska: Víðarr eða Viðarr) er sonur Óðins (Völuspá 53) og Gríðar jötunmeyjar (Snorri), þeirrar er lánaði Þór gripina á leiðinni til Geirröðargarða. Nafnið merkir „sá sem drottnar yfir víðu ríki“; þetta ríki er nefnt Viði (Grímnismál 17), líklega af "viður" (samanber lýsinguna: „hrísi vex ok háu grasi“). Hann er nefndur „hinn þögli áss“ (Snorri), og hann á skó merkilegan, segir Snorri, er allan aldur hefur verið til safnað (það eru smábútar þeir, er skornir eru af skæðum fyrir tám og hæl; það mun því rangt, að skórinn er á öðrum stað nefndur járnskór). Hann er sterkastur næst eftir Þór (sbr. „hinn mikli mögr Sigföður“, Völuspá). Hið einasta verk hans, sem hann auðsjáanlega er skapaður til að vinna, er að hefna föður síns; hann drepur Fenrisúlf með því að stíga þeim fætinum, er skórinn er á, í neðri kjaft úlfinum, og svo rífur hann gin úlfsins sundur (Vafþrúðnismál 53), en samkvæmt Völuspá (53) rekur hann sverð sitt í hjarta úlfinum. Eftir ragnarök byggir Víðar vé goðanna sem Váli og fleiri (Vafþr. 51; sbr. „byggviáss föðurtopta“, Snorri). Víðar hefur ekki verið mikið tignaður; ef til vill finnst nafn hans í norsku staðarnafni en það er óvíst. Skrokklanga. Skrokklanga (fræðiheiti: "Molva molva") er mikilvægur nytjafiskur af þorskaætt. Heimkynni hennar eru í Norðaustur-Atlantshafi. Frægustu löngumið við Ísland eru undan suðurströndinni og við Vestmannaeyjar. Það var meðal annars ásókn Englendinga í löngu sem gerði að þeir sóttust svo mjög eftir hafnaraðstöðu í Eyjum og á sunnanverðum Reykjanesskaga á 16. og 17. öld. Stefán Aðalsteinsson. Stefán Aðalsteinsson (fæddur 30. desember 1928 á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, látinn 5. nóvember 2009) var íslenskur rithöfundur og doktor í búfjárfræðum. Hann var við nám í búvísindum við Landbúnaðarháskólann að Ási og kláraði cand. agric.-próf þaðan árið 1955. Á árunum 1966 til 1968 var hann við Háskólanum í Edinborg og skrifaði þar doktorsritgerð sína um erfðir á sauðalitum og hlaut doktorsnafnbótina árið 1969. Frá 1991 til 1996 var Stefán framkvæmdastjóri norræna búfjárgenabankans. Stefán hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2003 fyrir framlag sitt til búvísinda og erfðafræði. Tegund (líffræði). Tegund lífvera er grunneining líffræðilegrar fjölbreytni (e. biodiversity). Í vísindalegri flokkun er tegund lífvera gefið tvínefni þar sem fyrra heitið er heiti ættkvíslarinnar en það síðara til nánari aðgreiningar. Frá því þróunarkenningin kom fram á sjónarsviðið hafa hugmyndir manna um hvað afmarki tegund lífveru breyst mikið. Ekkert almennt samkomulag er þó um það hvernig beri að skilgreina tegund. Almennasta skilgreiningin er upphaflega komin frá Ernst Mayr þar sem sá hæfileiki að geta eignast frjó afkvæmi innbyrðis aðgreini tegund frá öðrum, þetta hefur verið nefnt líffræðileg tegund (e. biological species). Ýmsar aðrar skilgreiningar eru til. Það tegundahugtak sem mest hefur verið notað af flokkunarfræðingum er útlitstegund (e. morphospecies) en þá er hver tegund afmörkuð út frá útliti. Sameindafræðilegar aðferðir hafa á seinni árum aukið möguleikana á að rannsaka mörk tegunda út frá erfðabreytileika þeirra. Aveiro (borg). Aveiro er borg og bæjarfélag í norðurhluta Portúgal. Íbúar eru 73.626 og flatarmál bæjarfélagsins er 199.9 km². Coimbra. Coimbra er borg og bæjarfélag í miðhluta Portúgal, um 195 kílómetrum norður af Lissabon og 120 kílómetrum suður af Porto. Alentejo. Alentejo er eitt af fimm landsvæðum Portúgals, staðsett í miðhluta landsins. Bein þýðing nafnsins er „handan Tagus,“ enda sker Tagus áin svæðið frá öðrum hlutum landsins. Sunnan við svæðiði er Algarve héraðið, helsti ferðamannastaður landsins. Alentejo skiptist í eftirfarandi svæði: Alto Alentejo (há-Alentejo), Baixo Alentejo (lág-Alentejo), mið-Alentejo og Alentejo Litoral. Helstu borgir svæðisins eru Évora, Portalegre, Beja og Sines. Íbúafjöldi svæðisins er 776.585 (2001) og það spannar yfir 26.000 km². Alentejo er kallað „Brauðkarfa Portúgals“ vegna frjósamrar jarðar þess, enda lifir megnið af íbúunum á landbúnaði. Viseu. Viseu er borg og bæjarfélag í norðurhluta Portúgals. Eusébio. Eusébio da Silva Ferreira (fæddur 25. janúar 1942 í Lourenço Marques (nú Maputo) í Mósambík, best þekktur sem Eusébio) er þekktur portúgalskur knattspyrnumaður. Færni hans og hraði á fótboltavellinum aflaði honum hins þekkta viðurnefnis Svarti hlébarðinn. Árið 1961 gekk Eusébio til liðs við Benfica og náði strax yfirburðastöðu í liðinu, aðeins 19 ára að aldri. Eusébio var markakóngur heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu árið 1966 þegar hann skoraði 9 mörk fyrir portúgalska landsliðið. Árið 1965 var hann kjörinn Knattspyrnumaður Evrópu og 1968 var hann fyrstur til að hljóta Gullskóinn sem markakóngur Evrópu, afrek sem hann endurtók svo fimm árum síðar. Eusébio var markahæstur í portúgölsku deildinni 10 ár í röð, frá 1964 til 1973, þegar hann átti stærsta þáttinn í að gera Benfica að portúgölskum meisturum. Eusébio skoraði 727 mörk í 715 leikjum fyrir Benfica og 41 mark í 64 leikjum fyrir portúgalska landsliðið, met sem var ekki slegið fyrr en þann 12. október 2005, þegar knattspyrnumaðurinn Pauleta skoraði 42. mark sitt í landsleik Portúgals gegn Lettlandi. Árin 1975-6 lék Eusébio fyrir tvö minniháttar portúgölsk lið, Beira-Mar og União de Tomar, þar sem hann skoraði 6 mörk, auk þess að leika í þrjú ár í bandarísku deildinni. Þrátt fyrir að hafa löngu lagt skóna á hilluna hefur Eusébio lengi starfað með portúgalska landsliðinu þar sem litið er á hann sem nokkurs konar lukkudýr sem veitir liðinu andlegan stuðning. Alþjóðadómstóllinn. Alþjóðadómstóllinn (oft kenndur við Haag) "(enska: International Court of Justice (ICJ), franska: Cour internationale de justice (CIJ))" er dómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hann var settur á laggirnar árið 1946 og hefur það hlutverk að leysa úr deilumálum sem að ríki vísa til hans og einnig að gefa ráðgefandi álit vegna lögfræðilegra álitaefna sem að allsherjarþingið eða öryggisráðið leggja fyrir hann, eða þá sérhæfðar undirstofnanir sem hafa til þess samþykki allsherjarþingsins í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. er það grundvallarskjal sem að dómstóllinn byggir á og vinnur eftir, samþykktin er viðauki við stofnskrá S.þ. og því eru öll aðildarríki S.þ. aðilar að henni. Eingöngu ríki geta verið aðilar að málum fyrir dómstólnum en honum er þó gjarnan ruglað saman við alþjóðasakamáladómstólinn eða stríðsglæpadómstólana sem S.þ. hafa sett á fót sérstaklega til að taka á málum einstaklinga sem grunaðir eru um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu og Rúanda. Skipan dómsins og málsmeðferð. Dómstóllinn hefur aðsetur í Friðarhöllinni í Haag í Hollandi. Í honum sitja 15 dómarar sem valdir eru af allsherjarþinginu og öryggisráðinu af listum sem að dómaranefndir ríkja við hinn fasta gerðardóm leggja til. Dómarar eru kjörnir til 9 ára í senn og mega sitja mörg kjörtímabil, kosið er á þriggja ára fresti um þriðjung dómarasæti í hvert sinn. Aðeins má vera einn dómari af hverju þjóðerni í dómstólnum en þau ríki sem hafa fast sæti í öryggisráðinu (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland hafa ávallt haft dómara í dómstólnum þó að ekki sé kveðið á um það í samþykkt hans. Vinnumál dómstólsins eru enska og franska. Meirihluti dómara verður að vera samþykkur úrskurðum hans og mikið er um að þeir skili sérálitum hvort sem þeir eru sammála meirihlutaniðurstöðunni eða ekki. Þegar dómurinn úrskurðar í málum ber honum að líta til þjóðréttarsamninga, þjóðréttarvenja og „almennra grundvallarregla laga, viðurkenndar af siðuðum þjóðum“. Einnig getur dómurinn haft til hliðsjónar skrif fræðimanna og fyrri dómsúrskurði en dómurinn er þó ekki formlega bundinn af fyrri úrskurðum sínum. Séu málsaðilar því samþykkir getur dómurinn skorið úr um mál með tilvísan til almennra sanngirnis- og réttlætissjónarmiða ("ex aequo et bono") fremur en sérstakra laga. Dómstóllinn fæst við tvær gerðir mála, annars vegar deilumál milli ríkja sem hafa samþykkt að vísa deilunum til dómstólsins til bindandi úrskurðar og hins vegar ráðgefandi álit vegna sértækra spurninga um lagaleg atriði sem lagðar eru fyrir dóminn, yfirleitt að beiðni allsherjarþings S.þ. Ráðgefandi álit eru ekki bindandi og snerta ekki alltaf sérstök deilumál ríkja þó að það sé reyndar oft tilfellið. Lögsaga og framfylgd dóma. Dómstóllinn hefur ekki lögsögu yfir neinu ríki sem ekki hefur gengist undir hana sjálfviljugt. Þetta getur komið til þannig að ríki gera sérstakt samkomulag sín á milli um að leggja málið fyrir dómstólinn. Einnig á dómstóllinn lögsögu ef deilan snýst um þjóðréttarsamning sem kveður sérstaklega á um það að deilumálum skuli vísað til alþjóðadómstólsins en það er raunin með fjölmarga samninga, bæði tvíhliða og fjölhliða. Í þriðja lagi geta ríki sent frá sér einhliða yfirlýsingu samkvæmt 36. grein samþykktar dómstólsins um það að þau viðurkenni lögsögu hans, annaðhvort í öllum málum eða með fyrirvörum. 66 ríki hafa sent frá sér slíka yfirlýsingu, flest þeirra setja þó vissa fyrirvara við lögsöguna. Lista yfir ríkin ásamt fyrirvörum má finna. Dómstóllinn ákveður sjálfur hvort að hann hafi lögsögu ef málsaðilar koma sér ekki saman um það. Úrskurðir dómstólsins í deilum ríkja eru bindandi fyrir þau, í það minnsta að nafninu til. Dómstóllinn hefur nefnilega takmörkuð úrræði til þess að framfylgja dómum sínum yfir ríkjum ef þau gangast ekki undir þá sjálfviljug. Öryggisráðið getur í þeim aðstæðum samþykkt aðgerðir til að neyða ríki til þess að framfylgja úrskurðinum en málið vandast þegar ríkið sem dæmt hefur verið til að greiða bætur eða grípa til einhvers konar aðgerða situr sjálft í öryggisráðinu og hefur jafnvel neitunarvald þar. Eitt slíkt tilvik var mál Níkaragva á hendur Bandaríkjunum þar sem þeir síðarnefndu voru dæmdir 1984 til þess að hætta „ólöglegri valdbeitingu“ gagnvart Níkaragva og greiða bætur. Bandaríkin neituðu og drógu síðan til baka fyrri yfirlýsingu sína þar sem þeir samþykktu lögsögu dómsins. Þessi yfirburðastaða stórvelda gagnvart dómstólnum er ein helsta ástæða gagnrýni á hann. Speni (Ströndum). Speni er örnefni norður á Ströndum. Um er að ræða nafnið á stórum hól þar sem mörkin eru á milli Árneshrepps á Ströndum og Kaldrananeshrepps. Nafnið dregur hóllinn af því að hann er eins og konubrjóst í laginu, með öllu tilheyrandi. Þjóðsaga er til um hólinn Spena þar sem segir að hann hafi orðið til með þeim hætti að tröllkona hafi spyrnt fram skriðu úr fjallinu. Borg. Borg er þéttbýli sem greinist frá bæ, þorpi eða hverfi vegna stærðar, þéttleika byggðar, mikilvægis eða lagastöðu. Flestar borgir hafa miðbæjarkjarna, en sumar, eins og svefnborgir, eru að meira eða minna leyti byggðar upp sem úthverfi. Þingræði. Kort sem sýnir þingræði með appelsínugulum (lýðveldi) og rauðum (konungsríki) lit Þingræði er sú stjórnskipunarregla að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins. Það er grundvallarregla í flestum lýðræðisríkjum en í öðrum er stuðst við forsetaræði. Þingræðisreglan er ekki skráð réttarregla heldur er hún mótuð af margra alda þróun, í fyrstu aðallega á Bretlandi en fluttist síðan til annarra landa. Reglan mótaðist af baráttu þings og konungs og er samofin minnkandi völdum þjóðhöfðingjans - yfirleitt konungs - í þingræðislöndum. Þingræðisreglan var ekki fullmótuð fyrr en á 19. öld í Bretlandi. Stuðningurinn við löggjafarþingið þarf ekki að vera fólginn í beinum stuðningi meirihluta. Dæmi eru um minnihlutastjórnir sem njóta óbeins stuðnings flokks eða flokka sem verja hana vantrausti og styðja þá að jafnaði mikilvægustu mál hennar svo sem afgreiðslu fjárlaga. Ísland. Á Íslandi hefur verið þingræði frá árinu 1904 en þá komst á heimastjórn. Þingræðið var upphaflega veitt stoð í stjórnarskránni árið 1920, í henni mælti 1. gr. „Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn.“ Með lýðveldisstjórnarskránni sem sett var árið 1944 var greininni breytt og segir hún: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn”. Fá dæmi eru um minnihlutastjórnir í sögu lýðveldisins. Mjólkurkirtill. Mjólkurkirtill (eða brjóstkirtill) er, í spendýrafræði, útkirtill innkirtlakerfisins sem hefur það hlutverk að framleiða mjólk handa ungviðinu. Þeir eru í raun stórir og breyttir svitakirtlar og eru einkennandi fyrir spendýraflokkinn. Speni. Speni er í líffærafræði annað orð yfir geirvörtu, hjá nautgripum, geitum o.s.f. er það útskotið úr júgrunum sem mjólkin kemur út úr. Úranus (reikistjarna). Úranus er sjöunda reikistjarnan frá sólinni talið og einn af gasrisum sólkerfisins. Hann er þriðja stærsta reikistjarnan að þvermáli og sú næststærsta að massa. Hann er nefndur eftir Úranosi, gríska himnaguðinum og ættföður annarra guða í grískri goðafræði (hann var meðal annars afi Seifs). Fyrsta skráða skipti sem Úranus var séður var árið 1690 en nafnið fékk reikistjarnan ekki fyrr en um hundrað árum síðar. Úranus er að mestu leyti samsettur úr bergi og ýmsum gerðum af ís. Hann er ólíkur Júpíter og Satúrnusi að því leyti að vetni í samsetningu hans er einungis um 15% og hann inniheldur lítið af helíum. Úranus og Neptúnus eru að mörgu leyti samsettir eins og kjarnar Júpíters og Satúrnusar, fyrir utan hið umfangsmikla lag úr fljótandi málmkenndu vetni. Svo virðist sem Úranus hafi ekki kjarna úr bergi líkt og Júpíter og Satúrnus heldur hafi efni hans að mestu leyti áþekka eða samfellda dreifingu. Lofthjúpur Úranusar er samsettur úr 83% vetni, 15% helíum og 2% af metan. Albert Camus. Albert Camus (7. eða 8. nóvember 1913 – 4. janúar 1960) var franskur höfundur og heimspekingur, hann er oft kenndur við tilvistarstefnuna þótt svo að hafa kallað sjálfan sig fáránleikasinna. Hann var næst yngsti nóbelsverðlaunahafi fyrir bókmenntir þegar hann hlaut þau árið 1957 (áður var sá yngsti Rudyard Kipling). Hann var einnig skammlífastur af handhöfum nóbelsverðlauna fyrir bókmenntir og er það enn í dag. Æviágrip. Camus fæddist við sára fátækt í Alsír og missti hann föður sinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Með aðstoð leiðbeinanda að nafni Louis Germain komst hann í Háskóla Alsír. Hann greindist snemma með berkla og gat af þeim sökum ekki fengið að kenna eins og hann óskaði, einnig varð hann að hætta íþróttaiðkun sinni sem hann hafði stundað af kappi. Hann útskrifaðist með BA í heimspeki og því sem samsvarar M.A. í heimspeki með lokaritgerð um Plótínos. Í síðari heimsstyrjöldinni tók hann fyrst afstöðu sem friðarsinni (hann hafði ekki verið kvaddur í herinn vegna berkla), en eftir að verða vitni af aftöku Gabriel Peri, snéri hann blaðinu við og gekk í frönsku mótspyrnuna. Á stríðsárunum tók hann þátt í útgáfu áróðursrits að nafni Combat og gaf út tvær af sínum frægustu bókum, Le Mythe de Sisyphe og L'Étranger. Hann dó árið 1960 í bílárekstri nálægt Sens. Hann lét eftir sig tvíburadætur að nafni Catherine and Jean, þær eiga höfundarrétt af verkum hans enn í dag. Tenglar. Camus Camus Camus Camus Camus Camus Camus Camus Júgur. Kálfur á spena (sýgur aftanfrá). Júgur er mjólkurkirtill nautgripa og ýmissa annarra spendýra, þ.á m. geita og kinda. Annars stigs jafna. Hér á eftir verður þessum þremur leiðum lýst lauslega. Þáttun. i) formula_8; þáttast í formula_9; þættirnir leystir hvor fyrir sig: x=0 og 2x+1=0, sem gefur x=-1/2. Þar með eru fengnar tvær lausnir jöfnunnar formula_8, sem eru x=0 og x=-1/2. ii) formula_11 þáttast í formula_12 eða formula_13. Hér eru svigarnir báðir eins, svo að lausnin úr hvorum um sig er x=-3/2. Slík lausn kallast tvöföld, eins og áður sagði. iii) formula_14 gefur þáttunina formula_15. Tvöföld lausn er x=2/3. iv) formula_16 þáttast í formula_17, sem gefur lausnirnar x=-5/2 og x=5/2. v) formula_18 þáttast í formula_19 og lausnirnar verða því x=-15 og x=3. vi) formula_20 er ekki auðvelt að þátta og er því ekki gott að leysa með þessari aðferð. Fyllt í ferninginn. Dæmi vi) hér að ofan er illþáttanlegt með þeim aðferðum sem venjulega er beitt við þáttun. En þá má beita eftirfarandi aðferð, sem of kallast „að fylla í ferninginn“: Fyrst er deilt í gegnum jöfnuna með stuðlinum A, sem í þessu tilviki er 3. Við það kemur fram ný jafna, sem er þó jafngild hinni upphaflegu, vegna þess að þær hafa sama lausnamengi. Jafnan umritast í formula_21. Nú flytjum við aftasta liðinn aftur fyrir jafnaðarmerkið og fáum formula_22. Nú þarf að finna tölu, sem geri mögulegt að umrita vinstri hlið jöfnunnar í ferning (það er að segja sviga í öðru veldi). Þetta er hægt ef við leggjum ákveðna tölu við báðar hliðar jöfnunnar. Sú tala verður að vera hálfur stuðullinn við x, hafinn upp í annað veldi. Í þessu tilviki er það formula_23. Þá er komin jafnan formula_24 eða formula_25. Nú þáttast vinstri hliðin auðveldlega í annars veldis sviga (ferning) og kemur þá fram jafnan formula_26. Nú má fella niður veldið í vinstri hlið með því að draga rót í hægri hlið um leið og fæst þá formula_27, sem að lokum er leyst með því að einangra x og fást þá lausnirnar tvær, sem eru formula_28. Aðgreinirinn, D. Stærðin innan rótarmerkisins í lausnaformúlunni heitir á ensku discriminant og er þess vegna táknuð með D, sem gefur reglunni eitt af nöfnum sínum. Á íslensku heitir þessi stærð aðgreinir eða greinir. Það er vegna þess að þessi stærð aðgreinir eða greinir að þrjú möguleg tilvik við lausn annars stigs jöfnu. formula_34 getur verið jákvæð, núll eða neikvæð. Sé aðgreinirinn jákvæður (D>0), þá hefur jafnan tvær rauntölulausnir. Sé aðgreinirinn núll (D=0), þá hefur jafnan eina tvöfalda rauntölulausn. En sé aðgreinirinn neivæður (D<0), þá hefur jafnan enga rauntölulausn heldur tvær samoka tvinntölulausnir. formula_20 Hér er A=3, B=5 og C=-4. Þá er aðgreinirinn D=formula_36, sem sýnir að jafnan hefur tvær lausnir í mengi rauntalna. Lausnirnar eru formula_37 eins og áður fékkst. Þetta er þó áberandi þægilegri leið. Namíbeyðimörkin. Namíbeyðimörkin er eyðimörk í Namibíu í sunnanverðri Afríku. Hún er hluti af Namib-Naukluft-þjóðgarðinum sem er einn af stærstu þjóðgörðum Afríku. Eyðimörkin þekur 50.000 ferkílómetra svæði sem teygir sig meðfram Atlantshafsströnd Namibíu. Hún er um 1.600 km löng og 50-160 km breið staðsett að mestum hluta í Namibíu en einnig í suðvesturhluta Angóla. Talið er að hún sé elsta eyðimörk jarðarinnar, um 80 milljón ára gömul, en Benguelastraumurinn veldur hinum miklu þurrkum á þessu svæði. Meðalúrkoman á svæðinu er um 10 mm á ári. Í eyðimörkinni eru mikilvægar volfram, salt og demantanámur. Veður. Samverkun vatnsmikils sjávarlofts og hinu þurra lofti eyðimerkurinnar veldur óhemjumikilli þoku og sterkum hafstraumum sem verður til þess að skip á svæðinu villast af leið. Eyðimörkin er ásamt Beinagrindarströndinni til norðurs víðþekkt fyrir það að í henni eru fjölmörg skipbrot, sum allt að 50 metrum inni í landi þar sem eyðimörkin er hægt og rólega að stækka til vesturs. Nafnsifjar. „Namib“ þýðir risavaxinn á nama, tungumáli innfæddra hottintotta. Eyðimerkurrós. thumb Eyðimerkurrós (eða sandrós) er steind úr gifsi eða barýti blönduðum sandi sem er í rósarmynstri. Þessi kristall verður til við það að saltir og steinefnaríkir vatnspollar eða leirur á eyðimerkursvæðum þorna upp. Framandsteinn. Framandsteinn (eða hnyðlingur) er í bergfræði steinn sem verður umlukinn af öðrum stein meðan sá síðarnefndi er að myndast. Hugtakið er nær eingöngu notað um steina sem festast inni í storkubergi, en hugtakið mætti einnig nota yfir steina sem festast inni í setbergi. Lýsing. Begmolar sem hafa brotnað úr veggjum gosrása eða kvikuhólfa og borist upp með kvikunni. Molarnir eru oftast nær af annarri bergtegund en sjálf kvikan. Uppruni og útbreiðsla. Hnyðlingar eru af öllum gerðum bergtegunda. Gabbróhnyðlingar eru algengasti hér á landi en einnig hafa fundist granófýrhnyðlingar. Bergfræði. Bergfræði (eða jarðvegsfræði) er undirgrein jarðfræðinnar sem fæst við rannsóknir á bergi og þeim aðstæðum sem það myndast við. Þeir sem leggja stund á greinina kallast "bergfræðingar" (eða "jarðvegsfræðingar"). Undirgreinar bergfræðinnar eru storkubergsfræði, myndbreytingarbergsfræði og setbergsfræði. Alþjóðasteindarfræðisamtökin. Alþjóðasteindarfræðisamtökin (enska: "International Mineralogical Association", skammstöfun: "IMA") eru alþjóðasamtök sem beita sér fyrir steindafræði sem vísindagrein og að staðla fræðiheiti þeirra rúmlega 4.000 steinda sem þekktar eru. Heimdallur. Heimdallur (forníslenska: Heimdallr) er talinn sonur Óðins (samkvæmt Snorra-Eddu) og níu mæðra, er allar voru systur; svo stóð í gömlu kvæði, Heimdallargaldri, og svo segir Úlfur Uggason í Húsdrápu; og líklega er átt við hann í Völuspá hinni skömmu (7-9): „varð einn borinn / í árdaga / raummaukinn mjök / rögna kindar / níu báru þann / naddgöfgan mann / jötna meyjar / við jarðar þröm“, og svo eru þær nefndar á nafn. Uppruni. Hvernig skýra eigi þessa dularfullu tilorðningu, er alveg óvíst; freistandi væri, að tengja þessar meyjar við hinar níu dætur Ægis, og mætti þá líkja fæðingu hans við tilurð Afrodítu hjá Grikkjum, þótt ekkert slíkt komi fram í textum. En svo mikið er víst, að Heimdallur býr við jarðar þröm, þar sem himinn og jörð mætast, en utan um jörðina var hafið. Ekki er Heimdallur kvæntur og engin á hann goðbörn. Hann býr á Himinbjörgum (Grímnismál 13; við Bifröst segir Snorri); þar drekkur hann í væru ranni glaður hinn góða mjöð. Hann er nefndur „hvítastur ása“ (Þrymskviða 14; hvíti áss, Snorra-Edda), og ætti það helst að eiga við útlit hans; en líklega stendur það í sambandi við uppruna hans (hið glæja himinloft eða sævarlitinn?). Hann heitir og Gullintanni (er það dregið af sólarbjarmanum við sjóndeildarhring við uppruna sólar og sólsetur? nafnið hjá Snorra), Hallinskíði (ef til vill dregið af regnboganum; kemur fyrir hjá Glúmi Geirasyni og Snorra) og Vindhlér (= lognguð? Snorra-Edda). Sjálft nafnið Heimdallur merkir „heim-bjartur“, sá sem birtir allan heim; þetta nafn sýnir ljóst, að hann er upphaflega ekki annað en sólarguðinn sjálfur, annað nafn á Tý, sbr. orð Snorra: „hann er mikill ok heilagr“. Heimdallur er talinn mjög "víðkunnur" (Skírnismál 28), þar af verður skiljanlegt að aðalstarf hans er að vera „vörður goða“ (Grímn. 13, Lokasenna 48) - „fyrir bergrisum“. Einnig kemur fram að „hann þarf minna svefn en fugl“ (Snorra-Edda), sér jafnt nótt og dag, heyrir grasið gróa og ull á sauðum. Hefur með öðrum orðum þá bestu eiginleika, sem vörður þarf að búi yfir. Loki kallar samt þetta líf hans „ljótt“ og skopast að því að hann standi ætíð með örðugu baki, þ.e. uppréttur og hvíldarlaus, og er það gagnstætt því, sem segir í Grímnismálum. Sem önnur goð - að undanskldum Þór - á Heimdallur reiðskjóta. Hestur hans heitir Gulltoppur (Snorra-Edda), en aðalgripur hans er Gjallarhorn og er svo hvellt að heyrist í alla heima þegar í það er blásið. Horn voru upphaflega notuð til að merkjasendingar manna á milli í orustum. Höfundur Völuspár lætur í ljós, að Óðinn hafi geymt hornið hjá Mími undir Yggdrasli, líklega til þess að það gæti verið til taks, þegar mest þyrfti á því að halda fyrir ragnarök. Þá er hornið aftur á lofti og hann blæs hátt - til að kveðja til bardaga viðurbúnaðar („mjötuðr kyndisk / at enu gamla Gjallarhorni“). Þótt hann sé vörður goða á Himinbjörgum, er hann þó stundum meðal þeirra sjálfra, t.d. þegar hann gaf ráðið, að Þór skyldi fara í kvenföt og leika Freyju (Þrymskv. 14), og stendur þar; „vissi hann vel fram / sem vanir aðrir“, þetta er þó varla svo að skilja sem hann sé hér talinn vanaættar, en ráðið bendir á viturleik hans. Sömuleiðis var hann við staddur bálför Baldurs (Húsdrápa). Engar sérstakar sögur fara af Heimdalli, sem ekki var von, nema ein, og átti hann þá við Loka, en því miður er frásögnin um það mjög ófullkomin; þeirrar sögu getur í Húsdrápu. Snorri segir, að Heimdallur og Loki hafi synt í selalíkjum út til Singasteins (= hinn forni steinn? af *sinigr = gotn. sineigs = gamall?) til þess að keppa um Brísingamen, og lítur út fyrir að Heimdallur hafi náð því. Svo fékk Freyja það. Merking þessa atburðar er með öllu óviss, en Heimdallur og Loki eru mótstæðingar; er það af því að Loki er hinn svarni óvinur goða og Heimdallur vörður þeirra. Í ragnarök á Heimdallur víg við Loka og fellir hvor annan (Snorra-Edda). Um vopn Heimdallar er ekki getið nema að því leyti, að höfuð er kennt og kallað „hjör (sverð) Heimdalls“; sbr. vísu Grettis og Snorra-Eddu, Skáldskaparmál 69. kap.; en í 8. kap. í Skskm. er það öfugt, og sverðið kallað „Heimdalar höfuð“, því að „hann var lostinn mannshöfði í gögnum“ - af Loka -, og er höfuð síðan nefnt „mjötuðr (þ. e. bani) Heimdallar“. Hvorttveggja getur ekki sameinast, því að sverð Heimdallar getur ekki orðið það sverð, sem hann var drepinn með. En orðið „mjötuðr Heimdallar“ lítur ekki sérlega tortryggilega út og ólíklegt að Snorri hafi búið það til sjálfur, og eftir þessu kennir hann líka sjálfur í Háttatali. Aðrar skýringar. Heimdallur afhendir Freyju Brísingamen eftir kappsundið við Loka. Loks er það gömul skilning á Heimdalli, að hann sé upphaf allra stétta í mannfélaginu; í upphafi Völuspár eru menn nefndir „meiri ok minni megir Heimdallar“, og er frá því skýrt nánar í Rígsþulu. Heimdallur fer þar um og nefnist Rígur og kemur til þriggja hjóna, er hvert um sig merkir stétt manna og um leið stig í mentunar- og menníngarþróun mannkynsins; kvæðið er heimspekilegt hugsunarverk. Heimdallur kemur fyrst til Áa og Eddu, svo til Afa og Ömmu og loks til Föður og Móður, og er alstaðar vel tekið. Með konunum verður hann svo frumfaðir þræla, karla (þ.e. bænda almennt) og Jarls; en Jarls sonur er svo Konr ungi þ. e. konungur. Menningarstigi og útliti hverrar stéttar er lýst, og er kvæðið afarmerkilegt. Þegar Jarl var í uppvexti, kom Rígur til hans og gaf honum heiti sitt og kenndi honum rúnar (þ. e. þekkíngu á rúnum og þar með alls konar fræði); en sonur hans var honum enn fremri: „kunni rúnar / ævinrúnar / ok aldrrúnar / meir kunni hann / mönnum bjarga / eggjar deyfa / ægi lægja“ o.s.frv. Af þessu öllu sést best, hver Heimdallur í rauninni er; hann er enginn annar en Óðinn sjálfur (eða hinn æðsti guð). Það var Óðinn, sem annars var viskufrömuður goða og manna („hapta snytrir“ nefnist hann í Haustlöng), og það var hann sem eignaðist rúnaþekkínguna, sem einmitt er hér talin aðalgjöf Heimdalls. Starf Heimdalls er að þessu leyti að öllu starf Óðins. Andspænis öllu þessu stenst það illa, er Heimdallur er kallaður „heimskastur ása“ í Sögubroti af fornkonungum (frá um 1300). Jarðköttur. Jarðköttur (fræðiheiti: "Suricata suricatta") er lítið rándýr af mongúsætt. Tegundin á heimkynni sín í Kalaharíeyðimörkinni í sunnanverðri Afríku. Jarðkettir eru dagdýr sem búa í neðanjarðarbyrgjum með marga innganga sem þeir yfirgefa aðeins á daginn. Þeir eru miklar félagsverur sem búa up í allt að 40 dýra hópum. Karldýrin verða u.þ.b. 731 g og kvendýrin u.þ.b. 720 g, dýrin verða 25-35 cm að stærð auk rófunnar sem er 17-25 cm. Þekktasti jarðkötturinn er ef til vill Tímon í Tímon og Púmba tvíeykinu í teiknimyndinni Lion King. Næturdýr. Næturdýr (eða náttdýr) er dýr sem sefur á daginn og vakir á næturnar. Andstæða náttdýra eru dagdýr en einnig eru til rökkursdýr. Dagdýr. Dagdýr er dýr sem sefur á næturnar og vakir á daginn. Andstæða dagdýra eru næturdýr en einnig eru til rökkursdýr. Landbúnaðarháskólinn að Ási. Landbúnaðarháskólinn að Ási (norska: "Universitet for miljø- og biovitenskap") er norskur háskóli staðsettur í Ås sveitarfélaginu í Vestfold-fylki í Noregi. Háskólinn var stofnaður árið 1859 og hefur alla tíð sérhæft sig í náttúrufræði- og landbúnaðargreinum. Nú er einnig kenndar hefðbundnar greinar við skólann, eins og t.d. arkitektúr og verkfræði. Í skólanum eru nú um 2800 nemendur. Rökkurdýr. Rökkurdýr eru dýr sem eru aðallega virk í ljósaskiptunum. Andstæða rökkurdýra eru dagdýr og næturdýr. Fuglasöngur. Fuglasöngur er í dýratónfræði hljóð, venjulega hljómfagurt í eyrum manna sem margir fuglar af spörfuglaættbálknum gefa frá sér í þeim tilgangi að eiga samskipti við aðra fugla af sömu tegund. Dýratónfræði. Dýratónfræði er undirgrein dýrasamskiptafræðinnar og tónfræðinnar sem fæst við rannsóknir á þeim hljómfögru hljóðum sem sum dýr gefa frá sér. Þeir sem leggja stund á greinina kallast dýratónfræðingar. Dýratáknfræði. Dýratáknfræði er undirgrein dýrafræðinnar og táknfræðinnar sem fæst við rannsóknir á samskiptum dýra. Þeir sem leggja stund á greinina kallast dýratáknfræðingar. Kalaharíeyðimörkin. Kalaharíeyðimörkin er eyðimörk úr rauðum fíngerðum sandi í sunnanverðri Afríku sem nær yfir um það bil 500.000 km² svæði að mestu á hásléttu þar sem meðalhæð yfir sjávarmáli er um 900 metrar. Hún þekur 70% Botsvana og stóra hluta Simbabve, Suður-Afríku og Namibíu. Ef þurrkasvæðin umhverfis hina eiginlegu eyðimörk eru talin með verður svæðið yfir 2,5 milljón ferkílómetrar og nær að auki yfir löndin Gabon, Lýðveldið Kongó, Angóla og Sambíu. Nafnið er dregið af orðinu "Kgalagadi" í setsvana, máli tsvana sem merkir „þorstinn mikli“. Lífríki. Meðal dýra á svæðinu eru hýenur, ljón, jarðkettir, nokkrar tegundir af antílópum (þ.á m. steppuantilópa og Gemsbok-antílópa), margar tegundir fugla og skriðdýra. Plöntulíf á svæðinu samanstendur aðalleg af grösum og akasíum Hálendi. Hálendi er í landafræði fjalllendi eða háslétta. Fjallgarður. Fjallgarður er hugtak í landafræði og á við samhangandi röð fjalla, hlið við hlið eða hvert fram af öðru. Dæmi um fjallgarð er t.d. Dyngjufjöll. Purrkur Pillnikk. Purrkur Pillnikk var íslensk hljómsveit sem starfaði á árunum 1981-1982, hún var í forsvari fyrir nýja íslenska tónlist, sem spratt upp úr síðpönkbylgju áttunda áratugarins. Purrkur Pillnikk var afkastamikil hljómsveit, en hún gaf út 10 laga smáskífuna "Tilf" í apríl 1981, síðan fylgdi "Ekki enn" þá um haustið. Vorið 1982 kom út önnur stór plata þeirra, "Googooplex". "No time to think" var 4 laga smáskífa. "Maskínan" var tónleikaplata. Einnig kom hljómsveitin fram á yfir 60 tónleikum á þeim stutta tíma sem hún starfaði. Hljómsveitin kom fyrir í myndinni "Rokk í Reykjavík" eftir Friðrik Þór Friðriksson. Meðlimir Purrks Pillnikk voru: Ásgeir Bragason trommuleikari, Bragi Ólafsson bassaleikari, Einar Örn Benediktsson rödd og Friðrik Erlingsson gítarleikari. Nýlega gaf hljómsveitin Gus Gus út lagið "If You Don't Jump(You're English)" á plötunni Forever þar sem notast er við hljóðbút úr lagi sveitarinnar, "Augum úti". Skinaldin. Skinaldin er í grasafræði afsprengi plöntu sem er ekki ávöxtur en gegnir sama hlutverki og ávöxtur, þ.e. er aðlaðandi og góður til matar. Dæmi um skinaldin eru fíkja, jarðarber og kasú. Lake Superior. Lake Superior (á íslensku "Miklavatn") er stærst Vatnanna miklu í Norður-Ameríku, 82,100 km2 að stærð. Norðan vatnsins er Ontario í Kanada og Minnesota í Bandaríkjunum. Í suðri eru Bandarísku fylkin Wisconsin og Michigan. Vatnið er stærsta ferskvatn heims að flatarmáli og það þriðja stærsta að rúmmáli. Kjarnafjölskylda. Kjarnafjölskylda er fjölskylda sem samanstendur af tveimur giftum foreldrum og börnum þeirra. Fjölkvæni. Fjölkvæni er hugtak í félagsmannfræði um það þegar karlmaður á fleiri en eina konu samtímis, þegar kona á fleiri en einn karl samtímis er það kallað fjölveri. Fjölkvæni hefur viðgengist í ýmsum menningarsamfélögum um tíðina, meðal annars hjá Hebreum og Kínverjum til forna og þekktist einnig hjá Forngrikkjum. Það hefur einnig lengi þekkst meðal þjóðbálka í Afríku og Pólýnesíu. Jola-fólkið sem býr á Casamance-landsvæðinu í Senegal stundar fjölkvæni að einhverju marki. Sumar kristnar kirkjudeildir heimila fjölkvæni en flestar banna það. Algengur misskilningur á Íslandi og annnarsstaðar er að mormónar - Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu - leyfi fjölkvæni. Það tíðkaðist milli 1852 og 1890 þegar það var afnumið af kirkjunni. Þó eru klofningshópar úr Mormónakirkjunni sem stunda fjölkvæni á laun. Fjölveri. Fjölveri er í félagsmannfræði það þegar kvenmaður á fleiri en einn eiginmann samtímis, þegar karl á fleiri en eina konu samtímis er það kallað fjölkvæni. Mannfræðingar telja að algengasta form fjölveris sé þegar tveir bræður giftast sömu konunni. Fjölveri hefur lengi viðgengist í Tíbet, Nepal og meðal frumbyggja á norðurslóðum Kanada. Vitað er að það viðgekkst einnig meðal sumra þjóðbálka í Pólýnesíu áður fyrr. Í abrahamískum trúarbrögðum er bann lagt við fjölveri. Félagsmannfræði. Félagsmannfræði (eða menningarmannfræði) er undirgrein mannfræðinnar sem fæst við rannsóknir á félagsfræði mannsins, en er frábrugðin félagsfræði af því leyti að áhersla er lögð á menningu manna. Þeir sem leggja stund á greinina kallast félagsmannfræðingar. Líffræðileg mannfræði. Líffræðileg mannfræði er undirgrein mannfræðinnar sem fæst við rannsóknir á líffræði mannsins. Þeir sem leggja stund á greinina kallast líffræðilegir mannfræðingar. Táknfræði. Táknfræði er undirgrein félagsvísindanna sem fæst við rannsóknir á táknum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast táknfræðingar. Félagsvísindi. Félagsvísindi er flokkur vísindagreina sem fást við rannsóknir á samfélagi manna. Innan félagsvísinda eru þannig jafnan taldar greinar á borð við félagsfræði og mannfræði og eftir atvikum aðrar greinar eins og stjórnmálafræði, kynjafræði, sálfræði, lögfræði, viðskiptafræði, hagfræði, sagnfræði, landfræði og samskiptafræði. Stundum eru þessar síðarnefndu greinar þó taldar til annarra flokka eins og hugvísinda (t.d. sagnfræði) eða heilbrigðisvísinda (t.d. sálfræði). Félagsvísindi eru því regnhlífarhugtak yfir ýmsar greinar sem ekki teljast til náttúruvísinda og eiga það sameiginlegt að fjalla um manninn og mannleg samfélög. Upphaf félagsvísinda má rekja til félagsfræðinga 19. aldar eins og Auguste Comte, Émile Durkheim, Karl Marx og Max Weber. Saga félagsvísinda. Félagsvísindi spruttu upp úr heimspeki upplýsingarinnar (einkum siðfræði manna á borð við Jean-Jacques Rousseau og Charles Fourier) eins og hún þróaðist á 19. öld undir áhrifum frá Frönsku byltingunni og iðnbyltingunni sem hvort tveggja hafði mikil áhrif á samfélags- og stjórnmálaþróun tímabilsins. Annar fyrirrennari félagsvísinda voru rannsóknir á lýðfræði og landfræði ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í þágu stjórnsýslunnar á 18. og 19. öld. Fyrstu félagsvísindamennirnir hugðust beita vísindalegum aðferðum til að greina og leysa samfélagsvandamál í þágu framfara. Franski heimspekingurinn Auguste Comte var þannig bæði höfundur hugtaksins "sociologie" og pósitívismans. Það var þó einkum Durkheim sem gerði félagsfræði að formlegri vísindagrein, aðgreindri frá heimspeki, og skilgreindi hvað fælist í félagsfræðilegri aðferð. Fljótlega greindust félagsvísindi í tvær meginstefnur: annars vegar rannsóknir á stórum heildum með aðferðum tölfræði í anda pósitívisma Comtes og Durkheims (megindlegar rannsóknir), og hins vegar rannsóknir á félagslegum fyrirbærum með túlkun og gagnrýni í anda Webers (eigindlegar rannsóknir). Stjörnulíffræði. Stjörnulíffræði (eða útlífsfræði) er undirgrein stjörnufræðinnar og líffræðinnar sem fæst við rannsóknir á því hvort lífverur megi finna utan jarðar og ef svo er hver sé uppruni þeirra, dreifing og þróunarferli. Þeir sem leggja stund á greinina kallast "stjörnulíffræðingar" eða "útlífsfræðingar". Civilization (tölvuleikur). Civilization er nafn á röð tölvuleikja úr smiðju Sid Meier sem ganga út á það að skipuleggja menningarsamfélag og þróa það, eða m.ö.o. útbúa það svo það „standist raunir tímans“ (slagorðin á ensku eru: „Build an Empire to stand the test of Time“). Leikjaröðin er ein sú vinsælasta í röðum leikja sem ganga út á skipulagssnilli og herkænsku. Leikirnir eru fjórir en til er mikið magn aukapakka sem bæta við möguleikum við fyrri leiki (t.d. möguleikanum á netspilun, sem er reyndar innbyggður í þeim nýjasta). Jarðfræði. Jarðfræði er undirgrein jarðvísindanna sem fæst við rannsóknir á samsetningu og uppbyggingu jarðlaga, jarðsögu og þeim ferlum sem móta jörðina. Jarðfræðin skiptist í margar undirgreinar s.s. jarðlagafræði, bergfræði, steindafræði, steingervingafræði, setlagafræði, vatnajarðfræði, eldfjallafræði, jarðsögu og fleiri greinar. Þeir sem ástunda fræðigreinina nefnast jarðfræðingar. Fræðiheiti. Fræðiheiti (eða fagheiti) er heiti notað yfir eitthvað í einhverri fræðigrein. Stundum eru fræðiheiti búin til með kerfisbundnum hætti. Dæmi um slíkt nafnakerfi eru tvínefni lífvera í líffræði sem Carl von Linné gerði vinsæl. Ginseng. Ginseng (fræðiheiti: "Panax") er ættkvísl um fimm eða sex hægvaxta fjölærra plantna með matmiklum rótum, af ætt bergfléttna. Ræturnar eru þekktar fyrir að vera heilsubætandi með ýmsum hætti en hvort rótin er raunverulega heilsubætandi er umdeilt. Mengjafræði. Mengjafræði er sú grein stærðfræðinnar sem fjallar um mengi, fjölskyldur og söfn. Er grundvallargrein nútímastærðfræði. Upphafsmaður mengjafræðinnar var Georg Cantor. Höfuðtala. Höfuðtala í málfræði er tala sem hægt er að nota til að segja til um magn ("einn", "tveir", "þrír"...), en raðtölur er notaðar í röðun. Getur einnig átt við fjöldatölur mengja. Raðtala. Raðtölur eru í málfræði töluorð (nánar til tekið hrein töluorð), sem notuð er til að segja til um staðsetningu í runu eða lýsa röð viðburða ("fyrsti", "annar", "þriðji"...). Raðtölum, rituðum með tölustöfum, fylgir punktur, til dæmis "1., 2., 10". Höfuðtölur eru notaðar eru til að segja til um magn, en fjöldatala mengis segir til um fjölda staka í menginu. Augntönn. Augntönn er í tannlækningum löng oddhvöss tönn sem hefur þróast til að halda í og rífa matinn. Í flestum tegundum eru fjórar slíkar í hverju dýri, tvær í efri tanngarðinum og tvær í neðri. Augntennur eru stundum einnig nefndar vígtennur. Tennurnar milli augntannanna nefnast framtennur. Ránjaxl. Ránjaxl er í tannlækningum síðasti framjaxlinn og síðasti neðri jaxlinn í rándýrum. Kjötæta. Kjötæta er í dýrafræði dýr sem nærist á kjöti. Nærist það á kjöti af hræi kallast það hrææta. Rándýr. Rándýr eru í líffræði ættbálkur yfir 260 legkökuspendýra. Þau eru nánast öll, fyrir utan risapönduna sem er jurtaæta, kjötætur þó sumar tegundir eins og birnir og refir séu að hluta jurtaætur. Meðlimir ættbálksins hafa einkennandi lag á höfuðkúpunni og áberandi augntennur og ránjaxla. Orðanotkun. Orðið „rándýr“ er oft notað sam samheiti yfir afræningja og þá ekki endilega yfir dýr af þessum ættbálki. Hægt er að forðast tvíræðnina með því að nota hið síðara. Heródótos. Heródótos frá Halikarnassos (um 490 – 425 f.Kr.) var forngrískur sagnaritari sem ritaði um sögu Persastíðanna. Heródótos hefur bæði verið nefndur "faðir sagnfræðinnar" (af Cíceró) og "faðir lyga". Hann er gjarnan talinn fyrstur manna til að reyna að sannprófa sögulegar staðreyndir. Forverar Heródótosar voru svokallaðir "lógógrafar" sem viðuðu að sér sögulegum fróðleik af ýmsu tagi, ekki síst staðbundnum fróðleik, svo sem um sögu tiltekinnar borgar frá upphafi hennar, og gjarnan var sá fróðleikur blandaður goðsögnum. Heródótos markar tímamót að því leyti að í söguritun hans felst úrvinnsla af því tagi sem gjarnan er talin forsenda sagnfræði á síðari tímum. Heródótos leitast þannig við að tvinna saman ýmsa frásöguþræði, til að mynda atburðarás í Asíu og Evrópu, sem síðar tengjast, og greinir hann orsakir og afleiðingar í framrás sögunnar. Auk þess vann hann með heimildir á gagnrýninn hátt, enda þótt sagnfræðileg nákvæmni verks hans um Persastríðin hafi verið dregið í efa og sumir, til að mynda Þúkýdídes, vilji flokka hann með áðurnefndum "lógógröfum" fremur en sem föður sagnfræðinnar. Tönn. Tönn er hart líffæri á kjálkum margra hryggdýra. Aðaltilgangur tanna er að rífa og tyggja mat en sum dýr, sérstaklega rándýr nota þær einnig sem vopn. Tennurnar skiptast í framtennur, vígtennur og jaxla. Uppbygging. Allar tennur skiptast í "krónu" og "rót" er tannbeinið aðaluppistaða tanna. Það hefur mjúkt lag æða og tauga. Neðri hluti þess (rót tannarinnar) er þakin tannlími (eða -skorpu) og efri hluti þess (krónan) er þakin tannglerungi. Glerungur þessi hefur harðan klæðvefjarhjúp sem inniheldur mikið kalsíum og fosfór. Lögun og gerð. Krónur tanna eru ólíkar að lögun eftir tilgangi. Framtennur eru gjarnan meitillaga, vígtennur eru keilumyndaðar til að rífa og slíta á meðan jaxlar eru breiðir en að öðru leyti ólíkir milli tegunda. Þannig eru jaxlar grasbíta nokkuð sléttir en gárast með sliti (og verða sléttir aftur við háan aldur) en jaxlar kjötætna eru mjög gáróttir og misjafnir að lögun. Rætur tanna eru misjafnar. Framtennur hafa ógreinda rót en jaxlar hafa misgreindar rætur. Dæmi um þetta er að jaxlar nautgripa hafa mun greindari rætur en hrossa. Þá vaxa tennur sumra tegunda alla ævi, svo sem vígtennur svína og framtennur nagdýra. Slíkar tennur kallast "rótopnar tennur". Tannskipti og slit. Ungviði fæðist með fáar eða engar tennur en fljótlega koma "mjólkurtennur" ("barnatennur" í mönnum) upp úr tannholunum. Þessar tennur eru mun minni en fullorðinstennurnar sem seinna koma upp og ýta mjólkurtönnunum út. Tannskipti eru reglubundin innan hverrar tegundar fyrir sig svo hægt er að nota þau til að áætla aldur einstaklinga. Þannig er auðvelt að lesa aldur óskilahrossa og þess háttar. Þó verður að taka með í reikninginn tennur í dýrum sem ganga á sendnu landi slitna hraða en þeirra sem til dæmis ganga á vallendi. Þúkýdídes. Þúkýdídes (gríska: Θουκυδίδης (umritað "Thoukudídês")) (uppi um 460/455 – 400 f.Kr.) var forngrískur sagnaritari sem ritaði um sögu Pelópsskagastríðsins. Þúkýdídes ritaði á attísku sem var sú mállýska sem töluð var í Aþenu þaðan sem Þúkýdídes var. Þúkýdídes þykir fágaður höfundur og var grískur stíll hans talinn til fyrirmyndar þegar í fornöld. Hann þykir einnig vera einn áreiðanlegasti sagnaritari fornaldar. Menntun. Þúkýdídes hefur að líkindum verið menntaður af fræðurum. Þeir voru farandkennarar í Grikklandi til forna sem kenndu margvísleg efni, svo sem mælskufræði, heimspeki og stjörnufræði. Persónuleiki. Þúkýdídes var sagður vera þurr á manninn, snauður af kímnigáfu og svartsýnn. Vitað er að hann dáðist mjög að Períklesi og því valdi sem hann hafði yfir borgarbúum en líkaði illa við lýðskrumara þá sem fylgdu Períklesi. -æta. -æta er orð sem er oft notað í líffræði til að mynda önnur samsett orð til að segja til um mataræði dýra. Orðhlutafræði. Orðhlutafræði er undirgrein málvísindanna sem fæst við rannsóknir á uppbyggingu orða. Forskeyti. Forskeyti er í málvísindum orðhluti sem nefnist aðskeyti sem skeytt er fyrir framan þau morfem sem hægt er að festa við þau, forskeyti er bundið morfem. Andstæður forskeytis eru viðskeyti og innskeyti. Viðskeyti. Viðskeyti er í málvísindum aðskeyti sem sett er fyrir aftan þau myndan sem hægt er að festa við það, viðskeyti er bundið myndan. Andstæður viðskeytis eru forskeyti og innskeyti. Bundið myndan. Bundið myndan (eða bundið morfem) er í málvísindum myndan sem getur ekki staðið eitt og sér heldur þarf að vera fast við rótarmyndan, andstæða þess er frjálst myndan. Pólýbíos. Pólýbíos (grísku Πολυβιος) (um 203 – 120 f.Kr.) var grískur sagnaritari sem ritaði meðal annars um sögu Rómar frá 220 til 146 f.Kr. Meðal þeirra sem hafa verið undir áhrifum frá Pólýbíosi eru Cíceró, Montesquieu og stofnfeður Bandaríkjanna. Frjálst myndan. Frjálst myndan (eða frjálst morfem) er í málvísindum myndan sem getur ólíkt bundnu myndani staðið eitt og sér. Rót (málvísindi). Rót er í málvísindum sá hluti orðs sem ekki er hægt að brjóta niður í minni myndön. Fugl. Fuglar (fræðiheiti: "Aves") eru tvífætt hryggdýr með heitt blóð sem verpa eggjum, framlimi sem hafa ummyndast í vængi, hreistur sem hefur ummyndast í fjaðrir og hol bein. Stærð fugla nær frá örsmáum kólibrífuglum að risavöxnum strútum og emúum. Um 9000 núlifandi tegundir fugla eru þekktar, auk um hundrað útdauðra tegunda. Nýlegar rannsóknir benda til þess að fuglar séu náskyldir einum hópi risaeðla og séu því næstu afkomendur hinna útdauðu eðla. Fuglar eru innbyrðis ólíkir og nærast ýmist á blómasafa, jurtum, fræjum, skordýrum, fiski, hræjum eða öðrum fuglum. Flestir fuglar eru dagdýr, en sumir, eins og uglan, eru næturdýr eða rökkurdýr. Margar tegundir fugla eru farfuglar og ferðast eftir árstíðum langan veg milli ólíkra heimkynna meðan aðrir eyða nær öllum tíma sínum á hafi úti. Sumir geta haldist á flugi dögum saman og jafnvel sofið á flugi. Algeng einkenni fugla eru tannlaus goggur fyrir munn, egg með harðri skurn, hröð efnaskipti og létt, en sterk, beinagrind. Flestir fuglar geta flogið þótt til séu ófleygir fuglar sem hafa glatað þessum hæfileika. Ófleygir fuglar eru meðal annars strútur, mörgæs, kívífugl og hinir útdauðu dúdúfuglar og geirfuglar. Slíkir fuglar lenda í útrýmingarhættu þegar ný rándýr (gjarnan menn, eða önnur spendýr sem þeir flytja með sér), birtast í heimkynnum þeirra. Ættbálkar fugla. Þetta er listi yfir þá ættbálka sem heyra undir flokkinn "Aves". Aðskeyti. Aðskeyti er myndan sem er fast við aðra myndan t.d. rót. Gerðir aðskeyta eru forskeyti, viðskeyti, innskeyti og umskeyti. Hekatajos. Hekatajos frá Míletos (um 550-476 f.Kr.) var forngrískur sagnaritari. Hekatajos var af auðugum ættum. Hann ferðaðist víða en settist um síðir að í heimaborg sinni þar sem hann samdi rit um sögu og staðhætti þeirra staða sem hann hafði heimsótt. Hekatajos er sagður hafa verið nemandi heimspekingsins Anaxímandrosar. Hekatajos er einn fyrsti klassíski höfundurinn sem minnist á Kelta. Hekatajos frá Abderu. Hekatajos frá Abderu (eða Teos) var forngrískur sagnaritari og efahyggjumaður, sem var uppi á 4. og 3. öld f.Kr.. Hann nnam heimspeki hjá efasemdamanninum Pyrrhoni en flutti síðar til Alexandríu. Hann fylgdi Ptolemajosi I í leiðangur til Sýrlands og sigldi með honum upp Níl allt til Þebu (Díogenes Laertíos ix. 61). Hann skrifaði um ferðir sínar en þekktast rita hans var "Um Egyptana". Sagnaritarinn Díodóros frá Sikiley studdist við verk Hekatajosar. Varðveitt brot verka Hekatajosar eru birt hjá C. W. Muller (ritstj.) "Fragmenta historicorum Graecorum". Merkingarfræði. Merkingarfræði (e. "semantics", úr grísku: "sēmantiká", fleirtala af "sēmantikós") er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á merkingu. Þeir sem leggja stund á greinina kallast merkingarfræðingar. Merkingarfræðin fæst við vensl orðs og þess sem það vísar til, nánar tiltekið tengsl tákna af ýmsu tagi og þess sem táknað er. Merkingarfræði innan málvísinda er rannsókn á merkingu sem tjáð er með tungumálinu. Aðrar tegundir merkingarfræði eru merkingarfræði forritunarmála, merkingarfræði innan rökfræði og táknfræði. Myndan. Myndan (eða morfem) er í formfræði minnsta eining tungumáls sem hefur merkingu. Innskeyti. Innskeyti er í málvísindum aðskeyti sem sett inn í aðra myndan. Umskeyti. Umskeyti er í málvísindum aðskeyti sem sett í kringum aðra myndan. Samleitin þróun. Samleitin þróun er í þróunarlíffræði ferli þar sem tvær aðskildar tegundir þróa með sér svipaða eiginleika í aðskildum vistkerfum. Dæmi um þetta eru vængir skordýra, fugla og leðurblaka, augu eru annað dæmi. Samhliða þróun. Samhliða þróun er í þróunarlíffræði ferli þar sem tvær aðskildar tegundir þróa með sér svipaða eiginleika í sama vistkerfinu á sama tíma. Ósamhliða þróun. Ósamhliða þróun er í þróunarlíffræði ferli þar sem tvær aðskildar tegundir þróa með sér svipaða eiginleika í sama vistkerfinu en ekki á sama tíma. Jarðskjálftafræði. Jarðskjálftafræði eða skjálftafræði er undirgrein jarðeðlisfræðinnar sem fæst við rannsóknir á jarðskjálftum og hreyfingu bylgna í gegnum jörðina. Þeir sem leggja stund á greinina kallast jarðskjálftafræðingar eða skjálftafræðingar. Jarðskjálftamælir. Jarðskjálftamælir er í jarðskjálftafræði mælitæki notað til að mæla jarðskjálftabylgjur. Haffræði. Haffræði er undirgrein jarðvísindanna sem fæst við rannsóknir á höfum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast haffræðingar. Skýjafræði. Skýjafræði er undirgrein veðurfræðinnar sem fæst við rannsóknir á skýjum og myndun þeirra. Veðurfræðingar stunda skýjafræði. Rosslyn-kapellan. Rosslyn-kapellan.Rosslyn-kapellan er kirkja í bænum Roslin í Skotlandi frá miðöldum. Aðalsmaðurinn Sir William Sinclair (einnig stafsett St Clair), þriðji og síðasti St Clair prins Orkneyja hóf undirbúning að byggingu hennar um 1440 en 1446 er talið marka stofnun hennar. Kirkjan er skreytt af mikilli natni og má meðal annars sjá lífsferli mannsins gerð skil á veggjunum, allt til grafar. Nýlega var uppgötvað að í loftskreytingunum er að finna dulkóðaða nótnaforskrift fyrir tónlist sem virðist líkjast barnagælum. Fjölmargar goðsagnir hafa fylgt kirkjunni, nú síðast vegna skáldsögunnar Da Vinci lykillinn eftir Dan Brown. .kz. .kz er þjóðarlén Kasakstans. Sæfarinn. Sæfarinn"Sæfarinn: Ferðin kring um hnöttinn neðansjávar" (franska: "Vingt mille lieues sous les mers") er skáldsaga eftir Jules Verne. Bókin var fyrst gefin út í íslenskri þýðingu Péturs G. Guðmundssonar árið 1908 og prentuð í Prentsmiðjunni Gutenberg. Hún birtist svo 8. nóvember 2005 á Project Gutenberg, enda Útgáfurétturinn löngu útrunninn. Jóhannes Birgir Jensson sá að hluta um að búa hana í hendur Distributed Proofreaders. Bókin greinir frá ævintýrum Aronnax, Konsæls og Ned Lands þegar þeir eru teknir höndum af Núma skipstjóra og fylgja honum og áhöfn hans á kafbátnum Sæfaranum. Jules Verne. thumb Jules Gabriel Verne (8. febrúar 1828 – 24. mars 1905) var franskur rithöfundur og brautryðjandi vísindaskáldsagna. Saga hans "Leyndardómar Snæfellsjökuls" fjallar um ferð söguhetjunnar inn að miðju jarðar frá Snæfellsjökli. Tengill. Verne, Jules Skúffuregla Dirichlets. Skúffuregla Dirichlets er regla sem segir að; ef "k" hlutir eru settir í "N" skúffur, þar sem "k > N" (hlutirnir eru fleiri en skúffurnar), þarf að minnsta kosti ein skúffan að innihalda fleiri en einn hlut. Viðfang reglunnar er mikilvægt í talnafræði. Höfundur þessarrar reglu, G. Lejeune Dirichlet, notaði samlíkingu við dúfur ("k") og dúfnaholur ("N") og því er reglan kölluð „the pigeonhole principle“ á ensku (einnig þekkt sem „Dirichlet's Box Principle“). Á íslensku hefur myndast sú hefð að kalla þetta skúffureglu. Almenna skúffureglan er þannig: Ef að "k" hlutir eru settir í "N" skúffur, þá er að lágmarki til ein skúffa sem inniheldur formula_1 hluti. Óbein sönnun. Gerum ráð fyrir því að engin skúffa inniheldur meira en formula_2 hluti. Þá er heildarfjöldi hluta að hámarki þar sem að ójafnan formula_4 er notuð. Þetta leiðir til mótsagnar þar sem að um "k" hluti er að ræða. Dæmi. Í 100 manna hópi eru að lágmarki formula_5 manns sem eiga afmæli í sama mánuði. Talningarfræði. Talningarfræði er undirgrein fléttufræðinnar í stærðfræði, og snýst hún um það hvernig hægt er að telja tilfelli eða atburði. Johann Peter Gustav Lejeune Dirichlet. Johann Peter Gustav Lejeune Dirichlet Johann Peter Gustav Lejeune Dirichlet (13. febrúar 1805 nálægt Köln í Þýskalandi — 5. maí 1859) var þýskur stærðfræðingur af frönskum ættum. Hann stundaði nám í Parísarháskóla og vann seinna við Breslauháskóla og Berlínarháskóla. Árið 1855 tók hann við af Carl Frederich Gauss sem prófessor við Göttingenháskóla. Dirichlet var sagður vera fyrsti maðurinn sem náði fullkomnum tökum á Disquisitiones Arithmeticae eftir Gauss, sem kom út um 20 árum áður en að hann tók við stöðunni. Hann er sagður hafa haft eintak við hendina öllum stundum. Rannsóknir Dirichlets snérust fyrst og fremst um fléttufræði og talnafræði. Hann sannaði m.a. eitt tilvik af síðustu setningu Fermats fyrir n = 5 og að það væru til óendanlega margarar prímtölur í jafnmunarununni formula_1 þar sem að formula_2 og formula_3 eru ósamþátta. Dirichlet-röð er kennd við hann. Lífland (fyrirtæki). Lífland er íslenskt fyrirtæki sem hét áður "Mjólkurfélag Reykjavíkur". Fyrirtækið var stofnað árið 1917 og seldi þá ýmsar vörur til bænda, s.s. kjarnfóður. Árið 2005 var nafninu breytt og einnig áherslum. Lífland rekur verslun við Lyngháls, en þar eru seldar ýmsar hestavörur, garðvörur, vörur fyrir útivist og sumarhús en einnig ýmsar vörur fyrir bændur. Wi-Fi. Wi-Fi (stundum skrifað Wi-fi, WiFi, Wifi eða wifi; dregið af "Wireless Fidelity") er vörumerki nokkurra samhæfnisstaðla fyrir þráðlaus staðarnet (WLAN). Wi-Fi var ætlað að gera fjarskiptabúnaði (líkt og fartölvum) það kleift að tengjast við þráðlaus staðarnet en er nú gjarnan notað fyrir internetaðgang og VoIP-síma. Fartölvur geta einnig notað Wi-Fi og er það yfirleitt innbyggt í þær en sumar þurfa ennþá á Wi-Fi netkorti að halda. Önnur tæki, líkt og myndavélar, eru stundum búin Wi-Fi. Einstaklingur með Wi-Fi tæki getur tengt tækið inn á þráðlaust staðarnet þegar hann er nálægt einhverjum af aðgangsstöðum þess. Tengst er með útvarpsbylgjum og því þarf ekki að tengja tækið við netkerfið með snúru. Ef þráðlausa staðarnetið er tengt við internetið er sömuleiðis hægt að tengjast því með tækinu. Það landfræðilega svæði sem einn eða fleiri aðgangsstaðir þjóna kallast "heitur reitur". Drægi aðgangsstaða er mismunandi. Drægi Wi-Fi-beina í heimahúsum er alla jafna um 45 metrar innanhúss og um 90 metrar utanhúss. Boltaíþrótt. Boltaíþrótt er íþrótt spiluð með bolta. Ramsey-tala. Ramsey-talan formula_1, þar sem formula_2, er lágmarksfjöldi einstaklinga í veislu þar sem að lágmarki eru "m" pör vina eða "n" pör óvina, að því gefnu að allir í veislunni séu ýmist vinir eða óvinir. Sjá má að formula_3. Eiginleikar Ramsey-talna eru m.a. að formula_4. Ennfremur er formula_5 fyrir allar jákvæðar heiltölur formula_6. Eingöngu eru þekkt nákvæm gildi á 9 Ramsey-tölum, með formula_7. Þær eru m.a. formula_8, en ennfremur eru þekkt takmörk fyrir ýmsar Ramsey-tölur, t.a.m. formula_9. Ramsey-tölur eru nefndar eftir Frank Plumpton Ramsey, sem skilgreindi þær. Litli prinsinn. Litli prinsinn (franska: "Le Petit Prince") er bók eftir franska flugmanninn Antoine de Saint-Exupéry sem kom út árið 1943. Bókin hefur verið þýdd á fleiri en 190 tungumál og selst í yfir 80 milljónum eintaka. Hún kom út á íslensku árið 1961 í þýðingu Þórarins Björnssonar. Sagan segir frá Iitluin prinsi sem sögumaður hittir. Litli prinsinn á sér þá mikilvægu lífsreglu, að svara ekki spurningum eða gefa skýringar, hann spyr í sffellu og hann þráast við að spyrja þar til hann fær svar sem hann er ánægður með. Hann ferðast um himingeiminn, og alls staðar hittir hann fyrir einhvern eða eitthvað sem vert er að kynnast nánar. Hann hittir konung, monthana, drykkjumann, kaupsýslumann, landkönnuð og ljósamann, og loks kemiír hann til jarðarinnar. Hann dáir sólsetur, blóm og fiðrildi, hann kynnist eyðimörkinni, bergmálinu og fjallatindunum, en allan tímann er hann að leita að blóminu sem hann yfirgaf til að fara að kanna heiminn. Samtök glæpasagnahöfunda. Samtök glæpasagnahöfunda (enska: "The Crime Writers' Association") eru samtök höfunda glæpasagna sem verðlauna rithöfunda glæpasagna ár hvert með verðlaunum sem kennd eru við rýtinga. Félagar í samtökunum eru yfir 450 og rita bæði skáldsögur og sannsögulegar bækur. Gullrýtingurinn. Gullrýtingurinn eru árleg verðlaun Samtaka glæpasagnahöfunda sem verðlauna bestu skáldsöguna og bestu sannsögulega bókina í heimi glæpasagna það árið. San Francisco. San Francisco er fjórða stærsta borg Kaliforníuríkis og er á vesturströnd Bandaríkjanna. Hún liggur á milli San Francisco-flóa og Kyrrahafsins. Þar búa 744.041 manns (1. júlí 2006) en ef borgin San Jose, sem liggur þétt upp að San Francisco, er talin með búa um 7 milljónir á svæðinu og er það þá fjórða fjölmennasta svæði Bandaríkjanna. Helstu kennileiti eru Golden Gate-brúin, Alcatraz, Transamerica Pyramid-byggingin og sporvagnarnir. Lega. Borgin liggur á norðurodda San Francisco-skagans, sem myndar San Francisco-flóa. Borgarmörkin afmarkast í norðri af Golden Gate-brúnni, í vestri af Kyrrahafinu, í austri af San Francisco-flóanum og í suðri af hinum 300m háu Twin-Peaks-hólum, sem spænskir trúboðar nefndu vegna útlits síns Los Pechos de la Chola eða Brjóst Indíánastelpunnar. San Francisco er einnig þekkt fyrir samtals 42 hæðir sínar, sem eru allt að 30m háar. Þær eru gjarnan mjög brattar og eru ástæða þess að sporvagnakerfi var tekið í notkun í borginni árið 1873. Borgin er ein mikilvægasta hafnarborg vesturstrandar Bandaríkjanna, aðallega vegna mjög góðra náttúrulegra hafnaraðstæðna. Í og við flóann er að finna eyjarnar Treasure Island, Farallon Island að ógleymdri fyrrum fangaeyjunni Alcatraz, sem nú hýsir safn. Jarðfræði. Sökum nálægðar borgarinnar við San Andreas misgengið eru jarðskjálftar tíðir. Sá stærsti kom 18. apríl 1906 og var 7,8 á Richter. Honum fylgdu miklir brunar og eyðilagðist stærsti hluti San Francisco. Árið 1989 kom Loma-Prieta jarðskjálftinn, sem er síðasti stóri skjálftinn á svæðinu. Hann var 7,1 á Richter og fylgdu honum miklar skemmdir á mannvirkjum, sérstaklega á samgöngumannvirkjum. Loftslag. Lega borgarinnar við Kyrrahafið hefur talsverð áhrif á loftstlagið, sem líkist annars mjög miðjarðarhafsloftslagi. Veðrið er milt allt árið um kring með svölum, nær úrkomulausum sumrum og hlýjum vetrum. Dagshitinn að sumarlagi er yfirleitt milli 15 og 25 gráður á celsius, en yfir veturinn frystir sjaldan. Sumarhitinn er þónokkuð lægri en annars staðar í Kaliforníu. Hlýjasti mánuðurinn er september og mesta úrkoman er milli nóvembers og mars. San Francisco er þekkt fyrir þoku sem kemur á morgnanna inn frá hafinu. Byggð Indjána og fyrstu Evrópubúarnir. Upprunalega var San Francisco-flói byggður af Muwekma Ohlone Indjánum, sem var nær útrýmt á 19. öld. Á 16. öld sendu Spánverjar tvo leiðangra í norður eftir vesturströnd Ameríku. Hernan Cortés uppgötvaði Kaliforníu-skaga og kannaði Juan Rodriguez Cabrillo hann 10 árum seinna. Þótt margir aðrir landkönnuðir hafi á 16. öld farið um Kaliforníu (t.d. Sir Francis Drake) fannst San Francisco flói ekki fyrr en árið 1775, líklega vegna tíðrar þoku sem umlykur flóann. 1776 hófst landnám Evrópumanna á því landsvæði þar sem borgin stendur nú. Spænskir hermenn og trúboðar stofnuðu kirkjuna "Mission Dolores" 29. júní það ár við lón sem þeir nefndu "Nuestra Senora de los Dolores", þar sem nú er Presidio (virki) við Golden Gate. Trúboðanir nefndu borgina till heiðurs heilögum Frans af Assisi og hét borgin þá "San Francisco de Asís", sem síðar varð "Saint Francis" og enn seinn aftur "San Francisco". Frá 19. öld til okkar tíma. Eftir stríð Bandaríkjanna við Mexíkó varð borgin bandarísk árið 1848. Gullaldartímabil borgarinnar hófst án efa með gullæðinu í Kaliforníu 1848 og dregur Golden Gate nafn sitt af þessu tímabili. Íbúatalan óx frá um 900 upp í yfir 20.000 á örfáum árum. Mörgum lá svo á að komast í land að þeir skildu báta sína í höfninni sem fylltist fljótlega. Fljótt fór að bera á skorti á landrými og brugðu men þá á það ráð að gera landfyllingar út í höfnina, og stendur hluti miðbæjarins enn þann dag í dag á þessari landfyllingu. Á þessum tíma þróaðist borgin einnig í miðpunkt viðskipta í Kaliforníu. Bæði bankar (t.d. Wells Fargo) voru stofnaðir sem og mörg nafntoguð fyrirtæki eins og Levi Strauss & Co. og Ghirardelli Chocolate Company. Að morgni 18. apríl 1906 skók jarðskjálfti borgina. Jarðskjálftinn og bruninn sem fylgdi í kjölfarið eyðilögðu borgina að stærstum hluta. Talið er að um 700 hafi látist en sumir telja töluna þrisvar eða fjórum sinnum hærri. Bygging trúboðanna skemmdist ekkert og er hún því elsta bygging svæðisins í dag. Árið 1939 var heimssýningin haldin á Treasure Island undir yfirskriftinni "Golden Gate International Exposition". Eyjan er landfylling og var sérstaklega búin til við hlið Yerba Buena-eyju fyrir heimssýninguna. 1945 var haldin eftirstríðsráðstefna í San Francisco, sem samdi Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Á sjöunda áratugi 20. aldar varð borgin að miðdepli bandarísku 68-hreyfingarinnar. Hippar fögnuðu sumarið 1967, "Summer of Love", í borginni. Hljómsveitir á borð við Grateful Dead, Jefferson Airplane og Janis Joplin höfðu mikil áhrif á rokktónlist um allan heim. Lag með Scott McKenzies "San Francisco (Be Sure to Wear Some Flowers In Your Hair)" varð að einkennislagi borgarinnar og komst á topp vinsældarlista um allan heim. Á áttunda áratugnum byrjuðu samkynhneigðir að flytja í borgina í stórum stíl, sérstaklega í Castro hverfið. Borgin hefur verið kölluð helsta borg samkynhneigðra í Bandaríkjunum og hafa samkynhneigðir á síðustu árum haft mikil áhrif á borgarpólitíkina. Í lok 20. aldar varð borgin og nærliggjandi Silicon Valley að brennidepli tölvuvæðingar og internetbyltingar og fluttust mörg hugbúnaðarfyrirtæki, athafnamenn og markaðsfræðingar til San Francisco og höfðu mikil áhrif í viðskiptalífi borgarinnar. Mörg verkamannahverfi breyttust í hátískuhverfi og fasteignaverð rauk upp á þessum tíma. Lýðfræði. San Francisco er ein þéttbyggðasta borg Bandaríkjanna. Hvítir eru 50% íbúa, 31% asískir, 14% af rómönskum uppruna og 8% af afrískum uppruna. Öfugt við flest önnur samfélög búa fleiri menn en konur í San Francisco og er hlutfallið 103,1 á móti 100. Menning, daglegt líf og kennileiti. San Francisco er enn í fremstu röð þegar kemur að bandarískri samtímamenningu. Kennileiti. Frægasta kennileiti borgarinnar er án efa Golden Gate-brúin sem áður segir. Einnig er Transamerica Pyramid skrifstofubyggingin þekkt merki. Elsta byggingin er "Mission Dolores" og var reist 1776 af Spánverjum. Fjöldi almenningsgarða er í borginni, m.a. "Golden Gate Park", Yerba Buena Park" og "Buena Vista Park", en sá síðastnefndi er elsti garðurinn eða frá 1867. Íþróttir. San Francisco séð frá Twin Peaks. San Francisco er heimabær þriggja bandarískra stórliða Háskólar. San Francisco hefur fjölda háskóla og eru þeirra frægastir Fyrirtæki í San Francisco. Í San Francisco eru ýmsar höfuðstöðvar stórfyrirtækja. Helst ber að nefna VISA greiðslukortafyrirtækið, GAP fatakeðjuna, Levi Strauss & Co. gallabuxnafyrirtækið, Walls Fargo Bank og Industrial Light and Magic fyrirtæki George Lucas, en það fyrirtæki útbýr tæknibrellur í myndum á borð við Harry Potter og Star Wars. Önnur fyrirtæki eru CNET, LucasArts og Bechtel Corporation. Fyrirtæki sem eru nálægt San Francisco en tæknilega utan borgarmarkanna eru m.a. Hewlett Packard, Intel og Yahoo!. San Francisco er einnig mjög mikilvæg fjármálaborg í Kaliforníu. Í lok 20. aldar fluttust mörg hugbúnaðarfyrirtæki til San Francisco og upplifði borgin mikinn vöxt við það. Alcatraz. Alcatraz (eða Alkatraseyja) (enska: "Alcatraz Island") er eyja í San Francisco flóa í San Francisco í Bandaríkjunum. Hún var áður notuð sem virki af hernum og sem hámarksöryggisfangelsi en er núna í umsjá National Park Service sem hluti af Golden Gate National Recreation Area og er opin fyrir ferðamenn. Nafn eyjunnar er komið af arabíska orðinu fyrir fuglategundina súlu í gegnum spænsku. Á eyjunni er elsti viti á vesturströnd Bandaríkjanna. Hópíþrótt. Hópíþrótt er íþrótt sem er stunduð af hópi fólks sem myndar lið þar sem liðsmenn vinna saman að ákveðnu markmiði. Andstæða hópíþróttar er einstaklingsíþrótt. Reikistjörnufræði. Reikistjörnufræði (eða plánetufræði) er undirgrein náttúruvísindanna sem fæst við rannsóknir á reikistjörnum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast reikistjörnufræðingar. Sigurrós. Sigurrós er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er samsett úr orðunum sigur og rós. Lághitaeldstöð. a> blettirnir eru merki up lághitaeldstöðvar Lághitaeldstöð er hugtak úr eldfjallafræði og reikistjörnufræði um eldstöð sem gýs ekki kviku heldur rokgjörnum efnum eins og vatni, ammóníaki eða metani sem kallast lághitakvika. Slík eldstöð gýs yfirleitt efni í vökvaformi en það getur líka verið í gufuformi, þegar það kemur upp á yfirborðið frýs það svo í lághita umhverfisins. Lághitaeldstöðvar finnast ekki á jörðinni heldur á sumum köldum ístunglum í ytri hluta sólkerfisins, slík eldstöð var fyrst uppgvötuð sumarið 1989 af Voyager 2 geimfari Geimferðarstofnunar Bandaríkjanna á stærsta tungli Neptúnusar, Tríton, en síðan þá hafa fundist óbeinar sannanir um lághitaeldstöðvar á tveimur tunglum Júpíters, Evrópu og Ganymedes og einu tungli Satúrnusar, Encleades. Cassini-Huygens-farið hefur þar að auki fundið lághitaeldstöð sem gýs metani á stærsta tungli Satúrnusar, Títan. David Lewis. David Kellogg Lewis (28. september 1941 – 14. október 2001) er talinn meðal fremstu rökgreiningarheimspekinga á síðari hluta 20. aldar. Lewis fæddist í Bandaríkjunum og kenndi þar heimspeki (við UCLA og síðan Princeton) en var einnig tengdur heimspekisamfélaginu í Ástralíu sem hann heimsótti nær árlega í yfir þrjátíu ár. Hann er frægastur fyrir hluthyggju um hætti sína en einnig fyrir brautryðjendastarf sitt í málspeki, hugspeki, frumspeki, þekkingarfræði og heimspekilegri rökfræði. Æviágrip. Lewis fæddist í Oberlin í Ohio í Bandaríkjunum. Faðir hans var prófessor í stjórnsýslufræðum við Oberlin College og móðir hans var þekktur sagnfræðingur. Hann varð kunnur af gríðarmiklum gáfum sínum sem voru sagðar næstum ógnvekjandi. Þessa varð þegar vart á menntaskólaárum hans í Oberlin High School er hann sótti námskeið á háskólastigi í efnafræði. Lewis hélt til Swarthmore College í háskólanám og varði ári við Oxford University (1959-1960). Þar kenndi honum Iris Murdoch og hann sótti fyrirlestra hjá Gilbert Ryle, H.P. Grice, P.F. Strawson og J.L. Austin. Þetta ár í Oxford reyndist hafa haft mikilvæg áhrif á hann er hann ákvað að leggja fyrir sig heimspekina og var snar þáttur í mótun hans sem rökgreiningarheimspekingsins sem hann var allt til æviloka. Lewis hélt til Harvard í framhaldsnám þar sem hann nam undir handleiðslu W.V.O. Quine. Hann hlaut þaðan doktorsgráðu í heimspeki árið 1967. Á árunum við Harvard mynduðust fyrst tengsl hans við Ástralíu þegar hann sótti tíma hjá ástralska heimspekingnum J.J.C. Smart. „Ég kenndi Lewis“ á Smart að hafa sagt, „eða öllu heldur kenndi hann mér.“ Heimspeki Lewis. Meðal mikilvægustu verka Lewis eru: "Convention" (1969), þar sem Lewis notaðist við hugtök úr leikjafræði til að greina eðli málvenja; "Counterfactuals" (1973), sem olli straumhvörfum í heimi heimspekinnar með nýstárlegri greiningu á óraunverulegum skilyrðissamböndum í ljósi kenningar um mögulega heima; og "On the Plurality of Worlds" (1986), þar sem Lewis setti fram og varði hluthyggju um hætti (Lewis var þá þegar farinn að sjá eftir að hafa nefnt kenningu sína svo en heitið festist við kenninguna) en kenninguna setti hann fyrst fram í "Counterfactuals"; í síðustu bók sinni, "Parts of Classes" (1991), reyndi Lewis að smætta mengjafræði í hlutafræði. Lewis gaf einnig út fimm greinasöfn með greinum sem fjölluðu um margvísleg efni innan heimspekinnar. Lewis var mjög sykursjúkur maður mestalla ævina; ástandi hans hrakaði og leiddi að lokum til nýrnabilunar. Í júlí 2000 var grætt í hann nýtt nýra úr eiginkonu hans, Stephanie. Nýrnagjöfin gerði honum kleift að vinna og ferðast í eitt ár enn, áður en hann lést skyndilega og óvænt vegna frekari afleiðinga af sykursýki sinni þann 14. október, 2001. Heimild. Lewis, David Lewis, David Málspeki. Málspeki er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um tungumálið. Málspekin fæst aðallega við eðli merkingar, tilvísunar, málnotkunar, máltöku, skilnings, túlkunar þýðingar og sannleika og samskipta. Málspekingar láta sig ekki merkingu einstakra orða og setninga varða nema að óverulegu leyti og á óbeinan hátt. Næsta orðabók leysir þann vanda. Málspekingar hafa öllu heldur áhuga á spurningunni hvað það merki að setning merki eitthvað. Hvers vegna merkja setningar það sem þær merkja? Hvaða setningar hafa sömu merkingu og aðrar setningar og "hvers vegna"? Hvernig er hægt að þekkja þessa merkingu? Og ef til vill er einfaldasta spurningin „Hvað merkir orðið ‚merking‘?“ Heimspekingar velta einnig mikið fyrir sér tengslunum á milli merkingar og sannleika. Þeir hafa sjaldnast áhuga á að vita hvaða setningar eru "í raun" sannar, heldur vilja þeir fremur komast að raun um hvers konar merkingarberar geti verið sannir eða ósannir. Jóhannes. Jóhannes er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er upphaflega hebreskt, יְהוֹחָנַן (umritað: Yehôḥānān) sem þýðir „Guð er náðugur“. Þaðan færðist nafnið yfir í grísku sem "Ιωάννης" ("Ioannes") og þaðan í latínu sem "Johannes". Skákbox. Skákbox er einstaklingsíþrótt sem sameinar skák og hnefaleika (box). Íþróttin var búin til af hollenska listamanninum Iepe Rubingh og kom fyrst fyrir almenningsjónir í september 2003 á listasýningu í Berlín. Hver leikur er 11 lotur, 6 þeirra eru skák og 5 þeirra hnefaleikar. Hver skáklota tekur 4 mínútur, hver boxlota tekur 2 mínútur. Keppendur hafa 12 mínútur á skákklukkunni. Ef skákinni lauk með jafntefli þá sigrar sá sem hlaut fleiri stig í hnefaleikalotunum. Ef enn er jafnt, þá er þeim sem lék svartan í skákinni dæmdur sigur. Talnamengi. Talnamengi er mengi talna. Hér verður fjallað um nokkur sérstök talnamengi sem flokkuð eru eftir eiginleikum talnanna sem í þeim eru. Einstaklingsíþrótt. Einstaklingsíþrótt er íþrótt sem iðkuð er af tveimur einstaklingum sem vinna á móti hvorum öðrum eða af einum einstaklingi. Andstæða einstaklingsíþróttar er hópíþrótt. Bragi Ásgeirsson. Bragi Ásgeirsson (fæddur 1931) er grafíklistamaður, listmálari og myndlistakennari. Þar að auki var hann um árabil gagnrýnandi á "Morgunblaðinu". Bragi fékk riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001 fyrir „störf í þágu lista og menningar.“ Menntun. Bragi nam við Handíða- og myndlistarskólann á árunum 1947 til 1950. Að náminu loknu hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Listaháskólinn í Kaupmannahöfn frá 1950 til 1952 og frá 1955 til 1956. Frá 1952 til 1953 stundaði Bragi nám við Listaháskólann í Osló í Noregi og við Listiðnaðarskólinn. Hann dvaldi í Róm og Flórens frá 1953 til 1954 og var meðlimur í Associazione Artistica Internazionale í Róm. Bragi nam við Listaháskólann í München í Þýskalandi frá 1958 til 1960. Hann hefur farið í námsferðir víða í Evrópu, til Bandaríkjanna, Kananda, Kína og Japans. Starfsferill. Bragi kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1956 til 1996. Upphaflega kenndi hann grafík og var að því leyti brautryðjandi á Íslandi. Hann var listrýnir og greinahöfundur við "Morgunblaðið" frá 1966. Bagi hefur hlotið dvalar- og námsstyrki frá öllum Norðurlöndunum, m.a. Edvard Munch styrkinn árið 1977. Hann var styrkþegi DAAD Sambandslýðveldisins í Vestur-Þýskalands frá 1958 til 1960. Bragi hlaut starfstyrk íslenska ríkisins 1978-1979 og var borgalistamaður Reykjavíkur 1981-1988. Hann hlaut medalíu Eystrasaltsvikunnar/Pablo Neruda friðarpeninginn á tvíæringnum í Rostock 1978. Bragi hefur verið heiðursfélagi í félaginu Íslenzk grafík frá 1983. Fyrsta einkasýning Braga var í Listamannaskálanum við Kirkjustræti árið 1955. Hann sýndi þar einnig árin 1960 og 1966. Bragi hefur gert veggskreytingar í Hrafnistu og Þelamerkurskóla og myndlýst kvæðið Áfangar eftir Jón Helgason. Hann hefur haldið fimm einkasýningar í Norræna húsinu og fjölda minni sýninga í Reykjavík og úti á landi. Hann hélt einkasýningu í Kaupmannahöfn árið 1956. Bragi hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og um öll Norðurlönd og víðs vegar annars staðar í Evrópu, í tíu fylkjum Bandaríkjanna, í Rússlandi, Japan og Kína. Hann tók þrisvar þátt í tvíæringnum í Rostock og einu sinni Evróputvíæringnum (1988). Hann hélt sýningu á 366 myndverkum, Heimur augans, í öllum sölum Kjarvalsstaða 1980. Bragi sat í sýningarnefnd Félags íslenzkra myndlistarmanna frá 1969 til 1972 og var formaður hennar í tvö ár, frá 1971 til 1973. Hann var fulltrúi í alþjóðlegri nefnd varðandi Biennalinn í Rostock frá 1967 til 1981 og var heiðursgestur 1981. Honum var veitt heiðursskjal fyrir grafík í Kraká í Póllandi árið 1968. Hann hlaut bjartsýnisverðlaun Brøste árið 1982. Myndir eftir Braga eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns ASÍ, Listasafns Kópavogs, Listasafns Borgarness, Listasafns Selfoss, Listasafns Siglufjarðar, Listasafns Colby College í Maine og Norður-Þýska listasafnins, Listasafns Rostock, Listasafns Alþingis, og eru í eigu margra banka, opinberra stofnanna og einkasafna á Íslandi og víðar. Ritstörf. Bragi hefur skrifað fjölda greina um íslenska list í íslensk og erlend blöð og rit. Ritsmíð í sérútgáfu um Albrecht Dürer kom út 1973. Ritsmíð um þýska núlistamannin Mario Reis kom út 1979. Hann var ritstjóri fyrir hönd Íslands við N.K.F. blaðið frá 1974 til 1976. Bragi hefur birt grein um íslenska myndlist frá landnámsöld til nútímans í kynningarriti um Ísland (Anders Nyborg/ Loftleiðir) sem kom út 1974. Grafík. Grafík (eða svartlist) er heiti á tækni í myndlist, sem felst í að grafa eða æta mynd á plötu, sem notuð er til að þrykkja með prentlitum mynd á pappír, silki eða annað efni. Grafískar vinnuaðferðir eru flokkaðar eftir eðli aðferðarinnar sem unnin er í viðkomandi plötu eða flöt. Orðið "grafík" er grískt að uppruna og merkir að skrifa eða teikna. Jóhann. Jóhann er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er stytting á Jóhannes. Jón (mannsnafn). Jón er íslenskt karlmannsnafn, nafnið er stytting á Jóhannes. Jónatan. Jónatan er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er af hebreskum uppruna, יונתן Yônāṯān, sem þýðir „Gjöf guðs“. Jóhanna. Jóhanna er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er kvengerð stytting á Jóhannes. Jóna. Jóna er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er kvengerð stytting á Jóhannes. Þórunn. Þórunn er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er samsett af forliðnum Þór (samanber þrumuguðinn Þór), og viðliðnum „unn“ í merkingunni að unna. Nafnið þýðir því „sú sem ann Þór“. Tvíliðuregla. formula_1. Þar sem að samantektarfallið formula_2 kemur fyrir. Þekktasta hagnýting reglunnar er formula_3 og einnig kannast margir við formula_4. Reglan hefur mikið gildi í líkindafræði. Íslensk sveitarfélög eftir flatarmáli. Að neðan gefur að líta lista yfir sveitarfélög Íslands í röð eftir flatarmáli þeirra. Sjá einnig íslensk sveitarfélög eftir mannfjölda. Listi yfir íslensk eiginnöfn karlmanna. Heimild. eiginnöfn karlmanna íslensk eiginnöfn karlmanna Listi yfir íslensk eiginnöfn kvenmanna. Heimild. eiginnöfn kvenna íslensk eiginnöfn kvenmanna Amman. thumb Amman (arabíska: عمان) er höfuðborg konungsríkisins Jórdaníu. Íbúafjöldi borgarinnar var 1,6 milljónir árið 2000. Borgin var kölluð "Rabat Ammon" ("Rabba" í "Fimmtu Mósebók" 3:11) af Ammonítum. Ptolemajos II Fíladelfos, konungur Egyptalands nefndi hana síðar Fíladelfíu. 1921 valdi Abdúlla I Jórdaníukonungur hana sem stjórnarsetur furstadæmisins Transjórdaníu. Magnús. Magnús er íslenskt karlmannsnafn, en þekkist einnig á hinum Norðurlöndunum og víðar sem Magnus. Nafnið er komið beint úr latínu, "magnus", sem er karlkyns lýsingarorð í frumstigi og þýðir mikill eða stór. Það var stundum notað sem viðurnefni meðal Rómverja, t.d. var Gnaius Pompeius nefndur Pompeius magnus eða Pompeius mikli. Karl mikli keisari á 9. öld var nefndur Carolus magnus (Karlamagnús á Íslandi), en síðar var farið að nota "magnus" sem nafnið Magnús. Þetta nafn hefur alla tíð notið vinsælda á Íslandi frá því að það kom fyrst fram á 11. öld, en notkun þess hefur þó mjög farið minnkandi á síðustu áratugum. Tengd nöfn. Nöfn sem dregin eru af sama stofni eru til dæmis Magni og Magnea. Birgir. Birgir er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er dregið af sögnunum að birgja, - að bjarga, nafnið þýðir því bjargvættur eða áreiðanlegur. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Birgis væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá en var því hafnað þann 18. desember 2001 sökum þess að samkvæmt 3. málsgrein 8. greinar laga númer 45/1996 um mannanöfn skulu föðurnöfn mynduð þannig að nafn föður kemur í eignarfalli að viðbættu dóttir, ef kvenmaður er. Með vísan til þessa er ekki unnt að verða við beiðni um kenninafnið Birgis. Sjá einnig mannanöfnum hafnað af Mannanafnanefnd. Ptólemajos 2.. Peningur sem sýnir Ptolemajos II (nær) ásamt systur sinni og eiginkonu Arsinoe II (fjær). Ptolemajos II Fíladelfos (309 – 246 f.Kr.) var annar konungur Ptolemajaríkisins í Egyptalandi og ríkti frá 283 f.Kr. og fram á dauðadag. Talið er að hann hafi hugsanlega átt þátt í uppbyggingu Bókasafnsins í Alexandríu. Ólafsfjörður. Ólafsfjarðarbær (til 2006), áður Þóroddsstaðahreppur Ólafsfjörður er bær við samnefndan fjörð utarlega á Tröllaskaga í sveitarfélaginu Fjallabyggð. Bærinn byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi en landbúnaður er stundaður í dalnum þar inn af. Þann 1. janúar 2008 voru íbúar Ólafsfjarðar 881 samkvæmt Hagstofu Íslands. Þéttbýli fór að myndast í Ólafsfjarðarhorni undir lok 19. aldar og varð það að löggiltum verslunarstað 20. október 1905. Árið 1917 var nafni hreppsins breytt í Ólafsfjarðarhrepp, en fram til þess hafði hann heitið Þóroddsstaðahreppur, eftir bænum Þóroddsstöðum sem er í miðri sveit. Kaupstaðarréttindi fékk Ólafsfjörður árið 1945. Í janúar 2006 samþykktu Ólafsfirðingar og Siglfirðingar að sameina bæina tvo í eitt sveitarfélag. Sameiningin gekk í gildi 11. júní 2006 að afloknum sveitarstjórnarkosningum 27. maí. Í kosningu um nýtt nafn sem fór fram samhliða varð tillagan "Fjallabyggð" ofaná. Heilsársvegir að Ólafsfirði liggja annars vegar frá Dalvík í gegnum Múlagöng, en til vesturs liggur vegur frá Ólafsfirði yfir Lágheiði yfir í Fljót sem oft er ófær á veturna. Árið 2010 komst síðan á heilsársvegtenging við Siglufjörð með Héðinsfjarðargöngum sem voru vígð 2. október. Sveitarfélagið Ölfus. Sveitarfélagið Ölfus (áður Ölfushreppur) er sveitarfélag í Árnessýslu. Það teygir sig frá vestanverðu Ingólfsfjalli, niður Ölfus meðfram Ölfusá vestur í Selvog. Þéttbýliskjarnar eru tveir, Þorlákshöfn og Árbæjarhverfi rétt utan Selfoss. Landið er mýrlent við Ölfusá en þurrlendara nær fjöllum. Ölfus nær að endamörkum Árnessýslu, rétt vestan Kolviðarhóls. Gvæjanahálendið. Gvæjanahálendið er hálendi við norðurströnd Suður-Ameríku og liggur undir löndunum Gvæjana, Súrinam og Frönsku Gvæjana auk hluta Kólumbíu, Venesúela og Brasilíu. Þar er stærsti ósnortni hitabeltisregnskógur heims. Grímsey. Grímsey er eyja 40 km norður af Íslandi. Þar er lítið þorp sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi og er nyrsta mannabyggð Íslands. Norðurheimskautsbaugurinn gengur í gegnum eyjuna norðanverða. Eyjan er 5.3 ferkílómetrar og maxalt er 105 metrar. Samgöngur við eyjuna byggjast á reglulegum ferjusiglingum frá Dalvík og flugi frá Akureyri. Í eynni hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð frá 2005. 25. apríl 2009 fór fram kosning á Akureyri og í Grímsey um hvort sveitarfélögin tvö ættu að sameinast og var það samþykkt með meirihluta atkvæða á báðum stöðum. Um 100 manns búa á eyjunni. Árið 1793. Þetta ár munaði litlu, að Grímsey legðist í auðn. Þá gekk í eynni taksótt, sem drap marga fullorðna karlmenn. Var sagt, að aðeins 6 fullfærir karlar væru þar eftir, og voru þeir sendir á báti til meginlandsins til að sækja aukinn liðsafla fyrir eyjarskeggja. En á leiðinni til lands fórst báturinn með öllum mönnunum svo að ekki var annað fullfærra karlmanna eftir í Grímsey en sóknarpresturinn einn. Dalvíkurbyggð. Dalvíkurbyggð er sveitarfélag við utanverðan Eyjafjörð sem varð til við sameiningu Dalvíkurkaupstaðar, Svarfaðardalshrepps og Árskógshrepps árið 1998. Hreppamörkin liggja um Ólafsfjarðarmúla og á vatnaskilum inn Svarfaðardal, inn á Heljardalsheiði, fyrir botn Skíðadals og út með dalnum að austan allt að Dýjafjallshnjúk. Þar sveigja mörkin til austurs og fara yfir suðurenda Þorvaldsdals, út með honum að austan og ná til strandar innan við Rauðuvík. Í sveitarfélaginu er stundaður nokkur landbúnaður í Svarfaðardal og á Árskógsströnd en þéttbýlið við ströndina byggir mest á sjávarútvegi. Helstu þéttbýlisstaðir: Dalvík, Litli-Árskógssandur og Hauganes. Auk þess er lítið íbúðarhúsahverfi í Laugahlíð í Svarfaðardal. Íbúafjöldi í Dalvíkurbyggð 1. desember 2008 var 1.942 manns. Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar er valinn árlega af Íþrótta- og æskulýðsráði Dalvíkurbyggðar. Gráða (horn). Ein gráða merkt á hring sem er samtals 360 gráður. Gráða, bogagraáða eða horngráða er hornmælieining, sem skilgreind er sem hluti úr heilum hring, táknuð með °. Nýgráða er skilgreind sem úr hring, en er þrátt fyrir það mun sjaldnar notuð. Arnarneshreppur. thumb Arnarneshreppur (hét áður Hvammshreppur) var hreppur vestan megin í Eyjafirði sem sameinaðist Hörgárbyggð undir nafninu Hörgársveit árið 2010. Hreppurinn var kenndur við bæinn Arnarnes á Galmaströnd. Fyrr á öldum var Arnarneshreppur mun víðlendari, náði yfir alla Árskógsströnd og Þorvaldsdal, en árið 1911 var honum skipt í tvennt og varð nyrðri hlutinn að Árskógshreppi. Hreppurinn er dreifbýll og byggir aðallega á landbúnaði en lítið þorp er á Hjalteyri þaðan sem útgerð var nokkur á fyrri hluta 20. aldar. Stór síldarverksmiðja var reist þar á þeim tíma en hún hefur staðið ónotuð síðan 1966 fyrir utan að litlum hluta hennar var breitt í samkomusal snemma á 21 öldinni. Í umræðu um mögulegt álver í Eyjafirði hefur verið gert ráð fyrir að það myndi rísa á Dysnesi eða Gilsbakka skammt sunnan Hjalteyrar. Sameinað sveitarfélag Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Þann 20. mars 2010 var sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar síðan samþykkt í kosningum. Á kjörskrá í Arnarneshreppi voru 126, þar af kusu 100. Á kjörskrá í Hörgárbyggð voru 309, þar af kusu 162. Í Arnarneshreppi greiddu 57 atkvæði með sameiningunni og 40 greiddu atkvæði gegn henni. Í Hörgárbyggð greiddu 149 (92%) atkvæði með sameiningunni og 12 (7%) greiddu atkvæði gegn henni. Sameining sveitarfélaganna var því samþykkt og gert er ráð fyrir að sameiningin taki gildi 12. júní 2010. Sara Paretsky. Sara N. Paretsky (fædd 8. júní 1947 í Ames, Iowa) er bandarískur rithöfundur sem þekktust er fyrir skáldsögur sínar um V.I. Warshawski, lesbíska rannsóknarlögreglu. Sara er með doktorsgráðu í sögu frá University of Kansas og MBA í fjármálum frá University of Chicago. Hún hlaut Gullrýtinginn árið 2004 fyrir "Blacklist" og Silfurrýtinginn fyrir "Blood Shot" ("Toxic Shot" í Bretlandi) 1988. Tengill. Paretsky, Sara Denis Diderot. Denis Diderot (fæddur 5. október 1713, dó 31. júlí 1784) var franskur heimspekingur og rithöfundur. Fæddur í Langres í Champagne 1713, hann var áberandi þátttakandi í upplýsingunni og aðalritstjóri fyrstu alfræðiorðabókarinnar, "Encyclopédie". Tenglar. Diderto, Denis Diderot, Denis Jens. Jens er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er stytting á Jóhannes. Daði. Daði er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er séríslenskt og gamalt, og uppruni þess og merking er óljós en mögulegt er að það sé að keltneskum uppruna. Í Landnámu kemur fram Daði Bárðarson skáld sem er af írskum ættum og er hans í fornum heimildum getið sem Dagur og því mætti halda að Daði sé gælunafn fyrir nafnið Dagur. Mögulegt er að það tengist fornháþýska nafninu Tado, en sumir telja að það sé barnamál og fyrir „pabbi“. Tveir Daðar fyrirfinnast í Sturlinga sögu og í manntali 1703 voru 14 Daðar á Íslandi og flestir á vesturlandi og aðeins einn í Barðastrandarsýslu. Þeir voru langt af á milli 10 - 20 talsins á Íslandi (flestir á Dölum) en á síðari árum hefur nafnberum fjölgað gífurlega. Einnig er talið að það hafi upprunalega verið stytting á nafninu Davíð. Kári. Kári er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er líklega dregið af orðinu kárr í tengslum við hár þá merkir það að hárið sé hrokkið hár og hefur vísun í vindinn s.b. kárað hár, það er blásið hár. Nafnið er einnig notað sem persónugervingur vinds. Hugsanlega er sú notkun tilkomin vegna Rómverska nafninu á norðvestanvindinum, Caurus eða Corus. Haukur (mannsnafn). Haukur er íslenskt karlmannsnafn. Dalmann. Dalmann er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er líklega dregið af dalamaður. Freyr (mannsnafn). Freyr er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er komið úr frumnorrænu og er dregið af „frauja“, hinn fremsti. Örn (mannsnafn). Örn er íslenskt karlmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Örn væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá sem kvenkynsnafn. Var niðurstaða Mannanafnanefndar að nafnið Örn teldist til karlmannsnafns og var beiðninni hafnað þann 18. desember 2001. Sjá einnig mannanöfnum hafnað af Mannanafnanefnd. Montréal. Montréal er stærsta borg Québec-fylkis í Kanada, en önnur stærsta borg Kanada á eftir Toronto. Montréal er einnig önnur stærsta frönskumælandi borg vesturheims á eftir París, þó að rúmlega 50% íbúanna séu enskumælendur. Upprunaleg nöfn hafa verið ýmis, en meðal annars má nefna Hochelaga og Ville-Marie (Borg Maríu). Ekki fyrr en undir lok átjándu aldar breyttist nafnið í Montréal. Fellið heitir Mont-Royal. Nafn borgarinnar er dregið af orðunum "mont" (fell), og "royal", sem þýðir konungs, eða konunglegt, en hefur verið bjagað í Montréal af enskumælendunum, sem fyrirfinnast yfirleitt í þeim hverfum sem næst eru fellinu. Jensína. Jensína er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er leitt af nafninu Jens sem er stytting á Jóhannes. Spænska. Spænska, spánska eða kastilíska er indóevrópskt tungumál af ætt rómanskra tungumála. Málið á uppruna sinn í latínu. Það telst til undirflokksins "íberórómönsk" mál og er annað til fjórða mest talaða tungumál í heimi. Um það bil 352 miljónir tala spænsku sem móðurmál (fyrsta mál), en ef þeir eru taldir með sem hafa spænsku sem annað mál verða talendur 417 miljónir (upplýsingar frá 1999). Flestir spænskumælendur búa í Suður- og Norður-Ameríku auk Spánar. Spænska eða kastilíska. Spánverjar kalla tungumál sitt „español“ (spænska) til að aðgreina það frá öðrum þjóðatungum sem ensku eða frönsku. En til að aðgreina það frá öðrum tungumálum á Spáni er það kallað „castellano“ (kastilíska). Önnur mál töluð á Spáni eru galisíska, baskneska, katalónska og leónska, í Katalóníu og Baskalandi er venjulega talað um kastilísku þegar átt er við spænsku. Annars staðar í heiminum er málið ýmist kallað „español“ eða „castellano“, það fyrra mun algengara. Íberórómönsk mál. Íberórómönsk tungumál er undirflokkur rómanskra mála og telur þau mál sem hafa skapast á Íberíuskaga. Undantekning er katalónska sem er talin vera „Occitanorómanskt mál“. Yasser Arafat. Yasser Arafat (arabíska: ياسر عرفات‎) (fæddur 4. ágúst eða 24. ágúst 1929, dó 11. nóvember 2004), fæddur Muhammad `Abd ar-Ra'uf al-Qudwa al-Husayni (محمد عبد الرؤوف القدوة الحسيني) og einnig þekktur sem Abu `Ammar (ابو عمّار), var formaður Palestínsku frelsissamtakanna (PLO) (1969–2004); forseti palestínsku heimastjórnarinnar (PNA) (1993–2004); og hlaut Friðarverðlaun Nóbels 1994 ásamt Shimon Peres og Yitzhak Rabin. Tenglar. Arafat, Yasser Arafat, Yasser Albert Guðmundsson. Albert Sigurður Guðmundsson (fæddur 5. október 1923, lést 7. apríl 1994) var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu og lék meðal annars með Val, Rangers, Arsenal og AC Milan. Að íþróttaferlinum loknum fór hann út í stjórnmál og var þingmaður á Alþingi í 15 ár og gegndi embætti fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra. Hann bauð sig fram í forsetakosningunum 1980 en tapaði fyrir Vigdísi Finnbogadóttur. Íþróttaferill. Árið 1944 hélt Albert til Skotlands til að læra viðskiptafræði við Skerry's College í Glasgow. Hann hóf knattspyrnuferilinn með Rangers. Eftir stutt stopp þar fór hann til Englands þar sem hann lék nokkra vináttuleiki og tvo deildarleiki með Arsenal í október 1946 sem áhugamaður. Hann var annar leikmaður Arsenal sem var ekki frá Bretlandi, Gerard Keyser hafði verið sá fyrsti. Albert gat ekki fengið atvinnuleyfi í Englandi og fór því að svipast um eftir tækifærum annar staðar. Í leik með Arsenal gegn Racing Club de Paris vakti hann athygli franska liðsins sem vildi nú semja við hann. Það fór þó ekki svo heldur skrifaði Albert undir samning við Nancy í lok árs 1946. Albert lauk fyrstu leiktíð sinni með Nancy sem markahrókur liðsins og skoraði tvö mörk í hverjum bikarleik. 1948 skrifaði Albert undir samning við AC Milan. Hann hnébrotnaði í leik gegn Lazio og virtist ekki eiga góðar batahorfur. Liðslæknir Inter Milan taldi annað og vildi gera aðgerð á því. AC Milan leist ekki á áhættuna og neitaði og keypti Albert sig því undan samningi og fór í aðgerðina sem reyndist takast vel. Eftir að hann náði fullum styrk að nýju fór hann aftur til Frakklands þar sem hann lék fyrir ýmis lið áður en hann lagði skóna á hilluna sem atvinnumaður árið 1954. Eftir heimkomuna tók hann við stjórn liðs Íþróttabandalags Hafnarfjarðar, sem þá lék í 2. deild. Albert leiddi Hafnfirðinga upp í 1. deild sumarið 1956 í fyrstu tilraun og var spilandi þjálfari þeirra í efstu deild sumrin 1957 og 1958. 1967 fékk Albert Silfurmerki KSÍ fyrir starf sitt í knattspyrnuheiminum. Hann var formaður KSÍ frá 1968 til 1973. Þegar hann vék úr embætti var honum veitt Gullmerki KSÍ fyrir langvarandi og þýðingarmikil störf hans að knattspyrnu. Albert var jafnframt formaður Íþróttafélags Reykjavíkur á árunum 1959 til 1961. Albert var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu. Þann 13. febrúar 2010 var afhjúpuð stytta af honum við höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal. Styttan er eftir Helga Gíslason. Stjórnmálaferill. Eftir að hann sneri heim frá Frakklandi hóf Albert feril sem heildsali 1956 og seldi einkum frönsk kvenföt og vín, auk þess sem hann var með umboð fyrir Renault bifreiðar um tíma. Hann gekk síðan í Sjálfstæðisflokkinn og var kosinn í borgarstjórn Reykjavíkur 1970 og var borgarfulltrúi allt til 1986. Árið 1974 var hann kosinn til Alþingis. Albert varð fjármálaráðherra 1983 og 1985 fór hann yfir í iðnaðarráðuneytið og var þar ráðherra til 1987. 1987 gekk hann úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði Borgaraflokkinn þar sem hann var formaður til 1989. Árið 1989 var hann skipaður sendiherra Íslands í Frakklandi og gegndi því embætti til 1993. Áður hafði hann verið ræðismaður Frakklands á Íslandi frá 1962. Albert var umdeildur stjórnmálamaður og viðurkenndi að vera einleikari í pólitíkinni. Hann naut mikilla vinsælda eins og sést á því að í Alþingiskosningunum 1987 tókst nýstofnuðum flokki hans að ná inn 7 þingmönnum. Alaska (bók). Forsíða AlaskaAlaska, "lýsing á landi og lands-kostum, ásamt skýrslu innar íslenzku sendinefndar: um stofnun íslenzkrar nýlendu" er rit eftir Jón Ólafsson sem fjallar um Alaska-fylki og möguleika á að stofna þar íslenska nýlendu. Hún var gefin út 1875 í Washington og endurútgefin 26. febrúar 2005 af Project Gutenberg. Í skýrslunni er kveðið fast og djarflega að orði og draumar um framtíðarheim þar sem íslenskan verður fremri enskunni. Ef Íslendingar næmu nú land í Alaska—segjum 10 þúsundir á 15 árum, og fjöldi þeirra tvöfaldaðist þar t.d. á hverjum 25 árum, sem vel mætti verða og ugglaust yrði í svo hagfeldu landi, þá væru þeir eftir 3 til 4 aldir orðnir 100 miljónir, og mundu þá þekja alt meginlandið frá Hudson-flóa til Kyrra-Hafs. Þeir gætu geymt tungu sína, aukið hana og auðgað af hennar eigin óþrjótandi rótum, og, hver veit, ef til vill sem erfingjar ins mikla lands fyrir sunnan sig, smátt og smátt útbreitt hana með sér yfir þessa álfu, og endrfœtt ina afskræmdu ensku tungu. Já, þetta sýnist ráðleysu rugl og viltir draumórar; og ég segi heldr eigi að svo verði; en ég segi svo megi verða. Það er alsendis mögulegt! Meira segi ég eigi. Íslenzka og enska eru af sömu rótum runnar; og þó enskan sé mannsterkari nú, þá höfum vér hvergi lesið það drottins lögmál, að hún skuli svo verða að eilífu. Og, ef svo mættí um tungur segja, þá hefir sú fagra íslenzka mær meira siðferðislegt afl, en in enska portkona, er lagt hefir lag sitt við allar skrælingja- og skrípa-tungur þessa heims. Að auki er í ritinu að finna lýsingar á veðurfari og náttúru Alaska. Jón Ólafsson (ritstjóri). Jón Ólafsson (20. mars 1850 – 11. júlí 1916) var íslenskur blaðamaður, ritstjóri og alþingismaður. Tvisvar hrökklaðist hann úr landi vegna skrifa sem ergðu stjórnvöld, en hann þótti hvassyrtur og óbanginn við að senda tóninn þangað sem honum fannst að ætti við. Hann var ekki síst þektur fyrir sinn kveðskap en hann orti til dæmis 21 árs gamall „Máninn hátt á himni skín". Vesturheimur. Jón skrifaði ritið Alaska þar sem hann setti fram draumkennda framtíðarsýn þar sem Íslendingar næðu að verða stórþjóð með því að stofna nýlendu í Alaskaríki sem Bandaríkin höfðu nýlega fest kaup á. Vísindagrein. Vísindagrein eða fræðigrein er fag sem rannsakar og athugar fyrirbæri. Þeir sem leggja stund á vísindi sérhæfa sig oftast í einhverjum af undirgreinum vísindanna. Winston Churchill. Winston Churchill (30. nóvember 1874 – 24. janúar 1965) var breskur stjórnmálamaður. Hann var forsætisráðherra Bretlands á tímum Síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann var auk þess hermaður, rithöfundur, blaðamaður og listmálari. Hann er einn af þekktustu stjórnmálaleiðtogum Bretlands. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1953. Hann er eini forsætisráðherra Bretlands sem fengið hefur Nóbelsverðlaunin auk þess að vera fyrstur til að vera gerður að heiðursborgara í Bandaríkjunum. Á þeim tíma sem Churchill gegndi herþjónustu barðist hann á Indlandi, í Súdan í síðara Búastríðinu. Hann öðlaðist frægð sem stríðsfréttaritari og rithöfundur. Fyrstu bækur hans fjölluðu um þátttöku hans í áðurnefndum herleiðöngrum. Auk þess gegndi hann um tíma herskyldu á vesturvígstöðvunum í fyrri heimstyrjöldinni sem yfirmaður herdeildar. Hann var í framvarðsveit breskra stjórnmála í fimmtíu ár og gengdi fjölmörgum embættumá þeim tíma. Á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld gengdi hann meðal annars embætti forseta Viðskiptanefndar, innanríkisráðherra og flotamálaráðherra í ríkistjórn Asquith. Fjölskylduhagir. Randolph Churchill faðir Winstons var einnig stjórnmálamaður og um tíma forsætisráðherra hann var þriðji sonur sjöunda hertogans af Marlborough Móðir hans Jennie Jerome var dóttir amerísks auðkýfings að nafni Leonard Jerome. Winston var fæddur tveimur mánuðum fyrir tímann í Bleinheim-höll sem er ættaróðal Marlborough fjölskyldunnar. Churchill átti einn bróðir John Strange Spencer-Churchill. Churchill hitti tilvonandi konu sína, Clementine Hoizer, í fyrsta sinn árið 1904 á dansleik í Crewe House. Þau hittust aftur árið 1908 í matarboði hjá Lafði St Helier. Churchill sat við hlið Clementine við borðhaldið. Hann bað Clementine í veislu í Bleinheim höll 10 ágúst 1908, þau gengu svo í hjónaband í St. Margrets, Westminister og voru þau gefin saman af biskupnum af St Asph. Árið 1909 fluttu hjónin að Eccleston Square 33. Fyrsta barnið Diana fæddist 11. júlí 1909, Randolph fæddist 28. maí 1911, þriðja barnið fæddist 7. október 1914, fjórða barnið Marigold fæddist 15. nóvember 1918, Mary fæddist svo 15. september 1922 síðar þann sama mánuð keypti Churchill Chartwell þar sem fjölskyldan bjóð þar til Churchill lést 1965. Tenglar. Churchill, Winston Churchill, Winston Churchill, Winston Ri-sagnir. "Orðabók Háskólans" og ' geta að auki annars ritháttar á „sneri“ sem er „snéri“. Þessi notkun í ritmáli er ekki eins algeng enda segir Orðabók Háskólans hana einkum vera framburðarmynd en þó er hann notaður í um 30% íslenskra skjala á netinu. Bæjarins beztu pylsur. Bæjarins beztu pylsur eða einfaldlega Bæjarins beztu er pylsuvagn í miðbæ Reykjavíkur, Hafnarstræti 17. Bæjarins beztu hafa einnig verið eftirsóttar af þeim sem sækja borgina heim og meðal þeirra sem þar hafa stýft pylsu úr hnefa er til dæmis Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og hljómsveitin Metallica. Bæjarins beztu lentu á lista breska blaðsins The Guardian yfir bestu sölustanda skyndimats í Evrópu árið 2006 og lenti þar í öðru sæti. Í fyrsta sæti var skoskur hafragrauta­standur. Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar. Skólinn er rekinn sem sjálfseignarfélag og stjórnað af Styrktarfélagi Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Stjórn þess ásamt einum fulltrúa nemenda og öðrum fulltrúa kennara eru stjórn Tónskólans. Skólastjóri er Sigursveinn Magnússon, frændi stofnandans Seildýr. Seildýr (fræðiheiti: "Chordata") eru fylking dýra sem telur meðal annars hryggdýr og nokkra skylda hryggleysingja. Brúsar. Brúsar (fræðiheiti: "Gaviiformes") er ættbálkur fugla sem inniheldur m.a. himbrima ("Gavia immer") Aage. Aage er íslenskt karlmannsnafn. Abel (mannsnafn). Abel er íslenskt karlmannsnafn. Áður var Abel kvenmannsnafn á Íslandi og er til dæmi um það í íslensku manntali. Abraham (mannsnafn). Abraham er íslenskt karlmannsnafn. Adam. Adam er íslenskt karlmannsnafn. Addi. Addi er íslenskt karlmannsnafn. Adel. Adel er íslenskt karlmannsnafn. Adíel. Adíel er íslenskt karlmannsnafn. Adolf. Adolf er íslenskt karlmannsnafn. Adólf. Adólf er annar ritháttur íslenska karlmannsnafnsins Adolf. Adrían. Adrían er íslenskt karlmannsnafn. Adríel. Adríel er íslenskt karlmannsnafn. Aðalberg. Aðalberg er íslenskt karlmannsnafn. Aðalbergur. Aðalbergur er íslenskt karlmannsnafn. Aðalbert. Aðalbert er íslenskt karlmannsnafn. Aðalbjörn. Aðalbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Aðalborgar. Aðalborgar er íslenskt karlmannsnafn. Aðalgeir. Aðalgeir er íslenskt karlmannsnafn. Aðalmundur. Aðalmundur er íslenskt karlmannsnafn. Aðalráður. Aðalráður er íslenskt karlmannsnafn. Aðalsteinn. Aðalsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Aðils. Aðils er íslenskt ættarnafn. Nafnið er einnig notað sem millinafn, en er sjaldgæft sem slíkt. Agnar. Agnar er íslenskt karlmannsnafn. Agni. Agni er íslenskt karlmannsnafn. Albert. Albert er íslenskt karlmannsnafn. Aldar. Aldar er íslenskt karlmannsnafn. Alex. Alex er íslenskt karlmannsnafn og er stytting á nafninu Alexander. Alexander (mannsnafn). Alexander er íslenskt karlmannsnafn. Alexíus. Alexíus er íslenskt karlmannsnafn. Alfons. Alfons er íslenskt karlmannsnafn. Alfred. Alfred er íslenskt karlmannsnafn. Alfreð. Alfreð er íslenskt karlmannsnafn. Ali. Ali er eitt algengasta karlmannsnafn í heimi. Það kemur fyrir bæði sem fornafn og fjölskyldunafn. Það er arabískt að uppruna og kemur af rótinni -l-y sem þýðir „hár“. Sá sem fyrstur bar þetta nafn var Alí ibn Abu Talib frændi og stuðningsmaður Múhameðs. Nafnið er sagt koma af einu af 99 nöfnum Guðs: „al-Ali“ (hinn hæsti). Allan. Allan er íslenskt karlmannsnafn. Almar. Almar er íslenskt karlmannsnafn. Alrekur. Alrekur er íslenskt karlmannsnafn. Alvar. Alvar er íslenskt karlmannsnafn. Alvin. Alvin er íslenskt karlmannsnafn. Amos. Amos er íslenskt karlmannsnafn. Anders. Anders er íslenskt karlmannsnafn. Andreas. Andreas er íslenskt karlmannsnafn. Andrés. Andrés er íslenskt karlmannsnafn. Andri. Andri er íslenskt karlmannsnafn. Anes. Anes er íslenskt karlmannsnafn. Angantýr. Angantýr er íslenskt karlmannsnafn. Angi. Angi er íslenskt karlmannsnafn. Annar. Annar er íslenskt karlmannsnafn. Annel. Annel er íslenskt karlmannsnafn. Annes (mannsnafn). Annes er íslenskt karlmannsnafn. Anthony. Anthony er íslenskt karlmannsnafn af ensku bergi brotnu. Anton. Anton er íslenskt karlmannsnafn. Antoníus. Antoníus er íslenskt karlmannsnafn. Arent. Arent er íslenskt karlmannsnafn. Ares (mannsnafn). Ares er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið kemur frá gríska stríðsguðnum Ares (gríska: Áρης), nafnið merkir stríðsátök. Ari. Ari er íslenskt karlmannsnafn. Arilíus. Arilíus er íslenskt karlmannsnafn. Arinbjörn. Arinbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Aríel. Aríel er íslenskt karlmannsnafn. Aríus (mannsnafn). Aríus er íslenskt karlmannsnafn. Arnald. Arnald er íslenskt karlmannsnafn. Arnaldur. Arnaldur er íslenskt karlmannsnafn. Arnar. Arnar er íslenskt karlmannsnafn. Arnberg. Arnberg er íslenskt karlmannsnafn. Arnbergur. Arnbergur er íslenskt karlmannsnafn. Arnbjörn. Arnbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Arndór. Arndór er íslenskt karlmannsnafn. Arnes. Arnes er íslenskt karlmannsnafn. Arnfinnur. Arnfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Arnfreyr. Arnfreyr er íslenskt karlmannsnafn. Arngeir. Arngeir er íslenskt karlmannsnafn. Arngils. Arngils er íslenskt karlmannsnafn. Arngrímur. Arngrímur er íslenskt karlmannsnafn. Arnkell. Arnkell er íslenskt karlmannsnafn. Arnlaugur. Arnlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Arnleifur. Arnleifur er íslenskt karlmannsnafn. Arnljótur. Arnljótur er íslenskt karlmannsnafn. Arnmóður. Arnmóður er íslenskt karlmannsnafn. Arnmundur. Arnmundur er íslenskt karlmannsnafn. Arnoddur. Arnoddur er íslenskt karlmannsnafn. Arnold. Arnold er íslenskt karlmannsnafn. Arnór. Arnór er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er líkt og Arnþór myndað af "Arn" sem merkir örn og "Þór" sem merkir þrumuguðinn Þór úr goðafræðinni. Arnsteinn. Arnsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Arnþór. Arnþór er íslenskt karlmannsnafn. Arnúlfur. Arnúlfur er íslenskt karlmannsnafn. Arnviður. Arnviður er íslenskt karlmannsnafn. Aron. Aron er íslenskt karlmannsnafn. Það kemur frá hebreska nafninu Aharon sem þýðir „Hinn sterki“. Arthur. Arthur er íslenskt karlmannsnafn. Arthúr. Arthúr er íslenskt karlmannsnafn. Artúr. Artúr er íslenskt karlmannsnafn. Askur (mannsnafn). Askur er íslenskt karlmannsnafn. Aspar. Aspar er íslenskt karlmannsnafn. Atlas (mannsnafn). Atlas er íslenskt karlmannsnafn. Atli (mannsnafn). Atli er íslenskt karlmannsnafn. Auðbergur. Auðbergur er íslenskt karlmannsnafn. Auðbert. Auðbert er íslenskt karlmannsnafn. Auðbjörn. Auðbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Auðgeir. Auðgeir er íslenskt karlmannsnafn. Auðkell. Auðkell er íslenskt karlmannsnafn. Auðmundur. Auðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Auðólfur. Auðólfur er íslenskt karlmannsnafn. Auðun. Auðun er íslenskt karlmannsnafn. Auðunn. Auðunn er íslenskt karlmannsnafn. Austar. Austar er íslenskt karlmannsnafn. Tveir íslenskir karlmenn heita þessu nafni en báðir eru frá Höfn í Hornafirði. Austmann. Austmann er íslenskt karlmannsnafn. Austmar. Austmar er íslenskt karlmannsnafn. Austri (mannsnafn). Austri er íslenskt karlmannsnafn. Axel. Axel er íslenskt karlmannsnafn. Ágúst (mannsnafn). Ágúst er íslenskt karlmannsnafn. Áki. Áki er íslenskt karlmannsnafn. Álfgeir. Álfgeir er íslenskt karlmannsnafn. Álfgrímur. Álfgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Álfþór. Álfþór er íslenskt karlmannsnafn. Álfur (mannsnafn). Álfur er íslenskt karlmannsnafn. Ámundi. Ámundi er íslenskt karlmannsnafn. Árbjartur. Árbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Árbjörn. Árbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Árelíus. Árelíus er íslenskt karlmannsnafn af latneskum uppruna. Árgeir. Árgeir er íslenskt karlmannsnafn. Árgils. Árgils er íslenskt karlmannsnafn. Ármann. Ármann er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið Ármann er talið merkja verndari. Árni. Árni er íslenskt karlmannsnafn sem og færeyskt. Nafnið er dregið af örn. Ársæll. Ársæll er íslenskt karlmannsnafn. Ás (mannsnafn). Ás er íslenskt karlmannsnafn. Ásberg. Ásberg er íslenskt karlmannsnafn. Ásbergur. Ásbergur er íslenskt karlmannsnafn. Ásbjörn. Ásbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Ásgautur. Ásgautur er íslenskt karlmannsnafn. Ásgeir. Ásgeir er íslenskt karlmannsnafn. Ásgils. Ásgils er íslenskt karlmannsnafn. Ásgrímur. Ásgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Ási. Ási er íslenskt karlmannsnafn. Áskell. Áskell er íslenskt karlmannsnafn. Áslaugur. Áslaugur er íslenskt karlmannsnafn. Áslákur. Áslákur er íslenskt karlmannsnafn. Ásmar. Ásmar er íslenskt karlmannsnafn. Ásmundur. Ásmundur er íslenskt karlmannsnafn. Ásólfur. Ásólfur er íslenskt karlmannsnafn. Ásröður. Ásröður er íslenskt karlmannsnafn. Ástbjörn. Ástbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Ástgeir. Ástgeir er íslenskt karlmannsnafn. Ásþór. Ásþór er íslenskt karlmannsnafn. Ástmar. Ástmar er íslenskt karlmannsnafn. Ástmundur. Ástmundur er íslenskt karlmannsnafn. Ástráður. Ástráður er íslenskt karlmannsnafn. Ástþór. Ástþór er íslenskt karlmannsnafn. Ástvaldur. Ástvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Ástvar. Ástvar er íslenskt karlmannsnafn. Ástvin. Ástvin er íslenskt karlmannsnafn. Ásvaldur. Ásvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Ásvarður. Ásvarður er íslenskt karlmannsnafn. Listi yfir íslensk mannanöfn. íslensku mannanöfn Baldur (mannsnafn). Baldur er íslenskt karlmannsnafn. Baldvin. Baldvin er íslenskt karlmannsnafn. Baldwin. Baldwin er íslenskt karlmannsnafn. Baltasar. Baltasar er íslenskt karlmannsnafn. Bambi (nafn). Bambi er íslenskt karlmannsnafn. Barði (nafn). Barði er íslenskt karlmannsnafn. Barri. Barri er íslenskt karlmannsnafn. Baugur (mannsnafn). Baugur er íslenskt karlmannsnafn. Bárður. Bárður er íslenskt karlmannsnafn. Beinir. Beinir er íslenskt karlmannsnafn. Beinteinn. Beinteinn er íslenskt karlmannsnafn. Beitir. Beitir er íslenskt karlmannsnafn. Bekan. Bekan er íslenskt karlmannsnafn. Benedikt. Benedikt er íslenskt karlmannsnafn. Benjamín. Benjamín er íslenskt karlmannsnafn. Benoný. Benoný er íslenskt karlmannsnafn. Benóní. Benóní er íslenskt karlmannsnafn. Benóný. Benóný er íslenskt karlmannsnafn. Bent. Bent er íslenskt karlmannsnafn. Berent. Berent er íslenskt karlmannsnafn. Berg (mannsnafn). Berg er íslenskt karlmannsnafn. Bergfinnur. Bergfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Berghreinn. Berghreinn er íslenskt karlmannsnafn. Bergmann. Bergmann er íslenskt karlmannsnafn. Bergmar. Bergmar er íslenskt karlmannsnafn. Bergmundur. Bergmundur er íslenskt karlmannsnafn. Bergsteinn. Bergsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Bergsveinn. Bergsveinn er íslenskt karlmannsnafn. Bergþór. Bergþór er íslenskt karlmannsnafn. Bergur. Bergur er íslenskt karlmannsnafn. Bergvin. Bergvin er íslenskt karlmannsnafn. Bernhard. Bernhard er íslenskt karlmannsnafn. Bernharð. Bernharð er íslenskt karlmannsnafn. Bernharður. Bernharður er íslenskt karlmannsnafn. Bernódus. Bernódus er íslenskt karlmannsnafn. Bersi. Bersi er íslenskt karlmannsnafn. Bertel. Bertel er íslenskt karlmannsnafn. Bessi. Bessi er íslenskt karlmannsnafn. Betúel. Betúel er íslenskt karlmannsnafn. Birkir. Birkir er íslenskt karlmannsnafn. Birnir (mannsnafn). Birnir er íslenskt karlmannsnafn. Bjargar. Bjargar er íslenskt karlmannsnafn. Bjargmundur. Bjargmundur er íslenskt karlmannsnafn. Bjargþór. Bjargþór er íslenskt karlmannsnafn. Bjarkar. Bjarkar er íslenskt karlmannsnafn. Bjarki. Bjarki er íslenskt karlmannsnafn. Bjarmar. Bjarmar er íslenskt karlmannsnafn. Bjarmi. Bjarmi er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnar. Bjarnar er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnfinnur. Bjarnfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnfreður. Bjarnfreður er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnharður. Bjarnharður er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnhéðinn. Bjarnhéðinn er íslenskt karlmannsnafn. Bjarni. Bjarni er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnlaugur. Bjarnlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnleifur. Bjarnleifur er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnólfur. Bjarnólfur er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnsteinn. Bjarnsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Bjarnþór. Bjarnþór er íslenskt karlmannsnafn. Bjartmann. Bjartmann er íslenskt karlmannsnafn. Bjartmar. Bjartmar er íslenskt karlmannsnafn. Bjartþór. Bjartþór er íslenskt karlmannsnafn. Bjartur. Bjartur er íslenskt karlmannsnafn. Bjólan. Bjólan er íslenskt karlmannsnafn. Bjólfur. Bjólfur er íslenskt karlmannsnafn. Björgmundur. Björgmundur er íslenskt karlmannsnafn. Björgólfur. Björgólfur er íslenskt karlmannsnafn. Björgúlfur. Björgúlfur er íslenskt karlmannsnafn. Björgvin (mannsnafn). Björgvin er íslenskt karlmannsnafn. Björn (mannsnafn). Björn er íslenskt karlmannsnafn. Björnólfur. Björnólfur er íslenskt karlmannsnafn. Blængur. Blængur er íslenskt karlmannsnafn. Blær. Blær er íslenskt karlmannsnafn. Samkvæmt skráningu Þjóðskrár hét ein kona þessu nafni þann 1. janúar 2008. Samkvæmt úrskurði mannanafnanefndar mátti einungis gefa drengjum nafnið en úrskurður nefndarinnar var felldur úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 31. janúar 2013. Dómnum samkvæmt er því nafnið bæði karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Blævar. Blævar er íslenskt karlmannsnafn. Boði. Boði er íslenskt karlmannsnafn. Bogi (nafn). Bogi er íslenskt karlmannsnafn. Bolli (mannsnafn). Bolli er íslenskt karlmannsnafn. Borgar. Borgar er íslenskt karlmannsnafn. Borgþór. Borgþór er íslenskt karlmannsnafn. Bóas. Bóas er íslenskt karlmannsnafn. Bótólfur. Bótólfur er íslenskt karlmannsnafn. Bragi. Bragi er íslenskt karlmannsnafn. Brandur (nafn). Brandur er íslenskt karlmannsnafn. Breki. Breki er íslenskt karlmannsnafn. Bresi. Bresi er íslenskt karlmannsnafn. Brestir. Brestir er íslenskt karlmannsnafn. Brimar. Brimar er íslenskt karlmannsnafn. Brimi. Brimi er íslenskt karlmannsnafn. Brimir. Brimir er íslenskt karlmannsnafn. Brjánn. Brjánn er íslenskt karlmannsnafn. Brjánn þýðir lítil hóll eða göfugur og er getið í Njálssögu (Brjánsbardagi). En þá féll konungur Írlands (Brjánn Bura) og sagt var að "Brjánn féll en hélt velli". Broddi. Broddi er íslenskt karlmannsnafn. Bruno. Bruno er íslenskt karlmannsnafn. Bryngeir. Bryngeir er íslenskt karlmannsnafn. Brynjar. Brynjar er íslenskt karlmannsnafn. Brynjólfur. Brynjólfur er íslenskt karlmannsnafn. Brynjúlfur. Brynjúlfur er íslenskt karlmannsnafn. Brynleifur. Brynleifur er íslenskt karlmannsnafn. Brynsteinn. Brynsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Brynþór. Brynþór er íslenskt karlmannsnafn. Bryntýr. Bryntýr er íslenskt karlmannsnafn. Burkni (mannsnafn). Burkni er íslenskt karlmannsnafn. Búi. Búi er íslenskt karlmannsnafn. Bæring. Bæring er íslenskt karlmannsnafn. Bæringur. Bæringur er íslenskt karlmannsnafn. Bæron. Bæron er íslenskt karlmannsnafn. Böðvar. Böðvar er íslenskt karlmannsnafn. Börkur (nafn). Börkur er íslenskt karlmannsnafn. Carl. Carl er íslenskt karlmannsnafn. Cecil. Cecil er íslenskt karlmannsnafn. Christian. Christian er íslenskt karlmannsnafn. Christopher. Christopher er íslenskt karlmannsnafn. Cýrus. Cýrus er íslenskt karlmannsnafn. Dagbjartur. Dagbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Dagfari. Dagfari er íslenskt karlmannsnafn. Dagfinnur. Dagfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Daggeir. Daggeir er íslenskt karlmannsnafn. Dagmann. Dagmann er íslenskt karlmannsnafn. Dagnýr. Dagnýr er íslenskt karlmannsnafn. Dagþór. Dagþór er íslenskt karlmannsnafn. Dagur (mannsnafn). Dagur er íslenskt karlmannsnafn. Dalbert. Dalbert er íslenskt karlmannsnafn. Dalmar. Dalmar er íslenskt karlmannsnafn. Dalvin. Dalvin er íslenskt karlmannsnafn. Damjan. Damjan er íslenskt karlmannsnafn. Dan. Dan er íslenskt karlmannsnafn sem bæði má nota sem eiginnafn og millinafn. Danelíus. Danelíus er íslenskt karlmannsnafn. Daniel. Daniel er íslenskt karlmannsnafn. Danival. Danival er íslenskt karlmannsnafn. Daníel (mannsnafn). Daníel er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið kemur úr hebresku og þýðir Guð er minn dómari. Þekktasti Daníel mannkynssögunnar er líklega sá Daníel sem kenndur er við ljónagryfju, Daníel í ljónagryfjunni. Saga hans er sögð í Daníelsbók í Biblíunni. Daníval. Daníval er íslenskt karlmannsnafn. Daríus. Daríus er íslenskt karlmannsnafn. Darri. Darri er íslenskt karlmannsnafn. Davíð. Davíð er íslenskt karlmannsnafn. Demus. Demus er íslenskt karlmannsnafn. Diðrik. Diðrik er íslenskt karlmannsnafn. Díómedes (mannsnafn). Díómedes er íslenskt karlmannsnafn. Dofri (mannsnafn). Dofri er íslenskt karlmannsnafn. Dómald. Dómald er íslenskt karlmannsnafn. Dómaldi. Dómaldi er íslenskt karlmannsnafn. Dómaldur. Dómaldur er íslenskt karlmannsnafn. Dónald. Dónald er íslenskt karlmannsnafn. Dónaldur. Dónaldur er íslenskt karlmannsnafn. Dór. Dór er íslenskt karlmannsnafn. Dóri. Dóri er íslenskt karlmannsnafn. Dósóþeus. Dósóþeus er íslenskt karlmannsnafn. Draupnir (mannsnafn). Draupnir er íslenskt karlmannsnafn. Drengur (nafn). Drengur er íslenskt karlmannsnafn. Dufgus. Dufgus er íslenskt karlmannsnafn. Dufþakur. Dufþakur er íslenskt karlmannsnafn. Dugfús. Dugfús er íslenskt karlmannsnafn. Dúi. Dúi er íslenskt karlmannsnafn. Dvalinn. Dvalinn er íslenskt karlmannsnafn. Dýri. Dýri er íslenskt karlmannsnafn. Dýrmundur. Dýrmundur er íslenskt karlmannsnafn. Ebeneser. Ebeneser er íslenskt karlmannsnafn. Ebenezer. Ebenezer er íslenskt karlmannsnafn. Edgar. Edgar er íslenskt karlmannsnafn. Edílon. Edílon er íslenskt karlmannsnafn. Edvard. Edvard er íslenskt karlmannsnafn. Edvin. Edvin er íslenskt karlmannsnafn. Edward. Edward er íslenskt karlmannsnafn. Eðvald. Eðvald er íslenskt karlmannsnafn. Eðvar. Eðvar er íslenskt karlmannsnafn. Eðvarð. Eðvarð er íslenskt karlmannsnafn. Efraím. Efraím er íslenskt karlmannsnafn. Eggert. Eggert er íslenskt karlmannsnafn. Eggþór. Eggþór er íslenskt karlmannsnafn. Egill. Egill er íslenskt karlmannsnafn. Eiður. Eiður er íslenskt karlmannsnafn. Eilífur. Eilífur er íslenskt karlmannsnafn. Einar. Einar er íslenskt karlmannsnafn. Einir (mannsnafn). Einir er íslenskt karlmannsnafn. Einþór. Einþór er íslenskt karlmannsnafn. Einvarður. Einvarður er íslenskt karlmannsnafn. Eiríkur. Eiríkur er íslenskt karlmannsnafn. Elberg. Elberg er íslenskt karlmannsnafn. Elbert. Elbert er íslenskt karlmannsnafn. Eldar. Eldar er íslenskt karlmannsnafn. Eldgrímur. Eldgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Eldjárn. Eldjárn er íslenskt karlmannsnafn. Eldór. Eldór er íslenskt karlmannsnafn. Eldur (mannsnafn). Eldur er íslenskt karlmannsnafn. Elentínus. Elentínus er íslenskt karlmannsnafn. Elfar. Elfar er íslenskt karlmannsnafn. Elfráður. Elfráður er íslenskt karlmannsnafn. Elimar. Elimar er íslenskt karlmannsnafn. Elinór. Elinór er íslenskt karlmannsnafn. Elis (mannsnafn). Elis er íslenskt karlmannsnafn. Elí. Elí er íslenskt karlmannsnafn. Elías. Elías er íslenskt karlmannsnafn. Elíeser. Elíeser er íslenskt karlmannsnafn. Elímar. Elímar er íslenskt karlmannsnafn. Elínbergur. Elínbergur er íslenskt karlmannsnafn. Elínmundur. Elínmundur er íslenskt karlmannsnafn. Elínór. Elínór er íslenskt karlmannsnafn. Elís (mannsnafn). Elís er íslenskt karlmannsnafn. Áður var Elís kvenmannsnafn á Íslandi og er til dæmi um það í íslensku manntali. Ellert. Ellert er íslenskt karlmannsnafn. Elli. Elli er íslenskt karlmannsnafn. Elliði. Elliði er íslenskt karlmannsnafn. Elmar. Elmar er íslenskt karlmannsnafn. Elvar. Elvar er íslenskt karlmannsnafn. Emanúel. Emanúel er íslenskt karlmannsnafn. Embrek. Embrek er íslenskt karlmannsnafn. Emil. Emil er íslenskt karlmannsnafn. Engilbert. Engilbert er íslenskt karlmannsnafn. Engilbjartur. Engilbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Engiljón. Engiljón er íslenskt karlmannsnafn. Engill. Engill er íslenskt karlmannsnafn. Enok. Enok er íslenskt karlmannsnafn. Eric. Eric er íslenskt karlmannsnafn. Erik. Erik er íslenskt karlmannsnafn. Erlar. Erlar er íslenskt karlmannsnafn. Erlendur. Erlendur er íslenskt karlmannsnafn. Erling. Erling er íslenskt karlmannsnafn. Erlingur. Erlingur er íslenskt karlmannsnafn. Ernestó. Ernestó er íslenskt karlmannsnafn. Ernir (mannsnafn). Ernir er íslenskt karlmannsnafn. Ernst. Ernst er íslenskt karlmannsnafn. Eron. Eron er íslenskt karlmannsnafn. Erpur. Erpur er íslenskt karlmannsnafn og íslenskt hestsnafn. Merking þess er jarpur að lit, því er það títt notað á jarpa hesta sem og menn sem eru jarpir á hár, það er, hafa skollitt hár sem á slær rauðum blæ. Esekíel. Esekíel er íslenskt karlmannsnafn. Esjar. Esjar er íslenskt karlmannsnafn. Esra. Esra er íslenskt karlmannsnafn. Estefan. Estefan er íslenskt karlmannsnafn. Evert. Evert er íslenskt karlmannsnafn. Eyberg. Eyberg er íslenskt karlmannsnafn. Eyjólfur. Eyjólfur er íslenskt karlmannsnafn. -ey getur vísað til eyju, ætíðar eða lukku. Eylaugur. Eylaugur er íslenskt karlmannsnafn. Eyleifur. Eyleifur er íslenskt karlmannsnafn. Eymar. Eymar er íslenskt karlmannsnafn. Eymundur. Eymundur er íslenskt karlmannsnafn. Eyríkur. Eyríkur er íslenskt karlmannsnafn. Eysteinn. Eysteinn er íslenskt karlmannsnafn. „Ey“ þýðir lukka og því þýðir nafnið lukkusteinn. Upprunalega var það skrifað Esten eða Østen en á Íslandi er það skrifað Eysteinn og á öðrum norðurlöndum hefur það breyst í Øystein, Øistein, Eystein og Eistein. Eysteinn er gamalt konunganafn sem notað var yfir Øystein I og Øystein II. Eyþór. Eyþór er íslenskt karlmannsnafn. Eyvar. Eyvar er íslenskt karlmannsnafn. Eyvindur. Eyvindur er íslenskt karlmannsnafn. Ægir (mannsnafn). Ægir er íslenskt karlmannsnafn. Ævar. Ævar er íslenskt karlmannsnafn. Ævarr. Ævarr er íslenskt karlmannsnafn. Fabrisíus. Fabrisíus er íslenskt karlmannsnafn. Falgeir. Falgeir er íslenskt karlmannsnafn. Falur (nafn). Falur er íslenskt karlmannsnafn. Árið 1989 voru 57 í þjóðskrá sem báru þetta nafn sem fyrsta eiginnafn og 10 sem báru það sem seinna eiginnafn, en árið 1910 var aðeins einn sem hét Falur sem fyrsta eiginnafn, og 5 sem voru skráðir með það nafn sem seinna eiginnafn. Fannar. Fannar er íslenskt karlmannsnafn. Fannberg. Fannberg er íslenskt karlmannsnafn. Fanngeir. Fanngeir er íslenskt karlmannsnafn. Fáfnir. Fáfnir er íslenskt karlmannsnafn. Felix. Felix er íslenskt karlmannsnafn. Fengur. Fengur er íslenskt karlmannsnafn. Fenrir. Fenrir er íslenskt karlmannsnafn. Ferdinand. Ferdinand er íslenskt karlmannsnafn. Ferdínand. Ferdínand er íslenskt karlmannsnafn. Feykir. Feykir er íslenskt karlmannsnafn. Filip. Filip er íslenskt karlmannsnafn. Filippus. Filippus er íslenskt karlmannsnafn. Finn. Finn er íslenskt karlmannsnafn. Finnbjörn. Finnbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Finnbogi. Finnbogi er íslenskt karlmannsnafn. Finngeir. Finngeir er íslenskt karlmannsnafn. Finnjón. Finnjón er íslenskt karlmannsnafn. Finnlaugur. Finnlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Finnur. Finnur er íslenskt karlmannsnafn. Finnvarður. Finnvarður er íslenskt karlmannsnafn. Fífill. Fífill er íslenskt karlmannsnafn. Fjalar. Fjalar er íslenskt karlmannsnafn. Fjólar. Fjólar er íslenskt karlmannsnafn. Fjólmundur. Fjólmundur er íslenskt karlmannsnafn. Fjölnir. Fjölnir er íslenskt karlmannsnafn. Fjölvar. Fjölvar er íslenskt karlmannsnafn. Fjörnir. Fjörnir er íslenskt karlmannsnafn. Flemming. Flemming er íslenskt karlmannsnafn af dönsku bergi brotnu. Flosi. Flosi er íslenskt karlmannsnafn. Flóki. Flóki er íslenskt karlmannsnafn. Flórent. Flórent er íslenskt karlmannsnafn. Flóvent. Flóvent er íslenskt karlmannsnafn. Forni. Forni er íslenskt karlmannsnafn. Fólki. Fólki er íslenskt karlmannsnafn. Francis. Francis er íslenskt karlmannsnafn. Frank. Frank er íslenskt karlmannsnafn. Franklín. Franklín er íslenskt karlmannsnafn. Frans. Frans er karlmannsnafn af latneskum uppruna ("Franciscus"). Franz. Franz er íslenskt karlmannsnafn. Robert Nozick. Robert Nozick (16. nóvember 1938 – 23. janúar 2002) var bandarískur heimspekingur og Pellegrino University Professor við Harvard University. Nozick var meðal fremstu heimspekinga í Bandaríkjunum á 20. öld og lét sig varða nánast öll helstu viðfangsefni innan heimspekinnar. Rit hans "Stjórnleysi, ríki og staðleysa" ("Anarchy, State, and Utopia") (1974) var viðbragð í anda frjálshyggjunnar við riti Johns Rawls "Kenning um réttlæti" ("A Theory of Justice"), sem kom út árið 1971. Æviágrip. Nozick fæddist í Brooklyn í New York borg í Bandaríkjunum þann 16. nóvember 1938. Hann var sonur rússneskra gyðinga sem flust höfðu til Bandaríkjanna. Hann nam heimspeki til BA prófs við Columbia. Síðar nam hann við Princeton og Oxford háskóla. Á námsárum sínum hafði Nozick þónokkurn áhuga á vísindaheimspeki, ekki síst vegna áhrifa kennara sinna, Sidneys Morgenbesser við Columbia háskóla og Carls Hempel við Princeton háskóla. Þessi áhugi leiddi aldrei til bókaskrifa en Nozick hafði snemma áhuga á stjórnmálaheimspeki, stjórnmálum og samfélagslegum málum. Árið 1963 lauk hann doktorsritgerð um ákvarðanafræði, sem bar titilinn „The Normative Theory of Individual Choice“, en fyrsta bók Nozicks - og sú sem hann er frægastur fyrir - fjallaði um stjórnspeki. Hún kom út árið 1973 og hét "Stjórnleysi, ríki og staðleysa" (e. "Anarchy, State, and Utopia"). Nozick var kvæntur skáldinu Gjertrud Schnackenberg. Hann kenndi lengst af heimspeki við Harvard háskóla. Nozick lést þann 23. janúar árið 2002 eftir langa baráttu við krabbamein. Jarðneskar leifar hans eru í Mount Auburn Cemetery í Cambridge, Massachusetts í Bandaríkjunum. Stjórnspeki. Meginrit Nozicks um stjórnspeki var "Stjórnleysi, ríki og staðleysa" (e. "Anarchy, State and Utopia") sem var að miklu leyti viðbragð við "Kenningu um réttlæti" eftir John Rawls, samkennara Nozick á Harvard. Í ritinu færir Nozick rök fyrir því að dreifing gæða sé réttlát að því gefnu að hún sé afleiðing frjálsra viðskipta fullorðins fólks og réttlátrar upphafsstöðu, enda þótt mikill ójöfnuður verði til í kjölfarið. Nozick höfðaði til kantísku hugmyndarinnar um að koma beri fram við fólk sem skynsemisverur og markmið í sjálfum sér en ekki aðeins sem tæki. Til dæmis myndi þvinguð jöfnun tekna fela í sér það viðhorf til fólks að það væri öðru fremur uppsprettur fjármuna. Nozick brást hér við rökum Johns Rawls í "Kenningu um réttlæti" sem leiða til þeirrar niðurstöðu að réttlátur ójöfnuður í dreifingu gæða verði að gagnast þeim sem minnst mega sín. Seinna, í einni af síðustu bókum sínum, "Hinu rannsakaða lífi" ("The Examined Life"), dró Nozick aðeins í land og mildaði nokkuð frjálshyggjuna sem hann hafði fyrst sett fram í "Stjórnleysi, ríki og staðleysu" og sagði um fyrri skoðanir sínar að þær væru „alvarlega ónákvæmar“. Í viðtali árið 2001 útskýrði Nozick orð sín og sagðist hafa átt við að hann væri ekki lengur gallharður frjálshyggjumaður líkt og hann hefði áður verið; en að sögusagnir um hughvörf hans væru þó afar ýktar og að hann væri enn frjálshyggjumaður þótt um sumt sem hann skrifaði í "Stjórnleysi, ríki og staðleysu" hefði hann dregið í land. Útskýringar, gátur og hið rannsakaða líf. Í "Heimspekilegum útskýringum" ("Philosophical Explanations") (1981) setti Nozick fram nýstárlega greinargerð fyrir þekkingu, frjálsum vilja og eðli gæða. "Hið rannsakaða líf" ("The Examined Life") (1989), sem var ætlað almenningi, fjallaði einkum um ást, dauða, trú, raunveruleika og tilgang lífsins. Í "Eðli skynseminnar" ("The Nature of Rationality") (1993) er sett fram kenning um verklega skynsemi þar sem Nozick reyndi að nýta sér sígildar kenningar ákvörðunarfræða. "Sókratískar gátur" ("Socratic Puzzles") (1997) er safn greina sem fjalla um efni frá Ayn Rand og austurríska hagfræði til réttinda dýra. Í síðasta riti sínu, "Óbreytanleiki" ("Invariances") (2001), beitti Nozick innsæi úr eðlisfræði og líffræði á spurningar um hlutlægni í tengslum við eðli nauðsynjar, siðferðislegt gildi og annað af því tagi. Nozick og Gettier vandinn. Í "Heimspekilegum útskýringum" tekst Nozick á við ýmis erfið viðfangsefni, þ.á m. vandann við að skilgreina "þekkingu" í kjölfarið á grein Edmunds Gettier, sem hafði fært fram sannfærandi gagndæmi við hefðbundnu skilgreiningunni sem rakin er til Platons. Nozick gefur yfirlit yfir skrifin um Gettier vandann (sem voru þegar 1981 allmiklar) og leggur síðan til sína eigin lausn. P er tilfelli af þekkingu þegar (1) p er sönn, (2) S trúir að p, (3) ef p væri ekki sönn, þá myndi S ekki trúa að p, og (4) ef p væri sönn, þá myndi S trúa að p (þar sem p stendur fyrir tiltekna staðhæfingu og S fyrir persónu). Með öðrum orðum skiptir hann út platonsku réttlætingunni fyrir huglægum skilyrðum. Stíll. Nozick var þekktur fyrir stíl sinn sem einkenndist öðru fremur af forvitni og rannsóknagleði og aðferðafræðilegri einingarhyggju. Nozick, sem lét sér oft nægja að spyrja erfiðra heimspekilegra spurninga og velta upp ýmsum möguleikum en láta lesandann um að velja á milli þeirra, var einnig þekktur fyrir að nýta sér á nýstárlegan hátt skrif utan heimspekinnar (svo sem úr hagfræði, eðlisfræði og líffræði) til þess að gefa ritum sínum ferskleika og tengja þau orðræðu utan heimspekinnar. Heimildir. Nozick, Robert Nozick, Robert Fránn. Fránn er íslenskt karlmannsnafn. Frár. Frár er íslenskt karlmannsnafn. Freybjörn. Freybjörn er íslenskt karlmannsnafn. Freygarður. Freygarður er íslenskt karlmannsnafn. Freymar. Freymar er íslenskt karlmannsnafn. Freymóður. Freymóður er íslenskt karlmannsnafn. Freymundur. Freymundur er íslenskt karlmannsnafn. Freysteinn. Freysteinn er íslenskt karlmannsnafn. Freyþór. Freyþór er íslenskt karlmannsnafn. Freyviður. Freyviður er íslenskt karlmannsnafn. Friðberg. Friðberg er íslenskt karlmannsnafn. Friðbergur. Friðbergur er íslenskt karlmannsnafn. Friðbert. Friðbert er íslenskt karlmannsnafn. Friðbjörn. Friðbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Friðfinnur. Friðfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Friðgeir. Friðgeir er íslenskt karlmannsnafn. Friðjón. Friðjón er íslenskt karlmannsnafn. Friðlaugur. Friðlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Friðleifur. Friðleifur er íslenskt karlmannsnafn. Friðmann. Friðmann er íslenskt karlmannsnafn. Friðmar. Friðmar er íslenskt karlmannsnafn. Friðmundur. Friðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Friðrik. Friðrik er íslenskt karlmannsnafn, sem komið er úr þýsku og samansett af orðunum „freide“ og „rikki“ eða friður og ríkidæmi. Nafnið þýðir eiginlega „friðaður höfðingi“. Margir konungar á norðurlöndunum hafa borið nafnið (danska: Fredrik) og hafa því nokkrir konungar Íslands borið þetta nafn. Friðsteinn. Friðsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Friðþjófur. Friðþjófur er íslenskt karlmannsnafn. Friðþór. Friðþór er íslenskt karlmannsnafn. Friður (mannsnafn). Friður er íslenskt karlmannsnafn. Friðvin. Friðvin er íslenskt karlmannsnafn. Fritz. Fritz er karlmannsnafn af þýskum uppruna. Það er upprunalega stytting á Friedrich eða Frederick sem er ritað Friðrik á íslenskan máta. Frímann. Frímann er íslenskt karlmannsnafn. Frosti. Frosti er íslenskt karlmannsnafn. Fróði. Fróði er íslenskt karlmannsnafn. Fróðmar. Fróðmar er íslenskt karlmannsnafn. Funi. Funi er íslenskt karlmannsnafn. Fúsi. Fúsi er íslenskt karlmannsnafn. Fylkir. Fylkir er íslenskt karlmannsnafn. Gabríel (mannsnafn). Gabríel er íslenskt karlmannsnafn. Galdur (mannsnafn). Galdur er íslenskt karlmannsnafn. Gamalíel. Gamalíel er íslenskt karlmannsnafn. Garðar (mannsnafn). Garðar er íslenskt karlmannsnafn. Garibaldi. Garibaldi er íslenskt karlmannsnafn af ítölskum uppruna. Garpur. Garpur er íslenskt karlmannsnafn. Garri. Garri er íslenskt karlmannsnafn. Gaui. Gaui er íslenskt karlmannsnafn. Gaukur. Gaukur er íslenskt karlmannsnafn. Gauti. Gauti er íslenskt karlmannsnafn. Gautrekur. Gautrekur er íslenskt karlmannsnafn. Gautur. Gautur er íslenskt karlmannsnafn. Gautviður. Gautviður er íslenskt karlmannsnafn. Geir. Geir er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið merkir spjót. Viðliðurinn -geir er algengur í mannanöfnum. Geirarður. Geirarður er íslenskt karlmannsnafn. Geirfinnur. Geirfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Geirharður. Geirharður er íslenskt karlmannsnafn. Geirhvatur. Geirhvatur er íslenskt karlmannsnafn. Geirlaugur. Geirlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Geirleifur. Geirleifur er íslenskt karlmannsnafn. Geirmundur. Geirmundur er íslenskt karlmannsnafn. Geirólfur. Geirólfur er íslenskt karlmannsnafn. Geirröður. Geirröður er íslenskt karlmannsnafn. Geirþjófur. Geirþjófur er íslenskt karlmannsnafn. Geirtryggur. Geirtryggur er íslenskt karlmannsnafn. Geirvaldur. Geirvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Geisli (mannsnafn). Geisli er íslenskt karlmannsnafn. Gellir. Gellir er íslenskt karlmannsnafn. Georg. Georg er íslenskt karlmannsnafn. Gerald. Gerald er íslenskt karlmannsnafn. Gerðar. Gerðar er íslenskt karlmannsnafn. Geri. Geri er íslenskt karlmannsnafn. Gestur. Gestur er íslenskt karlmannsnafn. Gilbert. Gilbert er íslenskt karlmannsnafn. Gilmar. Gilmar er íslenskt karlmannsnafn. Gils. Gils er íslenskt karlmannsnafn. Gissur. Gissur er íslenskt karlmannsnafn. Gizur. Gizur er íslenskt karlmannsnafn. Gígjar. Gígjar er íslenskt karlmannsnafn. Gísli. Gísli er íslenskt karlmannsnafn. Gjúki. Gjúki er íslenskt karlmannsnafn. Glói. Glói er íslenskt karlmannsnafn. Glúmur. Glúmur er íslenskt karlmannsnafn. Gneisti. Gneisti er íslenskt karlmannsnafn. Gnúpur. Gnúpur er íslenskt karlmannsnafn. Gnýr. Gnýr er íslenskt karlmannsnafn. Goði. Goði er íslenskt karlmannsnafn. Goðmundur. Goðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Gottskálk. Gottskálk er íslenskt karlmannsnafn. Gottsveinn. Gottsveinn er íslenskt karlmannsnafn. Grani. Grani er íslenskt karlmannsnafn. Grankell. Grankell er íslenskt karlmannsnafn. Gregor. Gregor er íslenskt karlmannsnafn. Greipur. Greipur er íslenskt karlmannsnafn. Gretar. Gretar er íslenskt karlmannsnafn. Grettir (mannsnafn). Grettir er íslenskt karlmannsnafn. Grímar. Grímar er íslenskt karlmannsnafn. Grímkell. Grímkell er íslenskt karlmannsnafn. Grímlaugur. Grímlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Grímnir. Grímnir er íslenskt karlmannsnafn. Grímólfur. Grímólfur er íslenskt karlmannsnafn. Grímur. Grímur er íslenskt karlmannsnafn. Grímúlfur. Grímúlfur er íslenskt karlmannsnafn. Guðberg. Guðberg er íslenskt karlmannsnafn. Guðbergur. Guðbergur er íslenskt karlmannsnafn. Guðbjarni. Guðbjarni er íslenskt karlmannsnafn. Guðbjartur. Guðbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Guðbjörn. Guðbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Guðbrandur. Guðbrandur er íslenskt karlmannsnafn. Guðfinnur. Guðfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Guðfreður. Guðfreður er íslenskt karlmannsnafn. Guðgeir. Guðgeir er íslenskt karlmannsnafn. Guðjón. Guðjón er íslenskt karlmannsnafn. Guðlaugur. Guðlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Guðleifur. Guðleifur er íslenskt karlmannsnafn. Guðleikur. Guðleikur er íslenskt karlmannsnafn. Guðmann. Guðmann er íslenskt karlmannsnafn. Guðmar. Guðmar er íslenskt karlmannsnafn. Guðmon. Guðmon er íslenskt karlmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Guðmon væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá þann 18. desember 2001. Guðmundur. Guðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Guðni. Guðni er íslenskt karlmannsnafn. Þekkingarfræði. Þekkingarfræði er undirgein heimspekinnar sem fjallar um eðli og uppsprettu þekkingar og um skyld hugtök svo sem skoðun, skynjun, skynsemi, huglægni, hlutlægni og vitnisburð. Þeir sem fást við þekkingarfræði kallast þekkingarfræðingar. Guðráður. Guðráður er íslenskt karlmannsnafn. Guðröður. Guðröður er íslenskt karlmannsnafn. Guðstein. Guðstein er íslenskt karlmannsnafn. Guðþór. Guðþór er íslenskt karlmannsnafn. Guðvarður. Guðvarður er íslenskt karlmannsnafn. Guðveigur. Guðveigur er íslenskt karlmannsnafn. Guðvin. Guðvin er íslenskt karlmannsnafn. Gumi. Gumi er íslenskt karlmannsnafn. Gunnar. Gunnar er íslenskt karlmannsnafn. Gunnberg. Gunnberg er íslenskt karlmannsnafn. Gunnbjörn. Gunnbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Gunndór. Gunndór er íslenskt karlmannsnafn. Gunngeir. Gunngeir er íslenskt karlmannsnafn. Gunnhallur. Gunnhallur er íslenskt karlmannsnafn. Gunnlaugur. Gunnlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Gunnleifur. Gunnleifur er íslenskt karlmannsnafn. Gunnólfur. Gunnólfur er íslenskt karlmannsnafn. Gunnóli. Gunnóli er íslenskt karlmannsnafn. Gunnröður. Gunnröður er íslenskt karlmannsnafn. Gunnsteinn. Gunnsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Gunnþór. Gunnþór er íslenskt karlmannsnafn. Gunnvaldur. Gunnvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Gustav. Gustav er íslenskt karlmannsnafn. Gutti. Gutti er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er dregið af danska nafnorðinu „gut“ er merkir drengur(strákur). Guttormur. Guttormur er íslenskt karlmannsnafn. Gústaf. Gústaf er íslenskt karlmannsnafn. Gústav. Gústav er íslenskt karlmannsnafn. Gylfi. Gylfi er íslenskt karlmannsnafn. Gyrðir. Gyrðir er íslenskt karlmannsnafn. Gýgjar. Gýgjar er íslenskt karlmannsnafn. Gýmir. Gýmir er íslenskt karlmannsnafn. Haddur. Haddur er íslenskt karlmannsnafn. Hafberg. Hafberg er íslenskt karlmannsnafn. Hafgrímur. Hafgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Hafliði. Hafliði er íslenskt karlmannsnafn. Hafnar. Hafnar er íslenskt karlmannsnafn. Hafni. Hafni er íslenskt karlmannsnafn. Hafsteinn. Hafsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Hafþór. Hafþór er íslenskt karlmannsnafn. Hagalín. Hagalín er íslenskt karlmannsnafn. Hagbarður. Hagbarður er íslenskt karlmannsnafn. Hagbert. Hagbert er íslenskt karlmannsnafn. Haki. Haki er íslenskt karlmannsnafn. Hallberg. Hallberg er íslenskt karlmannsnafn. Hallbjörn. Hallbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Halldór. Halldór er íslenskt karlmannsnafn. Hallfreður. Hallfreður er íslenskt karlmannsnafn. Hallgarður. Hallgarður er íslenskt karlmannsnafn. Hallgeir. Hallgeir er íslenskt karlmannsnafn. Hallgils. Hallgils er íslenskt karlmannsnafn. Hallgrímur. Hallgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Hallkell. Hallkell er íslenskt karlmannsnafn. Hallmann. Hallmann er íslenskt karlmannsnafn. Hallmar. Hallmar er íslenskt karlmannsnafn. Hallmundur. Hallmundur er íslenskt karlmannsnafn. Hallsteinn. Hallsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Hallþór. Hallþór er íslenskt karlmannsnafn. Hallur. Hallur er íslenskt karlmannsnafn. Hallvarður. Hallvarður er íslenskt karlmannsnafn. Hamar (mannsnafn). Hamar er íslenskt karlmannsnafn. Hannes. Hannes er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er stundum stytting á Jóhannes. Hannibal (mannsnafn). Hannibal er íslenskt karlmannsnafn. Hans. Hans er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið er þýsk stytting á Jóhannes. Harald. Harald er íslenskt karlmannsnafn. Haraldur (nafn). Haraldur er íslenskt karlmannsnafn. Harri. Harri er íslenskt karlmannsnafn. Harry. Harry er íslenskt karlmannsnafn. Harrý. Harrý er íslenskt karlmannsnafn. Hartmann. Hartmann er íslenskt karlmannsnafn. Hartvig. Hartvig er íslenskt karlmannsnafn sem kemur úr þýsku þar sem það þýðir harðvígur. Hauksteinn. Hauksteinn er íslenskt karlmannsnafn. Haukvaldur. Haukvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Hákon. Hákon er íslenskt karlmannsnafn. Í eignarfalli kemur það ýmist fram sem „Hákons“ eða „Hákonar“. Háleygur. Háleygur er íslenskt karlmannsnafn. Hálfdan. Hálfdan er íslenskt karlmannsnafn. Hálfdán. Hálfdán er íslenskt karlmannsnafn. Jón Grunnvíkingur tók saman nafnaskrá, en samkvæmt henni átti nafnið Hálfdan að vera dregið saman úr "Hjörálfur dugandi". Ekki er það talið rétt. Hámundur. Hámundur er íslenskt karlmannsnafn. Hárekur. Hárekur er íslenskt karlmannsnafn. Hárlaugur. Hárlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Hásteinn. Hásteinn er íslenskt karlmannsnafn. Hávar. Hávar er íslenskt karlmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Hávarr væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá og var það samþykkt þann 18. desember 2001. Taldist það ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks nútímamáls og er andstætt íslenskri hljóðþróun, þó hefð hafi skapast fyrir fáeinum nöfnum með þessari endingu (-rr). Ekki telst því vera tilefni til endurupptöku máls þessa. Sjá einnig greinina mannanöfnum hafnað af Mannanafnanefnd. Hávarður. Hávarður er íslenskt karlmannsnafn. Heiðar. Heiðar er íslenskt karlmannsnafn. Heiðberg. Heiðberg er íslenskt karlmannsnafn. Heiðbert. Heiðbert er íslenskt karlmannsnafn. Heiðlindur. Heiðlindur er íslenskt karlmannsnafn. Heiðmann. Heiðmann er íslenskt karlmannsnafn. Heiðmar. Heiðmar er íslenskt karlmannsnafn. Heiðmundur. Heiðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Heiðrekur. Heiðrekur er íslenskt karlmannsnafn. Heikir. Heikir er íslenskt karlmannsnafn. Heilmóður. Heilmóður er íslenskt karlmannsnafn. Heimir. Heimir er íslenskt karlmannsnafn. Heinrekur. Heinrekur er íslenskt karlmannsnafn. Hektor (nafn). Hektor er íslenskt karlmannsnafn. Helgi. Helgi er íslenskt karlmannsnafn. Helmút. Helmút er íslenskur ritháttur þýska nafnsins Helmut. Hemmert. Hemmert er íslenskt karlmannsnafn. Hendrik. Hendrik er íslenskt karlmannsnafn. Henning. Henning er íslenskt karlmannsnafn. Henrik. Henrik er íslenskt karlmannsnafn. Henry. Henry er íslenskt karlmannsnafn. Henrý. Henrý er íslenskt karlmannsnafn. Herbert. Herbert er íslenskt karlmannsnafn. Herbjörn. Herbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Herfinnur. Herfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Hergeir. Hergeir er íslenskt karlmannsnafn. Hergill. Hergill er íslenskt karlmannsnafn. Hergils. Hergils er íslenskt karlmannsnafn. Herjólfur (mannsnafn). Herjólfur er íslenskt karlmannsnafn. Herlaugur. Herlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Herleifur. Herleifur er íslenskt karlmannsnafn. Herluf. Herluf er íslenskt karlmannsnafn. Hermann. Hermann er íslenskt karlmannsnafn. Hermóður. Hermóður er íslenskt karlmannsnafn. Hermundur. Hermundur er íslenskt karlmannsnafn. Hersir. Hersir er íslenskt karlmannsnafn. Hersteinn. Hersteinn er íslenskt karlmannsnafn. Hersveinn. Hersveinn er íslenskt karlmannsnafn. Hervar. Hervar er íslenskt karlmannsnafn. Hervarður. Hervarður er íslenskt karlmannsnafn. Hervin. Hervin er íslenskt karlmannsnafn. Héðinn. Héðinn er íslenskt karlmannsnafn. Hilaríus. Hilaríus er íslenskt karlmannsnafn sem er nú er aflagt og náðu í raun aldrei fótfestu í íslensku máli. Orðsifjar. Nafnið Hilaríus kemur úr latneska lýsingarorðinu "hilaris" ("glaður"). Saga. Sérnafnið Hilaríus varð skírnarnafn á Íslandi á um 18. öld og í manntali sem gert var árið 1801 voru aðeins tveir svo nefndir; sá eldri Hilaríus Illugason (þá 66 ára) fyrrverandi prestur á Stóra-Mosfelli í Árnessýslu og sá yngri var tveggja ára sveinn í Flatey í Barðarstrandarsýslu, sonur séra Eyjólfs Kolbeinssonar. Eyjólfur hafði verið í fóstri hjá séra Hilaríusi og nefndi hann son sinn í höfuð fóstra sínum. Þótt að nafnið hafi staðið höllum fæti á Íslandi farnaðist því ágætlega á Ísafirði en árið 1910 voru á landinu fimm svo nefndir- þar af fjórir Ísfirðingar. Nafnið deyr út þegar líður fram á 20. öld. Hilbert. Hilbert er íslenskt karlmannsnafn. Hildar. Hildar er íslenskt karlmannsnafn. Hildibergur. Hildibergur er íslenskt karlmannsnafn. Hildibrandur. Hildibrandur er íslenskt karlmannsnafn. Hildigeir. Hildigeir er íslenskt karlmannsnafn. Hildiglúmur. Hildiglúmur er íslenskt karlmannsnafn. Hildimar. Hildimar er íslenskt karlmannsnafn. Hildimundur. Hildimundur er íslenskt karlmannsnafn. Hildingur. Hildingur er íslenskt karlmannsnafn. Hildir. Hildir er íslenskt karlmannsnafn. Hildiþór. Hildiþór er íslenskt karlmannsnafn. Hilmar. Hilmar er íslenskt karlmannsnafn. Hilmir. Hilmir er íslenskt karlmannsnafn. Himri. Himri er íslenskt karlmannsnafn. Hinrik. Hinrik er íslenskt karlmannsnafn. Híram. Híram er íslenskt karlmannsnafn. Hjallkár. Hjallkár er íslenskt karlmannsnafn. Hjalti. Hjalti er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið kemur fyrir í Landnámu og Íslendinga sögum. "Hjalte" er þekkt í Danmörku frá fornu fari og í Svíþjóð frá síðustu öld. Uppruni nafnsins er trúlega af tvennum toga. Það gæti verið myndað af hjalt "handhlíf, þverstykki á sverði" eða merkt "Hjaltlendingur, íbúi Hjaltlands eða Hjaltlandseyja". Hjarnar. Hjarnar er íslenskt karlmannsnafn. Hjálmar (mannsnafn). Hjálmar er íslenskt karlmannsnafn. Hjálmgeir. Hjálmgeir er íslenskt karlmannsnafn. Hjálmþór. Hjálmþór er íslenskt karlmannsnafn. Hjálmtýr. Hjálmtýr er íslenskt karlmannsnafn. Hjálmur. Hjálmur er íslenskt karlmannsnafn. Hjörleifur. Hjörleifur er íslenskt karlmannsnafn. Hjörtþór. Hjörtþór er íslenskt karlmannsnafn. Hjörtur. Hjörtur er íslenskt karlmannsnafn. Hjörvar. Hjörvar er íslenskt karlmannsnafn. Hleiðar. Hleiðar er íslenskt karlmannsnafn. Hlégestur. Hlégestur er íslenskt karlmannsnafn. Hlér. Hlér er íslenskt karlmannsnafn. Hlini. Hlini er íslenskt karlmannsnafn. Hlíðar (mannsnafn). Hlíðar er íslenskt karlmannsnafn. Hlíðberg. Hlíðberg er íslenskt karlmannsnafn. Hlífar. Hlífar er íslenskt karlmannsnafn. Hljómur. Hljómur er íslenskt karlmannsnafn. Hlynur (mannsnafn). Hlynur er íslenskt karlmannsnafn. Hlöðmundur. Hlöðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Hlöður. Hlöður er íslenskt karlmannsnafn. Hlöðvarður. Hlöðvarður er íslenskt karlmannsnafn. Hlöðver. Hlöðver er íslenskt karlmannsnafn. Hnefill. Hnefill er íslenskt karlmannsnafn. Hnikar. Hnikar er íslenskt karlmannsnafn. Holgeir. Holgeir er íslenskt karlmannsnafn. Holti. Holti er íslenskt karlmannsnafn. Hólm. Hólm er íslenskt karlmannsnafn. Hólmar. Hólmar er íslenskt karlmannsnafn. Hólmbert. Hólmbert er íslenskt karlmannsnafn. Hólmfastur. Hólmfastur er íslenskt karlmannsnafn. Hólmgeir. Hólmgeir er íslenskt karlmannsnafn. Hólmgrímur. Hólmgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Hólmkell. Hólmkell er íslenskt karlmannsnafn. Hólmsteinn. Hólmsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Hólmþór. Hólmþór er íslenskt karlmannsnafn. Hóseas. Hóseas er íslenskt karlmannsnafn. Það var seinast gefið sem millinafn 1927 en firstanafn 1909. Hrafnar. Hrafnar er íslenskt karlmannsnafn. Hrafnbergur. Hrafnbergur er íslenskt karlmannsnafn. Hrafnkell. Hrafnkell er íslenskt karlmannsnafn. Hrannar. Hrannar er íslenskt karlmannsnafn. Hrappur. Hrappur er íslenskt karlmannsnafn. Hraunar. Hraunar er íslenskt karlmannsnafn. Hreggviður. Hreggviður er íslenskt karlmannsnafn. Hreiðar. Hreiðar er íslenskt karlmannsnafn. Hreiðmar. Hreiðmar er íslenskt karlmannsnafn. Hreimur. Hreimur er íslenskt karlmannsnafn. Hreinn. Hreinn er íslenskt karlmannsnafn. Hringur (mannsnafn). Hringur er íslenskt karlmannsnafn. Hrímnir. Hrímnir er íslenskt karlmannsnafn. Hrollaugur. Hrollaugur er íslenskt karlmannsnafn. Hrolleifur. Hrolleifur er íslenskt karlmannsnafn. Hróaldur. Hróaldur er íslenskt karlmannsnafn. Hróar. Hróar er íslenskt karlmannsnafn. Hróbjartur. Hróbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Hróðgeir. Hróðgeir er íslenskt karlmannsnafn. Það er samsett af nafnorðinu „hróður“ og viðliðnum „geir“ sem merkir spjót. Hróðmar. Hróðmar er íslenskt karlmannsnafn. Hróðólfur. Hróðólfur er íslenskt karlmannsnafn. Hróðvar. Hróðvar er íslenskt karlmannsnafn. Hrói. Hrói er íslenskt karlmannsnafn. Hrólfur. Hrólfur er íslenskt karlmannsnafn. Hrómundur. Hrómundur er íslenskt karlmannsnafn. Hrútur. Hrútur er íslenskt karlmannsnafn. Hrærekur. Hrærekur er íslenskt karlmannsnafn. Forliðurinn er upphaflega Hróð- en ð hefur fallið brott og auk þess hefur orðið i-hljóðvarp. Nafnið barst frá Svíþjóð eða Þýskalandi til Rússlands og kom þaðan aftur sem Rúrik. Þótt nafnið sé á mannanafnaskrá virðist enginn Íslendingur hafa borið það. Einn Hrærekur bar þó beinin hérlendis, Hrærekur konungur á Kálfsskinni. Hugberg. Hugberg er íslenskt karlmannsnafn. Huginn. Huginn er íslenskt karlmannsnafn. Hugleikur (mannsnafn). Hugleikur er íslenskt karlmannsnafn. Hugo. Hugo er íslenskt karlmannsnafn af germönskum uppruna, notað sem stytting á nöfnum sem byrja á Hug-. Það er annað vinsælasta nafnið í Frakklandi og sjötta vinsælasta nafnið á Spáni. Huldar. Huldar er íslenskt karlmannsnafn. Húbert. Húbert er íslenskt karlmannsnafn. Húgó. Húgó er íslenskt karlmannsnafn. Húmi. Húmi er íslenskt karlmannsnafn. Húnbogi. Húnbogi er íslenskt karlmannsnafn. Húni. Húni er íslenskt karlmannsnafn. Húnn. Húnn er íslenskt karlmannsnafn. Húnröður. Húnröður er íslenskt karlmannsnafn. Hyltir. Hyltir er íslenskt karlmannsnafn. Hængur (mannsnafn). Hængur er íslenskt karlmannsnafn. Hænir. Hænir er íslenskt karlmannsnafn. Höður. Höður er íslenskt karlmannsnafn. Högni. Högni er íslenskt karlmannsnafn. Hörður. Hörður er íslenskt karlmannsnafn. Höskuldur. Höskuldur er íslenskt karlmannsnafn. Illugi. Illugi er íslenskt karlmannsnafn. Immanúel. Immanúel er íslenskt karlmannsnafn. Indriði. Indriði er íslenskt karlmannsnafn. Ingberg. Ingberg er íslenskt karlmannsnafn. Ingi. Ingi er íslenskt karlmannsnafn. Ingiberg. Ingiberg er íslenskt karlmannsnafn. Ingibergur. Ingibergur er íslenskt karlmannsnafn. Ingibert. Ingibert er íslenskt karlmannsnafn. Ingibjartur. Ingibjartur er íslenskt karlmannsnafn. Ingibjörn. Ingibjörn er íslenskt karlmannsnafn. Ingileifur. Ingileifur er íslenskt karlmannsnafn. Ingimagn. Ingimagn er íslenskt karlmannsnafn. Ingimar. Ingimar er íslenskt karlmannsnafn. Ingimundur. Ingimundur er íslenskt karlmannsnafn. Ingiþór. Ingiþór er íslenskt karlmannsnafn. Ingivaldur. Ingivaldur er íslenskt karlmannsnafn. Ingjaldur. Ingjaldur er íslenskt karlmannsnafn. Ingmar. Ingmar er íslenskt karlmannsnafn. Ingólfur. Ingólfur er íslenskt karlmannsnafn. Ingþór. Ingþór er íslenskt karlmannsnafn. Ingvaldur. Ingvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Ingvar. Ingvar er íslenskt karlmannsnafn. Ingvi. Ingvi er íslenskt karlmannsnafn. Ían. Ían er íslenskur ritháttur af skoska nafninu Ian, sem aftur á móti er dregið af John. Ími. Ími er íslenskt karlmannsnafn. Ísak. Ísak er íslenskt karlmannsnafn. Ísar. Ísar er íslenskt karlmannsnafn. Forn ritháttur nafnsins Ísar er Ísarr. Ísgeir. Ísgeir er íslenskt karlmannsnafn. Ísidór. Ísidór er íslenskt karlmannsnafn. Ísleifur. Ísleifur er íslenskt karlmannsnafn. Ísmael. Ísmael er íslenskt karlmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Ísmael væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá þann 18. desember 2001. Ísólfur. Ísólfur er íslenskt karlmannsnafn. Ívan. Ívan er íslenskt karlmannsnafn af rússnesku bergi brotið. Ívar. Ívar er íslenskt karlmannsnafn. Jack. Jack er íslenskt karlmannsnafn af enskum uppruna, myndað sem gælunafn fyrir John. Jafet. Jafet er íslenskt karlmannsnafn. Jaki. Jaki er íslenskt karlmannsnafn. Jakob. Jakob er íslenskt karlmannsnafn. Jakop. Jakop er íslenskt karlmannsnafn. Jan. Jan er íslenskt karlmannsnafn. Janus. Janus er íslenskt karlmannsnafn. Jarl (nafn). Jarl er íslenskt karlmannsnafn. Jason (nafn). Jason er íslenskt karlmannsnafn. Játgeir. Játgeir er íslenskt karlmannsnafn. Játmundur. Játmundur er íslenskt karlmannsnafn. Játvarður. Játvarður er íslenskt karlmannsnafn. Jenni. Jenni er íslenskt karlmannsnafn. Jeremías. Jeremías er íslenskt karlmannsnafn, komið úr hebresku, יִרְמְיָהוּ sem merkir drottin upplyftir. Nafnið er stundum notað sem upphrópun sem táknar undrun eða furðu. Jes. Jes er íslenskt karlmannsnafn. Jesper. Jesper er íslenskt karlmannsnafn af dönsku bergi brotið. Jochum. Jochum er íslenskt karlmannsnafn, ein nokkura ritmynda hebresks nafns sem útleggst „guð mun dæma“. Aðrar ritmyndir eru til að mynda Jóakim. Johan. Johan er íslenskt karlmannsnafn, þýskur ritháttur af styttingu á Jóhannes. John. John er íslenskt karlmannsnafn af ensku bergi brotnu, það er stytting af Jóhannes. Joshua. Joshua er íslenskt karlmannsnafn. Jóakim. Jóakim er íslenskt karlmannsnafn. Jóann. Jóann er íslenskt karlmannsnafn sem er færeyskur ritháttur af Jóhann. Jóel. Jóel er íslenskt karlmannsnafn. Jói. Jói er íslenskt karlmannsnafn, nafnið er stytting á Jóhann eða Jóhannes. Jómar. Jómar er íslenskt karlmannsnafn. Jómundur. Jómundur er íslenskt karlmannsnafn. Jónar. Jónar er íslenskt karlmannsnafn. Jónas. Jónas er íslenskt karlmannsnafn. Jónbjörn. Jónbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Jóndór. Jóndór er íslenskt karlmannsnafn. Jóngeir. Jóngeir er íslenskt karlmannsnafn. Jónmundur. Jónmundur er íslenskt karlmannsnafn. Jónsteinn. Jónsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Jónþór. Jónþór er íslenskt karlmannsnafn. Jósafat. Jósafat er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið Jósafat merkir: „Drottinn dæmir“. Jósavin. Jósavin er íslenskt karlmannsnafn. Jósef. Jósef er íslenskt karlmannsnafn. Jósep. Jósep er íslenskt karlmannsnafn. Jósteinn. Jósteinn er íslenskt karlmannsnafn. Jósúa. Jósúa er íslenskt karlmannsnafn. Jóvin. Jóvin er íslenskt karlmannsnafn. Júlí (mannsnafn). Júlí er íslenskt karlmannsnafn. Júlían. Júlían er íslenskt karlmannsnafn. Júlíus. Júlíus er íslenskt karlmannsnafn af latneskum uppruna, komið af rómverska ættarnafninu IVLIVS eða Julius. Júníus. Júníus er íslenskt karlmannsnafn. Júrek. Júrek er íslenskt karlmannsnafn. Jökull (mannsnafn). Jökull er íslenskt karlmannsnafn. Jörfi (mannsnafn). Jörfi er íslenskt karlmannsnafn. Jörgen. Jörgen er íslenskt karlmannsnafn. Jörmundur. Jörmundur er íslenskt karlmannsnafn. Jörundur. Jörundur er íslenskt karlmannsnafn. Jörvar. Jörvar er íslenskt karlmannsnafn. Jörvi. Jörvi er íslenskt karlmannsnafn. Kaj. Kaj er íslenskt karlmannsnafn. Kakali. Kakali er íslenskt karlmannsnafn. Kaldi. Kaldi er íslenskt karlmannsnafn. Kaleb. Kaleb er íslenskt karlmannsnafn. Kalman. Kalman er íslenskt karlmannsnafn. Kalmann. Kalmann er íslenskt karlmannsnafn. Kalmar (mannsnafn). Kalmar er íslenskt karlmannsnafn. Kaprasíus. Kaprasíus er íslenskt karlmannsnafn. Karel. Karel er íslenskt karlmannsnafn. Karkur. Karkur er íslenskt karlmannsnafn. Karl (mannsnafn). Karl er íslenskt karlmannsnafn. Karles. Karles er íslenskt karlmannsnafn. Karli (mannsnafn). Karli er íslenskt karlmannsnafn. Karvel. Karvel er íslenskt karlmannsnafn. Kasper. Kasper er íslenskt karlmannsnafn. Katarínus. Katarínus er íslenskt karlmannsnafn. Kató. Kató er íslenskt karlmannsnafn dregið af latneska nafninu Cato. Kár. Kár er íslenskt karlmannsnafn. Ketilbjörn. Ketilbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Ketill (karlmannsnafn). Ketill er íslenskt karlmannsnafn. Kiljan. Kiljan er íslenskt karlmannsnafn. Kjalar. Kjalar er íslenskt karlmannsnafn. Kjallakur. Kjallakur er íslenskt karlmannsnafn. Kjaran. Kjaran er íslenskt karlmannsnafn. Kjartan. Kjartan er íslenskt karlmannsnafn. Klemens. Klemens er íslenskt karlmannsnafn. Uppruni þess er frá síð-Latínu. Klemenz. Klemenz er íslenskt karlmannsnafn. Klængur. Klængur er íslenskt karlmannsnafn. Knútur. Knútur er íslenskt karlmannsnafn. Knörr (mannsnafn). Knörr er íslenskt karlmannsnafn. Koðrán. Koðrán er íslenskt karlmannsnafn. Af þekktum einstaklingum sem hafa borið þetta nafn má t.d. nefna dótturson Flóka Vilgerðarsonar. Kolbeinn. Kolbeinn er íslenskt karlmannsnafn. Kolbjörn. Kolbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Kolfinnur. Kolfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Kolgrímur. Kolgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Kolmar. Kolmar er íslenskt karlmannsnafn. Kolskeggur. Kolskeggur er íslenskt karlmannsnafn. Kolur. Kolur er íslenskt karlmannsnafn. Kolviður (mannsnafn). Kolviður er íslenskt karlmannsnafn. Konráð. Konráð er íslenskt karlmannsnafn. Konstantínus. Konstantínus er íslenskt karlmannsnafn. Kormákur. Kormákur er íslenskt karlmannsnafn. Kornelíus. Kornelíus er íslenskt karlmannsnafn. Kort (mannsnafn). Kort er íslenskt karlmannsnafn. Kópur. Kópur er íslenskt karlmannsnafn. Kristall (mannsnafn). Kristall er íslenskt karlmannsnafn. Kristberg. Kristberg er íslenskt karlmannsnafn. Kristbergur. Kristbergur er íslenskt karlmannsnafn. Kristbjörn. Kristbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Kristdór. Kristdór er íslenskt karlmannsnafn. Kristens. Kristens er íslenskt karlmannsnafn. Krister. Krister er íslenskt karlmannsnafn. Kristfinnur. Kristfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Kristgeir. Kristgeir er íslenskt karlmannsnafn. Kristian. Kristian er íslenskt karlmannsnafn. Kristinn. Kristinn er íslenskt karlmannsnafn. Kristján. Kristján er íslenskt karlmannsnafn. Kristjón. Kristjón er íslenskt karlmannsnafn. Kristlaugur. Kristlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Kristleifur. Kristleifur er íslenskt karlmannsnafn. Kristmann. Kristmann er íslenskt karlmannsnafn. Kristmar. Kristmar er íslenskt karlmannsnafn. Kristmundur. Kristmundur er íslenskt karlmannsnafn. Kristþór. Kristþór er íslenskt karlmannsnafn. Kristvaldur. Kristvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Kristvarður. Kristvarður er íslenskt karlmannsnafn. Kristvin. Kristvin er íslenskt karlmannsnafn. Krummi. Krummi er íslenskt karlmannsnafn. Kveldúlfur (nafn). Kveldúlfur er íslenskt karlmannsnafn. Lambert. Lambert er íslenskt karlmannsnafn. Lars. Lars er íslenskt karlmannsnafn. Laufar. Laufar er íslenskt karlmannsnafn. Lauritz. Lauritz er íslenskt karlmannsnafn. Lár. Lár er íslenskt karlmannsnafn. Lárentíus. Lárentíus er íslenskt karlmannsnafn. Lárus. Lárus er íslenskt karlmannsnafn. Leiðólfur. Leiðólfur er íslenskt karlmannsnafn. Leifur. Leifur er íslenskt karlmannsnafn. Leiknir. Leiknir er íslenskt karlmannsnafn. Leon. Leon er íslenskt karlmannsnafn. Leonard. Leonard er íslenskt karlmannsnafn. Leonhard. Leonhard er íslenskt karlmannsnafn. Leó. Leó er íslenskt karlmannsnafn. Leópold. Leópold er íslenskt karlmannsnafn. Leví. Leví er íslenskt karlmannsnafn. Liljar. Liljar er íslenskt karlmannsnafn. Lindar. Lindar er íslenskt karlmannsnafn. Lindberg. Lindberg er íslenskt karlmannsnafn. Línberg. Línberg er íslenskt karlmannsnafn. Líni. Líni er íslenskt karlmannsnafn. Ljósálfur. Ljósálfur er íslenskt karlmannsnafn. Ljótur. Ljótur er íslenskt karlmannsnafn. Ljótur merkir "bjartur", "ljós" og á sér sömu rætur og enska orðið light. Ljúfur. Ljúfur er íslenskt karlmannsnafn. Loðmundur (mannsnafn). Loðmundur er íslenskt karlmannsnafn. Loftur. Loftur er íslenskt karlmannsnafn. Logi. Logi er íslenskt karlmannsnafn. Loki (mannsnafn). Loki er íslenskt karlmannsnafn. Lórens. Lórens er íslenskt karlmannsnafn. Lórenz. Lórenz er íslenskt karlmannsnafn. Ludvig. Ludvig er íslenskt karlmannsnafn. Lúðvíg. Lúðvíg er íslenskt karlmannsnafn. Lúðvík. Lúðvík er íslenskt karlmannsnafn. Lúkas. Lúkas er íslenskt karlmannsnafn. Lúter. Lúter er íslenskt karlmannsnafn. Lúther (mannsnafn). Lúther er íslenskt karlmannsnafn. Lýður. Lýður er íslenskt karlmannsnafn. Lýtingur (mannsnafn). Lýtingur er íslenskt karlmannsnafn. Maggi. Maggi er íslenskt karlmannsnafn. Magngeir. Magngeir er íslenskt karlmannsnafn. Magni. Magni er íslenskt karlmannsnafn. Magnþór. Magnþór er íslenskt karlmannsnafn. Makan. Makan er íslenskt karlmannsnafn. Manfred. Manfred er íslenskt karlmannsnafn. Manfreð. Manfreð er íslenskt karlmannsnafn. Manúel. Manúel er íslenskt karlmannsnafn af spænskum uppruna. Mar (mannsnafn). Mar er íslenskt karlmannsnafn. Marbjörn. Marbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Marel. Marel er íslenskt karlmanns- og kvenmannsnafn. Í desember 2005 var það eina íslenska mannanafnið sem var listað í mannanafnaskrá sem drengja og stúlkunafn, einungis ein kona ber það þó sem seinna eiginnafn. Margeir. Margeir er íslenskt karlmannsnafn. Margrímur. Margrímur er íslenskt karlmannsnafn. Mari. Mari er íslenskt karlmannsnafn. Marijón. Marijón er íslenskt karlmannsnafn. Marinó. Marinó er íslenskt karlmannsnafn. Marías. Marías er íslenskt karlmannsnafn. Marís. Marís er íslenskt karlmannsnafn. Maríus (mannsnafn). Maríus er íslenskt karlmannsnafn. Marjón. Marjón er íslenskt karlmannsnafn. Markþór. Markþór er íslenskt karlmannsnafn. Markús. Markús er íslenskt karlmannsnafn. Það er fengið af latneska nafninu „Marcus“, sonur stríðsguðsins Mars. Maron. Maron er íslenskt karlmannsnafn. Marri. Marri er íslenskt karlmannsnafn. Mars (mannsnafn). Mars er íslenskt karlmannsnafn. Marsellíus. Marsellíus er íslenskt karlmannsnafn. Marteinn. Marteinn er íslenskt karlmannsnafn. Marten. Marten er íslenskt karlmannsnafn. Marthen. Marthen er sjaldgæft íslenskt karlmannsnafn. Martin. Martin er íslenskt karlmannsnafn. Marvin. Marvin er íslenskt karlmannsnafn. Mathías. Mathías er íslenskt karlmannsnafn. Matthías. Matthías er íslenskt karlmannsnafn. Matti. Matti er íslenskt karlmannsnafn. Mattías. Mattías er íslenskt karlmannsnafn. Max. Max er íslenskt karlmannsnafn, sem er þekkt nafn í erlendum tungumálum. Nafnið getur verið notað til styttingar á nöfnunum Maximilian eða Maximus. Máni (mannanafn). Máni er íslenskt karlmannsnafn. Már. Már er íslenskt karlmannsnafn. Márus. Márus er íslenskt karlmannsnafn. Mekkinó. Mekkinó er íslenskt karlmannsnafn. Melkólmur. Melkólmur er íslenskt karlmannsnafn. Mensalder. Mensalder er íslenskt karlmannsnafn. Methúsalem. Methúsalem er íslenskt karlmannsnafn. Metúsalem. Metúsalem er íslenskt karlmannsnafn. Meyvant. Meyvant er íslenskt karlmannsnafn. Michael. Michael er íslenskt karlmannsnafn. Mikael (mannsnafn). Mikael er íslenskt karlmannsnafn. Mikjáll. Mikjáll er íslenskt karlmannsnafn. Mías. Mías er íslenskt karlmannsnafn. Mímir (mannanafn). Mímir er íslenskt karlmannsnafn. Mír (mannsnafn). Mír er íslenskt karlmannsnafn. Mjölnir (nafn). Mjölnir er íslenskt karlmannsnafn, nafnið er úr norrænni goðafræði og var notað yfir hamar Þórs. Moritz. Moritz er íslenskt karlmannsnafn. Mórits. Mórits er íslenskt karlmannsnafn. Móses (nafn). Móses er íslenskt karlmannsnafn. Muggur (nafn). Muggur er íslenskt karlmannsnafn. Muni. Muni er íslenskt karlmannsnafn. Muninn. Muninn er íslenskt karlmannsnafn. Múli. Múli er íslenskt karlmannsnafn. Myrkvi. Myrkvi er íslenskt karlmannsnafn. Mýrkjartan. Mýrkjartan er íslenskt karlmannsnafn. Mörður (nafn). Mörður er íslenskt karlmannsnafn. Narfi. Narfi er íslenskt karlmannsnafn. Natan. Natan er íslenskt karlmannsnafn. Natanael. Natanael er íslenskt karlmannsnafn. Nataníel. Nataníel er íslenskt karlmannsnafn. Neisti. Neisti er íslenskt karlmannsnafn. Neptúnus (mannsnafn). Neptúnus er íslenskt karlmannsnafn. Nikolai. Nikolai er íslenskt karlmannsnafn. Nikolas. Nikolas er íslenskt karlmannsnafn. Nikulás. Nikulás er íslenskt karlmannsnafn. Nils. Nils er íslenskt karlmannsnafn. Níels. Níels er íslenskt karlmannsnafn. Níls. Níls er íslenskt karlmannsnafn. Njáll. Njáll er íslenskt karlmannsnafn. Njörður (mannsnafn). Njörður er íslenskt karlmannsnafn. Nonni. Nonni er íslenskt karlmannsnafn. Norbert. Norbert er íslenskt karlmannsnafn. Norðmann. Norðmann er íslenskt karlmannsnafn. Normann. Normann er íslenskt karlmannsnafn. Nóel. Nóel er íslenskt karlmannsnafn. Nói. Nói er íslenskt karlmannsnafn. Nóni. Nóni er íslenskt karlmannsnafn. Nóvember (mannsnafn). Nóvember er íslenskt karlmannsnafn. Númi. Númi er íslenskt karlmannsnafn. Nökkvi (mannsnafn). Nökkvi er íslenskt karlmannsnafn. Oddbergur. Oddbergur er íslenskt karlmannsnafn. Oddbjörn. Oddbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Oddfreyr. Oddfreyr er íslenskt karlmannsnafn. Oddgeir. Oddgeir er íslenskt karlmannsnafn. Oddi (mannsnafn). Oddi er íslenskt karlmannsnafn. Oddkell. Oddkell er íslenskt karlmannsnafn. Oddleifur. Oddleifur er íslenskt karlmannsnafn. Oddmar. Oddmar er íslenskt karlmannsnafn. Oddsteinn. Oddsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Oddþór. Oddþór er íslenskt karlmannsnafn. Oddur. Oddur er íslenskt karlmannsnafn. Oddvar. Oddvar er íslenskt karlmannsnafn. Oktavíus. Oktavíus er íslenskt karlmannsnafn. Októ. Októ er íslenskt karlmannsnafn. Októvíus. Októvíus er íslenskt karlmannsnafn. Olaf. Olaf er íslenskt karlmannsnafn. Olgeir. Olgeir er íslenskt karlmannsnafn. Oliver. Oliver er íslenskt karlmannsnafn. Olivert. Olivert er íslenskt karlmannsnafn. Orfeus. Orfeus er íslenskt karlmannsnafn. Ormar (mannsnafn). Ormar er íslenskt karlmannsnafn. Ormur. Ormur er íslenskt karlmannsnafn. Orri. Orri er íslenskt karlmannsnafn. Orvar. Orvar er íslenskt karlmannsnafn. Otkell. Otkell er íslenskt karlmannsnafn. Otri. Otri er íslenskt karlmannsnafn. Otti. Otti er íslenskt karlmannsnafn. Ottó. Ottó er íslenskt karlmannsnafn. Otur. Otur er íslenskt karlmannsnafn. Óðinn (mannsnafn). Óðinn er íslenskt karlmannsnafn. Það er komið af Óðni, en það var nafn æðsta goðs norrænna manna, guðs visku, drykkju, herkænsku og vopndauða. Ófeigur. Ófeigur er íslenskt karlmannsnafn. Ólafur. Ólafur er íslenskt karlmannsnafn. Óli. Óli er íslenskt karlmannsnafn. Óliver. Óliver er íslenskt karlmannsnafn. Ólíver. Ólíver er íslenskt karlmannsnafn. Ómar. Ómar er íslenskt karlmannsnafn. Ómi. Ómi er íslenskt karlmannsnafn. Óskar. Óskar er íslenskt karlmannsnafn. Ósvald. Ósvald er íslenskt karlmannsnafn. Ósvaldur. Ósvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Ósvífur. Ósvífur er íslenskt karlmannsnafn. Óttarr. Óttarr er íslenskt karlmannsnafn. Ögmundur. Ögmundur er íslenskt karlmannsnafn. Ögri. Ögri er íslenskt karlmannsnafn. Ölnir. Ölnir er íslenskt karlmannsnafn. Ölver. Ölver er íslenskt karlmannsnafn. Ölvir. Ölvir er íslenskt karlmannsnafn. Öndólfur. Öndólfur er íslenskt karlmannsnafn. Önundur. Önundur er íslenskt karlmannsnafn. Örlaugur. Örlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Örlygur. Örlygur er íslenskt karlmannsnafn. Örnólfur. Örnólfur er íslenskt karlmannsnafn. Örvar. Örvar er íslenskt karlmannsnafn. Össur. Össur (eldri ritháttur: "Özurr") er íslenskt karlmannsnafn. Parmes. Parmes er íslenskt karlmannsnafn. Patrekur. Patrekur er íslenskt karlmannsnafn. Patrick. Patrick er íslenskt karlmannsnafn. Patrik. Patrik er íslenskt karlmannsnafn. Páll. Páll er íslenskt karlmannsnafn. Pálmar (mannsnafn). Pálmar er íslenskt karlmannsnafn. Pálmi. Pálmi er íslenskt karlmannsnafn. Per. Per er íslenskt karlmannsnafn. Peter. Peter er íslenskt karlmannsnafn. Pétur. Pétur er íslenskt karlmannsnafn. Pjetur. Pjetur er íslenskt karlmannsnafn. Príor (mannsnafn). Príor er íslenskt karlmannsnafn. Rafael (mannsnafn). Rafael er íslenskt karlmannsnafn. Rafn. Rafn er íslenskt karlmannsnafn. Rafnar. Rafnar er íslenskt karlmannsnafn. Rafnkell. Rafnkell er íslenskt karlmannsnafn. Ragnar. Ragnar er íslenskt karlmannsnafn. Númerið "RAGNAR" var eitt af tveimur fyrstu einkanúmerunum sem skráð voru á Íslandi, en hitt var "ÍSLAND". Ragúel (mannsnafn). Ragúel er íslenskt karlmannsnafn. Randver. Randver er íslenskt karlmannsnafn. Rannver. Rannver er íslenskt karlmannsnafn. Rasmus. Rasmus er íslenskt karlmannsnafn. Ráðgeir. Ráðgeir er íslenskt karlmannsnafn. Ráðvarður. Ráðvarður er íslenskt karlmannsnafn. Reginbaldur. Reginbaldur er íslenskt karlmannsnafn. Reginn. Reginn er íslenskt karlmannsnafn. Reidar. Reidar er íslenskt karlmannsnafn. Reifnir. Reifnir er íslenskt karlmannsnafn. Reimar. Reimar er íslenskt karlmannsnafn. Reinar. Reinar er íslenskt karlmannsnafn. Reinhart. Reinhart er íslenskt karlmannsnafn. Reynald. Reynald er íslenskt karlmannsnafn. Reynar. Reynar er íslenskt karlmannsnafn. Reynir (mannsnafn). Reynir er íslenskt karlmannsnafn. Reyr. Reyr er íslenskt karlmannsnafn. Richard. Richard er íslenskt karlmannsnafn. Rikharð. Rikharð er íslenskt karlmannsnafn. Ríkarður. Ríkarður er íslenskt karlmannsnafn. Ríkharð. Ríkharð er íslenskt karlmannsnafn. Ríkharður. Ríkharður er íslenskt karlmannsnafn af germönskum uppruna. Nafnið er algengt um allan heim í ýmsum myndum (Richard, Rikard, Riccardo, o.s.frv.). Ríó. Ríó er íslenskt karlmannsnafn. Rolf. Rolf er íslenskt karlmannsnafn. Róbert. Róbert er íslenskt karlmannsnafn. Rólant. Rólant er íslenskt karlmannsnafn. Rómeó. Rómeó er íslenskt karlmannsnafn. Rósant. Rósant er íslenskt karlmannsnafn. Rósar. Rósar er íslenskt karlmannsnafn. Rósberg. Rósberg er íslenskt karlmannsnafn. Rósenberg. Rósenberg er íslenskt karlmannsnafn. Rósi. Rósi er íslenskt karlmannsnafn. Rósinberg. Rósinberg er íslenskt karlmannsnafn. Rósinkar. Rósinkar er íslenskt karlmannsnafn. Rósinkrans. Rósinkrans er íslenskt karlmannsnafn. Rósmann. Rósmann er íslenskt karlmannsnafn. Rósmundur. Rósmundur er íslenskt karlmannsnafn. Rudolf. Rudolf er íslenskt karlmannsnafn. Runólfur. Runólfur er íslenskt karlmannsnafn. Rúben. Rúben er íslenskt karlmannsnafn. Rúdólf. Rúdólf er íslenskt karlmannsnafn. Rúnar. Rúnar er íslenskt karlmannsnafn. Rúrik. Rúrik er íslenskt karlmannsnafn. Rútur. Rútur er íslenskt karlmannsnafn. Röðull. Röðull er íslenskt karlmannsnafn. Rögnvaldur. Rögnvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Rögnvar. Rögnvar er íslenskt karlmannsnafn. Rökkvi. Rökkvi er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðskrá. Þjóðskrá er skrá yfir alla einstaklinga sem hafa ríkisborgararétt eða búseturétt í því landi sem þjóðskráin nær yfir. Í þjóðskrá eru færðar breytingar sem verða á högum manna svo sem fæðingar, nafngjafir, breytingar á hjúskaparstöðu, flutningar, andlát og fleira. Íslensku þjóðskránni er viðhaldið af Þjóðskrá Íslands, sem er ný stofnun sem varð til þann 1. júlí 2010 við samruna Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár. Greiða þarf fyrir upplýsingar úr þjóðskrá, en netbankar (heimabankar) veita aðgang að skránni án endurgjalds. Safír (mannsnafn). Safír er íslenskt karlmannsnafn. Sakarías. Sakarías er íslenskt karlmannsnafn. Salmann. Salmann er íslenskt karlmannsnafn. Salmar. Salmar er íslenskt karlmannsnafn. Salómon. Salómon er íslenskt karlmannsnafn. Salvar. Salvar er íslenskt karlmannsnafn. Samson (mannsnafn). Samson er íslenskt karlmannsnafn. Samúel. Samúel er íslenskt karlmannsnafn. Sandel. Sandel er íslenskt karlmannsnafn. Sandri. Sandri er íslenskt karlmannsnafn. Sandur (nafn). Sandur er íslenskt karlmannsnafn. Saxi. Saxi er íslenskt karlmannsnafn. Sebastian. Sebastian er íslenskt karlmannsnafn. Sebastían. Sebastían er íslenskt karlmannsnafn. Seifur (mannsnafn). Seifur er íslenskt karlmannsnafn. Seimur. Seimur er íslenskt karlmannsnafn. Sesar (mannsnafn). Sesar er íslenskt karlmannsnafn. Sesil. Sesil er íslenskt karlmannsnafn. Sigbergur. Sigbergur er íslenskt karlmannsnafn. Sigbert. Sigbert er íslenskt karlmannsnafn. Sigbjartur. Sigbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Sigbjörn. Sigbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Sigdór. Sigdór er íslenskt karlmannsnafn. Sigfastur. Sigfastur er íslenskt karlmannsnafn. Sigfinnur. Sigfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Sigfreður. Sigfreður er íslenskt karlmannsnafn. Sigfús. Sigfús er íslenskt karlmannsnafn. Siggeir. Siggeir er íslenskt karlmannsnafn. Sighvatur. Sighvatur er íslenskt karlmannsnafn. Sigjón. Sigjón er íslenskt karlmannsnafn. Siglaugur. Siglaugur er íslenskt karlmannsnafn. Sigmann. Sigmann er íslenskt karlmannsnafn. Sigmar. Sigmar er íslenskt karlmannsnafn. Sigmundur. Sigmundur er íslenskt karlmannsnafn. Signar. Signar er íslenskt karlmannsnafn. Sigríkur. Sigríkur er íslenskt karlmannsnafn. Sigsteinn. Sigsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Sigþór. Sigþór er íslenskt karlmannsnafn. Sigtryggur. Sigtryggur er íslenskt karlmannsnafn. Sigtýr. Sigtýr er íslenskt karlmannsnafn. Sigur. Sigur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurbaldur. Sigurbaldur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurberg. Sigurberg er íslenskt karlmannsnafn. Sigurbergur. Sigurbergur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurbjarni. Sigurbjarni er íslenskt karlmannsnafn. Sigurbjartur. Sigurbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurbjörn. Sigurbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Sigurbrandur. Sigurbrandur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurdór. Sigurdór er íslenskt karlmannsnafn. Sigurður. Sigurður er íslenskt karlmannsnafn og merkir sigurvörður. Nafnið er samsett úr tveimur orðum: sig, sem er skylt þýska orðinu siege, sem þýðir sigur, og urður sem verður til af orðinu vörður. Sigurfinnur. Sigurfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurgeir. Sigurgeir er íslenskt karlmannsnafn. Sigurgestur. Sigurgestur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurgísli. Sigurgísli er íslenskt karlmannsnafn. Sigurgrímur. Sigurgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurhans. Sigurhans er íslenskt karlmannsnafn. Sigurhjörtur. Sigurhjörtur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurjón. Sigurjón er íslenskt karlmannsnafn. Sigurkarl. Sigurkarl er íslenskt karlmannsnafn. Sigurlaugur. Sigurlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurlás. Sigurlás er íslenskt karlmannsnafn. Sigurleifur. Sigurleifur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurliði. Sigurliði er íslenskt karlmannsnafn. Sigurlinni. Sigurlinni er íslenskt karlmannsnafn. Sigurmann. Sigurmann er íslenskt karlmannsnafn. Sigurmar. Sigurmar er íslenskt karlmannsnafn. Sigurmon. Sigurmon er íslenskt karlmannsnafn. Sigurmundur. Sigurmundur er íslenskt karlmannsnafn. Sigurnýas. Sigurnýas er íslenskt karlmannsnafn. Sigurnýjas. Sigurnýjas er íslenskt karlmannsnafn. Siguroddur. Siguroddur er íslenskt karlmannsnafn. Siguróli. Siguróli er íslenskt karlmannsnafn. Sigurpáll. Sigurpáll er íslenskt karlmannsnafn. Sigursteinn. Sigursteinn er íslenskt karlmannsnafn. Sigursveinn. Sigursveinn er íslenskt karlmannsnafn. Sigurþór. Sigurþór er íslenskt karlmannsnafn. Sigurvaldi. Sigurvaldi er íslenskt karlmannsnafn. Sigurvin. Sigurvin er íslenskt karlmannsnafn. Sigvaldi. Sigvaldi er íslenskt karlmannsnafn. Sigvarður. Sigvarður er íslenskt karlmannsnafn. Heimildir. Nafnið Sigvarður er upphaflega frá Noregi og er það borið fram sem Sigvard og þýðir Sigurvegari í vörn, eða sá sem er settur sigrinum til varnar. Einnig er Sigvarður til í Þýskalandi og er borið fram sem Siwerte. Sigvarður er ekki eingöngu frá Noregi og Þýskalandi, heldur er nafnið samansett úr Hávarður og Sigríður í að minnsta kosti einu tilfelli rétt um miðja síðustu öld á vestfjörðum. Sindri. Sindri er íslenskt karlmannsnafn. Símon. Símon er íslenskt karlmannsnafn. Sírnir. Sírnir er íslenskt karlmannsnafn. Sírus. Sírus er íslenskt karlmannsnafn. Sívar. Sívar er íslenskt karlmannsnafn. Sjafnar. Sjafnar er íslenskt karlmannsnafn. Skafti. Skafti er íslenskt karlmannsnafn. Skapti. Skapti er íslenskt karlmannsnafn. Skarphéðinn. Skarphéðinn er íslenskt karlmannsnafn. Skefill. Skefill er íslenskt karlmannsnafn. Skeggi. Skeggi er íslenskt karlmannsnafn. Skíði (mannsnafn). Skíði er íslenskt karlmannsnafn. Skírnir (mannsnafn). Skírnir er íslenskt karlmannsnafn. Skjöldur. Skjöldur er íslenskt karlmannsnafn. Skorri. Skorri er íslenskt karlmannsnafn. Skuggi. Skuggi er íslenskt karlmannsnafn. Skúli. Skúli er íslenskt karlmannsnafn. Skúta (nafn). Skúta er íslenskt karlmannsnafn. Skæringur. Skæringur er íslenskt karlmannsnafn. Smári (mannsnafn). Smári er íslenskt karlmannsnafn. Smiður. Smiður er íslenskt karlmannsnafn. Smyrill (mannsnafn). Smyrill er íslenskt karlmannsnafn. Snjólaugur. Snjólaugur er íslenskt karlmannsnafn. Snjólfur. Snjólfur er íslenskt karlmannsnafn. Snorri. Snorri er íslenskt karlmannsnafn. Snæbjörn. Snæbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Snæhólm. Snæhólm er íslenskt karlmannsnafn. Snælaugur. Snælaugur er íslenskt karlmannsnafn. Snær (nafn). Snær er íslenskt karlmannsnafn. Snæringur. Snæringur er íslenskt karlmannsnafn. Snæþór. Snæþór er íslenskt karlmannsnafn. Snævar. Snævar er íslenskt karlmannsnafn. Snævarr. Snævarr er íslenskt karlmannsnafn. Soffanías. Soffanías er íslenskt karlmannsnafn. Sophanías. Sophanías er íslenskt karlmannsnafn. Sophus. Sophus er íslenskt karlmannsnafn. Sófónías. Sófónías er íslenskt karlmannsnafn. Sófus. Sófus er íslenskt karlmannsnafn. Sólberg. Sólberg er íslenskt karlmannsnafn. Sólbergur. Sólbergur er íslenskt karlmannsnafn. Sólbjartur. Sólbjartur er íslenskt karlmannsnafn. Sólbjörn. Sólbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Sólimann. Sólimann er íslenskt karlmannsnafn. Sólmar. Sólmar er íslenskt karlmannsnafn. Sólmundur. Sólmundur er íslenskt karlmannsnafn. Sólon (nafn). Sólon er íslenskt karlmannsnafn. Sólver. Sólver er íslenskt karlmannsnafn. Sólvin. Sólvin er íslenskt karlmannsnafn. Spartakus (mannsnafn). Spartakus er íslenskt karlmannsnafn. Stanley (nafn). Stanley er íslenskt karlmannsnafn af enskum uppruna. Starkaður. Starkaður er íslenskt karlmannsnafn. Starri (mannsnafn). Starri er íslenskt karlmannsnafn sem merkir: hinn ósveigjanlegi. Stefan. Stefan er íslenskt karlmannsnafn, norrænn ritháttur af Stefán. Stefán. Stefán er íslenskt karlmannsnafn. Stefnir (mannsnafn). Stefnir er íslenskt karlmannsnafn. Steinar. Steinar er íslenskt karlmannsnafn. Steinarr. Steinarr er íslenskt karlmannsnafn. Steinberg. Steinberg er íslenskt karlmannsnafn. Steinbergur. Steinbergur er íslenskt karlmannsnafn. Steinbjörn. Steinbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Steindór. Steindór er íslenskt karlmannsnafn. Steinfinnur. Steinfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Steingrímur. Steingrímur er íslenskt karlmannsnafn. Steini. Steini er íslenskt karlmannsnafn. Steinkell. Steinkell er íslenskt karlmannsnafn. Steinmann. Steinmann er íslenskt karlmannsnafn. Steinmar. Steinmar er íslenskt karlmannsnafn. Steinmóður. Steinmóður er íslenskt karlmannsnafn. Steinn (mannsnafn). Steinn er íslenskt karlmannsnafn. Steinólfur. Steinólfur er íslenskt karlmannsnafn. Steinröður. Steinröður er íslenskt karlmannsnafn. Steinþór. Steinþór er íslenskt karlmannsnafn. Steinvarður. Steinvarður er íslenskt karlmannsnafn. Stirnir. Stirnir er íslenskt karlmannsnafn. Stígur. Stígur er íslenskt karlmannsnafn. Stormur (mannsnafn). Stormur er íslenskt karlmannsnafn. Stórólfur. Stórólfur er íslenskt karlmannsnafn. Sturla. Sturla er íslenskt karlmannsnafn. Það var eina íslenska karlsmannsnafnið sem endar á -a, en deilir nú þeim sessi með Skúta. Sturla merkir: styrjarmaður, óeirinn maður, bardagamaðurinn litli. Endingin -la er smækkunar- eða gæluending, einkum á kvenkynsorðum, sbr. "mey-la" = lítil mey, "dóttla" = lítil dóttir, "friðla" = ástmær, (seinna með samlögun frilla), og "surtla" = lítla svört, einkum haft um svartar ær (kýr og hryssur). Surtla er líka haft um skessu, tröllkonu eða stórvaxna, klunnalega og óþrifna kona. En einnig sem gæluheiti um svarta líkkistu. Karlmaður einn var auknefndur "meyla" og annar að nafni Símon auknefndur "skerfla" = litli skarfur. Sturla er fornt á Norðurlöndum, fyrst að því er virðist sem auknefni, en síðar (mjög snemma) skírnarnafn. Stofn orðsins, stur, er náttúrlega skylt "styr" = ófriður, sbr. nöfnin "Sturlaugur" (sá sem vígður er orustu, hermaður), "Styr(r)," "Styrgerður" (valkyrja), "Styrkár" og "Styrbjörn". Samstofna þessu er sögnin "að sturla" sem hefur frummerkinguna að koma úr jafnvægi, sbr. þýsku "stören" (trufla, ónáða) og dönsku "styrte" (steypast). Sturlaugur. Sturlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Styr. Styr er íslenskt karlmannsnafn. Styrbjörn. Styrbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Styrkár. Styrkár er íslenskt karlmannsnafn. Styrmir. Styrmir er íslenskt karlmannsnafn. Styrmir er komið af orðinu „stormur“. Sumarliði. Sumarliði er íslenskt karlmannsnafn. Svafar. Svafar er íslenskt karlmannsnafn. Svali (mannsnafn). Svali er íslenskt karlmannsnafn. Svan. Svan er íslenskt karlmannsnafn. Svanberg. Svanberg er íslenskt karlmannsnafn. Svanbergur. Svanbergur er íslenskt karlmannsnafn. Svanbjörn. Svanbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Svangeir. Svangeir er íslenskt karlmannsnafn. Svanhólm. Svanhólm er íslenskt karlmannsnafn. Svanlaugur. Svanlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Svanmundur. Svanmundur er íslenskt karlmannsnafn. Svanþór. Svanþór er íslenskt karlmannsnafn. Svanur (mannsnafn). Svanur er íslenskt karlmannsnafn. Svavar. Svavar er íslenskt karlmannsnafn. Sváfnir. Sváfnir er íslenskt karlmannsnafn. Sveinberg. Sveinberg er íslenskt karlmannsnafn. Sveinbjörn. Sveinbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Sveinjón. Sveinjón er íslenskt karlmannsnafn. Sveinlaugur. Sveinlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Sveinmar. Sveinmar er íslenskt karlmannsnafn. Sveinn (nafn). Sveinn er íslenskt karlmannsnafn. Sveinþór. Sveinþór er íslenskt karlmannsnafn. Sveinungi. Sveinungi er íslenskt karlmannsnafn. Sverrir. Sverrir er íslenskt karlmannsnafn. Svölnir. Svölnir er íslenskt karlmannsnafn. Svörfuður. Svörfuður er íslenskt karlmannsnafn. Sýrus. Sýrus er íslenskt karlmannsnafn. Sæberg. Sæberg er íslenskt karlmannsnafn. Sæbergur. Sæbergur er íslenskt karlmannsnafn. Sæbjörn. Sæbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Sælaugur. Sælaugur er íslenskt karlmannsnafn. Sæmann. Sæmann er íslenskt karlmannsnafn. Sæmundur. Sæmundur er íslenskt karlmannsnafn. Sær. Sær er íslenskt karlmannsnafn. Sæþór. Sæþór er íslenskt karlmannsnafn. Sævald. Sævald er íslenskt karlmannsnafn. Sævaldur. Sævaldur er íslenskt karlmannsnafn. Sævar. Sævar er íslenskt karlmannsnafn. Sævin. Sævin er íslenskt karlmannsnafn. Sölmundur. Sölmundur er íslenskt karlmannsnafn. Sölvar. Sölvar er íslenskt karlmannsnafn. Sölvi. Sölvi er íslenskt karlmannsnafn. Sören. Sören er íslenskt karlmannsnafn. Sörli. Sörli er íslenskt karlmannsnafn. Tandri. Tandri er íslenskt karlmannsnafn. Teitur. Teitur er íslenskt karlmannsnafn. Það merkir "hinn káti" eða "glaðlyndi", samanber "teiti" = gleðskapur. Hugsanlegt er að frummerkingin hafi verið „bjartur“. Theodór. Theodór er íslenskt karlmannsnafn. Theódór. Theódór er íslenskt karlmannsnafn. Thomas. Thomas er íslenskt karlmannsnafn. Thor. Thor er íslenskt karlmannsnafn. Thorberg. Thorberg er íslenskt karlmannsnafn. Tindar. Tindar er íslenskt karlmannsnafn. Tindri. Tindri er íslenskt karlmannsnafn. Tindur. Tindur er íslenskt karlmannsnafn. Tinni (mannsnafn). Tinni er íslenskt karlmannsnafn. Tímon. Tímon er íslenskt karlmannsnafn. Tímoteus. Tímoteus er íslenskt karlmannsnafn. Tímóteus. Tímóteus er íslenskt karlmannsnafn. Tístran. Tístran er íslenskt karlmannsnafn. Tjörfi. Tjörfi er íslenskt karlmannsnafn. Tjörvi. Tjörvi er íslenskt karlmannsnafn. Tobías. Tobías er íslenskt karlmannsnafn. Torfi. Torfi er íslenskt karlmannsnafn. Tóbías. Tóbías er íslenskt karlmannsnafn. Tómas. Tómas er íslenskt karlmannsnafn. Tór. Tór er íslenskt karlmannsnafn. Trausti. Trausti er íslenskt karlmannsnafn. Tristan. Tristan er íslenskt karlmannsnafn. Trostan. Trostan er íslenskt karlmannsnafn. Trúmann. Trúmann er íslenskt karlmannsnafn. Tryggvi. Tryggvi er íslenskt karlmannsnafn. Tumas. Tumas er íslenskt karlmannsnafn. Tumi. Tumi er íslenskt karlmannsnafn. Tyrfingur. Tyrfingur er íslenskt karlmannsnafn. Týr (mannsnafn). Týr er íslenskt karlmannsnafn. Ubbi. Ubbi er íslenskt karlmannsnafn. Uggi (mannsnafn). Uggi er íslenskt karlmannsnafn. Ulrich. Ulrich er íslenskt karlmannsnafn. Uni. Uni er íslenskt karlmannsnafn. Unnar. Unnar er íslenskt karlmannsnafn. Unnbjörn. Unnbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Unndór. Unndór er íslenskt karlmannsnafn. Unnsteinn. Unnsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Unnþór. Unnþór er íslenskt karlmannsnafn. Urðar. Urðar er íslenskt karlmannsnafn. Úddi. Úddi er íslenskt karlmannsnafn. Úlfar (mannsnafn). Úlfar er íslenskt karlmannsnafn. Úlfgeir. Úlfgeir er íslenskt karlmannsnafn. Úlfhéðinn. Úlfhéðinn er íslenskt karlmannsnafn. Úlfkell. Úlfkell er íslenskt karlmannsnafn. Úlfljótur. Úlfljótur er íslenskt karlmannsnafn. Úlfur (mannsnafn). Úlfur er íslenskt karlmannsnafn. Úlrik. Úlrik er íslenskt karlmannsnafn. Úranus (mannsnafn). Úranus er íslenskt karlmannsnafn. Vagn. Vagn er íslenskt karlmannsnafn. Valberg. Valberg er íslenskt karlmannsnafn. Valbergur. Valbergur er íslenskt karlmannsnafn. Valbjörn. Valbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Valbrandur. Valbrandur er íslenskt karlmannsnafn. Valdemar. Valdemar er íslenskt karlmannsnafn. Valdi. Valdi er íslenskt karlmannsnafn. Valdimar. Valdimar er íslenskt karlmannsnafn. Valdór. Valdór er íslenskt karlmannsnafn. Valentín. Valentín er íslenskt karlmannsnafn. Valentínus. Valentínus er íslenskt karlmannsnafn. Valgarð. Valgarð er íslenskt karlmannsnafn. Valgarður. Valgarður er íslenskt karlmannsnafn. Valgeir. Valgeir er íslenskt karlmannsnafn. Valíant. Valíant er íslenskt karlmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Valíant væri tekið til greina, og var það semþykkt með eignarfallsendinguna -s og var þann 18. desember 2001 fært í mannanafnaskrá. Vallaður. Vallaður er íslenskt karlmannsnafn. Valmar. Valmar er íslenskt karlmannsnafn. Valmundur. Valmundur er íslenskt karlmannsnafn. Valsteinn. Valsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Valter. Valter er íslenskt karlmannsnafn. Valþór. Valþór er íslenskt karlmannsnafn. Valtýr. Valtýr er íslenskt karlmannsnafn. Valur (mannsnafn). Valur er íslenskt karlmannsnafn. Nafnið hefur tvöfalda merkingu, flestir telja nafnið vísa til íslenska fálkans, en hann er einnig nefndur valur. Valur þýðir þó ótímabær dauðdagi, sem oftar en ekki ber að í bardaga, og er valur oft viðskeyti við ýmis nöfn sem tengjast Óðinsdýrkun og víkingamenningu, sbr Valhöll, Valtýr, Valkyrjur og að falla í valinn. Valves. Valves er íslenskt karlmannsnafn. Varmar. Varmar er íslenskt karlmannsnafn. Vatnar. Vatnar er íslenskt karlmannsnafn. Váli. Váli er íslenskt karlmannsnafn. Veigar. Veigar er íslenskt karlmannsnafn. Veigur. Veigur er íslenskt karlmannsnafn. Ver (mannsnafn). Ver er íslenskt karlmannsnafn. Vermundur. Vermundur er íslenskt karlmannsnafn. Vernharð. Vernharð er íslenskt karlmannsnafn. Vernharður. Vernharður er íslenskt karlmannsnafn. Vestar. Vestar er íslenskt karlmannsnafn. Vestmar. Vestmar er íslenskt karlmannsnafn. Veturliði. Veturliði er íslenskt karlmannsnafn. Vébjörn. Vébjörn er íslenskt karlmannsnafn. Végeir. Végeir er íslenskt karlmannsnafn. Vékell. Vékell er íslenskt karlmannsnafn. Vélaugur. Vélaugur er íslenskt karlmannsnafn. Vémundur. Vémundur er íslenskt karlmannsnafn. Vésteinn. Vésteinn er íslenskt karlmannsnafn. Það er samsett úr forskeytinu „vé“, sem þýðir heilagleiki eða helgi, og „steinn“. Nafnið hefur þekkst frá landnámsöld og kemur fyrir í Íslendingasögum. Til dæmis hét fóstbróðir Gísla Súrssonar Vésteinn Vésteinsson, sonur Vésteins Austmanns. Það getur bent til norsks uppruna nafnsins. Nafnið var lítið eða ekkert notað frá fornu og fram á tuttugustu öld, þegar það var aftur tekið í notkun. Elsti núlifandi Vésteinninn er á tíræðisaldri en sá yngsti nokkurra mánaða. Victor. Victor er íslenskt karlmannsnafn. Viðar. Viðar er íslenskt karlmannsnafn. Vigfús. Vigfús er íslenskt karlmannsnafn. Viggó. Viggó er íslenskt karlmannsnafn. Vignir. Vignir er íslenskt karlmannsnafn. Vigri. Vigri er íslenskt karlmannsnafn. Vigtýr. Vigtýr er íslenskt karlmannsnafn. Vigur (mannsnafn). Vigur er íslenskt karlmannsnafn. Vikar. Vikar er íslenskt karlmannsnafn. Viktor. Viktor er íslenskt karlmannsnafn. Vilberg. Vilberg er íslenskt karlmannsnafn. Vilbergur. Vilbergur er íslenskt karlmannsnafn. Vilbert. Vilbert er íslenskt karlmannsnafn. Vilbjörn. Vilbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Vilbogi. Vilbogi er íslenskt karlmannsnafn. Vilbrandur. Vilbrandur er íslenskt karlmannsnafn. Vilgeir. Vilgeir er íslenskt karlmannsnafn. Vilhelm. Vilhelm er íslenskt karlmannsnafn. Vilhjálmur. Vilhjálmur er íslenskt karlmannsnafn. Viljar. Viljar er íslenskt karlmannsnafn. Vilji. Vilji er íslenskt karlmannsnafn. Villi. Villi er íslenskt karlmannsnafn. Vilmar. Vilmar er íslenskt karlmannsnafn. Vilmundur. Vilmundur er íslenskt karlmannsnafn. Virgill (mannsnafn). Virgill er íslenskt karlmannsnafn. Víðir (mannsnafn). Víðir er íslenskt karlmannsnafn. Vífill (mannsnafn). Vífill er íslenskt karlmannsnafn. Víglundur. Víglundur er íslenskt karlmannsnafn. Vígmar. Vígmar er íslenskt karlmannsnafn. Vígmundur. Vígmundur er íslenskt karlmannsnafn. Vígsteinn. Vígsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Vígþór. Vígþór er íslenskt karlmannsnafn. Víkingur (mannsnafn). Víkingur er íslenskt karlmannsnafn. Vopni. Vopni er íslenskt karlmannsnafn. Vorm. Vorm er íslenskt karlmannsnafn. Vöggur. Vöggur er íslenskt karlmannsnafn. Völundur. Völundur er íslenskt karlmannsnafn. Vörður. Vörður er íslenskt karlmannsnafn. Walter. Walter er íslenskt karlmannsnafn af enskum uppruna. Wilhelm. Wilhelm er íslenskt karlmannsnafn af þýskum uppruna, ígildi Vilhjálms. Willard. Willard er íslenskt karlmannsnafn af enskum uppruna. William. William er íslenskt karlmannsnafn, enskur ritháttur af Wilhelm sem er ígildi Vilhjálms. Willum. Willum er íslenskt karlmannsnafn. Víðar (mannsnafn). Víðar er íslenskt karlmannsnafn. Ylur. Ylur er íslenskt karlmannsnafn. Ýmir (nafn). Ýmir er íslenskt karlmannsnafn. Yngvar. Yngvar er íslenskt karlmannsnafn. Yngvi. Yngvi er íslenskt karlmannsnafn. Yrkill. Yrkill er íslenskt karlmannsnafn. Zakaría. Zakaría er íslenskt karlmannsnafn. Zakarías. Zakarías er íslenskt karlmannsnafn. Zophanías. Zophanías er íslenskt karlmannsnafn. Zophonías. Zophonías er íslenskt karlmannsnafn. Zóphanías. Zóphanías er íslenskt karlmannsnafn. Zóphonías. Zóphonías er íslenskt karlmannsnafn. Þangbrandur (mannsnafn). Þangbrandur er íslenskt karlmannsnafn. Þengill. Þengill er íslenskt karlmannsnafn. Þeyr (mannsnafn). Þeyr er íslenskt karlmannsnafn. Þiðrandi. Þiðrandi er íslenskt karlmannsnafn. Þiðrik. Þiðrik er íslenskt karlmannsnafn. Þjálfi. Þjálfi er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðbjörn. Þjóðbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðgeir. Þjóðgeir er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðleifur. Þjóðleifur er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðmar. Þjóðmar er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðólfur (nafn). Þjóðólfur er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðrekur. Þjóðrekur er íslenskt karlmannsnafn. Þjóðvarður. Þjóðvarður er íslenskt karlmannsnafn. Þjóstar. Þjóstar er íslenskt karlmannsnafn. Þjóstólfur. Þjóstólfur er íslenskt karlmannsnafn. Það þýðir reiður úlfur. Þorberg. Þorberg er íslenskt karlmannsnafn. Þorbergur. Þorbergur er íslenskt karlmannsnafn. Þorbjörn. Þorbjörn er íslenskt karlmannsnafn. Þorbrandur. Þorbrandur er íslenskt karlmannsnafn. Þorfinnur. Þorfinnur er íslenskt karlmannsnafn. Þorgarður. Þorgarður er íslenskt karlmannsnafn. Þorgautur. Þorgautur er íslenskt karlmannsnafn. Þorgeir. Þorgeir er íslenskt karlmannsnafn. Þorgestur. Þorgestur er íslenskt karlmannsnafn. Þorgils. Þorgils er íslenskt karlmannsnafn. Þorgísl. Þorgísl er íslenskt karlmannsnafn. Þorgnýr. Þorgnýr er íslenskt karlmannsnafn. Þorgrímur. Þorgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Athafnafræði. Athafnafræði er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um mannlegar athafnir sem slíkar. Þeir sem fást við athafnafræði kallast athafnafræðingar. Stundum er athafnafræðinni lýst með tilvitnun í Ludwig Wittgenstein: „Hvað er eftir ef ég dreg þá staðreynd að hönd mín fer upp frá þeirri staðreynd að ég lyfti hendi minni?“ Þorkell. Þorkell er íslenskt karlmannsnafn. Þorlaugur. Þorlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Þorlákur. Þorlákur er íslenskt karlmannsnafn. Þorleifur. Þorleifur er íslenskt karlmannsnafn. Þorleikur. Þorleikur er íslenskt karlmannsnafn. Þormar. Þormar er íslenskt karlmannsnafn. Þormóður. Þormóður er íslenskt karlmannsnafn. Þormundur. Þormundur er íslenskt karlmannsnafn. Þorri (mannsnafn). Þorri er íslenskt karlmannsnafn. Þorsteinn. Þorsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Þorvaldur. Þorvaldur er íslenskt karlmannsnafn. Þorvar. Þorvar er íslenskt karlmannsnafn. Þorvarður. Þorvarður er íslenskt karlmannsnafn. Þórarinn. Þórarinn er íslenskt karlmannsnafn. Þórbergur. Þórbergur er íslenskt karlmannsnafn. Þórður. Þórður er íslenskt karlmannsnafn. Þórgnýr. Þórgnýr er íslenskt karlmannsnafn. Þórgrímur. Þórgrímur er íslenskt karlmannsnafn. Þórhaddur. Þórhaddur er íslenskt karlmannsnafn. Þórhalli. Þórhalli er íslenskt karlmannsnafn. Þórhallur. Þórhallur er íslenskt karlmannsnafn. Þórir. Þórir er íslenskt karlmannsnafn. Þórlaugur. Þórlaugur er íslenskt karlmannsnafn. Þórleifur. Þórleifur er íslenskt karlmannsnafn. Þórlindur. Þórlindur er íslenskt karlmannsnafn. Þórmar. Þórmar er íslenskt karlmannsnafn. Þórmundur. Þórmundur er íslenskt karlmannsnafn. Þóroddur. Þóroddur er íslenskt karlmannsnafn. Þór (mannsnafn). Þór er íslenskt karlmannsnafn og er í upphaflega nafn á þrumuguðnum Þór. Nafnið kemur fyrir í nafnatali séra Odds á Reynivöllum frá 1646 en það var ekki notað aftur sem eiginnafn fyrr en á 19. öld, þótt það væri afar algengt sem fyrri liður samsettra nafna. Varast skal að hafa Þór í þágufalli Þóri, en þannig beygist aðeins nafnið Þórir í þágufalli. Þórormur. Þórormur er íslenskt karlmannsnafn. Þórólfur. Þórólfur er íslenskt karlmannsnafn. Þórsteinn. Þórsteinn er íslenskt karlmannsnafn. Þórörn. Þórörn er íslenskt karlmannsnafn. Þrastar. Þrastar er íslenskt karlmannsnafn. Þráinn. Þráinn er íslenskt karlmannsnafn. Þrándur. Þrándur er íslenskt karlmannsnafn. Þrúðmar. Þrúðmar er íslenskt karlmannsnafn. Þrymur. Þrymur er íslenskt karlmannsnafn. Þröstur. Þröstur er íslenskt karlmannsnafn. Þyrnir. Þyrnir er íslenskt karlmannsnafn. Siðfræði. Siðfræði fjallar um siðferði, rétt og rangt, gott og illt skipulagningu réttleika athafna og ákvarðana. Siðfræði telst grein heimspeki. Í siðfræði er ekki reynt að lýsa raunverulegri hegðun manna og breytni þeirra eða siðum þeirra og venjum né heldur ríkjandi hugmyndum um rétt og rangt eða gott og illt. Siðfræðin fjallar öllu heldur um hvað menn "eiga að gera", þ.e. hvernig þeim "ber að breyta". Siðfræðin leitar að grundvelli og meginreglum siðferðisins og reynir að færa rök fyrir þessum reglum. Hún reynir að útskýra eðli og undirstöðu siðferðisins og þeim almennu lögmálum sem gilda um siðferðilega rétta eða góða breytni. Þeir sem fást við siðfræði kallast siðfræðingar. Tala má um tvær megin greinar siðfræði, aðgerðasiðfræði og dygðasiðfræði, sem samsvara gróflega áherslum á hvað manni "beri að gera" annars vegar og hvernig maður "á að vera" hins vegar. Hvort tveggja er boðandi siðfræði en svokölluð lýsandi siðfræði lýsir ríkjandi siðferðishugmyndum innan menningar án þess að vera staðlandi. Siðspeki. Siðspeki er undirgrein siðfræðinnar sem fjallar um eðli siðferðislegra og siðfræðilegra fullyrðinga, viðhorfa og gildismats. Siðspekin er eitt þriggja meginsviða siðfræðinnar en hin tvö eru forskriftarsiðfræði og hagnýtt siðfræði. Forskriftarsiðfræði og hagnýtt siðfræði fjalla um spurningar eins og „Hvað er rétt og rangt?“, „Hvað er gott og slæmt?“ og „Hvað ber mér að gera?“ en siðspekin leitar hins vegar skilnings á "eðli og afbrigðum" siðferðislegs gildismats og hvernig það verður til. Stjórnspeki. Stjórnspeki eða stjórnmálaheimspeki er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um ríki, yfirvald, stjórnmál, lög, eignarrétt, réttlæti og fleiri skyld hugtök. Þeir sem fást við stjórnspeki kallast stjórnspekingar eða stjórnmálaheimspekingar. Frumspeki. Frumspeki (áður fyrr einnig nefnd háspeki) er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli raunveruleikans sem slíks. Frumspekin hefur ávallt verið ein af megingreinum heimspekinnar ásamt þekkingarfræði, rökfræði og siðfræði. Þeir sem leggja stund á frumspeki kallast frumspekingar. Eldfjallafræði. Eldfjallafræði er undirgrein jarðfræðinnar og bergfræðinnar sem fæst við rannsóknir á eldstöðvum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast eldfjallafræðingar. Hörgársveit. Hörgársveit er sveitarfélag við Eyjafjörð. Það var stofnað 12. júní 2010 með sameiningu Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps. Hörgárbyggð var áður stofnuð 1. janúar 2001 með sameiningu Skriðuhrepps, Öxnadalshrepps og Glæsibæjarhrepps. Sveitarfélagið nær yfir Galmaströnd, Hörgárdal, Öxnadal og Kræklingahlíð. Sameinað sveitarfélag Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Þann 20. mars 2010 var sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar samþykkt í kosningum. Á kjörskrá í Arnarneshreppi voru 126, þar af kusu 100. Á kjörskrá í Hörgárbyggð voru 309, þar af kusu 162. Í Arnarneshreppi greiddu 57 atkvæði með sameiningunni og 40 greiddu atkvæði gegn henni. Í Hörgárbyggð greiddu 149 (92%) atkvæði með sameiningunni og 12 (7%) greiddu atkvæði gegn henni. Sameining sveitarfélaganna var því samþykkt og gert er ráð fyrir að sameiningin taki gildi 12. júní 2010. Samhliða sveitarstjórnarkosningum 29. maí 2010 þar sem kosið var sameiginlega í Arnarneshrepp og Hörgárbyggð, fór fram skoðanakönnun um nafn á sveitarfélaginu. Nafnið Hörgárbyggð fékk flest atkvæði í sameinuðu sveitarfélagi. Þrátt fyrir það var ákveðið á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags að það skyldi kallast Hörgársveit en sá möguleiki fékk næst flest atkvæði í kosningunum. Lýsing á Hörgársveit. Þéttbýliskjarni hefur myndast nálægt bæjarmörkum Akureyrar. Hann heitir Lónsbakki. Með sameiningunni við Arnarneshrepp 2010 bættist við þéttbýlið við Hjalteyri en þar standa miklar byggingar sem áður hýstu stærstu síldarverksmiðju í Evrópu. Hinn forni verslunarstaður Gásir er í sveitarfélaginu nálægt Hörgárósum. Á Laugalandi á Þelamörk er grunnskóli sveitarfélagsins og sundlaug. Jónas Hallgrímsson fæddist á Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 1807. Á Hrauni er nú fræðimannsíbúð og minningarstofa um Jónas. Sveitarstjórn. Í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí 2010 var kosið til sameinaðs sveitarfélags Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Tveir listar voru í framboði: J-listi Samstöðulistinn sem hlaut 170 atkvæði og 2 menn kjörna og L-listi Lýðræðislistans sem hlaut 171 atkvæði og 3 menn kjörna. Auðir seðlar og ógildir voru alls 11 að tölu. Á kjörskrá voru 440 manns, alls kusu 352. Kosningaþátttaka var því 80,0%. Guðmundur Sigvaldason er sveitarstjóri í Hörgársveit. Kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsti sveitarfélagið kjarnorkuvopnalaust svæði á fundi þann 18. september 2002. Við það tilefni krafðist hreppsnefndin útrýmingar allra kjarnorkuvopna í heiminum. Sveitarfélagið er í hópi margra annarra sveitarfélaga sem gefið hafa út sams konar yfirlýsingu. Markmiðið er að landið allt verði friðlýst á þennan hátt fyrir gereyðingarvopnum. Berlínarmúrinn. Berlínarmúrinn (þýska: "Die Berliner Mauer") var mannvirki sem skildi að Vestur-Berlín og Austur-Þýskaland. Hann var byggður árið 1961 og féll 9. nóvember 1989. Yfirvöld Austur-Þýskalands kölluðu hann "fasistavarnarmúr" (þýska: "antifaschistischer Schutzwall"). Berlínarmúrinn var áberandi tákn um skiptingu Þýskalands og kalda stríðið. Talið er að á milli 125 og 205 hafi látið lífið á flótta yfir 167,8 km langan múrinn. Eyjafjarðarsveit. Eyjafjarðarsveit er sveitarfélag í Eyjafirði. Það varð til 1. janúar 1991 með sameiningu Hrafnagilshrepps, Öngulsstaðahrepps og Saurbæjarhrepps. Það nær yfir sveitirnar inn af Eyjafirði og raunar alla leið uppá Sprengisand. Svalbarðsstrandarhreppur. Svalbarðsstrandarhreppur er sveitarfélag í austanverðum Eyjafirði og er nefnt eftir Svalbarðsströnd þar sem það liggur. Norðurmörk hreppsins sem og Svalbarðsstrandar eru við Víkurskarð. Þéttbýli er á Svalbarðseyri og þaðan var stunduð útgerð. Svalbarðsstrandarhreppur er vestasta sveitarfélag í Suður-Þingeyjarsýslu þó margir telji hreppinn ranglega tilheyra Eyjafjarðarsýslu. Svalbarðsstrandarhreppur hefur lítið undirlendi og tilheyrir hluti Vaðlaheiðar honum. Var áður kallaður Eyjafjarðarströnd. Íslensk sveitarfélög eftir sveitarfélagsnúmerum. Eftirfarandi er listi yfir íslensk sveitarfélög eftir sveitarfélagsnúmerum. Grýtubakkahreppur. Grýtubakkahreppur er sveitarfélag við austanverðan Eyjafjörð. Það nær frá Víkurskarði norður alla Látraströnd en byggð er mest í kringum Höfða og þar er sjávarþorpið Grenivík. Yfir Grenivík gnæfir fjallið Kaldbakur. Grýtubakkahreppur tilheyrir Suður-Þingeyjarsýslu fremur en Eyjafjarðarsýslu samkvæmt hefðbundinni sýsluskiptingu landsins. Í kosningum um sameiningu sveitarfélaga sem fram fóru 8. október 2005 höfnuðu íbúar hreppsins tillögu um sameiningu allra sveitarfélaga við Eyjafjörð með miklum meirihluta, einungis 2 voru samþykkir tillögunni af þeim 256 sem greiddu atkvæði. Þingeyjarsveit. Þingeyjarsveit er sveitarfélag á Norðurlandi eystra, kennt við Þingey í Skjálfandafljóti. Sveitarfélagið varð til 9. júní 2002 við sameiningu fjögurra hreppa: Ljósavatnshrepps, Bárðdælahrepps, Hálshrepps og Reykdælahrepps. Í kjölfar atkvæðagreiðslu 26. apríl 2008 sameinaðist Þingeyjarsveit svo Aðaldælahreppi. Þingeyjarsveit er víðfeðm en byggð takmarkast við Fnjóskadal, Ljósavatnsskarð, Köldukinn, Bárðardal, Laxárdal, Aðaldal og Reykjadal en á síðastnefnda staðnum er þorpið Laugar. Megnið af landi sveitarfélagsins er í óbyggðum og nær það alveg inn á Vatnajökul. þrjú stór vatnsföll renna um Þingeyjarsveit, Laxá í Laxárdal, Fnjóská í Fnjóskadal og Skjálfandafljót í Bárðardal. Í því síðarnefnda er Goðafoss nálægt Fosshóli við Þjóðveg 1. Í Fnjóskadal er Vaglaskógur, vinsælt útivistarsvæði. Á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði, á Hafralæk í Aðaldal og á Laugum í Reykjadal eru reknir grunnskólar og á Laugum er einnig framhaldsskóli. Skútustaðahreppur. Skútustaðahreppur er sveitarfélag í Suður-Þingeyjarsýslu. Byggð þar er nánast öll í Mývatnssveit, þar á meðal þorpið Reykjahlíð en mikill meirihluti hins víðfeðma sveitarfélags er í óbyggðum og nær það upp á miðjan Vatnajökul. Náttúrufar sveitarfélagsins hefur mikið aðdráttarafl á ferðamenn, þar ber helst að nefna fjölbreytt lífríki Mývatns, Dimmuborgir, jarðhitasvæðin og leirhverina í Námaskarði og við Kröflu sem er virk eldstöð og gaus síðast 1984. Ódáðahraun, ein stærsta hraunbreiða Íslands, er að mestu innan marka sveitarfélagsins ásamt fjöllunum Herðubreið og Öskju. Ístungl. Ístungl er í reikistjörnufræði tungl sem er að mestu undir ís sem mögulega er haf undir, dæmigert ístungl er Evrópa. Á slíkum tunglum geta verið lághitaeldstöðvar. Styrkt vín. a> er dæmi um styrkt vín Styrkt vín er vín sem þar sem vínandastyrkur hefur verið aukinn með utanaðkomandi vökva, oftast í formi koníaks. Algeng styrkt vín eru sérrí, púrtvín, vermút, marsalavín og madeiravín. Upphaflega var áfengi bætt út í léttvín til að auka líftíma þess, þar sem viðbætt áfengi áður en gerjunartímanum er lokið, drepur gerjunina og skilur þannig eftir hærra sykurinnihald. Hvort tveggja, meira áfengismagn og hærra sykurinnihald hefur svo þau áhrif að varðveita vínið betur. Mjög margar tegundir styrktra vína eru til í heiminum, og eru þau yfirleitt drukkin sem lystauki á undan mat, eða með eftirréttinum, þar sem þau geta verið bæði mjög sæt og krydduð. Einnig eru dæmi um að slík vín séu notuð sem bragðbætir í sjálfri matargerðinni. Gera þarf greinarmun á styrktu víni og líkjörum sem unnir eru úr víni eða vínberjahrati. Fyrri tegundin fæst með því að bæta áfengi við hefðbundið léttvín, en sú síðari með því að eima léttvín eða gambra sem gerður er úr gerjuðu hrati. Púrtvín. Púrtvín er styrkt vín frá Portúgal og er það framleitt bæði rautt og hvítt. Fínni púrtvín eru geymd lengur í tunnum. Það fyrirfinnst bæði sem sætt og þurrt; þurrt borið fram með osti eða sem lystarauki og það sæta með eftirréttum eða eitt og sér. Madeiravín. Madeiravín er einnig portúgalskt vín, frá Madeira-eyjum. Það er einasta vín sem að eðlisfari er sætt en einnig eru til aðrar gerðir. Skiptingin er; Malmsey (sætt), Boal (hálfsætt), Verdelho (hálfþurrt) og Sercial (þurrt). Madeiravín er venjulega framleitt sem blanda af ólíkum víntegundum. Sérrí. Sérrí er spænskt vín, upphaflega frá Jerez (sem einnig er spænska heiti þess). Það er til í öllum braðflokkum en aðalflokkarnir eru Fino (þurrt), Manzanillas (mjög þurrt), Amontillado (hálfsætt/sætt), Cream (sætt). Marsala. Marsala er ítalskt með gylltan blæ. Af því er kröftugt vínandabragð og er gjarnan notað milli rétta en einnig með bragðsterkum ostum. Muscat. Muscat er ástralskt vín með múskatberjum. Sake. Sake er japanskt vín gert úr hrísgrjónum sem eru látin gerjast. Vínandi verður 12–16 % við náttúrulega gerjun en í dag er einnig blandað í það brennivín til að auka vínandahlutann. Sake er gjarna borið fram heitt eða volgt. Vermut. Vermut er styrkt vín bragðbætt með kryddi. Púrtvín. Púrtvín er sætt styrkt vín frá Dourodal í norðurhluta Portúgals, það er nefnt eftir borginni Porto. Púrtvín hefur verið framleitt í Portúgal síðan um miðja 15. öld. Vínið er venjulega þykkara, sætara og áfengara en flest önnur vín sökum þess að eimuðum vínberjaspíritus er bætt í vínið til að styrkja það og stöðva gerjunina áður en allur sykurinn breytist í vínanda. Áfengisinnihald þess er um 18-30%. Púrvtín er venjulega borið fram sem ábætisvín eða með osti nema í Frakklandi þar sem það er notað sem lystauki á undan mat. Madeiravín. Madeiravín er styrkt vín búið til á Madeiraeyjum. Vín. Vín er áfengur drykkur, sem fæst með því að gerja vínberjasafa. Ef aðrir ávextir eru notaðir kallast vínið ávaxtavín. Flokkar víns. Vín eru yfirleitt flokkuð eftir lit, þ.e. hvítvín, rósavín (roðavín), og rauðvín, og liggur munur vínanna að miklu í mismunandi aðferðum við gerð þeirra. Hvítvín er hægt að laga úr hvaða vínþrúgum sem er, ljósum eða dökkum, þar sem safi langflestra þrúgutegunda er litlaus að mestu. Berin eru kramin og hýðið skilið frá vökvanum, til að enginn litur skili sér í vínið. Við rauðvínsgerð er eingöngu hægt að nota dökkar þrúgur, og er hýði þeirra látið gerjast með safanum, en við það leysast litarefnin í hýðinu upp og lita safann. Því lengri tíma sem hýðið er í snertingu við safann, því dekkra verður vínið. Rósavín er gert með sömu aðferð og rauðvín, en hýðið skilið frá gerjandi vökvanum eftir mun styttri tíma. Freyðivín eru gerð eins og venjulegt vín, nema að eftir venjulega gerjun fer fram önnur (seinni) gerjun, venjulega í flösku, eða þrýstitanki, þar sem koltvísýringur sem myndast við gerjunina fær ekki að sleppa út í andrúmsloftið, heldur þrýstist inn í vínið og gerir það freyðandi. Styrkt vín eru svo vín, þar sem vínandinn hefur verið aukinn með því að bæta hreinum spíra eða brandíi saman við. Yfirleitt hafa þessi vín vínandastyrk á bilinu 15 til 20% Vínþrúgur. Vínþrúgur eða vínber, er ávöxtur vínviðar, en þessi ávöxtur er sá allra hentugasti til víngerðar, þar sem sæta og sýra eru í réttu magni til að geta gefið af sér góðan drykk í góðu jafnvægi. Aðrir ávextir eru ekki eins heppilegir, sítrusávextir eru of súrir og ekki nógu sætir, meðan melóna er ekki nógu súr og ekki nógu sæt, o.s.frv. Þrúgur notaðar til víngerðar eru flestallar af tegundinni "Vitis vinifera", en undirtegundirnar skipta þúsundum. Sjá nánar kaflann vínber og "Vitis vinifera". Aagot. Aagot er íslenskt kvenmannsnafn. Abela. Abela er íslenskt kvenmannsnafn. Ada. Ada er íslenskt kvenmannsnafn. Adda. Adda er íslenskt kvenmannsnafn. Addý. Addý er íslenskt kvenmannsnafn. Adela. Adela er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalbjörg. Aðalbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalbjört. Aðalbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalborg. Aðalborg er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalfríður. Aðalfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalheiður. Aðalheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalsteina. Aðalsteina er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalsteinunn. Aðalsteinunn er íslenskt kvenmannsnafn. Aðalveig. Aðalveig er íslenskt kvenmannsnafn. Agata. Agata er íslenskt kvenmannsnafn. Agatha. Agatha er íslenskt kvenmannsnafn. Agða. Agða er íslenskt kvenmannsnafn. Agla. Agla er íslenskt kvenmannsnafn. Agnea. Agnea er íslenskt kvenmannsnafn. Agnes (nafn). Agnes er íslenskt kvenmannsnafn, dregið af gríska orðinu "hagnē" sem þýðir heilög. Agneta. Agneta er íslenskt kvenmannsnafn. Alba. Alba er íslenskt kvenmannsnafn. Alberta (mannsnafn). Alberta er íslenskt kvenmannsnafn. Albína. Albína er íslenskt kvenmannsnafn. Alda (mannsnafn). Alda er íslenskt kvenmannsnafn. Aldís. Aldís er íslenskt kvenmannsnafn. Aldný. Aldný er íslenskt kvenmannsnafn. Alexa. Alexa er íslenskt kvenmannsnafn. Alexandra. Alexandra er íslenskt kvenmannsnafn. Alexandría (mannsnafn). Alexandría er íslenskt kvenmannsnafn. Alexía. Alexía er íslenskt kvenmannsnafn. Alfa (mannsnafn). Alfa er íslenskt kvenmannsnafn. Alfífa. Alfífa er íslenskt kvenmannsnafn. Alice. Alice er íslenskt kvenmannsnafn af enskum uppruna. Alída. Alída er íslenskt kvenmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Alída væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá og var það samþykkt þann 18. desember 2001. Alís. Alís er íslenskt kvenmannsnafn. Alísa. Alísa er íslenskt kvenmannsnafn. Alla. Alla er íslenskt kvenmannsnafn. Allý. Allý er íslenskt kvenmannsnafn. Alma. Alma er íslenskt kvenmannsnafn. Alrún. Alrún er íslenskt kvenmannsnafn. Alva. Alva er íslenskt kvenmannsnafn. Alvilda. Alvilda er íslenskt kvenmannsnafn. Amadea. Amadea er íslenskt kvenmannsnafn. Merking; 'Sú sem guðirnir elska'. Kvk form af Amadeus Amal. Amal er íslenskt kvenmannsnafn. Amalía. Amalía er íslenskt kvenmannsnafn. Amanda. Amanda er íslenskt kvenmannsnafn. Amelía. Amelía er íslenskt kvenmannsnafn. Amíra. Amíra er íslenskt kvenmannsnafn. Amý. Amý er íslenskt kvenmannsnafn. Analía. Analía er íslenskt kvenmannsnafn. Anastasía. Anastasía er íslenskt kvenmannsnafn. Andra. Andra er íslenskt kvenmannsnafn. Andrá. Andrá er íslenskt kvenmannsnafn. Andrea. Andrea er íslenskt kvenmannsnafn. Anetta. Anetta er íslenskt kvenmannsnafn. Angela. Angela er íslenskt kvenmannsnafn af grískum uppruna. Angelíka. Angelíka er íslenskt kvenmannsnafn. Anika. Anika er íslenskt kvenmannsnafn. Anita. Anita er íslenskt kvenmannsnafn. Aníka. Aníka er íslenskt kvenmannsnafn. Anína. Anína er íslenskt kvenmannsnafn. Aníta. Aníta er íslenskt kvenmannsnafn. Anja. Anja er íslenskt kvenmannsnafn. Ann. Ann er íslenskt kvenmannsnafn. Anna. Anna er íslenskt kvenmannsnafn. Anna er latnenskt form af gríska nafninu Ἄννα og hebreska nafninu Hannah (Hebreska: חַנָּה Ḥannāh‎, merking "greiði" eða "þokki"). Annabella. Annabella er íslenskt kvenmannsnafn. Annalísa. Annalísa er íslenskt kvenmannsnafn. Anne. Anne er íslenskt kvenmannsnafn. Annetta. Annetta er íslenskt kvenmannsnafn. Anney. Anney er íslenskt kvenmannsnafn. Annika. Annika er íslenskt kvenmannsnafn. Annía. Annía er íslenskt kvenmannsnafn. Anný. Anný er íslenskt kvenmannsnafn. Antonía. Antonía er íslenskt kvenmannsnafn. Ardís. Ardís er íslenskt kvenmannsnafn. Arey. Arey er íslenskt kvenmannsnafn. Arinbjörg. Arinbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Aris. Aris er íslenskt kvenmannsnafn. Arisa. Arisa er íslenskt kvenmannsnafn. Aríanna. Aríanna er íslenskt kvenmannsnafn. Aríella. Aríella er íslenskt kvenmannsnafn. Arín. Arín er íslenskt kvenmannsnafn. Arína. Arína er íslenskt kvenmannsnafn. Arís. Arís er íslenskt kvenmannsnafn. Armenía (mannsnafn). Armenía er íslenskt kvenmannsnafn. Arna. Arna er íslenskt kvenmannsnafn. Arnbjörg (mannsnafn). Arnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Arnborg. Arnborg er íslenskt kvenmannsnafn. Arndís. Arndís er íslenskt kvenmannsnafn. Arney. Arney er íslenskt kvenmannsnafn. Arnfinna. Arnfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Arnfríður. Arnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Arngerður. Arngerður er íslenskt kvenmannsnafn. Arngunnur. Arngunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Arnheiður. Arnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Arnhildur. Arnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Arnika. Arnika er íslenskt kvenmannsnafn. Arnkatla. Arnkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Arnlaug. Arnlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Arnleif. Arnleif er íslenskt kvenmannsnafn. Arnlín. Arnlín er íslenskt kvenmannsnafn. Arnljót. Arnljót er íslenskt kvenmannsnafn. Arnóra. Arnóra er íslenskt kvenmannsnafn. Arnrós. Arnrós er íslenskt kvenmannsnafn. Arnrún. Arnrún er íslenskt kvenmannsnafn. Arnþóra. Arnþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Arnþrúður. Arnþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Askja (mannsnafn). Askja er íslenskt kvenmannsnafn. Assa (mannsnafn). Assa er íslenskt kvenmannsnafn. Astrid. Astrid er íslenskt kvenmannsnafn. Atena. Atena er íslenskt kvenmannsnafn. Atena er einnig annar ritháttur borgarnafnsins Aþenu. Meðal þeirra, sem notað hafa þann rithátt, er Jón Sigurðsson. Athena. Athena er íslenskt kvenmannsnafn. Atla. Atla er íslenskt kvenmannsnafn. Auðbjörg. Auðbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Auðbjört. Auðbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Auðdís. Auðdís er íslenskt kvenmannsnafn. Auðlín. Auðlín er íslenskt kvenmannsnafn. Auðna. Auðna er íslenskt kvenmannsnafn. Auðný. Auðný er íslenskt kvenmannsnafn. Auðrún. Auðrún er íslenskt kvenmannsnafn. Auður. Auður er íslenskt kvenmannsnafn. Aurora. Aurora er íslenskt kvenmannsnafn. Axelía. Axelía er íslenskt kvenmannsnafn. Axelma. Axelma er íslenskt kvenmannsnafn. Aþena (mannsnafn). Aþena er íslenskt kvenmannsnafn. Ágústa. Ágústa er íslenskt kvenmannsnafn. Ágústína. Ágústína er íslenskt kvenmannsnafn. Álfdís. Álfdís er íslenskt kvenmannsnafn. Álfey. Álfey er íslenskt kvenmannsnafn. Álfgerður. Álfgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Álfheiður. Álfheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Álfhildur. Álfhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Álfrún. Álfrún er íslenskt kvenmannsnafn. Álfsól. Álfsól er íslenskt kvenmannsnafn. Árbjörg. Árbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Árbjört. Árbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Árdís. Árdís er íslenskt kvenmannsnafn. Árelía. Árelía er íslenskt kvenmannsnafn. Árlaug. Árlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Ármey. Ármey er íslenskt kvenmannsnafn. Árna. Árna er íslenskt kvenmannsnafn. Árndís. Árndís er íslenskt kvenmannsnafn. Árney. Árney er íslenskt kvenmannsnafn. Árnheiður. Árnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Árnína. Árnína er íslenskt kvenmannsnafn. Árný. Árný er íslenskt kvenmannsnafn. Áróra. Áróra er íslenskt kvenmannsnafn. Ársól. Ársól er íslenskt kvenmannsnafn. Ársæl. Ársæl er íslenskt kvenmannsnafn. Árveig. Árveig er íslenskt kvenmannsnafn. Árþóra. Árþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Ása. Ása er íslenskt kvenmannsnafn. Ásbjörg. Ásbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ásborg. Ásborg er íslenskt kvenmannsnafn. Ásdís. Ásdís er íslenskt kvenmannsnafn. Ásfríður. Ásfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ásgerður. Ásgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Áshildur. Áshildur er íslenskt kvenmannsnafn. Áskatla. Áskatla er íslenskt kvenmannsnafn. Ásla. Ásla er íslenskt kvenmannsnafn. Áslaug. Áslaug er íslenskt kvenmannsnafn. Ásleif. Ásleif er íslenskt kvenmannsnafn. Ásný. Ásný er íslenskt kvenmannsnafn. Ásrós. Ásrós er íslenskt kvenmannsnafn. Ásrún. Ásrún er íslenskt kvenmannsnafn. Ásta. Ásta er íslenskt kvenmannsnafn. Ástbjörg. Ástbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ástbjört. Ástbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Ástdís. Ástdís er íslenskt kvenmannsnafn. Ástfríður. Ástfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ástgerður. Ástgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Ástheiður. Ástheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Ásthildur. Ásthildur er íslenskt kvenmannsnafn. Ástríður. Ástríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ástrós. Ástrós er íslenskt kvenmannsnafn. Ástrún. Ástrún er íslenskt kvenmannsnafn. Ástveig. Ástveig er íslenskt kvenmannsnafn. Ástþóra. Ástþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Ástþrúður. Ástþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Ásvör. Ásvör er íslenskt kvenmannsnafn. Baldey. Baldey er íslenskt kvenmannsnafn. Baldrún. Baldrún er íslenskt kvenmannsnafn. Baldvina. Baldvina er íslenskt kvenmannsnafn. Barbara. Barbara er íslenskt kvenmannsnafn. Barbára. Barbára er íslenskt kvenmannsnafn. Bára. Bára er íslenskt kvenmannsnafn. Begga. Begga er íslenskt kvenmannsnafn. Belinda. Belinda er íslenskt kvenmannsnafn. Bella. Bella er íslenskt kvenmannsnafn. Benedikta. Benedikta er íslenskt kvenmannsnafn. Bengta. Bengta er íslenskt kvenmannsnafn. Benía. Benía er íslenskt kvenmannsnafn. Benna. Benna er íslenskt kvenmannsnafn. Benney. Benney er íslenskt kvenmannsnafn. Benný. Benný er íslenskt kvenmannsnafn. Benta. Benta er íslenskt kvenmannsnafn. Bentína. Bentína er íslenskt kvenmannsnafn. Bera (nafn). Bera er íslenskt kvenmannsnafn. Bergdís. Bergdís er íslenskt kvenmannsnafn. Bergey. Bergey er íslenskt kvenmannsnafn. Bergfríður. Bergfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Berghildur. Berghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Berglaug. Berglaug er íslenskt kvenmannsnafn. Berglind. Berglind er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið hefur þrjár jafngildar beygingar í þol- og þágufalli. Beygingin "Berglindi" virðist þó vera mest notuð um þessar mundir. Í bókinni "Nöfn Islendinga", sem Heimskringla gaf út árið 1991, segir að nafnið Berglind sé líklega myndað af nafni Lindberghs flugkappa. Fyrst var farið að gefa nafnið á áratugnum 1931-1940. Berglín. Berglín er íslenskt kvenmannsnafn. Bergljót. Bergljót er íslenskt kvenmannsnafn. Bergný. Bergný er íslenskt kvenmannsnafn. Bergrín. Bergrín er íslenskt kvenmannsnafn. Bergrós. Bergrós er íslenskt kvenmannsnafn. Bergrún. Bergrún er íslenskt kvenmannsnafn. Bergþóra. Bergþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Berit. Berit er íslenskt kvenmannsnafn. Berta. Berta er íslenskt kvenmannsnafn. Bertha. Bertha er íslenskt kvenmannsnafn. Bessí. Bessí er íslenskt kvenmannsnafn. Beta (mannsnafn). Beta er íslenskt kvenmannsnafn. Betanía. Betanía er íslenskt kvenmannsnafn. Betsý. Betsý er íslenskt kvenmannsnafn. Bettý. Bettý er íslenskt kvenmannsnafn. Birgit. Birgit er íslenskt kvenmannsnafn. Birgitta. Birgitta er íslenskt kvenmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Brigitta væri tekið til greina, og var það semþykkt sem ritmynd af eiginnafninu Birgitta þann 18. desember 2001 og var fært í mannanafnaskrá. Birna (nafn). Birna er íslenskt kvenmannsnafn. Birta (mannsnafn). Birta er íslenskt kvenmannsnafn. Birtna. Birtna er íslenskt kvenmannsnafn. Bíbí. Bíbí er íslenskt kvenmannsnafn. Bína. Bína er íslenskt kvenmannsnafn. Bjargey. Bjargey er íslenskt kvenmannsnafn. Bjargheiður. Bjargheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarghildur. Bjarghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarglind. Bjarglind er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarkey. Bjarkey er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarklind. Bjarklind er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarma. Bjarma er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarndís. Bjarndís er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarney. Bjarney er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnfríður. Bjarnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarngerður. Bjarngerður er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnheiður. Bjarnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnhildur. Bjarnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnlaug. Bjarnlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnrún. Bjarnrún er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnveig. Bjarnveig er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnþóra. Bjarnþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Bjarnþrúður. Bjarnþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Bjartey. Bjartey er íslenskt kvenmannsnafn. Bjartmey. Bjartmey er íslenskt kvenmannsnafn. Björg. Björg er íslenskt kvenmannsnafn. Algeng villa er að rugla saman beygingarformi kvenmannsnafnanna Bjarkar og Bjargar, en þau beygjast ekki eins. Þolfall- og Þágufallsmyndir Bjargar eru Björgu, Björgu, en beygingarmyndir Bjarkar í sömu föllum eru endingalausar: Björk, Björk. Björgheiður. Björgheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Björghildur. Björghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Björk (mannsnafn). Björk er íslenskt kvenmannsnafn. Algeng villa er að rugla saman beygingarformi kvenmannsnafnanna Bjarkar og Bjargar, en þau beygjast ekki eins. Þolfall- og Þágufallsmyndir Bjargar eru Björgu, Björgu, en beygingarmyndir Bjarkar í sömu föllum eru endingalausar: Björk, Björk. Björnfríður. Björnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Björt. Björt er íslenskt kvenmannsnafn. Blíða. Blíða er íslenskt kvenmannsnafn. Blómey. Blómey er íslenskt kvenmannsnafn. Blædís. Blædís er íslenskt kvenmannsnafn. Boga. Boga er íslenskt kvenmannsnafn. Bogdís. Bogdís er íslenskt kvenmannsnafn. Bogey. Bogey er íslenskt kvenmannsnafn. Bogga. Bogga er íslenskt kvenmannsnafn. Boghildur. Boghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Borg (mannsnafn). Borg er íslenskt kvenmannsnafn. Borgdís. Borgdís er íslenskt kvenmannsnafn. Borghildur. Borghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Borgný. Borgný er íslenskt kvenmannsnafn. Borgrún. Borgrún er íslenskt kvenmannsnafn. Borgþóra. Borgþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Bóel. Bóel er íslenskt kvenmannsnafn. Bóthildur. Bóthildur er íslenskt kvenmannsnafn. Braga (mannsnafn). Braga er íslenskt kvenmannsnafn. Braghildur. Braghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Branddís. Branddís er íslenskt kvenmannsnafn. Brá. Brá er íslenskt kvenmannsnafn. Brák. Brák er íslenskt kvenmannsnafn. Brigitta. Brigitta er íslenskt kvenmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Brigitta væri tekið til greina, og var það semþykkt sem ritmynd af eiginnafninu Birgitta þann 18. desember 2001 og var fært í mannanafnaskrá. Brimdís. Brimdís er íslenskt kvenmannsnafn. Brimhildur. Brimhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Brimrún. Brimrún er íslenskt kvenmannsnafn. Brit. Brit er íslenskt kvenmannsnafn. Britt. Britt er íslenskt kvenmannsnafn. Britta. Britta er íslenskt kvenmannsnafn. Bríana. Bríana er íslenskt kvenmannsnafn. Bríanna. Bríanna er íslenskt kvenmannsnafn. Bríet (mannsnafn). Bríet er íslenskt kvenmannsnafn. Bryndís. Bryndís er íslenskt kvenmannsnafn. Brynfríður. Brynfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Bryngerður. Bryngerður er íslenskt kvenmannsnafn. Brynheiður. Brynheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Brynhildur. Brynhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Brynja (nafn). Brynja er íslenskt kvenmannsnafn. Burkney. Burkney er íslenskt kvenmannsnafn. Bylgja (mannsnafn). Bylgja er íslenskt kvenmannsnafn. Camilla. Camilla er íslenskt kvenmannsnafn. Carmen. Carmen er íslenskt kvenmannsnafn af spænskum uppruna. Cecilia. Cecilia er íslenskt kvenmannsnafn. Cecilía. Cecilía er íslenskt kvenmannsnafn. Charlotta. Charlotta er íslenskt kvenmannsnafn. Charlotte (mannsnafn). Charlotte er íslenskt kvenmannsnafn. Christina. Christina er íslenskt kvenmannsnafn. Christine. Christine er íslenskt kvenmannsnafn. Clara. Clara er íslenskt kvenmannsnafn. Daðey. Daðey er íslenskt kvenmannsnafn. Dagbjörg. Dagbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Dagbjört. Dagbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Dagfríður. Dagfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Daggrós. Daggrós er íslenskt kvenmannsnafn. Dagheiður. Dagheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Dagmar. Dagmar er íslenskt kvenmannsnafn. Dagmey. Dagmey er íslenskt kvenmannsnafn. Dagný. Dagný er íslenskt kvenmannsnafn. Dagrún. Dagrún er íslenskt kvenmannsnafn. Daldís. Daldís er íslenskt kvenmannsnafn. Dalía. Dalía er íslenskt kvenmannsnafn. Dalla. Dalla er íslenskt kvenmannsnafn. Dalrós. Dalrós er íslenskt kvenmannsnafn. Dana. Dana er íslenskt kvenmannsnafn. Daney. Daney er íslenskt kvenmannsnafn. Danfríður. Danfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Danheiður. Danheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Danhildur. Danhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Danía. Danía er íslenskt kvenmannsnafn. Daníela. Daníela er íslenskt kvenmannsnafn. Daníella. Daníella er íslenskt kvenmannsnafn. Dara. Dara er íslenskt kvenmannsnafn. Debóra. Debóra er íslenskt kvenmannsnafn. Dendý. Dendý er íslenskt kvenmannsnafn. Didda. Didda er íslenskt kvenmannsnafn. Dilja. Dilja er íslenskt kvenmannsnafn. Diljá. Diljá er íslenskt kvenmannsnafn. Dimmblá. Dimmblá er íslenskt kvenmannsnafn. Dimmey. Dimmey er íslenskt kvenmannsnafn. Día. Día er íslenskt kvenmannsnafn. Díana (mannsnafn). Díana er íslenskt kvenmannsnafn. Díanna. Díanna er íslenskt kvenmannsnafn. Díma. Díma er íslenskt kvenmannsnafn. Dís (mannsnafn). Dís er íslenskt kvenmannsnafn. Dísa. Dísa er íslenskt kvenmannsnafn. Dísella. Dísella er íslenskt kvenmannsnafn. Donna. Donna er íslenskt kvenmannsnafn. Doris. Doris er íslenskt kvenmannsnafn. Dorothea. Dorothea er íslenskt kvenmannsnafn. Dómhildur. Dómhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Dóra. Dóra er íslenskt kvenmannsnafn. Dórothea. Dórothea er íslenskt kvenmannsnafn. Dórótea. Dórótea er íslenskt kvenmannsnafn. Dóróthea. Dóróthea er íslenskt kvenmannsnafn. Draumey. Draumey er íslenskt kvenmannsnafn. Drífa. Drífa er íslenskt kvenmannsnafn. Droplaug. Droplaug er íslenskt kvenmannsnafn. Drótt. Drótt er íslenskt kvenmannsnafn. Dröfn. Dröfn er íslenskt kvenmannsnafn. Dúa. Dúa er íslenskt kvenmannsnafn. Dúfa (nafn). Dúfa er íslenskt kvenmannsnafn. Dúna. Dúna er íslenskt kvenmannsnafn. Dýrborg. Dýrborg er íslenskt kvenmannsnafn. Dýrfinna. Dýrfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Dýrleif. Dýrleif er íslenskt kvenmannsnafn. Dýrley. Dýrley er íslenskt kvenmannsnafn. Dýrunn. Dýrunn er íslenskt kvenmannsnafn. Dæja. Dæja er íslenskt kvenmannsnafn. Dögg (nafn). Dögg er íslenskt kvenmannsnafn. Dögun (mannsnafn). Dögun er íslenskt kvenmannsnafn. Ebba. Ebba er íslenskt kvenmannsnafn. Edda (mannsnafn). Edda er íslenskt kvenmannsnafn. Edel. Edel er íslenskt kvenmannsnafn. Edil. Edil er íslenskt kvenmannsnafn. Edit. Edit er íslenskt kvenmannsnafn. Edith. Edith er íslenskt kvenmannsnafn. Eðna. Eðna er íslenskt kvenmannsnafn. Efemía. Efemía er íslenskt kvenmannsnafn. Egedía. Egedía er íslenskt kvenmannsnafn. Eggrún. Eggrún er íslenskt kvenmannsnafn. Egla (mannsnafn). Egla er íslenskt kvenmannsnafn. Eiðný. Eiðný er íslenskt kvenmannsnafn. Eiðunn. Eiðunn er íslenskt kvenmannsnafn. Eik (mannsnafn). Eik er íslenskt kvenmannsnafn. Eindís. Eindís er íslenskt kvenmannsnafn. Einey. Einey er íslenskt kvenmannsnafn. Einfríður. Einfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Einhildur. Einhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Einrún. Einrún er íslenskt kvenmannsnafn. Eir (mannsnafn). Eir er íslenskt kvenmannsnafn. Eirdís. Eirdís er íslenskt kvenmannsnafn. Eirfinna. Eirfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Eiríka. Eiríka er íslenskt kvenmannsnafn. Eirný. Eirný er íslenskt kvenmannsnafn. Eldbjörg. Eldbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Eldey (mannsnafn). Eldey er íslenskt kvenmannsnafn. Eleina. Eleina er íslenskt kvenmannsnafn. Elektra (nafn). Elektra er íslenskt kvenmannsnafn. Elena. Elena er íslenskt kvenmannsnafn. Elenóra. Elenóra er íslenskt kvenmannsnafn. Eleonora. Eleonora er íslenskt kvenmannsnafn. Elfa. Elfa er íslenskt kvenmannsnafn. Elfur. Elfur er íslenskt kvenmannsnafn. Elina. Elina er íslenskt kvenmannsnafn. Elinóra. Elinóra er íslenskt kvenmannsnafn. Elisabeth. Elisabeth er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið kemur úr hebresku אֱלִישֶֽׁבַע [’ĕlīšeḇa‘] "Elischebath" ("Guð minn er Sjö"). Merking: Orðið "sjö" þýðir "„fullkomnun“". Elía. Elía er íslenskt kvenmannsnafn. Elíana. Elíana er íslenskt kvenmannsnafn. Elín. Elín er íslenskt kvenmannsnafn. Elína. Elína er íslenskt kvenmannsnafn. Elíná. Elíná er íslenskt kvenmannsnafn. Elínbet. Elínbet er íslenskt kvenmannsnafn. Elínbjörg. Elínbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Elínbjört. Elínbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Elínborg. Elínborg er íslenskt kvenmannsnafn. Elíngunnur. Elíngunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Elínheiður. Elínheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Elínrós. Elínrós er íslenskt kvenmannsnafn. Elírós. Elírós er íslenskt kvenmannsnafn. Elísa. Elísa er íslenskt kvenmannsnafn. Elísabet. Elísabet er íslenskt kvenmannsnafn. Elísabeth. Elísabeth er íslenskt kvenmannsnafn. Elka. Elka er íslenskt kvenmannsnafn. Ella. Ella er íslenskt kvenmannsnafn. Ellen. Ellen er íslenskt kvenmannsnafn. Elley. Elley er íslenskt kvenmannsnafn. Ellisif. Ellisif er íslenskt kvenmannsnafn. Ellý. Ellý er íslenskt kvenmannsnafn. Elma. Elma er íslenskt kvenmannsnafn. Elna. Elna er íslenskt kvenmannsnafn. Elsa. Elsa er íslenskt kvenmannsnafn, nafnið er stytting á Elísabet. Elsabet. Elsabet er íslenskt kvenmannsnafn. Elsie. Elsie er íslenskt kvenmannsnafn. Elsý. Elsý er íslenskt kvenmannsnafn. Elva. Elva er íslenskt kvenmannsnafn. Elvíra. Elvíra er íslenskt kvenmannsnafn. Elvý. Elvý er íslenskt kvenmannsnafn. Embla (mannsnafn). Embla er íslenskt kvenmannsnafn. Emelía. Emelía er íslenskt kvenmannsnafn. Emelíana. Emelíana er íslenskt kvenmannsnafn. Emelína. Emelína er íslenskt kvenmannsnafn. Emilía. Emilía er íslenskt kvenmannsnafn. Emilíana. Emilíana er íslenskt kvenmannsnafn. Emilíanna. Emilíanna er íslenskt kvenmannsnafn. Emilý. Emilý er íslenskt kvenmannsnafn. Emma. Emma er íslenskt kvenmannsnafn. Emý. Emý er íslenskt kvenmannsnafn. Enea. Enea er íslenskt kvenmannsnafn. Eneka. Eneka er íslenskt kvenmannsnafn. Engilbjört. Engilbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Engilráð. Engilráð er íslenskt kvenmannsnafn. Engla. Engla er íslenskt kvenmannsnafn. Enika. Enika er íslenskt kvenmannsnafn. Enja. Enja er íslenskt kvenmannsnafn. Enóla. Enóla er íslenskt kvenmannsnafn. Erika. Erika er íslenskt kvenmannsnafn. Erla. Erla er íslenskt kvenmannsnafn. Erlen. Erlen er íslenskt kvenmannsnafn. Erlín. Erlín er íslenskt kvenmannsnafn. Erna. Erna er íslenskt kvenmannsnafn. Esja (nafn). Esja er íslenskt kvenmannsnafn. Esmeralda. Esmeralda er íslenskt kvenmannsnafn. Ester. Ester er íslenskt kvenmannsnafn. Esther. Esther er íslenskt kvenmannsnafn. Estiva. Estiva er íslenskt kvenmannsnafn. Ethel. Ethel er íslenskt kvenmannsnafn. Etna (mannsnafn). Etna er íslenskt kvenmannsnafn. Eva. Eva er íslenskt kvenmannsnafn. Evelyn. Evelyn er íslenskt kvenmannsnafn. Evfemía. Evfemía er íslenskt kvenmannsnafn. Evgenía. Evgenía er íslenskt kvenmannsnafn. Evíta. Evíta er íslenskt kvenmannsnafn. Evlalía. Evlalía er íslenskt kvenmannsnafn. Eybjörg. Eybjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Eydís. Eydís er íslenskt kvenmannsnafn. Eyfríður. Eyfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Eygerður. Eygerður er íslenskt kvenmannsnafn. Eygló. Eygló er íslenskt kvenmannsnafn. Eyhildur. Eyhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Eyja (mannsnafn). Eyja er íslenskt kvenmannsnafn. Eyjalín. Eyjalín er íslenskt kvenmannsnafn. Eyleif. Eyleif er íslenskt kvenmannsnafn. Eylín. Eylín er íslenskt kvenmannsnafn. Eyrós. Eyrós er íslenskt kvenmannsnafn. Eyrún. Eyrún er íslenskt kvenmannsnafn. Eyveig. Eyveig er íslenskt kvenmannsnafn. Eyvör. Eyvör er íslenskt kvenmannsnafn. Eyþóra. Eyþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Eyþrúður. Eyþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Fanndís. Fanndís er íslenskt kvenmannsnafn. Fanney. Fanney er íslenskt kvenmannsnafn. Fannlaug. Fannlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Fanny. Fanny er íslenskt kvenmannsnafn. Fanný. Fanný er íslenskt kvenmannsnafn. Fema. Fema er íslenskt kvenmannsnafn. Filippa. Filippa er íslenskt kvenmannsnafn. Filippía. Filippía er íslenskt kvenmannsnafn. Finna. Finna er íslenskt kvenmannsnafn. Finnbjörg. Finnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Finnbjörk. Finnbjörk er íslenskt kvenmannsnafn. Finnboga. Finnboga er íslenskt kvenmannsnafn. Finnborg. Finnborg er íslenskt kvenmannsnafn. Finndís. Finndís er íslenskt kvenmannsnafn. Finney. Finney er íslenskt kvenmannsnafn. Finnfríður. Finnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Finnlaug. Finnlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Fía. Fía er íslenskt kvenmannsnafn. Fídes. Fídes er íslenskt kvenmannsnafn. Fífa (mannsnafn). Fífa er íslenskt kvenmannsnafn. Fjalldís. Fjalldís er íslenskt kvenmannsnafn. Fjóla. Fjóla er íslenskt kvenmannsnafn. Flóra (nafn). Flóra er íslenskt kvenmannsnafn. Folda. Folda er íslenskt kvenmannsnafn. Fransiska. Fransiska er íslenskt kvenmannsnafn. Franziska. Franziska er íslenskt kvenmannsnafn. Frán. Frán er íslenskt kvenmannsnafn. Fregn. Fregn er íslenskt kvenmannsnafn. Freydís. Freydís er íslenskt kvenmannsnafn. Freygerður. Freygerður er íslenskt kvenmannsnafn. Freyja (mannsnafn). Freyja er íslenskt kvenmannsnafn. Freylaug. Freylaug er íslenskt kvenmannsnafn. Freyleif. Freyleif er íslenskt kvenmannsnafn. Friðbjörg. Friðbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Friðbjört. Friðbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Friðborg. Friðborg er íslenskt kvenmannsnafn. Friðdís. Friðdís er íslenskt kvenmannsnafn. Friðdóra. Friðdóra er íslenskt kvenmannsnafn. Friðey. Friðey er íslenskt kvenmannsnafn. Friðfinna. Friðfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Friðgerður. Friðgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Friðjóna. Friðjóna er íslenskt kvenmannsnafn. Friðlaug. Friðlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Friðleif. Friðleif er íslenskt kvenmannsnafn. Friðlín. Friðlín er íslenskt kvenmannsnafn. Friðmey. Friðmey er íslenskt kvenmannsnafn. Friðný. Friðný er íslenskt kvenmannsnafn. Friðrika. Friðrika er íslenskt kvenmannsnafn. Friðrikka. Friðrikka er íslenskt kvenmannsnafn. Friðrós. Friðrós er íslenskt kvenmannsnafn. Friðrún. Friðrún er íslenskt kvenmannsnafn. Friðsemd. Friðsemd er íslenskt kvenmannsnafn. Friðveig. Friðveig er íslenskt kvenmannsnafn. Friðþóra. Friðþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Frigg (mannsnafn). Frigg er íslenskt kvenmannsnafn. Fríða. Fríða er íslenskt kvenmannsnafn. Fríður. Fríður er íslenskt kvenmannsnafn. Fróðný. Fróðný er íslenskt kvenmannsnafn. Fura (mannsnafn). Fura er íslenskt kvenmannsnafn. Fönn. Fönn er íslenskt kvenmannsnafn. Gabríela. Gabríela er íslenskt kvenmannsnafn. Gabríella. Gabríella er íslenskt kvenmannsnafn. Gauja. Gauja er íslenskt kvenmannsnafn. Gauthildur. Gauthildur er íslenskt kvenmannsnafn. Gefjun (mannsnafn). Gefjun er íslenskt kvenmannsnafn. Gefn. Gefn er íslenskt kvenmannsnafn. Geira. Geira er íslenskt kvenmannsnafn. Geirbjörg. Geirbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Geirdís. Geirdís er íslenskt kvenmannsnafn. Geirfinna. Geirfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Geirfríður. Geirfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Geirhildur. Geirhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Geirlaug. Geirlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Geirlöð. Geirlöð er íslenskt kvenmannsnafn. Geirný. Geirný er íslenskt kvenmannsnafn. Geirríður. Geirríður er íslenskt kvenmannsnafn. Geirrún. Geirrún er íslenskt kvenmannsnafn. Geirþrúður. Geirþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Gerða. Gerða er íslenskt kvenmannsnafn. Gerður. Gerður er íslenskt kvenmannsnafn. Gestheiður. Gestheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Gestný. Gestný er íslenskt kvenmannsnafn. Gestrún. Gestrún er íslenskt kvenmannsnafn. Gillý. Gillý er íslenskt kvenmannsnafn. Gilslaug. Gilslaug er íslenskt kvenmannsnafn. Gissunn. Gissunn er íslenskt kvenmannsnafn. Gía. Gía er íslenskt kvenmannsnafn. Gígja. Gígja er íslenskt kvenmannsnafn. Gísley. Gísley er íslenskt kvenmannsnafn. Gíslína. Gíslína er íslenskt kvenmannsnafn. Gíslný. Gíslný er íslenskt kvenmannsnafn. Gíslrún. Gíslrún er íslenskt kvenmannsnafn. Gíslunn. Gíslunn er íslenskt kvenmannsnafn. Gjaflaug. Gjaflaug er íslenskt kvenmannsnafn. Gloría. Gloría er íslenskt kvenmannsnafn. Gló. Gló er íslenskt kvenmannsnafn. Glóbjört. Glóbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Glódís. Glódís er íslenskt kvenmannsnafn. Glóð. Glóð er íslenskt kvenmannsnafn. Glóey (nafn). Glóey er íslenskt kvenmannsnafn. Gná. Gná er íslenskt kvenmannsnafn. Góa (mannsnafn). Góa er íslenskt kvenmannsnafn dregið af mánaðarnafninu góa. Gógó. Gógó er íslenskt kvenmannsnafn. Greta. Greta er íslenskt kvenmannsnafn. Grélöð. Grélöð er íslenskt kvenmannsnafn. Grét. Grét er íslenskt kvenmannsnafn. Gréta. Gréta er íslenskt kvenmannsnafn. Gríma. Gríma er íslenskt kvenmannsnafn. Grímey. Grímey er íslenskt kvenmannsnafn. Grímheiður. Grímheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Grímhildur. Grímhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Gróa. Gróa er íslenskt kvenmannsnafn. Guðbjörg. Guðbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Guðbjört. Guðbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Guðborg. Guðborg er íslenskt kvenmannsnafn. Guðdís. Guðdís er íslenskt kvenmannsnafn. Guðfinna. Guðfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Guðfríður. Guðfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Guðjóna. Guðjóna er íslenskt kvenmannsnafn. Guðlaug. Guðlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Guðleif. Guðleif er íslenskt kvenmannsnafn. Guðlín. Guðlín er íslenskt kvenmannsnafn. Guðmey. Guðmey er íslenskt kvenmannsnafn. Guðmunda. Guðmunda er íslenskt kvenmannsnafn. Guðmundína. Guðmundína er íslenskt kvenmannsnafn. Guðný. Guðný er íslenskt kvenmannsnafn. Guðríður. Guðríður er íslenskt kvenmannsnafn. Guðrún. Guðrún er íslenskt kvenmannsnafn. Guðsteina. Guðsteina er íslenskt kvenmannsnafn. Guðveig. Guðveig er íslenskt kvenmannsnafn. Gullbrá (mannsnafn). Gullbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Gullveig. Gullveig er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnbjörg. Gunnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnbjört. Gunnbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnborg. Gunnborg er íslenskt kvenmannsnafn. Gunndís. Gunndís er íslenskt kvenmannsnafn. Gunndóra. Gunndóra er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnella. Gunnella er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnfinna. Gunnfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnfríður. Gunnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnheiður. Gunnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnhildur. Gunnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnjóna. Gunnjóna er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnlaug. Gunnlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnleif. Gunnleif er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnlöð. Gunnlöð er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnrún. Gunnrún er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnur. Gunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnveig. Gunnveig er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnvör. Gunnvör er íslenskt kvenmannsnafn. Gunný. Gunný er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnþóra. Gunnþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Gunnþórunn. Gunnþórunn er íslenskt kvenmannsnafn. Gurrý. Gurrý er íslenskt kvenmannsnafn. Gyða. Gyða er íslenskt kvenmannsnafn. Gyðja (mannsnafn). Gyðja er íslenskt kvenmannsnafn. Gyðríður. Gyðríður er íslenskt kvenmannsnafn. Gytta. Gytta er íslenskt kvenmannsnafn. Gæflaug. Gæflaug er íslenskt kvenmannsnafn. Hadda. Hadda er íslenskt kvenmannsnafn. Haddý. Haddý er íslenskt kvenmannsnafn. Hafbjörg. Hafbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Hafborg. Hafborg er íslenskt kvenmannsnafn. Hafdís. Hafdís er íslenskt kvenmannsnafn. Hafey. Hafey er íslenskt kvenmannsnafn. Hafliða. Hafliða er íslenskt kvenmannsnafn. Haflína. Haflína er íslenskt kvenmannsnafn. Hafný. Hafný er íslenskt kvenmannsnafn. Hafrós. Hafrós er íslenskt kvenmannsnafn. Hafrún. Hafrún er íslenskt kvenmannsnafn. Hafsteina. Hafsteina er íslenskt kvenmannsnafn. Hafþóra. Hafþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Halla. Halla er íslenskt kvenmannsnafn. Það merkir sú sem er gædd hörku steinsins, föst fyrir, ósveigjanleg; samsvarandi karlmannsnafn er Hallur. Nafnið Halla hefur tíðkast meðal Íslendinga frá öndverðu. Hallbera. Hallbera er íslenskt kvenmannsnafn. Hallbjörg. Hallbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Hallborg. Hallborg er íslenskt kvenmannsnafn. Halldís. Halldís er íslenskt kvenmannsnafn. Halldóra. Halldóra er íslenskt kvenmannsnafn. Halley. Halley er íslenskt kvenmannsnafn. Hallfríður. Hallfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Hallgerður. Hallgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Hallgunnur. Hallgunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Hallkatla. Hallkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Hallný. Hallný er íslenskt kvenmannsnafn. Hallrún. Hallrún er íslenskt kvenmannsnafn. Hallveig. Hallveig er íslenskt kvenmannsnafn. Hallvör. Hallvör er íslenskt kvenmannsnafn. Hanna. Hanna er íslenskt kvenmannsnafn. Hansa. Hansa er íslenskt kvenmannsnafn. Hansína. Hansína er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er dregið af karlmannsnafninu Hans sem er þýsk stytting á Jóhannes. Harpa (mannsnafn). Harpa er íslenskt kvenmannsnafn. Hauður. Hauður er íslenskt kvenmannsnafn. Hákonía. Hákonía er íslenskt kvenmannsnafn. Heba (nafn). Heba er íslenskt kvenmannsnafn. Hedda. Hedda er íslenskt kvenmannsnafn. Heiða. Heiða er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðbjörg. Heiðbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðbjörk. Heiðbjörk er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðbjört. Heiðbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðbrá. Heiðbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðdís. Heiðdís er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðlaug. Heiðlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðlóa (nafn). Heiðlóa er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðný. Heiðný er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðrós. Heiðrós er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðrún. Heiðrún er íslenskt kvenmannsnafn. Heiður (nafn). Heiður er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðveig. Heiðveig er íslenskt kvenmannsnafn. Hekla (mannsnafn). Hekla er íslenskt kvenmannsnafn. Helen. Helen er íslenskt kvenmannsnafn. Helga. Helga er íslenskt kvenmannsnafn. Hella (mannsnafn). Hella er íslenskt kvenmannsnafn. Helma. Helma er íslenskt kvenmannsnafn. Hendrikka. Hendrikka er íslenskt kvenmannsnafn. Henný. Henný er íslenskt kvenmannsnafn. Henrietta. Henrietta er íslenskt kvenmannsnafn. Henríetta. Henríetta er íslenskt kvenmannsnafn. Hera (mannsnafn). Hera er íslenskt kvenmannsnafn. Herbjörg. Herbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Herbjört. Herbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Það var fyrst tekið í notkun árið 1951 og var þá hugsað sem samsetning á nöfnunum Herjólfur og Guðbjört. Herborg. Herborg er íslenskt kvenmannsnafn. Herdís. Herdís er íslenskt kvenmannsnafn. Herfríður. Herfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Hergerður. Hergerður er íslenskt kvenmannsnafn. Herlaug. Herlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Hermína. Hermína er íslenskt kvenmannsnafn. Hersilía. Hersilía er íslenskt kvenmannsnafn. Herta. Herta er íslenskt kvenmannsnafn. Hertha. Hertha er íslenskt kvenmannsnafn. Hervör. Hervör er íslenskt kvenmannsnafn. Herþrúður. Herþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Hilda. Hilda er íslenskt kvenmannsnafn. Hildegard. Hildegard er íslenskt kvenmannsnafn af þýskum uppruna. Hildibjörg. Hildibjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Hildigerður. Hildigerður er íslenskt kvenmannsnafn. Hildigunnur. Hildigunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Hildiríður. Hildiríður er íslenskt kvenmannsnafn. Hildisif. Hildisif er íslenskt kvenmannsnafn. Hildur. Hildur er íslenskt kvenmannsnafn. Hilma. Hilma er íslenskt kvenmannsnafn. Himinbjörg. Himinbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Hind. Hind er íslenskt kvenmannsnafn. Hinrika. Hinrika er íslenskt kvenmannsnafn. Hjalta. Hjalta er íslenskt kvenmannsnafn. Hjaltey. Hjaltey er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmdís. Hjálmdís er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmey. Hjálmey er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmfríður. Hjálmfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmgerður. Hjálmgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmrós. Hjálmrós er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmrún. Hjálmrún er íslenskt kvenmannsnafn. Hjálmveig. Hjálmveig er íslenskt kvenmannsnafn. Hjördís. Hjördís er íslenskt kvenmannsnafn. Hjörfríður. Hjörfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Hjörleif. Hjörleif er íslenskt kvenmannsnafn. Hjörný. Hjörný er íslenskt kvenmannsnafn. Hlaðgerður. Hlaðgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Hlédís. Hlédís er íslenskt kvenmannsnafn. Hlíf. Hlíf er íslenskt kvenmannsnafn. Hlín. Hlín er íslenskt kvenmannsnafn. Hlökk. Hlökk er íslenskt kvenmannsnafn. Hólmbjörg. Hólmbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Hólmdís. Hólmdís er íslenskt kvenmannsnafn. Hólmfríður. Hólmfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafnborg. Hrafnborg er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafndís. Hrafndís er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafney. Hrafney er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafngerður. Hrafngerður er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafnheiður. Hrafnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafnhildur. Hrafnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafnkatla. Hrafnkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafnlaug. Hrafnlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Hrafntinna (mannsnafn). Hrafntinna er íslenskt kvenmannsnafn. Hraundís. Hraundís er íslenskt kvenmannsnafn. Hrefna (mannsnafn). Hrefna er íslenskt kvenmannsnafn. Hreindís. Hreindís er íslenskt kvenmannsnafn. Hróðný. Hróðný er íslenskt kvenmannsnafn. Hrólfdís. Hrólfdís er íslenskt kvenmannsnafn. Hrund. Hrund er íslenskt kvenmannsnafn. Hrönn. Hrönn er íslenskt kvenmannsnafn. Hugbjörg. Hugbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Hugborg. Hugborg er íslenskt kvenmannsnafn. Hugdís. Hugdís er íslenskt kvenmannsnafn. Hugljúf. Hugljúf er íslenskt kvenmannsnafn. Hugrún. Hugrún er íslenskt kvenmannsnafn. Huld. Huld er íslenskt kvenmannsnafn. Hulda (mannsnafn). Hulda er íslenskt kvenmannsnafn. Huldís. Huldís er íslenskt kvenmannsnafn. Huldrún. Huldrún er íslenskt kvenmannsnafn. Húnbjörg. Húnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Húndís. Húndís er íslenskt kvenmannsnafn. Húngerður. Húngerður er íslenskt kvenmannsnafn. Hvönn (mannsnafn). Hvönn er íslenskt kvenmannsnafn. Hödd. Hödd er íslenskt kvenmannsnafn. Högna. Högna er íslenskt kvenmannsnafn. Hörn. Hörn er íslenskt kvenmannsnafn. Ida (nafn). Ida er íslenskt kvenmannsnafn. Iða (mannsnafn). Iða er íslenskt kvenmannsnafn. Iðunn (nafn). Iðunn er íslenskt kvenmannsnafn. Ilmur. Ilmur er íslenskt kvenmannsnafn. Ina. Ina er íslenskt kvenmannsnafn. Inda. Inda er íslenskt kvenmannsnafn. India. India er íslenskt kvenmannsnafn. Indiana (mannsnafn). Indiana er íslenskt kvenmannsnafn. Indía. Indía er íslenskt kvenmannsnafn. Indíana. Indíana er íslenskt kvenmannsnafn. Indíra. Indíra er íslenskt kvenmannsnafn. Indra. Indra er íslenskt kvenmannsnafn. Inga. Inga er íslenskt kvenmannsnafn. Ingdís. Ingdís er íslenskt kvenmannsnafn. Ingeborg. Ingeborg er íslenskt kvenmannsnafn. Inger. Inger er íslenskt kvenmannsnafn. Ingey. Ingey er íslenskt kvenmannsnafn. Ingheiður. Ingheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Inghildur. Inghildur er íslenskt kvenmannsnafn. Ingibjörg. Ingibjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ingibjört. Ingibjört er íslenskt kvenmannsnafn. Ingiborg. Ingiborg er íslenskt kvenmannsnafn. Ingifinna. Ingifinna er íslenskt kvenmannsnafn. Ingifríður. Ingifríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ingigerður. Ingigerður er íslenskt kvenmannsnafn. Ingilaug. Ingilaug er íslenskt kvenmannsnafn. Ingileif. Ingileif er íslenskt kvenmannsnafn. Ingilín. Ingilín er íslenskt kvenmannsnafn. Ingimaría. Ingimaría er íslenskt kvenmannsnafn. Ingimunda. Ingimunda er íslenskt kvenmannsnafn. Ingiríður. Ingiríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ingirós. Ingirós er íslenskt kvenmannsnafn. Ingisól. Ingisól er íslenskt kvenmannsnafn. Ingiveig. Ingiveig er íslenskt kvenmannsnafn. Ingrid. Ingrid er íslenskt kvenmannsnafn. Ingrún. Ingrún er íslenskt kvenmannsnafn. Ingunn. Ingunn er íslenskt kvenmannsnafn. Ingveldur. Ingveldur er íslenskt kvenmannsnafn. Inna (mannsnafn). Inna er íslenskt kvenmannsnafn. Irena. Irena er íslenskt kvenmannsnafn. Irene. Irene er íslenskt kvenmannsnafn. Irja. Irja er íslenskt kvenmannsnafn. Irma. Irma er íslenskt kvenmannsnafn. Irmý. Irmý er íslenskt kvenmannsnafn. Irpa. Irpa er íslenskt kvenmannsnafn. Isabella. Isabella er íslenskt kvenmannsnafn. Ída. Ída er íslenskt kvenmannsnafn. Íma. Íma er íslenskt kvenmannsnafn. Ína. Ína er íslenskt kvenmannsnafn. Ír. Ír er íslenskt kvenmannsnafn. Íren. Íren er íslenskt kvenmannsnafn. Írena. Írena er íslenskt kvenmannsnafn. Íris. Íris er íslenskt kvenmannsnafn. Írunn. Írunn er íslenskt kvenmannsnafn. Ísabel. Ísabel er íslenskt kvenmannsnafn. Ísabella. Ísabella er íslenskt kvenmannsnafn. Ísadóra. Ísadóra er íslenskt kvenmannsnafn. Ísafold (nafn). Ísafold er íslenskt kvenmannsnafn. Ísalind. Ísalind er íslenskt kvenmannsnafn. Ísbjörg. Ísbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ísdís. Ísdís er íslenskt kvenmannsnafn. Ísey. Ísey er íslenskt kvenmannsnafn. Ísfold. Ísfold er íslenskt kvenmannsnafn. Ísgerður. Ísgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Íshildur. Íshildur er íslenskt kvenmannsnafn. Ísis (nafn). Ísis er íslenskt kvenmannsnafn. Íslaug. Íslaug er íslenskt kvenmannsnafn. Ísleif. Ísleif er íslenskt kvenmannsnafn. Ísmey. Ísmey er íslenskt kvenmannsnafn. Ísold. Ísold er íslenskt kvenmannsnafn. Ísól. Ísól er íslenskt kvenmannsnafn. Ísrún. Ísrún er íslenskt kvenmannsnafn. Ísveig. Ísveig er íslenskt kvenmannsnafn. Íunn. Íunn er íslenskt kvenmannsnafn. Íva. Íva er íslenskt kvenmannsnafn. Jakobína. Jakobína er íslenskt kvenmannsnafn. Jana. Jana er íslenskt kvenmannsnafn. Janetta. Janetta er íslenskt kvenmannsnafn. Jara. Jara er íslenskt kvenmannsnafn. Jarþrúður. Jarþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Jasmín. Jasmín er íslenskt kvenmannsnafn. Járnbrá. Járnbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Járngerður. Járngerður er íslenskt kvenmannsnafn. Jenna. Jenna er íslenskt kvenmannsnafn. Jenný. Jenný er íslenskt kvenmannsnafn. Jessý. Jessý er íslenskt kvenmannsnafn. Jóa. Jóa er íslenskt kvenmannsnafn. Jóanna. Jóanna er íslenskt kvenmannsnafn. Jódís. Jódís er íslenskt kvenmannsnafn. Jófríður. Jófríður er íslenskt kvenmannsnafn. Jónanna. Jónanna er íslenskt kvenmannsnafn. Jónasína. Jónasína er íslenskt kvenmannsnafn. Jónbjörg. Jónbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Jónbjört. Jónbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Jóndís. Jóndís er íslenskt kvenmannsnafn. Jóndóra. Jóndóra er íslenskt kvenmannsnafn. Jóney. Jóney er íslenskt kvenmannsnafn. Jónfríður. Jónfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Jóngerð. Jóngerð er íslenskt kvenmannsnafn. Jónheiður. Jónheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Jónhildur. Jónhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Jóninna. Jóninna er íslenskt kvenmannsnafn. Jónída. Jónída er íslenskt kvenmannsnafn. Jónína. Jónína er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er kvengerð stytting á Jóhannes. Jónný. Jónný er íslenskt kvenmannsnafn. Jóný. Jóný er íslenskt kvenmannsnafn. Jóra. Jóra er íslenskt kvenmannsnafn. Jóríður. Jóríður er íslenskt kvenmannsnafn. Jórlaug. Jórlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Jórunn. Jórunn er íslenskt kvenmannsnafn. Jósefína. Jósefína er íslenskt kvenmannsnafn. Judith. Judith er íslenskt kvenmannsnafn af ensku bergi brotið, komið úr hebresku יְהוּדִית sem má þýða sem „hin lofaða“. Júdit. Júdit er íslenskt kvenmannsnafn. Júlía. Júlía er íslenskt kvenmannsnafn. Júlíana. Júlíana er íslenskt kvenmannsnafn. Júlíanna. Júlíanna er íslenskt kvenmannsnafn. Júnía. Júnía er íslenskt kvenmannsnafn. Júníana. Júníana er íslenskt kvenmannsnafn. Jökla. Jökla er íslenskt kvenmannsnafn. Jökulrós. Jökulrós er íslenskt kvenmannsnafn. Jörgína. Jörgína er íslenskt kvenmannsnafn. Kaðlín. Kaðlín er íslenskt kvenmannsnafn. Kaja. Kaja er íslenskt kvenmannsnafn. Kalla. Kalla er íslenskt kvenmannsnafn. Kamilla. Kamilla er íslenskt kvenmannsnafn. Kamí. Kamí er íslenskt kvenmannsnafn. Kamma. Kamma er íslenskt kvenmannsnafn. Kapitola. Kapitola er íslenskt kvenmannsnafn. Kapítóla. Kapítóla er íslenskt kvenmannsnafn. Kara. Kara er íslenskt kvenmannsnafn. Karen. Karen er íslenskt kvenmannsnafn. Karin. Karin er íslenskt kvenmannsnafn. Karitas. Karitas er íslenskt kvenmannsnafn. Karín. Karín er íslenskt kvenmannsnafn. Karína. Karína er íslenskt kvenmannsnafn. Karítas. Karítas er íslenskt kvenmannsnafn. Karla. Karla er íslenskt kvenmannsnafn. Karlína. Karlína er íslenskt kvenmannsnafn. Karlotta. Karlotta er íslenskt kvenmannsnafn. Karolína. Karolína er íslenskt kvenmannsnafn. Karólín. Karólín er íslenskt kvenmannsnafn. Karólína. Karólína er íslenskt kvenmannsnafn. Kata. Kata er íslenskt kvenmannsnafn. Katarína. Katarína er íslenskt kvenmannsnafn. Kathinka. Kathinka er íslenskt kvenmannsnafn. Katinka. Katinka er íslenskt kvenmannsnafn. Katla (mannsnafn). Katla er íslenskt kvenmannsnafn, dregið af orðinu ketill sem þýðir pottur. Katrín. Katrín er íslenskt kvenmannsnafn. Kára. Kára er íslenskt kvenmannsnafn. Kendra. Kendra er íslenskt kvenmannsnafn. Ketilbjörg. Ketilbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ketilfríður. Ketilfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ketilríður. Ketilríður er íslenskt kvenmannsnafn. Kiddý. Kiddý er íslenskt kvenmannsnafn. Kirsten. Kirsten er íslenskt kvenmannsnafn. Kirstín. Kirstín er íslenskt kvenmannsnafn. Kjalvör. Kjalvör er íslenskt kvenmannsnafn. Klara. Klara er íslenskt kvenmannsnafn. Kládía. Kládía er íslenskt kvenmannsnafn. Klementína. Klementína er íslenskt kvenmannsnafn. Kleópatra (mannsnafn). Kleópatra er íslenskt kvenmannsnafn. Kolbjörg. Kolbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Kolbrá. Kolbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Kolbrún. Kolbrún er íslenskt kvenmannsnafn. Koldís. Koldís er íslenskt kvenmannsnafn. Kolfinna. Kolfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Kolfreyja. Kolfreyja er íslenskt kvenmannsnafn. Kolgríma. Kolgríma er íslenskt kvenmannsnafn. Kolka. Kolka er íslenskt kvenmannsnafn en þó notað sem ættarnafn af báðum kynjum. Einkum eru það afkomendur Páls Valdimars Guðmundssonar Kolka læknis sem nota ættarnafnið. Konkordía. Konkordía er íslenskt kvenmannsnafn. Konný. Konný er íslenskt kvenmannsnafn. Kormlöð. Kormlöð er íslenskt kvenmannsnafn. Kornelía. Kornelía er íslenskt kvenmannsnafn. Krista. Krista er íslenskt kvenmannsnafn. Kristbjörg. Kristbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Kristborg. Kristborg er íslenskt kvenmannsnafn. Kristel. Kristel er íslenskt kvenmannsnafn. Kristensa. Kristensa er íslenskt kvenmannsnafn. Kristey. Kristey er íslenskt kvenmannsnafn. Kristfríður. Kristfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Kristgerður. Kristgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Kristine. Kristine er íslenskt kvenmannsnafn. Kristíana. Kristíana er íslenskt kvenmannsnafn. Kristíanna. Kristíanna er íslenskt kvenmannsnafn. Kristín. Kristín er íslenskt kvenmannsnafn. Kristína. Kristína er íslenskt kvenmannsnafn. Kristjana. Kristjana er íslenskt kvenmannsnafn. Kristjóna. Kristjóna er íslenskt kvenmannsnafn. Kristlaug. Kristlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Kristlind. Kristlind er íslenskt kvenmannsnafn. Kristlín. Kristlín er íslenskt kvenmannsnafn. Kristný. Kristný er íslenskt kvenmannsnafn. Kristrós. Kristrós er íslenskt kvenmannsnafn. Kristrún. Kristrún er íslenskt kvenmannsnafn. Kristveig. Kristveig er íslenskt kvenmannsnafn. Kristvina. Kristvina er íslenskt kvenmannsnafn. Kristþóra. Kristþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Kría (mannsnafn). Kría er íslenskt kvenmannsnafn. Laila. Laila er íslenskt kvenmannsnafn. Laíla. Laíla er íslenskt kvenmannsnafn. Lana. Lana er kvenmannsnafn sem náði nokkrum vinsældum í enskumælandi löndum eftir að frægðarsól leikkonunnar Lönu Turner reis um 1939. Lara. Lara er íslenskt kvenmannsnafn. Laufey. Laufey er íslenskt kvenmannsnafn. Laufheiður. Laufheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Laufhildur. Laufhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Lauga. Lauga er íslenskt kvenmannsnafn. Laugey. Laugey er íslenskt kvenmannsnafn. Laugheiður. Laugheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Lára. Lára er íslenskt kvenmannsnafn. Lárensína. Lárensína er íslenskt kvenmannsnafn. Láretta. Láretta er íslenskt kvenmannsnafn. Lárey. Lárey er íslenskt kvenmannsnafn. Lea. Lea er íslenskt kvenmannsnafn. Leikný. Leikný er íslenskt kvenmannsnafn. Lena. Lena er íslenskt kvenmannsnafn. Leonóra. Leonóra er íslenskt kvenmannsnafn. Leónóra. Leónóra er íslenskt kvenmannsnafn. Lilja (mannsnafn). Lilja er íslenskt kvenmannsnafn. Liljá. Liljá er íslenskt kvenmannsnafn. Lill. Lill er íslenskt kvenmannsnafn. Lillian. Lillian er íslenskt kvenmannsnafn. Lillý. Lillý er íslenskt kvenmannsnafn. Lily. Lily er íslenskt kvenmannsnafn. Lilý. Lilý er íslenskt kvenmannsnafn. Lind. Lind er íslenskt kvenmannsnafn. Linda. Linda er íslenskt kvenmannsnafn. Listalín. Listalín er íslenskt kvenmannsnafn. Liv. Liv er íslenskt kvenmannsnafn. Líf (mannsnafn). Líf er íslenskt kvenmannsnafn. Lífdís. Lífdís er íslenskt kvenmannsnafn. Lín. Lín er íslenskt kvenmannsnafn. Lína (mannsnafn). Lína er íslenskt kvenmannsnafn. Línbjörg. Línbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Líndís. Líndís er íslenskt kvenmannsnafn. Líneik. Líneik er íslenskt kvenmannsnafn. Líney. Líney er íslenskt kvenmannsnafn. Línhildur. Línhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Lísa. Lísa er íslenskt kvenmannsnafn. Lísabet. Lísabet er íslenskt kvenmannsnafn. Lísandra. Lísandra er íslenskt kvenmannsnafn. Lísbet. Lísbet er íslenskt kvenmannsnafn. Lív. Lív er íslenskt kvenmannsnafn. Ljósbjörg. Ljósbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ljósbrá. Ljósbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Ljótunn. Ljótunn er íslenskt kvenmannsnafn. Lofn. Lofn er íslenskt kvenmannsnafn. Loftveig. Loftveig er íslenskt kvenmannsnafn. Logey. Logey er íslenskt kvenmannsnafn. Lotta. Lotta er íslenskt kvenmannsnafn. Louisa. Louisa er íslenskt kvenmannsnafn. Lousie. Lousie er íslenskt kvenmannsnafn. Lovísa. Lovísa er íslenskt kvenmannsnafn. Lóa (mannsnafn). Lóa er íslenskt kvenmannsnafn. Lóreley. Lóreley er íslenskt kvenmannsnafn. Lukka. Lukka er íslenskt kvenmannsnafn. Lúcía. Lúcía er íslenskt kvenmannsnafn. Lúðvíka. Lúðvíka er íslenskt kvenmannsnafn. Lúísa. Lúísa er íslenskt kvenmannsnafn. Lúsinda. Lúsinda er íslenskt kvenmannsnafn. Lúsía. Lúsía er íslenskt kvenmannsnafn. Lúvísa. Lúvísa er íslenskt kvenmannsnafn. Lydia. Lydia er íslenskt kvenmannsnafn. Lydía. Lydía er íslenskt kvenmannsnafn. Lyngheiður. Lyngheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Lýdía (nafn). Lýdía er íslenskt kvenmannsnafn. Læla. Læla er íslenskt kvenmannsnafn. Maddý. Maddý er íslenskt kvenmannsnafn. Magda. Magda er íslenskt kvenmannsnafn, núverandi nafnhafar þess í þjóðskrá eru að mestu frá Póllandi. Magdalena. Magdalena er íslenskt kvenmannsnafn. Magðalena. Magðalena er íslenskt kvenmannsnafn. Magga. Magga er íslenskt kvenmannsnafn. Maggey. Maggey er íslenskt kvenmannsnafn. Maggý. Maggý er íslenskt kvenmannsnafn. Magna. Magna er íslenskt kvenmannsnafn. Magndís. Magndís er íslenskt kvenmannsnafn. Magnea. Magnea er íslenskt kvenmannsnafn. Magnes. Magnes er íslenskt kvenmannsnafn. Magney. Magney er íslenskt kvenmannsnafn. Magnfríður. Magnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Magnheiður. Magnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Magnhildur. Magnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Magnúsína. Magnúsína er íslenskt kvenmannsnafn. Magný. Magný er íslenskt kvenmannsnafn. Magnþóra. Magnþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Maídís. Maídís er íslenskt kvenmannsnafn. Maj. Maj er íslenskt kvenmannsnafn. Maja. Maja er íslenskt kvenmannsnafn. Malen. Malen er íslenskt kvenmannsnafn. Malena. Malena er íslenskt kvenmannsnafn. Malín. Malín er íslenskt kvenmannsnafn. Malla. Malla er íslenskt kvenmannsnafn. Manda. Manda er íslenskt kvenmannsnafn. Mardís. Mardís er íslenskt kvenmannsnafn. Marela. Marela er íslenskt kvenmannsnafn. Maren (mannsnafn). Maren er íslenskt kvenmannsnafn. Marey. Marey er íslenskt kvenmannsnafn. Marfríður. Marfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Margit. Margit er íslenskt kvenmannsnafn. Margot. Margot er íslenskt kvenmannsnafn. Margret. Margret er íslenskt kvenmannsnafn. Margrét. Margrét er íslenskt kvenmannsnafn. Margrjet. Margrjet er íslenskt kvenmannsnafn. Margunnur. Margunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Marheiður. Marheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Marie. Marie er íslenskt kvenmannsnafn. Marinella. Marinella er íslenskt kvenmannsnafn. Marí. Marí er íslenskt kvenmannsnafn. María (nafn). María er íslenskt kvenmannsnafn. Maríam. Maríam er íslenskt kvenmannsnafn. Marían. Marían er íslenskt kvenmannsnafn. Maríana. Maríana er íslenskt kvenmannsnafn. Maríanna. Maríanna er íslenskt kvenmannsnafn. Maríkó. Maríkó er íslenskt kvenmannsnafn. Marín. Marín er íslenskt kvenmannsnafn. Marína. Marína er íslenskt kvenmannsnafn. Marínella. Marínella er íslenskt kvenmannsnafn. Marísa. Marísa er íslenskt kvenmannsnafn. Marít. Marít er íslenskt kvenmannsnafn. Maríuerla (nafn). Maríuerla er íslenskt kvenmannsnafn. Marja. Marja er íslenskt kvenmannsnafn. Markrún. Markrún er íslenskt kvenmannsnafn. Marlaug. Marlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Marlena. Marlena er íslenskt kvenmannsnafn. Marlín. Marlín er íslenskt kvenmannsnafn. Marlís. Marlís er íslenskt kvenmannsnafn. Marólína. Marólína er íslenskt kvenmannsnafn. Marsa. Marsa er íslenskt kvenmannsnafn. Marselía. Marselía er íslenskt kvenmannsnafn. Marselína. Marselína er íslenskt kvenmannsnafn. Marsibil. Marsibil er íslenskt kvenmannsnafn. Marsilía. Marsilía er íslenskt kvenmannsnafn. Marsý. Marsý er íslenskt kvenmannsnafn. Marta. Marta er íslenskt kvenmannsnafn. Martha. Martha er íslenskt kvenmannsnafn. Martína. Martína er íslenskt kvenmannsnafn. Mary. Mary er íslenskt kvenmannsnafn. Marý. Marý er íslenskt kvenmannsnafn. Mattea. Mattea er íslenskt kvenmannsnafn. Matthea. Matthea er íslenskt kvenmannsnafn. Matthildur. Matthildur er íslenskt kvenmannsnafn. Matthía. Matthía er íslenskt kvenmannsnafn. Mattíana. Mattíana er íslenskt kvenmannsnafn. Mattína. Mattína er íslenskt kvenmannsnafn. Mattý. Mattý er íslenskt kvenmannsnafn. Mábil. Mábil er íslenskt kvenmannsnafn. Málfríður. Málfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Málhildur. Málhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Málmfríður. Málmfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Mánadís. Mánadís er íslenskt kvenmannsnafn. Máney. Máney er íslenskt kvenmannsnafn. Meda. Meda er íslenskt kvenmannsnafn. Mekkin. Mekkin er íslenskt kvenmannsnafn. Mekkín. Mekkín er íslenskt kvenmannsnafn. Melinda. Melinda er íslenskt kvenmannsnafn. Melkorka. Melkorka er íslenskt kvenmannsnafn. Melrós. Melrós er íslenskt kvenmannsnafn. Messíana. Messíana er íslenskt kvenmannsnafn. Metta. Metta er íslenskt kvenmannsnafn. Mey. Mey er íslenskt kvenmannsnafn. Mikaela. Mikaela er íslenskt kvenmannsnafn. Mikaelína. Mikaelína er íslenskt kvenmannsnafn. Milda. Milda er íslenskt kvenmannsnafn. Mildríður. Mildríður er íslenskt kvenmannsnafn. Milla. Milla er íslenskt kvenmannsnafn. Minna. Minna er íslenskt kvenmannsnafn. Minney. Minney er íslenskt kvenmannsnafn. Minný. Minný er íslenskt kvenmannsnafn. Miriam. Miriam er íslenskt kvenmannsnafn. Mirja. Mirja er íslenskt kvenmannsnafn. Mirjam. Mirjam er íslenskt kvenmannsnafn. Mirra. Mirra er íslenskt kvenmannsnafn. Mist. Mist er íslenskt kvenmannsnafn. Íslenska goðsögnin um stúlku nefnda Mist Eik (samanber "mistake" á ensku) er uppspuni. Mía. Mía er íslenskt kvenmannsnafn. Mínerva (nafn). Mínerva er íslenskt kvenmannsnafn. Míra. Míra er íslenskt kvenmannsnafn. Míranda. Míranda er íslenskt kvenmannsnafn. Mítra. Mítra er íslenskt kvenmannsnafn. Mjaðveig. Mjaðveig er íslenskt kvenmannsnafn. Mjalldís. Mjalldís er íslenskt kvenmannsnafn. Mjallhvít (mannsnafn). Mjallhvít er íslenskt kvenmannsnafn. Mjöll. Mjöll er íslenskt kvenmannsnafn. Mona. Mona er íslenskt kvenmannsnafn. Monika. Monika er íslenskt kvenmannsnafn. Móeiður. Móeiður er íslenskt kvenmannsnafn. Móey. Móey er íslenskt kvenmannsnafn. Móheiður. Móheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Móna. Móna er íslenskt kvenmannsnafn. Mónika. Mónika er íslenskt kvenmannsnafn. Móníka. Móníka er íslenskt kvenmannsnafn. Munda. Munda er íslenskt kvenmannsnafn. Mundheiður. Mundheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Mundhildur. Mundhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Myrra. Myrra er íslenskt kvenmannsnafn. Mýra. Mýra er íslenskt kvenmannsnafn. Mörk (mannsnafn). Mörk er íslenskt kvenmannsnafn. Nadia. Nadia er íslenskt kvenmannsnafn. Nadía. Nadía er íslenskt kvenmannsnafn. Nadja. Nadja er íslenskt kvenmannsnafn. Nana. Nana er íslenskt kvenmannsnafn. Nanna. Nanna er íslenskt kvenmannsnafn. Nanný. Nanný er íslenskt kvenmannsnafn. Nansý. Nansý er íslenskt kvenmannsnafn. Naomí. Naomí er íslenskt kvenmannsnafn. Naómí. Naómí er íslenskt kvenmannsnafn. Natalie. Natalie er íslenskt kvenmannsnafn. Natalía. Natalía er íslenskt kvenmannsnafn. Náttsól. Náttsól er íslenskt kvenmannsnafn. Nella. Nella er íslenskt kvenmannsnafn. Nellý. Nellý er íslenskt kvenmannsnafn. Nicole. Nicole er íslenskt kvenmannsnafn. Niðbjörg. Niðbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Nikólína. Nikólína er íslenskt kvenmannsnafn. Ninja (mannsnafn). Ninja er íslenskt kvenmannsnafn. Ninna. Ninna er íslenskt kvenmannsnafn. Nína. Nína er íslenskt kvenmannsnafn. Njála (mannsnafn). Njála er íslenskt kvenmannsnafn. Njóla (nafn). Njóla er íslenskt kvenmannsnafn. Orðsifjar. Nafnið Njóla er sama orð og orðið njóla („nótt“) en það orð kemur frá orðinu "nifl" („myrkur“) sem er skylt þýska orðinu "Nebel" (sem þýðir „þoka“). Það er mögulegt að kvæðið Njóla, eður einföld skoðun himinsins o.s.frv. eftir Björn Gunnlaugsson hafi verið orsakavaldur aukinna vinsælda nafnsins á árum áður. Norma. Norma er íslenskt kvenmannsnafn. Nóra. Nóra er íslenskt kvenmannsnafn. Nótt (mannsnafn). Nótt er íslenskt kvenmannsnafn. Það hefur tvær jafngildar beygingar í eignarfalli. Nýbjörg. Nýbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Odda. Odda er íslenskt kvenmannsnafn. Oddbjörg. Oddbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Oddfreyja. Oddfreyja er íslenskt kvenmannsnafn. Oddfríður. Oddfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Oddgerður. Oddgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Oddhildur. Oddhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Oddlaug. Oddlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Oddleif. Oddleif er íslenskt kvenmannsnafn. Oddný. Oddný er íslenskt kvenmannsnafn. Oddrún. Oddrún er íslenskt kvenmannsnafn. Oddveig. Oddveig er íslenskt kvenmannsnafn. Oddvör. Oddvör er íslenskt kvenmannsnafn. Oktavía. Oktavía er íslenskt kvenmannsnafn. Októvía. Októvía er íslenskt kvenmannsnafn. Olga. Olga er íslenskt kvenmannsnafn. Ormheiður. Ormheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Ormhildur. Ormhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Otkatla. Otkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Otta. Otta er íslenskt kvenmannsnafn. Óda. Óda er íslenskt kvenmannsnafn. Óla. Óla er íslenskt kvenmannsnafn. Ólafía. Ólafía er íslenskt kvenmannsnafn. Ólafína. Ólafína er íslenskt kvenmannsnafn. Ólavía. Ólavía er íslenskt kvenmannsnafn. Ólína. Ólína er íslenskt kvenmannsnafn. Ólöf. Ólöf er íslenskt kvenmannsnafn. Ósa. Ósa er íslenskt kvenmannsnafn. Ósk. Ósk er íslenskt kvenmannsnafn. Pamela. Pamela er íslenskt kvenmannsnafn. París (mannsnafn). París er íslenskt kvenmannsnafn. Pála. Pála er íslenskt kvenmannsnafn. Páldís. Páldís er íslenskt kvenmannsnafn. Páley. Páley er íslenskt kvenmannsnafn. Pálfríður. Pálfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Pálhanna. Pálhanna er íslenskt kvenmannsnafn. Pálheiður. Pálheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Pálhildur. Pálhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Pálín. Pálín er íslenskt kvenmannsnafn. Pálína. Pálína er íslenskt kvenmannsnafn. Pálmey. Pálmey er íslenskt kvenmannsnafn. Pálmfríður. Pálmfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Pálrún. Pálrún er íslenskt kvenmannsnafn. Perla (mannsnafn). Perla er íslenskt kvenmannsnafn. Peta. Peta er íslenskt kvenmannsnafn. Petra. Petra er íslenskt kvenmannsnafn. Petrea. Petrea er íslenskt kvenmannsnafn. Petrína. Petrína er íslenskt kvenmannsnafn. Petronella. Petronella er íslenskt kvenmannsnafn. Petrónella. Petrónella er íslenskt kvenmannsnafn. Petrún. Petrún er íslenskt kvenmannsnafn. Petrúnella. Petrúnella er íslenskt kvenmannsnafn. Pétrína. Pétrína er íslenskt kvenmannsnafn. Pétrún. Pétrún er íslenskt kvenmannsnafn. Polly. Polly er íslenskt kvenmannsnafn. Pollý. Pollý er íslenskt kvenmannsnafn. Rafney. Rafney er íslenskt kvenmannsnafn. Rafnhildur. Rafnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Ragna. Ragna er íslenskt kvenmannsnafn. Ragnbjörg. Ragnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Ragney. Ragney er íslenskt kvenmannsnafn. Ragnfríður. Ragnfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Ragnheiður. Ragnheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Ragnhildur. Ragnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Rakel. Rakel er íslenskt kvenmannsnafn. Randalín. Randalín er íslenskt kvenmannsnafn. Randíður. Randíður er íslenskt kvenmannsnafn. Rannveig. Rannveig er íslenskt kvenmannsnafn. Ráðhildur. Ráðhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Rán (mannsnafn). Rán er íslenskt kvenmannsnafn, merkir alda. Rebekka. Rebekka er íslenskt kvenmannsnafn. Reginbjörg. Reginbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Regína (mannsnafn). Regína er íslenskt kvenmannsnafn. Renata. Renata er íslenskt kvenmannsnafn. Reyndís. Reyndís er íslenskt kvenmannsnafn. Reynheiður. Reynheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Reynhildur. Reynhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Rikka. Rikka er íslenskt kvenmannsnafn. Rita (mannsnafn). Rita er íslenskt kvenmannsnafn. Ríkey. Ríkey er íslenskt kvenmannsnafn. Rín (mannsnafn). Rín er íslenskt kvenmannsnafn. Ríta. Ríta er íslenskt kvenmannsnafn. Ronja. Ronja er íslenskt kvenmannsnafn. Róberta. Róberta er íslenskt kvenmannsnafn. Rós (mannsnafn). Rós er íslenskt kvenmannsnafn. Rósa. Rósa er íslenskt kvenmannsnafn. Rósalind. Rósalind er íslenskt kvenmannsnafn. Rósanna. Rósanna er íslenskt kvenmannsnafn. Rósbjörg. Rósbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Rósborg. Rósborg er íslenskt kvenmannsnafn. Róselía. Róselía er íslenskt kvenmannsnafn. Rósey. Rósey er íslenskt kvenmannsnafn. Rósfríður. Rósfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Róshildur. Róshildur er íslenskt kvenmannsnafn. Rósinkara. Rósinkara er íslenskt kvenmannsnafn. Róslaug. Róslaug er íslenskt kvenmannsnafn. Róslind. Róslind er íslenskt kvenmannsnafn. Róslinda. Róslinda er íslenskt kvenmannsnafn. Róslín. Róslín er íslenskt kvenmannsnafn. Rósmary. Rósmary er íslenskt kvenmannsnafn. Rósmarý. Rósmarý er íslenskt kvenmannsnafn. Rósmunda. Rósmunda er íslenskt kvenmannsnafn. Rósný. Rósný er íslenskt kvenmannsnafn. Runný. Runný er íslenskt kvenmannsnafn. Rut. Rut er íslenskt kvenmannsnafn. Ruth. Ruth er íslenskt kvenmannsnafn. Rún. Rún er íslenskt kvenmannsnafn. Rúna. Rúna er íslenskt kvenmannsnafn. Rúndís. Rúndís er íslenskt kvenmannsnafn. Rúnhildur. Rúnhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Rúrí. Rúrí er íslenskt kvenmannsnafn. Röfn. Röfn er íslenskt kvenmannsnafn. Rögn. Rögn er íslenskt kvenmannsnafn. Röskva. Röskva er íslenskt kvenmannsnafn. Sabína. Sabína er íslenskt kvenmannsnafn. Sabrína. Sabrína er íslenskt kvenmannsnafn. Saga (mannsnafn). Saga er íslenskt kvenmannsnafn. Salbjörg. Salbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Saldís. Saldís er íslenskt kvenmannsnafn. Salgerður. Salgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Salín. Salín er íslenskt kvenmannsnafn. Salína. Salína er íslenskt kvenmannsnafn. Salka. Salka er íslenskt kvenmannsnafn. Salma. Salma er íslenskt kvenmannsnafn. Salný. Salný er íslenskt kvenmannsnafn. Salome. Salome er íslenskt kvenmannsnafn. Salóme. Salóme er íslenskt kvenmannsnafn. Salvör. Salvör er íslenskt kvenmannsnafn. Salvör er valkyrjuheiti og merkir sú sem ver húsið eða salarkynnin. Nafnið er frægt vegna þess að aðalsögupersónan í Salka Valka eftir nóbelsskáldið Halldór Laxness heitir Salvör Valgerður. Halldór Guðmundsson sem rannsakað hefur ævi Halldórs Laxness hefur varpað fram þeirri tilgátu að nafnið Salka hafi verið valið vegna þess að vinkona Grétu Garbo hét Salka en Halldór Laxness vildi á sínum tíma að Gréta Garbo léki hlutverk Sölku Völku í kvikmynd sem gerð var um söguna. Sandra. Sandra er íslenskt kvenmannsnafn. Sanna. Sanna er íslenskt kvenmannsnafn. Sara. Sara er íslenskt kvenmannsnafn. Sarína. Sarína er íslenskt kvenmannsnafn. Selja (mannsnafn). Selja er íslenskt kvenmannsnafn. Selka. Selka er íslenskt kvenmannsnafn. Selma. Selma er íslenskt kvenmannsnafn. Senía. Senía er íslenskt kvenmannsnafn. Septíma. Septíma er íslenskt kvenmannsnafn. Sera. Sera er íslenskt kvenmannsnafn. Seselía. Seselía er íslenskt kvenmannsnafn. Sesilía. Sesilía er íslenskt kvenmannsnafn. Sesselía. Sesselía er íslenskt kvenmannsnafn. Sesselja. Sesselja er íslenskt kvenmannsnafn. Sif. Sif er íslenskt kvenmannsnafn. Sigdís. Sigdís er íslenskt kvenmannsnafn. Sigdóra. Sigdóra er íslenskt kvenmannsnafn. Sigfríð. Sigfríð er íslenskt kvenmannsnafn. Sigfríður. Sigfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Sigga. Sigga er íslenskt kvenmannsnafn, stytting á Sigríður. Siggerður. Siggerður er íslenskt kvenmannsnafn. Sigmunda. Sigmunda er íslenskt kvenmannsnafn. Signa (mannsnafn). Signa er íslenskt kvenmannsnafn. Signhildur. Signhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Signý. Signý er íslenskt kvenmannsnafn. Sigríður. Sigríður er íslenskt kvenmannsnafn. Sigrún. Sigrún er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurást. Sigurást er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurásta. Sigurásta er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurbára. Sigurbára er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurbirna. Sigurbirna er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurbjörg. Sigurbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurbjört. Sigurbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurborg. Sigurborg er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurdís. Sigurdís er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurdóra. Sigurdóra er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurdríf. Sigurdríf er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurdrífa. Sigurdrífa er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurða. Sigurða er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurey. Sigurey er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurfinna. Sigurfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurfljóð. Sigurfljóð er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurgeira. Sigurgeira er íslenskt kvenmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Sigurgeira væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá og var það samþykkt þann 18. desember 2001. Tekur nafnið eignarfallsendinguna -u. Sigurhanna. Sigurhanna er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurhelga. Sigurhelga er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurhildur. Sigurhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurjóna. Sigurjóna er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurlaug. Sigurlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurleif. Sigurleif er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurlilja. Sigurlilja er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurlinn. Sigurlinn er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurlín. Sigurlín er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurlína. Sigurlína er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurmunda. Sigurmunda er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurnanna. Sigurnanna er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurósk. Sigurósk er íslenskt kvenmannsnafn. Sigursteina. Sigursteina er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurunn. Sigurunn er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurveig. Sigurveig er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurvina. Sigurvina er íslenskt kvenmannsnafn. Sigurþóra. Sigurþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Sigyn. Sigyn er íslenskt kvenmannsnafn. Sigþóra. Sigþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Sigþrúður. Sigþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Silfa. Silfa er íslenskt kvenmannsnafn. Silfá. Silfá er íslenskt kvenmannsnafn. Silfrún. Silfrún er íslenskt kvenmannsnafn. Silja. Silja er íslenskt kvenmannsnafn. Silka. Silka er íslenskt kvenmannsnafn. Silla. Silla er íslenskt kvenmannsnafn. Silva. Silva er íslenskt kvenmannsnafn. Silvana. Silvana er íslenskt kvenmannsnafn. Silvía. Silvía er íslenskt kvenmannsnafn. Sirrý. Sirrý er íslenskt kvenmannsnafn. Sirrý er einnig algeng stytting á ýmsum kvennanöfnum, t.d. Sigríður, Sigþrúður, Sigurbjörg. Það hefur hugsanlega verið myndað fyrir áhrif frá sænska og norska stuttnefninu Siri af Sigrid. Sía (mannsnafn). Sía er íslenskt kvenmannsnafn. Símonía. Símonía er íslenskt kvenmannsnafn. Sísí. Sísí er íslenskt kvenmannsnafn. Síta. Síta er íslenskt kvenmannsnafn. Sjöfn. Sjöfn er íslenskt kvenmannsnafn. Skarpheiður. Skarpheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Skuld. Skuld er íslenskt kvenmannsnafn. Skúla. Skúla er íslenskt kvenmannsnafn. Skúlína. Skúlína er íslenskt kvenmannsnafn. Snjáfríður. Snjáfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Snjófríður. Snjófríður er íslenskt kvenmannsnafn. Snjólaug. Snjólaug er íslenskt kvenmannsnafn. Snorra. Snorra er íslenskt kvenmannsnafn. Snót. Snót er íslenskt kvenmannsnafn. Snæbjörg. Snæbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Snæbjört. Snæbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Snæborg. Snæborg er íslenskt kvenmannsnafn. Snæbrá. Snæbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Snædís. Snædís er íslenskt kvenmannsnafn. Snæfríður. Snæfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Snælaug. Snælaug er íslenskt kvenmannsnafn. Snærós. Snærós er íslenskt kvenmannsnafn. Snærún. Snærún er íslenskt kvenmannsnafn. Soffía. Soffía er íslenskt kvenmannsnafn. Sofía (nafn). Sofía er íslenskt kvenmannsnafn. Solveig. Solveig er íslenskt kvenmannsnafn, sem er ritháttur af nafninu Sólveig. Sonja. Sonja er íslenskt kvenmannsnafn. Sonný. Sonný er íslenskt kvenmannsnafn. Sól (mannsnafn). Sól er íslenskt kvenmannsnafn. Sóla. Sóla er íslenskt kvenmannsnafn. Sólbjörg. Sólbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Sólbjört. Sólbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Sólborg. Sólborg er íslenskt kvenmannsnafn. Sólbrá. Sólbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Sólbrún. Sólbrún er íslenskt kvenmannsnafn. Sóldís. Sóldís er íslenskt kvenmannsnafn. Sóldögg (mannsnafn). Sóldögg er íslenskt kvenmannsnafn. Sóley (mannsnafn). Sóley er íslenskt kvenmannsnafn. Sólfríður. Sólfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Sólgerður. Sólgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Sólhildur. Sólhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Sólkatla. Sólkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Sóllilja. Sóllilja er íslenskt kvenmannsnafn. Sólný. Sólný er íslenskt kvenmannsnafn. Sólrún. Sólrún er íslenskt kvenmannsnafn. Sólveig. Sólveig er íslenskt kvenmannsnafn. Merkir "sú sem er helguð sólinni". Sólvör. Sólvör er íslenskt kvenmannsnafn. Stefanía. Stefanía er íslenskt kvenmannsnafn. Stefánný. Stefánný er íslenskt kvenmannsnafn. Steina. Steina er íslenskt kvenmannsnafn. Steinbjörg. Steinbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Steinborg. Steinborg er íslenskt kvenmannsnafn. Steindís. Steindís er íslenskt kvenmannsnafn. Steindóra. Steindóra er íslenskt kvenmannsnafn. Steiney. Steiney er íslenskt kvenmannsnafn. Steinfríður. Steinfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Steingerður. Steingerður er íslenskt kvenmannsnafn. Steinhildur. Steinhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Steinlaug. Steinlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Steinrós. Steinrós er íslenskt kvenmannsnafn. Steinrún. Steinrún er íslenskt kvenmannsnafn. Steinunn. Steinunn er íslenskt kvenmannsnafn. Steinvör. Steinvör er íslenskt kvenmannsnafn. Steinvör er fornnorrænt heiti. Nokkur óvissa er um ævagamla merkingu nafnliðarins Stein-. Þessi liður táknar þó að öllum líkindum hörku og staðfestu. Vör í kvennanöfnum er annaðhvort "sú sem ver" eða "er varin". Ein Steinvör er nefnd í Landnámu, en fjórar í Sturlungu, miklu frægust þeirra Steinvör Sighvatsdóttir á Keldum, af Sturlungaætt, mikill skörungur. Steinvarar-nafn var lengi vel ekki mjög sjaldgæft, voru t.d. 61 árið 1703, og þá langflestar að tiltölu í Þingeyjarsýslu. Steinþóra. Steinþóra er íslenskt kvenmannsnafn. Stella. Stella er íslenskt kvenmannsnafn. Stígheiður. Stígheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Stígrún. Stígrún er íslenskt kvenmannsnafn. Stína. Stína er íslenskt kvenmannsnafn. Stjarna (mannsnafn). Stjarna er íslenskt kvenmannsnafn. Styrgerður. Styrgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Sumarlína. Sumarlína er íslenskt kvenmannsnafn. Sumarrós. Sumarrós er íslenskt kvenmannsnafn. Sunna. Sunna er íslenskt kvenmannsnafn. Sunnefa. Sunnefa er íslenskt kvenmannsnafn. Sunneva. Sunneva er íslenskt kvenmannsnafn. Sunniva. Sunniva er íslenskt kvenmannsnafn. Sunníva. Sunníva er íslenskt kvenmannsnafn. Susan. Susan er íslenskt kvenmannsnafn af ensku bergi brotið. Súsanna. Súsanna er íslenskt kvenmannsnafn. Svafa. Svafa er íslenskt kvenmannsnafn. Svala. Svala er íslenskt kvenmannsnafn. Svalrún. Svalrún er íslenskt kvenmannsnafn. Svana. Svana er íslenskt kvenmannsnafn. Svanbjörg. Svanbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Svanbjört. Svanbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Svanborg. Svanborg er íslenskt kvenmannsnafn. Svandís. Svandís er íslenskt kvenmannsnafn. Svanfríður. Svanfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Svanheiður. Svanheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Svanhildur. Svanhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Svanhvít. Svanhvít er íslenskt kvenmannsnafn. Svanlaug. Svanlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Svanrós. Svanrós er íslenskt kvenmannsnafn. Svanþrúður. Svanþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Svava. Svava er íslenskt kvenmannsnafn. Sveina. Sveina er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinbjörg. Sveinbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinborg. Sveinborg er íslenskt kvenmannsnafn. Sveindís. Sveindís er íslenskt kvenmannsnafn. Sveiney. Sveiney er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinfríður. Sveinfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Sveingerður. Sveingerður er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinhildur. Sveinhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinlaug. Sveinlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinrós. Sveinrós er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinrún. Sveinrún er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinsína. Sveinsína er íslenskt kvenmannsnafn. Sveinveig. Sveinveig er íslenskt kvenmannsnafn. Sylgja. Sylgja er íslenskt kvenmannsnafn. Sylvía. Sylvía er íslenskt kvenmannsnafn. Sæbjörg. Sæbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Sæbjört. Sæbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Sæborg. Sæborg er íslenskt kvenmannsnafn. Sædís. Sædís er íslenskt kvenmannsnafn. Sæfinna. Sæfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Sæfríður. Sæfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Sæhildur. Sæhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Sælaug. Sælaug er íslenskt kvenmannsnafn. Sæmunda. Sæmunda er íslenskt kvenmannsnafn. Sæný. Sæný er íslenskt kvenmannsnafn. Særós. Særós er íslenskt kvenmannsnafn. Særún. Særún er íslenskt kvenmannsnafn. Sæsól. Sæsól er íslenskt kvenmannsnafn. Sæunn. Sæunn er íslenskt kvenmannsnafn. Sævör. Sævör er íslenskt kvenmannsnafn. Sölva. Sölva er íslenskt kvenmannsnafn. Sölvey. Sölvey er íslenskt kvenmannsnafn. Sölvína. Sölvína er íslenskt kvenmannsnafn. Tala (mannsnafn). Tala er íslenskt kvenmannsnafn. Talía (nafn). Talía er íslenskt kvenmannsnafn. Tamar. Tamar er íslenskt kvenmannsnafn. Tamara. Tamara er íslenskt kvenmannsnafn. Saga. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Tamara væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá og var það samþykkt þann 18. desember 2001. Tekur nafnið eignarfallsendinguna -u. Tanía. Tanía er íslenskt kvenmannsnafn. Tanja. Tanja er íslenskt kvenmannsnafn. Tanya. Tanya er íslenskt kvenmannsnafn. Tara. Tara er íslenskt kvenmannsnafn. Tea. Tea er íslenskt kvenmannsnafn. Teitný. Teitný er íslenskt kvenmannsnafn. Tekla. Tekla er íslenskt kvenmannsnafn. Telma. Telma er íslenskt kvenmannsnafn. Tera. Tera er íslenskt kvenmannsnafn. Teresa. Teresa er íslenskt kvenmannsnafn. Teresía. Teresía er íslenskt kvenmannsnafn. Thea. Thea er íslenskt kvenmannsnafn. Thelma. Thelma er íslenskt kvenmannsnafn. Theodóra. Theodóra er íslenskt kvenmannsnafn. Theódóra. Theódóra er íslenskt kvenmannsnafn. Theresa. Theresa er íslenskt kvenmannsnafn. Tindra. Tindra er íslenskt kvenmannsnafn. Tinna (mannsnafn). Tinna er íslenskt kvenmannsnafn. Tirsa. Tirsa er íslenskt kvenmannsnafn. Tíbrá. Tíbrá er íslenskt kvenmannsnafn. Tína. Tína er íslenskt kvenmannsnafn. Todda. Todda er íslenskt kvenmannsnafn. Torbjörg. Torbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Torfey. Torfey er íslenskt kvenmannsnafn. Torfheiður. Torfheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Torfhildur. Torfhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Tóka. Tóka er íslenskt kvenmannsnafn. Tóta. Tóta er íslenskt kvenmannsnafn. Tryggva. Tryggva er íslenskt kvenmannsnafn. Tryggvína. Tryggvína er íslenskt kvenmannsnafn. Þekkist einnig í myndinni Tryggvina. Týra. Týra er íslenskt kvenmannsnafn. Ugla (mannsnafn). Ugla er íslenskt kvenmannsnafn. Una. Una er íslenskt kvenmannsnafn. Undína (mannsnafn). Undína er íslenskt kvenmannsnafn. Unna. Unna er íslenskt kvenmannsnafn. Unnbjörg. Unnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Unndís. Unndís er íslenskt kvenmannsnafn. Unnur. Unnur er íslenskt kvenmannsnafn. Urður. Urður er íslenskt kvenmannsnafn. Úa. Úa er íslenskt kvenmannsnafn. Úlfa. Úlfa er íslenskt kvenmannsnafn. Úlfdís. Úlfdís er íslenskt kvenmannsnafn. Úlfheiður. Úlfheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Úlfhildur. Úlfhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Úlfrún. Úlfrún er íslenskt kvenmannsnafn. Úlla. Úlla er íslenskt kvenmannsnafn. Úndína. Úndína er íslenskt kvenmannsnafn. Úrsúla. Úrsúla er íslenskt kvenmannsnafn. Vagna. Vagna er íslenskt kvenmannsnafn. Vagnbjörg. Vagnbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Vaka (nafn). Vaka er íslenskt kvenmannsnafn. Vala. Vala er íslenskt kvenmannsnafn. Valbjörg. Valbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Valbjörk. Valbjörk er íslenskt kvenmannsnafn. Valbjört. Valbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Valborg. Valborg er íslenskt kvenmannsnafn. Valdheiður. Valdheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Valdís. Valdís er íslenskt kvenmannsnafn. Valentína. Valentína er íslenskt kvenmannsnafn. Valería. Valería er íslenskt kvenmannsnafn. Valey. Valey er íslenskt kvenmannsnafn. Valfríður. Valfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Valgerður. Valgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Valhildur. Valhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Valka. Valka er íslenskt kvenmannsnafn. Vallý. Vallý er íslenskt kvenmannsnafn. Valný. Valný er íslenskt kvenmannsnafn. Valrós. Valrós er íslenskt kvenmannsnafn. Valrún. Valrún er íslenskt kvenmannsnafn. Valva. Valva er íslenskt kvenmannsnafn. Valý. Valý er íslenskt kvenmannsnafn. Valþrúður. Valþrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Vanda. Vanda er íslenskt kvenmannsnafn. Veiga. Veiga er íslenskt kvenmannsnafn. Venus (mannsnafn). Venus er íslenskt kvenmannsnafn. Vera (mannsnafn). Vera er íslenskt kvenmannsnafn. Veronika. Veronika er íslenskt kvenmannsnafn. Verónika. Verónika er íslenskt kvenmannsnafn. Veróníka. Veróníka er íslenskt kvenmannsnafn. Vébjörg. Vébjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Védís. Védís er íslenskt kvenmannsnafn. Végerður. Végerður er íslenskt kvenmannsnafn. Vélaug. Vélaug er íslenskt kvenmannsnafn. Véný. Véný er íslenskt kvenmannsnafn. Victoría. Victoría er íslenskt kvenmannsnafn. Viðja. Viðja er íslenskt kvenmannsnafn. Vigdís. Vigdís er íslenskt kvenmannsnafn. Viktoría. Viktoría er íslenskt kvenmannsnafn. Vilborg. Vilborg er íslenskt kvenmannsnafn. Vildís. Vildís er íslenskt kvenmannsnafn. Vilfríður. Vilfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Vilgerður. Vilgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Vilhelmína. Vilhelmína er íslenskt kvenmannsnafn. Villa (mannsnafn). Villa er íslenskt kvenmannsnafn. Vilma. Vilma er íslenskt kvenmannsnafn. Vilný. Vilný er íslenskt kvenmannsnafn. Vinbjörg. Vinbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Vinný. Vinný er íslenskt kvenmannsnafn. Virginía (mannsnafn). Virginía er íslenskt kvenmannsnafn. Víbekka. Víbekka er íslenskt kvenmannsnafn. Víf. Víf er íslenskt kvenmannsnafn. Vígdögg. Vígdögg er íslenskt kvenmannsnafn. Víggunnur. Víggunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Víóletta. Víóletta er íslenskt kvenmannsnafn. Vísa (nafn). Vísa er íslenskt kvenmannsnafn. Von (mannsnafn). Von er íslenskt kvenmannsnafn. Vordís. Vordís er íslenskt kvenmannsnafn. Ylfa. Ylfa er íslenskt kvenmannsnafn. Ylfur. Ylfur er íslenskt kvenmannsnafn. Ylja. Ylja er íslenskt kvenmannsnafn. Ylva. Ylva er íslenskt kvenmannsnafn. Ynja. Ynja er íslenskt kvenmannsnafn. Yrja. Yrja er íslenskt kvenmannsnafn. Yrsa. Yrsa er íslenskt kvenmannsnafn. Þeódóra. Þeódóra er íslenskt kvenmannsnafn. Þjóðbjörg. Þjóðbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Þjóðhildur. Þjóðhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Þoka (nafn). Þoka er íslenskt kvenmannsnafn. Þorbjörg. Þorbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Þorfinna. Þorfinna er íslenskt kvenmannsnafn. Þorgerður. Þorgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Þorgríma. Þorgríma er íslenskt kvenmannsnafn. Þorkatla. Þorkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Þorlaug. Þorlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Þorleif. Þorleif er íslenskt kvenmannsnafn. Þorsteina. Þorsteina er íslenskt kvenmannsnafn. Þorstína. Þorstína er íslenskt kvenmannsnafn. Þóra. Þóra er íslenskt kvenmannsnafn, nafnið er stytting á Þórunn. Þóranna. Þóranna er íslenskt kvenmannsnafn. Þórarna. Þórarna er íslenskt kvenmannsnafn. Þórbjörg. Þórbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Þórdís. Þórdís er íslenskt kvenmannsnafn. Þórelfa. Þórelfa er íslenskt kvenmannsnafn. Þórelfur. Þórelfur er íslenskt kvenmannsnafn. Þórey. Þórey er íslenskt kvenmannsnafn. Þórfríður. Þórfríður er íslenskt kvenmannsnafn. Þórgunna. Þórgunna er íslenskt kvenmannsnafn. Þórgunnur. Þórgunnur er íslenskt kvenmannsnafn. Þórhalla. Þórhalla er íslenskt kvenmannsnafn. Þórhanna. Þórhanna er íslenskt kvenmannsnafn. Þórheiður. Þórheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Þórhildur. Þórhildur er íslenskt kvenmannsnafn. Þórkatla. Þórkatla er íslenskt kvenmannsnafn. Þórlaug. Þórlaug er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið merkir „hrein sem Þór“ Þórleif. Þórleif er íslenskt kvenmannsnafn. Þórný. Þórný er íslenskt kvenmannsnafn. Þórodda. Þórodda er íslenskt kvenmannsnafn. Þórsteina. Þórsteina er íslenskt kvenmannsnafn. Þórstína. Þórstína er íslenskt kvenmannsnafn. Þórveig. Þórveig er íslenskt kvenmannsnafn. Þórvör. Þórvör er íslenskt kvenmannsnafn. Þrá. Þrá er íslenskt kvenmannsnafn. Þrúður. Þrúður er íslenskt kvenmannsnafn. Þula. Þula er íslenskt kvenmannsnafn. Þura. Þura er íslenskt kvenmannsnafn. Þurí. Þurí er íslenskt kvenmannsnafn. Þuríður. Þuríður er íslenskt kvenmannsnafn. Þurý. Þurý er íslenskt kvenmannsnafn. Þúfa. Þúfa er íslenskt kvenmannsnafn. Þyri. Þyri er íslenskt kvenmannsnafn. Þyrí. Þyrí er íslenskt kvenmannsnafn. Þöll. Þöll er íslenskt kvenmannsnafn. Ægileif. Ægileif er íslenskt kvenmannsnafn. Æsa. Æsa er íslenskt kvenmannsnafn. Æsgerður. Æsgerður er íslenskt kvenmannsnafn. Ögmunda. Ögmunda er íslenskt kvenmannsnafn. Ögn (nafn). Ögn er íslenskt kvenmannsnafn. Ölrún. Ölrún er íslenskt kvenmannsnafn. Ölveig. Ölveig er íslenskt kvenmannsnafn. Örbrún. Örbrún er íslenskt kvenmannsnafn. Örk. Örk er íslenskt kvenmannsnafn. Ösp (mannsnafn). Ösp er íslenskt kvenmannsnafn. Geir Hilmar Haarde. Geir Hilmar Haarde (fæddur 8. apríl 1951) hagfræðingur er fyrrverandi forsætisráðherra Íslands (2006-2009) og formaður Sjálfstæðisflokksins (2005-2009). Hann var forsætisráðherra Íslands á meðan bankahruninu stóð haustið 2008. Hann var ákærður til Landsdóms fyrstur íslenskra ráðherra. Ævi. Geir lauk stúdentsprófi frá MR 1971. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu á sumrin 1972-1977. Hann lauk BA-prófi í hagfræði frá Brandeis-háskóla, Bandaríkjunum, 1973. MA-próf í alþjóðastjórnmálum frá Johns Hopkins-háskóla, Bandaríkjunum, 1975. MA-próf í hagfræði frá Minnesota-háskóla, Bandaríkjunum, 1977. Árið 2007 veitti Minnesota-háskóli honum heiðursdoktorsnafnbót. Geir vann sem hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands 1977-1983. Hann starfaði sem aðstoðarmaður Alberts Guðmundssonar, fjármálaráðherra 1983-85 og Þorsteins Pálssonar 1985-87. Geir sat á Alþingi fyrir Reykjavík á árunum 1987-2009 og var formaður þingflokks sjálfstæðismanna frá 1991-1998. Hann var forseti Norðurlandaráðs 1995. Geir var skipaður fjármálaráðherra árið 1998. Hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og tók við embætti utanríkisráðherra og formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Davíð Oddssyni er hann hvarf af vettvangi stjórnmála á árinu 2005. Í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar 6. október 2008, skömmu eftir bankahrunið á Íslandi, lauk Geir orðum sínum á hinni fleygu setningu "Guð blessi Ísland". Þegar svokölluð Búsáhaldabylting stóð sem hæst í janúar 2009 tilkynnti hann í beinni útsendingu frá Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, 23. janúar 2009 að hann hefði nýlega greinst með krabbamein í vélinda og þyrfti að fara utan til meðferðar. Hann tilkynnti jafnframt að hann myndi láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum eftir næsta landsfund og segja skilið við stjórnmálin. Hann sagðist vilja efna til kosninga 9. maí 2009. Geir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 26. janúar 2009 og forseti Íslands veitti honum lausn frá embætti. Þegar styrkjamálið kom upp í apríl 2009 tók Geir á sig sökina. Hann gaf frá sér þannig tilkynningu: „Ég ber því sem formaður flokksins á þeim tíma einn alla ábyrgð á þessu máli. Sama er að segja um hátt framlag frá Landsbanka Íslands frá sama tíma. Framkvæmdastjórar flokksins, núverandi og fyrrverandi, bera hér enga ábyrgð.“ Í september 2010 ákvað Alþingi að vísa meintum afglöpum Geirs í starfi forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins 2008 fyrir Landsdóm sem sakamáli. Geir kallaði væntaleg réttarhöld "pólitísk réttarhöld" og 2011 var hleypt af stokkunum söfnun til stuðnings Geirs vegna þeirra. Geir er ættaður frá Noregi í föðurætt. Eiginkona hans er Inga Jóna Þórðardóttir en fyrri kona hans var Patricia Angelina, f. Mistretta frá Frakklandi. Geir er eini ráðherrann í íslenskri stjórnmálasögu sem hefur gegnt öllum þremur helstu ráðherraembættum; forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Aldan. Aldan er íslenskt millinafn. Arnfjörð. Arnfjörð er íslenskt millinafn. Austdal. Austdal er íslenskt millinafn. Austfjörð. Austfjörð er íslenskt millinafn. Áss. Áss er íslenskt millinafn. Bakkdal. Bakkdal er íslenskt millinafn. Bakkmann. Bakkmann er íslenskt millinafn. Bald. Bald er íslenskt millinafn. Ben. Ben er íslenskt millinafn. Bergholt. Bergholt er íslenskt millinafn. Bergland. Bergland er íslenskt millinafn. Bíldsfells. Bíldsfells er íslenskt millinafn. Bjarg (nafn). Bjarg er íslenskt millinafn. Bjarndal. Bjarndal er íslenskt millinafn. Bjarnfjörð. Bjarnfjörð er íslenskt millinafn. Bláfeld. Bláfeld er íslenskt millinafn. Blómkvist. Blómkvist er íslenskt millinafn. Borgdal. Borgdal er íslenskt millinafn. Brim. Brim er íslenskt millinafn. Diljan. Diljan er íslenskt millinafn. Elísberg. Elísberg er íslenskt millinafn. Espólín. Espólín er íslenskt millinafn. Eyfjörð. Eyfjörð er íslenskt millinafn. Eyhlíð. Eyhlíð er íslenskt millinafn. Eyvík. Eyvík er íslenskt millinafn. Falk. Falk er íslenskt millinafn. Fossberg. Fossberg er íslenskt millinafn. Freydal. Freydal er íslenskt millinafn. Friðhólm. Friðhólm er íslenskt millinafn. Giljan. Giljan er íslenskt millinafn. Gnarr. Gnarr er íslenskt millinafn. Nafnhafar. Jón Gnarr fékk nafnið samþykkt árið 2005. Hann og sonur hans eru þeir einu sem bera nafnið. Gnarr er afbökun á nafninu Gunnar, en svo hét Jón Gnarr áður ("Jón Gunnar"). Ástæðan fyrir því að hann breytti nafninu var sú að honum heyrðist foreldrara sínir hrópa: Jón "Gnarr" þegar þau hrópuðu á hann í mat þegar hann var yngri. Skáldaorðið gnarr, sem þýðir haf, hefur án efa líka haft einhver áhrif á nafnabreytinguna. Gnurr. Gnurr er íslenskt millinafn. Grendal. Grendal er íslenskt millinafn. Haffjörð. Haffjörð er íslenskt millinafn. Hafnes. Hafnes er íslenskt millinafn. Hafnfjörð. Hafnfjörð er íslenskt millinafn. Har. Har er íslenskt millinafn. Heimdal. Heimdal er íslenskt millinafn. Heimsberg. Heimsberg er íslenskt millinafn. Herberg. Herberg er íslenskt millinafn. Hildiberg. Hildiberg er íslenskt millinafn. Hjaltdal. Hjaltdal er íslenskt millinafn. Hlíðkvist. Hlíðkvist er íslenskt millinafn. Hnappdal. Hnappdal er íslenskt millinafn. Hofland. Hofland er íslenskt millinafn. Hofteig. Hofteig er íslenskt millinafn. Hólmberg. Hólmberg er íslenskt millinafn. Hrafnan. Hrafnan er íslenskt millinafn. Hrafndal. Hrafndal er íslenskt millinafn. Hraunberg. Hraunberg er íslenskt millinafn. Hreindal. Hreindal er íslenskt millinafn. Hvammdal. Hvammdal er íslenskt millinafn. Hvítfeld. Hvítfeld er íslenskt millinafn. Höfðdal. Höfðdal er íslenskt millinafn. Íshólm. Íshólm er íslenskt millinafn. Knaran. Knaran er íslenskt millinafn. Knarran. Knarran er íslenskt millinafn. Laufkvist. Laufkvist er íslenskt millinafn. Laufland. Laufland er íslenskt millinafn. Laugdal. Laugdal er íslenskt millinafn. Laxfoss (nafn). Laxfoss er íslenskt millinafn. Liljan. Liljan er íslenskt millinafn. Línberg (mannsnafn). Línberg er íslenskt millinafn. Ljós (mannsnafn). Ljós er íslenskt millinafn. Loðmfjörð. Loðmfjörð er íslenskt millinafn. Lyngberg. Lyngberg er íslenskt millinafn. Magdal. Magdal er íslenskt millinafn. Miðdal. Miðdal er íslenskt millinafn. Miðvík. Miðvík er íslenskt millinafn. Mjófjörð. Mjófjörð er íslenskt millinafn. Móberg (millinafn). Móberg er íslenskt millinafn. Nesmann. Nesmann er íslenskt millinafn. Norðland. Norðland er íslenskt millinafn. Ólfjörð. Ólfjörð er íslenskt millinafn. Ósland. Ósland er íslenskt millinafn. Ósmann. Ósmann er íslenskt millinafn. Reykfell. Reykfell er íslenskt millinafn. Reykfjörð. Reykfjörð er íslenskt millinafn. Reynholt. Reynholt er íslenskt millinafn. Salberg. Salberg er íslenskt millinafn. Sandhólm. Sandhólm er íslenskt millinafn. Seljan. Seljan er íslenskt millinafn. Sigurhólm. Sigurhólm er íslenskt millinafn. Skíðdal. Skíðdal er íslenskt millinafn. Snæberg. Snæberg er íslenskt millinafn. Sólan. Sólan er íslenskt millinafn. Stardal. Stardal er íslenskt millinafn. Stein. Stein er íslenskt millinafn. Steinbekk. Steinbekk er íslenskt millinafn. Steinberg (mannsnafn). Steinberg er íslenskt millinafn. Storm. Storm er íslenskt millinafn. Straumberg. Straumberg er íslenskt millinafn. Svarfdal. Svarfdal er íslenskt millinafn. Sædal. Sædal er íslenskt millinafn. Val. Val er íslenskt millinafn. Vald. Vald er íslenskt millinafn. Varmdal. Varmdal er íslenskt millinafn. Vattnes. Vattnes er íslenskt millinafn. Viðfjörð. Viðfjörð er íslenskt millinafn. Vídalín. Vídalín er íslenskt millinafn. Önfjörð. Önfjörð er íslenskt millinafn. Örbekk. Örbekk er íslenskt millinafn. Öxndal. Öxndal er íslenskt millinafn. Bók. Bók er safn blaða fest saman í band, oftast í umgjörð sem er sterkari en efnið í blöðunum (og kallast umgjörðin þá kápa). Blöðin geta m.a. verið úr skinni, pappír og pergamenti. Tilgangur bóka er oftast að miðla upplýsingum með texta, táknum og myndum. Bókasöfn eru staðir þar sem margar bækur eru, oft til útláns eða lestrar almenningi. RSA. RSA er dulmálskerfi sem byggist á notkun stórra prímtalna ásamt leifareikningi til þess að gera gögn ólæsileg öðrum en þeim sem hafa einkalykilinn. RSA Reikniritið. Þá er einkalykillinn talnaparið formula_15 og almenningslykillinn er parið formula_16. Þá sést að formula_13 er leyndarmálið í þessu, enda er ekki hægt að finna út formula_13 nema með því að reikna formula_1 og formula_2 út frá formula_8, og finna svo rétt formula_22 þannig að formula_23. formula_33 sem byggist á Eulersreglu formula_34, sem gengur bara upp ef að formula_31 er ósamþátta formula_8, sem er óhugnanlega líklegt. Saga RSA. Whitfield Diffie, Martin Hellman og Ralph Merkle birtu Diffie-Hellman-Merkle dulmálskerfið árið 1976. Dulmálskerfið þeirra var þeim eiginleikum gætt að í stað eins dulmálslykils voru þeir tveir, og að dulmálskerfið var ósamhverft. Diffie og Hellman voru að íhuga einkalykladulmálsfræði (e. "Public Key Cryptography"), en Merkle var aðallega að skoða aðferðir til þess að dreifa dulmálslyklum. Þegar að þeir áttuðu sig á því að það væri margt skylt með vinnu hópanna þá samtvinnuðust hugmyndir þeirra þriggja, og þær birtust í grein að nafni "New Directions in Cryptography" í tímaritinu IEEE Transactions on Information Theory, sem var þó bara eftir Diffie og Hellman, og hefur kerfið verið kennt við þá síðan. Hugmyndin þeirra var að það væri hægt að búa til stærðfræðilegar "fallgildrur", þ.e. aðferðir sem tættu gögn upp án þess að glata þeim, þannig að með réttu aukaílagi væri auðvelt að andhverfa þær, en annars væri það mjög torleyst. RSA dulkóðunarreikniritið var afrakstur verka þriggja manna, Ronald Rivest, Adi Shamir and Leonard Adleman. Þeir birtu sameiginlega ritgerðina "A Method for Obtaining Digital Signatures and Public-Key Cryptosystems" árið 1977, en í henni lögðu þeir fram RSA dulmálið. Þeir byrjuðu að vinna að RSA eftir að Diffie og Hellman birtu sitt dulmálskerfi. Rivest, Shamir og Adleman töldu að þó svo að aðferð Diffie-Hellman væri góð, þá væri hún ekki nógu góð, þar sem að það kerfi bauð eingöngu upp á dulkóðun, en ekki stafrænar undirskriftir. Þeir skoðuðu um fjörtíu mismunandi dulmálsaðferðir og römbuðu svo niður á notkun á margfeldi prímtalna sem einátta fall (e. "trapdoor one-way function"). RSA dulmálið var fyrst auglýst í ágúst 1977, í dálki í Scientific American þar sem að kerfinu var lýst í grófum dráttum. Þar buðust þeir félagar einnig til þess að senda hverjum þeim sem hafði áhuga afrit af ritgerð sinni, sem fór nokkuð fyrir brjóstið á þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, sem sá hversu öflugt þetta kerfi var og hversu hættulegt það yrði ef að þetta félli í óvinahendur. Þeir kröfðust þess að hætt yrði dreifingu dulmálskerfisins um leið, en það rann á daginn að ekki voru lagalegar stoðir til staðar fyrir slíkri kröfu. Þegar að greinin var svo birt í IEEE Transactions on Information Theory var leyndarmálið komið í mjög almenna umferð, og allar frekari tilraunir NSA til þess að hindra dreifingu þess voru úr sögunni. Árið 2000 rann út einkaleyfi þeirra á RSA dulmálskerfinu í Bandaríkjum Ameríku, með þeim afleiðingum að nú geta allir heimsins íbúar notast við dulmálskerfið án endurgjalds. Margt hefur breyst síðan að RSA var birt, enda er búið að uppgötva marga galla og margar holur í reikniritinu sem gera það óöruggt. Enn fremur er búið að renna traustari stoðum undir einkalykladulmálskerfi með fyrirbærum á borð við OAEP, AES og Rijendel, ásamt því að RSA er komið í mun meiri almenna notkun með tilkomu PGP (e. "Pretty Good Privacy") kerfisins eftir Philip Zimmermann. Vegna ótta manna við að hið síðarnefnda yrði að veruleika var þróuð skammtafræðilega örugg aðferð til þess að skiptast á lyklum, og yrði þá hægt að notast við OTP (e. "One Time Pad") dulkóðun í stórum stíl, sem yrði fullkomnlega öruggt. Aþena. Aþena (gríska: "Αθήνα" (umritun: "Aþena", borið fram "Aþína"); Alþjóðlega hljóðstafrófið: /a'θina/) er höfuðborg Grikklands og búa um 4 milljónir manna í henni og hafnarborg hennar Píreus. Í Aþenu til forna bjuggu um 200.000 manns. Ólympíuleikarnir voru haldnir í Aþenu árið 2004 en voru fyrst haldnir þar þann 5. apríl 1896 í borginni Ólympíu á Grikklandi. Voru það fyrstu nútíma Ólympíuleikarnir eftir að þeir vorum afnumdir 393 e. Kr. vegna tengsla við heiðna trú. Kristall. Kristall er efni í föstu formi þar sem frumeindirnar, sameindirnar og fareindirnar mynd reglulegt munstur sem tegir sig um allar þrjár víddirnar. Vísindagreinin sem fæst við rannsóknir á kristöllum nefnist kristallafræði. Kristallafræði. Kristallafræði er undirgrein efnafræðinnar og bergfræðinnar sem fæst við rannsóknir á kristöllum. Þeir sem leggja stund á greinina kallast kristallafræðingar. Sólstjarna. Sólstjarna (oft aðeins stjarna) er risastór rafgashnöttur, sem verður glóandi vegna kjarnasamruna í iðrum stjörnunnar. Flestar stjörnur hafa fylgihnetti, sem ganga á sporbaugum umhverfis stjörnuna. Talið er að alheimurinn hafi myndast við miklahvell og byrjað að þenjast út og kólna. Seinna meir hafi rykský þést vegna eigin þyngdarafls og orðið að stjörnum. Sólin er nálægasta sólstjarna við jörðu. Stjarnfræðilegt fyrirbæri. Stjarnfræðilegt fyrirbæri er hvers kyns fyrirbæri, sem stjörnufræðin fæst við, til dæmis geimfyrirbæri, geimryk, geimgeislun og þyngdargeislun. Jöklafræði. Jöklafræði er undirgrein jarðvísinda sem fæst við rannsóknir á jöklum. Jöklafræði notast við þekkingu og aðferðir úr jarðfræði, veðurfarsfræði, veðurfræði, vistfræði, vatnafræði og líffræði. Þeir sem leggja stund á greinina kallast jöklafræðingar. Veðurfarsfræði. Veðurfarsfræði (eða loftslagsfræði) er undirgrein jarðvísindanna sem fæst við rannsóknir á langtíma veðurfari, ólíkt veðurfræðinni sem fæst við rannsóknir á skammtímaveðurfari (oftast í þeim tilgangi að segja til um veður). Þeir sem leggja stund á greinina kallast veðurfarsfræðingar (eða loftslagsfræðingar). Berg. Berg er í bergfræði náttúrulegt samansafn steinda og/eða steindlíkja, berg er flokkað eftir steinda og efnainnihaldi þess, eftir því hvernig það var myndað og eftir áferð þess. Sú vísindagrein sem fæst við rannsóknir á bergi nefnist bergfræði. Nýdönsk. Nýdönsk (einnig skrifað Ný dønsk og Ný dönsk) er íslensk hljómsveit sem stofnuð var árið 1987 og hefur gefið út 13 hljómplötur. Nafn hljómsveitarinnar var valið með hliðsjón af þeim sið bókabúða á þessum tíma að auglýsa "Ný dönsk blöð". Saga hljómsveitarinnar. Hljómsveitin Nýdönsk var stofnuð árið 1987. Eftir að hafa gefið út nokkur lög á safnplötum gaf Nýdönsk út plötuna "Ekki er á allt kosið" árið 1989. Af þeirri plötu voru lögin „Fram á nótt“ og „Hjálpaðu mér upp“ vinsælust. Á þeim tíma var hljómsveitin skipuð þeim Daníel, Birni Jörundi, Ólafi Hólm, Einari og Valdimar. Þegar platan "Regnbogaland" kom út árið 1990 voru einungis þrír fullgildir hljómsveitarmeðlimir eftir, þeir Daníel, Björn og Ólafur. Tveir sérlegir aðstoðarmenn voru tilteknir, þeir Jón Ólafsson og Stefán Hjörleifsson, en von bráðar voru þeir endanlega teknir inn í hljómsveitina. Tónleikaplatan "Kirsuber" kom út árið 1991. Hefur hún ekki verið fáanleg í nokkurn tíma. Sama ár gaf Ný Dönsk út plötuna "Deluxe" sem innihélt meðal annars smellina 'Landslag skýjanna', 'Alelda', 'Deluxe' og 'Svefninn laðar'. Á næstu plötu sveitarinnar "Himnasending" voru lögin 'Ilmur' og 'Horfðu til himins'. "Hunang" kom síðan út 1993. Árið 1994 skiptu Ný danskir um gír. Megas fékk þá til liðs við sig á plötunni "Drög að upprisu" og einnig spiluðu þeir í leikritinu "Gauragangi". Eftir þriggja ára þögn kom út safnplatan "1987-1997". Á þeirri plötu var að finna þekktustu lög hljómsveitarinnar, sjaldgæf lög en einnig þrjú ný. Daníel Ágúst tók þátt í gerð nýju laganna þrátt fyrir að vera á fullu með hljómsveitinni Gus Gus. Árið 1998 kom út platan "Húsmæðragarðurinn" og "Pólfarir" fylgdi árið 2001 og tók Daníel Ágúst ekki þátt í gerð þeirra. Árið 2002 kom út platan "Freistingar". Þar var að finna gömul lög hljómsveitarinnar í einfölduðum búningi. Daníel Ágúst söng í þremur lögum, meðal annars í nýja laginu „Fagurt fés“. Árið 2004 spilaði Nýdönsk með Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónleikarnir voru gefnir út á geisladiski og DVD-diski. Árið 2008 þann 3. maí hlutu þeir svo Heiðursverðlaun FM957. Black Sabbath. Black Sabbath er hljómsveit sem stofnuð var 1969 af Tony Iommi, Ozzy Osbourne, Geezer Butler og Bill Ward. Saga. Hljómsveitin kom fyrst saman í Birmingham á Englandi árið 1968 og hét þá raun Polka Tulk Blues Band (seinna stytt í Polka Tulk) en breytti loks nafninu í Earth. Hljómsveitin spilaði blús þangað til Geezer Butler, sem spilaði á bassa, samdi drungalegt lag sem hann nefndi "Black Sabbath" eftir samnefndri kvikmynd Boris Karloff. Síðan þegar hljómsveitin fór að ruglast saman við aðra sem kallaði sig líka Earth breyttu meðlimirnir nafninu endanlega í Black Sabbath árið 1969. Upphafleg liðskipan með Tony Iommi, Geezer Butler, Ozzy Osbourne og Bill Ward er oft talin raunverulega útgáfan af bandinu. Árið 1970 gáfu þeir út tímamótaverkið "Paranoid" og öfluðu sér vinsælda beggja vegna Atlantsála. Árið 1979 var Osbourne rekinn. Neysla vímugjafa og áhugaleysi ollu aðallega því. Við hljóðnemanum tók Ronnie James Dio fyrrum söngvari Rainbow. Dio hóf að semja lög og texta með sveitinni og fyrsti ávöxtur þess samstarfs var platan "Heaven and hell" sem varð allvinsæl. Eftir að Dio hætti skipti sveitin títt um meðlimi og Iommi hélt beinlínis nafninu gangandi frá miðjum níunda áratugarins til miðs tíunda áratugarins. Árið 1997 komu upphaflegu meðlimirnir saman aftur og fóru í tónleikaferðalög ásamt því að gefa út plötuna "Reunion" sem var tónleikaplata og innihélt einnig tvö ný stúdíólög. Eftir að safnskífa með Dio efninu í Sabbath kom út árið 2006 ákváðu þeir sem komu að því tímabili í bandinu að túra undir nafninu Heaven and hell auk þess að gefa út eina breiðskífu. Dio lést árið 2010 og árið 2011 ákváðu upprunalegu meðlimir sveitarinnar að koma saman aftur og taka upp nýja breiðskífu. Yrkisefni sveitarinnar hafa verið úr ýmsum áttum: Stríð, trúarbrögð, vímuefni, samfélagsmál. Spendýr. Spendýr (fræðiheiti: "Mammalia") eru flokkur seildýra í undirfylkingu hryggdýra sem einkennist af því að vera með mjólkurkirtla, sem kvendýrin nota til að framleiða mjólk til að næra ungviði; feld eða hár og innverminn líkama (heitt blóð). Heilinn stýrir blóðrásarkerfinu, þar á meðal hjarta með fjögur hólf. Um 5.500 tegundir spendýra eru þekktar sem skiptast í um 1.200 ættkvíslir, 152 ættir og 46 ættbálka. Eigindi. Flest spendýr fæða lifandi afkvæmi, en tegundir af undirflokk nefdýra verpa eggjum. Þó svo væri ekki væri þessi eiginleiki ekki einkennandi fyrir flokkinn þar sem ýmis önnur dýr, eins og t.d. gúbbífiskar og sleggjuháfar, fæða einnig lifandi afkvæmi. Kvendýr af flokki spendýra eru öll með mjólkurkirtla en eru ekki öll með spena (eða geirvörtur). Aftur hefur nefdýraundirflokkurinn þar sérstöðu en kvendýr af þeim flokki eru með holur á kviðnum sem mjólkin seitlar út um í stað spena. Heilar allra spendýra eru með nýbörk, en hann er einkennandi fyrir flokkinn. Flest spendýr eru landdýr en sum þ.á m. sækýr og hvalir eru vatnsdýr. Sófókles. Sófókles (495/496–406 f.Kr.) var einn af þremur mestu harmleikjahöfundum Forn-Grikkja ásamt Æskýlosi og Evrípidesi. Fyrstu verk hans eru yngri en verk Æskýlosar en eldri en Evrípidesar. Sófókles mun hafa verið afkastamikið skáld og er talið að hann hafi samið allt að 123 leikrit. Af þeim eru aðeins sjö varðveitt, það eru "Antigóna", "Ödipús konungur", "Elektra", "Ajax", "Trakynjur", "Fíloktetes" og "Ödipús í Kolónos". Sófókles naut mikillar virðingar samtímamanna sinna og hlaut oftar en nokkur annar verðlaun fyrir leikrit sín á Lenaju- og Díonýsosarhátíðunum. Þá mun hann hafa tekið þátt í fjölmörgum leikritakeppnum og aldrei lent neðar en í öðru sæti. Sófókles samdi mikinn fjölda harmleikja, um eða yfir 120 leikrit. Leikritin voru send inn í keppni á Díonýsosarhátíðinni en hver höfundur sendi inn þrjá harmleiki og einn satýrleik. Sófókles vann fyrstu verðlaun um 20 sinnum, oftar en nokkurt annað harmleikjaskáld, og ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurn tímann lent neðar en í annað sæti. Frægustu harmleikir Sófóklesar eru Þebuleikirnir en þeir eru "Antigóna", "Ödipús konungur" og "Ödipús í Kolónos". Sófókles hafði mikil áhrif á þróun leiklistarinnar. Hann fjölgaði leikurum úr tveimur í þrjá sem rýrði hlutverk kórsins mjög. Kórmeðlimum fjölgaði hann úr tólf í fimmtán, innleiddi nýjar tegundir búninga og málaðar sviðsmyndir. Æviágrip. Sófókles fæddist í Kolónos nærri Aþenu. Hann var af auðugu fólki en faðir hans, Sófillos, er talinn hafa verið vopnaverksmiðjueigandi. Mörg leikrita Sófóklesar gerast í fæðingarbæ hans. Fáeinum árum fyrir fæðingu hans átti orrustan við Marathon sér stað. Sófókles þótti mjög efnilegur strax á unga aldri. Hann var mikill atgervismaður að vexti og yfirbragði og talinn ljóngáfaður. Hann var íþróttamaður góður og framúrskarandi hörpuleikari. Hann hlaut bestu menntun sem völ var á enda var engin þörf á sparnaði hjá fjölskyldu hans. Fyrsti sigur Sófóklesar á listasviðinu var árið 468 f.Kr. þegar hann hlaut fyrstu verðlaun fyrir leikrit á Díonýsosarhátíðinni. Þar sigraði hann meistarann Æskýlos en samkvæmt Plútarkosi vannst sigurinn á óvenjulegan hátt. Í stað þess að fylgja venjunni og velja dómara með hlutkesti bað stjórnandi hátíðarinnar Kímon og fleiri hæstráðendur að ákveða sigurvegarann. Sófókles naut kunningsskapar við Períkles og Kímon sem á þessum tíma voru forystumenn í stjórnmálunum. Þrátt fyrir að Plútarkos segi að um hafi verið að ræða fyrstu leiksýningu Sófóklesar er ekki víst að það sé alveg rétt því líklegt þykir að sú sýning hafi farið fram 470 f.Kr. Triptolemos er talið meðal fyrstu leikrita Sófóklesar á Díonýsosarhátíðinni. Sófókles varð jafn mikilvægur maður í stjórnsýslu Aþenuborgar og í leikhúsinu. Hann var sextán ára gamall þegar hann var valinn til að leiða sigursöng til guðanna eftir afgerandi sigur Grikkja á Persum við Salamis. Sófókles naut trausts samborgara sinna sem völdu hann til ýmissa ábyrgðarstarfa. Kringum árið 443 f.Kr. var hann einn féhirða Aþenu og þá tók hann einnig þátt í hernaðarstjórn, meðal annars í herleiðangri Aþenumanna gegn Samos sem gert hafði uppreisn árið 441 f.Kr. Hann sat í nefnd manna árið 413 f.Kr. sem ætlað var að rétta af hag ríkisins eftir ósigur Aþeninga við Sikiley. Sófókles mun hafa umgengist marga þekktustu samtímamenn sína, til dæmis heimspekinginn Arkelaosi og sagnaritarann Heródótosi. Sófókles var guðhræddur maður og trúrækinn. Var hann prestur ýmissa lækningaguða og árið 420 f.Kr. mun hann hafa gert hús sitt að helgidómi Asklepíosar lækningaguðs. Sófókles lést um nírætt, kringum árið 406 f.Kr. Hann hafði upplifað sigur Grikkja í Persastríðunum og einnig blóðsúthellingar Pelópsskagastríðsins. Líkt og með marga aðra þekkta menn fornaldar varð dánarorsök Sófóklesar mönnum mikið íhugunarefni. Meðal annars eru sögur til um að hann hafi dáið eftir að hafa reynt að flytja langar setningar úr Antígónu án þess að taka sér hvíld til að anda og önnur um að hann hafi kafnað við að borða vínber á Anthesteriahátíðinni í Aþenu. Stuttu fyrir dauða hans reyndu synir hans að fá því lýst yfir að hann væri óábyrgur gjörða sinna en hann mun hafa afsannað það með því að lesa úr ófullgerðu leikriti sínu, Ödipús í Kolónos. Íófón sonur hans og barnabarn hans, Agaþon, fetuðu í fótspor hans og urðu skáld. Leikrit Sófóklesar. Ein af fyrstu breytingum Sófóklesar á leikritagerðinni var fjölgun leikara úr tveimur í þrjá sem dró úr hlutverki kórsins og skapaði frekari tækifæri á að þróa persónurnar og átök milli þeirra. Aiskýlos var helsta leikritaskáld Grikkja á fyrstu árum Sófóklesar og fylgdi hann stefnu arftaka síns og tók upp þriðja leikarann í leikrit sín á síðustu árum ævi sinnar. Aðalheimild um þróun formsins er verk Aristótelesar "Um skáldskaparlistina" og segir hann meðal annrs þar að Sófókles hafi verið frumkvöðull leiktjaldamálunar. Eftir dauða Æskýlosar árið 456 f.Kr. varð Sófókles fremsta leikritaskáld Grikkja. Sófókles sigraði í leikritakeppnum átján Díonýsosarhátíða og sex Lenaiahátíða. Auk breytinga á formi leikritsins er Sófókles þekktur fyrir fullkomnari úrvinnslu á persónum leikrita sinna heldur en fyrri skáld. Orðspor hans var slíkt að erlendir stjórnendur buðu honum að koma og dvelja við hirðir sínar en ólíkt Aiskýlosi, sem dó á Sikiley, og Evrípidesi, sem dó í Makedóníu, þekktist Sófókles aldrei slík boð. Einungis tvö af sjö varðveittum verkum Sófóklesar er mögulegt að tímasetja með vissu en það eru "Fíloktetes" (409 f.Kr.) og Ödipús í Kolónos (401 f.Kr., sett á svið eftir dauða Sófóklesar af barnabarni hans). "Elektra" þykir sýna lík stíleinkenni og þessi tvö leikrit sem bendir til að það hafi verið ritað á svipuðum tíma. "Ajax", "Antígóna" og "Trakynjur" eru almennt taldar meðal fyrri verka Sófóklesar og er sú tillaga byggð á líkindum með stílbrögðum leikritanna. "Ödipús konung" er hann talinn hafa samið um miðja ævina. Leikrit varðveitt í brotum. Brot leikritsins "Satýrarnir" ("Ikknevtæ") uppgötvuðust í Egyptalandi árið 1907. Það er annar tveggja satýrleikja sem fundist hafa. Brot leikritsins "Afkomendurnir" ("Epigonoi") fundust í apríl árið 2005 þegar fornfræðingar við Oxford University gátu lesið þau með hjálp innrauðra ljósgeisla sem áður voru notaðir í ljósmyndun frá gervitunglum. Harmleikurinn segir sögu af umsátri um Þebu. Þebuleikirnir. Þebuleikirnir samanstanda af þremur leikritum: "Antígónu", "Ödipús konungi" og "Ödipús í Kolónos". Leikritin þrjú fjalla öll um örlög Þebu um og eftir stjórnartíð Ödipúsar konungs. Þau hafa oft verið gefin út í einu bindi erlendis og á Íslandi gaf Menningarsjóður Þebuleikina út í einu bindi árið 1978 í þýðingu Jóns Gíslasonar. Sófókles sjálfur ritaði leikritin hvert í sínu lagi og með margra ára millibili. Þebuleikirnir teljast heldur ekki raunverulegir þríleikir (þrjú leikrit sett fram sem óslitin frásögn). Hver Þebuleikanna telst sjálfstætt verk og seinni tvö verkin eru ekki framhald á fyrsta verkinu. Fyrst skrifaði Sófókles "Antígónu" en "Ödipús konungur" og "Ödipús í Kolónos" lýsa atburðum sem eiga að gerast á undan atburðum "Antígónu". Önnur leikverk. Að undanskildum Þebuleikunum eru fjögur önnur varðveitt: "Ajax", "Trakynjur", "Elektra" og "Fíloktetes". Fjölmörg brot úr öðrum leikverkum Sófóklesar hafa fundist og eru enn að finnast. Síðast árið 2005 uppgötvuðu fornfræðingar við Oxfordháskóla brot úr harmleiknum "Afkomendurnir" ("Epigonoi"). Af öllum þessum leikritabrotum má nefna "Aias Lokros", "Hermíóna", "Níóba", "Triptolemos" og "Þýestes". Árið 1907 fannst um helmingur leikritsins "Satýrarnir" ("Ikknevtæ") í Egyptalandi. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var komið af stað af Fédération Internationale de Football Association eða FIFA. Heimsmeistarakeppnin er einn vinsælasti íþróttaviðburður í heimi og er áhorf á heimsmeistarakeppnina meira en á Ólympíuleikana. Um keppnina. Úrslitakeppnin er haldin á fjögurra ára fresti en þess á milli þess keppa 197 landslið (tölur fyrir HM 2006) um sæti í úrslitakeppninni og eru þar sæti fyrir 32 lið (24 lið árið 1998) og fær liðið sem vann síðustu heimsmeistarakeppni sjálfkrafa sæti í úrslitakeppninni. Keppnin hefur verið haldin á fjögurra ára fresti frá árinu 1930, þó á því séu tvær undantekningar; ekki var spilað árið 1942, vegna þess að FIFA gat ekki komið sér upp um hvort keppnin ætti að vera haldin í Brasilíu eða Þýskalandi, auk þess sem seinni heimsstyrjöldin var í algleymingi, né 1946, vegna þess að verið var að byggja allt uppá nýtt alls staðar í heiminum eftir seinni heimsstyrjöldina. Kattardýr. Kattardýr (fræðiheiti: "Felidae") eru ætt dýra af ættbálki rándýra og þau rándýr sem helst eru háð því að éta kjöt. Fyrstu kattardýrin komu fram á sjónarsviðið á Eósentímabilinu fyrir um fjörutíu milljónum ára. Kunnasta undirtegund kattardýra er kötturinn sem fyrst hóf sambýli við manninn fyrir um fjögur til sjö þúsund árum. Einnig eru þekktir stóru kettirnir; ljón, hlébarði, jagúar, tígrisdýr og blettatígur, og eins aðrir villtir kettir eins og gaupa, fjallaljón og rauðgaupa. Öll kattardýr (heimiliskettir meðtaldir) eru ofurrándýr sem eru fær um að ráðast á og drepa nánast allt sem er minna en þau sjálf. Í dag eru þekktar 36 tegundir kattardýra. Öll kattardýr eiga það sameiginlegt að finna ekki sætt bragð. Skúli Magnússon. Viðeyjarstofa var reist sem embættisbústaður Skúla fógeta og hann lét seinna reisa Viðeyjarkirkju við hlið hennar. Skúli Magnússon (12. desember 1711 – 9. nóvember 1794), oft kallaður Skúli fógeti, var landfógeti Íslands og einn helsti drifkrafturinn á bak við stofnun Innréttinganna. Skúli hefur stundum verið nefndur "faðir Reykjavíkur". Hann var einn helsti boðberi upplýsingarinnar á Íslandi. Uppruni. Skúli fæddist að Keldunesi í Norður-Þingeyjarsýslu árið 1711, sonur Magnúsar Einarssonar, sem var prestur á Húsavík frá 1715, og konu hans Oddnýjar Jónsdóttur. Skúli var við verslunarstörf á unglingsárum en hóf skólanám hjá Þorleifi Skaftasyni prófasti í Múla í Aðaldal haustið 1727. Magnús faðir hans drukknaði í ársbyrjun 1728, þegar hann var að sækja rekavið, en tveimur árum síðar giftist móðir Skúla séra Þorleifi, sem útskrifaði hann svo með stúdentspróf 1731. Hann stundaði svo nám við háskólann í Kaupmannahöfn 1732-34 án þess þó að ljúka prófi. Jón Espólín lýsir Skúla þannig að hann hafi verið „...hár meðalmaður á vöxt og ei mjög gildur, kvikur mjög, skarpeygur og nokkuð varaþykkur, mikill rómurinn og sem hann beit á vörina þá hann talaði.“ Skúli fékk bólusótt á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og var eftir það nokkuð öróttur í andliti. Sýslumaður. Hann varð sýslumaður í Skaftafellssýslu árið 1734 og í Skagafjarðarsýslu 1737. Þar bjó hann fyrst í Gröf á Höfðaströnd en lengst af á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð. Á fyrstu árum hans í embætti strönduðu hollenskar duggur í Skagafirði en er skipsmenn urðu uppvísir að því að versla við landsmenn gerði sýslumaður skútuflökin upptæk ásamt farmi þeirra og er sagt að bærinn sem hann reisti á Ökrum og enn stendur að hluta hafi verið gerður úr skútuviðnum. Skúli hafði forsjá Hólastóls eftir að Steinn Jónsson biskup dó árið 1739 og þar til Halldór Brynjólfsson tók við embætti 1746. Í úttektargerð kemur fram að hann hafi unnið gott starf, skilað af sér betra búi en hann tók við, látið byggja upp töluvert af húsum staðarins og útvegað nýtt letur til prentverksins, útvegað lærðan prentara og látið prenta bæði sumar og vetur. Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum var annar þeirra sem samdi úttektina en tveimur árum seinna sneri hann þó við blaðinu og kærði Skúla fyrir vanskil. Á endanum var Skúli þó hreinsaður af allri sök. Skúli auðgaðist vel í Skagafirði og varð svo voldugur að hann tókst á við einokunarkaupmenn og kærði Hofsóskaupmann fyrir að selja ónýtt járn og mjöl sem blandað var mold, selja vöru hærra verði en leyft var og fleira. Urðu mikil málaferli út af þessu og var Bjarni Halldórsson málsvari kaupmannsins en Skúli hafði betur í málinu og aflaði þetta honum mikilla vinsælda meðal almennings. Hann var mikill stórbokki og héraðsríkur en jafnframt gestrisinn og gjöfull við þurfamenn og áhugamaður um framfarir, lét meðal annars smíða marga rokka og vefstóla. Landfógeti. Kristjáni Drese landfógeta var vikið úr embætti árið 1749 fyrir drykkjuskap, sukk og sjóðþurrð og í desember sama ár var Skúli skipaður í hans stað, fyrstur Íslendinga. Um það segir hann sjálfur í ævisögu sinni: „Allir urðu forvirraðir, því áður höfðu þeir þeinkt, að so illur djöfull sem landfógetinn gæti ómögulega verið íslenskur." Hann fluttist suður sumarið 1750 og settist fyrst að á Bessastöðum. Hann hóf þegar að berjast fyrir ýmsum framfaramálum og helst fyrir stofnun framfarafélags sem skyldi standa að ýmsum umbótum í búnaðarmálum og iðnaði. Hann vildi líka að Íslendingar eignuðust þilskip svo þeir gætu sótt á djúpmið. Félagið Innréttingarnar var stofnað af Skúla ásamt íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 17. júlí 1751 til að vinna að viðreisn íslenskra landshaga. Innréttingunum var valinn staður í Reykjavík og meðal annars þess vegna hefur Skúli oft verið kallaður faðir Reykjavíkur. Þótt gengi Innréttinganna væri misjafnt eins og margra aðra framfaramála sem Skúli lét til sín taka var hann óþrjótandi baráttumaður fyrir framförum og var einn helsti boðberi upplýsingastefnunnar á Íslandi. Skúli var valdamesti maður landsins um áratuga skeið en átti oft í deilum, bæði við aðra embættismenn og valdamenn og einnig við kaupmenn, einkum Hörmangara á árunum kringum 1755 en þá var hungursneyð í landinu og Skúli lét brjóta upp búðir kaupmanna og dreifa úr þeim matvælum sem þar voru til. Af þessu spruttu málaferli en þetta varð ásamt öðru til þess að Hörmangarar misstu einokunarverslunina úr höndum sér 1758. Skúli fékk Viðey til ábúðar þegar hann varð landfógeti og bjó þar síðan. Viðeyjarstofa var reist sem embættisbústaður á árunum 1753-55. Hann lét af embætti fyrir aldurs sakir árið 1793 og lést ári síðar úti í Viðey. Kona Skúla var Steinunn Björnsdóttir prests í Görðum á Álftanesi. Á meðal barna þeirra voru Jón Skúlason aðstoðarlandfógeti og Rannveig, kona Bjarna Pálssonar landlæknis. PlayStation Portable. PlayStation Portable (oft stytt í PSP) er leikjatölva í lófastærð frá Sony. Hún er þriðja leikjatölvan í PlayStation-línunni. Aðalnotagildi hennar felst í því að spila tölvuleiki, en hún getur líka spilað kvikmyndir og tónlist sem og að hægt er að tengja hana við internetið. Einnig er hægt að nota Skype til að hringja í aðrar einkatölvur sem hafa sett upp Skype, sem og heimilissíma og farsíma. Leikir og annað, sem hægt er að nota í PSP-tölvunni er selt á Universal Media Disc formi, sem var búið til af Sony sérstaklega fyrir tölvuna. Stærsti samkeppnisaðili PSP er Nintendo DS. Hugbúnaður. Notagildi PSP er í stöðugri þróun. Með að uppfæra hugbúnað, svokallað "Firmware", getur framleiðandinn bætt inn forritum og þannig notkunarmöguleikum tölvunnar. Dæmi um nýlegar viðbætur er Skype. Gagnrýni. PSP leikjatölvan hefur verið gagnrýnd fyrir það að við hönnun hennar hafi verið hugsað meira um útlit og vélarafl tölvunnar; sem og margmiðlunarefni, en úrval og gæði leikja. Skriðdýr. Skriðdýr (fræðiheiti: "Reptilia") eru flokkur hryggdýra. Skriðdýr eru líknarbelgsdýr, þar sem fóstur þeirra eru umlukin líknarbelg. Flestar tegundir skriðdýra verpa eggjum, en ýmsar tegundir hreisturdýra eiga lifandi afkvæmi. Flestar tegundirnar þurfa á hita að halda úr umhverfinu þar sem efnaskipti líkamans framleiða ekki nægan hita til að halda stöðugum líkamshita (leðurskjaldbakan er þó undantekning). Þetta gerir það að verkum að skriðdýr eru algengust í hitabeltinu. Skriðdýrafræði er sú vísindagrein sem fæst við rannsóknir á skriðdýrum og froskdýrum. Millinafn. Millinafn getur átt við hvaða nafn, sem kemur á milli fyrsta og síðasta nafns. Mismunandi er milli landa og menningarheima hvað nákvæmlega er átt við. Í íslensku eru millinöfn í raun, samkvæmt lögum, einungis nöfn dregin af íslenskum orðstofnum eða sem hafa unnið sér hefð í íslensku máli en hafa ekki nefnifallsendingu og geta komið á milli eiginnafns og föður- móður- eða ættarnafns. Dæmi um slíkt nafn er Helgi "Áss" Grétarsson. Skjaldbaka. Skjaldbökur (fræðiheiti: "Testudines") eru ættbálkur skriðdýra sem einkennist af brjóskkenndum skildi umhverfis líkamann, sem hefur þróast út frá rifbeinum. Um 300 núlifandi tegundir skjaldbaka eru þekktar, auk nokkurra sem dáið hafa út. Allar tegundir skjaldbaka eru nú í hættu vegna breytinga á strandlengjum sem þær nýta til að verpa eggjum sínum, auk ofveiði. Helga Steinvör Baldvinsdóttir. Helga Steinvör Baldvinsdóttir (1858 – 23. október 1941) var íslenskt ljóðskáld og vesturfari best þekkt undir listamannsnafninu Undína. Æviágrip. Hún var frá Litlu-Ásgeirsá í Víðidal í Húnaþingi, dóttir Baldvins Helgasonar og Soffíu Jósafatsdóttur. Þau settust fyrst að í Rousseau í Muskoka í Ontario en síðar í Norður Dakota. Undína var tvígift, fyrri eiginmaðurinn var drykkfelldur og hún skildi við hann, sá síðari dó 1904. Síðan bjó hún á vesturströndinni til dauðadags, síðustu árin í skjóli Sophiu dóttur sinnar. Undína orti mest fyrir og um aldamótin, en lítið eftir það. Hún vakti verðskuldaða athygli bókmenntamanna vestra. Kvæði hennar eru einföld og ljóðræn, mörg þeirra ættjarðarljóð. Bestu ljóð hennar eru dapurleg og rómantísk, birta rótleysistilfinningu landnemanna á látlausan hátt. Heildarútgáfa á ljóðum hennar kom út 1952, "Kvæði". Svartaraf. Svartaraf í bergfræði er svart steindarlíki sem myndast þegar viður þjappast saman undir miklum þrýstingi, svartaraf er þrátt fyrir nafnið ekki gerð rafs. Setbergsfræði. Setbergsfræði er undirgrein bergfræðinnar sem fæst við rannsóknir á setbergi. Þeir sem leggja stund á greinina kallast setbergsfræðingar. Hliðargreinar setbergsfræðinnar eru storkubergsfræði og myndbreytingarbergsfræði. Storkubergsfræði. Storkubergsfræði er undirgrein bergfræðinnar sem fæst við rannsóknir á storkubergi. Þeir sem leggja stund á greinina kallast "storkubergsfræðingar". Hliðargreinar storkubergsfræðinnar eru setbergsfræði og myndbreytingarbergfræði. H5N1. H5N1 er afar meinvirk fuglaflensu veira (m.ö.o. vírus af stofni A). Fyrsta þekkta tilfellið, þar sem veiran barst í menn, var árið 1997 í Hong Kong. Af þeim fyrstu 70 sem greindust fyrst létust 49. Sýking barst í menn í kjölfarið á faraldri í hænsnabúum í Hong Kong. Til að sporna við honum var hverjum einasta alifugli á svæðinu slátrað. Nafnið "H5N1" kemur af einkennandi vökum á yfirborði veirunnar (sérstök prótín), gerð fimm af „hemagglutinin“ og gerð eitt af „neuraminidase“. Til og með 1. nóvember 2005, hafa 122 sýkingar greinst í mönnum, þar af hafa 62 látist, utan Kína. Veirunnar hefur orðið vart meðal þrettán landa í Asíu og Evrópu. Að auki hafa um 120 milljón fuglar látist eða verið líflátnir til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Veiran smitast einungis milli fugla en getur borist í menn komist þeir í mjög nána snertingu við smitaðan fugl. Hins vegar smitast hún ekki á milli manna í núverandi mynd. Ekki er hægt að útiloka að hún stökkbreytist og öðlist þann eiginleika en það er heldur ekkert hægt að fullyrða um það. Margir halda því þó fram að það muni gerast og telja að farsótt á borð við spænsku veikinni muni breiðast út en sérfræðingar benda þó á að eitthvað annað innflúensuafbrigði gæti allt eins valdið næstu farsótt. Flutningur og sýking. Vírusinn berst venjulega milli villtra fugla við beina snertingu þveitis af ýmsu tagi (skítur, munnvatn o.s.frv.). Þar sem farfuglar eru meðal þeirra er sýkjast, dreifist veiran um allan heim. Fuglaflensa hefur sprottið upp í suðausturlöndum og Austur–Asíu, þar sem mannfólk býr við þröngar aðstæður meðal svína og alifugla. Við þessar aðstæður getur vírusinn auðveldlega smitað menn og gæti stökkbreyst þannig að smit berist á milli manna. Meirihluti sýkinga verður í suðausturlöndum og Austur–Asíu. Til að stemma stigu við útbreiðslu bregðast yfirvöld oftast við með því að slátra öllum dýrum sem sýkjast. Ef brugðist er við með hraði er hægt að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafa þó tjáð áhyggjur sínar um að sum ríki bregðist ekki við sem skildi. Kína hefur til dæmis áður neitað alvarlegri útbreiðslu sjúkdóma á borð við SARS og HIV. H5N1 veiran er ekki talin hafa borist milli manna enn þá. Varnir. Til varnar útbreiðslu meðal dýra, eins og áður sagði, er öllum dýrum sem grunuð eru um sýkingu slátrað. Ferðalangar hafa jafnan verið beðnir um að gæta varúðar á svæðum þar sem nokkur útbreiðsla hefur mælst. Til dæmis hefur Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna sent frá sér leiðbeiningar til ríkisborgara sem lifa erlendis sérstaklega. Þeim er bent á að forðast alifuglabú og allan úrgang dýra, sérstaklega kjúklingadrit. Ef að til faraldurs kemur, er hægt að hægja á útbreiðslu hans með því að leita að H5N1 veirunni í loftsíum flugvéla. Eins og stendur er ekki til bóluefni gegn H5N1, en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni er verið að þróa það. Í ágúst 2005 tilkynntu vísindamenn að þeir hefðu prufað bóluefni á mönnum sem þeir töldu að virkaði gegn fuglaflensunni sem hefur verið að hrjá alifugla í Asíu og Evrópu. Einkenni. H5N1 veldur svipuðum einkennum og aðrar inflúensuveirur sem leggjast á menn, t.d. sótthita, hósta, hálsbólgu, beinverkjum og harðsperrum. Hins vegar verða einkennin önnur í flestum alvarlegri tilfellum, til dæmis lungnabólga og andnauð, sem getur leitt til dauða. Þó hefur tárabólga sjaldan myndast í H5N1 smituðum, en raunin hefur verið önnur með H7 vírusinn. Meðferð. „Neuraminidase“ hemlar, er flokkur lyfja sem hafa áhrif á ákveðin prótín ("neuraminidase") í fuglaflensuveirunni. "Zanamivir" og "oseltamavir" eru lyf af þessari gerð, hið síðara er leyfisskylt sem forvarnar meðferð í Bretlandi. "Oseltamivir", sem „ræðst á vírusa og kemur í veg fyrir frekari útbreiðslu“ inn í sjúklingi, er markaðssett sem Tamiflu af fyrirtækinu Hoffmann-La Roche. Þetta lyf er það sem flestar ríkistjórnir og samtök hafa kosið að nota við undirbúning gegn H5N1 heimsfaraldri. Í ágúst 2005 samþykkti Hoffmann-La Roche að gefa WHO 3 milljón skammta af lyfinu, svo WHO gæti beitt lyfinu á farsóttarsvæðum. Þó svo að Tamiflu sé verndað einkarétti, þá geta ríki samkvæmt alþjóðalögum beitt þvingunarvaldi til þess að framleiða lyf sem bjarga mannslífum. Önnur lyf, svo sem "amantadine" og "rimantadine", hafa áhrif á M2 prótein, sem eru í jónagöngum veiruhimnunnar. Ólíkt "zanamivir" og "oseltamavir", eru þessi lyf ódýr og hafði WHO upprunalega hugleitt að nota slík lyf ef kæmi til heimsfaraldurs. Hins vegar er mögulegt að virkni þessara lyfja hafi slaknað, vegna þess að alifuglar hafa verið fóðraði á "amantadine" með leyfi og hvatningu stjórnvalda í Kína frá 1990 til 2000, sem er óleyfilegt samkvæmt alþjóðareglum um húsdýr; af þessu hlýst gerð af veirunni sem er líkast til ónæmur þessum lyfjum og þar af leiðandi hættulegri mönnum en ella.. Svo virðist, samt sem áður, sem að sú gerð af H5N1 sem borist hefur til Norður-Kína, Rússlands, Mongólíu, Kasakstans og Evrópu með villtum fuglum, sé ekki ónæm "amantadine". Aukin meinvirkni. í júli 2004 bárust fregnir frá rannsóknarteymi, sem var leitt af H. Deng við "Harbin Veterinary Research Institute" og doktor Robert Webster við "St Jude Children's Research Hospital", um niðurstöður rannsókna á músum sem höfðu verið sýktar af 21 mismunandi sýnum af H5N1 úr smituðum öndum sem fengust í Kína á árunum 1999 og 2002. Niðurstöðurnar sýndu „augljóst merki um stundlega aukna meinvirkni“. Dr. Webster sýndi enn fremur fram á frekari aukningu meinvirkni í músum og að meira magn af vírusum losnaði frá öndum, í niðurstöðum sínum í júlí 2005. Myndbreytingarbergsfræði. Myndbreytingarbergsfræði er undirgrein bergfræðinnar sem fæst við rannsóknir á myndbreyttu bergi. Þeir sem leggja stund á greinina kallast myndbreytingarbergsfræðingar. Hliðargreinar myndbreytingarbergsfræðinnar eru setbergsfræði og storkubergsfræði. Gisela Striker. Gisela Striker er prófessor í heimspeki og klassískum fræðum við Harvard-háskóla. Striker fæddist í Þýskalandi. Hún hlaut doktorsgráðu frá Háskólanum í Göttingen. Hún kenndi við háskólann í Göttingen árin 1971-1986 og við Columbia-háskóla árin 1986-1989. Hún kenndi við Harvard háskóla árin 1989-1997. Þá hélt hún til Cambridge-háskóla, þar sem hún kenndi til ársins 2000 en þá sneri hún aftur til Harvard. Striker sérhæfir sig í fornaldarheimspeki og kennir einkum Platon og Aristóteles auk hellenískrar heimspeki og rómverskrar heimspeki. Hún hefur einkum skrifað um helleníska heimspeki, aðallega þekkingarfræði og siðfræði stóumanna, epikúringa og efahyggjumanna og um aristótelíska rökfræði. Heimild. Striker, Gisela Striker, Gisela Frank Plumpton Ramsey. Frank Plumpton Ramsey (22. febrúar 1903 — 19. janúar 1930) var breskur stærðfræðingur, heimspekingur og hagfræðingur. Hann fæddist í Cambridge þar sem að faðir hans var forseti Magdalene skólans. Hann hlaut menntun við Winchester skólann áður en að hann sneri aftur til Cambridge til þess að læra stærðfræði við Trinity skólann. Ævistarf. Hann var þekktur fyrir gáfur sínar, og náði að heilla marga fræðimenn í Cambridge. Hann hafði víðtæka þekkingu á mörgum sviðum, og hafði áhuga á nánast öllu. Í stjórnmálum hallaðist hann að vinstristefnu; í trúarbrögðum var hann, að sögn konu sinnar, „herskár trúleysingi“. Í samtali sem hann átti við C. K. Ogden lýsti hann yfir áhuga á því að læra þýsku. Ogden fékk honum málfræðihefti, orðabók og flókna sálfræðiritgerð og sagði honum að nota heftið og bókina og segja sér svo hvað honum fyndist um ritgerðina. Viku síðar hafði Ramsey ekki eingöngu lært þýsku, heldur hafði hann mótað sér andstæðar skoðanir við þá kenningu, sem sett var fram í ritgerðinni. Síðar notaði hann þessa færni til þess að lesa bókina "Tractatus Logico-Philosophicus" eftir Ludwig Wittgenstein. Honum þótti það mjög tilkomumikið rit og ferðaðist árið 1923 til Austurríkis til þess að ræða um hana við Wittgenstein, sem stundaði þá kennslustörf í litlu þorpi. Árið 1924 varð hann fræðimaður við Kings skólann, eingöngu 21 árs gamall. Hann afkastaði miklu í rökfræði, hagfræði og heimspeki. Árið 1927 gaf hann út áhrifamikla grein „Facts and Propositions“, þar sem hann lagði til fyrstu ofgnægtarkenninguna um sannleika. Ein setninganna, sem Ramsey sannaði í ritgerð sinni „On a Problem of Formal Logic“ árið 1930, sem olli straumhvörfum í rökfræði, ber nú nafn hans, Ramsey setningin. Það var fléttufræðileg niðurstaða, sem gaf til kynna að innan allra nægilega stórra kerfa, óháð ringulreiðinni í þeim, væri til einhver reiða. Hann lagði einnig til hugmyndina um Ramsey verðlagningu í hagfræði, sem gildir í tilfellum þar sem að (stýrður) einokunaraðili vill hámarka ofgnægt hjá neytendum á sama tíma og hann sér til þess að allur kostnaður sé innan skynsamlegra marka. Ramsey og John Maynard Keynes voru góðir vinir, og vinna hins síðarnefnda á sviði líkindafræði hvatti Ramsey til þess að þróa hugmyndir í bayesískri tölfræði. Bruno de Finetti gerði svipaðar rannsóknir, og vinna þeirra beggja varð þekkt á sjötta áratug 20. aldar. Heimspekiritgerðir hans voru m.a. „Universals“ (1925), „Facts and Propositions“ (1927), „Universals of Law and of Fact“ (1928), „Þekking“ (1929), „Kenningar“ (1929) og „General Propositions and Causality“ (1929). Sumir heimspekingar telja hann hafa verið, eða hafa haft getu til þess að verða, jafnvel betri heimspekingur en Wittgenstein. Wittgenstein minnist á hann í inngangi að bók sinni "Rannsóknum í heimspeki" ("Philosophiche Untersuchungen") sem áhrifavald, en þó ekki jafn mikinn áhrifavald og Piero Sraffa. Andlát og arfleið. Ramsey þjáðist af krónísku lifrarvandamáli, og hann lést eftir sýkingu í kjölfar aðgerðar á kviði, aðeins 26 ára gamall. Yngri bróðir Ramseys, Arthur Michael Ramsey, var erkibiskup í Canterbury á árunum 1961 til 1974. Heimildir. Ramsey, Frank Jonathan Barnes. Jonathan Barnes (fæddur 1942) er breskur heimspekingur, heimspekisagnfræðingur, fornfræðingur og þýðandi. Hann er bróðir rithöfundarins Julians Barnes. Ritstýrð verk. Barnes, Jonathan Barnes, Jonathan Útkirtill. Útkirtill (eða pípukirtill) er í dýrafræði kirtill sem seytir því sem hann framleiðir í gegnum pípu. Dæmi um útkirtla eru svitakirtlar, mjólkurkirtlar og munnvatnskirtlar. Andstæða útkirtils er innkirtill. Alfred Jules Ayer. Sir Alfred Jules Ayer (29. október 1910 – 27. júní 1989), betur þekktur sem A. J. Ayer (kallaður Freddie af vinum sínum), var breskur heimspekingur. Hann átti mikinn þátt í að gera rökfræðilega raunhyggju vinsæla í enskumælandi löndum, einkum með bókum sínum "Mál, sannleikur og rökfræði" ("Language, Truth and Logic") (1936) og "Þekkingarvandinn" ("The Problem of Knowledge") (1956). Hann greindi á milli sinnar eigin heimspeki og heimspeki Vínarhringsins með því að nefna heimspeki sína „logical empiricism“ fremur en "logical positivism" (á íslensku er ekki gerður þessi greinarmunur og er hvort tveggja venjulega nefnt "rökfræðileg raunhyggja"). Meginmunurinn var sá að Ayer þáði í arf frá David Hume hugmynd Humes um orsakavensl og féllst á að raunsannindi væri aldrei hægt að sanna eða afsanna með fullnægjandi hætti. Oft er litið fram hjá þessum muni á Ayer og heimspekingum Vínarhringsins. Æviágrip. Ayer hlaut menntun sína í Eton College. Hann gegndi herþjónustu í síðari heimsstyrjöldinni. Sumir hafa litið á Ayer sem heimspekilegan arftaka Bertrands Russell. Ayer ritaði tvær bækur um Russell: "Russell and Moore: The Analytic Heritage" (1971) og "Russell" (1972). Hann ritaði einnig bók um heimspeki Davids Hume fyrir byrjendur. Ayer gegndi stöðu Grote Professor of the Philosophy of Mind and Logic við University College London árin 1946 til 1959. Árið 1959 tók hann við stöðu Wykeham Professor of Logic við Oxford University. Ayer var aðlaður 1970. Hann kvæntist fjórum sinnum. Verk. Ayer ef til vill þekktastur fyrir sannreynslulögmál sitt, sem hann setti fram í "Máli, sannleika og rökfræði" (e. "Language, Truth, and Logic") (1936). Lögmálið kveður á um að setning sé merkingarbær einungis ef hún er sammreynanleg. Að öðrum kosti var hún annaðhvort „analýtísk“ (röksannindi) eða „frumspekileg“ (þ.e. merkingarlaus). Ayer hóf að skrifa bókina 24 ára gamall og hún kom út tveimur árum síðar. Heimspeki Ayers var undir miklum áhrifum frá hugmyndum Vínarhringsins og Davids Hume. Skýr og fjörug framsetning hans hefur gert "Mál, sannleika og rökfræði" eitt meginrita rökfræðilegrar raunhyggju. Bókin er talin sígilt rit um rökgreiningarheimspeki 20. aldar. Að sumu leyti var Ayer heimspekilegur erfingi Bertrands Russell og hann samdi tvær bækur um heimspekinginn: "Russell and Moore: The Analytic Heritage" (1971) og "Russell" (1972). Hann samdi einnig inngangsrit um heimspeki Davids Hume. Árin 1972-73 hélt Ayer Gifford fyrirlestrana við University of St Andrews, en þeir komu síðar út í bókarformi undir titlinum "The Central Questions of Philosophy". Þar kemur fram að hann trúði enn á meginkjarnann í þeirri heimspeki sem hann átti sameiginlega með rökfræðilegu raunhyggjumönnunum: að stór hluti þess sem venjulega er kallað „heimspeki“ - þar á meðal frumspeki, guðfræði og fagurfræði í heild sinni - væru ekki af því tagi að það gæti verið satt eða ósatt og væri þess vegna merkingarlaust. Það kom ekki á óvart að með þessu dvínuðu vinsældir hans innan margra heimspekideilda á Bretlandi. í "The Concept of a Person and Other Essays" (1963) setti Ayer fram gagnrýni á einkamálsrök Wittgensteins. Skynreyndakenning Ayers, sem hann setti fram í ritinu "Foundations of Empirical Knowledge", var gagnrýnd af starfsbróður hans við Oxford háskóla J.L. Austin í fyrirlestrum sem komu seinna út í bókarformi undir titlinum "Sense and sensibilia", en það er talið sígilt rit í heimspeki hversdagsmáls. Ayer brást við gagnrýninni í ritgerðinni „Has Austin Refuted the Sense-data Theory?“, sem er að finna í ritgerðasafni hans "Metaphysics and Common Sense" (1969). John Searle. John Rogers Searle (fæddur 31. júlí 1932) er Slusser-prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hann er einkum kunnur fyrir framlag sitt í málspeki, hugspeki og í heimspekilegri orðræðu um meðvitundina, um einkenni á félagslegum veruleika og efnislegum veruleika og um verklega skynsemi. Hann hlaut Jean Nicod-verðlaunin árið 2000. Málgjörðir. Searle hlaut fyrst eftirtekt fyrir framlag sitt til málspekinnar en hann fékkst einkum við málgjörðir. Hann byggði á kenningum J.L. Austins, Ludwigs Wittgenstein, P.F. Strawsons og H.P. Grice. Searle reyndi að sameina atriði úr heimspeki þessara forvera sinna í bók sinni "Speech Acts" (1969). Megin innblásturinn var fenginn úr verki Austins "How To Do Things with Words". Í "Speech Acts" setur Searle fram nákvæma greiningu á loforðum, sem hann álítur vera fyrirmyndardæmi um talfólgna athöfn, og ýmsum öðrum merkingarfræðilegum reglum, sem eiga að gefa hugboð um fleiri tegundir talfólginna athafna. Í öllum setningunum er staðhæfingarinntakið Sam reykjandi, en þær hafa ólíkan talfólginn mátt (fullyrðing, spurning, skipun og ósk). Í yngra riti sínu "Intentionality" (1983), þar sem nálgunin er í sumum grundvallaratriðum frábrugðin nálgun hans í "Speech Acts", segir Searle að talfólgin athöfn einkennist af því að hafa "uppfyllingarkjör" og "stefnumið" (hugtak sem Searle fær að láni frá G.E.M. Anscombe). Uppfyllingarkjör eru þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að talfólgin athöfn nái marki sínu. Til dæmis er fullyrðingin „Jón keypti tvö súkkulaðistykki“ uppfyllt ef og aðeins ef hún er sönn (í því tilviki kallast uppfyllingarkjörin sannkjör). Aftur á móti er skipunin „Jón, kauptu tvö súkkulaðistykki!“ uppfyllt ef og aðeins ef Jón gegnir og kaupir tvö súkkulaðistykki. Searle segir að í fyrra tilvikinu sé stefnumiðið „frá orði til heimsins“ af því að orðin eiga að falla að því hvernig heimurinn er; en í síðara tilvikinu er stefnumiðið öfugt, þ.e. „frá heimi til orðs“, af því að heimurinn á að taka mið af orðunum og passa við þau. (Einnig er til gagnkvæmt stefnumið og hlutlaust stefnumið.) Íbyggni og bakgrunnurinn. Í "Intentionality: An Essay in the Philosophy of Mind" (1983) freistar Searle þess að beita málgjörðarkenningu sinni í rannsókn á íbyggni, þ.e. tengslunum milli hugar og heims eða merkingar og merkingarmiðs. Í ákveðnum skilningi byggist greinargerð Searles á yfirfærslu tiltekinna einkenna sem hann hafði áður eignað málgjörður yfir á íbyggin viðhorf. Til dæmis er sú skoðun að Jón eigi tvö súkkulaðistykki íbyggið viðhorf sem felst í því að hafa staðhæfingarinntakið fyrir satt. Uppfyllingakjör skoðana eru sannkjör, þ.e. skoðunin er uppfullt ef hún er sönn og stefnumið þeirra eru frá huga til heims. Searle kynnir einnig til sögunnar hugmynd sína um "bakgrunninn", sem hann segir að hafi leitt til mikillar heimspekilegrar umræðu (Searle segir „Enda þótt ég hafi fært rök fyrir þessari kenningu í næstum tuttugu ár er samt margt fólk sem ég met mikils ósammála mér um hana.“) Það sem Searle kallar "bakgrunninn" er ákveðin geta og tilhneigingar sem fólk hefur en sem eru ekki íbyggið ástand. Stundum bætir Searle við hugmyndinni um "netið", sem er net annarra skoðana manns, langana, ótta og svo framvegis sem eru nauðsynleg til þess að eitthvert vit fáist í eitthvert tiltekið íbyggið viðhorf. Svo dæmi sé tekið getum við ímyndað okkur tvo skákmenn sem etja kappi á skákborðinu, en þeir eiga sameiginlegar ýmsar bakgrunnsályktanir: að þeir muni skiptast á að leika, að enginn annar muni skipta sér af, að þeir fari báðir eftir sömu reglunum, að brunabjallan muni ekki hringja, að skákborðið muni ekki skyndilega gufa upp, að mótherjinn muni ekki skyndilega breytast í greipaldin og þar fram eftir götunum. Flest af þessu hvarflar ekki að þeim og því heldur Searle að bakgrunnurinn hljóti að vera ómeðvitaður þótt beina megi athyglinni að ákveðnum atriðum (til dæmis ef brunabjallan fer í gagn). Meðvitund. Searle leiðir rök að því að heimspekin hafi verið föst í svart-hvítri skekkju: að annars vegar sé heimurinn gerður úr engu nema hlutlægum eindum í orkusviði en að engu að síður sé meðvitundin klárlega huglæg fyrstu-persónu upplifun. Tvíhyggjumenn hafna fyrri fullyrðingunni en eðlisfræðiþekking okkar gerir að verkum að kenningar þeirra virðast æ ósennilegri svo að heimspekin, frá og með atferlishyggjunni, hefur hafnað seinni fullyrðingunni. En að hafna seinni fullyrðingunni hefur getið af sér endalaus vandræði og þar með til endalausrar endurskoðunar á atferlishyggjunni (og verkhyggjan er það afbrigði sem nú er í tísku). Searle segir einfaldlega að báðar fullyrðingarnar séu sannar: meðvitundin er raunveruleg huglæg upplifun en er afleiðing efnislegra ferla í heilanum. (Hann leggur til að þessi kenning kallist líffræðileg náttúruhyggja.) Tenglar. Searle, John Searle, John Searle, John Fljótsdalshérað. Fljótsdalshérað er sveitarfélag á mið-Austurlandi sem varð til 1. nóvember 2004, við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs og við þá sameiningu varð til fjölmennasta sveitarfélag á Austurlandi með um 4.000 íbúa, og þar af búa ríflega 2.300 manns í þéttbýlinu á Egilsstöðum og í Fellabæ. Um svæðið fellur Lagarfljót og Jökulsá á Dal. Hallormsstaðaskógur, stærsti skógur landsins, er innan marka sveitarfélagsins, sem er jafnframt landmesta sveitarfélag landsins. Í sveitarfélaginu eru eftirfarandi sveitir, sem eitt sinn voru hver um sig sjálfstætt sveitarfélag: Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Hróarstunga, Fell, Hjaltastaðaþinghá, Eiðaþinghá, Vellir og Skógar (sem áður mynduðu einn hrepp), og Skriðdalur. Húnaþing vestra. Húnaþing vestra er sveitarfélag við Húnaflóa. Það var stofnað 7. júní 1998 við sameiningu allra hinna 7 gömlu hreppa Vestur-Húnavatnssýslu. Þeir voru: Staðarhreppur, Fremri-Torfustaðahreppur, Ytri-Torfustaðahreppur, Kirkjuhvammshreppur, Hvammstangahreppur, Þverárhreppur og Þorkelshólshreppur. Hinn 1. janúar 2012 sameinaðist sveitarfélagið Bæjarhreppi en hefur áfram nafnið Húnaþing vestra. Húnaþing vestra einkennist af fjörðunum þremur; Hrútafirði og Miðfirði, sem eftir sameininguna við Bæjarhrepp eru báðir að öllu leyti í Húnaþingi vestra, og Húnafirði, en vesturhluti hans er í sveitarfélaginu. Á milli þeirra eru nesin Heggstaðanes og Vatnsnes. Helsti þéttbýlisstaður sveitarfélagsins er Hvammstangi en smáþorp eða vísi að þorpum er einnig að finna á Laugabakka, Reykjum í Hrútafirði og á Borðeyri. Aðalatvinnuvegir svæðisins er landbúnaður og sjávarútvegur. Snæfellsbær. Snæfellsbær er sveitarfélag á utanverðu Snæfellsnesi. Það var stofnað 11. júní 1994 með sameiningu Ólafsvíkurkaupstaðar, Neshrepps utan Ennis, Breiðuvíkurhrepps og Staðarsveitar. Bæjarmörk Snæfellsbæjar eru annars vegar í Staðarsveit, rétt vestan við Vegamót og hins vegar að norðan í Búlandshöfða. Bæjarfélagið er um 680 ferkílómetrar að stærð og íbúar þess eru rúmlega 1800 talsins. Flestir búa í þéttbýliskjörnunum Ólafsvík, Rif og Hellissandi, en aðrir íbúar eru dreifðir um sveitir þess, Fróðárhrepp, Breiðuvík og Staðarsveit, eða minni þéttbýliskjarna á Hellnum og Arnarstapa. Í bæjarfélaginu eru því víðáttumikil óbyggð svæði þar sem auðvelt er að komast í snertingu við óspillta náttúru. Hringvegur er um Snæfellsbæ og ef komið er akandi frá Reykjavík eftir vegi 54 er við Fróðárheiði hægt að velja að aka yfir heiðina og norður fyrir og þaðan hring um Jökulinn eða að aka um Útnesveg eftir vegi 574 í hring norðurfyrir. Snæfellsjökull er því nokkurs konar miðja í bæjarfélaginu sem sést víða að. Það sem einkennir Snæfellsbæ fyrst og fremst er hin stórkostlega náttúra sem þar er að finna. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur og landbúnaður. Rangárþing ytra. Rangárþing ytra er sveitarfélag í Rangárvallasýslu. Það varð til 9. júní 2002 við sameiningu þriggja hreppa: Rangárvallahrepps, Holta- og Landsveitar og Djúpárhrepps. Aðalatvinnuvegir eru ferðaþjónusta og landbúnaður. Rangárþing eystra. Rangárþing eystra er sveitarfélag í Rangárvallasýslu. Það var stofnað 9. júní 2002 með sameiningu Austur-Eyjafjallahrepps, Vestur-Eyjafjallahrepps, Austur-Landeyjahrepps, Vestur-Landeyjahrepps, Fljótshlíðarhrepps og Hvolhrepps. Helstu atvinnuvegir eru ferðaþjónusta og landbúnaður. Reykhólahreppur. Reykhólahreppur er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og Þörungaverksmiðja er starfrækt á Reykhólum. Hinn upphaflegi Reykhólahreppur náði frá Kambsfjalli vestur að Múlaá í Þorskafirði, en 4. júlí 1987 sameinuðust allir hreppar í Austur-Barðastrandarsýslu undir nafni Reykhólahrepps. Hinir fjórir voru Geiradalshreppur, Gufudalshreppur, Múlahreppur og Flateyjarhreppur. Saurbæjarhreppur (Dalasýslu). Saurbæjarhreppur í Dalasýslu (til 2006) Saurbæjarhreppur var hreppur í norðanverðri Dalasýslu. Íbúafjöldi 1. desember 2005 var 77. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Saurbæjarhreppur Dalabyggð undir merkjum Dalabyggðar. Þórshafnarhreppur. Þórshafnarhreppur milli 1994 og 2006 Þórshafnarhreppur var hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann var stofnaður 1. janúar 1947 þegar kauptúnið Þórshöfn var skilið frá Sauðaneshreppi. Hrepparnir tveir sameinuðust á ný 11. júní 1994, þá undir nafni Þórshafnarhrepps. Varð hreppurinn þar með 728 km² að flatarmáli og náði yfir mestallt Langanes og heiðarnar milli Hafralónsár og sýslumarka. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur og landbúnaður. Íbúafjöldi 1. desember 2005 var 417. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Þórshafnarhreppur Skeggjastaðahreppi undir nafninu "Langanesbyggð". Lamakkos. Lamakkos () (dáinn) var aþenskur herforingi sem tók þátt í herförinni til Sikileyjar árið Gamanleikjaskáldið Aristófanes gerir grín að Lamakkosi í gamanleiknum "Akarníumenn" frá Sænska. Sænska er norrænt tungumál, sem aðallega er talað í Svíþjóð og nokkrum hlutum Finnlands, aðallega með ströndum Eystrasalts og á Álandseyjum, samanlagt nærri 9,5 milljónir talendur. Sænska er gagnkvæmt skiljanleg dönsku og norsku. Stöðluð sænska (ríkissænska) er sameiginleg þjóðtunga sem varð til úr mállýskum Mið-Svíþjóðar á 19. öld og var endanlega formuð í byrjun 20. aldar. Þrátt fyrir að ríkismálið er allsráðandi í fjölmiðlum og skólum eru enn til sterkar svæðisbundnar mállýskur. Sumar þessar mállýskur eru talsvert frábrugðnar ríkismálinu bæði varðandi málfræði og orðaforða og margar nánast óskiljanlegar fyrir aðra. Nefna má gotlensku, skánsku, älvdölsku, jamsku, bondsku og finnlandssænsku. Allar þessar mállýskur eiga þó í vök að verjast gegn ríkismálinu (og finnsku í Finnlandi). Þjóðtungur eða mállýskumunur. Ef farið væri eftir venjulegum reglum um skilgreiningu á sjálfstæðum málum mundu skandinavísku málin, danska, norska og sænska vera álitin mállýskuafbrigði af sameiginlegu tungumáli. Af sögulegum (meðal annars mörgum og löngum stríðum milli danaveldis og svía á 16. og 17. öld) og pólitískum ástæðum hafa þó skapast sérstakar reglur fyrir hvert mál um málfræði og orðaforða. Á landamærasvæðum Noregs og Svíþjóðar er ekki hægt af talmáli fólks að afgera hvort það talar norsku eða sænsku. Söguágrip. Fornausturnorræna er í Svíþjóð nefnd "rúnasænska" og í Danmörku "rúnadanska", þó að fram á 12. öld hafi sama mál verið talað á báðum landsvæðunum. Málin eru nefnd "rúnamál" vegna þess að allt ritmál sem til er frá þessum tíma er rúnaletur. Megnið af fornnorrænu rúnasteinunum eru áletraðir með yngra Fuþark stafrófinu sem einungis hafði 16 bókstafi. Vegna þess að svo fáa stafi var um að velja var hver stafur notaður fyrir mörg hljóð. Til dæmis var sérhljóðið "u" einnig notað fyrir "o", "ø" og "y", og rúnin "i" var notuð fyri "e". Ein af þeim breytingum sem aðgreindi fornausturnorrænu (rúna- sænsku og dönsku) var hljóðbreyting tvíhljóðsins "æi" (fornvesturnorræna "ei") í einhljóðið "e", eins og í "stæin" yfir í "sten". Þetta sést á rúnasteinunum þar sem á þeim eldri stendur "stain" og yngri "stin". Einnig breytist "au" eins og í "dauðr" yfir í "ø" eins og í "døðr". Á sama hátt breyttist tvíhljóðið "øy" (fornvesturnorræna "ey") yfir í "ø". Á miðöldum breytist smám saman við ritun latínutexta á Norðurlöndum "ae" í æ – og einnig stundum í a' –. Samsetningin "aa" varð á sama hátt að aa, og "oe" varð oe. Þessir þrír bókstafir urðu á sænsku ä, å og ö. Framburður. Sænska er frábrugðin flestum öðrum málum í hljómfalli, sem er mjög misjafnt í mállýskum. Hér er bæði um mismunandi áherslur og tónhæð að ræða. Í málinu eru óvenju mörg sérhljóð, níu sérhljóð sem eru aðskild eftir lengd og tónhæð, samanlagt 17 sérhljóða fónem. Sænska hefur einnig sérstöðu hvað varðar þau fónem sem á sænsku oft eru kölluð sje-hljóðin. Þó að þessi hljóð minni að nokkru á hliðstæð varahljóð í öðrum tungum eru þau í raun einstæð fyrir sænsku. Ritmál. Sænska stafrófið hefur 28 bókstafi: 26 bókstafi latneska stafrófsins með undantekningu fyrir 'W', ásamt þremur eigin stöfum "Å" / "å" (borið fram eins og íslenskt o, "Ä" / "ä" (borið fram líkt og íslenskt e), og "Ö" / "ö" (sem er borið fram opnara en á íslensku). W er einungis notað í nöfnum og erlendum orðum og er borið fram eins og V. Sveitarfélagið Vogar. Sveitarfélagið Vogar (áður Vatnsleysustrandarhreppur) er sveitarfélag á norðanverðum Reykjanesskaga. Flestir íbúar sækja vinnu annars staðar, t.d til Reykjavíkur eða Keflavíkur en áður byggðist atvinnulífið að mestu á sjósókn. Í sveitarfélaginu er byggðarlagið Vogar, þar búa 1.161 manns. Víkin sem þorpið stendur í heitir Vogavík en þorpið hét áður Kvíguvogar og Vogastapi sunnan þorpsins hét Kvíguvogabjörg. Í Stakksfirði undan Vogastapa voru góð fiskimið, sem hétu Gullkistan. Vogar eru í 14km fjarlægð frá Reykjanesbæ og 25km fjarlægð frá Hafnarfirði. Staðhættir Voga eru þeir að byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni, þó ekki samfelld. Nokkrir bændur voru nokkuð á undan sinni samtíð og urðu brautryðjendur á ýmsan hátt. Bóndi nokkur í Vogum keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Þá var annar bóndi á Vatnsleysuströnd sem kom fyrstur manna fram með þá hugmynd að friða Faxaflóa fyrir erlendum fiskveiðiskipum. Strax á landnámsöld kemur staðurinn við sögu. Jörðin Stóru-Vogar var höfuðból um aldir og fylgdu því mörg smábýli. Á öldum áður var hálfkirkja í Vogum en sóknarkirkja sveitarinnar er á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Margir fallegir staðir eru í nágrenni Voga svo sem Kálfatjarnarkirkja, Staðarborg, Vogastapi og Vogatjörn. Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa og er hún á Vatnsleysuströnd. Kirkjan var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Upprisan er á altaristöflu Kálfatjarnarkirkju. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð. Skaftárhreppur. Skaftárhreppur er sveitarfélag sem nær yfir alla Vestur-Skaftafellssýslu að Mýrdalshreppi undanskildum. Hreppurinn varð til 10. júní 1990 við sameiningu 5 hreppa: Álftavershrepps, Leiðvallarhrepps, Skaftártunguhrepps, Kirkjubæjarhrepps og Hörgslandshrepps. Þéttbýlið Kirkjubæjarklaustur stendur við Skaftá og þar er hægt að finna markverða staði eins og Systrafoss, Systrastapa og Stjórnarfoss. Hreppurinn einkennist af landbúnaði og að þar rann eitt víðfeðmasta hraun landsins úr Lakagígum á 18. öld. Mýrdalshreppur. Mýrdalshreppur er sveitarfélag sunnan Mýrdalsjökuls, vestast í Vestur-Skaftafellssýslu. Það varð til 1. janúar 1984 við sameiningu Dyrhólahrepps og Hvammshrepps. Hreppurinn afmarkast af Jökulsá á Sólheimasandi og Sólheimajökli að vestan og Blautukvísl á Mýrdalssandi og Kötlujökli að austan. Aðalbyggðin er í Mýrdal, sem hreppurinn dregur nafn af, og er sveitin öll jafnframt kölluð Mýrdalur. Sveitin er víða mjög grasgefin og græn en þar eru jafnframt miklir sandar og stórbrotin náttúra, klettótt fjöll og hrikaleg gljúfur, og andstæður því miklar. Mýrdalsjökull með eldstöðinni Kötlu gnæfir yfir Mýrdal. Þorpið Vík í Mýrdal stendur við sjó austan Reynisfjalls og er eina sjávarþorpið á Íslandi sem ekki hefur höfn. Aðalatvinnuvegur hreppsbúa er landbúnaður og á síðari árum einnig ferðaþjónusta. Mýrdalshreppur er syðsti hreppur landsins með syðstu veðurathugunarstöð landsins, að Vestmannaeyjum undanskildum, og er veðurathugunarstöðin á Reyni í Reynishverfi. Ásahreppur. Ásahreppur er hreppur vestast í Rangárvallasýslu. Hann varð til 11. júlí 1892 þegar Holtamannahreppi var skipt í tvennt, í Holtahrepp hið efra og Ásahrepp hið neðra. Ásahreppi sjálfum var skipt í tvennt 1. janúar 1938 og varð neðri hlutinn að Djúpárhreppi en sá efri hélt nafninu óbreyttu. Áshreppingar hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og öðrum þjónustugreinum. Náttúran er mjög fjölbreytt, mýrlent á köflum en ásar og holt á milli þar sem bændabýlin standa 3 - 5 í þyrpingum eða hverfum, sem einkenna byggðamynstur sveitafélagsins. Stærsta varpland grágæsar á Íslandi er við Frakkavatn. Þjórsá rennur við hreppamörkin og sýslumörkin í vestri. Afréttur Ásahrepps er 4/7 hlutar af Holtamannaafrétti á móti 3/7 eignarhluta Rangárþings ytra. Holtamannaafréttur nær meðal annar yfir austurhluta Þjórsárvera, og vesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Um Holtamannaafrétt liggur Sprengisandsvegur milli Suður- og Norðurlands. Súlurit. Súlurit er í gagnatækni gerð grafs með rétthyrndum súlum, oftast í réttum hlutföllum við hvora aðra, sem hver um sig táknar ákveðið magn. Oftast er slíkt graf tvívítt og er magnið oftast mælt á lóðrétta ásnum og gildið á lárétta ásnum, en einnig eru til þrívíð súlurit og súlurit þar sem magnið er mælt á lárétta ásnum og gildið á þeim lóðrétta. Kartesíusarhnitakerfið. Kartesíusarhnitakerfið eða rétthyrnt hnitakerfi er hnitakerfi með tvo eða þrjá ása eftir því hvort það er í tví- eða þrívídd. Ásar þessir eru hornréttir hver á annan og kallast "x-ás", "y-ás" og "z-ás". Kerfið er nefnt eftir franska heimspekingnum René Descartes ("Cartesius" á latínu), sem fann það upp. Tjörneshreppur. Tjörneshreppur er hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu. Nær hann yfir norður- og vesturströnd Tjörness að Héðinsvík norðan Húsavíkur og einnig yfir megnið af fjalllendinu sem á skaganum er. Tjörneshreppur í núverandi mynd var stofnaður árið 1912 þegar Húsavíkurhreppi var skipt í tvo hluta. Hreppinn mynduðu sveitirnar norðan og sunnan Húsavíkur, Tjörnes og Reykjahverfi, en Húsavíkurkauptúnið ásamt næsta nágrenni þess hét áfram Húsavíkurhreppur og lá hann eins og fleygur í gegnum miðjan Tjörneshrepp eins og hann var þá. Svo fór, að hreppnum var aftur skipt í tvennt 1. janúar 1933 og varð þá syðri hlutinn, Reykjahverfi, að Reykjahreppi. Frá því á 11. öld var svæðið frá jörðinni Máná nyrst á Tjörnesi, byggðin með strönd nessins að vestan allt að botni Skjálfandaflóa og Reykjahverfi til og með gömlu jörðinni Reykjum þar í hverfinu, eitt sveitarfélag sem þá nefndist Tjörneshreppur, stundum á síðari árum nefndur Tjörneshreppur hinn forni. Á 18. eða 19. öld breyttist nafnið í Húsavíkurhrepp en þar var þingstaður hreppsins og 1912 þegar þéttbýlið í Húsavík varð sérstakt sveitarfélag hélt það eðlilega því nafni. Flestir íbúar lifa af landbúnaði eða sækja vinnu á Húsavík. Aðalskipulag er í gildi og er hægt að nálgast það á heimasíðu. Íbúar Tjörneshrepps felldu tillögu um sameiningu sveitarfélaga í Suður-Þingeyjarsýslu í atkvæðagreiðslu sem fór fram 8. október 2005. Alls voru 54,1% á móti sameiningu og 45,9% fylgjandi. Á kjörskrá voru 53. Albert Einstein. Albert Einstein (14. mars 1879 í Ulm í Bæjaralandi, Þýskalandi – 18. apríl 1955 Princeton, New Jersey, Bandaríkjunum) var kennilegur eðlisfræðingur. Hann fæddist í Ulm, Þýskalandi og var af gyðingaættum. Foreldrar hans hétu Pauline og Hermann. Hann er einn af best þekktu vísindamönnum 20. aldarinnar. Hann lagði til afstæðiskenninguna — sem er líklega hans þekktasta verk — og höfðu rannsóknir hans einnig mikil áhrif á skammtafræði, safneðlisfræði og heimsfræði. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1921 fyrir rannsóknir sínar á ljóshrifum sem hann birti árið 1905 (Annus Mirabilis; þetta sama ár komu út þrjár greinar eftir hann, en hver þeirra olli straumhvörfum í eðlisfræði) og verðlaun fyrir „þjónustu sína við kennilega eðlisfræði“. Líf og störf. Einstein bjó í München mesta bernsku sína, með foreldrum sínum. Hann olli þeim áhyggjum vegna seinþroska síns. Sem barn lærði hann seint að tala, var lítt gefinn fyrir stríðsleiki og leiddist í skóla. Ungur að árum gerðist Einstein svissneskur ríkisborgari, en í Sviss nam hann stærðfræði og eðlisfræði. Árið 1902 fær hann vinnu á einkaleyfaskrifstofu í Bern, þar sem hann vann til 1909 meðan hann lagði drög að kenningum sínum í frístundum. Árið 1911 fékk Einstein prófessorsstöðu í Prag og síðan í Zürich og Berlín. Hann starfaði innan háskóla þaðan í frá. Árið 1905 birti Einstein þrjár merkilegar ritgerðir. Ein þeirra hét „Um rafsegulfræði hluta á hreyfingu“ en í henni setti hann fram takmörkuðu afstæðiskenninguna. Takmarkaða afstæðiskenningin segir fyrir um það að massi hluta fari eftir hraða þeirra. 1916 birti Einstein almennu afstæðiskenninguna í nokkrum ritgerðum. 1919 var kenningin staðfest með frægri athugun, við sólmyrkva, á sveigju ljóss sem berst frá fjarlægri stjörnu, vegna þyngdarafls sólar. 1921 fékk Einstein Nóbelsverðlaun fyrir framlag sitt til eðlisfræðinnar. Einstein var af Gyðingaættum og hrökklaðist frá Þýskalandi nasismans til Princeton í Bandaríkjunum árið 1933. Þar bjó hann til dauðadags. Hann giftist serbneskri unnustu sinni, Milevu Marić, 1903, en þau skildu 1919. Þau eignuðust þrjú börn saman, stúlkuna "Liserl" (1902- ?), sem var gefin til ættleiðingar og dó úr skarlatssótt, synina "Hans Albert" (1904-1973) og "Eduard Tete" (1910-1965). Hans Albert varð prófessor í verkfræði við Berkeley-háskólann, en Eduard þjáðist af geðklofa. Mileva nam stærðfræði og eðlisfræði, en þau Einstein unnu saman að rannsóknum, þó ekki séu til heimildir fyrir því að Mileva hafi með beinum hætti komið að Nóbelsverðlaunagreininni né Afstæðiskenningunni. Einstein giftist náfrænku sinni Elsu 1919, en hún átti fyrir tvær dætur, sem þau ólu upp saman. Afstæðiskenningin. Afstæðiskenning Einsteins er yfirleitt sett fram í tvennu lagi eins og hann gerði raunar líka þegar hann birti hugmyndir sínar. Er þá talað um takmörkuðu afstæðiskenninguna annars vegar og hins vegar um almennu afstæðiskenninguna. Kjarna fyrri kenningarinnar birti Einstein í einni tímaritsgrein árið 1905 en hann lauk við að birta meginatriði almennu kenningarinnar árið 1916. Í takmörkuðu kenningunni er megináhersla lögð á ljósið og hluti sem nálgast ljóshraða en í þeirri almennu eru þyngdarkraftar líka teknir með í reikninginn og meðal annars lýst þeim áhrifum sem þeir hafa á rúmið. Kenning sú er ófullkomin þegar maður nýtir hana við tilfelli sem gerast undir smæð atóms, en þar hættir hún að virka. Skammtafræðikenningin á að leysa þann vanda, en Einstein sjálfur átti nokkurn þátt í uppbyggingu hennar. Vísindamönnum hefur gengið illa að samvefja þessar tvær kenningar, en þegar það tekst munu þeir líklega kalla þá kenningu "Kenninguna um Allt". Norræn tungumál. Norræn eða norðurgermönsk tungumál eru Indóevrópsk tungumál sem aðallega eru töluð á Norðurlöndum. Þau tilheyra flokki germanskra tungumála. a> og græni liturinn sýnir aðrar germanskar mállýskur sem norrænir menn gátu skilið og gert sig skiljanlega við talendur þeirra. Ef gagnkvæmur skilningur er lagður sem grundvöllur fyrir skiptingu í mál Tenglar. * Dagur íslenskrar tungu. Dagur íslenskrar tungu er íslenskur hátíðardagur, 16. nóvember, tileinkaður íslensku. Haustið 1995 lagði menntamálaráðherra til að einn dagur ár hvert yrði tileinkaður íslensku og átak gert í varðveislu hennar. Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar var valinn til minningar um framlag hans til íslenskunnar. Fyrsti dagur íslenskrar tungu var 16. nóvember 1996 og hefur verið haldinn síðan árlega. Austurnorræn tungumál. Austurnorræn mál eru danska og sænska. Málsögulega eru gotlenska og skánska einning sjálfstæð tungumál en hafa á síðustu öldum orðið að mállýskum í sænsku. Gotlenska. Gotlenska eða eygotnenska ("gutniska", "gutamål") er nafnið á því tungumáli eða mállýsku sem talað er á eyjunni Gotland í Svíþjóð. Gotlenska er af germönsku málaættinni og er eitt af norrænu tungumálunum. Gotlenskan á rætur í eigin fornmáli öfugt við aðrar sænskar mállýskur og hefur hvorki þróast úr fornsænsku, forndönsku né fornnorsku. Sísjóriða. Sísjóriða (franska og enska: "Mal de Debarquement Syndrome", skammstafað "MdDS") er líkamlegur kvilli sem lýsir sér í því að sjúklingurinn finnur fyrir sjóriðu löngu eftir að hann er kominn á fast land. Tilfinningin getur horfið eftir nokkra mánuði en dæmi eru um fólk sem hefur þjáðst af sísjóriðu árum saman. Ekki er vitað af hverju kvillinn stafar en helst er giskað á að innra eyrað nái ekki að stilla sig eftir veltuna á sjónum. Engin úrræði eru til staðar fyrir sjúklinga. Hrafntinna. Hrafntinna er afbrigði náttúrulegs glers, sem myndast í eldgosum þegar feldspatshraun kólnar og storknar mjög hratt, en kristallast ekki. Ekki má rugla hrafntinnu saman við eldtinnu. Lýsing. Líparítgler og er hrafnsvört eða dökkgrá á lit með glergljáa. Hrafntinna flokkast sem storkuberg og steindarlíki en ekki til steinda þar sem hún er ekki kristölluð. Hún samanstendur aðallega af kísli (SiO2) eða rúmlega 70% og samsetning hennar er mjög svipuð og í graníti og líparíti. Vegna þess að hrafntinna kristallast ekki geta hvassar hliðar hennar orðið næstum jafn þunnar og sameind. Útbreiðsla. Helstu fundarstaðir á Íslandi eru hrafntinnuhraunin hjá Torfajökli og Hrafntinnuhryggur við Kröflu. Froskdýr. Froskdýr (fræðiheiti: "Amphibia") eru flokkur seildýra sem inniheldur allar tegundir ferfætlinga sem ekki eru líknarbelgsdýr. Þau skiptast í þrjá ættbálka, ormakörtur, salamöndrur og froska. Í þróunarstiganum eru þau mitt á milli fiska og skriðdýra og voru fyrstu hryggdýr á landi fyrir um það bil 370 miljónum ára. Froskdýr lifa um allan heim nema á köldustu svæðum, eru með misheitt blóð og kirtlaríka húð sem hefur hvorki hár, hreistur né fjaðrir. Þau anda bæði með húð og lungum og lifa mest á skordýrum, sniglum og ormum. Þau gjóta eggjum sínum oftast í vatni og festa þau í klasa eða lengjur við vatnaplöntur. Lirfurnar nefnast halakörtur og anda með tálknum. Fullorðin dýr lifa lengstum bæði á landi og í vatni, en hafa ekki aðlagast fullkomlega lífi á þurru landi eingöngu líkt og flestir aðrir ferfætlingar. Um 5.700 tegundir froskdýra eru til. Skriðdýrafræði er sú vísindagrein sem fæst við rannsóknir bæði á froskdýrum og skriðdýrum. Blaise Pascal. Blaise Pascal (19. júní 1623 — 19. ágúst 1662) var franskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og trúaður heimspekingur. Hann var undrabarn og sýndi ungur að aldri fram á mikla stærðfræðihæfileika. Hann hlaut menntun hjá föður sínum, sem hélt honum þó frá stærðfræði eins og hann gat til þess að ýta undir önnur áhugasvið. Sextán ára gamall gerði Pascal merkilega uppgötvun um keilusnið, en átján ára hannaði hann reiknivél sem hann byggði og seldi. Pascal, ásamt Pierre de Fermat, lagði grunninn að nútíma líkindafræði, en í því verki gerði hann ýmsar uppgötvannir varðandi það sem í dag er þekkt sem Pascalsþríhyrningurinn. Árið 1654 hætti Pascal stærðfræðilegum rannsóknum eftir trúarlega upplifun og helgaði sig eftir það guðfræði. Hann heimsótti aðeins heim stærðfræðinnar einu sinni eftir það: Eina nóttina var hann með mikla tannpínu, og leitaði hann náðar í vangaveltum um hjólferla. Við það hjaðnaði verkurinn, og hann tók því sem guðdómlegt tákn um ágæti stærðfræðinnar. SI-mælieining þrýstings, paskal er nefnd eftir honum. Hann var fremur heilsulítill alla ævi og lést hann tveimur mánuðum eftir 39. afmælið sitt. Öndun. Tálknin eru greinileg aftan við höfuðið á lirfum vatnasalamöndru. Öndun er í líffræði það ferli lífvera að taka inn í líkama sinn súrefni og breyta því í koltvíoxíð og losa sig þannig við kolefni. Það líffærakerfi sem sér um öndunina kallast öndunarkerfið. Pascal-þríhyrningur. Ellefu-veldið. Reglan fellur þó ekki um sig á efri stigum, heldur verður hún bara ekki jafn ljós - formula_7, augljóslega, heldur formula_8. Þ.e., þar sem að tugir koma fyrir í gildum þríhyrningsins legst tugurinn við næsta sæti fyrir ofan, og einingin verður eftir. Einkenni Vandermondes. Þessi regla er kennd við Alexandre-Théophile Vandermonde, sem uppgötvaði regluna á átjándu öld. Tvíliðureglan. Tvíliðureglan notast við stuðla úr Pascal-þríhyrningnum. Til dæmis er formula_11, en stuðlarnir (í svigum) passa við 5. línu Pascal þríhyrningsins (fyrsta línan samsvarar formula_12). Fibbonacci runan. Fibbonacci runan í Pascal þríhyrningnum. Ef summaðar eru upp gráleitu tölurnar er summan stak í Fibbonacci rununni. Sama gildir um innrömmuðu tölurnar, og hvaða skálínu sem er. Mjallhvít, æfintýri handa börnum. Mjallhvít í glerkistunniMjallhvít, ævintýri handa börnum er bók um ævintýrapersónuna Mjallhvíti og tilraunir stjúpmóður hennar til að ráða hana af dögum. Bókin var þýdd af Magnúsi Grímssyni. Hún var upprunalega gefin út af E. Jónssyni árið 1852 og prentuð af Louis Klein í Kaupmannahöfn. Bókin var svo endurútgefin 10. október 2005 af Project Gutenberg, enda þá ekki lengur vernduð af höfundarétti, Jóhannes Birgir Jensson sá um þá útgáfu. 17 litmyndir eru í bókinni, stafsetning er örlítið frábrugðin nútímastafsetningu. Magnús Grímsson. Magnús Grímsson (fæddist 3. júní 1825, dó 18. janúar 1860) safnaði íslenskum þjóðsögum ásamt Jóni Árnasyni og gáfu þeir út ritið "Íslenzk æfintýri" árið 1852. Sama ár kom út íslensk þýðing Magnúsar á ævintýrinu um Mjallhvíti, bókin "Mjallhvít, æfintýri handa börnum". Jón Árnason (1819). Jón Árnason (17. ágúst 1819 – 4. september 1888) var íslenskur fræðimaður sem safnaði þjóðsögum, aðallega íslenskum, og gaf út. Jón var fæddur á Hofi á Skagaströnd,sonur séra Árna Illugasonar, sem var prestur þar frá 1796-1825 og þriðju konu hans, Steinunnar Ólafsdóttur. Faðir Jóns var orðinn hálfsjötugur þegar hann fæddist og lést þegar drengurinn var nýorðinn sex ára. Sagði Jón frá því seinna að hann hefði verið einn hjá föður sínum þegar hann dó. Móðir Jóns var síðan lengi ráðskona á Syðri-Ey og Auðkúlu. Jón var settur til mennta og lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla. Hann var bókavörður á árunum 1848-1887, fyrst á Stiftsbókasafninu en þegar safnið fékk titilinn Landsbókasafn Íslands árið 1881 varð hann fyrsti Landsbókavörður Íslands. Hann var einnig fyrsti forstöðumaður Forngripasafns Íslands, síðar Þjóðminjasafnið, þegar það var stofnað árið 1863. Lengi vel sá hann einn um bæði söfnin. Tekjurnar af þessum störfum voru ekki háar og hann var því jafnframt biskupsritari um tíma og kenndi einnig við Lærða skólann og var bókavörður þar. Jón varð fyrir áhrifum frá Grimmsbræðrum og fór að safna þjóðsögum og ævintýrum í samstarfi við Magnús Grímsson. Þeir gáfu út "Íslenzk æfintýri" árið 1852. Sú útgáfa hlaut dræmar viðtökur. Þeir tóku aftur upp söfnun sagna vegna hvatningar frá Konrad von Maurer. Magnús dó 1860 en Jón hélt söfnuninni áfram. Á árunum 1862 til 1864 kom svo út stórvirki hans, "Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri" í tveimur bindum og var það prentað í Leipzig með liðsinni Maurers. Safnið var seinna gefið út í sex bindum. Kona Jóns var Katrín Þorvaldsdóttir Sívertsen úr Hrappsey, systir Kristínar konu Jóns Thoroddsen. Þau áttu einn son sem dó ungur. Jaegwon Kim. Jaegwon Kim (fæddur 12. september 1934 í Daegu í Kóreu, nú Suður-Kóreu) er bandarískur heimspekingur sem fæst einkum við frumspeki, hugspeki og athafnafræði, þekkingarfræði og vísindaheimspeki, og er aðallega þekktur fyrir verk sín um takmarkanir efnishyggjukenninga. Kim er William Herbert Perry Faunce prófessor í heimspeki við Brown University Kim lauk A.B.-gráðu frá Dartmouth College og Ph.D.-gráðu frá Princeton University. Hann hefur kennt heimspeki við Swarthmore College, Cornell University, Johns Hopkins University og University of Michigan í Ann Arbor. Síðan árið 1987 hefur hann gegnt stöðu William Herbert Perry Faunce prófessors í heimspeki við Brown University. Kim var forseti American Philosophical Association (Central Division) árið 1988-89. Hann hefur verið félagi í American Academy of Arts and Sciences síðan 1991 og í ritstjórn heimspekitímaritsins Noûs síðan 2000. Tengill. Kim, Jaegwon Kim, Jaegwon Kim, Jaegwon Dýragarðurinn í Leipzig. Dýragarðurinn í Leipzig (þýska: "Zoologischer Garten Leipzig") er 22,5 hektara (0,225 km²) dýragarður í Leipzig í Þýskalandi stofnaður 9. júní 1878. Árið 2005 voru um 900 dýr í vörslu hans. Kembur. Kembur (eða græneðlur) (fræðiheiti: "Iguana") er ættkvísl eðlna af kembuætt sem inniheldur 13 tegundir. Þekktust af þessum tegundum er græneðlan sem á heimkynni sín frá Mexíkó til Brasilíu. Kembur eru flestar jurta-, lauf- og ávaxtaætur en tegundir af ættkvíslinni éta einnig hryggleysingja í æsku. Samantekt. Samantekt er í stærðfræði aðferð til þess að reikna svarið við spurningunni „"á hve marga vegu get ég valið "r" stök úr "n" staka mengi?"“. Samantekt "r" hluta kallast "r"-samantekt, og er óraðað val "r" hluta úr safninu. Reiknireglan er leidd út frá margföldunarreglunni og segir að þar sem velja má formula_1 hluti úr formula_1 staka mengi með óröðuðum hætti á formula_3 vegu, þá gildi að hægt sé að velja formula_4 hluti úr formula_1 staka mengi á mismunandi vegu, en það er skrifað á ýmsa vegu: formula_7. Rithátturinn formula_8 er algengastur, en hann er notaður í tvíliðureglunni til þess að tákna stuðul við hvern lið, og er þetta því einnig kallað tvíliðustuðull. Samantektir koma einnig fyrir í Pascal-þríhyrningnum, ásamt ýmsum fléttufræðilegum reglum. Skorradalshreppur. Skorradalshreppur er hreppur í sunnanverðum Borgarfirði. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Skorradalshreppur nær yfir allan Skorradal og er eini hreppur í Borgarfirði sem ekki tilheyrir Borgarbyggð. Torfalækjarhreppur. Torfalækjarhreppur var hreppur í Austur-Húnavatnssýslu til ársloka 2005. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 92. Hinn 1. janúar 2006 sameinaðist hann Bólstaðarhlíðarhreppi, Sveinsstaðahreppi og Svínavatnshreppi og var hið nýja sveitarfélag kallað Húnavatnshreppur. Sveinsstaðahreppur. Kort sem sýnir hreppinn fyrir sameininguna 2005. Sveinsstaðahreppur var hreppur í Austur-Húnavatnssýslu fram til ársloka 2005. Hreppurinn var kenndur við Sveinsstaði í utanverðum Vatnsdal. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 92. 20. nóvember 2004 samþykktu íbúar sveitarfélagsins sameiningu við Bólstaðarhlíðarhrepp, Svínavatnshrepps og Torfalækjarhrepp og gekk hún í gildi 1. janúar 2006. Nýja sveitarfélagið hlaut nafnið Húnavatnshreppur í fyrstu kosningunum í sameinuðu sveitarfélagi 10. desember 2005. Hvalfjarðarstrandarhreppur. Hvalfjarðarstrandarhreppur (einnig nefndur Strandarhreppur) var hreppur í sunnanverðri Borgarfjarðarsýslu, milli Hvalfjarðar og Skarðsheiðar. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 147. Hinn 1. júní 2006 sameinaðist Hvalfjarðarstrandarhreppur Innri-Akraneshreppi, Leirár- og Melahreppi og Skilmannahreppi undir nafninu "Hvalfjarðarsveit". Svínavatnshreppur. Svínavatnshreppur (áður kallaður Svínadalshreppur) var hreppur í Austur-Húnavatnssýslu fram til ársloka 2005. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Fólksfjöldi 1. desember 2004 var 116. Hinn 1. janúar 2006 sameinaðist hann Bólstaðarhlíðarhreppi, Sveinsstaðahreppi og Torfalækjarhreppi og var hið nýja sveitarfélag kallað Húnavatnshreppur. Skilmannahreppur. Skilmannahreppur var hreppur í sunnanverðri Borgarfjarðarsýslu, milli Hvalfjarðar og Leirárvogs. Aðalatvinnuvegur var landbúnaður. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 214. Hinn 1. júní 2006 sameinaðist Skilmannahreppur Innri-Akraneshreppi, Leirár- og Melahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi undir nafninu "Hvalfjarðarsveit". Innri-Akraneshreppur. Innri-Akraneshreppur var hreppur í sunnanverðri Borgarfjarðarsýslu, sunnan megin á Akranesi. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 113. Hreppurinn varð til árið 1885 við skiptingu Akraneshrepps sem ákveðin var í kjölfar þéttbýlismyndunar á Skipaskaga. Kauptúnið þar ásamt næsta nágrenni varð að "Ytri-Akraneshreppi" og síðar Akraneskaupstað en "Innri-Akraneshreppur" einkenndist áfram af landbúnaði. Hinn 1. júní 2006 sameinaðist Innri-Akraneshreppur Skilmannahreppi, Leirár- og Melahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi undir nafninu "Hvalfjarðarsveit". Leirár- og Melahreppur. Leirár- og Melahreppur var hreppur í norðanverðum Hvalfirði. Aðal atvinnuvegur er landbúnaður. Leirár- og Melahreppur hefur nú verið sameinaður Hvalfjarðarstrandarhreppi, Innri-Akraneshreppi og Skilmannahreppi undir nafninu Hvalfjarðarsveit og tók nýja sveitarfélagið til starfa 1. júní 2006. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 129. Borgarfjarðarsveit. Borgarfjarðarsveit var sveitarfélag inn af Borgarfirði. Það varð til 7. júní 1998 við sameiningu 4 hreppa: Andakílshrepps, Hálsahrepps, Reykholtsdalshrepps og Lundarreykjadalshrepps. Borgarfjarðarsveit var 270 km² að stærð og íbúar 732 talsins (1. desember 2005). Aðalatvinnuvegir eru landbúnaður, ferðaþjónusta og önnur þjónustustörf. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Borgarfjarðarsveit Borgarbyggð, Hvítársíðuhreppi og Kolbeinsstaðahreppi undir merkjum "Borgarbyggðar". Hvítársíðuhreppur. Hvítársíðuhreppur var hreppur innst í Borgarfirði norðan Hvítár. Hvítársíðuhreppur var 1482 km² að flatarmáli og voru íbúar 83 talsins (1. desember 2005). Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Hvítársíðuhreppur Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit og Kolbeinsstaðahreppi undir merkjum "Borgarbyggðar". Kolbeinsstaðahreppur. Kolbeinsstaðahreppur var hreppur í Snæfellsnessýslu, innst á Snæfellsnesi sunnanverðu, kenndur við kirkjustaðinn Kolbeinsstaði. Hreppurinn var 347 km² að flatarmáli og voru íbúar hans 102 talsins 1. desember 2005. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Kolbeinsstaðahreppur Borgarbyggð, Hvítársíðuhreppi og Borgarfjarðarsveit undir merkjum Borgarbyggðar. Eyja- og Miklaholtshreppur. Eyja- og Miklaholtshreppur er hreppur á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hreppurinn varð til 26. júní 1994 við sameiningu Eyjahrepps og Miklaholtshrepps. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Ekkert aðalskipulag er í gildi, en samkvæmt lögum þarf að vera búið að vinna slíkt árið 2008. Samkvæmt Landnámu námu fjórir landnámsmenn land á því svæði þar sem nú er Eyja- og Miklaholtshreppur. Þeir voru Sel Þórir Grímsson sem bjó á Rauðamel Ytri en hann nam land allt til Kaldár í Kolbeinsstaðarhrepp, Þormóður og Þórður gnúpa Oddsynir sem námu land frá Gnúpá til Straumfjarðarár og Guðlaugur inn auðgi er sagður hafa numið land frá Straumfjarðará til Furu í Staðasveit og búið í Borgarholti. Þórður gnúpa fékk Gnúpudal og bjó þar en Þormóður sem kallaður var goði bjó á Rauðkollsstöðum. Helgafellssveit. Helgafellssveit er sveitarfélag á norðanverðu Snæfellsnesi. Aðal atvinnuvegur er landbúnaður og sjávarútvegur. Ekkert aðalskipulag er í gildi, en samkvæmt lögum þarf að vera búið að vinna slíkt árið 2008. Dalabyggð. Dalabyggð er sveitarfélag í Dalasýslu. Það var stofnað 11. júní 1994 við sameiningu 6 hreppa: Fellsstrandarhrepps, Haukadalshrepps, Hvammshrepps, Laxárdalshrepps, Skarðshrepps og Suðurdalahrepps. Skógarstrandarhreppur bættist í hópinn 1. janúar 1998 og Saurbæjarhreppur 10. júní 2006. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og er þar mikil sauðfjárrækt. Fólksfjöldi 1. desember 2007 var 710. Súðavíkurhreppur. Súðavíkurhreppur er hreppur við sunnanvert Ísafjarðardjúp. Aðalatvinnuvegir eru landbúnaður og sjávarútvegur. Hinn 1. janúar 1995 sameinuðust Ögurhreppur og Reykjarfjarðarhreppur Súðavíkurhreppi. Árið 1995 féll stórt snjóflóð á þorpið og fórust 14 manns. Þá var ákveðið að flytja þorpið innar í fjörðinn þar sem stór hluti af gamla þorpinu stendur á snjóflóðahættusvæði. Harry Potter og leyniklefinn. Harry Potter og leyniklefinn er önnur bókin um galdrastrákinn Harry Potter eftir rithöfundinn J.K. Rowling. Bókin kom út árið 2000 og nefnist á ensku "Harry Potter and the Chamber of Secrets". Helga Haraldsdóttir þýddi á íslensku og bókin var gefin út af bókaútgáfunni Bjarti. Önnur prentun kom út árið 2001. Kvikmynd eftir sögunni kom árið 2003. Leikstjóri var Chris Columbus og sem fyrr léku Daniel Radcliffe, Rupert Grint og Emma Watson aðalhlutverkin. Harry Potter snýr aftur í Hogwarts. En Harry kemst að því að leyniklefin hafði verið opnaður. Í leyniklefanum var sagt vera hræðilegt skrímsli. Þegar vinir hans byrja að verða steingerðir reynir hann að finna út hver opnaði klefan. Þegar Harry loksins finnur klefan kemst hann að því að Voldemort opnaði klefan með hjálp Ginny, systur Rons. Harry þarf að sigra skrímslið, sem var basilíuslanga og Voldemort. Þegar hann var búinn að því bjargaði hann Ginny úr klefanum. 2 Áshreppur. Áshreppur var hreppur í Austur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Ás í Vatnsdal. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 66. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Áshreppur Húnavatnshreppi undir merkjum hins síðarnefnda. Bólstaðarhlíðarhreppur. Bólstaðarhlíðarhreppur var hreppur í Austur-Húnavatnssýslu fram til ársloka 2005. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 115. Hreppurinn náði yfir Blöndudal austan Blöndu, fremri hluta Langadals og Laxárdals og allan Svartárdal. Fremst í Svartárdal er Stafnsrétt, þangað sem rekið er fé af Eyvindarstaðaheiði. Yst í Svartárdal er félagsheimilið Húnaver, vígt 1957. Fyrir tæpum 90 árum (1924) var stofnaður í sveitinni Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sem æfði í fyrstu til skiptis á bæjunum en æfir nú í Húnaveri. Hinn 1. janúar 2006 sameinaðist Bólstaðarhlíðarhreppur Sveinsstaðahreppi, Svínavatnshreppi og Torfalækjarhreppi og var hið nýja sveitarfélag kallað Húnavatnshreppur. Skagaströnd. Skagaströnd er þorp á vestanverðum Skaga sem hefur verið sjálfstætt sveitarfélag, "Höfðahreppur", síðan Vindhælishreppi var skipt í þrennt 1. janúar 1939. 11. september 2007 var tilkynnt um að nafni sveitarfélagsins hefði verið breytt í "Sveitarfélagið Skagaströnd". Aðalatvinnuvegur er sjávarútvegur. Einn þekktasti íbúi þorpsins er Hallbjörn Hjartarson, oft kallaður kúreki norðursins. Bærinn er einnig kallaður Kántríbær, eftir Hallbirni. Skagstrendingar voru fyrstir til að fá í flota sinn frystitogara árið 1982, bar hann nafnið Örvar HU-21 og var smíðaður á Akureyri. Fyrir ofan bæinn stendur fjallið Spákonufell og dregur það nafn sitt af gamalli þjóðsögu um spákonuna Þórdísi. Ef horft er á fjallið úr norðri eða suðri þykjast glöggir sjá andlit Þordísar steingervt í borgina. Skagabyggð. Skagabyggð er sveitarfélag á vestanverðum Skaga. Það varð til 25. maí 2002 við sameiningu Skagahrepps og Vindhælishrepps. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur og landbúnaður. Ekkert aðalskipulag er í gildi, en samkvæmt lögum þarf að vera búið að vinna slíkt árið 2008. Akrahreppur. Akrahreppur (áður kallaður Blönduhlíðarhreppur) er hreppur í Skagafjarðarsýslu, austan Héraðsvatna, norðan frá Kyrfisá allt suður að Hofsjökli. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og er ekkert þéttbýli í sveitarfélaginu. Grunnskóli hreppsins var á Stóru-Ökrum, í félagsheimilinu Héðinsminni, frá 1949 til 2006 en í kjölfar deilna milli foreldra og kennara var hann lagður niður og síðan hefur nemendum verið ekið í skóla í Varmahlíð. Fjórar kirkjur eru í Akrahreppi, á Flugumýri, Miklabæ, Silfrastöðum og Ábæ í Austurdal en Ábæjarsókn er nú öll í eyði. Lítils háttar jarðhiti er á nokkrum stöðum í Akrahreppi og var byggð sundlaug á Víðivöllum árið 1938, sem ekki er lengur í notkun. Nú hefur hitaveita verið lögð frá Varmahlíð um mestalla Blönduhlíð. Landafræði. Sveitarfélagið nær yfir Blönduhlíð og Norðurárdal, Kjálka og Austurdal allan nema hvað bærinn Bústaðir tilheyrir Sveitarfélaginu Skagafirði. Nokkur eyðibýli í Vallhólmi tilheyra einnig Akrahreppi þótt þau séu nú vestan Héraðsvatna, sem hafa breytt um farveg á þessum slóðum. Víðlend afréttarlönd tilheyra sveitarfélaginu, Silfrastaðaafrétt og Nýjabæjarafrétt. Saga. Akrahreppur er sögusvið margra stórviðburða Sturlungaaldarinnar, þar á meðal Örlygsstaðabardaga (fjölmennustu orrustunnar), Haugsnesbardaga (mannskæðustu orrustunnar) og Flugumýrarbrennu. Skáldið Hjálmar Jónsson bjó á ýmsum bæjum í Akrahreppi á 19. öld og er jafnan kenndur við einn þeirra, Bólu í Blönduhlíð. Hreppsnefnd. Hreppsnefnd Akrahrepps, kosin í sveitarstjórnarkosningum 2010: Agnar Gunnarsson, Eiríkur Skarphéðinsson, Jón Sigurðsson, Þorkell Gíslason og Þorleifur Hólmsteinsson. Í hreppsnefnd Akrahrepps sitja 5 fulltrúar sem kjörnir eru hlutfallskosningu á fjögurra ára fresti. Síðast var kosið í hreppsnefnd í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí 2010. BT (verslunarkeðja). BT er íslensk verslanakeðja sem selur raftæki og tölvubúnað. Verslunin byrjaði sem lagersala á vegum Tæknivals, en gekk það vel að ákveðið var að opna verslun árið 1995 undir nafninu "Bónus Tölvur". Stuttu síðar fékk Bónus lögbann á nafnið og var nafninu þá breytt í B.T. Tölvur. Fyrsta verslunin var staðsett að Grensásvegi 3, en árið 1997 flutti hún í Skeifuna. Þá var nafninu breytt í BT. Síðan voru alls átta aðrar verslanir opnaðar í Kringlunni, Smáralind, Spönginni, Hafnarfirði, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi. BT varð svo hluti Dagur Group samsteypunnar en fór það á hausinn í efnahagskreppunni árið 2008. Eftir gjaldþrotið tóku Hagar BT yfir en samkeppniseftirlitið hafnaði síðar þeirri yfirtöku. Raymond Geuss. Raymond Geuss (fæddur 1946 í Evansville í Indiana í Bandaríkjunum) er bandarískur heimspekingur og kennari í heimspeki við Cambridge-háskóla. Geuss þykir einn helsti sérfræðingur heims um þýska heimspeki 19. og 20. aldar. Heimild. Geuss, Raymond Geuss, Raymond Geuss, Raymond John McDowell. John Henry McDowell (fæddur 1942 í Suður-Afríku) er heimspekingur, fyrrum félagi á University College, Oxford og er nú prófessor í heimspeki við University of Pittsburgh. McDowell er einkum þekktur fyrir skrif sín um hugspeki og málspeki. Á 8. áratug 20. aldar fékkst hann mikið við merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál en Donald Davidson lagt grunninn að þeirri orðræðu. McDowell hefur einnig verið undir miklum áhrifum m.a. frá Ludwig Wittgenstein, P.F. Strawson, David Wiggins, Gareth Evans og ekki síst Wilfrid Sellars. Undanfarið hefur McDowell fengist meira við spurningar um innhyggju og úthyggju í hugspeki. Hann hefur haldið því fram að virðing fyrir vísindalegri náttúruhyggju þurfi ekki að koma í veg fyrir að við getum litið á orðaforða okkar yfir sálarlíf mannsins sem raunverulegan – þ.e. að hann lýsi í raun og veru einhvers í heiminum og vísi til þess. McDowell hefur einnig skrifað um Wittgenstein, Kant, fornaldarheimspeki og siðfræði. Heimild. McDowell, John McDowell, John Grotæta. Grotætur (eða dreggætur) eru dýr sem nærast á groti. Ánamaðkar eru dæmi um grotætur en þeir éta rotnandi lauf og aðrar lífrænar leifar, einnig éta sumar grotætur eins tegundir af ætt mykjubjallna ekki rotnandi plöntuafurðir heldur rotnandi skít. Vera má að fæðan sem grotætur éta hafi verið að hluta til eða að fullu sundruð af sundrurum. Colin McGinn. Colin McGinn (fæddur 10. mars 1950 í West Hartlepool á Englandi) er breskur heimspekingur og prófessor í University of Miami, Florida, USA.. Hann er einkum þekktur fyrir það viðhorf í hugspeki sem nefnt hefur verið „nýdulhyggja“ en samkvæmt henni er mannshugurinn í grundvallaratriðum ófær um að skilja sjálfan sig. Þannig skýrir McGinn þá staðreynd að mönnum hefur reynst svo erfitt að skilja eigin meðvitund. Tengill. McGinn, Colin McGinn, Colin McGinn, Colin Deildaskipan herja. Deildaskipan herja tilgreinir þau heiti sem mismunandi stærðir herafla hljóta. Hvert stig stendur saman af tveimur eða fleiri einingum af næsta stigi fyrir neðan. Þannig eru að minnsta kosti tvær stórdeildir í einum her, og oftast fleiri. Til hægðarauka er líka rétt að benda á að í hvert sinn sem farið er stigi ofar bætast við ýmsar stoðdeildir í hverja einingu þannig að heildarfjöldi hermanna er hærri heldur en einföld samlagning undirsveita gefur til kynna eftir því sem farið er ofar í deildarskipanina. Uppbygging herja.. Á íslensku má alltaf finna orð en skiljanlega þá er íslenska ekki rík þegar kemur að uppbyggingu herja. Framtak Almenna Bókafélagsins við útgáfu Time-Life bóka um heimstyrjöldina undir ritstjórn Örnólfs Thorlaciusar vann mikið verk við þessa skilgreiningu. En samantekt þeirra var hvorki tæmandi né alveg eins og best verður á kosið. Hér er listi yfir heiti á hersveitum ásamt lýsingu á hverri einingu og stöðuheiti yfirmanns yfir hverri einingu. Til hægðarauka eru ensk nöfn höfð til samanburðar. Í Time-Life ritröðinni notuðust höfundar oft við orð sem virðast hafa verið sett inn í flýti og án fulls skilnings á viðfangsefninu. Þannig var herdeild kölluð deild hjá þeim en það samrýmist ekki Íslenskri orðabók þar sem herdeild er notað og er mun betra hugtak yfir viðfangsefnið. Þá þvældust inn orð eins og lautnant sem er gömul danska en liðsforingi er hið rétta íslenska orð. Algengt er að herir byggi á þrískiptu kerfi og á það sérstaklega við um minni einingar, þannig að þrjár flokksdeildir myndi undirfylki og þrjú undirfylki myndi eina hersveit. Þetta er þó breytilegt og stærri einingar, stórdeildir og upp úr eru myndaðar til að leysa verkefni hvers tíma og eru afar breytilegar. Vegna gífurlegs mannfalls í seinni heimstyrjöldinni þá var oft fækkað í undirhópum þannig að oft voru það aðeins tvær einingar sem mynduðu aðra stærri. Sovétmenn kusu byggja upp deildarskipan sína þegar leið á seinni heimstyrjöldina að hafa undirhópa veika þannig að jafnaði má skoða hvert stig hjá þeim sem einu stigi lægra hjá öðrum herjum. Sovésk skriðdreka stórdeild var þannig álíka fjölmenn og útbúinn og skriðdreka herdeild annara herja. Þetta gerðu þeir vísvitandi þar sem því stærri sem skipulagseining er því fleirri stoðdeildir hefur hún og Sovétmenn héldu inn sínum stoðdeildum þrátt fyrir að vera með mannfærri megin einingar. Sveit (squad). "*Korpáll og liðþjálfi eru það sem kallast NCO í erlendum herjum eða non commissioned officer en það eru yfirmenn sem eru ekki foringjar heldur vinna sig upp úr stöðu óbreytts og geta að jafnaði ekki orðið hærra settir en liðþjálfi því til að verða hærra settur þá þarf viðkomandi að undirgangast lisforingjanám. Það þýðir líka að oft eru reynslumestu mennirnir í hverri sveit eru korpálar eða liðþjálfar þar sem liðsforingjar eru oft mjög ungir og óreyndir. Í flestum herjum er oft litið til liðþjálfa sem límingarnar í hernum." Sundrari. Sundrari er lífvera, oft sveppur eða baktería sem brýtur niður lífræn efni til að afla sér næringar. Sundrun er náttúrulegt ferli sem myndi fara fram hvort eð er en sundrarar hraða því. Hlutverk sundrara í vistkerfi jarðarinnar er afar mikilvægt en án þeirra myndu lífræn efni dauðra lífvera hrúgast upp, hræætur myndu mögulega éta eitthvað af því en skítur þeirra myndi þrátt fyrir það innihalda umtalsvert magn orku og næringar. Grotætur éta stundum grot sem hefur að hluta eða að fullu verið sundrað af sundrurum. Stöðuheiti í hernaði. Stöðuheiti í hernaði eru mismunandi milli hinna hefbundnu þriggja hluta herja, landhers, flughers og flota. Eftirfarandi listum er raðað í tignarröð, æðstu stöðurnar efst í hverjum lista. Gufupönk. Gufupönk (enska: "steampunk") er stíll í spáskáldskap sem er gjarnan sviðsett í Viktoríanskri tímaskekkju eða ímynduðu viktoríönsku sagnfræðilegu sögusviði. Skáldskapur innan þessa stíls er gjarnan tengdur við vísindaskáldskap. Hugtakið er afbökun á enska orðinu "cyberpunk", sem er annar skáldskaparstíll sem fæst að öllu jöfnu við framtíðina. Skáldskapur í gufupönksstíl gerist oftast í nokkurs konar fortíð um iðnbyltingarskeiðið, og tæknilega ímyndin er útfærð með gufuvélum þess tímabils frekar en tölvutækninni sem fylgir cyberpunk stílnum, en þó er viðhaldið pönk viðhorfið til stjórnarfars og mannlegs eðlis. Upprunalega hafði gufupönk nokkuð dystópísk minni, og sótti nokkuð til film noir og reyfarasagna. Nýlegri sögur í þessum stíl eru þó öllu rómantískari og eru nokkurs konar vísindaleg rómantík. Gerðir gufupönks. Gufupönki er oftast skipt upp í tvo aðalflokka: ævintýralegt gufupönk og sögulegt gufupönk. Þó er ýmislegt sem fellur á grátt svæði milli þessarar flokkunar. Sögulegt gufupönk á borð við "The Time Machine" eftir H.G. Wells á sér rætur í raunveruleikanum, á meðan að ævintýralegt gufupönk á borð við "Perdido Street Station" eftir China Miéville er töluvert fjær raunveruleikanum. Það væri hægt að segja þennan mismun vera ámóta við muninn á Eglu og Hringadrottinssögu. Margar sögur á borð við "I have no mouth, and I must scream" eftir Harlan Ellisson, "The Baroque Cycle" eftir Neal Stephensson og "The Case of Charles Dexter Ward" eftir H.P. Lovecraft bera einkenni gufupönks, án þess að falla innan skilgreiningar þess stíls. Grot. Grot er lífrænn úrgangur úr sundruðum lífverum eða saur. Lífverur sem nærast á groti kallast grotætur og mynda í mörgum vistkerfum grunn fæðukeðjunar. Will Kymlicka. Will Kymlicka er kanadískur heimspekingur og stjórnspekingur og prófessor í heimspeki við Queen's University, Kingston í Kanada. Kymlicka hlaut B.A.-gráðu í heimspeki og stjórnmálafræði frá Queen's University árið 1984 og D.Phil.-gráðu í heimspeki frá Oxford University árið 1987. Hann hefur samið nokkrar bækur um menningarsamfélög, kynþætti og stjórnmál. Rit hans hafa verið þýdd yfir á ýmis tungumál. Heimild. Kymlicka, William Saul Kripke. Saul Aaron Kripke (fæddur 13. nóvember 1940 í Omaha í Nebraska í Bandaríkjunum) er bandarískur heimspekingur og rökfræðiingur. Hann er núna prófessor á eftirlaunum frá Princeton University og prófessor við CUNY Graduate Center. Kripke hefur haft gríðarlega mikil áhrif á mörgum sviðum rökfræði og málspeki. Mörg verka hans eru enn óútgefin og eru einungis til á upptökum af fyrirlestrum og í handriti. Engu að síður er hann víða álitinn einn áhrifamestu núlifandi heimspekinga. Æviágrip. Saul Kripke er elstur þriggja barna Dorothy og Myer Kripke. Saul og systur hans tvær, Madeline og Netta, gengu í Dundee Grade School í Omaha og Omaha Central High School. Árið 1958 hóf Kripke nám við Harvard University. Áður en Kripke varð prófessor í heimspeki við Princeton University kenndi hann við heimspekideild Rockefeller University í New York borg. Kripke kvæntist (og skildi við) Margaret Gilbert, systur Martins Gilbert sem er þekktur breskur sagnfræðingur. Þau voru barnlaus. Hann kennir nú rökfræði, frumspeki og málspeki við CUNY Graduate Center á Manhattan. Kripke er þekktastur fyrir framlag sitt til fjögurra sviða heimspekinnar: merkingarfræði fyrir háttarökfræði og aðra skylda rökfræði, sem Kripke hefur birt þónokkrar greinar um frá táningsárum sínum; fyrirlestra sína árið 1970 (gefnir út 1972 og 1980) "Naming and Necessity", sem umturnuðu á margan hátt málspeki og, eins og sumir hafa að orði komist, „gerðu frumspeki virðingarverða á ný“; túlkun sína á heimspeki Ludwigs Wittgenstein; kenningu sína um sannleikann. Heimild. Kripke, Saul Laufæta. Laufæta er í dýrafræði dýr sem nærist á laufum. Laufætur hafa tilhneigingu til að hafa langan meltingarveg og hæg efnaskipti sökum þess að í þroskuðum laufum er hátt hlutfall tormelts sellulósa og tiltölulega lítil orka. Mörg þessara dýra eru í samhagsmunalegu sambandi við bakteríur sem hjálpa við að losa næringu úr fæðunni. Dæmi um laufætur eru meðal spendýra ókapar, letidýr, pokabirnir og sumir apar, meðal skriðdýra kembur og meðal skordýra sumar fiðrildislirfur. Frambolur. Frambolur er í líffærafræði sá hlutur búks dýrs sem staðsettur er milli höfuðsins og afturbolsins. Meðal manna er frambolurinn sá hluti líkamans sem er á milli hálsins og þindarinnar að handleggjunum undanskildum. Meðal skordýra og hinna útdauðu þríbrota er frambolurinn einn þriggja aðalhluta líkamans, hjá skordýrum sá hluti sem fæturnir og vængirnir eru festir við búkinn og hjá þríbrotum sá hluti sem samanstendur af fjölmörgum liðum. Tölvunarfræðingur. Tölvunarfræðingur er starfstitill þeirra sem hafa áunnið sér þekkingu á tölvunarfræði, fræðilegum grundvelli upplýsinga og útreiknings og notkun þeirra í tölvukerfum. Tölvunarfræðingar vinna aðalega að þeirri hlið tölvunnar sem snýr að hugbúnaði, andstætt tölvunarverkfræðingum sem fást aðalega við vélbúnað tölvunar, en þessi svið skarast. Tölvunarfræðingar geta unnið við og rannsakað greinar eins og þróun og hönnun reiknirita, hugbúnaðarverkfræði, upplýsingarfræði, gagnasafnsfræði og forritun. Tölvunarfræðingar geta einnig beitt sér í fögum eins og hugbúnaðargerð, vefsmíðum og gagnagrunnsforritun. Tölvunarfræðinga er líka að finna á sviði upplýsingatækniráðgjafa. Tölvunarfræðingar fá gráðu sína yfirleitt frá viðurkenndum háskóla eða stofnun. Ísland. Á Íslandi er tölvunarfræðingur lögverndað starfsheiti samkvæmt lögum nr. 8 frá 11. mars 1996. Lögverndað starfsheiti. Lögverndað starfsheiti er á Íslandi starfsheiti tiltekið í íslenskum lögum sem aðeins þeir sem hafa hlotið til þess menntun og fengið leyfi ráðherra mega nota. Íslenskir háskólar sjá yfirleitt um milligöngu við ráðherra fyrir hönd nemenda. Fyrr á tíð þurftu einstaklingar að mæta í ráðuneytin og fá undirskrift ráðherra sjálfir. Pokabjörn. Pokabjörn (eða kóalabjörn) (fræðiheiti: "Phascolarctos cinereus") er spendýr af pokadýraflokki sem á heimkynni sín í Ástralíu. Þeir eru eina tegundin af pokabjarnarætt (fræðiheiti: "Phascolarctidae"). Pokabirnir eru jurtaætur sem nærast nær eingöngu á laufum tröllatrjáa. Nafn tegundarinnar er rangnefni þar sem pokabirnir eru ekki af bjarnaætt heldur af pokabjarnaætt, né heldur eru þeir af ættbálki rándýra eins og birnirnir heldur af ættbálki pokagrasbíta. Píanó. Píanó (eða slagharpa (sjaldgæft)) (fyrst nefnt "fortepíanó" og "píanóforte") er stórt hljóðfæri sem flokkast getur sem hljómborðshljóðfæri, ásláttarhljóðfæri og strengjahljóðfæri. Orðanefnd Verkfræðifélagsins mælti til þess árið 1926 að píanó yrði kallað "yman" á íslensku (af ymur). Það náði takmarkaðri útbreiðslu, og er nú oftast kallað píanó, slagharpa eða flygill. Gerð og saga. Píanó hefur strengi sem slegið er á með hömrum, en hömrunum er stjórnað af hljómborði. Tvær helstu gerðir píanós eru upprétt píanó, þar sem strengirnir liggja lóðrétt, og flygill, þar sem strengirnir liggja lárétt. Nafnið píanó er stytting á ítalska orðinu "pianoforte", sem er aftur stytting á "gravicembalo col piano e forte" en það þýðir semball sem hægt er að spila á bæði veikt og sterkt. Píanóið var fundið upp af harpsíkordasmiðnum Bartolomeo Cristofori, nákvæmt ártal er ekki vitað, en vitað er að píanó sem hann smíðaði var í eigu Mediciættarinnar árið 1700. Ein helsta nýjungin við píanóið var demparapedallinn en hann var þó ekki í upprunalegu píanóum Cristoforis heldur var það Gottfried Silberman, orgelsmiður. Píanóið var lítið þekkt til að byrja með, en á sígilda tímabilinu, og enn frekar því rómantíska, sló það í gegn, svo að segja, og varð fljótlega eitt vinsælasta hljóðfærið. Sólin. Sólin eða sunna er eina sólstjarna sólkerfisins og massamesta geimfyrirbæri þess. Reikistjörnurnar, að jörðinni meðtalinni, ganga á sporbaugum kringum sólina, ásamt smástirnum, loftsteinum, halastjörnum og geimryki. Varmi og ljós, sem frá henni stafar viðheldur lífi á jörðu. Sólin er rafgaskúla sem hefur massa í kringum 2×1030 kg, og er því nokkuð stærri en meðalstjarna. Þvermál sólarinnar er um 1.392.000 km (um 109 sinnum þvermál jarðarinnar). Um 73,46% af massa hennar er vetni, 24,85% helín, 0,77% súrefni, 0,29% kolefni, 0,16% járn, 0,12% neon og afgangurinn skiptist á milli örlítils magns af þyngri frumefnum. Sólin er talin vera um 4,5 milljarða ára gömul, og er um það bil komin hálfa leið í gegnum meginraðarferli sitt, þar sem kjarnasamruni í kjarna hennar bræðir saman vetni og myndar helín. Eftir um 5,5 milljarða ára mun sólin breytast í hringþoku. Mönnum er það hættulegt að horfa beint í sólina því að við það getur sjónhimnan skemmst og það leitt til blindu. Sólin er hvít að lit þótt hún virðist gul séð frá jörðinni en það er vegna áhrifa andrúmslofts jarðar sem hún virðist gul. Almennar upplýsingar. Sólin eins og hún sést í gegnum myndavél frá yfirborði jarðar Sólin er flokkuð sem meginraðarstjarna sem að þýðir að hún er í „vökvajafnvægi“, þar sem að hún dregst hvorki saman né þenst út, og myndar orku við samruna vetniskjarna yfir í helín. Sólin er í litrófsflokknum "G2V", þar sem að "G2" merkir að litur hennar sé gulur og að litróf hennar innihaldi litrófslínur jónaðra og hlutlausra málma ásamt mjög veikum vetnislínum, og "V" að hún sé, eins og flestar stjörnur, dvergstjarna á meginröðinni. Talið er að Sólin hafi meginraðarlíftíma í kringum um 10 milljarða ára. Núverandi aldur hennar er talin vera í kringum 4,5 milljarðar ára. Var þessi aldur hennar reiknaður með því að nota tölvulíkan af þróun stjarna. Sólin er á sporbaug um Vetrarbrautina, í u.þ.b. 25.000 til 28.000 ljósára fjarlægð frá miðju hennar. Sólin klárar eina sporbaugslaga umferð á um 226 milljón árum. Brautarhraði er í kringum 217 km/s, sem að jafngildir einu ljósári á 1400 ára fresti, og einni stjarnfræðieiningu á átta daga fresti. Stjarnfræðilegt merki sólarinnar er hringur með punkt í miðju (). Bygging. Sólin er næstum alveg slétt kúla, pólfletja (hringvik) hennar er talin vera í kringum 9 milljónustu, sem að þýðir að munur á þvermáli hennar í kringum pólana og í kringum miðbaug svarar til um 10 km. Þetta kemur til sökum þess að miðflóttaáhrif hægs snúnings sólarinnar er um 18 milljón sinnum veikara en yfirborðsþyngdarafl hennar (við miðbaug). Flóðhrif plánetanna hafa lítil áhrif á lögun sólarinnar, þó að sólin sjálf sé á sporbaug um samþungamiðju sólkerfisins, sem er örlítið frábrugðinn miðju sólarinnar, að mestu vegna massa Júpíters. Massi sólarinnar er samt svo gríðarlega mikill í samanburði að þungamiðja sólkerfisins er yfirleitt innan ytri marka sólarinnar sjálfrar. Sólin hefur ekki skýr endamörk eins og steingerðar plánetur hafa, því að þéttleiki rafgassins minnkar í veldisfalli frá miðju hennar. Þrátt fyrir það hefur sólin vel skilgreinda innri byggingu, sem að lýst er betur hér að neðan. Radíus sólarinnar er mældur frá miðju út að endimörkum ljóshvolfs hennar. Innviðir sólarinnar eru ekki sjáanlegir með beinum aðferðum vegna rafsegulgeislunar, sem er ógagnsæ. En á sama hátt og hægt er að rannsaka innviði jarðarinnar með því að skoða bylgjur, sem að myndaðar eru af jarðskjálftum (jarðskjálftafræði), notast sólskjálftafræði við hljóðbylgjur, sem að ferðast í gegnum sólina til að rannsaka innviði hennar. Þessi fræði hefur aukið gríðarlega skilning okkar á innri byggingu sólarinnar. Einnig hafa tölvulíkön verið notuð sem fræðigrunnur til að rannsaka dýpri lög hennar. Kjarni. Við miðju sólarinnar, þar sem að eðlismassi nær 150.000 kg/m3 (150-faldur þéttleiki vatns á Jörðinni), breytir kjarnasamruni vetni í helín og myndar orkuna, sem heldur sólinni í jafnvægi. Um það bil 8,9x1037 róteindum (vetniskjörnum) er breytt í helínkjarna á hverri sekúndu, sem sem að skilar af sér á sama tíma um 383 jottavöttum af orku. Líkön benda til að það taki orkuríkar ljóseindir, sem verða til við þennan kjarnasamruna, um 161.000 ár að skila sér upp á yfirborð sólarinnar. Ferill þeirra upp á yfirborðið gengur eftir óbeinum leiðum, ásamt viðstöðulausri gleypni og útgeislun í sólarmöttlinum. Er ljóseindirnar ná upp á yfirborðið sleppa þær út í geim sem sýnilegt ljós. Losnar einnig um fiseindir við sama samrunaferli, en ólíkt ljóseindum er lítil víxlverkun milli þeirra og annarra efna, og sleppa því næstum allar samstundis úr greipum sólarinnar. Kjarninn nær upp að 0,2 af radíus sólar frá miðju, og er sá eini hluti sólarinnar þar sem að merkjanlegur hiti er framleiddur með kjarnasamruna: afgangurinn af stjörnunni er hitaður með orku sem að flyst út á við. Öll orka sem framleidd er í kjarnanum þarf að ferðast í gegnum ytri lög sólarinnar upp að ljóshvolfi, áður en að hún sleppur út í geiminn. Geislahvolf. Frá kjarna allt að 0,7 radíus sólar frá miðju, er efni sólarinnar nógu heitt og þétt til að hitaútgeislun sé nægjanleg til að færa hinn gríðarlega hita frá kjarnanum út á við. Á þessu svæði er ekkert hitauppstreymi: þó svo að efni kólni eftir því sem fjarlægð frá miðju eykst, er hitastigull þess hægari en innrænt hitafall og nær því ekki að halda í gangi uppstreymi. Hiti er í staðinn færður af jónum vetnis og helíns, sem gefa frá sér ljóseindir, sem ferðast örlitla vegalengd áður en þær eru gleyptar af öðrum jónum. Iðuhvolf. Frá 0,7 radíus sólar frá miðju og upp að yfirborði, er efni sólarinnar ekki nógu þétt eða heitt til að færa hita út á við með geislun. Sökum þess myndast hitauppstreymi þegar hitasúlur bera með sér heitt efni upp að yfirborði sólar (ljóshvolfinu). Þegar efnið hefur kólnað við yfirborðið, steypist það aftur niður á botn iðuhvolfsins og gleypir í sig meiri hita frá efri hluta geislunarhvolfsins. Hitasúlurnar í iðuhvolfinu mynda far á yfirborði sólarinnar, í formi sólýrna og ýruklasa. Þetta ólgandi uppstreymi í ytri hlutum innviða sólarinnar myndar „smágerða“ rafala sem að svo mynda norður- og suðursegulskaut út um allt á yfirborði sólarinnar. Ljóshvolf. Sýnilegt yfirborð sólar er ljóshvolfið; undir því er sólin ógagnsæ. Fyrir ofan ljóshvolfið, losna orkuríkar ljóseindir frá sólinni og breiðast sem sólarljós út í geiminn. Sólarljós hefur svarthlutslitróf sem að bendir til þess að hitastig þess sé um 6.000 K. Þéttleiki einda í ljóshvolfinu er um 1023/m3 (í kringum 1% af þéttleika einda í andrúsmlofti Jarðar við sjávarmál). Hlutar sólarinnar fyrir ofan ljóshvolfið eru einu nafni kallaðir „lofthjúpur sólar“. Hægt er að skoða þá með sjónaukum yfir allt rafsegulrófið, frá útvarpsbylgjum, í gegnum sýnilegt ljós fram að gammageislum. Sólmyrkvi verður þegar jörðin fer inn í alskugga tunglsins, þ.a. tunglið skyggir á sólu frá jörðu séð. Við almyrkva skyggir tunglið á ljóshvolf sólar, en þá verður kórónan sýnileg. Afturbolur. Afturbolur er í líffærafræði hlutur búks dýrs. Hjá mönnum er það sá hluti sem staðsettur er milli afturbolsins og mjaðmagrindarinnar en hjá skordýrum er það aftasti hluti búksins, staðsettur fyrir aftan afturbolinn. Verund. Verund (eða skepnur) er hugtak í heimspeki sem almennt á við alla hluti og verur. Hugtakið var notað af t.d. Descartes sem „substantia“ og af Aristótelesi sem „oúsía“ (sem er oftast þýtt sem „skepnur“ í íslenskum miðaldarritum). Rangnefni. Rangnefni (eða rangheiti) eru í málvísindum rangt eða villandi heiti yfir eitthvað. Hryggdýr. Hryggdýr (fræðiheiti: "Vertebrata") eru stærsta undirfylking seildýra sem einkennist af því að vera með hryggjarsúlu. Önnur einkenni eru vöðvakerfi og miðtaugakerfi sem liggur innan í hryggjarsúlunni. Hryggdýr hafa hrygg, sem verndar mænuna og heldur líkamanum í ákveðinni stöðu. Hrafn (mannsnafn). Hrafn er íslenskt karlmannsnafn. Höfuð. Höfuð eða haus er í líffærafræði hlutur framhlutur búks dýrs. Í því er heili, og á því eru munnur og skynfæri t.d. nef, augu og eyru. Það er áfast frambolnum með hálsinum hjá flestum dýrum sem eru flókin að uppbyggingu, t.d. hjá manninum en hjá sumum öðrum dýrum t.d. skordýrum er áfast beint við frambolinn. Frambolur og höfuð áttfætlna eru samangróin og kallast það einu nafni höfuðbolur. Risinn og Kellingin. Risinn og Kellingin eru tveir drangar yst á flóanum milli Austureyjar og Straumeyjar staðsett við Eiðiskoll fyrir norðan bæinn Eiði í Færeyjum. Risinn er 71 m hár og Kellingin 68 m. Drangarnir í færeyskum þjóðsögum. Færeysk þjóðsaga segir að einu sinni hafi Ísland ætlað að flytja Færeyjar til sín og sent til þess tvö tröll. Þau komu á land nyrst á Austurey á Eiðiskoll þar sem risinn tók sér stöðu út í sjónum en kerlingin fór upp á land til að koma böndum á byrðina og ýta henni upp á bakið á risanum. Fyrst tók kerlingin svo fast á að Ytri Kollur klofnaði frá, þá reyndi hún að koma bandi á annars staðar en ekki gekk það heldur, eyjarnar vildu ekki færast. Sagt er að kerlingin hafi staðið upp á kollinum þegar daga tók og flýtt sér niður í sjó til risans en þau hafa tafist of lengi því að á sama tíma og þau mættust undir Eiðiskolli dagaði og þau urðu að steini þar sem þau stóðu og standa enn. Þórdís Björnsdóttir. Þórdís Björnsdóttir (f. 7. ágúst 1978 í Reykjavík) er íslenskt ljóðskáld. Haustið 2004 gaf hún út sína fyrstu ljóðabók, "Ást og appelsínur", sem hlaut mjög góðar viðtökur bæði lesenda og gagnrýnanda. Skömmu eftir útgáfu bókarinnar var verkið sett á svið á Akureyri í leikstjórn Arnars Inga Gíslasonar. Þar flutti höfundur verkið utanbókar, en aðrir sem að verkinu komu voru dansarar, leikarar, tónlistar- og fimleikafólk. Sýningar voru alls fjórar. Árið 2006 kom út ljóðabókin "Og svo kom nóttin" hjá Nýhil. Ári síðar sendi Þórdís frá sér ljóðabókina "Í felum bak við gluggatjöldin" og í kjölfarið fylgdi skáldsagan "Saga af bláu sumri" sem Bókaútgáfan Bjartur gaf út. Samlífi. Samlífi er í vistfræði víxlverkun tveggja lífvera hver á aðra. Hugtakið hýsill er venjulega notað yfir stærri lífveruna en sambýlingur yfir þá minni. Samlífi má skipta í tvo flokka: innanfrumusamlíf og utanfrumusamlíf. Leghöll. Leghöll er stórt og tilkomumikið grafhýsi, oftast byggt til að hýsa dauðan leiðtoga. Dæmi um leghallir eru leghöll Leníns í Moskvu í Rússlandi, Taj Mahal á Indlandi, Anıtkabir í Ankara í Tyrklandi og leghöllin í Halikarnassos. Taj Mahal. Taj Mahal er leghöll í Agra á Indlandi sem Mógúlkeisarinn Shah Jahan lét byggja í minningu um persneska eiginkonu sína, Mumtaz Mahal. Höllin var 23 ár í byggingu (frá 1630 – 1653) og er meistaraverk mógúlskrar byggingarlistar. Hráefni. Efniviðurinn í höllina var fluttur frá gervöllu Indlandi og öðrum hlutum Asíu. Yfir 1,000 fílar voru notaðar til að flytja bygginarefni meðan á framkvæmdum stóð. Hvíti marmarinn var fluttur frá Rajasthanhéraði, jaspisinn frá Punjabsvæðinu, jaðinn og kristallarnir frá Kína, túrkísinn frá Tíbet, asúrsteinarnir frá Afganistan, safírinn frá Srí Lanka og kalsedónsteinarnir frá Arabíu. Allt í allt voru 28 gerðir af gimsteinum greyptir í marmarann. Höllin kostaði allt í allt 40 milljón rúpíur en á þeim tíma kostaði gramm af gulli um 1,3 rúpíur. Alfred Hitchcock. Alfred Joseph Hitchcock (fæddur í London 13. ágúst 1899, lést 29. apríl 1980 í Bandaríkjunum) var þekktur kvikmyndaleikstjóri. Ferill Hitchcocks. Hitchcock fékk snemma áhuga á kvikmyndagerð og þegar hann var 16 ára var hann farinn að lesa sér mikið til um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Árið 1920 fékk Hitchcock vinnu hjá Lasky kvikmyndagerðinni í London sem titlahönnuður og var hann þar í tvö ár. Þá fékk hann tækifæri til að leikstýra myndinni Always tell your wife eftir að leikstjóri myndarinnar varð frá að hverfa vegna veikinda. Hitchcock kláraði myndina og voru yfirmenn hans svo ánægðir að honum var falið að leikstýra myndinni Number 13, einungis 22 ára gömlum. Sú mynd var hinsvegar aldrei kláruð. Fyrstu mynd sína í fullri lengd gerði hann svo árið 1925 og var það myndin The Pleasure Garden. 2. desember 1926 giftist Hitch Ölmu Reville, konunni sem átti eftir að vera hans stoð og stytta gegnum langan feril hans. Fyrsta mynd Hitchcocks sem náði verulegum vinsældum var myndin The Lodger frá 1927. Hann náði heimsfrægð árið 1935 þegar hann gerði myndina 39 steps. Árið 1939 flutti Alfred Hitchcock með fjölskyldu sína til Bandaríkjanna þar sem hann var staðráðinn í að hefja alþjóðlegan kvikmyndaferil sinn. Þar átti hann eftir að vera það sem eftir var af ferli sínum, eða allt til dauðadags. Hann fékk sjö ára samning hjá David O. Selznic og fyrsta mynd hans vestanhafs var Rebecca, byggð á skáldsögu Daphne Du Maurier. Í Bandaríkjunum gerði hann allar sínar frægustu myndir og má þar nefna Psycho, Glugginn á bakhliðinni (Rear Window), The Birds og Vertigo. Hann naut einnig mikilla vinsælda fyrir sjónvarpsþættina Alfred Hitchcock presents sem voru framleiddir frá 1955 til 1962. Síðustu mynd sinni leikstýrði hann árið 1976 en það var myndin Fjölskyldugáta (Family Plot). Hann lést þann 29. apríl 1980, þá áttræður. Hann hafði á ferli sínum leikstýrt yfir 60 kvikmyndum. Borgarfjarðarhreppur. Borgarfjarðarhreppur er sveitarfélag á Austurlandi, hið nyrsta á Austfjörðum. Það dregur nafn sitt af Borgarfirði eystra, en nær auk þess yfir Njarðvík og "Víkur", þ.e., Brúnavík, Breiðuvík og Húsavík, auk Loðmundarfjarðar, sem bættist við 1. janúar 1973 þegar Loðmundarfjarðarhreppur var sameinaður Borgarfjarðarhreppi. Vegurinn til Borgarfjarðar liggur um Vatnsskarð til Njarðvíkur, og þaðan um Njarðvíkurskriður til Borgarfjarðar. Í skriðunum hefur öldum saman verið trékross, ferðamönnum til halds og trausts. Eitt þekktasta kennileiti í sveitarfélaginu eru Dyrfjöll á vesturmörkum þess. Bakkagerði. Eilítið þorp er í Borgarfirði. Það heitir Bakkagerði, en er í daglegu tali kallað Borgarfjörður eystri. Þar búa um 100 manns. Skammt innan við þorpið er Álfaborgin, sem samkvæmt þjóðsögum er bústaður huldufólks. Listmálarinn kunni, Jóhannes Sveinsson Kjarval, ólst upp í Geitavík í Borgarfirði. Síðar málaði hann mikið á þessum slóðum. Í kirkjunni í Bakkagerði er altaristafla eftir hann. Hún sýnir Jesú flytja fjallræðuna. Hann stendur á "Álfaborginni" og má meðal áheyrenda þekkja gamla Borgfirðinga. Í Bakkagerði er iðnfyrirtækið Álfastein, sem framleiðir skraut og nytjahluti úr íslensku grjóti. Óvíða er fjölbreyttara náttúrufar en í Borgarfirði og nágrenni, og er svæðið vinsælt göngusvæði á sumrin. Skeggjastaðahreppur. Skeggjastaðahreppur var sveitarfélag nyrst í Norður-Múlasýslu á Austurlandi við Bakkaflóa undir Langanesi. Bakkafjörður er þéttbýlisstaður við flóann sunnanverðan. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Skeggjastaðahreppur Þórshafnarhreppi undir nafninu "Langanesbyggð". Vopnafjarðarhreppur. Vopnafjarðarhreppur er sveitarfélag í Norður-Múlasýslu á Austurlandi við Vopnafjörð, sem er breiður fjörður og samnefndur bær. Einar Olgeirsson. Einar Baldvin Olgeirsson (14. ágúst 1902 – 3. febrúar 1993) var sonur Olgeirs Júlíussonar bakara og Solveigar Gísladóttur. Einar var stjórnmálamaður og var m.a. þingmaður Reykvíkinga. Hann var einn umdeildasti og um leið einhver áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu aldar á Íslandi. Hann var annálaður mælskumaður og átti mikinn þátt í að fylgi sósíalista var lengi mun meira á Íslandi en í nágrannalöndunum. Einar kynntist kenningum marxista á námsárum sínum í Þýskalandi og var tryggur þeim kenningum alla sína stjórnmálatíð. En hann var um leið bæði mikill þjóðfrelsismaður og sá nauðsyn þess að vinna náið með öðrum stjórnmálaöflum. Átti Einar mestan þátt í sameiningu sósíalista og vinstri jafnaðarmanna í Sósíalistaflokknum á sínum tíma og seinna í Alþýðubandalaginu. Nýsköpunarstjórnin svo nefnda var einnig að miklu verk Einars. Þetta féll ekki alltaf í góða jörð hjá harðlínumönnum í röðum kommúnista og sósíalista, m.a. stóð til að reka Einar úr Kommúnistaflokknum fyrir „hægrivillu“ í upphafi fjórða áratugsins. Fjölskylda. Einar kvæntist Sigríði Þorvarðsdóttur (fædd 31. júlí 1903, dáin 4. desember 1994). Þau áttu saman börnin Solveigu Kristínu (fædd 1939) og Ólaf Rafn (fæddan 1943). Menntun. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1921 og lagði stund á þýskar og enskar bókmenntir og tungu við Friedrich-Wilhelm Universität á árunum 1921 til 1924 en lauk ekki prófi. Stjórnmál. Hann var kjörinn bæjarfulltrúi á Akureyri fyrir lista jafnaðarmanna í bæjarstjórnarkosningunum 1929. Varð síðar alþingismaður Reykvíkinga frá 1937-1967, sat á þingi 1937-1938 fyrir Kommúnistaflokkinn og eftir það Sósíalistaflokkinn. Hann var einn stofnanda Kommúnistaflokks Íslands árið 1930 og var formaður Sósíalistaflokksins 1939-1968 og formaður þingflokks hans árin 1939 til 1962. Hann var og ritstjóri ýmissa blaða og tímarita, þar á meðal Þjóðviljans 1936 til 1941. Stjórnun. Einar var forstjóri Síldareinkasölu Íslands 1928—1931 og forstjóri Íslensk-rússneska verslunarfélagsins hf. 1931—1935. Hann var forseti Framtíðarinnar 1920, formaður Verkamannafélags Akureyrar 1928—1931, var í bæjarstjórn Akureyrar 1929—1931, var kosinn 1942 í málþingsnefnd um stjórnarskrármálið, í útvarpsráði 1943—1947 og í landsbankanefnd 1944—1955, í skilnaðarnefnd 1944, í þjóðhátíðarnefnd lýðveldisstofnunar 1944, í nýbyggingarráði 1944—1947, í raforkuráði, síðar orkuráði 1949—1953 og síðan 1958—1975. Kosinn 1955 í atvinnumálanefnd. Í Norðurlandaráði 1957—1963, í bankaráði Landsbankans 1957—1981, formaður þess 1973—1976 og í Rannsóknaráði ríkisins 1965—1967. Formaður Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn 1939—1968. Sat Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna 1967. Tobavatn. Tobavatn er stöðuvatn á eyjunni Súmötru í Indónesíu. Vatnið er 100 km langt og 30 km breitt og er í raun gömul gosaskja þar sem að gríðarlegt eldgos átti sér í fyrndinni. Eldgos. Gosið í Toba átti sér stað þar sem nú er Toba vatn fyrir um 71.000 +/- 4000 árum. Áætlað er að sprengistuðull (VEI) gossins hafa verið af stærðargráðunni 8. Það er nýlegasta súpereldgos og líklega stærsta eldgos sem orðið hefur á síðustu tveimur milljónum ára. Vísindamennirnir Bill Rose og Craig Chesner hjá Tækniháskólanum í Michigan áætluðu að heildarmagn gosefna sem upp kom í gosinu hafi verið um 2800 km3, eða um 2000 km3 í formi ignimbríts sem flæddi yfir landið og 800 km3 sem féll sem gjóska. Vindur feykti gosefnum að mestu í vesturátt. Eldgosið var það síðasta í röð a.m.k. þriggja öskjumyndandi gosa, sem átt hafa sér stað á svæðinu. Eldri öskjur mynduðust fyrir um 700.000 og 840.000 árum. Til að gera betri grein fyrir umfangi þessa eldgoss er hægt að benda á, það að það myndaði um 15 cm þykkt gjóskulag sem þekur allt Indland. Á einum stað í mið-Indlandi er Toba-gjóskan um 6 m á þykkt. Hrun gosopsins í kjölfar gossins myndaði öskjuna sem síðar fylltist af vatni og myndar nú Toba vatn Áhrif eldgossins á þróun mannkyns. Sett hefur verið fram sú tilgáta að jörðin hafi í kjölfar eldgossins í Toba, gengið í gegnum 6-10 ára fimbulvetur og hugsanlega 1000 ára kuldaskeið til viðbótar. Breytingarnar á hitastigi jarðar í kjölfar gossins eru taldar hafa minnkað fólksfjölda á jörðinni niður í allt að 10.000 einstaklinga og hafa valdið flöskuhálsi í þróun mannkyns. Kelduneshreppur. Kelduneshreppur (kemur úr "keldu-" „dý, pyttur, fen“ + "nes" + "hreppur") var hreppur við Öxarfjörð sem tilheyrir nú sveitarfélaginu Norðurþingi. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður og ferðaþjónusta. Meðal markverðra staða í hreppnum eru Ásbyrgi og Jökulsá á Fjöllum. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 100. Í janúar 2006 samþykktu íbúar Húsavíkurbæjar, Öxarfjarðarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Kelduneshrepps sameiningu sveitarfélaganna sem tók gildi 10. júní sama ár í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna. Fljótsdalshreppur. Fljótsdalshreppur er sveitarfélag á Héraði á Austurlandi og nær yfir Fljótsdal og nálæg svæði, allt suður að Vatnajökli. Mörk sveitarfélagsins að norðanverðu eru við Hrafnsgerðisá, talsvert út með Lagarfljóti, en að austanverðu eru mörkin við Gilsá, við Fljótsbotninn. Skrifstofa hreppsins er í félagsheimilinu Végarði, spölkorn utan við Valþjófsstað. Menningarmiðstöðin Skriðuklaustur er í sveitarfélaginu. Öxarfjarðarhreppur. Öxarfjarðarhreppur milli 1994 og 2006 Öxarfjarðarhreppur var hreppur í Öxarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu, austan Jökulsár á Fjöllum. Hreppurinn varð til, ásamt Fjallahreppi, árið 1893 þegar Skinnastaðarhreppi var skipt í tvennt. Náði hinn nýi hreppur frá ósum Sandár í norðri og fram á Hólssand í suðri. 17. febrúar 1991 sameinaðist Presthólahreppur Öxarfjarðarhreppi og Fjallahreppur 1. janúar 1994. Var hreppurinn þá orðinn 2687 km² að flatarmáli. Íbúar voru 330, þar af 139 á Kópaskeri (1. des. 2005). Höfðu flestir atvinnu af sjávarútvegi og landbúnaði. Í janúar 2006 samþykktu íbúar Húsavíkurbæjar, Öxarfjarðarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Kelduneshrepps sameiningu sveitarfélaganna. Tók hún gildi 10. júní sama ár, í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006, og fékk nýja sveitarfélagið nafnið "Norðurþing". Lína (rúmfræði). Lína eða bein lína er eitt af grunnhugtökum rúmfræðinnar og á við óendanlega mjótt, óendanlega langt og beint rúmfræðilegt fyrirbrigði. Hin grunnhugtökin eru punktur og slétta. Ekki eru öll strik línur, enn fremur eru ekki allir ferlar línur. Í evklíðskri rúmfræði er aðeins hægt að draga eina línu í gegnum tvo gefna punkta, línan lýsir stystu vegalengdinni á milli punktanna. Þrír eða fleiri punktar sem liggja á sömu línu eru sagðir samlína en kallast annars ósamlína. Tvær línur geta aðeins skorist í einum punkti; tveir stjarfir fletir (plön) skerast í einni línu. Formleg skilgreining. Lína í formula_1 er mengi allra punkta sem rita má á forminu formula_2, þar sem að "a" og "b" eru fastir vigrar og "x" er stiki. "a" er þá stefnuvigur línunnar, en sé "a" einvíður vigur, þ.e. rauntala, þá er hún jafnframt hallatala línunnar. "b" er ennfremur hliðrun línunnar frá núllpunkti. Stefnuvigur er ekki ótvírætt ákvarðaður - hann má alltaf margfalda með rauntölu formula_3 án þess að stefna línunnar breytist nokkuð. Skipta má línu í tvær óendanlega langar hálflínur, en "línustrik" er endanlega langur hluti af línu. Seyðisfjörður. Seyðisfjörður er kaupstaður í botni samnefnds fjarðar á Austfjörðum. Staðurinn óx kringum síldveiðar- og vinnslu. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1895 og var þá skilinn frá Seyðisfjarðarhreppi. Kaupstaður og hreppur sameinuðust á ný 1. apríl 1990, þá undir merkjum kaupstaðarins. Seyðisfjörður er þekktur fyrir fjölskrúðugt menningarlíf en þar er árlega haldin Listahátíðin Á seyði en partur af henni eru sumartónleikaröðin Bláa kirkjan og LungA (Listahátíð ungs fólks, Austurlandi). Auk þess heldur safnið árlega Smiðjuhátíð vikuna eftir Lunga. Á Seyðisfirði má einnig finna menningarmiðstöðina Skaftfell sem stendur fyrir myndlistasýningum allt árið. Í bænum er einnig eina starfand kvikmyndahúsið á Austurlandi. Bærinn á sér merka sögu sem hægt er að kynna sér með því að heimsækja Tækniminjasafn Austurlands sem hefur á safnasvæði sínu meðal annars elstu vélsmiðju landsins og fyrstu ritsímastöð landsins. Fjarðarselsvirkjun (gangsett 1913), sem er í eigu Rarik, er fyrsta riðstraums- og bæjarveitan á Íslandi. Árið 2003 var stöðvarhúsið gert upp og á efri hæðinni komið fyrir sýningu. Til Seyðisfjarðar siglir færeyska ferjan Norræna frá Færeyjum en þaðan siglir hún jafnframt til Danmerkur. Er þetta eina leiðin (utan þess að flytja bílinn með gámaskipi) fyrir þá sem vilja fara til og frá Íslandi á bíl. Þar hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð síðan 1995. Íþróttafélög frá Seyðisfirði eru Íþróttafélagið Huginn (knattspyrna, handbolti, blak, og fleira), Viljinn (Boccia), Golfklúbbur Seyðisfjarðar (golf) og 06. apríl (knattspyrna). Auk þess starfar SkíS skíðafélagið í Stafdal í Stafdal, en það er félag sem er sameiginlegt skíðafélag íbúa Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Stjórnmál. Í bæjarstjórn Seyðisfjarðar sitja 7 fulltrúar sem kjörnir eru af íbúum bæjarins yfir 18 ára aldri á fjögurra ára fresti. Bæjarstjórn skipar bæjarráð sem fer með fjármálastjórn bæjarins og aðrar fastanefndir sem fjalla um afmörkuð svið. Forseti bæjarstjórnar er æðsti yfirmaður hennar og hún kemur saman á opnum fundum einusinni í mánuði en bæjarráð fundar vikulega. Bæjarstjórinn er æðsti starfsmaður bæjarins og heldur utan um daglegan rekstur sveitarfélagsins, hann er ráðinn af bæjarstjórninni og getur verið, hvort heldur sem er, kjörinn bæjarfulltrúi eða utanaðkomandi. Núverandi skipan bæjarstjórnar. B-listi Framsóknar-, samvinnu-, og félagshyggjufólks og D-listi Sjálfstæðisflokks náðu saman um myndun meirihluta og var Ólafur Hr. Sigurðsson ráðinn áfram í starf bæjarstjóra. Arnbjörg Sveinsdóttir oddviti D-lista verður forseti bæjarstjórnar og Vilhjálmur Jónsson oddviti B-lista verður formaður bæjarráðs. Í lok maí 2011 sagði Ólafur starfi sínu lausu sem bæjarstjóri vegna lélegrar afkomu bæjarsjóðs á árinu 2010, skv. samstarfssamningi meirihlutans var formaður bæjarráðs, Vilhjálmur Jónsson, settur sem bæjarstjóri til bráðabirgða, á meðan ákvörðun yrði tekin um hvernig staðið yrði að ráðningu nýs bæjarstjóra, síðar var svo gengið frá ráðningu Vilhjálms í starfið út kjörtímabilið. Áhugaverðir staðir, þjónusta og afþreying. Seyðisfjörður er af mörgum talinn vera á mörkum hins byggilega sökum náttúrulegrar legu fjarðarins, átök við móður náttúru hafa vísast mótað þá sem þar búa. Frá náttúrunnar hendi er hafnaraðstaðan í firðinum einstök sem hefur gert Seyðisfjörð að mikilvægri samgönguæð allt frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Er það einkum vegna nálægðarinnar við meginland Evrópu. Eina farþega- og bílferjan sem siglir milli Íslands og meginlands Evrópu kemur til Seyðisfjarðar vikulega. Litrík, norskættuð timburhúsin frá aldamótunum 1900 gera Seyðisfjörð einstakan meðal bæja á Íslandi. Lista- og menningarstarfsemi er blómleg á Seyðisfirði, sérstaklega yfir sumartímann. Fjölmargir listamenn hafa komið við sögu, þeim fjölgar stöðugt sem eignast hafa athvarf í bænum eða dvelja við listsköpun. Skaftfell miðstöð myndlistar stendur fyrir sýningum árið um kring, verk eftir hinn heimskunna listamann Dieter Roth er þar að finna m.a. Dieter dvaldi löngum á Seyðisfirði en hann lést árið 1998. Um 700 manns búa nú á Seyðisfirði, fiskvinnsla og útgerð hafa verði aðalatvinnuvegurinn fram til þessa, en ferðaþjónusta vex stöðugt. Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Starfsemi Skaftfells er helguð myndlist, með megin áherslu á samtímalist. Í Skaftfelli er öflugt sýningarhald, gestavinnustofur fyrir listamenn og kaffistofa með góðu myndlistar bókasafni. Skaftfell leggur áherslu á að vera tengiliður á milli leikinna og lærðra og stendur fyrir fjölþættu fræðslustarfi, jafnt á fjóðungs vísu og á alþjólegum grundvelli. Tækniminjasafn Austurlands. Tækniminjasafn Austurlands fjallar aðallega um þann tíma er nútíminn var að hefja innreið sína á landinu um 1880 - 1950. Safnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Fjarðarselsvirkjun. Markaði afgerandi tímamót og er elsta starfandi virkjun Íslands, stofnsett 1913, og lítt breytt frá upphafi. Það út af fyrir sig gerir hana mjög forvitnilega. En auk þess er hún ein af þremur til fjórum virkjunum sem mörkuðu afgerandi mest tímamót á öldinni. Meðal annars var hún fyrsta riðstraumsvirkjunin og frá henni var lagður fyrsti háspennustrengurinn. Ennfremur var hún aflstöð fyrstu bæjarveitunnar. Fyrir 90 ára afmæli stöðvarinnar árið 2003 ákvað RARIK að leggja áherslu á það vægi sem virkjunin hefur í raforkusögu landsins og hafa hana til sýnis fyrir innlenda og erlenda gesti. Í því skyni var sett upp minjasýning í stöðvarhúsinu og stöðvarhúsið og næsta nágrenni lagfært. Nokkrum árum áður var virkjunarsvæðið endurskipulagt. Nálægð virkjunarinnar við Seyðisfjörð eykur einnig gildi hennar fyrir bæjarbúa og til dæmis eru hvammurinn og gilið hluti af útivistarsvæði Seyðfirðinga. Seyðisfjarðarkirkja. Þegar eftir kristnitöku var víða farið að reisa kirkjur eða bænhús á Íslandi. Á Þórarinsstöðum við Seyðisfjörð fundust við fornleifauppgröft 1998 leifar af tveimur stafkirkjum frá því um 1000, einnig þrír krossar, altarissteinn, grafir o.fl. frá sama tíma. Kenningar eru uppi um að það kunni að hafa verið fyrsta kristna kirkjan í Seyðisfirði. Þjóðsagan segir að kirkjan hafi verði flutt frá suður ströndinni yfir á norðurströndina og að Dvergakirkjan hafi siglt á eftir (Dvergasteinn). Heimildir eru fyrir því að kirkja hafi staðið á Dvergasteini sem er á norðurströnd Seyðisfjarðar um aldamótin 1200 fram á nítjándu öld. Hítardalsbók geymir máldaga frá 1367 og þar segir að Dvergasteinskirkja sé Maríukirkja. Kirkjan var flutt inn á Vestdalseyri seinni hluta nítjándu aldar, þar sem hún var reist á hjallanum ofan eyrarinnar (Á Kirkjukletti) með mikið og gott útsýni yfir fjörðinn. Þar komu oft ill veður og í einu slíku feyktist kirkjan um koll. Var hún þá flutt niður á eyrina þar sem hún stóð fram til 1921 en þá var hún flutt á þann stað sem hún stendur enn þann dag í dag. Viðir kirkjunnar frá Vestdalseyri voru notaðir í nýju kirkjuna á Fjarðaröldu. Lifir því gamla kirkjan enn í kirkjunni sem nú stendur í hjarta bæjarins. Róðukross er meðal kirkjugripa í Seyðisfjarðarkirkju sem er ein af helstu táknmyndum kristinnar trúar en er algengari meðal kaþólikka en mótmælenda. "Einhverra hluta vegna stendur kirkjan á Fjarðaröldunni öfugt við kirkjur á Íslandi. Hún snýr norður/suður en venja er að kirkjur snúi austur/vestur. Hún ætti að snúa eins og safnaðarheimilið snýr í dag. 20. febrúar árið 1989 kom upp eldur í kirkjunni með hörmulegum afleiðingum. Neisti hafði komist í einangrun kirkjunnar þegar verið var að gera við hana. Eldurinn breiddist á örskammri stundu út um mestalla kirkjuna. Klæðningin innan á veggjum og lofti var brunnin og skemmd. Skírnaraltarið til hliðar við kórinn var horfið og einnig altaristafla frá 1901. Gripir á ölturum skemmdust eða eyðilögðust. Gamlar kertaljósakrónur í loftum sömuleiðis og skírnarfonturinn var stórskemmdur. Orgelið eyðilagðist og flygill sömuleiðis. Bæjarbúar voru slegnir yfir þessum atburði en endurbygging hófst fljótlega. Að 15 mánuðum liðnum var endurbyggingu lokið, endurvígsla fór fram 20. maí 1990." (Heimildir: Byggðasaga Seyðisfjarðar – Kristján Róbertsson 1995) Höfuðbolur. Höfuðbolur (fræðiheiti: "Cephalothorax") er í líffærafræði notað yfir fyrsta meginhluta búks líkama dýra í áttfætlu- og stórkrabbaflokki innan liðdýrafylkingarinnar. Á þessum hluta búksins er munnurinn, útlimir og fálmarar ef við á. Afturbolurinn er svo restin af meginhluta líkamans. Raufarhöfn. Höfnin og kirkjan á Raufarhöfn. Raufarhöfn er sjávarþorp á austanverðri Melrakkasléttu í sveitarfélaginu Norðurþingi og er nyrsta kauptún landsins. Aðalatvinnuvegur er sjávarútvegur. Á Raufarhöfn er grunnskóli með um 30 nemendum. Fólksfjöldi 1. desember 2011 var 194 og hafði fækkað úr 406 árið 1999. Þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1920. Forn verslunarstaður. Raufarhöfn var bújörð fram yfir 1950 og byggðist þorpið upp í landi jarðarinnar, við náttúrulega höfn í skjóli klettahöfða. Raufarhafnar er getið sem lendingarstaðar í Íslendingasögum og þangað munu kaupmenn hafa siglt þegar á landnámsöld. Á síðmiðöldum versluðu þýskir Hanakaupmenn þar og seinna komu hollenskir duggarar þar við og stunduðu launverslun. Bændur á Sléttu áttu að sækja verslun til Húsavíkur eða Vopnafjarðar á einokunartímanum, langa og erfiða leið, og óskuðu oft eftir að Raufarhöfn yrði gerð að verslunarstað en það var þó ekki fyrr en 1833 sem staðurinn varð löggiltur verslunarstaður og 1836 reisti danskur kaupmaður þar hús, Búðina, sem var fjórar hæðir og eitt stærsta hús landsins á þeim tíma. Hún brann árið 1956. Síðar tóku íslenskir kaupmenn við versluninni og Gránufélagið rak þar verslun til 1893. Síldarbærinn Raufarhöfn. Síldin var kölluð silfur hafsins. Bræðurnir Jón og Sveinn Einarssynir frá Hraunum í Fljótum hófu verslunarrekstur á Raufarhöfn 1896 og jafnframt fisk- og hákarlaveiðar og byggðu hafskipabryggju þar árið 1900. Sama sumar hófu Norðmenn síldveiðar frá Raufarhöfn og á næstu áratugum stækkaði þorpið ört og var aðalatvinna íbúanna síldveiðar, síldarbræðsla og þjónusta við síldveiðiskip. Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu verksmiðjuna af Norðmönnum 1934 og 1944 var Raufarhöfn annar mesti síldveiðibær landsins á eftir Siglufirði. Á sjöunda áratugnum varð Raufarhöfn svo mesti síldarbærinn og þá var þar mikill uppgangur og allt að 11 síldarsöltunarstöðvar starfandi samtímis. Þá komu um það bil 10% af öllum ágóða landsins frá síldarvinnu á Raufarhöfn. Íbúarnir voru þá hátt á sjötta hundrað og á síldarvertíðinni streymdi aðkomufólk að svo að yfir tvö þúsund manns höfðu aðsetur þar og þegar nokkur hundruð bátar bættust við í landlegum voru stundum á fjórða þúsund manns í þorpinu í einu. En árið 1967 hvarf síldin. Mannvirki henni tengd voru yfirgefin og að sumu leyti minnti Raufarhöfn á draugabæ og íbúum fækkaði. Þó var reynt að sporna á móti, meðal annars með kaupum á togara og stofnun útgerðarfélags, og útgerð og fiskvinnsla er aðalatvinna þorpsbúa í dag. Einnig er þar töluverð loðnubræðsla. Sveitarfélagið. Hinn 1. janúar 1945 var Raufarhöfn gerð að sérstökum hreppi, Raufarhafnarhreppi, en hafði fram að því tilheyrt Presthólahreppi. Í janúar 2006 samþykktu íbúar Húsavíkurbæjar, Öxarfjarðarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Kelduneshrepps sameiningu sveitarfélaganna sem tók gildi 10. júní sama ár, í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. Svarthol. Svarthol er í heimsfræði, hugtak haft yfir sérstæðu í tímarúmi, sem er lítið svæði sem ekkert sleppur frá, ekki einu sinni ljós. Talið er að svarthol myndist við þyngdarhrun kulnaðrar sólstjörnu, sem er nægjanlega massamikil til þess að þvermál hennar verði minna en tvisvar sinnum Schwarzschild-geislinn. Talið er að svarthol sé að finna í miðju allra stjörnuþoka. Svalbarðshreppur. Svalbarðshreppur er hreppur á austanverðri Melrakkasléttu og upp af Þistilfirði. Aðal atvinnuvegur er landbúnaður. Ekkert aðalskipulag er í gildi, en samkvæmt lögum þarf að vera búið að vinna slíkt árið 2008. Í Landnámabók segir að Ketill þistill hafi numið land milli Hundsness og Sauðaness og af honum dregur fjörðurinn og landið upp af honum nafn sitt. Hreppurinn er nefndur eftir kirkjustaðnum Svalbarði. Um hreppinn renna nokkrar vatnsmiklar ár sem skipta firðinum þannig í landareignir en flestar þessar ár eru miklar laxveiðiár. Sauðfjárrækt er algengasti búskaparhátturinn en þar eru veður svöl og kalár mörg. Hlunnindi á borð við dúntekju og reka er í hreppnum. Mjóifjörður (Austfjörðum). Mjóifjörður er fjörður á Austfjörðum á Austurlandi. Við fjörðinn er þorpið Brekkuþorp sem almennt er kallað Mjóifjörður. Mjóafjarðarhreppur var sjálfstætt sveitarfélag til 9. júní 2006, en sameinaðist þá Fjarðabyggð, ásamt Austurbyggð og Fáskrúðsfjarðarhreppi, að afloknum sveitarstjórnarkosningum 2006. Fyrir sameiningu var hreppurinn fámennasta sveitarfélag á Íslandi með 42 íbúa 1. desember 2005. Hvalveiðar á Mjóafirði. Mjóifjörður var um skeið miðstöð hvalveiða við Ísland. Norskir hvalveiðimenn sem áður höfðu verið á Vestfjörðum en hurfu þaðan þegar hvalur var þar uppurinn fluttu sig til Mjóafjarðar. Hans Ellefsen flutti sig frá Önundarfirði 1901 og Lárus Berg kom 1903 en hann hafði áður verið á Framnesi við Dýrafjörð. Ellefsen setti upp hvalveiðistöð á Asknesi sunnan megin fjarðarins og Berg setti upp sína stöð í botni fjarðarins. Hvalveiðarnar stóðu yfir í tólf ár. Í hvalveiðistöð Ellefsen voru mikil umsvif, 20 hús voru byggð auk skipabryggju og skipabrautar. Hvalveiðibátar þar voru flestir níu og alltaf tvö flutningaskip. Árið 1903 komu á land á Asksnesi 486 hvalir og var það aflamesta sumarið en talið er að alls hafi 3200 hvalir verið veiddir í Aksneshvalveiðistöðinni og rúmlega 2000 hvalir í hvalveiðistöð Bergs. Þannig hafa um 5200 hvalir veiðst meðan hvalveiðistöðvarnar voru í Mjóafirði. Aðaldælahreppur. Aðaldælahreppur var hreppur við Skjálfandaflóa. Hreppurinn varð til undir lok 19. aldar þegar Helgastaðahreppi var skipt í tvennt, í Aðaldælahrepp og Reykdælahrepp. Í kjölfar atkvæðagreiðslu þann 26. apríl 2008 sameinaðist hreppurinn nágrannasveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Breiðdalshreppur. Breiðdalshreppur er sveitarfélag sem nær yfir Breiðdal, en hann er landmestur dala á Austfjörðum. Þéttbýli er í Breiðdalsvík. Sveitarfélagið náði áður til Stöðvarfjarðar en því var breytt árið 1905. Náttúra. Breiðdalur skiptist í tvo dali um fjallið Kleifarháls, í Norðurdal og Suðurdal þar sem þjóðvegur 1 liggur um þann síðarnefnda. Sveitin er grösug og nýtast heiðar og fjöll til beitar sauðfjár en sauðfjárrækt er einn af aðalatvinnuvegum hreppsins ásamt fiskvinnslu á Breiðdalsvík. Menning. Breiðdalssetur er starfrækt í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík. Þar er jarðfræðisetur til minningar um enska jarðfræðinginn George Patrick Leonard Walker, sem vann merkar rannsóknir á jarðfræði Austurlands og Austfjarða. Einnig minningarstofa um málfræðinginn Stefán Einarsson prófessor í Baltimore í Bandaríkjunum. Djúpavogshreppur. Djúpavogshreppur er hreppur á sunnanverðum Austfjörðum. Hreppurinn varð til þann 1. október 1992 við sameiningu þriggja hreppa: Búlandshrepps, Beruneshrepps og Geithellnahrepps. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur og landbúnaður. Til hreppsins heyrir Papey. Fáskrúðsfjarðarhreppur. Fáskrúðsfjarðarhreppur var hreppur við Fáskrúðsfjörð á Austfjörðum. Þéttbýlismyndun hófst á Búðum í lok 19. aldar og var þorpið gert að sérstökum hreppi, Búðahreppi árið 1905, en varð hluti Austurbyggðar árið 2003. Hinn 9. júní 2006 sameinaðist Fáskrúðsfjarðarhreppur Austurbyggð, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhreppi undir merkjum Fjarðabyggðar, að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum 2006. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 48. Kjósarhreppur. Kjósarhreppur er sveitarfélag á Vesturlandi. Stundum er talað um Kjósina sem „sveit í borg“ vegna nálægðarinnar við Reykjavík. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Kjósarhreppur er 302 ferkílómetra að stærð og liggur í norðanverðri Kjósarsýslu. Hreppurinn liggur að Reykjavík, Bláskógabyggð og Hvalfjarðarsveit. Íbúar í Kjósarhreppi. Íbúar Kjósarhrepps voru 450 um aldamót 19. og 20 aldar en voru 144 um síðustu aldamót. Börn í hreppnum sækja Klébergsskóla á Kjalarnesi. Félagsheimilið Félagsgarður hýsir skrifstofu hreppsins. Um 600 frístundahús eru í hreppnum. Samkvæmt jarðarskrá 2005 eru 47 jarðir skráðar í Kjósarhrepp og þar af eru 37 í ábúð. Á 27 bújörðum er jarðareigandi ábúandi. Fjöll, hálsar og heiðar. Í hreppnum er norðanverð Esjan, norðanverðir Móskarðshnúkar og norðanvert Skálafell, Kjölur, Kjósarheiði, Botnsúlur (sunnanhluti fjallaklasans), sunnan- og vestanvert Múlafjall, Þrándarstaðafjall, Sandfell, Meðalfell, Möðruvallaháls, Sandfell, Eyrarfjall. Dalir. Í hreppnum eru dalirnir Miðdalur, Eilífsdalur, Flekkudalur, Eyjadalur, Laxárdalur, Svínadalur, Fossárdalur og Brynjudalur. Vatnsföll. Í hreppum renna árnar Kiðafellsá, Laxá í Kjós, Bugða, Skorá, Dælsá, Miðdalsá, Flekkudalsá, Sandá, Svínadalsá, Þverá, Hálsá, Fossá, Brynjudalsá. Laxá er ein besta veiðiá landsins. Í henni er Þórufoss. Vötn. Í hreppnum eru Meðalfellsvatn, Myrkavatn, Sandvatn, Grindagilstjörn, Sandfellstjörn, Eyjatjörn og Hurðarbakssef. Í hreppnum eru vogarnir Botnsvogur, Brynjudalsvogur og Laxvogur og víkin Hvammsvík og nesið Hvítanes. Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Laufey Valdimarsdóttir dóttir hennar Bríet Bjarnhéðinsdóttir (27. september 1856 á Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu – 16. mars 1940 í Reykjavík) var íslensk baráttukona fyrir réttindum kvenna, útgefandi og ritstjóri. Hún var kosin bæjarfulltrúi í bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík 1908 (sjá Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916). Hún bauð sig fram til Alþingis, fyrst kvenna. Hefði ekki verið fyrir ný lög um útstrikanir hefði Bríet orðið fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Hún var gift Valdimar Ásmundssyni ritstjóra Fjallkonunnar. Á Kvenréttindadeginum, þann 19. júní 2011 var minning hennar formlega heiðruð af Reykjavíkurborg. Æviágrip. Bríet ólst að mestu leyti upp á Böðvarshólum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Þegar hún var 24 ára gömul, árið 1880, fór Bríet í Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Þaðan tók hún burtfararpróf um vorið með eldri deildinni við skólann og var hæst á því prófi. Stúlkum var ekki gefinn kostur á frekari menntun á þeim tíma, og Bríet sneri sér að barna- og unglingakennslu í Þingeyjarsýslu. Strax sextán ára gömul ritaði hún grein um stöðu kvenna, en sýndi engum fyrr en 13 árum seinna, er hún birtist endurbætt undir heitinu „"Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna"“ í tímaritinu "Fjallkonan" í tveimur hlutum, 5. júní og 22. júní 1885 undir dulnefninu "Æsa". Haustið 1887 flutti hún til Reykjavíkur og kenndi í heimahúsum, konur sóttu enn hvorki né kenndu í skóla. Þann 30. desember hélt hún opinberan fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu um hagsmuni og réttindi kvenna, fyrirlesturinn kom stuttu síðar út á prenti. Um ári seinna, haustið 1888, giftist hún Valdimari Ásmundssyni, ritstjóra "Fjallkonunnar". Saman eignuðust þau tvö börn, Laufeyju og Héðin (1892), en hann átti eftir að verða mikilsvirtur stjórnmálaleiðtogi og athafnamaður. Valdimar maður hennar lést skyndilega árið 1902. Árið 1894 var Bríet ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags. Árið 1895 hóf Bríet útgáfu á "Kvennablaðinu", hún var jafnframt ritstjóri þess til 1926. Bríet átti hugmyndina að stofnun Blaðamannafélagsins og eiginmaður hennar var meðal stofnfélaga 1897. Milli 1898 og 1903 gaf hún út "Barnablaðið". Bríet var á ferðalagi um Danmörku, Noreg og Svíþjóð árið 1904 og komst þá í kynni við kvenréttindafrömuði. Í gegnum þá frétti Carrie Chapman Catt, sem stofnað hafði Alþjóðakosningaréttarsamtökin (e. "The International Woman Suffrage Alliance (IWSA)") í Washington árið 1902 af Bríeti og hófu þær að skiptast á bréfum. Fyrsta þing Alþjóðakosningaréttarsamtakanna var haldið í Berlín 1904 og var Catt kjörin formaður samtakanna. Catt bauð Bríeti að koma á þing samtakanna í Kaupmannahöfn árið 1906, jafnvel þó að engin kvenréttindasamtök væru enn starfrækt á Íslandi. Bríet þáði boðið og flutti á þinginu erindi um réttindi og stöðu kvenna á Íslandi. 1907 var Bríet upphafsmaður að stofnun Kvenréttindafélags Íslands og var formaður frá 1907 til 1911 og aftur milli 1912 og 1927. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík sameinuðust Hið íslenska kvenfélag, Kvenréttindafélag Íslands, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn um að bjóða fram Kvennalista. Bríet var á framboðslistanum og hlaut kosningu ásamt þremur öðrum frambjóðendum hans. Hún sat í bæjarstjórn milli 1908 og 1912 og aftur milli 1914 og 1920. Árið 1912 kom til landsins gufuvaltari sem var forsenda þess að hægt var að malbika götur Reykjavíkur og þótti það mikil framför. Bríet hafði mælt fyrir kaupunum ásamt Knud Zimsen borgarstjóra. Í endurminningum Knuds segir svo: „Eftir að þetta þarfa tæki var komið, þótti sumum bæjarfulltrúunum maklegt, að það bæri nöfn okkar Bríetar og nefndu það "Bríet Knútsdóttir", en að öllum jafni var föðurnafninu þó sleppt.“ Bríet var lengi í notkun og var alþekkt meðal Reykvíkinga. Valtarinn er nú í Árbæjarsafni en var fluttur í Ráðhús Reykjavíkur 24. janúar 2008 vegna sýningar í tilefni af því að öld var þá liðin frá því að konur tóku fyrst sæti í borgarstjórn Reykjavíkur. 1914 var Bríet einn af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsóknar. Hún var í 4. sæti landslista heimstjórnarmanna fyrir alþingiskosningar 1916 en vegna útstrikana fór hún niður í 5. sætið. Í þessum kosningum fékk Heimastjórnarflokkur þrjá menn af landslista, efstur á listanum var Hannes Hafstein en hann sótti ekki þingfundi eftir 1918 og kom þá 4. maður á lista heimastjórnarmanna inn í staðinn fyrir hann. Hefði ekki verið fyrir ný lög um útstrikanir hefði Bríet orðið fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1928. Hún var fyrsta nafngreinda konan á frímerki á Íslandi, árið 1978. Bríetartún, áður Skúlagata. Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Skúlagötu í Reykjavík skyldi breytt í Bríetartún til að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Höfðatúns í Katrínartún (til heiðurs Katrínu Magnússon, nafni Sætúns í Guðrúnartún (til heiðurs Guðrúnu Björnsdóttur) og nafni Skúlatúns í Þórunnartún (til heiðurs Þórunni Jónassen). Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Austurbyggð. Austurbyggð var sveitarfélag á Austfjörðum. Það varð til 1. október 2003 við sameiningu Búðahrepps og Stöðvarhrepps. Hið nýja sveitarfélag varð þó skammlíft, því 9. júní 2006 sameinaðist það Fáskrúðsfjarðarhreppi, Mjóafjarðarhreppi og Fjarðabyggð undir merkjum Fjarðabyggðar, að afloknum sveitarstjórnarkosningum 2006. Innan Austurbyggðar voru þorpin Fáskrúðsfjörður (einnig kallað Búðir) og Stöðvarfjörður við samnefnda firði. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 859. Blönduós. Blönduós er bæjarfélag á Norðvesturlandi, við ósa Blöndu, eins og nafnið bendir til. Byggðin á Blönduósi stendur í kvos undir bröttum marbökkum, báðum megin Blöndu, og eru bakkarnir víðast um 40 m háir. Bærinn er byggður í landi jarðanna Hjaltabakka og Hnjúka, vestan ár (eða sunnan ár, eins og heimamenn segja) og Ennis austaan (norðan) ár. Þjóðvegur 1 liggur í gegnum Blönduós. Bærinn var upphaflega í tveimur sveitarfélögum, byggðin sunnan ár tilheyrði Torfalækjarhreppi en norðan ár Engihlíðarhreppi, en árið 1914 var Torfalækjarhreppi skipt og byggðin sunnan ár varð að sérstökum hreppi, "Blönduóshreppi". Þann 1. febrúar 1936 var byggðin norðan ár svo sameinuð afganginum af kauptúninu. Kaupstaðarréttindi fékk hann 4. júlí 1988 og kallaðist þá "Blönduósbær" og hélst það nafn áfram við sameiningu við Engihlíðarhrepp 9. júní 2002. Saga. Blönduóss er fyrst getið sem lendingarstaðar í Landnámabók og víða í Íslendingasögum er talað um skipakomur þangað en á síðari öldum virðist ekki hafa verið siglt þangað fyrr en á 19. öld. Eini verslunarstaðurinn í Húnaþingi var þá Höfðakaupstaður (Skagaströnd). Mörgum Húnvetningum þótti þó langt að sækja verslun þangað og þann 1. janúar 1876 var Blönduós löggiltur sem verslunarstaður. Sumarið eftir voru útmældar nokkrar verslunarlóðir og tveir verslunarskúrar reistir. Kaupfélag Austur-Húnvetninga fékk útmælda lóð 1896 og árið 1909 var reist steinsteypt verslunarhús sem enn stendur. Íbúðarhús risu einnig kringum verslanirnar. Árið 1890 voru 52 íbúar á Blönduósi og um aldamótin voru þeir orðnir 106. Árið 1920 voru á Blönduósi 11 steinhús, 15 timburhús og 31 torfbær. Lögferja kom á ósa Blöndu um það bil sem byggð hófst þar og brú var svo reist á árunum 1896-1897 og var mjög mikil samgöngubót og tengdi líka þorpið, sem var að byggjast upp báðum megin árinnar. Núverandi brú var reist 1962-1963. Á árunum 1994-1895 var gerð bryggja utan við ána og varð Blönduós þá fastur viðkomustaður strandferðaskipa. Kvennaskóli Húnvetninga var fluttur á Blönduós 1901 og var núverandi skólahús reist 1912. Skólinn starfaði allt til 1978 en var þá lagður niður og eru Textílsetur Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið nú í húsakynnum skólans. Á Blönduósi er einnig Hafíssetrið í Hillebrandtshúsi og verið er að koma upp Laxasetri Íslands í bænum. Gamla kirkjan á Blönduósi var flutt þangað frá Hjaltabakka 1894 og reist sunnan ár. Hún er nú friðuð en ný kirkja var reist norðan ár 1993. Prestssetur hefur verið á Blönduósi frá 1968. Sýslumaður Húnvetninga hefur haft aðsetur á Blönduósi frá 1897 og sama ár varð þar læknissetur. Sjúkrahúsið, Héraðshæli Austur-Húnvetninga, var tekið í notkun 1956. Atvinnulíf Blönduóss byggist á margs konar matvælaiðnaði og öðrum léttum iðnaði, svo og verslun og þjónustu við íbúa héraðsins og ferðamenn. Á Blönduósi hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð Veðurstofunnar síðan 1998. Stykkishólmur. Stykkishólmur er bær og sveitarfélag yst á Þórsnesi og norðan við Nesvog á Snæfellsnesi. Stykkishólmur breyttist úr bæ í kaupstað árið 1987 og er nú stærsta kauptún á Snæfellsnesi. Höfn er mjög góð frá náttúrunnar hendi í stykkishólmi og fyrir utan innsiglinguna ver þverhnýpt Súgandisey hana ágangi. Stórskipabryggja var byggð út í Stykkishólma þann sem kaupstaðurinn ber nafn af árið 1907 og þaðan gengur Breiðafjarðarferjan Baldur yfir Breiðafjörðinn að Brjánslæk á sunnanverðum Vestfjörðum. Margvíslegar hafnarbætur hafa átt sér stað síðan og var dráttarbraut fyrir allt að 100 lesta báta byggð í Stykkishólmi árið 1941 og svo önnur fyrir 400 lesta báta á árunum 1963-1967. Verslun og þjónusta. Bærinn hefur frá 19. öld verið miðstöð verslunar og þjónustu fyrir Breiðafjörð og nærliggjandi svæði. Elstu heimildir um verslun í Stykkishólmi eru frá 1597, þá þegar Þjóðverji að nafni Carsten Bache fékk leyfi til verslunar þar. Um það leiti var einnig verslun í Búðarnesi, en hún lagðist af þremur árum síðar. Síðan hefur verið verslun óslitið í Stykkishólmi, enda þótti staðurinn liggja mjög fyrir sem verslunarmiðstöð fyrir allt Snæfellsnes. Verslun í Stykkishólmi var einokunarverslun allt til 1794, að Jón Kolbeinsson (1765-1836) frá Flatey hóf þar verslun fyrstur innlendra manna. Ólafur Thorlacius keypti svo árið 1806, verslun Didriks Hölter einokunarkaupmanns, ásamt með versluninni í Búðarnesi og tók svo sonur hans, Árni Thorlacius við versluninni árið 1827. Árni hóf útgerð þilskipa árið 1827 og mun hann hafa fyrstur Íslendinga á seinni öldum orðið til að stýra skipi yfir Atlantshaf. Fleiri komu svo fljótlega í kjölfarið með tilheyrandi fólksfjölgun á staðnum. Eftir 1865 dró úr útgerð frá Stykkishólmi sökum skipstapa og mannskaða og tengdum fjárhagsörðugleikum, en um 1890 tók útgerðin aftur við sér. Í millitíðinni hafði Árni Thorlacius hætt verslun sinni árið 1837 og útgerð árið 1845 og gerst þess í stað umboðsmaður Stapa- og Skógarstrandarumboðs um leið og hann rak búskap á jörðum sínum. Árni Thorlacius reisti í Stykkishólmi 1828, stórt timburhús, Norska húsið, sem stendur þar enn og þykir með merkilegri gömlum húsum á staðnum. Nafngiftina hlaut þetta fyrsta tvílyfta og um tíma stærsta íbúðarhús sem reist var hérlendis, sökum þess að allur efniviður í það var sóttur tilhöggvin til Noregs. Húsið var gert upp og fært í upprunalegt horf á árunum 1972-1987 og er þar nú Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla. Skóli var reistur í Stykkishólmi árið 1896, iðnskóli 1952 og tónlistarskóli stofnaður þar 1959. Sýslumaður Snæfellinga og Hnappdæla hefur setið í Stykkishólmi frá ofanverðri 18. öld og læknir líka. Árið 1936 tók þar til starfa sjúkrahús sem reist var og rekið af reglu heilgas Fransiskusar sem einnig heldur þar klaustur og rekur barnaheimili. Amtsbókasafn Vesturamtsins var stofnað í Stykkishólmi árið 1847 og nýtt bókasafn 1960. Þar hefur verið veðurathugunarstöð frá árinu 1845 og er það sú elsta á landinu. Næst stærsta vatnsrennibraut Íslands er á Stykkishólmi í Sundlaug Stykkishólms. Þjóðarmorðið í Rúanda. Jarðneskar leifar fórnarlamba þjóðarmorðsins Rúanda. Myndin er tekin árið 2001. Í þjóðarmorðinu í Rúanda var 800.000 manns, flestum af Tútsí-ættbálki en einnig af Hútu-ættbálki, bókstaflega slátrað af öfgamönnum Hútúa (Interahamwe) á 100 daga tímabili árið 1994. Margir telja að þjóðarmorðið í Rúanda, skeri sig úr sagnfræðilega, ekki aðeins vegna þess gríðarlega fjölda fólks sem var myrt á örskömmum tíma, heldur einnig vegna viðbragða Vesturveldanna við atburðunum. Þrátt fyrir aðvaranir áður en morðaldan hófst og þrátt fyrir að heimspressan birti fréttir af því gengdarlausa ofbeldi sem átti sér stað, sá ekkert hinna stærri vesturvelda sér fært að blanda sér í málið. Á þessum tímapunkti neituðu Sameinuðu þjóðirnar að beita friðargæslusveitum sínum, sem staðsettar voru í Rúanda undir forystu hershöfðingjans Roméo Dallaire, og koma þannig í veg fyrir blóðbaðið. Þessi viðbröð urðu brennidepill biturra ásakanna, sér í lagi á hendur stefnumarkandi einstaklingum eins og Jacques-Roger Booh-Booh en einnig á hendur SÞ og landa eins og Frakklands og Bandaríkjanna, auk Bills Clinton Bandaríkjaforseta. Clinton fékk fréttir af ástandinu í Rúanda daglega frá helstu ráðgjöfum sínum og frá bandaríska sendiráðinu í Rúanda. Aðrir hvöttu Clinton til að halda sig frá Rúanda vegna þess pólitíska ástands sem skapaðist ári fyrr, þegar misheppnuð tilraun var gerð til að veita hjálp í stríðsátökum í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu. Endir var loks bundinn á þjóðarmorðið þegar uppreisnarhreyfing Tútsa, þekkt undir heitinu „Rwandese Patriotic Front“ eða RPF, leidd af Paul Kagame, steypti Hútú-stjórninni af stóli og náði völdum í landinu. Í kjölfar þjóðarmorðsins var ýmsum refsiaðgerðum beitt gegn Hútúum og olli það flótta þúsunda manna inn í austurhluta Saír (sem nú kallast Lýðveldið Kongó). Hið gegndarlausa ofbeldi og þeir hrottafengnu atburðir sem áttu sér stað í Rúanda hafa enn áhrif á svæðið og þjóðarbrotin. Stríðsátökin í Kongó má rekja til þjóðarmorðsins í Rúanda, sem og áframhaldandi borgarastríð í Búrúndí. Seltjarnarnes. Seltjarnarnes er bær á höfuðborgarsvæðinu, landminnsta sveitarfélag Íslands og stendur yst á samnefndu nesi. Lýsing. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði frá Gróttu, sem þá var breitt nes en ekki eyja, að Elliðaám og austur með þeim til fjalla. Hreppurinn náði þvert yfir nesið, frá Kollafirði suður í Skerjafjörð. Jörðin Kópavogur var í Seltjarnarneshreppi og það var Reykjavík vitaskuld einnig. Nú eru bæjarmörk Seltjarnarness og Reykjavíkur um Eiðisvík að norðan og Lambastaðamýri að sunnan. Nesið er láglent, hæst ber Valhúsahæð, 31 m yfir sjávarmáli. Ströndin er vogskorin og hefur orðið töluvart landrof á nesinu af sjógangi, bæði við Gróttu og einnig við Seltjörn, sem áður var tjörn eins og nafnið bendir til en er nú vík. Aftur á móti var Bakkatjörn áður vogur en var lokað og breytt í tjörn um 1960. Varnargarðar hafa verið hlaðnir víðast hvar við ströndina til að verjast ágangi sjávar. Bæði Grótta og Bakkatjörn eru friðlýstar og þar er fjölskrúðugt fuglalíf. Allnokkrar jarðir voru á Seltjarnarnesi og var þar stundaður hefðbundinn búskapur en einnig var töluverð útgerð frá nesinu. Stjórnmál. Eftir að Lambastaðaland byggðist upp um og eftir síðari heimsstyrjöldina var ákveðið að byggðin yst á nesinu yrði sérstakt sveitarfélag og var það stofnað um áramótin 1947-1948. Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi 29. mars 1974. Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti er skipaður Sjálfstæðisflokknum og hefur svo verið um áratuga skeið. Sigurgeir Sigurðsson var sveitarstjóri og síðan bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í 37 ár, eða frá 1965 til 2002. Jónmundur Guðmarsson tók við af honum en nú gegnir Ásgerður Halldórsdóttir starfi bæjarstjóra. Menning. Lækningaminjasafn Íslands er til húsa í Nesstofu á Seltjarnarnesi, þar sem Bjarni Pálsson, fyrsti landlæknir Íslands, hafði aðsetur á síðari hluta 18. aldar. Nesstofa, sem er eitt af elstu steinhúsum landsins, er í umsjá safnsins og á svæðinu er verið að reisa húsnæði fyrir safnið. Í Nesi er einnig lyfjafræðisafn. Á Seltjarnarnesi er aðsetur Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði á Íslandi. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem hýsir aðalsjónauka félagsins. Einnig er starfrækt sjálfstætt leikhús á Nesinu sem ber heitið Norðurpóllinn. Það var stofnað í janúar 2010 og frumsýndi á sínu fyrsta leikári 12 leiksýningar og hýsti meðal annars sýningar á Barnamenningarhátíð Reykjavíkurborgar. Íþróttir. Á Seltjarnarnesi er starfrækt Íþróttafélagið Grótta sem nefnt er eftir eynni Gróttu. Félagið rekur fjórar deildir, knattspyrnudeild, handknattleiksdeild, fimleikadeild og kraftlyftingadeild. Fjöldi Íslandsmeistaratitla hefur unnist í öllum yngri flokkum félagsins. Skólar. Stafræktir eru 2 skólar á Seltjarnarnesi. Þetta eru Mýrarhúsaskóli fyrir 1. til 6. bekk og Valhúsaskóli fyrir 7. til 10. bekk. Þeir voru sameinaður undir nafninu Grunnskóli Seltjarnarness, 1. ágúst árið 2004. Skólastarf fer fram í báðum skólum og eru nemendur í 1.-6 bekk í Mýrarhúsaskóla og nemendur 7.-10 bekk í Valhúsaskóla. Nemendur í grunnskólanum eru um 650. Mýrarhúsaskóli er einn elsti skóli landsins en hann var stofnaður árið 1875. Hvatamaður að stofnum skólans var Ólafur Guðmundsson, útvegsbóndi í Mýrarhúsum. Ólafur hafði stundað sjósókn frá Vatnsleysuströnd og hafði kynnst skólahaldi þar. Fyrsti kennari skólans var Sigurður Sigurðsson. Fyrstu húsakynni skólans voru í Mýrarhúsum en fljótlega voru þrengsli farin að segja til sín og árið 1883 var nýtt skólahús úr hlöðnu grjóti tekið í notkun og vígt með viðhöfn. Næsta skólahús var byggt árið 1906 og stendur það enn og setur mikinn svip á umhverfi sitt. Húsinu hefur verið vel við haldið og er nýtt undir starfsemi Seltjarnarnesbæjar í dag. Árið 1960 flutti skólinn í nýtt og fullkomið skólahúsnæði sem síðan er búið að byggja við fjórum sinnum. Valhúsaskóli var stofnaður út úr Mýrarhúsaskóla árið 1974 og starfaði því sjálfstætt í 30 ár. Ólafur H. Óskarsson var ráðgjafi skólanefndar Seltjarnarnesbæjar við hönnun og byggingu skólans. Hann ferðaðist víða, meðal annars erlendis, til að kynna sér hönnun skólabygginga og starfaði hann náið með arkitekt skólans. Ólafur var síðar ráðinn fyrsti skólastjóri Valhúsaskóla og gengdi því starfi frá 1974 til 1997. Mysa. Mysa er vökvi síaður úr við skyrgerð eða úr hleyptri mjólk þegar gerður er ostur. Vökvinn er svo látinn gerjast til að úr honum verði sýra, en hún hefur verið notuð á Íslandi til drykkjar og - fyrir tíma matarsalts og kæliskápa - til þess að varðveita mat. Var maturinn þá lagður í súr í þar til gerðum tunnum eða keröldum. Hann geymdist vel í mysunni, en slíkur matur er nefndur súrmatur og er enn vinsæll, einkum um þorrann. Áður fyrr var líka vinsælt að blanda sýrðri mysu saman við vatn, og varð þá til svaladrykkur sem kallaðist sýrublanda og er sagður mjög leskjandi. Í mysu eru mjólkursýrugerlar sem kljúfa mjólkursykur og mynda mjólkursýru sem gefa henni súra bragðið. Mysan er sögð mjög holl, þar sem hún innihaldi mysuprótein sem stuðli að uppbyggingu vöðva og lækki háan blóðþrýsting. Bókstafstrú. Bókstafstrú er það þegar algjör trú er lögð á trúarsetningar (kreddur). Ófrjósemi. Það eru 10-15% af öllum pörum á Íslandi sem eiga við ófrjósemi að stríða. Til að par teljist eiga við "ófrjósemi" að stríða þarf það að hafa stundað reglulegt, óvarið kynlíf í eitt ár eða lengur án þess að úr verði barn. Þar sem það þarf alltaf tvo til að úr verði barn segir það sig sjálft að orsök ófrjóseminnar getur legið hvort sem er hjá karlmanninum eða konunni. Legslímuflakk - (e. endometriosis). Einkenni legslímuflakks eru meðal annars: mjög kvalarfullir túrverkir, verkir við samfarir, verkir við hægðir og í mjög mörgum tilfellum ófrjósemi. Eina leiðin til að greina legslímuflakk er með kviðarholspeglun sem er tiltölulega einföld aðgerð. Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni - (e. Polycystic Ovarian Syndrome, PCOS). Einkenni PCOS eru meðal annars: Óreglulegar blæðingar, tíðastopp, offita, bólur í andliti, kýli á líkama, brúnir blettir, húðsepar og þunglyndi. Um ein af hverjum 5 konum er talin vera með PCOS, meginþorri þeirra kvenna sem við þetta stríða þurfa einhverntíma að kljást við ófrjósemi. Egglos er stopult og óreglulegt og getur því verið erfitt að fylgjast með því. Engin lækning er til við PCOS en það er hægt að meðhöndla einkennin með lyfjagjöf, breyttu mataræði og hreyfingu. Stíflur eða samgróningar í eggjaleiðurum. Þegar um stíflur í eggjaleiðurum er að ræða er í mörgum tilfellum hægt að fjarlægja þær með einum eða öðrum hætti. Hins vegar er það þannig þegar um samgróninga er að ræða að það getur verið mjög erfitt að reyna að opna fyrir eggjaleiðarann/-ana og þá er eina lausnin til að reyna að verða barnshafandi sú að fara í glasafrjóvgun. Síendurtekin fósturlát. Talað er um síendurtekin fósturlát þegar konan verður ófrísk (það koma tvö strik á þungunarprófið) en nær af einhverjum ástæðum ekki að ganga með. Það er mjög mismunandi á hvaða tíma fósturlátið verður, allt frá því að gerast á fyrstu vikunum, í kring um 3ja mánaða tímabilið þegar venjulega er talað um að „örugga“ tímabil meðgöngunnar sé komið, eða eftir það. Í þessum tilfellum eru væntanlegir foreldrar oft búnir að sjá og fá að heyra hjartslátt og missirinn er nokkuð öðruvísi en eftir 2ja vikna bið og að komast að því að fósturvísirinn hafi ekki fest sig eða að tæknisæðingin hafi ekki heppnast. Líka vegna þess að í ófáum tilfellum þarf konan að fara í svokallað útskrap til að fjarlægja fóstrið úr leginu ef það fer ekki út sjálft með tíðarblóði. Léleg eða engin egg. Í einhverjum tilfellum gerist það að kona fæðist án eggfrumna eða að eggfruman þroskist einhverra hluta vegna ekki í eggjastokknum og þá er eina ráðið að fá egg að gjöf frá annarri konu. Svipað er uppá teningnum þegar um léleg egg er að ræða, en konur fæðast (venjulega) með öll sín egg í eggjastokkunum og ef allt er eðlilegt þá þroskast eitt í hverjum tíðarhring. Eftir því sem aldurinn færist yfir verða eggin eldri og skurnin getur þykknað þannig að sáðfruma nái ekki að brjótast í gegn eða eggin verða hreinlega ónothæf. Í þessum tilfellum er eina lausnin ef konan vill eiga tækifæri á því að ganga með barn að fá gjafaegg frá annarri konu. Æðagúlpur eða æðaflækja við eistu. Eistun hanga í pungnum utan við líkaman. Þetta vitum við öll. Og ástæðan er sú að eistun þurfa lægri líkamshita til að geta framleitt sáðfrumur. Þegar karlmaður er með æðagúlp eða -flækju við eistun vill hitinn í pungnum hækka og valda því að sæðisframleiðslan verður léleg eða hreinlega engin. Hægt er að reyna að bæta ástandi með minniháttar aðgerð þar sem lokað er fyrir blóðflæði til blóðríkra æða í gúlpnum/flækjunni í þeirri von að hitinn muni lækka og sæðisframleiðslan taki við sér. Lélegt eða vanskapað sæði. Nokkuð hefur verið rætt um aukið magn estrogens í umhverfinu og hvernig það hefur áhrif á sæðisframleiðslu hins almenna karlmans (ekki gott), þröngar nærbuxur, heit böð og heitir pottar og fleiri hlutir hafa líka áhrif á gæði sæðisins. Vanþroska sæði. Þetta getur orsakast af æðagúlp eða -flækju eins og kom fram hér að ofan en í einhverjum tilfellum þá gerist þetta af ókunnum orsökum. Hægt er að reyna að finna þroskaðar frumur í sæðissýni og freista þess að glasafrjóvgun eða smásjárfrjóvgun gangi, en ef ekki þá er eina lausnin sú að fá gjafasæði. Ekkert sæði. Ef karlmaðurinn framleiðir ekki sáðfrumur er eina lausnin að fá gjafasæði. Meðferðirnar sem taldar eru upp hér að neðan eru þá framkvæmdar með sæði frá sæðisgjafanum í stað sæðis frá maka. Tæknisæðing. Þegar par fer í tæknisæðingu er konan látin örva hjá sér eggjastokkana þannig að örugglega verði egglos og kvöldið fyrir tæknisæðinguna sprautar hún sig með svokallaðri miðnætursprautu sem tryggir að egglosið verði á réttum tíma. Karlmaðurinn skilar inn sæðisprufu um morguninn sem er unnin (lélegar frumur fjarlægðar, sett í vökva sem hjálpar sáðfrumunum að synda). Um hádegisbil er aðgerðin svo gerð. Örlitlu röri er stungið upp í gegnum leggöngin, í gegnum leghálsinn og alveg upp að legbotninum og sæðinu er sprautað þangað svo það eigi sem bestan möguleika á að hitta á eggið og úr verði barn. Glasafrjóvgun. Þegar um glasafrjóvgun er að ræða fer konan fyrst í gegnum ferli sem minnir á tíðarhvörf þar sem slökkt er á hormónastarfseminni. Eftir það tekur svo við tímabil þar sem eggjastokkarnir eru örvaðir þannig að sem flest eggbú þroskist. Þá tekur við eggheimta sem er smá aðgerð framkvæmd með deyfingu. Karlmaðurinn skilar sæðisprufu sem er unnin á svipaðan hátt og við tæknisæðingu. Kynfrumunum er svo komið fyrir í tilraunaglasi og þeim leyft að leika lausum hala, ef svo má að orði komast, og úr verða vonandi einn eða fleiri fósturvísar. Fósturvísarnir eru svo annaðhvort settir upp hjá konunni tveimur dögum seinna eða þeir frystir og hugsanlega notaðir seinna. Hér á Íslandi eru aldrei settir upp fleiri en 3 fósturvísar og yfirleitt ekki nema einn eða tveir. Þetta er gert til að koma í veg fyrir fjölburafæðingar en þó kemur af og til fyrir að úr verða tví- eða þríburar. Smásjárfrjóvgun. Ferlið þegar um smásjárfrjóvgun er að ræða er að mestu leyti eins og við glasafrjóvgun, nema í stað þess að leyfa kynfrumunum að kynnast í glasi þá er valin úr ein sáðfruma og henni sprautað í eitt egg. Þetta er gert við öll eggin sem nást við eggheimtu og svo er beðið og séð hversu mörg skipta sér og verða að fósturvísum. Uppsetningin er svo með sama hætti. Asymmetric Digital Subscriber Line. Asymmetric Digital Subscriber Line (ADSL) er gerð af DSL, samskiptatækni sem gerir flutning gagna um símalínu töluvert hraðari en hefðbundin mótöld. Auðgunarbrot. Auðgunarbrot eða fjármunabrot er afbrot framið í þeim tilgangi að hagnast fjárhagslega. Auðgunarbrot koma fram í XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot framin í auðgunarskyni beinast yfirleitt að tilteknu verknaðarandlagi og felast brotin í ólögmætri yfirfærslu slíkra verðmæta til annarra einstaklinga eða lögaðila sem ekki hafa umráð yfir þeim. Í þessu felst að í auðgunarbrotum er auðgunarásetningur sem beinist að tilteknu verknaðarandlagi og ólögmætri yfirfærslu verðmætanna. Auðgunarbrot eru ólík en hafa viss sameiginleg einkenni, þau eru tjónsbrot og sum með fullframningarstig fært fram og verðgildi fjármuna þarf ekki að rýrna við brotin heldur færast þau með ólögmætri yfirfærslu fjármuna til einhvers eða einhverra sem ekki á rétt til þeirra. Andlag brotanna hefur alltaf eitthvað fjárhagslegt gildi og því geta verðlausir munir ekki verið verknaðarandlag brotanna. Brotið þarf því að beinast að einhverju verðmæti. Einkenni auðgunarbrota er saknæmisskilyrðið, sbr. ásetningur í 18. gr. hgl. og dugar gáleysi ekki til. Brottnám (líffræði). Brottnám getur átt við brottnám líffæra eða líffæraparta; t.d þegar vísindamenn framkvæma geðskurðaðgerð með því að nema brott ákveðinn hluta af heila í dýri til að sjá hvaða áhrif það hefur. Frammistaða dýrsins er metin á ákveðnum prófum fyrir og eftir aðgerð. Ef breytingin er greinileg má kenna brottnáminu um það. Svipuð aðferð var notuð til að breyta hegðun manna áður en sú aðferð kallaðist hvítuskurður. Brottnám líffæra getur einnig verið nauðsynlegt vegna sjúkdóma eða heilkenna. Það kemur fyrir að líffæri eða líkamshlutar sem hafa í sér æxli eru fjarlægð í heild sinni eða hluta, t.d. brjóstkrabbameini eða legkrabbameini. Algengasta brottnám er líklega botnlangaskurður, þegar kviðarhol sjúklingsins er opnað og botnlangatotan (appendix) er fjarlægð vegna bólgu og sýkingar (appendicitis, appendectomy). Adenósínþrífosfat. Adenósínþrífosfat (ATP) er í raun staðlað form efnaorku sem allar lífverur notfæra sér við orkumiðlun. ATP er þó alls ekki forðaefni, en lífverur geyma forðaorku ýmist í formi mjölva, glýkógens og fitu. Íslensk króna. Íslenska krónan hefur alla tíð verið óstöðugur gjaldmiðill og oft hafa íslensk stjórnvöld gripið til þess ráðs að fella gengi krónunnar. Eftir bankahrunið 2008 féll gengi krónunnar umtalsvert en þá voru sett á gjaldeyrishöft sem hafa ýtt genginu upp síðan þá. Gjaldeyrishöftin valda því meðal annars að islenskar krónur í erlendum bönkum ("aflandskrónur") eru fastar þar. Á Íslandi lækkaði verðmæti seðla og myntar í umferð, sem hlutfall af landsframleiðslu, fram til ársins 2008 en jókst þá aftur allnokkuð. Í stað seðla og mynta nota Íslendingar í sífellt ríkari mæli rafræna miðla á borð við debetkort, kreditkort og netbanka. Ríkisdalir og krónur. Íslensk króna varð fyrst til með löggjöf dagsettri 2. janúar 1871, þar sem kveðið var á um að fjárhagur Íslands og Danmerkur skyldi vera aðskilinn frá og með 1. apríl sama ár. Þá var settur á laggirnar Landssjóður Íslands, en þegar Stjórnarskrá Íslands var samþykkt árið 1874 fékk Alþingi vald til þess að semja lög um hann. Landssjóður fékk leyfi árið 1885 til þess að gefa út íslenska peningaseðla fyrir allt að hálfri milljón króna, en fékk árið 1900 leyfi til þess að gefa út seðla fyrir allt að fjórðungi milljónar til viðbótar. Fram að því voru ríkisdalir opinber gjaldmiðill á Íslandi, sem fylgdi tilskipun 20. mars 1815. Þetta var gert eftir gengishrun sem átti sér stað í Danmörku árið 1813 þegar kúrantkerfið hrundi. Fyrsti opinberi gjaldmiðill Íslands var þó ríkisdalir úr kúrantkerfinu, sem voru prentaðir af Kurantbanken í Kaupmannahöfn, sem var fyrsti banki Danmerkur. Hann var stofnaður árið 1736 og hóf dreifingu á peningaseðlum að verðmæti 1rd og 5rd (ríkisdalir) ári síðar, sem urðu að löggildum gjaldmiðli á Íslandi eftir konunglega tilskipun árið 1778. Gerður var greinarmunur á íslenskum og dönskum seðlum með því að íslenskir seðlar höfðu áletrun á íslensku á bakhlið seðilsins, en annars var bakhliðin alveg auð. Konungleg tilskipun árið 1787 leiðrétti misskilning um það að seðlarnir með gjaldmiðillinn væri eingöngu í gildi hér á landi sé íslenski textinn á bakhliðinni. Fyrsta seðlaröð Landssjóðs. Fyrsta seðlaröð Landssjóðs Íslands var gefin út samkvæmt lögum nr. 14 / 18. september 1885. Þá voru gefnir út seðlar að andvirði 5 krónur, 10 krónur, og 50 krónur. Allir voru þeir undirritaðir af Magnúsi Stephensen, en auk hans skrifuðu Lárus Sveinbjörnsson, Eiríkur Bríem, Tryggvi Gunnarsson, Kristján Jónsson og Halldór Jónsson á mismunandi útgáfuárum. Hannes Hafstein og Klemenz Jónsson skrifuðu á 50 krónu seðilinn ásamt Tryggva Gunnarssyni og Kristjáni Jónssyni á seinni útgáfuárum. Um aldamótin var svo farið að prenta áritun landshöfðingja á 5 og 10 krónu seðla, en áfram var handskrifað á 50 krónu seðlana. Fyrsta seðlaröðin gekk úr gildi 31. janúar 1909, en lög nr 47 / 10. nóvember 1905 kváðu á um innköllun seðla landssjóðs og útgáfu nýrrar seðlaraðar. Önnur seðlaröð Landssjóðs. Önnur seðlaröð Landssjóðs var gefin út samkvæmt lögum nr 14 / 18. september 1885 um stofnun landsbanka og útgáfu nýrra seðla. Önnur seðlaröðin gekk úr gildi 30. júní 1939, en lög nr 104 / 7. júlí 1938 kváðu á um innköllun seðla landssjóðs og útgáfu nýrrar seðlaraðar. Þriðja seðlaröð Landssjóðs. Þriðja seðlaröð var gefin út á árunum 1916 til 1919. Hún var teiknuð af Gerhard Heilman og prentuð hjá H. H. Thiele í Kaupmannahöfn. Raðnúmer seðlanna er í beinu framhaldi af 2. seðlaröð. Önnur seðlaröðin gekk úr gildi 30. júní 1939, en lög nr 104 / 7. júlí 1938 kváðu á um innköllun seðla landssjóðs og útgáfu nýrrar seðlaraðar. Hvíti riddarinn. Hvíti Riddarinn er íþróttafélag úr Mosfellsbæ sem var stofnað árið 1998. Knattspyrnudeild Hvíta riddarans hefur verið starfrækt frá stofnun félagsins en árið 2005 var körfuknattleiksdeild stofnuð innan þess. Hvíti Riddarinn leikur nú í fjórðu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu og annarri deild Íslandsmótsins í körfuknattleik. Heimavöllur Hvíta Riddarans í fótbolta er Tungubakkavöllur í Mosfellsbæ. Nelson Mandela. Rolihlahla Mandela, þekktastur sem Nelson Mandela, (fæddur 18. júlí 1918) var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Suður-Afríku. Hann var kjörinn forseti árið 1994 og gegndi hann því embætti í fimm ár eða til ársins 1999. Hann hafði verið áberandi andstæðingur kynþáttaaðskilnarstefnunnar þar í landi. Mandela sat í 27 ár í fangelsi á Robben-eyju fyrir að berjast þessari baráttu en eftir að hafa verið sleppt voru honum veitt Friðarverðlaun Nóbels. Í fangelsinu var hann fangi númer 46664 en það númer notaði hann í stórri baráttu sinni gegn alnæmi (AIDS) eftir að hann lét af embætti forseta. Einkalíf. Rolihlahla Mandela er sonur Nosekeni Fanny og Gadla Henry Mphakanyiswa og bjuggu þau í bænum Mvezo en þar var Gadla faðir hans höfðingi. Gadla átti fjórar eiginkonur og eignaðist með þeim þrettán börn, fjóra syni og níu dætur. Þegar hann var sviptur stöðu sinni flutti fjöldskyldan til Qunu. Þar ákvað Gadla að senda son sinn í skóla og gaf kennslukonan öllum enskt nafn og Rolihlahla fékk nafnið Nelson. Faðir hans lést þegar hann var níu ára. Mandela var þrígiftur. Fyrsta kona hans var Evelyn Ntoko Mase, 1944 til 1957; Winnie Midikizela frá árinu 1957 til 1996 (skilin) og Graça Machel er eiginkona hans nú í dag og hefur verið frá árinu 1998. Mandela hefur eignast sex börn; fjögur með fyrstu eiginkonu sinni, synina Madiba Thembekile og Makgatho Mandela og tvær dætur sem báðar voru nefndar Makaziwe Mandela. Sú eldri dó ung og var hin nefnd eftir systur sinni. Með annarri eiginkonu sinni eignaðist hann svo dæturnar Zenani Mandela og Zindziswa Mandela-Hlongwane. Hann á mörg barnabörn og nokkur barnabarnabörn. Baráttumál. Nelson Mandela var einn mesti baráttumaður blökkumanna gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni. Hann var til að mynda í forystusveit innan samtakanna ANC eða Afríska þjóðarráðinu. ANC barðist fyrir því svartir fengu aukin réttindi með því að beita verkföllum, brenna vegabréf sín og brjóta gegn ákvæðum kynþáttalöggjafarinnar. Friðsæl mótmæli voru haldin árið 1960 gegn vegabréfalögum sem enduðu illa og létust margir. Eftir það bönnuðu stjórnvöld ANC og stuttu seinna voru leiðtogar samtakanna handteknir fyrir undirróðursemi, þeirra á meðal var Nelson Mandela sem dæmdur var í lífstíðarfangelsi. Árið 1989 báru blökkumenn árangur sem erfiði en þá samþykkti Frederik W. De Klerk að slaka á kynþáttaaðskilnaðarstefnunni og ári seinna árið 1990 var Mandela sleppt úr fangelsi eftir 27 ára vist. Árið 1993 var Mandela og De Klerk veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir þessi afrek. Ári seinna, árið 1994, fóru fram fyrstu lýðræðislegu forsetakosningarnar í Suður-Afríku, bauð Mandela sig fram og vann yfirburðarsigur. Mandela barðist ekki einungis fyrir réttindum svarta þó það sé það sem hann er lang þekktastur fyrir enda er hann líklega sá maður sem hefur orðið lengst ágengt með að jafna bilið milli svartra og hvítra í heiminum. Mandela byrjaði líka stóra baráttu gegn alnæmi eftir að hann hætti sem forseti. Baráttan var undir nafninu 46664 en það var fanganúmer Nelsons þegar hann sat í fangelsi á Robben-eyju. Lífsleiðin. Þegar Mandela var ungur sagði hann nei við því að taka við stöðu föður síns þegar hann yrði eldri, draumur hans var nefninlega að verða lögfræðingur. Hann gekk í South-African Natice College og seinna í University of Fort Hare. Hann fór svo í háskóla við Witwatersrand þar sem hann lærði lögfræði eins og hann hafði alltaf viljað og fékk á endanum lögfræðigráðu þar. Árið 1944 gekk hann svo í ANC og varð fljótt leiðtogi „Youth League“ í þeim hóp. Árið 1952 fór Mandela virkilega að berjast gegn aðskilnaðarstefnunni og notaði til þess lögfræðikunnáttu sína og barðist meðal annars fyrir því að svart fólk hefði rétt á að vera á sömu opinberu stöðum og hvítir. Fyrir þetta átti að dæma hann og nokkra kollega hans í fangelsi fyrir landráð en voru þeir á endanum sýknaðir. Það er almennt talið að þetta mál hafi splundrað fyrsta hjónabandi Nelsons sem leiddi til þess að hann tók saman við Winnie Mandela. Eftir að Mandela var dæmdur í fangelsi á Robben eyju var hann hafður í hámarksgæslu og illa var komið fram við hann. Það var ekki fyrr en hann var greindur með berkla að hann var færður til Victor Verster fangelsið. Mandela var nokkrum sinnum boðið frelsi af suður-afrísku ríkisstjórninni en með þeim skilyrðum að hann hætti að berjast fyrir réttindum svartra, bar hæst á þessu árið 1976. Mandela neitaði staðfastlega og má segja að hann hafi verið að gera það í einskonar mótmælaskyni en hann sagðist ekki vera meira frjáls á götum úti en í fangaklefa á meðan aðskilnaðarstefnan gilti ennþá. Við þetta fór fólk að taka baráttumál svartra meira og meira inn á sig og Mandela fór að vekja meiri og meiri athygli. Síðustu árin sem Mandela var í fangelsi voru mikil vandamál innan suður-afrísku ríkisstjórnarinnar og endaði það árið 1989 þannig að maður að nafni Frederik W. De Klerk var kosinn forseti. Mandela varð varaformaður ANC og seinna formaður og átti hann stóran hlut í að semja um að hætta aðskilnaðarstefnunni og koma á friði milli svartra og hvítra í Suður-Afríku. Forseti. Mandela var orðinn vinsæll meðal fólks og hjálpaði það honum að vinna fyrstu lýðræðislegu forsetiskosningarnar í Suður-Afríku árið 1994. Mandela var talsmaður friðar, sáttar og félagslegs réttlætis og stofnaði hann Nelson Mandela Foundation þar sem hann barðist fyrir þessu þrennu. Hann stofnaði líka Truth and Reconciliation Commission (TRC) en það stofnaði hann til að rannsaka mannréttindabrot í aðskilnaðarstefnunni. Hann opnaði húsnæði undir menntun og hjálp til að bæta skilyrði blökkumanna og árið 1997 lét hann breyta stjórnarskránni gífurlega sem gat svörtum jöfn réttindi og hvítum. Mandela var forseti í fimm ár eða til 1999. Mandela dagurinn var haldinn þann 18. júlí 2009 til að heiðra arfleifð Mandela og var aðallega styrkt af Nelson Mandela Foundation og 46664. Seinna sama ár lýstu Sameinuðu Þjóðirnar því yfir að þessi dagur skyldi héðan í frá heita Nelson Mandela International Day. Tenglar. Mandela, Nelson Mandela, Nelson Örtölva (íhlutur). Hér er MC68HC11 örtölva hluti af stærra kerfi Örtölva er tölva í einni kísilflögu, slíkar tölvur eru notaðar í ýmsum rafbúnaði. Sjö undur veraldar. a>, hið eina af sjö undrum veraldar sem enn stendur Sjö undur veraldar er listi yfir sjö merk mannvirki við Miðjarðarhafið í fornöld. Elsta útgáfan af listanum er frá 2. öld f.Kr. en hann gerði Antípatros frá Sídon, en hann er sá elsti sem vitað er um sem bjó til lista um furðuverkin sjö. Talan sjö var valin því hún var talin kyngimögnuð í þá daga. Í dag er ekkert eftir af þessum verkum, nema Pýramídinn sem stendur enn. Það er líka sérstaklega merkilegt þar sem þeir eru langelstir af öllum furðuverkunum. Hin fjögur síðustu voru öll reist á helleníska tímanum. Hengigarðarnir og Seifsstyttan voru reist á forngríska tímanum, en það er ekki vitað fyrir víst hvenær Pýramídinn mikli var nákvæmlega reistur og er það mikið deiluefni enn í dag. Listinn er fyrst og fremst að upphefja grísk byggingarafrek, aðeins tvö undrin á listanum eru ekki þaðan, þ.e. Hengigarðarnir í Babýlon og Vitinn í Faros. Þar sem Risinn í Ródos stóð í aðeins 50 ár gátu fáir af þeim sagnariturum sem sögðu frá undrunum sjö séð hann í raun. Þess vegna var Antipater með Ishtarhliðið í hans stað í fyrstu útgáfu af hans lista. Aðrir eldri listar hafa t.d. tekið Veggi Babýlons. Benito Mussolini. Benito Amilcare Andrea Mussolini ▶ (29. júlí 1883 í Predappio nærri Forlì á Ítalíu – 28. apríl 1945 Giulino di Mezzegra nærri Como á Ítalíu) var ítalskur blaðamaður, rithöfundur, stjórnmálamaður og að lokum einræðisherra sem ríkti yfir Ítalíu á árunum 1922 – 1943. Hann var sjálfur helsti kenningasmiður ítalska fasismans. Undir hans stjórn varð Ítalía að fasistaríki þar sem ríkti flokksræði, ritskoðun og markviss útskúfun allrar stjórnarandstöðu. Þegar hann gerðist bandamaður nasista í síðari heimsstyrjöldinni varð Ítalía eitt af skotmörkum bandamanna. Innrás bandamanna á Suður-Ítalíu varð að lokum til þess að hann missti völdin og var á endanum handtekinn nálægt Mílanó (þar sem hann var á flótta til Sviss) og tekinn af lífi af flokki ítalskra andspyrnumanna. Uppvaxtarárin. Benito Mussolini var fæddur 29. júlí árið 1883 í Predappio á Ítalíu. Fjölskylda hans voru smáborgarar, móðir hans var kennari og faðir hans járnsmiður. Hann lauk kennaraprófi en hvarf frá kennslu eftir skamma tíð og fluttist til Sviss. Hann varð gagntekinn af stjórnmálakenningu sem sprottin var af anarkisma. Sú kenning boðaði það að ofbeldi gæti í sjálfu sér orkað sem skírsla (hreinsun). Mussolini var margoft handtekinn fyrir pólítíska áróðurstarfsemi og slæpingshátt og var loks vísað úr landi. Þegar hann sneri aftur til Ítalíu varð hann rithöfundur og skrifaði pistla í dagblöð. Hann varð vel þekktur á meðal ítalskra jafnaðarmanna en fór fljótt að koma á framfæri skoðunum sínum um stríðið gegn Þýskalandi í fyrri heimstyrjöldinni, það er að segja hann vildi taka þátt. Það fór ekki vel í ítalska jafnræðismenn sem voru gegn þátttöku Ítalíu í stríðinu. Þegar Ítalía slóst í hóp með bandamönnum til að berjast við Þýskaland árið 1915 gekk Mussolini í herinn. Mussolini fékk stöðu sem undirliðþjálfi, sem var sama staða og Adolf Hitler gegndi, en varð óvígur vegna sprengjubrota og sneri fljótt aftur til Ítalíu. Hann hóf aftur fjölmiðlaferill sinn og fór að þróa hugmyndir sínar sem urðu fljótt þekktar sem fasismi. Fasismi einkennist einkum af andsnúnu lýðræði, frjálslyndi, andkommúnisma, kapítalisma og nútímavæðingu, þjóðernishyggju og stundum kynþáttahyggju. Upphaf fasistaríkis. Haustið 1922 fóru um 25 þúsund fasistar í kröfugöngu frá Napolí til Rómar. Þessi mótmæli urðu þekkt sem „gangan til Rómar“ og varð nasistum til fyrirmyndar. Fasistar kröfðust þess að Mussolini tæki við stjórnarforystu. Í umrótinu sem gangan til Rómar hafði í för með sér þorðu konungar og ríkisstjórn ekki að setja hart móti hörðu og Mussolini var skipaður forsetisráðherra af Viktori Emmanúel III konungi. En það var ekki aðeins harka og ofbeldi sem komu Mussolini til valda. Þjóðarheiður Ítala var særður vegna rýrðar útkomu við friðargerðina í Versölum. Mussolini notaði sér það og benti á hversu mikið stjórnvöldin hefðu brugðist hagsmunum lands og þjóðar á örlagastundu. Hann sagði að fasistum væru einum treystandi til að vernda hagsmuni og heiður ríkisins. Þetta róaði Ítala, þeir þurftu sterka stjórn og sterkan leiðtoga. Benito Mussolini í „göngunni til Rómar“ 1922. Næstu þrjú árin notuðu fasistar til að ná fullum tökum á ítölsku þjóðarlífi. Mussolini fékk samþykkt ný kosningarlög sem ruddu einræðinu braut. Lögin kváðu svo um að flokkur sem fengi fjórðung atkvæða skyldi sjálfkrafa fá tvo þriðjunga þingsæta. Við kosningar árið 1924 fékk Fasistaflokkurinn sextíu af hundrað atkvæðum með kosningarsvikum og ógnunum við stjórnmálaandstæðinga sína. Á árunum 1924 til 1925 hreiðruðu fasistar jafnt og þétt um sig í valdastólnum. Þinginu var ýtt til hliðar og ritskoðun komið á. Lagt var bann við starfsemi annarra stjórnmálaflokka, verkalýðsfélaga og verkfalla. Hreinsað var til í stjórnkerfinu þangað til það nærri einungis fasistar sátu í ráðherrasætum. Leynilögregla og sérdómstólar brutu alla stjórnmálaandstöðu á bak aftur. Brátt urðu skólar og æskulýðsfélög uppeldisstöðvar fasista og fasísk viðhorf gegnsýrðu fjölmiðla og menningarlíf. Alræði fasista mátti heita fullskapað árið 1925. Árið 1929 gerðu Mussolini og Píus XII páfi Lateran-sáttmálann, en með honum tókst Mussolini að fá kirkjuna til að leggja blessun sína yfir ríki fasista. Vatíkanið varð viðurkennt sem ríki undir stjórn páfa en á móti viðurkenndi hann ítalska ríkið. Adolf Hitler og Benito Mussolini í Munich, Þýskalandi árið 1937. Ítalir réðust inn í Eþíópíu árið 1935 sem kom þeim í mikla einangrun á alþjóðavettvangi. Til að rjúfa einangrunina vingaðist Mussolini við Hitler. Samband Ítalíu og Þýskalands styrktist og studdu báðar þjóðirnar málstað Franciscos Franco hershöfðingja í spænska borgarstríðinu árið 1936. Sama ár innsigluðu Mussolini og Hitler bandalag ríkja sinna og þar með var öxullinn að Berlín-Róm lagður. Árið 1939 samþykktu Hitler og Mussolini „Stálsamninginn“, bandalags-og vináttusamkomulag sem skilgreindi skilyrði fyrir sameiginlegu stríði þeirra í Evrópu. Árið 1938 var komið á kynþáttalöggjöf eftir þrýsting frá Þjóðverjum og flestir gyðingar misstu borgararéttindi sín á Ítalíu. Seinni heimstyrjöldin. Seinni heimstyrjöldin hófst 1. september 1939 með innrás Þýskalands inn í Pólland. Það leiddi af sér að Bretland og Frakkland lýstu yfir stríði gegn Þýskalandi þann 3. september. Mussolini hafði neitað Hitler að ráðast inn í Júgóslavíu og var því ekki flæktur inn í átökin. En þegar Mussolini sá hversu sigursæll Hitler var tók hann stöðu með honum og í framhaldi af því lýsti hann stríði gegn Frökkum og Bretum árið 1940. Ítalir liðsinntu Þjóðverjum í baráttu við Frakka og sú barátta endaði með uppgjöf Frakka. Ítalir réðust á Grikkland en töpuðu þeirri baráttu ásamt fjórðungi af Albaníu, sem Ítalir höfðu hertekið 1939. Um haustið 1940 skrifuðu Ítalía, Þýskaland og Japan undir Þríveldarsamninginn til að letja Bandaríkin frá stríðsþátttöku en það stoppaði ekki Bandaríkin. Haustið 1941 lýstu Ítalía og Þýskaland yfir stríði á hendur Bandaríkjamanna. Markmið Mussolini var að ráða yfir miðjarðarhafssvæðinu og stofna nýtt „Rómaveldi“. Honum gekk þó erfiðlega að ná Norður-Afríkulöndunum svo að þýski herinn liðsinnti þeim ítalska. Vorið 1943 gáfust sameinaður her Ítalíu og Þýskalands upp í Túnis. Þessar miklu ófarir Mussolini öfluðu honum óvinsælda á Ítalíu og fyrrum stuðningsmenn hans byrjuðu að snúast gegn honum. Endalok fasistaríkis. Í kjölfar landgöngu Bandamanna á Sikiley og loftárása á ítalska meginlandið snerist þingheimurinn gegn Mussolini og Victor Emmanuel III konungur neyddi hann til að segja af sér 25. júli 1943 og lét taka hann fastan. Þar með var veldi fasista á Ítalíu fallið. Á þessum tíma var Mussolini með veikur líkamlega og andlega. Sárar kvalir innvortis, er stöfuðu frá bólgum eða magasári, knúðu hann til tíðra hvílda og gerðu hann háðan morfíni. Þegar hann gerðist of veikburða til að vinna langan dag lét hann ljós lifa í skrifstofu sinni um nætur til að blekkja menn. Benito Mussolini á hestbaki 1929. Eftir handtökuna var farið með Mussolini á skíðahótel í Appenina-fjöllunum um 120 km norðvestan við Róm. Þýsk sérsveit leysti Mussolini úr haldi skömmu seinna. Flogið var með Mussolini í Úlfsbælið, bækistöðvar Hitlers í Rastenburg í Austur-Prússlandi. Hitler vildi strax fara að gera áform um endurkomu Mussolinis til stjórna Ítalíu en Mussolini var tregur til. Það olli Hitler vonbrigðum. En Hitler náði sínu fram og lét Mussolini fá fyrirmæli um hvað skyldi gera. Nýtt fasistaríki skyldi stofnað á Norður-Ítalíu undir forystu Mussolini, þó að Þjóðverjar réðu utanríkisstefnu þess og ýmsum efnahagsþáttum og stjórna hluta landsins. Mussolini var í raun leppur Hitlers og var brátt kallaður „fanginn í Gargnano“. Mussolini byrjaði að taka alla af lífi sem höfðu svikið hann. Einn af þeim var tengdasonur hans, Galeazzo Ciano greifi. Mussolini reyndi að efla herinn og afla nýjum flokki sér til fylgis en skreið hans var runnið á enda, þjóðin hafði snúið baki við honum. Dauði Mussolinis. Bandamenn sóttu lengra og lengra inn á ítalskt land og Mussolini hrakaði bæði á líkama og sál. Í apríl 1945 ætlaði Mussolini að flýja til Austurríkis en var handtekinn af ítölskum skæruliðum. Daginn eftir, þann 27. apríl 1945, var hann tekinn af lífi ásamt hjákonu sinni Clarettu Petacci og nokkrum fylgimönnum. Líkin voru sett á mitt Piazza Loreto, í Mílano, þar sem allir gátu virt þau fyrir sér. Mannfjöldinn hæddi lík Mussolinis og hrækti á það svo klukkustundum skipti. Einnig var sparkað í það og það skotið. Síðan voru líkin hengd upp á kjötkróka og þau grýtt. Þar héngu líkin þangað til þau rotnuðu og duttu af krókunum. Seinna var lík Mussolinis, eða það sem eftir var af því, jarðsett í grafhvelfingu fjölskyldu Mussolinis í þorpinu Predappio. Heimildir. Mussolini, Benito Mussolini, Benito Mussolini, Benito Mussolini, Benito Landgrunn. Landgrunn er stallur úr grunnsjávarseti sem liggur á milli strandlínu og landgrunnsbrúnar landa sem liggja að sjó. Danskur ríkisdalur. Ríkisdalur var gjaldmiðill í Danmörk, Noregi og Svíþjóð þar til komið var á samnorrænu myntbandalagi árið 1875 og ríkin tóku upp krónu sem gjaldmiðil. Í Danmörku var myntin köllun ríkisbankadalur eða frá því að danski ríkisdalurinn var endurreistur eftir hrunið mikla árin 1807-1815. Skömmu fyrir myntbreytinguna 1875 var danski ríkisbankadalurinn 96 skildingar en sænski ríkisdalurinn 48 skildingar. Á 18. öld voru í Danaveldi utan þýsku hertogadæmanna aðallega tvær gerðir ríkisdala, annars vegar kúrantdalur sem var pappírsmynt og hins vegar spesía sem var mæld í silfri. Kúrantdalur var pappírsmynt gefinn út af konunglega Kúrantbankanum og var hin venjulega greiðslumynt í Danaveldi til ársins 1815. Spesían var silfurmynt sem var mæld þannig að hver ríkisdalur var 27 grömm af silfri. Á Íslandi var opinbert gangverð milli kúrantdala og spesíu frá árinu 1753 þannig að einn spesíudalur var 12,5 % verðmætari en kúrantdalur. Markaðsverð spesíudala var ennþá hærra í Danmörku, það var 32 % hærra en kúrantdalur árið 1760 og 42% hærra árið 1787 og féll kúrantdalurinn stöðugt í verði og hríðféll svo í hruninu mikla 1807-1815. Við myntbreytingu í Danmörku árið 1816 bauðst fólki að skipta á einum ríkisbankadal og sex kúrantdölum. Spesíur voru í umferð á 19. öld en ekki notaðar í venjulegum viðskiptum heldur frekar til gjafa og sem minnispeningur. 1 ríkisdalur ("rigsdaler") = 6 mörk ("marck") = 96 skildinga ("skilling"). Sá gjaldmiðill var kjarninn í tveimur peningakerfum - annarsvegar specie-kerfinu og kúrant-kerfinu. Specie-kerfið byggðist upp á því að 1 skilling jafngilti 263mg (1/1000 úr unsu) af fínhreinsuðu silfri, og hélst sú skilgreining skillings út allt tímabilið. Eingöngu lítil fjárupphæð var skilgreind í specie-kerfinu, en kúrant-kerfið var notað dags-daglega í verðlagningu og vinnulaunum. Heimildir benda til þess að specie kerfið hafi verið bundið við þýsk Reichsthaler, en ekki er ljóst hve lengi slík binding var í gildi. Kúrant-kerfið. Kerfið dregur nafn sitt af enska orðinu "currency", en hugtakið var tekið í notkun í Bretlandi til þess að lýsa því hvernig gjaldmiðill gat tekið verðbreytingum eftir stöðu viðskipta í landinu, í stað þess að vera föst skilgreind upphæð. Líkingin var við það hvernig í stórum ám eins og Thames ánni í London var mismunandi mikið "flæði" eftir því hvar í ánni menn voru staðsettir, eða að gjaldmiðlar hefðu mismunandi verðgildi eftir flæði hvers tíma. Í upphafi hafði kúrant-kerfið staðlaða mynt þar sem að hver skilling innihélt 215mg (3/4 úr specie-skillingi) af fínhreinsuðu silfri. Frá og með árinu 1737 voru gefnir út peningaseðlar í þessu gjaldkerfi sem að voru loforð um tiltekið magn silfurs gegn framvísun í banka, en frá og með árunum 1745-1747 var ekki lengur hægt að krefja bankanna um silfrið sem peningaseðlarnir vísuðu á, og árið 1757 var tengslum bréfseðlanna við silfur rofið. Frá og með árinu 1788 var nánast engin silfurmynt slegin í kúrant-kerfinu, og upp frá því fór kerfið að flæða eins og aðrir óverðtryggðir gjaldmiðlar þess tíma. Í kúrant kerfinu voru önnur hlutföll á verði peninga, og þá kom króna fyrst til sögunnar. 1 krone = 1 sletdaler = 4 marck. 1 daler = 2 marck. 1 rigsort = 1½ marck = 24 skilling. 1 marck = 16 skilling. Dæmi um verðlag. Hið Íslenska Verslunarfélag verslaði alls með um í kringum 20.000rd árlega, en félagið var stofnað með hlutafé upp á 100.000rd. Árslaun héraðslæknis voru almennt á bilinu 600rd til 1500rd eftir héröðum, en landlæknir var með í kringum 2000 ríkisdali í laun eftir að embættið var sett á laggirnar 18. mars 1760 Árið 1694 var arður af verslun í Vestmannaeyjum talin vera 1494rd, en skuldir voru almennt fremur litlar á einokunarárunum. Árið 1755 voru útistandandi verslunarskuldir í þar um 1700rd, en eftir 1770 var mjög slæmt hallæri á fiskimiðunum sem að varð til þess að við lok einokunartímabilsins 1783 voru skuldir í Vestmannaeyjum samtals 5892rd, á móti eftirstöðvum jarðarbókartekna 1138rd, og voru fyrstu árin eftir lok einokunarverslunarinnar mjög erfið. Tímarúm. Myndin sýnir hvernig Jörðin sveigir tímarúmið. Í eðlisfræði er tímarúm líkan sem sameinar tíma og rúm í eina samfellda heild. Í alheiminum eins og við skynjum hann hefur þessi samfellda heild þrjár víddir í rúmi og eina í tíma. Almenna afstæðiskenningin lýsir þyngdarafli sem sveigju á tímarúmi. Rómönsk tungumál. Rómönsk tungumál í Evrópu á 20. öld. Rómönsk tungumál er ættbálkur indóevrópskra mála sem eiga uppruna í latínu. Þau eru fremst töluð sem móðurmál í Suður-Evrópu, Suður-Ameríku og Mið-Ameríku af um það bil 600 milljónum manna. Í dag lifa 25 rómönsk tungumál af, en er hægt að það voru til fleiri sem þróuðu sem mállýskur úr alþýðalatínu. Þau sex mest töluð rómönsk tungumál eru spænska, portúgalska, franska, ítalska, rúmenska og katalónska. Meðal annarra rómanskra tungumála eru korsíska, leónska, oksítanska, arómanska, sardiníska, feneyska og galíanska. Uppruni. Rómönsk tungumál eru upprunnin frá alþýðulatínu sem var sú latínumállýska töluð af hermönnum og landnámsmönnum í rómverska keisaradæminu. Alþýðulatína var ólík klassískri latínu sem var töluð af yfirstéttum. Þetta var það form tungumálsins sem var oftast skrifað. Á milli áranna 350 f.Kr. og 150 e.Kr. varð latína áhrifamesta tungumálið í Vestur-Evrópu við útþenslu rómverska keisaradæmis. Latína hafði líka stór áhrif í Suðaustur-Bretlandi, Norður-Afríku og á svæði sem umkringur Balkanskagann. Á meðan hnignun rómverska keisaradæmis og við upplausn sína á 5. öldinni byrjaði latína að breytast í sérstökum tungumálum. Þessi tungumál breiddust út í heimsveldum stofnuðum af Portúgal, Spáni og Frakklandi frá 15. öldinni og þess vegna búa 70% þeirra sem tala rómönsk tungumál útan við Evrópu. Orðsifjar. Heitið „rómanskt“ er komið af alþýðulatneska atvirksorði "romanice", sem á uppruna í "Romanicus". Dæmi. Þýðing: Hún lokar alltaf glugganum áður að borða. Færeyska. Færeyska (færeyska: "føroyskt") er vesturnorrænt tungumál sem er talað af um það bil 70.000 manns, aðallega í Færeyjum. Það hefur verið opinbert tungumál Færeyja frá 1937. Eins og íslenska og norn (sem nú er útdautt en var áður talað á Hjaltlandseyjum og Orkneyjum) er uppruni færeyskunnar í þeim fornnorrænu mállýskum sem norrænu landnámsmennirnir töluðu á víkingatímanum. Færeyska er það tungumál í heiminum sem er líkast íslensku. Það er þó það ólíkt að Íslendingar og Færeyingar geta ekki skilið tal hvers annars án þess að hafa lært málið. Þó er auðveldara fyrir Færeyinga að skilja Íslendinga en öfugt. Ritmálið er mun auðveldara fyrir notendur beggja málanna. Færeyska hvarf sem ritmál eftir að danska var gerð að kirkjumáli eftir siðaskipti. Það var ekki fyrr en á seinni hluta nítjándu aldar sem nútíma færeyskt ritmál varð til og var þá höfð mikil hliðsjón af íslenskri stafsetningu. Árið 1854 gaf málvísindamaðurinn Hammershaimb út staðal fyrir stafsetningu nútíma færeysku. Í stað þess að skapa stafsetningu sem fylgdi framburði valdi hann að fylgja málsögulegum uppruna orðsins og forníslenskri stafsetningu. Það gerði meðal annars að bókstafurinn "ð" ekki er tengdur neinu fónemi. Eins er með bókstafinn "m" í beygingarendingum sem er borinn fram eins og "n". Margar tilraunir hafa verið gerðar að færa stafsetningu nær framburði en án árangurs. Þetta gerir það að verkum að færeyska ritmálið er vandlært fyrir innfædda þar sem mikið ber á milli um framburð og stafsetningu. Tiltölulega þægilegt er hins vegar fyrir Íslendinga að lesa færeysku. Einn helsti aðstoðarmaður Hammershaimbs við að sníða færeyska stafsetningu var Jón Sigurðsson en þeir kynntust á Garði (Regensen) á sínum tíma. Hljóð og málfræði. Óákveðin greinir er í færeysku ólíkt íslensku. R í færeysku er líkt og í ensku frammælt raddað og ekki rúllandi. Hvorki raddað né óraddað tanntúngumælt önghljóð (þ og ð) er í færeysku. Þannig er t.d. faðir- fajir, þetta - hetta og Eþíópía Etíópía. Nefnifall og þolfall fleirtölu er altaf eins. Eignarfall er lítt notað. Sagnorðabeygingar hafa einfaldast töluvert, fleirtala nútíðar er eins í öllum persónum sbr. við höfum, þið hafið, þeir hafa Vit hava, tit hava, tey hava við hlaupum þið hlaupið þeir hlaupa vit renna, tit renna, tey renna Faðir vorið á færeysku. Matteusarguðspjallið 6:9-16, nýfæreyska þýtt af Jacob Dahl og Kristian Osvald Viderø, 1961. Sjá einnig Faðir vor Rannsókn. Rannsókn er nákvæm og kerfisbundin athugun og skráning á niðurstöðum gerð í þeim tilgangi að öðlast þekkingu eða afla upplýsinga. Vísindarannsóknir eru stundaðar í háskólum undir stjórn prófessora eða á rannsóknarstofnunum og niðurstöður þeirra rannsókna eru birtar í viðurkenndum, ritrýndum fagtímaritum, í bókum eða á ráðstefnum. Einkarannsóknir eru þær rannsóknir, sem eru stundaðar og kostaðar af einstaklingum eða fyrirtækjum. Lögreglurannsókn er gerð af lögreglu í þeim tilgangi að upplýsa meint lagabrot og niðurstöður þeirra eru oft grundvöllur lagadóma. Heinrich-atburður. Heinrich atburðir, nefndir eftir fornloftlagsfræðingnum Hartmut Heinrich, eru skyndilegir atburðir í náttúrufari sem áttu sér stað á síðasta jökulskeiði. Ummerki þessara atburða er að finna með vissu millibili í ísborinni bergmylsnu í setkjörnum í Norður-Atlantshafi, en einnig sjást ummerki um atburðina víðast hvar á jörðinni. Borin hafa verið kennsl á sex slíka atburði sem nefnast H1-H6. Gögn benda til að atburðir H3 og H6 séu frábrugðnir. Heinrich atburðir eru flokkaðir til afgerandi viðburða, þar sem floti ísjaka barst út til sjávar frá Hudsonflóa. Rúmmál ferskvatns sem barst til sjávar í einum Heinrich atburði hefur verið áætlað 370 km3. Lagðar hafa verið fram fjölmargar skýringar á Heinrich atburðum. Snúa þær flestar að virkni Laurentide jökuhvelsins og innri sveiflum sem áttu sér stað í jöklinum. Einnig hafa komið fram getgátur um að hið óstöðuga vestur íshvel Suðurskautslandsins geti verið kveikjan að atburðunum. Heinrich atburðir eru skyldir svokölluðum Dansgaard-Oeschger atburðum sem koma greinilega fram í ískjörnum frá Grænlandsjökli og eiga Heinrich atburðirnir sér stað á köldum tímabilum innan D-O atburðanna. Persónuleiki. Persónuleiki er almennt talinn vera þeir eiginleikar sem búa í hverjum og einum; skapgerð, gildismat, hugsun, skynjun, tilfinningalíf og svo framvegis. Aðgreina þessir eiginleikar saman manneskjuna frá öðrum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar margar tilraunir til að skilgreina persónuleikann og hafa verið smíðaðar margar kenningar um persónuleikann. Ein af elstu kenningunum um persónuleika má rekja til Hippókratesar. Ríkisdalir. Ríkisdalir er samheiti yfir myntir úr silfri sem notaðar voru sem gjaldmiðill í Evrópu í um 400 ára skeið. Upprunalega voru þessar myntir kallaðar thaler um þýskumælandi lönd, en seinna daler í Skandinavíu. Í nútímanum þekkist þetta sem "dollar" í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Hong Kong og fleiri stöðum, og sem "tolar" í Slóveníu. Myntfræði. Myntfræði er vísindagrein sem fæst við rannsóknir á peningum í öllum sínum myndum, þ.á m. mynt, seðlum, bankaseðlum, hlutabréfum o.s.frv. Þeir sem leggja stund á greinina kallast myntfræðingar. Saga. Myntfræði er forn vísindagrein sem á ættir sínar að rekja allt aftur til Júlíusar Caesars sem venjulega er talinn hafa skrifað fyrstu bókina um greinina. Forsætisráðherra Ítalíu. Forsætisráðherra Ítalíu er leiðtogi ríkisstjórnar Ítalíu og hefur það hlutverk með höndum að stýra og samræma vinnu annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherraembættið er fjórða mikilvægasta embætti ríkisins samkvæmt stjórnarskránni, á eftir forseta lýðveldisins, þingforseta og forseta öldungadeildarinnar. Hlutverk forsætisráðherra er skilgreint í stjórnarskránni, greinum 92-96. Forsætisráðherra er tilnefndur af forseta lýðveldisins. Yfirleitt er um að ræða leiðtoga stærsta flokks þess kosningabandalags sem hlýtur meirihluta í þingkosningum og fær þar með umboð til stjórnarmyndunar. Þegar Ítalía var konungsríki (frá 1861 til 1946) var það konungur Ítalíu sem veitti umboð til stjórnarmyndunar. Pýramídinn mikli í Gísa. Pýramídinn mikli í Gísa er pýramídi í Gísa í Egyptalandi. Hann er hið elsta af sjö undrum veraldar og jafnframt það eina þeirra sem enn stendur. Þótt það sé oft talað um alla þrjá Pýramídana á Giza svæðinu sem hluti af Furðuverkunum sjö, þá er það í rauninni aðeins sá stærsti sem er á listanum. Hann er bæði sá elsti og stærsti af þeim. Hann er talinn vera frá 2580 f.Kr og á smíðin að hafa tekið um 20 ár. Hann var stærsta mannverk heimsins í meira en 40 aldir. Hann er byggður úr kalksteini auk fínpússaðs yfirborðs sem er þó að lengmestu horfið í dag. Talið er að pýramídarnir þrír séu reistir af þremur kynslóðum faraóa á fjórðu konungsættinni, en sá tími er jafnan talin gullöld Egyptalands til forna. Faraóarnir þrír hétu Khufu, Khafre og Menkaure. Khufu pýramídinn er því nefndur eftir egypska faraóinum Khufu, en pýramídinn er almennt talinn vera gröfin hans. Mannvirkið. Pýramídinn mikli stendur Giza sléttunni, sem er núna í úthverfi Kaíró-borgar. Hann er 137 m á hæð í dag en var upphaflega 146 m. Ástæðan fyrir þessum mismun er sú að það vantar toppstykkið (gríska: pyramidion) efst á hann en einnig hefur hann veðrast í gegnum árin. Hver grunnlína er 233 m, svo flatarmálið er 54,289 m² en rúmmál hans er um 2,5 milljón m³. Pýramídinn er talinn vega um 6 milljón tonn, þótt erfitt sé að gera sér fullkomlega grein fyrir þyngd hans. Mannvirkið er talið byggt úr ca. 2,5 milljón kalksteinblokka en sú steingerð var ekki til í kringum Giza. Því er talið að blokkirnar hafi verið sóttar frá steinnámum meðfram Níl og síðan siglt með þær upp eftir ánni. Í dag telja fræðimenn að líklega hafi bygging Pýramídans tekið um 14-20 ár, og að vinnuaflið hafi verið frá ca. 30.000 – 50.000 frjálsir vinnumenn á launum en ekki þrælar eins og lengi var talið. Áður fyrr var Pýramídinn klæddur sléttum og slípuðum hvítum kalksteini en í dag er svo til ekkert eftir af þeirri klæðningu. Það er talið að sú klæðning hafi verið svo vel pússuð að pýramídinn hafi glansað í sólarljósi. Einnig hefur hann þá glitrað í tunglskininu, sem hefur eflaust hjálpað mörgum týndum ferðalangnum í eyðimörkinni. Helsta ástæðan er mikill jarðskálfti árið 1301 e.Kr. og hrundi þá megnið af klæðningunni. Þaðan tíndi fólk upp blokkirnar og notaði í byggingar í kring, sem enn má sjá í dag. Því er það í raun óvarið burðarvirkið sem við sjáum. Hæsta bygging heims. Pýramídinn mikli var talinn stærsta bygging heims í yfir 40 aldir, það var ekki fyrr en á 19. öld sem honum var ýtt úr fyrsta sætinu. Árið 1300 var byggingu turnsins á Lincoln Cathedral í Englandi lokið, sem hrifsaði sætið frá Pýramídanum en turninn á kirkjunni var 160 m. En árið 1549 hrundi hann vegna veðurs, og endurheimti þá Pýramídinn aftur fyrsta sætið. Síðan þá hafa nokkar byggingar og turnar risið sem hafa verið nokkurn veginn með sömu hæð og Pýramídinn, flestar í kringum 150 m. En það var svo ekki fyrr en Eiffelturninn reis árið 1889 að hann varð ódeilanlega hæsta bygging heims en hann er 300 m. Verkvit. Mikið verkvit liggur að baki byggingar Khufu-pýramídans. Jafnvel í dag þætti erfitt að líkja eftir svo miklu nákvæmnisverki. Byggingin snýr nákvæmlega í höfuðáttirnar fjórar, svo aðeins skeika um 3 mínútur úr horni frá hánorðri. Grunnlínurnar hliðanna eru svo til jafnar á allar hliðar, þó er um 19 cm skekkja á milli lengstu og stystu grunnlínanna. Einnig eru réttu hornin á grunnfletinum nákvæm, eitt er aðeins tvær sekúndur úr gráðu frá fullkomnu 90° horni. Efsti punktur Pýramídans er beint yfir miðpunkti grunnflatarins. Byggingarblokkir Pýramídans vega allt frá 2,5 tonnum upp í 15 tonn hver, en auk þess vega rauðar granítblokkir í Konungsklefanum frá 50-80 tonn. Þá steintegund er aðeins að finna í Aswan, töluvert sunnar í Egyptalandi, og hefur væntanlega verið siglt með blokkirnar þaðan. Sjálf líkkistan (gríska: sarcophagus) er höggin úr heilum steini en furðulegt þykir að bæði gangurinn og hurðaropið inn í herbergið er smærra en umfang kistunnar. Grunnflöturinn. Ein merkileg en fremur óþekkt staðreynd varðandi grunnflöt Pýramídans er sú að hann er ekki fullkominn ferningur. Í rauninni er hann fjögurra horna stjarna, þar sem miðpunktur hverrar lengdar fellur aðeins inn á við. Þetta er það lítið að ómögulegt er að sjá fyrirbærið með berum augum, en það er aðeins hægt úr lofti og á ákveðnum tíma dags. Þetta var því ekki uppgötvað fyrr en árið 1940, en fræg ljósmynd tekin úr lofti sýndi hvernig skuggamyndun Pýramídans ljóstrar þessu upp. Notkun pí. Greinileg stærðfræðikunnátta er líka til staðar við nánari skoðun á Pýramídanum. Sem dæmi virðast hönnuðir Pýramídans hafa þekkt „pí“ (π = 3.1416). Ummál grunnflatar mannvirkisins er jafnlangt ummál hrings hvers radíus er jafnlangur hæð Pýramídans. Það er að segja, 2 x pí x hæð = ummál grunnflatar. Einnig er mögulegt að segja að tvöföld grunnlína hans deilt með hæðinni jafngildi pí. Ólíklegt þykir að jafnstór hlutföll og þessi (þ.e. lengd og hæð) hafi fyrir tilviljun gengið upp í pí, svo það þykir líklegt að þeir hafi þekkt hlutfallið. Smíði pýramídans. Helstu tilgátur fræðimanna ganga út á að við byggingu pýramídanna hafi skábrautir verið notaðar til að flytja blokkirnar upp og brautin stækkuð eftir því sem verkinu miðaði áfram. Nærtækasta efnið í þær væri sandur og mögulega var einhver vökvi, t.d. vatn eða mjólk, notaður til að smyrja yfirborðið svo auðveldara væri að draga steinblokkirnar. Tvær megintilgátur eru uppi hvað varðar lögun skábrautanna. Annars vegar væri hægt að hafa beina skábraut á einni hliðinni. Hins vegar væri mögulegt að láta skábrautina hlykkjast meðfram pýramídanum. Þónokkrir hnökrar eru þó við þessar kenningar. Gallinn við hlykkjóttar skábrautir er að ekki væri mögulegt að ljúka við allan Pýramídann á þann hátt. Fræðimenn ímynda sér því að vogarstöng af einhverju tagi hafi verið notuð fyrir efsta hlutann. Hins vegar væri mögulegt að ljúka við Pýramídann upp á topp með beinu skábrautinni. Rúmmál hans myndi þó verða um þrisvar sinnum meira (um 8 milljón m³) en rúmmál sjálfs Pýramídans (um 2,5 milljón m³) þegar hann yrði sem stærstur, sem þykir draga úr möguleika tilgátunnar. Auk þess hafa engin ummerki um skábrautir af þessari miklu stærðargráðu fundist, aðeins hafa verið grafnir upp mun minni brautir sem gætu ekki einu sinni hafa nýst við bróðurpartinn af uppbyggingunni. Aðrar tilgátur. Þar sem hinar opinberu skýringar sagnfræðinga virðast ekki nógu sannfærandi fyrir suma, spretta aðrar tilgátur og tilraunir oft upp. Nýlega varpaði franski arkitektinn Jean-Pierre Houdin fram þeirri tilgátu að um 70% Pýramídans væri byggður innan frá, með eins konar innri skábraut. Með hjálp tölvutækni gat hann sýnt fram á það þetta væri í raun mögulegt. Einnig voru bandarískir loftaflfræðingar sem létu reyna á tilgátu sína, að hægt væri að nýta vindafl til að bera stóra steina á milli staða, gegn hinni opinberri kenningu að þeir höfðu verið dregnir af mönnum. Með einfaldri svifdrekatækni tókst loftaflfræðingunum að reisa upp 4 tonna þunga broddsúlu (gríska: obelisk). Innviði pýramídans. Veggirnir inni í Pýramídanum eru allir berir og óletraðir, fyrir utan nokkra veggi nálægt Konungsherberginu, þar sem einhver hálfgerð klessuverk eru til staðar. En ólíkt öðrum pýramídum á svæðinu, hefur Pýramídinn mikli mun fleiri göng og herbergi en hinir og það er einnig vandað meira við gerð hans. Það er gengið inn í Pýramídann á norðurhliðinni. Inni í Pýramídanum eru þrír klefar, allir staðsettir á lóðrétta ásnum, hver fyrir ofan annan. Sá lægsti er grafinn inn í berggrunninn sem Pýramídinn er byggður á en það var aldrei lokið við hann, þar hefur aðeins verið gróflega höggið í steinninn. Konungsklefinn. Hann er stærstur af klefunum en hann er 10,45 m langur, 5,20 m breiður og 5,80 m á hæð. Það er um það bil tvöfaldur teningur, eins og einn teningur ofan á öðrum. Klefinn er talinn hafa átt að vera lokadvalarstaður konungs en þar hafa aldrei nokkur ummerki um lík fundist eða eitthvað sem tengist líksmurningum Forn-Egypta. Það lýtur því út fyrir að konungurinn hafi aldrei verið grafinn þar. Leiðin inn í Konungsklefann er hins vegar mjög mikilfengleg en þar er stór gangur, um 47 m langur og 8,48 m að hæð. Drottningarklefinn. Hann er í miðjunni og er minnstur, en hann er um 5,74 x 5,23 m að flatarmáli. Tilgangur klefans er enn hulinn, en ein tilgátan er þannig að þar hafi svokallað serbab verið, eins konar hilla þar sem stytta af hinum jarðsetna er sett. Það lítur samt út fyrir að hann hafi aldrei verið notaður, þar sem þeir fægðu til dæmis ekki gólfið og fleira. Enn ein tilgátan um þennan klefa er sú að Forn-Egyptar hafi byrjað á þessum klefa en síðan einfaldlega hætt við og frekar byggt stærri klefa fyrir ofan en þar er einmitt Konungsklefinn. Göng. Nokkur mjög mjó og löng göng sem koma út úr bæði Drottningar- og Konungsklefanum. Þau beinast að stjörnum en Forn-Egyptar voru miklir stjörnuáhugamenn. Suðurgöngin frá Konungsklefanum benda beint á beltið í Óríon, þar sem það hefur verið á tímum Forn-Egypta. Suðurgöng Drottningarklefans benda svo á Síríus, sem er skærasta stjarnan á norðurhimninum og er í stjörnumerkinu Canis Major eða Stóra-Hund. Norðurgöng Konungsklefans benda beint á stjörnuna Thuban í merkinu Draco, sem er rétt hjá Pólstjörnunni. En norðurgöng Drottningarklefans benda einmitt á pólhverfustjörnurnar, til dæmis pólstjörnuna í Ursa Minor, eða Litla-Birni. Samt þykja þessi göng enn mjög dularfull, þar sem tilgangur þeirra er ekki á hreinu. Það er vitað að Forn-Egyptar trúðu að guðirnir byggu á himninum, svo sú staðreynd að göngin beinast að skærum stjörnum gæti vel verið tengd þeim. Sumir telja að þetta hafi átt að hjálpa nýlátnum sálunum að rata til himisins. Listi yfir ríkisstjórnir Ítalíu. Þetta er listi yfir ríkisstjórnir Ítalíu og forsætisráðherra Ítalíu frá því landið var sameinað í eitt ríki árið 1861. Konungsríkið varði til 1946 en eftir síðari heimsstyrjöldina og fall fastistastjórnarinnar sem verið hafði við völd frá því á 3. áratug 20. aldar var samin ný stjórnarskrá og ákveðið með þjóðaratkvæðagreiðslu að landið skyldi verða lýðveldi. 50px Lýðveldið Ítalía. Ítalía forsætisráðherrar Villiköttur. Villiköttur (fræðiheiti: "Felis silvestris") er tegund lítilla rándýra af kattardýraætt. Hann finnst um mest alla Afríku, Evrópu, Suð-vestur og Mið-Asíu, Indlandi, Kína og Mongólíu. Sökum þess hve víða hann lifir er hann flokkaður af Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN) sem "tegund í fullu fjöri". Hins vegar er blendingsræktun við heimilisketti umfangsmikil og hefur átt sér stað um nánast allar undirtegundir villikattarins og fækkar því hreinræktuðum villiköttum nokkuð þessvegna. Neptúnus (reikistjarna). Neptúnus er áttunda og ysta reikistjarnan frá sólu talið og einn af gasrisum sólkerfisins. Neptúnus er nefndur eftir rómverska sjávarguðinum og er tákn þríforkurinn hið sama. Vitað er að Neptúnus hefur 13 tungl, en það þekktasta er Tríton. Neptúnus var uppgötvaður þann 23. september 1846 og síðan þá hefur aðeins eitt geimfar kannað hann, það var Voyager 2 sem fór þar hjá 25. ágúst 1989. Sporbaugur dvergreikistjörnunnar Plútós liggur að hluta fyrir innan sporbaug Neptúnusar. Helstu einkenni Neptúnusar eru 4 hringar um hann og bergkjarni sem er umlukinn vatni og frosnu metani. Smákettir. Smákettir (fræðiheiti: "Felis") er ættkvísl rándýra af kattardýraætt. Djögl. Djögl (eða gegl eða gripl) er hvers konar handfjötlun hluta sem krefst færni. Dæmi um djögl er sú list að halda þremur eða fleiri boltum á lofti þannig minnst einn sé ávallt í loftinu. Einnig telst listin að höndla djöflaprik til djögls, ásamt öðrum undirgreinum eins og eldsnúningur o.fl. Orðsifjar. Orðsifjar orðsins „djögl“ er enska orðið „juggle“, sem aftur er ættað af miðenska orðinu „jogelen“ sem er komið úr latínu í gegnum gamla franska orðið „jogler“. „Gegl“ er hinsvegar íslenskt nýyrði yfir fyrirbrigðið. Kísilþörungar. Kísilþörungar (fræðiheiti: "Bacillariophyceae") eru stór flokkur heilkjarna þörunga og ein algengasta gerð plöntusvifa. Þeir eru flestir einfruma en mynda stundum sambú með öðrum kísilþörungum. Skel þeirra er úr kísli og finnast þeir nánast í öllu vatnsrænu umhverfi, þ.á m. í ferskvatni, sjó, jarðvegi og í raun nánast alls staðar þar sem raka er að finna. Þeir eru óhreyfanlegir eða hafa eingöngu takmarkaða hreyfigetu eftir undirlagi með því að seyta slímugu efni eftir saumnum. Þar sem kísilþörungar eru frumbjarga lífverur eru þeir bundnir við ljóstillífunarbeltið (vatnsdýpt niður á 200 m eftir skýrleika). Til eru bæði botnþörungar og svifþörungar. Gullþörungar eru þörungategund sem mynda þolhjúp úr frymisneti, varðveita olíu í stað sterkju, hafa tvískipta frumuveggi og mynda kísil á einhverju stigi lífs síns. Kísilþörungar eru venjulega í kringum 20-200 míkrómetrar í þvermál eða á lengd þrátt fyrir að stundum geti þeir orðið allt að 2 millimetra langir. Hólf þeirra geta verið stök eða mörg saman (fest saman með mörgum slímugum þráðlum eða böndum sem mynda langar keðjur). Kísilþörungar geta verið svo margir og svo vel varðveittir að þeir myndi setlög sem eingöngu eru gerð úr skeljum þeirra (kísilgúr) og eru þessi setlög nothæf og arðbær þar sem þau eru notuð í síur, málningu, tannkrem og margt fleira. Fyrst áreiðanlegu vísbendingar um kísilþörunga í jarðsögunni eru frá árjúra og elsta og best varðveitta flóran er frá árkrít. Elstu ferskvatnsþörungarnir koma ekki fram fyrr en á eósen, en á míósen hafa bæði sjávar- og ferskvatnsþörungar orðnir útbreiddir og svipar mörgum flokkum til núlifandi tegunda. Bygging og skiptingar. Kísilþörungar eru, ásamt skoruþörungum og kalksvifþörungum í meirihluta af plöntusvifinu. Þeir tilheyra flokknum "Bacillariophyceae". Kísilþörungar eru einfruma þörungar sem hafa einskonar glerkenndan frumuvegg úr kísilvökva (kísildíoxíð, SiO2) raðað í lífræn fylki. Veggurinn samanstendur úr tveimur pörtum: annar parturinn er minni og skarast þeir líkt og lokuð petriskál. Veggurinn verndar þörunginn fyrir sterkum kjálkum rándýra. Lifandi kísilþörungur þolir gífurlegan þrýsting, eða á við 1,4 milljón kg/m². Þetta þol kísilþörunga má rekja til fjölda af hola og raufa í vegg þeirra, ef veggirnir væru sléttir myndi þurfa 60% minna afl til að kremja þá. Þessi göt hafa einnig það hlutverk að auðvelda upptöku nauðsynlegra efna úr umhverfinu og eigi síður losun úrgangsefna. Þörungarnir skipta sér með frumuskiptingu, þá losnar skelin í sundur og hver helmingur myndar „lok“ á nýja frumu. Að þessu gefnu gefur að skilja að eftir margar frumuskiptingar hefur frumum með minna ummál en móðurfruman fjölgað. Þetta er leyst með kynæxlun: risagró myndar nýja stóra skel í kjölfar samruna kynfrumna. Búsvæði. Þar sem þeir eru svipulausir hafa þeir mjög litla hreyfigetu og synda ekki sjálfir. Eðlisþyngd þeirra er meiri en eðlisþyngd sjávar en hafa margar tegundir svokallaða „bursta“ sem dregur úr sökkhraða þeirra, en flothæfni og lóðrétt blöndun sjávar í yfirborðslaginu hefur líka áhrif. Þessi blanda verður til þess að þörungarnir ná gjarnan að haldast í þeim hluta sjávar sem birtan nær til. Engu að síður eru þeir bæði áberandi í svifinu og meðal botnlægra tegunda. Þekkt er að kísilþörungar myndi dvalargró á strandsvæðum. Þó þessi skilyrði henti þeim ekki til vaxtar þá hjálpar það þeim að lifa af. Þeir eru ríkjandi á kaldari hafsvæðum norðan og sunnan til á hnettinum, eða þar sem endurnýjun næringarefna er stöðug. Þó eru kísilþörungar einnig í öðrum hlutum hafsins og einnig í ferskvatni. Eru þeir sú tegund svifþörunga sem fyrstir eru til að hasla sér völl á vorin. Ljóstillífun. Kísilþörungar hafa áhrif á koltvísýringsmyndun hnattrænt með ljóstillífun sinni og þá sérstaklega þegar næg næringarefni eru í boði og þeir fjölga sér hratt; eru í blóma. Kísilþörungar eru mikilvæg fæða fyrir ýmsar aðrar frumverur og hryggleysingja, en í blóma sleppa þó margir þeirra við þau örlög. Þegar þeir óétnu, eða eftirlifendur, deyja þá sökkva þeir á hafsbotninn. Þeir sem enda á hafsbotninum eru frekar ólíklegir til niðurbrots af bakteríum og öðrum sundrurum og þar af leiðandi helst kolefni þeirra á botninum frekar en að leysast upp sem koltvísýringur. Niðurstaðan er sú að koltvísýringnum sem kísilþörungarnir innbyrða með ljóstillífuninni er dælt niður á hafsbotninn. Með það í huga að lækka styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu vilja sumir vísindamenn ýta undir slíkan blóma kísilþörunga með því t.d. að auðga hafið með nauðsynlegum næringarefnum einsog járni. Aðrir efast þó og benda á að erfitt sé að lesa í heildaráhrif slíkra inngripa í vistfræðilegu samfélagi þar sem prófunin sé smá og hafi skilað misjöfnum niðurstöðum. Þótt frumurnar séu oft stakar eiga þær einnig til að tengjast saman og geta myndað langar keðjur. Þetta er eitt af því sem einkennir tegundir og notað er við greiningu, en einnig eru lögun skálarinnar og mynstrið sem holur og rákir mynda greiningaratriði. Oft er talað um tvo hópa kísilþörunga; staflaga og hringlaga, og er þá verið að vísa í mynstrið ofan á skelinni. Raðist það út frá línu er talað um staflaga kísilþörung en hringlaga ef það raðast út frá punkti. Hagnýting. Kísilþörungar eru mjög fjölbreyttur hópur frumvera. Þar sem þeir eru stór hluti plöntusvifa gæti eitt fötufylli af yfirborði sjávar innihaldið milljónir kísilþörunga. Fornar leifar af kísilveggjum þörunganna er eitt helsta innihaldsefni í jarðefninu kísilgúr. Er þetta jarðefni mikið notað til síunar á vökva en einnig sem fylliefni í margvíslegum iðnaði. Þar sem skeljarnar eru mjög harðar nýtist skeljaduftið einnig sem slípiefni t.d. í tannkremi og bílabóni. Þess má geta að stærstur hluti bjórs í Evrópu er síaður í gegnum kísilgúr, en einnig er sykurvökvi, matarolía, flugvélabensín og blóð í blóðbönkum síað með hjálp hans. Hann er notaður sem fylliefni meðal annars í málningu, pappír og í plastiðnaði. Kísilgúr er líka nýttur til lyfjagerðar og í snyrtivörur, en lyfjatöflur eru til að mynda gerðar úr sampressuðum kísilgúr sem lyfinu er svo blandað í. Sveitarfélagið Álftanes. Sveitarfélagið Álftanes (áður Bessastaðahreppur) var sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu, á utanverðu Álftanesi. "Bessastaðahreppur" varð til árið 1878, ásamt Garðahreppi, þegar Álftaneshreppi var skipt í tvennt. Hinn 17. júní 2004 var nafni hreppsins breytt í "sveitarfélagið Álftanes". Samhliða þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs þann 20. október 2012, fór fram íbúakosning í Garðabæ og sveitarfélaginu Álftanes og var sameining þeirra í eitt sveitarfélag samþykkt. Hið nýja sveitarfélag heitir Garðabær en um það hafði verið samið fyrir kosningarnar og miðað við tölur Hagstofu frá 1. janúar 2012 munu íbúar sameinaðs sveitarfélags verða um 14.000 talsins. Sameiningin tók gildi áramótin 2012/2013. Woodstock. Woodstock var tónlistarhátíð sem haldin var í Bethel í New York-fylki dagana 15. – 18. ágúst árið 1969. Hátíðin hefur oft verið kölluð „Hátíð tónlistar og friðar“ og er hún talin einn merkasti viðburður tónlistarsögunnar. Hátíðin var kynnt á þennan hátt: „Woodstock Music Festival; An Aquarian Exposition: Three Days of Peace and Music“. Ekki leikur vafi á öðru en að slagorðið hafi haft áhrif því að á hátíðina mættu um hálf milljón manns. Allt þetta fólk var mætt á 600 ekru bóndabýli í þeim tilgangi að vera í tengingu við náttúruna, hlusta á tónlist og njóta friðarins. Á þessum tímum var hugtakið friður mjög áberandi í samfélaginu og fólk lagði mikið upp úr því að halda hann. Atburðir eins og Víetnam-stríðið spiluðu þar virkan þátt en hátíðin hefur með tíð og tíma orðið eins konar táknmynd fyrir hippatímabilið. Skipuleggjendur hátíðarinnar voru fjórir ungir menn John Roberts, Joel Rosenman, Artie Kornfeld og Mike Lang, sá yngsti var þá 27 ára gamall. 32 tónlistarmenn komu fram á hátíðinni og spiluðu þeir á sviði undir berum himni þar sem skiptust á skin og skúrir. Þar á meðal voru þekktir tónlistarmenn, til dæmis Janis Joplin, Jimi Hendrix, hljómsveitin the Who, Canned Heat og San Francisco hljómsveitin Jefferson Airplane. Kveikjan að hátíðinni. Artie Kornfeld og Mike Lang höfðu mikinn áhuga á því að setja á laggirnar hljóðver í Woodstock. Staðsetningin hentaði sér vel vegna þess að á þessum slóðum voru þegar ýmsir tónlistarmenn búsettir, þar á meðal Bob Dylan. Fjárfestarnir ungu Joel Rosenman og John Roberts hittu Lang og Kornfeld og hugmyndir þeirra urðu að því að þeir ákvaðu að halda þriggja daga tónlistarhátíð fyrir 50.000 manns. Með því vonuðu þeir að ágóði hátíðarinnar yrði nægur til þess að stofna hljóðverið. Undirbúningur. Mennirnir fjórir hófu fljótlega skipulaggningu hátíðarinnar, það þurfti að velja staðsetningu, ráða tónlistarmenn, öryggisgæslu og fleira. Í fyrstu höfðu skipuleggjendur hátíðarinnar ákveðið að halda hátíðina í Wallkill í Woodstock. Það gekk þó ekki eftir vegna harðra mótmæla heimamanna. Það var því ákveðið að færa hátíðina á bóndabýli þar sem bóndi nokkur, Howard Mills, var tilbúin til þess að leigja landareign sína á 10.000 bandaríkjadali. Mills gugnaði þó þegar á hólminn var komið og enn þurftið að hefja leit af nýjum stað. Hinn ungi Elliot Tiber var sonur móteleigenda í White Lake í New York-fylki. Hann var vanur að fara á sumrin til foreldra sinna og hjálpa þeim að reka mótelið sem var mjög lítilfjörlegt. Það var svo um miðjan júlí árið 1969 sem Tiber sá grein í bæjarblaði White Lake að Wallkill hefði hætt við hátíðarhöldin. Tiber hafði þá samband við skipuleggjendur hátíðarinnar sem voru enn að leita að réttri staðsetningu og sagði þeim að hann vissi um stað. Skipuleggjendurnir heimsóttu Tiber og ákveðið var að halda hátíðina á bóndabýli Max Yasgurs, frænda Tiber, í White Lake. Ástæðan fyrir því að Tiber benti skipuleggjendum á Yasgur var vegna þess að það myndi auka mótelviðskiðskipti foreldra hans. Það var þá ákveðið, það var hafði verið fundin staður fyrir hátíðna og Yasgur leigði landareign sína á 50.000 bandaríkjadollara. Dagarnir fyrir hátíðina. Þann 13. ágúst, tveimur dögum fyrir hátíðina, höfðu þegar 50.000 manns tjaldað ekki langt frá sviðinu. Fólk æddi inn á svæðið þar sem átti eftir að setja upp girðingar og hlið til þess að afmarka svæðið. Fjórmeningarnir höfðu litla stjórn á aðstæðum og sífellt fleira fólk streymdi að svo að á endanum misstu þeir stjórn á fjöldanum. Það fór því þannig að þeir neyddust til þess að hafa fría aðgöngu að hátíðinni. Þessi ákvörðun um að hafa frían aðgang að hátíðinni hafði tvær leiðinlega afleiðingar í för með sér. Fyrri afleiðingin er sú að þeir Rosenman, Roberts, Lang og Kornfeld töpuðu þeirri fjárhæð sem þeir höfðu lagt í hátíðina og hagnaðurinn var enginn. Önnur afleiðingin var sú að sú fregn um að aðgangsverð væri ekkert breiddist hratt og örugglega út. Það hafði það í för með sér að um milljón manns reyndu að koma sér á hátíðina en lögreglunni tókst þó að vísa frá um þúsundum bíla sem voru á leið sinni til hátíðarhaldanna. Öll þessi mannmergð hafði það svo í för með sér að flest allir sem fram komu, hljómsveitir og aðrir tónlistarmenn, þurftu að ferðast með þyrlu til þess að komast leiðar sinnar. Hátíðin. Þrátt fyrir ýmis vandamál sem höfðu komið upp rétt fyrir hátíðina tókst næstum því að hefja hátíðarhöldin á réttum tíma. Föstudagskvöldið 15. ágúst steig gítarleikarinn og söngvarinn Richie Havens á svið og hóf tónlistarhátíðina formlega. Hátíðin var hafin og margir tónlistarmenn áttu eftir að koma fram. Fjöldinn allur af tónlistarmönnum tróðu upp á föstudagskvöldinu, það voru til dæmis Joan Baez og Ravi Shankar indverskur sitarspilari. Tónlistin hljómaði alla nóttina í takt við rigninguna sem var viðloðandi alla hátíðina. Tónleikar hófust strax eftir hádegi á laugardeginum og stóðu þeir yfir alla nóttina. Þeir sem fram komu voru ekki af lakari endanum. Þrettán tónlistarmenn og hljómsveitir komu þá fram og mörg lög voru flutt. Dæmi um þá sem komu fram voru Janis Joplin, Creedence Clearwater Revivial og The Who en The Who tóku alls tuttugu og fimm lög á sínum tónleikum. Það er því ekki að undra að það hafi verið spilað og sungið alla nóttina líka. Joe Cocker var fyrstur á svið á sunnudeginum og hóf hann sína tónleika um miðjan dag. Á meðan tónleikunum stóð hékk yfir svart ský og þegar hann hafði lokið tónleikum sínum skall á dembandi rigning. Vegna óhemju mikillar rigningar þurfti að fresta tónleikahaldi í nokkrar klukkustundir. Á meðan runnu hátíðargestir til í leðju og drullu og allt varð gegnsósa. Þar sem áður var gras var nú leðja og útgangurinn á hátíðargestum eftir því. Einn hátíðargestanna, Barry Levine ljósmyndari, ákvað þá að brjóta ísinn og synda nakinn í vatni sem var á landareigninni. Fólk fylgdi á eftir og fljótlega var vatnið orðið fullt af nöktu eða hálfnöktu fólki. Þegar regnstorminn lægði hófust tónleikar að nýju og The Country Joe and The Fish héldu þá sína tónleika. Á sunnudeginum var fólk farið að týnast í burtu af svæðinu og um 150.000 manns fóru frá White Lake á sunnudagskvöldinu. Þá átti einn af þekktustu tónlistarmönnunum eftir að spila en það var Jimmy Hendrix. Hendrix hóf sína tónleika og jafnframt síðustu tónleika hátíðarinnar, ásamt bandinu sínu Gypsy Sons and Rainbows á sunnudagskvöldinu. Þeir spiluðu alla nóttina og fram á morgun. Bassaleikari hljómsveitarinnar, Billi Cox, lýsir gigginu þeirra sem mjög góðu, það góða við það var friðurinn, ástin og samhljómurinn og það að allir væru samankomnir í friði. Þegar Hendrix og félagar höfðu lokið sínum tónleikum var hátíðin á enda og aðeins um 40.000 manns eftir. Eiturlyf. Það var mikið um eiturlyf á hátíðinni. Það voru t.d sérstök tjöld fyrir þá sem voru að klára „trippin“ sín og fyrir þá sem höfðu tekið of stóra skammta og þurftu að róa sig. Það var mjög mikið af LSD á hátíðinni og mikið um að ungt fólk væri að nota eiturlyf í fyrsta skipti. Talað er um að um fjögurhundruð manns hafi þurft að meðhöndla vegna of stórs skammts. Einnig var mikið um það að fólk væri að slasa sig af völdum eiturlyfja. Fólk var undir svo miklum áhrifum að það kom sér auðveldlega í lífshættu til dæmis stökk einn maður út í vatn sem var grynnra en hannn gerði sér grein fyrir svo að hann höfuðkúpubrotnaði. Það var mikilvægt að það væri læknir á svæðinu því að ekki var fólk einungis að taka inn of stóra skammta heldur slasaðist fólk, það urðu fjögur fósturlát, fólk gleymdi lyfjunum sínum og börn fæddust hvað þá annað. Aðeins tveir létu lífið á hátíðinni. Annar lést vegna of stórs skammts og hinn lést þegar hann svaf í svefnpokanum sínum og dráttarvél keyrði yfir hann. Eftirmálar. Eftir hátíðarhöldin þegar allir hátíðargestir höfðu yfirgefið svæðið blasti við heil blaut landareign á kafi í rusli. Fólk hafði skilið eftir tjöld og svefnpoka sem voru útötuð í leðju og drullu. Skipuleggjendur hátíðarinnar fjórir voru ringlaðir eftir hátíðina. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því að einn stærsti tónlistaratburður sögunnar hafði skeð og þeir voru valdar þess. Einnig þurftu þeir að koma sér á bak aftur eftir að hafa tapað yfir milljón bandaríkjadala og einnig áttu þeir eftir að vinna úr þeim sjötíu lagamálum sem þeir höfði verið kærðir fyrir. Það var þó til happs að kvikmyndin sem var gerð eftir hátíðina varð mjög vinsæl og náði að borga stóran hluta af tapinu. Þrátt fyrir það vantaði ennþá 100.000 bandaríkjadali í núllið. Max Yasgur kom ekki sérstaklega vel út úr hátíðinni. Landareign hans var einn stór leðjupollur og nágrannar hans höfðu kært hann fyrir eyðileggingu. Tveimur árum eftir hátíðina seldi Yasgur bóndabýlið og ári seinna lést hann vegna hjartaáfalls. Föstudagur 15. ágúst. Dagskráin hófst 17:07 þegar Richie Havens steig á svið. Sunnudagur 17. fram á mánudag 18. ágúst. Joe Cocker var fyrsti bókaði tónlistarmaðurinn á síðasta degi hátíðarinnar (sunnudegi), hann hóf flutning klukkan 14. Ölfusá. Ölfusá er vatnsmesta á Íslands með meðalrennsli upp á 423 m³/sek. Ölfusá myndast milli Grímsness og Hraungerðishrepps úr Soginu og Hvítá og er 25 km löng frá upptökum til ósa austan Eyrarbakka. Hún fellur niður með vesturjaðri Þjórsárhrauns. Áin er jökullituð og rennur í gegnum Selfoss í djúpri gjá sem talin er vera 9 m djúp. Þótt áin hafi jökulársvip er mikið af lindarvatni í henni og í kuldatíð getur hún orðið nánast tær. Í Ölfusi myndar áin mikið stórt stöðuvatn eða sjávarlón, Ölfusárós, áður en hún rennur út í sjó austan við Óseyri. Brýr. Brýr á ánni eru tvær, Ölfusárbrú á Selfossi og Óseyrarbrú rétt utan við Eyrarbakka. Árið 1891 var tekin í notkun brú á Ölfusá við Selfoss. Var það Tryggvi Gunnarsson sem hafði umsjón með byggingu hennar og bjó hann í Tryggvaskála, sem stendur við brúarsporðinn sunnanmeginn. Árið 1944 kom mjólkurbíll frá Reykjavík með annan í togi og þoldi brúin ekki þyngdina svo annar brúarstrengurinn slitnaði og bílarnir féllu báðir í ána. Annar lenti á grynningum þaðan sem síðar var hægt að ná honum upp en hinn fór í hyldjúpa gjána ásamt bílstjóranum. Bílstjóra þess bíls tókst að halda sér á varadekki þar til honum steytti á land við Selfoss-bæina fyrir vestan Selfosskirkju. Nýja brúin, sem enn þjónar sínum tilgangi, var tekin í notkun 22. desember 1945. Er hún 84 m löng milli stöpla. Óseyrarbrú var tekin í notkun 3. september 1988 og var það þáverandi forsætisráðherra Íslands Þorsteinn Pálsson sem klippti á borðann. Brúin er 360 metra löng á 7 steinsteyptum stöplum. Norwegian Wood (This bird has flown). Norwegian Wood (This bird has flown) er lag með Bítlunum sem kom út á Rubber Soul-plötunni árið 1965. Norwegian Wood (tónlistarhátíð). Norwegian Wood er norsk tónlistarhátíð sem haldin er í Osló á hverju ári. Margir þekktir tónlistarmenn koma fram og spila rokktónlist fyrir um 30 þúsund áhorfendur. Nokkrir af þeim tónlistarmönnum sem komu fram árið 2005: System of a Down, The Hives, 3 Doors down; Crosby, Stills, Nash & Young, Tori Amos og norska hljómsveitin deLillos. Ítalísk tungumál. Ítalísk mál var flokkur indóevrópskra mála, sem voru töluð á Ítalíuskaga í fornöld. Það stærsta þeirra, latína, lagði hin undir sig, þegar fyrir upphaf tímatals okkar. Þau ítalísku mál, sem eru vel þekkt, vegna þess að miklar skriflegar heimildir eru um þau, eru latína, óskíska og úmbríska. Önnur ítalísk mál eru einungis þekkt af stuttum textabútum. Lengi héldu málvísindamenn að skyldleiki væri milli ítalískra mála og keltneskra. Það hefur þó ekki tekist að sanna slíkan skyldleika. Fyrir utan ítalísku málin voru einnig töluð önnur túngumál á Ítalíuskaga, sem ekki voru af Indóevrópskum uppruna, þekktust þeirra var etrúskneska. * Fallbeyging. Fallbeyging eða beyging er mismunandi form orða eftir stöðu og hlutverki innan setningar. Beyging getur líka tjáð merkingarleg atriði eins og tölu (þ.e.a.s, fjölda), kyn og fleira. Strikið tilstrik (n-strik, strik sem er jafnbreytt bókstafinum "n") er notað við upptalningu beygingarmynda. Fallbeyging á milli mála. Fjöldi falla er mismunandi milli tungumála. Í íslensku. Í íslensku eru fjögur föll; nefnifall (sem telst til aðalfalls) og þolfall, þágufall og eignarfall (sem teljast til aukafalla). Hjálparorðin „hér er“, „um“, „frá“ og „til“ oft notuð til að greina á milli falla og orðið "hestur" notað sem dæmi — orð sem fylgja „hér er“ beygist í nefnifalli, orða sem fylgja „um“ í þolfalli, orð sem fylgja „frá“ í þágufalli og orð sem fylgja „til“ í eignarfalli. Haraldur Sigurðsson. Haraldur Sigurðsson (fæddur 31. maí 1939) er íslenskur jarð- og jarðefnafræðingur. Nám, störf og rannsóknir. Haraldur nam jarðfræði við Háskólann í Belfast og lauk doktorsprófi við Háskólann í Durham 1970. Mestallan sinn starfsaldur starfaði hann erlendis, lengst af sem prófessor við Háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum. Haraldur er í fremstu röð eldfjallafræðinga. Hann hefur birt, ýmist einn eða í samstarfi við aðra, mikilvægar greinar um niðurstöður rannsókna á stórum eldgosum, m.a. um gosið í Santorini (Minoan gosið) um 1600 fyrir Krist, Öskju 1875, Vesúvíusi 79 og eyðileggingu borganna Pompei og Herculaneum. Hann hefur einnig rannsakað og ritað um gosið í Tambora 1815, Krakatá 1883, Mount St. Helens 1980, El Chichon 1982, Nevado del Ruiz 1985, stórgos í Kötlu í lok síðasta jökulskeiðs (myndun Vedde gjóskunnar) og myndun Bishop túffsins í Long Valley öskjunni í Kaliforníu fyrir 760.000 árum. Hér á landi hefur hann komið að rannsóknum á gosinu í Lakagígum 1783-84 og Eyjafjallagosunum 2010, svo og að bergfræði gosbelta og úthafshryggja. Rannsóknir Haraldar á ummerkjum um árekstur loftsteina við jörð fyrir um 65 milljónum ára, á mörkum krítar og tertíer tímabilanna, vöktu mikla athygli en einnig hefur hann rannsakað tengsl loftslags og eldvirkni, einkum áhrif brennisteins sem berst upp í andrúmsloftið í eldgosum. Eldfjallasafnið. Þegar Haraldur lét af störfum sem prófessor við Rhode Island flutti hann til Stykkishólms. Þar setti hann á stofn eldfjallasafn sem opnað var vorið 2009. Safnið er einstætt í veröldinni því það sýnir fyrst og fremst listaverk víða að úr heiminum sem Haraldur hefur safnað og tengjast eldgosum og eldvirkni. Heiðursverðlaun. Haraldur hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2005 fyrir störf sín í þágu vísindarannsókna. Haraldi var veitt heiðursdoktorsgráða frá Háskóla Íslands 22. jan. 2011. Haraldur var aðalritstjóri bókarinnar Encyclopedia of Volcanoes en hún er grundvallarrit í eldfjallafræði. Fyrir hana hefur hann hlotið margar viðurkenningar. Ítalska. Ítalska, er rómanskt mál sem er talað af um það bil 70 milljónum manna, sem flestir búa á Ítalíu. Nútímaítalska hefur hefur myndast aðallega úr þeim mállýskum sem talaðar eru í héraðinu Toskana. Á síðustu áratugum hafa áhrif Mílanó-mállýskunnar aukist mjög í ítölsku almennt. Sögulegt yfirlit. Þar sem ítölsku smáríkin sameinuðust ekki í eitt ríki fyrr en 1861 hefur staða sameiginlegs máls á Ítalíuskaga verið mjög flókin og er svo enn. Stöðluð nútímaítalska er af þessum orsökum tiltölulega nýlegt mál. Enn eru fjölmargar mállýskur talaðar á Ítalíuskaganum, sem sumar hverjar (eins og til dæmis sardiníska) eru jafnólíkar staðlaðri ítölsku og íslenska er ólík dönsku. Elstu textar sem hægt er að kalla ítalska (til aðgreiningar frá alþýðulatínu) eru nokkrir lagatextar frá héraðinu Beneventum frá því u.þ.b. 960-963 e.Kr. Það var þó fyrst með "Hinum guðdómlega gleðileik" Dante Alighieris á 14. öld sem ítalska myndast sem sérstakt tungumál, aðskilið frá latínu og alþýðlegu talmáli. Dante notar þar mállýsku Toskana-héraðs og blandar við ýmsar suður-ítalskar mállýskur, einkum sikileysku. Síðar tóku rithöfundar eins og Ludovico Ariosto og Alessandro Manzoni upp það ritmál sem Dante hafði þróað og notuðu í verkum sínum. Við það varð til það staðlaða ítalska ritmál sem notað er í dag. Það var þó í raun ekki fyrr en með útsendingum ítalska ríkissjónvarpsins (RAI) frá árinu 1954 að þessi toskanska mállýska náði almennri útbreiðslu sem talmál (sem „sjónvarpsítalska“). Útbreiðsla í heiminum. Mállýskur í ítölsku og minnihlutamál á Ítalíu Ítalska er opinbert tungumál á Ítalíu og í San Marínó, og er að auki töluð í svissnesku kantónunum Ticino og Graubünden. Hún er einnig annað opinbert mál í Vatíkaninu og á króatíska skaganum Istríu sem tilheyrði Ítalíu á millistríðsárunum. Ítalska er einnig töluð af fjölmennum hópum innflytjenda í Lúxemborg, Bandaríkjunum, Venesúela, Brasilíu, Kanada, Argentínu og Ástralíu. Fjölmargir tala ítölsku í nærliggjandi löndum svo sem Albaníu og Möltu (þar sem ítalska var lengi opinbert mál). Það má einnig nefna að nokkuð stórir hópar eru enn ítölskumælandi í þeim löndum Afríku sem áður voru ítalskar nýlendur, það er Sómalíu, Líbýu og Erítreu. Málfræðiágrip. Ítölsk nafnorð eru annaðhvort karlkyns eða kvenkyn. Nafnorð sem enda á "-o" eru oftast karlkyns og nafnorð sem enda á "-a" eru oftast kvenkyns. Nafnorð sem enda á "-e" geta verið annaðhvort karl- eða kvenkyns. Nafnorð sem enda á "-o" og "-e" í eintölu taka endinguna "-i" í fleirtölu og kvenkyns nafnorð sem enda á "-a" taka á sama hátt endinguna "-e". Óákveðinn greinir. Óákveðinn greinir heitir "un" í karlkyni og í kvenkyni "una". Formið "uno" í karlkyni er notað í orðum sem byrja á "s" fyrir framan samhljóða eða "gn", "ps", "x" og einnig "z". Í kvenkyni styttist "una" í "un fyrir framan orð sem byrja á sérhljóða. Ákveðinn greinir. Ákveðinn greinir heitir "il" í karlkyni, og í kvenkyni "la". Fyrir framan orð sem byrja á sérhljóða er notað "l bæði í karl- og kvenkyni. Í karlkyni er "lo" notað fyrir framan orð sem byrja á "s" fyrir framan samhljóða eða á "gn", "ps", "x" og einnig "z". Í fleirtölu er ákveðinn karlkyns greinir "i, kvenkyns "le". Í karlkyni er "gli" notað fyrir framan orð sem byrja á sérhljóði, á "s" ásamt samhljóði, á "gn", "ps", "x" og einnig "z". Ísöld. Jöklar þekja stóran hluta jarðar á ísöldum. Ísöld er jarðsögulegt tímabil þar sem þykkar jökulbreiður hylja stór landsvæði. Slík tímabil geta staðið í nokkrar milljónir ára og valdið miklum breytingum á yfirborði meginlanda. Allnokkrar ísaldir hafa sett svip á sögu jarðarinnar. Sú elsta er kennd við svokallaðan forkambrískan tíma fyrir meira en 570 milljónum ára. Síðasta tímabil mikilla jökulframrása er kallað Pleistósen tímabilið og er almennt talið hafa hafist fyrir um 2,6 milljónum ára og lokið fyrir 10 þúsund árum. Sumir telja að síðustu ísöld sé ekki lokið enn heldur sé nú hlýskeið ísaldar (líkt og tiltölulega hlýr vetrardagur). Minna kuldakast og tímabil sem einkenndist af framrás jökla hefur verið nefnt litla ísöld, en hún hófst á 16. öld og var viðvarandi næstu þrjár aldir. Litla ísöld náði hámarki árið 1750 en þá voru jöklar í mestu framrás síðan á hinni Kvarteru ísöld. Ekki er vitað með vissu hvað veldur ísöldum en meðal þess sem getur haft áhrif eru geislun sólar, Milankovic-sveifla sem er reglubundin breyting á afstöðu sólar og jarðar, breytingar á kerfi hafsstrauma og mikil tíðni eldgosa. Klaufhalar. Klaufhalar (eyrnaormar eða eyrnapöddur) (fræðiheiti: "Dermaptera") eru ættbálkur skordýra af útvængjuyfirættbálki sem einkennist af stórum himnuvængjum (afturvængjum) sem klaufhalarnir brjóta saman undir leðurkennda framvængi. Afturbolur þeirra nær vel aftur fyrir vængina og endar nær alltaf á hala sem skiptist í tvo hluta sem líkjast oft skærum eða töng. Klaufhalar eru næturdýr sem nærast á plöntuafurðum og blaðlús. Til klaufhalaættbálksins teljast um 1.800 tegundir í 10 ættum en ættbálkurinn er frekar lítill meðal skordýra, þrátt fyrir það eru klaufhalarnir nokkuð algengir og rata oft inn í hús þar sem þeir sjást oft þjótast yfir gólfin. Líffærafræði. Klaufhalar eru ílangir og búkur þeirra situr lágt gagnhvart jörðinni, þeir eru oft brúnir að lit og yfirleitt 10-14 mm langir en á Sankti Helenu finnast allt upp í 80 mm langir einstaklingar. Munnur þeirra er vel fallin til að tyggja fæðuna. Halar klaufhalanna eru frá allt frá ekki neinu upp í einn þriðja af búkslengd þeirra. Hægt er að greina á milli kynjanna með því að skoða halann en hann er beinn á kvendýrunum og snýr fyrst inn í bláendann en á karldýrunum líkist hann meira hnetubrjót og fer í smá sveig út áður en endarnir mætast. Einnig er mun lengra á milli halanna tveggja þar sem lengst er á milli þeirra á karldýrunum (sjá tengla). Klaufhalar þurfa að brjóta afturvængi sína saman á margbrotinn hátt svo þeir passi undir framvængina, þrátt fyrir margbrotna hönnun þeirra nota klaufhalarnir þá sjaldan til flugs. Mökun klaufhala fer þannig fram að þeir snúa afturbolum sínum saman og halda jafnvel stundum í hvern annan með hölunum. Steingervingar. Steingervingar af klaufhölum hafa fundist allt aftur til júratímabilsins, árið 2003 höfðu um 70 sýni fundist allt í allt. Sagan um Ísfólkið. "Sagan um Ísfólkið" (norska: "Sagan om Isfolket") er bókaröð eftir norska skáldsagnahöfundinn Margit Sandemo. Hún hóf samningu bókanna árið 1980. Fyrstu sögurnar birtust sem framhaldssögur í tímaritinu "Hjemmet". Bækurnar rekja ættarsögu Ísfólksins sem á hvílir bölvun frá 16. öld til okkar daga. Sagan gengur út á að ættfaðirinn Þengill hinn illi hafi selt Djöflinum sál sína. Þetta olli bölvuninni sem hrjáði afkomendur hans og fólst í því að einn af hverri kynslóð yrði þjónn Djöfulsins. Merki bölvunarinnar eru rafgul augu og yfirnáttúrulegir kraftar. Fyrsta sagan gengur út á að einn afkomandi hans, Þengill hinn góði, berst gegn bölvuninni sem hrjáir hann. Sögurnar snúast yfirleitt um þann sem bölvunin lendir á í hverri kynslóð. Yfirleitt er saga hvers einstaklings sögð í einni bók með nokkrum undantekningum. Á Íslandi. Bækurnar komu út hjá Prenthúsinu frá 1982 til 1989. Fyrstu 30 bækurnar voru þýddar af Ingibjörgu Jónsdóttir en eftir lát hennar tók Ingibjörg Briem við. Bækurnar nutu fádæma vinsælda og seldust venjulega í 7 - 9000 eintökum. Jafnvel bar á því að börn voru nefnd eftir persónum úr bókunum eins og Villimey, Viljar og Heikir sem áður voru óþekkt nöfn á Íslandi, og nöfn á borð við Sunna og Silja nutu stóraukinna vinsælda. 2005 til 2010 var bókaflokkurinn endurútgefinn af forlaginu Jentas í nýrri þýðingu Snjólaugar Bragadóttur. Antoine de Saint-Exupéry. Antoine Marie Jean-Baptiste Roger de Saint-Exupéry (29. júní 1900 í Lyon í Frakklandi – 31. júlí 1944) var franskur rithöfundur og flugmaður. Meðal þekktustu verka hans er sagan "Litli prinsinn". Hann dó í seinni heimsstyrjöldinni þegar flugvél hans hrapaði. Jarðsöguleg tímatalsfræði. Jarðsöguleg tímatalsfræði (eða tímatalsfræði jarðar) er undirgrein jarð- og tímatalsfræðinnar sem fæst við það að ákvarað aldur steingervinga, steinda og setbergs. Við þetta eru notaðar nokkrar aðferðir, þ.á m. aldursgreining með geislunarmælingu. Aldursgreining með geislunarmælingu. Aldursgreining með geislunarmælingu er aldursgreiningaraðferð sem notast við þá þekkingu að vitað er um rýrnunarhraða samsæta sem finnast í náttúrunni. Forsögulegur tími. a> fyrir um 4000 árum síðan. Forsögulegur tími er tímabil í jarðsögunni skilgreint sem sá tími sem ekki eru til ritaðar heimildir um. Sem dæmi eru risaeðlur sagðar hafa verið uppi á forsögulegum tíma og hellisbúar eru sagðir forsögulegt fólk. Í víðum skilningi mætti segja að forsögulegur tími hafi byrjað þegar alheimurinn myndaðist en oftast er tímabilið sagt hafa byrjað þegar líf kviknaði á jörðinni. Mannkynssögunni er skipt í "sögulegan tíma" og "forsögulegan tíma". Skilin þar á milli miðast við upphaf ritaðra heimilda, sem komu ekki fram á sama tíma alls staðar. Því lýkur forsögulegum tíma í raun ekki alls staðar samtímis. Elstu ritaðar heimildir, fleygrúnir, eru frá Súmer, eða Mesópótamíu, frá því um 3000-3500 f.Kr. Þá hófst fornöld. Þar sem forsagan er, samkvæmt skilgreiningu, tíminn fyrir ritaðar heimildir, notast menn við gögn úr fornleifafræði og steingervingafræði og sögulegum málvísindum og samanburðarmálfræði (Sjá grein um frum-indóevrópsku). Verkfæri, skartgripir og mannvirki eru dæmi um það, sem notast er við til að gera skil á sögu manna fyrir komu ritmáls. Forsögulega tímabilinu er skipt upp í minni tímabil, notast er við sömu tímabilsheiti og í jarðfræði fyrir komu mannsins. Þá er tímabilunum skipt í frumsteinöld, steinöld, nýsteinöld en svo líkur forsögu og almenn saga mannkyns tekur við. Á Íslandi telst sá atburður forsögulegur sem gerðist fyrir landnám Íslands, það er að segja það var enginn til frásagnar um atburðinn og engar skriflegar heimildir til um hann. Angela Merkel. Dr. Angela Dorothea Merkel (fædd 17. júlí 1954 í Hamborg í Þýskalandi), fædd Kasner, er þýskur stjórnmálamaður og eðlisfræðingur. Hún er dóttir Lútherstrúar-prests og kennslukonu. Hún ólst upp að mestu í Templin, litlum bæ í þáverandi Austur-Þýskalandi, 70 km norður af Berlín. Á árunum 1973 til 1978 nam hún eðlisfræði við Háskólann í Leipzig. Hún vann að doktorsverkefni sínu í kennilegri efnafræði í Berlín og kynntist þar núverandi eiginmanni sínum, prófessor Sauer. Hún komst á þýska þingið árið 1991 sem þingmaður Mecklenburg-Vorpommern. Hún varð formaður flokks Kristilegra demókrata (CDU) 10. apríl 2000. Merkel var kjörin kanslari Þýskalands af þýska sambandsþinginu 22. nóvember 2005. Merkel, Angela Eiginnafn. Eiginnafn er nafn einstaklings sem er ekki millinafn eða kenninafn (föðurnafn, móðurnafn og/eða ættarnafn). Íslensk eiginnöfn eiga að vera samþykkt af mannanafnanefnd og hafa endingu í eignarfalli og falla að öðru leyti að íslensku hljóðkerfi og stafsetningu. Samkvæmt íslenskum lögum verða allir að bera að minnsta kosti eitt eiginnafn en í mesta lagi þrjú, og þau skulu öll vera á undan millinafni og kenninafni. Ættarnafn. Ættarnafn er nafn sem einstaklingar bera og erfa frá forfeðrum sínum, oftast í karllegg. Einnig geta einstaklingar skipt um ættarnafn við giftingu. Ættarnöfn á Íslandi eru afar sjaldgæf, í stað þeirra bera flestir nafn feðra sinna sem síðasta nafn. Eem. Eem (þekkt sem Sangamon í Norður-Ameríku, Ipswichian í Bretlandi og Riss-Wurm í Ölpunum) er næstsíðasta hlýskeið síðustu ísaldar. Það hófst fyrir 131.000 árum. Loftslag á Eem er talið hafa verið jafn stöðugt og á Hólósen, en þó hafa verið hlýrra. Hlýjast var á Eem fyrir 125.000 árum þegar skógar náðu allt norður að Norður-Höfða (nú freðmýri) í norður Noregi. Harðviður eins og hesliviður og eik uxu allt norður að Oulu í Finnlandi. Sjávarstaða á Eem var hærri en nú, sem bendir hugsanlega til þess að afjöklun hafi verið talsvert meiri en í dag. Skandinavía var eyja vegna vatnafars á stórum svæðum norður Evrópu og vestur Síberíu. Á hámarki Eem hlýskeiðsins, var almennt hlýrra en nú er, þótt að kaldara hafi verið á vissum svæðum. Tré uxu allt norður að Baffin í stað Kuujjuaq og skilin á milli sléttna og skóga lágu vestar í norður Ameríku, eða nálægt Lubbock í Texas í stað Dallas í Texas þar sem þau liggja í dag. Á Eem urðu síðan snögg umskipti yfir í kaldari og þurrari skilyrði en eru nú og fyrir 114.000 árum lauk Eem hlýskeiðinu og jökulskeið hófst á ný. Orð. Orð er merkingarbær eining í tungumáli eða eining sem leggur af mörkum til merkingar setningar. Orð eru mynduð úr einu eða fleiri myndani. Þau myndön sem ekki er hægt að skipta í smærri einingar kallast rætur orðsins. Sá hluti orðs sem ekki breytist í beygingu nefnist stofn orðsins. Orðstofn getur verið settur saman úr fleiri en einu myndani, oft rót auk aðskeytis. Orð sem eru sett saman úr tveimur eða fleiri orðstofnum er nefnt samsett orð Orðum er raðað í orðflokka eftir eiginleikum sínum og hlutverki. Stöðuheiti í breska hernum. Titlar eru mismunandi eftir löndum, og bera oft merki um langa og viðburðaríka hernaðarsögu ríkja og eru Bretar þar engin undantekning. Yfirmönnum í landher má skipta í tvo flokka, annars vegar yfirmenn með skipunarbréf (Commissoned Officer) eða offisjéra, og svo hins vegar yfirmenn án skipunarbréfa (Non-Commissioned Officer (NCO)) eða liðþjálfa. Landher. Grunneining fótgönguliðsins er hersveitin (regiment). Hún hefur hins vegar fyrst og fremst stjórnsýslulegar skyldur. Yfir hersveitinni er skipaður ofursti, en viðkomandi er aðeins táknrænt höfuð sveitarinnar, því allt vald og daglegur rekstur er falið undirofurstanum. Hernaðar eining hersveitar er herfylki. Fleiri en eitt herfylki geta verið í hersveit, en í dag er það sjaldgæft sökum niðurskurðar. Herfylki skiptinst í fjögur undirfylki (Company) og höfuðstöðva sem sjá um birgðir, flutning og aðra þjónustu sem snýr að daglegum rekstri. Hverju undirfylki er stjórnað af majór með höfuðsmann (Captain) sem næstráðanda. Æðsti liðþjálfinn hefur titilinn Undirfylkis yfir-liðþjálfi (Company Sergeant Major) og er hæst setti undirmaðurinn í undirfylkinu. Í dæmigerðu herfylki má finna þrjú rifla undirfylki og eitt þungvopna undirfylki. Í síðast nefnda undirfylkinu má finna vélbyssu-flokksdeild (Platoon), sprengjuvörpu-flokksdeild, njósna-flokksdeild og mannvirkja-flokksdeild. Rifla undirfylkin skiptast í höfuðstöðvar og þrjár flokksdeildir. Hver flokksdeild saman stendur af um 30-35 mönnum undir forystu liðsforingja (Lieutenant). Næstur að tign innan flokksdeildarinnar kemur flokksdeildar liðþjálfinn (Platoon-Sergeant). Flokksdeildin skiptist í höfuðstöðvar og þrjá riðla (Section). Í hverjum riðli eru átta menn og yfir hverjum riðli er Riðilsstjóri/Korpráll (Corporal). Hverjum riðli má svo skipta niður í tvö fire team, og er þá undirriðilsstjórinn (Lance Coporal) settur yfir öðru. Yfir ýmsum smærri deildum, yfirleitt flokksdeildum, eru stundum liðþjálfar settir yfir. Í fótgönguliði er þeir kallaðir Colour Sergeant (sem þýða mætti sem fána-liðþjálfa) en í öðrum deildum landhersins, svo sem merkjaliði eða riddaraliði, starfsliðþjálfi (Staff Sergeant). Æðsti undirmaðurinn í hverri hersveit ber titilinn hersveitar yfir-liðþjálfi (Regimental Sergeant-Major) og er hann gjarnan yfirmanni sveitarinnar innan handar enda líklegt að viðkomandi búi yfir allt að 20 ára reynslu af hermennsku. Megin ástæða þess að orðinu sergeant sé skipt út fyrir coporal er sú að upprunaleg merking orðsins sergeant er þjónn, og það þótti ekki hæfa jafn virðulegri hersveit. Konunglegi (breski) sjóherinn (Royal Navy). Sjóliðar hafa ákveðna stöðu, en þeir geta haft misjöfn starfsheiti. Þessi starfsheiti eru margbreytileg eftir því sem tæknin breytist. Konunglegi flugherinn (Royal Air Force). Flugherinn fylgir fordæmi hinna greina heraflans (Service) og byggir hertitla sína á foringjum með skipunarbréf (Commissioned) og foringja án slíkra pappíra (NCO). Konunglegi flugherinn hefur sérstöðu, sem ég tel einsdæmi, sem er að hafa sína eigin titla. Þegar flugherinn var stofnaður (1918) gerði „faðir” hans, Trenchard lávarður, ráð fyrir að nota sama kerfi og þekktist i hinum greinum heraflans. En „eldri bræðurnir” (flotinn og landherinn), sem voru óánægðir með stofnun flughersins, meinuðu honum að nota sama kerfi. Þar með varð Trenchard að hanna sitt eigð kerfi, sem hefur riðlast nokkuð síðan og getur því verið nokkuð villandi. Lægsta foringjastaða (með skipunarbréfi) er undirflugliðsforingi (Pilot Officer). Áður fyrr var það nokkuð algengt að flugmenn kæmu bæði úr röðum foringja og undirmanna. En nú, eru flugmenn, aðstoðarflugmenn/siglingafræðingar(Navigator), undantekningalaust yfirmenn, aðallega sökum þess hvé flugnámið er dýrt og flókið. Næsta staða er flugliðsforingi (Flying Officer). Upp að þessu var kerfið frekar þægilegt en sökum skipulagsbreytinga rétt fyrir, í, og eftir seinni heimstyrjöld komst töluvert rót á stöður og ábyrgðina sem með fylgdi. Grunneining RAF er undirflugdeild (Flight). Í henni voru jafnan sex flugvélar og laut upprunalega stjórn fluglautinants (Flight Lieutenant). Næsta eining fyrir ofan er svo flugdeild (Squadron) sem var upprunalega stýrt af flokksforingja (Squadron Leader). Flugdeild samanstóð jafnan af 12 flugvélum og þrjár flugdeildir deildu flugvelli og mynduðu Flugsveit (Wing). Henni var stjórnað af flugsveitarforingja (Wing Commander). Flugdeild skipaðar stærri flugvélum (t.d. sprengjuvélum) lutu oft stjórnar flugsveitarforingja, en eftir seinni heimsstyrjöldina var það almennt að flugsveitarforingjar stýrðu nánast undantekingarlaust öllum flugdeildum. Flokksforingjar urðu að sama skapi ábyrgir fyrir undirflugdeildum (Flight). Með niðurskurði síðustu ára hefur einingin flugsveit (Wing) orðið nánast úrelt, þar sem fleiri flugdeildir deila flugvöllum en áður. Flugvellir eru undir stjórn flugfylkisforingja (Group Gaptain), og einingin flugfylki (Group) lýtur stjórnar af undirflugmarskálkis(Air Vice Marshal). Einnig er til staða stórsveitarforingja (Air Commodore), sem er aðallega að finna í stjórnsýslustörfum. Bretar tóku upp eininguna Command (stjórnstöð?) árið 1936 (sbr Fighter Command og Bomber Command). Niðurskurður hefur fækkað þeim eins og öðru en þær stjórnast af flugmarkskálki (Air Marshal). Hæsta staða innan RAF er Yfirflugmarkskálkur (Marshal of the RAF). Þessi staða er aðeins veitt þegar fulltrúi RAF situr í varnarráðinu (Defence Staff). Drottning Ástralíu. Samveldið sem átt er við er ekki Samveldið Ástralía (eins og landið heitir formlega) heldur Breska samveldið. Ein helsta breytingin, fyrir utan að taka Bretland út úr titlinum, er sú að hún er ekki lengur nefnd „verndari trúarinnar“ í Ástralíu, en það er hún í Bretlandi. Þetta er vegna þess að í Ástralíu er engin ríkiskirkja, ólíkt Bretlandi þar sem enska biskupakirkjan er ríkiskirkja. Í því samhengi er merkilegt að samkvæmt áströlskum lögum (líkt og þeim bresku) verður þjóðhöfðinginn að vera afkomandi Soffíu af Hanover, mótmælandi og ekki hafa gifst kaþólikka. Þetta segja sumir að stangist á við önnur lög í landinu þar sem kveðið er á um að algjört trúfrelsi ríki. Andatrú. Andatrú eru trúarhugmyndir sem ganga út frá því að öll form veraldarinnar, lífræn jafnt sem ólífræn, hafi andlega tilvist eða andlegt eðli, að öll tilvistarform hafi einhverskonar "andlegan kjarna" sem nær handan efnafræðilegrar samsetningar og efnislegs útlits, en sé á sama tíma bundin við einhverja efnislega formgjörð s.s. steina, tré, dýr, landsvæði o.s.frv. Andatrú birtist mest innan fjölgyðistrúarbragða sem innihalda náttúrudýrkun, svo sem Shinto, Ásatrú, Hindúisma og Voodoo (nútíma trúarbrögð byggð á náttúrutrú líkt og Wicca virðast einnig innihalda andatrú að einhverju leiti). Bóndi. Bóndi er sá sem hefur atvinnu af landbúnaði. Heitið tekur til þeirrar greinar sem bóndinn stundar, t.d. er sá bóndi sem býr með kýr kúabóndi, sá sem býr með sauðfé sauðfjárbóndi, eða fjárbóndi, og sá sem stundar hrossarækt og býr með hross hrossabóndi. Einnig eru til kornbændur, garðyrkjubændur, svínabændur, loðdýrabændur og skógarbændur. Forngotlenska. a>. Rauði liturinn sýnir mállýskuna vesturnorrænu; appelsínuguli liturinn sýnir mállýskuna austurnorrænu. Bleiki liturinn sýnir forngotlensku og græni liturinn sýnir aðrar germanskar mállýskur sem norrænir menn gátu skilið og gert sig skiljanlega á við talendur þeirra. Forngotlenska eða forneygotneska (forngutniska) var sú mállýska norrænu sem töluð var að fornu á eyjunni Gotland. Hún er það frábrugðin hinum fornausturnorrænu mállýskunum, fornsænsku og forndönsku, að hana ber að telja sem eigið mál. Úr henni er nútíma sænska mállýskan gotlenska komin. Rótin "Gut" í nafninu "gutniska" er sú sama og í "Got". íslenska - "gotar" = sænska - "gutar" (gotlenningar). Margir málvísindamenn hafa talið að forngotlenska og gotneska (tungumál Gota sem nú eru útdauð) séu nátengd. Fornnorræna tvíhljóðið "au" (eins og í "auga"> "augä") hélst í vesturnorrænu, en breytist í austurnorrænu í sérhljóðið "ø" ("øga"). Sama gerðist með tvíhljóðið "ai" í "stain" (steinn) sem í austurnorrænu varð að "e" ("sten"). Þar sem vesturnorræna hafði tvíhljóðið "ey" (og austurnorrænan "ø"), hafði forngotlenska "oy". Helsta heimild um forngotlensku er Gotasaga frá 13. öld. Eins og sjá má af þessum samanburði var forngotlenska í flestu mjög lík íslensku ef stafsetning er aðlöguð. The Shins. The Shins er popp/rokk-hljómsveit frá Portland í Oregon-ríki í Bandaríkjunum. Platan Oh, Inverted World kom út árið 2001 og nýjasta plata þeirra, Chutes Too Narrow, kom út árið 2003. Hljómsveitin er sögð spila hressa tónlist í anda The Beach Boys. Sagan. The Shins byrjuðu að spila árið 1997 en hljómsveitin var þá hliðarverkefni James Russel og Jesse sem voru í hljómsveitinni Flake. Árið 1999 hætti Flake en á þeim tímapunkti hét hún reyndar Flake Music. Meðlimirnir púsluðu þá saman The Shins og inn kom Dave í stað bassaleikara Flake Music. Þegar "Oh, Inverted World"-platan kom út var hún sögð frumleg og með skemmtilegum textum. "Chutes too narrow" hlaut jafnvel betri dóma þegar hún kom út. Rökfræði. Rökfræði er undirgrein heimspekinnar sem fæst við gildi ályktana. Fræðigreinin var fundin upp af forngríska heimspekingnum Aristótelesi á 4. öld f.Kr. Um miðja 19. öld fóru stærðfræðingar að sýna rökfræðinni aukinn áhuga, en nútímarökfræði er venjulega sögð verða til undir lok 19. aldar og er Gottlob Frege gjarnan talinn faðir nútímarökfræði. Tarja Halonen. Tarja Kaarina Halonen (f. 24. desember 1943) er finnskur stjórnmálamaður og var kjörinn 11. forseti Finnlands í febrúar árið 2000 og tók við embættinu þann 1. mars árið 2000. Hún var endurkjörin þann 29. janúar 2006 og núverandi kjörtímabili hennar lýkur árið 2012. Hún er fyrsti kvenkyns forseti Finnlands. Halonen fæddist í Helsinki árið 1943. Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Helsinki árið 1968 með meistaragráðu í lögfræði. Tengt efni. Halonen, Tarja Halonen, Tarja Carolus Linnaeus. Carl von Linné eða Carolus Linnaeus (23. maí 1707 – 10. janúar 1778) var sænskur grasafræðingur og læknir sem lagði grunninn að nútímaflokkunarfræði lífvera. Hann er líka álitinn einn af upphafsmönnum vistfræðinnar og mikilvægur boðberi upplýsingarinnar á Norðurlöndum. Hann lærði grasafræði við Háskólann í Lundi og varð sannfærður um að lykillinn að flokkun blóma lægi í fræflum og frævum þeirra. Um þetta skrifaði hann ritgerð sem fékk honum stöðu aðstoðarprófessors við háskólann. Hann fékk styrk til rannsókna í Lapplandi, sem þá var að miklu leyti ókannað, og ritaði eftir þá reynslu bókina "Flora Lapponica" sem kom út árið 1737. Eftir þetta flutti Linné til Hollands þar sem Jan Frederik Gronovius sýndi honum drög sín að bók um flokkunarfræði, "Systema Naturae". Í bókinni voru langar latneskar lýsingar sem notaðar voru á þeim tíma, svo sem "„physalis amno ramosissime ramis angulosis glabris foliis dentoserratis“" styttar í tveggja nafna kerfi þar sem fyrra nafnið á við ættkvísl og það síðara á við tegund: "Physalis angulata". Slíkt tveggja nafna kerfi hafði verið fyrst notað af Bauthin-bræðrum, Gaspar Bauthin og Johann Bauthin, 200 árum fyrr, en það var Linné sem gerði notkun þess almenna meðal líffræðinga. Linné giftist 1739 og tveimur árum síðar fékk hann stöðu við læknisfræðideild Uppsalaháskóla, en skipti fljótlega yfir í stöðu innan grasafræðinnar. Hann hélt áfram vinnu sinni við flokkun lífvera og færði sig út í flokkun spendýra og steinda. 1757 var hann aðlaður af Adolf Friðrik Svíakonungi og tók upp nafnið „von Linné“. Faðir hans hét upphaflega Nils Ingemarsson en hafði tekið upp eftirnafnið "Linnaeus" (linditré) eftir ættaróðalinu "Linnegård" þar sem honum þótti það betur hæfa presti. Linné, Carl von Linné, Carl von Linné, Carl von Samband evrópskra sjónvarpsstöðva. Lönd aðiladarsjónvarpsstöðva Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (enska: "European Broadcasting Union", upphafsstafaheiti: "EBU"; franska: "L'Union Européenne de Radio-Télévision", upphafsstafaheiti: "UER") er samband sjónvarpsstöðva í Evrópu og við Miðjarðarhafið. Það var stofnað 12. febrúar 1950 og stendur m.a. fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og danskeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Jökulruðningsvatn. Jökulruðningsvatn (enska: "Moraine Lake") er vatn í Banff þjóðgarðinum í Alberta í Kanada staðsett í dali hinna tíu tinda. Mynd af vatninu var á bakhlið kandadískra tuttugu dollara seðla sem gefnir voru út árin 1970 og 1978. Dalur hinna tíu tinda. a> í dali hinna tíu tinda Dalur hinna tíu tinda (enska: "Valley of the Ten Peaks") er dalur í Banff þjóðgarðinum í Kanada, en í honum eru tíu strýtulaga fjöll ásamt Jökulruðningsvatni. Ljóstillífunarbelti. Ljóstillífunarbelti er í vistfræði sá hluti vatns eða hafs þar sem nægt sólarljós til að ljóstillífun getu átt sér stað. Magn gruggs í vatninu getur haft mikil áhrif á dýpt ljóstillífunarbeltisins. Hægt er að mæla gruggmagn vatns á einfaldan hátt með Secchi disk. Ljósefnafræði. Ljósefnafræði er undirgrein efnafræðinnar og ljósfræðinnar sem fæst við rannsóknir á víxlverkun ljóss og efnis. Þeir sem leggja stund á greinina kallast ljósefnafræðingar. Ljósfræði. Ljósfræði er undirgrein eðlisfræðinnar og fæst við rannsóknir á eiginleikum ljóss og víxlverkun þess við efni. Þeir sem leggja stund á greinina kallast ljósfræðingar. Djúpsjávarfiskur. Djúpsjávarfiskur er í fiskifræði hver sá saltvatnsfiskur sem á heimkynni sín fyrir neðan ljóstillífunarbeltið. Langflestir djúpsjávarfiskar eru færir um að lífljóma. Dæmi um djúpsjávarfiska eru laxsíldir, lampaglyrnur og stirnar. Olía. Olía er almennt heiti á hvers kyns lífrænum vökva sem ekki blandast vatni. Olía er annars vegar þau kolvetni sem finnast í jörðu og eru fljótandi við herbergishita og afurðir unnar úr þeim og hins vegar ýmis tríglyseríð sem eru vökvar við herbergishita, unnin úr plöntum og dýrum (til dæmis ólífuolía og lýsi). Ástæðan fyrir því að þessir tveir flokkar efna eru báðir nefndir olíur er sögulegs eðlis. Úr jarðlegnum dýraleifum. Orðið „olía“ í þegar átt er við vökva úr jarðlegnum dýraleifum er líklega tökuorð úr danska orðinu "olje" sem kemur líklega úr latnesku orðunum "oleum" („olía“), "olīvum" („ólífuolía“). Fituefni úr ólífum. Orðið „olía“ í þegar átt er við fljótandi fituefni úr ólífum er líklega tökuorð úr miðlágþýska orðinu "olie" sem kom úr latnesku orðunum "oleum" („olía“), "olīvum" („ólífuolía“). Lífvera. Svampdýr eru mjög einfaldar fjölfruma lífverur. Lífvera er lifandi vera, stöðugt lífkerfi sem bregst við áreiti, nærist og æxlast sem ein heild. Lífverur geta verið einfruma, gerðar úr einni frumu, eða fjölfruma, ýmist með ósérhæfðum eða sérhæfðum frumum. Sjón. Sjón er í líffærafræði hæfileikinn til að skynja ljós og túlka það (sjá það). Augað er einn mikilvægasti hluti sjónfæra en aðrir hlutar þess eru sjóntaugin og heilinn. Líf. Líf er sú eigind sem aðgreinir lífveru frá lífvana efni. Líf er þar af leiðandi eitt grunnhugtaka líffræðanna en er þó vandmeðfarið og síður en svo auðskilgreint. Skilgreining á lífi og því hvaða fyrirbrigði má telja til lífvera og hver ekki hefur oft verið deiluefni. Sem dæmi má nefna að ekki er ljóst hvort telja skuli veirur til lífvera. Í daglegu máli er sjaldnast gerður greinarmunur á eigindinni líf og hugtökum á borð við líferni og ævi lífveru en ekki er fjallað sérstaklega um þau hér. Hefðbundin skilgreining. Engin ein skilgreining er til sem nær óyggjandi yfir allar lífverur en undanskilur allt lífvana efni. Almennt má þó telja þá veru lífveru sem uppfyllir öll eða að minnsta kosti flest eftirfarandi skilyrða. Uppruni lífs. Líf er talið hafa orðið til á Jörðinni fyrir hér um bil 3,5 til 4 milljörðum ára. Ljóst er að allar núlifandi lífverur stunda efnaskipti sem eru í meginatriðum sömu gerðar og hafa erfðaefni á formi kjarnsýrunnar DNA. Þessi atriði og ýmis fleiri styðja þá tilgátu að allar lífverur Jarðarinnar eigi sér sameiginlegan áa. Sjálfkviknun lífvera úr lífvana efni, sem um aldir var álitin útskýra tilurð lífvera, var afsönnuð af Louis Pasteur um miðja 19. öld. Hvernig líf kviknaði á Jörðinni í árdaga er enn að verulegu leyti ráðgáta, en þó hafa veigamiklir hlekkir í hinni löngu keðju atburða sem hlýtur að liggja frá ólífrænu efni til fullmótaðrar lífveru verið útskýrðir á sannfærandi hátt. Einkum ber í því samhengi að nefna tilraun þeirra Stanley Miller og Harolds Urey, en þeir sýndu fram á myndun ýmissa lífrænna efna, þar á meðal amínósýra úr ólífrænu efni við afoxandi aðstæður líkt og álitið er að hafi verið til staðar á Jörðinni í árdaga. Kenningum sem leitast við að útskýra uppruna lífsins má í grófum dráttum skipta í tvo flokka, "eftirmyndunarkenningar" og "efnaskiptakenningar" eftir því hvort er álitið hafa komið til sögunnar fyrst, eiginleikinn til eftirmyndunar (sbr. eftirmyndun erfðaefnis) eða efnaskipta. Kox. Kox (koks eða sindurkol) er kolefniseldsneyti unnið úr kolum (oftast linkolum) með lágt ösku- og brennisteinsinnihald. Vinnsla. Í dag er kox unnið úr linkolum (áður fyrr var einnig notast við steinkol) með því að hita þau upp í 1.000 ⁰C í lofttæmdum ofni, en við það gufa rokgjörn efni eins og vatn, kolagas og kolatjara upp úr þeim. Nota má kolagasið sem eldsneyti (áður fyrr notað sem ljósagas) Orðsifjar. Orðið kox (hk. no.) er líklegast komið af þýska orðinu „koks“, en orðið er notað sem sagnorð í öðrum tungumálum um það að vinna kox. Sagnmynd orðsins er stundum notað í daglegu tali um einhverskonar mistök („ég koxaði á viðtalinu“) eða uppgjöf vélar („sláttarvélin koxaði þegar ég lenti á steini“). Sindur er orð yfir smiðjuúrgang, en kox var lítið annað en úrgangsefni þar til það var byrjað að nýta það sem eldsneyti á 17. öld. Ljósfræðilegt fyrirbrigði. Ljósfræðilegt fyrirbrigði er í ljósfræði er fyrirbrigði sem á sér stað sökum víxlverkunar ljóss og efnis. Augnfyrirbrigði. Augnfyrirbrigði er hugtak haft yfir fyrirbæri sem sökum virkni augnhluta sjónkerfisins birtast furðulegan eða villandi hátt. Ólíkt sjónvillu sem orsakast af úrvinnslu sjónarinnar í heilanum. Dæmi um augnfyrirbrigði er "muscae volitantes". Dæmi um augnfyrirbrigði eru augngrugg og ljóshrif. Lífljómun. Lífljómun (lífsljómun, lífljóm eða lífskin'") er það þegar lífvera gefur frá sér ljós með náttúrulegum hætti. Dæmi um lífverur sem lífljóma eru flestir djúpsjávarfiskar. Ellen Johnson Sirleaf. Ellen Johnson Sirleaf (fædd 29. október 1938) er forseti Líberíu. Hún er hagfræðingur að mennt og stundaði nám við Harvardháskóla í Bandaríkjunum. Árið 1985 var hún dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að gagnrýna herstjórnina sem það réð ríkjum. Stuttu síðar var henni þó sleppt og hún fór í útlegð sem hún var í til ársins 1997. Hún var kjörin forseti í kosningum sem fram fóru árið 2005 og tók við embætti 16. janúar 2006. Hún var endurkjörin árið 2011 og er fyrsta og enn sem komið er eina konan sem kjörin hefur verið þjóðhöfðingi í Afríkuríki. Ellen Johnson Sirleaf fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2011, ásamt löndu sinni Leymah Gbowee og Tawakel Karman frá Jemen. Þeim var veitt þessi viðurkenning fyrir friðsamlega baráttu sína fyrir öryggi kvenna og rétti til fullrar þáttöku í friðarstörfum. Ellen Johnson Sirleaf er þeirrar skoðunar að hjónaband samkynhneigðra eigi áfram að vera ólöglegt í Líberíu og stiður hún frumvarp sem lagt var frammi fyrir þinginu sem gerir ráð fyrir að refsing fyrir samkynhneigð hækki. Verði frumvarpið að lögum geta samkynhneigðir í Líberíu átt von á allt að tíu ára fangelsi. Tenglar. Sirleaf, Ellen Johnson Skagafjörður. Skagafjörður er fjörður á Norðurlandi, milli Tröllaskaga og Skaga. Nafnið er einnig haft um héraðið umhverfis fjörðinn og inn af honum. Þar eru tvö sveitarfélög; Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur. Mikill landbúnaður er stundaður í héraðinu og er umfangsmikil útgerð stunduð á Sauðárkróki og Hofsósi. Á firðinum eru þrjár eyjar, Málmey, Drangey og Lundey. Auk þess er höfði við austurströnd fjarðarins sem heitir Þórðarhöfði. Héraðsvötn renna til sjávar í tveimur kvíslum sitt hvoru megin við Hegranesið en þau verða til þar sem Austari-Jökulsá og Vestari-Jökulsá, sem báðar eiga upptök sín í Hofsjökli, koma saman neðan við bæinn Tunguháls. Sveitir og byggðir. Skagafjörður hefur frá fornu fari skipst í ýmis byggðalög og fóru mörk þeirra ekki alltaf alveg saman við hreppamörk. Langholt skiptist til dæmis milli Staðarhrepps og Seyluhrepps og jarðir sem töldust til Vallhólms voru í þremur hreppum. Sum nafnanna sem hér eru talin eru nú lítið notuð og einstakar sveitir hafa farið í eyði. Á hinn bóginn hafa bæst við þrír þéttbýlisstaðir, Sauðárkrókur, Varmahlíð og Hofsós. Robert Oppenheimer. J. Robert Oppenheimer (22. apríl, 1904 - 18. febrúar, 1967) var bandarískur eðlisfræðingur af þýskum gyðingaættum og yfirmaður vísindarannsókna við Manhattan verkefnið, sem var sett á laggirnar í seinni heimsstyrjöldinni í því skyni að smíða fyrstu kjarnorkusprengjuna í Los Alamos rannsóknarstöðinni í Nýju Mexíkó. Oppenheimer sem nefndur hefur verið „faðir atómsprengjunnar“ harmaði smíði kjarnorkusprengjunnar og eyðingamátt hennar eftir að hún var notuð á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Oppenheimer, Robert Listi yfir stærðfræðilegar tilgátur. Þetta er listi yfir stærðfræðilegar tilgátur. Í stærðfræði eru mjög mörg óleyst vandamál. Vandamál með óþekktar lausnir. Tilgátur Tilgáta Collatz. Tilgáta Collatz segir að ítrunarfallið endi alltaf á tölunum 4, 2, 1, 4, 2, 1... hvaða gildi á n sem byrjað er með. Þessi tilgáta er ósönnuð. Þorvaldur Gylfason. Þorvaldur Gylfason (fæddur 18. júlí 1951) er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann er sonur Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Þorvaldur lauk doktorsprófi í hagfræði frá Princeton-háskóla árið 1976. Þorvaldur hefur verið ákaflega gagnrýnin á íslenska stjórnkerfið eftir bankahrunið haustið 2008. Æviágrip. Faðir Þorvaldar var Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður, ráðherra og prófessor. Móðir hans, Guðrún Vilmundardóttir var húsfreyja og á tímabili blaðamaður. Þorvaldur átti tvo bræður, Þorsteinn Gylfason, prófessor, og Vilmundur Gylfason, alþingismaður og kennari en þeir eru báðir látnir. Þorvaldur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970. Hann lauk B.A.-prófi í hagfræði frá Háskólanum í Manchester árið 1973, M.A. próf í hagfræði frá Princeton-háskóla í Bandaríkjunum árið 1975 og doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 1976. Þorvaldur er kvæntur Önnu Karitas Bjarnadóttur kennara og tryggingaráðgjafa hjá Sjóvá-Almennum tryggingum. Þau giftust þann 18. október 1987. Kennsla. Þorvaldur hefur einnig haldið fyrirlestra um allan heim og leiðbeint um hagfræði og hagstjórn á endurhæfingarnámskeiðum alþjóðastofnana fyrir embættis- og stjórnmálamenn. Híeróglýfur. Híeróglýfur frá musterinu í Kom Ombo Híeróglýfur (eða fornegypskar helgirúnir) er annað tveggja ritkerfa sem voru notuð af Forn-Egyptum. Híeróglýfur eru að stofni til atkvæðaskrift en innihalda einnig tákn fyrir heil orð (myndleturstákn) og líka tákn sem ákvarða merkingarsvið þess orðs sem þau standa með (t.d. hvort orðið á við manneskju, dýr, athöfn eða hlut). Fyrir um 1700 árum glataðist þekkingin á því hvernig ætti að lesa helgirúnirnar og enginn gat ráðið þær fyrr en Rósettusteinninn fannst 1799 í Egyptalandsherferð Napóleons. Almennt álitu menn helgirúnirnar (sem voru vel þekktar, meðal annars gegnum skrif grískra sagnfræðinga) vera frumstæða tegund myndleturs þar sem táknin stæðu hvert fyrir eitt orð og sem bæri að lesa líkt og myndasögu. Fundur Rósettasteinsins og ráðning helgirúnanna markaði þannig upphaf fornleifarannsókna í Egyptalandi á nýöld. Mannréttindavaktin. Mannréttindavaktin (enska: Human Rights Watch) eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir auknum mannréttindum og fylgjast með þróun mannréttinda og mannréttindabrota um allan heim. Samtökin eru óháð ríkisstjórnum og með aðalstöðvar í New York í Bandaríkjunum. Samtökin voru upphaflega stofnuð 1978 undir heitinu "Helsinkivaktin" (e: "Helsinki Watch") til að fylgjast með framferði Sovétríkjanna sem höfðu skrifað undir Helsinki-sáttmálann. Fleiri vaktir voru stofnaðar sem fylgdust með öðrum ríkjum og 1988 sameinuðust þær undir núverandi heiti. Sérstaða Mannréttindavaktarinnar felst einkum í mannréttindaskýrslum sem þykja ítarlegar og áreiðanlegar vegna mikillar vinnu sem er lögð í þær. Skýrslurnar varpa oft ljósi á mannréttindabrotum og leiða til þrýstings á viðkomandi stjórnvöld og önnur samtök til þess að leiðrétta vandann. Jafnrétti kynjanna, jafnrétti vegna kynhneigðar, pyntingar, notkun barna í hernaði, spilling stjórnvalda og dómskerfis eru meðal þeirra mála þar sem samtökin hafa verið hvað virkust. Læknar án landamæra. Læknar án landamæra (franska: Médecins Sans Frontières) eru góðgerðarsamtök sem voru stofnuð 1971 af hópi franskra lækna undir forystu Bernard Kouchner. Samtökin voru stofnuð með það að leiðarljósi að allir eigi rétt á læknishjálp og að neyð þeirra sé mikilvægari en landamæri. Samtökin fengu Friðarverðlaun Nóbels 1999. Fóbos. Fóbos er annað tveggja tungla reikistjörnunnar Mars. Hitt tunglið er Deimos. Fóbos er nær reikistjörnu sinni enn nokkurt annað tungl í sólkerfinu, eða í innan við 6.000 km hæð. Tunglið er nefnt eftir syni Aresar, en Ares er hið gríska nafn guðsins sem Rómverjar nefndu Mars. Bandaríkjamaðurinn Asaph Hall fann Fóbos 18. ágúst 1877. Nokkrum dögum áður hafði Hall fundið Deimos, nánar tiltekið 12. ágúst. Umferðartími Fóbosar er aðeins 7 klukkustundir og 39 mínútur, sem er styttra en marsdagur, og því virðist tunglið koma upp í vestri og setjast í austri Frumefnin fimm. Frumefnin fimm á venjulega við um við, eld, jörð, málm og vatn í austur-asískri heimspeki eða vatn, eld, jörð, loft og eter í vestrænni heimspeki. Kanslari. Kanslari er embættistitill í stjórnsýslu. Titillinn á rætur að rekja til embættismanna innan hins heilaga rómverska ríkis, sem sinntu útgáfu skjala og vottorða á vegum yfirvalda. Kanslaratitillinn hefur tengst ýmsum starfssviðum og verið notaður í mörgum Evrópulöndum í tímans rás. Þekktastir munu þó vera Þýskalandskanslarar. Varahljóð. Varahljóð eru þau samhljóð sem eru mynduð við varir. Í íslensku tákna stafirnir m, v, f, p og b allir varahljóð. Hljómfall. Hljómfall er það kallað þegar í töluðu máli sveiflast tónhæðin upp og niður eftir setningagerð og áherslum. Hljóðan. Hljóðan er minnsta merkingargreinandi eining málsins. Ólíkt málhljóðum eru hljóðön huglægar eindir í hljóðkerfi málsins sem finnast með því að skoða venslin milli hljóða. Hljóðan er lykilhugtak í skilningi formgerðarsinna á hljóðkerfum. Litið er á það sem svo að talstraumurinn sé skorinn niður í búta sem aðskildar einingar. Þessi sneiðing er grundvöllur fyrir allri umritun hljóða með stöfum. Oortský. Myndin sýnir hvernig listamaður hefur ímyndað sér Oort-skýið og Kuiper-beltið. Oortskýið er tilgáta um hnöttótta þyrpingu eða "ský" af halastjörnum í 50.000 til 100.000 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni, sem samsvarar u.þ.b. fjarlægðinni einu ljósári. Engar beinar athuganir hafa verið gerðar sem staðfesta tilvist Oortskýsins, en það er talið vera uppspretta flestra ef ekki allra halastjarna sem fara um sólkerfið (sumar halastjörnur gætu átt upptök í Kuiperbeltinu) og byggir tilgátan á athugunum á sporbrautum halastjarna. Stjarnfræðieining. Stjarnfræðieining (enska: "astronomical unit") er mælieining fyrir fjarlægð notuð í stjörnufræði, skammstöfuð AU, au eða a.u. og stundum ua. Er meðalfjarlægðin milli jarðar og sólar, þ.e.a.s. meðalgeisli jarðbrautarinnar. Skilgreining: 1 AU = 149.597.870.691 ± 30 metrar (um 150 milljón kílómetrar). Júra. Jörðin eins og hún gæti hafa litið út á júratímabilinu Júra er jarðsögulegt tímabil sem nær frá endalokum trías fyrir 200 milljón árum til upphafs krítar fyrir 146 milljón árum. Eins og með önnur jarðsöguleg tímabil eru jarðlögin sem marka upphaf og endi júratímabilsins vel skilgreind en nákvæmum aldursgreiningum skeikar sem nemur 5 til 10 milljónum ára. Júra er miðtímabil miðlífsaldar og er betur þekkt sem tímabil risaeðlanna. Upphaf tímabilsins miðast við trías-júrafjöldaútdauðanum. Fyrstu fuglarnir komu fram á þessum tíma. Nafngiftin júra kemur frá Alexandre Brogniart eftir miklum sjávarkalksteinslögum í Júrafjöllum þar sem Þýskaland, Frakkland og Sviss mætast. Tríastímabilið. Jörðin eins og hún gæti hafa litið út á tríastímabilinu Tríastímabilið er jarðsögulegt tímabil sem nær frá 245 til 202 milljónum ára. Trías er fyrsta tímabil miðlífsaldar. Bæði upphaf og lok trías markast af miklum fjöldaútdauðum. Fjöldaútdauðinn sem batt endi á trías hefur nýlega verið aldursgreindur nákvæmar en fyrr, en eins og með flest jarðsöguleg tímabil eru jarðlögin sem marka upphaf og endi vel skilgreind en raunaldur er ónákvæmur sem svarar nokkrum milljónum ára. Einkennandi jarðlög tríastímabilsins eru rauður sandsteinn og gufunarset sem gefa til kynna hlýtt og þurrt loftslag. Engin ummerki eru um jökulskeið og land var að öllum líkindum hvergi nálægt pólsvæðunum. Risameginlandið Pangea var að rifna í sundur á trías en hafði þó ekki skilist í sundur. Fyrstu sjávarsetlögin í upphafi rifferlisins, sem skildu að New Jersey og Marokkó eru frá síðtrías. Þar sem strandlengja risameginlandsins var takmörkuð eru sjávarsetlög frá trías fremur sjaldgæf, þrátt fyrir að þau séu áberandi í Vestur-Evrópu þar sem tríasjarðlög voru fyrst rannsökuð. Í Norður-Ameríku eru tríassjávarsetlög t.d. takmörkuð við nokkrar opnur í vestri. Því er jarðlagafræði tríastímabilsins að mestu bundin við lífverur sem lifðu í lónum og saltríku umhverfi, t.d. "Estheria"-krabbadýrin. Á trías varð mikil aðlögun bæði í sjávarlífi og lífi á landi, en á mörkum perm og trías hafði orðið mesti fjöldaútdauði jarðsögunnar þar sem meirihluti lífvera Jarðarinnar dó út. Fyrstu risaeðlurnar urðu til á þessum tíma. Kórallar af "hexacorallia"-ætt koma fyrst fram á sjónarsviðið og eins fyrstu flugeðlurnar. Listi yfir fyrirbæri í sólkerfinu. Eftirfarandi er listi yfir fyrirbæri í sólkerfinu sem hafa meira en 500 km í þvermál. Hughyggja. Hughyggja er sú heimspekilega skoðun að umheimurinn samanstandi af hugmyndum frekar en efni og er hægt að stilla henni upp sem andstæðu efnishyggjunnar. Orðið „hughyggja“ er bæði notað sem þýðing á „idealism“ og „subjectivism“. Siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Siðareglur Blaðamannafélags Íslands eru siðareglur í 6 greinum sem meðlimir Blaðamannafélags Íslands samþykkja að fara eftir í skrifum og hátterni sínu. Reglunum var síðast breytt 1991. 1. grein. Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga. 2. grein. Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu. Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína. 3. grein. Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu. 4. grein. Það telst mjög alvarlegt brot þiggi blaðamaður mútur eða hafi í hótunum vegna birtingar efnis. Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar. Í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. 5. grein. Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmuna- samtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns. Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli. Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningafrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi. 6. grein. Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ innan 2ja mánaða frá birtingu enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir almennum dómstólum á sama tíma. Áður skal hann þó leita leiðréttingar mála sinna hjá viðkomandi fjölmiðli. Þó getur Siðanefnd úrskurðað um undanþágur frá Siðanefndin tekur kæruna fyrir á fundi innan viku og kveður upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er. Taki Siðanefnd kærumál til efnislegrar athugunar skal hún kanna heildarumfjöllun um málið í hinum kærða fjölmiðli. Kærða skal gefinn kostur á að gera grein fyrir sjónarmiði sínu. Úrskurði Siðanefndar verður ekki áfrýjað. Úrskurð Siðanefndar ásamt rökstuðningi skal birta í heild í Félagstíðindum BÍ svo fljótt sem verða má. Úrskurð Siðanefndar skal senda viðkomandi fjölmiðli við fyrsta hentugleika og með ósk um birtingu ef um brot samkv. skilgreiningu b) og c) er að ræða. Þremur dögum seinna skal senda úrskurðinn öðrum fjölmiðlum. Meginniðurstaða nefndarinnar skal birt orðrétt. Við framsetningu frétta af úrskurðum Siðanefndar sýna blaðamenn alla þá aðgát sem reglur þessar ætlast til. sbr. 1. og 2. grein að framan. Nú telur stjórn BÍ að gengnum úrskurði Siðanefndar að brot sé svo alvarlegt að frekari ráðstafana sé þörf og getur hún þá borið undir félagsfund tillögu um vítur á viðkomandi blaðamann enda sé þeirrar ætlunar getið í fundarboði. Nú bera ummæli ekki með sér hver sé höfundur þeirra eða viðkomandi blaðamaður er utan BÍ og gengur þá úrskurður svo sem ritstjóri og/eða ábyrgðarmaður eigi beina aðild að. Þótt enginn þessara aðila sé í BÍ getur Siðanefnd allt að einu lagt fram rökstutt Uppruni. Samþykkt með síðustu breytingum á aðalfundi BÍ 1991 Gnúpverjaafréttur. Gnúpverjaafréttur er sá hluti Miðhálendisins sem bændur í hinum forna Gnúpverjahreppi reka fé sitt á. Afrétturinn nær frá Þjórsárdal inn með Þjórsá alla leið inn að Hofsjökli. Vesturmörk hans eru Fossá, síðar Öræfavatn og Öræfahnjúkur í hátind Arnarfells hins mikla. Gnúpverjar hafa í nokkurn tíma stundað samsmölun með Flóa- og Skeiðamönnum. Réttir í Skaftholtsréttum eru á föstudegi í 22. viku sumars. Leitir. Lengsta leit á Gnúpverjaafrétt kallast Langaleit eða Sandleit. Seinna nafnið kemur til vegna þess að fjallmenn fara inn fyrir svokallaðan Fjórðungssand, alla leið inn að Arnarfelli hinu mikla. Í Lönguleit fara þrír menn; fjallkóngur, einn fjallmaður og trússari. Með þeim fara líka einn Flóamaður og einn Skeiðamaður. Leggja Lönguleitara af stað á þriðjudegi, 9 dögum fyrir réttir. Lönguleitarar stunda ekki bara smalamennsku heldur dytta að kofum og lagfæra vegi á afréttinum. Áður fyrr eitruðu þeir einnig fyrir tófu, en því hefur nú verið hætt. Næst lengsta leit kallast Norðurleit og er lagt af stað laugardeginum fyrir réttir. Norðurleitarar eru 4 frá Gnúpverjum og 4 frá Flóa- og Skeiðamönnum. Þeir fara alla leið í Bjarnalækjarbotna. Dalsármenn kallast þeir sem leggja af stað á sunnudegi. Að Dalsá fara 18 menn og oft aukamenn. Þeir fara í Gljúfurleitarkofann og ríða á þriðjudeginum inn að Dalsá, í svokallaða Skiptibrík, þar sem þeir hitta fjallkónginn. Hann skipar í leitir. Atburðir á afréttinum. Í eftirleit árið 1917 hrepptu eftirleitarar moldöskubyl. Þeir voru heppnir að koma lífs af eins og má lesa í. Sigurgeir Runólfsson í Skáldabúðum, þá fjallkóngur Gnúpverja, lést 10. september 1976 þegar hann drukknaði í jökulkeri í leit sinni að lambi upp undir jökli. Haustið 2005 kom maður ríðandi vestur yfir Þjórsá er hann taldi sig vera að ríða yfir bergvatnsáanna Svartá á Holtamannaafrétti. Hann komst í hendur Gnúpverja og fylgdu þeir honum yfir Sóleyjarhöfðavað daginn eftir. ISIR. Félag Íslands um Gervigreind og Vitvísindi (The Icelandic Society for Intelligence Research) Kynning. Félagið ISIR var upprunalega hugarfóstur Hrafns Þorra Þórissonar sem fannst of lítið til gervigreindarsamfélags Íslands koma og ákvað að koma af stað hreyfingu í þeim málum. Eftir um hálfs árs undirbúning voru megin stefnur og hugmyndir um félagið orðnar vel mótaðar. Félagarnir Arnar Freyr Óskarsson, Ágúst Hlynur Hólmgeirsson og Sturla Þórsson slógust þá í hópinn með Hrafni og sóttu um styrk til Evrópusambandsins undir fyrirsögninni "Íslenskt Gervigreindarfélag", með Dr. Yngva Björnsson, Helgu Waage og Dr. Kristinn R. Þórisson sem formlega ráðgjafa. Styrkinn hlaut félagið og í kjölfarið var félagið skráð hjá Ríkisskjattsjóra þann 19. Apríl 2005. Nafnið ISIR. Þó félagið beri vissulega íslenskt nafn, þá er það venjan að vísa í ensku skammstöfunina í umræðum. ISIR stendur fyrir "Icelandic Society for Intelligence Research" og er borið fram "Æsir". Félagið hefur þó engin tengsl við trúarbrögð goðafræðanna, nema e.t.v. það að meðlimir þess hafa það sameiginlega markmið að skilja greind og skapa hugsun í annars dauðum hlutum. Nánari upplýsingar. "ISIR er umfram allt félag um gervigreind og forritun, en þar sem gervigreind er mjög víðfemt fag fylgjum við nýstárlegri og mikilvægri hugmyndafræði: að gera ekki ráð fyrir að rannsóknir á gervigreind séu einskorðaðar við neitt eitt fag, heldur gera fólki frjálst að skýra sitt sjónarhorn á því efni sem fjallað er um, með tilvísun í aðferðafræði þeirra vísinda sem henta hverju sinni. Með þessu vonumst við til að skapa betri heildarsýn á þau viðfangsefni sem tengjast gervigreind og vitvísindum en tekist hefur hingað til. Þar með skapast einnig breiðari grundvöllur fyrir samstarf milli stofnana, einstaklinga og fyrirtækja. Sökum þess hve gervigreind er víðfeðm kalla rannsóknir á mjög fjölbreytt samstarf. Þróun gervigreindar verður m.a. að styðjast við náið samstarf tölvunarfræðinga, sálfræðinga, rafverkfræðinga, heimspekinga og líffræðinga svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst þarf stuðning almennings og áhugafólks til að búa til frjóan grundvöll til umræðna. Því má segja að ISIR sé félag um vitvísindi sem notar tölvunarfræði og forritun sem verklega undirstöðu." Starfssemi. Á þeim tíma er þetta er skrifað fer starfssemi ISIR að mestu leiti fram á Veraldarvefnum. Hawaii-skyrta. Hawaii-skyrta er skyrta, oftast litrík og yfirleitt stutterma. Þær eru þekktar á Hawaii-eyjum sem "Aloha-skyrtur" en hefðbundnar skyrtur eru engan veginn eins litríkar og nútíma útgáfur, sem þekktar eru um allan heim. Algeng mynstur á hawaii-skyrtum eru pálmatré og sólsetur. Algengir litir eru m.a. rauður, appelsínugulur og fjólublár. Hawaii-skyrtur þykja bera merki um smekkleysi af mörgum en þeir sem taka ástfóstri við þær, nær ætíð karlmenn, klæðast þeim gjarnan til að storka tískulögmálunum. Nútíma hawaii-skyrtan rekur uppruna sinn til fjórða áratugarins þegar kínverskur kaupmaður hóf að selja skærlitrar skyrtur í búð sinni skammt frá Honolulu. Þær urðu fljótt vinsælar meðal ferðamanna. Eftir seinni heimsstyrjöldina jukust vinsældir hawaii-skyrtunnar til mikilla muna. Ekki síst þar sem Truman Bandaríkjaforseti sást oft í slíkri flík við óformleg tilefni og unndi sér best í slíkum klæðnaði. Þorsteinn Davíðsson. Þorsteinn Davíðsson (fæddur 12. nóvember 1971) er dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Hann er sonur Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og Ástríðar Thorarensen. Þorsteinn var í sigurliði Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur 1988. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá skólanum 1992 og með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands 1999. Hann var aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Þorsteinn starfaði við Héraðsdóm Reykjavíkur áður en hann tók við starfi aðstoðarmanns ráðherra. Árni M. Mathiesen skipaði siðar Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara á Norðurlandi. Skipan hans í það embætti var ákaflega umdeild og sögð gerð á pólitískum forsendum. Hún var síðan kærð. Aristóteles. Aristotelēs; 384 – 7. mars 322 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá borginni Stagíru. Hann var nemandi Platons og kennari Alexanders mikla. Aristóteles er, ásamt Platoni, af mörgum talinn áhrifamesti hugsuður í vestrænni heimspeki. Hann var einnig mikilvirkur vísindamaður og fékkst við flestar greinar vísinda síns tíma. Hann skrifaði fjölmargar bækur m.a. um rökfræði (fræðigrein sem hann fann upp), verufræði, frumspeki, eðlisfræði, sálfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði, mælskufræði, skáldskaparfræði, siðfræði, stjórnmálafræði og sögu heimspekinnar fram að hans tíma. Bróðurhluti þess efnis sem Aristóteles skrifaði hefur týnst, enduruppgötvast og týnst á ný í gegnum aldirnar. Talið er að aðeins um fimmtungur af verkum hans hafi varðveist. Æviágrip. Aristóteles fæddist í borginni Stagíru við austurströnd Kalkidíku (í dag Makedónía skammt frá Þessaloniki). Faðir hans hét Níkómakkos og móðir hans Fæstis. Níkómakkos var líflæknir, þ.e. einkalæknir, Amyntasar III frá Makedóníu. Aristóteles hlaut uppeldi sem var samboðið aðalsstéttinni, 17 ára gamall var hann sendur til Aþenu til að stunda nám við Akademíu Platons. Þar var Aristóteles í tæpa tvo áratugi. Hann yfirgaf Akademíuna eftir að Platon lést árið 347 f.Kr. Þá ferðaðist hann ásamt Xenokratesi, kennara við Akademíu Platons, og heimsótti meðal annars hirð Hermeiasar frá Atarnevs í Litlu Asíu og dvaldi þar í þrjú ár. Aristóteles ferðaðist um Asíu og grísku eyjarnar ásamt Þeófrastosi, skólafélaga Aristótelesar frá Akademíu Platons. Þeir fóru meðal annars til Lesbeyjar, þar sem þeir stunduðu rannsóknir í grasafræði og dýrafræði. Aristóteles kvæntist frænku (eða dóttur) Hermeiasar, Pyþías. Hún ól honum dóttur sem var nefnd Pyþías eftir móður sinni. Skömmu eftir að Hermeias lést fékk Aristóteles boð um að gerast kennari Alexanders, sonar Filipposar II frá Makedóníu. Aristóteles varði nokkrum árum í Makedóníu þar sem hann kenndi ekki aðeins Alexandri en einnig tveimur verðandi konungum: Ptólemajosi I Sóter og Kassandrosi. Aristóteles sneri að því loknu aftur til Aþenu og stofnaði hinn fornfræga skóla Lýkeion árið 335 f.Kr. Þar kenndi hann og stundaði rannsóknir næstu tólf árin. Þegar Pyþías, kona hans, lést tók Aristóteles saman við Herpyllis frá Stagíru. Hún ól honum soninn Níkómakkos. Í Suda, grískri alfræðiorðabók um Forn-Grikkland frá tíundu öld, er því haldið fram að Aristóteles hafi átt í kynferðislegu sambandi við ungan strák eins og tíðkaðist á þeim tíma. Talið er að Aristóteles hafi samið mörg eða flest rita sinna á þessum tíma. Hann samdi fjölmargar samræður en einungis brot eru varðveitt úr þeim. Varðveitt rit hans eru ritgerðir og fyrirlestradrög sem voru ekki ætluð útgáfu. Meðal þeirra mikilvægustu má nefna "Eðlisfræðina", "Frumspekina", "Siðfræði Níkómakkosar", "Stjórnspekina", "Um sálina", "Um skáldskaparlistina" og rökfræðiritin sem kallast einu nafni Organon. Aristóteles lagði stund á nær allar greinar vísinda síns tíma, þar á meðal eðlisfræði, stjörnufræði, hagfræði, fósturfræði, landafræði, jarðfræði, veðurfræði, grasafræði, dýrafræði og líffærafræði. Í heimspeki fjallaði hann um siðfræði, stjórnspeki, rökfræði, vísindaheimspeki, frumspeki, sálfræði, fagurfræði, mælskufræði og guðfræði. Hann fékkst einnig við bókmenntarýni. Eftir að Alexander lést árið 323 f.Kr. jókst andúð á Makedóníu í Aþenu. Evrymedon nokkur sakaði Aristóteles um að virða ekki guðina. Aristóteles flúði þá borgina og hélt til Evboju. Kvaðst hann ekki leyfa Aþeningum að syndga tvisvar gegn heimspekinni og átti þar við örlög Sókratesar. Hann lést ári síðar úr veikindum. Í erfðaskrá sinni bað hann um að verða grafinn við hlið konu sinnar. Heimspeki Aristótelesar. Fræðimenn eru ekki allir á einu máli um hvernig heimspeki Aristótelesar þróaðist. Sumir telja að hann hafði í upphafi verið undir meiri áhrifum frá Platoni en hafi síðar orðið ósammála læriföður sínum um flest. Aðrir telja að Aristóteles hafi í upphafi verið um flest á öndverðum meiði við Platon en hafi með tímanum orðið æ meira sammála honum. Rökfræði. Aristóteles fann upp rökfræðina sem fræðigrein. Enda þótt einhverjar framfarir hafi orðið í rökfræði stóumanna á helleníska tímanum var rökfræði Aristótelesar ríkjandi allt fram á 19. öld. Immanuel Kant sagði í "Gagnrýni hreinnar skynsemi" að rökfræði Aristótelesar væri fullkomin og gæti ekki tekið neinum framförum. "Umsagnir" fjalla um ólíkar gerðir umsagna sem eiga við hverju sinni. "Um túlkun" skilgreinir meginhugtök eins og nöfn, sagnir, staðhæfingar, játanir, neitanir og setningar og greinir frá meginatriðum háttarökfræðinnar, þ.e. hvernig staðhæfingar (játanir og neitanir) um nauðsyn og möguleika tengjast. Í "Fyrri" og "Síðari rökgreiningunum" er að finna ítarlega greiningu á rökhendum og sönnunum. Í "Almælum" fjallar Aristóteles um meginatriðin í rökræðulistinni (díalektík) og "Spekirök" fjalla um ýmsar rökbrellur sófistanna sem varast ber. Auk ritanna í "Organon" fjallar Aristóteles um rökfræðitengd efni í fjórðu bók "Frumspekinnar" til að mynda sannleikshugtakið, mótsagnarlögmálið og lögmálið um annað tveggja. Frumspeki. Aristóteles aðhylltist ekki frummyndakenninguna en hann gagnrýnir hana harkalega víða í ritum sínum. Frumspeki hans byggðist hugmyndinni um verund og eiginleika. Í "Umsögnum" segir Aristóteles að verund sé það sem er ekki sagt um neitt annað. Eiginleikar eru hins vegar umsagnir verunda. Auk greinarmunarins á verundum og eiginleikum liggur greinarmunurinn á formi og efni til grundvallar allri frumspeki Aristótelesar. Ítarlegasta rannsókn Aristótelesar á verundum er í 7. bók "Frumspekinnar". Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að verund sé eining forms og efnis. Efnið er "megund" verundarinnar en formið er "raungerving" hennar. Siðfræði. Siðfræði Aristótelesar var kerfisbundin dygðasiðfræði. Í mikilvægasta riti sínu um siðfræði "Siðfræði Níkomakkosar" gerir Aristóteles ítarlega grein fyrir eðli dygðarinnar og ræðir samband dygðar og hamingju eða farsældar ("evdæmonía"). Aristóteles færði rök fyrir því að dygð væri meðalhóf tveggja lasta; til dæmis væri hugrekki meðalvegur hugleysis og fífldirfsku sem gerandinn velur af réttum ástæðum í samræmi við rétta sálarhneigð. Hann taldi enn fremur að dygðin væri nauðsynleg forsenda farsældar en þó ekki nægjanleg forsenda. Í siðfræði Aristótelesar liggur áherslan ekki á athöfnum manna heldur skapgerð þeirra, ekki á því hvað þeir gera í tilteknum aðstæðum, heldur hvernig menn þeir eru, hvaða kenndir og geðshræringar þeir hafa tilhneigingu til að upplifa, hvaða stjórn þeir hafa á þeim og hvers konar athafnir þeir hafa tilhneigingu til þess að velja. Dygðafræði Aristótelesar hvílir á sálarfræði hans og greiningu hans á sálarlífi manna, til dæmis hvötum, löngunum og skapi, skynjun, skynsemi, geðshræringum og breyskleika. Stjórnspeki. Í "Stjórnspekinni" fjallar Aristóteles um borgríkið og tengslin milli einstaklings og ríkis. Aristóteles heldur fram lífhyggju um borgríkið og er (ásamt Platoni) talinn einn fyrsti málsvari slíkrar kenningar. Hann taldi að borgríki væru eins og lífverur fremur en eins og vélar og að stjórnmál gætu ekki gengið fyrir sig án þess að allir hlutar borgríkisins virkuðu sem skyldi. Aristóteles taldi að borgríkið væri náttúrulegt samfélag og mönnum eðlilegt að búa í borgríki. Hann sagði að menn væru að eðlisfari borgríkisdýr ("zoon politikon"). Hann taldi enn fremur að borgríkið væri meiri undirstöðustofnun en fjölskyldan og fjölskyldan lægi á sama hátt til grundvallar lífi einstaklingsins. Aristóteles taldi þess vegna ekki að tilurð ríkisins ætti rætur að rekja til tilraunar til þess að forðast ranglæti eða til að tryggja efnahagslegt öryggi heldur urðu borgríki til af því að það er eðlilegt ástand mannsins að búa í samfélagi af ákveðinni stærð með öðrum mönnum og þannig yrðu til ákjósanleg og raunar nauðsynleg skilyrði þess að maður gæti lifað hinu góða lífi. Vísindi Aristótelesar. Aristóteles var áhugasamur um flest öll svið mannlegrar þekkingar, eins og fram kemur hér að ofan. Í sumum tilvikum fann hann beinlínis upp fræðigreinar sem áttu síðar eftir að verða afar mikilvægar, svo sem rökfræði, líffræði og sálfræði. Kenningar hans á sviði raunvísinda reyndust sumar rangar, t.a.m. kemur fram í bók hans "Um tilurð dýra" að konur hafi fleiri tennur en karlmenn. Sömuleiðis hafði hann takmarkaðan skilning á eðlisfræði og taldi massameiri hluti falla hraðar til jarðar, eins og fram kemur í "Eðlisfræðinni". Einnig má rekja jarðmiðjukenninguna, sem var víðtekin fram að miðöldum, til skrifa Aristótelesar í "Frumspekinni". Kaþólska kirkjan hélt upp skoðunum Aristótelesar, þ.á m. jarðmiðjukenningunni, í margar aldir og taldi það villutrú að efast um þær. Á hinn bóginn er margt býsna nákvæmt í vísindaritum Aristótelesar, ekki síst í lýsingum hans á hinum ýmsu dýrategundum í líffræðiritum hans. Líffræði. Í líffræði Aristótelesar gildir almennt að það sem hann gat séð með eigin augum hefur að miklu leyti staðist tímans tönn en það sem hann hefur eftir öðrum hefur oftar reynst rangt. Aristóteles krufði dýr en ekki menn. Af þessum sökum var þekking hans á líffærafræði og lífeðlisfræði dýra talsvert traustari en þekking hans á líffærafræði og lífeðlisfræði mannsins. Hann mun hafa rannsakað rúmlega 500 mismunandi tegundir dýra. Aristóteles hélt að hugsun mannsins ætti sér stað í hjartanu en að heilinn gegndi því hlutverki að kæla blóðið. Hann hélt einnig að karlar væru heitari en konur og að karldýr (bæði menn og dýr) legðu allt af mörkum í getnaði en að kvendýrin gengju einungis með og nærðu afkvæmin (hann hélt að karlar væru í senn gerandaorsök, formleg orsök og tilgangsorsök en að konur væru einungis efnislegar orsakir afkvæmanna). Varðveisla ritverka Aristótelesar. Aristóteles gerði sjálfur greinarmun á þeim ritum sínum sem voru ætluð almenningi annars vegar („exóterísku ritin“) og hins vegar þeim sem voru ekki ætluð almenningi („esóterísku ritin“). Að öllum líkindum hafa ritin sem ekki voru ætluð almenningi verið ýmist fyrirlestrarglósur Aristótelesar sem hann las fyrir nemendur sína eða rit sem hann dreifði einungis til náinna vina og samstarfsmanna. Svo virðist sem ritin sem ætluð voru almenningi hafi öll glatast. Mörg þeirra munu hafa verið í formi samræðna, líkt og ritverk Platons og að öllum líkindum eru það þessi rit sem rómverski heimspekingurinn Marcus Tullius Cicero hafði í huga þegar hann lofaði Aristóteles fyrir framúrskarandi stíl sinn. Fræðimenn hafa átt erfitt með að ímynda sér að Cicero hafi átt við eitthvert þeirra rita Aristótelesar sem nú eru varðveitt. Það er þó ekki fullljóst til hvaða rita Cicero er að vísa og sumum hefur þótt knappur stíll Aristótelesar í varðveittum ritum hans ágætur. Ein spurning sem vaknar um varðveislu ritverka Aristótelesar er hvenær þau ritverka hans sem voru ætluð almenningi týndust og hvernig stendur á því að þau sem varðveitt eru, sem voru að líkindum um fimmtungur eða fjórðungur af heildarverkum Aristótelesar, voru varðveitt. Sagan segir að við dauða Aristótelesar hafi Þeófrastosi, nemanda hans og samstarfsmanni, áskotnast þau. Hann hafi síðan fengið þau Neleifi frá Skepsis sem nam ritin á brott með sér frá Aþenu til Skepsis þar sem erfingjar hans földu þau í helli þar til á 1. öld f.Kr. en þá á Apellikon frá Teos að hafa uppgötvað þau, keypt þau og fært þau aftur til Aþenu. Apellikon á að hafa reynt að gera við skemmdir í handritunum og komu þá inn ýmsar villur í textann. Árið 86 f.Kr. þegar rómverski herforinginn Lucius Cornelius Sulla hertók Aþenu komst hann yfir bókasafn Apellikons og hafði það með sér frá Grikklandi til Rómar. Þar voru ritverk Aristótelesar gefin út um árið 60 f.Kr. fyrst undir ritstjórn málfræðingsins Tyrranions frá Amisus og síðar undir ritstjórn heimspekingsins Andrónikosar frá Ródos. Útgáfa Andrónikosar er undirstaða allrar handritageymdar þeirra ritverka Aristótelesar sem nú eru varðveitt. Carnes Lord heldur að vinsældir þessarar sögu megi rekja til þess að hún reyni að útskýra á rökréttan hátt þá staðreynd að skyndilega heyrist lítið sem ekkert til aristótelíska skólans eftir miðja 3. öld f.Kr. og að á helleníska tímanum hafi lítið þekkst til tæknilegra ritgerða Aristótelesar og svo skyndilegs blómatíma aristótelískrar heimspeki á 1. öld f.Kr. Lord efast hins vegar um sanngildi sögunnar. Arfleifð Aristótelesar. Upphaf "Eðlisfræðinnar" í miðaldahandriti. Áhrif Aristótelesar á miðöldum voru gríðarleg. Það er skoðun margra að heimspekikerfi Aristótelesar sé eitt það áhrifamesta í sögunni. Auk þess fann hann upp fræðigreinarnar eins og rökfræði, líffræði og sálfræði og hafði þannig óviðjafnanleg áhrif á bæði vestræna heimspeki og vísindi. Að mati sagnfræðingsins Wills Durant hefur enginn annar heimspekingur lagt jafn mikið af mörkum til upplýsingar heimsins. Breska heimspekingnum Bertrand Russell þótti á hinn bóginn heimspeki Aristótelesar ekki rista nægilega djúpt. Aristóteles hafði í fyrstu áhrif á fylgjendur sína í skólanum Lýkeion, sem hann stofnaði í Aþenu. Meðal nemenda Aristótelesar má nefna Aristoxenos, Díkajarkos, Demetríos frá Faleron, Evdemos frá Ródos, Harpalos, Hefæstíon, Menon, Mnason frá Fókis og Þeófrastos. Einnig ber að geta Alexanders mikla, sem var ef til vill frægasti nemandi Aristótelesar og átti eftir að verða einn áhrifamesti einstaklingur sögunnar. Aristótelísk heimspeki átti sér verjendur allt fram á síðfornöld. Síðasti aristótelíski heimspekingurinn, Alexander frá Afródisías, var að störfum um 200 e.Kr. Hann hafði svo töluverð áhrif nýplatonska heimspekinga og ritskýrendur í síðfornöld. Á miðöldum var Aristóteles oft nefndur einfaldlega „heimspekingurinn“ meðal annars af Tómasi frá Akvínó. Kristnir hugsuðir, með Tómas frá Akvínó fremstan í flokki, tvinnuðu saman kristnar kenningar og heimspeki Aristótelesar. Afleiðingin varð meðal annars sú að á endurreisnartímanum þurftu vísindin að hafa þó nokkuð fyrir því að losa sig undan kennivaldi Aristótelesar. Sagt hefur verið að þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche hafi þegið nær alla stjórnspeki sína að láni frá Aristótelesi. Martin Heidegger setti fram nýja túlkun á heimspeki Aristótelesar sem átti að réttlæta afbyggingu hans á skólaspekilegri og heimspekilegri hefð. Um miðja 20. öld hélt breski heimspekingurinn G.E.M. Anscombe fram aristótelískri dygðafræði sem ákjósanlegri kosti en nytjastefna og kantísk siðfræði, sem höfðu verið ríkjandi í siðfræði allt frá lokum 18. aldar. Aðrir heimspekingar hafa fylgt í kjölfarið, svo sem Alasdair MacIntyre, Philippa Foot og Rosalind Hursthouse. Dygðafræðin hefur síðan orðið ein af þremur meginkenningum siðfræðinnar. Heimspekingurinn og rithöfundurinn Ayn Rand sagði í útvarpsviðtali í þættinum "Night Call" í mars árið 1969 að einungis Aristóteles hefði haft áhrif á hana þegar hún skrifaði "Atlas Shrugged". Útgáfur. Fræðileg útgáfa verka Aristótelesar á grísku með handritaskýringum er til í ritröðinni "Oxford Classical Texts" ("Scriptorum Classicorum Bibliotheca Oxoniensis") sem Oxford University Press gefur út. Bókmál. Bókmál'", bókstaflega "bók tungumál", er einn af tveimur norsku opinberum ritunarformum. Eins og annar staðall norska, nýnorska, það er í raun skrifað tungumál, eins og flestir Norðmenn tala mállýskur sem í ýmsum gráðum frábrugðin skrifaðs máls. Bokmål er nálægt og að hluta til dregið af Danska tungumál á 19. öld. Af þeim tveimur norska mynd, bókmál er elsta og mest notaðar througout landinu er áætlað að hlutfall 85-90% íbúa í Noregur. Undantekningin er Vestur Noregi, var meirihluti hátölurum samt notað nýnorska. Bokmål er staðall oftast kennt að erlenda nemendur í norsku. A íhaldssamt hornrétt staðall, almennt þekktur sem Riksmål er ekki opinbert tungumál í formi, en víða notuð af tímaritum og höfunda. Saga. Fyrsta tungumál Réttritun var formlega samþykkt árið 1907 undir nafninu Riksmål eftir að hafa verið í þróun frá árinu 1879. Það var aðlögun skrifað dönsku, sem var almennt notuð síðan síðasta stéttarfélags við Danmörku, að Dano-norska talað um norska þéttbýli og vitsmunalegum Elite, sérstaklega í höfuðborginni. Þegar stór íhaldssamt dagblað Aftenposten samþykkti 1907 Réttritun árið 1923, danska skrifa var nánast úr notkun í Noregi. Nafnið bókmál var formlega samþykkt árið 1929 ásamt nýjum og róttækum tungumál umbætur, með það að markmiði að sameina tvö tungumál eyðublöð í"Samnorsk", einhvern tíma í framtíðinni. Þetta umbætur var hins vegar mætt með sterka andstöðu upphaflega af vitsmunalegum Elite, sem haldið eldri othography og nafn Riksmål. Eftir seinni heimsstyrjöldina baráttunni gegn Samnorsk jókst og varð meira af vinsæll hreyfingu, meira eða minna fordæmalaus í Noregi til þess dags. Síðar tungumál umbætur hafa baka margar róttækar eyðublöð í bókmál, þannig að núverandi Réttritun er nálægt því sem er advocated við stuðningsmenn Riksmål. Sameiningu tungumálið aðferð var stöðvuð af 1960-tengsl, en ekki opinberlega yfirgefin fyrr en 2002. Frá því að vera eina tungumálið kennd í skólum í lok 19. aldar, Riksmål / bókmál upplifað hratt í átt að seinni heimsstyrjöldinni, þegar nýnorska stækkað mest sýslur Noregs, samtals meira en einn þriðja af aðal nemenda voru kennd á þessu tungumáli formi. Eftir stríðið var borðið sneri sér við, og bókmál endurheimti mikið af vettvangi fyrr en 1975. Eftir minni háttar samdrætti til 1990, bókmál hafa síðan hægum en stöðugri aukningu og er nú (2011) er tungumál sem 87% af grunn nemenda skólans. Occitan er nú einungis svæðisbundin tungumál fyrir fjórum Vestur sýslum í Noregi. Tungumál dæmi. Reyndar er bókmál afar opið fyrir ýmsum stafsetningarútgáfum eins og sést á því að það er jafn rétt að stafa "melk" eða "mjølk"; Krítartímabilið. Krítartímabilið er jarðsögulegt tímabil sem nær frá lokum júratímabilsins fyrir um 146 milljónum ára til upphafs tertíertímabilsins fyrir 65,5 milljónum ára. Í lok krítartímabilsins lauk einnig miðlífsöld og nýlífsöld tók við. Eins og með flest jarðsöguleg tímabil eru jarðlögin sem marka upphaf og endi krítartímabilsins vel skilgreind en raunaldur er ónákvæmur sem svarar nokkrum milljónum ára. Enginn meiriháttar fjöldaútdauði eða þróunarblossi lífvera skilur krít frá júra. Hinsvegar marka skilin á milli krítar og tertíertímabilsins einn mesta fjöldaútdauða jarðsögunnar, en þar finnst jarðlag, mjög ríkt af frumefninu iridín sem er talið vera tengt Chicxulub-loftsteinagígnum í Yucatan og Mexíkóflóa. Iridínlagið hefur verið aldursgreint sem 65,5 milljón ára gamalt. Árekstur loftsteins við Jörðina á þessum tíma er því almennt talin vera orsökin fyrir fjöldaútdauðanum á mörkum krítar og tertíer og hafa þessi skil í jarðsögunni verið ítarlega rannsökuð. Nafngiftin „krít“ kemur frá yfirgripsmiklum krítarlögum (kalsíumkarbónatlög úr skeljum hryggleysingja í sjó) á Bretlandi og á aðliggjandi meginlandi Evrópu. Fornlandafræði krítartímabilsins. Á krítartímabilinu brotnaði risameginlandið Pangea endanlega upp í þau meginlönd sem nú umlykja Jörðina, þrátt fyrir að þá hafi lega þeirra verið talsvert frábrugðin legu þeirra í dag. Þegar Atlantshafið breikkaði og Suður-Ameríku rak í vestur, brotnaði Gondwana upp þegar Suðurskautslandið og Ástralía skildust frá Afríku (Indland og Madagaskar mynduðu þó ennþá eina heild). Þessi mikla höggun lands myndaði mikla fjallgarða neðansjávar sem leiddi til hækkaðrar sjávarstöðu á allri Jörðinni. Norðan við Afríku hélt Tethys-hafið áfram að minnka. Innan meginlandanna óx víðfeðmt en grunnt haf yfir miðja Norður Ameríku en tók síðar að dragast saman og skildi eftir sig þykk sjávarsetlög á milli kolalaga. Aðrar mikilvægar opnur í jarðlög frá krítartímabilinu, finnast í Evrópu og Kína. Á því svæði þar sem nú er Indland, hlóðust upp mikil basalthraunlög, Deccan-flæðibasaltið. Hraunlögin mynduðust á síðkrít og snemma á paleósen. Loftslag á krítartímabilinu var hlýtt og engan varanlegan ís var að finna á pólsvæðunum. George Best. George Best (fæddur 22. maí 1946 í Belfast, látinn 25. nóvember 2005 í London) var norður-írskur landsliðsmaður í knattspyrnumaður. Hann þótti einn allra besti knattspyrnumaður heims á stuttum en litríkum ferli sem markaðist af ótrúlegri leikni á vellinum en gífurlegri drykkju og kvennafari utan hans. Hann lék lengst af með Manchester United og varð Evrópumeistari með þeim 1968. Hann var rekinn þaðan vegna óreglu sinnar og tilkynnti að hann væri hættur knattspyrnuiðkun. Hann snéri þó aftur á völlinn nokkru seinna og lék með fjölda liða áður en hann hætti aftur. Best lék 37 landsleiki fyrir hönd Norður-Írlands og skoraði í þeim 9 mörk. Auk þess hlaut hann Gullknöttinn, sem besti knattspyrnumaður Evrópu, árið 1968. Pat Morita. Pat Morita (fæddur 28. júní 1932 í Isleton, Kaliforníu, dó 24. nóvember 2005 í Las Vegas, Nevada), fæddur Noriyuki Morita, var bandarískur grínisti og leikari af japönskum ættum. Hann lék í fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda. Hann hlaut alþjóðlega frægð fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni "The Karate Kid" og var einnig tilnefndur til Óskarsverðlaunanna 1984 sem besti leikari í aukahlutverki. Tengill. Morita, Pat Morita, Pat Siðmennt. Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er málsvari mannúðarstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir borgaralegum athöfnum. Siðmennt skipuleggur borgaralega fermingu með tilheyrandi námskeiði og leiðbeinir fólki um fleiri athafnir svo sem borgaralega útför og nafngjöf án skírnar og hefur gefið út bæklinga í því skyni. Það hefur tekið ýmis mál til umræðu, haldið fundi og gengist fyrir blaðaskrifum. Siðmennt hefur unnið að því að kynna fólki hvernig hægt er að standa að borgaralegri útför. Fyrstu starfsárin var saminn bæklingur um það efni og fóru fróðir menn um lög og reglur gaumgæfilega yfir efni hans. Síðar gaf félagið út bækling um borgaralega nafngjöf til að leiðbeina þeim sem ekki láta skíra börn sín. Félagið hefur gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast mannúðarstefnu (siðrænum húmanisma) eða borgaralegum athöfnum. Má þar nefna málefni eins og stefnu félagsins, trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, trúarskoðanir Schuberts, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, hugsanlegt trúfélag trúlausra, um erlend félög siðrænna húmanista o.fl. Siðmennt tekur ekki beina afstöðu í stjórnmálum og félagsmálum. Undantekning er þó ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðana sem m.a. hlýtur að hafa í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi. Samfélag trúlausra. SAMT er samfélag trúlausra á Íslandi sem var stofnað 1998 af nokkrum félögum Siðmennt. Krít (eyja). Krít (gríska: "Κρήτη") er stærsta gríska eyjan og sú fimmta stærsta í Miðjarðarhafinu. Krít er aftur á móti önnur stærsta eyjan í austur-Miðjarðarhafinu (á eftir Kýpur). Hefur hún oft verið kölluð eftir gælunafni sínu sem er "þröskuldur Evrópu" (sjá listann yfir gælunöfn). Nýnorska. Nýnorska (á norsku: "nynorsk") er annað af tveimur opinberum ritunarformum norsku. Um það bil 10–15% Norðmanna hafa valið að nota þetta ritmál. Nýnorska er í eiginlegri merkingu tilbúið tungumál þar sem það er einungis ritmál og er skapað úr ýmsum mállýskum og með mikilli hliðsjón að fornnorrænu. Nýnorska er aðallega notuð í Vestur-Noregi. Danska var eina opinbera ritmálið í Noregi fram til 1890 þegar Stórþingið (þing Norðmanna) ákvað að gera bæði nýnorsku (sem þá var kallað "landsmål") og dönsku (sem þá var kallað "riksmål", nú bókmál) að opinberum málaformum. Það var hinn sjálfmenntaði málfræðingur Ivar Aasen sem fremur öðrum skapaði nýnorsku í kringum miðja 19. öld. Í takt við þjóðernisvakningu þess tíma óskaði hann sér að til væri hreinna mál og líkara bæði talmáli sveitanna og fornnorrænu en þeirri dönsku sem var eina opinbera ritmálið í Noregi á þessum tíma. Aasen ferðaðist um Noreg á áratugunum 1840–1850 til að viða að sér efni til að skapa nýtt ritmál. Baráttan fyrir nýnorskunni var og er enn oft mjög heit og nátengd þjóðernisímynd Norðmanna. Notkun nýnorskunnar jókst stöðugt frá því hún var sköpuð fram að seinni heimsstyrjöldinni. Þá valdi um þriðjungur nemenda að nota hana í stað bókmáls.Eftir það hefur hún hins vegar átt í vök að verjast. Gjóska. Gjóska (gríska og eldra heiti á íslensku: tefra) er samheiti um loftborin, föst gosefni, sem þeyst hafa upp úr eldgíg, storknað að hluta til eða fullu á fluginu og fallið til jarðar. Gjóska skiptist eftir kornastærð í gjall, vikur og ösku. Hún er blöðrótt og létt í sér og getur flotið tímabundið á vatni (uns hún verður vatnsósa). Jarðfræðingar nota gjósku í jarðvegslögum til að geta sér til um hegðun fyrri eldgosa. Orðsifjar. Sigurður Þórarinsson bað Vilmund Jónsson landlækni að smíða íslenskt orð í stað gríska orðsins "tefra" sem samheiti yfir eldfjallaösku, vikur og gjall. Orðið kom fyrst út á prenti árið 1968 í tímaritinu "Náttúrufræðingnum". Latt auga. Latt auga (fræðiheiti: "amblyopia") er augnkvilli hjá mönnum sem lýsir sér þannig að augun eru ekki samstillt sem aftur leiðir til sjóndepru á öðru auganu þar sem heilinn hafnar taugaboðunum sem berast frá því. Þetta þýðir það að augun horfa sitt á hvorn punktinn. Annað augað verður "ríkjandi" en hitt "víkjandi", en einstaklingurinn notar ríkjandi augað meira en víkjandi augað, svo að þegar einstaklingur með latt auga horfir á eitthvað er hann mjög líklega að nota ríkjandi augað. Að vísu geta sumir með latt auga notað viljandi annað augað fram yfir hitt, án þess að loka öðru auganu; það er viljastýrt. Ástæðan fyrir því að annað augað verður latt er sú, að heilinn hafnar taugaboðunum frá því, fyrir einhverra hluta sakir, svo sem óskýrleika eða einhvers annars. Hægt er að ráða bót á lötu auga hjá börnum, t.d. með því að loka fyrir ríkjandi augað í nokkra klukkutíma á dag yfir ákveðið tímabil, en með því móti neyðist heilinn til að nota lata augað. Þetta hins vegar virkar ekki í öllum tilfellum, en ástæðurnar fyrir því geta verið ýmsar og stundum alls ekki sýnilegar. Þeir sem eru með alvarleg tilfelli lats auga eiga erfiðara með þrívíddarskynjun, og þar með að meta fjarlægðir og dýpt. Dansk-norska stafrófið. Bókstafurinn "Å" var tekinn upp í norsku 1917 í stað "Aa". Á sama hátt var "Å" tekið upp í dönsku 1948. Hið eldra ritform "aa" er stundum notað enn í nöfnum og í eldri skjölum. Munurinn á dansk-norska stafrófinu og því finnsk-sænska, er að í sænsku er Ä notað í stað Æ, og formið Ö í stað Ø — eins og í íslensku og þýsku. Einnig er röðun þessara bókstafa önnur: Å, Ä, Ö. Í nútíma dönsku og norsku er stafurinn W greindur sem aðskilinn frá V. Fyrir 1980 var einungis litið á W sem afbrigði af V. Hiti. Hiti, einnig nefndur hitastig, er eðlisfræðileg stærð, sem er mælikvarði á hreyfiorku sem býr í óreiðukenndri hreyfingu efniseinda. Varmi streymir ætíð frá hlut með hærri hita, til þess með lægri hita, að því gefnu að hlutirnir séu í varmasambandi. Enginn varmi streymir milli hluta með sama hita. SI-mælieining hita er kelvin, táknuð með K. Alkul er lægsti hugsanlegi hiti og jafngildir 0 K eða -273,15 °C. Hiti er mældur með hitamæli, en selsíus- og fahrenheitkvarðar eru algengastir. Prin Tunele de Cuvinte. Prin Tunele de Cuvinte er ljóðabók á rúmensku og ensku eftir Florentin Smarandache sem var upphaflega gefin út af Editura Haiku í Búkarest 1997. Hún var endurútgefin 25. nóvember 2005 af Project Gutenberg að fengnu samþykki höfundar. Jóhannes Birgir Jensson sá um lokavinnslu bókarinnar. Enskur titill bókarinnar er "Through Tunnels of Words". Í henni er að finna fjöldamörg einnar línu ljóð á rúmensku og í enskri þýðingu. Lise Meitner. thumb Lise Meitner (17. nóvember 1878 – 27. október 1968) var austurrískur eðlisfræðingur sem stundaði rannsóknir á Lise fæddist í Vín og var þriðja í röðinni af átta systkinum gyðingafjölskyldu. Hún innritaðist í háskólann í Vín árið 1901 þar sem hún lagði stund á eðlisfræði undir handleiðslu Ludwig Boltzmann. Eftir að hún fékk doktorsnafnbót sína, fór hún til Berlínar árið 1907 til að stunda rannsóknir ásamt Max Planck og efnafræðingnum Otto Hahn. Hún var í samstarfi við Hahn í 30 ár, þar sem hvort þeirra stjórnaði deild í Kaiser Wilhelm rannsóknarmiðstöðinni í efnafræði í Berlín. Hahn og Meitner áttu náið samstarf í rannsóknum á geislavirkni, með þekkingu hennar í eðlisfræði og þekkingu hans Árið 1918 sýndu Hahn og Meitner fram á tilvist langlífrar samsætu frumefnis nr. 91 (231Pa). Árið 1923 uppgötvaði hún svokölluð Augerhrif (nefnd í höfuðið á frönskum vísindamanni, Pierre Victor Auger, sem uppgötvaði þau tveimur árum á eftir Meitner). Með uppgötvun nifteindarinnar snemma á fjórða áratugnum, fóru af stað vangaveltur um það í vísindaheiminum hvort hægt væri að búa til frumefni sem væru þyngri en úran (atómtala 92) í rannsóknarstofu. Upphófst þvínæst vísindalegt kapphlaup á milli Ernest Rutherford í Bretlandi, Irene Juliot-Curie í Frakklandi, Enrico Fermi á Ítalíu og Meitner-Hahn samstarfsins í Berlín. Á þessum tíma var almennt álit flestra sem fylgdust með að þarna væri verið að keppast um Nóbelsverðlaunin. Engan grunaði að afrakstur þessara rannsókna ætti eftir að enda með framleiðslu kjarnorkuvopna. Otto Stern, Lise Meitner (1937) Eftir að Austurríki var innlimað inn í Þýskaland árið 1938, flúið Meitner til Svíþjóðar. Hún hélt þar áfram rannsóknum sínum í Manne Siegbahn rannsóknarmiðstöðinni í Stokkhólmi, en hlaut þar lítin stuðning vegna fordóma Siegbahns gagnvart konum í vísindum. Hahn og Meitner hittust leynilega í Kaupmannahöfn í nóvember til að skipuleggja nýja röð tilrauna og skiptust á fjölda bréfa. Tilraunirnar voru gerðar á rannsóknarstofu Hahns í Berlín og veittu fyrstu vísbendingar um að kjarnaklofnun gæti átt sér stað. Langvarandi upplýsingaflæði á milli Hahns og Meitner sýna að Hahn áleit að kjarnaklofnun væri óhugsandi þangað til Meitner sýndi honum fram á að hún hefði þegar átt sér stað. Hahn staðhæfði síðar að það hefðu eingöngu verið efnafræðirannsóknir sínar sem ráðið hefðu úrslitum varðandi uppgötvunina. Það var pólitískt séð ómögulegt fyrir Meitner (sem var í útlegð) að birta rannsóknir sínar sameiginlega með Hahn árið 1939. Hahn birti efnafræðiniðurstöður sínar í janúar 1939 og Meitner birti eðlisfræðilegu skýringarnar mánuði síðar ásamt frænda sínum, eðlisfræðingnum Otto Robert Frisch, og kallaði ferlið „kjarnaklofnun“. Meitner áttaði sig á að keðjuverkum hefði í för með sér gríðarlega sprengivirkni. Skýrslan hafði mikil áhrif og fór eins og eldur í sinu um vísindasamfélagið vegna þess að þarna var komin möguleiki á að framleiða vopn. Þar sem þekkingin var í höndum Þjóðverja, tóku Leo Szilard, Edward Teller og Eugene Wigner höndum saman og sannfærðu Einstein (vegna frægðar hans) til að skrifa aðvörunarbréf til Franklins D. Roosevelt, sem síðar leiddi til þess að Manhattan verkefninu var hrundið af stað. Meitner neitaði boði um að vinna við Manhattan verkefnið í Los Alamos og sagði „Ég vil ekkert hafa með sprengjuna að gera!“ Árið 1944 hlaut Hahn nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrir að uppgötva kjarnaklofnun. Það er álit margra vísindamanna að verðlaununum hefði átt að deila með Meitner. Útnefningin gæti hafa verið vegna staðhæfinga Hahns um að efnafræðirannsóknir hans hefðu einar og sér ráðið úrslitum um uppgötvunina. Vangaveltur hafa líka verið uppi um það, að Siegbahn sem var í Nóbelsverðlaunanefndinni hafi haft sitt að segja vegna andstöðu sinnar við Meitner. Útnefningin var að hluta leiðrétt árið 1966 þegar Hahn og Meitner voru saman sæmd Enrico Fermi verðlaununum ásamt Fritz Straßmann. Í heimsókn til Bandaríkjanna árið 1946 gerðu fjölmiðlar Meitner að nokkurs konar stjörnu þar sem ranglega kom from staðhæfing eins og „yfirgaf Þýskaland með sprengjuna í veskinu“. Hún var heiðruð sem „Kona ársins“ af landssamtökum kvenna í fjölmiðlum (í Bandaríkjunum) árið 1946 og hlaut Max Planck orðuna frá þýska eðlisfræðisambandinu árið 1949. Meitner lést í Cambridge í Englandi árið 1968. Frumefni númer 109 kallast meitneríum og er skýrt í höfuðið á Meitner. Frekari lesning. Meitner, Lise Florentin Smarandache. Florentin Smarandache (fæddur 10. desember 1954 í Balcesti í Vâlcea-héraði í Rúmeníu) er rúmenskur stærðfræðingur, heimspekingur og listamaður. Lífshlaup. 1986 fór hann í hungurverkfall eftir að alræðisstjórn Nicolae Ceausescu meinaði honum að fara á alþjóðaþing stærðfræðinga í University of Berkeley. Hann birti bréf í "Notices of the American Mathematical Society" þar sem hann ræddi um ferðafrelsi vísindamanna og var eftir það stimplaður andófsmaður af stjórnvöldum. Með þann stimpil á sér reyndist honum ómögulegt að fá vinnu og lifði á stundakennslu. Honum var ekki heldur leyft að birta skrif sín og því reyndi hann að smygla mörgum handrita sinna úr landi í gegnum franskan skóla í Búkarest, mörg þeirra týndust eða féllu í hendur leynilögreglu Rúmeníu. Í september 1988 flúði hann úr landi og komst til Tyrklands þar sem hann vann ýmis verkamannastörf. Ófrísk kona hans og sonur urðu eftir í Rúmeníu, það var ekki fyrr en 1990 að hann hitti þau og nýja soninn aftur þegar þau fluttu öll til Bandaríkjanna eftir fall alræðisstjórnarinnar í rúmensku byltingunni. Hann kennir nú hjá University of New Mexico. Þverstæðustefna. Smarandache er þekktur sem leiðtogi listastefnu sem nefnd er þverstæðustefna (enska: "paradoxism") og hófst upp úr 1980. Hún byggist einkum á mikilli notkun mótsetninga, og þverstæðna og tengir saman stærðfræði, heimspeki og bókmenntir. Útgefin verk. Smarandache hefur gefið út tugi bóka, einkum um stærðfræði eða þverstæðustefnuna. Tenglar. Smarandache, Florentin Smarandache, Florentin Smarandache, Florentin Finnsk-sænska stafrófið. Munurinn á finnsk-sænska stafrófinu og því dansk-norska, er að í dönsku og norsku er Æ notað í stað Ä, og formið Ø í stað Ö. Einnig er röðun þessara bókstafa önnur: Æ, Ø, Å. Sérhljóð. Sérhljóð nefnast þau málhljóð sem eru mynduð án þess að þrengt sé verulega að loftstraumnum út um talfærin eða lokað fyrir hann (þ.e. stafir sem geta sagt nafn sitt sjálfir), og sérhljóðar eru þeir bókstafir sem tákna sérhljóð. Sérhljóð skiptast í einhljóð og tvíhljóð eftir því hvort hljóðgildið helst nokkurn veginn stöðugt gegnum allt málhljóðið (einhljóð) eða hvort það breytist „á miðri leið“ (tvíhljóð). Í íslensku eru talin átta einhljóð (oftast táknuð með bókstöfunum a, e, i, í, o, u, ú, ö) og auk þeirra a.m.k. fimm tvíhljóð (oftast táknuð með ei (ey), æ, au, á, ó). Samhljóð. Samhljóð eða samhljóð nefnast einu nafni þau málhljóð sem eru mynduð á þann hátt að þrengt er að loftstraumnum út um talfærin eða þá að lokað er fyrir hann augnablik (þ.e. stafir sem segja ekki nafnið sitt). Þau málhljóð sem táknuð eru með bókstöfunum b, d, ð, f, g, h, j, k, l, m, n, p, r, s, t, v, x, þ í íslensku eru samhljóð. Mállýska. Mállýska er svæðis- eða stéttabundin málvenja. Mállýska getur einkennst af framburði, málfræði eða orðaforða. Mörkin milli mállýskna og sjálfstæðra tungumála eru oft fremur pólitísk en málfræðileg. Íslenskar mállýskur. Mállýskumunur hefur löngum verið lítill í íslensku, til dæmis samanborið við færeysku eða norsku. Ýmis svæðisbundin afbrigði mynduðust þó á Íslandi, en deildar meiningar eru um hvort sá munur geti kallast mállýskumunur. Hingað til hefur yfirleitt verið einblínt á framburðarmun þó einnig hafi einhver munur verið á orðanotkun. Til dæmis hvort menn beri orðið "latur" fram með fráblásnu t eða ekki, eða hvort menn kalli ákveðna tegund af reyktum pylsum bjúgu, sperðla, grjúpán eða langa. Málhreinsunarmönnum á fyrri hluta tuttugustu aldar þóttu sumar framburðarmállýskurnar ljótar og gengu hart fram í að útrýma þeim, sérstaklega flámæli. Skólarnir voru meðal annars notaðir í þeim tilgangi. Mállýskumunur hefur dofnað talsvert á Íslandi á tuttugustu öld og sumar framburðarmállýskurnar eru nánast horfnar úr málinu. Helstu íslensku framburðarmállýskurnar eru (voru) skaftfellskur einhljóðaframburður, vestfirskur einhljóðaframburður, harðmæli og raddaður framburður, ngl-framburður, bð- og gð-framburður, hv-framburður og rn- og rl-framburður. Norðurlandamál. Norðurlandamálin eru þau mál sem töluð eru á Norðurlöndum. Fremst er þá átt við norrænu málin – sem er samheiti yfir norðurgermanskan undirflokk indóevrópsku ættarinnar, það er dönsku, færeysku, íslensku, norsku og sænsku, samísku tungumálin og finnsku sem eru af úrölsku ættinni og grænlensku sem er af eskimóísk-aleúsku málaættinni. Einhljóð. Einhljóð er sérhljóð sem heldur sama hljóðgildi frá upphafi til enda eins og "a" eða "ö". Í íslensku eru venjulega talin átta einhljóð og þau eru oftast táknuð með eftirtöldum bókstöfum í rituðu máli: a, e, i, í, u, ú, o, ö. Kolkuós. Kolkuós er eyðijörð og forn verslunarstaður í Skagafjarðarsýslu á Íslandi, 15 km frá Sauðárkróki og 10 km frá Hofsósi. Hafnarstæði er gott frá náttúrunnar hendi í Kolkuósi, þar er tangi sem er eins og náttúruleg bryggja en vafasamt er að hafskip hafi getað siglt inn í sjálfan ósinn því þar er klöpp sem hindrar skipaferðir. Um 300 metra vestur frá tanganum er allhár klapparhólmi, "Elínarhólmi". Líklega hefur höfnin verið enn betri áður því talið er að þá hafi Elínarhólmi verið tengdur landi með tanga sem nú er horfinn í sjó að mestu. Enn brýtur sjórinn af tanganum, þar sem fornminjar er að finna, og hefur því uppgröftur sem fram hefur farið í Kolkuósi á síðustu árum verið í kapphlaupi við tímann. Verslun í Kolbeinsárósi. Eldra nafn Kolkuóss og hið löggilda verslunarnafn er Kolbeinsárós. Kolbeinsárós var aðalverslunarhöfn Skagfirðinga á landnámsöld og er getið um það í Landnámu að þangað hafi hin fræga hryssa Fluga, sem Flugumýri er sögð heita eftir, verið flutt. Í Kolbeinsárósi var vörum skipað á land sem fluttar voru til biskupsstólsins á Hólum og er jafnvel talið að Hólar hafi orðið fyrir valinu sem biskupsstóll vegna nálægðar við góða höfn. Talið er að á Kolkuósi hafi nokkru fyrir siðskipti verið bænhús eða bjálkakirkja sem kaupmenn hafi reist. Mun það vera eina hús þeirrar gerðar á Íslandi. Fornleifar. Fornleifarannsóknir hafa verið stundaðar á Kolkuósi frá 2003 og er hluti af Hólarannsókn sem hófst árið 2002 undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Ráðist var í björgunaruppgröft á Kolkuósi sökum mikils landbrots af völdum sjávar, sem hefur haft þær afleiðingar að munum hefur skolað á haf út. Uppgröftur hefur að mestu farið fram á tanganum milli ár og sjávar, en þar brýtur mest á. Rannsóknir sýna að frá 10. öld og fram til 16. aldar hafi mikil starfsemi farið fram á Kolkuósi, þar sem bæði var stunduð verslun og ýmis framleiðsla. Á Kolkuósi hafa amk. 15 búðir eða önnur mannvirki verið grafin upp en ekkert bendir til stöðugrar búsetu á staðnum. Í sumum búðanna fundust eldstæði sem þykir sýna að þær hafi gegnt mismunandi hlutverkum. Í frétt frá RÚV segir að búðirnar hafi verið tímabundinn viðlegustaður (svefnstaður), birgðageymslur, sölutjöld og verkstæði. Á meðal þeirra muna sem hafa fundist eru „tinnur, brýni, bökunarplötur frá Noregi, 3 brot úr leirkerum, járngripir, hnífar, bátsaumur, naglar, óþekkt verkfæri úr járni, brons brot og þynnur, sveskjukjarnar, hákarlatennur, unnin hvalbein og múrbrot“. Einnig fundust þar tveir silfurpeningar; annar frá Suður-Þýskalandi frá því síðari hluta 11. aldar og hinn er frá Englandi frá síðari hluta 12. aldar. Elstu minjar eru frá 10. öld en flestar minjanna eru frá 11. og 12 öld, þá eru elstu mannvistarleifar taldar vera frá landnámsöld. Til aldursgreiningar var m.a. notast við gjóskulög úr Heklu frá 1104. Þá fannst heiðin gröf þar sem maður hafði verið grafinn með svíni og bendir C14 aldursgreining til þess að gröfin hafi verið tekin eftir kristnitöku árið 1000. Sumarið 2006 hófst neðansjávarrannsókn við Kolkuós, með það markmið að kanna hafnaraðstæður frá miðöldum og fljótlega eftir það fannst akkeri við Elínarhólma, sem liggur skammt undan árósnum. Er akkerið talið vera frá miðöldum eða jafnvel víkingaöld Við Kolkuós fundust bein úr ýmsum húsdýrum, bæði nautgripum, sauðfé, hestum, svínum og hundum, svo og selum, hvölum og margskonar fuglum og fiskum, en þar hafa einnig fundist bein smáhunda, sem fyrirmenn hafa haft til að halda á sér hita og voru stöðutákn á miðöldum. Þá hafa fundist ummerki um ýmis nagdýr svo sem rottur og mýs. Nokkru fyrir 1600 tók Hofsós við sem aðalverslunarstaðurinn á þessum slóðum, líklega vegna þess að höfnin í Kolkuósi hefur þá verið farin að spillast, og verslun í Kolbeinsárósi lagðist af. Þó hófst þar verslun aftur árið 1881 en þá varð staðurinn löggilt verslunarhöfn. Kaupmenn á Sauðárkróki höfðu þar útibú og um áramótin 1900 voru þar fjögur verslunarhús. Búseta. Föst búseta hófst í Kolkuósi 1891, þá settust þar að Tómas Ísleiksson og Guðrún Jóelsdóttir. Þau fluttust seinna til Vesturheims. Árið 1901 fluttust Hartmann Ásgrímsson og Kristín Símonardóttir í Kolkuós og byrjuðu þar verslun. Þau byggðu íbúðarhús á árunum 1903-4. Það hús stendur enn. Þar stendur einnig sláturhús sem byggt var árið 1913 og yfirbyggð rétt fyrir sláturfé sem byggð var 1914. Stofnað hefur verið félag sem vinnur að varðveislu Kolkuóss og enduruppbyggingu þessara bygginga. Hartmann og Kristín bjuggu í Kolkuósi til 1942. Sigurmon sonur þeirra og Haflína Björnsdóttir tóku þá við búinu. Þau bjuggu í Kolkuósi til 1985. Sigurmon var landskunnur fyrir hrossarækt sína en hann ræktaði hesta af Svaðastaðastofni. Íó (tungl). Mynd af Íó tekin af geimfarinu Galíleó. Íó (úr grísku: Ῑώ, á íslensku einnig ritað Jó) er innst þeirra fjögurra tungla reikistjörnunnar Júpíters sem kennd eru við og uppgötvuð (í janúarmánuði árið 1610) af Galíleó Galílei. Tunglið er nefnt eftir Íó, sem var ein margra elskenda Seifs í grískri goðafræði (Seifur er þekktur sem Júpíter í rómverskri goðafræði). Íó er eftirtektaverðust vegna eldvirkni sinnar, en hún er eldvirkasti hlutur sólkerfisins. Líkt og gerist með eldfjöll á Jörðinni, gefa eldfjöllin á Íó frá sér brennistein og brennisteinsdíoxíð. Upphaflega var því haldið fram að hraunin á Íó væru gerð úr brennisteinssamböndum, en í dag er því haldið fram að mörg þeirra séu gerð úr kísilbráð eins og hraun Jarðarinnar. Orsök þessara miklu eldvirkni á Íó er líklega að finna í flóðkröftunum á milli Íó, Júpíters og tveggja annarra tungla Júpíters, Evrópu og Ganýmedesar. Tunglin þrjú eru læst á svokölluðum Laplace-brautum, þannig að Íó fer tvær umferðir í kringum Júpíter fyrir hverja eina umferð Evrópu, sem fer tvær umferðir fyrir hverja eina umferð Ganýmedesar. Þar að auki snýr Íó alltaf sömu hlið að Júpíter. Þyngdarverkunin á milli Júpíters, Evrópu og Ganýmedesar toga og teygja Íó um allt að 100 metra, ferli sem myndar hita vegna innri núnings. Gosstrókar á Íó hafa mælst teygja sig meira en 300 km yfir yfirborðið, áður en þeir falla til baka. Hraði efnisins sem þeytist upp af yfirborðinu er um 1 km/s. Eldgosin á Íó eru síbreytileg. Á aðeins fjórum mánuðum á milli komu geimfaranna Voyager 1 og Voyager 2, fjöruðu sum eldgosin út á meðan önnur hófust. Efnið sem settist til í kringum gosopin breytti einnig um ásýnd á þessum tímabili. Ganýmedes (tungl). Mynd af Ganýmedes, tekin af Galíleó geimfarinu. Ganýmedes er stærsta tungl Júpíters og einnig stærsta tungl sólkerfisins. Þvermál þess er meira en þvermál Merkúríusar en það er þó helmingi massaminna. Ganýmedes er mun stærra heldur en Plútó. Það er eina tunglið (fyrir utan tungl Jarðar) sem hægt er að greina með berum augum, þótt til þess þurfi skarpa sjón og mjög góð sjónskilyrði. Það kemur því ekki á óvart að Galíleó Galílei skyldi hafa uppgötvað Ganýmedes árið 1610. Galíleó uppgötvaði þrjú önnur tungl Júpíters, Kallistó, Evrópu og Ió. Þessi fjögur tungl eru oft nefnd Galíleótunglin. Ganýmedes er nefnt eftir bikarbera guðanna í grískri goðafræði. Málmkjarninn bendir til þess að hiti í innviðum Ganýmedesar, hafi eitt sinn verið hærri en hingað til hefur verið talið. Í raun gæti Ganýmedes svipað til Jó auk ískenndrar skorpunnar. Porto Novo. Porto Novo er höfuðborg Benín í Vestur-Afríku. Íbúar borgarinnar eru rúmlega 220.000 (samkvæmt tölum frá árinu 2002). Porto Novo er næststærsta borg Benín. Borgin er talin hafa verið stofnuð seint á 16. öld. Nafn borgarinnar kemur úr portúgölsku og þýðir "Ný höfn". Borgin er staðsett við Porto-Novo lónið, sem er hluti af Gíneuflóa. Libreville. Libreville er höfuðborg Gabon. Borgin stendur við ána Gabon, nálægt Gíneuflóa. Íbúafjöldi borgarinnar er talinn um 362.000 (samkvæmt mati árið 1993). Borgin var stofnuð árið 1843 og þangað voru sendir frelsaðir þrælar. Árið 1848 hlaut borgin nafnið Libreville, sem þýðir "Frelsisbær" á frönsku. Dettifoss. Dettifoss er aflmesti foss Íslands. Hann er 45 m hár og rúmlega 100 m breiður foss í Jökulsá á Fjöllum. Hann er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og er skilgreindur sem Náttúruvætti af Umhverfisstofnun. Nálægt honum eru tveir miklir fossar, Hafragilsfoss neðan hans, en Selfoss ofar í ánni. Dettifoss er hluti af sýslumörkum Norður- og Suður-Þingeyjarsýslna. Viktoría Bretadrottning. Viktoría Bretadrottning (Alexandra Viktoría) (24. maí 1819 – 22. janúar 1901) var drottning Bretlands (sameinaðs konungdæmis Englands, Skotlands og Írlands) frá 20. júní 1837 og keisaradrottning Indlands frá 1. janúar 1877. Hún ríkti í yfir sextíu ár, lengur en nokkur annar breskur þjóðhöfðingi og er sá tími í sögu Bretlands kenndur við hana og kallaður Viktoríutímabilið. Á þessu tímabili var Bretland áhrifamikið nýlenduveldi á blómaskeiði Iðnbyltingarinnar sem olli gríðarlegum félagslegum, tæknilegum og hagfræðilegum breytingum í Bretlandi. Viktoría var síðasti þjóðhöfðingi Bretlands af Hanover-ættinni, þar sem sonur hennar, Játvarður VII, taldist vera af ætt eiginmanns hennar, Alberts prins, Saxe-Coburg-Gotha-ættinni. Varmi. Varmi er hugtak í eðlisfræði og er sú orka sem flyst á milli misheitra hluta við varmaskipti með geislun eða leiðni. Varmi flyst alltaf frá heitari hlut til þess kaldari, að því gefnu að hlutirnir séu í varmasambandi, og ef báðir eru jafn heitir flyst enginn varmi milli þeirra. Varmi í varmafræði samsvarar til vinnu í aflfræði. Mælieiningin fyrir varma í alþjóðlega einingakerfinu er júl. Í daglegu tali, í staðaheitum og kveðskap getur orðið „varmi“ verið samheiti orðsins „hiti“. Náttúruvætti. Náttúruvætti eru friðlýstar náttúrumyndanir samkvæmt íslenskum lögum. Náttúruvætti geta verið t.d. fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steintegunda og steinda, sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Náttúruvætti eru þannig takmörkuð við afmörkuð náttúrufyrirbrigði og nánasta umhverfi þeirra en stærri friðlýst svæði kallast friðlönd. Umhverfisráðherra getur friðlýst náttúrumyndanir að fengnum tillögum frá annaðhvort Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun Íslands. Grábrókarhraun. Birki og mosi í Grábrókarhrauni Birki og mosi í Grábrókarhrauni Grábrókarhraun er úfið apalhraun í Norðurárdalí Borgarfirði. Það er um 3400 ára gamalt og er vaxið mosa, lyngi og birkikjarri. Hraunið er mun yngra en sjálfur berggrunnur þessa svæðis er með elsta bergi á íslandi eða um 13 milljón ára og eru slíkar andstæður hvergi meiri á Íslandi en í Norðurádal. Grábrók er stærst þriggja gígja á gossprungu. Þessir gígir eru Stóra-Grábók, Litla-Grábrók og Grábrókarfell sem stundum er nefnt Rauðabrók. Litla-Grábrók er að mestu horfin vegna jarðrasks. Gígirnir eru friðlýstir sem náttúruvætti. Grábrókarhraun er á náttúruminjaskrá. Háskólinn að Bifröst og Hreðavatnsskáli eru í Grábrókarhrauni. Grábrók. Grábrók séð frá Hreðavatnsskála. Vel má sjá móta fyrir gönguslóðum í gjallinu. Grábrók er um 170 metra hár gjallgígur sem rís upp norðaustan við Hreðavatn. Grábrók er stærst þriggja gíga á stuttri gossprungu. Úr þessum gígum Stóru-Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðabrók) og Litlu-Grábrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3400 árum. Hraunið er um 7 km2. Meðalþykktin í borholum er 20 m. Hraunið stíflaði Norðurá og ýtti henni upp að austurhlíðum dalsins. Einnig stíflaði það dalkvosina sem Hreðavatn er nú í og myndaði vatnið. Fallegar lindir koma upp undan hrauninu á nokkrum stöðum. Stærstu lindirnar eru í svokallaðri Paradís eða Paradísarlaut. Gígarnir og Grábrókarhraun hafa verið friðlýst náttúruvætti síðan 1962. Vinsælt er að ganga upp á Grábrók, það er auðveld gönguleið og þangað liggur göngustígur með manngerðum þrepum. Espoo. Espoo (sænska: "Esbo") er næst stærsta borg Finnlands, staðsett á suðurströnd landsins. Hún myndar höfuðborgarsvæðið ásamt Helsinki, Vantaa og Kauniainen. Flatamál borgarinnar er 528 km², þar af land 312 km². Núverandi íbúafjöldi er 229.034 (síðan 30. júní 2005), en aðeins Helsinki telur fleiri íbúa. Grænlenska. Grænlenska (grænlenska: "kalaallit oqaasii" eða "kalaallisut") er inuíta tungumál af eskimó-aleutísku málaættinni sem töluð er á Grænlandi og er náskylt þeim málum sem Inuítar tala í Kanada og Bandaríska fylkinu Alaska. Um það bil 50.000 manns tala grænlensku en hluti þeirra er tvítyngdur og talar dönsku sem annað mál. Mælendur grænlensku eru þar með fleiri en mælendur allra annarra eskimó-aleutískra mála samanlagt. Saga Grænlands hefur verið rannsökuð lengi og málvísindamenn og fornleifafræðingar eru nú á þeirri skoðun að forfeður núverandi Grænlendinga (burtséð frá Evrópskum innflytjendum) hafi flust til landsins í fjórum lotum. Fólkið, sem settist þar að, var í öllum tilvikum Thule-inuítar. Mállýskurnar í Grænlensku endurspegla á vissan hátt þessar lotur. Stöðluð grænlenska sem nú er notuð í fjölmiðlum, skólum og opinberu samhengi hefur þróast aðallega úr miðvesturgrænlenska mállýskusvæðinu. Þar er höfuðborgin Nuuk, sem áður var kölluð á dönsku Godthåb. Grundvöllurinn að grænlenskri bókmenntahefð var lagður þar á árunum um 1860. Þróun ritmáls. Þróun ritmáls á grænlensku á sér stutta sögu enda höfðu inuítar þar ekkert eigið ritmál fremur en aðrir inuítar fyrir komu evrópumanna til Grænlands í annað sinn. Fyrstu skipulögðu tilraunina til að skrifa grænlensku gerði Hans Egede (1680-1758) og meðhjálpara hans Albert Topp en árið 1728 gerðu þeir tilraun til þess að þýða sköpunarsögu Biblíunar. Sonur Hans Egedes, Poul Egede (1708-1789), gaf út orðabók á grænlensku, dönsku og latínu. Grundvöllur að fyrstu kerfisbundnu stafsetningunni lagði hins vegar mótmælendatrúboðinn, herrnhutarinn Samuel Kleinschmidt (1814-1886) árið 1851. Kleinschmidt var hljóðfræðingur sem bjó til grænlenska stafsetningu sem varðveitti form stofna og viðskeyta á líkan hátt í öllum samsetningum. Málið varð þess vegna auðvelt í lestri en stafsetningin erfið vegna þess að það voru engin augljós tengsl á milli hljóðs og ritunar. Framburður viðskeytanna fer nefnilega eftir umhverfinu. Stafsetning Kleinschmidts kom að góðum notum við þýðingu Biblíunnar en til þess varð að þróa grænlenskan orðaforða á fleiri sviðum, t.d. hugtök um samfélagstengsl, tegundir náttúru og siðfræðihugtök sem höfðu ekki verið áður til í grænlensku. Réttritun Kleinschmidts var notuð fram til 1973 þegar tekin var upp ný "hljóðfræðistafsetning" sem auðveldaði ritun grænlensku mikið vegna þess að ritmálið endurspeglar nú að mestu framburðinn. Sjá grein um grænlenska stafrófið. Grænlenskar mállýskur. Í grænlensku eru þrjár meginmállýskur: "avanersuaq" (nyrsti hluti Grænlands), "tunu" (Austur-Grænland) og "kitaa" (Vestur-Grænland). Innan þessara meginsvæða eru allmargar undirmállýskur, sérstaklega á það við um vesturgrænlensku. Þrátt fyrir að mállýskur ystu mállýskusvæðanna séu ekki beinlínis gagnkvæmt skiljanlegar er uppbygging tungumálsins á öllu svæðinu eins. Nokkur enkenni grænlensku. Grænlenska, kalaallisut, er mjög greinilega frábrugðin indóevrópskum málum. Í þeim málum eru yfirleitt einn eða fáir stofnar í hverju orði (eins og t.d. skólabók sem er samsett af stofnunum skóli + bók) en í kalaallisut eru oftast margir stofnar í einu orði. Það hefur í för með sér að orðin eru löng og flókin. Tungumál, þar sem stofnar eru límdir saman, eru kölluð viðskeytamál, (á ensku kallast þau "agglutinating language", sbr. enska orðið glue) og eru þau afar algeng í mörgum tungumálum, öðrum en þeim indóevrópsku. Sérhvert orð getur tekið við næstum óendanlega mörgum myndum ummæla eða orðatiltækja. Viðskeytin geta stigbreyst, sýnt blæbrigði, tíma, staðfest eða hrakið o.s.frv. Það hefur stofn, mörg viðskeyti og persónuendingu. En einnig er hægt að tengja endingar við stofna og láta þar með í ljós ákveðið fall. Fleirtala er mynduð með -t, þannig er inúit fleirtala af inúk sem merkir maður. Inuítar. Inuítar (á inuítamálum svo sem grænlensku er eintalan "Inuk" eða "Inuq" og fleirtalan "Inuít". Inuk þýðir manneskja) eru þeir þjóðflokkar nú oftast nefndir sem áður voru kallaðir eskimóar. Þjóðflokkar þessir búa á svæðinu allt frá Tjukota-héraði í Síberíu til Grænlands. Þrátt fyrir að þessir þjóðflokkar hafa verið dreifðir yfir þetta víðáttumikla svæði hefur menning þeirra og lifnaðarhættir verið nánast þeir sömu langt fram á 20. öld. Þeir hafa lifað á fiskiveiðum og veiðum á land- og sjávardýrum. Inuítar eru samheiti yfir fleiri þjóðflokka, Inuit og Inuvialut í Kanada, Kalaallit á Grænlandi, Inupiaq og Yupik í Alaska og Yupik í Rússlandi (Síberíu). Í raun eru Yupik ekki inuítar þar sem þeir eru ekki afkomendur þess fólks sem kennt er við Thule og tala annað tungumál (þó náskylt), þeir vilja þess vegna heldur kalla sig Yupik eða eskimóa í stað inuíta. Kanadísku inuítarnir búa aðallega í Nunavut (sjálfstjórnarsvæði í Kanada), Nunavik (norðurhluti Quebec) og í Nunatsiavut (í Labrador). Inuvialuit búa aðallega við fitjar Mackenzie fljótsins, á Banks eyju og hluta af Victoríu eyju í Northwest Territories. Inuítar bjuggu áður í Yukon-héraði en nú búa engir þeirra þar. Inupiaq búa á norðurströnd Alaska, en Yupik búa á vesturströnd Alaska og allra austasta hluta Tjukotka héraðs í Rússlandi. Eskimóar. Á Evrópumálum hafa heimskautaþjóðir Norður-Ameríku og Grænlands verið kallaðar Eskimóar frá því að hvítir menn fóru að nema þar land fá 16. öld. Norrænir menn á Grænlandi nefndu þá skrælingja. Orðið eskimói er af óljósum uppruna og eru ýmsar kenningar til um það. Sú algengasta er að uppruni orðsins sé úr Innu eða einhverju öðru indíánamáli og þýði „sá sem étur hrátt kjöt“. Það er þó heldur ósennilegt þar sem allar indíánaþjóðir í nágrenni inuíta borðuðu hrátt kjöt áður fyrr. Engu að síður álíta margir Inuítar orðið eskimói vera niðurlægjandi og vilja heldur láta tala um sig sem inuíta. Það var ein af samþykktumráðstefnu fulltrúa heimskautaþjóða 1977 þegar stofnað var Inuit Circumpolar Conference (ICC), fyrstu samtök heimskautaþjóða. Heimskautalíf að fornu. Af hefð voru Inuítar veiðimenn sem lifðu af því sem heimskautasvæðið gaf af sér og höfðu sjaldan fasta búsetu heldur fluttu allt eftir því hvar veiði var að vænta. Þeir veiddu fisk, fugla, hvali, seli, rostunga, hreindýr, sauðnaut allt eftir því sem hægt var að finna á hverju svæði. Það er lítið um ætilegar jurtir en Inuítar notuðu sér þang og grös ýmiss. Selaveiðimaður á kajaka á Grænlandi 2006 Sjávardýr (að hvölum og rostungum undanteknum) voru iðulega veidd frá einsmanns selskinsbátum sem nefndir voru "qajait" í fleirtölu (eintala "qajaq"). Þessir bátar voru einstaklega auðveldir í stjórn og var meðal annars mjög einfalt að snúa þeim við þó svo að þeir lentu algjörlega á hvolfi. Frá þessari bátagerð Inuíta eru kajakar Evrópumanna komnir. Inuítar notuðu einnig stærri báta kallaðir voru "umiaq", konubátar. Opnir bátar gerðir úr skinni og beinum og voru notaðir til flutninga á fólki, vörum og hundum. sérstök gerð umiaq var notuð við hval og rostungaveiðar. Að vetrarlagi voru selir veiddir við öndunargöt á ísnum sem nefnd voru "aglu". Veiðimenn biðu við vökina þangað til selurinn kom upp til að anda og var þá skutlaður með sérstöku spjóti. Inuítar ferðuðust yfir ís og snjó með hundasleðum (fleirtala "qamutiit", eintala "qamutiq"). Sérstök gerð hunda var notuð til að draga sleðana. Hundarnir voru bundnir í blævængsformi fyrir sleðann (ekki bundnir saman í eina röð) sem varð gerður úr beinum og skinnum. Á suðlægari búsetusvæðum voru meiðar sleðanna stundum gerðir úr viði. Á landi eða í grennd við land voru oftast ýmis landmerki notuðu til að komast rétta leið en Inuítar byggðu einnig vörður "(inukshuk)", sumar allstórar, til að rata rétta leið. Þeir rötuðu einnig ótrúlega vel um hafís og beittu þar þekkingu sinni á stjörnuhimni og ljósaskiptum. Einstaka sinnum söfnuðust stærri hópar Inuíta, sérlega að sumarlagi. En oftast lifðu þeir í fjölskylduhópum, 10 til 30 manna hópar, sem fluttu frá einum stað til annars allt eftir árstíð og veiðihorfum. Oftast höfðu fjölskylduhóparnir vetursetu og byggðu þá hús sem kölluð voru "Qarmaq". Þetta voru hýbýli ekki ósvipuð einfaldari íslenskum torfbæjum, hlaðin af grjóti, mold, grasi, tré og hvalbeinum. Snjóhús ("igloo") voru einungis notuð á ferðalögum og ekki til lengri íveru. Á sumrin bjuggu inuítar oftast í tjöldum þar sem stoðir voru oftast gerðar úr hvalbeinum og sveipað húðum af ýmsum dýrategundum. Til matargerðar notuðu Inuítar aðallega nefnda "Qulliq"-lampa og hituðu með selspiki. Saga Inuíta. Elstu fundir um svo nefnda „Steinaldar-eskimóa“ eru frá um það bil 3000 f.Kr á svæðinu beggja vegna Beringssunds, það er austast í Síberíu og í Alaska. Fyrstu indíánarnir höfðu komið frá Asíu til Ameríku yfir Beringssund um 28000 f.Kr. Um 2500 f.Kr, þegar loftslag var talsvert hlýrra en nú á þessum slóðum, fluttust hópar þessara „Steinaldar-eskimóa“ austur eftir og settust að frá norðurströnd Alaska til Grænlands. Á næstu öldum þróaðist svo nefnd „frum-Dorset menning“ (sem skiptist í „Independence I og II“ og „Saqqaq-menninguna“). Frá 500 f.Kr fram að 1000 e.Kr – fylgdi síðan tími „Dorset-menningarinnar“. Samhliða þróaðist á vesturströnd Alaska frá 2000 f.Kr fram til 1000 e.Kr annað menningasvæði sem nefnd hefur verið „Nýeskimóa-menning“. Um ár 1000 var mikið hlýindatímabil á norðurhveli. Þá tóku forfeður nútíma Inuíta sig upp og fluttust austur eftir norðurströnd Alaska, heimskautasvæðum Kanada og allt til Grænlands. Þetta menningarskeið hefur verið nefnt eftir Thule á Grænlandi þar sem fyrstu fundir um það voru staðfestir af fornleifafræðingum. Alls staðar þar sem Thule-inuítar settust að hurfu fyrirrennarar þeirra, Dorset-fólkið, af sjónarsviðinu. Allt bendir til þess að Dorset-fólkið hafi verið mun verr í stakk búið en Thule-inuítarnir. Þá fyrrnefndu skorti þekkingu á bátagerð, boganotkun og héldu ekki heldur hunda. Thule-inuítar höfðu þess vegna tæknilega yfirburði, þeir voru meðal annars slungnir í að veiða stórhveli með skutlum frá umiaq-bátum. Hins vegar er með öllu ókunnugt um hvernig samskiptum Thule-inuíta og Dorset-fólks var háttað, hvort þessir hópar sameinuðust eða bárust á banaspjótum. Matseld Inuítakonu í Alaska, 1916) Inuítar lifðu í algjörri heimskautamenningu sem gerið þá mjög hæfa til að lifa við þær aðstæður sem þar var upp á að bjóða. Hins vegar höfðu þeir litla sem enga möguleika að aðlagast suðlægari loftslagi enda lifðu þeir eingöngu norðan við skógarmörk. Samskipti þeirra við indíána sunnan þessara marka voru oftast fjandsamleg en stöku sinnum virðist skiptiverslun hafa átt sér stað milli indíána og inuíta. Um á 13. og 14 öld námu inuítar land á norður Grænlandi og settust smám saman að eftir allri strandlengjunni. Hvenær norrænir menn hittu þá fyrir er óvíst en enginn efi er að þeir skrælingjar sem Ívar Bárðarson talar um að hafi sest að í Vestribyggð um miðja 14. öld voru Thule-inuítar. Um 1500 voru þeir einir eftir í landinu. Landnám Evrópumanna og önnur samskipti við þá í Kanada, Alaska, Síberíu og á Grænlandi frá 16. öld og fram á vora daga hafa gjörbreytt lifnaðarháttum inuíta. Flestir þeirra hafa yfirgefið forna lifnaðarhætti og eru nú hluti af nútímasamfélagi. Enn eru þó veiðar, bæði á sel, hreindýrum og fiski mikilvægar og á mörgum stöðum mikilvægustu atvinnuvegar inuítasamfélaganna. Veiðar á hval og rostungum eru nánast aflagðar enda lítið eftir af þeim (nefna má að á vesturströnd Grænlands veiddust árlega um 20 000 rostungar á fyrstu áratugum 20. aldar en kvótaheimild er til veiða á 67 rostungum á sama svæði fyrir 2007). Nútíma Inuítar. Selveiðimaður hjá Cape Dorset (1999) Eftir að um aldir verið útkjálkaþjóðir sem lítið hafa haft um eigin mál að segja búa nú stór hluti Inuíta í sjálfstjórnarsamfélögum. Er þar annars vegar Grænland með um 50 000 íbúa, sem fékk heimastjórn 1979 og hins vegar Nunavut með um 30 000 íbúum í norðaustur Kanada sem fékk heimastjórn 1999. Samísk tungumál. Samíska er samheiti á þeim tungumálum sem töluð eru af sömum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Samískt mál var áður kallað lappneska en það þykir sömum niðurlægjandi hugtak á sama hátt og hugtakið „lappi“. Samísku tungumálunum skipt í þrjú málsvæði: "austursamísku", "miðsamísku" og "suðursamísku". Það er eftirtektarvert að markalínur samísks málsvæðis liggja aldrei samhliða landamærum. Austursamísku málunum tilheyra "enaresamíska", sem er töluð í Finnlandi umhverfis vatnið Enare träsk, og "skoltsamíska" sem töluð er bæði í Finnlandi og Rússlandi. Önnur mál, sem töluð eru á Kólaskaga, eru "kildinsamíska", "akkalasamíska" og "tersamíska". Miðsamísku má skipta upp í "norðursamísku" og "lulesamísku". Norðursamísku tilheyra "sjávarsamíska", sem er töluð á strandsvæðum Noregs, "finnmerkursamíska", sem er töluð í Finnmörku í Noregi (m.a. Kautokeino og Karasjokk) og nærliggjandi svæðum í Finnlandi (m.a. Utsjoki) og "tornesamíska" sem töluð er fyrir norðan Gällivare í Svíþjóð og á nærliggjandi svæðum í Finnlandi og Noregi. Önnur miðsamísk mál eru "lulesamíska", sem töluð er í Jokkmokk í Svíþjóð og við Tysfjord í Noregi, og "arjeplogssamíska" sem er töluð á Arjeplogssvæðinu. Til suðursamísku málanna heyra "umesamíska", töluð í Vesturbotni, og hin eiginlega "suðursamíska" sem er töluð í Suður-Vesturbotni og á Jämtlandi í Svíþjóð. Norðursamísku tala 16-18.000 manns í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, þar af u.þ.b. 9-10.000 í Noregi, 5-6.000 í Svíþjóð og u.þ.b. 2.000 í Finnlandi. Næstum því 85-90% þeirra sem tala samísku tala norðursamísku. Málfræðiágrip. Samískan er afar fjölbreytt mál. Sagnirnar beygjast eftir frumlaginu og fá þar með níu mismunandi myndir í nútíð vegna þess að í samísku er ekki einungis eintala og fleirtala heldur einnig tvítala. Í samísku er einstakt fyrirbrigði, svokölluð víxl í lengd og gildi hljóðs, það þýðir að samhljóðar í kjarna orða breytast við beygingu annaðhvort að lengd eða að eiginleika t.d. "loddi" (fugl) – "lotti" (fuglsins). Mörg dæmi eru til um samhljóðavíxl sem skipta máli við beygingar á sögnum og nafnorðum. Í samísku fá fallorð, þ.e. nafnorð, lýsingarorð, fornöfn og töluorð, mjög oft mismunandi beygingarmyndir í stað forsetninga, t.d. "váris" (á fjöllum) sem er beygingarmynd (staðarfall) af "várri" (fjöll). Í samísku eru sjö föll. Í norðursamísku hafa eignarfalls- og þolfallsmyndirnar fallið saman. Enginn greinir er í samísku, hvorki ákveðinn né óákveðinn og t.d. getur "sápmi" þýtt „sami“, „saminn“ eða „einn sami“ en þýðingin fer eftir samhenginu. Ritmál. Fyrsta samíska bókin var prentuð árið 1619 en það var stafrófskver og messubók á suðursamísku. Flestar bækur, sem gefnar voru út á samísku á nítjándu öld, voru þýðingar á biblíunni eða öðrum kirkjubókum. Á áttunda áratugnum þróaði Samíska málnefndin sameiginlega stafsetningu fyrir norðursamísku í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Hún var viðurkennd af Norrænu Samaráðstefnunni og hefur frá því árið 1979 verið notuð í löndunum þremur. Hreppur. Hreppur er, á Íslandi, eining sveitarfélags sem hefur ekkert eða lítið þéttbýli heldur búa íbúarnir flestir í dreifbýli. Hreppar eru mjög gömul stjórnsýslueining á Íslandi, sennilega frá því fyrir kristnitöku árið 1000, en þeir höfðu t.d. fátækraframfærslu á sínu verksviði öfugt við nágrannalöndin þar sem slík verkefni voru á könnu sóknanna. Hreppsnafnið er á undanhaldi á Íslandi, einkum vegna þess að við sameiningu sveitarfélaga koma oft þéttbýli inn í hið nýja sveitarfélag. Þéttbýli. Þéttbýli er svæði þar sem að mannvirki og búsetustaðir manna liggja þétt saman miðað við nálæg svæði. Þéttbýlisstaðir geta verið þorp, bæir eða borgir. Þéttbýlisstaðir hafa verið til í árþúsundir en þéttbýlisvæðing hófst fyrir alvöru í iðnbyltingunni á Vesturlöndum á 19. öld og er nú í gangi í þróunarlöndunum en henni fylgja miklar efnahagslegar, umhverfislegar og félagslegar breytingar. Mismunandi skilgreiningar á þéttbýli eru notaðar á milli landa, gjarnan er miðað við fjölda íbúa á flatarmálseiningu t.d. 1000 íbúa á fermílu í Bandaríkjunum eða 200 íbúa á ferkílómetra í Ástralíu. Stundum er gert að skilyrði að fjarlægð á milli húsa fari að jafnaði ekki yfir ákveðin mörk, t.d. 200 metra. Norrænu hagstofurnar nota sameiginlega skilgreiningu þar sem að mörk þéttbýlis og dreifbýlis miðast við byggðakjarna með 200 íbúum. Hagstofa Íslands heldur einnig utan um tölur um íbúafjölda í kjörnum sem að hafa yfir 50 íbúa, hafa áður haft yfir 50 íbúa eða stefna í það að hafa fleiri en 50 íbúa. Stafróf. Stafróf er ákveðin röð skrifleturstákna, bókstafa, þar sem hvert tákn stendur fyrir eitt hljóð. Á ensku er stafróf kallað "alphabet" (á dönsku, norsku og sænsku "alfabet") og er nafnið dregið af "alfa" og "beta", fyrstu tveimur stöfum gríska stafrófsins, sem eiga rætur að rekja til stafa fönikíska stafrófsins, "aleph" og "beth". Ekki nota öll ritmál stafróf; í kínversku eru til dæmis svonefnd lesmerki notuð þar sem hvert tákn svarar til tiltekins orðs eða hugtaks. Íslenska er skrifuð með latneska stafrófinu, að viðbættum nokkrum bókstöfum. Í upphafi þess sem síðar varð stafróf voru táknmyndir yfirleitt notaðar og orðaforðinn var takmarkaður. Táknin stóðu fyrir tiltölulega stórar einingar, svo sem heil orð. Smám saman uppgötvaði fólk að hagkvæmara væri að tákna einstök atkvæði eða hljóð; með því móti næðu miklu færri rittákn yfir öll orð tungumálsins. Fyrsti bókstafurinn í fönikíska stafrófinu var einfölduð mynd af uxahöfði, þ.e.a.s. A á hvolfi. "Höfðinu" var síðan snúið af Grikkjum. Annar bókstafurinn var mynd af húsi sem seinna var snúið í 90 gráður og varð að B. Stafinn E má svo rekja til þess að mynd af manni þróaðist á svipaðan hátt. Rúnir minna mikið á latneska og gríska bókstafagerð og hafa sennilega sinn uppruna í samskiptum við menningarsvæði Miðjarðarhafsins. Latneskt stafróf. a>in, elsta dæmi af latneska stafrófinu. Latneskt stafróf, eða latnesk stafgerð sem einnig er stundum nefnt rómverskt stafróf, er algengasta stafróf sem notað er í heiminum. Í því eru 26 meginbókstafir, en notast er við ýmsa viðbótarstafi í flestum málum í Evrópu, Norður- Mið- og Suður-Ameríku, Afríku sunnan Sahara, og í Eyjaálfu. A B C D E F G H I K L M N O P Q R S T V X Y Z ā, bē, cē, dē, ē, ef, gē, hā, ī, kā, el, em, en, ō, pē, qū, er, es, tē, ū, ex, ī Graeca, zēta Enn seinna á miðöldum var bókstafurinn "W" tekinn upp til að tákna hljóð frá germönskum tungumálum (upprunalega var W samansett úr tveimur "V") sem voru ekki til í latínu. Ásmundarsafn. Ásmundarsafn er helgað verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982). Í safninu er árlega sett upp sýning á verkum myndhöggvarans sem ætlað er að draga fram sérstakt sjónarhorn á listsköpun hans. Ásmundarsafn er til húsa í byggingu sem listamaðurinn hannaði að mestu sjálfur og byggði á árunum 1942-1950. Formhugmyndir hússins eru sóttar til landa Miðjarðarhafsins, í kúluhús Araba og píramída Egyptalands. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg húsið og verk sín eftir sinn dag og var þar stofnað safn helgað minningu hans árið 1983. Tvíkynjungur. Tvíkynjungur er í dýrafræði og grasafræði lífvera af tegund sem hefur karl og kvenkynfæri einhvern tímann á lífsleið sinni (fræblað og frævill meðal plantna). Meðal dýra eru flestir tvíkynjungar hryggleysingjar þó nokrrar tegundir hryggdýra séu það, flestar fiskitegundir. Liðdýr. Liðdýr (fræðiheiti: "Arthropoda") eru stærsta fylking dýra. Til liðdýra teljast meðal annars skordýr, krabbadýr, áttfætlur og svipuð dýr sem einkennast af því að vera með liðskiptan líkama og ytri stoðgrind úr kítíni. Áttfætlur. Áttfætlur (fræðiheiti: "Arachnida") eru flokkur liðdýra í undirfylkingu klóskera. Fræðheiti flokksins er dregið af gríska orðinu yfir könguló; αραχνη ("arakne"), en flokkurinn inniheldur auk köngulóa meðal annars sporðdreka og mítla. Lindýr. Lindýr (fræðiheiti: "Mollusca") eru stór og fjölbreytt fylking dýra sem inniheldur ólíkar tegundir eins og samlokur, snigla, smokkfiska og kolkrabba. Lindýr eru með mjúkan líkama og kalkskel. Þau eru með fót, skráptungu (radula) og tálkn. Skaftholtsréttir. Skaftholtsréttir eru fjárréttir Gnúpverja í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Réttirnar, þ.e. réttastæðið, er talið vera það elsta á Íslandi og er talið vera frá 12. öld. Réttirnar eru hlaðnar úr Þjórsárhraungrýti. Þær fóru illa í Suðurlandsskjálftunum sumarið 2000 og var almenningurinn endurhlaðinn í kjölfarið og steinsteyptar umgjarðir dilkadyra endursteyptar. Í nóvember 2005 var stofnað Réttavinafélag Skafholtsrétta og hefur félagið nú (júlí 2006) endurhlaðið nokkra veggi og smíðað nýjar grindur, auk þess sem bílaplanið var sléttað og lagað. Réttarhald. Fram til ársins 1996 var réttað á fimmtudegi, en var þá flutt og er nú réttað á föstudegi í 22. viku sumars. Fram til haustsins 2007 var austursafn Skeiða- og Flóamanna rekið í almenning um 10-leytið að morgni og réttuðu Gnúpverjar því í allt að tvo tíma. Þessu var hins vegar breytt vegna smithættu riðu, sem hafði greinst í Flóanum árið áður. Um 2.500 fjár er í safni Gnúpverja og er stærsta búið, Eystra-Geldingaholt, með um 600 fjár á fjalli. Reykjaréttir. Reykjaréttir (eða Skeiðaréttir) eru fjárréttir Flóa- og Skeiðamanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á Íslandi. Réttirnar eru frá árinu 1881 og eru hlaðnar. Réttardagur er laugardagur, daginn eftir Skaftholtsréttir. Drekar. Drekar (fræðiheiti: "Pseudoscorpionida") eru ættbálkur liðdýra af áttfætluflokki. Drekar líkjast sporðdrekum nokkuð í útliti en flokkast ekki sem slíkir, enda hafa þeir hafa ekki hala eins og sporðdrekarnir. Drekar eru 2-8 mm langir, líkami þeirra samanstendur af búk sem skiptist í perulaga afturbol og höfuðbol, 8 fótum og 2 klóskerum. Grænukorn. Grænukorn eru frumulíffæri notuð til ljóstillífunar. Þau finnast í plöntufrumum og heilkjarnaþörungum. Himna er utan um grænukorn og kallst hún grænukornahimna. Kökustríðið. Kökustríðið var milliríkjadeila milli Frakklands og Mexíkó árin 1838 og 1839 sem leiddi til innrásar Frakka í Mexíkó. Forsaga. 1828 ríkti borgarastríð í Mexíkó þar sem fylgismenn Manuel Gómez Pedraza þáverandi forseta Mexíkó, börðust við fylgismenn þeirra Lorenzo de Zavala, sem Pedraza hafði rekið úr embætti sem fylkisstjóri Mexíkófylkis, og Antonio López de Santa Anna hershöfðingja. Zavala og Santa Anna höfðu sigur og tilnefndu Vicente Guerrero sem forseta Mexíkó. Átökin ollu miklu eignatjóni sem stjórnvöld vildu ekki bæta. Erlendir ríkisborgarar beindu þá kvörtunum sínum til ríkisstjórna sinna sem gerðu kröfur á hendur Mexíkóstjórn. Stjórnvöld Mexíkó hunsuðu allar kröfur um fjárhagslegar bætur. Kökustríðið. 1838 lagði franski bakarinn Remontel fram kröfu um skaðabætur vegna skemmda sem búð hans í Tacubaya nálægt Mexíkóborg hafði orðið fyrir í þessum átökum. Mexíkóstjórn sinnti sem fyrr engu kröfum um bætur. Mexíkó hafði þegar svikist um greiðslur á frönskum lánum og Frakklandsstjórn ákvað að fara í hart. Krafa var gerð upp á 600.000 pesóa bætur sem var hunsuð. Floti var því sendur til stranda Mexíkó þar sem hann átti að framfylgja hafnbanni á mexíkóskar hafnir og leggja undir sig hafnarborgina Veracruz. 28. nóvember 1838 höfðu Frakkar náð yfirhöndinni við Veracruz og sigrast á virkinu San Juan de Ulúa. Mestallur floti Mexíkó var í Veracruz og féll í hendur Frakka. Eftir milligöngu Breta náðust sættir og Mexíkóstjórn lofaði að greiða pesóana 600.000. 9. mars 1839 drógu Frakkar lið sitt frá Mexíkó. Náttúruleg höfn. Náttúruleg höfn er landslagsþáttur sem hægt er að nota sem höfn, náttúrulegar hafnir hafa löngum verið mikilvægar bæði efnahags- og hernaðarlega. Sumar stærstu borgir heims eru staðsettar við náttúrulegar hafnir. Fylki. Fylki er stjórnsýslueining innan ríkis. Hugtakið er í íslensku er notað yfir tvær mjög ólíkar stjórskipulegar einingar. Hella (bær). Hella er þéttbýlisstaður í Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu, 94 kílómetra frá Reykjavík. Kauptúnið stendur á eystri bakka Ytri-Rangár, við brúna þar sem Suðurlandsvegur liggur yfir ána. Íbúar Hellu voru 785 þann 1. janúar 2010. Hella fór að byggjast upp árið 1927, þegar Þorsteinn Björnsson reisti verslunarhús við brúna yfir Rangá, í landi jarðarinnar Gaddstaða. Þessum frumbyggja Hellu var reistur minnisvarði á árbakkanum á 50 ára byggðarafmæli kauptúnsins árið 1977. Hann rak þó ekki verslun sína nema í 8 ár því að 1935 keypti Kaupfélagið Þór verslunina af honum og byggði síðan upp ýmsa þjónustustarfsemi og iðnað á Hellu. Þar er nú auk verslana banki, pósthús, hótel, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, heilsugæslustöð, sláturhús, bílaverkstæði og ýmis þjónustufyrirtæki. Á Gaddstaðaflötum við Hellu er skeiðvöllur og þar hafa Landsmót hestamanna verið haldin. Sog (á). Sogið er 19 kílómetra löng lindá sem fellur úr Þingvallavatni. Það er vatnsmesta lindá landsins með meðalrennsli upp á 110 m³/s. Mikil lax- og silungagengd er í ánni, en hún minnkaði þó til muna þegar Ljósafossstöð, fyrsta af þremur virkjunum árinnar, var byggð. Hinar virkjanirnar eru Steingrímsstöð og Írafossstöð. Sogið mætir Hvítá og myndar Ölfusá við Öndverðarnes. Í Soginu eru tvö stöðuvötn, Álftavatn sem er grunnt og Úlfljótsvatn sem er fyrir neðan Dráttarhlíð sem skilur það frá Þingvallavatni. Álftavatn er eina almennilega vaðið á ánni þangað til hún var brúuð við Alviðru árið 1905. Ingólfsfjall. Ingólfsfjall er 551 m hátt móbergsfjall í Ölfusi. Fjallið er bratt á þrjá vegu, í vestur, austur og suður. Fjallið sést vel frá Selfossi og er í raun „bæjarfjall“ þess. Fjallið er nefnt eftir Ingólfi Arnarsyni Ingólfur var talinn fyrstur til að nema land á íslandi og hafði vetursetu undir Ingólfsfjalli segir í fornsögum. Inghóll, og reyndar lög neðar í fjallinu, eru úr grágrýti. Inghóll var til forna viðmið sjófarenda og gæti nafn fjallsinns upphaflega verið dregið að því.(Inghólsfjall) Hvítá (Árnessýslu). Hvítá í Árnessýslu er jökulá sem á upptök sín í Hvítárvatni, skammt fyrir ofan Bláfell, undir Langjökli. Hvítá er þriðja lengsta á landsins, ef lengd Ölfusár er lögð við hana samtals 185 km. Meðalrennsli Hvítár við Gullfoss, einn frægasta foss landsins, er 100 m³/s. en í flóðum getur vatnsmagnið allt að tuttugufaldast. Við Öndverðarnes rennur áin saman við Sogið og myndar Ölfusá. Brýr eru á Hvítá við Brúarhlöð, Laugarás og norðan Bláfells á Kili. Á söndunum fyrir austan Bláfell fellur Jökulfall (Jökulkvísl) í Hvítá, en það á upptök undir Hofsjökli og í Kerlingarfjöllum. Áður en Hvítá steypist fram af hálendisbrúninni í Gullfoss, bætast enn nokkrar ár í Hvítá, bæði að austan og utan. Ákveðið hefur að virkja hana ekki fyrir vatnsafli. Ferðaþjónusta. Á Hvítá er hægt að fara í flúðasiglingar og eru einnig seld veiðileyfi í ána. Eystra-Geldingaholt. Eystra-Geldingaholt er bær í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Jörðin er landmikil og þurrlend að mestu og hentar því vel til sauðfjárræktar. Um 300 fjár eru á fóðrum að meðaltali og mjólkaðar um 21 kýr. Einnig eru hross á bænum. Sama ættin hefur setið jörðina frá árinu 1844. Til Eystra-Geldingaholts heyrir einnig eyðibýlið Hamrar, og hefur það verið nytjað síðustu 100 árin. Þess má geta að Flagbjarnarholt sést frá Eystra-Geldingaholti. Húsakostur. Íbúðarhúsið á bænum er byggt 1913 og stendur enn að mestu leyti. Það er tvílyft tréhús með stórri baðstofu, eldhúsi og tveimur herbergjum. Á loftinu er eitt herbergi og stórt rými og moldargóf í kjallara. Árið 1950 var byggt við húsið og sú viðbygging síðan stækkuð til helminga árið 1974. Árið 2004 var enn nýrra íbúðarhús byggt við vesturgafl þess gamla og býr þar prestsfjölskyldan sem áður bjó í prestbústaðnum Tröð. Árið 1951 var byggt nýtt fjós vestan við bæinn, og var það í framhaldi af bæjarhúsunum. Árið 1994 var síðan nýtt fjós tekið í notkun og rúmar það um 25 kýr og 20 geldneyti. Í því er mjaltabás en í því gamla var fyrst mjólkað í vélfötur en síðar kom rörmjaltakerfi meðal annars fyrir tilstilli Guðna Ágústssonar, sem þá var mjólkureftirlitsmaður. Gamla fjósið var rifið 2003 til að rýma fyrir nýjasta íbúðarhúsinu. Árið 1967 var byggt fjárhús nokkurn spöl frá bænum. Rúmaði það 200 fjár, en eftir að hlaðan var innréttuð haustið 2000 rúmar það nær allt féð, eða 300. Húsið er vélmokað með grunnum kjöllurum. Áður voru notuð 5 ólík beitarhús sem liggja víðsvegar um jörðina og sjást tóttir allra enn, en enn er fé í einu þeirra. Árið 2000 var Hamrafjárhúsið lagt niður, en nýtist þó enn á vorin við mörkun lamba auk þess sem það veitir skjól á haustin áður en féð hefur verið tekið á hús. Búfjárrækt. Alla tíð frá árinu 1968 (eða frá þeim degi sem sauðfjársæðingar hófust aftur hér á landi) hefur sauðfjársæðing verið notuð í Eystra-Geldingaholti. Með þessu hafa fengist ágætis kynbætur og nýtt blóð fengist inn í stofninn. Við þetta hefur frjósemi og fallþungi aukist og einkunnir fyrir gerð hækkað og fitu lækkað. Eftir fjárskiptin 1952 var tekin nýr fjárstofn norðan úr Kelduhverfi, meðal annars frá Víkingavatni, Undirvegg, Tóvegg og Grásíðu. Síðan hefur sami stofn verið á bænum, með tilkomu nýrra erfðaefna í gegnum sauðfjársæðingar. Frægasta hross sem komið hefur frá Geldhyltingum er trúlega Gulltoppur frá Eystra-Geldingaholti. Hann var aðalreiðhestur Jóns heitins Ólafssonar í Geldingaholti og var hann fermingargjöf Jóns. Tamdi Jón hann sjálfur og keppti á á kappreiðum um sveitirnar, gjarnan á Murneyrum. Gulltoppur hlaut Hreppasvipuna alls 6 sinnum á árunum 1944 til 1956. Transylvanía. Transylvanía (eða Sjöborgaland) (ungverska: "Erdély"; rúmenska: "Transilvania" eða "Ardeal"; þýska: "Siebenbürgen" eða "Überwald" (über Walt); latína "Transsilvania" eða "Transsylvania"; Saxneska "Siweberjen"; tyrkneska "Erdelistan") er landsvæði í norðvestur- og miðhluta Rúmeníu, sem í gegnum tíðina hefur tilheyrt Ungverjalandi og verið hluti af veldi Habsborgara. Til 1711 var Transylvanía sjálfstætt furstadæmi. Landafræði. Svæðið sem í dag nefnist Transylvanía er rúmenskt hérað sem skiptist í sextán sýslur og nær yfir 103.600 km² svæði í mið- og norðvesturhluta Rúmeníu. Transylvanía er þannig meira en helmingur Rúmeníu. Sýslurnar eru Alba, Arad, Bihor, Bistrita-Nasaud, Brasov, Caras-Severin, Cluj, Covasna, Harghita, Hunedoara, Maramures, Mures, Salaj, Satu Mare, Sibiu og Timis. Af Transylvaníuhásléttunni renna árnar Mures, Somes, Cris og Olt auk annarra þveráa Dónár. Cluj-Napoca (318.027 íbúar) er stærsta borgin, en aðrir stórir þéttbýliskjarnar eru Timisoara (317.651 íbúar), Brasov (283.901 íbúar), Oradea (206.527 íbúar), Arad (172.824 íbúar), Sibiu (155.045 íbúar), Targu Mures (149.577 íbúar), Baia Mare (137.976 íbúar) og Satu Mare (115.630 íbúar). Efnahagslíf. Í Transylvaníu er að finna mikið af náttúrulegum jarðefnum, svo sem brúnkolum, járni, blýi, mangani, gulli, kopar, náttúrugasi, salti og brennisteini. Stáliðnaður, efnaiðnaður og vefnaðarframleiðsla eru áberandi, en landbúnaður; búfjárrækt, jarðrækt, vínframleiðsla og ávaxtarækt eru líka mikilvægar atvinnugreinar. Timbur er líka mikilvæg auðlind. Transylvanía stendur undir 35% af vergri landsframleiðslu Rúmeníu og landsframleiðsla á mann er þar um 11.500 dollarar sem er 10% yfir landsmeðaltali. Íbúar. Samkvæmt manntali frá 2002 búa 7.221.733 manns í Transylvaníu þar sem mikill meirihluti er Rúmenar að uppruna. Að auki búa þar stór þjóðarbrot af ungverskum uppruna (1.415.718 íbúar) og sígaunar auk fólks af þýskum uppruna. Orðsifjar. "Erdely" á ungversku þýðir „handan skógar“, sem á latnesku er "ultra silvam". Fyrst er minnst á Transylvaníu í latnesku skjali frá 1075 sem "ultra silvam" („handan skógar“) sem síðar breyttist í "trans silvam" sem þýðir það sama. Rúmenska heitið er bara aðlögun af ungverska (fyrst er minnst í skjali frá 1432). Þýska nafnið Siebenbürgen merkir Sjöborgaland eftir borgum Transylvaníusaxa í héraðinu. Kítti. Kítti er límkennt plastefni sem hefur svipaða áferð og leir eða deig notað í byggingarvinnu til að þétta rifur, t.d. til að vatnsþétta sturtubotna. Kítti er oftast dreift með kíttispaða eða kíttisprautu. Skógafoss. Skógafoss er 60 m hár og 25 m breiður foss í Skógá við Skóga í Rangárþingi eystra á Íslandi. Fossinn var friðlýstur árið 1987 og telst náttúruvætti. Sögusagnir segja að í helli bak við fossinn hafi landnámsmaðurinn Þrasi Þórólfsson kastað gullkistu sinni. Prímatar. Prímatar eða fremdardýr (fræðiheiti: "Primates") eru þau dýr sem tilheyra samnefndum ættbálki, þ.e.a.s. allir lemúrar, apakettir, apar og menn. Orðið prímati er komið af latneska orðinu „primas“ sem þýðir m.a. „fremd“ og þannig er orðið fremdardýr til komið. Seljalandsfoss. Seljalandsfoss er 60 m hár foss í Seljalandsá í Rangárþingi eystra. Fossinn er þekkt ljósmyndamótíf, en hann breyttist talsvert í flóði árið 1976 og kom þá skarð í bjargbrúnina þannig að fossinn breiðir ekki eins mikið úr sér eins og áður. Seljalandsfoss var áður fyrr nefndur sem dæmi um brimrofsfoss. Slíkan foss mætti einnig nefna "brimklifsfoss". Dynjandi. Kort sem sýnir staðsetningu fossins Dynjandi (eða Fjallfoss) er 100 m hár foss í Arnarfirði á Vestfjörðum Íslands. Fossinn kemur ofan af Dynjandisheiði og fyrir neðan hann er einnig eyðibýli sem heitir Dynjandi. Á bjargbrún er fossinn 30 metra breiður en 60 metra breiður neðst. Fleiri fossar eru í fossaröðinni. Fossinn var friðlýstur árið 1980. Meðal sumarrennsli Dynjandisár er 2 til 8 rúmmetrar en meðal vetrarrennsli er 1 til 4 rúmmetrar vatns á sekúndu. Upptök sín á áin í smávötnum á Dynjandisheiði. Willard Van Orman Quine. Willard Van Orman Quine (25. júní 1908 – 25. desember 2000) var einn áhrifamesti heimspekingur og rökfræðingur Bandaríkjanna á 20. öld. Quine var stundum nefndur „heimspekingur meðal heimspekinga“. Hann tilheyrði þeirri hefð innan heimspekinnar sem nefnist rökgreiningarheimspeki, en hélt því þó einnig fram að heimspeki væri ekki hugtakagreining. Hann var Edgar Peirce prófessor í heimspeki við Harvard University frá árinu 1956 til æviloka árið 2000. Quine er meðal áhrifamestu heimspekinga á síðari hluta 20. aldar og er meðal þekktustu heimspekinga í sögu bandarískrar heimspeki. Æviágrip. Quine ólst upp í Akron í Ohio fylki í Bandaríkjunum. Hann hlaut B.A.-gráðu frá Oberlin College og doktorsgráðu frá Harvard árið 1932. Á Harvard nam hann rökfræði undir leiðsögn Alfreds North Whitehead. Að námi loknu ferðaðist Quine um Evrópu á rausnarlegum rannsóknarstyrk. Hann kynntist pólskum rökfræðingum og heimspekingum Vínarhringsins sem höfðu mikil áhrif á hann. Munaði þar mestu um áhrif Rudolfs Carnap. Frá 1942 til 1946 starfaði Quine í leyniþjónustu bandaríska flotans. Að stríðinu loknu varð Quine kennari í heimspeki við Harvard. Margir frægir heimspekingar námu hjá Quine, meðal annarra Donald Davidson, Daniel Dennett, Dagfinn Föllesdal, Gilbert Harman, David Lewis og Charles Parsons. Tenglar. Quine, Willard Van Orman Quine, Willard Van Orman Rómaveldi. Rómaveldi eða Rómverska heimsveldið var ríki og menningarsvæði í kringum Miðjarðarhaf og í Vestur-Evrópu sem var stjórnað frá Rómarborg. Samkvæmt fornri trú var Róm stofnuð árið 753 f.Kr. Um miðja 4. öld f.Kr. hófst útþensla ríkisins sem varð um síðir að heimsveldi. Rómaveldi stóð öldum saman en venja er að miða endalok Rómaveldis við árið 476 e.Kr. (þegar síðasta keisaranum í Róm var steypt af stóli). Eftir það lifði þó austrómverska keisaradæmið, sem klofið hafði verið frá því vestrómverska árið 364 og var stjórnað frá Konstantínópel. Sögu rómverska heimsveldisins má skipta í þrjú tímabil: Rómverska konungdæmið, rómverska lýðveldið og rómverska keisaradæmið. Það var ekki fyrr en seint á lýðveldistímanum og á tíma keisaradæmisins sem yfirráðarsvæði Rómar fór að færast út fyrir Appennínaskagann. Rómversk menning hafði mikla sögulega endurómum á Vesturlöndum í þróun á sviði laga, stríðs, tækni, bókmennta, listar og byggingarlistar. Goðsögulegt upphaf Rómar. Sú saga var sögð til forna að Róm hefði verið stofnuð þann 21. apríl árið 753 f.Kr. af tvíburunum Rómúlusi og Remusi, sem voru afkomendur Eneasar frá Tróju. Er afi þeirra var konungur í Latíum hrifsaði bróðir hans af honum völdin en dóttir konungsins hafði þá alið tvo syni, Rómúlus og Remus. Afabróðir þeirra, sem var nú við völd, óttaðist að drengirnir myndu ná völdunum af sér aftur og ákvað því að þeim skyldi drekkt í ánni Tíber. Drengirnir drukknuðu þó ekki heldur flutu þeir að árbakka þar sem úlfynja nokkur fann þá og bjargaði þeim. Hún nærði drengina en er þeir komust á aldur sneru þeir aftur til að ná völdunum af ólögmætum kóngi. Rómúlus drap síðar bróður sinni er þeir deildu um hvor þeirra ætti að hljóta konungstign. Borgina skorti konur en sagan hermir íbúarnir hafi brugðið á það ráð að bjóða nágrönnum sínum Sabínum til veislu en hafi svo stolið ungmeyjum þeirra. Þannig hafi Rómverjar og Sabínar að endingu orðið að einni þjóð. Um goðsögulegt upphaf Rómar má lesa hjá ýmsum fornum höfundum, meðal annars hjá Lívíusi. Sagan um Eneas frá Tróju, forföður Rómúlusar og Remusar, sem kom til Latíum og stofnaði þar konungsríki er sennilega frægust úr "Eneasarkviðu" Virgils. Rómverska konungdæmið. Róm óx út frá byggð umhverfis vað yfir ána Tíber, þar sem mættust verslunarleiðir. Fornleifafræðilegar rannsóknir benda til þess að Róm hafi sennilega verið stofnuð einhvern tímann um á 9. eða um miðja 8. öld f.Kr. af fólki frá tveimur ítölskum þjóðflokkum, Latínum og Sabínum, á Palatín-, Kapítól- og Quirinalhæðum. Etrúrar, sem höfðu áður numið land fyrir norðan Latíum, virðast hafa náð pólitískum völdum á svæðinu seint á 7. öld f.Kr. og mynduðu ráðandi yfirstétt. Etrúrar virðast aftur á móti hafa glatað völdum sínum á þessu svæði seint á 6. öld f.Kr. og Latínar og Sabínar, sem stofnuðu borgina, virðast þá hafa endurskilgreint stjórnkerfi borgarinnar með því að stofna lýðveldi, þar sem miklu meiri hömlur voru á getu valdhafanna til að beita valdi sínu. Rómverska lýðveldið. Rómverska lýðveldið var stofnað um 509 f.Kr., samkvæmt því sem seinni tíma höfundar á borð við Lívíus segja, eftir að Tarquinius drambláti, síðasti konungur Rómar, hafði verið hrakinn frá völdum. Rómverjar ákváðu þá að koma á kerfi þar sem valdhafarnir voru kjörnir í kosningum. Enn fremur voru ýmsar ráðgjafasamkundur og þing stofnaðar. Mikilvægustu embættismennirnir voru ræðismenn („konsúlar“), sem voru tveir og kjörnir til eins árs í senn. Þeir fóru með framkvæmdavaldið í formi "imperium" eða herstjórnar. Ræðismennirnir kepptu við öldungaráðið, sem var upphaflega ráðgjafasamkunda aðalsins, eða „patríseia“, en óx bæði að stærð og völdum er fram liðu stundir. Meðal annarra embættismanna lýðveldisins má nefna dómara ("praetor"), edíla og gjaldkera ("quaestor"). Í upphafi gátu einungis aðalsmenn gegnt embættum en seinna gat almúgafólk, eða plebeiar, einnig gegnt embættum. Rómverjar náðu hægt og bítandi völdum yfir öllum öðrum þjóðum á Ítalíuskaganum, þar á meðal Etrúrum. Síðasta hindrunin í vegi fyrir algerum yfirráðum Rómverja á Ítalíu var gríska nýlendan Tarentum, sem leitaði aðstoðar hjá Pyrrhusi konungi frá Epírus árið 282 f.Kr., en mótstaðan var til einskis. Rómverjar tryggðu yfirráð sín með því að stofna eigin nýlendur á mikilvægum stöðum og héldu stöðugri stjórn sinni á svæðinu. Á síðari hluta 3. aldar f.Kr. kom til átaka milli Rómar og Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu af þremur. Í kjölfarið náði Róm tryggri fótfestu utan Ítalíuskagans í fyrsta sinn, fyrst á Sikiley og Spáni en seinna víða annars staðar. Róm breyttist í stórveldi. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. urðu Rómverjar valdamesta þjóðin við Miðjarðarhafið. Yfirráð yfir fjarlægum þjóðum leiddi til deilna í Róm. Öldungaráðsmenn urðu ríkir á kostnað skattlandanna en hermenn, sem voru flestir smábændur, voru að heiman lengur og gátu ekki viðhaldið landi sínu. Enn fremur var æ meira um ódýrt vinnuafl í formi erlendra þræla sem vinnandi stéttum gekk erfiðlega að keppa við. Hagnaður af herfangi, kaupmennska í nýju skattlöndunum og skattlagning skóp ný tækifæri meðal lægri stétta en ríkir kaupmenn mynduðu nýja millistétt, riddarastétt. Riddarastéttin hafði meira fé milli handanna en var enn talin til plebeia og hafði þess vegna mjög takmörkuð pólitísk völd. Öldungaráðið kom ítrekað í veg fyrir mikilvægar umbætur í jarðamálum og neitaði að gefa riddarastéttinni eftir nein völd. Sumir öldungaráðsmenn komu sér upp sveitum ólátabelgja úr röðum atvinnulausra fátæklinga, sem þeir notuðu til að hrella pólitíska andstæðinga sína og hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Ástandið var sem verst seint á 2. öld f.Kr. á tímum Gracchusarbræðra, þeirra Gaiusar Gracchusar og Tíberíusar Gracchusar, sem reyndu að setja lög um endurskiptingu jarðnæðis í ríkiseigu handa plebeium. Báðir voru drepnir en öldungaráðið féllst um síðir á sumar af tillögum þeirra og reyndi þannig að lægja óánægjuöldur meðal lægri stéttanna. Bandamannastríðið svonefnda braust út árið 91 f.Kr. þegar bandamenn Rómverja á Ítalíuskaganum fengu ekki borgararéttindi. Það stóð til ársins 88 f.Kr.. Endurskipulagning Gaiusar Mariusar á rómverska hernum varð til þess að hermenn sýndu oft herforingja sínum meiri meiri tryggð en borginni. Valdamiklir herforingjar gátu náð kverkataki á bæði öldungaráðinu og borginni. Þetta leiddi til borgarastríðs milli Mariusar og Súllu sem endaði með einveldistíð Súllu 81-79 f.Kr. Um miðja 1. öld f.Kr. mynduðu þeir Júlíus Caesar, Pompeius og Crassus með sér leynilegt bandalag um stjórn ríkisins, hið svonefnda fyrra þremenningasamband. Þegar Caesar hafði náð Gallíu undir rómversk yfirráð leiddi árekstur milli hans og öldungaráðsins til annars borgarastríðs, þar sem Pompeius stjórnaði herjum öldungaráðsins. Caesar hafði sigur og var gerður einvaldur ("dictator") til lífstíðar. Árið 44 f.Kr. var Caesar ráðinn af dögum af hópi öldungaráðsmanna sem voru mótfallnir einveldi Caesars og vildu koma á löglegri stjórn að nýju. Það mistókst en í kjölfarið varð til síðara þremenningasambandið með samkomulagi milli Oktavíanusar, erfingja Caesars, og tveggja fyrrum stuðningsmanna Caesars, Marcusar Antoniusar og Lepidusar og skiptu þeir með sér völdunum. Þetta bandalag leystist fljótt upp og varð til þess að Oktavíanur og Marcus Antonius kepptust um völd. Þegar skarst í odda með þeim sigraði Oktavíanus Marcus Antonius og Kleópötru Egyptalandsdrottningu í orrustunni við Actíum árið 31 f.Kr. Í kjölfarið varð Oktavíanus óumdeildur valdhafi Rómar, og þótt að nafninu til hafi hann einungis gegnt ýmsum embættum rómverska lýðveldisins var hann þó í raun nokkurs konar einvaldur allt til æviloka. Hann hélt völdum í yfir fjóra áratugi og mótaði á þeim tíma vald keisarans. Venjan er að telja Oktavíanus fyrsta keisarann og miða upphaf keisaratíðar hans við árið 27 f.Kr. er samkomulag náðist milli hans og öldungaráðsins um völd hans en öldungaráðið veitti honum að því tilefni virðingarheitið Ágústus. Keisaratíminn. Þegar Ágústus hafði sigrað andstæðinga sína voru völd hans nánast ótakmörkuð enda þótt hann gætti þess vandlega að viðhalda stjórnarformi lýðveldisins í orði kveðnu. Eftirmaður hans, Tíberíus, tók við völdunum án átaka. Þannig festist Júlíska-cládíska ættin í sessi sem valdhafar og hélt þeirri stöðu þar til Neró lést árið 68. Útþensla Rómaveldis hélt áfram og ríkið stóð föstum fótum þrátt fyrir að til valda kæmust keisarar sem voru álitnir spilltir (til dæmis Caligula og e.t.v. einnig Neró). Eftir dauða Nerós var stuttur óvissutími í rómverskum stjórnmálum og á einu ári komust fjórir keisarar til valda. Að lokum tók þó við stjórn flavísku ættarinnar. Flavíska ættin fór með völdin í Róm til ársins 96 en þá tók við tími „góðu keisaranna fimm“ sem varði til ársins 180. Á þessum tíma var Rómaveldi stærst og efnahagsleg og menningarleg áhrif þess náðu hámarki. Ríkinu var hvorki ógnað að utan né innan. Árin 193 til 235 ríkti severíska ættin og nokkrir vanhæfir keisarar komust til valda, þar á meðal Elagabalus. Herinn hafði æ meiri áhrif á val nýrra keisara og það leiddi til hnignunarskeiðs sem oft er kallað 3. aldar kreppan. Kreppunni lauk þegar Diocletianus komst til valda. Árið 293 skipti hann Rómaveldi í austur- og vesturhluta og kom á fjórveldisstjórn þar sem tveir keisarar voru við völd í hvorum hluta ríkisins. Þessir keisarar börðust oft um völdin sín á milli. Árið 330 stofnaði Konstantínus mikli höfuðborg Austrómverska ríkisins í Býzantíon en frá árinu 395 var ríkinu skipt fyrir fullt og allt í Vestrómverska ríkið og Austrómverska ríkið (sem var síðar nefnt Býsansríkið). Vestrómverska ríkið átti stöðugt í vök að verjast gegn innrásum barbara. Hæg hnignum Rómaveldis hélt áfram öldum saman. Á endanum héldu barbararnir Rómarborg í herkví en þeim hafði verið lofað land. Þeir ætluðu að koma í veg fyrir að fólk kæmist til eða frá borginni þar til þeir fengju landið sem þeim var lofað. Eftir að hafa verið sviknir nokkrum sinnum jókst þeim reiðin og þeir hertóku borgina. Árið 410 fóru Vísigotar ránshendi um borgina og 4. september árið 476 neyddi germanski herforinginn Odoacer síðasta vestrómverska keisarann, Rómúlus Ágústus, í útlegð. Þar með lauk um 1200 ára langri sögu Rómaveldis í vestri. Austrómverska ríkið hélt velli mun lengur en féll einnig vegna innrásarherja. Arabískir þjóðflokkar náðu undir sig ríkustu landsvæðum ríkisins, þar á meðal þeim sem Justinianus 1. hafði náð aftur. Rómarborg var sjálf undir yfirráðum innrásarherja. Árið 1000 náði Austrómverska ríkið hátindi sínum: Basileios 2. lagði Búlgaríu og Armeníu undir Austrómverska ríkið á ný og menning og verslun voru í blóma. En útþenslan var stöðvuð árið 1071 í orrustunni um Manzikert. Í kjölfarið fylgdi skeið mikillar hnignunar. Í nokkrar aldir ríktu óeirðir innanlands og innrásir Tyrkja leiddu að lokum til hörmunga fjórðu krossferðarinnar. Í kjölfar innrásarinnar í Konstantínópel árið 1204 tók ríkið að leysast upp. Þegar borginni var náð á ný var ríkið lítið annað en grískt ríki við strönd Eyjahafs. Mehmet 2. Súltán Tyrkja, vildi ráða niðurlögum Austrómverska ríkisins og gerði það árið 1453 þegar Konstantínópel féll fyrir her hans. Samfélag. "Forum Romanum" var miðpunktur Rómaborgar. Lífið í Rómaveldi snerist um höfuðborgina, Róm. Þar var miðpunktur stjórnmála og alls menningarlífs. Í borginni var mikill fjöldi minnisvarða og stórra mannvirkja á borð við hringleikahúsið Colosseum, Pantheon og Títusarbogann. Þar voru brunnar með fersku drykkjarvatni sem var leitt inn í borgina með vatnsleiðslum sem gátu verið hundruð kílómetra langar. Þar voru leikhús, baðhús, leikfimihús, bókasöfn, verslanir og markaðstorg. Í borginni var einnig skólplagnakerfi. Íbúðarhús voru ýmis fjölbýlishús eða einbýlishús, jafnvel risavaxnar hallir. Í höfuðborginni sjálfri voru hallir keisaranna á Palatínhæð glæsilegri en aðrar hallir. Miðstéttin og almúginn bjó við krappari kjör í miðborginni. Íbúðir voru litlar, stundum í blokkum. Rómaborg var stærsta borg heimsveldisins en íbúar eru taldir hafa verið um ein milljón (nokkurn veginn jafn stór og London snemma á 19. öld, sem þá var stærsta borg heims). Borgin var hávaðasöm og Júlíus Caesar lagði eitt sinn til að umferð hestvagna að næturlagi yrði bönnuð. Talið er að allt frá 20% til 40% íbúa Rómaveldis hafi búið í borgum með fleiri en 10.000 íbúa víða um heimsveldið. Flestar borgir höfðu torg, hof og önnur mannvirki eins og Róm en færri og smærri í sniðum. Bókmenntir og listir. Latneskar bókmenntir voru frá upphafi undir miklum áhrifum frá grískum bókmenntum. Meðal elstu bókmennta Rómverja eru þýðngar á grískum gamanleikjum. Rómverjar þáðu einnig í arf frá Grikkjum ýmsa bragarhætti og bókmenntagreinar: gamanleiki, harmleiki, sagnaritun, söguljóð, lýrískan kveðskap. Rómversk heimspeki var ekki undir minni áhrifum frá grískri heimspeki. Vinsælustu heimspekistefnurnar í Róm voru stóuspeki, epikúrismi og akademísk heimspeki (eða platonismi). Rómversk tónlist byggði einnig mjög á grískri tónlist og var mikilvæg á öllum sviðum rómversks samfélags. Í rómverska hernum voru notuð blásturshljóðfæri til að gefa ýmsar skipanir. Tónlist var leikin í hringleikahúsum milli bardaga, í baðhúsum og víðar. Einnig var leikið á hljóðfæri við trúarlegar athafnir, svo sem við fórnir. Í höggmyndalist var í fyrstu lögð áhersla á að sýna unglega fegurð og klassísk hlutföll en síðar varð til raunhyggja í höggmyndalist. Á 2. öld e.Kr. komst í tísku að sýna hár- og skeggtísku og farið var að höggva dýpra í marmarann. Rosa Parks. Rosa "Lee" Louise McCauley Parks (4. febrúar 1913 – 24. október 2005) var fátæk bandarísk blökkukona sem barðist fyrir mannréttindum og afnámi aðskilnaðar milli hvítra og svartra. Rosa Parks er þekkt fyrir að neita að standa upp fyrir hvítum manni í strætisvagni í bænum Montgomery í Alabama fimmtudaginn 1. desember árið 1955. Á þeim tíma voru fremstu bekkirnir í strætisvögnum í Montgomery ætlaðir hvítum og ef þeir fylltust þá urðu svartir farþegar að færa sig aftar. Rosa Parks var handtekin og ákærð fyrir tiltækið og dæmd til að greiða sekt, en þessi borgaralega óhlýðni hratt af stað mótmælaöldu þar sem blökkumenn sniðgengu strætisvagna í Montgomery. Mótmælin báru árangur og í þeim reis Martin Luther King, einn af skipuleggjendum þeirra til forustu í mannréttindabaráttu blökkumanna. Árið 1999 hlaut Rosa Parks heiðursorðu Bandaríkjaþings (Congressional Gold Medal of Honor), en það er mesti heiður, sem fallið getur almennum Bandaríkjamanni í skaut. Appennínaskagi. Appennínaskagi (eða Ítalíuskagi) er einn stærsti skagi Evrópu, hann teygir sig um 1000 km frá Ölpunum suður í Miðjarðarhaf. Eftir skaganum endilöngum liggur fjallgarður, Appennínafjöll. Hugi (mannsnafn). Hugi er íslenskt karlmannsnafn. Hugur. Hugur er hugtak sem oftast notað til að lýsa æðri eiginleikum mannsheilans til dæmis persónuleika, hugsun, skynsemi, minni, gáfum og tilfinningum. Eldur. Eldur er heitt, glóandi gas, sem myndast við bruna þegar oxun verður í útvermnu efnahvarfi. Í eldi myndast jónir og hann er því leiðandi. Til þess að eldur geti myndast þarf þrennt: eldsneyti, súrefni og hita. Þegar slökkva skal eld er eitt af þessu þremur þáttum fjarlægt úr eldinum. Eldar ljóma með sýnilegt ljósi og innrautt ljósi, og geta ljóma með útfjólublátt ljósi. Sinueldur, er eldur sem lang oftast er kveiktur af mönnum til að eyða sinu. Skógareldur er eldur, sem geysar í skóglendi og kviknar oftast af eldingu eða mannavöldum. Eldar valda gríðarlegu tjóni ár hvert, hvort sem um mannslíf, mannvirki eða gróður er að ræða. Slökkvilið, sérhæfir sig í að slökkva elda, sem geta valdið tjóni. Appennínafjöll. Appennínafjöll (gríska: "Απεννινος"; latína: "Appenninus" — í báðum tilvikum í eintölu; ítalska: "Appennini" -- fleirtala, en talað er um hluta fjallgarðsins í eintölu: "Appennino Toscano" t.d.) eru um 1.200 km langur fjallgarður eftir endilöngum Appennínaskaga frá Cadibonahæð í norðurhluta Ítalíu að Aspromonte, austan við Reggio Calabria, á syðsta odda landsins. Þau renna saman við Alpafjöllin, þar sem engin eiginleg skil eru milli þeirra. Breidd fjallgarðsins er frá 30 að 250 kílómetrum og hæsti fjallstindurinn, Monte Corno, við Gran Sasso er 2.912 metrar yfir sjávarmáli. Í raun mætti líta svo á að fjallgarðurinn haldi áfram yfir Messínasund, eftir austurströnd Sikileyjar, ofaní Sikileyjarsund og síðan áfram frá Capo Bon í Túnis að Atlasfjöllum í Marokkó. Gran Sasso. Gran Sasso (eða "Gran Sasso d'Italia" -- „stóri steinn“) er stærsta fjallið í Appennínafjallgarðinum á Ítalíu. Það er staðsett í héraðinu Abrútsi á Suður-Ítalíu. Á Gran Sasso eru tveir tindar; Corno Grande (stóra horn) og Corno Piccolo (litla horn), en á milli þeirra er syðsti jökull Evrópu. Francesco De Marchi frá Bologna kleif fjallið fyrstur manna árið 1573. Á fjallinu er þjóðgarður; Gran Sasso-þjóðgarðurinn. Afródíta. Afródíta (gríska: "Αφροδίτη" (íslenska: „gefin úr sjófroðunni“) er gríska gyðja ástar og fegurðar. Sköpun. Gyðjan Gaja (móðir Jörð) var talin vera móðir alls lífs á jörðinni. Gaja og Úranos, himinninn, áttu saman mikið magn af börnum sem síðar voru kölluð Títanar. Ókeanos var Títan, guð hafsins sem umlykur jörðina, einnig Teþys, systir hans og eiginkona. Fyrsti sólarguðinn var Títaninn Hyperíon og systir hans og kona, Þeia. Mánagyðjur- og guðir voru Föbe og Kojos. Þemis var einnig Títan, guð réttlætis. Mnemosyne var gyðja minnis, svo voru einnig Krónos, Rhea, Kríos, og Japetos. Samtals voru þau 12 systkinin. En Úranos hræddist styrk barna sinna. Sagan segir að Kaos hafi verið steypt af stóli af syni sínum, Erebosi og honum síðar af sínum börnum, og Úranos óttaðist að það gæti gerst líka fyrir sig. Hann geymdi því börn sín neðanjarðar, fest með keðjum í svörtu hellum Tartarosar. Þetta reiddi Gaju og lagði hún á ráðin með börnum sínum gegn Úranosi. Sá yngsti, Krónos, réðst að föður sínum og geldi hann. Þegar hann henti afskornum kynfærum föður síns í sjóinn, gaus upp mikil sjófroða og var mikill gusugangur. Fæddi þetta atvik af sér Afródítu, hina íðilfögru gyðju losta og ástar. Einnig féllu dropar af blóði Úranosar á jörðina og þar spruttu fram verur er kallast Erinjur eða refsinornir, sem hrella huga glæpamanna. Bologna. Bologna er borg í héraðinu Emilía-Rómanja á Ítalíu. Hún er höfuðstaður héraðsins með 369.955 íbúa. Svæðið þar sem borgin stendur hefur verið byggt mönnum að minnsta kosti frá 9. öld f.Kr. (Villanovamenningin). Svæðið varð hluti af yfirráðasvæði Galla á Norður-Ítalíu þar til Rómverjar ráku þá burt 196 f.Kr.. Það voru síðan Rómverjar sem stofnuðu borgina Bononia árið 189 f.Kr.. Þessi ævaforna borg er einkum fræg sem háskólaborg og Bolognaháskóli (stofnaður 1088) er almennt talinn elsti háskóli heims. Eitt af kennileitum borgarinnar eru skökku turnarnir tveir Torre Asinelli (97 m) og Torre della Garisenda (upphaflega 60 m en nú 48 m) sem reistir voru á 13. öld. Sveinbjörn Egilsson. Sveinbjörn Egilsson (24. febrúar 1791 í Innri-Njarðvík í Gullbringusýslu á Íslandi – 17. ágúst 1852) var íslenskur guðfræðingur, kennari, þýðandi og skáld. Hann er einna best þekktur sem fyrsti rektor Menntaskólans í Reykjavík (sem þá hét Lærði skólinn) og sem þýðandi Hómers. Faðir hans, Egill Sveinbjarnarson, var lítið þekktur en þó efnaður bóndi. Sveinbjörn var í fóstri hjá Magnúsi Stephensen og hlaut menntun sína frá ýmsum aðilum. Hann gekk aldrei í latínuskóla, en þess í stað brautskráðist hann úr heimaskóla Árna Helgasonar 1810. Hann komst ekki í háskóla strax vegna ófriðar, en hóf 1814 guðfræðinám við Hafnarháskóla, sem hann lauk árið 1819. Við komu sína aftur til Íslands fékk hann kennarastöðu við Bessastaðaskóla, en þegar skólinn flutti til Reykjavíkur var hann gerður rektor. Hann var því fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Aðalkennslugrein hans var forngríska. Sveinbjörn var giftur Helgu Gröndal, dóttur Benedikts Gröndals eldra, yfirréttardómara. Á meðan hann gegndi kennara- og rektorsembætti vann hann mikið að ýmiss konar þýðingum, oft fyrir skólann (t.d. skólaþýðingu á "Menón" eftir Platón), en einnig á öðrum vettvangi. Frægastar eru sennilega þýðingar hans á kviðum Hómers, "Ilíonskviðu" og "Ódysseifskviðu". Fyrir Fornfræðafélagið, sem hann var stofnfélagi að, þýddi hann Íslendingasögurnar á latínu ("Scripta historica Islandorum"). Hann tók saman orðabók yfir íslenskt skáldamál "Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis" sem varð grundvallar-uppsláttarrit fyrir allar framtíðarrannsóknir á fornum íslenskum kveðskap síðar meir. Hann þýddi einnig Snorra-Eddu á latínu og gaf út með frumtexta og vísnaskýringum. Hann samdi að auki nokkuð af ljóðum, meðal annars sálminn "Heims um ból" og tvo aðra sálma í sálmabókinni. Þegar hann dó var hann enn að vinna að þýðingu "Ilíonskviðu" í bundnu máli, en sonur hans, Benedikt Gröndal yngri, lauk við verkið. Veturinn 1849-50 gerðist í Lærða skólanum atburður sá, sem kallaðist "Pereat". Forsagan var sú Sveinbjörn vildi þröngva skólapilta að ganga í bindindisfélag skólans. Þeir gengu þó flestir fljótlega úr félaginu, en við það reiddist Sveinbjörn mjög og flutti þeim harða skammaræðu 17. janúar 1850. Skólapiltar brugðust við með því að heimsækja rektor og hrópa "pereat", sem er latneskt afhróp og þýðir "niður með hann!" Sveinbjörn fór þá til Kaupmannahafnar að leita liðsinnis danskra skólayfirvalda, sem kváðust styðja hann. Hann lét þó af störfum 1851 og lést rúmu ári síðar. Kóróna Napóleons. Kóróna Napóleons var krýningarkóróna búin til fyrir hinn sjálfyfirlýsta keisara Frakklands, Napóleon I. Hann notaði hana við krýningu sína 2. desember 1804. Napóleon nefndi nýja kórónu sína Kórónu Karlamagnúsar, eftir hinni fornu krýningarkórónu Frakklands sem var eyðilögð í frönsku byltingunni. Þar með bar hann sig saman við hinn mikla miðaldakonung Franka og Heilaga rómverska keisarann, Karlamagnús. Karl Benz. Karl Friedrich Benz (25. nóvember 1844 – 4. apríl 1929) var þýskur verkfræðingur og bifreiðahönnuður. Hann er almennt álitinn einn af uppfinningamönnum bensínknúinna ökutækja ásamt samtímamanni sínum Gottlieb Daimler. Hann stofnaði fyrirtækið Benz & Co. árið 1883 í Mannheim sem framleiddi iðnaðarvélar. Fyrirtækið sameinaðist fyrirtæki Gottlieb Daimler árið 1926 og kallaðist eftir það Daimler-Benz og framleiddi Mercedes-Benz bílategundina. Daimler-Benz keypti svo hinn bandaríska bílaframleiðanda Chrysler Corporation árið 1998 og var nafni fyrirtækisins breytt í DaimlerChrysler. Það var von eigenda fyrirtækisins að með sameiningunni yrði til sterkt og öflugt fyrirtæki en þar sem þær áætlanir stóðust ekki þá seldi DaimlerChrysler Chrysler merkið til Cerberus Capital Management. Þann 5. október 2007 var nafninu svo breytt úr DaimlerChrysler í Daimler AG. Tenglar. Benz, Karl Persónuníð. Persónuníð eða persónurök (á latínu "argumentum ad hominem", oft kölluð "ad hominem rök") er rökfræðilegt hugtak sem getur átt við fullyrðingu sem felur í sér rökvillu. Latneska heitið getur einnig verið heiti á ákveðinni aðferð við að rökræða, sem felur ekki í sér rökvillu. Latneska heitið "argumentum ad hominum" þýðist sem „rök gegn manninum“ eða „rök með tilliti til mannsins“ eða „rök handa manninum“ þar sem orðið "homo" („maður“) á við manneskju frekar en karlmann. Rökvillan felst í því að álykta að þar sem að eitthvað er athugavert í fari A, þá geti hann ekki haft rétt fyrir sér. "Ad hominem" rök geta einnig verið rök þar sem annar aðilinn rökræðir á „lánuðum“ forsendum, þ.e.a.s. fellst á forsendur viðmælandans einungis rökræðunnar vegna. Slíkt telst ekki vera rökvilla. Dæmi um "ad hominem" rök af þessu tagi eru rökræður akademískra efahyggjumanna við stóumenn. Sönnun. sem þýðir að um alla einstaklinga sem geta lagt fram fullyrðingu gildir að fullyrðing þeirra er röng ef að eitthvað er athugavert í fari þeirra, ef og aðeins ef að ekki er til neinn einstaklingur sem hefur eitthvað athugavert í fari sínu en hefur fært sanna fullyrðingu. Til þess að sanna að þetta sé rökvilla er nóg að nefna dæmi um einn einstakling sem hefur eitthvað athugavert í fari sínu en hefur lagt fram sanna fullyrðingu. Nú eru ekki allir sammála um hverjir hafa eitthvað athugavert í fari sínu, né heldur hvaða fullyrðingar teljast sannar. Flestir geta samt samsinnst um það að lygarar hafa það athugaverða í fari sínu að ljúga gjarnan, þ.e., að segja ósatt. Tökum nú dæmi um að jafnvel harðsvífnustu lygarar geti ekki ávallt logið. Köllum lygarann A, en látum B vera einstakling sem starfar hjá ímynduðu Lygavarnareftirliti, sem er að yfirheyra hann. Höfum í huga að A mun alltaf ljúga, sé þess kostur. Þar með er A búinn að valda mótsögn hjá sjálfum sér, þar sem að hann segist segja stundum satt, þá lýgur hann ekki alltaf, og þá verður fyrri staðhæfing hans sönn. Þess ber að geta að þó svo að þetta sanni að fólk sem hefur eitthvað athugavert í sínu fari geti hugsanlega lagt fram sanna fullyrðingu er þetta engan vegin trygging fyrir því að þeir geri það. Árásarform. Árásarformið af ad hominem rökum (l. "argumentum ad personam") gengur fyrst og fremst út á það að móðga andstæðingin, hvort sem að fullyrðingin sem vörpuð er fram um eðli andstæðingsins sé sönn eða ekki. Ástæða þess að þetta er samt sem áður rökvilla er sú að — í flestum tilfellum — hafa móðganir ekki nein afgerandi áhrif á sanngildi upprunalegu fullyrðingarinnar. Aðstæðuform. Aðstæðuformið (e. "ad hominem circumstantial") snýst um að benda á að einhver sé í þannig aðstæðum að hann neyðist til þess að hafa ákveðið viðhorf. Aðstæðuformið er árás á áhrifavalda einstaklingsins frekar en hann sjálfan. Ástæða þess að þetta er rökvilla er sú að þetta minnkar ekki sannleiksgildi upprunalegu fullyrðingarinnar, heldur bendir bara á hugsanlegan áhrifavald í framsetningu hennar. Slíkar fullyrðingar eru ekki endilega fáranlegar, en þær eru samt ekki strangt til tekið rökréttar. Frægt er að sagt sé „auðvitað myndi hann segja þetta“ eða „það mátti nú alveg búast við því að hún segði þetta“. Hræsnisform. Hræsnisform (l. "Ad hominem tu quoque") er tegund ad hominem raka sem benda á hræsni í fullyrðingu andstæðingsins. Slík rök ganga út á að hrekja upprunalegu fullyrðinguna á þeim grundvelli að sá sem sagði það sé viðhafður í þeim líka, eða að fullyrðingin sé ósamkvæm einhverju sem viðkomandi hafði sagt áður. Notkun í raunveruleikanum. Stjórnmálaumræður grípa gjarnan til ad hominem fullyrðinga. Í daglegu lífi eru "ad hominem" fullyrðingar oft notaðar í deilum stjórnmálamanna eða andstæðinga þeirra. "Ad hominem" fullyrðingar eru einnig oft notaðar til þess að réttlæta aðgerðir sem annars eiga sér enga rökrétta ástæðu, en eru þó taldar réttar af framkvæmdaraðilanum, má nefna ritskoðun í því samhengi. Í Alþingiskosningum á Íslandi, sem og ámóta lýðræðislegum kosningum víða um heim, er löng hefð fyrir því að stjórnmálaflokkar og frambjóðendur notist við "ad hominem" fullyrðingar gagnvart andstæðingum sínum til þess að auka fylgi sitt. Ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið steypt af stóli byggt á svona fullyrðingum, svo sem Þórólfi Árnasyni, sem sagði af sér embætti borgarstjóra Reykjavíkur eftir að "ad hominem" fullyrðing var lögð fram, sem sagði að þar sem að hann hefði tengst glæpastarfsemi á einhvern hátt, þótt ósönnuð væri og enginn dómur fallið gegn honum, þá væri hann augljóslega ófær um að stýra Reykjavíkurborg. Stærðfræðingurinn Alan Turing framdi sjálfsmorð í kjölfar þess að hann var sviptur doktorsgráðu sinni, rannsóknaraðstöðu og stöðu sinni innan breska hersins, eftir að komst upp að hann væri samkynhneigður. "Ad hominem" fullyrðing var þá notuð til þess að benda á að ef hann væri samkynhneigður gæti hann ómögulega verið marktækur vísindamaður. Steinþór Sigurðsson. Steinþór Sigurðsson (fæddur 11. janúar 1904, dó 2. nóvember 1947) var íslenskur náttúrufræðingur. Hann lést við myndatöku á Heklugosinu 1947 þegar glóandi hraunhella steyptist fram af hraunfossi. Tímarit.is. Tímarit.is (líka Tíðarrit.fo og Aviisitoqqat.gl) er stafrænt bókasafn í opnum aðgangi á vegum Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns þar sem er að finna stafrænar útgáfur íslenskra, færeyskra og grænlenskra tímarita og dagblaða frá 17. öld til nútímans. Elsta tímaritið í safninu er "Alþingistíðindi" sem kom út 1696-1697. Auk dagblaða og tímarita sem gefin eru út á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum, inniheldur vefurinn blöð gefin út af Vestur-Íslendingum á 19. og 20. öld. Verkefnið var upphaflega styrkt af Vestnorræna ráðinu árið 2000 og var upphaflegur tilgangur þess að gera aðgengileg öll tímarit útgefin fyrir 1930. Fyrsta útgáfa vefsins kom út árið 2002 með titlinum VESTNORD. Með samningi við Morgunblaðið var ákveðið að gera það aðgengilegt á vefnum til ársins 2000 og því hefur síðan verið fylgt eftir með samningum við aðra rétthafa og samkomulagi við Blaðamannafélag Íslands til að gera fleiri dagblöð og tímarit frá 20. og 21. öld aðgengileg. Það fer eftir samkomulagi við hvern útgefanda hvað er gert aðgengilegt á vefnum. Til að mynda er hægt að skoða "24 stundir" síðustu tvö ár útgáfu þess, öll tölublöð "Fréttablaðsins" nema þau allra nýjustu og öll tölublöð "Morgunblaðsins" að síðustu þremur árum undanskildum. Í febrúar 2010 voru 3,2 milljónir síðna aðgengilegar á vefnum. Þar af hafa um 3,1 milljónir verið ljóslesnar og eru því leitarbærar. Í júní árið 2011 bættust enn við fleiri tímarit. Samvægi. Samvægi getur átt við streitulaust ástand opinna kerfa (jafnvægi í lífkerfum t.d.) eða tilhneigingu lífkerfa til að halda streitulausu ástandi með því að svara áreiti. Oftast á hugtakið við það síðara en allar frumur leitast við að halda jafnvægi innra með sér til að geta starfað og gera það með því að svara hverskyns áreiti sem þær kunna að verða fyrir. Samvægi mannslíkamans fellst meðal annars í því að halda líkamanum jafnheitum svo hann geti starfað, ef það verður of heitt eða kalt er það oftast vegna veikinda. Ef að líkamshitinn verður of mikill eða lítill getur það endað með því að hann hættir að verka sem endar venjulega með andláti. Sömu sögu er að segja um önnur lífkerfi þegar þau hætta að geta svarað áreiti markvist, þau hætta að geta starfað. Möðruvellir (Hörgárdal). Möðruvellir í Hörgárdal er bær og kirkjustaður í Hörgárdal í Arnarneshreppi við Eyjafjörð. Möðruvellir hafa verið í byggð allt frá landnámsöld og er víða getið í fornsögum, þó helst Sturlungu. Möðruvellir tengjast mjög sögu Íslands og Danmerkur á margvíslegan hátt. Þar var lengi vel eitt helsta höfuðból Íslands og þar var rekinn Möðruvallaskóli. Möðruvallaklaustur var stofnað þar árið 1296. Þar hafa margir embættismenn á vegum Danakonunga búið og meðal annarra fæddist Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, þar árið 1861. Kirkjusaga. a> er klausturregla, kennd við heilagan Ágústínus frá Hippó. Möðruvallaklaustur í Hörgárdal var eitt af fimm munkaklaustrum reglunnar á Íslandi fyrr á öldum. Það var starfrækt frá 1295 allt til siðaskipta um miðja 16. öld. Árið 1296 var stofnað á Möðruvöllum munkaklaustur af Ágústínusarreglu. Jörundur Þorsteinsson Hólabiskup kom klaustrinu á fót þar sem Hólabiskup væri ábóti þess en príor stjórnaði klausturlifnaði og ráðsmaður annast fjármál. Hann lagði klaustrinu til mikið fé og lét byggja þar kirkju um 1302. Hún brann árið 1316 og klaustrið einnig, kirkjuskrúði og kirkjuklukkur. Klaustur stóð með nokkrum hléum á Möðruvöllum allt til siðaskipta. Kirkja mun hafa verið á Möðruvöllum frá því á söguöld, og líklega staðið á sama stað allan tímann. Kirkjan er oft kennd við klaustrið, en staðurinn var eðlilega nefndur Möðruvallaklaustur og kirkjan Möðruvallaklausturskirkja. Kirkja sú sem nú stendur á Möðruvöllum var reist á árunum 1865-1867 eftir kirkjubrunann 1865 og var hún þá stærsta timburkirkja landsins. Í kirkjunni er margt fagurra muna sem henni hafa verið gefnir. Við kirkjunar eru tveir kirkjugarðar: Hinn eldri og nýi. Sá eldri afmarkast af snyrtilegum grjótgarði að sunnan og norðan, en timburgirðingu að austan og vestan. Að framanverðu er yfirbyggt sáluhlið sem setur mikinn svip á staðinn og í það er skorið og málað 7. vers úr 2. passíusálmi. a> skáld, sýslumaður og fyrsti ráðherra Íslands er fæddur á Möðruvöllum 4. desember 1861. Í eldri kirkjugarðinum hvíla margir þjóðkunnir menn, sem setið hafa staðinn eða búið í sveitinni. Má nefna að í suðaustri frá kirkjunni er elsti legsteinninn, en undir honum hvílir klausturhaldarinn, Lárus Hansson Scheving og kona hans en hann lést árið 1722. Þarna eru einnig leiði þriggja amtmanna, þeirra Stefáns Þórarinssonar (d. 1823), Bjarna Thorarensen skálds (d. 1841) og Péturs Hafstein (d. 1875). Norðvestur af kirkjunni er leiði Gríms Jónssonar amtmanns (d. 1849) og norðan við kirkjuna er Ólafur Davíðsson náttúrufræðingur og þjóðsagnasafnari (d. 1903) grafinn ásamt foreldrum sínum. Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (d. 1964) hvílir við hlið foreldra sinna í norðaustri frá kirkjunni og við austurgafl kirkjunnar er kirkjusmiðurinn Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni (d. 1882) jarðsettur. Fyrir kirkjudyrum, lítið eitt norðanvið gangveginn er legsteinn séra Jóns Jónssonar lærða (d. 1846) merks prests sem kenndur var við Möðrufell en endaði prestþjónustu sína á Möðruvöllum. Nýr kirkjugarður var tekinn í notkun árið 1951 og er hann suður af gamla kirkjugarðinum. a> Amtmann Norðaustur Amts 1786 sem dvaldi að Möðruvöllum í Hörgárdal Stjórnmálasaga. Möðruvellir tengjast stjórnmálasögu landsins í margar aldir. Fyrst bjuggu þar voldugir höfðingjar. Síðan var klaustrið mjög voldugt þar sem það átti gríðarlegar jarðeignir. Eftir að klaustrið var lagt niður tók við tími klausturhaldara, sem voru umsjónarmenn Danakonungs með eignum hans og þar með fulltrúar yfirvaldsins. Á árunum 1783-1874 var á Möðruvöllum amtmannssetur og varð staðurinn af þeim sökum höfuðstaður Norðurlands í nærri heila öld. Auk þess sem amtmennirnir voru yfirvald yfir öllu Norðurlandi, þá voru þeir allir merkismenn, sem unnu á sinn sérstæða og persónubundna hátt að framförum og nýjungum í stjórnarháttum á þeim tímum sem Ísland var að vakna til meðvitundar um sjálfstæði. Skólasaga. Árið 1880 var stofnaður gagnfræðaskóli á Möðruvöllum, sem var undanfari Menntaskólans á Akureyri og eru afmæli M.A. miðuð við stofnun Möðruvallaskóla. Á tímum skólans bjuggu á Möðruvöllum margir merkismenn sem unnu mikilvægt brautryðjendastarf í skólamálum og á sviði náttúruvísinda. Möðruvallaskóli var þó einungis starfræktur í 22 ár því þegar skólahúsið brann árið 1902, var skólinn fluttur til Akureyrar og hét fyrst Gagnfræðiskóli Akureyrar en varð seinna að menntaskóla, þeim fyrsta sem stofnaður var á eftir Menntaskólanum í Reykjavík. Einu sýnilegu minjar skólans sem eftir eru á Möðruvöllum er s.k. Leikhús sem nú hefur verið komið í upprunarlegt horf. Náttúrufræðisaga. a> að Möðruvöllum í Hörgárdal. Bjarni var gott skáld og einn helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi. Málverk af Bjarna frá 1839 eftir Auguste Meyer. Á tímum Möðruvallaskóla störfuðu þar merkir náttúrufræðingar, m.a. Þorvaldur Thoroddsen sem efnaði þar í fyrstu Íslandslýsinguna, Stefán Stefánsson, sem skrifaði þar fyrstu "Flóru Íslands" og Ólafur Davíðsson, náttúrufræðingur og þjóðsagnasafnari. Hinn þjóðkunni alfræðingur og náttúrufræðingur, Steindór Steindórsson fæddist á Möðrvöllum 1902 en móðir hans starfaði þar sem ráðskona. Enn í dag er á Möðruvöllum unnið að náttúrufræðirannsóknum á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands en frá 1974 hefur verið rekin þar tilraunstöð í landbúnaði sem áður var til húsa á Akureyri. Upphaflega var tilraunastöðin stofnuð af Ræktunarfélagi Norðurlands árið 1904. Einn af aðalhvatamönnum og stofnendum Ræktunarfélagsins og tilraunastöðvarinnar var Stefán Stefánsson á Möðruvöllum. Bókmenntasaga. Möðruvellir tengjast bókmenntasögu Íslendinga á einstæðan hátt. Hér hafa bæði búið sum af ástsælustu skáldum þjóðarinnar og önnur tengst staðnum með óbeinum hætti. Fyrstan skal nefna Bjarna Thorarensen amtmann, sem lifir í hugum þjóðarinnar fyrst og fremst fyrir ljóð sín. Hannes Hafstein skáld og ráðherra er fæddur á Möðruvöllum og um svipað leyti sleit þar barnsskónum Jón Sveinsson (Nonni), sem enn dregur að marga Þjóðverja á hverju sumri. Jónas Hallgrímsson ólst upp í nágrenninu og móðir hans var búsett á Möðruvöllum í tíð Bjarna Thorarensens. Jón á Bægisá bjó ekki alls fjarri og auk þess ólst Skáld-Rósa upp í nágrenninu og orti alþekktar ástarvísur, að öllum líkindum til Páls Melsteð amtmannsskrifara á Möðruvöllum. Bygginga- og brunasaga. Brunasaga Möðruvalla er landsfræg. Vitað er um klausturbyggingu þó ummerki hennar séu nú hvergi sjáanleg, en fræg er sagan af klausturbrunanum 1316 er munkarnir áttu að hafa komið ölvaðir úr Gásakaupstað og farið óvarlega með eld. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi gerði sér þetta að yrkisefni í leikritinu "Munkarnir á Möðruvöllum". Árið 1712 brunnu til grunna öll hús staðarins nema kirkjan. Amtmannsstofan brann árið 1826 og var þá Baldvin Einarsson nær brunninn inni. Þá var byggt amtmannssetur úr dönskum tígulsteini sem var gjöf Friðriks 6. Danakonungs og var húsið því nefnt Friðriksgáfa en það brann síðan 1874 og lagðist þá amtmannssetur af á Möðruvöllum. Svona er eldsvoðanum lýst: "Um nóttina milli hins 20. og 21. marz brann Friðriksgáfa, hús amtmannsins á Möðruvöllum, til kaldra kola. Allt fólk var í fasta svefni, og varð eigi vart við, fyr en eldurinn hafði læst sig um allt húsið; komst það þó út óskaddað með mestu naumindum, nema karl einn vitfirrtur, er inni brann. Þar brann húsbúnaður allur og margir fjemætir hlutir, sömuleiðis flest embættisskjöl, er amtinu til heyrðu; járnskápur sá, er peningar og pcningaskjöl amtsins voru geymd í, fannst í rústunum óskemmdur. Jarðskjálfti lítill hafði orðið um nóttina; ætla menn, að við hristinginn hafi skekkzt ofn í skrifstofunni, og glæður, er lifðu í honum, hafi fallið ofan á gólfið, og valdið eldinum." Af Friðriksgáfu hafa þó varðveist góðar teikningar þannig að vitað er hvernig hún leit út. Árið 1865 brann kirkjan og varð litlu bjargað, nema hvað Arngrímur Gíslason listmálari bjargaði altaristöflunni og mun hann hafa notað hana sem fyrirmynd að altaristöflum í aðrar kirkjur. Skólahúsið á Möðruvöllum, sem byggt var úr brunasteininum úr Friðriksgáfu, brann síðan árið 1902. Leikhúsið, sem einnig var byggt á tímum Möðruvallaskóla sem leikfimihús og pakkhús, slapp við brunann og hefur nú verið fært í upprunalegt horf. Eftir brunann keypti Stefán Stefánsson skólameistari múrsteininn og notaði í fjósbyggingu sem enn er uppistandandi, svonefnt Stefánsfjós. En ekki er brunasögu staðarins lokið, því 1937 brennur á Nunnuhóli, koti ofarlega í Möðruvallatúni og síðar sama ár brann íbúðarhús staðarins. Sjálfseignarfélag um Amtmannsetrið á Möðruvöllum. Sjálfseignastofnunin Amtmannssetrið á Möðruvöllum var sett á fót 1. mars 2006. Megin tilgangur stofnunarinnar er að endurreisa merkar byggingar á Möðruvöllum í Hörgárdal og að koma á framfæri sögu staðarins á lifandi hátt með því að skapa aðlaðandi og frjótt umhverfi fyrir skóla, námsfólk og ferðamenn sem áhuga hafa á stjórnmála-, menningar- og kirkjusögu, náttúruvísindum og landbúnaði. Nokkrar heimildir um sögu Möðruvalla. Aðalsteinn Már Þorsteinsson, Kristján Pétur Guðmundsson og Örvar Erlendsson 1995. Möðruvellir í Hörgárdal. Menning og menntun. Greinargerð fyrir sögunámskeið. Kennaradeild Háskólans á Akureyri. (fjölrit) 19 s. Ágúst Sigurðsson 1965. Drög að sögu Möðruvallaklausturs. Sérefnisritgerð við guðfræðideild Háskóla Íslands 1965. (fjölrit) 136 s. Ágúst Sigurðsson 1967. Möðruvallaklausturskirkja. Sunnudagsblað Tímans 6 1111- Benedikt Þórðarson 1891. Skapadægur: Stefán Þórarinsson amtmaður. Sögusafn Bjarni E. Guðleifsson 1984. Stefán Þórarinsson amtmaður á Möðruvöllum. Bjarni E. Guðleifsson 1997. Kirkjubruninn á Möðruvöllum 1865. Heimaslóð 13-15 Bjarni E. Guðleifsson 1999. Möðruvallakirkja í Hörgárdal. (bæklingur) 8 s. Bjarni E. Guðleifsson 2000. Fræðslubraut frá Gásum til Möðruvalla. Dagur 25. Bjarni E. Guðleifsson 2001. Aldarafmæli Flóru Íslands. Stefán Stefánsson grasafræðingur kennari og skólameistari. Náttúrufræðingurinn 70 119-126. Bjarni Thorarensen 1940-1943. Endurminningar Bjarna Thorarensen um Grím Bjarni Thorarensen 1986. Bréf 1.-2 bindi. Jón Helgason bjó til prentunar. Hið íslenska fræðafélag. 315 og 461 s. Bogi Th. Melsteð 1914. Norðurreið Skagfirðinga 1849. Leiðrétting við Brynjólfur Sveinsson (ritstj.) 1943. Minningar frá Möðruvöllum. Árni Bjarnason, Davíð Stefánsson 1935. Um Ólaf Davíðsson. Lesbók Morgunblaðsins 27. október. Eggert P. Briem og Þorsteinn Jónsson 1990. Briemsætt. Niðjatal. Sögustenn. 352 Eiríkur Þormóðsson 1966. Möðruvallaklaustur. Ritgerð til fyrra hluta prófs í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. (fjölrit) 110 s. Einar Björnsson 1961. Páskadagsnótt á Möðruvöllum 1902. Heima er bezt 11 109- Eyþór Einarsson 1962. Ólafur Davíðsson. Náttúrufræðingurinn 32 97-101. Gils Guðmundsson 1985. Söguleg deila um sálmabók. Gestur 2 109-134. Gísli Brynjólfsson 1824. Minning Stepháns Þórarinssonar. Stutt Ævi- og útfararminning herra Stephans Þórarinssonar Conferanceráds og Riddara af Dannebroge, Amtmanns nordan og austan á Íslandi. Kaupmannahöfn. Gísli Brynjólfsson 1884. Jörgen Pjetr Havstein. Heimdallur 1 128-132 146-150. Gísli Brynjólfsson 1949. Stefán Þórarinsson. Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar. III. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Bókfellsútgáfan 89-109. Gísli Gestsson 1957. Minningarþáttur frá Möðruvöllum. Heima er bezt 7 367-368 Gísli Helgason 1960. Síðustu dagar Möðruvallskóla og bruninn þar 22. mars 1902. Heima er bezt 10, 188-190, 225-228, 259-261, 263. Grímur Jónsson 1951. Brot úr ævi Íslendings. Skírnir 44 176-181. Grímur Thomsen 1948. Bjarni Thorarensen. Sigurjón Jónsson þýddi. Andvari 73 74- Grímur Thomsen 1983. Þrjú bréf til Gríms Jónssonar amtmanns. Aðalgeir Kristjánsson bjó til prentunar. Andvari 108 65-69. Hallgrímur Hallgrímsson 1927. Jón A. Hjaltalín skólastjóri á Möðruvöllum. Iðunn nýr Haraldur Haraldsson 1988. Jón Sveinsson (Nonni). Nonni. Brot úr æskusögu Helgi Jónsson og Jón Þorkelsson 1922. Æviágrip Þorvaldar Thoroddsen. Skírnir Helgi Pjeturss 1904. Bjarni Thorarensen og Stephan G. Stephansson. Eimreiðin 10 Helgi Pjeturss 1912. Bjarni og Jónas. Óðinn 7 53-55. Hólmgeir Þorsteinsson 1967. Langlífur lítilmagni. Heima er bezt 17 200-205, 213. Hulda Á Stefánsdóttir 1985. Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur. I. Bernska. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 218 s. Indriði Einarsson 1921. Norðurreiðin 1849 og síðar. Andvari 46 14-39. Ingibjörg Jónsdóttir 1946. Húsfreyjan á Bessastöðum. Bréf Ingibjargar Jónsdóttur til bróður síns Gríms amtmanns. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Hlaðbúð. 246 s. Ingvar Gíslason 1962. Möðruvellir í Hörgárdal, Klaustur – Amtmanssetur – Skóli – Vígslubiskupssetur. Sunnudagsblað Tímans 4. mars 1962 36-41. Jakob F. Ásgeirsson 2003. Valtýr Stefánsson. Almenna Bókafélagið 589 s. Jónas Guðlaugsson 1967. Möðruvallaklaustur. Sunnudagsblað Tímans 6 676-680, Jón Helgason (ritstj.) 1984. Næturævintýri á Möðruvöllum. Íslenskt mannlíf 4 135- Jón Sveinsson (Nonni) 1948. Á Skipalóni. Ritsafn 1. 200 s. Jón Sveinsson (Nonni) 1949. Sólskinsdagar. Ritsafn 3. 221 s. Jón Sveinsson (Nonni) 1988. Brot úr æskusögu Íslendings. Eigin frásögn. Fjórða Jón Sveinsson 1964. Lýsing sr. Jóns Sveinssonar á Bjarna amtmanni Thorarensen. Jón Þórarinsson 1923. Foreldrar Hannesar Hafstein. Óðinn 19 12-14. Jórunn Jónsdóttir 1988. Stúlka í Möðruvallaskóla. Gestur 5 72-79. Kristján Albertsson 1961. Hannes Hafstein. Ævisaga 1. Almenna Bókafélagið. 360 Kristmundur Bjarnason 1965. Kaflar úr ævisögu Gríms Jónssonar amtmanns. Kristmundur Bjarnason 1984. Svipmyndir úr lífi Gríms amtmanns Jónssonar fram Lýður Björnsson 1995. Spunastofa Stefáns amtmanns. Súlur 22 99-126. Matthías Jóhannessen 1962. Með Valtý Stefánssyni á Möðruvöllum. Með Valtý Ólafur Davíðsson 1902. Möðruvallaskóli brunninn. Norðurland 1 105-106. Ólafur Oddsson 1973. Norðurreið Skagfirðinga vorið 1849. Saga 11 5-73. Ólafur Ólafsson 1946. Kristnir Leiðtogar. I. Síra Jón lærði í Möðrufelli. Frækorn I. Óskar Guðmundsson 1997. Eldur í Eyjafirði – fyrsta fréttamyndin. Súlur 24 78-88. Páll Eggert Ólafsson 1922. Þorvaldur Thoroddsen. Andvari 47 5-43. Sigurður Guðmundsson 1946. Líðan og ljóðagerð Bjarna Thorarensen á Möðruvöllum. Samtíð og saga 3 59-137. Sigurður Guðmundsson 1959. Norðlenski skólinn. Menningarsjóður. 523-533. Sigurður Nordal 1944. Svipir. Bjarni Thorarensen. Áfangar 2 162-173. Sigurður Skúlason 1935. Um Bjarna Thorarensen. Samtíðin 2 12-17. Sigurður Stefánsson 1902. Norðlenskir skólar. Norðurland 15. 22. og 29. mars. Sigurður Stefánsson 1957. Möðruvallakirkja í Hörgárdal 90 ára. Heima er bezt 7 Stefán Stefánsson 1902. Norðlenskir skólar. Norðurland 1 97, 101, 106, 115. Steindór Steindórsson 1945. Ólafur Davíðsson. Æviágrip. Íslenskar Þjóðsögur 4 Steindór Steindórsson 1955. Möðruvellir í Hörgárdal. Jólablað Alþýðublaðsins 1955. Steindór Steindórsson 1961. Á Möðruvöllum. Jólablað Alþýðumannsins 10-11. Steindór Steindórsson 1963. Stefán Stefánsson skólameistari – aldarminning. Ársrit Steindór Steindórsson 1967. Ólafur Davíðsson. Merkir Íslendingar 6 131-155. Steindór Steindórsson 1981. Íslenskir náttúrufræðingar. Menningarsjóður. 330 s. Steingrímur J. Þorsteinsson 1969. Bjarni Thorarensen. Embættismaður og skáld. Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969. 170-189. Sveinn Bergsveinsson 1973. Bjarni Thorarensen – vinur ríkisins. Skírnir 147 102- Torfi K. Hjaltalín Stefánsson 2001. Eldur á Möðruvöllum, saga Möðruvalla í Hörgárdal frá öndverðu til okkar tíma. 1-2 bindi. Flateyjarútgáfan. 925 s. Tryggvi Gíslason 1981. Möðruvallaskólinn 1880-1902. Í: Saga Menntaskólans á Akureyri 1880-1980 (ritstj. Gísli Jónsson). I. bindi 1-142. Valtýr Stefánsson 1932. Frá Möðruvöllum í Hörgárdal. Endurminningar og sögubrot frá “brunabælinu”. Lesbók Morgunblaðsins 7 397-402. Þorsteinn Gíslason 1932. Bjarni Thorarensen. Fyrirlestur. Lögrétta 27 47-59. Þorsteinn Þorsteinsson 1953. Smásögur um Bjarna Thorarensen. Sagnaþættir Þórhallur Höskuldsson 1984. Merkisatburðir í sögu Möðruvallakirkju. Tíðindi presatélags hins forna Hólastiftis 5 115-118. Kirkjubólshreppur. Kirkjubólshreppur var sveitarfélag við sunnanverðan Steingrímsfjörð á Ströndum. Það var sameinað Hólmavíkurhreppi hinn 9. júní 2002 með tilskipun frá félagsmálaráðuneytinu og er ekki sjálfstætt lengur. Íbúatalan var þá komin niður fyrir 50 íbúa. Kirkjubólshreppur gekk um aldir undir nafninu Tungusveit og er það enn notað um svæðið. Kaldalón. Kaldalón er stuttur fjörður við norðanvert Ísafjarðardjúp. Þar rennur jökuláin Mórilla um vaðla og leirur um lónið sjálft í fjölmörgum farvegum. Hlíðarnar upp að lóninu eru kjarri vaxnar. Austan megin hafa varðveist húsarústir Trymbilstaða. Vestan Mórillu er Lónhóll þar sem munnmæli segja að eitt sinn hafi staðið bær. Fyrir ofan hólinn er kletturinn Keggsir með rauðleitan drang sem heitir Sigga. Frá veginum í botni fjarðarins er vinsæl gönguleið að Drangajökli. Þegar gengið er inn dalinn taka við flatir grasbalar og loks þverhníptir hamraveggir. Í dalbotninum, að austan, eru 300 metra há Votubjörg. Að baki þeirra taka við enn hærri hamraveggir þar sem Kaldalónsjökull skríður niður í dalinn og Mórilla steypist niður í háum fossi. Kaldalónsjökull er skriðjökull úr Drangajökli. Við sunnanvert Kaldalón hefur verið reistur minnisvarði um tónskáldið og lækninn Sigvalda Kaldalóns, sem bjó um ellefu ára skeið að Ármúla á Langadalsströnd, nálægt mynni Kaldalóns. Fyrir utan Kaldalón eru nokkrir bæir: Bæir undir Bæjarhlíð, Dalbær, Lyngholt og Unaðsdalur í mynni Unaðsdals. Unaðsdalur er kirkjustaður og þar stendur samnefnd kirkja. Utar er svo bærinn Tyrðilsmýri. Þaðan er stutt til Æðeyjar. Galdrastafur. Lásabrjótur Ægishjálmur Galdrastafir eru tákn sem eru notuð í þeim tilgangi til að ná stjórn á náttúruöflunum eða reyna að stýra framvindu mála. Íslenskir galdrastafir eiga sér mismunandi rætur. Sumir eru greinilega runnir frá rúnaletri og eru þá myndaðir úr samsettum rúnum, en aðrir eru vafalaust innfluttir og ber þar mest á ýmiskonar innsiglum sem finna má í dulspeki miðalda. Þeir eru varðveittir í margvíslegum handritum og skræðum. Sumir galdrastafir bera nöfn en aðrir ekki og þeim fylgja jafnan leiðbeiningar um til hvers þeir eru ætlaðir og hvað þarf að gera til að þeir virki rétt. Því máttugri sem galdurinn var, því erfiðara er yfirleitt að framkvæma hann. Tilgangurinn með notkun stafanna er margvíslegur, sumir eru ætlaðir til verndar eða lækninga og aðrir til að gera öðrum illt. Fjölmargir íslenskir galdrastafir eru til að verjast þjófnaði eða finna þjóf og annar stór hluti eru ástargaldrar, flestir til að verða sér úti um kvenmann. Galdraskræðurnar eru alls ekki alltaf sammála um heiti og tilgang einstakra stafa, en sjálf táknin má finna nákvæmlega eins í eldri og yngri skræðum. Í galdramálum sem upp komu á Íslandi á 17. öld er yfirleitt um að ræða stafi eða blöð sem ætluð eru til að létta sér lífsbaráttuna, en lítið bar á svartagaldri eða meingaldri. Einn elsti og þekktasti galdrastafurinn er sennilega verndarstafurinn Ægishjálmur sem er merki Strandasýslu og er hann til í ýmsum myndum í fjölmörgum skræðum. Björk Guðmundsdóttir lét húðflúra galdrastafinn Vegvísir á vinstri handlegginn sinn. Um galdrastafi er til sú hjátrú að ekki megi draga línurnar í átt að sér því þá virkar galdurinn gegn manni. Háteigskirkja. Háteigskirkja stendur við gatnamót Háteigsvegar og Lönguhlíðar / Nóatúns í Reykjavík og er kirkja Háteigssafnaðar. Háteigsprestakall var stofnað með lögum 17. júlí 1952, en árið 1963 breyttust sóknarmörk með stofnun Grensásprestakalls. Háteigskirkja var vígð aðventu 1965. Ágrip af byggingarsögu Háteigskirkju. Í upphafi var söfnuðurinn án kirkju en messað var í Fossvogskirkju og í hátíðarsal Sjómannaskólans. Bygging Háteigskirkju hófst í september 1957 en Halldór H. Jónsson arkitekt hannaði kirkjuna. Þórður Jasonarson, formaður sóknarnefndar tók fyrstu skóflustunguna. Þegar Sigurbjörn Einarsson biskup vígði kirkjuna í árslog 1965 var ýmsu ólokið. Með tilkomu safnaðarheimilis 1996 gerbreyttist aðstaða fyrir allt starf safnaðarins en safnaðarheimilið stendur norðan við kirkjuna og er tengt með glergangi við kirkjuna sjálfa. Mósaíkmyndir Benedikts Gunnarsson í Háteigskirkju. Kvenfélag Háteigssóknar gaf kirkjunni kórmynd eftir Benedikt Gunnarsson listmálara á aðventu 1988. Kórmyndin sem er 40 fermetrar að stærð ber yfirskriftina,Krossinn og ljós heilagrar þrenningar" og er mósaíkverk sem unnið var eftir teikningum höfundar af Franz Mayer´sche Hofkunstanstalt, München, Þýskalandi. Kórmyndin var fyrsta verkið sem þetta fyrirtæki vann fyrir íslenska kirkju. Auk þess var Benedikt fyrsti íslenski listamaðurinn vann með fyrirtækinu við slíkt stórverk. Í verkið valdi Benedikt misþykkt mósaikefni, sem að meginhluta er úr handsteyptu plötugleri og feneysku glersmelti. Auk fyrrgreinds efnis valdi hann einnig fjölmarga náttúrusteina, meðal annars ýmsar tegundir marmara og hálf-eðalsteina, antíkgler, tilhöggvið gler, blaðgull og blaðsilfur í myndinni. Í safnaðarheimilinu er að finna verk eftir Benedikt sem ber titilinn „Hvítasunna - kraftbirting heilags anda" og var önnur tillaga hans að kórmynd í kirkjunni en Benedikt færði kirkjunni verkið að gjöf í nóvember 2002 í tilefni af 50 ára afmæli safnaðarins. Vígðir þjónar kirkjunnar. Prestkostningar fóru fyrst fram í Háteigssókn í október 1952 og var sr. Jón Þorvarðarson kosinn lögmætri kosningu og þjónaði hann söfnuðinum til október 1976. Annar prestur safnaðarins var Sr. Arngrímur Jónsson sem hóf störf í janúar 1964, en hann hafði hlotið flest atkvæði í prestskosningum 1. desember 1963. Hann þjónaði söfnuðinum til ársins 1993. Þriðji prestur safnaðarins Sr. Tómas Sveinsson hlaut flest atkvæði og var skipaður í embættið í nóvember 1976. Hann er sóknarprestur kirkjunnar í dag. Fjórði prestur safnaðarins Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir hóf störf við Háteigskirkju í október 1993. Nokkrir prestar hafa komið að afleysingum í lengri eða skemmri tíma við kirkjuna, þar á meðal sr. Carlos Ferrer, sr. María Ágústsdóttir og sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir. Áskirkja. Áskirkja er kirkja Ássóknar í Reykjavík. Hún var vígð 1983. Neskirkja. Neskirkja er kirkja Nessóknar í Reykjavík. Ágúst Pálsson húsameistari hannaði hana. Kirkjan var vígð á pálmasunnudag 1957. Lestarslys á Íslandi. Lestarslys hafa verið fátíð á Íslandi vegna þess að lestarsamgöngur hafa ekki verið mikið notaðar, þá oftast aðeins tímabundið t.d. við byggingu mannvirkja. Lestarslys. Lestarslys eru slys sem að gerast í umferð lesta. Þau geta falið í sér t.d. árekstur tveggja eða fleiri lesta, að lest fari útaf sporinu eða að lest lendi í árekstri við hlut á teinunum, t.d. bifreið. PAN. Íslenska hljómsveitin PAN var stofnuð árið 2000 af söngvaranum Halldóri Erni Guðnasyni, hljómborðsleikaranum Gunnari Þór Pálssyni, bassaleikaranum Guðbjarti Karli Reynissyni og trommaranum Garðari Borgþórssyni. Árið eftir bættist gítarleikarinn Björgvin Benediktsson í hópinn og hefur hljómsveitin haldist í þeirri mynd síðan. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu - Virgins - í maí 2005. Áður hafði hljómsveitin tekið upp demóupptökur af eldri lögum sveitarinnar, en þær upptökur er þó hvergi hægt að nálgast opinberlega. Nauðgun. Nauðgun er líkamsárás og glæpur sem að felur í sér að fórnarlambið er neytt til einhverskonar kynlífsathafna, yfirleitt samfara, gegn vilja sínum. Nauðgun er samkvæmt íslenska réttarkerfinu næst refsiverðasti glæpur á eftir manndrápi. Lagaákvæði. Í Jónsbók stendur í kafla um níðingsverk: „Það er enn óbótamál, ef maður tekur konu nauðga, ef þar eru til tvö lögleg vitni, að það sé satt. Nú eru eigi vitni til, en hún segist nauðug tekin, og segir hún það samdægurs, þá dæmi tólf menn hinir skynsömustu eftir því, sem þeim þykja líkindi til bera, og hvort þeirra þykir líkt til sanninda. En þótt kona geti varið sig fyrir góðkvensku sakir, svo að hann komi eigi vilja sínum fram, þá ber með engu móti, að hann hafi eigi refsingu fyrir eftir dómi, ef sannprófast, að hann hafði fullan vilja til þess, og haldi þó lífinu." Langjökull. Langjökull er annar stærsti jökull Íslands, um 950 km² að stærð og hæsti punktur hans í 1.355 m hæð. Jökullinn er vestan við Hofsjökul á miðhálendi Íslands. Er hann talinn þekja tvær eldstöðvar. Austan undir jöklinum er jökullónið Hvítárvatn en það er upphaf Hvítár. Drangajökull. Kort yfir Vestfirði sem sýnir staðsetningu Drangajökuls Drangajökull er skammt frá sjó Drangajökull er 200 km² jökull á Vestfjörðum Íslands. Hann er nyrstur allra íslenskra jökla og dregur nafn sitt af Drangaskörðum á Ströndum, 7 klettadröngum sem ganga út í sjó frá Drangafjalli. Þegar Hornstrandir voru enn í byggð var jökullinn fjölfarin leið, þar yfir var m.a. fluttur rekaviður af Ströndum yfir í Djúp. Hann er ennfremur eini jökull Íslands alfarið undir kílómetra hæð og eins og sakir standa sem ekki hopar heldur vex nokkuð. Rúmmál snúða. Rúmmál snúða eða rúmmál snérla er í örsmæðareikningi aðferð til þess að finna rúmmál falls sem hefur verið snúið í þrívídd um einhvern ás, þá vanalega X-ás. Því er lýst með jöfnu sem notast við heildun. formula_1 sé fall af formula_2. Rúmmálið af snúði formula_3 á bilinu formula_4 til formula_5 um X-ás er Stærðfræðileg rökfræði. Saga. Stærðfræðileg rökfræði á rætur sínar að rekja til nokkurra stærðfræðinga og heimspekinga sem töldu þörf á aðferð til þess að lýsa rökyrðingum á stærðfræðilegan máta og þörf á heilsteyptu kerfi til þess að sýna fram á sannleiksgildi stærðfræðilegra fullyrðinga. Fremstan í flokki má nefna Gottlob Frege sem er gjarnan nefndur faðir nútímarökfræði. Bertrand Russell og Alfred North Whitehead skrifuðu bókina "Principia Mathematica" í þremur bindum á árunum 1910—1913. Í því riti leituðust þeir eftir því að skilgreina þekkta stærðfræði út frá forsendum stærðfræðilegrar rökfræði. Rökyrðingar. Í stærðfræðilegri rökfræði eru setningar gjarnan kenndar við breytistærð, til dæmis bókstafi. Röktákn. Táknræn rökfræði byggist á táknum í stað orða þar sem hægt er. Þetta er gert til þess að draga úr allri tvíræðni. Gerum ráð fyrir að "P" og "Q" séu rökyrðingar. Gerum ráð fyrir að "R(x)" sé umsagnarökfræðileg rökyrðing. Gerum þá ráð fyrir því að "x" sé breyta. Einnig eru svigar notaðir til aðgreiningar þegar að einhver tvíræðni er til staðar. Björg Caritas Þorláksson. Björg Caritas Þorláksson (fædd 30. janúar 1874 í Vesturhópshólum í Húnaþingi, dó 25. febrúar 1934 í Kaupmannahöfn), var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsnámi. 17. júní 1926 varði hún doktorsritgerð sína í sálfræði við Sorbonne-háskóla og hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu sama ár. Björg giftist Sigfúsi Blöndal árið 1903 og tók þá nafnið Blöndal en eftir að þau Sigfús skildu 1923 tók hún upp nafnið Björg C. Þorláksson. Björg birti fjölda þýðinga á ýmsum greinum í tímaritum á borð við Skírni. Ásamt Sigfúsi manni sínum vann hún að gerð dansk-íslenskrar orðabókar. Elín Briem. Elín Rannveig Briem (19. október 1856 – 4. desember 1937) eða Elín Briem Jónsson var skólastjóri eða forstöðukona Kvennaskólans á Ytri-Ey í Austur-Húnavatnssýslu 1883-1895. Síðar stofnaði hún Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Uppruni og menntun. Elín fæddist á Espihóli í Eyjafirði, dóttir hjónanna Ingibjargar Eiríksdóttur Briem og Eggerts Gunnlaugssonar Briem, sem þá var sýslumaður Eyfirðinga og var hún tíunda barn þeirra af nítján. Árið 1861 varð Eggert sýslumaður Skagfirðinga og flutti fjölskyldan þá fyrst að Viðvík í Viðvíkursveit en árið eftir að Hjaltastöðum í Blönduhlíð. Þar bjuggu þau í tíu ár en vorið 1872, þegar Elín var 15 ára, fluttu þau að Reynistað. Elín fékk menntun í heimaskóla eins og systkini hennar en bræðurnir fóru svo í framhaldsnám. Elín hafði mikinn hug á meira námi en á því var þá ekki kostur. Þess í stað hvatti hún til þess að kvennaskóla yrði komið á fót í héraðinu og var það gert haustið 1877, þegar Kvennaskóli Skagfirðinga hóf störf í Ási í Hegranesi. Elín tók að sér kennslu þar um veturinn og eins næstu tvö árin, þegar skólinn var á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, en illa gekk að fá honum fastan samastað. Þegar Húnvetningar stofnuðu kvennaskóla var Elín fengin til að stýra honum eftir fyrsta veturinn og gerði það á meðan skólinn var á Lækjamóti í Víðidal. Ytri-Ey og Kvennafræðarinn. Sumarið 1881 réðist Elín í að sigla til náms í Danmörku og lauk prófi frá húsmæðrakennaraskóla Nathalie Zahle í Kaupmannahöfn vorið 1883. Hún fór þá heim og tók við stjórn Kvennaskólans á Ytri-Ey á Skagaströnd, sem var sameiginlegur skóli Húnvetninga og Skagfirðinga. Þar kenndi hún til 1895 og hafði með sér tvo kennara. Í þessum skóla voru ekki eingöngu kenndar hannyrðir, matreiðsla og önnur hússtörf, heldur líka danska, enska, saga, landafræði, reikningur, skrift og fleira. Námsmeyjar voru fyrst tuttugu að tölu en fjölgaði síðar. Á Ytri-Ey ritaði Elín bókina "Kvennafræðarinn" sem kom fyrst út um áramótin 1888-1889. Áður höfðu komið út tvær matreiðslubækur á íslensku, árið 1800 og um miðja 19. öld, en hvorug náði mikilli útbreiðslu. Það gerði Kvennafræðarinn aftur á móti, seldist strax í 3000 eintökum og var endurprentuð fjórum sinnum. Bókin hafði veruleg áhrif á íslenska matargerð og einnig á hússtjórn, hreinlæti og margt annað. Hjónabönd og hússtjórnarskólar. Elín giftist Sæmundi Eyjólfssyni vorið 1895, hætti störfum við skólann og flutti til Reykjavíkur en Sæmundur dó tæpu ári síðar. Elín kenndi við Kvennaskólann næstu ár en beindi jafnframt kröftum sínum í að berjast fyrir stofnun hússtjórnarskóla í Reykjavík, því að hún vildi hafa skóla þar sem áherslan var á verkmenntun húsmæðra en ekki bóklegar greinar. Með miklum dugnaði við fjáröflun tókst henni að hrinda áformi sínu í framkvæmd og Hússtjórnarskóli Reykjavíkur var stofnaður 1897. Elín rak skólann, þótt hún stýrði honum ekki, til 1901 en þá flutti hún aftur norður og tók við stjórn Kvennaskólans á Blönduósi, sem var arftaki skólans á Ytri-Ey. Hún stýrði skólanum í tvö ár en þá giftist hún öðru sinni, Stefáni Jónssyni verslunarstjóra á Sauðárkróki, sem hún hafði reyndar verið trúlofuð þegar hún var ung stúlka. Ekki varð það hjónaband mjög langvinnt heldur því að hann dó 1910. Þá tók hún aftur við stjórn skólans á Blönduósi en sagði upp starfi sínu 1915 vegna heilsuleysis og flutti til Reykjavíkur. Þar bjó hún eftir það og starfaði mikið að kvenréttindamálum og þá einkum þeim sem vörðuðu menntun kvenna. Eftir að Elín giftist Stefáni var hún ævinlega nefnd Elín Briem Jónsson. Í grein sem skrifuð var í tímaritið 19. júní á sjötugsafmæli Elínar segir að hún hafi jafnan stýrt húnvetnska kvennaskólanum „með áhuga, röggsemi og lipurð, og sérstaklega næmum skilning á hvað best hentaði íslenskum staðháttum, og hversu nemendur gætu haft sem mest not skólavistarinnar. Enda brá svo við að hvert sinn er hún kom að skólanum jókst aðsókninað honum stórum". Elín Briem hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1921, fyrst kvenna ásamt Þórunni Jónassen, fyrir störf sín í þágu menntunar íslenskra kvenna. Þórunn Jónassen. Þórunn Jónassen (fædd 12. júní 1850 að Ketilsstöðum á Völlum í S-Múlasýslu, dáin 18. apríl 1922 í Reykjavík), einnig þekkt sem Þórunn Hafstein Pétursdóttir, var fyrsti formaður Thorvaldsensfélagsins og ein fjögurra kvenna sem árið 1908 urðu fyrstu konurnar í bæjarstjórn Reykjavíkur. Þórunn sat í bæjarstjórn árin 1908-1914. Árið 1921 hlaut Þórunn riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu, fyrst kvenna ásamt Elínu Briem. Uppvöxtur og fjölskylda. Foreldrar Þórunnar voru Pétur Hafstein, sýslumaður og amtmaður, faðir Hannesar Hafstein, og fyrsta kona hans, Guðrún Hannesdóttir Stephensen. Þórunn missti móður sína er hún var aðeins 10 mánaða gömul og ólst upp til fermingjar ýmist hjá nákomnum ættingjum, eiginkonu Eggerts Jónssonar læknis á Akureyri, eða hjá föður sínum á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem faðir hennar var amtmaður. Fjórtán ára gömul fór Þórunn til námsdvalar í Kaupmannahöfn og gekk meðal annars á skóla fröken Nathalie Zahle, en hann var í miklu áliti í Danmörku. Fröken Zahle var mikil kvenréttindakona sem vann að því að tengja saman menntun kvenna og réttindabaráttu þeirra. Frá Kaupmannahöfn kom Þórunn til Reykjavíkur og árið 1871, þá 21 árs gömul, og giftist hún Jónasi Jónassen, lækni við Sjúkrahúsið í Reykjavík. Jónas var settur landlæknir frá 1881–1882 en hann gegndi embættinu frá 1895 til 1906. Heimili þeirra var lengst af í Lækjargötu 8, á horni Skólabrúar og Lækjargötu og stendur það hús að mestu með sama sniði að ytra útliti. Hjónin eignuðust eina dóttur árið 1873, Soffíu. Störf að félagsmálum og stjórnmálum. Þórunn var stofnandi Húsmæðrjafélagsins og formaður þess til æviloka. Hún var gjaldkeri í Landspítalasjóðanefndinni en með byggingu spítalans vildu íslenskar konur minnast þeirra tímamóta er varð 19. júní 1915 er þær öðluðust kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þórunn gaf sig að ýmsum öðrum félgasmálum í Reykjavík og í bæjarstjórn átti hún sæti 1908-1914. Þórunnartún, áður Skúlatún. Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Skúlatúns í Reykjavík skyldi breytt í Þórunnartún til að heiðra minningu Þórunnar Jónassen. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Skúlagötu var breytt í Bríetartún til að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, nafni Sætúns í Guðrúnartún (til heiðurs Guðrúnar Björnsdóttur) og nafni Höfðatúns var breytt í Katrínartún til að heiðra minningu Katrínar Magnússon. Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Halldóra Bjarnadóttir. Halldóra Bjarnadóttir (fædd 14. október 1873 að Ási í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, dó 28. nóvember 1981 á Blönduósi) var skólastjóri barnaskólans á Akureyri, fyrsti formaður Sambands norðlenskra kvenna og ritstjóri tímaritsins Hlínar. Halldóra leiddi framboðslista kvenna við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri árið 1921 og náði kjöri. Hún sagði hins vegar af sér bæjarfulltrúastarfinu tveimur árum síðar. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1931 og stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1971. Svafa Þórleifsdóttir. Svafa Þórleifsdóttir (fædd 20. október 1886 að Skinnastað í Öxarfirði, dó 7. mars 1978) var skólastjóri og og ritstjóri og hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1967 og stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1973. Sean Kinney. Sean Howard Kinney (fæddur 27. maí 1966) er bandarískur tónlistarmaður og trommari Alice In Chains. Afi Sean byrjaði að kenna honum á trommur þegar hann var þriggja ára gamall. Þegar Sean var aðaeins níu ára gamall var hann byrjaður að spila í hljómsveit með afa sínum sem hét "The Cross Cats" og ferðaðist hann með þeim vítt og breitt um bandaríkin að spila í brúðkaupum. Árið 1987 var Alice In Chains stofnuð af Jerry Cantrell og Layne Staley og fengu þeir Mike Starr á bassa. Þar sem Sean var sambýlismaður systur Mike's fékk hann hlutverk trommuslagara í sveitinni. Sean spilaði á öllum plötum sveitarinnar þar til sveitin lét af störfum við andlát Layne Staley. Sean spilaði einnig á sólóplötu sem Jerry Cantrell gerði, Boggy Depot. Árið 2005 snéri Sean aftur til að spila með Alice in Chains á styrktartónleikum fyrir þá sem lentu í flóðbylgjunni á jóladag 2004. Kinney, Sean Villeneuve-d'Ascq. Villeneuve-d'Ascq er borg í Frakklandi. Hún er norðarlega í Frakklandi. Freyja. Freyja er gyðja ástar og frjósemis í norrænni goðafræði. Nafn hennar merkir „frú“. Freyja er af ætt vana en bjó ásamt bróður sínum Frey og föður sínum Nirði í Ásgarði en þangað voru þau send sem gíslar og vináttuvottur eftir stríð þessara tveggja ætta goða. Freyja var valdamikil gyðja og mikið dýrkuð af konum en einnig af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar og veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn bæði goð og konunga sem hún studdi svo í valdatíð þeirra. Fjölskylduhagir og heimili. Samkvæmt Ynglingasögu er Freyja dóttir sjávarguðsins Njarðar og systur hans, en einnig er hún stundum talin dóttir Njarðar og gyðjunnar Skaða. Hún er systir frjósemisguðsins Freys og er bóndi hennar nefndur Óttar eða Óður, þó Snorri segi hana gifta Frey. Óður þurfti oft að fara í langferðir og þegar hann var í burtu grét hún tárum úr skíragulli af söknuði. Dætur þeirra eru Hnoss og Gersemi. Bær Freyju heitir Fólkvangur þar sem salurinn Sessrúmnir er en hann er bæði rúmgóður og lofthreinn. Þangað eru allir velkomnir. Dýrgripir Freyju. Freyja ferðaðist í vagni sem tveir kettir drógu. Hún átti einnig valsham sem var þeim eiginleikum búinn að er hún klæddist honum breyttist hún í fugl og gat flogið hvert sem hún vildi. Þessi valshamur kemur mikið fyrir í goðsögunum og oft vegna þess að Loki stelst til að nota hann. Freyja hafði miklar mætur á dýrum djásnum og átti hálsmen nokkuð sem var kallað Brísingamen kallað eftir dvergaætt þeirri, Brísingum, sem það höfðu smíðað. Freyja sá dýrgripinn hjá dvergunum og fékk mikla ágirnd á því. Þeir sögu að hún mætti fá það ef hún eyddi einni nótt með hverjum þeirra og hún samþykkti það. Þegar Óðinn frétti af þessu skipaði hann Loka að ræna meninu af Freyju. Loki breytti sér þá í flugu til að komast inn í skemmu hennar, en sagt var að enginn maður gæti komist þangað inn án leyfis gyðjunnar. Því næst breytti hann sér í fló meðan Freyja svaf og beit hana í kinnina svo að hún velti sér á magann. Þá gat hann opnað lásinn, tekið menið og fært það Óðni. Þegar Freyja uppgvötaði að menið var horfið grunaði hana að Óðinn hefði tekið það og heimtaði að hann skilaði því. Óðinn gerði það en fyrst þurfti Freyja að koma af stað vígum milli tveggja konunga, en víg þessi þróuðust yfir í eina af helstu hetjusögnum víkingatímans. Freyr. Freyr getur meðal annars átt við Njörður. Njörður getur meðal annars átti við Þingvallavatn. Þingvallavatn er stærsta náttúrulega stöðuvatn Íslands og er 83,7 km2 að flatarmáli. Í Þinvallavatni eru tvær megineyjar, "Sandey" og "Nesjaey" og á milli þeirra er "Heiðarbæjarhólmi". Suðaustur af Þingvallavatni er Úlfljótsvatn. Þar sem Þingvallavatn er dýpst er það 114 m. Mest af vatninu kemur beint úr uppsprettum og því er aðeins lítill hluti þess úr ám. Þó renna árnar Villingavatnsá, Ölfusvatnsá og Öxará í Þingvallavatn. Úr vatninu rennur Sogið, en það er stærsta lindá á Íslandi. Þrjár fiskategundir lifa í Þingvallavatni, en þær eru: bleikja, hornsíli og urriði. Í Þingvallavatni eru fjögur afbrigði af bleikju, fleiri en fundist hafa í nokkru öðru vatni í heiminum, og allar eru þær einstakar fyrir vatnið. Ystu punktar Íslands. Ystu punktar Íslands eru þeir staðir sem eru vestastir, austastir, nyrstir eða syðstir á Íslandi. Hjálparfoss. Hjálparfoss er foss neðarlega í Fossá í Þjórsárdal. Fossinn er tvöfaldur og eru stuðlabergsmyndanir í kringum hann. Nafnið kom til þegar ferðir yfir Sprengisand voru tíðari og ferðalangar fundu gras handa hrossum sínum og hægt var að brynna þeim á öðru en jökulvatni. Njörður (norræn goðafræði). Njörður er sjávarguð í norrænni goðafræði. Hann var einn Vana, en bjó í Ásgarði meðal Ása í kjölfar stríðs goðaættanna tveggja. Hann á börnin Freyju og Frey, en þau eru bæði frjósemisgoð. Hann er giftur jötunynjunni Skaða. Heimili Njarðar er nefnt Nóatún, og er við sjó, en heimili Skaða er í Þrymheimi, uppi í fjöllum. Þau urðu ekki ásátt um að búa á öðrum hvorum staðnum, heldur voru níu nætur til skiptis á hvorum stað. Freyr (norræn goðafræði). Freyr er frjósemisgoð, hið mikilvægasta í norrænni goðafræði. Hann er einn vana en líkt og faðir hans Njörður og tvíburasystir hans Freyja býr hann í Ásgarði. Bústaður hans er Álfheimur sem honum var gefinn í tannfé. Hann ræður fyrir regni og skini sólar og þar með gróðri jarðar. Á hann er gott að heita til árs, friðar og fésælu. Fjölskyldutengsl. Freyr er sonur sjávarguðsins Njarðar og bróðir frjósemis- og ástargyðjunnar Freyju. Hvert sem þau systkin fóru lyftu jurtir, blóm og tré krónum sínum og döfnuðu, jarðargróði þroskaðist, búfé þreifst vel og margfaldaðist og ungt fólk leiddi hugann að ástum. Kona Freys er jötunynjan Gerður. Gripir. Meðal þekktustu eigna Freys eru skipið Skíðblaðnir, sem hefur þann eiginleika að hafa alltaf byr þegar segl kemur á loft, en má vefja saman sem dúk og hafa í pungi, gölturinn Gullinbursti sem dregur vagn hans og galdrasverð, sem berst af sjálfsdáðum. Sverð þetta var smíðað af ljósálfum með máttugum töfraþulum með þann tilgang að það yrði að berjast fyrir æsi ef þeir ættu að hafa nokkra von um að sigra í Ragnarökum. Hvernig Freyr fékk Gerðar. Eitt sinn er Freyr var ungur og ólofaður stalst hann til að setjast í hásæti Óðins en þaðan gat hann séð um heima alla. Á norðurhjara sá hann konu eina, sem var svo fögur að það lýsti frá henni birtu um alla heimana. Kona þessi var jötunmeyjan Gerður, dóttir Aurboðu tröllkonu og Gymis bergrisa. Freyr varð svo ástfanginn af Gerði að hann lokaði sig inni, talaði ekki við nokkurn og hvorki át, drakk né svaf. Þar sem hann var frjósemisgoð þá tók öll náttúran þátt í sorg hans og hætti að bera ávöxt. Eftir langa mæðu fékst Freyr loks til að segja besta vini sínum Skírni ástæðuna fyrir þunglyndi sínu. Hann segir honum að hann sé ástfanginn af Gerði og viti að þar sem að hún sé af ættum jötna sem voru svarnir óvinir ása og vana þá séu allir andvígir því að hann fái hana, en að hann vilji nú samt reyna að fá hennar og biður Skírni um að ríða í Jötunheim og biðja hennar sér til handa. Freyr útskýrir að jötnarnir hafi þegar samþykkt ráðhagin með þeim skilmálum að þeir fái í staðinn töfrasverðið hans sem hafði þá náttúru að það barðist sjálft. Freyr var svo djúpt sokkinn í þunglyndi að honum var ekki hugað líf mikið lengur og ef guð ástar og frjósemdar dæi þá myndi náttúran deyja líka. Skírnir sá því að hann hafði ekki um neina kosti að velja og fór að ósk Freys. Freyr fékk þannig Gerðar og áttu þau farsæla sambúð, en þess í stað tapaði hann sverðinu sínu góða. Jóhamar. Jóhamar ("Jóhannes Óskarsson") (fæddur 23. júní 1963) er skáld og rithöfundur. Jóhamar var einn af meðlimum súrrealistahópsins Medúsu og síðar einn af stofnfélögum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu. Vegabréfsáritun. Vegabréfsáritun er skjal sem gefið er út af ákveðnu ríki sem veitir einstaklingi leyfi til að leggja fram formlega beiðni um að fara inn í eða út úr ríkinu í ákveðinn tíma. Einstaklingar á Schengen-svæðinu þurfa ekki vegabréfsáritun til að ferðast innan þeirra landamæra. Schengen. Schengen er vínræktunarþorp í suðaustur Lúxemborg nærri landamærum Þýskalands, Frakklands og Lúxemborg. Árið 2004 bjuggu þar 425 manns. Þorpið komst í heimsfréttirnar 14. júní 1985 þegar Schengen-sáttmálinn var undirritaður á skipinu Princesse Marie-Astrid á Moselle-ánni við Schengen. Mandríll. Mandrill skull Mandrill (fræðiheiti: "Mandrillus sphinx") er prímati af ætt stökkapa. Tegundin flokkast nú til "Mandrillus" ættkvíslarinnar ásamt vestur-afríska bavíananum en flokkaðist áður til bavíana. Mandrillinn er stærsti api í heimi en þeir verða allt að ½ m á lengd, kaldýrin verða um 30 kg og kvendýrin um 15 kg. Mandrillar eru félagsdýr sem finnast í hópum frá 5 og upp í 50 dýrum undir forustu eldra karldýrs. Mandrillar eru alætur sem nærast aðallega á plöntum skordýrum og litlum dýrum, þeir eru jarðdýr þó þeir klifri stöku sinnum tré til að sofa í þeim. Helstu óvinir mandrilla eru hlébarðar og blettatígrar. Heimkynni. Heimkynni mandrilla eru í regnskógum Vestur-Afríku við miðbaug (suður-Kamerún, Gabon og Lýðveldinu Kongó). Sverrir Magnús Noregsprins. Sverrir Magnús Noregsprins (fæddur 3. desember 2005) er yngsta barn Mette-Marit krónprinsessu Noregs og Hákonar krónprins. Í norsku konungsfjölskyldunni er Sverrir Magnús þriðji í erfðaröð norsku krúnunnar á eftir föðurnum, Hákoni, og systur sinni, Ingiríði Alexöndru. Ingiríður Alexandra Noregsprinsessa. Ingiríður Alexandra Noregsprinsessa (fædd 21. janúar 2004) er dóttir Hákonar krónprins og Mette-Marit krónprinsessu. Hún er fyrsta barn þeirra. Ingiríður Alexandra er önnur í erfðaröð norsku krúnunnar á eftir Hákoni föður sínum. Mandrillus. Mandrillus (fræðiheiti: "Mandrillus") er ættkvísl prímata af ætt stökkapa sem inniheldur tvær tegundir, mandrillinn og vestur-afríska bavíanan. Ættkvíslin er náskyld bavíönum og þær tvær tegundir í henni voru þar til nýlega flokkuð sem ein tegund í þeirri ættkvísl. Alexandría. Alexandría er nútímastórborg, stofnuð í fornöld. Alexandría er önnur stærsta borg Egyptalands. Borgin var stofnuð af Alexander mikla um 331 f.Kr. er ríki hans var sem stærst. Borgin var fljót að blómstra og varð ein helsta miðstöð menningar og verslunar. Þar var stórt bókasafn stofnað af Ptolemajos Sóter rétt eftir dauða Alexanders (323 f.Kr.). Í Bókasafninu í Alexandríu er að þar hafi verið allt að 700.000 bækur en safnið brann í óeirðum og er talið að þar hafi mikil þekking farið forgörðum. Alexandría er á Miðjarðarhafsströnd Egyptalands 208 km norðvestan við Kaíró. Íbúafjöldi er um 3.723.000. Vitinn mikli, eitt af sjö undrum veraldar, stóð á eynni Faros skammt við höfn Alexandríu í um 1500 ár, en féll að lokum í jarðskjálftum á fyrri hluta 14. aldar. Volt. Volt er SI-eining rafspennu, táknuð með V, nefnd eftir ítalska eðlisfræðingnum "Alessandro Volta" (1745-1827). Ef vinnan sem þarf til þess að flytja rafhleðsluna eitt kúlomb á milli tveggja punkta er 1 júl, þá er spennumunurinn (spennan) á milli þeirra eitt volt. (Skilgreiningin er óháð því hvaða leið rafhleðslan fer í spennusviðinu.) Þannig gildir að 1 V = 1 J/C. Vatt. Vatt (enska "Watt") er SI-mælieining fyrir afl eða afköst, táknuð með W. Eitt vatt jafngildir einingunni júl á sekúndu. Dregið af nafni skoska uppfinningamannsins James Watt. Einingin hestafl (ha), sem ekki er SI-mælieining, er oft notuð til að mæla afl bílvéla, en 1 ha = 746 W. Amsterdam. Amsterdam er höfuðborg Hollands, þó ekki stjórnsýsluleg höfuðborg þar sem að ríkisstjórnin situr í Haag. Borgin er þekkt fyrir síki sín og frjálsræði varðandi vændi og fíkniefnaneyslu, hvort tveggja er áberandi í Rauða hverfinu (De Wallen). Algengur misskilningur er að hass sé þar löglegt en raunin er að sala og neysla þess er látin afskiptalaus á meðan hún fer fram inni á svokölluðum „Coffee shops“. Lega og lýsing. Loftmynd af miðborg Amsterdam. Síkin sjást greinilega. Amsterdam liggur í héraðinu Norður-Holland, við suðurjaðar Markermeer, sem er syðsti hluti Ijsselmeer. Næstu borgir eru Haarlem til vesturs (10 km), Zaanstad til norðurs (10 km), Amstelveen til suðurs (5 km) og Hilversum til suðausturs (15 km). Í gegnum Amsterdam renna árnar Ij og Amstel. Borgin er reist á um það bil 5 milljón trjástofnum. Hundruð síki ganga hringin í kringum miðborgina, sem gefur borginni einkennilega ásýnd. Íbúar eru 780 þús og fjölgar hratt. Á stórborgarsvæðinu búa um 1,1 milljón manns. Mikil höfn er í Amsterdam og liggur hún í ánni Ij, sem tengist Norðursjó með skipaskurði. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Amsterdam eru þrjár lóðréttar rendur: Rauð, svört, rauð. Í svörtu röndinni eru þrír hvítir krossar, eins og x í laginu. Krossarnir eru svokallaðir Andrésarkrossar, sem vísa til þess að Andrés postuli var krossfestur á slíkum krossi. Einnig merkja krossarnir hinar þrjár hættur sem steðjuðu að borginni fyrrum: Flóð, eldar og pestir. Fáninn er hér um bil eins, nema hvað búið að snúa röndunum í lárétt. Fáninn var ekki formlega tekinn í notkun fyrr en 5. febrúar 1975 þrátt fyrir að borgin hafi notað hann öldum saman. Orðsifjar. Amsterdam er nefnd eftir ánni Amstel sem rennur í gegnum borgina, en fyrr á öldum var settur varnargarður ("dam") við ána (og reyndar víðar til varnar vatni frá Ijsselmeer). Í upphafi var talað um Amstellerdam, en þar er Amstel í eignarfalli. Söguágrip. Amsterdam 1538. Elsta mynd sem til er af borginni. Upphaf. Amsterdam myndaðist í kringum 1250 er fyrstu bændur og fiskimenn settust að í mýrarfláka við ána Amstel. Jörðin var ekki sérlega frjósöm þar, því hún var of blaut. Því var ráðist í að reisa varnargarð ("dam") við samflæði ánna Amstel og Ij, en þaðan er heiti borgarinnar komið. Garður þessi er enn til, en er þó undir torginu Dam. Eftir þetta óx bærinn og varð að mikilvægum hafnarbæ. Verslað var aðallega með bjór og fisk. Í upphafi 14. aldar hlaut Amsterdam borgarréttindi og var þá orðin vel þekkt hafnarborg í Evrópu. 1369 gekk borgin í Hansasambandið. Eftir stórbruna 1421 var ákveðið að hús í borginni skyldu eingöngu byggð úr steinum. 1441 hlaut Amsterdam borgarmúra. Gullaldarárin. Þegar spænska Habsborgarlínan eignaðist Niðurlönd, reyndi spænski konungurinn að þvinga kaþólska trú á íbúana. Þá gerðu Hollendingar uppreisn, sem varð að sjálfstæðisstríði. Amsterdam gekk í fyrstu til liðs við Spánverja. 1577 ákvað borgin að segja skilið við Spánverja og ganga til liðs við Hollendinga. Í desember það ár gengu hollenskir uppreisnarmenn inn í borgina, settu borgarráð af, ráku kaþólikka úr borginni, innleiddu siðaskiptin og settu nýtt borgarráð. Síðan þá hefur Amsterdam verið eitt sterkasta vígi Hollendinga í sjálfstæðisstríði þeirra. Í kjölfarið fluttu margir húgenottar frá Frakklandi og gyðingar frá Spáni og Portúgal til Amsterdam. 1602 var Hollenska Austur-Indíafélagið stofnað, sem hafði aðalaðsetur í Amsterdam. Siglingar til Asíu og Ameríku færðu borginni mikla auðlegð og verslunarmöguleika. Brátt var svo komið að höfnin, sem var stækkuð, varð að stærstu höfn heims. Borgin varð að þriðju stærstu borg Evrópu og ein helsta fjármálamiðstöð heims. Staða þessi hélst allt til loka 17. aldar, en þá tók London við þessu hlutverki. Franski tíminn. 1795 ráku Frakkar Vilhjálm V af Óraníu, landstjóra Hollands, burt úr Amsterdam, þar sem hann var bæði óvinsæll og ódugandi. Vilhjálmur flúði þá til London. En eiginkona hans var frá Prússlandi og tók prússneskur her Amsterdam í þeirri viðleitni að halda Frökkum frá. En allt kom fyrir ekki. Frakkar hertóku Holland 1797 og breyttu landinu í Batavíska lýðveldið. 1806 gerði Napoleon bróður sinn, Loðvík Bonaparte, að konungi Hollands. Hann settist að í Amsterdam og gerði borgina formlega að höfuðborg ríkisins. Borgin leið hins vegar undir stjórn Frakka. Verslun hrundi sökum efnahagsþvingana Breta. Fátæktin hóf innreið sína í Amsterdam. 1810 kallaði Napoleon bróður sinn heim og innlimaði Holland Frakklandi. Þannig stóðu málin allt til 1814, en þá hurfu Frakkar úr landi. Ný stjórn sameiginlegra Niðurlanda ákvað að þinga í borgunum Brussel og Haag. Holland hlaut hins vegar landstjóra á ný og sat hann í Amsterdam. Þegar Belgar slitu sig úr sambandinu 1830 varð Haag áfram aðsetur hollenska þingsins, en Amsterdam var þó yfirlýst höfuðborg Hollands. Iðnbyltingin. Í upphafi 19. aldar fóru sjóleiðirnar frá Amsterdam til sjávar að verða mjög erfiðar sökum framburðar í ánum. Þetta varð til þess að höfnin í Amsterdam missti vægi sitt á kostnað borga eins og Rotterdam. Til að bæta efnahaginn var ákveðið að setja upp mikinn iðnað í borginni. Reistar voru stálverksmiðjur sem urðu til þess að borgin stækkaði að muna. Til að geta komið vörum fljótar frá var skipaskurður grafinn vestur til Norðursjávar (Noordzee Kanaal) og austur til Rínarfljóts (Amsterdam-Rijn Kanaal). Þannig mynduðust góðar samgöngur til hafs og til Evrópu. Tíminn til aldamóta 1900 er oft kallaður síðari gullöldin í Amsterdam. 20. öldin. Þýskur her í Amsterdam. Myndin er tekin í maí 1940. Stytta af gyðingastúlkunni Önnu Frank Í heimstyrjöldinni fyrri var Holland hlutlaust ríki. En sökum stríðsins voru vörur og matur af skornum skammti þannig að jaðraði við hungursneyð í borginni. Meðan stríðið geysaði réðust vinnandi konur inn í flutningaskip, sem hlaðið var vörum fyrir herinn, og rændu sem best þær gátu. Margir eiginmenn þeirra hjálpuðu til. Þetta endaði með því að hollenski herinn var sendur á vettvang og hóf að skjóta á fólkið. 6 manns biðu bana, tæplega 100 særðust. Eftir stríð batnaði efnahagurinn á ný. 1928 var borgin orðin svo vel stæð að hún var gestgjafi Ólympíuleikana það árið. Í kreppunni miklu breyttist allt. Á fjórða áratugnum var fjórðungur borgarbúa atvinnulaus. 1932 var mikill sjávarvarnargarður lagður fyrir mynni Zuiderzee, þannig að firðinum var breytt í ferskvatn (Ijsselmeer). Þannig lá Amsterdam í fyrsta sinn í sögunni ekki lengur að sjó. Í heimstyrjöldinni síðari var Holland enn hlutlaust ríki. Þrátt fyrir það réðust Þjóðverjar inn í landið og var Amsterdam hertekin í einni svipan 10. maí 1940. Skömmu síðar hófu nasistar að safna gyðingum saman og flytja þá úr landi. Gengið var sérstaklega rösklega fram í Amsterdam, en talið er að aðeins rúmlega 6% gyðinga í borginni hafi lifað helförina af. Meðal þeirra gyðinga sem sendir voru burt var fjölskylda Önnu Frank, en dagbók hennar um felustað hennar 1942-44 fannst eftir stríð og varð heimsþekkt við útgáfu. Það var kanadísk hersveit sem frelsaði borgina úr höndum nasista í upphafi árs 1945. Veturinn 1944-45 var óvenju kaldur. Hungursneyð ríkti í Amsterdam og létust þúsundir úr vosbúð áður en Kanadamenn komu á vettvang. Mikil menningarbylting hóf innreið sína í Amsterdam á sjöunda áratugnum meðal unga fólksins. Leyfi stjórnvalda á léttum fíkniefnum lokkaði marga til borgarinnar, ekki síst hippa. Amsterdam varð að nokkurs konar fíkniefnamiðstöð í Evrópu. Enn í dag er löglegt að kaupa hass og marihuana í vissum kaffihúsum. Unga fólkið tók ósjaldan tóm hús til afnota og fylgdi þessu nokkur átök við lögreglu. Við sjálfstæði hollensku Guyjana (Súrínam) streymdi fólk þaðan til Hollands. Einnig fluttu margir Tyrkir og fólk frá öðrum löndum þangað. Um helmingur íbúa Amsterdam eru af erlendu bergi brotnir. 1992 hrapaði ísraelsk flutningavél á blokk í íbúðahverfi í Amsterdam. 43 manns biðu bana. Viðburðir. Seglskipið Amerigo Vespucci í Sail Amsterdam Amsterdam Gay Pride er hátíð samkynhneigðra þar í borg og er haldin fyrstu helgi í ágúst ár hvert. Hápunktur hátíðarinnar er bátasigling með þátttakendum um síkin (Canal Parade). Hundruð þúsunda manna sækja hátíð þessa heim. Sail Amsterdam er seglskipahátíð í borginni sem haldin er fimmta hvert ár. Hún var fyrst haldin 1975 í tilefni af 700 afmæli borgarinnar. Stærstu seglskip heims sækja hátíðina, en árið 2000 voru þau um 8.000 talsins. Sail Amsterdam er langstærsta og fjölmennasta hátíð Hollands. Hátíðin var síðast haldin 2010. Íþróttir. Amsterdam er Ólympíuborg, en hún hélt sumarleikana 1928. Engir Íslendingar tóku þátt í leikunum að þessu sinni. Þekktasta íþróttafélag borgarinnar er knattspyrnuliðið Ajax Amsterdam. Liðið hefur oftar orðið hollenskur meistari en nokkurt annað félag, eða 30 sinnum alls (síðast 2011). Liðið hefur einnig orðið bikarmeistari 18 sinnum (síðast 2010), einu sinni Evrópubikarmeistari 1987 (sigraði þá Lokomotive Leipzig), einu sinni Evrópumeistari (1995, sigraði þá Torino), og þrisvar sigurvegari í Super Cup í Evrópu (síðast 1995 og sigraði þá Real Saragossa). Ajax er því fjórða liðið sem sigrað hefur í öllum þremur evrópskum knattspyrnukeppnum, en hin eru Juventus, FC Barcelona og Bayern München. Einn Íslendingur leikur með Ajax, en það er Kolbeinn Sigþórsson (kom frá AZ Alkmaar). Amsterdam Marathon er næstfjölmennasta Maraþonhllaupið í Hollandi (á eftir hlaupinu í Rotterdam). Það er haldið í október ár hvert og hefur verið haldið síðan 1975. Dam tot Damloop er árlegt víðavangshlaup í Hollandi og er hlaupið milli Amsterdam og borgarinnar Zaandam. Vegalengdin eru tíu mílur (ca. 16,1 km). Þátttakendur eru rúmlega 30 þús. Hjólreiðakeppnin Giro d´Italia var með rásmark í Amsterdam árið 2010. Söfn. Vísindasafnið NEMO er eins og skipsstefni í laginu Byggingar og kennileiti. Oude Kerk er elsta kirkjan í Amsterdam Japanskt jen. Jen (japönsku: 円, en) er japanskur gjaldmiðill. Það er einnig vinsælt sem gjaldeyrisvaraforði, á eftir Bandaríkjadalnum og evrunni. ISO 4217 gjaldeyristáknið fyrir jen er JPY og 392. Latneska táknið er ¥. Nafn. Á japönsku er það yfirleitt borið fram sem „en“, en á íslensku er framsetningin nær enska framburðinum ("yen"). Á bæði japönsku og kínversku, þýðir "en" bókstaflega „"kringlóttur hlutur"“. Saga. Jenið var innleitt af Meiji-ríkisstjórninni árið 1870 sem myntkerfi í líkingu við þau sem þekktust í Evrópu. Jenið kom í stað flókins myntkerfis frá Edo tímabilinu, sem byggt var á moni. "Nýju gjaldmiðilslögin" árið 1871 kváðu á um að tekinn yrði upp tugakerfisreikningur fyrir "jen" (1), "sen" (), og "rin "(), þar sem að myntir væru kringlóttar og steyptar líkt og í Vesturlöndum. "Sen"- og "rin"-myntirnar voru seinna teknar úr umferð árið 1954. Jenið var skilgreint sem 0,8667 troyes únsa (26,956 g) af silfri, sem jafngildir um 450 krónum. Þessi lög færðu einnig Japan yfir á gullfótinn. Jenið tapaði næstum öllu verðgildi sínu í kringum og eftir Seinni heimsstyrjöldina. Eftir nokkurn óstöðugleika, var jenið fest sem 1 Bandaríkjadalur = ¥360. Gilti þessi festing frá 25. apríl 1949 fram til 1971 þegar Bretton Woods kerfið féll saman og jenið byrjaði að fljóta. Eftir Plaza Sáttmálann árið 1985, hækkaði jenið gagnvart bandaríkjadalinum. Frá og með byrjun 2006 jafngilda 100 krónur um það bil ¥175. Luís Figo. Luís Filipe Madeira Caeiro Figo (fæddur 4. nóvember, 1972 í Lissabon, Portúgal) er portúgalskur knattspyrnumaður. Figo var valinn knattspyrnumaður Evrópu árið 2000 og leikmaður ársins af FIFA árið 2001. Hann er einn fárra leikmanna sem hefur spilað með tveimur stærstu fótboltaliðum Spánar, FC Barcelona og Real Madrid. Pauleta. Pauleta, fullu nafni Pedro Miguel Carreiro Resendes (fæddur 28. apríl 1973 í Ponta Delgada, Asóreyjum) er portúgalskur knattspyrnumaður. Pauleta er eini portúgalski landsliðsmaðurinn sem hefur aldrei spilað í efstu deild Portúgals. Þann 12. október 2005 bætti hann markamet knattspyrnumannsins Eusébio þegar hann skoraði 42. markið sitt fyrir portúgalska landsliðið. Fimleikafélag Hafnarfjarðar. Fimleikafélag Hafnarfjarðar, skammstafað FH, er íslenskt íþróttafélag í Hafnarfirði. Það var stofnað árið 1929. Saga. Félagið stundaði fyrstu árin fimleika, undir styrkri leiðsögn Hallsteins Hinrikssonar, en hann var einn af stofnendum félagsins. Einnig voru frjálsar íþróttir eitt aðalsmerki Fimleikafélagins og var Oliver Steinn Bergsson helsta stjarna frjálsíþróttaliðsins. Fimleikadeildin leið undir lok en það gerði félagið alls ekki. Handknattleikur varð að flaggskipi félagsins og unnust félaginu margir titlar í þeirri grein. Er félagið eitt það sigursælasta í sögu handknattleiksins á Íslandi. Liðið var ákaflega sigursællt árið 1992 og varð liðið meðal annars Íslandsmeistari eftir harða viðureign við Selfoss. Það ár vann FH allar þær keppnir sem hægt var að vinna og tryggði sér "þrennuna" svokölluðu, fyrst allra liða. Við stjórnvölinn var hin gamalkunna kempa Kristján Arason. Undir stjórn Kristjáns og Einar Andra Einarssonar varð lið FH Íslandsmeistari í 19. sinn þann 4. maí 2011 að viðstöddum 3000 manns í Kaplakrika og var um leið sett glæsilegt áhorfendamet. Síðastliðin ár hefur frjálsíþróttadeild félagsins verið fánaberi FH í árangri og titlasöfnun. Hefur deildin sankað að sér fjöldanum öllum af Íslands- og bikarmeistaratitlum og alið af sér margt afreksfólkið. Þar ber helst að nefna Þóreyju Eddu Elísdóttur, sem náð hefur árangri á heimsmælikvarða í stangarstökki, og Úlfar Linnet sem sett hefur íslandsmet í langstökki og fleira. Síðastliðin ár hefur knattspyrnudeild FH einnig verið sigursæl. Liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2004 í fyrsta sinn í sögu félagsins, og svo aftur 2005 og 2006, 2008, 2009 og 2012. Það hefur einnig náð góðum árangri í Evrópukeppninni og sló t.a.m. skoska atvinnumannaliðið Dunfermline út úr Evrópukeppni félagsliða árið 2004. Heimasvæði FH heitir Kaplakriki og er þar fullkomin íþróttaaðstaða. Íþróttahúsið rúmar um 3000 manns í sæti, og var vígt árið 1990. Kaplakrikavöllur tekur 3050 manns í sæti og er stefnt að í framtíðinni muni völlurinn taka yfir 4000 áhorfendur í sæti. Fullkomin frjálsíþróttaaðstaða er til staðar og von er á innanhússaðstöðu handa frjálsíþróttafólki félagsins. Sumarið 2004 var svo vígt knatthús sem nýtist til æfinga allan ársins hring. Krabbamein. A sýnir heilbrigða frumuskiptingu og sjálfvirkan frumudauða (1) og skemmda frumu (2). B sýnir stjórnlausa skiptingu þar sem engin sjálfvirkur frumudauði á sér stað. Krabbamein eru sjúkdómsgerðir sem einkennast af stjórnlausri frumuskiptingu og þeim eiginleika frumnanna að geta flust yfir í aðra líkamsvefi annaðhvort með því að vaxa yfir í aðlægan vef ("innrás") eða flutningi frumna í fjarlægan vef ("meinvarp") til dæmis um blóðrás. Þessi óvenjulega hegðun frumna orsakast af gölluðu DNA, sem veldur stökkbreytingu mikilvægra gena sem stjórna frumuskiptingu og annarri starfsemi. Ein eða fleiri slík stökkbreyting, sem getur verið meðfædd eða áunnin, getur leitt til stjórnlausrar frumuskiptingar og myndunar æxlis. Æxli er hverskyns óeðlileg vefjanýmyndun, en getur verið annaðhvort illkynja eða góðkynja. Aðeins illkynja æxli gera innrás í nýjan vef eða valda meinvarpi. Krabbamein getur valdið ýmsum sjúkdómum, en það veltur á staðsetningu, gerð meinsins og hvort meinvarp á sér stað. Til að fá úr því skorið þarf venjulega að gera ítarlega rannsókn á vefjasýni sem fæst með vefjasýnistöku. Eftir greiningu er venjulega brugðist við með skurðaðgerð, efnameðferð og eða geislameðferð. Ef ekkert er að gert dregur krabbameinið oftast til dauða; krabbamein er ein helsta dánarorsök í hinum vestræna heimi. Hægt er að bregðast við flestum krabbameinsgerðum og hægt er að lækna marga, sérstaklega ef meðferðin hefst snemma. Margar gerðir krabbameins eru tengdar umhverfisáhrifum sem forðast má. Tóbaksreykingar eru sá umhverfisþáttur sem leiðir hvað oftast til krabbameins. Krabbameinsgreining. Oftast finnst krabbamein vegna ytri ummerkja, einkenna eða við almenna krabbameinsleit. Hinsvegar þarf í flestum tilfellum vefjasýni til að fá afdráttarlausa greiningu. Stundum finnst krabbamein við venjulega læknisskoðun vegna ótengds vandamáls. Ummerki og einkenni. Hvert atriði á listanum gæti orsakast af mörgum öðrum ástæðum (svona listar eru oft notaðir við samanburðargreiningu). Krabbamein getur verið algeng eða óalgeng orsök þessara einkenna. Einkenni krabbameins hjá karlmönnum eru einnig, að maður sé illt í limnum eða pungnum, hósti eins og maður finnist að það sé eitthvað fast í honum, hausverk, magaverk, og alltaf þreyttur. Vefjasýnistaka. Ýmislegt getur bent til þess að um krabbamein sé að ræða, en endanleg greiningu á flestum meinum þarf að staðfesta með því að gera ítarlegar rannsóknir á krabbameinsfrumum, um þetta sjá meinafræðingar. Vefjasýnistaka er ferlið þar sem frumur og eða líkamsvefur er numinn úr sjúklingi til rannsóknar. Greiningin á sýninu segir til um frumugerðina sem breiðist út, alvarleikann (magn misvaxtar), og umfang þess og stærð. Frumuerfðafræði og ónæmislitun vefjar getur útvegað framvinduspá og upplýsingar um hvernig meðferðinni sé best háttað. Lækna má allt krabbamein ef hægt er að fjarlægja það með öllu, stundum má framkvæma þetta með því að fjarlægja vef líkt og með vefjasýnistöku. Þegar vefurinn (vefskemmdin) hefur verið fjarlægður í heild sinni, er jaðar sýnisins grandlega skoðaður til að sjá hvort allt mein hefur verið fjarlægt. Ef krabbameinið hefur dreifst með meinvörpum er ómögulegt að fjarlægja það með skurðaðgerð einni saman. Eðli sýnistökunar fer eftir líffærinu sem verið er að taka sýni af. Margar vefjasýnistökur (til dæmis sýni af húð, brjósti eða lifur) má framkvæma á heimangöngusjúklingum. Aðrar vefjasýnistökur eru framkvæmdar með skurðaðgerð í svæfingu. Krabbameinsleit. Kembirannsóknir eru framkvæmdar til að finna krabbamein á frumstigi á meðal almennings. Krabbameinsleit fyrir stóra hópa af heilbrigðu fólki þarf að vera á viðráðanlegu verði, örugg, óágeng og með ásættanlegan fjölda gallaðra niðurstaðna. Ef ummerki krabbameins verður vart, eru ítarlegri rannsóknir og ágeng fylgipróf framkvæmd til að staðfesta greininguna. Tugabrot. Tugabrot er í stærðfræði ritháttur fyrir brot sem byggist á tugakerfi. Á Íslandi, í öðrum Norðurlöndum og víðar er komma notuð til að skilja á milli "heiltöluhlutans" og "aukastafa", þar sem heiltöluhlutinn er sá hluti sem er vinstra megin við kommuna og aukastafur kallast sá stafur sem stendur aftan við kommu. Almennt brot þar sem nefnarinn er veldi af 10 er ritað sem tugabrot með því að skrifa teljarann í tugakerfi og bæta kommu milli tveggja tölustafa þannig að fjöldi tölustafa á eftir kommunni verði jafn veldisvísinum við 10 í nefnaranum. Allar rauntölur er mögulegt að rita sem tugabrot. Í síðasta dæminu er talan 1 skrifuð sem tugabrot. Öll núll aftan við kommuna eru valfrjáls og óþörf, nema að, eins og í næstsíðasta dæminu, að eitthvað komi aftan við núllið. Þannig má rita eins mörg núll og verða vill. Í öðru dæminu er nálgun tölunnar Pí upp að 14 aukastöfum, en hún er óræð. Tugabrot hafa það fram yfir almennum brotum að hægt er að skrifa óræðar tölur sem tugabrot. Reikniaðgerðir. Reikniaðgerðir á tugabrotum eru eins og á öðrum tölum. Gæta verður þó þess að allt aftan við kommuna er brot úr einingu. Dæmin sýna að það skiptir miklu máli að raða kommunni í beina línu. Óendanleg tugabrot. Óendanleg tugabrot eru tölur sem hafa óendanlega marga aukastafi. Þau skiptast í tvo flokka, annarsvegar lotubundin tugabrot og hinsvegar óræðartölur. Lotubundin tugabrot sem eru ræðartölur þar sem ákveðin runa af tölustöfum endurtekur sig óendanlega oft í aukastöfum tölurnar. Lotubundin tugabrot eru oft skrifuð með því að skrifa lotuna nokkrum sinnum og svo 3 punkta eða með því að skrifa lotuna einu sinni og skrifa strik fyrir ofan hana. Dæmi um lotubundin tugabrot eru ræða talan formula_1 sem er rituð á tugabrotsformi annaðhvort formula_2 eða formula_3. Annað dæmi er talan formula_4 sem á tugabrotsformi yrði rituð annaðhvort formula_5 eða formula_6 Margar tölur hafa tvenns konar, jafngildar óendanlegar tugabrotsframetningar, t.d. mætti rita töluna einn sem "1,000..." eða "0,999..." og töluna "1/2" sem "0,5000..." eða "0,4999...". Ef mögulegt er verður oftast fyrir valinu framsetning sem endar á núllum og núllunum síðan sleppt og skrifað t.d. "1" eða "0,5". Heiltölur, eins og t.d. tölurnar núll og einn, eru sjaldan ritaðar með óendanlegu tugabroti, enda felst ekkert hagræði í slíkum rithætti. Hannibal Barca. Hannibal Barca eða Hannibal (247-183 eða 182 f.Kr.) var hershöfðingi frá Karþagó. Hann stjórnaði her Karþagómanna í öðru púnverska stríðinu og vann marga sigra á Rómverjum. Hannibal er af mörgum talinn einn mesti herforingi sögunnar. Hann lifði á tímum spennu í Miðjarðarhafinu þar sem Rómaveldi var rísandi norðan megin við Miðjarðarhafið á meðan Karþagó var rísandi sunnan megin við það. Bæði veldin börðust fyrir yfirráðum Miðjarðarhafsins. Í öðru púnverska stríðinu tók Hannibal her frá Íberíuskaganum yfir Pýreneafjöllin og Alpana, til Norður-Ítalíu. Á meðan á innrás hans stóð barðist hann oft við Rómverjana og fékk íbúa Rómaborgar sjálfrar til að skjálfa af hræðslu. Eftir frægustu orrustur hans, við Trebiu, Trasimene og Cannae, tók hann næst stærstu borg Ítalíu, Capua, en gat ekki ráðist á sjálfa Rómaborg því her hans var ekki nógu sterkur. Hann hafði her sinn í Ítalíu í áratug og Karþagómenn pirruðust yfir ákvörðun hans að ráðast ekki á Rómaborg. Rómversk innrás inn í Norður-Afríku neyddi Hannibal til að taka her sinn aftur til Karþagó þar sem hann var sigraður í orrustunni við Zama. Karþagómenn neyddust til að senda hann í útlegð. Eftir langa útlegð þar sem hann var ráðgjafi fáeinna manna, þar á meðal Antiokkosar þriðja, voru Rómverjarnir komnir á hæla hans og hann framdi sjálfsmorð frekar en að gefast upp fyrir Rómverjunum. Enn er Hannibal talinn einn af mestu hershöfðingjum allra tíma og meira að segja Rómverjarnir notuðu herkænskubrögð hans. Theodore Ayrault Dodge kallaði hann „föður herkænskunnar“ af þeirri ástæðu og menn eins og Napoleon Bonaparte og Arthur Wellesley kölluðu hann „færan hershöfðingja“. Bakgrunnur og byrjun ferils. Hannibal Barca („miskunn Baals“) var sonur Hamilcar Barca. Eftir ósigur Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu ætlaði Hamilcar sér að bæta efnahag ríkisins. Til þess að geta þetta þurfti hann að fara til Spánar og gera Spánverjana að þegnum Karþagó, hvort sem þeir vildu það eða ekki. Sjóher Karþagó var í svo slæmu ástandi að hann gat ekki siglt beint til Íberíu frá Karþagó. Í staðinn þurfti Hamilcar að fara vestur að Súlum Herkúlesar og ferja herinn sinn yfir til Gíbraltar. Samkvæmt Hamilcar kom hinn ungi Hannibal að föður sínum þegar hann var að færa guðunum fórnir áður en hann fór til Íberíu og grátbað faðir sinn að fá að koma með. Hamilcar játaði og neyddi Hannibal til að sverja að svo lengi sem hann lifði þá yrði hann aldrei vinur Róm. Hannibal sagði þá við föður sinn „Ég sver að um leið og aldurinn leyfir... muni ég nota eld og stál til að handtaka örlög Róm.“ Sumir fræðimenn telja að Hannibal hafi svarið eið við altari Baals að vera aldrei vinur Rómar og að reiði Barca feðganna sé bara skoðun Rómverja eftir stríðið. Þegar faðir Hannibals var drepinn í orrustu í Íberíu tók mágur Hannibals, Hasdrúbal, við völdunum yfir her Hamilcars. Hasdrúbal reyndi að styrkja stöðu Karþagó í Íberíu í staðinn fyrir að taka fleiri landsvæði og gerði meira að segja sáttmála við Rómaveldi um að Karþagó myndi ekki fara lengra en Ebro ánna svo lengi sem Rómaveldi færi ekki fyrir sunnan hana. Þegar mágur hans dó (221 f. Kr.) var Hannibal gerður að foringja hersins. Rómverski fræðimaðurinn Titus Livius sagði þetta um hinn unga Hannibal: „Um leið og hann kom á staðinn... glöddust gömlu hermennirnir yfir því að fá ungan Hamilcar aftur; sama bjarta útlitið; sami eldurinn í augum hans, sami svipurinn og andlitsyfirbragðið. Aldrei var einn og sami andinn svo hæfur til að mæta andstöðu, til að hlýða eða til að skipa...“ Eftir að hann tók völdin eyddi hann tveimur árum í að styrkja stöðu sína í Íberíu fyrir sunnan Ebro ánna. Rómaveldi óttaðist vaxandi styrk Hannibals í Íberíu og gerði þess vegna samkomulag við borgina Sagantum sem lá ágæta lengd sunnan við Ebro ánna og sagði borgina verndarríki sitt. Hannibal taldi þetta brot á sáttmála Hasdrúbals og lagði umsát um borgina. Hún féll eftir átta mánuði. Róm tók þessu illa og taldi þetta vera brot á sáttmálanum og krafðist réttlætis frá Karþagó. En Hannibal var vinsæll og þess vegna bætti karþagóska ríkið ekki fyrir þetta eða neitaði aðild og við enda ársins fékk Hannibal stríðið sem hann vildi. Hannibal tók herinn sinn fljótlega í gegnum Íberíuskagann og yfir Suður-Gallíu (núverandi Frakkland). Ferðin til Norður-Ítalíu. Hannibal fór frá Nýju Karþagó (Spænsk borg stofnuð af Hasdrúbal um 230 f.Kr.) seint um vorið, 218 f.Kr. Hann barðist við og vann norðanverðu ættbálkana í Íberíu til að komast að Pýreneafjöllum. Hann skildi eftir 11.000 hermenn til að verja nýju löndin. Við Pýreneafjöll þurfti hann að skilja eftir 11.000 íberíska menn til viðbótar sem sýndu tregðu við að fara frá heimalandinu. Hannibal fór frá Íberíu inn í gallísk lönd með 50.000 hermenn á fótum og 9.000 riddara, það er að segja, menn á hestbaki. Hannibal gerði sér grein fyrir því að hann ætti enn þá eftir að fara yfir Pýreneafjöllin, Alpana og margar ár og að auki þyrfti hann að sjá um mótstöðu frá Göllum en hann þurfti að ganga í gegnum löndin þeirra. Hann barðist í gegnum lönd Galla en hafði lítið á móti þeim og samdi frið við gallísku höfðingjana á leiðinni. Hann kom til Rhône árinnar í september áður en Rómverjarnir gátu gert neitt til að stöðva hann. Á þessum tíma var herinn hans 38.000 hermenn, 8.000 riddarar og 37 stríðsfílar. Hann komst fram hjá þeim innfæddu við Rhône sem að höfðu reynt að hindra hann og hann forðaðist rómverskan her sem sendur var til að vinna gegn honum í Gallíu. Hann gekk áfram og þegar tók að hausta var hann kominn að rótum Alpanna. Ganga hans yfir Alpana er eitt af mestu afreksverkum hersögunnar. Hannibal komst yfir fjöllin þrátt fyrir margar hindranir eins og slæmt veður og landsvæði, óvæntar árásir innfæddra og það að stjórna margvíslegum her með mönnum með önnur tungumál og af öðrum þjóðernum. Hann missti helming manna sinna og marga fíla á leið sinni yfir Alpana en hann komst til Norður-Ítalíu á endanum. Hann virðist hafa vitað frá byrjun að hann gæti ekki treyst á hjálp frá Íberíu en sagnfræðingurinn Adrian Goldsworthy bendir á að tölurnar um hversu marga hermenn hann tók frá Íberíu séu ótraustar. Orrustan við Trebia. Hættuleg herganga Hannibals tók hann inn í rómversk yfirráðasvæði og ónýtti tilraunir óvinarins til að leysa aðalvandamálið á erlendri grundu. Skyndileg koma hans til Pó dalsins gerði honum kleift að skilja Galla dalsins frá nýju bandalagi þeirra við Rómverja áður en Róm gat stöðvað uppreisnina. Orrustan við Trebia. Blái liturinn stendur fyrir Karþverja en sá rauði fyrir Rómverja. Ræðismaðurinn, Publius Cornelius Scipio, sem stjórnaði rómverska hernum sem sendur var til að stöðva Hannibal, bjóst ekki við því að Hannibal myndi reyna að fara yfir Alpana þar sem Rómverjarnir voru tilbúnir að heyja stríðið í Íberíu. Með of lítinn herafla enn þá í Gallíu gerði Scipio tilraun til að stöðva Hannibal. Hann ákvað snögglega að sigla her sinn til Ítalíu sem hann og gerði og var nógu snöggur til að stöðva Hannibal. Eftir litla hvílu til að leyfa hernum að ná sér tryggði Hannibal fyrst afturhluta sinn með því að sigra óvinveitta Taurini ættbálkinn. Herir Scipios og Hannibals hittust í fyrsta skiptið í smávægilegum bardaga við Ticinus þar sem meirihluti 6.000 riddara Hannibals börðust við allt riddaralið Scipios og hluta velites manna hans (velites hermenn börðust með léttum kastspjótum og ekki í návígi nema tilneyddir). Hannibal vann bardagann og Scipio særðist illa. Þetta neyddi Rómverjana til að fara af sléttum Lombardy. Þótt þessi sigur hafi verið smávægilegur áorkaði hann miklu, margir Gallar gengu í lið Hannibals og með Göllunum var her Hannibals núna 40.000 menn. Nú var Hannibal tilbúinn til að gera innrás í Ítalíu. Scipio hopaði yfir Trebia ánna og skipaði í herbúðir hjá Placentia bænum og beið eftir liðsauka. Öðrum ræðismanni, Semproniusi Longusi, var skipað að taka her sinn frá Sikiley til að hjálpa Scipio jafnvel áður en fréttir af ósigrinum við Ticinus bárust Róm. Til að geta komist til Scipio þurfti Sempronius að ganga eftir veginum á milli Placentiu og Ariminum. Þetta vissi Hannibal og settist þess vegna að á veginum og beið eftir Semproniusi en á sama tíma tók hann Clastidium til að ná í birgðir. Sempronius var fljótur að nýta sér þessa truflun og laumaðist fram hjá Hannibal og komst til Scipio. Þar sem Scipio var meiddur var Sempronius yfir báðum herjunum og þar sem það var ekki langt í kosningarnar var hann æstur í bardaga áður en Scipio batnaði og tæki völdin. Því miður fyrir Sempronius vissi Hannibal af þessum æsingi hans. Núna var kominn desember og snjórinn þakti jörðina. Undir skjóli nætur laumaði Hannibal 1.000 hermönnum og 1.000 riddurum, undir stjórn bróður síns Mago, að Trebia ánni, þar sem þeir földu sig. Morguninn eftir það sendi Hannibal riddaralið til að plata Sempronius út úr herbúðum sínum. Sempronius sendi fyrst riddaralið sitt á eftir þeim og á eftir þeim, allan herinn. Her Semproniusar var ekki búinn að borða morgunmat og eftir að hafa vaðið yfir Trebia ánna voru þeir svo þreyttir og kaldir að þeir gátu varla haldið á vopnunum. Her Hannibal var aftur á móti óþreyttur, ókaldur og saddur. Spjótkastarar beggja herja börðust fyrst lítillega en menn Semproniusar stóðu sig illa og hopuðu fljótlega fyrir aftan herinn. 36.000 hermenn, 4.000 riddarar og 3.000 Gallar voru í her Semproniusar, í her Hannibals voru 20.000 afrískir, spænskir (íberískir) og gallískir hermenn, 10.000 riddarar og 15 fílar. Eftir að riddarar og fílar Hannibals gjörsigruðu riddara Semproniusar skullu þeir á hliðum Rómverjanna og Mago skall á bakhlið þeirra. Það leið ekki á löngu fyrr en hungraðir og þreyttir Rómverjarnir brotnuðu niður og reyndu að flýja en flestum þeirra var slátrað, fyrir utan þá sem voru fremst, þeir komust í gegnum fremri her Hannibals og hopuðu til Placentia, þar á meðal var Sempronius sem var ekki kosinn ræðismaður aftur en kosningarnar voru ástæða hans fyrir æsingnum sem varð honum að falli. Orrustan við Trasimene. Þessi sigur tryggði stöðu Hannibals í Norður-Ítalíu. Það næsta sem hann gerði var að láta þak yfir höfuð hersins og gera hann tilbúinn fyrir veturinn með Göllunum. Stuðningur Gallanna minnkaði og minnkaði þannig að vorið 217 f. Kr. ákvað Hannibal að finna áreiðanlegri starfsmiðstöð lengra suður. Cnaeus Servilius og Gaius Flaminius, nýju ræðismenn Rómar, bjuggust við því að Hannibal myndi halda áfram til Rómar þannig að þeir tóku heri sína til eystri og vestri leiðanna sem Hannibal yrði að ganga um ef hann ætlaði sér að fara til Rómar. Það var ein önnur leið til mið-Ítalíu, hjá mynni Arno. Þessi leið var risastór mýri og það flæddi úr henni meira en venjulega þessa árstíð. Það var mikið af vandamálum á þessari leið og það vissi Hannibal en samt var þetta öruggasta og fljótlegasta leiðin til mið-Ítalíu. Pólýbíos segir að menn Hannibals hafi, í fjóra daga og þrjár nætur, gengið leið sem var undir vatni og að þeir hafi þurft að þola gríðarlega þreytu og löngun til að sofa. Herinn komst óhindraður í gegnum Arnó ána, sem virtist ófær í fyrstu, og Apennínafjöllin (þar sem Hannibal missti annað auguð út af „conjunctivitis“ sjúkdómnum) en missti stóran hluta hersins, þar á meðal alla fílana sem eftir voru, á láglendum Arnó sem þakin voru mýrum. Er hann kom til Etrúríu um vorið 217 f. Kr. ákvað Hannibal að ginna rómverska herinn sem Flaminius stjórnaði í orrustu á skilmálum Hannibals með því að leggja í eyði svæðið sem Flaminius átti að vernda. Pólýbíos segir okkur að „hann [Hannibal] taldi að ef hann færi fram hjá herbúðunum og niður í héraðið fjær, gæti Flaminius (að hluta til vegna ótta við minnkun vinsælda og að hluta til vegna pirrings) ekki horft á eyðileggingu landsins aðgerðarlaus heldur myndi hann elta hann sjálfkrafa... og gefa honum tækifæri til árásar.“ Á sama tíma reyndi hann að spilla hollustu bandamanna Rómverja með því að sanna að Róm gæti ekkert gert til að vernda þá. Þrátt fyrir allt þetta var Flaminius enn með allan herinn í Arretium. Þar sem hann gat ekki ginnt Flaminius í orrustu með eyðileggingu marseraði Hannibal djarflega á vinstri hlið óvinarins og gerði Flaminiusi ókleift að komast til Rómar, eða Róm að komast til hans (með þessu framkvæmdi Hannibal fyrstu stefnubreytingu óvinahers sögunnar). Hannibal gékk áfram eftir hálendi Etrúríu og æsti Flaminius út í hraða eftirför. Hannibal gat núna gert fyrirsát og með því að kveikja elda á hæð langt í burtu plataði hann Flaminius og fékk hann til að halda að Hannibal væri mun lengra í burtu en hann í raun var. Er Flaminius gékk eftir þröngum vegi við bakka Trasimene árinnar réðst Hannibal á óviðbúinn herinn og slátraði honum og Flaminiusi sjálfum líka. Nú var enginn her eftir sem gat hindrað för hans til Rómaborgar en hann vissi að án réttu tækjanna (svo sem slöngvivélum) gæti hann ekki tekið höfuðborgina. Í staðinn ákvað hann að nýta sér sigur sinn með því að fara til mið- og Suður-Ítalíu og hvetja til uppreisnar gegn Róm. Eftir orrustuna við Trasimene sagði Hannibal, „Ég er ekki kominn til að berjast við Ítali, heldur fyrir Ítali gegn Róm.“ Rómverjarnir gerðu Fabíus Maximus að alræðismanni ("dictator") og hann tók upp fabíanska stjórnarstefnu sem var fráhvarf frá rómverskum siðum. Hann neitaði að heyja orrustu við andstæðing sinn og lét marga rómverska heri nálægt Hannibal til að takmarka hreyfingu hans. Hannibal - tvöfaldur silfursikill, um 230 f. Kr. Eftir að hafa eyðilagt Apúlíu án þess að takast að ginna Fabíus til orrustu ákvað Hannibal að ganga í gegnum Samnium til Campaníu sem var með ríkustu og frjósömustu héruðum Ítalíu. Hann vonaði að eyðilegging svæðisins myndi fá Fabíus til að slást. Fabíus elti eyðileggingarslóðina sem Hannibal skildi eftir sig en neitaði enn að berjast og hélt áfram að vera í varnarstöðu. Þessi stjórnarstefna Fabíusar var óvinsæl hjá mörgum Rómverjum sem töldu þetta vera bleyði. Þegar leið á árið ákvað Hannibal að það væri óviturt að eyða vetrinum í eyðilögðu láglendi Campaníu en Fabíus hafði lokað öllum leiðum út úr Campaníu. Til að forðast þetta, plataði Hannibal Rómverjana til að halda að karþagóski herinn ætlaði að flýja í gegnum skóginn. Þegar Rómverjarnir færðu sig í átt að skóginum tók her Hannibals skarðið undir sig og komst í gegnum það án mótsöðu. Fabíus var nógu nálægt til að ráðast á Hannibal en í þetta skipti var gætni hans honum ekki til góðs. Fabíus fann keim af herbragði og varð þess vegna kyrr. Hannibal fann þægilegt hýbýli fyrir herinn á sléttum Apúlíu þar sem hann var yfir veturinn. Adrian Goldsworthy sagði, um það sem Hannibal gerði til að leysa úr flækjum hersins, þetta: „sígild fornmennsk hershöfðingjalist, sem rataði í nærri því hverja einustu sögulegu frásögn stríðsins og var seinna notað í kennslubókum“. Álit almúgans á Fabíusi dvínaði eftir þetta og fljótlega eftir á lauk alræðisstjórn Fabíusar. Kígalí. thumb Kígalí er höfuðborg Afríkuríkisins Rúanda. Íbúar borgarinnar voru um 330.000 árið 1997. Kígalí var stofnuð árið 1907, þegar Rúanda var þýsk nýlenda. Þegar landið fékk sjálfstæði árið 1962 var Kígalí gerð að höfuðborg landsins. Kinsasa. Kinsasa er höfuðborg Austur-Kongó (sem áður hét Saír). Borgin hét áður Léopoldville. Hún var stofnuð sem verslunarmiðstöð árið 1881 af Henry Morton Stanley sem nefndi hana í höfuðið á konungi Belgíu sem þá réð yfir landinu. Kinsasa er ein af stærstu borgum Afríku, með um 7,5 milljónir íbúa. Borgin stendur á suðurbakka Kongófljóts, í vesturhluta landsins. Gaboróne. Gaboróne er höfuðborg Botsvana. Borgin er í suðurhluta landsins, nálægt landamærunum að Suður-Afríku. Talið er að íbúar borgarinnar séu um 186.000 talsins. Antananarívó. Antananarívó (áður ritað Tananarive'") er höfuðborg Madagaskar. Hún er einnig stærsta og mikilvægasta borg landsins. Rúmlega 800.000 manns búa í borginni (samkvæmt tölum frá árinu 1997). Borgin er staðsett í Antananarívó-héraði, nokkurn veginn í miðju landsins. Antananarívó þýðir "þúsundborgin" ("arivo" þýðir þúsund). Í borginni eru meðal annars framleidd matvæli, sígarettur og vefnaðarvörur. Maserú. Maserú (einnig ritað Masero) er höfuðborg Afríkuríkisins Lesótó. Íbúar borgarinnar eru um 180.000 talsins. Borgin er staðsett við ána Caledon. Las Vegas. Las Vegas er stærsta borg Nevada fylkis í Bandaríkjunum. Borgin er aðallega þekkt fyrir fjölda spilavíta. Í borginni búa 552.539 (1. júlí 2006) en ef nærliggjandi svæði eru talin með búa þar um 1,7 milljón manns. Las Vegas er stjórnaraðsetur Clark-sýslunnar. Nafnið Las Vegas er oft látið ná yfir önnur svæði Clark-sýslunnar sem umlykja borgina. Þannig er hin 7,25 km langa aðalgata borgarinnar, Las Vegas Boulevard, að mestu utan borgarmarka Las Vegas eða í bænum Paradise. Las Vegas er einn af vinsælustu ferðamannastöðum heims og ferðast árlega um 37 milljónir þangað. Einn fjórði hluti ágóðans af ferðamönnunum er talinn falla í spilavíti en þrír fjórðu í aðgöngumiða á sýningar, minjagripi og lúxusvörur. Fyrir utan spilavítin eru það aðallega hinar mörgu sýningar sem eru einkennandi fyrir borgina. Listamenn sem starfa eða störfuðu í Las Vegas eru m.a. Elvis Presley, Tom Jones, Frank Sinatra og Céline Dion. Þá eru sérstaklega margar brúðkaupskapellur í borginni, sem orsakast af því að lög um hjúskaparstofnun (og hjúskaparslit) eru sérlega einföld. Þannig gifta um 150 manns sig í Las Vegas á hverjum einasta degi. Borgin er stundum kölluð "Sin City" vegna mikilla (löglegra) fjárhættuspila, mikils framboðs á áfengum drykkjum allan sólarhringinn, fíkniefna, margvíslegs framboðs á erótískum skemmtunum og lögleiðingu vændis í nærliggjandi sýslum. Stjórnvöld og ferðamálafrömuðir svæðisins styðja aftur á móti nafngiftina "The Entertainment Capital of the World" ("skemmtanahöfuðborg heimsins"). Bein þýðing á nafninu yfir á íslensku úr spænsku væri eiginlega "Túnin" þar sem "Las" er tiltekni greinirinn í fleirtölu kven nkyns en 'vegas' er þýtt sem trjálaus græn svæði með grasi en hugsanlega littlum gróðri svo sem lúpínu. 'Vegas' þýðist yfir á ensku sem meadows. Saga borgarinnar. Fyrsta byggðin á Las Vegas svæðinu komst á fót árið 1854 fyrir tilstuðlan mormónakirkjunnar, en byggðin var yfirgefin þremur árum seinna. Um miðjan 7. áratug 19. aldar byggði bandaríski herinn Fort Baker virkið á þeim stað sem Las Vegas er nú. Vegna vatnslinda sinna varð Las Vegas að mikilvægum áningarstað fyrir vagnlestir og lestir á leið milli Kaliforníu í vestri og New Mexico í austri. 1903 seldi ekkjan Helen Stewart fyrir 55 þúsund dollara stóran hluta af búgarði sínum til járnbrautafyrirtækis, sem aftur á móti seldi sama landið 15. maí 1905 fyrir 265 þúsund dollara til áhættufjárfesta. Borgin Las Vegas telst opinberlega stofnuð þennan dag. Hornsteinar hins hraða vaxtar Las Vegas voru lögleiðing fjárhættuspils 1931 og bygging Hoover stíflan 1931-1935. Mafíuforinginn Bugsy Siegel byrjaði á 5. áratugnum að byggja hótel með innbyggðu spilavíti og setti þar með af stað þróun sem hefur haldist fram til dagsins í dag. Athafnamaðurinn Howard Hughes bolaði mafíunni burt úr borginni milli þess sem hann keypti upp eignir í borginni. Þekkt hótel og kennileiti. MGM Grand Hotel, næststærsta hótel í heimi Hótel setja mikinn svip á Las Vegas og eru þau gjarnan samtvinnuð við spilavítin. Las Vegas hefur fleiri hótel en nokkur önnur borg og það tæki mann 288 ár að gista eina nótt í hverju einasta hótelherbergi. Nevada. "Kortið sýnir staðsetningu Nevada" Nevada er fylki í vesturhluta Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Oregon og Idaho í norðri, Utah í austri, Arizona í suðri og Kaliforníu í suðri og vestri. Höfuðborg fylkisins heitir Carson City en Las Vegas er stærsta borg fylkisins. Önnur þekkt borg er Reno. Um 2.335.000 manns búa í Nevada, en íbúafjöldi fylkisins eykst hraðast af öllum í Bandaríkjunum. Michigan. Michigan er fylki í norðurhluta Bandaríkjanna. Michigan er frönsk útgáfa Ojibwe orðsins "mishigama" sem þýðir „stórt vatn“ eða „stórt stöðuvatn“ og dregur fylkið nafn sitt af Michigan-vatni. Michigan er níunda fjölmenntasta fylki Bandaríkjanna. Það hefur stærstu ferskvatnslínu sjálfstjórnarlands í heiminum og er tengt saman af hinum fimm stóru vötnum, auk Saint Clair-vatnsins. Árið 2005 voru þriðju flestir frístundabátar skráðir þar, á eftir Kaliforníu og Flórída. Í Michigan eru 64.980 stöðuvötn og önnur vötn. Manneskja í fylkinu er aldrei meira en 10 km frá náttúrulegri uppsprettu vatns eða meira en 140 km frá strönd hinna miklu vatna. Michigan er stærsta fylkið fyrir austan ána Mississippi. Michigan er eina fylkið sem samanstendur eingöngu af tveimur skögum. Neðri skaginn (e. "Lower Penisula"), sem nafnið á átti fyrst um er oft nefnt „vettlingurinn“ af íbúunum, vegna lagsins. Þegar fólk frá Michigan er spurt hvaðan það kemur bendir það oft á hendi viðkomandi. Efri skaginn (oft kallaður "The U.P.") er skilinn frá þeim neðri með „The Straits of Mackinac“, átta kílómetra vatni sem sameinar Huron-vatn og Michigan-vatn. Efri skaginn er fjárhagslega mikilvægur fyrir ferðamenn og náttúrufyrirbæri. Saga. Michigan var heimili margra mismunandi Indijána-menninga í þúsundir ára áður en Evrópumenn fóru að stunda landnám. Þegar fyrstu evrópsku landkönnuðurnir komu voru fjölmennustu og áhrifamestu ættbálkarnir Algonkvíin-indijánar, særstaklega Ottawarnir, Anishnabearnir og Potawatomiarnir. Anishnabearnir, sem taldir eru hafa verið á milli 25 og 35 þúsund, voru flestir. Þrátt fyrir að Anishnabearnir væru vel settir á efri skaganum og nyrðri hluta neðri skagans, bjuggu þeirr einnig í norðanverðu Ontario, N-Wisconsin, S-Manitoba og norð- og mið-Minnesota. Ottawarnir bjuggu aðallega sunnan sunda Mackinac í norður- og vesturhluta Michigan, en Potawatomiarnir voru fyrst og fremst fyrir suðvestan. Þjóðirnar þrjár bjuggu saman í sátt og samlyndi, en það byggðist á lausri stefnu ráðs sem kallað var "Ráð hinna þriggja elda". Aðrar þjóðir bjuggu einnig í Michigan, sérstaklega í suðri og austri, en það voru Mascouten, Menominee, Miami og Wyandot, sem eru betur þekktur undir franska nafni sínu, Huron. EDGE. EDGE er gagnasendingatækni fyrir farsíma og stendur fyrir Enhanced Data rates for GSM Evolution, og er eins konar uppfærsla ofan á GPRS gagnaflutningsstaðalinn. EDGE eykur flutningshraða yfir GPRS umtalsvert (allt að 200 kb/s) og er viðbót við GSM. Samanburður við 3. kynslóð GSM. Uppsetning þriðju kynslóðar UMTS kerfisins krefst uppfærslu á öllum þáttum farsímakerfisins. EDGE hinsvegar kostar um 10% af því að setja upp GSM kerfi. Montana. "Kortið sýnir staðsetningu Montana"Montana er fylki í norðurhluta Bandaríkjanna. Montana liggur að Kanada í norðri, Norður- og Suður-Dakóta í austri, Wyoming í suðri og Idaho í vestri. Höfuðborg fylkisins er Helena, en stærsta borg Montana er Billings. Fylkið er að miklu leyti fjalllent og dregur nafn sitt af spænska orðinu "montaña" ("fjall"). Klettafjöll eru að hluta til í Montana. Rúmlega 900.000 manns búa í Montana. Helena (mannsnafn). Helena er íslenskt kvenmannsnafn. Helena (borg í Montana). Helena er höfuðborg Montanafylkis í Bandaríkjunum. Íbúar borgarinnar eru um 26.000 talsins, en 40.000 sé höfuðborgarsvæðið talið með. Louisiana. "Kortið sýnir staðsetningu Louisiana"Louisiana er fylki í suðurhluta Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Mexíkóflóa í suðri, Texas í vestri, Arkansas í norðri og Mississippi í austri. Höfuðborg Louisiana heitir Baton Rouge. Önnur þekkt borg í fylkinu er New Orleans. Um 4,5 milljón manns búa í Louisiana. Setbergsskóli. Setbergsskóli er fjölmennasti skóli Hafnarfjarðar með um 700 nemendur. Skólinn þjónar Setbergshverfinu svokallaða og hefur eigið íþróttahús. Illinois. Illinois er fylki í Bandaríkjunum. Fylkið liggur að Wisconsin í norðri, Indiana í austri, Kentucky í suðri og Missouri og Iowa í vestri. Fylkið liggur einnig að Michiganvatni í norðaustri. Höfuðborg Illinois er Springfield, en Chicago er stærsta borg fylkisins. Um 12,9 milljón manns búa í Illinois. Maine. Maine er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Maine liggur að Kanada í austri, norðri og vestri, New Hampshire í suðvestri og Atlantshafi í suðri. Höfuðborg Maine er Augusta, en stærsta borg fylkisins er Portland. Íbúar Maine eru um 1,3 milljón talsins. Háskólar. Fjölmargir háskólar eru í Maine, einkum litlir og meðalstórir grunnnámsskólar (college). Portland (Maine). Portland er stærsta borg fylkisins Maine í Bandaríkjunum. Um 64.000 manns búa í borginni. Portland (Oregon). Portland er stærsta borg Oregonfylkis í Bandaríkjunum. Íbúar borgarinnar eru um 560.000 talsins. Portland er oft kölluð „rósaborgin“, vegna fjölda rósagarða í borginni. Oregon. Oregon er fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Washington í norðri, Idaho í austri, Nevada og Kaliforníu í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Salem er höfuðborg Oregon, en stærsta borg fylkisins er Portland. Um 3,5 milljón manns býr í Oregon. Strákagöng. Strákagöng eru jarðgöng sem gerð voru í gegnum fjallið Stráka nyrst á Tröllaskaga, vestan Siglufjarðar. Um þau er ekið til að komast til Siglufjarðar úr vestri og voru þau lengi eini akvegurinn til Siglufjarðar sem fær var allt árið. Hugmyndin um gerð jarðganga til Siglufjarðar kom fyrst fram snemma á 20. öld en þá var enginn akvegur þangað og fóru allir flutningar fram sjóleiðina eða um háa og ógreiða fjallvegi sem vart voru hestfærir. Bílvegur var þó lagður yfir Siglufjarðarskarð 1946 en hann var yfirleitt ekki fær nema fjóra til fimm mánuði á ári og dugði því alls ekki til að leysa samgönguvandræði Siglfirðinga. Árið 1954 var rætt um á Alþingi að leggja veg fyrir Stráka, meðfram sjónum, eða gera göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta, og hefðu þau þá orðið um fimm kílómetrar að lengd og mjög dýr. Síðar kom fram sú hugmynd að leggja veg úr Fljótum út með ströndinni að Strákum og gera mun styttri og ódýrari göng þar í gegn til Siglufjarðar. Varð sú leið ofan á og hófst vegagerðin sumarið 1956. Hún gekk þó fremur hægt, bæði vegna fjárskorts og vegna erfiðra aðstæðna en vegurinn liggur víða utan í bröttum fjallshlíðum. Gerð Strákaganga hófst 1959 og voru þá grafnir um 30 metrar en kraftur var ekki settur í framkvæmdir fyrr en sumarið 1965. Síðasta haftið var sprengt 17. september 1966 og göngin voru svo opnuð 10. nóvember 1967. Voru þau önnur í röð jarðganga fyrir bílaumferð á Íslandi. Göngin eru 793 metrar á lengd. Upphaflega áttu þau að vera tvíbreið en frá því var horfið og eru þau einbreið með útskotum. Washington (fylki). Washington er fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Washington liggur að Kanada í norðri, Idaho í austri, Oregon í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Höfuðborg fylkisins heitir Olympia. Seattle er stærsta borg fylkisins. Íbúar Washingtonfylkis eru rúmlega 6,5 milljónir talsins. Washington (borg). "Hvíta húsið í Washington"Washington (einnig kölluð Washington, D.C.) er höfuðborg og stjórnsetur Bandaríkjanna. Borgin er nefnd eftir George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna. Skammstöfunin „D.C.“ stendur fyrir „District of Columbia“, alríkishéraðið sem borgin er í. Svæðið sem tilheyrir þessu alríkishéraði í dag var upphaflega klofið úr fylkjunum Maryland og Virginíu. Um 581.530 manns búa innan þessa alríkishéraðs, en borgin teygir sig út fyrir héraðið inn í Maryland, Virginíu og Vestur-Virginíu. Heildaríbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins er 4,7 milljónir. Saga. Washington var stofnuð sem óháð borg og nokkurs konar óháð fylki fyrir ríkisstjórn alls landsins. Hið nýja lýðveldi hafði frá sjálfstæðisyfirlýsingunni 1776 enga höfuðborg. Þingið kom saman á ýmsum stöðum svo sem í Baltimore, New York og Philadelphiu. Til óeirða kom árið 1783, þegar herinn fékk ekki laun sín greidd. Þegar ríkisstjórnin fékk hvorki stuðning Philadelphiu né fylkisins, var ákveðið að stofna sérstakt fylki fyrir hana undir stjórn þingsins. Eftir miklar umræður var fallist á stað við Potomac-ána (1791) og George Washington skipulagði endanlega í smáatriðum. Maryland lét af hendi 179 km² og Virginia 80 km². Foringi í uppreisnarhernum, Pierre-Charles L'Enfant, góður arkitekt, var fenginn til að skipuleggja borgina sem ber enn þann svip sem hann gaf henni. Hann kom þinghúsinu og Hvíta húsinu fyrir, þar sem þau standa, og tengdi þau með Pennsylvaniabraut. Frá Capitol-byggingunni liggja 4 götur, Norður-, Suður- og Austur Capitolgötur og Mall. Þær skiptu borginni í fjórðunga, na., nv., sv. og sa. Norður-suður götunum gaf Pierre númer, sem hófust á einum en austur-vestur göturnar fengu bókstafi. Skálægu breiðgöturnar fengu nöfn hinna 13 fylkja sambandsríkisins. Mall var veigamest breiðgatnanna á milli Capitol og Potomac og skyldi gefa borginni opið yfirbragð. Árið 1800 var lokið við forsetabústaðinn, þinghúsið og fjármálaráðuneytið svo að þingið gat komið saman í Washington í nóvember sama ár. Þá þegar var farið að tala um stórborg með 100-200 þúsund íbúum, þótt íbúafjöldinn væri aðeins 2.464 auk 623 þræla. Árið 1814 réðust Bretar á lítt varða borgina og brenndu hana að mestu en skýfall bjargaði því sem bjargað varð og varði hana frá algerri eyðingu. Eyðileggingin var slík, að þingið samþykkti með naumum meirihluta að endurbyggja borgina. Um nokkurra ára bil var hún meiri draumur en veruleiki. Charles Dickens skrifaði eftir heimsókn þangað: „Washington er borg hinna miklu áforma“. Virginíufylki bar sig upp vegna þess, að svæðið, sem það lagði undir Washington væri óskipulagt. Því ákvað þingið árið 1846, að skila því aftur. Árið 1863 hófst borgarastyrjöldin og hergagnaiðnaður komst á legg. Herstjórnin og herdeildir sátu í Washington og Capitol var breytt í sjúkrahús. Að loknu stríðinu fjölgaði íbúum fljótlega vegna 40.000 frelsaðra þræla sem settust þar að. Eftir 1870 fjölgaði íbúðar- og stjórn-sýslubyggingum svo mikið að farið var að kalla Washington þjóðarsviðið. Árið 1887 fundust aftur hinar gleymdu teikningar L'Enfants en ekki var farið að nota þær aftur fyrr en um 1900. Alaska. Alaska er stærsta fylki Bandaríkjanna. Það er 1.477.261 ferkílómetrar að stærð. Alaska liggur að Kanada í austri, Alaskaflóa og Kyrrahafi í suðri, Beringshafi, Beringssundi og Tjúktahafi í vestri og Beaufortsjó og Norður-Íshafi í norðri. Fjöldi eyja tilheyrir fylkinu. Alaska er stærsta fylki Bandaríkjana að flatarmáli en jafnframt þriðja fámennasta fylkið. Höfuðborg Alaska er Juneau. Yfir 680.000 manns búa í Alaska. Nafnið Alaska þýðir „meginlandið“ eða „stóra landið“ á rússnesku. Alaska var einu sinni eign Rússlands en Bandaríkin keyptu landið af Rússum fyrir $7,2 milljónir ($113 milljónir í dag) þann 30. mars 1867. Saudade. Saudade er portúgalskt orð sem er ætlað að lýsa þeirri tilfinningu sem felst í því að vera ástfanginn af einhverjum eða einhverju sem maður er fjarri. Gjarnan tengt tónlistarstefnunni Fado og væri sennilega best þýtt með íslenska orðinu "hryggð". Fado. Fado er þunglyndisleg og tregablandin tónlistarstefna sem óx og dafnaði meðal lægri stétta Portúgals sem og í háskólasamfélagi þess. Það orð sem best lýsir tónlistinni er portúgalska orðið saudade sem er ætlað að lýsa þeirri sammannlegri tilfinningu sem felst í því að vera ástfanginn af einhverjum eða einhverju sem maður er fjarri. Þrátt fyrir að stefnan teljist portúgölsk á hún væntanlega uppruna sinn í afrískum þrælasöngvum ásamt tónlist portúgalskra sjómanna, auk þess sem hún hefur orðið fyrir áhrifum af arabískum söngvum. Sumir telja jafnframt að Fado hafi orðið fyrir áhrifum af brasilíkri tónlist, líkt og Lundum og Modinha. Fado skiptist í tvær meginstefnur: Þá sem á uppruna sinn í höfuðborginni, Lissabon, og þá sem má rekja til háskólabæjarins Coimbra. Fyrrnefnda stefnan var talin tónlist alþýðunnar og flytjendurnir voru yfirleitt konur, á meðan sú síðari var tók sig alvarlegar, var hástemmdari og yfirleitt flutt af karlmönnum. Fyrri stefnan er og hefur verið til muna vinsælari meðal portúgala. Amália Rodrigues er án vafa frægasta fadosöngkona Portúgals en eftir að hún hvarf af sjónarsviðinu tóku aðrir söngvarar að þróa stefnuna, t.d. með því að blanda henni við raftónlist. Frægustu fadosöngvarar landsins eru Mariza, Ana Moura, Cristina Branco og hljómsveitin Madredeus. Silvio Berlusconi. a> Bandaríkjaforseta sem búið er að klippa út af myndinni. Silvio Berlusconi (fæddur 29. september 1936) er ítalskur stjórnmálamaður og athafnamaður, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og formaður stjórnmálaflokksins "Forza Italia" („Áfram Ítalía“) sem hann stofnaði þegar hann hóf stjórnmálaþátttöku fyrir þingkosningar á Ítalíu í mars 1994. Hann hefur þrisvar verið forsætisráðherra Ítalíu. Hann sagði af sér embætti forsætisráðherra Ítalíu 12. nóvember 2011 eftir að honum var kennt um bágt gengi ítalska efnahagsins. Ferill. Kosningabandalag Berlusconis, "Polo della Libertà", sigraði í kosningunum 1994 en hann var þó forsætisráðherra í aðeins sjö mánuði árið 1994 þar sem stjórn hans sagði af sér vegna yfirvofandi vantrausttillögu. Árið 2001 vann kosningabandalag það sem hann fór fyrir ("Casa della Libertà") kosningarnar og hann varð aftur forsætisráðherra. Sú stjórn varð sú langlífasta í sögu ítalska lýðveldisins. 20. apríl 2005 sagði stjórnin af sér vegna taps í sveitarstjórnarkosningum og vandamála í stjórnarsamstarfinu, en 24. apríl myndaði Berlusconi nýja stjórn með litlum breytingum. Í þingkosningum í apríl 2006 töpuðu hægriflokkarnir undir stjórn Berlusconis með aðeins 25.000 atkvæða mun fyrir Einingarbandalagi vinstri og miðflokka. Áður en hann hóf stjórnmálaþátttöku var Berlusconi þekktur athafnamaður á sviði byggingariðnaðar og fjölmiðla. Hann er nú talinn ríkasti maður Ítalíu og 24. ríkasti maður heims, að mati tímaritsins "Forbes". Berlusconi hefur oft staðið frammi fyrir ásökunum um spillingu og hagsmunaárekstur sem eigandi langstærstu einkareknu fjölmiðlasamsteypu Ítalíu. Berlusconi, Silvio Berlusconi, Silvio José Sócrates. José Sócrates Carvalho Pinto de Sousa (fæddur í Vilar de Maçada þann 6. september, 1957) er portúgalskur stjórnmálamaður, formaður Sósíalistaflokks Portúgals og núverandi og jafnframt 15. forsætisráðherra landsins, frá 12. mars, 2005. José Sócrates er verkfræðingur og hefur verið meðlimur sósíalistaflokksins síðan 1987. Árið 1995 gerðist hann umhverfisráðherra í fyrstu ríkisstjórn António Guterres. Tveimur árum síðar varð hann ráðherra íþrótta og heilsumála. Hann tók aftur sæti umhverfisráðherra í annarri ríkisstjórn António Guterres og var í stjórnarandstöðu frá árinu 2002 þegar flokkur Durão Barroso, nú forseta Evrópusambandsins komst til valda. Hann var kosinn formaður sósíalistaflokksins með 80% atkvæða í september árið 2004. José Sócrates var jafnframt einn af skipuleggjendum Evrópumótsins í knattspyrnu sem haldið var árið 2004 í Portúgal. Hann er fráskilinn og á tvö börn. O Hino da Carta. O Hino da Carta er fyrrum þjóðsöngur Portúgala. Var lagður niður sem þjóðsöngur þegar fyrsta lýðveldið var stofnað árið 1910 og A Portuguesa var tekinn upp í hans stað. Afbrigði latneska stafrófsins. Þetta er það stafróf sem Rómverjar notuðu á öldunum kringum upphaf tímatals okkar. Þó notuðu Rómverjar hvorki J, U eða W. Bókstafurinn I var notaður fyrir bæði I og J; V var notað fyrir V, U og W. Þar að auki notuðu Rómverjar ekki litla bókstafi. Þó að upphaflega hafi hver latneskur bókstafur samsvarað einu fónemi í latínu gefur auga leið að til þess að það yrði nothæft í öðrum málum og mörgum þeirra mjög fjarskildum þurfti það að aðlagst nýjum aðstæðum. Þess vegna er latneska stafrófið til í fjölmörgum afbrigðum og aðlögunum. Hér að neðan má sjá nokkur sýnishorn af slíkum viðbótum og aðlögunum. Íslenska stafrófið. Í íslensku er ekki notað C, Q, W og Z. Sérstakir íslenskir bókstafir eru: á, ð, é, í, ó, ú, ý, þ, æ, ö. Danska og norska stafrófið. Danska og norska nota bókstafina Æ Ø Å sem ekki eru til í upphaflega latneska stafrófinu. Finnska og sænska stafrófið. Skrifaðir sem stórir bókstafir: A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Å Ä Ö Skrifaðir sem litlir bókstafir: a b c d e f g h i j k l m n o p q r s t u v w x y z å ä ö Munurinn á finnsk-sænska stafrófinu og því dansk-norska er að í því seinna er Æ notað í stað Ä, og formið Ø í stað Ö. Einnig er röðun þessara bókstafa önnur: Æ, Ø, Å. Pólska stafrófið. Pólska stafrófið hefur 32 bókstafi. ą, ć, ę, ł, ń, ó, ś, ź, ż. Tékkneska stafrófið. Athugið að farið er með "ch" sem sérstakan staf. Baskneska stafrófið. Latnesku bókstafirnir C, Q, U, V, W og Y eru ekki notaðir í basknesku. Tyrkneska starfrófið. Þrír bókstafir latneska stfrófsins eru ekki notaðir: Q, W, X. Skrifaðir sem stórir bókstafir: Ç, Ğ, I, İ, Ö, Ş, Ü Skrifaðir sem litlir bókstafir: ç, ğ, ı, i, ö, ş, ü Athuga ber að "ı" og "i" eru tveir aðskildir stafir með óskiltt hljóðgildi og skrifaðir á mismunandi hátt sem bæði litlir og stórir stafir. Maltneska stafrófið. Latneski stafurinn Y er ekki notaður. Víetnamska stafrófið. Ch Gh Gi Kh Ng Ngh Nh Ph Th Reiðtygi. Reiðtygi er þau áhöld sem notuð eru til útreiða t.d. til að auðvelda knapanum ásetu á hestinum og til að stjórna honum. Helstu reiðtygi eru hnakkur, beisli og múlar af ýmsu tagi. Orðalisti. Andalúsíuhesti riðið við hringamél með föstum hring Beisli kallast einu orði "höfuðleður", "mél" og "taumur". Beislið er notað til að gefa hestinum ábendingar um hvað hann eigi að gera, s.s. stöðva, hægja á sér eða beygja. Einnig er það notað til að teyma hross, hvort sem knapinn er á baki eða gengur meðfram hestinum. Hnakkur (eða söðull) er lagður á bak hestsins til þæginda fyrir knapann og til að auðvelda honum að halda jafnvægi á hestinum. Hnakkar eru ólíkir að lögun eftir því hvers konar útreiðar eru stundaðar. Notaðir eru hnakkar með djúpt sæti og góðan stuðning í fimireið, flatari og þynnri hnakkar í hindrunarstökki. Til reiðar á íslenska hestinum kjósa flestir örlítið flatan, en mjúkan hnakk sem gerir knapanum auðveldara að færa þyngd sína til eftir gangtegundum. Hnakkurinn er festur á hestinn með "gjörð", auk þess sem sumir velja að nota "reiða", svo hnakkurinn renni ekki fram, eða "brjóstreim", til að hnakkurinn rennir ekki aftur. Múll, hvort sem er "reiðmúll" eða "stallmúll", er höfuðbúnaður hests og er notaður til að hafa stjórn á honum. Stallmúllinn dregur nafn sitt af því að hross eru oft látin vera með hann við stall í hesthúsum. Reiðmúlar eru margskonar og hafa ólík notagildi. Enskur múll er múll sem liggur þvert yfir nefbeinið, og leggst undir kinnbeinið. Hann getur haft skáreim sem kemur framfyrir mélhringina. Þýskur múll, Hannover-múl eða Rosemarie-múll, kom til Íslands fyrir tilstilli Rosemarie Þorleifsdóttur á 9. áratug seinustu aldar en hafði áður mikið verið notaður í Þýskalandi. Þýski múllinn er beinn, kemur yfir nefbein hestsins nokkuð neðarlega, en þó ekki svo neðarlega að hann loki öndunarvegi hestsins. Mexíkóskur krossmúll er nokkuð líkur enskum múl með skáreim, nema nefreimin nær svolítið neðar. Mél er aflangt stykki sem leggst í munn hestsins til að auðvelda knapanum að gagra honum til eftir vilja sínum. Algengast er að mél séu úr málmi, en einnig eru til gúmmímél, eða mél samsett úr ólíkum efnum, s.s. ólíkum málmum eða málmi og gúmmíi. Ólíkar útfærslur eru líka að mélhringjunum eða -kjálkunum. Sumar méltegundir hafa hringi, hvort sem þeir eru lausir eða fastir, og aðrar kjálka og kallast mélin þá einu nafni "stangir" (eða "stangamél"). Stangir breyta átakinu á munn hestsins og virka sem vogarstöng þar sem hluti af aflinu fer upp eftir höfuðleðrinu og hluti af aflinu verkar á keðju sem liggur undir höku hestsins og tengir mélhringina. Stangamél eru því nokkuð vandmeðfarnari en venjuleg hringamél. Ólíkar útfærslur á munnstykki mélanna eru notaðar við ólíka hesta. Flest mél eru skipt, þ.e. hafa að minnsta kosti ein liðamót í miðju munnstykkinu, sum eru tvískipt. "Tvískipt mél" hafa þann kost fram yfir "einskipt mél" að þau brotna betur yfir tungu hestsins. Sum mél eru ekki slétt í munninum og sum hafa beygju (oft kölluð "beygjumél" eða "baslmél") og eru þannig gjörð til að gera hestinum erfiðara fyrir að koma tungunni yfir mélið og „basla“. Önnur mél hafa litla grind sem þjónar sama hlutverki eða rúllur til að fá hestinn til að japla mélin og leika við þau. Hestamennska. Hestamennska kallast það tómstundargaman að ríða út og keppa á hestum. Þeir sem stunda hana geta kallað sig hestamenn eða -konur. Páfi. Páfi (af latínu "papa" „faðir“) er titill leiðtoga nokkurra kristinna kirkna. Þekktastur er höfuð rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Rómversk-kaþólska. Biskupinn í Róm, sem einnig er æðsti leiðtogi rómversk-kaþólsku kirkjunnar, er nefndur páfi. Páfinn í Róm er talinn arftaki Péturs postula og er á stundum allt frá miðöldum nefndur „staðgengill Krists“ (á latínu „vicarius Christi“). Núverandi páfi er nefndur Frans (Franciscus, Jorge Mario Bergoglio), kjörinn 13. mars 2013. Forveri hans í embættinu var Benedikt XVI sem var páfi frá 19. apríl 2005. Hann sagði af sér í lok febrúar 2013 af heilsufarsástæðum. Þá voru liðnar sex aldir síðan páfi sagði síðast af sér. Himnusz. Frumrit verksins, undirritað af Ferenc Erkel Himnusz, einnig þekktur sem Isten, áldd meg a magyart (eftir fyrstu ljóðlínunni), er þjóðsöngur Ungverjalands. Hann var tekinn í notkun árið 1844, og er fyrsta erindið sungið við opinberar athafnir. Textann samdi Ferenc Kölcsey, en lagið Ferenc Erkel. Undirstöðusetning algebrunnar. Undirstöðusetning algebrunnar er mikilvæg stærðfræðisetning, segir að kroppur tvinntalna er algebrulega lokaður. Fjöldi stærðfræðinga reyndi að sanna regluna á 18. öld, meðal annarra Euler og Lagrange en fyrstu fullkomnu sönnunina veitti Frakkinn Jean-Robert Argand árið 1806. Árið 1799 hafði Svisslendingurinn Carl Friedrich Gauss samið sönnun, sem síðar kom í ljós að var götótt. Setningin er, líkt og nafnið ber með sér, mikilvæg niðurstaða í fleiri en einni grein stærðfræðinnar, stærðfræðigreiningu og algebru svo nokkuð sé nefnt. Framsetning. Látum formula_1 vera margliðu yfir tvinntalnasléttuna með tvinntalnafastastuðlum og af stigi formula_2. Þá hefur formula_1 minnst eina núllstöð. Þ.e. ef formula_4 þar sem formula_5 er tvinntala og formula_6 stuðlarnir eru tvinntölur þá er til a.m.k. eitt gildi fyrir formula_5 svo formula_8. Slétta (rúmfræði). Slétta eða plan er eitt af grunnhugtökum rúmfræðinnar og á við flöt í þrívíðu rúmi, sem hefur enga dýpt. Hin grunnhugtökin eru punktur og lína. Einfaldasta dæmið er hlutrúmið formula_1, sem er tvívítt. Sléttur í hærri víddum en formula_2 eru kölluð háplön. þar sem að "s" og "t" eru stikar. Skipta má sléttu í tvívíðu rúmi með línu í tvær hálfsléttur. Háplan. Háplan eða háslétta er í stærðfræði plan í hærri vídd en formula_1. Háplan í formula_2 er "n"-vítt, og spannar formula_3 víddir. Allar lausnir (lausnamengi) á jöfnu af taginu formula_4, þar sem að "a" er ekki núllvigur mynda háplan. Þar sem að formula_6 eru vigrar og formula_7 eru stikar. Línulegt jöfnuhneppi. Línulegt jöfnuhneppi er hneppi/safn af jöfnum með ótilgreint margar breytur og ótilgreint margar jöfnur. T.d. eru tvær jöfnur eins og línulegt jöfnuhneppi. Þær eru hneppi því þær standa tvær saman og hafa sömu breyturnar, "x" og "y" sem gefur samband á milli þessara tveggja breyta, þ.e.a.s. að í annarri jöfnunni er þegar "x" tekur eitthvað gildi þá verður það að taka sama gildi í hinni jöfnunni og sama með "y". Svo eru þær línulegar því hver jafna fyrir sig er línuleg. Formlegri skilgreining. þar sem breyturnar eru ekki af hærra en fyrsta stigi og stuðlarnir eru óháðir breytunum. Lausn á línulegu jöfnuhneppi er "n"-víður vigur formula_3 sem uppfyllir allar jöfnurnar, og mengi allra lausna jöfnuhneppisins kallast lausnamengi. Sé enginn vigur til sem leysir jöfnuhneppið er kerfi línulegu jafnanna sagt ósamkvæmt. Sé til ein eða fleiri lausnir er það því samkvæmt. Ef ein eða fleiri af jöfnunum eru línulega háðar þá er til fleiri en ein lausn, en þá verður lausnarvigurinn að innihalda stika eða lausa breytu sem gerir það að verkum að vigurinn geti tekið á sig öll hugsanleg gildi. Sé vigurinn formula_4 núllvigurinn er jöfnuhneppið sagt óhliðrað (e. "homogeneous"), annars er það hliðrað. Óhliðruð jöfnuhneppi hafa annaðhvort bara lausnina formula_5, eða það hefur óendanlega margar lausnir. Hvernig leysa skal línuleg jöfnuhneppi. Línuleg jöfnuhneppi er oftast leyst með Gauß-eyðingu, en í henni er línuaðgerðum beitt á jöfnuhneppið uns það er á efra stallagerð. Þegar koma fram jöfnur á forminu formula_9 má strika þær út úr jöfnuhneppinu. Stuðlafylki. Hægri hlið línulegs jöfnuhneppis er vigurinn formula_11. Ef ákveða stuðlafylkisins er núll eru ein eða fleiri jöfnur línulega háðar. Hægt er að leysa jöfnuhneppið með því að skrifa það upp sem aukið fylki (auka það um vigurinn "b") og beita á það reikniriti Gauss. Wisconsin. Wisconsin er fylki í Bandaríkjunum. Fylkið liggur að Michigan og Lake Superior í norðri, Lake Michigan í austri, Illinois í suðri og Iowa og Minnesota í vestri. Wisconsin er 169.639 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg Wisconsin heitir Madison, en Milwaukee er stærsta borg fylkisins. Um 5,6 milljónir manna búa í fylkinu. Kristur. Kristur er íslenskun af gríska orðinu "Χριστός" (umskrifað með latneskum bókstöfum "Khristós"), sem þýðir „smurður“. Gríska orðið Khristós (hinn smurði) er bókstafleg þýðing á hebreska hugtakinu „mashiach“ sem á íslensku er „messías“. Kristin trú er nefnd eftir hugtakinu Kristur en kristnir menn telja Jesú frá Nasaret hafa verið Krist. Samkvæmt kenningum gyðingdóms er Kristur enn ókominn. Kristur er alltaf skrifað með stórum upphafsstaf í bókstaflegri þýðingu "Hinn smurði". Í þýðingum Nýja testamentisins eru grísku orðin "Ιησούς Χριστός" og samsvarandi orðalag næstum alltaf þýdd sem "Jesús Kristur" sem veldur því að margir halda að Kristur hafi verið hluti af nafni Jesú frá Nasaret. Í upphafi Íslandsbyggðar var Kristur oftast nefndur "Hvíti Kristur" eða "Hvítakristur". Tennessee. "Kortið sýnir staðsetningu Tennessee"Tennessee er fylki í Bandaríkjunum. Það er 109.247 ferkílómetrar að stærð. Fylkið liggur að átta fylkjum: Kentucky og Virginíu í norðri, Norður-Karólínu í austri, Georgíu, Alabama og Mississippi í suðri og Arkansas og Missouri í vestri. Höfuðborg Tennessee heitir Nashville en Memphis er stærsta borg fylkisins. Íbúar Tennessee eru um 5,7 milljónir talsins. Ohio. Ohio er fylki í Bandaríkjunum. Það er 116.096 ferkílómetrar að stærð. Ohio liggur að Pennsylvaníu og Vestur-Virginíu í austri, Kentucky í suðri, Indiana í vestri og Michigan og stöðuvatninu Lake Erie í norðri. Höfuðborg Ohio heitir Columbus. Íbúar fylkisins eru um 11,5 milljónir. Texas. Texas er fylki í suðurhluta Bandaríkjanna. Texas er 696.241 ferkílómetrar að stærð og er næststærsta fylki Bandaríkjanna á eftir Alaska. Texas liggur að Oklahoma í norðri, Arkansas í norðaustri, Louisiana í austri, Mexíkó í suðri og New Mexico í vestri. Höfuðborg Texas heitir Austin en stærsta borg fylkisins er Houston. Meðal annarra þekktra borga í Texas eru Dallas og San Antonio. Áætlað er að um 24,3 milljónir manns bjuggu í Texas árið 2008. Kalifornía. Kalifornía (enska: "California") er fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Kalifornía liggur að Oregon í norðri, Nevada og Arizona í austri, Mexíkó í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Höfuðborg fylkisins heitir Sacramento en Los Angeles er stærsta borg fylkisins. Meðal annarra þekktra borga í Kaliforníu eru San Francisco, Oakland, San Jose og San Diego. Kalifornía er um 420.000 ferkílómetrar að stærð — þriðja stærsta fylki Bandaríkjanna á eftir Alaska og Texas. Landslag fylkisins er afar fjölbreytt. Á 19. öld skall á gullæði í Kaliforníu. Fólk flykktist að og efnahagur fylkisins batnaði til muna. Snemma á 20. öld varð Los Angeles miðstöð skemmtanaiðnaðar í heiminum og stórt aðdráttarafl ferðamanna. Ef Kalifornía væri land myndi það vera á meðal tíu stærstu hagkerfa heims (á stærð við Ítalíu) og 35. fjölmennasta. Iðnaður. Árið 2005 var Kalifornía talið 5. stærsta hagkerfi í veröldinni og ábyrgt fyrir allt að 13% af heildar framleiðslu Bandaríkjanna. Aðaliðnaður Kaliforníu er landbúnaður og hefur fylkið verið kallað brauðkarfa Bandaríkjanna. Á hæla þess kemur kemur hátækni, bæði flug og geimiðnaður auk þess sem fylkið er þekkt fyrir tölvutækni og Silicon Valley sem er staðsettur í San Jose er talin ein helsta miðstöð tölvuvæðingarinnar, bæði hugbúnaðarframleiðslu og einnig framleiðslu á tölvum og íhlutum. Í Kaliforníu er afþreyingariðnaður einnig mjög mikilvægur, bæði framleiðsla kvikmynda og tölvuleikja en þó fyrst og fremst framleiðsla sjónvarpsefnis. Lýðfræði. Auk þess má geta að 32,4% flokka sig sem latinos eða upprunna frá Mið- og Suður-Ameríku. Tungumál. Árið 2005 höfðu um 58% íbúa Kaliforníu ensku að móðurmáli (sem fyrsta mál), en um 28% töluðu spænsku, einkum er spænska útbreidd í suðurhluta fylkisins. Um 14% íbúanna tala ýmis tungumál (sem fyrsta mál), og eru ýmis Asíumál áberandi í hverfum innflytjenda. Alls eru töluð um 70 tungumál á svæðinu. Gasbíllinn. Gasbíllinn (þýska: Gaswagen) var ein útrýmingaraðferða nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Gasbíllinn var sendiferðabíll með einangruðum klefa sem í var dælt útblæstri bílvélarinnar. Fórnarlömbin köfnuðu því í kolmónoxíð gasi. Þessi aðferð var notuð þar til henni var skipt út fyrir aðrar útrýmingaraðferðir, þ.m.t. Zyclon B. Colorado. "Kortið sýnir staðsetningu Colorado"Colorado er fylki í Bandaríkjunum. Það er ferkantað að lögun og 269.837 ferkílómetrar að stærð. Colorado liggur að Wyoming í norðri, Nebraska í norðaustri, Kansas í austri, Oklahoma í suðaustri, New Mexico í suðri og Utah í vestri. Colorado og Arizona eru horn í horn í suðvestri. United States Census Bureau áætlaði að 4.861.515 menn byggju í Colorado í 2007. Klettafjöll eru að hluta til í Colorado. Höfuðborg Colorado heitir Denver. Denver er jafnframt stærsta borg fylkisins. Fylkið dregur nafn sitt af Colorado ánni sem aftur var nefnd af spænskum landkönnuðum og merkir einfaldlega rauðleita áin (colour-red). Idaho. "Kortið sýnir staðsetningu Idaho"Idaho er fylki í vesturhluta Bandaríkjanna. Það er 216.632 ferkílómetrar að stærð og liggur að Kanada í norðri, Montana í norðaustri, Wyoming í austri, Utah og Nevada í suðri og Oregon og Washington í vestri. Klettafjöll eru að hluta til í Idaho. Höfuðborg fylkisins heitir Boise og er jafnframt stærsta borg fylkisins. Íbúar Idaho eru um 1,3 milljónir. Wyoming. Wyoming er fylki í Bandaríkjunum. Fylkið liggur að Montana í norðri, Suður-Dakóta og Nebraska í austri, Colorado í suðri, Utah í suðvestri og Idaho í vestri. Wyoming er 253.554 ferkílómetrar að stærð. Klettafjöll eru að hluta til í Wyoming. Höfuðborg og stærsta borg fylkisins heitir Cheyenne. Um hálf milljón manns býr í Wyoming, sem er fámennasta fylki Bandaríkjanna. Minnesota. "Kortið sýnir staðsetningu Minnesota"Minnesota er fylki í Bandaríkjunum. Það er 225.365 ferkílómetrar að stærð og liggur að Kanada í norðri, Wisconsin í austri, Iowa í suðri og Suður-Dakóta og Norður-Dakóta í vestri. Auk þess liggur fylkið að stöðuvatninu Lake Superior í norðaustri. Höfuðborg fylkisins heitir Saint Paul en Minneapolis er stærsta borg fylkisins. Íbúar Minnesota eru um 5 milljónir. Vermont. "Kortið sýnir staðsetningu Vermont"Vermont er fylki í Bandaríkjunum. Vermont liggur að Kanada í norðri, New Hampshire í austri, Massachusetts í suðri og New York í vestri. Flatarmál Vermont er 24.923 ferkílómetrar. Höfuðborg fylkisins heitir Montpelier en stærsta borg fylkisins er Burlington. Íbúar Vermont eru um rúmlega 600 þúsund. New Hampshire. New Hampshire er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Það liggur að Kanada í norðri, Maine og Atlantshafi í austri, Massachusetts í suðri og Vermont í vestri. Flatarmál New Hampshire er 24.217 ferkílómetrar. Höfuðborg fylkisins heitir Concord. Stærsta borg fylkisins heitir Manchester. Rúmlega 1,3 milljónir manns búa í New Hampshire. John Lynch er landstjóri í New Hampshire. Missouri. "Kortið sýnir staðsetningu Missouri"Missouri er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Það liggur að Iowa í norðri, Illinois og Kentucky í austri, Tennessee í suðaustri, Arkansas í suðri, Oklahoma í suðvestri, Kansas í vestri og Nebraska í norðvestri. Flatarmál Missouri er 180.693 ferkílómetrar. Höfuðborg Missouri heitir Jefferson City en stærsta borg fylkisins heitir Kansas City. Önnur þekkt borg í Missouri er Saint Louis. Íbúafjöldi fylkisins er um 5,6 milljónir. Norður-Karólína. Norður-Karólína er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Virginíu í norðri, Atlantshafi í austri, Suður-Karólínu í suðri, Georgíu í suðvestri og Tennessee í vestri. Flatarmál Norður-Karólínu er 139.509 ferkílómetrar. Höfuðborg fylkisins heitir Raleigh en Charlotte er stærsta borg fylkisins. Íbúar fylkisins er um 8 milljónir. Hæsta fjall ríkisins er Mt. Mitchell í Appalachiafjöllum. Suður-Karólína. "Kortið sýnir staðsetningu Suður-Karólínu"Suður-Karólína er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Norður-Karólínu í norðri, Atlantshafi í austri og Georgíu í suðri og vestri. Flatarmál Suður-Karólínu er 82.965 ferkílómetrar. Höfuðborg og stærsta borg fylkisins heitir Columbia. Íbúar fylkisins er um 4 milljónir. Vetrarstríðið. Vetrarstríðið braust út þegar Sovétríkin réðust á Finnland þann 30. nóvember 1939, þremur mánuðum eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Sovétríkin voru í framhaldi af því rekin úr Þjóðabandalaginu þann 14. desember. Stalín reiknaði með að hertaka allt Finnland áður en árið væri úti, en mótstaða Finna reyndist sovéska hernum afar erfið, þrátt fyrir að sovésku herdeildirnar hefðu þrefaldan mannafla á við finnska herinn. Finnar héldu út þar til í mars 1940 þegar friðarsamkomulag var undirritað þar sem Finnar urðu að láta af hendi 10% af landsvæði sínu og 20% af helstu iðnaðarsvæðum sínum til Sovétríkjanna. Útkoma vetrastríðsins er blendnum tilfinningum háð. Þrátt fyrir að sovéski herinn hafi á endanum náð að brjóta varnir Finna á bak aftur, komust hvorki Sovétríkin né Finnland vel frá stríðinu. Mannfall í röðum sovéska hersins var gríðarlegt og breytti áliti annarra þjóða á Sovéska herveldinu. Geta Rauða hersins var mjög véfengd, sem að leiddi til ákvörðunar Hitlers um hrinda af stað Barbarossa-aðgerðinni. Sovéskri herinn náði að lokum ekki markmiði sínum um hertöku Finnlands og náði einungis undir sig landsvæði í kringum Ladogavatn. Finnar héldu hinsvegar sjálfstæði sínu og hlutu samúð og velvilja annarra þjóða í sinn garð. Frakkar og Bretar höfðu undirbúið stuðning við Finna í gegnum Norður-Skandinavíu en ekkert var úr því þegar skrifað var undir friðarsamkomulagið þann 15. mars. Vetrarstríðið ("talvisota" á finnsku) er að margra áliti hernaðarlegur smánarblettur á fyrrum Sovétríkjunum og var túlkað af sumum sem veikleikamerki á sovéska stjórnkerfinu. Stalín lærði þó af mistökum vetrarstríðsins og áttaði sig á því að pólitísk yfirráð yfir rauða hernum voru ekki lengur ásættanleg. Eftir vetrarstríðið var stjórnskipan hersins breytt, hann gerður nútímalegri og hæfir foringjar settir við stjórnvölinn. Þessi ákvörðum átti eftir að reynast vel síðar gegn innrás Þjóðverja. Á Íslandi var innrás Sovétríkjanna harðlega gagnrýnd. Allir stjórnmálaflokkar nema sósíalistaflokkurinn mótmæltu innrásinni. Sömuleiðis var almenningsálitið mjög andsnúið innrásinni. Andstaðan á Íslandi var að sumu leyti vegna þess að íslendingar óttuðust um eigin stöðu ef stórveldum væri leyfilegt að ráðast á hlutlaus smáríki en ekki síður vegna samkenndar sem Íslendingar fundu með finnum sem norrænu ríki, enda kallaði innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar hvergi nærri á sömu viðbrögð á Íslandi. Stuðningur sósíalistaflokksins við innrásina gerði þá utanveltu í íslenskum stjórnmálum og reiði annarra flokka í þeirra garð vegna afstöðu þeirra til stríðsins gekk svo langt að aðrir flokkar komu sér saman um að hunsa þá á Alþingi. Georgía (fylki BNA). "Kortið sýnir staðsetningu Georgíu"Georgía er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Georgía liggur að Tennessee og Norður-Karólínu í norðri, Suður-Karólínu og Atlantshafi í austri, Flórída í suðri og Alabama í vestri. Georgía er 154.077 ferkílómetrar að flatarmáli. Fylkið var upprunalega bresk nýlenda og sem slík var hún nefnd eftir Georgi II Bretlandskonungi. Höfuðborg og stærsta borg fylkisins heitir Atlanta. Um 8,2 milljónir manns búa í Georgíu. Arizona. "Kortið sýnir staðsetningu Arizona"Arizona er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Arizona liggur að Utah í norðri, New Mexico í austri, Mexíkó í suðri, Kaliforníu í vestri og Nevada í norðvestri. Arizona og Colorado eru horn í horn í norðaustur frá Arizona. Flatarmál Arizona er 295.254 ferkílómetrar. Um 6,5 milljón manns býr í Arizona. Höfuðborg og stærsta borg fylkisins heitir Phoenix. Í Phoenix búa um það bil 1,5 milljón manns. Í Arizona tala um 70% ensku, 20% spænsku og restin Navajo og annað. The Savage Rose. The Savage Rose er dönsk rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1967 í Kaupmannahöfn. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru Anisette Hansen (söngur), Thomas Koppel (píanó), Niels Tuxen (gítar), Anders Koppel (flauta, dragspil og orgel), Jens Rugsted (bassagítar), Ilse Marie Koppel (semball) og Alex Riel (trommur). 1971 minnkaði hljómsveitin niður í tríó með Anisette og Koppel-bræðrunum og þremur árum síðar varð hún að dúett þeirra Anisette og Thomas Koppel. Thomas Koppel lést 25. febrúar 2006. Eitt það sem fyrst og fremst einkennir lög sveitarinnar er söngur Anisette sem Björk hefur meðal annars talið meðal áhrifavalda. Hljómplötur. Savage Rose hefur gefið út yfir tuttugu hljómplötur. Connecticut. Connecticut er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Massachusetts í norðri, Rhode Island í austri, Long Island-sundi í suðri og New York í vestri. Connecticut er 14.356 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg fylkisins heitir Hartford en stærsta borg fylkisins heitir Bridgeport. Um 3,5 milljónir manns búa í Connecticut. Kentucky. "Kortið sýnir staðsetningu Kentucky"Kentucky er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Kentucky liggur að Illinois, Indiana og Ohio í norðri, Vestur-Virginíu og Virginíu í austri, Tennessee í suðri og Missouri í vestri. Kentucky er 104.749 ferkílómetrar að flatarmáli. Höfuðborg fylkisins heitir Frankfort en Louisville er stærsta borg fylkisins. Íbúar Kentucky eru um 4 milljónir. Norður-Dakóta. "Kortið sýnir staðsetningu Norður-Dakóta"Norður-Dakóta er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Norður-Dakóta liggur að Kanada í norðri, Minnesota í austri, Suður-Dakóta í suðri og Montana í vestri. Norður-Dakóta er 183.272 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg fylkisins heitir Bismarck en stærsta borgin Fargo. Íbúar fylkisins eru um 640 þúsund. Í Norður-Dakóta, nánar tiltekið í Mountain-byggð, var fyrsta íslenska kirkjan reist í vesturheimi árið 1884. Suður-Dakóta. "Kortið sýnir staðsetningu Suður-Dakóta"Suður-Dakóta er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Suður-Dakóta liggur að Norður-Dakóta í norðri, Minnesota í austri, Iowa í suðaustri, Nebraska í suðri og Wyoming og Montana í vestri. Suður-Dakóta er 199.905 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg fylkisins heitir Pierre en Sioux Falls er stærsta borg fylkisins. Íbúar fylkisins eru um 755 þúsund. Kansas. "Kortið sýnir staðsetningu Kansas"Kansas er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Kansas liggur að Nebraska í norðri, Missouri í austri, Oklahoma í suðri og Colorado í vestri. Flatarmál Kansas er 213.096 ferkílómetrar. Nafnið dregur fylkið frá Kansas ánni sem aftur fær nafn sitt frá indíjána ættbálki sem nefndu sig Kansa. Höfuðborg fylkisins heitir Topeka. Stærsta borg fylkisins heitir Wichita. Íbúar fylkisins eru um 2,8 milljónir. Utah. "Kortið sýnir staðsetningu Utah"Utah er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Utah liggur að Idaho og Wyoming í norðri, Colorado í austri, Arizona í suðri og Nevada í vestri. Utah og New Mexico eru einnig horn í horn í suðaustri frá Utah. Flatarmál Utah er 219.887 ferkílómetrar. Utah og New Mexico eru horn í horn í suðaustri frá Utah. Höfuðborg Utah heitir Salt Lake City og það er einnig stærsta borg fylkisins. Um 2,2 milljónir manns búa í Utah. Í Utah liggur einnig borgin Spanish Fork sem er elsta íslenska samfélagið í Bandaríkjunum. Alabama. Alabama er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Alabama liggur að Tennessee í norðri, Georgíu í austri, Flórída og Mexíkóflóa í suðri og Mississippi í vestri. Flatarmál Alabama er 135.775 ferkílómetrar. Höfuðborg Alabama heitir Montgomery en Birmingham er stærsta borg fylkisins. Íbúar Alabama eru um 4,7 milljónir. Iowa. "Kortið sýnir staðsetningu Iowa"Iowa er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Iowa liggur að Minnesota í norðri, Wisconsin og Illinois í austri, Missouri í suðri og Nebraska og Suður-Dakóta í vestri. Flatarmál Iowa er 145.743 ferkílómetrar. Höfuðborg Iowa heitir Des Moines. Hún er einnig stærsta borg fylkisins. Íbúar Iowa eru um 2,9 milljónir. Pennsylvanía. Pennsylvanía er eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Pennsylvanía liggur að New York í norðri, New Jersey í austri, Delaware og Maryland í suðri, Vestur-Virginíu í suðvestri og Ohio í vestri. Í norðvestri liggur Pennsylvanía að stöðuvatninu Lake Erie. Pennsylvanía er 119.283 ferkílómetrar að flatarmáli. Höfuðborg fylkisins heitir Harrisburg en Philadelphia er stærsta borg Pennsylvaníu. Pittsburgh er önnur stór borg í Pennsylvaníu. Íbúar fylkisins eru um 12,8 milljónir. Mississippi (fylki). "Kortið sýnir staðsetningu fylkisins Mississippi"Mississippi er fylki í suðurhluta Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Tennessee í norðri, Alabama í austri, Mexíkóflóa í suðri og Louisiana og Arkansas í vestri. Flatarmál Mississippi er 125.546 ferkílómetrar. Höfuðborg fylkisins heitir Jackson. Hún er einnig stærsta borg fylkisins. Íbúar Mississippi eru um 2,7 milljónir. Arkansas. Arkansas er fylki í Bandaríkjunum. Það er 137.732 ferkílómetrar að stærð og liggur að Missouri í norðri, Tennessee og Mississippi í austri, Louisiana í suðri, Texas í suðvestri og Oklahoma í vestri. Höfuðborg Arkansas heitir Little Rock sem er einnig stærsta borg fylkisins. Um 2,7 milljónir manns búa í Arkansas. New Mexico. New Mexico (einnig þekkt sem Nýja Mexíkó) er fylki í Bandaríkjunum. Það er 315.194 ferkílómetrar að stærð. New Mexico liggur að Colorado í norðri, Oklahoma í austri, Texas í austri og suðri, Mexíkó í suðri og Arizona í vestri. New Mexico og Utah eru horn í horn í norðvestri frá New Mexico. Syðsti hluti Klettafjalla er í New Mexico. Höfuðborg fylkisins heitir Santa Fe en stærsta borg New Mexico heitir Albuquerque. Um 2 milljónir manns búa í fylkinu. Nebraska. "Kortið sýnir staðsetningu NebraskaNebraska er fylki í Bandaríkjunum. Fylkið liggur að Suður-Dakóta í norðri, Iowa í austri, Missouri í suðaustri, Kansas í suðri, Colorado í suðvestri og Wyoming í vestri. Nebraska er 200.520 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg fylkisins heitir Lincoln. Stærsta borg fylkisins er aftur á móti Omaha. Um 1,7 milljónir manns býr í Nebraska. Oklahoma. Oklahoma er fylki í Bandaríkjunum. Fylkið liggur að Kansas í norðri, Missouri í norðaustri, Arkansas í austri, Texas í suðri og vestri, New Mexico í vestri og Colorado í norðvestri. Oklahoma er 181.196 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg fylkisins heitir Oklahoma City og er jafnframt stærsta borg fylkisins. Um 3,6 milljónir manns búa í fylkinu. Kantónska. Kantónska, yue kínverska eða Guangdonghua er mállýska sem er talað í Kanton (Guangdong)-héraði í Kína, Makaó og Hong Kong. Alþjóða portúgölskustofnunin. Alþjóða portúgölskustofnunin (Instituto Internacional de Língua Portuguesa á portúgölsku, skammstafað IILP) er stofnun sem er ætlað að styðja og stuðla að útbreiðslu portúgölsku í heiminum. Hún er staðsett í Praia á Grænhöfðaeyjum. Setning (stærðfræði). Setning er, í stærðfræði, formleg rökyrðing sem er lögð fram sem tilgáta. Hún telst sönn ef og þá aðeins ef að hún hefur verið sönnuð, en slík sönnun má fela í sér einföldun vandamálsins að öðrum þekktum og sönnuðum setningum eða frumsemdum, eða rökfræðilega útleiðslu. Á ensku bera setningar tvö mismunandi nöfn, eftir því hvort að hún er sönnuð eða ekki. Sönnuð setning heitir "theorem" en ósönnuð setning heitir "conjecture". Íslenskar hliðstæður við þessi orð eru "tilgáta" og "regla", en í daglegu tali er samheitið notað. Frumsemdur eru ekki taldar til setninga, þar sem að þær eru forsendur sem eru lagðar til grundvallar öllum frekari umræðum, og gert er ráð fyrir því að þær séu sannar. Dæmi um frumsemdur eru Frumsemdur Evklíðs og valfrumsemdan. Stálbandalagið. Stálbandalagið var hernaðarbandalag Ítalíu og Þýskalands sem Galeazzo Ciano og Joachim von Ribbentrop undirrituðu fyrir hönd ríkjanna 22. maí 1939. Bandalagið gekk út á gagnkvæma tafarlausa aðstoð ef kæmi til stríðs milli annars hvors ríkisins og einhvers þriðja aðila og að ekki yrði undirritað friðarsamkomulag við þriðja aðila án samþykkis hins ríkisins. Að auki kvað samkomulagið á um samstarf á sviði hergagnaframleiðslu og hernaðar almennt. Samkomulagið átti að gilda til tíu ára. Stálbandalagið byggði á þeirri hugmynd ríkjanna að heimsstyrjöld myndi bresta á innan þriggja ára. Þegar Þýskaland hóf átökin í september 1939 reyndust ráðamenn Ítalíu óundirbúnir og áttu því í erfiðleikum með að standa við efnisatriði samkomulagsins. Vegna þess hófu Ítalír þátttöku í styrjöldinni með mislukkaðri innrás í Suður-Frakkland í júní 1940. Ýmsir meðlimir ítölsku ríkisstjórnarinnar, þar á meðal Ciano sá sem undirritaði samkomulagið, voru andsnúnir bandalaginu. Fylki (stærðfræði). þar sem að formula_2 er talan í "i"-tu röð og "j"-ta dálki. Hver tala í fylkinu er kallað stak. Hægt er að túlka eina línu sem "m"-víðan vigur, eða einn dálk sem "n"-víðan vigur. Þá er vigur línu kallaður línuvigur og vigur dálks kallaður dálkvigur. Út frá þessu má leiða skilgreininguna að "fylki er röðuð "n"-nd vigra", rétt eins og vigur er röðuð "n"-nd talna. Ef fylki hefur jafn marga dálka og línur ("n×n") er það kallað ferningsfylki eða ferningslaga fylki. Ef stökin á hornalínunni (frá efra vinstra horni að neðra hægra horni) eru einu stökin sem hafa ekki gildið 0, þá er fylkið kallað hornalínufylki. Ef stökin ofan við aðalhornalínuna eru öll núll, en ekki neðan við hana, þá kallast fylkið neðra þríhyrningsfylki. Öfugt gildir, að ef stökin neðan við aðalhornalínuna eru öll núll en ekki ofan við hana, þá er fylkið efra þríhyrningsfylki. Samlagning. formula_10formula_11formula_12 Margföldun. Hægt er að margfalda saman tvö fylki því og þá aðeins að fjöldi dálka í fyrra fylkinu sé jafn fjölda lína í seinna fylkinu. Þ.e., hægt er að margfalda saman "m×r" fylki og "r×n" fylki. Köllum slík fylki A og B. Þá er hægt að margfalda saman A og B: formula_14. Varúðar skal gætt við margföldun fylkja, þar sem að víxlregla gildir ekki um margföldun þeirra: formula_15. Margföldun BA er heldur ekki möguleg nema að formula_16, í þessu dæmi. Þó svo að margföldun sé ekki víxlin eru til tilfelli þar sem að tvö fylki margfölduð saman skila sömu niðurstöðu á hvorn vegin sem margfaldað er, en það er hrein tilviljun. Margfeldi fylkja er skilgreind þannig að fyrir formula_17 er stakið formula_18. Þ.e., stakið jafngildir innfeldinu af "i"-ta línuvigrinum í A og "j"-ta dálkvigrinum í B. Andhverfa fylkja. "Aðalgrein: Andhverfanlegt fylki" Ferningsfylki er eina tegund fylkja sem geta átt sér andhverfu, en með því skilyrði að ákveða fylkisins sé ekki núll og að metorð þess sé jafnt stærðinni ("n"). Ýmis önnur jafngild skilyrði eru til staðar. Sé ferningsfylki margfaldað við andhverfu fæst einingarfylki. Saga fylkja. Fylki voru fyrst notuð af Gottfried Wilhelm von Leibniz á 17. öld. William Hamilton notaði fylki við skilgreiningu á fertölum. Rökyrðing. Umsagnarökyrðingar. Sem er satt; það þarf ekki að líta langt til þess að sjá dæmi um bláan bíl. Hins vegar væri setningin ósönn, þar sem að við vitum að það eru líka til rauðir, svartir og alls kyns litaðir bílar á Íslandi, og bílar eru sjaldnast samtímis rauðir og bláir. Askur Yggdrasils. Askur Yggdrasils er tré sem, í norrænni goðafræði, stendur upp í gegnum heiminn allann. Einhver hluti hans nær í hvern hluta heimsins. Ein rót þess liggur í Jötunheimum við Mímisbrunn, önnur liggur upp við Hvergelmi í Niflheimum en hana nagar Níðhöggur og sú þriðja og síðasta er staðsett í Ásgarði við Urðarbrunn þar sem hann var vökvaður af skapanornunum Urði, Verðandi og Skuld sem ausa yfir tréð, einu sinni á dag, vatni sem á að halda trénu frá því að fúna eða visna. Í greinum Asks Yggdrasils er að finna margar skepnur, meðal annars örn, íkornann Ratatosk, hana og fleiri. Ekki er vitað með vissu hver merking nafnsins Yggdrasill er. En talið er helst að forliðurinn Ygg þýði hestur eða hestur Óðins, því Yggur er eitt af dulnefnum Óðins. Ein kenning á veraldartrénu er "hestur hengda mannsins". Þegar Óðinn vildi ráða leyndarmál rúna, og töfratákna sem skrift er runnin frá, þurfti hann að líða miklar þjáningar með því að hanga í snöru á grein trésins yfir ómælisdjúpinu í níu nætur. Að því loknu var leyndardómi rúnanna lokið upp fyrir honum. Lífshættir Rómverja. Erfitt er að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvernig Rómverjar lifðu í upphafi Rómartímans, því talið er að flestar heimildir hafi brunnið í Róm um 300 f.Kr. er Gallar gerðu árás. Sagt er að Rómverjar hafi verið að flýta sér svo mikið að byggja borgina að þess vegna séu elstu götur hennar svo skakkar, en þegar heimildirnar brunnu myndaðist fullkomið op fyrir þjóðsögur eins og söguna um Rómúlus og Remus sem allir þekkja. Hér verður aðallega fjallað um tímabilið 300-200 f.Kr. Tekið skal fram, að þó lítið sé fjallað um her Rómverja hér, skipti hann miklu máli í lífi þeirra. Fjölskyldur og stéttaskipting. Rómverjum var skipt í stéttir. Yfirstéttir voru fjórar en svo voru plebeiar (lýðurinn) sem fengu síðar hundraðsþingmenn og að kjósa plebeia á þing. Rómverjar bjuggu í byggingum svipuðum þeim sem ríkustu Etrúrar höfðu. Nánast hver einasta rómverska fjölskylda átti þræl og konur unnu ekki eins mikið og tíðgaðist í Grikklandi sökum þrælanna. Því höfðu mæður nægan tíma til að ala börn sín. Elsti karlmaðurinn var alltaf húsbóndinn og réði öllu innan fjölskyldunnar. Ef kona hans syndgaði mátti hann ráða hver refsinginn yrði, jafnvel drepa hana. Þetta kom þó ekki í veg fyrir það að þau elskuðust yðurlega heitt og þó að húsbóndinn réði yfir börnum sínum kom það heldur ekki í veg fyrir að þau ynnu honum og flölskyldumeðlimum nokkuð jafnt. Þegar faðirinn var orðinn gamall var það skylda þeirra yngri að hjúkra honum. Jarðarfarir voru mikilvægur þáttur í lífi Rómverja frá upphafi. Konum var þó bannað að gráta, og er ástæða þess óljós.En brúðkaup voru einnig tíð og gamansöm. Dætur mátti gifta 12 ára og var þá gerður kaupmáli svipaður því sem tíðkaðist í Íslendingasögunum. Almennt var líf Rómverja þó gott og þeir þurftu yfirleitt ekki að vinna mikið en þó kom það fyrir að þegar menn komu frá stríði voru þeir búnir að safna upp skuldum af okurvöxtum bankanna. Þó svo að senatið hafi reynt að hamla vöxtunum var það ekki nóg. Var þetta einn mesti galli á Rómverjum í byrjun tímanna en ef maður átti engan pening fyrir skuldunum var hann úrskurðaður gjaldþrota af hundraðsdeildaþingmönnum, sem gegndu einnig dómarastörfum. Þingið. Rómverskum lýð var skipt í 500 manna hópa og þeim í hundraðsdeildir hver hundraðsdeild átti seinna meir sinn þingmann, ekki í öldungaráðinu heldur minna þingi sem senatið naut aðstoðar. Herinn. Hverjum Rómverja var skylt að fara í herskóla og í einu og öllu var þeim raðað í cohorts og hundraðsdeildir sem æfðu og börðust saman. Þegar Rómverji var orðinn 15 vetra varð hann að fara í herskólann. Talið er að í byrjun Róm, þegar Róm var einungis lítið borgríki hafi Rómverjar barist eins og Grikkir og Makedóníumenn með stór og þung spjót og hrínglóttaskyldi. Í hernum þurftu menn að sjá fyrir sér sjálfir um vopn og verjur fyrst um sinn. Herinn skaffaði ekki vopnin. Því var mönum skipt í fimm stéttir sem báru vopn eftir því hve mikið þeir áttu. Hinir ríkustu höfðu bronsbrynju, stóran skjöld, sverð, hjálm og einskonar legghlífar. Næsta stétt fyrir neðan hafði aðeins minna og svo koll af kolli, en þeir fátækustu báru aðeins slöngur. Til að geta orðið öldungaráðsmaður og eða hershöfðingi þurfti hann að vera búinn að gegna herþjónustu í a.m.k. 10 ár. Þó var veitt undantekning eins og með Scipio Africanus. Trú. Rómverjar trúðu á marga guði og voru sífellt að tilbiðja þá. Sumir segja þá hafa verið yfir 30.000 og Grikkir kvörtuðu yfir því að í sumum borgunum voru jafnvel fleiri guðir en íbúar. Guðir og trú Rómverja var þónokkuð öðruvísi en tíðkaðist í Grikklandi þeir trúðu nefnilega á anda og að þeir væru allt í kringum sig. Seinna meir oft á örvæntinga fullum tímum tóku Rómverjar inn nýja og byggðu þeim hof en útilokuðu þó ekki gömlu guðina og héldu í þær hefðir er fyrr höfðu skapast allt þar til þeir tóku kristni. Udon. Réttur sem nefnist Kake Udon Udon (japanska: うどん; kínverska: 烏冬, eða 烏冬麵) er núðlutegund gerð úr hveiti sem er vinsæl í kóreskri og japanskri matargerð. Udon er talin hafa verið flutt frá Kína í gegnum Kóreu til Japan á 6. öld. Udon er venjulega borið fram í bragðmildu seyði, til dæmis með soja-sósu, og með rækjum eða pönnusteiktu tofu. Toskana. Toskana er stórt hérað á Mið-Ítalíu með landamæri að Lígúríu í norðvestri, Emilía-Rómanja í norðri, Úmbríu og Marke í austri og Latíum í suðri, og strönd að Lígúríuhafi og Tyrrenahafi. Héraðið nær einnig yfir toskanska eyjaklasann þar sem stærsta eyjan er Elba. Höfuðstaður héraðsins er borgin Flórens, en aðrar helstu borgir eru Písa, Livornó, Prató, Síena, Grossetó, Lucca og Arezzo. Íbúar héraðsins eru um þrjár og hálf milljón talsins. Toskana er þekktast sem fæðingarstaður ítölsku endurreisnarinnar og ótrúlega listræna arfleifð í formi bygginga, höggmynda og málverka. Þekktasta listasafn héraðsins er Uffizisafnið í Flórens. Fljótið Arnó rennur frá uppsprettu í fjallinu Monte Falterona í Appennínafjöllunum eftir öllu héraðinu og gegnum borgirnar Flórens, Empólí og Písa. Sýslur ("province") í Toskana. Kort sem sýnir sýslurnar í Toskana. Frumfylki. Frumfylki er, í stærðfræði, fylki sem gera má að einingarfylki með einni línuaðgerð. Frumfylki eru notuð í ýmsum útreikningum, til dæmis í LU-þáttun. LU-þáttun. "LU"-þáttun er aðferð í stærðfræði til þess að brjóta fylki niður í tvö fylki, annarsvegar fylki á efra stallaformi, sem kallað er "U", og hinsvegar andhverfanlegt fylki sem kallað er "L". Ef að "A" er fylki og markmiðið er að "LU"-þátta "A", þá eru notaðar línuaðgerðir samkvæmt reikniriti Gauss til þess að koma fylkinu "A" yfir á efra stallað form, sem er fylkið U, en hver línuaðgerð er skráð í fylki "Ei", þar sem að "i" er númer línuaðgerðarinnar. Eingöngu má leggja margfeldi lína saman, en víxlun raða og margföldun raða með tölu er ekki leyfð. Þegar fylkin formula_1 eru fundin skal margfalda andhverfur þeirra saman, en þar sem að E eru frumfylki eru þau andhverfanleg og margfeldi þeirra er jafnframt andhverfanlegt. Hagnýtingar LU þáttunar. Þegar að leysa á línulegt jöfnuhneppi formula_3 fyrir marga mismunandi vigra b er reikniaðgerðin mjög tímafrek. Þá er fylkið "A" "LU"-þáttað og formula_4. Vigur er skilgreindur formula_5, og jöfnuhneppið formula_6 er leyst. Þar sem að "L" er andhverfanlegt ferningsfylki, og jafnframt neðra þríhyrningsfylki (sökum þess að allar línuaðgerðirnar eru skráðar á neðri þríhyrningi) eru allar margföldunaraðgerðir einfaldaðar til muna. Þá er jöfnuhneppið formula_7 er nú leyst fyrir x, þar sem að y er nú lausn á formula_6. Þessi aðferð er mikið notuð í tölvum, þar sem að hún krefst færri reikniaðgerða en hefðbundin lausn ef að leysa á mörg jöfnuhneppi. Fylkjaliðun. Fylkjaliðun er tegund reikniaðgerða í stærðfræði sem fást við fylki. Oft getur verið hentugt að brjóta fylki upp í minni og viðráðanlegri einingar. Þá er fylkjaliðun notuð. Flórens (sýsla). Sýslan Flórens (ítalska: "Provincia di Firenze") er sýsla í Toskanahéraði á Mið-Ítalíu. Upphaflega innihélt sýslan einnig borgina Prató, en 1990 var búin til sérstök sýsla fyrir hana. Íbúar sýslunnar eru um 933.860 talsins í 44 sveitarfélögum. Af þeim búa 368.059 í höfuðstaðnum Flórens. Sveitarfélög. Kort af Ítalíu. Sýslan Flórens er merkt með rauðu. Bagno a Ripoli, Barberino Val d'Elsa, Barberino di Mugello, Borgo San Lorenzo, Calenzano, Campi Bisenzio, Capraia e Limite, Castelfiorentino, Cerreto Guidi, Certaldo, Dicomano, Empoli, Fiesole, Figline Valdarno, Firenze, Firenzuola, Fucecchio, Gambassi Terme, Greve in Chianti, Impruneta, Incisa in Val d'Arno, Lastra a Signa, Londa, Marradi, Montaione, Montelupo Fiorentino, Montespertoli, Palazzuolo sul Senio, Pelago, Pontassieve, Reggello, Rignano sull'Arno, Rufina, San Casciano in Val di Pesa, San Godenzo, San Piero a Sieve, Scandicci, Scarperia, Sesto Fiorentino, Signa, Tavarnelle Val di Pesa, Vaglia, Vicchio, Vinci Ásatrúarfélagið. Sigurblót í Öskjuhlíð á sumardaginn fyrsta 2009 Ásatrúarfélagið er íslenskt trúfélag. Félagið var stofnað sumardaginn fyrsta árið 1972 og viðurkennt af stjórnvöldum sem trúfélag árið eftir. Það varð þar með fyrsta félagið um Ásatrú sem fékk formlega viðurkenningu sem trúfélag. Það byggir á eins konar endurvakningu á norrænni goðafræði, oft kölluð Ásatrú. Rétt er þó að taka fram að nafnið Ásatrú er ekki mjög lýsandi, þar sem „Ásatrú“ inniheldur ekki einungis trú á Æsi, heldur líka önnur goðmögn svo sem Vani. Þess vegna er Ásatrú stundum nefnd „Vor siður“ eða einfaldlega heiðni. Skipulag. Æðsti yfirmaður félagsins í trúmálum nefnist Allsherjargoði. Fyrsti Allsherjargoðinn var Sveinbjörn Beinteinsson en hann var Allsherjargoði frá stofnun félagsins til hann lést 24. desember 1993. Núverandi Allsherjargoði er Hilmar Örn Hilmarson. Sex aðrir goðar eru til staðar, en þeir eru eins konar trúarlegir leiðtogar. Æðsta stjórn félagsins nefnist Allsherjarþing en á því mega sitja allir sjálfráða félagsmenn. Allsherjarþing er haldið síðasta laugardag hvers októbermánaðar. Lögrétta samanstendur af fimm fulltrúum kosnum af Allsherjarþinginu, Allsherjargoða og einum öðrum goða sem goðarnir velja úr sínum hópi. Lögrétta fer með stjórn félagsins á milli Allsherjarþinga. Blót og önnur trúmál. Ásatrú byggir að miklu leyti á fornri norrænni goðafræði og styðst því við rit svo sem Eddukvæði og Snorra-Eddu. Einn kjarnanna í trú Ásatrúarmanna er hringrás sköpunar og eyðingar, að heimurinn hafi aldrei orðið til úr engu og muni aldrei verða að engu, heldur haldi hann áfram að verða til og eyðast. Ásatrúarfélagið heldur fjögur höfuðblót yfir árið. Þau eru: Á fyrsta vetrardegi (upphaf nýs árs að fornu), á jólum (við sólhvörf), sumardaginn fyrsta og á fimmtudegi í tíundu viku sumars. Auk þess er haldið árlegt þorrablót á bóndadegi og vættablót í hverjum landsfjórðungi á fullveldisdegi Íslendinga. Rómúlus og Remus. Rómúlus og Remus við spena úlfynju Rómúlus og Remus eru sagðir forfeður Rómar, þeir voru synir prinssesunar Rheu Silviu og getnir með stríðsguðinum Mars. Sagt er að þeir hafi verið yfirgefnir og hent í ána Tíber en þar sem þeir voru svo léttir hafi þeir getað flotið á henni og komist að bakka og þar hafi Mars sent eitt af villidýrum sínum til þess að hjálpa þeim. Þegar þeir voru búnir að alast upp hjá úlfynju Mars stofnuðu þeir borg við sama bakkann og þeir strönduðu á forðum. Þegar það átti að nefna borgina lentu þeir hins vegar í rifrildi, annar vildi nefna hana Rem en hin Róm og svo fór að Rómúlus drap bróður sinn og nefndi borgina Róm. Tíber. Tíber (eða Tífur) er á sem rennur um Ítalíu í gegnum borgina Róm framhjá Vatíkaninu. Tíber er sögð hafa flutt stofnendur Rómar, Rómúlus og Remus, að bökkum árinnar þar sem þeir stofnuðu síðar borgina. Hún er þriðja lengsta á Ítalíu og rennur í suðvestur. Hverfiþungi. Hverfiþungi er mælikvarði á getu hlutar til að halda óbretttum snúningi í hringhreyfingu, oft táknaður með "L" eða "J". SI-mælieining: kg m s-2. þar sem formula_6 er hverfitregða og formula_7 hornhraði. Varðveisla hverfiþunga. þar sem τ er ytra snúningsvægi. Af þessu sést að þegar ytra snúningsvægi kerfisins er núll, þá er hverfiþungi þess fasti og er því varðveittur. Listdansari á skautum nýtir sér varðveislu hverfiþunga þegar hann eykur snúningshraða sinn með því að draga inn handleggi og fætur, til að minnka hverfitregðu sína, en vegna varðveislu hverfiþungans verður hornhraðinn þá að aukast. Miðaldir. Miðaldir eru tímabil í sögu Evrópu, sem ná frá falli Rómaveldis eða um 476 e. Kr. til um 1500 e. Kr. Lok miðalda eru oft miðuð við upphaf endurreisnarstefnunnar í listum, eða við fund Kristófers Kólumbusar á Ameríku 1492. Miðaldir voru erfiðir tímar í Evrópusögunni og eru oft kallaðar "hinar myrku miðaldir", t.d. vegna svartadauða, vegna hnignunar verslunar og samgangna, ásamt hægri þróun lista (t.d. málaralistar og tónlistar). Vigurrúm. Vigurrúm eða línuleg rúm eru grundvallareining rannsókna í þeirri undirgrein stærðfræðinnar sem kallast línuleg algebra. Hlutmengi í vigurrúmi kallast hlutrúm ef að það uppfyllir þessi sömu skilyrði. Öll hlutrúm í vigurrúmum eru jafnframt vigurrúm. Vigurrúm sem hefur skilgreint innfeldi er kallað innfeldisrúm. Vigurrúm sem hefur skilgreinda tvílínulega vörpun (margföldun vigra) heitir algebrulegt svið. Dæmi um slíkt vigurrúm er formula_1, svið tvinntalna, sem jafngildir vigurrúminu formula_2 ásamt tvílínulegri vörpun. Vigurrúm ásamt staðli er kallað staðlað vigurrúm, en sé slíkt rúm fullkomið kallast það Banach-rúm. Riddari. Riddarar að berjast á hestum Riddarar voru uppi á miðöldum eða frá u.þ.b 800 e. Kr. til rúmlega 1450 e. Kr. en voru í essinu sínu á tímum lénsskipulagsins. Þeir voru með mikilvægari stríðsmönnum allt þar til fallbyssur og rifflar leystu þá af hólmi. Á miðöldum riðu margir riddarar út til bardaga. Þeir sátu um kastala óvinaherja, lengi var þeim skipað til blóðugra bardaga og verndar þeirra eigin kastala á móti umsátri óvina. En riddarar voru ekki alltaf svo góðir að berjast. Riddarar þurftu að æfa sig mikið æfingum. Fyrst þurftu þeir að verða riddarasveinar (e. "page") og ef þeim gekk vel gátu þeir orðið skjaldsveinar (e. "squire") og ef skjaldsveinar voru orðnir þess verðugir voru þeir slegnir til riddara. Orðsifjar. Riddarasögur bárust til Íslands um 13. öld og báru með sér ný orð eins og "riddari" sem kemur af miðlágþýska orðinu "ridder". Riddarasveinn. Sonur riddara var yfirleitt fimm til sjö ára sendur frá heimili sínu til nálægs kastala. Þar var hann þjálfaður til riddara af höfðingja (e. "lord") kastalans. Þá verður hann svo kallaður riddarasveinn. Riddarasveinn hjálpar herra (höfðingja) sínum að klæða sig í brynjuna og setja upp vopnin. Hann leikur marga æfingaleika þar á meðal glímu, háhestaglímu, sverðæfingar með oddlausum trésverðum og pínulitla viðarskildi(buklara) og landæfingar á rúllandi trjábolum dregnum af tveimur öðrum riddarasveinum, áfram að markstólpa (sem var oft hreyfanlegur). Á hinum endanum sandpoki. Þegar riddaraspjótið hittir markið þarf ungi riddarasveinninn að víkja sér undan eða pokinn fullur af sandi mun hitta hann. En sjaldan var þeim kennt að lesa eða skrifa því það var ekki talið vera riddaralegt í þá daga. Kastalafrúrnar kenndu þeim þó borðsiði. Riddarasveinninn beið alltaf eftir kastalaherranum eða frú, það var hans skylda og forréttindi að blanda geði við kastalahöfðingjann og frúna á öllum tímum. Hann lærði að veiða, og honum var kennt að vera snöggur, þakklátur, sveigjanlegur og örlátur. Honum var líka kennt hvernig ætti að umgangast eigur og gera við þær. Þegar brynja kastalahöfðingjans ryðgaði velti riddarasveinninn henni um í tunnu fullri af sandi til þess að hreinsa hana af ryði. Skjaldsveinn. Til að geta orðið riddari þurfti maður fyrst að verða skjaldsveinn riddara eða þar til riddarinn sjálfur slægi þig til riddara þegar honum fannst þú tilbúinn - yfirleitt á 17-21 árs aldri. Seinna slógu drottningar eða kóngar til riddara og þótti (og þykir enn) mikill heiður. En áður en þú varðst sleginn til riddara varðstu skjaldsveinn og varðst að þola alls kyns raunir og undirbúning. áður en hann gat orðið skjaldsveinn riddara varstu fenginn til að biðja fyrir Riddaranum alla nótina og riddarasveinnin var klæddur upp í hvítan kyrtil. En eftir það gat hann orðið skjaldsveinn um fjórtán ára aldurinn, varstu þá krýndur skjaldsveinn. Skjaldsveinn er aðalhjálparhella og þjónn riddara. Í bardögum voru þeir fengnir til að færa riddaranum vopn, nýja brynju, eða eitthvert verkfæri sem honum þarfnaðist því þurftu þeir að geyma allt aukaefni riddara, þar á meðal auka hest, auka brynju, skildi, lensu - þá fyrst vandist skjaldsveinninn á þung vopn og brynjur. Skjaldsveinar léku oft leiki með alvöru vopnum á móti riddurum. Skjaldsveininum var kennt að sitja hest í fullum skrúða og með því að hafa hendurnar frjálsar til að bregða sverði og nota skjöld eða öðrum vopnum á meðan hann var skjaldsveinn var honum leyft að bera sverð og skjöld, sem sýndi hvaða skyldum hann gengdi. Sláttur til riddara. Þegar skjaldsveinn var sleginn til riddara kraup hann á hné fyrir húsbónda sínum. Því næst sló herra hans hann utan undir með sverðsblaðinu eða hendinni, en algengara er að sverðsblaðinu sé slegið flötu létt á vinstri öxl, þá á höfuð og loks á hægri öxl. Á meðan húsbóndinn gerði það sagði hann: „ég nefni þig riddara” (e. “i dub thee knight” — á íslensku er sögnin "að dubba" e-n upp dregin af sama orði) þá tók hinn nýi riddari við brynju, sverði og skildi, allt saman með mikla merkingu. Yfirleitt var skjaldsveinum og riddurum kennt að þyrma lífi annarra riddara og aðals í bardögum; yfirleitt var í lengstu lög reynt að taka þá til fanga, til þess að fá lausnargjald fyrir þá, en fyrir daga almennrar skattheimtu var það veigamikill þáttur í fjármögnun herferða. Burtreiðar. Burtreiðar voru fyrst stundaðar sem æfingar á friðartímum og hentuðu vel sem æfing fyrir skjaldsveina að sitja hest með vopn og skjöld. Seinna urðu þær vinsæl íþrótt, og fólk flykktist að til að horfa á þá. Sérstakir vellir voru byggðir með stúkum og sætum fyrir kónga og kastalahöfðingja og má segja að þetta hafi eiginlega tekið við af hringleikum Rómverja. Burtreiðar gengu út á það að reyna að hæfa andstæðinginn með löngu spjóti er þú reiðst á móti honum á hesti. Gefin voru stig eftir því hve vel höggið hæfði andstæðinginn og iðulega vann sá sem náði að fella andstæðinginn af hesti sínum. Eingöngu krýndir riddarar máttu keppa í burtreiðum en skjaldsveinar sáu til þess að engu væri ábótavant auk þess að hjálpa til og eða taka þátt í æfingum. Þrátt fyrir mikinn hlífðarbúnað, brynjur og fleira voru burt reiðar afar hættuleg íþrótt og meiðsli mjög algeng. Dante Alighieri. Dante Alighieri (um 29. maí 1265 – 14. september 1321) var skáld frá borgríkinu Flórens á Ítalíuskaganum. Verk hans "Hinn guðdómlegi gleðileikur" ("La divina commedia") er talið með merkustu bókmenntum sem skrifaðar voru á miðöldum. Verkið er einnig talið hafa myndað grundvöllinn að ítölsku ritmáli. Dante fæddist inn í virðulega fjölskyldu í Flórens. Hann varð, líkt og fjölskylda hans, hallur undir málstað Gvelfa (sem voru hallir undir páfa) í átökum þeirra við Gíbellína (sem hölluðust að keisaranum. Hann barðist sjálfur í orrustunni við Campaldino (11. júní 1289) sem festi Gvelfa í sessi á valdastóli í Flórens. Eftir ósigur Gíbellína skiptust Gvelfar í tvær fylkingar (hvíta og svarta) þar sem Dante var í fyrrnefndu fylkingunni. 1301 var von á Karli af Valois sem Bónífasíus VIII hafði útnefnt sáttasemjara í Toskana til Flórens. Dante fór þá fyrir sendinefnd til Rómar til að komast að fyrirætlunum páfa. Páfi sendi hina sendimennina burt en skipaði Dante að vera um kyrrt. Á meðan hélt Karl inn í Flórens með her svartra Gvelfa sem tóku stjórn borgarinnar í sínar hendur og drápu flesta andstæðinga sína. Dante gat ekki snúið aftur og var dæmdur til ævilangrar útlegðar. Dante tók þátt í nokkrum tilraunum til að koma hvítum Gvelfum aftur til valda í Flórens, en þær mistókust allar. Hann dó að lokum í útlegð í Ravenna. Verk. "Hinn guðdómlegi gleðileikur" er nokkurs konar leiðsla sem lýsir ferð Dantes um Víti ("Inferno"), Hreinsunareldinn ("Purgatorio") og Paradís ("Paradiso"), fyrst undir leiðsögn rómverska skáldsins Virgils og síðan í fylgd sinnar ástkæru Beatrís. Verkið er ritað á mállýsku heimabæjar Dantes, en með þessu meistaraverki staðfesti hann að ítalskan væri nothæf sem bókmenntamiðill og gerði það einnig að verkum að toskanska varð grundvöllurinn að ítölsku ritmáli. Önnur verk hans eru meðal annars "De vulgari eloquentia" um bókmenntir á talmálinu og "La vita nuova", sem er saga ástar hans á Beatrice Portinari. Emilía-Rómanja. Emilía-Rómanja (ítalska: "Emilia-Romagna") er hérað á Norður-Ítalíu. Upphaflega voru Emilía og Rómanja tvö héruð. Héraðið er innan þríhyrnings sem markast af ánni Pó í norðri, Adríahafinu í austri og Appennínafjöllunum í suðri. Höfuðstaður héraðsins er borgin Bologna, en aðrar mikilvægar borgir eru Parma, Piacenza, Reggio Emilia, Módena, Rímíní, Ferrara, Forlí, Cesena og Ravenna. Íbúar eru yfir fjórar milljónir. Sýslur ("province"). Kort sem sýnir héraðið á Ítalíu. Aspromonte. Aspromonte er fjall nærri borginni Reggio Calabria á Suður-Ítalíu við Messínasund milli Appennínaskagans og Sikileyjar. Það er hluti af Appennínafjöllum. Hæsti tindur fjallsins er Montalto (1.956 m). Nálægt fjallinu var Giuseppe Garibaldi sigraður og tekinn höndum í orrustunni við Aspromonte árið 1862. Kalabría. Kalabría (ítalska: "Calabria", áður "Brutium") er hérað á Suður-Ítalíu sem myndar „tána á stígvélinu“. Höfuðstaður héraðsins er Catanzaro. Héraðið markast af Tyrrenahafi í vestri, Jónahafi í austri og Tarantóflóa í norðaustri. Í suðvestri skilur Messínasund milli Kalabríu og Sikileyjar þar sem minnsta vegalengd milli lands og eyjar er aðeins 3,2 km. Íbúafjöldi er um tvær milljónir. Jónahaf. Jónahaf (gríska: "Ιóνιo Πελαγoς"; albanska: "Deti Ion") er hafsvæði í Miðjarðarhafi á milli Suður-Ítalíu, Albaníu (Otrantósund) og Grikklands (Jónaeyjar). Jónahaf tengist við Tyrrenahaf um Messínasund og við Adríahaf um Otrantósund. Adríahaf. Adríahaf er hafsvæði sem liggur út frá Miðjarðarhafi á milli Appennínaskagans og Slóveníu, Króatíu, Svartfjallalands og Albaníu. Það er um 800 km langt og þekur 132 þúsund km² svæði. Adríahaf tengist við Jónahaf um Otrantósund. Helstu fljót sem renna í hafið eru ítölsku fljótin Pó og Adige. Nafnið er talið dregið af nafni abrútsísku borgarinnar "Hadria" (nú Atri) eða venetísku borgarinnar Adria. Messínasund. Messínasund er mjótt sund milli austurodda Sikileyjar og suðvesturodda Appennínaskagans. Sundið er aðeins 3,2 km breitt þar sem það er grennst. Náttúruleg hringiða myndast í sundinu sem hefur verið tengd við Skyllu og Karybdísi sem sagt er frá í "Ódysseifskviðu". Yfir sundið gengur ferja frá Messínu til Villa San Giovanni í Kalabríu og spaðabátur sem gengur frá Messínu til Reggio Calabria. Riddarasögur. Riddarasögur eru rómantískar skáldsögur, af ævintýrum og ástum riddara, sem voru skrifaðar í Noregi og á Íslandi á síð-miðöldum. Orðið „riddarasögur“ (eintala: „riddarasaga“) kemur fyrir í "Mágus sögu jarls", þar sem segir: „Frásagnir...svo sem...Þiðreks saga, Flóvenz saga eður aðrar riddarasögur“. Stundum eru þær kallaðar „lygisögur“, sem er einnig notað um aðrar sögur með miklum ævintýrablæ, svo sem fornaldarsögur. Margar riddarasögur hafa þó einhvern sögulegan kjarna. Loks má nefna að Gustaf Cederschiöld notar nafnið „Fornsögur Suðurlanda“ í útgáfu fimm riddarasagna 1884. Einkenni riddarasagna og uppruni. Riddarasögur einkennast oft af frásögnum af hirðlífi og ástum, glæsilegum konum og köppum, svakalegum bardögum og yfirnáttúrulegum hetjudáðum. Hugprýði, drengskapur, háttvísi, hreysti, kurteisi og rómantík eru áberandi í sögunum og sönn kristileg hegðun er mikilvæg. Skýr skil eru gerð á milli góðs og ills og eru það oft kristnir menn sem eru hetjurnar og þeir slæmu heiðnir, frá þjóðum í suðri og norðri. Hetjunum er lýst á afar jákvæðan hátt, bæði persónuleika og útliti, og ekkert dregið þar úr. Erlendu riddarasögurnar voru yfirleitt í bundnu máli (kappakvæði eða riddarasöngvar), en voru þýddar í óbundið mál í Noregi. Talið er að upphaf norrænna riddarasagna megi rekja til þess að Hákon konungur gamli lét bróður Róbert (þ.e. Róbert munk) þýða "Tristrams sögu og Ísöndar", um 1226. Hefur sú þýðing mikið gildi, því að franski frumtextinn er að mestu glataður. "Elís saga og Rósamundu" var þýdd af Róbert ábóta, sem talinn er sami maður og bróðir Róbert. Hákon konungur lét þýða fleiri riddarasögur, t.d. "Möttuls sögu", einnig er líklegt að sagnaflokkur eftir Chrétien de Troyes hafi verið þýddur að hans frumkvæði, þ.e. "Erex saga", "Ívents saga", "Parcevals saga" og "Valvens þáttur". "Strengleikar", eru safn stuttra ljóðsagna, flestar eftir Marie de France. Riddarasögur bárust til Íslands um eða fyrir 1250. Þær urðu vinsæl bókmenntagrein hér á landi og þýddu íslenskir rithöfundar nokkrar slíkar sögur. Þaðan komu mörg orð eins og "kurteisi" (fornfranska: „curteisie“), "knapi" (miðlágþýska: „knape“), "riddari" (miðlágþýska: „ridder“) og "lávarður" (fornenska: „hlāford“). Sumar sögurnar eru í ljóðrænum stíl eins og frumtextinn. Íslenskir rithöfundar sömdu einnig margar nýjar riddarasögur í svipuðum stíl. Höfundar sagnanna eru flestir óþekktir og sjaldan er vitað hverjir þýddu erlendu sögurnar. Frumsamdar riddarasögur. Hér á eftir fer listi yfir frumsamdar íslenskar riddarasögur, sem hafa verið gefnar út. Listinn er ekki tæmandi. Krossfeldi. Krossfeldi tveggja vigra er reikniaðgerð í þeirri undirgrein stærðfræðinnar sem kallast línuleg algebra. þá er niðurstöðuvigurinn formula_2. Séu lengdir upphaflegu vigranna þekktar auk hornsins á milli þeirra, má finna lengd hans sem margfeldi lengdanna og sínussins af horninu. Fyrir stærri vigra þarf að beita öðrum aðferðum, en krossfeldi er ekki skilgreint fyrir minni vigra, þar sem að enginn vigur getur verið hornréttur á tvo aðra vigra í plani (tvívídd) eða á línu (einvídd) nema, í tvívídd, að vigrarnir séu samsíða, en þá má reikna hornrétta vigurinn með einföldum hætti með ofanvarpi. Bylting fylkis. Að bylta fylki er fylkjaaðgerð, sem felst í að skipta á öllum línuvigrum fylkis fyrir dálkvigra og öfugt; þannig að ef A er n×m fylki þá er bylta fylkið af A m×n fylki. Aðgerðin er yfirleitt táknuð með tákninu "T" skrifað ofan við fylkið. Samhverf fylki. Samhverft fylki eru þeim eiginleikum gædd að breytast ekki við byltingu. Sé "A" samhverft fylki, þá er formula_4. Um andsamhverfur fylki gildir að formula_5. Núllvalda fylki. Núllvalda fylki er ferningsfylki "A", sem er þeim eiginleikum gætt að til er náttúrleg tala "n", þ.a. formula_1, þar sem "0" táknar núllfylkið. Borgríki. Borgríki er (yfirleitt sjálfstætt) ríki undir borgarstjórn einhverrar borgar. Borgríki voru algeng í fornöld. Stundum sameinuðust nokkur borgríki í bandalag undir hákonungi. Í sumum tilfellum mynduðust slík bandalög eða veldi við sigra í hernaði (s.s. Mýkena og Rómaveldi), en í öðrum tilfellum við friðsamlega sáttmála milli sjálfstæðra ríkja (Pelopsskagabandalagið). Á miðöldum voru borgríki algengust á Norður-Ítalíu og í Þýskalandi. Hansasambandið var t.d. öflugt verslunarbandalag nokkurra borgríkja í Norður-Þýskalandi. Nútímaborgríki. Stundum er talað um Makaó og Hong Kong sem borgríki, þótt þau séu í raun sérstök sjálfstjórnarsvæði innan Alþýðulýðveldisins Kína. Strákatangi. Strákatangi er mjór tangi í Hveravík (áður "Reykjarvík") við norðurströnd Steingrímsfjarðar á Ströndum. Ýmsar sagnir eru til um veru baskneskra hvalfangara þar á 17. öld. Sumarið 2005 hófu Strandagaldur á Hólmavík í samvinnu við Náttúrustofu Vestfjarða forkönnun fyrir fornleifarannsókn sem unnin var af þeim Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi og Ragnari Edvardssyni fornleifafræðingi á þrennum mannvirkjaleifum. Rannsóknin benti eindregið til þess að á tanganum hefðu verið lýsisbræðsla og önnur aðstaða hvalfangara líkt og ritheimildir og sagnir gáfu til kynna. Napóleon Bónaparte. Napóleon Bónaparte (franska: Napoléon Bonaparte) eða Napóleon I (15. ágúst 1769 – 5. maí 1821) var herforingi í Frönsku byltingunni og þjóðarleiðtogi Frakklands, fyrst sem aðalræðismaður Franska lýðveldisins frá 1799 til 1804 og síðan sem Frakkakeisari og konungur Ítalíu til ársins 1814. Hann var giftur tvisvar og átti soninn Napóleon II með seinni konu sinni. Þegar hann var rekinn í útlegð á eyjunni Elbu og aftur stutt skeið árið 1815 þar til hann tapaði í orrustunni við Waterloo. Hann lést árið 1821 í útlegð á bresku eyjunni Sankti Helenu. Ýmist er talið að hann hafi framið sjálfsmorð eða, eins og sumir vilja meina, að eitrað hafi verið fyrir honum. Opinber skýring var að hann hafi dáið úr magakrabbameini. Almennt um Bonaparte. Napóleon Bonaparte eða Napoleone Buonaparte eins og hann var upphaflega nefndur fæddist þann 15. ágúst árið 1769 og var hann af ítölskum ættum. Hann fæddist inn í fátæka fjölskyldu þó af aðalsættum, heimili þeirra var á eyjunni Korsíku í Miðjarðarhafinu og var mikið um hefndir og blóðug átök þar. Eyjan sú í miðjarðarhafinu er staðsett á milli Frakklands og Ítalíu en hefur verið hluti af Frakklandi síðan 1768 eða ári áður en að Napóleon fæddist. Napóleon var mikið fyrir nám og tók hann það upp aðeins 9 ára að aldri að læra frönsku í skóla til að undirbúa komandi ár tengd skólagöngu og losa sig við ítalska hreiminn. Aðeins fimmtán ára að aldri sótti hann um skólagöngu í herskólanum í París og komst þar inn. Honum vegnaði mjög vel í námi og kláraði námið, sem talið er að hafa átt að vera til tveggja ára, á einungis einu ári. Ári eftir námið varð hann síðan liðsforingi í franska hernum, þá aðeins sextán ára gamall. Fyrsti sigur hans var í frönsku byltingunni þegar hann náði borginni Toulon úr höndum uppreisnarmanna frá Frakklandi en við bakið á þeim stóðu Bretar og Spánverjar. Eftir þetta var hann svo skipaður í innrásaher Frakka sem lagði undir sig Mílanó, Mantúa og fleiri ríki á Ítalíu. Árið 1798 vildi Napóleon byrja innrás inn í Egyptaland sem var þá bresk nýlenda og Bretar voru á þessum tímum helsta ógn Frakklands. Þetta vildi hann gera til að trufla stríðsrekstur Breta. Þeim tókst þetta og sigruðu þeir Egypta en þegar snúa átti aftur heim til Frakklands tók breski flotinn á móti þeim undir stjórn Horatio Nelson. Napóleon komst þó aftur til Frakklands þó að margir menn hans létu lífið eða voru teknir til Bretlands sem fangar. Vel var tekið á móti honum í Frakklandi þar sem franska þjóðin vildi hans hjálp við að steypa þáverandi stjórn af stóli. Verkefni hans tókst og árið 1802 var hann kosinn fyrsti ræðismaður en lýsti sjálfann sig keisara tveimur árum seinna eða árið 1804. Napóleon lagði mikið upp úr því að bæta obinberu ímynd sína og auk þess lagði hann áherslu á það að endurbæta mikið í landinu svo sem menntakerfið og dómskerfið. Hann vildi líka halda öllum lögum Frakklands saman í einni bók og nefndi hann þá bók Lögbókina en áður fyrr voru misjöfn lög í hverju héraði. Napóleonsstyrjaldirnar. Þrátt fyrir að Napóleon hafði krýnt sjálfann sig keisara með páfann staddann sér við hlið sér í athöfninni þá hélt hann áfram að vera yfirmaður franska hersins og í franska flotanum. Þetta var enginn ósáttur við þar sem hann var talinn einn mesti her leiðtogi heims. Napóleon vildi byrja á því að leggja undir sig Ítalíu og Bretland. Hann vissi þó að þeir gætu ekki ráðist einir inn í Bretland en fékk Napóleon því Spánverja með sér í lið. Þeir gátu þó ekki ráðist samstundis inn í Bretland því Napóleon vissi að til þess að herferðin myndi takast þyrfti hann fyrst að ráða yfir höfunum. Hann sigldi því með sameinaða flotann sinn að Trafalgar en þar tóku Bretar á móti þeim. Talið er að Horatio Nelson, enski flotaforinginn, og floti hans sökktu í kring um 22 frönskum og spænskum herskipum í þessari sjóorrustu sem er talin vera sú allra stærsta í Napóleonsstyrjöldunum. Orrusta þessi endaði með tapi sameinaða flota Napóleons en tryggðu Bretar sér þar með yfirburði í sjóhernaði næstu 100 árin. Eftir þessa orrustu tók Napóleon þá ákvörðun að loka öllum höfnum í Evrópu svo að varningur frá Bretum kæmist ekki þangað, með það í huga að lama útflutning Breta og eyðileggja með því efnahag þeirra. Napóleon réðst inn í Spán og tók völdin af Spánarkonungi sem var af ætt Búrbóna og fól bróður sínum, Jósef Bonaparte, krúnuna. Þar með hófst Pýreneaskagastríðið. Þetta var þó ekki eina ósættið sem hann lenti í því þegar hann setti viðskiptabannið á Breta en voru það Portúgalar og Rússar sem vildu ekki taka þátt í því. Þar með lenti Napóleon í stríði við Portúgala árið 1808 sem endaði með tapi þeirra síðar nefndu. Tveimur árum seinna eða í júní árið 1812 réðst Napóleon inn í Rússland með 700.000 manna her. Þeir komust leiðar sinnar til Moskvu en þegar þangað var komið höfðu Rússar tekið allar gersemir sínar og flúið. Rússar brenndu síðan borgina og þurfti Napóleon þá að flýja með alla sína menn í átt að Póllandi. Harðu vetur var í Rússlandi á þessum tíma og þoldu Frakkarnir illa kuldann, komst Napóleon loks á leiðarenda en aðeins með 20 þúsund menn með sér. Var þetta svakalegur missir fyrir Napóleon og frönsku þjóðina og stór blettur á feril Napóleons auk þess sem þetta var mjög dýrkeypt fyrir frönsku þjóðina. Napóleon lét loks undan stjórn þegar bandamenn réðust inn í Frakkland árið 1814 og var honum komið fyrir í útlegð á eyjunni Elbu, í Miðjarðarhafinu. Þar fékk hann að stjórna á meðan Loðvík 18 réði ríkjum í Frakklandi. Frökkum leist ekki mæta vel á þennan nýja foringja og frétti Napóleon af því. Þar með ákvað hann að ferðast aftur til Frakklands til að reyna að taka völdin þar á ný og tókst honum það með prýði. Sú barátta sem steypti Napóleon endanlega af stóli var orrustan í Waterloo í Belgíu. Fyrst mætti hann prússum við bæinn Ligny, skammt frá Waterloo. Prússar voru undir stjórn Blüchers herforingja og sigraði Napoleon í þeirri orrustu. En tveimur dögum síðar mætti Napoleon Englendingum undir stjórn Wellington lávarðs við Waterloo. Þar hallaði á Englendinga. Á meðan hafði Blücher hins vegar tekist að safna liði sínu á ný og réðist nú á austurvæng Frakka. Sameiginlega með Englendingum tókst þeim að sigra Frakka. Napoleon flúði heim til Parísar, þar sem hann sagði af sér sem keisari. Stuttu síðar gaf hann sig Englendingum á vald. Þeir fóru með Napoleon heim til Englands, en þaðan var hann sendur með herskipi til eyjarinnar Sankti Helenu sem staðsett er í Suður-Atlantshafinu. Dauði Bonaparte. Napóleon Bonaparte lést þann 5. maí árið 1821. Mörgum þykir það mjög áhugavert hvernig Napóleon Bonaparte dó en til eru tvær kenningar um það. Önnur þeirra er sú að hann hafi dáið úr magakrabbameini, sem var í raun skrifað á krufningaskýrslu hans, en aðrir segja að honum hafi verið byrlað arsenik sem er eitur sem getur drepið menn. Kenningin um magakrabbamein er líklegri að margra manna mati og algengari dánarorsök þar sem hann var líka með magasár áður en hann dó. Við krufningu á líkinu þegar það var grafið aftur upp kom í ljós að það var næstum alveg órotið eftir mörg ár grafið í jörðinni en arsenikeitrun hægir verulega mikið á rotnun. Auk þess fannst líka arsenik í hárrót Napóleons. Enginn leið er þó að vita fyrir vissu hvernig herforinginn og keisarinn Napóleon Bonaparte lét lífið og verður það líklegast aldrei vitað fyrir vissu. Rómversk-kaþólska kirkjan. Rómversk-kaþólska kirkjan eða Kaþólska kirkjan (orðið kaþólska kemur úr gríska orðinu "καθολικός", "katholikos" sem þýðir „almenn“ eða „það sem gildir um alla tíma“ og vilja margar aðrar kirkjudeildir einnig eigna sér þetta hugtak) er stærsta trúfélag heims og langstærsta kristna kirkjudeildin. Samkvæmt "Annuario Pontificio" (Árbók kirkjunnar) voru samtals um 1,098,366,000 safnaðarfélagar í kirkjunni í öllum heiminum í lok 2004 en það er um sjötti hluti íbúa jarðar. Á Íslandi eru um 9350 safnaðarfélagar. Rómversk-kaþólska kirkjan telur sig vera beinan erfingja fyrsta kristna safnaðar postulanna tólf og sérlega heilags Péturs. Hún samanstendur af 23 kirkjudeildum, hver með sína helgisiði. Sú langstærsta er hin svo nefnda latneska eða vestræna kirkja og svo þar að auki af 22 austrænum kaþólskum kirkjum sem allar líta á biskupinn í Róm sem leiðtoga og læriföður sinn í siðfræðilegum og andlegum efnum og yfirmann kirkjunnar.. Páfinn er einnig þjóðhöfðingi minnsta ríkis í heimi, Vatikanið. Saga. Róðukross, í kaþólskum sið er algengara að nota kross með líkneski af líkama Jesú en hreint krossmerki Kaþólska kirkjan álítur sig vera þann söfnuð sem Jesús stofnaði gegnum postulana Pétur og Pál og hefur alla tíð haldið því fram að hún sé eina kristna kirkjan sem byggi á boði Jesú (sjá Mattheusarguðspjall 16:18-19). Samkvæmt hefð kirkjunnar stofnaði Pétur postuli sjálfur fyrsta söfnuð kristinna manna í Róm og samkvæmt sömu hefð var hann grafinn þar sem nú stendur Péturskirkjan. Kristnir menn voru um aldir ofsóttir af stjórnvöldum rómarríkis þar til að Konstantín mikli veitti íbúum rómarveldis trúfrelsi 313. Samkvæmt hefð kirkjunnar tók hann skírn á dánarbeði og hefur verið nefndur fyrsti kristni keisarinn. Aldirnar eftir breiddist hinn latneski siður um alla vestur og norður Evrópu og um 1500 kristnast síðustu svæði Skandínavíu og Eystrasaltslandanna. Meðal germanskra þjóða áttu latnesku kristniboðarnir í harðri samkeppni við fylgjendur Ariusar en báru sigur á þeim er yfir lauk. Til að byrja með var lítil miðstjórn meðal hinna kristnu safnaða þó að rómverski keisarinn væri að nafninu yfirmaður kirkjunnar. Kirkjuþing, þar sem saman komu biskupar og helstu trúarspekingar samtímans, komu saman nokkrum sinnum til að taka ákvarðanir um stefnur og strauma er fylgja skyldi. Á þessum tíma mótaðist guðfræði kirkjunnar, sérstaklega af Tómasi frá Aquino og jafnframt festist skipulag kirkjunnar meðal annars með tilkomu klausturreglnanna. Klofningur rómaríkis í Austur- og Vestur-Rómarríki á 5. öld leiddi meðal annars af sér að kirkjan skiptist í austur og vesturhluta. Biskupinn í Róm hafði aukið völd sín smám saman og varð embætti hans að því sem kallað er páfaveldi. Páfinn krafðist þess að allar kristnar kirkjur viðurkenndu embætti hans sem leiðtoga og yfirmann kristni. Austurkirkjurnar neituðu að sætta sig við það og ákærðu latnesku kirkjuna um rangtúlkanir á ýmsum trúaratriðum. Klofningurinn varð algjör árið 1054 þegar sendimaður páfa skildi eftir bannlýsingu á patríarkanum í Konstantínópel á altarinu í Ægisif. Enn verra verð sambandið þegar krossfarar í Fjórðu krossförinni 1204 rændu og rupluðu Konstantínópel. Allt frá þeim tíma hafa kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan verið aðskildar þó samtöl og samskipti milli þeirra hafi verið tekin upp á nýtt á síðustu áratugum. Á 11. og 12. öld átti kaþólska kirkjan í mikilli vörn í suður Evrópu gegn katörum sem töldu páfann vera Antikrist og náðu miklu fylgi, sérlega í norður Ítalíu, norður Spáni og suður Frakklandi. Það var ekki fyrr en 1209 að kaþólska kirkjan náði yfirhöndinni með Albingösku krossferðinni. Á seinni hluta 13. aldar fór pólitískt vald kirkjunnar í Evrópu dvínandi þegar lénsherrar fengu meiri völd og kröfðust yfirráða yfir kirkjunni á sínu svæði og gerðu jafnvel eignir kirkjunnar upptækar. Kenningar Lúthers og Kalvíns og þau siðaskipti sem af þeim leiddi á fyrri hluta 16. aldar urðu til þess að kaþólska kirkjan hvarf af sjónarsviðinu á stórum hluta norður Evrópu og átti í vök að verjast víðar. Kaþólska kirkjan safnaðist til endurreisnar með kirkjuþinginu í Trient 1545-1563. Kirkjan var endurskipulögð, nýjar klausturreglur voru stofnaðar (meðal annarra Jesúítareglan) og allt ytra starf kirkjunnar varð herskárra að yfirbragði. Kaþólsk trú breiddist út um lönd Latín-Ameríku, Afríku, Indlands og suðaustur Asíu með nýlenduherrum Spánar og Portúgals. Annað Vatíkanþingið (1962-1965) olli straumhvörfum í afstöðu kaþólsku kirkjunnar til nútímasamfélags og annarra kirkna og trúarbragða. Þetta þing er allmennt álitið hafa verið eitt af mikilvægustu skrefunum í sögu kaþólsku kirkjunnar og jafnframt eitt af þýðingarmestu atburðum í trúarheimi 20. aldar. Á þinginu deildu frjálslyndir og íhaldssamir um hvort kirkjan ætti að umbreytast til að mæta samkeppni nútímans eða endurvekja og styrkja hefðirnar. Að þinginu loknu hefur kirkjan leitast við bættum samskiptum við aðrar kristnar kirkjur og tekur mikinn þátt í ökumenísku starfi. Helgisiðum kirkjunnar var einnig breytt á þinginu og má nú meðal annars nota önnur tungumál en latínu við messu. Þrátt fyrir að margt í ytra starfi kirkjunnar breyttist stóðu trúarkenningar hennar óhreyfðar. Trúarkenningar. Grundvallarkenningar kaþólsku kirkjunnar byggja á Nikeu trúarjátningunni og Postullegu trúarjátningunni. Kaþólska kirkjan er sammála rétttrúnaðarkirkjunum og mótmælendakirkjum að kenningin um Heilaga þrenningu sé þungamiðja trúarinnar. En öfugt við þær hinar kirkjudeildirnar leggja kaþólikkar áherslu á mikilvægi kirkjunnar sem stofnun Jesú og haldið frá trúarvillum af innblæstri frá Heilögum anda og þar með nauðsynleg þáttur í frelsun manna. Sakramenti kaþólsku kirkjunnar eru sjö: Skírnin, altarissakramentið, ferming, hjónavígsla, prestsvígsla, sakramenti sjúkra og sakramenti iðrunar (skriftir). Sakramenti kirkjunnar er verknaður sem táknar nærveru Krists og eru þau óafturkallanleg fyrir Guði. Það er trúarleg ástæða þess að kaþólska kirkjan leyfir ekki hjónaskilnaði. Kennivald kirkjunnar byggir á þremur máttarstólpum, Biblíunni (Scripturis Sacris), hefð kirkjunnar (Traditione apostolica) og túlkunarmætti páfa (Magisterium Ecclesiae). Kaþólska kirkjan telur heilög þau rit sem er að finna í latnesku svo kallaðri Vulgata útgáfu af Biblíunni frá 5. öld. Trúarhefð kirkjunnar hefur margar uppsprettur, þær helstu byggja á munlegum sögnum postulanna og aðrar á ritum kirkjufeðranna. Einn mikilvægasti þáttur hefðarinnar er postullega erfðakenningin (Successio apostolica). Samkvæmt henni er ein meginforsenda túlkunarréttar kirkjunnar að embætti hennar hafa gengið gegnum vígslu í beinan arf mann fram af manni frá postulunum fram til okkar tíma. Pétur postuli málaður af Masaccio 1425 Túlkunarmátt páfa er þannig lýst í "Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar": „Það verkefni að túlka Orð Guðs með sönnum hætti hefur einvörðungu verið falið kennsluvaldi kirkjunnar, það er að segja, páfanum og þeim biskupum sem eru í samneyti við hann“. Þetta vald fær páfinn vegna þess að hann er beinn erfingi Péturs postula. Kirkjan er, eins og sagt er í ritningunni, „líkami Krists“ og kaþólska kirkjan kennir að hún sé ein og óskipt samfélag allrar trúaðra bæði á jörðu og á himni. Þess vegna er einungis til ein sönn, opinber og áþreifanleg kirkja, ekki margar. Jesús, sem stofnaði þessa kirkju upprunalega ásamt þeim Pétri og hinum postulunum, veitti Pétri það vald að kenna og varðveita trúna. Dýrlingar. Dýrlingar eru mikilvægur þáttur í trúarkenningum kaþólsku kirkjunnar og eru eins konar milligöngumenn milli guðs og manna. Þeir eru taldir njóta sérstakrar blessunar Guðs og á þá má heita. Þeir einir eru dýrlingar í augum kaþólsku kirkjunnar sem teknir hafa verið formlega í dýrlingatölu. Fyrstu dýrlingar kirkjunnar voru píslarvottar sem voru píndir og teknir af lífi fyrir trú sína í árdaga kristninnar. Á seinni öldum hefur kirkjan tekið menn í dýrlingatölu eftir stranga rannsókn á verðleikum. Rannsóknin er framkvæmd eftir reglum sem hafa verið til síðan á 10. öld. Hún hefst með því að frásögur um kraftaverk tengd áheitum á væntanlegan dýrling og dýrlingshæfni viðkomanda er rannsökuð af næsta biskupi. Sérstök nefnd guðfræðinga í Vatíkaninu metur skýrslu biskupsins og fer með málið í sérstakan dómstól til að leiða í ljós hvort tvö kraftaverk að minnsta kosti hafi átt sér stað, eftir dauða viðkomandi, fyrir milligöngu hans frá himnaríki. Eftir það getur páfi tekið hann í dýrlingatölu, og er það nefnt að kanónísera. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni eru Þorlákur helgi Þórhallsson verndardýrlingur Íslands Skipulag. Kaþólska kirkjan er miðstýrð alþjóðasamtök sem er óháð ríkjum og landamærum. Yfirmaður kirkjunnar er biskupinn í Róm, páfinn. Nýr páfi er valinn úr röðum kardínála samkvæmt sérstakri reglu. Páfinn velur kardinála úr röðum biskupa sér til aðstoðar og hafa margir þeirra hlutverk sem svipar til ráðherra í veraldlegum ríkisstjórnum. Skipulag kirkjunnar er þannig að undir páfastól og þingi kardínála stjórna erkibiskupar hver sínu umdæmi. Undir hverjum erkibiskup eru biskupar sem stjórna kirkjusóknum með einum eða fleir prestum. Í kaþólsku kirkjunni geta einungis karlmenn þjónað sem sem prestar, byggir sú kenning á tilvitnun í bréf Páls postula til Kórintumanna „skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir.“. Í latneskum sið geta einungis ókvæntir karlmenn sem leggja stund á skírlífi verið prestar eða gegnt hærri embættum í kirkjunni. Hinar svo kölluðu austurlensku kaþólsku kirkjur heimila hins vegar að prestar (sem einungis eru karlmenn) séu kvæntir. Klausturreglur. Teresusystur, nunnur í reglu Kærleiksboðberanna Eitt af einkennum kaþólsku kirkjunnar sem aðgreinir hana frá mótmælendakirkjum eru klausturreglurnar. Þær eru fjölmargar og eru mjög mismunandi í uppbyggingu og starfi. Klausturreglur karlmanna eru nefndar munkaklaustur og kvenna nunnuklaustur. Í klaustri vígja meðlimir líf sitt Guði og afneita veraldlegu lífi. Sumar reglur krefjast þess að meðlimir einangri sig frá umheiminum en aðrar að meðlimir stundi líknarstörf, kennslu eða trúboð. Sameiginlegt er þeim öllum að krefjast þess að meðlimir afneiti öllu kynlífi til þess að geta helgað sig trúarkölluninni. Nánast allar klausturreglurnar eiga sér rætur innan þriggja mikilvægra tímabila í sögu kirkjunnar. Það fyrsta tilheyrir þeim tíma er kirkjan var að komast í fastar skorður og eiga þær reglur sem þú uxu fram rætur að rekja til einsetumanna frumkristni. Þær helstu er reglur Ágústínusar og Benedikts. Næsta tímabil er frá 11. til 13. öld þegar katarar og aðrar trúarhreyfingar sóttu mjög á kirkjuna, þó uxu fram reglur fransiskana og cisterciana sem lögðu áherslu á meinlæta líf en einnig dómeníkana sem gegndu mikilvægu hlutverki í ofsóknum á hendur þeim sem álitnir voru villutrúar. Siðaskipti mótmælenda voru aðalástæða þess að Jesúítareglan ásamt öðrum reglum uxu fram á 16. öld. Kaþólska kirkjan á Íslandi. Sjá aðalgrein um Kaþólsku kirkjuna á Íslandi Kaþólska eða katólska. Sigurður A. Magnússon, rithöfundur og þýðandi, skrifaði grein í Skírni 1992, þar sem hann fjallaði um íslenskan rithátt grískra orða. Í greininni segir hann það ósið Íslendinga að skrifa "katólskur" í stað kaþólskur og þykir miður að menn þrjóskist enn við slíkan rithátt. Helgi Hálfdánarson, þýðandi skrifaði grein sama ár í Morgunblaðið og fjallaði þar um grein Sigurðar og var að mörgu ósammála. Þar talar hann einnig um orðið kaþólikki og segir: „Hitt er þó enn verra, að þeir sem játa katólska trú eru einatt kallaðir kaþólikkar. Ekki leynir sér útlenskan á bak við þetta tvöfalda k, sem gerir orðið með afbrigðum kauðalegt og óvirðulegt, eins og svo mörg tökuorð sem bera útlenskuna utan á sér. Eðlilegast er, að katólskir menn séu á íslensku nefndir katólar og trú þeirra "katólska"“. Algengara er að skrifa kaþólska með þ-i. Sacavém. Sacavém er borg og kirkjusókn í Portúgal. Hún er nokkra kílómetra fyrir norðaustan Lissabon, heildarflatarmál sóknarinnar er 3,81 km² og íbúafjöldi árið 2001 var 17.659. Línuleg vörpun. Það er að segja, að vörpun summu tveggja vigra er jöfn summu varpanna sömu tveggja vigra, og jafnframt er margfeldi vörpunar af vigri jöfn vörpun af margfeldinu af sama vigri. Línuleg algebra fjallar um línulega virkja og línulegar jöfnur. Venjuleg fylki. Sé formula_4 línuleg vörpun, og formula_5 venjulegur grunnur fyrir formula_6 og formula_7 venjulegur grunnur fyrir formula_8 gildir að til sé formula_9 fylki, "A", þannig að Þar sem að formula_11 er "i"-ti dálkvigur þess, ritað með venjulegum hnitum með tilliti til formula_12. Það fylki er kallað venjulega fylkið fyrir "T", og vörpunin "T" er formula_13. Kjarni og myndrúm. Kjarni línulegrar vörpunar er jöfn núllrúmi venjulega fylkisins fyrir vörpunina. Myndrúm hennar er jöfn dálkrúmi venjulega fylkisins. Línuleg spönn. Línuleg spönn í stærðfræði eru mengi vigra sem eru sögð spanna hlutrúm í vigurrúmi. Mengið "spanformula_1" er mengi allra línulegra samantekta vigranna, sem er hlutrúm í formula_2. Það er, séu formula_3 tölur, þá er vigurinn formula_4 í hlutrúminu sem spannað er af línulega spanninu "spanformula_1". Dálkrúm fylkis er spannað af dálkvigrum þess. Raðrúm fylkis er spannað af línuvigrum þess. Núllrúm fylkis "A" er spannað af þeim vigrum sem eru lausnir á jöfnunni formula_6. Séu vigrar í spanni línulega óháð þá kallast spannið grunnur fyrir hlutrúmið sem það spannar. Línulegt óhæði. Línulegt óhæði er hugtak í stærðfræði sem snýr að tengslum vigra innbyrðis. Fjölskylda vigra telst línulega óháð ef að eina leiðin til þess að rita núllvigurinn sem línulega samantekt er að allir stuðlar við samantektina eru núll. Það er að segja, sé formula_1 fjölskylda sem spannar tiltekið hlutrúm, þá telst fjölskyldan línulega óháð ef og aðeins ef formula_2 eingöngu þegar að formula_3. Ef þetta skilyrði gildir ekki er fjölskyldan sögð línulega háð. Vídd hlutrúmsins. Ef að fjöldi vigra í fjölskyldunni er meiri en vídd hlutrúmsins er fjölskyldan línulega háð. Þverstöðlun. Ef enginn vigranna í fjölskyldunni er núllvigurinn og að innfeldi sérhverra tveggja vigra er núllvigurinn, þá er fjölskyldan þverstæð. Sé sérhver vigur jafnframt einingavigur er fjölskyldan þverstöðluð. Gram-Schmidt reikniritið er gjarnan notað til þess að þverstaðla fjölskyldur. Dálkvigrar fylkis. Ef vigrum fjölskyldunnar er raðað sem dálkvigrar í fylki, og fylkinu breytt í efra stallaform, þá er fjölskyldan línulega óháð ef og aðeins ef pinni er í sérhverjum dálki. Sigurður Nordal. Sigurður Nordal (14. september 1886 – 21. september 1974) var íslenskur fræðimaður, rithöfundur og skáld. Hann var áhrifamikill í þróun kenninga um Íslendingasögurnar, en hann hélt því fram að sögurnar væru verk einstakra höfunda. Snemma á 21. öldinni eru verk hans og kenningar enn mikils virtar. Orðspor Sigurðar náði langt út fyrir landssteinana. Erlendir fræðimenn töluðu um "„íslenska skólann“" í miðaldarrannsóknum og vísuðu þá til verka Sigurðar. Hann stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar árið 1905. Sigurður er einnig þekktur fyrir smíði nýyrðisins „tölva“, en áður en að það orð kom til sögunnar voru tölvur ýmist kallaðar enska nafninu „computer“ eða íslensku heitunum rafeindaheilar og rafeindareiknir. Synir Sigurðar eru Jóhannes Nordal félagsfræðingur og fyrrverandi seðlabankastjóri og Jón Nordal tónskáld og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík. Ravenna. Ravenna er borg í Emilía-Rómanja-héraði á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Rómanja-hluta héraðsins með 146.989 íbúa. Borgin er inni í landi, en tengist Adríahafi með skipaskurðinum Candiano o Corsini. Ravenna hefur tvisvar verið höfuðborg; fyrst Vestrómverska ríkisins, síðan konungdæmis Austgota. Núna er borgin höfuðstaður samnefndrar sýslu. Unnur Birna Vilhjálmsdóttir. Unnur Birna Vilhjálmsdóttir (f. 25. maí 1984) er íslensk fegurðardrottning og laganemi. Hún vann keppnina Ungfrú heimur í borginni Sanya í Kína þann 10. desember, 2005. Unnur Birna hefur unnið sem danskennari í dansskóla Birnu Björnsdóttur. Unnur er mikil áhugamanneskja um dans en önnur áhugamál eru m.a. hestar og snjóbretti. Unnur mun krýna næstu ungfrú heim þegar keppnin verður haldin í Póllandi í september 2006. Eftir að hún hefur krýnt arftaka sinn ætlar hún að snúa sér aftur að laganámi sínu, sem hún gerði hlé á þegar hún var krýnd Ungfrú heimur. Árið 2009 lék hún í kvikmyndinni Jóhannes. Listi yfir fullvalda ríki. Þetta er listi yfir fullvalda ríki heimsins, bæði samkvæmt lögum ("de jure") og raunveruleg ("de facto") sjálfstæð ríki. Kynning. Þessi listi á rætur að rekja til skilgreiningarinnar á því hvað telst fullvalda ríki samkvæmt fyrstu grein Montevídeósáttmálans frá 1933: Samkvæmt sáttmálananum, þarf fullvalda ríki að hafa þessa eiginleika: (a) stöðugan fólksfjölda, (b) afmarkað landsvæði, (c) ríkisstjórn, og (d) möguleika á því að vinna með öðrum ríkjum. Þar sem "de facto" ríki er talið sem fullvalda ríki ætti að fylgja útskýring. Hér verða ekki skráð lönd sem falla í hvoruga af neðstu tveimur skilgreinigunum, þar á meðal "Júbaland", "Púntland" (Sómalía), "Kabinda" (Angóla), "Kosóvó" (Serbía), "Kúrdistan" (Írak) og "Kúrdistan" (Tyrkland). A. "Abkasía"1 — Lýðveldið Abkasía Fáni Afganistan — Íslamska lýðveldið Afganistan Fáni Albanía — Lýðveldið Albanía Fáni Alsír — Demókratíska alþýðulýðveldið Alsír Fáni Alþýðulýðveldið Kína4 Fáni Andorra — Furstadæmið Andorra Fáni Angóla — Lýðveldið Angóla Fáni Antígva og Barbúda4 Fáni Argentína3 — Argentínska þjóðríkið "eða" Argentínulýðveldið Fáni Armenía — Lýðveldið Armenía Fáni Aserbaídsjan1, 4 — Lýðveldið Aserbaídsjan Fáni Austur-Kongó — Democratic Republic of Congo Flag of Austur-Tímor — Democratic Republic of Timor-Leste Fáni Austurríki3 — Lýðveldið Austurríki Fáni Á. Ástralía3 — Sambandsríki Ástralíu Fáni B. Bahamaeyjar — Sambandsríki Bahamaeyja Fáni Bandaríkin2,3 — Bandaríki Norður-AmeríkuFáni Bangladess — Alþýðulýðveldið Bangladess Fáni Barbados Fáni Barein — Konungsríkið Barein Fáni Belgía — Konungsríkið Belgía Fáni Belís Fáni Benín — Lýðveldið Benín Fáni Bólivía — Lýðveldið Bólivía Fáni Bosnía og Hersegóvína4 Fáni Botsvana — Lýðveldið Botsvana Fáni Brasilía3 — Bandalagslýðveldið Brasilía Fáni Bretland 2 — Sameinað konungsríki Bretlands og Norður-Írlands Fáni Brúnei — Ríkið Brunei Darussalam Fáni Búlgaría — Lýðveldið Búlgaría Fáni Búrkína Fasó Fáni Búrúndí — Lýðveldið Búrúndí Fáni Bútan — Konungsríkið Bútan Fáni C. Chile/Síle — Lýðveldið Chile Fáni D. Danmörk — Kingdom of Denmark Fáni Djíbútí — Republic of Djibouti Fáni Dóminíka — Commonwealth of Dominica Flag Dóminíska lýðveldið — Dominican Republic Fáni E. Egyptaland — Arab Republic of Egypt Fáni Eistland — Republic of Estonia Fáni Ekvador — Republic of Ecuador Fáni El Salvador — Republic of El Salvador Fáni Erítrea — State of Eritrea Fáni Eþíópía 3 — Sambandslýðstjórnarlýðveldið Eþíópía— Federal Democratic Republic of Ethiopia Fáni F. Filippseyjar — Lýðveldið Filippseyjar Fáni Finnland 4 — Republic of Finland Fáni Fídjieyjar 4 — Republic of the Fiji Islands Fáni Fílabeinsströndin10 — Republic of Côte d'Ivoire Fáni Frakkland 2 — French Republic Fáni G. Gabon — Gabonska lýðveldið Fáni Gambía — Lýðveldið Gambía Fáni Gana — Lýðveldið Gana Fáni Georgía 1,4 Fáni Gínea — Lýðveldið Gínea Fáni Gínea-Bissá — Lýðveldið Gínea-Bissá Fáni Grenada 4 Fáni Grikkland 4 — Hellenska lýðveldið Fáni Grænhöfðaeyjar — Lýðveldið Grænhöfðaeyjar Fáni Gvatemala — Lýðveldið Gvatemala Fáni Gvæjana — Samvinnulýðveldið Gvæjana Fáni H. Haítí — Lýðveldið Haítí Fáni Holland2 — Konungsríkið Holland Fáni Hondúras — Lýðveldið Hondúras Fáni Hvíta-Rússland — Lýðveldið Hvíta Rússland Fáni I. Indland3 — Lýðveldið Indland Fáni Indónesía — Lýðveldið Indónesía Fáni Í. Ísland Fáni Íran — Íslamska lýðveldið Íran Fáni Írak — Lýðveldið Írak Fáni Írland — Lýðveldið Írland Fáni Ísrael — Ísraelsríki Fáni Ítalía — Ítalska lýðveldið Fáni J. Jamaíka — Fáni Japan Fáni Jemen — Lýðveldið Jemen Fáni Jórdanía — Hashemite Kingdom of Jordan Fáni K. Kambódía — Konungsríkið Kambódía Fáni Kamerún — Lýðveldið Kamerún Fáni Kanada3 13Fáni Kasakstan Fáni Katar — Katarríki Fáni Kenýa Fáni Kirgistan Fáni Kíribatí Fáni Kosta Ríka — Lýðveldið Kosta Ríka Fáni Kólumbía — Lýðveldið Kólumbía Fáni Kómoreyjar 3 — Kómoreyjasambandið Fáni Króatía — Lýðveldið Króatía Fáni Kúba — Lýðveldið Kúba Fáni Kúveit Fáni Kýpur — Lýðveldið Kýpur Fáni L. Laos — Alþýðulýðveldi Laosbúa Fáni Lettland — Lýðveldið Lettland Fáni Lesótó — Konungsríkið Lesótó Fáni Liechtenstein — Furstadæmið Liechtenstein Fáni Litháen — Lýðveldið LitháenFáni Líbanon — Lýðveldið Líbanon Fáni Líbería — Lýðveldið Líbería Fáni Líbýa — Hið mikla sósíalíska líbýska arabíska alþýðuríki Fáni Lúxemborg — Stórhertogadæmið Lúxemborg Fáni M. Madagaskar — Lýðveldið Madagaskar' Fáni Makedónía5 — Lýðveldið Makedónía Fáni Malasía 3 — Sambandsríki Malasíu Fáni Malaví — Lýðveldið Malaví Fáni Maldíveyjar — Lýðveldið Maldíveyjar Fáni Malí — Lýðveldið Malí Fáni Malta — Lýðveldið Malta Fáni Marokkó 6 — Konungsríkið Marokkó Fáni Marshalleyjar — Lýðveldið Marshalleyjar Fáni Máritanía — Íslamska lýðveldið Máritanía Fáni Máritíus — Lýðveldið Máritíus Fáni Mexíkó 3 — Sameinuð ríki Mexíkó Fáni Mið-AfríkulýðveldiðFáni Miðbaugs-Gínea — Lýðveldið Miðbaugs-Gínea Fáni Míkrónesía3 — Sambandsríki Míkrónesíu Fáni Mjanmar 11 — Mýanmar-sambandið Fáni Moldóva 1,4 — Lýðveldið Moldóva Fáni Mongólía Fáni Mónakó — Furstadæmið Mónakó Fáni Mósambík — Lýðveldið Mósambík Fáni N. "Nagornó-Karabak"1 — Lýðveldið Nagornó-Karabak Fáni Namibía — Lýðveldið Namibía Fáni Nárú — Lýðveldið Nárú Fáni Nepal— Konungsríkið Nepal Fáni Níkaragva — Lýðveldið Níkaragva Fáni Níger — Lýðveldið Níger Fáni Nígería3 — Sambandsríki Nígeríu Fáni Norður-Kórea — Alþýðulýðveldið Kórea Fáni "Norður-Kýpur"1 — Tyrkneska lýðveldið á Norður-Kýpur Fáni Noregur2 — Konungsríkið Noregur Fáni Nýja-Sjáland 2 Fáni Ó. Óman — Soldánsdæmið Óman Fáni P. Pakistan — Íslamska lýðveldið Pakistan Fáni Palá — Lýðveldið Palá Fáni "Palestínuríki"7 Fáni Panama — Lýðveldið Panama Fáni Papúa Nýja-Gínea — Sjálfstætt ríki Papúu-Nýju-Gíneu Fáni Paragvæ — Lýðveldið Paragvæ Fáni Perú — Lýðveldið Perú Fáni Portúgal 4 — Lýðveldið Portúgal Fáni Pólland — Lýðveldið Pólland Fáni R. Rúmenía Fáni Rússland 3 — Rússneska sambandsríkið Fáni Rúanda — Lýðveldið Rúanda Fáni S. Salómonseyjar Fáni Sambía — Lýðveldið Sambía Fáni Sameinuðu arabísku furstadæmin 3 Fáni Samóa — Sjálfstætt Samóa Fáni San Marínó — Hæstvirt lýðveldið San Marínó Fáni Sankti Kristófer og Nevis 4 — Sambandsríki Sankti Kristófer og Nevis Fáni Sankti Lúsía Fáni Sankti Vinsent og Grenadíneyjar Fáni Saó Tóme og Prinsípe 4 — Lýðveldið Saó Tóme og Prinsípe Fáni Sádí-Arabía— Konungsríkið Sádí-Arabía Fáni Senegal — Lýðveldið Senegal Fáni Serbía3,4,8 Lýðveldið Serbía Fáni Seychelleseyjar — Lýðveldið Seychelleseyjar Fáni Simbabve — Lýðveldið SimbabveFáni Singapúr — Lýðveldið Singapúr Fáni Síerra Leóne — Lýðveldið Síerra Leóne Fáni Slóvakía — Lýðveldið Slóvakía Fáni Slóvenía — Lýðveldið Slóvenía Fáni Sómalía 1,9 Fáni "Sómalíland"1 -— Lýðveldið Sómalíland Fáni Spánn3 — Konungsríkið Spánn Fáni Srí Lanka — Alþýðulýðveldið Srí Lanka Fáni Suður-Afríka — Lýðveldið Suður-Afríka Fáni Suður-Kórea — Lýðveldið Kórea Fáni "Suður-Ossetía"1 — Lýðveldið Suður-OssetíaFáni Súdan — Lýðveldið Súdan Fáni Súrínam — Lýðveldið Súrínam Fáni Svartfjallaland — Lýðveldið Svartfjallaland Fáni Svasíland — Konungsríkið Svasíland Fáni Sviss 3 — Svissneska ríkjasambandið Fáni Svíþjóð — Konungsríkið Svíþjóð Fáni Sýrland — Arabíska lýðveldið Sýrland Fáni T. Tadsjikistan 4 — Lýðveldið Tadsjikistan Fáni Taíland — Konungsríkið Taíland Fáni Tansanía — Sameinaða lýðveldið Tansanía Fáni Tékkland — Tékkneska lýðveldið Fáni Tonga — Konungsríkið Tonga Fáni Tógó — Tógóska lýðveldið Fáni "Transnistría 1 — Moldóvska lýðveldið TransnistríaFáni Trínidad og Tóbagó4 — Lýðveldið Trínidad og TóbagóFáni Tsjad — Lýðveldið Tsjad Fáni Túnis — Lýðveldið Túnis Fáni Túrkmenistan Fáni Túvalú Fáni Tyrkland — Lýðveldið Tyrkland Fáni Tævan12 — Lýðveldið Kína Fáni U. Ungverjaland — Lýðveldið Ungverjaland Fáni Ú. Úganda — Lýðveldið Úganda Fáni Úkraína 4 Fáni Úrúgvæ — Eystra lýðveldið ÚrúgvæFáni Úsbekistan 4 - Lýðveldið ÚsbekistanFáni V. Vanúatú — Lýðveldið Vanúatú Fáni Vatíkanið — Borgríkið VatíkaniðFáni Venesúela 3 — Bólívarska lýðveldið Venesúela Fáni Vestur-Kongó — Lýðveldið Kongó Fáni "Vestur-Sahara"6 - Saharavíska arabíska lýðveldið Fáni Víetnam — Alþýðulýðveldið Víetnam Fáni Þ. Þýskaland 3 — Sambandsríkið Þýskaland Fáni Ákveða. þar sem "c" er tala. Ákveðan formula_8 er táknuð formula_9 Þ.e, vigrum fjölskyldunnar er raðað sem línuvigrar fylkis "A", og ákveðan af A er formula_10 Ákveður "2×2" fylkja. Ákveða "2×2" fylkis er skilgreind sem formula_11 fyrir vigrana formula_12 og formula_13. Ákveða "2×2" fylkis jafngildir flatarmáli samsíðungs með hliðarvigranna "x" og "y". Ákveður "3×3" fylkja. Notast er við reglu Sarrusar við að reikna út ákveðu "3×3" fylkis formula_14 er skilgreind sem Krossfeldi þrívíðra vigra er skilgreint út frá "3×3" ákveðu. Richard Pryor. Richard Pryor (1. desember 1940 - 10. desember 2005) var bandarískur gamanleikari og uppistandari. Richard Pryor var fæddur Franklin Lenox Thomas í Peoria í Illinois í Bandaríkjunum. Hann lést úr MS-sjúkdómnum í Encino í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Heimildir. Pryor, Richard Pryor, Richard Sikiley. Sikiley (ítalska: "Sicilia", sikilska: "Riggiuna Siciliana") er stærsta eyja Ítalíu, stærsta hérað landsins og stærsta eyjan í Miðjarðarhafinu. Eyjan þekur 25.708 ferkílómetra og er um einn tólfti hluti flatarmáls Ítalíu. Héraðið hefur nokkra sjálfstjórn sökum menningarlegrar sérstöðu. Höfuðstaður þess er borgin Palermó. Eyjan hefur í gegnum söguna verið mjög mikilvæg vegna heppilegrar staðsetningar miðað við verslunarleiðir um Miðjarðarhafið. Eyjan var hluti af Magna Graecia og lýsti Cíceró borginni Sýrakúsu sem mestu og fallegastu borg Grikklands hins forna. Á eyjunni er eldfjallið Etna sem er 3320 metrar, stærsta eldfjall Evrópu og eitt virkasta í heiminum. Á Sikiley búa rúmlega fimm milljónir manna en flatarmál eyjunnar er um fjórðungur af flatarmáli Íslands. Trékyllisvík. Trékyllisvík er vík í Árneshreppi norðan við Reykjarfjörð og Gjögur á Ströndum. Þar var áður miðstöð sveitarinnar sem kölluð var Víkursveit eftir Trékyllisvík. Nokkrar jarðir eru í Trékyllisvík, Árnes sem var prestsetur til 2003, Finnbogastaðir, Bær, Litla-Ávík og Stóra-Ávík. Galdramálin í Trékyllisvík. Sagt er að galdraöld hafi hafist á Íslandi í Trékyllisvík þegar þrír menn voru brenndir þar á báli fyrir galdra árið 1654 ("Undrin í Trékyllisvík"). Brennurnar fóru fram innst inni í klettagjá eða skoru sem liggur upp frá sjónum í Trékyllisvík og er kölluð Kista. Galdramál. Galdramál eru dómsmál þar sem einhver eða einhverjir hafa verið ákærðir fyrir galdra í landi þar sem notkun galdurs, svartagaldurs eða töfralækninga er bönnuð eða háð skilyrðum. Í Evrópu var galdur refsivert athæfi snemma á nýöld og á 17. öld kom upp um allan heim nokkurs konar fár þar sem ofsóknir gagnvart meintum galdranornum og galdramönnum náði hámarki. Á Íslandi er almennt sagt að brennuöld hafi hafist með þremur aftökum fyrir galdra í Trékyllisvík árið 1654 og staðið til 1683 þegar síðasti galdramaðurinn var brenndur í Arngerðareyrarskógi við Djúp. Ron Weasley. Ronald „Ron“ Bilius Weasley (fæddur 1. mars 1980) er persóna í bókum J.K. Rowling um galdrastrákinn Harry Potter. Ron er besti vinur Harrys og jafnaldri hans. Þeir ganga ásamt vinkonu sinni, Hermione Granger, í galdraskólann Hogwarts. Ron er stór, rauðhærður og með freknur. Reyndar er öll fjölskylda hans rauðhærð.Ron er yngsti sonurinn í Weasley-fjölskyldunni. Hann er sonur Arthurs og Mollyar Weasley. Eldri bræður hans eru Bill, Charlie, Percy og tvíburarnir Fred og George. Ron á líka eina yngri systur, Ginny. Ron hóf nám Hogwarts Skóla galdra og seiða árið 1991 og var raðað í Gryffindor húsið. Hann varð fljótt besti vinur Harry Potter og síðar Hermione Granger. Harry og Ron björguðu henni eftir að fjallatröll kom inní skólann á hrekkjavöku. Hún var þá grátandi inni á baði eftir að Ron móðgaði hana, eftir það urðu þau bestu vinir. Saman borðust þau við prófessor Quirinus Quirrell, sem reyndi að ná viskusteininum fyrir Voldemort, Líka að ná Ginny litla systir Ron úr Leyniklefanum og að bjarga saklausum manni frá hræðinlegum kossi vitusgunana, Sirius Black. Á fjórða ári varð Ron reiður út í Harry því hann sagði honum ekki frá því að hann hafi sett nafnið sitt í Eldbikarinn, sem hann gerði ekki. Á fimmta ári sínu mynduðu þau Varnarlið Dumbledores (VD) og börðust þau í deild ráðgátunnar gegn drápurum Voldemorts. Á sjötta ári kynntist hann Lavender Brown og urðu þau kærustupar, þá brotnaði hjarta Hermione því að hún var hrifinn af Ron í laumi. Ron og Lavender hætta saman í sjöttu bókinni. Þegar Harry Ron og Hermione fóru að leita af helkrossunum sex urðu Hermione og Ron eiginlega kærustupar, eða það fannst Harry. Ron og Hermione kysstust fyrst í þarfarherberginu en í Deathly Hallows part 2 kyssast þau í leyniklefanum. Þau giftast að lokum og eignast tvö börn sem bæði ganga í Hogwartsskóla. Hin íslenska fálkaorða. Hin íslenska fálkaorða er íslensk heiðursviðurkenning veitt einstaklingum, bæði íslenskum og erlendum. Nýjum orðuhöfum er oftast veitt viðurkenningin 1. janúar eða 17. júní. Orðan var stofnuð af Kristjáni X. þann 3. júlí 1921 til að sæma þá sem hafa eflt hag og heiður Íslands. Forseti Íslands afhendir orðuna en orðuhafar eru valdir af orðunefnd. Samningur milli nokkurra ríkja vegna heimsókna þjóðhöfðingja og orðuveitinga tengdum þeim er einnig ábyrgur fyrir stórum hluta orðuveitinga. Við andlát orðuhafa ber afkomendum að skila orðunni þó að það muni sjaldan gert. Ein orða nýtur þó undantekningar frá þessu, stórkross sem að átti að veita Jóhannesi Kjarval 1965 en hann afþakkaði. Sættir náðust þó með því að orðan var varðveitt í Listasafni Íslands en Jóhannes vildi aldrei fá hana í hendur. Muggi. Muggi er hugtak úr bókunum um Harry Potter eftir J. K. Rowling og nær yfir allt venjulegt fólk sem ekki getur galdrað og kemur ekki úr galdrafjölskyldu. Fólk af galdramannaættum sem ekki getur galdrað er kallað skvibbar í bókunum. Börn mugga geta haft galdrahæfileika, en það er ansi sjaldgæft. Flestir muggar vita ekki af galdraheiminum nema að það sé galdramaður í ættinni. Niðrandi orð sem notað er yfir mugga er blóðníðingur. Dæmi um mugga eru foreldrar Hermione Granger og frændfólk Harry Potters. J.K. Rowling íhugaði að láta Dudley Dursley, frænda Harry Potter, eignast barn með galdrahæfileika. Hún ákvað þó að gera það ekki þar sem það væri ómögulegt að víkjandi galdragen myndi erfast í gegnum Vernon Dursley. Keila (ljósnemi). Keilur eru önnur af tveimur aðaltegundum ljósnema í auga. Hin tegundin kallast stafir. Keilur fá nafnið af lögun sinni. Þær eru ekki jafn ljósnæmar og stafir en sjá aftur á móti um skynjun smáatriða og lita. Til eru þrjár aðaltegundir keilna sem svara mest við mismunandi bylgjulengdum ljóss. Oftast eru þær kallaðar rauðar keilur, grænar keilur og bláar keilur, þótt það sé að sumu leyti rangnefni því rauðu og grænu keilurnar svara mest við ljósi af mjög svipaðri bylgjulengd (sem fólk skynjar yfirleitt sem gulgrænt annars vegar og grænt hins vegar). Inkaveldið. a> ranglega kallaði „Hina týndu borg Inkanna“ Inkaveldið var keisaraveldi indíána í Andesfjöllum, þar sem nú er Perú, og stofnað af Manco Capac. Veldi Inka stóð frá tólftu öld og fram á þá sextándu. Íbúar keisaraveldisins kölluðu land sitt Tawantinsuyu (sem þýðir „land fjórðunganna“), og var það orðið meira en milljón ferkílómetrar að stærð á 15. öld og þá bjuggu þar meira en tíu milljónir íbúa. Veldinu var skipt í fernt; Chinchaysuyu (NV), Antisuyu (NA), Qontisuyu (SV), og Qollasuyu (SA), en í miðjunni var höfuðborgin Cusco, þaðan sem veldinu var stjórnað. Til að tengja saman landið byggðu þeir vegi og brýr, en Inkar áttu afbragðs verkfræðinga. Um vegina fóru hraðboðar sem ferðuðust allt að 250 km á dag með skilaboð. Þannig gat inkinn, sem var æðsti leiðtoginn og jafnframt dýrkaður sem guð, komið mikilvægum boðum sínum til íbúanna og þannig hjálpuðu hraðboðarnir við stjórnun landsins. Inkar notuðu mjög öflugan her til þess að ná undir sig landi og sigra óvini sína og inkinn hafði jafnframt óskorað vald til þess að gera hvað sem hann vildi. Líferni. Maís var mest ræktaða afurð Inka Inkar lifðu yfirleitt saman í smáþorpum en fáir bjuggu í borgum. Þorpin voru oft utan við borgirnar. Fjölskyldur lifðu nokkrar saman í hóp sem oft var stjórnað af leiðtoga; slíkur hópur kallaðist „ayllu“. Þeir lifðu á og stunduðu landbúnað og ræktuðu mest maís og korn auk kartaflna, paprika, bauna, krydda og jafnvel kókalaufs en Inkar trúðu að það væri gjöf guðanna. Þeir ræktuðu einnig kakóbaunir en þær voru notaðar sem gjaldmiðill því einungis ríkir höfuðsmenn máttu neyta kakós. Hver hópur eða ayllu stundaði sjálfsþurftarbúskap. Allir í hópnum unnu nema þeir allra yngstu og þeir allra elstu. Öll vinna var unnin með höndunum þar sem afar fá verkfæri þekktust og hjólið var þeim ókunnugt. Hver hópur þurfti að borga 2/3 hluta í skatt. Hóparnir bjuggu í steinhúsum með stráþaki en húsgögn voru ókunn og því sátu Inkarnir og sváfu á gólfinu. Þeir klæddust svokallaðri voð eða kirtlum með margbreytilegu og fallegu munstri, en klæði greindu á milli stétta. Hver hópur gerði líka alls kyns samninga að sjálfsdáðum, sá um vöruskipti og héldu oft uppi aga með eigin reglum. "Tupa"-Inkakirtill. Gifting. Þegar stúlkur voru giftar þá voru þær, ásamt börnum þeirra, teknar inn í nýja stétt og hóp maka þeirra. En fjölskylda stúlkunnar erfði makanum land og stúlkan hélt áfram sambandi við sinn gamla hóp. Einnig gat maður orðið meðlimur annars hóps með því að biðja um aðild. Barnsburður. Nýfædd börn voru færð að næsta læk og þau skoluð. Síðan voru þau vafin ullarreifum og lögð í vandaðan, bundinn og fallega skreyttan tréstokk. Sums staðar voru settar tvær fjalir og bundnar fastar við höfuð barnsins til að það yrði uppmjótt en það þótti fínt hjá sumum kynþáttum. Næsta dag var móðirin yfirleitt komin aftur á akurinn að vinna með barnið á bakinu í tréstokknum. Heima voru börnin geymd í grafinni holu með grindum þar til þau voru fimm ára. Hver hópur sá börnunum oft fyrir menntun, var þá elsti og vitrasti karlmaðurinn sem kenndi. Menntun. Menntun Inka er hægt að skipta í tvo meginflokka; annars vegar menntun yfirstétta og hins vegar menntun almennings, s.s. bænda, smiða og lægri stétta sem ekki höfðu aðgang að "amautas". Quipu-hnútakerfi Inka var notað til að skrá niður mikilvæga atburði. Menntun yfirstétta. Menntun yfirstétta fór þannig fram að ungum yfirstéttamönnum var kennt frá " Amautas". Byrjað um þrettán ára aldurinn í Cusco í húsum þekkingar. "Amautas" notuðu þekkingu sína til að kenna hnútakerfið "Quipu", svo og Inkasögu, stjórn og trú, auk munnlegra laga. Í þessum skóla var einnig æfð her- og líkamsþjálfun. Yfirstéttamenntuninni lauk yfirleitt um 19 ára aldurinn og var þá haldin sérstök athöfn og nemendunum færðar nærbrækur til sönnunar þess að þeir hefðu lokið þessu námi. Menntun almennings. Ungir lágstéttarmenn fóru ekki í formlegan skóla en þó var þeim yfirleitt kennt af þeim sem eldri voru í fjölskyldunni eða hópnum sem þeir tilheyrðu; var þeim kennt t.d. að smíða, höggva steina, byggja, verða sér út um kjöt og/eða veiða fisk. Jafnvel án yfirstéttarnáms þá voru það þessar stéttir sem lögðu flest alla vegina, byggðu hengibrýrnar og húsin. Inkar eru þekktir fyrir byggingastíl sinn sem er að miklu leyti lægri stéttunum að þakka. Trú. Inkar trúðu á náttúruna í öllu sínu veldi og guðina sem í henni bjuggu. Þeir dýrkuðu fjöllin og jörðina, vatnið og eldinn, dýrin og plönturnar. Trú þeirra byggðist á því að bera virðingu fyrir umhverfinu. Guðir þeirra voru margir, en meðal þeirra helstu voru sólguðinn Inti, kona hans - tunglgyðjan Mama Qiya - og þrumu- og veðraguðinn Ilyap'a. Einn almikilvægasti guðinn var þó Viracocha sem var ýmist talinn faðir Manco Capac stofnanda veldisins, eða faðir Intis, sem var þá talinn faðir Manco Capacs. Hann var álitinn hafa kennt mönnum siðmenningu og gengdi svipuðu hlutverki meðal guðanna og keisarinn gerði meðal manna. Viracocha var talinn hafa komið upp úr Titicacavatni sem og sólin tunglið og ýmis önnur mikilvæg goðmögn, en þau minna mikilvægu voru oftast tengd við staði svo sem hella, fjöll eða uppsprettur. Þessir staðir voru kallaðir huaca og eru enn álitnir heilagir af afkomendum Inkanna í dag. Á þessum stöðum fóru fram mikilvægustu trúarathafnirnar, oft fórnir ýmiss konar. Meðal annars var fórnað lamadýrum, mag og jafnvel börnum. Sérstök prestastétt var til staðar til að framkvæma þessar athafnir. Inkarnir höfðu eins konar boðorð, líkt og kristnir menn í dag en þau voru: „Ekki stela“, „ekki ljúga“ og „vertu duglegur að vinna“ og fóru þeir oftast eftir þeim, annars áttu þeir það á hættu að vera sóttir til saka, í það minnsta fyrir þjófnað. Stjórnun. Inkaríkinu var stjórnað af keisara sem var jafnframt álitinn guð og dýrkaður sem slíkur. Eins og áður segir var veldi Inkanna skipt í fjórðunga (Chinchaysuyu (NV), Antisuyu (NA), Qontisuyu (SV), og Qollasuyu (SA).) og þeim var stjórnað af fjórðungskóngum. En völdum var þannig skipt að stjórnandinn, Sapa Inkinn, og konur hans, "Coyas", höfðu öll meginvöld yfir Inkaveldinu. Næst komu æðstiprestur og yfirherforinginn, síðan komu fjórðungskóngarnir, venjulegu herforingjarnir, síðan musterisprestarnir arkitektarnir/verkfræðingarnir, embættismenn og herstjórnendur, þá komu listamenn, tónlistarmenn, höfuðsmenn í hernum, ritarar (quipucamayocs sem eru hnútabindarar, en Inkar skráðu allt niður í hnútum) og þar á eftir endurskoðendur Inkanna. Á botninum voru svo læknarnir, bændurnir, ayllu og óbreyttir hermenn. Arkítektar og smíði. Inkar áttu afbragðs arkitekta og/eða verkfræðinga. Sum hús og hof voru byggð úr svo vel höggnum steinum sem voru svo þétt lagðir að ekki þurfti að nota lím og ekki var hægt að koma hnífsblaði á milli steinanna. Hús lágstéttarfólks voru vel múruð með hálmþaki (stráþaki). Inkar og verkfræðingar þeirra byggðu brýr, lögðu vegi yfir landið þvert og endilangt. Talið er að vegir þessir hafi verið yfir 22.000 kílómetrar að lengd og vegakerfið hafi, á þess tíma mælikvarða, verið með því fullkomnasta í heiminum. Einn vegur lá frá Ekvador og þvert yfir Andesfjöllin alla leið að og alveg út yfir landamæri Chile við Perú og var það lengsti vegur sem hafði verið lagður fyrir iðnbyltinguna. Listir og listamenn. Inkar voru frábærir gull- og silfursmiðir. Þeir sköpuðu mikið af skartgripum, styttum og leirkerum. Margar stytturnar eru af mannshöfðum. Flestar styttur Inka voru af guðum eða fólki. Þeir gerðu stórar gullstyttur skreyttar með steinum og skeljum. Inkarnir gerðu einnig grímur sem prestar báru við helgiathafnir við túlkun á guðunum, en grímur þessar voru oft mósaík og gerðar með skeljum eða steinum. Tónlist var spiluð á tímum Inka og notuðust Inkar við blásturshljóðfæri svipuð og trompet og ásláttarhljóðfæri lík bjöllum. Einnig voru þeir framarlega í textílhönunn en föt þeira voru vafin úr ull og gjarnan vel skreytt með mjög fallegum mynstrum. Saga. Veldi Inka þegar það stóð sem hæst eða árið 1520 e. Kr. Rauði bletturinn er Cusco, höfuðborg Inka, og sýnir landamæri þessarar þjóðar fyrstu ár sín. Eins og fyrr segir, þá stofnaði lítil þjóð um 1200 e.kr, veldi undir stjórn Manco Capac. Mun síðar, árið 1438 e. Kr., undir stjórn Sapa Inkans Pachacuti, hófst mikil útþensla veldisins. Á innan við öld náði veldi Inkanna yfir næstum öll Andesfjöll eða yfir rúmlega milljón ferkílómetra lands og drottnaði yfir rúmlega 10 milljón manns. Á hátindinum brotnaði siðmenning Inka niður og féll í hendur gullþyrstra og gráðugra evrópskra landvinningamanna. Árið 1521 náði Hernán Cortés yfiráðum yfir Astekum og þau yfiráð veittu Francisco Pizarro innblástur til að gera árás á Inkana 10 árum síðar. Spænska innrásin. Þó að leiðangur Francisco Pizarro hafi ekki talið nema rétt undir 200 menn og 27 hesta þá ríkti borgarastyrjöld hjá Inkum og því átti Pizarro tiltölulega auðvelt með að brjóta niður lamaðan her Inkanna. Evrópubúar báru einnig með sér farsóttir sem indíánar þekktu ekki og höfðu engin mótefni gegn. Á leiðinni veittu ýmsir þjóðflokkar Pizarro oft fyrirsát og þurfti hann því oft að tala sig útúr vandræðunum. Hinir herirnir gátu auðveldlega tortímt her Pizarro en í staðinn fylgdu margir honum, líklegast vegna þess að hann hafði í raun mútað flestum og aðrir voru bara hreinlega á móti Inkunum. Her hans hafði vaxið með fylgdarliðinu og var nú í kringum 3.000 menn og mættu þeir nú "Sapa Inkanum" Atahualpa við Cajamarca. Fór svo að her Inka gertapaði og var höfuðborg Inkanna Cusco sigruð árið 1536. Líklegast töpuðu Inkarnir af því að þeir voru ekki vanir að berjast á móti fallbyssum og skotvopnum Spánverja þó aðeins um 130 hafi borið byssur og lásaboga þá hafa fallbyssurnar líklegast ekki verið fleiri en 4. Var her Inka lamaður gegn slíku afli og aðeins er hægt að gera sér í hugarlund hvað óvanur her Inka hafi hræðst byssuhvellina. Inkarnir flúðu hærra upp í andesfjöllin, þar sem loftið var mjög þunnt. Eftir spænsku innrásina. Undir stjórn Túpac Amaru hörfuðu Inkar til fjalla og gerðu oft árásir á Spánverja þaðan eða allt fram til 1572 þegar Túpac var hálshöggvinn og keisaraveldið leið endanlega undir lok. Spánverjarnir tóku þá til við að útrýma menningu og siðum Inkanna. Stórveldi Inkanna hefur verið ýmsum uppreisnarhópum á svæðinu innblástur í gegnum tíðina, t.d. í uppreisninni gegn Spánverjum 1780 undir forystu Túpac Amaru II og í nútímanum hafa skæruliðahreyfingar nefnt sig í höfuðið á Túpac. Frank-Walter Steinmeier. Frank-Walter Steinmeier (fæddur 5. janúar 1956 í Detmold, Nordrhein-Westfalen) er þýskur stjórnmálamaður í sósíaldemókrataflokknum (SPD). Frá nóvember 2005 er hann utanríkisráðherra Þýskalands, en frá 1999 til 2005 var hann ráðuneytisstjóri hjá kanslaraembættinu. Menntun og störf. Steinmeier fæddist 1956 í Detmold í sambandslandinu Nordrhein-Westfalen, en faðir hans var smiður. Eftir stúdentspróf árið 1974 í Blomberg gengdi hann herþjónustu í tvö ár eða þangað til hann hóf nám í lögfræði og síðar stjórnmálafræði við Justus-Liebig háskólann í Gießen, sem hann lauk 1986. Hann var frá því í menntaskóla meðlimur ungliðahreyfingar sósíaldemókrataflokksins. Árið 1991 varði hann doktorsritgerð sína í lögfræði, sem bar heitið „Borgarar án þaks – milli skyldu til framfærslu og réttar á lífsrými; venja og viðhorf opinberrar íhlutunar við hindrun og útrýmingu húsnæðisleysis“. Sama ár gerðist hann ráðgjafi í fjölmiðlunarrétti við forsætisráðuneyti Neðra-Saxlands í Hannover. Tveimur árum seinna tók hann við embætti skrifstofustjóra hjá Gerhard Schröder, sem á þessum tíma var forsætisráðherra Neðra-Saxlands. Eftir að ljóst varð árið 1998 að Schröder yrði kanslari ákvað Steinmeier að fylgja honum í ríkisstjórn þýska sambandslýðveldisins og 1999 var hann orðinn ráðuneytisstjóri hjá kanslaraembættinu. Steinmeier var einn af nánustu samstarfsmönnum Schröders og hefur verið lýst sem manninum á bakvið tjöldin. Þannig gerði hann mikilvægar framkvæmdaáætlanir, t.d. í ellilífeyris- og heilbrigðismálum, og tók þátt í Agenda 2010 og umfangsmiklum skattalagabreytingum. 13. október 2005 varð ljóst að hann yrði utanríkisráðherra og tók hann formlega við embættinu 22. nóvember 2005 í ríkisstjórn Angelu Merkels. Fjölskyldulíf. Steinmeier er giftur og á eina dóttur. Steinmeier, Frank-Walter Messías. Messías er íslenskun af hebreska orðinu "mashiach" sem þýðir „smurður“. Í gyðingdómi, var messías (מָשִׁיחַ "hinn smurði") upphaflega notað um alla sem voru álitnir smurðir (valdir af Guði). Í trúarhefð gyðinga er messías afkomandi Davíðs konungs, hann mun endurreisa ríki Davíðs og skapa frið á jörðu. Þeir sem eru kristnir álíta Jesús vera þennan messías en því trúa gyðingar ekki. Orðið "Kristur" (úr grísku Χριστός, "Khristos", „hinn smurði“) er bókstafleg þýðing á „mashiach“. Í gamla testamentinu er hugtakið "messías" upphaflega notað um konung Ísraela og æðsta prest. Úr þeim erfiðleikum sem gyðingar lentu í (við fall Norðurríkisins og þrældóminn í Babýlon) skapaðist spá um komandi konung og frelsara. Tími messíasar yrði Guðs ríki. Spádómurinn var ekki bundinn einni persónu heldur nýjum tíma, frelsi úr neyð og fullkomnu réttlæti. Spámenn gyðinga sáu margsinnis fyrir komu messíasar. Samkvæmt kristinni trú hefur þessi spádómur ræst með Jesú frá Nasaret. Símon Pétur er sá fyrsti samkvæmt Nýja testamentinu sem vottar um að Jesús sé Messías (Markúsarguðspjallið 8:29). Í íslam er Jesús (Isa) einnig álitinn vera "maseeh", eða messías, og endurkomu hans til jarðar er beðið ásamt öðrum messíasi, Mahdi. Erkiengill. Erkiengillinn Mikael treður á Kölska. Erkiengill er hafinn yfir eða máttugri en venjulegir englar. Þeir birtast í mörgum trúarhefðum þar á meðal í zóróastratrú, gyðingdómi, kristni, og íslam. Orðið 'erkiengill' kemur af grísku orðunum "arche" (sá sem ræður eða upphaf) og "angelos" (sendiboði). Í gyðingdómi. Það er hvergi beinlínis talað um erkiengla í kanónískum textum hebreisku bilíunar (sem í kristnu samhengi samsvarar að mestu því sem kallað er Gamla testamentið). Englar eru reyndar einnig sjaldgjæfir nema í yngri textum eins og Daníel (9:21; 12:1). Elsta umtölun um erkiengla eru í Esrabók 4.36). Í rabbínískri hefð og Kabbala eru erkienglarnir oftast sjö að tölu: Mikael, Rafael, Gabríel, Úríel, Saríel, Ragúel, og Remíel. Í kristni. Nýja testamentið nefnir engla á fáum stöðum og erkiengla einungis á tveimur, Mikael í Júdasarbréfi 1.9, og í fyrsta Þessaloníkubréfi 4:16, þar sem segir að "(erkiengils) höfuðengils raust" muni hljóma við endurkomu Krists. Öfugt við það sem oft er haldið er Gabríel aldrei nefndur 'erkiengill' í Guðspjöllunum. Í seinni tíma kristinni hefð eru hins vegar þrír erkienglar: Mikael, Gabríel, Rafael (Úríel er stundum álitinn vera sjá fjórði). Einning er Satan á stundum álitinn fallinn erkiengill og er þá upprunalegt nafn hans Lúsifer. Sumir mótmælendur álíta einungis Mikael vera erkiengil vegna þess að hann er einn nefndur í Biblíunni. En yfirleitt hefur áhugi mótmælenda á erkienglum verð heldur lítill. Vottar Jehóva (sem af mörgum öðrum söfnuðum ekki teljast kristnir) trúa því að Jesús hafi verið erkiengillinn Mikael í endurbornu formi. Séð frá þessu sjónarhorni er Mikael fyrsta og merkasta sköpun Guðs. Í íslam. Í íslam eru erkienglarnir sjö að tölu: Mikael, Gabríel eða Jíbril (sem kom með Kóraninn til Múhammeðs), Azrael (engill dauðans), Ísrafel (erkiengillinn sem blæs í lúðurinn á dómsdegi), Malik (sem hefur umsjón með Helvíti) ásamt Munkar og Nakir (sem spyrja sálir hinna dauðu um líf þeirra fyrir dauðan). Hvorki Ísrafel né Azrael er nefndir í Kóraninum. Fylki Bandaríkjanna. Fylki Bandaríkjanna (einnig kölluð "sambandsríki" eða einungis "ríki") eru stjórnsýslueiningar sem skipta landinu í hluta. Fylkin eru 50 talsins og njóta þau nokkurs sjálfsstæðis í eigin efnum, hafa fylkisstjóra og eigin löggjöf sem þó má ekki stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Listi yfir fylki. Mynd:Map of USA with state names.svg||800px||center poly 643 371 666 452 621 458 621 473 606 468 604 374 Alabama poly 152 457 153 540 177 548 205 576 205 589 183 588 158 553 117 547 100 567 12 578 66 547 41 517 52 469 72 449 107 437 Alaska poly 132 396 190 434 229 441 245 325 161 309 157 326 148 326 140 347 151 364 Arizona poly 490 346 489 404 499 419 551 419 566 373 574 353 560 347 Arkansas poly 27 164 91 181 73 243 140 339 138 346 149 363 134 394 91 389 41 334 13 194 Kalifornía poly 257 235 369 248 364 331 247 320 Colorado poly 818 185 819 206 845 195 842 180 Connecticut poly 794 239 799 270 813 270 808 255 Delaware poly 731 453 776 545 757 583 739 584 714 520 688 472 663 485 624 471 624 460 666 454 666 460 Flórída poly 644 368 686 364 736 417 730 455 668 457 Georgía poly 219 507 216 552 259 588 339 590 343 557 292 508 Hawaii poly 169 48 154 107 161 116 145 140 137 190 226 206 236 157 206 154 200 127 189 131 192 105 175 72 182 50 Idaho poly 555 221 539 263 563 291 560 304 582 330 595 328 605 291 601 227 591 209 552 215 Illinois poly 603 229 602 312 631 305 650 284 644 222 Indiana poly 461 197 454 215 469 258 535 258 544 244 553 225 540 198 Iowa poly 368 268 361 333 488 336 488 291 481 285 484 277 471 269 Kansas poly 581 343 677 330 697 310 682 289 652 281 633 309 602 313 Kentucky poly 504 488 510 458 498 440 501 421 553 421 555 435 546 461 574 461 585 475 593 499 547 504 Louisiana poly 836 111 850 149 854 157 897 106 887 89 872 60 849 56 Maine poly 732 253 732 263 756 254 778 266 776 275 788 278 798 296 811 268 797 268 793 242 Maryland poly 816 170 817 186 849 180 857 187 878 189 878 171 854 160 Massachusetts poly 544 114 555 131 596 149 613 224 664 219 674 191 647 128 581 85 Michigan poly 448 79 456 143 453 147 461 156 461 196 541 196 541 186 513 168 510 150 520 126 556 96 483 86 478 71 Minnesota poly 568 376 603 373 606 472 585 473 573 459 546 459 556 427 555 415 Mississippi poly 470 259 471 269 486 288 488 345 566 344 561 353 571 353 582 334 559 305 562 294 536 261 Missouri poly 184 49 179 70 194 104 190 127 200 123 209 152 235 154 237 147 342 158 351 75 Montana poly 340 203 337 244 368 247 368 265 475 269 460 217 426 208 Nebraska poly 92 182 180 200 156 324 146 323 141 342 73 244 Nevada poly 829 114 825 168 852 160 835 109 New Hampshire poly 801 207 799 225 806 231 797 240 809 254 823 224 815 218 815 211 New Jersey poly 245 320 347 330 337 436 245 431 242 443 226 439 New Mexico poly 727 177 716 205 789 190 799 204 815 209 815 216 823 221 847 202 821 205 817 185 817 167 803 124 777 128 754 166 New York poly 706 328 666 366 716 357 748 359 768 375 817 333 803 309 Norður-Karólína poly 351 76 345 138 455 144 447 80 Norður-Dakóta poly 653 281 679 285 686 292 714 243 710 213 675 224 663 220 645 223 649 275 Ohio poly 347 331 488 337 494 407 430 397 397 388 397 347 345 345 Oklahoma poly 60 79 26 145 26 162 136 188 142 137 157 118 150 104 99 104 73 97 72 83 Oregon poly 708 210 716 255 791 240 804 230 797 223 799 205 788 191 Pennsylvanía poly 849 179 855 187 847 195 841 183 Rhode Island poly 686 363 738 418 765 376 749 361 716 356 Suður-Karólína poly 346 138 456 144 452 149 459 157 459 195 456 214 425 207 375 202 341 201 343 182 343 160 Suður-Dakóta poly 569 374 667 366 705 327 575 344 Tennessee poly 346 342 337 439 274 432 306 485 331 501 347 484 368 488 407 560 440 572 440 532 507 489 511 457 498 412 483 404 397 389 396 345 Texas poly 182 201 228 209 224 232 256 234 244 321 162 307 Utah poly 803 123 816 168 825 168 828 120 Vermont poly 698 310 677 331 803 308 789 280 775 276 778 267 765 258 753 258 731 277 726 304 Virginía poly 57 76 73 85 73 95 111 102 158 109 168 49 88 25 60 34 Washington poly 763 260 753 259 743 278 732 276 728 297 717 308 700 312 689 297 694 275 709 262 712 241 715 257 734 254 734 262 753 253 761 254 Vestur-Virginía poly 522 129 520 140 513 146 513 169 538 184 539 210 549 216 592 210 600 156 593 153 585 143 548 126 538 120 Wisconsin poly 239 148 223 232 337 244 343 157 Wyoming rect 883 272 953 290 Delaware rect 882 291 951 315 Maryland rect 675 33 785 60 New Hampshire rect 867 244 950 269 New Jersey rect 680 88 774 113 Massachusetts rect 871 222 955 243 Connecticut rect 858 340 953 361 Vestur-Virginía rect 727 63 780 86 Vermont rect 863 195 954 220 Rhode Island New Jersey. New Jersey er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Það liggur að New York í norðri, Pennsylvaníu í vestri, Delaware í vestri og suðri og Atlantshafi í austri. Flatarmál New Jersey er 22.608 ferkílómetrar. Fylkið er fjórða minnsta en þéttbýlasta fylki Bandaríkjanna. Í New Jersey búa um 8,5 milljónir manna. Höfuðborg fylkisins heitir Trenton en stærsta borgin er Newark. Stærri borgir (+ 100.000 íbúar). Þrátt fyrir mikinn íbúafjölda fylkisins og þéttbýli eru tiltölulega fáar stórborgir í New Jersey. Árið 2000 voru einungis fjórar borgir með íbúafjölda yfir 100.000. Árið 2004 var áætlað að Woodbridge hefði farið fram úr Edison í íbúafjölda og bæst hóp borga með yfir 100.000 íbúa. Aðrar borgir (59.999 -). "Eftirfarandi eru helstu borgir í New Jersey með undir 60.000 íbúa". New York-fylki. New York er ríki á austurströnd Bandaríkjanna. Ríkið liggur að Pennsylvaníu og New Jersey í suðri, Connecticut, Massachusetts og Vermont í austri, Kanada og Ontario-vatni í norðri og Kanada og Erie-vatni í vestri. Höfuðborg ríkissins er Albany en stærsta borgin er New York. Hún er jafnframt fjölmennasta borg Bandaríkjanna. Aðrar mikilvægar borgir eru Buffalo, Rochester, Syracuse, Ithaca, Yonkers, Binghamton og White Plains. Í ríkinu búa rúmlega 19 milljónir manna. Delaware (fylki). Delaware er fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Fylkið liggur að Maryland í suðri og vestri, Pennsylvaníu í norðri, og Delaware flóa og Atlantshafi í austri. Delaware fljót greinir að fylkin Delaware og New Jersey í norðaustri. Rhode Island er eina fylki Bandaríkjanna sem er minna en Delaware. Fylkishöfuðborgin er Dover en stærsta borgin er Wilmington. Í fylkinu búa tæplega 790 þúsund manns. Maryland. Maryland er fylki á mið-austurströnd Bandaríkjanna. Fylkishöfuðborgin er Annapolis en Baltimore er stærsta borgin. Maryland er fyrir neðan Mason-Dixon línuna og er talið suðurríki af Bandarísku ríkisstjórninni. Í fylkinu búa rúmlega 5,6 milljónir manna. Landafræði. Maryland er 32.133,2 ferkílómetrar og er þess vegna svipað stórt og Belgía. Það er áttunda minnsta ríki Bandaríkjana. Níunda minnsta ríki Bandaríkjana, Vestur-Virginía, er tæplega tvisvar sinnum stærra. Í Maryland er mjög fjölbreytt landslag og fylkið hefur þess vegna stundum lýst sem „smækkaðri mynd af Ameríku“. Það eru bæði sólstrandir á austurströndinni, lág mýri við flóann, skógar með eikum á Piedmont svæðinu, og furusvæði við fjöllin í vestrinu. Chesapeake Bay er stærsta vatnsvæði í Maryland. Maryland er staðsett suður við Pennsylvaníu, austur við Vestur-Virginíu, vestur við Delaware og Atlantshafið og norður við Virginíu. Washington, DC er staðsett á svæði sem var eitt sinn hluti af Maryland annars vegar og Virginíu hins vegar. Flestir íbúar Maryland búa í borgunum og úthverfunum við Washington, DC en einnig í og kringum stærstu borg Maryland, Baltimore. Önnur fjölmenn svæði í Maryland eru úthverfin Columbia í Howard County; Silver Spring, Rockville, og Gaithersburg í Montgomery County; Laurel, College Park, Greenbelt, Hyattsville, Landover, Clinton, Bowie, og Upper Marlboro í Prince George's County; Frederick í Frederick County; Hagerstown í Washington County; Waldorf í Charles County; Pikesville, Essex, og Towson í Baltimore County; og Glen Burnie og Hanover í Anne Arundel. Austur, suður, og vesturhlutar fylkisins eru ekki jafn fjölmenn, en þau hafa mörg borgir sem eru mikilvægar fylkisins, til dæmis Salisbury og Ocean City á Austurströnd, Lexington Park og Waldorf í Suður Maryland og Cumberland í Vestur Maryland. Virginía (fylki). Virginía (eða Virginíuríki'") ("Commonwealth of Virginia") er fylki í suðurhluta austarstrandar Bandaríkjanna. Virginía er 110.785 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg Virginíu heitir Richmond en stærsta borg fylkisins er Virginia Beach. Rúmlega 7,7 milljónir manns búa í Virginíu. Vestur-Virginía. Vestur-Virginía er fylki í Bandaríkjanna. Vestur-Virginía er 62.809 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg Vestur-Virginíu, sem er jafnframt stærsta borg fylkisins, heitir Charleston. Rúmlega 1,8 milljónir manns búa í Vestur-Virginíu. Rhode Island. "Kortið sýnir staðsetningu Rhode Island" Rhode Island er fylki á norðausturströnd Bandaríkjanna og er hluti af Nýja Englandi. Rhode Island er 4.005 ferkílómetrar að stærð og er minnsta fylki Bandaríkjanna. Rhode Island liggur að Massachusetts í norðri og austri, Connecticut í vestri og Atlantshafi suðri. Höfuðborg Rhode Island, sem er jafnframt stærsta borg fylkisins, heitir Providence. Tæpllega 1,1 milljón manns býr í Rhode Island. Indiana (fylki). Indiana er fylki í Bandaríkjunum. Indiana er 94.321 ferkílómetrar að stærð. Indiana liggur að Ohio í austri, Kentucky í suðri, Illinois í vestri og Michigan og Michigan-vatni í norðri. Höfuðborg fylkisins, sem er jafnframt stærsta borg þess, heitir Indianapolis. Rúmlega 6,1 milljón manns býr í Indiana. Eðli. Eðli er í heimspeki safn nauðsynlegra eiginleika sem eru saman nægjanlegt skilyrði til þess að eitthvað sé það sem það er. Til dæmis er eðli þríhyrninga það að hafa þrjú horn þannig að ef flötur hefur þrjú horn er hann þríhyrningur; með öðrum orðum er það nægjanlegt skilyrði þess að flötur sé þríhyringur að hann hafi þrjú horn. Ef flötur hefur hins vegar ekki þrjú horn getur hann ekki verið þríhyrningur; með öðrum orðum er það að hafa þrjú horn nauðsynlegt skilyrði þess að flötur sé þríhyrningur. Í örlítið víðari merkingu er stundum talað um þá eiginleika sem flestir hlutir af ákveðnu tagi hafa eða hafa alla jafnan frá náttúrunnar hendi sem eðli þeirra. Til dæmis mætti segja að það sé eðli hunda að hafa fjóra fætur. Samt sem áður er það að hafa fjóra fætur ekki nauðsynlegt skilyrði þess að vera hundur enda geta hundar misst fót án þess að hætta að vera hundar. Eðlishugtakið er mikilvægt í heimspeki Aristótelesar og í skólaspeki miðalda. Á 20. öld sætti eðlishugtakið mikilli gagnrýni úr ýmsum áttum í heimspeki, m.a. frá jafn ólíkum heimspekingum og Jean-Paul Sartre og Bertrand Russell. Ludwig Wittgenstein. Ludwig Josef Johann Wittgenstein (26. apríl 1889 – 29. apríl 1951) var austurrískur heimspekingur sem var brautryðjandi á ýmsum sviðum nútímaheimspeki, einkum í rökfræði, málspeki og hugspeki. Hann er af mörgum talinn einn áhrifamesti og merkasti heimspekingur 20. aldar. Enda þótt ýmsar minnisbækur, seðlar og fyrirlestrar hafi verið gefnir út að honum látnum lét Wittgenstein þó einungis gefa út eina bók eftir sig meðan hann var á lífi — "Rökfræðilega ritgerð um heimspeki" ("Logisch-Philosophische Abhandlung" eða "Tractatus Logico-Philosophicus") árið 1921. Elstu verk Wittgensteins voru undir miklum áhrifum frá Arthur Schopenhauer og hinni nýju rökfræði sem Bertrand Russell og Gottlob Frege höfðu skapað. Þegar "Tractatus" (eins og bókin er oftast kölluð) kom út hafði hún veruleg áhrif á heimspekinga Vínarhringsins. Wittgenstein taldi sig aftur á móti ekki tilheyra þeim skóla hugsunar og sagði að rökfræðilegu raunhyggjumennirnir hefðu misskilið "Tractatus" illa. Þegar Wittgenstein hafði lokið við "Tractatus" taldi hann sig hafa leyst öll heimspekileg vandamál og sagði skilið við ástundun heimspekinnar. Hann fluttist til Austurríkis og gerðist barnaskólakennari, garðyrkjumaður og arkítekt en gekk í klaustur um tíma. Árið 1929 sneri hann hins vegar aftur til Cambridge. Hann hlaut doktorsgráðu fyrir "Tractatus" og tók við kennslustöðu í Cambridge. Hann hafnaði eða endurskoðaði mikið af eldri verkum sínum. Hann þróaði nýja aðferð við að stunda heimspeki og nýjan skilning á eðli tungumáls í seinna stórvirki sínu "Rannsóknum í heimspeki" ("Philosophische Untersuchungen"), sem kom út að honum látnum. Bæði eldri og yngri verk hans hafa haft gríðarleg áhrif á sögu rökgreiningarheimspeki. Meðal fyrrverandi samstarfsmanna og nemenda Wittgensteins sem héldu áfram að stunda heimspeki í anda aðferðar Wittgensteins eru Gilbert Ryle, Friedrich Waismann, Norman Malcolm, G.E.M. Anscombe, Rush Rhees, Georg Henrik von Wright, og Peter Geach. Meðal heimspekinga samtímans sem eru undir miklum áhrifum frá Wittgenstein má nefna Michael Dummett, Peter Hacker, Stanley Cavell, Cora Diamond og James F. Conant. Heimspeki. Enda þótt margar af minnisbókum Wittgensteins, ritgerðum hans, fyrirlestrum og ókláruðum verkum hafi komið út að honum látnum lét hann sjálfur frá sér fara um ævina einungis eina bók um heimspeki, "Tractatus Logico-Philosophicus" eða "Rökfræðilega ritgerð um heimspeki" sem kom út árið 1921. Í elstu ritum Wittgensteins má greina áhrif frá þýska heimspekingnum Arthur Schopenhauer og nýju rökfræðinni sem Bertrand Russell og Gottlob Frege höfðu þróað. Hann var einnig undir áhrifum frá þýska heimspekingnum Immanuel Kant. Þegar "Rökfræðileg ritgerð um heimspeki" kom út hafði hún strax mikil áhrif á Vínarhringinn og rökfræðilega raunhyggju. En Wittgenstein taldi sig ekki tilheyra þeim skóla hugsunar og og sagði að rökfræðileg raunhyggja fæli í sér alvarlegan misskilning á kenningunni í "Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki". Wittgenstein taldi að í "Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki" hefði honum tekist að leysa allar gátur heimspekinnar og gaf því heimspekina upp á bátinn. Hann menntaði sig sem barnaskólakennari og réði sig í vinnu sem slíkur eftir að hafa einnig unnið sem garðyrkjumaður í klaustri. Hann reyndi einnig fyrir sér sem arkitekt og teiknaði hús fyrir systur sína í Vínarborg. Húsið stendur enn. Árið 1929 sneri hann hins vegar aftur til Cambridge, þar sem honum var veitt doktorsgráða fyrir "Rökfræðilega ritgerð um heimspeki" og tók hann jafnóðum við kennslustöðu. Hann tók til gagngerrar endurskoðunar fyrri heimspeki sína og þróaði nýja heimspekilega aðferð til að fást við og skilja tungumálið. Þetta leiddi til annars meginverks hans "Rannsókna í heimspeki", sem kom út að honum látnum. Áhrif. Bæði yngri verk Wittgensteins og eldri verk hans hafa reynst gríðarlega áhrifamikil á þróun rökgreiningarheimspekinnar. Meðal fyrrum nemenda og samstarfsmanna Wittgensteins má nefna Gilbert Ryle, Friedrich Waismann, Norman Malcolm, G.E.M. Anscombe, Rush Rhees, Georg Henrik von Wright og Peter Geach. Margir heimspekingar samtímans eru undir miklum áhrifum frá Wittgenstein, þar á meðal Michael Dummett, Donald Davidson, P.M.S. Hacker, John R. Searle, Saul Kripke, John McDowell, Hilary Putnam, Anthony Quinton, P.F. Strawson, Paul Horwich, Colin McGinn, Daniel Dennett, Richard Rorty, D.Z. Phillips, Stanley Cavell, Cora Diamond, James F. Conant og Jean-François Lyotard. Ásamt öðrum hafa Conant, Diamond og Cavell sett fram túlkun á heimspeki Wittgensteins sem er stundum nefnd nýwittgensteinsk heimspeki. Eigi að síður er varla hægt að segja að Wittgenstein hafi verið upphasmaður „skóla“ eða hefðar í venjulegum skilningi. Flestir þeir sem nefndir hafa verið hér að ofan eru ósammála um fleira en þeir eru sammála. Wittgenstein hefur einnig haft þó nokkur áhrif á félagsvísindin. Meðal sálfræðinga sem Witgenstein hefur haft áhrif á má nefna Fred Newman, Lois Holzman, Brian J. Mistler og John Morss. Bandaríski mannfræðingurinn Clifford Geertz byggði þróun sína á máltáknhyggju að miklu leyti á heimspeki Wittgensteins. Áhrifa Wittgensteins gætir mun víðar en í heimspeki og má jafnvel greina í listum. Bandaríska tónskáldið Steve Reich hefur tvisvar samið tónlist við tilvitnanir úr verkum Wittgensteins. Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Ethan Cohen skrifaði lokaritgerð um heimspeki Wittgensteins við Princeton-háskóla. Tenglar. Wittgenstein, Ludwig Wittgenstein, Ludwig Hessíska. Hessíska (þýska, hessíska: "Hessisch") er þýsk mállýska sem töluð er í sambandslandinu Hessen í Þýskalandi. Oftast getur þýskumælandi fólk skilið hessísku, en þó er mállýskan sumstaðar svo sterk að aðrir en innfæddir geta ekki skilið hana. Buklari. Buklari er lítill kringlóttur skjöldur sem þekkist frá 13.öld. Voru slíkir skyldir nokkuð algengir á Sturlungaöld, ásamt eldri og stærri skjöldum. Í skylmingahandritinu MS I.33 er fjallað um notkun þeirra ásamt sverðum. Þeir voru m.a. notaður til að þjálfa riddarasveina. Emeritus. Emeritus er nafnbót sem prófessorar, biskupar og aðrir fagmenn fá til við titilinn sinn þegar að þeir láta af störfum eða minnka mjög við umfang starfa sinna sökum aldurs eða veikinda. Andrew Ridgeley. Andrew Ridgeley (fæddur 26. janúar, 1963 í Bushey, Hertfordshire, Englandi) var ásamt George Michael í breska dúetnum Wham!. Árið 1990 eftir að Andrew hætti í Wham! gaf hann út plötuna "Son of Albert". Platan seldist það illa að Sony rifti plötusamning hans. Hann býr núna í Cornwall í Englandi ásamt kærustu sinni Keren Woodward sem var meðlimur í popbandinu Bananarama. Papey. Papey er stór eyja við austurströnd Íslands og tilheyrir Djúpavogshreppi. Eyjan er 2,0 ferkílómetrar að stærð, og er hæsti punktur hennar í um 58 metrar yfir sjávarmáli. Búið var í Papey frá landnámsöld og fram til ársins 1966 og þar er enn íbúðarhús, viti og kirkja. Stór lundabyggð er í Papey. Í eynni hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð síðan 1998. Papar. Í Landnámabókum er Papa getið, og að fleiri hlutir hafi fundist eftir þá "þeir, er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn". Ennfremur er þess getið, að gripir þessir hafi fundist í "Papey austur og í Papýli" Einnig er þess getið í Landnámu, í tengslum við vetursetu Ingólfs Arnarsonar á Geithellum í Álftafirði, að um vorið hafi konur gengið upp í fjall og séð reyk úti í Papey. Þegar farið var að athuga um reykinn, voru þar papar fyrir. Papey er því einn þeirra staða sem talið er að papar hafi búið. Í Papey má finna mörg örnefni sem benda til veru papa þar, s.s. Papatættur og Írskuhólar. Engar minjar hafa þó fundist í eynni sem benda til veru papa þar, þrátt fyrir að nokkuð hafi verið leitað að ummerkjum um veru þeirra í Papey og nágrenni Djúpavogs. Dr. Kristján Eldjárn var við rannsóknir í Papey, einkum á árunum milli 1970 og 1980, án þess að finna ummerki um veru Papa þar. Hins vegar fann hann rústir bæja í Papey sem ber öll merki norrænna manna sem þar munu hafa verið á landnámsöld. Frjáls markaður. Frjáls markaður er markaður þar sem öll viðskipti fara fram án þvingunar frá þriðja aðila. Hugtakið getur átt jafnt við einföld viðskipti líkt og að greiða með peningum fyrir banana sem og yfir heilt efnahagskerfi. Engin þjóð hefur fullkomlega frjálsan markað, samfélagið þarfnast tekna og skattar á viðskipti eru algeng tekjulind. Kolbeinsey. Kolbeinsey er lítill klettur, leifar af eldfjallaeyju, 105 km norðan við meginland Íslands og 74 km norðvestan við Grímsey og langt norðan við heimskautsbaug. Eyjan er nyrsti punktur Íslands. Hún lætur hratt undan ágangi sjávar og hefur verið styrkt með steinsteypu vegna mikilvægis hennar við skilgreiningu landhelgi Íslands. Engu að síður má ætla að hún hverfi í hafið innan fárra ára enda hefur viðleitni til að styrkja eyjuna verið hætt vegna samninga um miðlínu við Dani. Eyjan var fyrst mæld árið 1616 af Hvanndalabræðrum. Þá var hún sögð 100 metra breið og 700 metra löng. Árið 1903 var hún helmingi minni en það. Árið 2001 var hún aðeins 90 m² að stærð. Eyjan er allt að átta metrar að hæð yfir sjávarmáli. Þar var þyrlupallur en í mars 2006 kom í ljós að helmingur hans var hruninn. Eyjunnar er fyrst getið í "Landnámu" þar sem talað er um siglingaleiðina til Grænlands. Hún er nefnd eftir Kolbeini Sigmundarsyni frá Kolbeinsdal í Skagafirði sem frá er sagt í "Svarfdæla sögu". Hann er sagður hafa brotið skip sitt við Kolbeinsey og farist þar ásamt mönnum sínum. Litlar heimildir eru um eldsumbrot á Kolbeinseyjarsvæðinu. Annálabrot frá Skálholti segja þó eftirfarandi árið 1372: "Sást úr Fljótum, og enn víðara annars staðar fyrir norðan land, nýkomið upp land út af Grímsey til útnorðurs". Talið er að í þessu gosi hafi myndast skammlíf eyja suður af Kolbeinsey. Nú er þar grunnsævi sem sjómenn þekkja undir nafninu Hóll. Skyr. Skyr er ferskur súrostur sem unninn er úr undanrennu. Skyr hefur verið gert á Íslandi frá landnámsöld en þekktist áður fyrr einnig í nágrannalöndunum. Mysa verður til við framleiðslu skyrs. Saga. Getið er um skyr í fornsögum, svo sem Egils sögu og Grettis sögu, en óvíst er hvort það var svipað skyrinu sem þekkist í dag. Bæði er talað um að skyr sé drukkið, og hefur það þá sennilega verið ósíað, og einnig um skyr í sekkjum sem hefur þá verið síað. Líklega hefur það verið mjög breytilegt á milli heimila, enda erfitt að stýra aðstæðum við framleiðsluna og skyrþéttirinn hefur verið mismunandi. Sigurður Pétursson gerlafræðingur rannsakaði skyrþétta frá mörgum framleiðendum á 4. áratug 20. aldar og kom þá í ljós að örveruflóran var breytileg frá einum bæ til annars. Skyr þekkist nú ekki á Norðurlöndum þótt orðið skyr sé þekkt en þýsk-miðevrópski súrosturinn kvarg er býsna líkur skyri. Í Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi er nú farið að framleiða skyr. en það er sýrt með jógúrtgerlum en ekki skyrgerlum en hið sama er raunar að segja um töluverðan hluta af íslensku framleiðslunni nú á tímum. Skyrframleiðsla fyrr og nú. Þegar skyr er búið til á hefðbundinn hátt er undanrenna hituð nálægt suðumarki en með því verður hún nánast gerilsneydd. Undanrennan er því næst kæld niður í 37°C og þétti bætt út í, en það er skyr úr fyrri framleiðslu og og í því eru bæði sýrumyndandi bakteríur og gersveppir. Ostahleypi er oft bætt út í til að skyrið verði þéttara en hann er þó ekki nauðsynlegur. Hleypirinn var áður fyrr gjarna fenginn úr kálfsmögum. Að þessu loknu er skyrið látið hlaupa (gerjast og þykkna), sem oftast tekur nokkrar klukkustundir, og síðan er það kælt, skorið í það og það látið standa í sigti svo að mysan renni af. Þegar skyrgerð færðist af heimilum inn í mjólkurbú tók framleiðslan miklum breytingum. Upphaflega voru reyndar notaðar svipaðar aðferðir og í heimahúsum en fljótlega voru teknar í notkun stórvirkar vélar til að flýta fyrir síuninni, sem er tímafrekasti hluti framleiðslunnar. Skyrtromlur voru teknar í notkun upp úr 1940 og var skyrið þá sett í snúningstromlur sem skildu mysuna frá. Síðar var farið að nota skilvindur en nú eru yfirleitt notaðar þrýstisíur til að skilja mysuna frá með svonefndri örsíun og er skyrið þá ekki látið hlaupa fyrr en búið er að dæla því í dósir. Þessi aðferð skilur eftir mun meira af mysupróteinum í skyrinu en eldri aðferðir. Langmestur hluti skyrframleiðslunnar er nú unninn með þessum hætti. Í stað hefðbundins skyrþéttis með skyrgerlum er sumstaðar farið að nota staðlaða, innflutta gerlaflóru með jógúrtgerlum og á það meðal annars við um skyr.is-vörulínuna frá MS, svo og það skyr sem framleitt er erlendis. Mjólkursýrubakteríurnar eru reyndar þær sömu, "Streptococcus thermophilus" og "Lactobacillus bulgaricus", en gersveppina, sem ráða miklu um bragðið, vantar. Áður var skyr selt óhrært og var þá þykkt, svo hægt var að skera það eða mylja, og var oftast pakkað í pappír. Það var svo hrært með mjólk og sykri. Nú er nær allt skyr selt í dósum og mikið af því bragðbætt á ýmsan hátt. Enn er skyr þó framleitt á hefðbundinn hátt á nokkrum sveitabæjum, oftast aðeins til heimaneyslu en á Erpsstöðum í Dalasýslu er þó framleitt til sölu á markaði. Giljagaur. Giljagaur er nafnið á öðrum jólasveininum sem kemur til manna, þann 13. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Giljagaur var talinn fela sig í fjósinu og fleyta froðuna ofan af mjólkurfötunum þegar enginn sá til. Stúfur. Stúfur er nafn hins þriðja jólasveins sem kemur til manna, þann 14. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Stúfur var minnsti jólasveinninn eins og nafnið bendir til. Hann nældi sér í pönnur og át agnirnar sem brunnið höfðu fastar. Stekkjastaur. Stekkjarstaur nefnist jólasveinninn sem kemur fyrstur til manna, þann 12. desember. Hann er fyrstur samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Stekkjarstaur var sagður sjúga mjólk úr sauðkindum. Hann hafði staurfætur á báðum fótum svo það gekk heldur erfiðlega. Stekkur var sérstök gerð fjárréttar og þaðan fékk Stekkjarstaur nafnið. Lómagnúpur. Lómagnúpur er 767 m hár gnúpur á Skeiðarársandi. Glymur. Glymur er næsthæsti foss Íslands, alls 198 metra hár. Hann er í Botnsá í Botnsdal í Hvalfirði. Botnsá kemur úr Hvalvatni en það er hraunstíflað vatn og annað dýpsta vatn landsins, um 160 m djúpt. Við botn dalsins er móbergsfjallið Hvalfell er hlóðst upp í gosi undir jökli á ísöld og stíflaði dalinn sem áður var mun lengri svo að þar varð til djúp kvos og þar er Hvalvatn. Fara þarf með gát þegar gengið er að fossinum, en að honum liggja þrjár gönguleiðir. Erfitt er að sjá allan fossinn frá gilbörmunum. Mun betra útsýni fæst ef gengið er upp með ánni að suðaustan og má þar sjá allan fossinn af tveimur bergsnösum, en leiðin er ekki fyrir lofthrædda. Sjálf gangan tekur um 2 klst. Sögur og sagnir. Nafn fossins kemur af þjóðsögu er segir að álfkona hafi breytt manni sem sveik hana í tryggðum í hvalinn "Rauðhöfða". Þá hafi Rauðhöfði tekið að granda bátum í Faxaflóa. Í Hvalfirði fórust með einum bátnum tveir synir prestsins í Saurbæ. Þá hafi presturinn, sem orðinn var gamall og blindur, gengið niður að sjávarmáli og tyllt staf sínum í hafið. Rauðhöfði kom syndandi og teymdi presturinn hann upp eftir Botnsá. Þegar komið var í gljúfrið þar sem fossinn dettur á að hafa verið svo þröngt að jörðin hafi hrist og drunur hljómað, og af því dregur Glymur nafn sitt. Rauðhöfði endaði í Hvalvatni og er sagt að hann hafi sprungið af áreynslunni. Quidditch. Quidditch (borið fram "kúidditsj") er tveggja liða galdramannaíþrótt á kústum sem sagt er frá í bókunum um galdrastrákinn Harry Potter. Í Quidditchliði eru 7 leikmenn; 1 gæslumaður, 3 sóknarmenn, 2 varnarmenn og 1 leitari. Hlutverk gæslumannsins er að verja mörkin. Sóknarmennirnir reyna að ná tromlunni af andstæðingum og skora með henni mörk. Varnarmennirnir bera stórar kylfur og berja í burtu rotara með þeim. Leitararnir reyna að finna gullnu eldinguna og ná henni. Harry Potter er leitari. Mörkin eru, eins og í raunverulegum boltaíþróttum, við sitt hvorn enda leikvangsins. Þau eru eins og risastór sápukúlublástursrör, þrjú við hvorn enda. Ef tromlunni er skotið í gegnum hringinn á einhverju markanna fær liðið sem skoraði 10 stig. Í Quidditch eru fjórir boltar: ein tromla, tveir rotarar og svo gullna eldingin. Tromlan er notuð til þess að skora mörk með. Rotararnir fljúga um og reyna að rekast á (og jafnvel rota) leikmenn og gullna eldingin flýgur um og henni þarf að ná til að leiknum ljúki. Þá fær það lið sem nær henni 150 stig. Á Stóra-Bretlandi eru 13 Quidditchlið, m.a. Falmouth Falcons-Falmouth Fálkarnir, Pride of Portree-Stolt portretanna og Puddlemere United. Örfirisey. Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni. Örfirisey (einnig þekkt sem Örfirsey og áður Örfærisey, Öffursey, Örfursey og Effirsey) er fyrrverandi örfirisey við Kollafjörð sem nú hefur verið tengd með landfyllingu við meginland Reykjavíkur. Áður fyrr var í Örfirisey aðsetur kaupmanna. Færeyska ættarnafnið Effersöe er dregið af nafni Örfiriseyjar. Norðvesturhorn eyjarinnar/nessins heitir Reykjanes. Fyrr á tímum var ræktað korn og veiddur selur í Örfirisey. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 er kveðið á um að Jónskirkja í Vík eigi landsælding (eitt sáld, þ.e. um 100 kg útsæðiskorns) og selalátur í Örfirisey. Olíubirgðastöðin í Örfirisey. Í Örfirisey er olíubirgðastöð en árið 1950 hóf Olíufélagið hf að byggja þar olíubirgðageyma. Árið 1970 fékk Skeljungur hf úthlutað lóð við hlið lóðar Olíufélagsins hf og hafa olíufélögin samstarf þar hvað varðar öryggismál og rekstur löndunarlagna. Árið 1995 voru þrjár olíubirgðastöðvar starfræktar í Reykjavík: stöðin í Örfirisey, birgðastöð Skeljungs hf í Skerjafirði og olíubirgðastöð Olíuverzlunar Íslands hf í Laugarnesi. Á því ári var hafinn undirbúningur að sameiningu reksturs olíubirgðastöðva Olíudreifingar ehf í Örfirisey og voru þrír geymar fluttir úr stöðinni í Laugarnesi í Örfirisey í þeim tilgangi, en Laugarnesstöðin var tekin úr notkun 1997. Árið 1998 seldi Skeljungur lóð félagsins í Skerjafirði og síðan þá er Örfirisey eini staðurinn í höfuðborginni sem olíubirgðastöðvar eru starfræktar. Árið 1986 var fyrsti hluti Eyjargarðs byggður og lestun strandflutningaskipa flutt þangað frá olíubryggju við Grandagarð því ekki þótti ásættanlegt að bensíni væri lestað í skip í miðri fiskiskipahöfn. Á svipað leyti var geymslu á bensíni í olíubirgðastöðinni Hafnarfirði og olíubirgðastöð Skeljungs í Skerjafirði hætt. Í upphafi var eldsneyti landað í stöðina gegnum neðansjávarleiðslur þar sem innflutningsskip lágu við legufæri norðan við stöðina en með tilkomu Eyjargarðs II sem Reykjavíkurhöfn byggði geta innflutningsskip allt að 45.000 DWT lagst að bryggju á öruggan hátt. Með þeirri framkvæmd jókst öryggi olíuinnflutnings í Örfirisey og var olíuinnflutningur til Reykjavíkur sameinaður á einum stað. Lagnir og annar búnaður á Eyjargarði er sameign Olíudreifingar ehf og Skeljungs. Bygging Eyjargarðs II fór í umhverfismat samkvæmt þágildandi lögum og var fyrsta framkvæmdin sem fór í gegnum slíkt mat. Umsagnaraðilar í umhverfismati töldu að bygging garðsins væri til bóta fyrir umhverfismál olíulöndunnar í Reykjavík. Milljón. Milljón er tölunafnorð sem er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000, sem 106, eða sem þúsund þúsund. Sjá einnig umfjöllun um stórar tölur. Landsfjórðungur. Landsfjórðungar voru fjögur stjórnsýsluumdæmi sem Íslandi var skipt í árið 965 vegna þinghalds (fjórðungsþing) og dóma (fjórðungsdómar) og skyldu sakaraðilar eiga sama sóknarþing ella skyldi málið flutt á Alþingi. Í hverjum fjórðungi voru þrjú vorþing nema í Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur. Að auki voru þrjú goðorð í hverjum fjórðungi. Eftir 1271 voru lögmenn settir yfir hvern fjórðung, yfirleitt einn norðan og vestan og annar sunnan og austan, en fyrir kom að einn lögmaður var settur yfir hvern fjórðung. Hólabiskupsdæmi var látið ná yfir Norðlendingafjórðung frá stofnun þess 1106, en Skálholtsbiskupsdæmi yfir hina þrjá. Á 18. öld voru fjórðungarnir gerðir að læknisumdæmum (fjórðungslæknir). Í lögum um framboð og kjör forseta Íslands er í þriðju grein áskilið að frambjóðendur safni vissum fjölda meðmælenda í hverjum landsfjórðungi í samræmi við fjölda kjósenda þar. Þetta ákvæði hefur staðið óbreytt frá setningu laganna. Í auglýsingu forsætisráðuneytis um framboð og kjör forseta Íslands frá 26. mars 2008 eru landsfjórðungarnir skilgreindir útfrá núverandi skipun sveitarfélaga. Jóhannes úr Kötlum. Jóhannes úr Kötlum (Jóhannes Bjarni Jónasson) (4. nóvember 1899 - 27. apríl 1972) var rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður. Jóhannes samdi hvortveggja bundin ljóð og prósaljóð, sem og nokkrar skáldsögur. Æviferill. Jóhannes fæddist að Goddastöðum í Laxárdal í Dölum en ólst upp frá sex mánaða aldri í Ljárskógaseli í sömu sveit. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir. Skammt frá Ljárskógaseli rennur áin Fáskrúð og þar eru svonefndir Katlar, fossar, hyljir og klettar, þar sem Jóhannes lék sér mikið í bernsku. Þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína kenndi hann sig við þetta svæði og nefndi sig Jóhannes úr Kötlum. Hann stundaði nám við lýðskólann í Hjarðarholti á árunum 1914 - 1916. Jóhannes tók kennarapróf árið 1921 og stundaði kennslu við ýmsa skóla í Dalasýslu frá 1917 til 1932. Þá flutti hann til Reykjavíkur og kenndi einn vetur við Austurbæjarskólann en einbeitti sér síðan að ritstörfum og ritstjórn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hveragerði, en fluttist aftur til Reykjavíkur 1959 og bjó þar til æviloka. Hann var formaður Félags byltingarsinnaðra rithöfunda 1935 til 1938. Dvaldist sumurin 1939 og 1940 á Kili sem eftirlitsmaður sauðfjársjúkdómanefndar. Jóhannes var virkur í starfi Sósíalistaflokksins og var alþingismaður Reykvíkinga 1941. Þá var hann umsjónarmaður við Skagfjörðsskála Ferðafélags Íslands í Þórsmörk á sumrum 1955 til 1962. Jóhannes kvæntist 24. júní 1930 Hróðnýju Einarsdóttur (12. maí 1908 – 6. september 2009). Börn þeirra voru Svanur (1929), Inga Dóra (1940) og Þóra (1948). Skáldaferill. Jóhannes úr Kötlum var eitt helsta skáld sinnar samtíðar og mjög afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja 20 ljóðabækur og 5 skáldsögur. Hann þýddi fjölda bóka, ritaði greinar í blöð og tímarit og flutti erindi um stjórnmál og menningarmál. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1926 og nefndist "Bí, bí og blaka" og sú síðasta, "Ný og nið", kom út 1970. Ljóð Jóhannesar eru mjög fjölbreytt að efni og formi, allt frá barnaljóðum, baráttuljóðum og ættjarðarljóðum í hefðbundnum stíl til módernisma. Náttúran á sterk ítök í ljóðum hans og er oft nátengd tilfinningum og lífsviðhorfum Jóhannesar. Hann var alls staðar þátttakandi, hafði ríka réttlætiskennd og var einarður í skoðunum. Viðurkenningar. Jóhannes úr Kötlum hlaut 2. verðlaun fyrir hátíðarljóð sín á Alþingishátíðinni 1930 og 1. verðlaun ásamt Huldu fyrir lýðveldishátíðarljóð sitt 1944. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs af Íslands hálfu 1966 fyrir bókina "Tregaslag". Hann hlaut Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun gagnrýnenda dagblaðanna, árið 1971 fyrir bókina "Ný og nið", en sú bók var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1973.. Jóhannes úr Kötlum var heiðursfélagi Rithöfundafélags Íslands. Jólin koma. Jólin koma er ljóðabók eða ljóðakver eftir Jóhannes úr Kötlum, sem kom fyrst út árið 1932. Í bókinni, sem er 32 blaðsíður, eru ljóð ætluð börnum, meðal annars ljóðið "Jólasveinarnir", þar sem Jóhannes lýsir íslensku jólasveinunum þrettán. Með þessu ljóði má segja að hann hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna og þá röð sem jólasveinarnir fylgja þegar þeir halda til manna. Bókin var myndskreytt af Tryggva Magnússyni og teikningar hans af íslensku jólasveinunum höfðu sitt að segja um hvernig fólk sá þá fyrir sér á fyrri hluta 20. aldar. Í kverinu eru meðal annars einnig kvæði um Grýlu og jólaköttinn. Ljóðabókin "Jólin koma" hefur oftsinnis verið endurprentuð óbreytt frá upphafi og árið 2009 kom 26. prentunin út. Upphaflega var það Þórhallur Bjarnarson sem gaf kverið út en Heimskringla tók við útgáfunni 1968 og frá 1979 hefur Mál og menning verið útgefandinn. Milgramtilraunirnar. Uppsetning MilgramtilraunannaMilgramtilraunirnar eru tilraunir á hlýðni og undirgefni sem gerðar voru undir stjórn sálfræðingsins Stanley Milgram á sjöunda áratug 20. aldar. Milgramtilraunirnar eru án efa á meðal þekktustu rannsókna í sálfræði fyrr og síðar. Þótt mörgum finnist þær siðferðislega rangar er mikilvægi þeirra í félagssálfræði óumdeilt. Í Milgramtilraununum áttu þátttakendur að gefa öðru fólki raflost að áeggjan rannsakandans (í raun var þó ekkert raflost gefið). Fjölmargir þátttakendur voru tilbúnir til að ganga alla leið þótt þeim væri það auðsjáanlega ekki ljúft. Ferskeytla. Ferskeytla getur annaðhvort átt við um tiltekinn bragarhátt, eða um ljóð sem samið er samkvæmt reglum þess bragarháttar. Bragarháttur ferskeytlunnar er einn vinsælasti íslenski bragarhátturinn. Hún samanstendur af fjórum víxlrímuðum línum þar sem fyrsta og þriðja lína skulu vera stýfðar en önnur og fjórða tvíliðir. Fyrsta og þriðja línan samanstanda af fjórum bragliðum en önnur og fjórða af þremur. Til að tryggja rétta stuðlasetningu verður að vera stuðull í þriðja braglið fyrstu og þriðju línu. Atli (ritverk). Atli var prentuð í Hrappseyrar-prentsmiðju og gefin þar út árið 1780 Atli sem heitir fullu nafni "Atli, eða ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn: helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða med andsvari gamals bónda" er leiðarvísir fyrir bændur um rétta breytni í búskaparmálum eftir séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal. Ritið kom fyrst út árið 1780 og var prentað í Hrappseyjarprentsmiðju af Guðmundi Ólafssyni. Síðan þá hefur það komið út fjórum sinnum, síðast í ljósritaðri útgáfu frumútgáfu árið 1948 á vegum Búnaðarfélags Íslands. Fljótlega eftir útgáfu sína var ritinu dreift endurgjaldslaust til íslenskra bændra fyrir tilstilli danakonungs. Það var gert til að auka menntun alþýðunnar og því konungur vildi auka afköst íslenskra bænda. Þetta vakti mikla lukku og því verkið þótti ekki bara fræðandi heldur hin messta skemmtun. Því var algengt allt fram á 19. öld að lesið væri upp úr því á kvöldvökum til afþreyingar. Nánast allt ritið er á samtalsformi eins og oft tíðkaðist um kennslubækur fyrr á tímum. Þar ræða saman hinn fávísi Atli og einstaklingur sem einungis er titlaður bóndi. Atli er að stíga sín fyrstu skref í búskap og fræðir reynslumikill bóndinn hann um hvernig reka skuli gott bú. Hliðstætt Atla er ritið Arnbjörg eftir sama höfund en það rit kennir konum hvernig styðja skuli manninnn sinn við bústörfin, hvernig eigi að ala upp börnin og ýmislegt fleira sem lýtur að innanbæjarbúsýslu. Úr Atla. Hér er gripið niður í 13. kafla Atla þar sem Atli er að fá bakþanka eftir að hafa verið kennt að reka bú með sæmd. Þvörusleikir. Þvörusleikir er fjórði jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 15. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Þvörusleiki þótt afskaplega gott að sleikja þvörur og stalst inn í eldhús þegar færi var á til að næla sér í þær. Þvara var stöng með blaði sem notuð var til að hræra í pottum eins og sleif er notuð nú á dögum. Pottaskefill. Pottaskefill, einnig nefndur Pottasleikir, er fimmti jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 16. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Pottaskefill skóf og sleikti í sig skófirnar innan úr pottunum. Askasleikir. Askasleikir er sjötti jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 17. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Þegar askarnir voru settir fyrir hunda og ketti til að sleikja var Askasleikir snöggur að ná í þá á undan. Hurðaskellir. Hurðaskellir er sjöundi jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 18. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Hurðaskellir var mikill ólátabelgur og skellti hurðum svo að fólk hrökk upp úr fastasvefni. Skyrgámur. Skyrgámur (eldra heiti: Skyrjarmur) er áttundi jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 19. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Skyrgámi þótti skyr afskaplega gott og stalst gjarnan í skyrtunnuna og hámaði í sig þangað til hann stóð á blístri. Bjúgnakrækir. Bjúgnakrækir er níundi jólasveinninn. Hann kemur til manna þann 20. desember samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Bjúgnakrækir var fimur að klifra og sat gjarnan upp í ráfri eldhúsa og graðgaði í sig bjúgu. Gluggagægir. Gluggagægir er tíundi jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 21. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Gluggagægir lagðist á glugga til að gægjast inn. Ef hann sá þar eitthvað eigulegt reyndi hann að krækja sér í það. Gáttaþefur. Gáttaþefur er ellefti jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 22. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Gáttaþefur hafði mjög stórt nef og fann ilminn af laufabrauði langt upp á heiðar og lokkaði það hann til bæja. Ketkrókur. Ketkrókur er tólfti jólasveinninn kallaður sem kemur til manna, þann 23. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Ketkrókur kom á Þorláksmessu til bæja og reyndi þá að ná sér í hangikjötslæri gegnum strompinn. Kertasníkir. Kertasníkir er þrettándi jólasveinninn, og sá síðasti kallaður sem kemur til manna, þann 24. desember, samkvæmt þeirri röð sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862. Kertasníkir kom á aðfangadag og elti börnin til að reyna að ná af þeim tólgarkertunum. Þótti honum þau hið mesta góðgæti. Vísan virðist þó rugla einhverja í ríminu þegar kemur að Kertasníki þar sem hann virðist koma að kvöldi aðfangadags. Um hann segir í vísunum „ef ekki kom hann síðastur, á aðfangadagskvöld.“ „Af þessu [vísunni] hafa rökvís börn dregið þá ályktun, að allir jólasveinar komi á kvöldin. Þetta ber hinsvegar svo að skilja, að Kertasníkir komi að jafnaði eldsnemma morguns á aðfangadag eins og bræður hans, nema tíðin sé mjög köld og mikil ófærð svo hann geti ekki komist alla leið fyrr en um kvöldið“ (bls. 104). Jólakötturinn. Jólakötturinn er óvættur í íslenskum þjóðsögum og er húsdýr hjá Grýlu og Leppalúða. Jólakötturinn er þekktur fyrir að éta börn sem ekki fá flíkur fyrir jólin. Börnunum var t.d. gefið kerti og einhver spjör, sokkar eða skór, til þess þau þyrftu ekki að "klæða köttinn" eins og sagt var. Í öðrum útgáfum frásagnarinnar étur jólakötturinn matinn frá börnunum frekar en börnin sjálf, og í enn öðrum gildir þetta jafnt um fullorðna. Jólasveinn. a> í hlutverki Jólasveinsins heimsækir börn. Jólasveinn er þjóðsagnakennd persóna sem sögð er búa á fjöllum uppi eða jafnvel á Norðurpólnum. Hann heldur svo til byggða á aðventunni til að gera sprell og ekki síður til þess að verðlauna þæg börn með gjöfum. Jólasveinar eru því persónur tengdar kristni fyrst og fremst. Jólasveinninn þekkist í fjöldamörgum löndum hins vestræna heims, Evrópu og Ameríku. Jólasveinninn hefur síðustu áratugi iðulega verið klæddur í þykk og hlý rauð föt með hvítum loðkraga. Uppruna hins rauðklædda jólasveins má rekja til heilags Nikulásar sem var biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld e.Kr. Nikulás var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna, menntasetra og barna. Síðar varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu með mítur á höfði, sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna. Á 4. áratug 20. aldar hóf Coca-Cola hina frægu auglýsingaherferð sína þar sem jólasveinninn var í aðalhlutverki. Ef til vill hefur sú herferð orðið til þess að festa ákveðna ímynd jólasveinsins í sessi en víst er að þessi ímynd hafði verið til um skeið og var ekki uppfinning Coca-Cola. Herðubreið. Herðubreið er 1682 metra hátt móbergsfjall norðan Vatnajökuls. Hún er í Ódáðahrauni og er oft nefnd „Drottning íslenskra fjalla“ (sjá listann yfir gælunöfn) vegna þess hve mörgum finnst hún formfögur. Fjallið myndaðist við eldgos undir jökli. Á toppi þess eru hraunlög og hefur gosið því náð upp úr jöklinum. Slík fjöll, þ.e.a.s. móbergsfjöll með hraunlögum að ofan, kallast stapar. Herðubreið var valin þjóðarfjall Íslendinga í kosningu árið 2002. Fyrst var gengið á Herðubreið með vissu árið 1908 en fram að því hafði hún verið talin ógeng. Það gerðu Sigurður Sumarliðason og þýski jarðfræðingurinn Dr. Hans Reck í ágúst það ár nánar tiltekið 13. ágúst 1908. Þann 21.apríl 2009, 101 ári seinna, fór Björn Böðvarsson vélsleðakappi úr Mývatnssveit á topp Herðubreiðar á vélknúnu ökutæki fyrstur manna, er hann náði toppnum á vélsleða sínum. Þunglyndi. Þunglyndi er gjarnan notað um tiltekna geðröskun, en einnig notað yfir skap og heilkenni. Móberg (jarðfræði). Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni. Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar. Myndun móbergs. Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg. Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Þjóðsögur Jóns Árnasonar var heildarsafn þjóðsagna sem Jón Árnason hafði safnað saman og var gefið út í sex bindum í Reykjavík á árunum 1954-1961. Það var endurprentað árið 2003 með útgáfunúmeri ISBN 9979-3-2474-0. Fyrst birtust hluti þeirra í tveimur bindum í Leipzig 1862 og 1864 undir heitinu: "Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri". Þjóðernisvakning 19.aldar hafði meðal annars í för með sér áhuga á þeim frásögnum sem gengu mann fram af manni og enginn vissi höfund að og var farið að kalla þjóðsögur. Margir leikmenn og fræðimenn um alla Evrópu hófu að safna saman sögum, hver í sínu heimalandi. Áhrifamesta safnið var án efa safn þýsku bræðrana Grimm sem gáfu út Grimms ævintýri á árunum 1812-1815. Jón Árnason (1819-1888) heimiliskennari, síðar bókavörður og biskupsritari var einn ötulasti safnari íslenskra þjóðsagna. Hann gaf út hluta af því sem hann safnaði í tveimur bindum í Leipzig 1862 og 1864 undir heitinu: "Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri". Vöktu þær mikla athygli og höfðu mikil áhrif á þjóðarímynd og sjálfstæðisviðleitni íslendinga næstu hundrað árin. 200.000 naglbítar. 200.000 naglbítar er íslensk rokkhljómsveit. Hún var stofnuð á Akureyri 1993 undir nafninu "Gleðitríóið Ásar". Nafninu var seinna breytt í "Ask Yggdrasils" en árið 1995 keppti hljómsveitin í Músíktilraunum undir núverandi nafni þar sem hún lenti í 3. sæti. Mezzoforte. Mezzoforte er bræðingshljómsveit sem var stofnuð árið 1977. Stofnendur Mezzoforte voru Eyþór Gunnarsson (píanó/hljómborð), Friðrik Karlsson (gítar), Jóhann Ásmundsson (bassa) og Gunnlaugur Briem (trommur). Einhverjar mannabreytingar hafa verið á þeim árum sem hljómsveitin hefur verið starfandi. Meðal annars var saxófónleikarinn Kristinn Svavarsson meðlimur sveitarinnar frá 1982 til 1985 en saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson gekk í sveitina um miðjan 10. áratuginn. Smáskífan Garden Party náði árið 1983 miklum vinsældum í Evrópu og komst ofarlega á ýmsa vinsældarlista. Alþjóðlegar vinsældir hljómsveitarinnar voru miklar upp úr því. 7. öldin. 7. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 601 til enda ársins 700. 6. öldin. 6. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 501 til enda ársins 600. 5. öldin. Aldir: 3. öldin - 4. öldin - 5. öldin - 6. öldin - 7. öldin 5. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 401 til enda ársins 500. 4. öldin. Aldir: 2. öldin - 3. öldin - 4. öldin - 5. öldin - 6. öldin 4. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 301 til enda ársins 400. 3. öldin. Aldir: 1. öldin - 2. öldin - 3. öldin - 4. öldin - 5. öldin 3. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 201 til enda ársins 300. 2. öldin. Aldir: 1. öldin f.Kr. - 1. öldin - 2. öldin - 3. öldin - 4. öldin 2. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 101 til enda ársins 200. 1. öldin. Aldir: 2. öldin f.Kr. - 1. öldin f.Kr. - 1. öldin - 2. öldin - 3. öldin 1. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 1 til enda ársins 100. 1586. Það tók þrettán mánuði að reisa óbeliskuna á Péturstorginu. Hundaætt. Hundaætt er ætt spendýra, sem eru kjötætur og alætur. Til hennar teljast hundar, úlfar, sléttuúlfar, sjakalar og refir. Þessi dýr eiga það m.a. sameiginlegt að ganga öll á tánum. Flokkun hunda. Hafa ber í huga að skipting hundaættarinnar í „refi“ og „eiginlega hunda“ er hugsanlega ekki í samræmi við raunverulegan skyldleika þeirra og að ekki ríkir full sátt meðal fræðimanna um flokkun sumra hundaætta. Nýlegar DNA rannsóknir hafa á hinn bóginn sýnt að skiptingin í undirættir hunda ("canini") og refa ("vuplini") sé réttmæt, að tveimur ættkvíslum undanskildum: "Nyctereutes" og "Otocyon". Þetta eru hópar utangarðs hundadýra sem eru hvorki náskyld hundum né refum. "Speothos" og "Chrysocyon" eru frumstæðar ættkvíslir hunda-undirtegundarinnar en færa má rök fyrir því að þær megi setja í eigin hóp út af fyrir sig. Vera má að ættkvíslin "Cuon" tilheyri í raun undirætt hunda en vísbendingar eru um að ættkvíslirnar "alopex" og "fennecus" séu ekki réttmætar ættkvíslir, heldur tilheyri þær báðar ættkvísl refa ("vulpes"). Sumir flokka tamda hunda sem tegundina "Canis familiaris" en aðrir (þ.á m. Smithsonian stofnunin Samtök bandarískra spendýrafræðinga) flokka tamda hunda aftur á móti sem undirtegund úlfa (þ.e. "Canis lupus familiaris"). Rauðúlfurinn er ef til vill sérstök tegund. Og ef til vill einnig Dingóar, sem eru ýmist flokkaðir sem "Canis lupus dingo", "Canis dingo" eða "Canis familiaris dingo". Eyðimerkurrefur. Eyðimerkurrefurinn (eða fennec-refur) er lítill refur sem lifir í Eyðimörkum Norður-Afríku (að strandlegjunni undanskilinni) og er auðkenndur á stórum eyrum sínum. Enda þótt sumir fræðimenn flokki eyðimerkurrefinn sem einu tegundina af ættkvíslinni "Fennecus", er hann hér flokkaður sem tegund af ættkvísl refa ("Vulpes"). Lýsing. Eyðimerkurrefurinn er minnsta hunddýrið og er einungis um 1,5 kg að þyngd. Refurinn er 20 cm á hæð við herðakamb og lengd skrokksins verður allt að 40 cm. Skottið bætir um það bil 25 cm við líkamslengdina. Eyrun geta verið allt að 15 cm löng. Dýrin líkjast oft gulum sandi eyðimerkurinnar á litinn sem hjálpar þeim að falla inn í umhverfið. Hin löngu eyru eyðimerkurrefa hjálpa þeim að losa hita. Feldurinn getur endurkastað sólarljósi á daginn en varðveitt hita um nætur. Þykkur feldur verndar þófana frá heitum sandinum. Hegðun. Eyðimerkurrefir eru næturdýr. Um nætur veiða þeir sér nagdýr, skordýr, eðlur, fugla og egg til matar. Eyðimerkurrefir svala mestallri vatnsþörf sinni með vökva úr fæðuinni en borða þó stundum ber og lauf til að svala aukalegri vatnsþörf sinni. Eyðimerkurrefir búa í stórum grenum (allt að 10 metra löngum) og oft með öðrum refum. Æxlun. Á vorin, eftir um það bil 50 daga meðgöngu, fæðir kvenkyns eyðimerkurrefur 2-5 afkvæmi. Afkvæmin þarfnast mjólkur móður sinnar í u.þ.b. einn mánuð. Útbreiðsla. Eyðimerkurrefir eru sjaldséðir. Þeir eru oft veddir af mönnum, þrátt fyrir að þeir valdi mönnum alls engum skaða. Tamning. Eyðimerkurrefurinn er eina afbrigði refa sem hægt er að halda sem gæludýr. Þótt ekki megi líta á þá sem fyllilega tamdar skepnur er þó hægt að halda eyðimerkurrefi á sama hátt og menn halda hunda. Þó þarf að gæta að því að þeir sleppi ekki. Þeir eru snjallir að grafa hvers kyns holur svo að girðingar verða að ná djúpt niður í jörðina. Það er gríðarlega erfitt að ná aftur eyðimerkurrefum sem hafa eitt sinn sloppið. Eyðimerkurrefir, sem eru haldnir sem gæludýr, eru venjulega mjög vingjarnlegir í garð ókunnugra og annarra gæludýra. Þeir eru aftur a móti afar iðnir og þurfa að fá útrás fyrir orkuna. Önnur gæludýr geta orðið uppgefin á yfirgengilegri þörf þeirra fyrir að leika sér. ISBN. ISBN (skammstöfun fyrir enska heitið „International Standard Book Number“) er alþjóðlegur staðall til að einkenna bækur og er ætlað allri almennri bókaútgáfu. ISBN kerfið var upphaflega skapað í Bretlandi af bókabúðakeðjunni W H Smith árið 1966 og var þá kallað „Standard Book Numbering“ eða SBN. Það var tekið upp sem alþjóðastaðallinn ISO 2108 árið 1970. Svipað einkenniskerfi, ISSN („International Standard Serial Number“), er notað fyrir tímarit. Yfirlit. Hinir mismunandi hlutar geta haft mismunandi lengd. þeir eru oftast aðskildir með bandstriki. Landsnúmerið er 0 eða 1 fyrir enskumælandi lönd, 2 fyrir frönskumælandi, 3 fyrir þýskumælandi og svo framveigis. Til dæmis er landsnúmer Íslands er 9979. Sjá. Útgefandi fær númer frá skrifstofu ISBN í sínu landi og velur sjálfur einingarnúmerið. Prófsumma. Prófsumma eða gátsumma er tala sem er reiknuð út frá fyrirliggjandi gildum og geymd með þeim. Hlutverk prófsummu er að staðfesta að gögnin séu rétt, ef prófsumma er reiknuð út aftur á sömu gildum ætti hún að vera hin sama og sú fyrri. Gögnin eru annaðhvort töluleg eða stafastrengir sem litið er á sem töluleg gögn svo að reikna megi prófsummuna. Dæmi um prófsummu er níundi stafur kennitölu Íslendinga, sem er fenginn með því að margfalda fyrstu átta tölurnar með 2, 3, 4, 5, 6, 7, 2, 3 frá hægri til vinstri þar sem summan er mátuð við 11. Prófsummur eru mikið notaðar til að sannreyna að stafræn gögn hafi ekki breyst í geymslu eða flutningi og að þeim hafi ekki verið breytt. ISSN. ISSN er skammstöfun á International Standard Serial Number, átta talna einkennisnúmeri fyrir tímarit. ISSN kerfið var gert að alþjóðlegum staðli ISO 3297 árið 1975. Piet Hein. Piet Hein (16. desember 1905 - 17. apríl 1996) var danskt skáld, uppfinningamaður, stærfræðingur og heimsborgari. Hein notaði leyninafnið "Kumbel" (sem er forndanskt orð sem merkir "legsteinn"). Hein er einnig þekktur fyrir flatarmálsmyndir, m.a. súperellipsuna. Hann skapaði einnig súpereggið, sem sjá má hjá Egeskov-kastala á Fjóni. Sem stærðfræðingur hafði Hein mikinn áhuga á spilum. Hann bjó m.a. til spilið Hex árið 1942, upphaflega kallað Polygon. Tengt efni. Hein, Piet Björk (verslun). Tóbaks- og gjafavöruverslunin Björk var stofnuð árið 1928 og hefur verið að Bankastræti 6 frá upphafi. Hún gekk upphaflega undir nafninu "Bristol", en stofnandi hennar var Guðjón Jónsson bryti. Verslunin var í fyrstu tóbaks- og sælgætisverslun og auk þess voru seld þar frímerki en með tímanum varð hún allt meiri tóbaksverslun en nokkuð annað. Verslunin er nú í eigu Sölva Óskarssonar, athafnamanns og fótboltaþjálfara. Kanchō. Kanchō er nokkurskonar leikur eða bragð sem notað er í Japan af skólakrökkum. Bragðið felst í því að taka saman höndum en láta vísifingurnar standa úti og reyna að pota þeim upp á milli rasskinnana á einhverju óaðvitandi. Þetta háttalag líkist því sem stundum er kallað að bróka (þekkist allavega í Norður-Ameríku og á Íslandi). Victor Hugo. Victor Hugo (26. febrúar 1802, Besançon, Frakklandi – 22. maí 1885, París) var franskur ljóða-, skáldsagna- og leikritahöfundur og einn af áhrifamestu skáldum frönsku rómantíkurinnar. Þekktustu verk hans eru Les Misérables (Vesalingarnir) og Notre-Dame de Paris (Hringjarinn í Notre-Dame). Hann var íhaldssamur í æsku en varð síðar mikill stuðningsmaður lýðveldisstefnu. Verk hans snertu á helstu málefnum og stefnum ríkjandi í stjórnmálum og list á æviferli hans. Árdagar. Victor Hugo ungur að árum Hugo var yngstur þriggja sona hjónanna Joseph Léopold Sigisbert Hugo (1773–1828) og Sophie Trébuchet (1772–1821). Hann fæddist árið 1802 í Besançon (borg í Franche-Comté fylki) og bjó mestan hluta ævi sinnar í Frakklandi. Ókyrrð einkenndi æsku Hugo, en skömmu fyrir fæðingu hans endaði valdatíð Búrbóna í frönsku byltingunni, ríkisstéttaþing var sett saman og svo síðar lagt af þegar Napóleon Bónaparte gerði Frakkland að keisaraveldi en þá var Hugo orðinn tveggja ára. Skömmu fyrir átján ára afmæli var konungsveldi Búrbóna svo endurreist. Skoðanir foreldra hans einkenndu þær hugmyndafræðilegu og trúarlegu andstæður sem voru ríkjandi allt hans líf; faðir hans var hermaður, trúlaus lýðræðissinni og dyggur stuðningsmaður Napoleóns en móðir hans var kaþólikki og konungssinni. Sophie, móðir Hugo, fylgdi eiginmanni sínum á varðstaði til Ítalíu og Spánar. Hún fékk leið á herlíferninu og stanslausum ferðalögum, auk þess að vera upp á kant við ótryggan eiginmann sinn. Hún ákvað því að skilja við hann og flutti til Parísar. Íhaldssemi Hugo á yngri árum má því rekja til þess að móðir hans ól hann upp en í fyrstu verkum hans má greina ástríðufulla hollustu við konung og trúna. Það var ekki fyrr en í kjölfarið á febrúarbyltingunni 1848 sem hann fór að gagnrýna kaþólsku kirkjuna og fór að berjast fyrir lýðræði og frjálsri hugsun. Frumverk. Eins og mörg ung skáld á þessum tíma var Hugo undir miklum áhrifum François-René de Chateaubriand, upphafsmans rómantíkur og eitt af afburðarskáldum Frakka á 18. öld. Hugo ákvað ungur að hann skyldi vera eins og Chateaubriand eða vera annars ekki neitt en sú varð raunin að mörgu leiti, hann hélt áfram að breiða út rómantík, tók þátt í stjórnmálum sem lýðræðissinni og fyrir vikið lenti í útleigð, ekki ólíkt Chateaubriand. Bráðþroska eldmóður og mælska í fyrstu verkum Hugo gerðu hann frægan ungan að aldri. Fyrsta ljóðasafn hans (Nouvelles Odes et Poésies Diverses) var gefið út 1824, þegar hann var aðeins tuttugu og tveggja ára gamall og ávann sér þannig konunglega ölmusu frá Lúðvík XVIII. Ljóðasafnið sem kom tveimur árum síðar (Odes et Ballades) gerði hann þó enn frægari og þar sýndi hann fram á náttúrulega hæfileika sína sem skáld. Þrátt fyrir að vera gegn óskum móður hans, varð Hugo ástfangin og trúlofaðist leynilega bernsku kærustu sinni, Adéle Foucher (1803-1868). Hann var óvenjulega náin móður sinni og giftist því ekki Foucher fyrr en eftir að móðir hans lést árið 1822. Hann gaf út fyrstu skáldsöguna sína næsta ár (Han d'Islande, 1823) og aðra skáldsögu þrem árum síðar (Bug-Jargal, 1826). Á árunum 1829 til 1840 gaf hann út fimm ljóðarit í viðbót (Les Orientales, 1829; Les Feuilles d'automne, 1831; Les Chants du crépuscule, 1835; Les Voix intérieures, 1837; and Les Rayons et les ombres, 1840) og mótaði orðspor sitt sem eitt helsta harmljóða- og ljóðaskáld síns tíma. Tenglar. Hugo, Victor Hugo, Victor Hugo, Victor Hugo, Victor Enrico Fermi. Enrico Fermi (29. september 1901 – 28. nóvember 1954) var einn mesti eðlisfræðingur 20. aldarinnar og sérfræðingur í nifteindum. Fæddur í Róm, sonur Alberto Fermi og Idu de Gattis. 1922 útskrifaðist hann með doktorsgráðu í eðlisfræði frá Háskólanum í Pisa. Meðal afreka hans má nefna uppgötvun hans á lögmálunum sem stjórna eindum er hlýta einsetulögmáli Paulis árið 1926, en þær eru kallaðar Fermíeindir eftir honum, og kenningu hans um beta-hrörnun (1934) sem leiddi til uppgötvunnar kjarnaklofnunar. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1938 fyrir rannsóknir sínar á tilbúinni geislun nifteinda og kjarnahvörfum vegna hægfara nifteinda. Í kjölfarið flutti hann til Bandaríkjanna til að flýja Ítalíu fasismans og varð Bandarískur ríkisborgari árið 1944. Þar náði hann miklum árangri í rannsóknum á kjarnaklofnun og framkvæmdi röð tilrauna sem miðuðu að því að framkalla keðjuverkun kjarnaklofnunar. Þetta tókst 2. desember 1942 á veggtennisvelli í Chicago. Í framhaldi af þessu tók hann þátt í Manhattan-verkefninu um smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar. Eftir stríðið tók hann við prófessorsstöðu við Chicago-háskóla og rannsakaði uppruna geimgeisla. Lengdareiningin fermí er kennd við hann. Tengt efni. Fermi, Enrico Fermi, Enrico Alkul. Alkul er lægsti mögulegi hiti samkvæmt kvikfræði klassískrar eðlisfræði. Kelvinkvarðinn notar alkul sem núllpunkt. Á Selsíuskvarðanum er alkul við -273.15 °C, -459,67° á Fahrenheitkvarðanum og við 0 Kelvin. Við alkul er hreyfing frum- og sameinda í lágmarki, en samkvæmt óvissulögmáli Heisenbergs er aðeins mögulegt að segja til um staðsetningu eindar með líkindadreifingu og því ekki hægt að fullyrða að hraðinn verði núll. Samkvæmt 3. lögmáli varmafræðinnar er þó í reynd ekki mögulegt að ná alkuli. Gervilimur. Gervilimur er hugtak sem á við um hverskyns líki líkamslims en oftast er átt við stoðtæki sem kemur í stað útlims sem vantar, ýmist vegna slyss, sjúkdóms eða fæðingargalla. Borið hefur á því að hugtakið sé notað um gervigetnaðarlim, þ.e.a.s. dildó. Fermíeind. Fermíeind (einnig kölluð oddskiptaeind) er eind sem hlítir einsetulögmáli Paulis og hefur ekki heiltöluspuna. Allt efni samanstendur af fermíeindum, þ.e.a.s. létteindum (eins og rafeindum) og kvörkum (sem nifteindir og róteindir eru gerðar úr). Eindir samsettar úr fermíeindum geta bæði verið fermíeindir (t.d. þungeindir) eða bóseindir (t.d. miðeindir). Saparmyrat Nyýazow. Saparmyrat Ataýewiç Nyýazow (19. febrúar 1940 – 21. desember 2006) (stundum ritað Saparmurat Niyazov, en það er ensk umritun á nafninu byggð á umritunarkerfi fyrir rússnesku) var valdamesti maður Túrkmenistan frá 1985 til andláts hans 2006. Hann var einnig þekktur sem „Serdar Saparmyrat Türkmenbaşy hinn mikli“, eða einfaldlega „Türkmenbaşy“ (oft ritað "Turkmenbashi" á ensku). Nyýazow vakti mikla athygli um allan heim fyrir sérviskulega og jafnvel stórskrýtna stjórnarhætti í landi sínu, en hafa ber í huga að hann var í raun einráður í landinu. Æviágrip. Faðir Nyýazows dó í orrustu við Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og það sem eftir var fjölskyldunnar fórst í öflugum jarðskjálfta 1948, jarðskjálfta sem nánast jafnaði borgina Aşgabat við jörðu. Hann var því aðeins átta ára þegar honum var komið fyrir á sovésku munaðarleysingjahæli, en nokkru seinna var honum komið fyrir hjá fjarskyldum ættingjum. 1962 gekk hann í kommúnistaflokkinn og fékk þar skjótan frama. Hann varð formaður kommúnistaflokks Túrkmenistan 1985 og studdi byltinguna gegn Mikhail Gorbachov í Rússlandi 1991. Eftir fall Sovétríkjanna hélt Nyýazow völdum og varð fyrsti forseti landsins. Þann 22. október 1993 gaf hann sjálfum sér titilinn "Türkmenbaşy" (eða Түркменбашы) sem þýðir lauslega „Foringi allra Turkmena“. Hinn 29. desember 1999 kaus þing landsins, Majlis, hann forseta til lífstíðar. Þess ber að geta að þingið hefur oft verið sagt algjörlega undir hæl Nyýazows. Í nóvember 2006 greindi hann frá því að hann væri veill fyrir hjarta og lést hann í desember sama ár. Persónudýrkun. Nyýazow var einræðisherra og þekktur fyrir yfirgengilega persónudýrkun. Þar sem hann trúði því staðfastlega að Túrkmenistan vantaði þjóðarímynd reyndi hann að móta landið eftir eigin skoðunum. Hann endurnefndi borgina Krasnovodsk við Kaspíahaf Türkmenbaşy eftir sjálfum sér, auk þess sem hann nefndi nokkra skóla, flugvelli og jafnvel loftstein í höfuðið á sjálfum sér. Árið 2002 skipaði hann svo fyrir að brauð skyldi hér eftir kallað Gurbansoltan Eje eftir látinni móður hans, í stað venjulega túrkmenska orðsins yfir brauð, chorek. Andlit Nyýazows er á öllum peningaseðlum og andlit hans vakir yfir almenningi með stórum plaggötum á opinberum stöðum. Styttur af honum og móður hans eru á víð og dreif um Túrkmenistan, jafnvel í miðri Kara Kum-eyðimörkinni, og stór gullstytta af honum er á toppi hæstu byggingar Aşgabat. Styttan snýst þannig að Nyýazow snúi alltaf að sólu. Þá ákvað hann að byggja risavaxna höll í Aşgabat til að minnast stjórnartíðar hans. Þótt ótrúlegt sé lét Nyýazow hafa eftir sér að hann væri ekkert mikið fyrir þessa persónudýrkun “Ég er persónulega á móti því að sjá myndir og styttur af mér úti á götu – en þetta er það sem fólkið vill.” Menntakerfið kennir ungum Túrkmenum að elska Nyýazow, og skrifaði hann sjálfur meginhluta kennsluefnisins. Aðalnámsefnið er saga eftir Nyýazow, Ruhnama, eða „Bók sálarinnar“. Námsbækur frá Sovéttímabilinu hafa verið bannaðar og er því lítið að finna í bókasöfnum landsins annað en verk Nyýazows. Einnig ber að nefna að Nyýazow skipti um stafróf Túrkmena og er nýja stafrófið byggt á því latneska (en það gamla á kýrillísku). Þá breytti hann árið 2002 nöfnum daga og mánaða eftir frægum Túrkmenum. Þannig heitir janúar „Türkmenbaşy“ í höfuðið á honum sjálfum og apríl heitir „Gurbansoltan Eje“ í höfuðið á móður hans. Stjórnarstefna og utanríkistengsl. Nyýazow vakti athygli fyrir stjórnarstefnu sína. Þannig fyriskipaði hann í ágúst 2004 byggingu risavaxinnar íshallar í miðri eyðimörk og fyrir stuttu réðst hann í byggingu dýragarðs. Nyýazow hefur lagt mikla áherslu á að fá mörgæsir í dýragarð sinn, enda telur hann hungur blasa við þeim vegna hlýnandi loftslags. Einungis tveimur trúfélögum er leyft að hafa tilbeiðsluhús í Túrkmenistan: rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og Sunni-múslimum, en þeir síðarnefndu hafa meiri stuðning ríkisins. Starfsemi erlendra menningarsamtaka er með öllu bönnuð í landinu. Eftir meinta morðtilraun hinn 25. nóvember 2002 handtóku yfirvöld stóran hóp meintra samsærismanna og fjölskyldumeðlimi þeirra. Gagnrýnendur halda því fram að tilræðið hafi verið sviðsett til að gefa yfirvöldum ástæðu fyrir fjöldahandtökunum og slá þannig á vaxandi mótstöðu við forsetann. Sumarið 2004 var dreifiblöðum og bæklingum dreift í höfuðborginni Aşgabat, þar sem hvatt var til þess að Nyýazow yrði steypt af stóli og hann látinn svara til saka. Stjórnvöld áttu í erfiðleikum með að stöðva herferðina og varð það til þess að Nyýazow rak innanríkisráðherrann og skólastjóra lögregluskólans í beinni útsendingu ríkissjónvarpsins. Sem fyrr segir fyrirskipaði hann að 15.000 heilbrigðisstarfsmenn létu af störfum og óþjálfaðir hermenn kæmu í stað þeirra. Í febrúar 2005 spurði hann „Af hverju ættum við að sóa hæfileikum góðra heilbrigðisstarfsmanna í þorpin þegar þeir ættu með réttu að vera að vinna í höfuðborginni?“ Í mars 2005 fylgdi hann þessum ummælum sínum eftir og lokaði öllum sjúkrahúsum utan höfuðborgarinnar. Árið 2004 hitti hann kanadíska forsetisráðherrann Jean Chrétien til að ræða olíusamning kanadísks fyrirtækis í Túrkmenistan. Kanadíska stjórnarandstaðan brást hin versta við fregnum af fundinum. Árið 2005 kom Nyýazow öllum á óvart og lofaði að halda frjálsar og opnar kosningar fyrir árið 2010. Tenglar. Nyýazow, Saparmyrat Stóra bomba. Stóra bomban er heiti á atburði sem átti sér stað árið 1930 og varðaði aðallega Jónas Jónsson frá Hriflu og Helga Tómasson, yfirlækni á Kleppi. Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra á þessum tíma og hafði bakað sér töluverðar óvinsældir meðal lækna. Hápunkti þessara óvinsælda var án efa náð þegar Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, lýsti því yfir að hann teldi Jónas bera merki um geðveiki og ætti hann því að láta af embætti dómsmálaráðherra tafarlaust. Oft er þetta mál kallað "geðveikismálið" en Jónas nefndi þennan atburð "stóru bombuna" og hefur það nafn fest við það. Jónas Jónsson frá Hriflu. Jónas var fæddur á Hriflu í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1885. Jörðin var talin ein sú rýrasta í sveitinni en á móti kom að hún var í alfaraleið og var því mjög gestkvæmt. Hann stundaði nám við Möðruvallaskóla og er sagt að þar hafi forystuhæfileikar hans komið fyrir alvöru í ljós. Árið 1905 sótti hann um inngöngu í Latínuskólann í Reykjavík (nú Menntaskólann í Reykjavík), en hann hafði átt í miklum bréfasamskiptum við skólapilta í Framtíðinni, málfundafélagi skólans. Skemmst er frá því að segja að Steingrímur Thorsteinsson, rektor, hafnaði umsókn hans. Jónas safnaði þá styrkjum til náms við lýðháskólann í Askov í Danmörku og hélt síðan til Englands og lærði í Ruskin College í Oxford. Sá skóli var rekinn af bresku samvinnuhreyfingunni og verkalýðshreyfingunni og má segja að hann sé fyrsti verkamannaháskólinn í heimi. Jónas hafði frá barnsaldri verið mikill áhugamaður um ensku og taldi sig því slá tvær flugur í einu höggi með því að fara þangað; hann lærði ensku og kynntist nýjum straumum. Við komuna heim til Íslands árið 1909 snerist hann gegn nýríkum Íslendingum. Stuttu eftir komuna hóf hann afskipti af stjórnmálum og varð landskjörinn þingmaður árið 1922 og dómsmálaráðherra 1927. Hann hafði þó verið viðloðandi stjórnmál mun lengur og er hann talinn hafa verið sá sem ruddi nýrri flokkaskipan braut í landinu og þannig riðlað gömlum valdahlutföllum í landinu. Þá tók hann sem dómsmálaráðherra margar óvinsælar ákvarðanir og spunnust af miklar deilur. Ber þar helst að nefna "læknadeiluna, fimmtardómsfrumvarpið og Íslandsbankamálið." Læknadeilan. Læknadeilan fólst aðallega í skipan lækna en teygði sig einnig inn í starfsmannamál á Vífilsstöðum. Á þessum tíma skipaði dómsmálaráðherra lækna í stöður en það var viðtekin venja að embættisnefnd lækna fengi í raun að ráða. Jónas var aftur á móti ósammála þessari venju og sérstaklega þótti honum sárt þegar nefndin ætlaði að láta hann skipa svarinn óvin Framsóknarflokksins. Jónas greip þá það ráð að láta ráðuneytisstjórann sækja um fyrir hönd bróður síns og veitti honum síðan embættið. Síðan kom í ljós að þessi læknir vildi ekki flytja til Keflavíkur, þar sem hann hafði verið skipaður í embætti. Eftir nokkrar fortölur fékk Jónas hann til að þiggja embættið sem varð til þess að Morgunblaðið og Læknafélagið tóku að segja sögur af því hvernig Jónas hefði mútað lækninum til að taka við embættinu og var hann síðan rekinn úr Læknafélaginu. Þá gerði Jónas ýmislegt læknum til miska; hann ávítti nokkra fyrir fjáraustur en sérstaklega skal minnst á það þegar hann afnam fríðindi Þórðar Sveinssonar á Kleppi. Það er því ljóst að Jónas var óvinsæll á meðal lækna. Í viðleitni til að bæta úr málinu skipaði Jónas rannsóknardómara til að kanna afskipti lækna af veitingu læknisembætta og hófst rannsóknin um svipað leyti og stóra bomban kom fram. Fimmtardómsfrumvarpið. Í framhaldi af læknarannsókninni þótti augljóst að það stefndi allt í að læknamálið færi fyrir Hæstarétt og þar þóttist Jónas vita að honum yrði dæmt í óhag. Hann setti því fram frumvarp um Hæstarétt sem miðaði aðallega að því að nafninu skyldi breytt í fimmtardóm, nýir dómarar skyldu koma inn og sitjandi dómarar hefðu ekkert að segja um nýja dómara. Sökum almennrar óánægju varð þó ekkert úr fimmtardómsfrumvarpinu. Íslandsbankamálið. Þriðja atriðið sem gjarnan er talið undanfari stóru bombu er Íslandsbankamálið sem rétt eins og hin tvö málin náðu hámarki sínu í byrjun árs 1930. Það mál snerist um það að ríkið greip ekki inn í gjaldþrot Íslandsbanka og litu margir á þetta sem aðför að sjávarútveginum. Sögusagnir um Jónas. Líkt og um marga stjórnmálaskörunga fóru hinar ótrúlegustu sögur af stað um Jónas. Margir töldu hann geðveikan og líkti t.d. Jóhann Jósefsson, þingmaður Íhaldsflokksins, honum við Nero og Caligula á þinginu 1929. Þá ýjaði Ólafur Thors að því að hann væri á eiturlyfjum og fylgdi Morgunblaðið þeim aðdróttunum eftir með grein sem nefndist Eiturmeðulin, í hverri talað var um hegðun hans á stjórnmálafundi í Skagafirði. Þá gerði sama blað stórmál úr framkomu Jónasar þegar bíll hans lenti í árekstri í Ártúnsbrekkunni og hamraði á því við hvert tækifæri að Jónas væri ofstopamaður haldinn ofsóknaræði. Atburðir. Þann 19. febrúar 1930 lá Jónas frá Hriflu veikur heima hjá sér í Sambandshúsinu. Þá kemur til hans Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, sem Jónas hafði sjálfur skipað í embætti ári fyrr. Fljótlega fóru að ganga miklar sögur í Reykjavík sem og á landinu öllu um fund þeirra Helga. Athygli vekur að það var Jónas sem gerði það opinbert með stórri grein í Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, hinn 26. febrúar. Greinin er rituð sem opið bréf til Helga Tómassonar og rekur Jónas þar málavexti. Verkið er án efa það langfrægasta sem Jónas skrifaði. Fyrirsögn greinarinnar var einfaldlega Stóra bomban og af þessari fyrirsögn dregur málið nafn sitt. Þar vísar Jónas til ummæla Sigurðar Magnússonar, pólitísks andstæðings síns, um að brátt myndi stóra bomban falla á Alþingi sem granda myndi landsstjórninni í pólitískum skilningi. Greinin er helst til löng og er hún skrifuð á sérlega yfirvegaðan hátt. Jónas byrjar á að lýsa yfir undrun á að Helgi, við hvern hann ætti ekkert sökótt, dæmdi hann geðveikan án þess að nokkur hefði beðið hann um það og án þess að hafa rannsakað Jónas. Þá fer hann að tala um rógsmál íhaldsmanna gegn sér og telur Helga Tómasson vera hluta af rægingarherferð þeirra. Greinin átti stóran þátt í því að snúa almenningsálitinu upp á móti Helga Tómassyni og fylgismönnum hans. Áhugavert er að skoða lýsingu Jónasar á fundi hans við Helga, sem Helgi fyrir sitt leyti sagði mjög einhliða og ranga í meginatriðum. Helgi svaraði fyrir sig tveimur dögum síðar í Morgunblaðinu, sem að margra áliti var málpípa íhaldsmanna. Þar þvertekur hann fyrir það að nokkrar pólitískar hvatir liggi að baki gjörðum hans og bendir á að hann sé ekki sá fyrsti sem viðri slíkar skoðanir á dómsmálaráðherranum. Þannig hafi Jónas Kristjánsson, læknir og alþingismaður, sagt 1927 á Alþingi Þá vísar Helgi til samtala við marga lækna, sem hann nafngreinir þó ekki, og segir þá alla sammála sér. Hann vísar á bug kröfu Jónasar frá Hriflu um að hann rökstyðji álit sitt með þeim rökum að almenningur sé ekki dómbær aðili í “sjerfræðilegum efnum sálsýkisfræðinnar” en hann sé aftur á móti tilbúinn til að leggja fram gögn fyrir nefnd erlendra sérfræðinga er alþingi fengi til að rannsaka heilbrigði ráðherra. Seinna sama árs skrifaði Helgi síðan sína útgáfu af fundi þeirra Jónasar. Aðalmunurinn á henni og frásögn Jónasar er sá að samkvæmt þeirri fyrrnefndu samsinnti kona Jónasar sjúkdómsgreiningu læknisins og bað um ráð fyrir eiginmann sinn. Jafnvel þótt Helgi neitaði því að málið væri pólitískt kom fljótt í ljós að afstaða manna til málsins fór nær algjörlega eftir stjórnmálaskoðun viðkomandi. Athyglisvert er þó að skoða ritstjórnargrein í Morgunblaðinu þar sem blaðið hélt því fram að Helgi væri ekki atbeini sjálfstæðismanna heldur framsóknarmanna, sem hefðu ætlað að losa sig við Jónas. Stuttu seinna birtu þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirlýsingu þar sem þeir sóru af sér öll tengsl við hið svokallaða geðveikismál. Fjölmargar aðrar greinar birtust í blöðum landsins; 1. mars skrifuðu 28 læknar í Reykjavík undir traustsyfirlýsingu til Helga Tómassonar og þá birtu þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirlýsingu þar sem þeir harðneituðu því að hafa eitthvað að gera með álit Helga. Aftur á móti sögðust þeir skilja gerðir hans. Eftirmál. Eftirmál stóru bombunnar stóðu árum saman. Til viðmiðunar um umfang málsins telur Jón Helgason í bók sinni "Stóra bomban" að einungis þrjú mál hafi valdið jafnmiklu pólitísku “fárviðri,” nefninlega símamálið á dögum Hannesar Hafsteins, viðureignin útaf uppkastinu 1908 og lætin í kringum Björn Jónsson 1909. Útlend athygli. Mál þetta vakti ekki einungis athygli á Íslandi heldur einnig á Norðurlöndum. Í Danmörku höfðu sum blaðanna flutt fréttir af því að á Íslandi væri geðveikur dómsmálaráðherra og þótti það pínlegt fyrir stjórnvöld á Íslandi, sér í lagi sökum alþingishátíðarinnar sem stóð fyrir dyrum. Því er auðvelt að skilja ásetning stjórnvalda að kæfa þetta mál sem áburð illgjarnra íhaldsmanna og sárra lækna. Það tókst einstaklega vel og í kjölfarið söfnuðu stuðningsmenn Jónasar 3.089 undirskriftum honum til stuðnings auk þess sem ýmsir málsmetandi menn, til dæmis Halldór Laxness, lýstu yfir stuðningi við hann. Sú mikla samúðarbylgja sem reis upp með honum varð til þess að styrkja Jónas í ráðherraembætti og má segja að atlagan að Jónasi hafi komið íhaldsmönnum verulega í koll enda tvöfaldaði Jónas fylgi flokks síns í næstu kosningum. Helga Tómassyni vikið úr starfi. Helga Tómassyni var vikið úr starfi yfirlæknis á Kleppi 30. apríl og var hann einnig látinn hætta ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, t.d. þátttöku í starfræksluundirbúningi Landspítalans. Að sögn Tímans fór Helgi með látum og er sagt að hann hafi boðið hverjum sjúklingi sem vildi að fara. Fyrirsögn Morgunblaðsins daginn eftir var "„Bomba nr. tvö. Dómsmálaráðherrann fremur það níðingsverk gegn sjúklingum á Kleppi að reka dr. Helga Tómasson fyrirvaralaust í gær“" og fylgir fyrirsögninni grein um grátandi sjúklinga. Brottvikningu Helga fylgdu síðan ásakanir um að Helgi hefði haft vísvitandi á brott með sér sjúkradagbækur, lyfjaskrá og fleira til að gera hinum nýja lækni sem örðugast um vik. Helgi neitaði að láta gögnin af hendi nema með dómsúrskurði og á endanum fékkst sá úrskurður. Málaferli. Mörg önnur málaferli spruttu upp af stóru bombunni og vann t.a.m. Helgi Tómasson mál gegn ríkissjóði vegna ólögmætrar brottvikningar frá Kleppi. Aðrar afleiðingar. Aðrar afleiðingar geðveikismálsins voru þær að Jónas treysti læknastéttinni afar illa eftir þetta. Þannig hætti hann að auglýsa lausar stöður en skipaði þess í stað valda menn þegar þær losnuðu. Þorláksmessa. Stytta af Þorláki í Noregi Þorláksmessa, sem er þann 23. desember, er haldin til minningar um Þorlák hinn helga Þórhallsson biskup í Skálholti. Hann lést 23. desember 1193 og var þessi messudagur tekinn upp honum til heiðurs og lögleiddur 1199. Þorláksmessa á sumri. Þorláksmessa á sumri er 20. júlí og var lögleidd 1237 til að minnast þess að þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp til að nýtast til áheita. Var sumarmessa þessi ein mesta hátíð ársins á Íslandi fyrir siðaskipti. Útnefning Þorláks sem dýrlingur. Jóhannes Páll páfi II útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands með tilskipun 14. janúar 1984 og er hann um leið verndari Kristskirkju í Reykjavík. Þorlákur er eini íslenski dýrlingurinn í kaþólskri trú sem hefur hlotið staðfestingu páfa. Þorláksmessa á okkar tímum. Á seinni tímum hefur Þorláksmessa orðið hluti af jólaundirbúningnum, en þennan dag eru margir að ljúka við að skreyta hús og híbýli og margir hafa þann sið að skreyta jólatréð á þessum degi. Á Þorláksmessu kvöld í Reykjavík hefur skapast sú hefð að ganga friðargöngu niður Laugarveginn. Á Vestfjörðum er vaninn að borða kæsta skötu á Þorláksmessu en sá siður hefur á síðustu árum orðið algengur um allt land. Aðskilnaðardómurinn. Aðskilnaðardómurinn (einnig kallaður mannréttindadómurinn) var dómur Hæstaréttar Íslands sem féll 9. janúar 1990 í máli 120/1989. Hann er að mörgu leyti sérstakur í íslenskum rétti og hafa kennimenn gagnrýnt Hæstarétt mjög fyrir dóminn. Málsatvik. Málsatvik voru þau að Guðmundur Breiðfjörð Ægisson var hinn 25. janúar 1989 í Sakadómi Árnessýslu dæmdur fyrir fjársvik sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga. Hann áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og krafðist þess að hinn áfrýjaði dómur væri ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað á þeim forsendum að dómarafulltrúinn sem dæmdi hann hefði ekki verið bær til þess. Um hvað var deilt? Á þessum tíma tíðkaðist það að fógetar (og fulltrúar þeirra) færu með dómsvald í sakamálum. Þetta þýddi í raun að sami maðurinn gat verið yfirmaður lögreglunnar, sem rannsakaði málið, og dómarans, sem dæmdi manninn sem lögreglan taldi sekan. Því var haldið fram að Dómendur. Málið dæmdu Guðmundur Jónsson, Benedikt Blöndal, Bjarni K. Bjarnason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Þór Vilhjálmsson. Fyrri fordæmi. Sérstaka athygli vekur að til voru tvö nýleg fordæmi þar sem Hæstiréttur hafði komist að því að ofangreind rök væru ekki nægilega sterk. Þessa dóma er að finna í dómasafni Hæstaréttar; H. 1985:1290 og H. 1987:356. H. 1985:1290. Jón skaut máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem komst að því að sú skipan að fógetar dæmdu í sakamálum væri andstæð 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hljóðar svo: “Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manna að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. [...]” Málinu lauk með sátt við íslenska ríkið. (sjá einnig forsendur Hæstaréttar í aðskilnaðardóminum að neðan) H. 1987:356. Eins og Jón Kristinsson skaut áfrýjandi málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og lauk málinu með sátt við Íslenska ríkið. Forsendur aðskilnaðardómsins. Með þetta í huga komst Hæstiréttur að því að dómara hefði borið að víkja sæti. Málið var því sent aftur heim í hérað til efnislegrar meðferðar. Húnavatnshreppur. Húnavatnshreppur er sveitarfélag í Austur-Húnavatnssýslu. Það varð til 1. janúar 2006 við sameiningu Bólstaðahlíðar-, Sveinsstaða-, Svínavatns- og Torfalækjarhrepps sem samþykkt var í sameiningarkosningum sveitarfélaga 20. nóvember 2004. 11. mars 2006 var svo samþykkt í kosningum í Húnavatnshreppi og Áshreppi að sameina þá undir nafni Húnavatnshrepps og gekk sú sameining í gildi 10. júní það ár að afloknum sveitarstjórnakosningum. Dildó. Dildó eða gervigetnaðarlimur er eftirmynd reðurs, oftast í reistri stöðu. Gervigetnaðarlimir eru gjarnan seldir sem kynlífsleikföng sem nota má við sjálfsfróun eða mök. Slíkir gervigetnaðarlimir eru oftast úr sílíkoni eða gúmmíi. Það er hægt að fá ýmsar stærðir og með titringi eða „víbrator“. Getnaðarlimur. Getnaðarlimur og aðlæg líffæri Getnaðarlimur (limur, typpi eða reður) eru ytri getnaðarfæri karldýrsins ásamt pungnum. Getnaðarlimur spendýra þjónar einnig þeim tilgangi að losa líkamann við þvag. Getnaðarlimurinn er samstæður sníp kvendýrsins, en bæði líffærin þróast út frá sömu fósturstofnfrumum. Samheiti og slanguryrði. Getnaðarlimurinn á mörg samheiti í íslensku. Þar mætti nefna: "besefi", "brúsi", "böllur", "drjóli", "göndull", "hrókur", "hörund", "jarl", "limur", "lókur", "pissi", "ponni", "riddari", "sin" (sbr. sinfall), "skaufi", "skökull", "sköndull", "stíll", "sverð", "tippi" (eða "typpi"), "tittlingur" og "völsi". Mörg önnur eru til. Ótölulegur fjöldi slanguryrða eru til sem merkja getnaðarlimur. Þar mætti til dæmis nefna nokkur nýleg eins og: "bibbi", "buxnaklaufi", "dyrabjalla" (haft um lítinn lim), "lilli", "slátrið" og "staur". Aðeins eldri slanguryrði eru: "Oddur í Skógarkoti", "sá eineygði", "teitur" (sbr. toga í teit), "tilli" og "Tómas í Tutlu". Framhaldsskólinn á Laugum. Framhaldsskólinn á Laugum í Þingeyjarsveit er íslenskur framhaldsskóli. Skólinn var stofnaður haustið 1925 en hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1988. Skólameistari hans er Hallur Reynir Birkisson. Skólahald á Laugum. Frá upphafi skólahalds á Laugum árið 1925 hafa um 7000 manns stundað nám, fyrst í lýðsskóla, síðan alþýðuskóla, þá héraðsskóla og loks í Framhaldsskólanum á Laugum eins og hann heitir nú. Framhaldsskólinn á Laugum er heimavistarskóli og þangað koma nemendur alls staðar að af landinu. Tildrög stofnunar Laugaskóla má rekja til hinnar svokölluðu Þingeysku menningarbyltingar sem stóð frá sjöunda áratug 19. aldar til þriðja áratugs 20. aldar, en þá var skólinn stofnaður. Segja má að forverar skólans hafi verið fjórir. Fyrstur var stofnaður Hléskógaskóli en hann starfaði ekki lengi og kenndu margir slæmri staðsetningu um. Seinna var skólahúsið fært að Ljósavatni og var þá stofnaður Ljósavatnsskóli og starfaði hann í 11 ár. Unglingaskólinn á Breiðumýri var svo stofnaður árið 1918 og Lýðsskólinn á Laugum var arftaki hans. Á fundi hjá Sambandi Þingeyskra ungmennafélaga (síðar HSÞ), 24. apríl 1915, var samþykkt tillaga þess efnis að allar deildir sambandsins innu að stofnun héraðsskóla. Í framhaldi af því var farið að huga að stað fyrir skólann. Upphaflega var horft til Grenjaðarstaðar, en á endanum var ákveðið að hinn nýi skóli skyldi rísa á Laugum í Reykjadal. Á Laugum var nægilegt heitt vatn og Sigurjón Friðjónsson á Litlu-Laugum gaf land undir skólann. Skólinn er nú með heimavistir fyrir 150 nemendur. Nám. Framhaldsskólinn á Laugum starfar eftir áfangakerfi, en í því felst að námsefni í einstökum námsgreinum er skipt niður í afmarkaða áfanga sem kenndir eru í eina námsönn og lýkur með prófi eða öðru námsmati í annarlok. Allt nám í skólanum er metið til eininga. 3. Starfsnám í íþróttafræði og íþróttagreinum Að jafnaði stunda rúmlega 100 nemendur nám við skólann ár hvert. Skólahúsin. Húsakostur Laugaskóla er mikill og hefur skólasvæðið byggst upp jafnt og þétt á þeim rúmu 80 árum sem skólinn hefur starfað. Fyrstur var reistur Gamli skóli eins og hann er kallaður í dag, en einungis tvær burstir og sundlaug í kjallara hans, árið 1925. Þriðja burstin var reist árið 1928. Íþróttahúsið Þróttó var reist árið 1931 og var það um tíma stærsta íþróttahús landsins. Dvergasteinn með heimavist og nýjum smíðasal var reistur árið 1949 og kennaraíbúðir við Dvergastein árið 1957. Norðurálma við Gamla-Skóla með nýjum matsal og heimavistum var reist árið 1961 og kom húsið að góðum notum við Landsmót UMFÍ sem haldið var á Laugum þá um sumarið. Fjall var byggt árið 1967 með heimavist og íbúðarhúsnæði, nýtt Íþróttahús reist árið 1978 og loks Tröllasteinn árið 2000 en í honum eru herbergi fyrir allt að 70 nemendur. Árið 2005 var svo reist vegleg útisundlaug. Árið 2012 var vistin Álfasteinn tekin aftur í notkun eftir hún hafði verið lagfærð. Félagslíf. Ein af hefðum við skólann er að nýnemar syndi yfir tjörnina á Laugum Við skólann starfar nemendafélag, Nemendafélag Framhaldsskólans á Laugum (NFL) sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1925 þegar skóli var stofnaður á Laugum. Fyrsta veturinn starfaði ungmennafélag við Laugaskóla og að vori kom fram sú tillaga að stofna sérstakt félag nemenda. Fékk það félag nafnið Nemendasamband Laugaskóla og var formlega stofnað 13. apríl 1926. Markmið félagsins voru í upphafi þau að efla gengi skólans, að auka skilning nemenda á íslenskri alþýðumenningu og að auka samheldnieldri og yngri nemenda skólans. Það sér um félagslíf við skólann, ýmis hagsmunamál nemenda og tengsl við aðra skóla. Haustið 1926 var ráðist í blaðaútgáfu og hafa ýmis blöð komið út á vegum félagsins síðan þá. Fyrstu árin var gefið út Ársrit Nemendasambands Laugaskóla og eru eintök af því til varðveislu á bókasafni Framhaldsskólans á Laugum. Þar er að finna góðar heimildir um starfið í skólanum fyrstu ár hans. Ýmsar hefðir eru í félagslífi nemenda á Laugum og eiga margar þeirra sér langa sögu. Ein þeirra langlífustu er sú að nýnemar sem það vilja syndi yfir tjörnina á Laugum og séu þannig formlega orðnir "Lauganemar". Þá stendur NFL fyrir "Tónkvíslinni" sem er árleg söngkeppni meðal nemenda skólans annars vegar og hins vegar meðal grunnskóla úr Þingeyjarsýslum. Tenglar. Laugum Settur réttur. Settur réttur í íslenskri réttarspeki er ein réttarheimildanna og skiptist í "settan rétt í þrengri merkingu" og "settan rétt í rýmri merkingu. Ármann Snævarr skilgreindi settan rétt svona: "Með orðunum settur réttur er átt við skráðar yfirlýsingar handhafa allsherjarvalds sem hafa heimild að stjórnlögum eða öðrum lögum til að mæla fyrir um háttsemi manna" Hefur Sigurður Líndal, prófessor emeritus við lagadeild Háskóla Íslands, notast við skilgreiningu Ármanns og segja má að hún sé almennt viðurkennd meðal íslenskra fræðimanna. Settur réttur í þrengri merkingu. Með settum rétti í þrengri merkingu er átt við lög sem eru sett með heimild í 2., 28., 42. eða 79. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands (lög nr. 33/1944). Þá flokkast önnur lög, sem stjórnarskráin áskilur, einnig til setts réttar í þrengri merkingu. Þau kallast "almenn lög, bráðabirgðalög, fjárlög og stjórnskipunarlög" Almenn lög. Almenn lög eru sett af Alþingi og Forseta Íslands með heimild í 2. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands (hér eftir skammstöfuð stj.skr.). Um hvað fjalla almenn lög? Löggjafinn getur í raun sett lög um hvaðeina sem honum sýnist, svo lengi sem það fer ekki gegn stjórnarskránni. Þó má ekki breyta stjórnarskránni með almennum lögum eða greiða fé úr ríkissjóði með almennum lögum. Bráðabirgðalög. Bráðabirgðalög eru sett af Forseta Íslands fyrir atbeina ráðherra. Þau eru sett með heimild í 28. gr. stj.skr. sem segir "Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný. Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi. Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið." Eins og sjá má á ákvæðinu þarf brýna nauðsyn að bera til og Alþingi má ekki vera að störfum þegar bráðabirgðalög eru sett. Oft hefur verið látið á það reyna fyrir dómi hvort brýna nauðsyn hafi borið til setningar laganna, en hefur Hæstiréttur hingað til komist að þeirri niðurstöðu að veita verði löggjafanum (í þessu tilfelli Forsetanum) mikið svigrúm við ákvörðun þess efnis. (sjá þó sératkvæði í Hæstaréttardómi frá 1995 bls. 2417 í dómasafni. Þar virðist mega merkja að Hæstiréttur vilji herða kröfurnar á brýnni nauðsyn þar sem Alþingi situr nú allt árið.) Fjárlög. Fjárlög eru sérstök að því leiti að skylda liggur á ríkisstjórninni til að leggja fram frumvarp til fjárlaga á hverju ári. Ekki má veita fé úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum. Lengi tíðkaðist að veita fé úr ríkissjóði með þingsályktunum, en tekið var fyrir það með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995. Þar sem erfitt kann að reynast að sjá nákvæmlega fyrir um útgjöld ríkissjóðs er heimilt að leggja fram fjáraukalög, þar sem fjárlög síðastliðins árs eru leiðrétt. Stjórnskipunarlög. Stjórnskipunarlög eru lög sem lögð eru fram til að breyta stjórnarskránni. Málsmeðferð. Stjórnskipunarlög eru æðsta réttarheimildin. Lög og reglugerðir mega ekki brjóta gegn henni og ber stjórnvöldum að haga sér með hana í huga. Settur réttur í rýmri merkingu. Einnig nefndur "stjórnsýslufyrirmæli". Réttlægri en settur réttur í þrengri merkingu. Oftast þarf einhvers konar lagaheimild til að setja stjórnsýslufyrirmæli, sér í lagi ef um íþyngjandi fyrirmæli er að ræða. Stjórnsýslufyrirmæli forseta Íslands. Forseti hefur, sem æðsti handhafi framkvæmdavalds, heimild til að gefa út almenn fyrirmæli. Nefnast þau "forsetaúrskurðir, forsetabréf, tilskipanir og reglugerðir". Stjórnsýslufyrirmæli Alþingis (þingsályktanir). Þingsályktanir eru afgreiddar eftir tvær umræður á Alþingi. Stundum setur Alþingi almennar bindandi reglur og falla þær í þennan flokk. Sem dæmi má nefna þingsályktun um starfshætti umboðsmanns Alþingis. Stjórnsýslufyrirmæli framkvæmdavalds. Þau heita ýmsum nöfnum en eru þó "jafnrétthá". Örlítill blæbrigðamunur kann að vera á þeim eftir heiti, t.d. felur heitið "samþykkt" í sér staðbundna reglu, en sem fyrr segir eru þau jafnrétthá. Reglugerð. Langalgengasta nafnið. Oftast stendur ráðherra að slíkum reglum annaðhvort með því að gefa þær sjálfur út eða staðfesta þær. Erindisbréf. Innihalda gjarnan almenn fyrirmæli um verksvið, starfsskyldur, réttarstöðu og starfskjör starfsmanns. Laugar. Laugar í Reykjadal eru þéttbýliskjarni í Þingeyjarsveit á norðurlandi eystra. Þar er stjórnsýsla Þingeyjarsveitar og þar er aðalútibú Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Á Laugum starfar fiskvinnslufyrirtækið Laugafiskur og hefur lengi verið rekin verslun. Á Laugum starfa 4 skólar, Leikskólinn Krílabær, Litlulaugaskóli sem er grunnskóli, Framhaldsskólinn á Laugum og Tónlistarskólinn á Laugum. 2006. Árið 2006 (MMVI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á sunnudegi. Oddviti. Oddviti er titill formanns hreppsnefndar á Íslandi og þar með titill sveitarstjóra í sumum sveitarfélögum, einkum þeim sem eiga rætur sínar að rekja til hreppa fyrri tíma. Rósabálkur. Rósabálkur er ættbálkur blómplantna af flokki tvíkímblöðunga. Ættbálkurinn dregur nafn sitt af rósaættinni sem er ein af níu ættum ættbálksins. Jurt. Jurtir eða plöntur eru stór hópur lífvera sem telur um 300.000 tegundir. Til jurta teljast meðal annars tré, blómplöntur, grös og burknar. Aristóteles skipti öllum lífverum í jurtir og dýr. Þetta urðu svo jurtaríki ("Vegetabilia" og síðar "Plantae") og dýraríki ("Animalia") hjá Carl von Linné. Síðar kom í ljós að ríkið innihélt nokkra óskylda hópa þannig að sveppir og sumar tegundir þörunga voru flutt í sérstök ríki. Humlaætt. Humlaætt eða hampætt (fræðiheiti: "Cannabaceae") er ætt blómplantna sem inniheldur sjö ættkvíslir, þar á meðal hinar þekktu ættkvíslir kannabis og humal. Valgerður Gunnarsdóttir. Valgerður Gunnarsdóttir (fædd á Dalvík árið 1955) er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og skólameistari Framhaldsskólans á Laugum í Þingeyjarsveit. Valgerður sat í bæjarstjórn á Húsavík frá 1986 til 1998 og var forseti bæjarstjórnar frá 1994 til 1996. Hún hefur verið formaður Skólameistarafélags Íslands frá árinu 2009. Starfsferill og stjórnmálaþátttaka. Valgerður sat í bæjarstjórn á Húsavík fyrir Kvennalistann frá 1986 til 1998. Hún var forseti bæjarstjórnar frá 1994 til 1996. Á árunum 1986 til 1990 sat hún í stjórn útgerðarfélagsins Höfða á Húsavík. Hún sat í skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík frá 1987 til 1999 og sat í fræðslu- og menningarmálanefnd Húsavíkur frá 1994 til 1999. Valgerður hefur verið í Sjálfstæðisflokknum frá árinu 2008 og náði 2. sæti í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi í janúar 2013. Valgerður var íslenskukennari, deildarstjóri og námsráðgjafi við Framhaldsskólann á Húsavík frá stofnun skólans árið 1987 til ársins 1999, þegar hún var skipuð skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Valgerður var kjörin í stjórn Skólameistarafélags Íslands árið 2000 og hefur verið formaður þess frá árinu 2009. Hún hefur verið formaður Samstarfsnefndar framhaldsskóla á Norðurlandi frá árinu 2006. Menntun. Valgerður lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Dalvíkur árið 1971. Hún sótti námskeið í matreiðslu fyrir matreiðslumenn á fiskiskipaflotanum við Húsmæðraskólann á Akureyri veturna 1973 og 1974. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1975 og BA prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1982. Árið 1996 lauk hún námi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri. Fjölskylda. Valgerður er fædd á Dalvík árið 1955. Foreldrar hennar eru Ásta Jónína Sveinbjarnardóttir og Gunnar Þór Jóhansson skipstjóri. Eiginmaður hennar er Örlygur Hnefill Jónsson lögmaður og varaþingmaður á Húsavík. Börn þeirra eru Emilía Ásta Örlygsdóttir (fædd 1977), Örlygur Hnefil Örlygsson (fæddur 1983) og Gunnar Hnefil Örlygsson (fæddur 1990). Börn Valgerðar reka hótel og ferðaþjónustu á Húsavík. Tengdafaðir Valgerðar var Jón Hnefill Aðalsteinsson (1927-2010), prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hjalti Jón Sveinsson. Hjalti Jón Sveinsson (fæddur 1953) er skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Hann var áður skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Hjalti brautskráðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1973. Hann lauk Cand. Mag.-prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands 1986 og kennsluréttindanámi frá sama skóla 1994. Hann stundaði framhaldsnám í stjórnun og skólastarfi við Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og brautskráðist með M.Ed.-próf frá HÍ 2009. Kennslu stundaði Hjalti Jón samhliða háskólanámi á árunum 1975 - 1982. Þá starfaði hann við ritstjórn, ritstörf og blaðamennsku á árunum 1982 - 1994, þar af 3 ár í Þýskalandi. Hann var skólameistari Framhaldsskólans á Laugum 1994 - 1999 og hefur starfað sem skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri frá 1999. Örlygur Hnefill Jónsson. Örlygur Hnefill Jónsson (fæddur 1953) er lögfræðingur og varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi. Hann hefur rekið eigin lögmannsstofu á Húsavík síðan 1982. Eiginkona Örlygs er Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. UMFÍ. Ungmennafélag Íslands (skammstafað UMFÍ) var stofnað 2.-4. ágúst árið 1907, en fyrsta ungmennafélagið, Umf. Akureyrar, var stofnað á Akureyri í ársbyrjun 1906. Ungmennafélag Íslands er landssamband ungmennafélaga. Markmið hreyfingarinnar er "Ræktun lýðs og lands". Fáni UMFÍ er Hvítbláinn. Félagið heldur Landsmót UMFÍ þriðja hvert ár, þó með nokkrum undantekningum, og Unglingalandsmót UMFÍ um hverja Verslunarmannahelgi. Félagið gefur út blaðið Skinfaxa. Héraðssamband Suður Þingeyinga. Héraðssamband Suður Þingeyinga (skammstafað HSÞ) var stofnað 7. maí 1914. Upphaflega hét félagið Samband þingeyskra ungmennafélaga (SÞU). Skrifstofa HSÞ er á Laugum í Reykjadal. Innan HSÞ eru 18 aðildarfélög. HSÞ er aðili að UMFÍ. Formaður HSÞ er Arnór Benónýsson. Aðildarfélög. Bjarmi, Boltafélag Húsavíkur, Efling, Einingin, Gaman og alvara, Geisli, Golfkl. Húsavíkur, Golfkl. Hvammur, Golfkl. Mývatnssveit, Hestamannaf. Grani, Hestamannaf. Þjálfi, Íþróttafélag Laugaskóla, Magni, Mývetningur, Reykhverfungur, Skotfélag Húsavíkur, Tjörnes og Völsungur Arnór Benónýsson. Arnór Benónýsson (fæddur 1954), leikari, leikstjóri og kennari. Formaður Héraðssambands Suður-Þingeyinga frá 2005. Brot af verkum sem Arnór hefur leikstýrt. Arnór Benónýsson er fæddur og uppalinn á Hömrum í Reykjadal ásamt sex systkinum sínum. Hann flutti ungur að heiman og bjó um tíma í Reykjavík ásamt ýmsum öðrum stöðum á landinu, s.s. Ísafirði og Akureyri, Síðusta áratugin hefur hann búið á Laugum í Reykjadal þar sem hann kennir við Framhaldsskólann á Laugum þar sem hann tekur nú þátt í uppbyggingu á þróunarverkefni opins kerfis í framhaldsskólum. Ásamt kennslunni hefur hann verið að leikstýra hjá leikfélagi UMF Eflingar sem og Leikfélagi Húsavíkur við gríðarlega góðar undirtektir. Einnig hefur hann sinnt hinum ýmsum hlutverkum í sveitarfélaginu og situr nú í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar. Arnór er giftur Ragnheiði Þórhallsdóttur og eiga þau saman tvö börn þá Benóný og Þórhall Arnórssyni, fyrir á Arnór önnur börn úr fyrri samböndum. Fréttablaðið. "Fréttablaðið" er íslenskt dagblað sem gefið hefur verið út frá 2001. Útgefandi blaðsins er fyrirtækið 365 miðlar sem einnig rekur Stöð 2. Ritstjóri "Fréttablaðsins" er Ólafur Þ. Stephensen. Blaðinu er dreift ókeypis í hús á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni. Skyrbjúgur. Skyrbjúgur var lengi algengur vaneldiskvilli hjá sjómönnum og öðrum sem ferðuðust við erfiðar aðstæður. Þetta var mikið vandamál fyrir alla sem stunduðu lengri siglingar, eins og til dæmis breski flotinn gerði. Að undirlagi breska hersins hófust kerfisbundnar rannsóknir á orsök skyrbjúgs árið 1747. Uppgötvaðist þá að regluleg neysla safa úr sítrusávöxtum læknaði sjúkdóminn og kom í veg fyrir að hann brytist út. Smám saman komust vísindamenn að því að það var C-vítamínið sem kom í veg fyrir skyrbjúg. Um 1907 var orðið ljóst að flest spendýr framleiða C-vítamín, þó ekki menn og aðrir prímatar. Árið 1928 uppgötvuðu menn efnasamsetningu þess og var þar með hægt að framleiða gervi C-vítamíns. Íslenska heitið yfir þennan sjúkdóm er líklegast tilkomið vegna misskilnings á orðunum „skørbug“ eða „skörbjugg“ úr öðrum norðurlandamálum, en orðin eru frekar skyld íslenska orðinu skurfa, sem getur þýtt skeina, skráma eða sár. Næringarkvilli. Kort sem sýnir hversu hátt hlutfall íbúa hvers lands þjáist af vannæringu. Næringarkvilli eða eldiskvilli er hverskyns sjúkdómur sem legst á menn (og dýr) vegna ójafnvægis í fæði, þ.e.a.s. vannæringar eða ofnæringar af einhverju tagi. Dæmi um slíka sjúkdóma er hörundskröm, skyrbjúgur, A-vítamín eitrun og offita. Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwllllantysiliogogogoch. Ferðamenn fyrir framan járnbrautastöðina í Llanfair Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwllllantysiliogogogoch er fullt heiti þorps í Wales og lengsta bæjarnafn í Evrópu. Bærinn er oftast nefndur Llanfair í daglegu tali. Nafnið þýðir „Kirkja Heilagrar Maríu í lundi hvítu heslihnetutrjánna nærri hylnum við Heilagan Tysilio við rauða hellinn“. janiwesmahasatharnamornphimarnavatarnsathitsakkattiyavisanukamprasit í Tælandi. Sú borg er í daglegu tali nefnd Bangkok á vesturlöndum og er höfuðborg Tælands. NFS (fréttastofa). Nýja fréttastofan (NFS) var íslensk fréttasjónvarpsstöð sem hóf göngu sína árið 2005 og sendi út fréttir og fréttatengt efni stærstan hluta sólarhringsins. Fréttastofa NFS tók við af fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Það voru 365 ljósvakamiðlar ráku NFS og hún var send út á Digital Íslandi og náðist því á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en einnig á internetinu á Vísir.is. Róbert Marshall var forstöðumaður NFS en Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóri. Varafréttastjórar voru Þór Jónsson og Þórir Guðmundsson en tæknistjóri Ingi Ragnar Ingason. Í raun var sjálf fréttastofan tvískipt: Annars vegar kvöldfréttateymið sem samanstóð af þeim fréttamönnum sem áður höfðu starfað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, hins vegar fréttaveitan svonefnda. Á fréttaveitunni starfaði hópur ungs fólks sem hafði mislitla fjölmiðlareynslu að baki. Hagkvæmnissjónarmið réðu því að þau áttu að vera allt í senn: tökumenn, fréttamenn og klipparar. Fréttatímar NFS - að kvöldfréttunum undanskildum - voru verk fréttaveitunnar. Stöðin hætti útsendingum á eigin rás klukkan 20:00 föstudaginn þann 22. september 2006, vegna þessa var 20 starfsmönnum sagt upp. Nokkrum dögum áður hafði Róbert Marshall skrifað opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs og eins af aðaleigendum 365, með yfirskriftinni "Kæri Jón". Þar biðlaði hann til Jóns Ásgeirs að beita sér fyrir því að NFS yrði tryggður áfram rekstargrundvöllur. Allt kom fyrir ekki og Róbert var á meðal þeirra sem tóku pokann sinn þennan föstudag. Fréttir voru um stutt skeið sendar áfram út undir merkjum NFS en um haustið 2006 var ákveðið að fréttastofan sendi á ný undir merkjunum: "Fréttastofa Stöðvar 2". Kári Jónasson. Kári Jónasson (fæddur í Reykjavík árið 1940) er ritstjóri Fréttablaðsins. Hann var áður fréttastjóri Ríkisútvarpsins og blaðamaður á Tímanum. Birta (tímarit). Birta er vikulegt tímarit. Meðal þess sem Birta fjallar um er tíska, tónlist, matur, fjölskylda og útlit. Í Birtu er einnig að finna dagskrá innlendra og erlendra sjónvarpsstöðva. 24 stundir. "24 stundir" var íslenskt dagblað sem kom fyrst út 6. maí 2005 en hét þá Blaðið. Nafninu var breytt í 24 stundir 9. október 2007 og blaðið kom síðast út 9. október 2008. 24 stundum var dreift á heimili um allt land endurgjaldslaust. Útgefandi "24 stunda" var Árvakur hf. Útgefandi. Útgáfufélag "24 stunda" var Árvakur hf. 24 stundir hétu áður Blaðið en það var stofnað af Karli Garðarssyni, Sigurði G. Guðjónssyni og Steini Kára Ragnarssyni sem áttu bróðurpart hlutafjár við stofnun. Í desember 2005 keypti Árvakur - útgáfufélag Morgunblaðsins 50% hlutafjár í Ári og Degi og keypti síðan félagið að fullu 2007. Hæstiréttur Íslands. Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll Íslands og hið hærra af tveimur dómsstigum, þar sem Héraðsdómstólarnir eru hið lægra. Níu dómarar sitja í dómstólnum og eru skipaðir af forseta Íslands samkvæmt tillögum innanríkisráðherra. Dómstóllinn er ekki nefndur á nafn í stjórnarskránni en um hann gilda. Aðsetur Hæstarétts er við Lindargötu 2 í Reykjavík, í húsi sem var sérstaklega byggt fyrir starfsemi hans og tekið í notkun 1996. Dómstóllinn var stofnaður með lögum nr. 19/1919 og tók til starfa árið 1920. Áður hafði Landsyfirréttur verið æðsti dómstóllinn innanlands, en dómum hans mátti áfrýja til Hæstaréttar Danmerkur í Kaupmannahöfn. Með stofnun Hæstaréttar fluttist lokaorðið í íslenskum dómsmálum heim til Íslands. Gulltoppur frá Eystra-Geldingaholti. Gulltoppur frá Eystra-Geldingaholti var hestur fæddur 1932 og felldur 1965. Gulltoppur var undan Nasa 88 frá Skarði. Gulltoppur var gæðingur Jóns Ólafssonar í Eystra-Geldingaholti og vann hann Hreppasvipu Hestamannafélagsins Smára alls 6 sinnum á árunum 1944 til 1956. Besti tími hans í 250 m. skeiði var um 24 sekúndur. Núverandi heimsmet í greininni er 19,86 sek. Rauðrefur. Rauðrefurinn ("Vulpes vulpes" eða "Vulpes fulva") er sennilega þekktasta refategundin og er útbreiddasta rándýrið á landi. Rauðrefir lifa nær alls staðar í Norður-Ameríku og Evrasíu en einnig víða í Norður-Afríku. Rauðrefir eru stærstu dýrin í ættkvíslinni "Vulpes". Rauðrefir eru bæði litnir jákvæðum og neikvæðum augum af mönnum. Þeir geta borið sjúkdóma í búfé og sitja gjarnan um alifugla en eru einnig mikilvægir í loðdýrarækt og hafa verið ræktaðir fyrir feld sinn. Í febrúar árið 2005 voru refaveiðar bannaðar í Bretlandi en höfðu þá tíðkast lengi. Japanski rauðrefurinn ("Vulpes vulpes japonica"), sem er undirtegund af rauðref, breiddist út frá Indlandi til Kína og þaðan til Japan. Hann er einnig þekktur undir japönsku heiti sínu "kitsune" (狐). Útlitslýsing. Rauðrefir eru oftast, eins og nafnið gefur til kynna, með rauðan feld en hvítir á kviðnum, með svört eyru og svarta fætur og með þykkt loðið skott sem er hvítt á endanum. „Rauði“ tóninn á feldinum er breytilegur og getur verið dökkrauður eða ljósgylltur og allt þar á milli. Raunar geta hárin verið marglituð við nánari skoðun, rauð, brún, hvít og svört að hluta. Í náttúrunni þekkjast einnig tvö önnur litaafbrigði: silfurgrár eða svartur feldur (silfurrefir eru um 10% villtra rauðrefa og meirihluti þeirra refa sem eru ræktaðir af loðdýrabændum), og hinn svokallaði „kross-refur“, sem er öllu algengari, nefndur eftir svörtum rákum á baki hans sem ná yfir herðarnar og niður eftir bakinu og mynda „kross“ á annars rauðum feldinum. „Tamdir“ eða ræktaðir refir geta verið nánast hvernig sem er á litinn, þ.á m. doppóttir. Augu þeirra eru gyllt eða gull og augnsteinar þeirra eru sporöskjulaga og lóðréttir eins og í köttum. Þeir sjá líka jafn vel og kettir. Rauðrefir eru afar liðugir og hefur þeim verið líkt við ketti. Löng, loðin skottin með hvítum endanum veita þeim jafnvægi í hvers kyns hoppum og stökkum. Fullorðnir rauðrefir geta náð 4.1–5.4 kg þyngd (9–12 pund). Stærð þeirra er afar margbreytileg en yfirleitt eru rauðrefir í Evrópu stærri en rauðrefir í Norður-Ameríku. Um haust og vetur þykknar feldur rauðrefa. Hinn svonefndi ‚vetrarfeldur‘ heldur þeim heitum í kaldara umhverfi. Refirnir missa vetrarfeldinn á vorin og fá þá aftur styttri feld sem þeir hafa út sumarið. Heimkynni og mataræði. Rauðrefir finnast víða, allt frá sléttum og graslendi til skóga. Þeim hentar best að vera sunnarlega en fara þó oft á norðlægari slóðir og keppa við heimskautarefinn um fæði. Rauðrefir hafa einnig oft sést í úthverfum borga og jafnvel innan borgarmarka og vitað er til þess að þeir hafi haldið sig á sama svæði og þvottabirnir. Rauðrefir éta nagdýr, t.d. mýs, skordýr, ávexti, orma, egg, og önnur smá dýr. Þeir hafa 42 öflugar tennur sem þeir nota til að hremma bráð sína. Refirnir neyta að jafnaði um 0.5–1 kg (1–2 pund) af fæðu dag hvern. Undanfarna áratugi hafa refir komið sér fyrir innan borgarmarka víða í Bretlandi. Þessir borgarrefir lifa sennilega á afgöngum sem ´þeir finna í sorpi þótt þeir veiði einnig nagdýr og fugla í görðum. Hegðun. Rauðrefir sýna margbreytilega hegðun vegna þess hve margbreytileg heimkynni þeirra eru. Í "Biology and Conservation of Wild Canids", fullyrða MacDonald og Sillero-Zubiri að tveir hópar rauðrefa geti hegðað sér jafn ólíkt og tvær ólíkar "tegundir" dýra. Rauðrefir hafast mest við í ljósaskitunum en hafa tilhneigingu til að fara helst á kreik um nætur þegar þeir eru í návígi við mannabyggð (og þar sem næturlýsing er mikil). Oftast veiða þeir einir en ekki í hópum. Ef refur veiðir stærri bráð en hann getur borðað mun hann oftast grafa hana eða geyma þar til síðar. Venjulega gerir hver refur tilkall til eigin svæðis. Refirnir para sig einkum saman á veturnar en á sumrin fara þeir um einir. hvert svæði getur verið allt að 50 km² (19 fermílur). Þar sem nóg er af fæðu eru svæðin aftur á móti oftast mun minni (múrmeldýrum, eða grafin ný. Refirnir búa í stærri grenjum á veturna og þegar þeir annast afkvæmi sín. Smærri greni eru dreifð út um svæðið allt til vara og til að geyma fæðu. Stundum eru þau tengd aðalgreininu með göngum. Rauðrefir stofna venjulega til „einkvænis“-sambanda á hverjum vetri, sem hjálpar þeim að ala 4-6 hvolpa ár hvert. Stundum halda þeir sig hins vegar ekki við einn maka en orsakir þess eru ekki kunnar. Þá fer eitt karldýr ýmist milli margra kvendýra eða þar sem mörg skyld kvendýr „deila“ einu karldýri; eða einhver blanda af þessu tvennu. Stundum halda ungir refir að heiman um leið og þeir hafa náð þroska (u.þ.b. 8-10 mánaða gamlir); stundum verða þeir eftir og hjálpa til við að ala upp ungviði næsta vors. Félagslega eiga refir samskipti sín á milli með líkamstjáningu og ýmsum hljóðum sem þeir gefa frá sér. Hljóðin sem þeir mynda eru gríðarlega margvísleg. Þeir tjá sig einnig með líkamslykt og merkja bæði fæðu sína og svæði sitt með þvagi og saur. Æxlun. Vegna mikillar útbreiðslu er fengitími rauðrefa afar misjafn. Rauðrefir sem búa suðlægari slóðum makast venjulega frá desember til janúar, þeir sem búa norðar frá janúar til febrúar og þeir sem búa hvað nyrst frá febrúar til apríl. Mökin eru hávær en stutt og vara sjaldnast lengur en í 20 sekúndur. Enda þótt kvendýr maki sig ef til vill með mörgum karldýrum (sem berjast innbyrðis um hana) mun hún þó á endanum velja aðeins eitt þeirra. Súra. Súra (سورة "sūrah") er arabíska hugtakið fyrir kafla í Kóraninum. Súrurnar eru 114 að tölu, þær skiptast í 6236 ayat (vers). Múslimar nefna þær yfirleitt ekki eftir raðtölu eins og gert er í Biblíunni heldur eftir arabísku nafni sem dregið er á einhvern hátt frá viðkomandi súru. Austur-Þýskaland. Þýska alþýðulýðveldið (þýska: "Deutsche Demokratische Republik", skammstafað DDR), einnig þekkt sem Austur-Þýskaland var austantjaldsríki sem stofnað var á hernámssvæði Sovétríkjanna í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Það var stofnað 7. október 1949 og leið undir lok 3. október 1990 þegar austurþýsku sambandslöndin gengu í vesturþýska ríkjasambandið ("Bundesrepublik Deutschland") og núverandi Þýskaland varð til. Tilurð Austur-Þýskalands. Fyrir lok heimsstyrjaldarinnar síðari var það svæði sem síðar varð nefnt Austur-Þýskaland staðsett nærri miðju þýska ríkisins og var raunar þekkt í daglegu tali sem miðþýskaland ("Mitteldeutschland"). Austan ánna Oder og Neisse voru stór landflæmi sem tilheyrt höfðu þýska ríkinu Prússlandi um langan aldur. Þetta voru Pommern, Austur-Prússland, Vestur-Prússland, Efri Slésía, Neðri Slésía og austurhluti Brandenborgar. Leiðtogar Bandamanna sömdu á Jalta-ráðstefnunni um að landamæri Póllands yrðu færð vestur að ánum Oder og Neisse að stríðinu loknu til að bæta fyrir austari landsvæðin sem Sovétmenn gerðu tilkall til. Niðurstaðan var því sú að "miðþýskaland" varð að austasta hluta Þýskalands. Hernámssvæðin. Á ráðstefnunum í Jalta og Potsdam var einnig rætt um hernám og stjórnun Þýskalands að stríðinu loknu. Ákveðið var að sérstakt ráð ("Allied Control Council" eða ACC) undir stjórn bandalagsríkjanna fjögurra, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Sovétríkjanna skyldi fara með stjórn Þýskalands og skipti það landinu í fjögur hernámssvæði sem hvert var í reynd undir beinni stjórn eins bandalagsríkis og skyldi svo vera þar til Þýskaland fengi fullveldi á ný. Sambandlöndin Mecklenborg-Vorpommern, Brandenborg, Saxland, Saxland-Anhalt og Þýringaland voru undir hernámsstjórn Sovétríkjanna ("Sowjetische Besatzungszone" eða SBZ). Sovétmenn mótmæltu fljótlega þeim efnahagslegu og stjórnmálalegu breytingum sem tóku að eiga sér stað á vestari hernámssvæðunum þremur og sögðu sig úr ACC árið 1948. Upp úr því varð SBZ, ásamt sovéska hluta Berlínar, að Austur-Þýskalandi. Á svipuðum tíma tóku vestari hernámssvæðin að mynda Vestur-Þýskaland. Sameiningarþreifingar. a>s, en það átti eftir að vera undir franskri stjórn allt til 1957. Austur-Þýskaland myndaðist úr sovéska hernámssvæðinu og Vestur-Berlín var skipt í bandarískt, breskt og franskt hernámssvæði. Í orði kveðnu höfðu bæði Sovétríkin og vestrænu bandalagsríkin það á stefnuskrá sinni að sameinað Þýskaland yrði endurmyndað (þó án austurhéraðanna sem runnið höfðu til Póllands og Sovétríkjanna) líkt og kveðið var á um í samningnum sem undirritaður var á Potsdam-ráðstefnunni. Stalín lagði fram tillögu í þessa átt árið 1952, þar sem lagt var til að hernámi Þýskalands yrði hætt, en vesturveldin með Konrad Adenauer í broddi fylkingar voru tortryggin og litu á tillögu Stalíns sem tilraun til að halda aftur af hinu nýstofnaða Vestur-Þýskalandi. Bandaríkjastjórn hafnaði því tillögunni. Að Stalín látnum snemma árs 1953 lognuðust þessar þreifingar út af og sameining Þýskalands komst ekki aftur á dagskrá fyrr en við fall kommúnismans síðla árs 1989. Ögmundur Jónasson. Ögmundur Jónasson (f. 17. júlí 1948 í Reykjavík) er alþingismaður og fyrrum innanríkisráðherra. Ögmundur er sagnfræðingur að mennt og situr sem þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Ögmundur var heilbrigðisráðherra í fyrstu tveim ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur, frá 1. febrúar 2009 og til 1. október. Hann sagði af sér ráðherradómi vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar um Icesave-málið. Hann sagði af sér formennsku BSRB fyrir ársfund BSRB haustið 2009. Ögmundur er yfirlýstur andstæðingur inngöngu Íslands í Evrópusambandið eins og margir samflokksmenn hans. Ögmundur varð ráðherra að nýju 2. september 2010, tæpu ári eftir að hann sagði af sér vegna Icesave-málsins og tók sæti sem dómsmála- og samgönguráðherra í aðdraganda þess að nýtt innanríkisráðuneyti varð til með sameiningu dóms- og mannréttindaráðuneytis og samgönguráðuneytis. Ögmundur lýsti því yfir í aðsendri grein í Morgunblaðið um miðjan janúar 2012 að hann myndi styðja tillögu um að vísa mál Landsdóms gegn Geir Haarde frá sökum þess að ekki væri rétt að einn maður væri látinn sæta ábyrgð fyrir hrunið. Það þótti nokkuð umdeilt að innanríkisráðherra skyldi með þessum hætti hlutast um dómsmál sem að öllu jöfnu teldist fara á svig við þrískiptingu ríkisvaldsins. Ferill. Hann útskrifaðist sem stúdent frá menntaskólanum í Reykjavík 1969 og lauk MA-prófi í sagnfræði og stjórnmálafræði frá háskólanum í Edinborg 1974. Hann hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands síðan 1979 og var formaður BSRB 1988-2009 (sinnti því starfi ásamt þingmennsku). Ögmundur var kjörinn á Alþingi sem óháður frambjóðandi á lista Alþýðubandalagsins, sat sem slíkur 1995-1998, var formaður þingflokks Óháðra 1998-1999, en hefur verið þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs síðan 1999. Hann hefur, ásamt flokkssystkinum sínum, mótmælt stríðinu í Írak og virkjanaframkvæmdunum við Kárahnjúka. Miðherji (körfuknattleikur). Miðherji (center) er ein af fimm grundvallarstöðum í körfuknattleik eins og við þekkjum hann í dag. Miðherjar eru oftast hæstu og þyngstu leikmenn hvers liðs þó að mikilvægt sé að þeir hafi góðan stökkkraft. Miðherjinn er sá leikmaður í hverju liði sem spilar næst körfunni, en hlutverk hans felst aðallega í því að taka fráköst og sniðskot (lay-up) þegar lið hans er í sókn og að gæta þess að knötturinn komist ekki framhjá honum og ofan í körfuna í vörn. Einn af stórum kostum í fari góðs miðherja er að geta snúið sér fljótt að körfunni eftir sendingu og skorað úr sniðskoti. Meðal þekktustu miðherja heims í dag má nefna Yao Ming og Shaquille O'Neal og Dwight Howard. Meðal þekktra miðherja fyrri tíma eru Bill Russell, Wilt Chamberlain, Bill Walton, Kareem Abdul-Jabbar, Dave Cowens, David Robinson, Arvydas Sabonis, Hakeem Olajuwon og Patrick Ewing. Af íslenskum miðherjum má nefna Pétur Guðmundsson, Guðmund Bragason, Einar Bollason og Friðrik Stefánsson. Hafiz. Hafiz aða Hafez (arabíska: حافظ "ḥāfiẓ"), sem bókstaflega þýðir 'verndari', er nafngift múslima á þeim sem hafa lært Kóraninn algjörlega utanbókar á arabísku. Hefðin að læra Kóraninn utanbókar á rætur allt til upphafs íslam. Mikilvægasta ástæðan fyrir þessari hefð er nauðsyn þessa að vernda innihald Kóransins. Ef öll skrifuð eintök Kóransins væru eyðilögð mundi hafiz geta sagt fram textan orðréttan úr minni. Í upphafi íslam var Kóraninnn oft í hættu og gerði hafiz-hefðina nauðsynlega. Huffaz (fleirtala) eru haldnir í hávegum í söfnuðum múslima og er titillinn "hafiz" notaður fyrir framan nafn þeirra. Flestir huffaz hafa stundað nám í sérstökum Kóran-skólum, sem á arabísku eru nefndir "madrasah". Til að fá hugmynd um hvað þarf að gera til að verða hafiz má nefna nokkrar tölur. Kóraninum er skift í 114 súrur (kafla) sem þær skiftast í 6236 vers (sem samanstanda af um það bil 80 000 orðum eða 330 000 bókstöfum á arabísku). Giskað er á að nú séu um það bil 10 milljónir huffaz í heiminum. Fyrsta súran. Fyrsta súran í handriti skrifuðu af Hattat Aziz Efendi Fyrsta súran, "Upphafið", eða á arabísku Al-Fatiha (الفاتحة), er inngangskafli Kóransins og dagleg bæn trúaðra múslima. Þegar þessi súra er lesin sem dagleg bæn lýkur henni með "Amín" (Amen). Ramadan. Ramadan (arabíska: رمضان), sem er níundi mánuður íslamska ársins er föstumánuður Múslima. Fastan er haldin á hverjum degi allan mánuðinn frá sólarupprás til sólseturs. Fastan er þó einungis eitt af því sem ber að forðast eða sérstaklega framkvæma þennan miklvæga mánuð í trúarlífi múslima. Forðast skal að drekka eða borða og einnig allt kynlíf frá sólarrás (fajr) fram til sólseturs (maghrib). Meðan Ramadan stendur yfir er múslimum ætlað að leggja enn meir á sig að fylgja kenningum íslam og taka afstöðu gegn ofbeldi, reiði, öfund, losta og illu umtali. Að fasta er sagt hreinsa hugann og auðvelda einbendingu að Guði. Að fasta undir Ramadan er ekki ætlað öllum. Börn sem ekki eru orðin kynþroska er ekki ætlað að fasta þó svo að sum geri það. Þeir sem eru sjúkir eða á annan hátt veikburða eru undanteknir frá föstunni og eins er með gamalt fólk. Einnig er hafandi konum eða konum með börn á brjósti ekki ætlað að fasta. Hvenær árs, hvenær dags? Íslamska dagatalið miðast við tunglgang og þess vegna færist Ramadan til á milli ára um u.þ.b. 11 daga og er lengd mánaðarins breytileg, annað hvort 29 eða 30 dagar. Ekki er hægt að segja til nákvæmlega hvenær mánuðurinn byrjar þar sem það fer eftir hvenær sést til nýs tungls. Þessar reglur um föstu milli sólarupprás og sólseturs voru gerðar fyrir sólargang á Arabíuskaga og er ekki hægt fyrir til dæmis íslenska múslimi að fara eftir þeim bókstaflega. Til að gerar föstuhald á Ramadan möguleg á norðurhveli (og einnig á suðurhveli) eru til viðurkenndir útreikningar. Flestir múslimir velja að fylgjast með hvenær sést til tungls til að hefja og ljúka Ramadan, en sumir fylgja heldur útreikningi á gangi himintugnla eða tilkynningu frá yfirvöldum í Sádi-Arabíu. Eid ul-Fitr. Múslimska hátíðin Id al-Fitr (arabíska: عيد الفطر) endar Ramadanföstuna. Amen. Orðið amen (hebreska אמן Amen, arabíska آمين ’Āmīn) er staðfestingarorð í Biblíunni og í Kóraninum og er ættað úr semískum málum. amen eru lokaorð í biblíunni eða öðrum trúarfræðum en er gjarnan notað í merkingunni „sannlega“ eða „satt“. Amen er lokaorðið í bænum og lofgjörðum í kristni og íslam. Amen er einnig nafn á egypska guðinum Ammon. Alþjóðasamtök um veraldarvefinn. Alþjóðasamtök um veraldarvefinn (W3C) eru alþjóðleg samtök þar sem félagasamtök, fastráðið starfsfólk og almenningur vinna saman að því að búa til staðla fyrir Veraldarvefinn. Markmið W3C er: "Að leiða veraldarvefinn til sinnar allra bestu getu með því að hanna samskiptareglur og viðmiðunarreglur sem tryggja langtímavöxt Vefsins". W3C hvetur einnig til menntunar og útbreiðslu, þróar hugbúnað og þjónar þeim tilgangi að vera opinn vettvangur fyrir umræður um Vefinn. Samtökunum er stjórnað af Tim Berners-Lee, sem upphaflega bjó Veraldarvefinn til og var upphafsmaður URL (Uniform Resource Locator), HTTP (HyperText Transfer Protocol) og HTML (HyperText Markup Language) útfærslnanna, sem eru uppstaðan í þeirri tækni sem heldur Vefnum gangandi. Vafri. Vafri (vefskoðari, skoðari, vefsjá, netvafri, rápforrit, rápari, vafrari eða vefrápari) er forrit sem notað er til að vafra um eða skoða skjöl á vefþjónum eða skráakerfi m.a. með notkun HTTP-samskiptareglnanna. Vafrar lesa kóða vefsíðu og nota hann til að miðla kóðanum á lesanlegu formi til notandans. Þeir eru mest notaða tegund aðgangsbúnaðar. Stærsta netkerfi samansett af samtengdum skrám er þekkt sem veraldarvefurinn. Barðaströnd. Kort sem sýnir Barðaströnd á Vestfjörðum. Barðaströnd er heiti á strandlengju á sunnanverðum Vestfjörðum að Breiðafirði á milli Vatnsfjarðar og Sigluneshlíða. Flóki Vilgerðarson nam þar land og gaf Íslandi nafn sitt eftir að hafa klifið þar fjall (hugsanlega Lónfell - 752 m) og séð fjörð (hugsanlega Arnarfjörð) fullan af hafís. Reyðarfjörður. Reyðarfjörður er djúpur fjörður sem er hluti Austfjarða á Íslandi. Við fjarðarbotninn norðanverðan stendur þorp sem hét upphaflega "Búðareyri", en bærinn er nú kallaður Reyðarfjörður. Um 700 manns bjuggu þar til skamms tíma en vegna framkvæmda við nýtt álver Alcoa-Fjarðaráls hefur orðið fjölgun. Í júní 2010 var fjöldi íbúa kominn í 1.098. Reyðarfjörður er hluti af sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Reyðarfjörður er lengsti fjörður Austfjarða, 30km langur og 7km breiður. Á staðinn eru komnir margir afþreyingamöguleika, svo sem íþróttahöll, líkamsræktarstöð, bar og kaffihús. Einnig er þjónustustig hátt á Reyðarfirði með 3 banka, 3 bensínstöðvar,lágvöruverslun, fatabúð og meira og fleira. Hafnaraðstaða er mjög góð frá nátturunnar hendi. Mikill uppgangur er á Reyðarfirði vegna atvinnuaukningar með tilkomu nýs álvers á Íslandi, sem er jafnframt það stærsta á Íslandi. Stutt er í næstu byggðarkjarna; 13km á Eskifjörð, þar sem keyrt er yfir Hólmaháls; 18km á Fáskrúðsfjörð ef keyrt er í gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin, sem voru tekin í notkun árið 2005; og 32km í Egilsstaði. Tjörnin. Tjörnin, spegilslétt í apríl 2008 Tjörnin (eða Reykjavíkurtjörn) er grunnt stöðuvatn í miðbæ Reykjavíkur. Vatnið í Tjörnina kemur úr Vatnsmýrinni sunnan við hana og rennur úr henni um Lækinn sem rennur undir Lækjargötu til sjávar í víkinni. Við Tjörnina standa margar merkilegar byggingar, þar á meðal Ráðhús Reykjavíkur, Iðnaðarmannahúsið, Tjarnarskóli, Listasafn Íslands og Fríkirkjan í Reykjavík. Við Tjörnina er einnig Hljómskálagarðurinn, eini lystigarðurinn í miðborg Reykjavíkur. Í og við Tjörnina er mikið fuglalíf. Vinsæl afþreying hjá foreldrum með ung börn er að fara niður að Tjörn og „gefa öndunum“ (þ.e. brauðmola). Lífríki Tjarnarinnar. Hólmi í Tjörninni hinum megin við Skothúsveg Tjörnin er dæmi um sjávarlón þar sem sandur og möl hefur myndað malarrif sem lokar smám saman af lónið. Gamli miðbærinn í Reykjavík stendur á rifinu. Rifið var ekki fullmyndað fyrr en fyrir um það bil 1200 árum og þá hófst lífræn setmyndun í Tjörninni en undir þeim setlögum eru sand- og malarlög. Þegar lífræn efni tóku að safnast saman á botni Tjarnarinnar gætti lítilla seltuáhrifa og grunnvatn hefur streymt þangað frá Vatnsmýrinni og holtunum í kring. Tjarnarbakkarnir voru grónir gulstör (carex lyngbyei) og öðrum tegundum af hálfgrasaætt en svo komu tímabil þegar seltan verður meiri þá hörfuðu háplöntur. Um 1900 mun engum fugli hafa verið vært á Tjörninni, allir fuglar voru drepnir. Andaveiðar voru eitthvað stundaðar á Tjörninni allt fram á annan áratug síðustu aldar. Með lögreglusamþykkt frá 19. apríl 1919 var bannað að skjóta í borgarlandinu. Um sama leyti var sett siglingabann en áður höfðu margir átt báta og vegna umferðar þreifst ekkert kríuvarp í Tjarnarhólmanum fyrir 1919. Með skotveiðibanninu og siglingabanninu fjölgaði mikið stokköndum og kríum. Hólmarnir í Tjörninni. Seinna var borið grjót í hólmann og hann stækkaður og lagðist þá hringekjan af. Hann var síðan tyrfður um 1870 og hafði Jakob Sveinsson og fleiri Reykvíkingar endur sínar þar á sumrin, svo að þær hefðu betra næði til að verpa eggjum sínum. Viltar endur eða aðrir fuglar sáust þá sjaldan eða aldrei við tjörnina. Sögusögn. Sagt er að einu sinni hafi tvær kerlingar búið sín hvoru megin við Reykjavíkurjörn. Hittist svo á, að þær voru eitt sinn báðar að skola úr sokkunum sínum, og fóru þá að rífast út af veiðinnni í tjörninni, sem báðar vildu eiga. Endaði það með heitingum, og því fór svo, að allur silungur í tjörninni varð að pöddum og hornsílum, og hefur aldrei verið veiði þar síðan. Gásfuglar. Gásfuglar (fræðiheiti: "Anseriformes") eru ættbálkur um 300 tegunda fugla sem skiptast í þrjár ættir: hornagldaætt ("Anhimidae"), skjógæsaætt ("Anseranatidae") og andaætt ("Anatidae"), sem inniheldur meðal annars gæsir, svani og endur. Kvíðaraskanir. Kvíðaraskanir eru flokkur geðrænna truflana, geðraskana, sem nær yfir nokkur kvíðavandamál (kvíði, fóbía, hræðsla). Það sem greinir þá að sem þjást af kvíðaröskunum, frá þeim sem ekki þjást af þeim, eru nokkur atriði. Þar vegur þyngst hversu sterkur kvíðinn er, hversu erfitt er að losna við hann, hversu oft og lengi hann er til staðar og hversu mikil áhrif hann hefur á daglegt líf manna. Kvíðaraskanir eru oft lamandi eða heftandi vandamál sem koma aftur og aftur, en þær geta skotið upp kollinum eftir ákveðinn atburð eða verið viðloðandi frá bernsku. Þær eru líklegar til að skjóta upp kollinum á tímum mikils álags. Flestir geta eflaust séð sjálfan sig í einhverjum kvíðaröskunum af og til. Þannig eru það fæstir sem geta komið algerlega afslappaðir fram á mannamótum, sérstaklega ef þeir eiga að halda ræðu. Flestir finna án efa til kvíða yfir engu sérstöku einstaka sinnum, sérstaklega ef undanfarinn tími hefur falið í sér mikla streitu. Kvíðaköst eru einnig ekkert sérstaklega óalgeng. Flest okkar upplifa auk þess ákveðna áráttu af og til, sérstaklega sem börn. Líta má á hjátrú sem einhvers konar áráttu, s.s. að ganga ekki undir stiga, eða að ganga aðeins á hellum, ekki á mótum þeirra. Sömuleiðis athuga margir á hvort þeir hafi lokað útidyrahurðum eða gluggum þegar þeir fara að heiman, eða kanna margoft hvort þeir hafi póstlagt bréf þegar þeir muna ágætlega eftir því að hafa farið á pósthús. Að auki geta sumir einstaklingar upplifað endurteknar og nánast uppáþrengjandi hugsanir, oft kynferðislegar eða sem tengjast ofbeldi. Líkt og áður segir er allt ofantalið talið vera hluti af okkur sem manneskjum, þetta eru aðferðir líkamans til að búa okkur undir erfiða tíma og sennilega að gera okkur hæfari til að sinna daglegu lífi. Meðferð. Lyf eru gjarnan notuð, aðallega þunglyndislyf og róandi lyf. Margar af þessum röskunum er hægt að ráða bug á með hjálp meðferðaraðila og atferlismeðferðar. Súmer. Stytta af Gudea, prins Lagash borgar Súmer er í dag, hugtak notað um suðurhluta Mesópótamíu — u.þ.b. sama landsvæði og Írak spannar — þar sem fornu borgirnar Uruk, Úr, Eridu, Kisj, Lagash og Nippur eru. Elstu fornleifar gefa til kynna að Súmerar (fólkið í Súmer) hafi hafið búsetu þar fyrir allavega 7000 árum, sum fornleifagögn gefa til kynna að Súmerar hafi komið úr austri, frá Íran eða Indlandi. Uppruni Súmera er þó óstaðfestur. Elstu fleygrúnir sem fundist hafa eru frá um 3500 f.kr. og eru taldar uppfinning Súmera. Efrat. Efrat (gríska: Euphrates; fornpersneska: "Ufrat"; aramíska: "Prâth" eða "Frot"; arabíska: "Al-Furat" eða الفرات; tyrkneska: Fırat; forn-assýríska: "Pu-rat-tu") er vestari áin af þeim tveim sem mynda ársléttuna sem kölluð er Mesópótamía, hin áin er Tígris. Nanó. Nanó (n) er smækkunarforskeyti í SI mælikerfinu og táknar einn milljarðarsta eða 10-9. Nanó er oft notað í mælingum á stærðum tengdum raftækjum og tölvum. Stundum er talað um nanótækni eða dvergtækni þegar talað er um tækni sem er afar smá í smíðum. Nanó er komið úr grísku (νάνος) og þýðir dvergur. Dow Jones-vísitalan. Þróun Dow Jones við hrun verðbréfamarkaða árið 1929 "Dow Jones-vísitalan" (Dow Jones Industrial Average) í Bandaríkjunum er ein elsta hlutabréfavísitala heims, en hún var fyrst gefin út þann 26. maí 1896. Í grunni vísitölunnar eru 30 mikils metin bandarísk fyrirtæki og er samanlagt markaðsvirði þeirra um fimmtungur af markaðsvirði allra félaga sem skráð eru í New York-kauphöllinni. Þann 27. febrúar 2007 féll vísitalan um 416,02 stig eða 3,3%, Nasdaq-vísitalan og Standard & Poor’s-vísitalan féllu sömuleiðis, þetta er mesta hrap vísitölunnar síðan í september 2002 eða í rúm þrjú ár. Ástæðan var sú að virði kínverskra hlutabréfa féll um 9% eftir að hafa náð methæðum 26. febrúar. Þetta hefur haft neikvæð áhrif á markaði um allan heim. Sagan. Dow Jones hlutabréfavísitalan var fyrst gefin út 26. maí árið 1896 og voru þá tólf mikilsmetin bandarísk fyrirtæki í grunni hennar. Af þeim er einungis eitt sem er enn þá í vísitölunni, en það er General Electric. Fyrirtækið Dow Jones & Co. hefur reiknað og birt vísitöluna frá árinu 1896 en það gefur einnig út dagblaðið The Wall Street Journal þar sem talan er birt. Árið 1916 var fyrirtækjunum fjölgað í 20. Árið 1928 var fyrirtækjunum fjölgað í 30 og hefur sá fjöldi haldist síðan þó fyrirtækin séu ekki öll þau sömu. Á 9. og 10. áratug 20. aldar urðu miklar hækkanir á vísitölunni. Árið 1995 fór hún í fyrsta skipti yfir 5000 stig og árið 1999 fór hún í yfir 10.000 stig. Vísitalan reiknuð. Þrátt fyrir að vera ein af þekktustu vísitölum heims, endurspeglar hún ekki endilega bandarískan hlutabréfamarkað, þar sem í henni eru fyrst og fremst rótgróin framleiðslu- og iðnaðarfyrirtæki. Dow Jones-vísitalan er reiknuð sem einfalt meðaltal af verði hlutabréfa fyrirtækjanna sem í henni eru, en ekki verðmæti félaganna eins og algengast er í hlutabréfavísitölum. Vægi fyrirtækja í vísitölunni er því ekki í samræmi við verðmæti þeirra. Fyrir þetta hafa margir gagnrýnt vísitöluna. Eyjólfur Kjalar Emilsson. Eyjólfur Kjalar Emilsson (fæddur 1953) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við háskólann í Osló í Noregi og Háskólann á Bifröst. Menntun. Að loknu stúdensprófi hóf Eyjólfur nám við Háskóla Íslands þar sem hann nam heimspeki, frönsku og grísku. Eyjólfur brautskráðist árið 1977. Lokaritgerð hans til B.A.-prófs fjallaði um samræðuna "Gorgías" eftir Platon. Þá hélt Eyjólfur til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Eyjólfur nam fornaldarheimspeki við Princeton University og lauk þaðan doktorsprófi árið 1984. Doktorsritgerð Eyjólfs fjallaði um kenningar Plótínosar um skynjun. Störf. Árið 1984 sneri Eyjólfur heim til Íslands og kenndi heimspeki við Háskóla Íslands. Hann varð lektor og loks dósent en árið 1993 flutti hann til Noregs sem gistikennari. Árið 1995 tók hann við prófessorsstöðu í fornaldarheimspeki við háskólann í Osló. Eyjólfur Kjalar fæst einkum við platonisma, nýplatonisma og platonska hefð en hefur einnig fengist við forvera Sókratesar og skrifað um Descartes svo eitthvað sé nefnt. Þýðingar. Eyjólfur hefur verið mikilvirkur þýðandi og hefur þýtt yfir á íslensku m.a. "Gorgías", "Ríkið" og "Samdrykkjuna" eftir Platon, "Um fegurðina" eftir Plótínos og brot eftir forvera Sókratesar. Hann hefur einnig þýtt "Fræðarann" eftir Platon yfir á norsku. Svavar Hrafn Svavarsson. Svavar Hrafn Svavarsson (fæddur 1965) er íslenskur heimspekingur og fornfræðingur og prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Menntun. Svavar Hrafn lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík árið 1984. Hann nam almenna bókmenntafræði, heimspeki, forngrísku og latínu við Háskóla Íslands og lauk þaðan B.A.-prófi árið 1989. Þaðan hélt Svavar til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði framhaldsnám í fornaldarheimspeki við Harvard-háskóla í Cambridge í Massachusetts. Svavar Hrafn lauk doktorsgráðu frá Harvard í heimspeki og klassískum fræðum árið 1998. Doktorsritgerð Svavars hét "Tranquility of Sceptics: Sextus Empiricus on Ethics" og fjallaði um efahyggju Sextosar Empeirikosar. Leiðbeinandi Svavars var Gisela Striker. Störf. Árin 1995-1997 kenndi Svavar Hrafn latínu við Menntaskólann í Reykjavík. Hann var einnig stundakennari og síðar aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann kenndi grísku og latínu. Árið 2005 varð Svavar lektor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hann hefur einnig umsjón með námi í klassískum fræðum sem byrjað var að kenna sem aukagrein til B.A.-prófs árið 2005 og er forstöðumaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands. Svavar fæst einkum við heimspeki fornaldar, aðallega heimspeki Platons, Aristótelesar og helleníska heimspeki. Hann hefur þó einnig fengist við bókmenntasögu fornaldar og arfleifð klassískrar menningar í nútímanum. Svavar Hrafn hefur þýtt tvö verk eftir Aristóteles, 1. bók "Frumspekinnar" og "Siðfræði Níkomakkosar". Hann var ritstjóri "Skírnis, tímarits Hins íslenzka bókmenntafélags" árin 2000-2005 ásamt Sveini Yngva Egilssyni. Íslensk mannanöfn sem hafa einn nafnhafa (A-J). Framhald af heildarlista yfir íslensk mannanöfn eftir notkun og lista yfir tvo nafnhafa. Eftirfarandi nöfn eru jöfn í sætum 5192-11826 á vinsældalista íslenskra nafna 2005. ...framhald á næstu síðu Íslensk mannanöfn eftir notkun. Eftirfarandi listi yfir íslensk mannanöfn eftir notkun er unninn upp úr íslensku þjóðskránni í desember 2005. Sökum stærðar listans er hann síðuskiptur, þau nöfn sem einn eða tveir bera eru á aukasíðum. Alls eru 11.826 mismunandi fyrsta nafn skráð í þjóðskrá Íslands, íslenskir og erlendir ríkisborgarar, í þessari tölu eru þó þrjú nöfn sem ekki eru mannanöfn, "drengur" og "stúlka" tákna ónefnd börn og "Gervimaður" er notað af söluaðilum vegna erlendra gesta sem hafa ekki kennitölu. 3.772 nöfn hafa þrjá eða fleiri núlifandi nafnhafa á árinu 2005, 1.419 nöfn hafa tvo nafnhafa og 6.635 nöfn hafa aðeins einn (stærstur hluti þeirra af erlendum uppruna). Heimild. Íslensk mannanöfn mannanöfn eftir notkun íslensk mannanöfn eftir notkun Íslensk mannanöfn eftir sem hafa tvo nafnhafa. Þessi listi er framhald af íslensk mannanöfn eftir notkun. Eftirfarandi nöfn eru jöfn í sætum 3773-5191 á vinsældalista íslenskra nafna 2005. Framhald á einn nafnhafi Aktiníð. Aktiníð eru hópur 15 frumefna, frá aktin til lawrensín, með sætistölurnar 89 til 103. Aktiníðahópurinn er nefndur eftir aktín. Allir aktiníðar eru f-blokkar frumefni fyrir utan lawrensín. Til eru aðrar framsetningar á aktiníðahópnum sem innihalda ekki annað hvort aktín eða lawrensín. Ólíkt lantaníðum, eru aktiníðar eru ekki jafn efnafræðilega svipaðir hvorum öðrum. Sem dæmi, hafa þau mun víðara svið oxunarstiga, sem að til að byrja með valdi ágreiningi um hvort að aktín, þórín og úran væru í staðin d-blokkar frumefni. Allir aktiníðar eru geislavirkir. Aktín, þórín og úran eru einu aktiníðarnir sem finnast náttúrulega í skorpu jarðar. Afgangurinn var framleiddur á tuttugustu öldinni með ýmsum kjarneðlisfræðilegum aðferðum. Seinni helmingur hópsins, á eftir plútoni, hefur gríðarlega stuttan helmingunartíma. Lota (lotukerfið). Lota er nafn yfir raðir efna í lotukerfinu. Fjöldi rafeindahvela í hverju frumefni segir til um í hvaða lotu það tilheyrir. Frumefni sem eru nálægt hverju öðru í sama flokki hafa yfirleitt svipaða efnafræðilega eiginleika, þó svo að massi þeirra sé mjög misjafn. Frumefni sem að eru nálægt hverju öðru í sömu lotu, hafa svipaðann massa en mismunandi efnafræðilega eiginleika. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 2006. Heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2006 var haldið í Þýskalandi dagana 9. júní til 9. júlí. Heimsmeistaramótið var það 18. í röðinni, en þau eru haldin á fjögurra ára fresti. Kort sem sýnir borgirnar sem leikið var í Leikið var í borgunum Berlín, Dortmund, Frankfurt, Gelsenkirchen, Hamburg, Hannover, Kaiserslautern, Köln, Leipzig, München, Nürnberg og Stuttgart. Úrslitaleikurinn fór fram í Berlín þann 9. júlí en þar báru Ítalir sigurorð af Frökkum. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 1-1 og kom þá til framlengingar. Eftir framlengingu var staðan óbreytt. Það var því ljóst að úrslitin myndu ráðast í vítaspyrnukeppni. Ítalir skoruðu úr öllum 5 vítaspyrnum sínum en Frakkar úr þremur. Er þetta í fjórða skipti sem Ítalía vinnur Heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Gestgjafar keppninnar, þjóðverjar höfnuðu í þriðja sæti og portúgalar í því fjórða. Knattspyrnuvellir. Heimalið: 1860 München og Bayern München World Cup Soccer. World Cup Soccer er tölvuleikur fyrir Game Boy. Í leiknum eru þrettán landslið sem reyna að vinna heimsmeistaratitilinn. Liðin eru Argentína, Bandaríkin, Brasilía, England, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Kamerún, Mexíkó, Rússland, Spánn, og Þýskaland. Við upphaf hvers leiks verða leikmenn að velja lið og raða leikmönnum á leikvöllinn. Liðið er skipað markmanni, tveimur varnarmönnum, fyrirliðanum (sem leikmaður stjórnar) og tveimur framherjum. Ýmis brögð eru til við markaskorun. Hægt er að nota hjólhestaspyrnu sem ómögulegt er að stoppa. Við lok hvers unnins leiks er lykilorð sýnt, það gerir leikmanninum kleyft að komast aftur á það stig síðar meir. Leiknum er lokið ef að leikur endar í jafntefli eða tapast. Ef þú vinnur úrslitaleikinn fagnar liðið og fyrirliðinn tekur við bikarnum. Þessi leikur er einnig til fyrir NES og nefnist þar Nintendo World Cup. Birtíngur. Nóvellan "Birtíngur", eða "Candide, ou l'Optimisme" eins og hún nefnist á frummálinu, er frönsk satíra (háðsádeila) rituð árið 1759 af Voltaire, kunnum rithöfundi og heimspekingi frá dögum Upplýsingarinnar. Voltaire var bæði skáld og fræðimaður, og ritaði um allt milli heims og geims. Hann barðist ötullega gegn harðstjórn, hjátrú, stjórnarkreddum og bábiljum, og mörg verka hans voru rituð í hugmyndafræðilegum tilgangi. Fá rit hans hafa haldið nafni hans jafn kröftuglega á lofti og Birtíngur, sem skrifuð var sem andsvar við löghyggju 18. aldar og einkum bjartsýnisheimspeki manna á borð við hinn þýska heimspeking Gottfried Wilhelm Leibniz og því hlutleysi sem slík heimspeki fól í sér. Samkvæmt henni er skynsamleg regla á sköpunarverkinu og vel það, því að guð hlýtur að hafa skapað hinn besta mögulega heim allra hugsanlegra heima, jafnvel þó svo að íbúar þessa heims komi ekki endilega alltaf auga á það. Eða eins og Altúnga, lærimeistari Birtíngs og ötull fylgismaður þessara kenninga, segir í upphafi verksins: „Maður á að segja að allt sé í allra besta lagi.“ Birtíngur er samfelld háðsádeila á þessa skoðun, þar sem prófessor Altúnga er látinn þylja heimspeki Leibniz í augljósri skopstælingu, þar á meðal frumsetningu hans um hina einhlítu ástæðu, það er að segja að hver hlutur sé til af skynsamlegri ástæðu þar sem að sérhverjum sannindum hnígi skynsamleg rök. Halldór Laxness íslenskaði Birtíng og kom þýðing hans fyrst út árið 1945. Hún hefur síðan tvisvar sinnum verið endurútgefin af Hinu íslenska bókmenntafélagi í bókaflokknum Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Hafnarfjarðarleikhúsið setti árið 1996 upp leikgerð byggða á útgáfu Laxness, og Á herranótt, leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, endurtók sama leik árið 2006. Söguþráður. Sagan um Birtíng er sögð í þrjátíu köflum og ber hver kafli lýsandi yfirskrift. Á undan fyrsta kafla segir til að mynda: „Hér segir frá því, hvernig Birtíngur var uppfóstraður í fögrum kastala, og hvernig útrekinn þaðan.“ Sagan hefst í Vestfalíu, í kastala greifans til Tundertentronk. Þar á Birtíngur heima, ungur, óspilltur sakleysingur „sem náttúran hafði gætt mjúkátu hátterni“. Lærifaðir hans, Altúnga, kennir honum að þeir lifi í hinum besta heimi hugsanlegra heima og að allt sem gerist miði til góðs. Þekkt er ræða Altúngu í upphafi sögu, sem endurspeglar þá skopstælingu sem Voltaire setur fram um bjartsýnisheimspekina. Altúnga segir að sýnt hafi verið fram á að hlutirnir geti ekki verið öðruvísi en þeir eru, því að allt sé miðað við einn endi, sem hljóti þar með að vera hinn allra besti endir. Hann segir: „Athugið hvernig nef manna hafa verið gerð fyrir lonníetturnar; enda höfum við líka lonníettur. Það er bersýnilegt að fætur manna eru til þess gerðir að vera skóaðir, enda höfum við öll eitthvað á fótunum. Grjót hefur orðið til svo að hægt væri að höggva það sundur og byggja úr því kastala; mesti greifinn í landsfjórðungnum verður að hafa best í kringum sig; og til þess eru svínin gerð að maður éti þau, enda erum við étandi svín ár og síð: þar af leiðir að þeir sem segja að alt sé í besta lagi eru hálfvitar, maður á að segja að alt sé í allrabesta lagi.“ Birtíngur laðast að hinni ungu og fögru Kúnígúnd, dóttur greifans og greifynjunnar. Dag einn kemur greifinn af unglingunum í líkamlegum ástarleik, skömmu eftir að Kúnígúnd varð uppnumin af því að sjá doktor Altúngu „gefa stofupíunni lexíu í líkamlegri tilraunafræði“. Það fýkur í greifann og hann rekur Birtíng úr kastalanum. Kúnígúnd fellur í öngvit. Í næsta kafla hittir Birtíngur fyrir Búlgara. Fyrr en varir er hann dubbaður upp í her þeirra til að berjast fyrir Búlgarakóng. Raunir Birtíngs í stríðinu eru miklar og litlu munar að hann týni tórunni. Eftir hrakningar og barning kemst hann undir hendur Jakobs hins óausna, sem græðir sár hans og líknar honum. Skömmu síðar hittir Birtíngur aftur Altúngu, lærimeistara sinn og fyrirmynd. Altúnga er nú orðinn að sjúkum betlara, ægilegri hryggðarmynd í mannslíki. Búlgarskir hermenn gerðu innrás í kastalann og rændu, drápu og rupluðu. Altúnga telur að Kúnígúnd sé dáin (en hefur raunar rangt fyrir sér). Það þyrmir yfir Birtíng. Í kjölfarið rata þeir félagar í ótal ævintýri. Þeir lenda til dæmis í ægilegum jarðskjálfta sem leikur fjölda manns grátt. Fyrirmyndir Voltaires að þessum stríðsátökum og jarðhræringum eru annars vegar sjö ára stríðið, sem snerti allar helstu áhrifaþjóðir Evrópu á árunum 1756 - 1763, og jarðskjálftinn mikli sem skók Portúgal árið 1755. Þessir atburðir vöktu hjá Voltaire djúpstæðar spurningar um það hvernig hægt væri að halda því fram af alvöru, eins og kristin forlagatrú gerði, en einkum þó boðberar löghyggju á borð við Leibniz, að allt ætti sér skynsamlega ástæðu og heimurinn yrði eins og best yrði á kosið. Við sögu koma fjölmargar litríkar persónur, s.s yfirdómari Rannsóknarréttarins og gyðingur nokkur, sem báðir verða ástfangnir af Kúnígúnd; gömul kerling sem reynist söguhetjunum betri en engin; Kakambus, skrautlegur, spænskur skósveinn, sem verið hefur kórdrengur, hringjari, munkur, landpóstur, soldáti og hermannsþjónn; íbúar paradísarinnar Eldóradó; bölsýnismaðurinn Marteinn; snobbmenni og tildurrófur í Frakklandi; Biskupsfífla og bróðir Lefkoj; og svona mætti lengi telja. Þrátt fyrir nánast óþrjótandi hrinu hörmunga rígheldur Altúnga í hugmyndir sínar um að allt sé eins og best verði á kosið. Ekki er laust við að Birtíngur efist á tíðum örlítið um afstöðu háspekingsins, en þó lætur hann fátt uppi. Undir lokin segir vinur þeirra og bölsýnismaðurinn Marteinn: „Vinnum án þess að brjóta heilann, það eitt gerir lífið bærilegt.“ Og Birtíngur kemst að þessari frægu lokaniðurstöðu: „Maður verður að rækta garðinn sinn.“ Stílbrögð. Að sögn Voltaire, var hlutverk Birtíngs „að skemmta fámennum hópi andríkra manna“. Þessu markmiði sínu nær höfundurinn með því að blanda saman beittri hnyttni sinni og ærslafullri paródíu, þ.e. skopstælingu á hinni sígildu ástar-og ævintýrafléttu. Að baki galsanum leynist þó hvöss ádeila á stjórnarfyrirkomulag margra hinna valdameiri Evrópuríkja, og hvimleiðu stríðsbrölti þeirra sem bitnaði, líkt og ævinlega gildir um stríð, á saklausum borgurum. Háðsádeila. Lykillinn að háðsádeilu Birtíngs felst í kaldhæðnislegri samtvinnun á harmleik og gamansemi. Sagan hvorki ýkir né skreytir hörmungar heimsins, heldur dregur upp myndir af ógnum hans á raunsæjan (en þó ævintýralegan) hátt. Með þessu móti tekst Voltaire að einfalda flóknar heimspekikenningar og samfélagshefðir, og draga þannig fram galla þeirra. Hann skopast að bjartsýni, svo að dæmi sé nefnt, með því að demba fram flaumi af skelfilegum, sögulegum (eða að minnsta kosti trúverðugum) atburðum, án þess að þeim virðist fylgja nokkur syndaaflausn eða annað í þeim dúr. Garðamótíf. Margir telja að garðar gegni lykilhlutverki í Birtíngi Voltaires. Í upphafi eru söguhetjur staddar í kastala greifans til Tundertentronk, sem margir hafa litið á sem garð. Þar leikur allt í lyndi og lífið er með besta hugsanlega móti. Þegar Birtíngur er síðan hrakin þaðan verður samlíkingin við Adam og Evu í sköpunarsögu Biblíunar nærtæk. Þá kemst Birtíngur undir lok sögunnar að þeirri niðurstöðu að maður verði að rækta garðinn sinn. Söguhetjur hafa þá sjálfar skapað sér sinn eigin garð, hugsanlega sína eigin guðdómlegu paradís. Loks má telja til nautnaríkið Eldóradó, sem Birtíngur og félagar hans eiga leið um. Eflaust er þar um einhvers konar gerviparadís að ræða, þar sem íbúar líða um í áhyggjulausum draumi, ef til vill einhvers konar sljóleika. Viðtökur. Birtíngur var mjög umdeilt verk og Voltaire gekkst ekki við því að hafa ritað það fyrr en árið 1768. Hann hafði áður átt í tíðum útistöðum við yfirvöld og valdamenn kirkjunnar. Þau átök höfðu meðal annars leitt af sér fangelsisvist og útlegð frá Frakklandi. Enda þótt Voltaire ritaði í fyrstu undir Birtíng með skáldanafni („Doktor Ralph“) duldist raunar fáum hver höfundurinn var. Stjórnvöldum og kirkjunnar mönnum þóknaðist illa sú opinskáa gagnrýni sem sett var fram í verkinu. Ekki leið á löngu uns Stjórnarþingið í Genf og yfirvöld í París höfðu bannað það. Engu að síður ruku eintök þes út og töldu sumir að sölumet hefði verið slegið. Einnig má nefna að bókin var víða bönnuð í Bandaríkjunum allt fram á tuttugustu öld. Birtíngur er í senn mest lesna og víðlesnasta verk Voltaires, og almennt álitið á meðal hápunkta í sögu vestrænna bókmenna. Sumir telja þó ekki rétt að jafna Birtíngi við lofuðustu verk hinna klassísku bókmennta, og byggja þá skoðun sína meðal annars á léttvægri afstöðu Voltaires til skáldverka sinna, og skorti á tilfinningalegum þunga í verkinu, sem fyrst og fremst sé ritað í heimspekilegum tilgangi. Hvernig sem þessu líður er ljóst að Birtíngur er gríðarlega áhrifamikið verk og hefur orðið listamönnum vítt og breitt um veröldina að innblæstri. Sleppitúr. Sleppitúr kallast sú hefð hestamanna að ríða hrossum sínum í sumarhagann og er þeim þar sleppt á gras eftir innistöðu vetrarins. Oft fara margir hestamenn saman, t.d. heilu hestamannafélögin og gera þá stærri ferð úr sleppitúrnum. Ares. Ares (gríska: Áρης) er stríðsguðinn í grískri goðafræði. Hann var einn af Ólympsguðunum tólf. Íslensk mannanöfn eftir sem hafa einn nafnhafa (K-Ö). Þessi listi er framhald af fyrri listum; sjá tenglabox til hægri. Erasure. Erasure er bresk popphljómsveit sem var stofnuð árið 1985. Eyrarbakki. Eyrarbakki er lítið sjávarþorp á suðurströnd Íslands. Það tilheyrir sveitarfélaginu Árborg og íbúafjöldi þar er um 600 manns. Á Eyrarbakka var mikil verslun og sóttu bændur á Suðurlandi til Eyrarbakka á meðan á einokun danska kóngsins stóð. Eyrarbakki varð einn stærsti bær á Íslandi og var á þeim tíma mun stærri en t.d. Reykjavík og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborgin. Á Eyrarbakka hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1923. (Veður var þó athugað og skráð mun lengur á Eyrarbakka eða frá árinu 1880, en þá var P. Nielsen faktor með veðurathuganir fyrir dönsku veðurstofuna). 9. janúar 1990 gekk mikill sjór inn á suðurströndina í kjölfar ofsaveðurs sem þá gekk yfir landið og urðu þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri verst úti í þessum hamförum veðurofsans þegar ein dýpsta lægð sem mælst hefur á síðustu áratugum rann upp að suðurströndinni. Þjórsárhraunið mikla myndar ströndina við Eyrarbakka og skerin þar úti fyrir og nær mörg hundruð metra út. Í byrjun síðustu aldar hófst tímabil útgerðar og fiskvinnslu á Eyrarbakka og störfuðu þar þrjú fiskvinnslufyrirtæki fram undir síðustu aldamót. Hafnleysi stóð útgerð þó alltaf fyrir þrifum og með tilkomu brúar yfir Ölfusárósa lagðist útgerð smám saman af. Eyrarbakki er nú vaxandi ferðamannastaður og gömlu húsin gjarnan nýtt sem sumarbústaðir. Showbiz. "Showbiz" er fyrsta breiðskífa Muse. Platan var gefin út í Bandaríkjunum þann 28. september 1999 og í Bretlandi 4. október 1999 af Mushroom Records. Origin of Symmetry. "Origin of Symmetry" er önnur breiðskífa Muse. Hullabaloo Soundtrack. "Hullabaloo Soundtrack" er safnplata frá ensku hljómsveitinni Muse. Platan inniheldur B-hliðar og tónleikaútgáfur af lögunum sem má finna af tónleikadisk þeirra sem kallast "Hullabaloo". Lofthræðsla. Kvikmyndin Lofthræðsla ("Vertigo") í leikstjórn Alfred Hitchcock var framleidd í Bandaríkjunum árið 1958. Söguþráður. James Stewart leikur rannsóknarlögreglumanninn John Ferguson sem hefur þurft að láta af störfum vegna mikillar lofthræðslu (e. Vertigo}. Gamall vinur hans, Gavin Elster fær honum það verkefni að fylgjast með eiginkonu sinni Madeleine Elster, sem hefur sýnt undarlega hegðun. Málið flækist svo þegar Ferguson verður ástfanginn af Madeleine. Gerð myndarinnar. Myndin sem tekin var upp í San Francisco er af mörgum talin ein af bestu myndum Hitchcocks. Tónlistina í myndinni samdi Bernard Hermann og á hún stóran þátt í að skapa hið dularfulla andrúmsloft sem einkennir myndina. Absolution. Absolution er þriðja breiðskífa Muse. Minna-Hof (Skeiða- og Gnúpverjahreppi). Minna-Hof er bær í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Jörðin er nokkuð landmikil og liggur meðfram Þjórsá. Nágrannabæir eru Þjórsárholt, Stóra-Hof og hluti sveitarfélagsins í Stóra-Hofi 2. Tún eru nytjuð frá Hæli 2 en einnig eru hross á bænum. E.R. Dodds. Eric Robertson Dodds (26. júlí 1893 – 8. apríl 1973) var breskur fornfræðingur. Dodds fæddist í Banbridge, County Down á Norður-Írlandi. Foreldrar hans voru kennarar. Robert, faðir hans, lést af völdum áfengissýki þegar Dodds var sjö ára gamall. Anne, móðir hans, var af ensk-írskum ættum. Þegar Dodds var tíu ára gamall flutti hann ásamt foreldrum sínum til Dyflinnar. Hann hlaut menntun í St Andrew's College (þar sem móðir hans kenndi) og í Campbell College í Belfast. Hann var rekinn úr síðarnefnda skólanum fyrir „mikla og ítrekaða ósvífni af yfirlögðu ráði“. Árið 1912 hlaut Dodds skólastyrk til náms í í fornfræði við University College í Oxford. Meðal vina hans í Oxford voru Aldous Huxley og T.S. Eliot. Árið 1916 var hann beðinn um að yfirgefa Oxford vegna stuðnings síns við páskauppreisnina en hann sneri aftur næsta ár til að þreyta próf og brautskráðist með ágætiseinkunn. Að námi loknu hélt Dodds aftur til Dublin og kynntist þar W.B. Yeats og George Russell. Árið 1919 var hann skipaður lektor í fornfræði við University of Reading og árið 1923 giftist hann Annie Edwards Powell (1886-1973), lektor í enskum bókmenntum. Dodds var skipaður prófessor í grísku við University of Birmingham árið 1924 og kynntist þar W. H. Auden (faðir Audens var samstarfsmaður hans). Dodds bar einnig ábyrgð á því að Louis MacNeice var skipaður lektor við háskólann í Birmingham árið 1930. Hann aðstoðaði MacNeice við þýðingar á verkum Æskýlosar og varð forráðamaður ritverka skáldsins að MacNeice látnum. Dodds gaf sjálfur út eitt safn ljóða árið 1929. Árið 1936 varð Dodds Regius Professor of Greek við Oxford háskóla og tók við þeirri stöðu af Gilbert Murray. Murray hafði sjálfur valið Dodds sem eftirmann sinn en sú ákvörðun var ekki vinsæl - Dodds var málamiðlun; hann var valinn í stað tveggja fræðimanna sem störfuðu þegar við háskólann. Sú staðreynd að hann hafði ekki barist í fyrri heimsstyrjöldinni (hann vann um skamma hríð á herspítala í Serbíu) og stuðningur hans við myndun lýðveldis á Írlandi og við sósíalisma gerðu hann einnig óvinsælan meðal samstarfsmanna sinna í upphafi. Dodds er höfundur bókanna "The Greeks and the Irrational" og "Pagan and Christian in an Age of Anxiety" og var ritstjóri margra klassískra texta fyrir Clarendon Press, þ.á m. "Bacchae" eftir Evripídes og "Gorgías" eftir Platon. Sjálfsævisaga hans, "Missing Persons", kom út árið 1977. Dodds hafði ávallt mikinn áhuga á dulspeki og sálrænum rannsóknum. Hann var meðlimur í ráði Society for Psychical Research frá 1927 og forseti þess árin 1961-1963. Dodds, E.R. Dodds, E.R. Gilbert Murray. Gilbert Murray (eða George Gilbert Aime) (2. janúar 1866 – 20. maí 1957) var breskur fornfræðingur og stjórnmálamaður. Hann fæddist í Sydney í New South Wales í Ástralíu. Hann var menntaður í Merchant Taylors' School og St John's College í Oxford. Hann varð Regius Professor of Greek við Oxford háskóla árið 1908. Þýðingar hans á grískum harmleikjum voru nokkuð vinsælar á sínum tíma. Hann var alþjóðasinni og tók þátt í starfi Þjóðabandalagsins, sem fulltrúi Suður-Afríku, og átti seinna þátt í að koma á fót Oxfam. Hann var kvæntur Lady Mary Howard sem olli því að honum bregður fyrir í leikriti George Bernard Shaw "Major Barbara". Murray, Gilbert Murray, Gilbert Hrútleiðinlegir. "Hrútleiðinlegir" er önnur breiðskífa Hvanndalsbræðra. Út úr kú. "Út úr kú" er fyrsta breiðskífa Hvanndalsbræðra. Bernt Michael Holmboe. Bernt Michael Holmboe (fæddur 23. mars 1795, dáinn 28. mars 1850) var norskur stærðfræðingur. Hann var stærðfræðikennari stóran hluta ævi sinnar og er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað snillinginn Niels Henrik Abel og verið einn af þeim sem hjálpuðu honum að komast áfram í námi. Einnig lagði hann mikið af mörkum til stærðfræðikennslu og eru í dag veitt verðlaun í hans nafni til stærðfræðikennara sem þykir hafa aukið veg stærðfræðikennslu í sínum skóla. Æviágrip. Bernt Michael Holmboe fæddist 23. mars árið 1795 í sveitarfélaginu Vang í Noregi og voru foreldrar hans þau Jens Holmboe og Cathrine Holst. Hann bjó ásamt átta systkinum á kirkjustaðnum Eidsberg fyrstu ár ævi sinnar. Fimmtán ára var hann sendur í menntaskóla til Kristjaníu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1814 eftir fjögurra ára nám og eyddi næsta árinu með fjölda stúdenta í pólitískri baráttu gegn herliði Svía sem hafði ráðist inn í Noreg þetta sama ár. Árið 1815 fékk Holmboe stöðu sem aðstoðarmaður lektorsins Christopher Hansteen við Háskólann í Kristjaníu. Hansteen var stjörnufræðingur og aðstoðaði Holmboe hann við ýmsa útreikninga. Samhliða þessu kenndi hann auk þess sem hann las sér til um stærðfræði á eigin spýtur. Það var svo árið 1818 sem Holmboe var skyndilega gerður að stærðfræðikennara menntaskólans í Kristjaníu. Hann tók við af stærðfræðikennara sem stundaði það að berja nemendur til hlýðni og endaði með að berja einn nemandann til dauða. Þar fékk hann það erfiða hlutverk að þurfa að auka virðingu stærðfræðikennslu enda voru það klassísku málin sem voru mest metin á þessum tíma. Það var hér sem Holmboe uppgötvaði Abel og ýtti honum af stað í ítarlegar stærðfræðirannsóknir en það átti merkilegt nokk eftir að verða hans merkasta framlag til stærðfræðinnar. Í menntaskólanum kenndi Holmboe til ársins 1826 en þá var hann gerður að lektor við Háskólann í Kristjaníu. Það að hann skuli hafa þáð þessa stöðu hefur verið umdeilt sökum þess að mörgum þykir hún hafa hentað Abel betur. Aftur á móti virtist Abel ekki hafa litið þannig á málin enda kom þetta ekkert niður á vinskap þeirra tveggja. Holmboe var svo gerður að prófessor árið 1834 í hreinni stærðfræði og hafði þá lagt mikið að mörkum til stærðfræðikennslu og samið fjölda kennslubóka. Á sama tíma kenndi hann stærðfræði við háskóla norska hersins og átti eftir að kenna þar til dauðadags. Á sínum síðari árum sat hann einnig í ýmsum nefndum svo sem opinberri nefnd sem hafði eftirlit með tryggingafélögum. Hann stofnaði einnig eitt slíkt árið 1844 og sat í stjórn annars á síðustu árum ævi sinnar. Holmboe var tvígiftur. Fyrst giftist hann Nikoline Finkenhagen árið 1834 en hún lést fimm árum síðar. Þremur árum eftir það giftist hann svo aftur. Seinni kona hans hét Ingeborg Thorp og lifði hún hann en Holmboe lést þann 28. mars árið 1850. Samband Holmboe og Abel. Bernt Michael Holmboe var sá sem uppgötvaði stærðfræðinginn Niels Henrik Abel og sá sem ýtti honum út í sínar stærðfræðirannsóknir og hjálpaði honum að komast áfram í námi. Fyrst kynntust þeir þegar Holmboe kenndi Abel við menntaskólann í Kristjaníu og fór hann fljótlega að kenna Abel einkakennslu og kynna hann fyrir alþjóðlegum rannsóknum. Hann las yfir niðurstöður hans og ráðlagði honum hvernig ætti að kynna þær á alþjóðavettvangi. Þegar Abel lauk stúdentsprófi fékk Holmboe aðra norska prófessora til að styrkja háskólanám Abels og er óvíst að Abel hefði getað haldið áfram námi án þessara styrkja. Hann ritstýrði einnig safnútgáfu verka Abel sem kom út árið 1839, tíu árum eftir dauða Abel. Samband þeirra var ekki einungis á sviði stærðfræðinnar. Synir Holmboe voru með Abel í bekk í menntaskóla og var Abel mikill vinur fjölskyldunnar. Hann var líka oft hjá þeim á jólunum á meðan hann dvaldist einn í Kristjaníu. Stærðfræðikennsla Holmboe. Fyrir tíð Holmboe hafði stærðfræðikennsla í Noregi bæði verið lítilsvirt og vanrækt. Þetta breyttist þó með honum enda skrifaði hann margar kennslubækur á sviði stærðfræði auk rita um hvernig ætti að kenna hana. Hans skoðun var sú að fólki leiddist stærðfræði vegna þess að því væri ekki tamt að nota bókstafi og stærðfræðileg tákn. Því lagði hann áherslu á að þjálfa skilning á táknum og mörg hans verkefni fólust í því að umbreyta táknmáli yfir í talað mál. Dæmigert verkefni fæli til dæmis í sér breytingu á formkorninu formula_1 í setninguna: 'Í stað þess að draga eina stærð frá summu tveggja er hægt að draga stærðina frá annarri tölunni í summunni og leggja svo hina við þá útkomu'. Holmboe gaf einnig út nokkrar kennslubækur í rúmfræði og algebru á árunum 1825 til 1827. Þessar bækur bættu upp skort á norskum stærðfræðibókum og voru notaðar næstu áratugina í menntaskólanum í Kristjaníu. Bækurnar eru byggðar upp samkvæmt umræddum kennsluaðferðum hans en þykja í dag mjög hlutbundnar og fræðilegar auk þess sem þær skortir sýnidæmi ef miðað er við kennslubækur nútímans. Framlag Holmboe til stærðfræðikennslu var það mikið að stofnaður hefur verið minningarsjóður um hann. Úr honum á að veita verðlaun til norsks stærðfræðikennara eða hóps stærðfræðikennara sem þykja hafa aukið veg stærðfræðikennslu í landinu. Verðlaunin mega renna til kennara bæði á grunn- og framhaldskólastigi og voru þau veitt í fyrsta skipti árið 2005. Heimildir. Holmboe, Bernt Michael Sleipnir. Sleipnir var áttfættur hestur Óðins í norrænni goðafræði. Sleipnir fór um á skeiði og er sagður hafa myndað Ásbyrgi, en það er formað eins og hófur. Orðið Sleipnir telja sumir skylt orðinu sleipur, og ætla að það merki gammvakran hest. Í orðsifjaorðabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir einmitt að orðið sé skylt orðinu sleipur og að eiginleg merking þess sé: "Sá sem rennur hratt áfram". Finnur Jónsson þýðir það: "hlauparinn". Fæðing Sleipnis. Eitt sinn þegar Þór var vant við látinn kom risi til Ásgarðs og bauðst til þess að endurbyggja borgarmúrinn. Í laun vildi hann fá sólina, tunglið og Freyju. Loki felur honum verkið í fjarvist Þórs. Til verksins notar risinn stóðhestinn Svaðilfara og vinna þeir hratt og örugglega. Æsirnir verða æfareiðir út í Loka fyrir að vilja launa risanum með sól, mána og Freyju, svo Loki býr sig sem gráa hryssu og leiðir stóðhestinn í burtu og fylgjar hesturinn Loka í dulargervinu. Þetta þýðir að Sleipnir er sonur Loka og Svaðilfara. Ölfus. Ölfus er landssvæði í Árnessýslu sem afmarkast af Ölfusá í austri og mörkum Árnessýslu í vestri. Austast einkennist landið af mýrum og dælum, en í vestri eru fjöll, Núpafjall, Reykjafjall og Hellisheiðin. Í Ölfusi hefur frá fornu fari verið stundaður mikill landbúnaður en þó hefur áhersla á landbúnað minnkað hin síðari ár. Hefur það færist í vöxt að íbúarnir vinni til dæmis í Reykjavík eða á Selfossi. Sem dæmi má nefna að nú er aðeins eitt myndarlegt kúabú starfrækt í Ölfusi (Hvammur) en þau voru fjölmörg hér á árum áður. Þéttbýlisstaðirnir Hveragerði, Þorlákshöfn og Árbæjarhverfi teljast til Ölfuss þó Hveragerði sé sér sveitarfélag. Á árinu 2011 fékk Ölfus úthlutuðu sérstöku póstnúmeri, 816, til aðgreiningar frá öðrum svæðum Suðurlands. Stjörnukisi. Stjörnukisi er hljómsveit sem vann Músíktilraunir árið 1996 sem sex manna sveit, sama ár kemur út 10" vínil platan "Veðurstofan". Nokkrar mannabreytingar áttu sér stað, og stóðu Úlfur Chaka, Bogi Reynisson og Gunnar Óskarsson eftir sem meðlimir sveitarinnar. Þröngskífan (EP) "Geislaveisla" kom út árið 1997, en jafnframt áttu þeir tvö lög á safnplötunni Spírur sem Sproti gaf út. Annað þeirra, Reykeitrun, er ekki að finna á útgefnum skífum sveitarinnar. Árið 1998 kom smáskífan "Flottur Sófi" út (ókeypis) í samvinnu við tónlistartímaritið Undirtóna. Það ár voru þeir einnig með lagið Krómósóm á Sprota-safnplötunni Kvistir. Lítið bar á hljómsveitinni í nokkur ár og á því tímabili fengu þeir trommara til liðs við sig. Árið 2001 kom út fyrsta breiðskífa Stjörnukisa, "Góðar stundir". Mammút (hljómsveit). Hljómsveitin Mammút var stofnuð sem stúlknatríó 2003 undir nafninu ROK. Mammút nafnið var þó tekið upp fljótlega og bættust þá strákarnir í hópinn. Mammút tók þátt í Músíktilraunum 2004 og bar sigur af hólmi. Hljómsveitin gaf út fyrstu plötu sína 2006 sem var samnefnd hljómsveitinni. Hún var tekin upp af Birgi Erni Thoroddsen í Sundlauginni, hljóðveri Sigur Rósar. Hljómsveitin er meira þekkt fyrir nýjasta verk sitt 'Karkari' sem kom út í águst 2008. Lagið 'Svefnsýkt' fór að hljóma á x977 og náði toppsætinu og komu lögin geimþrá og rauðilækur og náðu toppsætinu einnig seinna um árið. Mammút hefur fylgt vel eftir karkari og spilað víða um landið og einnig leitað utan landsteinan á festival í Noregi og fleira. Sign. Íslenska hljómsveitin Sign var upphaflega stofnuð árið 2000, undir nafninu "Halím". Stofnendur voru Ragnar Sólberg Rafnsson, söngvari og gítarleikari, og Hörður Stefánsson, gítarleikari. Þeir fengu til liðs við sig Egil Örn Rafnsson, trommara, bróður Ragnars (þeir eru synir Rafns Jónssonar), og Sigurð Ágúst, bassaleikara, og tóku þátt í Músíktilraunum árið 2001. Hljómsveitin náði öðru sæti og var Ragnar valinn besti söngvari keppninnar. Stuttu síðar gekk Baldvin Freyr, gítarleikari, til liðs við sveitina. Þeir breyttu nafninu í Sign og gáfu út fyrstu breiðskífu sína "Vindar og breytingar" það ár. Árið 2002 gaf Sign út aðra breiðskífu sína "Fyrir ofan himininn". 2003 tók Sign upp þriggja laga kynningarplötu, sem innihélt lagið „Thank God for Silence“ sem var mikið spiluð í útvarpi og sjónvarpi. Eftir það hætti Sigurður í hljómsveitinni. Árið 2005 kom út þriðja breiðskífa Sign, "Thank God for Silence". Þann 12. nóvember 2007 kom út fjórða plata Sign, "The Hope". Smekkleysa. Smekkleysa er íslenskt útgáfufyrirtæki, sem var stofnað af meðlimum Sykurmolanna. Fyrirtækið gefur meðal annars út plötur með Sigur Rós, Múm og Björk á Íslandi. Einnig flytur það inn erlenda diska og dreifir. Smekkleysa er með verslun á Laugavegi 59. Múm. múm er íslensk rafhljómsveit sem hefur gefið út efni á innlendum jafnt sem erlendum vettvangi. Mugison. Örn Elías Guðmundsson, fæddur 4. september 1976, ættaður frá Ísafirði og Bolungarvík er betur þekktur sem Mugison. Mugison fór til útlanda að læra upptökur ungur að aldri en þegar hann kom heim tók hann upp fyrstu plötuna sína, Lonely Mountain, heima í herbergi sínu. Platan kom út og þótti afbragðs verk og var gefin út á Íslandi og víða í Evrópu. Í kjölfarið var Mugison fenginn til að gera tónlist við kvikmynd Friðriks Þórs, Niceland. Hann sló ekki slöku við og gerði tónlistina við Niceland ásamt því að taka upp aðra breiðskífu sína, Mugimama, is this monkey music? sem vann til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 sem poppplata ársins og var lagið "Murr Murr" valið besta lag ásamt því að Mugison var tilnefndur sem besti söngvari og besti flytjandi ársins. Þriðja plata Mugison kom út árið 2005 og heitir A Little Trip to Heaven, gerð við samnefnda kvikmynd Baltasars Kormáks. Mugison og Papamug hafa séð um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður síðastliðin ár. Aldrei fór ég suður er einnig nefnd Rokkhátíð alþýðunnar þar flytja tónlist sína ýmsar hljómsveitir, þekktar sem óþekktar. Mugison lék á færeysku tónlistarhátíðinni G! Festival 2006. Nýjasta verk Mugison er hljómplatan Haglél (2011) en Fríkirkjan var höfð undir frábæra útgáfutónleika plötunnar 1. október þar sem að fullt var út úr húsi og tónleikagestum var skemmt undir hnitmiðuðum bröndurum frá Erni, einnig gleymdi hann textanum í miðju lagi en það reddaðist með góðu móti, hann fékk einfaldlega lánaðan textabækling frá gest úr salnum og hélt svo ótrauður áfram. Fjallabræður gengu svo inn eftir kirkjugólfinu fyrir seinasta lagið og tókst það verulega vel, gekk svo Örn sjálfur út eins og píslarvottur eftir kirkjugólfinu eins og hann orðaði það svo skemmtilega með Fjallabræður á eftir sér. Jan Mayen (hljómsveit). Jan Mayen er íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 2002 af þeim Valgeiri, Ágústi og Viðari, bassaleikari Sigursteinn gekk svo til liðs við sveitina stuttu síðar. Piltarnir tóku upp fyrstu plötu sína sjálfir í heimahúsi til að gefa sem kynningardisk. Þessi lög enduðu þó í útvarpi og seldust upp öll umfram eintök. Smekkleysa lýsti yfir áhuga og fengu drengirnir samning. Home of the Free Indeed kom þá út 2004 og var Jan Mayen tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 í þremur flokkum. 2005 hætti Sigursteinn í hljómsveitinni og Sveinn Helgi Halldórsson (Rými, Ælu) gekk til liðs við sveitina. Isidor. Isidor er íslensk instrúmental hljómsveit sem var stofnuð haustið 2001. Isidor gaf út fyrstu breiðskífu sína Betty takes a ride í júlí 2004. Jón Þór gerðist síðan gítarleikari og söngvari í hljómsveitinni Lada Sport, sem lagði upp laupana 2008 og stofnaði síðan hljómsveitina Dynamo Fog með Arnari Inga. Arnar Ingi er einnig að tromma með hljómsveitinni Future Future. 1491. Minningarskjöldur um Diðrik Píning, félaga hans Hans Pothorst og landkönnun þeirra í Bremen í Þýskalandi. Jan Mayen. Staðsetning Jan Mayen sýnd á korti. Jan Mayen er norsk eldvirk eyja í Norður-Íshafi, um 550 km norðaustur af Íslandi. Eyjan er um 380 km² að flatarmáli, 53,6 km löng, með strandlengju upp á 124 km og breidd hennar er á bilinu 2,5 – 15,8 km. Jan Mayen teygir sig frá suðvestri til norðausturs og á norðausturhluta eyjarinnar er hið risavaxna eldfjall Beerenberg sem er 2277 m hátt. Jan Mayen teygir sig frá 70°50'N og 9°03'W í suðri til 71°10'N og 7°57'W í norður. Eyjan er á heitum reit og hafa eldgos verið tíð í Beerenberg síðustu aldir, það síðasta árið 1985. Þar áður urðu eldgos árin 1973 og 1970. Allt voru þetta tiltölulega lítil sprungugos í hlíðum fjallsin. Sögulegar heimildir eru til um gos árin 1732, 1818 og 1851. Fundur og nafngift. Ekki er óhugsandi að það hafi einmitt verið Jan Mayen sem Beda munkur fann á 6. öld e.Kr. þegar hann segir frá eldi spúandi eyju í norðri þar sem dagur var allan sólarhringinn. Einnig má vel vera að víkingasjómenn hafi vitað um eyjuna. En Henry Hudson fann síðan eyjuna 1607 á einni af fjórum ferðum sínum um Norður-Íshafið er hann leitaði að siglingaleið til Kína. Hvalveiðimenn sigldu í kjölfarið til eyjarinnar sem fékk árið 1614 nafnið Jan Mayen eftir hollenska hvalveiðiskipstjóranum Jan Jacobs May van Schellinkhout. Svala Björgvinsdóttir. Svala Björgvinsdóttir er íslensk poppsöngkona. Hún er dóttir Björgvins Halldórssonar söngvara. Fyrsta plata hennar var gefin út 2001 og heitir The Real Me. Platan fékk 4,5 af 5 stjörnum hjá allmusic.com (sjá:). Apavatn. Apavatn er eitt af stærstu stöðuvötnum landsins, um 13,6 km² að flatarmáli sunnan Laugarvatns í Árnessýslu. Nafnið er talið koma af orðinu "ap" sem merki leðju eða leir. Apavatn er 59 metra yfir sjávarmál. Vatnið er allt grunnt, mesta dýpi þess er 3 m, en mesta lengd þess er 6,8 km. Nokkrar smáár renna í vatnið frá hæðunum í kring. Að sunnan kemur Stangalækur. Suð vestan í vatnið rennur Apá og norðan Grafará, og er hún vatnsmest. Hagaós er eina frárennslið úr vatninu og rennur í Brúará. Bændur stunda netaveiði í vatninu allt árið en vatnið er ekki gjöfult stangveiðivatn. Helst veiðist þar bleikja sem er sitt hvoru megin við pundið. Svolítið er um urriða, en þeir eru mun vænni, allt að 10 pund og kýla sig út af hornsílum sem ógrynni er af í vatninu. Lax á greiðan aðgang að vatninu um Hagaós, en hann er sjaldséður. Sumarbústaðabyggð hefur verið vaxandi við vatnið á undanförnum árum. Á fyrstu áratugum kristni var Apavatn frægast vatna á landi hér. Bar það til að Sighvatur Þórðarson er sagður hafa fengið skáldíþrótt sína úr fiskhöfði af fiski sem hann veiddi í vatninu. Eigi hefur orðið vart við þess lags fiska á þeim slóðum síðan. Vatnið er þekkt úr Sturlungu, þegar Sturla Sighvatsson sveik Gissur Þorvaldsson í Apavatnsför árið 1238. Sturla fór suður með 300 menn og bað Gissur að finna sig við Apavatn. Gissur kom með 40 menn, Gissur og Sturla gengu saman í bróðerni með vatninu. Sturla bað 2 menn að gæta Gissurar og skipar svo mönnum hans að leggja niður vopnin. Þá spyr Gissur Sturlu, hví hann láti leggja hendur á hann. Sturla bað hann ekki efast um að hann ætlaði sér meiri hlut en öðrum mönnum á Íslandi. Lét hann þá Gissur vinna sér trúnaðarreið og sverja að fara utan. Þóttist Gissur finna að Sturla mundi hafa komið til hugar að stytta honum aldur og hyggur á að koma hefndum fram á Sturlu. Gissur lét til skarar skríða og dró að sér lið af Suðurlandi og bandamaður hans Kolbeinn ungi úr Skagafirði og Húnavatnssýslu. Sturla dró sér lið af Vesturlandi og Sighvatur faðir hans úr Eyjarfirði og Þingeyjarsýslu. Flokkarnir mætast á Örlygsstöðum, rétt fyrir sunnan Miklabæ. Gissur og Kolbeinn höfðu 1300 menn en feðgarnir mun færri. Ráðist var nú grimmlega á lið feðganna í hinum fræga Örlygsstaðabardaga, feðgarnir voru hálfvopnlausir, alls létust á Örlygsstöðum nær 60 manns og þar af voru ekki nema 7 úr liði Kolbeins og Gissurar. Mýrdalsjökull. Mýrdalsjökull er fjórði stærsti jökull Íslands og þekur hann um 590 km² svæði. Undir jöklinum hvílir eldfjallið Katla en hún á það til að spýja eldi og brennisteini yfir Mýrdalinn og bræða mikinn ís af jöklinum svo flóð geysist niður á láglendið. Hæsti tindur Mýrdalsjökuls er 1.480 m.y.s. Sólheimajökull skríður niður úr Mýrdalsjökli suðvestanverðum. Árið 1952 fórst á Mýrdalsjökli Neptúnvél frá bandaríska hernum og með henni níu menn. Eyjafjallajökull. Eyjafjallajökull () er fimmti stærsti jökull Íslands. Undir jöklinum er eldkeila sem hefur gosið fjórum sinnum síðan land byggðist, fyrst árið 920, þá 1612, 1821 og 2010. Öll þessi gos hafa verið frekar lítil. Þegar gaus árið 1821 stóð gosið til ársins 1823. Gos hófst svo á Fimmvörðuhálsi þann 20. mars 2010 austan við Eyjafjallajökul. Þann 14. apríl 2010 hófst gos undir jökulhettunni. Eyjafjallajökull er einn af hæstu tindum Íslands, um 1.666 m hár. Úr jöklinum renna 2 skriðjöklar sem heita Steinsholtsjökull og Gígjökull en þeir skríða báðir til norðurs í átt að Þórsmörk. Hafa þeir á síðustu árum hörfað mikið og er Gígjökull nánast að hverfa. Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull eru næst hvor öðrum á Fimmvörðuhálsi. Þar reka Ferðafélag Íslands og Útivist 2 gistiskála sem heita Baldvinsskáli og Fimmvörðuskáli. Eyjafjallajökull er mjög varasamur til ferðalaga vegna jökulsprungna en jökullinn er mjög brattur og sprunginn. Eldgos í Fimmvörðuhálsi 2010. Lítið eldgos varð 2010 á Fimmvörðuhálsi, austan Eyjafjallajökuls, og stóð frá 21. mars til 13. apríl það ár. Fyrstu merki um gosið sáust kl. 23:58 20. mars og voru talin vera í Eyjafjallajökli. 2010. Síðar kom í ljós að gossprungan var á Fimmvörðuhálsi. Eldgos í Eyjafjallajökli 2010. Eldgos hófst í toppgíg Eyjafjallajökuls að morgni 14. apríl 2010 og stóð til 23. maí það ár. Gaukshöfði. Gaukshöfði er klettadrangur, sem skagar út í Þjórsá, framarlega í Þjórsárdal. Hann dregur nafn sitt af Gauki á Stöng, sem var veginn í Gauksgili í höfðanum norðanverðum af Ásgrími Elliðagrímssyni, fóstbróður sínum. Á 19. öld fundust í höfðanum spjótsoddar og mannabein. Áður fyrr lá vegurinn inn í Þjórsárdal uppi á höfðanum, um Goludal, en nú hefur hann verið færður út á grjótgarð í Þjórsá. Næsti höfði norðan Gaukshöfða kallast Bringa og gamli 100 krónu seðillinn sýndi fjallsafn Gnúpverja undir henni. Var myndin tekin úr Gaukshöfða. Undir Gaukshöfða var vað sem einungis var fært þegar lítið var í ánni, en annars er þar hyldýpi þar sem áin safnar sér saman eftir að hafa breitt úr sér frá Búrfelli. Svartifoss. Svartifoss er foss í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Stuðlabergsmyndunin umhverfis fossinn var Guðjóni Samúelssyni innblástur við hönnun á mörgum byggingum m.a. loftsins í sal Þjóðleikhússins, ytri ásýnd Hallgrímskirkju og Akureyrarkirkju. Rými (hljómsveit). Rými var keflvísk hljómsveit sem gaf út plötuna Unity, for the first time 2002. Psycho. Kvikmyndin Psycho í leikstjórn Alfred Hitchcock var framleidd í Bandaríkjunum árið 1960. Kaizers Orchestra. Kaizers Orchestra er norsk rokkhljómsveit frá Bryne í Rogaland fylki. Hljómsveitin kom fyrst saman árið 2000 en fyrsta platan kom út árið 2001 og hét hún "Ompa til du dør". Sama ár hlaut platan "Spellemannsprisen", norsku tónlistarverðlaunin, sem besta rokkbreiðskífan. 2006 léku þeir á færeysku tónlistarhátíðinni G! Festival. Kaizers hafa fengið mikla athygli sem frjálsleg tónleikasveit, og spila þeir á óhefðbundin hljóðfæri eins og olíutunnur, hjólfelgur og kúbein. Norðnorðvestur. Kvikmyndin Norðnorðvestur ("North by Northwest") í leikstjórn Alfred Hitchcock var framleidd í Bandaríkjunum árið 1959. Ja, vi elsker dette landet. Ja, vi elsker dette landet, oft stytt í Ja, vi elsker er þjóðsöngur Noregs, þó hann hafi í raun aldrei verið opinberaður sem slíkur. Bjørnstjerne Bjørnson skrifaði textann og birti í Aftenbladet 1. október 1859. 24 menn sungu lagið fyrst á Eidsvoll 17. maí 1864 í tilefni af því að 50 ár væru liðin síðan stjórnarskrá landsins var samþykkt. Oftast er bara fyrsta og tvö síðustu erindin sungin. Fuglarnir (kvikmynd). "Fuglarnir" (e. "The Birds") er bandarísk kvikmynd í leikstjórn Alfred Hitchcock frá árinu 1963. Myndin er byggð á samnefndri smásögu eftir Daphne Du Maurier. Hitchcock hafði áður gert myndina Rebecca eftir sögu Du Maurier. Við gerð Fuglanna var notast við nýstárlegar aðferðir í tæknibrellum og þótti myndin mikið afrek á sínum tíma. Söguþráður. Melanie Daniels, ung stúlka frá San Francisco, eltir Mitch Brenner, ungan og efnilegan piparsvein til Bodega Bay þar sem hann dvelur hjá fjölskyldu sinni um helgar. Fljótlega eftir komu hennar verður hún fyrir árás fugla og vekur það athygli bæjarbúa. Eftir því sem líður á myndina fjölgar árásunum og bæjarbúar fara að leita skýringa. Fjölskyldugáta. Kvikmyndin Family Plot í leikstjórn Alfred Hitchcock var framleidd í Bandaríkjunum árið 1976. Myndin var sú síðasta sem Hitchcock gerði á 60 ára ferli sínum. Geysir. Geysir í Haukadal er goshver sem nú til dags lætur lítið á sér kræla. Geysir er einn frægasti goshver í heimi. Margir fleiri hverir eru á Geysissvæðinu, til dæmis Strokkur, Smiður og Litli-Strokkur. Geysis er fyrst getið með nafni árið 1647 og er þá mikill og ákafur goshver, en á þeim tímum gat hann gosið nokkuð reglulega. Þá þeyttu hann vatni 60 til 80 metra upp í loftið. Fyrir árið 1845 varð hann allt að 170 metrar. Eftir árið 1900 dró mikið úr gosvirkni hans og var kólnunarflötur vatnsins (yfirborðið) orðið of stórt. Þá var brugðið á það ráð að gera skurð úr hvernum til að leiða á brott umfram-magn af vatni til að létta undir með hvernum. Einnig var losað út í hann 100 kg af handsápu til að vatnið myndi snöggsjóða. Eftir Suðurlandsskjálftana sumarið 2000 tók Geysir aftur að gjósa en hefur nú dregið sig í hlé. Geysir seldur. Þann 9. apríl árið 1894 keypti írskur maður, James Craig (yngri), Geysi fyrir 3000 kr. Í kaupunum fylgdu einnig hverirnir Strokkur, "Blesi" og "Litli Geysir" eða svonefnd "Óþerrihola" ásamt dálitlu svæði kringum hverina, alls um 650 faðmar. Ábúandinn á Haukadal áskildi sér rétt til að hafa umsjón með hverunum, gegn hæfilegri þóknun þegar eigandi væri ekki viðstaddur, ennfremur forkaupsrétt að hverunum, ef þeir yrðu seldir aftur. Seljendur hveranna voru þeir Sigurður bóndi Pálsson á Laug og synir hans Greipur og Jón bændur í Haukadal, en þeir seldu þá vegna fjárleysis. Þeir voru ekki ásakaðir fyrir söluna, því að þeir höfðu boðið landssjóði hverina til kaups, en þingið vildi ekki kaupa. Sagt var í fjölmiðlum sama ár að vel getur verið að „hinn nýi eigandi sýni hverunum meiri sóma en landssjóður hefði gert, reisi þar gistihús o. s. frv., en talið er það mjög óvíst, af þeim er kunnugastir eru“. Faðir Craig varð þó ekki ánægður með þessi kaup, og varð það til þess að Craig yngri gaf vini sínum, E. Rogers, svæðið. Honum þótti þó lítið til þessar gjafar koma. Síðar erfði frændi hans Hugh Rogers það, en árið 1935 keypti Sigurður Jónsson svæðið og gaf íslenska ríkinu. Áramót. Áramót er mikilvæg hátíð í flestum þjóðfélögum til að fagna komu nýs árs og kveðja það gamla. Á Íslandi, eins og á flestum vesturlöndum, er haldið upp á áramótin kvöldið fyrir komu nýja ársins, á gamlárskvöldi en einnig eru haldnar veislur á nýársdag sem oft eru fínni veislur en á gamlárskvöld. Öll trúarbrögð, lönd og menningarsvæði hafa sín tímatöl og oftast eru áramótin mikilvægur þáttur í menningarhefðinni. Stórar hátíðir fylgja oft áramótunum sem geta staðið yfir í marga daga fyrir eða eftir áramótin. Áramótin eru á stundum tengd árstíðum, til dæmis jafndægur á vori 20. mars-21. mars, til að fagna komu vorsins eða þá af hreinum trúarlegum uppruna eins og nýár múslima. Jóhannes Jónsson. Jóhannes Jónsson, (f. 31. ágúst 1940 - 27. júlí 2013) þekktastur sem "Jóhannes í Bónus", var íslenskur verslunarmaður og fjárfestir. Jóhannes var menntaður prentari og vann um tíma sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Með fram námi og öðrum störfum vann Jóhannes lengi vel í matvörubúð föðurs síns. Jóhannes opnaði lágvöruverðsverslunina Bónus 8. apríl 1989 ásamt syni sínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Trúfélög múslima. "Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama" í kalligrafískri skrift Innan íslam eru fjölmörg trúfélög sem hafa mismunandi áherslur og túlkanir á atriðum trúarinnar þó þau hafi sömu grundvallarsýn. Fjölmennustu trúfélögin eru súnní og sjía. Í báðum trúfélögunum eru fylgjendur súfisma sem er eins konar dulhyggjustefna innan íslam. Súnní er stæsti trúarhópurinn (80% - 85% allra múslima eru sunní). Á arabísku þýðir "as-Sunnah" bókstaflega lögmál eða stígur; það er einnig notað sem hugtak yfir ummæli og gerðir Múhameðs spámanns. Fylgjendur súnní álíta Múhameð spámann og nánast fullkominn mann og þess vegna sé skylda að fylgja orðum hans og gerðum eins náið og hægt er. Kóraninn segir að spámaðurinn Múhameð sé góð fyrirmynd. Vegna þessa er sagnahefðin sem nefnd er Hadith, þar sem þessi orð og gerðir eru geymd, höfuðstoð í trú súnní-múslima. Sjía-múslimar, næststærsta trúfélagið, leggja mikla áherslu á hverning túlka skuli trúarstöðu fyrstu þriggja kalífanna. Arabíska orðið "Shi'a" er stytting á "shi'at 'Ali" sem þýðir „fylgismenn Alís“. Sjítar halda upp á aðra sagnahefð (hadith) en súnnítar og hafa eigin lagahefð. Í sjía hafa ímamar mikil völd til að túlka trúna og lögin. Flestir sjía-múslimar búa í Íran, Írak, Bahrain og Líbanon. Minnihlutahópar (um það bil 15 milljónir) sjía-múslima eru nefndir Ísmailítar. Stærsti hluti þeirra lítur á Aga Khan sem leiðtoga sinn. Vahabítar er fámennari og nýrri trúflokkur innan súnní. Þeir kalla sjálfa sig Salafi. Vahabítar eru mjög strangtrúaðir og túlka Kóraninn og hefðirnar bókstaflega. Þeir álíta sjía-múslima (og sumir einning aðra sunníta) trúvillinga. Vahabítismi er opinber trú í Sádi-Arabíu og hefur haft mikil áhrif á múslima um allan heim, ekki síst vegna þess að þeir stjórna hinum heilögu stöðum múslima, Mekka og Medína. Súdanskir súfistarSúfismi er dulhyggjustefna sem hefur fylgjendur bæði meðal súnníta og shíta. Súfistar álíta að það að fylgja íslömskum lögum og reglum (eða "fiqh") sé einungis fyrsta skrefið á leiðinni að fullkominni undirgefni. Súfistar leitast við að öðlast yfirnáttúrlega, dulræna reynslu með íhugun og dansi. Landsdómur. Landsdómur er sérdómstóll sem gert er ráð fyrir í 14. grein stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands. Hann fer með og dæmir mál sem Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra og starfar eftir lögum nr. 3/1963. Hann er skipaður 15 dómurum. Dómurinn hafði aldrei verið kallaður saman frá stofnun hans árið 1905, en þann 28. september 2010 ákvað Alþingi að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir vanrækslu í starfi og fela Saksóknara Alþingis að sækja málið fyrir Landsdómi. Ráðherraábyrgð og Landsdómur. Á Íslandi bera ráðherrar, sem æðstu handhafar framkvæmdarvalds, ábyrgð gagnvart Alþingi skv. 14. gr. stjórnarskrárinnar og kallast þessi ábyrgð ráðherraábyrgð. Ráðherraábyrgðin greinist í pólitíska ábyrgð annars vegar og hins vegar lagalega ábyrgð. Pólitíska ábyrgðin felst í því að ráðherra verður að hafa traust meirihluta þingmanna ellegar getur Alþingi samþykkt vantrauststillögu gegn ráðherranum og neyðist þá ráðherra til að segja af sér. Lagalega ábyrgðin felst í því að meirihluti Alþingis getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur hans og skal kæran sett fram sem tillaga til þingsályktunar. Einungis Landsdómur getur dæmt eftir þessum lögum. Brot gegn lögunum varða embættismissi, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Dómar Landsdóms eru fullnaðardómar og verður ekki áfrýjað. Kjörgengi. Dómendur fá greitt fyrir hvert einstakt mál, skv. 49. gr. laga um Landsdóm. Aðilar máls. Þegar Alþingi samþykkir í atkvæðagreiðslu þingsályktunartilögu um að ákæra ráðherra er sérstakur saksóknari kosinn. Ákæra er gefinn út á hendur ráðherra og er hún í nafni Landsdóms. Saga. Fyrstu lögin um Landsdóm voru sett árið 1905. Var lögunum síðan breytt í núverandi horf árið 1963, og fól meginbreytingin í sér að dómendum var fækkað úr 30 í 15. Saga Landsdóms virtist ekki ætla að verða mikið lengri, því öfugt við norrænar hliðstæður hans, hafði hann aldrei verið kallaður saman, fyrr en með ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde árið 2010. Stöku sinnum hafa komið upp umræður á Alþingi um að breyta skyldi fyrirkomulagi Landsdóms, og var síðast flutt þingsályktunartillaga árið 2001 sem gekk út á það að skipan dómstólsins skyldi endurskoðuð og hann jafnvel lagður niður. Tillagan fékk ekki afgreiðslu allsherjarnefndar og dagaði því uppi. Í kjölfar bankahrunsins. Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi haustið 2008 var skipuð rannsóknarnefnd Alþingis sem með niðurstöðum sínum sem birtar voru í apríl 2010 komst að því að íslenskir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins. Meirihluti þingmannanefndar sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komst að þeirri niðurstöðu þann 11. september 2010 að kæra bæri fjóra ráðherra fyrir Landsdómi. 28. september samþykkti Alþingi að kæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, en aðra ráðherra ekki. Þeir voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Ákæruatriði Saksóknara Alþingis á hendur Geir Haarde hefst með orðunum „fyrir brot framin ásetningi eða stórkostlegt hirðuleysi í embættisfærslu hans sem forsætisráðherra“ Í ljósi þess að Landsdómur hefur ekki áður verið kallaður saman og engum fordæmum til að dreifa er margt óljóst varðandi áframhaldið. Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, hefur til að mynda áhyggjur af því að sakfelling hefði það í för með sér að íslenska ríkið yrði skaðabótaskylt gagnvart kröfuhöfum föllnu bankanna sem gæti leitt til þjóðargjaldþrots. Norrænar hliðstæður. Landsdómur er mótaður að norrænni fyrirmynd, sérstaklega danskri. Danmörk. Í dönsku stjórnarskránni er gert ráð fyrir dómstól sem oft er sagður fyrirmynd Landsdóms og ber hann heitið Ríkisrétturinn (d. "Rigsretten"). Hann er skipaður 30 mönnum, 15 dómurum Hæstaréttar Danmerkur og 15 einstaklingum sem kosnir eru af þjóðþingi Dana til sex ára. Líkt og á Íslandi er gert ráð fyrir að þjóðþingið ákæri ráðherra fyrir embættisfærslur hans. Ríkisrétturinn hefur fjórum sinnum verið kallaður saman, síðast árið 1995 í svokölluðu Tamílamáli en þar á undan hafði hann ekki verið kallaður saman síðan 1910. Í skrifum íslenskra fræðimanna er oft talað um að dönsku málin séu gott dæmi um undir hvaða kringumstæðum Landsdómur kynni að vera kallaður saman, enda er Ríkisrétturinn sem fyrr segir líkleg fyrirmynd Landsdómsins. Tamílamálið. Atvik voru þau, að Erik Ninn-Hansen, dómsmálaráðherra, gaf árið 1987 munnlega skipun um að umsóknum tamílskra flóttamanna frá Sri Lanka um að ættingjar þeirra gætu flutt til þeirra til Danmerkur skyldu ekki afgreidd heldur stungið undir stól. Um var að ræða flóttamenn sem vildu sameinast ættingjum sínum sem bjuggu fyrir í Danmörku og er talið að þessi skipun hans hafi haft áhrif á um 5-6000 flóttamenn. Skipunin var ólögleg, en það hefði líka verið lögbrot af hálfu embættismanna að fylgja henni ekki. Því hrúguðust umsóknir flóttamannanna upp og voru þær ekki afgreiddar fyrr en 1989, þegar Ninn-Hansen fór frá sem dómsmálaráðherra. Þegar upp komst um málið sagði ríkisstjórnin af sér og sósíal-demókratar tóku við völdum. Rannsóknarnefnd rannsakaði máið og vegna niðurstöðu hennar var Ninn-Hansen ákærður af danska þinginu árið 1994 fyrir embættisfærslur sínar og dæmdi Ríkisrétturinn hann árið 1995 í fjögurra mánaða fangelsi, en refsing skyldi falla niður héldi hann skilorð í eitt ár. Hann áfrýjaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísaði málinu frá. Noregur. Í norsku stjórnarskránni er sömuleiðis gert ráð fyrir Ríkisrétti (n. "Riksretten"). Hann er svipaður Landsdómi að því leyti að hann dæmir mál sem löggjafinn höfðar á móti æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins, en fyrir utan það dæmir hann einnig mál sem löggjafinn kann að höfða á móti hæstaréttardómurum og þingmönnum á Stórþinginu (no. "Stortinget"). Odelstinget, efri deild norska þingsins, fer með ákæruvaldið. Ríkisrétturinn var mikið notaður á seinni hluta 19. aldar í Noregi til að afnema neitunarvald konungs á lög og tryggja þingræðið. Hann var síðast kallaður saman árið 1927. Trúarjátning múslima. Trúarjátning íslam er kölluð á arabísku "šahādatān" (sem þýðir nánast „tvær erfðaskrár“) og telst ein af fimm stoðum íslams. لا إله إلا الله ومحمد رسول الله (á arabísku:) "lā ilāhā illā-llāhu; muhammadur-rasūlu-llāhi" (á íslensku:) "Það er enginn guð nema Guð; Múhameð er spámaður Guðs". Til að gerast múslimi verður maður að hafa þessa setningu yfir (á arabísku) og trúa henni í vitna viðurvist. Það er ekki hægt að neyða neinn til að gerast múslimi, einungis sá sem virkilega óskar þess getur orðið það. Frenzy. Frenzy er kvikmynd í leikstjórn Alfred Hitchcock sem var framleidd í Bandaríkjunum árið 1972. Frægð. Frægð er hugtak, sem haft er um það þegar töluverður fjöldi fólks þekkir til ákveðinnar persónu eða hlutar. Frægð segir ekki til um hversu vel hver og einn einstaklingur þekki til þess sem þannig flokkast. Af frægð kemur lýsingarorðið frægur ("frægt" í hvorugkyni, "fræg" í kvenkyni) og er það notað til að tilgreina það sem nýtur frægðar. Ýmis afbrigði eru til af þessu orði sem flest miða að því að lýsa nánar stærð frægðarinnar eða útbreiðslu hennar. Til dæmis orðið „heimsfrægð“ en þá er vísað til þess að töluverður fjöldi fólks um allan heim þekki til þess sem frægt er. Stundum er gefið til kynna hversu sterk frægðin er með atviksorðum á borð við „mjög“, einnig áhersluforskeytum eins og víð- og stór-. Strokkur (hver). Strokkur er goshver í Haukadal. Strokkur er næst stærsti goshver á Geysissvæðinu. Einnig er til goshver sem heitir Litli strokkur. Topaz. "Topaz" er kvikmynd í leikstjórn Alfred Hitchcock sem var framleidd í Bandaríkjunum árið 1969. Hljómsveit. Hljómsveit er hópur hljóðfæraleikara, stundum með söngvara eða söngvurum, sem spilar saman í sameiginlegum takti og mestallan tímann í samhljómi (þarf reyndar alls ekki að vera ef hljómsveitin spilar í framsækinni klassískri stefnu). Hljómsveit sem samanstendur aðeins af söngvurum er kölluð kór. Ýmis nöfn eru notuð til að skilgreina eðli sveitarinnar s.s. stærð og tónlistarstefnu. Þegar meðlimir sveitarinnar eru aðeins tveir (þótt deila megi um að það eigi að vera kallað hljómsveit) er hún kölluð dúett, þegar þeir eru þrír; tríó, fjórir; kvartett, fimm; kvintett, sex; sextett, sjö; septett, átta; oktett, níu; nonett. Stærri sveitir eru yfirleitt kallaðar eitthvað annað. Í rokktónlist eru þessi nöfn yfirleitt ekki notuð en þau eru viðhöfð í blús, djassi og klassík og af og til í raftónlist. Flestar rokksveitir eru þó kvintettar eða kvartettar og í hráustu afbrigðum hennar eru tríó mjög algeng. Sinfóníuhljómsveit er sennilegast fjölmennasta hljómsveitartegundin. Söngvari. Söngvari er einstaklingur sem syngur tóna. Klassískur söngur skiptir raddsviði í kvennraddir sópran (efri) og alt (neðri) og karlraddir tenór (efri) og bassa (neðri). Síðan eru til raddsvið innan þessarra radda. John Arne Riise. John Arne Semundseth Riise (fæddur 24. september 1980) er norskur knattspyrnumaður sem spilar með Fulham í Englandi. 1996 byrjaði Riise að spila fyrir Álasund. Sumarið 1998 fór hann að ráðum Nils Arne Eggen og fór til Frakklands til að spila fyrir Mónakó. Fyrsti landsleikur Riise fyrir Noreg var í janúar 2000. Guðfaðirinn. Guðfaðirinn, eða The Godfather, er kvikmynd sem gerð var eftir samnefndri bók Marios Puzo. Francis Ford Coppola leikstýrði myndinni sem var framleidd í Bandaríkjunum árið 1972. Tengill. á Internet Movie Database Sóknargjöld. Sóknargjöld nefnast fjárframlög sem að íslenska ríkið útdeilir af innheimtum tekjuskatti til Þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Gjaldið er greitt fyrir hvern einstakling sem náð hefur 16 ára aldri 31. desember árið fyrir gjaldár og er ráðstafað í samræmi við skráningu þeirra í trúfélög 1. desember árið fyrir gjaldár. Fyrir þá einstaklinga sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna rennur gjaldið til safnaðar viðkomandi miðað við lögheimili, til annarra trúfélaga fyrir meðlimi þeirra. Ekkert gjald er greitt vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða tilheyra óskráðum trúfélögum. Áður greiddi ríkið sóknargjöld vegna þessara einstaklinga til Háskóla Íslands en með lagabreytingu árið 2009 var það fyrirkomulag afnumið. Saga. Sóknargjöld voru fyrst innleidd á Íslandi með lögum nr. 40/1909 en með sömu lögum var tíund afnumin ásamt með ýmsum öðrum gjöldum sem runnið höfðu til kirkjunnar. Sóknargjald var tvískipt og fólst annars vegar í prestsgjaldi sem nam 1 krónu og 50 aurum árlega og hins vegar kirkjugjaldi sem nam 75 aurum árlega. Gjöldin áttu allir yfir 15 ára aldri að greiða, óháð kyni eða stöðu og kom það í hlut sóknarnefnda að innheimta það. Undanþegnir frá framangreindum gjöldum voru þeir sem tilheyrðu öðrum kirkjufélögum utan þjóðkirkjunnar, sem höfðu fengið konunglega staðfestingu, enda næmu framlög hvers safnaðarmeðlims eldri en 15 ára að minnsta kosti 2 krónum og 25 aurum árlega. Ekki var í lögunum gert ráð fyrir að einstaklingar utan trúfélaga væru undanþegnir greiðslu sóknargjalda. Upphæðir. Gjaldið er ákvarðað í lögum sem 400,24 kr. á hvern einstakling á mánuði árið 1997, síðan hækkar það á hverju ári í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattstofni. Árið 2013 er fjárhæð sóknargjalds 728 kr. á mánuði. Í fjárlögum fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að ríkið greiði 2.040 milljónir í sóknargjöld, langstærstur hluti þess rennur til Þjóðkirkjunnar eða í kringum 1,8 milljarðar sé miðað við skiptingu þjóðarinnar í trúfélög 1. desember 2009. Iðnskólinn í Reykjavík. Iðnskólinn í Reykjavík er elsti iðnmenntaskóli Reykjavíkur. Við hann stunda rúmlega 2050 manns nám, um 1550 í dagskóla og 400 í kvöldskóla og í fjarnámi. Námsbrautir eru 21 á 7 sviðum: almennu sviði, byggingasviði, hönnunarsviði, rafiðnasviði, sérdeildasviði, tölvusviði og upplýsinga- og margmiðlunarsviði. Skólinn starfar eftir áfangakerfi. Námslok miðast við að nemendur hafi lokið tilskildum áföngum og einingafjölda eins og tilgreint er (eða 9 alls með undartekningum) í brautarlýsingum skólanámskrár. Skólaárinu er skipt í tvær annir, vorönn og haustönn. Saga. Skólinn var stofnaður af Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík árið 1904, en félagið hafði starfrækt óformlegan skóla allt frá 1873. Fyrst var kennt í Vinaminni í Grjótaþorpinu, en árið 1906 var flutt í nýreist hús Iðnaðarmannafélagsins í Vonarstræti sem nú hýsir Tjarnarskóla. Skólastjóri á þessum upphafsárum skólans var Jón Þorláksson verkfræðingur. Skólaárið 1929-30 hófst svo fyrst kennsla í dagskóla, en áður var kennt á Sunnudögum og um kvöld. Árið 1955 flutti skólinn svo í ný húsakynni á Skólavörðuholti. Í lok sjöunda áratugarins voru verknámsdeildirnar stofnaðar og verkleg kennsla færð inn í skólann. 1982 var tekið upp áfangakerfi og bóknám samræmt öðrum framhaldsskólum, fyrstu stúdentarnir frá Iðnskólanum voru svo útskrifaðir 1989. Árið 1986 þá var stofnað Tölvusvið en undir því er Tölvubraut. Árið 2008 var ákveðið að sameina Iðnskólann og Fjöltækniskólann undir heitinu Tækniskólinn. Um leið var rekstur iðnskólans færður frá íslenska ríkinu til Rekstrarfélags Tækniskólans (áður Menntafélagið). Þekktir nemendur. Allnokkrir þekktir einstaklingar hafa stundað nám við Iðnskólann í Reykjavík. Akrafjall. Akrafjall er fjall á Akranesi á milli Hvalfjarðar og Leirárvogs. Fjallið er 643 metrar á hæð og heitir hæsti tindurinn Geirmundartindur. Í því er blágrýti og stuðlaberg finnst víða. Það er jökulsorfið að ofan og hefur verið eyja á jökulskeiði eða eftir ísöld, því að í því má finna brimstall. Berjadalur gengur inn í fjallið frá vestri. Eftir honum rennur Berjadalsá. Arnes Pálsson, útilegumaður, hafðist við í fjallinu um skeið sumarið 1756. Í fjallinu er mikið svartbaks- og fýlavarp. Gamlárskvöld. Gamlársdagur er í vestrænni menningu síðasti dagur almanaksársins á Gregoríska tímatalinu. Á gamlárskvöldi er minnst hins liðna árs og litið fram til hins nýja. Ýmsar hefðir eru í kringum hátíðarhöld á þeim degi, en víðast hvar er stuðst við flugelda, kampavín eða freyðivín og litríkt skraut. Áramót á Íslandi. Hátíðarhöld á gamlárskvöldi á Íslandi hefjast oftast með hátíðarkvöldverði um kvöldið. Eftir matinn er gjarnan horft á áramótabrennur, sem eru víða um land. Algengt er að áfengis sé neytt þetta kvöld. Forsætisráðherra flytur hátíðarræðu í útvarpi og sjónvarpi. Flestir sem halda til heima horfa á áramótaskaup í sjónvarpinu, þar sem hent er gaman að ýmsu sem gerst hefur á árinu sem er að kveðja. Á miðnætti er gamla árið "sprengt burt", með því að skjóta upp flugeldum. Eftir miðnætti hefjast svo áramótaböll, sem standa fram eftir nýársmorgni. Áramótahefðir í ýmsum löndum. Á mismunandi stöðum eru mismunandi hefðir sem fylgja áramótum. Áramót í Sydney. Í Sydney verður einn mesti samsöfnuður fólks á áramótunum, en hann er um 1.2 milljónir manna. Þá er skotið upp um 80.000 flugeldum og sést það úr allt að 16 kílómetra radíus frá Sydney. Atburðurinn lokkar til sín um 300.000 erlenda gesti árlega. Áramót í London. Íbúar í London fjölmenna við Big Ben, og brjótast út fagnaðarlæti þegar klukkan slær miðnæti. Þá syngur hópurinn gjarnan "Auld Lang Syne". Áramót í New York. Í New York fjölmennar fólk við Times torg, þar sem að sungið er og fagnað. Klukkan 23:59:00 byrjar stærðarinnar kúla úr Waterford kristal, sem vegur alls um 485.34 kg, að síga niður stöng á toppi byggingarinnar One Times Square, og staðnæmist hún á miðnæti við mikinn fögnuð nærstaddra. Þessum atburði er sjónvarpað um allan heim, og er fyrirmynd sams konar hefða víða um Bandaríkin. Tónlistarhefðir. Ýmis lög og ljóð tengjast nýju ári, en nýtt ár hefur verið viðfangsefni ýmissa skálda. Sálmurinn sálmsins "Nú árið er liðið í aldanna skaut" sem Séra Valdimar Briem orti 1886 er mjög kunnur á Íslandi, en í Englandi og Bandaríkjunum, og öðrum enskumælandi löndum er skoski söngurinn Auld lang syne gjarnan sunginn. Á íslensku þekkist þetta lag sem bræðralagssöngurinn, sem er þá tengdur við skátastarf frekar en nýársfögnuð. Kritikal Mazz. Kritikal Mazz var íslensk rapphljómsveit sem samanstóð af þeim Úlfi Kolka (Ciphah), Reptor, Scienz, Plain og Ágústu Evu. Þau gáfu út samnefnda plötu árið 2002 hjá Smekkleysu sem var tilnefnd sem Hiphop plata ársins á Tónlistarverðlaunum Radíó X & Undirtóna. Trausti Júlíusson, gagnrýnandi fyrir Fókus, sagði plötuna vera með bestu hiphop plötum sem komið hafa út á Íslandi. Faxe Kondi. Faxe Kondi í 1½-lítra plastflösku Faxe Kondi er danskur gosdrykkur, framleiddur af S. Faxe Kondi inniheldur glúkósa sem er annað heiti yfir þrúgusykur. Einnig fyrirfinnst útgáfa af sportdrykk sem þykir svipa ansi mikið til Faxe Kondi og heitir sá drykkur Onside Sport og er framleiddur af S og S. Hive. Hive (IP Fjarskipti ehf.) var þriðji stærsti internetþjónustuaðilinn á Íslandi. Hive vakti upphaflega mikla athygli fyrir það að vera fyrstur íslenskra netþjónustuaðila til að bjóða uppá erlent niðurhal án kvóta. Tengingar sem stóðu til boða hjá Hive voru ADSL, ADSL2, ADSL2+ og ljósleiðaratengingar sem voru ætlaðar fyrir neytendur. Einnig bauð fyrirtækið uppá IP-síma („Hive Netsíminn“) sem var PC í fastlínu-lausn. Hive bauð einnig uppá heimasíma þjónustu sem notfærir sér VoIP tækni til að flytja símtölin sem að sögn Hive gerði það að verkum að þeir gátu verið með lægri mínútugjöld heldur en hin fjarskiptafyrirtækin. Nú árið er liðið í aldanna skaut. Nú árið er liðið í aldanna skaut er sálmur eftir séra Valdimar Briem, sem hann orti árið 1886. Hann er gjarnan sunginn við lag eftir Andreas Peter Berggreen. Auld lang syne. Auld lang syne er lag eftir Robert Burns, og mætti þýða heiti þess sem "löngu liðnar stundir". Lagið er eitt þekktasta þjóðlag enskumælandi landa jafnvel þó það sé ort á skosku. En fyrir vikið hefur það fengið á sig gæluheitið "lagið sem enginn kann", þar eð það þekkist vel en ekki ljóðið við lagið. Auld lang syne þekkist á mörgum öðrum tungumálum, en á íslensku heitir það bræðralagssöngurinn og er kjörsöngur skáta. James Hetfield. James Hetfield (fæddur 3. ágúst 1963) er aðalsöngvari og lagahöfundur Metallica. James fæddist í bænum Downey í Kaliforníu. Eiginkona hans er Fransesca Hetfield og eiga þau saman þrjú börn. Hetfield, James World Trade Center. World Trade Center turnarnir í New York-borg (oft nefndir Tvíburaturnarnir á íslensku) voru sjö byggingar reistar á árunum 1966-1972. Stóru turnarnir tveir hrundu eftir árásir hryðjuverkamanna þann 11. september 2001. Byggingarnar voru teiknaðar af japansk-bandaríska arkitektinum Minoru Yamasaki með aðstoð frá Antonio Brittiochi. Á árunum 1972 til 1973 voru turnarnir tvær hæstu byggingar heims. Vilhjálmur Bretaprins. Vilhjálmur Bretaprins, hertoginn af Cambridge (William Arthur Philip Louis, f. 21. júní 1982) er eldri sonur Karls Bretaprins og Díönu heitinnar prinsessu. Hann er annar í erfðaröðinni að bresku krúnunni á eftir föður sínum. Hann giftist Katrínu, hertogaynju af Cambridge þann 29. apríl 2011. Vík. Vík er landslagsþáttur sem myndar visst útlit á strönd, sjávar- eða stöðuvatni, þar sem vatn teygir sig „inn í landið“. Vík er andhverf odda eða ness. Vík í Mýrdal. Vík í Mýrdal, séð úr fjöru Séð til Reynisdranga frá Vík í Mýrdal. Vík í Mýrdal er þorp í Mýrdalshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu og er syðsti þéttbýlisstaður á Íslandi og eina íslenska sjávarþorpið sem ekki hefur höfn. Róið var til fiskjar úr fjörunni fyrr á árum en sjósókn var mjög erfið þar sem engin hafnaraðstaða var og mjög brimasamt. Saga. Öldum saman var enginn verslunarstaður á Suðurlandi frá Eyrarbakka austur á Papós en árið 1883 tóku bændurnir í Suður-Vík og Norður-Vík í Mýrdal sig saman um að panta varning frá Bretlandi og selja hann heima hjá sér. Þá stóð svo á að í kjölfar mikilla harðinda höfðu fátækir bændur í Skaftafellssýslu fengið peningaúthlutun og gátu nýtt féð til að kaupa varning í stað þess að fara um óravegu með sauðfé og aðra framleiðsluvöru til að leggja inn hjá kaupmönnum og taka út nauðsynjavöru, en slík ferðalög gátu tekið tvær eða þrjár vikur. Í framhaldi af þessu var komið upp verslun í Vík, farið var að slátra þar sauðfé og árið 1903 var reist þar tvílyft verslunarhús og annað skömmu síðar. Þorp myndaðist smám saman í kringum verslunina og árið 1905 bjuggu í Vík um 80 manns á þrettán heimilum. Skólahald hófst þar upp úr aldamótunum 1900. [ Þjónusta og atvinna. Víkurkirkja var reist á árunum 1932-1934 en prestur hafði setið í kauptúninu frá 1911. Kirkjan stendur hátt yfir þorpinu og er talin ein af fáum opinberum byggingum sem yrði örugg fyrir hamfaraflóði í kjölfar Kötlugoss. Læknissetur hefur verið í Vík frá 1915 en fyrstur til að sitja þar þar var raunar Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem þar bjó frá 1809-1833. Nú er heilsugæslustöð í Vík og þar er einnig dvalarheimili aldraðra. Helstu atvinnuvegir eru verslun og þjónusta, bæði við bændur í Vestur-Skaftafellssýslu og í vaxandi mæli við ferðamenn, en þjóðvegur 1 liggur í gegnum Vík og margir vinsælir ferðamannastaðir eru í nágrenninu. Einnig er smávegis iðnaður í Vík. Íbúafjöldi 1. janúar 2011 var 295 en um 500 manns búa í öllum Mýrdalshreppi. Sálmur. Orðið sálmur kemur af latnesku "psalmus" (að syngja með undirleik af strengjahljóðfæri) sem upphaflega kemur af forngrísku "psalmos" (að spila á strengjahljóðfæri). Einnig finnst notað orðið hymni, sem sömuleiðis á grískan uppruna (ὕμνος). Sálmar aðgreina sig frá öðrum ljóðum með því að ætíð vera af trúarlegum toga. Sálmar eru oftast lofsöngur eða bæn til guðs eða andlegs valds. Í kristni beinast sálmar oftast til Guðs, oft í persónu Jesú Krists, en einnig (sérstaklega í kaþólskum sið og rétttrúnaðarkirkjunni) til Maríu og ýmissa dýrlinga. Lofsöngur hefur verið mikilvægur hluti flestra kristinna trúarathafna allt frá elstu tímum, annað hvort af söfnuðinum eða af sérstökum kór, á seinni öldum oft með orgelundirleik. Tómas af Aquinos, í sambandi við útskýringar sínar á Sálmunum í Biblíunni, skilgreindi kristinn lofsöng á þennan hátt: "Hymnus est laus Dei cum cantico; canticum autem exultatio mentis de aeternis habita, prorumpens in vocem." ("Sálmur er hylling til Guðs með söng; söngur er fögnuður hugans yfir eilífum hlutum, sem brýst fram með röddinni.) Ekki er vitað með neinni vissu hvernig elsta kristna tónlistin hljómaði vegna þess að engin eiginleg nótnaskrift var til á þeim tímum. Á miðöldum þróaðist hin kristna trúartónlist mjög, nánast eingöngu sem söngur án undirleiks, ekki síst í því formi sem nefnt er gregorssöngur. Marteinn Lúther málaður af Lucas Cranach hinum eldri Með siðaskiptum gjörbreyttist kirkjutónlistin bæði hvað varðar söng og undirleik og hlutverk tónlistarinnar í messunni. Marteinn Lúther var ekki einungis leiðtogi mótmælenda heldur einnig afkastamikið sálmaskáld. Sálmur hans "Ein feste Burg ist unser Gott" (sem á íslensku heitir nú "Vor Guð er borg á bjargi traust") er ekki einungis einn af þekktustu sálmum mótmælenda heldur er einnig mikið notaður af Rómversk-kaþólsku kirkjunni. Ölfusárbrú. Ölfusárbrú séð frá eystribakka Ölfusár. Ölfusárbrú kallast sú brú sem brúar Ölfusá við Selfoss. Bygging brúarinnar. Á almennum sýslufundi á Stórólfshvoli 1872 var fyrst byrjað að tala um að brúa sunnlensku stórvatnsföllin, Ölfusá og Þjórsá. Það var þáverandi prestur í Fljótshlíðarþingum, séra Hannes Stephensen, sem fór að tala um brúargerð á Þjórsá við Þjótanda. Á Þingi 1879 var veitt 100 þúsund krónum til bygginga brúa á ánum tveimur, en ekki var peningunum þó strax varið til brúarsmíðanna, heldur var t.d. talað um að gera flugferjur eða svifferjur á árnar. Þekktasti maður í sambandi við Ölfusárbrúna var Tryggvi Gunnarsson. Hann lagði fram tilboð í brúarsmíðina og fékk verkið. Til liðs við sig fékk hann Vaughan & Dymond-málmsmíðafyrirtækið í Newcastle on Tyne. Tilboð Tryggva og Vaughan & Dymond hljóðaði upp á 66.000 kr. 1889 fór Tryggvi að undirbúa komu brúarinnar og samdi við ýmsa Flóamenn, ýmist til að skipa upp efni eða vinnu við brúarsmíðina. Um haustið kom Sigurður Sveinsson steinsmiður suður og fór að undirbúa steypu stöplanna hvoru megin við ána. Uppsteypu stöplanna lauk á höfuðdegi 1890. Þetta sama sumar var reist íbúðarhús Tryggva, sem þá var kallað „Brohús“ en gengur nú undir nafninu Tryggvaskáli. Síðsumars 1890 var brúarefninu sjálfu skipað upp á Eyrarbakka. Þá um sumarið var rudd slétt braut upp að Selfossi og sleðar notaðir til að draga stykki uppeftir næsta vetur á ís. Síðustu bitarnir komust á Selfoss í janúar 1891. Þann 15. júní 1891 hófst brúarsmíðin af alvöru, en byrjaði þó illa því um kvöldið drukknaði Englendingur nokkur sem hafði farið út á efnispramma. Prammanum hvolfdi og bæði maður og stálstykkin á prammanum fóru í ána. Við þetta tafðist verkið nokkuð. Fleiri þrándar voru í götu brúarsmiða. Þegar stöplar brúarinnar höfðu verið steyptir kom í ljós að þeir voru ekki nógu háir til að mestu klakahrannir kæmust undir. Því lét Tryggvi hækka stöplana. Einnig kom í ljós að burðarstengurnar voru of langar. Tók Tryggvi þá til ráðs að kalla til verksins vegagerðarmanninn Sigurð Gunnarsson. Hann tók allar stengurnar í sundur og sauð saman aftur með svokallaðri stúfsuðu. Vígsla brúarinnar var 8. september 1891, eins og konungur hafði fyrirskipað Tryggva. Margir sóttu Selfoss heim, meðal annars frá Eyrarbakka og jafnvel austan yfir Þjórsá. Magnús Stephensen landshöfðingi flutti tölu og að lokum var Brúardrápa Hannesar Hafstein flutt. Dag þennan rigndi óhemju mikið, en fínt veður var bæði daginn áður og eftir. Samdar voru reglur um umferð um Ölfusárbrúna, þar sem meðal annars var bannað að fara yfir brúna ríðandi á hraða yfir klyfjahraða og skilgreint hve margir laushestar máttu vera í rekstri yfir brúna. Brúin fellur. Árið 1944 kom mjólkurbíll frá Reykjavík með annan í togi og þoldi brúin ekki þyngdina svo annar brúarstrengurinn slitnaði og bílarnir féllu báðir í ánna. Annar lenti á grynningum þaðan sem síðar var hægt að ná honum upp en hinn fór í hyldjúpa gjána ásamt bílstjóranum. Bílstjóra þess bíls tókst að halda sér á varadekki þar til hann rak á land við Selfoss-bæina fyrir vestan Selfosskirkju. Nýja brúin byggð. Nýja brúin, sem enn þjónar sínum tilgangi, var tekin í notkun 22. desember 1945. Er hún 84 metra löng milli stöpla. Brúardrápa Hannesar Hafstein. Brúardrápa Hannesar Hafstein var frumflutt 8. september 1891 við vígslu Ölfusárbrúar. Fionn Mac Cumhaill. Fionn Mac Cumhaill (einnig ritað Finn eða Find mac Cumail eða mac Umaill, borið fram „Finn mac Cool“, a>) var goðsagnakenndur veiðimaður og bardagamaður í Írskum þjóðsögum, en sögur af honum voru einnig þekktar í Skotlandi og á Mön. Sögur af Fionn og fylgismönnum hans, Fianna, eru skráðar í Fianna sögunum (e. "Fenian cycle" eða "Ossianic Cycle". i. "Fianaigecht"). Fianna sögurnar eru að mestu sagðar frá sjónarhorni sonar Fionn, Oisín, sem var skáld. Fenian bræðralagið dregur nafn sitt af þessum þjóðsögum. "Fionn" var gæluheiti sem þýðir „fölur“, „hvítur“ eða „bjartur“. Í æsku hét hann "Deimne" og í nokkrum frásögnum er sagt frá því hvernig hann öðlaðist gælunafn sitt þegar að hár hans varð hvítt langt fyrir aldur fram. Hann er líklega tengdur við Velsku goðsagnapersónuna Gwyn ap Nudd. Fæðing. Fionn var sonur Cumhal, sem var leiðtogi fianna reglunnar, og Muirne, dóttir drúidans Tadg mac Nuadat sem bjó á hæðinni Almu í Kildare sýslu. Cumhal nam Muirne á brott eftir að faðir hennar neitaði að leyfa sér að giftast henni, og Tadg leitaði ráða til hákonungsins yfir Írlandi, Conn Cétchathach ("Hundrað bardaga-Conn"), sem gerði hann að útlaga. Bardaginn við Cnucha var háður milli Conn og Cumhal, og Cumhall var drepinn af Goll mac Morna, sem gerðist svo leiðtogi fianna reglunnar. Þá var Muirne þegar orðin ólétt eftir samfarir hennar við Cumhal, þannig að faðir hennar afneitaði henni og fyrirskipaði að hún skyldi brennd á báli, en Conn bannaði það og setti hana undir verndarvæng Fiacal mac Conchinn. Kona Fiacals, drúidinn Bodhmall, var systir Cumhals. Í húsi Fiacals eignaðist hún son sem hún kallaði Deimne. Nafnið Cumhal kann að vera komið af forn-Írska orðinu "cumal", sem þýðir ambátt. Það kann að vera að einhvern tímann hafi Fionn verið sagður "ambáttarsonur" ("mac cumal"), áður en að virðingarmeiri uppruni var skáldaður fyrir hann. Æska. Muirne skildi Deimne eftir hjá Bodhmall og bardagakonunni Liath Luachra, en hún ól hann upp með leynd í Sliab Bladma skógi, og kenndi honum þar bardagalistir og veiðar. Þegar hann varð eldri gekk hann í hirðir ýmissa konunga undir fölsku nafni, en þegar að þeir báru kennsl á hann sem sonur Cumhals var honum skipað að fara, af ótta við að óvinir hans leituðu hann uppi. Fionn kynntist svo skáldinu Finneces við ánna Boyne og lærði kveðskap hjá honum. Finneces hafði eytt sjö árum í að reyna að veiða lax þekkingarinnar, sem bjó í ánni, en sagt var að hver sá sem æti laxinn myndi hljóta alla þekkingu heims. Að lokum náði hann að veiða laxinn, og sagði Fionn að elda hann fyrir sig. Fionn brenndi sig við matreiðsluna, og setti brennda þumalputtann í munn sinn, og át óvart hluta af roði laxins. Þannig fékk hann vísdóm laxins, en upp frá þessu gat hann kallað til sín vísdóm á örlagastundum með því að sjúga á þumal sinn. Ámóta frásagnir af viskuþumalnum eru til í íslendingasögum, enskum fornsögum og í finnsku fornvísunni Kalevala. Einnig kemur sama minni fyrir í velsku sögunni um Gwion Bach, en hugsanlegt er að sögurnar eigi sér sameiginlega rót. Valdatakan. Á hverju ári í 23 ár kom eldspúandi álfadís að nafni Aillen á Samhain (1. nóvember), og svæfði alla mennina í Tara með tónlist og brenndi svo kastalann til grunna. Fianna reglan, sem Goll mac Morna stýrði, gat ekkert gert til þess að varna því. Fionn kom til Tara, vopnaður með galdravopnum í poka úr fuglaskinni. Hann hélt sér vakandi með því að halda spjótsoddi sínum undir hausnum á sér, þannig að ef að hann sofnaði hrökk hann upp þegar hann rakst á oddhvassa spjótið, og drap svo Aillen með spjótinu. Eftir að hann drap Aillen var hann viðurkenndur sem sonur Cumhal. Goll vék úr stóli og Fionn tók við sem leiðtogi Fianna reglunnar. Í sumum frásögnum er fjallað um samskipti Fionn og Goll, en vinátta þeirra var ótraust og þeir lentu oft upp á móti hvor öðrum. Seinna heimtaði Fionn bætur af Tadg fyrir morðið á föður sínum, og hótaði stríði eða einvígi ef að hann neitaði. Tadg bauð honum heimili sitt, hæðina Almu, sem skaðabætur, og Fionn þáði það. Bardagi risanna. Mörg landfræðileg fyrirbrigði á Írlandi eru tengd við Fionn Mac Cumhail. Í sumum yngri frásögnum er Fionn risi, og í deilum sínum við risa í Alba (nú þekkt sem Skotland) tók hann hluta úr Írlandi til þess að kasta í mótherja sinn. Hann varpaði aurhnettinum í mótherja sinn, en hann dreif ekki yfir Írlandshaf og klumpurinn varð að eyni Mön, en holan sem varð eftir varð Lough Neagh. Í annarri tilraun til þess að há einvígi við mótherja sinn í Alba byggði hann stuðlabergsbrúnna Giants Causeway frá Írlandi til Skotlands, til þess að hann gæti barist við andstæðinginn án þess að blotna í fæturna. Fingalshellir í Skotlandi er einnig nefnt eftir honum, en í hellinum eru sexhyrndar súlur úr basalti. Ástir. Fionn kynntist frægustu föstukonu sína, Sadbh, þegar hann var að veiðum. Drúidinn Fer Diorich hafði breytt henni í hreindýr, en hundar Fionns, Bran og Sceolang, sem höfðu sjálfir eitt sinn verið mennskir, áttuðu sig á því að hún væri mennsk, og Fionn hlífði henni. Hún breyttist aftur í fallega konu, sem Fionn giftist og gerði ólétta. Fer Diorich kom aftur seinna og breytti henni aftur í hreindýr, og hún hvarf á brott. Sjö árum síðar hitti Fionn son þeirra, Oisín, sem varð einn af mestu hetjum fianna reglunnar. Í einni frægustu sögunni hafði hákonungur Írlands, Cormac mac Airt, lofað Fionn dóttur sína, Gráinne, en Gráinne féll fyrir öðrum meðlimi fianna reglunnar, Diarmuid Ua Duibhne, og þau stungu af saman með Fionn á hælunum. Fósturfaðir Diarmuids, guðinn Aengus, aðstoðaði þau við flóttann. Mörgum árum síðar voru Fionn og Diarmuid á veiðum og bráðin stangaði Diarmuid alvarlega. Vatn sem var drukkið úr höndum Fionn hafði lækningarmátt, en þegar Fionn safnaði vatni lét hann það vísvitandi leka á milli puttanna sína áður en að hann færði Diarmuid það. Sonur hans, Oisín, og sonarsonur hans, Osgur, hótuðu honum og sögðu honum að vera heiðarlegur, en það var um seinan, því Diarmuid dó skömmu síðar. Dauði. Ýmsar misjafnar sögur segja af dauða Fionns, en vinsælustu frásagnirnar segja að hann sé í raun ekki dauður, heldur lifi enn góðu lífi í helli undir Dyflini, og mun hann koma þaðan til þess að bjarga Írlandi á mesta raunatíma þess. Kwame Nkrumah. Kwame Nkrumah (21. september 1909 – 27. apríl 1972) var stjórnmálamaður og sjálfstæðishetja frá Gana, oft lýst sem helstu von álfunnar og fylgismaður Stór-Afríkustefnunnar. Hann fæddist í bænum Nkroful á Gullströndinni þar sem nú er Gana og hét upphaflega Francis Nwia-Kofi Ngonloma. Hann lærði í Achimota í Akkra og síðan í kaþólskum skóla í Amisano. Eftir það varð hann kennari í kaþólskum skóla í Axim. Síðar fór hann til Bandaríkjanna og lauk M.Sc.-prófi í kennslufræði 1942 og ári síðar M.A.-prófi í heimspeki við Pennsylvaníuháskóla. 1945 flutti hann til London til að læra við London School of Economics. Þar hitti hann George Padmore og tók þátt í skipulagningu Stór-Afríkuþingsins 1945. Í framhaldinu varð hann virkur í hreyfingunni sem barðist fyrir sjálfstæði Afríkuríkja. Hann sneri heim til Gana árið 1947 og gerðist félagi í "United Gold Coast Convention" sem var undir stjórn Joseph B. Danqauh. Sama ár stofnaði hann ný stjórnmálasamtök "Convention People's Party" með slagorðið „Sjálfstæði strax“. Hann sagði sig úr UGCC árið 1949 og hóf að skipuleggja fjöldaaðgerðir byggðar á borgaralegri óhlýðni. Bresku nýlenduyfirvöldin handtóku hann 1950. Skömmu síðar ákváðu Bretar að veita nýlendunni sjálfstæði og boðuðu til kosninga til nýs löggjafarþings árið 1951. Nkrumah sat þá enn í fangelsi en hlaut kosningu á þingið. Honum var sleppt og hann tók að sér að leiða bráðabirgðastjórn ásamt breska landstjóranum. 6. mars 1957 lýsti Gana yfir sjálfstæði og Nkrumah var tilnefndur forsætisráðherra. Í fyrstu var þjóðhöfðingi landsins breski konungurinn en var lýst lýðveldi árið 1960. Í kjölfarið fylgdi efnahagsleg niðursveifla og órói í landinu. Meðal annars var reynt að myrða Nkrumah. Eftir þetta urðu stjórnarhættir hans gerræðislegri. Hann lýsti yfir flokksræði 1964 og gerði sjálfan sig að forseta til æviloka. Á sama tíma einangraði hann landið efnahagslega. Meðan á heimsókn hans í Peking og Hanoi stóð árið 1966 var honum steypt af stóli í herforingjabyltingu. Eftir þetta gat hann ekki snúið aftur til Gana, en bjó í Gíneu og hélt áfram að vinna að hugsjóninni um sameiningu Afríkumanna. Hann lést árið 1972 í Rúmeníu þar sem hann var að leita sér lækninga. Menntaskólinn í Kópavogi. Menntaskólinn í Kópavogi (oft skammstafað sem MK'") er íslenskur menntaskóli, staðsettur við Digranesveg í Kópavogi. Skólinn var settur í fyrsta sinn 22. september 1973 af Ingólfi A. Þorkelssyni, skólameistara 1973-1993. Í skólanum eru um 1300 nemendur, og skiptist skólinn í þrjár megindeildir, bóknáms-, matvæla- og ferðamálasvið. Skólameistari Menntaskólans í Kópavogi frá 1993 hefur verið Margrét Friðriksdóttir. BEMKÍGÁFER. 1993 var BEMKÍGÁF ("Bekkjakeppni MK í gáfumannaleik") fyrst haldið að frumkvæði Jóhannes Birgis Jenssonar, spurningakeppni milli bekkja. Hún er enn við lýði og er árlegur atburður. Sama ár var tölvuleikjaklúbbur stofnaður, á þessum tíma var engin nettenging í skólanum og tölvukostur flestra heimavið mun verri en í skólanum. Þar sátu margir við um helgar og spiluðu tölvuleiki í tölvuverinu fram eftir nóttu, þökk sé liðsemi húsvarðar og tölvukennara. MORMÍK. Haustið 2004 var MORMÍK ("Mælsku- og rökræðukeppni Menntaskólans í Kópavogi") fyrst haldin að frumkvæði Jóns Inga Stefánssonar, þáverandi forseta málfundafélags MK. Síðan hefur keppnin verið haldin árlega og stækkað ár frá ári. Gettu betur. Menntaskólinn í Kópavogi hefur einu sinni unnið sigur í Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, árið 1989. Árin 2004 til 2006 skipuðu Jón Ingi Stefánsson og Víðir Smári Petersen liðið. Árið 2004 var liðsfélagi þeirra Egill Óskarsson, en árin 2005-2006 slóst Eiríkur Knudsson í hópinn. Leikárin 2007 og 2008 skipuðu liðið Andri Þorvarðarson, Eiríkur Knudsson og Ingvi Þór Sæmundsson. Árið 2009 skipuðu liðið Ingvi Þór Sæmundsson, Bjarni Þór Sigurbjörnsson og Unnur Hólmfríður Brjánsdóttir. Unnur er fyrsta og eina stelpan til þess að taka sæti í liði MK frá upphafi. 1994. MK tapaði gegn Verzlunarskólanum í síðari útvarpsumferðinni. Liðið skipuðu Bjarni Benjamínsson, Snorri Freyr Dónaldsson og Jóhannes Birgir Jensson. 1995. MK fékk flest stig allra skóla í hraðaspurningum í útvarpskeppninni og vann báðar viðureignir þar örugglega. MK tapaði gegn Verzlunarskólanum í fyrsta leik átta-liða úrslita í sjónvarpinu eftir bráðabana. Viðureignin fór fram í Smáranum og athygli vakti að áður en keppni hófst tilkynnti dómarinn að reglum hefði verið breytt og pass yrði nú tekið sem endanlegt svar. Þrjú stig töpuðust í hraðaspurningunum sökum þessara reglubreytingar sem kom flatt upp á óviðbúin liðin. Liðið skipuðu Bjarni Benjamínsson, Snorri Freyr Dónaldsson og Jóhannes Birgir Jensson. 2004. MK hóf keppni gegn Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, Hornafirði. Lauk viðureigninni með sigri MK-inga, 25-19. Í annarri umferð keppninnar það ár keppti liðið gegn Fjölbrautaskóla Suðurnesja og vann stórsigur 32-8. Lið MK var þar með komið í 8-liða úrslitin í Sjónvarpinu í fyrsta skipti síðan 2000. Þar drógust drengirnir gegn Borgarholtsskóla, og fór sú viðureign fram þann 11. mars 2004. Lið MK beið þar lægri hlut, 32-18. 2005. Mannabreytingar urðu á MK-liðinu veturinn 2004-5, Egill Óskarsson var hættur, en í hans stað kom nýneminn Eiríkur Knudsson, sem áður hafði keppt fyrir hönd Snælandsskóla í GetKó, spurningakeppni félagsmiðstöðvanna í Kópavogi. MK hóf keppni gegn Kvennó, og endaði keppnin með sigri MK-inga, 17-12. Því næst var röðin komin að liði FB, en sú viðureign endaði með sigri MK, 22-14. MK var þar með komið í 8-liða úrslit annað árið í röð. Lið MK dróst gegn liði Verzlunarskóla Íslands, og fór keppnin fram þann 16. febrúar 2005. Leikar enduðu svo að Verzlunarskólinn sigraði, 19-15. 2007. Mannabreytingar urðu aftur á MK-liðinu veturinn 2006-2007; Víðir Smári Petersen og Jón Ingi Stefánsson voru báðir hættir, en við af þeim tóku Andri Þorvarðarson og Ingvi Þór Sæmundsson, sem áður höfðu verið varamenn. Tóku þeir Víðir og Jón Ingi þá við þjálfun liðsins. MK hóf keppni gegn Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra og vann sigur, 20-8. Í annarri umferð mætti skólinn Menntaskólanum Hraðbraut, og endaði sú viðureign með sigri MK, 23-19. Liðið komst þá í sjónvarpskeppnina (þ.e. 8-liða úrslit) og tókst lið MK þar á við lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Lið MK sigraði þar með 27 stigum gegn 17. Því næst var röðin komin að liði Menntaskólans við Hamrahlíð, en sú viðureign endaði með sigri MK, 33-31, eftir bráðabana. Lið MK mætti svo liði Menntaskólans í Reykjavík í úrslitum þar sem MR sigraði með 29 stigum gegn 27 eftir bráðabana. Tenglar. Kópavogi Vilhjálmur þögli. Vilhjálmur I af Óraníu-Nassá, einnig nefndur Vilhjálmur þögli (24. apríl 1533 – 10. júlí 1584) var af Nassá-ættinni og varð Óraníufursti 1544. Hann var helsti leiðtogi uppreisnar Hollendinga gegn Spánverjum sem hrinti af stað Áttatíu ára stríðinu sem lauk með formlegu sjálfstæði Hollands árið 1648. Hann var upphaflega stjórnmálamaður við hirð spænska landstjórans en varð brátt óánægður með áhrifaleysi innfæddra aðalsmanna og ofsóknir á hendur mótmælendum. Hann gerðist því þátttakandi í uppreisn Hollendinga og þegar hertoginn af Alba kom til að kveða niður uppreisnarmenn 1567 gerði hann Vilhjálm útlægan og lét gera eigur hans upptækar. Vilhjálmur kom sér þá upp her, aðallega með þýskum málaliðum, og réðist, ásamt bræðrum sínum Lúðvík af Nassá og Adolf af Nassá, inn í norðurhluta Spænsku Niðurlanda. Þar unnu þeir flestar borgir á sitt band (utan Amsterdam og Middelburg) sem síðan kölluðu saman hollenska ríkisráðið (sem þær höfðu raunar ekki rétt til að gera) og lýstu Vilhjálm ríkisstjóra yfir Hollandi og Sjálandi. Stríðið hélt áfram og uppreisnarmenn náðu brátt á sitt vald mörgum borgum um allt landið. Nýja landstjóranum hertoganum af Parma, tókst þó að ná suðurhlutanum aftur á sitt vald. 22. júlí 1581 sóru meðlimir ríkisráðsins afneitunareiðinn þar sem þeir lýstu því yfir að Filippus II Spánarkonungur væri ekki lengur konungur þeirra. Frans, hertogi af Anjou átti að verða nýr konungur norðurhluta Niðurlanda, meðal annars til að tryggja stuðning Frakkakonungs. Hertoginn var gríðarlega óvinsæll og héruðin Holland og Sjáland neituðu að viðurkenna hann sem þjóðhöfðingja. Eftir að hafa reynt og mistekist að taka Antwerpen með valdi 18. janúar 1583 hélt hann burt. Staða Vilhjálms hafði veikst mikið við þetta en hann var samt áfram ríkisstjóri. Vilhjálmur var myrtur af Balthasar Gérard, sem var stuðningsmaður Spánarkonungs og sóttist eftir lausnargjaldinu sem sá hafði sett Vilhjálmi til höfuðs. Middelburg. Húsbátar við Rouaansekaai í Middelburg. Middelburg er lítil borg og sveitarfélag í Suðvestur-Hollandi og höfuðstaður Sjálands á Walcheren-skaganum. Íbúafjöldi er um 46.000. Middelburg hefur upphaflega verið reist á 8. öld sem varnarvirki á Walcheren, sem þá var eyja. Fyrst er minnst á borgina sem virki til varnar gegn árásum víkinga. 844 var reist þar klaustur. Borgin fékk kaupstaðarréttindi árið 1217. Á miðöldum var borgin mikilvægur verslunarstaður og útflutningshöfn fyrir vörur frá Flandri til Bretlands. Á gullöld Hollendinga var borgin mikilvægur áfangastaður fyrir Hollenska Austur-Indíafélagið. 17. maí 1940 var borgin nær jöfnuð við jörðu með loftárásum Luftwaffe til að brjóta á bak aftur mótstöðu hollenska hersins á Sjálandi. Eftir stríðið var miðbærinn endurbyggður að mestu leyti eins og hann hafði verið fyrir stríð. Filippus 2. Spánarkonungur. Filippus 2. Spánarkonungur (21. maí 1527 – 13. september 1598) var fyrsti formlegi konungur Spánar frá 1556 til 1598, konungur Napólí og Sikileyjar frá 1554 til 1558, konungur Portúgals (sem Filippus 1.) frá 1580 til 1598 og konungur Englands og Írlands (með Maríu konu sinni) frá 1553 til 1558. Hann réði einnig yfir Niðurlöndum frá 1556-1581. Ætt og hjónabönd. Filippus var eini sonur Karls 5. og Ísabellu af Portúgal sem komst til fullorðinsára. Sautján ára að aldri giftist hann jafnöldru sinni, Maríu Manúelu af Portúgal, en þau voru systkinabörn í báðar ættir. Hún ól son, Karl prins af Astúríu, árið 1545 en dó fáeinum dögum síðar. Faðir Filippusar samdi um giftingu sonar síns og Maríu 1. Englandsdrottningar, sem var áratug eldri, árið 1554 og jafnframt að Filippus fengi konungstitil og héldi honum meðan María lifði. Hann er þó yfirleitt ekki talinn með í ensku kóngaröðinni. Á meðan Filippus var Englandskonungur tók hann við konungdómi á Spáni þegar faðir hans sagði af sér 16. janúar 1556. Filippus og María voru barnlaus og þegar María lést árið 1558 íhugaði hann um tíma að giftast yngri hálfsystur hennar Elísabetu til að halda völdum í Englandi. Af því varð þó ekki. Friðarsamningur sem Spánverjar gerðu við Frakka árið 1559 batt endi á sextíu ára stríð þjóðanna. Hluti samkomulagsins var að Filippus giftist Elísabetu af Valois, dóttur Hinriks 2. Frakkakonungs. Hún hafði raunar verið trúlofuð Karli syni Filippusar en hann gekk ekki heill til skógar og varð úr að hún giftist konunginum sjálfum. Elísabet var aðeins 14 ára en Filippus 32 ára. Hjónaband þeirra virðist þó hafa verið farsælt. Elísabet ól tvær dætur sem lifðu en dó af barnsförum 1568 eftir að hafa fætt andvana son. Móðir hennar, Katrín af Medici, bauð Filippusi yngri systur hennar, Margréti, fyrir eiginkonu en hann afþakkaði. Filippus þurfti hins vegar að eignast erfingja því Karl sonur hans lést sama ár og Elísabet. Árið 1570 giftist hann því í fjórða sinn, rúmlega tvítugri systurdóttur sinni, Önnu af Austurríki, og eignaðist með henni fjóra syni og eina dóttur, en aðeins einn sonur komst upp og var það Filippus 3. Þegar Hinrik Portúgalskonungur lést 1580, aldraður og barnlaus, gerðu börn þriggja systkina hans tilkall til krúnunnar, þau Filippus, Katrín hertogaynja af Braganza og Anton príor af Crato, sem var kominn í beinan karllegg af Manúel 1. en var óskilgetinn. Anton lýsti sig konung en tæpum mánuði síðar hrakti Filippus hann úr landi og var síðan krýndur Filippus 1. af Portúgal 1581. Ríkjasamband Spánar og Portúgals hélst til 1640 þegar sonarsonur Katrínar, Jóhann 4., fékk erfðatilkall sitt viðurkennt og varð konungur Portúgals. Stjórnartíð Filippusar. Á valdatíma sínum þurfti Filippus að takast á við óðaverðbólgu heima fyrir (sem að hluta stafaði af innflutningi góðmálma frá Suður-Ameríku), sjórán Breta í Vestur-Indíum og við sjálfar strendur Spánar og aukinn þrýsting frá márum í Norður-Afríku. Hann átti í baráttu við Ottómanaveldið um yfirráð á Miðjarðarhafi og í sjóorrustunni við Lepanto árið 1571Titill tengils vann hann í bandalagi við Genúumenn, Feneyinga, Mölturiddara og fleiri sigur á flota Ottómana og nær gjöreyddi honum. Þessi bardagi markaði þáttaskil í átökunum um yfirráð á Miðjarðarhafi og árið 1585 var gerður friðarsamningur við Ottómana. Niðurlendingar, sem margir voru mótmælendur, voru ekki sáttir við yfirráð hins strangkaþólska Filippusar og kom oft til átaka þar. Árið 1581 gerði norðurhluti Niðurlanda uppreisn gegn honum og lýsti því yfir að hann hefði ekki lengur yfirráð þar. Niðurlönd voru að verða efnahagslegt stórveldi og stóðu því betur að vígi en Filippus, sem þurfti að takast á við efnahagserfiðleika og verðbólgu og varð gjaldþrota hvað eftir annað. Filippus og Elísabet 1. Englandsdrottning, fyrrum mágkona hans, héldu frið sín á milli lengi framan af og það var ekki fyrr en enskir sjóræningjar fóru að ráðast á spænsk skip með blessun yfirvalda og Elísabet drottning að veita uppreisnarmönnum á Niðurlöndum beinan stuðning sem styrjöld hófst milli ríkjanna. Eftir að María Skotadrottning var tekin af lífi 1587 og Filippusi þótti útséð að kaþólskur þjóðhöfðingi kæmist til valda í Englandi fór hann að hugleiða innrás í landið. 1588 sendi hann Flotann ósigrandi gegn Englendingum en tapaði. Fleiri flotar voru sendir síðar og það var ekki fyrr en árið 1604, þegar Filippus og Elísabet voru bæði dáin, sem loks var saminn friður. Ófriður milli Frakka og Spánverja hófst aftur árið 1590 og studdi Filippus Kaþólska bandalagið gegn mótmælendum undir forystu Hinriks 4. En spænski herinn hafði í mörg horn að líta og í friðarsamningunum í Vervins 1598 samþykktu Spánverjar að hverfa með allt sitt herlið frá Frakklandi. Sama ár lést Filippus. Þrátt fyrir verðbólgu, efnahagserfiðleika og nær stöðugar styrjaldir og erjur reis veldi Spánverja aldrei hærra en á valdatíma Filippusar. Hann var strangtrúaður og efldi spænska rannsóknarréttinn mjög. Þó var valdaskeið hans blómaskeið í menningu og listum á Spáni og var upphaf hinnar svonefndu Gullaldar Spánar. Á valdatíma hans voru Filippseyjar lagðar undir Spán og nefndar í höfuðið á honum. Carlo Azeglio Ciampi. Carlo Azeglio Ciampi (f. 9. desember 1920) var tíundi forseti Ítalíu. Hann var áður stjórnarformaður ítalska seðlabankans, forsætisráðherra í starfsstjórn frá apríl 1993 til maí 1994 og síðan fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Romanos Prodis og Massimo D'Alema frá 1996 til 1999. 13. maí 1999 var hann kjörinn forseti lýðveldisins af ítalska þinginu (sameinuðu þingi fulltrúadeildar og öldungadeildar) og var annar sem hlotið hefur þá tvo þriðju hluta atkvæða sem til þarf í fyrstu umferð. Hinn var Francesco Cossiga sem var kosinn forseti 1985. Ciampi, Carlo Azeglio Ágústudalur. Ágústudalur (ítalska: "Valle d'Aosta", arpitanska: "Vâl d’Aoûta", franska: "Vallée d'Aoste") er sjálfstjórnarhérað í norðvesturhluta Ítalíu með landamæri að Frakklandi (Haute Savoie, Savoie og Rhône-Alpes), Sviss (Vallese) í vestri og norðri og Fjallalandi í austri. Höfuðstaður héraðsins er Ágústa. Íbúar héraðsins eru um 120 þúsund íbúar í 74 sveitarfélögum, en Ágústudalur er aðeins ein sýsla. Sumir íbúar héraðsins tala franskar mállýskur. Ágústudalur liggur inn á milli Alpafjalla og telur meðal annars hlíðar fjallanna Mont Blanc og Matterhorn. Hæsta fjallið er Gran Paradiso. Kort sem sýnir staðsetningu Ágústudals á Ítalíu. Il Canto degli Italiani. Il Canto degli Italiani er þjóðsöngur Ítalíu. Söngurinn er oft nefndur Fratelli d'Italia ("Ítölsku bræður") eftir fyrstu ljóðlínunni og líka Inno di Mameli ("Sálmur Mamelis"). Ljóðið var ort árið 1847 af ítalska skáldinu Goffredo Mameli í miðri sameiningarbaráttunni. Sungið við lag Michele Novaro varð ljóðið gríðarlega vinsælt á tímum sameiningartímabilinu ("risorginento"). Í kjölfarið á sameiningunni 1861 var ættarsöngur Savojaættarinnar tekinn upp sem þjóðsöngur Ítalíu. Þegar landið varð lýðveldi 1946 var ákveðið til bráðabirgða að "Il Canto degli Italiani" skyldi verða þjóðsöngur. Ljóðið. "Ljóð Mamelis er fimm erindi, en venjan er þegar þjóðsöngur Ítalíu er sunginn, að syngja aðeins fyrsta erindið og viðlagið tvisvar. " Forseti Ítalíu. Forseti Ítalíu er þjóðhöfðingi Ítalíu og fulltrúi einingar þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni. Hann er kjörinn af sameinuðu þingi Ítalíu (fulltrúadeild og öldungadeild) til sjö ára í senn. Þannig er tryggt að sama þing geti ekki kosið forseta tvö kjörtímabil í röð, þar sem þingið situr að hámarki í fimm ár. Hlutverk forseta er fyrst og fremst táknrænt og yfirleitt er um að ræða stjórnmálamenn sem starfað hafa lengi. Staðgengill forseta í fjarveru hans er forseti öldungadeildarinnar sem einnig getur farið með hlutverk forseta lýðveldisins við sérstakar aðstæður. Núverandi forseti Ítalíu er Giorgio Napolitano sem tók við embætti 15. maí 2006. Listi yfir forseta Ítalíu. Þetta er listi yfir forseta Ítalíu frá stofnun lýðveldis árið 1946. "Þjóðhöfðingi til bráðabirgða" til 31. desember 1947. Tengt efni. Ítalía forsetar Antonio Segni. Antonio Segni (2. febrúar 1891 – 1. desember 1972) var forsætisráðherra Ítalíu á árunum 1955 til 1957 og aftur 1959 til 1960. Hann var kosinn forseti Ítalíu 6. maí 1962 (í níundu umferð) og sór embættiseiðinn 11. maí sama ár. Hann fékk slag 7. ágúst 1964 og sagði af sér í kjölfarið vegna heilsubrests 6. desember. Segni, Antonio Segni, Antonio Uniejów. Uniejów er borg við fljótið Warta í miðhluta Póllands. Orðuveitingar Hinnar íslensku fálkaorðu 1991-2000. 2000. Opinber heimsókn frá Finnlandi setti svip sinn á orðuveitingar ársins. 1998. Opinber heimsókn frá Svíþjóð setti svip sinn á orðuveitingar ársins. 1997. Opinberar heimsóknir frá Noregi og Finnlandi settu svip sinn á orðuveitingar þessa árs. 1996. Opinber heimsókn frá Danmörku setti svip sinn á orðuveitingar ársins. Orðuveitingar Hinnar íslensku fálkaorðu 2001-2010. 2008. Í tilefni af silfurverðlaunum í handknattleik karla á Ólympíuleikunum 2008 var hópi í fyrsta sinn veitt orðan, landsliðsmönnum og forráðamönnum HSÍ. 2004. Opinber heimsókn frá Svíþjóð setti svip sinn á orðuveitingar ársins. 2003. Opinber heimsókn frá Þýskalandi setti svip sinn á orðuveitingar ársins. Der er et yndigt land. "Der er et yndigt land" er annar tveggja opinberra þjóðsöngva Danmerkur. Adam Oehlenschläger samdi textann 1819. Sé einhver úr konungsfjölskyldunni viðstaddur þar sem þjóðsöngurinn er fluttur, er hins vegar notaður söngurinn "Kong Kristian stod ved højen mast", sem er eftir Johannes Ewald frá árinu 1779. Du gamla, du fria. "Du gamla, du fria", er þjóðsöngur Svíþjóðar samin af Richard Dybeck 1844 við gamalt þjóðlag. Hann samdi þó einungis tvö fyrstu versin af þeirri útgáfu sem notuð er í dag. Árið 1910 bætti Louise Ahlén við þeim tveim síðari. Þetta er þó ekki opinber þjóðsöngur þar sem Svíþjóð hefur engan slíkan. Abelsverðlaunin. Abelsverðlaunin (eða Abelverðlaunin'") eru verðlaun sem Norska vísindaakademían veitir til stærðfræðings sem þykir hafa skarað fram úr á alþjóðavettvangi. Verðlaunin eiga að stuðla að aukinni umfjöllun fjölmiðla um stærðfræði og gefa þannig ungum stærðfræðingum aukinn metnað. Einnig eiga þau að varðveita minningu Niels Henrik Abels sem dó ungur en náði þrátt fyrir það að skilja eftir sig ýmsar grundvallarkenningar í stærðfræði. Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti í júní árið 2003 og hafa verið veitt árlega síðan. Tildrög verðlaunanna. Um hálfri öld eftir að Abel lést kom fram sú hugmynd að stofna til verðlauna í hans nafni. Sá sem átti þá hugmynd var norski stærðfræðingurinn Sophus Lie, og árið 1898 fór hann út í það að safna styrkjum til að stofna til slíkra verðlauna sem yrðu veitt á fimm ára fresti til stærðfræðings sem skarað hefði fram úr í hreinni stærðfræði á alþjóðavettvangi. Hann var virtur og gekk ágætlega að safna styrkjum. Það kom þó fyrir ekki því hann lést ári síðar og þar sem flestir styrkirnir sem hann hafði fengið voru á hans nafni, var ekki hægt að nýta þá eftir dauða hans. Umræðan vaknaði aftur 1902, 100 árum eftir fæðingu Abels, en þá lýsti Oskar II Svíakonungur (en á þessum tíma réði Svíþjóð yfir Noregi) yfir vilja til að stofna slík verðlaun. Í kjölfarið fóru stærðfræðingarnir Carl Størmer og Ludvig Sylow í samstarfi við norsku vísindaakadímuna að vinna að gerð leiðbeininga og reglna fyrir þannig verðlaun. Þetta fór þó út um þúfur árið 1905 þegar Noregur og Svíþjóð slitu ríkissambandi sínu, enda hafði sjálfstæður Noregur ekki fjárhagslega burði til að setja á stofn svona verðlaun. Ekkert gerðist næstu öldina og það var ekki fyrr en árið 2000 sem hugmyndin kom upp aftur. Það voru Arild Stubhaug, sem skrifað hefur ævisögu Abel, og Tormod Hermansen sem ýttu umræðunni aftur af stað í samvinnu við stærðfræðideild Háskólans í Ósló og norska menntamálaráðuneytið. Skipuð var nefnd í mars 2001 til að vinna í málinu og lofaði bæði norska ríkistjórnin og alþjóðlegu stærðfræðisamtökin (IMU) styrkjum. Þann 23. maí þetta sama ár skilaði nefndin forstætisráðherra Noregs svo tillögu um framkvæmd verðlaunanna. Þrem mánuðum seinna tilkynnti svo Jens Stoltenberg þáverandi forsætisráðherra Noregs að norska ríkistjórnin myndi stofna til alþjóðlegra stærðfræðiverðlauna í nafni Abels. Jafnframt lofaði hann að ríkið legði fram jafnvirði um tveggja miljarða íslenskra króna í sjóð tengdan verðlaununum, en Norska vísindaakademían skyldi úthluta þeim. Í júní 2003 voru verðlaunin veitt í fyrsta skipti og hafa þau verið veitt árlega síðan, við hátíðlega athöfn úr hendi Noregskonugs. Hoppvikan. Þýsk-austurríska hoppvikan kallast fjórar samtengdar keppnir í skíðastökki sem haldnar eru í Þýskalandi og Austurríki um jóla- og nýársbil. Meðal keppna í vikunni er Nýársskíðastökkið og hefur vikan verið haldin síðan 1952. Við hlið ÓL og HM-keppnanna er Hoppvikan ein af merkustu skíðastökkskeppnunum og er gullið þar mjög eftirsótt. Stigafjöldi úr hverri keppni fyrir sig eru lagðir saman og ráðast úrslitin af samanlögðum stigafjölda. Tú alfagra land mítt. "Tú alfagra land mítt" (íslenska: "Mitt fagra land") er þjóðsöngur Færeyja. Textann skrifaði lýðháskólakennarinn Símun av Skarði (1872-1942) árið 1906 og lagið er eftir Petur Alberg (1885-1940) árið 1907. Útvarpsstjóri. Útvarpsstjóri er yfirmaður íslenska Ríkisútvarpsins, sem stofnað var árið 1930. Fyrsti útvarpsstjóri var Jónas Þorbergsson. Núverandi útvarpsstjóri er Páll Magnússon. Jónas Þorbergsson. Jónas Þorbergsson fæddist á Helgastöðum í Reykjadal 22. janúar 1885, og lést þann 6. júní 1968. Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn árin 1931-1933 og Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins frá stofnun þess árið 1930 til ársins 1953. Jónas var einnig ritstjóri Dags á Akureyri árin 1920-1927, og ritstjóri Tímans í Reykjavík árin 1927-1929. Hann samdi einnig bækur af ýmsu tagi og skrifaði mikinn fjölda greina í blöð og tímarit. Jónas Jónasson útvarpsmaður er sonur hans og konu hans, Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur. Huginn og Muninn. Huginn og Muninn voru hrafnar Óðins í norrænni goðafræði. Á hverjum degi flugu þeir um allan heim og tóku eftir öllu sem gerðist. Að kvöldi sneru þeir aftur og settust á axlir Óðins. Krunkuðu þeir þá í eyru hans og sögðu honum frá öllu sem þeir höfðu séð og heyrt þann daginn. Þannig vissi Óðinn um hvaðeina, sem gerðist. Nunarput utoqqarsuanngoravit. "Nunarput utoqqarsuanngoravit" ("Vort forna land") er þjóðsöngur Grænlands. Textan samdi Henrik Lund og lagið Jonathan Petersen. Þetta lag var opinberlega valið sem þjóðsöngur árið 1916. Frá 1979 er einnig lagið "Nuna asiilasooq" ("Hið mikla land") opinber þjóðsöngur grænlendinga. Gylfi Þ. Gíslason. Gylfi Þorsteinsson Gíslason fæddist í Reykjavík þann 7. febrúar 1917, og lést í Reykjavík þann 18. ágúst 2004. Foreldrar hans voru Þorsteinn Gíslason, skáld og ritstjóri, og Þórunn Pálsdóttir, húsmóðir. Gylfi var alþingismaður fyrir Alþýðuflokkinn árin 1946-1978, menntamálaráðherra 1956-1971, auk þess að vera iðnaðarráðherra 1956-1958 og viðskiptaráðherra 1958-1971. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1968-1974 og formaður þingflokks Alþýðuflokksins 1968-1978. Gylfi er með lengsta samfellda setu á ráðherrastóli á Íslandi; 15 ár á árunum 1956-1971. Þá var hann einnig prófessor við Viðskiptadeild Háskóla Íslands á árunum 1946-1966 (í leyfi vegna ráðherrastarfs 1956-1966) og síðan 1971-1987. Þegar Danir skiluðu fyrstu handritunum, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða, til Íslands árið 1971, tók Gylfi, þá menntamálaráðherra, við þeim frá Helge Larsen, starfsbróður sínum frá Danmörku. Mælti Larsen hin fleygu orð: „Vær så god, Flatöbogen,“ er hann afhenti Gylfa Flateyjarbók. Synir Gylfa eru Þorsteinn Gylfason heimspekingur, Vilmundur Gylfason, fyrrverandi alþingismaður, og Þorvaldur Gylfason hagfræðingur. Vilmundur og Þorsteinn eru látnir. Viktor Emmanúel 2.. Viktor Emanúel II, konungur Ítalíu. Viktor Emmanúel 2. Savoja (14. mars 1820 – 9. janúar 1878) var konungur Sardiníu frá 1849 og síðan konungur Ítalíu frá sameiningunni 1861. Hann var elsti sonur Karls Alberts Savoja konungs Sardiníu og Maríu Teresu Habsburg-Lorraine. Hann fæddist í Tórínó en fylgdi föður sínum síðan til Flórens þar sem hann ólst upp. Hann tók þátt í Fyrsta sjálfstæðisstríðinu og var viðstaddur þegar sameiningarsinnar töpuðu í orrustunni við Novara. Faðir hans sagði í kjölfarið af sér konungdómi og Viktor Emmanúel tók við. Í kjölfar sigra sameiningarsinna í Seinna sjálfstæðisstríðinu var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í öllum héruðum Norður-Ítalíu þar sem hann var valinn konungur og lýðveldissinnar eins og Giuseppe Garibaldi beygðu sig undir þá ákvörðun. Konungsríkið Sardinía var þá látið ná yfir alla Ítalíu og Viktor Emmanúel varð Viktor Emanúel II konungur Ítalíu. Konungur Ítalíu. Konungur Ítalíu er titill þjóðhöfðingja sem ekki er lengur í notkun frá því Ítalía varð lýðveldi árið 1946. Núverandi erfingi síðasta konungs Ítalíu, Viktor Emmanúel prins af Napólí, notast við titilinn konunglegur erfðaprins ("principe reale ereditario"). Titillinn hefur verið notaður af mörgum, en enginn konungur Ítalíu réði yfir öllum Appennínaskaganum fyrr en í kjölfar sameiningar Ítalíu árið 1861 eftir að meirihluti kjósenda á Norður-Ítalíu hafði valið að gera landið að konungsríki í stað lýðveldis, líkt og margir sameiningarsinnar (eins og Giuseppe Garibaldi) höfðu barist fyrir. Í reynd var konungsríkið Sardinía þá látið ná yfir alla Ítalíu og konungur Sardiníu varð konungur Ítalíu. Germanskir konungar. Eftir afsögn Rómúlusar Ágústulusar Rómarkeisara árið 476 var Herúllinn Ódóaker útnefndur "dux Italiae" og tók sér síðar titilinn "rex Italiae" eða konungur Ítalíu. Austurgotinn Þjóðríkur mikli sigraði Ódóaker og tók sér titilinn "konungur Ítalíu". Eftirmenn hans notuðu titilinn þar til Býsans náði Ítalíu aftur á sitt vald. Síðasti konungur Ítalíu í það skiptið var Teias (d. 552). Frankakonungar. Þriðji sonur Karlamagnúsar, Pípinn var krýndur "konungur Ítalíu" af Hadríanusi I páfa, en hann og eftirmenn hans ríktu aðeins á Norður-Ítalíu, en Mið-Ítalía var innan Páfaríkisins. Frá 888 voru yfirleitt nokkrir sem gerðu tilkall til titilsins, nokkrir þeirra keisarar hins Heilaga rómverska ríkis. Frá 962 til 1806 var titillinn hluti af titlum keisarans. Napóleonstíminn. Napóleon Bónaparte stofnaði skammlíft Ítalskt konungdæmi á Norður-Ítalíu 1805 og krýndi sjálfan sig "konung Ítalíu". Þetta konungsríki lifði til falls Napóleons 1814. Savojaættin. Með sameiningu Ítalíu 1861 varð konungur Sardiníu að "konungi Ítalíu". Frá 5. júní 1944 var hann "staðgengill ríkisstjóra konungsríkisins". Yfirgaf Ítalíu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, en sagði aldrei formlega af sér eða viðurkenndi lýðveldið. Endalok titilsins. Í stjórnarskrá lýðveldisins Ítalíu er tekið fram að allir aðalstitlar séu numdir úr gildi. Í sérstökum viðauka er auk þess lagt blátt bann við því að afkomendur síðasta konungs Ítalíu í beinan karllegg stígi fæti á ítalska jörð. Þessi viðauki var fyrst numinn úr gildi 23. október 2002, en afkomendur Úmbertós II hafa ekki gert beint tilkall til titilsins. Listi yfir konunga Ítalíu. Þetta er listi yfir þá sem hafa borið titilinn "konungur Ítalíu" frá sameiningu Ítalíu 1861. Frá 5. júní 1944 var hann "staðgengill ríkisstjóra konungsríkisins". Yfirgaf Ítalíu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, en sagði aldrei formlega af sér eða viðurkenndi lýðveldið. Tengt efni. Ítalía konungar Giulio Andreotti. Þann 24. október 1990 viðurkenndi hann opinberlega tilvist Gladio-áætlunarinnar, leynilegrar baráttu á vegum NATO gegn kommúnisma á Ítalíu, sem meðal annars er talin hafa staðið fyrir hryðjuverkum til að koma í veg fyrir að kommúnistaflokkur Ítalíu kæmist í ríkisstjórn. Við það tækifæri hélt hann því fram að hliðstæðir hópar hefðu verið til í mörgum Vestur-Evrópuríkjum, sem hefur síðar komið á daginn. Síðasta ríkisstjórn hans féll í skugga rannsóknar á spillingu í ítölskum stjórnmálum ("Mani pulite") sem hófst árið 1992 og hann varð síðasti forsætisráðherra kristilegra demókrata, þar sem flokkurinn lagðist af í kjölfar rannsóknarinnar. Árið 2002 var hann dæmdur fyrir að hafa fyrirskipað morð á blaðamanninum Mino Pecorelli sem var að rannsaka tengsl hans við mafíuna árið 1979. Hann var þó síðar sýknaður vegna tímatakmarkana á sakastöðu. Andreotti, Giulio Gazprom. Gazprom (kýrillískt letur: Газпром, einnig umritað Gasprom) er stærsta fyrirtæki Rússlands og stærsti vinnandi jarðgass í heiminum. Gazprom leggur til nánast allt það gas sem notað er í Mið-Evrópu, Austur-Evrópu og fyrrum Sovétríkjunum. Hjá fyrirtækinu starfa 330.000 manns. Tekjur fyrirtækisins árið 2004 námu 31 milljarði bandaríkjadala. Það stendur fyrir tæpum 90% af þeirri gasvinnslu sem fram fer í Rússlandi og um 20% af þeirri vinnslu sem fer fram í heiminum öllum. Fyrirtækið ræður yfir gaslindum uppá 28.006 km3 sem er 15,5% af þekktum gaslindum heimsins. Gazprom rekur sögu sína aftur til 1989 þegar það var stofnað í Sovétríkjunum sem ríkisstofnun sem átti að hafa umsjón með gasleit, vinnslu og dreifingu. Gazprom var gert að hlutafélagi 1992 og hafist var handa við einkavæðingu þess. Öllum rússneskum borgurum var þá gefið tækifæri til að eignast hlut í félaginu og einnig var erlendum fjárfestum boðinn lítill hluti á vestrænum verðbréfamörkuðum. Pólitísk afskipti og hneykslismál varðandi stjórnendur fyrirtækisins háðu því mikið næstu árin en eftir valdatöku Vladímírs Pútín sem forseti Rússlands hefur hann lagt töluverða áherslu á umbætur í stjórnun fyrirtækisins. Gazprom er nú að meirihluta í eigu Rússneska ríkisins en það jók á árinu 2005 hlut sinn í því úr 38% í 51% en það er skilyrði fyrir því að hægt sé að lyfta hömlum sem hafa verið á fjárfestingum útlendinga í félaginu. Mikilvægi félagsins fyrir rússneskt efnahagslíf er gríðarlegt, árið 2004 var áætlað að það stæði að baki 7% vergrar þjóðarframleiðslu Rússlands og að 8-10% af öllum skatttekjum ríkisins væru þaðan komnar. Almennt er svo litið á að Gazprom sé leynt og ljóst beitt sem pólitísku verkfæri Moskvustjórnarinnar til þess að hafa áhrif í utanríkismálum, sem dæmi má nefna deilu Rússa og Úkraínumanna sem upp kom þegar Gazprom hugðist fjórfalda verðið á gasinu til Úkraínumanna um áramótin 2005/2006 en það er talið vera refsing fyrir appelsínugulu byltinguna svokölluðu sem gerð var í Úkraínu 2004 og varð til þess að til valda komust aðilar sem hliðhollari voru vesturlöndum en Rússlandi. Hvíta-Rússland, náið bandalagsríki Rússlands, fær enn gas á því lága verði sem Úkraína borgaði áður. Íþróttamaður ársins. Íþróttamaður ársins eru verðlaun sem Samtök íþróttafréttamanna veita árlega þeim íþróttamanni, sem keppir innan vébanda ÍSÍ, sem er talinn hafa skarað framúr. Meðlimir samtakanna kjósa verðlaunahafann. Verðlaunin voru fyrst veitt 1956. Bikar sem verðlaunahafi hefur fengið til varðveislu í ár hvert sinn frá upphafi verður afhentur Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu um ókomna tíð árið 2007 í tilefni af 50 ára afmæli bikarsins. Nýr verðlaunagripur var því afhentur verðlaunahafa ársins 2006. Íslensk mannanöfn eftir sem hafa þrjá til níu nafnhafa. Þessi listi er framhald af íslensk mannanöfn eftir notkun. Eftirfarandi nöfn eru í sætum 1767-3772 á vinsældalista íslenskra nafna 2005. Heimild. Íslensk mannanöfn Aserbaídsjanska stafrófið. Núverandi aserbaídsjanskt stafróf er latneskt stafróf byggt á tyrkneska stafrófinu. Þó þurfa Aserbaídsjanar að kunna gamla kýrillíska stafrófið frá því fyrir 1991 vegna þess fjölda bóka skrifaðra með því stafrófi sem enn eru í umferð. Aserbaídsjanska var upphaflega skrifuð með arabísku stafrófi, en árið 1929 var almenna tyrkjastafrófið tekið í notkun. Árið 1939 fyrirskipaði Jósef Stalín að einungis kýrillíska stafrófið skyldi notað innan Sovétríkjanna, m.a. til að draga úr tengslum milli Tyrklands og þeirra tyrknesku þjóða sem bjuggu innan Sovétríkjanna. Þegar Sovétríkin leystust upp árið 1991, og Aserbaídsjan fékk sjálfstæði, var breyting aftur yfir í latneskt stafróf ein fyrstu lögin sem sett voru í nýju þingi landsins. Það er þó örlítið öðruvísi en útgáfan frá 1929. Í íranska Aserbaídsjan er enn notað Arabískt letur til að skrifa aserbaídsjönsku. Aa, Bв, Cc, Çç, Dd, Ee, Əə, Ff, Gg, Hh, Ii, Ьь, Jj, Kk, Qq, Ll, Mm, Nn, Oo, Pp, Rr, Ss, Şş, Tt, Uu, Vv, Xx, Yy, Zz, Аа, Бб, Вв, Гг, Ғғ, Дд, Ее, Ёё, Әә, Жж, Зз, Ии, Йй, Кк, Ққ, Лл, Мм, Оо, Өө, Пп, Рр, Сс, Тт, Уу, Үү, Фф, Хх, Һh, Цц, Чч, Шш, Щщ, ъ, Ыы, ь, Ээ, Юю, Яя, ' (úrfellingarmerki) Аа, Бб, Вв, Гг, Ғғ, Дд, Әә, Жж, Зз, Ии, Ыы, Јј, Кк, Ҝҝ, Лл, Мм, Оо, Өө, Пп, Рр, Сс, Тт, Уу, Үү, Фф, Хх, Һһ, Чч, Ҹҹ, Шш, ' (úrfellingarmerki) Aa, Bb, Cc, Çç, Dd, Ee, Əə, Ff, Gg, Ğğ, Hh, Xx, Iı, İi, Jj, Kk, Qq, Ll, Mm, Nn, Oo, Öö, Pp, Rr, Ss, Şş, Tt, Uu, Üü, Vv, Yy, Zz Samanburður. Arabíska stafrófið fyrir aserbaídsjönsku, það kýrillíska og þau latnesku hafa öll mismunandi stafrófsröð. Í töflunni hér að neðan er raðað eftir stafrófsröð núgildandi stafrófs. Hebreska biblían. Hebreska biblían er það heiti sem Gyðingar nota á stundum um þau rit sem kristnir nefna Gamla testamentið og eru sameiginleg helgirit kristinna og Gyðinga. Nafnið og hugtakið "Gamla testamentið" er einungis notað í kristni. Hebreska biblían er "torah" ("lögmálið"), "ritin" og "spámennirnir". Torah eða lögmálið eru Mósebækurnar fimm, ritin eru söguritin, spekiritin og sálmarnir og að lokum spámannaritin. Í Fyrstu Mósebók segir frá því að Guð hafi gert eilífan sáttmála við afkomendur Abrahams, þ.e. gyðinga. Sem hluti af sáttmálanum lofar hann þeim eigin landi, "Fyrirheitna landinu", sem er ein af undirstöðum zíonisma. "„Ég set sáttmála minn milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, kynslóð eftir kynslóð, eilífan sáttmála. Ég mun vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. Landið þar sem þú nú býrð landlaus, allt Kanaansland, gef ég þér og niðjum þínum eftir þig til ævinlegrar eignar. Og ég vil vera þeirra Guð.“" Vilmundur Gylfason. Vilmundur Gylfason (fæddur 7. ágúst 1948, látinn 19. júní 1983) var íslenskur stjórnmálamaður, bókmennta- og sagnfræðingur, og skáld. Hann var sonur Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Kona Vilmundar var Valgerður Bjarnadóttir og áttu þau fimm börn. Vilmundur var umdeildur í íslenskri þjóðmálaumræðu enda var hann stóryrtur um það sem hann taldi vera úrelt og spillt flokkakerfi á Íslandi og bitlausa gagnrýni fjölmiðla. Vilmundur starfaði á seinni hluta áttunda áratugsins innan Alþýðuflokksins en sagði sig úr flokknum og stofnaði Bandalag jafnaðarmanna. Uppvöxtur og námsár. Faðir Vilmundar var Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður Alþýðuflokksins, ráðherra og prófessor. Móðir hans var Guðrún Vilmundardóttir, húsfreyja og á tímabili blaðamaður. Vilmundur átti tvo bræður, Þorstein, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, sem er látinn, og Þorvald prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Meðal vina hans á uppvaxtarárunum eru Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður, Ingólfur Margeirsson, blaðamaður og rithöfundur, Þórarinn Eldjárn skáld, Pétur Gunnarsson rithöfundur, Halldór Halldórsson og Sigurður Pálsson skáld. Vilmundur hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík árið 1964. Þar kynntist hann Valgerði Bjarnadóttur, viðskiptafræðingi, þau hófu samband og eignuðust saman soninn Benedikt 1966. Bæði voru þau börn þjóðþekktra stjórnmálamanna, formanna tveggja stjórnmálaflokka, sem þá stóðu saman að ríkisstjórn, og vakti samband þeirra mikla athygli, líka sökum ungs aldurs. Vilmundur tók virkan þátt í félagslífi skólans; var ritstjóri skólablaðsins einn vetur og inspector scholae veturinn 1967-68. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi af málabraut vorið 1968 fór hann til Englands og hóf nám í sagnfræði við Manchester-háskóla. Árið 1970 var viðburðaríkt fyrir Vilmund og Valgerði. Son sinn misstu þau, og Valgerður báða foreldra sína, í bruna á Þingvöllum um sumarið og fáum mánuðum síðar giftust þau. Þá gaf Vilmundur út ljóðabókina Myndir og ljóðbrot. Vilmundur lauk B.A.-prófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1971 við háskólann í Manchester og M.A.-prófi lauk hann við Exeter-háskóla árið 1973 í sama fagi. Í febrúar það ár eignuðust þau saman annan son en hann dó sama dag. Á meðan Vilmundur var í Englandi í námi mótuðust skoðanir hans á stjórnmálum og fréttamennsku mjög mikið. Taldi hann fréttamennsku í Englandi vera mjög til fyrirmyndar. Fjölmiðlar. Eftir heimkomuna frá Englandi árið 1973, var Vilmundur ráðinn sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi til æviloka. Samhliða kennslunni vann hann að fréttaskýringa- og viðtalsþáttum ásamt því að skrifa greinar í dagblöð. Hann var og ritstjóri Alþýðublaðsins á sumrin á árunum 1976-81. Síðla árs 1973 var Vilmundi boðið að taka þátt í nýjum fréttaskýringarþætti Sjónvarpsins "Landshorn". Að þáttunum kom ungt fólk og vakti Vilmundur athygli fyrir hispurslausa framkomu. Þannig gerðist það að haft var samband við Vilmund og honum bent á seinagang innan dómskerfisins í málum kaupmanns nokkurs frá Keflavík. Kaupmaður þessi hafði mörg járn í eldinum og hafði þegar verið sakfelldur fyrir önnur mál. Vilmundur fékk því til sín Baldur Möller, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, og gagnrýndi athafnaleysi yfirvalda. Það var nær óþekkt á Íslandi að embættismenn væru gagnrýndir opinberlega og vegið að þeim. Þótt skoðanir væru skiptar um ágæti þessarar aðfarar Vilmundar, var í öllu falli víst að hann vakti athygli. Málið átti þó eftir að draga á eftir sér nokkurn dilk. Á næsta ári var nafni Landshorna breytt í Kastljós og var Vilmundur áfram einn af fréttamönnum þáttarins. Vilmundur fjallaði áfram um mál kaupmannsins frá Keflavík, sem höfðaði meiðyrðamál gegn Vilmundi og lauk þeim málaferlum með sýknudómi fimm árum síðar. Samtryggingarkerfið. Í fjölmiðlum í maíbyrjun 1975 vakti Vilmundur athygli á gjaldeyrisyfirfærslum íslenskra banka í kjölfar þess að Ólafur Jóhannesson, þá dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra, tilkynnti nánast í ræðu um yfirvofandi gengisfellingu íslensku krónunnar þann 24. janúar sama ár. Á götum bæjarins var umtalað að tengsl milli manna skiptu máli þegar kom að því að veita gjaldeyrisyfirfærslur og að nokkrir málsmetandi menn, þ.m.t. Matthías Á. Mathiesen fjármálaráðherra, hefðu nýlega keypt og flutt inn bíla áður en gengið lækkaði. Vilmundur leitaði þá til þriggja bílaumboða, Heklu hf., P. Stefánssonar og Veltis hf. með fyrirspurnir um bílainnflutning á umræddu tímabili. Hjá Velti hf. og P. Stefánssyni hf. fékk hann þau svör, að fyrirtækin hefðu sótt um innflutning á nokkrum bílum og Veltir hf. fengið leyfi en P. Stefánsson ekki. Hjá Heklu hf. var sagt að sótt hefði verið um leyfi til innflutnings á átta bílum en því hefði verið synjað. Vilmundur leitaði einnig til Landsbankans og Útvegsbankans eftir upplýsingum, sem honum voru ekki veittar. Umfjöllun Vilmundar varð til þess að menn í valdastöðum hótuðu honum öllu illu ef hann snarhætti henni ekki. Þá sendi Matthías Mathiesen fjármálaráðherra frá sér yfirlýsingu þar sem hann fékk „"eina tíu kerfislabbakúta til að vitna með sér"“ um að bifreiðakaup hans hefðu verið lögleg og reglum samkvæm. Í grein, sem Vilmundur birti 30. maí í Morgunblaðinu, rakti hann hvernig hann gekk á milli bílaumboðanna og fékk misvísandi svör frá Heklu hf., sem á endanum viðurkenndi að hafa fengið tvo bíla innflutta. Komið hafði í ljós eftir að fyrirspurnir bárust viðskiptaráðherra á Alþingi að bankarnir mismunuðu þeim, sem sóttu um gjaldeyrisyfirfærslur. Um málið sagði Vilmundur enn fremur „"[þ]að væri í sjálfu sér lítilmótlegt ef öll þessi skrif fjölluðu um bílinn hans Matthíasar - og að auki væri það úr því sem komið er eins og að sparka í liggjandi mann. En þetta er þó fjármálaráðherra landsins, for helvede. En málið er óvart öllu alvarlegra. Eitt blaðanna hefur fjallað um gjaldeyrisviðskipti Ræsis hf. í kjölfar þessara umræðna og þar skilst mér að opinber rannsókn sé yfirvofandi - þau mál ættu þá að vera komin á hreint um næstu aldamót."“ Vilmundur var mjög atorkusamur og skrifaði reglulega í Vísi og Dagblaðið eftir stofnun þess 1975. Hann gagnrýndi harðlega flokksskipulag stjórnmálaflokkanna sem hann taldi vera ólýðræðislegar og allt að því lokaðar valdaklíkur. Efnahagsástandið var á þeim tíma með allt öðrum hætti en er í dag eins og gefur að skilja. Fjármögnun stjórnmálaflokkanna var ógegnsærri. Það voru fáir innan þeirra sem kunnu gjörla skil á bókhaldi þeirra. Vilmundi fannst forkastanlegt að þeir væru reknir með sífelldum lánum hjá bönkunum og að eignatengsl milli þeirra og fyrirtækja væru óskýr. Klúbburinn og Geirfinnsmálið. Næsta stóra mál sem viðkom Vilmundi snerist um Geirfinnsmálið svokallaða. Í grein sem birt var 30. janúar 1976 í Vísi endurtók Vilmundur ásakanir sem hann hafði áður fjallað um og lutu að Ólafi Jóhannessyni og skemmtistaðnum Klúbbnum í Reykjavík. Þannig var mál með vöxtum að 14. október 1972 hafði skemmtistaðnum Klúbbnum verið lokað vegna rannsóknar á skattsvikum, áfengissmygli, bókhaldsóreiðu o.fl. Eins og seinna kom í ljós gerði húsbyggingarsjóður framsóknarfélaganna í Reykjavík samning við eiganda Klúbbsins um að greiða honum 2,5 milljónir kr. gegn því að skuld upp á 5 milljónir félli niður. Daginn eftir heimilaði dómsmálaráðuneytið opnun Klúbbsins þrátt fyrir mótmæli Valdemars Stefánssonar ríkissaksóknara. Í fyrrnefndri grein sakaði Vilmundur Ólaf um að ganga erinda eiganda Klúbbsins við þetta tækifæri og svo aftur um það leyti sem rannsókn Geirfinnsmálsins stóð, þremur árum seinna, er menn tengdir Klúbbnum voru færðir til yfirheyrslu. Vilmundur fullyrti að lögreglumönnunum sem stóðu að yfirheyrslunum hefði borist bréf frá dómsmálaráðuneytinu þar sem þeim var gert að hætta að áreita einn mannanna. Margir töldu Vilmund vega ómaklega að forystu Framsóknarflokksins. Þrátt fyrir þetta sagðist Vilmundur ekki hafa eitt augnablik „"dregið í efa persónulegan heiðarleik og ráðdeild Ólafs Jóhannessonar"“ en að hann væri „"innlyksa í morknu réttarkerfi"“ og hugsanlega „"umkringdur af óheppilegum ráðgjöfum"“. Í útvarpsviðtali nokkrum dögum seinna sagði Ólafur þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við grein Vilmundar að á bak við Vilmund stæði "Vísismafían" og ennfremur „"Ég ætla ekki að nýta þennan dag til þess að skjóta þúfutittlinga. Vilmundur Gylfason er í þessu sambandi ekki nema stórt núll. Gildi hefur núllið ekkert, standi það eitt út af fyrir sig. Gildi þess ræðst af því hvaða afstöðu það hefur til annarra talna. Vilmundur Gylfason skrifar til að lifa. Hann er verkfæri í annarra höndum."“. Ólafur fylgdi þessu eftir á þingi með því að neita efnislega ásökunum Vilmundar. Sagði hann að sem dómsmálaráðherra hefði hann ekki haft lagaheimild til þess að halda skemmtistaðnum Klúbbnum lokuðum lengur því öryggi almennings krefðist þess ekki. Í öðru lagi neitaði hann því að hafa haft áhrif á framvindu rannsóknar Geirfinnsmálsins. Í þriðja lagi sagði hann engin fjármálatengsl vera milli sín eða Framsóknar og eiganda Klúbbsins. Seinna kom hins vegar á daginn að Ólafur hafði logið og að fjármálatengslin voru til staðar. Stjórnmál. Í kosningum 1974 var Vilmundur í öðru sæti framboðslistans fyrir Alþýðuflokkinn á Vestfjörðum. Í fyrsta sæti var Sighvatur Björgvinsson þá ritstjóri Alþýðublaðsins en víst þótti að Vilmundi var ekki gefið um að þurfa að láta undan fyrsta sætið. Alþýðuflokkurinn fékk 9,1% atkvæða á landsvísu sem var lægsta kjörfylgi flokksins síðan í kosningunum 1919 og Vilmundur komst ekki á þing. Það ár lauk Gylfi, faðir Vilmundar, formannssetu sinni í Alþýðuflokknum. Gylfi hafði setið sem menntamálaráðherra á fimmtán ára tímabili Viðreisnarstjórnarinnar sem féll í kosningunum 1971. Þannig var Gylfa að vissu leyti kennt um slakt gengi flokksins og af honum tók Benedikt Sigurðsson Gröndal við sem formaður. Á því flokksþingi var ákveðið að endurskoða stefnu flokksins og til þessa verks var skipuð fimm manna nefnd sem Vilmundur sat í ásamt Jóni Þorsteinssyni, Helga Skúla Kjartanssyni, Finni Torfa Stefánssyni og Árna Gunnarssyni. Að Jóni undanskildum, sem var fimmtugur, voru þetta allt ungir menn sem gaf til kynna að ákveðin kynslóðaskipti áttu sér stað. Þá tók Vilmundur í auknum mæli að gagnrýna flokksskipulagið á Íslandi. Verðbólga var mikil, fyrirgreiðslupólitík og hrossakaup tíðkuðust. Gagnrýni Vilmundar var ekki bundin við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, sem þá mynduðu ríkisstjórn undir forystu Geirs Hallgrímssonar. Vilmundur gagnrýndi sömuleiðis Alþýðuflokkinn, sem hann vildi að skæri á tengsl sín við ASÍ. Samtök frjálslyndra og vinstri manna undanskildi hann sérstaklega í gagnrýni sinni. Vorið 1975 var vinnu nefndarinnar um endurskoðun stefnu Alþýðuflokksins nær lokið en sú nefnd klofnaði í tvennt í niðurstöðum sínum. Vilmundur og Jón höfðu eina útgáfu en hinir þrír mynduðu meirihluta. Til marks um óánægju Vilmundar í þessum efnum má nefna grein sem hann skrifaði seinna um árið sem bar titilinn „"Alþýðuvöld, nei takk"“ segir í henni að íslensk verkalýðsforysta sé „að mörgu leyti þreytt og íhaldssöm og umfram allt úrræðalítil“. Ósamkomulagið um efnistök og orðalag hinnar nýju stefnuskrár snerist um það, að skilningur Vilmundar og Jóns var ekki jafn marxískur og einkenndist frekar af gildum norræns velferðarþjóðfélags. Svo fór á flokksþinginu það ár að kosið var um málamiðlunarútgáfu sem flestir gátu sæst á. Árið 1974 eignuðust þau Valgerður þriðja barn sitt, dótturina Guðrúnu, og í maí 1976 Nönnu Sigríði en hún lést fimm mánuðum síðar. Sonurinn Baldur Hrafn fæddist svo 1981. Prófkjör. Haustið 1977, áður en kom að þingkosningum, var haldið opið prófkjör hjá Alþýðuflokknum samkvæmt breytingum, sem Vilmundur hafði leitt í gegn. Þar stóð baráttan á milli Benedikts, sem sóttist eftir fyrsta sætinu, Eggerts G. Þorsteinssonar og Vilmundar, sem báðir sóttust eftir 1-2. sætinu. Staða Vilmundar innan flokksins var óörugg. Hann hafði stuðning Benedikts formanns en sumum fannst hugmyndir hans of róttækar. Þá hafði Vilmundur, í félagi við nokkra aðra unga Alþýðuflokksmenn, endurvakið ungmennahreyfingu flokksins, Spörtu. Í prófkjörinu tóku um 4.500 manns þátt, og hreppti Benedikt fyrsta sætið með 48% atkvæða og náði Vilmundur öðru sæti með 75% atkvæða í 1-2. sætið. Jóhanna Sigurðardóttir var í þriðja sæti. Þetta var talinn sigur fyrir Benedikt og þó sér í lagi Vilmund. Snemma árs 1978 var ljóst að ríkið gat ekki staðið við gerða kjarasamninga frá því árinu áður sökum mikillar verðbólgu. Þá voru sett lög í febrúar, nefnd "Febrúarlögin" sem takmörkuðu launahækkanir opinberra starfsmanna og ógiltu þar með umsamin kjör. Efnt var til ólöglegra verkfalla í mars sem stjórnarandstöðuflokkarnir, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið, studdu. Vilmundur var hins vegar á öndverðum meiði. Hann taldi verkföll eiga að vera lögmæt og mætti því til vinnu í Menntaskólann í Reykjavík. Kosningar. Í kosningum 1978 var Vilmundur í framboði í Reykjavík fyrir Alþýðuflokkinn og var hann þá fyrst kosinn á þing. Fyrir kosningarnar beitti Vilmundur þeim nýmælum að mæta á vinnustaði og halda ræður við misjafnar undirtektir. Þessar kosningar voru stærsta tap ríkisstjórnarflokka á einu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði fengið 42,7% í kosningunum 1974 fékk 32,7% og Framsóknarflokkurinn sem hafði fengið 24,9% fékk nú 16,9%. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn voru því samtals með 32 þingsæti af 60 en höfðu verið með 42. Alþýðuflokkurinn jók fylgi sitt um 12,9% (rúmlega 16.500 atkvæði) og náði 14 þingsætum. Að miklu leyti var Vilmundi eignað farsælt gengi flokks síns. Eftir miklar samningaumleitanir myndaði Ólafur Jóhannesson ríkistjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Ólafur þótti sýna þó nokkur klókindi og fékk til síns flokks forsætis-, fjármála- og dómsmálaráðuneytið. Vilmundur var andvígur þessari ríkisstjórn og skrifaði grein í Dagblaðið undir fyrirsögninni „Ferð án fyrirheits“. Þar sagði m.a. „"Nánast allir gera sér ljóst, að stjórnin er byggð á siðferðislegum og efnahagslegum sandi. Stjórn sem heldur áfram efnahagsstefnu fyrri ríkisstjórnar og stefnir í 50-60% verðbólgu á næsta ári er byggð á efnahagslegum sandi. Stjórn sem afhendir framsóknarmönnum dómsmálaráðuneytið og þar sem umbætur til dæmis í skattsvikamálum hafa verið strikaðar út úr samstarfsyfirlýsingu á síðustu stundu er byggð á siðferðislegum sandi."“. Í þessari ríkisstjórn hafði Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra, einn fyrri reynslu af ráðherrastörfum. Af níu ráðherrum sátu fjórir í fyrsta sinn á þingi. Vilmundur, sem hafði strax í kjölfar kosninganna verið manna ánægðastur, einangraðist nú í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina og töldu sumir það einfaldlega vera vegna þess að hann fékk ekki sjálfur ráðherraembætti. Á meðal þingstarfa Vilmundar það haust var að gagnrýna Framkvæmdastofnun ríkisins, leggja fyrir frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, þingsköp og stofnun sérstaks skattadómstóls. Ríkisstjórnin springur. Að kvöldi 5. október 1979 rauf Sjónvarpið dagskrá sína og tilkynnti að Alþýðuflokkurinn vildi hætta stjórnarsamstarfi, ríkisstjórnin var fallin eftir aðeins eins ár setu. Eftir fund Benedikt Gröndals, Gunnars Thoroddsens og Geirs Hallgrímssonar var samþykkt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins fram að kosningum að því gefnu að hún gripi ekki til „stefnumarkandi nýmæla“. Í kjölfarið var ákveðið innan Alþýðuflokksins að þeir Vilmundur, Sighvatur Björgvinsson og Bragi Sigurjónsson myndu taka ráðherraembætti. Frá október 1979 til febrúar 1980 var Vilmundur dóms-, kirkju- og menntamálaráðherra í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins. Fráfarandi dómsmálaráðherra, Steingrímur Hermannsson vék frá þeirri hefð að afhenda eftirmanni sínum lyklana að skrifstofunni. Það kom í hlut Baldurs Möllers, ráðuneytisstjóra, sem Vilmundur hafði fimm árum fyr gagnrýnt harkalega í fjölmiðlum. Á þeim tíma sem Vilmundur var í ráðherrastól bjó hann til embætti umboðsfulltrúa dómsmálaráðuneytisins. Hann skipaði Finn Torfa Stefánsson í það embætti til eins árs. Nú var svo komið að Finnur var samflokksmaður Vilmundar og var Vilmundur gagnrýndur harkalega fyrir að stunda einmitt þess kyns greiðapólitík sem hann hafði sjálfur sagst vilja uppræta. Í kosningunum 1979 tapaði Alþýðuflokkurinn 4,6% eða 4 þingsætum og Alþýðubandalagið 2,8% eða 3 þingsætum. Framsóknarflokkurinn bætti við sig 8,0% og 5 þingsætum og Sjálfstæðisflokkurinn 2,7% eða 1 þingsæti. Ljóst var að Framsókn hafði unnið aftur það fylgi sem hann hafði tapað á aðeins einu ári. Þau nýmæli urðu varðandi Alþýðuflokkinn að Jón Baldvin Hannibalsson tók fjórða sæti á lista í Reykjavík og náði á þing. Við tók ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, sem mynduð var án fulls stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins með Framsókn og Alþýðubandalaginu. Vilmundur lét því af ráðherrastörfum 8. febrúar 1980. Flokksþing Alþýðuflokksins hittist í október og nóvember 1980. Þar gekk ýmislegt á. Vilmundur bauð sig fram til varaformanns flokksins gegn Magnúsi Magnússyni þingmanni. Magnús var kosinn varaformaður með 110 atkvæðum gegn 68. Vilmundur tók þessu sem miklum ósigri og fann nú öll spjót á sér standa. Önnur ljóðabókin hans, Ljóð kom út rétt fyrir jólin 1980. Alþýðublaðsdeilan. Í ágúst 1981 eignuðust þau Valgerður soninn Baldur Hrafn, þá höfðu þau misst tvö börn. Rúmum mánuði fyrr hafði Vilmundur tekið að sér ritstjórn Alþýðublaðsins á meðan Jón Baldvin, ritstjóri og ábyrgðarmaður, var í sumarfríi. Á síðum blaðsins veittist Vilmundur harkalega að verkalýðsfélögum sem hann sagði stöðnuð hagsmunasamtök, sér í lagi Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Þá var beittur þrýstingur innan flokksins um að blaðið myndi draga úr gagnrýninni. Vilmundur brást þá við ásamt samstarfsmönnum sínum með þeim hætti að þeir útbjuggu grínútgáfu af blaðinu þar sem viðtöl voru skálduð og sagt frá fundi VR sem aldrei átti sér stað. Af prentun blaðsins fréttist innan flokksins áður en það kom út og var upplaginu fargað að einu eintaki undanskyldu. Vilmundur brást ókvæða við og hóf ásamt samstarfsmönnum sínum verkfall uns blaðið yrði gefið út. Mikil spenna ríkti innan flokksins. Skömmu síðar lét Kjartan Jóhannsson, formaður Alþýðuflokksins, hafa það eftir sér í viðtali við fréttamann RÚV að Vilmundur væri veikur á geði og spunnust um það umræður á síðum dagblaðanna. Nú vildi Vilmundur að samþykkt yrði traustsyfirlýsing gagnvart sér en Kjartan tók það ekki í mál. Jón Baldvin sneri þá heim úr sumarfríi sínu á Ítalíu og tók upp hanskann fyrir Vilmund að því er virtist. Þeir boðuðu saman til fundar á Hótel Sögu þar sem menn ræddu þessi mál og gagnrýndu margir Vilmund. Tillaga um stuðning við Vilmund var felld með 79 atkvæðum gegn 62. Í framhaldinu var samið um að Jón Baldvin myndi hafa yfirumsjón með rekstri blaðsins ásamt Vilmundi. Eftir að gengið hafði verið að munnlegum samningi svo hljóðandi, fór Jón á bak orða sinna og sagðist myndu hafa úrslitavald um það hvað færi á prent. Vilmundur sagði þegar í stað upp störfum og stofnaði dagblaðið Nýtt land ásamt blaðamönnunum tveim sem með honum höfðu starfað á Alþýðublaðinu. Tilraun þessi bar þó ekki árangur og aðeins komu út nokkur tölublöð áður en að það var lagt niður. Vilmundur var einnig hvatamaður að stofnun Helgarpóstsins án þess þó að koma þar beint að. Bandalag jafnaðarmanna. Á flokksþingi Alþýðuflokksins í nóvember 1982 beið Vilmundur enn á ný ósigur í framboði til varaformanns gegn Magnúsi Magnússyni. Í þetta skiptið munaði 12 atkvæðum. Nokkrum dögum síðar, 18. nóvember 1982, skráði Vilmundur sig úr Alþýðuflokknum, og tilkynnti stofnun nýs flokks, Bandalags jafnaðarmanna. Í viðtölum lét Vilmundur að því liggja að á bak við hið nýja stjórnmálaafl væri hópur fólks og að undirbúningi hefði verið unnið um talsvert skeið. Það var hins vegar fjarri sanni. Bandalag jafnaðarmanna var formlega stofnað 15. janúar 1983. Í Alþingiskosningum 1983 bauð flokkurinn fram í öllum kjördæmum og fékk fjóra þingmenn kosna. Vilmundur varð fyrir miklum vonbrigðum. Hann áleit sem svo að tilraun hans hefði mistekist. Vilmundur fyrirfór sér 19. júní 1983. Vilmundur þótti afkastamikill, vandvirkur við undirbúning mála og flutti þau vel - hann þótti og góður ræðumaður, vel lesinn, orðheppinn, einstaklega laginn við að spá fyrir um stjórnmálabaráttuna og virðist hafa verið næmur á skoðanir/vilja almennings. Valgerður Bjarnadóttir. Valgerður Bjarnadóttir (fædd 13. janúar 1950) er íslenskur viðskiptafræðingur, og var aðalmaður í bankaráði Seðlabanka Íslands en sagði sig úr ráðinu vegna þaulsetu bankastjóranna í trássi við vilja almennings og stjórnvalda eftir bankahrunið 2008. Valgerður er þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Valgerður er dóttir Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra og systir Björns Bjarnasonar fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra. Valgerður var gift Vilmundi Gylfasyni, fyrrum dómsmálaráðherra og þingmanni Alþýðuflokks og Bandalags jafnaðarmanna og saman áttu þau fimm börn. Seinni maður hennar er Kristófer Már Kristinsson, sem eitt sinn var varaþingmaður Bandalags jafnaðarmanna. Valgerður skrifar reglulega pistla í Fréttablaðið. Jón Þór Birgisson. Jón Þór Birgisson (fæddur 23. apríl 1975), kallaður Jónsi, er söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Sigur Rós. Nafnið Sigur Rós kemur frá litlu systur Jónsa sem fæddist sama dag og hljómsveitin var stofnuð. Hann var í hljómsveit sem kallaðist Bee Spiders sem var valin efnilegasta hljómsveitin á Músíktilraununum 1995. Jónsi er frægur fyrir að spila á gítar sinn með selló boga og hann hefur verið blindur á öðru auganu frá fæðingu. Alcide De Gasperi. Mynd af De Gasperi á vesturþýsku frímerki frá 1968. Alcide De Gasperi (3. apríl 1881 – 19. ágúst 1954) var ítalskur stjórnmálamaður, stofnandi og helsti hugmyndafræðingur kristilega demókrataflokksins á Ítalíu og forsætisráðherra Ítalíu á rósturtímum fyrstu áranna eftir Seinni heimsstyrjöld. Hann er, ásamt Konrad Adenauer og Robert Schumann kallaður „faðir Evrópusambandsins“. Hann varð utanríkisráðherra í þjóðstjórn Ferruccio Parri 1945 og átti þátt í að semja um flutning valds frá hernámsliði Bandamanna til ítalskra yfirvalda. Sem forsætisráðherra Ítalíu átti hann stóran þátt í því að sameina andstæðar fylkingar kommúnista, sósíalista og borgaralegu aflanna, þótt hann síðar útilokaði ítalska kommúnistaflokkinn frá stjórnarþátttöku, að ósk Bandaríkjanna, og hafði umsjón með breytingu landsins úr konungsríki í lýðveldi og samningu nýrrar stjórnarskrár 1946. Um stutt skeið fór hann með vald konungs/forsetavald eftir að síðasti konungur Ítalíu, Úmbertó II, yfirgaf landið. Hann stuðlaði meðal annars að því að Ítalía varð fullur þátttakandi í vestrænni samvinnu, stofnmeðlimur NATO, og þiggjandi Marshallaðstoðar frá Bandaríkjunum. De Gasperi De Gasperi De Gasperi Ferruccio Parri. Ferruccio Parri (19. janúar 1890 – 8. desember 1981) var ítalskur stjórnmálamaður, andspyrnuleiðtogi og forsætisráðherra Ítalíu um stutt skeið í fyrstu ríkisstjórn Ítalíu eftir frelsun Ítalíu. Hann fæddist í Fjallalandi ("Piemonte"), lærði bókmenntafræði og barðist í Fyrri heimsstyrjöldinni. Hann gekk í flokk frjálslyndra sósíalista "Giustizia e Libertà" („Réttlæti og frelsi“) og varð hatrammur andstæðingur fasista. Á valdatíma Mussolinis skipulagði hann flótta sósíalistans Filippo Turati og sat í fangelsi fyrir það í mörg ár. Þegar frelsisstríð Ítalíu hófst 1943 losnaði hann úr fangelsi 8. september og varð einn af leiðtogum andspyrnuhreyfingarinnar. Sem slíkur átti hann þátt í að skapa "Frelsunarnefnd efri Ítalíu" ("Comitato di Liberazione di Alta Italia"). Hann var um stutt skeið fangi Þjóðverja, en var sleppt við fangaskipti. Eftir frelsun Ítalíu 1945 varð hann forsætisráðherra í þjóðstjórn sem mynduð var með aðild kristilegra demókrata, frjálslyndra, kommúnista, sósíalista, aðgerðasinna og syndikalista. Forysta hans var málamiðlun milli þeirra sem vildu alger skil frá klerkaveldi og íhaldsstefnu ára fasismans, og hinna sem vildu fara varlegar í sakirnar. Einnig voru á þeim tíma átök milli þeirra sem vildu að Ítalía yrði áfram konungsríki og þeirra sem vildu lýðveldi. Margir kristilegir demókratar voru andsnúnir honum, meðal annars vegna þess að hann vildi allsherjarstríð gegn mafíunni, og frjálslyndir ollu því að lokum að stjórnin féll eftir sjö mánuði og ný ríkisstjórn tók við undir forystu Alcide De Gasperi. Parri hélt áfram stjórnmálastarfi á vinstri væng ítalskra stjórnmála. Hann var gerður að öldungadeildarþingmanni til æviloka árið 1963. Parri, Ferruccio Tony Blair. Anthony Charles Lynton Blair (fæddur 6. maí 1953) oftast þekktur sem Tony Blair er fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Hann hefur leitt Verkamannaflokkinn síðan í júlí 1994 og komst til valda eftir yfirburðasigur flokksins í þingkosningunum 1997. Hann tók þá við forsætisráðherraembættinu af John Major og batt enda á 18 ára samfellda stjórn Íhaldsmanna. Tony Blair hefur setið lengst allra forsætisráðherra Verkamannaflokksins og sá eini sem hefur leitt flokkinn til sigurs í þremur þingkosningum í röð. Blair hefur fært flokkinn nær miðjunni í breskum stjórnmálum og kallað þessa stefnubreytingu „nýja Verkamannaflokkinn“ (e. New Labour). Flokkurinn er nú jákvæðari gagnvart markaðshagkerfiinu og orðinn fráhverfur þjóðnýtingu. Þessari stefnu hafa verið gefin nöfn á borð við „nútíma jafnaðarmennsku“ og „þriðja leiðin“ en margir af vinstri-sinnaðri flokksmönnum hafa orðið til að gagnrýna stefnubreytinguna og álíta flokkinn hafa færst of langt til hægri og snúið baki við þeim hugsjónum sem flokkurinn var byggður á, eins og jafnari skiptingu auðs í samfélaginu. Hörð gagnrýni á Blair hefur einnig risið vegna þátttöku Breta í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ og innrásinni í Írak. Í kosningum 2005 tapaði flokkurinn miklu fylgi en hélt þó meirihlutanum. Gordon Brown leysti Blair af sem forsætisráðherra. Blair, Tony Blair, Tony Áttund. Áttund í tónlist er tónbil sem spannar frá nótu að fyrsta náttúrulega yfirtóni sínum eða nótunnar sjálfrar áttund hærra eða lægra. Ef við mælum nótur í tíðni eða hertzum þá er áttund upp af A 440Hz (sem er litla a í tónfræði), A 880Hz (sem er einstrika A í tónfræði) og áttund lægri væri A 220Hz (sem er stóra A í tónfræði). Við sjáum því að talan helmingast; A 440Hz tveimur áttundum neðar væri A 110Hz (440Hz/2 er 220Hz og 220Hz/2 er 110Hz). Í skrifuðu og töluðu máli er búið að gefa áttundum nöfn til að aðgreina samnefndar nótur sem þarf að spila í mismunandi áttundum. Þar sem stafaröðin endurtekur sig þarf að aðgreina a frá a sem er áttund hærra. Við lítum til að mynda á mið c sem er hvít nóta á miðju píanói. Þá til aðgreiningar var það nefnt einstrika c eða c' og eru því allar nótur að næsta c fyrir ofan einstrika nótur, frá og með næsta c eru allar nótur tvístrikaðar fram að þriðja c og þar fram eftir götunum. Giuseppe Pella. Giuseppe Pella (18. apríl 1902 – 31. maí 1981) var ítalskur stjórnmálamaður, meðlimur í kristilega demókrataflokknum, fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Alcide De Gasperi og forsætisráðherra Ítalíu eftir að De Gasperi sagði af sér í kjölfar þess að frumvarp hans um breytingar á kosningalöggjöfinni hafði verið fellt. Pella var kjörinn á þing 1946 og varð fjármálaráðherra frá og með fjórðu ríkisstjórn De Gasperis. Hann varð forsætisráðherra í kjölfar afsagnar De Gasperis í ágúst 1953. Í forsætisráðherratíð hans magnaðist spenna milli Ítalíu og Júgóslavíu vegna deilna um yfirráð yfir Trieste. Þær deilur voru leystar með samkomulagi 5. október 1954 með því að Ítalía hélt borginni, en Júgóslavía fékk allan suðurhluta þess svæðis sem tilheyrði frjálsa svæðinu Trieste. Hann varð aftur ráðherra 1957 og 1960. Síðast var hann fjármálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Andreottis 1972. Pella, Giuseppe Pella Pella Torah. "Torah" (תורה) er hebreska og þýðir "fræðsla," "kenning," eða "lögmál." Það er mikilvægasta rit í Gyðingdómi. Með hugtakinu Torah er oftast átt við fyrsta hluta Tanakh, það er fyrstu fimm bækur hebresku biblíunnar. Hugtakið er stundum notað sem almennt hugtak yfir öll helgirit Gyðingdóms og einnig munlega hefð. Kristnir guðfræðingar íslenska Torah venjulega sem "lögmálið". Torah er einnig þekkt sem Mósebækurnar eða fimmbókaritið sem upphaflega var átt við þær hirslur sem geymdu bókarollurnar fimm. Fyrir trúaða Gyðinga er Torah venjulega álitin bókstafleg orð Guðs eins og hann opinberaði þau fyrir Móses. Uppbygging. Bækurnar fimm innihalda annars vegar samsteypt kerfi laga og reglna og hins vegar sögulega lýsingu á því sem varð Gyðingdómur. Bækurnar fimm (sérstaklega sú fyrsta, fyrsti hluta annarrar, og mikið af þeirri fjórðu) eru einkum safn sagna fremur en listar yfir lög og reglur, en í þeim má samt finna allar helstu hugmyndirnar og hugtökin í Gyðingdómi. Fimmta Mósebókin er frábrugðin hinum fjórum og inniheldur skilnaðarræðu Móse til Gyðinga. Mörg lögmál Gyðingdóms eru ekki beinlínis nefnd í Torah heldur eru þau túlkanir eða þá hafa skapast og lifað í munnmælum og skráð að lokum í Talmud og Mishnah. Sköpun og notkun Torah rollna. Í helgiathöfnum eru Torah skrifuð á hebresku á bókarollu (á hebresku kallað "Sefer Torah"). Þær eru skrifaðar af mikilli nákvæmni af sérstökum skrifurum, enda er nánast útilokað að finna breytingar eða villur í þessum bókarollum hvort sem þær eru nýjar eða þúsund ára. Ástæðan er sú að hvert orð og hvert merki er álitið hafa guðdómlega merkingu, minsta fráhvarf muni þess vegna breyta allri Torah. Fyrir alla venjulega notkun er Torah prentuð eins og venjulegar bækur, oft með hebreska textanum annars vegar og þýðingum á önnur mál hins vegar. Torah rollurnar er geymdar í heilagasta hluta samkunduhússins, í Örkinni (אֲרוֹן קֹדשׁ "aron kodesh" á hebresku.) Ariel Sharon. Ariel Sharon (hebreska: אריאל שרון) (fæddur 27. febrúar 1928) er fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels og herforingi. Hann fékk heilablæðingu í starfi í byrjun árs 2006 og hefur lengst af legið meðvitundarlaus síðan. Þáverandi varaforsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, tók við sem starfandi forsætisráðherra í veikindum Sharons. Flokkur þeirra, Kadima, vann stórsigur í ísraelsku þingkosningunum sem fram fóru 28. mars 2006 og Olmert tók formlega við forsætisráðherraembættinu 14. apríl sama ár eftir að hafa verið starfandi forsætisráðherra síðan 4. janúar. Hermennskuferill. Foreldrar Sharons voru litháískir gyðingar sem fluttu til Palestínu 1922 og hann fæddist í þorpinu Kfar Malal. Hann gekk ungur í æskulýðshreyfingu síonista og síðar í vopnaða andspyrnuhreyfingu þeirra, sem breyttist í Ísraelsher við stofnun Ísraelsríkis 1948. Sharon gerðist svo atvinnuhermaður og gat sér nafn í Súesstríðinu en aðgerðir hans þar voru þó umdeildar og var hann síðar sakaður af undirmönnum sínum um að hafa ögrað Egyptum og stefnt lífi ísraelskra hermanna í óþarfan háska. Í Sex daga stríðinu 1967 stýrði Sharon öflugustu þungvopnuðu sveit Ísraelshers á Sínaískaga. Hann fór á eftirlaun í ágúst 1973 en þegar Yom Kippur-stríðið braust út í október sama ár var hann kallaður aftur til starfa og var talinn eiga mikinn þátt í sigri Ísraelsmanna á Sínaískaga. Ráðherraferill. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum um það leyti sem hann fór á eftirlaun í hernum og var einn af stofnendum Likud-bandalagsins. Á árunum 1975-1976 var hann ráðgjafi Yitzhaks Rabin forsætisráðherra. Árið 1977 bauð hann sig fram til formennsku í Likud-bandalaginu en var hafnað. Hann stofnaði þá sinn eigin flokk, Shlomtzion, sem vann tvö þingsæti í næstu þingkosningum en sameinaðist fljótlega Likud. Sharon varð þá landbúnaðarráðherra. Í því starfi efldi hann mjög landnám gyðinga á herteknum svæðum og fjölgaði landnemabyggðum um helming í ráðherratíð hans. Sharon varð varnarmálaráðherra Ísraels 1981 og gegndi því embætti þegar Ísraelsmenn réðust inn í Líbanon 1982. Hann var af mörgum talinn ábyrgur fyrir fjöldamorðunum í Sabra- og Shantila-flóttamannabúðunum í Beirut, þegar sveitir falangista drápu þúsundir óbreyttra Palestínumanna en ísraelskar hersveitir sem umkringdu búðirnar gerðu ekkert til að stöðva þá og hindruðu fólk í að flýja úr búðunum. Sharon var eftir það stundum kallaður „Slátrarinn í Beirut“. Stjórnskipuð ísraelsk nefnd úrskurðaði að hann bæri óbeina ábyrgð á morðunum. Hann neitaði þó að segja af sér og Menachem Begin forsætisráðherra neitaði að reka hann en úr varð að Sharon sagði af sér embætti varnarmálaráðherra en sat áfram í ríkisstjórninni sem ráðherra án ráðuneytis. Forsætisráðherra Ísraels. Hann sat áfram í næstu ríkisstjórnum sem viðskipta- og iðnaðarráðherra, byggingamálaráðherra, innanríkisráðherra og loks utanríkisráðherra 1998-1999. Á þeim tíma tókst hann oftsinnis á við Yitzhak Shamir um forystu í Likud-bandalaginu en það var ekki fyrr en það missti meirihluta og Verkamannaflokkurinn komst til valda 1999 að hann varð formaður þess. Í febrúar 2001 varð hann svo forsætisráðherra Ísraels. Eitt umdeildasta verk hans var að kalla ísraelska herinn frá Gaza-ströndinni og láta eyða ísraelskum landnemabyggðum þar. Flokksbróðir hans og helsti andstæðingur innan flokksins, Benjamin Netanyahu, var því mjög mótfallinn og eftir harðar deilur sagði Sharon sig úr flokknum 21. nóvember 2005 og stofnaði annan flokk, Kadima. Netanyahu var kjörinn formaður Likud. Ákveðið var að halda kosningar 28. mars 2006. Þann 4. janúar 2006 var Sharon fluttur á sjúkrahús með heilablæðingu. Þann 6. janúar blæddi enn inn á heila hans, smávægilega þó. Hann varð fyrir varanlegum heilaskemmdum vegna þessara heilablæðinga og hefur að miklu leyti legið meðvitundarlaus síðan en þegar hann er með meðvitund er hann ófær um að hreyfa sig eða tjá sig. Flokkur Sharons vann stórsigur í þingkosningunum 28. mars undir stjórn Ehuds Ohlmert og varð stærsti flokkurinn á ísraelska þinginu. Þá var orðið ljóst að Sharon yrði aldrei aftur fær um að gegna embættinu, jafnvel þótt hann kæmist til meðvitundar. Samkvæmt ísraelskum lögum má starfandi forsætisráðherra gegna því starfi í 100 daga en þá ber forseta landsins að skipa nýjan forsætisráðherra og þann 14. apríl lauk því forsætisráðherratíð Sharons formlega en Ohlmert tók við. Heimildir. Sharon, Ariel Kauphöllin í New York. Kauphöllin í New York (e. New York Stock Exchange) (NYSE) er stærsta kauphöll heims, sé miðað við veltu og sú næststærsta, sé miðað við fjölda skráðra fyrirtækja. Hún er staðsett við Wall Street í New York. Alls eru um 2800 fyrirtæki í kauphöllinni. Í júlí 2004 voru 28 af 30 fyrirtækjum Dow Jones vísitölunnar skráð í New York kauphöllinni. Lough Neagh. Lough Neagh (a>, írska: Loch nEathach a>) er stærsta stöðuvatn á Írlandi og jafnframt það stærsta á Bretlandseyjum, en það er um 388 km² að flatarmáli. Vatnið er um 30 km að lengd og um 15 km að breidd, og er staðsett í Norður-Írlandi, um 30 km vestur af Belfast. Vatnið er víða mjög grunnt, en það er að meðaltali 9 metrar að dýpt. Á dýpsta punkti er það um 25 metrar að dýpt. Sökum þess hve opið það er úr öllum vindáttum, og vegna þess hve grunnt það er, þá verður oft mjög stormasamt á vatninu. Fimm af þeim sex sýslum sem eru í Norður Írlandi hafa strandlengju á vatninu, Antrim, Armagh, Londonderry, Down og Tyrone. Margir bæir eru við vatnið, m.a. Antrim, Toomebridge, Ballyronan, Lurgan, Craigavon og Magherafelt. Írskar þjóðsögur segja frá því hvernig Lough Neagh var myndað af Fionn Mac Cumhaill þegar hann mokaði upp hluta af Írlandi í lófanum sínum og varpaði því í andstæðing sinn í Skotlandi. Árnahellir. Árnahellir er hellir í Selvogi í Ölfusi. Hann er á lista yfir náttúruvætti á Íslandi og var lokaður fyrir aðgengi almennings árið 1995 til verndar dropasteinsmyndunum í honum sem eru afar viðkvæmar. Hellirinn er nefndur eftir Árna B. Stefánssyni, augnlækni sem fann hellinn um 1985. Árni B. Stefánsson. Árni Björn Stefánsson (fæddur 3. mars 1949) er augnlæknir og hellakönnuður. Íslenska náttúruvættið Árnahellir er nefnt eftir honum. Árni var fyrstur manna til að síga í hellinn í Þríhnúkum, sem er með stærstu slíkum hvelfingum í heimi, lóðrétt fall um eða yfir 120 metrar til botns. Tara (Írlandi). Tara-hæð, (i. "Teamhair na Rí", "Hæð konunganna") er hæð við Boyne ánna, á milli Navan og Dunshaughlin í Meath-sýslu í Leinster á Írlandi. Hæðin er sögufræg á Írlandi, en þar er sagt að Árd Rí Éireann ("Hákonungur Írlands") hafi haft aðsetur. Á svæðinu er mjög mikið um fornminjar. Konungar Tara. Konungar Tara voru þeir konungar sem ríktu á hæðinni Tara í Meath-sýslu á Írlandi. Þeir voru fulltrúar mjög gamallar hugmyndar um heilagan konungsdóm á Írlandi, en miklar hefðir og þjóðsögur tengdust þessum konungsdómi sem ekki eru mjög vel þekkt í dag. Konungar á Tara höfðu misjafnlega mikið vald eftir tímum, en oftast voru konungar á Tara einnig hákonungar Írlands, en hlutverk hákonungsins var að miðla málum milli annarra óæðri konunga vítt og breitt um Írland, þó svo að það virðist oft sem ekki hafi verið tekið mjög mikið mark á þeim. Neðangreindir listar eru unnir upp úr írskum annálum, en þess skal getið að ártöl og dagsetningar eru mjög á reiki og ekki ríkir sátt um sanngildi þeirra. Túrkmenska stafrófið. Núverandi túrkmenskt stafróf er latneskt stafróf byggt á tyrkneska stafrófinu og var tekið í notkun árið 1991. Sá munur er á, að það túrkmenska notar ž í stað hins tyrkneska c; y í stað punktlauss i (I/ı); ý í stað hins tyrkneska samhljóðs y; og stöfunum ä og ň hefur verið bætt við til að tákna hljóðgildin [æ] og [ŋ]. Í upphafi 20. aldar, þegar skrifuð túrkmenska kom fyrst fram á sjónarsviðið, var hún skrifuð með arabísku stafrófi, en árið 1928 var tekið upp latneskt stafróf. Árið 1940 þurfti að skipta yfir í kýrillískt stafróf vegna tilskipunar frá Sovétríkjunum, og sérútbúið túrkmenskt kýrillískt stafróf (sést í töflu hér að neðan) var tekið í notkun. Strax og Túrkmenistan hafði lýst yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 var skipt yfir í núverandi latneskt stafróf, og átti þá nýorðinn forseti landsins, Saparmyrat Nyýazow, drjúgan þátt í því. Túrkmenska er enn oft skrifuð með arabísku stafróf í öðrum löndum þar sem málið er talað, en arabískt letur er allsráðandi (t.d. í Afganistan). Stafir. Núverandi stafróf inniheldur 30 meginstafi, auk fjögurra sem aðeins eru notuð í erlend nöfn. Maktoum bin Rashid Al Maktoum. Maktoum bin Rashid Al Maktoum (arabíska: الشيخ مكتوم بن راشد آل مكتوم "aš-šaiḫ Maktūm bin Rāšid ’Āl Maktūm"; fæddur 1943, dáinn 4. janúar 2006 í Ástralíu) var sjeik yfir Dúbæ og forsætisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Sýnagóga. Sýnagóga er bæna- og samkomuhús í Gyðingdómi. Orðið „sýnagóga“ er komið af gríska orðinu συναγωγή (umritað "sunagōgḗ", „samkomustaður“). Hebreska orðið yfir sýnagógu er "beit knesset" (בית כנסת). Sýnagógan hefur venjulega einn stóran sal fyrir bæn og guðþjónustu. Þar að auki minni herbergi fyrir lestur og nám og félagsmiðstöð. Sumar stærri sýnagógur hafa sérstök herbergi fyrir Torahfræði og það er kallað "beit midrash" - בית מדרש („hús fræðimennskunnar“). Hjólaköngulær. Hjólaköngulær eru ætt köngulóa. Algengasta köngulóin af þessum tegundum er líklegast krossköngulóin eða "Araneus" eins og hún kallast á latínu en þær lifa líka á Íslandi og eru algengustu köngulærnar sem finnast hér. Köngulær í þessari ætt einkennast af því að þær spinna vefi til að veiða með og leggja með þeim gildrur fyrir ýmis skordýr, aðallega flugur. Vefir sumra köngulóa þessarar ættar eru taldir þeir flóknustu sem nokkurt dýr gerir. Alcoa. Alcoa, Inc. () er einn stærstu álframleiðenda heims með starfsstöðvar í 43 löndum víðsvegar um heiminn og um 131 þúsund starfsmenn. Fyrirtækið var stofnað árið 1888 og eru höfuðstöðvar þess í Pittsburgh í Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum. Alcoa er eitt þeirra 30 fyrirtækja sem eru í Dow Jones-vísitölunni. Árið 2006 tilkynnti fyrirtækið methagnað upp á 160 miljarða króna, mesta hagnað fyrirtækisins í 118 ára sögu þess. Sagan. Alcoa var stofnað árið 1886 í kjölfar uppgvötunnar Charles Martin Hall árið 1886 sem, þá aðeins 23 ára gamall, fann leið til að bræða ál. Þetta gerði hann á sama tíma og Paul Héroult var að þróa samskonar vinnsluaðferð í Frakklandi. Aðferðin er nefnd eftir þeim, Hall-Héroult-aðferðin. Aðferð þeirra er enn í dag notuð við álframleiðslu. Alcoa á Íslandi. Alcoa rekur fyrirtækið Alcoa Fjarðaál sf. á Íslandi, en álver fyrirtækisins á Reyðarfirði er fyrsta álverið sem Alcoa reisir í rúm 20 ár. Til þess að sjá álverinu fyrir orku hefur verið byggð Kárahnjúkavirkjun og hafa staðið miklar deilur um hana. Bókin Draumalandið - sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð sem kom út 2006 gagnrýnir bæði virkjunina og fyrirtækið Alcoa fyrir að framleiða hergögn. Þeim ásökunum vísaði fyrirtækið á bug á sínum tíma. Krosskönguló. Krosskönguló (eða evrópsk garðkönguló) er tegund köngulóar merkilegar að því leyti að silkiþráður þeirra er sá allra flóknasti í dýraríkinu. Þær finnast um nánast alla Evrópu og í Kanada og norðanverðum Bandaríkjunum og eru algengustu kóngulærnar á Íslandi. Krossköngulær skipta stundum um liti þegar þær skipta um ham en þær þekkjast þó af litlum ljósum blettum í miðju aftari búksins sem mynda kross. Lífshlaup. Krossköngulær geta lifað í um tvö ár og lifa því af veturna. Þær lifa aðallega á flugum, fiðrildum og nánast öllu því sem festist í vef þeirra. Helsti óvinur krossköngulóa er hrossafluga en hún hefur lítið að segja í stærstu krosskóngulærnar. Hættan steðjar að ungum og eggjum. Krossköngulær afla sér fæðu með því að leggja eina af best heppnuðu gildrum sem þekkjast í heimi hryggleysingja og þó víðar væri leitað. Silkiþráður krossköngulóa. Ein tegund silkiþráðar krossköngulóarinnar áreiðanlega allra flóknasti kóngulóaþráðurinn sem til er, en krosskóngulær geta spunnið a.m.k. sex mismunandi tegundir þráða. Þræðir kóngulóa verða til í þar til gerðum kirtlum sem eru staðsettir aftast á afturbol kóngulóarinnar, rétt við lungun sem eru fyrir aftan magann. Þegar krosskóngulóin byrjar að spinna vefi sína þá kastar hún eða spýtir einni tegund þráðar út í loftið þar sem vindurinn feykir honum að t.d. næstu trjágrein eða þakskeggi sem verður hald fyrir vefinn. Síðan spinnur hún niður úr fyrsta þræðinum þannig að stoðþræðirnir líta út eins og "Y". Miðjan á ypsiloninu verður miðja kóngulóarvefsins. Síðan étur hún fyrsta þráðinn og setur nýjan og sterkari þráð í staðinn, en sá þráður er mjög sterkur og lítið teygjanlegur því vefurinn má ekki flökta mikið í vindi. Þessi þráður verður aðalstoðin en síðan gerir hún það sama við hina stoðþræðina. Þessu heldur hún áfram allt að 80 sinnum því að þeim mun fleiri sem stoðþræðirnir eru þess auðveldara er að spinna ystu hringi vefsins. Kóngulóin spinnur svo í hringi umhverfis miðju stoðþráðanna og framleiðir límkenndan þráð sem talinn er vera einhver sá flóknasti sem til er, en hann er í raun gerður úr tveimur þráðum. Ástæða þessa er að þessir þræðir þurfa að vera teygjanlegir, límkenndir og gríðarlega sterkir til að þola mikið högg. Þeir mega samt ekki vera of teygjanlegir því þá gætu þeir fest hver við annan og gildran þar með eyðilagst. Þessa kosti hefur þráður krosskóngulóarinnar og því er hann talinn með flóknari vefjum sem kóngulær spinna. Setið fyrir bráð. Kóngulóin skilur eftir eða étur lítið gat í miðju vefsins svo hún komist báðum megin við hann. Þar bíður hún eftir bráð sinni. Þegar fórnarlamb festist í vefnum þá staðsetur kóngulóin það á örskotsstundu með því að nema titringinn í vefnum. Hún veit þá upp á hár hvar það er staðsett. Því næst flýtir hún sér að fórnarlambinu og bítur það en bit krosskóngulóa er eitrað en dugar þó ekki til að fella mann en það vankar auðveldlega flugur og jafnvel banvænt fyrir smærri bráðir. Því næst vefur hún vankaða eða dauða bráðina þétt inn í silkiþráð og sýgur síðan úr henni innvolsið þegar hana svengir. Mökun. Þegar karldýr krosskóngulóar er tilbúið til mökunar þá lætur það lítinn sæðisdropa drjúpa á þéttan vefbút sem hann hefur spunnið. Síðan sýgur hann sæðisdropann upp í lítinn belg á þreifurunum, en æxlunarfæri karlanna eru ekki samtengd. Því næst leitar hann að vef einhvers kvendýrs. Þegar hann hefur fundið hana þá spinnur hann lítinn silkiþráð yfir á vef kvendýrsins og hefur biðilsleik. Biðilsleikurinn fer þannig fram að karldýrið byrjar að leika taktfast á þennan þráð líkt og bassaleikari á streng með broddum sem eru á fremsta fótaparinu. Karldýrið tjáir þannig fyrirætlan sína og kvendýrið tjáir sig á móti með titringi. Ef karldýrið hefur minnsta grun um að kvendýrið sé þegar búið að maka sig þá forðar það sér samstundis. Að öðrum kosti þá mjakar hann sér ofurvarlega yfir á vef kvendýrsins og þau staðsetja hvort annað. Þegar karldýrið er komið nógu nálægt kvendýrinu þá stingur hann þreifaranum inn í kynop hennar og þaðan fer sæðið í þar til gert geymsluhólf. Kvenkóngulóin notar síðan sæðið þegar hún er tilbúin að verpa. Sæðið sem komið er í geymsluhólfið dugir oft mjög lengi, jafnvel ævilangt. Eftir mökun reynir karlinn að koma sér hratt í burtu til þess að forðast að vera étinn, en karldýrin eru mun minni en kvendýrin. Ástæða þess að kvendýrið étur karlinn er talin vera sú, að í karlinum sé mikið af efnum sem eru mikilvæg fyrir þroska eggjanna. Krosskóngulær eru ein af fáum tegundum kóngulóa sem éta karlana eftir mökun. Varp. Þegar kvenkönguló er tilbúin til að verpa þá spinnur hún poka úr sérstökum silkiþræði sem aðeins kvenköngulær geta spunnið. Sá vefnaður líkist helst bómull þar sem hann inniheldur meira loft en aðrir þræðir kóngulóa. Pokinn er yfirleitt staðsettur í miðju kóngulóarvefsins hjá tilvonandi móður. Þegar pokinn er tilbúinn verpir hún í hann og sprautar síðan örlitlu af sæðinu sem hún fékk hjá karlinum yfir á eggin og frjóvgar þau. Síðan lokar hún pokanum. Pokar þessir eru á stærð við smásteina. Fyrst eftir að eggin hafa klakist út eru ungarnir hvítir og líkjast helst hárlús með átta fætur. Ungarnir hafa síðan hamskipti á meðan þeir eru enn í pokanum, en eftir það verða þeir nákvæmar eftirmyndir foreldranna og stækka smátt og smátt. Úlpa (hljómsveit). Úlpa er íslensk hljómsveit, stofnuð árið 1999 í Hafnarfirði. Í apríl 2000 lauk Úlpa við tólf laga demó sem olli því að í byrjun 2001 fengu þeir samning við Eddu Miðlun og gáfu út frumraun sína Mea Culpa. Úlpa hlaut tilnefningu sem „Bjartasta Vonin“ á íslensku tónlistarverðlaununum 2001 og var Mea Culpa valin á topp 5 yfir bestu plötur ársins 2001 hjá Morgunblaðinu og DV. Mínus (hljómsveit). Mínus er íslensk harðkjarnapönk og öðruvísi rokks hljómsveit. Hún sigraði í Músíktilraunum 1999. Griporð. Neðst á síðunni er griporðið, sem er upphafsorð næstu síðu Griporð nefnist það þegar fyrsta orði næstu síðu er bætt við neðst á bókarsíðu. Hlutverk þess er að aðstoða bókbindarann í því að raða saman síðunum í rétta röð. Það nýtist einnig þeim sem lesa efnið upphátt á meðan þeir fletta á næstu síðu. Þetta var mikið notað fyrr á tímum í prentlistinni en hefur ekki sést síðustu áratugi, einkum sökum aukinnar sjálfvirkni í prentiðnaði. Arkarvísir. Neðst á síðunni er tölustafur sem táknar númer arkarinnar Arkarvísir er númer eða tákn sem birtist neðst á bókarsíðu og er ætlað að aðstoða bókbindarann í að sjá hvort að röðun arkanna sé rétt. Hadsjí. Pílagrímur á bæn í Stóru moskunni í Mekka Hadsjí (sést stundum ritað með ensku umrituninni hajj, arabíska: حَجّ "ḥaǧǧ") er pílagrímsferð múslima til Mekka og er ein af "fimm stoðum íslams" samkvæmt Sunní og einnig hinum "tíu greinum trúarinnar" samkvæmt Shía. Allir múslimar, sem heilsu hafa og hafa efni á, eiga að fara í slíka pílagrímsferð að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Yfirvöld í Sádi-Arabíu gefa út sérstaka vegabréfsáritun fyrir þá útlendinga, sem eru á leiðinni í þessa pílagrímsför, sem á sér stað á tíunda mánuði, Ḏū al-Ḥiǧǧah, hins íslamska árs. Aðgangur er algjörlega bannaður að allri borginni Mekka fyrir þá, sem ekki eru múslimar. Öll borgin er álitin heilög. Helgihaldið í Mekka. Þegar til Mekka er komið, klæðast karlar pílagrímsklæðum, sem eru tveir stórir hvítir dúkar, sem sveipað er um sig, þannig að önnur öxl og handleggur eru ber. Konur bera fótsíð hvít klæði og höfuðdúk. Klæðin bera vitni um hreinleika og helgi og að allar manneskjur eru jafn háar fyrir Guði. Í Mekka fara pílagrímarnir í Stóru moskuna og ganga sjö sinnum rangsælis kringum Kaba. Síðan er hlaupið sjö sinnum milli hæðanna Marva og Safa, sem nú eru innan moskusvæðisins. Með því eru menn að minnast þess hvernig Hajar, kona Ibrihams, leitað eftir vatni fyrir son sinn í eyðimörkinni. Á níunda degi er farið til Arafat, sem er slétta 21 km austan við borgina, þar sem íhuguð er kveðjupredíkun Múhameðs og endurfundir Adams og Evu eftir brottreksturinn úr Paradís. Þennan dag standa pílagrímarnir stöðugt uppréttir frá hádegisbæninni fram að sólarlagi og lofa Guð. Á tíunda degi, "id al-Adha", er steinsúla, sem er tákn fyrir Satan, grýtt til að minnast þess þegar hann freistaði Ibrahim (Abraham) til að fylgja ekki skipun Guðs. Ibrahim rak hann á braut með orðunum "Allahu akbar" ("Guð er stærri"). Þennan dag slátra pílagrímarnir kind eða lambi til þess að minnast fórnar Ibrahims og sem dæmi um eigin fórnarlund. Kjötið er gefið fátækum. Þeir þrír dagar, sem eftir eru, eru notaðir til að grýta Satan og til að umgángast. Íslamska tímatalið. Íslamska tímatalið telst frá Hijra, eða flótta Múhameðs frá Mekka til Medína. Þetta reiknast sem ár AH 1 (Anno Hegria) sem samsvarar til ársins AD 622 (samkvæmt kristnu tímatali). Þetta er tímatal sem byggir á tunglgangi einungis og ekki sólarárinu, án innskota eins og hlaupársútreikningi. Árið er þess vegna ýmist 354 eða 355 daga langt. Þess vegna er ekki hægt að umreikna íslamska tímatalið til gregoríanska tímatalsins með því að leggja við eða draga frá 622. Heilaga daga í íslam ber alltaf upp á sömu daga í tunglárinu sem gerir að þeir færast til á árinu og getur borið upp á öllum árstímum. Araneus. Araneus er ættkvísl köngulóa sem t.d. krossköngulær tilheyra, en krosskönguló er algengasta tegund kóngulóa á Íslandi. Kaba. Kaba (arabíska: الكعبة "al-Ka‘abah" eða الكعبة المشرًّفة "al-Ka‘aba al-Musharrafah", einnig kölluð البيت العتيق "al-Bait ul-‘Atīq" eða البيت الحرام "al-Bait ul-Ḥarām"), er ferhyrnd bygging í miðju þeirrar mosku í Mekka sem nefnd er "Masǧid al-Ḥarām", eða Stóra moskan. Moskan var byggð í kringum Kaba, og er Kaba álitin heilagasti staður í íslam. Kaba er stór steinbygging, sem er nokkurn veginn í laginu eins og teningur, en nafnið kaba kemur úr arbabísku og þýðir kubbur. Byggingin er gerð úr graníti úr fjöllunum í umhverfi Mekka. Hún er um það bil 15 metra há, 10 metra breið og 12 metra löng. Byggingin er þakin svörtu silkiefni skreyttu með gullútsaumuðum áletrunum. Þetta klæði er kallað Kiswah og er endurnýjað árlega. Einn af undirstöðusteinum Kaba er Ḥaǧar ul-Aswad (hinn "Heilagi svarti steinn") sem múslimar álíta að hafi verið gjöf frá Guði til Adams eftir að hann kom til jarðar. Mikil helgi var á steininum þegar fyrir tíma Múhameðs. Múslimum ber að snúa sér að Kaba þegar þeir biðjast fyrir. Nákvæm staðsetning Kaba er 21° 25′ 24″ N, 39° 49′ 24″ A. Latur (sker). Latur er sker sem stendur norðan Heimaeyjar í Vestmannaeyjum. Það dregur nafn sitt af því að menn sem reru áttæringum eða öðrum róðrarbátum frá Landeyjum til Vestmannaeyja tóku sér gjarnan hvíld við Lat áður en haldið var inn innsiglinguna á Heimaeyjarhöfn, þar sem að þrír straumar mætast á þeim þríhyrnda fleti sem afmarkast af Bjarnarey, Elliðaey og hafnarmynni Heimaeyjar, og verður því gjarnan mjög straumhart þar. Nylon (hljómsveit). Íslenska popphjómsveitin Nylon var stofnuð snemma árs 2004 þegar fyrirtæki Einars Bárðarsonar, Concert stóð fyrir áheyrnarprufum á stúlkum fyrir íslenska stúlknasveit. Þrjár stelpur voru valdar, Alma Guðmundsdóttir, Klara Ósk Elíasdóttir, Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir og var Emilíu Björg Óskarsdóttur bætt við í hópinn stuttu síðar. Nylon tóku upp og gáfu út endurgerð af laginu "Lög unga fólksins" eftir Unun og hófu sjónvarpsþáttinn Nylon á sjónvarpsstöðinni Skjá Einum. Haustið eftir kom svo út fyrsta plata Nylon, 100% Nylon og önnur platan Góðir hlutir ári síðar. Þann 14. júlí 2007 sagði Emilía skilið við Nylon þegar hún giftist manni sínum. Frans Ferdinand erkihertogi. Frans Ferdinand Karl Lúðvík Jósef krónprins Austurríkis-Ungverjalands og erkihertogi af Austurríki-Este (18. desember 1863 – 28. júní 1914) var meðlimur keisarafjölskyldunnar af ætt Habsborgara, bróðursonur keisarans Frans Jósefs og erfingi krúnunnar. Hann hafði fyrirætlanir um að slavneskir hlutar keisaradæmisins yrðu sjálfstætt konungsríki á borð við hin tvö (Austurríki og Ungverjaland) undir stjórn Króata. Hluti þessa nýja konungsríkis yrði Bosnía-Hersegóvína. Hann leit á þetta sem vörn gegn útþenslustefnu Serba. Sökum þessa varð hann óvinsæll, bæði meðal íhaldsmanna innan keisaradæmisins, og utan þess meðal serbneskra þjóðernissinna. 28. júní voru hann og kona hans myrt í Sarajevó af Gavrilo Princip sem var meðlimur í samtökum Bosníu-Serba sem börðust fyrir sameiningu Bosníu við Serbíu. Þessi atburður var einn þeirra sem hrundu Fyrri heimsstyrjöldinni af stað. Kleópatra 7.. "Antonius og Kleópatra" eftir Lawrence Alma-Tadema Kleópatra VII Fílópator (janúar 69 f.Kr. – 12. ágúst 30 f.Kr.) var drottning og faraó Egyptalands hins forna, síðust af ætt Ptolemaja og þar með síðasti helleníski þjóðhöfðingi Egyptalands. Þótt fleiri drottningar Egypta hafi heitið Kleópatra, er hún sú sem almennt er átt við þegar minnst er á Kleópötru. Hún var meðstjórnandi í Egyptalandi, fyrst með föður sínum, Ptolemajosi XII, svo með eiginmanni sínum og bróður, Ptolemajosi XIV, og að lokum með syni sínum, Caesarion. Hún átti í ástarsambandi við Júlíus Caesar og gerði síðar bandalag við Marcus Antonius eftir dauða Caesars. Hún giftist Markúsi Antoníusi síðar og átti þrjú börn með honum. Kleópatra og Antonius börðust við Octavíanus um völdin í Rómaveldi, en biðu lægri hlut fyrir honum í orrustunni við Actium, árið 31 f.Kr. Þegar Octavíanus (síðar Ágústus keisari), lögmætur erfingi Caesars, réðist inn í Egyptaland með rómverska herinn, framdi hún sjálfsmorð, þann 12. ágúst árið 30 f.Kr. Að Kleópötru látinni innlimaði Octavíanus Egyptaland inn í Rómaveldi. Hennar er minnst í leikriti Shakespeares "Antoníus og Kleópatra" og í fjölmörgum kvikmyndum. Chariots of Fire (lag). Chariots of Fire var titillag í samnefndri bíómynd eftir Vangelis en Vangelis sá um alla tónlistina í myndinni. Myndin er frá 1981 og vann Vangelis Óskarsverðlaunin fyrir tónlistina í henni en hann var m.a. að keppa við John Williams fyrir tónlistina í. Lagið er stundum nefnt ólympíulagið. Boðorðin tíu. a> með boðorðunum tíu frá Esnoga sýnagógunni í Amsterdam Boðorðin tíu er listi yfir trúarlegar og siðferðilegar reglur sem samkvæmt Biblíu kristinna manna og Torah Gyðinga voru opinberuð af Guði fyrir Móses á fjallinu Sínaí og Móses hjó á tvær steintöflur. Þau eru grundvallaratriði í kristinni trú og gyðingdómi. Boðorðin eru sett upp sem samningur Guðs og þjóðar hans og eiga sér hliðstæðu í fornsögulegum samningum og lagabálkum stórkonunga við undirkonunga. Á hebresku heita boðorðin tíu עשרת הדברים (umritun "Aseret ha-Dvarîm"). Bein þýðing úr hebresku felur ekki í sér forskrift eða skipun eins og orðið „boðorð“, heldur merkir „orðin tíu“ eða „yrðingarnar tíu“. Boðorðin birtast í 2. Mósebók 20:2-17 og 5. Mósebók 5.6-21. Í 2. Mósebók brýtur Móses steintöflurnar með boðorðunum þegar hann kemur niður af Sínaí fjalli og sér Ísraelsmenn tilbiðja gullkálf. Síðar í 2. Mósebók ritar Drottinn tíu boðorð á nýjar töflur. Aðeins tvö af boðorðunum á nýju töflunum fjalla um svipað efni og hin fyrri. Hin boðorðin átta fjalla um ýmsa helgidaga, boð um að tileinka Drottni frumburðinn og svo framvegis. Milton. Milton var hestur sem John Whitaker keppti á í hindrunarstökki. Klárinn var grár geldingur af hollensku kyni. Hann varð fyrsti hestur (utan kappreiðagreina) til að vinna yfir 1 milljón punda í ólíkum hindrunarstökkskeppnum. Hann var dáður af öllum og vinsældur jukust jafnvel þegar hann lést 4. júlí 1999. Á árunum 1985 til 1994 var Milton hvað bestur, vann margar alþjóðlegar keppnir og tryggði Englandi meðal annars gull í liðakeppni Evrópumótsins 1987 og 1989, einstaklingsgull á evrópumótinu 1989, einstaklingssilfur í heimsmeitarakeppninni 1990. Enn fremur unnu þeir John Heimsbikar FEI bæði árin 1990 og 1991. John Whitaker. John Whitaker (fæddur 5. ágúst 1955) er breskur hestamaður. Hann hefur í gegnum árin keppt í hindrunarstökki og tók meðal annars þátt í Ólympíuleikunum 1985. Þekktasta hross sem hann hefur keppt á var Milton. Aldo Moro. Ljósmyndin sem mannræningjarnir sem rændu Moro 1978 sendu frá sér. Aldo Moro (23. september 1916 – 9. maí 1978) var ítalskur stjórnmálamaður, félagi í kristilega demókrataflokknum og forsætisráðherra Ítalíu fimm sinnum. Hann var talinn hæfur sáttasemjari og einn af fylgismönnum hinna sögulegu sátta sem fólust í því að ítalski kommúnistaflokkurinn fengi aðild að nýrri þjóðstjórn, en hann hafði ekki setið í stjórn frá 1948. Vegna þessa, að talið er, var honum rænt af Rauðu herdeildunum í mars 1978. Hann fannst skotinn til bana í skottinu á bíl sem lagt var á götu í Róm, mitt á milli skrifstofa kristilega demókrataflokksins og ítalska kommúnistaflokksins. Moro, Aldo Tanakh. Bækurnar. Samkvæmt hefð Gyðingdóms eru 24 bækur í Tanakh. Í Torah eru fimm bækur, Nevi'im átta bækur og Ketuvim hefur ellefu. Þessar 24 bækur eru sömu bækur og eru í Gamla testamenti biblíu kristinna, þó þeim sé raðað á annan hátt. Fjöldi bókanna er ekki heldur sá sami, kristnir telja 39 ekki 24. Til dæmis eru Samúelsbækurnar tvær eru taldar sem ein bók í Tanakh og einnig konungabækurnar og spámannaritin tólf eru talin sem ein bók. Margir trúfræðingar tala heldur um hina Hebresku biblíu en Tanakh og Gamla testamentið svo ekki sé verið að draga eitt trúfélag fram yfir annað. Gamla testmenti Rómversk-kaþólsku kirkjunnar og austurlenskra réttrúnaðarkirkna innihalda sex bækur sem ekki eru í Tanakh (og ekki í Gamla testmenti mótmælenda). Torah. Torah (hebreska: תורה) þýðir "fræðsla," "kenning," eða "lögmál". Einnig nefnt "Tjumash" (hebreska: חומש) Mósebækurnar eða Fimmbókaritið. Prentuð eintök Torah eru of kölluð "Chamisha Chumshei Torah" (חמישה חומשי תורה, sem þýðir bókstaflega "Fimm fimmtu Torahs") Nevi'im. "Nevi'im" (נְבִיאִים, "Spámannaritin") samanstendur af átta bókum. Þessi hluti inniheldur bækur sem í heild fjalla um tímann frá landnámi fyrirheitna landsins að herleiðingu lýðsins til Babýloníu. Kronikubækurnar eru ekki hluti af "Nevi'im", en fjalla þó um sama tíma. Ketuvim. "Ketuvim" (כְּתוּבִים, "ritin") samanstendur af ellefu bókum. Esra og Nehemía eru taldar sem ein bók og Kronikubækurnar tvær sem ein. Amintore Fanfani. a>. Amintore Fanfani er lengst til hægri. Amintore Fanfani (6. febrúar 1908 – 20. nóvember 1999) var ítalskur stjórnmálamaður, félagi í kristilega demókrataflokknum og forsætisráðherra Ítalíu í sex ríkisstjórnum frá 1954 til 1987. Fanfani var menntaður í hagsögu og var fylgismaður fasismans á Ítalíu og ritaði meðal annars greinar í tímaritið "Difesa della Razza", málgagn kynþáttahyggjunnar á Ítalíu. Hann tók að breyta um skoðun (líkt og fleiri) eftir 1943. Eftir að Mussolini sagði af sér 24. júlí 1943 flúði hann til Sviss þar sem hann hélt sig þar til eftir frelsun Ítalíu. Hann gerðist síðan félagi í kristilega demókrataflokknum og tók þátt í samningu stjórnarskrárinnar 1946. Hann er meðal annars höfundur einnar af grundvallarsetningum stjórnarskrárinnar, „Ítalía er lýðveldi sem grundvallast á vinnu“ ("„L'Italia è una Repubblica fondata sul lavoro“"). Hann varð fyrst ráðherra í fjórðu ríkisstjórn De Gasperis. 1954 myndar hann sína fyrstu ríkisstjórn, en tekst ekki að tryggja henni þingmeirihluta sem verður til þess að hún fellur eftir aðeins mánuð. Sama ár verður hann aðalritari kristilega demókrataflokksins. 1962 myndar hann sína fjórðu ríkisstjórn með stuðningi sósíalista, sem verður sú fyrsta í langri röð vinstri-miðjustjórna í sögu Ítalíu. Hann var forseti öldungadeildarinnar 1968 til 1973 og 1976 til 1982 og ráðherra í ýmsum ríkisstjórnum allt til ársins 1987. Eftir "Mani pulite" og endalok kristilegra demókrata, gerðist hann félagi í hinum nýja "Partito Popolare Italiano" sem varð til úr leifum demókrataflokksins. Fanfani Fanfani Fanfani, Amintore Bettino Craxi. Bettino Craxi (24. febrúar 1934 – 19. janúar 2000) var ítalskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Ítalíu frá 1983 til 1987. Hann var formaður ítalska sósíalistaflokksins frá 1976 til 1993. Stjórnmálaferill. Craxi er sá forsætisráðherra sem næstlengst hefur setið samfellt (sá sem hefur setið lengst er Silvio Berlusconi) og hafði mikil áhrif á stjórnmál á Ítalíu á níunda áratugnum. Hann myndaði nokkurs konar bandalag með tveimur leiðtogum kristilegra demókrata, Giulio Andreotti og Arnaldo Forlani. Hann reyndi að færa sósíalistaflokkinn nær miðju og fjær ítalska kommúnistaflokknum. Undir hans stjórn vann flokkurinn mikilvæga kosningasigra, en varð þó aldrei jafnstór og kommúnistaflokkurinn. Á valdatíma Craxis náði Ítalía að verða fimmta stærsta iðnríki heims, en mikil verðbólga hrjáði efnahagslífið á sama tíma og erlendar skuldir margfölduðust, og urðu hærri en landsframleiðslan. Ránið á Achille Lauro. Craxi þótti ákveðinn leiðtogi og vakti meðal annars athygli þegar hann neitaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseta um að fá í hendur hryðjuverkamennina sem rændu skipinu Achille Lauro og myrtu einn bandarísku gíslanna um borð. Eftir samningaviðræður fengu mennirnir að fljúga frá Egyptalandi til Túnis, en bandarískar herþotur neyddu flugvélina til að lenda á Sigonella-herstöðinni á Sikiley. Craxi lét þá ítalska herinn umkringja bandarísku hermennina sem vörðu vélina og tók hryðjuverkamennina höndum á þeirri forsendu að Ítalía ætti lögsögu á herstöðinni, þótt hún væri bandarísk. Mennirnir voru síðan dæmdir í tiltölulega stutt fangelsi en náðu að flýja land. Einn hryðjuverkamannanna, Palestínumaðurinn Abu Abbas, var síðar handtekinn í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna í Írak 2003 og lést skömmu síðar, af náttúrulegum orsökum að talið er. Fyrir þessar aðgerðir hlaut Craxi standandi lófatak í ítölsku öldungadeildinni, meðal annars frá andstæðingum sínum í kommúnistaflokknum. Mani pulite og flóttinn til Túnis. Snemma á tíunda áratugnum hóf dómsvaldið á Ítalíu rannsókn á spillingu í ítölskum stjórnmálum sem var kölluð "Mani pulite". Allir stjórnmálaflokkar lentu undir smásjá og reyndust hafa tekið við ólöglegum fjármunum, en kristilegir demókratar og sósíalistar urðu langverst úti. Sósíalistaflokkurinn missti nær allt sitt fylgi (sem var um 15%) og Craxi neyddist til að segja af sér formennsku í flokknum. Craxi reyndi meðan á rannsókninni stóð að lýsa því yfir að allir flokkar væru jafnsekir, fremur en að sósíalistar væru saklausir, en þessi málsvörn hlaut lítinn hljómgrunn meðal almennings. Líferni Craxis þótti líka yfirgengilegt, þar sem hann bjó á dýru hóteli í Róm og átti að auki glæsihýsi í Hammamet í Túnis. Hann hélt um sig hirð vina og fylgismanna, sem taldi meðal annars skólafélaga hans, Silvio Berlusconi, og sem einn gagnrýnandi lýsti sem "hirð dverga og dansmeyja". Fyrir þetta varð hann að táknmynd spillingarinnar sem "Mani pulite"-rannsóknin hafði leitt í ljós að væri útbreidd meðal ítalskra stjórnmálamanna. Eitt sinn árið 1994 þegar hann kom út af hóteli sínu í Róm, tók á móti honum mannfjöldi sem henti í hann smápeningum og söng „Taktu þessa líka, Bettino“ ("„Bettino, prendi anche queste“") við lagið "Guantanamera". Skömmu síðar flúði hann land til Túnis vegna ótta við að lenda í fangelsi fyrir spillingu. Hann hélt lengi fram sakleysi sínu og að hann væri fórnarlamb pólitískra ofsókna. Fjölskylda hans og vinir reyndu einnig að fá því framgengt að hann fengi að snúa aftur með friðhelgi, síðast vegna veikinda hans, en hann þjáðist af sykursýki. Hann lést að lokum vegna þessara veikinda í Túnis árið 2000. Craxi, Bettino Hráolía. Hráolía eða jarðolía, stundum óformlega kölluð "svartagull", er þykkur dökkbrún- eða grænleitur vökvi sem finnst víða í efri jarðlögum jarðskorpunnar. Hún inniheldur flókna blöndu kolvetna, oft alkana, alkena, hringalkana eða arómatísk efnasambönd, en útlit, samsetning og hreinleiki er mjög misjafn. Almennt er litið svo á að hráolía myndist við það að rotnaðar plöntu- og dýraleifar grafist undir jarðlögum þar sem að þær verða fyrir miklum hita og þrýstingi í milljónir ára. Efnasamsetning hráolíu er mjög mismunandi eftir því hvar hún finnst. Hráolía er fyrst og fremst notuð sem eldsneyti og er sem slík ein mikilvægasta orkuuppspretta heimsins og gríðarlega mikilvæg í efnahagslegu tilliti. Hráolía er þó ekki notuð sem eldsneyti beint, heldur þarf að vinna hana frekar í olíuhreinsunarstöðvum en við það verða til mismunandi afurðir (eftir mismunandi suðupunktum) eins og gas (própan, etan, bútan), bensín, steinolía (þotueldsneyti), dísilolía, brennsluolía, vax og asfalt. Hráolía er einnig notuð sem hráefni í efnaiðnaði í framleiðslu á leysiefnum, áburði, skordýraeitri og plasti. Borg á Mýrum. Kirkjan á Borg á Mýrum. Borg á Mýrum er kirkjustaður rétt vestan Borgarness. Þar er minnismerki um Egil Skallagrímsson sem bjó þar á 10. öld. Borg á Mýrum hefur löngum verið stórbýli og kirkja hefur verið þar frá því að kristni var lögtekin eða frá árinu 1002. Núverandi kirkja var reist árið 1880 og þykir formfögur og stílhrein bygging. Snýr kirkjan á Borg reyndar í norður-suður, sem er þvert á flestar kirkjubyggingar í íslenskum sveitum. Altaristafla kirkjunnar er eftir Íslandsvininn, listamanninn og fornleifafræðinginn W.G. Collingwood og er hún máluð eftir Íslandsferð hans árið 1897. Þá er sjálf kirkjan ekki í kirkjugarðinum, heldur koma bæjarhús á milli kirkjunnar og garðsins. Sögur og sagnir. Samkvæmt Eglu var Borg á Mýrum landnámsjörð föður Egils, Skallagríms Kveld-Úlfssonar. Á Borg bjó síðan Egill Skalla-Grímsson og þá niðjar þeirra feðga fram eftir öldum. Á Borg hóf enn fremur búskap sinn Snorri Sturluson, sem trúlega var afkomandi Egils, og er getum að því leitt, að þar hafi hann setið við skrif Egils sögu. Í Laxdælu segir að Kjartan Ólafsson, sem var dóttursonur Egils, sé grafinn að Borg. Melkorka, ambátt Höskuldar Dala-Kollssonar var amma hans í föðurætt og Mýrkjartan, konungur Íra, var því langafi hans í föðurætt. Stokkseyri. Stokkseyri er þorp við suðurströnd Íslands. Stokkseyri tilheyrir Sveitarfélaginu Árborg og bjuggu þar 472 manns 1. desember 2005. Þorpið stendur á Þjórsárhrauninu og það myndar skerjagarðinn þar úti fyrir. Bryggjuhátíðin er árleg 3ja daga hátíð sem haldin er í bænum. Markverðir staðir eru Töfragarðurinn, Draugasetrið og veitingastaðurinn Fjöruborðið. Hásteinn Atlason skaut setstokkum sínum firir borð og rak þá hér á land og heitir því svo. Básendaflóðið. Básendaflóðið var mikið sjávarflóð, sem hlaust af einhverri kröppustu lægð sem farið hefur yfir Ísland á sögulegum tíma. Gekk það yfir aðfaranótt 9. janúar 1799 og olli miklum skemmdum á suðvesturlandi. Kaupstaðurinn að Básendum varð rústir einar og byggðist aldrei aftur. Kaupmaðurinn á Básendum, Hinrik Hansen, komst ásamt fólki sínu við illan leik að hjáleigunni Loddu í Stafneshverfi. Ein kona drukknaði í flóðinu. Kirkjur fuku á Hvalsnesi og Seltjarnarnesi. Bátar og skip skemmdust víða á svæðinu frá Eyrarbakka og vestur á Snæfellsnes. Niels Bohr. Niels Bohr (7. október 1885 – 18. nóvember 1962) var danskur eðlisfræðingur og nóbelsverðlaunahafi. Hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt varðandi skilning á uppbyggingu atómsins og skammtafræði. Hann fékk verðlaunin 1922. Niels leiðbeindi og vann með fjölda af helstu eðlisfræðingum síðustu aldar við stofnun sína í Kaupmannahöfn. Hann vann síðar meir við hlið breskra eðlisfræðinga við Manhattan verkefnið. Bohr giftist Margrethe Nørlund árið 1912, og eitt barn þeirra, Aage Bohr, varð mikilsvirtur eðlisfræðingur sem fékk einnig Nóbelsverðlaunin árið 1975. Bohr hefur verið sagður einn mikilvægast vísindamaður síðustu aldar. Æviágrip. Borh fæddist í Kaupmannahöfn árið 1885. Faðir hans, Christian Bohr, var prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Fjölskylda móður hans hafði efnast af bankastarfsemi. Bróðir hans var Harald Bohr, stærðfræðingur og knattspyrnumaður. Hann fór á Ólympíuleika með danska landsliðinu. Niels hafði einnig áhuga á knattspyrnu og spiluðu þeir bræðurnir báðir fyrir liðið Akademisk Boldklub, þar sem Niels var markmaður. Árið 1903 byrjaði Bohr í Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann nam upprunalega heimspeki ásamt stærðfræði. En hann varð því afhuga og sneri sér að námi í eðlisfræði. Hann fékk svo doktorsgráðu 1911. Árið 1910 hitti Bohr Margrethe Nørlund, en hann giftist henni tveimur árum síðar. Þau eignuðust sex börn. Árið 1922 fékk Bohr Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir rannsóknir sínar á sviði skammtafræða. En hann var frumherji á því sviði. Árið 1943 frétti Bohr að þýska lögreglan ætlaði að handtaka hann. Danska andspyrnuhreyfingin náði þó að koma í veg fyrir þetta með því að smygla honum til Svíþjóðar. Skömmu seinna var hann fluttur til Bretlands. Þar var hann kynntur fyrir leyniáætlun sem fól í sér byggingu kjarnorkusprengju (Manhattan áætlunin). Hann var svo fluttur til Bandaríkjanna þar sem höfuðstarfsemi áætlunarinnar átti sér stað. Bohr vann að Manhattan áætluninni í Bandaríkjunum þar sem hann var þekktur undir nafninu Nicholas Baker, af öryggisástæðum. Hlutverk hans var að vera einskonar ráðgjafi. Hann hafði áhyggjur af byggingu þess háttar (kjarnorku) vopna og tilvonandi vopnakapphlaups. Bohr var þeirrar skoðunar að að deila ætti rannsóknarniðurstöðum áætlunarinnar með vísindasamfélaginu öllu og þar með rússum. En Winston Churchill var á móti því að deila hugmyndum og þekkingu á þessu sviði með öðrum, þá sérstaklega Rússum. Eftir stríðið var Bohr fluttur til Kaupmannahafnar. Þar talaði hann fyrir friðsamlegri notkun kjarnorku. Hann lést svo af völdum hjartaáfalls árið 1962 Heimildir. Bohr, Niels Bohr, Niels Jean-Marc Bosman. Jean-Marc Bosman (fæddur 30. október 1964 í Liege) er belgískur fyrrum knattspyrnumaður sem er þekktastur fyrir að hafa barist fyrir atvinnuréttindum sínum með þeim afleiðingum að umhverfi knattspyrnunnar í Evrópu gjörbreyttist eftir að hinn svokallaði Bosman-dómur féll í desember 1995. Knattspyrnuferill. Bosman hóf ferilinn hjá Standard Liège og var seldur þaðan fyrir ígildi €100.000 til RFC Liège árið 1986. Hann gerði fjögurra ára samning við félagið en gekk illa hjá félaginu. Þegar samningnum lauk árið 1990 voru laun hans lækkuð í tæplega þriðjung af fyrri launum. Bosman undi því illa og gerði samning við Dunkirk í Frakklandi sem tryggði honum svipuð laun og hann hafði haft. Samningaviðræður milli knattspyrnufélaganna gengu illa og deilur urðu um upphæðina og greiðsludagsetninguna. Þegar að Dunkirk neitaði að fallast á kröfur RFC hækkaði belgíska félagið verðið á honum upp í ígildi €400,000, fjórum sinnum meira en hann hafði verið keyptur á. Bosman þótti að sér vegið, boðin lúsarlaun og gert erfitt um að yfirgefa félag sem vildi ekkert með hann hafa. Hann hóf því að undirbúa lögsókn gegn félaginu þar sem aðgerðir þess skertu atvinnufrelsi hans. Hann var látinn æfa einn sín liðs og sendur í lán til félaga í neðri deildunum í Frakklandi og Belgíu. Að lokum endaði hann hjá 4. deildar-liðinu Vise í Belgíu árið 1994. Þar lék hann þegar niðurstaða fékkst í dómsmálinu sem hafði nú náð til Mannréttindadómstóls Evrópu. Ferli hans lauk árið 1996, hann hafði ekki náð sér eftir álagið vegna dómsmálsins og óvildar sem hann skapaði sér. Heimild. Bosman, Jean-Marc Saladín. Saladín konungur Egypta, mynd úr handriti frá 15. öld Saladín (kúrdíska: "Selahadînê Eyûbî", arabíska: صلاح الدين يوسف ابن ايوب "Ṣalaḥ ad-Dīn Yūsuf ibn Ayyūb"; fæddur 1137 eða 1138, dáinn 1193) var kúrdískur hershöfðingi sem sameinaði Egyptaland, Sýrland, Palestínu og norðurhluta Mesópótamíu og stofnaði þar keisaradæmi. Her hans náði Jerúsalem af kristnum mönnum árið 1187. Saladín barðist lengi við krossfara frá Evrópu um land og heilögu borgina Jerúsalem og bar sigur úr býtum. Bosman-dómurinn. Bosman-dómurinn er gæluheiti yfir dómsmál sem belgíski knattspyrnumaðurinn Jean-Marc Bosman höfðaði gegn félagsliði sínu, knattspyrnusambandi Belgíu og UEFA og varðaði rétt hans til atvinnufrelsis. Samningi Bosman við félagslið hans, RFC Liège, var lokið en engu að síður var hann bundinn samþykki félagsins til að ganga til liðs við önnur félög. Þar sem hann var ekki lengur hluti af aðalliði félagsins og samningur hans var útrunninn skammtaði liðið honum laun eftir eigin geðþótta, þau reyndust vera tæplega þriðjungur fyrri launa hans. Þrátt fyrir að hafa náð samningi við annað félagslið í Frakklandi gat Bosman ekki hafið störf þar sökum andstöðu RFC Liège og reglna UEFA. Hann höfðaði því mál sem lagt var fyrir Mannréttindadómstól Evrópu árið 1993. Dómur féll loks 15. desember 1995 og kvað á um að óheimilt væri að takmarka atvinnufrelsi knattspyrnumanna þegar samningi þeirra væri lokið. Að auki kom fram í dómnum að ekki væri heimilt að takmarka atvinnuréttindi meðlima Evrópusambandsins með því að leyfa eingöngu að ákveðinn fjöldi útlendinga léki með félagsliðum. Þessar takmarkanir miðuðust því nú eingöngu við leikmenn utan evrópska efnahagssvæðisins. Whitney Houston. Whitney Houston (9. ágúst 1963 -11. febrúar 2012) var bandarísk popp, R&b, Soul og Gospel söngkona, lagahöfundur, plötuframleiðandi, kvikmyndaframleiðandi og leikkona. Hún var meðal vinsælustu og farsælustu söngvara níunda og tíunda áratugarins og hefur hlotið ótal verðlaun fyrir tónlist sína. Ævisaga. Fullu nafni hét hún Whitney Elizabeth Houston. Hún fæddist í Newark í New Jersey. Móðir hennar, Cissy Houston, frænka hennar, Dionne Warwick og guðmóðir hennar, Aretha Franklin, voru allar þekktar söngkonur og því ólst Whitney upp með tónlist stöðugt í kringum sig. Þegar hún var 11 ára hóf hún að syngja sem sólóisti í gospel-barnakór í New Hope Baptist kirkjunni í Newark.. Síðar hóf hún að fylgja móður sinni á tónleika og árið 1978 kom hún fram í laginu „Think It Over“ á plötu móður sinnar. Eftir það kom hún fram á plötum annarra tónlistarmanna, svo sem Chaka Khan, Jermaine Jackson og Lou Rawls. Síðar árið 1978 söng hún sem aðalsöngvari í lagi hljómsveitarinnar Michael Zager Band, „Life's a Party“. Snemma á níunda áratugnum varð hún fyrirsæta fyrir umboðskrifstofuna Whilhelmina og fór hún að birtast sem módel í ýmsum tímaritum. Árið 1982 kom hún svo fram í laginu „Memories“ með jazz-funk hljómsveitinni Material. Whitney skrifaði undir sinn fyrsta plötusamning árið 1983 eftir að Clive Davis, stjórnandi Arista hljómplötuútgefandans, heyrði hana syngja ásamt móður sinni á næturklúbbi. Árið 1984 náði hún vinsældum með laginu „Hold Me“, sem var dúett með Teddy Pendergrass. Lagið komst á bandaríska vinsældalista og vinsældir hennar hófu að vaxa hratt. Whitney kom fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttunum "Gimme a Break" og "Silver Spoons". Í febrúar 1985 kom fyrsta plata Whitney út. Platan var nefnd eftir söngkonunni, „Whitney Houston“. Lagið „You Give Good Love“ komst í þriðja sæti á vinsældalistum. Lögin „Saving All My Love For You“, „How Will I Know“ og „Greatest Love Of All“ náðu fyrsta sæti á vinsældalistum. Í mars 1986 náði platan fyrsta sæti á plötuvinsældalistum og alls seldust um 24 milljónir eintaka af plötunni, sem varð mest selda plata söngkonu í sögunni. Whitney hlaut Grammy verðlaun fyrir lagið „Saving All My Love For You“ og Emmy verðlaun fyrir leik sinn í sjónvarpsþætti. „Whitney“, önnur plata Whitney, kom út í júní 1987 og komst strax í efsta sæti vinsældalista í Bandaríkjunum og Bretlandi. Fjögur lög af plötunni („I Wanna Dance With Somebody“, „Didn't We Almost Have It All“, „So Emotional“ og „Where Do Broken Hearts Go“) komust í fyrsta sæti vinsældalista og þar með setti Whitney met í fjölda laga sem komust í fyrsta sæti vinsældalista í röð. Það met hefur ekki enn verið slegið. Platan „Whitney“ seldist í um 19 milljónum eintaka og Whitney hlaut önnur Grammy verðlaun, nú fyrir besta söng kvenpoppsöngvara fyrir lagið „I Wanna Dance With Somebody“. Hún hlaut einnig nokkur verðlaun á American Music Awards verðlaunahátíðinni. Þriðja plata Whitney kom út í nóvember 1990. Það var platan „I'm Your Baby Tonight“. Lögin „I'm Your Baby Tonight“ og „All The Man That I Need“ komust í efsta sæti vinsældalista og platan sjálf komst í þriðja sæti vinsældalista. Fleiri lög komust á topp 20 lista. Platan seldist í 13 milljónum eintaka. Í júlí 1992 giftist Whitney R&B söngvaranum Bobby Brown. Samband þeirra hefur reynst stormasamt. Sama ár lék Whitney í kvikmyndinni The Bodyguard ásamt Kevin Costner og tók upp sex lög sem komu fyrir í kvikmyndinni. Bæði kvikmyndin og kvikmyndartónlistin náðu töluverðum vinsældum og Whitney náði að stimpla sig inn sem bæði poppstjarna og kvikmyndastjarna. Whitney hlaut fjölmörg verðlaun árið 1993, þar á meðal þrjú Grammy verðlaun. Sama ár eignaðist Whitney einkadóttur sína, sem hlaut nafnið Bobbi Kristina Brown. Árið 1994 vann Whitney átta verðlaun á American Music Awards verðlaunahátíðinni. Sama ár varð hún fyrsti bandaríski tónlistarmaðurinn til að halda tónleika í Suður-Afríku eftir lok aðskilnaðarstefnunnar. Tónleikarnir voru haldnir til að safna fyrir barnahjálp í Suður-Afríku. Árið 1995 kom út platan „Waiting To Exhale“, sem inniheldur kvikmyndartónlist fyrir samnefnda kvikmynd. Á plötunni eru þrjú lög Whitney, þar á meðal „Exhale (Shoop Shoop)“, sem náði miklum vinsældum. Árið 1997 lék Whitney ásamt Denzel Washington í kvikmyndinni The Preacher's Wife. Sú kvikmynd fékk sæmilegar móttökur en varð þó ekki nærri því eins vinsæl og fyrri myndirnar. Tónlist kvikmyndarinnar var að mestu leyti frá Whitney, sem söng fjórtán ný gospel lög á plötu kvikmyndarinnar. Platan seldist illa miðað við aðrar plötur Whitney, en varð þó best selda gospel plata í manna minnum. Sama ár lék Whitney í nýrri útgáfu af ævintýrinu "Cinderella", sem kom út sem sjónvarpsmynd. Auk þess var hún framleiðandi myndarinnar. Myndin vann Emmy verðlaun og er best selda sjónvarpsmynd allra tíma. Whitney hafði nú eytt bróðurpartinum af tíunda áratugnum sem leikkona, en árið 1998 sneri hún sér aftur að tónlistinni og gaf út plötuna My Love Is Your Love. Platan átti upphaflega að vera safn af bestu lögum Whitney ásamt nokkrum nýjum lögum, en svo mikið af nýjum lögum voru tekin upp að ákveðið var að allt efni plötunnar yrði nýtt og safnplata gefin út sér. Lagið „When You Believe“, sem Whitney söng ásamt Mariah Carey og notað var í kvikmyndinni The Prince Of Egypt, náði töluverðum vinsældum og lögin „Heartbreak Hotel“ (sem Faith Evans og Kelly Price sungu einnig í, „It's Not Right, But It's Okay“ og „My Love Is Your Love“ urðu enn vinsælli og komust í fimmta sæti vinsældalista. Platan seldist í yfir 10 milljónum eintaka og Whitney hlaut enn á ný fjölmörg verðlaun. Safnplatan kom svo út í apríl 2000 og seldist vel. Samnefndur DVD diskur var gefinn út um leið. Hann inniheldur tónlistarmyndbönd Whitney frá árunum 1985-1999, upptökur af tónleikum og viðtöl frá sama tímabili. Um svipað leyti fannst maríjúana í fórum Whitney og Bobby Brown við eftirlit á flugvellinum á Hawaii. Þau flugu af vettvangi áður en lögreglan komst á staðinn, en síðar voru ákærur á hendur þeim felldar úr gildi. Augu fólks bárust þó í meiri mæli að meintri fíkniefnamisnotkun hjónanna og stormasömu hjónabandi þeirra. Í ágúst 2001 endurnýjaði Whitney plötusamning sinn hjá Arista Records. Talið er að samningurinn sé fyrir 5 nýjar plötur. Skömmu síðar gaf Whitney aftur út lagið „The Star Spangled Banner“, sem var upphaflega spilað á Super Bowl tíu árum áður. Smáskífan seldist gríðarlega vel. Allur hagnaður af útgáfunni rann til góðgerðamála í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Sama ár var Whitney falin framleiðsla á Disney-myndinni The Princess Diaries. Árið 2002 kom út platan Just Whitney.... Platan seldist vel en vakti þó ekki mjög mikla athygli. Whitney tók að sér framleiðslu á tveimur öðrum Disney-myndum, The Cheetah Girls og. Árið 2003 gaf Whitney svo út jólaplötuna, sem inniheldur mörg klassísk jólalög. Platan seldist ekkert sérstaklega vel ef mið er tekið af fyrri plötum Whitney, en þó nokkuð vel miðað við aðrar jólaplötur. Í mars 2004 fór Whitney í stutta fíkniefnameðferð, en eyddi svo tveimur mánuðum í meðferð ári síðar. Árið 2005 tók Whitney, ásamt eiginmanni sínum, þátt í sjónvarpsþáttunum Being Bobby Brown, sem sýnd er á Bravo sjónvarpsstöðinni og fjallar um daglegt líf á heimili þeirra hjónanna. Hún lést 11. febrúar 2012 í Beverly Hills í Kaliforníu. Tenglar. Houston, Whitney Dúett. Dúett (enska: "duet", ítalska: "duo") er tónverk sem flutt er af eða ætlað er tveimur tónlistarmönnum. Dúett er algengastur í söng og píanóleik. Fyrir önnur hljóðfæri er algengara að nota orðið "duo". Dúett er þegar tveir tónlistarmenn flytja tónverk saman, hvort sem þeir spila á sama hljóðfæri eða ekki. Dúett er einnig tónverk sem samið er fyrir tvo flytjendur. Orðið má líka nota um annað sem krefst tveggja þátttakenda. Íslensk sveitarfélög fyrr og síðar. Skipting Íslands í sveitarfélög og landshluta. Íslensk sveitarfélög fyrr og síðar í stafrófsröð. Starfandi sveitarfélög eru feitletruð (júní 2006). Líkindafræði. Líkindafræði er grein innan stærðfræðinnar sem fjallar um fyrirsjáanleika atburða og líkur á því að sá atburður eigi sér stað. Skilgreining á líkindum er vandasöm, en fræðimenn skipta sér að öllu jöfnu í tvær höfuðfylkingar hvað þetta varðar. Menn eru þó almennt á einu máli um aðalatriðin, þ.e., stærðfræðilegu aðferðirnar sem liggja til grundvallar líkindafræði. Saga líkindafræðinnar. Elstu þekktu rannsóknirnar á líkindafræði voru stundaðar af Pierre de Fermat og Blaise Pascal, en þeir rannsökuðu m.a. líkindi atburða í Baccara og öðrum spilavítaspilum. Árið 1933 skilgreindi Andrey Kolmogorov líkindafræðilegar frumsendur, sem eru í dag þekktar sem Kolmogorov-frumsendurnar eða Frumsendur líkindafræðinnar, en þær byggja á mengjafræði. Sigma-algebra. Í stærðfræði er σ-algebra (borið fram "sigma algebra") mengjaalgebra að viðbættu því skilyrði að sammengi teljanlega margra mengja í algebrunni eru einnig í algebrunni. Hugmyndin um σ-algebrur er notuð til að skilgreina mál og málrúm sem eru viðfangsefni málfræðinar sem er mikilvæg meðal annars vegna þess hún er undirstaða líkindafræðinar og grundvöllurinn að Lebesgue heildum sem eru mun almennari en hin klassísku Riemann heildi. Hugmyndin. Í tilraun til þess að skilgreina mælikvarða fyrir mengi, það er að segja úthluta hverju hlutmengi fasta tölu sem gefur til kynna stærð þess (lengd eða rúmmál til dæmis), komust menn að því að sumum mengjum var ekki hægt gefa stærð öðruvísi en að tapa einhverjum af þeim eiginleikum sem við viljum að mælikvarði hafi, svo sem að summa stærða tveggja sundurlægra mengja sé jöfn stærð sammengis þeirra, að eiginlegt hlutmengi mengis sé minna að stærð en mengið allt, við viljum að summa partanna sé jöfn heildinni o.s.frv. Dæmigert mengi hins vegar, eins og bilið [0,1] sem við hugsum okkur að hafi lengdina einn, inniheldur óendanlega marga punkta sem hafa lengdina núll, summa þeirra formula_1 er ekki skilgreind stærð hins vegar. Það eru líka jafnmargir punktar í bilunum [0,1] og [0,2] (höfum gagntæka vörpun formula_2 milli mengjana), en við segjum samt að bilið [0,2] sé tvöfalt lengra en [0,1]. Vandamálið er þó ekki bundið við óendanleikan því jafnvel þótt við skiptum menginu upp í endanlega marga parta getum við lent í vandræðum samanber Banach–Tarski þversögnina. Ef mál er skilgreint sem vörpun frá mengi yfir á útvíkkaða jákvæða rauntalnaásin er vel þekkt að ekkert mál á veldamengi rauntalna uppfyllir öll þau skilyrði sem við viljum að mælikvarði hafi (sjá Vitali mengi). Þetta leiddi til þess að menn takmörkuðu sig við ákveðna tegund mengja sem kölluð eru mælanleg mengi, mengi sem varðveita þá eiginleika sem við viljum að mál hafi. Hlutmengi σ-algebru varðveita þessa eiginleika. Formleg skilgreining. Það leiðir af "1" og "2" að X er stak í Σ. Af "2" og "3" leiðir að teljanlega mörg sniðmengi eru í Σ, samanber reglur De Morgans. Mismengi tveggja mengja úr Σ er einnig í Σ. Af þessu sjáum við að Σ er baugur (inniheldur tómamengið og er lokað með tilliti til sammengja og mismengja), sér í lagi σ-baugur því hann inniheldur sammengi teljanlegra margra mengja úr baugnum og að lokum algebra vegna þess Σ inniheldur sjálft "X". Σ er líka svið og þess vegna stundum kallað σ-svið. Eins og kom fram í inngangi eru σ-algebrur notaðar til að skilgreina málrúm, þrenndin ("X",Σ,μ) er málrúm, þar sem "X" er gefið mengi, Σ sigma algebra þess og μ er mál á Σ. Stök Σ eru sögð vera mælanleg. Þetta er ekki eina skilgreiningin sem hefur verið notuð í málfræði, upprunalega notaðist Kolmogorov við algebrur og Halmos notaði σ-bauga. σ-algebrur eru stundum táknuð með stórum stöfum af Fraktur leturgerð. Því gæti formula_4 verið notað til að tákna (X,Σ). Stundum er notast við „skrifaða“ stafi í stað Σ, til dæmis væri formula_5 notað í stað formula_6. Þetta getur verið gagnlegt til þess að forðast misskilning þar sem að Σ er gjarnan notað sem summuvirki. Dæmi. Fyrir gefið mengi "X" er minnsta sigma algebran formula_7 og stærsta sigma algebran veldamengið P("X"). Í líkindafræði er formula_8 látið tákna mengi allra hugsanlegra útkoma úr einhverri aðgerð, til dæmis teningakasti. Þá er safn allra atburða, þ.e. hlutmengja í formula_8 σ-algebra. Þ.e., formula_8 er atburður, ef formula_11 er atburður er formula_12 atburður, og ef formula_13 eru atburðir er formula_14 einnig atburður. Á Evklíðska rúminu formula_15 er til önnur mikilvæg σ-algebra: fjölskylda allra Lebesgue-mælanlegra mengja. Það inniheldur fleiri mengi en Borel algebran á formula_15 og er mjög mikilvægt í tegurfræði. Grímsneshreppur. Grímsneshreppur var hreppur í miðri Árnessýslu. Var hann frá Soginu austur að Brúará og náði upp á Lyngdalsheiði. Hvítá er sunnan við hreppinn. Árið 1905 var hreppnum skipt í tvennt og var nyrðri hlutinn kallaður Laugardalshreppur en sá syðri hélt nafninu óbreyttu. 1. júní 1998 sameinaðist Grímsneshreppur Grafningshreppi og mynduðu þeir saman Grímsnes- og Grafningshrepp. Grafningshreppur. Grafningshreppur var hreppur í miðri Árnessýslu. 1. júní 1998 sameinaðist hann Grímsneshreppi og mynduðu þeir saman Grímsnes- og Grafningshrepp. Líkindamál. Líkindamál er, í líkindafræði, jákvætt mál á mælanlegu rúmi sem almennt er notað til þess að mæla líkurnar á einhverjum atburður í líkindarúmi. Ef að P er líkindamál og E er einhver atburður þ.a. formula_1 er P(E) líkurnar á því að atburðurinn E eigi sér stað. Formleg skilgreining. Sé P vörpun úr σ-algebru formula_2 yfir á bilið formula_3 sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði, þá er P líkindamál. Kjalarneshreppur. Kjalarneshreppur var hreppur í Kjósarsýslu. Hann sameinaðist Reykjavíkurborg 7. júní 1998. Atburður (líkindafræði). Í líkindafræði er atburður mengi útkoma eða með öðrum orðum hlutmengi í útkomumenginu (Ω). Sundurlægir atburðir. Ef að sniðmengi tveggja atburða er tómt, þá eru atburðirnir kallaðir sundurlægir. Það er að segja, ef að "A" og "B" eru atburðir, þá eru þeir sundurlægir ef og aðeins ef formula_1. Dæmi. Klassískt dæmi er að varpa hlutkesti - sex hliða teningur, þar sem að líkurnar á hverri hlið teningsins er 1/6. Möguleikarnir eru formula_2. Þá eru hugsanlegir atburðir öll hugsanleg hlutmengi í formula_3, til dæmis, og. Í Lottó 5-38 eru 38 mögulegar tölur, og mengi allra hugsanlegra útkoma formula_4. Nú er einhver þátttakandi í lottóinu með röðina "4 - 12 - 19 - 30 - 31" á lottómiðanum sínum. Þá vonast hann eftir að atburðurinn formula_5 endurtaki sig fimm sinnum, því þá hefur hann unnið til fyrsta vinnings. Les joueurs de carte eftir Paul Cézanne (1892-95). Selvogshreppur. Selvogshreppur var hreppur í suðvesturhorni Árnessýslu. Hann sameinaðist Ölfushreppi 1. janúar 1989. Stæner. Stæner var íslensk hljómsveit sigraði músíktilraunir 1998. Hún var skammlíf og náði einungis að gefa frá sér lagið "Sú er sæt" á safnplötunni 1 (1998). Oddur Snær Magnússon spilaði á þeremín í þessu lagi en hann spilaði á þó nokkur einkennileg hljóðfæri með sveitinni. Magnús söngvari og gítarleikari sveitarinnar gekk síðar til liðs við hljómsveitina Úlpu. Oddur Snær Magnússon er sonur Magnúsar Kjartanssonar (1951) tónlistarmanns. Flugan. Flugan #1 var geisladiskur sem Error músík gaf út árið 1998. Rafn Jónsson (Rabbi) sá um upptökustjórn. Hergé. Hergé, dulnefni fyrir Georges Prosper Remi (fæddur 22. maí 1907 í Etterbeek, Brussel, Belgíu, lést 3. mars 1983) var belgískur myndasöguhöfundur. Hergé skapaði meðal annars teiknimyndaflokkinn um "Tinna", Afreksverk Palla og Togga og Ævintýri Alla, Siggu og Simbós. Hann var þekktur fyrir einkennandi stíl sem var kallaður "ligne claire" eða „hrein lína“, miklar bakgrunnsrannsóknir í síðari verkum sínum og nákvæmni í myndrænni framsetningu. Nafnið Hergé er komið af franska framburði „R.G.“ sem eru upphafsstafir fæðingar- og ættarnafns Hergé gagnstæðir (Georges Remi - R.G.). Hann fæddist í bænum Etterbeek nærri Brussel. Tólf ára gerðist hann skáti og fyrstu teikningar hans birtust í fréttabréfum og tímaritum skátahreyfingarinnar í Belgíu. Um tvítugt fékk hann starf við íhaldssama kaþólska dagblaðið "Le XXe Siècle" („20. öldin“) sem var undir ritstjórn fasistans Norbert Wallez. Wallez kom á fót sérblaði fyrir börn, "Le Petit Vingtième" („litla tuttugasta“) sem kom út með dagblaðinu á hverjum fimmtudegi. Hergé varð ritstjóri blaðsins og aðalmyndhöfundur. Þar byrjaði hann að þróa sína eigin myndasögu og fyrsta Tinnasagan, "Tinni í Sovétríkjunum", hóf ferill sinn í blaðinu í janúar 1929. Sögurnar um Tinna og Palla og Togga sem birtust í "Le Petit Vingtième" slógu í gegn í Belgíu. Fyrsta „alvarlega“ Tinnasagan, "Blái lótusinn", kom þar út á árunum 1934-35. Í þeirri sögu lagði Hergé meiri áherslu á bakgrunnsrannsóknir og flóknari atburðarás. Þegar Þjóðverjar lögðu Belgíu undir sig í síðari heimsstyrjöld var" Le XXe Siècle" lokað. Hergé hélt áfram að teikna fyrir "Le Soir" en þegar bandamenn náðu Belgíu á sitt vald var því blaði lokað. Hann var sjálfur ásakaður um samvinnu með hernámsliði Þjóðverja og fékk ekki vinnu eftir stríð. Næstu ár endurteiknaði hann nokkrar af eldri sögunum, meðal annars með aðstoð Edgar P. Jacobs. Árið 1946 tók útgefandinn Raymond Leblanc hann upp á sína arma og fjármagnaði stofnun vikuritsins "Tintin "þar sem Ævintýri Tinna héldu áfram að birtast. Eftir taugaáfall árið 1950 stofnaði hann, ásamt nokkrum samstarfsmönnum, Studios Hergé. Þar unnu allt að 50 manns þegar mest var, þar á meðal þekktir myndasöguhöfundar á borð við Jacques Martin, Bob de Moor og Roger Leloup. Þar vann Hergé til dauðadags. Hergé-safnið var opnað 2009 í Louvain-La-Neuve. Tengt efni. Hergé Þingvallahreppur. Þingvallahreppur var hreppur í uppsveitum Árnessýslu, kenndur við hinn forna þingstað alþingis. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist hann Laugardalshreppi og Biskupstungnahreppi og mynduðu þeir saman nýtt sveitarfélag sem fékk nafnið Bláskógabyggð. Biskupstungnahreppur. Biskupstungnahreppur var hreppur í uppsveitum Árnessýslu, kenndur við tungurnar tvær sem afmarkaðar eru af Hvítá, Tungufljóti og Brúará. Hreppurinn saman stendur af þessum tungum sem og hlíðinni svokölluðu en þessar tungur eru kenndar við biskupinn í Skálholti, sem er neðarlega í miðri sveitinni. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist hann Laugardalshreppi og Þingvallahreppi og mynduðu þeir saman nýtt sveitarfélag sem fékk nafnið Bláskógabyggð. Laugardalshreppur. Laugardalshreppur var hreppur í uppsveitum Árnessýslu, kenndur við Laugardal norðan Laugarvatns. Hreppurinn var stofnaður árið 1905 þegar Grímsneshreppi var skipt í tvennt. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist hann Þingvallahreppi og Biskupstungnahreppi og mynduðu þeir saman nýtt sveitarfélag sem fékk nafnið Bláskógabyggð. Andrej Kolmogorov. Andrejy Nikolaevich Kolmogorov (Андре́й Никола́евич Колмого́ров) (fæddur 25. apríl 1903 í Tambov, dáinn 20. október 1987 í Moskvu) var sovéskur stærðfræðingur sem gerði mikilvægar uppgötvanir í líkindafræði og grannfræði. Hann vann snemma á ferli sínum við rannsóknir á innsæisrökfræði og Fourier raðir. Hann rannsakaði einnig óróleika og klassíska aflfræði, og var einn upphafsmanna kenninga um tímaflækjur reiknirita. Kolmogorov sagði að „kenningar um líkindi sem stærðfræðilegt rannsóknarsvið geta verið og ættu að vera þróuð frá frumsemdum á sama hátt og rúmfræði og algebra.“ Seinna þróaði hann sjálfur þessar frumsendur, sem nú eru þekktar sem frumsendur líkindafræðinnar, eða einfaldlega frumsendur Kolmogorovs. Frumsendur líkindafræðinnar. Frumsendur líkindafræðinnar (einnig kallaðar frumsendur Kolmogorovs eftir Andrey Kolmogorov, sem lagði þær fram) eru þrjár frumsendur sem notaðar eru til grundvallar allri líkindafræði. Þeremín. Þeremín er rafmagnshljóðfæri sem fundið var upp snemma á 20. öldinni. Saga þeremínsins. Rússneskur vísindamaður að nafni Léon Theremin fann upp þeremínið árið 1919 þegar hann var að rannsaka útvörp og útvarpsbylgjur á mismunandi tíðnum. Þá hafði ekkert rafmagnshljóðfæri verið fundið upp og var því þeremínið það fyrsta í heiminum. Theremin ferðaðist um heiminn og kynnti hljóðfærið við góðar undirtektir. Árið 1928 fékk Theremin einkaleyfi á tækinu en þetta sama ár kom Frakkinn Maurice Martenot fram með rafhljóðfæri sem hafði hljómborð. En hljóðfærið Ondes Martenot, þrátt fyrir útlit ólíkt þeremíninu, hafði sambærilega hegðun og hljóm og byggði á sömu tækni. Virkni þeremíns. Þeremínið er eina hljóðfæri í heiminum sem byggist á því að hljóðfæraleikarinn snertir ekki hljóðfærið. Hljóð þeremínsins hefur oft verið líkt við háa kvennmannsrödd eða „draugahljóð“. Melódíur spilaðar á þeremín eru bundnar og flakkar hljóðfærið á milli nótna í stað þess að hafa skref eða högg (plokk) á nótum. Þeremín hefur tvö loftnet sem gefa frá sér rafsegulsvið. Með því að færa hendurnar inní rafsegulsviðið breytist hljóðið. Annað loftnetið (sem vísar oftast upp og lítur út eins og útvarpsloftnet) stjórnar tíðni hljóðsins meðan hitt (sem er oftast hringlaga og liggur lárétt svo vinstri hendin svífi fyrir ofan) stjórnar styrk hljóðsins. Sitt hvor hendin stjórnar sitt hvoru loftnetinu til að framkalla hljóð, því fjær sem hendurnar eru því dýpra og/eða veikara verður hljóðið. Þeremín í tónlist. Þeremín fékk mikla viðurkenningu um allan heim sem tækniundur en náði þó ekki mikilli fótfestu í tónlist til að byrja með. Einhverjir klassískir tónlistarmenn skrifuðu verk fyrir þeremín en hljóðfærið hlaut mestar vinsældir í bíómyndum til að framkalla draugahljóð. Þeremín var fyrst notað í dægurtónlist í "Good Vibrations" eftir Beach Boys árið 1956. Þar notar Brian Wilson tegund af þeremíni sérhannað af Robert Moog til að framkalla þeremínhljóðið. Einröddun. Einradda eða mónófónískt hljóðfæri er hljóðfæri sem getur aðeins spilað eina nótu í einu. Einradda eða mónófónísk tónlist er þegar verk hefur eina rödd eða fleiri sem spila/syngja allir sömu laglínuna. Kaflar inni í verkum geta verið mónófónískir, en það er afskaplega sjaldgæft að finna heil mónófónísk verk í tónlist yngri en 500 ára. Samanber samröddun (hómófónía) og fjölröddun (pólýfónía). Sjá áferð. Fjallkonan. Fyrsta teikningin af fjallkonunni eftir Johann Baptist Zwecker úr "Icelandic Legends" frá 1866. Fjallkonan er tákn eða kvengervingur Íslands. Kona kom fyrst fram sem kvengervingur landsins í kvæði Eggerts Ólafssonar, "Ofsjónir" 1752, en Fjallkonan var fyrst nefnd í kvæði Bjarna Thorarensen, "Eldgamla Ísafold", og hefur verið algengt tákn í íslenskum skáldskap síðan. Elsta prentaða mynd af Fjallkonunni birtist í enskri þýðingu íslenskra þjóðsagna, "Icelandic Legends" (1864-1866), og þekkt er mynd Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal á minningarspjaldi um þjóðhátíðina 1874. Kona í gervi Fjallkonunnar kom fyrst fram á íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt fjallkonuljóð við hátíðahöld 17. júní. Samnefnt tímarit var gefið út, fyrst hálfsmánaðarlega og síðar vikulega, í Reykjavík frá 1884 til 1911. Fjölnir (tímarit). Fjölnir var íslenskt tímarit sem kom út í Kaupmannahöfn á árunum 1835-1847, alls 9 sinnum. Stofnendur Fjölnis hafa verið nefndir Fjölnismenn en þeir voru Brynjólfur Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson, en á þeim tíma sem þeir stofnuðu Fjölni voru þeir allir við nám í Kaupmannahöfn. Þeir gáfu ritið út til 1838 allir en 5. árganginn, 1839, gaf Tómas Sæmundsson út einn og á eigin kostnað og var Fjölnir það árið prentaður í Viðeyjarprentsmiðju. Tómas var þá fluttur heim og orðinn prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Síðan féll útgáfan niður um tíma en á því árabili dvaldist Jónas á Íslandi við náttúrurannsóknir. 1843 kom Fjölnir svo út að nýju en nú hafði félag nokkurt, Fjölnisfélagið eða Nokkrir Íslendingar, tekið við útgáfunni og voru þeir Gísli Magnússon fyrst og síðan Halldór Kr. Friðriksson ábyrgðarmenn. Tímaritið kom ekki út 1846 en síðasta tölublaðið birtist 1847, helgað minningu Jónasar Hallgrímssonar sem látist hafði vorið áður. Fjölnir boðaði rómantísku stefnuna í íslenskum bókmenntum, mörg helstu kvæða Jónasar Hallgrímssonar birtust fyrst í Fjölni og hann var jafnframt vakningarrit í hreintungustefnu og þjóðfrelsis- og framfaramálum. Fjölnir hlaut misjafnar móttökur, m.a. vegna sérviskulegrar stafsetningar og þess að ráðamönnum þótti gorgeir vera fullmikill í þeim Fjölnismönnum, en tímaritið stuðlaði mjög að endurnýjun íslensks ritmáls og hafði langvinn áhrif á menningar- og stjórnmálalíf Íslendinga. Brynjólfur Pétursson. Brynjólfur Pétursson (15. apríl 1810 - 18. október 1851) var íslenskur lögfræðingur og embættismaður og einn Fjölnismanna. Brynjólfur var fæddur á Víðivöllum í Skagafirði og var einn hinna þekktu Víðivallabræðra, sona Péturs Péturssonar prófasts og seinni konu hans, Þóru Brynjólfsdóttur Halldórssonar biskups, en hinir voru þeir Jón Pétursson háyfirdómari og Pétur Pétursson biskup. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 1828 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1837. Hann hóf þá störf í Rentukammerinu (danska fjármálaráðuneytinu), var skrifstofustjóri íslensku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn frá lokum einveldis 1848 til dauðadags og fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848-1849. Á námsárum sínum var Brynjólfur einn Fjölnismanna ásamt þeim Jónasi Hallgrímssyni, Konráð Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni. Hann var í stjórn Hafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags og forseti þess 1848-1851. Hann dó í Danmörku rúmlega fertugur og var ókvæntur og barnlaus. Konráð Gíslason. Konráð Gíslason (3. júlí 1808 - 4. janúar 1891) var íslenskur málfræðingur og einn Fjölnismanna. Hann var fæddur á Löngumýri í Skagafirði og var elsta barn hjónanna Gísla Konráðssonar sagnaritara og konu hans, Efemíu Benediktsdóttur. Hann fékk einhverja tilsögn hjá séra Jóni Konráðssyni og dóttur hans en naut engrar annarrar skólagöngu, gætti sauða föður síns á vetrum og sat yfir fé á sumrum. Þegar hann var á átjánda ári fór hann suður til sjóróðra og vann um sumarið við grjóthleðslu á Álftanesi fyrir Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla, en Gísli faðir hans hafði látið hann prófa kunnáttu Konráðs tveimur árum áður. Brátt fór Hallgrímur að kalla vinnumanninn inn úr grjóthleðslunni og láta hann bera saman íslensk fornrit með sér og las síðan með honum latínu. Svo fór að Hallgrímur tók Konráð upp á sína arma, útvegaði honum ölmusu (skólastyrk) þegar hann hóf nám í Bessastaðaskóla, hafði hann í vinnu hjá sér á sumrin og með skólanum og styrkti hann á ýmsan hátt. Vorið 1831 lauk Konráð námi, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla um haustið og kom ekki aftur til Íslands. Hann hóf nám í lögfræði en fljótlega náði áhugi hans á norrænum fræðum og íslenskri tungu yfirhöndinni. Þeir Jónas Hallgrímsson, Brynjólfur Pétursson og Tómas Sæmundsson voru skólabræður hans úr Bessastaðaskóla og í Höfn og 1834 stofnuðu þeir tímaritið Fjölni og gáfu fyrsta tölublað þess út ári síðar. Konráð vildi laga íslenska stafsetningu að framburði og innleiddi nýja stafsetningu í öðrum árgangi Fjölnis en hugmyndir hans á því sviði náðu aldrei fótfestu og hann hvarf frá henni síðar. Áhrif hans á íslenskt ritmál urðu þó mikil. Konráð varð styrkþegi Árnasafns 1839 og vann næstu ár að orðabókargerð og rannsóknum á íslensku máli. Hann var brautryðjandi í íslenskri orðabókargerð, samdi m.a. Danska orðabók (1851) og átti mikinn þátt í íslensk-enskri orðabók sem kennd er við R. Cleasby og Guðbrand Vigfússon. Hann rannsakaði fornmálið og gerði fyrstur grein fyrir muninum á íslensku fornmáli og nútímamáli í ritinu „Um frumparta íslenzkrar túngu í fornöld“ (1846). Þá gaf Konráð út fornrit, m.a. Njálu (1875-1889) þar sem hann valdi saman texta úr ólíkum handritum eftir því sem honum þótti fara best. Árið 1846 var honum veitt kennarastaða við Lærða skólann sem hann hafnaði þó stuttu seinna, enda hafði hann þá fengið vilyrði um kennarastöðu í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Það embætti fékk hann 1848 og var gerður að prófessor 1853. Hann hélt þeirri stöðu til 1886. Dönsk unnusta Konráðs dó 1846, skömmu fyrir fyrirhugað brúðkaup þeirra, og tók hann lát hennar mjög nærri sér. Níu árum síðar giftist hann systur hennar og bjuggu þau saman þar til hún lést árið 1877. Hann arfleiddi Árnasafn að eignum sínum og handritum eftir sinn dag. Tómas Sæmundsson. Tómas Sæmundsson (7. júní 1807 - 17. maí 1841) var íslenskur prestur og einn Fjölnismanna. Tómas ferðaðist um Evrópu 1832 - 1834 og var prestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð frá 1835. Tómas samdi m.a. 5. árgang Fjölnis og Ferðasögu. Akraneshreppur. Akraneshreppur var hreppur á utanverðu Akranesi í Borgarfjarðarsýslu, sunnan og vestan Akrafjalls. Árið 1885 var hreppnum skipt í tvennt, í Innri- og Ytri-Akraneshrepp. Hinn síðarnefndi fékk kaupstaðarréttindi árið 1942 og varð að Akraneskaupstað. Ögurhreppur. Ögurhreppur (Ögursveit) var hreppur sunnan Ísafjarðardjúps í Norður-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn og kirkjustaðinn Ögur. Hinn 1. janúar 1995 sameinaðist Ögurhreppur Reykjarfjarðarhreppi og Súðavíkurhreppi undir merkjum hins síðastnefnda. Reykjarfjarðarhreppur. Reykjarfjarðarhreppur (áður Vatnsfjarðarsveit) var hreppur sunnan Ísafjarðardjúps í Norður-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Reykjarfjörð. Hinn 1. janúar 1995 sameinaðist Reykjarfjarðarhreppur Ögurhreppi og Súðavíkurhreppi undir merkjum hins síðastnefnda. Hrófbergshreppur. Hrófbergshreppur (áður Staðarhreppur eða Staðarsveit) var hreppur við Steingrímsfjörð í Strandasýslu, kenndur við bæinn Hrófberg. Árið 1942 var hreppnum skipt í tvennt og hét innri hlutinn nafninu áfram en sá ytri fékk nafnið Hólmavíkurhreppur. Hinn 1. janúar 1987 voru hrepparnir sameinaðir aftur, að þessu sinni undir nafni Hólmavíkurhrepps. Sléttuhreppur. Sléttuhreppur var hreppur á Hornströndum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Hann fór í eyði 1953 og var sameinaður Ísafjarðarkaupstað 19. desember 1995. Sléttuhreppur afmarkaðist af úthafinu að norðan og vestan. Að sunnan eru Ísafjarðardjúp og Jökulfirðir. Á landi liggja hreppsmörkin frá Lás, eftir nesinu milli Hesteyrarfjarðar og Veiðileysufjarðar að fjallgarði sem skilur að Jökulfirði og Hornstrandir og eftir þeim fjallgarði austur í Breiðaskarðahnúk. Þaðan liggja mörkin norður fyrir Látravík. Áður fyrr mun Látravík hafa verið hluti af Sléttuhreppi, en eftir að hún byggðist var hún talin innan Grunnavíkurhrepps Sardinía. Sardinía (sardiníska: "Sardigna", "Sardinna" eða "Sardinnia", ítalska: "Sardegna", forníslenska: "Sardínarey") er ein eyja Ítalíu. Höfuðstaður hennar er borgin Cagliari. Sardinía er næststærsta eyjan á Miðjarðahafinu. Eyrarhreppur. Eyrarhreppur var hreppur sunnan megin Ísafjarðardjúps í Norður-Ísafjarðarsýslu, kenndur við Eyri í Skutulsfirði. Eldra nafn á hreppnum var Skutulsfjarðarhreppur. 1866 fékk verslunarstaðurinn Ísafjörður kaupstaðarréttindi og var skilinn frá sveitarhreppnum. 3. október 1971 sameinuðust sveitarfélögin aftur, þá undir nafni Ísafjarðarkaupstaðar. Snæfjallahreppur. Snæfjallahreppur var hreppur á Snæfjallaströnd norðan megin Ísafjarðardjúps í Norður-Ísafjarðarsýslu. 1. janúar 1964 var Grunnavíkurhreppur sameinaður Snæfjallahreppi. 11. júní 1994 sameinaðist Snæfjallahreppur svo Ísafjarðarkaupstað. Grunnavíkurhreppur. Grunnavíkurhreppur var hreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu, kenndur við Grunnavík í Jökulfjörðum. Hreppurinn var sameinaður Snæfjallahreppi 1. janúar 1964. Flateyrarhreppur. Flateyrarhreppur var hreppur í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við Flateyri við Önundarfjörð. Hreppurinn varð til árið 1922 þegar Mosvallahreppi var skipt í tvennt. Hinn 1. júní 1996 sameinaðist Flateyrarhreppur 5 öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum: Ísafjarðarkaupstað, Mosvallahreppi, Mýrahreppi, Suðureyrarhreppi og Þingeyrarhreppi, undir nafninu "Ísafjarðarbær". Mosvallahreppur. Mosvallahreppur var hreppur í Önundarfirði í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Mosvelli. Árið 1922 var hreppnum skipt í tvennt, sunnan fjarðar hét áfram Mosvallahreppur, en norðan hans Flateyrarhreppur. Hinn 1. júní 1996 sameinuðust Mosvallahreppur og Flateyrarhreppur á ný auk fjögurra annarra sveitarfélaga: Ísafjarðarkaupstaðar, Mýrahrepps, Suðureyrarhrepps og Þingeyrarhrepps, undir nafninu "Ísafjarðarbær". Mýrahreppur (V-Ísafjarðarsýslu). Mýrahreppur var hreppur norðan megin Dýrafjarðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Mýrar. Hinn 1. júní 1996 sameinaðist Mýrahreppur 5 öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum: Flateyrarhreppi, Ísafjarðarkaupstað, Mosvallahreppi, Suðureyrarhreppi og Þingeyrarhreppi, undir nafninu "Ísafjarðarbær". Þessar jarðir eru taldar upp í Mýrahreppi í jarðamati 1858 Suðureyrarhreppur. Suðureyrarhreppur (áður Súgandafjarðarhreppur) var hreppur í Súgandafirði í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við þorpið Suðureyri. Hinn 1. júní 1996 sameinaðist Suðureyrarhreppur 5 öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum: Flateyrarhreppi, Ísafjarðarkaupstað, Mosvallahreppi, Mýrahreppi og Þingeyrarhreppi, undir nafninu "Ísafjarðarbær". Þingeyrarhreppur. Þingeyrarhreppur var hreppur sunnan megin Dýrafjarðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við hinn forna þingstað Þingeyri. 1. apríl 1990 sameinaðist Auðkúluhreppur Þingeyrarhreppi og hélt hreppurinn síðarnefnda nafninu. Hinn 1. júní 1996 sameinaðist Þingeyrarhreppur 5 öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum: Flateyrarhreppi, Ísafjarðarkaupstað, Mosvallahreppi, Mýrahreppi og Suðureyrarhreppi, undir nafninu "Ísafjarðarbær". Dauðarefsing. Dauðarefsing felst í því að taka af lífi dæmda sakamenn í refsingarskyni. Aftökur á brotamönnum og pólitískum andstæðingum hafa verið hluti af nánast öllum samfélögum í gegnum tíðina en hafa nú verið afnumdar í mörgum löndum. Flest ríki í Evrópu, Ameríku og Eyjaálfu hafa afnumið dauðarefsingu úr lögum sínum, annaðhvort algjörlega eða fyrir glæpi sem ekki eru framdir við sérstakar aðstæður eins og t.d. á stríðstímum eða þá að þau hafa ekki tekið neinn af lífi í lengri tíma. Stærsta undantekningin eru Bandaríkin. Í Asíu halda flest ríki í dauðarefsingu og í Afríku eru ríkin álíka mörg sem að nota dauðarefsingu og þau sem gera það ekki. Þar sem að dauðarefsing er notuð er það vegna þeirra glæpa sem metnir eru alvarlegastir í hverju samfélagi. Oft er það aðeins morð en í mörgum ríkjum einnig fyrir glæpi eins og: landráð, nauðganir, fíkniefnaglæpi, þjófnaði, spillingu, hryðjuverk, sjórán og íkveikjur. Ýmis hegðun tengd trúarbrögðum og kynlífi varðar ekki lengur við dauðarefsingu víðast hvar, þar má nefna galdra, villutrú, trúleysi, samkynhneigð og hórdóm. Í herjum eru oft sérstakir herdómstólar sem að dæma menn til dauða fyrir heigulshátt, liðhlaup, óhlýðni eða uppreisnir. Þær aðferðir sem beitt hefur verið við fullnustu dauðarefsingar eru fjölmargar og takamarkast aðeins af hugmyndaauðgi þeirra sem í hlut eiga en einna algengast er að fólk sé skotið, hengt, hálshöggvið eða líflátið með eitri. Dauðarefsing á Íslandi. Sá einstaklingur sem síðastur var dæmdur til dauða á Íslandi var Júlíana Silva Jónsdóttir sem bjó á Brekkustíg 14 í Reykjavík. Hún myrti í nóvember 1913 bróður sinn með eitri og var dæmd til dauða vorið eftir. Á endanum var dóminum breytt í langa fangelsisvist. Auðkúluhreppur. Auðkúluhreppur var hreppur norðan Arnarfjarðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Auðkúlu. Hreppurinn var sameinaður Þingeyrarhreppi 1. apríl 1990 og hefur verið hluti af Ísafjarðarbæ frá 1996. Bíldudalshreppur. Bíldudalshreppur var hreppur við sunnanverðan Arnarfjörð í Vestur-Barðastrandarsýslu, kenndur við þorpið Bíldudal. Hreppurinn var stofnaður 1. júlí 1987 við sameiningu Ketildalahrepps og Suðurfjarðahrepps. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Bíldudalshreppur svo Barðastrandarhreppi, Rauðasandshreppi og Patrekshreppi undir nafninu "Vesturbyggð". Ketildalahreppur. Ketildalahreppur (einnig kallaður Dalahreppur) var hreppur í Vestur-Barðastrandarsýslu, sunnan megin Arnarfjarðar. Hinn 1. júlí 1987 sameinaðist hann Suðurfjarðahreppi undir nafninu "Bíldudalshreppur". Suðurfjarðahreppur. Suðurfjarðahreppur var hreppur í Vestur-Barðastrandarsýslu, kenndur við Suðurfirði inn af Arnarfirði. Hinn 1. júlí 1987 sameinaðist hann Ketildalahreppi undir nafninu "Bíldudalshreppur". Ouagadougou. Place des Nations Unies torgið í miðborg Ouagadougou. Ouagadougou (borið fram u.þ.b. "úagadúgú") er höfuðborg Búrkína Fasó. Ouagadougou er stærsta borg landsins, með um milljón íbúa. Nafn borgarinnar er oft stytt í Ouaga. Borgin er staðsett nokkurn veginn í miðju landsins. Borginni er skipt í 30 hluta. Helstu svæði innan borgarinnar eru Gounghin, Kamsaoghin, Koulouba, Moemmin, Niogsin, Paspanga, Peuloghin og Tiendpalogo. Frá borginni er hægt að komast með lest til borgarinnar Kaya í norðurhluta landsins og Abidjan á Fílabeinsströndinni. Einnig liggur hraðbraut til Níamey í Níger. Háskóli Ouagadougou var fyrsti háskóli landsins. Hin árlega kvikmyndahátíð FESPACO African fer fram í borginni annað hvert ár. Einn af stærstu mörkuðum Vestur-Afríku, Ouagadougou Grand Market, er einnig í borginni. Patrekshreppur. Patrekshreppur var hreppur norðan megin Patreksfjarðar í Vestur-Barðastrandarsýslu. Hreppurinn var stofnaður árið 1907 þegar Rauðasandshreppi var skipt í tvennt. Hinn 11. júní 1994 sameinuðust hrepparnir tveir á ný ásamt Bíldudalshreppi og Barðastrandarhreppi undir nafninu "Vesturbyggð". Rauðasandshreppur. Rauðasandshreppur var vestasti hreppur Vestur-Barðastrandarsýslu. Árið 1907 var hreppnum skipt í tvennt við það að nyrsti hlutinn varð að Patrekshreppi. Hinn 11. júní 1994 sameinuðust hrepparnir tveir á ný ásamt Bíldudalshreppi og Barðastrandarhreppi undir nafninu "Vesturbyggð". Barðastrandarhreppur. Barðastrandarhreppur var hreppur suðaustan til í Vestur-Barðastrandarsýslu. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist hreppurinn Bíldudalshreppi, Patrekshreppi og Rauðasandshreppi undir nafninu "Vesturbyggð". Sjá einnig Barðaströnd Harry Potter og viskusteinninn. Harry Potter og viskusteinninn er fyrsta bókin um galdrastrákinn Harry Potter eftir J.K. Rowling. Bókin kom út á íslensku árið 1999 en heitir á frummálinu "Harry Potter and the Philosopher's Stone". Bókaútgáfan Bjartur gaf bókina út á Íslandi. Kvikmynd eftir bókinni var frumsýnd árið 2001. Daniel Radcliffe, Rupert Grint og Emma Watson fóru með aðalhlutverkin. Sagan fjallar um galdrastrákin Harry Potter sem býr hjá frændum sínum og frænku. Þegar Harry varð ellefu ára kom galdrakarlinn Hagrid og fór með hann til Hogwart, skóla galdra og seiða. Þar kemst Harry um ævi sína. Hann fréttir um Voldemort, öflugan, illan galdramann sem drap foreldra Harrys. Harry kemst á sporið um viskusteinin, steinn sem gefur manni eilíft líf. Hann heldur að Voldemort ætlai að stela honum og fer að leita að honum sjálfur. Þegar hann finnur steinin er Voldemort þegar þar. Voldemort yfirbugar Harry en Dumbledore, skólastjóri Hogwart, bjargar honum á síðustu stundu. Bókin endar á því að Harry fer aftur til ættingja sinna í sumarfrí. Gerð bókarinnar. Árið 1990 langaði J. K. Rowling, höfund bókarinnar, að flytja inn með kærasta sínum í íbúð í Manchester: „eina helgi eftir að ég var búin að vera leita að íbúð, tók ég lest aftur til London alein og allt í einu datt mér hugmyndina á bakvið Harry Potter... Mjór, lítill, svarthærður strákur og mér fannst hann alltaf verða meiri og meiri galdramaður... Ég byrjaði að skrifa 'Viskusteinin' það kvöld. Reyndar eru fyrstu blaðsíðurnar sem ég skrifaði ekki nálægt því lík því sem það varð að.“ Þegar móðir Rowling lést var hún sorgmædd og færði þannig eigin sárindi yfir á munaðarleysingjann Harry. Eftir fæðingu fyrsta barns hennar, Jessicu, sendi hún fyrstu kaflana sína, fann umboðsmann í annarri tilraun, og árið 1996 fékk hún söguna samþykkta af Bloomsbury, sem gaf bókina út árið eftir. Byrjunin. Bókinn byrjar á því að Galdraheimurinn er að halda upp á það að Voldemort sé fallinn, sem er vondur, kraftmikill galdramaður. Eftir að hann drap Lily Potter og James Potter, reynir Voldemort að myrða eins árs son þeirra, Harry Potter. Bölvunin snerist gegn Voldemort og eyðilagði líkama hans. Þá skildi hún eftir eldingarlaga ör á enninu á Harry. Harry er settur í fóstur hjá ættingjum sem eru muggar (ekki galdramenn), Dursley-fjölskyldunni. Næst hefst frásögnin rétt fyrir 11 ára afmæli Harrys. Þá hafði Dursley-fjölskyldan leynt honum því að hann væri galdramaður. Rubeus Hagrid, starfsmaður Hogwartskóla, færir honum bréf um að honum hafi veitt skólavist í skólanum. Harry fréttir það hjá Hagrid að hann sé galdramaður og byrjar í skólanum mánuði síðar. Í Hogwarthraðlestinni hittir hann verðandi vini sína í fyrsta skipti, þau Ron Weasley og Hermione Granger. Koma til Hogwart. Nýnemar í Hogwart þurfa að láta flokka sig við komuna en flokkunarhatturinn sér um það. Harry, Ron og Hermione fara öll í Gryffindor-heimavistina á meðan aðal fjendur þeirra, Draco Malfoy, Crabbe og Goyle fara í Slytherin. Jafnframt kemst Harry í Quidditch-lið heimavistar sinnar, og verður þar með yngsti leitari í meira en öld. Stuttu eftir að skólinn hefst uppgötvast að brotist hefur verið inn í Gringott, galdrabankann. Einnig uppgötvar þríeykið í Gryffindor að hinn þríhöfða hundur Hnoðri (e. "Fluffy") gætir hlera á hinni forboðnu þriðju hæð. Grunsemdir. Kústurinn hans Harrys var undir álögum í fyrsta Quidditch-leiknum, með þeim afleiðingum að hann hentist næstum af. Hermione trúir því að Severus Snape, sem kennir töfra- og seiðdrykkjagerð, hafi sett álög á kústinn og til að reyna beina athygli hans frá Harry og kveikti í skikkjunni hans, og það virkaði þannig að Harry náði gullnu eldingunni og vann leikinn fyrir Gryffindor. Á jólunum fær Harry huliðsskikkju föður sína frá ónefndum aðila. Hann uppgötvar líka spegil hinstu þráar, skrýtinn spegil sem sýnir ekki bara Harry, heldur Harry umkringdan allri fjölskyldu sinni. Stuttu eftir það fær Harry að vita að Nicolas Flamel er maðurinn sem bjó til viskusteininn, stein sem gefur eilíft líf. Harry sér Snape yfirheyra Quirrell prófessor, kennara í vörnum gegn myrku öflunum, hvernig á að komast fram hjá Hnoðra, sem samfærir Harry, Ron og Hermione að Snape sé að reyna stela steininum til að Voldemort komist aftur til valda. Þríeykið kemst að því að Hagrid „ættleiddi“ drekaegg, og stuttu seinna klaktist úr því drekaunginn Norbert. Úr því að ræktun þessarar drekategundar er bönnuð sannfæra krakkarnir Hagrid um að láta Charlie, eldri bróður Ron sem er drekahirðir, um haldið á Norbert og þannig getur hann umgengist aðra dreka. Harry og Hermione er refsað fyrir að vera úti með eftirsetu hjá Hagrid í forboðna skóginum. Harry sér hettuklædda veru drekka blóð úr særðum einhyrningi. Kentárinn Flórens segir Harry að þessi vera sé í rauninni Voldemort. Viskusteinninn. Hagrid segir Harry, Ron og Hermione hvernig á að komast framhjá Hnoðra og þau flýta sér að segja Dumbledore hvað þau vita, en hann er ekki við. Þau voru alveg viss um að Dumbledore hafi verið lokkaður út úr skólanum á meðan til að Snape gæti stolið steininum. Þríeykið ákveður að vera á undan að ná í steininn. Þau þurfa að komast framhjá mörgum galdra-hindrunum, t.d fljúgandi lyklum, risa-galdratafli og fleira. Harry er eini sem heldur áfram og finnur þar Quirrell prófessor, en ekki Snape, sem er á eftir steininum. Síðasta hindrunin er Draumaspegillinn. Quirrell neyðir Harry til að finna steininn en hann dettur í vasa hans. Voldemort, sem hafði vald á Quirrell, sýndi sig þá aftan í hnakka hans og reynir að ráðast á Harry sem sleppur. Dumbledore birtist í tæka tíð, Voldemort flýr en Quirrell deyr. Lok bókar. Dumbledore staðfestir fyrir Harry að móðir hans dó þegar hún reyndi að vernda Harry fyrir Voldemort, þegar hann var lítill. Ást hennar á Harry var svo sterk og hrein að hún gerði gamla galdravörn fyrir Harry á móti bölvunum Voldemort. Dumbledore útskýrir líka að viskusteinninn var eyðilagður til þess að forða framtíðarvandamálum eins og þessum. Hann segir Harry að aðeins þeir sem vildu steininn til að verja hann en ekki til að nota hann mundu ná honum úr speglinum, það er ástæðan fyrir að Harry náði steininum. Á endanum á fyrsta ári Harrys, reynist Harry hetja og Dumbledore gefur honum fá „síðustu-mínútu-stig“ og Ron, Hermione og Neville, svo að Gryffindor vinnur heimavistarbikarinn, og þar með endar sigurganga Slytherin sem hafði unnið síðustu 6 árin Tilvísanir. Viskusteinninn Inhuman Rampage. Hulstur "Inhuman Rampage" (evrópsk útgáfa) Hulstur "Inhuman Rampage" (bandarísk útgáfa) "Inhuman Rampage" er þriðja og nýjasta plata hljómsveitarinnar DragonForce. Hún var gefin út þann 6. janúar 2006. Netleki. Platan lak út á netið einhvern tíma snemma októbers 2005, en að sögn Hermans Li, megingítarleikara DragonForce, voru lögin sem láku út „unmixed [and] unmastered“. Sýnishorn. Fyrsta lag plötunnar, "Through the Fire and the Flames", var klárað í nóvember 2005, og hægt er að hlaða því niður í gegnum. Föðurlandssvikari. Föðurlandssvikari er sá sem svíkur föðurland sitt með annarra landa eða sína eigin persónulegu hagsmuni í húfi. Reykholt (Árnessýslu). Reykholt er þéttbýlisstaður í Bláskógabyggð í Árnessýslu. Þar er jarðhitasvæði og gufugoshver. Í Reykholti er Grunnskóli Bláskógabyggðar og félagsheimilið Aratunga. Í Reykholti bjuggu 184 íbúar 1. desember 2005. Jörundur Hilmarsson. "Studies in Tocharian Phonology, Morphology and Etymology with special emphasis on the o-vocalism" "Materials for a Tocharian Historical and Etymological Dictionary" Laugarás (Árnessýsla). Laugarás er þéttbýlisstaður í Bláskógabyggð í Árnessýslu. Jarðhiti svæðisins er nýttur til garðyrkju og grænmetisræktar þar. Brú yfir Hvítá, Iðubrúin, er við Laugarás. Íbúar Laugaráss voru 123 1. desember 2005. Iðubrú. Iðubrú kallast í daglegu tali brú yfir Hvítá í Árnessýslu sem tengir saman bæinn Iðu og þéttbýlið Laugarás. Brúin er einbreið og kennd við bæinn Iðu sem er á suður-bakka árinnar. Brúin var opnuð fyrir umferð árið 1958 og kostaði allt í allt 26 miljónir. Tamningamaður. Tamningamaður er einhver sem hefur að atvinnu að temja eða kenna dýrum, oftast hrossum, að vinna með manninum. Lágmarkspar. Lágmarkspar er í hljóðkerfisfræði pör orða eða orðasambanda í tilteknu tungumáli sem eru aðeins aðgreinanleg með einu fónemi, tónemi eða krónemi og hafa aðgreinda merkingu. Þau eru notuð til þess að sýna að tvö fón standa í aðgreindum fónemum í tungumálinu. Dæmi um lágmarkspör í íslensku eru „hjól“ og „kjól“ eða „hestur“ og „bestur“. Kirkja hins sanna Jesú. Kirkja hins sanna Jesú (真耶穌教會) er sjálfstæð kirkjudeild stofnuð í Peking í Kína árið 1917. Meðlimir kirkjunnar eru um 1,5 milljónir í öllum heimsálfum. Kirkjan er kínverskt afbrigði af Hvítasunnuhreyfingunni innan kristinnar trúar, sem kom fram á byrjun 20. aldar. Árið 1967 var Alþjóðaráð Kirkju hins sanna Jesú stofnað í Los Angeles í Bandaríkjunum. Núverandi formaður alþjóðaráðsins er Yung-Ji Lin predikari. Forseti Úganda. Forseti Úganda er þjóðhöfðingi landsins. Í fyrstu var titillinn bara formsatriði og valdið var í höndum forsætisráðherrans. Fyrsti forsetinn var þáverandi konungur Búganda. Árið 1966 setti Milton Obote forsætisráðherra af svokallaða Forsetanefnd og tók við forsetaembættinu sjálfur, ásamt því að vera forsætisráðherra landsins. Upp frá þessu varð forsetaembættið valdamesta embætti landsins. Brian Wilson. Brian Wilson (fæddur 20. júní 1942 í Hawthorne í Kaliforníu) er bandarískur tónlistarmaður og er hann best þekktur fyrir að vera í hljómsveitinni The Beach Boys. Wilson, Brian Oh, Inverted World. "Oh, Inverted World" er fyrsta breiðskífa The Shins, þ.e. í þeirra nafni. Á plötunni eru nöfn á borð við „Caring is Creepy“ og „New Slang“ sem bæði komu fram í myndinni "Garden State". Lagalisti. Öll lögin eru skrifuð af James Mercer. Chutes Too Narrow. "Chutes Too Narrow" er önnur breiðskífa The Shins. Eins og á Oh, Inverted World var það James Mercer sem samdi öll lögin. When You Land Here It's Time to Return. "When You Land Here It's Time to Return" er fyrsta og eina breiðskífa Flake Music, sem nú eru þekktir sem The Shins. Platan telst sem ein af The Shins plötunum. Hrungnir. Hrungnir var einn af konungum jötna í norrænni goðafræði. Ríki hans í Jötunheimi voru Grjóttúnagarðar. Eins og margir aðrir jötnar féll hann fyrir Ása-Þór. The Magic Numbers. The Magic Numbers er bresk rokkhljómsveit frá Ealing, hverfi nokkru í London. Tvenn systkinapör eru í hljómsveitinni, systkinin Romeo og Michele Stodart og systkinin Sean og Angela Gannon. Árið 2005 hitaði hljómsveitin meðal annars upp fyrir Brian Wilson, The Doves og Athlete. Á Glastonbury-hátíðinni spilaði hún síðan við miklar vinsældir. 10. ágúst 2005 átti hljómsveitin að koma fram í sjónvarpsþættinum "Top of the Pops" en þegar þáttastjórnandinn Richard Bacon lét orð falla um líkamslögun hljómsveitarmeðlima, ákváðu þau að koma ekki fram í þættinum. Angurboða. Angurboða var gýgi í Jötunheimi í norrænni goðafræði. Hún var frilla Loka, en með henni gat hann sín ferlegustu afkvæmi; Fenrisúlf, Miðgarðsorm og Hel. Önnur nöfn Angurboðu voru Björt og Gullveig og bera þau það með sér að hún hafi verið fríð sýnum. Var hún því flagð undir fögru skinni. Einnig er sagt að hún hafi gengið undir nafninu Aurboða og hún hafi því verið móðir Gerðar hinnar fögru, sem gerði Frey frávita af ást. Gro Harlem Brundtland. Gro Harlem Brundtland (fædd 20. apríl 1939) er norskur stjórnmálamaður og leiðtogi. Gro fæddist í Bærum og gekk til liðs við Verkamannaflokkinn aðeins 7 ára gömul. Hún útskrifaðist sem læknir (cand. med.) frá Háskólanum í Osló 1963 og fékk Masters-gráðu í lýðheilsu frá Harvard háskóla árið 1965. Stjórnmálaferill. Gro var umhverfisráðherra Noregs á árunum 1974 til '79 en í febrúar 1981 fram í október tók hún sér sæti í forsætisráðherrastólnum, fyrst kvenna. Ríkisstjórn hennar vakti líka mikla athygli, því af 18 ráðherrum ríkisstjórnarinnar voru 8 konur - mun meira en áður hafði tíðkast. Hún var einnig forsætisráðherra á árunum 1986 til 1989 og 1990 til 1996. Hún hætti sem formaður norska verkamannaflokksins árið 1992. Frá maí 1998 til júlí 2003 var Gro framkvæmdarstjóri alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Brundtland, Gro Harlem Brundtland, Gro Harlem Marie Curie. Marie Curie-Skłodowska (á pólsku: Maria Curie-Skłodowska) (7. nóvember 1867 – 4. júlí 1934) var pólskur eðlisfræðingur gift franska eðlisfræðingnum Pierre Curie sem fæddist þann 15. maí 1859. Þau eignuðust tvær dætur þær Iréne og Evu Curie og bjuggu þau að mestu í París. Hún lærði við Sorbonne háskólann í Frakklandi en gerði það ekki fyrr en á þrítugsaldrinum því hún hafði átt erfiða æsku og þurfti alla tíð að vinna fyrir sér og námi sínu. Curie hjónin voru brautryðjendur á sviði rannsókna á geislavirkni eftir tilraunum Henry Becquerel og hlutu þau Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir það árið 1903 ásamt Becquerel. Þá var hún fyrsta konan sem hlotið hafði Nóbelsverðlaun í eðlisfræði. Seinna fundu þau hjónin geislavirku frumefnin radíum og pólóníum en fyrir það hlaut hún Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1911, þá ein því Pierre var látinn. Hún var einnig fyrsta konan sem kenndi við Sorbonne háskólann. Eva, yngri dóttir Marie, ritaði ævisögu móður sinnar. Sagan var þýdd á íslensku af Kristínu Ólafsdóttur lækni, heitir Frú Curie, og kom út hjá Ísafoldarprentsmiðju árið 1939. Sagan er góð heimild um hjónin Marie og Pierre sem voru einstök í sinni röð, vísindamenn í fremstu röð. Einnig má lesa stuttar greinar um Marie Curie og vísindarannsóknir hennar á vefnum nobelprize.org. Marie ritaði sjálf ágrip af sögu Pierre, eiginmanns síns, sem hún missti snemma þegar hann varð undir vagni á götum Parísar. Æska. Marie Curie fæddist þann 7. nóvember 1867 í Póllandi og fékk nafnið Manya Sklodovska. Faðir hennar, Vladyslav Sklodovski, missti vinnuna sem eðlisfræðikennari í Varsjá þegar hún var ung og móðir hennar dó úr berklum þegar Marie var aðeins tíu ára gömul. Hún var mikill föðurlandsvinur og alin upp í mikilli föðurlandsást, enda var Pólland undir Rússlandi í þá daga. Marie var mikið undrabarn og strax fjögurra ára, þegar Bronya eldri systir hennar var að læra að lesa gat Marie lesið nánast reiprennandi. Foreldrum hennar fannst hún of bráðþroska þar sem þau voru uppeldisfræðingar og létu hana frekar leika sér heldur en að leyfa henni að lesa bækur. Sorbonne-háskólinn. Marie og Bronyu langaði til Parísar að læra við Sorbonne-háskólann, en faðir þeirra hafði ekki efni á því. Þá fékk Marie þá snilldarhugmynd, að þær skyldu hjálpast að við námið og önnur myndi vinna fyrir námi systur sinnar og svo öfugt þegar hin kæmi úr námi. Þær ákváðu að gera þetta og byrjaði Bronya að læra en Marie fór í vist, fyrst í Szczuki og svo í Varsjá sem kennslukona og barnfóstraSorbonne háskólinn. Fljótlega kynntist hún manninum Kasmir, sem var sonur húsráðanda hennar. Þau urðu mjög ástfangin og ýmislegt gekk á milli þeirra. Lítið varð hins vegar úr ást þessari þar sem móðir hans var mjög ósátt við þetta samband því hann var háskólastúdent en hún bara barnfóstra. Marie tók sambandslitin mjög inn á sig og hugleiddi að fremja sjálfsvíg. Skrýtið þótti að þær Bronya áttu báðar mann sem hét Kasmir en um þetta leyti var Bronya að fara að gifta sig Kasmir Dluski, sem var ungur læknir og hafði verið skólabróðir hennar. Þegar hún hætti sem kennslukona flutti hún til systur sinnar og mágs í París og bjó hjá þeim til að byrja með. Hún ritaði sig inn í skólann sem Marie Sklodovksa því enginn í Frakklandi gat borið fram nafn hennar Manya. Hún ætlaði að helga sig náminu, sem og hún gerði, en erfitt var orðið að einbeita sér vegna mikils gestagangs hjá þeim hjónum, Bronyu og Kasmirs. Einnig var mjög langt og dýrt að ferðast í skólann þaðan svo hún flytur þá ein í herbergi nær Sorbonne háskólanum. Pierre. Marie kynntist manni sínum, Pierre Curie, í gegnum sameiginlegan vin þeirra þegar hún var í leit að stærra vinnurými fyrir verkefni sem hún var að vinna að í námi sínu. Hann var aðeins eldri en hún, fæddur 15. maí 1859. Pierre fær áhuga á þessari bráðgáfuðu pólsku konu sem hefur gaman af því að spjalla um eðlisfræði alveg eins og hann. Þau kynnast vel en Marie hikaði allengi við að hleypa honum að sér, því hún hafði brennt sig á ástinni á Kasmir, fyrrverandi elskhuga sínum. Pierre fær alla í lið með sér, meira að segja Bronyu, til að telja Marie á að giftast sér. Hann reyndi allt, sagðist meira að segja gefa eðlisfræðina upp á bátinn og flytja til Póllands ef hún vildi, bara til að vera með henni. Hún var mjög stíf en loksins kom að því að hún játaðist honum. Hún varð honum mjög ástrík og góð eiginkona og ól honum tvær dætur, þær Irene og Evu Curie. Þau verða svo ástfangin að Marie segir Pierre að hún geti ekki lifað án hans. Hann segir henni þá að hún verði að lofa að halda áfram að lifa fyrir vísindin ef hann félli frá. Stuttu seinna verður hann fyrir hestvagni á leið sinni yfir götu og deyr. Hún tók það mjög nærri sér og erfitt var fyrir hana að efna loforðið sem hún gaf manni sínum en fljótlega náði hún áttum og byrjaði á fleiri rannsóknum í þágu vísindanna. Þá tók hún einnig við starfi hans sem prófessor í eðlisfræði við Sorbonne-háskólann, fyrst allra kvenna. Radíum. Mikið samstarf myndaðist milli þeirra hjóna og unnu þau hörðum höndum við léleg húsakynni að rannsóknum á geislavirkni frumefna, þar sem eðlisfræðingurinn Henry Becquerel hafði fundið út ósýnilega geisla bundna við frumefnið úraníum. Marie ætlaði upphaflega að rannsaka þessa geislun Becquerels betur og nota það sem efni í doktorsritgerð sína og fékk aðsetur í herbergi einu á rannsóknarstofuhæðinni í Eðlisfræðiskólanum þar sem Pierre vann. Þegar hún hafði rannsakað úraníum og geislavirkni þess í nokkra mánuði komst hún að því að geislamagnið væri í réttu hlutfalli við úranmagnið. Þá langaði hana að halda áfram og skoða önnur frumefni með sama tilgangi. Hún ákvað að skoða öll önnur frumefni sem þekkt voru og fann út að thoríum hafði sams konar geislun. Þá kemur Pierre til liðs við hana í þessum rannsóknum af ekki síðri áhuga en Marie. Þau unnu að rannsóknunum í um fjögur ár og fengu meðal annars senda bikblöndu gefins frá Austurríki og þurftu aðeins að borga flutningskostnaðinn, annars voru þetta frekar kostnaðarsamar rannsóknir. Árið 1898 fundu þau radíum og birta grein um það í skýrslu vísindafélagsins. Þetta radíum var frumefni með miklu meiri geislavirkni en hin frumefnin sem þau höfðu skoðað. Þau höfðu bæði brennt sig á geislum radíums og ákváðu að prófa þessa geisla á dýrum og sjá hvaða afleiðingar það hefði í för með sér. Þannig uppgötvaðist að hægt væri að lækna ýmis krabbamein með þessum geislum. Þetta var mikil framför fyrir læknavísindin og fóru menn nú að sýna þessu frábæra frumefni mikinn áhuga. Eftir dauða mannsins síns setti hún svo á stofn radíumstofnun í Varsjá, sem hún starfaði við til dauðadags. Nóbelsverðlaunin. Þau hjónin höfðu hlotið Davy-heiðursmerkið fyrir tilraunir sínar og voru orðin mjög þekkt. Í desember 1903 hlaut svo Marie Curie Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir vísindi sín, fyrst kvenna, ásamt eiginmanni sínum og Henry Becquerel. Nóbelsverðlaunin hlutu þau fyrir að uppgötva geislavirkni. Stuttu seinna fengu þau svo Osiris-verðlaunin og höfðu þau þá aðeins meiri peninga á milli handanna til tilraunanna. Þeim líkaði illa þessi nýfengna frægð enda truflaði hún þau oft við rannsóknarstörfin. Árið 1911 hlaut Marie svo Nóbelsverðlaun í annað sinn, þá í efnafræði fyrir að uppgötva radíum og Pólóníum. Ævilok. Eftir að hafa helgað lífi sínu vísindunum lést Marie þann 4. júlí 1934 þá 67 ára gömul. Hún hafði meðhöndlað radíum og önnur geislavirk efni í tugi ára, brennt sig á geislum og haldið að geislavirkni væri ekki skaðleg. Heimildum ber ekki saman um úr hverju hún lést en segja það líklega vera af völdum geislavirkninnar sem hún var í kringum daglega. Sumar segja að hún hafi látist úr radíum eitrun, aðrar úr hvítblæði og enn aðrar úr illkynja blóðleysi og mergrýrnun af völdum langvarandi geislunar. Einnig eru til heimildir sem segja að hún hafi verið með berkla þegar hún var ung og hefði átt að passa sig út af þeim. Útför hennar fór fram í kyrrþey þann 6. júlí 1934. Hún var jarðsett í kirkjugarðinum í Sceaux og var kista hennar lögð ofan á kistu Pierre. Heimildir. Curie, Marie Curie, Marie Skip. Skip er samgöngutæki til notkunar á sjó eða vatni. Skip eru knúin áfram með mismunandi hætti. Þó má segja að þrjár meginflokka sé að ræða, Skip knúin áfram með handafli (árar), vindafli (segl) eða vélarafli. Einnig eru dæmi um að skip falli ekki undir þessa flokka, heldur fylgi þau sjávarstraumi eða vatnsrennsli í ám og fljótum. Það má deila um hvort slík samgöngutæki falli undir skilgreiningu orðsins "skip". Handafl eða áraskip eru til enn þann dag í dag. Þó má segja að í nútíðinni eigi þetta fyrst og fremst um árabáta. En fyrr á öldum og reyndar allt til tíma vélvæðingarinnar þá voru dæmi um skip sem voru knúin ýmist með bæði árum og vindi. Gott dæmi um það eru víkingaskip og fyrir þann tíma Galeiður Rómverja. Vindafl eða seglskip voru vinsæl í gegnum aldirnar, þó má segja að með vélvæðingunni hafi þau orðið undir í samkeppninni. Þó eru þau mikið notuð enn þann dag í dag og þá sérstaklega smærri skip og bátar. Einkum er þó um að ræða skemmtibáta og siglingakeppnir á seglbátum eru vinsæl iðja um heim allan. Hvað varðar stærri seglskip þá eru þau ekki mikið notuð í dag, helst er um að ræða að þau séu notuð til þjálfunar eða hafa verið varðveitt til minningar um sögu þeirra. Vélarafl er sú aðferð sem er leiðandi til að knýja skip áfram í dag. Vélar eru mismunandi og hafa þróast í gegnum tíðina. Þær má flokka eftirfarandi: díselvélar, bensínvélar, gufuvélar (knúnar með kolaorku) og kjarnorkuknúnarvélar. Flokkun skipa. Skip eru flokkuð eftir notkun og stærð. Gildir sú almenna regla að nafn flokksins ræðst af notkunarheitinu sem síðað er skeytt fyrir framan orðið skip. Stærðin er síðan oftast notuð til að skilgreina á milli skips og báts. Þó ber að nefna að til eru undantekningar frá þessari reglu þar sem kafbátur getur verið mun stærri heldur en hefðbundið fiskiskip. Farþegaskip. Farþegaskip kallast þau skip sem notuð eru til farþegaflutninga. Helstu undirflokkar eru ferjur sem venjulega eru notaðar til styttri vegalengda, og almenn farþegaskip sem notuð eru til lengri ferða, helsti munurinn er gistiaðstaða um borð í skipinu. Skemmtiferðaskip ferðast um heimsins höf og bjóða farþegum upp á úrvals gistingu og afþreyingu um borð, auk þess að leggjast í höfn á ferðamannastöðum. Flutningaskip. Flutningaskip kallast þau skip sem notuð eru til flutninga á vörum. Þessum flokki má síðan skipta upp í undirflokka, sbr. olíuskip, gámaskip, hrávöruskip, lausavöruskip og frystivöruskip. Herskip. Síðan er þau skip sem notuð eru í hernaði, en þau kallast einu nafni herskip. Helstu undirflokkar eru flugmóðurskip, orrustuskip, orrustubeitiskip, þungt beitiskip, beitiskip, tundurspillir, freygátur af ýmsum gerðum, kafbátar og strandvarnarskip. Einnig eru til aðrir flokkar sem eiga fyrst og fremst við um smærri skip, tundurskeytabátar, fylgdarskip, (stundum kallað korvetta). Þess ber að geta að bæði freygátur og tundurspillar eru stundum sett undir þennan flokk en hefðin er sú að þá er orðinu „escort“ venjulega skeytt ýmist fyrir framan eða aftan flokksheiti viðkomandi skips, „Destroyer Escort“ eða „Escort Destroyer“, landgönguprammar, bæði hefðbundnir og einnig loftpúðaskip. Einnig eru til frekari skilgreiningar á undirflokkunum eftir því hver megin tilgangur viðkomandi skips er, hraði skipsins osf. Hafa ber í huga að skilgreiningar á flokkum hafa breyst í gegnum tíðina, hefðin er þó sú að flokka herskip eftir stærð skipsins og hversu öflug og mörg vopn það ber. Fiskiskip. Fiskiskip eða fiskveiðiskip nefnast þau skip sem sérhæfð eru til fiskveiða. Helstu undirflokkar eru frystitogarar, skuttogarar, togarar, nótaveiðiskip, fjölveiðiskip og línuveiðaskip. Hingað flokkast líka tryllur. Aðrir skipaflokkar. Prammar (skip sem sjaldnast ganga fyrir eigin vélarafli), dráttarskip, ísbrjótar, dýpkunarskip, björgunarskip, loftpúðaskip, rannsóknarskip og kapallagnaskip (skip sérhæfð til að leggja fjarskiptakapal á hafsbotn) hafa engan sérflokk. Önnur skip sem almennt eru ekki lengur í notkun eru t.d. víkingaskip, kútterar og seglskip. Giovanni Pierluigi da Palestrina. Giovanni Pierluigi da Palestrina (fæddur einhverntíma á tímabilinu 3. febrúar 1525 - 2. febrúar 1526, látinn 2. febrúar 1594) var ítalskt tónskáld, sem var uppi á endurreisnartímanum. Hann var ásamt þeim Orlande de Lassus og William Byrd eitt af mestu tónskáldum á seinni hluta 16. aldar. Palestrina var einn af fulltrúum rómverska skólans í tónlist, afkastamikið messu- og mótettutónskáld en samdi einnig nokkuð af madrígölum. Hápunktur verka hans er þó í messunum. Hann hafði mikil áhrif á þróun kaþólskrar kirkjutónlistar og oft er litið á verk hans sem fáguðustu fyrirmynd pólyfóníu endurreisnartímabilsins. Æviágrip. Giovanni Pierluigi fæddist í bænum Palestrina, skammt frá Róm og tók síðar upp nafn borgarinnar og kallaðist Giovanni Pierluigi da Palestrina. Fyrstu tónlistarmenntun sína hlaut hann í Róm. Árið 1537 var hann kórdrengur í Santa Maria Maggiore (Stóru Maríukirkjunni) í Róm, m.a. undir handleiðslu Giacomo Coppola, eins af söngvurunum í kirkjunni. Ekki er vitað hvað hann var þar lengi. 28. október árið 1544 fékk hann stöðu organista í dómkirkju heimabæjar síns, Palestrina. Þar lék hann á orgel og kenndi tónlist. Í þessari stöðu var hann til ársins 1551. Lítið er vitað um ævi hans á þessu tímabili, annað en að hann kvæntist Lucreziu Dori þann 12. júní 1547. Þau eignuðust börnin Rodolfo, Angelo og Iginio. 1. september 1551 varð Palestrina kórstjóri í Júlíusarkapellunni (Cappella Giulia) í Péturskirkjunni í Róm. Á meðan hann starfaði þar gaf hann út fyrstu þekktu messubók sína árið 1554. Messubók þessi var tileinkuð Júlíusi III. páfa, sem hafði verið stuðningsmaður og bakhjarl Palestrina. Sem þakklæti fyrir þessa tileinkun fékk Palestrina inngöngu í Páfakórinn við Sixtínsku kapelluna, þó að hann hafi verið giftur. Hann varð þó að hætta í kórnum árið 1555 þegar nýr páfi tók við völdum og setti reglur um einlífi. 1. október 1555 varð Palestrina kapellumeistari við Jóhannesarkirkju á Lateran (St. John Lateran), en áður hafði Orlande de Lassus gegnt þessari sömu stöðu. Við Jóhannesarkirkjuna starfaði Palestrina til ársins 1560. Árið 1561 fór hann aftur til starfa í Maríukirkjunni, þar sem hann gerðist kórstjóri. Þeirri stöðu gegndi Palestrina í tíu ár, eða til ársins 1571. Á þessu tímabili kom m.a. út önnur messubókin hans og ýmsar mótettubækur. Um 1570 og áratuginn þar á eftir missti hann tvo syni sína, bróður og eiginkonu úr farsótt sem þá geisaði. Eftir að kona hans lést sneri Palestrina sér að prestsnámi. En átta mánuðum eftir lát eiginkonunnar giftist hann Virginiu Dormoli, ríkri ekkju, og tók að sér að stjórna skinnaverslun hennar, og við það vænkaðist fjárhagur hans nokkuð. Árið 1571 sneri hann aftur til starfa sem kórstjóri í Júlíusarkapellunni, þar sem hann starfaði til dauðadags árið 1594. Kirkjuþingið í Trent. Kirkjuþingið í Trent, sem haldið var á árunum 1545-1563, var einn af stærstu viðburðunum sem vitað er um á ævi Palestrina. Á þessu þingi voru listir ritskoðaðar verulega, meðal annars kirkjutónlist. Mörgum fannst veraldlegar tónsmíðaaðferðir ekki hæfa trúarlegum tónverkum, hljóðfæri væru ofnotuð og fjölröddunin væri svo íburðarmikil að hún skyggði á orð guðsþjónustunnar. Sumir vildu hverfa aftur til einfaldara tónlistarforms, svo sem einradda söngs sem legði áherslu á orðin en ekki tónlistina. Með messu sinni, "Missa Papae Marcelli", sem tileinkuð var Marcellus II. páfa, sýndi Palestrina að fjölradda tónlist gæti vel skilað trúarlegum boðskap með nógu miklum skýrleika að kröfu kirkjuþingsins. Sagt er að Palestrina hafi samið messuna sérstaklega fyrir kirkjuþingið. Hvort sem það er satt eða ekki telja margir hann vera „bjargvætt kirkjutónlistar“ með þessu verki. Tónverk og stíll. Sem tónskáld var Palestrina enginn byltingarmaður, heldur samdi hann í hefðbundnum stíl síns tíma. Sem undirstöðu í messurnar notaði hann tónsöngssálma sem hann braut upp í stuttar hendingar í staðinn fyrir að bæta við þá skrautröddum og hljómum eins og áður þekktist. Hann byrjaði oft á einni röd, og hljómar urðu til eftir því sem fleiri raddir bættust við, eins og hjá Bach síðar, en komu ekki fyrir sem sjálfstætt byggingarefni. Sama stefið heyrist í ýmsum röddum eins og þær séu að herma eftir hver annarri. Allar raddirnar eru því jafnmikilvægar, þær líða eðlilega áfram og minna að því leyti á tónlist Ockeghems. Ekki er vitað um neinar hljóðfæratónsmíðar eftir Palestrina og heldur engin einsöngslög. Tónskáldaferill hans hefst frekar seint miðað við ævihlaup hans, fyrsta þekkta messubókin eftir hann kom út þegar hann var um þrítugt, 1554. Ári síðar kom svo út madrigalabók eftir hann. Á meðan hann var við störf í Jóhannesarkirkjunni komu engar nýjar tónsmíðar út, að undanskildum nokkrum madrigölum í yfirlitsbókum. Frá 1554 til dauðadags voru verk hans gefin út af þremur útgefendum. Hann var eitt mesta messutónskáld sögunnar og færði messuna yfir í það form sem þekkist í dag, einkum þó í kaþólskum kirkjum. Af 104 messum sem þekktar eru eftir hann voru 43 gefnar út á meðan hann lifði. Mörg atriði í messunum benda til þess að Palestrina hafi samið þær löngu áður en þær voru gefnar út. Flestar þessar messur er erfitt að tímasetja og því er erfitt að raða þeim í tímaröð. Frægasta messa hans er "Missa Papae Marcelli", en einnig mætti nefna "Missa Aeterna Christi munera" og "Missa Assumpta est Maria". Öfugt við messurnar voru flestar mótettur og önnur kirkjuleg verk Palestrina gefnar út á meðan hann lifði. Eftir hann voru gefnar út sjö mótettubækur á árunum 1563-1584, sem bendir til þess að auðveldara hafi verið að gefa út mótettur heldur en messur. Mótettur Palestrina er einnig auðveldara að raða upp í tímaröð heldur en messunum. Sem madrigalatónskáld er Palestrina oft sagður frekar íhaldssamur og talið er að hann hafi ekki haft mikinn áhuga á breytingum og tilraunum með þetta tónlistarform. Þrátt fyrir það var litið á madrígala hans sem fullgild tónverk. Rannsóknir. Tónskáldið og tónfræðingurinn Johann Josep Fux skrásetti stíl Palestrina eftir rannsóknir á honum á 17. og 18. öld. Niðurstöður þeirra eru enn notaðar við kennslu í kontrapunkti. Viðamestu rannsóknirnar á Palestrina fóru fram á 19. öld og var það Giuseppe Baini, prestur, tónskáld og tónlistargagnrýnandi sem hafði frumgöngu af þeim. Baini gaf út fræðirit um Palestrina árið 1828, sem gerði Palestrina aftur frægan og endurvakti goðsögnina um „bjargvætt kirkjutónlistarinnar“. Í þessu fræðiriti er hetjudýrkun 19. aldar áberandi. Þessi hetjuímynd Palestrina hefur haldist að nokkru leyti allt til dagsins í dag. Meðal annars birtist hún í óperu eftir þýska tónskáldið Hans Pfitzner, þar sem Palestrina er aðalsögupersónan. Geiradalshreppur. Geiradalshreppur var hreppur í Austur-Barðastrandarsýslu. Hinn 4. júlí 1987 sameinaðist hreppurinn hinum fjórum hreppum sýslunnar: Reykhólahreppi, Gufudalshreppi, Múlahreppi og Flateyjarhreppi undir nafni "Reykhólahrepps". Gufudalshreppur. Gufudalshreppur var hreppur í Austur-Barðastrandarsýslu. Hinn 4. júlí 1987 sameinaðist hreppurinn hinum fjórum hreppum sýslunnar: Reykhólahreppi, Geiradalshreppi, Múlahreppi og Flateyjarhreppi undir nafni "Reykhólahrepps". Múlahreppur. Múlahreppur (einnig kallaður Skálmarnesmúlahreppur) var hreppur í Austur-Barðastrandarsýslu. Múlahreppur er nú allur í eyði. Áður voru eftirfarandi bæir í byggð: Litlanes, Kirkjuból á Litlanesi (eða vestra), Vattarnes, Fjörður (áður Kerlingarfjörður), Deildará, Hamar, Ingunnarstaðir, Skálmarnesmúli (Múli), Skálmardalur, Illugastaðir, Selsker, Svínanes, Kvígindisfjörður, Kirkjuból (á Bæjarnesi) og Bær á Bæjarnesi. Kirkja var á Skálmarnesmúla og á fyrri öldum þjónaði prestur staðnum. Á síðari öldum var Skálmarnesmúlasókn þjónað frá Flatey. Kvígindisfjörður, Kirkjuból á Bæjarnesi og Bær tilheyrðu þó Gufudalssókn. Föst búseta lagðist af í sveitinni 1975, en þá voru allir bæir sveitarinnar farnir í eyði, síðastur Fjörður á Múlanesi. Hinn 4. júlí 1987 sameinaðist hreppurinn hinum fjórum hreppum sýslunnar: Reykhólahreppi, Geiradalshreppi, Gufudalshreppi og Flateyjarhreppi undir nafni "Reykhólahrepps". Flateyjarhreppur (A-Barðastrandarsýslu). Flateyjarhreppur var hreppur í Austur-Barðastrandarsýslu, kenndur við Flatey á Breiðafirði. Hinn 4. júlí 1987 sameinaðist hreppurinn hinum fjórum hreppum sýslunnar: Reykhólahreppi, Gufudalshreppi, Geiradalshreppi og Múlahreppi undir nafni "Reykhólahrepps". Kosher. Kosher (כשר), er hugtak í Gyðingdómi yfir þær fæðutegundir sem eru hreinar í trúarlegum skilningu og leyfilegar til neyslu. Fæðutegundir sem hins vegar eru bannaðar eru kallaðar "treifah" (einnig "treif"," טרפה"). Upphaf kosher-reglanna er að finna í 3. Mósebók 11 og 5. Mósebók 14. Þessar reglur þróuðust síðan í munlegri hefð sem safnað var í Mishnah og Talmúd. Kosher bannar meðal annars að nota sömu ílát fyrri kjöt og mjólkurafurðir sem byggir á boði Guðs í 5. Mósebók 14:21: "Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar". Þetta túlkast sem að neysla kjöts og mjólkurafurða í sömu máltíð er einnig bannað. Skeldýr og svín eru einnig stranglega bönnuð til neyslu og kjöt má einungis neyta ef dýrið hefur verið slátrað með því að skera það á háls. Slátrun samkvæmt reglum Gyðingdóms eru bannaðar í Noregi, Svíþjóð og Sviss af dýraverndunarástæðum. Að mörgu leiti eru kosher-reglurnar náskildar halal-reglum múslima. Halal. Halal (arabíska: حلال, halāl, halal) er íslamskt hugtak sem þýðir "leyfilegt," samsvarandi "kosher" í Gyðingdómi. Hugtakið er ekki notað á sama hátt hjá arabískumælandi múslimum og þeim sem ekki hafa arabísku að móðurmáli. Íslamska slátrunaraðferðin á dýrum er nefnd "Thabiha Halaal". Notkun. Hugtakið Halal hefur bæði sérhæfa og almenna merkingu. Í arabískumælandi samfélögum er hugtakið notað yfir allt sem er leyfilegt samkvæmt íslömskum lögum og reglum og er andstætt hugtakinu haram, sem þýðir það sem er bannað. Undir þetta fellur hegðun, klæðnaður og orðafar. Í múslimskum samfélögum sem ekki nota arabísku er hugtakið oftast notað einungis yfir matarreglur múslima. Bannað fæði. Fjöldi fæðutegunda er samkvæmt þessum reglum álitið vera haram (bannað), meðal annars: svín, blóð, dýr slátruð í nafni einhvers annars en Guðs, hræ (og sjálfdauð dýr), rándýr önnur en fiskar og sjávardýr, og allir vímugjafar (sérstaklega áfengi). Mörg múslimsk samfélög telja að fiskar án tálkna og einnig skeldýr séu haram. Halal-slátrun. Halal-slátrun allra dýra (einnig fiska) fellst í því að stinga á með einni stungu á slagæðina á hálsinum og tæma dýrið á öllu blóði, enda er blóð með öllu bannað til matar. Meðan dýrinu er að blæða út má ekki meðhöndla það á neinn hátt. Aðferð þessi er kölluð "Thabiha". Slátrun er álitin trúarleg athöfn og áður en stungið er á slagæðinni er þessi setning höfð yfir: "Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama." (بِسْمِ اللهِ الرَّحْمنِ الرَّحِيمِ, "bismillāh, i-rahman, i-rahīm"). Frjálshyggja. Frjálshyggja er stjórnmála- og stjórnspekiskoðun, sem segir að setja beri ríkisvaldi þröng takmörk, en treysta þess í stað aðallega á frjáls viðskipti og sjálfsprottnar venjur. Saga. Frjálshyggja á rætur á síðmiðöldum í þeim hluta Norðurálfunnar, Evrópu, sem liggur eins og hálfmáni frá Norður-Ítalíu yfir Sviss, um Rínarlönd og Niðurlönd til Englands. Þar var ríkisvald veikt, kaupmenn voldugir og markaðir stórir. Helstu kennismiðir klassískrar frjálshyggju voru bresku heimspekingarnir John Locke og Adam Smith. Á síðari hluta sautjándu aldar færði Locke í "Ritgerð um ríkisvald" (e. "Second Treatise on Civil Government") rök fyrir því, að einkaeignarréttur gæti myndast í fullu samræmi við náttúruréttinn, og væri ríkið einkum stofnað honum til verndar. Vald ríkisins væri reist á óskráðu samkomulagi milli borgaranna, en forsendur brysti fyrir hlýðni þeirra við ríkið, þegar það misnotaði vald sitt stórkostlega. Kenningar Lockes höfðu feikileg áhrif næstu tvær aldir, eins og Dýrlega byltingin í Bretlandi 1688, bandaríska byltingin 1776 og barátta frjálslyndra stjórnarskrársinna í konungsríkjum Norðurálfunnar bera vitni um. Sama ár og Bandaríkjamenn birtu sjálfstæðisyfirlýsingu sína, 1776, gaf Smith út bókina "Auðlegð þjóðanna" (e. "The Wealth of Nations"). Þar hélt hann því fram, að í vaxandi atvinnulífi þyrfti eins gróði ekki að verða annars tap, heldur gætu allir hagnast á frjálsum viðskiptum, því að við þau gætu þeir nýtt sér kosti verkaskiptingarinnar. Við frjáls viðskipti gæti atvinnulífið einnig verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla gæti komist á, án þess að neinn kæmi henni á. Í frjálsri samkeppni leiddi „ósýnileg hönd“ framleiðendur að því að vinna að almannahag, um leið og þeir kepptu að einkahag sínum. Sigurganga frjálshyggjunnar á 19. öld stöðvaðist í Þýskalandi, þar sem Otto von Bismarck kanslari takmarkaði frjáls viðskipti við önnur lönd með tollmúrum og hóf víðtæk ríkisafskipti til að afla fylgis verkamanna. Þar liggja rætur velferðarríkisins, sem náði fullum þroska á tuttugustu öld. Þótt Þjóðverjar töpuðu stríðinu 1914-1918, unnu þeir friðinn í þeim skilningi, að hugmyndir þaðan um að stýra atvinnulífinu einni hendi hlutu brautargengi. Smám saman tóku ýmsir að nota orðið „liberalism“, sem áður hafði verið heiti á frjálshyggju, um stjórnmálastefnu, sem gekk miklu lengra í átt til ríkisafskipta. Sérstaklega átti þetta við í Bandaríkjunum í stjórnartíð Franklins D. Roosevelt forseta (1933-1945), en fylgismenn hans kölluðu sjálfa sig „liberals“, frjálslynda, og andstæðinga sína „conservatives“, íhaldssama. Í heimskreppunni hafði draumur frjálshyggjumanna um sjálfstýringu atvinnulífsins í krafti frjálsra viðskipta beðið mikinn hnekki. En árið 1947 söfnuðust frjálshyggjumenn í eldri skilningi orðsins saman í Mont Pèlerin í Svisslandi, stofnuðu samtök til að efla kenningar sínar að rökum og hafa síðan hist reglulega. Forystumenn Mont Pèlerin samtakanna voru Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman, sem síðar hlutu báðir Nóbelsverðlaun í hagfræði. Með valdatöku Margrétar Thatcher í Bretlandi 1979 og Ronalds Reagan í Bandaríkjunum 1981 var stefnan í þessum löndum tekin í átt til frjálshyggju. Frjálshyggja samtímans. Til þess að greina sig frá þeim „liberals“, sem eru í raun jafnaðarmenn, hafa sumir bandarískir frjálshyggjumenn tekið upp á að kalla sig „libertarians“, en ýmsir aðrir, aðallega andstæðingar frjálshyggju, kalla þá nýfrjálshyggjumenn, „neo-liberals.“ Í lok 20. aldar virtist heimurinn hafa snúið til svipaðs skipulags frjálsra viðskipta og víðast hvar stóð fyrir 1914, þótt þrennt væri að mati frjálshyggjumanna ólíkt: Víðtækt og rausnarlegt velferðarkerfi torveldar sumum ríkjum að leyfa frjálsan innflutning fólks; vinnumarkaður, sérstaklega í Evrópu, er ekki eins sveigjanlegur og áður; og ekki hefur enn tekist að finna jafntraustan bakhjarl peninga og gullfótur var á 19. öld, en frjálshyggjumenn 20. aldar börðust fyrir afnámi gullfótarins. Frjálshyggja samtímans skiptist í nokkrar greinar, enda tala ekki allir frjálshyggjumenn einum rómi. Þeir sækja rök í rannsóknir Chicago-hagfræðinganna, austurrísku hagfræðinganna og Virginíu-hagfræðinganna, skáldsögur Ayns Rands og heimspekirit jafnólíkra hugsuða og Karls Poppers, Bertrands de Jouvenel og Roberts Nozicks. Nokkrir hinna róttækustu hafna jafnvel lágríkinu (e. minimal state), til dæmis David Friedman og Murray Rothbard, sem telja, að leysa megi öll mál á frjálsum markaði. Slíkir stjórnleysingjar eru þó í miklum minni hluta í röðum frjálshyggjumanna. Gagnrýni á frjálshyggju. Ein algengasta röksemd gegn einkaeignarrétti er, að hann hafi í för með sér misskiptingu auðs og valda, eins og sýnd er á þessu áróðurspjaldi frá 19. öld Gagnrýni á frjálshyggju kemur úr ýmsum áttum. Algengustu rökin gegn kröfunni um aukið atvinnufrelsi eru að frjálshyggjumenn ofmeti markaðinn og vanmeti ríkið. Margt sé þess eðlis, að það þurfi að leysa með sameiginlegu átaki borgaranna, ekki í viðskiptum einstaklinga. Einkaeignarréttur eigi ekki heldur alls staðar við. Svar frjálshyggjumanna er, að vissulega sé eitthvað til í þessum rökum. Markaðurinn leysi ekki allan vanda. En aðalatriðið sé, að hann sé þó vænlegri til árangurs en félagshyggjumenn telji. Markaðurinn sé vissulega ekki gallalaus, en ekki beri að einblína á galla hans, heldur bera saman ríkisafskipti og markaðsviðskipti, verðlagningu og skattlagningu, og kanna, hvar þetta eigi hvort um sig við. Frjálshyggja á Íslandi. Fyrsta skrif sem dregur að segja má nokkurn dám af frjálshyggju á Íslandi var ritgerð Jóns Sigurðssonar forseta um verslun á Íslandi í Nýjum félagsritum 1843. Jón hafði kynnt sér röksemdir Lockes fyrir takmörkun ríkisvaldsins og Smiths fyrir frjálsum viðskiptum og beitti þeim óspart í sjálfstæðisbaráttunni. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, "Auðfræði" Arnljóts Ólafssonar 1880, var samið í anda frjálshyggju, enda stuðst þar við verk hins frjálslynda franska rithöfundar Fréderics Bastiats. Aldamótakynslóðin undir forystu Hannesar Hafsteins aðhylltist frjálshyggju, þótt hún hefði ekki mörg orð um hana. Kenningar enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills höfðu þá nokkur áhrif á Íslandi, en tvö rit hans, "Frelsið" og "Kúgun kvenna", voru þýdd á íslensku fyrir og um 1900. Það var þó ekki fyrr en sósíalismi þeirra Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Ólafs Friðrikssonar kom til sögu, að Jón Þorláksson sá sig knúinn til að gera grein fyrir helstu rökum frjálshyggjumanna í ritgerðinni „Milli fátæktar og bjargálna“ 1929 (og studdist þar við verk sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels). Hér á landi lét frjálshyggja undan síga í heimskreppunni eins og annars staðar, og tekinn var upp haftabúskapur. Hagfræðingarnir Ólafur Björnsson, dr. Benjamín Eiríksson, Jóhannes Nordal og Jónas Haralz héldu þó fram frjálsum viðskiptum og áttu drjúgan þátt í að losa um ýmis höft, sérstaklega 1950 og 1960. Tveir umdeildustu hugsuðir frjálshyggjunnar, þeir Hayek og Friedman, lögðu leið sína til Íslands á 9. áratug 20. aldar að ráði Hannesar Hólmsteins Gissurarssonar, en Hannes er einn af helstu talsmönnum frjálshyggju á Íslandi og hefur haft ómæld áhrif á framgang hennar hér á landi. Þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína vorið 1991, var stefnan loks tekin að fullu í átt til frjálshyggju svipað og þau Thatcher og Reagan höfðu gert. Næsta hálfan annan áratug gerbreyttist íslenskt atvinnulíf. 1975 var íslenskt atvinnulíf hið 53. frjálsasta í heimi, en 2004 var það hið níunda. Að sama skapi var slakað á eftirliti með fjármálalífinu en Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002 í valdatíð Davíðs. Það var því ekki að ófyrirsynju, að Mont Pèlerin samtökin héldu fund á Íslandi í ágúst 2005 til að ræða frelsi og eignarrétt á nýrri öld, öld þegar samfélagið hafði færst nær frjálshyggju og að sama skapi fjarlægst norræna velferðarkerfið sem áður setti nokkurn svip á innviði þess. Árin 1979-1989 starfaði Félag frjálshyggjumanna að því að kynna frjálshyggju á Íslandi, og hefur Frjálshyggjufélagið, sem stofnað var 2002, tekið að sér svipað hlutverk. Í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi haustið 2008 er mjög deilt um tengsl hrunsins við frjálshyggju, orsakir og afleiðingar. Árið sem Ricardo Reis lést. Árið sem Ricardo Reis lést (á portúgölsku: O Ano da Morte de Ricardo Reis) er skáldsaga eftir portúgalska nóbelsverðlaunahafann José Saramago. Sagan fjallar um síðasta árið í lífi Ricardo Reis, sem var eitt af dulnefnum portúgalska ljóðskáldsins Fernando Pessoa. Ritgerð um blindu. Ritgerð um blindu, eða Blinda (á portúgölsku: Ensaio sobre a cegueira) er skáldsaga eftir portúgalska nóbelsverðlaunahafann José Saramago, fyrst útgefin í Portúgal árið 1995. Öll nöfnin. Öll nöfnin (á portúgölsku: "Todos os nomes") er skáldsaga eftir portúgalska nóbelsverðlaunahafann José Saramago, skrifuð árið 1997. John le Carré. John le Carré (19. október 1931 í Poole -) er dulnefni enska rithöfundarins David John Moore Cornwell, sem einkum er þekktur fyrir spennusögur sínar sem gjarnan snúast um samskipti vesturs og austurs á tímum kalda stríðsins og skáldsöguna "Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum". Carré, John le Mont Pèlerin Society. Mont Pèlerin Society, eða Mont Pèlerin-samtökin á íslensku, eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem hittist annaðhvort ár og stundum oftar. Margir telja, að þau hafi haft mikil áhrif á það, að víða um heim hefur verið snúið aftur til þeirrar frjálshyggju, sem hafði veruleg áhrif á hagstjórn og löggjöf á 18. og 19. öld. Stofnun. Mont Pèlerin-samtökin voru stofnuð í apríl 1947 í Sviss, þegar 47 menntamenn komu þar saman, en austurrísk-breski hagfræðingurinn Friedrich A. von Hayek hafði boðið þeim þangað. Á meðal fundarmanna voru Frank H. Knight, sem var áhrifamestur Chicago-hagfræðinganna svonefndu á öndverðri öldinni, Ludwig von Mises, einn aðalleiðtogi austurrísku hagfræðinganna svonefndu, heimspekingarnir Karl R. Popper, Michael Polanyi og Bertrand de Jouvenel, hagfræðingarnir Luigi Einaudi, forseti Ítalíu, Jacques Rueff, einn aðalráðgjafi de Gaulles, hershöfðingja og síðar forseta Frakklands, Wilhelm Röpke, sem var áhrifamikill í Vestur-Þýskalandi eftir stríð, og hagfræðingarnir von Hayek, Maurice Allais, Milton Friedman og George J. Stigler, sem allir áttu eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði. Stofnendur samtakanna samþykktu í fundarlok ávarp, þar sem lýst var áhyggjum af vaxandi ríkisvaldi og minnkandi einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum. Ýmsir frjálslyndir menntamenn vildu þó ekki ganga í samtökin, þar sem þeir töldu Hayek og félaga hans halda of fast í hina klassísku frjálshyggju 18. og 19. aldar, sem væri orðin úrelt. Þeirra á meðal voru sænski stjórnmálaheimspekingurinn Herbert Tingsten, þótt hann sæti stofnfundinn, landi hans, hagfræðingurinn Bertil Ohlin og franski félagsfræðingurinn Raymond Aron, þótt hann héldi að vísu seinna erindi á einum fundi samtakanna. Kunnir félagar. Á meðal félaga í samtökunum hafa verið Ludwig Erhard, kanslari Þýska sambandslýðveldisins, Otto von Habsburg, sonur síðasta austurríska keisarans, Arthur Burns, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, Sir Geoffrey Howe, fjármálaráðherra og síðar utanríkisráðherra Stóra-Bretlands, William E. Simon og George Shultz, sem báðir hafa verið fjármálaráðherrar Bandaríkjanna (og Shultz einnig utanríkisráðherra), Vaclav Klaus, forseti Tékkneska lýðveldisins, Antonio Martino, varnarmálaráðherra Ítalíu, og Nóbelsverðlaunahafarnir Gary Becker, James M. Buchanan (forvígismaður Virginíu-hagfræðinganna svonefndu), Ronald Coase og Vernon Smith. Einn íslenskur félagi er í samtökunum, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, og sat hann í stjórn þeirra 1998-2004. Stefna og áhrif. Mont Pèlerin samtökin hafa enga yfirlýsta stefnu, þótt óhætt sé að telja flesta eða alla félaga í þeim eindregna stuðningsmenn frjálshyggju. Margir telja, að samtökin hafi átt drjúgan þátt í því, að frjálshyggja, sem beið mikinn hnekki í heimsstyrjöldunum tveimur og heimskreppunni, efldist mjög á síðasta fjórðungi 20. aldar, þótt eflaust hafi hrun sósíalistaríkjanna í Austur-Evrópu einnig haft þar sitt að segja. Flestir félagarnir eru háskólaprófessorar, aðallega í hagfræði, en sumir eru kaupsýslumenn og rithöfundar. Forsvarsmenn ýmissa áhrifamikilla rannsóknastofnana eru félagar í samtökunum, til dæmis Institute of Economic Affairs í Lundúnum, Heritage Foundation, American Enterprise Institute og Cato Institute í Washington, DC, og Hoover Institution í Stanford-háskóla. Mont Pèlerin Society á Íslandi. Nokkrir Íslendingar hafa sótt fundi Mont Pèlerin-samtakanna auk Hannesar H. Gissurarsonar, þar á meðal Birgir Ísl. Gunnarsson, Geir H. Haarde, Friðbjörn Orri Ketilsson og Hörður Sigurgestsson. Mont Pèlerin-samtökin héldu fund á Íslandi í ágúst 2005 um "Frelsi og eignarrétt á nýrri öld" (Liberty and Property in the 21st Century). Á meðal umræðuefna voru einkaeignarréttur á útvarpsrásum, fiskistofnum og erfðavísum, hvort lítil ríki væru hagkvæmari einingar en stór og hvers vegna flestir menntamenn aðhyllast sósíalisma. Á meðal erlendra fyrirlesara voru Vaclav Klaus, forseti Tékkneska lýðveldisins, Andrei Illarionov, þá aðalefnahagsráðgjafi Pútíns Rússlandsforseta, Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, Harold Demsetz, einn helsti eignarréttarhagfræðingur heims, og Arnold Harberger, sem er einna kunnastur Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Íslenskir fyrirlesarar voru Davíð Oddsson, þá utanríkisráðherra, Ragnar Árnason prófessor, Þráinn Eggertsson prófessor, Birgir Þór Runólfsson dósent, Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og dr. Kári Stefánsson forstjóri. Roddy Doyle. Roddy Doyle (fæddur í Dyflinni 1958) er írskur rithöfundur. Nokkrar af bókum hans hafa ratað á hvíta tjaldið, þ.á m. The Commitments sem Alan Parker leikstýrði árið 1991. Doyle, Roddy Salman Rushdie. Salman Rushdie (fæddur Ahmed Salman Rushdie, أحمد سلمان رشدی á arabísku (þann 19. júní 1947 í Bombay)) er indverskur rithöfundur, búsettur á Englandi. Rushdie blandar gjarnan töfraraunsæi við sagnfræðilegar staðreyndir og gerast flestar skáldsögur hans á Indlandi og í Pakistan. Salman ólst upp í miðstéttarfjölskyldu í Bombay á Indlandi. Á unglingsaldri fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Pakistan og seinna til Bretlands. Margar af bókum hans hafa verið þýddar og gefnar út á íslensku. Vegna bókar sinnar, "Sálma satans", varð Salman réttdræpur meðal múslima. Heimildir. Rushdie, Salman Italo Calvino. Italo Calvino (1923 – 1985) var ítalskur rithöfundur, fæddur á Kúbu. Primo Levi. Primo Levi (f. 31. júlí 1919 - d. 11. apríl 1987) var ítalskur efnafræðingur og rithöfundur. Hann er best þekktur fyrir verk sín um helförina og fjallar þekktasta verk hans, "Ef þetta er maður", um fangavist hans í Auschwitz. Graham Greene. Henry Graham Greene (1904 – 1991) var afkastamikill enskur rithöfundur, leikritaskáld og gagnrýnandi. Ævi. Graham Greene er fæddur í Hertfordshire og fór í skóla í Berkhamsted þar sem faðir hans var skólameistari og seinna meir Balliol Háskólann. Eftir útskrift fór hann að vinna hjá tímaritinu The Times, snérist til rómversk kaþólskrar trúar og giftist Vivien Dayrell-Browning árið 1927. Hann var mikið í sviðsljósinu og umdeildur í Bandaríkjunum, sérstaklega eftir að hafa gefið út bókina The Quiet American.Hann kom einni við sögu í Mið-ameríku þar sem hann umgengst menn eins og Fidel Castro og Manuel Noriega. Hann bjó víðsvegar um heiminn um ævina, á stöðum eins og London, Frönsku Rívierunni og Kaprí. Hann bjó Vevey í Sviss þegar hann dó þriðja Apríl, 1991. Ritferill. Fyrsta bókin hans heitir The Man Within(1929); söguleg spennusaga sem hafði mörg af hans einkennum sem seinna meir áttu eftir að marka bækur hans; Eltingaleikir, svik, sektarkennd og mistök. Hans fyrsta bók sem átti einhverjum vinsældum að fagna var Stamboul train(1932), önnur spennusaga sem var pólitískari og sú fyrsta í röð bóka sem Greene kallaði „entertainments“eða skemmtisögur. Hann hélt áfram á þessari braut með bækur eins og It´s a battlefield(1934), England made me(1935), A Gun for sale(1936), Brighton Rock, The Confidential Agent(1939), Loser Takes it all(1955) og Our Man in Havana(1958). Rómversk kaþólsk trú hans hafði áhrif á skrif hans. Áhugi hans á miskunn Guðs(the apalling strangeness of the mercy of God) birtist í sögum eins og Brighton Rock, The Power and The Glory(1940), The Heart of the Matter(1948), The End of the Affair((1951) og The Quiet American(1955). Greene gaf einnig út léttar bókmenntir eins og ferðasöguna Travels with my Aunt(1969) og smásögur: The Basement Room and Other Stories(1935), Nineteen Stories(1947), Twenty-One Stories(1954) og May We Borrow Your Husband?(1967). Einnig skrifaði hann leikrit eins og The Living Room(1953), The Potting Shed(1957), the Complaisant Lover(1959) og Carving a Statue(1964). Kvikmyndir. Margar frægar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögum Grahame Greene. Myndir eins og The Quiet American, The End of The Affair, The Power and The Glory og The Tenth Man. Einnig skrifaði Graham Greene sjálfur handrit að, eftilvill, frægustu mynd kennda við hann; The Third Man með Orson Wells í aðalhlutverki. Greene, Graham Ástkær. Ástkær er bók eftir bandaríska nóbelsverðlaunahafann Toni Morrison. Bókin fjallar um þrælahald í bandaríkjunum og fyrir hana hlaut höfundurinn Pulitzer verðlaunin árið 1988. Bókin var þýdd á íslensku af Úlfi Hjörvari árið 1987. Söngvar Salómons. Söngur Salómons er bók eftir bandaríska nóbelsverðlaunahafann Toni Morrison. William Faulkner. William Cuthbert Faulkner (25. september 1897 – 6. júlí 1962) var bandarískur rithöfundur frá Mississippi. Faulkner hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1949. Tengill. Faulkner, William Ian McEwan. Ian McEwan (f. 1948) er enskur rithöfundur, fæddur í Aldershot á Englandi. McEwan hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín, þ.á m. Booker-verðlaunin fyrir skáldsögu sína, Amsterdam. Helstu verk. McEwan, Ian Friedrich Hayek. Friedrich August von Hayek (8. maí 1899 – 23. mars 1992) var austurrísk-breskur hagfræðingur og stjórnmálaheimspekingur, sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1974, en er einnig kunnur sem einn helsti hugsuður frjálshyggju á 20. öld. Hagfræðingurinn. Hayek fæddist í Vínarborg, barðist í austurríska hernum í fyrri heimsstyrjöld og lauk doktorsprófum í lögfræði og hagfræði frá Vínarháskóla. Þar var hann lærisveinn Ludwigs von Mises, sem var einna fremstur í hópi austurrísku hagfræðinganna svonefndu. Í bókinni "Die Gemeinwirtschaft" 1922 sagði Mises fyrir um það, að víðtækur áætlunarbúskapur eins og sósíalistar þeirra tíma hugsuðu sér hlyti að mistakast, því að þeir, sem semdu áætlanirnar, gætu aldrei safnað saman til þess nægilegri þekkingu. Hayek varð prófessor í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, London School of Economics, 1931. Þar hélt hann uppi gagnrýni á kenningar Johns Maynards Keynes, sem vildi auka ríkisafskipti til að koma í veg fyrir alvarlegar kreppur. Hayek sagði, að sú lækning væri til langs tíma verri en meinsemdin. Í frægri ritgerð, „The Use of Knowledge in Society,“ (1946) lýsti Hayek því, hvernig verð á frjálsum markaði veitir fólki ómissandi upplýsingar um það, hvernig það eigi að bregðast við síbreytilegum aðstæðum. Ein meginröksemd hans gegn ríkisafskiptum í anda Keynes var, að þær trufluðu og torvelduðu þessa öflun og miðlun upplýsinga. Árið 1944 gaf Hayek út bókina "Leiðina til ánauðar" ("The Road to Serfdom"), þar sem hann hélt því fram, að nasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama meiði. Áætlunarbúskapur hlyti að lokum að leiða til einræðis, þar sem hagvald og stjórnvald væri hvort tveggja á sömu hendi og móta þyrfti einstaklinga með góðu eða illu í samræmi við hina opinberu áætlun. Bók Hayeks vakti miklar umræður og raunar heiftarlegar deilur, en árið 1947 hafði hann forgöngu um, að 47 menntamenn hittust í Sviss og stofnuðu Mont Pèlerin Society, Mont Pèlerin samtökin, til skrafs og ráðagerða um einstaklingsfrelsið, eðli þess og skilyrði. Hayek var forseti samtakanna fyrstu fimmtán árin, til 1962. Stjórnmálaheimspekingurinn. Hayek sneri sér eftir stríð að stjórnmálaheimspeki. Hann gerðist prófessor í siðfræði í Chicago-háskóla 1950 og gaf út mikla bók um einstaklingsfrelsi árið 1960, "Frelsisskráin" (e. "The Constitution of Liberty"). Hann var prófessor í hagfræði í Freiburg-háskóla í Þýska sambandslýðveldinu 1962-1968 og síðar um skeið í Salzburg-háskóla í Austurríki. Á þriðja fjórðungi 20. aldar voru kenningar Keynes í miklum metum, en þetta breyttist um og eftir 1970, þegar reynslan af víðtækum ríkisafsktipum varð til þess, að stjórnmálamenn og hagfræðingar tóku að líta frekar til Hayeks. Hann deildi Nóbelsverðlaunum í hagfræði með jafnaðarmanninum Gunnari Myrdal árið 1974. Meginframlag hans til hagfræðinnar var þá talið útskýring hans á því, hvernig verð á frjálsum markaði miðlar upplýsingum um atvinnulífið og kemur þannig í kring sjálfstýringu þess. Næstu árin jukust stjórnmálaáhrif Hayeks verulega. Ungt fólk hreifst af frjálshyggju hans, og stjórnmálamenn víða um heim tóku upp kenningar hans. Margrét Thatcher, sem dró enga dul á það, að hún hefði sótt margar hugmyndir til Hayeks, varð forsætisráðherra Stóra-Bretlands vorið 1979, og Ronald Reagan, sem einnig var lærisveinn Hayeks, tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1981. Þau Thatcher og Reagan reyndu bæði að minnka ríkisafskipti í löndum sínum, og gerbreyttist breskt atvinnulíf á valdatíma Thatchers (1979-1990). Árin 1973-1979 gaf Hayek út í þremur bindum verkið "Law, Legislation and Liberty". Hann lést í Freiburg. Hann var tvíkvæntur og átti tvö börn með fyrri konu sinni. Hayek á Íslandi. Friedrich A. von Hayek varð fyrst kunnur á Íslandi sumarið 1945, þegar kaflar úr útdrætti úr "Leiðinni til ánauðar" birtust í "Morgunblaðinu". Hafði útdrátturinn birst í bandaríska tímaritinu "Reader’s Digest" og vakið athygli ungs laganema, Geirs Hallgrímssonar, síðar forsætisráðherra, sem fékk Ólaf Björnsson, þá dósent og síðar prófessor, til að snara honum á íslensku. Birtist fyrsti kaflinn í blaðinu 21. júlí 1945. "Alþýðublaðið" og "Þjóðviljinn" gagnrýndu þessa ádeilu Hayeks á sósíalisma harðlega. Ungur hagfræðingur, sem nýkominn var heim frá Svíþjóð, Jónas H. Haralz, skrifaði nokkrar greinar gegn boðskap Hayeks í "Þjóðviljann", en Ólafur Björnsson svaraði í "Morgunblaðinu". Kom útdrátturinn út í bæklingi Sambands ungra sjálfstæðismanna árið eftir, 1946, með formála eftir formann sambandsins, Jóhann Hafstein, síðar forsætisráðherra. Fátt var síðan rætt um Hayek á Íslandi, þangað til Hannes Hólmsteinn Gissurarson kynnti kenningar Hayeks í þættinum „Orðabelgur“ 15. ágúst 1976, en viðmælendur hans þá voru þeir Ólafur Björnsson og Gylfi Þ. Gíslason. Félag frjálshyggjumanna var stofnað á áttræðisafmæli Hayeks 8. maí 1979, en Hayek kom til Íslands í apríl 1980 og flutti tvo fyrirlestra, annan um „Miðjumoðið“, þar sem hann gagnrýndi greinarmun Johns Stuarts Mills á lögmálum um sköpun og skiptingu gæða, hinn um „Skipulag peningamála“, þar sem hann setti fram tilgátu um, að frjáls samkeppni í framleiðslu peninga gæti leitt af sér traustari peninga en menn hefðu vanist. Í umræðuþætti í sjónvarpinu deildu þeir Jónas H. Haralz og Hjalti Kristgeirsson um boðskap Hayeks, og varði Jónas að þessu sinni Hayek. "Leiðin til ánauðar" kom út þetta ár, 1980, í þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem einnig hefur skrifað bók um Hayek, doktorsritgerðina "Hayek’s Conservative Liberalism", (Garland, New York 1987). Þorsteinn Gylfason gagnrýndi réttlætiskenningu Hayeks í löngu máli í "Skírni" 1984, og Hannes H. Gissurarson svaraði honum í "Skírni" 1986. Ólafur Björnsson birti einnig stutta grein um Hayek í bókinni "Einstaklingsfrelsi og hagskipulag" (1982). Tenglar. Hayek, Friedrich A. von Hayek, Friedrich A. von Hayek, Friedrich A. von C. S. Lewis. Clive Staples Lewis (1898 – 1963), vanalega nefndur C. S. Lewis, var írskur rithöfundur og fræðimaður, fæddur í Belfast á Írlandi. Hann er helst þekktur fyrir bækur sínar um töfralandið Narníu. Lewis, C.S. George Bernard Shaw. Mynd af George Bernard Shaw. George Bernard Shaw (26. júlí 1856 – 2. nóvember 1950) var írskt leikritaskáld. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1925. Tenglar. Shaw, George Bernard W. H. Auden. Wystan Hugh Auden (21. febrúar 1907 – 29. september 1973) var eitt helsta ljóðskáld Breta á 20. öld, en einnig einstakur gagnrýnandi og mikilsvirtur þýðandi. Fyrri hluta ævinnar var hann búsettur á Englandi en fluttist til Bandaríkjanna árið 1946 og gerðist bandarískur ríkisborgari. Auden ferðaðist m.a. til Íslands ásamt Louis MacNeice og skrifaði ásamt honum bók um þá ferð, Bréf frá Íslandi. Tenglar. Auden, W.H. T. S. Eliot. Teikning af Eliot eftir Simon Fieldhouse Thomas Stearns Eliot (1888 – 1965) var bandarískt ljóðskáld, leikskáld og gagnrýnandi. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1948. Eliot, T.S. Eliot, T.S. Jack Kerouac. Jack Kerouac (f. 12. mars 1922 i Lowell, Massachusetts; d. 21. oktober 1969 i Saint Petersburg, Florida) var bandarískur rithöfundur, ljóðskáld og listamaður og er venjulega eitt fyrsta nafnið sem nefnt er þegar talað eru um Beat kynslóðina í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að hafa notið takmarkaðrar hylli þegar hann var á lífi er Jack Kerouac núorðið talinn með merkustu rithöfunda sem Bandaríkin hafa alið. Mest er það að þakka bók hans, "Á vegum úti". Tenglar. Kerouac, Jack Á vegum úti. Á vegum úti er bók eftir Bandaríska rithöfundinn Jack Kerouac. Umberto Eco. Umberto Eco (1932-) er ítalskur miðaldarfræðingur, heimspekingur og rithöfundur, og er helst þekktur fyrir skáldsögu sína "Nafn rósarinnar". Eco, Umberto Eco, Umberto Eco, Umberto Elias Canetti. Elias Canetti í Bonn 1970 Elias Canetti (1905-1994) var þýskumælandi búlgverskur rithöfundur. Það tungumál sem hann tók inn með móðurmjólkinni var þó ladino, sem er gömul spænsk mállýska. Hann lærði síðan búlgörsku og ensku, en skrifaði síðar öll verk sín á þýsku, en það var fjórða tungumálið sem hann lærði. Elias Canetti var ávallt mikill aðdáandi þýskrar menningar. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1981. Harold Pinter. Harold Pinter (f. 10. október 1930 í London á Englandi, lést 24. desember 2008 í London) er breskt leikritaskáld og leikstjóri. Hann hefur skrifað fjölda leikrita fyrir leikhús, útvarp og sjónvarp. Pinter hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2005. Vegna bágrar heilsu gat hann ekki ferðast til Svíþjóðar til þess að taka við verðlaununum. Í stað þess sendi hann myndbandsupptöku þar sem hann hélt langa ræðu um feril sinn og gagnrýndi utanríkisstefnu Bandaríkjanna. James Joyce. Ljósmynd af James Joyce frá 1918. James Augustine Aloysius Joyce (2. febrúar 1882 – 13. janúar 1941) var írskur rithöfundur og ljóðskáld. Hann er af mörgum talinn einn fremsti rithöfundur sem uppi hefur verið. Meðal bóka hans eru "Í Dyflinni", "Æskumynd listamannsins", "Finnegans Wake" og sú bók sem sumir telja bestu bók sem skrifuð hefur verið, "Ódysseifur". Sigurður A. Magnússon þýddi hana, sem og allar aðrar bækur Joyce sem þýddar hafa verið á íslensku. Ódysseifur kom út í tveimur bindum 1992–1993. Tenglar. Joyce, James Joyce, James Ludwig von Mises. a> er beint fyrir aftan hann. Ludwig von Mises (29. september 1881-10. október 1973) var austurrískur hagfræðingur (sem síðar gerðist bandarískur ríkisborgari), sem kunnastur er fyrir ádeilu sína á sósíalisma. Ævi. Mises fæddist í Lemberg í keisaradæmi austurrísku Habsborgaranna (nú Lviv í Úkraínu), en ólst upp í Vínarborg. Hann nam hagfræði og lögfræði í Vínarháskóla, þar sem hann var lærisveinn Eugens von Böhm-Bawerks, sem var kunnur hagfræðingur og um skeið fjármálaráðherra Austurríkis. Þótt Mises fengi ekki fasta kennarastöðu í háskóla að loknu doktorsprófi 1906, skrifaði hann næstu áratugi fjölda fræðirita, aðallega um peningamál og hagsveiflur, og hélt reglulega málstofu, sem efnilegustu hagfræðinemar Austurríkis sóttu, þar á meðal Friedrich A. von Hayek. Mises var eindreginn, jafnvel einstrengingslegur frjálshyggjumaður. Hann leiddi rök að því í bókinni "Sameignarskipulaginu" (þ. "Die Gemeinwirtschaft") 1922, að víðtækur áætlunarbúskapur eins og sósíalistar þeirra tíma hugsuðu sér fengi ekki staðist, þar sem þeir, sem semdu áætlunina, gætu aldrei aflað fullnægjandi upplýsinga um aðstæður úti í atvinnulífinu. Sú bók hafði mikil áhrif á Hayek og aðra unga hagfræðinga, þar á meðal Lionel Robbins í Bretlandi, Bertil Ohlin í Svíþjóð og Wilhelm Röpke í Þýskalandi. Mises var ákafur andstæðingur þjóðernisjafnaðarstefnu (nasisma) og fluttist til Sviss 1934, þar sem hann varð prófessor í rannsóknarstofnun um alþjóðaviðskipti. Eftir sigurgöngu nasismans í Evrópu vorið 1940 sá hann þann kost vænstan að flýja til Bandaríkjanna, þar sem hann fékkst við ýmis störf, uns hann gerðist hagfræðiprófessor í New York University 1945. Þar hélt hann reglulega málstofu eins og forðum í Vínarborg og hafði nokkur áhrif, þó að kenningar austurrísku hagfræðinganna um eðli atvinnulífsins nytu þá almennt ekki hylli og þættu sérviskulegar. Hann var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, Mont Pèlerin samtakanna, 1947. Hann lést í New York. Hann var kvæntur Margit von Mises, og er stjúpdóttir hans, Gitta Serény, kunnur blaðamaður og rithöfundur. Á íslensku hafa komið út eftir Mises "Hugleiðingar um hagmál" (1991) í þýðingu Jónmundar Guðmarssonar. Tenglar. Mises, Ludwig von Marquis de Sade. Donatien Alphonse François de Sade (1740–1814), betur þekktur sem Sade markgreifi var franskur aðalsmaður og höfundur sagna sem, á sínum tíma, töldust flokkast undir undir argasta klám. Heimspeki de Sade byggist á því að maðurinn eigi að vera fullkomlega frjáls, þ.á m. undan hvers kyns siðareglum, og eigi þannig að geta leitast við að finna sjálfum sér hina fullkomnu ánægju. Hugtakið sadismi er dregið af nafni hans. Nauteyrarhreppur. Nauteyrarhreppur (áður kallaður Langadalsströnd) var hreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Nauteyri. Hreppurinn var sameinaður Hólmavíkurhreppi 11. júní 1994. Milton Friedman. Milton Friedman (31. júlí 1912 – 16. nóvember 2006) var bandarískur hagfræðingur, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1976 og er kunnur að eindregnum stuðningi við frjálshyggju. Hann er einna kunnastur Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Æviágrip. Hann fæddist í New York og var sonur fátækra gyðingjahjóna frá austurhluta Ungverjalands, sem nú er hluti Úkraínu. Hann stundaði hagfræðinám í Rutgers University og University of Chicago, þar sem hann var lærisveinn Franks H. Knights. Seinna lauk hann doktorsprófi frá Columbia University í New York. Hann var lengst hagfræðiprófessor í University of Chicago, þar sem hann hafði feikileg áhrif á nemendur sína, en frá 1977 til 2006 var hann fræðimaður í Hoover Institution í Stanford University. Friedman stundaði einkum rannsóknir í peningamálahagfræði. Hann blés nýju lífi í hina fornu peningamagnskenningu, sem kveður í einföldustu mynd sinni á um það, að verðlag sé háð peningamagni í umferð og landsframleiðslu. Verðbólga stafar samkvæmt þessu af því, að peningamagn í umferð eykst hraðar en landsframleiðsla. Þess vegna er til einfalt ráð gegn verðbólgu, segir Friedman. Það er að stöðva peningaprentun. Málið er auðvitað miklu flóknara, eins og Friedman viðurkennir fyrstur manna, meðal annars vegna þess að erfitt er að skilgreina peningamagn í umferð og hafa fullkomna stjórn á því. En aðalatriðið er samkvæmt kenningu Friedmans, að ríkið láti sér nægja að framleiða trausta peninga, halda uppi stöðugu verðlagi, en treysti að öðru leyti á sjálfstýringarmátt hins frjálsa markaðar. Þegar ljóst varð upp úr 1970, að hagstjórnarhugmyndir Johns Maynards Keynes skiluðu ekki góðum árangri, hlutu kenningar Friedmans óvænt brautargengi, þótt þeim hafi reitt misjafnlega af í fræðilegum umræðum eftir það. Friedman er einhver kunnasti og áhrifamesti hagfræðingur heims í upphafi 21. aldar. Hann skrifaði lengi fastan dálk í vikublaðið "Newsweek", þar sem hann varpaði fram fjölda róttækra hugmynda, sem allar voru þó um það, að leysa mætti mál í frjálsum viðskiptum frekar en með ríkisafskiptum. Ein hugmyndin var um að fella niður almenna herskyldu (og fóru Bandaríkjamenn um það að ráðum hans), önnur að leyfa sölu ýmissa fíkniefna, enda telur hann, að afleiðingarnar af því að banna þau séu verri en af því að leyfa þau. Friedman gerði líka árið 1980 sjónvarpsþættina Frelsi til að velja (Free to Choose), sem sýndir voru víða um heim og vöktu mikla athygli. Hann var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, Mont Pèlerin samtakanna, 1947 og hafði mikil áhrif á ýmsa stjórnmálamenn, þar á meðal Margréti Thatcher í Stóra-Bretlandi og Ronald Reagan í Bandaríkjunum. Einn lærisveinn hans var þó enn umdeildari en þau Thatcher og Reagan, herforinginn Augusto Pinochet, sem var lengi einræðisherra í Chile. Pinochet kvaddi til ráðgjafar ýmsa hagfræðinga, sem höfðu stundað hagfræðinám í University of Chicago, og gerbreyttu þeir atvinnulífi landsins, seldu ríkisfyrirtæki, lækkuðu skatta og felldu niður margvíslega tollvernd. Þegar Friedman tók á móti Nóbelsverðlaununum í Stokkhólmi 1976, skipulögðu andstæðingar herforingjastjórnarinnar í Chile mótmæli. Friedman svaraði því hins vegar til, að hann hafi vissulega flutt fyrirlestra í Chile og talað þar við ráðamenn. En hann hafi flutt sömu fyrirlestra í einræðisríkinu Kína og talað þar við ráðamenn, án þess að nokkur hafi hreyft mótmælum. Boðskapur sinn sé alls staðar hinn sami, að lækka skatta, selja ríkisfyrirtæki, auka frelsi til viðskipta, víkka út eignarrétt. Hann sé hlynntur lýðræði og virðingu fyrir almennum mannréttindum, en bestu skilyrðin fyrir þessu felist í víðtæku atvinnufrelsi. Friedman kom til Íslands í ágústlok 1984 og flutti fyrirlestur undir heitinu „Í sjálfheldu sérhagsmunanna“ (The Tyranny of the Status Quo), þar sem hann sagði, að einn meginvandinn af ríkisafskiptum væri, að gróðinn af þeim dreifðist á fáa, en tapið á marga, svo að hinir fáu, sem græddu á afskiptunum, berðust harðar en hinir mörgu, sem töpuðu, og sigruðu því ósjaldan. Greinar. Friedman, Milton Friedman, Milton Formúla Bayes. Formúla Bayes er, í líkindafræði, formúla sem segir til um samhengið milli líkinda á atburði "A" skilyrt á öðrum atburði "B", og líkurnar á atburði "B" skilyrt á öðrum atburði "B". Þar sem að formula_2 er líkindamál og formula_3 eru líkurnar á atburði "X" gefið að atburður "Y" hafi þegar gerst. Skilyrtar líkur. Skilyrtar líkur eru, í líkindafræði, lýsing á því hvernig einn atburður er háður öðrum. Skilgreining. formula_3 er lesið „líkurnar á að A gerist, gefið að B gerist“, eða einfaldlega „líkurnar á A gefið B“. Dæmi. Sé tveimur teningum kastað, með það markmið að reyna að fá samanlagða tölu hærri en 10, þá eru líkurnar á því að summan sé hærri en tíu háð niðurstöðunni úr fyrsta kastinu. Köllum atburðinn E = „summan er hærri en 10.“, og atburðinn F = „fyrsta teningskastið var 5“. Gerum ráð fyrir að um sanngjarna teninga sé að ráða, og því jafnar líkur á öllum gildum frá 1 upp í 6. Fyrsta teningnum er kastað, og líkurnar eru "1/6" að atburðurinn F eigi sér stað. Gerum ráð fyrir því að hann eigi sér stað. Hverjar eru líkurnar á að, þegar að seinni teningnum er kastað, að summa þeirra verði 10? Nú eru möguleikarnir á formula_5 þeir að teningaköstin verði formula_6. Þá eru líkurnar á því formula_7. Þá er Langadalsströnd. Langadalsströnd heitir landsvæðið við norðanvert Ísafjarðardjúp að Kaldalóni. Norðan við svæðið er Snæfjallaströnd. Nú eru tveir bæir í byggð sem tilheyra Langadalsströnd, Skjaldfönn og Laugaland. Þeir eru báðir í Skjaldfannardal, sem gengur til austurs frá ströndinni, sunnan við Kaldalón. Kirkjur eru á Nauteyri og Melgraseyri. Nauteyrarhreppur náði áður yfir allt svæðið sem nú er hluti Hólmavíkurhrepps. Fellshreppur (Strandasýslu). Fellshreppur var hreppur í Strandasýslu, kenndur við bæinn Fell í Kollafirði. Hreppurinn varð til ásamt Óspakseyrarhreppi þegar Broddaneshreppi var skipt í tvennt á síðari hluta 19. aldar. 1. janúar 1992 voru hrepparnir sameinaðir á ný undir nafninu "Broddaneshreppur". Don Kíkóti. "Don Kíkóti" (spænska: "Don Quijote de la Mancha", IPA: [don ki'xote ð̞e la 'manʧa]) er skáldsaga eftir spænska rithöfundinn Miguel de Cervantes. Fyrri hluti verksins kom fyrst út þann 16. janúar 1605 en sá síðari ekki fyrr en árið 1615 og hafði þá falsaður seinni hluti verið í umferð um hríð. Verkið er af mörgum talið fyrsta nútímalega skáldsagan og eitt fremsta bókmenntaverk sem ritað hefur verið á spænsku og eitt af því sem langmest er þýtt af þeirri tungu. Verkið gengur á hólm við riddarasöguna og skopstælir hana grimmilega, en formið var mjög vinsælt á tímum Cervantesar. Áhrif verksins á evrópska frásagnarlist allar götur síðan eru gífurleg. Óspakseyrarhreppur. Óspakseyrarhreppur var hreppur í Strandasýslu, kenndur við bæinn Óspakseyri við Bitrufjörð. Hreppurinn varð til ásamt Fellshreppi þegar Bitruhreppi var skipt í tvennt. 1. janúar 1992 voru hrepparnir sameinaðir á ný, að þessu sinni undir nafninu "Broddaneshreppur". Bitruhreppur. Bitruhreppur var hreppur í Strandasýslu, sem kenndur var við Bitrufjörð. Hreppnum var skipt upp í Fellshrepp og Óspakseyrarhrepp en þeir voru endursameinaðir 1. janúar 1992 undir nafninu "Broddaneshreppur". Margrét Thatcher. Margrét Thatcher (eða að fullu "Margaret Hilda Thatcher, Baroness Thatcher of Kesteven"; 13. október 1925 – 8. apríl 2013) var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979-1990 og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1975-1990. Hún varð fyrst kvenna til að gegna þessum tveimur stöðum og sat einnig lengst allra samfellt sem forsætisráðherra Bretlands á 20. öld. Hún var í senn einhver dáðasti og hataðasti stjórnmálamaður lands síns. Thatcher lagði ríka áherslu á að draga úr hvers kyns ríkisafskiptum, sem og á frjálsan markað og frjálst framtak. Áhrifa Thatchers gætir enn innan Breska íhaldsflokksins. Æviágrip. Thatcher fæddist í Grantham í Lincoln-skíri í Austur-Englandi og var skírð Margaret Hilda Roberts. Faðir hennar, Alfred Roberts, var smákaupmaður. Móðir hennar var Beatrice Roberts (fædd Beatrice Stephenson) frá Lincoln-skíri. Margrét átti eina eldri systur, Muriel. Þær systur voru aldar upp í kristinni trú. Faðir þeirra tók þátt í stjórnmálum sem sveitarstjórnarmaður. Margrét gekk í Huntingtower Road Primary School. Þaðan hélt hún til Oxford árið 1943 þar sem hún lauk B.A.-prófi í efnafræði þremur árum síðar frá Oxford-háskóla, og B.Sc.-prófi ári síðar. Oxford-háskóli breytti B.A.-gráðu hennar í M.A.-gráðu árið 1950. Hún varð fyrst kvenna til að vera forseti samtaka íhaldssamra stúdenta við skólann. Frá upphafi stjórnmálaferils til kennslumálaráðuneytisins. Thatcher var yngsti frambjóðandi Breska Íhaldsflokksins í þingkosningunum 1950, en komst ekki á þing. Hún bauð sig aftur fram árangurslaust 1951. Það ár gekk hún að eiga efnaðan kaupsýslumann, Denis Thatcher, og hóf laganám sem hún lauk tveimur árum síðar. Hún settist á þing fyrir Finchley í Lundúnum 1959 og varð kennslumálaráðherra í ríkisstjórn Edwards Heaths 1970. Þeirri stöðu gegndi hún þangað til Heath varð að segja af sér eftir kosningaósigur 1974. Í endurminningum sínum segir Thatcher að hún hafi ekki verið í innsta hring Heaths og hafi haft lítil sem engin áhrif utan ráðuneytis síns. Thatcher var óánægð með forystu Heaths, og þegar enginn annar virtist ætla að bjóða sig fram gegn honum í ársbyrjun 1975, gerði hún það og hafði óvæntan sigur. Hún markaði strax miklu afdráttarlausari stefnu en forveri hennar og hún tók með ánægju upp nafnið „járnfrúin“, eftir að rússneskt blað hafði haft það um hana. Forsætisráðherra. Eftir sigur Íhaldsflokksins í þingkosningunum vorið 1979 myndaði Thatcher ríkisstjórn, sem létti þegar af margvíslegum höftum og tók upp stranga peningamálastefnu í anda Miltons Friedmans. Hún herti líka lagaákvæði um verkalýðsfélög, lenti í miklum útistöðum við samtök námumanna og hafði sigur. Í stjórnartíð hennar dró mjög úr valdi verkalýðshreyfingarinnar bresku, sem hafði verið mjög öflug og jafnvel sagt ríkisstjórnum fyrir verkum. Thatcher hóf stórfellda sölu ríkisfyrirtækja og húsnæðis í eigu opinberra aðila, og hafði það víðtækar afleiðingar í atvinnulífinu. Húseigendum og hluthöfum í atvinnufyrirtækjum snarfjölgaði. Thatcher var samstíga Ronald Reagan Bandaríkjaforseta í Kalda stríðinu. Þau hurfu frá hinni svonefndu slökunarstefnu, detente, og stórefldu þess í stað varnir landa sinna. Þegar herforingjastjórnin í Argentínu lagði vorið 1982 undir sig Falklandseyjar, sem höfðu lengi verið undir stjórn Breta, sendi Thatcher breska flotann suður í höf, og tókst honum að hrekja innrásarliðið á brott. Afsögn. Thatcher sigraði í þingkosningunum 1983 og 1987, sem er einstæður árangur í Bretlandi á 20. öld. En þegar leið fram á þriðja kjörtímabil hennar, varð ljóst, að stuðningur við hana hafði minnkað. Margir þingmenn Íhaldsflokksins óttuðust ósigur í næstu kosningum á eftir, og Thatcher hafði með óbilgirni aflað sér margra fjandmanna innan flokks sem utan. Hún varð að segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, eftir að hún hafði ekki fengið nægilegt fylgi í leiðtogakjöri í nóvember 1990. Í fyrstu studdi hún dyggilega John Major, sem tók við formennsku flokksins af henni, en stuðningur hennar við Major dvínaði þegar á leið. Hún tók sæti í lávarðadeildinni 1992, gaf út endurminningar sínar og sagði hiklaust skoðun sína á mönnum og málefnum. Einkum varð henni tíðrætt um þá hættu, sem einstaklingsfrelsinu stafaði af miðstýringu Evrópusambandsins. Hún dró sig þó að mestu í hlé, eftir að hún hafði fengið vægt hjartaáfall, en árið 2003 missti hún mann sinn, Denis. Þau áttu tvö börn, tvíburana Mark og Carol. Áhrif. Thatcher dró aldrei neina dul á að lærimeistarar hennar voru hagfræðingarnir Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman. Eins og þeir vildi hún takmarkað ríkisvald, en þó traust. Hún kvaðst vera stjórnmálamaður sannfæringar fremur en sátta. Hvaða skoðun sem menn hafa á henni, eru allir sammála um, að stjórnartíð hennar var mikið breytingaskeið á Stóra-Bretlandi. Stuðningsmenn hennar geta bent á það, sem bandaríska vikublaðið Newsweek setti í fyrirsögn á forsíðu, þegar Tony Blair sigraði í þingkosningunum 1997, að þetta var í raun sigur Thatchers, því að Blair datt ekki í hug að hreyfa við neinum þeim breytingum, sem Thatcher hafði gert í bresku atvinnulífi. Áhrifa Thatchers innan Íhaldsflokksins gætir enn. Leiðtogar flokksins frá John Major til William Hague, Iain Duncan Smith og Michael Howard hafa allir reynt að fóta sig í arfleifð Thatcher og hafa meðal annars þurft að leggja mat á hverju í arfleifð hennar megi hreyfa við og hverju ekki. Tenglar. Thatcher, Margrét Thatcher, Margrét Fellsstrandarhreppur. Fellsstrandarhreppur var hreppur í Dalasýslu, sunnan á Klofningsnesi. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Fellsstrandarhreppur 5 öðrum hreppum: Haukadalshreppi, Hvammshreppi, Laxárdalshreppi, Skarðshreppi og Suðurdalahreppi undir nafninu "Dalabyggð". Haukadalshreppur. Haukadalshreppur var hreppur sunnan til í Dalasýslu, kenndur við Haukadal í Dölum. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Haukadalshreppur 5 öðrum hreppum: Fellsstrandarhreppi, Hvammshreppi, Laxárdalshreppi, Skarðshreppi og Suðurdalahreppi undir nafninu "Dalabyggð". Hvammshreppur (Dalasýslu). Hvammshreppur (Hvammssveit) var hreppur í Dalasýslu, fyrir botni Hvammsfjarðar. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Hvammshreppur 5 öðrum hreppum: Fellsstrandarhreppi, Haukadalshreppi, Laxárdalshreppi, Skarðshreppi og Suðurdalahreppi undir nafninu "Dalabyggð". Laxárdalshreppur. Laxárdalshreppur var hreppur í Dalasýslu, fyrir botni Hvammsfjarðar, kenndur við Laxá í Dölum. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Laxárdalshreppur 5 öðrum hreppum: Fellsstrandarhreppi, Haukadalshreppi, Hvammshreppi, Skarðshreppi og Suðurdalahreppi undir nafninu "Dalabyggð". Skarðshreppur (Dalasýslu). Skarðshreppur var hreppur - á norðanverðum skaganum sem klífur austanverðan Breiðafjörð í tvennt, - kenndur við bæinn Skarð á Skarðsströnd. Hreppurinn varð til árið 1918 við skiptingu Skarðsstrandarhrepps í Skarðshrepp og Klofningshrepp. 1. september 1986 var svo Klofningshreppi skipt upp á milli nágrannahreppanna og féll þá nyrðri hlutinn í hlut Skarðshrepps. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Skarðshreppur 5 öðrum hreppum: Fellsstrandarhreppi, Haukadalshreppi, Hvammshreppi, Laxárdalshreppi og Suðurdalahreppi undir nafninu "Dalabyggð". Suðurdalahreppur. Suðurdalahreppur var hreppur syðst í Dalasýslu. Hreppurinn varð til 1. janúar 1992 við sameiningu Hörðudalshrepps og Miðdalahrepps. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Suðurdalahreppur svo 5 öðrum hreppum: Fellsstrandarhreppi, Haukadalshreppi, Hvammshreppi, Laxárdalshreppi og Skarðshreppi undir nafninu "Dalabyggð". Hörðudalshreppur. Hörðudalshreppur var hreppur syðst í Dalasýslu. Hinn 1. janúar 1992 sameinuðust Hörðudalshreppur og Miðdalahreppur undir nafninu "Suðurdalahreppur". Sá hreppur varð svo hluti Dalabyggðar rúmum tveimur árum síðar. Miðdalahreppur. Miðdalahreppur var hreppur syðst í Dalasýslu. Hinn 1. janúar 1992 sameinuðust Miðdalahreppur og Hörðudalshreppur undir nafninu "Suðurdalahreppur". Sá hreppur varð svo hluti Dalabyggðar rúmum tveimur árum síðar. Klofningshreppur. Klofningshreppur var hreppur í Dalasýslu, yst á Klofningsnesi, kenndur við fjallið Klofning. Hreppurinn varð til árið 1918 við skiptingu Skarðsstrandarhrepps í Klofningshrepp og Skarðshrepp. 1. september 1986 var svo Klofningshreppi skipt upp á milli nágrannahreppanna Skarðshrepps og Fellsstrandarhrepps. Skarðsstrandarhreppur. Skarðsstrandarhreppur var hreppur í Dalasýslu, norðan megin á Klofningsnesi. Árið 1918 var hreppnum skipt í tvennt, í Klofningshrepp og Skarðshrepp. Skógarstrandarhreppur. Skógarstrandarhreppur var hreppur í Snæfellsnessýslu, sunnan megin Hvammsfjarðar. Hreppurinn sameinaðist Dalabyggð hinn 1. janúar 1998. Staðarhreppur (V-Húnavatnssýslu). Staðarhreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Stað í Hrútafirði. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist hann hinum 6 hreppum sýslunnar: Fremri-Torfustaðahreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Kirkjuhvammshreppi, Hvammstangahreppi, Þverárhreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Fremri-Torfustaðahreppur. Fremri-Torfustaðahreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Torfustaði í Miðfirði. Hreppurinn varð til á seinni hluta 19. aldar þegar Torfustaðahreppi var skipt í tvennt, í "Ytri-" og "Fremri-" hluta. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Fremri-Torfustaðahreppur hinum 6 hreppum sýslunnar: Staðarhreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Kirkjuhvammshreppi, Hvammstangahreppi, Þverárhreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Ytri-Torfustaðahreppur. Ytri-Torfustaðahreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Torfustaði í Miðfirði. Hreppurinn varð til á seinni hluta 19. aldar þegar Torfustaðahreppi var skipt í tvennt, í "Ytri-" og "Fremri-" hluta. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Ytri-Torfustaðahreppur hinum 6 hreppum sýslunnar: Staðarhreppi, Fremri-Torfustaðahreppi, Kirkjuhvammshreppi, Hvammstangahreppi, Þverárhreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Isa. Isa (عيسى "`Īsā"), einnig notað í sambandinu Isa, sonur Maríu ("`Īsā ibn Miryam") er arabíska nafnið á Jesú, sem er einn af spámönnum íslam. Samkvæmt Kóraninum, var hann einn af uppáhaldsspámönnum Guðs og sérstaklega sendur til að leiða börn Ísraels (Beni Israel). Kristnir arabar nefna Jesús Yasu' al-Masih eða Isa al-Masih (يسوع المسيح "Yasū`a al-Masīħ"). Torfustaðahreppur. Torfustaðahreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Torfustaði í Miðfirði. Hreppnum var skipt í tvennt á seinni hluta 19. aldar, í "Ytri-" og "Fremri-Torfustaðahrepp". Þeir urðu svo báðir hluti af Húnaþingi vestra árið 1998. Þverárhreppur. Þverárhreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Þverá í Vesturhópi. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist hann hinum 6 hreppum sýslunnar: Staðarhreppi, Fremri-Torfustaðahreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Kirkjuhvammshreppi, Hvammstangahreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Þorkelshólshreppur. Þorkelshólshreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Þorkelshól í Víðidal. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist hann hinum 6 hreppum sýslunnar: Staðarhreppi, Fremri-Torfustaðahreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Kirkjuhvammshreppi, Hvammstangahreppi og Þverárhreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Kirkjuhvammshreppur. Kirkjuhvammshreppur var hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Kirkjuhvamm á Vatnsnesi. Þorpið Hvammstangi var innan hreppsins framan af, en það var gert að sérstökum hreppi 1. júlí 1938. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Kirkjuhvammshreppur hinum 6 hreppum sýslunnar: Staðarhreppi, Fremri-Torfustaðahreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Hvammstangahreppi, Þverárhreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Hvammstangi. Hvammstangi er kauptún í Húnaþingi vestra. Hann var upphaflega í Kirkjuhvammshreppi en var gerður að sérstökum hreppi, Hvammstangahreppi, hinn 1. júlí 1938. Hrepparnir tveir sameinuðust á ný 7. júní 1998 ásamt hinum 5 hreppunum í Vestur-Húnavatnssýslu: Staðarhreppi, Fremri-Torfustaðahreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Þverárhreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu "Húnaþing vestra". Hvammstangi var gerður að viðurkenndum verslunarstað árið 1895 en þá voru engin íbúðarhús á staðnum. Hið fyrsta slíka var byggt árið 1900. Þá hófust einnig fiskveiðar þar á tanganum og eru hafnarskilyrði þar nú góð. Mest er veitt af rækju og grásleppu. Á Hvammstanga er margvísleg þjónusta fyrir sveitirnar í Húnaþingi vestra. Hitaveita Húnaþings vestra á Laugarbakka sér Hvammstanga fyrir heitu vatni en þangað var lögð hitaveituæð 1972. Vatnsveita kom í plássið 1952 en áður hafði hvert hús haft eigin brunn. Læknir hefur haft aðsetur sitt á Hvammstanga allt frá 1905 en hann þjónaði jafnframt héraðinu. Á árunum 1979 til '81 var heilsugæsla byggð á staðnum. 12. janúar 2007 opnaði Fæðingarorlofssjóður starfsemi sína á Hvammstanga. 25. júní 2006 var opnað Selasetur á Hvammstanga. Hús Verslunar Sigurðar Pálmasonar, sem reist var 1926, hýsir Selasetrið. Í Selasetrinu má nálgast fróðleik í máli og myndum um seli og ýmsa hjátrú tengda þeim. Eitt aðgengilegasta selalátur landsins er á Vatnsnesi, norður af Hvammstanga. Hvammstangakirkja var vígð 21. júlí 1957. Er hún steinsteypt og tekur 160 manns í sæti. Í Kirkjuhvammi, rétt ofan Hvammstanga, er eldri kirkja - frá árinu 1882. Hún er friðlýst og í umsjón Þjóðminjasafns Íslands. Gripir úr henni eru í Hvammstangakirkju og ber þar að nefna messingskírnarfat frá árinu 1753 og silfurkaleik frá 1821. Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður í handbolta er fæddur á Hvammstanga árið 1985. Klám. Klám er klúr framsetning á kynferðislegu efni sem notað er til kynörvunar og dreift í formi mynda, texta og ljóða, svo sem í bókum, tímaritum, ljósmyndum, kvikmyndum og á netinu. Til að koma böndum á "klám" er í mörgum þjóðfélögum gripið til lagasetningar, á grundvelli velsæmislaga og ritskoðunar. Lögfræðileg útskýring. "Lögfræðiorðabókin", sem kom út árið 2008, útskýrir klám þannig: „Ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunarskyni, án ástar, blíðu eða ábyrgðar. Birting kláms er refsiverður verknaður, sbr. 210. gr hgl“. Aðalsveldi. Aðalsveldi eða úrvalsveldi (gríska: aristokratiā) þýddi í Forn-Grikklandi stjórnkerfi þar sem þeir bestu og hæfustu réðu en stjórnmálaþátttaka takmarkaðist við hóp fárra manna. Orðið er myndað úr orðunum „aristo-“ (sem merkir það besta) og „kratiā“ (stjórn). Þar sem engin sátt ríkir um það hvað telst best, sérstaklega þegar kemur að stjórnskipulagi, er erfitt að nota orðið í þessu samhengi. Það virðist einkum hafa verið notað um góða og vel heppnaða fámennisstjórn. Orðið var síðar notað um ríki þar sem aðalsmenn stjórnuðu og vald gekk í erfðir. Truman Capote. Truman Capote (30. september 1924 – 25. ágúst 1984) var bandarískur rithöfundur, helst þekktur fyrir bókina "Með köldu blóði" (e. "In Cold Blood") sem hann sjálfur kallaði óskáldaða skáldsögu (e. nonfiction novel), einnig nefnt heimildaskáldsaga, hugtak sem var ætlað að lýsa því að þó svo bókin fjalli um sannsögulega atburði taki höfundurinn sér sjálfur þónokkuð skáldaleyfi. Meðal annarra verka hans eru "Morgunverður á Tiffanys" (e. "Breakfast at Tiffany's"), sem fræg mynd var gerð eftir. Sumir telja hann einnig hafa skrifað stóran hluta sögunnar "To Kill a Mockingbird". Capote, Truman Síkismi. Gyllta musterið er heilagasta bygging síka Síkismi, eða Síkhismi (á punjabí: ਸਿੱਖੀ), er eingyðistrú byggð á kenningum tíu gúrua sem lifðu á 16. og 17. öld á norðurhluta Indlands. Þetta er eitt af stærri trúarbrögðum heims með yfir 23 milljónir trúaðra. "Síkismi" er dregið af orðinu "sikh", sem á upphaf í sanskrítar rótinni 'śikkya' (शिष्य) sem þýðir „nemandi“ eða „fylgjandi“ eða frá samsvarandi Pāli orði 'sikkhā' (सिक्खा). Þeir sem fylgja síkisma eru nefndir síkar. Trúaðir síkar drekka ekki áfengi, nota ekki önnur fíkniefni og borða ekki kjöt. Síkar trúa á karma og endurfæðingu eins og hindúar, en hafa hins vegar aðeins einn Guð. Guru Granth Sahib er heilagur texti í augum Síka og álíta þeir hann vera ellefta og loka meistara (gúru) Guðs. Heimspeki síkisma einkennist af því að bæði andleg og veraldleg verkefni eru meðhöndluð með rökum. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (fæddur 19. febrúar 1953 í Reykjavík) er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og virkur þátttakandi í stjórnmálaumræðum á Íslandi. Hann er kunnur að eindregnum stuðningi við frjálshyggju. Fjölskylda. Faðir Hannesar var Gissur Jörundur Kristinsson, trésmiður og framkvæmdastjóri. Móðir hans, Ásta Hannesdóttir, var handavinnukennari og almennur kennari. Systkini Hannesar eru Salvör Kristjana Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni við kennslu- og menntunarsvið Háskóla Íslands, Kristinn Dagur Gissurarson, tæknifræðingur og Guðrún Stella Gissurardóttir, forstöðumaður Atvinnumiðlunar Vestfjarða. Nám og störf. Hannes lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972, þar sem hann hlaut gullpennann fyrir bestu ritgerð vetrarins. Hann lauk B. A. prófi í sagnfræði og heimspeki 1979 og cand. mag. prófi í sagnfræði 1982 frá Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði (e. politics) frá félagsvísindadeild (faculty of social studies) Oxford-háskóla 1985, en þar var hann R. G. Collingwood Scholar í Pembroke College 1984-1985. Hann stofnaði ásamt nokkrum skólabræðrum sínum "The Hayek Society" í Oxford, þar sem rætt var um rök með og á móti frjálshyggju. Hannes Hólmsteinn hlaut fyrstu verðlaun í ritgerðasamkeppni Mont Pèlerin Society 1984 og varð sama ár félagi í samtökunum. Hann hefur kennt í Háskóla Íslands frá 1986, fyrst í heimspekideild, síðan félagsvísindadeild, þar sem hann hefur verið prófessor frá 1995. Hann hefur tvisvar verið Fulbright Scholar í Bandaríkjunum og einu sinni Sasakawa Scholar í Japan. Hann hefur líka verið gistifræðimaður eða gistiprófessor í Hoover stofnuninni í Stanford-háskóla, George Mason-háskóla í Virginíu, U. C. L. A. (e. University of California at Los Angeles), Tokyo University of the Fisheries, L. U. I. S. S. (í. Libera Università Internazionali degli Studi Sociali) í Róm og I. C. E. R. (e. International Centre for Economic Research) í Tórínó. DV kaus hann „penna ársins“ 1984. Hannes var í stjórn Mont Pèlerin Society 1998-2004 og skipulagði ásamt öðrum fund samtakanna á Íslandi í ágúst 2005. Áhrif. Hannes Hólmsteinn Gissurarson var blaðamaður "Eimreiðarinnar", sem ungir frjálshyggjumenn gáfu út 1972–1975. Í hinum svonefnda "Eimreiðarhópi" voru með honum m. a. Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson, Geir H. Haarde, Baldur Guðlaugsson, Brynjólfur Bjarnason, Kjartan Gunnarsson, Magnús Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Þessi hópur varð mjög áhrifamikill í Sjálfstæðisflokknum í lok 8. áratugar og beitti sér fyrir því að sveigja stefnu flokksins í átt til nýfrjálshyggju. Hannes stofnaði ásamt nokkrum öðrum Félag frjálshyggjumanna 1979, sem starfaði í tíu ár. Það fékk Nóbelsverðlaunahafana Friedrich A. von Hayek, James M. Buchanan og Milton Friedman til að koma til landsins og tala um fræði sín. Vöktu heimsóknir þeirra og fyrirlestrar athygli. Einnig gaf Félag frjálshyggjumanna út ýmis rit og tímaritið "Frelsið" 1980-1988, fyrst undir ritstjórn Hannesar, síðan Guðmundar Magnússonar. Árið 1984 rak Hannes ásamt Kjartani Gunnarssyni ólöglega útvarpsstöð, sem nefndist Fréttaútvarpið, dagana 2.–10. október. Henni var lokað með lögregluvaldi og opinbert mál höfðað gegn þeim Hannesi og Kjartani fyrir brot á útvarpslögum. Hlutu þeir dóm fyrir þetta tiltæki. En rekstur útvarpsstöðvarinnar hafði þau áhrif, að forysta Sjálfstæðisflokksins snerist til fylgis við frjálst útvarp eftir nokkurt hik árin á undan. Árið 1990 gaf Hannes út bókina "Fiskistofnarnir við Ísland: Þjóðareign eða ríkiseign?" þar sem hann mælti með kerfi varanlegra, framseljanlegra aflakvóta, sem úthlutað væri ókeypis í upphafi. Árið 2002 gaf Hannes út bókina "Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi?" þar sem hann mælti með stórfelldum skattalækkunum á fyrirtæki í því skyni að laða fjármagn til landsins og gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Ræddi hann í bókinni fordæmi Írlands og Lúxemborgar, en líka ýmissa lítilla eyríkja eins og Ermarsundseyja og Cayman-eyja. Hannes hafði mikil áhrif á stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs Oddssonar og síðar Geirs H. Haarde. Áhrif Hannesar voru ekki síst augljós á þá einkavæðingarstefnu sem hófst á síðari hluta 10. áratugs 20. aldar. Deilur. Allt frá því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson vakti fyrst athygli opinberlega með vikulegum útvarpsþáttum, sem hann sá um veturinn 1976-1977 undir nafninu „Orðabelgur“, hafa staðið um hann og boðskap hans harðar deilur. Einn kennara hans í Háskóla Íslands, Þorsteinn Gylfason, skrifaði um hann fjölda greina í "Morgunblaðið", þar sem hann kallaði hann meðal annars „sauð í sauðargæru“, en Hannes svaraði og sagði, að Þorsteinn væri einn elsti og efnilegasti heimspekingur þjóðarinnar. Seinna deildu þeir Þorsteinn og Hannes í "Skírni" (1984 og 1986) um réttlætiskenningar Roberts Nozick og Friedrichs A. von Hayek. Í ársbyrjun 1984 áttu þeir Hannes og Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var ritstjóri "Þjóðviljans", í hörðum deilum um kenningar Miltons Friedman. Ólafur Ragnar hafði endursagt greinar úr enskum dagblöðum um það, að ýmislegt væri ámælisvert við rannsóknaraðferðir Friedmans í peningamálasögu þeirri, sem hann hafði samið. Var tölfræðiprófessor í Oxford, David Hendry, borinn fyrir gagnrýninni. Hannes sneri sér til Hendrys, sem aftók, að hann hefði vænt Friedman um óheiðarleg vinnubrögð. Skipun Hannesar í stöðu lektors í stjórnmálafræði í félagsvísindadeild Háskóla Íslands sumarið 1988 vakti hörð viðbrögð, því að deildin hafði mælt með öðrum manni. Hafði dómnefnd á vegum deildarinnar komist að þeirri niðurstöðu, að Hannes væri aðeins hæfur að hluta í stöðu lektors í stjórnmálafræði. Birgir Ísleifur Gunnarsson menntamálaráðherra og flokksfélagi Hannesar leitaði hins vegar til tveggja erlendra kennara hans, sem báðir töldu hann hæfan í stöðuna. Meðumsækjendur Hannesar kærðu þessa gerð til umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hefði verið athugavert við hana. Hannes gagnrýndi óspart Jón Ólafsson athafnamann, á meðan Jón átti og rak Stöð tvö, þar á meðal í fyrirlestri á ensku á norrænni blaðamannaráðstefnu 1999. Árið 2004 höfðaði Jón meiðyrðamál gegn Hannesi úti í Bretlandi vegna þessara ummæla, sem Hannes hafði sett á heimasíðu sína þar sem Jón var opinberlega vændur um að hafa efnast á glæpastarfsemi s.s. fíkniefnasölu. Að ráði dómsmálaráðuneytisins og lögfræðings Háskólans sinnti Hannes ekki þessu máli. Féll þess vegna í því útivistardómur sumarið 2005 þar sem Hannes var dæmdur til að greiða Jóni 100 þúsund pund (um 12 milljónir ísl. kr.) í bætur og málskostnað. Hannes áfrýjaði þessum dómi til yfirréttar, The Royal High Court of Justice, í Lundúnum, sem úrskurðaði 8. desember 2006, að dómurinn skyldi vera ógildur, þar sem Hannesi hefði ekki verið stefnt eftir íslenskum reglum, eins og skylt hefði verið. Þegar Hannes sagði frá því opinberlega sumarið 2003, að hann væri að skrifa ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, meinaði Auður Laxness, ekkja Halldórs, honum aðgang að bréfasafni skáldsins, sem hún hafði gefið á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, 1996. Eftir að fyrsta bindi ævisögu skáldsins, "Halldór", kom út, gagnrýndu Helga Kress og fleiri Hannes harðlega fyrir að nota í bókinni texta frá Laxness í heimildarleysi, án þess að geta tilvitnana. Haustið 2004 höfðaði Auður mál gegn Hannesi fyrir brot á lögum um höfundarrétt. Hann var sýknaður af kröfum hennar í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. nóvember 2006. Auður áfrýjaði dómnum og Hannes var dæmdur í Hæstarétti fyrir brot á höfundarrétti í um 2/3 tilvika, sem hann var ákærður fyrir, og gert að greiða Auði Laxness 1,5 milljón króna í fébætur. Hannes var einnig dæmdur til að greiða málskostnað, 1,6 milljón króna. Efnt var til söfnunar í „málfrelsissjóð“ af vinum Hannesar til að hlaupa undir bagga með honum vegna vegna málskostnaðar. Sigríður Tómasdóttir (í Brattholti). Sigríður Tómasdóttir (í Brattholti) (24. febrúar 1871 -1957) er þjóðþekkt kona á Íslandi fyrir framtak sitt til verndunar Gullfoss og annarra fossa, en hún barðist af einurð gegn áformum um virkjun fossins og var brautryðjandi á sviði náttúruverndar. Árið 2011 opnaði umhverfisráðherra fræðslustíg sem kenndur er við Sigríði við Gullfoss, þar sem er að finna upplýsingar um fossinn og baráttu Sigríðar fyrir verndun hans. Náttúruverndarviðurkenning. Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti var veitt í fyrsta sinn í tilefni 20 ára afmælis umhverfisráðuneytisins árið 2010. Síðan þá hefur viðurkenningin verið veitt árlega. Stolía. Stolía er íslensk rokkhljómsveit. Árið 1995 hafnaði Stolía í öðru sæti í músíktilraunum. Arnar Þór Gíslason trommari sveitarinnar er bróðir Haralds Freys Gíslasonar trommara hljómsveitarinnar Botnleðju. Eftir að hafa verið í Stolíu hefur hann spilað með sveitum á borð við Ensími, Dr. Spock, Bang Gang og Írafár. Skagahreppur. Skagahreppur var hreppur utarlega á Skaga í Austur-Húnavatnssýslu. Hreppurinn varð til við skiptingu Vindhælishrepps í þrennt 1. janúar 1939. Skagahreppur sameinaðist Vindhælishreppi á ný 9. júní 2002, þá undir nafninu "Skagabyggð". Vindhælishreppur. Vindhælishreppur var hreppur vestan megin á Skaga í Austur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Vindhæli á Skagaströnd. Upphaflega teygði hreppurinn sig eftir allri Skagaströnd að Laxá, en 1. janúar 1939 var honum skipt í þrennt. Nyrsti hlutinn varð að Skagahreppi, miðhlutinn að Höfðahreppi, en syðsti hlutinn sunnan Hrafnsár hét áfram Vindhælishreppur. Vindhælishreppur sameinaðist Skagahreppi á ný 9. júní 2002, þá undir nafninu "Skagabyggð". Engihlíðarhreppur. Engihlíðarhreppur var hreppur norðan Blöndu í Austur-Húnavatnssýslu, kenndur við bæinn Engihlíð í Langadal. Engihlíðarhreppur sameinaðist Blönduósbæ 9. júní 2002, undir nafni hins síðarnefnda. Gúru. Gúru (sanskrit गुरु), er meistari og kennari í hindúisma, búddisma og síkisma. Frá ævafornu á að meðhöndla gúruann með sömu virðingu og Guð eða guðina í indverskri menningu. Gúru er persónulegur andlegur kennari og leiðarvísir. "Gúru" er einnig virðingartitill á tíu fyrstu andlegu leiðtogum Síka. Síki. Síki er fylgjandi síkisma. Orðið síki kemur úr sanskrítar rótinni 'śikkya' (शिष्य) sem þýðir "fylgismaður" og "nemandi". Flestir síkar hafa ætt að rekja til Punjab á Indlandi og flestir þeirra búa þar enn þó að síkar búi nú um allan heim. Hægt er að þekkja síkiska karlmenn og sumar konur á því að þau bera alltaf túrban til að þekja sítt hár sitt. Túrbaninnn er mjög sérstakur og lítur ekki út eins og túrbanar sem aðrar þjóðir í Asíu bera. Nú á tímum bera þó ekki allir síkar túrbana né hafa sítt hár. Í síkisma er ekkert vandamál að vera á mismunandi stigum í ræktun trúarinnar. Til dæmis má nefna svo nefndir "Sahajdhari" (hæg aðlögun) sem eru síkar sem ekki bera hin fimm K en eru álitnir síkar þrátt fyrir það. Eftirnafnið (og enn algengara sem millinafn) Singh (þýðir ljón) er mjög algengt hjá karlmönnum, og Kaur (þýðir prinsessa) hjá konum. En langt frá því allir sem heita Singh eða Kaur eru síkar. Nafnið Singh er tengt hermennsku á Indlandi að minnsta kosti frá áttundu öld. Guru Granth Sahib. Guru Granth Sahib (punjabí: ਗੁਰੂ ਗ੍ਰੰਥ ਸਾਹਿਬ) er hin heilaga ritning síkismans allt frá 1604, en öðlaðist 1708 stöðu sem hinn ellefti lifandi gúruinn. Bókin er 1430 blaðsíður og samanstendur af textum frá meisturum síkisma, gúrunum tíu og frá hindúiskum og múslimskum spámönnum og dýrlingum. Bókin er ætíð í hásæti í musterum Síka. Helluhraun. Helluhraun eru nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Hallmundarhraun og Eldhraun við Mývatn. Það síðarnefnda rann á árunum 1724 til 1729. Við mikið hraunrennsli geta hraunrásir flutt kvikuna undir nýstorknað hraun. Við vissar aðstæður geta neðanjarðar hraunrásir tæmst og skilið eftir sig hella og traðir. Dæmi um slíka hella eru Surtshellir (lengsti hellir Íslands), Víðgelmir og Raufarhólshellir. Listi yfir skráð trúfélög á Íslandi. Eftirfarandi er listi yfir skráð trúfélög á Íslandi og fjöldi meðlima 1. desember 2009, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands frá 13. janúar 2010. Skráð trúfélög á Íslandi njóta ýmissa réttinda, til dæmis er bannað samkvæmt almennum hegningarlögum að smána trúarkenningar eða guðsdýrkun þeirra (sjá guðlast). Frjálslyndi flokkurinn (Ítalía). Frjálslyndi flokkurinn á Ítalíu (ítalska: "Partito Liberale Italiano" eða "PLI") er stjórnmálaflokkur sem á sér mjög gamlar rætur í ítölskum stjórnmálum, þótt núverandi flokkur með þessu nafni hafi formlega verið stofnaður fyrst 5. júlí 1997 sem "Partito Liberale". Meginstraumar í stjórnmálastefnu flokksins eru andklerkastefna (sem var eitt af megineinkennum frjálslyndra stjórnmálamanna fyrir tíma skipulagðra stjórnmálaflokka) og frjálshyggja í efnahagsmálum, en innri átök í flokknum hafa oft snúist um það hvaða áherslu skuli leggja á hvort þessara atriða í stefnu flokksins. Stofnun frjálslynds stjórnmálaflokks. Fyrsti frjálslyndi flokkurinn á Ítalíu var stofnaður árið 1921, af stjórnmálamönnum sem litu á sig sem arftaka hinnar frjálslyndu borgarastéttar, manna eins og Camillo Cavour og Giovanni Giolitti. Þessi flokkur leystist upp við valdatöku fasista. Einn af fyrrum ráðherrum þessa flokks, Benedetto Croce, stofnaði svo nýjan frjálslyndan flokk 1943. Þessi flokkur tók virkan þátt í andspyrnuhreyfingunni og átti aðild að þjóðstjórnum Ivanoe Bonomi og Ferruccio Parri og átti meðal annars þátt í að fella þá síðastnefndu. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um konungsvaldið, var flokkurinn hlynntur því að Ítalía yrði áfram konungsríki. Flokkurinn tók þátt í samningu nýrrar stjórnarskrár Ítalíu. Á þessum tíma áttu frjálslyndir tvo forseta, Enrico De Nicola (1946-1948), fyrsta eiginlega forseta Ítalíu, og Luigi Einaudi (1948-1955). Flokkurinn náði sér í raun aldrei á strik í ítölskum stjórnmálum á 20. öld og var alla tíð smáflokkur sem aldrei náði 10% fylgi í kosningum. Afstaða flokksins, fyrir trúfrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju og gegn þjóðnýtingu raforkufyrirtækja, skipaði honum ýmist í hóp með hægriflokkum eða róttækum vinstriflokkum, og flokkurinn varð helsti andstæðingur þeirrar vinstri-miðjustefnu sem var ríkjandi á Ítalíu, með stjórnmálabandalagi kristilegra demókrata og sósíalista. Ekki voru allir sáttir við þessa stefnu flokksins og árið 1955 klauf hópur sig út og myndaði róttæka flokkinn, sem þótti nær hefðbundinni frjálslyndri afstöðu Benedetto Croce en frjálshyggju Luigi Einaudi. Fimmflokkurinn og "Mani pulite". Á 9. áratugnum gekk flokkurinn inn í Fimmflokkinn sem var bandalag stjórnarflokkanna til 1992. Flokkurinn blandaðist inn í hneykslismálið kringum "Mani pulite", þrátt fyrir að hann virtist í fyrstu geta staðið utan við það. Frjálslyndur heilbrigðisráðherra, Francesco De Lorenzo, varð einn af hötuðustu stjórnmálamönnum Ítalíu, þegar í ljós kom að hann hafði stolið fé úr sjóðum heilbrigðisþjónustunnar og gefið leyfi til lyfjasölu á grundvelli mútugreiðslna. Hann þóttist síðan fá taugaáfall til að losna úr fangelsi og birtist í réttarsal órakaður og óhreinn, en reyndist síðan vera alfrískur, þar sem náðust myndir af honum vel til höfðum og brosandi á veitingastað í Róm. Hann hafði þá notað tímann utan fangelsisins til að brenna skjöl sem hefðu getað sakfellt hann frekar. Endurstofnun. Eftir "Mani pulite" leystist flokkurinn upp og flestir meðlimir hans gengu í nýstofnaðan hægriflokk Silvio Berlusconi, "Forza Italia". Nýr flokkur með þessu nafni var svo stofnaður árið 1997 og hefur stefnuskrá sem skipar sér með frjálshyggju Luigi Einaudi og gegn þeirri vinstri-miðjunálgun sem einkenndi flokkinn í Fimmflokknum, og þykir tengjast hnignun hans. Skefilsstaðahreppur. Skefilsstaðahreppur var hreppur í Skagafjarðarsýslu, austan megin á Skaga, kenndur við bæinn Skefilsstaði. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist hreppurinn 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Skefilsstaðahrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Bjarni Egilsson, Brynja Ólafsdóttir, Guðmundur Vilhelmsson, Hreinn Guðjónsson og Jón Stefánsson. Skarðshreppur (Skagafjarðarsýslu). Skarðshreppur var hreppur vestan til í Skagafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Skarð í Gönguskörðum, undir Tindastóli. Hreppurinn varð til ásamt Sauðárkrókshreppi árið 1907 þegar Sauðárhreppi var skipt í tvennt. Í Skarðshreppi voru þrjár sveitir: Yst er Reykjaströnd, undir Tindastól austanverðum. Þá eru Gönguskörð, fjalldalir sunnan Tindastóls og loks Borgarsveit, byggðarlagið sunnan Sauðárkróks. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Skarðshreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Skarðshrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Andrés Helgason, Jón Eiríksson, Sigrún Aadnegaard, Sigurður Guðjónsson og Úlfar Sveinsson. Sauðárhreppur. Sauðárhreppur var hreppur vestan til í Skagafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Sauðá. Hreppnum var skipt í tvennt árið 1907, í Sauðárkrókshrepp og Skarðshrepp. Þeir hreppar urðu svo báðir hluti sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 1998. Staðarhreppur (Skagafjarðarsýslu). Staðarhreppur (áður Reynistaðarhreppur) var hreppur vestan Héraðsvatna í Skagafjarðarsýslu, kenndur við kirkjustaðinn Reynistað. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist hreppurinn 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Staðarhrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Bjarni Jónsson, Helgi Jóhann Sigurðsson, Ingibjörg Hafstað, Sigmar Jóhannsson og Sigurður Baldursson. Seyluhreppur. Seyluhreppur var hreppur vestan Héraðsvatna í Skagafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Stóru-Seylu á Langholti, sem var þingstaður hreppsins. Til hreppsins töldust fjögur byggðarlög, Langholt, Vallhólmur, Víðimýrarhverfi og Skörð, en einnig Fjall, Geldingaholt og Húsabakkabæirnir, sem ekki töldust tilheyra neinu þessara byggðarlaga. Byggðin er breið og áttu aðeins sex bæir í hreppnum land til fjalls. Hreppurinn var allur í Glaumbæjarsókn en þar eru tvær kirkjur, í Glaumbæ og á Víðimýri. Fyrr á öldum var einnig kirkja í Geldingaholti. Aðalatvinnuvegur hreppsbúa var lengst af landbúnaður en nokkru fyrir miðja 20. öld byggðist upp dálítill þéttbýliskjarni í Varmahlíð og starfa íbúar þar flestir við verslun og þjónustu af ýmsu tagi. Þar er skóli, félagsheimili, hótel og sundlaug, auk verslunar og annarrar þjónustustarfsemi. Við sameininguna bjuggu 303 íbúar í hreppnum, þar af 125 í Varmahlíð. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist hreppurinn 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Seyluhrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Anna Sigríður Hróðmarsdóttir, Arnór Gunnarsson, Kristján Sigurpálsson, Sigurður Harldsson og Sveinn Allan Morthens. Lýtingsstaðahreppur. Lýtingsstaðahreppur var hreppur í innanverðum Skagafirði, vestan Héraðsvatna, kenndur við bæinn Lýtingsstaði í Tungusveit. Hreppurinn náði frá bænum Krithóli, skammt sunnan Vatnsskarðs, allt suður að vatnaskilum á hálendinu þar sem skiptir milli norður- og suðurlands. Margar sveitir voru innan Lýtingsstaðahrepps, Efribyggð og Neðribyggð eru vestan Svartár en norðan Mælifellshnjúks, undir Hamraheiði nefndist áður Fremribyggð. Austan Svartár og suður að bænum Tunguhálsi heitir Tungusveit og sunnan við hana tekur við Vesturdalur. Vestan Vesturdals er Svartárdalur en austan Vesturdals er Austurdalur sem reyndar er að mestu í Akrahreppi en þó var bærinn Bústaðir í Lýtingsstaðahreppi. Við Héraðsvötn, gegnt Úlfsstöðum, Kúskerpi og Uppsölum í Blönduhlíð nefnist Dalspláss. Landbúnaður er helsta atvinnugreinin á svæðinu en ýmsir hafa einnig atvinnu af þjónustu og dálítið þéttbýli hefur myndast á tveimur stöðum innan hins forna hrepps, á Varmalæk á Neðribyggð og á Steinsstöðum í Tungusveit. Jarðhiti er á nokkrum stöðum í hreppnum. Kirkjur eru á Reykjum, á Mælifelli og í Goðdölum. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist hreppurinn 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Lýtingsstaðahrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Björn Ófeigsson, Elín Sigurðardóttir, Eyjólfur Pálsson, Indriði Stefánsson og Rósa Björnsdóttir. Rípurhreppur. Rípurhreppur var hreppur í miðri Skagafjarðarsýslu, kenndur við kirkjustaðinn Ríp í Hegranesi. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Rípurhreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Rípurhrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Lilja Ólafsdóttir, Pálmar Jóhannesson, Símon Traustason, Sævar Einarsson og Þórunn Jónsdóttir. Viðvíkurhreppur. Viðvíkurhreppur var hreppur í Skagafjarðarsýslu, milli Héraðsvatna og Hjaltadalsár, kenndur við kirkjustaðinn Viðvík. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Viðvíkurhreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Viðvíkurhrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Brynleifur Siglaugsson, Halldór Jónasson, Halldór Steingrímsson, Haraldur Þór Jóhannsson og Trausti Kristjánsson. Hólahreppur. Hólahreppur var hreppur austan til í Skagafjarðarsýslu, kenndur við hið forna biskupssetur Hóla í Hjaltadal. Hólahreppur náði yfir tvo byggða dali: Hjaltadal og Kolbeinsdal, sá síðarnefndi er að mestu kominn í eyði. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Hólahreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Hólahrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Bryndís Bjarnadóttir, Einar Svansson, Gunnar Guðmundsson, Sverrir Magnússon og Valgeir Bjarnason. Hofshreppur (Skagafjarðarsýslu). Hofshreppur (áður Höfðastrandarhreppur) var hreppur í Skagafjarðarsýslu, austan megin Skagafjarðar, kenndur við kirkjustaðinn Hof á Höfðaströnd. Hinn forni verslunarstaður Hofsós var gerður að sérstökum hreppi 1. janúar 1948 en sameinaður Hofshreppi á ný 10. júní 1990, ásamt Fellshreppi þar norður af. Náði Hofshreppur þar með allt norður að Fljótavík. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Hofshreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Fellshreppur (Skagafjarðarsýslu). Fellshreppur (áður Sléttuhlíðarhreppur) var hreppur í Skagafjarðarsýslu, austan megin Skagafjarðar, kenndur við kirkjustaðinn Fell í Sléttuhlíð. Í hreppnum voru tvö byggðarlög, Sléttuhlíð og Hrolleifsdalur, en dalurinn er löngu kominn í eyði og orðinn að afréttarlandi. Fellshreppur sameinaðist Hofshreppi 10. júní 1990. Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Fellshrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 14. júní 1986 og hana skipuðu Eggert Jóhannsson, Jón Björn Sigurðsson, Kristján Árnason, Magnús Pétursson og Stefán Gestsson. Fljótahreppur. Fljótahreppur var hreppur nyrst í Skagafjarðarsýslu, austan megin Skagafjarðar, kenndur við sveitina Fljót. Fljótahreppur skiptist í Haganeshrepp og Holtshrepp árið 1898 (eða 1899) en þeir sameinuðust aftur undir sama nafni 1. apríl 1988. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Fljótahreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Sauðárkrókskaupstað, Skarðshreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi og Hofshreppi og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Fljótahrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1994 og hana skipuðu Guðrún Halldórsdóttir, Gunnar Steingrímsson, Haukur Ástvaldsson, Hermann Jónsson og Örn Þórarinsson. Haganeshreppur. Haganeshreppur var hreppur í Fljótum nyrst í Skagafjarðarsýslu. Hreppurinn varð til ásamt Holtshreppi árið 1898 (eða 1899) þegar Fljótahreppi var skipt í tvennt. Þeir sameinuðust aftur undir gamla nafninu 1. apríl 1988. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist svo Fljótahreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Haganeshrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 1986. Holtshreppur. Holtshreppur var hreppur í Fljótum nyrst í Skagafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Stóra-Holt í Fljótum, sem var þingstaður Fljótamanna frá því snemma á öldum og til loka 19. aldar. Hreppurinn varð til ásamt Haganeshreppi árið 1898 (eða 1899) þegar Fljótahreppi var skipt í tvennt. Þeir sameinuðust aftur undir gamla nafninu 1. apríl 1988. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist svo Fljótahreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". Hreppsnefnd. Síðasta hreppsnefnd Holtshrepps var kosin í hreppsnefndarkosningunum 28. maí 1986 og hana skipuðu Guðrún Helgadóttir, Heiðar Albertsson, Kristinn Hermannsson, Reynir Pálsson og Ríkharður Jónsson. Hofsós. Hofsós er þorp á Höfðaströnd við austanverðan Skagafjörð, báðum megin við ósa Hofsár. Þar er ágætt skipalægi frá náttúrunnar hendi, einkum í norðaustanátt, og betra en annars staðar við Skagafjörð. Talið er að verslun hafi hafist á staðnum á 16. öld, og er Hofsós því einn elsti verslunarstaður landsins. Þangað sóttu Skagfirðingar nær alla sína verslun þar til byggð hófst á Sauðárkróki upp úr 1870. Föst búseta hófst á Hofsósi á 19. öld og þar búa nú um 200 manns en flestir urðu íbúar þorpsins um 300 um miðja 20. öld. Aðalatvinnuvegurinn var lengst af fiskveiðar og vinnsla sjávarafla og þjónusta við sveitirnar í kring en á síðustu árum hefur ferðamannaþjónusta skipað æ stærri sess. Á Hofsósi er að finna eitt elsta bjálkahús landsins, Pakkhúsið, vörugeymslu frá tíma einokunarverslunarinnar. Það var reist árið 1772. Í Pakkhúsinu er nú Drangeyjarsafn, helgað Drangey og nýtingu hennar fyrr og nú. Þar er einnig Vesturfarasetrið, safn og rannsóknarsetur tengt vesturferðum Íslendinga 1870-1914. Það er í gömlu timburhúsi þar sem Kaupfélag Austur-Skagfirðinga var áður til húsa, og í nýbyggingu sem reist var í sama stíl. Allmörg önnur gömul hús eru í þorpinu, einkum á Plássinu svonefnda, niður við sjóinn, sem hafa flest verið gerð upp og eru sum þeirra notuð sem sumarhús. Stuðlaberg í fjöru nálægt Hofsósi Örskammt sunnan við Hofsós er annar gamall verslunarstaður, Grafarós, og spölkorn innar á ströndinni sá þriðji, Kolkuós. Strandlengjan í nágrenni Hofsóss þykir falleg og þar eru merkilegar stuðlabergsmyndanir, einkum í Staðarbjargavík og þó enn frekar í Þórðarhöfða, sem gengur út frá Höfðaströnd spölkorn utan við þorpið. Ný sundlaug á Hofsósi var vígð um páskana 2010 og er hún gjöf frá athafnakonunum Lilju Pálmadóttur og Steinunni Jónsdóttur, sem eiga jarðir á Höfðaströnd og búa þar eða dvelja löngum. Upphaflega var Hofsós í Hofshreppi, en þorpið og næsta nágrenni þess var gert að sérstökum hreppi, "Hofsóshreppi", 1. janúar 1948. 10. júní 1990 var Hofsóshreppur sameinaður Hofshreppi á ný, ásamt Fellshreppi. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist svo Hofshreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði og mynduðu þau saman "Sveitarfélagið Skagafjörð". Richard Serra. Richard Serra (f. 2. nóvember 1939) er bandarískur myndlistamaður sem fæst einkum við stór útilistaverk úr stálplötum. Eitt verka hans, "Áfangar", úr stuðlabergi, var sett upp í Viðey árið 1990 og við það tilefni ákvað listamaðurinn að gefa andvirði verksins í styrktarsjóð sem ber nafn hans og er í umsjá Listasafns Íslands. Veittar eru 400.000 krónur í viðurkenningu úr sjóðnum þriðja hvert ár. Serra, Richard Íslenska þjóðkirkjan. Íslenska þjóðkirkjan, eða Þjóðkirkjan er kristin kirkja sem tilheyrir evangelísk-lúthersku kirkjudeildinni. Hún er opinbert trúfélag á Íslandi og meirihluti landsmanna tilheyrir henni. Biskup Íslands er æðsti maður Þjóðkirkjunnar. Kristnitaka og fyrstu aldir kristni í landinu. Saga kristni á Íslandi er jafn gömul byggð í landinu. Íslendingar tóku kristni (rómversk-kaþólska trú) á Alþingi árið 999 eða 1000. Biskupsstóll var stofnaður í Skálholti árið 1056 og á Hólum í Hjaltadal árið 1106. Árið 1096 var tekin upp tíundargreiðsla, sem er fyrsta form opinberrar skattheimtu á Íslandi. Næstu aldir óx vegur kaþólsku kirkjunnar jafnt og þétt, klaustur voru stofnuð víða um land og klaustrin, biskupsstólarnir og kirkjustaðirnir söfnuðu miklum eignum. Siðaskiptin. Sumum guðfræðingum og öðrum þótti nóg um spillingu, íburð og veraldleg umsvif kaþólsku kirkjunnar. Árið 1517 negldi þýski guðfræðingurinn Marteinn Lúther gagnrýni á aflátssölu kirkjunnar, í 95 greinum, á kirkjudyrnar í Wittenberg. Sá atburður markaði upphaf siðaskiptanna: Margir evrópskir, einkum þýskir og norrænir, konungar brutu kaþólsku kirkjuna á bak aftur í ríkjum sínum, stofnuðu „þjóðkirkjur“ og eignuðu ríkinu það sem kirkjan átti áður. Siðaskiptin urðu um miðja 16. öld á Íslandi. Nýja testamentið kom út á íslensku árið 1540 í þýðingu Odds Gottskálkssonar. Síðastur kaþólskra biskupa í Skálholti var Ögmundur Pálsson, sem lét af embætti árið 1541, en á Hólum í Hjaltadal sat Jón Arason sem biskup þangað til hann var tekinn höndum og hálshöggvinn árið 1550. Lúthersk kirkjuskipun tók við á Íslandi. Guðbrandur biskup Þorláksson gaf alla Biblíuna út á íslensku árið 1589. Trúfrelsi. Árið 1874 setti Kristján konungur IX Íslendingum stjórnarskrá. Meðal nýmæla sem þar komu fram var trúfrelsi. Það þýddi að leyfilegt varð að stofna önnur trúfélög. Reyndi á þetta fyrst, þegar Fríkirkjan í Reyðarfirði varð til úr kirkjuklofningi eystra og starfaði 1883 - 1930. Fyrsti prestur hennar var Lárus Halldórsson, sem seinna þjónaði fríkirkjunni í Reykjavík. Fleiri trúfélög og fríkirkjur fylgdu í kjölfarið, svo sem rómversk-kaþólska kirkjan, mormónar og aðrir. Ríkisvaldið og kirkjan þurftu á þeim árum að taka á rétti manna að velja sér sóknarprest, segja sig úr þjóðkirkjunni, til að stofna til trúfélaga og til að gjalda sóknargjöld til síns trúfélags frekar en til þjóðkirkjunnar. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er skráður í Þjóðkirkjuna, og er svo enn, þótt tilhneigingin frá 1980 sé sú að fjölgi hægar í þjóðkirkunni en öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum. Frjálslynda guðfræðin. Fram yfir aldamótin 1900 aðhylltust íslenskir guðfræðingar bókstafstrúaða guðfræðistefnu. Í byrjun tuttugustu aldar fóru íslenskir menntamenn, sem komu heim frá námi erlendis, að bera með sér hugmyndir sem einkenndust af frjálslyndi, vísindahyggju og efasemdum um æðri máttarvöld. Bókstafstrúin reyndist illa undir það búin að bregðast við þessum gagnrýnu röddum, þar til frjálslynda guðfræðin kom kirkjunni til bjargar. Þar ber helst að minnast Jóns Helgasonar (1866-1942), Haraldar Níelssonar (1868-1926), Friðriks Friðrikssonar (1868-1961) og Sigurðar Sívertsen (1868-1938) sem forgöngumanna hennar. Saga kirkjunnar á tuttugustu öld einkennist meðal annars af þeim áherslumuni sem er milli frjálslyndra og íhaldssamra guðfræðinga.. Fáeinir kvenkyns guðfræðingar innan sk. kvennakirkju kenna og boða kvennaguðfræði, sem nýtur lítillar hylli innan þjóðkirkjunnar enn sem komið er. Stjórnarskráin. Í 6. hluta stjórnarskrárinnar kemur fram að kirkjan sé opinbert trúfélag í landinu og hluti af ríkisvaldinu: „"62. gr. Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda." Frá árinu 1995 hefur 63. grein stjórnarskrárinnar verið á þá leið að „"Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."“ Sóknargjöld og aðrar tekjur. Þjóðkirkjan fær sóknargjöld fyrir hvern skráðan safnaðarmeðlim skv. lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999. Þau nema um 8500 krónum árlega fyrir hvern einstakling sem orðinn er 16 ára og miðast við skráningu þann 1. desember. Auk þess fær kirkjan framlag úr Jöfnunarsjóði sókna og Kirkjumálasjóði, svo að tekjur hennar af hverjum einstaklingi nema um 11.300 krónum árlega. Fyrir utan þessi framlög greiðir ríkissjóður prestum, biskupi og starfsfólki biskupsstofu laun. Prestur hefur öll lögmæt og eðlileg afnot prestsseturs, meðan hann gegnir prestsembætti. Prestur hefur umsjón með og nýtur arðs af prestssetri samkvæmt samkomulagi við Prestssetrasjóð Innra skipulag. Árið 1997 var lögum um stöðu kirkjunnar breytt, og varð hún mun sjálfstæðari í sínum eigin málum en áður var. Fer hún síðan sjálf með vald um sín innri málefni, meira og minna. Kirkjuþing. Kirkjuþing er æðsta vald í innri stjórn kirkjunnar. Það er haldið árlega og sitja það 29 kjörnir fulltrúar. Af þeim eru 12 prestar og 17 leikmenn, sem oftast eru guðfræðingar. Biskup, vígslubiskupar og fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands eiga auk þess sæti á þinginu. Sóknir. Starfsemi kirkjunnar á landinu er skipt eftir sóknum, sem eru tæplega 250 talsins. Í hverri sókn er ein kirkja, og vanalega einn prestur. Sumum sóknum, einkum þeim stærri, þjóna fleiri prestar, og fámennari sóknum er stundum þjónað tveim eða fleiri saman af sama prestinum. Sóknum landsins er skipt eftir 15 prófastsdæmum og í hverju situr einn prófastur. Í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal sitja vígslubiskupar og æðstur trónir biskup Íslands. Biskupsstofa. Æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar er biskup Íslands. Agnes M. Sigurðardóttir hefur gegnt því embætti frá 2012. Biskup er embættismaður ríkisins eins og prestar þjóðkirkjunnar. Hann hefur embættisbústað í eigu þjóðkirkjunnar og. Biskupsstofa skrifstofa biskups Íslands og kirkjuráðs. Hún er til húsa í Kirkjuhúsinu, Laugavegi 31, 150 Reykjavík. Fjöldi meðlima. Frá því trúfrelsi komst á, hefur mikill meirihluti Íslendinga verið skráður í Þjóðkirkjuna. Á undanförnum árum hefur þeim samt fækkað nokkuð. Árið 1991 voru 92,2% landsmanna í Þjóðkirkjunni, en 79,1% árið 2009 (talan miðast við 1. desember). Að nokkru leyti skrifast þessi hlutfallslega fækkun á fjölgun innflytjenda frá öðrum heimshlutum en Norður-Evrópu, en einnig hafa beinar úrskráningar úr Þjóðkirkjunni færst í vöxt. Þegar hneykslismál hafa komið upp, tengd Þjóðkirkjunni, þá hefur úrskráningum að jafnaði fjölgað. Samkvæmt íslenskum lögum, þá eru nýfædd börn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður sinnar. Þar sem flestir Íslendingar eru skráðir í Þjóðkirkjuna hefur skráningu meirihlutans þannig verið haldið við með lögum. Boðskapur þjóðkirkjunnar. Þar sem Þjóðkirkjan er kristið trúfélag, þá byggir hún boðskap sinn, eðli málsins samkvæmt, á kristnum grunni. Ber þar helst að nefna Biblíuna, einkum Nýja testamentið, fimm játningar og ýmis rit kristinnar hefðar. Biblían. Biblían er safn 66 rita og skiptist í Gamla testamentið og Nýja testamentið. Hún er grundvallarrit kristinna manna og er ein útbreiddasta bók veraldar. Nýja testamentið er heimild um Jesú, sem kristnir menn trúa að sé sonur guðs og frelsari mannanna, og það sem hann á að hafa sagt og gert. Píslardauði Jesú á krossi og upprisa hans í kjölfarið eru meginstef kristinnar kenningar, þar sem álitið er að með dauða sínum hafi Jesús frelsað þá sem trúa á hann undan syndum sínum. Hið íslenska biblíufélag (stofnað 1815) er sjálfstætt félag en starfar í nánum tengslum við Þjóðkirkjuna og er m.a. með skrifstofu í Hallgrímskirkju. Það sér um að gefa Biblíuna út á íslensku. Hún kom út í nýrri þýðingu í október 2007. Þrátt fyrir margra ára starf þýðingarnefndar við að breyta bókinni í samræmi við ný viðhorf, vakti þýðingin miklar deilur í fjölmiðlum og á netinu, og meðal annars sögðust nokkrir af prestum Þjóðkirkjunnar ekki mundu styðjast við hana í starfi sínu, heldur gömlu þýðinguna. Lúther. Marteinn Lúther var þýskur guðfræðingur sem leiddi lúthersku siðaskiptahreyfinguna á 16. öld, eftir að hann gagnrýndi kaþólsku kirkjuna með greinunum 95 sem hann negldi á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1518. Í lútherskri hefð á kirkjan að vera þjóðkirkja, sem þýðir að þjóðhöfðinginn er höfuð kirkjunnar. Lúther hafnaði kaþólskri dýrkun á dýrlingum og að menn gætu orðið sáluhólpnir fyrir rétta breytni. Að hans dómi gat trúin ein veitt mönnum lausn frá syndum sínum og vist í himnaríki, en rétt breytni væri afleiðing réttrar trúar. Eftir hann liggja mörg og viðamikil rit, sem þykja eiga misjafnlega við nútímann. Játningar þjóðkirkjunnar. Kennilega séð byggir Þjóðkirkjan á fimm játningum: Postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni, Aþanasíusarjátningunni, Ágsborgarjátningu lúthersku kirkjunnar og Fræðum Lúthers minni. Játningarnar eru umgjörð og útfærsla kristindóms og gegna þannig því hlutverki að skýra hvað felst í því að vera kristinn, í skilningi kirkjunnar, og eru þannig fræðilegar forsendur trúarinnar; þær tvær síðastnefndu aðgreina lútherstrú frá öðrum kvíslum kristninnar. Postullega trúarjátningin. Postullega trúarjátningin („symbolum apostolicum“ á latínu) er byggð á skírnarjátningu kirkjunnar frá árdögum hennar í Róm. Sögu hennar má rekja allt aftur til annarrar aldar. Nafn sitt dregur hún af því þegar postularnir stofnuðu kristna kirkju á hvítasunnu eftir krossfestingu Jesú, svo sem um er getið í Nýja testamentinu. Pétur postuli á að hafa byrjað á henni og postularnir síðan hver og einn bætt við setningu þangað til hún var tilbúin í heild sinni. Sá sem fer með játninguna játar trú á að guð sé til, að hann sé almáttugur og skapari himins og jarðar, að Jesús sé kristur („smurður“, þ.e. frelsari), einkasonur guðs og sjálfur guð, að heilagur andi hafi getið hann, María mey fætt hann, hann hafi verið „píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn“ og síðan farið til heljar, risið upp og stigið til himna. Þar sitji hann í öndvegi með föður sínum og muni á efsta degi koma þaðan „að dæma lifendur og dauða.“ Þá er játuð trú á „heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.“ Níkeujátningin. Níkeujátningin („symbolum nicaenum“ á latínu) dregur nafn sitt af Kirkjuþinginu í Níkeu árið 325. Tilefnið var einkum að útkljá deilur um samband Jesú og guðs föðurins, þar sem prest að nafni Aríus, og fylgismenn hans, greindi á við aðra kristna menn. Kenningar hans þóttu stangast á við Nýja testamentið og almenna kenningu kirkjunnar, og niðurstaða Níkeuþingsins var Níkeujátningin, sem gengur í aðalatriðum út á að eðli Jesú og guðs föðurins væri hið sama. Játningin, í því formi sem hún er nú, var endanlega frágengin í Konstantínópel árið 381. Aþanasíusarjátningin. Aþanasíusarjátningin („symbolum athanasii“ á latínu) var, rétt eins og Níkeujátningin, samin gegn Aríusarsinnum. Hún er kennd við Aþanasíus biskup í Alexandríu (295-373), þótt hún geti ekki verið eldri en frá fimmtu eða sjöttu öld. Í Aþanasíusarjátningunni er játað að menn verði hólpnir fyrir „almenna trú“ og að sá sem ekki varðveiti hana „hreina og ómengaða“ muni „glatast að eilífu.“ Síðan er útlistað hvað felst í „almennri trú“: Heilög þrenning, sem er „ósköpuð“, „ómælanleg“, „eilíf“ og „almáttug“ og faðir, sonur og heilagur andi eru þrír en samt einn. Þá er „og nauðsynlegt til eilífs hjálpræðis að trúa í einlægni holdgun“ Jesú. Ágsborgarjátningin. Ágsborgarjátningin er frá árinu 1530 og er höfuðjátning lútherstrúarmanna. Hún er margfalt viðameiri en Postullega trúarjátningin, Níkeujátningin eða Aþanasíusarjátningin, og er kaflaskipt. Fyrri hluti hennar er um „Höfuðtrúargreinarnar“: Um guð, upprunasyndina, guðs son, réttlætinguna, embætti kirkjunnar, hina nýju hlýðni, kirkjuna, hvað kirkjan sé, skírnina, máltíð drottins, skriftirnar, yfirbótina, neyslu sakramentanna, hina kirkjulegu stétt, kirkjusiði, borgaraleg málefni, endurkomu Krists til dóms, frjálsræðið, orsök syndarinnar, trúna og góðu verkin og um dýrlingadýrkun. Síðari hluti er um „Greinar sem telja upp ósiði sem hefur verið breytt“: Um báðar tegundir, hjónaband presta, messuna, skriftirnar, greinarmun fæðu, klausturheit og kirkjuvaldið. Fræði Lúthers minni. Fræði Lúthers minni skiptast í níu hluta. Það eru: Boðorðin tíu, trúin, faðir vor, sakramenti heilagrar skírnar, hvernig kenna ber fáfróðu fólki að skrifta, altarissakramentið, morgun- og kvöldbæn, bænir á undan og eftir máltíð og hússpjaldið. Kirkjuathafnir. Prestar Þjóðkirkjunnar annast ýmsar helgiathafnir. Venja er að messa á sunnudögum. Nýir safnaðarmeðlimir, yfirleitt kornabörn, eru skírðir. Börn eru fermd, vanalega á 14. aldursári. Flest fólk gengur í hjónaband með kirkjulegri hjónavígslu, og loks fara jarðarfarir einatt fram í kirkjum. Stundum eru prestar fengnir til að blessa byggingar. Greiða þarf sérstaklega fyrir sumar þessara athafna, þótt fólk sé skráð í kirkjuna. Kirkjan og stjórnmál. Tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið koma fram með ýmsum hætti. Þegar Alþingi er sett, þá hefst athöfnin á guðsþjónustu biskups Íslands í Dómkirkjunni, áður en gengið er til Alþingishússins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fer með málefni kirkjunnar af hálfu ríkisvaldsins. Kirkjan fer yfirleitt varlega þegar pólitísk deilumál eru annars vegar. Undanfarin ár hefur hún tekið afstöðu gegn slysum og náttúruhamförum, og gegn siðleysi og trúleysi. Einstakir prestar hafa tjáð skoðanir sínar á ýmsum málum opinberlega, en þær jafngilda ekki afstöðu kirkjunnar sem slíkrar. Biskup hefur tjáð andúð sína á dauðarefsingum og stríðsrekstri. Stöðu sinnar vegna hefur kirkjan síður en svo farið varhluta af deilumálum. Í innbyrðis málum kirkjunnar hefur borið á tveim óformlegum fylkingum sem margir prestar skipast í eftir skoðunum. Önnur þeirra er frjálslynd, m.a. þegar kemur að málefnum samkynhneigðra. Meðal presta sem taldir eru til hennar eru Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju og Toshiki Toma, prestur innflytjenda. Hin fylkingin er íhaldssöm og er í daglegu tali kölluð „svartstakkar“ og til hennar teljast m.a. Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti. Samband eða aðskilnaður ríkis og kirkju. Í seinni tíð hafa æ háværari raddir verið uppi um að aðskilja beri ríki og kirkju að fullu. Meginröksemdir fyrir því hafa verið að samband ríkis og kirkju og stjórnarskrárbundin forréttindi hennar séu ósamrýmanleg trúfrelsi og að ríkisvaldið eigi ekki að láta sig lífsskoðanir fólks varða. Meginröksemdirnar gegn aðskilnaði hafa verið þær, að þar sem langstærstur hluti þjóðarinnar sé skráður í Þjóðkirkjuna, og að menning þjóðarinnar byggi að verulegu leyti á kristinni arfleifð, þá sé eðlilegt að ríkisvaldið hlúi að Þjóðkirkjunni og hún njóti nokkurra forréttinda. Þjóðkirkjan og málefni samkynhneigðra. Eftir því sem samkynhneigð hefur orðið viðurkenndari í samfélaginu, hefur þrýstingurinn vaxið á Þjóðkirkjuna, að hún taki undir almenna viðurkenningu á samkynhneigðum, meðal annars með því að gefa samkynhneigða saman í fullgilt kristilegt hjónaband eins og annað fólk. Í aldanna rás hefur kirkjan, eins og flestar aðrar stofnanir samfélagsins, haft ímugust á samkynhneigð, og er meðal annars farið hörðum orðum um hana í Biblíunni. Þjóðkirkjan hefur reynt að verða við gagnrýninni sem hún hefur orðið fyrir af þessum sökum, en vera samt trú ritningunni. Í nýárspredikun í ársbyrjun 2006 komst Karl Sigurbjörnsson biskup svo að orði að í þessu máli yrði að „að fara hér með gát, og leyfa hjónabandinu að njóta vafans.“ Á haustdögum 2006 var fjallað mikið um málið á kirkjuþingi, ekki síst um það hvers eðlis spurningin væri. Var rökrætt hvort málefnið væri guðfræðilegs eða siðfræðilegs eðlis — ef það væri guðfræðilegs eðlis, þá væri vafasamt fyrir kirkjuna að breyta um stefnu, en ef það væri siðferðislegs eðlis, þá gæti hún það. Þetta mál er óútkljáð, en hefur reynst kirkjunni óþægur ljár í þúfu. Þjóðkirkjan og önnur trúarbrögð. Þjóðkirkjan er vön að sýna umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og hjátrú ýmiss konar, s.s. andatrú og álfatrú. Hún forðast jafnan trúarbragðadeilur, enda ríkir trúfrelsi í landinu. Sumir talsmenn hennar, m.a. biskup, hafa þó látið hafa eftir sér andúð á trúleysi. Þjóðkirkjan vill halda áfram að njóta sérstöðu meðal trúfélaga, m.a. vegna sögulegra forsendna og lúthersk-kristinnar menningararfleifðar þjóðarinnar. Boðun og hjálparstarf. Slagorð þjóðkirkjunnar er „biðjandi, boðandi, þjónandi“. Boðun hefur verið snar þáttur í starfi hennar áratugum saman, bæði innanlands og utan, en eiginlegt kristniboð hefur einkum verið erlendis. Samband íslenskra kristniboðsfélaga (SÍK) var stofnað árið 1929, og hefur boðað kristni í Kína, í Eþíópíu frá 1953, í Kenýa frá 1978 og Japan frá 2010. Sambandið starfar sem frjáls félagasamtök, en þó innan vébanda kirkjunnar. Auk boðunarstarfs sinnir SÍK þróunaraðstoð. Hjálparstarf kirkjunnar starfar m.a. í Mósambík, Úganda og á Indlandi. Innlent kristniboð Þjóðkirkjunnar hefur verið takmarkað, í eiginlegum skilningi orðsins, en mikið í víðri merkingu þess. Messur eru fluttar í útvarpi, kirkjustarf hefur tengst starfi skóla og leikskóla, og kirkjan hefur hjálpað bágstöddu fólki og fólki í hjónabandserfiðleikum, tekið þátt í áfallahjálp og fleiri líknandi störfum, í þeim anda að sýna beri trú sína með verkum sínum. Þá ber að nefna fermingarfræðslu, sem flest íslensk börn hljóta áður en þau fermast, sem yfirleitt gerist á fjórtánda ári. Ýmis starfsemi. Þjóðkirkjan stendur í margvíslegri starfsemi annarri en eiginlegu helgihaldi. Safnaðarheimilin hýsa til dæmis oft sk. „mömmumorgna“, þar sem mæður geta komið, hist og rætt saman um barnauppeldi eða annað sem þær langar. Einnig fá AA-samtökin inni í mörgum safnaðarheimilum til þess að halda fundi. Útgáfumál. Þjóðkirkjan hefur frá upphafi staðið fyrir umfangsmikilli útgáfustarfsemi. Strax á sextándu öld kom Biblían út í íslenskri þýðingu, en auk hennar hefur kirkjan gefið út sálmabækur, saltara, postillur, ýmsar textabækur, nótnabækur, guðfræðirit og margt annað sem kemur starfi hennar við. er helsti vettvangur þessa útgáfustarfs, en hún er útgáfufélag Þjóðkirkjunnar. Hið íslenskra biblíufélag annast útgáfu Biblíunnar. Tónlist. Við helgihald Þjóðkirkjunnar er tónlist áberandi. Í flestum kirkjum eru orgel, og stundum önnur hljóðfæri, sem leikið er á við guðsþjónustur. Kirkjukórar starfa með mjög mörgum kirkjum og syngja í messum. Hægt er að lesa sálmana og heyra lag þeirra á Kirkjunetinu Fyrir utan helgihald, þá eru oft haldnir tónleikar ýmiss konar í kirkjum, bæði kristilegir og ótengdir kristni, enda henta kirkjubyggingar yfirleitt vel undir tónlistarflutning. Þá má geta þess að hluti af lútherskri messu er tónaður, en tónið er söngles sem er mitt á milli talaðs máls og söngs. Það á uppruna að rekja til þess tíma að mannsröddin þurfti að berast án mögnunar. Hneykslismál. Hneykslismál og deilur hafa stundum tengst Þjóðkirkjunni, og hafa færst í vöxt hin síðari ár. Á tíunda áratugnum komu fram ásakanir á hendur Ólafi biskupi Skúlasyni (f. 29. desember 1929), þess efnis að hann hefði áreitt konur kynferðislega í tíð sinni sem prestur í Bústaðarkirkju. Haustið 2006 hófust deilur um verkefnið Vinaleið, sálgæsluverkefni sem Þjóðkirkjan hefur staðið fyrir í skólum í Mosfellsbæ, Garðabæ og á Álftanesi. Dalvík. Kort sem sýnir staðsetningu Dalvíkur Dalvík er sjávarpláss við Eyjafjörð, í mynni Svarfaðardals í Dalvíkurbyggð. Bærinn var upphaflega innan Svarfaðardalshrepps, en var gerður að sérstökum hreppi 1. janúar 1946. Dalvík fékk kaupstaðarréttindi 22. apríl 1974. Svarfaðardalshreppur. Svarfaðardalshreppur var hreppur í Eyjafjarðarsýslu, kenndur við Svarfaðardal vestan Eyjafjarðar. Þorpið Dalvík var upphaflega innan hreppsins en var gert að sérstökum hreppi, "Dalvíkurhreppi", í ársbyrjun 1946. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Svarfaðardalshreppur Dalvíkurkaupstað og Árskógshreppi undir nafninu "Dalvíkurbyggð". Árskógshreppur. Árskógshreppur var hreppur í Eyjafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Stærra-Árskóg á Árskógsströnd vestan Eyjafjarðar. Hreppurinn varð til árið 1911 þegar Arnarneshreppi var skipt í tvennt. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Áskógshreppur Dalvíkurkaupstað og Svarfaðardalshreppi undir nafninu "Dalvíkurbyggð". Kaþólska kirkjan á Íslandi. Kaþólska kirkjan á Íslandi er kristin kirkja á Íslandi og hluti af rómversk-kaþólsku alheimskirkjunni undir nafninu Reykjavíkurbiskupsdæmi. Hún er annað fjölmennasta trúfélagið á Íslandi og hafði um það bil tíu þúsund meðlimi 1. janúar 2011. Kaþólska kirkjan stofnaði sérstakt postullegt umdæmi ("Praefectura" á latínu) á Íslandi 12. júní 1923. Umdæmið var gert að postullegu víkaríati 6. júní 1929 og loks breytt í biskupsdæmi ("Episcopatus" á latínu) 18. október 1968. Núverandi biskup er Pétur Bürcher. Söguágrip. Fjöldi kaþólskra á Íslandi frá 1860 til 2008 Saga kaþólsku kirkjunnar á Íslandi nær lengra aftur en saga íslensku þjóðarinnar, því að öllum líkindum bjuggu kaþólskir, írskir einsetumenn á Íslandi áður en norrænir menn fóru að nema land í lok 9. aldar. En þessir einsetumenn hurfu fljótlega sporlaust. Norskir og þýskir kristniboðar komu til Íslands og hófu trúboð á meðal norræna manna á 10. öld. M.a. vegna þrýstings frá Noregskonungi samþykkti Alþingi þann 24. júní árið 1000 (eða 999) að lögtaka kristni sem almenna trú á öllu Íslandi. Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gizurarson, var vígður í Brimum í Þýskalandi árið 1056. Hann settist að í Skálholti og gerði það að biskupsstól. Fimmtíu árum síðar, árið 1106, var biskupsdæmi einnig stofnað á Hólum í Hjaltadal. Fyrstu árin tilheyrði Skálholtsbiskupsdæmi kirkjuumdæminu í Brimum í Þýskalandi en frá 1104 til 1152 tilheyrði Ísland kirkjuumdæminu í Lundi í Danmörku (sem nú er í Svíþjóð). Árið 1152 urðu Skálholt og Hólar hluti af nýju kirkjuumdæmi í Niðarósi (Þrándheimi) í Noregi. Nokkur klaustur voru stofnuð á Íslandi, bæði af Benedikts- og Ágústínusarreglu. Þorlákur helgi Þórhallsson var mest metni biskup kaþólskra á Íslandi á miðöldum. Hann var biskup í Skálholti 1178-1193. Hann var tekinn í dýrlingatölu á Íslandi og áheit á hann leyfð árið 1198. Bein hans voru tekin upp 20. júní það sama ár. Hann á tvo messudaga á ári; Þorláksmessu á vetri, 23. desember og Þorláksmessu á sumri 20. júní. Jóhannes Páll II páfi útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands 14. janúar 1985. Siðaskiptin á 16. öld ollu algjörri umbyltingu á Íslandi, ekki síst í trúmálum. Kristján III (1537-1559), konungur Dana, notfærði siðaskiptin til þess að leggja eignarhald á jarðir og aðrar eignir kirkjunnar. Jón Arason, biskup á Hólum, var aðalandstæðingur konungsvaldsins við siðaskiptin og lýsti hina nýju kirkjuskipun ólöglega. Jón var handtekinn og drepinn án dóms og laga ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti 7. nóvember 1550. Eftir það voru klaustrin eyðilögð og munkarnir drepnir eða sendir í útlegð. Einungis þeir prestar sem gerðust lútherstrúar fengu að halda embættum sínum. Kaþólsk trú var algjörlega bönnuð og refsingin var líflát eða útlegð. Enginn kaþólskur maður bjó á Íslandi fram til 1857. Það ár fengu tveir franskir prestar, Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin, undanþágu til að þjóna frönskum sjómönnum sem voru að veiðum við Ísland. Faðir Bernard keypti jörðina Landakot nálægt miðbæ Reykjavíkur árið 1859. Með íslensku stjórnarskránni 1874 komst trúfrelsi á hér á landi og með því hófst endurreisn kaþólskrar kirkju á Íslandi. Árið 1896 komu Jósefssystur til Íslands frá Danmörku. Þær stofnuðu barnaskóla og lítinn spítala í Reykjavík 1902. Við fullveldi Íslands 1918 stofnaði Páfastóll sjálfstæða trúboðskirkju á landinu. Árið 1929 var trúboðskirkjan gerð að postullegu umdæmi og var séra Marteinn Meulenberg vígður biskup. Á öðrum og þriðja áratug 20. aldar hafði kaþólskum fjölgað mjög. Margir rithöfundar og listamenn urðu kaþólskir, t.d. Halldór Laxness. Jóhannes Páll II páfi heimsótti Ísland dagana 3. og 4. júní 1989 og var það kaþólsku kirkjunni á Íslandi afar mikilvægt. Skriðuhreppur. Skriðuhreppur var hreppur í Hörgárdal vestan Eyjafjarðar, kenndur við bæinn Skriðu í Hörgárdal. Hinn 1. janúar 2001 sameinaðist Skriðuhreppur Öxnadalshreppi og Glæsibæjarhreppi undir nafninu "Hörgárbyggð". Öxnadalshreppur. Öxnadalshreppur var hreppur í Öxnadal vestan Eyjafjarðar. Hinn 1. janúar 2001 sameinaðist Öxnadalshreppur Skriðuhreppi og Glæsibæjarhreppi undir nafninu "Hörgárbyggð". Glæsibæjarhreppur. Glæsibæjarhreppur var hreppur sunnan Hörgár í Eyjafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Glæsibæ. Hinn 1. janúar 2001 sameinaðist Glæsibæjarhreppur Skriðuhreppi og Öxnadalshreppi undir nafninu "Hörgárbyggð". Hrafnagilshreppur. Hrafnagilshreppur var hreppur vestan Eyjafjarðarár í Eyjafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Hrafnagil. Akureyri var skilin frá hreppnum 29. ágúst 1862 þegar bærinn endurheimti kaupstaðarréttindi sín. Hinn 1. janúar 1991 sameinaðist Hrafnagilshreppur Öngulsstaðahreppi og Saurbæjarhreppi undir nafninu "Eyjafjarðarsveit". Öngulsstaðahreppur. Öngulsstaðahreppur var hreppur austan Eyjafjarðarár í Eyjafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Öngulsstaði. Um 20 km að lengd, frá mörkum Svalbarðsstrandarhrepps að bænum Sámstöðum við mörk Saurbæjarhrepps sem var innsti hreppurinn í Eyjafirði. Hinn 1. janúar 1991 sameinaðist Öngulsstaðahreppur Hrafnagilshreppi og Saurbæjarhreppi undir nafninu "Eyjafjarðarsveit". Saurbæjarhreppur (Eyjafjarðarsýslu). Saurbæjarhreppur var fremsti hreppur í Eyjafjarðarsýslu, kenndur við kirkjustaðinn Saurbæ í Eyjafirði. Hinn 1. janúar 1991 sameinaðist Saurbæjarhreppur Hrafnagilshreppi og Öngulsstaðahreppi undir nafninu "Eyjafjarðarsveit". Akbar mikli. Jalaluddin Muhammad Akbar (persneska: جلال الدین محمد اکبر), oft nefndur Akbar mikli, (15. október 1542 - 27. október 1605) var keisari Mógúlveldisins 1556-1605 og er talinn mestur þeirra. Hann var meðal annars mikill stuðningsmaður lista og fræðistarfa og mikill talsmaður umburðarlyndis fólks af mismunandi trúarbrögðum, en í veldi hans bjuggu bæði hindúar og múslimar. Kemal Atatürk. Mústafa Kemal Atatürk (1881—10. nóvember 1938) var stofnandi og fyrsti forseti Lýðveldisins Tyrklands. Hann fór fyrir sæmilega friðsamri byltingu í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar þar sem höfuðborgin var flutt frá Istanbúl til Ankara og keisaraveldið afnumið. Hann var mikill frömuður í því að gera Tyrkland vestrænna en það hafði verið, meðal annars innleiddi hann latneskt stafróf fyrir tyrknesku og bannaði fjölkvæni. Enn í dag er hann í miklu uppáhaldi hjá mörgum Tyrkjum og myndir af honum hanga víða uppi í skólastofum, stofum og víðar. Luigi Einaudi. Luigi Einaudi (24. mars 1874 – 30. október 1961) var ítalskur hagfræðingur, stjórnmálamaður og ráðherra fyrir frjálslynda flokkinn á Ítalíu, og annar forseti Ítalíu frá 1948 til 1955. Hann lauk prófi í lögfræði, en kenndi síðan hagvísindi við Tórínóháskóla, iðnaðarlöggjöf og hagfræði við Tækniháskólann í Tórínó og fjármálavísindi við Bocconi-háskóla í Mílanó. Auk þessa hlaut hann ýmsar heiðursstöður og var virkur meðlimur í alþjóðlegum samtökum. Hann var til dæmis meðal stofnenda Mont Pèlerin Society árið 1947. Hann hóf skrif sín um hagfræði með greinum í dagblaðið "Corriere della sera" þegar árið 1909. 1912 setur hann fram nýstárlega hugmynd um skattheimtu sem byggi á þrepaskiptri skattlagningu heildartekna fjölskyldu af atvinnutekjum, leigutekjum o.s.frv. Þessi hugmynd liggur nú til grundvallar skattheimtu á Ítalíu. Hann var síðan gríðarlega virkur í blaðaskrifum, ritstýrði tveimur tímaritum um stjórnmál og hagfræði, skrifaði reglulega greinar um efnahagsmál í "The Economist" og var í ritstjórn dagblaðanna "La Stampa" og "Corriere della sera" til 1926. 1919 var hann tilnefndur í öldungadeild ítalska þingsins. Hann dró sig að miklu leyti út úr stjórnmálum eftir valtatöku fasista, en hélt fræðistarfi sínu áfram. 1943 flúði hann til Sviss og sneri aftur eftir að frelsun Ítalíu var lokið 1945. Hann var stjórnarformaður seðlabanka Ítalíu frá 5. janúar 1945 til 11. maí 1948 og stýrði meðal annars nauðsynlegri gjaldfellingu lírunnar gagnvart bandaríkjadal um 68%. Þá átti hann þátt ásamt sagnfræðingnum og heimspekingnum Benedetto Croce í endurstofnun frjálslynda flokksins á Ítalíu. Hann tók líka þátt í samningu nýrrar stjórnarskrár og átti þar meðal annars (og síðar sem forseti) þátt í að endurreisa mikið af því stjórnkerfi sem hann hafði barist gegn með skrifum sínum. Hann var talsmaður frjálshyggju í efnahagsmálum og frjálslyndisstefnu í stjórnmálum, þótt hann gerði sér grein fyrir að þetta tvennt færi ekki alltaf saman. Hann sá enda fyrir sér frjálst hagkerfi, ekki sem hagkerfi þar sem engar reglur eða lög giltu, heldur sem regluverk eða kerfi. Hann viðurkenndi líka að hugsjónir stæðust ekki fyrir raunverulegum vandamálum („Di fronte ai problemi concreti, l'economista non può essere mai né liberista né interventista, né socialista ad ogni costo.“) Frægustu pistla hans um frjálshyggju og frjálslyndi er að finna í ritdeilu sem hann átti við Benedetto Croce á fjórða áratugnum á síðum tímaritsins "La Riforma Sociale". Einaudi var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra menntamanna, sem Friedrich A. von Hayek hafði forgöngu um. Sonur hans, Giulio Einaudi (f. 1912), var frægur útgefandi og stofnandi samnefndrar bókaútgáfu árið 1933, sem síðar varð hluti af Mondadori-samstæðunni árið 1994. Einaudi, Luigi Einaudi, Luigi Úmbría. Úmbría (ítalska: "Umbria") er fjallent og hæðótt hérað á Mið-Ítalíu með landamæri að Toskana í vestri, Latíum í suðri og Marke í austri. Höfuðstaður héraðsins er háskólaborgin Perugia. Íbúar héraðsins eru um 834.000 og búa í 92 sveitarfélögum. Latíum. Latíum (ítalska: "Lazio") er hérað á Mið-Ítalíu sem markast af Toskana og Úmbríu í norðri, Abrútsi í austri, Mólíse í suðaustri og Kampaníu í suðri. Í vestri á héraðið mikla strandlengju við Tyrrenahafið. Höfuðstaður héraðsins er höfuðborgin Róm. Héraðið dregur nafn sitt af ættbálki Latverja sem voru forverar hinna fornu Rómverja. Íþróttafélagið S.S. Lazio dregur nafn sitt af nafni héraðsins. Kampanía. Kampanía (ítalska: "Regione Campania") er hérað á Suður-Ítalíu sem markast af Latíum og Mólíse í norðri, Apúlíu í austri og Basilíkata í suðri með strönd að Tyrrenahafi í vestri. Höfuðstaður héraðsins er Napólí. Íbúafjöldi er 5,7 milljónir. Í Kampaníu eru meðal annars eldfjallið Vesúvíus og eyjan Kaprí. Langbarðaland. Langbarðaland (Lyngbarði eða Lumbarðaland) (ítalska: "Regione Lombardia") er hérað á Norður-Ítalíu á milli Alpafjalla og Pódalsins. Höfuðstaður héraðsins er Mílanó. Íbúafjöldi er yfir níu milljónir. Héraðið heitir eftir Langbörðum, germönskum ættflokki sem lagði undir sig Ítalíu eftir fall Rómaveldis. Neshreppur innan Ennis. Neshreppur innan Ennis var hreppur í Snæfellsnessýslu, norðan megin á Snæfellsnesi, milli Ólafsvíkurennis og Búlandshöfða. Hreppurinn varð til á 19. öld ásamt Neshreppi utan Ennis við skiptingu Neshrepps í tvennt. Neshreppi innan Ennis var svo skipt í tvennt árið 1911, í Ólafsvíkurhrepp og Fróðárhrepp en þeir hreppar sameinuðust aftur 1. apríl 1990, að þessu sinni undir merkjum Ólafsvíkur. Fróðárhreppur. Fróðárhreppur var hreppur í Snæfellsnessýslu, kenndur við bæinn Fróðá. Hreppurinn varð til árið 1911, ásamt Ólafsvíkurhreppi, þegar Neshreppi innan Ennis var skipt í tvennt. 1. apríl 1990 sameinaðist Fróðárhreppur Ólafsvík á ný, að þessu sinni undir merkjum Ólafsvíkur. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Ólafsvíkurkaupstaður svo Neshreppi utan Ennis, Breiðuvíkurhreppi og Staðarsveit undir nafninu "Snæfellsbær". Neshreppur utan Ennis. Neshreppur utan Ennis var hreppur í Snæfellsnessýslu, yst á norðanverðu nesinu. Hreppurinn varð til ásamt Neshreppi innan Ennis þegar Neshreppi var skipt í tvennt á 19. öld. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Neshreppur utan Ennis Ólafsvíkurkaupstað, Breiðuvíkurhreppi og Staðarsveit undir nafninu "Snæfellsbær". Neshrepp var skipt í tvennt á 19. öld, í Neshrepp innan Ennis og Neshrepp utan Ennis. Í Neshreppi utan Ennis voru Rif, Hellissandur og Gufuskálar. Breiðuvíkurhreppur. Breiðuvíkurhreppur var hreppur í Snæfellsnessýslu, yst á sunnanverðu nesinu, kenndur við sveitina Breiðuvík við samnefnda vík. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Breiðuvíkurhreppur Neshreppi utan Ennis, Ólafsvíkurkaupstað og Staðarsveit undir nafninu "Snæfellsbær". Staðarsveit. Staðarsveit er sveit á sunnanverðu Snæfellsnesi, kennd við kirkjustaðinn Staðastað. Staðarsveit var sjálfstæður hreppur til 11. júní 1994, en þann dag sameinaðist hún Breiðuvíkurhreppi, Neshreppi utan Ennis og Ólafsvíkurkaupstað undir nafninu "Snæfellsbær". Neshreppur (Snæfellsnessýslu). Neshreppur var hreppur í Snæfellsnessýslu, á norðanverðu Snæfellsnesi utan Búlandshöfða. Hreppnum var skipt í tvennt á 19. öld, í Neshrepp innan Ennis og Neshrepp utan Ennis. Frá árinu 1994 hefur allur hinn forni Neshreppur tilheyrt sveitarfélaginu Snæfellsbæ. Venetó. Venetó (ítalska: "Regione Veneto") er hérað á Norðaustur-Ítalíu. Höfuðstaður héraðsins eru Feneyjar við Adríahafið. Íbúar eru um 4,5 milljónir. Hollenska. Hollenska ("Nederlands";), er lágþýskt tungumál sem talað er af u.þ.b. 24 milljónum manna, aðallega í Hollandi og Belgíu. Þær hollensku mállýskur sem talaðar eru í Belgíu eru stundum kallaðar flæmska, og stundum er talað um þær sem sérstakt tungumál, þó sjaldan af mælendunum sjálfum. Hollenska er stundum í daglegu tali kölluð "Hollands" í heimalandinu, en þessi orðnotkun fer minnkandi. Saga. Vesturgermönskum málum má skipta eftir þjóðflokkum (í frísnesku, saxnesku, frankísku, bæheimsku og svæfsku), og eftir því hversu mikills áhrifa háþýsku samhljóðabreytingarinnar gætir í þeim. Hin staðlaða nútímahollenska er að miklu leyti komin úr lágfrankískum mállýskum sem talaðar voru í Niðurlöndum sem höfðu sérstöðu eigi síðar en 600 e. Kr. Fornt handritsbrot á hollensku segir: "„Hebban olla vogala nestas hagunnan, hinase hic enda tu, wat unbidan we nu“" („Allir fuglar hafa hafist handa við að byggja hreiður, nema ég og þú, eftir hvers bíðum við nú“). Handritið var skrifað um 1100 af flæmskum munki í nunnuklaustri í Rochester á Englandi. Lengi vel var litið á þessa setningu sem elsta dæmi um ritaða hollensku, en síðan hafa fundist enn eldri brot eins og "„Visc flot aftar themo uuatare“" („Fiskur synti í vatninu“) og "„Gelobistu in got alamehtigan fadaer“" („Trúirðu á Guð, almáttugan föður“). Það síðarnefnda var skrifað um 900. Prófessor Luc de Grauwe frá Gent-háskóla efast þó um að þarna sé um hollensku að ræða, og telur að á ferðinni sé fornenska, svo að enn eru deilur um þessi handrit."Hebban olla vogala"-handritsbrotið. Samræming tungumálsins hófst á miðöldum, einkum undir áhrifum búrgúndísku greifahirðarinnar í Dijon (Brussel eftir 1477). Flæmskar og brabantskar mállýskur voru um þær mundir áhrifamestar. Á 16. öld jókst samræmingin enn frekar, og hafði borgarmállýska Antwerpen þá mest áhrif. Árið 1585 féll Antwerpen í hendur Spánverja, og flúðu þá margir til héraðsins Hollands, en innflytjendurnir höfðu mikil áhrif á þéttbýlismállýskur svæðisins. Árið 1618 var tekið mikilvægt skref í átt að samræmdri tungu, þegar út kom fyrsta stóra hollenska biblíuþýðingin sem fólk þvert yfir Sameinuðu héröðin skildi. Þýðingin var byggð á ýmsum (jafnvel lágþýskum) mállýskum, en þó aðallega á þéttbýlismállýskum Hollandshéraðs. Nafngiftir. Orðið *"theodisk" er einnig uppruni íslensku orðanna „þýskur“ og „þýska“ (*"theodisk" > *þjóðiskr > þýðskr > þýzk(u)r > þýskur), og einnig ítalska orðsins "tedesco" („þýskur“, „þýska“). Flokkun og skyldleiki við önnur mál. Hollenska er germanskt tungumál, nánar tiltekið vesturgermanskt. Vegna þess að hún varð ekki fyrir háþýsku samhljóðabreytingunni (að undanskildu þ→d) er hún stundum flokkuð sem lágþýskt mál, og reyndar er hún skyldust lágþýsku mállýskunum í norðanverðu Þýskalandi. Í raun breytast mállýskurnar smátt og smátt úr lágþýskum í hollenskar, mörkin þar á milli eru óskýr, og lágfrankísku sveitamállýskurnar neðarlega í Rínardalnum eru mikið líkari hollensku en ríkisþýsku. Skipting vesturgermönsku málanna í lág og há á þennan hátt hylur hins vegar þá staðreynd að hollenska er skyldari ríkis(há)þýsku en ensku. Sums staðar (nálægt landamærum Þýskalands og Hollands/Belgíu) talar fólk bæði þýsku og hollensku. Flestir Hollendingar geta lesið þýsku, og þýskumælandi fólk sem einnig kann ensku getur vanalega skilið ritaða hollensku þótt því finnist talmálið mjög skrýtið. Hollenska hefur enn fallbeygingu, en hún er nánst takmörkuð við fornöfn og föst orðasambönd og hefur að öðru leyti dottið að mestu úr málinu. Tæknilega er enn gerður greinarmunur á málfræðilegu karl- og kvenkyni, en í reynd má segja að nú séu aðeins tvö málfræðileg kyn í hollensku, hvorugkyn (ákv. gr. "het") og samkyn (ákv. gr. "de"), líkt og í dönsku. Beygingakerfi nafnorða og sambanda þeirra hefur verið einfaldað til muna, og líkist fremur því enska en því þýska. Upprunaleg hollensk orð (þ.e. orð sem ekki eru tökuorð) koma úr sameiginlegum vesturgermönskum grunni, og með tilliti til hljóðbreytinga standa þau einhvers staðar á milli ensku og þýsku. Í töflunni hér að neðan má sjá samanburð þessara mála. Íslenska er nokkuð fjarskyldari (norðurgermanskt, en er engu að síður höfð með til samanburðar og skilningsauka). Jafnvel þegar hollenska lítur svipað út og þýska, getur framburðurinn þó verið töluvert ólíkur. Þetta gildir sér í lagi um tvíhljóðana og stafinn g, sem er borinn fram svipað ch í svissneskri þýsku. Framburðinum er erfitt að ná fyrir ensku- og þýskumælandi fólk, þó að um frekar skyld mál sé að ræða, en kokhljóðin og tvíhljóðin reynast mörgum erfiðust. Þýskumælandi fólk virðist þá hafa visst málfræðilegt forskot. Auðveldast er fyrir Norður-Þjóðverja að læra málið, en þó er framburðurinn áfram nokkurt vandamál. Hollenska er yfirleitt ekki á námsskrá þýskra skóla, nema sums staðar rétt við landamærin, t.d. í Aachen eða Oldenburg. Landfræðileg dreifing. Hollenska er töluð af flestum íbúum Hollands. Hún er einnig töluð af flestum í hinum flæmska norðurhluta Belgíu, að undanskilinni Brussel, en þar er hollenska í minnihluta (ca. 7,5-15%) og franska er móðurmál flestra. Nyrst í Frakklandi eru minnihlutahópar sem tala hollensku, en málið er þar oftast kallað "Vlemsch". Á karabísku eyjunum Arúba og Hollensku Antillaeyjum er töluð hollenska, en ekki eins mikið og papiamento. Hollenska er einnig töluð í Súrínam og af sumum í Indónesíu. Í Suður-Afríku og Namibíu er töluð afríkanska, en hún er náskyld hollensku og er komin af máli hollenskra innflytjenda á 17. og 18. öld. Opinber staða. Hollenska er opinbert tungumál Hollands, Belgíu, Evrópusambandsins, Súrínam, Arúba og Hollensku Antillaeyja. Hollensk, flæmsk og súrínömsk yfirvöld stjórna saman opinberu formi málsins í Hollenskri málstöð ("Nederlandse Taalunie"). Afrikaans er opinbert mál í Suður-Afríku. Á Nýja-Sjálandi segja 0,7% að heimilismál þeirra sé hollenska. Þó er þar hlutfall fólks frá Hollandi töluvert hærra, en flestir af annarri kynslóð nota frekar ensku. "Standaardnederlands" eða "Algemeen Nederlands" („Almenn hollenska“, oft stytt í AN) er hið staðlaða mál sem kennt er í skólum og notað af yfirvöldum í Hollandi, Flæmingjalandi, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Hollensk málstöð ákveður hvað skuli teljast AN og hvað ekki, t.d. hvað varðar stafsetningu. Hugtakið "Algemeen Nederlands" var tekið upp í stað hins eldra heitis "Algemeen Beschaafd Nederlands" („Almenn siðmenntuð hollenska“, ABN) þegar það var ekki lengur talið viðeigandi vegna þess að það gaf í skyn að þeir sem ekki töluðu ABN væru ósiðmenntaðir. Mállýskur. Flæmska er hugtak sem oft er notað yfir þær hollensku mállýskur sem talaðar eru í Belgíu. Flæmska er ekki sérstakt tungumál (þó er hugtakið oft notað til að greina á milli ritstaðals Hollands og Belgíu), enda eru mállýskurnar í Belgíu ekkert skyldari hver annarri en hollenskum mállýskum. Ritstaðallinn er örlítið ólíkur í Hollandi og Belgíu: Flæmingjar nota frekar eldri myndir orða og framburðurinn er oft talinn „mýkri“ en í Hollandi, en það finnst sumum Hollendingum hljóma undarlega eða gamaldags. Aftur á móti líta Belgar á hollenska hollensku sem harðari og kokmæltari; sumum þeirra finnst hún of kraftmikil, óvinsamleg, og jafnvel dálítið hrokafull. Bera mætti þennan mun saman við muninn á breskri og bandarískri ensku, sem nota örlítið mismunandi orðaforða þótt bæði formin séu opinberlega rétt hvort á sínum stað. Hins vegar er bandarísk enska af sumum talin fátæklegri afleiða enskunnar, en hollenska og flæmska eru að þessu leyti sögulega jafnar. Tenglar. Wikibók um hollensku á ensku Borgarhjól. Borgarhjól er reiðhjól sem er hannað til notkunar við þéttbýlisaðstæður, þar sem er malbik og/eða gangstéttir, en eru ekki útbúin til hjólreiða á grófu undirlagi, eins og t.d. fjalllendi. Borgarhjól eru mun veikbyggðari en fjallahjól og hafa mjórri og sléttari dekk með grynnri rákum, og eru því einnig mun ódýrari. Við þéttbýlisaðstæður getur verið áreynsluminna að hjóla þeim en fjallahjólum sökum þess hve létt þau eru. Borgarhjól hafa gjarnan bögglabera að aftan, nokkuð sem finnst yfirleitt ekki á fjallahjólum eða kappaksturshjólum. Á Íslandi eru borgarhjól ekki sérlega algeng, enda oft gróft undirlag eða klakabelti, og byrjendum á hjóli eru oftast strax gefin fjallahjól. Eyjahreppur. Eyjahreppur (stundum ritaður Eyjarhreppur) var hreppur á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hinn 26. júní 1994 sameinaðist Eyjahreppur Miklaholtshreppi undir nafninu "Eyja- og Miklaholtshreppur". Miklaholtshreppur. Miklaholtshreppur (stundum ritaður Miklholtshreppur) var hreppur á sunnanverðu Snæfellsnesi, kenndur við kirkjustaðinn Miklholt. Hinn 26. júní 1994 sameinaðist Miklaholtshreppur Eyjahreppi undir nafninu "Eyja- og Miklaholtshreppur". Imam. Imam stjórnar bænagjörð í Kairó árið 1865 Imam (arabíska: إمام) er arabískt orð sem þýðir „leitogi“ eða „sá sem stendur fremst“. Í íslamskri hefð hefur hugtakið verið notað á misjafnan hátt ekki síst af sunní- annars vegar og shía-múslimum hins vegar. Sem prédikari og bænalesari. Algengasta merkinginn er að imam samsvari hugtakinu prestur eða prédikari í kristni. Hlutverk imamans er að leiða sameiginlega bæn í moskunni. Imaminn stendur þá fyrir framan söfnuðinn og snýr baki í hann og fylgja allir eftri athöfnum hans. Í stærri moskum eru tveir imamar, annar fyrir hinar fimm daglegu bænir og hinn fyrir prédikun við föstudagsbænina. Í þeim minni er oftast einungis einn imam og er þá engin prédikun haldin. Imamarnir eru ekki sérstök stétt og hafa ekki nein sérstök einkennisföt og ekki neina sérstaka menntun heldur. Þeir fá oft lítil sem engin laun heldur vinna venjuleg störf með hlutverkinu sem imam. Sem andlegur leiðtogi. Í þessari merkingu er það notað í ýmsum múslimskum löndum yfir andlega leiðtoga sem andstæðu við emír sem táknaði hinn veraldlega leiðtoga. Sem „kirkjufeður“. Helstu kórantúlkendur og andlegir leiðtogar íslam á fyrstu öldum eftir Múhameð eru einnig nefndir imamar og samsvarar það hinu kristna hugtaki "patres" („kirkjufeður“). Hinir tólf imamar shía. Þegar shía-múslimar tala um imamana tólf eiga þeir við afkomendur Ali (dó 661), mág Múhameðs. Hann var fjórði kalífinn en sonur hans Hasan (dó 670) afsagði sér kalífatitlinum eftir sex mánaða stríð við Muawija en hélt eftir fyrir sig og afkomendur sína titilinum imam. Eftir Ali og Hasan, sem teljast tveir fyrstu imamarnir af ætt Alis, tók bróðir Hasans, Hussein (dó 680), við titlinum. Hinir níu imamarnir sem allir erfðu titilinn í beinann karllegg eru: sonur Husseins Ali Zejn-el-abidin (dó 694), Muhammed El-bakir (dó 734), Djafar es-sadik (dó 765), Musa El-kazim (dó 799), Ali Eida (dó 818), einn af þeim sem skapaði súfisma, Muhammed Et-taki (dó 835), Ali En-naki (dó 868), Hassan El-askari (dó 873) og Muhammed El-mahdi, sem hvarf þegar hann var 12 ára gamall árið 879. Shía-múslimar trúa því að El-Mahdi lifi en og geti endurkomið hvenær sem er og yfirtaka heiminn. Innan shía-trúarinnar eru þrjú trúfélög sem skiftast eftir afstöðu til hverja beri að telja sem raunverulega imama. God Save the Queen. God Save the Queen er þjóðsöngur Breta. Jean le Rond d'Alembert. Jean le Rond d'Alembert (fæddur 16. nóvember 1717, dó 29. október 1783) var franskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og heimspekingur og vann náið með Denis Diderot að fyrstu alfræðibókinni. Er einn af boðberum upplýsingarinnar. d'Alembert, Jean le Rond d'Alembert, Jean le Rond d'Alembert, Jean le Rond John Logie Baird. John Logie Baird (fæddur 13. ágúst 1888, dó 14. júní 1946) var skoskur rafmagnsverkfræðingur og einn helsti frumkvöðullinn við þróun sjónvarpsins. Hann var fyrstur manna til að láta sjónvarpsútsendingu virka. Baird, John Logie André-Marie Ampère. André-Marie Ampère (fæddur 20. janúar 1775, dó 10. júní 1836) var franskur eðlis- og stærðfræðingur sem gerði margar uppgötvanir á sviði rafsegulmagns og rafaflfræði. SI-mælieiningin amper er nefnd eftir honum og sömuleiðis lögmál Ampers. Elizabeth Garrett Anderson. Elizabeth Garrett Anderson (fædd 9. júní 1836, dó 17. desember 1917) var enskur læknir og fyrsta konan í Bretlandi til að ljúka prófi í læknisfræði. Hún lærði á eigin vegum þar sem henni gafst ekki kostur á skólagöngu og fékk lækningaleyfi 1865. Hún var læknir við Marylone Dispensary for Women and Children, sem nú heitir Elizabeth Garrett Anderson Hospital og er nú eingöngu mannað konum og fyrir kvensjúklinga. Hún var fyrsta konan sem varð borgarstjóri í Bretlandi, 9. nóvember 1908 var hún kjörin borgarstjóri Aldeburgh. Anderson, Elizabeth Garrett Anderson, Elizabeth Garrett Borgarnes. Borgarnes er bær á samnefndu nesi við Borgarfjörð. Þar búa yfir 2000 manns og er bærinn þungamiðja hins unga sveitarfélags Borgarbyggðar og þjónustumiðstöð fyrir nágrannasveitirnar auk þess að vera vinsæll áningarstaður ferðafólks. Þótt Borgarnes standi við sjó er þar nær engin útgerð stunduð. Bærinn var upphaflega í Borgarhreppi en varð að sérstökum hreppi, "Borgarneshreppi", árið 1913. Hinn 24. október 1987 fékk Borgarnes kaupstaðarréttindi og kallaðist þá formlega "Borgarnesbær". 11. júní 1994 sameinaðist Borgarnesbær Hraunhreppi, Norðurárdalshreppi og Stafholtstungnahreppi undir nafninu "Borgarbyggð". Hraunhreppur. Hraunhreppur var hreppur vestast í Mýrasýslu. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Hraunhreppur Borgarnesbæ, Norðurárdalshreppi og Stafholtstungnahreppi undir nafninu "Borgarbyggð". 30. mars 2006 blossuðu Mýraeldar upp með þeim afleiðingum að gróður í nánast öllum Hraunhreppi varð eldi að bráð. Norðurárdalshreppur. Norðurárdalshreppur var hreppur nyrst í uppsveitum Mýrasýslu, kenndur við Norðurárdal. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Norðurárdalshreppur Borgarnesbæ, Hraunhreppi og Stafholtstungnahreppi undir nafninu "Borgarbyggð". Stafholtstungnahreppur. Stafholtstunguhreppur var hreppur í miðri Mýrasýslu, kenndur við sveitina Stafholtstungur. Hinn 11. júní 1994 sameinaðist Stafholtstunguhreppur Borgarnesbæ, Norðurárdalshreppi og Hraunhreppi undir nafninu "Borgarbyggð". Borgarhreppur. Borgarhreppur var hreppur í Mýrasýslu, kenndur við landnámsbæinn og kirkjustaðinn Borg á Mýrum. Afmarkaðist hann af Langá vestan megin en Gljúfurá og Hvítá að austan. Þorpið Borgarnes var upphaflega í hreppnum, en var gert að sérstökum hreppi árið 1913. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Borgarhreppur "Borgarbyggð", ásamt Álftaneshreppi og Þverárhlíðarhreppi. Álftaneshreppur (Mýrasýslu). Álftaneshreppur var hreppur í Mýrasýslu, kenndur við kirkjustaðinn Álftanes á Mýrum. Afmarkaðist hann af Álftá að vestan og Langá að austan. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Álftaneshreppur "Borgarbyggð", ásamt Borgarhreppi og Þverárhlíðarhreppi. Þverárhlíðarhreppur. Þverárhlíðarhreppur var hreppur í uppsveitum Mýrasýslu, kenndur við sveitina Þverárhlíð. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Þverárhlíðarhreppur "Borgarbyggð", ásamt Álftaneshreppi og Borgarhreppi. Monte Carlo. Mónakó spilavítið í Monte Carlo. Monte Carlo er mjög ríkt hverfi í borgríkinu Mónakó, þekkt fyrir spilavíti sín, glamúr, og það að frægt fólk virðist una sér vel þar. Um 30.000 íbúar eru þar með fasta búsetu (áætlað 1990). Monte Carlo hýsir stærstan hluta af Circuit de Monaco kappakstursbrautinni, en á henni fer Monaco Grand Prix keppnin fram í Formúlu-1 kappakstri. Einnig fara heimsmeistarakeppnir í hnefaleikum (Monte Carlo meistararnir), tískusýningar og ýmsir aðrir viðburðir fram í Monte Carlo. Áratugum saman hafa konungsfólk, kvikmyndastjörnur og meðalmenni heimsótt Monte Carlo. Spilavítin í Monte Carlo eru víðfræg og laða að ótal ferðamenn á hverju ári. Innan spilavítisins er Grand Théâtre de Monte Carlo óperu- og ballethúsið, og höfuðstöðvar Ballets de Monte Carlo. Árið 1861 var gefið 50 ára leyfi til þess að reka spilasali með fjárhættuspilum til einstaklinga. Síðan 1898 hefur leyfið verið starfrækt af Société des Bains de Mer sem er fyrirtæki, en ríkisstjórn Mónakó á nú ráðandi hlut í því. Fyrirtækið á einnig helstu hótelin og barina sem þjóna ferðaþjónustu. Engir skattar eru á einstaklingum í Mónakó, en þeim er meinaður aðgangur að spilavítum. Árið 1873 gerði Joseph Jagger spilavítið frægt með því að „brjóta bankann“. Hann fann og hagnýtti sér galla í einu af rúllettuhjólum spilavítisins. Tæknilega séð var bankinn í þessu tilviki það fé sem borðið hafði í höndum croupiersins, spilastjórans. Samkvæmt grein í The Times seint á 19. öld var hægt að brjóta bankann oft með þessari aðferð. Lagið „The Man that Broke the Bank at Monte Carlo“ frá árinu 1892 er líklega samið til höfuðs Charles Wells sem braut bankann margoft í tveimur fyrri ferðum sínum til Monte Carlo, af þremur. Breski njósnarinn James Bond, söguhetjan úr skáldsögum Ians Fleming og kvikmyndum byggðum á þeim, stundaði spilavítið þar mikið. Monte Carlo (spil). Monte Carlo er fjárhættuspil fyrir fimm til átta spilara, sem spilað er með venjulegum 52-spila spilastokki. Hvert spil skiptist upp í sjö umferðir sem öll hafa misjöfn markmið. Í fyrstu sex umferðunum er byggður upp vinningspottur, og síðasta umferðin sker úr um það hvernig potturinn skiptist upp á milli spilara. Gangur spilsins. Í upphafi er ákveðið hve mikill peningur er á bak við hvert stig. Hámarksupphæð pottarins stýrist annarsvegar af því, og hinsvegar af fjölda spilara. Ef að hvert stig er 1000 krónu virði, og spilarar fimm, þá mun potturinn verða formula_1 krónur. Nú eru spil hugsanlega tekin úr bunkanum, háð fjölda spilara. Ef að átta spilarar eru, þá eru engin spil fjarlægð, en ef þeir eru sjö eru tvistar fjarlægðir, tvistar og þristar ef spilarar ef spilarar eru sex, og ef að spilarar eru fimm eru tvistar, þristar og fjarkar fjarlægðir. Nú er gefið; allir eiga að vera með jafn mörg spil á hendi og bunkinn á að klárast. Stokkurinn er stokkaður og gefið er upp á nýtt eftir hverja umferð. Eftir hverja umferð eiga menn að setja pening í pottinn fyrir hvert mínusstig, en eftir síðustu umferð eru peningar teknir úr pottinum sem samsvara fjölda jákvæðra stiga sem fengin eru í þeirri umferð. Potturinn á að tæmast. Í fyrstu umferð er spilað nolo. Þá er markmiðið að forðast að taka slagi. Slagur er tekinn með því að eiga hæsta spilið í slagnum í þeim lit sem fyrst var sett út. Eitt mínusstig er gefið fyrir hvern slag. Í annarri umferð er markmiðið að forðast að taka slagi sem innihalda lauf. Eitt mínusstig er veitt fyrir hvert laufaspil sem tekið er. Í þriðju umferð er markmiðið að forðast að taka slagi sem innihalda drottningar. Tvö mínusstig eru veitt fyrir hverja drottningu. Í fjórðu umferð er markmiðið að forðast að taka slagi sem innihalda svarta kónga. Fjögur mínusstig eru veitt fyrir hvern svartan kóng. Í fimmtu umferð er markmiðið að forðast að taka hjartaásinn. Átta mínusstig eru veitt fyrir hann. Í sjöttu umferð er markmiðið að forðast að taka síðasta slaginn. Átta mínusstig eru veitt fyrir hann. Í sjöundu umferð snýst leikurinn við - í stað þess að greiða í pottinn skal hann tæmdur. Gefið er, og nú má setja út það spil sem er í miðju rununnar, rúnað upp - ef að spilarar eru fimm talsins er nían notuð. Níum skal raðað upp eftir sortum, og á níuna má leggja spil sem er hærra eða lægra en það. Runan gengur þá út í báðar áttir frá níunni uns öll spil klárast. Ef að spilari getur ekki lagt neitt út þá segir hann „pass“ og næsti á leik. Spilari sem leggur út ás, hæsta spilið, fær að gera aftur. Veitt eru stig í þeirri röð sem menn klára af hendi sinni. Í fimm manna leik eru 20 stig fyrir að klára fyrstur, 15 stig fyrir að klára annar, 10 stig fyrir að vera þriðji, 5 stig fyrir að vera fjórði, og sá sem klárar síðastur situr uppi með núll stig og sárt ennið. Þá er potturinn tæmdur samkvæmt þessum stigum. Urður, Verðandi og Skuld. Urður, Verðandi og Skuld eru þrjár örlaganornir, sem koma fyrir í norrænni goðafræði. Þær búa við brunn, sem heitir Urðarbrunnur, og stendur við eina af þrem rótum Asks Yggdrasils. Urður, Verðandi og Skuld ausa yfir tréð, einu sinni á dag, vatni sem á að halda trénu (Aski Yggdrasils) frá því að fúna eða visna. Urður er myndgervingur fortíðarinnar, Verðandi nútímans, og Skuld framtíðarinnar. Þær stýra örlögum manna og hafa til þess langa þræði sem þær hugsa um af ýtrustu varfærni. Þegar kemur að því að kappi (maður) er búinn með sinn tíma þá klippa þær á þráðinn og örlög viðkomandi eru ráðin. Í bókinni Veðmál Óðinns, fer Óðinn á fund þessara örlaganorna til að fá þær til að upplýsa um þrjá mestu kappa sem eru á lífi. Nornirnar bregðast ókvæða við og neita Óðni um þessa bón. Bifröst (norræn goðafræði). Bifröst (einnig nefnd Ásbrú) er brú í norrænni goðafræði. Brú þessi liggur á milli Ásgarðs, þar sem goðarnir eiga heima, og Miðgarðs, þar sem mennirnir eiga heima. Brú þessi er útskýring norrænnar goðafræði á regnboga. Rauði liturinn í þessari brú á að vera eldur og verndar hann Ásgarð frá jötnum. Æsir ferðast upp þessa brú daglega til að funda undir skugga Asks Yggdrasils. Vilji (norræn goðafræði). Vilji (fornnorræna: Vili) er sonur Bors, sonar Búra, sonar Auðhumlu í norrænni goðafræði. Bræður hans heita Óðinn og Vé. Hann tekur þátt í sköpun heims, ásamt bræðrum sínum en virðist síðan hverfa, ásamt bróður sínum Vé, að sköpun lokinni. Hann er sagður hafa gefið mönnunum gáfur og tilfinningar. Vé. Vé er sonur Bors, sonar Búra, sonar Auðhumlu. Bræður hans heita Óðinn og Vilji. Hann tekur þátt í sköpun heims, ásamt bræðrum sínum en virðist síðan hverfa, ásamt bróður sínum Vilja, að sköpun lokinni. Hann er sagður hafa gefið mönnunum málið og ytri skilningarvit. Tonn. Tonn er mælieining massa og jafngildir 1.000 kílógrömmum, þ.e. 1 tonn = 1000 kg. Tonn er ekki SI-mælieining en notkun þess er samþykkt innan SI-kerfisins. Rétt heiti á þessu magni innan SI-kerfisins væri *megagramm (Mg). Táknið fyrir tonn er t. Bestla. Í norrænni goðafræði var Bestla Bölþórsdóttir forn hrímþurs. Faðir hennar var Bölþór sem einnig var hrímþurs. Hún eignaðist afkvæmin Óðin, Vila og Vé með Bor. Bor. Bor, í norrænni goðafræði, var sonur Búra. Hann eignaðist börnin Óðin, Vila og Vé með Bestlu Bölþórsdóttur. Bölþór. Bölþór var hrímþurs í norrænni goðafræði. Bestla Bölþórsdóttir var dóttir hans. Chicago-hagfræðingarnir. Chicago-hagfræðingarnir (e. "Chicago School of Economics") er hópur hagfræðinga, sem ýmist kenndu eða námu við Chicago-háskóla á 20. öld og eru kunnir fyrir eindreginn stuðning við frjálshyggju og rækilegar rannsóknir á verðmyndun á frjálsum markaði. Áhrifamesti hagfræðingurinn í þessum hóp á fyrri hluta 20. aldar var Frank H. Knight, en kunnastur er Milton Friedman, sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1976. Á meðal annarra Chicago-hagfræðinga eru Nóbelsverðlaunahafarnir George J. Stigler og Gary Becker. Nóbelsverðlaunahafarnir Ronald Coase, sem lengi kenndi við Chicago-háskóla, og James M. Buchanan, sem lauk þaðan doktorsprófi, standa báðir nærri Chicago-hópnum, þótt Buchanan teljist frekar til Virginíu-hagfræðinganna svonefndu. Friedrich A. von Hayek kenndi einnig lengi í Chicago-háskóla, þótt hann teljist frekar til austurrísku hagfræðinganna svonefndu. Tveir afkastamiklir rithöfundar hafa skrifað aðgengileg og alþýðleg verk í anda Chicago-hagfræðinganna, þeir Richard Posner dómari og Thomas Sowell, vísindamaður í Hoover Institution í Stanford-háskóla. Hópur hagfræðinga í Chile hefur líka verið kenndur við Chicago-háskóla, Chicago-drengirnir (e. Chicago Boys) svonefndu, en þeir höfðu numið í Chicago-háskóla eða orðið fyrir miklum áhrifum frá kennurum þar. Þeir fengu miklu um það ráðið, að í stjórnartíð Augustos Pinochets einræðisherra var atvinnufrelsi stóraukið. Þeir höfðu þá aðallega með í ráðum Arnold Harberger, en Milton Friedman gegndi minna hlutverki, þótt hann kæmi til Chile í stjórnartíð Pinochets og héldi þar erindi. Rannsóknir Miltons Friedmans á peningamálasögu Bandaríkjanna sýna, að verðbólga er ætíð háð peningamagni í umferð. Heimskreppan stafaði að sögn hans aðallega af því, að niðursveifla í atvinnulífinu breyttist í harða kreppu vegna mistaka í stjórn peningamála, en síðan gerðu margvísleg viðskiptahöft um heim allan illt verra. Ekki væri því hægt að kenna frjálsum viðskiptum um heimskreppuna, eins og oft er haldið fram, heldur ríkisafskiptum. Rannsóknir Georges J. Stiglers á ýmsum afskiptum ríkisins sýna, að þau hafa ekki haft þau áhrif, sem til var ætlast. Til dæmis hefur samkeppnislöggjöf ekki stuðlað að aukinni samkeppni og verðlagseftirlit ekki haldið niðri verðlagi. Rannsóknir Garys Beckers á mismunun á markaði (e. discrimination) sýna, að hún kemur ekki síður niður á þeim, sem mismuna, en hinum, sem mismunað er. Þegar einn maður neitar sér til dæmis um þjónustu annars manns, af því að hann er svartur, neitar hann sér oft um hagkvæmasta kostinn. Rannsóknir Beckers á afbrotum sýna, að tilhneiging manna til að fremja afbrot er háð því tvennu, hversu þung viðurlög eru við brotinu og hversu líklegt er, að upp um brotamanninn komist. Þess vegna geta refsingar verið mildari á Íslandi en í Bandaríkjunum (líklegra er á Íslandi, að upp um brotamanninn komist). Rannsóknir Thomas Sowells sýna, að minnihlutahópar eru oft betur settur úti á markaðnum, þar sem þeir geta selt þjónustu sína í samkeppni við aðra, en þegar þeir leita á náðir ríkisins. Rannsóknir Aarons Directors sýna, að skipting fjár í stjórnmálasamningum er líkleg til að gagnast best þeim, sem hafa mest stjórnmálaáhrif, en ekki þeim, sem kunna að þurfa helst á fénu að halda eða verðskulda það. Rannsóknir Sams Peltzmans sýna, að lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur líklega kostað fleiri mannslíf en það hefur bjargað, þar sem það hefur ýmist stöðvað eða tafið leið ýmissa nauðsynlegra lyfja út á markaðinn, þótt það hafi einnig stöðvað ýmis hættuleg lyf. Þær sýna líka, að öryggisbelti í bílum minnka sennilega ekki heildarkostnaðinn af bílslysum, heldur flytja hættuna frá ökumönnum til gangandi vegfarenda. Franklin D. Roosevelt. Franklin Delano Roosevelt (30. janúar 1882 - 12. apríl 1945) var 32. forseti Bandaríkjanna á árunum 1933 til 1945. Roosevelt fæddist í Hyde Park í New York-fylki. Franklin kvæntist eiginkonu sinni Eleanor 17. mars 1905 þrátt fyrir mótmæli móður hans. Saman eignuðust þau 6 börn; Önnu, James, Franklin Delano Jr. (lést nokkurra mánaða gamall), Elliot, annan Franklin Delano Jr. og loks John Aspinwall. Franklin Roosevelt er af mörgum talinn einn merkasti einstaklingur 20. aldarinnar. Hann var 32. forseti Bandaríkjana og er jafnframt sá eini til að vera kosinn oftar en tvisvar sinnum. Enfremur leiddi hann Bandaríkin í gegnum tvær af mestu hörmungum sem þau hafa þurft að ganga í gegnum, kreppuna miklu og seinni heimstyrjöldina. Hann tók við af Herbert Hoover árið 1933 en þá hafði kreppan mikla staðið yfir síðan 1929 eftir að fjármálakerfið hafði fallið. Með áætlun sinni „The new deal“ tókst honum að gera Bandaríkin aftur að heimsveldinu sem það er í dag. Hann var einnig við stjórnvölin í gegnum nærri alla seinni heimsstyrjöldina en eftir að hafa barist við lömunarveiki í rúma tvo áratugi lést hann þann 12. apríl árið 1945 úr heilablóðfalli einungis þremur vikum áður en Þjóðverjar gáfust upp. Leið Roosevelt til valda. Franklin Delano Roosevelt fæddist árið 1882 í Hyde Park í New York. Hann var fjarskyldur ættingi Theodore Roosevelt, Bandaríkjaforseta frá 1901-1909. Eftir að hafa lokið grunnmenntun sem hann að hluta til hlaut heima, hóf hann skólagöngu í lagadeild Harvard og árið 1905 stundaði hann laganám við Columbia-háskóla. Árið 1907 hætti hann hinsvegar þar og fór að vinna fyrir fyrirtæki á Wall Street og tók réttindi til lögmanns í New York-ríki. Árið 1910 var hann svo kosinn á ríkisþing New York sem fulltrúi demókrata. Franklin Delano Roosevelt fæddist árið 1882 í Hyde Park í New York. Hann var fjarskyldur ættingi Theodore Roosevelt, Bandaríkjaforseta frá 1901-1909. Eftir að hafa lokið grunnmenntun sem hann að hluta til hlaut heima, hóf hann skólagöngu í lagadeild Harvard og árið 1905 gekk hann Columbia law school. Árið 1907 hætti hann hinsvegar þar og fór að vinna fyrir fyrirtæki á Wall Street og tók réttindi til lögmanns í New York-ríki. Árið 1910 var hann svo kosinn á ríkisþing New York sem fulltrúi demókrata. Snemma á pólitískum ferli sínum fór Roosevelt beint til verks og þáverandi forseti Woordow Wilson var fljótur að taka eftir hæfileikum Roosevelt á stjórnmálasviði og árið 1913 skipaði hann Roosevelt sem aðstoðarritara sjóhersins. Þegar að fyrri heimstyrjöldin braust svo út árið 1914 sýndi Roosevelt pólitíska getu sína og náði að halda uppi stöðugri framleiðslu í verksmiðjum sjóhersins á meðan stríðinu stóð. Þegar að fyrri heimstyrjöldinni lauk, sat hann við gerð versalasamningana og lýsti yfir andstöðu sinni við þá því þeir voru eins og hann sagði ekki til að gera heiminn óhultari fyrir lýðræði heldur einungis öruggara fyrir gömlu heimsveldin. Árið 1920 þótti Roosevelt orðinn mikið efni til forseta og var hann útnefndur sem varaforsetaefni demókrata en forsetaframbjóðandinn James M. Cox náði hinsvegar ekki kjöri og því snéri Roosevelt aftur til New York og stundaði lögfræði. Sumarið 1921 greindist Roosevelt með lömunarveiki og það munaði ekki miklu að hann hefði lamast algjörlega og eftir það var hann algjörlega bundinn í hjólastól. Með miklum viljastyrk og þreki tókst honum þó að snúa aftur til stjórnmála og árið 1928 var hann kosinn ríkisstjóri New York. Roosevelt verður forseti. Árið 1929 skall heimskreppan á af fullu afli. Hlutabréf í kauphöll New York, Wall Street, hríðféllu og í kjölfarið urðu 13 milljónir Bandaríkjamanna atvinnulausir. Heildarverðmæti framleiðslu féll úr 93 milljörðum dollara niður í 52 milljarða á einu ári og einn þriðja allra banka í Bandaríkjunum fór á hausinn. Margir töldu Herbert Hoover, þáverandi forseta, seinan til að athafast eitthvað og varð hann í kjölfarið mjög óvinsæll. Á sama tíma stóð Roosevelt sig með miklum ágætum sem ríkisstjóri New York. Hann kom á fót allskyns atvinnubótavinnu og hlaut í kjölfarið mikið lof landsmanna. Þegar kom að forsetakosningum árið 1932 kom því engum á óvart að demókratar skildu útnefna Roosevelt frambjóðanda sinn til forsetaembættis og hann sigraði þáverandi forseta með afgerandi mun. Þegar Roosevelt tók við starfi forseta Bandaríkjanna í janúar árið 1933 lofaði hann miklum umbreitingum fyrstu hundarð dagana í starfi undir nafninu, New deal, sem hann stóð við því á þessum tíma tókst honum að koma í gegnum þingið fimmtán nýjum lagafrumvörpum til að sporna við kreppuni. Flest þessara frumvarpa voru til að hjálpa tilteknum atvinnugeirum að komast aftur á kjölinn og sem dæmi má nefna, the Works Projects Administration (WPA), the Civilian Conservation Corps (CCC), the National Youth Administration (NYA). Roosevelt lokaði einnig öllum bönkum í Bandaríkjunum og bannaði opnun þeirra þar til gengið var úr skugga um að þeir ættu fyrir skuldum sínum. Við þessar breytingar jókst álit almennings á bankageiranum upp á nýtt og það ýtti aftur undir velmegun og kom þeim að lokum í gegnum kreppuna. árið 1935 setti hann svo lög sem nefndust The second new deal. Þau lög lögðu undirstöðu að bandarísku félagskerfi með tilkomu hluta eins og atvinnuleysisbætur, öryrkjabætur og ellilífeyri sem og hærri skatttöku á þá háttlaunuðu. Roosevelt var endurkjörinn með miklum yfirburðum árið 1936 og var þetta seinna tímabil hans ekki eins atkvæðamikið og það fyrra. Þar má helst kenna um gífurlegri andstöðu sem hann varð fyrir frá hæstarétti Bandaríkjana, en stór hluti hæstaréttardómarana hafði verið skipaður í starf af forverum Roosevelt og voru þeir rebúblikanar. Þrátt fyrir það þá tókst honum að lögleiða frumvarp um lámarkslaun verkafólks. Hvað utanríkismál varðaði þá taldi Roosevelt að „Hinn góði nágranni“ hentaði best og á meðan hann var foresti voru tengsl við aðrar Ameríkuþjóðir styrktar.honum var þótti ljóst að Fasismastefna í Evrópu sem hafði grasserað myndi ekki eiga góðan endi og sú spá rættist því stuttu seinna hófst seinni heimsyrjöldin. Þegar seinni heimstyrjöldin hófs ítrekaði Roosevelt hlutleysi Bandaríkjana og þau gerðu það þangað til Þjóðverjar höfðu tekið yfir Frakkland árið 1940 en þá fóru Bandaríkjamenn að styðja Breta með óbeinum hætti. Roosevelt varð fyrsti og eini forsetinn til að sitja lengur en 2 tímabil í stóli forseta en hann var endurkosinn árið 1940. það var talið heldur óvenjulegt en þar sem heimurinn logaði í stríðsátökum var það talið afsakanlegt jafnvel þótt Bandaríkin tækju ekki beinan þátt. Hlutleysi Bandaríkjana breyttist hinsvegar 7. desember árið 1941 en þá gerði japanski herinn árás á Pearl Harbour, eina af flotastöðvum Bandaríkjana við Kyrrahafið. Í framhaldi af þessu lýsti Roosevelt yfir stríði við Öxulveldin og nú voru Bandaríkinn farin að taka beinan þátt í stríðinu. Endalok. Roosevelt var einn af hugmyndasmiðunum á bak við Sameinuðu þjóðana en hann taldi að til að halda frið í heiminum þá þyrftu þannig samtök að vera til staðar eftir stríð en það gerði hann einmitt í samráði við Winston Churchill og Josef Stalin. Hann var svo kosinn í 4. skipti sem forseti Bandaríkjana 1944 og var það þar til hann lést 12. apríl árið 1945, einungis þrem vikum áður en Þjóðverjar gáfust upp, úr heilablóðfalli eftir að hafa verið bundinn í hjólastól í rúma 2 áratugi og samt sem áður stjórnað mesta heimsveldi 20. aldarinnar. Hann lét eftir sig konu sína og frænku Elanor Roosevelt og tvo syni þá James og Franklin yngri, en þau voru öll mjög virk í stjórnmálum. Heimildir. Roosevelt, Franklin D. Brynjólfur Bjarnason. Brynjólfur Bjarnason (fæddur 26. maí 1898, látinn 16. apríl 1989) var einn áhrifamestu leiðtoga sósíalista á Íslandi á 20. öld. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1918, en Hjalti Jónsson konsúll hafði stutt hann til náms. Síðan stundaði hann nám í heimspeki í Kaupmannahöfn og Berlín, en lauk ekki prófi, og sneri hann sér aftur að heimspeki á efri árum. Brynjólfur gerðist róttækur þegar á námsárum og hélt fast við þær grundvallarskoðanir alla ævi. Hann var annar af tveimur fulltrúum íslenskra kommúnista á öðru þingi Kominterns, alþjóðasambands kommúnista, í Moskvu 1920. Greiddi hann þar atkvæði með Moskvusetningunum svokölluðu sem kváðu á um skilyrðislausa fylgispekt aðildarflokka sambandsins við það. Brynjólfur var fulltrúi íslenskra kommúnista á fjórða þingi Kominterns í Moskvu 1924, þar sem var samþykkt ályktun um að stofna bæri kommúnistaflokk á Íslandi þegar aðstæður leyfðu. Brynjólfur var fyrsti og eini formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930 - 1938, en sá flokkur var deild í Alþjóðasambandi kommúnista og laut valdi þess samkvæmt Moskvusetningunum. Brynjólfur var fulltrúi íslenska kommúnistaflokksins á sjötta þingi Kominterns í Moskvu 1935, en þá skipti sambandið um stefnu og vildi taka upp samstarf við jafnaðarmannaflokka gegn fasisma. Hann var kjörinn á þing fyrir kommúnistaflokkinn 1937. Brynjólfur var formaður miðstjórnar Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins 1938 - 1949. Hann varði innrás Sovétríkjanna í Finnland í árslok 1939 og smíðaði orðið „Finnagaldur“ um óvægna gagnrýni á þá innrás. Brynjólfur þýddi ýmis rit eftir Maó Zedong á íslensku, þar á meðal "Rauða kverið", sem kom út 1967. Brynjólfur sat á Alþingi í 19 ár, til 1956. Brynjólfur var einnig menntamálaráðherra 1944-1947 í svonefndri „nýsköpunarstjórn“. Frá og með 1954 sinnti Brynjólfur í æ ríkara mæli heimspeki og ritaði fjölda bóka um þau efni. Jafnframt dró úr stjórnmálaþátttöku hans en hann var þó áfram virkur félagi í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu. Helstu ritverk. Brynjólfur þýddi auk þess rit eftir Karl Marx og Friedrich Engels, Maó Tse-tung og Líú Sjaó-sí. Hrafnagil. Hrafnagil er fornt höfuðból í Eyjafjarðarsveit, fyrrum Hrafnagilshreppur var kenndur við bæinn en þar var til ársins 1863 kirkjustaður og prestsetur hreppsins. Á Sturlungaöld var Þorgils skarði Böðvarsson veginn af Þorvarði Þórarinssyni á Hrafnagili um jólin 1258, ódæðið þótti afar níðingslegt og uppskar Þorvarður miklar óvinsældir vegna þess. Í landi Hrafnagils hefur nú byggst samnefnt þorp þar sem að 142 bjuggu í desember 2005. Þar er Hrafnagilsskóli, grunnskóli Eyjafjarðarsveitar, og félagsheimili. Jarðhiti er á staðnum og er notaður til að hita upp nokkur gróðurhús en einnig eru þar borholur á vegum Norðurorku sem að tengjast hitaveitunni á Akureyri. Vinsælir áfangastaðir í Hrafnagili eru Blómaskálinn Vín sem einnig er veitingastaður og Jólagarðurinn þar sem vörur sem tengjast jólunum eru seldar allt árið um kring. Skeiðahreppur. Kort sem sýnir staðsetningu Skeiðahrepps Skeiðahreppur var sveitarfélag í Árnessýslu sem sameiðaðist Gnúpverjahreppi árið 9. júní 2002 og mynduðu þau Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Skeiðahreppur er marflatur enda mótaður af bæði Þjórsá og Hvítá sem renna hvor sínum megin við sveitina. Minnsta bil milli ánna er 8 kílómetrar nokkuð sunnarlega í sveitinni. Allra syðst nær Þjórsárhraunið yfir landið. Nyrst setur Vörðufell mikinn svip á landið þar sem það rís um 300 metra yfir landið. Vörðufellið sjálft er 391 m hátt og í dalverpi nokkru er Úlfljótsvatn; stærsta vatn sveitarinnar. Milli Hvítár og Vörðufells eru Höfðaveitur, en þær eru á náttúruminjaskrá Umhverfisstofnunar. Eru veiturnar nú stærsta votlendi sveitarinnar, eftir að stórt landssvæði var ræst fram á 20. öld. Sveitin er mikið landbúnaðarsvæði og er þar allmikil mjólkurframleiðsla, sem og hrossarækt. Ekki er hreppurinn mikill sauðfjárræktarhreppur en þó eru Reykjaréttir með elstu varðveittu hlöðnu réttum á Íslandi. Á Brautarholti er Þjórsárskóli sem áður hét Brautarholtsskóli. Einnig hefur á síðustu árum risið íbúðahverfi á Brautarholti. Cavaco Silva. Aníbal António Cavaco Silva (fæddur í Boliqueime, Algarve þann 15. júlí 1939 —) var forsætisráðherra Portúgals frá 6. nóvember 1985 til 28. október 1995 og sá lýðræðislega kjörni forsætisráðherra landsins sem lengst hefur setið við völd. Cavaco Silva var jafnframt kjörinn forseti Portúgals þann 22. janúar 2006. Menntun og frami. Cavaco Silva hlaut doktorspróf í hagfræði frá háskólanum í York, Englandi árið 1974, sama ár og fasistastjórn Portúgals missti völdin í landinu. Síðar vann hann við Háskólann í Lissabon, við Kaþólska háskólann og í Seðlabanka Portúgals sem yfirmaður hagfræðisviðs bankans. Árið 1980 útnefndi forsætisráðherra landsins, Francisco Sá Carneiro, hann sem fjármálaráðherra í ríkisstjórn sinni þar sem Cavaco Silva var fljótur að aflétta hömlum á fyrirtæki og ýta undir frjáls viðskipti. Eftir sviplegan dauða Sá Carneiro hélt Cavaco Silva sæti sínu í næstu ríkisstjórn. Hann neitaði hins vegar að taka sæti í ríkisstjórn jafnaðarmanna og sósíalista sem lauk þegar hann var kosinn leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins (Partido Social Democrata, PSD) þann 2. júní árið 1985. Þann 6. nóvember sama ár tók hann sæti sem forsætisráðherra landsins. Forsætisráðherratíðin: 1985 - 1995. Eftir að hafa náð völdum hélt Cavaco Silva áfram að opna hagkerfi landsins. Hann lækkaði sömuleiðis skatta og ríkið fjárfesti umtalsvert í mannvirkjum og vegakerfi landsins ásamt því að einkavæða ríkisfyrirtæki. Efnahagur Portúgals tók kipp á 9. áratuginum og vinsældir forsætisráðherrans sömuleiðis. Það sem hamlaði stjórninni hins vegar var að hafa ekki meirihluta á portúgalska þinginu. Árið 1987 neyddist forseti landsins, Mário Soares, til þess að boða til kosninga eftir að Lýðræðisflokkurinn (PRD) dró stuðning sinn við ríkisstjórnina til baka. Niðurstöður kosninganna komu öllum á óvart þar sem Jafnaðarmannaflokkurinn hlaut 50,2% atkvæða og því 148 sæti á 250 manna portúgalska þinginu. Þetta var í fyrsta skipti í sögu landsins sem einn flokkur náði meirihluta sæta. Árið 1991 endurtók Cavaco Silva leikinn og hlaut aftur meirihluta atkvæða. Þegar stjórnarandstaðan gagnrýndi hann harkalega fyrir það sem flestir Portúgalar sáu greinilega sem efnahagslegar umbætur svaraði Cavaco Silva þeim með orðum sem talin eru lýsa persónuleika hans vel: ‚Leyfið mér að vinna‘ (deixem-me trabalhar). Viðvarandi atvinnuleysi í landinu, auk orðróms um mútur ákveðinna ráðherra, varð til þess að vinsældir stjórnarinnar döluðu og Cavaco Silva ákvað að bjóða sig ekki fram í kosningunum sem fram fóru árið 1995. Í stað hans var fyrrum varnarmálaráðherra landsins, Fernando Nogueira, kjörinn leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins sem tapaði í kjölfarið kosningunum og sósíalistar þar sem sósíalistar komust til valda með António Guterres í fararbroddi. Atlagan að forsetaembættinu. Cavaco Silva bauð sig fram til forseta Portúgals árið 1996 en tapaði naumlega fyrir borgarstjóra Lissabon, vinstrimanninum Jorge Sampaio (46,09% gegn 53,91%). Eftir ósigurinn gerðist Cavaco Silva ráðgjafi í Seðlabanka Portúgals og hagfræðiprófessor við tvo portúgalska háskóla. Cavaco Silva neitaði að styðja forsætisráðherraefni jafnaðarmannaflokksins, Pedro Santana Lopes, í þingkosningum landsins árið 2005. Hann bauð sig aftur fram til forseta árið 2006 og sigraði þá kosningarnar með 50,59% atkvæða. Þar með varð hann fyrsti hægrimaðurinn til að verða forseti landsins síðan í byltingunni 1974. Hann er jafnframt annar forseti landsins sem hefur áður gegnt stöðu forsætisráðherra. Sá fyrsti, Mário Soares, bauð sig einnig fram í kosningunum 2006 en hlaut aðeins 14,34% atkvæða. Þrátt fyrir að Cavaco Silva hefði fengið meirihluta atkvæða var ekki nema tæplega þriðjungur þjóðarinnar sem kaus hann, þar sem aðeins rétt rúmlega 60% kosningabærra manna mætti á kjörstað. Einar Pálsson. Þrídrangar út af Landeyjum eru hornsteinn í goðsagnalandslagi Rangárhverfis skv. kenningum Einars Pálssonar. Rætur íslenskrar menningar liggja djúpt. Einar Pálsson taldi að platónismi hefði haft mikil áhrif á norður-evrópska heiðni (ör) og að Íslendingasögurnar hefðu brúað bilið milli heiðni og kristni (hringir). Heiðni Miðjarðarhafs er hér sett undir einn hatt, en í raun voru þar á ferð flóknir og síkvikir menningarstraumar. Einar Pálsson (1925 – 1996) fræðimaður og fyrrverandi skólastjóri Málaskólans Mímis er kunnastur fyrir kenningar sínar um rætur íslenskrar menningar. Hann fæddist í Reykjavík, hlaut cand. phil.-gráðu 1946 og B.A. gráðu í ensku og dönsku 1957 frá Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist frá The Royal Academy of Dramatic Art í London árið 1948. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir sínar á íslenskum fornbókmenntum. Hann setti fram kenningar sínar árið 1969 og þróaði þær áfram í samtals 11 bókum á íslensku og þremur á ensku. Goðsagnakenningin: Goðsagnauppruni Íslendingasagna. Íslenskar fornsagnir eru að verulegu leyti goðsagnir að uppruna. Söguhetjurnar eru persónugervingar hugtaka úr goðsögnum, s.s. frjósemi, réttlætis, tíma, dauða og höfuðskepnanna (frumefnanna) fjögurra. Einar færði rök fyrir því að mörg atriði í fornsögunum yrðu skiljanleg ef goðsagnir Miðjarðarhafsþjóða og Kelta væru hafðar til hliðsjónar. Hann tók Njálu sérstakleg fyrir og taldi að t.d. Kári tengdist tíma og lofti, Njáll frjósemi, sköpun og vatni, Skarphéðinn eldi, réttlæti og dauða, Höskuldur tengdist sáðkorni og frjósemi, Gunnar á Hlíðarenda tengdist sól, Mörður jörð og Bergþóra Hel. Goðsagnir þær sem skína í gegnum fornsögurnar eru hluti af árstíðabundinni frjósemisdýrkun Freys og Freyju, sem voru náskyld svipuðum goðmögnum við Miðjarðarhafið, einkum Ósíris og Ísis. Þessar frjósemitengdu goðsagnir voru, að mati Einars, tengdar vissum landsvæðum á Íslandi, og hluti af því að gera landið byggilegt í augum heiðinna landnámsmanna. Með tímanum runnu þessar svæðisbundnu goðsagnir saman við sagnir af raunverulegum persónum og urðu efniviður Íslendingasagna. Íslendingasögurnar eru þannig sprottnar upp úr því sem kalla mætti trúarlegt landslag eða goðsagnalandslag. Allegóríukenningin: Íslendingasögur sem allegóríur. Sumir sagnaritarar virðast hafa mótað goðsagnaarfinn í allegórískar sögur. Njála, til dæmis, varð yfirgripsmikil allegóría um Kristnitökuna. Njálsbrenna markaði aldaskil milli heiðni (og keltneskrar kristni) og rómverskrar kristni. Kári, vindurinn og tíminn, sem lifði brennuna líkt og fuglinn Fönix varð persónugervingur heilags anda. Höfuðtilgangur með allegóríunni var að kristna hið heiðna trúarlega landslag. Hrafnkels saga er líka allegóría en markmið hennar er meira siðræns eðlis. Mælingakenningin: Útmæling goðsagnalandslags. Að því gefnu að goðsagnakenningin sé rétt, má álykta að goðsagnasvæðin, sem að ofan er getið (sögusvið Íslendingasagna), eigi að endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hefði verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hefðu hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km). Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir. Goðaveldiskenningin: Tengsl goðsagna og goðaveldis. Íslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna. Einar Pálsson setti allar hugmyndir sínar fram sem fræðitilgátur, en flestar tilgátur hans eru enn óprófaðar af öðrum fræðimönnum. Ein mikilvægasta forspáin er sú sem leiðir af mælingakenningunni, að útmæld goðfræðileg hjól með fyrirfram gefnum vegalengdum muni finnast í öðrum löndum Evrópu. Einar var fyrstur til að setja fram þá hugmynd að norrænar fornsögur væru allegórískar. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á allegóríum í fornsögum síðan (Ciklamini 1984 í Sturlu þætti, Torfi Tulinius 2004 í Egils sögu og Árni Einarsson í Rauðúlfs þætti). Karl Gunnarsson (1995) og Einar Birgisson (2004), könnuðu staðsetningu bæja og annarra mannvirkja með hliðsjón af mælingakenningu Einars. Nýjar uppgötvanir í fornstjörnufræði hafa styrkt forsendur Einars Pálssonar um lærdómsiðkun fornra samfélaga. Ritskrá. Bækur eftir Einar Pálsson um rætur íslenskrar menningar Capelinhos. Capelinhos er eldfjall staðsett á eyjunni Faial, sem er hluti af Asóreyjum (sem aftur er hluti Portúgals). Síðast gaus fjallið árin 1957 til 1958. Faial. Faial er ein af eyjum Asóreyja, 172 km² og íbúafjöldinn er rétt yfir 15.000. Eyjan hefur einnig verið kölluð bláa eyjan vegna fjölda hortensía á henni. Ólafur Thors. Ólafur Tryggvason Thors (19. janúar 1892 í Borgarnesi, 31. desember 1964 í Reykjavík), var forsætisráðherra Íslands samanlagt í um það bil áratug og formaður Sjálfstæðisflokksins lengur en nokkur annar, í 27 ár. Ólafur var sonur danska athafnamannsins Thors Jensens og bróðir Thor Thors, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Fjölskyldufyrirtækið var Kveldúlfur hf., eitt það stærsta á Íslandi og var Ólafur framkvæmdastjóri þess í 25 ár frá 1914—39. Ævi. Ólafur var sonur athafnamannsins Thors Jensens og konu hans Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur. Ólafur lauk stúdentsprófi 1913 frá Menntaskólanum í Reykjavík, las heimspeki einn vetur við Kaupmannahafnarháskóla en varð einn framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Kveldúlfs 1914. Árið 1915 kvæntist Ólafur Ingibjörgu Indriðadóttur. Fyrsta barn þeirra hét Thor en hann dó fimm ára gamall, það hafði mikil áhrif á Ólaf. Ólafur og Ingibjörg eignuðust fjögur börn sem komust upp, Mörtu, Thor, Ingibjörgu og Margréti Þorbjörgu. Ólafur var á lista Jóns Þorlákssonar og annarra heimastjórnarmanna í þingkosningum í Reykjavík 1921 en fyrst kosinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu í aukakosningum 1926. Í útreiðartúr í júlí 1923 til Haffjarðarár hrasaði hesturinn sem Ólafur reið og hlaut hann höfuðhögg. Hann var snöggur upp á lappirnar á ný en þegar komið var á áfangastað lagðist hann til hvílu og svaf þungan svefn. Er hann vaknaði mundi hann ekki hvað hann hét, minnið sneri þó aftur smám saman. Þrem vikum síðar í Reykjavík fékk hann mikinn höfuðverk og gerðist þetta nokkrum sinnum næstu tvö árin. Þessi bylta varð einnig til þess að Ólafur tók ekki fyrsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins af Jóni Þorlákssyni og hefur því verið fleygt að hestur Ólafs hafi sett mark sitt á sögu landsins. Hann var þingmaður þess kjördæmis til 1959 en eftir það til dauðadags fyrir Reykjaneskjördæmi. Tók Ólafur við formennsku í Sjálfstæðisflokknum með fullum stuðningi Jóns Þorlákssonar 2. október 1934 og gegndi henni til 1961. Ólafur var formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda, forvera Landsambands íslenskra útvegsmanna, 1918—35. Ólafur var í bankaráði Landsbanka Íslands 1936-44 og 1948-64. Þá sat hann á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1947 og 1948. Stjórnmál. Ólafur var dómsmálaráðherra í tæpa tvo mánuði í forföllum Magnúsar Guðmundssonar árið 1932 (frá 11. nóvember til þorláksmessu, 23. desember) en var atvinnumálaráðherra í þjóðstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks; 17. apríl 1939 - 16. maí 1942. Ólafur myndaði fyrstu ríkisstjórn sína 16. maí 1942, minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, og var sjálfur forsætis og utanríkisráðherra. Ríkistjórnin sat á meðan verið var að breyta kjördæmaskipan. Ólafur baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 14. nóvember en sat uns Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði utanþingsstjórn undir forsæti Björns Þórðarsonar 16. desember sama ár. Ólafur kaus ekki Svein Björnsson forseta þegar Alþingi kaus forseta lýðveldisins í fyrsta skiptið árið 1944 vegna óánægju með að Ólafur skyldi skipa utanþingsstjórn. Ólafur myndaði nýsköpunarstjórnina 21. október 1944, með Sósíalistaflokknum og Alþýðuflokknum. Í Nýsköpunarstjórninni var Ólafur líkt og í fyrri stjórn hvorttveggja forsætis og utanríkisráðherra. Stjórnin fékk lausn frá störfum 21. október en sat fram til 4. febrúar 1947 er Sjálfstæðismenn höfðu samið við Framsóknarflokk og Alþýðuflokk um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Alþýðuflokksmansins Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Í þeirri stjórn fór Bjarni Benediktsson fyrir Sjálfstæðismönnumm. Þriðja stjórn Ólafs var minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, sem leysti stjórn Stefáns Jóhanns af hólmi 6. desember 1949 og sat fram til 14. mars 1950. Þá tók Ólafur sæti í ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar sem samkomulag hafði náðst um milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Ólafur myndaði sjálfur nýja ríkistjórn með framsóknarmönnum og stýrði henni frá 11. september 1953 til 24. júlí 1956 er Hermanni Jónassyni hafði tekist að mynda stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði slitnað 27. mars. Sjálfstæðisflokkurinn varði stjórn Emils Jónssonar vantrausti meðan nýrri kjördæmaskipan var komið á. Að því loknu myndaði Ólafur fimmtu ríkisstjórn sína 1959, viðreisnarstjórnina, með Alþýðuflokknum og var forsætisráðherra frá 20. nóvember 1959 til 14. nóvember 1963, er hann sagði af sér af heilsufarsástæðum. Tók dr. Bjarni Benediktsson við forsætisráðherrastöðunni. Ólafur sat áfram á þingi en lést á gamlársdag 1964. Annað. Samband ungra sjálfstæðismanna gaf út geisladisk með völdum hlutum úr ræðum Ólafs í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu hans árið 1992. Basilíka Krists konungs. Basilíka Krists konungs, Landakotskirkja eða Kristskirkja er dómkirkja, það er embættiskirkja biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Kirkjan er í vesturbæ Reykjavíkur í Landakoti. Fyrstu kaþólsku prestarnir sem komu til Íslands eftir siðaskiptin voru Frakkarnir Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin. Þeir keyptu jörðina Landakot í Reykjavík og bjuggu í bóndabænum. Þeir byggðu litla kapellu við bæinn árið 1864. Nokkrum árum seinna var lítil timburkirkja reist við Túngötu, nálægt prestsetrinu í Landakoti. Kirkja þessi var helguð "heilögu hjarta Jesú". Eftir fyrri heimstyrjöldina fóru kaþólskir á Íslandi að ræða um nauðsyn þess að byggja nýja og stærri kirkju fyrir hinn vaxandi söfnuð. Ákveðið var að reisa kirkju í nýgotneskum stíl og var arkitektinum Guðjóni Samúelssyni falið að teikna hana. Kirkjan var vígð 23. júlí 1929 og var þá stærsta kirkja landsins. Þorlákur helgi er verndari kirkjunnar. Mehmet Ali Ağca. Mehmet Ali Ağca (fæddur þann 9. janúar, 1958) er meðlimur í tyrknesku fasistahreyfingunni Gráu Úlfarnir. Ağca er frægur fyrir að hafa skotið Jóhannes Pál páfa II á torgi heilags Péturs þann 13. maí 1981. Eftir að hafa setið 19 ár í fangelsi á Ítalíu, og svo 5 ár til viðbótar í tyrknesku fangelsi fyrir morðið á ritstjóra vinstrisinnaðs dagblaðs, var Ağca látinn laus úr fangelsi á skilorði þann 12. janúar 2006. Hæstiréttur Tyrklands fyrirskipaði hins vegar þann 20. janúar sama ár að hann skildi handtekinn aftur á þeim grundvelli að ekki væri hægt að draga dvöl hans í fangelsi á Ítalíu frá afplánun hans í Tyrklandi. Félag múslima á Íslandi. Félag múslima á Íslandi var stofnað 1997. Þessi söfnuður tilheyrir sunní-trúflokki íslam. Söfnuðurinn hefur samastað sem er líka moska í skrifstofu húsnæði á þriðju hæð í Ármúla í Reykjavík þar sem sameiginlegar bænir eru haldnar á bænadögum og vikulega á föstudögum. Alls eru 371 meðlimir að söfnuðinum (2009). Ragnar Péturson. Ragnar Péturson (fæddur 6. júlí 1979) starfar sem blaðamaður á DV. Áður hefur hann starfað sem ritstjóri Bleikt og Blátt og lausaleiksblaðamaður hjá hinum ýmsu tímaritum. Ragnar er liðtækur íþróttamaður og hefur lengst af staðið í handknattleiksmarkinu fyrir flesta flokka FH. Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu á Íslandi. Fjöldi mormóna á Íslandi skv. Hagstofunni frá því að söfnuður þeirra hlaut skráningu 1984 Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu á Íslandi er í daglegu tali nefnd mormónakirkjan og er hún hluti af alþjóðakirkju mormóna. Kirkja mormóna á Íslandi er í Garðabæ og var hún vígð árið 2000. Fyrstu íslensku mormónarnir voru tveir námsmenn, sem kynntust trúnni í Kaupmannahöfn. Þeir komu til landsins og hófu trúboð árið 1851. Þeir urðu fyrir miklu aðkasti og ofsóknum og var bannað með dómi að prédika opinberlega. En þeim tókst þrátt fyrir þetta að stofna söfnuð 1853. Í manntalinu 1855 voru 8 manns taldir mormónatrúar. Árin 1855-1857 fluttust íslenskir mormónar til Spanish Fork í Utah. Í manntölunum 1860 og 1870 er enginn talinn til átrúnaðar mormóna. Árið 1873 hófu mormónar að nýju trúboð á Íslandi og fluttust flestir sem tóku trúna vestur um haf, margir úr Vestmanneyjum. Í manntalinu 1880 eru 3 mormónar, í manntalinu 1890 eru þeir 8, í manntalinu 1901 eru þeir 5 og í manntalinu 1910 eru þeir 2. Þann 8. júlí 1914 var trúboðinu á Íslandi hætt með fyrirmælum frá æðsta forsætisráðinu og í manntölunum 1920, 1930, 1940, 1950 og 1960 er enga mormóna að finna. Trúboð hófst ekki aftur á Íslandi fyrr en 1975, er Byron Gíslason og fjölskylda hans frá Spanish Fork í Utah fluttu hingað. Reykjavíkurgrein kirkjunnar var stofnuð 8. ágúst 1976 og söfnuðurinn hlaut löggildingu yfirvalda 1984. Öll helgirit mormóna, hafa nú verið þýdd á íslensku. "Mormónsbók — Annað vitni um Jesú Krist" var fyrst gefin út á íslensku árið 1981. Kofi Annan. Kofi Atta Annan (fæddur 8. apríl, 1938) gegndi starfi aðalritara Sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar 1997 til 1. janúar 2007. Hann hlaut einnig friðarverðlaun Nóbels árið 2001. Samningaréttur. Samningaréttur er ein grein fjármunaréttar í lögfræði sem fjallar um þann tjáningarhátt manna sem til þess er fallinn að hafa réttaráhrif. Frá sjónarhóli samningaréttar geta viljayfirlýsingar verið tvenns konar: Annars vegar yfirlýsingar sem tjá ósk eða ætlun, án þess að réttaráhrif séu við þær tengd og hins vegar eru það viljayfirlýsingar sem ætlað er að hafa áhrif að lögum, þ.e. löggerningar. Löggerningar eru nánar tiltekið hvers kyns viljayfirlýsingar sem ætlað er að stofna rétt, fella rétt niður eða breyta rétti. Samningaréttur tekur fyrst og fremst til tveggja tegunda löggerninga, loforða og samþykkis. Löggerningur. Löggerningur er lögfræðilegt hugtak, notað yfir hvers kyns viljayfirlýsingar manna sem ætlað er að "stofna" rétt, "fella" rétt niður eða "breyta" rétti. Sakarreglan. Sakarreglan er, í lögfræði, algengasti bótagrundvöllur skaðabótaábyrgðar að íslenskum rétti; á hana reynir langoftast og hún er látin gilda um bótagrundvöllinn ef ekki tekst að sýna fram á að önnur regla hafi átt að gilda. Sakarreglan gengur undir nöfnum á borð við culpareglan, almenna skaðabótareglan og saknæmisreglan. Skilgreining reglunnar hljóðar svo: Maður ber skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing hegðunar hans og raskar hagsmunum sem verndaðir eru af skaðabótareglum. Það er og skilyrði að huglægar afsökunarástæður á borð við æsku eða skortur á andlegri heilbrigði eigi ekki við um tjónvald. Vinnuveitendaábyrgð. Vinnuveitandaábyrgð er almenn en ólögfest regla í íslenskum rétti, sem hljóðar þannig að vinnuveitandi beri ábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur með ólögmætum og saknæmum hætti á vinnutíma. Hér er það ekki gert að skilyrði að vinnuveitandi eigi sjálfur sök á tjóninu. Húsbóndaábyrgð er gjarnan notað um vinnuveitendaábyrgð þótt sú orðnotkun sé á undanhaldi. Langisjór. Langisjór er 27 km² stórt stöðuvatn í Vestur-Skaftafellssýslu, suðvestan við Tungnár- og Skaftárjökul. Það er í 670 m hæð og mesta vatnsdýpi er 75 m. Sunnan við Langasjó er Sveinstindur en austan hans eru Fögrufjöll. Þau ganga víða með þverhníptum klettahöfðum fram í Langasjó. Langisjór er meðal tærustu fjallavatna á Íslandi. Á fyrri hluta tuttugustu aldar rann kvísl úr Skaftá í vatnið og þá var það jökullitað. Nafn sitt dregur vatnið af lengd sinni en það er um 20 km langt í stefnu norðaustur - suðvestur og 2 km breitt. Affall Langasjávar nefnist Útfall og rennur í Skaftá. Vegna þess hve afskekkt vatnið er fannst það ekki fyrr en á 19. öld. Nú fara ferðamenn að Langasjó í auknum mæli en það er auðvelt að ganga kringum vatnið. Gaman er að ganga á Fögrufjöll auk þess sem hægt er að ganga með þeim mörgu vötnum eða lónum sem leynast milli fjallanna. Stundum hefur ferðafólk siglt á gúmmíbátum á Langasjó og hefur þá verið vinsælt að sigla kringum eyjuna Ást í Fagrafirði. Fiskur er í vatninu og þar er stunduð stangveiði. Virkjunaráform og friðlýsing. Lengi vel áformaði Landsvirkjun að veita Skaftá í Langasjó og nýta vatnið í virkjanirnar á Tungnár og Þjórsár-svæðinu. Einnig var ætlunin með þessu að hefta sandburð í Skaftárhlaupum sem farin eru að ógna Eldhrauni. Umræðan um verndun Langasjávar náði meðal annars inn í sali Alþingis veturinn 2005-2006. Langisjór var friðlýstur ásamt hluta Eldgjár, í samræmi við Náttúruverndaráætlun 2009-2013, og var svæðunum bætt við Vatnajökulsþjóðgarð sumarið 2011. Friðrik Sophusson. Friðrik Sophusson (fæddur 18. október 1943 í Reykjavík) er íslenskur lögfræðingur, og núverandi stjórnarformaður Íslandsbanka. Friðrik var áður varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1981 til 1988 og frá 1991 til 1999, fjármálaráðherra frá 1991 til 1998 og forstjóri Landsvirkjunar frá 1998 til 2010. Nám og störf. Friðrik lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1972. Hann var framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands á árunum 1972 til 1978 og framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hnífsdals í sumarafleysingum frá 1978 allt til ársins 1986. Hann gegndi embætti iðnaðarráðherra 8. júlí 1987 - 28. sept. sama ár og embætti fjármálaráðherra 30. apríl 1991 - 16. apríl 1998. Frá árinu 1998 hefur hann verið forstjóri Landsvirkjunar. Á sínum yngri árum var Friðrik formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Á stjórnmálaferli sínum sat hann í ýmsum nefndum og ráðum, m.a. miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, útvarps- og rannsóknaráði, kjaradeilunefnd og stjórnarnefnd Ríkisspítalanna. Hann bauð sig fram til formanns sjálfstæðisflokksins gegn Þorsteini Pálssyni 1982. Friðrik og Guðmundur Gunnarsson faðir Bjarkar Guðmundsdóttur eru systkinabörn. Magnús Jónsson (f. 1919). Magnús Jónsson frá Mel (fæddur á Torfmýri í Akrahreppi 7. september 1919, látinn 13. janúar 1984) var íslenskur stjórnmálamaður. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1940 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1946. Hann gengdi stöðu framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins á árunum 1953 til 1960 og var bankastjóri Búnaðarbankans á árunum 1961 til 1965 og 1971 til 1984. Hann var alþingismaður 1953-1974, fjármálaráðherra 1965-1971 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1973-1974. Jón Þorláksson (stjórnmálamaður). Jón Þorláksson (3. mars 1877 – 20. mars 1935) var landsverkfræðingur, kaupmaður í Reykjavík, seinni formaður Íhaldsflokksins, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, forsætisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík. Verkfræðingurinn. Jón Þorláksson fæddist á Vesturhópshólum í Vestur-Húnavatnssýslu, sonur Þorláks Þorlákssonar bónda þar og konu hans, Margrétar Jónsdóttur. Hann var í móðurætt skyldur Einari Benediktssyni og Sigurði Nordal. Jón tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1897 með hæstu einkunn, sem þá hafði verið gefin, og verkfræðipróf frá Verkfræðiháskólanum í Kaupmannahöfn (Polytekniskt Læreanstalt, síðar Danmarks Tekniske Højskole) 1903. Jón gerðist landsverkfræðingur 1905 og mikill áhugamaður um verklegar framfarir. Setti hann ýmist sjálfur fram eða studdi af alefli hugmyndir um vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu í Reykjavík og sá um vegarlagningu og brúarsmíði um land allt. Einnig beitti hann sér fyrir því, að steinsteypa væri notuð til húsagerðar. Jón var lengst af bæjarfulltrúi í Reykjavík á tímabilinu 1906-1922, skólastjóri Iðnskólans 1904-1911 og kaupmaður í Reykjavík frá 1917, er hann sagði embætti landsverkfræðings lausu. Stjórnmálamaðurinn. Jón Þorláksson var einn nánasti og eindregnasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein á heimastjórnarárunum (1904-1918). Hann settist á þing fyrir Reykvíkinga 1921. Varð í febrúar 1924 til undir forystu hans þingmannaflokkur, sem taldi brýnt að kippa fjármálum ríkisins í lag. Jón fékk því ráðið, að hann tók upp nafnið Íhaldsflokkurinn, enda taldi Jón brýnasta verkefnið þá eftir fjármálaóreiðu undangenginna ára að halda opinberum álögum og útgjöldum í skefjum. Jón reyndi þá að mynda stjórn, en tókst ekki, því að nokkrir þingmenn utan Íhaldsflokksins neituðu honum um stuðning. Flokksbróðir hans,Jón Magnússon, myndaði þá stjórn, en Jón Þorláksson varð fjármálaráðherra. Tók hann við forsætisráðherraembætti 1926, skömmu eftir skyndilegt fráfall Jóns Magnússonar, en sagði af sér eftir ósigur Íhaldsflokksins í þingkosningunum 1927. Jón varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar, eftir að framsóknarmenn mynduðu stjórn 1927, og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins 1929. Hann varð borgarstjóri í Reykjavík 1933 og hóf þá undirbúning Sogsvirkjunar og hitaveitu og beitti sér fyrir smábátaútgerð einkaaðila. Af heilsufarsástæðum sagði Jón af sér formennsku í Sjálfstæðisflokknum 2. október 1934 og lést hálfu ári síðar. Frjálshyggjumaðurinn. Ævisaga Jóns kom út 1992 Skömmu eftir að Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn, skilgreindi hann stjórnmálastefnu sína í ritgerð í "Eimreiðinni" (1926). Hann skipti stjórnmálahugmyndum í íhaldssamar og umrótsgjarnar annars vegar og frjálslyndar og stjórnlyndar hins vegar. Stundum hlytu frjálslyndir menn að styðja miklar breytingar og væru þá um leið umrótsgjarnir, en stundum þyrftu þeir að halda í það, sem vel hefði reynst. Nú væri einmitt verkefnið að halda í frjálslyndar hugmyndir 19. aldar, sem sósíalistar ógnuðu. Þess vegna væru hann og aðrir fylgismenn Íhaldsflokksins í senn frjálslyndir og íhaldssamir. Ýmsir andstæðingar íhaldsmanna væru hins vegar stjórnlyndir umrótssinnar, og hafði Jón þá eflaust í huga Jónas Jónsson frá Hriflu og Ólaf Friðriksson, sem mæltu fyrir auknum ríkisafskiptum. Jón hélt erindi á landsfundi Íhaldsflokksins vorið 1929, sem hann kallaði „Milli fátæktar og bjargálna“. Þar sagði hann, að frjáls samkeppni væri ekki áflog, hrindingar eða ryskingar, heldur keppni manna að því að fullnægja þörfum annarra með því að leggja sjálfa sig sem best fram. Þannig tækist að beina mönnum, þegar þeir væru aðeins að vinna fyrir sjálfa sig, að því að vinna fyrir aðra. Setti Jón þar skýrt fram helstu rök frjálshyggjumanna eins og Adams Smiths fyrir frjálsum markaði. Einstaklingurinn. Jón Þorláksson þótti þurr á manninn og ekki allra, en enginn efaðist um hvassar gáfur hans og heilsteypta lund. Hann var virtur fremur en vinsæll. Árni Pálsson prófessor, bekkjabróðir hans og vinur, komst svo að orði, að Jón Þorláksson hefði allra lifandi manna mest vit á dauðum hlutum. Jón gat þó verið orðheppinn og afgreitt flókin mál á einfaldan hátt í stuttum setningum. Frægt er til dæmis, þegar hann skar úr deilum manna um, hvenær bylting gæti talist lögleg, með orðunum: „Bylting er lögleg, þegar hún lukkast.“ Jón var með afbrigðum samviskusamur, eins og sást best á því, að hann gerði mikla rannsókn á peningamálasögu Íslands, skömmu eftir að hann tók að sér stöðu fjármálaráðherra vorið 1924, og gaf út bók um efnið, "Lággengið", og er hún annað íslenska hagfræðiritið. Jón var kvæntur Ingibjörgu Claessen, og áttu þau hjón tvær kjördætur, Önnu og Elínu. Gunnar Thoroddsen var systursonur Ingibjargar og handgenginn Jóni, sem hafði líka miklar mætur á þeim Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni, sem báðir áttu eftir að verða formenn Sjálfstæðísflokksins eins og hann. Með valdatöku Davíðs Oddssonar, sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins 1991 og forsætisráðherra, má segja, að horfið hafi verið aftur til þeirra hugmynda, sem Jón Þorláksson setti fram, en höfðu látið undan síga, ekki síst í Heimskreppunni og Heimsstyrjöldinni seinni. Gunnar Thoroddsen. Gunnar Thoroddsen (fæddur í Reykjavík 29. desember 1910, látinn 25. september 1983) var íslenskur lögfræðingur. Foreldrar hans voru Sigurður Thoroddsen verkfræðingur og yfirkennari (1863 – 1955) og kona hans, María Kristín Claessen (1880 – 1964). Gunnar stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1929 en ári áður hafði hann gegnt embætti forseta Framtíðarinnar. Hann lauk doktorsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1968. Á árunum 1936 – 1940 stundaði Gunnar lögfræðistörf í Reykjavík ásamt störfum hjá Sjálfstæðisflokknum. Hann var meðal annars framkvæmdastjóri Varðarfélagsins, erindreki flokksins og skólastjóri í stjórnmálaskóla hans. Gunnar var prófessor við Háskóla Íslands 1940 – 1950, en fékk lausn frá kennsluskyldu fyrst um sinn 10. febr. 1947. Hann var 1947 kjörinn borgarstjóri í Reykjavík en fékk 19. nóvember 1959 leyfi frá þeim störfum og lausn 6. október 1960. Hann gegndi embætti fjármálaráðherra á árunum 1959 – 1965 en var sendiherra Íslands í Danmörku 1965 – 1969. Gunnar starfaði sem hæstaréttardómari frá 1. janúar til 16. september 1970. Hann var 1971 skipaður prófessor við Háskóla Íslands og kenndi einkum stjórnskipunarrétt. Hann var skipaður iðnaðar- og félagsmálaráðherra 28. ágúst 1974 og gengdi því starfi til 1. september 1978. Hann var skipaður forsætisráðherra 8. febrúar 1980 en fékk lítinn stuðning til þeirrar stjórnarmyndunar frá flokki sínum, sem skipaði sér að mestu í stjórnarandstöðu undir forystu Geirs Hallgrímssonar, sem þá var formaður. Gunnar var landskjörinn alþingismaður 1934 – 1937 (bauð sig fram í Mýrasýslu) og 1942 (úr Snæfellsnessýslu í vorkosningum það ár) en kjördæmakjörinn þingmaður úr Snæfellsnessýslu 1942 – 1949. Á árunum 1949 – 1965 og 1971 – 1983 var hann alþingismaður Reykvíkinga. Hann sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1948 – 1965 og aftur frá 1971. Hann var varaformaður flokksins 1961 – 1965 og aftur 1974-1981. Þá var hann þingflokksformaður á árunum 1973 – 1979. Gunnar ritaði margt um lögfræði, stjórnmál og fleiri efni. Lengsta verk hans er doktorsritgerðin "Fjölmæli", sem kom út 1967 og fjallar um meiðyrðalög. Einnig má nefna alllanga ritgerð á dönsku um Ólaf Halldórsson konferensráð, sem var prentuð í útgáfu "Jónsbókar" í Odense 1970. Þá ritaði Gunnar kver um ræðumennsku, sem var ítrekað prentað, en sjálfur þótti hann með liprustu ræðumönnum síns tíma. Hann var meðal annars formaður í Orator félagi laganema 1930 – 1932, Heimdalli félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1935 – 1939, Sambandi ungra Sjálfstæðismanna 1940 – 1942 og Norræna félaginu á Íslandi 1954 – 1965 og aftur 1969 – 1975. Þá var hann heiðusfélagi í Tónlistarfélaginu og SÍBS. Gunnar gekk 4. apríl 1941 að eiga Völu Ásgeirsdóttur (1921 – 2005). Börn þeirra voru: Ásgeir (f. 1942), Sigurður (f. 1944), Dóra (f. 1948) og María Kristín (f. 1954). Vala var dóttir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Gunnar bauð sig sjálfur fram til forseta 1968, en Kristján Eldjárn náði í það sinn kjöri. Síðustu ár Gunnars. Gunnar greindist með hvítblæði undir lok ársins 1982. Tókst honum að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni og mörgum af nánustu stuðningsmönnum sínum ótrúlega lengi. Á þessum tíma voru slík veikindi mikið feimnismál og þau voru aldrei gerð opinber í tilfelli Gunnars fyrir þjóðinni með formlegum hætti á þeim mánuðum sem við tóku og urðu síðustu mánuðir Gunnars á forsætisráðherrastóli. Þrýst var mjög á Gunnar að gefa kost á sér í þingkosningunum 1983. Voru fylgismenn hans tilbúnir til sérframboðs í hans nafni og að heyja aðra kosningabaráttu á hans miklu persónulegu vinsældum, en stjórnin naut sögulega mikils fylgis lengst af valdaferli sínum og var Gunnar álitinn bjargvættur þingræðisins við stjórnarmyndunina sögulegu. En nú brast þrek Gunnars og kraftur hans. Hann tilkynnti rétt fyrir lok framboðsfrestsins í mars 1983 að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs og hætta í stjórnmálum er ríkisstjórn hans færi frá að kosningum loknum. Gunnar lét af embætti forsætisráðherra við stjórnarskipti í maílok 1983, er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar tók við völdum. Gunnar var orðinn mjög markaður af veikindum sínum þetta vor og svo fór að veikindi hans spurðust út meðal almennings. Heilsu hans tók að dala hratt það sumar sem við tók og svo kom að hann komst á lokastig veikindanna. Hann lést sunnudaginn 25. september 1983. Við útför hans föstudaginn 30. september 1983 var hann kvaddur með virðulegum hætti og gamlir samherjar sem og aðrir sem höfðu unnið innan flokksins í hans tíð báru kistu hans úr kirkju Geir Hallgrímsson. Geir Hallgrímsson (16. desember 1925 í Reykjavík – 1. september 1990 í Reykjavík) var íslenskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra. Hann var sonur Hallgríms Benediktssonar, stórkaupmanns og alþingismanns, og Áslaugar Geirsdóttur Zoëga. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944 og lagaprófi frá Háskóla Íslands 1948. Á háskólaárunum var hann formaður Stúdentaráðs. Hann var formaður Heimdallar 1952-1954 og Sambands ungra sjálfstæðismanna 1957-1959. Hann stundaði síðan framhaldsnám í lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla. Geir rak málflutningsskrifstofu í Reykjavík 1951-1959 og var jafnframt forstjóri H. Benediktsson & Co. 1955-1959. Geir var borgarstjóri í Reykjavík frá 19. nóvember 1959 til 1. desember 1972, fyrst með Auði Auðuns en einn frá 6. október 1960. Hann var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1971 og endurkjörinn 1973 en varð formaður flokksins haustið 1973 er Jóhann Hafstein varð að draga sig í hlé af heilsufarsástæðum. Meðan Geir sat sem borgarstjóri voru verklegar framkvæmdir miklar, t.d. voru vel flestar götur Reykjavíkur malbikaðar í borgarstjóratíð hans. Geir var kjörinn þingmaður Reykvíkinga 1971 og varð forsætisráðherra 28. ágúst 1974 og gegndi þeirri stöðu fram til 1978. Hann var þingmaður til 1983. Það ár lét hann af formennsku Sjálfstæðisflokksins. Hann var utanríkisráðherra 1983-1986 en gegndi upp frá því stöðu bankastjóra í Seðlabankanum til dauðadags 1. september 1990. Bjarni Benediktsson (f. 1908). Bjarni Benediktsson (30. apríl 1908 – 10. júlí 1970) var borgarstjóri Reykjavíkur, alþingismaður, ráðherra og forsætisráðherra Íslands. Hann fæddist í Reykjavík, sonur Benedikts Sveinssonar, alþingismanns og bókavarðar, og Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey, landsfrægs skörungs. Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík átján ára að aldri og gegndi hann embætti forseta Framtíðarinnar árið 1925. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1930 með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin. Hann stundaði framhaldsnám í stjórnlagafræði í Berlín 1930-1932, var skipaður prófessor í lögum í Háskóla Íslands 1932 og gegndi því starfi til 1940. Hann varð heiðursdoktor í lögfræði frá Háskóla Íslands 1961. Bjarni kvæntist Valgerði Tómasdóttur 1935 en missti hana eftir nokkurra mánaða sambúð. Hann kvæntist aftur 1943, Sigríði Björnsdóttur (1. nóvember 1919 – 10. júlí 1970), og eignuðust þau fjögur börn, Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu. Borgarfulltrúi og borgarstjóri. Bjarni skipaði öruggt sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í bæjarstjórnarkosningunum 1934 og sat í bæjarstjórn til 1942. Við fráfall Péturs Halldórssonar 1940 varð Bjarni borgarstjóri Reykjavíkur. Hann var kosinn á þing 1942 og gegndi borgarstjórastarfi jafnhliða þingmennskunni næstu árin en lét af því árið 1947, þegar hann varð utanríkis- og dómsmálaráðherra. Hann sat einnig í borgarstjórn Reykjavíkur á árunum 1946-1949. Árið 1948 var Bjarni kosinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður og ráðherra. Bjarni var utanríkisráðherra 1949-1956 og átti drjúgan þátt í að marka þá utanríkisstefnu, sem Íslendingar hafa síðan fylgt. Hann var jafnframt dómsmálaráðnerra sama tímabil og menntamálaráðherra 1953-1956. Árið 1956 varð Bjarni Benediktsson aðalritstjóri Morgunblaðsins við hlið Valtýs Stefánssonar en sat jafnframt áfram á Alþingi. Hann var ritstjóri fram í nóvember 1959 er hann varð dóms-, kirkju- heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra í viðreisnarstjórninni. Hann gegndi jafnframt fjölda trúnaðarstarfa og átti sæti í ýmsum stjórnum og nefndum. Á landsfundi 1961 var dr. Bjarni kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Árið 1963 varð hann forsætisráðherra og gegndi þeirri stöðu þangað til hann fórst ásamt konu sinni og dóttursyni, Benedikt Vilmundarsyni, í eldsvoða á Þingvöllum aðfaranótt 10. júlí 1970. Jóhann Hafstein. Jóhann Hafstein (19. september 1915 – 15. maí 1980) var fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Íslands. Hann var fæddur á Akureyri, sonur Júlíusar Havsteens, síðar sýslumanns, og Þórunnar Jónsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1934 og lagaprófi frá Háskóla Íslands 1938, ásamt því að sinna starfi sem formaður Stúdentaráðs háskólans. Stundaði hann síðan framhaldsnám í þjóðarétti við Lundúnaháskóla og í Danmörku og Þýskalandi fram á haust 1939. Jóhann kvæntist 1938 Ragnheiði Thors, dóttur Hauks Thors (bróður Ólafs Thors forsætisráðherra) og Soffíu Hafstein (dóttur Hannesar Hafstein ráðherra) og áttu þau þrjá syni, Hauk, Jóhann Júlíus og Pétur. Stjórnmálaferill. Árið 1935 stofnaði Jóhann Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, og var fyrsti formaður þess. Árið 1939 varð hann erindreki Sjálfstæðisflokksins og seinna framkvæmdastjóri hans 1942. Hann var formaður Heimdallar á árunum 1939 til 1942. Þá var hann einnig formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 1943-1955. Jóhann sat á þingi fyrir Reykjavík 1946-1978. Hann gerðist bankastjóri Útvegsbankans 1952 en varð iðnaðar- og dómsmálaráðherra 1963. Hann var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1965 og tók við formennsku flokksins og embætti forsætisráðherra eftir fráfall Bjarna Benediktssonar 1970 jafnframt því að gegna áfram embætti iðnaðarráðherra. Eftir að viðreisnarstjórnin missti meirihluta sinn 1971 gerðist Jóhann leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Haustið 1973 sagði hann af sér formennsku vegna heilsubrests. Ritgerðasafn hans, Þjóðmálaþættir, kom út 1976. Jóhann Hafstein lést eftir langvarandi veikindi, þann 15. maí 1980. Magnús Guðmundsson. Magnús Guðmundsson (6. febrúar 1879, Rútsstöðum í Svínadal — 28. nóvember 1937) var íslenskur stjórnmálamaður. Ævi og störf. Foreldrar Magnúsar voru Guðmundur Þorsteinsson (1847 — 1931) bóndi á Rútstöðum og móðir hans var Björg Magnúsdóttir (1849 — 1920) húsmóðir. Hann kvæntist 12. október 1907 Sofiu Bogadóttur (1878 — 1948). Þau áttu þrjú börn, Boga Smith, Björgu og Þóru. Hann fékk stúdentspróf frá Lærða skólanum 1902 og lögfræðipróf frá Hafnarháskóla 1907. Hann var á þingi frá 1916 til dauðadags 1937. Hann var meðlimur í Íhaldsflokknum og var síðar einn af stofnendum Sjálfstæðisflokksins. Hann starfaði stuttlega sem forsætisráðherra frá 23. júní 1926 til 6. júlí sama árs. Hann var gerður að fjármálaráðherra þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í gerð ríkisstjórnar í fyrsta skipti. Magnús Guðmundsson er einn örfárra íslenskra ráðherra sem sagt hefur af sér. Meðan Jónas Jónsson, kenndur við Hriflu, var dómsmálaráðherra árið 1932 hóf hann málarekstur á hendur Magnúsi, sem þá var enn óbreyttur þingmaður en við það að setjast í stól dómsmálaráðherra að afloknum yfirvofandi stjórnarskiptum. Jónas sakaði Magnús um glæpsamlegt athæfi í sambandi við gjaldþrotaskipti meðan hann sinnti lögmannsstörfum nokkrum árum áður. Flestir töldu ákæruna fráleita en Hermann Jónasson, sem þá var lögreglustjóri í Reykjavík og æðsti dómari í höfuðstaðnum, í undirrétti. Hann gaf sér tíma frá alvarlegum átökum í borginni þann 9. nóvember 1932 til fara á skrifstofu sína og dæma Magnús Guðmundsson - sem þá var orðinn dómsmálaráðherra - í fangelsi. Dómsmálaráðherra í fangelsi var auðvitað óhugsandi og Magnús sagði af sér meðan málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ólafur Thors tók þá við sem ráðherra í hans stað í mánuð eða svo - en þá hafnaði Hæstiréttur með öllu dómi Hermanns Jónassonar og sýknaði Magnús af öllum ákærum. Eftir að Magnús hafði verið sýknaður í Hæstarétti í desember 1932, var aðalfyrirsögn Morgunblaðsins á þessa leið: „Hæstiréttur sýknar Magnús Guðmundsson af öllum ákærum Hriflu-réttvísinnar.“ Fyrirsagnir Tímans voru þannig: „Stórkostlegt réttarhneyksli. Stjórnarskráin og hæstaréttarlögin þverbrotin af dómendunum sjálfum“. Pétur Magnússon. Pétur Magnússon (fæddur á Gilsbakka í Hvítársíðu 10. janúar 1888, látinn 26. júní 1948) var íslenskur stjórnmálamaður og lögmaður. Pétur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1911 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1915. Hann varð yfirréttarmálaflutningsmaður sama ár og hæstaréttarlögmaður árið 1922. Þar að auki var hann málaflutningsmaður í Reykjavík á árunum 1915 til 1941 og aftur árið 1947. Hann var einnig starfsmaður við Landsbanka Íslands árin 1915 til 1920. Pétur var bankastjóri Búnaðarbankans árin 1930 til 1937 og bankastjóri Landsbankans 1941 til 1945. Þann 21. október 1944 var hann skipaður fjármála-, viðskiptamála- og landbúnaðarráðherra. Hann fékk lausn frá því þann 10. október 1946, en gegndi embættinu til 4. febr. 1947. Hann varð bankastjóri Landsbankans á ný á árunum 1947 til 1948. Pétur var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1922 til 1928 og forseti bæjarstjórnar 1924 til 1926. Hann var framkvæmdastjóri Ræktunarsjóðs 1924 til 1929 og formaður Málflutningsmannafélags Íslands 1926—1930. Þorsteinn Pálsson. Þorsteinn Pálsson (fæddur 29. október 1947 á Selfossi) er fyrrverandi forsætisráðherra Íslands (1987-1988) og formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991. Þorsteinn gekk í Verzlunarskóla Íslands og nam síðar lög við Háskóla Íslands. Þorsteinn var ritstjóri Vísis 1975-1979 og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1979-1983. Þorsteinn sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi 1983-1999, þó hann byggi í Reykjavík. Þorsteinn neyddi Albert Guðmundsson til afsagnar vorið 1987 eftir að meint skattsvik Alberts komust í hámæli. Albert naut lýðhylli og stofnaði Borgaraflokkinn sem fékk gott brautargengi í Alþingiskosningunum 1987. Engu að síður tókst Þorsteini að mynda ríkisstjórn þá um sumarið. Verðstöðnun varð ásteitingarsteinn í stjórnarsamstarfinu sem var rofið í sjónvarpsútsendingu 17. september 1988. Þorsteinn tapaði fyrir Davíð Oddssyni borgarstjóra í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991. Þorsteinn var sjávarútvegs-, dóms- og kirkjumálaráðherra í fyrstu tveimur ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar, einkum til að tryggja sátt og einingu meðal flokksmanna. Þorsteinn er sá maður sem lengst hefur farið með sjávarútvegsmál í ríkisstjórn Íslands. Haustið 1998 tilkynnti Þorsteinn að hann hyggðist ekki sækjast eftir áframhaldandi setu á Alþingi. Að loknum kosningum fékk hann lausn frá embætti og tók Davíð Oddsson við ráðuneytum Þorsteins uns þriðja ráðuneyti Davíðs var skipað 23. maí 1999. Þá varð Þorsteinn sendiherra í London og síðar í Kaupmannahöfn á árunum 1999-2005. Þorsteinn var ritstjóri Fréttablaðsins á árunum 2006-2009. Hann hefur alla tíð titlað sig sem blaðamann í símaskránni. Austurrísku hagfræðingarnir. Austurrísku hagfræðingarnir eiga eins og nafnið sýnir hugmyndalegar rætur að rekja til nokkurra hagfræðinga í Austurríki á 19. öld. Carl Menger var einn þeirra hagfræðinga, sem stóðu að „jaðarbyltingunni“ (e. marginal revolution) svonefndu í hagfræði um 1870, en með henni gátu hagfræðingar skýrt verðmyndun á frjálsum markaði betur en áður. Menger lagði meiri áherslu en starfsbræður hans á þeirri tíð á hlutverk tíma og óvissu. Fyrir honum var samkeppni á markaði þróun frekar en niðurstaða. Líkan nýklassískra hagfræðinga af uppboði, þar sem uppboðshaldari kallaði upp verð, uns hann fyndi jafnvægisverð, þar sem framboð og eftirspurn stæðust á, væri óraunhæft, þar sem enginn einn uppboðshaldari væri til og menn byggju ekki við fulla þekkingu. Einn lærisveinn Mengers, Eugen von Böhm-Bawerk, sem var fjármálaráðherra Austurríkis um skeið og prófessor í hagfræði í Vínarháskóla, gagnrýndi vinnuverðgildiskenningu Karls Marx og setti fram flókna kenningu um fjármagn. Böhm-Bawerk hélt málstofu í Vínarháskóla, sem margir kunnir hagfræðingar sóttu, þar á meðal sósíalistarnir Otto Bauer og Rudolf Hilferding, en einnig íhaldsmaðurinn Joseph Schumpeter og frjálshyggjumaðurinn Ludwig von Mises, sem er jafnan talinn helsti leiðtogi austurrísku hagfræðinganna á 20. öld. Mises var kennari Friedrichs A. von Hayeks, sem er einna nafnkunnastur austurrísku hagfræðinganna, þótt þeir deildu ekki alltaf skoðunum um eðli og aðferðir hagfræðinnar. Þeir Mises og Hayek voru hins vegar hjartanlega sammála um, að víðtækur áætlunarbúskapur eins og sósíalistar hugsuðu sér hann væri óframkvæmanlegur. Segja má, að austurrísku hagfræðingarnir hafi flust frá Vínarborg til New York, þegar Mises gerðist kennari í New York-háskóla, en tveir lærisveinar hans, Israel Kirzner og Murray Rothbard, hafa haldið áfram rannsóknum í anda hans. Kirzner þykir merkasti „austurríski hagfræðingurinn“ í lok 20. aldar, en hann hefur einkum skrifað um það hlutverk, sem framkvæmdamenn gegna í því að afla þekkingar og miðla henni um hagkerfið, en það valdi miklu um sköpunarmátt þess. Flestir eða allir austurrísku hagfræðinganna eru frjálshyggjumenn, og margir þeirra eru félagar í Mont Pèlerin Society, alþjóðlegu málfundafélagi frjálshyggjumanna. Þótt þeir séu sammála Chicago-hagfræðingunum um kosti frjálsra viðskipta, gagnrýna þeir þá fyrir að telja, að beita megi aðferðum náttúruvísinda í hagfræði. Austurrísku hagfræðingarnir þykja hins vegar sumir einstrengingslegir í afstöðu sinni til vísinda og stjórnmála, sérstaklega Rothbard og nemendur hans. Ronald Coase. Ronald Harry Coase (f. 29. desember 1910; d. 2. september 2013) var hagfræðiprófessor í Chicago-háskóla, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1991 og hefur verið talinn til Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Hann er frjálshyggjumaður og félagi í Mont Pèlerin samtökunum, alþjóðlegu málfundafélagi frjálshyggjumanna. Honum er gjarnan eignað að hafa fyrstur fjallað um viðskiptakostnað. Ævi. Coase fæddist í Lundúnum, og var faðir hans loftskeytamaður. Hann stundaði hagfræðinám í London School of Economics, þar sem einn kennari hans var Friedrich A. von Hayek. Coase kenndi í London School of Economics 1935-1940, starfaði fyrir Bretastjórn í stríðinu, en sneri aftur til kennslu 1946. Hann fluttist til Bandaríkjanna 1951 og kenndi í ýmsum háskólum, en frá 1964 í Chicago-háskóla. Þar var hann ritstjóri tímaritsins "Journal of Law and Economics" til 1982, er hann dró sig í hlé. Coase er kunnur fyrir tvær hugmyndir eða tilgátur, sem hafa haft feikileg áhrif í hagfræði. Hann setti aðra fram í ritgerðinni „Eðli fyrirtækisins“ 1937. Hún er, að í frjálsum fjármagnsviðskiptum leiti markaðurinn jafnan að hagkvæmustu samsetningu fjármagnsins. Fyrirtækjum sé skipt upp eða þau sameinuð, eftir því sem hagkvæmast þyki. Með því sé viðskiptakostnaður lækkaður. Hvort á að reka útgáfufyrirtæki og prentsmiðju hvort í sínu lagi eða saman? Hvort á að reka gistihús og bílaleigu hvort í sínu lagi eða saman? Coase var með þessu að skýra, hvers vegna fyrirtæki yrðu til, en frjáls markaður fælist ekki í viðskiptum einyrkja (en þannig er honum iðulega lýst í inngangsköflum í kennslubókum í hagfræði). Hina hugmyndina setti Coase fram í ritgerðinni „Vandinn af utanaðkomandi kostnaði“ 1960. Hún er, að utanaðkomandi kostnaður (e. social cost), sem viðskipti tveggja aðila valdi hinum þriðja, þótt hann hafi ekki tekið neinn þátt í viðskiptunum, sé alltaf til marks um, að viðskiptakostnaður hafi verið of mikill. Ella hefði hinum utanaðkomandi kostnaði verið eytt í viðskiptum. Dæmi er, þegar viðskipti neytenda og eigenda sápuverksmiðju leiða til þess, að úrgangur úr sápuverksmiðjunni er leiddur í vatn, þar sem veiði spillist fyrir hugsanlegum veiðimönnum. Coase segir, að þetta sé dæmi um, að viðskiptakostnaður verksmiðjueigendanna og veiðimannanna sé of hár, til þess að þeim takist að eyða hinum utanaðkomandi kostnaði í viðskiptum. Eitt ráð til að minnka viðskiptakostnaðinn væri að skilgreina eignarrétt á vatninu. ABBA. ABBA var vinsæl sænsk popphljómsveit, sem starfaði frá 1972 til 1982. Hljómsveitin varð fræg er hún vann Eurovision keppnina árið 1974, með laginu „Waterloo“. ABBA var ein af vinsælustu hljómsveitum heims á diskóárunum og átti marga góða smelli fyrir utan "Waterloo", m.a. „Dancing Queen“, „Mamma Mia“ og „Money, Money, Money“. Meðlimir hljómsveitarinnar voru: Anni-Frid Lyngstad, Benny Andersson, Björn Ulvaeus og Agnetha Fältskog og var nafn hljómsveitarinnar myndað úr upphafsstöfum nafna þeirra. Þau Agnetha og Björn voru hjón á tímabilinu 1971 til 1979. Síðar giftust Benny og Anni-Frid og voru gift á árunum 1978 til 1981. Kvikmyndin Mamma Mia! var gerð úr lögum frá hljómsveitinni frægu. Benny Andersson og Björn Ulvaeus hjálpuðu til við gerð myndarinnar og koma þeir fram í laginu „Man after midnight“. Adam Smith. Adam Smith (skírður 16. júní 1723 – 17. júlí 1790) var skoskur heimspekingur og er meðal áhrifamestu hagfræðinga allra tíma. Smith er einnig einn helsti hugsuður frjálshyggjunnar og mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Rit hans "Auðlegð þjóðanna", sem kom út 1776, var ein fyrsta tilraunin til að rannsaka þróun viðskipta og iðnaðar í Evrópu. Óumdeilt er að ritið hefur haft mikil áhrif á alla kenningasmíð um efnið allar götur síðan. Smith greiddi þannig veginn fyrir tilurð hagfræðinnar en auk þess er rit hans enn þá eitt helstu rita um kapítalisma. Ævi og störf. Adam Smith fæddist í smábænum Kirkcaldy í Skotlandi, faðir hans var tollgæslumaður en hann lést um hálfu ári fyrir fæðingu Adams. Fæðingardagur hans er óþekktur en vitað er að hann var skírður þann 16. júní 1723. Þegar Adam var aðeins fjögurra ára gamall rændi hópur sígauna honum en maður nokkur sem átti leið hjá lét vita af staðsetningu barnsins og því tókst að endurheimta hann heilu og höldnu. Á árunum 1729-37 stundaði Adam nám í latínu, stærðfræði, sögu og skrift við Burgh-grunnskólann. Hann hóf nám í Háskólanum í Glasgow fjórtán ára gamall þar sem hann nam undir leiðsögn Francis Hutcheson. Síðar stundaði hann nám við Oxford-háskóla en var ekki eins ánægður með námið þar og í Glasgow. Árið 1748 hóf Smith kennslu við Háskólann í Glasgow. Hann var skipaður prófessor í rökfræði við háskólann árið 1751 en ári síðar gerðist hann einnig prófessor í siðfræði og gegndi þá sömu stöðu og fyrrverandi kennari hans Francis Hutcheson. Nokkrum árum síðar var hann skipaður skólameistari. Smith kynntist heimspekingnum David Hume í Glasgow árið 1750 og urðu þeir góðir vinir. Þeir deildu skoðunum um jafn margvísleg efni og sögu, stjórnmál og heimspeki, hagfræði og trúarbrögð. Í kennslu sinni fjallaði hann meðal annars um siðfræði, mælskufræði og hagfræði. Adam gaf út fyrstu bók sína "Kenningu um siðferðiskenndirnar" (e.: "A Theory of Moral Sentiments") 1759. Bókin náði talsverðum vinsældum, hún var m.a. rædd í Þýskalandi. Í árslok árið 1763 gerðist Smith einkakennari, Henrys Scott, stjúpsonar Charles Townshend hertogans af Buccleuch, vegna þess að kaupið var betra en við kennslu. Á árunum 1764-1766 ferðuðust þeir til Frakklands og Sviss. Í Frakklandi hittu þeir fyrir Voltaire, Turgot, D'Alembert, André Morellet, Helvétius og Francois Quesnay, lækni við hirð Loðvíks 15. og marga fleiri sem höfðu mikil áhrif á þá. Adam safnaði efni í bók um lögmál hagsældarinnar, sem tók hann 12 ár að ljúka. "Auðlegð þjóðanna" (e. "An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations") kom út 1776. Tveimur árum síðar var Smith boðin staða tollstjóra í Skotlandi. Hann tók hana og settist að í Edinborg, þar sem hann bjó til dauðadags. Hann lést af veikindum þann 17. júlí 1790. "Auðlegð þjóðanna" naut mikilla vinsælda þegar hún kom út og gerði Smith frægan. Til marks um vinsældir bókarinnar var hún þýdd á dönsku, frönsku, þýsku, ítölsku og spænsku fyrir dauða Adams Smith. Smith lét eftir sig ýmis óbirt skrif en gaf fyrirmæli um að öllu skyldi fargað sem ekki væri útgáfuhæft. Hann taldi að rit sitt "History of Astronomy" ("Saga stjörnufræðinnar") væri sennilega nógu vel úr garði gert til að það gæti birst á prenti og það kom út að honum látnum árið 1795 auk áður óbirtra skrifa um heimspeki undir titlinum "Essays on Philosophical Subjects" ("Ritgerðir um heimspekileg efni"). Um persónu Smiths er tiltölulega lítið vitað. Hann kvæntist aldrei en virðist hafa verið náinn móður sinni alla tíð. Samtímamenn hans lýstu honum sem sérvitrum en vingjarnlegum manni, sem væri brosmildur en svolítið utan við sig. Hann var sagður hafa haft sérkennilegt göngulag og talsmáta. Þá var sagt að hann hefði tilhneigingu til þess að tala við sjálfan sig. Hagfræði. a> er merkantílismi stóð sem hæst. Sú hugmyndafræði sem einkenndi viðskipti þessara tíma var merkantílismi. Í henni fólst sú trú manna að heildarmagn fjármagns eða verðmæta væri fasti og því væri mönnum hollast að safna sem mestum birgðum af gulli og silfri. Þannig væri hægt að auðgast fyrst og fremst með útflutningi varnings úr landi í staðinn fyrir gull og silfur. Bók Smiths, "Rannsóknir á eðli og orsökum auðlegðar þjóðanna", sem kom út 1776, felur í sér tvær meginhugmyndir sem deildu á merkantílismann. Önnur er að eins gróði þurfi ekki alltaf að vera annars tap. Allir geti grætt á frjálsum viðskiptum, því að í þeim nýti þeir sér ólíka aðstöðu og hæfileika hver annars. Verkaskiptingin sé helsta orsök auðlegðar þjóðanna. Hin hugmyndin er, að atvinnulífið geti verið skipulegt án þess að þurfa að vera skipulagt. Sjálfstýring á markaði geti komið í stað miðstýringar, frjáls viðskipti í stað valdboðs. Þetta náttúrlega jafnvægi sem hér er lýst stýrist af lögmálum framboðs og eftirspurnar. Segja má, að þessar tvær hugmyndir myndi stofninn í hagfræði sem vísindagrein, þótt flest það, sem Smith sagði, hefði að vísu komið fram áður. Hugmyndir Smiths fóru sigurför um heiminn á skömmum tíma, í kjölfar iðnbyltingarinnar er talað um gullöld (hnattrænna), frjálsra viðskipta á árunum 1870-1914. Á fyrri hluta 20. aldar olli fyrri heimsstyrjöldin, Rússneska byltingin og Kreppan mikla því að tekin var upp viðskiptastefna einangrunar og hafta. Eftir seinni heimsstyrjöldina jókst umfang ríkisins mikið alveg fram að níunda áratugnum þegar hugmyndafræði frjálshyggju fékk enn á ný byr undir báða vængi. Siðfræði. Einn kjarninn í kenningu Smiths í "Auðlegð þjóðanna" er að „"ósýnileg hönd"“ leiði menn til að vinna að almannahag, þegar þeir ætli sér aðeins sjálfir að vinna að eigin hag. Til þess að græða verði þeir að fullnægja þörfum annarra, það dugi ekki að framleiða vöru heldur þarf líka að finna henni kaupanda. Ein þekktasta tilvísunin í Auðlegð þjóðanna er dæmi sem Adam Smith nefnir þar sem hann útskýrir hvernig það sé ekki af manngæsku sem slátrarinn, bruggarinn eða bakarinn selja fólki mat heldur síngirni þeirra. Í viðskiptum reynist náungakærleikurinn ekki eins vel og matarástin. Í frjálsum viðskiptum gildir gagnkvæmni. Þetta hefur sumum þótt ganga þvert á boðskap Smiths í "Kenningu um siðferðiskenndirnar" um, að siðferðisvitund manna mætti rekja til samúðar með öðru fólki. Töluðu þýskir spekingar á 19. öld um „"Das Adam Smith Problem"“ í þessu sambandi. En þessa þversögn má leysa með því að gera greinarmun á tvenns konar gildissviði hugmynda. Í frjálsum viðskiptum á alþjóðlegum markaði, þar sem menn þekkja ekki hver annan og eru ekki vandabundnir, hugsa þeir um eigin hag. Í samskiptum innan fjölskyldu eða í þröngum vinahóp, gilda aðrar reglur, þar sem menn eru vandabundnir. Hvort tveggja á sinn eðlilega vettvang, matarástin og náungakærleikurinn. Trúarskoðanir. Fræðimenn hafa deilt um hverjar trúarskoðanir Smiths voru. Faðir Smiths hafði mikinn áhuga á kristni og tilheyrði skosku kirkjunni. Hugsanlegt er að Smith hafi flutt til Englands með það fyrir augunum að hefja frama innan ensku kirkjunnar. Í Oxford hafnaði Smith kristinni trú og almennt er talið að hann hafi verið frumgyðistrúar þegar hann sneri aftur til Skotlands en um það er deilt. John Locke. John Locke (29. ágúst 1632 – 28. október 1704) var enskur heimspekingur, sem hafði feikileg áhrif með ritum sínum í þekkingarfræði og stjórnspeki. Hann var einn helsti upphafsmaður bresku raunhyggjuhefðarinnar og lagði grunninn að hugmyndafræði frjálshyggju með frjálslyndum kenningum sínum. Kenningar Locke eiga rætur sínar að rekja til náttúruréttarhefðarinnar sem og nafnhyggjunnar. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Hugmyndir hans um mannlegt eðli voru ekki síður merkilegar. Hann var þeirrar skoðunar að maðurinn fæddist sem "autt blað" (l. "tabula rasa") og það væri hlutverk menntunar að móta einstaklinginn frá grunni. Ævi og störf. Locke fæddist í smábænum Wrington, Somerset í Suður-Englandi, skammt frá Bristol. Faðir hans, sem einnig hét John Locke, var lögfræðingur og hafði barist í Ensku borgarastyrjöldinni gegn konungnum. Bæði hann og kona hans, og móðir Lockes, Agnes Keene, voru púritanar. Fljótlega eftir fæðingu Lockes fluttist fjölskyldan um set til annars smábæjar, Pensford sem var skammt frá. Árið 1647, er rofaði ögn til í Ensku borgarastyrjöldinni, var Locke sendur til náms í Westminster í London, þar sem þingmaðurinn Alexander Popham kenndi honum. Að því námi loknu stundaði hann heimspekinám í Oxford-háskóla, þrátt fyrir að hann hafi haft meiri áhuga á verkum Descartes en hinum klassísku fræðum sem kennd voru lauk hann B.A.-gráðu 1656 og mastersgráðu 1658. Samhliða náminu fékk hann mikinn áhuga á læknisfræði og vann við hlið þekktra vísindamanna eins og Robert Boyle, Thomas Willis, Robert Hooke og Richard Lower. Að náminu loknu vann hann í nokkur ár við skólann. Árið 1666 kynntist Locke helsta foringja frjálslyndra manna í Bretlandi, Anthony Ashley-Cooper, lávarði (þekktur sem Shaftesbury jarl eftir 1672), sem átt hafði við vanheilsu að stríða, og gerðist einkalæknir hans. Locke fluttist til Shaftesburys í London ári seinna og lærði læknisfræði hjá Thomas Sydenham, þekktum lækni og hlaut gráðu árið 1674. Árið 1668 var honum veitt innganga í Hina konunglegu vísindaakademíu. Locke vann náið með Shaftesbury sem var gerður að dómsmálaráðherra Bretlands og þar með jarli árið 1672. Locke átti talsverðan þátt í að skrifa stjórnarskrá Karólínu árið 1669 sem á þeim tíma var bresk nýlenda og í umsjá Shaftesburys. Shaftesbury féll úr náð Karl 2. konungs árið 1675 og þar með lauk opinberum ferli Lockes. Locke hélt til Frakklands í leit að mildari veðurfari því hann var heilsuveill. Á ferðum sínum hóf hann að skrifa niður minnipunkta og fleira sem varð að "Ritgerð um mannlegan skilning". Hann sneri aftur til Englands árið 1679 en varð að flýja til Hollands 1683 grunaður um hafa átt þátt í Rúgshús-samsærinu og þurfti að fara huldu höfði. Hann sneri aftur eftir Dýrlegu byltinguna 1688 sem hluti af fylgdarliði eiginkonu Vilhjálms 2. af Óraníu og gaf út rit sín, sem hann hafði áður samið, og lifði eftir það kyrrlátu lífi til dánardags. Þekkingarfræði. Locke var raunhyggjumaður um mannlega þekkingu, sem merkir, að hann taldi, að öll þekking manna sprytti af reynslu þeirra, en væri þeim ekki eðlislæg. Mannshugurinn væri eins og autt blað, "tabula rasa", sem reynslan setti síðan mark sitt á. Hann gerði grein fyrir kenningu sinni í "Ritgerð um mannlegan skilning" (e. "An Essay Concerning Human Understanding", 1689) og hefur jafnan verið talinn einn einn helsti málsvari bresku raunhyggjumannanna ásamt George Berkeley og David Hume. Sumir fræðimenn telja að rekja megi upphaf nútímalegs skilnings á sjálfinu til "Ritgerðar um mannlegan skilning". Stjórnspeki. Í bókinni "Ritgerð um ríkisvald" (e. "The Second Treatise on Civil Government", 1689) kom Locke orðum að tveimur hugmyndum, sem margir tóku undir á næstu öldum. Hin fyrri var, að einkaeignarréttur gæti myndast af sjálfu sér og án þess að raska náttúrlegum réttindum manna, en hlutverk ríkisins væri að gæta eignarréttarins. Hin síðari var, að ríkið væri reist á þegjandi samkomulagi milli borgaranna, sem nefnt er samfélagssáttmálinn, en þegar valdhafar ryfu þetta samkomulag og virtu lítils eða einskis réttindi borgaranna, væri það réttur þeirra að rísa upp og hrinda þeim af höndum sér. Með síðari hugmyndinni varði Locke Dýrlegu byltinguna í Bretlandi 1688 og rökstuddi þrískiptingu ríkisvaldsins. Hún varð frjálslyndum stjórnmálahreyfingum 18. og 19. aldar mikil hvatning, til dæmis í bandarísku byltingunni 1776 og frönsku stjórnarbyltingunni 1789, og krafan um þingbundar konungsstjórnir, sem hljómaði víða í Norðurálfunni á 19. öld, meðal annars í Danmörku og á Íslandi, var ekki síst runnin undan rifjum Lockes. Í bók sinni, "Stjórnleysi, ríki og staðleysur" (e. "Anarchy, State, and Utopia") blés Robert Nozick nýju lífi í stjórnspekihugmyndir Lockes. Vinnukenningin um gildi. Locke taldi að gildi hlutar yrði til þegar vinna væri lögð í hann. Samkvæmt þessari kenningu getur fólk gert hlut að eign sinni með því að leggja í hann vinnu. Gildi hlutar ákvarðast því að verulegu leyti af þeirri vinnu sem lögð hefur verið í hann og því hvernig hann hefur verið nýttur. Engu að síður taldi Locke að framboð og eftirspurn væri það sem ákvarðaði verðgildi hlutar í frjálsum viðskiptum. En Locke taldi að vinnukenningin um gildi sýndi að einkaeignarrétturinn kæmi á undan ríkisvaldinu og að ríkisvaldið hafi því ekki leyfi til að gera það sem það vill við eigur þegnanna. Tenglar. Locke, John Locke, John Gítarskóli Ólafs Gauks. Gítarskóli Ólafs Gauks er gítarskóli í Reykjavík sem var stofnaður árið 1975. Í skólanum eru kennd grunngrip, nótur, þvergrip, tónlistartegundir eins og djass, blús og margt fleira. Kennslan er ætluð byrjendum frá átta ára aldri sem og lengra komnum, börnum, unglingum og fullorðnum. Gítarskólinn er að Síðumúla 17. Gítarnámið var í upphafi útfært af gítarleikaranum Ólafi Gauki og kennt er bæði á rafmagnsgítar og klassískan, auk rafmagnsbassa. Námið skiptist í ÞREP og nemendum er raðað eftir því hvað við á hverju sinni. Fer það eftir aldri, kunnáttu og/eða áhugasviði. Notaðir eru geisladiskar til kennslu sem nemendur æfa sig eftir heima, og fylgja þannig hverju þrepi að því næsta. Boðið er upp á hóptíma, mest átta saman og svo er einnig líka hægt að sækja einkatíma ef þess er óskað. Ellefu vikna námskeið hefjast í janúar og september á ári hverju. Ekki er kennt á sumrin. Auðhumla. Auðhumla, í norrænni goðafræði, er frumkýrin. Hún varð til þegar frost niflheims blandaðist eldum múspelsheims í ginnungagapi. 240 px Jötuninn Ýmir varð einnig til þegar þetta gerðist. Auðhumla nærði Ými lengst af með mjólk hennar, en það runnu fjórar mjólkurár úr spenum hennar. Auðhumla nærðist á hrímsteinum og sleikti þá til að fá næringu. Einn daginn er hún var að sleikja hrímsteinana birtist hár mans, þann næsta höfuð mans og að lokum, þriðja daginn, birtist maðurinn allur. Maðurinn var kallaður Búri. Samband ungra sjálfstæðismanna. Samband ungra sjálfstæðismanna (skammstafað SUS) var stofnað á Þingvöllum 27. júní 1930. SUS er samband allra svæðisbundinna sjálfstæðisfélaga ungs fólks á aldrinum 15 til 35 ára. Félögin eru 38 talsins, og af þeim er Heimdallur í Reykjavík stærsta félagið. Sambandsþing eru haldin annað hvert ár í ágúst eða september þar sem formaður og 26 stjórnarmenn úr öllum kjördæmum landsins eru kjörnir til tveggja ára. Þess á milli eru haldin málefnaþing. Stjórnin hittist að jafnaði mánaðarlega. Fimm manna framkvæmdastjórn, sem fer með daglegan rekstur sambandsins kemur saman vikulega. Skrifstofa sambandins er í Valhöll við Háaleitisbraut 1, Reykjavík. SUS hefur gefið út tímaritið Stefni frá 1950. Stefnir er tímarit um stjórnmál og þjóðmál og var á tímabili eina rit sinnar tegundar á Íslandi. SUS hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og á aðild að Nordisk Ungkonservativ Union (NUU), Democratic Youth Community of Europe (DEMYC), International Young Democrat Union (IYDU) og European Young Conservatives (EYC). Kurów. Kurów er þorp í Lublin-héraði austarlega í Póllandi, á milli borganna Puławy og Lublin, við ána Kurówka. Íbúar voru 2811 árið 2005. Kurów hlaut kaupstaðarréttindi samkvæmt Magdeburg-lögunum milli 1431 og 1442. 1670 missti bærinn þau réttindi eftir plágu en endurheimti þau skömmu síðar. 1795 lenti það undir yfirráðum Austurríkis, 1809 varð það hluti af Varsjár-hertogadæminu og hluti af Pólska konungsríkinu undir stjórn Rússakeisara árið 1815. 1870 missti bærinn svo kaupstaðarréttindi sína endanlega. Síðan 1918 hefur það tilheyrt Póllandi. Helstu kennileiti bæjarins eru kirkja frá endurreisnartímanum. Þorpið er einnig þekkt fyrir að vera fæðingarstaður hershöfðingjans Wojciechs Jaruzelskis sem stjórnaði Póllandi á níunda áratug tuttugustu aldar. Ayn Rand. Legsteinn Ayn og Franks, eiginmanns hennar, í Kensico-kirkjugarði í New York. Ayn Rand (2. febrúar 1905 – 6. mars 1982) var bandarískur rithöfundur og heimspekingur sem er frægust fyrir verk sín "The Fountainhead" og "Atlas Shrugged". Í verkum sínum boðaði hún skynsamlega einstaklingshyggju og einstaklingsframtak. Stjórnmálahugmyndir hennar eru í anda "laissez-faire" kapítalisma og frjálshyggju en hún sagði sjálf heimspeki sína vera einkum undir áhrifum Aristótelesar. Ayn Rand fæddist í Sankti Pétursborg í Rússlandi og var skírð Alissa Zinovievna Rosenbaum. Hún gerðist snemma andstæðingur hjarðhyggju, og tókst að komast til Bandaríkjanna í ársbyrjun 1926. Þegar þangað kom hélt hún til Hollywood í því skyni að freista gæfunnar sem handritshöfundur. Hún giftist leikaranum Frank O’Connor 1929 og gerðist bandarískur ríkisborgari 1931. Hún samdi nokkrar sögur og leikrit á fjórða áratug 20. aldar. En kunnustu verk hennar komu út seinna, skáldsögurnar "The Fountainhead" 1943 (sem birtist í íslenskri þýðingu Þorsteins Siglaugssonar 2011 undir nafninu "Uppsprettan") og "Atlas Shrugged" 1957 (sem birtist í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur 2012 undir heitinu Undirstaðan). Meginstefið í báðum sögunum er hið sama, einstaklingurinn gegn múgnum, sköpun gegn sníkjulífi. Báðar sögurnar hafa selst í milljónum eintaka, "Uppsprettan" í 6,5 milljónum, "Undirstaðan" í átta milljónum. Í skáldsögum Rand skiptast söguhetjurnar í skapandi fólk og hamlandi og flytja söguhetjurnar langar ræður um lífsviðhorf sín, til dæmis Howard Roark fyrir rétti og John Galt í útvarp. Rand skrifaði einnig margt annað um heimspeki. Seinni hluta ævinnar bjó hún í New York þar sem hún lést. Karl Popper. Karl Raimund Popper (28. júlí 1902 – 17. september 1994) var austurrísk-enskur vísinda- og stjórnmálaheimspekingur, kunnur fyrir kenningu sína um rannsóknaraðferðir vísindamanna og ádeilu á alræðisstefnu nasista og kommúnista. Hann var einn áhrifamesti heimspekingur 20. aldar. Ævi og störf. Popper fæddist í Vínarborg og var af Gyðingaættum. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá Vínarháskóla 1928 og var gagnfræðaskólakennari í heimalandi sínu 1930-1936. Fyrsta bók hans, "Logik der Forschung" (Rökfræði vísindalegra rannsókna), birtist 1934. Popper fluttist til Nýja Sjálands 1937, þar sem hann gerðist heimspekikennari í Christchurch. Eftir að stjórnmálarit hans, "The Open Society and Its Enemies" (Opið skipulag og óvinir þess) kom út 1945 og vakti mikla athygli, varð hann kennari í rökfræði og aðferðafræði vísinda í Hagfræðiskólanum í Lundúnum (London School of Economics) 1946 og prófessor 1949. Bretadrottning sæmdi hann riddaratitli 1965, svo að hann varð Sir Karl Popper. Hann hætti kennslu 1969, en hélt áfram að birta heimspekiverk til dánardags. Popper hlaut fjölda verðlauna og nafnbóta, meðal annars Sonning-verðlaunin dönsku 1973 (en Halldór Kiljan Laxness hafði fengið þau 1969). Popper var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna, 1947. Vísindaheimspeki. Í bókinni "Logik der Forschung", sem kom út aukin og mjög betrumbætt á ensku 1959 undir heitinu "„Logic of Scientific Discovery', hafnaði Popper þeirri algengu lýsingu á aðferð vísindamanna, að þeir söfnuðu fróðleiksmolum og reyndu síðan að alhæfa um þá. Þetta kallaði hann berjatínslukenninguna. Gallinn á henni er auðvitað alkunnur. Af þeirri staðreynd, að allir svanir, sem maður einn hefur séð, eru hvítir, er óleyfilegt að draga þá ályktun, að allir svanir séu hvítir (enda eru til svartir svanir í Eyjaálfu). Popper hélt því fram, að vísindamenn hlytu þess í stað að kasta fram djarflegum tilgátum, jafnvel hugdettum, og reyna síðan að hrekja þær. Þetta kallaði hann ljóskastarakenninguna. Í myrkri vanþekkingarinnar þreifuðu vísindamenn sig áfram með tilgátum og tilraunum, ágiskunum og afsönnunum. Viðtekin vísindaleg kenning væri sú, sem væri enn óhrakin, en til þess að hún gæti talist vísindaleg, yrði hún að vera hrekjanleg. Popper sagði, að hugmyndir Marx og Freuds væru óvísindalegar, af því að þær væru óhrekjanlegar, mynduðu lokað kerfi, skýrðu út öll frávik frá sjálfum sér. Vísindin eru samkvæmt kenningu Poppers umfram allt frjáls samkeppni hugmynda. Stjórnmálaheimspeki. Í bókinni "The Open Society and Its Enemies" hélt Popper því fram, að margir vestrænir menntamenn hefðu orðið fyrir óhollum áhrifum af þremur hugsuðum, Platóni, Hegel og Marx. Krafa Platóns um vitringaveldi væri gölluð, meðal annars vegna þess að erfitt væri að hafa upp á vitringunum. Það skipti ekki heldur eins miklu máli, hverjir stjórnuðu, og hverju stjórnað væri. Vandi stjórnmálanna væri ekki að finna þá, sem best væru fallnir til að stjórna, heldur að lágmarka skaðann af þeim, sem af einhverjum ástæðum hefðu fengið völd og kynnu ekki með þau að fara. Lýðræði væri umfram allt friðsamleg aðferð til að skipta um valdhafa. Popper deildi í bókinni harkalega á Hegel og rakti margar hugmyndir alræðissinna, nasista og kommúnista, til hans. Hann var mildari í dómum um Marx, en kvað hugmyndir hans fæstar standast tímans tönn. Kenning hans um, að verðgildi vöru færi eftir þeirri vinnu, sem lögð hefði verið í framleiðslu vörunnar, væri röng, og spádómur hans um, að verkamenn iðnríkjanna yrðu sífellt fátækari, uns þeir hlytu að rísa upp og hrinda kúgurum sínum að höndum sér, hefði bersýnilega ekki ræst. Með því að grafa í sífellu undan því skipulagi frelsis og framfara, sem hefði þrátt fyrir alla galla sína verið að myndast á 19. öld, hefðu kommúnistar og jafnvel jafnaðarmenn búið í haginn fyrir nasista. AC Milan. A.C. Milan er ítalskt knattspyrnufélag og er eitt þekktasta og sigursælasta félagslið heims. Liðið hefur unnið ítölsku deildina 17 sinnum, aðeins Juventus hefur unnið oftar. Andakílshreppur. Andakílshreppur var hreppur í Borgarfjarðarsýslu, kenndur við sveitina Andakíl í botni Borgarfjarðar. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Andakílshreppur Hálsahreppi, Reykholtsdalshreppi og Lundarreykjadalshreppi undir nafninu "Borgarfjarðarsveit". Hálsahreppur. Hálsahreppur eða Hálsasveit (áður Ásasveit) var hreppur í uppsveitum Borgarfjarðarsýslu, sunnan megin Hvítár. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Hálsahreppur Andakílshreppi, Reykholtsdalshreppi og Lundarreykjadalshreppi undir nafninu "Borgarfjarðarsveit". Reykholtsdalshreppur. Reykholtsdalshreppur var hreppur í Borgarfjarðarsýslu, kenndur við Reykholtsdal í Borgarfirði. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Reykholtsdalshreppur Andakílshreppi, Hálsahreppi og Lundarreykjadalshreppi undir nafninu "Borgarfjarðarsveit". Lundarreykjadalshreppur. Lundarreykjadalshreppur (áður Syðri-Reykjadalshreppur) var hreppur í Borgarfjarðarsýslu, kenndur við Lundarreykjadal í Borgarfirði. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Lundarreykjadalshreppur Andakílshreppi, Hálsahreppi og Reykholtsdalshreppi undir nafninu "Borgarfjarðarsveit". Wallace Broecker. Wallace Broecker (f. 29. nóvember 1931 í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum) er bandarískur jarðefnafræðingur og einn fremsti vísindamaður heims í túlkun á líffræðilegum, efnafræðilegum og eðlisfræðilegum hringrásarkerfum Jarðar. Wallace hóf rannsóknir sínar árið 1950 með því að þróa tækni til að mæla geislakolsinnihald sjávar ásamt aldri og uppsöfnunarhraða djúpsjávar- og stöðuvatnasets. Gögnin notaði hann til að rekja mynstur hringrásarkerfa sjávar með tíma. Hann var einn úr hópi vísindamanna sem stundaði geislakolsmælingar á skeljum úr seti af sjávarbotni og þannig sitt af mörkum til þeirrar uppgötvunar, að síðasta jökulskeið hafi endað fyrir um 11.000 þúsund árum. Jyväskylä. Jyväskylä er borg í mið-Finnlandi, 140 km frá Tampere og 270 km frá Helsinki. Borgin stendur nálægt vötnunum Päijänne og Keitele og er miðpunktur alls Jyväskylä svæðisins sem telur um 161.400 manns. Jyväskylä er þekkt skólaborg og nokkurskonar Aþena Finnlands. Einnig er borgin þekkt fyrir margar byggingar sem hannaðar voru af hinum fræga finnska arkitekt Alvar Aalto. Tampere. Tampere ("Tammerfors" á sænsku) er borg í suður-Finnlandi, staðsett á milli vatnanna Näsijärvi og Pyhäjärvi. Mismunur á vatnsyfirborði vatnanna tveggja er 18 m og tengja Tammerkoski flúðirnar þau saman. Flúðirnar hafa verið mikilvægur orkugjafi í gegnum tíðina og í seinni tíð sér í lagi til myndunar rafmagns. Í borginni sjálfri búa um 200.000 manns en á svæðinu öllu búa um 300.000 manns. Tampere er næstmikilvægasta þéttbýlissvæði Finnlands á eftir höfuðborgarsvæðinu og er stærsta borg Norðurlanda sem ekki liggur að sjó. Bertrand de Jouvenel. Bertrand de Jouvenel (31. október 1903 - 1. mars 1987) var franskur rithöfundur, hagfræðingur og stjórnmálaheimspekingur, sem mælti gegn auknu ríkisvaldi og aðhylltist frjálshyggju. Ævi og störf. Faðir Jouvenels, barón Henri de Jouvenel, var embættismaður og ritstjóri og róttækur í stjórnmálaskoðunum, þótt hann væri af tignum ættum. Móðir Jouvenels, Sarah Clair Boas, sem var af auðugum Gyðingaættum, studdi sjálfstæðisbaráttu Tékka, og varð Bertrand de Jouvenel kornungur einkaritari Eduard Benes, fyrsta forsætisráðherra Tékkóslóvakíu, sem síðar varð forseti landsins. Seinni kona barónsins var hinn kunni rithöfundur Colette, og áttu hún og stjúpsonur hennar saman ástarævintýri, sem Colette skrifaði að sögn um í skáldsögunni "Chéri". Á 4. áratug var de Jouvenel sjálfstæður rithöfundur og blaðamaður og ferðaðist víða um Norðurálfuna (Evrópu). Hann þá fyrst flokk yst til vinstri, en síðan stuttlega annan flokk yst til hægri í frönskum stjórnmálum. Hann gerðist hins vegar frjálshyggjumaður af ótta við aukið ríkisvald og dvaldist í útlegð í Sviss seinni hluta stríðsáranna. Hann var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society 1947. Hann kenndi síðan í nokkrum háskólum og gaf út fjölda bóka, hin síðari ár aðallega um, hvort sjá mætti framtíðina fyrir. 1983 höfðaði de Jouvenel meiðyrðamál gegn rithöfundi af Gyðingaættum, sem haldið hafði því fram, að hann hefði verið hlynntur samstarfi Vichy-stjórnarinnar við nasista í stríðinu. Hinn kunni stjórnmálaskýrandi Raymond Aron stóð upp, þar sem hann lá banaleguna, og bar vitni fyrir de Jouvenel í réttarsal, en dó síðan. Vann Jouvenel málið. Stjórnmálaheimspeki. Jouvenel gerði eins og aðrir stjórnmálaheimspekingar greinarmun á tekjuskiptingu sem niðurstöðu og aðgerð. Tekjuskipting, sem verður til á frjálsum markaði, er niðurstaðan úr viðskiptum frjálsra og fjárráða einstaklinga. En þegar ríkið tekur af fólki fé með skattlagningu og skiptir því síðan upp eftir eigin reglum, er tekjuskiptingin aðgerð og ætti frekar að heita tekju-uppskipting (e. redistribution). Jouvenel hélt því fram, að slík tekjuuppskipting hefði ekki og gæti ekki haft þær afleiðingar, sem að væri stefnt, að færa aðeins fé frá ríkum til fátækra; þar sem hinir ríku eru fáir og hinir fátæku margir (samkvæmt skilgreiningu, enda ella enginn vandi á ferð), verður líka að skattleggja fólk með meðaltekjur og jafnvel minna. Slík tekjuuppskipting hefði í öðru lagi þær afleiðingar, að vald flyttist frá almenningi til hins opinbera og ábyrgðarkennd einstaklinga sljóvgaðist. Í þriðja lagi hefði slík tekjuuppskipting þær afleiðingar, að ýmsum sérþörfum fámennra hópa yrði síður fullnægt, en með því drægi úr fjölbreytni mannlífsins. Tenglar. Jouvenel, Bertrand de Jouvenel, Bertrand de Jouvenel, Bertrand de Kristján Danaprins. Kristján Danaprins skírður Christian Valdemar Henri John (fæddur í Kaupmannahöfn, 15. október 2005) er sonur Friðriks krónprins Danmerkur og Maríu krónprinsessu og annar í röðinni á eftir föður sínum að dönsku krúnunni. Kristján prins á fyrsta skóladeginum Prinsinn var skírður þann 21. janúar 2006 í kirkju Kristjánsborgarhallar. Hann á átta guðforeldra; Hákon og Mette-Marit af Noregi, Viktoríu, krónprinsessu Svía, Jóakim Danaprins (bróður Friðriks), Pál, krónprins Grikklands (að nafninu til), Jane Stephens (elstu systur Maríu) og tvo vini Maríu og Friðriks. Hann á eina yngri systur, Ísabellu. Friðrik Danakrónprins. Friðrik Danakrónprins eða Frederik André Henrik Christian, (fæddur í Kaupmannahöfn, 26. maí 1968) er frumburður Margrétar II Danadrottningar og Hinriks prins. Friðrik giftist heitkonu sinni, Mary Elizabeth Donaldson, þann 14. maí 2004 í dómkirkjunni í Kaupmannahöfn. Krónprinsparið eignaðist soninn Kristján, þann 15. október 2005 og dótturina Ísabellu, 21. apríl 2007. Þau eignuðust svo tvíburana Vincent og Jósefínu, 8. janúar 2011. Friðrik er fyrstur í erfðaröðinni að dönsku krúnunni og nr. 214 að bresku krúnunni þar sem hann er barna-barna-barna-barnabarn Viktoríu Bretadrottningar í gegnum móðurömmu sína, Ingiríði. Álftaneshreppur (Gullbringusýslu). Álftaneshreppur var hreppur í Gullbringusýslu. Náði hann frá Kópavogslæk, um Álftanes og Hafnarfjörð og suður í Hvassahraun. Álftaneshreppi var skipt í tvennt árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Annað ráðuneyti Ólafs Thors. Annað ráðuneyti Ólafs Thors, og fyrsta ríkisstjórn Lýðveldisins Íslands sem studdist við þingræðislegan meirihluta var gjarnan nefnt "Nýsköpunarstjórnin". Togarar sem keyptir voru til landsins að undirlagi ríkisstjórnarinnar voru nefndir nýsköpunartogarar. Markmið stjórnarinnar var að skapa nýjungar í atvinnulífi landsmanna. Stjórnin hafði mikinn gjaldeyri til fjárfestinga, svonefndan stríðsgróða. Á endanum rofnaði stjórnarsamstarfið 10. október 1946 vegna deilna um veru Bandarísks hers á Íslandi einkum og sér í lagi á grunni Keflavíkursamningsins. Stjórnin sat þó til 4. febrúar 1947 uns tekist hafði að mynda nýja stjórn. Sjálfstæðisflokkur leiddi stjórnarsamstarfið með Alþýðuflokki og Sósíalistaflokki. Þetta var fyrsta aðkoma sósíalista að ríkisstjórn Íslands. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Pétur Ottesen, Jón Sigurðsson á Reynistað, Þorsteinn Þorsteinsson, Gísli Sveinsson og Ingólfur Jónsson voru í stjórnarandstöðu enda var þeim ekkert gefið um að vinna með sósíalistum. Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætis og utanríkisráðherra. Pétur Magnússon, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var fjármála og viðskiptaráðherra. Áki Jakobsson, Sósíalistaflokki, var sjávarútvegsráðherra; hann fór einnig með flugmál. Brynjólfur Bjarnason, formaður miðstjórnar Sósíalistaflokksins, var menntamálaráðherra. Emil Jónsson, Alþýðuflokki, var samgöngu- og iðnaðarmálaráðherra; hann fór einnig með kirkjumál. Finnur Jónsson, Alþýðuflokki, var dóms- og félagsmálaráðherra; hann fór einnig með verslunarmál. Hafnir. Hafnir í kvöldsól Kirkjuvogskirkja í Höfnum Hafnir eru byggðarlag á vesturströnd Reykjanesskagans, kennt við bæina Kirkjuhöfn og Sandhöfn, sem nú eru í eyði. Hafnahreppur var sjálfstætt sveitarfélag til 11. júní 1994, en þá sameinaðist hann Keflavíkur- og Njarðvíkurkaupstöðum undir merkjum "Reykjanesbæjar". Torfbærinn Kotvogur er við fjöruborðið. Lagið Partýbær með hljómsveitinni Ham fjallar um ferðalag meðlima bandsins í partý í Höfnum. Tom Egeland. Tom Egeland (8. júlí 1959 í Osló –) er norskur rithöfundur. Hann hefur skrifað sex bækur og hafa sumar verið þýddar yfir á ellefu tungumál. "Við enda hringsins" (2001) vakti frekari athygli eftir að metsölubók Dan Brown "Da Vinci lykillinn" (2003) hafði öðlast töluverða frægð, en þessi verk þykja að ýmsu lík. Egeland bætti við eftirmála í bók síðar þar sem hann ber bækurnar sjálfur saman, gagnrýnir það sem Dan Brown hefur kallað sagnfræðilegar staðreyndir og ýmislegt fleira. Bækur eftir Egeland. Egeland, Tom Maurice Allais. Maurice Allais (31. maí 1911 – 9. október 2010) var franskur hagfræðingur, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1988. Hann var einn af stofnendum Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna, 1947. Allais fæddist í París, og rak faðir hans ostabúð, en féll í fyrri heimsstyrjöld, 1915. Allais braust til mennta og lauk prófum í stærðfræði og heimspeki, áður en hann settist í Ecole Polytechnique, Verkfræðiskólann, í París. Hann gerðist námuverkfræðingur, en gaf einnig út ýmis hagfræðirit. Frá 1948 stundaði hann aðeins háskólakennslu og rannsóknir við ýmsar stofnanir. Þótt hann væri einn af stofnendum Mont Pèlerin samtakanna 1947, tók hann lítinn þátt í starfi þeirra, enda var hann ekki sannfærður um eina meginkenningu frjálshyggjumanna, sem er, að náttúruauðlindir séu best komnar í eigu einkaaðila. Hann hefur líka látið í ljós efasemdir um, að óheft alþjóðaviðskipti hafi eins góðar afleiðingar og flestir frjálshyggjumenn halda fram. Tenglar. Allais, Maurice Wilhelm Röpke. Wilhelm Röpke (10. október 1899 - 12. febrúar 1966) var þýskur hagfræðingur, áhrifamikill ráðgjafi Konrads Adenauers og Ludwigs Erhards og einn af stofnendum Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna. Röpke fæddist í Schwarmstedt rétt hjá Hannover. Faðir hans var læknir. Röpke lauk prófum í hagfræði og stjórnvísindum frá háskólunum í Göttingen, Tübingen og Marburg. Hann varð hagfræðiprófessor í Jena-háskóla 1925 og kenndi síðar í Graz og Marburg. Þegar þjóðernisjafnaðarmenn tóku völd 1933, missti Röpke stöðu sína og varð eftir það að birta rit sín undir dulnefninu Ulrich Unfried. Hann fluttist til Tyrklands, þar sem hann fékk kennarastöðu í Háskólanum í Istanbul. Hann var forseti Mont Pèlerin samtakanna 1961-1962, næstur á eftir Friedrich A. von Hayek. Eftir stríð hafði Röpke veruleg áhrif í Þýskalandi, sérstaklega á hina frjálslyndu efnahagsstefnu Erhards, viðskiptaráðherra og síðar kanslara. Í ritum sínum boðaði Röpke hófsamlega frjálshyggju, svokallaða Ordo-frjálshyggju, þar sem gert var ráð fyrir víðtækari íhlutun ríkisins í atvinnulífinu, þó aðallega til stuðnings frjálsri samkeppni, en Chicago-hagfræðingarnir og Austurrísku hagfræðingarnir hugsuðu sér. Hann lagði mikla áherslu á ýmis sjálfvalin og sjálfsprottin tengsl manna, til dæmis fjölskyldu og kirkju. Hann var gagnrýninn á Evrópusambandið, sem stofnað var með Rómarsáttmálanum 1957. Röpke kenndi frá 1937 til dánardags í Institut Universitaire de Hautes Etudes Internationales (Rannsóknarstofnun í alþjóðamálum) í Genf í Sviss. Johannes Rau. Johannes Rau (16. janúar 1931 í Wuppertal – 27. janúar 2006 í Berlín) var þýskur stjórnmálamaður. Hann gekk í þýska jafnaðarmannaflokkinn (SPD) árið 1957 og komst fljótt til metorða innan hans. Rau var kosinn á þing sambandslandsins Nordrhein-Westfalen árið 1958 og var forsætisráðherra þess frá 1978 til 1998. Rau var kjörinn 8. forseti Þýskalands árið 1999 og gegndi þeirri stöðu í eitt kjörtímabil, eða til 2004. Elenóra Spánarprinsessa. Leonor prinsessa eða Elenóra á íslensku, (fædd 31. október 2005) er dóttir Felipe Spánarkrónprins og konu hans, Letiziu Spánarkrónprinsessu. Fæðing hennar hefur vakið upp umræðu í þjóðfélaginu um að breyta lögum í spænsku stjórnarskránni, en í henni segir að karlmenn hafi forgangsrétt yfir eldri systur sínar í erfðaröðinni. Ef þetta gengur eftir mun hún að öllum líkindum verða Leonor Drottning. Prinsessan var skírð í spænsku konungshöllinni þann 14. janúar 2006. Samkvæmt konunglegri hefð var hú skírð með vatni úr ánni Jórdan. Guðforeldrar hennar voru föðurafi hennar, Juan Carlos Spánarkonungur, og föðuramma hennar Sofia Spánardrottning. Leonor á yngri systur, Sofiu. Njarðvík. Ytri-Njarðvík sést nær og Innri-Njarvík fjær. Njarðvík er bær við samnefnda vík á norðanverðum Reykjanesskaga austan megin við Miðnesið, og heyrir undir sveitarfélagið Reykjanesbæ. Bærinn skiptist í tvo þéttbýliskjarna í "Innri-Njarðvík" (austan megin við víkina) og "Ytri-Njarðvík" (norðan megin við víkina) og er því oft talað um "Njarðvíkur" í fleirtölu. Njarðvíkurnar voru tvær bæjarþyrpingar eða hverfi svipað og aðrir staðir á Suðurnesjum þar til vélbátaútgerð hófst eftir aldamótin 1900. Á milli þessara bæjaþyrpinga voru leirur, Fitjar, þar sem nú er þjónustu- og verslunarkjarni. Að auki hefur mikið nýtt byggingaland verið tekið í notkun vestur frá Innri-Njarðvík frá því á 9. áratugnum svo stefnir í að verði samfelld byggð umhverfis víkina. Upphaflega voru Njarðvíkurbæirnir í Rosmhvalaneshreppi, en voru færðir undir Vatnsleysustrandarhrepp hinn 24. apríl 1596. Árið 1889 var stofnaður sérstakur hreppur, "Njarðvíkurhreppur", enda hafði byggð þá aukist mikið í landi Njarðvíkur. Njarðvíkurhreppur sameinaðist nágrannabænum Keflavík undir heitinu "Keflavíkurhreppur" hinn 15. júní 1908, en Keflavík sjálf hafði fram að því tilheyrt Rosmhvalaneshreppi. Njarðvíkurhreppur klauf sig aftur frá Keflavíkurhreppi 1. janúar 1942 einkum vegna óánægju með rafveitumál og hafnarmál. Kaupstaðarréttindi fékk Njarðvík 1. janúar 1976. 11. júní 1994 sameinaðist Njarðvík Keflavíkurkaupstað og Hafnahreppi undir nafninu "Reykjanesbær". Holger Cahill. Holger Cahill ("Sveinn Kristján Bjarnarson") (13. janúar 1887 – 1960) var vestur-íslenskur listfræðingur og forstöðumaður Museum of Modern Art í New York 1932. Hann hafði sérstakan áhuga á alþýðulist. Þann 5. september 1938 birtist mynd af honum á forsíðu Time Magazine. Holger Cahill fæddist á Skógarströnd og var skírður Sveinn Kristján Bjarnarson, en hann var sonur Björns Jónssonar og Kristínar Bjarnadóttur. Hann fluttist ungur með foreldrum sínum til Kanada og síðar til Norður-Dakóta. Þar dó faðir hans árið 1895. Skólaganga hans á unglingsárunum var af skornum skammti, en þegar fram liðu stundir nýtti hann sér kvöldnámskeið sem á leið hans urðu. Árið 1921 var hann ráðinn til starfa við Newark Museum í New Jersey. Síðar varð hann um árabil einn af helstu ráðgjöfum Franklin Delano Roosevelt forseta og John D. Rockfeller yngra, enda talinn einn fremsti listfræðingur Bandaríkjanna. Frá ungum aldri skrifaði Sveinn Kristján (Holger Cahill) greinar og smásögur fyrir blöð og tímarit og hélt því áfram alla ævi. Hann skrifaði einnig skáldsögur, en fyrsta skáldsaga hans, "Profane Earth", kom út 1927, en þekktustu skáldsögur hans eru "Look South of the Polar Star" (1947), sem gerist í Sjanghæ, og "The Shadow of My Hand", sem byggð er á lífi fólks á Dakótasléttunum. Fyrir þá skáldsögu hlaut hann Guggenheimverðlaunin 1956. H. Harvard Arnason. H. Harvard Arnason eða Hjörvarður Árnason (1909 – 1986) var vestur-íslenskur listfræðingur. Hann fæddist í Kanada af íslensku foreldri og gekk í Manitoba-háskóla en fluttist síðar til Bandaríkjanna og varð bandarískur ríkisborgari árið 1940. Hann var fulltrúi á Íslandi í Seinni heimsstyrjöldinni. 1951 til 1961 var hann forstöðumaður Walker Art Center, eins af þekktustu nútímalistasöfnum Bandaríkjanna. Hann samdi þekkt rit um samtímalist, "A History of Modern Art" sem kom út árið 1968. Fantasíurithöfundurinn Eleanor Arnason er dóttir hans. María krónprinsessa Dana. María krónprinsessa Dana (fædd Mary Elizabeth Donaldson, 5. febrúar 1972 í Hobart, Tasmaníu) er eiginkona Friðriks Danakrónprins og verðandi Danadrottning. María er er yngsta barn John Dalgleish Donaldson og Henriettu Clark Donaldson (f. Horne) (d.1997). Faðir hennar giftist aftur 2001 Susan Elizabeth Donaldson (f. Horwood), rithöfundi frá Bretlandi. María á þrjú systkini, Jane Alison Stephens, Patricia Anne Bailey og John Stuart Donaldson. Hún giftist Friðriki við hátíðlega athöfn 14. maí 2004 í dómkirkjunni í Kaupmannahöfn og 15. október 2005 átti hún frumburð þeirra Friðriks, prinsinn Kristján. Þann 21. apríl 2007 eignaðist krónprinsparið dótturina Ísabellu, sem er fyrsta stúlkubarnið sem fæðist í konungsfjölskyldunni síðan 1946. Rosmhvalaneshreppur. Rosmhvalaneshreppur var hreppur á utanverðum Reykjanesskaga í Gullbringusýslu. Rosmhvalur er annað orð yfir rostung. Til forna náði Rosmhvalaneshreppur yfir allt Miðnes (sem þá hét Rosmhvalanes) og inn að Vogastapa. Mörkum hreppsins var fyrst breytt 24. apríl 1596 þegar Njarðvíkurbæirnir voru settir undir Vatnsleysustrandarhrepp. Árið 1886 var hreppnum skipt í tvennt eftir Miðnesinu endilöngu. Innri helmingurinn hélt nafninu áfram en sá ytri fékk nafnið Miðneshreppur. 15. júní 1908 var því sem eftir var af Rosmhvalaneshreppi aftur skipt í tvo hluta. Meginhlutinn varð þá að Gerðahreppi en suðurendinn með kauptúninu í Keflavík sameinaðist Njarðvíkurhreppi undir nafninu "Keflavíkurhreppur". James M. Buchanan. James McGill Buchanan Jr. (fæddur 3. október 1919) er kunnur bandarískur hagfræðingur, sem hlaut Nóbelsverðlaun 1986. Hann er leiðtogi Virginíu-hagfræðinganna svonefndu, sem rannsaka stjórnmál með aðferðum hagfræðinnar, og hefur verið forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna. Buchanan er Suðurríkjamaður frá Tennessee, afkomandi forsetans með sama nafni. Faðir hans var bóndi. Buchanan barðist í Bandaríkjaher í seinni heimsstyrjöld, en stundaði eftir það hagfræðinám í Chicago-háskóla, þar sem hann varð fyrir miklum áhrifum frá Frank H. Knight og öðrum Chicago-hagfræðingum. Eftir doktorspróf 1948 hefur Buchanan kennt við ýmsa háskóla, aðallega í Suðurríkjunum, síðast í George Mason-háskóla í Fairfax í Virginíu, nálægt Washington, D.C. Hann er kvæntur, en barnlaus. Framan af stundaði Buchanan aðallega rannsóknir í ríkisfjármálum, en síðan sneri hann sér að almannavalsfræði (e. public choice theory), en hún snýst um það, hvernig einstaklingar velja í hópum fremur en einir sér. Hefur þessi grein einnig verið nefnd „hagfræði stjórnmálanna“, því að hún beitir aðferðum hagfræðinnar á stjórnmál. Buchanan kom til Íslands haustið 1982 og flutti erindi í Háskóla Íslands, þar sem hann gerði grein fyrir almannavalsfræðinni. Hann sagði, að hún hvíldi á tveimur meginhugmyndum. Hin fyrri væri, að einstaklingar skipti ekki um eðli, þegar þeir hverfi úr viðskiptum í stjórnmál. Gera verði ráð fyrir, að menn reyni að gæta eigin hags eins vel í stjórnmálum og þeir geri í viðskiptum, ekki af því að það sé alltaf nauðsynlega svo, heldur af því að með slíkri einfaldri forsendu má smíða líkön um hegðun stjórnmálamanna, sem hafi mikinn skýringarmátt og forsagnargildi. Seinni hugmyndin sé, að menn stundi viðskipti í stjórnmálum, skiptist á gæðum, þegar þau séu viðtakandanum meira virði en framseljandanum. Líta megi á stjórnmálasamninga sem viðskipti. Buchanan hefur víða lýst því, hvaða stjórnmálaályktanir megi draga af almannavalsfræðinni. Þær eru aðallega, að fastar reglur verði að gilda um stjórnmálaákvarðanir, svo að þær bitni ekki á þeim, sem lenda í minni hluta. Munurinn á einkavali og hópvali er einmitt, hvort menn velja aðeins fyrir sig eða hvort sumir í hópnum velja fyrir alla. Í ritinu "The Economic Consequences of Mr Keynes" heldur Buchanan því fram, að John Maynard Keynes hafi gert hagfræðinni ógagn með því að mæla gegn reglunni um hallalaus fjárlög. Sú regla hafi haldið eyðslusemi stjórnmálamanna í skefjum. Í ritinu "Monopoly in Money and Inflation" spyr Buchanan, hvers vegna menn hafi ekki litið seðlabanka sömu augum og önnur einokunarfyrirtæki, og setur fram líkan um líklegustu hegðun þeirra. Buchanan telur, að stjórnarskrár 18. og 19. aldar, sem hafi átt að binda hendur valdsmanna, hafi ekki náð tilgangi sínum að fullu. Seðlaprentungar- og skattlagningarvald þeirra sé enn allt of víðtækt. Verkefni frjálshyggjumanna sé að setja þessu valdi skorður. Helstu verk. "Lausnarorðið er frelsi" (Reykjavík, 1994). Erindi Hayeks, Friedmans og Buchanans á Íslandi (í þýðingu Hannesar H. Gissurarsonar) Tenglar. Buchanan, James M. Mohandas Gandhi. Mohandas "Mahatma" Karamchand Gandhi (Devanagarí/Hindí: मोहनदास करमचन्द गांधी; Gújaratí: મોહનદાસ કરમચંદ ગાંધી; 2. október 1869 – 30. janúar 1948) var pólitískur leiðtogi Indverja sem fór fyrir sjálfstæðishreyfingu Indlands og friðsamlegri baráttu Indverja fyrir sjálfstæði frá Bretum, hreyfingu sem tugir milljóna Indverja tóku þátt í. Allt hans líf hryllti hann við tilhugsunina um ofbeldi og hryðjuverk. Heimspeki hans var friðsamleg, Satyagraha ("viðleitni til að komast að sannleika" / "sálar kraftur") hafði áhrif á friðsamlegar fjöldahreyfingar innan lands sem utan. Hann fæddist inn í "vaishya" stétt, stétt kaupsýslumanna. Foreldrar hans voru Karamchand Gandhi og fjórða kona hans Putlibai. Gandhi giftist Kasturbai Makharji árið 1883 þau áttu fjóra syni; Harilal Gandhi, f 1888, Manilal Gandhi, f 1892, Ramdas Gandhi, f 1897 og Devdas Gandhi, f. 1900. Menntun. Árið 1887 innritaðist Gandhi í Háskólann í Mumbai (þáverandi Bombey) ári síðar, eða 19 ára gamall hélt Gandhi til Englands með það fyrir augum að ljúka námi sínu til málafærslumanns frá Londonháskóla. Í London gerðist hann grænmetisæta. Þegar hann snéri aftur til Indlands að loknu námi með aðild að bresku lögmannasamtökunum upp á vasann var lítið um laus störf fyrir lögfræðinga. Hann reyndi fyrir sér sem lögfræðingur í Bombey en gekk illa. Gandhi þáði boð um eins árs starf hjá indversku fyrirtæki í Natal í Suður-Afríku árið 1893. Mannréttindabarátta í Suður-Afríku. Eftir að Gandhi varð ítrekað fyrir barðinu á kynþáttamisrétti og vitni að kynþáttafordómum og óréttlæti í garð Indverja í Suður-Afríku, íhugaði hann stöðu sína í samfélaginu. Á meðan uppreisn Zulumanna stóð skipulagði Gandhi eina af fáum heilsugæslum sem þjónuðu svörtum Suður-Afríkubúum. Í kveðjuhófi sem haldið var honum til heiðurs, þegar samningur hans var á enda runninn og Gandhi við það að fara heim, sá hann frétt þess efnis að til stæði að afnema atkvæðisrétt Indverja í Natal. Gandhi framlengdi dvöl sína í Suður Afríku með það fyrir augum að vinna gegn þessum áformum. Hann stofnaði Þing Indverja í Natal 1894. Í seinna Búastríðinu 1899-1902, ályktaði Gandhi sem svo, að Indverjar þyrftu að styðja stíðsreksturinn svo þeir ættu lögmætt tilkall til borgararéttinda í Suður-Afríku. Hann skipulagði sjúkrabílaþjónustu með 300 indverskum sjálfboðaliðum og 800 starfsmönnum. Þrátt fyrir stuðning Indverja við stríðsreksturinn bættist hagur þeirra ekki að loknu stríði. Frá 1906, þegar stjórnvöld í Transvaal komu á nýjum lögum um skráningu Indverja, stóð sjö ára stríð sem byggði á friðsamlegum mótmælum (hvar fjöldi Indverja, Gandhi þar með talinn, var tekinn höndum eða jafnvel skotinn fyrir að neita að skrá sig), verkföllum eða að brenna skráningarskírteinin. Að endingu sömdu suðurafrísk stjórnvöld við Gandhi. Indland. Spunahjól Gandhis var notað sem skjaldamerki á fána þjóðernissinnaðra Indverja Gandhi snéri aftur til Indlands 1915. Hann taldi rangt að hjálpa ekki til við varnir Breska heimsveldisins í fyrri heimsstyrjöldinni. Menn yrðu að hjálpa til við varnir heimsveldisins til að geta gert tilkall til frelsis og réttar sem fullgildir borgarar þess. Gopal Krishna Gokhale kynnti fyrir honum stöðu mála á Indlandi og Gandhi talaði á fundum Indverska Þjóðarráðsins (Indian National Congress). Gopal var á þeim tíma einn helsti leiðtogi Þjóðarráðs flokksins (Congress Party). Kraftaverkamaður kemst á kreik. Staða verkafólks og ánauðugra var slæm á Indlandi, Bretar komu víða illa fram við heimamenn í krafti valds nýlenduherranna. Ástandið var sérlega slæmt árið 1918 í Champaran í Bihar og Kheda í Gujarat. Landlausu fólki í Champaran var nauðugur einn kostur að rækta sitthvað sem seldist á mörkuðum í stað þess að rækta eitthvað til eigin næringar. Þar greiddu Bretar lágt verð fyrir framleiðsluna sem jók enn á fátækt fólksins og jafnframt kröfðu þeir Indverja um hækkandi skatta. Í Kheda kröfðust Bretar, þrátt fyrir hungursneið að skattur væri goldinn að fullu auk 23% hækkunar. Famtíðarsýnin var myrk fyrir þá sem áttu hvorki til hnífs né skeiðar. Gandhi stakk upp á friðsamlegri óhlýðni enn fremur krafðist hann þess að mótmælendur einbeittu sér að mótmælum gegn harðstjórninni vegna hins mannlega harmleiks og að þeir myndu ekki tala um sjálfstæði. Eftir að hafa notið aðstoð sjálfboðaliða við að kanna ástandið og þarfir heimafólks í Champaran tók hann til við að lappa upp á þorpin sem voru í niðurníslu, enda fáir sem skeyttu um þann fjölda ósnertanlegra sem þar bjó. Með vilja íbúanna að vopni vann hann að byggingu skóla og sjúkrahúsa og hvatti framámenn í samfélögunum til að koma betur fram við hina ósnertanlegu og að láta af kúgun kvenna. Með honum í för slógst fjöldi ungra indverskra þjóðernissinna, hvaðanæfa að, þar á meðal; Brajkishore Prasad, Dr. Rajendra Prasad og Jawaharlal Nehru. Fangi. Er Gandhi var tekinn höndum og gert að yfirgefa svæðið, hann var ákærður fyrir að vera valdur að þeim óróa sem hafði skapast í Champaran, mótmæltu hundruð þúsunda handtökunni og fangelsuninni fyrir framan fangelsið, dómshús og lögreglustöðvar og kröfðust þess að hann yrði látinn laus. Sem dómurinn að endingu gerði tilneyddur. Frá því skipulagði Gandhi mótmæli og verkföll til að vinna á misrétti því sem landeigendurnir beittu. Frá því var Gandhi jafnan ávarpaður Bapa (Faðir) ellegar Mahatma (Mikla sál). Andlegur leiðtogi. Í Kheda var Gandhi öðru fremur andlegur leiðtogi. Hinn náni samverkamaður Gandhis Sardar Vallabhbhai Patel sá um framkvæmdina, en þeir voru báðir tregir til að kalla til fólk annars staðar að af Indlandi, þeir vildu hjálpa heimamönnum að sigrast á okri og ofríki landeigandanna. Sardar fékk heimamenn til að undirrita bænaskrá þess efnis að skatturinn yrði felldur niður vegna hungursneyðarinnar. Bóninni var hafnað og stjórnin í Bombay tók það fram að ef skatturinn yrði ekki goldinn þá yrðu eignir vanskilamanna gerðar upptækar og ekki væri líktlegt að þeim yrði komið til skila til fyrri eigenda janfvel þó þess yrði sérstaklega óskað. Þar sem enginn greiddi skatt sendi stjórnin út menn til að taka það sem tækt væri, land, búfénað og verkfæri. Bændur sýndu enga burði til þess að andæfa handtökum. Bændur studdu Sardar, jafnvel þó allar eigur þeirra hefðu verið gerðar upptækar. Þeir sem gerðu sig líklega til til að kaupa það land sem gert hafði verið upptækt, voru útskúfaðir úr indversku samfélagi. Aðlokum sættustjórnvöld á að fella niður skatt fyrir umrætt ár og það næsta á eftir, draga úr skatta hækkuninni, og að leyfa mótmælendum að endurheimta eigur sínar. Án samstarfs. Að Rowlatt lögunum samþykktum, 6. apríl 1919, var heimilt að fangelsa grunaða landráðamenn án dóms og laga. Vaxandi óánægju gætti meðal Indverja að Indverskir hermenn væru notaðir af Bretum í bardögum í fyrri heimsstyrjöldinni. Amritsar. Tveir helstu leiðtogar sjálfstæðishreyfingarinnar í Punjab, Dr. Saifuddin Kitchlew og Dr. Satyapal, voru teknir höndum 10. apríl með vísan í Rowlatt lögin. Fólk kom saman í Jallianwala Bagh garðinum í Amritsar í Punjab til að hlýða á ræður sem flytja átti í mótmælaskyni við handtöku doktoranna. 90 hermenn skutu á fólkið að skipan Reginald Dyers sem sagðist síðar hafa skotið á fólkið svo það mndi ekki halda að það gæti haft hann að fífli. 397 Indverjar, skv. opinberum tölum, skotnir til bana. Gandhi gagnrýndi hvorttveggja breska herliðið og ofbeldið sem Indverjar beittu í mótmæla skyni. Með hrifnæmri ræðu, þar sem hann sagði allt ofbeldi illt og óréttlætanlegt, fékk hann flokksfélaga sína til að samþykkja að votta breskum fórnarlömbum virðingu sína og fordæma ofbeldisfull ólæti. Frá þessu fór Gandhi að hugleiða fullt sjálfstæði frá Bretum. Flokkurinn. Indverska Þjóðarráðið fól Gandhi framkvæmdavald í desember 1921, þar sem hann var kominn á þá skoðun að Indland þyrfti á fullu og óskoruðu sjálfstæði, andlegu sem raunverulegu, að halda "Swaraj". Þjóðarráðsflokkurinn - e.þ.s. Kongressflokkurinn - setti sér nýja stefnuskrá undir forustu Gandhis með "Swaraj" sem endalegt stefnumark. Aðild var öllum heimil. Nefndir voru settar á stofn til að umbreyta flokkum úr hópi yfirstéttamanna í agaða fjöldahreyfingu indversku þjóðarinnar. "Hartal". Gandhi skipulagði ítrekað fjöldamótmæli, sem líktust fjölda verkfalli, hvar þjóðin tók sig saman og lagði niður sína daglegu vinnu, vinnustaðir, skólar sem og sjúkrahús lokuðu, til að beita stjórnvöld þrýstingi og hverfa frá óvinsælum ákvörðunum. Þessi mótmæli kallast Hartal og útlegst það sem verkfalls aðgerð, 'BHOOKH HARTAL' merki hungur verkfall í Hindi. Sjálfsþurftir. Með Þjóðarráðsflokkinn að baki sér hóf Gandhi að sniðganga innfluttar vörur, einkum breskar vörur, hann vildi sína fram á að Indland gæti staðið eitt og sér og væri ekki upp á aðra komið. Upp frá því klæddist Gandhi í heimaofnum fatnaði að indverskum sið, "khadi" Hefur sá fatnaður og hvattningar hans þess efnis að Indverjar klæddust indverskum fötum í stað þess sem ofið var í bretlandi úr indversku líni iðuglega verið tengt við "swadeshi" - sjálfþurfta stefnu Gandhis. Hann sagði að með hannyrðum heima við gætu allir Indverjar, ríkir sem fátækir stutt sjálfstæðishreyfinguna Gandhi lagði upp með mótmæli við setningu Rowlatt-laganna, og hvatti Indverja til að hætta námi sínu í skólum sem styrktir væru af landstjóranum og lögmenn til að reka ekki mál sín fyrir dómsdólum Breta á Indalndi. Hann sagði mótmælendum að bjóa hinn vangann ef lögreglan beytti þá ofbeldi. Sérhver indverji skildi sætta sig við einingu hindúa og múslima, og hafna allri aðgreiningu m.t.t. stéttar eða kynþáttar, svo landið gæti staðið sameinað og unnið sigur í baráttunni. Múslimabandalagið á Indlandi, auk fjölda indverskra stjórnmálamanna, gagnrýndi hann og áætlanir hans. Yngri menn í Þjóræðisflokknum fögnuðu fyrirætlunum hans. Hin friðsamlegu mótmæli, borgaralega óhlýðni, bar árangur, í fyrstu kom það Bretum á óvart hve víðtæk samstaða Indverja var. Til viðbótar við algjöra sniðgöngu á þjónustu landstjórnarinnar, þá flykktust Indverjar úr skólum, lögreglusveitum og herdeildum sem rekin voru á vegum Landstjórans og skiptu yfir sambærilegar stofnanir sem skipulagðar voru af þjóðernissinnum. Gandhi var ásamt öðrum forustu mönnum Þjóðræðisflokksins fangelsaður. Þá fór að bera á vaxandi ofbeldi meðal Indverja. Í febrúar árið 1922 voru 15 inverskir lögreglumenn drepnir af mótmælendum. Gandhi kenndi sjálfum sér um hvernig fór, hann neitaði sér um að borða uns ofbeldinu lynnti. Hann var í hungurverkfalli í 21 dag uns mótmælendur létu af ofbeldinu. Þannig batt hann enda á mótmælin sem einkenndust af engu samstarfi við Breta. Hann var fljótlega handtekinn og dæmdur í fangelsi fyrir landráð af dómara sem vildi helst að Gandhi gengi laus. Nokkrir forustumenn Þjóðræðisflokksins snéru baki við Gandhi vegna "ótímabærs" endis, að þeirra mati, á samstarfsleysinu við Breta. Salt. Frá 21. mars til 6. apríl 1930 þrammaði Gandhi 400 km ásamt þúsundum Indverja til framleiðslu salts. Gangan var mótmæli við skatta á salt. Um 60.000 manns voru handteknir. Í mars 1931 rituðu Gandi og Irwin lávarður samning þar sem öllum pólitískum föngum var heitið frelsi. Seinni heimsstyrjöldin. Gandhi vildi veita Bretum friðsamlega andlegan stuðning í seinni heimsstyrjöldinni, en samverkamenn voru því andsnúnir þar sem án samráðs við Indverja var Indland gert að stríðsaðila. Gandhi varði tveimur árum í fangelsi frá 9. ágúst 1942. Sjálfstæði og sundrung Indlands. Að fengnu sjálfstæði sögðu múslimar skilið við hindúa og stofnuðu sérstakt ríki, Pakistan 14. ágúst 1947 var það í óþökk Gandhis. Indverjar fögnuðu sjálfstæði sínu degi síðar eða 15. ágúst 1947. Morðið. Þann 30. janúar 1948 var Gandhi ráðinn af dögum, tilræðismaðurinn var hinn róttæki hindúi, Nathuram Godse. "„Friends and comrades, the light has gone out of our lives, and there is darkness everywhere, and I do not quite know what to tell you or how to say it. Our beloved leader, Bapu as we called him, the father of the nation, is no more. Perhaps I am wrong to say that; nevertheless, we will not see him again, as we have seen him for these many years, we will not run to him for advice or seek solace from him, and that is a terrible blow, not for me only, but for millions and millions in this country.“" Ambrose Bierce. Ambrose Gwinnett Bierce (24. júní 1842, Horse Cave Creek, Meigs County, Ohio, BNA – dánardagur er óljós, hugsanlega í desember 1913 eða snemma árið 1914, líklegast í Mexíkó) var bandarískur háðsádeiluhöfundur, gagnrýnandi, skáld, smásöguhöfundur, ritstjóri og blaðamaður. Hann er frægur fyrir skýran og tilfinningalausan stíl. Ofsafengin, myrk og háðsleg gagnrýni hans ávann honum gæluheitið „bitri Bierce“. Svo lotningarfullt var orðspor Bierce að sumir menn hræddust gagnrýni hans á samtímaritverkum því hún gat ráðið um það hvort rithöfundurinn gat haldið áfram iðju sinni eða ekki. Tenglar. Bierce, Ambrose Bierce, Ambrose Bierce, Ambrose Bierce, Ambrose Bierce, Ambrose Bierce, Ambrose Bierce, Ambrose Sjávarútvegur á Íslandi. Færibandavinna í fiskvinnslustöð HB Granda í Reykjavík. Sjávarútvegur á Íslandi er atvinnuvegur á Ísland i sem nýtir sjávarfang til manneldis og dýraeldis. Sjávarútvegur fæst einnig við rannsóknir í haffræði, fiskifræði, fiskveiðar, matvælavinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Sjávarútvegur er því margþættur þó að lokamarkmiðið sé að selja fiskafurðir. Með stjórnsýslu sjávarútvegsmála fer Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Sjávarútvegur hefur verið mikilvæg atvinnugrein á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar, en einhverjar gjöfulustu veiðislóðir í Norður-Atlantshafi eru í íslenskri lögsögu. Sjávarútvegur átti þátt í að breyta Íslandi frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun 19. aldar í eina af efnuðustu þjóðum heims um aldamótin 2000. Úr hafinu kom ekki einungis matur á borð Íslendinga því fiskurinn hefur einnig verið verðmæt útflutningsvara og er það enn. Sjávarútvegur stendur nú fyrir 40% útflutningsverðmæta landsins, ríflega 12% af vergri landframleiðslu og sér um það bil 7% íbúanna fyrir atvinnu. Saga íslensks sjávarútvegs snýst þó ekki einungis um efnahagslega velferð, heldur hefur sjávarútvegur skipað stóran sess í íslenskri menningu og arfleifð. Saga. Fiskvinnslukonur á Kirkjusandi í kringum 1910-1920. Vegna landafræðilegrar staðsetningar Íslands og hrjóstrugs landslags hafa Íslendingar þurft að reiða sig á fiskveiðar og útgerð. Fiskveiðar hófust um leið og norrænir menn námu land við Ísland á níundu öld okkar tímatals. Fátt hefur skipt Íslendinga eins miklu máli í gegnum aldirnar eins og fiskurinn í sjónum. Aflinn sem veiddur var nýttist ekki einungis til matar heldur keyptu Englendingar, Frakkar, Þjóðverjar og Baskar afla af Íslendingum fyrir gott verð. Íslenskt hákarlalýsi lýsti hér áður fyrr upp stórborgir Evrópu. Árabátaöld, skútuöld og vélaöld. Sögu sjávarútvegsins er oft skipt upp í þrjú skeið: árabátaöld, skútuöld og vélaöld. Á árabátaöld voru bátar þjóðarinnar mun verr búnir miðað við skip nútímans. Þeir voru opnir og handknúnir og allur aðbúnaður sem þykir sjálfsagður í dag, ekki til þá. Árabátaöldin er langlengsta tímabilið, en það spannar allt frá upphafi byggðar og að fyrsta áratug 20. aldar. Helstu tegundir árabáta sem útgerðir notuðust við voru sexæringar, áttæringar, teinæringar og tólfæringar. Skútuöldin hófst á áttunda áratug 18. aldar og stóð í um það bil 130 ár. Blómaskeið tímabilsins var á seinnihluta 19. aldar og fór svo að minnka á fyrri hluta 20. aldar og voru síðustu skipin gerð út á árunum 1926-1927. Vélaöldin hófst árið 1902 þegar að vél var sett í sexæring á Ísafirði. Árið 1905 var til einn svokallaður togari á Íslandi og var hann undir 50 brúttórúmlestir. Menn tóku þessu tímabili almennt fagnandi, þetta þýddi að hægt var að auka fiskmagn úr sjó og sækja fiskinn á fleiri mið. Fólk fékk mun meiri vinnu við aukinn afla og Íslendingar fóru einnig að flytja ferskan fisk út til Bretlands þar sem hann var seldur á mörkuðum. Fyrsti togarinn var keyptur frá Englandi og var hann nefndur Coot, en hann strandaði þremur árum eftir að hann var keyptur. Eftir að fyrsti togarinn var fluttur inn byrjuðu fleiri útgerðir að flytja inn togara og fjölgaði þeim jafnt og þétt. Í kringum 1915 voru togararnir komnir vel yfir 20 og í kringum 1930 voru þeir orðnir 42 talsins. Heildarfjöldi vélknúinna skipa árið 2007 var 1.642 skip/bátar. Stjórnskipulag fiskveiðikerfis. Fiskveiðistjórnun á Íslandi hefur þróast í áföngum alla 20. öldina. Allt frá árinu 1901 og til ársins 1976 háðu Íslendingar baráttu um forræði yfir fiskimiðum sínum. Má segja að þeir hafi lítið getað stjórnað sókn í mikilvæga fiskistofna þar til því takmarki var náð árið 1976, er 200 mílna fiskveiðilandhelgin gekk í gildi. Áratugirnir síðan þá hafa einkennst af aðgerðum er hafa miðað að því að móta stjórnkerfi fiskveiða með það að leiðarljósi að þær séu í senn hagkvæmar og sjálfbærar hvað nýtingu auðlindanna varðar.Merki ábyrgra fiskveiða er auðkennismerki íslenskra sjávarafurða. Kvótakerfið. "Aðalgrein: Íslenska kvótakerfið" Íslenska kvótakerfið er fiskveiðistjórnunarkerfi sem segir til um það hversu mikið íslenskir sjómenn eða íslenskar útgerðir mega veiða af hverri fisktegund á tilteknu tímabili. Aðalmarkmið kerfisins er að sporna gegn ofveiði á nytjastofnum. Vísindalegt mat á sjávarauðlindum og ráðgjöf um aflamark úr hverjum stofni eru grundvöllur leyfilegs heildarafla sem stjórnvöld ákveða árlega fyrir hvern stofn. Veiðar á öðrum stofnum en þeim sem hafa aflamark eru ekki takmarkaðar eða eru ekki stundaðar. Lög nr. 38/1990, breytt með lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða eru hornsteinn þess stjórnkerfis sem nú er unnið eftir. Með þeim var lögfest aflamarkskerfi í þeim tegundum sem veiðar eru takmarkaðar á. Framseljanlegar aflaheimildir fyrir flestar veiðar eru þá ákveðnar og veiðiheimildunum úthlutað árlega til einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeilda þeirra í viðkomandi tegund. Kvóti skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst þannig af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla. Aflamarkið má flytja á milli skipa og framselja það á önnur skip en með nokkrum takmörkunum. Lögin um stjórn fiskveiða hafa tekið nokkrum breytingum frá því að þau tóku gildi í janúar 1991.Fjölveiðiskipið "Áskell EA 48" (nú "Birtingur NK") í Seyðisfirði. Ábyrgð á stjórn fiskveiða ber sjávarútvegsráðherra og framkvæmd laga og reglugerða er lúta að þeim. Hann ákveður heildarafla að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun er miðstöð vísindalegra rannsókna á nytjastofnum og ber ábyrgð á ráðgjöf um árlegan hámarksafla úr þeim stofnum sem veiðar eru takmarkaðar á. Þá annast Fiskistofa eftirlit og framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og Landhelgisgæslan löggæslu á miðunum. Kvótakerfið hefur alla tíð verið mjög umdeilt og hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir að ýta undir brottkast og að kippa undirstöðunum undan sjávarþorpum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Skip, bátar og veiðarfæri. Fiskiskip eins og nafnið gefur til kynna eru öll þau skip sem stunda einhvers konar fiskveiðar. Þetta eru smábátar, bátar, dragnótabátar, netaskip, skuttogarar, uppsjávarskip og fjölveiðiskip. Heildarfjöldi skipa við Ísland árið 2007 voru 1.642 fiskiskip. Af þeim voru 84 togarar, 744 voru smábátar og restin skiptist á milli hinna flokkana. Af heildarverðmætum afla ársins 2007 voru togarar með 41% af verðmætum en smábátar með einungis 1%, á meðan 58% skiptust síðan á aðrar bátagerðir.a>. Íslenski veiðiflotinn er einstaklega tæknilega þróaður og er notast við fjölbreytilega tækni og veiðarfæri. Veiðarfærunum er aðallega skipt í sjö flokka: handfæri, línu, net, dragnót, hringnót, botnvörpu eða –troll og flotvörpu eða –troll. Þó veiðarfærin séu flokkuð í svona fáa flokka eru til ótal afbrigði af hverju veiðarfæri fyrir sig. Hringnætur og nú nýlega flottroll hafa stærsta aflann, þar sem sóst er eftir uppsjávarfiskum í fáum en fjölmennum torfum. Sá afli er oft um 2/3 hlutar heildarafla, þó ekki af aflaverðmætum þar sem uppsjávarfiskurinn er mun verðminni en bolfiskurinn. Aflahæsta veiðarfærið er botnvarpan með 40%-50% af aflaverðmætum og næst á eftir koma línuveiðarnar. Fyrir utan veiðar á humri eru veiðar á hryggleysingjum frekar litlar bæði í verði og afla. Nytjastofnar við Ísland. Eftirfarandi eru nytjastofnar innan efnahagslögsögu Íslands. Fyrirtæki. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki skuldsettu sig mikið á árunum rétt fyrir bankahrunið á Íslandi 2008. Í einni fræðilegri úttekt var sýnt fram á að í árslok 1997 hafi nettóskuldir íslensks sjávarútvegs verið 892 millj. SDR eða 87 ma. ISK en í árslok 2008 hafi þær verið 2.473 millj. SDR sem þá var 465 ma. ISK. Þetta er því 437% hækkun eða rúmlega 5-földun á skuldum í ISK en 177% hækkun í SDR. Því er ljóst að efnahagsleg staða greinarinnar hefur stórversnað á þessu tímabili. Hér að neðan má sjá tíu stærstu útgerðir á Íslandi árið 2009. Markaðir. Kort af löndum eða svæðum með fiskveiðisamkomulag við ESB. Framleiðsla á íslenskum sjávarafurðum er blanda af hefðbundnum- og nútíma sjávarréttamatseðli á heimsvísu. Hefðbundnir sjávarréttir samanstanda af söltuðum og reyktum afurðum fyrir markaði sem meta hvort tveggja mikils, bæði í hversdagslega rétti og fyrir veisluhöld. En þar sem nútímamaðurinn óskar bæði eftir ferskum og frystum afurðum sem uppfylla kröfur um bragð og heilsusamlegt líferni, sér fiskmarkaðurinn um að útvega hvoru tveggja. Hinn íslenski nútímafiskiðnaður flytur út vörur fyrir um það bil 170 milljarða íslenskra króna. Stærsti hlutinn fer á Evrópumarkað þar sem Bretlandseyjar og Spánn eru stærstu kaupendurnir. Verulegur hluti er líka fluttur út til annarra Evrópuríkja, Ameríku, Asíu og Afríku. Íslenskar vörur eru þekktar sem hágæðavörur og hefur skapað sér hefð á þessum mörkuðum. Helsta sérkenni íslenskra sjávarafurða er rekjanleiki sem hinn íslenski fiskmarkaður hefur komið á fót. Það þýðir að neytandinn getur vitað hvenær og hvar fiskurinn sem hann var að kaupa veiddist. Einnig er sérstök áhersla lögð á að kynna fiskveiðarnar sem sjálfbærar veiðar, að ekki sé að ganga á fiskistofnanna við Íslandsstrendur. Meira en helmingur af útflutningsverðmætum sjávarútvegs eru botnfisktegundir, þá aðallega þorskur en þónokkur hluti er unninn úr ýsu, ufsa og karfa. Framleiðsla úr úthafsfiskitegundum og hryggleysingjum er um það bil jöfn og stendur hún fyrir stærstum hluta af því sem eftir er. Síðastliðin ár hefur hluti þeirrar fyrrnefndu aukist á meðan útflutningur á hryggleysingjum hefur dregist saman. Fiskeldi. Sjókvíar í Brønnøysund í Noregi. Fiskeldi á Íslandi hófst nokkru fyrir 1900 en lét lítið fyrir sér fara þar til á seinni hluta níunda áratugarins. Þá hófst mikil uppvaxtartíð í ræktun laxfiska. Rekstur fiskeldisstöðvanna gekk þó brösulega og flestar þeirra urðu gjaldþrota. Árið 2008 voru um 50 skráðar fiskeldisstöðvar á landinu. Nú eru um tíu tegundir eldisfiska ræktaðar en bleikja er í miklum meirihluta. Útflutningur fiskeldisafurða náði hámarki árið 2006 þegar yfir 5.000 tonn voru flutt út fyrir andvirði tveggja milljarða íslenskra króna. Árið 2008 minnkaði útflutningurinn um 2.000 tonn. Bandaríkin hafa til þessa verið stærsti kaupandi íslenskra eldisfiska. Sýkingar. Fiskar fá sjúkdóma, rétt eins og aðrar lífverur. Fiskasjúkdómar geta valdið miklum skaða í fiskeldi eða skrautfiskaræktun. Sjúkdómar í fiski eru flokkaðir eftir ástæðu í bakteríusýkingar, sveppasýkingar, sníkla (t.d. hringorma), vírussjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, sjúkdóma af völdum ástands vatnsins (umhverfissjúkdómar) og skortssjúkdóma eða eftir þeim líffærum sem verða fyrir sjúkdómnum. Meðferð við sjúkdómum í fiski er með ýmsum hætti og fer eftir bæði sjúkdómnum og umhverfisaðstæðum. Haustið 2008 greindist töluvert magn af sýktri síld við strendur landsins. Þar var um að ræða sýkil sem dregur síldina til dauða. Sumarið 2009 var talið að um 30% síldarinnar væri enn sýkt. Ofveiði. Of mikilli sókn eða svonefndri ofveiði er oftast kennt um eyðingu fiskstofna. Ofveiði verður þó að teljast vera mjög teygjanlegt hugtak. Það sem talið er skipta höfuðmáli í sambandi við eyðingu fiskstofna er ástand sjávar eða árferði, smáfiskadráp svonefnt og of mikil sókn miðað við aðstæður. Þegar ofveiði er við lýði í lengri tíma, veldur hún á endanum hruni fiskistofns þar sem tegundin nær ekki að fjölga sér nógu hratt til að vega á móti fiskveiðidauðanum. Þegar fiskur verður markaðslega útdauður, þýðir það ekki að tegundin sé sjálf útdauð heldur að ekki sé lengur hægt að stunda sjálfbærar veiðar á tegundinni. Vandamál skapast þegar slíkar veiðar eru styrktar (t.d. af ríkinu eða ESB) þegar þær eru ekki lengur arðsamar og er því áfram gengið á stofn sem hefði annars fengið að vera í friði til að ná sér upp aftur. Mengun. Fjölmörg náttúruleg og tilbúin efni berast út í umhverfið vegna athafna mannsins og geta valdið mengun. Þar á meðal eru náttúruleg frumefni og efnasambönd sem hafa eiturvirkni eða valda röskun á lífríki við aukinn styrk. Enn fremur framleiða menn í iðnvæddum samfélögum fjölmörg lífræn efnasambönd sem ekki fundust í óraskaðri náttúru. Mengandi efni geta borist hafinu eftir ýmsum leiðum: með ám og fljótum, með úrkomu, með loftbornu ryki, með skólpi frá þéttbýli og frárennsli iðnaðar og frá skipum, annað hvort við losun eða vegna slysa. Klórlífræn efni. Notagildi margra klórlífrænna efna byggist á stöðugleika þeirra, en það er einmitt sá eiginleiki sem veldur því að efnin brotna seint niður í náttúrunni. Vegna þrávirkni og fituleysni klórlífrænna efna safnast þau fyrir í lífverum og styrkur þeirra getur margfaldast eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni. Meðal klórlífrænna efna eru meðal annars eitthvert sterkasta eitur sem þekkist eða dioxin, og hið þekkta PCB. Þungmálmar. Margir þungmálmar eru nauðsynlegir starfsemi lífvera en geta haft eiturverkan verði styrkur þeirra óeðlilega hár. Sem dæmi má nefna kopar og sink. Blý, kvikasilfur og kadmín gegna hins vegar engu nauðsynlegu hlutverki í lífríkinu. Þessir málmar geta verið skaðlegir mönnum og lífríki jafnvel við lágan styrk í fæðu og umhverfi. Sjávarlíftækni. a>, eina íslenska skólanum sem býður upp á nám til B.Sc. gráðu bæði í líftækni og sjávarútvegsfræði. Sjávarlíftækni er undirgrein líftækni og hvílir því á grunni örverufræði, lífefnafræði, erfðafræði, sameindaerfðafræði og verkfræði. Líkt og í líftækni almennt, þá eru markmið sjávarlíftækninnar að finna og einangra lífvirk efni úr sjávarlífverum, nýta aukaafurðir sjávarútvegs og fiskvinnslu til verðmætasköpunar og nýta sjávarlífverur til framleiðslu lyfja og annarra verðmætra afurða. Höfin þekja um 71% af yfirborði plánetunnar og umlykja 99% af lífhvolfinu. Í hafinu er að finna fjölbreyttar aðstæður hvað varðar hitastig, birtu, þrýsting, seltu og sýrustig, en allt eru þetta umhverfisaðstæður sem máli skipta fyrir vöxt og viðgang hinna ýmsu lífvera hafsins. Af þessum sökum er tegundasamsetning lífheims hafsins afar fjölbreytt og hefur raunar aðeins hafa verið rannsökuð að takmörkuðu leyti. Þess má geta að aðeins er talið að um 1% lífvera í höfunum séu að einhverju eða öllu leyti rannsakaðar og að einungis um 5% af höfum jarðar hafa verið rannsökuð. Í rauninni er meira vitað um tunglið en höfin. Nýting aukaafurða. Reynt er að finna hagkvæm not fyrir úrgang sem fellur til við vinnslu á sjávarfangi. Í nýtingu sjávarfangs og úrgangs frá sjávarútvegi til framleiðslu lífvirkra efna er oft notast við bakteríur til framleiðslunnar. Gjarnan eru á ferðinni sjávarbakteríur sem hafa verið einangraðar sérstaklega vegna sérhæfni þeirra eða erfðabreyttar bakteríur sem hafa aukna getu til vinnslu lífvirkra efna. Að nýta bakteríur til þessara hluta er mjög ódýr kostur og að mörgu leyti hagkvæmari en nýting efnafræðilegra aðferða. Til langs tíma var einungis horft til nýtingar á stærri sjávarlífverum svo sem fiskum og þara. Ný sóknarfæri hafa hinsvegar skapast þegar litið er til annarra lífvera sem þrífast í hafinu. Þetta leiðir af sér gríðarleg tækifæri til að finna lífverur sem geta framleitt — eða innihalda sjálfar — efni sem nýtast í lyfjaiðnaði og fela hugsanalega í sér lækningu við sjúkdómum sem mannkynið hefur barist við lengi. Sjávarlíftækni er tiltölulega ný af nálinni og því gríðarlegir möguleikar í boði. Í Japan og Bandaríkjunum er mikil aukning á fjármagni til rannsókna á þessu sviði. Á Íslandi hefur þetta farið stigvaxandi síðustu 10 til 20 árin. Þar er nú að finna fjölmörg smáfyrirtæki sem sérhæfa sig að einhverju eða öllu leyti í iðnaði nátengdum sjávarlíftækni. Afurðirnar eru svo nýttar í ýmsan iðnað þó svo að stærsti markhópurinn sé lyfja-, fæðubótarefna- og snyrtivöruiðnaðurinn. Tenglar á íslenskar upplýsingasíður. Íslenskur sjávarútvegur Alexander mikli. Alexander mikli (á grísku: Μέγας Αλέξανδρος eða Αλέξανδρος Ο Μέγας, umritað: "Megas Alexandros", uppi júlí 356 – 10. júní 323 f.Kr.), eins og hann er ávallt nefndur, var konungur Makedóníu árin 336 – 323 f.Kr. Á meðan hann gengdi því embætti stækkaði hann veldi Makedóníumanna í eitt það stærsta sem sögur fara af. Veldi hans náði þegar það var stærst frá Grikklandi í vestri, suður yfir Egyptaland, austur að ánni Indus þar sem í dag er Pakistan og norður inn í mið-Asíu. Hann komst til valda tvítugur, þegar faðir hans var myrtur. Þá þegar hóf hann að stækka veldi sitt. Hann hélt því áfram til æviloka, en hann lést úr hitasótt í Babýlon árið 323 f.Kr., aðeins 32 ára að aldri. Í kjölfar andláts hans liðaðist veldið á ný í sundur í nokkrar einingar, oftast undir stjórn einhverra hershöfðingja úr her hans. Þó að veldi Alexanders hafi staðið stutt hafði það mikil og langvarandi áhrif en það dreifði grískættaðri menningum um öll miðausturlönd allt austur að Indlandi. Þá er talað um að með veldi hans hafi helleníska skeiðið í sögu miðausturlanda og sögu vestrænnar menningar hafist sem varði allt til þess þegar Rómverjar náðu Egyptalandi á sitt vald árið 31 f.Kr. Alexander stofnaði yfir 70 borgir sem báru nafn hans, til dæmis Alexandría í Egyptalandi, Kandahar í Afganistan (áður Alexandropolis) og Alexandra Echate í Tadsjikistan. (sjá í bókina Íslands- og mannkynssaga NB1 - frá upphafi til upplýsingar) Uppvaxtarár. Alexander fæddist sjötta dag forngríska mánaðarins Hekatombaion, sem samvarar líklegast 20. júlí 356 f.Kr., þótt nákvæm dagsetning sé ekki þekkt. Hann fæddist í Pella, höfuðborg Makedóníu til forna. Hann var sonur konungs Makedóníu, Filippos II og fjórðu konu hans Olympías, dóttur Neoptolemosar I konungs í Epíros. Á deginum sem Alexander fæddist var Filippos II að undirbúa umsátur borgarinnar Potidea á skaganum Kalkidike. Á þessum sama degi fékk Filippos fréttir um að hershöfðinginn hans Parmenion hafði sigrað sameinaðan her Illyríu og Paeoníu. Jafnframt sigruðu hestar hans á Olympíuleikunum. Einnig hefur verið sagt að á þessum degi hafi Artemismusterið í Efesos, eitt af Sjö undrum veraldar, brunnið til grunna. Þetta leiddi til þess að Hegesias af Magnesíu sagði að það hafi brunnið vegna þess að Artemis hafði ekki verið á staðnum, heldur að hann hefði verið við fæðingu Alexanders. Slíkar goðsagnir hafa komið fram þegar Alexander var konungur, mögulega af hans eigin frumkvæði, til að sýna að hann væri ofurmenni og að honum væri ætlað stórvirki alveg frá getnaði. Á uppvaxtarárum Alexanders var hann uppalinn af fóstrunni Laníku, systur Kleitosar svarta sem varð síðar herforingi Alexanders. Síðar var Alexander kennt af hinum stranga Leonídasi, ættingja móður hans og af herforingja Filipposar, Lýsimakkosi. Þegar Alexander var tíu ára keypti kaupmaður frá Þessalíu hest fyrir Filippos, sem hann bauðst til að selja fyrir þrettán talentur. Engum tókst að temja hestinn svo Filippos skipaði að fjarlægja hestinn. Alexander hins vegar, sem sá að hesturinn hræddist skugga sinn, bað um að temja hestinn, sem honum tókst að lokum. Plútarkos sagði að Filippos, sem var hæstánægður með hugrekki og metnað sonar síns, kyssti hann með tár í auganum og sagði: „Drengur minn, þú verður að finna ríkidæmi sem er nægilega stórt fyrir metnað þinn. Makedónía er of smá fyrir þig“ og keypti hestinn fyrir hann. Alexander nefndi hestinn Búkefalos, sem merkir „uxa-höfuð“. Búkefalos bar Alexander að Pakistan. Þegar dýrið dó (vegna hás aldurs, samkvæmt Plútarkosi, 30 ára gamall), nefndi Alexander borg eftir honum Búkefala. Heimildum fer ekki saman um hvar hann sé grafinn. Í ævisögu Alexanders eftir Plútarkos og "Anabasis Alexandri" eftir Arríanos er sagt að Búkefalos hafi dáið eftir orrustuna við Hydaspes 326 f.Kr., þar sem nú er Pakistan og sé grafinn í Jalalpur Sharif rétt utan við borgina Jhelum í Pakistan. Aðrar heimildir gefa upp að Búkefalos sé grafinn í Phalia, borg í Mandi Bauhaddin héraðinu í Pakistan sem er nefnd eftir honum. Unglingsár og menntun. Þegar Alexander var þrettán ára byrjaði Filippos að leita að lærimeistara. Hann íhugaði fræðimennina Ísókrates og Spevsippos en sá síðari bauðst til að taka stöðunni. Á endanum valdi Filippos Aristóteles og veitti þeim aðgang að Dísahofinu í Mieza. Í skiptum fyrir að kenna Alexander samþykkti Filippos að endurbyggja heimabæ Aristótelesar, Stageira, sem Filippos hafði látið jafna við jörðu, og að fá fyrrum íbúa þess aftur til borgarinnar með því að frelsa íbúa sem voru þrælar eða að veita þeim náð sem voru í útlegð. Mieza var eins og heimavistaskóli fyrir Alexander og börn merkra Makedóníumanna, eins og Ptolemajos, Hefæstíon og Kassandros. Margir þessara nemenda urðu síðar vinir hans og hershöfðingjar framtíðarinnar. Aristóteles kenndi Alexander og vinum hans lyfjafræði, heimspeki, siðfræði, trúarbragðafræði, rökfræði og list. Undir leiðsögn Aristótelesar varð Alexander áhugasamur um verk Hómers og þá sérstaklega Ilíonskviðu. Aristóteles gaf honum eintak sem Alexander tók með sér í herleiðangra. George J. Stigler. George Joseph Stigler (17. janúar 1911 - 1. desember 1991) var bandarískur hagfræðingur, einn Chicago-hagfræðinganna svonefndu. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1982 og var einn af stofnendum Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna, 1947. Stigler fæddist í Seattle í Washington-ríki. Foreldrar hans voru innflytjendur frá Þýskalandi og Austurríki. Faðir hans hafði verið bruggari, en eftir að áfengisbann tók gildi í Bandaríkjunum, sneri hann sér að húsaviðgerðum. Stigler stundaði nám í Washington-háskóla, Norðvesturháskólanum (Northwestern University) og Chicago-háskóla, en þaðan lauk hann doktorsprófi í hagfræði 1938. Hann varð þar eins og fleiri nemendur fyrir miklum áhrifum frá Frank H. Knight, sem var í senn efagjarn og frjálslyndur. Stigler kenndi síðan í ýmsum háskólum, þar á meðal Minnesota, Brown og Columbia, uns hann gerðist 1958 prófessor í Chicago-háskóla. Hann var afkastamikill fræðimaður, en aðallega kunnur fyrir rannsóknir sínar á eðli og afleiðingum margvíslegra ríkisafskipta. Hann skrifaði margt um sögu hagfræðikenninga, en líka um kostnaðinn af upplýsingaöflun (e. economics of information). Stigler var kvæntur, og áttu þau hjón þrjú börn. Ein helsta niðurstaða rannsókna Stiglers var, að hagsmunaaðilar, sem sæta opinberu eftirliti, til dæmis til tryggingar óheftri samkeppni, nái ósjaldan yfirráðum, beint eða óbeint, yfir eftirlitsstofnununum sjálfum, svo að eftirlitið þjóni ekki yfirlýstum tilgangi sínum. Þótt Stigler væri eindreginn frjálshyggjumaður og forseti Mont Pèlerin-samtakanna 1976-1978, taldi hann, að engu yrði þokað með prédikunum, heldur aðeins með vandlegum samanburði á ólíkum afleiðingum markaðsviðskipta og ríkisafskipta. Sýna yrði fram á, að ríkisafskiptin væru fáum sem engum í hag, þegar til lengdar léti. Þeir Stigler og vinur hans og starfsbróðir, Milton Friedman, rökræddu alla tíð um áhrifamátt hugmynda. Stigler hélt því fram, að hagsmunir skiptu miklu meira máli. Hann spurði: Hvort skyldi innflutningstollur á kornmeti í Bretlandi á 19. öld hafa verið lækkaður vegna þess, að valdsmenn höfðu lesið rit Adams Smiths, eða vegna þess, að neytendur kornmetis urðu öflugri hagsmunahópur en framleiðendur þess? Tenglar. Stigler, George J. Handan góðs og ills. "Handan góðs og ills: Forleikur að heimspeki framtíðar" (á frummáli: "Jenseits von Gut und Böse: Vorspiel einer Philosophie der Zukunft") er heimspekiritverk eftir Friedrich Nietzsche sem kom fyrst út 1886 á þýsku. Útgáfa verksins var fjármögnuð í fyrstu af Nietzsche sjálfum en það þótti ekki merkilegt á sínum tíma. Í því fjallar Nietzsche um það sem hann kallar fordóma heimspekinga og hafnar þeim grunnhyggnu (kristnu) siðferðisreglum sem eiga að hafa blindað þá í hugsun og gagnrýni. Hann fjallar um frjálsan vilja, trúmál og ýmislegt fleira sem viðkemur meintum fordómum heimspekinganna og talar um "nýju heimspekinganna" og "nýju heimspeki" þeirra sem væru þá lausir við slíka fordóma. Ritið hafði áhrif á tilvistarstefnu 20. aldar eins og flest rit hans. Verkið hefur verið gefið út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi í íslenskri þýðingu Þrastar Ásmundarsson og Arthúrs Björgvins Bollasonar. Silvía Nótt. Silvía Nótt er persóna í þáttunum Sjáumst með Silvíu Nótt sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Persónan er leikin af Ágústu Evu Erlendsdóttur leik- og söngkonu. Persónan er nokkurs konar háðsádeila á þá staðalímynd sem stundum er kölluð gelgja (hugtak sem notað er um unglinga á gelgjuskeiði en oft einnig til að lýsa ákveðinni staðalímynd) og einkennist af frekju, hroka, kækjum, eigingirni, málspjöllum og þjarki. Silvía Nótt tekur í þáttunum viðtöl við ýmsa þekkta einstaklinga og spyr oftast dónalegra og nærgöngulla spurninga en viðtalið endar oft á umræðu sem snýst um Silvíu sjálfa. Einnig gerir hún sér upp sambönd við frægt fólk og talar opinskátt um það til að upphefja sjálfa sig. Silvía Nótt byggir á hugmyndinni um fávísa spyrilinn (sbr. Ali G. og Johnny Naz) sem læst vera heimskur og nýtir sér sókratíska kaldhæðni til að draga fram veikleika í afstöðu viðmælandans. Það sem einkennir Silvíu Nótt er þó fremur takmarkalítil sjálfhverfa þar sem viðfangsefni ádeilunnar er íslenska stjörnukerfið og fjölmiðlar. Viðmælandinn verður þannig nokkurs konar leikmunur í sýningu sem snýst um þáttarstjórnandann sjálfan, fremur en að afstaða hans eða verk skipti nokkru máli. Eurovision. Árið 2006 var lag Silvíu Nætur (má einnig beygja sem Nóttar) kosið sem framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) sem haldin var í Aþenu í Grikklandi. Miklar deilur spunnust út af því þegar lag Silvíu lak á netið, en samkvæmt reglum RÚV mega lög keppninar ekki fara í spilun fyrr en eftir frumflutning þeirra í beinni útsendingu. Kristján Hreinsson lagði fram stjórnsýslukæru á hendur RÚV, en henni var vísað frá. Páll Magnússon útvarpsstjóri RÚV tók þá ákvörðun að dæma Silvíu ekki úr keppni. Vegna alls þess fjaðrafoks sem varð vegna lekans verða reglur nú líklegast endurskoðaðar. Þar verður að öllum líkindum komist að þeirri niðurstöðu að dreifing á internetinu geti ekki talist til opinbers flutnings. Silvía Nótt fékk 70.190 greidd atkvæði í úrslitum forkeppninar sem sýnd var á RÚV 18. febrúar, en lögin í öðru og þriðja sæti fengu 30.018 og 9.942 atkvæði. Lagið heitir "Til hamingju Ísland" en höfundur þess er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Textann samdi Silvía sjálf og er af mörgum talinn gegnsýrður af sjálfsdýrkun og lýsingum á eigin ágæti. Silvía Nótt flutti lagið "Til hamingju Ísland" í staðfærðri útgáfu á ensku undir nafninu "Congratulations" í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Aþenu 18. maí 2006. Lagið fékk slæma útreið og komst ekki áfram í úrslit keppninnar. Í fyrsta sinn í sögu keppninnar var púað á keppanda "áður" en hann tók til söngs, þó að árið 1981 hafi framlag Breta verið púað af sviði. Haukur Gröndal. Haukur Gröndal (fæddur 30. desember 1975 í Reykjavík) er klarínett- og saxófónleikari, útsetjari og tónsmiður. Hann nam við Tónlistarskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla FÍH á árunum 1984 – 1997. Kennarar hans við FÍH voru meðal annarra Sigurður Flosason og Stefán S. Stefánsson. Haukur tók burtfararpróf frá Tónlistarskóla FÍH vorið 1997. Árið 2004 lauk Haukur mastersgráðu í saxófónleik frá Rytmisk Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Kennarar hans þar voru meðal annarra Frederik Lundin og Lars Möller. Haukur sótti einkatíma í New York 2001 og 2003 hjá meðal annarra Chris Speed, David Binney og David Kraukauer, Helsinki 2003 og Plovdiv í Búlgaríu 2006 hjá klarínettleikaranum Petko Radev. Haukur hefur komið fram á tónleikum um öll Norðurlönd með ýmsum hljómsveitum, hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna tvívegis, leikið inná fjölmargar hljómplötur, unnið við upptökustjórn, útsett fyrir ýmsar hljómsveitir og svo mætti lengi telja. Haukur er bróðir Ragnheiðar Gröndal, söngkonu. Ragnheiður Gröndal. Ragnheiður „Ragga“ Gröndal (f. 15. desember 1984) er söngkona, píanóleikari og lagasmiður. Hún hóf ung tónlistarnám í Tónlistarskóla Garðabæjar, fyrst á blokkflautu og svo á píanó. Lauk 5 stigum í klassískum píanóleik. Eftir það lá leiðin í Tónlistarskóla FÍH þar sem hún hóf nám í jazzsöng og lauk burtfararprófi vorið 2005. Samhliða söngnáminu tók hún 6 stig í jazzpíanóleik. Veturinn 2005 - 2006 stundaði Ragnheiður nám í klassískum píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík. Ragnheiður hefur einnig verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi og sent frá sér fjórar sólóplötur; "Ragnheiður Gröndal" árið 2003, "Vetrarljóð" árið 2004, "After the Rain" árið 2005 og "Þjóðlög" árið 2006. Hún hefur einnig sungið inn á plötur fyrir Jón Ólafsson, Hauk Gröndal, bróður sinn, og hljómsveitina Ske. Ragnheiður er handhafi Íslensku tónlistarverðlaunanna og fékk m.a. verðlaun fyrir bestu plötuna og var valin söngkona ársins árið 2004. Hún hefur komið fram víða og spilað meðal annars á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku 2003 og Copenhagen Jazzfestival 2005. Charles de Gaulle. Charles André Joseph Marie de Gaulle (22. nóvember 1890 – 9. nóvember 1970), sem í heimalandi sínu, Frakklandi, var iðulega kallaður "général de Gaulle", var marskálkur og stjórnmálamaður. Hann leiddi hið frjálsa Frakkland í seinni heimsstyrjöldinni og var í forustu frönsku ríkistjórnarinnar 1944-1946. Leitað var til hans um myndun ríkisstjórnar 1958. Hann vann að gerð nýrrar stjórnarskrár, stjórnarskrá fimmta lýðveldisins, og varð fyrsti forseti fimmta lýðveldisins 1958-1969. Stjórnmálaleg hugmyndafræði hans er þekkt sem gaullismi og hefur verið áberandi í frönskum stjórnmálum. Fyrstu sporin. De Gaulle fæddist í Lille í frönskum hluta Flæmingjalands. Faðir hans, Henri De Gaulle, sem var háskólaprófessor í heimspeki og bókmenntum var af góðum ættum. Fjölskylda hans voru trúaðir kaþólikkar. Á yngri árum menntaðist Charles í París og Belgíu en hann útskrifaðist frá þekktum frönskum herskóla Saint-Cyr árið 1912. Hann særðist alvarlega í orrustunni við Verdun 1916, var skilinn eftir meðal fallinna félaga og var tekinn höndum af Þjóðverjum. Hann gerði fimm misheppnaðar tilraunir til að flýja úr fangabúðunum. Að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni gerðist hann sjálfboðaliði í franskri herdeild sem fór til Póllands til að berjast við Sovíetmenn 1919-1920. Honum hlotnaðist virðingarmesta viðurkenning pólska hersins, Virtuti Militari og gerðist major í pólska hernum. De Gaulle bauðst frekari frami innan pólska hersins en hann ákvað heldur að snúa heim, hugfanginn af notkun skriðdreka í hernaði. Hann skrifaði um hugmyndir sínar um heri framtíðarinnar en skoðanir hans féllu ekki í kramið hjá yfirmönnum franska hersins. Seinni heimsstyrjöldin. Þegar Þjóðverjar sóttu fram í seinni heimsstyrjöldinni og höfðu komist hjá Sedan þann 15. maí 1940 fram hjá helstu varnarlínu Frakka, var de Gaulle gerður að yfirmanni innan hersins. Þann 28. maí hindraði de Gaulle framrás Þjóðverja og þáverandi forsætisráðherra Frakklands Paul Reynaud gerði de Gaulle að marskálk. Þann 16. júní kom hann til Bordeaux frá London eftir að hafa reynt að semja við Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, og bresk stjórnvöld um samstarf í baráttunni gegn Þjóðverjum. Þar frétti hann að Philippe Pétain leiddi nú stjórn Frakka og leitaði eftir því við Þjóðverja að koma á vopnahléi. Samdægurs ákvað hann að hann myndi ekki líða þá niðurlægingu Frakka að gefast upp fyrir Þjóðverjum. Hann sneri því aftur til London stofnaði og stýrði hreyfingunni Frjálst Frakkland á meðan á stríðinu stóð frá London fram í maí 1943 þegar hann flutti aðsetur sitt til Alsír. Við frelsun Parísar 25. ágúst 1944 kom hann sér fyrir á nýjan leik í skrifstofu stríðsráðuneytisins til að framlengja sögu þriðja lýðveldinsins og lýsa yfir ólögmæti Vichy-stjórnarinnar. Frá því starfaði hann sem forseti en sagði af sér 20. janúar 1946 vegna ósættis um drög að stjórnarskrá fyrir fjórða lýðveldið. Fjórða lýðveldið. Í apríl 1947 stofnaði de Gaulle "Rassemblement du Peuple Français" (RPF) til að hafa áhrif á frönsk stjórnmál en án árangurs. De Gaulle lét af afskiptum sínum af stjórnmálum 1953 en RPF starfaði áfram til 1955. Stjórnmálaástandið í Frakklandi var óstöðugt á tíma fjórða lýðveldisins. Ófarir í Indókína og vanhæfni til að leysa vandamál sem komu upp vegna Alsírs hristu upp í stjórnmálum Frakklands. Í óeirðum í Alsír í maí 1958 hrópaði Raoul Salan „Lifi de Gaulle“ af svölum stjórnarbyggingarinnar í Alsír, tveimur dögum síðar 17. maí sagðist de Gaulle reiðubúinn til að taka við stjórnartaumunum í lýðveldinu. Óttast var að í yfirlýsingu de Gaulle fælist aðkoma hersins; de Gaulle leiðrétti þann misskilning. Að kommúnistum og François Mitterrand slepptum sættust stjórnmálaleiðtogar á að styðja endurkomu de Gaulle í stjórnmálin. De Gaulle sagði stjórnarskrá fjórða lýðveldisins ástæðu veikrar stöðu Frakklands. Frá 1. júní 1958 varð de Gaulle leiðtogi og fékk neyðarvald til hálfs árs frá franska þinginu að eigin beiðni. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 28. september 1958 samþykktu 79,2% kjósenda nýja stjórnarskrá fimmta lýðveldisins. Nýlendur Frakka að Gíneu undanskilinni samþykktu stjórnarskránna fremur en að þiggja sjálfstæði samstundis. Gínea varð því fyrsta fransk-afríska nýlendan til að hljóta sjálfstæði. Hins vegar var Alsír ekki nýlenda heldur hluti Frakklands. Fimmta lýðveldið. Í nóvember 1958, hlutu de Gaulle og stuðningsmenn hans (upphaflega sem "Union pour la Nouvelle République-Union Démocratique du Travail", síðan sem "Union des Démocrates pour la Vème République" og loks "Union des Démocrates pour la République" (Samband lýðræðissinna í lýðveldinu)) rúman meirihluta þingsæta og 78% þingmanna kusu de Gaulle forseta. Hann sór embættiseið í janúar 1959. Hann tók á efnahagsmálum með myntbreytingu, þar sem nýi frankinn jafngilti 100 gömlum. Hann stóð andspænis bæði Bandaríkjunum og Sovíetríkjunum í viðleitni sinni til að styrkja stöðu frjáls Frakklands með eigin kjarnorkuvopnum. Hann var stuðningsmaður frjálsrar Evrópu og kom á fót fransk-þýsku samstarfi sem hornstein Efnahagsbandalagi Evrópu (síðar Evrópusambandið) með fyrstu opinberu heimsókn fransks þjóðhöfðingja til Þýskalands frá tímum Napóleóns. Í janúar 1963 beitti hann neitunarvaldi til að koma í veg fyrir aðild Bretlands að Efnahagsbandalagi Evrópu með tilvísun til trúar sinnar á því að Bretar sættu sig ekki við reglur bandalagsins og að Bretar kysu heldur að starfa með bandamönnum sínum í vestri, Bandaríkjunum og Samveldislöndunum. De Gaulle sættist á hugmyndina um sjálfstæði Alsír þar sem hann taldi að, þótt stríðið í Alsír væri sigranlegt þá væri það ekki verjandi á alþjóðavettvangi. Hann kom á vopnahléi í Alsír í mars 1962 og þjóðaratkvæðagreiðsla þar leiddi til sjálfstæðis í júlí sama ár. De Gaulle reyndi í september 1962 að breyta stjórnarskrá Frakklands á þá lund að forseti væri kjörinn í beinni kosningu en þingið hafnaði því. Við svo búið leysti de Gaulle þingið upp og boðaði til kosninga hvar Gaulistar juku meirihluta sinn á þingi. Georges Pompidou tók við embætti forsætisráðherra við afsögn Michel Debré vegna loka Alsírs-málsins. Að Alsír-málinu loknu, einbeitti de Gaulle sér að umbótum og þróun fransks efnahags og að styrkja sjálfstæða utanríkisstefnu og stöðu Frakklands í alþjóðasamfélaginu. Í janúar 1964 viðurkenndi de Gaulle opinberlega Alþýðulýðveldið Kína í andstöðu við vilja bandarískra stjórnvalda. Frá 1964 fram yfir 1990 var landsframleiðsla Frakka meiri en landsframleiðsla Breta. Árið 1965 sendu Frakkar gervitungl á sporbraut umhverfis jörðina og voru þeir þriðja þjóðin til þess á eftir Sovíetmönnum og Bandaríkjamönnum. Í desember sigraði de Gaulle François Mitterrand í seinni umferð forsetakosninga. Í febrúar 1966 drógu Frakkar sig út úr sameiginlegri herstjórn NATO. Í september 1966 mótmælti de Gaulle þátttöku Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu. Hann sagði heimkvaðningu Bandaríkjamanna einu leiðina til friðar. Í júní 1967 fordæmdi hann hernám Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og á Gazaströndinni. Frá 1967 til 1970 studdi de Gaulle stjórnvöld í Biafra í baráttu þeirra við að fá sjálfstæði frá Nigeríu. Í desember 1967 neitaði hann Bretum um aðild að Efnahagsbandalaginu öðru sinni. 1968 sprengdu Frakkar kjarnorkusprengju í eyðimörkinni í Alsír og urðu þar með fjórða kjarnorkuveldið. Námsmenn risu upp og mótmæltu kröftuglega í maí 1968. De Gaulle bauðst til þess að mæta einhverjum af þeim kröfum sem mótmælendurnir settu fram. Hann leysti upp þingið og Gaulistar unnu 358 af 487 þingsætum, í júní kosningum 1968 hvar Gaulistar sögðu hinn möguleikann vera byltingu, jafnvel borgarastríð. Í júlí 1967 setti de Gaulle Maurice Couve de Murville í embætti forsætisráðherra. 1969 féllu hugmyndir hans um endurskipulagningu Öldungadeildar franska þingsins í grýttan jarðveg, því sagði de Gaulle af sér 28. apríl 1969 og Georges Pompidou tók við forsetaembættinu. Einkalíf og andlát. 7. apríl 1921 kvæntist de Gaulle Yvonne Vendroux og átti hann með henni þrjú börn: Philippe f. 1921, Elísabetu f. 1924 og Önnu f. 1928. Hann lést skyndilega á Colombey-les-deux-Églises þar sem hann ritaði minningar sínar. Síðasta ósk hans var sú að verða grafinn í Colombey, og að engir stjórnmálamenn myndu fylgja honum til grafar, einungis félagar hans úr seinna stríði. Þjóðhöfðingjar sóttu minningarathöfn í Notre Dame á meðan útförinni stóð. Hann var það fátækur við andlátið að fjölskyldan neyddist til að selja sveitasetrið, sem nú hýsir Charles de Gaulle-Safnið. Tenglar. de Gaulle, Charles de Gaulle, Charles Mikhaíl Gorbatsjev. Mikhaíl Sergejevítsj Gorbatsjev (Rússneska:Михаи́л Серге́евич Горбачёв; framburður: /mixaˈɪɫ serˈgejevɪtʃ gərbaˈtʃof/) (fæddur 2. mars 1931 í Privolnoje). Síðasti leiðtogi Sovétríkjanna 1985-1991. Gorbatsjev hlaut Friðarverlaun Nóbels 1990, gekk í kommúnistaflokkinn 1952, kvæntist Raisu í september 1953, fór fyrir sendinefnd Sovíetríkjanna í Belgíu 1972-1974, kom til fundar við Ronald Reagan á Íslandi 1986. Við dauða Konstantín Tsjernenko varð Gorbatsjev aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna 11. mars 1985. Hann reyndi að breyta ásýnd flokksins með „glasnost“ (opnun) og „perestroika“ (endurskipulagning). Ólíkt fyrirrennurum sínum sendi hann ekki sovéskar herdeildir til að kveða niður frelsisbaráttu íbúa Mið-Evrópu 1989. Hann meinaði ekki þýsku ríkjunum sameiningu 1990. Hann var andvígur sundrungu Sovétríkjanna 1991. Hann var settur í þriggja daga stofufangelsi af harðlínumönnum í ágúst 1991. Hann sagði af sér embætti 25. desember 1991. Gorbatsjev, Mikhaíl Spanish Fork. Spanish Fork er smábær í Utah-fylki í Bandaríkjunum. Við manntal 2004 voru íbúar alls 22.839. Söguágrip. Samfélagið Spanish Fork varð til þegar mormónafrumbyggjar settust hér að árið 1850. Nafnið á sér rætur í ferðalagi tveggja munka af spænskum ættum árið 1776. Þeir töldu landið óbyggilegt og við þeim blasa óræktanleg eyðimörk. Á árunum frá 1856 til 1862 fluttust 16 íslenskir mormónar til Spanish Fork. Þeir stofnuðu þar fyrsta samfélag Íslendinga í Ameríku. Voru það hjónin Samúel Bjarnason og Margrét Gísladóttir, Sverrir Jónsson og Guðrún Pálsdóttir ásamt Helgu Jónsdóttur, og voru öll frá Vestmannaeyjum (nema Guðrún sem var fædd í Melasveit í Borgarfirði. Tók ferðin um tíu mánuði. Seinna fluttist þangað Eiríkur á Brúnum, og skrifaði um ferð sína á þessar slóðir og veru sína hér. Í bókinni "Paradísarheimt" notaði Halldór Laxness sögu Eiríks og varð hún kveikjan að skáldsögunni. Þann 26. júní 2005 endurvígði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, minnisvarða um landnám Íslendinga í Spanish Fork. New York, New York. New York, New York er frægt lag úr samnefndri kvikmynd Martin Scorsese þar sem Liza Minnelli flutti það. Lagið varð þó ekki vinsælt fyrr en Frank Sinatra söng það árið 1979. Árið 1985 þann 7. febrúar varð það opinbert lag New York borgar. Höfundur lagsins er John Kander og höfundur textans Fred Ebb. Suðurey. Suðurey er eyja í Vestmannaeyjaklasanum sem liggur um kílómetra suðvestur af Stórhöfða og er fimmta stærsta eyja klassans, um 0.2 km² að flatarmáli. Eyjan er girt háum hömrum að suðurhliðinni undanskilinni, þar sem grasi vaxin brekka nær niður að sjó. Þrjár uppgöngur eru í eyjuna; sunnan, vestan og austan megin, en allar eru þær sunnarlega við brekkuna. Besti möguleikinn á uppgöngu á eyjuna er kallaður "steðjar" með tilvísun í hestamennsku, en vegna öldubrots úr suðri er hún stundum ógreiðfær. Um miðbik eyjarinnar liggur hryggur, um 161 metra hár þar sem hann er hæstur. Mikið gróðurlendi þekur stóran hluta eyjunnar. Í Suðurey er stunduð eggjataka og lundaveiði, ásamt því að sauðfé er haft á beit allan ársins hring. Suðureyingar, eins og þeir sem eru meðlimir í veiðifélaginu eru kallaðir, eiga veiðikofa í eynni sem var reistur 1951. Hann er norðan megin á eyjunni og sést frá Heimaey. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á kofanum síðan hann var reistur, en í dag er regnvatni safnað undir kofan og rafmagn er framleitt með vindorkustöð á eyni. Það er sagt bátfært í Suðurey þegar öldur brýtur ekki á sunnanverðri Hænu þar sem uppgangan er sunnan til á eynni og sést því ekki frá Heimaey. Showa keisari. (29. apríl 1901 – 7. janúar 1989) var 124. keisari Japans, en hann ríkti frá 25. desember 1926 þar til hann lést árið 1989. Hann er sá keisari sem lengst hefur setið, eða rúm 62 ár. Valdatímabil hans var nefnt tímabil hins upplýsta friðar (japanska:昭和時代, Shōwa-jidai). Hann varð formlega krónprins 2. nóvember 1916 og 1922 var hann sá fyrsti úr þeirri stétt til að ferðast út fyrir Japan þegar hann fór um England, Holland, Belgíu, Frakkland Ítalíu og Vatíkanið í hálfsárs ferð sinni um Evrópu. Í vesturlöndum er hann betur þekktur undir nafninu "Hirohito". Sonur hans er Akihito, núverandi keisari Japans. Fjölskylda. Hann kvæntist fjarskyldri frænku sinni, Nagako prinsessu, sem seinna varð Kōjun keisaraynja 26. janúar 1924. Þau eignuðust sjö börn. Hann var krýndur 10. nóvember 1928 í Kýótó. Hann var fyrsti keisari Japans í nokkur hundruð ár hvers móðir var opinberlega gift keisaranum. Fyrstu árin. Fyrstu ár hans á valdastóli einkenndust af auknum hernaðarlegum áhrifum í ríkisstjórn landsins hvar stjórnir hins keisaralega flota og hins keisaralega hers höfðu frá árinu 1900 haft neitunarvald um myndanir ríkisstjórna. Inukai Tsuyoshi forsætisráðherra var ráðinn af dögum 1932 og var með því banatilræði endir bundinn á raunverulg borgaraleg yfirráð yfir hernum. Herinn reyndi valdarán árið 1936 í kjölfar minni stuðnings við herskán hóp þingmanna í þingkosningum. Nokkrir háttsettir opinberir sem og hernaðarlegir yfirmenn voru ráðnir af dögum í valdaránstilrauninni, sem Showa keisari batt enda á. Engu að síður voru mest öll pólitísk völd í Japan, frá 1930 í höndum herskárrar klíku sem rak stefnu er dróg Japan út í stríðsrekstur; seinna Kína-Japansstríðið og seinni heimsstyrjöldina. Seinni heimsstyrjöldin. Að loknu stríði hefur Showa keisari ýmist verið talinn hinn illu hugsuður sem skipulagði hvert ódæðið á fætur öðru í seinni heimsstyrjöldinni, ellegar valdalaust sameiningartákn. Japan drógst inn í seinni heimstryjöldina eftir að hafa unnið að landvinningum á meginlandi Kína í seinna Kína-Japansstríðinu frá 7. júlí 1937 í kjölfar innrásarinnar í Mansjúríu 1931. Þann 4. september 1941 krafðist keisaradæmið í skjóli sjálfsvarnar að fá að halda landvinningum sínum í Kína áfram, að Breskur og Bandarískur hermáttur á svæðinu yrði ekki aukinn og að samvinnu við vesturlönd til að afla keisaradæminu þess sem það þarfnaðist, ellegar myndi keisaradæmið ljúka undirbúningi sínum fyrir stríðsrekstur gegn Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi ef það væri nauðsynlegt. Ef ekkert svar bærist fyrir 10. október yrði keisaradæmið illvígt í garð Bandaríkjanna og Bretlands. Sagnfræðinga greinir á um hvort hin opinberlega söguskýring eigi við rök að styðjast, opinberlega er því haldið fram að Showa keisara hafi 5. september ekki hugnast að undirbúa stríðsrekstur fyrst og huga svo að diplómatískri lausn deilumála og gaf það í skyn að hann myndi brjóta aldagamla hefð með því að spyrja yfirmenn hers og flota beint á keisarlegum fundi daginn eftir. Konoe forsætisráðherra sannfærði Showa um að ræða málið frekar í einkasamtölum. Osami Nagano, fyrrverandi Flotaráðherra sagði síðar "Ég hef aldrei séð keisarann haga sér á þann hátt í aðra tíð, roðna í framan og hækka róminn." Engu að síður var vígvæðingu framhaldið. Showa keisari lagði áherslu á mikilvægi friðsamlegrar lausnar. Nokkrum vikum síðar höfðu ráðherrarnir í ríkisstjórninni sett hinn herskáa Hideki Tojo í embætti forsætisráðherra - Showa keisari setti hann formlega í embætti en runverulegur keisaralegur stuðningur við tojo er dreginn í efa. Þann 8. desember að Tókýó tíma réðust Japanir á Perluhöfn og innrásin í Suð-austur-Asíu hófst. Ekki var aftur snúið. Hver svo sem raunverulegur þáttur keisarans var í aðdraganda stríðsrekstrarins, Showa keisari sýndi stríðsrekstrinum áhuga, enda var öll þjóðin með hugann við átökin. Keisarinn reyndi líkt og Georg VI. konugur Bretlands að blása mönnum kjark í brjóst. Upphaflega voru allar fréttir góðar fréttir en þegar lukkan fór að snúast síðla 1942 snemma 1943 minnkaði samhengi milli frétta sem bárust til keisarahallarinnar og raunveruleikans. Eftir að Japanir töpuðu filipísku eynni Leyte í lok árs 1944, hóf Showa keisari röð einkafunda með háttsettum opinberum embættismönnum í byrjun árs 1945. Að Konoe, fyrrverandi forsætisráðherra, slepptum sem óttaðist kommúníska byltingu meira en ósigur í stríðinu ráðlögðu allir áframhaldandi stríðsrekstur. Showa keisari áleit frið nauðsynlegan, en mikilvægt væri að Japanski herinn ynni einhvers staðar mikilvægan sigur sem bætt gæti samningsstöðu Japans. Í apríl 1945 tilkynntu Sovíesk stjórnvöld að þau myndu ekki endurnýja hlutleysis samkomulag sitt við Japan. Í júní 1945, eftir lok Evrópustyrjaldarinnar fundaði ríkisstjórnin til að endurskoða hernaðaráætlunina, í raun var niðurstaðan enn ákveðnari stefna í því að berjast til síðasta manns. Skjal með samantekt á vonlausri stöðu Japanska hersins var útbúið og dreift meðal friðsamlegri ráðherra í ríkisstjórninni. Um miðja júni sættist ríkisstjórnin á að óska eftir því að við Sovíetmenn að þeir yrðu málamiðlarar. Þann 22. júní 1945 rauf showa keisari hefðina, að keisarinn talaði ekki við ráðherrana, á ný og sagði: Ég óska þess að raunveruleg áætlun um lok stríðsins, án tillits til núverandi stefnu, verði unnin með hraði, og því fylgt eftir að koma þeim í verk. Friðarviðræður við bandamenn reindust ómögulegar þar sem að undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar kröfðust bandamenn skilyrðislausrar uppgjarar af hálfu Japana og Japanska ríkisstjórnin setti eitt skilyrði fyrir uppgjöf, að staða keisarans yrði tryggð. Eftir stríð. Eftir að kjarnorkusprengjurnar féllu á Hiroshima og Nagasaki, ávarpaði Showa keisari japönsku þjóðina í útvarpssendingu 15. ágúst 1945 (japanska:玉音放送 gyokuno-hoso) og tilkynnti skilyrðislausa uppgjöf Japans, þar með vék hann frá fyrri hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að vernda stöðu hans. Ávarpið var ekki sent út beint heldur var upptaka spiluð, var það í fyrsta skipti sem almenningur heyrði rödd hans hátignar. Harry S. Truman reyndi meðal annarra að fá Showa keisara leiddann fyrir dómstól vegna stríðsglæpa. Douglas MacArthur krafðist þess á hinn bóginn að Showa keisari sæti áfram á táknrænan hátt. Showa keisari, var ekki ákærður, sat áfram en þurfti að hafna því aðvera afkomandi Sólar gyðjunar, með guðlegan mátt, lýsti hann því yfir mannlegu eðli sínu. MacArthur taldi Showa keisara gagnast Bandamönnum við að fá Japani til að sætta sig við hernámið. Eftir stríðið vann hann þau verk sem þjóðhöfðingi þarf að vinna, ferðaðist til annarra ríkja til að endurreisa og treysta stjórnmálatengsl við önnur ríki. Hann var áhugasamur um sjávarlíffræði. Hann varð fyrsti japanski keisarinn til að gangast undir skurð aðgerð 22. september 1987. Í ljós kom að hann var með krabbamein, sem samkvæmt hefð var haldið leyndu fyrir keisaranum. 19. september 1988 þjáðist hann af blæðingu og heilsu hans hrakaði eftir það. Klukkan 6:33 að morgni 7. janúar 1989 lést Showa keisari. Klukkan 7:55 tilkynnti Shoichi Fujimori yfirmaður japönsku keisarahallar skrifstofunnar opinberlega um andlát keisarans, þá greindi hann og í fyrsta skipti frá veikindum Showa keisara. Þann 24. febrúar fór útför hans fram að shinto sið og var hann grafinn í Hachioji í Tókýó. Akihito tók við krúnunni og Heisei-tímabilið hófst. Fenrisúlfur. Fenrisúlfur (einnig Hróðvitnir „Hinn frægi úlfur“) er úlfur, sonur Loka og Angurboðu í norrænni goðafræði. Systkini hans voru Miðgarðsormur og Hel. Þau voru send í burt fljótlega eftir að þau fæddust. Varast ber að segja "Fernisúlfur" eins og sumir gera og tengja (óafvitandi) fyrri hluta orðsins við fernisolíu. Fenrisúlfur fjötraður. Í upphafi stóð ekki mikil ógn af Fenrisúlfi, en hann stækkaði fljótt og ógnaði að lokum jafnvel ásunum. Æsir urðu að gera eitthvað í málunum og ákváðu að binda hann fastan. Fyrst bjuggu þeir til fjötur sem hét Læðingur. Þeir sögðu Fenrisúlfi að frægð og frami myndi fylgja honum ef að honum tækist að leysa sig úr þeim fjötri. Fenrisúlfi fannst það lítið mál að slíta sig úr því. Þaðan er komið máltækið "að leysa úr læðingi" sem merkir "að kalla eitthvað fram". Æsir ákváðu að búa til nýjan fjötur sem kallaður var Drómi og var tvöfalt sterkari en Læðingur. Sögðu æsin þá að tvöföld frægð biði hans ef honum tækist að leysa sig úr þessum fjötri. Úlfurinn fer létt með það að leysa sig úr reipinu. Þaðan er komið orðatiltækið "að drepa úr dróma" sem merkir "að leysa úr fjötrum". Nýting þessara hluta í fjöturinn skýrir ástæðu þess að þeir eru ekki (lengur) til. Sá fjötur nefndist Gleipnir og leit sakleysislega út, mjög lítill og þunnur, en var í raun búinn göldrum. Úlfurinn áttaði sig á því að æsir voru að reyna að plata hann vegna þess hve fjöturinn var smár en goðin sannfærðu hann um að ef hann gæti ekki sjálfur losað sig myndu þau losa hann og því til sönnunar lagði Týr hönd sína að veði í gin úlfsins. Fjöturinn slitnaði ekki og missti Týr höndina því að goðin losuðu úlfinn að sjálfsögðu ekki. Fenrisúlfur stendur síðan bundinn í Jötunheimum til ragnaraka. Ragnarök. Völuspá segir að í ragnarökum muni Fenrisúlfur losna úr fjötrum sínum. Hann mun verða svo stór að gin hans nær frá jörðu og upp í himin er hann gapir. Fenrisúlfur mun berjast við Óðinn í ragnarrökum og mun vega hann. Víðir, sonur Óðins, mun hefna hans með því að stíga með öðrum fætinum í neðri góm úlfsins, en teygir hönd sína upp í efri góm hans við himin og kjálkabrýtur hann. Hallgrímur Helgason. Hallgrímur Helgason (f. 18. febrúar, 1959 í Reykjavík) er íslenskur rithöfundur, málari, þýðandi, skopteiknari og greinahöfundur. Hann nam við Myndlista- og Handíðaskólann veturinn 1979 - 1980 og Listaakademíuna í München 1981 - 1982. Hallgrímur hefur starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur frá árinu 1982. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar á Íslandi og erlendis og verk hans hafa verið sýnd á yfir 30 samsýningum í ýmsum löndum. Þekktustu verk Hallgríms eru "101 Reykjavík" sem gerð var að vinsælli kvikmynd og "Höfundur Íslands", sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001. Hallgrímur var aftur tilnefndur til verðlaunanna árið 2005 fyrir skáldsöguna "Rokland". Jafnframt var hann tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir "101 Reykjavík" og "Rokland". Tenglar. Hallgrímur Helgason Sumartími. Sumartími er hugtak yfir kerfi sem er ætlað að ‘spara’ dagsbirtu. Þegar sumartími tekur gildi er klukkan færð fram um eina klukkustund frá opinberum staðartíma og haldið þannig yfir vor- og sumarmánuði. Markmiðið með þessu er að samræma klukkustundir dagsins (vinnu- og skólatíma) betur við dagsbirtuna. Sumartími er mest notaður í tempraða beltinu og er það vegna hinna miklu breytinga á dagsbirtu á mismunandi árstímum. Skakki turninn í Písa. Skakki turninn í Písa (ítalska: "Torre pendente di Pisa" eða einfaldlega "Torre di Pisa") er frístandandi klukkuturn í borginni Písa á Ítalíu og tilheyrir hann dómkirkjunni í Písa. Turninum var ætlað að standa lóðrétt, en stuttu eftir byggingu hans í ágúst 1173 tóku undirstöður hans að síga og hann því að hallast. Hann er staðsettur á bak við kapelluna og er eitt af þremur mannvirkjum á "Campo dei Miracoli" í Písa (svæði kraftaverkanna). Turninn er 55,86 metrar að hæð á lægstu hlið og 56,70 á þeirri hæstu. Hann hallar um 4 gráður. Breidd veggjanna við jörðu er 4,09 metrar og 2,48 efst í turninum. Áætlað er að þyngd hans sé 14.500 tonn og það eru 294 þrep í honum. Turninn hefur, ásamt dómkirkjunni, skrúðhúsinu og kirkjugarðinum verið á heimsminjaskrá frá árinu 1987. Arthur Conan Doyle. Sir Arthur Ignatius Conan Doyle (22. maí 1859 – 7. júlí 1930) var skoskur rithöfundur af írskum ættum og best þekktur fyrir verk sín um einkaspæjarann Sherlock Holmes, sem vanalega er talinn höfuðpersóna í glæpasöguheiminum. Auk glæpasagna skrifaði Arthur Conan Doyle vísindaskáldsögur, sagnfræðitengdar bækur ásamt leikritum og ljóðum. Tenglar. Doyle, Arthur Conan Franz Kafka. Kafka árið 1906, þá 23 ára gamall Franz Kafka (3. júlí 1883 – 3. júní 1924) er eitt af höfuðskáldum 20. aldarinnar. Verk hans eru gjarnan kennd við tilvistarstefnu. Hann var af gyðingaættum, fæddur í Prag sem þá var í Austurríki-Ungverjalandi en er nú í Tékklandi, og skrifaði á þeim tæplega 40 árum sem hann lifði nokkrar skáldsögur ásamt smásögum, sem flestar voru fyrst gefnar út að honum látnum. Meðal höfuðverka hans eru "Hamskiptin" og "Réttarhöldin". Tenglar. Kafka, Franz Kafka, Franz Arthur Miller. Arthur Asher Miller (17. október 1915 – 10. febrúar 2005) var bandarískt leikskáld og rithöfundur. Hann var áberandi í bandarísku bókmenntalífi og kvikmyndum í yfir 61 ár. Best þekktu verk Arthur Millers eru "Í deiglunni" og "Sölumaður deyr", en þau hafa bæði verið sett upp í íslensku leikhúsi. Hann var einnig þekktur fyrir skammvinnt hjónaband sitt við leikkonuna Marilyn Monroe (1956-1961) sem snerist til gyðingdóms fyrir hann. Miller, Arthur Miller, Arthur Sylvia Plath. Sylvia Plath - 23 Fitzroy Road, London Sylvia Plath (27. október 1932 – 11. febrúar 1963) var bandarískt ljóðskáld, rithöfundur og smásagnahöfundur. Þrátt fyrir að vera frægust fyrir beitt ljóð sín hefur sjálfsævisöguleg skáldsaga hennar "Glerhjálmurinn" (e. Bell Jar) einnig náð mikilli hylli. Hún giftist enska skáldinu Ted Hughes sem að endingu fór frá henni og tveimur börnum hennar fyrir aðra konu. Sylvia Plath fyrirfór sér rétt rúmlega þrítug árið 1963 með því að stinga höfði sínu inn í gasofn á meðan tvö börn hennar sváfu í sömu íbúð. Jafnaðarstefna. Á fyrri hluta 20. aldar gengu allir jafnaðarmenn undir rauðum fánum, en nú er það merki aðallega bundið við sameignarsinna Jafnaðarstefna eða sósíalismi er heiti á hugmyndafræði um ákveðið samfélags– og efnahagskerfi þar sem framleiðslutæki, jarðnæði og auðlindir eru í eigu samfélagsins og þar sem nýtingu þeirra er stjórnað með hag allra í samfélaginu fyrir brjósti. Hugmyndin er að slík skipan myndi útrýma mestmegnis efnahagslegu misrétti og stéttaskiptingu. Hugmyndafræðin mótaðist á 19. öld í andstöðu við kapítalisma. Jafnaðarmenn töldu, að þetta skipulag væri ómannúðlegt og óréttlátt. Fjármagnið drottnaði þar yfir vinnuaflinu öndvert við það, sem eðlilegt gæti talist. Snemma á 19. öld bættist við hugmyndin um að afnema algjörlega einkaeignarrétt. Hvernig stjórnun á kennilegu samfélagi sem slíku fer fram og hvernig slík skipan kemst á er deiluefni og fyrir vikið eru undirgreinar sósíalismans allmargar og þó nokkuð af skyldum hugmyndum. Stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna. Þrjár öflugar stjórnmálahreyfingar hafa kennt sig við jafnaðarstefnu, ein við sameignarstefnu (e. communism), önnur við lýðræðisjafnaðarstefnu (e. democratic socialism). Sameignarstefna. Sameignarstefna er sú skoðun, að tafarlaust beri að binda endi á misrétti og ójöfnuð kapítalismans, jafnvel þótt það kosti byltingu. Sameignarsinnar eða kommúnistar undir forystu Valdimars Leníns náðu völdum í Rússaveldi í byltingu 7. nóvember 1917 og héldu þeim til hausts 1991. Stofnuðu þeir Ráðstjórnarríkin. Með stuðningi Ráðstjórnarríkjanna tóku kommúnistar völd í flestum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld og stofnuðu svonefnd alþýðulýðveldi en hafa þar alls staðar misst völd (eða breyst úr kommúnistum í lýðræðisjafnaðarmenn). Kommúnistar sigruðu einnig undir forystu Maós Zedongs í borgarastríði í Kínaveldi 1949 og hafa haldið völdum þar síðan. Kommúnistar ráða einnig Norður-Kóreu, Kúbu og Víetnam. Helstu hugsuðir sameignarstefnu eru þeir Karl Marx og Vladimir Lenín. Á Íslandi starfaði sérstakur kommúnistaflokkur 1930-1938 og átti aðild að alþjóðasambandi kommúnista (þriðja alþjóðasambandinu svokallaða), Komintern. Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn, sem stofnaður var 1938 með sameiningu kommúnistaflokksins og hluta Alþýðuflokksins og bauð síðast fram í þingkosningum í eigin nafni 1953, var líka mótaður af marxisma, enda höfðu kommúnistar þar tögl og hagldir, þótt flokkurinn væri ekki í Komintern. Lýðræðisjafnaðarstefna. Lýðræðisjafnaðarstefna er sú skoðun, að jafnaðarmenn verði að starfa innan vébanda lýðræðis og virða almenn mannréttindi, þótt þeir reyni eftir megni að sníða galla af kapítalismanum. Markmið lýðræðisjafnaðarmanna hefur breyst. Í upphafi var það hið sama og kommúnista, að afnema séreign og samkeppni, en nú er það að tryggja afkomuöryggi fjöldans og réttlátari tekjuskiptingu en kapítalisminn geti. Sænskir jafnaðarmenn mótuðu í heimskreppunni hugmyndina um „folkhemmet“, þjóðarheimilið, þar sem föðurleg forsjá ríkisins skyldi vera í þágu alþýðu manna, en ekki yfirstéttarinnar einnar. Í Bretlandi setti William Beveridge lávarður fram svipaðar hugmyndir um víðtækar almannatryggingar (sem Otto von Bismarck hafði að vísu að nokkru leyti framkvæmt áður í Þýskalandi). Alþýðuflokkurinn, sem starfaði á Íslandi frá 1916 til 2000, kenndi sig við lýðræðisjafnaðarstefnu. Samfylkingin, sem stofnuð var árið 2000 með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalagsins, Þjóðvaka og Kvennalista, starfar einnig í anda slíkrar jafnaðarstefnu. Samfylkingin á aðild að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna eins og Alþýðuflokkurinn hafði áður gert. Saga jafnaðarstefnunnar. Fyrstu jafnaðarmennirnir í nútímaskilningi eru venjulega taldir Saint-Simon markgreifi í Frakklandi og Robert Owen í Bretlandi. Á fyrri hluta 19. aldar gagnrýndu þeir báðir ójöfnuð og röktu hann til einkaeignarréttar á framleiðslutækjum, skiptingar fólks í eignastétt og alþýðu. Á miðri 19. öld settu Karl Marx og Friedrich Engels fram kerfisbundnar kenningar um eðlislægar mótsagnir kapítalismans sem yrðu því að falli. Eftir það tækju öreigarnir völdin. Í upphafi 20. aldar klofnaði hreyfing jafnaðarmanna í sameignarsinna og lýðræðisjafnaðarmenn. Vladimir Lenín hélt fast við kenningar Marx og Engels og kvað öflugan kommúnistaflokk geta tekið völdin, hvort sem hann hefði sigrað í kosningum eða ekki. Eduard Bernstein taldi hins vegar, að kenningar Marx og Engels þyrftu endurskoðunar við. Það væri til dæmis augljóslega rangt, að öreigarnir yrðu sífellt fátækari og stéttaskiptingin sífellt meiri. Jafnaðarmenn ættu að velja þróun í stað byltingar. Í fyrri heimsstyrjöld beið sú alþjóðahyggja, sem einkennt hafði jafnaðarmenn 19. aldar, hnekki, og þeir Benító Mússólíni á Ítalíu (sem áður hafði staðið framarlega í samtökum ítalskra sósíalista) og Adolf Hitler í Þýskalandi mörkuðu stæka þjóðernisstefnu, þótt þeir deildu líka andstöðu við kapítalisma með venjulegum jafnaðarmönnum. Lýðræðisjafnaðarmenn tóku upp hugmyndirnar um blandað hagkerfi og velferðarþjónustu, og á síðari hluta 20. aldar hurfu þeir frá stuðningi við þjóðnýtingu. Jafnaðarstefna á Íslandi. Þorsteinn Erlingsson skáld var einn fyrsti yfirlýsti jafnaðarmaðurinn á Íslandi, og sýndi Jón Trausti litla spádómsgáfu, þegar hann kvað jafnaðarstefnuna hérlendis sennilega fara í gröfina með Þorsteini 1914. Ólafur Friðriksson hafði kynnst hugsjónum jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og kynnti þær, eftir að hann sneri heim til Íslands. Hann var lengi ritstjóri "Alþýðublaðsins" og í forystu hinna róttækari manna Alþýðuflokksins. Hann skrifaði ritgerðina „Jafnaðarstefnuna“ í "Eimreiðina" 1926. Rithöfundarnir Þórbergur Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness sneru þó sennilega fleiri til jafnaðarstefnu en nokkrir blaða- eða stjórnmálamenn í tveimur vel skrifuðum bókum, Þórbergur í "Bréfi til Láru" (1924) og Laxness í "Alþýðubókinni" (1929), sem hann færði sérstaklega jafnaðarmönnum á Íslandi að gjöf. Eftir klofning Alþýðuflokksins 1930 létu kommúnistar meira að sér kveða í fræðilegri kynningu en lýðræðisjafnaðarmenn, en sú venja myndaðist smám saman að nota orðið „jafnaðarstefnu“ aðallega um lýðræðisjafnaðarstefnu, en „félagshyggju“ um sósíalisma í víðari skilningi. Var Gylfi Þ. Gíslason ötulastur við að setja sjónarmið jafnaðarmanna á blað, til dæmis í ritinu "Jafnaðarstefnunni" 1949 og í endurskoðaðri útgáfu þess 1977. Brynjólfur Bjarnason skrifaði hins vegar margt um sameignarstefnu í anda þeirra Marx og Leníns. Þegar talað er um jafnaðarstefnu á Íslandi í byrjun 21. aldar, er nær alltaf átt við frjálslynda lýðræðisjafnaðarstefnu, sem hefur fyrir löngu sagt skilið við kenningar Marx. Raunar horfa íslenskir jafnaðarmenn sérstaklega til bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem getur alls ekki talist sósíalisti í hefðbundnum skilningi orðsins, en hann setti fram hugmyndir um réttláta skipan mála, þar sem reynt vær að búa svo í haginn fyrir lítilmagnann sem auðið væri án þess að skerða frelsi annarra, í "A Theory of Justice" (1971). Sandvíkurhreppur. Sandvíkurhreppur var hreppur í vestanverðum Flóa í Árnessýslu, kenndur við Sandvíkurbæina í miðjum hreppnum. Hreppurinn hét Kaldnesingahreppur til forna, þá kenndur við bændur í Kaldaðarnesi. Seint á 19. öld fór þorp að myndast á Selfossi, sem þá tilheyrði hreppnum. Hinn 1. janúar 1946 var bærinn skilinn frá Sandvíkurhreppi og gerður að sérstökum hreppi, "Selfosshreppi", ásamt nánasta umhverfi sínu. Hinn 7. júní 1998 sameinuðust Selfoss og Sandvíkurhreppur á ný, ásamt Eyrarbakkahreppi og Stokkseyrarhreppi undir merkjum "sveitarfélagsins Árborgar". Stokkseyrarhreppur. Stokkseyrarhreppur var hreppur suðvestan til í Flóa í Árnessýslu, kenndur við bæinn Stokkseyri. Á seinni hluta 19. aldar fór fólki að fjölga mikið í hreppnum, aðallega vegna aukinnar útgerðar og verslunar, bæði á Stokkseyri og á Eyrarbakka. 1897 var vegna þessa ákveðið að skipta hreppnum í tvennt og var landshöfðingjabréf gefið út um skiptinguna hinn 18. maí. Hélt eystri hlutinn nafninu óbreyttu en sá vestri var nefndur Eyrarbakkahreppur. Hinn 7. júní 1998 sameinuðust hrepparnir tveir á ný og Sandvíkurhreppur og Selfossbær að auki undir merkjum "sveitarfélagsins Árborgar". Eyrarbakkahreppur. Eyrarbakkahreppur var hreppur suðvestan til í Flóa í Árnessýslu, kenndur við kauptúnið Eyrarbakka. Hreppurinn var stofnaður með landshöfðingjabréfi hinn 18. maí 1897 við að Stokkseyrarhreppi var skipt í tvennt. Hinn 7. júní 1998 sameinuðust hrepparnir tveir á ný og Sandvíkurhreppur og Selfossbær að auki undir merkjum "sveitarfélagsins Árborgar". Borgarholt. Borgarholt er hæð á Kársnesi sem tilheyrir Kópavogi. Í holtinu eru klettamyndanirnar Borgir, sem eru friðlýst náttúruvætti síðan 1981 og Kastalar, sem að hluta til fóru undir götuna Kastalagerði. Kópavogskirkja stendur efst á holtinu og skýrir það hví sumir íbúar hafa nefnt holtið "Kirkjuholt". Nasismi. a> með hakakrossinn, tákn nasismans, á upphandleggnum. Nasismi eða þjóðernisjafnaðarstefna er sú skoðun, að þjóðir skipti meginmáli, vilji þeirra og þróttur. Jafnaðarmenn hafi rangt fyrir sér um það, að mannkynið greinist í stéttir, sem hafi ólíka hagsmuni. Í stað þess að leggja kapítalismann niður eigi að beita honum til að efla vöxt og viðgang þjóðanna. Ríkið eigi ekki að láta atvinnulífið afskiptalaust, eins og frjálshyggjumenn 19. aldar hafi hugsað sér, heldur stýra því styrkri hendi. Þótt nasistar hafi þannig kennt sig í senn við þjóðerni og jöfnuð var eiginlegur jöfnuður þjóða þó ekki stefnumál þeirra, heldur trúðu þeir á yfirburði hvíta kynstofnsins, aría, sem þeir töldu rétthærri öðrum þjóðum. Stefna flokksins var að tryggja hvíta kynstofninum, einkum þýsku þjóðinni, heimsyfirráð og aukið landrými með því að ryðja burt þjóðunum austan Þýskalands. Gyðingar voru að mati nasista stærsta ógnin við aríska kynstofninn. Í Þýskalandi náðu nasistar undir forystu Adolfs Hitlers völdum 1933 og héldu þeim fram til 1945 þegar Þýskaland var sigrað í Seinni heimsstyrjöldinni. Nefndist flokkur þeirra „Die National-Sozialistische Deutsche Arbeiterpartei“ ("Hinn þjóðernissósíalíski þýski verkamannaflokkur" — stundum nefndur "Þjóðernisjafnaðarmannaflokkurinn"), skammstafað N. S.D. A. P. Er orðið „nasisti“ runnið þaðan. Flokkar með svipaða stefnu höfðu völdin víða í Evrópu árin milli stríða, 1918-1939. Þótt nasistar hafi sjálfir kennt sig við jafnaðarstefnu eða sósíalisma, er alla jafna gerður greinarmunur þar á og í yfirlitsritum um stjórnmálastefnur er nasismi sjaldnast talinn með jafnaðarstefnum. Nasistar kynntu málstað sinn sem samruna ólíkra stefna en meirihluti fræðimanna telur nasisma til öfgahægristefna. Flokkur þjóðernissinna starfaði á Íslandi á 4. áratug, en hafði sáralítið fylgi. Nokia. Nokia er finnskt fyrirtæki sem hefur verið leiðandi í heimi fjarskipta á alþjóðamarkaði og býður upp á fjöldann allan af farsímum og símahugbúnaði. Hugbúnaðurinn gerir fólki kleift að nota símann í fleira en að hringja úr honum, svo sem hlusta á tónlist, horfa myndbönd og sjónvarp, spila leiki, taka ljósmyndir, nota símann sem GPS tæki og margt fleira. Saga. Nokia er stærsti farsímaframleiðandi í heiminum í dag og spannar saga Nokia tæpa eina og hálfa öld. Hún hófst árið 1865 með pappírsmyllu, í eigu Fredrik Idestam, við flúðir Tammerkoski árinnar í suðurhluta Finnlands. Nokkrum árum síðar bætti hann annarri myllu við bakka Nokianvirta árinnar, en þaðan dregur Nokia nafn sitt. Árið 1898 stofnuðu nokkrir finnskir viðskiptamenn fyrirtækið "Suomen Gummitehdas Oy" ("Finnish Rubber Works Ltd." á ensku) í Helsinki. Innan nokkurra ára var fyrirtækið farið að framleiða hágæða gúmmístígvél sem reyndust vera samkeppnishæf við innflutt stígvél frá Rússlandi. Er framleiðslan jókst var ákveðið að færa framleiðsluna til borgarinnar Nokia og fljótlega fóru menn að leggja áherslu á Nokia nafnið. Ekki leið á löngu áður en Nokia nafnið tók að festast við gúmmívörurnar sem enn eru framleiddar undir nafninu „Nokian Footwear“. Árið 1967 varð langþráður samruni að veruleika þegar "Suomen Gummitehdas Oy", sem höfðu þá breytt nafninu sínu í "Suomen Kumitehdas Oy", og finnska fjarskiptafyrirtækið "Suomen Kaapelitehdas Oy" sameinuðust pappírsiðnaðar- og orkufyrirtækinu "Oy Nokia AB" og til varð Nokia Corporation. Á 10. áratug síðustu aldar var fjöldi ódýrra innfluttra staðkvæmdarvara orðinn mikill og stóð finnski hágæðaiðnaðurinn því höllum fæti og var Nokia Corporation því skipt upp aftur líkt og fyrir samrunann og fyrirtækin ákváðu að einblína aðeins á sínar eigin vörur. Móðurfélagið, Nokia, hélt áfram í ferð sinni að verða leiðandi á fjarskiptamarkaði og er eitt stærsta fyrirtæki í heiminum í dag. Höfuðstöðvar Nokia eru í Keilaniemi í Espoo í Finnlandi. Árið 1910 varð Nokia nærri gjaldþrota eftir fyrri heimstyrjöldina. Verner Weckman, fyrsti Finninn sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum, varð síðar framkvæmdarstjóri fyrirtækisins eftir að hafa verið tæknimaður hjá fyrirtækinu í sextán ár. Á níunda áratugnum lenti Nokia í miklum fjárhagslegum erfiðleikum aðallega vegna tölvudeildar þeirra. Þetta leiddi til þess að að framkvæmdarstjórinn Kari Kairamo framdi sjálfsvíg árið 1988. Eftir það tók Simo Vuorilehto við starfinu og þurfti hann að takast á við þau áhrif sem kreppan, sem skók Finnland árin 1990–1993, hafði á Nokia sem og önnur fyrirtæki. Árið 1987 kynnti Nokia fyrsta símann sem komst fyrir í hendi og bar hann nafnið Mobira Cityman 900 og vóg ekki nema 800 grömm. Þessi sími fékk mikla umfjöllun árið 1987 þegar Mikhail Gorbachev var myndaður við að nota þennan síma til að hringja frá Helsinki til Moskvu og fékk síminn þá nafnið „Gorba“. Í lok áttunda áratugarins vann Nokia nýja stefnumótun og í framhaldi af því á árunum 1989 til 1996 seldu stjórnendur þann hluta rekstursins sem ekki var tengdur fjarskiptamarkaðnum. Fyrirtækið sá tækifæri í þróun á stafrænum búnaði þar sem aukin eftirspurn var eftir tækjum með fjölbreytta notkunareiginleika. Notendur vilja vera óháðir tíma og rúmi og Nokia einsetur sér að koma til móts við þarfir neytenda með lausnum sem hæfa hverju sinni. Fyrirtækinu er skipt í nokkrar deildir. Device & Services deildin var stofnuð 2008 til að auka skilvirkni í þróunarvinnu tækja og þjónustu þannig að tækifæri til vaxtar í samkeppnisumhverfu séu sem best nýtt. NAVTEQ er dótturfyrirtæki staðsett í Chicago sem varð að fullu í eigu Nokia 2008 við yfirtöku, er rekið sem sjálfstæð eining og vinnur að þróun í stafrænum kortum fyrir gps og annan hátæknibúnað fyrir fyrirtæki og ríki. Meðal viðskiptavina eru m.a. Microsoft, Yahoo!, BMW, Chrysler, Jeep, Mini, Garmin, Mitsubishi Electric, Magellan og Motorola. Árið 2007 varð til Nokia Siemens Networks með samvinnu Nokia og Siemens. Fyrirtækið er það stærsta í heiminum í dag sem hannar lausnir fyrir fyrirtæki og einstaklinga á fjarskiptamarkaði. Árið 2002 setti Nokia fyrsta 3G símann á markað, Nokia 6650. Í lok ársins 2007 hafði Nokia selt 440 milljónir síma sem er 40% af öllum símum sem hafa verið seldir í heiminum. Frá árunum 1996 til 2001 fimmfaldaðist gróði Nokia úr 6.5 milljörðum evra í 31 milljarð evra. Í dag er Nokia fimmta verðmætasta vörumerkið í heiminum og á nú níu símaverksmiðjur, þrjár í Evrópu, þrjár í Asíu og þrjár í Bandaríkjunum. Nokia er í dag stærsti farsímaframleiðandi í heimi og jafnframt leiðandi á internetinu og samskiptamarkaði. Um milljarður fólks, frá öllum heimsálfum notar Nokia til almennra samskipta, viðskipta eða til skemmtunar. Búnaðurinn býður uppá að senda skilaboð, spila leiki, taka myndir, niðurhala tónlist, horfa á sjónvarp, skipuleggja, niðurhala kortum og fleira. Fyrirtækjamenning. Fyrirtækjamenning Nokia er ein af mikilvægum og samkeppnishæfum yfirburðum sem þeir hafa. Meira að segja slagorð fyrirtækisins, „Connecting People“ (eða „tengjum fólk“) er táknræn fyrir menninguna. Gildi Nokia voru, allt þar til í maí 2007: ánægja viðskiptavinarins, virðing, framkvæmd og endurnýjun. Þá endurskoðaði fyrirtækið gildi sín með það að markmiði að finna hver raunveruleg gildi Nokia væru og starfsmennirnir komust að því að þau væru „Engaging You“ (sem hægt er að útleggja sem „tengjum þig“), „Achieving Together“ (eða „náum árangri saman“), „Passion for Innovation“ (eða „ástríða fyrir nýsköpun“) og „Very Human“ (eða „afar mannleg“). Nýju gildin endurspegla breytingar í viðskiptaumhverfinu og vinnulagi fyrirtækisins. Þær endurspegla einnig þá skuldbindingu Nokia að bjóða upp á fjölbreytta vinnuaðstöðu þar sem allir starfsmenn geta átt möguleika á að vaxa í starfi. Auk þess eru starfsmenn hvattir til að leita leiða til að þroska sjálfa sig, starfshæfni sína og vera í framlínu tækniþróunar. Nokia sem vinnuveitandi. Starfsmannafjöldi í mars 2009 var 124.842 samanborið við 116.378 á sama tíma ári fyrr. Meðalfjöldi starfsmanna í Nokia Siemens Networks var 60.543 í mars 2009 en 60.391 ári áður. Fyrirtækið ræður um 1000 manns á mánuði og meðalaldur hvers starfsmanns er lítið eitt yfir 30 ára og meðal starfsævi þeirra innan fyrirtækisins er rétt undir þremur árum. Meira en helmingur starfsmanna vinnur utan Finnlands og telur Erkki Ormalla, framkvæmdastjóri tæknistefnu Nokia, það vera bestu leiðina til að keppa í hröðu og alþjóðavæddu efnahagskerfi; að draga úr miðstýringu aðgerða og treysta á framtakssemi og hæfni innfæddra. Nokia skilur mikilvægi þess að hagræða vinnu og persónulegum áhugamálum og býður því upp á stuðning fyrir starfsmenn til að halda jafnvægi í starfi og einkalífi. Einn hluti af menningunni er að hvaða starfsmaður sem er á lægri stigum getur haft samband við yfirstjórnendur, alla leið upp í framkvæmdastjórann. Ef forstjórinn skyldi ekki svara þá hefur starfsmaðurinn leyfi til að fylgja sínu eigin frumkvæði og þar með taka ákvörðun. Nokia og samfélagið. Nokia skuldbindur sig grænu, heilbrigðu og öruggu umhverfi og telur að góðir viðskiptahættir og samfélagsleg ábyrgð fari saman hönd í hönd. Helstu núverandi samstarfsaðilar eru til að mynda tækniháskólinn í Helsinki og tækniháskólinn í Tampere í Finnlandi. Cambridge-háskóli í Bretlandi, Massachusetts Institute of Technology, Háskólinn í Kaliforníu (Berkeley) og Stanford-háskóli í Bandaríkjunum. Symbian var stofnað 2008 og er í eigu nokkurra stærstu framleiðenda á fjarskiptamarkaði svo sem Nokia, Sony Ericsson, Motorola, NTT DOCOMO, AT&T, LG, Samsung, Vodafone, STMicroelectronics, og Texas Instruments. Symbian er enn í þróun en er ætlað að verða í framtíðinni opið kerfi. Kerfið er hugsað sem samvinnuverkefni og stofnað hefur verið til samfélags á internetinu þar sem þróunarvinnan mun fara fram m.a. í gegnum "Symbian Beta Website Program" þar sem meðlimir geti skipst á upplýsingum í gegnum spjallsíður eins og Wikipedia. En tilgangurinn er að flýta fyrir þróun á sviði fjarskiptabúnaðar og að vinnan sem skilað sé verði til góðs fyrir samfélagið í heild. Markaðshlutdeild. Nokia er leiðandi fyrirtæki á snjallsíma markaðnum en fyrirtæki eins og Apple og Research in Motion eru að sækja í sig veðrið. Á árinu 2008 seldi Nokia 60.9 milljón síma og var markaðshlutdeild þeirra 43,7% sem er tvöfalt meiri en annarra keppinauta. Árið 2007 var markaðshlutdeild Nokia 49,4% en ein helsta ástæðan fyrir þessari minnkun er sú að árið 2008 setti Apple iPhone 3G á markað og jókst markaðshlutdeild Apple um meira en helming úr 2,7% í 8,2%. Nokia er skráð í kauphöllum Helsinki, Frankfurt og New York. Verðmæti hlutabréfa hefur lækkað stöðugt frá því í desember 2007. Þó var greiddur arður fyrir rekstrarárið 2008 uppá 0.40 evrur á hlut samanborið við 0.53 evrur á hlut fyrir rekstrarárið 2007. Heildarfjöldi útistandandi hluta í árslok 2008 voru 3.800.948.552 þar sem hlutir í eigu samsteypunnar voru 103.076.651. Sölutölur og hagnaður fyrirtækisins. Vörusala árið 2008 nam 50,7 milljörðum evra. Þar af nam sala í Evrópu 37%, sala í Asíu 22%, Mið-Austurlöndum og Afríku 14%, Kína 12%, Suður-Ameríku 10% og Norður-Ameríku 4%. Samdráttur var á flestum markaðssvæðum frá mars 2008 til mars 2009. Mestur í Suður-Ameríku 41% og minnstur í Kína 12%. Í Norður-Ameríku jókst salan hinsvegar um 21% milli ára. Í lok árs 2008 voru starfsmenn Nokia 125.829 og sala í meira en 150 löndum. Hagnaður nam 4,996 milljörðum evra. Útgjöld ársins 2007 námu 715 milljónum evra. Hagnaður Nokia á fyrsta fjórðungi þessa árs nemur ekki nema tíunda parti hagnaðar á sama tíma í fyrra. Að frádregnum sköttum er hagnaðurinn því ekki nema 122 milljónir evra samanborið við 1,2 milljarða evra á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Sala féll um 27%, fór úr 12,7 milljörðum evra í 9,3 milljarða evra nú. þessar tölur eru sagðar endurspegla minnkandi eftirspurn eftir farsímum og á ársuppgjörskynningu Nokia þann 16. apríl kom fram að farsímasala hefði dregist saman um 33% milli ára. Fyrirtækinu hefur þó farnast betur en sumum samkeppnisaðilum þeirra í heimskreppunni, þótt Nokia hafi einnig þurft að bregðast við minnkandi eftirspurn. Í mars tilkynnti fyrirtækið þó að 1700 manns hefði verið sagt upp á starfsstöðum þess víða um heim. Markaðssetning. Alger sprenging varð á farsímamarkaðnum árin 1990-2000 sem skaut Nokia upp á stjörnuhimininn en fyrirtækið er stærsta fyrirtæki Finnlands og framleiðsla þess nemur nærri fimmtungi af heildarútflutningi landsins. Farsímar fyrirtækisins eru seldir í 130 löndum víðs vegar um heiminn og starfsmenn eru um 125.000. Fyrirtækið varð fyrir tímabundnu bakslagi árið 2004 þegar samkeppnisaðilar þeirra komu með stílhreinni síma á markað sem varð til þess að markaðshlutdeild Nokia beið hnekki. Síðan þá hefur fyrirtækið náð sér á strik og árið 2008 voru fjórir af hverjum tíu seldum farsímum frá Nokia. Sölutölur hafa þó farið sífellt lækkandi síðan 2005 í Bandaríkjunum en þar hefur markaðssetning fyrirtækisins skilað minnstum árangri. Þrátt fyrir framfarir í margmiðlun hafa þeir verið seinir að taka við sér og keppa við BlackBerry og iPhone símana. Til að viðhalda yfirburðum í samkeppni þarf sífellt að vinna að nýsköpun og árið 2008 var opnuð tíunda „Nokia Flagship Store“ stórverslunin. Þær eru nú í Helsinki, London, London Heathrow-flugvöllur, São Paulo, Chicago, New York, Mexíkóborg, Moskvu, Shanghai og Hong Kong. Í þeim er hægt að sjá og prófa að eigin raun hvernig nýjustu tækin virka og hvað nýjasta tækni býður uppá hverju sinni með leiðsögn sérþjálfaðs starfsfólks. Nokia Music er vefverslun þar sem hægt er að kaupa og niðurhala tónlist í gegnum tölvu. Enn sem komið er þjónustan til staðar í 15 löndum, þar á meðal í Finnlandi, Ástralíu, Singapúr, Ítalíu, Frakklandi, Sviss, Írlandi, Hollandi, Austurríki, Mexíkó, Spáni, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi. Samkeppni og nafnabreytingar. Farsímar og aukahlutir frá fyrirtækinu Nokia eru meðal þeirra bestu á markaðnum en þó markaðssetning þeirra sé frumleg og veki athygli, hefur hún ekki skilað sér í nægilegri söluaukningu. Markaðssetning samkeppnisaðila þeirra svo sem Motorola og Samsung hefur skilað betri árangri og markaðshlutdeild Nokia því farið minnkandi. Þar sem sölutölur á farsímum fyrirtækisins hafa minnkað allverulega á undanförnum árum ákvað fyrirtækið að setja allt sitt púður í að markaðssetja nýju næstu kynslóðar farsímana og vonast til að með þeim geti þeir lokkað aftur til sín gamla viðskiptavini. Fyrirtækið hefur frá upphafi nefnt farsíma sína eftir tölum sem virtist ekki koma að sök í upphafi en nú þar sem samkeppnin er orðin mun meiri og neytendum stendur til boða ógrynni mismunandi farsíma virðist það skila betri árangri að nefna þá eftirminnilegum nöfnum líkt og Motorola hefur gert. Neytendur laðast fremur að nöfnum sem gefa til kynna hvaða eiginleikum síminn er gæddur og sést greinilega á vinsældum Motorola símans RAZR sem selst eins og heitar lummur, en útlit hans þykir svipa til rakvéla. Þrátt fyrir að Nokia auglýsi meira en Motorola, hafa sölutölur þeirra farið í öfuga átt en það má að stórum hluta skrifa á nafngiftir símanna. Nöfn tolla einfaldlega mun betur í minni en töluheiti og því þarf Motorola ekki að auglýsa eins mikið. IPhone er gott dæmi um árangursríka markaðssetningu síma, en Apple komust hjá því að eyða háum fjárhæðum í auglýsingar með því að gefa símanum eftirminnilegt nafn, leka myndum og tæknilegum upplýsingum á netið áður en hann kom á markað sem varð til þess að IPhone varð einn eftirsóttasti síminn á markaðnum. Fyrirtækið gaf út í fjölmiðlum árið 2008 að þeir ætluðu að fylgja frumkvæði Motorola og byrja að gefa farsímum sínum nöfn í stað númera, en það hafa þeir þegar gert með nýju Nseries og Eseries farsímunum. Þessi nafnabreyting ein og sér virðist hafa verið nóg til að koma Nokia aftur á kortið og því hafa þeir ákveðið að gefa næstu kynslóðar símunum einnig nöfn í stað númera. Verðlaun fyrir markaðssetningu. Nokia vann til fimm verðlauna árið 2008 á Mobile Marketing Awards í London, tvö þeirra voru verðlaun fyrir „Best creativity in Mobile Marketing“ og „Most innovative use of technology in Mobile Marketing“ fyrir "Shoot and Score" verkefnið sem þeir unnu fyrir Vodafone vegna meistaradeildar Evrópu. Vodafone Mobile Internet, annað verkefni Nokia vann verðlaunin „Best use of mobile as part of an integrated campaign“ og fékk einnig „Grand Prix“ verðlaunin sem áhorfendur kusu um. Að lokum fékk Nokia lof í lófa og verðlaunin „Best use of mobile in customer relationship marketing“ fyrir að vinna með bresku blaðinu "Financial Times" að rafrænum afsláttarmiðum. Þróunin sem leiddi til GSM símans. Farsímarnir starfa í dag flestir á GSM/EDGE, 3G/WCDMA og á CDMA stöðlum en aukin áhersla er á Bluetooth, GPS og WLAN sem í framtíðinni er ætlað að sýna staðsetningu á korti af byggingum svo sem flugstöðvum og verslunarmiðstöðum. Fyrstu vísbendingar um að Nokia ætlaði að fara þá leið að einbeita sér að farsímum og símatækni var árið 1960 þegar stofnuð var lítil raftækjadeild innan fyrirtækisins. Síðan var fyrsta raftækið framleitt árið 1962. Árið 1967 var þessi raftækjadeild gerð að sér sviði og var þar byrjað að framleiða samskiptabúnað. Nokia notaði samskiptatæknina til að búa til talstöðvar og framleiða þær fyrir herinn en líka til sölu. Þetta var gert frá því á sjöunda áratugnum. Árið 1979 varð samruni milli "Nokia og Salora Oy", sem var sjónvarpsframleiðandi, og var þá stofnað "Mobira Oy". Mobira byrjaði að þróa síma sem auðveldlega er hægt að færa á milli staða, svokallaða fyrstu kynslóðar síma, og voru símarnir gerðir fyrir NMT-kerfið ("Nordic Mobile Telephone"), sem er fyrsta alþjóðlega símakerfið og var byggt árið 1981. Árið 1982 kynnti Mobira fyrsta bílasímann, Mobira Senator, og var hann fyrir NMT-450 símakerfi. En það var ekki fyrr en árið 1984 að fyrsti vísir að GSM-símum nútímans kom á markað og var hann fyrir NMT-kerfið. Var sá sími kallaður Mobira Talkman og en þar sem hann vóg rétt undir 5 kg var hann ekki mjög handhægur. Þremur árum síðar kom svo á markaðinn fyrsti handhægi síminn, var hann kallaður Mobira Cityman. Var sá sími orðinn heldur léttari en Mobira Talkman þar sem hann vóg um 800 g. Sama ár fékk Nokia mikla auglýsingu þegar Gorbachev sást nota Mobira Cityman. Á árunum 1988–1989 varð breyting á fyrirtækinu. Forstjórinn yfir deildinni sem sá um hreyfanlegu símana sagði af sér. Í framhaldinu af því breytti fyrirtækið nafninu á "Nokia-Mobira Oy" í "Nokia Mobile Phones". Nokia varð eitt af aðalfyrirtækjunum sem rannsakaði og þróaði GSM-síma, svokallaðir annarrar kynslóðar símar. Nokia kom sínu fyrsta GSM-kerfi til finnsks skiptiborðs, Radiolinja, árið 1989. Fyrsta GSM-símtalið fór í gegnum kerfið sem var búið að setja upp hjá Radiolinja. Var það framkvæmt 1. júlí 1991 í Helsinki af þáverandi forsætisráðherra Finna, Harri Holkeri. Árið 1992 var fyrsti GSM síminn settur á markað, Nokia 1011. Númerið á módeli þessa síma er vísun í hvaða dag síminn kom út en hann kom sem sagt út 10. nóvember 1992. Árið 1994 kom út nýtt módel af símum, var það síminn Nokia 2100 og var það fyrsti síminn til að innihalda hina frægu Nokia Tune símhringingu. Sama ár var heimsins fyrsta gervihnattasímtal gert og við það var notaður Nokia GSM sími. Næstu árin fóru í þróun og breytingar á símunum eftir því sem tæknin jókst og varð flóknari. Til að mynda var Nokia 6110 fyrsti síminn sem innihélt leikinn "Snake", sem flestir þekkja. Árið 1999 kom út fyrsti síminn sem gat tengst internetinu og var það tegundin Nokia 7110. Fyrirtækið naut mikilla vinsælda með Nokia 3310 sem leysti Nokia 3210 af hólmi árið 2000. Fyrsti 3G-síminn kom út árið 2002 og var það Nokia 6650. Þremur árum síðar kynnti Nokia næstu kynslóð af símum og var það Nokia Nseries. Árið 1998 var stofnað nýtt vörumerki fyrir sérstaka tegund farsíma. Það vörumerki kallast Vertu. Síðastliðin 10-11 ár hafa þessar vörur verið að ná auknum vinsældum og er verið að miða aðallega við einn markaðshóp. Sá hópur er aðallega efnað fólk sem gæti litið á síma sem ákveðið stöðutákn. Um er að ræða síma sem geta verið úr gulli, með demanta á hlífinni, með hærra þjónustustig og fleira. Síðustu ár hafa verið miklar tækniþróanir á símum sem fyrir eru og einnig er verið að þróa fleiri, nýrri og tæknilegri síma. En dæmi um það sem hefur bæst við símana er xenon-flass, útbúnaður til að líkjast öðrum BlackBerry tækjum og margt fleira. Nokia hefur líka komið inn á tölvumarkaðinn. Á níunda áratugnum var tölvudeild innan Nokia og var framleitt þar sería af PC-tölvum sem kallaðar voru MikroMikko. Fyrsta módelið í MikroMikko línunni kom út 29. september 1981, á svipuðum tíma og fyrsta IBM PC-tölvan. Þessi deild var þó seld til ICL, sem síðar varð hluti af Fujitsu. MikroMikko hélst þó sem vörumerki hjá ICL og síðar hjá Fujitsu. En alþjóðlega varð MikroMikko auglýst hjá Fujitsu sem ErgoPro. Skaðsemi farsíma. Margir hafa gert rannsóknir á skaðsemi farsíma á heilsu manna en þær eru misjafnar eins og þær eru margar. Hér verður fjallað um nokkrar rannsóknir og niðurstöður. Niðurstaða rannsóknar sem geislavarnir sænska ríkisins gerði árið 2002 segir að ekkert bendi til þess að farsímar séu skaðlegir. Þeir fengu tvo prófessora, dr. John D.Boice og dr.Joseph K.McLaughlin, til að fara yfir rannsóknina. Þeir voru sammála en vildu ekkert fullyrða. Bretar komust að sömu niðurstöðu og Svíar, þeir birtu skýrslu árið 2004 „The Advisory Group on Non-Ionising Radiation“ en í henni segir samt að frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða um nokkuð. Indverski prófessorinn Naresh K. Panda gerði könnun á því árið 2007 hvort farsímar geti valdið skaða á heyrn og stöðugu eyrnasuði, Naresh fylgdist með farsímanotkun hundruð manna sem notuðu farsíma mismikið. Fólkið var svo borið saman við aðra sem aldrei notaði farsíma. Niðurstaða rannsóknarinar var að fylgni sé á milli heyrnavandræða og notkun farsíma. Verst komu þeir út sem notuðu farsíma í meira en klukkustund á dag. Ronald Herberman, forstöðumaður hinnar virtu rannsóknastofnunar háskólans í Pittsburg og Cancer Institute ráðleggur fólki að bíða ekki eftir afgerandi niðurstöðu á rannsóknum heldur minnka farsíma notkun til þess að þurfa ekki iðrast eftir á ef skaðsemi sannast. Eins og sést eru vísindamenn greinilega ekki sammála um skaðsemi farsíma. Flestir vísindamenn halda því þó fram að það sé engin skaðsemi af farsímum en geta ekki sannað það. Margar rannsóknir hafa þó sýnt einhver tengsl. Rannsóknir þarf að endurtaka oft til þess að sanna kenningu. Kenning telst sönnuð þegar sama niðurstaðan kemur í hvert skipti sem rannsóknin er framkvæmd. Þannig að þó að tengsl sjáist stöku sinnum er það ekki nóg til að að skaðsemi sé sönnuð. Líffræðileg áhrif farsímanotkunar. Farsímar hafa samband við móðurstöðvar sínar með því að senda og taka á móti örbylgjum svipuðum þeim sem notaðar eru í örbylgjuofnum. Oft er talað um geislun frá farsímunum í þessu sambandi. Hafa þarf í huga að rafsegulrófið spannar vítt svið. Örbylgjugeislun hefur aðra eiginleika en svokölluð jónandi geislun sem kemur t.d. frá röntgentækjum. Jónandi geislun hefur hærri tíðni og meiri orku en ljós og þar með meiri efnafræðileg áhrif það er öfugt með örbylgjugeislun. Þar sem örbylgur eru ekki jónandi ættu þær ekki að geta valdið skemmdum á erfðaefninu DNA, stökkbreytingum eða krabbameini. Einu líffræðilegu áhrifin sem eru þekkt og almennt viðurkennd eru upphitun, svipuð því sem gerist í örbylgjuofni. Þar sem örbylgjurnar hitna við notkun farsímans er fólk áhyggjufullt um að það gæti hitað í þeim heilann og þannig valdið skaða. Svo er ekki þar farsíminn sendir frá sér orku sem er um 1 W en það nægir ekki til að hita heilann nógu mikið. Það hafa margar rannsóknir verið gerðar bæði á frumum og dýrum í mismunandi örbylgjusviði til að finna réttu staðlana. Núverandi öryggisstöðlum er ætlað að verja notendur fyrir skaðlegum áhrifum vegna upphitunar. Það er aðallega höfuðið og augun sem eru viðkvæm vegna þess að í vökvarými augnanna eru ekki æðar til kælingar. Vísindamenn eru almennt sammála um að farsímar valda ekki líffræðilegum skaða vegna upphitunar. Það er hins vegar deilt um hvort önnur líffræðileg áhrif geti verið að verki, áhrif sem birtast vegna samhljóms sameinda við geislunina frekar en upphitun. Kenningar hafa verið settar fram en þær eru umdeildar. Það er deilt um tvennt: Það hvort um vensl við örbylgjugeislunina sé að ræða og hvort skýra megi slík vensl með öðrum hætti. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nein marktæk tengsl milli farsíma notkunar og heilsukvilla. Óbein áhrif koma greinilega fram, sérstaklega áhrif á öryggi í umferðinni. Margir hafa talið að handfrjáls búnaður leysa vandann. Rannsóknir benda til þess að svo sé ekki. Símtal í GSM síma krefst miklu meiri einbeitingar en venjulegt samtal. Hættan felst í því að athyglin er meira á símtalinu en umhverfinu. Þetta veldur því að þessi hópur er líklegri til þess að lenda óhappi. Umhverfisverndarstefna. Umhverfisverndarstefna fyrirtækisins er byggð á alþjóðlegum reglum og stöðlum. Markmið þeirra er þó að gera meira en að fylgja aðeins eftir reglum um umhverfisvernd og fara þeir mun lengra en krafist er samkvæmt lögum. Því eru umhverfismál nú samtvinnuð inn í viðskiptahætti Nokia. Söfnunarbaukar. Nokia símar eru hannaðir með langan endingartíma í huga, en fólk skiptir þó símum sínum út fyrir nýrri, þrátt fyrir að þeir eldri séu ekki ónýtir. Kannanir hafa leitt í ljós að um 44% gamalla síma liggi ónotaðir í skúffum hjá fólki og aðeins 3% fólks fari með gömlu símana sína í endurvinnslu. Nokia hvetur fólk til að endurvinna gamla síma því ef hver Nokia notandi setti einn ónotaðan síma í endurvinnslu gætu 80.000 tonn af hráefnum sparast, þar sem mikill meirihluta efna í símum er hægt að nota til að framleiða nýjar vörur eða virkja orku. Nokia gerir sitt besta til að auðvelda fólki að endurvinna símtæki sem ekki eru lengur í notkun. Til að endurvinna símann, rafhlöður eða hleðslutæki þarf því aðeins að skila því í einhverja af endurvinnslustöðvum Nokia og starfsmenn sjá um afganginn. Hátt í 5000 stöðvar eru í 85 löndum víðsvegar um heiminn þar sem Nokia tekur á móti gömlum farsímum og fylgihlutum. Auk þess er hægt að skila gömlum tækjum í verslanir sem selja Nokia síma. Í sumum löndum, svo sem Bretlandi og Bandaríkjunum, er hægt að skila símtækjum með því að skrá sig á netinu og prenta út fyrirframgreiddan póstmiða sem Nokia borgar fyrir og neytandinn getur því sent símtækið, sér að kostnaðarlausu í endurvinnslu. Orkusparnaður. Símafjarskipti eru ekki orkufrekur iðnaður og nota innan við 1% af koltvísýringi heimsins. Þrátt fyrir þetta er það markmið fyrirtækisins að nota orku á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Nokia hefur því komið fram með leiðir fyrir notendur sína til að stilla síma sína þannig að þeir spari orku og þurfi því að hlaða símann sem sjaldnast og þar af leiðandi leggi sitt af mörkum við orkusparnað. Nokia símar koma með skilvirkum hleðslutækjum og Li-ion rafhlöðum. Rafhlöður eru orkugeymsla en ekki orkuuppspretta og því hleður hleðslutækið rafhlöðuna frá rafmagnsveitu sem getur verið allt frá vindmyllum til kjarnorkuverksmiðju. Nokia er af mörgum ástæðum í sífelldri rannsóknarvinnu við að finna nýjar orkuuppsprettur. Venjulegar orkuuppsprettur eins og olía eru orðnar af skornum skammti og að finna nýjar uppsprettur með lægri kolefnalosun gæti dregið úr loftlagsbreytingum. Nýjar uppsprettur eru því mikilvægar fyrir landssvæði sem hafa einfaldlega ekki rafmagnsveitur. Notkun málma. Hönnuðir Nokia símanna leggja mikla áherslu á efnin sem símarnir eru framleiddir úr. Áhersla er lögð á að nýir símar verði eins umhverfisvænir og mögulegt er með því að hugsa um hvernig lífsferill símans er, að efnin sem notuð eru í hann geti verið endurnýtt á öruggan hátt þegar ekki eru lengur not fyrir símann. Vegna þessarar hönnunarvinnu er nú hægt að endurvinna 65-80% efna í þeim. Endurvinnsla. Fyrirtækið er leiðandi á farsímamarkaði og stjórnendur þess telja mikilvægt að vera leiðandi fyrirtæki þegar kemur að umhverfisstefnu. Þar er áhersla lögð á hugsun byggða á lífsferli, þar sem reynt er að lágmarka áhrif varanna á umhverfið. Byrjað er á uppruna hráefnanna og endað með endurvinnslu, meðhöndlun úrgangs og endurnýtingu notaðra efna. Þessu markmiði er náð með betri vöruhönnun, nánu eftirliti með vöruvinnslu og betri endurnýtingu á efnum, sem og endurvinnslu. Fyrirtækið hefur staðið fyrir herferðum víða um heiminn til að virkja fólk til endurvinnslu á farsímum og hefur með því tekist að endurvinna um 55 tonn af efnum úr ónotuðum raftækjum í Kína og árið 2006 var þar komið á fót um 500 söfnunarstöðum þar sem tekið er á móti símum og fær fólk greitt í formi símainneignar fyrir vikið. Með þessari söfnun var tekið á móti 80 tonnum af úrgangi. Í Finnlandi dreifði Nokia 200.000 miðum þar sem boðið var € 2 framlag til WWF gegn hverjum síma sem skilað væri inn. 25.000 símtækjum var skilað inn í þessari herferð. Fyrirtækið nýtti sér alþjóðlegan endurvinnsludag í Norður-Ameríku, þann 15. nóvember 2007 og safnaði 16 tonnum af raftækjum til endurvinnslu, þar af 7000 símum. Í Evrópu söfnuðu þeir 17.000 tonnum af raftækjaúrgangi. Einnig tók fyrirtækið þátt í að safna ónotuðum símum á Filippseyjum, Chile, Perú og Malasíu ásamt símafyrirtækjum og ríkjum þessara landa, til dæmis með því að bjóða upp á afsláttarmiða fyrir nýjum og betri rafhlöðum gegn því að skila inn gömlum símtækjum. Að auki hefur Nokia stuðlað að endurnýtingu raftækjaúrgangs sem kemur frá starfssemi þeirra, sem og starfsmönnum þeirra. Black Ingvars. Black Ingvars er sænsk þungarokkshljómsveit stofnuð árið 1995. Hún er einkum þekkt fyrir að spila lög sem upprunalega eru ekki þungarokkslög, meðal annars barnalög eða trúarleg lög. Meðal þekktra laga sem sveitin hefur flutt eru Waterloo, Här kommer Pippi Långstrump og Bananas in Pyjamas (sem þeir reyndar snöruðu yfir á sænsku, Bananer i pyjamer). Sveitin hefur, samkvæmt vefsíðu hennar, selt um 800.000 plötur í heimalandinu Svíþjóð. Turku. Turku á finnsku (Åbo á sænsku sem samsvarar "Árbæ" á íslensku) er elsta og fimmta stærsta borg Finnlands, en þar búa 174.824 manns (árið 2004). Borgin stendur við mynni árinnar Aura í suðvesturhluta Finnlands og er hún miðpunktur þriðja stærsta þéttbýlissvæðis landsins, þar sem búa um 300.000 manns. Í Turku hafa rúmlega 5% íbúanna sænsku að móðurmáli. Vegna staðsetningarinnar er höfnin í Turku ein sú umferðarmesta í Finnlandi. Allan þann tíma sem Finnland var hluti af sænska ríkinu, allt frá byrjun 13.aldar til 1805 var Åbo stærsta borg finnska ríkishlutans og þjónaði í raun sem höfuðborg. Fyrsti háskóli Finnlands ("Åbo akademi") var stofnaður 1640 og starfar enn í borginni. Rússnesk yfirvöld völdu, eftir að Finnland varð hluti af Rússneska keisaradæminu, að gera Helsinki - Helsingfors að höfuðborg 1812 í staðinn og olli það langvarandi togstreitu á milli borganna. Nú á tíðum telja margir Turku standa næst Helsinki af öllum borgum Finnlands á meðan aðrir telja að Tampere eigi fremur þann heiður skilinn. Oulu. Oulu (sænska: Uleåborg) (65°00'N 25°28'E) er borg og borgarhérað með um 130.000 íbúa í Norður-Austurbotni í Finnlandi. Oulu er stærsta og mikilvægasta borg Norður-Finnlands og sjötta stærsta borg landsins. Fólksfjölgun í borginni er næstum sambærileg við stórþéttbýlissvæði Helsinki. Allt í drasli. Allt í drasli er íslenskur sjónvarpsþáttur sem hefur verið á dagskrá á Skjá einum frá 2005. Þátturinn er íslensk útfærsla á breska þættinum "How Clean is Your House?". Þátturinn gengur út á það að farið er heim til fólks þar sem umgengni og hreinlæti er verulega ábótavant og messað yfir heimilisfólki um leið og ræstingafólk tekur til og þrífur. Upphaflega voru þáttastjórnendur Heiðar Jónsson snyrtir og Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík, en árið 2007 tók Eva Ásrún Albertsdóttir við af Heiðari við hlið Margrétar. Sögumaður er Hjálmar Hjálmarsson. Þættirnir eru gerðir samkvæmt bresku forskriftinni og mikið er um ýktar raddir, upphrópanir og líkamlegt látbragð til að lýsa yfir vanþóknun yfir ástandinu. Þessi forskrift er nú í notkun við þáttagerð í fjöldamörgum Evrópulöndum, íslenska útgáfan var ellefta staðfæringin á þáttunum. Meðaltals áhorf á þættina, á meðan þeir voru í sýningu var tuttugu og tvö prósent. þriðja þáttaröð. Eva Ástrún Albertsdóttir kemur fersk inn í stað Heiðars sem kynnir. 3 af 13 heimilum verða valin í stórtækar breytingar í þættinum Innlit/útlit. Þessi þáttaröð er sú síðasta af þættinum Allt í drasli. Djúpárhreppur. Djúpárhreppur var hreppur neðst í Holtum í Rangárvallasýslu. Hann varð til við uppskiptingu Ásahrepps hinn 1. janúar 1936. Fyrsti oddviti Djúparhrepps var Tyrfingur Björnsson bóndi í Hávarðarkoti. Innan Djúparhrepps er byggðakjarninn Þykkvibær en þar eru ræktaðar um 60% af kartöflum landsmanna. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Djúpárhreppur Rangárvallahreppi og Holta- og Landsveit undir nafninu "Rangárþing ytra". Rangárvallahreppur. Rangárvallahreppur var hreppur í Rangárvallasýslu, kenndur við sveitina Rangárvelli milli Ytri- og Eystri-Rangár. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Rangárvallahreppur Djúpárhreppi og Holta- og Landsveit undir nafninu "Rangárþing ytra". Holta- og Landsveit. Holta- og Landsveit var hreppur í Rangárvallasýslu. Hann varð til 1. júlí 1993 við sameiningu Holtahrepps og Landmannahrepps. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Holta- og Landsveit Djúpárhreppi og Rangárvallahreppi undir nafninu "Rangárþing ytra". Landmannahreppur. Landmannahreppur var hreppur í uppsveitum Rangárvallasýslu. Hinn 1. júlí 1993 sameinaðist Landmannahreppur Holtahreppi undir nafninu "Holta- og Landsveit". Holtahreppur (Rangárvallasýslu). Holtahreppur var hreppur í ofanverðum Holtum í Rangárvallasýslu. Hann varð til ásamt Ásahreppi hinn 11. júlí 1892 við að Holtamannahreppi var skipt í tvennt. Hinn 1. júlí 1993 sameinaðist Holtahreppur Landmannahreppi undir nafninu "Holta- og Landsveit". Holtamannahreppur. Holtamannahreppur var hreppur í vestanverðri Rangárvallasýslu. Hinn 11. júlí 1892 var Holtamannahreppi skipt í tvennt. Varð efri hlutinn að Holtahreppi og hinn neðri að Ásahreppi". Pétur Þorsteinsson. Pétur Þorsteinsson (fæddur 5. maí 1955) er prestur Óháða safnaðarins í Reykjavík. Hefur gefið út "Petrísk - íslenska orðabók" í 32 útgáfum og kallar sig „allsherjarnýyrðaskáld“ eða forseta Háfrónsku málhreyfingarinnar á Íslandi. Pétur er einnig töframaður og einn af stofnfélögum Hins íslenska töframannagildis og heldur árlega "galdramessur" og "gerningaguðsþjónustur". Ólivín. Peridótít í basalti. Myndin er frá Arizona fylki, Bandar. Ólivín er steind gerð úr magnesíum-járn-silíkati. Ólivín er ein algengasta steind á Jörðinni og hefur einnig verið greint í bergi á Tunglinu. Lýsing. járn er blátt. Grindareining er táknuð með svörtum ferhyrning. Ólivín er venjulega ólífugrænt að lit (sbr. nafnið), þótt það geti orðið rauðleitt vegna oxunar járns. Það hefur skeljalaga brotfleti og er fremur stökkt.og hefur það glergljáa. Útbreiðsla. Ólivínflokkurinn kallast flokkur steinda með skylda uppbyggingu en þar má t.d. nefna monticellít og kirschsteinít. Ólivín finnst bæði í mafísku (basísku) og útmafísku (útbasísku) bergi, en það er frumsteind í sumu myndbreyttu bergi. Gegnsætt ólivín er stundum notað sem gimsteinn, sem oftast er kallaður perídót, en það er frönsk nafngift ólivíns. Það er einnig nefnt chrysolít, en það er runnið frá grísku orðunum fyrir gull og stein. Ólivín kristallast úr kviku sem er rík af magnesíum en inniheldur lítið kísilmagn. Slík kvika myndar mafískt til útmafískt berg eins og gabbró, basalt, peridótít og dúnít. Myndbreyting óhreins dólómíts og annars setbergs sem inniheldur mikið af magnesíum og lítið af kísli virðist mynda Mg-ríkt ólivín, eða forsterít. Ólivín, eða afbrigði þess sem til verða við mikinn þrýsting, mynda yfir 50% af efri möttli Jarðar sem þýðir að steindin er ein algengasta steind Jarðar að rúmmáli. Ólivín hefur einnig verið greint í loftsteinum, á Mars og á Tunglinu. Á Íslandi finnst ólivín í Reykjavíkurgrágrýtinu, Búðahrauni og Búrfellshrauni. Vaasa. Vaasa (Vasa á sænsku) er borg á vesturströnd Finnlands. Hún var stofnuð árið 1606, í valdatíð Karls IX Svíakonungs. Borgin er nefnd eftir konungsættinni Vasa. Í dag er íbúafjöldi borgarinnar 57.266 manns (miðað við árið 2005) og er hún á vesturströnd Finnlands á svæði sem kallast Austurbotn. Borgin hefur tvö opinber tungumál, finnsku og sænsku, og eru 71,5% íbúanna finnskumælandi en 24,9% sænskumælandi. Borgin er mikilvægur hluti af Finnlands-sænskri menningu. Homogenic. "Homogenic", gefin út í september 1997 af útgáfufyritækinu One Little Indian, er plata með söngkonunni Björk. Söngkonan sá sjálf um að hljóðblanda plötuna ásamt Howie B og Mark Bell. Platan hlaut nánast einróma lof gagnrýnanda sem hrifust mjög af notkun strengja ásamt rafrænni tónlist. Árið 2009 var "Homogenic" valin í 44. sæti yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum vefjarins Tónlist.is. Lög. Öll lögin eru eftir Björk, nema annað sé tekið fram. Nokia (bær). Nokia er bær í vestur Finnlandi. Hann stendur við bakka árinnar Emäkoski í Pirkanmaa héraði, um 15 kílómetrum vestan við Tampere. Íbúafjöldi í Nokia er um 29.000 manns (miðað við október 2005). Nokia er fremur lítt þekktur bær (jafnvel á meðal Finna). Nafnið kemur frá fornu finnsku orði, "nokia", sem er stytting á orðinu "nokinäätä" sem þýðir safali (loðið dýr), sem kemur frá orðinu "nois" (fleirtala: "nokia") sem þýðir sót. Eftir að safölum var útrýmt í Finnlandi fór orðið að vísa til allra dýra sem höfðu dökkan, loðin feld eins og t.d. marða, sem finnast á svæðinu í dag. Ennþá seinna vísaði orðið almennt til felds, en er þó ekki lengur notað í þeirri merkingu. Fyrirtækið Nokia var stofnað í bænum af Fredrik Idestam árið 1865 og var í upphafi pappírsframleiðslufyrirtæki. Fyrirtækið hefur þó enga starfsemi lengur í bænum og er í dag orðið eitt þekktasta fjarskiptafyrirtæki heims. Feldspat. Feldspat er nafn á mikilvægum hópi bergmyndandi steinda, sem byggja upp um 60% jarðskorpunnar. Lýsing. "Feldspat" steindir eru ál-siliköt sem tengjast aðallega kalíum (K), natríum (Na) eða kalsíum (Ca). Kristalar eru flatir eða strendings-og kubblaga, ógegnsætt eða hálfgengsætt með bárótt eða óslétt brotsár. Eru alsettir samsíða kleyfnissprungum og tvíburasamvöxtur algengur. Oftast hvít eða gráhvít á litinn. Gler-eða skelplötugljái. Útbreiðsla. Feldspatar kristallast úr kviku í bæði innskotabergi og gosbergi. Þeir koma fyrir sem samfelldar steindir, sem bergæðar og eru einnig til staðar í mörgum gerðum myndbreytts bergs. Berg sem eingöngu er gert úr plagíóklas feldspötum nefnist anorthsít. Feldspatar finnast einnig í mörgum gerðum setbergs. Jarðhitasvæði Íslands. Jarðhitasvæði Íslands kallast þau svæði þar sem jarðhita er að finna. Þó það sé á stóru svæði innan virka rekbeltisins ber þó að nefna helstu svæðin. Glasgow. Buchanan Street í miðborg Glasgow. Glasgow er stærsta borg Skotlands og stendur við ána Clyde í miðvestur hluta skosku láglandanna. Borgin er mikil iðnaðarborg og var fyrrum heimsfræg fyrir skipaiðnað. Þar voru til dæmis byggð skipin Queen Mary, Queen Elizabeth, Queen Elizabeth II og konungssnekkjan, Britannica. Í Glasgow búa nú um 630.000 manns (1.749.154 samkvæmt manntali 2001). Íbúum hefur farið fækkandi á síðustu áratugum, vegna þess að nýjar borgir hafa verið byggðar í grenndinni, má þar til dæmis nefna East Kilbride og Cumbernauld. Um leið hafa stór og fjölmenn fátækrahverfi í borginni verið fjarlægð auk þess sem borgarmörkum hefur verið breytt og skýrir þetta fækkunina. Á Stór-Glasgow svæðinu búa um 2.1 milljón manna og í Strathclyde (sem er gelíska fyrir "dalur árinnar Clyde") búa yfir tvær og hálf milljón, eða um helmingur allra Skota. Glasgow er mesta viðskiptaborg Skotlands og er í þriðja sæti breskra borga sem ferðamannaborg. Aðeins London og Edinborg eru ofar á þeim lista. Ennfremur er Glasgow mesta viðskiptaborg Bretlands að London frátalinni. Verndardýrlingur Glasgow er Saint Mungo, sem einnig er nefndur Saint Kentigern. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir mynd hans og einnig bjöllu, fugl og fisk. Einkennisorð borgarinnar eru „Let Glasgow flourish“. Haag. Haag (hollenska: Den Haag, formlega 's-Gravenhage) er stjórnsýsluleg höfuðborg Hollands og höfuðborg héraðsins Suður-Hollands. Í borginni eru báðar deildir hollenska þingsins, skrifstofur ráðuneyta, hæstiréttur, sendiráð erlendra ríkja og þar er aðsetur Beatrix drottningar. Engu að síður er Amsterdam skilgreind sem höfuðborg Hollands í stjórnarskrá. Innan borgarmarkanna búa rúmlega 500 þúsund manns en að úthverfum meðtöldum er íbúafjöldinn um það bil 700 þúsund. Borgin er sú þriðja stærsta í Hollandi á eftir Amsterdam og Rotterdam. Í Haag eru nokkrar alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðadómstóllinn. Lega og lýsing. Haag liggur við Norðursjó og er vestasta stórborg Hollands. Næstu borgir eru Rotterdam til suðausturs (10 km), Leidschendam-Voorburg til austurs (5 km) og Leiden til norðausturs (20 km). Haag stendur á stórri sandöldu við Norðursjó og því er þar minna um læki og síki en í öðrum hollenskum borgum. Miklar sandstrendur skilja að borgina og sjóinn. Þrátt fyrir það hefur lítil höfn verið grafinn í sandinn og er sandinum haldið frá með löngum hafnargörðum. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítstork með svartan ál í nefinu á gulum grunni. Álar voru gjarnan veiddir í tjörnum við Haag á árum áður og var einnig mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla. Storkurinn verpti í og við Haag á öldum áður og var hann einkennismerki Haag allt frá miðöldum. Gulu ljónin sem skjaldberar og kórónan efst eru síðari tíma viðbætur. Fáninn samanstendur af tveimur láréttum röndum. Appelsínugul efst, en græn neðst. Litirnir eru teknir úr skjaldarmerkinu en þar er græni liturinn grunnur merkisins og táknar landið. Appelsínuguli liturinn vísar bæði til aðallitar skjaldarmerkisins en einnig til lits Óraníuættarinnar. Orðsifjar. Bærinn var ávallt kallaður Haghe eða Den Haghe. En 1602/3 ákváðu borgaryfirvöld að breyta nafninu í 's-Gravenhage en það merkir veiðiland greifans. ('s = greinir (eignarfall, stytting fyrir "des"), Graven = greifi, hage = veiðilenda). 's-Gravenhage er enn opinbert heiti borgarinnar á hollensku en Den Haag er alþýðuheiti hennar. Bæði heitin eru jafngild. Heitið er gjarnan þýtt á önnur mál. Þannig heitir það The Hague á ensku, La Haye á frönsku, Der Haag eða Den Haag á þýsku, L´Aia á ítölsku, La Haya á spænsku. Upphaf. Þegar á 11. öld hafði myndast þorp á núverandi borgarstæði, en þar höfðu greifar héraðsins Holland reist sér veiðiaðsetur sem þeir dvöldu gjarnan í á veiðiferðum sínum. Árið 1248 lét Vilhjálmur II greifi af Hollandi reisa sér forlátan kastala í Haag. Hann lést þó áður en kastalinn var tilbúinn. Sonur hans, Floris V lauk verkinu, en kastalinn er hluti af þinghúsum Haags í dag. Á 14. öld var kastalinn orðin að aðalaðsetri greifanna. Við það stækkaði bærinn í kring, en hann hlaut þó ekki borgarréttindi. Í upphafi 15. aldar erfði Búrgúnd öll Niðurlönd. Landstjórinn sem fór með mál Búrgúnd fékk aðsetur í Haag og því má segja að þetta hafið verið upphafið að höfuðborginni Haag. Landstjórar sátu þar þó aðeins til 1477 en þá var Niðurlöndum stjórnað frá Brussel. Sjálfstæðisstríð. Haag 1649, ári eftir að sjálfstæðisstríðinu lauk formlega 1560 var fyrsta ráðhúsið reist í Haag og í kjölfarið var farið að reisa varnarmúra í kringum bæinn. Þeir voru enn í byggingu þegar sjálfstæðisstríð Hollendinga braust út. Það reyndist borginni illa, því Spánverjar hertóku hana nær vandræðalaust í upphafi stríðsins og rændu hana gengdarlaust. Borgin varð að aðsetri spænska hersins í stríðinu. Þegar þeir yfirgáfu borgina um áratug síðar var hún í rústum. Hollendingar íhuguðu að jafna hana við jörðu en Vilhjálmur af Óraníu lét byggja hana upp á ný. Frá og með 1588 var hún aðalaðsetur uppreisnarstjórnarinnar gegn Spánverjum það sem eftir lifði stríðs. Þegar friður var saminn 1648 varð Haag að höfuðborg hinna sjö sameinuðu Niðurlanda. Við það upplifði borgin mikið blómaskeið og uppvöxt. Við uppbyggingu borgarinnar kom sér vel að borgarmúrar voru nær engir og því takmarkaðist uppbyggingin ekki við miðborgina, eins og hjá öðrum evrópskum borgum þessa tíma. Franski tíminn. Haag slapp við öll stríðátök í Evrópu næstu 300 árin. Lítið fór fyrir borginni á franska tímanum. 1806 veitti Loðvík Bonaparte, konungur Niðurlanda, Haag loks formlega borgarréttindi. Þegar Frakkar hurfu úr landi stofnuðu Holland, Belgía og Lúxemborg konungsríki. Ríkið var formlega með tvær höfuðborgir, Brussel og Haag. Borgirnar skiptust á um heiðurinn á tveggja ára fresti. Þingað var í annarri borginni í tvö ár og svo í hinni. Þetta fyrirkomulag hélst allt til 1830 er Belgía sleit sig úr sambandinu og stofnaði eigið konungsríki. Hollenska þingið fundaði þá að staðaldri í Haag en opinberlega var Amsterdam kjörin höfuðborg landsins. Nýrri tímar. Þjóðverjar réðust inn í Holland 10. maí 1940. Ætlunin var að taka landið í einu hendingskasti. Til þess var þýsk fallhlífasveit látin lenda í Haag til að taka Vilhelmínu drottningu, þingið og aðrar mikilvægar stöðvar. Þetta var fyrsta fallhlífaárás sögunnar. En aðgerðin í Haag mistókst. Kom þar til að hollenskar sveitir veittu nasistum meira viðnám en reiknað var með. Drottningin komst úr landi og þingmenn tvístruðust. Fjórum dögum seinna, 14. maí, var enn barist í tveimur borgum: Rotterdam og Haag. Þjóðverjar gerðu mikla loftárás á Rotterdam og eyddu borginni. Þegar þeir hótuðu að gera slíkt hið sama við Utrecht, gafst hollenski herinn í Haag upp. Borgin var formlega hertekin af nasistum 15. maí. Þýski herforinginn, Arthur Seyss-Inquart, var settur í embætti sem æðsti ráðamaður þýska ríkisins í Hollandi í Riddarasalnum í þinghúsinu. Fangelsið í borgarhlutanum Scheveningen var breytt í herfangelsi þar sem andspyrnumenn voru lokaðir inni. Það hlaut viðurnefnið Oranje-Hotel. Þann 3. mars 1945 gerðu Bretar loftárás á Haag og ætluðu að sprengja eldflaugaskotpalla. En af misgáningi var árásin gerð á hverfið Bezuidenhout. Í henni létust 500 manns, en 3000 hús eyðilögðust. Eftir stríð þandist borgin enn út og náði mest 600 þúsund íbúum árið 1965 en íbúatalan hefur dalað síðan. Þann 13. september 1974 fór fram gíslataka er hryðjuverkasamtökin "Japanski rauði herinn" ruddist inn í franska sendiráðið. Viðburðir. Indónesískur danshópur á Tong Tong hátíðinni KoninginneNach ("Drottningarnótt") er mikil útitónleikahátíð sem haldin hefur verið síðan 1989. Hún er haldin kvöldið fyrir drottningardaginn (óopinberan þjóðhátíðardag) en þaðan kemur heitið. Hér er um stærstu útihátíð Hollands að ræða. Meðal annarra tónlistarhátíða í Haag eru: Beatstad, Crossing Border, Parkpop, State-X New Forms, Het Paard van Troje. Tong Tong hátíðin er stærsta Indó-hátíð heims (evrópsk-indónesísk menning) en Indónesía var áður fyrr hollensk nýlenda. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1959 og er haldin snemmsumars. Boðið er upp á tónlist, mat, drykki, markaði og ýmislegt annað frá Indónesíu. Nederlandse Veteranendag er hátíðsdagur til heiðurs gamalla hermanna. Hann hefur verið haldin síðasta laugardag í júní ár hvert síðan 2005 og er það ríkisstjórnin sem skipuleggur hann. Á deginum eru gamlir hermenn og stríðshetjur heiðraðar. Íþróttir. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er ADO Den Haag, sem varð hollenskur meistari 1942 og 1943. CPC Loop Den Haag (City-Pier-City Loop) er árleg hlaupakeppni í Haag, þar sem hlaupið er hálfmaraþon. Hlaupið hófst 1975, en þá var hlaupin vegalengdin 14,5 km. Ári síðar var vegalengdin komin upp í hálfmaraþon og hefur hún haldist þannig síðan. Sigurvegarar í karlaflokki síðan 1998 hafa ávallt verið frá Afríku (Kenía, Eþíópíu eða Tansaníu). Aðrar vinsælar íþróttagreinar í Haag eru hokkí, krikket og ruðningur. Byggingar og kennileiti. Madurodam er nokkurs konar lítið Holland Albert Eymundsson. Albert Eymundsson (fæddur á Höfn í Hornafirði febrúar 1949) var bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar til ársins 2006, þegar Hjalti Þór Vignisson tók við starfinu. Á 100 ára afmæli FIFA var hvert knattspyrnusamband beðið um að velja einn mann innan hreyfingarinnar til að hljóta sérstaka viðurkenningu frá FIFA. Albert Eymundsson varð fyrir valinu, fyrir áratugahugsjónastarf í knattspyrnuhreyfingunni. Los Angeles. Los Angeles að nóttu til. Los Angeles (á spænsku: Los Ángeles (borið fram "los 'aŋxeles")) er stærsta borg Kaliforníu og næststærsta borg Bandaríkjanna. Borgin er oft kölluð "Borg Englanna". Íbúafjöldi borgarinnar er um fjórar milljónir, hún er 1.290,6 ferkílómetrar að stærð og er staðsett í suðurhluta Kaliforníu. Til viðbótar eru um 12,9 milljón íbúar á svæðinu umhverfis Los Angeles. Los Angeles-sýslan er fjölmennasta og útbreiddasta sýsla Bandaríkjanna. Íbúar borgarinnar eru þekktir sem „Angelenos“. Los Angeles var stofnuð 4. september 1781 af spænska ríkisstjóranum Felipe de Neve sem "El Pueblo de Nuestra Señora la Reina de los Angeles del Río de Porciúncula" (Þorp konunnar okkar, drottning englanna og árinnar Porziuncola). Hún varð hluti af Mexíkó árið 1821, eftir að það fékk sjálfstæði frá Spáni. Árið 1848, þegar stríðinu á milli Mexíkóa og Bandaríkjamanna lauk, varð Los Angeles ásamt Kaliforníu hluti af Bandaríkjunum. Los Angeles er miðstöð viðskipta, alþjóðlegra skipta, afþreyingar, menningar, tísku, vísinda, tækni og menntunar. Þar eru stofnanir sem hafa mikla þekkingu á hinum ýmsu sviðum. Hollywood er staðsett í Los Angeles en Hollywood er þekkt sem "Höfuðborg skemmtanaiðnaðarins" en þar eru framleiddar kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tekin upp tónlist. Þar sem borgin er mikilvæg í þessum iðnaði hefur hún dregið að sér margar stjörnur. Jóhannesarborg. Jóhannesarborg (afríkanska og enska: "Johannesburg") er fjölmennasta borg Suður-Afríku og sú þriðja fjölmennasta í Afríku á eftir Kaíró og Lagos. Borgin er einnig höfuðborg Gauteng-héraðs, ríkasta héraðs Suður-Afríku. Í Jóhannesarborg fara fram mikil viðskipti með gull og demanta en borgin er staðsett í Witwatersrand-fjallgarðinum þar sem miklar gull og demantanámur er að finna. Flugvöllur borgarinnar er sá stærsti í Afríku. Íbúar voru rúmar 3 milljónir 2001, en á Stór-Jóhannesarborgarsvæðinu sem einnig tekur til nálægra útborga búa samtals um 8 milljónir. Frank H. Knight. Frank Hyneman Knight (7. nóvember 1885 - 15. apríl 1972) var kunnur bandarískur hagfræðingur, sem kenndi í Chicago-háskóla. Hann er einn helsti upphafsmaður Chicago-hagfræðinganna svonefndu og einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna. Knight fæddist í White Oak Township í McLean í Illinois. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Cornell-háskóla 1916. Vakti doktorsritgerð hans mikla athygli og kom á prent, "Risk, Uncertainty and Profit" (1921). Þar gerði hann greinarmun á áhættu og óvissu og hélt því fram, að gróði myndi óvissunnar vegna aldrei eyðast upp í frjálsri og fullkominni samkeppni, eins og talið hafði verið. Knight kenndi í háskólunum í Cornell, Chicago og Iowa, uns hann varð prófessor í Chicago-háskóla 1922, en þar starfaði hann til 1952 og bjó í Chicago til æviloka. Árið 1924 átti Knight í frægri ritdeilu við A. C. Pigou, sem hafði í bókinni "Economics of Welfare" (Farsældarfræði) sett fram þá skoðun, að ríkið gæti betrumbætt markaðinn, lagfært ýmsar afleiðingar frjálsra viðskipta. Pigou nefndi mengun og fleiri vandræði, sem hlotist gætu af óheftri samkeppni. Eitt dæmið var af tveimur misgóðum vegum, sem lægju milli tveggja borga. Umferð myndi ekki skiptast milli þeirra á hagkvæmasta hátt, heldur verða meiri umferð (og því alvarlegri umferðartruflanir) á betri veginum. Þessu mætti kippa í lag, sagði Pigou, með vegartollum, sem ríkið innheimti af hinum misgóðu vegum. Þeir yrðu misháir eftir misjöfnum gæðum veganna. Þá myndi umferðin milli þeirra skiptast á hagkvæmasta hátt. Þá myndi ólíkt verð endurspegla ólík gæði, eins og það á að gera. Knight benti á, að Pigou hefði ekki gert ráð fyrir, að vegirnir gætu verið í einkaeigu. Væri svo, þá myndu eigendur þeirra innheimta eðlilegt verð fyrir þá, eigandi betra vegarins hærra verð en eigandi verri vegarins, svo að markaðurinn kæmist sjálfkrafa að sömu niðurstöðu og Pigou vildi láta ríkið koma í kring. Dæmi Pigous væri því ekki um galla á markaðsviðskiptum (sem hagfræðingar kalla nú á dögum á e. market failure), heldur um galla á ríkisafskiptum (e. government failure), því að ríkið hefði ekki skilgreint eða leyft eignarrétt á vegum. Segja má, að kenning Ronalds Coases um utanaðkomandi kostnað (e. social cost) sé í svipuðum anda og þessi athugasemd Knighs. Knight var efahyggjumaður, ekki síst um ríkisvaldið. Hann sagði nemendum sínum: „Þegar ég heyri einhvern segja: Ég þarf vald til að gera góða hluti, strika ég í huganum út síðustu orðin, og þá stendur aðeins eftir: Ég þarf vald. Það þarf alltaf að hlusta af tortryggni á þá kröfu.“ Hann snerist eins og margir aðrir hagfræðingar í Chicago-háskóla gegn hugmyndum Johns Maynards Keynes á fjórða áratug um, að ríkið þyrfti aukið vald til að geta stýrt atvinnulífinu fram hjá kreppum og öðrum hagsveiflum. Með þessu valdi yrði illt gert verra. Þess í stað ætti að treysta á frjálsa verðmyndun á markaði til að koma á jafnvægi í atvinnulífinu. Efasemdir Knights náðu raunar líka til ýmissa samherja hans, til dæmis Austurrísku hagfræðinganna, sem honum fundust heldur vissir í sinni sök. Knight var frjálshyggjumaður, af því að hann treysti ríkinu enn verr en markaðnum, en ekki af því að hann teldi markaðinn fullkominn. Hann hafði mikil áhrif á nemendur sína, til dæmis þá Milton Friedman, George J. Stigler og James M. Buchanan. Jacques Rueff. Jacques Rueff (23. ágúst 1896 - 23. apríl 1978 var franskur hagfræðingur og ráðgjafi de Gaulles, hershöfðingja og Frakklandsforseta. Hann var eindreginn frjálshyggjumaður og 1947 einn stofnenda Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna. Rueff lauk prófi 1919 frá hinum virta École Polytechnique. Eftir það starfaði hann í fjármálaráðuneyti Frakklands og seðlabanka og gegndi eftir stríð ýmsum öðrum opinberum stöðum, en hélt uppi harðri gagnrýni á kenningar Johns Maynards Keynes, sem þá nutu mikillar hylli ráðamanna. Hann var aðalhöfundur áætlunar, sem við hann var kennd, „Plan Rueff,“ um að koma fjármálum og peningamálum Frakklands í viðunandi horf, og fór de Gaulle eftir valdatöku sína 1958 eftir mörgum ráðum hans. Rueff var dómari við Evrópudómstólinn um árabil og kjörinn félagi í Lærdómslistafélaginu franska, Académie française, 1964. Svarti september. Meðlimur Svarta september á svölum íbúðar í Ólympíuþorpinu í München í september 1972 þar sem 11 ísraelskum íþróttamönnum var haldið föngnum. Svarti september (e. Black September Organization eða BSO) voru palestínsk hryðjuverkasamtök, stofnuð 1970. Nafn hópsins er tilvísun í átök sem hófust þann 16. september 1970 þegar Hussein konungur Jórdaníu setti herlög í landinu vegna ótta um að hinir palestínsku fedayeen tæku yfir land hans. Í kjölfar átakanna var þúsundum palestínumönnum vísað frá landinu og allmargir voru drepnir. Svarti september var svar Fatah hreyfingarinnar við þessum gjörðum konungs og var í upphafi beint að honum og her Jórdaníu. Meðlimir PFLP, as-Sa'iqa og annarra hópa gengu svo til liðs við samtökin. Svarti september varð alræmdur þegar samtökin tóku 11 ísraelska íþróttamenn til fanga á Ólympíuleikunum í Munchen, Þýskalandi, 1972. Þýska lögreglan þóttist ganga að kröfum gíslatökumanna en þegar þeim hafði verið ekið á flugvöll ásamt gíslunum, og þar sem þeim var sagt að flugvél biðið þeirra, réðist þýska lögreglan á þá. Allt sem gat farið úrskeiðis gerði það og allir gíslarnir létu lífið. Gíslatakan varð síðar þekkt sem Blóðbaðið í Munchen (e. Munich massacre). PLO lagði Svarta september niður haustið 1973 í kjölfar þess mats samtakanna að hryjuverk erlendis myndu ekki skila PLO neinu og ári síðar skipaði leiðtogi samtakanna, Yasser Arafat, meðlimum þeirra að hætta öllu ofbeldi utan Ísrael, Vesturbakkans og Gaza strandarinnar. Í kjölfar blóðbaðsins í Munchen skipaði forsætisráðherra Ísraels, Golda Meir, ísraelsku leyniþjónustunni, Mossad, að elta þá uppi sem staðið höfðu að blóðbaðinu í Munchen og drepa þá. Sú aðgerð varð síðar þekkt undir nafninu Reiði Guðs (e. Wrath of God). 7 árum síðar hafði Mossad drepið a.m.k. 8 meðlimi PLO sem taldir voru hafa átt þátt í blóðbaðinu. Meðal þeirra var Ali Hassan Salameh, leiðtogi Force 17, persónulegs lífvarðar Yasser Arafats. Auk hans voru þrír yfirmenn samtakanna drepnir í Beirút í apríl 1973. Í júlí 1973 skutu sex ísraelskir leyniþjónustumenn Ahmed Bouchiki, saklausan marokkóskan þjón í Lillehammer, Noregi, til bana þar sem þeir töldu hann vera Ali Hassan Salameh. Leyniþjónustumennirnir sátu allir í fangelsi í stuttan tíma og voru að lokum náðaðir. Nýlega neitaði einn af hugsuðunum á bak við árásina, Abu Daoud, því að nokkur þeirra palestínumanna sem Mossad hefur tekið af lífi hefðu átt nokkurn þátt í blóðbaðinu í Munchen, þrátt fyrir að 2 þeirra hafi óvéfengjanlega verið á meðal þeirra sem handteknir voru í kjölfar árásarinnar. Blóðbaðið í München. Byggingin þar sem gíslatakan fór fram Blóðbaðið í München var hryðjuverkaárás á sumarólympíuleikunum í München, Þýskalandi, árið 1972 þegar átta meðlimir palestínsku skæruliðasamtakkanna Svarta september tóku 11 ísraelska íþróttamenn í gíslingu. Árásin leiddi til dauða allra ellefu gíslanna, eins þýsks lögreglumanns og fimm af átta hryðjuverkamönnunum þegar þýska lögreglan reyndi að stöðva hryðjuverkamennina á Riem flugvellinum nálægt Munchen. Síðar tók ísraelska leyniþjónustan, flesta forsprakkana af lífi, nema einn, Jamal Al-Gashey. Það er öruggt að segja að hryðjuverkamennirnir náðu því fram sem þeim var ætlan; nefnilega að beina athygli umheimsins að baráttunni milli Ísrael og Palestínumanna. Einnig líta margir þannig á að með með gíslatökunni, og því sem á eftir kom, hafi verið sleginn nýr og dekkri tónn í alþjólegum hryðjuverkum. Golda Meir. Golda Meir (hebreska: גּוֹלְדָּה מֵאִיר) (fædd Golda Mabovitz þann 3. maí, 1898 – 8. desember, 1978) var einn af stofnendum Ísrael. Hún gegndi starfi flokksforingja verkamannaflokks landsins, utanríkisráðherra landsins og var fjórði forsætisráðherra þess frá 17. mars 1969 – 11. apríl 1974. Hún var kölluð járnfrú ísraelska stjórnmála, löngu áður en það hugtak festist við Margaret Thatcher. Hún er fyrsti og jafnframt eini kvenkyns forsætisráðherra Ísrael og þriðji kvenkyns forsætisráðherrann í heiminum. Meir, Golda David Ben-Gurion. David Ben-Gurion (16. október, 1886 – 1. desember, 1973; hebreska: דָּוִד בֶּן גּוּרִיּוֹן, arabíska: ديفيد بن جوريون) var fyrsti forsætisráðherra Ísraels. Ben-Gurion kom í opinbera heimsókn til Íslands 12. september 1962, Ólafur Thors tók á móti honum. Ehud Barak. Ehud Barak (hebreska: אֵהוּד בָּרָק) (f. 12. febrúar 1942, í Mishmar HaSharon samyrkjubúinu, þá undir yfirráðum Breta) er ísraelskur stjórnmálamaður. Hann var 10. forsætisráðherra Ísraels frá 1999 til 2001. Hann er jafnframt sá einstaklingur sem hefur fengið flest heiðursmerki í sögu ísraelska hersins. Barak, Ehud Benjamin Netanyahu. Benjamin Netanyahu (hebreska: בִּנְיָמִין נְתַנְיָהוּ) (f. 21. október 1949 í Tel Aviv) er forsætisráðherra Ísraels. Netanyahu gegndi starfi forsætisráðherra fyrir ísraelska íhaldsflokkinn frá júní 1996 til júlí 1999. Hann er fyrsti og eini forsætisráðherra landsins sem er fæddur eftir að ríkið var stofnað, árið 1948. Hann var einnig fjármálaráðherra landsins þar til 9. ágúst 2005 þegar hann sagði af sér í kjölfar áætlunar þáverandi forsætisráðherra landsins, Ariel Sharon, um að leggja niður landtökubyggðir Ísraela á Gaza. Hann náði aftur völdum í íhaldsflokknum þann 20. desember sama ár eftir brotthvarf Ariel Sharons. Hann gengur oft undir gælunafninu "Bibi". Netanyahu, Benjamin Jerúsalem. Jerúsalem (eða Jórsalir eða Jórsalaborg) (31°46′N 35°14′A) (hebreska: יְרוּשָׁלַיִם Yerushalayim; arabíska: القُدس al-Quds) er forn borg fyrir botni Miðjarðarhafs og lykilborg í sögu gyðingsdóms, kristinna og múslima. Bæði gyðingar og palestínumenn gera tilkall til borgarinnar sem höfuðborgar ríkis síns (palestínumenn til framtíðarríkis). Hún er nú öll undir yfirráðum Ísraela. Gary Becker. Gary Stanley Becker (fæddur 2. desember 1930) er bandarískur hagfræðingur, sem kunnur er fyrir frumlega útfærslu hagfræðilegrar greiningar á ýmis svið mannlífsins, en fyrir hana hlaut hann Nóbelsverðlaun í hagfræði 1992. Hann er einn Chicago-hagfræðinganna svonefndu, frjálshyggjumaður og fyrrverandi forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna. Becker fæddist í Pottsville í Pennsylvaníu-ríki og lauk doktorsprófi í hagfræði í Chicago-háskóla 1955. Doktorsritgerð hans, "The Economics of Discrimination" (1957), þótti mjög frumleg, en varð líka umdeild. Þar tók hann til rannsóknar mismunun (e. discrimination), aðallega vegna kynþáttar, og komst að þeirri niðurstöðu, að hún bitnaði ekki síður á gerandanum en þolandanum. Gerandinn bæri til dæmis kostnað af því að ráða ekki hæfustu umsækjendur í vinnu, heldur láta undan eigin hleypidómum. Becker kenndi í Columbia-háskóla 1957-1968, þegar hann sneri aftur til Chicago. Hann hefur meðal annars rannsakað fjölskylduna sem neyslu- og fjárfestingareiningu. Hann hefur til dæmis spurt, hvað valdi tilhneigingunni til að eignast börn: Hvort eru þau fjárfesting eða neysla? Ein kenning Beckers er um flagðið í fjölskyldunni (e. the rotten kid). Það borgar sig fyrir það að halda sjálfselsku sinni leyndri (bregða yfir sig fögru skinni) til þess að njóta áfram hylli foreldranna. Það borgar sig síðan fyrir foreldrana að fresta í lengstu lög fégjöfum til barna sinna til að halda þeim í skefjum. Önnur kenning Beckers er, að frá hagfræðilegu sjónarmiði séð sé ekkert athugavert við fjölkvæni og fjölveri, svo að vandséð sé, hvaða rök hnígi að banni við þessu. Becker hefur líka rannsakað glæpahneigð. Niðurstaða hans er, að hún ráðist af kostnaðinum af glæpum, en hann felist aðallega í þyngd refsinga og líkum á því, að upp komist um glæpina. Þetta merkir, að í landi, þar sem miklar líkur eru á, að upp komist um glæpi (til dæmis Íslandi), geta refsingar verið mildari en í landi, þar sem minni líkur eru á því (hugsanlega til dæmis Bandaríkjunum). Tvö önnur svið, sem Becker hefur látið sig varða, eru mannauðsmyndun (e. human capital) og neysla fíkniefna. Mannauður myndast, þegar menn fjárfesta í sjálfum sér, aukinni þekkingu og kunnáttu. Hagfræðingar höfðu fram eftir 20. öld ekki veitt þessu næga athygli, heldur horft um of á áþreifanleg og sýnileg gæði eins og land. Ástæðan til þess, að neysla fíkniefna er forvitnilegt rannsóknarefni hagfræðinga, er hins vegar, að sú hegðun virðist óskynsamleg og órökrétt, en ein meginforseta Chicago-hagfræðinga eins og Beckers er, að menn bregðist við kostnaði af verkum sínum og hegði sér skynsamlega. Það sé engin skýring á mannlegri hegðun, að hún sé óskynsamleg, heldur aðeins lýsing á skoðun umsegjandans. Becker skýrir neyslu fíkniefna ekki síst með því, að neytandinn standi vegna fortíðar sinnar andspænis færri kostum en flestir aðrir. Til dæmis kann að vera, að maður, sem geti aðeins valið um það tvennt að stytta sér aldur með byssukúlu eða eiga nokkur sæluár í heróínvímu, breyti skynsamlega, þegar hann verði heróínneytandi. Hin hlífðarlausa hagfræðilega greining Beckers á ýmsum hliðum mannlífsins, sem venjulega eru ekki talin lúta lögmálum frjálsra viðskipta, hefur stundum verið nefnd „hagfræðileg landvinningastefna“ (e. economic imperialism) og vakið andúð og furðu. Becker nýtur þó almennrar viðurkenningar sem snjall fræðimaður. Becker hefur skrifað margt um fræði sín í blöð og tímarit og var forseti Mont Pèlerin-samtakanna 1990-1992. Becker og annar fjölhæfur fræðimaður, Richard Posner, dómari og lagaprófessor, hafa frá árslokum 2004 haldið saman úti heimasíðu, sem vakið hefur mikla athygli, þar sem þeir skrifa hugleiðingar um það, sem efst er á baugi. Becker er tvíkvæntur og á tvær dætur frá fyrra hjónabandi og tvo stjúpsyni frá hinu síðara. Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti við hann viðtal í bókinni "Lausnarorðið er frelsi" (1994). Mossad. Mossad, eða Ha-Mōśād le-Mōdī`īn ū-le-Tafqīdīm Meyūhadīm (hebreska: המוסד למודיעין ולתפקידים מיוחדים), er heiti ísraelsku leyniþjónustunnar. Hún er m.a. ábyrg fyrir upplýsingasöfnun, morðum, mannshvörfum, baráttu gegn hryðjuverkum og ýmsum öðrum hernaðaraðgerðum. Abu Daoud. Abu Daoud (öðru nafni Mohammed Oudeh) var einn af skipuleggjendum blóðbaðsins í München árið 1972 þar sem 17 manns lágu í valnum, þ.á m. 11 ísraelskir íþróttamenn. Hann er nú búsettur í Jórdaníu. Hann hefur lýst yfir vilja sínum til að snúa aftur til Palestínu sjálfsstjórnarsvæðanna en vegna handtökuskipunar sem þýsk stjórnvöld gáfu út á hendur honum, er ólíklegt að hann eigi afturkvæmt þangað. Fatah. Fatah (arabíska: فتح); er tekið úr upphafsstöfum arabísku orðanna "Harakat al-Tahrir al-Watani al-Filastini", er stærsta hreyfingin innan palestínsku regnhlífarsamtakanna PLO, eða Frelsishreyfingar Palestínumanna. Edinborg. Edinborg (enska: "Edinburgh"; gelíska: "Dùn Èideann") er höfuðborg Skotlands og önnur stærsta borg landsins (eftir Glasgow). Íbúar eru um 450.000 manns. Borgin stendur við suðurströnd Forth-fjarðar á austurströnd Skotlands. Borgin var höfuðborg landsins frá árinu 1437. Borgin, með háskólanum, var ein af miðstöðvum upplýsingarinnar. Þar er nú aðsetur skoska þingsins. Hamborg. Hamborg (hágþýska: Hamburg, lágþýska: Hamborg) er borgríki og næstminnsta sambandslandið í Þýskalandi með 755 km². Aðeins Bremen er minna. Hún er hins vegar næststærsta borg Þýskalands með tæpa 1,8 milljón íbúa og jafnframt stærsta hafnarborg landsins. Hamborg var stofnborg og einn ötullasti meðlimur Hansasambandsins áður fyrr. Sérstakt við Hamborg eru hinar óteljandi brýr. Þær eru um 2500, fleiri en í nokkurri annarri borg í Evrópu og reyndar fleiri en í Feneyjum, Amsterdam og London samanlagt. Lega. Hamborg er norðarlega í Þýskalandi og liggur við ána Saxelfi, nokkurn veginn á þeim stað þar sem fljótið breikkar og rennur til Norðursjávar. Aðeins tvö önnur sambandslönd liggja að Hamborg: Slésvík-Holtsetaland fyrir norðan og Neðra-Saxland fyrir sunnan. Næstu borgir eru Lübeck til norðausturs (60 km), Bremen til suðvesturs (70 km) og Hannover til suðurs (90 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Hamborgar er hvítt kastalavirki á rauðum grunni. Merki þetta var fyrst notað fyrir skipaflota borgarinnar 1270 en hefur síðan verið notað fyrir borgina alla. Litirnir eru upprunnir úr Hansasambandinu. Fáninn er nákvæmlega eins, nema hvað formið er aðeins öðruvísi. Orðsifjar. Hamborg var upphaflega saxneskt þorp að nafni Hamm (eða Hamma). Hamm merkir "árbugt". Þegar Karlamagnús eyddi þorpinu, lét hann reisa virki á staðnum sem kallað var Hammaburg eftir þorpinu. Seinna styttist heitið í Hamburg. Upphaf. Hamborg á upphaf sitt í saxnesku þorpi sem hét Hamm. Árið 810 sigraði Karlamagnús saxa og tók til sín stór landsvæði þeirra. Þá lét hann reisa kirkju milli ánna Bille og Alster (sem renna í Saxelfi við Hamborg nútímans), en presturinn þar átti að stjórna kristniboði í norðrinu. Við hlið kirkjunnar lét Karlamagnús reisa flóttavirki sem hlaut nafnið Hammaburg (seinna Hamburg). Þegar árið 832 varð Hamborg að biskupssetri og kristniboðinn Ansgar frá Bremen varð fyrsti biskupinn þar. Ansgar þessi tók hlutverk sitt alvarlega og átti mikinn þátt í kristnun landsvæða í norður af Hamborg. Hann hóf meðal annars kristniboð í Danmörku og var gjarnan kallaður „postuli norðursins“. Eftir lát Karlamagnúsar veiktist frankaríkið mikið. Víkingar gerðu víða strandhögg og 845 réðust þeir á Hamborg. Þeir rændu staðinn og brenndu niður kirkjuna. Hammavirkið gjöreyðilögðu þeir. Ansgar flúði og fyrir vikið varð Bremen aftur aðsetur biskupanna. Eftir að Hamborg var byggð upp á ný skall á næsta eyðingaralda, en 915 réðust slavar á bæinn og brenndu hann niður. Þetta endurtók sig árið 983. Uppgangur. Hamborg um 1150. Til hægri er Saxelfur, til vinstri er áin Alster. Hamborg var byggð upp aftur. Ýmsar byggingar, svo sem Maríukirkjan, biskupahöllin og klaustrið voru gerð úr grjóti en slíkt var óþekkt í héraðinu fram að þessu. Á seinni hluta 11. aldar hófst fyrsta blómaskeið bæjarins, en hún var stjórnuð af biskupum. 1065 lést biskupinn og sáu þá slavar borð á leik og réðust á Hamborg. Hún var rænd nokkrum sinnum en Krútó, höfðingi slavanna, bjó í Lübeck (sem þá var slavnesk) og stjórnaði héraðinu þaðan. Slavaógninni létti ekki fyrr en með kristnitöku héraðsins 1093. Árið 1189 gerði Friðrik Barbarossa Hamborg að fríborg í ríkinu. Samfara því hlaut Hamborg ýmis fríðindi og réttindi. Til dæmis tollfríðindi og borgarar þurftu ekki að gegna herskyldu fyrir keisara. Þetta gerði Friðrik í þakklætisskyni fyrir borgina, þar sem hún aðstoðaði hann í undirbúningi sínum fyrir krossferð til landsins helga. Reyndar lést Friðrik í þeirri ferð, en fríborgarstatus Hamborgar hélst allt til loka þýska ríkisins. Aðrir vilja meina að borgarráðið hafi falsað fríborgarvottorðið þegar fréttin barst til ríkisins að Friðrik Barbarossa hafi drukknað í Austurlöndum. 1214 varð Hamborg, og héraðið norðan Saxelfar, hluti af danska ríkinu og stjórnað af dönskum fógeta. Þetta ástand varaði til 1227 en þá sigruðu norðurþýskir furstar Dani í orrustunni við Bornhøved og endurheimtu lönd sín. 1284 skemmist borgin töluvert í stórbruna. Íbúar borgarinnar voru þá um 5 þúsund. Hansaborgin. Um miðja 13. öld voru viðskiptasambönd Hamborgar orðin mjög víðtæk. Þau teygðu sig til Englands, Noregs, Niðurlanda og um allt norðanvert þýska ríkisins. Verslunarmenn frá Hamborg og Lübeck stofnuðu með sér viðskiptabandalag sem kallaðist Hansasambandið. Bandalag þetta stækkaði ört eftir því sem leið á 13. öldina og gengu hafnarborgir eins og Wismar, Stralsund, Rostock í sambandið, en einnig aðrar borgir sem ekki lágu að sjó, eins og Lüneburg. Hansakaupmenn sigldu jafnvel til Íslands. En Hamborg var þó leiðandi aðili í sambandinu, ásamt Lübeck, og var borginni gríðarleg lyftistöng. Á fyrri hluta 14. aldar keypti borgin æ meira landsvæði í kring og við það stækkaði Hamborg. Flestar stærri kirkjurnar voru reistar á þessum árum. Á 15. öld tóku umsvif sambandsins að dvína og þau stöðnuðu nær alveg þegar leið á 16. öld. Hansasambandið lifði þó áfram í litlum mæli fram á 17. öld. 1669 var síðasti Hansadagurinn (Hansaþing) haldinn. Siðaskipti. Hamborg í kringum aldamótin 1600 1528 ritaði borgarstjórinn í Hamborg Marteini Lúther bréf og bað hann um að senda til sín predikara. Lúther sjálfur komst ekki, en hann sendi þangað samstarfsmann sinn Johannes Bugenhagen. Hann hóf þegar við að predika og mynda nýja kirkjuskipan. Siðaskiptin fóru síðan formlega fram ári síðar. Hamborg var mikið vígi siðaskiptamanna. Borgin tók við flóttamönnum frá Niðurlöndum þegar Spánverjar herjuðu þar á miðri 16. öld, en einnig fengu gyðingar að setjast þar að, en þeir voru reknir burt frá Spáni og Portúgal. Portúgölsku gyðingar mynduðu stærsta minnihlutahóp Hamborgar á 16. öld. 1616 var byrjað á að endurgera og bæta alla múra borgarinnar. Þetta varð til þess að Hamborg var hvorki hernumin né beið nokkurn skaða af 30 ára stríðinu á 17. öld. Hamborg var auk þess að öllu leyti hlutlaus og var stærsta borg þýska ríkisins sem ekki kom við sögu í stríðinu, fyrir utan Vínarborg. Hamborg tók hins vegar við mörgum flóttamönnum og hagnaðist af því. Eftir stríðslok var hvalaútgerð stofnuð í borginni og var Hamborg aðalhvalveiðiborg þýska ríkisins meðan hvalveiða naut. 19. öldin. Eftir frönsku byltinguna, og sérstaklega í Napoleonsstríðunum, óx Hamborg gríðarlega hratt. Hún var frjálsleg borg og þar var trúfrelsi í gildi. Napoleon lét hertaka borgina 1806 en allir Frakkar þurftu að hverfa þaðan 1813. Vínarfundurinn staðfesti síðan fríborgarstatus Hamborgar. Þegar iðnbyltingin hófst óx Hamborg enn frekar. Íbúar voru 130 þús árið 1806, en þeir voru orðnir 300 þús 1860. Flestir bjuggu þó við bág kjör. Þegar Prússland varð að keisararíki 1871, eignaðist það öll landsvæði í kringum Hamborg. Borgin gekk í Norðurþýska sambandið, en hélst að öðru leyti hlutlaust borgríki. 1842 var þýðingarmikið ár fyrir Hamborg. Þá var fyrsta járnbrautarlínan tekin í notkun og þá átti sér stað borgarbruninn mikli. Brunninn eyddi fjórðungi miðborgarinnar. 4000 hús brunnu niður og 10% íbúanna urðu heimilislausir. Í endurreisninni voru vatnslagnir og klóök lögð. Á árunum þar á eftir varð Hamborg aðalhafnarborg þýska ríkisins fyrir útflytjendur til Ameríku. Af þeim 50 milljónum manna sem fluttu frá Evrópu til Ameríku, fóru um 5 milljónir þeirra um Hamborg. Fyrir upphaf heimstyrjaldarinnar fyrri náði íbúatala Hamborgar 1 milljón. 20. öldin. Hamborg undir vatni eftir stormflóðið 1962 1914 settu bandamenn hafnbann á Hamborg. Hagkerfið þar staðnaði að miklu leyti og olli gífurlegu tjóni. Alls létust rúmlega 34 þús hermenn frá Hamborg í heimstyrjöldinni fyrri. 1919 urðu fyrstu frjálsu kosningar í borginni. Flokkurinn SPD hlaut rúmlega helming allra atkvæða og varð Werner von Melle fyrsti lýðræðislegi borgarstjórinn. Sama ár var háskólinn í borginni stofnaður. En strax við valdatöku nasista 1933 varð nasistinn Carl Vincent Krogmann borgarstjóri og var lýðræðið þá tekið úr gildi. Strax var hafist handa við að gera gyðingum og öðrum minnihlutahópum erfitt fyrir. 1933 bjuggu 19 þúsund gyðingar í Hamborg. Langflestir þeirra voru fluttir í fangabúðir. Aðeins 647 voru eftir á lífi í borginni þegar heimstyrjöldinni síðari lauk. Við suðausturjaðar Hamborgar voru fangabúðirnar Neuengamme opnaðar. Talið er að um 55 þúsund manns hafi látið þar lífið. Fyrstu loftárásir bandamanna á borgina hófust 1943. Í allt varð Hamborg fyrir 213 árásum. Í þeim eyðilagðist stór hluti hennar og biðu 50 þúsund manns bana. 900 þúsund manns urðu heimilislausir. Alls tóku 17 þúsund flugvélar þátt í árásunum, sem vörpuðu rúmlega 1,6 milljónum sprengjum yfir borgina. 3. maí 1945 hertóku Bretar borgina bardagalaust. Hún var á breska hernámssvæðinu. Bretar settu þar sérlög og leyfðu Hamborg að halda sérstöðu sinni í Þýskalandi. 1949 varð Hamborg að sambandslandi innan Þýskalands og var þá enn eigið borgríki. 1962 átti sér stað gríðarmikið stormflóð er mikil lægð gekk yfir landið á háflóði. Sjávarbylgja gekk upp eftir Saxelfi og flæddi hún og þverár hennar þá yfir bakka sína. 300 manns biðu bana. Í dag er Hamborg mikil viðskipta- og menningarborg. Stærstu fyrirtækin þar eru Airbus Operations og Lufthansa, hvor um sig með rúmlega 10 þúsund starfsmenn. Viðburðir. Schlagermove er stærsta hátíð alþýðutónlistar í Þýskalandi Íþróttir. Í Hamborg var keppt í HM í knattspyrnu 1974 og 1990. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Hamburger Sportverein (HSV). Liðið hefur 6 sinnum orðið þýskur meistari (síðast 1983) og þrisvar bikarmeistari. Auk þess varð liðið Evrópumeistari bikarhafa 1977 (sigraði þá Anderlecht) og sigraði Evrópukeppni meistaraliða 1983 (sigraði þá Juventus). Af fyrrum þekktum leikmönnum liðsins má nefna Uwe Seeler, Kevin Keegan, Felix Magath, Rafael van der Vaart, Tony Yeboah og Ruud van Nistelrooy. Félagið FC St. Pauli komst í 1. Bundesliguna vorið 2010. Í Hamborg er árlega haldið Maraþonhlaup. Hlaupið hefur verið haldið síðan 1986 og er yfirleitt hlaupið í apríl. Árið 2010 voru þátttakendur rúmlega 14 þús. Beinir áhorfendur eru um milljón manns, sem gerir Maraþonhlaupið í Hamborg það vinsælasta í heimi. Samfara Maraþonhlaupinu fara fram hjólastólahlaup og línuskautahlaup. Vattenfall Cyclassics er heiti á hjólreiðakeppni sem fer fram í heilan dag á götum Hamborgar. Keppnin hefur verið haldin síðan 1996 og er vegalengdin um 250 km. Helsta handboltaliðið er HSV Hamburg, sem varð þýskur meistari 2011 og bikarmeistari 2006 og 2010. Liðið varð auk þess Evrópumeistari bikarhafa 2007 (sigraði þá Ademar León frá Spáni). Vinabæir. Auk ofangreindra borga er höfnin í Hamborg í vinatengslum við nokkrar hafnarborgir. Sama gildir fyrir einstaka borgarhluta í Hamborg. Frægustu börn borgarinnar. Tískufrömuðurinn Karl Lagerfeld er einn þekktasti Hamborgarinn Dyflinn. Dyflinn, Dyflinni eða Dublin (írska: "Dubh Linn" eða "Baile Átha Cliath", enska: "Dublin") er höfuðborg og jafnframt stærsta borg Írska Lýðveldisins. Hún stendur við miðja austurstönd Írlands við árósa Liffey-ár, í Dyflinnarsýslu. Dyflinni hefur verið höfuðborg Írlands síðan á miðöldum. Stóra Dyflinnarsvæðið vísar til Dyflinnarsýslu, Dun Laoghaire-Rathdown, Fingal, Kildare, Meath, Suður-Dyflinnar og Wicklow, en fólk ferðast enn lengri leiðir til þess að komast til vinnu. Íbúafjöldi Dyflinnar var 495,781 við manntal 2002, en Dyflinnarsýsla hafði 1,122,821 íbúa og alls voru 1,565,446 íbúar á stóra Dyflinnarsvæðinu. Nafn. Orðsifjafræði orðsins "Dyflinn" eða "Dublin" er á þá leið að það sé komið af "Dubh Linn" (írska: „Svartipollur“ eða „Svartalón“), sem er rétt nafn sýslunnar. Í forneskju var ‚bh‘ ritað ‚ḃ‘, þ.e. ‚b‘ með punkti fyrir ofan, og er það borið fram eins og ‚v‘. Í hinni normönskuskotnu ensku hvarf þessi punktur og þær framburðarupplýsingar sem honum fylgdu, og um síðir varð úr samsetta orðið „Dublin“. Sumir hafa þó haldið því fram að "Dyflinn" sé af Norrænum uppruna, af orðunum „djúp lind“. Þetta er þó ólíklegt þar sem nafnið "Dubh Linn" varð til áður en víkingar komu til Írlands. Í íslensku er orðið kvenkyns og beygist þannig: Dyflinn, Dyflinni, Dyflinni, Dyflinnar. Þess má geta að vanalega er orðið "dubh" ritað sem "duff" í germönskum málum, samanber bæina Carryduff og Gulladuff. Á nútímaírsku heitir borgin "Baile Átha Cliath", sem merkir „Bærinn við grindavaðið“. Allt frá tímum Rómverja hafði verið þorp á þessum stað. Um 840 náðu víkingar yfirráðum í borginni og stofnuðu þar konungdæmi, sem segja má að hafi staðið að nafninu til 1171, með nokkrum hléum. Mikilla írskra áhrifa gætti þó í borginni, einkum eftir 1036. Árið 980 vann Mael Sechnaill II, hákonungur Írlands, sigur á Ólafi kvaran við Tara, og átta árum síðar, 988 náði hann Dyflinni á sitt vald. Miða margir Írar upphaf borgarinnar við það. Norrænir konungar sátu þó áfram í borginni, en völd þeirra minnkuðu verulega og írsk áhrif jukust. "Ítarefni:" Konungar í Dyflinni Dublin (aðgreining). Dublin (Dyflinn) er höfuðborg Írlands, staðsett í Dyflinnarsýslu. Dublin er lítill bær í suður Ástralíu. Samkomulag Evrópusambandsins um pólitískt hæli heitir Dyflinnarbókunin, og var undirrituð í Dyflinni. Dublin Core er alþjóðastaðall um lýsigögn sem dregur nafn sitt af bænum Dublin í Norður-Karólínufylki Sjá einnig: Írsk staðarnöfn í öðrum löndum Saxelfur. Saxelfur (en stundum einnig kölluð aðeins Elfin) (tékkneska: "Labe"; þýska: "Elbe"; latína: "Albis"; danska: "Elben"; sorbneska: "Łobjo"; pólska: "Łaba", - komið úr norrænu: "elfr", „elfur eða fljót“) er eitt af stærstu fljótum Evrópu ein af helstu siglingaleiðum um Mið-Evrópu. Upptök fljótsins eru í Tékklandi við norðurlandamæri Tékklands og Póllands. Það rennur síðan 1165 km leið um Tékkland og Þýskaland út í Norðursjó við Cuxhaven. Við fljótið standa margar stórar borgir, svo sem Dresden, Magdeburg og Hamborg. Bagdad. Bagdad eða Bagdað (arabíska: بغداد, úr persnesku: بغداد, „gjöf englanna“) er höfuðborg Íraks og Bagdadsýslu. Hún er önnur stærsta borgin í Suðvestur-Asíu á eftir Teheran og önnur stærsta borg Arabaheimsins á eftir Kaíró. Íbúafjöldi árið 2003 var áætlaður um 5.772.000. Hún stendur við ána Tígris og var eitt sinn miðstöð hins íslamska menningarheims. Mílanó. a> séð frá Corso Vittorio Emanuele II. Mílanó eða Meilansborg (ítalska: "Milano") er önnur stærsta borg Ítalíu, með um 1,3 milljónir íbúa í hinu eiginlega sveitarfélagi en 7,4 milljónir í hinni eiginlegu borg. Hún er höfuðstaður samnefndrar sýslu og héraðsins Langbarðalands. Hún er gjarnan kölluð efnahagsleg höfuðborg landsins og kauphöll Ítalíu er staðsett þar. Sagan segir að borgin hafi verið stofnuð af gallverskum ættflokki um 600 f.Kr.. Rómverjar nefndu hana "Mediolanum" eftir 200 f.Kr.. Innfeldi. Innfeldi (oft kallað punkt- eða depilmargfeldi) er tvílínulegur virki, sem skilgreindur er á vigurrúmi. Er ýmist táknuð með tveimur oddklofum, formula_1, eða með punkti, formula_2. Vigurrúm ásamt innfeldi er kallað innfeldisrúm. Rauntalnarúm. Þá er maður í raun að ofanvarpa öðrum vigrinum á hinn og margfalda svo saman lengdir þeirra. Innföldun er víxlin og dreifin aðgerð. Mikilvægur eiginleiki innfelda er að innfeldi hornréttra vigra er núll. Það er auðvelt að sjá það því að þátturinn formula_17 verður núll þegar formula_18 þar sem formula_19 Búdapest. Búdapest er höfuðborg Ungverjalands og jafnframt miðpunktur, stjórnmála, menningar, viðskipta, iðnaðar og samgangna fyrir Ungverjaland í heild sinni. Árið 1873 sameinuðust borgirnar á bökkum Dónár, Buda og Óbúda á hægri bakkanum, þeim vestari, og Pest á vinstri bakkanum, þeim eystri í eina borg, Búdapest. Nú er borgin sú sjötta stærsta innan Evrópusambandisns. Rúmlega 1,7 milljón manns búa í borginni sem er nokkru færri en á hátindi íbuafjölda um miðjan níunda áratug 20. aldarinnar en þa bjuggu rúmlega 2,1 milljón manns í borginni. Saga. Rómverjar reistu bæinn "Aquincum", 89 e.Kr. á grunni fornra keltneskrar byggðar nærri því sem síðar varð Óbuda, frá 106 fram undir lok 4. aldar e. Kr. var bærinn miðpunktur svæðisins sem kallaðist lægri Pannonia. Pest varð vettvangur "Contra Aquincum" (ellegar "Trans Aquincum"), staðar af minna mikilvægi. Nafnið Pest (eða "Peshta") er talið upprunnið af tyrknesku tungumáli. Svæðið varð heimahagar ýmsra slavneskra hópa. Í kringum árið 900 komu ungverjar austan úr mið asíu og settust að þar sem nú er Ungverjaland og stofnuðu konungsríkið Ungverjaland einni öld síðar. Endurbygging Pest gekk fljótt fyrir sig að aflokinni innrás Mongóla árið 1241, en Buda, varð höfuðborg Ungverjalands árið 1361. Yfirtaka Ottoman-veldisins á mest öllu Ungverjalandi á 16. öld tafði vöxt borganna, en þær féllu Tyrkjum í skaut árið 1541. Austurríki undir stjórn Habsborgara endurheimti borgirnar 1686, frá 1526 höfðu Habsborgararnir jafnframt verið Konungar Ungverjalands, þótt þeir hefðu misst yfirráð yfir landinu að mestu. Pest óx hraðar á 18. og 19. öld. Meðan íbúafjöldi Pest tuttugufaldaðist fimmfaldaðist íbuafjöldinn einungis hinumeginn Dóná. Ungverjar komu á fót byltingarstjórn árið 1849 og voru ekki hrifnir af endurreisn Habsborgarvaldsins og fengu loks sjálfstjórn innan Austurríska-Ungverska keisaradæmisins. Samanlagður íbúafjöldi borganna sjöfaldaðist frá 1840 til 1900 og varð 730.000 manns. Á tuttugustu öldinni var mestur vöxtur í úthverfum borgarinnar, sérstaklega í Újpest og Kispest, með auknum hlut borgarinnar í iðnaðarframleiðslu landsins. Mannfall Ungverja í Fyrri heimsstyrjöldinni og missir tveggja þriðju landsvæðis síns tafði vöxtinn einungis um stundarsakir, en Búdapest var orðin höfuðborg í smærra en fullvalda ríki. 1930 var íbúatalan komin í eina milljón og því til viðbótar bjuggu 400.000 manns í úthverfum. Milli 20% og 40% af 250,000 gyðingum í Búdapest féllu fyrir Nasistum og Boga kross hreinsunum 1944 og 1945., Engu að síður er Búdapest með hæsta hlutfall gyðinga af evrópskum borgum. 1. janúar 1950, var landsvæði Búdapest stækkað umtalsvert. Borgin bætti fyrir skaðann sem hún hlaut í umsátri Sovíetmanna 1944 á sjötta og sjöunda áratugnum og var með því skólabókardæmi um nýtanleika í byggingarstíl fremur en fegurð, sem afleiðing kommúnistastjórnarinnar (1947–1989) upp frá 1960. frá 1980 hefur íbúum borgarinnar líkt og landsins farið fækkandi. Hverfi Búdapest. Borgarhverfin eru númeruð réttsælis á svipaðan hátt og París Upphaflega voru hverfin 10 við sameiningu borganna þriggja 1873. 1950 var Búdapest sameinuð nokkrum nágrannasveitarfélögum og hverfin urðu 22. Nú eru hverfin 23, 6 í Buda, 16 í Pest and 1 á eyjunni milli þeirra. Vegir. Allar aðalbrautir Ungverjalands liggja til Búdapest. milli 1990-1994, voru götunöfn færð til fyrra horfs, þess sem þekktist á síðari hluta 19. aldar, kommúnískum nöfnum var hafnað. Neðanjarðarlestir. Neðanjarðarlestakerfi Búdapest, Metro, er næst elsta kerfi sinnar tegundar í Evrópu. Upprunalega leiðin er merkt M1 ellegar kölluð gulaleiðin. Hún var endurgerð til að þjóna áhugamönnum um söguna. M2 (rauð) og M3 (blá), voru teknar í notkun síðar, unnið er að gerð M4 og hafist verður handa við M5 á næsta ári. Mexíkóborg. Mexíkóborg (spænska: "Ciudad de México") er höfuðborg Mexíkó í Mexíkódalnum ("Valle de México"), í um 2.240 metra hæð yfir sjávarmáli, umkringd eldfjöllum sem rísa í um 4.000 til 5.500 metra yfir sjávarmál. Upphaflega var Mexíkóborg sveitarfélag stofnað af Hernán Cortés 1521 á miðju Texcoco vatni á rústum Tenochtitlan, höfuðborgar Asteka. Árið 1928 varð sveitarfélagið að Mexíkóborg. Nafnið "Ciudad de México" er notað af stjórnvöldum á Mexíkanska sambandssvæðinu ("Distrito Federal" (D.F.)). Sambandssvæðið er opinberlega höfuðborg Mexíkó og lýtur stjórn Alríkisstjórnarinnar. Útvíkkuð merking Mexíkóborgar vísar til alls stórborgarsvæðisins nær út fyrir Sambandssvæðið og tekur til nokkurra sveitarfélaga sem tilheyra Ríkinu Mexíkó ("Estado de México"), Norður, austur og vestur af Sambandssvæðinu og norður í Ríkið Hidalgo. Íbúafjöldinn er álitinn vera milli 18 og 22 milljónir á öllu stórborgarsvæðinu, (fer að vísu eftir viðmiðunum). Því er Mexíkóborg þriðja eða fjórða fjölmennasta borg heimsins, á eftir Tókýó, New York, og hugsanlega Seoul. Saga. Upphaflega var borgin reist af Astekum árið 1325 sem Tenochtitlan, og varð fljótlega miðpunktur hins vaxandi veldis Asteka. Þar sem borgin stóð á eyju í Texcoco vatni neyddust Astekarnir fljótlega til að byggja fleiri eyjur og mynda kerfi skurða milli búsvæðanna. Þó vatnið væri salt byggðu Astekarnir stíflur þannig að borgin var umlukin ferskvatni frá vatnsföllunum sem runnu í vatnið. Vatnsveitur tryggðu vatn fyrir þvotta og hreingerningar. Hinn spænski Hernán Cortés kom fyrst á svæðið árið 1519. Honum tókst þó ekki að sigra heimamenn og ná yfirráðum í borginni fyrr en 13. ágúst 1521, eftir 79 daga umsátur sem eyddi að mestu hinni fornu borg Astekanna. Frá 1525 var hin endurbyggða borg höfuðborg og aðsetur nýlendustjóranna í Nýja Spáni og stjórnmála og menningarlegur miðpunktur Mexíkó. Þaðan var Gvatemala, Flórída, Kúbu og Filippseyjum stjórnað. Á nýlendu tímanum voru m.a. Dómkirkjan og Guadalupe Basilikkan reistar í barrokkstíl. Sjálfstæðisstríð Mexíkana árið 1810, og fullt sjálfstæði Mexíkó 1821 breytti engu um mikilvægi borgarinnar. Mexíkóborg varð heimili fyrsta stjórnanda Mexíkanska keisaradæmisins Agustin de Iturbide, sem og lýðveldisins sem leysti það af hólmi árið 1823. Stríð við Bandaríkin og borgaralegur órói breytti litlu um stöðu borgarinnar sem varð vettvangur hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarrar. Einni slíkri stjórn var komið á fót 1864 sem stjórn seinna Mexíkanska keisaradæmisins. Þó hin konunglega stjórn Maximilian af Habsborg sæti ekki lengi við völd hóf hún endurbyggingu Chapultepec kastalans og kom að annarri skipulagningu varðandi vöxt borgarinnar. Valdatími Porfirio Diaz einræðisherra í þrjá áratugi setti franskan svip á Mexíkóborg. "Engill Sjálfstæðisins" var reistur til að minnast aldar afmælis upphafs frelsisstríðs Mexíkana. Meðal annarra merkja um tíma Diaz má nefna Höll hinna fögru lista. Stjórnvöld í Mexíkó eftir mexíkönsku byltinguna 1910 lögðu áherslu á uppbyggingu Mexíkóborgar. Mestur vöxtur hljóp í borgina á seinni hluta 20. aldarinnar, árið 1950 voru íbúarnir um 3 milljónir manna. Árið 2000 var talið að milljónirnar væru orðnar 18. Borgin hýsti Ólympíuleikana sumarið 1968. Úrslitakeppni HM í knattspyrnu fór fram í borginni árið 1970 og aftur 1986. Klukkan 07:17 19. september, 1985, skalf borgin í jarðskjálfta sem mældist 8,1 á Richter. Þá létust um 5.000 manns samkvæmt opinberum tölum og um 50.000-90.000 manns misstu heimili sín. Fram til 1998 hafði forseti Mexíkó ávallt valið borgarstjórann, sá fyrsti sem var kjörinn borgarstjóri af íbúum borgarinnar var Cuauhtémoc Cárdenas. Útsýni yfir Paseo de la Reforma frá Chapultepec kastalanum Mexíkóborg státar sig af stærsta neðanjarðarlestakerfi í rómönsku Ameríku (207 km), sem hóf rekstur árið 1969. Neðanjarðarlestakerfið flytur daglega um 4 milljónir farþega á milli staða. Rekstur kerfisins er kirfilega niðurgreiddur af stjórnvöldum hvar hver ferð kostar um MXN $2 (u.þ.b. 20 krónur). Í Mexíkóborg er Benito Juárez Alþjóðlegi flugvöllurinn MEX, nefndur eftir fyrrum forseta Mexíkó Benito Juárez. Vandamál. Umferðaröngþveiti, fátækt og mengun eru áberandi í Mexíkóborg líkt mörgum öðrum stórborgum. Í Mexíkóborg eru götubörn talin vera um 50.000. Fjöllin sem umlykja borgina hindra loftsskipti þannig að mengun helst viðvarandi. Ofbeldisfullir glæpir eiga sér stað í Mexíkóborg, árið 2003 var tilkynnt um 3.000 mannrán. Grænir leigubílar eru áberandi á götum borgarinnar. Borið hefur á því að glæpir séu framdir undir yfirskyni þjónustulundar. Menntun. Elsti Háskóli í norður Ameríku, UNAM - "Universidad Nacional Autónoma de México" - Þjóðarháskóli sjálfstjórnarsvæðisins Mexíkó, er staðsettur í Mexíkóborg, UNAM var stofnaður árið 1551. Einn besti háskólinn í spænskumælandi löndum. Svæði Metropolitan. Sem afleiðing af fjölgun íbúa í Federal District í 1970 ríki sveitarfélaga í Mexíkó liggja að Federal District voru þéttbýli conurbations. Samþættingu hennar á höfuðborgarsvæðinu er tengist stöðu þeirra sem iðnaðarsvæði, að því tilskildu að draga margir innflytjendur sem komu til Valley of Mexico á þeim tíma. Árið 1990 höfuðborgarsvæðinu var skilgreind sem fjallaði sextán sendinefndir frá Mexico City, auk þrjátíu og átta sveitarfélögin Mexico State. Nýjustu skilgreiningu samþykkt af sveitarstjórn, ástand stjórnvöld í Mexíkó og Hidalgo og sambands-ríkisstjórn skilgreindi Metropolitan Zone á Mexico City sem þéttbýli myndast við 16 sendinefndir á Federal District, 40 nágrannasveitarfélögum í ríkinu Mexíkó og eitt ríki Hidalgo.23 Þessi skilgreining er jákvætt í þeim skilningi að öll sveitarfélög séu conurbation eða uppfylla kröfur um efnahagslega og félagslega aðlögun. Einnig samþykkt var skilgreiningu á Metropolitan Area Mexíkó, þar á meðal öðrum 18 sveitarfélögum í Mexico State (alls 58), eins og skilgreiningu staðla, samanstendur af nokkrum sveitarfélögum sem hafa ekki enn verið conurbation, en gefin virkari fjölgun íbúa og landfræðilegum, verður samþætt í náinni framtíð. Nýja Delí. Nýja Delí, (Hindi: नई दिल्ली), þéttbýlt svæði innan stórborgarinnar Delí, aðsetur ríkisstjórnar Indlands, eitt þriggja sveitarfélaga sem mynda höfuðborgarsvæðið Delí. Höfuðborg Raj. Kalkútta var miðpunktur breskra áhrifa á Indlandi og var vettvangur höfuðstöðva Breska Austur Indíafélagsins. Samt sem áður hafði Delí verið höfuðborg mun lengur. Árið 1911 var því lýst yfir að Rajinn myndi flytja aðsetur sitt, og höfuðborgina þar með til Delí. Nýja Delí varð reist fyrir sunnan Delí sem oft er kölluð Gamla Delí. Samt sem áður eru margar fornar minjar sem tilheyrðu gömlum tíma innan Nýju Delí. Stór hluti Nýju Delí var skipulagður af Edwin Lutyens, sem vildi gera mikið úr mikilfengleik breska heimsveldisins. Rajpath - og Konungsvegur "Kingsway"- ná frá stríðsminnisvarðanum - nú Indlands hliðið að Landstjóra höllinni- Rashtrapati Bhavan á Raisina Hæðinni. Líkt og Washington og París, var borgin hönnuð til að slá gesti út af laginu með því valdi og krafti sem fælist í miðju ríkisins. Önnur viti um heimsmynd hönnuðanna má sjá þar sem þinghúsið er varla sjánlegt frá Rajpath, enda var ekki ætlunin að lýðræðið léki lausum hala á Indlandi. Sjálfstætt Indland og sjálfsstjórn. Er Indland varð sjálfstætt fékk Delí takmarkaða sjálfsstjórn. Árið 1956 varð Delí að bandalagssvæði. Árið 1991, voru lög um höfuðborgarsvæðið samþykkt sem fólu borgaryfirvöldum aukin völd, þó lögin kæmu ekki til framkvæmda fyrr en 1993. Ferðamannastaðurinn Nýja Delí. Í Delí má finna margar stjórnsýslustofnanir, sendiráð sem og ýmsa sögulega staði. Meðal staða sem vert er að sjá má nefna Rashtrapati Bhawan, eitt sinn heimili landstjórans, Indlands hliðið, minnisvarði um látna Indverska hermenn sem féllu í Afghanstríðinu, Laxminarayan hofið, reist af Birla fjölskyldunni, Grafhýsi Humayun; Hvolhreppur. Hvolhreppur var hreppur í Rangárvallasýslu miðri, austan Eystri-Rangár. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Hvolhreppur Fljótshlíðarhreppi, Vestur-Landeyjahreppi, Austur-Landeyjahreppi, Vestur-Eyjafjallahreppi og Austur-Eyjafjallahreppi undir nafninu "Rangárþing eystra". Fljótshlíðarhreppur. Fljótshlíðarhreppur var hreppur í Rangárvallasýslu, kenndur við sveitina Fljótshlíð. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Fljótshlíðarhreppur Hvolhreppi, Vestur-Landeyjahreppi, Austur-Landeyjahreppi, Vestur-Eyjafjallahreppi og Austur-Eyjafjallahreppi undir nafninu "Rangárþing eystra". Vestur-Landeyjahreppur. Vestur-Landeyjahreppur var hreppur í Landeyjum í Rangárvallasýslu, milli Hólsár og Affalls. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Vestur-Landeyjahreppur Hvolhreppi, Fljótshlíðarhreppi, Austur-Landeyjahreppi, Vestur-Eyjafjallahreppi og Austur-Eyjafjallahreppi undir nafninu "Rangárþing eystra". Austur-Landeyjahreppur. Austur-Landeyjahreppur var hreppur í Landeyjum í Rangárvallasýslu, milli Affalls og Markarfljóts. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Austur-Landeyjahreppur Hvolhreppi, Fljótshlíðarhreppi, Vestur-Landeyjahreppi, Vestur-Eyjafjallahreppi og Austur-Eyjafjallahreppi undir nafninu "Rangárþing eystra". Vestur-Eyjafjallahreppur. Vestur-Eyjafjallahreppur var hreppur í austanverðri Rangárvallasýslu, milli Markarfljóts og Holtsóss. Hreppurinn varð til árið 1871 þegar Eyjafjallasveit var skipt í tvennt. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Vestur-Eyjafjallahreppur Austur-Eyjafjallahreppi, Hvolhreppi, Fljótshlíðarhreppi, Vestur-Landeyjahreppi og Austur-Landeyjahreppi undir nafninu "Rangárþing eystra". Austur-Eyjafjallahreppur. Austur-Eyjafjallahreppur var hreppur í austurjaðri Rangárvallasýslu, milli Holtsóss og sýslumarkanna við Jökulsá á Sólheimasandi (Fúlalæk). Hreppurinn varð til árið 1871 þegar Eyjafjallasveit var skipt í tvennt. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Austur-Eyjafjallahreppur Vestur-Eyjafjallahreppi, Hvolhreppi, Fljótshlíðarhreppi, Vestur-Landeyjahreppi og Austur-Landeyjahreppi undir nafninu "Rangárþing eystra". Eignarréttur. a> rakti eignarrétt aðallega til skorts á gæðum Eignarréttur er réttur einstaklings, fyrirtækis eða annars lögaðila til að nota hlut, selja og ráðstafa á annan hátt og líka að meina öðrum að nota hann. Hér verður aðallega rætt um einkaeignarrétt en margvíslegur sameignarréttur er líka til. Nauðsyn eignarréttar. Skoski heimspekingurinn David Hume gerði grein fyrir því, að einkaeignarréttur yrði til af tveimur meginástæðum, vegna nísku náttúrunnar og skorts á náungakærleika. Þar sem nóg er til af öllu, þarf engan eignarrétt. Hann myndast til að afstýra árekstrum um takmörkuð gæði. Til dæmis þarf ekki einkaeignarrétt á andrúmslofti, þar sem notkun eins manns á því minnkar ekki tækifæri annarra til að nota það. Hins vegar þarf eignarrétt á bithögum, því að ella er hætta á ofbeit. Þar sem allir eru sáttir um notkun hluta eða fastar reglur gilda um hana, þarf engan eignarrétt heldur. Venjulega gera foreldrar og börn ekki skriflega samninga um framfærsluskyldu hvors aðila gagnvart hinum. Myndun eignarréttar. Enski heimspekingurinn John Locke setti fram þá kenningu, að einkaeignarréttur gæti myndast á gæðum jarðar, án þess að skertur væri sameiginlegur réttur allra til þessara gæða (sem hann viðurkenndi líka). Ástæðan var sú, að afraksturinn var svo miklu meiri í skipulagi, þar sem var einkaeignarréttur á gæðum, að aðrir en eigendurnir nytu jafnan góðs af. Menn gætu með öðrum orðum slegið eign sinni á tiltekin gæði, án þess að aðrir sköðuðust af. Bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick hefur gert frekari grein fyrir þessum kosti. Gagnrýni eignarréttar. Þýski heimspekingurinn Karl Marx hélt því fram, að einkaeignarréttur á framleiðslutækjum leiddi til óþolandi ójafnaðar. Borgarastéttin hefði sölsað undir sig gæði, sem ættu að vera í sameign allra. Hann vildi, að öreigastéttin gerði byltingu og stofnaði sameignarskipulag. Bandaríski rithöfundurinn Henry George gagnrýndi hins vegar einkaeignarrétt á þeim gæðum, sem eru í eðli sínu takmörkuð (til dæmis land), svo að þau hækka í verði við aukna eftirspurn, án þess að eigendurnir hefðu gert neitt til að bæta þær. George vildi leggja á sérstakan jarðskatt til að gera upptækan slíkan gróða, sem hann taldi óverðskuldaðan. Marxismi og georgismi nutu mikils fylgis í upphafi 20. aldar, og tókst marxistum að leggja undir sig fjölda landa á öldinni. Í upphafi 21. aldar nýtur einkaeignarréttur þó víðtækari viðurkenningar en oft áður. Hafa ýmsar ríkisstjórnir, ekki síst í fyrrverandi sameignarríkjum, beitt sér fyrir einkavæðingu, myndun einkaeignarréttar á framleiðslufyrirtækjum. Takmörk eignarréttar. John Locke, Robert Nozick og aðrir frjálshyggjumenn halda því fram, að eignarrétturinn sé nauðsynlegur frelsinu. Eignalausir menn séu ósjálfstæðir gagnvart ríkisvaldinu. Í stjórnarskrám vestrænna lýðræðis- og réttarríkja nýtur einkaeignarrétturinn víðast friðhelgi. Ekki má skerða eignir manna, nema almannahagsmunir krefji og komi fullar bætur fyrir. En Locke setti myndun eignarréttar þann fyrirvara, að hagur annarra skertist ekki. Hugsanlegur er árekstur eignarréttar og frelsis, til dæmis ef 19 af 20 vatnsbólum í eyðimerkurvin þorna upp, svo að einn maður, eigandi eina vatnsbólsins, hefur kverkatak á öllum öðrum og misnotar það. Nozick heldur því fram, að þá taki fyrirvari Lockes gildi, svo að einkaeignarréttur þessa eiganda víki fyrir frelsinu. Einn helsti hugsuður frjálshyggjunnar á 20. öld, Friedrich A. von Hayek, er sammála honum. En báðir telja þeir Hayek og Nozick, að við allar venjulegar kringumstæður nái einkaeignarréttur vel þeim tilgangi sínum að vernda frelsið. Ófullkominn eignarréttur. Eignarréttur getur verið ófullkominn í einhverjum skilningi. Rithöfundurinn Hernando de Soto frá Perú heldur því til dæmis fram, að það standi fátækum þjóðum í suðri mjög fyrir þrifum, að fólk hafi þar margvíslegan nýtingarrétt, sem það geti ekki breytt í skrásettan og verndaðan einkaeignarrétt. Þess vegna liggi fjármagn þar dautt, en sé ekki undirorpið lífrænni þróun, eins og í vestrænum iðnríkjum. Annað dæmi um ófullkominn eignarrétt er fiskveiðiréttur á Íslandsmiðum. Hann er fólginn í aflahlutdeild (til dæmis 5% af leyfilegum þorskafla ársins 2005), sem eigendum skipa er úthlutað, en síðan eru reiknaðar út aflaheimildir miðað við leyfilegan heildarafla hvers árs (til dæmis 10.000 lestir árið 2005). Margvíslegar takmarkanir eru á framsali aflaheimildanna, auk þess sem þær njóta ekki að lögum fullrar viðurkenningar sem eignaréttindi. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, hefur óspart gagnrýnt, hversu ófullkominn eignarrétturinn er á fiskistofnum. Eignarréttarhagfræði. Bandaríski hagfræðingurinn Harold Demsetz er einn helsti frumkvöðull nýrrar greinar, eignarréttarhagfræðinnar. Demsetz telur eins og Hume, að einkaeignarréttur myndist vegna skorts á gæðum. Sá skortur getur orðið til (og líka horfið) vegna tæknibreytinga. Til dæmis fundust nýjar aðferðir til að senda út og taka á móti efni með hljóðbylgjum í fyrri heimsstyrjöld. Eftir það spruttu upp útvarpsstöðvar í Bandaríkjunum. Þegar þær útvörpuðu á stöðum nálægt hver annarri og á rásum nálægt hver annarri, trufluðu þær hver aðra. Dómstólar í Bandaríkjunum hófu að úthluta staðbundnum útvarpsrásum. Þannig var að myndast einkaeignarréttur á útvarpsrásum. En sú þróun var stöðvuð með löggjöf. Eignarréttur, mengun og sóun náttúruauðlinda. Eignarréttarhagfræðingar segja, að mengun og sóun náttúruauðlinda stafi oftast af því, að einkaeignarréttur hefur ekki verið skilgreindur á þeim gæðum, sem menguð eru eða er sóað. Ef verksmiðja leiðir til dæmis úrgang út í stöðuvatn, sem aðrir veiða í, og spillir með því veiðinni, þá er það, vegna þess að eignarréttur veiðimannanna á stöðuvatninu hefur ekki verið viðurkenndur. Ástæðan til þess, að menn hella ekki úr öskutunnum sínum í garð náungans, er, að garður náungans er í einkaeign, svo að hans er gætt. Eignarréttur og dýrategundir í útrýmingarhættu. Sumar dýrategundir eru taldar í útrýmingarhættu, til dæmis hvalir, fílar í Afríku og nashyrningar. (Sumir líffræðingar segja að vísu, að margir hvalastofnar og flestar tegundir Afríkufíla séu ekki í neinni slíkri hættu.) Eignarréttarhagfræðingar segja, að besta ráðið til að tryggja, að þessum dýrategundum verði ekki útrýmt, sé að skilgreina eignaréttindi á þeim. Enginn tali um, að kindur séu í útrýmingarhættu. Það er, af því að þær eru í eigu einhvers, sem merkir sér þær og gætir þeirra. Erfitt getur að vísu verið að merkja sér hvali (þótt það sé ekki tæknilega ókleift), en ekki er erfiðara að skilgreina einkanýtingarréttindi á þeim en á þorski, ýsu eða öðrum nytjastofnum á Íslandsmiðum. Sameignarréttur. a> í Reykjavík um eignarrétt í ágúst 2005. Davíð hafði forystu um einkavæðingu á Íslandi, og Ragnar er kunnur eignarréttarhagfræðingur á alþjóðavettvangi. Stundum merkir sameignarréttur ekkert annað en eignarréttur ríkisins á einhverjum hlutum eða gæðum. En stundum eiga margir menn saman hlut. Til dæmis má segja, að bændur á Suðurlandi eigi saman ýmis framleiðslusamvinnufélög. Sá hængur er á að dómi eignarréttarhagfræðinga, að eignarrétturinn er mög ófullkominn. Hann er til dæmis ekki seljanlegur. Munurinn á hlutafélagi og samvinnufélagi er, að í hlutafélaginu getur eigandi selt hlut sinn. Hann hefur því meiri áhuga á langtímavirði hlutarins en aðilinn að samvinnufélaginu. Eftir því sem fleiri eiga einhver nýtanleg gæði saman, eru líka minni tengsl milli framlags hvers einstaks eiganda og afraksturs hans, sem myndar hættu á því, að einhverjir svíkist um. Eignarréttarráðstefna á Íslandi. Mont Pèlerin-samtökin, alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, héldu ráðstefnu á Íslandi í ágúst 2005 um „eignarrétt og frelsi á nýrri öld“. Þar hélt Harold Demsetz erindi um eignarréttarhagfræðina. Ragnar Árnason prófessor leiddi rök að því, að eignarréttur yrði því hagkvæmari sem hann væri fullkomnari (til dæmis rétturinn betur skilgreindur og viðskipti greiðari með eignirnar). Þráinn Eggertsson prófessor tók nokkur dæmi í anda eignarréttarhagfræðinnar frá Íslandi, meðal annars um, hvernig ítala hefði myndast á þjóðveldisöld (vegna hættu á ofbeit á upprekstrarlandi komu bændur sér saman um, að hver jörð mætti aðeins reka tiltekinn fjölda sauða á fjall). Rögnvaldur Hannesson prófessor lýsti því, hvernig mynda mætti eignarrétt á gæðum hafsins. Tom Hazlett prófessor sagði frá þróun eignaréttinda á útvarps- og sjónvarpsrásum. Prófessorarnir Gary Libecap og Terry Anderson tóku ýmis dæmi um það, sem þeir kalla „free market environmentalism“ (umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis). Penelope Lively. Penelope Lively (f. 17. mars, 1933) er egypskur rithöfundur og hefur skrifað bækur fyrir bæði börn og fullorðna. Hún hefur þrisvar sinnum komist á stutta listann yfir Booker-verðlaunin og vann þau einu sinni fyrir bókina "Moon Tiger". Hún fæddist í Kaíró og var alin upp í Egyptalandi áður en hún var send í heimavistarskóla á Englandi tólf ára að aldri. Hún nam samtímasögu við St Anne's háskólann í Oxford og settist um kyrrt á Englandi. Penelope Lively náði fyrst árangri á ritvellinum með sögum fyrir börn og fyrsta bókin hennar 'Astercote var gefin út 1970. Síðan þá hefur hún gefið út margar barnabækur og hefur bæði unnið Carnegie verðlaunin og Whitbread verðlaunin fyrir bestu barnabókina. Árið 1977 gaf hún út fyrstu bókina sína fyrir fullorðna og náði hún inn á stutta listann fyrir Booker-verðlaunin. Hún endurtók leikinn árið 1984 með bókinni "According to Mark", og vann að lokum verðlaunin 1987 með "Moon Tiger". Tenglar. Lively, Penelope County Dublin. Dyflinnarsýsla (Írska: "Contae Bhaile Átha Cliath", enska: "County Dublin") er sýsla á Írlandi. Í henni er Dyflinn, höfuðborg Írska lýðveldisins. Dyflinnarsýsla er í Leinster-héraði. Í raun er réttara er að segja Dyflinnarsvæðið eða jafnvel Dyflinnaramt en Dyflinnarsýsla, þar sem að sýslunni er skipt upp í fjórar aðrar sýslur: Dyflinn (borgin), Dun Laoghaire-Rathdown, Fingal og Suður-Dublin. County Galway. Galway-sýsla (Írska: "Contae na Gaillimhe", enska: "County Galway") er sýsla á vesturströnd Írlands. Hún er í Connacht-héraði. County Leitrim. Leitrim-sýsla (Írska: "Contae Liatroma", enska: "County Leitrim") er sýsla á Írlandi. Hún er í Connacht-héraði. Nafn ("Liatroma") þess er komið úr írsku: "Liath Druim", sem þýðir "grár hryggur". County Mayo. Mayo-sýsla (Írska: Contae Mhaigh Eo, enska: County Mayo) er sýsla á vesturströnd Írlands, í Connacht-héraði. County Roscommon. Roscommon-sýsla (Írska: "Contae Ros Comáin", enska: "County Roscommon") er sýsla í miðju Írlandi, í Connacht-héraði. County Sligo. Sligo-sýsla (Írska: "Contae Shligigh", enska: "County Sligo") er sýsla á Írlandi, í Connacht-héraði. Nafnið "Shligigh" eða "Sligeach" merkir „svæði þakið skeljum“. County Clare. Clare-sýsla (Írska: "Contae an Chláir", enska: "County Clare") er sýsla á Írlandi, í Munster-héraði. Frankfurt am Main. er stærsta borg þýska sambandslandsins Hessen og fimmta stærsta borg Þýskalands. Hún er staðsett á bökkum árinnar Main og er stærsta fjármálamiðstöð Þýskalands. Þar er meðal annars Seðlabanki Evrópu. Lega. Frankfurt liggur við ána Main sunnarlega í Hessen, ekki langt frá Baden-Württemberg og steinsnar fyrir suðaustan miðhálendið Taunus. Næstu borgir eru Wiesbaden og Mainz til vesturs (20 km), Darmstadt til suðurs (20 km) og Würzburg til suðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er silfurlitaður örn með kórónu. Örninn er tákn keisararíkisins og fenginn að láni þaðan á 13. öld. Þegar borgin varð fríborg var sett kóróna á höfuð hans. Núverandi skjaldarmerki er frá 1841, með örlitlum síðari tíma breytingum. Orðsifjar. Saxar fylgjast með rádýri vaða yfir ána Main. Borgin hét upphaflega Frankenfurt eða Vadum Francorum, sem merkir "frankavaðið" og kom fyrst við skjöl 794. Hér er verið að tala um hættulaust vað yfir ána Main. Alþjóðlega er borgin yfirleitt aðeins kölluð Frankfurt en Þjóðverjar nota gjarnan fullt nafn til aðgreiningar frá Frankfurt an der Oder, sem er borg í sambandslandinu Brandenborg. Borgin er stundum kölluð Frakkafurða á íslensku. Til er þjóðsaga um tilurð heitisins. Er Karlamagnús var að berjast við saxa eitt sinn höfðu saxar betur. En eftir að Karlamagnús dró sig í hlé til að safna liði og blása til nýrrar sóknar, hörfuðu saxar að ánni Main, sem þeir töldu ófæra. En þá sáu þeir hvar rádýr skoppaði á vaði yfir ána. Þetta vað nýttu saxar sér og sluppu þannig við frekari bardaga. Karlamagnús þorði ekki yfir ána og því var staðurinn kallaður frankavaðið (Frankfurt á þýsku). Engar heimildir eru hins vegar til um það að Karlamagnús hafi nokkru sinni barist gegn söxum í nágrenni árinnar Main. Keisaraborgin Frankfurt. Rómverjar hófu byggð í Frankfurt á 1. öld e.Kr. Þeir yfirgáfu hins vegar staðinn á miðri 3. öld. Enn í dag eru til rómverskar rústir í miðborginni. Þar heitir enn Römerberg ("Rómverjahæðin"). 793 kemur Frankfurt fyrst við skjöl í bréfi Karlamagnúsar sem germanskur bær. Þar reisti Karl sér aðsetur og er hann talinn stofnandi borgarinnar. Hann hélt þar ríkisþing. Sonur hans, Lúðvík hinn frómi, settist einnig að í Frankfurt. Barnabörn Karlamagnúsar gerðu með sér Verdun-samninginn árið 843. Í honum var frankaríkinu mikla skipt í þrennt. Lúðvík hinn þýski fékk austurhlutann og settist meira eða minna að í Frankfurt, sem við það verður faktískt að höfuðborg austurhluta frankaríkisins. 1152 predikaði munkurinn Bernhard frá Clairvaux í Gömlu Nikulásarkirkjunni og hvatti fólk til að fara í krossferð. Konráður III ákvað að taka þátt í ferðinni en lét fyrst krýna son sinn til konungs eftir sig í Frankfurt. Síðan þá hafa allmargar krýningar átt sér stað í borginni, þrátt fyrir að aðalkrýningarborg þýsku konunganna var Aachen. Frankfurt varð hins vegar að kjörstað konunganna. Kjörfurstarnir hittust reglulega þar til að velja nýjan konung. Árið 1245 varð Frankfurt formlega að ríkisborg, aðeins undirgefin konungi/keisara. Siðaskipti. Frakkar skjóta á Frankfurt 1796 Um miðja 15. öld fann Jóhannes Gutenberg upp prentvélina í Mainz. Bækur voru prentaðar, ekki síst í Frankfurt, sem varð að mikilvægri bókaborg. Í borginni voru skipulagðar stórsýningar á bókum ("Frankfurter Buchmesse") sem enn er við lýði. 1530 urðu siðaskiptin í borginni. Nokkrum árum síðar gekk borgin til liðs við her mótmælenda ("Schmalkaldischer Bund"). Sá her reyndist ekki giftudrjúgur og neyddist Frankfurt til að opna hlið sín fyrir keisarahernum þegar hann mætti til borgarinnar í desember 1546. En borgin hélst þó lútersk. Á seinni hluta 16. aldar fluttu margir mótmælendur þangað frá Niðurlöndum, sem þá voru stjórnuð harðri hendi af Spánverjum (spænsku Habsborgaralínunni). Árið 1556 var Ferdinand I krýndur keisari í Frankfurt. Síðan þá hafa langflestir þýsku keisaranna verið krýndir þar, í stað þess að ferðast alla leið suður til Rómar. Frankfurt var að öllu leyti hlutlaus í 30 ára stríðinu, enda fríborg, og kom ekki við sögu í þeim hildarleik. Við friðarsamningana í Vestfalíu 1648 var fríborgarstatus Frankfurts staðfestur. Napoleonsstríðin og bylting. Í október 1792 hertóku franskir byltingarmenn borgina og kröfðust hárra greiðslna. Frakkar urðu hins vegar að hörfa þaðan aftur þegar herir Prússar og Hessen frelsuðu borgina í desember sama ár. En 1796 voru Frakkar aftur mættir og hófu mikla skothríð á borgina. Hún var hertekin í júlí það ár. Frakkar yfirgáfu borgina í desember eftir að hafa tæmt borgarsjóðinn. 1806 voru Frakkar enn í borginni. Það ár var Rínarsambandið stofnað af leppum Napoleons. Við það missti Frankfurt fríborgarstatusinn, enda var borgin keisaraborg og keisaraveldið var lagt niður. Hessen varð að stórhertogadæmi og varð Frankfurt höfuðborg þess. Borgarmúrarnir voru rifnir, að hluta til að skapa meira byggingapláss og að hluta til að eyðileggja varnir borgarinnar ef til nýs stríðs skyldi koma. 1813 mætti prússneski stjórnmálamaðurinn Freiherr von Stein með her til Frankfurt og hrakti Frakka burt. Napoleon var á þessum tíma að snúa heim eftir mislukkaðan leiðangur til Rússlands. Í byltingunum 1848-49 var Frankfurt að nokkurs konar höfuðborg byltingaraflanna. Árið 1848 var haldin mikil ráðstefna lýðræðislega kjörna þingmanna Þýskalands í Pálskirkjunni í borginni. Þar sást í fyrsta sinn hinn svart-rauði-guli fáni. Þing þetta kallaðist Deutsche Nationalversammlung ("Þýska þjóðarsamkundan") og var nokkurs konar forboði að alþingi Þýskalands. Iðnbylting. 1866 hertók Prússland Frankfurt og var hún innlimuð Prússlandi. Höfuðborg Hessen varð Kassel í stað Frankfurt, sem varð að annars flokks borg. 1870-71 háði Prússland sigursælt stríð við Frakkland. Friðarsamningar landanna voru undirritaðir í Frankfurt en í Versölum í Frakklandi var Vilhjálmur I krýndur til keisara. Frakkar voru neyddir til að greiða stríðsskaðabætur, sem komu Frankfurt til góða. Borgin óx, iðnaður dafnaði og listir og menning voru ríkjandi. Fyrsta rafmagnssporvagn Þýskalands var settur upp í Frankfurt, Philipp Reis þróaði símann í borginni (áður en Bell gerði hann að nothæfu tæki), fyrsta símakerfið var sett upp 1881 og stærsta járnbrautarstöð Evrópu var vígð þar 1888. Goethe-háskólinn var stofnaður 1912 og nýbyggingin vígð 1914. Íbúum fjölgaði ört. Þegar keisarinn var krýndur 1871 voru íbúar Frankfurt 90 þúsund en við upphaf heimstyrjaldarinnar fyrri voru þeir orðnir 400 þúsund. Heimstyrjöldin síðari og eftirspil. Frankfurt var þekkt í Þýskalandi fyrir að vera „gyðingavæn“ borg. Nasistar kölluðu hana oft "Jerusalem am Main". Á 3. áratugnum bjuggu þar alls um 29 þúsund gyðingar. Strax við valdatöku nasista hófst grimmileg herferð gegn þeim. Sumir flúðu, eins og fjölskylda Önnu Frank, en flestir voru sendir í útrýmingarbúðir. Aðeins 140 gyðingar frá Frankfurt lifðu helförina af. Borgin varð fyrir nærri gegnumgangandi loftárásum meðan heimstyrjöldin síðari geysaði. Mestu árásirnar voru gerðar 1944 en þá nær gjöreyðilagðist miðborgin, nokkur iðnaðarhverfi og höfnin við ána Main. Um helmingur íbúðarhúsa voru ónýt. Í mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust. Þeir komu sér fyrir í borginni og á nokkrum mánuðum voru aðalbækistöðvar bandaríska hersins í Evrópu fluttar frá Reims í Frakklandi til Frankfurt. Strax á næsta ári voru kjörnir fulltrúar frá Hessen kallaðir saman og myndað var lýðveldi. Hessen varð að fyrsta sambandslandi Þýskalands. Höfuðborgin varð hins vegar ekki Frankfurt, heldur Wiesbaden. Borgarráðið kaus að sækja ekki um þennan heiður, þar sem Frankfurt (sem fríborg) hafði eiginlega aldrei tilheyrt stórhertogadæminu Hessen. Auk þess var Frankfurt höfuðstaður bandaríska hersins í Evrópu og einnig höfuðstaður hernámsveldanna. Fundir þeirra voru nær allir haldnir í Frankfurt. Því var Frankfurt sennilegasti kosturinn til að verða höfuðborg Vestur-Þýskalands við stofnun þess 1949. Reist var meira að segja nýtt alþingishús í fyrir væntanlegt þing. En þrjár aðrar borgir sóttu um að fá að verða höfuðborg: Bonn, Kassel og Stuttgart. Bonn varð fyrir valinu og urðu borgarbúar Frankfurt fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Efnahagsmiðstöð. Skýjakljúfarnir í Frankfurt eru þeir mestu í Þýskalandi Efnahagslíf Frankfurt byggist á þremur stoðum, fjármálastarfsemi, samgöngum og viðskipta- og vörusýningum og ráðstefnum. Borgin hefur verið miðpunktur þýskrar fjármálastarfsemi svo öldum skiptir og þar eru nú höfuðstöðvar margra banka og verðbréfamiðlanna. Kauphöllin í Frankfurt er sú stærsta í Þýskalandi og ein sú mikilvægasta í heimi. Í borginni er Seðlabanki Evrópu sem fer með stjórn peningamála á evrusvæðinu og Seðlabanki Þýskalands ("Bundesbank"). Af viðkiptabönkunum eru Deutsche Bank og Commerzbank stærstir. Samtökin GaWC skilgreina Frankfurt sem heimsborg af alfa-gráðu. Samgöngukerfi borgarinnar þykir með ágætum, Alþjóðaflugvöllurinn í Frankurt er einn sá fjölfarnasti í Evrópu. Þetta gerir borgina að vinsælum stað fyrir ráðstefnu- og sýningahald. Á hverju ári er þar haldin bílasýningin Internationale Automobil-Ausstellung og bókakynningin Frankfurter Buchmesse en báðir þessir viðburðir draga til sín yfir hundrað þúsund manns árlega. Borgin hefur fengið viðurnefni á borð við „Bankfurt“ og „Mainhattan“ (eftir ánni Main). Ólíkt flestum evrópskum borgum eru skýjakljúfar nokkuð áberandi í borginni, hún er einnig sú eina í Evrópu þar sem að skýjakljúfar hafa verið byggðir í gamla borgarkjarnanum fremur en í sérstökum háhýsahverfum á jaðri miðborgarinnar eins og gert hefur verið í London og París. Commerzbank-turninn er hæsta bygging borgarinnar og sú næst hæst í Evrópu, hann er 259 m hár. Það er þó ekki sérlega stórt á heimsvísu og borgin hefur töluvert annað yfirbragð en aðrar fjármálamiðstöðvar heimsins eins og New York eða Sjanghæ þar sem þrengslin eru mun meiri. Í Frankfurt eru einnig margar menningar- og menntastofnanir á borð við Goethe-háskóli, fjölmörg söfn sem flest standa í röð á bökkum Main og stóran listigarð. Viðskiptaháskólinn í Frankfurt er annar stærsti háskóli borgarinnar. Íþróttir. Frankfurt er háborg þýskrar kvennaknattspyrnu. Kvennaliðið 1. FFC Frankfurt er eflaust besta knattspyrnulið Þýskalands. Frá 1999 hefur það sjö sinnum orðið þýskur meistari, sjö sinnum bikarmeistari og þrisvar Evrópumeistari. Kvennaliðið FSV Frankfurt hefur þrisvar orðið þýskur meistari (síðast 1998) og fimm sinnum bikarmeistari (síðast 1996). Aðal karlalið borgarinnar er Eintracht Frankfurt. Það varð þýskur meistari 1959, hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari (síðast 1988) og Evrópumeistari bikarhafa 1980. Síðan 1981 fer fram árlegt Maraþonhlaup í Frankfurt, oftast síðustu helgina í október. Þátttakendur eru í kringum 10 þúsund, sem þar með er þriðja fljölmennasta Maraþonhlaup Þýskalands. Liðið Frankfurt Galaxy var í Evrópudeild NFL í ruðningi og sigraði fjórum sinnum (síðast 2006). Félagið var hins vegar leyst upp 2007. Frægustu börn borgarinnar. Þjóðskáldið Goethe er óskabarn Frankfurts County Cork. Cork-sýsla (Írska: "Contae Chorcaí", enska: "County Cork") er suðvestasta og stærsta sýsla Írlands, staðsett í Munster-héraði. Oft er hún kölluð „sýsla uppreisnarsegganna“ (e. “The Rebel County”), en hún hlýtur nafn sitt af því að hún tók afstöðu gegn Breska heimsveldinu í flestum deilum sem komu upp. Cork er þekkt fyrir Blarney-steininn og bæinn Cobh (áður Queenstown), síðasta viðkomustað Titanic og höfnin sem um eina milljón írskra vesturfara fóru frá á leið til Bandaríkjanna, Ástralíu, Nýja Sjálands, Kanada eða Suður-Afríku. Höfuðstaður sýslunar er samnefnd, Cork, og hún er nærststærsta borg írska lýðveldisins og höfuðstaður héraðsins Munster. Nafnið "Chorcaí", eða "Corcaigh", merkir "mýri", en borgin Cork er byggð á miklu mýrarsvæði nálægt ánni Lee. Áður fyrr var Cork-sýslu skipt í tvennt, en hinn hlutinn, sem vestari var, hét Desmond-sýsla. Tungumál. Í Cork-sýslu eru tvö Gaeltacht svæði, þ.e. svæði þar sem írska er töluð sem aðalmál. Þau heita Múscraí (Muskerry), í norðurhluta sýslunar, og Oileán Chléire (Cape Clear), eyja í vesturhluta sýslunar sem ferja gengur til. Desmond-sýsla. Desmond-sýsla var eitt sinn sýsla á Írlandi, við suðvesturströnd Írlands, þar sem nú eru Cork og Kerry sýslur, en henni var skipt upp árið 1606. Desmond er írskt nafn komið af „Deas-Mumhan“, sem þýðir Suður-Munster - önnur svæði báru svipuð nöfn, til dæmis Thomond ("Tuaidh-mhuman", Norður-Munster), Ormond ("Oir-Mumhan", Austur-Munster) og Iarmond ("Iarmumhan", Vestur-Munster). Nafnið Desmond var notað eftir 14. öld til þess að vísa til svæðis sem MacCarthy Môr, höfðingjar MacCarthy ættarinnar, réðu yfir, en þeir töldu sig konunga Munster og jarla Desmonds. Yfirráðasvæði MacCarthy Môr var sunnan og vestan við borgina Cork. Síðasti almennt viðurkenndi beri titilsins MacCarthy Môr var Florence MacCarthy (1560-1640), en eftir handtöku hans árið 1601 var lávarðardæmi MacCarthy ættarinnar lagt niður og landinu skipt milli enskra landnema og írskra landeiganda. Þó hafa verið yfirlýstir höfðingjar MacCarthy ættarinnar með hléum fram til dagsins í dag, en fram til ársins 1999 báru þeir titilinn „prionca na Desmond“ (prinsinn af Desmond), en þá var öllum erfðatitlum opinberlega lagt niður. Á miðöldum var frönsku nafnbótinni „duc de Clancarthy“ — "hertogi MacCarthy ættarinnar" — bætt við meðan Írland og Frakkland voru í stríði við Breta. Vafi leikur á því hver er núverandi Môr MacCarthy ættarinnar, en eftir að Terence Francis MacCarthy var sviptur embætti hafa ýmsir aðilar gert tilkall til embættisins með mis-vafasömum hætti. Bill Bryson. William „Bill“ McGuire Bryson (8. desember 1951) er bandarískur metsölubókahöfundur sem hefur ritað gamansamar bækur um ferðalög auk bóka um enska tungu og vísindi. Hann fæddist í Des Moines, Iowa og lærði við Drake University en hætti 1972 eftir að hafa ákveðið að ferðast um Evrópu í fjóra mánuði. Hann fór svo aftur til Evrópu ári síðar, þá í slagtogi við gamlan menntaskóla félaga Stephen Katz að nafni (síðarkom í ljós að þetta er ekki hans raunverulega nafn), en hann tók líka þátt í ferðalagi Bryson í bókinni "A Walk in the Woods". Hann skrifar um reynslu sína af þessum ferðalögum í formi endurupplifana í bók sinni "Neither Here Nor There", þar sem hann skrifar um svipað ferðalag sem hann fór tuttugu árum síðar. Hann hefur unnið hjá bæði "The Times" og "The Independent". Hann hætti blaðamennsku 1987. Hann hefur búið bæði á Bretlandi (þar sem hann hitti konuna sem hann síðar giftist) og í Bandaríkjunum til skiptis. Hann býr nú í Bretlandi. Hann hlaut Aventis verðlaun fyrir vísindabókmenntir 2004 fyrir víðfræga bók sína "A Short History of Nearly Everything". Hann er núverandi heiðursrektor Háskólans í Durham. Útværir tenglar. Bryson, Bill Bryson, Bill McCarthy. McCarthy (einnig ritað "MacCarthy") er algengt ættarnafn upprunið frá Írlandi. Uppruni nafnsins kemur frá Carthach an Eoghanacht, konungi frá Cashel, sem dó árið 1045. Sonur hans kallaði sig Muireadhach mac Carthaigh („Muireadhach, sonur Carthach“), sem þá var algengt þar. Muireadhach dó árið 1092, en synir hans Tadhg og Cormac tóku upp MacCarthy (þá Mac Carthaigh) sem ættarnafn. Nafnið Muireadhach er náskylt íslenska kvenmannsnafninu Melkorka. Fimmta ráðuneyti Ólafs Thors. Fimmta ráðuneyti Ólafs Thors (stundum kallað Viðreisnarstjórnin) var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem sat við völd á Íslandi frá 1959 til 1971. Markmiðið með stjórnarmynduninni var að reisa við efnahag landsins. Nafngiftin kom til eftir að ríkisstjórnin gaf út ritið "Viðreisn efnahagslífsins" nokkrum misserum eftir að hún tók við völdum. Forsætisráðherrar Viðreisnarstjórnarinnar voru formenn Sjálfstæðisflokksins; Ólafur Thors til 1963, Bjarni Benediktsson til 1970 og Jóhann Hafstein til 1971. Utanríkisráðherrar Viðreisnarstjórnarinnar voru Guðmundur Í. Guðmundsson, varaformaður Alþýðuflokksins 1954-1965, til 1965 og Emil Jónsson formaður Alþýðuflokksins 1956-1968. Forsetar Sameinaðs Alþingis voru Friðjón Skarphéðinsson til 1963 og Birgir Finnsson, báðir þingmenn Alþýðuflokksins. Frá 14. september 1961 til 1. janúar 1962, gengdi Bjarni störfum forsætisráðherra í veikindaorlofi Ólafs, Jóhann Hafstein leysti Bjarna af hólmi sem dóms- og kirkjumálaráðherra og heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra. 10. júlí 1970 lést Bjarni Benediktsson í eldsvoða á Þingvöllum og tók Jóhann Hafstein við sem forsætisráðherra. Ýmsir töluðu um nýja viðreisnarstjórn þegar Viðeyjarstjórnin var mynduð 1991 af Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki. Verk. Viðreisnarstjórnin markaði upphaf álvæðingar landsins með stofnun Íslenska álfélagsins, ÍSAL, 1966 í Straumsvík. Viðreisnarstjórnin vann að heimkomu handritanna. Ríkissjónvarpinu var komið á fót af Viðreisnarstjórninni. Viðreisnarstjórnin glímdi við afleiðingar Síldarhvarfsins. Ísland gerðist aðili að EFTA í tíð Viðreisnarstjórnarinnar. Viðreisnarstjórnin hélt þingmeirihluta sínum í tvennum þingkosningum, 1963 og 1967. Amhrán na bhFiann. Amhrán na bhFiann ("Söngur hermannsins") er þjóðsöngur Írlands. Nafn þess er borið fram "ó-rán na vían". Það er einnig þekkt sem A Soldiers song eða einfaldlega þjóðsöngur Írlands ("Amhrán Náisiúnta na hÉireann"). Atlanta. Atlanta er höfuðborg bandaríska fylkisins Georgíu. Íbúar borgarinnar eru tæp hálf milljón í borginni sjálfi, en á ef samliggjandi byggðarlög eru tekin með er íbúatalan tæpar 5 milljónir. Borgin er meðal annars þekkt fyrir mikinn fjölda af kirkjum (enda hún einskonar höfuðborg Biblíubeltisins svokallaða) og fyrir að vera stofnstaður ýmissa stórfyrirtækja. Sem dæmi um slík fyrirtæki má nefna Coca-Cola fyrirtækið, United Parcel Service (sem var reyndar stofnað í aðliggjandi borg) og CNN. Rafeindahýsing. Eðlis- og efnafræðingar beita skammtafræði, þ.m.t. bylgjujöfnum Schrödingers, til að lýsa rafeindaskipaninni með stærðfræðilegum aðferðum. Almennt er rafeindasvigrúm túlkað sem svæði þar sem líkindi eru á að finna rafeind(ir) sem eru á hreyfingu umhverfis frumeindakjarnann. Til að gera grein fyrr stöðu þeirra er notaður sérstakur ritháttur, númer hvers hvolfs er ritað ásamt bókstaf sem táknar númer undirhvolf þess hvolfs, fjöldi rafeinda á því undirhvolfi er svo ritaður sem hávísir: 1s2 er lesið „tvær rafeindir á fyrsta undirhvolfi fyrsta hvolfs“ (til að tákna undirhvolfin eru bókstafirnir s, p, d, f og g notaðir, hvolf númer "n" er með "n" undirhvolf). Jónin Cl- er með átján rafeindir sem raðast þá svona á hvolfin: 1s2 2s2 2p6 3s2 3p6 þar sem "p" er annað undirhvolf á gefnu hvolfi. Til styttingar má rita næsta eðalgas á undan í hornklofa og rita svo stöðu hinna rafeindanna (rafeindahýsing neons er rituð 1s2 2s2 2p6 og er upphaf allra efna sem koma í næstu lotum fyrir neðan í lotukerfinu eins og því hægt að nota þetta sem styttingu): [Ne] 3s2 3p6. Hálffyllt eða fyllt d-undirhvolf er orkulægra heldur en þegar vantar eina rafeind upp á að það sé fyllt eða hálffyllt, og tekur það því rafeind frá næsta s-undirhvolfi. Cork. Cork er næststærsta borg Írska lýðveldisins. Hún er miðstöð stjórnsýslu og stærsta borg Cork-sýslu og sú stærsta í Munster-héraði. Borgin liggur á suðurströnd Írlands. Í gegnum borgina rennur áin Lee, hluti miðborgarinnar liggur í eyju í ánni áður en hún rennur í gegnum Lough Mahon og síðan í Cork-höfn en hún er ein stærsta náttúrulega höfn í heimi og ein mikilvægasta höfn Írlands. Innan borgarmark bjuggu 123.062 árið 2002 en með úthverfum var íbúafjöldinn 186.239. Í Cork-sýslu utan borgarinnar bjuggu 326.767. Nafnið Cork er dregið af írska orðinu „corcaigh“ sem er þolfall orðsins „corcach“, sem þýðir mýrlendi. Orðið "corcach" kemur fyrir í mörgum staðarheitum á Írlandi, t.d. í Corkey (einnig „Corcaigh“) í Antrim-sýslu, Ballincurrig („Baile an Churraigh“) í Cork-sýslu og Kilcurry („Cill an Churraigh“, "kirkja mýrarinnar") í Louth-sýslu. Í sögu Írlands hefur Cork verið þekkt af sjálfstæði sínu allt frá víkingaöld að írska borgarastríðinu og það hefur áunnið henni gælunafnið „sýsla uppreisnarseggjanna“ (e. Rebel County). Algengt er að íbúar borgarinnar kalli hana „hina sönnu höfuðborg Írlands“ (þar sem Dyflinn hefur lengst af verið vígi erlendra áhrifa). Eyjafjallasveit. Eyjafjallasveit var hreppur í austanverðri Rangárvallasýslu, milli Markarfljóts og Jökulsár á Sólheimasandi. Hreppnum var skipt í tvennt árið 1871, í Vestur- og Austur-Eyjafjallahrepp. Lágu hin nýju hreppamörk um Holtsós og Steinafjall. Frá 2002 hefur sveitin verið hluti Rangárþings eystra. Dyrhólahreppur. Dyrhólahreppur var hreppur sunnan Mýrdalsjökuls, vestast í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Dyrhóla. Upphaflega náði hreppurinn frá Jökulsá á Sólheimasandi í vestri að Blautukvísl á Mýrdalssandi í austri, en árið 1887 var honum skipt í tvennt. Hét vestari hlutinn áfram "Dyrhólahreppur" en sá eystri Hvammshreppur. Lágu mörk hreppanna um Dyrhólaós, Brandslæk og Búrfell. Hrepparnir tveir sameinuðust á ný 1. janúar 1984, þá undir nafninu "Mýrdalshreppur". Hvammshreppur (V-Skaftafellssýslu). Hvammshreppur var hreppur sunnan Mýrdalsjökuls, vestan til í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Hvamm. Hreppurinn varð til árið 1887 úr eystri hluta Dyrhólahrepps þegar þeim hreppi var skipt í tvennt. Lágu hin nýju hreppamörk um Dyrhólaós, Brandslæk og Búrfell. Hrepparnir tveir sameinuðust á ný 1. janúar 1984, þá undir nafninu "Mýrdalshreppur". Austin (Texas). Austin er höfuðborg Texas-fylkis í Bandaríkjunum og stjórnarsetur Travishéraðs. Austin stendur í miðju Texas-fylki við Coloradoá og innan borgarmarkanna eru þrjú manngerð stöðuvötn, en það eru "Town Lake", "Lake Austin", og "Lake Walter E. Long". Árið 2006 var íbúafjöldi Austin 709.893 manns og telst því vera fjórða stærsta borg fylkisins og sú sextánda í öllu landinu. Íbúafjöldi höfuðborgarsvæðis Austins (Austin–Round Rock) reiknast vera um 1,5 milljónir manns og samkvæmt íbúatölfræði þá er "Austin-Round Rock" það borgarsvæði í Bandaríkjunum sem er í hvað örustum vexti. Byggð hófst hér, að talið er, árið 1835 og var byggðarlaginu í fyrstu gefið nafnið "Waterloo" árið 1837. Það var svo tveimur árum síðar sem Mirabeau B. Lamar nefndi borgina eftir Stephen F. Austin; hún var þá orðin hluti af Lýðveldinu Texas. Texasháskóli er hjartað í borgarlífinu og það er meðal annars honum að þakka að ýmis tæknifyrirtæki eru með mikilvægar starfsstöðvar í borginni (meðal annars IBM, Apple og Samsung). Austin hefur vegna þessa stundum verið kölluð "Silikonhæðir" (Silicon Hills). Í borginni eru fleiri staðir til tónlistarflutnings að höfðatölu en í nokkurri annarri bandarískri borg, enda er borgin stundum nefnd "The Live Music Capital of the World" eða "Höfuðborg lifandi tónlistar alls heimsins". Mariano Rumor. Mariano Rumor (16. júní 1915 – 21. janúar 1990) var ítalskur stjórnmálamaður, meðlimur í Kristilega demókrataflokknum og forsætisráðherra Ítalíu nokkrum sinnum. Hann var frá Venetó á Norður-Ítalíu og hóf þátttöku í stjórnmálum sem þátttakandi í stjórnarskrárþinginu 1946 þegar ný stjórnarskrá Ítalíu var samin. Rumori barðist einkum fyrir hagsmunum og auknum áhrifum kaþólsku kirkjunnar á stjórnmálasviðinu (sem var hluti af stefnu kirkjunnar eftir að Leó XIII páfi gaf út páfabréfið "Rerum novarum" 15. maí 1891). Hann var þekktur sem „"pio Mariano"“ („Mariano hinn trúaði“), en kirkjan hafði mikil áhrif á mikið fylgi flokksins í héraði Rumors. Hann þótti líka minna eilítið á prest, var hæglátur og lágmæltur. 1948 var hann kjörinn á þing. Hann varð aðstoðarráðherra 1958 og innanríkisráðherra árið 1961. Hann varð fyrst forsætisráðherra 1968 til 1970. 1972 varð hann aftur innanríkisráðherra og varð skotmark stjórnleysingja sem varpaði sprengju inn í lögreglustöðina í Mílanó þar sem hann var við minningarathöfn með þeim afleiðingum að fjórir létust. Síðar komu í ljós tengsl sprengjumannsins við nýfasista og blóðbaðið á lögreglustöðinni í Mílanó varð eitt af þeim dæmum sem menn nefndu um hryðjuverk hægrisinnaðra öfgahópa til að skapa ótta við kommúnista á "blýárunum". 1973 til 1974 var Rumor aftur forsætisráðherra og leiddi tvær vinstri-miðjustjórnir. 1976 blandaðist hann í Lockheed-hneykslið. Hann reyndist síðar saklaus, en málið hafði mjög neikvæð áhrif á stjórnmálaferil hans. Innan hans eigin flokks og meðal þeirra sem studdu aukin áhrif kirkjunnar var honum ýtt til hliðar. 1979 var hann kjörinn í öldungadeildina. Rumor, Mariano Giovanni Goria. Giovanni Giuseppe Goria (30. júlí 1943 – 21. maí 1994) var ítalskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Ítalíu stutt skeið frá 1987 til 1988. Hann hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum og gekk í kristilega demókrataflokkinn. Hann var kosinn á þing árið 1976, varð aðstoðarráðherra 1981 og fjármálaráðherra 1982 til 1987 í ríkisstjórnum Bettino Craxi og Amintore Fanfani. Eftir kosningarnar 1987 varð Goria forsætisráðherra, sá yngsti í sögu lýðveldisins, þótt hann þætti ekki þungavigtarmaður í stjórnmálum. Hann sagði af sér eftir að þingið felldi fjárlagafrumvarp stjórnar hans 1988. Hann var kosinn á Evrópuþingið 1989 og varð síðan landbúnaðarráðherra 1991. Hann flækist í spillingarrannsóknina kringum "Mani pulite" 1993 og sagði af sér ráðherraembætti í kjölfarið á ásökunum um mútuþægni, en mál hans var enn til rannsóknar þegar hann lést. Goria, Giovanni Risaeðlur. Risaeðlur (fræðiheiti: "Dinosauria") voru hryggdýr sem drottnuðu yfir landrænu vistkerfi Jarðar í meira en 160 milljónir ára. Þær komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um 230 milljónum ára. Í lok Krítartímabilsins fyrir 65 milljónum ára varð hamfaraatburður sem að olli útdauða þeirra og þar með endalokum yfirráða þeirra á landi. Fuglar nútímans eru taldi vera beinir afkomendur risaeðlanna. Síðan leifar fyrstu risaeðlunnar fundust á 19. öld hafa steingerðar beinagrindur þeirra dregið að sér mikla athygli á söfnum um víða veröld. Risaeðlur eru orðnar nokkurskonar hluti af heimsmenningunni og ekkert lát virðist vera á vinsældum þeirra, þá sér í lagi á meðal barna. Fjallað hefur verið um þær í metsölubókum og kvikmyndum á borð við "Jurassic Park (Júragarðurinn)", og eru nýjustu uppgötvanir varðandi risaeðlur reglulega birtar í fjölmiðlum. Orðið "dinosaur" er einnig notað óformlega til að lýsa hverskyns forsögulegum skriðdýrum eins og "pelycosaur Dimetrodon", hinum vængjaða "pterosaur", og vatnaskriðdýrunum "ichthyosaur", "plesiosaur" og "mosasaur", þrátt fyrir að engin þeirra séu í raun risaeðlur. Hvarf (jarðfræði). Þessi grein er eingöngu um jarðfræðihugtakið "hvarf"; sjá einnig greinina um Hvarf á Grænlandi a> eru meira en hálf tomma að þykkt. Hvarf er árlag af seti eða setbergi. Hvarf er komið af sænska orðinu "varv" sem vísar til hringrásar, í lögum. Hugtakið birtist fyrst sem "Hvarfig lera" (hvarfleir) á fyrsta korti jarðfræðistofnunar Svíþjóðar árið 1862. Upphaflega var hvarf notað til að lýsa aðskildum hlutum árlaga í seti jökulvatna, en á jarðfræðiþinginu árið 1910, lagði sænski jarðfræðingurinn Gerard De Geer (1858-1943) fram nýja skilgreiningu þar sem hvarf lýsir öllu seti sem verður til á einu ári. Nýlegri skilgreiningar eins og "árlag", eru sambærileg við hvarf. Af öllum hringrásarferlum sem lýst er í jarðfræði, eru hvörf einna mikilvægust og sérlega mikilvæg til rannsókna á fornloftslagsbreytingum. Hvörf eru meðal smæstu eininga sem þekkjast innan jarðlagafræðinnar. Baltimore. Baltimore er stærsta borg Marylandríkis í Bandaríkjunum. Hún liggur miðsvæðis í fylkinu, milli Patapsco árinnar og Chesapeake flóans. Borgarhlutinn er oftast kallaður Baltimore-borg sem greinir hana frá aðliggjandi Baltimore-sýslu. Íbúar borgarinnar sjálfrar voru árið 2010 620.961 en á Baltimore-Washington stórborgarsvæðinu svonefnda eru taldar búa rúmar átta milljónir manna. Borgin er ein mikilvægasta hafnarborg Bandaríkjanna og hefur verið það síðan á 19. öld þegar næstflestir innflytjendur til Bandaríkjanna komu um hana. Þá var hún einnig næststærsta borg landsins. Saga. Baltimore byrjaði að byggjast 1729. Baltimore er stærsta hafnarsvæði mið-Bandaríkjanna og er nær mörkuðum miðvesturríkjanna en nokkur önnur hafnarborg á austurströndinni. Inner harbor svæði borgarinnar var eitt sinn ein helsta gátt innflytjenda til Bandaríkjanna og stór iðnaðarborg. Eftir að iðnaður lagðist mikið til niður í borginni þá breyttist efnahagur borgarinnar yfir í meiri þjónustu en iðnað. Íbúar borgarinnar sjálfrar voru árið 2010 620.961 en á Baltimore-Washington stórborgarsvæðinu svonefnda eru taldar búa um 8,4 milljónir manna.. Borgin er ein mikilvægasta hafnarborg Bandaríkjanna og hefur verið það síðan á 19. öld þegar næstflestir innflytjendur til Bandaríkjanna komu um hana. Íbúafjöldi hefur þó dregist saman um þriðjung síðan 1950 er íbúafjöld náði hámarki sínu. Á Baltimore svæðinu búa um 2,7 milljónir manna samkvæmt opinberum tölum árið 2010. Baltimore er 21. stærsta borg landsins. Borgin er nefnd eftir Lord Baltimore, meðlimi á írsku lávarðadeildinni og upphafsmanni Maryland nýlendunnar. Baltimore er ensk útgáfa írska-gelíska frasans Baile an Tí Mhóir, sem þýðir ‚Borg hins stóra húss‘. Ekki skal rugla borgarnafninu saman við Baltimore, í Cork sýslu á Írlandi sem er nefnd Dún na Séad. Bangkok. Bangkok (á taílensku: Krung Thep, กรุงเทพฯ) er höfuðborg og stærsta borg Taílands. Árið 1990 var íbúafjöldi hennar 8.538.610. Borgin er staðsett á austurbakka Chao Phraya á stuttu áður en hún rennur út í Taílandsflóa. Hún var í upphafi hafnar- og viðskiptamiðstöð undir stjórn þáverandi höfuðborgar (sem hét Ayutthaya) og hét þá Bang Makok. Þegar þáverandi höfuðborg féll í hendur Búrma árið 1767 var höfuðborgin flutt á vesturbakka árinnar og var þar þangað til Rama I konungur byggði kastala sinn á austurbakkanum og endurskýrði borgina Krung Thep (sem þýðir Borg englanna). Í dag á nafnið Bangkok opinberlega aðeins við um lítinn hluta borgarinnar en er enn notað á vesturlöndum yfir hana alla. Bangkok er mjög fjölþjóðleg borg, með mikið af innflytjendum. Talið er að 50% íbúa borgiarnnar eigi ættir sínar að rekja til Kína. Bangkok er efnahagsleg miðstöð Taílands, þar eru allir helstu bankar landsins með höfuðstöðvar og flestra annarra stórfyrirtækja landsins. Ímynd borgarinnar á vesturlöndum er þó oft ansi neikvæð þar sem hún er þekkt fyrir að vera mikil miðstöð ólöglegra útgáfa á tónlist, kvikmyndum og öðru höfundaréttarvörðu efni. Moskva. Dómkirkja St. Basil og einn af turnum Kremlar Moskva (rússneska: Москва) er borg í evrópska hluta Rússlands. Hún er höfuðborg landsins og fjölmennasta borg Evrópu. Í borginni búa 10.469.000 manns. Fyrstu heimildir um borgina í sögulegum gögnum eru frá árinu 1147, þá sem hluti af furstadæminu Suzdal. Árið 1295 varð borgin að höfuðborg furstadæmisins Moskvu. Í gegnum borgina rennur Moskvuáin sem að tengir borgina við Eystrasalt, Hvítahaf, Svartahaf og Kaspíahaf auk Azovshafs. Núverandi borgarstjóri í Moskvu heitir Sergey Sobyanin en hann varð borgarstjóri árið 2010. Í borginni er að finna mikið af heimsfrægum arkitektúr og þá mest kirkjum. Þegar valdatíð Jósefs Stalín stóð sem hæst var mikið rifið af kirkjum og byggingum til þess að búa til pláss fyrir vegaframkvæmdir. Á valdatíð Stalíns var lítið um það að viðhalda þeirri fegurð bygginga og arkitektúrs sem Moskva hafði áður verið þekkt fyrir. Til dæmis reisti hann nokkur gifsklædd háhýsi sem síðar voru kölluð „Rjómatertur Stalíns“ í óvirðingarskyni. St. Basil dómkirkjan, Rauða torgið og Kreml eru á meðal þekktari kennileita borgarinnar. Eftir byltinguna árið 1917 var mörgum kirkjum og öðrum helgistöðum lokað eða breytt í söfn og sumir voru jafnaðir við jörðu. En þrátt fyrir það héldu margir þeirra ótrauðir áfram, líkt og kirkjur kristinna, guðshús gyðinga og moskur múslima. Á upphafsdögum "glasnost" á seinni hluta níunda áratugarins losnaði um trúarbragðahöftin og hafist var handa við endurnýjun margra helgidóma borgarinnar. Borgin dregur heiti sitt frá Moskvu ánni og hét í fyrstu "гра́д Моско́в" eða borgin við Moskvu. Gamal Abdel Nasser. Gamal Abdel Nasser (arabíska: جمال عبد الناصر]; einnig Jamal Abd an-Nasr)‎ (15. janúar 1918 – 28. september 1970) var annar forseti Egyptalands á eftir Muhammad Naguib og er af mörgum talinn einn helsti leiðtogi araba frá upphafi. Hann var einn helsti málsvari arabískrar þjóðernishyggju á 6. og 7. áratug síðustu aldar þar sem helsta áherslan var á samstöðu araba, ekki hvað síst gegn erkióvini þeirra Ísrael. Tenglar. Nasser, Gamal Abdel Anwar Sadat. Mohamed Anwar al-Sadat (arabíska: محمد أنور السادات "Muḥammad Anwar al-Sādāt") (25. desember 1918 - 6. október 1981) var þriðji forseti Egyptalands. Hann var myrtur meðan hersýning stóð yfir af öfgamönnum eftir að hafa gert friðarsamkomulag við Ísrael eftir langvinn stríð landanna í milli. Sadat, Anwar Hosni Mubarak. Muhammad Hosni Said Mubarak (arabíska: محمد حسنى سيد مبارك) (fæddur 4. maí 1928), almennt þekktur undir nafninu Hosni Mubarak (arabíska: حسنى مبارك) var fjórði forseti Egyptalands frá 14. október 1981 til 11. febrúar 2011 en hann sagði af sér í kjölfar mikilla mótmæla. Mubarak var útnefndur varaforseti Egyptalands eftir að hafa klifrað upp metorðastigann í egypska flughernum. Hann tók við forsetastóli af Anwar Sadat eftir að sá síðarnefndi var myrtur af öfgamönnum í kjölfar friðarsamkomulags hans við Ísrael. Embætti forseta Egyptalands er almennt talin valdamesta staða í Arabaheiminum. Mubarak hélt fast um stjórnartaumana allan feril sinn í embætti en leyfði þó lýðræðislegar kosningar í landinu. Mubarak, Hosni Bremen. Bremen (Freie Hansestadt Bremen, eða Brimar á íslensku) er sambandsland og borg í Norður-Þýskalandi sem stendur við fljótið Weser. Borgin myndar eigið sambandsland ásamt Bremerhaven við Norðursjó og er það minnsta og fámennasta sambandsríki Þýskalands. Íbúafjöldi borgarinnar er 547 þúsund. Lega og lýsing. Bremen er hafnarborg við ána Weser rétt sunnan við óshólmana í Norðursjó. Sökum legu við Weser er borgin ákaflega ílöng meðfram ánni, en hún er 38 km löng og 16 km breið. Næstu borgir eru Aldinborg til vesturs (40 km), Bremerhaven til norðurs (60 km), Hamborg til norðausturs (120 km) og Hannover til suðausturs (120 km). Fáni og skjaldarmerki. Fáni Brima samanstendur af 8 láréttum röndum, hvítum og rauðum. Til vinstri eru sömu litir í teningslaga formi. Litirnir eiga uppruna sinn í Hansasambandinu, en fánar þessir blöktu á skipum þess fyrr á öldum. Opinberlega var fáninn þó ekki tekinn upp fyrr en 1891, þó að hann hafi verið miklu lengur í notkun. Skjaldarmerkið sýnir silfurgráan lykil á rauðum grunni. Skjaldarberar eru tvö gul ljón á gulum grunni. Efst er gullkóróna. Lykillinn er tákn Péturs postula, en hann er verndardýrlingur dómkirkjunnar þar í borg. Merkið kom fyrst fram 1366, en hefur breyst nokkuð í gegnum tíðina. Núverandi skjöldur var formlega tekinn upp 1891. Orðsifjar. Bremen hét áður "Bremon", "Brema" og "Bremo". Það er dregið af gamla germanska orðinu "brem", sem merkir rönd eða jaðar (sbr. brimfullur á íslensku). Hér er verið að meina bakka árinnar Weser. Saga. Bremen séð frá bökkum Weser. Upphaf. 782 kemur Bremen fyrst við skjöl. Karlamagnús hafði sent kristniboðann Willehad til svæðisins við Weser til að kristna saxa. Í bréfi sem Willehad sendi Karlamagnúsi kemur fram að Brimarbúar hafi hrakið hann frá bænum og drepið tvo presta að auki. Nokkrum árum síðar tókst Willehad að kristna íbúana og varð fyrsti biskupi þeirra. 789 var fyrsta kirkjan þar reist og helguð Pétri postula. Því er himnalykill enn í skjaldarmerki Bremen. 848/849 færði Ansgar, postuli norðursins, erkibiskupsdæmið frá Hamborg til Bremen, þar sem víkingar höfðu gert strandhögg í Hamborg. Aðeins ári síðar gerðu víkingar strandhögg í Bremen og eyðilögðu m.a. dómkirkjuna. 1032 var loks hafist handa við að víggirða bæinn með borgarmúrum. 1041 brann mikill hluti bæjarins. Eftir endurreisnina varð hann mikilvægur verslunarbær. og síðar að borg. 1186 veitti Friðrik I keisari (nefndur Barbarossa) borginni ný lög. Hann svipti biskupana völdum og gerði Bremen að fríborg í ríkinu. Biskuparnir voru ekki ánægðir með þá þróun og reyndu áfram að viðhalda stjórn sinni á borginni. T.d. festi Gebhard II erkibiskup járnkeðju yfir ána Weser til að heimta tolla af skipum sem sigldu í gegn. 1233 gáfu biskuparnir loks eftir og viðurkenndu Bremen sem fríborg. Sú staða hélst þó ekki lengi. Hansaborgin Bremen. Bremen var alls fjórum sinnum meðlimur Hansasambandsins. Bremen var ógjarnan meðlimur Hansasambandsins. Borgin átti eigin verslunarhagsmuna að gæta og var oft neydd til þátttöku. Í þrjú fyrstu skipti var hún rekin þaðan aftur. Í fyrstu tvö skiptin vegna uppreisnar og í þriðja sinn vegna trúarbragðaerja. Það var ekki fyrr en 1576 sem Bremen varð leiðandi aðili í sambandinu, ásamt Hamborg og Lübeck. Siðaskipti og 30 ára stríðið. Fyrstu tilraunir til að predika lúterstrú voru gerðar 1522 er munkur nokkur predikaði í Ansgarkirkjunni. Hann var brenndur á báli tveimur árum síðar. En ekki varð aftur snúið. Næstu ár fóru siðaskiptin fram, oftar en ekki með miklum óróa. Bremen gekk til liðs við mótmælendur í Schmalkalden-stríðinu gegn Karli V keisara. 1547 sat keisaraher um borgina, en fékk ekki unnið hana. 1619-1623 var fyrsta manngerða höfnin í Þýskalandi lögð af Brimarbúum rétt norðan við borgina, þar sem þeirra náttúrulega höfn víð ána Weser varð æ grynni sökum framburðs. 1623 hófu menn að víggirða borgina með virkjum og stærri múrum til að geta varið sig í 30 ára stríðinu, sem þá var byrjað. En borgin slapp við þátttöku í stríðinu. 1648 lauk stríðinu með friðarsamningunum í Vestfalíu. Svíar kröfðust hins vegar yfirráð yfir Bremen, sem náði þó að festa sig í sessi sem fríborg í ríkinu. Svíar viðurkenndu þennan status ekki fyrr en tveimur árum seinna. Napoleonsstríðin. 1811 sat Napoleon um Bremen og vann hana. Hann innlimaði hana í franska ríkið og gerði Bremen að höfuðborg sýslunnar (département) Bouches du Weser. Eftir fyrri ósigur Napoleons 1814 yfirgáfu Frakkar hins vegar borgina. Ári seinna var borgarstjórinn sendur sem fulltrúi Bremens á Vínarfundinn og fékk hann þar framgengt að borgin yrði áfram eigið borgríki innan þýska sambandsins. Iðnbyltingin. 1816-1817 var fyrsta gufuskipið, sem smíðað var í Þýskalandi, smíðað í Bremen. En sökum þess að áin Weser var orðin of grunn og siglingar nær ómögulegar við Bremen, keypti borgin landsvæði af Prússum um 60 km fyrir norðan borgina og hófst handa við að leggja nýja höfn, við mynni árinnar Weser. Höfn þessi fékk heitið Bremerhaven, sem merkir "Brimarhöfn". Þaðan var siglt á fyrstu föstu leiðinni milli Þýskalands og Vesturheims. Eftir að Ameríkuferðir hófust fóru um 7 milljónir útflytjenda um hafnir Bremens og Bremerhavens. 1847 fékk Bremen járnbrautartengingu til Hannover. 1875 fer íbúafjöldi borgarinnar í 100 þús. Bremen verður stórborg. Þar sem Bremen var ekki hluti af þýska ríkinu tók borgin ekki þátt í heimstyrjöldinni fyrri. Þó varð hún sambandslýðveldi innan Weimar-lýðveldisins 1918. Stríð og nútími. Lituð ljósmynd af Bremen árið 1900 Bremen varð fyrir gríðarmiklum loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari, bæði vegna hafnanna og iðnaðarins. Alls mátti borgin þola 173 loftárásir í stríðinu, þar sem rúmur helmingur borgarinnar (62% að talið er) eyðilagðist. Verstu árásirnar voru gerðar 18.-19. ágúst 1944. Þá vörpuðu 500 sprengjuflugvélar alls um 120 þús sprengjum yfir borgina. Bretar hertóku borgina 26. apríl 1945, rúmri viku áður en Þjóðverjar gáfust upp. Bæði Bremen og Bremerhaven voru á hernámssvæði Breta. Vegna mikilvægi hafnanna fékk Bremen fljótlega sérstöðu í hernáminu. Strax 1947 var Bremen og Bremerhaven gerð að sérsvæði Bandaríkjamanna með sérlögum. Þetta olli því að Bremen gat haldið sérstöðu sinni þegar Sambandsríki Þýskalands var stofnað 1949. Bremen (saman með Bremerhaven) varð þá að eigið sambandsríki í Þýskalandi, því minnsta og fámennasta. Íþróttir. Aðalíþróttafélag borgarinnar er Werder Bremen, sem keppir í ýmsum íþróttagreinum. Knattspyrnudeildin hefur fjórum sinnum orðið þýskur meistari (síðast 2004), sex sinnum bikarmeistari (síðast 2009) og einu sinni Evrópumeistari bikarhafa, 1992 (sigraði þá gegn AS Mónakó). Kúrsk. Rauða torgið í Kúrsk. Á myndinni sést ráðhús borgarinnar. Kúrsk (rússneska: Курск) er borg í Mið-Rússlandi. Árið 2002 bjuggu þar um 400 þúsund manns. Fyrsta skráða heimildin um Kúrsk er frá árinu 1032. Kúrsk var fyrst nefnd sem einn af Severísku bæjunum af Ígor fursta í ritinu "Sagan af herför Ígors" ("Слово о пълку Игоревѣ"). Svæðið er þekkt fyrir að vera ríkt af járni, en það er einnig ein af stærstu járnbrautarstöðvum Suðvestur-Rússlands. Allnokkrir háskólar eru í borginni, þar á meðal læknaskóli og tækniháskóli. Í seinni heimsstyrjöldinni var í grennd við borgina háð mesta og blóðugasta skriðdrekaorrusta sögunnar, sem stóð frá 4. til 20. júlí 1943. Orrustan var milli herja Sovétmanna og Þjóðverja, en Sovétmenn höfðu betur, þó þeir hafi ekki gjörsigrað Þjóðverja. (Sumir sagnfræðingar telja að úrslitin hafi verið jafntefli). Eftir orrustuna misstu Þjóðverjar frumkvæðið á austurvígstöðvunum og höfðu ekki framar bolmagn til að hefja nýja sókn þar. Þeir neyddust því smám saman að hörfa jafnframt því sem sókn Sovétmanna vestur á bóginn þyngdist. Internasjónalinn. Alþjóðasöngur verkalýsins eða Internasjónalinn, (oft uppnefndur Nallinn á íslensku. Hét upphaflega á frönsku, "l'Internationale") er þekktasti söngur jafnaðarmanna og kommúnista, og er með auðþekkjanlegustu lögum heims. Upphaflegi textann skrifaði Eugène Pottier árið 1870, en lagið samdi Pierre Degeyter árið 1888 (textinn var upphaflega saminn við La Marseillaise). Internasjónalinn varð eins konar einkennissöngur alþjóðlegu sósíalistahreyfingarinnar á seinni hluta nítjándu aldar, og hefur að nokkru haldið því hlutverki. Hann var notaður sem þjóðsöngur Sovétríkjanna frá 1917 til 1944. Höfundarréttur hvílir á laginu fram til 2014 í Frakklandi, en hann er iðulega hunsaður. Sveinbjörn Sigurjónsson þýddi Internasjónalinn á íslensku. Monica Lewinsky. Monica Lewinsky (fædd 23. júlí 1973 í San Francisco, Kaliforníu) var lærlingur í Hvíta húsinu og Pentagon. Hún öðlaðist heimsfrægð þegar upp komst um samband hennar og Bill Clinton, sem þá var forseti Bandaríkjanna. Samband hennar og forsetans komst í sviðsljósið 1998 þegar vinkona Monicu lét Kenneth Starr, saksóknara, fá hljóðupptöku af símtölum þeirra. Fyrir utan fjölmiðlaathyglina leiddi málið til þess að Bill Clinton var ákærður fyrir að hafa logið til um samband sitt við hana. Hann hafði fyrst skýrt frá því í sjónvarpsviðtali að hann hafi ekki átt í sambandi við Monicu með orðunum "I did not have sexual relations with that woman, Miss Lewinsky" en varð seinna að draga það til baka og baðst hann afsökunar í sjónvarpi. Stundum er talað um málið sem "Monicagate" eða "Zippergate" með vísan til hneykslismálana Watergate og Irangate. Seinna gerðist Monica Lewinsky kaupsýslukona og stundar hún í dag viðskipti á netinu. Hún er sálfræðingur að mennt og 2005 hóf hún nám í réttarsálfræði við London School of Economics. Sambandið við Bill Clinton. Upp komst um samband Lewinsky og Clinton þegar Paula Corbin Jones, fyrrum starfsmaður Arkansas ríkis, sakaði forsetann um að hafa áreitt sig kynferðislega árið 1991 þegar Clinton var ríkisstjóri Arkansas. Lögfræðingar Jones vildu sýna fram á hegðunarmynstur hjá forsetanum og yfirheyrðu því nokkrar konur sem talið var að hann hefði átt í kynferðissambandi við. Clinton sjálfur var yfirheyrður þann 17. janúar árið 1998, hann neitaði alfarið að hann hefði átt í kynferðissambandi við Lewinsky frá 1995-96. Lewinsky neitaði einnig sambandinu við fyrstu yfirheyrslu. Samstarfskona Lewinsky, Linda R. Tripp, sendi Kenneth Starr, sjálfstæðum saksóknara, upptökur af samtölum hennar við Lewinsky þar sem hún lýsir sambandi sínu við forsetann. Starr hóf rannsókn á málinu með leyfi frá dómsmálaráðherra. Í mars 1998 hófust vitnaleiðslur fyrir kviðdómi og m.a. var sýnt fram á að forsetinn hefði logið áður um kynferðissamband. Í yfirheyrslunni þann 17. janúar viðurkenndi hann að hafa átt í kynferðissambandi við Gennifer Flowers, skemmtikraft frá Arkansas, á 9. áratugnum en hann hafði áður neitað því. Í apríl var vísað ákæru Paulu Jones frá og þá hófst Starr handa við að undirbúa formlega ákæru um embættisafglöp á hendur Clinton. Hann veitti Lewinsky friðhelgi til að hún yrði ekki ákærð fyrir meinsæri og Clinton samþykkti að bera vitni fyrir kviðdómi. Þann 17. ágúst gerði hann það og viðurkenndi að hafa átt í kynferðissambandi við Monicu Lewinsky. Eftir vitnisburðinn ávarpaði hann þjóðina í sjónvarpi og viðurkenndi það sama, hann bað einnig um fyrirgefningu. Í september sendi Starr skýrslu til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þar sem hann tók til fjögur hugsanleg tilefni til ákæru fyrir afglöp í starfi; meinsæri, hindrun réttvísinnar, spilling vitna og misnotkun á valdi. Á endanum var Clinton ákærður fyrir meinsæri og hindrun réttvísinnar. Réttarhöldin hófust í janúar 1999 en um mánuði seinna var þeim lokið eftir að öldungadeildin kaus í málinu og hafnaði báðum ákærunum. Francesco Cossiga. Francesco Cossiga (26. júlí 1928 í Sassari á Sardiníu - 17. ágúst 2010 í Róm) var ítalskur stjórnmálamaður sem hefur verið bæði forsætisráðherra Ítalíu og forseti Ítalíu. Hann kennir lögfræði við háskólann í Sassari. Hann gekk sautján ára í kristilega demókrataflokkinn en hóf feril sinn sem kennari í lögfræði í Sassari. Stjórnmálaferill hans hófst ekki fyrr en við lok 6. áratugarins og hann var kosinn á þing 1958 og varð síðan aðstoðarvarnarmálaráðherra 1966. Hann varð innanríkisráðherra 1976 en sagði af sér embætti í kjölfarið á ráninu á Aldo Moro árið 1978. 1979 varð hann forsætisráðherra í skammlífri ríkisstjórn og 1983 var hann kosinn forseti öldungadeildarinnar. 1985 var hann kosinn sjöundi forseti Ítalíu af sameinuðu þingi, sá fyrsti sem náð hefur kjöri í fyrstu umferð, með miklum mun (752 af 977 atkvæðum). Sem forseti varð hann frægur fyrir athugasemdir sínar um stjórnmálakerfið á Ítalíu og það að fylgja stjórnarskránni út í ystu æsar. Hann sagði af sér embætti 28. apríl 1992, tveimur mánuðum áður en kjörtímabili hans lauk. Cossiga, Francesco Cossiga, Francesco Stokkhólmur. Stokkhólmur (sænska:) er höfuðborg Svíþjóðar og jafnframt stærsta borg landsins. Þar búa 877.163 manns (2005) en á öllu Stokkhólmssvæðinu (Stokkhólmur og nágrannasveitafélög) búa um 1,9 milljónir íbúa. Nafnið. Fyrri hluti nafnsins, Stokkhólmur, er m.a. talinn kominn af þeirri aðferð til forna að stengja (þ.e. loka) milli eyja með stokkum (trjábolum) sem hefur líkilega verið gert til að stjórna skipaferðum og geta þar með innheimt tolla. Var þá búin til skipavirki úr ydduðum trjábolum sem stóðu ógnandi upp úr, svonefnt "pålspärr" á sænsku. Hólmurinn í nafninu er líklega Stadsholmen, en á honum var meginhluti borgarinnar á fyrstu árhundruðum hennar. Til eru þó fleiri útskýringar á nafninu. Saga. Gata í Gamla Stan (Gamla Bænum) Elstu ritaðar heimildir um Stokkhólm eru frá árinu 1252, en í þeim er staðurinn nefndur sem mikilvæg miðstöð í verslun með járn og járnmálma. Sagt er að Birger Jarl hafi stofnað Stokkhólm til að vernda þáverandi aðalbæ svíaveldis, Sigtuna og svæðið kringum Leginn (sæ. "Mälaren") frá innrásum og sjórræningjum. Undir stjórn Magnúsar Ladulås dafnaði bærinn og varð mikilvæg verslunamiðstöð í samvinnu við hansakaupmenn. Um 1270 er Stokkhólmur nefndur í heimildum sem borg og mikilvægasti bær Svía. Stokkhólmur verð mikilvægur hlekkur í samskiptum hinna dönsku konunga Kalmarsambandsins og Svía á 15. öld. Steinn Sture tókst með dyggum stuðningi íbúa Stokkhólms að vinna mikinn sigur á Kristjáni I, danakonungi, 14. október 1471. Sonarsonurinn, Kristján II hertók borgina 1518 og hélt henni fram til 1520. 8. nóvember 1520 stóðu hermenn danakonungs að miklu blóðbaði á öllum helstu andstæðingum Dana, en það hefur verið nefnt Stokkhólmsvígin. Þetta blóðbað hafði þó algjörlega andstæð áhrif við það sem Danir höfðu búist við, víða bar til vopnaðra átaka og leiddi það til upplausnar Kalmarsambandsins. Áhrif og vald Stokkhólms jókst þegar Gústaf Vasa varð konungur Svíþjóðar árið 1523. Um aldamótin 1600 var íbúafjöldi kominn upp í tíu þúsund. Á 17. öld varð Svíþjóð eitt af stórveldum Evrópu og það hafði mikil áhrif á þróun Stokkhólms. Miklar hallarbyggingar eru frá þessum tíma. Svartidauði (1713–1714 og Norðurlandaófriðurinn mikli, (1721, höfðu í för með sér tímabundna stöðnun. Þó hélt Stokkhólmur áfram að vera mikilvæg menningarborg ekki síst undir stjórn Gústaf III sem meðal annars lét bygga fyrstu óperuna. Á fyrri hluta 19. aldar dróst enn saman efnahagslegt vægi Stokkhólms. Norrköping varð aðal verksmiðjuborg Svíþjóðar og Gautaborg varð megin hafnarborg landsins. Á seinni hluta aldarinnar snérust leikar að nokkru og Stokkhólmur varð aftur mikilvæg iðnaðar- verslunar- og stjórnsýsluborg. Íbúafjöldi jókst gífurlega, í lok 19. aldar var ekki einu sinni 40 % af íbúunum fæddir í borginni. Stokkhólmur varð á seinni hluta 20. aldar mjög nútímaleg borg, framarlega í flokki í tækni og mjög fjölþjóðleg. Seinni hluti aldarinnar einkenndist einnnig af því að flest stærri iðnfyrirtæki lögðust niður eða fluttu erlendis en í stað þeirra hafa tekið við hátækniiðnaður og þjónustugreinar. Landlýsing. Kort frá upphafi 19. aldar sem sýnir hvernig Stokkhólmur hefur byggst á fjölmörgum eyjum Miðhluti borgarinnar er byggður á fjórtán eyjum og ströndum skerjagarðarins þar sem vattnasvæði Mälaren mætir Eystrarsaltinu. 53 brýr tengja eyjarnar. Veðurfar. Veðurfar í Stokkhólmi einkennist af fjórum mjög ólíkum árstíðum. Frá lokum júní fram í ágúst er Stokkhólmur einn af heitustu stöðum Evrópu með meðalhita að degi til frá 20–23 °C og 11–13 °C að næturlagi. Ársúrkoma er um 539 mm og að meðaltali er mælist úrkoma 173 daga á ári og eru 16 þeirra snjódagar. Stokkhólmur hefur um 1.800 sólartíma á ári. Mesti hiti sem mælst hefur er 36 °C árið 1811, og sá lægsti -32 °C árið 1814. Reglulegar veðurathuganir hófust í Stokkhólmi 1756. Taflan byggir á mælingum á tímabilinu 1961-1990. Mælingar 1991-2008 sýna að hitasig hefur hækkað um eina gráðu miðað við fyrri mælingar Arnaldo Forlani. Arnaldo Forlani (f. í Pesaro, 8. desember 1925) er ítalskur stjórnmálamaður, fyrrum félagi í kristilega demókrataflokknum og forsætisráðherra Ítalíu 1980 til 1981. Forlani hóf stjórnmálaferil sinn árið 1948 í Pesaro, varð ráðherra 1968 í fyrstu ríkisstjórnum Mariano Rumors en sagði af sér eftir að hann var kosinn aðalritari flokksins árið 1969. Hann varð síðan varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Aldo Moro 1975 og utanríkisráðherra 1976 til 1979 og fór formlega með umsókn Ítalíu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu árið 1977. Frá 18. október 1980 til 26. júní 1981 var hann forsætisráðherra. Á þessum tíma varð uppvíst um frímúrarastúkuna P2 og hann var talinn ábyrgur fyrir tilraun til að koma í veg fyrir að félagaskrá stúkunnar yrði birt. Þetta varð til þess að hann neyddist til að segja af sér, en síðar, í ríkisstjórnum Craxis, var hann varaforsætisráðherra. Við Cusani-réttarhöldin í tengslum við "Mani pulite" 1993 var hann kallaður inn sem vitni varðandi ólöglegar greiðslur frá fyrirtækinu Montedison í flokkssjóði demókrataflokksins. Hann svaraði spurningum um þessar greiðslur með því að hann myndi það ekki og áttaði sig ekki á slefi sem hann var með á vörunum enda augljóslega mjög taugaveiklaður. Þessi vitnaleiðsla, sem var sýnd í sjónvarpinu á Ítalíu, varð víðfræg sem nokkurs konar táknmynd fyrir endalok heillar kynslóðar stjórnmálamanna. Forlani, Arnaldo Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar (stundum kallað Viðeyjarstjórnin) var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem sat við völd á Íslandi frá 1991 til 1995. Viðeyjarstjórnin fékk nafn sitt af því að Davíð Oddsson bauð Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra til stjórnarmyndunarviðræðna út í Viðey að loknum Alþingiskosningum 20. apríl 1991. Þegar Steingrímur Hermannsson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 23. apríl 1991 fékk Davíð Oddsson stjórnarmyndunarumboðið. Viðeyjarstjórnin tók við völdum 30. apríl 1991. Davíð Oddsson var forsætisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra. Salóme Þorkelsdóttir var forseti Alþingis. Viðeyjarstjórnin sat eitt kjörtímabil. Ýmsir töluðu um nýja viðreisnarstjórn þegar Viðeyjarstjórnin var mynduð þar sem sömu flokkar áttu hlut að máli í bæði skiptin. Verk. Ísland gerðist aðili að EES í tíð Viðeyjarstjórnarinnar. Stjórnarskrá Lýðveldisins var breytt með þeim hætti mannréttindi voru betur fest í sessi. Stjórnsýslulög með andmælarétti og jafnræðisreglu samþykkt. Virðisaukaskattur á matvælum var lækkaður úr 24,5% í 14%. Ísland gerðist aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Íslensk skip hófu að veiða á fjarlægum miðum, úthafsveiðar, í umtalsverðumagni á nýjan leik. Robert Fulton. Robert Fulton (14. nóvember, 1765 – 24. febrúar, 1815) var bandarískur verkfræðingur og uppfinningamaður sem var þekktastur fyrir að hafa smíðað gufuknúna skipið Clermont árið 1809. Hann smíðaði auk þess fjöldan allan af gufuskipum, bæði fyrir Bandaríkin og fyrir Napóleon. Ítarefni. Fulton, Robert Saab. SAAB er sænskur bíla- og flugvélaframleiðandi, sem var settur á laggirnar árið 1937 í Linköping í Svíþjóð. SAAB er skammstöfun á "Svenska Aeroplan AB". Upphaflega framleiddi fyrirtækið eingöngu flugvélar, en þann 10. júní 1947 var fyrsti hugmyndabíllinn kynntur, Saab Exp. Vagn 001. Seint á 6. áratugnum var fyrirtækið virkt í tölvuheiminum, undir nafninu DataSaab. Árið 1969 sameinaðist Saab fyrirtækinu Scania-Vabis, og á árunum milli 1969 og 1995 kallaðist fyrirtækið Saab-Scania AB. Fyrstu árin. Það var upp úr 1930 að sænska ríkisstjórnin ákvað að auka verulega við innlenda hernaðar framleiðslu og þá sérstaklega fyrir flugherinn. Þetta leiddi til þess að árið 1937 var Svenska Aeroplan AB stofnað. Þetta sama ár sameinaðist SAAB ASJA (Svenska Järnvägsverkstädernas Aeroplanavdelning) og hóf að styrkja og breyta L10 flugvél þeirra svo hún henntaði betur sem herflugvél. Það var svo árið 1940 sem fyrsta flugvélin, SAAB 17, leit dagsins ljós. Bílaframleiðsla hefst. Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar var ljóst að eftispurn eftir herflugvélum yrði ekki nærri eins mikil og hún var á meðan að á stríðinu stóð. Var því ljóst að Saab yrði að leita á ný mið. Í desember árið 1949 hófst framleiðsla á fyrsta bílnum, en hann fékk nafnið SAAB 92. Irréversible. Irréversible er kvikmynd eftir Gaspar Noé sem skrifaði handritið, leikstýrði, sá um klippingu og ljósmyndun. Hún er álitin ein óhugnanlegasta og umdeildasta kvikmynd ársins 2002 vegna þess hve ítarleg mynd er dreginn af nauðgun og morði í kvikmyndinni. Kvikmyndin hefur verið borin saman við Memento og Peppermint Candy, þar sem báðar kvikmyndirnar rekja söguþráðinn aftur á bak frá endalokum til upphafs, það er að segja öfugt við það sem venjulegt myndi teljast. Barselóna. Barselóna er höfuðborg Katalóníu á Spáni. Borgin er mjög gömul, sagan segir að karþagóski bærinn "Barcino" hafi verið stofnaður af Hamilcar Barca (sem var faðir Hannibals). Borgin hefur oft verið mikilvæg miðstöð valda og voru konungarnir af Aragón upprunalega greifarnir af Barcelona og stjórnuðu þaðan miklu veldi. Hún er og miðstöð þjóðernisvakningar Katalóníumanna. Borgin er 101.9 km2 og íbúar hennar árið 2009 voru 1.621.537 en íbúar aðliggjandi byggða 3.218.071. Borgarstjóri eftir kosningarnar 2. júlí 2011 er Xavier Trias. Menning. a>. Áætlað er að byggingu kirkjunnar verði lokið 2026-2028. Meðal frægra listamanna Barselóna eru myndlistarmaðurinn Joan Miró (1893 – 1983) og er í borginni safn helgað list hanns, "Fundació Joan Miró, Centre d'Estudis d'Art Contemporani (Joan Miró Foundation)". Einnig arkitektinn Antoni Gaudí (1852–1926) sem meðal annars hannaði eina frægustu byggingu borgarinnar, Yfirbótakirkju heilögu fjölskyldunnar ("Sagrada Família"), sem hefur verið í byggingu síðan seinni hluta 19. aldar. Íþróttir. Barselóna er þekkt fyrir íþróttir og hélt meðal annars sumarólympíuleikana árið 1992 auk þess að vera heimaborg hins þekkta íþróttafélags FC Barcelona en fótboltalið þess félags hefur notið mikillar velgengni og vinsælda. Upp á íslensku er félagið oft nefnd "börsungar". Frode Estil. Frode Estil (fæddur 31. maí 1972) er norskur gönguskíðagarpur. Hans helsti kostur er að geta skipt hratt um göngustíl og er hraður á upphlaupum að marki. Á ÓL 2006 tók Frode þátt í 2x15 km eltigöngu, en það fór ekki betur en svo að hann féll í startinu og endaði aftastur í hópnum. Við fallið brotnaði annar stafurinn og annað skíðið svo hann þurfti að skipta. Við tók svo erfið gangan, að vinna sig upp fram að þeim sem fóru fyrir hópnum. Það lukkaðist, og þegar komið var inn á síðustu metrana vann Frode sig upp um 3 sæti í æsilegum eltingaleik við Rússann Jevgenij Dementiev, sem þó fór með sigur af hólmi. Vetrarólympíuleikarnir 2006. Vetrarólympíuleikarnir 2006 voru haldnir í Tórínó á Ítalíu. Þetta var í annað sinn sem vetrarólympíuleikar eru haldnir á Ítalíu, áður höfðu þeir verið haldnir í Cortina d'Ampezzo árið 1956. 20.000 sjálfboðaliðar tóku þátt í leikunum og unnu við að taka á móti keppendum, áhorfendum og fjölmiðlum, ásamt því að vinna við keppnisstaðina. Heilladýr leikanna voru tvö; kvenlegi snjóboltinn Neve og karlmannlega grýlukertið Gliz. Silicon Valley. Silicon Valley er nafn sem er notað yfir landsvæði á syðri hluta San Francisco flóa í Norður-Kaliforníu, Bandaríkjunum. Á þessu svæði eru margir bæir og borgir. Nafngiftin vísaði í upphafi til mikillar framleiðslu svæðisins á sílikon-örflögum, en varð að lokum heiti yfir samnefni fyrir allan hátækniiðnaðinn á svæðinu. Silicon Valley heitið nær yfir norður hluta Santa Clara Valley og aðliggjandi svæði í suðurhluta San Francisco skagans. Nafnið. Blaðamaðurinn Don Hoefler notaði orðið fyrstur manna "Silicon Valley" 1971 sem fyrirsögn í greinaröð í blaðinu Electronic News. "Silicon" vísar til mikils iðnaðar í kringum hálfleiðara (e. "semiconductor") og tölvur á svæðinu, en "Valley" vísar til dalsins þar sem starfsemin er, Santa Clara Valley. "Silicon Valley" má nú einnig nota um aðliggjandi svæði San Francisco flóa, þangað sem tölvuiðnaðurinn hefur flutt starfsemi sína. Á 8. og 9. áratugnum var algengt að blaðamenn vissu ekki hvernig stafa bæri "silicon" og skrifuðu þeir gjarnan "silicone", en það er efni sem notað er í brjóstastækkanir. Saga svæðisins. Á fyrri hluta 20. aldar var lítið um hátækniiðnað á svæðinu. Margir mjög góðir skólar voru í grenndinni en nemendur voru jafnan fljótir að flytjast í burtu eftir að þeir höfðu lokið námi. Þetta fór mjög í taugarnar á Frederick Terman sem var prófessor við Stanford háskóla, en háskólinn er í hjarta Silicon Valley. Hann hóf áætlun sem miðaði að því að útvega nemendum áhættufjármagn gegn því að þeir yrðu um kyrrt á svæðinu. Þetta gekk vel og mynduðu þannig tveir nemendur, William Hewlett og David Packard fyrsta hátæknifyrirtæki svæðisins, Hewlett Packard árið 1939. Árið 1951 var sett í gang áætlun sem skapaði Stanford Research Park, röð lítill iðnaðarbygginga sem voru leigð á mjög lágu verði til tæknifyrirtækja. 1954 var starfsmönnum fyrirtækja gert kleift að öðlast framhaldsmenntun með því að vinna með námi. Árið 1956 flutti William Shockley í bæinn Mountain View í Silicon Valley. Hann hafði verið einn af þeim sem fundu upp transitorinn þegar hann vann hjá Bell Labs í 1953. Shockley stofnaði fyrirtækið Shockley Semiconductor Laboratory. Með tímanum þjáðist Shockley í æ ríkara mæli af móðursýki og beindist hún aðallega að starfsmönnum hans. 1957 hættu 8 af hinum færu verkfræðingum hans og stofnuðu Fairchild Semiconducor. Sama sagan endurtók sig nokkrum sinnum (verkfræðingar misstu stjórn á fyrirtækjum sínum og starfsmenn þeirra stofnuðu ný fyrirtæki). Þannig mynduðust út frá fyrirtækinu Fairchild Semiconductor m.a. fyritækin AMD, Signetics, National Semiconductor og Intel. Í byrjun 8. áratugarins voru mörg hálfleiðara framleiðslufyrirtæki á svæðinu, tölvufyrirtæki sem notuðust við afurður þeirra fyrrnefndu og forritunarfyrirtæki sem þjónuðu báðum aðilum. Mikið framboð var á ódýru iðnaðarhúsnæði. Vöxturinn var að mestu fjármagnaður með áhættufjármagni og í almennu hlutafjárútboði Apple tölvufyrirtækisins árið 1980 náði framboðið á fjármagni toppnum. Silicon Valley séð frá San Jose Háskólar. Fjórir háskólar eru staðsettir í Silicon Valley. Nokkrir aðrir háskólar eru ekki staðsettir í Silicon Valley en hafa haft þónokkur áhrif á svæðið, m.a. með því að stunda rannsóknir sem fyrirtækin hafa nýtt sér og útskrifað starfsfólk sem hafa síðan hafið störf hjá fyrirtækjum í Silicon Valley. "Silicon" útbreiðslan. Yfirvöld á ýmsum stöðum víðsvegar um heiminn hafa tekið upp á því að bæta "silicon" við nafn svæðis til að skapa tengingu við "Silicon Valley", laða að fjárfesta og efla hátækniiðnaðinn. Pragelato. Pragelato er sveitarfélag í Torino-héraði á Ítalíu. Í sveitarfélaginu búa uþb. 450 manns. Samnefndu bær liggur 10 km frá Sestriere og 82 km frá höfuðborg héraðsins Torino. Bærinn er 1.524 m.y.s. Í febrúar 2006 eru Vetrarólympíuleikarnir haldnir í Torino og fara norrænu greinarnar fram í Pragelato. Sestriere. Sestriere er sveitarfélag í Torino-héraði á Ítalíu. Þar búa um 850 manns. Á 4. áratug síðustu aldar byggði Giovanni Agnelli (stofnandi Fiat) tvö hótel og skíðalyftur í bænum. Seinna kom einnig skíðastökkspallur, annað hótel og fleiri skíðalyftur. Á veturnar eru þar haldin mót í heimsbikarnum í ólíkum alpagreinum og í febrúar 2006 fóru keppnir í alpagreinum á Vetrar-ÓL 2006 fram þar. Félag frjálshyggjumanna. Félag frjálshyggjumanna starfaði 1979 - 1989 að því að kynna frjálshyggju á Íslandi með útgáfu tímarits, bóka og bæklinga og fundahaldi. Félagið var stofnað á áttræðisafmæli Friedrichs A. von Hayeks 8. maí 1979. Stjórn þess skipuðu Friðrik Friðriksson, síðar viðskiptafræðingur, sem var formaður, Auðun Svavar Sigurðsson, síðar skurðlæknir, Árni Sigfússon, síðar borgarstjóri og bæjarstjóri, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, síðar forstjóri, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, síðar prófessor, Hreinn Loftsson, síðar lögmaður, og Skafti Harðarson, síðar framkvæmdastjóri. Félagið átti sér ýmsa öfluga bakhjarla, meðal annarra þá Pétur Björnsson, forstjóra Vífilfells, Pálma Jónsson, forstjóra Hagkaups, Odd Thorarensen lyfsala og Ragnar Halldórsson forstjóra. Stjórnarmenn voru allir sjálfstæðismenn, þótt félagið væri ekki í neinum skipulagstengslum við Sjálfstæðisflokkinn. Ýmsir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, til dæmis Geir Hallgrímsson, Davíð Oddsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, studdu félagið með ráðum og dáð. Félag frjálshyggjumanna gaf meðal annars út bókina "Velferðarríki á villigötum" (1981) eftir Jónas H. Haralz bankastjóra og "Einstaklingsfrelsi og hagskipulag" (1982) eftir Ólaf Björnsson prófessor. Nokkrir erlendir fyrirlesarar komu beint eða óbeint á vegum félagsins til Íslands. Frægastir voru Nóbelsverðlaunahafarnir Friedrich A. von Hayek (1980), James M. Buchanan (1982) og Milton Friedman (1984), en erindi þeirra komu út í bókinni "Lausnarorðið er frelsi" (1994). Þau voru einnig birt í tímaritinu "Frelsinu", sem Félag frjálshyggjumanna gaf út 1980-1987. Hannes Hólmsteinn Gissurarson var ritstjóri þess 1980-1987, en Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og rithöfundur, 1987-1989. Í ritnefnd tímaritsins voru þeir Gísli Jónsson norrænufræðingur, Jónas H. Haralz, Matthías Johannessen skáld, Ólafur Björnsson og Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur. Félag frjálshyggjumanna var lagt niður, þegar ljóst þótti, að það hefði náð tilgangi sínum. Bordeaux. Bordeaux (Oksítanska, "Bordèu") er hafnarborg í suð-vesturhluta Frakklands. Í borginni og aðliggjandi byggðum býr tæp milljón manns. Íbúar borgarinnar eru kallaðir "Bordelais". Borgin er meðal annars þekkt fyrir mjög öflugan háskóla og eru nemendur þar rétt undir 100.000. Borgin er enn fremur þekkt fyrir að vera mikil miðstöð hernaðar-, flug- og geimvísindarannskókna í Evrópu. Hún er einnig þekkt fyrir Bordeauxvín sem við hana er kennt. Google. Google Inc. er bandarískt tölvufyrirtæki. Markmið þess er að veita almenningi yfirsýn yfir allar upplýsingar í heiminum. Til þess þróaði fyrirtækið og rekur nú leitarvélina Google en auk hennar rekur fyrirtækið ýmsar aðrar sérhæfðari leitarþjónustur. Sjálft fyrirtækið var stofnað í bílskúr árið 1998 af Larry Page og Sergey Brin en núverandi stjórnarformaður Google er Eric E. Schmidt og starfsmenn þess orðnir um 54.000 [2012]. Í Nóvember árið 2006 keypti Google YouTube fyrir 1,65 miljarða hlutabréfaeign í Google. Í September árið 2008 kom út Google Chrome sem að er vafri frá Google sem byggir á WebKit-umbrotsvélinni. Upphafið. Ævintýrið í kringum Google hófst árið 1996 þegar doktorsnemarnir Larry Page og Sergey Brin við Stanford háskóla fengu hugmynd að nýrri tækni fyrir leitarvélar á internetinu. Hugmyndin byggðist á því að láta leitarvélina skoða tengsl milli vefsíðna og raða niðurstöðum leitarinnar út frá þessum tengslum. Þetta var ólíkt þáverandi leitarvélum sem allar byggðu niðurstöður sínar á hvar og hversu oft leitarorðið kom fyrir á vefsíðunni. Fyrstir með þessa hugmynd voru þeir reyndar ekki því þegar á þessum tíma var til lítil leitarvél nefnd RankDex sem byggði á þessari tækni en lítið varð úr henni og sigldi útfærsla þeirra Page og Brin á hugmyndinni fljótt fram úr. Einnig leituðu þeir nýrra leiða á vélbúnaðarsviðinu en í stað þess að keyra vélina á nýjum dýrum vefþjónum þróuðu þeir tækni til að samnýta margar eldri og ódýrari tölvur. Þeir þræddu ruslahauga og úr varð ódýr klasi vefþjóna sem hýsti nýju byltingarkenndu leitarvélina þeirra. Nafnið "Google" er reyndar bara stafsetningarvilla á töluorðinu googol, sem er 1 með 100 núllum á eftir, og höfuðstöðvarnar Googleplex er orðaleikur með aðra enn stærri tölu, googolplex - 1 með googol núllum á eftir. Fyrst láu herlegheitin á léninu "google.stanford.edu" en þann 15. september 1997 keyptu félagarnir lénið "google.com". Upp úr þessu fóru þeir einnig að leita að fjárfestum og gekk misvel. Mörg stór nöfn höfnuðu þeim en aðrir lögðu fé að veði. Einn stofnenda Sun-Microsystems, Andy Bechtolsheim lagði til dæmis $100.000 fyrirtækið og í kjölfarið fóru að koma fleiri framlög. Í heildina náðu þeir að safna einni milljón dollara og þann 27. september 1998 var svo fyrirtækið "Google Inc." stofnað. Það hafði þá aðsetur í bílskúr í Kaliforníu og var leitarvélin Google farin að svara um 10.000 fyrirspurnum daglega. Í mars 1999 fluttist fyrirtækið með sína átta starfsmenn í hina frægu byggingu við 165 University Avenue í bænum Palo Alto í Kísildal. Þá voru daglegar fyrirspurnir komnar upp í 500.000. Hluti af þessum notendum kom frá AltaVista sem þá var ein mest notaða leitarvél þess tíma. Ástæðan var þó markaðsfræðileg skyssa AltaVista fremur en velheppnuð markaðssetning Google en þeir AltaVista menn tóku upp á því að breyta einföldu leitarvélinni sinni í heila vefgátt. Meira fé fór einnig að streyma inn í fyrirtækið. Nú voru þetta ekki lengur lítil fjárframlög frá einstaklingum heldur fjárfestu rótgróin fjárfestingarfyrirtæki eins og Kleiner Perkins Caufield & Byers og Sequoia Capital í Google fyrir samtals 25 milljónir bandaríkjadala. Þar að auki fóru fyrirtækjalausnir Google að seljast þegar leið á árið og venjulegi notendahópurinn var farinn að leggja fram þrjár milljónir fyrirspurna á dag. Öllum þessum umsvifum fylgdi nýtt starfsfólk og því þurfti stærra húsnæði. Brugðið var á það ráð að flytja í byggingaklasa í Mountain View í Kaliforníu en þar eru núverandi höfustöðvar Google og kallast Googleplex. Þann 21. september 1999 hvarf svo "Beta" merkingin af Google leitarvélinni. Að „gúggla“ á vefnum. Sögnin að "gúggla" þýðir að nota leitarvél Google til að hafa upp á upplýsingum á veraldarvefnum. Til dæmis „Þór gúgglaði uppskriftum“. Að gúggla er tiltölulega nýlegt nýyrði í íslensku, en það á upprunna sinn í vinsældum og yfirráðum Google sem leitarvélar. Orðið varð að sögn fyrst í ensku en núna er það algengt í mörgum öðrum tungumálum. Fyrirtækið Google er samt sem áður á móti notkun orðsins þar eð eigendur þess óttast að vörumerki þess muni þynnast út við ofnotkun. Sin City (kvikmynd). Sin City eða "Frank Miller's Sin City" er bandarísk kvikmynd frá 2005. Myndin er byggð á samnefndum teiknimyndasögum eftir Frank Miller. Robert Rodriguez sá um leikstjórn fyrir utan eina senu sem Quentin Tarantino leikstýrði. Í myndinni berjast hetjur saman gegn fjandmönnum sínum í borginni "Basin City", þar sem skilin milli góðs og ills eru ekki svo glögg. Sin City er byggð í kringum fjórar laustengdar sögur; "The Customer is Always Right", "The Hard Goodbye", "The Big Fat Kill" og "That Yellow Bastard". Áætlað er að gera framhald á myndinni, "Sin City 2", í náinni framtíð og jafnvel "Sin City 3: Hell and Back". Petter Northug. Petter Northug (fæddur 6. janúar 1986) er norskur skíðagöngugarpur. Hann er frá Mosvik í Norður-Þrændalögum. Northug varð Norgesmeistari í 30 km skíðagöngu í janúar 2006. Þar þurfti hann að glíma við Frode Estil á síðustu metrunum en hafði þann síðarnefnda rétt áður en farið var yfir marklínuna. Hann var ekki valinn í ólympíulið Norðmanna fyrir Vetrarólympíuleikana 2006 en þess í stað hneppti hann fjögur gull á HM yngri keppenda í Slóveníu. Þar vann hann tvöföldu eltigönguna, sprettganginn og 10 km í klassískum stíl. Auk þess var hann í sigurliði Norðmanna í boðgöngu. Guðspekifélagið. Guðspekifélagið - The Theosophical Society er alþjóðlegur félagsskapur sem helgar sig alheims bandalagi mannkyns og hvetur til rannsókna og samanburðar trúarbragða, heimspeki og náttúruvísinda svo að maðurinn megi betur skilja sjálfan sig og stöðu sína í alheiminum. Guðspekifélagið boðar engar kenningar en hvetur til hugsana- og skoðanafrelsis. Guðspekifélagar sameinast um spurningar, ekki svör. Guðspekifélagið var stofnað 1875 í New York. Höfuðstöðvar þess eru í Adyar í Chennai (Madrasfylki) á Indlandi og það starfar í deildum um heim allan. Fyrsta grein Guðspekifélagsins á Íslandi var stofnuð í Reykjavík 17. nóvember 1912. Íslandsdeild Guðspekifélagsins var stofnuð árið 1921. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi. Laugarnesspítali var vígður 1898 Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var holdsveikraspítali í Laugarnesi starfræktur á árunum 1898-1943. Húsið stóð á grunni biskupsstofu sem þar stóð áður. Yfirlæknir var Sæmundur Bjarnhéðinsson. Aðdragandi. Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var rekinn holdsveikraspítali í Laugarnesi í glæsilegu timburhúsi. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður 27. júlí 1898 og fyrstu sjúklingarnir komu á spítalann 10. október 1898. Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku Oddfellowreglunnar til íslensku þjóðarinnar. Hann var byggður fyrir gjafafé sem safnað var í Danmörku. Nokkru áður eða sumrin 1895 og 1896, ferðaðist hér um landið á vegum landstjórnarinnar danskur læknir dr. Edvard Ehler til að kynna sér útbreiðslu holdsveiki og meðferð sjúkra á Íslandi. Ehler skrifaði blaðagreinar og hélt erindi í Danmörku um bágborið ástand í heilbrigðismálum á Íslandi og lýsti holdsveiki sem smitsjúkdóm þar sem einangrun holdsveikra og hentug spítalavist væri áhrifamesta vörnin. Saga. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi­ og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi. Holdsveikraspítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi um 237 verið holdsveikir á Íslandi.Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota. Spítalabyggingin brann til grunna 7. apríl 1943. Hernámsliðið hafði þá yfirtekið spítalann. Þeir fáu holdsveikisjúklingar sem enn voru á landinu höfðu nokkru áður verið fluttir á Kópavogshæli. Upphaf hjúkrunarnáms. Holdsveikraspítalinn markar upphaf spítalabygginga á Íslandi og þangað má líka rekja upphaf hjúkrunarnáms. Gjöf Oddfellowreglunnar fylgdi sú krafa, að hjúkrun á spítalanum yrði undir stjórn fulllærðrar hjúkrunarkonu en engar hjúkrunarkonur voru þá til á Íslandi. Þess vegna voru fyrstu yfirhjúkrunarkonur Holdsveikraspítalans danskar og þær fluttu til landsins erlendan spítalaaga, sem var Íslendingum framandi. Strax haustið 1898 voru ráðnar stúlkur að spítalanum til aðstoðar við hjúkrunina, og þannig hófst skipulegt hjúkrunarnám á Íslandi, því síðar fóru þessar stúlkur til Danmerkur og luku hjúkrunarnámi þar. Virginíu-hagfræðingarnir. Virginíu-hagfræðingarnir (e. "Virginia School of Economics") er hópur hagfræðinga undir forystu James M. Buchanans og Gordons Tullocks, sem einbeitir sér að rannsóknum á hópvali eða almannavali (e. public choice) frekar en einkavali. Hópurinn er kenndur við Virginíu, því að upphafsmennirnir störfuðu í háskólum þar, um skeið í Virginíu-háskóla (University of Virginia) í Charlottesville, síðan í Virginia Polytechnic í Blacksburg, en loks í George Mason-háskóla í Fairfax. Þeir Buchanan og Tullock gáfu 1962 út bókina "The Calculus of Consent", þar sem þeir settu fram sjónarmið sín. Hagfræðingar höfðu iðulega skoðað dæmi, þar sem viðskipti tveggja manna bitnuðu á hinum þriðja, sem engan þátt hafði þó tekið í víðskiptunum. Þetta hefur stundum verið nefnt á ensku „social cost“ eða „negative externality“, sem þýða mætti á íslensku sem „utanaðkomandi kostnað“. Ákvarðanir mannanna tveggja bitnuðu á þriðja manninum. En þeir Buchanan og Tullock bentu á, að þá þyrfti líka að hafa áhyggjur af því, þegar þrír menn greiddu atkvæði, þar sem tveir þeirra tækju ákvarðanir, sem bitnuðu á hinum þriðja, með öðrum orðum þar sem meiri hlutinn sveigði minni hlutann undir vilja sinn. Í augum þriðja mannsins, sem lenti í minni hluta, væri hér um „utanaðkomandi kostnað“ að ræða. Hliðstæðan við einkaval, þegar ekki er um neinn utanaðkomandi kostnað að ræða, svo að viðskiptin eru báðum aðilum í hag, allir græða og enginn tapar, væri í hópvali, þegar allir eru sammála. Þá er enginn kúgaður, og þá bitna ákvarðanir sumra ekki á öðrum. Virginíu-hagfræðingarnir viðurkenna að vísu, að óraunhæft er að krefjast þess, að allir séu sammála, því að þá geta einhverjir misnotað það neitunarvald, sem þeir fá með því. En þeir telja, að skoða eigi vandlega þann kost að krefjast aukins meiri hluta í atkvæðagreiðslum, þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir, sem allir verða að una. Virginíu-hagfræðingarnir afhelga stjórnmál, ef svo má segja. Þeir rannsaka stjórnmál ekki sem leit upplýstra og góðviljaðra manna að almannaheill, heldur sem viðskipti sérgóðra einstaklinga. Þeir spyrja, hvers vegna eigi að taka stjórnmálamenn trúanlega um það, að fyrir þeim vaki ekkert annað en almannaheill, úr því að ætíð er gert ráð fyrir því í líkönum hagfræðinga af hegðun einstaklinga á markaði, að kaupsýslumenn vilji aðeins græða sem mest fé, hvað sem þeir sjálfir segja. Buchanan og félagar hans viðurkenna að vísu, að í veruleikanum sé málið flóknara, af því að ekki stefna allir að því að hámarka eigin hag. En þeir benda á, að líkan sitt af stjórnmálum sé einfalt og hafi skýringarmátt og forsagnargildi. Virginíu-hagfræðingarnir stunda það, sem kallað er almannavalsfræði (e. public choice theory) eða hagfræði stjórnmálanna (e. economics of politics). Þeir hafa með sér félag, The Public Choice Society, til að bera saman bækur sínar. Ein ályktun Buchanans og fleiri í þessum hóp af fræðum sínum er, að setja verði valdi stjórnmálamanna hömlur, svo að þeir geti ekki misnotað það. Menn megi ekki í nafni meiri hlutans kúga minni hlutann. Buchanan hefur í því sambandi aðallega bent á hömlur við skattlagningar- og seðlaprentunarvaldi ríkisins. Boston. Boston er höfuðborg og stærsta borg Massachusettsfylkis í Bandaríkjunum. Borgin er einskonar óopinber höfuðborg þess svæðis sem kallað er Nýja England og ein elsta, ríkasta og menningarlega mikilvægasta borg Bandaríkjanna. Efnahagur borgarinnar byggir aðallega á menntun, heilsu, viðskiptum og tækni. Boston var stofnuð 17. september árið 1630 af Bretum í nýlenduleit. Íbúafjöldi í borginni sjálfri er yfir 600.000, en á stórborgarsvæðinu eru íbúarnir um 4,5 milljónir talsins (áætlaður fjöldi árið 2008). Borgin er í miðju Boston-Worcester-Manchester CSA (Combined Statistical Area), sem er hið sjöunda stærsta í Bandaríkjunum. Til þess svæðis teljast hlutar fylkjana New Hampshire, Maine, Rhode Island, og Connecticut. Borgin er líka miðja Stór-Bostonsvæðisins, sem tekur til borganna Cambridge, Brookline, Quincy, Newton og margra úthverfa við Boston. Nafngiftir. Boston ber ýmis gæluheiti. "Borgin á hæð" (e. The City on a Hill) er heiti upprunnið frá landstjóra nýlendunnar við Massachusettsflóa, John Winthrop að nafni. Takmark hans var að búa til borg svipaðri þeirri sem nefnd er í Nýja testamentinu: „Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á [hæð] stendur, fær ekki dulist.“ Hún yrði sjáanleg öllum og það myndi tryggja að ef landnemarnir gerðu gegn vilja Guðs þá yrði það öðrum víti til varnaðar. Heitið á einnig við um hæðir þrjár sem Boston var byggð á. Áður fyrr bjuggu kaupmenn í Boston til bakaðar baunir með innfluttum melassa og fékk bærinn því viðurnefnið "Baunabær" (e. Beantown). Þriðja heitið er "Miðpunkturinn", sem er stytt útgáfa af orðtaki rithöfundarins Oliver Wendell Holmes: „Miðpunktur sólkerfisins“ eða alheimsins. William Tudor, einn stofnenda North American Review, nefndi borgina "Aþenu Ameríku" vegna menningarlegs mikilvægi hennar og andlegra áhrifa. Borgin er stundum kölluð "Hreintrúarborgin" því stofnendur hennar voru hreintrúarmenn og einnig "Vagga frelsisins" vegna mikilvægi hennar í frelsisstríði Bandaríkjanna. Íbúar Boston og nágrennis eru gjarnan kallaðir „Bostonians“ á ensku. Saga. Boston var stofnuð 17. september árið 1630 af hreintrúuðum landnemum frá Englandi á höfða sem frumbyggjar kölluðu Shawmut. Mjótt eiði tengdi höfðann við meginlandið sem var umkringdur Massachusettsflóa og mýrlendinu við óseyrar árinnar Charles. Fyrstu evrópsku landnemar Boston kölluðu svæðið "Trimountaine". Síðar var bærinn nefndur eftir Boston í Lincolnhéraði á Englandi en þaðan höfðu margir mikilsmetnir „pílagríma“-landnemar komið. Meirihluti fyrstu íbúa Boston var hreintrúarsinnaður. Fyrsti landstjóri nýlendunnar við Massachusettsflóa, John Winthrop, hélt fræga predikun sem hét „Borg uppi á hæð“, sem útskýrði hugmynd hans um sérstakan samning á milli Guðs og Boston. Winthrop skrifaði einnig undir svokallaðan Cambridge sáttmála sem er mikilvægt skjal sem markar stofnun borgarinnar. Siðareglur hreintrúarmanna mótuðu afar stöðugt og vel skipulagt samfélag í Boston. Svo dæmi sé tekið, stofnuðu hreintrúarsinnar fyrstu skóla Ameríku stuttu eftir landnám, Latínuskólann í Boston (1635) og háskólann Harvard (1636). Dugnaður, heiðarleiki og áhersla á nám eru enn í dag hluti af menningu Boston. Snemma á sjöunda áratug 18. aldar reyndu Bretar að ná stjórn yfir nýlendunum þrettán, aðallega með sköttum. Þetta varð til þess að íbúar Boston hófu frelsisstríðið. Blóðbaðið í Boston, teboðið í Boston og önnur söguleg átök áttu sér stað í eða nálægt borginni, svo sem bardagin um Lexington og Concord, bardaginn um Bunker Hill og umsátrið um Boston. Það var á þessu tímabili sem Paul Revere fór hina frægu miðnæturreið. Eftir byltinguna varð Boston ein ríkasta hafnarborg veraldar — romm, fiskur, salt og tóbak var þar helst á meðal útflutningsvara. Gamalgrónar fjölskyldur í Boston voru á þessum tíma álitnar yfirstétt í samfélaginu. Meðlimir yfirstéttarinnar voru síðar kallaðir Boston brahmanarnir. Árið 1822 var Boston formlega stofnsett með lögum. Upp úr 1800 varð iðnaðarvarningur borgarinnar orðin mikilvægari fyrir efnahag hennar en alþjóðleg viðskipti. Þar til snemma á 20. öld var Boston á meðal stærstu framleiðsluborga landsins og þá sérstaklega eftirtektaverð fyrir framleiðslu á fötum, leðurvarningi og vélum. Frá miðri til ofanverðar 19. aldar dafnaði menningin í Boston — hún varð þekkt fyrir fágaða bókmenntamenningu og rausnarlegs stuðnings við listirnar. Hún varð einnig miðstöð afnámssinna þrælahalds. Á öðrum áratug 19. aldar breyttist þjóðernisskipting Boston til muna; Írar og Ítalir fluttu til Boston í stórum stíl og með þeim kom rómversk-kaþólska kirkjan. Í dag eru kaþólikkar í meirihluta í Boston. Írar hafa spilað stórt hlutverk í stjórnmálum í Boston — meðal frægra Íra eru John F. Fitzgerald, Tip O'Neil og Kennedy-fjölskyldan. Old State House var byggt á 18. öld umkringt nýrri byggingum frá 19. og 20. öldinni. Á milli 1630 og 1890 þrefaldaðist stærð borgarinnar vegna landheimtu, þá sérstaklega með uppfyllingu í mýrar, leirur og skörð milli hafnarbakka. Þetta kallaði Walter Muir Whitehill „að skera niður hæðirnar til að fylla upp í voganna“. Stærstu framkvæmdirnar hófust 1807 þegar efri hluti Beacon Hill var notaður til að fylla upp í 20 hektara myllutjörn sem síðar varð Haymarket Square (suður af North Station svæðinu í dag). Stjórnarráð Massachusetts stendur nú á Beacon Hill. Frekari framkvæmdir bjuggu til landsvæði undir bæjarhlutana South End, West End, Financial District og Chinatown. Eftir eldsvoðann mikla í Boston 1872 var húsabrak notað sem uppfyllingarefni við höfnina í miðbænum. Landfyllingaraðgerðir við Back Bay voru líka stórfenglegar. Frá miðri til ofanverðar 19. aldar var fyllt upp í 2,4 km² af ísöltu votlendi vestur af Boston Common með jarðveg frá Needham Heights sem þangað var fluttur með járnbrautarlest. Þá samlagaðist Boston bæjarfélögum sínum East Boston, Dorchester, South Boston, Brighton, Allston, Hyde Park, Roxbury, West Roxbury, Jamaica Plain og Charlestown. Snemma á 20. öld varð hnignun í efnahagslífi borgarinnar þar sem verksmiðjur voru úreltar og fyrirtæki fluttust á brott í leit að ódýrara vinnuafli. Til að svara þessari hnignun voru ýmis endurnýjunarverkefni sett í gang, til að mynda niðurrif á gamla West End svæðinu og bygging Government Center. Á sjöunda áratug 19. aldar var aftur blásið lífi í efnahagslífið eftir um 30 ára samdrátt. Borgin varð þá leiðandi í verðbréfasjóðsiðnaði. Þá hafði Boston þegar orðstír fyrir góða heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahús á borð við Massachusetts General Hospital, Beth Israel Deaconess Medical Center og Brigham and Women's Hospital voru leiðandi í heilbrigðismálum í landinu með nýbreytni og umhyggju sjúklinga. Háskólar eins og Harvard, MIT, Boston University og Boston College löðuðu marga nemendur til sín. Upp úr 1974 átti borgin í erfiðleikum vegna átaka út af þeirri aðskilnaðarstefnu sem neyddi lituð börn til að ganga í skóla utan síns hverfis. Mikil ólga og ofbeldi var í kringum opinbera skóla um miðjan sjöunda áratuginn vegna þessa og hún undirstrikaði þann strekking sem var á milli kynþátta í borginni. Á síðustu áratugum hefur Boston glatað mörgum umdæmisstofnunum og hefðum sem eitt sinn einkenndu borgina. Boston er farin að draga dán af öðrum borgum við norðaustur ströndina sem nú eru kallaðar BosWash stórborgarsvæðið. Borgin stendur nú frammi fyrir vandamálum vegna þess að vel stætt fólk kaupir upp gömul hús og gerir upp sem veldur því að fátækara fólk hrökklast undan auk þess sem verðlag þar er afar hátt. Þrátt fyrir þetta er Boston aftur orðin miðstöð vitsmuna-, tækni- og stjórnmálahugmynda. Menning. a>, er eitt stærsta safn Bandaríkjanna. Menning Boston á margt sameginlegt með öðrum svæðum Nýja Englands. Þar á meðal má nefna hreiminn á norðurhluta Nýja Englands, þekktur sem Boston-enska og matreiðslu sem einkennist af sjávarréttum, salti og mjólkurvörum. Írsk-ættaðir Bandaríkjamenn hafa í gegnum tíðina haft sterk áhrif á Boston, einkum á stjórnmál og trúarstofnanir. Boston er af mörgum talin hámenningarleg borg, ef til vill vegna góðs orðstírs hennar á sviði menntunar, en stór hluti menningarsögu borgarinnar á rætur að rekja til háskólanna. Borgina prýða mörg falleg leikhús á borð við Cutler Majestic Theatre, Boston Opera House, Citi Performing Arts Center, Colonial Theater og Orpheum Theatre. Nokkrar stórar listastofnanir starfa í Boston; þar á meðal Boston Symphony Orchestra, Boston Ballet, Boston Early Music Festival, Boston Lyric Opera Company, OperaBoston, og Handel and Haydn Society (ein elstu kórsamtök Bandaríkjanna). Vegna mikilvægis borgarinnar í frelsisstríði Bandaríkjanna hafa nokkrir sögufægir staðir verið varðveittir frá þeim tíma. Marga þeirra er hægt að finna meðfram Freedom Trail, markaðri með línu af rauðum múrsteinum í gangstéttinni. Í borginni eru einnig nokkur virt söfn á borð við Museum of Fine Arts og Isabella Stewart Gardner Museum. John F. Kennedy-bókasafnið er til húsa í Massachusetts háskóla. Á meðal annarra athyglisverðra staða má nefna Boston Athenaeum (eitt elsta einkarekna bókasafn Bandaríkjanna), Boston Children's Museum, Bull & Finch Pub (þekkt sem sögusvið sjónvarpsþáttarins "Cheers"), Museum of Science, og New England Aquarium. Sacramento. Sacramento er höfuðborg Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum. Borgin var stofnuð í desember árið 1848 af John Sutter en hann hafði áður reist virkið Sutter's Fort (einnig nefnt New Helvetia). Í gullæðinu var Sacramento mikilvæg miðstöð viðskipta og landbúnaðar. Þar var endastöð margra vagnlesta, hestvagna, fljótabáta og fyrstu járbrautarinnar sem náði þvert yfir Ameríku. Innfæddir kalla borgina oft "Sacto", "Sactown", "Sacratomato" eða "Sac". Þá kalla viðskiptajöfrar og fjölmiðlar borgina oft "River City". Sacramento State University (hluti California State University) er háskólinn staðarins. Forsaga. Fyrir tíma Evrópubúa í Kaliforníu höfðu indjánar af ættbálkunum Miwok, Shonommey og Maidu búið á svæðinu í líklegast þúsundir ára. Ólíkt nútímamanninum skildu þeir litlar leifar eftir sig, en þeir nærðust aðallega á akarni eikartrjánna, ávöxtum, fræjum og rótum. Árið 1806 eða 1808 kom spænski landkönnuðurinn Gabriel Moraga á svæðið fyrstur Evrópubúa. Hann nefndi dalinn sem hann sá og fljótið sem lá í gegnum dalinn "Sacramento Valley" og "Sacramento River" eftir spænska orðinu yfir sakrament. Frá frumkvöðlum til gullæðis. John Sutter kom til svæðisins frá Liestal í Sviss í ágúst 1839 og stofnaði virkið og viðskiptastöðina Sutter's Fort árið 1840. Árið 1848 fannst gull um 80 kílómetrum norðaustan við virkið eða í Sutter's Mill. Þegar fréttin breiddist út tók fólk að streyma til svæðisins frá öllum áttum og stórjókst íbúatalan við það. Sonur Sutter, sem hét John Sutter yngri, tók að skipuleggja borg á svæðinu og borgina nefndi hann Sacramento eftir fljótinu, "Sacramento river". Þetta gerði hann þrátt fyrir andstöðu föður síns, sem áður hafði stofnað Sutter's Fort, Sutter's Mill og Sutterville, en allar þessar byggðir mistókust öfugt við Sacramento, sem óx hratt. Fyrstu áratugina hrjáðu flóð, eldar og kólera borgina, en samt sem áður hélt aðstreymi fólks til borgarinnar áfram. Höfuðborgin. Löggjafarþing Kaliforníu kom með lög árið 1854 sem gerðu Sacramento að höfuðborg ríkisins, en hún hafði áður verið í borgunum San Jose, Vallejo og Benicia. Hafist var handa við byggingu þinghússins, California State Capitol, árið 1869 og lauk henni 1874. Þykir húsið minna mjög á United States Capitol í Washington, D.C. Þessi nýja staða borgarinnar, sem og góð staðsetning, urðu þess valdandi að borgin upplifði mikið gullaldarskeið. Hún varð fyrsta endastöð Pony Express póstflutninganna í vestri og seinna endastöð fyrstu járnbrautalestarinnar þvert yfir Bandaríkin, First Transcontinental Railroad. Þá hjálpuðu fljótin sem renna í gegnum borgina til við að efla atvinnulíf. Íbúar Sacramento ákváðu um þetta leiti að lyfta borginni, sem þeir gerðu með landfyllingum. Þetta var gert til að koma í veg fyrir tjón af völdum flóða í Sacramento River og American River. Spáskáldskapur. Spáskáldskapur er form skáldskaparlistar sem snýst um íhugun á möguleikum framtíðarinnar og það hvað hefði getað orðið í fortíðinni. Hugtakið er notað á mjög marga mismunandi en skylda vegu. Dæmi um stefnur sem teljast til spáskáldskapar væru vísindaskáldskapur (á borð við Star Trek), hrollvekjur (á borð við lovecraftianisma), ævintýri (á borð við Narníu), cyberpunk og gufupönk. Juan Rodríguez Cabrillo. Juan Rodríguez CabrilloJuan Rodríguez Cabrillo (einnig þekktur á portúgölsku sem "João Rodrigues Cabrilho") var portúgalskur landkönnuður sem kannaði vesturströnd Ameríku í umboði Spánverja. Cabrillo var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi um strendur Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann átti einnig þátt í stofnun borgarinnar Oxaca í Mexíkó. Uppruni. Lítið er vitað um æskuár Cabrillos, ekki er einu sinni víst hvort hann hafi verið spænskur eða portúgalskur. Flestar ævisögur um hann segja hann hafa verið portúgalskan, en í bókinni "Juan Rodriguez Cabrillo" heldur sagnfræðingurinn Harry Kelsey því fram að hann hafi verið fæddur á Spáni, líklega í Sevilla eða í Cuellar. Þá er fæðingarár hans líka á reiki, sem og ætterni, en fyrrnefndur Harry Kelsey heldur því fram að hann hafi verið af fátæku fólki kominn og fæddur í kringum 1498 eða 1500. Ferðir. Cabrillo sigldi til Havana sem ungur maður og gekk til liðs við Hernán Cortés í Mexíkó. Seinna varð hann einn af ríkustu landvinningamönnunum með því að hneppa indjána í Guatemala í þrældóm og láta þá vinna í gullnámu. Eftir för Francisco de Ulloa árið 1539 til Kaliforníuflóa var Cabrillio sendur af stað til að fara með leiðangur upp vesturströnd Bandaríkjanna og kanna viðskiptatækifæri. Spánverjar vonuðust jafnvel til að hann finndi leið til Kína, en á þessum tíma var ekki vitað hversu víðfemt Kyrrahafið var. 27. júní árið 1542 hóf Cabrillo för sína frá Navidad (nú Acapulco) í Nueva España (nú Mexíkó). 28. september sama árs kom hann að land í San Diego flóa og nefndi hann San Miguel. Hann sigldi síðan upp með ströndinni alveg upp að Russian River - ánni, áður en vetrarstormar hröktu þá aftur. 23. nóvember komst leiðangurinn til Santa Catalina Island eyju, útaf ströndum Kaliforníu. Þar huggðust þeir hafa vetursetu og lagfæra skipin. Á þessari eyju fótbrotnaði Cabrillo, illt hljóp í sárið og dó hann 3. janúar árið 1543. Leiðangurinn sneri aftur til Navidad 14. apríl árið 1543. Ekki er vitað hvar Cabrillo var grafinn. Lýsing skrifara leiðangursins er týnd, en annar landkönnuður, Andrés de Urdaneta skrifaði útdrátt úr henni áður en hún týndist. Arfleifð. Samtímamenn Cabrillo vissu lítið um leiðangur hans og engin af nafngiftum hans á stöðum í Kaliforníu hélst. Þá stofnaði hann enga bæi. Því er Cabrillo í dag fyrst og fremst minnst sem fyrsta Evrópubúans sem sigldi um strendur Kaliforníu, og margar götur og byggingar bera nafn hans þar. Dæmi um það eru "Cabrillo College" í Aptos, hluti hraðbrautarinnar "Pacific Coast Highway 1" er kallaður "Cabrillo Highway" og í San Diego er minnismerki um hann. Jay Leno. Jay Leno (fæddur 28. apríl, 1950) er bandarískur þáttastjórnandi af ítölskum og skoskum uppruna. Hann er best þekktur fyrir að hafa stjórnað "The Tonight Show" á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC. Hann á einnig framleiðslufyrirtækið "Big Dog Productions" sem framleiðir "The Tonight Show" í samvinnu við NBC. Uppruni. Leno fæddist sem "James Henry Muir-Leno" í New Rochelle í New York. Hann ólst upp í Andover, Massachusetts og er með bachelor gráðu í talmeinafræði. Uppistand. Leno hóf ferilinn með því að koma fram á næturklúbbum, börum og nokkurn veginn hvaða stað sem er sem myndi gefa honum kost á að koma fram í eins og fimm mínútur. Hann varð fljótt þekktur fyrir þægilega framkomu sína, bæði á sviði og utan sviðs, sem og fyrir sérstakt útlit (t.d. stóra höku). Hann kom stundum fram í "The Tonight Show" sem þá var stýrt af Johnny Carson, en hélt samt áfram við að koma fram á næturklúbbum, allt að átta eða níu á hverju kvöldi. Eftir að nokkrir vinir hans urðu áhrifamiklir í sjónvarpsgeiranum kom hann oftar fram á þeim vettvangi. Þannig kom hann sérlega oft fram í Late Night with David Letterman þættinum. Forustumenn NBC tóku eftir þessum vinsældum og ákváðu að gera hann að stjórnanda "The Tonight Show" þegar þáverandi þáttarstjórnandi, Joan Rivers, hætti. Þáttastjórnandi í Tonight Show. Þegar Carson hætti árið 1992 bjuggust margir við að David Letterman myndi taka við af honum. Í hönd fóru miklar umræður og samningaviðræður, og lauk þeim með sigri Lenos. Letterman gerði aftur á móti samning við CBS um að stýra helsta keppinaut "Tonight Show" sem hét "Late Show". Fyrstu árin hafði Letterman betur hvað áhorfendatölur snerti, en "The Tonight Show" tók forystuna 1995 og hefur haldið henni síðan. Í október árið 2005 sagði Leno að hann hefði ekki talað við David Letterman í 13 ár. Á 50 ára afmæli "The Tonight Show" hinn 27. september árið 2004 tilkynnti Leno að hann myndi hætta þegar samningur hans rynni út árið 2009. Þá myndi Conan O'Brien, stjórnandi Late Night taka við af honum. Áhugamál. Leno er þekktur fyrir söfnun sína á bílum og mótórhjólum. Hann á stórt safn af fornbílum og ekur yfirleitt einum af bílunum til og frá vinnu. Þá er hann dálkahöfundur í blaðinu Popular Mechanics. Fjölskyldumál. 1980 giftist Leno "Mavis Leno", sem er þekkt fyrir störf sín í þágu afghanskra kvenna undir stjórn Talibana. Þau eiga engin börn. Tenglar. Leno, Jay Wine Country. Wine Country er auknefni á svæði norðan við San Francisco í Norður-Kaliforníu, Bandaríkjunum. Svæðið er heimsþekkt fyrir vínrækt sína, sem hófst 1838. Í Wine Country eru um 200 vínbú, flest í staðsett í dölum svæðisins, Napa Valley og Russian River Valley. Helstu þéttbýliskjarnar svæðisins eru Santa Rosa (þar sem mynd Hitchcocks "Shadow of a Doubt" á að gerast), Napa, Calistoga, Geyserville, Bodega Bay, Healdsburg, Fort Ross og Ukiah. Wine Country er yfirleitt talið liggja innan Napa, Sonoma og Mendocino sýslnanna, en vínviður er ræktaður mun norðar. Napa County. Napa Valley er frægastur fyrir vínrækt. Napa County er sýsla norður af San Francisco í Norður-Kaliforníu. Í sýslunni er Napa Valley. Árið 2000 bjuggu á svæðinu 124.249. Höfuðstaður sýslunnar nefnist Napa. Napa County er þekkt fyrir vínframleiðslu sína, sem er í svipuðum gæðaflokki og frönsk og ítölsk vín. Sýslan er stutt frá San Francisco, Oakland og Sacramento og er mjög eftirsóttur staður til að búa á. Ekki er óalgengt að húsnæði í sýslunni seljist á allt að 10 milljónir dollara (u.þ.b. 650 milljónir íslenskra króna). "Napa" er komið úr indjánamáli og getur þýtt "hús", "móðurland" eða "fiskur". Notendur Windows stýrikerfisins kunna að kannast við landslag frá Napa County. Einn bakgrunnurinn, Bliss.jpeg, er frá Napa Valley, með grænum hlíðum og bláum himni. Vínrækt. Napa Valley lék lykilhlutverk í að skapa vínum frá Kaliforníu góðan orðstý á heimsmarkaði. Eftir að hafa unnið til fyrstu verðlauna bæði í flokki hvítvína og rauðvína á vínsmökkunarhátíð í París árið 1976 komust kalifornísk vín loks á kortið og frá þeim tíma hefur framleiðsla á vínu margfaldast. Ferðamennska tengd víniðnaði er nú stór atvinnugrein og er dalurinn í öðru sæti á eftir Disneylandi hvað viðkemur fjölda ferðamanna sem heimsækja svæðið á hverju ári. Vínbú í Napa Valley. Dæmigerð vínekra í Napa Valley. Treasure Island (eyja). Treasure Island er gervieyja í San Francisco flóa milli San Francisco og Oakland. Hún var gerð árið 1939 fyrir heimssýninguna í San Francisco. Treasure Island er tengd við aðra eyju, Yerba Buena Island, með þunnri landræmu. Eyjan er algjörlega innan borgarmarka San Francisco. Í Seinni Heimstyrjöldinni var eyjan notuð sem flotastöð af bandaríska sjóhernum. Hún er enn í eigu sjóhersins, þótt stöðin hafi verið lögð niður árið 1996. Mellowdrone. Mellowdrone er bandarísk hljómsveit stofnuð af Jonathan Bates seint á tíunda áratug tuttugustu aldar. Draumur. Draumar eru sýnir, hljóð eða önnur skynjun sem fólk upplifir í svefni, sem mynda oftast samfellda frásögn um eitthvað tiltekið efni. Okkur dreymir nánast aðeins í svökölluðum REM-svefni, sem er eitt fimm stiga í svefni. Draumar eru taldir þjóna mikilvægu hlutverki í heilastarfseminni því að REM-svefn notar heilinn til að flokka upplýsingar liðins dags. Rannsóknir vísindamanna hafa sýnt fram á að draumar séu oft uppgjör á deginum og hreinsun í undirmeðvitundinni sem hefur geymt miklar, jafnvel ónothæfar upplýsingar yfir daginn. Það er þess vegna sem draumar fylgja oft tilfinningum þess sem dreymir, sb. martraðir. Rannsóknir hafa einnig sýnt að sum dýr dreymir. Draumar eiga stóran þátt í menningarsögunni, bæði almenningur og fræðimenn hafa velt fyrir sér tilgangi og merkingu þeirra. Menn trúa því oft að draumar merki eitthvað og að það eigi að taka mark á þeim. Í Íslendingasögunum eru mörg dæmi um að draumar hafi verið fyrirboðar og frægustu draumarnir eru draumar Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu. Draumakenningar. Þekktustu hugmyndir um tilgang drauma eru komnar frá sálgreinandanum Sigmund Freud sem setti fram kenningar sínar um 1900. Í þá daga lítið sem ekkert vitað um þá heilastarfsemi sem einkennir draumsvefn, en vísindalegar rannsóknir á svefni hófust ekki fyrr en á þriðja áratug 20. aldar. Þar sem Freud gat ekki rennt vísindalegum stoðum undir kenningu sína lagði hann megináherslu á inntak drauma, eins og almenningur hefur gert í gegnum tíðina, og greindi hundruð drauma. Með því að greina drauma fólks taldi Freud sig geta skyggnst inn í dulvitund fólks. Eins og flestar kenningar Freuds hafa samt draumakenningar hans verið umdeildar innan sálfræði, svo ekki sé meira sagt, og sumir sálfræðingar afneita þeim alfarið og telja þær ekki til vísinda heldur hjáfræða. Rétt eins og Freud greindi sálfræðingurinn J. Allan Hobson fjölda drauma og rannsakaði eðli þeirra. Ólíkt Freud byggði Hobson sínar niðurstöður á þeirri vísindalegu þekkingu sem hefur fengist með heilarannsóknum síðustu áratugina. Menn hættu að leita að duldum skilaboðum í draumum og fóru þess í stað að rannsaka formgerð þeirra. Þá er ekki verið að tala um smættarhyggju sem gengur út á að skýra drauma einvörðungu sem aukaafurð heilabylgna í bliksvefni heldur viðhorf í anda hugfræðinnar. Reynt er að komast að því hvaða áhrif skynjun, hugsun og tilfinningalífið hafa á drauma. Í því samhengi eru draumar vissulega áfram mikilvægt rannsóknarefni. Holdsveiki. Holdsveiki (einnig kallað líkþrá) er smitsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni "Mycobacterium leprae" sem er skyld berklabakteríu ("M. tuberculosis"). Holdsveikibakterían leggst sérstaklega á kaldari svæði líkamans svo sem fingur, tær, eyru og nef. Holdsveikibakterían finnst í mönnum, beltisdýrum og sumum apategundum. Limafallssýki er oft haft um holdsveiki almennt, en einnig um þá tegund holdsveiki sem veldur dofa í höndum og fótum Holdsveiki hefur verið útrýmt á Íslandi. Holdsveiki er þó ennþá landlægur sjúkdómur í mörgum löndum, sérstaklega á Indlandi. Talið er að holdsveiki smitist við snertingu, í gegnum innöndun, af smituðum jarðvegi eða gegnum bit skordýra. Meðgöngutími sjúkdómsins getur verið langur eða frá 1-2 árum upp í 40 ár. Holdsveiki leggst á taugar í útlimum og getur valdið tilfinningaleysi, krepptum vöðvum og lömunum. Nú er til auðveld lækning við holdsveiki en skemmdir á taugum og öðrum vefjum eru þó varanlegar. Hallgrímur Pétursson skáld dó úr holdsveiki. Fyrstu ljósmyndirnar af Íslendingum voru teknar af holdsveikisjúklingum. Sérstakt herbergi er í lækningasafninu í Nesstofu um holdsveiki. Líf holdsveikra fyrr á öldum. Líkþrár maður hringir bjöllu til að aðrir geti forðað sér. Myndskreyting í handriti frá um 1400 Íslenskur holdsveikisjúklingur. Myndskreyting úr bók um Íslandsleiðangur Paul Gaimard, gefin út í París 1851 Holdsveikir voru útskúfaðir úr samfélaginu og oft einangraðir í sérstökum holdsveikranýlendum. Maður sem var sýktur af holdsveikir var nefndur spillingi, og menn voru sagðir spilltir á fingrum eða andliti, eða eins og segir á einum stað í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: "Einar varð stundum eins og spilltur maður í andlitinu eða holdsveikur af útbrotum með hrúðum og kýlum og rispum". Holdsveikir menn þurftu að bera með sér rellu eða bjöllu og gefa til kynna komu sína svo aðrir gætu forðast samneyti við þá. Fyrr á öldum var algengt að allir sem þjáðust af húðsjúkdómum svo sem sóragigt, húðkrabbameini eða kýlum væru taldir holdsveikir. Á tólftu öld voru holdsveikissjúklingar í Evrópu einangraðir í sérstökum húsum. Holdsveiki var talin merki um syndir mannsins. Stundum var settur sérstakur lágur gluggi í kirkjur fyrir holdsveika þannig að þeir gætu fylgst með guðsþjónustum án þess að smita þá sem inni voru. Holdsveikir þurftu á miðöldum að vera í sérstökum klæðnaði og urðu að búa utan borgarmarka á afmörkuðum svæðum og strangar reglur giltu um samneyti þeirra við aðra borgara. Á tuttugustu öldinni voru holdsveikir einnig neyddir til að búa í einangrun, oft í sérstökum holdsveikranýlendum. Holdsveikraspítalar á Íslandi. Holdsveiki barst fyrst til Íslands á þrettándu öld. Útbreiðsla sóttarinnar virðist hafa verið hæg í fyrstu, en á sextándu öld var hún orðin útbreidd og skaðvæn. Var þá farið að ræða um að stofna sérstaka holdsveikraspítala hér á landi. Framkvæmdin dróst í heila öld, en með konungsbréfi 1651 var heimilað að stofna fjóra spítala, einn í hverjum landsfjórðungi. Þessir staðir voru ekki líkir spítölum nútímans, þangað kom fátækt fólk, hreppsómagar og flækingar. Ekki var þar heldur mikil von um lækningu, enda engir læknar starfandi við stofnanirnar og hreinlæti lélegt. Þessir staðir voru aflagðir með konungsúrskurði 12. ágúst 1848, enda höfðu velflestir vistmennirnir látist í mislingafaraldri sama ár. Næstu hálfu öldina áttu holdsveikir Íslendingar því í engin hús að venda. Dönskum lækni sem ferðaðist um landið undir lok nítjándu aldar rann til rifja aðstöðuleysið og hvatti félaga sína í dönsku Oddfellow-hreyfingunni til að koma til aðstoðar. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður árið 1898 fyrir danskt gjafafé en spítalahúsið brann 1943. Síðustu íslensku holdsveikisjúklingarnir voru vistaðir á Kópavogshæli og voru þar í einangrun. Simón Bolívar. Símon José Antonio de la Santísima Trinidad Bolívar y Ponte Palacios y Blanco (f. 24. júlí, 1783 d. 17. desember, 1830) var frelsishetja Suður Ameríku. Hann leiddi sjálfstæðishreyfingu og sjálfstæðisbaráttu á þeim slóðum sem nú eru löndin Venesúela, Kólumbía, Ekvador, Perú, Panama og Bólivía. Þar, líkt og í öðrum löndum Rómönsku Ameríku, er hann talinn mikil hetja. Hann fæddist í Karakas. Árið 1802, kvæntist hann Maríu Teresu Rodríguez del Toro y Alaysa, hún lést ári síðar. Hann var fyrsti forseti Lýðveldisins Bólivíu er það var stofnað 1825. Segja má að hann sé eins konar Jón Sigurðsson eða George Washington Rómönsku Ameríku, en þar er hann stundum kallaður "El Libertador", eða "Frelsarinn". Fjölskylda og yngri ár. Fjölskylda Simóns Bolívars taldist til menntafólks og rakti ætt sína aftur til þorpsins Bolíbar (sp. La Puebla de Bolibar), í Baskalandi. Auðgaðist fjölskyldan meðal annars af gull og koparnámum við ána Aroa í Venesúela á 17. öld. Simón Bolívar notaðist að hluta til við tekjur af námunum til að fjármagna frelsisbaráttu Suður-Ameríku. Samt sem áður er Simón ekki sá eini úr ættinni sem hefur látið að sér kveða, til að mynda er kapella í Dómkirkjunni í Karakas sem var tileinkuð ættinni árið 1575. Simón Bolívar var fæddur í Karakas, þar sem nú er höfuðborg Venesúela, í fjölskyldu menntamanna. Að foreldrum hans látnum var menntun hans í höndum mismunandi kennara, þar á meðal Simóns Rodríguez, sem hafði einna mest áhrif á drenginn. Við andlát foreldranna fór hann til Spánar árið 1799 til að ljúka menntun sinni. Þar kvæntist hann Maríu Teresu Rodríguez del Toro y Alaysa árið 1802, meðan á skammri heimsókn hans heim til Venesúela stóð árið 1803 veiktist hún af gulu sem dró hana til dauða síðar sama ár. Simón sneri aftur til Evrópu 1804, og aðhylltist á tímabili Napóleon. Frelsisbaráttan og Frelsarinn. Simón hélt heim til Venesúela árið 1807 og þegar Napóleon gerði Jósef Bonaparte að Konungi Spánar og spænsku nýlendnanna árið 1808, gekk hann til liðs við andspyrnuhreyfinguna, í Suður-Ameríku, saman (sp. "junta"). Árið 1810 lýsti hreyfingin í Karakas yfir sjálfstæði og Símon var sendur til Englands til að koma á fót stjórnmálalegum tengslum. Simón kom til Venesúela árið 1811. Í júlí árið eftir gafst leiðtogi hreyfingarinnar í Karakas, Francisco de Miranda, upp, og neyddist Simón til að flýja til Cartagena de Indias, en þar ritaði hann "Cartagena Manifesto". Er Simón var falið hernaðarlegt vald í Nýja Granada árið 1813 af þinginu í Tunja, leiddi hann innrásina í Venesúela 14. maí. Innrásin markaði upphaf hinnar dáðu baráttu "Campaña Admirable". Hann kom til Mérida þann 23. maí og náði að því loknu Trujillo á sitt band 9. júní. Sex dögum síðar, 15. júní fyrirskipaði hann að barist yrði til síðasta manns, ("Decreto de Guerra a Muerte"). Er Karakas var endurheimt 13. ágúst 1813 var hann nefndur Frelsarinn "El Libertador" við stofnun Annars Venesúelska Lýðveldisins. Við fall lýðveldisins eftir uppreisn José Tomás Boves árið 1814, snéri Simón aftur til Nýja Granada, þaðan sem hann stjórnaði kólumbísku þjóðernishreyfingunni, sem hann hélt til Bógóta með árið 1814 og endurheimti borgina frá hinu fallandi lýðveldi. Hugur hans stóð til að taka konungssinnann Santa Marta höndum en vegna ágreinings og árekstra við stjórnvöld í Cartagena flúði Símón til Jamaíku og leitaði ásjár Alexanders Pétíons leiðtoga Hahítí. Með hahítísku liðsinni hélt Símon til Venesúela árið 1816, hann tók borgina Angostura (sem nú heitir Ciudad Bolívar eða Borg Bolívars). Stóra Kólombía. Með sigri í orustunni um Boyacá árið 1819 bættist Nýja Granada við þau svæði sem voru frjáls undan spænskri stjórn. Hinn 7. september 1821 var Lýðveldið Stóra Kólumbía (sambandsríki sem náði yfir það svæði þar sem nú er Venesúela, Kólumbía, Panama og Ekvador) stofnað, og var Simón forseti og Francisco de Paula Santander varaforseti. Síðari sigrar í orustum við Karabóbó árið 1821 og við Pichincha árið 1822 styrktu yfirráð hans og stórkólumbíska lýðveldisins yfir Venesúela og Ekvador. Perú. Að loknum fundi 26. og 27. júlí 1822 með Argentínska hershöfðingjanum José de San Martín sem var kallaður verndari Perúsks frelsis síðan hann hafði frelsað hluta Perú í ágúst 1821, tók Simón að sér að ljúka verkinu – frelsun Perú. Þing Perú gerði hann að einræðisherra Perú 10. febrúar 1824, en það gerði honum kleift að endurskipuleggja Perú alfarið, bæði stjórnmálalega og hernaðarlega. Með aðstoð Antonio José de Sucre, gersigraði Símon spænska riddaraliðið 6. ágúst 1824 í orustunni um Junín. Antonio gekk milli bols og höfuðs á því sem eftir stóð af spænsku herdeildunum í orustunni um Ayacucho 9. desember. Að fengnu frelsi. Þegar árið 1825 gekk í garð var sigurinn unninn, Spánverjar og herdeildir þeirra höfðu þurft að lúta í gras fyrir heimamönnum. Simóni var af mörgum eignaður sigurinn. Þá tók við annað verkefni að stýra frjálsum þjóðum í sjálfstæðum löndum. Bólivía. Þing Efra Perú myndaði Bólivíu 6. ágúst 1825, til heiðurs Simóni Bolívar. Stjórnarskrá Bólivíu, sem var skrifuð af Símoni, bar merki franskra áhrifa og skoskrar upplýsingar auk sígildra grískra og rómverskra áhrifa sem mótað höfðu stjórnmálalega afstöðu Simóns. Hann var aðdáandi Sjálfstæðisbaráttunnar í Bandaríkjunum, hann las bækur Montesquieus og Adams Smith er hann ritaði stjórnarskrá Bólivíu. Erfiðleikar og alræðisvald. Simón átti í erfiðleikum með að hafa stjórn á hinu víðlenda Stóra Kólumbíska lýðveldi. Klofningur kom upp árið 1826 og svæðisbundin uppreisn átti sér stað þar sem nú er Venesúela. Á tímabili virtist sem hið stóra en brothætta lýðveldi væri að hruni komið. Mönnum voru gefnar upp sakir og samkomlagi var náð við uppreisnarmennina en sundurlyndi stjórnmálamanna óx. Með það fyrir augum að viðhalda einingu lýðveldisins boðaði Simón til stjórnarskrárþings í apríl 1828 í Ocaña. Draumur hans var að hin nýfrjálsu lýðveldi mynduð með sér bandalag um sameiginlega stjórn sem héldi einstaklingsfrelsi til haga. Hugmyndum hans var hafnað á stjórnarskrár þinginu. Þegar það var fyrir séð að þingið legði drög að víðtæku sambandsríki sem takmarkaði mjög vald svæðisbundinna stjórnvalda, yfirgáfu Simón og fulltrúar hans samkomuna.. Simón tók sér alræðisvald 27. ágúst 1828 til þess að reyna að bjarga lýðveldinu. Óánægja með framferði hans óx og var honum sýnt banatilræði í September sama ár. Á næstu tveim árum var nokkuð um uppþot í Nýja Granada, Venesúela og Ekvador. Minningin lifir. Þann 27. apríl 1830 sagði Simón af sér forsetaembættinu, hann ætlaði sér að flýja í útlegð til Evrópu, en lest af völdum berkla 17. desember 1830, áður en hann hélt úr höfn, í í Santa Marta, Kólumbíu. Á danarbeði sínu bað hann aðstoðarmann sinn Daniel O'Leary um að brenna bóka og bréfasafn sitt. Daníel óhlýðnaðist hinstu ósk Símons og sagnfræðingar hafa því átt auðveldara með að átta sig á frjálslyndum hugmyndum Simóns. Jarðneskar leifar hans voru fluttar til Karakas árið 1842, hvar minnisvarði um frelsarann var reistur. 'La Quinta' nærri Santa Marta hefur verið varðveitt sem safn. Af ræðum hans og ritum að dæma má sjá að hann aðhylltist takmörkuðu ríkisvaldi, þrískiptingu þess, trúfrelsi, eignarrétt og að stjórnvöld færu einungis að lögum. Simóni og Maríu var ekki barna auðið á meðan á hjónabandi þeirra stóð, Símon kvæntist ekki á nýjan leik og eignaðist því enga erfingja en systir hans Juana Bolívar y Palacios giftist frænda þeirra Dionisio Palacios y Blanco og átti með honum tvö börn: Guillermo og Benigna. Guillermo lest í orustunni við La Hogaza hvar hann barðist við hlið Simóns. Benigna Palacios y Bolívar giftist Pedro Amestoy. Barnabörn þeirra, Pedro (94) og Eduardo (90) Mendoza-Goiticoa sem búa nærri Karakas eru skyldustu ættingjar Simóns Bólivars á lífi. Heimild. Bolívar, Simón Steypireyður. Steypireyður (fræðiheiti: "Balaenoptera musculus"), einnig kölluð bláhvalur er skíðishvalur og er tegund í ættkvíslinni "Balaenoptera" (reyðar). Þeir eru hluti af ættinni reyðarhvalir ("Balaenopteridae") og má finna í öllum heimshöfum. Lýsing. Steypireyður er stærsta spendýr jarðar og stærsta dýrategund sem hefur lifað á jörðinni. Fullvaxin getur hún orðið rúmlega 30 metrar að lengd. Hún getur orðið allt að 150 tonn á þyngd og allt að 200 tonn þegar hún gengur með afkvæmi. Steypireyður er straumlínulaga með fremur smá bægsli, stórt höfuð nær fjórðungur af heildarlengd. Hvalurinn er blágrár nema neðanverð bægslin sem eru hvít. Misgráir litatónar mynda óreglulegt munstur um allan skrokkinn. Greinilega má sjá litamun á einstaklingum. Meðgöngutími steypireyða er rúmlega 11 mánuðir og langalgengast er að steypireyðarkýrin gangi með einn kálf í einu, þó stöku sinnum sjáist til steypireyðar með tvo kálfa. Um 2-3 ár líða á milli burða hjá hverri steypireyði. Við fæðingu eru steypireyðarkálfar 7-8 metrar að lengd og um 2 tonn á þyngd. Kálfarnir vaxa hratt og þyngjast um u.þ.b. 90 kg á sólarhring, enda drekka þeir um 300 lítra af mjólk á dag. Kálfarnir eru á spena í 6 til 8 mánuði. Að þeim tíma loknum eru þeir orðnir um 16 metrar langir. Talið er að steypireyðar geti náð um 80-90 ára aldri. Steypireyður gefur frá sér lágtíðnihljóð sem mannseyrað greinir ekki. Tarfar í makaleit gefa frá sér baul sem mælist allt að 188 desibel og er það hæsta hljóð sem dýr gefur frá sér á jörðinni. Útbreiðsla og hegðun. Blástur steypireyðar Steypireyðar lifa í öllum heimshöfum og má finna bæði á úthafi og strandsvæðum. Oftast sjást hvalirnir einir á ferð að sumarlagi eða tveir til þrír saman. Hann syndir afar hratt eða um 33 kílómetrar á klukkustund á fartímanum. Steypireyður kafar yfirleitt ekki dýpra en um 200 metra og oftast ekki dýpra en um 16 metra, þeir eru iðulega í kafi í upp til hálftíma og dæmi eru um allt að 50 mínútna köfun. Steypireyður lifir á svifum og étur um 4 tonn af þeim á dag. Hún gerir það með því að gleypa mikinn sjó og spýta honum út úr sér aftur í gegnum skíðin. Á skíðunum eru hár sem svifin festast í og verða þannig eftir í munni steypireyðarinnar. Að lokum kyngir hún svifunum. Sennilega éta hvalirnir stóran hluta ársneyslunnar á 4 til 6 mánuðum á sumrin. Veiðar og fjöldi. Talið er að heildarfjöldi steypireyða á jörðinni sé á bilinu 6500 til 14000. Tegundin var ofveidd á síðustu öld og fækkaði gífurlega og er nú talin í útrýmingarhættu. Steypireyður er alfriðuð frá árinu 1966. Kaplakriki. Kaplakriki er heimavöllur Fimleikafélags Hafnarfjarðar sem er betur þekkt sem FH. Örnefnið er kennt við kapla í merkingunni hryssur. Íþróttahúsið rúmar ríflega 2200 manns í sæti, og var vígt árið 1990. Knattspyrnuvöllur er á svæðinu og rúmar hann rétt yfir 2000 manns í sæti og stefnt er að frekari stækkun áhorfendastúkna. Einnig er þar frjálsíþróttaaðstaða og von er á innanhúsaðstöðu handa frjálsíþróttafólki félagsins. Sumarið 2004 var svo vígt knatthús sem nýtist til æfinga allan ársins hring. 165 University Avenue. 165 University Avenue (eða "Háskólastræti 165" eins og það útlegst á íslensku) er lítil skrifstofubygging sem liggur við götuna University Avenue í miðbæ bæjarins Palo Alto í Kaliforníu. Byggingin er fræg fyrir það að hafa verið húsnæði margra þekkta tæknifyrirtækja á meðan þau voru enn lítil og óþekkt. Af þeim eru merkust Google, Logitech og PayPal. Ígerð. Ígerð (læknisfræðiheiti: "abscessus"; þýðir „fjarverandi“ eða „að fara í burtu“) er afmörkuð söfnun graftar sem örverur valda oftast en einnig getur verið um að ræða aðskotahlut sem myndar holrúm í líkamsvef (svo sem flís eða byssukúlu). Graftarmyndunin er aðferð líkamans til að einangra sýkinguna og koma í veg fyrir frekari dreifingu hennar um líkaman. Ígerð getur myndast jafnt innan sem utan á líkamanum, jafnvel í líffærum eins og heilanum. Graftarmyndunin getur valdið tilfærslu eða þjöppum vefja í kring og það getur valdið sársauka. Örverurnar eða aðskotahlutirnir drepa nærliggjandi frumur sem um leið gefa frá sér eiturefni sem veldur bólgumyndun með því að draga að sér hvít blóðkorn og auka blóðstreymi í sýkta vefnum. Gröfturinn er því samblanda af dauðum frumum, hvítum blóðkornum, örverum eða aðskotahlutum og eiturefnum sem örverurnar eða blóðkornin leysa úr læðingi. Að síðustu mynda frumurnar í kringum ígerðina svokallaðan ígerðarvegg sem einangrar sýkta svæðið enn frekar. Art Spiegelman. Art Spiegelman (fæddur 15. febrúar 1948) er sænsk-bandarískur gyðingur af pólskum ættum og listamaður. Hann skrifaði og teiknaði bókina Maus sem fjallar um upplifun foreldra Spiegelman af því að vera gyðingar í Auschwitz-fangabúðunum í Póllandi í seinni heimsstyrjöldinni. Fyrir bókina hlaut Spiegelman sérstök Pulitzer verðlaun. Hann myndskreytti meðal annars marga Garbage Pail Kids límmiða. Spiegelman, Art Spiegelman, Art Ágústa Eva Erlendsdóttir. Ágústa Eva Erlendsdóttir (fædd 28. júlí 1982) er íslensk söng- og leikkona. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Silvía Nótt og sem söngkona hljómsveitarinnar Ske. Ágústa er næstyngst fimm systkina. Hún ólst upp í Hveragerði en flutti á unglingsárunum til Hafnarfjarðar og gekk í Víðistaðaskóla. Hún hóf nám við Menntaskólann í Kópavogi en lauk ekki námi. Hún var virk í leiklist og söng, enda eru það hennar helstu áhugamál. Hún hefur líka fengist við það að teikna. Ágústa var söngkona í rapphljómsveitinni Kritikal Mazz sem gaf út samnefnda plötu árið 2002. Platan fékk tilnefningu sem besta íslenska hiphop platan á Tónlistarverðlaunum Radio X og Undirtóna. Trausti Júlíusson gagnrýnandi í Fókus sagði plötuna vera einu bestu hiphop plötuna sem komið hefði út á Íslandi. Ágústa tók þátt í leiksýningum hjá Leikfélagi Kópavogs, til dæmis "Memento Mori". Árið 2004 lék hún í Hárinu. Leikstjóri verksins var Rúnar Freyr Gíslason og tónlistarstjóri Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Í hlutverki Bergers var Björn Thors. Árið 2005 hlaut Ágústa og/eða Silvía Nótt, tvær Eddur á Edduverðlaununum. Silvía var valin sjónvarpsmaður ársins og þátturinn hennar Sjáumst með Silvíu Nótt var valinn skemmtiþáttur ársins. Ári seinna, það er að segja 2006, lék hún í bíómyndinni Mýrinni sem gerð var eftir samnefndri bók eftir Arnald Indriðason. Hún lék dóttur Erlends, Evu Lind sem er fíkniefnaneytandi. Árið 2008 tók hún þátt í undirbúningi að þróun skemmtiþáttarins Svalbarða, sem er þáttur í stjórn Þorsteins Guðmundssonar. Í þættinum er hún söngkona hljómsveitarinnar sem leikur tónlist milli atriða. Skrifar innslög sem og að leika í þeim sjálf með Þorstieni. Árið 2009 lék hún Bjarnfreði í kvikmyndinni Bjarnfreðarson í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Hún leikur einnig Margreti í kvikmynd Ólafs De fleur í framleiðslu Popoli, Laxdæla Lárusar. Ske. Ske er íslensk hljómsveit sem er ættuð undan hljómsveitinni Skárren ekkert. Hljómsveitin hefur gefið út tvær plötur, "Life, Death, Happiness and Stuff" sem Smekkleysa gaf út árið 2002 og "Feelings are great" sem Smekkleysa gaf út árið 2004. Ráðherra. Ráðherra er embættistitill einstaklings sem stýrir ráðuneyti og situr í ríkisstjórn lands. Ísland. Ráðherra hefur setið á Íslandi frá 1. febrúar 1904. Á Íslandi framkvæmir ráðherra vald forseta. Því fara ráðherrar með framkvæmdavald. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum. Þannig getur Alþingi kært ráðherra fyrir Landsdóm vegna alvarlegra brota í embætti. Það hefur þó ekki enn gerst í sögu Íslands. Þingræðisreglan segir að ríkisstjórnin geti einvörðungu setið með stuðningi meirihluta þings. Alþingi getur fellt einstaka ráðherra eða ríkisstjórnina verði vantrauststillaga samþykkt. Samkvæmt stjórnarskránni skipar forseti Íslands ráðherra og veitir þeim lausn, forseti ákveður tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim. Ráðherrar skipa ríkisráð undir forsæti forseta Íslands. Sá ráðherra sem forseti hefur kvatt til forsætis á ráðherrafundum hvar nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnmálaefni skulu rædd, nefnist forsætisráðherra og stýrir hann fundum ráðherranna sem eru nefndir ríkisstjórnafundir. Vegna embættisins hafa ráðherrar rétt til setu á Alþingi með málfrelsi og geta ráðherrar borið fram mál á Alþingi þó þeir hafi ekki verið kjörnir til setu þar, því geta þeir sem ekki eru þingmenn sest í ráðherra stól. En atkvæðisrétt á alþingi hafa einungis kjörnir Alþingismenn. Sú hefð þróast á Íslandi að sá sem hefur umboð til myndunar ríkisstjórnar, leggur til við forseta hverjir skuli verða ráðherrar hvaða málaflokks, að fengnu samkomulagi þeirra sem þar eru tilnefndir. Þeir sem tilnefndir eru hafa verið jafnan skipaðir ráðherrar og sá sem náði samkomulagi um myndun ríkisstjórnar settur í forsæti. Verkaskipting ráðherra hefur miðast við lög um Stjórnarráð Íslands sem sett voru 1969. Ríkisstjóri Íslands Sveinn Björnsson skipaði ríkisstjórn sem nefnd var utanþingsstjórn árið 1942 vegna þess að ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar voru ekki alþingismenn. Eins var Ólafur Ragnar Grímsson ekki alþingismaður meðan hann gengdi embætti fjármálaráðherra 1988-1991 og Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra situr ekki á þingi. Færeyjar. Í Færeyjum nefnast ráðherrar Landstýrirmenn, enda sitja þeir í Landsstjórninni og hafa titil sinn þaðan, Lögmaður titlast sá sem stýrir fundum þeirra. Lögmaður einn getur sett eða leyst Landstjórnarmenn úr starfi sínu. Lögþings formaður, sem janfgildir forseta Alþingis, getur leyst Lögmann úr starfi byðji Lögmaður sjálfur um að vera leystur frá ellegar vantrausttillaga hafi verið samþykkt með atkvæðum helmings allra þingmanna Færeyja. Eins hefur veitir Lögþingsformaður stjórnarmyndunarumboð. Lögmaður starfar uns nýr Lögmaður hefur verið settur í embætti. Afsögn Lögmanns er alfarið undir honum sjálfum komin. Í apríl 2002 var kosið til Lögþingsins og Lögmaður samdi um áframhaldandi stjórn að loknum kosningum án þess að þing hefði verið kallað saman í milli tíðinni. Bretland. Á Bretlandi tíðkast það að ráðherra sé valinn úr röðum þingmanna. Forsætisráðherra er skipaður af konungi/drottningu. Bandaríkin. Í Bandaríkjunum tilnefnir forseti ráðherra sem eru honum til ráðgjafar. Hannes Hafstein. Hannes Þórður Hafstein (f. 4. desember 1861, d. 13. desember 1922) var íslenskt skáld, sýslumaður og fyrsti ráðherra Íslands. Ævi. Hannes var sonur Péturs Havsteins amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann varð fyrsti inspector scholae Lærða skólans skólaárið 1879-1880. Hannes lauk námi við Lærða skólann 1880 og hélt í laganám til Kaupmannahafnar. Hann dundaði sér við skriftir á námsárunum sínum og gat sér gott orð á Íslandi fyrir skáldskapargáfu. Hann lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1886. Þegar hann kom heim varð hann settur sýslumaður í Dalasýslu og sat að Staðarfelli í eitt ár uns hann gerðist málafærslumaður við landsyfirréttinn og tveimur árum síðar var Hannes landshöfðingjaritari hjá Magnúsi Stephensen. Árið 1895 var hann skipaður sýslumaður á Ísafirði, í kjölfar Skúlamála - Skúla Thoroddsen og fór til Ísafjarðar árið eftir. Árið 1899 fór Hannes á landhelgisbátnum Ingjaldi út í breska togarann "Royalist", sem var að ólöglegum veiðum í íslenskri landhelgi í Dýrafirði. Togarinn kafsigldi bátinn með þeim afleiðingum að þrír af þeim fjórum ósyndu mönnum sem voru með Hannesi í för drukknuðu. Bretarnir björguðu Hannesi um borð og hættu veiðunum. Hannes sat á Alþingi fyrir Ísfirðinga 1900-1901 og fyrir Eyfirðinga 1903-1915 og loks var hann kjörinn af konungi til setu á Alþingi 1916-1922 en hann sat síðast á Alþingi 1917. Hann varð foringi Heimastjórnarmanna á Alþingi þegar dönsk ríkistjórn Venstre féllst á hugmyndir Heimastjórnarmanna um ráðherra á Íslandi, og bauð Íslendingum heimastjórn að fyrrabragði, eftir að Valtýr Guðmundsson hafði fengið frumvarp sitt samþykkt á Alþingi 1901, árið 1903. Ráðherra. Hannes Hafstein heilsar almenningi við þingsetningu við Dómkirkjuna í Reykjavík á fyrstu árum Heimastjórnarinnar. Hannes varð fyrsti ráðherra Íslands frá og með 1. febrúar 1904. Meðan Hannes var ráðherra var sími lagður til landsins (sjá "Símamálið"). Deilur risu um uppkast að nýrri stjórnarskrá og var kosið um „"Uppkastið"“ árið 1908. Andstæðingar "Uppkastsins" unnu sigur og Björn Jónsson varð ráðherra 31. mars 1909. Þá varð Hannes bankastjóri Íslandsbanka. Hannes varð ráðherra í annað sinn 24. júlí 1912, þá fyrir Sambandsflokk, þegar Kristján Jónsson lét af embætti, og sat til 21. júlí 1914. Á því tímabili var fánamálið mjög til umræðu, og tapaði Hannes atkvæðagreiðslu um skipan nefndar um tilhögun og tillögugerð í fánamálinu. Tók Sigurður Eggerz við ráðherraembætti af Hannesi. Hannes settist þá aftur í bankastjórastól Íslandsbanka og sat þar til 1917 er hann sagði af sér vegna heilsubrests. Bolungavík. Bolungavík er eyðivík á Hornströndum, fyrir norðan Furufjörð og sunnan við Barðsvík. Hún liggur innan marka Hornstrandafriðlandsins. Í Bolungavík rekur Reimar Vilmundarson ferðaþjónustu og er með bát sem hann notar til að sigla ferðamönnum um Hornstrandir. Hillingar. Skýringarmynd; beygja ljósbogans er ýkt Hillingar eru loftfyrirbrigði sem verða til þegar ljósbylgjur breyta um stefnu og spegla þannig mynd af himninum eða fyrirbærum í nágrenninu. Við hitabreytingar, s.s. þegar kalt loft rís upp yfir hlýrra loft, geta orðið til miklar hillingar vegna þess að heitt loft endurspeglar betur og þannig verða til hillingar þegar ljósbylgjan „beygir frá“ hitauppstreyminu, hvort sem það er heitur sandur eða malbik. Jethro Tull. Jethro Tull er bresk rokk-hljómsveit sem var stofnuð í bænum Blackpool á Englandi á 7. áratug 20. aldar, nánar tiltekið árið 1968. Tónlist hennar einkennist af hrjúfri röddu og margslunginni þverflautu Ians Anderson. Tónlist bandsins þótti oft á tíðum tilraunakennd og undir þjóðlegum áhrifum. Gítarleikarinn Martin Barre hefur verið með sveitinni síðan 1969 en ýmsir meðlimir hafa sinnt öðrum stöðum í bandinu. Ian Anderson hefur verið aðalkjölfestan í bandinu og samið velflest er því viðkemur. Fyrstu plötur sveitarinnar voru undir áhrifum blús en með tilkomu plötunnar "Aqualung" varð stílbreyting og lagasmíðarnar urðu framsæknari og vinsældir hljómsveitarinnar jukust. Í tímans rás urðu áhrifin af ýmsum toga; frá klassík, jazzi, progrokki og þjóðmenningu sem dæmi má nefna. Plöturnar "Thick as a brick" og "Passion play" voru langar, flóknar og samfelldar þemaplötur. Á plötunum "Songs from the wood, Heavy horses" og "Stormwatch" sökk sveitin sér meira í þjóðlegt rokk með framúrstefnuáhrifum. Litið er á þær sem,Folk trílógíuna". Bassaleikari sveitarinnar John Glascock lést árið 1979 sökum meðfædds hjartagalla og spilaði Anderson bassann mestmegnis á "Stormwatch." Á níunda áratugnum hóf Jethro Tull að nota hljómborð og hljóðgervla í samræmi við tíðarandann. Plöturnar "A"(sem átti upphaflega að vera sólóplata Andersons) og "Under Wraps" einkenndust sérstaklega af því. "Broadsword and the beast" var af einhverri ástæðu mest selda plata sveitarinnar í Þýskalandi. Á "Under Wraps" tónleikaferðalaginu ofreyndi Anderson raddböndin og fékk berkjubólgu. Frá því atviki hefur hann ekki geta haldið fullum raddstyrk. Anderson tók sér hlé og einbeitti sér að laxeldi þar til hann sneri aftur með sveitinni með plötuna "Crest of a knave" árið 1987. Árið 1989 kom það öllum að óvörum að Tull vann til verðlauna sem besta þungarokksbandið á Grammyverðlaunahátíðinni fyrir "Crest of a knave"(en Metallica voru þar með... "An Justice for all"). Plötufyrirtækið þeirra, Crysalis records, hvatti þá hvorki né styrkti til að vera viðstaddir þannig að svo fór að Alice Cooper sem var kynnir á hátíðinni tók við verðlaununum. Verðlaunin voru umdeild þar sem almennt var ekki litið á Tull sem þungarokkshljómsveit. Plöturnar "Rock Island" og "Catfish rising" svipuðu til stíls hljómsveitarinnar Dire Straits. Seinni tíma verk sveitarinnar eru lágstemmdari. Á einkum "Roots to Branches" og "J-tull.com" komu þjóðlegu áhrifin sterk inn aftur. Rithöfundur. Rithöfundur er sá eða sú sem fæst við ritstörf; skrifar, semur eða ritar sögur. Framúrskarandi rithöfundar hafa sumir hverjir í sinni tíð, þ.e. á tuttugustu öldinni og síðar, hlotið ýmiskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Einna þekktust þeirra eru Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Gullknötturinn. Gullknötturinn (franska: "Ballon d'Or") er viðurkenning sem franska knattspyrnublaðið "France Football" veitir þeim knattspyrnumanni sem hefur staðið upp úr á árinu. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn árið 1956. Fram til ársins 1994 var kjörið einungis opið evrópskum leikmönnum, en frá 1995 hefur verið kosið um alla þá sem spila með evrópskum liðum, hvort sem þeir eru evrópskir eður ei. Johan Cruyff, Michel Platini og Marco van Basten hafa allir hlotið verðlaunin þrisvar. Ratatoskur. Orðsifjar. Viðliðurinn í nafninu Ratatoskur, þ.e. "toskur" eða "toskr" merkir „tönn“ eða „skögultönn“ og er talinn samstofna fornenska orðinu "tusc" þaðan sem enska orðið "tusk" (‚skögultönn‘) kemur. Forliðurinn gæti átt skilt við Rati, sem er bor eða nafar í norrænni goðafræði. Einnig er hann talinn skyldur latnesku sögninni "rado", "rodo": krafsa. Sumir útskýra Ratatoskur sem: "tönn sem borar". Giovanni Spadolini. Giovanni Spadolini (21. júní 1925 – 6. ágúst 1994) var ítalskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Ítalíu í tveimur ríkisstjórnum, sá fyrsti sem ekki var í Kristilega demókrataflokknum, en hann sat fyrir Lýðveldisflokk Ítalíu. Hann varð blaðamaður hjá dagblaðinu "Il Mondo" á eftirstríðsárunum og kenndi samtímis við háskólann í Flórens, heimabæ sínum. Eftir að hann fór úr Róttæka flokknum yfir í Lýðveldisflokkinn, varð hann ritstjóri dagblaðsins "Il Resto del Carlino" í Bologna frá 1955 til 1968 og "Corriere della Sera" frá 1968 til 1972. 1974 varð hann svo öldungadeildarþingmaður fyrir Lýðveldisflokkinn og sama ár varð hann fyrsti ráðherra menningararfs og umhverfis ("Beni culturali e ambientali") í ríkisstjórn Aldo Moros, sem heyrði undir menntamálaráðherra. 1981 samþykktu Kristilegir demókratar að hann yrði forsætisráðherra, sá fyrsti sem ekki var demókrati, eftir að hneykslið kringum frímúrarastúkuna P2 hafði neytt Arnaldo Forlani til að segja af sér. Í kosningunum 1983 náði flokkur hans í fyrsta skipti yfir 5% fylgi. Hann varð síðan varnarmálaráðherra í tveimur ríkisstjórnum Bettino Craxi. Spadolini, Giovanni Ritmál. Ritmál er táknkerfi sem gerir mögulegt að varðveita talað mál og líkja eftir tungumáli á sýnilegan hátt. Til að skilja ritað mál þá þarf að kunna eitthvað í því tungumáli sem ritmálið byggir á. Með ritmáli er hægt að skrásetja birgðahald og viðskipti, sögulega atburði, lagabálka, vísindafróðleik, helgisagnir og frásagnir af afreksverkum þjóðhöfðingja. Eingöngu hluti af þeim tungumálum sem töluð eru í heiminum eiga sérstakt ritmál. Ritmál breytist hægar en talmál. Saga ritmáls. Fleygrúnir frá um 2400 f. Kr. Upphaf ritmáls er rakið til svæðanna við austarvert Miðjarðarhaf og er elstu ummerki um fullkomið ritmál rakin til Súmera í Mesópótamíu. Þar hafa fundist leirmunir sem virðast hafa það hlutverk að auðvelda birgðahald. Upphaf ritaðs máls er oft í tengslum við viðskipti og skrásetningu á vörum. Varðveist hafa leirtöflur frá 4. árþúsundi fyrir Krists burð með ritmáli frá Súmerum. Þessar leirtöflur eru kallaðar fleygrúnir og þær eru elstu ummerki um ritmál. Fleygrúnir voru mótaðar með því að þrýsta tréfleygum í töflur úr votum leir sem síðan voru þurrkaðar í sól eða ofni. Elstu fleygrúnirnar geyma upplýsingar um fjölda kornsekkja og stærð nautgripahjarða í eigu mustera í Úrúk. Myndletur Egypta (híeróglýfur, helgiskrift, guðaskrift) þróaðist á sama tíma og fleygrúnir Súmera. Það var notað til að skrá minnisverða viðburði og var fyrst höggvið í stein. Sjálfstæð þróun á letri virðist hafa orðið á fjórum stöðum, hjá Egyptum og Súmerum, hjá Kínverjum og hjá Majum í Vesturheimi. Aðeins hafa varðveist fjórar bækur með ritmáli Maja. Um 1500 f.Kr. hófu fönikískir kaupmenn og farmenn að rita hljóðtákn til að greiða fyrir viðskiptum. Letur þeirra þróaðist úr bæði egypska myndletrinu og fleygrúnum Súmera. Fönikíumenn skrifuðu eingöngu samhljóða. Lesendur urðu að geta sér til um sérhljóða. Þegar letur Fönikíumanna barst til Grikklands á 7. eða 8. öld f. Kr. þá bættust sérhljóðar í letrið. Tákn úr aramisku stafrófi voru látin tákna sérhljóð. Þar kom þá fram í fyrsta skipti ritmál þar sem hvert tákn stafrófsins svaraði aðeins til eins hljóðs. Gríska stafrófið barst til Ítalíu og þróaðist yfir í latínuletrið sem við notuð núna. Germanskar þjóðir ristu rúnir í tré, einkum beyki. Þaðan mun orðið bók vera komið. Elstu dæmin um rúnir eru frá um 200 e. Kr. Rúnirnar voru skyldar latínuletrinu en þróuðust á sjálfstæðan hátt. Þegar norrænu þjóðirnar urðu kristnar leysti latínuletrið rúnaletrið af hólmi. Ritunarverkfæri. Í upphafi hafa tákn verið skráð á leirtöflur, höggvin í steina eða rist á tré. Á 3. árþúsundi f.Kr. fara Egyptar að skrifa á papýrus sem unnin var úr stönglum hávaxins sefs sem óx á bökkum Nílar. Papýrus var vafinn upp í rollur eða stranga, líklega 6-10 metra langa og 25 sentimetra breiða. Papýrus entist í um 200 ár og það þurfti því sífellt að vera að endurskrifa það sem átti að varðveitast lengur. Leður (sútað skinn) var einnig notað í Egyptalandi og löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Bókfell (pergament) er ósútað skinn geita, sauða, svína eða kálfa. Það breiddist út á 3. öld f. Kr. Bókfell hafði þann kost fram yfir papýrus að skrifa mátti á það báðum megin. Pappír er kínversk uppfinning. Talið er að Kínverjinn T'sai Lun hafi fundið upp pappír árið 105 e. Kr. Pappírsnotkun breiddist ört út í Kína, þar myndaðist miðstýrt skrifræðissamfélag þar sem sameiginlegt ritmál brúaði boðskiptabil milli þjóða sem töluðu ólík tungumál. Árið 751 barst kunnátta í pappírsgerð út fyrir Kína þegar kínverskir pappírsgerðarmenn voru teknir til fanga af arabískum hermönnum. Pappírsgerð hófst þá í Bagdad og Samarkland og voru baðmull og hörtrefjar notaðar við framleiðsluna. Á 12. öld berst pappírsgerðarlist með Márum til Spánar og á 14. öld var pappír orðinn útbreiddur í Evrópu og mun ódýrara efni til skrifta en bókfell. Brussel. Brussel (sem hefur þrjú opinber nöfn, á frönsku heitir hún "Bruxelles", á hollensku "Brussel" og á þýsku "Brüssel") er höfuðborg Belgíu, og þar að auki höfuðborg Flæmingjalands og Frönskumælandi menningarsvæðisins í Belgíu, og aðalaðsetur flestra helstu stofnana Evrópusambandsins. Enda er Brussel stundum kölluð höfuðborg Evrópu. Nato hefur haft höfuðstöðvar sínar hér frá 1967, en þá fluttu þær hingað frá París. Borgin stendur inni í miðju landi. Brussel varð til í núverandi mynd við samruna 19 sveitarfélaga eða "gemeenten / communes", en þau mynda enn sjálfstæðar heildir að flestu leyti. Ýmis önnur sveitarfélög renna einnig saman við þessa heild, jafnvel þó þau tilheyri borginni ekki formlega. Þar má t.d. nefna Anderlecht og Waterloo. Þeir íbúar Brussel, sem eru belgískir ríkisborgarar, hafa flestir frönsku að móðurmáli (á að giska 80-85%) en hversu stór meirihluti það er er ekki vitað, enda opinberar tölur ekki fáanlegar. Aðrir tala hollensku, en borgarbúar eru þó að jafnaði tvítyngdir. Útlendingar eru nú fjórðungur íbúa Brussel og tala ensku sín í milli og ensku eða frönsku við heimamenn. Vinsælasta kennileiti borgarinnar er Manneken Pis, eða "Peðlingur piss" eins og hann hefur verið kallaður á íslensku. Led Zeppelin. Led Zeppelin var bresk rokk-hljómsveit, sem kom fram á sjónarsviðið árið 1968 undir nafninu New Yardbirds. Hljómsveitin breytti fljótlega nafninu sínu í sitt endanlega nafn, Led Zeppelin. Þeir gerðu sinn fyrsta útgáfusamning við fyrirtækið Artistic Records. Samningurinn gaf þeim umtalsvert listrænt frelsi. Hljómveitin líkaði aldrei að gefa út tónlist sína í smáskífum, þeir litu svo á að hljómplötur þeirra ætti að hlusta í heild sinni en ekki stök lög. Hljómsveitin hætti árið 1980 eftir andlát John Bonham en hafa þó komið nokkrum sinnum saman eftir það og spilað á tónleikum. Upphafið. Hljómsveitina stofnaði Jimmy Page, sem setti saman hljómsveit eftir að hljómsveitin hans The Yardbirds leystist upp. Í The Yardbirds voru gítarleikararnir Jeff Beck, Eric Clapton auk Jimmy Page. Þegar Yardbirds leystist upp höfðu þeir ekki lokið tónlistarferðalagi sínu en hin nýja New Yardbirds fyllti í skarðið. Eftir tónleikaferðalagið þurftu þeir að skipta um nafn og var nafnið Led Zeppelin fyrir valinu. Nafnið er kaldhæðnislega dregið af orðinu „Blýblaðra“ (e. Lead Balloon), ákveðið var sleppa „a“-inu í „lead“ og skipta út balloon fyrir „zeppelin“ til að gera nafnið enn kaldhæðnislegra. Hljómsveitarmeðlimir í endanlegri mynd Led Zeppelin voru Jimmy Page gítarleikari, trommarinn John Bonham, Robert Plant sem söng og spilaði á munnhörpu og John Paul Jones sem sló á strengi bassans og spilaði á hljómborð. Merki Led Zeppelin, hefur verið notað frá árinu 1973. Hljómsveitarárin. Fyrsta plata hljómsveitarinnar kom út árið 1969 og hét einfaldlega "Led Zeppelin". Umslag plötunnar sýnir mynd af Hindenburg loftskipinu nokkrum sekúndum eftir að kviknað hafði verið í því. Platan seldist ágætlega, náði 6. sæti á metsölulista Bretlands og 10. sæti í Bandaríkjunum. Seinna sama ár kom út önnur plata þeirra "Led Zeppelin II" og náði hún góðri sölu, varð í fyrsta sæti báðum megin Atlantshafsins. Á þeirri plötu er að finna eitt frægasta lag þeirra, „Whole Lotta Love“. "Led Zeppelin III", sem gefin var út 1970, naut líka vinsælda eins og Led Zeppelin II en var þó mörgum aðdáendum vonbrigði sem er skiljanlegt þar sem hún er á mun lágstemmdari nótum en fyrri plöturnar. Fyrir plötuna höfðu Plant og Page eytt tíma á bóndabænum Bron-Yr-Aur í Wales til að semja tónlistina í friði. Árið 1971 kom svo út plata sem bar í raun ekki nafn en er oftast kölluð "Led Zeppelin IV" og er það af mörgum talin þeirra besta plata og inniheldur m.a. tvö af þeirra allra frægustu lögum, „Black Dog“ og „Stairway to Heaven“. Tveimur árum seinna kom svo út "Houses of the Holy" sem naut álíka vinsælda og fyrri plötur. Árið 1975 kom platan "Physical Graffiti" út sem inniheldur hið fræga lag „Kashmir“. Þar á eftir gáfu þeir út plöturnar "Presence" árið 1976 og "In Through The Out Door" árið 1979 sem voru þeirra síðustu plötur. Hljómsveitin hefur selt yfir 300 milljónir platna um allan heim og segir það sitthvað um vinsældir hennar. Led Zeppelin á endurkomutónleikum 10. desember 2007. Endalok og endurkomur. Hljómsveitin hætti árið 1980 eftir andlát John Bonhams. Hann lést vegna köfnunar í eigin uppköstum en hann hafði drukkið óhóflegt magn af áfengi. Tveimur árum seinna kom síðasta plata sveitarinnar út, "Coda", en hún var afrakstur upptaka í hljóðveri áður en Bonham lést. Led Zeppelin hélt endurkomutónleika þann 10. desember 2007 á O2 leikvanginum í London þar sem viðstaddur var gríðarlegur fjöldi aðdáenda og komust mun færri að en vildu. Í tilefni af tónleikunum kom út vegleg safnútgáfa sem ber nafnið "Mothership" og inniheldur öll helstu lög sveitarinnar sem og DVD-disk með gömlum tónleikaupptökum. Gabbró. Steinn úr Gabbró Gabbró er basískt djúpberg og tilheyrir storkubergi. Lýsing. Það hefur sömu efnasamsetningu og basaltgler (sem oft ummyndast í móberg), blágrýti og grágrýti en kæling þess við myndun hefur verið hægari. Gabbró er grófkristallað vegna þess að það storknar djúpt í jörðinni og kristallarnir hafa nægan tíma til að vaxa. Steindir. Helstu steindir í gabbrói eru blanda af kalsíum-og natríumfeldspati og frumsteindirnar eru dökkar nema feldspatið. Útbreiðsla. Gabbrósteinn úr Hoffelli í Hornafirði er á útveggjum lágbyggingar og súlum hábyggingar húss Seðlabanka Íslands við Sölvhólsgötu. Nokkur fjöll á Íslandi eru úr gabbrói: Vestrahorn, Eystrahorn, Þorgeirshyrna og Kolgrafamúli á Snæfellsnesi. Finna má lagskipt gabbró í Múlarnesi yst á Kjalarnesi. Vestrahorn. Vestrahorn (454 m) er fjall á Suð-Austurlandi á nesinu milli Skarðsfjarðar og Papafjarðar. Fjallið stendur milli Hornsvíkur og Papóss við opið úthaf um 10 km fyrir austan Höfn í Hornafirði. Það er eitt af fáum fjöllum á Íslandi sem eru úr gabbró. Gabbró hefur stundum verið kallað "horngrýti" í hálfkæringi, vegna þess að það finnst við Vestrahorn og Eystrahorn. Erfið og ógreiðfær gönguleið liggur milli fjalls og fjöru við Vestrahorn. Við rætur fjallsins og í fjörunni er mikið af gabbróhnullungum, þeir stærstu að stærð á við fimm hæða fjölbýlishús. Vestan við Vestrahorn gengur Stokksnes í sjó fram. Þar var eftirlitsstöð varnarliðs Atlantshafsbandalagsins til ársins 2000. Mikið er um sel á skerjunum fyrir utan ströndina við Stokksnes. Vestrahorn tilheyrir fjalllendinu utan Skarðsdals en það fjalllendi er á náttúruminjaskrá. Það er fagurt fjallendi með margvíslegum bergtegundum og í Vesturhorni finnst bæði granófýr og gabbró. Jarðfræði fjallsins. Einu sinni var talið að gabbróið í Vestrahorni væri elsta berg á Íslandi. Síðar hefur komið í ljós að gabbróið er innskotsberg inn í eldra basaltbergi. Austast við Vestrahorn eru basaltlög, aðallega úr þóleiíti sem er elsta bergið við Hornafjörð, um 8 milljón ára gamalt. Innan um basaltið liggja innskotslög og stórir innskotahnúðar úr gabbró og granófýri, meðalgrófu og grófkristölluðu djúpbergi. Grófkorna djúpbergið er innskotaberg og yngra en þóleítbasaltið sem umlykur það. Gabbró-granófýrið er um 6,6 milljón ára gamalt. Sögulegir atburðir við Vestrahorn. Vestrahorn er á mörkum á landnámi landnámsmannanna Þorsteins leggs og Hrollaugs Rögnvaldssonar. Hrolllaugur var sonur jarlsins á Mæri í Noregi og bróðir Göngu-Hrólfs. Hann kom fyrst til hafnar í Reykjavík en fann öndvegissúlur sínar reknar á land við Vestrahorn og settist þar að. Þann 6. mars 1873 strönduðu nokkrar franskar skútur við Vestrahorn í aftakaveðri. Mynd af Vestrahorni er á frímerki frá 1991. Teiknari er Þröstur Haraldsson. Eystrahorn. Eystrahorn er fjall (756 m) fremst á Hvalnesi austan við Lón í Austur-Skaftafellssýslu. Á milli Eystrahorns og Vestrahorns er löng sandfjara og innan þess tveir firðir eða lón, Papafjörður og Lónsfjörður. Eystrahorn er snarbratt fjall, að mestu úr gabbró og granófýr. Ýmsir málmar svo sem gull, silfur og kvikasilfur hafa fundist í fjallinu. Fyrrum hét fjallið Hvalneshorn og þá hét Vestrahorn Eystrahorn. Þá var Horn á Hornströndum kallað Vestrahorn. Á Höfn var blaðið Eystrahorn gefið út. Hvalnes. Hvalnes í Lóni er austasti bær í Austur-Skaftafellssýslu og stendur undir Eystrahorni. Hvalneskrókurinn var löggilt siglingahöfn 1912. Þar var byggður viti árið 1954. Tyrkir komu á land á Hvalnesi árið 1627 en fundu ekkert fólk, því það var allt í seli. Skrúður. Skrúður er 160 m há hamraeyja út frá mynni Fáskrúðsfjarðar. Fjölskrúðugt fuglalíf er í eynni. Eggja- og fuglatekja var mikil í eyjunni fyrrum. Eyjan var friðlýst árið 1995. Skrúður er gerður úr basalti og súru gosbergi. Skrúður heyrir undir jörðina Vattarnes. Vestan megin við hann er eyjan Andey. Skrúðsbóndinn. Samkvæmt þjóðtrúnni býr í Skrúðnum Skrúðsbóndinn, sem er vættur sem rændi sauðum bænda, sem létu fé sitt ganga í eyjunni. Skrúðsbóndinn seiddi einu sinni til sín prestdóttur til fylgilags. Sagnir eru til um að Skrúðsbóndinn hafi bjargað mönnum úr sjávarháska. Fuglalíf. 18 fuglategundir verpa í eyjunni. Lundi er algengasti varpfuglinn þar en talið er að um 150.000 lundahjón byggi Skrúðinn. Svartfuglar eins og langvía og stuttnefja eru algengir varpfuglar í eynni, en álka og teista eru sjaldgæfari. Súla hóf að verpa í Skrúðnum árið 1943 og hefur henni fjölgað jafnt og þétt. Fýll og rita eru algengir bjargfuglar í Skrúðnum. Silfurmáfur, sílamáfur og svartbakur hafa sést í eynni. Þar hafa einnig sést æðarkollur, þúfutittlingar, maríuerlur, snjótittlingar, grágæsir, hrafnar, sæsvölur og stormsvölur. Skrúðshellir. Í eyjunni er sérkennilegt náttúrufyrirbæri sem er stór hellir, sem skiptist í tvo minni hella, þann ytri og þann innri. Fremri hellirinn er áætlaður um 3200 m² og sá innri 2600 m². Hellirinn er talinn vera um 125 metra langur, 85 metra breiður og mesta hæð hans er 22 metrar. Í hellinum er lundavarp. Fyrr á tímum var róið úr Skrúðnum og þá höfðust vermenn við í Skrúðshelli. Regína Ósk Óskarsdóttir. Regína Ósk Óskarsdóttir (fædd 21. desember 1977) er íslensk söngkona. Ferill. Tvö ár í röð vann Regína söngkeppnina sem haldin var í félagsmiðstöðinni Árseli. Þá var hún 14 ára gömul en upp frá því var hún einsöngvari í skólakórnum í Árbæjarskóla út grunnskólagönguna. Því næst lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð. Með skólanum lærði hún söng í Söngskóla Reykjavíkur og lauk þaðan 3 stigum á einu ári. Samtímis söng hún með sönghóp sem kallaður var Söngsystur. Þessi sönghópur kom fram við hin ýmsu tækifæri s.s á árshátíðum, í afmælium og í brúðkaupum. Söngsystur vöktu athygli á Hótel Íslandi þegar sett var saman söngskemmtun með ýmsum lögum, bæði erlendum og innlendum, og vorum þær fengnar til þess að syngja í þessari sýningu. Sýningin var kölluð „Bítlaárin“ og ásamt þeim Söngsystrum sungu þar Björgvin Halldórsson, Pálmi Gunnarsson, Bjarni Arason og fleiri. Sýningin var mjög vinsæl og gekk á annað ár. Regína tók þátt í söngkeppni MH 1996 og sigraði hana og fór þar með í lokakeppni Söngvakeppni framhaldsskólanna sem var haldin í fyrsta skipti í Laugardalshöllinni. Þar lenti hún í 2. sæti. Hún útskrifaðist sem stúdent 1997, frá Menntaskólanum Hamrahlíð. Fjórar úr Söngsystrum tóku sig til og fengu til liðs við sig fjóra hljóðfæraleikara og stofnuðu hljómsveitina 8-villt. Regína söng með henni í 2 ár og kom hljómsveitin fram út um allt land; þar á meðal var hún ein aðalhljómsveitin á Þjóðhátíð í Eyjum 1998. Eftir það sagði Regína skilið við hljómsveitina og snéri sér að öðrum verkefnum. Regína nam við FÍH og lærði djasssöng í tæplega 1 ár hjá Tenu Palmer.Árið 1999 fékk Regína tækifæri á að komast í prufu í Borgarleikhúsinu fyrir "Litlu hryllingsbúðina" sem var verið að setja upp. Hún fékk hlutverk sem ein af götustelpunum ásamt Selmu Björnsdóttur og Heru Björk og var sýningin sýnd 65 sinnum. Regína tók einnig þátt í næsta söngleik sem settur var upp en það var „Kysstu mig Kata“. Árið 2001 tók hún þátt, ásamt Gospelkompaníinu, í Landslagi Bylgjunnar og söng þar lag eftir Jon Kjell sem heitir "Right there" og lentu þau í 2. sæti. Þetta sama ár fór hún sem bakraddasöngkona í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Kaupmannahöfn með laginu "Angel". Regína fór síðan í annað skiptið út í Eurovision árið 2003 með Birgittu Haukdal. Árið 2005 fór hún út með Selmu Björnsdóttur með lagið „If I had your love“. Árið 2006 varð Regína Ósk í öðru sæti í undankeppninni hérlendis með lagið Þér við hlið. Regína Ósk ásamt Friðriki Ómari sem saman mynda Eurobandið, sigruðu árið 2008 með laginu „This is my life“. Þau kepptu saman í Eurovision í Belgrad í Serbíu og urðu fyrst Íslendinga til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004. Regína Ósk hefur sungið inn á hinar ýmsu plötur bæði sem sóló og bakrödd með öllum fremstu tónlistarmönnum landsins. Herbert Spencer. Herbert Spencer (fæddur 27. apríl 1820, látinn 8. desember 1903) var enskur félagsfræðingur og heimspekingur. Spencer taldi, líkt og Auguste Comte (1798-1857), að félagsfræðin þyrfti að glíma við tvö vandamál það er að segja varðandi stöðugleika (eða óbreytt ástand) og þróun. Bæði Comte og Spencer trúðu því að siðmenningin og allt sem henni viðvék ætti að vera viðfangsefni félagsfræðinnar. Verk þeirra beggja snerust að mestu leyti um það að lýsa upphafi og þróun siðmenningarinnar og helstu félagslegu stofnunum hennar. Herbert Spencer gaf reyndar út bók 1864 þar sem hann gagnrýndi ýmislegst í hugmyndum Comte. Spencer líkti samfélaginu við lifandi veru, þegar hann ræddi um stöðugleikann, þar sem samstarf einstakra líkamshluta, svo sem lunga og hjarta heldur henni á lífi. Í samfélaginu voru til staðar sambærilegir þættir sem tryggðu stöðugleika samfélagsins, svo sem fjölskyldan, skólakerfið og hagkerfið. Bæði lífveran og samfélagið fæddust, lifðu og myndu deyja. Þegar hann ræddi um breytingar (eða hreyfingaraflið) sótti hann líkingu í þróunarkenningu Charles Darwin, sem árið 1859 gaf út bókina "Uppruni tegunda" (e. "On the Origin of Species"). Þar sýnir hann fram á að allar tegundir lífvera eru í stöðugri þróun. Darwin rakti þróun mannsins til upphafs lífsins á jörðinni. Kenning hans gengur út að allar lífverur á jörðinni ala af sér fleiri afkomendur en umhverfið getur séð farborða. Sumir einstaklingar falla betur að umhverfinu sem þeir fæðast í en aðrir og hafa því meiri lífslíkur. Það eru því hæfustu einstaklingar tiltekinnar dýrategundar sem komast af og ná að fjölga sér í þessu umhverfi. Það kallar hann náttúruval. Spencer taldi þetta eiga við mannlegt samfélag, það er að segja að það væri óhjákvæmilegt að hæfustu einstaklingar samfélagsins sem næðu mestum árangri innan þess myndu lifa af. Ein öfgafullasta túlkun á þessum félagslega darwinisma Spencers var kenning Adolfs Hitler um að aríar væru hæfastir til þess að stjórna mannlegu samfélagi. Herbert Spencer taldi að önnur samfélög myndu þróast á líkan veg og vesturlönd höfðu gert með svo góðum árangri, það er að segja úr einföldu samfélagi í flókið, eins og það iðnaðarsamfélag sem hann þekkti. Þessi þróun tók vesturlönd, að hans mati. tíuþúsund ár. Spencer taldi að öll skynsamleg þróun væri framför og var því á móti félagslegum umbótum. Hann vildi að þróunin hafði sinn gang. Ein frægasta tilvitnun hans er „Sérhver maður er frjáls að gera það sem hann vill svo fremi hann hindri ekki aðra í að hafa það sama frelsi“. Spencer taldi að í raunveruleikanum væri þetta ekki svo. Hjá dýrunum er það eðlilega ekki þannig háttað en Spencer taldi að þannig ætti skipulagið að vera í skipulögðu samfélagi þar sem tiltekin siðfræðileg lögmál giltu. Að hans mati þróaðist iðnaðarsamfélagið í jákvæða átt þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Hann taldi þörf fyrir boð og bönn og umfangsmikið og afskiptasamt ríkisvald færi minnkandi. Hann var sannfærður um að ef afskiptum ríkisvaldsins yrði létt myndi regla í samskiptum manna koma af sjálfum sér. Þegar jafnvægi væri svo komið á í samfélaginu ríkti þar friður, frelsi og samhyggð. Eitt þekktasta rit hans um þetta efni er bókin "The Man versus the State", sem kom út árið 1884. Herbert Spencer dó þann 8. desember 1903 þá áttatíu og þriggja ára að aldri. Skátahreyfingin. Skátahreyfingin er alþjóðleg hreyfing sem var stofnuð af breskum hershöfðingja, Robert Baden-Powell lávarði, árið 1907. Hugsjón hans var að búa til hreyfingu sem stuðlaði að líkamlegum og andlegum þroska ungmenna svo þau gætu tekið þátt í samfélaginu. Margt í skátahreyfingunni á uppruna sinn í "Frumskógarbókinni" eftir Rudyard Kiplings sem á ensku kom út í tveimur bókum: "The Jungle Book" og "The Second Jungle Book". Skátadagurinn. Skátadagurinn er haldinn hátíðlega um allan heim þann 22. febrúar ár hvert. Dagurinn er haldinn í tilefni þess að þann dag árið 1857 fæddist Lord Baden Powell, stofnandi skátahreyfingarinnar. Á Íslandi hefur verið sú venja hjá flestum skátafélögum að vígja inn nýja skáta og gera þá fullgilda meðlimi skátahreyfingarinnar. Johnny Cash. Johnny Cash (J.R. Cash) (26. febrúar 1932 – 12. september 2003) var áhrifamikill bandarískur tónlistarmaður og lagahöfundur sem ólst upp í Arkansas á tímum kreppunnar miklu. Hann kunni illa við að flokka tónlistina sína með einhverri ákveðinni tónlistarstefnu heldur vildi hann meina að hann spilaði einfaldlega Johnny Cash-tónlist. Hann var þekktur fyrir sína ákaflega djúpu og voldugu rödd, dökkt yfirlit, dökkan klæðnað sem ávann honum gælunafnið „Svartklæddi maðurinn“ ásamt ákaflega einkennandi takti í lögum sínum, takti sem minnir helst á lest á lítilli ferð (boom chicka boom). Hann byrjaði iðulega tónleika sína á að kynna sig með orðunum: „Halló, ég er Johnny Cash“. Á sjöunda áratugnum hélt hann tvo óvenjulega tónleika í fangelsunum Folsom og San Quentin sem vöktu mikla athygli. Hann er í hávegum hafður hjá mjög fjölbreyttum hópi fólks á öllum aldri og margir vilja meina að hann hafi verið táknmynd karlmennskunnar. Tónlist Cash var innblásin af viðburðaríku einkalífi og erfiðleikum. Á meðal vinsælustu laga í hans flutningi eru "I Walk The Line", "Folsom Prison Blues", "Ring of Fire"," Man in Black" og "Hurt". Eftir hann liggja einnig lög í gamansamari kantinum eins og "One Piece at a Time", "The One on the Right is on the Left" og "A Boy Named Sue" sem Shel Silverstein samdi. Tónlistarferill Cash entist í næstum fimm áratugi og í hugum margra er hann sem holdgervingur kántrítónlistarinnar þrátt fyrir að hann hafi sjálfur haft óbeit á hinni ráðandi Nashville stefnu. Líkt og önnur stór nöfn í tónlistarheiminum eins og Ray Charles, Bítlarnir, Bob Dylan og Elvis Presley þá takmörkuðust áhrif Cash ekki við neina einstaka tónlistarstefnu. Hann gerði lög sem geta flokkast sem rokk, blús, rokkabillí, þjóðlagatónlist eða gospel. Árið 2005 var frumsýnd verðlaunamyndin Walk the Line sem byggð er á lífi Cash og stormasömu hjónabandi hans og tónlistarkonunnar June Carter Cash. Uppeldisárin. J.R. Cash fæddist í Kingsland í Arkansas árið 1932, fáeinum árum eftir að kreppan mikla skall á. Um veturinn árið 1935, þegar J.R. var þriggja ára, fluttist fjölskyldan á eitt af bóndabýlunum í Dyess sem ríkisstjórn Franklins D. Roosevelts úthlutaði fjölskyldum sem áttu um sárt að binda vegna heimskreppunnar. Cash fjölskyldan fluttu inn í hús númer 266, á þessu nýja heimili þeirra ræktuðu þau bómull og J.R. ólst upp við vinnu á bómullarakrinum allt þar til hann lauk gagnfræðaskólaprófi en þá flutti hann að heiman. J.R. átti sex systkini og af þeim leit hann sennilega mest upp til eldri bróður síns Jack. Þegar J.R. var ungur dreymdi hann að engill hefði heimsótt hann í draumi og sagt honum að bróðir hans, Jack, mundi deyja en það væri áætlun Guðs og einhvern daginn mundi hann skilja að svo væri. Tveimur vikum seinna var hann dáinn. Jack vann inn tekjur fyrir fjölskylduna við að saga timbur á borðsög fyrir landbúnaðarskóla héraðsins en þann örlagaríka dag 12. maí 1944 lenti Jack í mjög alvarlegu slysi. Hann hafði lent í söginni og dregist með henni yfir borðið en við það hlaut hann skurð allt frá bringu niður að nára. Ótrúlegt en satt þá lét hann ekki lífið samstundis heldur tórði í átta daga eftir slysið sem veitti fjölskyldunni færi á því að kveðja. Jack hafði verið órólegur daginn sem slysið varð og fannst einsog eitthvað ætti eftir að gerast. Mamma hans tók eftir þessu og bað hann um að fara ekki í vinnuna og það gerði J.R. líka, hann bað hann að koma með sér að veiða, en Jack var samviskusamur og fór því í vinnuna. Þar sem Jack var í eins miklum metum hjá J.R. og raun ber vitni þá hafði slysið mikil áhrif á J.R. til frambúðar. Röddin. Reba Cash, systir J.R. sagði eitt sinn. „Hann hafði sópranrödd þegar hann var lítill strákur, síðan breyttist röddin hans allt í einu, hann fór aldrei í mútur.“ Johnny Cash er þekktur fyrir sína voldugu bassa-barítón rödd sem margir hafa öfundað hann af. „Ekki síðan Jóhannes Skírari var uppi hefur nokkur haft svona rödd, öskrandi í auðninni. Karlmannlegasta rödd í öllum hinum kristna heimi. Allir menn vita að þeir eru kveif miðað við Johnny Cash“ sagði Bono um rödd Johnny Cash. Tónlistin skipaði stóran sess í lífi Johnny Cash allt frá því hann mundi eftir sér, það var honum næstum eins eðlilegt að syngja og anda. Hann söng í kirkjunni, hann söng á bómullarökrunum þegar hann var að vinna, hann söng hvert sem hann gekk, hann söng sig meira að svefn á kvöldin en hafði kveikt á útvarpinu á lágum styrk spilandi kántrí smelli, bara svo pabbi hans vissi ekki að hann var að vaka frameftir. Pabba hans leist ekki á hversu miklum tíma hann eyddi í að hlusta á plöturnar sem spilaðar voru í útvarpinu og hafði á orði að ef hann færi ekki að einbeita sér að einhverju öðru en tónlist þá gæti hann aldrei framfleytt sér. J.R. var sár út í pabba sinn fyrir að reyna að gera lítið úr draumum hans á þennan hátt en um leið hvatti það hann til þess að afsanna kenningu pabba síns. Mamma J.R., Carrie Cash, var sú sem studdi hann mest til að sinna tónlistinni. Hún skynjaði hversu rík tónlistin var innra með J.R. rétt einsog henni sjálfri og pabba hennar, en hann var sagður vera nógu góður til að geta lifað af söngnum einum, sem var þó mun meira mál þá en það er núna. Carrie lagði svo mikið á sig fyrir J.R. að hún vann aukavinnu við að þvo þvott, bara svo hún gæti komi J.R. í söngnám. J.R. var hneykslaður á móður sinni að vilja nota þennan auka pening til að borga söngkennara og neitaði að fara í fyrstu en gafst að lokum upp fyrir mömmu sinni og fór í tímann. J.R. hóf að læra söng hjá Mae Fielder og voru fyrstu tímarnir þar ansi tíðindalitlir og fór svo að í þriðja tímanum hætti hún að spila á píanóið í miðju lagi og bað hann um að syngja það sem hann langaði að syngja. Í því hóf hann að syngja lagið "Long gone lonesome blues" eftir Hank Williams. Þegar hann hafði lokið söngnum var hún svo uppnumin að hún fékk hann til að lofa sér að fara aldrei aftur í söngþjálfun og ekki leyfa neinum undir engum kringumstæðum breyta því hvernig hann syngi. Flugherinn. Fljótlega eftir að J.R flutti að heiman gekk hann í flugherinn en það var þá fyrst sem hann tók sér nafnið John en það varð hann að gera vegna þess að yfirmenn hans í hernum kröfðust þess að hann bæri hefðbundnara nafn en J.R. Hann var sendur til Landsberg í Þýskalandi þar sem hann kynntist nokkrum mönnum sem einnig höfðu gaman af kántrí tónlist og saman spiluðu þeir og sungu mikið. Það var fljótlega upp úr þessu sem hann keypti sér sinn fyrsta kassagítar og eftir það skildi hann varla við gítarinn enda var hann fljótur að ná tökum á gítarleiknum. Í þýskalandi samdi hann eitt af sýnum þekktustu lögum, "Folsom Prison Blues".cggbc Johnny Cash and the Tennessee Two. Stuttu eftir að Johnny kom heim úr hernum, 4. júlí 1954, flutti hann til Memphis og tók saman við Vivian Liberto, stúlku sem hann hafði skrifast á við meðan hann var í hernum. Roy Cash, elsti bróðir Johnny, bjó líka í Memphis og bað Johnny um að kíkja á sig í vinnuna einn daginn því hann langaði að kynna Johnny fyrir tveimur vinnufélögum sínum, Marshall Grant og Luther Perkins. Líklega grunaði engan þeirra hvað sá fundur átti eftir að leiða af sér. Marshall Grant og Luther Perkins spiluðu báðir á gítar og hittust stundum til að spila saman. Eftir kynni þeirra gekk Johnny til liðs við þá og þá fóru hjólin að snúast hratt. Johnny varð fljótt leiðtogi þríeykisins, hann sá um sönginn, Marshall hóf að spila á kontrabassa og Luther fékk sér rafgítar. Þeir hófu að spila víða sem "Johnny Cash and the Tennessee Two", þó aldrei á börum þar sem Johnny fannst ekki rétt að blanda saman tónlist og áfengi. Hljómsveitin fór vel af stað og því var ekkert annað í stöðunni en að reyna að fá plötusamning. Hljómplötuútgefandinn Sun. Um vorið 1955 hringdi Johnny Cash fullur bjartsýni í Sam Phillips hjá Sun, sem áður hafði gefið út efni með mönnum á borð við Elvis Presley og Roy Orbinson, og tjáði honum að hann væri gospelsöngvari sem langaði að gefa út plötu. Sam Phillips tók ekki vel í það, sagði að hann gæti ómögulega markaðssett gospeltónlist, þá reyndi Johnny að segja honum að hann væri kántrí söngvari en því trúði Sam ekki og því hafði Johnny ekki erindi sem erfiði. Johnny gafst hinsvegar ekki upp og mætti galvaskur fyrir framan stúdíó Sun eldsnemma morgun einn áður en nokkur var mættur til vinnu. Fyrstur til að mæta var Sam sjálfur, Johnny heilsaði honum og bað hann að hlusta á sig því hann ætti ekki eftir að sjá eftir því. Sam Phillips var svo ánægður með hversu sjálfsöruggur Johnny var að hann veitti honum áheyrn. Johnny steig því inn í stúdíó og söng nokkur vel valin lög eftir aðra höfunda. Sam hafði aftur á móti ekki áhuga á að heyra hann flytja lög eftir aðra og vildi heyra eitthvað sem hann hafði samið sjálfur. Johnny mannaði sig því upp í að syngja lagið "Hey, Porter!", lag sem hann hafði verið að semja en væri ekki orðinn alveg ánægður með enn þá. Sam varð svo hrifinn að hann bauð honum að koma aftur daginn eftir ásamt þeim Marshall Grant og Luther Perkins til þess að spila lagið "Hey, Porter!" inn á smáskífu. San Quentin. Eftir langa og erfiða baráttu við eiturlyf, þar sem litlu mátti muna að eiturlyfin yrðu honum að aldurtilla, náði Johnny Cash sér aftur á strik. Hann hafði nýlega komið fram edrú í fyrsta skipti í um áratug og fékk þá hugmynd að halda tónleika í fangelsi. Fyrstu tónleikarnir af því tagi voru haldnir í Folsom fangelsinu sem lag hans "Folsom Prison Blues" heitir eftir. Árið 1969 hélt hann tónleika í San Quentin fangelsinu sem voru bæði hljóðritaðir og myndritaðir, þar frumflutti hann meðal annars lag eftir Shel Silverstein, "A boy named Sue", sem varð hans söluhæsta lag. Johnny Cash heyrði lagið í fyrsta skipti í veislu sem hann og síðari kona hans, June Carter, héldu kvöldið fyrir tónleikana í San Quentin en gestirnir í þeirri veislu voru meðal annars Bob Dylan, Joni Mitchell, Kris Kristofferson, Graham Nash og Shel Silverstein. Daginn eftir stakk June upp á því að hann mundi flytja "A boy named Sue" á tónleikunum í San Quentin. Honum leist ekki vel á það í byrjun og fannst tíminn ansi naumur til þess að læra lagið en gaf eftir að lokum. Þegar hann hafði safnað nægum kjark til að flytja lagið setti hann textann á nótnastatíf fyrir framan sig og hóf upp raust sína. Johnny söng-las textann og hljómsveitin spilaði melódíuna af fingrum fram en móttökurnar létu ekki á sér standa. Fangarnir trylltust þegar Johnny Cash öskraði ögrandi og einkennandi texta lagsins. "„My name is Sue! How do you Do? Now you gonna die!“" Hann hafði náð föngunum algjörlega á sitt band. Seinna hafði hann á orði að gráir fyrir járnum hefðu fangaverðirnir verið logandi hræddir. Fangarnir voru orðnir algjörlega stjórnlausir og meðan á seinni endurflutningi lagsins "San Quentin" stóð, lag sem hann hafði samið fyrir tilefnið, hefði hann aðeins þurft að segja ‚uppreisn!‘ og þá hefði allt farið á annan endann. „Ég vissi að ég hafði tökin á föngunum og það eina sem ég hefði þurfta að segja var: „Gerið uppreisn! Takið yfir!“ og þá hefðu þeir gert það. Verðirnir vissu það líka, það var freistandi en mér var hugsað til June og Carter fjölskyldunnar sem voru stödd þarna með mér svo ég sat á mér. Ég var virkilega tilbúinn fyrir smá æsing.“ Heimildir. Cash, Johnny Oakland. Oaklandborg var stofnuð 1852 í kjölfar gullæðisins í Kaliforníu um miðbik 19. aldar. Borgin er staðsett við austurströnd San Francisco-flóa og heyrir undir Alameda sýslu. Samkvæmt opinberum tölum voru íbúar alls 397.067 1. júlí árið 2006. Helstu kennileiti eru Bay Bridge sem tengir Oakland við San Francisco og Port of Oakland sem er ein stærsta innflutningshöfn Bandaríkjanna á Vesturströndinni. Einnig er vert að geta The Coliseum, heimavallar Oakland Athletics. Íþróttir. Oakland er heimaborg þriggja bandarískra stórliða. Háskólar. Helstu háskólar í Oakland og næsta nágrenni eru Menningarkreppa. Menningarkreppa er ástand sem skapast í samfélagi þegar innan ríkjandi menningar- eða siðakerfis koma svo margar nýjar hugmyndir, hugsjónir og breytingar að hið ríkjandi kerfi megnar ekki að melta með sér allt hið nýja. Átök grískrómverskrar menningar og kristni í fornöld, endurreisnartíminn í Evrópu og umbrota- og krepputímar í tengslum við upplýsinguna og iðnbyltinguna eru dæmi um menningarkreppu. Sófistar. Sófistar (forngríska: σοφιστής, "sofistēs") eða fræðarar voru viskukennarar og róttæklingar í Grikklandi til forna. Hugtakið er dregið af gríska lýsingarorðinu σοφός, "sofos", sem merkir „vitur“. Sófistar ferðuðust borga á milli og héldu námskeið og þénuðu sumir vel á kennslunni. Þeir voru sannfærðir um að margt sem talið var heilagt að gömlum sið og talið liggja í eðli hluta væri í raun merki um mannlega hagsmuni og árangur af mannlegum ákvörðunum. Þeir gagnrýndu kynþáttafordóma, þrælahald og kvennakúgun. Hafa ber í huga að sófistarnir voru sundurleitur hópur sem hafði ólíkar skoðanir um margt. Almenn æðri menntun. Sófistar áttu snaran þátt í að móta evrópska menntun. Þeir mótuðu hugmyndir um almenna æðri menntun. Þeir lögðu áherslu á málfræði, mælskulist og rökleikni. Málfræði þýddi hjá þeim þekking á málinu, uppbyggingu þess og réttri notkun, mælskulist táknaði listina að flytja ræðu á lýtalausan hátt og rökleikni þýddi hæfileikann til að nota rök í málflutningi. Mælskulist og rökbrellur. Sófistar lögðu áherslu á hið ytra form og létu málefnið víkja fyrir framsetningu. Þeir reyndu með rökbrellum og mælskulist að sigra andstæðinga í rökræðum. Það komst á sá orðrómur að þeir væru meistarar í að gera svart að hvítu. Þessi áhersla sófista á rökvísi er sprottinn upp úr afstæðiskenndu lífsviðhorfi þeirra. Sumir sófistar trúðu ekki að til væri hlutlægur sannleikur eða algerlega bindandi siðferði. Þetta snerist svo upp í grímulausa einstaklingshyggju þar sem frelsi var túlkað sem hömluleysi og réttlæting þess að sá sem færi með völd hefði einnig réttinn sín megin. Sókrates. Sókrates trúði því, öfugt við sófista, að sannleikurinn væri til og unnt væri að finna hann. Sókrates var frábrugðinn sófistum að því leyti að hann tók ekki fé fyrir kennslu sína og hann fullyrti ekki að hann væri vitur. Varðveitt þekking um sófista. Það sem vitað er um sófista er einkum umsögn um þá í ritum andstæðinga þeirra og þá sérstaklega Platons og Aristótelesar. Á seinni hluta 5. aldar f. Kr. var orðið „sófistar“ notað til að lýsa óskipulögðum hópi hugsuða sem notaði rökræður og mælskulist til að kenna og sannfæra aðra. Þessir hugsuðir fengu oft háar greiðslur frá nemendum því stjórnkerfi í Aþenu var þannig uppbyggt að mikilvægt var að vera mælskur og rökfimur. Prótagóras er talinn fyrsti sófistinn. Aðrir þekktir sófistar eru Pródíkos, Hippías, Þrasýmakkos, Lykofron og Antifon. Solano County. Solano-sýsla í Kaliforníu var stofnuð árið 1850. Höfuðstaður Solano er Fairfield (102.500), aðrir þéttbýliskjarnar eru Benicia (27.050), Dixon (16.150), Rio Vista (5.725), Suisun City (26.850), Vacaville (93.900), Vallejo (120.100), utan þéttbýlis (19.560). Tölur í sviga tákna íbúafjölda. Benicia var höfuðstaður Kaliforníu frá 1853 - 1854. Meðal helsta iðnaðar má nefna þjónustu, verslun, framleiðslu og landbúnað. Framleiðendur sælgætisins "Jelly Belly" hafa höfuðstöðvar í Fairfield. Þar má einnig finna Anheuser-Busch verksmiðju (Budweiser bjór). Í Suisunflóa, milli Solano og Contra Costa er hægt að sjá hóp gamalla herskipa sem hafa verið tekin úr notkun. Á meðal þeirra má þekkja orrustuskipið USS Iowa, sem er eitt síðasta orrustuskip sem var tekið úr notkun í heiminum. Táknsaga. Táknsaga, líkingarsaga eða allegóría er táknlist eða táknsaga þar sem mynd eða saga merkir annað en það sem virðist augljóst. Oft er hugmynd, hugtak eða eitthvað óhlutbundið klætt upp í söguform og þannig er einföld og auðskilin táknmynd notuð til að lýsa flóknum hugmyndum eða tilfinningum. Gríska hugtakið allegoria er myndað úr orðunum „allos“ sem merkir annar og „agoreuein“ sem þýðir að tala opinberlega. Sófistar og grískir heimspekingar túlkuðu goðsögur skáldanna Hómers og Hesíódosar sem allegóríur og má rekja upphaf allegórískrar túlkunar til þeirra. Platón hafnaði allegórískri túlkun á bókmenntum. Stóuspekingar aðhylltust hins vegar allegóríska túlkun. Kristnir menn eins og heilagur Ágústínus vöruðu við að allegórísk túlkun gæti gengið út í öfgar og stundum væri nauðsynlegt að skilja frásagnir eða myndir bókstaflega. Miðaldir voru blómaskeið allegórískra verka eða svonefndra leiðslubókmennta. Dæmi um allegóríur. Líta má á sumar Íslendingasögur sem allegórískar sagnir t.d. Njálu sem allegóríu um kristnitökuna þar sem Njálsbrenna markar aldaskil milli heiðni (og keltneskrar kristni) og rómverskrar kristni. Menn hafa einnig leitað að allegóríum í verkum samtímahöfunda. Skáldsaga Svövu Jakobsdóttur Leigjandinn var túlkuð sem allegóría þar sem leigjandinn var ameríski herinn. Sagan Dýrabær eftir George Orwell er oft talin vera allegóría og sumir telja að Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien sé nýrómantísk allegóría sem snýst um iðnvæðingu. Dauðadans er táknsaga frá miðöldum um dauðann. Contra Costa. Contra Costa sýsla var stofnuð 1850 þegar Kalifornía var innlimuð Bandaríkjunum. Íbúar árið 2000 voru 948,816. Helstu þéttbýlistaðir eru Walnut Creek sem er höfðuðstaður sýslunnar, Concord, Richmond, Pittsburg og Antioch. Einnig er fjöldi annarra smáborga með íbúafjölda á bilinu 10 - 20 þúsund manns. Þar er helst að nefna Martinez (sem upphaflega var höfðuðstaður) og er einnig þekkt fyrir að hafa verið heimabær Skotans og náttúruunnandans John Muir (1839 - 1914). Þar má finna safn tileinkað minningu hans og er það staðsett þar sem hann var til heimilis. Meðal helstu kennileita er Mt. Diablo sem nú erþjóðgarður. Sogblettir. Sogblettir var íslensk pönkhljómsveit sem starfaði á árunum 1986 til 1988. Sogblettir var ein af fyrstu hljómsveitunum sem Smekkleysa gaf út á plötu. Arnar Sævarsson (hálfbróðir Bjarkar Guðmundsdóttur), Ari Eldon og Gunnar Sæmundsson höfðu spilað saman í nokkur ár áður en Jón Júlíus Filippusson fór að syngja með þeim veturinn 1986-87. Sogblettir voru iðnir við tónleikahald og þykir ein eftirminnilegasta rokkhljómsveitin frá þessum tíma, enda valin efnilegasta hljómsveit ársins af umsjónarmanni rokksíðu Morgunblaðsins 1987. Tónlist Sogbletta var hrá og kraftmikil og textarnir ágengir. Fyrir jólin 1987 sendi sveitin frá sér sína fyrstu plötu og Jón söngvari hætti skömmu seinna. Nýr söngvari, Grétar, tók við og eftir þetta fór vegur Sogbletta minnkandi. Hljómsveitin hætti eftir aðra plötu sína síðla árs 1988. Arnar og Jón spiluðu seinna saman í hljómsveitinni Niður (1992-1997) og Ari Eldon með hljómsveitinni Bless (1988-1990). Frummyndakenning. Platon líkti jarðlífinu við dvöl í helli þar sem maðurinn sér eingöngu skugganaFrummyndakenning er kennd er við heimspekinginn Platon Platon taldi heiminn byggja á óbreytanlegum frummyndum sem ekki verða skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Allegórían um hellinn. Í "Ríkinu" útskýrir Platon frummyndakenninguna meðal annars með táknsögu um fanga í fjötrum sem eingöngu geta séð fram fyrir sig á hellisvegg. Fyrir aftan þá brennur eldur og milli elds og og fanga er brík þar sem leiksýningarstjórar geta gengið og haldið leikbrúðum á lofti. Skugginn af brúðunum varpast svo á hellisvegginn og þar geta fangarnir séð skuggann, ekki hinn raunverulega hlut. Það sem fangarnir sjá og heyra eru skuggar og bergmál frá hlutum sem þeir geta ekki séð. Þegar þeir lýsa með orðum því sem þeir sjá eru þeir að lýsa því sem þeir geta ekki séð. Fangar sem ekki skilja milli frummynda og skugga líta á það sem þeir sjá varpað upp á klettavegg sem raunveruleika en ef fjötrar þeirra væru leystir og þeir gætu snúið höfði þá myndi renna upp fyrir þeim sjónvillan. Hugsun og það að framkalla frummyndir með huganum er sambærilegt við að leysa fjötra fanganna svo þeir geti snúið höfðinu að frummyndunum. El Dorado County. El Dorado-sýsla er sennilega þekktust fyrir gullæðið í Kaliforníu svokallaða 1848. Sagan hefst þegar James Marshall fann gull við Sutter Mill´s í byrjun janúar 1848, þar reis síðar bærinn Coloma. Í kjölfarið var sprenging í fólksfjölda í Kaliforníuríki þar sem innflytjendur komu alls staðar að úr heiminum. Svæðið er fjallent og afskekkt og árið 2000 bjuggu 156.299 íbúar í sýslunni. Helstu þéttbýlisstaðir eru Placerville (9.610) sem er höfuðstaður sýslunnar, einnig er vert að minnast á South Lake Tahoe og El Dorado Hills. Rússnesk margföldun. Rússnesk margföldun er aðferð til þess að margfalda tölur saman með einföldum hætti. Aðferð. Það fyrsta sem þarf að gera er að skrifa tölurnar sem margfalda á hlið við hlið, til dæmis á blað eða annað sem þykir hentugt og útbúa dálka með línum fyrir neðan þær. Því næst á að helminga töluna sem er hægra megin þangað til eftir stendur talan 1. Niðurstöður eru skrifaðar í dálkinn fyrir neðan upphaflegu töluna. Ef skipta þarf oddatölu í tvennt er alltaf námundað niður, til dæmis ef skipta á tölunni 25 í tvennt er niðurstaðan 12. Talan sem er vinstra megin er tvöfölduð jafn oft og hin var helminguð og niðurstöðurnar skráðar í dálkinn fyrir neðan upphaflegu töluna. Síðan þarf að finna allar sléttu tölurnar í dálknum hægra megin og stroka út þær tölur í vinstri dálknum sem eru í sömu línu og þær. Að lokum eru þær tölur sem eftir standa vinstra megin lagðar saman og útkoman er lausnin á dæminu. Notagildi. Hin hefðbundna aðferð við margföldun er góð og gild og flestir nota hana og eru snöggir að. En til að geta notað hana þarf viðkomandi að kunna skil á margföldun og samlagningu. Kosturinn við rússneska margföldun að sá sem ætlar að nota hana þarf að aðeins að kunna skil á sléttum tölum og oddatölum, geta helmingað tölur og tvöfaldað þær og lagt saman. Þessi aðferð hentar því vel þeim sem eiga erfitt með að margfalda en eiga auðveldara með að leggja saman. Niður. Niður var íslensk pönkhljómsveit sem starfaði á árunum 1992 til 1997. Stofnendur hljómsveitarinnar voru þeir Jón Júlíus Filippusson og Arnar Sævarsson sem áður höfðu spilað í pönkhljómsveitinni Sogblettir, Haraldur Ringsted úr Rotþrónni, Pétur Heiðar Þórðarson úr Dýrið Gengur Laust og Bless og Össur Hafþórsson úr Rauðum Flötum. Hljómsveitin gekk í gegnum mikil mannaskipti og á tímabili voru einungis Jón og Haraldur sem héldu uppi merki hljómsveitarinnar. Árið 1994 kom Arnar tilbaka eftir nokkurra mánaða frí frá hljómsveitinni og Eggert Hilmarsson bættist í hópinn en hann hafði áður spilað með Rotþrónni. Haustið 1995 flutti Jón búferlum til Noregs og Ólafur Egill Egilsson (sonur leikarans og Stuðmannsins Egils Ólafssonar) tók við míkrafónstatífinu af Jóni. Þannig skipuð starfaði hljómsveitin til 1997. Við komu Ólafs sem söngvara breittist einnig tónlistarstíll hljómsveitarinnar frá grjóthörðu pönki í þjóðlagarokk. Niður tók upp töluvert af efni sem aldrei hefur komið út opinberlega, nema á tónleikum og í útvarpi og svo einstaka bootleg. Hægt er að ná í nokkur tónlistardæmi með hljómsveitinni á rokk.is. Eggert Hilmarsson spilaði seinna með pönkhljómsveitinni Innvortis og Pétur Heiðar Þórðarson í þungarokkshljómsveitinni Drep en annars hefur lítið farið fyrir öðrum meðlimum Niðurs. Krossferðir. Krossferðirnar voru herfarir kaþólskra evrópumanna á hendur þeim sem þeir töldu heiðingja á seinni hluta miðalda. Aðallega voru það múslimar sem urðu fyrir barðinu á krossförunum en einnig heiðnir Slavar, gyðingar, rússneskir og grískir rétttrúnaðarsinnar, Mongólar, Katarar, Hússítar, Valdensar, Prússar og pólitískir andstæðingar páfans. Krossfarar sóru eið og hlutu syndaaflausn fyrir vikið. Rétttrúnaðarkirkja austrómverska keisaradæmisins biðlaði eftir aðstoð til að verjast ágangi Seljúktyrkja í Anatólíu. Fyrsta krossferðin var farin á 11. öld, að undirlagi Úrbanusar 2. páfa, með það að markmiði að hertaka borgina helgu, Jerúsalem og Landið helga. Ríki Seljúktyrkja náði yfir Anatólíu þar sem Tyrkland er í dag og í austur alla leið til Púnjab þar sem landamæri Pakistans og Indlands liggja í dag. Krossferðir voru síðan farnar allt fram til síðari hluta 13. aldar. Hugtakið er líka notað um herferðir sem farnar voru fram á 17. öld gegn heiðingjum, villutrúarmönnum, og öðrum sem fyrir einhverjar sakir voru í ónáð hjá kirkjunni. Ósætti innan kristinna og íslamskra hópa urðu til þess að bandalög mynduðust þeirra á milli, til að mynda bandalag kirkjunnar við Soldánsdæmið Rûm á tímum fimmtu krossferðarinnar. Krossferðirnar höfðu mikil stjórnmálaleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif sem eimir af enn þann dag í dag. Vegna innbyrðis deilna milli kristinna ríkja og pólitískra valdhafa var takmarki sumra krossferða breytt frá því sem upphaflega var. Þannig varð Fjórða krossferðin til þess að herjað var á Konstantínópel og Austrómverska keisaradæminu var skipt á milli Feneyja og Krossfaranna. Sjötta krossferðin var fyrsta krossferðin sem farin var án formlegrar blessunar páfans. Sjöundu, áttundu og níundu krossferðunum lyktaði með sigrum Mamlúka og Hafsída en þar með lauk krossferðunum. Sogblettir (stuttskífa). Sogblettir er nafn á fyrstu 12" plötu pönkhljómsveitarinnar Sogblettir sem kom út í 500 eintökum fyrir jólin 1987. Hljómplatan sem tekin var upp í Hljóðrita á vegum Smekkleysu vorið 1987 af Kjartani Kjartanssyni innihélt þrjú frumsamin lög. Tvö lög, "Orð Öskursins" og "Er nema von", eru eftir gítarleikara hljómsveitarinnar Arnar Sævarsson við texta Sigurlaugu Jónsdóttur skáldkonu og "5. Gír" lag og texti eftir Ara Eldon bassaleikara. Þessi frumraun Sogbletta fékk mjög góða dóma tónlistargagnrýnenda og þykir í dag ein magnaðasta rokkplata frá þessu tímabili rokksögu Íslands. Eggert Hilmarsson. Eggert Hilmarsson (fæddur 27. febrúar 1972) er rokktónlistarmaður frá Húsavík. Hann hefur m. a. spilað í pönkhljómsveitinni Rotþróin, Geymharði og Helenu, Niður, og Innvortis en einnig fengist við leiklistartónlist með áhugaleikfélaginu Hugleikur og ýmislegt annað tengt íslenskri neðanjarðartónlist. Eggert spilar nú í hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir. Tenglar. Eggert er einnig kynþokkafyllsti maður landsins. Jon Julius Sandal. Jon Julius Sandal (fæddur 13. janúar 1969 sem Jón Júlíus Filippusson) fyrrverandi söngvari í pönkhljómsveitunum Sogblettir (1986-1987), Dýrið Gengur Laust (1989-1991) og Niður (1992-1995). Jón lagði rokkskóna á hilluna 1995 er hann flutti búferlum til Noregs en þar hefur hann m. a. látið að sér kveða með verkefnið Norrøne Tekster og Kvad og í borgarstjórnmálum í Ósló. Arnar Sævarsson. Arnar Sævarsson (fæddur 2. júlí 1970) tónlistarmaður og bróðir Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu. Hann hefur m. a. spilað í pönkhljómsveitunum Sogblettir, Brak og Niður en einnig fengist við ýmislegt annað tengt íslenskri rokktónlist. Pétur Heiðar Þórðarson. Pétur Heiðar Þórðarson tónlistarmaður (fæddur 17. október 1972). Pétur hefur m. a. spilað á gítar í hljómsveitunum Óþekkt Andlit, Dýrið Gengur Laust, Bless, Niður, Texas Jesús og Drep. Sjanghæ. Sjanghæ (kínverska: 上海 pinyin:; sjanghæíska: Zanhe) er stærsta borg Kína, staðsett við óshólma Yangtze-fljóts. Borgin er ein mikilvægasta menningar-, fjármála-, verslunar-, iðnaðar-, og samskiptamiðstöð Kína. Borgin er eitt af fjórum sveitarfélögum Alþýðulýðveldisins sem að hafa sömu stöðu og héruðin. Í Sjanghæ er líka stærsta höfn heims, hvað flutningamagn varðar, stærri en Singapúr og Rotterdam. Lengst af var staðurinn aðeins rólegur fiskibær en á 20. öldinni varð hann að mikilvægustu borg Kína, miðpunkti alþýðumenningar, lasta, mennta og stjórnmálaumræðu á lýðveldistímanum. Eftir valdatöku kommúnista 1949 tók við hnignunarskeið í sögu borgarinnar þar sem mikil skattheimta lék hana grátt og stjórnvöld beittu sér gegn borgaralegum einkennum hennar sem voru kommúnistum lítt að skapi. Árið 1992 leyfði ríkisstjórnin endurreisn markaðshagkerfis og síðan þá hefur borgin vaxið afar hratt og leitt hina hröðu efnahagsþróun Kína, þar búa nú rúmar 17 milljónir manna sem að gerir hana að einni af stærstu borgum heims. Í nálægri framtíð stendur borgin frammi fyrir þeim áskorunum að endurheimta stöðu sína sem heimsborg og auka lífsgæði íbúa sinna, þar á meðal hinna fjölmörgu farandverkamanna sem að sækja þangað frá fátækari héruðum landsins. Nafnið. left Kínversku táknin tvö (sjá til vinstri) sem að mynda nafn borgarinnar þýða bókstaflega „á“ og „sjór“, það mætti þýða sem „borgin við hafið“ eða „að fara á sjóinn“ sem er viðeigandi miðað við stöðu borgarinnar sem hafnarborgar. Framburðurinn á mállýsku heimamanna, sjanghæísku, er "Son-he". Elstu heimildir um það eru frá tíma Song-veldisins (11. öld) þegar það var notað yfir bæ og ármót á þessu svæði. Í kínversku er nafnið stundum stytt í "Hù" (沪) eða "Shēn" (申). Hið fyrra er dregið af Hu Du (沪渎) sem er eldra nafn árinnar sem nú er kölluð Suzhou. Hið seinna er dregið af nafni Chun"shen" Jun (春申君), aðalsmanni í Chu-konungdæminu (楚国) en á 3. öld f.Kr. hafði hann yfirráð yfir svæðinu þar sem Sjanghæ er nú, hann er nokkurskonar hetja í augum heimamanna. Íþróttalið og dagblöð borgarinnar nota oft táknið 申 í nöfnum sínum og stundum er Sjanghæ kölluð "Shēnchéng" (申城, borg Shēn). Stöðu sinnar vegna hefur borgin verið nefnd ýmsum gælunöfnum, bæði af Kínverjum og vesturlandabúum. Þar á meðal eru nöfn eins og „París austursins“, „Drottning Austurlanda“ og „Perla Austurlanda“ en einnig öllu neikvæðari heiti eins og „hóra Asíu“ sem að festist við borgina á fyrrihluta 20. aldar vegna þess að mörgum þótti vændi og fíkniefnasala vera þar útbreidd. Latnesk málfræði. Greinir. Greinir er ekki til í latínu, hvorki ákveðinn né óákveðinn. Þar af leiðandi getur orðið „puella“ bæði þýtt „stúlka“ og „stúlkan“. Reglan um staðsetningu sagna. Sagnir í latínu hafa tilhneigingu til að standa aftast ef að þær eru í persónuhætti, þ.a.s. þær eru aftastar ef að þær standa með einhverri persónu. „Laborat“ er þá sögn í 3.p et. og þýðir að vinna eða orðrétt „hann/hún vinnur“. Nominativus (nefnifall). Nefnifallið í latínunni virkar nákvæmlega eins og nefnifallið í íslensku. „Puella“ er þá orðið „stúlka“ í nefnifalli. Vocativus (ávarpsfall). Ávarpsfall er sérstakt fall og er ekki til í nútímaíslensku (þó orðið „jesús“ var eitt sinn beygt sem „jesú“ í ávarpsfalli, sjá nánar ávarpsfall í íslensku). Nafnið skýrir sig sjálft og er ávarpsfallið notað þegar er verið að ávarpa eða að tala við einhvern. Dæmi. „Brute“ er þá nafnið „Brutus“ í ávarpsfalli. Accusativus (þolfall). Þolfallið í latínu er alveg eins og þolfall í íslensku. Margar forsetningar í latínu stýra þolfalli. „Nautam“ er þá orðið „sjómaður“ í þolfalli. Genetivus (eignarfall). Eignarfallið í latínu er alveg eins og eignarfallið í íslensku. Eini munurinn er sá að í beygingu sagna er eignarfalls-beygingin sögð á undan þágufalls-beygingunni. „Poeta“ er þá orðið „skáld“, og „poetae“ er þá orðið skáld í eignarfalli (eða „skáldsins“ eða „skálds“) Dativus (þágufall). Þágufall í latínu er alveg eins og þágufallið í íslensku. „Nautae“ er þá orðið „sjómaður“ í þágufalli. Ablativus (sviptifall). Ablativus eða sviptifall er sérstakt fall sem að er ekki til í íslensku, en fellur það oftast undir þágufall. Nokkrar forsetningar stýra sviptifallinu, forsetningar sem að myndu stýra þágufalli í íslensku. Sviptifall getur birst í ýmsum myndum en hér birtast bara þrjár myndir. Ablativus instrumentalis (tækisfall). Þessi gerð af ablativus táknar tækið sem eitthvað er gert með. Dæmi: "Sjómaðurinn særir skáldið með sverði" Þarna sést að latínan hefur sleppt orðinu „með“ og notað ablativus til að fylla það upp og að orðið „gladio“ er orðið „sverð“ í ablativus fallinu. Ablativus temporis (tímafall). Þessi ablativus táknar hvenær eitthvað er gert. Dæmi: "Ég lifi á slæmum tímum" Þarna hefur orðunum „á“ og „tímum“ verið sleppt og í staðinn er orðið „temporibus“ sem þýðir „tímarnir“ og er í abl. flt. Ablativus modi (háttarfall). Þessi ablativus táknar háttinn, hvernig eitthvað er gert. Dæmi: "Forfeður okkar ræktuði akrana af kostgæfni" Þarna hefur orðunum „af kostgæfni“ verið skipt út fyrir orðið „industria“ sem að þýðir „kostgæfni“ og er í abl. et. á latínu. Nafnorð. Nafnorð í latínu eru í fimm beygingarflokkum. 1. flokkur. Orð í þessum flokki eru af A-stofni og enda þau alltaf á –a. Orð í þessum flokki eru yfirleitt í kvenkyni. 2. flokkur. Orð í þessum flokki eru af O-stofni. Ekki er ákveðin ending fyrir öll orðin í þessum flokki en yfirleitt enda þau á –us eða –er. Orð í þessum flokki eru yfirleitt karlkyns en einnig eru til hvorugkyns orð og enda þau á –um. 3. flokkur. Orð í þessum flokki eru af L-, R-, N-, S-, C-, G-, D-, T- eða I-stofni. Þó að svona margir stofnar séu í þessum flokki hafa þessi orð sömu beygingu. Orð í þessum flokki eru ýmist karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns. 4. flokkur. Orð í þessum flokki eru af U-stofni. Flest orð í þessum flokki eru karlkyns. 5. flokkur. Orð í þessum flokki eru af E-stofni. Afar fá orð eru í þessum flokki. Flest orð í þessum flokki eru kvenkyns. Sagnorð. Í latínu eru fjórir flokkar sagnorða ásamt óreglulegum sagnorðum sem eru ekki í neinum flokki. 1. flokkur. Sagnir í þessum flokki eru af A-stofni. Allar sagnir í þessum flokki enda á –o. Dæmi um orð eru: Amo = ég elska, pugno = ég berst og laboro = ég vinn. 2. flokkur. Sagnir í þessum flokki eru af E-stofni. Allar sagnir í þessum flokki enda á –eo. Dæmi um orð eru: Moneo = ég áminni, video = ég sé og habeo = ég á. 3. flokkur. Sagnir í þessum flokki eru af samhljóða stofni. Þessar sagnir enda á –o alveg eins og sagnir í 1. flokki en stafurinn „i“ kemur í beyginguna í öðrum persónum. Dæmi um orð eru: Scribo = ég skrifa, lego = ég les og ludo = ég leik. 4. flokkur. Sagnir í þessum flokki eru af I-stofni. Allar sagnir í þessum flokki enda á –io. Dæmi um orð eru: Audio = ég heyri, munio = ég víggirði og custodio = ég gæti Heimskringla. Heimskringla Snorra Sturlusonar er eitt höfuðrita íslenskrar bókmenntaarfleiðar. Í Heimskringlu er sögð saga Noregskonunga frá ómunatíð fram á miðja 12. öld. Stakt skinnblað hefur varðveist af Heimskringlu sem er nefnt Kringlublaðið, það er geymt á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Heimildir Snorra. Heimskringla inniheldur sögur Noregskonunga fram að 1177, en rekur einnig sögu Uppsalakonunga og byrjar á Óðni, sem talinn er forfaðir þeirra. Þar styðst Snorri við Ynglingatal, ættarsögu í ljóðum, sem sennilega er ort af norska skáldinu Þjóðolfi í Hvini, sem var hirðskáld Haraldar hárfagra. Í formálanum rekur Snorri þær heimildir, sem hann hefur notað og ræðir um sannleiksgildi þeirra. Þegar hann nefnir sögumenn sína, getur hann þess frá hverjum þeir hafi heimildir sínar og hvort þær hafi farið margra á milli. Þannig byggir hann frásögn sína á aldagömlum frásögnum. En kvæðin segir hann að sér þyki „sízt úr stað færð, ef þau eru rétt kveðin og skynsamlega upp tekin". Slíkt val og mat heimilda var ekki vandi sagnfræðinga miðaldanna. Og þegar talað er um sagnfræðilegt mat á heimildum, þá má líklega óhætt líkja Snorra við Polybios hinn gríska og Þjóðverjann Leopold von Ranke. Sæmundaredda. Sæmundaredda er frægt íslenskt skinnhandrit frá um 1280. Í því er að finna fornan kveðskap sem venja er að skipta í tvo flokka, goðakvæði og hetjukvæði. Hvað „edda“ þýðir er óvíst, en það tengist skáldskaparfræði (sjá Snorra-Edda). Brynjólfur Sveinsson gaf Friðriki 3. Danakonungi handritið árið 1643 og var það geymt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Konungsbókin var afhent Íslendingum 21. apríl 1971 ásamt Flateyjarbók og er nú geymd á Stofnun Árna Magnússonar. Ýmis heiti handritsins. Handritið ber ýmis heiti, auk Sæmundareddu má nefna; Ljóðaedda, Edda Sæmundar fróða og Sæmundar-Edda. Ritið er kennt við Sæmund fróða í Odda en menn töldu fyrst að hann hefði tekið það saman. Latneska heitið Codex Regius er gjarnan notað yfir handritið í erlendum málum, það heitir svo af því að Brynjólfur biskup Sveinsson gaf Friðriki Danakonungi III það til eignar. Konungur var mikill bókamaður og stofnaði Kongungsbókhlöðuna í Kaupmannahöfn, þar sem Konungsbók var varðveitt uns henni var skilað til Íslendinga árið 1971. Codex þýðir bók og regius er leitt af orðinu „rex“ sem þýðir konungur. Því hefur bókin verið nefnd Konungsbók á íslensku. Eddukvæði. Eddukvæðum er skipt í tvo flokka, goðakvæði og hetjukvæði. Fornyrðislag og ljóðaháttur eru einkennandi braghættir. Ekki eru öll eddukvæði varðveitt í Sæmundareddu. Þó ritið sé á íslensku er það flestum torskiljanlegt nú á dögum, Snorra-Edda hefur gagnast mikið við að skilja kvæðin. Goðakvæði. Goðakvæði eru flest eða 40 talsins. Þau segja af norrænu goðunum eins og nafnið gefur til kynna. Þar eru talin helstu goðmögn, jötnar og skepnur. Einnig er greint frá hugmyndum manna um upphaf heimsins, framgöngu hans og endalok. Kvæðin eru þó ekki öll alvarlegs eðlis, sum eru full af gríni og glensi, eins og Þrymskviða. Til goðakvæða heyra þekktustu fornkvæði Íslendinga, Hávamál og Völuspá. Hetjukvæði. Næst flest eru hetjukvæðin, þau eru sögur frá tímum þjóðflutninganna miklu. Um er að ræða harmsögur af grimmilegum örlögum hetja sem eru flestar af miklum ættum. Ein af þessum hetjum er Sigurður Fáfnisbani. Gaullismi. Gaullismi er hugtak sem er haft um þá stefnu að Frakkland eigi að vera frjálst og erlendu valdi óháð. Í innanríkismálum byggist gaulismi á íhaldssemi og í frönskum stjórnmálum þá tejast gaullistar vera hægrimenn. Stuðningsmenn Charles de Gaulle hafa verið kallaðir gaullistar, og gætir áhrifa de Gaulle enn í Frakklandi þar sem tortryggni ríkir í garð Breta. Má nefna að fyrrverandi forseti Frakklands, Jaques Chirac, telst til gaullista. Nútildags starfa gaullistar innan Sambands Lýðræðissinna lýðveldisins (franska: "Union des Démocrates pour la République"). Það er hægriflokkur. Guðmundur Steingrímsson. Guðmundur Steingrímsson (fæddur 28. október 1972) er formaður Bjartrar framtíðar og alþingismaður Suðvesturkjördæmis. Guðmundur hafði áður verið kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi árið 2009. Þá var hann varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi 2007-2009. Guðmundur stofnaði Bjarta framtíð ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur og fleirum úr Besta flokknum í upphafi árs 2012. Í kosningunum 2013 fékk Björt framtíð 8,2% atkvæða og 6 þingmenn kjörna. Guðmundur var áður blaðamaður og stjórnandi Kvöldþáttarins sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni Sirkus. Guðmundur er einnig tónlistarmaður og meðlimur í hljómsveitinni Ske. Guðmundur hefur starfað sem blaðamaður og er höfundur bókarinnar "Áhrif mín á mannkynssöguna", sem kom út árið 2003. Guðmundur er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Guðmundur útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1992 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, 1990-1991. Guðmundur skipaði fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar í Kraganum fyrir alþingiskosningarnar 2007. Í alþingiskosningunum 2009 var Guðmundur kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi Guðmundur er einnig þektur fyrir hlutverk sitt sem Gummi frændi í þáttunum Sjáumst með Silvíu Nótt. Þann 22. ágúst 2011 bárust fregnir af því að Guðmundur ætlaði að segja sig úr Framsóknarflokknum vegna djúpstæðs ágreinings um stefnu og hugmyndir. Hann sagðist vilja stofna nýjan flokk. Tilkynnt var 6. janúar 2012 að nýtt stjórnmálaafl Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins hefði hlotið nafnið Björt framtíð. Nafnið var fengið úr nafnasamkeppni og sendu tæplega 2000 manns inn tillögur. Togari. Togarinn Harðbakur EA3 við bryggju á Akureyri. Togari er skip sem dregur/togar vörpu/troll á eftir sér við fiskveiðar. Algengt form vörpu er botnvarpa. Íslenskar togaraveiðar. Fyrsti togarinn sem Íslendingar eignuðust var Coot sem kom til landsins 6. mars 1905. Áður fyrr takmörkuðust veiðar togara við 55-75 metra dýpi en nú geta þeir dregið vörpur á allt að 1300 metra dýpi. Stærð togara nú til dags er allt að 2.500 til 7.000 tonn. Togarar voru fyrst um skeið síðutogarar, sem tóku vörpuna inn fyrir borðstokkinn á síðu skipsins. Í dag er varpan dregin inn í skut togarans, því nefnast þeir skuttogarar. Margir gömlu síðutogaranna stunda nú veiðar á uppsjávarfiskum. Landhelgisdeilan, sem náði hámarki í þorskastríðunum snerist um veiðar erlendra togara á því hafsvæði, sem íslensk stjórnvöld gerðu tilkall til, og hvar íslensk stjórnvöld kröfðust þess að togveiðar væru ekki stundaðar. Útgerðarmenn togara stofnuðu Félag botnvörpuskipaeigenda, en urðu síðar félagar í LÍÚ. Frystitæki um borð í nútímatogurum gera þeim kleift að vera á veiðum frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði eða uns lestir fyllast. Togarar með slíkan búnað kallast frystitogarar. Oxun. Oxun er heiti á efnaferli þegar súrefnisatóm bindast öðru efnasambandi. Betri skilgreining er að í oxunarhvarfi gefur frumefni frá rafeind(ir). Því er skilgreind "oxunartala" frumefnis. Þegar frumeind eða jón tapar rafeind, hækkar oxunartalan. Þegar járn oxast kallast það að járnið "ryðgi". Afoxun er heiti efnaferlisins þegar frumefni bætir við sig rafeind. Þá lækkar oxunatalan. Oxun er mikið notuð í efnaiðnaði, til dæmis við framleiðslu hreinlætisefna. Bruni er tegund hraðfara oxunar. Oxarar og afoxarar. Í oxunar-afoxunarhvarfi hliðrast rafeindir frá einu frumefni til annars frumefnis. Það frumefni sem gefur frá sér rafeind(ir) kallast afoxari (það oxast sjálft) og það frumefni sem tekur til sín rafeind(ir) kallast oxari (það afoxast sjálft). Oxarar eru almennt frumefni eða efnasambönd þar sem einkennast af hárri oxunartölu t.d. H2O2, MnO4-, Cr2O7-2. Afoxarar eru fjölbreyttur hópur efna. Rafjákvæðir málmar eins og Li, Na, Mg, Fe, Zn og Al eru góðir afoxarar. Hreint kolefni, C, er einnig góður afoxari. Í lífrænni efnafræði eru hýdríð sambönd eins og NaBH4 og LiAlH4 mikið notuð sem afoxarar. Dæmi um oxunar-afoxunarhvörf. Fe+2 oxast í Fe+3 með vetnisperoxíð sem oxara. Heildarhvarfið er 2 Fe+2 + H2O2 + 2 H+ → 2 Fe+3 + 2 H2O Járn, Fe, oxast yfir í Fe+3 undir áhrifum súrefnis. Til þess að þetta gangi greiðlega fyrir sig er best að vatn sé til staðar í formi raka. Hvarfjafnan er 4 Fe + 3 O2 → 2 Fe2O3. Því er ein aðferð til að ryðverja járn að mála það vel. John Stuart Mill. John Stuart Mill (20. maí 1806 – 8. maí 1873) var frjálslyndur breskur heimspekingur, þingmaður á breska þinginu og einn frægasti málsvari nytjastefnu og raunhyggju. Hann hefur verið nefndur áhrifamesti enskumælandi heimspekingur 19. aldarinnar. Hann ritaði "Frelsið" 1859 og "Kúgun kvenna" 1869. Hann sat á þingi frá 1865 til 1868. Hann var mun frægari talsmaður nytjastefnu en guðfaðir hans Jeremy Bentham. Skrif Mills um kúgun kvenna eru talin marka tímamót í þróun femínisma. Lífshlaup. John Stuart Mill var fæddur í Pentonville sem var úthverfi London. Hann var elsti sonur skoska heimspekingsins og sagnfræðingsins James Mill, sem kenndi syni sínum ásamt þeim Jeremy Bentham og Francis Place. Menntun hans var nokkuð sérstök, þar sem hann lærði að lesa á ensku og forngrísku þriggja ára gamall og latínu átta ára gamall. Hann lærði einnig stærðfræði, fornfræði, enska sögu og nam fræði Adams Smith og Davids Ricardo um efnahagsmál sem þóttu mjög móðins á þeim tíma. Hann hlaut guðlaust uppeldi og kvaðst einn af sárafáum mönnum á öllu Englandi sem ekki aðeins höfðu hent slíkri trú heldur hefðu aldrei nokkru sinni haft hana. Árið 1820 heimsótti hann Frakkland þar sem hann lærði frönsku og var hann þaðan af áhugasamur um sögu og menningu landsins. Árið 1823 stofnaði hann ásamt Jeremy Bentham "Westminster Review" sem var blað róttækra heimspekinga. Sama ár útvegaði faðir hans honum vinnu hjá Breska Austur Indíafélaginu. Sökum þessa stífa náms fékk John taugaáfall rétt liðlega tvítugur að aldri, árið 1826 eins og hann lýsir því í sjálfsævisögu sinni. Hann þjáðist af miklu þunglyndi um nokkurra mánaða skeið en jafnaði sig þó um síðir meðal annars með lestri á ljóðum William Wordsworths. Tveimur árum seinna kynntist Mill áhangendum Saint Simon og Auguste Comte sem höfðu nokkur áhrif á hann. Árið 1851 giftist hann Harriet Taylor eftir áralanga nána vináttu þeirra. John, sem trúði á aukin réttindi kvenna, segir hana hafa verið mikinn áhrifavald í lífi sínu. Hann tileinkaði henni lokaútgáfu "Frelsisins" auk þess sem svo virðist að vísað sé til hennar í riti hans "Kúgun kvenna". Mill starfaði fyrir Breska Austur Indíafélagið, þar sem faðir hans vann, uns rekstri þess var hætt 1858. Hann var kjörinn á þing árin 1865-1868 sem óháður frambjóðandi og þar talaði hann fyrir því að létta byrðar Íra, að konur fengju kosningarétt og gegn afnámi dauðarefsinga. Á sama tíma gegndi hann stöðu rektors við St. Andrews háskóla. Hann var guðfaðir heimspekingsins og stærðfræðingsins Bertrand Russells. Mill dó í Avignon í Frakklandi árið 1873 þar sem hann er grafinn ásamt konu sinni. Frelsið. "Frelsið" (e. "On Liberty") kom fyrst út í Englandi árið 1859. Á Íslandi kom það fyrst út í þýðingu Jóns Ólafssonar á vegum Hins íslenzka þjóðvinafélags árið 1886. Árið 1970 kom það út í annarri þýðingu Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar í ritröð Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags. Það fjallar fyrst og fremst um borgaraleg réttindi sem mörg hver eru í dag tryggð í stjórnarskrám ríkja. Í ritinu áréttar Mill að frelsi sé forsenda raunverulegs lýðræðis. Hann segir aldrei vera hægt að vera svo viss í sinni sök hvað eitthvað varðar að hægt sé að meina öðrum að tjá sig um það. Það verði því að vera frelsi til tjáningar, svo að allar skoðanir fái að heyrast, til að skapa meiri og betri þekkingu. Mismunandi skoðanir verða til við fjölbreytileika og fjölbreytni verður þá og því aðeins til að fólki sé frjálst að hegða sér eins og það vill og hafa þær skoðanir sem því sýnist. Takmarkanir verða þó að vera á frelsinu, þó þær minnstu mögulegu, þannig að ríkinu sé fært að tryggja öryggi borgaranna. Mill áleit sem svo að frelsi væri það að geta gert „hvað svo sem manni lystir svo lengi sem það skaði ekki aðra“. Hann taldi það einnig brjóta á frelsi annarra ef maður gæti komið í veg fyrir að aðrir hlytu skaða en stæði aðgerðarlaus hjá t.d. með því að kasta ekki björgunarhring til drukknandi manns. Rit hans um réttindi kvenna "Kúgun kvenna" (e. "The Subjection of Women") kom út í íslenskri þýðingu árið 1900 og aftur árið 2003. Siðfræði: Nytjastefnan. Siðfræðikenning Mills kallast nytjastefna og er svokölluð leikslokasiðfræði. Mill setti kenninguna fram í ritinu "Nytjastefnan" (e. "Utilitarianism"). Enska orðið fyrir nytjastefnu er frá honum komið. Löng hefð bjó að baki þessari siðfræði. Megináhrifavaldar Mills voru Jeremy Bentham og faðir Mills, James Mill en leikslokasiðfræði átti rætur að rekja til skoska heimspekingsins Davids Hume. Útgáfa Mills af nytjastefnunni er þekkt m.a. fyrir „hámarkshamingjulögmálið“ sem er einn meginmunurinn á kenningu Mills og annarri leikslokasiðfræði. Leikslokasiðfræði heldur því fram að siðferðilega rétt athöfn sé sú sem hefur bestar afleiðingar. Hámarkshamingjulögmálið segir að allar athafnir manns eigi að miða að því að hámarka hamingju sem flestra. Meginmunurinn á nytjastefnunni og annarri leikslokasiðfræði er því fólginn í viðbót nytjastefnunnar sem kveður á um að bestu afleiðingarnar séu þær sem hámarka hamingju sem flestra. Eitt helsta framlag Mills til nytjastefnunnar var rökin fyrir stigskiptingu ánægjunnar. Bentham taldi alla hamingju jafna en Mill færir rök fyrir því að vitsmunaleg og siðferðileg ánægja sé æðri líkamlegri ánægju. Mill greinir á milli hamingju og þess að vera sáttur og heldur því fram að hamingjan sé mikilvægari en að vera sáttur. Mill kom orðum að þessari skoðun með því að segja að það væri betra að vera Sókrates vansæll en ánægður kjáni. Hagfræði. Í hagfræði aðhylltist Mill frjáls viðskipti en sætti sig þó við aðhald og afskipti, svo sem í formi skatts á áfengi, ef nytsemisrök væru fyrir því. Hann féllst einnig á löggjöf til verndar velferð dýra. Mill taldi að „jafnrétti í skattheimtu“ þýddi „jöfn fórn“ og að skattþrepakerfi refsaði þeim sem ynnu meira og væru duglegari að spara og væri þess vegna „mild útgáfa af ráni“. Rit Mills um hagfræði, "Frumatriði stjórnspekilegrar hagfræði" (e. "Principles of Political Economy"), sem kom fyrst út árið 1848, var ein víðlesnasta bók um hagfræði á síðari hluta 19. aldar. Líkt og rit Adams Smith, "Auðlegð þjóðanna" (e. "Wealth of Nations"), áður fyrr, vofði rit Mills yfir allri hagfræðikennslu. (Bókin var meðal meginkennsluefnis í Oxford háskóla allt til ársins 1919). Þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Eitt mikilvægasta rit Mills var "Rökkerfi" (e. "A System of Logic, Ratiocinative and Inductive"), sem hann endurbætti nokkrum sinnum. Það var meginrit Mills um þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Megin innblástur Mills var rit Williams Whewell "History of the Inductive Sciences" sem kom út 1837. Frægð verksins hvílir einkum á greiningu Mills á tilleiðslu, andstætt rökhendum Aristótelesar, sem eru dæmi um afleiðslu. Mill lýsir fimm meginreglum um tilleiðslu sem eru þekktar sem aðferð Mills. Reglurnar byggjast allar á útilokunaraðferð og eru í raun flóknar útgáfur af útilokunaraðferð sem beita má í ólíkum aðstæðum. Ritið var öðrum þræði tilraun Mills til að setja fram þekkingarfræði í anda Johns Locke. Tenglar. Mill, John Stuart Mill, John Stuart Fyrri heimsstyrjöldin. Stríðandi fylkingar í fyrri heimsstyrjöldinni. Fyrri heimsstyrjöldin (sem nefnt var heimsstríðið fyrir seinni heimsstyrjöldina) var mannskætt stríð sem geysaði í Evrópu í fjögur ár. Stríðið hefur verið nefnt „stríðið mikla“ og „stríðið sem enda átti öll stríð“. Sá atburður sem miðað er við að marki upphaf stríðsins var morðið á Frans Ferdinand erkihertoga og ríkisarfa Austurríkis í Sarajevó þann 28. júní 1914. Átök hófust í ágúst 1914 og breiddust hratt út. Þegar upp var staðið lágu um tíu milljónir manna í valnum, um tuttugu milljónir höfðu særst og ótal manns misst heimili sín og lifibrauð. Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja 11. nóvember 1918. Að stríðinu loknu funduðu fyrrum fjandmenn í Versölum í Frakklandi hvar Versalasamningurinn var gerður. Sigurvegarar í stríðinu voru bandamenn undir forystu Frakka en auk þeirra voru Bretar og Rússar (til 1917) og síðar einnig Ítalir og Bandaríkjamenn. Öxulveldin voru Austurríki-Ungverjaland, Þýskaland, Búlgaría og Ottómanveldið. Flestar orrustur í fyrri heimsstyrjöldinni voru háðar á vesturvígstöðvunum, lengst af í formi skotgrafahernaðar en á milli andstæðra skotgrafa var svokallað „einskis manns land“. Skotgrafirnar náðu allt frá Norðursjó að landamærum Sviss. Á austurvígstöðvunum komu víðáttur Austur-Evrópu og takmarkaðar járnbrautir í veg fyrir langvarandi skotgrafahernað og ollu meiri hreyfanleika víglínanna. Einnig voru háðar orrustur á hafi og neðansjávar með kafbátahernaði og í fyrsta sinn í lofti. Meira en níu milljónir hermanna létu lífið í orrustum og milljónir óbreyttra borgara fórust. Stríðið olli því að tvö ríki liðuðust í sundur og tvö önnur keisaradæmi liðu undir lok: Austurríki-Ungverjaland og Ottóman veldið liðuðust í sundur og Þýska keisaradæmið og Rússneska keisaradæmið liðu undir lok. Þýskaland glataði öllu veldi sínu utan Evrópu og ný ríki urðu til, svo sem Tékkóslóvakía, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Pólland og Júgóslavía. Orsakir stríðsins. Þann 28. júní 1914 skaut Gavrilo Princip Franz Ferdinand, erkihertoga Austurríkis-Ungverjalands og erfingja krúnunnar, og eiginkonu hans Sophie Chotek til bana í Sarajevo. Princip var meðlimur í þjóðernissinnuðu samtökunum Ung Bosnía, sem höfðu það á stefnuskrá sinni að sameina alla Suður-Slava í einu ríki, sjálfstæðu og óháðu Austurríki-Ungverjalandi (sjá einnig: Svarta höndin). Morðið í Sarajevo hratt af stað atburðarás sem stigmagnaðist og leiddi til stríðs. Morðið var tilefni stríðsins en raunverulegar orsakir þess voru aftur á móti margvíslegar og flóknar. Vopnakapphlaup. Spennan jókst í vopnakapphlaupi breska og þýska flotans árið 1906 þegar HMS "Dreadnought" var hleypt af stokkunum. Dreadnought var byltingarkennt orrustuskip sem gerði eldri orrustuskip úrelt. (Breski flotinn hélt alltaf forystu sinni gagnvart þeim þýska.) Sagnfræðingurinn Paul Kennedy hefur bent á að báðar þjóðirnar hafi trúað á kenningu Alfred Thayer Mahan um að yfirráð á hafi væru sérhverju stórveldi ómissandi. Sagnfræðingurinn David Stevenson lýsti vopnakapphlaupinu sem „vítahring síaukinnar stríðsgetu“. Áætlanir, vantraust og herkvaðning. Margir stjórnmálafræðingar og sagnfræðingar telja að hernaðaráætlanir Þýskalands, Frakklands og Rússlands hafi magnað upp átökin. Fritz Fischer hefur auk annarra lagt áherslu á Schlieffen-áætlunin, sem var megináætlun Þýskalands ef Þýskaland stæði frammi fyrir stríði gegn Frakklandi og Rússlandi samtímis, hafi í eðli sínu verið mjög ögrandi. Stríð á tveimur vígstöðvum þýddi að Þýskaland yrði að sigra annan andstæðinginn fljótt áður en ráðist yrði gegn hinum og að tíminn væri naumur til þess. Hún fól í sér öfluga sókn á hægri vængnum til þess að hertaka Belgíu og lama franska herinn með því að koma honum í opna skjöldu. Að svo búnu myndi þýski herinn hraða sér til austurs með járnbrautarlestum og mala þar svifaseinni her Rússa. Áætlanir Frakka, áætlun XVII, gerði ráð fyrir innrás í Ruhr dalinn, iðnaðarhérað Þýskalands, með það að augnamiði að svifta Þýskaland getunni til að heyja stríð. Endurskoðuð áætlun Rússa, áætlun XIX, gerði ráð fyrir árásum bæði á Austurríki-Ungverjaland og Þýskaland. Áætlanir allra þriggja sköpuðu órólegt andrúmsloft taugaveiklunar þar sem herforingjar voru ákafir að ná frumkvæðinu og vinna afgerandi sigra. Nákvæmar áætlanir voru gerðar með nákvæmum tímatöflum. Herforingjar jafnt sem stjórnmálamenn skildu að um leið og boðin bærust væri lítill sem enginn möguleiki á að snúa aftur því þar með væri mikið forskot glatað. Enn fremur ætti ekki að vanmeta samskiptavandann árið 1914. Allar þjóðirnar notuðu enn símskeyti og sendiherra sem meginleið til samskipta. Boð gátu því tafist klukkustundum og jafnvel dögum saman. Hernaðarhyggja og sjálfræði. Woodrow Wilson forseti Bandaríkjanna kenndi hernaðarhyggju um stríðið. Hugmyndin var sú að yfirstéttin og hernaðarelítan væri of valdamikil í Þýskalandi, Rússlandi og Austurríki-Ungverjalandi og að stríðið væri afleiðing af löngun þeirra eftir hernaðarmætti og fyrirlitningu þeirra á lýðræði. Þetta var meginstef í áróðrinum gegn Þýskalandi, sem varpaði afar neikvæðu ljósi á Vilhjálm II keisara og prússneska hernaðarhefð. Fylgjendur þessarar kenningar kröfðust því afsagnar slíkra þjóðhöfðingja, afnáms stéttakerfisns og endaloka hernaðarhyggjunnar — allt réttlætti þetta bandarísk afskipti af stríðinu um leið og Rússland dró sig í hlé úr stríðinu og yfirgaf bandamenn. Wilson vonaði að Þjóðabandalagið og almenn afvopnun myndi tryggja varanlegan frið. Hann viðurkenndi einnig að afbrigði hernaðarhyggjunnar lifðu góði lífi innan breska og franska stjórnkerfisins. Hagfræðileg heimsvaldsstefna. Vladimír Lenín hélt því fram að heimsvaldsstefnan væri ástæða stríðsins. Í þessu studdust hann við hagfræði Karls Marx og enska hagfræðingsins Johns A. Hobson, sem hafði áður spáð því að útkoma hagfræðilegrar heimsvaldsstefnu eða ótakmarkaðrar eftirsóknar eftir nýjum mörkuðum myndi leiða til hnattrænna hernaðarátaka. Rök hans fengu þónokkrar undirtektir í upphafi stríðsins og auðvelduðu útbeiðslu marxisma og kommúnisma. Lenín hélt því fram að hagsmunir fjármagnseigenda í hinum ýmsu kapítalísku heimsveldum hefðu ráðið ákvörðunum stjórnvalda og leitt til stríðs. Miðveldin. Austurríki-Ungverjaland leit á morðið á ríkiserfingjanum, Franz Ferdinand, Þar að auki óttuðust Austurríkis-Ungverjar að Serbar væru að reyna að ýta undir byltingu innan Austurríkis-Ungverjalands og vildu því taka á Serbum áður en til þess kæmi. Þeir gáfu Serbum úrslitakosti sem þeir vissu að væru of kröfuharðir, til þess að egna þá til stríðs. Serbar höfnuðu úrslitakostunum og í kjölfarið lýsti Austurríki-Ungverjaland stríði á hendur Serbíu, þann 28. júlí 1914. Þýskaland hafði samið við Austurríki-Ungverjaland árið 1883, um samstöðu ef annað ríkið lenti í stríði. Þegar Franz Jósef, keisari Austurríkis-Ungverjalands, bað Þýskaland um stuðning í stríðinu við Serbíu, hét Vilhjálmur 2., þýskalandskeisari, þeim skilyrðislausum stuðningi, án þess að spyrjast fyrir um markmið eða áætlanir þeirra. Að stríðinu loknu litu bandamenn svo á að þessi skilyrðislausi stuðningur hafi haft úrslitaþýðingu varðandi allsherjarstríð og kenndu því Þjóðverjum um upphaf stríðsins. Tyrkneska Ottomanveldið átti landamæri að Rússlandi í Kákasus og hafði misst landssvæði á þeim slóðum til Rússanna. Tyrkirnir gerðu því samning við Þjóðverja í ágúst 1914, um að berjast sameiginlega gegn Rússum, með það fyrir augum að vinna til baka af þeim landsvæði. Búlgarar gengu til liðs við miðveldin í október 1915 þegar þeir lýstu stríði á hendur Serbíu. Búlgarar höfðu það að markmiði að vinna landsvæði af Serbum í stríðinu. Auk þessara ríkja börðust nýlendur Þýskalands í Afríku og Asíu með miðveldunum. Bandamenn. Serbar voru á móti þeim ítökum sem Austurríki-Ungverjaland hafði á Balkanskaganum, og litu í raun á þá sem helstu óvini sína, en Austurríkis-Ungverjar réðu yfir Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu og fleiri svæðum. Serbar vildu sameina alla slava á Balkanskaganum í einu ríki, Júgóslavíu, undir sinni forystu. Austurríkis-Ungverjar sökuðu serbnesk yfirvöld um að eiga þátt í morðinu á Franz Ferdinand, en því höfnuðu Serbar og einnig þeim úrslitakostum sem Austurríkis-Ungverjar gáfu þeim. Eftir stríðsyfirlýsingu Austurríkis-Ungverja reiddu Serbar sig á stuðning Rússa sem höfðu lengi verið bandamenn þeirra. Serbar höfðu beðið Rússa um að standa með sér nokkrum dögum áður en stríðsyfirlýsing Austurríkis-Ungverjalands var birt. Nikulás 2. rússakeisari gaf þegar fyrirmæli um herútboð og var þá í raun að staðfesta þátttöku Rússlands yfirvofandi stríði. Þjóðverjar litu á þetta sem stríðsyfirlýsingu og urðu á undan Rússum til að lýsa yfir stríði með formlegum hætti, sem þeir gerðu þann 1. ágúst. Frakkar voru í hernaðarbandalagi með Rússum og því var við því búist, í Þýskalandi, að Frakkland myndi taka þátt í stríðinu. Einnig voru Frakkar enn bitrir yfir ósigri í stríði þeirra við Prússa árið 1871. Þýskir herforingjar töldu að þeir þyrftu að klára stríð við Frakkana áður en þeir gætu tekist á við Rússa, svo þeir myndu ekki þurfa að berjast á tveimur vígsöðvum. Þjóðverjar lýstu yfir stríði á hendur Frökkum þann 3. ágúst. Bretland lýsti yfir stríði á hendur Þjóðverjum 4. ágúst. Ein ástæða fyrir þátttöku Breta var sú að árið 1839 höfðu þeir lofað að verja hlutleysi Belgíu ef til innrásar kæmi. Þjóðverjar höfðu nú krafið Belga um að leyfa sér að fara inn í landið til þess að ráðast þaðan inn í Frakkland, en Belgar höfnuðu og því réðust Þjóðverjar inn í Belgíu. Einnig var mikilvægt fyrir Breta að halda vináttu við Frakka og Rússa, bæði vegna viðskiptahagsmuna og vegna þess hve erfitt það gæti reynst að verja hin gríðarstóru landflæmi heimsveldisins ef til átaka kæmi við þessi lönd. Japanir lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum í ágúst 1914. Japanir litu á stríðið sem tækifæri til að auka áhrif og umsvif sín á meginlandi Asíu og á Kyrrahafinu á kostnað Þjóðverja. Ítalía var fyrir stríðið í hernaðarbandalagi með Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi, en kaus engu að síður að vera hlutlaus þegar stríðið braust út. Árið 1915 sömdu Ítalir svo við bandamenn um að berjast með þeim í stríðinu. Ítalía réðst gegn Austurríki-Ungverjalandi með það fyrir augum að leggja undir sig ítölsku-mælandi héruð landsins. Bandaríkin voru hlutlaus fram til 1917 en gengu til liðs við bandamenn 6. apríl það ár, m.a. vegna þess að Þjóðverjar höfðu þá sökkt sjö bandarískum kaupskipum. Rúmenía, Portúgal, Svartfjallaland, Grikkland, Armenía, Kína og Brasilía börðust einnig með bandamönnum auk nýlendna Breta og Frakka víðsvegar um heiminn. Fjölmörg önnur ríki lýstu yfir stríði á hendur Miðveldunum eða slitu stjórmálasambandi við þau. Fiskvinnsla. Saltfiskverkun við Skúlagötu sumarið 1925. Fiskvinnsla er sá þáttur sjávarútvegs sem snýr að verkun og vinnslu sjávarfangs, afla skipa. Fiskvinnslan framleiðir þá vöru sem unnin er úr hráefninu, fiski. Eyríki. Ríki sem eiga sér yfirráðasvæði á einhverju meginlandi eru ekki talin til eyríkja, jafnvel þó að mesti hluti ríkisins sé á eyjum. Dæmi um slíkt er Danmörk (Jótland er meginland) og Malasía (Malakka er meginland). Sömuleiðis eru eylönd sem ekki eru að fullu sjálfstæð, þó að þau séu með heimastjórn, ekki talin til eyríkja. Dæmi um slíkt eru Færeyjar, Grænland og Gvam. Listi eyríkja heims. Eins og stendur eru eyríki heims 47 að tölu. Það stærsta og fjölmennasta er Indónesía. Það yngsta er Austur-Tímor, en sjálfstæði þess var viðurkennt árið 2002. Kirkja. Kirkja eða guðshús er samkomustaður kristinna manna fyrir trúarlegar athafnir. Orðið kirkja er einnig haft um stofnunina sem slíka og þá oftast með ákveðnum greini: "kirkjan, kirkjunnar menn". "Útkirkja" (annexía) kallast kirkja á jörð án prestseturs. Söfnuðir og kirkjudeildir eru oftar en ekki kenndar við kirkju eins og t.d. rómversk-kaþólska kirkjan og þjóðkirkjan. Utanríkisráðherra. Utanríkisráðherra er sá ráðherra ríkisstjórnar sem fer með utanríkismál, er ábyrgur fyrir því að staðið sé við utanríkisstefnu lands eða ríkis. Utanríkisráðherra sér um samskipti við önnur lönd, önnur ríki. Íslensk stjórnmál. a> haustið 2008 hefur mikið gengið á í íslensku stjórnmálum. Íslensk stjórnmál lúta að almennri opinberri stjórnun Lýðveldisins Íslands, í heild sinni eða í einstökum sveitarfélögum. Á Íslandi ríkir fulltrúalýðræði þar sem ríkisstjórnin lýtur forstöðu forsætisráðherra sem yfirleitt er leiðtogi eins þeirra stjórnmálaflokka sem tekst að mynda meirihluta á Alþingi, sem er löggjafarsamkunda Íslands. Á Íslandi sitja ráðherrar yfirleitt jafnframt á Alþingi. Íslensk stjórnsýsla er rekin á tveimur stigum, ríkisvalds og sveitarstjórna og er kosið til beggja á minnst fjögurra ára fresti. Allir einstaklingar sem náð hafa átján ára aldri hafa kosningarétt. Hefð er fyrir listakosningu bæði til sveitarstjórna og í þingkosningum og um áratuga skeið hafa fjórir til sex stjórnmálaflokkar boðið fram lista til Alþingis og í mörgum stærstu sveitarfélögunum. Hins vegar hafa fjórir flokkar iðulega náð á bilinu 90-100% atkvæða (með einstökum undantekningum) og hefur því íslenskt flokkakerfi verið nefnt fjórflokkakerfið. Forsetinn. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins og staðfestir lög með undirskrift sinni. Hann er kjörinn í þjóðaratkvæðagreiðslu en hefur þó ekki bein völd líkt og á mörgum stöðum þar sem er forsetaræði. Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsetinn talsverð völd, til þess að rjúfa þing og fleira en í stjórnarskránni kemur einnig fram að ráðherra framkvæmir vald forsetans og því er sagt að völd forsetans séu að mestu formleg. Vald forsetans felast hins vegar í því að staðfesti hann ekki lög frá Alþingi með undirskrift sinni þá fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin sem staðfesta eða fella þau. Þrískipt ríkisvald. Skýringarmynd sem sýnir stjórnskipan Íslands. Samkvæmt vestrænni hefð sem á rætur sínar að rekja til frönsku byltingarinnar er ríkisvaldinu skipt í þrennt. Þetta er gert til þess að tryggja það að enginn einn aðili fari með of mikil völd. Löggjafarvaldið. Alþingi er löggjafarsamkunda Íslands og þar sitja nú 63 þingmenn í einni deild undir forsæti þingforseta. Kosið er til Alþingis á fjögurra ára fresti, ef ekki kemur til þingrofs áður en fjögurra ára kjörtímabilinu lýkur. Kosið er samkvæmt hlutfallskosningu í sex kjördæmum en notaðir eru uppbótarþingmenn til þess að jafna út mun á atkvæðavægi eftir búsetu. Framkvæmdavaldið. Þar sem það gerist svo til aldrei að einn flokkur nái meirihluta í Alþingiskosningum er löng hefð fyrir myndum samsteypustjórna á Íslandi. Yfirleitt fer það þannig fram að sá stjórnmálaflokkur sem telst sigurvegari kosninganna tekur við stjórnarmyndunarumboði úr hendi forseta lýðveldisins eftir að sá hefur ráðfært sig við leiðtoga allra flokka. Síðan hefjast stjórnarmyndunarviðræður milli flokkanna þar sem samið er um sameiginlega málefnaskrá. Þetta er ólíkt því sem gerist í ýmsum öðrum löndum þar sem slíkar viðræður fara fram "fyrir" kosningar og kjósendur velja á milli kosningabandalaga fremur en einstakra flokka. Líkt og segir í stjórnarskrá Íslands framkvæma ráðherrar vald forsetans. Þeir skipa sér í ráðuneyti eftir þeirri verkskiptingu sem þykir henta hverju sinni. Breytingar á ráðuneytum eru sjaldan miklar milli kjörtímabila en koma gjarnan á umbrotatímum eins og eftir bankahrunið á Íslandi. Dómsvaldið. Á Íslandi eru tvö dómstig héraðsdómur og hæstiréttur. Hæstaréttardómarar eru skipaðir til lífstíðar af forseta Íslands eftir tillögu dómsmálaráðherra sem áður hefur farið yfir hæfnismat hæstaréttar sjálfs um umsækjendur. Framkvæmdavald eða löggjafarvald mega engin afskipti hafa af störfum dómsvaldsins, en oft hafa risið deilur einmitt út af þeim hætti sem hafður er við skipun hæstaréttardómara. Stjórnmálaflokkar. Íslensk stjórnmál Kristilegi demókrataflokkurinn (Þýskalandi). Kristilegi demókrataflokkurinn er hægri-sinnaður stjórnmálaflokkur í Þýskalandi. Einhverjir frægustu kanslarar Þýskalands úr röðum kristilegra demókrata eru Konrad Adenauer, Helmut Kohl og núverandi kanslari landsins, Angela Merkel. Beijing. Gervihnattarmynd frá NASA af borginni Beijing eða Peking er höfuðborg Alþýðulýðveldisins Kína. Á kínversku, (北京), merkir nafnið „Norður-höfuðborg“. Norður, vestur og suður af Beijing er Hebei-hérað og í suðaustri er sveitarfélagið Tianjin. Beijing er næstfjölmennasta borg landsins, næst á eftir Sjanghæ. Beijing er miðpunktur mennta og menningar auk þess sem stjórnvöld stýra landinu þaðan. Sjanghæ og Hong Kong eru hins vegar meira áberandi hvað varðar efnahagsleg umsvif. Borgin er kunn fyrir ríkulegar hallir, hof og gríðarstóra steinveggi og hlið. Listasöfn borgarinnar og háskólar hennar gera hana að menningarmiðstöð landsins. Nafn. Frá 1928  til 1949, var borgin kölluð "Beiping" (北平), sem þýðir „Norðlægur friður“. Nafninu var breytt þegar Kuomingtang setti á fót höfuðborg í Nanking (南京) („suður-höfuðborg“). Við stofnun Alþýðulýðveldisins Kína endurreisti Kommúnistaflokkur Kína Beijing sem höfuðborg landsins. Kaldara loftslag er í Beijing, heldur en í Aþenu. Saga. Borgir stóðu þar sem nú er Bejing á fyrsta árþúsundi fyrir Krist og höfuðborg Yan-ríkisins (燕), var stofnuð við Ji (T: 薊 / S: 蓟), nærri því hvar Beijing stendur í dag. Á tímum Sui- og Tang-ættanna, voru einungis litlir bæir þar sem Bejing er nú. Fjöldi fornra skálda sótti staðinn heim og syrgði fornar borgir. Árið 936, afsalaði seinni Jin-ættin (936-947) sér stórum hluta Norður-Kína á sitt vald, þar með talinn þann stað þar sem Beijing stendur nú, til Liao-ættarinnar. Árið 938 reisti Liao-ættin borg þar sem nú er Beijing og kallaði hana Nanjing („suður-höfuðborg“). Árið 1125 innlimaði Jinn-ættin Liao, og flutti höfuðborg sína árið 1153 til Beijing en kallaði hana Zhongdu (中都), eða „Mið-höfuðborgina“, suðvestur af miðborg Beijing nútímans. Mongólar brenndu Zhongdu til grunna 1215 og byggðu sína eigin "stór-höfuðborg", Dadu (大都), norður af höfuðborg Jin-ættarinnar árið 1267 og markar það upphaf Beijing. Markó Póló kallaði svæðið „Cambuluc“. Kublai Khan, sem vildi verða keisari Kína, byggði sína borg svo norðarlega fremur en nær miðju landsins svo hún stæði nær þeim stað þar sem veldi hans var mest, í Mongólíu. Enn má sjá leifar af borgarmúr reistum af Mongólum í Beijing. Þriðji Ming-keisarinn Zhu Di (朱棣) flutti höfuðborg Ming-ættarinnar frá Nanjing til Beijing (北京), árið 1403. Meðan Ming-ættin ríkti tók borgin á sig mikinn hluta núverandi myndar. Borgarmúrar Beijing frá Ming-tímabilinu þjónuðu sem borgarmúrar uns þeir voru rifnir og annar hringvegurinn lagður þar sem þeir stóðu áður. Landafræði. Beijing stendur á norðurodda hinnar svo til þríhyrndu Norður-Kína sléttu sem er opin til suðurs og austurs. Fjöllin í norðri skýla borginni og landbúnaðarhéruðum frá eyðimörkinni í norðri. Kínamúrinn, liggur að hluta í gegnum nyrðri hluta borgarinnar, varði borgina frá áhlaupum flækinga úr auðninni. Götur. Chang'an breiðgatan liggur þvert í gegnum miðja borgina frá austri til vesturs fram hjá Tian'anmen. Kínversk stjórnvöld kalla breiðgötuna oft „fyrsta stræti Kína“. Byggingarlist. Í Beijing eru ríkjandi þrír meginstraumar í byggingarlist. Í fyrsta lagi eru þar hús í hefðbundnum stíl kínverska keisaradæmisins. Ef til vill eru bestu dæmin um byggingar í þessum stíl Hlið hins himneska friðar og Forboðna borgin. Í öðru lagi eru byggingar í hinum svonefnda „sínó-sov“-stíl. Þetta eru hús sem reist voru á sjötta, sjöunda og áttunda áratugunum. Að lokum er þó nokkuð um nútímabygginarlist í Beijing. Samgöngur. Segja má að Beijing sé mikilvægasta samgöngumiðstöð landsins. Umhverfis borgina liggja fimm hringvegir. Í borginni er neðanjarðarlestakerfi sem tekið var í notkun árið 1971. Auk þess eru léttlestir ofanjarðar sem þjóna samgöngum innan borgarinnar. Þrjár lestarstöðvar þjóna samgöngum inn og úr borginni auk nokkurra annarra lestarstöðva í útjöðrum borgarinnar; þangað koma mörghundruð lestir á hverjum degi. Um 20 km norðaustur af miðborginni er Alþjóðaflugvöllurinn í Beijing. Hluti flugvallarins var gerður upp fyrir Ólympíuleikana 2008. Á flugvellinum eru þrjár flugstöðvar en þriðja flugstöðvarbyggingin er ein sú stærsta í heimi. Fimm minni flugvellir í námunda við borgina þjóna einkum innanlandsflugi. Ferðamennska. Tian'anmen (hlið hins himneska friðar) er andlegur miðdepill Kína, hvort sem er vegna sjálfs sín eða þeirrar staðreyndar að þar er aðgangurinn að Forboðnu borginni. Þá er og á heimsminjaskrá Badaling, bútur úr Kínamúrnum, Sumar-höllin, og hið himneska hof. Útvarp. Þrjár útvarpstöðvar senda út efni á ensku en það eru: "Hit FM" á FM 88.7, "Easy FM"á FM 91.5, og "Radio 774" á AM 774. Menntun. Í Beijing er mikill fjöldi menntastofnanna, þar á meðal Tsinghua-háskóli og Beijing-háskóli. Að auki eru að minnsta kosti 57 aðrir skólar á háskólastigi í Beijing. Á hverju ári koma margir skiptinemar til borgarinnar frá Japan, Kóreu, Suðaustur-Asíu, Norður-Ameríku, Evrópu og víðar. Íþróttir. Árið 2008 voru Sumarólympíuleikarnir og sumarólympíumót fatlaðra haldin í Beijing. Af því voru byggð mörg ný íþróttamannvirki í borginni. Mörg íþróttalið hafa aðsetur í borginni, svo sem hafnaboltaliðið Beijing-tígurnir, íshokkíliðið Kínahákarlarnir, körfuknattleiksliðið Beijing-endurnar og knattspyrnuliðin Beijing Guoan og Beijing Hongdeng. Maníla. Maníla (Manila) höfuðborg Filippseyja, stendur á stærstu eyju eyjaklasans; Lúson við austanverðan Manílaflóa. Höfuðborgarsvæðið, Stór-Manílasvæðið tekur til 17 borga og sveitarfélaga og þar búa rúmlega 11 milljónir manns. Maníla ein og sér hefur 1,5 milljón íbúa og er næst fjölmennesta einstaka borg landsins næst á eftir Quezon borg fyrrum höfuðborg landsins sem telst og til stór Manílasvæðisins. Á 16. öld óx Maníla frá því að vera fámennar búðir múslima á bökkum Pasig árinnar í aðsetur spænska nýlenduveldisins. Þónokkur hluti borgarinnar eyðilagðist í seinni heimsstyrjöldinni. Þéttbýli. Í borgini búa 1.581.082 manns á 38,55 km², því er Maníla þéttbýlasta borg heims með 41.014 íbúa/km² (sjöttahverfið er þéttbýlast en þar búa 68.266 en svo eru fyrstu tvö hverfin (Tondo) með 64.936 og 64.710 íbúa á km², respectively, en hverfi 5 er strjálbýlast með 19.235 íbúa/km²). Dagsdaglega bætist önnur milljón við þegar námsmenn sækja skóla og starfandi fólk mætir til vinnu. Tungumál. Opinbert tungumál er filipínska, sem byggir á tagalog. Þar við bætist að enskunnátta er nokkuð almenn, að auki má geta þess að brot af fyrirfólki Filippseyja talar spænsku vegna nýlenduáhrifa. Menntun. "Háskólabeltið" hýsir flesta þá háskóla sem eru á stór Manílasvæðinu, til þess teljast m.a. Háskóli Filippseyja - Maníla, De La Salle Háskólinn og Háskóli heilags Tómasar. Búkarest. Búkarest (rúmenska: "București") er höfuðborg Rúmeníu. Íbúar borgarinnar eru um tvær milljónir talsins. Bæjarstjóri. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri bæjarfélags, annast hann daglegan rekstur þess í umboði bæjarstjórnar. Skáldsaga. Titilsíða skáldsagnasafns frá 1722 þar sem orðið "novel" er notað. Skáldsaga er saga sem ekki er sönn, heldur samin, spunnin upp, tilbúningur höfundar hennar. Dæmi um skáldsögu eru: Sjálfstætt fólk, Gangandi íkorni og Da Vinci lykillinn. Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen eldri er fyrsta íslenska skáldsagan gefin út á Íslandi en hún kom út 1850. Prótín. Prótín (eða prótein, af gríska orðinu "proteios" er merkir "„mikilvægur“"), einnig nefnt eggjahvíta eða einfaldlega hvíta, er lífrænt efnasamband með háan mólmassa, sem samanstendur af fjölda amínósýra, sem tengjast með peptíðtengjum. Prótín eru nauðsynleg fyrir vöxt og viðgang allra lifandi frumna og veira. Starf. Mörg prótín eru ensím, ellegar undireiningar prótína, sem hvetja efnahvörf. Önnur prótín gegna hlutverki í byggingu eða virkni, þá eru sum prótín mótefni, önnur geyma og flytja mismunandi tengla. Prótín í fæðu brotna upp við meltingu, sem hefst í maga. Þar eru prótínin leyst upp í prótasa og fjölpeptíð til að útvega lífverunni amínósýrur. Pepsínógen verður að ensíminu pepsín í tengslum við saltsýru magans. Pepsín sér um að melta kollagen, helsta prótín bandvefs. Kóðunarferli gena ákvarðar röð amínósýra nánast allra náttúrulega prótína. Oft er þeim prótínum sem myndast breytt, svo þau verði virk. Algengt er að prótín starfi saman til ná ákveðinni virkni. Samsetning. Prótín eru byggð úr 20 mismunandi L-alfa-amínósýrum í genum. Genin rita RNA sem er breytt í mRNA sem er síðar þýtt í tRNA af ríbósómi. Myndun viðkomandi peptíðtengis milli amínósýra, sem mynda prótín er hvatt áfram af amínóacýl tRNA. Endar amínósýrukeðjunar eru kallaðir karboxýlendi annars vegar og amínóendi hinsvegar. Bygging. Prótín falla saman í einstakt þrívítt form. Prótín eru fjölliður, þar sem amínósýrur eru einingarnar. Prótín eru greind eftir byggingu þeirra í fjóra flokka. Hlutverk. Megin næringarefnaflokkarnir þrír eru kolvetni, fita og prótein. Prótein í fæðu brotnar niður í amínósýrur í meltingarfærunum og geta þær nýst líkamanum ýmist sem byggingarefni eða orka fyrir frumurnar. Prótein eru byggingarefni líkamans, frumuhimnan er gerð úr próteinum og fitum. Hár, neglur og vöðvar eru gerð úr próteinum. í frumuhimnunni eru jónadælur og jónagöng sem dæla efnum inn og út úr frumunni til þess að halda jafnvægi á frumunni Prótein flytja efni um líkamann t.d blóðrauðu Myndast í einu líffæri og hefur áhrif á önnur efni sem sest á bakteríur og óvirkjar þær Sumar frumur hafa hreyfifæri eins og svipur eða bifhár, sæðisfrumur eru með svipur Ensím er efni sem hraðar efnahvörfum, þau breytast ekki við efnahvarf heldur nýtast aftur og aftur. "Heimild: Líffræði kjarni fyrir framhaldsskóla. Höf: Örnólfur Thorlacius" Saga. Rannsóknir á prótínum hafa staðið yfir sleitulaust frá upphafi 19. aldar, þegar vísindamenn urðu fyrst varir við þennan áður óþekkta flokk lífrænna efnasambanda. Grísk goðafræði. Grísk goðafræði fjallar um þá trú er Forn-Grikkir höfðu og var stór þáttur í andlegu lífi þeirra á fornum tíma. Grikkir áttu fjöldann allan af guðum og gyðjum sem þeir tilbáðu og sögðu margar sögur af. Hið alþjóðlega orð yfir goðsögu, "myþa", er af grískum uppruna en það sama má segja um alþjóðlega heitið á goðafræði, "myþologia". Goðafræðin fjallar um sköpun heims og manna, útskýringar á náttúrufyrirbærum, hvað verður um menn eftir dauðann og hvers vegna lífið er eins og það er. Grísk goðafræði hjálpar okkur að skilja hugsunarhátt Forn-Grikkja og sóttu skáld, málarar og myndhöggvarar innblástur í fræðin, sérstaklega á 15. og 16. öld. Ýmsar heimildir eru til um goðafræði hins forna tíma og teljast sum rit mikilvægari heimildir en önnur. Hómerskviður frá 8. öld f.Kr. geyma t.a.m. fjölmargar sögur af guðunum. Einnig notuðu ýmis fræg ljóðskáld efni úr goðsögum í miklum mæli, t.d. til að hylla sigurvegara á Ólympíuleikum. Þess má einnig geta að Rómverjar tóku guðaheim Grikkja nær óbreyttan inn í trú sína. Upphaf heimsins og manna. Samkvæmt grískum goðsögnum var í upphafi gapandi tóm, sem nefndist "Kaos"... Upp úr því tómi spruttu m.a. "Gaia", móðir jörð og "Tartaros" hinn myrki undirheimur. Gaia gat af sér "Úranos", himininn, og áttu þau síðan ýmis afkvæmi, heldur tröllsleg, fyrst svonefnda "kýklópa", sem höfðu eitt auga á enni, og síðan tólf "títana". Þegar kýklóparnir uxu úr grasi, ógnuðu þeir veldi föður síns, en þá steypti Úranos þeim niður til undirheima. Þetta líkaði Gaiu illa og hvatti hún títana til uppreisnar gegn Úranosi. Tók yngsti þeirra, "Krónos", þeirri áeggjan, steypti Úranosi föður sínum í undirheima og gerðist nýr drottnari heimsins. Úranos hafði þó spáð því fyrir Krónosi að hann yrði einnig að víkja fyrir syni sínum. Krónos greip þá til þeirra varúðarráðstafanna að gleypa börn sín, sem hann átti með systur sinni, "Rheu", um leið og þau fæddust. Þegar Rhea hafði horft á eftir fimm börnum ofan í gin bónda síns, ákvað hún að bjarga sjötta barni sínu, "Seifi". Vafði hún steini í reifar og ginnti Krónost til að gleypa hann en kom Seifi í skjól til Krítar þar sem hann ólst upp hjá dísum. Fullvaxta, sneri Seifur aftur til heimkynna sinna og fékk föður sinn til að gleypa uppsölumeðal. Spjó þá Krónos fyrst steininum sem þeyttist alla leið til Delfí og settist í sprunguna sem talin var vera miðja heimsins en næst komu systkini Seifs upp eitt af öðru; Hades, Póseidon, Demeter, Hestía og Hera. Undir forystu Seifs hófu systkinin uppreisn gegn Krónosi og hinum títununum. Seifur leysti kýklópana úr undirheimum sem færðu honum og bræðrum hans gjafir í þakklætisskyni. Seifur fékk þrumur og eldingar, Póseidon þrífork og Hades huliðshjálm. Eftir harða orustu sigruðu systkinin og var títununum steypt niður í undirheima þar sem kýklóparnir gættu þeirra. Einstaka títan slapp, t.a.m "Ókeanos" hinn mikli útsær sem umflýtur jörðina og hinn öflugi "Atlas" sem heldur uppi himinhvelfingunni. Eftir stríðið sættust þeir bræður á að skipta veröldinni á milli sín; Seifur fékk himininn, Póseidón hafið og Hades undirheima. Upphaf mannkyns. Til eru margar sögur af upphafi mannanna en ein þeirra er frægust. Þar segir frá títanssyninum "Prómeþeifi" sem var allra goðmagna kænastur og mjög handlaginn. Prómeþeifur hafði staðið með Seifi í orustunni miklu og fékk að launum að dvelja á jörðinni. Í leiðindum sínum datt honum í hug að búa til verur úr leir sem líktust guðunum og tókst það eftir nokkrar tilraunir og gaf gyðjan Aþena þeim lífsanda. Seifi þótti lítið til þessara fyrstu mannvera koma, en fyrstu mennirnir áttu erfitt með að verjast náttúruöflunum í köldum og dimmum hellum jarðarinnar. Prómeþeifi þótti svo vænt um þetta sköpunarverk sitt að hann stal eldneista frá Seifi og gaf mönnunum. Seifur varð ævareiður út í Prómeþeif og ákvað að hefna sína á honum og mönnunum. Hann lét smíðaguðinn Hefaistos gera fallega stúlku úr mold og vatni og gáfu allir guðirnir henni gjafir. Hagleiksgyðjan Aþena kenndi henni vefnað og aðrar kvenlegar íþróttir, ástargyðjan Afródíta veitti henni ómótstæðilegan þokka og mælskuguðinn Hermes gaf henni tungulipurð. Hlaut stúlkan nafnið Pandóra (algjöf) og var síðan send til jarðarinnar. Prómeþeifur var að heiman en hafði varað bróður sinn "Epimþeif" (hinn eftirhyggjusami) við að veita viðtöku nokkru sem kæmi frá guðunum. Epimþeifur lofaði öllu fögru um það en gleymdi hann öllu um loforð sitt þegar hann sá hina fögru Pandóru og gekk að eiga hana. Pandóra hafði með sér kerald frá Seifi sem ekki mátti opna. Af forvitni opnaði hún það þó og flugu úr því allskyns sóttir og mein sem hafa hrjáð mennina síðan. Seifi tókst hinsvegar að klófesta Prómeþeif og batt hann við klett austur í Kákasus. Þar reyndi Seifur að fá Prómeþeif til að afneita mönnunum en það vildi hann ekki og þurfti því að líða þjáningar daglega, en örn kom og kroppaði í lifrina á honum sem óx aftur á nóttinni, svo að leikurinn gat endurtekið sig næsta dag. Um síðir kom hetjan Herakles á sáttum með þeim Seifi og Prómeþeifi. Heimsmyndin. Goðafræðin myndaðist snemma á öldum og endurspeglaði því takmarkaða þekkingu manna á umheiminum. Samkvæmt goðafræðinni var jörðin talin kringla sem flaut á sjónum, en umlukin jarðarstraumnum "Ókeanosi" á alla vegu. Vesturmörk jarðar voru Gíbraltarsund og lengst í austri var Kákasus en Delfí var talin miðja alheimsins. Yfir jörðinni var hvolfþak himinsins, "Úranosar", en Atlas hélt himninum uppi og um hvolfið ferðuðust hinir ýmsu himinhnettir, þ.á.m. sól og máni. Undir jarðkringlunni voru svo undirheimar eða Hadesarheimar. Ýmsir trúðu því að hinn illi staður Tartaros væri sérstakt svæði innan Hadesarheima, neðst í þeim. Svo mikil fjarlægð átti að vera frá himni til jarðar að það tæki eirsteðja níu daga að falla þaðan. Ólympus. Helstu guðir Grikkja voru Ólympsguðir, en þeir bjuggu á Ólympusfjalli sem lá nyrst í Grikklandi, á mörkum Þessalíu og Makedóníu. Fjallið er 3000 metra hátt og var ókleift á fornum tíma. Oft eru tindar fjallsins huldir þoku svo ekki er hægt að sjá að þar er alltaf snjór. Þessa tinda töldu Grikkir ná til himins og að þar byggju helstu guðirnir, Seifur og hirð hans. Ólympsguðir. Venjulega eru Ólympsguðirnir taldi vera tólf og í hópi þeirra eru fjögur þeirra sex systkina sem tóku völdin af títönunum við upphaf heimsins. Þau voru Seifur, Hera, Póseidon og Demeter. Hestía, gyðja arins og heimilis, þótti ekki nógu merkileg til að falla í þennan hóp, því Grikkir voru litlir heimilismenn, og Hades hélt sig í undirheimum og kom aldrei upp á Ólympsfjall. Við systkinin fjögur bættust átta guðir sem eru yfirleitt talin börn Seifs með hinum ýmsu konum. Aðeins tveir af yngri kynslóð guðanna töldust synir Seifs og Heru, en það voru Ares og Hefaistos en hin voru þau Aþena, Apollon, Artemis, Afródíta, Hermes og Díonýsos. Póseidón dvaldist hins vegar oftast í höll sinni á sjávarbotni, Artemis og Díonýsos héldu til í fjöllum og skógum og Hermes var stöðugt í sendiferðum. Sérhver guð átti sitt verksvið og sín einkenni, þó að oft hafi starfssviðið verið fjölbreytt og einkennistáknin mörg. Seifur. Hinn síðskeggjaði og mikilúðugi Seifur var æðstur Ólympsguðanna. Himininn var hans yfirráðasvæði og var hann talinn veðraguð en hann gat safnað skýjum og sent regn og snjó, eða hent eldingum til jarðar. Seifur var æðsti vörður laga og reglna meðal manna. Hann var talinn verndari ættatengsla, vináttubanda og borgríkjasamfélagsins. Seifur varð óskaplegur á að líta þegar hann reiddist og refsaði af mikilli hörku. Réttlætisgyðjan "Dike" var helsta fylgigoð Seifs og var hann hels dýrkaður í Ólympíu. Seifur átti nokkur einkennistákn en þau algengustu voru "eldingin";"Ægisskjöldur" sem gerður var úr geitarskinni og hrukku af honum eldingar þegar hann var hristur; og "örninn", konungur fuglanna. Margir helstu kappar grískrar goðafræði taldir synir hins mikla guðs, svo sem Herakles, Perseifur og Mínos. Seifur heimsótti ástkonur sínar í hinum ýmsu gervum, t.d. birtist hann Ledu í svanslíki, Evrópu sem naut og Danáu sem gullregn. Hera. Hera var eiginkona Seifs og því drottning himnanna. Grikkir hugsuðu sér hana sem virðulega og þokkafulla konu, mikileyga og fagurlokkaða. Hera var verndargyðja hjónabandsins en hefur einnig verið ákölluð sem fæðingargyðja. Heru líkaði ekki sérstaklega vel við ástarbrölt bónda síns og átti til að ofsækja ástmeyjar hans og hin óskilgetnu börn hans. Helsta einkenni Heru var páfuglinn. Í fyrstu fegurðarsamkeppninni tapaði Hera fyrir fegurðargyðjunni Afródítu. Studdi hún Grikki ákaft í stríðinu gegn Trójumönnum. Helstu afkomendur hennar eru Ares, Eris, Hefaistos og Hepa. Jöns Jakob Berzelius. Jöns Jakob Berzelius (20. ágúst 1779 - 7. ágúst 1848) sænskur efnafræðingur uppgötvaði prótín árið 1838. Hann er ásamt John Dalton og Antoine Lavoisier talinn faðir efnafræði samtíðarinnar. Hann fæddist í Linköping í Austur-Gotlandi og lærði læknisfræði í Uppsalaháskóla. Árið 1802 hóf hann kennslu og fimm árum síðar var hann tilnefndur prófessor í læknisfræði í Stokkhólmi við skurðlækningaskóla, sem varð hluti af Medico-Chirurgisku stofnuninni árið 1810, sem seinna varð Karolinska stofnunin, en þar varð Jöns Jakob prófessor í efna og lyfjafræði. Hann sýndi fram á að ólífræn efnasambönd væru samsett úr ólíkum frumefnum í ákveðnum hlutföllum út frá þyngd. Því útbjó hann töflu þar sem frumefnum var raðað út frá þyngd, súrefni gaf hann massann 100. Hann afsannaði kenningu Prouts sem sagði að öll efni væru úr vetni. Hann merkti ýmis efni með bókstöfum t.a.m. súrefni merkti hann O og járn Fe. Hlutföll frumefna í efnasamböndum merkti hann með tölum, svipað og tíðkast í dag, en þær ritaði hann fyrir ofan en ekki neðan tákn frumefnanna. Nemendur hans uppgvötuðu liþíum, og vanadíum. Ævisaga. J. Erik Jorpes gaf út ævisögu Jöns Jakobs á sænsku 1949. Flugfélag. Flugfélag er fyrirtæki sem stendur í flugrekstri, hvort sem það er í farþegaflugi eða vöruflutningum. Fyrsta flugfélagið var "Deutsche Luftschifffahrts-Aktiengesellschaft" sem var stofnað árið 1909. Hákarl. Hákarl (latína:"Somniosus microcephalus") er grannvaxinn, sívalur, brjóskfiskur með góða heyrn. Hákarl hefur hvassar tennur í skoltum sínum í víðum kjafti. Augu og tálknaop hákarls eru smá. Algeng lengd hákarls er 2-5 metrar. Hákarlar lifa á blönduðu fæði. Hákarl gýtur ungviði sínu sem er u.þ.b. 40 cm. við got. Nýting. Um hákarl má lesa m.a. í Snorra Eddu, Grágás og Jónsbók, þ.e. hákarlsreka, og um verkaðan hákarl er skrifað í skrá yfir eignir Hóladómkirkju frá 1374. Var hákarl veiddur með Lagnvaði, keflvaði og venjulegum vað og svo hákarlalínu. Hákarlaveiði var aukageta við þorskveiðar og þótti nokkur búhnykkur af hákarli, en hákarlaveiðar voru upphaflega að mestu leiti stundaðar á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. 1865-1875 var rúmur helmingur alls hákarlslýsis fluttur út frá Norður og Austuramti. Eftir aldamótin 1900 dró verulega úr hákarlaveiðum og lögðust nærri af um 1930, því mjög dró úr eftirspurn eftir hákalslýsi. Enn er þó sá hákarl sem veiðist kæstur. Framleiðsla hákarlalýsis til manneldis hefur farið vaxandi að undanförnu. Víða eru aðrar tegundir hákarla veiddar til gerðar hákarlauggasúpu. Magaskrúð hákarlsins. Hákarlinn er mjög gráðugur. Árni Friðriksson, segir frá því "Margt býr í sjónum", að í einum einasta hákarli sem veiddist einu sinni við norðurströnd Íslands, fannst hvorki meira né minna en 14 þorskar og heill selur á stærð við fullorðið naut. Hvað sem líður öllum ýkjum, þá er hákarlinn mjög þekktur fyrir græðgi sína. Hákarlar við Íslandsstrendur hafa t.d. verið staðnir að því að gleypa kóralla, kolkrabba, sæbjúgu, sæsólir, fugla og auk þess hrútshaus, hreindýrshaus, mannslík, kettlinga og hvolpa, eða með öðrum orðum allt, sem á festir og náð verður til, hvort sem það eru dýr sjávarins, eða lík og leifar landdýra, sem í sjónum lenda. Gælunöfn og feluorð. Hákarl hefur verið nefndur ýmsum nöfnum á íslensku, bæði gælunöfnum og feluorðum. Meðal þeirra eru: "axskeri, blágot, blápískur, brettingur, deli, got, grágot, gráni, hafkerling, háskerðingur, hvolpur, raddali, rauðgot, skauli, skerill, skufsi". Hákarl hefur einnig gengið undir nöfnum eins og: "bauni, háki, háksi, láki" og "sá grái". Einnig fóru nafngiftir hákarls eftir stærð hans og útliti. "Deli" var haft um stutta digra hákarla, "dusi" um stóran hákarl, "gotungur" um feitan hákarl, "lopi" um miðlungsstóran, "níðingur" um hákarl sem var styttri en fimm álnir, "hundur", "raddali, skauli" og "snókur" um lítinn hákarl og "ælingi" var haft um hákarl sem var á mörkum þess að vera talinn hirðandi Krulla. Fjögur krullusvell hlið við hlið Krulla (eða svellkatlaspil) er íþrótt sem leikin er á svelli. Tæplega 20 kílóa granítsteini er rennt eftir svellinu með það að markmiði að koma honum sem næst miðju marksins sem er á hinum enda svellisins. Tvö fjögurra manna lið keppa við hvort annað með að ná sem flestum steinum í miðju marksins. Reglur. Leikurinn skiptist í lotur, liðin skiptast á að byrja loturnar, hver leikmaður kastar tvisvar sinnum og því eru samtals átta steinar sem hvort lið kastar. Það lið sem á flesta steina við miðju marksins vinnur lotuna, hitt liðið fær þá ekki stig. Leikvöllur. Leikvöllurinn er spegilslétt svell sem er 45,5 metra langt og 4,75 metra breitt. Cascading Style Sheets. Cascading Style Sheets ("CSS") eru sérstök snið sem notuð eru til að skilgreina umbrot og útlit stiklutexta á borð við SGML og XHTML sem hafa líkan rithátt og JSON. Stílsnið henta vel til að greina á milli innihalds og útlits þar sem innihaldi XML-skjals eru gerð útlitstengd skil. Aðskilnaður innihalds og útlits HTML var boðaður af W3C með XHTML-staðlinum. Munur á gömlu HTML og XHTML/HTML og CSS. Til að tengja skjölin tvö saman þarf að vísa í CSS skjalið innan codice_1 hluta (X)HTML skjalsins. Einnig er hægt að hafa stílreglurnar í codice_1 hluta HTML skjals, innan í codice_3 marki. . Það er yfir 16m langt og um 5m breitt með yfir 20 tonna lestarrými. Knörr var einmastra, rásiglt seglskip sem notað var til úthafssiglinga og vöruflutninga í Norður-Evrópu á víkingaöld. Knerrir voru með háan súðbyrðing og kjöl, eitt mastur miðskips með ferhyrndu rásegli og hliðarstýri. Gerð knarrarins var svipuð gerð langskipa, en þar sem þeir voru hærri og þyngri var þeim ekki róið. Knerrir voru með þilfar að framan og aftan og stórt geymslurými miðskips. Knörrinn lék lykilhlutverk í landkönnun og landnámi norrænna manna á Norður-Atlantshafi á miðöldum og leiddi til þróunar kuggsins. Neskaupstaður. Neskaupstaður (eignarfall „Neskaupstaðar“) er um 1500 manna bær við Norðfjörð á Austfjörðum og sá fjölmennasti í sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Bærinn var gerður að sérstökum hreppi, "Neshreppi", árið 1913 en hafði fram að því heyrt undir Norðfjarðarhrepp. Neshreppur fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1929 og hét eftir það "Neskaupstaður". Norðfjarðarhreppur sameinaðist Neskaupstað á ný 11. júní 1994, að þessu sinni undir merkjum Neskaupstaðar. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Neskaupstaður Eskifjarðarkaupstað og Reyðarfjarðarhreppi undir nafninu "Fjarðabyggð" Bæjarstæðið er merkilegt fyrir þær sakir að vera mjög langt, þar eð bærinn liggur meðfram sjónum og nær um það bil 100 metra upp í hlíðina fyrir ofan á 6 km löngum kafla. Í bænum er íþróttafélagið Þróttur sem hefur náð hvað bestum árangri í blaki. Fjarðabyggð er með sameiginlegt lið í 1. deild karla í knattspyrnu. Þar er einnig golfklúbburinn GN (Golfklúbbur Norðfjarðar). Klúbburinn starfrækir 9 holu golfvöll, Grænanesvöll. Völlurinn er á Grænanesbökkum við Norðfjarðará. Árskógsströnd. Árskógsströnd er strandlengja og byggðarlag við vestanverðan Eyjafjörð sem nefnt er eftir býlinu Stærra-Árskógi. Þar er kirkja sveitarinnar. Á ströndinni sem liggur á milli eyðibýlisins Hillna í suðri og og nær að Hámundastaðahálsi í norðri eru tvö sjávarþorp: Litli-Árskógssandur (þaðan sem ferja siglir til Hríseyjar) og Hauganes. Árskógsströnd var sjálfstæður hreppur, Árskógshreppur, á milli 1911 og 1998 þegar hún sameinaðist Dalvíkurbyggð. Upp af Árskógsströnd skerst Þorvaldsdalur inn á milli fjallanna. Áður voru nokkrir bæir í dalnum. Þorvaldsá kemur úr Þorvaldsdal og fellur til sjávar milli Litla-Árskógssands og Hauganess. Hitaveita Dalvíkur fær mest af vatni sínu úr borholum við Birnustaðaborgir upp af Hauganesi. Á Árskógsströnd hvílir Hrærekur konungur, einn konunga í íslenskri mold, utan og ofan við Kálfskinnsbæina. Hrærekshóll er nú friðaður. Um hann kvað Davíð Stefánsson þjóðskáldið frá Fagraskógi, eitt af sínum kunnu ljóðum. Í Kálfskinni bjó líka Þorkatla sú hin illræmda, sem sveitungar hennar treystust ekki til að ráða af dögum en fengu til þess utansveitarmenn. Hún var dysjuð við hól þann, sem enn ber hennar nafn og heitir Kötluhóll, norðan í Kötlufjalli. í Landnámu segir að Helgi magri sá er fyrstur nam land við Eyjafjörð, hafi komið að landi innan við Svarfaðardal en utan við Hrísey. Þar er víðast klungur við sjó og á sumum stöðum klettar en skárra þó er innar dregur með firðinum allt að Reitsvík. Talið er að Helgi hafi haft vetursetu á þessum slóðum, líklega í Hámundarstaðalandi. Um vorið gekk hann upp á Sólarfjöll og sýndist búsældarlegra sunnar með firðinum, flutti sig og byggði bæ og nefndi Kristnes. Mús. Mús er heiti á ýmsum tegundum lítilla nagdýra af músaætt. Þekktasta músategundin er húsamús ("Mus musculus") sem býr í sambýli við menn um allan heim. Mýs eru yfirleitt taldar meindýr, þótt þær séu einnig vinsæl gæludýr og mikið notaðar sem tilraunadýr við vísindarannsóknir. Nagdýr. Nagdýr eru fjölmennasti ættbálkur spendýra með um 2000 til 3000 tegundir. Kanínur og hérar eru stundum talin til nagdýra en eru í raun af öðrum ættbálki. Flest nagdýr eru smá, en ein tegund, flóðsvínið, verður 45 kíló að þyngd. Það sem einkennir nagdýr eru stórar framtennur í efri og neðri góm sem vaxa stöðugt svo dýrið verður að halda þeim við með því að naga stöðugt. Galmaströnd. Galmaströnd er strandlengja sem liggur nær miðjum Eyjafirði að vestanverðu. Hún er nú er talin ná frá Hörgárósum í suðri að eyðibýlinu Hillum í norðri. Galmaströnd er kennd við Galma landnámsmann sem nam land í vestarverðum Eyjafirði á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár, og því er ströndin kennd við hann að því er segir í Landnámabók. Á ströndinni er sjávarþorpið Hjalteyri og aðeins þar fyrir sunnan Dysnes sem var á sínum tíma í umræðunni sem mögulegur staður fyrir stóriðju. Galmaströnd hefur einnig verið nefnd „Galmansströnd“ „Gálmaströnd“ eða „Galmarsströnd“. Galmaströnd er í Hörgársveit (áður Arnarneshreppi). Þar hefur lengi verið þéttbýlt, enda ströndin grasgefin og gjöfull sjór á aðra hlið en há fjöll á hina með góða afrétt. Orrustuskip. Orrustuskipið "USS Iowa" skýtur úr fallbyssum á stjórnborða. Orrustuskip er öflugt herskip þar sem fara saman öflugar fallbyssur og þung brynvörn. Þau voru oftast nær notuð sem flaggskip og mikilvægustu skip flestra flotaeininga í seinni heimsstyrjöld, en urðu fljótelga úrelt eftir tilkomu flugskeyta og eru ekki lengur notuð í sjóherjum. Orrustuskip hafa í gegnum tíðina verið flokkuð eftir tímabili. Til einföldunar er yfirleitt miðað við orrustuskip frá því fyrir tíma vélvæðingar, gufuknúin orrustuskip og síðast 20. aldar orrustuskip. Straumey. Straumey (færeyska: "Streymoy") er stærsta eyja Færeyja og er 372 km² að stærð. Á henni er höfuðborgin Þórshöfn. Á Straumey búa um það bil 22.000 manns, flestir í Þórshöfn. Byggðir. Argir, Haldarsvík, Hoyvík, Hósvík, Hvalvík, Hvítanes, Kaldbak, Kirkjubøur, Kollafjørður, Kvívík, Langasandur, Leynar, Norðradalur, Saksun, Signabøur, Skælingur, Stykkið, Streymnes, Syðradalur, Tjørnuvík, Tórshavn, Velbastaður, Vestmanna. Upsaströnd. Upsaströnd eða Ufsaströnd er strandlengja í vestanverðum Eyjafirði á milli Brimnesár við Dalvík í suðri og Ólafsfjarðarmúla í norðri. Ströndin er kennd við kirkjustaðinn Upsir við Brimnesá. Allmargir bæir voru á Upsaströnd frá fornu fari og má þar nefna Hól, Karlsá og Sauðanes. Dalvík er að hluta til á Upsaströnd. Þjóðvegurinn til Ólafsfjarðar liggur um ströndina. Briggskip. Briggskip er tvímastra seglskip með rásegl á báðum möstrum, auk stagsegla og hugsanlega gaffalsegls á aftara mastrinu. Þessi tegund skipa var smíðuð um miðja 19. öld. Nafnið er úr ensku og er dregið af nafni annarrar tegundar seglskipa; brigantínu. Látraströnd. Séð frá Dalvík yfir Eyjafjörð til Látrastrandar. Látraströnd er strandlengjan austan við utanverðan Eyjafjörð og nær frá Grenivík í suðri og norður á Gjögurtá. Ströndin dregur nafn sitt af eyðibýlinu Látrum, sem fór í eyði 1942 og voru yst á ströndinni. Á Látraströnd voru allnokkrir bæir en nú er ströndin óbyggð fyrir utan Finnastaði, rétt norðan Grenivíkur. Yfir ströndinni gnæfa fjöllin Kaldbakur, Skersgnípa og Einbúi. Á Látraströnd er lítið undirlendi og hvergi nema mjó ræma. Þar er snjóþungt og snjóa leysir seint á vorin. Vetrarbeit var því lítil vegna snjóþyngsla þótt þarna sé gott sauðland á sumrin og heyskapur var erfiður svo að bændur á ströndinni reiddu sig mjög á sjósókn. Snjóflóðahætta er víða á ströndinni og meðal annars eyddust tveir bæir þar í snjóflóði 1772. Bæirnir á utanverðri ströndinni fóru allir í eyði fyrir miðja 20. öld og þar eru hvergi hús uppistandandi en tóftir og rústir sjást víða og skáli ferðafélagsins Fjörðungs er á Látrum. Vegarslóði liggur frá Grenivík út ströndina að Grímsnesi, um 7 kílómetrum fyrir sunnan Látra. Látraströnd tilheyrir Grýtubakkahreppi og var áður í Þingeyjarsýslu en er nú í Eyjafjarðarsýslu. Kulturformidlingen Norrøne Tekster og Kvad. Kulturformidlingen norrøne tekster og kvad er norskt sjálfseignarfyrirtæki i eigu íslendingsins Jon Julius Sandal. Tilgangur fyrtækisins er m. a. að miðla norrænum fornbókmenntum á veraldarvefnum gegnum samstarfsverkefnið "norrøne tekster og kvad". Verkefnið geymir að mestu heimildir á stafréttri norrænu en að auki ýmsar þýðingar á nútíma norðurlandamálum og aðrar heimildir og ýtarefni. Meðal efnis eru m. a. Eddukvæði, Snorra-Edda, Dróttkvæði, Fornaldarsögur Norðurlanda, Konungasögur og Íslendingasögur. Grunnur að verkefninu var lagður 1997 en verkefnið "norrøne tekster og kvad" opnaði fyrir almenning á slóðinni 1. ágúst 2005. Kulturformidlingen norrøne tekster og kvad er skráð sem sjálfseignarfyrirtæki í. Þórshöfn (Færeyjum). Á Þingnesi í miðri höfninni er aðsetur heimastjórnarinnar Þórshöfn (færeyska: Tórshavn, í daglegu tali stytt í Havn) er höfuðstaður Færeyja og langfjölmennasti bær landsins. Þann 1. janúar 2011 voru íbúarnir 12.333 en auk þess eru tveir af stærstu bæjum Færeyja, Hoyvík (3635 íbúar) Argir (2043 íbúar) samvaxnir Þórshöfn og í sveitarfélaginu eru alls um 20.000 íbúar. Þórshöfn er á austurströnd Straumeyjar (færeyska: "Streymoy"), stærstu eyjar Færeyja, með útsýni yfir til Nólseyjar (færeyska: "Nólsoy"). Bærinn liggur í skjóli af Nólsey og var því einn besta höfn í Færeyjum, auk þess sem hún er mjög miðsvæðis og nýtur góðs að því. Norðvestan við bæinn er fjallið Húsareyn (347 m) og í suðvestri er Kirkjubøreyn (351 m.) en handan þess er Kirkjubær. Umhverfi Þórshafnar er með láglendari svæðum á eyjunum. Þórshöfn á fyrri öldum. Þórshöfn hefur hlotið nafn sitt áður en Færeyingar tóku kristni um árið 1000. Víkin sem bærinn stendur við skiptist í Eystaravág og Vestaravág og er Þinganes á milli þeirra. Þar var þing Færeyinga háð til forna að sumarlagi og nú er aðsetur færeysku landstjórnarinnar þar. Nær engar heimildir eru til um fyrstu 600 árin í sögu Þórshafnar en þó er ljóst að þar var aldrei hefðbundið færeyskt þorp, Þórshöfn var alltaf verslunar- og valdamiðstöð. Hún varð miðstöð norsku konungsverslunarinnar árið 1271. Samkvæmt fornbréfi frá því ári skyldu tvö skip sigla árlega frá Björgvin til Þórshafnar með salt, timbur og korn. Embættismenn settust þar að og Þórshöfn þróðist því á annan hátt en aðrar færeyskar byggðir. Enskir og þýskir sjóræningjar gerðu oft strandhögg í Færeyjum á 16. öld og því var gripið til varna. Magnús Heinason barðist við sjóræningja og reisti um 1580 lítið virki við Þórshöfn, Skansinn, og varð þjóðhetja fyrir vikið. Þá bjuggu í Þórshöfn um 100 manns. Tæpri öld síðar fékk Christoffer Gabel Færeyjar að léni og bjó um sig í Þórshöfn og er Gablatíðin svonefnda, sem stóð frá 1655-1709 almennt álitin mesti niðurlægingartími Þórshafnar og raunar Færeyja allra. Gabelættin og fylgifiskar hennar fóru illa með eyjarskeggja, skattpíndu þá og okruðu á þeim. Margt er þó óljóst um þetta tímabil því mikið af skjölum brann þegar flest hús á Þinganesi brunnu þegar púðurgeymsla sprakk árið 1673. Þórshöfn sem höfuðstaður. Ástandið í verslunarmálum batnaði þegar konungur yfirtók einokunarverslunina árið 1708 en ári síðar dóu 250 af 300 íbúum Þórshafnar í bólusóttarfaraldri. En á síðari hluta 18. aldar fór Þórshöfn að breytast í smábæ undir stjórn Niels Ryberg, sem þá stýrði einokunarversluninni. Árið 1856 var einokuninni svo loksins aflétt og urðu þá miklar breytingar á bæjarlífinu. Þórshöfn varð kaupstaður og um leið höfuðstaður Færeyja árið 1866. Þá voru íbúarnir orðnir um eitt þúsund. Árið 1900 voru þeir 1.656, 1950 5.607, árið 1975 11.329 og árið 1990 13.124 en fækkaði á næstu árum vegna kreppunnar og eru nú rúmlega 12.000. Ný höfn var gerð árið 1929 og gátu þá stór skip lagst að bryggju í Þórshöfn. Nú er bærinn miðstöð nútímalífs Færeyinga, þar er aðsetur landsstjórnar og helstu menntastofnanna og flest stærri fyrirtæki starfa þar. Í Þórshöfn er Fróðskaparsetur Føroya, sem er háskóli eyjanna, og þar er einnig verslunarskóli, tækniskóli, sjómanna- og vélskóli og lýðháskólinn Føroya Fólkaháskúli. Dallas. Dallas er þriðja stærsta borg Texas-ríkis og níunda stærsta borg Bandaríkjanna með rúmlega 1,2 milljón manna en um 5,7 milljónir ef tekin eru með nálægar borgir og úthverfi (2000). Borgarstjóri Dallas er Mike Rawlings. Fort Worth International Airport-alþjóðaflugvöllurinn og Dallas Love Field-flugvöllurinn eru nálægt borgarmörkunum og þjóna ríkinu hvað flugsamgöngur varðar. Bæjarnúmeraskrá Gnúpverjahrepps. Bæjarnúmeraskrá Gnúpverjahrepps er listi yfir öll býli í Gnúpverjahreppi sem hafa fengið úthlutuðu bæjarnúmeri samkvæmt Markaskrá. Forseti Alþingis. Forseti Alþingis stýrir fundum Alþingis Íslendinga. Forseti Alþingis fer fyrir handhöfum forsetavalds í forföllum forseta Íslands. Mælt er fyrir um skyldur forseta Alþingis í þingskapalögum. Forseti Alþingis er kosinn af Alþingi. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er núverandi forseti Alþingis. Hún er þingmaður Samfylkingarinnar. Ráðgjafarþing. Í fyrstu var Alþingi í Reykjavík einungis ráðgefandi aðili í málefnum Íslands. Árið 1851 var Þjóðfundurinn haldinn í Reykjavík, til hans var kosið sérstaklega. Þó flestir þeirra sem hann sátu hafi verið alþingismenn þá hefur þjóðfundurinn ekki talist til reglulegra fundarhalda Alþingis. Á Þjóðfundinum var Páll Melsteð kjörinn fundarstjóri og Kristján Kristjánsson til vara. Árið 1849 var Árni Helgason kjörinn forseti en hann sagði af sér samstundis fyrir aldurssakir. Jón Sigurðsson kom ekki til þings árin 1855, 1861 og 1863. "Forseti Sameinaðs Alþingis". Er Alþingi var samkvæmt stjórnarskrá falið löggjafarvald var því og skipt í tvær málstofur, efri deild og neðri deild. En fundir sameinaðs Alþingis höfðu úrslitavald í þeim málum sem rædd voru á þingi. Forseti Alþingis. Eftir sameiningu Alþingis í eina málstofu var forseta Alþingis falin sú ábyrgð sem forseti Sameinaðs Alþingis hafði áður haft með höndum. Aukaþing eru sett að loknum kosningum. Wellington. Wellington er höfuðborg Nýja-Sjálands. Þar búa u.þ.b 370.000 manns. Gæðingur. Gæðingur kallast sá hestur sem hefur fimm gangtegundir, þ.e. að hann búi einnig yfir skeiði. Þeir hestar sem ekki búa yfir skeiði kallast klárhestar, eða klárar. Í keppnum er gæðingum att saman í A-flokki, einnig nefndur "A-flokkur gæðinga". Skógur. Skógur er vistkerfi með ríkjandi trjágróðri sem þekur að minnsta kosti 1 hektara og að þakningar-hlutfall trjáa sem eru að minnsta kosti 2 metra há sé um og yfir 30%. Séu trén lægri en 2 metrar að hæð kallast þau kjarr. Skógar hafa mikil áhrif á umhverfi sitt og skapa meðal annars kyrrara loftslag og svokallað nærloftslag (enska: "microclimate"). Auk þess bindur skógurinn loftraka og rykagnir úr loftinu. Kleppsspítali. Landspítali Kleppi, áður Kleppsspítali, er geðspítali sem tilheyrir geðsviði Landspítalans. Hann er oft í daglegu máli nefndur Kleppur. Fyrstu lög um Kleppsspítala voru nr. 33/1905, samþykkt af konungi þann 20. október 1905 (frumvarp um stofnun Kleppsspítala var þó innlent fyrirbæri) og var spítalinn opnaður árið 1907. Kleppsspítali var fyrsta sjúkrastofnunin sem var reist og rekin alfarið af landsjóði. Markmið stofnunarinnar var að létta miklum vanda af heimilum geðsjúkra og búa geðsjúkum mannsæmandi aðbúnað og gæslu, frekar en að stunda eiginlegar lækningar. Upprunalega var pláss fyrir 50 sjúklinga, og þurftu aðstandendur að borga með sjúklingum, ýmist 50 aura eða 1 krónu á dag, eftir aðstæðum. Yfirstjórn spítalans samanstóð af landlækni og aðila sem stjórnarráðið skipaði. Sem fyrr segir var vandi geðsjúkra og aðstandaenda þeirra mikill á þeim tíma er Kleppsspítali var stofnaður. Einnig var farið illa með geðsjúka og lífsskilyrði þeirra voru engan veginn á við þau sem heilbrigðir höfðu. Árið 1901 var gerð úttekt á hversu margir væru geðsjúkir í landinu (samkvæmt þess tíma skilgreiningu) og reyndust þeir 133, þar af 124 sem voru á sveit. Árið 1880 reyndust geðsjúkir vera 81, var því um mikla fjölgun að ræða á þessum rúmu tveimur áratugum. Spítalinn breytti miklu, þó að hann gæti ekki tekið alla inn sem þurftu, og lét Guðmundur Björnsson þau orð falla á Alþingi um þremur mánuðum eftir opnun spítalans, að sjúkrahúsið hefði „getið sjer þann orðstír, að það sje einhver gagnlegasta stofnun þessa lands“. Starfsemin í dag er gerbreytt með breyttum áherslum og tilkomu nýrra og betri meðferðarúrræða. Í dag eru reknar nokkrar deildir á Kleppsspítala, starfsemi þeirra felst aðallega í endurhæfingu og að veita fólki margvíslega meðferð, sem er haldið geðröskunum eða talið vera að veikjast af þeim -- til dæmis geðklofa, geðhvarfasýki, þunglyndi, fíkn eða persónuleikaröskun. Á Kleppsspítala eru nú göngudeild, tvær endurhæfingargeðdeildir, öryggisgeðdeild og réttargeðdeild. Myndir. Myndirnar eru af Kleppsspítalasvæðinu, teknar í mars 2006. Nörd. Hugtakið nörd er einkum notað um manneskjur sem hafa afskaplega mikinn áhuga á tilteknu fyrirbæri, sérstaklega á sviði tækni og vísinda. Oft er öðru orði skeytt framan við orðið nörd til að gefa áhugasviðið til kynna; þannig er til dæmis algengt að talað sé um tölvunörda þegar átt er við fólk sem lifir og hrærist fyrir allt tengt tölvum. Orðið nörd hafði eitt sinn niðrandi blæ og var gjarnan notað um fólk sem var hallærislegt, óvinsælt og óhæft í mannlegum samskiptum. Á síðustu árum hefur hugtakið aftur á móti fengið á sig jákvæðari blæ, sérstaklega þegar nördar nota það um sjálfa sig og aðra nörda. Þegar aðrir utan hópsins nota orðið getur það þó enn talist móðgun. Orðið „nörd“ sást upprunalega í bók Dr. Seuss "If I Ran the Zoo". Proffi. Hugtakið proffi er yfirleitt notað í niðrandi merkingu um greinda einstaklinga sem standa sig vel í námi og hugsa um lítið annað en bóknám og þykjast vita betur en aðrir. Dæmi um proffa er persónan Hermione Granger í Harry Potter bókunum eftir J. K. Rowling. Lúði. Lúði er hallærisleg manneskja með litla félagsfærni. Orðið er að öllum líkindum stytting orðsins lúðulaki. Jón forseti (togari). Jón forseti var fyrsti togarinn eða botnvörpungurinn, sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga. Hann var smíðaður á Englandi árið 1906 fyrir útgerðarfélagið Alliance hf. í Reykjavík, en hann sigldi í fyrsta sinn til heimahafnar 22. janúar 1907. Íslendingar höfðu áður eignast grunnslóðartogarann Coot notaðan, en Jón forseti var úthafstogari. Með komu Jóns forseta hófst bylting í atvinnusögu íslensks sjávarútvegs og atvinnulífs, en sagt hefur verið að þá hafi tækniöld hafist á Íslandi. Halldór Kr. Þorsteinsson var fyrsti skipstjóri Jóns forseta. Jón forseti þótti stór togari á þeirra tíma mælikvarða, 233 brúttórúmlestir. Eins var mjög til hans vandað, svo mjög raunar, að hann var talinn jafngóður þeim togurum, sem þá voru bestir á Englandi. Hann stóð þeim jafnvel framar að því leyti að við smíði hans hafði hann var sérstaklega styrktur til siglinga á norrænum slóðum. Jón forseti var úr járni að mestu leyti, bæði skrokkur og yfirbygging. Í honum var gufuvél og var ganghraði um 10 mílur á klukkustund. Troll Jóns forseta var í meginatriðum af sama tagi sem enn tíðkaðist 100 árum síðar, en þó miklum mun minna, aðeins um 40 metrar að lengd (svipað og togarinn), og riðið úr hampi. Jón forseti var síðutogari eins og allir togarar þess tíma. Nafn togarans var til heiðurs Jóni Sigurðssyni, helsta leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, en til þess var tekið að valsmerkið, hið nýja merki heimastjórnarinnar, var við sigluhún, þegar skipið kom til landsins. Jón forseti strandaði um 1 leytið að nóttu til á rifi við Stafnes á Reykjanesskaga (milli Sandgerðis og Hafna) í illviðri þann 27. febrúar 1928. Fyrstu skip komu togaranum til aðstoðar um fimm klukkustundum seinna en gátu lítið aðhafst vegna veðurs. Á togaranum var 25 manna áhöfn og tókst með harðfylgi manna úr landi að bjarga 10 þeirra, en 15 fórust með skipinu. Þetta slys varð mjög til að ýta á eftir stofnun slysavarnadeilda á vegum Slysavarnafélags Íslands. Fyrsta björgunarsveit á vegum þess, var Sigurvon í Sandgerði, síðan kom Þorbjörn í Grindavík. Minnisvarði um strand togarans Jóns forseta var afhjúpaður á Stafnesi hinn 27. ágúst 2009. Fleiri skip hafa borið þetta nafn síðar, þar á meðal nýsköpunartogarinn Jón forseti (oft nefndur nýi Jón forseti), sem smíðaður var fyrir Alliance 1948. Geðspítali. Geðspítali er sjúkrahús (einnig nefnd geðsjúkrahús) þar sem liggja inni sjúklingar sem þjást af geðrænum vandamálum, yfirleitt alvarlegum. Á slíkum sjúkrahúsum er reynt sem fremstur er kostur að ráða bug á þessum vandamálum og hjálpa sjúklingum að öðlast heilsu til að takast sjálfir á við daglegt líf. Landspítali. Landspítali er stærsta sjúkrahús á Íslandi. Það varð til árið 2000 við samruna Landspítalans (Ríkisspítala), sem tók til starfa starfa 20. desember 1930, og Sjúkrahúss Reykjavíkur (Borgarspítalans). Reglugerð um samrunann var gefin út 3. mars 2000. Stofnfundur spítalans var í Borgarleikhúsinu 16. maí 2000. Hinn nýi spítali nefndist Landspítali - háskólasjúkrahús (skammstafað LSH) til 1. september 2007, þegar nafninu var breytt í Landspítali, en skammstöfunin hélt sér. Á Landspítala (LSH) eru eftirtalin klínísk svið: Lyflækningasvið, skurðlækningasvið, geðsvið, kvenna- og barnasvið, rannsóknarsvið og bráðasvið. Stoðsvið eru mannauðssvið, fjármálasvið, eignasvið. Framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar eru einnig hluti af stjórnskipulagi spítalans. Stjórn. Framkvæmdastjórn stjórnar daglegum rekstri Landspítala. Hana skipa forstjóri og 11 framkvæmdastjórar. Björn Zoëga forstjóri Landspítala var skipaður til að gegna því starfi frá og með 1. október 2010. Hann tók við af Huldu Gunnlaugsdóttur sem síðar ráðin var ráðin forstjóri Akershus háskólasjúkrahússins í Osló. Magnús Pétursson, síðar ríkissáttasemjari, var forstjóri spítalans frá 1999 til 2008. Fylking (flokkunarfræði). Fylking er heiti flokka lífvera og er fylking næsta stig neðan við ríki. Á latínu nefnist fylking, "phylum" þegar um dýr er að ræða en "divisio" séu plöntur til umfjöllunar. Byggist sú skipting á úreltri skiptingu lífheimsins í tvö ríki, plöntur og dýr. Dæmi um fylkingu er asksveppir (ascomycota) sem ásamt basíðusveppum (basidiomycota) mynda yfirfylkinguna "tvíkjarna sveppir" (dicariomycota). Sigmund Johanson Baldvinsen. Sigmund Johanson Baldvinsen (f. 22. apríl 1931, d. 19. maí 2012) var skopmyndateiknari og uppfinningamaður í Vestmannaeyjum. Sigmund fæddist í Noregi og kom til Íslands þriggja ára gamall. Faðir hans var íslenskur og móðir hans var norsk. Sigmund ólst upp á Akureyri en fluttist svo til Vestmannaeyja. Hann var kvæntur Helgu Ólafsdóttur en hún er ættuð úr Vestmannaeyjum. Skopmyndateiknari. Fyrstu teikningar Sigmunds í blöðum eru frá árinu 1960 eða 1961 en þá gerði hann forsíður fyrir Vikuna og Fálkann. Sigmund var þekktastur fyrir skopmyndir sínar í Morgunblaðinu. Fyrsta mynd hans í Morgunblaðinu tengdist Surtsey og fyrstu landgöngu þar. Hún birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 1964. Skopmyndateikningar voru í fyrstu aukavinna Sigmunds með starfi við verkstjórn í frystihúsum í Vestmannaeyjum en í Heimaeyjargosinu árið 1973 varð Sigmund fastráðinn við Morgunblaðið og var skopmyndateiknun aðalstarf hans frá þeim tíma. Uppfinningamaður. Sigmund var uppfinningamaður en vélstjóri að mennt. Hann hannaði fiskvinnsluvélar og fann upp sjálfvirkan sleppibúnað fyrir gúmbjörgunarbáta. Málaferli. Sigmund lenti í málaferlum út af skopmyndum sínum. Þýskur leynilögreglumaður var fenginn til landsins til að vinna að lausn Geirfinnsmálsins og Sigmund teiknaði skopmynd þar sem sást SS merki á búningi leynilögreglumannsins. Ritstjórar Morgunblaðsins voru dæmdir en Sigmund slapp við dóm því það vantaði eftirnafn hans við skopmyndina. Íslenska ríkið kaupir skopmyndir. Þann 15. desember 2004 keypti íslenska ríkið tíu þúsund teikningar eftir Sigmund og hyggst gera þær aðgengilegar á Netinu. Heimild. Sigmund Pompeii. Pompeii var rómversk borg nálægt þar sem borgin Napólí stendur nú. Árið 79 grófst borgin undir ösku í kjölfar mikils eldgoss úr Vesúvíusi. Út af þessu varðveittist borgin á nákvæmlega sama veg og hún var þegar hún grófst undir. Árið 1748 var byrjað að grafa borgina upp en úr þeim uppgreftri hefur komið mikið af þekkingu nútímans um líf á tímum Rómverja. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO. Fiskvinnsluvél. Fiskvinnsluvél eru rafknúið verkfæri sem notað er til að vinna fisk, verja hann skemmdum og hluta hann niður í sjávarafurðir sem auðveldara er að flytja, geyma og selja á markaði. Fiskvinnsluvélar geta verið staðsettar í frystihúsum eða annars konar fiskiðjuverum í landi eða þær geta verið um borð í vinnsluskipum eða verksmiðjuskipum. Margar ólíkar fiskvinnsluvélar mynda oft vinnslulínu í fiskvinnslu þar sem starfsfólk stýrir vélum og færibönd og lyftarar flytja fisk á mismunandi vinnslustigum á milli ýmissa fiskvinnsluvéla. Geirfinnsmálið. Geirfinnsmálið (einnig nefnt Guðmundar- og Geirfinnsmál) er viðamikið sakamál, kennt við "Geirfinn Einarsson" (fæddur 7. september 1942, horfinn 19. nóvember 1974). Upphaf málsins. Upphafið má rekja til dularfulls hvarfs Geirfinns Einarssonar kvöldið 19. nóvember 1974. Kvöldið sem Geirfinnur hvarf hringdi ókunnur maður í hann og mælti sér mót við hann í Hafnarbúðinni í Keflavík. Eftir lýsingum vitna á ókunna manninum var gerð leirstytta, sem í hálfkæringi var kölluð „Leirfinnur“. Seinna meir beindu rannsóknamenn sjónum sínum að hvarfi annars manns, "Guðmundar Einarssonar" (fæddur 1956, horfinn 25. janúar 1974), sem horfið hafði aðfaranótt 25. janúar sama ár. Töldu þeir að hvarf Guðmundar tengdist hvarfi Geirfinns (mennirnir tveir voru þó ekki venslaðir, þrátt fyrir sama föðurnafn). Sakborningar. Hópur ungmenna var hnepptur í gæsluvarðhald í Síðumúlafangelsinu vegna hvarfa þeirra Guðmundar og Geirfinns og svokallaðs póstsvikamáls. Þau bentu á fjóra þekkta menn sem flestir tengdust skemmtistaðnum Klúbbnum. Voru þeir allir hnepptir í gæsluvarðhald og hafðir í haldi svo mánuðum skipti. Lokastig rannsóknar. Þýskur rannsóknarforingi á eftirlaunum, Karl Schütz, var fenginn til að stýra rannsókn málsins sem þá var í miklum hnút. Ekki verður séð hvers vegna óupplýst mannshvörf hér á landi gátu talist verðugt verkefni fyrir þýskan lögreglumann á eftirlaunum sem einkum hefur sérhæft sig í málum er varða öryggi ríkisins, en eftir að dómur var fallinn hér á Íslandi í málinu lýsti hann því yfir að meðferð sakborninga hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni. Í janúar 1977 lauk svo rannsókn Karl Schütz eftir sviðsetningu atburða við Dráttarbrautina í Keflavík en þar töldu rannsóknarlögreglumenn að Geirfinni hefði verið ráðinn bani. Þrátt fyrir umfangsmikla leit fannst ekki lík Geirfinns. Dómur í Hæstarétti. Dómur féll í Hæstarétti árið 1980. Ungmennin voru fundin sek og dæmd til fangelsisvistar. Geirfinnsmálið hefur verið í umræðu í þjóðfélaginu í a.m.k. tvo áratugi en algjör skortur var á sönnunargögnum fyrir utan játningar sakborninga, sem þau hafa öll dregið til baka og hefur umræðan síðustu ár snúist um rannsóknaraðferðir lögreglu og meint harðræði við rannsókn málsins. Endurupptaka Geirfinnsmálsins. „Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn.“ Davíð lauk ræðu sinni á þessum orðum: „Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.“ Simone de Beauvoir. Simone de Beauvoir (9. janúar 1908 – 14. apríl 1986) var franskur rithöfundur og heimspekingur. Hún skrifaði skáldsögur, rit um heimspeki, stjórnmál og þjóðfélagsmál, ritgerðir, ævisögur og sjálfsævisögu. Þekktust er hún fyrir fræðirit sitt "Le Deuxième Sexe" (Hitt kynið) frá 1949 en þar er að finna ítarlega athugun og greiningu á kúgun kvenna. Er ritið talið hafa lagt grunninn að samtímafemínisma. Beauvoir, Simone de Beauvoir, Simone de E. E. Evans-Pritchard. Edward Evan Evans-Pritchard (21. september 1902 - 11. september 1973) var breskur mannfræðingur og átti sinn þátt í því að þróa félagsmannfræði í Bretlandi. Hann var prófessor við Oxfordháskóla og kenndi þar mannfræði á árunum 1946-1970. Evans-Pritchard fæddist í Sussex á Englandi og nam við London School of Economics. Þar komst hann í kynni við hugmyndir mannfræðingsins Bronisław Malinowski sem m.a. var talsmaður þess sjónarhorns að rökhyggja byggi að baki því hvernig samfélög manna væru uppbyggð. Evans-Pritchard hóf sína fyrstu vettvangsrannsókn árið 1926 meðal Azande manna. Með þeirri rannsókn aflaði hann sér hvoru tveggja doktorsgráðu (1927) og efniviðar í bók sína "Witchcraft, Oracles and Magic Among the Azande" sem kom út árið 1937. Galdrar Azande manna voru eitt hans helsta hugðarefni og færði hann rök fyrir því að galdrar væru byggðir á rökhugsun og væru þar með rökrétt atferli. Hann gerði síðar vettvangsrannsókn meðal Nuer manna í Afríku og gaf út bókina "The Nuer" árið 1940 sem telja má til þekktustu verka mannfræðinga 20. aldar. Í "The Nuer" kom fram áhugi hans á pólitísku skipulagi, uppbyggingu og hugsunarhætti fólksins sem hann rannsakaði. Meðal samstarfsmanna Evans-Pritchard við Oxfordháskóla voru A. R. Radcliffe-Brown og Meyer Fortes, einnig mannfræðingar. Saman gáfu þeir út bókina "African Political Systems" þar sem þeir gerðu tilraun til að flokka afrísk stjórnkerfi í tvo hópa: með eða án miðstýrðs stjórnkerfis. Evans-Pritchard og Fortes höfðu báðir gert vettvangsrannsókn meðal hópa með liðskipt ættarkerfi og höfðu áhuga á því hvernig stjórnmál gengu fyrir sig í samfélögum án miðstýrðs stjórnkerfis. Evans-Pritchard var sleginn til riddara árið 1971. Bronisław Malinowski. Bronisław Kasper Malinowski (7. apríl 1884 – 16. maí 1942) var pólskur mannfræðingur og af mörgum talinn merkasti mannfræðingur 20. aldar fyrir framlag sitt til etnógrafískra vettvangsrannsókna. Malinowski er af mörgum talinn faðir vettvangsrannsókna þar sem hann var meðal þeirra fyrstu til að gera ítarlega og vandaða vettvangsrannsókn. Hann gerði vettvangsrannsókn meðal Tróbríandmanna og skráði niður af nákvæmni allt sem fyrir augu hans bar. Þessi aðferð hans varð aðferð mannfræðinnar: nákvæm rannsókn á litlum samfélögum. Hann aðhylltist virknishyggju og leit svo á að hver stofnun innan samfélagsins væri háð virkni annarra stofnana innan sama samfélags. Þá leit hann á samfélag Tróbríandmanna sem eitt heildstætt samfélag andstætt fyrri mannfræðingum 19. aldar eins og Edward Tylor og James Frazer sem alhæfðu aldrei um heilt samfélag heldur um stig hugsunar og tækni mannkyns. Heimild. Malinowski, Bronisław Max Weber. Max Weber (21. apríl 1864 – 14. júní 1920) var þýskur hagfræðingur og félagsvísindamaður. Hann er einn áhrifamesti fræðimaður á sviði félagsvísinda fyrr og síðar. Ásamt samstarfsmanni sínum Georg Simmel var hann leiðandi talsmaður eigindlegra rannsóknaraðferða í félagsvísindum. Ævi. Hann fæddist í Erfurt í Thϋringen og var sonur umsvifamikils lögmanns þar í borg er sat um skeið á prússneska þinginu og ríkisþinginu í Berlín. Móðir Webers var aftur á móti mjög trúrækinn og heittrúaður kalvínstrúarmaður. Weber var framúrskarandi námsmaður og lauk hinu meira doktorsprófi við Háskólann í Berlín árið 1891. Sérsvið hans var réttarsaga, en rannsóknir hans í þeirri grein gengu einnig mjög inn á svið hagsögu. Weber var undir áhrifum frá tveimur skólum hugsunar, annars vegar var það þýski sagnfræðiskólinn þar sem hann tók margt frá Heinrich Rickert, og hins vegar var það marxíski hagfræðiskólinn. Afskipti hans af þýska sagnfræðiskólanum leiddu til þess að hann dróst inn í deilur um aðferðafræði. Þar varð hann að taka afstöðu sem var gagnrýnin í garð sögulegrar hagfræði og aðferða náttúruvísindanna. Weber var afkastamikill fræðimaður og skrifaði mikið, mest þó á seinni árum. Eru verk hans best þekkt fyrir sögulega yfirsýn á vestræn samtímasamfélög og þróun þeirra á sviði efnahags, laga og trúarbragða. Hann skrifaði m.a. um hagfræði og hagsögu, aðferðafræði félagsvísindanna, charisma, skrifræði, lagskiptingu samfélagsins og um trúarbrögð í Kína og Indlandi. Þekktasta verk hans er líklega bókin "Die protestantische Ethik und der 'Geist' des Kapitalismus" sem hann skrifaði á árunum 1904 og 1905. Weber var einn fyrsti kennismiður skrifræðislegra skipulagsheilda sem hafðar voru sem fyrirmyndir bæði í stjórnun opinberra stofnana og fyrirtækja á einkamarkaði. Bókin Mennt og máttur i íslenskri þýðingu Helga Skúla Kjartanssonar á tveimur fyrirlestrum sem Weber flutti upp úr aldamótunum 1900 - 1901 og kom út í lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins 1973. Félagsvísindin. Weber er þekktur fyrir margvísleg framlög hans til félagsvísindanna. Hann hefur haft varanleg áhrif hugmyndum manna á sviði félagsfræði, lögfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, trúarbragðafræði og sagnfræði. Þekktasta verk hans er vafalaust "Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar" (þ. Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905) en í þeirri bók kannaði hann tengsl kalvínisma og þróun kapítalisma. Weber var sérlega áhugasamur um áhrif trúarbragða á mennningu og rannsakaði ítarlega öll helstu trúarbrögðin. Weber setti fram þá skilgreiningu á nútímaríkið sem oftast er vísað í að það væri samfélag manna sem gerði viðurkennda kröfu til einokunar á réttmætri beitingu ofbeldis á afmörkuðu landsvæði. Tenglar. Weber, Max Menntaskólinn á Egilsstöðum. Menntaskólinn á Egilsstöðum tók til starfa árið 1979. Fyrst um sinn var skólinn til húsa í heimavistarbyggingu skólans, sem aftur var byggt við 1983. Langþráð kennsluhús skólans var vígt 1989 og viðbygging við það árið 2006. Dagskólanemendur eru nú tæplega 300 en fjarnámsnemendur eru yfirleitt um 150. Í heimavistarhúsi er nú pláss fyrir um 120 nemendur. Í nokkur ár eftir aldamótin leigði skólinn að auki 1 til 2 hæðir í Hótel Valaskjálf fyrir 3. og 4. árs nema. Nám í boði við Menntaskólann á Egilsstöðum. Haustið 2011 fékk skólinn leyfi til tilraunakennslu samkvæmt nýrri námskrá, byggðri á lögum um framhaldsskóla frá 2008. Nokkrar breytingar voru gerðar á kennsluháttum við skólann. Skólameistarar frá upphafi. Egilsstöðum Svensk Filmindustri. AB Svensk Filmindustri eða SF er sænskur kvikmyndaframleiðandi og stór dreifingaraðili fyrir kvikmyndir á Norðurlöndunum. Að auki rekur SF fjölda kvikmyndahúsa í Svíþjóð. Fyrirtækið var stofnað 27. desember 1919 með sameiningu Svenska Bio og Filmindustri AB Skandia. Fálki. Fálki (eða valur) (fræðiheiti: "Falco rusticolus") er stór ránfugl sem heldur til í freðmýrum og fjalllendi sem og við strendur og eyjur á Norðurslóðum. Fálkar geta náð 60 cm lengd og vænghaf þeirra getur orðið 130 sm. Lögun og gerð vængja fálka gerir þeim kleift að fljúga óhemju hratt. Á miðöldum voru fálkar taldir fuglar konunga. Þeir voru notaðir í sérstaka íþrótt, fálkaveiðar sem voru nánast eingöngu stundaðar af konungum og aðli og voru slíkir fálkar nefndir "slagfálkar". Íslenski fálkinn (fræðiheiti: "Falco rusticolus islandicus") er ein deilitegund fálka. Önnur deilitegund er hvítfálkinn ("Falco rusticolus candicans") sem verpir meðal annars á Grænlandi. Fálkar á Íslandi. left Hann er staðfugl á Íslandi. Talið er að 300 - 400 pör af fálkum verpi á Íslandi. Aðalfæða fálka er rjúpur en hann veiðir einnig endur, svartfugla og vaðfugla. Erlendis lifa fálkar einnig á litlum nagdýrum svo sem læmingjum. Í árum sem lítið er um rjúpur fækkar fálkum. Kjörsvæði fálka eru opin svæði. Þeir gera ekki hreiður heldur verpa beint á klettasyllur og nota oft gamla hrafnslaupa. Fálkar verpa oftast 3 - 4 eggjum. Eggin eru 5 vikur að klekjast út og ungarnir eru 7 vikur í hreiðrinu. Eftir það annast foreldrarnir þá í 3 vikur í viðbót en svo verða þeir að bjarga sér sjálfir. Ungarnir flakka um landið þangað til þeir verða tveggja til fjögurra ára en þá setjast þeir að á eigin varpstað. Fullorðnir fálkar dveljast allt árið á óðali sínu. Talið er að allt að fjórðungur af Evrópustofni fálka verpi á Íslandi. Fálkar eru alfriðaðir á Íslandi. Náttúrufræðistofnun fylgist með stofnbreytingum fálka. Annað nafn íslenska fálkans er valur. Mögulega kemur það nafn af upprunalegri merkingu þess orðs sem er vopndauði (sbr. að „liggja í valnum“, enda fálkinn mikið veiðidýr og liggur veiðibráð fálkans oftast í valnum. Valur kemur líka fyrir í norrænni goðafræði, þar sem Freyja, vanadís og frjósemisgyðja, átti valsham, sem hún lánaði Loka þegar endurheimta þurfti Hamar Þórs, Mjölni frá Þursum. Samheiti. Fálkinn á sér mörg samheiti. Hann hefur t.d. verið nefndur "fjörsungur", "forseti", "geirfálki" (sem er gamalt heiti á fálkanum) og "gollungur". ISO 4217. ISO 4217 er alþjóðlegur staðall sem skilgreinir þriggja stafa kóða gjaldmiðla og er gefinn út af Alþjóðlegu staðlastofnuninni. ISO 4217 kóðar eru í almennri notkun af bönkum og kaupsýslu yfir allan heim. Í mörgum löndum eru kóðar algengra gjaldmiðla það vel þekktir að þegar gengi þeirra er birt, í blöðum og af bönkum, er einungis notast við þessa kóða (í stað þess að þýða nöfn þeirra eða notast við tvíræð gjaldeyrismerki). Skilgreining. Fyrstu tveir stafir kóðans eru tveir stafir ISO 3166-1 (alpha-2) landsnúmeranna, og sá þriðji er yfirleitt fyrsti stafur gjaldmiðilsins sjálfs. Þannig að gjaldmiðilskóði Japans er, til dæmis, JPY — þar sem JP stendur fyrir Japan og Y fyrir jen (enska: "yen"). Þetta kemur í veg fyrir vandamál sem stafar af því að nöfnin dollar, franki og pund eru notuð af tugum landa, og hafa oft gríðarlega misjöfn verðgildi. Einnig, ef að gjaldmiðill er endurmetinn, er síðasta staf gjaldmiðilskóðanum breytt til að greina hann frá gamla gjaldmiðlinum. Í sumum tilfellum notast þriðji stafurinn við fyrsti stafinn í orðinu „nýr“ í tungumáli þess lands sem að gjaldmiðillinn heyrir til. Sem dæmi um þetta er Mexíkanski pesetinn (MXN) og Tyrkneska líran (TRY). Einnig skilgreinir þessi staðall þriggja tölustafa talnakóða fyrir hvern gjaldmiðil, á sama veg og til er þriggja stafa talnakóði fyrir hvert land sem hluti af ISO 3166. ISO 4217 inniheldur ekki engöngu kóða fyrir gjaldmiðla, heldur einnig verðmæta málma (gull, silfur, palladín og platína; mælt samkvæmt troyesúnsu einingum) og aðrar einingar, eins og til dæmis Sérstök dráttarréttindi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (XDR). Einnig eru sérstakir kóðar úthlutaðir fyrir prófanir (XTS), og til að gefa til kynna að engin gjaldmiðilsfærsla hafi átt stað (XXX). Þessi tákn byrja öll á stafinum „X“. Verðmætir málmar notast við „X“ ásamt efnatákni málmsins; silfur er sem dæmi XAG. ISO 3166 úthlutar aldrei landakóða sem byrja á „X“ og er þess vegna óhætt að nota þann staf fyrir gjaldmiðla sem ekki eru tengdir ákveðnum löndum. Yfirþjóðlegir gjaldmiðlar, eins og til dæmis Austurkarabískur dalur, Pólýnesískur franki, Vesturafrískur franki og Miðafrískur franki eru yfirleitt einnig úthlutað kóðum sem byrja á „X“. Evran er undantekning á þessu og notast við kóðann EUR, þó að EU sé ekki ISO 3166-1 landakóði, var það notað þrátt fyrir það, og því EU bætt inn á ISO 3166-1 hliðarlista til að standa fyrir Evrópusambandið. Undanfari evrunar, Evrópska mynteiningin, hafði kóðann XEU. Saga. Árið 1973 ákvað Tækninefnd ISO Númer 68 að þróa kóða sem framsetningu á gjaldmiðlum og sjóðum sem notaðir væru í verslun, viðskiptum, og bankastarfsemi. Við 17. fund sérfræðinga Evrópsku Efnahagsnefnd Sameinuðuþjóðanna (Febrúar 1978) var ákveðið að þessir þriggja stafa kóðar, sem skilgreindir voru samkvæmt ISO 4217, væru hæfilegir til notkunar í alþjóðlegum viðskiptum. Með tíð og tíma verða nýjir gjaldmiðlar til og gömlir gjaldmiðlar lagðir niður. Yfirleitt eru þessar breytingar sökum nýrra ríkistjórna (hvort sem er í gegnum stríð eða nýja stjórnarskrá), milliríkjasamninga um nýjan gjaldmiðil, eða gengisbreytingu sökum of mikillar verðbólgu. Sökum þess er kóðalistinn uppfærður öðru hvoru og er Breska Staðlastofnunin ábyrg fyrir að viðhaldi á honum. Le Tigre. Le Tigre búa í Indianapolis, Indiana snemma 2000s. Hljómsveitin Le Tigre var stofnuð árið 1998 af Kathleen Hanna, fyrrum söngkonu hljómsveitarinnar Bikini Kill. Aðrir hljómsveitarmeðlimir eru Johanna Fateman og JD Samson. Tónlist Le Tigre er gjarnan lýst sem blöndu af raftónlist og póst-pönki, og textarnir eru flestir feminískir og pólitískir. Rjúpa. Rjúpa (fræðiheiti: "Lagopus muta" eða "L. mutus") er lítill fugl af orraætt ("tetraonidae"), um 31–35 cm að lengd. Rjúpan er staðfugl og verpir á heimskautasvæðum og norðlægum slóðum í Evrasíu, Norður-Ameríku og einnig á Grænlandi) á heiðum, fjalllendi og á túndru. Rjúpan er sérstök meðal fugla að því leyti að hún skiptir um hluta fjaðurhams þrisvar á ári. Breytir um lit eftir árstímum, á sumrin og haustin er rjúpan brúnleit með svörtum flikrum, í vetrarbúning eru bæði kynin allhvít með svart stél. Í júlí fella rjúpur flugfjaðrir og stélfjaðrir. Karrinn helgar sér óðal í lok apríl og kvenfuglinn kemur tveimur til þremur vikum síðar. Rjúpan verpir að jafnaði 12 eggjum. Útungunartíminn er um 3 vikur og ungarnir yfirgefa hreiðrið strax. Þeir fylgja móður sinni eftir í 6 - 8 vikur. Rjúpan er jurtaæta, hún lifir á rjúpnalaufi (blöð holtasóleyjar), kornsúrulaukum, krækilyngi (ber), aðalbláberjalyng (greinaendar, ber), birki (reklar, blaðbrum), grasvíðir og fleiri jurtum. Rjúpa er algeng um allt land. Hún er staðfugl en ferðast innanlands utan varptímans. Yfir varptímann eru rjúpur algengar í móum, mýrum og kjarrlendi. Á veturnar halda rjúpur til fjalla og upp á heiðar en þær eru einnig í hraunum og kjarrlendi. Fram eftir vetri stýrast ferðir rjúpu af leit að bestu beitilöndunum. Rjúpur geta halda sig á fjöllum að deginum en flogið langa leið til beitilanda og náttstaða neðar á heiðum þegar rökkvar. Rjúpan er lykiltegund í íslensku vistkerfi og einn einkennisfugla íslenskrar náttúru. Rjúpnaveiðar eru vinsælt tómstundagaman og er rjúpnasteik hluti af jólahefð margra íslenskra fjölskyldna. Stofnstærð er talin mjög breytileg, frá 50 þúsund til 200 þúsund pör á sumrin en allt að 1 milljón fuglar að vetri. Rjúpnastofninn er sveiflóttur og um tíu ár hafa liðið á milli toppa, þessar sveiflur eru taldar vera náttúrulegar og að skotveiðar stjórni þeim ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stofnbreytingarnar, þ.e. hvort stofninn vex eða minnkar, ráðast af vetrarafföllum. Hóflegar veiðar eru ekki taldar hafa áhrif á stöðu og hlutverk rjúpunnar í vistkerfinu. Rjúpan var friðuð frá hausti 2003 til hausts 2005. Bloodhound Gang. The Bloodhound Gang á tónleikum í Þýskalandi. The Bloodhound Gang er bandarísk hljómsveit sem stofnuð var árið 1992 í Quakertown í Pennsylvaníu. Tónlist sveitarinnar er blanda af hipphoppi, pönki og rafpoppi en textarnir eru gamansamir og þykja grófir, í þeim er gjarnan gert grín að ýmsum tabúum samfélagsins. Kynlíf er sívinsælt yrkisefni sem og viðkvæm málefni eins og kynþættir, fötlun og sifjaspell. Mestar deilur spruttu vegna lagsins „Yellow Fever“ sem gerði út á miður geðslegar staðalímyndir af asískum konum, mikill þrýstingur varð þó til þess að lagið var ekki með á plötunni "One Fierce Beercoaster" eins og til stóð. Auk ásakana um kynþáttahatur hefur hljómsveitin verið sökuð um mikla karlrembu og fyrirlitningu í garð samkynhneigðra. Frægasta lag Bloodhound Gang er vafalaust „The Bad Touch“ sem var á plötunni "Hooray for Boobies" sem kom fyrst út 1999. Lagið var lengi eitt vinsælasta óskalagið á MTV og hjálpaði til að gera plötuna að platínuplötu. Í laginu er að finna línuna: „You and me baby ain't nothin' but mammals so let's do it like they do on the Discovery Channel“ sem mætti þýða svo: „Þú og ég elskan erum bara spendýr þannig að gerum eins og þau gera á Discovery Channel“ (sem er sjónvarpsstöð sem sýnir mikið af náttúrulífsþáttum). Rafmagnsverkfræði. Rafmagnsverkfræði er ein af greinum verkfræðinnar. Hún fjallar um rafmagn, hagnýtingu þess, hönnun á tækjabúnaði og fjarskipti svo fátt eitt sé nefnt. Rafmagnsverkfræði er kennd í háskólum úti um allan heim sem og í HÍ og HR við meistarastig. Víða um heim (m.a. í HÍ) er rafmagnsverkfræði kennd í námsbraut ásamt tölvuverkfræði (sem er náskyld grein). Sá sem lýkur slíkri námsbraut hlýtur gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði. Robert Moog. Dr. Robert A. Moog (23. maí 1934 - 21. ágúst 2005) er bandarískur frumkvöðull í hönnun á tækjabúnaði til notkunar við tónlist. Þekktastur er hann fyrir að hafa fundið upp Moog-tóngervilinn (e. synthesizer). Moog tók B.Sc. gráðu bæði í eðlisfræði og rafmagnsverkfræði og útskrifaðist svo með doktorsgráðu í eðlisverkfræði frá Cornell-háskóla árið 1957. Hann lést af völdum heilaæxlis haustið 2005. Moog-tóngervillinn hefur haft gríðarleg áhrif á vestræna tónlist allt frá því að hann kom fyrst á sjónarsviðið, þá eitt fyrsta rafhljóðfærið. Dæmi um tónlistarmenn sem notað hafa Moog-tóngervla eru Stevie Wonder og The Beatles (meðal annars á plötunni Abbey Road). Úlfur. Úlfur (fræðiheiti: "Canis lupus") er spendýr af hundaættkvísl, náskyldur hundinum ("Canis familiaris"). Margir fræðimenn telja hunda og úlfa vera deilitegundir sömu dýrategundarinnar. Úlfar voru áður algengir um alla Norður-Ameríku, Evrasíu og Mið-Austurlönd en mikið hefur dregið úr stofnstærð vegna veiða og eyðingu náttúrulegra heimkynna af mannavöldum. Kvenkyns úlfur nefnist "úlfynja", "vargynja" eða "ylgur". Undirtegundir. Í eina tíð var talið að til væru allt að 50 undirtegundir úlfa. Undanfarna áratugi hafa líffræðingar þó komið sér saman um lista yfir undirtegundir úlfa, þar sem eru 15 núlifandi undirtegundir (að tömdum hundum og dingóum meðtöldum) og tvær útdauðar undirtegundir þar að auki. Skelleysingjar. Skelleysingjar (fræðiheiti: "Aplacophora") eru flokkur botnlægra lindýra sem lifa í sjó um allan heim. Í flokknum eru 28 ættir og um 320 tegundir. Þessi dýr eru lítil (styttri en 5 cm, en geta náð 30 cm), sívöl og ílöng og grafa sig niður í botnlagið á meira en 20 metra dýpi. Skelleysingjar voru eitt sinn flokkaðir sem sæbjúgu af fylkingu skrápdýra, en árið 1987 fengu þeir sinn eigin flokk í fylkingu lindýra. Nökkvar. Nökkvar (fræðiheiti: "Polyplacophora") eru flokkur lindýra sem telur um 860 tegundir. Nökkvar eru með sktautlega skel á bakinu sem greinist í átta aðskildar skelplötur og geta því rúllað sér upp þegar þeir eru losaðir frá yfirborðinu. Flestir nökkvar finnast á steinum og í klettaskorum í fjöruborðinu þótt sumar tegundir lifi á meira dýpi. Einskeljungar. Einskeljungar (fræðiheiti: "Monoplacophora") eru flokkur lindýra sem talinn var með öllu útdauður til ársins 1952, þegar lifandi eintak fannst í djúpsjávarseti. Hingað til hafa fundist yfir tíu tegundir einskeljunga, en þeir lifa djúpt neðansjávar. Eins og nafnið gefur til kynna eru þessi lindýr með eina, flata og kringlótta skel og líkjast þannig nökkvum, eða öllu heldur olnbogaskeljum. Samlokur. Samlokur (fræðiheiti: "Bivalvia") eru flokkur lindýra sem telur um þrjátíu þúsund tegundir. Samlokur lifa aðeins í vatni eða hafi og eru yfirleitt umluktar tvískiptri skel. Sumar samlokur festa sig við steina eða þara með spunaþráðum en aðrar grafa sig niður í botninn. Ýmsar tegundir samloka eru mikið notaðar í matargerð, s.s. ostra, kræklingur og hörpudiskur. Hyrnuskeljar. Hyrnuskeljar (fræðiheiti: "Scaphopoda") eru flokkur lindýra sem lifa á sjávarbotni. Hyrnuskeljar eru mjóar og sveigðar skeljar sem minna á tönn eða horn. Þær geta náð 15 cm lengd. Þær nota fótinn sem kemur út úr breiðari enda skeljarinnar til að grafa sig niður. Nokkur hundruð tegundir hyrnuskelja eru þekktar um allan heim. Sniglar. Sniglar (fræðiheiti: "Gastropoda") eru stærsti flokkur lindýra með 60-75.000 tegundir, þar á meðal land- og sjávarsnigla og ótal sjávar- og vatnadýr. Sniglar eru venjulega með höfuð sem á eru tveir fálmarar og kviðlægan fót. Flestar tegundir eru með eina skel sem oftast er undin upp og myndar snúð eða spíral (kuðung). Sumar tegundir eru með nokkurs konar lok sem lokar skelinni þegar dýrið dregur sig inn í hana. Sniglum var samkvæmt hefðbundinni dýrafræði skipt niður í þrjá undirhópa: Fortálkna (Prosobranchia), bertálkna (Opistobranchia) og lungnasnigla (Pulmonata) en þessi flokkun er núna að breytast og flestir farnir að flokka bertálkna (Opistobranchia) sér. Sniglar eru með skráptungu, sem er tennt hornkennd tunga sem þeir nota til að skrapa fæðu og rífa hana, t.d. lauf eða plöntur. Prince Buster. Prince Buster á Cardiff Festival 2008 Prince Buster eða Cecil Bustamente Campbell (f. 24. maí 1938) er tónlistarmaður frá Jamaíka og talinn með upphafsmönnum ska- og rocksteady-tónlistar. Hann hóf feril sinn sem plötusnúður með því að reka hljóðkerfi (n-k ferðadiskótek) í Kingston fyrir Coxsone Dodd og þróaði þar sína eigin útgáfu af bandarískri ryþmablús-tónlist. 1960 framleiddi hann plötu fyrir Folkes Brothers (mento-hljómsveit) undir gælunafninu Prince Buster. Platan sló í gegn og brátt fór Prince Buster að framleiða lög bæði eftir sjálfan sig og aðra og lagði megináherslu á ska. Frá 1963 átti hann margar metsöluplötur á Jamaíka. Á sama tíma fór hann í tónleikaferðir um Bretland og varð fyrstur tónlistarmanna frá Jamaíku til að eiga smáskífu á metsölulista þar (smáskífan "Al Capone"). Á 8. áratugnum vann hann fyrst og fremst við að framleiða efni eftir aðra tónlistarmenn. Reggí hafði þá tekið við af ska-tónlist sem vinsælasta tónlistarstefnan á Jamaíka og Prince Buster lét meðal annars aukahlutverk í kvikmyndinni "The Harder They Come", sem átti þátt í að koma reggítónlist á kortið um allan heim. Undir lok áratugarins var hann kominn í alvarleg fjárhagsvandræði vegna misheppnaðra viðskiptaævintýra, en bjargaðist þegar önnur bylgja ska-tónlistar gekk yfir í Bretlandi, með hljómsveitum eins og Madness og The Specials, auk pönkhljómsveita eins og The Clash, sem áttu til að taka upp gömul lög eftir Prince Buster. Prince Buster á nú heima í Miami í Flórída. Breska hljómsveitin Madness og tónlistarmaðurinn Judge Dread (Alexander Minto Hughes) eru heitin í höfuðið á lögum eftir Prince Buster. Hljómplötur. Buster, Prince Smokkar. Smokkar (fræðiheiti: "Cephalopoda") eru flokkur lindýra sem einkennist af samhverfri líkamsbyggingu með stórt höfuð og fót sem hefur ummyndast í griparma. Í flokknum eru um 786 tegundir. Flokkurinn skiptist í "Coleoidea" (blekfiska, smokkfiska og kolkrabba) þar sem skelin er fallin inn í líkamann eða horfin með öllu, og kugga þar sem skelin er enn sýnileg (eins og á perlusnekkjum). The Harder They Come. "The Harder They Come" er kvikmynd frá Jamaíka frá árinu 1972. Í aðalhlutverki var reggísöngvarinn Jimmy Cliff sem leikur Ivahoe Martin, en myndin er lauslega byggð á ævi Martins, sem var glæpamaður í Kingston á 5. áratugnum. Kvikmyndin átti stóran þátt í því að gera reggítónlist vinsæla í Bandaríkjunum. Titillagið var sungið af Jimmy Cliff, en meðal tónlistarmanna sem tóku þátt í gerð myndarinnar voru Prince Buster, The Maytals og Desmond Dekker. Desmond Dekker. Desmond Dekker (Desmond Adolphus Dacres; 16. júlí 1941 – 25. maí 2006) var ska- og reggítónlistarmaður frá Kingston á Jamaíka. Hann átti fyrsta alþjóðlega reggísmellinn, „The Israelites“ (1969), sem náði á topp vinsældarlista í Evrópu, Suður-Afríku og Kanada, auk Jamaíka, en áður hafði hann náð langt í Bretlandi með laginu „007 (Shanty town)“ (1967). Hann var langþekktasti tónlistarmaður Jamaíka utan eyjunnar, fyrir daga Bob Marley. Kræklingur. Kræklingur (fræðiheiti: "Mytilus edulis") einnig nefndur bláskel, krákuskel eða kráka er lindýr (samloka) af ætt sæskelja. Hann er algengur í fjörum á kaldtempruðum svæðum bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Við Ísland er kræklingur algengur alls staðar kringum landið nema við suðurströndina. Kræklingur þrífst vel við árósa og myndar sums staðar þéttar breiður. Kræklingur er algengastur í fjörum en finnst einnig neðan fjörunnar eða allt niður í 30-40 metra dýpi. Yfirleitt festa kræklingar sig við undirlag með spunaþráðum en ef undirlagið er mjúkt þá festa þeir sig hver við annan og mynda klasa sem liggja lausir á botninum. Lýsing. Skeljar kræklings eru tvær. Þær eru þunnar með hvössum röndum. Skeljarnar tvær eru tengdar saman á hjör sem hefur 1-4 litlar griptennur. Fullorðnar skeljar eru blásvartar á ytra borði en ungar skeljar eru brúnleitar. Innra borð skeljanna er bláhvítt. Oft eru hrúðurkarlar og mosadýr á skeljunum. Kræklingur festir sig með spunaþráðum. Stærsti kræklingur sem veiðst hefur við Ísland var 11 sm að lengd og 133 gramma þungur. Líffæri. Möttull klæðir skeljarnar að innan og stjórnar inn og útstreymi vatns í möttulholið, dælir sjó gegnum tálknin og gefur frá sér kalk til að mynda og gera við skel. Kræklingur sem er 50-55 mm langur dælir 4 lítrum af sjó á klukkustund. Í möttulinn safnast forðanæring og í honum eru kynkirtlar. Tálknin liggja undir möttlinum, þau sjá um öndun og sía fæðu úr sjónum sem fer í gegnum þau. Kræklingur hefur tvo samdráttarvöðva og er hlutverk þeirra að opna og loka skeljunum og halda þeim lokuðum. Hreyfitæki kræklinga er fóturinn. Hann er yfirleitt dökkbrúnn. Víð fótinn eru kirtlar sem framleiða spunaþræðina sem dýrið notar til að festa sig við fast undirlag eða við hvort annað. Kræklingur er sérkynja, kvendýrin má þekkja á því að þau hafa appelsínugula kynkirtla en kynkirtlar karldýra eru rjómagulir. Lífsferill. Kræklingur verður kynþroska á fyrsta ári. Kræklingur hrygnir á vori eða sumri. Kvendýrin hrygna 5-12 milljónum eggja. Frjóvgun verður í sjónum þegar sæðisfruma hefur synt egg uppi og sameinast því. Úr frjóvguðum eggjum þroskast sviflægar lirfur sem nærast á smáum svifþörungum. Lirfurnar myndbreytast og mynda þunna gagnsæja skel. Kræklingalirfa berst með straumum þangað til full myndbreyting hefur átt sér stað. Sviflæga stigið stendur í nokkrar vikur en síðan myndast skel og fóturinn vex og lifran myndar spunaþræði til að festa sig við undirlag. Lirfan getur nú notað fótinn til sunds og til að færa sig. Fæðukeðja. Fæða kræklings er örsmáar agnir sem hann síar úr sjónum. Mörg dýr éta krækling, þar á meðal fuglar, krabbar, kuðungar, skrápdýr og fiskar. Aðalóvinir kræklinga við Ísland eru æðarfugl, krossfiskur og krabbi. Kræklingur er etinn af mönnum og hann er einnig ræktaður til manneldis. Vegna eiturþörunga er kræklinganeysla hættuleg á þeim tímum ársins þegar sjór er hlýr og þörungablómi í hámarki. Almennt er ekki talið öruggt að tína krækling við Ísland frá því í maí og fram í desember. Vegna hættu á skelfiskeitrun hefur Hafrannsóknastofnun Íslands mælt magn eiturþörunga í kræklingi með reglubundnum hætti, og hægt er að nálgast niðurstöður á. Kræklingar hafa verið notaðir til að hreinsa sjó af lífrænni mengun af mannavöldum. Alþjóðlega staðlastofnunin. Alþjóðlega staðlastofnunin (ISO) er alþjóðlegt fulltrúaráð sem samsett er af fulltrúum ríkisstaðlastofnana og sér um að setja fram alþjóðlega staðla fyrir viðskipti og iðnað. Eru þessir staðlar þekktir sem ISO staðlar. Hún var stofnsett 23. febrúar 1947. Stofnunin er yfirleitt kölluð einfaldlega ISO (borið fram sem „ísó“). Það er algengur misskilningur að ISO standi fyrir enska heitið "International Organization for Standardization", eða svipað. ISO er ekki skammstöfun, heldur kemur það frá gríska orðinu "isos", sem þýðir „jafngildur“. Vegna þess að eigið nafn stofnuninnar er mismunandi í hverju tungumáli ákváðu stofnendur hennar að nota „ISO“ sem alhliða stutt heiti á henni. Þó að ISO flokki sjálfa sig sem óopinbera stofnun, er hún valdmeiri en flestar aðrar óopinberar stofnanir vegna þess að staðlar sem hún setur verða oft að lögum í gegnum milliríkjasamninga eða ríkisstaðla, og hagar hún sér yfirleitt meira eins og samtök með sterk tengsl við ríkistjórnir. Meðlimir ISO teljast nokkur af stærri hlutafélögum heims og að minnsta kosti ein staðalnefnd frá hverju landi. ISO starfar náið með Alþjóðlega raftækniráðinu (IEC) sem er ábyrgt fyrir stöðlun raftækja. ISO 3166. ISO 3166 er þriggja hluta staðall sem skilgreinir landfræðilega kóðun á nöfnum landa og tengdra svæða, og skiptingu þeirra. Tenglar. 03166 Holtasóley. Holtasóley (fræðiheiti: "Dryas octopetala") er jurt af rósarætt sem vex á fjöllum og heimskautasvæðum. thumb Blöðin kallast rjúpnalauf. Þau eru skinnkennd, sígræn og gláandi, dökkgræn að ofan en silfurhvít og gláandi að neðan. Stönglar eru trékenndir. Holtasóley myndar breiður eða flatar þúfur. Blómin eru hvít með átta stórum krónublöðum. Þegar aldin þroskast verður stíll frævunnar að fjaðurhærðum hala. Frævurnar setja svip á jurtina við aldinþroskun og er hún þá nefnd hárbrúða. Holtasóley er mjög harðgerð jurt sem er algeng í mólendi og á heiðum og vex upp í 1000 m.y.s. Holtasóley er ein of einkennisjurtum á norðurslóðum. Íslendingar völdu holtasóley sem þjóðarblóm í atkvæðagreiðslu 2004. Holtasóley er einnig þjóðarblóm Sama. Munablóm. Munablóm (fræðiheiti: "Myosotis") er ættkvísl blóma af munablómaætt. Það eru um 50 tegundir munablóma og eru flestar tegundir með lítil fimmdeild blóm og blómstra á vorin. Blómlitur er mismunandi eftir tegundum, hvítt og bleikt eru algengir litir. Munablóma eru vinsælar garðjurtir. Færibreyta. Stiki eða færibreyta er í forritun breyta sem vísar til gagna sem falli er látið í té, þar sem gögnin sjálf kallast frumbreytur eða óháðar breytur. Með færibreytum er átt við eins konar "ramma" sem eru fyrir hendi í öllum málum, en fylla má út á mismunandi hátt (gefa mismunandi gildi) í ólíkum málum. Við skulum taka dæmi um færibreytur með falli skrifað í forritunarmálinu C. Í þessu tilfelli eru færibreyturnar heiltölurnar a og b og hegðar fallið sér í samræmi við færibreyturnar. Mjög líklegt má telja að fallið myndi skila a +b, enda heitir fallið jú summa. Færibreyta er í raun ekkert annað en vísir á minnishólf sem við höfum skýrt einhverju nafni okkur til einföldunar. Þegar við sendum færibreytu inn í fall höfum við val um að senda hana á nokkra vegu hvað minnishólfameðhöndlun varðar. Við getum sent inn afritunarfæribreytu eða tilvísunarfæribreytu. Munurinn er sá að þegar afritunarfæribreyta er send inn er gildi innsendu breytunnar afritað í nýtt minnishólf sem eingöngu er aðgengilegt innan fallsins. Þegar breyta er send inn í fall sem tilvísunarfæribreyta er í raun verið að senda inn tilvísun í minnishólf breytunnar. Þannig vísar breytan sem lifir innan fallsins í sama minnishólf og breytan sem send var inn í fallið og hafa því allar breytingar áhrif á báðum stöðum. Afritunarfæribreyta. Efst skilgreinum við fallið "fall" sem tekur inn tvær færibreytur með tölulegum gildum. Í aðal forritinu (main) búum við til tvær talnabreytur, x og y sem við gefum svo gildin 1 og 2. Því næst köllum við í fallið "fall" og sendum x og y inn í fallið sem færibreytur. Við þetta afritast gildi x inn í nýtt minnishólf breytunnar a og gildi y í nýtt minnishólf breytunnar b. Í fallinu er breytunni a gefið gildið 3 og breytunni b gefið gildið 4. Að keyrslu fallsins loknu heldur keyrsla aðal forritsins áfram og gildi breytanna x og y er prentað út á skjá. Þar sem a og b fengu ný minnishólf hefur gildi þeirra engin áhrif á x og y og því prenatast "x = 1 & y = 2" Tilvísunarfæribreyta. Eini munurinn í skilgreiningu fallsins "fall" er að & merkinu hefur verið bætt fyrir framan skilgreiningu a og b. Þegar x og y eru svo send inn í fallið vísar a á sama minnishólf og x og b á sama minnishólf og y. Þegar a er síðan gefið gildið 3 vistast það í þetta sameiginlega minnishólf og þegar b er gefið gildið 4 vistast það í hólfið sem b á sameiginlegt með y. Í þessu tilfelli skrifast því út "x = 3 & y = 4" í lokin. Lykkja (forritun). Lykkja eða slaufa í forritun er forritsbútur sem er skrifaður einu sinni, en svo framkvæmdur oft í röð. Fjöldi endurtekninga getur ráðist af talningu eða skilyrði. Lykkjur sem byggja á talningu nefnast FOR lykkjur, en þær sem byggjast á skilyrði nefnast WHILE lykkjur og DO lykkjur. FOR lykkjur. Dæmigerð FOR lykkja hefur teljara sem byrjar í 0 eða 1 og hækkar um einn í hvert skipti sem lykkjan er endurtekin, alveg þangað til settu hámarki er náð. Forritarinn ákveður sjálfur hvað teljarinn heitir, algengast er að nota bókstafinn i. FOR i = 1 TO N Kóðinn hér að ofan myndi prenta allar tölur frá 1 upp í N. Í þessu dæmi er bara ein skipun inni í lykkjunni, en þær mega vera margar. Hér að neðan sést hvernig hægt er að skilgreina fleiri en eina staðværa breytu í FOR-lykkju í C/C++ og að ekki þarf endilega að færa lykkju upp þótt að það sé hefðin. Þessi lykkja er hinsvegar farin að verða hættulega flókin og ætti því að forðast í flestum tilfellum. for (int i = 1000, int n = 0; i < MAX; i--) Hér að neðan sést hvernig hægt er að þræða í gegnum einhvern lista af hlutum með for-lykkju í Java 5.0. WHILE og DO lykkjur. WHILE lykkja skoðar tiltekið skilyrði og endurtekur lykkjuna svo lengi sem skilyrðið er satt. DO lykkja er alveg eins og WHILE lykkja, nema að hún athugar skilyrðið í lok lykkjunnar og því er öruggt að DO lykkja framkvæmist að minnsta kosti einu sinni. While lykkjan getur skrifað út nafnið 0 til n sinnum, þar sem n er fjöldi færslna sem rsGogn geyma. Algeng mistök við notkun while-lykkja er að tryggja að lykkjuskilyrðið verði einhverntíman ósatt. Þegar þessi mistök verða fyrir hendi festist keyrsla ferlisins í óendalegri lykkju. Að geta séð fyrir að þetta komi til með að gerast nefnist stöðvunarvandamál. Kyrrleg breyta. Í tölvunarfræði hefur kyrrleg breyta (e. static variable) nokkrar merkingar sem fara eftir notkun og samhengi. Í öllum tilfellum vísar þó nafnið til þess að breyta haldist óbreytt og stundum tiltæk á fleiri stöðum í forriti en aðeins þar sem hún er skilgreind. Staðværar breytur eru stundum kallaðar fastar (e. constant variables) til þess að þeim verði ekki ruglað við kvikar breytur (e. volatile variables). Meðal annars er hægt að nota kyrrlegar breytur sem fasta, sem breytur í local föllum og sem klasa breytur. Staðvær breyta. Staðvær breyta, einnig stundum nefnt kyrrleg breyta, í forritun er breyta sem einungis er hægt að nálgast innan þess gildissviðs sem hún var skilgreind í. Í tölvunarfræði hefur staðvær breyta, eða "static variable", nokkrar merkingar og fer það eftir notkun og samhengi. Í öllum tilfellum vísar þó að orðið static til þess að breyta verði óbreytt og stundum tiltæk fyrir utan skilgreiningu hennar. Static breytur eru jafnvel kallaðar constant breytur til að þeim verði ekki ruglað við kvikar (volatile) breytur. Það er m.a. hægt að nota static breytur sem fasta, sem breytur í local föllum og sem klasabreytur. Forritarar nota oft fasta sem eru skilgreindir sem tákn í staðinn fyrir tölur. Til dæmis gæti verið auðveldara að skrifa, lesa og viðhalda forriti, sem heldur utan um reikninga með nálgun á pí, með því að nota breytu sem heitir „PI“ í stað þess að skrifa „3.14159“ í gegnum allt forritið. static breytur sem breytur í local föllum. Sum mál leyfa föllum að varðveita gildi breyta milli kalla þannig að fallið varðveiti stöðu (state) sína ef það þarf þess. Til dæmis gæti staðvær breyta í falli skráð fjölda tilfella sem kallað er í það með því að nota innri teljara. Annars væri bara hægt að gera þetta með víðværum (global) breytum. Hlutbundin forritunarmál innihalda hugtökin „klasi“, sem heldur utan um breytur og föll, og „hluti“ (object) þar sem klasar eru upphafsstilltir. Staðvær breyta í því samhengi er sú sem á einungis við klasann sjálfann en ekki tilvik af hlut. Eftirfarandi dæmi, í C++, sýnir hvernig breyta sem er skilgreind staðvær (static) í falli viðheldur stöðu sinni milli kalla í það fall. Norðurslóðir. Rauða línan sýnir svæði með 10°C meðalhita í júlí en algengt er að styðjast við það sem skilgreiningu á norðurslóðum. Norðurslóðir (einnig kallaðar Norðurhöf eða Norðurheimskautssvæðið) er heimshlutinn í kringum Norðurheimskautið. Innan norðurslóða eru hlutar af Rússlandi, Alaska (sem tilheyrir Bandaríkjunum), Kanada, Grænland (sem tilheyrir Danmörku), Ísland, norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, en stærsti hluti svæðisins er hið ísi lagða haf Norður-Íshafið. Ekki er til nein algild skilgreining á norðurslóðum, en oftast er ýmist miðað við Norðurheimskautsbaug (66° 33’N), skógarmörk í norðri (trjálínu), 10°C meðalhita í júlí eða skilin milli kalda Íshafssjávarins og hlýrri sjávarstrauma í Norður-Atlantshafi. Vistfræðilega er Ísland á mörkum þess svæðis sem talið er til norðurslóða. Þau ríki sem eiga lönd innan norðurslóða vinna saman innan Norðurskautsráðsins. Norðurslóðir einkennast af miklu víðerni, köldu og þurru loftslagi, miklum árstíðaskiptum með skammdegi á veturna og björtum nóttum á sumrin, hafís á norðurhöfum og sífrera í jörðu á stórum svæðum. Íbúar. Inúítafjölskylda á ljósmynd frá 1916 Norðurslóðir einkennast af afar strjálli og dreifðri byggð. Íbúar norðurslóða eru á bilinu 3 til 4 milljónir eftir því hvernig svæðið er skilgreint. Um 10% þeirra eru frumbyggjar sem skiptast í a.m.k. þrjátíu þjóðarbrot og eru flest þeirra í Rússlandi. Við lok síðustu ísaldar, eða fyrir 10 til 15 þúsund árum, tók fólk að setjast að á norðurslóðum. Búseta á Grænlandi hófst fyrir um fjögur þúsund árum. Byggðin hvarf þúsund árum síðar vegna breyttra veðurskilyrða og önnur þúsund ár liðu þar til Grænland byggðist að nýju. Á Grænlandi var um fimm alda skeið á síðmiðöldum norrænt samfélag sem talið er hafa liðið undir lok á 15. öld. Inúítar búa í norðurhéruðum Norður-Ameríku og skyldir þjóðflokkar, s.s. Aleutar og Yup'ik, búa á ströndum Grænlands, í Alaska og Síberíu. Indjánaþjóðir eins og Aþapaskar búa í Vestur-Kanada og í Alaska. Á Grænlandi eru 55.000 íbúar sem flestir eru Kalallítar (Inúítar). Landið varð dönsk nýlenda á átjándu öld og fékk heimastjórn árið 1979. Í nóvember 2008 kusu Grænlendingar aukna sjálfstjórn í þjóðaratkvæðagreiðslu með 75,54%, núverandi ríkisstjórn stefnir að algjöru sjálstæði árið 2021. Samar eru frumbyggjar norðurhéraða Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Samar í Noregi um 1900. Í norðurhéruðum Rússlands eru þjóðarbrotin Tjúktar, Komi, Kirjálar og Jakútar sem hvert um sig telur nokkur hundruð þúsund manns. Þau hafa öll sérstök sjálfstjórnarsvæði. Einnig eru 26 minni þjóðarbrot dreifð um Síberíu og er áætlað að þessum þjóðarbrotum tilheyri u.þ.b. 186.000 manns. Meðal þeirra eru Kantar sem búa með fram Ob-fljótinu í vesturhluta Síberíu og Evenar sem halda hreindýr og búa í Austur-Síberíu nálægt Kyrrahafi. Hefðbundið viðurværi íbúa norðurslóða eru veiðar og kvikfjárrækt (t.d. fiskveiðar, selveiði, hvalveiðar, sauðfjárrækt og hreindýrarækt). Vegna kulda eru fá svæði á norðurslóðum sem henta til akuryrkju en aftur á móti er á vissum árstímum mikil veiði, bæði á landi, í vötnum og í hafi. Vegna þessa var hlutfall dýraafurða hærra í fæðu íbúa norðurslóða en fólks í öðrum heimshlutum og þess sér enn merki í fæðuvali. Náttúra. Lífríki norðurslóða spannar mörg lífbelti og búsvæði; barrskógar eru í suðri, freðmýrar og fjalllendi um miðbik svæðisins og ísjaðar í norðri. Tiltölulega fáar dýrategundir lifa á norðurslóðum en oft eru tegundirnar margbreytilegar. Eitt einkenni norðurslóða er gríðarlega stórir stofnar sumra tegunda svo sem fiskistofna (loðnu og síldar), sjófugla (haftyrðla og lunda) og spendýra eins og læmingja og hreindýra. Frumframleiðsla á norðurslóðum er mikil þó að vaxtartíminn sé stuttur. Miklar sveiflur eru í fæðu dýra eftir árstíma og stofnstærð sumra dýrategunda sveiflast mikið milli ára. Þannig er stofnstærð rjúpu afar breytileg og stofnstærð dýra sem éta rjúpu, s.s. fálka, sveiflast í takt við það. Einnig sveiflast stofnstærð snæuglu eftir því hve mikið er af læmingjum sem er aðalfæða hennar. Hreindýr, hvítabirnir, sauðnaut, selir, heimskautarefir og snæuglur eru einkennisdýr á norðurslóðum. Um 360 fuglategundir halda til á norðurslóðum þar af 75 á Íslandi. 40 fuglategundir eru staðfuglar, 35 tegundir færa sig á milli á norðurslóðum, en langstærsti hlutinn eða 280 tegundir eru farfuglar sem aðeins dvelja þar að sumri til. Náttúruauðlindir. a> í Norður-Noregi, norðan við heimskautsbaug. Sums staðar á norðurslóðum eru miklar náttúruauðlindir; olíu- og gaslindir eru á norðurströnd Alaska, í Nunavut í Kanada og á vatnasviði Petsjorafljótsins í Rússlandi vestan Úralfjalla. Miklar nikkel- og koparnámur eru á Kóla- og Taímírskaganum í Rússlandi, demantanámur eru í Jakútíu í Rússlandi og vesturhéruðum Kanada og kolanámur eru á Svalbarða. Á norðurslóðum eru ein stærstu fiskimið heimsins. Mikið af ferskvatnsbirgðum heimsins er á norðurslóðum. Stórar ár falla til sjávar á norðurslóðum og í þeim eru stundaðar fiskveiðar. Fallorka þeirra er auk þess nýtt til raforkuframleiðslu. Einnig eru árnar nýttar til að fleyta til sjávar trjám úr nyrstu hlutum barrskógarbeltisins. Stundum rekur trjáboli yfir Íshafið og enda sem rekaviður á öðrum nálægum svæðum, t.d. á Íslandi. Loftslagsbreytingar. Á norðurslóðum sjást loftslagsbreytingar á jörðinni skýrar og hraðar en víðast annars staðar og gefa rannsóknir á norðurslóðum vísbendingu um hvers megi vænta annars staðar á jörðinni. Rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli hafa sýnt tengsl milli hlýnandi veðurfars og hækkandi koltvísýrings. Spáð er hlýnun í heiminum á næstu áratugum og gæti hlýnun á norðurslóðum orðið meiri sem lýsti sér m.a. í meiri rigningu og hækkun sjávarmáls. Rannsóknir virðast benda til að hraði loftslagsbreytinga sé mestur á pólsvæðum jarðarinnar. Því er spáð að barrskógabeltið stækki til norðurs og freðmýrar minnki um allt að helming á einni öld en skógrækt og kornrækt verður möguleg víðar á svæðinu. Siglingar. Ísbrjótur ryður leið gegnum ísi lagt haf. Siglingar um Norður-Íshafið eru gríðarlega erfiðar sökum rekíss og vegna útþenslu heimskautsíssins á veturna. Þetta gerir það að verkum að ekki er öruggt að sigla um hafið nema á vissum árstímum á sérútbúnum skipum og í fylgd með ísbrjótum. Siglingar á minni bátum voru stundaðar af Inúítum á kajökum, norrænum mönnum á knörrum og Pómorum á tvímastra skipum með ráseglum (kotsj) en þessar siglingar voru bundnar við styttri leiðir sem hægt var að komast yfir á einu sumri. Fyrsta hrina könnunar Norður-Íshafsins, frá 16. öld til 19. aldar, var knúin áfram af áhuga á að finna nothæfa leið frá Evrópu og austurströnd Ameríku norður fyrir Norður-Ameríku annars vegar (Norðvesturleiðin) og Rússland hins vegar (Norðausturleiðin). Eftir margar misheppnaðar tilraunir til að finna Norðvesturleiðina varð Roald Amundsen fyrstur til að ná að sigla hana í einni atrennu árið 1906. Frekari tilraunir hafa síðan leitt í ljós að þessi leið er ekki áhættunnar virði fyrir vöruflutninga. Vestari hluti Norðausturleiðarinnar var mikið notaður af Evrópubúum (Rússum, Dönum, Svíum og Hollendingum) frá því á miðöldum og Pómorar við Hvítahaf náðu allt austur til ósa Jenisejfljóts. Fyrstur til að ná austur fyrir Tjúktaskaga var Semjen Desnjev á 17. öld en ekki tókst að sigla alla leiðina í einni ferð fyrr en 1878 þegar finnsk-sænski landkönnuðurinn Adolf Erik Nordenskiöld sigldi austur eftir henni allri. Hann þurfti þó að bíða fastur í ísnum yfir veturinn. Vandamálið við Norðausturleiðina er hvað hún er löng og einungis sjö hafnir á henni eru lausar við ís allt árið um kring. Það gæti þó átt eftir að breytast. Samfara hnattrænni hlýnun og þar með bráðnun heimskautaíssins opnast möguleikar á siglingaleið allt árið um Norður-Íshaf. Sjóleiðin milli austurstrandar Norður-Ameríku og Asíu (Kína) er þrettán þúsund sjómílur að lengd ef siglt er um Miðjarðarhaf og Súesskurðinn en yrði níu þúsund sjómílur ef farin væri sjóleið um Ísland og gegnum Norður-Íshafið. Við opnun Norðausturleiðarinnar milli Asíu og Evrópu gæti Ísland orðið umskipunarland á vesturenda siglingarleiðarinnar þar sem Ísland liggur landfræðilega vel við sem miðstöð dreifingar til Evrópu og Ameríku. Siglingar milli ríkja innan norðurslóða svo sem milli Vestfjarða og Grænlands yrðu einnig greiðari. Mengun. Tiltölulega lítil mengun er á svæðinu og mesta mengunin á uppruna sinn utan svæðisins. Eiturefni sem safnast saman í fitu sjávarspendýra hafa fundist í fólki frá norðurslóðum. Helsta áhyggjuefni núna er mengun af völdum kvikasilfurs, blýs og kadmíum. Kvikasilfur safnast í fitu dýra og borið hefur á uppsöfnun kvikasilfurs hjá fólki á norðurslóðum sem lifir á fituríku sjávarfangi. Geislavirkni á norðurslóðum stafar af því að þar voru gerðar tilraunir með kjarnorkusprengjur. Norðurskautsráð. Norðurskautsráðið er vettvangur þar sem ríki sem eiga land á norðurslóðum vinna að sameiginlegum málefnum sem varða norðurslóðir. Í ráðinu eiga sæti átta lönd. Þau eru Ísland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland, Rússland, Kanada og Bandaríkin. Einnig eiga samtök eftirfarandi sex frumbyggjahópa fastafulltrúa í ráðinu: Alþjóðasamtök Aleúta, Alþjóðarráð Gwich'inþjóðarinnar, Norðurskautsráð Atabaksa, Norðurskautlæg svæðissamtök Inúíta (Svæðissamtök Inúíta á norðurslóðum), Samtök þjóða í Rússlandi sem eiga uppruna sinn á norðurslóðum og Samaráðið. Starfssemi Norðurskautsráðsins miðar að því að vernda umhverfi norðurskautssvæðisins og vinna að velfarnaði íbúa þess í efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu tilliti. BASIC. BASIC (Beginner's All-purpose Symbolic Instruction Code) er samansett af nokkrum forritunarmálum af þriðju kynslóðar gerð. Það var fundið upp árið 1964 af John George Kemeny og Thomas Eugene Kurtz í Darthmouth Háskóla, það var hannað fyrir nemendur sem ekki voru í vísindaáföngum til að nota tölvur. Eina leiðin til að nota tölvur á þessum tíma var að skrifa forritin sjálfur, sem aðeins vísindamenn og stærðfræðingar voru tilbúnir að gera. Forritunarmálið varð fyrst vinsælt á 9. áratugnum með tilkomu heimilistölvunnar og eru nokkur stór forritunarmál sem eru notuð í dag byggð á því. Jómfrúaeyjar. Jómfrúaeyjar eða Jómfrúreyjar eru eyjaklasi í Karíbahafinu. Eyjunum er skipt upp í tvo hluta. Annar er breskt yfirráðasvæði handan hafsins og kallast Bresku Jómfrúaeyjar. Hinn hlutinn kallast Bandarísku Jómfrúaeyjar og tilheyra Bandaríkjunum. Kristófer Kólumbus skírði eyjarnar "Santa Ursula y las Once Mil Vírgenes" (stytt í "Las Vírgenes") eftir heilagri Úrsúlu og 11.000 jómfrúm hennar. Á tímum landafundanna voru þær byggðar af Karíbum sem var útrýmt snemma á nýlendutímanum. Eyjarnar voru seinna byggðar af afrískum þrælum sem unnu á sykurplantekrum. Plantekrurnar eru nú horfnar, en afkomendur þrælanna búa þar ennþá. Ferðaþjónusta er nú aðalatvinnugreinin. Á bæði Bresku og Bandarísku Jómfrúaeyjum er ekið vinstra megin á vegi og gjaldmiðillinn er Bandaríkjadalur. Freðmýri. Freðmýri eða túndra er heiti á nyrsta gróðurbelti jarðar, þar sem sífreri er við -1 °C. Þar er hiti of lágur og vaxtartími of stuttur til að tré geti dafnað. Orðið „túndra“ kemur úr samískri mállýsku og þýðir „trjálaus slétta“, en þó vaxa sums staðar tré í túndru. Mörkin á milli gróðurbelta freðmýrar og skóglendis er kölluð trjálína (skógarmörk). Á túndru vaxa lágvaxnar jurtir eins og lágvaxnar víðitegundir, fjalldrapi, grös, starir, mosi og fléttur. Frostið í freðmýrum getur mótað landslagið og lyft því upp og skapað freðmýrarfyrirbæri eins og rústir og melatígla. Rústir (jarðfræði). Rústir eru bungur í landslagi freðmýrar, sem myndast þannig að jarðvegsyfirborð hækkar þegar íslinsa myndast í fínkornóttum jarðvegsefnum undir einangrunarlagi, t.d. mólagi. Fyrsta stig rústar er allstór þúfa, næsta stig er þegar jarðvegur og gróður tekur að veðrast burt á hliðum rústarinnar og síðasta stigið er þegar myndast tjörn þar sem íslinsan hafði áður verið. Rústir eru flokkaðar sem "stöðugar", "óstöðugar" og "staðnaðar" eftir því hvernig gróður vex á þeim. Móajarðvegur. Mójörð ("Histosol") er jarðvegsgerð. Mójörðin er lífræni jarðvegur mýra, hinn eiginlegi mór. Hann finnst aðeins í votlendi þar sem áfok er lítið. Mójörð er oft snauð af næringarefnum fyrir plöntur þar sem þau hafa skolast burtu í jarðveg sem alltaf er blautur. Venjulega er er mójörð blaut því að hið lífræna efni dregur í sig vatn. Það er mikið af lífrænum efnasamböndum í mójörð og er oft miðað við 20 prósent af lífrænu efni á 40 sm jarðvegsdýpt sem skilgreiningu á mójörð. Mórinn getur orðið mjög þykkur og hefur mælst meira en 7 metra þykkur. Jarðvegsgerð. Jarðvegsgerð er flokkun á jarðvegi eftir áfoki, lífrænu efni og hversu blautur jarðvegur er. Íslenskur jarðvegur er að stærstum hluta eldfjallajörð ("andosol"). Það er sérstök jarðvegsgerð sem myndast á eldfjallasvæðum heimsins. Einkenni eldfjallajarðar eru frjósemi jarðvegs, lítil rúmþyngd og skortur á samloðun. Þessi skortur á samloðun gerir eldfjallajörð viðkvæma fyrir roföflum s.s. vindi. Plötufrystir. Plötufrystir hefur verið notaður við frystingu fisks frá upphafi þeirrar vinnsluaðferðar. Inni í frystinum eru plötur sem frysta þá vöru sem þær snerta. Öskjum er raðað á þar til gerða bakka eða settar í þar til gerð form sem fara inn í frystinn og teknir út þegar varan er frosin. Öskjurnar snerta plöturn frystisins. Plöturnar eru kældar með kælimiðlum, svo sem ammoníaki eða freoni. Plöturnar geta verið lóðréttar eða láréttar. Fiskmarningur og þunnildi eru fryst með plötufrystum, eins tíðkast það að ákveðnir viðskiptavinir kjósi að kaupa lítil flök fryst með þessum hætti í blokk, með eða án plasts inni í blokkinni til að skilja á milli flaka. Lausfrystir. Lausfrystir Er frystitæki sem er notað við frystingu verðmætra matvæla. Lausfrystir frystir hverja einingu fyrir sig, hvert flak, hvern sporð, hverja rækju, ólíkt plötufrysti, hvar matvæli, nokkrar einingar í senn, er frystar í einni og sömu öskju, að tiltekinni stærð og þyngd. Verðmætustu afurðirnar eru gjarnan frystar með lausfrysti. Í lausfrysti er köldu lofti blásið á matvælin sem berast á færibandi að, inn í og út úr lausfrystinum. Föll og stefjur. Föll og stefjur eru fyrirbæri í hefðbundnum forritunarmálum sem eru notuð til að einangra og einfalda vandamálið. Föll og stefjur eru einnig notuð við endurnýtingu forritskóða, þú skrifar fallið eða stefjuna einu sinni en getur notað það mörgum sinnum. Föll og stefjur hafa tvo hluta: yfirlýsingarhluta og útfærsluhluta. Yfirlýsingarhluti þarf að koma á undan útfærsluhluta og þurfa að hafa samsvörun. Yfirlýsingarhluti er hausinn á fallinu eða stefjunni og útfærslunhlutinn er síðan hausinn og útfærslan. Í Delphi (Object Pascal) eru til tvær tegundir af föllum og stefjum sem geta haft færibreytur. Föll og stefjur geta tekið við og skilað út gildum í færibreytum og úttaksgildi. Tilvísanafæribreytur (reference variables): Þá er vísað í minnisvæði breytunnar sem inniheldur gildið sem á að nota. Gildisfæribreytur (value variables): Þá er sett gildi breytunnar sem á að nota. Úttaksfæribreytur (return variables): Þá skilar fallið/stefjan út gildi í breytuna sem send er í fallið/stefjuna. Stefjur hafa frátekna orðið procedure og forritskóði er settur inn á milli begin... end blokka en þau eru einnig frátekin orð. Procedure summaKoda(var kodi: integer; const tala: integer; out summa: integer); summa:= intTempTala * (kodi + tala); "kodi" er tilvísanafæribreyta þar sem hún hefur frátekna orðið var fyrir framan sig. "tala" er gildisfæribreyta. Frátekna orðið const er sett fyrir framan hana en þarf í raun ekki að vera nema koma eigi í veg fyrir að átt sé við gildið úr breytunni í stefjunni ef talið er þörf á að passa uppá það. "summa" er úttaksfæribreyta þar sem hún hefur frátekna orðið out fyrir framan sig. Allar breyturnar hafa integer fyrir aftan sig sem segir að þær eru allar af taginu heiltala. Í stefjum er einnig hægt að skilgreina staðbundnar breytur (local variables) til að nota í stefjunni. Það er gert með því að setja frátekna orðið var fyrir framan begin í stefjunni. Föll hafa frátekna orðið function og hefur einnig begin... end blokk sem forritskóði er settur inn á milli. Fjarlægja línuna "out summa: integer" úr skilgreiningunni og; einnig, muna eftir því. Setja ": integer" fyrir aftan svigann) í skilgreiningunni. Skipta út "summa" með frátekna orðinu "Result" í útfærslunni. Function summaKoda(var kodi: integer; const tala: integer): integer; Result:= intTempTala * (kodi + tala); "Result" er skilagildi úr falli sem skýrir þörfina á ": integer" fyrir aftan svigann) í skilgreiningunni. Þar sem fallið hefur skilagildi þá var "summa" færibreytan óþörf og mátti því fjarlægja hana. Föll og stefjur geta einnig haft frátekna orðið Class fyrir framan sig en þá er hægt að nota fallið eða stefjuna án þess að hafa búið til tilvik (instance) af einingu (unit) sem fallið eða stefjan er skilgreind í. Föll og stefjur er hægt að skilgreina og útfæra í öðrum föllum og stefjum. Um föllin og stefjurnar gilda sömu almennu atriði og um föll og stefjur nema fallið eða stefjan kemur fyrir aftan procedure í fallinu eða stefjunni sem það á að vera í og á undan frátekna orðinu var ef það er þá notað í fallinu eða stefjunni. Dæmi um fall í falli í einingu sem ekki þarf að búa til tilvik af Class Function summaKoda(var kodi: integer; const tala: integer): integer; Function reiknaSummu(kodi, tala, tempTala: integer): integer; Result:= tempTala * (kodi + tala); Öndvegissúlur. Öndvegissúlur voru tveir útskornir tréstofnar og stóð sinn stofninn til beggja handa við öndvegi víkingahöfðingja, þ.e. hásæti þeirra. Öndvegissúlur voru oft útskornar myndum af æsum og þykir líklegt að þær hafi staðið sem táknmynd fyrir "tré lífsins", það er að segja Ask Yggdrasils. Er landnámsmenn námu land við Ísland, lögðu þeir traust sitt í þessar súlur til að finna sér bústað. Er þeir sáu til lands vörpuðu þeir öndvegissúlum frá borði til heilla og settust svo að þar sem þær rak á land. Það gat stundum kostað töluverða leit um strendur landsins að hafa upp á súlunum. Samkvæmt Landnámubók voru öndvegissúlur Ingólfs enn í eldhúsi í Reykjavík á fyrri hluta 12. aldar þegar sú bók var tekin saman. Hugbúnaðarverkfræði. Hugbúnaðarverkfræði er starfsgrein er notar verkfræði til að öllu er kemur hugbúnaðarþróun, allt frá fyrstu skrefunum er snúa að þarfa þarfagreiningu og hönnun að því að viðhalda hugbúnaðinum eftir að hann hefur verið tekinn í notkun. Hér eru tvö lykilatriði sem vert er að fara ítarlegra í; Verkfræði er að fá hluti til að virka. Hún byggja á þeoríu, verkferlum og ásamt vali á tólum. Verkfræðingar velja þau í samráði við þarfir hvers verkefni að hverju sinni. Verkfræðingar vinna oft undir fjárhagslegri og tímalegri pressu, er hefur áhrif á val tækja og tóla. Hugbúnaðarþróun hefur ekki einungis með tæknilegar hliðar, svo sem forrit, á hugbúnaði að gera heldur snýr að öllu ferlinu í heild - svo sem verkefna og hópstjórnun, þróun hjálparforrita og nýrra aðferða við framleiðslu hugbúnaðar. Munurinn á hugbúnaðarverkfræði og tölvunarfræði. Í atvinnulífinu er yfirleitt ekki gerður greinamunur á starfssviði hugbúnaðarverkfræðinga og tölvunarfræðinga og það er ekki mikill munur á náminu. Tölvunarfræði sem fræðigrein snýst um hvernig er hægt að leysa tiltekið vandamál með hjálp tölvu en hugbúnaðarverkfræði sem fræðigrein snýst um hvernig á að standa að hugbúnaðarþróun til að framleiða góðan hugbúnað á sem hagkvæmastan hátt. Þó að verklag við hugbúnaðarþróun geti verið frekar óskipulagt, þá er samt þörf á rannsóknum á því hvernig hægt er að bæta verklagið, t.d. hvort ein aðferð henti betur en önnur. Nám á Íslandi. Hugbúnaðarverkfræði er kennd á Íslandi bæði við Háskóla Íslands (frá 2001) og Háskóla Reykjavíkur (frá 2006). Hvað er kennt? Það getur verið erfitt að skilgreina muninn á hugbúnaðarverkfræðingum og tölvunarfræðingum. Á Íslandi læra nemar í hugbúnaðarverkfræði að beita öguðum aðferðum á úrlausnarverkefni. Þessar aðferðir eru frá greinum stærðfræði (stærðfræðigreining, tölfræði, línuleg algebra), stjórnunar og reksturs (hagverkfræði, rekstrarfræði, verkefnastjórnun), gæðastjórnunar (hugbúnaðarprófanir, iðnaðartölfræði) og síðast en ekki síst tölvunarfræði (þróun hugbúnaðar, forritunarmál, almenn tölvunarfræði, uppbygging tölvunnar og stýrikerfa, netafræði og reiknirit). Kröfur til þess að vera hugbúnaðarverkfræðingur. Hugbúnaðarverkfræðingur getur sá kallað sig sem hefur fengið það samþykkt frá Verkfræðingafélagi Íslands. Til þess þarf að vera með mastersgráðu í hugbúnaðarverkfræði. Mastersnám tekur 2 ár, en fyrst þarf að ljúka B.S. námi sem tekur 3 ár. Strætó bs.. Strætisvagn á leið 14 í Reykjavík Strætó bs. er byggðasamlag sem rekur strætisvagnakerfi á höfuðborgarsvæði Íslands og Akranesi. Saga. Strætó bs. varð til 1. júlí 2001 með sameiningu Strætisvagna Reykjavíkur (SVR) sem sinnti Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ og Almenningsvögnum (AV) sem sinntu Hafnafirði, Kópavogi, Garðabæ og Bessastaðarhreppi. Rekstrarform. Strætó bs. er byggðasamlag ("bs.") í eigu Reykjavíkurborgar, Kópvogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarneskaupstaðar og Sveitafélagsins Álftaness, og rekur fyrirtækið strætisvagnakerfi sem nær til allra þessara sveitarfélaga og Akraness að auki. Eignarhlutföll hvers sveitafélags í samræmi við íbúafjölda þess. Fargjöld. Staðgreitt far með Strætó bs. kostar 350 kr., frítt er fyrir börn yngri en 6 ára. Einnig geta almennir farþegar keypt 11 miða á 2.500 kr, börn 6-11 ára 20 miða á 750 kr, ungmenni 12-18 ára 16 miða á 1.600 kr og öryrkjar og aldraði 20 miða á 1.600 kr. Bílstjórar gefa ekki til baka en sé ekki hægt að greiða 350kr taka þeir fúsir við 400kr greiðslu. Afsláttarkort. Hægt er að kaupa afsláttarkort sem veita ótakmarkaðan aðgang að strætisvögnum Strætó bs. á gildistímanum, verð á þeim er eftirfarandi. Strætóskýli. Strætóskýli (biðskýli, stoppustöð eða biðstöð) er biðskýli þeirra sem bíða eftir strætisvagni, en biðskýlunum er ætlað að veita farþegunum skjól frá veðri og vindum. Biðskýlin eru þó auðvitað líka notuð af fleirum, svo sem gangandi vegfarendum sem vilja skýla sér tímabundið. Kraftlyftingar. Bekkpressa er ein grein kraftlyftinga. Kraftlyftingar eru kraftaíþrótt sem svipar til ólympískra lyftinga, en í báðum íþróttum er keppst við að lyfta sem mestri þyngd í þremur tilraunum. Í kraftlyftingum eru þrjár keppnisgreinar: Bekkpressa, hnébeygja og réttstöðulyfta. Kraftlyftingar á Íslandi. Kraftlyftingar eru eftir samþykki framkvæmdastjórnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og skipan í stjórn fyrstu Kraftlyftinganefndar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þann 24. mars 2009, hluti af löglegum íþróttum á Íslandi þ.e.a.s. íþróttum sem grundvölluð eru á íþróttalögum og þjóðaréttarlegum samningum um íþróttamál m.a. um lyfjaeftirlitsmál í íþróttum sem skuldbinda Ísland að þjóðarétti og gildi hafa að íslenskum landsrétti. Hnébeygja. Hnébeygjan er framkvæmd þannig að farið er undir stöng svo að hægt sé að ýta herðunum upp undir hana. Því næst lyftir viðkomandi stönginni af höldunum með því að rétta alveg úr sér og gengur sem fæst skref frá höldunum. Þar nær hann jafnvægi á þyngdinni. Því næst beygir viðkomandi hnén svo að ofanvert lærið framanvert fari niður fyrir framanvert hnéð og stendur svo aftur upp með þyngdina ef hann kemur því við. Bekkpressa. Bekkpressan er framkvæmd þannig að lagst er á bekk undir stöng sem situr á höldum. Þar kemur viðkomandi sér kyrfilega fyrir, lyftir stönginni af höldunum, fer því næst með hana niður að bringu, bíður örstutta stund og lyftir svo þyngdinni aftur upp og skilar af ef hann getur. Í keppni mega aðstoðarmenn lyfta stönginni af höldunum og setja aftur á höldurnar þegar dómari leyfir. Undanfarin ár hafa verið miklar deilur um notkun útbúnaðar í kraftlyftingakeppnum og hefur sú notkun hérlendis einkum skilað sér í miklum bætingum á bekkpressu í keppni. Þetta ber að hafa í huga þegar metin eru skoðuð. Réttstöðulyfta. Réttstöðulyftan er móðir allra kraftahreyfinga. Stöngin er á gólfinu og þarf að lyfta henni upp þannig að viðkomandi réttir fullkomlega úr sér og axlir eru sperrtar. Ekki má stoppa lyftuna á miðri leið og ekki má jugga henni upp. Aldursflokkar. Í kraftlyftingum er keppt í 7 aldursflokkum sem ná frá 14 ára aldri og upp úr. Haldin eru sérstök mót þar sem að aðeins ákveðnir aldursflokkar fá að keppa, t.a.m. unglingamót eða öldungamót. Flest kraftlyftingamót eru þó opin fyrir alla aldursflokka. Þyngdarflokkar. Þyngdarflokkar í kraftlyftingum eru breytilegir eftir aldursflokkum (æsku- og unglingaflokkar innihalda einn auka þyngdarflokk fyrir léttustu keppendurna). Þann 1. janúar 2011 tók alþjóða kraftlyftingasambandið (IPF) upp nýja þyngdarflokka og fækkaði þeim niður í 8 fyrir bæði kyn en áður höfðu þeir verið 11 fyrir karla og 10 fyrir konur. Heiti þyngdarflokka í töflunni hér fyrir neðan tákna mestu þyngd í hverjum flokk, t.d. inniheldur 93 kg flokkur karla þá sem vigtast frá 83,01 kg til 93,00 kg. Undantekningar á þessari reglu eiga við þyngstu flokkana en heiti þeirra táknar þá þyngd sem einstaklingar í flokknum vega yfir, t.d. eru vega einstaklingar í +120 kg flokk karla frá 120,01 kg og upp úr. Strætisvagn. Strætisvagn, strætó eða strætóbíll er fólksflutningabifreið, notuð til að flytja fólk á milli staða innan strætisvagnakerfis bæja og borga. Rútur er notaðar til fólksflutninga á lengri leiðum. Kvennalistinn. Kvennalistinn ("Samtök um kvennalista") var stjórnmálaflokkur á Íslandi sem starfaði frá 13. mars 1983 þar til hann sameinaðist Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi, en árið 1998 stofnuðu þessir þrír flokkar Samfylkinguna. Forverar Kvennalistans voru Kvennaframboðin í Reykjavík og á Akureyri sem fengu fulltrúa kjörna í sveitarstjórnarkosningunum árið 1982. Kvennalistinn bauð fram til Alþingis í þremur kjördæmum vorið 1983. Listinn hlaut 5,5 % atkvæða og fékk þar með þrjár konur inn á þing. Í kosningunum 1987 fékk flokkurinn 10,1% atkvæða og sex konur inn á þing. Listinn tapaði einu sæti árið 1991, og náði aðeins 3 konum á þing árið 1995. Forsaga. Eftir að Rauðsokkahreyfingin skipulagði sig sem félagssamtök og gaf út sína fyrstu stefnuskrá árið 1974 yfirgáfu margar konur hreyfinguna og í kjölfarið einangraðist hún mjög. Komandi ár voru mikill uppskerutími í kvennabaráttu á Íslandi. Árið 1975 var Kvennaár Sameinuðu Þjóðanna. Íslenskt samfélag varð tilfinnanlega meðvitað um það þegar íslenskar konur fóru í sólarhrings verkfall til að vekja athygli samfélagsins á mikilvægi vinnukrafts þeirra. Talið er að 90% allra íslenskra kvenna hafi tekið þátt í verkfallinu. Árið 1980 er svo Vigdís Finnbogadóttir kosin forseti Íslands. Vigdís hafði engar tengingar við femínistíska hópa en kosning hennar hafði þó gríðarlega þýðingu fyrir kvennabaráttu hér á landi. Baráttan fyrir jafnrétti var í fullum gangi en nú vantaði miðilinn sem gæti sameinað krafta kvenna í þessu mikilvæga máli. Rauðsokkasamtökunum var slitið árið 1982 þegar stór hluti þeirra meðlima sem að eftir voru yfirgáfu samtökin til að stofna Kvennaframboðið árið 1982. Þar sem að Rauðsokkurnar höfðu enga félagsmeðlimalista er ekki hægt að færa sönnur fyrir því að meðlimir þaðan hafi tekið þátt í að stofna Kvennaframboðið, en nokkrar rauðsokkur hafa staðfest þetta. Kvennaframboðið bauð fram lista bæði í Reykjavík og á Akureyri til sveitarstjórnarkosninga árið 1982 og fékk tvær konur kosnar í hvorum kosningum. Ári seinna, 1983, voru Alþingiskosningar. Var þá rædd sú hugmynd innan Kvennaframboðsins hvort bjóða ætti fram lista til þeirra. Þetta leiddi hinsvegar til deilna innan flokksins. Ekki voru allir meðlimir sammála um hvort seta á Alþingi myndi þjóna hagsmunum flokksins. En slíkt var talið geta leitt til uppgjafar á vissum femínískum hugmyndum hans. Hluti Kvennaframboðsins ásamt fleiri konum tóku sig því saman og stofnuðu nýtt framboð, Kvennalistann. Kvennalistinn bauð sig fram í þremur kjördæmum; Reykjavík, Akureyri og Norðurlandi-Eystra, en listinn náði inn 3 konum með 5,5% atkvæða í þessum fyrstu kosningum. Hugmyndafræði Kvennalistans. Kvennalistinn vildi leggja stund á það sem flokksfélagar kölluðu kvennapólitík, en það var sú pólitík sem þær sáu sig tilneyddar að ástunda. Slík pólitík skyldi hafa kvenlegt gildismat að leiðarljósi og þar með öll mál rædd út frá kvenlegum sjónarhóli. Þessi hugmynd um kvennapólitík er bein afleiðing af þeirri kvennamenningarhugmyndafræði sem Kvennalistinn byggði á. Þar er gengið út frá þeirri grunnhugmynd femínismans að kynin séu ólík, þ.e. áhersla er lögð á líffræðilegan mun kynjanna og ólíkan reynsluheim þeirra. Eitt mikilvægasta baráttumál Kvennalistans var kvenfrelsi, sem fól í sér rétt kvenna til að vera metnar að eigin verðleikum til jafns við menn. Í þessu samhengi var einnig lögð áhersla á þær sæktust ekki eftir jafnrétti sem að fæli í sér rétt kvenna til að verða eins og menn. Slíkt jafnrétti gæti aðeins talist rétturinn fyrir konur að verða annarsflokks karlmenn. Í þessu atriði er Kvennalistinn á öndverðum meiði við Rauðsokkahreyfinguna. Kvennalistinn var andvígur hinum venjulega skilning á jafnrétti, eins og því er lýst í lögum og skilið af samfélaginu. Það jafnrétti álitu kvennalistakonur skapað af manninum og var konan ekki höfð með í ráðum við sköpun þess. Kvennalistinn leit svo á að ekki væri hægt að kalla nokkuð jafnrétti fyrr en ólikir heimar kvenna og karla hefðu gengið inn í hvorn annan og álit kynjanna virt að jöfnu í samfélaginu. Kvennalistinn hélt því fram að vegna hins sérstaka reynsluheims kvenna væri gildismat þeirra annað en það sem ráðandi er í hinum hierarkíska heimi. Konur sjái hlutina frá öðru sjónarhorni og hafi því margt til málanna að leggja sem gagnast myndi samfélaginu fengju þær rödd sína heyrða. Hugmyndin var að konur og karlar gætu tekið til sín það besta úr heimi hvers annars og saman skapað nýjan heim. Hugmynafræði Kvennalistans var nokkuð róttæk. Þannig gengu þær út frá því að ástæða lægri stöðu kvenna í íslensku samfélagi lægi í samfélagsgerðinni. Þannig var það sjálf samfélagsgerðin sem að þær vildu breyta. Kvennalistinn leit svo á að hinir rótgrónu íslensku stjórnmálaflokkar hvorki hlustuðu á raddir kvenna né hjálpuðu þeim inn á þing. Þeir tækju ekki heldur fyrir þau mál sem að konum þættu hvað mikilvægust. Þetta álitu þær vera ástæðu þess að konur yrðu sjálfar að berjast fyrir réttindum sínum og betri heimi, því enginn annar gerði það fyrir þær. Þegar þessi hugmyndafræði er skoðuð nánar má sjá skýran mun á hugmyndum Kvennalista og Rauðsokkahreyfingarinnar. Rauðsokkahreyfingin vann út frá femíniskum hugmyndum þar sem áhersla er löggð á kynin séu jöfn þrátt fyrir líffræðilegan mun, markmið þeirra var að afla sér inngöngu inn í heim karlmanna. Kvennalistinn hins vegar lagði áherslu á líffræðilegan mun kynjanna og á þær afleiðingar sem þessi munur hefði á reynsluheim kynjanna. Þær vildu því skapa nýtt jafnrétti, nýjan heim, sem byggði á sjónarmiðum beggja kynja til jafns. Skipulag. Hugmyndafræði og skipulag Kvennalistans var samofið. Kvennalistinn gekk út frá jafnri ábyrgð, andstætt venjulegri flokkaskipan. Þær vildu ekki auka persónubundið vald á kostnað heildarinnar. Þessi ekki-skipting á valdi var einkennandi fyrir listann, sem lagði áherslu á að þær væru hreyfing, ekki flokkur. Flokkur myndi skipuleggja sig samkvæmt hefðbundu píramídaskipulagi. Kvennalistinn var grasrótarhreyfing og sem slík var valdinu dreift eins mikið og mögulegt var svo að sem flestir gætu haft áhrif. Svona flatt skipulag byggir á ákvarðanatöku og þátttöku allra meðlima. Listinn var opinn öllum, konum og körlum. Engin stjórn var eða formaður. Starfræktir voru nokkrir hópar sem að deildu vinnunni á milli sín. Einnig var það yfirlýst stefna listans að meðlimir skiptist á að sinna valdastöðum. Þetta var sumsé að þeirra mati fullkomið jafnrétti. Þetta skipulag listans var eitthvað sem að margir sáu sem hans helsta kost, það þótti betri vísbending um róttækar breytingar en mörg stóru orðin. Stefnumál Kvennalistans fyrir kosningarnar 1983. Kvennalistinn skipti stefnumálum sínum upp í fimm flokka fyrir Alþingiskosningarnar 1983. Kvennamál. Á öllum stigum samfélagsins finnast málaflokkar sem að koma konum við. Þess vegna fannst Kvennalistanum að rödd kvenna ætti að heyrast, allstaðar, þar sem að öll mál kæmu konum við. Þær vildu að mannúðleg gildi væru útgangspunktur allrar ákvarðanatöku. Þær lögðu mikla áherslu á mikilvægi starfa kvenna innan veggja heimilisins og vildu berjast fyrir því að reynsla hinnar heimavinnandi húsmóður yrði metin til launa á vinnumarkaðnum. Valddreifing. Kvennalistinn vildi beyta sér fyrir minnkandi miðstýringu samfélagsins, miðstýringu sem þær álitu þess valdandi að síaukin ábyrgð færðist yfir á allt færri hendur. Þær vildu því skipta valdinu, með jafna ábyrgð og einingu að leiðarljósi. Skóla- og menningarmál, heilbrigðis- og félagsmál. Kvennalistinn vildi auka fjárveitingu til skóla og fjölga leikskólaplássum. Nýting leikskólanna skyldi vera raunhæfur möguleiki fyrir fjölskyldur. Þær vildu bæta og skerpa á reglugerðum varðandi félagsþjónustu ásamt því að byggja fleiri bústaði. Menningu og listir skildi örva þar sem að Kvennalistinn áleit að þar lægi sjálf lífstaug samfélagsins. Efnahags- og atvinnumál. Þar sem að konur voru stærsti láglaunahópur landsins vildi Kvennalistinn berjast fyrir hærri launum konum til handa. Jafnframt vildu þær breytingar á þeirri pólitík sem að var við lýði er snéri að nýtingu náttúruauðlinda. Þær vildu sjá stefnu sem að byggði á framtýðarsýn en ekki augnabliks hagsmunum. Þær vildu ganga út frá sýn hinnar hagsýnu húsmóður við rekstur þjóðarbúsins, minnka útfluttning og fjölga smáfyrirtækjum. Þær voru andvígar stóriðju sem að þær álitu kosta meira en hún gaf af sér. Þær vildu einnig taka tillit til þols fiskistofnanna og náttúrunnar almennt. Friðar- og utanríkismál. Konur fæða og næra líf, það er þess vegna skylda þeirra að stuðla að frið. Þess vegna áleit Kvennalistinn að rödd Íslands ætti að vera rödd friðar. Þær voru andvígar öllum hernaðarbandalögum, þar með talið NATO og nærveru ameríska hersins á Íslandi. Einnig voru þær mótfallnar kjarnorkuvopnum og vildu vinna að eyðingu þeirra. Rauðsokkahreyfingin. Rauðsokkahreyfingin var baráttuhreyfing um kvenfrelsi. Rauðsokkahreyfingin kom fyrst fram 1. maí 1970 þegar „konur í rauðum sokkum“ gengu saman aftast í 1. maí göngunni með stóra gifsstyttu þar sem á stóð: „Manneskja, ekki markaðsvara“. Rauðsokkahreyfingin var mjög tengd verkalýðsbaráttu og barðist fyrir kjörum verkakvenna. Eitt af baráttumálum hreyfingarinnar voru frjálsar fóstureyðingar. Aðdragandi. Á eftirstríðaárunum og sér í lagi sjöunda áratugnum jókst hlutfall kvenna sem sótti sér aukna menntun til muna. Afleiðing þessa var að fleiri konur héldu út á vinnumarkaðinn. Það var hópur slíkra kvenna, flestar ungar, vel menntaðar og róttækar í hugsun sem stofnuðu Rauðsokkahreyfinguna árið 1970. Þær voru meðvitaðar um lakari stöðu sína gagnvart körlum í þjóðfélaginu og varð aðalbaráttumál þeirra rétturinn til jafnra launa á við karlmenn. Áhrif voru sótt meðal annars til dönsku Rødstrømperne, Dolle Mina ásamt svipaðra hreyfinga í Hollandi. Hreyfingin var opin bæði konum og körlum. Öllum þeim sem vildu sameinast um að vinna að því að ná markmiðum hreyfingarinnar, þ.e. að fá samfélagið til að opna augu sín fyrir sjáanlegu og ósjáanlegu óréttlæti milli stöðu kynjanna. Þannig vildu þær vekja athygli á þeim þvingunum og kröfum sem að bjuggu í samfélaginu og hefðum þess. Þær gagnrýndu fegurðarsamkeppnir ákaft, unnu að löggjöf um frjálsar fóstureyðingar, réttur kvenna til menntunar var baráttumál sem og fjölgun leikskólaplássa svo fátt eitt sé nefnt. Skipulag. Rauðsokkahreyfingin var grasrótarhreyfing og sem slík andstæð hefðbundnu flokkaskipulagi en slíkt töldu rauðsokkurnar hindra skoðanaskipti og almennar umræður. Þær kusu sér því ekki formann, og skrifuðu hvorki fundargerðir né heldu meðlimaskrá. Starfsemin einkenndist af hópavinnu og opnum umræðum. Hreyfingin starfaði eftir flötu skipulagi sem er einkennandi fyrir grasrótarhreyfingar. Starfsemi. Hreyfingin vann helst sem þrýstihópur, það er að segja hún þrýsti á Alþingi og aðrar ríkisstofnanir til að taka til aðgerða í þeim málum er þeim þóttu mikilvæg. Á stundum útvegaði hún jafnvel upplýsingar til að láta ríkinu í té í málum sem að henni þótti þörf á að taka fyrir. Á þennan hátt vann Rauðsokkahreyfingin innan ramma kerfisins en ekki utan eins og fyrri kvenréttindahreyfingar höfðu gert. Á þennan hátt má segja að hreyfingin hafi verið andvíg því hvernig valdið í landinu var nýtt en á sama tíma setti hún sig ekki upp á mói því hvernig valdinu var skipt né uppruna þess. Hugmyndafræði. Rauðsokkurnar gengu út frá þeirri grunnhugmynd femínismans að karlar og konur væru í grundvallaratriðum eins, burtséð frá hinum augljósa líffræðilega mun. Konur að karlar ættu því að vera metnar að sömu verðleikum og hljóta sömu meðferð í samfélaginu. Þær litu á kvennleika sem eitthvað neikvætt og tóku því ekki mið af reynsluheimi kvenna og menningu, andstætt til dæmis Kvennalistanum. Þær unnu að inngöngu í hinn mannlega stýrða heim. Upplausn. Árið 1974 álitu stofnendur hreyfingarinnar að tekist hefði að ná athygli samfélagsins og gert það meðvitað um stöðu kvenna. Þar með hefði hreyfingin tapað oddi sínum. Fyrsti opinberi fundur hreyfingarinnar ver því kallaður saman og fyrsta stefnuskráin mótuð. Stefnuskráin var mjög róttæk og þótti marxísk í anda. Þar kom meðal annars fram að réttindabaráttu kvenna væri ekki hægt að slíta úr samhengi við launabaráttu verkamanna. Þessi stefnuskrá varð þess valdandi að hluti kvenna yfirgaf hreyfinguna þar sem þeim fannst hún orðin of vinstrisinnuð. Þetta leiddi til þess að Rauðsokkahreyfingin einangraðist og hvarf að lokum árið 1982. Þá yfirgaf stór hluti þeirra meðlima sem enn voru eftir hreyfinguna og stofnaði Kvennaframboð ásamt fleiri konum. Kvennaframboðið var fyrsti listinn í framboði sem einungis innihélt konur síðan árið 1926. Bríet (félag). Bríet félag ungra femínista var stofnað í desember 1997 og starfaði til ársins 2005. Fyrstu fundir félagsins voru haldnir í húsnæði Kvennalistans við Pósthússtræti og svo fengu þær inní Hlaðvarpanum. Bríetur beittu sér fyrir aukinni meðvitund samfélagsins á neikvæðum áhrifum kláms og neyslumenningar. Bríet er fyrsta félagið á Íslandi sem kenndi sig opinberlega við femínisma. Félagið stóð fyrir ýmsum femínískum uppákomum m.a. samkomum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars og tvær af meðlimum Bríetar þýddu bókina Píkutorfan (Fittstim). Félagskonur í Bríeti ganga oft undir nafninu Bríetur eða Bríetar. Félagið er nefnt til heiðurs Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, sem var ein af fyrstu íslenskum baráttukonum fyrir réttindum kvenna. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur þann 8. mars. Í Bandaríkjunum var fyrst haldinn hátíðlegur baráttudagur kvenna þann 28. febrúar 1909 og tengdist það bandaríska jafnaðarflokknum. Fram til ársins 1913 héldu bandarískar konur daginn hátíðlegan síðasta sunnudag í febrúar. 1910 var haldin alþjóðleg ráðstefna Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna undir nafninu "Vinnandi konur" í Kaupmannahöfn. Þar lagði Clara Zetkin, kvennréttindakona og leiðtogi kvennadeildar þýska jafnaðamannaflokksins, fram þá tillögu að stofnaður yrði alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Ráðstefnan, sem sótt var af yfir 130 konum frá 16 löndum, samþykkti tillöguna samhljóma. Hvaða dag skildi halda upp á Alþjóða baráttudag kvenna var ekki ákveðið á ráðstefnunni en samt ákveðið að hann skyldi vera á sunnudegi þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Því voru dagsetningar nokkuð breytilegar fyrstu árin en þó alltaf í mars. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna. Fyrstu löndin til að halda upp á daginn meðal sósíalískra kvenna voru Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Árið 1912 bættust Svíþjóð, Frakkland og Holland við og 1913 Tékkóslóvakía og Rússland. 1914 safnaðist fjöldi kvenna saman í Þýskalandi 8. mars og var það upphafið að stórum mótmælafundum og kröfugöngum verkamanna og –kvenna sem stóðu í heila viku. Árið 1917 gerðu konur í Pétursborg verkfall til að krefjast betri kjara og friðar. Þrátt fyrir almenn mótmæli stjórnmálamanna héldu konurnar sínu striki. Þennan dag bar upp á 8. mars og fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt. Hér á landi var dagsins sennilega fyrst minnst á árshátíð Kvenfélags Sósíalistaflokksins 8. mars 1948, sem stofnað var árið 1939. Firð. Firð (e. metric) í stærðfræði er fall formula_1, þar sem formula_2 er mengi, sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði fyrir sérhver formula_3. Tvenndin formula_11 er nefnd firðrúm. Það má ímynda sér að firð sé formleg skilgreining á fjarlægð eða lengd. Við sjáum að við tölum aldrei um neikvæðar fjarlægðir milli staða, þær eru samhverfar (það er jafnlangt frá Reykjavík til Húsavíkur, og frá Húsavík til Reykjavíkur), og uppfylla þríhyrningsójöfnu (að koma við í einhverjum punkti er vissulega ekki styttra en að ganga eftir beinni línu). Walk the Line. Walk the Line er kvikmynd sem gerð er eftir lífi sveitasöngvarans Johnny Cash og hjónabandi hans og June Carter Cash. Myndin heitir eftir einu vinsælasta lagi Cash, I Walk the Line. Walk the Line var frumsýnd árið 2005 og hefur síðan þá unnið til margra verðlauna, þar á meðal Óskarsverðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Reese Witherspoon) og Golden Globe verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Witherspoon) og besta leikara í aðalhlutverki (Joaquin Phoenix). Þess má geta að Witherspoon og Phoenix sungu sjálf í öllum lögum myndarinnar, og þótti Joaquin Phoenix ná Cash ótrúlega vel. Karkari. a> sem náði til hafnar eftir fyrstu hringferðina um hnöttinn. Karkari (úr arabísku: "qurq" - „kaupskip“, úr grísku: "kerkouros" - „hraðskreitt skip“) var tví- eða þrímastra seglskip sem var, ásamt karavellunni, lykilþáttur í landkönnun Spánverja og Portúgala á 16. öld. Þessi skip voru kölluð "nao" á spænsku eða "nau" á portúgölsku, sem þýðir einfaldlega „skip“. Karkari var töluvert stærri en karavellan og með mikið lestarrými og fyrsta skip Evrópubúa sem hentaði til langferða á opnu hafi. Þeir hentuðu líka vel sem herskip með fallbyssum vegna stærðar sinnar. Karkarinn þróaðist á 15. öld út frá kuggnum og var sjálfur undanfari galíonsins. Ólíkt kuggnum var karkari sléttbyrtur auk þess sem hann var miklu stærri, eða yfir 100 tonn. Karkari var venjulega með bæði framkastala og háum afturkastala, og löngu bugspjóti að framan sem gat borið eitt rásegl til viðbótar. Framsiglan og stórsiglan voru rásigldar en messansiglan með þríhyrndu latínusegli. Spænska veikin. Kort sem sýnir hvernig spænska veikin breiddist út Spænska veikin var inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn árin 1918-19. Veirustofninn heitir H1N1 innan inflúensu af A-stofni. Spænska veikin er mannskæðasta farsótt sem sögur fara af. Talið er að 50 milljónir manna hafi dáið af völdum hennar. Lýsing á einkennum. Bændur í Alberta bera grímur til að smitast ekki (haust 1918) Veikinni fylgdi jafnan lungnabólga og létust menn oft innan tveggja daga eftir að sóttarinnar varð vart. Veikinni fylgdu blæðingar, blóð streymdi úr nösum og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrás. Veikin breiðist út í heiminum. Sóttin geisaði í þremum bylgjum. Fyrst kom veikin upp í bandarísku herstöðinni Camp Funston í Kansas. Þaðan barst hún með bandarískum hermönnum til Evrópu í apríl 1918. Um sumarið kom fram banvænna afbrigði. Þriðja bylgjan gekk yfir veturinn 1918-19. Spænska veikin blossaði upp um það bil er fyrri heimsstyrjöldinni er að ljúka og mótstöðuafl margra óbreyttra borgara og hermanna var því lítil vegna slæms aðbúnaðar. Ekki var til neitt bóluefni við þessum inflúensustofni og ekki var búið að finna upp pensilín þannig að lungnabólgan sem jafnan fylgdi sóttinni varð lífshættuleg. Veikin breiðist út á Íslandi. Veikin er talin hafa borist til Íslands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, þann sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt. Í byrjun nóvember höfðu margir tekið sóttina og þá er fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi veikst. Fimm dögum síðar er talið að tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar hafi verið rúmfastir. Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 8. nóvember undir forystu Lárusar H. Bjarnasonar lagaprófessors og var gerð áætlun þar sem borginni var skipt í þrettán hverfi. Gengið var í hús til að leita að þeim sem voru hjálpar þurfi. Allt athafnalíf lamaðist í Reykjavík. Talið er að 484 Íslendingar hafi látist úr spænsku veikinni, þar af 258 í Reykjavík. Þann 20. nóvember voru þeir sem létust í sóttinni jarðsettir í fjöldagrafreitum. Þá var veikin tekin að réna. Nafngift. Á styrjaldarárunum voru fjölmiðlar ritskoðaðir og það var auðveldara að skrifa um „spænsku veikina“ en tala um inflúensu sem geisaði alls staðar um Evrópu. Margar milljónir manns sýktust á Spáni strax í maí 1918. Í spænskum fjölmiðlum var veikin hins vegar kölluð „franska flensan“. Rannsóknir. Endurgerður vírus sem ræktaður var úr manni sem lést árið 1918. Veikin lagðist mun þyngra á yngra og miðaldra fólk og er talið að gamalt fólk hafi öðlast ónæmi við þessum inflúensustofni eftir skæða inflúensu sem gekk árið 1894. Með því að rannsaka jarðneskar leifar fólks sem lést af völdum veikinnar hefur tekist að finna vírusstofninn sem olli veikinni. Komið hefur í ljós að það er stökkbreytt afbrigði af flensustofn sem var upphaflega fuglaflensa. Tekist hefur að þróa bóluefni við H1N1 vírusnum. Vandamálið er hins vegar að framleiðsla bóluefnis tekur langan tíma og því erfitt að bregðast við stórfelldum faraldri. Rannsóknir á spænsku veikinni eru taldar vísbending um hvaða áhrif fuglaflensan (H5N1) sem nú breiðist út um heiminn geti haft ef hún nær að stökkbreytast og berast milli manna. Karavella. Endurgerð af karavellu með ferhyrnd segl. Karavella var lítið tví- eða þrímastra seglskip sem Portúgalar og Spánverjar notuðu við landkönnun frá 15. öld. Karavellur voru rásigldar ýmist með latínusegl eða ferhyrnd segl, bugspjót og lítinn afturkastala, en ekki framkastala. Þær voru um fimmtíu tonn og 20-30 metrar að lengd. Karkarinn var það skip sem best hentaði til langra úthafssiglinga, en vegna stærðar sinnar var hann illa til þess fallinn að sigla nær landi, með ströndum og milli skerja. Vegna þessa voru karavellur með latínusegl yfirleitt hafðar með í för í landkönnunarferðum þar sem hægt var að beita þeim af meiri nákvæmni. Fuglaflensa. Fuglaflensa er inflúensa af A stofni sem herjar á fugla. Veirurnar sem þessu valda eru skyldar öðrum inflúensuveirum sem þekkjast í spendýrum og geta því sýkt þau eftir beina snertingu við sýkta fugla eða fuglablóð. Mikil fjölmiðlaumræða hefur verið síðan fuglaflensuveiran H5N1 fannst í mönnum 1997 en sú hætta er yfirvofandi að veiran stökkbreytist á þann hátt að hún geti borist milli manna líkt og spænska veikin gerði á sínum tíma. Ef veiran breytist á þann hátt að hún fer að smita manna á milli þá er hætta á heimsfaraldri inflúensu. Ekki er vitað hvort það gerist eða hvenær, né heldur hvaða eiginleika veiran hefur eftir að hún hefur breyst en margar þjóðir eru í viðbúnaðarstöðu og hafa sumar t.d. Norðmenn sett fram viðbragðsáætlun við stökkbreyttri fuglaflensu. Eins hafa víða verið hertar reglur um alifuglarækt. Fuglaflensa á Íslandi. Enn þá hefur ekkert komið fram sem bendir til að fuglar á Íslandi hafi sýkst af fuglaflensu. Tekin hafa verið sýni úr öndum á Tjörninni í Reykjavík og á alifuglabúum og fyrirhugað er að taka sýni úr villtum fuglum. Sárasótt. Sárasótt (syfílis) er smitsjúkdómur af völdum bakteríunnar Treponema pallidum. Sárasótt er kynsjúkdómur. Sárasótt (sýfilis) smitar venjulega um slímhúð kynfæra við samfarir en getur einnig smitað um aðrar slímhúðir, s.s. í munnholi og endaþarmi. Einkennum er deilt í 3 tímabil. Fyrsta tímabilið er að innan 12 vikna eftir smit koma fram sár sem hverfa. Annað tímabilið er að innan 6 mánaða eftir smit koma fram útbrot og þeim fylgja oft einkenni sem líkjast flensu. Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður leggst hann í dvala sem getur varað 20 ár. Þá getur hann brotist fram valdið hjartabilun, lömun og geðveiki og leitt til dauða. Auðgað úran. Auðgað úran er úran með hækkað hlutfall af U-235. Náttúrulegt úran er blanda af U-238 (~99,3%), U-235 (~0,7%) og U-234 í snefilmagni. Allar samsæturnar hafa 92 róteindir í kjarna en U-238 hefur 146 nifteindir, U-235 hefur 143 og U-234 142. Af þessum samsætum er U-235 gjarnast á að klofna. Við það leysist mikil orka úr læðingi, sem hægt er að nýta til dæmis til rafmagnsframleiðslu í þar til gerðum kjarnorkuverum. Þess vegna leitast menn við að hækka hlutfall þess með því að aðskilja samsæturnar. Auðgað úran inniheldur nálægt 5% af U-235 og því um það bil 95% af U-238. Auðgað úran er einnig notað við framleiðslu kjarnorkusprengju, en þá er hlutfall U-235 miklu hærra, um 85% eða meira. Efnisleifarnar sem eftir standa, þegar búið er að fjarlægja auðgað úran, nefnist sneytt úran og er notað í skotfæri, sprengjuodda og brynvörn skriðdreka. Galíon. Galíon eða galleón var stórt seglskip sem þróaðist út frá karavellunni og karkaranum á 16. öld. Þessi gerð var bæði hærri og lengri en karkari og með mörg þilför. Skipið var með háan og íburðarmikinn afturkastala en engan framkastala. Þess í stað kom trjóna undir bugspjótinu að framan. Galíon voru þannig hraðskreiðari en karkarar og gátu borið langtum fleiri fallbyssur sem gerði þeim auðveldara að verjast sjóræningjum. Galíon voru yfirleitt þrí- eða fjórmastra, með fremstu möstrin rásigld en þríhyrnt latínusegl á messansiglunni, líkt og karkarinn. Þau voru með algerlega flatan skut og stórt bugspjót sem bar jafnvel nokkur lítil rásegl. Galíon voru með sléttbyrðing, kjöl og afturstýri. Tvö byssuþilför voru yfirleitt á galíonum, en því neðra þurfti að loka ef mikil alda var. Galíon voru yfirleitt smíðuð sem kaupskip af kaupmönnum sem gerðu með sér félag um smíðina. Skipin hentuðu vel til langtíma úthafsferða, líkt og þá tíðkuðust til hafna í Austur- og Vestur-Indíum. Auðvelt var að búa þau til hernaðar og kjarninn í flotanum ósigrandi voru galíasar, en Bretar áttu þá fá þannig skip og treystu meira á minni fiskiskip og kaupskip (s.s. barkskip) sem búin voru fallbyssum. Skip sem tekin voru herfangi var yfirleitt breytt í herskip í eigu viðkomandi ríkis. Galíon voru í notkun fram á 18. öld þegar klipparinn og önnur fullbúin skip tóku við. Metal Gear Solid. Metal Gear Solid (skammstafað MGS) er „stealth“-tölvuleikur eftir Hideo Kojima fyrir PlayStation-leikjatölvuna. Metal Gear Solid er framhald af Metal Gear-seríunni sem kom fyrst fram á sjónarsviðið seint á níunda áratugnum og var þemað að komast framhjá óvinum án þess að lenda í skotbardaga. Það komu aðeins tveir leikir úr þeirri seríu: Metal Gear og. Leikurinn kom út í Japan í september 1998. Í Bandaríkjunum kom hann út í október sama ár og í Evrópu kom hann út í febrúar 1999. Leikurinn. Leikurinn er svo kallaður laumuleikur eða stealth game þar sem maður á helst að forðast það að verða séður af óvinunum sem eru yfirleitt einhverjir verðir. Ef einhver sér mann þá verður allt vitlaust og óvinirnir byrja að elta mann. Í Metal Gear Solid eru nokkur stig fyrir uppgötvun. Venjulega spilar maður leikinn án þess að verðirnir viti af manni og hafa ákveðnar vöktunarleiðir og maðurinn hefur sérstaka ratsjá efst í hægra horninu. Uppgötvi þeir mann fer maður í hættustig eða "Alert Phase" og verðirnir elta mann uppi og ratsjáin virkar ekki og maður hefur úr tvennu að velja: að berjast eða flýja. Réttast væri að flýja því yfirleitt er maður með svo lítið líf að það tæki því ekki að berjast við þá. Ef manni tekst að komast undan fer maður í undankomustigið eða "Evasion Phase" þar sem óvinurinn hefur misst sjónar á manni en leitar samt að manni í ákveðinn tíma. Þegar sá tími rennur út fer maður aftur í upphafsstigið. Í leiknum þarf maður líka að berjast við endakalla og hafa þeir hver sinn veikleika sem maður á að nota gegn þeim. Yfirleitt notar maður flest vopnin í endakallabardögum frekar en í leiknum. Vopnin sem eru einungis bara fyrir endakallabardaga má nefna: handsprengjur, Stinger-eldflaugavörpur og leyniskytturiffil. En annars notar maður flest vopnin alltaf í bardögum eða til að opna vegi fyrir manni. Slík vopn sem opna vegi fyrir manni má nefna C4-sprengiefnin og hin skálduðu fjarstýðu NIKITA-flugskeytin. En skammbyssuna, vélbyssuna, og nokkrar handsprengjur notar maður við uppgötvanir ásamt því að geta varist með berun hnefum. Solid Snake. Solid Snake eða Snake er persóna úr Metal Gear- og Metal Gear Solid-seríunum. Hann er vopnasérfræðingur og atvinnumálaliði. Hann er sú týpa sem eignast ekki vini með köldum persónuleika sínum en honum tekst að gera hið ómögulega mögulegt. Hann er sköpunarverk japanska tölvuleikjahönnuðarins Hideo Kojima. En það sem gerði Snake eftirminnilegastan var raddleikarinn David Hayter. Kemur hann einnig fram sem leikanleg persóna í Nintendo leikinum Super smash bros. brawl. Metal Gear. Solid Snake hóf ferill sinn sem hermaður á unglingsaldri og gekk síðar í sérsveitina FOXHOUND undir stjórn Big Boss. Fyrsta verkefni hans fyrir FOXHOUND var að fara einn í Suður Afríkuríkið Outer Heaven og bjarga besta útsendara þeirra, Gray Fox, og eyðileggja kjarnorkuknúna skriðdrekann Metal Gear. Honum tókst það og þá komst hann að því að Big Boss stóð á bak við þetta allt saman en Snake sigraði hann. Metal Gear 2: Solid Snake. Eftir þetta hætti Snake í FOXHOUND og flutti til Alaska. En hann var fenginn til að koma aftur til að fara til Asíuríkisins Zanzibar og eyða nýjum Metal Gear. En þá komst hann því að Gray Fox og Big Boss stóðu á bak við það og sigraði þá báða. Big Boss sagði Snake að hann væri faðir hans. Metal Gear Solid. Snake hætti í FOXHOUND en var fenginn aftur til starfa sex árum síðar til að stöðva hryðjuverkamennina á Shadow Moses-eyju sem hugðust byggja nýjann Metal Gear: Metal Gear REX. Hann komst þar í gegn með hjálp Hals Emmerich(Otacon), yfirverkfræðingi Metal Gear REX. Snake sigraði REX en rotaðist við sprenginguna. Liquid Snake, yfirmaður hryðjuverkamannanna sem var í REX, lifði af. Hann bar Snake upp á leifar REX til þess að berjast við hann með hnefum. Þegar Snake vaknaði sagði Liquid honum að þeir væru bræður; klónaðir af Big Boss ásamt átta öðrum en aðeins þrír lifðu af. Snake sigraði Liquid en hægri handarmaður hans, Revolver Ocelot, slapp. Metal Gear Solid 2: Sons of Liberty. Snake og Dr. Emmerich stofnuðu Philanthropy-samtökin sem að stóðu fyrir að stöðva Metal Gear-framleiðslu(Ocelot seldi tækniupplýsingar REX á svarta markaðnum). Snake var sendur til að fá sönnun fyrir nýjum Metal Gear sem er fluttur í tankskipi. En Ocelot og rússneskur ofursti tóku yfir skipið og sprengdu það. Snake slapp naumlega og Emmerich bjargaði honum á litlum báti. Emmerich og Snake reyndu að láta yfirvöld halda að Snake væri dáinn til þess að hindra handtöku hans, svo að þeir gætu fundið út hvað varð um nýja Metal Gear-tækið. Tveimur árum síðar fengu þeir upplýsingar um að það væri verið að byggja nýtt Metal Gear-tæki á hreinsistöðinni sem var sett upp eftir að tankskipið sökk. Hryðjuverkamenn tóku yfir stöðina og Snake laumaðist inn og dulbjó sig sem SEAL-sérsveitarmaðurinn Iraquois Pliskin og Otacon fór inn með SEAL-sérsveitinni sem verkfræðingur á hreinsistöðinni. Snake vann með FOXHOUND-nýliðanum Raiden og saman komust þeir að því að þriðji sonur Big Boss, George Sears eða Solidus Snake, og Revolver Ocelot stóðu á bak við þetta allt saman. Raiden sigraði Solidus og tókst að stöðva nýja Metal Gear-tækið. Ocelot slapp á ný en Snake fylgir honum fast á eftir. Framtíð Metal Gear. Þriðji leikur Metal Gear Solid-seríunnar, Metal Gear Solid 3: Snake Eater, kom út 2004-2005 og fjallaði um Big Boss árið 1964 þar sem hann bar nafnið Naked Snake. Í þeim leik var þemað að nota feluliti og lifa af í frumskóginum. Hann fékk einróma lof gagnrýnenda um heim allann og næsti leikur um Solid Snake, Metal Gear Solid 4: Guns of the Patriots, kemur út 2007. EJS. Fyrirtækið EJS ehf. (áður Einar J. Skúlason) er umboðsaðili Dell á Íslandi. EJS ehf. var stofnað af Einari J. Skúlasyni árið 1939 en fyrirtækið einbeitir sér nú að nútíma upplýsinga- og samskiptatækni. Saga. Starfsemin hófst með rekstri á skrifvélaverkstæði sem síðar varð að verslun og innflutnings- og þjónustufyrirtæki fyrir skrifstofuvélar. Fljótlega bættist einnig við sala á búðarkössum. Í byrjun níunda áratugarins hóf fyrirtækið að þreifa fyrir sér í tölvumálum. Helstu bankastofnanir landsins gerðu við það langtímasamning um beinlínutengingu og heildartölvuvæðingu á afgreiðslukerfum. Í kjölfarið, árið 1984, var fyrirtækið gert að hlutafélagi. Skömmu síðar seldi Einar, stofnandi þess, nokkrum starfsmönnum hlut sinn og hætti alfarið afskiptum af fyrirtækinu fyrir aldurs sakir. Einar er nú látinn. Bendir. Bendar eru, í forritun, sérstakar breytur sem vísa í tiltekin minnishólf í tölvunni, frekar en að innihalda eitthvað tiltekið gildi sjálfar. Þegar aðgerð er gerð á bendi er í raun verið að gera aðgerð á gögnin í minnishólfinu sem bendirinn bendir á. Þó er það svo að bendirinn inniheldur raunverulega gildi - þ.e., raðtölu þess minnishólfs sem það bendir á. Bendar eru til staðar með einum eða öðrum hætti í flestum forritunarmálum, svo C, C++, Pascal og FORTRAN. Notast verður við forritunarmálið C í dæmum í þessari grein. Eitt af því sem margir eiga í erfiðleikum að skilja er notagildi benda. T.d. er ekki hægt að skilgreina þá beint í nýrri forritunarmálum (eins og). notar hinsvegar benda mjög mikið en gerir það fyrir mann á "bak við tjöldin". Í raun að gera svipaða hluti með því að nota tilvísunarfæribreytur. En ef skoðað er dæmi hér fyrir neðan, sem lýsir því hvernig bendir er sendur í fall, þá ætti mikilvægi benda að vera ljós. Dæmi. Svo gefum við bendinum gildi með því að láta hann vísa í minnishólf upphaflegu breytunnar. "&" táknið er einundaraðgerð (unary operator) sem skilar minnishólfi breytunnar sem á eftir henni fylgir. Ef við viljum prenta út eða nota stakið í bendinum þurfum við að afvísa hann. Það er gert með því að setja "*" táknið fyrir framan breytuna. int summa = 5 + *pBreyta; // hér inniheldur summa töluna 9. int summa2 = 5 + pBreyta; // hér á þýðandinn að gefa villu. Hér er dæmi sem sýnir hvernig bendar og breytur eru sendar í föll. // Byrjum á því að skilgreina tvær breytur // Skilgreinum nú tvö föll sem geta tekið á móti þessum breytum. // Köllum nú á föllin með breytunum // Prentum svo út gildin í breytunum cout «breyta «endl; // hér prentast út 8 cout «*pBreyta «endl; // hér prentast út 16 Ástæðan fyrir því að fyrri breytan inniheldur enn töluna 8 er sú að breytan sjálf var ekki send inní fallið heldu bara gildi hennar (þ.e. talan 8). En þegar bendirinn sjálfur var sendur inn í fallið tekur fallið tvofaldaMedBendli ekki við tölunni 8 heldur staðsetningu minnishólfsins sem inniheldur töluna 8. Svo tvöfaldar fallið innihald þess minnishólfs fyrir okkur. Það sem skiptir líka máli hér er að þegar kallað er í fyrra fallið er tekið afrit af tölunni 8 og hún er send inn í fallið. En þegar kallað er í seinna fallið eru ekki tekið afrit af gögnunum heldur er bara staðsetningin á minnissvæðið send í fallið. Bendar geta því skipt miklu máli varðandi minnisnotkun/hraða forrits og þá sérstaklega ef verið er að vinna með stórt safn (t.d. senda stóran klasa yfir í fall eða renna í gegnum langan lista og hvert stak hans er sent í fall). Conii. Conii-ættbálkurinn bjó þar sem nú er Algarve í suðurhluta Portúgal. Aðalborg Conii-manna var Conistorgis sem var lögð í eyði af Lúsitaníumönnum sem þannig hefndu fyrir stuðning íbúanna við Rómverja meðan þeir réðu yfir Íberíuskaganum. Mismunandi kenningar eru uppi um uppruna Conii-ættbálksins. Sumir telja þá Föníkumenn en aðrir að þeir hafi verið af keltneskum uppruna. Rimaskóli. Rimaskóli er grunnskóli í Reykjavík. Aðsetur skólans eru við Rósarima 11, 112 Reykjavík. Skólastjórn. Skólastjórnendur eru Helgi Árnason sem gegnir starfi skólastjóra, Marta Karlsdóttir sem er aðstoðarskólastjóri og Guðlaug Ósk Gunnarsdóttir sem einnig er aðstoðarskólastjóri. Katrín R. Hjálmarsdóttir og Jóhann Þór Björgvinsson eru deildarstjórar. Fjöldi nemanda er um 750 í 36 bekkjardeildum, kennarar eru 74 og annað starfslið skólans er 36 manns. Fairfax County, Virginia. Fairfax er sýsla (einnig er til borgin Fairfax í Fairfax sýslu) í norðanverðri Virginíu; úthverfi Washington DC. Íbúafjöldi Fairfax-sýslu er 1.041.200 (2005) og hefur mesta íbúafjölda sýslunar Virginíu. Fairfax-sýslu er ein af ríkustu sýslum í Bandaríkjunum. Flatarmál Fairfax County er 1.053 km². Aðliggjandi svæði. Fairfax Montgomery County, Maryland. Montgomery er sýsla í Maryland á höfuðborgasvæðinu rétt fyrir utan Washington DC. Íbúafjöldi er 921.690 (2004) og flatarmálið er 1,313 km². Sýslan hefur gælunafnið "MoCo". Washington Dulles flugvöllur. Washington Dulles flugvöllur (Kóði AITA: IAD; kóði OACI: KIAD) er í Fairfax og Loudoun sýslum í norðanverðri Virginíu í Bandaríkjunum. Hann er einn þriggja flugvalla â höfuðborgasvæðinu (ásamt Baltimore-Washington (BWI) og Reagan National (DCA) flugvellir). Hann var nefndur eftir John Foster Dulles. Flatarmálið er 44.5 km². Tampaflugvöllur. Tampaflugvöllur (enska: "Tampa International Airport") (IATA: TPA; ICAO: KTPA) er í Tampa í Hillsborough-sýslu á Flórída í Bandaríkjunum og þjónar Tampaflóasvæðinu. Flugvöllurinn, sem upphaflega hét "Drew Field", var lagður árið 1928 en 1935 opnaði Peter O. Knight-flugvöllur á Daviseyju og varð vinsælli. Í Síðari heimsstyrjöldinni var Tampaflugvöllur notaður sem herflugvöllur af Bandaríkjastjórn. Eftir styrjöldina varð flugvöllurinn aftur borgaralegur og flugfélögin fluttu sig þangað frá Peter O. Knight sem var orðinn alltof lítill. Alþjóðaflug hófst frá Tampaflugvelli árið 1950. Ný og miklu stærri flugstöð var opnuð árið 1971. Donald Duart Maclean. Donald Duart Maclean (25. maí 1913 - 6. mars 1983) var einn af svoköllðum "Cambridge Five", sem voru starfsmenn MI5 og MI6, sem njósnuðu fyrir Sovétríkin í Seinni heimsstyrjöldinni. Hann var fæddur í London, sonur Sir Donald Maclean, sem var skoskur frjálslyndur stjórnmálamaður. Maclean var ráðinn til starfa af Sovésku leyniþjónustunni árið 1934 meðan hann sótti nám í stjórnmálasögu og textafræði við Trinity Hall í Cambridge. London. Á meðan Mclean var í London, var aðgerðum hans stýrt af Anatoly Gorsky sem var meðlimur GPU (Sovéska leyniþjónustan). Beinn yfirmaður Macleans var Vladimir Borisovich Barkovsky, sem var verkfræðingur og því vel til þess fallinn að meðhöndla tæknileg smáatriði. 16. september 1941 sendi Maclean frá sér skýrslu um að "Imperial Chemical Industries" í samvinnu við breska ríkið myndu að líkindum ljúka smíði úransprengju innan tveggja ára. Var verkefni þetta kallað "Tube Alloys". Maclean sendi sextíu blaðsíðna skýrslu til Moskvu, sem innihélt opinbera fundargerð bresku ráðuneytisnefndarinnar, sem sá um úransprengjuverkefnið. Washington. Maclean var afkastamestur þann tíma sem hann vann í breska sendiráðinu í Washington (1944-1948) en hann var aðaluppspretta upplýsinga fyrir Stalín um samskipti og stefnuþróun milli Churchill og Roosevelt og seinna Churchill og Harry S. Truman. Þó hann hafi ekki sent tæknileg gögn um kjarnorkusprengjuna, greindi hann frá um þróun hennar og framvindu, þá sérstaklega magn úrans sem Bandaríkjunum var tiltækt. Hann var fulltrúi Breta í Bandarísku-Bresku-Kanadísku nefndinni um samnýtingu kjarnorkuleyndarmála og gat veitt Sovétríkjunum fundargerðir nefndarinnar. Þessar upplýsingar gerðu sovéskum vísindamönnum það kleift að segja til um fjölda sprengja sem gerðar yrðu af Bandaríkjamönnum. Ásamt Alan Nunn May og Klaus Fuchs, sem veittu tæknilegar upplýsingar, gerðu skýrslur Maclean Sovétmönnum ekki bara kleift að smíða kjarnorkusprengju, heldur líka að meta hlutfallslegan styrkleika kjarnavopnaforða þeirra gegn þeim bandaríska. Áframhaldandi eftirlit hans á leynilegum skilaboðum milli Truman og Churchill gerði Stalín það kleift að vita nákvæmlega hvernig Bandaríkjamenn og Bretar höfðu ákveðið að hernema Þýskaland og skipta upp landamærum austur-evrópskra ríkja. Stalín var vopnaður þessari þekkingu ekki bara áYalta ráðstefnunni heldur líka á ráðstefnunum í Potsdam og Tehran. Maclean skýrði Moskvu frá því að takmark Marshalláætlunarinnar væri að tryggja efnahagsleg yfirráð Bandaríkjanna í Evrópu. Hið nýja alþjóðlega efnahagslega fyrirkomulag til að endurbyggja evrópska framleiðni yrði undir stjórn bandarísks fjármagns. Skilaboðin báru með sér að Marshalláætluninni væri ætlað að koma í stað greiðslu stríðsskaðabóta frá Þjóðverjum. Á þeim tíma höfðu Sovétríkin engar útflutningstekjur og voru því stríðsskaðabætur eina erlenda fjármagnið sem þau höfðu til að endurbyggja eftir stríðið. Samkomulagið sem náðist í Yalta og Potsdam kvað á um að Þjóðverjar gætu borgað stríðsskaðabætur til Rússlands næstu fimm árin í formi tækjabúnaðar, bíla, vörubíla og byggingarefna. Einnig voru ákvæði um að þessi varningur yrði ekki undir alþjóðlegu eftirliti og mættu Sovétmenn nota hann á hvern þann hátt sem þeim sýndist. Árið 1948 var Maclean fluttur yfir í breska sendiráðið í Kaíró í Egyptalandi. Eftir ölvunaratvik þar, var hann sendur aftur til London, til að „jafna taugarnar“. Það er óumdeilanlegt að upplýsingar sem Maclean gaf Stalín voru ómetanlegar í stefnugerð hans í Kalda stríðinu. Uppgötvun og landflótti. Árið 1949, uppgötvaði Robert Lamphere, sem rannsakaði njósnastarfsemi Rússa fyrir hönd FBI, ásamt dulmálsfræðingum, að á milli 1944 og 1946 hafði einhver starfsmaður breska sendiráðsins verið að senda skilaboð til Sovétmanna. Dulnefni starfsmannsins var „Hómer“. Með því að beita útilokunaraðferð á starfsmenn sendiráðsins á þessum tíma, féll grunur á þrjá til fjóra menn, sem mögulega gætu hafa verið Hómer. Einn af þeim var Mclean. Rétt eftir að rannsókn Lampheres byrjaði, var Kim Philby úthlutað starfi í Washington, sem samskiptafulltrúi Breta við CIA, FBI og NSA. Þessi staða gerði honum kleift að komast yfir afkóðuð samskipti við Rússa, og sá hann að Mclean væri mjög líklega þessi Hómer. Hann staðfesti þetta við breska GPU yfirmann sinn. Hann var einnig meðvitaður um að Lamphere og samstarfsmenn hans höfðu komist að því að kóðuð skilaboð höfðu verið send til GPU frá New York. Maclean hafði heimsótt New York reglulega, að því er virtist til að heimsækja konu sína og börn, sem bjuggu þar með tengdarforeldrum hans. Þrýstingurinn á Philby fór nú að aukast. Ef Maclean væri afhjúpaður sem sovéskur njósnari og ef hann þá játaði aðild sína, gæti slóðin leitt til hinna Cambridge njósnarana. Philby, sem gengdi nú mikilvægri stöðu sökum getu hans til að útvega upplýsingar til Sovétmanna, yrði hugsanlega bendlaður við málið sökum tengsla hans við Maclean. Áhyggjufullur yfir því að kennsl yrði borin á Maclean, og að hann yrði svo yfirheyrður og myndi játa sök sína við MI5, settu Philby og Burgess saman ráðabrugg þar sem að Guy Burgess myndi snúa aftur til London (þar sem Maclean var þá fulltrúi Ameríkumála utanríkisþjónustunnar). Burgess myndi svo vara Maclean við að afhjúpun hans væri yfirvofandi. Burgess var þann dag sektaður þrisvar sinnum fyrir of hraðan akstur. Áður en Burgess flaug til London, tók Philby það fram afdráttarlaust að Burgess skyldi ekki flýja með Maclean. Áform Philby-Burgess fólust í því að Burgess skyldi heimsækja Maclean á skrifstofu hans í utanríkisráðuneytinu, afhenda honum miða sem á stæði hvar þeir gætu hist — það var ályktað sem svo, að þar sem Maclean sæti undir grun, væri skrifstofan hans hleruð — og Burgess gæti útskýrt stöðuna. Yuri Modin, GPU stjórnandinn í London á þeim tíma, gerði ráðstafanir fyrir landflótta Macleans. Maclean var gríðarlega órólegur og tregur til að fara einn. Modin var reiðubúinn til að fara með honum, en GPU aðalstöðvarnar heimtuðu að Burgess myndi fylgja Maclean með bak við járntjaldið. Á sama tíma, kröfðust MI5 þess að Maclean yrði færður inn til yfirheyrslu. Þeir höfðu ákveðið að honum yrðu sýnd sönnunargögn gegn honum, frá bæði FBI og MI5, á mánudeginum, 28. maí 1951. Líf í Sovétríkjunum. Á afmælisdegi Macleans, 25. maí, föstudaginn áður en að hann skyldi yfirheyrður, flúðu Burgess og Maclean með skipi til Frakklands og hurfu. Hugsanlegt var að samstarfsmaður Burgess, Anthony Blunt, hefði komist að yfirvofandi yfirheyrslu Macleans, og varað Burgess við því. Blunt viðurkenndi það aldrei og er mögulegt að Burgess og Maclean hafi einfaldlega valið föstudaginn til að flýja, sama hvernig á stæði. Bæði Modin og Philby ályktuðu sem svo að Burgess myndi einfaldlega afhenda Maclean til fulltrúa GPU og snúa svo til baka. Af einhverjum ástæðum kröfðust Rússar þess að Burgess færi með Maclean alla leið. Það er hugsanlegt að Burgess hafi ekki verið lengur gagnlegur Rússum sem njósnari, en samt of mikilvægur til að lenda í höndum MI5. Ólíkt hinum eftirláta Burgess, samlagaðist Maclean sovéska kerfinu, lærði rússnesku og vann svo þar að lokum sem sérfræðingur í efnahagsstefnu vestursins og breskra utanríkismála. Samt sem áður, á meðan hann bjó þar, talaði hann fyrir hönd sovéskra andófsmanna og gaf pening til fjölskyldu sumra þeirra sem sátu í fangelsi. Maclean var sæmdur Rauðfánaorðu verkamanna og Bardagaorðunni. Bandarísk eiginkona hans, Melinda, kom til hans til Rússlands, en þau skildu seinna og sneri hún aftur til Bandaríkjanna. Hann dó úr hjartaáfalli árið 1983, lík hans var brennt og aska hans hýst í grafhvelfingu fjölskyldu hans í London. Gróttasöngur. Fenja og Menja við kvörnina Gróttasöngur er ljóð sem tvær herleiddar jötnameyjar Fenja og Menja kváðu þegar þær möluðu með kvörninni Grótta. Brot af ljóðinu hefur varðveist skrifað upp í Sæmundar-Eddu. Fróði Friðleifsson sem réð löndum í Gotlandi (þar sem nú er kölluð Danmörk) keypti jötnameyjarnar af Fjölni konungi í Svíþjóð og lét þær mala gull og frið og sælu Fróða en gaf ambáttunum ekki lengri hvíld eða svefn en gaukurinn þagði eða hljóð mátti kveða. Jötnameyjarnar kváðu þá her að Fróða og var hann drepinn af sækonungnum Mýsingi. Þá lagðist af Fróðafriður. Mýsingur tók kvörnina og jötnameyjarnar herfangi, lét þær mala salt og skip hans sukku. The Number of the Beast. "The Number of the Beast" er breiðskífa frá þungarokkshljómsveitinni Iron Maiden. Platan inniheldur m.a. lög eins og „The Number of the Beast“ og „Run to the Hills“, en einnig lögin „Hallowed be thy name“ og „Children of the Damned“. Umberto Tozzi. Umberto Tozzi (f. 4. mars 1952) er ítalskur popptónlistarmaður frá Tórínó, aðallega þekktur fyrir diskósmellinn „Gloria“, sem Laura Branigan flutti í bandarískri útgáfu 1982, og síðan lagið „Gente di mare“ (ásamt Raf - Raffaele Riepoli), sem lenti í þriðja sæti í Eurovision-söngvakeppninni árið 1987. Fred Buscaglione. Fred Buscaglione (23. nóvember 1921 – 3. febrúar 1960) var ítalskur tónlistarmaður og leikari á 6. áratugnum. Hann fæddist í Tórínó og hét upphaflega Ferdinando Buscaglione. Persónan sem hann túlkaði í lögum sínum var eins konar smáglæpamaður, kvennabósi og drykkjurútur, með vísunum í rómantíska ímynd bandarísk-ítölsku mafíunnar í Chicago og New York á bannárunum s.s. Al Capone. Buscaglione hóf feril sinn í útvarpshljómsveit útvarps bandamanna þar sem hann var í fangabúðum á Sardiníu í Síðari heimsstyrjöld. Hann náði miklum vinsældum á Ítalíu undir lok 6. áratugarins með lögum eins og „Che bambola“, „Eri piccola cosi“ og „Whisky facile“ þar sem textarnir voru eftir félaga hans, Leo Chiosso. Buscaglione lést í bílslysi í Róm þegar Ford Thunderbird-bifreið sem hann ók lenti í árekstri við vörubíl árla morguns. Moby. Moby (fæddur Richard Melville Hall 11. september 1965 í New York-borg) er bandarískur raftónlistarmaður og tehúsa-eigandi. Fyrsta platan hans kom út árið 1993 en frægasta verk hans er breiðskífan Play sem kom út árið 1999. Á henni er meðal annars hægt að finna lög á borð við "Porcelain", "Natural blues" og "Bodyrock". Moby er grænmetisæta og dýraverndunarsinni. Hann hefur unnið með dýraverndunarsamtökunum P.E.T.A. um nokkurt skeið. Papa Roach. Papa Roach er rokkhljómsveit frá Vacaville í Kaliforníu. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993 og kom fyrsta markverða breiðskífan þeirra, Infest, út árið 2000. Hljómsveitarmeðlimir sveitarinnar eru Jacoby Shaddix, Jerry Horton, Tony Palermo og Tobin Esperance. David Buckner var einnig í hljómsveitinni en hann hætti í janúar 2008. Tórínó. Tórínó (ítalska: "Torino") er borg á Norður-Ítalíu í Fjallalandi (Piemonte) á vesturbakka árinnar Pó. Íbúar sveitarfélagsins eru um 908.000 en heildarfjöldi á borgarsvæðinu er 1,7 milljónir. Rómverjar stofnuðu borgina árið 28 f.Kr. og eftir fall Rómaveldis ruddust Langbarðar til valda í borginni og síðan Frankar. Borgin varð hluti af hertogadæminu Savoja og höfuðborg þess ríkis 1563 og síðar konungsríkisins Sardiníu þegar það rann saman við hertogadæmið 1720. 1861 varð Tórínó svo höfuðborg sameinaðrar Ítalíu til 1865 þegar Flórens var gerð að höfuðborg. Borgin er mikil iðnaðarborg og verksmiðjur bílaframleiðandans "Fiat" voru stofnaðar þar 1899. Árið 2006 voru vetrarólympíuleikarnir haldnir í borginni og nágrenni hennar. Bee Gees. Bee Gees var bresk popphljómsveit sem stofnuð var í Ástralíu árið 1958. Hljómsveitin var samsett af þremur bræðrum; Barry Gibb sem var aðalsöngvari sveitarinnar, bakraddasöngvaranum Robin Gibb og hljómborðs- og gítarleikaranum Maurice Gibb. Bræðurnir höfðu mikil áhrif á tónlist á þeim tíma sem þeir spiluðu og sungu, auk þess sem þeir voru óaðskiljanlegur hluti diskósins. Hljómsveitin hætti árið 2001. Frægustu lög Bee Gees eru meðal annars "Massachusetts", "Jive Talkin`", "How deep is your love", "Staying alive" og "Tragedy". David Hume. David Hume (26. apríl 1711 – 25. ágúst 1776) var skoskur heimspekingur, hagfræðingur og sagnfræðingur og einn mikilvægasti hugsuður skosku upplýsingarinnar á 18. öld. Venjulega er Hume talinn einn þriggja helstu málsvara bresku raunhyggjunnar en þó eru ekki allir á einu máli um hvernig eigi að túlka heimspeki hans. Sumir telja að Hume hafi fyrst og fremst verið efahyggjumaður en aðrir telja að kjarninn í heimspeki hans sé öðru fremur náttúruhyggja. Hume var undir miklum áhrifum frá raunhyggjumönnunum John Locke og George Berkeley en einnig frá ýmsum frönskumælandi höfundum eins og Pierre Bayle og mörgum enskumælandi hugsuðum og vísindamönnum, svo sem Isaac Newton, Samuel Clarke, Francis Hutcheson, Adam Smith og Joseph Butler. Hume naut ekki mikilla vinsælda meðal samtímamanna sinna og var misskilinn af flestum þeirra. Hann fékk þó betri viðtökur á meginlandi Evrópu en í heimalandi sínu. Kirkjunnar menn höfðu ætíð horn í síðu Humes og komu að minnsta kosti tvisvar sinnum í veg fyrir að hann fengi ráðningu sem háskólakennari. Eigi að síður hafði Hume þó nokkur áhrif bæði á samtímamenn sína og síðari tíma heimspekinga. Mestu munar ef til vill um áhrif Humes á prússneska heimspekinginn Immanuel Kant. Meðal annarra heimspekinga sem hafa verið undir áhirfum Humes má nefna Jeremy Bentham, John Stuart Mill, A.J. Ayer, Bertrand Russell og J.L. Mackie. Æviágrip. David Home (síðar Hume) fæddist 26. apríl árið 1711 í Edinborg á Skotlandi. Hann var sonur lögfræðingsins Joseph Home frá Ninewells og konu hans, Katherine. Hann breytti nafni sínu í Hume árið 1734 af því að Englendingar áttu í erfiðleikum með að bera fram Home að skoskum hætti. Tólf ára gamall var hann sendur til náms við Edinborgarháskóla, tveimur árum á undan jafnöldrum sínum. Í fyrstu hugðist hann nema lögfræði en fékk að eigin sögn andstyggð á öllu nema heimspeki og almennum lærdómi. Fjölskylda hans hélt að hann læsi Voet og Vinnius, en í raun varði Hume tíma sínum í lestur rita Ciceros og Virgils. Hann bar litla virðingu fyrir prófessorum og trúði vini sínum fyrir því árið 1735 að ekkert væri hægt að læra af prófessor sem ekki mætti lesa í bók. Átján ára gamall gerði Hume heimspekilega uppgötvun sem leiddi hugsun hans á nýjar brautir og fékk hann til að „virða að vettugi alla aðra ánægju og öll önnur verkefni og einbeita [sér] að þessu einu“. Hann getur þess hvergi hver uppgötvunin var en leiða má líkum að því að hún hafi verið kenning hans um orsakavensl — að skoðanir okkar um orsakir og afleiðingar velti á venju og hefð en "ekki" á skynseminni "né heldur" á neinu náttúrulögmáli. Að námi loknu réð Hume sig í vinnu á skrifstofu kaupmanns í Bristol. Nokkrum mánuðum seinna, árið 1734, hélt hann til La Flèche í Anjou í Frakklandi, þar sem hann ræddi við jesúíta við fræga skóla þar sem Descartes hlaut menntun sína. Hume dvaldi þar í fjögur ár. Hann skipulagði líf sitt og ákvað að helga sig fræði- og ritstörfum. Í La Flèche lauk Hume við rit sitt "Ritgerð um mannlegt eðli", þá 26 ára gamall. Enda þótt margir fræðimenn telji nú að "Ritgerðin" sé mikilvægasta rit Humes og eitt mikilvægasta rit í vestrænni heimspeki var henni illa tekið í fyrstu. Hume sagði sjálfur að hún hefði fallið dauð úr prentvélinni og engan áhuga vakið hjá neinum. Áreynslan við ritun "Ritgerðarinnar" ógnaði hins vegar geðheilsu Humes. Árið 1744, í kjölfarið á góðum viðtökum almennings á "Ritgerðum um siðferði og stjórnmál", sótti Hume um kennslustöðu í heimspeki við Háskólann í Edinborg en var hafnað. Árið 1747 hóf hann að rita bók um sögu Bretlands, sem tók hann 15 ár að ljúka. Ritið kom út í sex bindum á árunum 1754 til 1762. Árið 1748 tók hann við starfi ritara St. Clairs herforingja og gegndi því í þrjú ár. Á þessum tíma samdi hann "Heimspekilegar ritgerðir um mannlegan skilning" sem komu síðar út undir titlinum "Rannsókn á skilningsgáfunni". "Rannsóknin" fékk betri viðtökur en "Ritgerðin" en naut eigi að síður ekki mikilla vinsælda. Hume var sakaður um villutrú en naut aðstoðar vina sinna innan kirkjunnar sem sögðu að úr því að Hume væri trúlaus væri hann utan umdæmis kirkjunnar. Þrátt fyrir að vera sýknaður — og ef til vill vegna andstöðu Thomasar Reid frá Aberdeen, sem gagnrýndi frumspeki Humes á kristnum forsendum — varð Hume aftur af kennslustöðu í heimspeki, í þetta sinn við Háskólann í Glasgow. Hann tók við starfi bókavarðar í Edinborg. Aðstaða hans þar gerði honum kleift að halda rannsóknum sínum áfram. Hume hlaut mikla frægð og mikið lof fyrir sagnfræðirit sitt. Frá 1763 til 1765 gegndi Hume starfi ritara Hertfords lávarðar í París. Þar kynntist hann franska rithöfundinum Voltaire og naut vinsælda meðal yfirstéttarkvenna. Hann vingaðist sömuleiðis við heimspekinginn Rousseau en vinátta þeirra varði skammt. Árið 1768 flutti hann á ný til Edinborgar. Rit hans um heimspeki hlutu meiri eftirtekt eftir að prússneski heimspekingurinn Immanuel Kant kvað Hume hafa vakið sig af værum kreddublundi (um árið 1770). Hume hlaut æ meiri eftirtekt og lof sem heimspekingur upp frá því. Ritgerð Humes „Um hjátrú og trúarbrögð“ var lengi grundvöllur nær allrar veraldlegrar orðræðu um sögu trúarbragða. Gagnrýnendur trúarbragða urðu að vera varkárir á þessum tíma. Rúmum áratug fyrir fæðingu Humes var Thomas Aikenhead, 18 ára gamall háskólanemi, ákærður fyrir að segja í áheyrn annarra að hann teldi kristna trú vera eintóma vitleysu. Hann var dæmdur sekur um guðlast og hengdur. Hume fylgdi venjum síns tíma og talaði gjarnan undir rós. Hann samdi meðal annars samræður og lagði persónum samræðunnar orð í munn. "Ritgerð um mannlegt eðli" kom á sínum tíma út sem verk ónafngreinds höfundar en Hume gekkst ekki formlega við ritinu fyrr en árið sem hann lést, 1776. Ritgerðir hans um „Um sjálfsmorð“ og „Um ódauðleika sálarinnar“ og rit hans "Samræður um trúarbrögðin" voru ekki gefin út fyrr en að honum látnum (1778 og 1779), en báru þá hvorki nafn Humes né útgefandans. Enn er deilt um hver raunveruleg viðhorf Humes voru, hvort hann var frumgyðistrúar eða guðleysingi en ásakanir um guðleysi hindruðu frama Humes á sínum tíma. Heimspeki. Hume virðist ætla heimspekinni það hlutverk að vera undirstaða allra vísinda og lista og hins upplýsta þjóðfélags. Hann gerir greinarmun á léttvægari heimspeki og þyngri heimspeki. Hin þyngri heimspeki þjónar hinni léttvægari, er nákvæmari og leggur grundvöllinn fyrir hina síðarnefndu. Markmið hans með heimspeki sinni er að finna eðli mannlegs skilnings og mannlegrar þekkingar og takmörk þeirra. Hugmyndir. Í 1. bók "Ritgerðar um mannlegt eðli" og í 2. og 3. kafla "Rannsóknar á skilningsgáfunni" fjallar Hume um upptök og tengsl hugmynda. Í grófum dráttum skiptir Hume skynjunum (e. perceptions) í svonefndar frumskynjanir (e. impressions) annars vegar og hugmyndir (e. ideas) hins vegar. Og hann greinir frumskynjanir enn fremur í innri skynjanir (e. impressions of reflection) annars vegar og ytri skynjanir (e. impressions of sensation) hins vegar. Hume taldi að upptök hugmynda væru í frumskynjunum en hugmyndir eru einungis daufar eftirmyndir frumskynjana. Styrkleiki og fjör greina á milli frumskynjana og hugmynda. Til að geta búið til hugmyndir úr frumskynjunum þarf bæði ímyndunarafl og minni. Einföld hugmynd er eftirmynd af einhverri einni frumskynjun, en samsett hugmynd er eftirmynd af fleiri en einni frumskynjun, sem minnið kallar fram en ímyndunaraflið setur saman í eina hugmynd. Dæmi um þetta eru hugmyndir um einhyrninga og gullfjall. Samkvæmt kenningu Humes geta hugmyndir tengst með þrennum hætti: í fyrsta lagi geta þær líkst hver annarri; í öðru lagi geta þær legið saman í tíma og rúmi; og í þriðja lagi geta þær tengst sem orsök og afleiðing. Hume taldi að þetta væri tæmandi upptalning af tengslum hugmynda. Hann segir að önnur tengsl, svo sem að hugmyndir séu gagnkvæmar eða andstæðar, megi smætta í þessi tengsl, þ.e. þau séu samblanda af samlíkingu og orsök og afleiðingu og þar fram eftir götunum. Tengslin milli hugmyndanna geta verið nauðsynleg, þ.e. röktengsl. Aðleiðsluvandinn. Í "Rannsókn á skilningsgáfunni" (§4.1.20-27, §4.2.28-33) segir Hume að ályktanir séu allar af tvennu tagi, afleiðslur og aðleiðslur, og þær varði allar annaðhvort hugmyndatengsl eða staðreyndir. Í fyrri hópnum eru meðal annars sértæk hugtök á borð við hugtök rökfræðinnar og stærðfræðinnar og þar er mögulegt að öðlast vissu með því að beita afleiðslu. Í síðari hópnum eru staðreyndir um heiminn en þar drögum við ályktanir með aðleiðslu. Af því að hugmyndir geta haft nauðsynleg tengsl, röktengsl, sín á milli getum við dregið ályktanir af þeim með afleiðslu. En það eru engin slík röktengsl milli staðreynda. Fólk hefur samt tilhneigingu til að gera ráð fyrir að staðreyndir tengist einnig. Ólíkt rökfærslum um hugmyndatengsl, sem byggjst á mótsagnarlögmálinu, byggja rökfærslur um tengsl milli staðreynda á orsakarlögmálinu. Hume taldi að orsakarlögmálið væri huglægt en ekki hlutlægt — það yrði til fyrir tilstuðlan vanans, af reynslunni. Þess vegna drögum við ályktanir um staðreyndir með aðleiðslu. Aðleiðsla byggir á því að fortíðin sé áreiðanleg vísbending um framtíðina. Til dæmis, ef sólin hefur hingað til risið í austri og sest í vestri þá má álykta með aðleiðslu að hún muni áfram rísa í austri og setjast í vestri í framtíðinni. En hvernig er hægt að réttlæta slíka ályktun? Hume hélt því fram að maður "geti ekki" fært rök fyrir því að þessi ályktunargáfa sé afurð skynseminnar. Því rökhugsun er öll af tvennu tagi og hvorug tegundin getur réttlætt ályktanir okkar: við getum ekki réttlætt aðleiðslu með aðleiðslu; og við getum ekki réttlætt aðleiðslu með afleiðslu. Þetta er nefnt aðleiðsluvandinn. Hume kemst því að þeirri niðurstöðu að aðleiðsla eigi ekki rætur í skynseminni. Hume á "ekki" við að aðleiðsla sé ekki rökrétt "af því að" hún er ekki afleiðsla. Í "Ritgerð um mannlegt eðli" segir Hume að rökhugsunin ein og óstudd ákvarðaði skoðanir manns — ef skoðanamyndun væri rökrétt út í gegn — þá myndi maður aldrei trúa neinu, ekki heldur ályktunum byggðum á afleiðslu. Enn fremur á Hume "ekki" við að aðleiðsla virki ekki né heldur að hún sé óáreiðanleg og þar fram eftir götunum. Hann heldur því einfaldlega fram að rætur hennar sé ekki að finna í skynseminni. Hume taldi að fólk hefði náttúrulega tilhneigingu til að búast við meira af því sama, af því að það er fólki gríðarlega gagnlegt. Nauðsynleg orsakartengsl. Sjöundi kafli "Rannsóknar á skilningsgáfunni" hefst á leitinni að frumskynjuninni sem hugmyndin um orsakir byggir á. Hvað á maður við þegar hann talar um orsakavensl? Samkvæmt hefðbundinni túlkun á svari Humes er hugmyndin ekkert annað en afleiðing reglubundinnar endurtekningar ákveðinna frumskynjana, það er að segja síendurtekinnar fylgni milli atburða. Strangt til tekið hefur maður enga frumskynjun af orsakavenslunum sjálfum, heldur einungis af atburðunum og því er strangt til tekið rangt að segja að maður hafi hugmynd um orsakavensl (því hugmyndir eru annaðhvort daufar eftirmyndir frumskynjana eða settar saman úr slíkum eftirmyndum frumskynjana). Öllu heldur hefur fólk náttúrulega tilhneigingu til að gera ráð fyrir að það sem hefur ávallt gerst áður komi til með að gerast áfram og það gerir ráð fyrir að um náttúrulögmál sé að ræða. Máttur vanans getur einfaldlega orðið svo mikill að hann nær að móta mannshugann þannig að fólk á beinlínis erfitt með að aðskilja í huga sínum tvo atburði sem það hefur ávallt séð fylgjast að; það telur að orsakavensl séu milli atburðanna af því að það telur ómögulegt að annar þeirra eigi sér stað en ekki hinn. Samsemd og sjálf. Hume benti á að fólk telur gjarnan að það sé sama manneskjan og það var fimm árum áður. Þótt það hafi breyst á marga vegu virðist "sama" manneskjan enn þá vera til. Þá vaknar spurningin hvað geti breyst án þess að manneskjan sjálf hætti að vera til og ný manneskja verði til í staðinn. Hume hafnar því aftur á móti að það sé greinarmunur á hinum ýmsu einkennum manneskju og hinu dularfulla sjálfi sem virðist undirliggja þessum einkennum. Þegar maður beitir sjálfskoðun verður maður aldrei meðvitaður um neitt annað en einstakar skynjanir; maður er búnt eða safn ólíkra skynjana sem taka við hver af annarri með gríðarlegum hraða og eru í sífelldri breytingu. Hume líkir sálinni við samveldi sem heldur ekki samsemd sinni í krafti neins kjarna eða neins eðlis, heldur af því að það samanstendur af mörgum ólíkum en skyldum og síbreytilegum þáttum. Spurningin um samsemd sjálfsins er þá spurning um að lýsa lauslegu samhengi persónulegrar reynslu manns. Frelsi viljans. Fjölmargir heimspekingar hafa komið auga á að hugmyndin um frelsi viljans virðist ósamrýmanleg nauðhyggju — ef ákvarðanir manns og athafnir væru ráðnar fyrir mörgum árum síðan, hvernig geta þær þá verið á manns eigin valdi? Hvernig getur maður þá sjálfur ráðið gjörðum sínum? En Hume kom auga á annan vanda, sem umbreytti spurningunni um frelsi viljans í hreina ráðgátu: frelsi viljans er ósamrýmanlegt brigðhyggju, það er að segja þeirri kenningu að undanfarandi orsakir ráði ekki ákvörðunum manns og vilja. Gerum ráð fyrir að að athafnir manns og ákvarðanir ráðist ekki af undanfarandi orsökum. Í því tilfelli eru ákvarðanir manns og athafnir algerlega handahófskenndar að því er virðist. Enn fremur ráðast þær ekki af skapgerð manns — löngunum manns, gildum manns og þar fram eftir götunum. Hvernig getur einhver verið ábyrgur gjörða sinna ef hann réð engu um hvað gerðist? Hvernig getur einhver verið ábyrgur fyrir algerlega handahófkenndri athöfn? Frjáls vilji virðist gera ráð fyrir nauðhyggju vegna þess að annars væru ekki tengsl af réttu tagi milli gerandans og athafnarinnar, tengsl sem tengja frjálsan geranda við athöfn sem hann velur. Ráðgátan, sem er stundum nefnd gaffall Humes, er því eftirfarandi: athafnir manns virðast vera annaðhvort ákvarðaðar fyrir fram af undanfarandi orsökum og þá er maður ekki ábyrgur gjörða sinna eða þær eru afleiðingar handahófskenndra atburða og þá er maður ekki ábyrgur gjörða sinna. Kenning Humes er á þá leið að mannleg hegðun, rétt eins og allt annað, eigi sér orsakir og þar af leiðandi ætti að telja fólk ábyrgt gerða sinna og verðlauna það eða refsa því eftir því sem á við með þeim hætti sem hvetur það til þess að breyta rétt og siðlega og fælir það frá því að brjóta af sér. Samhygð og undirstöður siðferðisins. Hume fjallar fyrst um siðfræði í "Ritgerð um mannlegt eðli" en útfærir upphaflega hugmynd sína ítarlegar í styttra riti sem nefnist "Rannsókn á siðgæðislögmálum". Nálgun Humes í "Rannsókninni" er í meginatriðum byggð á athugunum. Í stað þess að segja lesandanum hvernig siðferðið ætti að virka reynir hann að greina frá því hvernig fólk fellir í raun siðferðisdóma. Hann gefur ýmis dæmi en kemst að lokum að þeirri niðurstöðu að flest, en þó ekki öll, hegðun sem fólk samþykkir sé almenningi gagnleg. Þýðir þetta að siðferðisdómar fólks byggi á eiginhagsmunum eingöngu? Ólíkt Thomasi Hobbes telur Hume ekki að því sé svo farið. Hume hélt ekki fram sálfræðilegri sérhyggju, líkt og Hobbes hafði áður haldið fram. Hume taldi að auk eiginhagsmuna gæti samúð eða samhygð manns með öðrum verið ástæða til athafna enda þótt hún varðaði á engan hátt eiginhagsmuni hans. Hume ver siðfræðilega samhygðarhyggju með þeim rökum að maður geti aldrei fellt siðferðisdóm byggðan á rökhugsun eingöngu. Rökhugsun fjallar um hugmyndatengsl og staðreyndir og ályktar út frá þeim en hún er ófær um að leiða til þess að maður velji að gera eitt fremur öðru. Einungis tilfinningar og langanir geta gert það. Og tilfinningar og langanir manns sem byggja á samhygð geta hvatt okkur til að framkvæma óeigingjarnar athafnir. Þannig er kenning Humes náttúruhyggjukenning um siðferðið, því hún byggir á sálfræðilegum grunni en ekki til dæmis guðfræðilegum eða trúarheimspekilegum grunni líkt og kenning Francis Hutcheson, samtímamanns Humes, eða frumspekilegum grunni líkt og kenning Immanuels Kant síðar. Forskriftarvandinn. Hume veitti því athygli að margir höfundar tala um "það sem ætti að vera" á grundvelli fullyrðinga um "það sem er" (forskriftarvandinn). En það viðist vera mikilvægur munur á lýsandi fullyrðingum (um það sem er, þ.e. staðreyndir) og forskriftum (fullyrðingum um það sem ber). Hume varar við því að breyta umræðuefninu á þennan hátt án þess að útskýra hvernig forskriftirnar eigi að leiða af staðhæfingum um staðreyndir. En hvernig á maður að fara að því að leiða „ber“ (forskriftir og gildi) af „er“ (staðreyndum)? Þessi spurning er nú miðlæg í siðfræðilegri orðræðu. Hume er venjulega eignuð sú skoðun það sé ekki hægt að leiða forskriftir eða gildi af staðreyndum. (Aðrir túlka Hume á þann veg að hann sé ekki að segja að það sé ekki hægt að leiða siðferðilegar staðhæfingar af staðhæfingum um staðreyndir, heldur að það sé ekki hægt að gera það nema á grundvelli mannlegs eðlis, þ.e. með hliðsjón af mannlegum tilfinningum.) Hume er sennilega einn fyrsti hugsuðurinn sem gerir skýran greinarmun á staðhæfingum um staðreyndir annars vegar og gildi hins vegar. Greinarmunurinn liggur nú til grundvallar félagsvísindunum. Enski heimspekingurinn G.E. Moore varði áþekka kenningu í upphafi 20. aldar með gagnrýni sinni á hluthyggju um gildi. Nytjastefna. Hume ásamt öðrum hugsuðum skosku upplýsingarinnar setti fyrstur fram hugmyndina um að lögmál siðferðisins byggi á afleiðingum athafna. Það ætti ekki að ýkja þátt Humes. Írski heimspekingurin Francis Hutcheson samdi slagorð nytjastefnunnar „hámarkshamingja handa sem flestum“. En helsti upphafsmaður nytjastefnunnar, Jeremy Bentham, sannfærðist samt sem áður um nytjastefnu eftir að hafa lesið "Ritgerð um mannlegan skilning" eftir Hume. Eigi að síður er frumútgáfa Humes af nytjastefnunni nokkuð frábrugðin klassískri útgáfu hennar, til dæmis hjá höfundum eins og John Stuart Mill. Hume taldi að siðferðislögmál væri ekki hægt að réttlæta á skynsemisforsendum. Sum siðferðislögmál höfða einfaldlega til okkar og önnur ekki. Og ástæðan fyrir því að siðferðislögmál nytjastefnunnar höfða til okkar er sú að þau gagnast okkur og öðru fólki, í hvers spor við getum sett okkur. Fólk hefur einfaldlega tilhneigingu til að líka við það sem gagnast mannlegu samfélagi. Hume beitti þessu innsæi til þess að útskýra mat okkar á ýmsum fyrirbærum, allt frá stofnunum samfélagsins stefnu stjórnvalda til persónueinkenna og hæfileika. Efahyggja. Hume var undir áhrifum frá grískri efahyggju og sumir fræðimenn telja að hann hafi öðru fremur verið efahyggjumaður og þannig lýsir Hume sjálfum sér. Eigi að síður var Hume alls ekki róttækur efahyggjumaður. Hann gerir greinarmun á efahyggju eftir því á hvaða forsendum hún hvílir og skiptir henni í það sem hann kallaði fyrir fram efahyggju annars vegar og eftirá efahyggju hins vegar. Fyrir fram efahyggja er efahyggja sem dregur í efa getu sálargáfna fólks með þeim afleiðingum að maður kemst aldrei af stað í leit sinni að þekkingu. Þetta telur Hume vera pyrrhonisma eða róttæka efahyggju. Hann sakar Descartes ranglega um að vera málsvara þess konar skoðana. Eftirá efahyggja sprettur upp úr rannsóknum sem menn gera. Þegar ítrekaðar rannsóknir skila engum eða misvísandi niðurstöðum draga menn ef til vill í efa að þeir komist nokkurn tímann að réttri niðurstöðu. Hér telur Hume að við komumst að minnsta kosti af stað. Efahyggja getur einnig verið misvíðtæk og djúptæk. Hume kallar róttæka efahyggju pyrrhonisma en hófstillta efahyggju kallar hann akademisma eða akademíska efahyggja. Þessi akademíska heimspeki getur verið, að dómi Humes, afar gagnleg. Hún eflir í raun dygðir eins og hófsemi og umburðarlyndi. Aftur á móti telur Hume að róttæk efahyggja sé ekki eins gagnleg og hófstillta efahyggjan en auk þess telur hann að hversdagslífið „afsanni“ í raun róttæka efahyggju. Kraftaverkavandinn. Hume taldi að eina leiðin til þess að réttlæta guðstrú, svo að hún væri ekki einasta blind trú, væri með því að höfða til kraftaverka. Í ritgerðinni „Um kraftaverk“ komst hann svo að orði: „...við getum ályktað að kristin trú hafi ekki einungis í öndverðu byggst á kraftaverkum, heldur að enn í dag sé skynsömu fólki ókleift að fallast á hana án kraftaverks. Skynsemin ein dugir ekki til að sannfæra okkur um réttmæti hennar. Og hver sá sem finnur sig knúinn til að fallast á hana hlýtur að vera meðvitaður um kraftaverk í eigin persónu, sem umturnar öllum lögmálum skilningsgáfu hans og gerir hann staðráðinn í að trúa því sem er öndverðast venju og reynslu.“ Hume hélt því fram að kraftaverk gætu aldrei veitt trúnni mikinn stuðning. Hume taldi að vitnisburður fólks um kraftaverk væri alltaf óáreiðanlegri en vitnisburður fólks um lögmál náttúrunnar. Rök Humes byggja öll á skilningi hans á kraftaverki, þ.e. einhverju sem brýtur gegn náttúrulögmálunum. Þannig skilgreinir Hume einnig kraftaverk í "Rannsókn á skilningsgáfunni". Gagnrýnendur hafa bent á að skilgreining Humes byggi ekki á raunverulegu tali um meint kraftaverk en óvíst er hvort meint kraftaverk séu ætíð tilvik sem brjóta gegn lögmálum náttúrunnar. Einnig hefur verið bent á að rök Humes byggi meðal annars á aðleiðslu enda hafi enginn maður rannsakað alla náttúruna né heldur öll meint kraftaverk. En í heimspeki Humes felur aðleiðsla í sér vanda. Stjórnspeki. David Hume er oft talinn hafa verið íhaldsmaður í stjórnmálum og er stundum sagður hafa verið fyrsti íhaldsspekingurinn. Þetta er strangt tekið ekki rétt ef orðið „íhaldsmaður“ er skilið nútímaskilningi. Í stjórnspeki Humes er að finna bæði íhaldssamar og frjálslyndar hugmyndir og einnig sáttmálahugmyndir og hugmyndir í anda nytjastefnu. Hann studdi þó hvorugan stjórnmálaflokkinn á Bretlandi á sínum tíma. Hume var einkum umhugað að sýna fram á mikilvægi laga og reglu. Hann leggur víða áherslu á mikilvægi þess að forðast öfgar í stjórnmálum. Hume telur að samfélaginu verði að vera stjórnað af almennum og óhlutdrægum lögum og samningafrelsi. Hann hafði minni áhuga á hvers konar stjórn færi með framkvæmdarvaldið svo lengi sem ekki væri stjórnað í óþökk þegnanna. Vegna þessa taldi hann að lýðveldisfyrirkomulag væri heppilegra en konungsstjórn. Hume var tortrygginn í garð tilrauna til að umbreyta samfélaginu á róttækan hátt sem virti ekki rótgrónar hefðir og venjur. Hann réði fólki eindregið frá því að rísa upp gegn yfirvaldinu nema ef um harðstjórn væri að ræða. Hume taldi að það yrði að ná jafnvægi milli borgaralegs frelsis og sterks yfirvalds án þess að fórna öðru hvoru. Hann studdi hugmyndina um prentfrelsi, var hallur undir lýðræði og hélt fram nauðsyn þess að þrískipta ríkisvaldinu. Hume var jafnframt bjartsýnn um félagslegar framfarir, hann taldi að sú efnahagslega þróun sem ætti að fylgja aukinni verslun myndi fleyta samfélögum fram frá „barbarisma“ til siðmenningar. Samkvæmt honum eru siðmenntuð samfélög opin og friðsöm og þar af leiðandi hamingjusöm. Hagfræði. Í umfjöllun sinni um stjórnmál og stjórnmálaheimspeki setti Hume fram ýmsar hugmyndir sem urðu síðar mikilvægar í hagfræði, þar á meðal hugmyndir um einkaeignir, verðbólgu og milliríkjaviðskipti. Ólíkt John Locke trúði Hume því ekki að eignarrétturinn væri náttúruréttur. En hann réttlætir einkaeignarrétt á þeirri forsendu að auðlindir eru takmörkuð gæði. Ef nóg væri til af öllu og það væri öllum aðgengilegt, þá væri eignarréttur óþarfur og óréttlætanlegur. Hume taldi að misskipting auðs væri réttlætanleg vegna þess að fullkominn jöfnuður myndi eyða allri hvatningu til dugnaðar og leiða til fátæktar og vansældar. Tenglar. Hume, David Hume, David Hume, David Internet Encyclopedia of Philosophy. Internet Encyclopedia of Philosophy er alfræðivefur um heimspeki sem var stofnaður af James Fieser árið 1995 með það að markmiði að veita almenningi aðgang að ítarlegu og fræðilegu lesefni um meginhugtök heimspekinnar og helstu heimspekinga á öllum sviðum heimspekinnar. Vefurinn er ekki rekinn í hagnaðarskyni og byggir á sjálfboðavinnu ritstjóra jafnt sem greinarhöfunda. Flestar greinar á vefnum eru samdar af heimspekingum sem teljast sérfræðingar á sínu sviði og eru ritrýndar. Þó hefur verið brugðið á það ráð að nota tímabundið efni sem er laust undan höfundarétti og ritgerðir eftir framhaldsnema þar til varanleg grein hefur verið samin. Greinar á vefnum eru almennt taldar vandaðar en aðgengilegar. Að vefnum starfa 25 ritstjórar og um 200 greinahöfundar. Alla jafnan hafa greinahöfundar doktorsgráðu í heimspeki og starfa við háskólakennslu. Aðalritstjórar vefsins eru James Frieser, stofnandi vefsins, og Bradley Dowden. Stanford Encyclopedia of Philosophy. Stanford Encyclopedia of Philosophy er alfræðirit um heimspeki á veraldarvefnum sem rekið er af Metaphysical Research Lab við Center for the Study of Language and Information hjá Stanford University. Aðalritstjóri er Edward N. Zalta, stofnandi alfræðiritsins. Aðgangur að vefsíðunni er ókeypis. Greinar á vefnum eru skrifaðar af sérfræðingum en meðal greinarhöfunda eru prófessorar í heimspeki frá 65 háskólum frá öllum heimshornum. Leitast er við að tryggja gæði greina á vefnum með því að Ritstjórnarstefna Stanford Encyclopedia of Philosophy leyfir að fleiri en ein grein fjalli um sama efni. Þannig má endurspegla ágreining fræðimanna á fræðilegan máta. Edward N. Zalta stofnaði Stanford Encyclopedia of Philosophy í september árið 1995 með það í huga að alfræðirit á veraldarvefnum mætti uppfæra oft og koma þannig í veg fyrir að það úreldist eins og óhjákvæmilegt er um prentaðar bækur. Blind Melon. Blind Melon er bandarísk rokkhljómsveit. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom úr árið 1992 og hét hún "Blind Melon", en samkvæmt föður Brad's merkir nafnið „hippar frá Mississippi“. Frægasta lag sveitarinnar heitir "No Rain" og kom það út 1993. Saga. Hljómsveitin skrifaði undir samning við Capitol Records árið 1991 og tóku upp eina skífu sem kom aldrei út. Þegar fyrsta breiðskífan kom út árið 1992 hlaut hún ekki mikla athygli í fyrstu en þegar myndbandið við "No Rain" kom út fór hún að seljast eins og heitar lummur. Þannig seldist "No Rain" í fjórfalda platínusölu um heim allan og fór hljómsveitin í tónleikaferðalag sem upphitunarhljómsveitir fyrir Neil Young, Lenny Kravitz, Soundgarden og The Rolling Stones en þurftu snögglega að hætta ferðalögum vegna fíkniefnanotkunar söngvarans Shannon Hoon. Hljómsveitin fór í hljóðver til að hljóðrita nýja breiðskífu og Hoon fór í meðferð vegna fíkniefnavandans. Breiðskífan "Soup" kom út árið 1995 og hljómsveitin lagði upp í aðra tónleikaferð. Meðferðaraðili Hoon ráðlagði honum að fara ekki en Hoon hlýddi ekki. Þann 21. október fannst hann látinn vegna of stórs skammts af kókaíni. Hljómsveitin tjaslaði saman einni breiðskífu enn, "Nico" (1996), og gáfu ágóðann af sölunni í meðferðarverkefni fyrir tónlistarmenn sem áttu við fíkniefna- eða áfengisvanda að stríða. Hljómsveitin lagði svo upp laupana árið 1999. Árið 2002 kom út platan "Classic Masters" sem útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar gaf út. Hlaut hún lof hlustenda og gaf hljómsveitin því út plötuna "The Best of Blind Melon" árið 2005 og innihélt hún geisladisk og mynddisk (DVD). Þann 15. september 2006 tilkynnti hljómsveitin að hún hyggðist taka til starfa á ný og þann 9. nóvember komu út þrjú lög; "Make a Difference", "For My Friends" og "Harmful Belly". Lögin er hægt að nálgast á vefsíðunni. Stjórnmálastofnun ríkisins. Stjórnmálastofnun ríkisins (rússneska: "Gosudarstvennoye politicheskoye upravlenie"), var leynilögregla Sovétríkjanna frá árunum 1922 til 1934, og var undanfari KGB. Njósnir. Njósnir felast í öflun upplýsinga, um samtök eða félög, sem teljast leyndar- eða trúnaðarmál, án leyfis handhafa upplýsinganna. Það sem greinir njósnir frá öðrum tegundum upplýsingaaflana er að njósnir felast í því að afla upplýsinga með því að fá aðgang að þeim stað þar sem upplýsingarnar er að geyma eða aðgang að fólki sem að vita þær og, með undanbrögðum, sagt frá þeim. Fjórsund. Fjórsund er keppnisgrein í sundi þar sem fjórar ólíkar sundgreinar sameinast í eina. Meginland. Meginland er hugtak sem er venjulega notað um stórt landsvæði sem myndar andstæðu við eyjarnar í kring. Þannig er talað um „meginland Evrópu“ sem andstæðu við eyjarnar í Norður-Atlantshafi (Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland), en líka „meginlandið“ á Íslandi sem andstæðu við t.d. Vestmannaeyjar og „meginlandið“ Bretland sem andstæðu við Ermarsundseyjar. Hvað telst meginland fer því eftir samhenginu hverju sinni. Hagamús. Hagamús (fræðiheiti: "Apodemus sylvaticus") er músategund sem er algeng um svo til alla Evrópu og er einnig í Norður-Afríku. Hún finnst um sunnanverð Norðurlönd og á Íslandi, en þangað hefur hún borist með mönnum þegar á landnámsöld. Hún er hins vegar ekki í Finnlandi og Rússlandi, þar koma aðrar músategundir í stað hennar. Hún finnst heldur ekki á Færeyjum eða á Grænlandi. Hagamýs eru litlar (oftast um 9 cm að lengd án hala og 25-35 g að þyngd), með kringlótt eyru og langan hala. Þær eru mjög líkar húsamúsum ("Mus musculus") í útliti nema hvað húsamúsin er grárri, grábrún eða gulbrún að ofan en ljósari á kviðnum, og augun eru stærri. Á ýmsum Evrópumálum er þessi tegund kölluð skógarmús, þótt tegundin þrífist í raun betur í högum, görðum og mólendi en í skógi. Hagamýs lifa aðallega á berjum, fræjum og skordýrum, svo og á ýmsum úrgangi og hræjum, og eru mest á ferli að næturlagi. Þær grafa sér holur í móa og moldarjarðveg eða búa um sig undir steinum og gera sér þar forðabúr og hreiður en þegar hart er í ári leita þær oft í húsaskjól og eru mjög duglegar að klifra. Á Íslandi eru þær reyndar algengar í húsum allt árið. Hagamýs tímgast ört en það ræðst þó mjög af tíðarfari og aðstæðum. Meðgöngutími þeirra er 25-26 dagar og meðalfjöldi músarunga er um 5. Þeir fæðast hárlausir og blindir en vaxa hratt; mýsnar verða kynþroska um tveggja mánaða gamlar og nokkrar kynslóðir geta því fæðst á einu ári. Þar sem hlýtt er í veðri og fæða næg geta þær tímgast mestallt árið en í kaldari löndum tímgast þær aðeins á sumrin, jafnvel aðeins í júní og júlí. Mýsnar lifa sjaldan lengur en eitt ár. Á Íslandi eru helstu óvinir hagamúsarinnar refir, minkar, ýmsir fuglar, svo sem uglur og fálkar, og svo auðvitað kettir. Hreifadýr. Hreifadýr (fræðiheiti: "Pinnipedia") eru undirættbálkur stórra sjávarspendýra. Undirættbálkurinn skiptist í þrjár ættir: rostungaætt, ætt eyrnasela og ætt eiginlegra sela. Þeir einkennast af því að í stað fóta eru þessi dýr með sundfit (hreifa) sem eru hluti af aðlögun þeirra að lífi í vatni. Öll hreifadýr eru rándýr og lifa á fiski, skelfiski, smokkfiski og öðrum sjávardýrum. Prófunarskýrsla. Prófunarskýrsla er notuð við hönnun hugbúnaðar. Mjög mikilvægt er að gera góða prófunarskýrslu þegar prufa skal hugbúnað sem í þróun er til þess að taka á sem flestum villum sem koma upp í ferlinu. Prófunarskýrsluna skal viðhalda út þróunartímann og ýtra eftir því sem við á. Prófunarskýrsla getur verið mjög mismunandi eftir því hver semur hana og til hvers hún er notuð. Góð prófunarskýrsla á að taka á sem flestum villum sem upp koma í kerfinu. Útselur. Útselur (fræðiheiti: "Halichoerus grypus") er stór selur sem er útbreiddur báðum megin Norður-Atlantshafsins. Hann er eina tegundin í ættkvíslfinni "Halichoerus". Útselur er önnur tveggja selategunda sem kæpa við Ísland - hin tegundin er landselur. Útselur hefur líka verið nefndur haustselur þar sem hann kæpir á haustin, ólíkt landsel sem kæpir á vorin. Einkenni. Brimill á leið í land Útselir eru mjög stórir, allt að helmingi stærri en landselir. Fullorðinn brimill getur náð yfir þriggja metra lengd og orðið 300 kílógrömm að þyngd en urturnar verða sem stærstar um 2 m lengd og 180 kg. Útselir hafa stórt og langt höfuð, sérlega brimlarnir sem hafa hærra nef og stærra höfuð en urturnar. Urturnar eru gráar að lit með dökkum flekkjum að ofan, en ljósari á kviðinn. Brimlarnir eru hins vegar næstum einlitir dökkir. Bæði augu og eyru sitja hátt á höfðinu sem gerir að útselurinn getur horft í kringum sig án þess að reisa höfuðið hátt upp úr sjávaryfirborðinu. Útbreiðsla. Útselir lifa við strendur Norður-Atlantshafs bæði að austan og vestan aðgreindir í þrjá stofna. Óvíst er hversu stór vesturstofninn er en áætlað er að hann sé um 150.000 dýr flest við og í St. Lawrence flóanum. Áætlaður fjöldi í austurstofninum er um 130.000 dýr (aðallega í kringum Bretlandseyjar) og einungis um 7.000 í Eystrasaltsstofninum. Æti og lifnaðarhættir. Kópur á strönd í Færeyjum Útselir lifa á fiski, eins og landselir, en vilja stærri bráð. Aðal fæðutegundirnar eru þorskur, marhnútur, hrognkelsi, steinbítur og síli. Þeir kafa allt að 70 metra dýpi. Sjómönnum er oft illa við útselinn og sakað hann um að bíta og skemma fisk í netum. Útselir eru mun styggari en landselir og halda sig því að jafnaði lengra frá landi. Þeir sjást aðallega á skerjum og annesjum. Útselir við Ísland virðast vera einkvænisdýr þótt fjölkvæni virðist algengara hjá útselsstofninum annars staðar. Á Íslandi kæpa útselir á haustin, september til nóvember. Látrin eru gjarnan á stöðum sem eru illa aðgengilegir fyrir landdýr, til dæmis á eyjum eða skerjum. Brimlarnir byrja á að helga sér svæði og verja fyrir öðrum brimlum. Urturnar koma sér fyrir þar og eiga eitt afkvæmi. Kóparnir fæðast í fósturhárunum sem eru hvít að lit og þola illa að blotna. Kóparnir halda því til á þurru landi þangað til þeir hafa skipt um feld. Kóparnir fæðast um 80 cm langir og um 12 kg þungir og eru á spena í 3 vikur og þyngjast verulega á þeim tíma. Fengitími fullorðnu selanna hefst nokkrum vikum eftir að kópurinn hættir á spena. Seinkun fósturþroska útsels nemur 102 dögum. Á meðan á kæpingar- og fengitíma stendur étur útselurinn ekkert og magrast mjög. Útselsurtur verða kynþroska við um 5 ára aldur en brimlarnir 2 til 3 árum síðar. Eitt tilvik er þekkt á Íslandi þar sem útselir hafa náð meira en 40 ára aldri þó þeir verði ofast 15 til 25 ára. Útselir við Ísland. Útselurinn finnst allt í kringum landið nema helst við norðaustur- og austurland. Við talningu haustið 2005 var stærð útselsstofnsins við Ísland metin um 6 000 dýr en í síðustu heildartalningu árið 2002 var hún metin um 5 500 dýr. Stofninn hafði þá minnkað umtalsvert frá 1990 þegar hann var talinn um 12 þúsund dýr. Veiði og nyt. Selir hafa verið veiddir við landið allt frá landnámi. Útselur hefur þó ekki verið nýttur eins mikið og landselur á Íslandi og ekki verið mikið veiddur vegna skinna. Kjötið var nýtt til matar áður á þeim bæjum þar sem útselslátur voru. Var þar flest nýtt, selkjötið og spiki soðið og borðað nýtt eða saltað, reykt eða súrsað og það sama með selshausana.. Selormurinn. Útselurinn veldur óbeint miklum aukakostnaði í fiskvinnslu sem hýsill fyrir selorminn ("Pseudoterranova decipiens") en hann verður að hreinsa úr fiskflökum. Selormurinn verður kynþroska í selnum og egg hans berast út með saur selsins. Lirfa selormsins festir sig við botninn og bíður þar til smákrabbadýr eiga leið hjá og sest að í þeim. Stærri botndýr éta þau minni og selormurinn kemst síðan í fiska sem éta stóru botndýrin. Að lokum kemst selormurinn svo aftur í selinn þegar hann étur fiskinn. Fóstbræður (sjónvarpsþættir). Fóstbræður var sjónvarpsþáttur sem hóf göngu sína 1997. Þátturinn varð upphaflega til á Stöð 3 en síðan sýndur á Stöð 2 og naut mikillar hylli, einkum og sér í lagi á meðal ungu kynslóðarinnar. Fóstbræður byggðust að mestu á stuttum sjálfstæðum grínatriðum, þó eru til einstök dæmi um heildstæða þætti. Allar seríurnar voru gefnar út á myndiska árið 2007. Hilmir var einungis í fyrstu þáttaröðinni en eftir hana kom Þorsteinn Guðmundsson í hans stað. Í þriðju þáttaröð bættist Gunnar Jónsson í hópinn. Upphafslag þáttanna samdi Sigurjón Kjartansson. Styrmir Sigurðsson leikstýrði fyrstu seríunni. Óskar Jónasson þeim næstu, Sigurjón Kjartansson leikstýrði einni og Ragnar Bragason þeirri síðustu. Landselur. Landselur (einnig láturselur eða vorselur, fræðiheiti: "Phoca vitulina") er ein útbreiddasta selategund heims. Landselur lifir meðfram ströndum í norðurhluta Kyrrahafs, Norður-Atlantshafs og einnig í Eystrasalti. Landselur er önnur tveggja selategunda sem kæpir við Ísland - hin er útselur. Dýrafræðingar hafa greint fimm undirtegundir af landsel. Stærð stofnsins er áætluð á bilinu 400 til 500 þúsund dýr samanlagt, þar af 70 til 90 þúsund í norðaustur-atlantshafsstofninum. Í heild er stofninn í góðu standi en við Grænland, Hokkaido í Japan og í Eystrasalti hefur landselnum verið því sem næst útrýmt. Einkenni. Landselir eru gráir, brún eða gulgráir á lit með svartar doppur en ljósir á kvið. Nokkrar undirtegundir hafa ljósar doppur á dökkum feldi. Liturinn fer mikið eftir árstíðum, hárafari, kyni og aldri.Hreifarnir eru fremur litlir og höfuðið stórt miðað við aðra seli. Höfuðið er nánast hnöttótt og augun stór. Brimlarnir verða um 1,5 til 2 m á lengd og vega um 100 - 150 kíló. Urturnar eru ívið minni. Urturnar geta orðið 30 til 35 ára gamlar en brimlarnir 20 til 25. Dýrafræðingar hafa getið sér til um að samkeppni brimlana á fengitímanum valdi aldursmuninum. Útbreiðsla. Landselurinn er algengasta selategundin við Ísland og má finna hann allt í kringum landið. Við norðausturland og Austfirði er hann þó fremur sjaldgæfur. Í Evrópu má finna hann við strendur allt frá Biskajaflóa í suðri til Hvítahafs í norðri, við Svalbarða, Ísland, suður og vestur Grænland. Við austurströnd Ameríku má finna hann langleiðina frá Labrador í norðri til Flórída í suðri. Landselur lifir einnig í Kyrrahafinu frá nyrstu eyjum í Japan norður til Aleutaeyja og suður til Kaliforníu. Landselur lifir að jafnaði ekki í návígi við hafís en er í raun fremur hitakær selategund. Æti og lifnaðarhættir. Uppistaðann í fæðu landsels er fiskur, oftast smáfiskur eins og smár þorskur eða ufsi en þeir éta einnig síli, loðnu, steinbít, síld, sandkola ásamt öðrum fisktegundum og hryggleysingjum, sérlega smokkfisk. Landselurinn er fremur góður kafari, getur verið í kafi allt að 25 mínútum og kafað niður á 50 metra dýpi þó oftast kafi hann einungis í nokkrar mínútur og sjaldan dýpra en um 20 metra. Hann heldur sig oftast nálægt landi, fer sjaldan lengra en um 20 km og heldur sig oft innan um sker en einnig í árósum. Landselurinn fer einnig langar ferðir upp ár til að veiðar lax og silung. Landselir eru félagslyndir og oft megi sjá hópa af þeim á ströndum. Þeir eru eins og aðrir selir fremur klunnalegir á þurru en fara gjarnan upp á land og liggja þar og skiptir ekki máli hvort það er stórgrýti eða sandstrendur. Fullvaxnir landselir ferðast lítið en ung dýr flakka yfir stærri svæði. Þeir koma ár eftir ár á sömu slóðir til að kæpa. Landselir hafa kynmök á sundi og eru fjölkvænisdýr þó engin dæmi séu um að brimlarnir safni að sér urtum. Að loknum kynmökum skiptir brimillinn sér ekki freka af urtunni. En brimlarnir keppa hver við annan um urturnar og verða oft harðir bardagar af. Urturnar kæpa að vorlagi, suðrænu undirtegundirnar þegar í febrúar en við Ísland í maí - júní, og einungis einum kóp. Kóparnir eru við fæðingu milli 10 til 15 kg á þyngd og 70 til 90 cm á lengd. Þeir missa hvíta fósturhárið strax fyrir kæpingu og eru þá syndir. Þeir eru á spena einungis í þrjár til fjórar vikur og sjá síðan um sig sjálfir en á þeim vikum hafa þeir tvöfaldað þyngd sína. Fengitími er skömmu eftir að kópurinn er hættur á spena. Meðgöngutíminn er um 11 mánuði en fyrstu þrjá mánuðina þroskast fóstrið ekki heldur liggur í dvala. Brimlar verða kynþroska um 5-6 ára en urtur nokkru fyrr, 3 til 4 ára. Landselir við Ísland. Landselur er algengur við sunnan, vestan og norðanvert Ísland. Ekki er vitað hversu stór stofninn er en hann stórminkaði á síðustu áratugum 20. aldar. Við talningu 1980 töldust vera 34 000 dýr við landið en einungis 15 000 við samskonar talningu 1997 og 10 000 árið 2003. Nöfn á sel. Karldýrið er nefnt "brimill" og kvendýrið "urta". Afkvæmin eru nefnd "kópur" og fæðingin að "kæpa". Þar sem urtan kæpir er nefnt "látur". Veiði og nyt. Selir hafa verið veiddir við landið allt frá landnámi. Skinn voru notuð t.d. við skógerð en aðallega var selurinn nýttur til matar. Var þar flest nýtt, selkjötið og spiki soðið og borðað nýtt eða saltað, reykt eða súrsað og það sama með selshausana. En súrsaðir selshreifar þóttu víða mikið lostæti. Kópar voru talsvert veiddir á 7. og 8. áratug 20. aldar vegna skinna, sem þá voru eftirsótt hráefni í tískufatnað, en veiði lagðist síðar að mestu af vegna verðfalls á selskinnum. Stígamót. Hús stígamóta við Hverfisgötu í Reykjavík Stígamót eru samtök kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi. Markmið samtakanna er að aðstoða þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og koma í veg fyrir slíkt ofbeldi. Stígamót voru stofnuð á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 1990. Að stofnun komu Barnahópur Kvennaathvarfsins, Ráðgjafarhópur um nauðgunarmál, Kvennaráðgjöfin og Vinnuhópur gegn sifjaspellum eftir að hafa starfað að undirbúningi í eitt ár. Rekstur Stígamóta er fjármagnaður af styrkjum frá félagsmálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, nokkrum bæjar- og sveitarfélögum, en einnig með einkafjárframlögum og styrkjum frá fyrirtækjum og hagsmunasamtökum. Stígamót eru með aðstöðu við Hverfisgötu 115 í Reykjavík. Alþjóðlegt samstarf. Stígamót eru aðilar að fjórum norrænum og alþjóðlegum kvennasamtökum. Þau eru eftirfarandi; Hallgrímskirkja (Reykjavík). Hallgrímskirkja er 74,5 metra há kirkja á Skólavörðuholti í Reykjavík. Hallgrímskirkja sést víða að og er þekkt kennileiti í Reykjavík. Hún er næsthæsta óstagaða mannvirki Íslands (langbylgjumastrið á Gufuskálum er 412 metra hátt). Kirkjan var reist á árunum 1945-1986 og kennd við sr. Hallgrími Pétursson sálmaskáld. Arkítekt kirkjunnar var Guðjón Samúelsson. Í kirkjunni er 5275 pípa orgel sem byggt var árið 1992. Orgelið er 15 metrar á hæð og vegur um 25 tonn. Minkur. Minkur (fræðiheiti: "Mustela vison") er rándýr af marðarætt sem lifir um alla Norður-Ameríku og á Íslandi þangað sem hann var fluttur til loðdýraræktar árið 1931, slapp fljótlega út og breiddist hratt út um allt land. Almennt er litið á minkinn sem aðskotadýr og meindýr á Íslandi og kerfisbundið reynt að halda honum í skefjum. Minkurinn er lítill (um 40 cm á lengd), langur og grannur með lítið höfuð, svartan feld, langt og loðið skott og hvítan blett undir hökunni. Minkurinn er mjög fær að synda í ám og vötnum þar sem hann veiðir fisk og fugla. Marðarætt. Marðarætt (fræðiheiti: "Mustelidae") er ætt rándýra sem flest eru lítil. Þetta er sú ætt rándýra sem inniheldur flestar tegundir. Stærsti mörðurinn er jarfi sem verður 23 kíló á þyngd og getur veitt hreindýr, en sá minnsti er á stærð við mús. Oftast er litið á dýr af þessari ætt sem meindýr, en frettur eru t.d. vinsæl gæludýr og ýmsar tegundir marða eru eftirsóttar vegna feldsins. Selaætt. Selaætt eða eiginlegir selir (fræðiheiti: "Phocidae") eru ein af þremur ættum hreifadýra ("Pinnipedia"). Þeir eru betur aðlagaðir lífi í vatni en eyrnaselir (sæljón og loðselir), en um leið eru þeir minna hæfir til að ferðast um á landi þar sem afturhreifar þeirra eru gagnslitlir sem gangfæri. Húsamús. Húsamús (fræðiheiti: "Mus musculus") er álitin algengasta spendýr jarðarinnar á eftir manninum. Húsamýs lifa nær alltaf í sambýli við manninn. Húsamýs eru ljósbrúnar til grásvartar á lit og ljósan kvið. Eyrun eru kringlótt og lítil. Húsamýs eru yfirleitt 15-19 cm á lengd og þar af er helmingur skottið. Slipknot. Slipknot er bandarísk þungrokkshljómsveit sem var stofnuð árið 1995 í Iowa. Hún var stofnuð af Paul Gray, Shawn Crahan og Anders Colsefini. Hljómsveitin telur nú átta meðlimi og bera liðsmenn hennar alltaf grímur á tónleikum. Saga. Fyrstu opinberu tónleikar Slipknot voru 4. apríl 1996 á staðnum The Safari sem var eign Shawn's. Þar voru bara Shawn og Joey með grímur. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar var "Mate, Feed, Kill, Repeat" og var aðeins gefinn út í 1000 eintökum. Corey Taylor gerðist meðlimur sveitarinnar ekki löngu seinna þar sem honum var hótað af hinum meðlimum hljómsveitarinnar að hann yrði laminn ef hann myndi ekki ganga til liðs við þá(í gríni auðvitað). Önnur breiskífan, "Slipknot" kom út árið 1999 og sló rækilega í gegn. "Iowa"-breiðskífa kom út árið 2001 og "Vol.3 (The Subliminal Verse)" kom út árið 2004. Fjórði diskurinn þeirra All Hope Is Gone kom út í ágúst 2008 og sló mjög vel í gegn þrátt fyrir breytta stefnu og nýjar grímur. Bassaleikari sveitarinnar, Paul Gray, lést 24. maí 2010, 38 ára að aldri. Orsök þess var of stór skammtur af morfíni og verkjalyfinu fetanyl. Tvítala. Tvítala (fræðiheiti: "dualis") er tölumynd fallorða og sagnorða sem sýnir að orðið á við um tvo einstaklinga og greinist að frá fleirtölu að því leyti að þar sem tvítala er til á fleirtalan við um fleiri en tvo einstaklinga. Tvítala var til dæmis til í forngrísku, fornnorrænu og íslensku og ensku á eldra málstigi. Tvítala í íslensku. Í íslensku var tvítala til á eldra málstigi sem tölumynd fornafna fyrstu og annarrar persónu. Í tvítölu er notuð sérstök orðmynd, sem sýnir að átt er við tvo. Tvítala í persónufornöfnum (pfn.) hélst í íslensku fram á 17. eða 18. öld. Eins og sjá má hefur tvítalan breyst í fleirtölu, og hin gamla fleirtala verið notuð í þéringar á síðari tímum. Tvítala er enn lifandi í spurnarfornöfnum, þar sem gerður er greinarmunur á hvor og hver (Hvor ykkar gerði þetta? / Hver ykkar gerði þetta?). Annað dæmi um greinarmun á tvítölu / fleirtölu er: báðir / allir. Granar. Granar (fræðiheiti: "Siluriformes") eru fjölbreyttur ættbálkur fiska sem einkennast af stórum skeggþráðum eða þreifiþráðum á höfði þeirra. Flestir granar eru ferskvatnsfiskar en tegundir úr ættinni "Plotosidae" og ætt sjógrana finnast í sjó. Granar eru ekki með hreistur. Um tvö þúsund tegundir grana eru þekktar í 37 ættum. Ingibjörg H. Bjarnason. Ingibjörg H. Bjarnason (f. á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1867, d. 30. október 1941) var um langt skeið skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík og var fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi. Hún sat á Alþingi 1922-1930 fyrir sérstakan kvennalista (Kvennalistann eldri). Uppvöxtur og menntun. Ingibjörg var dóttir Hákonar Bjarnasonar og Jóhönnu Kristínu Þorleifsdóttur. Þau áttu 12 börn en aðeins 5 þeirra komust á legg, það voru Ingibjörg og fjórir bræður hennar. Hákon Bjarnason faðir hennar rak verslun og þilskipaútgerð á Bíldudal. Hann fórst í sjóslysi þegar Ingibjörg var 8 ára. Ingibjörg flutti að lokinni fermingu til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ingibjörg lauk kvennaskólaprófi í Reykjavík árið 1882 og stundaði nám hjá Þóru Pétursdóttur (einnig þekkt sem Þóra biskups) árin 1882—1884. Hjá Þóru stundaði hún nám í teikningu, dönsku og ensku. Árin 1884—1885 og aftur 1886—93 stundaði hún framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hún stundaði nám í ýmsum greinum sem tengdust uppeldis- og menntamálum og kynntist m.a. Lingsleikfimi og lauk leikfimikennaraprófi fyrst Íslendinga vorið 1892 frá Poul Petersens Institut. Ingibjörg lagði ríka áherslu á mikilvægi íþróttakennslu. Ingibjörg dvaldist einnig erlendis 1901—3 og kynnti sér skólahald. Störf að skólamálum og kennslu. Ingibjörg starfaði við kennslu í Reykjavík 1893—1901. Hún var kennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1903—6. Þar var hún nánasti samstarfsmaður Þóru Melsted sem þá stýrði skólanum og þegar Þóra lét af störfum þá tók Ingibjörg við starfi hennar og var forstöðukona skólans frá 1906 til æviloka. Ingibjörg arfleiddi Kvennaskólann að flest öllum eigum sínum og eru skrifstofuhúsgögn hennar enn á skrifstofu skólastjóra. Ingibjörg kenndi fyrstu árin meðal annars leikfimi, teikningu og handavinnu. Hún kenndi dans í einkatímum utan skólatíma. Síðar kenndi hún eingöngu teikningu, dönsku og heilsufræði fram til 1922. Eitt fyrsta verk Ingibjargar eftir að hún tók við stjórn skólans var að útvega húsnæði fyrir skólann en skólinn fluttist þá í leiguhúsnæði við Fríkirkjuveg. Stjórnmálaþátttaka og félagsmál. Ingibjörg var einn stofnenda Lestrarfélags kvenna í Reykjavík. Hún var einnig ein tólf kvenna er samdi frumvarp er flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala og var formaður Landspítalasjóðs Íslands. Hún sat í menntamálaráði 1928-1932. Ingibjörg var landskjörinn alþingismaður 1922-30. Hún var fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi og komst á þing fyrir sérstakan kvennalista (Kvennalistann eldri) sem spratt upp úr kvenréttindabaráttu þessa tíma. Ingibjörg gekk síðar til liðs við Íhaldsflokkinn sem síðar varð Sjálfstæðisflokkurinn. Þá sat hún á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til ársins 1930. Ingibjörg var gagnrýnd fyrir að svíkja málstaðinn þegar hún gekk til liðs við karlaflokk. Hún barðist þó ávallt fyrir réttindum kvenna. Heimildir. Ingibjörg H. Bjarnason Listasafn Íslands. Listasafn Íslands í gamla íshúsinu við Tjörnina. Listasafn Íslands er listasafn í eigu íslenska ríkisins sem var stofnað árið 1884 í Kaupmannahöfn af Birni Bjarnarsyni, síðar sýslumanni í Dalasýslu og alþingismanni. Stofninn í listaverkaeign safnsins voru gjafir frá listamönnum, aðallega dönskum, en brátt fóru að berast reglulega gjafir frá íslenskum listamönnum sem urðu kjarninn í eign safnsins. Safnkostur. Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka á Íslandi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Það hefur einnig að geyma vaxandi safn erlendra verka eftir heimskunna listamenn, svo sem Pablo Picasso, Edvard Munch, Karel Appel, Hans Hartung, Victor Vasarely, Richard Serra og Richard Tuttle. Listasafn Íslands heldur að staðaldri fjölbreyttar sýningar sem endurspegla listaverkaeign þess. Auk þess efnir það árlega til víðtækra sérsýninga á verkum íslenskra sem erlendra listamanna. Í tengslum við þær eru gefin út rit. Í safnbyggingunum að Fríkirkjuvegi 7 eru nokkrir sýningarsalir á þremur hæðum, safnbúð og kaffistofa. Í skrifstofubyggingunni að Laufásvegi 12 er sérfræðibókasafn með heimilda- og ljósmyndasafni og forvörsludeild. Saga Listasafns Íslands. Árið 1916 var listasafnið gert að deild í Þjóðminjasafni Íslands. Safnkosturinn var þá geymdur víðs vegar og lánaður til opinberra stofnana og skóla um allt land, auk þess sem hluti safnkostsins var sýndur í Alþingishúsinu og Safnahúsinu við Hverfisgötu. Með stofnun menntamálaráðs 1928 varð safnið að Listasafni ríkisins og heyrði beint undir ráðið. 1950 er ráðinn fyrsti forstöðumaður safnsins Selma Jónsdóttir og því fenginn staður á efstu hæð nýja hússins sem reist hafði verið yfir bæði Listasafnið og Þjóðminjasafnið við Suðurgötu. Þá var safnkosturinn endurheimtur alls staðar að og fékkst að mestu leyti til baka. Með nýjum lögum 1961 varð safnið svo sjálfstæð stofnun sem heyrir beint undir menntamálaráðuneytið. Listasafnið er nú staðsett í gamla íshúsinu, Fríkirkjuvegi 7, við Tjörnina í Reykjavík. Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni árið 1916 fyrir fyrirtækið Herðubreið. Síðar hýsti það Framsóknarhúsið og frá 1961 Glaumbæ sem brann 1971. Þá eignaðist listasafnið húsið sem þurfti algerrar endurnýjunar við. Safnið flutti fyrst í húsið árið 1987. Nýbyggingin er verk Garðars Halldórssonar, húsameistara ríkisins Safn Ásgríms Jónssonar er sérstök deild í Listasafni Íslands. Ásgrímur Jónsson lést árið 1958 og ánafnaði íslensku þjóðinni öll listaverk sín í eigin eigu ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík. Árið 1960 var Ásgrímssafn opnað í húsi hans. Árið 1988, þegar Listasafn Íslands fluttist í eigið húsnæði, var safn Ásgríms sameinað Listasafninu samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá hans. Heimili Ásgríms að Bergstaðastræti 74 verður opnað að nýju, eftir ótímabundna lokun, á íslenska safnadeginum, sunnudaginn 8. júlí 2012. Þann 21. júní 2012 var Listasafni Íslands fært Listasafn Sigurjóns Ólafssonar að gjöf. Staðfest var með undirritun gjafabréfs og samkomulags, gjöf sjálfseignarstofnunar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar og öðrum eignum safnsins til Listasafns Íslands. Hér er um að ræða afar verðmæta gjöf til Listasafns Íslands, bæði í listrænu og fjárhagslegu tilliti. Safnið hefur gert kostunarsamninga við fyrirtæki um ýmis verkefni. 2006 gerðist eignarhaldsfélagið Samson aðalstyrktaraðili safnsins til ársins 2008. Í tengslum við þann samning var ákveðið að fella alveg niður aðgangseyri að safninu. Í maí árið 2010 var tekinn upp aðgangseyrir á sérsýningar safnsins. Í dag þarf að greiða aðgangseyri fyrir allt safnið. Hægt er að ganga í listaklúbbinn Selmu en félagar fá árskort í safnið og fleiri fríðindi. Listaklúbburinn Selma í Listasafni Íslands:. Listaklúbburinn dregur nafn sitt af Selmu Jónsdóttur listfræðingi (1917 – 1987) sem var safnstjóri Listasafns Íslands 1950 – 1987 og öflugur frumkvöðull í kynningu á myndlist hérlendis. Listaklúbburinn er fyrir fólk sem vill kynna sér myndlist og fylgjast vel með þeim sýningum sem eru í safninu. Listaklúbbur SELMA er klúbbur áhugafólks um myndlist. Félagsaðild veitir aðgang að sérsniðinni leiðsögn og fyrirlestrum í safninu. Félagar fá afslátt í Safnbúð og ýmis fríðindi. Coca-Cola. Coca-Cola er kolsýrður gosdrykkur, framleiddur af Coca-Cola fyrirtækinu frá Atlanta í Bandaríkjunum. Drykkurinn er þekktur á íslensku undir nafninu kók, en það er íslenskun á orðinu Coke sem notað er um drykkinn á ensku og er skrásett vörumerki Coca-Cola fyrirtækisins. Kók er ein þekktasta og söluhæsta vörutegund í heiminum. Þegar það var fundið upp á seinni hluta 19. aldar af lyfjafræðingnum John Pemberton, var það upprunalega ætlað sem undralyf við alls kyns kvillum. Upprunalegi drykkurinn innihélt, eins og margir heilsudrykkir þess tíma, kókaín. Það var keypt af athafnamanninum Asa Griggs Chandler, sem með kænni markaðssetningu leiddi kók til heimsyfirráða á gosdrykkjamarkaðinum á tuttugustu öldinni. Þó að reglulega hafi verið vegið að því, ýmist í formi gagnrýni á heilsuáhrif þess eða ásakanir um misgerðir fyrirtækisins, hefur kók haldið vinsældum sínum sem vinsæll gosdrykkur í mörgum löndum. Guðjón Samúelsson. Guðjón Samúelsson (16. apríl 1887 – 25. apríl 1950) var íslenskur arkitekt og húsameistari ríkisins frá 1920 til dauðadags. Hann teiknaði margar af þekktustu byggingum landsins. Hann var mikill áhugamaður um skipulagsmál og sat í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins sem sett var á fót árið 1921 og var höfundur Aðalskipulags Ísafjarðar, fyrsta aðalskipulags sem samþykkt var á Íslandi 1927, og einn af aðalhöfundum fyrsta Aðalskipulags Akureyrarkaupstaðar. Hugmyndir Guðjóns um skipulag bæja gerðu ráð fyrir aðgreiningu atvinnusvæða og íbúðarsvæða sem þá var nýmæli. Laxfiskar. Laxfiskar (fræðiheiti: "Salmoniformes") eru ættbálkur geislugga sem inniheldur vinsæla matfiska eins og lax og silung. Ættbálkurinn inniheldur aðeins eina ætt: Laxfiskaætt. Þyngd og lengd. Samband lengdar og þyngdar hjá laxi. Töfluna má nota til að sjá líklega þyngd ef lax er eingöngu lengdarmældur. Laxfiskaætt. Laxfiskaætt (fræðiheiti: "Salmonidae") er eina ætt laxfiska og inniheldur tegundir eins og lax, bleikju og urriða. Paul Benacerraf. Paul Benacerraf er bandarískur heimspekingur og prófessor við Princeton University. Hann kenndi við Princton um nokkurra áratuga skeið og er nú professor emeritus. Benacerraf fæddist í París í Frakklandi. Foreldrar hans voru gyðingar frá Marokkó. Bróðir Benacerrafs er Nóbelsverðlaunahafinn Baruj Benacerraf. Benacerraf fæst einkum við stærðfræðilega rökfræði og heimspeki stærðfræðinnar. Hann er ef til vill þekktastur fyrir grein sína „what numbers could not be“ og fyrir vinsælt greinasafn um heimspeki stærðfræðinnar, sem hann ritstýrði ásamt Hilary Putnam. Heimild. Benacerraf, Paul Ernest Nagel. Ernest Nagel (fæddur 16. nóvember 1901 í Prag, Tékkóslóvakíu, dáinn 22. september 1985 í New York) er af mörgum talinn meðal mikilvægustu Vísindaheimspekingum síns tíma. Nagel fluttist til Bandaríkjanna tíu ára að aldri. Hann hlaut BS gráðu frá New York's City College árið 1923 og Ph.D. gráðu frá Columbia University árið 1930. Hann kenndi í eitt ár (1966-1967) við Rockefeller University en varði annars allri starfsævi sinni við Columbia University, þar sem hann varð prófessor emeritus 1967. Meginverk hans, "The Structure of Science", sem kom út 1961, ýtti úr vör rökgreiningarhefðinni innan vísindaheimspekinnar. Hann er höfundur þeirrar hugmyndar að með því að koma orðum að greiningarjafngildi (eða „brúarlögmálum“) milli hugtaka ólíkra vísindagreina, smættaði maður verufræðilegar skuldbindingar annarrar vísindagreinarinnar í verufræðilegar skuldbindingar hinnar, sem er almennari. Ásamt Rudolf Carnap, Hans Reichenbach og Carl Hempel telst hann einn þrautseigasti málsvari rökfræðilegrar raunhyggju. Nagel var einnig ritstjóri tímaritanna "Journal of Philosophy" (1939-1956) og "Journal of Symbolic Logic" (1940-1946). Árið 1958 gaf hann út ásamt James R. Newman bókina "Gödel's proof", sem er vinsælt rit um hina frægu grein Gödels. Meðal frægustu og áhrifamestu nemenda Nagels var heimspekingurinn Harry Binswanger. Heimild. Nagel, Ernest Philippa Foot. Philippa Ruth Foot (fædd Bosanquet) (3. október 1920 – 3. október 2010) var breskur heimspekingur. Hún er þekktust fyrir framlag sitt til siðfræði. Hún var ásamt G.E.M. Anscombe einn af upphafsmönnum nútíma dygðafræði í siðfræði. Líta má á verk hennar sem tilraun til þess að nútímavæða aristótelíska heimspeki; til að sýna að hana megi laga að málefnum samtímans og þar meðað hún sé samkeppnishæf við vinsæla strauma í nútímasiðfræði, svo sem skyldusiðfræði og nytjastefnu. Foot var fædd og uppalin í Bretlandi. Hún var barnabarn Grovers Cleveland, forseta Bandaríkjanna. Hún hóf feril sinn í heimspeki sem nemandi og síðar kennari við Somerville College, Oxford. Árum saman gegndi Foot stöðu Griffin Professor of Philosophy við Kaliforníuháskóla Los Angeles. Tenglar. Foot, Philippa Foot, Philippa Foot, Philippa Stephen Neale. Stephen Roy Albert Neale (fæddur 9. janúar 1958 á Englandi) er heiðursprófessor í heimspeki við City University of New York (CUNY), Graduate Center í New York-borg í Bandaríkjunum þar sem hann gegnir stöðu sem kennd er bæði við fjölskyldu Johns H. Kornblith og heimspeki um vísindi og gildi (e. Kornblith Family Chair in the Philosophy of Science and Values). Hann er sérfræðingur á sviði málspeki og hefur ritað mikið um merkingu, tjáskipti og túlkun, auk annarra efna er varða tengsl heimspeki og málvísinda. Þá hefur hann einnig ritað um sögu rökgreiningarheimspeki og er einn helsti sérfræðingur um lýsingakenningu Bertrands Russell, um heimspeki þeirra Pauls Grice og Donalds Davidson og um kenningarlega ranghala formlegra röksemdarfærlna er nefnast ‚valslöngvur‘ (e. ‚slinghots‘). Þekktust skrifa Neales eru bækurnar "Descriptions" (1990) og "Facing Facts" (2001), auk greinanna „Meaning, Grammar, and Indeterminacy“ (1987), „Paul Grice and the Philosophy of Language“ (1992), „Term Limits“ (1993) og „No Plagiarism Here“ (2001). Ágrip af ferli. Áður en hann tók við stöðu prófessors við CUNY árið 2007 var Neale prófessor í heimspeki við Rutgers-háskóla í New Jersey-fylki, frá 1999 til 2007, og þar áður við Kaliforníuháskóla í Berkeley, frá 1990 til 1999, sem prófessor bæði í heimspeki og í rökfræði og aðferðafræði vísinda. Á tímabilinu 1996-1997 var hann samhliða því prófessor í heimspeki við Birkbeck College Lundúnarháskóla. Á árunum 1988-1990 var Neale lektor (assistant professor) í heimspeki og málvísindum við Princeton-háskóla, en það var fyrsta háskólastaða hans. Neale útskrifaðist með doktorsgráðu í heimspeki frá Stanford-háskóla árið 1988 undir leiðsögn Johns Perry, prófessors í heimspeki við sama skóla. Einnig stundaði hann rannsóknir við Center for the Study of Language and Information (CSLI) sem er sjálfstætt rannsóknarsetur við Stanford-háskóla. Þá hefur Neale hlotið eftirfarandi styrki til rannsókna: Guggenheim Fellowship árið 2002, National Endowment for the Humanities Fellowship árið 1998 og Rockefeller Foundation Scholar-in-Residence Fellowship árið 1995. Einnig hefur hann hlotið styrki til rannsókna og kennslu frá fjöldamörgum stofnunum, meðal annars frá Kaliforníu-háskóla, Stanford-háskóla, Háskólann í Miami, Oxford-háskóla, Lundúnar-háskóla, Háskólann í Osló, Háskólann í Stokkhólmi og Háskóla Íslands. Þess ber einnig að geta að Neale hefur tvisvar kennt námskeið við Háskólann á Bifröst, annað í rökfræði árið 2006 en hitt í málspeki árið 2007. Rannsóknir. Segja má að Neale riti mest um málspeki, sé orðið skilið víðum skilningi og nái þannig að hluta til til generatífrar málfræði (e. generative grammar), husgpeki, hugfræði, heimspekilegrar rökfræði, frumspeki, kenninga um lagatúlkun og bókmenntafræði. Helsti þráðurinn í rannsóknum hans eru þau heimspekilegu vandamál er upp koma varðandi túlkun, samhengi, innihald tjáskipta, formgerð og táknun. Hann er rammur málsvari lýsingakenningar Russells, lýsingahyggju um afturvísun (e. anaphora), ætlanakenningar Pauls Grice um merkingu auk tiltekinnar nálgunar á merkingu og túlkun sem hann nefnir ‚málvísindaleg gagnhyggja‘ (e. linguistic pragmatism). Eitt áhrifamesta tillegg Neales til málspekinnar hefur varðað það hversu merkingarfræði svokallaðra 'ófullkominna ákveðinna lýsinga' dugir skammt til að ákvarða notkun þeirra, bæði í þeim skilningi að hún ákvarðar notkunarmöguleika þeirra aðeins að hluta til (e. underdeterminacy) og það er enn fremur óljóst að hversu miklu hún gerir það yfirhöfuð (e. indeterminacy). Um þessi efni fjallar hann sérstaklega um í bókinni "Descriptions" (1990) og í greinunum „This, That, and the Other“ (2005) og "A Century Later" (2005). Einnig hafa skrif hans um tiltekin valslöngvurök sem Kurt Gödel setti fram haft mikil áhrif. Um þau fjallar hann m.a. í bókinni "Facing Facts" (2002). Hugmyndir Neales um túlkun tungumáls, hvort heldur talaðs eða ritaðs, eru undir miklum áhrifum frá H.P. Grice og kalla má hann ‚ætlanahyggjusinna‘ (e. intentionalist) og ‚gagnhyggjusinna‘ (e. pragmatist). Hugmyndir Neales um setningafræði og getu máls og hugar til að tákna veruleikann eiga rætur að rekja til þeirra Noams Chomsky og Jerry Fodor. Hugmyndir hans um merkingu máls, sem gera ráð fyrir tiltekinni óræðni, má að hluta til rekja til Donalds Davidson. Mikilla áhrifa frá setningafræði og formlegrar rökfræði gætir í skrifum Neales og hann aðhyllist raunhyggju um sannleika fremur en gagnhyggju (þótt hann sé undir áhrifum gagnhyggjusinna hvað varðar merkingu og tjáskipti). Þrátt fyrir það tekur hann ekki afstöðu til þess hvort staðreyndir sem slíkar hafi skýringargildi þegar kemur að kenningum um sannleikann. Neale telur að hefbundna kenningar um túlkun séu gallaðar að mörgu leyti. Meðal ástæðna eru þau átta atriði sem eftir fara. (i) Hann telur að hefðbundnar kenningar um túlkun geri ekki ráð fyrir þeirri ósamhverfu sem einkennir hlutverk talanda og hlustanda þegar kemur að mannlegum tjáskiptum. (ii) Hann telur að greimarmun skorti á því sem ákvarði frumspekilega hvað málnotandi á við þegar hann notar tiltekinn orð og á því hvernig kennsl séu borinn á það hvað talandinn á við. (iii) Þá telur hann að of lítið sé gert úr þeim skorðum sem málnotendum eru settar þegar kemur að því að mynda sér máltengda ætlun (e. linguistic intention). (iv) Einnig telur hann að viðurkenningu skorti á því að hversu takmörkuðu leyti orð og setningar ákvarða það sem segja má með notkun þeirra (líkt og notkunarfræðingar (e. pragmatists) og gildishyggjysinnar (e. relevance theorists) hafa reynt að gera grein fyrir). (v) Enn fremur telur Neale að hefbundnar kenningar um túlkun skori að gera grein fyrir því hvernig sú óræðni sem einkennir það "sem gefið er í skyn" (e. implied) nær einnig til þess "sem við segjum" (til dæmis þegar við notum ófullkomnar ákveðnar lýsingar). (vi) Auk þess telur hann að of mikið traust hafi verið lagt á afar formlegt hugtak um samhengi tjáskipta, hugtak sem á rætur að rekja til vísanarökfræði (e. indexical logic). (vii) Einnig telur hann að of mikil trú ríki á vafasöm fyrirbæri á borð við „það sem sagt er“, „það sem gefið er í skyn“ og „það sem vísað er til“. (viii) Síðast en ekki síst telur Neale að almennt sé gert of mikið úr því að hvaða marki hefðbundnar kenningar um samsetningu merkingar (e. compositional semantics) geti skýrt það hvernig mannfólk notar tungumál til að lýsa heiminum og koma milli sín boðum með tjáskiptum. Þessi atriði greina Neale bæði frá afstæðishyggjusinnum og síðformgerðarhyggjusinnum og frá merkingarfræðingum sem aðhyllast formlegar kenningar um merkingu. Áhrifavaldar. Meðal helstu áhrifavalda Neales eru Noam Chomsky, H.P. Grice, Bertrand Russell, Donald Davidson, J.L. Austin, Gareth Evans, W.V. Quine, John Perry, Jerry Fodor, Saul Kripke, Dan Sperber og Deirdre Wilson. Meðal málspekinga sem skrifað hafa hjá honum doktorsritgerð eru Herman Cappelen (Háskólinn í St. Andrews og Háskólinn í Osló), Josh Dever (Texas-háskóli í Austin, Texas), Eli Dresner (Háskólinn í Tel Aviv) og Angel Pinillos (Fylkisháskólinn í Arizona). Tenglar. Neale, Stephen Neale, Stephen Neale, Stephen Sidney Morgenbesser. Sidney Morgenbesser (22. september 1921 – 1. ágúst 2004) var bandarískur heimspekingur og prófessor við Columbia-háskóla. Morgenbesser fæddist í New York. Hann nam við City College of New York, Jewish Theological Seminary og University of Pennsylvania. Að námi loknu hóf hann kennslu við Swarthmore College og New School of Social Research en hóf svo kennslu við Columbia-háskóla árið 1953. Árið 1975 var hann gerður að John Dewey prófessor í heimspeki. Morgenbesser var ekki afkastamikill rithöfundur en var þekktur fyrir hnyttni sína og kímnigáfu. Tenglar. Morgenbesser, Sidney Morgenbesser, Sidney David Kaplan. David Benjamin Kaplan (fæddur 1933) er bandarískur heimspekingur og rökfræðingur og prófessor við UCLA. Hann er einkum þekktur fyrir verk sitt um tilvísunarfornöfn, forsetningar og tilvísun í ógagnsæju ("íbyggnu") samhengi. Megináhugasvið hans í heimspeki eru rökfræði, heimspekileg rökfræði, háttarökfræði, málspeki, frumspeki og þekkingarfræði. David Kaplan hlaut Ph.D. gráðu í heimspeki frá UCLA árið 1964, þar sem hann var nemandi Rudolfs Carnap. Á mótunarárum hans í heimspeki var hann undir áhrifum frá mikilvægum rökgreiningarheimspekingum við UCLA, svo sem Alonzo Church og Richard Montague. Kaplan kennir venjulega árlegt námskeið fyrir lengra komna í málspeki við UCLA og einblínir á verk Gottlobs Frege, Bertrands Russell eða P.F. Strawsons. Líflegir fyrirlestrar hans snúast oft um efnisgreinar frá grein Russells „Um tilvísun“ eða grein Freges „Skilningur og merking“. Heimild. Kaplan, David Kaplan, David Kaplan, David Bleikjuættkvísl. Bleikjuættkvísl (fræðiheiti: "Salvelinus") er ættkvísl laxfiska sem inniheldur bleikju og murtu. Fiskar af þessari ættkvísl eru með ljósar doppur á dökku hreistri að ofan og uggar eru með ljósri rönd yst. Margar tegundir af þessari ættkvísl eru vinsælir í sportveiði og Kanadableikja t.d. er ræktuð í fiskeldisstöðvum. Kvennasögusafn Íslands. Kvennasögusafn Íslands er íslenskt safn sem safnar upplýsingum um sögu kvenna á Íslandi og réttindabaráttu kvenna og miðlar þekkingu um kvennasögu og rannsóknir og aðstoðar þá sem til þess leita við öflun heimilda. Safnið var stofnað 1. janúar 1975. Það hefur aðsetur í Þjóðarbókhlöðunni og hefur verið sérstök eining innan Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafns síðan 1996. Helstu forsprakkar að stofnun safnsins voru bókasafnsfræðingarnir Else Mia Einarsdóttir og Svanlaug Baldursdóttir sem og Anna Sigurðardóttir. Kvenréttindafélag Íslands. Kvenréttindafélag Íslands er félag á Íslandi sem vinnur að því að bæta réttindi kvenna. Félagið var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og var hún fyrsti formaður félagsins og gengdi þeirri stöðu næstu 20 árin. Markmið félagsins við stofnun var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningaréttur, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn. Félagið hefur ásamt fleiri kvennasamtökum aðsetur í Hallveigarstöðum. Kvenréttindafélag Íslands gefur út ársritið 19. júní, eitt elsta tímarit á Íslandi, sem hefur komið út á kvenréttindadeginum árlega frá 1951. Kvennaframboð. Kvennaframboð er þegar boðnir er fram í stjórnmálum listar einvörðungu skipaðir konum. Á Íslandi hafa á tveimur tímabilum verið kvennaframboð á Íslandi þar sem samtök kvenna hafa boðið fram sérstaka lista við borgarstjórnarkosningar og kosningar til Alþingis. Kvennaframboðin 1982-1983. Samtök um kvennaframboð voru stofnuð á fjölmennum fundi á Hótel Borg þann 31. janúar árið 1982. Það mættu 300-400 konur á stofnfundinn. Kvennaframboðið fékk tvo fulltrúa kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur og tvo fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar árið 1982. Á Akureyri tók framboðið þátt í meirihlutasamstarfi kjörtímabilið 1982-1986 en bauð þó ekki fram aftur í næstu kosningum, oddviti listans þar var Valgerður H. Bjarnadóttir. Þá buðu samtökin (Kvennalistinn) fram í þremur kjördæmum í alþingiskosningunum árið 1983. Þau hlutu 5,5% atkvæða og komu þremur fulltrúum á þing. Úur. Úurnar var félagsskapur ungra kvenna sem starfaði innan Kvenréttindafélags Íslands. Kvenréttindafélagið stofnaði árið 1968 æskunefnd. Í nefndina máttu ganga allar félagskonur 35 ára og yngri. Í nóvember 1969 voru 18 ungar konur skráðar í nefndina. Rauðsokkuhreyfingin var stofnuð nokkru síðar og Vilborg Dagbjartsdóttir kynnti Rauðsokkuhreyfinguna á fundi hjá Úunum en konurnar í æskunefnd Kvenréttindafélagsins kusu þó að halda áfram sínu starfi en renna ekki saman við Rauðsokkahreyfinguna. Þann 18. nóvember 1970 samþykktu konurnar á fundi að hér eftir kæmu þær fram undir starfsheitinu Úur. Nafnið er sótt til persónu í bók Halldórs Laxness Kristnihald undir Jökli sem kom út um þetta leyti eða árið 1968. Úurnar voru margar kennarar og þeim blöskraði sú sýn á íslenskar konur sem fram kom í kennslubókum þeirra tíma og kynbundið launamisrétti. Nokkrar Úanna skoðuðu námsbækur og gerðu úttekt á handavinnukennslu drengja og stúlkna sem þá var kynskipt og könnuðu boðskap barnabóka. Fyrstu afskipti Úanna af stjórnmálum voru undirskriftasöfnun í kringum Kvennaskólafrumvarpið. Hallveigarstaðir. Hallveigarstaðir er húsið að Túngötu 14 í Reykjavík. Það var byggt af kvennasamtökum og ætlað að vera miðstöð þeirra. Kvennaheimilið var vígt 1967. Það var nefnt Hallveigarstaðir í minningu Hallveigar Fróðadóttur, fyrstu húsfreyjunnar í Reykjavík, eiginkonu Ingólfs Arnarsonar. Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík og Kvenréttindafélag Íslands hafa aðstöðu í húsinu. Húsið var lengi þungur fjárhagslegur baggi á íslenskum kvennasamtökum. Það er að mestu leiti í útleigu m.a. til sendiráðs Kanada. Samkomusalur er í kjallara hússins og þar hafa farið fram margar kvennasamkomur. Bleikja. Heimskautableikja (oftast aðeins kölluð bleikja) (fræðiheiti: "Salvelinus alpinus") er laxfiskur sem lifir bæði í vötnum og sjó á Norðurslóðum. Hún getur orðið allt að 12 kíló að þyngd, en verður sjaldan þyngri en 500 grömm. Nafnið er dregið af rauðbleikum litnum á kviðnum. Hún er sá ferskvatnsfiskur sem lifir nyrst og hefst við í súrefnisríkum köldum vötnum sem botnfrjósa ekki. Bleikja sem lifir í sjó, gjarnan kölluð sjóbleikja, gengur upp í ferskvatn til að hrygna. Bleikja er vinsæll fiskur hjá sportveiðimönnum. Bleikjueldi er einnig stundað í einhverjum mæli á Íslandi og í Noregi. Roderick Chisholm. Roderick M. Chisholm (fæddur 1916 í Seekonk í Massachusetts, dáinn 1999 í Providence, Rhode Island) var bandarískur heimspekingur sem er einkum þekktur fyrir verk sitt í þekkingarfræði, frumspeki, um frjálsan vilja og heimspeki skynjunar. Hann lauk Ph.D. gráðu við Harvard-háskóla undir leiðsögn Clarence Irving Lewis og kenndi við Brown University. Fyrsta stóra rit Chisholms var kennslubók um þekkingarfræði sem nefndist "Theory of Knowledge". Meginverk hans var "Person and Object" (titill bókarinnar vísar til rits W.V.O. Quines "Word and Object"). Chisholm var a frumspekilegur hluthyggjumaður undir áhrifum frá Platoni og rökhyggjumaður í hefð G.E. Moore og Franz Brentano. Hann andmælti árásum Quines á hluthyggjuna, atferlishyggju hans og afstæðishyggju. Chisholm varði möguleikann á raunþekkingu með því að höfða til "a priori" lögmála í þekkingarfræði en af því leiddi að í flestum tilfellum er skynsamlegra að treysta á skilningarvit sín og minni heldur en að vantreysta þeim. Hann varði einnig möguleikann á inntaksmikilli sjálfsþekkingu og hluthyggju í siðfræði ekki ósvipaða þeirri sem W.D. Ross hélt fram. Meðal annarra bóka Chisholms eru "The Problem of the Criterion", "Perception" og "A Realist Theory of the Categories" en sennilega eru fjölmörgar tímaritsgreinar hans betur þekktar en nokkur bóka hans. Chisholm þáði oft innblástur frá sögu heimspekinnar og vísaði oft í ritverk fornaldarheimspekinga, miðaldaheimspekinga, nýaldarheimspekinga og jafnvel meginlandsheimspekinga (enda þótt stundum hafi hann verið gagnrýndur fyrir efnistök sín). Eigi að síður bar hann gríðarmikla virðingu fyrir sögu heimspekinnar þvert gegn ríkri tilhneigingu bandarískra heimspekinga til þess. Chisholm þýddi nokkur verka Brentanos og Husserls og lagði nokkuð að mörkum til endurreisnar hlutafræðinnar á 8. áratug 20. aldar. Chisholm hafði mikil áhrif á marga af nemendum sínum, þ.á m. Richard Taylor, Jaegwon Kim, Keith Lehrer, R. C. Sleigh, Ernest Sosa, Fred Feldman, Terence Penelhum og Dean Zimmerman. Tengill. Chisholm, Roderick Chisholm, Roderick Tycho Brahe. Tycho Ottesen Brahe (fæddur 14. desember 1546 í Knudstrup á Skáni í Danmörku, dáinn 24. október 1601 í Prag) var danskur stjörnufræðingur og gullgerðarmaður. Hann lærði stjörnufræði í Mið-Evrópu, og útskrifaðist árið 1570. Hann var lénsherra á eyjunni Hveðn á Eyrarsundi, í hirð Friðriks annars Danakonungs. Tycho Brahe missti nefið þann 29. desember 1566 í sverðeinvígi við Manderup Parsbjerg. Í kjölfarið lét hann útbúa fyrir sig gervinef úr gulli og silfri og fékk í framhaldi af því áhuga á gullgerðarlist og læknisfræði. Hann kom heim í apríl 1567 með gerfinef sitt. Hann var með afskræmt andlit fyrir lífstíð. Faðir hans vildi helst að hann lærði lögfræði og yrði embættismaður, enda kom hann úr valdamikilli fjölskyldu. Tycho tókst þó hvað eftir annað að fá föður sinn til að senda sig í ferðir til útlanda, til að fullkomna tæki sín til stjörnuskoðunar. Faðir hans dó árið 1571 og ári eftir kynntist hann unnustu sinni, Kristin Jørrgensdatter. Á sama ári og hann kynntist unnustu sinni, 1572, varð hann vitni af halastjörnuhrapi. Með athugum sínum hrakti hann þá skoðun að halastjörnur væru fyrirbæri í andrúmslofti jarðar. Þvert á móti komst hann að þeirri niðurstöðu að halastjarnan væri sex sinnum fjær jörðu en tunglið. Tycho byggði sér höll á Hveðn, Uraníuhöll þar sem hann hafði aðstöðu til stjörnuathugana og fjölda gullgerðarofna. Höllin stóðst ekki illviðrin á eynni, en Tycho byggði þá nýja sem hann nefndi Stjörnuhöll. Hann varð feiknavinsæll fræðimaður og nemendur flykktust að honum, en hann var vandlátur og því þótti það happ að komast til náms í höll hans. Eftir lát Friðriks 2. 1588 naut Brahe ekki sömu hylli við hirðina og áður. Hann flutti sig þá til Prag og gekk í þjónustu Rúdólfs 2., keisara rómverska keisaradæmisins. Þar átti hann í samstarfi við stærðfræðinginn Jóhannes Kepler. Arfleifð Tycho Brahe felst í stjörnuathugunum hans sem voru frammúrskarandi á sínum tíma. Út frá athugunum sínum setti hann fram kenningu sína um sólkerfið þannig, að sólin og tunglið hringsóluðu um jörðina, en reikistjörnurnar, aðrar en jörðin, hringsóluðu um sólina. Þetta var í raun sambræðingur úr kenningum Kóperníkusar og Aristótelesar. Með þessu gat hann áfram nýtt eðlisfræði Aristótelesar og nýtt sér betri hringalögun Kóperníkusar. Tycho er sagður hafa látist vegna þess að hann hafi ekki viljað brjóta kurteisisvenjur hirðarinnar og standa upp frá miðju borðhaldi til að kasta af sér vatni. Af þeim sökum hafi komist ígerð í þvagblöðruna og hann hafi látist ellefu dögum síðar. Sagt er að á dánarbeði sínu hafi hann hrópar "Ó, að ekki verði talið, að ég hafi til ónýtis lifað". Hann var jarðaður í Prag með mikilli viðhöfn. Kona hans lést í fátækt þremur árum síðar. Hin miklu mannvirki Tycho á Hveðn grotnuðu niður. Uraníuborg var rifin og steinar hennar notuð í önnur hús. Árin 1823-24 voru byggingarnar grafnar upp og eru þau fáu áhöld sem fundust nú á litlu safni. Tenglar. Brahe, Tycho Brahe, Tycho Michael Dummett. Sir Michael Anthony Eardley Dummett (27. júní 1925 – 27. desember 2011) er breskur heimspekingur. Hann hefur ritað bæði um sögu rökgreiningarheimspekinnar og er sérfræðingur um heimspeki Gottlobs Frege. Dummett hefur einnig lagt mikið af mörkum til heimspekinnar, einkum á sviði heimspeki stærðfræðinnar, heimspekilegrar rökfræði, málspeki og frumspeki. Hann hefur einnig fengist við kosningafræði og hannaði Quota Borda kerfið fyrir hlutfallslega kosningu, byggt á Borda talningu og hefur ritað fræðileg rit um tarot. Meðal annarra áhugamála hans hafa verið innflytjendalög og ensk málfræði og málnotkun. Árið 1944 gerðist Dummett kaþóslkur og hefur æ síðan verið trúrækinn kaþólikki. Hann nam við Christ Church, Oxford og hlaut skólastyrk til náms við All Souls College. Árið 1979 varð hann Wykeham prófessor í rökfræði við Oxford og gegndi þeirri stöðu þar til hann settist í helgan stein árið 1992. Dummett var aðlaður árið 1999. Heimspeki. Rit Dummetts um þýska heimspekinginn Gottlob Frege hafa hlotið afar góða dóma. Fyrsta bók hans "Frege: Philosophy of Language" (1973), sem tók hann mörg ár að skrifa, er nú álitin sígilt verk. Bókin var snar þáttur í enduruppgötvun á heimspeki Freges og hafði mikil áhrif á heila kynslóð breskra heimspekinga, þ.á m. Gareth Evans. Í grein sinni frá 1963 „Realism“ gerði hann vinsæla umdeilda nálgun til skilnings á deilunni milli hluthyggju og gagnrýnenda hennar, svo sem hughyggju, nafnhyggju o.fl. Hann lýsti öllum síðarnefndu viðhorfunum sem ekki-hluthyggju og færði rök fyrir því að í grundvallaratriðum snerist ágreiningur hluthyggju og ekki-hluthyggju um eðli sannleikans. Hann hefur haldið því fram að hluthyggju sé best að skilja sem það viðhorf að fallast á hina sígildu lýsingu á sannleikanum sem tvígildum og óháðum vitnisburði en ekki-hluthyggja hafnar þessu, skv. Dummett, og heldur í staðinn á lofti hugmyndinni um þekkjanlegan sannleika. Frá sögulegu sjónarhorni hafði þessi ágreiningur verið skilinn sem ágreiningur um hvort verundir af ákveðnu tagi ættu sér sjálfstæða og hlutlæga tilvist eða ekki. Þannig getum við talað um (ekki-)hluthyggju með tilliti til annarra hugsandi vera, fortíðarinnar, framtíðarinnar, altaka, stærðfræðilegra verunda (svo sem náttúrulegra talna), siðferðilegra hugtaka, efnisheimsins og jafnvel hugsunar. Nýungin í nálgun Dummetts fólst í því að sjá þennan ágreining sem í grunninn hliðstæðan ágreiningnum milli innsæishyggju og platonisma í heimspeki stærðfræðinnar. Baráttumál. Dummett hefur tekið þátt í stjórnmálabaráttu og barist gegn kynþáttamismunun. Hann hætti ferli sínum í heimspeki til að reyna að knýja fram borgaraleg réttindi fyrir minnihlutahópa á 7. áratug 20. aldar á tíma sem hann áleit skipta sköpum fyrir umbætur. Hann hefur einnig fengist við kosningafræði, sem leiddi til uppfinningar hans á Quota Borda kerfinu. Hann hefur skrifað um það áfall sem hann varð fyrir er hann fann andsemitísk viðhorf í skrifum Freges, sem hann hafði varið svo miklum hluta starfsævinnar í að rannsaka. Tarot. Michael Dummett er einnig sérfróður um sögu tarotspila og hefur skrifað þó nokkuð um þau, þ.á m. „The Game of Tarot: From Ferrara to Salt Lake city“ (1980), sem markaði spor í bókmenntirnar um spilin. Hann færir rök fyrir því að notkun tarot spila á miðöldum hafi verið í leikjum og að þau hafi fyrst farið að vera tengt dulspeki á 18. öld. Tenglar. Dummett, Michael Dummett, Michael Dummett, Michael W.D. Ross. Sir (William) David Ross (15. apríl 1877 – 5. maí 1971) var skoskur heimspekingur, einkum þekktur fyrir starf sitt í siðfræði. Þekktasta bók hans er "The Right and The Good" (1930). Siðfræði hans er skyldusiðfræði sem varð til sem viðbragð við siðfræði G.E. Moore. Ross ritaði einnig bækur um fornaldarheimspeki og bók hans "Aristotle" (1923) hefur einkum notið vinsælda og verið áhrifamikið inngangsrit um heimspeki Aristótelesar Líf og störf. William David Ross var fæddur í Thurso, Caithness í norðanverðu Skotlandi. Mestan hluta fyrsta sex ára ævinnar var hann á Indlandi. Hann var menntaður í Royal High School í Edinburgh og við University of Edinburgh. Árið 1895 hlaut hann M.A. gráðu í fornfræði. Námi sínu lauk hann við Balliol College, Oxford og varð lektor við Oriel College árið 1900 og félagi við sama skóla árið 1902. Ross var skólastjóri (provost) Oriel College, Oxford (1929–1947), framkvæmdastjóri (vice-chancellor) University of Oxford frá 1941 til 1944 og aðstoðarframkvæmdastjóri (pro-vice-chancellor) (1944–1947). Hann var sleginn til riddara sem riddari breska heimsveldisins árið 1928. Ross kvæntist Edith Ogden árið 1906 og þeim varð fjögurra dætra auðið. Edith lést árið 1953 og Ross lést í Oxford árið 1971. Siðfræði. Ross var sammála Moore um að allar tilraunir til þess að skilgreina siðferðileg hugtök eingöngu á grundvelli náttúrulegra hugtaka fæli í sér náttúrurökvilluna. En Ross færði rök fyrir því að leikslokasiðfræði Moores fæli einnig í sér villu með því að halda því fram að hámörkun gæða væri eina inntak siðferðisskyldna. Í staðinn færði Ross rök fyrir því að hámörkun gæða sé einungis eitt af við fyrstu sín mörgum (sýnilegum) skyldum, sem eiga þátt í að ákvarða inntak siðferðislegrar skyldu. Ross gefur lista yfir aðrar slíkar skyldur, sem hann heldur ekki fram að sé endanlegur listi. Í hvaða kringumstæðum sem er eru við fyrstu sín margar skyldur sem geta átt við, og þegar við stöndum frammi fyrir siðferðislegum afarkostum, þá geta þessar skyldur jafnvel verið í mótsögn hver við aðra. Eigi að síður er ekki mögulegt að við stöndum nokkurn tímann frammi fyrir raunverulegum siðferðislegum afarkostum, vegna þess að ein af skyldunum sem blasa við okkur vegur ávallt þyngst og gildir umfram hinar. Hún er því "algild skylda". Heimild. Ross, W.D. Ross, W.D. Ross, W.D. R.M. Hare. Richard Mervyn Hare (21. mars 1919 – 29. janúar 2002) var enskur siðfræðingur, sem gegndi stöðu White's Professor of Moral Philosophy við University of Oxford frá 1966 til 1983. Kenningar hans í siðspeki voru áhrifamiklar á síðari hluta 20. öld. Hare var undir miklum áhrifum A.J. Ayer og Charles L. Stevenson, málspekingunum J.L. Austin og Ludwig Wittgenstein, nytjastefnu og Immanuel Kant. Nokkrir af nemendum Hares, svo sem Brian McGuinness og Bernard Williams, urðu vel þekktir heimspekingar. Peter Singer, sem er ef til vill frægastur meðal almennings, þekktur fyrir starf sitt í frelsun dýra, var einnig nemandi Hares og hefur þegið ýmislegt úr heimspeki Hares í arf. Heimildir. Hare, R.M. Hare, R.M. Hare, R.M. Alexander Nehamas. Alexander Nehamas er prófessor í heimspeki við Princeton University. Hann fæst einkum við gríska heimspeki, fagurfræði, heimspeki Friedrichs Nietzsche, og Foucaults. Nehamas nam við Swarthmore College og lauk þaðan námi árið 1967. Hann skrifaði doktorsritgerð um Platon undir leiðsögn Gregorys Vlastos við Princeton árið 1971. Nehamas kenndi við ýmsa háskóla í Bandaríkjunum, þ.á m. University of Pittsburgh og University of Pennsylvania áður en hann sneri aftur til Princeton árið 1990. Hann er „Edmund N. Carpenter II Class of 1943“-prófessor í hugvísindum. Nehamas er þekktur fyrir það viðhorf sitt að heimspeki eigi að vera lífsstíll. Tengill. Nehamas, Alexander Slobodan Milošević. Slobodan Milošević (serbneska: Слободан Милошевић,), (20. ágúst 1941 - 11. mars 2006) var serbneskur leiðtogi og um tíma forseti Júgóslavíu. Hann var forseti Serbíu frá 1989 til 1997 og síðan forseti Sambandslýðveldisins Júgóslavíu frá 1997 til 2000. Hann var leiðtogi Sósíalistaflokks Serbíu frá stofnun hans 1992 til 2001. Hann var lykilpersóna í Júgóslavíustríðunum á tíunda áratug 20. aldar. Á meðan Kósóvóstríðinu stóð árið 1999 varð hann fyrsti sitjandi þjóðarleiðtogi í heiminum til að sæta ákæru um stríðsglæpi. Seinna bættust við ákærur um glæpi gegn mannkyni, þjóðarmorð, þjóðernishreinsanir og fjöldanauðganir bæði vegna Kósóvó og átakanna í Bosníu og Króatíu. Eftir að Milošević neitaði að viðurkenna ósigur sinn í forsetakosningum árið 2000 gerðu landsmenn uppreisn gegn honum og að lokum neyddist hann til þess að segja af sér 5. október 2000. Í kjölfarið var hann framseldur til stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag. Þann 11. mars 2006 lést hann í haldi þegar stutt var eftir af vitnaleiðslum í málinu. Opinber dánarorsök hans var hjartaáfall. Þrátt fyrir að vera hjartveikur fyrir hafa ekki allir verið tilbúnir að samþykkja þá skýringu. Þann 5. apríl sama ár tilkynnti dómstóllinn hins vegar að hann hefði látist af eðlilegum orsökum. Júgóslavía. Júgóslavía var land á Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu mestalla 20. öldina. Nafnið þýðir „land suður-slavanna“. Í raun var um að ræða þrjú aðskilin ríki sem komu hvert á eftir öðru. Vera (tímarit). VERA var tímarit um konur og kvenfrelsi sem kom út á árunum 1982-2005. Tímaritið var fyrst gefið út af Kvennaframboðinu í Reykjavík og síðan Kvennalistanum. Þann 24. september 2000 stofnuðu 63 einstaklingar útgáfufélag, Verurnar ehf., sem gaf tímaritið út síðustu árin. Ritstjóri Veru á árunum 1988-90 var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Síðasti ritstjóri var Elísabet Þorgeirsdóttir. Jafnréttisstofa. Jafnréttisstofa er íslensk ríkisstofnun sem heyrir undir félagsmálaráðherra. Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á Íslandi í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með því að lögum um jafnrétti kynjanna sé framfylgt og sinnir ráðgjöf og fræðslu á þessu sviði. Jafnréttisstofa var stofnuð á Akureyri í september 2000. Þá var miðstöð jafnréttismála á vegum ríkisins flutt frá Reykjavík til Akureyrar og Skrifstofa jafnréttismála sem staðsett var í Reykjavík lögð niður. Valgerður H. Bjarnadóttir var framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu til ársins 2003 en þá tók Margrét María Sigurðardóttir við. Margrét María Sigurðardóttir lét af störfum sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu 1. júlí 2007, en þá tók hún við embætti umboðsmanns barna. Kristín Ástgeirsdóttir var skipuð framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu til fimm ára þann 1. september 2007. RIKK. RIKK er rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Stofan hefur starfað síðan 1991 og er leiðandi afl í kvenna- og kynjarannsóknum á Íslandi. Aðalmarkmið RIKK er að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir og rannsóknir í kvenna- og kynjafræðum jafnframt því að vinna að og kynna niðurstöður rannsókna. Dagný Kristjánsdóttir prófessor er formaður stjórnar og Irma Erlingsdóttir er forstöðumaður RIKK. RIKK hefur frá upphafi staðið fyrir reglulegum umræðufundum og fyrirlestrum þar sem fræðimenn kynna rannsóknarverkefni sín. Öxulveldi. Öxulveldi eða möndulveldi kölluðust þau ríki, sem börðust gegn Bandamönnum í seinni heimsstyrjöldinni. Um er að ræða fyrst og fremst stórveldin Þýskaland, Ítalíu og Japan en ýmis smærri ríki flokkast einnig til öxulvelda. Forsaga. Uppruna sinn mun hugtakið eiga að eiga til Mussolinis, einræðisherra Ítalíu, sem talaði um öxulinn Berlín-Róm eftir að Þýskaland og Ítalía höfðu gert með sér vináttusamning 1936. Ríkin tvö voru á þeim tíma bæði einræðisríki og einræðisherrar beggja fylgdu á margan hátt svipaðri hugmyndafræði og töldu sig eiga um margt sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sama ár gerðu Þýskaland og Japan með sér bandalag til að berjast gegn alþjóðasamtökum kommúnista. Til liðs við bandalagið gegn alþjóðasamtökum kommúnista gengu síðar einnig önnur ríki í Evrópu og Asíu. Segja má þó að öxulveldin hafi orðið til 1940 þegar Þýskaland, Japan og Ítalía stofnuðu Þríveldabandalagið. Öxulveldin í reynd. Með stofnun þríveldabandalagsins höfðu Þýskaland, Ítalía og Japan gengið í hernaðarbandalag hvert við annað og þar með skuldbundið sig til að hjálpa hvert öðru í stríði. Eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út í Evrópu börðust Þjóðverjar og Ítalir hlið við hlið á ýmsum vígstöðvum; gegn Frakklandi, í Afríku og gegn Sovétríkjunum. Nokkur evrópsk ríki gengu til liðs við öxulveldin eftir því sem leið á stríðið. Stríð Japana við Bandaríkjamenn Norður-Ameríku hófst með árás Japana á bandarísku herstöðina Perluhöfn á Hawaii-eyjum í Kyrrahafi. Þjóðverjar lýstu yfir stríði á hendur Bandaríkjamönnum fljótlega eftir það, þó að þeir hafi ekki verið skyldugir til þess samkvæmt bókstaf bandalagsins, því í raun hefðu þeir aðeins þurft að koma Japönum til hjálpar ef á Japani hefði verið ráðist. Eftir að stríð Japana og Bandaríkjamanna hófst hóf Japan líka hernað gegn nýlendum Evrópumanna í Austur-Asíu, gegn frönskum, breskum og hollenskum nýlendum, en þau lönd voru öll þrjú í stríði gegn Þýskaland. Ríki sem á einhverjum tímapunkti voru hluti af öxulveldunum. Fyrir utan þau þrjú ríki sem stofnuðu þríveldabandalagið gengu nokkur til liðs við það eftir því sem á leið styrjöldinni. Fyrir utan þau ríki sem áttu hlut að þríveldabandalaginu voru nokkur sem börðust gegn Bandamönnum og eru því oft talin til öxulveldanna. Aðrar merkingar. Í fyrstu stefnuræðu sinni eftir árásirnar 11. september 2001 notaði George Bush, forseti Bandaríkjanna, hugtakið öxull hins illa yfir Íran, Írak og Norður-Kóreu. Sagði forsetinn ríkin þrjú eiga það sameiginlegt að hafa reynt að koma sér upp gereyðingarvopnum og að þau hefðu skotið skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn. Þessi hugtakanotkun á þó ekkert skylt við hin upphaflegu öxulveldi. Sömuleiðis er oft talað um samflot ríkja eða einstaklinga sem öxla. Til dæmis var fyrir það Íraksstríð sem hófst 2003 var talað um öxulinn Berlín-París til að lýsa sameiginlegri andstöðu þeirra ríkja við stríð gegn Írak. Bartólómeusarvígin. Bartólómeusarvígin voru fjöldamorð á húgenottum (frönskum mótmælendum) í París á degi heilags Bartólómeusar 24. ágúst 1572. Talið er að 2-3000 manns hafi verið drepin í París og allt að tíu þúsund í sveitunum í kring í þessum vígum. Atvikið varð til þess að efla mótmælendur í Frakklandi í andstöðu þeirra við kaþólska sambandið, en morðin tengdust frönsku trúarbragðastríðunum á síðari hluta 16. aldar. Vígin áttu sér stað í kjölfar brúðkaups Hinriks af Navarra, sem var kalvínisti, og Margrétar Valois, systur konungs og dóttur Katrínar af Medici sem átti að vera tilraun til að sætta hinar andstæðu fylkingar. Katrín virðist hafa ætlað sér að nota tækifærið og losa sig við nokkra af erfiðustu leiðtogum mótmælenda og skipulagði morð á einum helsta herforingja þeirra, Gaspard de Coligny, sem kaþólikkar álitu ábyrgan fyrir dauða leiðtoga þeirra sjálfra, François hertoga af Guise 1563. Tilraun til að myrða Coligny 22. ágúst mistókst og þá lagði Katrín að syni sínum, Karli 9., að fyrirskipa morð á öllum leiðtogum mótmælenda til að koma í veg fyrir að þeir næðu að skipuleggja gagnárás. Snemma morguns þann 24. voru síðan Coligny, og aðrir leiðtogar mótmælenda myrtir á gistihúsi. Á eftir fylgdu skipuleg morð á mótmælendum í París, framin bæði af hermönnum og af múgnum og stóðu þau til 17. september. Borgarhliðunum var lokað til að fólk slyppi ekki út, og vopnaðir hópar fóru hús úr húsi í hverfum mótmælenda og myrtu alla sem þeir komu höndum yfir. Óeirðirnar breiddust síðan út um sveitirnar umhverfis París. Eftir þetta voru húgenottar sviptir öllum réttindum í Frakklandi. Hið alsjáandi auga. Augað sem allt sér á eins dollara seðli Hið alsjáandi auga er tákn sem sýnir auga umlukið ljósgeisla eða umvafið nokkurskonar dýrð. Táknið er yfirleitt notað sem tákn um tilvist Guðs sem fylgist með gjörðum mannkynsins og þá aðallega inni í þríhyrningi sem talið er að tákni heilaga þrenningu. Nútímanotkun táknsins fer aðallega fram í Bandaríkjunum en þar er það t.d. notað á bakhluta innsiglis ríkisins sem sést m.a. á dollaraseðlum. Miðveldin. a>. Miðveldin eru sýnd með rauðum lit. Miðveldin voru Mið-Evrópuríkin Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Tyrkjaveldi og Búlgaría, sem börðust gegn Bandamönnum í Fyrri heimsstyrjöldinni. Bandalag milli Þýskalands og Austurríkis-Ungverjalands var formlega stofnað 7. október 1879. 20. maí 1889 varð Ítalía aðili að bandalaginu (Þríveldin), en þegar Ítalía hóf þátttöku í styrjöldinni í maí árið 1915 gerði hún það í bandalagi við Breta. Eftir að styrjöldin braust út í ágúst 1914 tóku Tyrkir afstöðu gegn Rússum í október sem olli því að löndin sem aðild áttu að Samúðarbandalaginu lýstu þeim stríði á hendur. Síðastir gerðust Búlgarir aðilar að bandalaginu árið 1915 og réðust inn í Serbíu, ásamt herjum Þjóðverja og Austurríkismanna. Búlgarir urðu fyrstir til að undirrita vopnahléssamkomulag við Bandamenn 29. september 1918. Tyrkir fylgdu í kjölfarið 30. október og Austurríki og Ungverjaland undirrituðu aðskilda vopnahléssamninga í byrjun nóvember. Stríðinu lauk svo með undirritun Þjóðverja 11. nóvember. Fagurfræði. Fagurfræði er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli fegurðar. Þeir sem leggja stund á fagurfræði kallast fagurfræðingar. Listaheimspeki er undirgrein fagurfræðinnar, sem fjallar um eðli listarinnar, hins háleita og jafnvel ljótleikans. Vísindaheimspeki. Vísindaheimspeki er undirgrein heimspekinnar, sem rannsakar heimspekilegan grundvöll og heimspekilegar afleiðingar vísindanna, þar á meðal formlegra vísinda, náttúruvísindann og félagsvísindanna. Vísindaheimspeki er nátengd þekkingarfræði og málspeki ásamt því að skarast við greinar frumspeki og verufræði sem er sú grein sem snýr að því að fjalla um tilveru hlutanna. Vísindaheimspeki leitast við að svara spurningunni um hvað það er sem einkennir vísindi og hvað gerir eitt að vísindum en annað ekki. Vísindaheimspekin fer ofan í það hvernig tilraunir og athuganir ásamt gerð kenninga hafa leitt vísindamenn þeim kenningum og staðreyndum sem við lifum við og notum í dag. Afleiðsla. Gallinn á afleiðslunni er þó sá að hún gefur okkur engar nýjar upplýsingar, til að hún virki þarf maður að vita bæði það almenna og það einstaka. Aðleiðsla. Aðleiðsla er röksemdafærsla þar sem alhæft er út frá takmörkuðum vitnisburði. Í aðleiðslu styðja forsendurnar niðurstöðuna en tryggja hana ekki. Dæmið sýnir glögglega eðli aðleiðslu: dregin er almenn ályktun út frá hinu einstaka. En þar sem ályktað er út fyrir forsendurnar er niðurstaðan ekki örugg. Ef við erum ekki viss um að hafa séð hverja einustu kráku í heiminum – sem er ómögulegt í framkvæmd – þá er alltaf mögulegt að til sé ein sem er öðruvísi á litinn. (Það mætti bæta því við skilgreiningu á kráku að hún sé svört; en ef tveir „krákulegir“ fuglar væru nákvæmlega eins fyrir utan litinn, þá myndum við segja að önnur krákan væri svört en hin væri nýtt og sjaldgæft afbrigði til dæmis blárrar kráku – við myndum samt sem áður segja að hvort tveggja væri afbrigði kráku.) Gervivísindi. Gervivísindi er hugtak innan vísindaheimspeki sem leitast við að aðgreina raunveruleg vísindi frá gervivísindum (einnig kallað hjáfræði). Til að kanna þetta þá má notast við kenninguna um hrekjanleika sem Karl Popper setti fram um miðja 20. öld. Ef kenning er sögð vera hrekjanleg þá er ekki verið að segja að hún sé ósönn heldur er verið að benda á að kenningin inniheldur staðhæfingar sem hægt er að meta og rannsaka gagnvart reynslu meðal annars. Hrekjanleg kenning er sem sagt á þann veg að við gætum komist að því ekki allar staðhæfingar hennar standast nákvæma skoðun. Karl Popper taldi að þær vísindalegu kenningar sem ekki væru hrekjanlegar, væru í raun ekki vísindalegar kenningar heldur einungis gervivísindi. Félagsleg heimspeki. Félagsleg heimspeki er heimspekileg rannsókn á fræðilegum spurningum um félagslega hegðun (yfirleitt manna). Félagsleg heimspeki fæst við margvíslegar spurningar allt frá spurningum um einstaklinga til spurninga um gildi laga, frá spurningum um hversdagslegar athafnir til spurninga um áhrif vísinda á menningu. Mayhem. Mayhem er norsk drungarokkshljómsveit stofnuð árið 1984. Stofnendurnir voru gítarleikarinn Euronymous, bassaleikarinn Necrobutcher og trommarinn Manheim, allt listamannsnöfn sem þeir tóku upp eftir að þeir stofnuðu hljómsveitina. Sú tónlistarbylgja sem Mayhem þykir tilheyra er oft nefnd „seinni drungarokksbylgjan“ og urðu meðlimirnir frumkvöðlar bylgjunnar. Talið er að Mayhem hafi mótað þá alræmdu stefnu sem ber nafnið norskt drungarokk. Meðlimir sveitarinnar eru einnig þekktir fyrir að hafa tilheyrt fámennum hópi sem á 10. áratugnum lyfti þessari þá umdeildu tónlistarstefnu í nýjar hæðir. Norska drungarokkið steig út úr leikrænni sviðsetningu þungarokksins og tók ofbeldisfullt skref inn í veruleikann, tónlistin varð listræn málpípa fyrir hóp ungra manna sem gerðu uppreisn gegn samfélaginu, aðhylltust tilvistarlega heimspeki, róttæka heiðni og sýndu öfgafulla andspyrnu gegn ítökum gyðing-kristninar á norðurlöndum. Mayhem ásamt fleiri hljómsveitum (og þar má helst nefna hljómsveitina Burzum) áttu þátt í því að skapa hið alræmda orðspor sem fer af tónlistarstefnunni í dag, stefnu sem almenningur tengir oftast við „djöfladýrkun”, kirkjubrennur og manndráp. Upphaf. Mayhem var stofnuð árið 1984 af þeim félögum "Øystein Aarseth", "Jørn Stubberud" og "Kjetil Manheim", þeir sóttu innblástur sinn í hljómsveitir sem tilheyrðu fyrri svartmálmsbylgjunni líkt og Venom og Hellhammer en einnig úr öðru stefnum og þar má nefna thrash/dauðamálms hljómsveitum á borð við Slayer. Hljómsveitin kom fyrst opinberlega fram á tónleikum árið 1985. Þar söng Eirik Nordheim eða "Messiah" með þeim á sviði. Á þessum tónleikum sínum spiluðu þeir aðeins tökulög lög eftir bresku hljómsveitina Venom og svissnesku hljómsveitina Celtic Frost. Seinna þetta sama ár tóku þeir upp 2 prufuupptökur, plöturnar “Voice Of A Tortured Skull” og “Pure Fucking Armageddon”. Ári eftir að Mayhem tóku upp demoplöturnar fóru þeir aftur í hljóðverið til að taka upp plötuna Deathcrush. Þá höfðu orðið smávægilegar mannabreytingar hjá bandinu og Messiah hafði yfirgefið þá og Maniac, sem heitir réttu nafni Sven-Erik Kristiansen, hafði komið í stað hans. Deathcrush var gefin út í 1000 eintökum á vínylplötum. Faust sem var trommuleikarinn í Emperor sagði eftirfarandi um þá plötu: “Mayhem var hljómsveitin sem allir í Noregi höfðu heyrt um en enginn heyrt í þeim. Ég varð heppinn því ég þekkti Maniac, sem átti nokkur eintök af plötunni. Ég man að hún var mjög grimm, sennilega grimmasta tónlist sem ég hafði heyrt þá”. Með útgáfunni á Deathcrush og með hjálp frá tónlistarblaðinu “Slayer Magasine” voru Mayhem á góðir leið með að verða stærsta bandið í undirmenningu drungarokksins í Noregi. Árið 1988 ákváðu Maniac og Manheim að yfirgefa bandið. Í stað Maniac kom maður að nafni Per Yngve Ohlin sem söngvari. Euronymous hafði verið að hlusta á demo plötur með hljómsveitinni Morbid þar sem Per Yngve Ohlin hafði verið í. Hann kom inn í Mayhem sem söngvari og tók upp nafnið Dead sökum rosalegs þunglyndis. Í stað Manheim kom maður að nafni Jan Axel Blomberg á trommurnar. Hann kallaði sig Hellhammer eftir Svissneskri þungarokks hljómsveit. Þessi liðs skipan hefur oft verið kölluð hin goðsagnakennda skipan. Það eina sem var tekið upp á þessum tíma voru tvö lög, “The Freezing Moon” og “Carnage”. Á þeim tíma var Dead búinn að skrifa texta fyrir plötu sem átti eftir að koma út og verða þá þekkt undir nafninu “De Mysteriis Dom Sathanas”. Hljómsveitin æfði nokkur ný lög fyrir tónleika númer tvö sem voru á næsta leiti. Voru þeir skipulagðir af Metalion, sem var gamall vinur hljómsveita meðlima. Þessir goðsagnakenndu, fyrstu alvöru blackmetal tónleikar voru haldnir í Sarpsborg. Fyrir þessa tónleika höfðu liðsmenn Mayhem keypt stjaka og fláða svínahausa sem þeir voru með á sviðinu. Dead var líka með dauðan hrafn í poka til að finna lyktina af dauðanum á milli laga, og loksins, þá lofaði hann því að hann myndi verða útataður í eigin blóði á þessum tónleikum. Þessir tónleikar voru sóttir af meðlimum alræmdustu blackmetal hljómsveitum dagsins í dag. Meðlimir Immortal og Darkthrone voru að fyrstir til að sjá Satan sjálfan rísa upp. Með þessum tónleikum voru staðlarnir settir fyrir bönd sem áttu eftir að koma seinna. Nú leit allt út fyrir að vera að ganga upp hjá Mayhem en samt átti ýmislegt eftir að setja strik í reikninginn hjá þeim. Á meðan þeir voru á tónleikaferðalaginu í Þýskalandi var tekinn upp “live” diskur með þeim sem hlaut nafnið “Live In Leipzig”. Vísaði það til tónleika sem þeir höfðu spilað í Leipzig í Þýskalandi. Þessir tónleikar voru haldnir í yfirgefnu flugskýli. Eftir að þeir komu aftur heim ákváðu þeir að taka upp plötuna “De Mysteriis Dom Sathanas”. Þó svo að allt gengi vel átti hlutur sem myndi eyðileggja allar venjulegar hljómsveitir eftir að gerast. 8. apríl árið 1991 hafði Dead verið að tala um sjálfsmorð við vini sína og ákvað að ferðast aftur heim til sín. Þegar hann kom heim skar hann á æðarnar á úlnliðnum og skaut sig í hausinn með haglabyssu. Euronymous, sem bjó með Dead, kom heim að læstum dyrum ákvað að klifra inn um gluggann. Þegar hann kom inn sá hann Dead liggjandi dauðann í blóði sínu og heilann dottinn úr mölbrotinni hauskúpunni. Í stað þess að hringja í lögregluna hljóp Euronymous í næstu búð og keypti einnota myndavél. Þegar hann kom aftur tók hann myndir af líkinu sem seinna meir prýddu diskinn “Dawn Of The Black Hearts”. Síðan tók hann upp nokkur brot úr hauskúpunni og hluta af heilanum úr Dead. Hann eldaði kássu og notaði í hana heilann og át þetta til heiðurs Dead. Úr hauskúpubrotunum bjó hann til hálsmen fyrir sig og Hellhammer. Eftir að Dead framdi sjálfsmorð ákvað Necrobutcher að yfirgefa bandið út af óþekktum ástæðum. Þá þurftu þeir sem eftir voru að finna enn einn meðliminn. Fengu þeir Stian Johannsen, sem kallaði sig Occultus, til að koma í bandið. Hann spilaði á bassa og söng, en bara í stuttan tíma. Eftir að hann yfirgaf Mayhem eyðilögðu Euronymous og Varg Vikernes húsið hans Stian. Á þessum tíma var Euronymous byrjaður með útgáfu fyrirtæki sem hann kallaði “Deathlike Silence Producttions” og búinn að gefa út fyrstu LP plötuna með Merciless og endurútgefa Deathcrush. Hann var einnig búinn að gefa út plötu með Burzum, sem var eins manns hljómsveit og var Varg Vikernes maðurinn á bak við það. Sumarið áður höfðu Darkthrone, sem áður höfðu spilað deathmetal, gefið út fyrstu blackmetal plötuna sína sem bar nafnið “A Blaze In The Northern Sky” og var hún tileinkuð Euronymous. Um þetta leyti var rólegra að gera hjá Mayhem og Hellhammer var kominn í annað band sem hét Arcturus. Hann var þó enn að spila með Mayhem. Euronymous opnaði líka búð sem hann kallaði “Helvete” eða Helvíti. Í þessari búð héngu allir meðlimir stærstu drungarokkshljómsveitanna, meðal annars Enslaved, Emperor, Darkthrone og Immortal. Varg fékk líka að vera í kjallaranum þegar hann heimsótti Osló. Euronymous var orðinn að nokkurs konar foringja norsku blackmetal senunnar og sagði til um hvað ætti að gera og hvað ekki. Árið 1992 hafði margt gerst í undirmenningu norska drungarokksins. Norska þungarokkið var loksins tilbúinn og það varð bylting og hinn sataníski undirheimur Noregs reis upp. Það var verið að byrja að taka upp “De Mysteriis Dom Sathanas” og í æsingnum voru nokkrar kirkjur brenndar. Liðsskipanin var þessi: Euronymous – gítar, Hellhammer – trommur, Blackthorn (Snorre Ruch) – gítar, Varg Vikernis – bassi og Atilla Csihar – söngur. Margir telja þessa liðskipan hina klassísku liðsskipan Mayhem og er “De Mysteriis Dom Sathanas” talin vera meistarastykki af flestum sem hlusta á blackmetal. Með upptöku á “De Mysteriis Dom Sathanas” og nýjum gítarleikara, fékk Euronymous nóg að gera í plötubúðinni og útgáfu fyrirtækinu. Þó svo að allt liti út fyrir að vera fullkomið var margt að. Samband Euronymous og Varg hafði þróast frá vinasambandi í fullkomið haturs samband. 10. ágúst árið 1993 fóru þeir Blackthorn og Varg heim til Euronymous. Blackthorn bankaði upp á og Euronymous bauð honum inn. Um leið og hann snéri sér við stökk Varg inn og stakk Euronymous um það bil 20 sinnum með hníf. Prinsinn var fallinn! Varg fékk hámarks refsingu fyrir morðið og á ekki von á náðun fyrr en í fyrsta lagi árið 2016. Þegar þetta fréttist varð allt brjálað í norksu blackmetal senunni. Fólk skiptist í tvo hópa: Þá sem fylgdu fallna prinsinum og þá sem fylgdu Varg. Fjölskylda Euronymous fór fram á það að allar bassalínur yrðu teknar út og spilaðar upp á nýtt af öðrum bassaleikara. Leiðsmenn Mayhem sögðust ætla að gera það en seinna meir sagði Hellhammer að þeir hefðu ekki gert það vegna þess að þeir voru orðnir þreyttir á því að fresta útgáfu plötunnar. Núna var Hellhammer sá eini sem var eftir af upprunalega bandinu en hann langaði að halda áfram með bandið. Hann hafði samband við nokkra fyrrverandi meðlimi. Hann fékk þá Necrubutcher, Maniac og nýjan gítarleikara sem heitir Rune Erickson en kallar sig Blasphemer. Þeir byrjuðu að semja nýja tónlist fyrir nýja plötu sem fékk nafnið “Wolf’s Lair Abyss”. Sú plata kom út á hrekkjavöku árið 1997 og var henni fylgt eftir með litlu tónleikaferðalagi sem endaði á tónlistarhátíð sem heitir “Milwaukee Metalfest”. Eftir að diskurinn var gefinn út kom maður að nafni Alexander Nordgaren í bandið sem gítarleikari. Hann spilaði með Mayhem á “Mayhem Invades England” tónleika ferðalaginu en hætti síðan árið 1998 þegar hann flutti til Englands. Seinna meir var mikið um útgáfur. Árið 1998 kom út “Ancient Skin/Necrolust” smáskífan, tónleikaplatan “Mediolanum Capta Est” kom árið 1999 og sama ár gáfu þeir út plötu með Zyklon-B. Árið 2000 kom síðan “Grand Declaration Of War” út. Árið 2001 kom “European Legions:Live In Marseille” út á DVD og VHS og í mjög takmörkuðu upplagi á geisladiskum. 2002 kom diskur með Mayhem og Meads Of Aspohodel út á vínyl og seinna sama ár á geisladisk. Sama ár kom “The Studio Experience” sem er box sem inniheldur eftirfarandi vínylplötur: Deathcrush 12", De Mysteriis Dom Sathanas 12", Wolfs Lair Abyss 12", Grand Declaration Of War 12" og Freezing Moon/Carnage 7". Seinasta platan var tekin upp árið 1990 og söng Dead inn á hana. Árið 2004 kom síðan platan “Chimera” út. Í nóvember ákvað hljómsveitin síðan sameiginlega að Maniac skyldi hætta. Þá var hann búinn að vera söngvari í Mayhem í 10 ár samfleytt. Í stað hans kom aftur Atilla Csihar sem söng inn á “De Mysteriis Dom Sathanas”. Fyrrum meðlimir. Maniac (Sven-Erik Kristiansen): Söngur 1986-1988, 1995-2004. Dead (Per Yngve Ohlin): Söngur 1988-1991 Grishnack (Varg Vikernes): Bassi á plötunni "De Mysteriis Dom Sathanas" Messiah (Eirik Nordheim): Session söngur 1986-1987 Blackthorn (Snorre Ruch): Gítar í stuttan tíma 1993 Occultus (Stian Johannsen): Bassi/Söngur í stuttan tíma 1991 Nordgarden (Alexander Nordgaren): Live Rhythm Gítar 1997-1998, æfingagítarleikari 1998 Útgáfur. Live The Life Of The Beast Fornaldarheimspeki. Fornaldarheimspeki vísar venjulega til heimspeki vestrænnar fornaldar, einkum grískrar heimspeki tímabilsins en einnig rómverskrar. Fornaldarheimspeki er venjulega skipt í þrjú tímabil: forvera Sókratesar, klassíska heimspeki og helleníska heimspeki. Einnig er oft talað um rómverska heimspeki sem sérstakt tímabil þótt rómversk heimspeki sé í raun vart annað en áframhald hellenískrar heimspeki innan Rómaveldis. Þá er tíminn frá 3. öld stundum nefndur síðfornöld og heimspeki þess tíma heimspeki síðfornaldar. Forverar Sókratesar. Tímabil forvera Sókratesar einkenndist af frumspekilegum vangaveltum og tilraunum til þess að finna „uppsprettuna“, það sem lægi veruleikanum til grundvallar. Meðal mikilvægra heimspekingar þessa tímabils eru Þales, Anaxímandros, Anaxímenes, Pýþagóras, Herakleitos, Parmenídes, Zenon frá Eleu, Melissos, Empedókles, Anaxagóras, Demókrítos. Á grundvelli greiningar á sögninni „að vera“ leiddi Parmenídes rök að því að ekki væri til neinn mismunur og þar með væru hreyfing og breyting einungis tálsýn. Fornmenn sjálfir álitu rök Parmenídesar sýna að tilraunir fyrstu heimspekinganna (Þalesar, Anaxímandrosar, Anaxímenesar) til þess að finna einhverja "eina" uppsprettu sem útskýrði margbreytileika heimsins væru dauðadæmdar. Í kjölfarið komu fram "fjölhyggjukenningar" sem áttu að koma til móts við Parmenídes að einhverju leyti. Uppspretturnar voru nú taldar fleiri en ein (frumefnin fjögur (eða „ræturnar“ fjórar) hjá Empedóklesi, og ótalmörg „samkynja“ efni hjá Anaxagórasi) og samspil þeirra átti að útskýra margbreytileika heimsins og möguleikann á hreyfingu og breytingu en sjálfar voru uppspretturnar taldar „parmenídískar“ verundir í einhverjum skilningi, varanlegar og óbreytanlegar. Heimildir okkar um skoðanir, kenningar og rök þessara manna eru afar brotakenndar en ekkert heildsætt rit um heimspeki hefur varðveist frá þessum tíma. Upplýsingartíminn. Um miðja 5. öld f.o.t. varð til stétt svonefndra fræðara eða sófista en þeir voru fræðimenn og kennarar ferðuðust milli borga og kenndu hvers kyns fræði og vísindi gegn greiðslu. Þessi tími hefur verið nefndur upplýsingartíminn í sögu Grikklands. Margir fræðaranna fengust við heimspeki en merkastir þeirra voru Prótagóras, Pródíkos, Hippías og Þrasýmakkos. Klassísk heimspeki. Mestar heimildir eru frá klassíska tímabilinu en mikilvægustu heimspekingar tímabilsins voru Sókrates, Platon og Aristóteles. Þeir síðastnefndu eru meðal áhrifamestu heimspekingum sögunnar og er þeir hugsuðir sem hvað mest hafa mótað heimspekina og viðfangsefni hennar. Sókrates. Sókrates (469 – 399 f.o.t.), sem skildi ekki eftir sig nein rit, bjó í Aþenu þar sem hann stundaði heimspekina einkum á götum úti í samræðum við aðra menn. Honum var oft ruglað saman við fræðarana eða sófistana svonefndu en taldi sig ekki tilheyra þeim hópi, neitaði því alfarið að hann væri kennari og þáði aldrei borgun fyrir samræður sínar. Hann aflaði sér óvinsælda í Aþenu og var á endanum ákærður fyrir guðlast og að spilla æskulýðnum. Hann var úrskurðaður sekur og dæmdur til dauða árið 399 f.o.t. Sókrates neitaði að flýja úr fangelsi og kaus fremur að hlýða dóminum. Hann drakk eitur, að skipan dómsins og lést, þá sjötugur að aldri. Heimspeki Sókratesar er einkum þekkt úr ritum lærisveina hans, aðallega Platons en einnig Xenofons. Sagt er að Sókrates hafi fyrstur fengist við siðfræði en þó virðist Demókrítos (sem var samtímamaður Sókratesar) einnig hafa gert það. Í ritum Platons er persónan Sókrates svo látinn halda fram ýmsu öðru en því sem talið er að hinn sögulegi Sókrates hafi haldið fram og veldur það erfiðleikum að segja með vissu hvaða skoðanir hinn raunverulegi Sókrates hafði. Einkum virðist mega eigna honum tvennt. Annars vegar að enginn sé vísvitandi illur; hins vegar að dygð sé þekking. Platon. Platon var lærisveinn Sókratesar. Hann fékkst við nánast öll svið heimspekinnar en frægust kenninga hans er sennilega frummyndakenningin. Platon taldi að efnisheimurinn væri hverful og léleg eftirlíking af fullkomnum heimi óhlutbundinna frummynda. Raunveruleg þekking hlyti að vera þekking á frummyndunum. Aristóteles. Aristóteles var nemandi Platons. Hann fékkst við svo að segja öll svið heimspekinnar og er heimspeki hans afar kerfisbundin. Aristóteles fékkst einnig við vísindi og stundaði meðal annars rannsóknir í líffræði, líffærafræði, dýrafræði, veðurfræði, stjörnufræði, sálfræði, hagfræði og stjórnmálafræði. Hann fann upp rökfræði sem fræðigrein. Siðfræði Aristótelesar hefur verið endurlífguð á 20. öld og haldið á lofti af G.E.M. Anscombe og Philippu Foot. Hundingjar. Hundingjar sóttu innblástur sinn til Sókratesar en upphafsmaður hundingjastefnunnar var heimspekingurinn Antisþenes (444 – 365 f.o.t.) sem verið hafði vinur og nemandi Sókratesar. Stefnan fól í sér róttæka höfnun á félagslegum gildum og meinlætalíf. Hundingjar gerðu oft sitt ítrasta til að hneyksla fólk og stunduðu meðal annars sjálfsfróun á almannafæri. Þeir hvöttu fólk til að láta laust hið dýrslega í sér. Frægastur hundingjanna er sennilega Díogenes hundingi sem bjó í tunnu. Meðal annarra hundingja voru Krates, Demetríos og Demonax. Hundingjar höfðu mikil áhrif á Zenon frá Kítíon, upphafsmanns stóuspekinnar og aðra stóumenn, svo sem Epiktetos. Kýreningar. Kýreningar voru róttækir nautnahyggjumenn. Stefnan er nefnd eftir fæðingarstað Aristipposar (435 – 366 f.o.t.), upphafsmanns hennar, en hann fæddist í borginni Kýrenu í Norður-Afríku (þar sem Lýbía er nú). Aristippos hafði einnig verið fylgismaður Sókratesar en heimspeki hans var afar frábrugðin heimspeki Sókratesar og annarra nemenda hans. Kýreningar töldu að ánægja væri æðst gæða og lögðu áherslu á líkamlega ánægju umfram andlega ánægju sem hlýst til dæmis af ástundum lista eða ræktun vináttu. Þeir höfnuðu einnig að skynsamlegt væri að fresta eða takmarka eftirsókn eftir líkamlegri ánægju á líðandi stundu vegna langtímasjónarmiða. Kýreningar töldu að mannlegri þekkingu væru þröngar skorður settar. Þeir töldu að einungis væri hægt að þekkja eigin upplifanir hverju sinni, til dæmis að á ákveðnu augnabliki fyndi maður sætt bragð, en að ekkert væri hægt að vita um orsakir þess sem maður skynjar, til dæmis að hunang sé sætt á bragðið. Hellenísk heimspeki. Hellenísk heimspeki er strangt tekið einungis heimspeki helleníska tímans (það er til ársins 31 f.o.t.) en orðið er stundum einnig notað um rómverska heimspeki og heimspeki síðfornaldar enda urðu ekki skörp skil í sögu heimspekinnar með endalokum hellensíka tímans. Meðal mikilvægustu hugsuða og skóla þessa tímabils eru Zenon frá Kítíon, Krýsippos, Arkesilás, Karneades, Epikúros, Pyrrhon, Panætíos, Pósidóníos, Epiktetos, Seneca, Markús Árelíus og Sextos Empeirikos. Nýplatonistinn Plótínos er venjulega talinn til síðfornaldar. Á hellenískum tíma blómstruðu einkum þrír skólar: epikúrismi, stóuspeki og efahyggja. Epikúrismi. Epikúrisminn var heimspeki Epikúrosar en Epikúros var undir miklum áhrifum frá Demókrítosi. Epikúros hélt fram rammri efnishyggju og varði eindahyggjuna (atómismann) sem Levkippos og Demókrítos höfðu fyrstir sett fram. Hann hélt því einnig fram að ánægjan væri hin æðstu gæði en Epikúros taldi að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju og að í öllu skyldi gæta hófs. Stóuspeki. Upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kítíon en Krýsippos var annar mikilvægur málsvari hennar. Stóumenn voru efnishyggjumenn en þó ekki eins afdráttalausir og epikúringar. Þeir kenndu að lífinu skyldi lifað í samræmi við náttúruna og örlögin. Stóumenn voru að vissu leyti algyðistrúar og töldu að heimurinn allur væri guðlegur, hann væri gegnsýrður af skynseminni, "logos", en það hugtak fengu þeir frá Herakleitosi. Þeir kenndu að dygðin væru einu gæðin og að löstur væri eina bölið, allt annað væri hlutlaust og hvorki bætti við eða drægi úr hamingju manns. Þetta viðhorf mildaðist er fram liðu stundir, meðal annars hjá Panætíosi og Póseidóníosi sem blönduðu stóuspekinni áhrif frá Platoni. Stóuspekin var gríðarlega vinsæl í Rómaveldi og hafði mikil áhrif á menn eins og Cíceró og Seneca og Markús Árelíus voru stóískir heimspekingar. Á nýöld hafði stóuspekin talsverð áhrif á Baruch Spinoza. Efahyggja. Efahyggjan átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru "akademískir heimspekingar", það er að segja þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.o.t. Á 3. öld f.o.t. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram. Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur "neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu". Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.o.t., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri "raunverulegur" efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes. Heimspeki síðfornaldar. Á 3. öld fékk heimspeki Platons öflugan nýjan málsvara í Plótínosi. Þessi heimspeki er nú nefnd nýplatonismi. Nýplatonisminn hafði gífurleg áhrif á kristnina og kristna hugsuði. Fornaldarheimspeki (fræðigrein). Fræðigreinin fornaldarheimspeki er sameiginlegt sérsvið innan heimspeki og fornfræði, sem fjallar um heimspeki fornaldar, einkum gríska og rómverska heimspeki. Þeir sem leggja stund á fræðigreinina nefnast ýmist heimspekingar, fornfræðingar og/eða heimspekisagnfræðingar og fer það stundum, en ekki alltaf, eftir menntun þeirra eða nálgun við viðfangsefnið. Frá miðöldum nútímans. Við upphaf miðalda voru flestir heimspekingar fornaldar lítt þekktir í Vestur-Evrópu, einkum grískir heimspekingar. Miðaldamenn þekktu til grískrar heimspeki einkum í gegnum Ágústínus kirkjuföður auk þess sem nokkur rit Ciceros og Senecu voru þekkt og mikið lesin. Þegar handrit með verkum grísku heimspekinganna fóru að berast vestur við upphaf endurreisnartímans fóru grísku heimspekingarnir að hafa miklu meiri áhrif. Einkum voru rit Platons, Aristótelesar og Plótínosar lesin af kappi auk þess sem að efahyggja Sextosar Empeirikosar hafði þó nokkur áhrif. Í fyrstu var mest vinna lögð í að þýða rit grísku heimspekinganna og gefa þau út á prenti; fyrst var þýtt úr arabísku en svo úr grísku og fyrst á latínu en svo á þjóðtungurnar. Þá voru rit fornmannanna að mestu lesin og notuð eða gagnrýnd líkt og um samtímahöfunda væri að ræða. Á 19. öld var mikil textafræðileg vinna unnin einkum í Þýskalandi. Til dæmis var lögð mikil vinna í að gefa út orðavísi að ritum einstakra höfunda, svo sem "Lexicon Platonicum" eftir Georg Anton Friedrich Ast og "Index Aristotelicum" eftir Hermann Bonitz. Voru rit fornaldarheimspekinganna einkum lesin af fornfræðingum og voru sjaldan gagnrýnd en um leið dró nokkuð úr beinum áhrifum þeirra á heimspekinga. Þýðingar Benjamins Jowett á samræðum Platons gerði samræðurnar þó mun aðgengilegri enskumælandi almenningi. 20. öldin. Á 20. öld fóru heimspekingar að gefa fornaldarheimspeki meiri gaum á ný. Ný útgáfa Johns Burnet á ritum Platons gerði texta Platons aðgengilegri og F.M. Cornford og Reginald Hackforth sömdu báðir skýringarrit á ensku við enskar þýðingar á samræðum Platons. Slík skýringarrit hafa síðan orðið afar algeng en áður höfðu einkum verið samin textafræðileg skýringarrit við texta frummálsins. Árið 1930 var stofnuð Laurence-prófessorsstaðan í fornaldarheimspeki við Cambridge-háskóla, fyrsta prófessorsstaðan í fornaldarheimspeki. Á árunum fyrir og eftir síðari heimsstyrjöldina kviknaði einnig mikill áhugi á heimspeki fornaldar í heimspekideild Oxford-háskóla. Heimspekingar á borð við Gilbert Ryle og G.E.M. Anscombe fengust við fornaldarheimspeki auk samtímaheimspeki og hvöttu nemendur sína til þess að lesa einkum Platon og Aristóteles. Sem heimspekinemar voru nemendur hvattir til að láta sig engu varða kennivald fornmannanna. Vestan hafs hafði heimspekingurinn Gregory Vlastos mikil áhrif á ástundun fræðanna. Hann hafði kynnst nemendum Ludwigs Wittgenstein, þ.á m. Norman Malcolm, er hann kenndi við Cornell-háskóla á árunum 1948-1955. Vlastos varð fyrir áhrifum af rökgreiningarheimspekinni og beitti gjarnan nútímarökfræði til að setja fram gátur og vandamál fornra heimspekinga á eins skýran hátt og mögulegt var. Árið 1955 fluttist hann til Princeton þar sem hann gegndi stöðu Stuart-prófessors í heimspeki í rúmlega tuttugu ár. Þar stofnaði hann ásamt Whitney Oates og Harold Cherniss námsbraut á framhaldsstigi í fornaldarheimspeki sem var samvinnuverkefni fornfræði- og heimspekideildar. Var sú námsbraut sú fyrsta sinnar tegundar. Árið síðar var sams konar námsbraut komið á laggirnar á Harvard-háskóla og síðar einnig við Cornell-háskóla, Yale-háskóla, Texas-háskóla í Austin og víðar. Lengst af var heimspeki helleníska tímans talin annars flokks heimspeki en seint á 7. áratugnum fóru fræðimenn að sýna henni og heimspeki síðfornaldar meiri áhuga. Meðal fræðimanna sem ollu þessari breytingu má nefna Michael Frede, Myles Burnyeat, Jonathan Barnes, Giselu Striker, A.A. Long og John M. Cooper. Forverar Sókratesar. Forverar Sókratesar (stundum kallaðir forverarnir, forsókratísku heimspekingarnir, frumherjar grískrar heimspeki eða frumherjarnir) eru þeir heimspekingar nefndir sem voru að störfum í Grikklandi fyrir daga Sókratesar (469 – 399 f.Kr.) eða störfuðu innan þeirrar hefðar þrátt fyrir að sumir þeir yngstu hafi verið samtímamenn Sókratesar. Stundum eru fræðararnir (sófistarnir) taldir með forverunum til hagræðingar í umfjöllun en fræðararnir tilheyrðu samt ekki sömu hefð. Tímabil forvera Sókratesar einkenndist af frumspekilegum vangaveltum og tilraunum til þess að finna „uppsprettuna“ ("arkhe"), það sem lægi veruleikanum til grundvallar. Meðal mikilvægra heimspekingar þessa tímabils eru Þales, Anaxímandros, Anaxímenes, Pýþagóras, Herakleitos, Xenófanes, Parmenídes, Zenon frá Eleu, Melissos, Empedókles, Anaxagóras, Levkippos og Demókrítos. Það er oft vandkvæðum bundið að ákvarða hver hugsunin hafi nákvæmlega verið hjá forverunum og hvaða rökum þeir studdu kenningar sínar. Flestir þeirra skrifuðu bækur en ekkert rita þeirra hefur varðveist í heild sinni. Það sem leifir eftir af ritum þeirra eru oftast beinar tilvitnanir í þá í ritum yngri heimspekinga og sagnaritara og umfjöllun síðari tíma manna um skoðanir forveranna. Aðrir fengust við afmörkuð vandamál, gátur og þverstæður, sem síðar urðu grunnurinn að stærðfræðilegum, vísindalegum og heimspekilegum rannsóknarefnum. Margir veltu fyrir sér heimsfræðilegum spurningum um uppruna og myndun alheimsins og líffræðilegum spurningum um uppruna lífssins. Síðari tíma heimspekingar höfnuðu flestir kenningum forveranna en tóku samt spurningar þeirra alvarlega. Náttúruspekin í Jóníu. Fyrstu heimspekingarnir komu fram í grísku borgunum í Jóníu í Litlu Asíu. Fyrsti heimspekingurinn er venjulega talinn vera Þales frá Míletos. Hann mun hafa haldið því fram að allt væri vatn og að allt væri fullt af guðum. Anaxímandros kom einnig frá Míletos og var sagður hafa verið nemandi Þalesar. Hann taldi að kenning Þalesar, að allt væri vatn, gæti ekki staðist, því vatn gæti ekki verið uppspretta andstæðra afla, t.d. elds. Hann lagði því til að uppsprettan væri „ómælið“, sem væri órætt efni sem hefði alla eiginleika. Anaxímenes er þriðji heimspekingurinn frá Míletos. Hann kom auga á að með þynningu og þéttingu gæti loft tekið við andstæðum eiginleikum, svo sem hita og kulda. Hann taldi þess vegna að loft hlyti að vera uppspretta alls annars. Pýþagóras. Pýþagóras fæddist á eyjunni Samos en fluttist til Suður-Ítalíu og settist að í borginni Króton og stofnaði þar skóla. Hann var öðrum þræði dulhyggjumaður og skólinn hafði trúarlegt yfirbragð. Pýþagóras taldi að heimurinn lyti stærðfræðilegum lögmálum. Erfitt getur reynst að greina kenningar Pýþagórasar sjálfs frá kenningum lærisveina hans, því þeir höfðu það fyrir venju að eigna Pýþagórasi allar sínar uppgötvanir. Herakleitos. Herakleitos fæddist í borginni Efesos. Hann þótti torskilinn og myrkur í máli. Herakleitos taldi að heimurinn væri sífellt að breytast og stæði aldrei í stað. Þessu lísti hann með dæmi um mann sem stígur fæti í rennandi á. Herakleitos sagði að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána því að í ánni væri sífellt rennandi nýtt vatn. Að baki breytingunum er þó stöðugleiki sem Herakleitos kallar "lögmálið" ("logos"). Herakleitos valdi eldinn sem táknmynd lögmálsins og því er oft sagt að hann hafi haldið því fram að allt væri eldur. Herakleitos geri mikilvægan greinarmun á sýnd og reynd, annars vegar og á afstæði og algildi hins vegar. Xenófanes. Xenófanes frá Kólofon var gagnrýninn hugsuður sem gagnrýndi meðal annars trúarbrögðin. Hann hélt því fram að mennirnir hefðu fundið upp trúarbrögðin og benti á að ólíkar þjóðir hefðu ólíkar hugmyndir um guðina en allar héldu þá vera líka sér. Hann sagði einnig að ef kýr og hross gætu talað myndu þau segja að guðirnir væru nautgripir og hross. Xenófanes gerði mikilvægan greinarmun á skoðun og þekkingu og taldi að menn gætu ekki öðlast óhagganlega þekkingu. Eleumenn. Á grundvelli greiningar á sögninni „að vera“ leiddi Parmenídes rök að því að ekki væri til neinn mismunur og þar með væru hreyfing og breyting einungis tálsýn. Fornmenn sjálfir álitu rök Parmenídesar sýna að tilraunir fyrstu heimspekinganna (Þalesar, Anaxímandrosar, Anaxímenesar) til þess að finna einhverja "eina" uppsprettu sem útskýrði margbreytileika heimsins væru dauðadæmdar. Í kjölfarið komu fram "fjölhyggjukenningar" sem áttu að koma til móts við Parmenídes að einhverju leyti. Nemandi Parmenídesar var Zenon frá Eleu. Hann setti fram frægar þverstæður sem áttu að renna stoðum undir kenningar Parmenídesar og sýna að hugmyndir um hreyfingu og breytingu gengju ekki upp. Ein þverstæðan er á þá leið að maður komist aldrei á milli staða frá A til B vegna þess að fyrst þurfi maður að fara hálfa leiðina; en áður en maður getur það þarf maður að fara helminginn af þeirri vegalengd og svo framvegis endalaust. Þverstæðan kallast Tvískiptingin og er til í tveimur útgáfum sem eiga að sýna að maður komist aldrei á leiðarenda eða komist aldrei af stað yfirleitt. Önnur þverstæða Zenons, náskyld Tvískiptingunni, er öllu frægari og nefnist Akkilles og skjaldbakan. Hún á að sýna að Akkilles geti ekki unnið kapphlaup við skjaldböku sem fær ofurlítið forskot á Akkilles. Fjölhyggjan. Fjölhyggjan varð til sem viðbragð við heimspeki Parmenídesar. Uppspretturnar voru nú taldar fleiri en ein og samspil þeirra átti að útskýra margbreytileika heimsins og möguleikann á hreyfingu og breytingu en sjálfar voru uppspretturnar taldar „parmenídískar“ verundir í einhverjum skilningi, varanlegar og óbreytanlegar. Empedókles. Empedókles var frá borginni Akragas. Hann hélt fram tilvist fjögurra frumefna, vatns, lofts, elds og jarðefnis, og tveggja andstæðra afla, ástar og sundrungar. Aristóteles segir að Empedókles hafi fyrstur greint skýrt á milli frumefnanna fjögurra. Empedókles taldi að með frumefnunum fjórum og frumöflunum tveimur mætti skýra margbreytileika heimsins og hvernig hreyfing og breyting geta átt sér stað. Anaxagóras. Anaxagóras kom frá borginni Klasomenæ en bjó lengst af í Aþenu. Hann taldi að frumefnin væru óendanlega mörg og að þeim væri hægt að skipta niður í smærri einingar endalaust. Hann sagði að í öllum efnum væri eitthvað af öllum efnum, nema hug sem þó væri í sumu. Sókrates mun hafa lesið rit Anaxagórasar en orðið fyrir vonbrigðum vegna þess að Anaxagóras notaði á endanum ekki hugmyndina um hugann til útskýringar, heldur hafi hann leitað efnislegra útskýringa á öllu. Anaxagóras hélt því fram að líf væri að finna á öðrum hnöttum og að sólin væri ekki guð, heldur glóandi eldhnöttur, sem væri stærri en Pelópsskagi. Hann var ákærður fyrir guðlast og gerður útlægur frá Aþenu. Eindahyggjan. Levkippos og Demókrítos voru upphafsmenn eindahyggjunnar. Þeir töldu að allt væri úr smáum ódeilanlegum ögnum, ódeilum (eða atómum), og að allar breytingar í heiminum bæri að útskýra sem nýskipan þessara einda. Þeir voru efnishyggjumenn og töldu að allt væri efnislegt, einnig sálin. Kenningunni fylgdi ítarleg greinargerð fyrir skynjun. Á hellenískum tíma þáði Epikúros mikið af þessari heimspeki í arf en í gegnum epikúrismann hafði eindahyggjan töluverð áhrif á heimspeki og vísindi á 17. og 18. öld. Hellenísk heimspeki. Hellenísk heimspeki er strangt tekið einungis heimspeki helleníska tímans, það er að segja frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.o.t. (í heimspekisögu er miðað við dauða Aristótelesar árið síðar) til ársins 31 f.o.t. En orðið er stundum einnig notað um rómverska heimspeki og heimspeki síðfornaldar enda urðu ekki skörp skil í sögu heimspekinnar með endalokum helleníska tímans. Á hellenískum tíma blómstruðu einkum þrír skólar: epikúrismi, stóuspeki og efahyggja. Hellenísk heimspeki þótti lengi vera annars flokks heimspeki, sem stæðist ekki samanburð við heimspeki Platons og Aristótelesar. Á síðustu áratugum 20. aldar varð viðhorfsbreyting meðal fræðimanna og heimspekinga til heimspeki þessa tímabils og nú þykir ljóst að á helleníska tímanum komu fram margar áhugaverðar nýjungar í heimspeki og stigin voru ýmis framfaraskref. Til dæmis mætti nefna stóíska rökfræði. Skortur á frumheimildum veldur erfiðleikum í rannsóknum á þessu tímabili heimspekinnar. Ekkert heildsætt rit um heimspeki er varðveitt frá tímabilinu og yngri varðveittar heimildir eru afar misjafnar að gæðum. Epikúrismi. Epikúrisminn var heimspeki Epikúrosar en Epikúros var undir miklum áhrifum frá Demókrítosi. Epikúros hélt fram rammri efnishyggju og varði eindahyggjuna (atómismann) sem Levkippos og Demókrítos höfðu fyrstir sett fram. Frumspeki. Samkvæmt frumspeki Epikúrosar er heimurinn á endanum gerður úr örsmáum efnislegum eindum sem voru nefnd ódeili („atóm“) og sem svifu um í tómarúmi. Allt sem gerist er afleiðing af árekstrum ódeilanna, sameiningu þeirra þegar þær loða hver við aðra án tilgangs eða markmiðs með hreyfingu þeirra. Eindirnar hafa frumlega eiginleika til dæmis stærð, lögun og massa. Aðrir eiginleikar, eins og litur og bragð, eru afleiðingar af flóknu samspili eindanna í líkömum okkar og í hlutunum sem við skynjum. Raunverulegir eiginleikar eindanna ákvarða skynjanlega eiginleika hluta. Til dæmis er það sem er biturt eða súrt á bragðið myndað úr hvössum eindum, en það sem er sætt á bragðið er myndað úr sléttari eindum. Samspil þessara einda og eindanna í tungum okkar valda því hvernig við upplifum bragð hluta. Sumir hlutir eru sérstaklega harðir og þéttir vegna þess að eindirnar eru fleiri og þéttari og haldast saman vegna lögunar sinnar (til dæmis vegna króka á þeim). Aðrir hlutir eru úr sérlega sléttum og sleipum eindum sem haldast illa saman. Þekkingarfræði. Þekkingarfræði epikúrismans er raunhyggja. Hún lagði áherslu á skynjun og skynreynslu en samkvæmt henni er skynreynsla á endanum uppruni allrar þekkingar. Að baki þekkingarfræði epikúrismans var frumspekileg kenning um mannlega skynjun, byggð á eindahyggjunni, sem lýsir skynreynslu sem samspili eindanna í skynfærum okkar og einda sem losna frá hlutunum sem eru skynjaðir. Í epikúrískri þekkingarfræði eru þrír mælikvarðar á sannleika, það er að segja hvort tiltekin fullyrðing sé sönn eða ekki. Þeir eru: Skynjun ("aesþēsis"), hugtök ("prolepsis") og tilfinningar ("paþē"). Samkvæmt epikúrískri þekkingarfræði eru allar skynjanir réttar. Dæmi um hugtak er "maður" en allir þekkja hugtakið "maður" og vita hvað maður er. Uppruni hugtakaþekkingar manna er á endanum í skynreynslu. Siðfræði. Epikúros hélt því fram að ánægjan væri hin æðstu gæði en hann taldi að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju og að í öllu skyldi gæta hófs. Siðfræði epikúrismans byggir á þeirri kenningu að öll gæði og allt böl séu afleiðingar skynreynslu. Ánægjulegar skynjanir eru samkvæmt epikúrismanum góðar en sársaukafullar eða óþægilegar skynjanir eru að sama skapi slæmar. Epikúrisminn var og er oft misskilinn sem hóflaus nautnahyggja byggð á eftirsókn eftir líkamlegri ánægju. Samkvæmt epikúrískri siðfræði eru hin æðstu gæði aftur á móti fólgin í sálarró sem fylgir því að losna undan hugarangri. Í epikúrískri siðfræði er gerður tvennur greinarmunur á ánægju og sársauka eða vellíðan og vanlíðan. Í fyrsta lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði líkamleg og andleg. Í öðru lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði í breytingu („kinetísk“ vellíðan/vanlíðan) eða ástand („statísk“ vellíðan/vanlíðan). Þegar vellíðan er fólgin í breytingu er hún fólgin í því að fjarlægja sársauka eða óþægindi eða vanlíðan (til dæmis að seðja hungur, svala þorsta eða losna við ótta), en þegar hún er ástand er hún einfaldlega skortur á vanlíðan og óþægindum (til dæmis að vera saddur). Samkvæmt epikúrískri siðfræði er andleg vellíðan æðri líkamlegri ánægju og vellíðan sem er fólgin í breytingu er æðri en stöðug vellíðan sem ástand. Epikúrismi var því ekki nautnahyggja í nútímaskilningi. Epikúringar vöruðu við því að eltast óhóflega við ánægju vegna þess að slíkt leiðir oft til sársauka. Til dæmis varaði Epikúros við því að eltast of ákaflega við ástina þar eð slíkt leiðir oft til óróleika og sársauka. Rökin mætti ef til vill nefna „timburmannarökin“. Að eiga sér góða vini sem maður getur reitt sig á er hins vegar eitt mikilvægasta atriðið í ánægjulegu lífi. Stóuspeki. Upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kítíon en Krýsippos var annar mikilvægur málsvari hennar. Stóumenn voru efnishyggjumenn en þó ekki eins afdráttalausir og epikúringar. Þeir kenndu að lífinu skyldi lifað í samræmi við náttúruna og örlögin. Stóumenn voru að vissu leyti algyðistrúar og töldu að heimurinn allur væri guðlegur, hann væri gegnsýrður af skynseminni, "logos", en það hugtak fengu þeir frá Herakleitosi. Þeir kenndu að dygðin væru einu gæðin og að löstur væri eina bölið, allt annað væri hlutlaust og hvorki bætti við eða drægi úr hamingju manns. Þetta viðhorf mildaðist er fram liðu stundir, meðal annars hjá Panætíosi og Pósidóníosi sem blönduðu stóuspekinni áhrif frá Platoni. Stóuspekin var gríðarlega vinsæl í Rómaveldi og hafði mikil áhrif á menn eins og Cíceró og Seneca og Markús Árelíus voru stóískir heimspekingar. Á nýöld hafði stóuspekin talsverð áhrif á Baruch Spinoza. Efahyggja. Efahyggjan átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru "akademískir heimspekingar", það er að segja þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.o.t. Á 3. öld f.o.t. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram. Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur "neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu". Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.o.t., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri "raunverulegur" efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes. Sjávarútvegsráðherrar á Íslandi. Sjávarútvegsráðherra Íslands fer með Sjávarútvegsmál í ríkisstjórn Íslands. Sjávarútvegsráðherra situr í Sjávarútvegsráðuneytinu sem var stofnað 1969 og er nú til húsa við Skúlagötu 4 í Reykjavík í Húsi Hafsins. Fram að stofnun Sjávarútvegsráðuneytis störfuðu Sjávarútvegsráðherrar og sjávarútvegsmálaráðherrar í atvinnumálaráðuneyti. Þar áður fóru Atvinnumálaráðherrar með sjávarútvegsmál sem og önnur atvinnumál. Atvinnumálaráðherrar á Íslandi. Atvinnumálaráðherra Íslands fór með atvinnumál í ríkisstjórn Íslands meðan sá titlill var notaður. Atvinnumálaráðherrar sátu í Atvinnu- og Samgöngumálaráðuneyti sem tók við af Atvinnu- og samgöngumáladeild. OpenBSD. OpenBSD er frjálst UNIX-legt stýrikerfi sem komið af AT&T UNIX upprunalega í gegnum 386BSD en nú að mestu leiti í gegnum 4.4BSD. Það keyrir á örgjörvum samhæfðum 386, DEC Alpha, UltraSPARC, SGI MIPS, PowerPC, AMD64 og Sharp Zaurus. The Lancet. The Lancet er eitt elsta og virtasta læknatímarit í heimi. Thomas Wakley hóf úgáfu þess árið 1823 en blaðið er nú gefið vikulega út af "Lancet Publishing Group" sem er hluti af "Reed Elsevier" útgáfufélaginu. Toyota. Toyota er japanskt bílaframleiðslufyrirtæki sem stofnað var árið 1937 en það er staðsett í bænum Toyota, Aichi í Japan. Toyota Corolla. 7. kynslóð Toyota Corolla. Þessi kynslóð var stærri (AE10X), dýrari og þyngri heldur en fyrri útgáfur, en hönnunarforstjóri Toyota Dr Akihiko Saito vildi þróa bíl sem væri í líkingu við lítinn Lexus eftir árangur flaggskips þeirra Lexus. Með nýju Corollunar 2465mm hjólhaf, færðu bílarnir sig upp í þann stærðarflokk sem eitt sinn tilheyrði Tyota Corona og Camry. Þetta módel kom fram á sjónarsviðið árið 1992 í japan og 1993 í Evrópu. Módel þetta var fáanlegt sem fjögurra dyra sedan bíll, þriggja og fimm dyra liftbakur og fimm dyra skutbíll. Sprinter bílar fengust sem fjögurra dyra sedan bílar og fimm dyra liftbaks bílar, þar á meðal fjögurra dyra harðtopp sem kallaður var Sprinter Marino (aðeins fyrir þessi módel). Corolla Levin og Sprinter Trueno voru seldir tveggja dyra. Á Amerískum markaði var Geo Prizm seldur sem fjögurra dyra sedan bíll. Fimm dyra Sprinter bílinn var seldur sem Corolla Sprinter í Evrópu, þetta var nokkuð ruglingslegt. Þriggja og fimm dyra Corolla FX bílarnir voru líka bara seldir undir nafninu Corolla í Evrópu. En þeir bílar voru aðallega fáanlegir með litlum vélum og litlum aukabúnaði. Þá bíla þekkjum við best hérna á Íslandi. FX línan í Japan var fáanleg í tveim módelum, SJ 16 ventla 1,6 lítra 115 hestafla vél (var einnig fáanleg á Íslandi) (4A-FE) og í GT útgáfu sem er með 20 ventla 1.6 lítra vél 160 hestöfl (Silvertop 4A-GE) Þetta módel átti ekki mikilli velgengni að fagna (á heimsvísu) vegna óhagstæðs gengis jensin, samdráttar á markaði og slægrar eftirspurnar. Spænska innrásin. Það var fyrir um 10.000 árum sem Bering-landbrúin var opin milli Asíu og Ameríku og þannig komust allra fyrstu mennirnir til lands sem engin mannvera hafði stigið fæti á. Um árið 1000 komu svo íslenskir víkingar, með Leif Eiríksson í fararbroddi, á bátum sínum en settust þó ekki að – heldur héldu áfram niður Norður-Atlantshafið. Fyrstu hvítu mennirnir, á eftir íslensku víkingunum, komu til Ameríku árið 1492 er Portúgalski landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus, á skipinu Santa María, rakst á hana. Kólumbus skírði landið Vestur-Indíur, þar sem hann hélt hann væri kominn að austurströnd Indlands. Spænskir og Portúgalskir ævintýramenn komu fljótlega til Ameríku til að kanna það sem eftir var af þessari gríðarstóru heimsálfu. En þeir komu með alls kyns sjúkdóma með sér, á borð við bólusótt sem frumbyggjarnir höfðu alrei kynnst áður og voru ekki með nein mótefni gegn. Með því fór þeim að fækka umtalsvert. Þegar Aztekaríkið stóð á hátindi gullaldar sinnar, sem varði í 91 ár, vörpuðu skip Spánverjanna akkerum undan ströndinni. Í eitt ár og fjóra mánuði reyndu hvítu mennirnir að leggja undir sig miðstöð ríkissins, án árangurs. En það var ekki fyrr en hatursfullir Indíánar á svæðinu gengu til liðs við spænska herinn sem örlög Aztekanna voru innsigluð. Þessir aðskilnaðarsinnar voru undirokaðir og voru látnir greiða, í auðmýkt, þá skatta sem krafist var um og lögðu til hermenn þegar Aztekar fóru fram á það. Oftast var greitt skattana með kakóbaunum, en þær voru helsti gjaldmiðillinn. Konungnum var fært 25 könnur af kakó á degi hverjum sem hann drakk úr gull íláti. En undirokuðu aðskilnaðarsinnarnir voru rændir verðmætum sínum, sjálfsvirðingu og sjálfstæði og þeim mun lengur sem Aztekarnir voru yfir þeim, því meiri reiði og hatur óx á þessa ættbálka gagnvart þeim. Á þeim var traðkað og oft notað ungar stúlkur þeirra, helst hreinar meyjar, í fórnir fyrir reiða guði Azteka. Fallegan dag einn í apríl árið 1519 bárust þau tíðindi til Montecuma, konungs Azteka, sem var að drekka dagsskamtinn sinn af kakóinu - að járnklæddir menn voru fyrir utan strandir Mexíkó á “skipum á stærð við fjöll”. Heimamenn héldu að þetta væri sköpunarguðinn Quetzalcoatl, eða “hin fiðraða slanga” sem átti, samkvæmt tímatali Azteka, að snúa aftur til jarðarinnar - á nákvæmlega þessum stað sem Spánverjarnir lentu, og endurheimta ríki sitt. Þeir sendu því gull og gersemar til Cortés til að bjóða hann velkominn, en það sannaði aðeins kenningar hans um að borgin Teknochtitlan væri að svigna undan gulli. Hann gerði tilraun með sínum 700 mönnum að ráðast til borgarinnar, en var fljótt rekinn burt af Aztekunum. Í seinni tilraun sinni var hann betur undirbúinn. Hann nýtti sér innri spennu borgríkissins og bætti 70.000 indjánum í herlið sitt, sigraði borgina og batt þannig enda á á þessa blómstrandi menningu – aðeins einu ári og fjórum mánuðum eftir landgöngu þessa snjalla Spánverja. Þeir hirtu öll auðæfi sem þeir komust yfir og neiddu Aztekana til að rífa niður píramída sína og reistu kirkjur þess í stað. Auðmýkingin var nú fullkomin. Ríki Azteka var nú rústir einar eftir græðgi hvítu mannanna. Þegar verslunarmenn komu frá Inkaríkinu með vandaðar gersemar, urðu allir gáttaðir. Sérstaklega spænski fjársjóðsleitarmaðurinn Francisco Pizzaro, sem gerði sjálfum sér þá kröfu að finna meira. Hann var sérstaklega næmur á eðalmálma og þóttist vita að þetta væri aðeins forsmekkurinn af því sem finna mátti. Inkar var þjóð sem ríkti frá 12. öld og fram til 16. aldar. Þeir höfðu keisara og stóð ríkið í Andesfjöllum þar sem Perú er nú. Í Inkaríkinu var mikil borgarastyrjöld og voru því varnir þeirra mjög veikar. Francisco fór því með 200 manna herlið í átt að veldi Inkanna, en lenti oft í útistöðum við aðra ættbálka og kom sér oft í þannig klandur að hann þurfti að tala sig út úr. Hann kom á fundi með þjóðhöfðingja þeirra. Höfðinginn lofaði 25fm herbergi með 2,5 metra háum gullstafla, ef Spánverjarnir myndu hafa sig á brott frá landi sínu. Spánverjarnir þáðu það, en tóku höfðingjann samt sem áður til fangageymslu. Það var þá fyrst sem stríðið braust út á milli Inka og Spánverja. Athualpa höfðingi stjórnaði mönnum sínum sem fylgdu skipunum sínum í blindni og létu lífið vegna heimsku höfðingjans sem gaf einfaldar skipanir: “gerið hvað sem er til að stöðva þá!” Her hans hafði vaxið með fylgdarliðinu og var nú í kringum 3.000 menn og mættu þeir nú Sapa Inkanum Athualpa, sem hafði sloppið úr fangelsi, við Cajamarca. Fór svo að her Inka gertapaði og var höfuðborg Inkanna, Cusco sigruð árið 1536. Ástæða þess að Inkunum var rústað af Spánverjunum er líklegast sú að þeir voru ekki vanir að berjast á móti fallbyssum og skotvopnum Spánverja þó aðeins um 130 hafi borið byssur og lásaboga. Þá hafa fallbyssurnar líklegast ekki verið fleiri en 10. Var her Inka lamaður gegn slíku afli og hræddur við háa hvelli byssanna. Undir stjórn Túpac Amaru hörfuðu Inkar til fjalla og gerðu oft árásir á Spánverja þaðan eða allt fram til 1572 þegar Túpac var hálshöggvinn og keisaraveldið leið endanlega undir lok. Spánverjarnir tóku þá til við að útrýma menningu og siðum Inkanna. Eftir þessa útreið sem tvö stærstu menningarveldi fornrar Ameríku fengu af blóðþyrstum Evrópubúum fór að koma mynd á þetta. Til þess að halda friði milli Portúgala og Spánverja var gerður samningur. Hann bar heitið Papal-Line of Democrition og samkvæmt honum var Spánverjum heimilt að stjórna öllum “heiðnum löndum” í Nýja Heiminum. Þeir skiptu þessu þannig að lína var dregin á tveimur stöðum. Annars vegar niður mitt Grænland og að Suðurskautslandinu og hins vegar niður miðja Ástralíu og upp úr. Portúgalar áttu að stjórna nýlendum í Evrópu, Asíu, Afríku og Eyjaálfu en Spánverjar áttu að sjá um Nýja Heiminn í Ameríku. Reyndar fengu Portúgalar hluta af Brasilíu þar sem línan fór smá í gegnum hana. Benjamín dúfa (bók). Benjamín dúfa er barnabók eftir Friðrik Erlingsson en hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin árið 1992 og var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna árin 1993 og 1995. Gerð hefur verið kvikmynd byggð á bókinni í leikstjórn Gísla Snæs Erlingssonar, sem hefur fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga víða um heim. Bókin hefur verið gefin út í Færeyjum, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð, Bretlandi, Ítalíu, Litháen og víðar. Sagan segir af viðburðarríku sumri í lífi fjögurra drengja; Benjamíns(Dúfu), Andrésar(Örn), Balda(hvíta) og Rólands(dreka), sem stofna riddarafélagið, reglu Rauða drekans og berjast með réttlæti gegn ranglæti. Kraftlyftingasamband Íslands. Kraftlyftingasamband Íslands (KRA) eða KRAFT er sérsamband innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og aðili að Alþjóða Kraftlyftingasambandinu (IPF), Evrópska Kraftlyftingasambandinu (EPF) og Norræna Kraftlyftingasambandinu (NPF). Saga. Kraftlyftingar hafa verið stundaðar á Íslandi frá því um 1960. Árið 1969 var stofnuð lyftinganefnd innan ÍSÍ sem starfaði þar til 1973 þegar nefndin varð að löggildu sérsambandi sem bar heitið Lyftingasamband Íslands. Undir lögsögu Lyftingasambandsins voru stundaðar bæði kraftlyftingar og ólympískar lyftingar og kepptu menn jafnvel í báðum íþróttum. Það var svo 2. mars 1985 sem að hið upprunalega Kraftlyftingasamband Íslands var stofnað, utan ÍSÍ. Kraftlyftingamenn töldu þörf á að stofna sitt eigið samband eftir að innan lyftingasambandsins hafði starfað sjálfstæð kraftlyftingadeild um nokkurt skeið. Í desember 2008 var samþykkt að sækja um aðild að ÍSÍ og hófst það ferli með stofnun kraftlyftinganefndar 19. mars 2009 og fluttist þar með aðild gamla KRAFT að alþjóðasamböndum um kraftlyftingar yfir til hinnar nýstofnuðu kraftlyftinganefndar. Á Íþróttaþingi ÍSÍ 2009 var samþykkt að stofnað yrði Kraftlyftingsamband Íslands þegar komin væru á legg kraftlyftingafélög í að minnsta kosti 5 héraðssamböndum. Hinn 15. desember 2009 hafði þetta skilyrði verið uppfyllt og var framkvæmdastjórn ÍSÍ sent bréf þess efnis. Þann 15. apríl 2010 var haldinn stofnfundur hins nýja Kraftlyftingasambands Íslands sem nú var löggilt sérsamband innan ÍSÍ. Smalamál. Smalamál er næsta kynslóð forritunarmála á eftir vélamáli. Smalamál gerir forriturum kleift að skrifa forrit á skiljanlegri og læsilegri hátt en áður var hægt með vélamáli þar sem það notast við skammstafanir fyrir skipanir og algeng talnakerfi í staðinn fyrir þær bitarunur sem vélamál skilur. Engu að síður er beint samhengi milli skipana í smalamáli og vélamáli og smalamálskóði er því mismunandi eftir því hvaða örgjörva hann er skrifaður fyrir, líkt og vélamálskóði. Það er líka mun erfiðara að skrifa forrit með smalamáli en með þeim æðri forritunarmálum sem almennt eru notuð í dag. Skipanir smalamáls þarf að túlka yfir í vélamál til þess að örgjörvinn geti keyrt þær og er það gert með sérstöku forriti sem heitir smali. Forritarinn þarf að vera mjög nákvæmur, fylgjast grannt með öllum smáatriðum og hafa góða þekkingu á örgjörvanum. Vel unnin smalamálsforrit geta stundum keyrt hraðar og notað minna vinnsluminni og önnur vélbúnaðarúrræði en samskonar forrit sem skrifuð eru í æðri forritunarmálum. Smalamál komu fyrst fram á sjónarsviðið á 6. áratugnum og voru á þeim tíma kölluð annarrar kynslóðar forritunarmál. Þau auðvelduðu forritun til muna miðað við fyrstu kynslóðar forritunarmál og drógu úr endurteknum útreikningum og notkun talnaruna sem erfitt var að muna. Frá því á 9. áratugnum hefur smalamál vikið fyrir æðri forritunarmálum og er nú fyrst og fremst notað þar sem þarf að eiga við vélbúnaðinn beint, t.d. í reklum, innfelldum kerfum og rauntímakerfum. Flestir nútímasmalar bjóða upp á ýmsa aukavirkni til að auðvelda villuleit, stjórna smöluninni og nota fjölva. Ásbyrgi. Ásbyrgi er hamrakví í Vatnajökulsþjóðgarði, Jökulsárgljúfrum, Norðurþingi í Norður–Þingeyjarsýslu, og eitt af mestu náttúruundrum Íslands. Það er allt að 3,5 km á lengd inn í botn og um 1,1 km á breidd í mynni þess og helst svipuð breidd um þrjá km inn eftir því. Fyrstu tvo km er byrgið klofið af Eyjunni, miklu standbergi, sem er um 250 m á breidd og skiptir Ásbyrgi í tvennt. Hamraveggirnir eru um 90 – 100 m háir og eru lægstir fremst en hækka þegar innar dregur. Dýralíf. Í skóginum og kjarrinu eru skógarþröstur og auðnutittlingur algengir, sem og músarindillinn. Upp úr 1970 fór fýll að verpa í hamraveggjunum og er þar nú þétt byggð. Skordýralíf er líka með ágætum eins og gefur að skilja á svo skjólsælum og gróðursælum stað og ber mest á blómaflugum, galdraflugur og hunangsflugur eru algengar. Geitungar hafa einnig tekið sér bólfestu þarna. Tilurð. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um tilurð þessarar hamrakvíar en líklegust er sú að hún hafi myndast þegar tvö hamfarahlaup urðu í Jökulsá á Fjöllum, hið fyrra fyrir um 8 -10 þúsund árum og hið síðara fyrir um 3 þúsund árum. Þjóðsagan skýrir þetta náttúrufyrirbæri á annan hátt. Sagan segir að þarna hafi Sleipnir, hestur Óðins, stigið fast niður fæti þegar hann var á ferð sinni um lönd og höf. Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis og eyjan í miðjunni sé far eftir hóftunguna. Bergið í veggjum Ásbyrgis er úr beltóttu dyngjuhrauni. Hraunið rann frá gígnum Stóravíti efst á Þeistareykjarbungu fyrir 11 - 12 þúsund árum, skömmu eftir að jöklar ísaldar hörfuðu af svæðinu. Jarðfræðingar nefna hraunið Stóravítishraun. Stóravítisdyngjan er af sömu gerð eldfjalla og Skjaldbreiður og Trölladyngja og er stærsta hraundyngja landsins að efnismagni. Þjónusta. Ásbyrgi í Jökulsárgljúfrum er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og er mikill ferðamannastraumur þangað yfir sumartímann. Lagðir hafa verið göngustígar um svæðið og sett upp lítil upplýsingaskilti við þá, um þær trjá- og blómategundir sem þarna leynast. Ýmsar lengri og styttri gönguleiðir eru um svæðið. Skipulagðar gönguferðir eru á sumrin og hægt er að fá upplýsingar um þær í Gljúfrastofu,gestastofu þjóðgaðrsins, við tjaldstæðin fremsti í mynni Ásbyrgis. Í samnefndum bæ Ásbyrgi, sem áður hét Byrgið, bjó eitt sinn Einar Benediktsson skáld og sagt er að hann hafi þar ort sum af bestu ljóðum sínum þar, t.d. Sumarmorgunn í Ásbyrgi. Í Ásbyrgi hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð frá árinu 1998. Rós. Rós er blómplanta af ættkvíslinni "Rosa". Rósir hafa verið mönnum yrkisefni um langan aldur, bæði skálda og garðyrkjumanna. Rósin hefur stundum verið kölluð „drotting blómanna”. Ættkvísl rósa er bæði stór og fjölbreytt og lítadýrð mikil. Til rósa teljast um 100-200 villitegundir auk fjölmargra kynblendinga sem vaxa villtir. Þá skipta rósayrki þúsundum enda hefur rósin verið ræktuð í um 2000 ár. Uppruni flestra rósa er óljós eftir margra alda kynblöndun. Alþjóðasamband rósafélaga (World Federation og Rose Societies) samþykkti á fundi 1979, að hverfa frá gömlum hugtökum eins og „Hybrid Tea” og „Floribunda” þar sem þau höfðu tapað upphaflegri merkingu sinni vegna mikilla kynblöndunar. Allflestir aðilar, sem koma nærri rósaræktun, viðurkenna þetta kerfi. Flokkun. Rósum er skipt upp í nokkra flokka. Eftirfarandi flokkun tekur mið af því hvar og hvernig rósirnar eru ræktaðar. Síðan eru nefndar tvær heppilegar tegundir til ræktunar á Íslandi í hverjum flokki. Flækju- og klifurrósir er plantað við grindur, girðingar, eða stólpa eða annars þar sem hægt er að binda þær upp. Þeim er skipt upp í tvo undirflokka: Einblómstandi rósir, en þá springa öll blóm út í einni lotu. Lotublómstrandi rósir, en þá myndast blóm í lotum á nýjum sprotum svo lengi sem tíðin leyfir fram á haust. Dæmi um einblómstrandi rósir í þessum flokki sem hægt er að rækta á Íslandi eru: R.‘Polstjärnan’ er með lítil þétt fyllt blóm, hvít og ilmar ekki og getur orðið 3-4 m. R.‘Max Graf ’er stór, einföld,ljósrauð og ilmar ekki. Verður 2 m á hæð. Dæmi um lotublómstrandi rósir sem geta vaxið á Íslandi eru: R. ‘Symphatie’ er með mjög stór, fyllt blóm, djúppurppurarauð sem ilma lítið. Verður um 3 m á hæð. R.‘Leverkusen’ er mjög stór, þéttfyllt og sterk ilmandi rós með daufgulum blómum og verður um 3 m á hæð. Stórrunnarósir: Stórrunnarósir mynda háa runna, oftast yfir metra á hæð. Þeim er skipt í tvo undirflokka, einblómstarndi og lotublómstrandi. Einblómstrandi sem hægt er að rækta á Íslandi eru: R.‘Persian Yellow’, stór gul þéttfyllt blóm, ilmar og verður um 1,5 m á hæð. R. ‘Spendens’ stór hálffyllt, djúppurrpurarauð, ilmar ekki og verður um 1,4 m á hæð. Lotublómstrandi sem lifa á Íslandi eru R. ‘Hansa’, stór fyllt skærpurpurarauð blóm sem ilma. Verður 1,2 m á hæð. R.rugrosa eða ígulrós er stór einföld, dökkpurpuraruð og ilmar. Hún verður 1,2 m á hæð. Smárunnarósum er plantað saman í þyrpingar eða skrautbeð og eru innan við 3 metra á hæð. Þeim er skipt í tvo undirflokka. Stilkrósir (stórblóma rósir) en þær bera stök blóm eða mjög fá á alllöngum og kraftmiklum stilkum. Klasarósir eða skúfrósir bera mörg blóm á stuttum stilkum í blómmörgum klösum. Þessar smárunnarósir á að vera hægt að rækta á Íslandi: R.‘Queen Elizabet’, mjög stór, fyllt ljóspurrpurarauðblóm, ilmar lítið og getur orðið 0,9 m á hæð. R.‘Super star’ er með mjög stór, fyllt bleikrauðgul blóm en ilmar lítið. Getur orðið 0,8 m há. Þekjurósir eru skriðular rósir sem vaxa meira á breiddina en hæðina. Dvergrósir eða pottarósir eru smávaxnar rósir með smágerð lauf og smá blóm. Þeim svipar mikið til klasarósa og henta best í steinhæðir, hlaðin beð eða ker. Stofnrósír eru rósir sem eru græddar á harðan legg harðgerrar rósar sem leggur til undirvöxtinn. Þær eru allar viðkvæmar og mælt er með þvi að hýsa þær yfir veturinn. Að öðrum kosti er varla hægt að rækta þær. Hægt er að rækta slíkar rósir hér á landi en sem dæmi um það eru:R.‘Raubritter’, stór hálffyllt ljóspurrpuraruð blóm sem ilma lítið. Verður 0.8 m á hæð. R. ‘The Fairy’ smá þéttfyllt og sterkbleik blóm sem ilma lítið. Þessi rós verður aðeins 0,5 á hæð. Rósarækt á Íslandi. Á Íslandi hefur áhugi fyrir rósum og rósarækt farið vaxandi og nú er starfandi rósaklúbbur Garðyrkjufélags Íslands og þar er hægt að panta sér sérstakar tegundir ef vill. Svo eru nokkrar garðyrkjustöðvar t.d. Nátthagi, Garðyrkjustöð Ingibjargar, Birkihlíð og Storð Búðir eru einnig með rósasölu til gróðursetningar t.d GarðheimarEinnig er til vefsíða þar sem að hægt er að leita að ákveðnum rósum en hún er helpmefind.com OSI lagakerfið. OSI stendur fyrir Open Systems Interconnection. OSI kerfið er notað sem viðmið varðandi net og protocola. Kerfið skiptir virkni protocola niður, svo segja má að hvert protocol vinni í ákveðnu lagi. Í kerfinu er að finna sjö reglur, eða segja má að það skiptist niður í sjö lög. Stundum eru notuð einfölduð lagkerfi. Algengast er að nota þá 5 lög og sleppa session og presentation lögunum og láta þjónustur þeirra vera valfríar í Application laginu. Johan Liiva. Johan „Liiva“ Axelsson er söngvari og einn stofnenda dauðametalhljómsveitarinnar Arch Enemy. Árið 2001 hætti hann í þeirri hljómsveit og fól Angelu Gossow sönghlutverkið. Hann starfar nú sem söngvari með hljómsveitinni Hearse. Hann hefur einnig unnið með hljómsveitunum Furbowl, Nonexist and Carnage. Rósaætt. Rósaætt (fræðiheiti: "Rosaceae") er ætt blómplantna af rósaættbálki. Þeim er venjulega skipt í fjórar undirættir: "Rosoideae" (t.d. rós, jarðarber og hindber), "Spiraeoideae" (t.d. birkikvistur og garðakvistur), "Maloideae" (t.d. eplatré og reynitré) og "Amygdaloideae" (t.d. plómutré og ferskjutré), aðallega eftir gerð ávaxtanna. Efahyggja. Efahyggja er heimspekilegt viðhorf til þekkingar sem einkennist af efa og meðvituðu skoðanaleysi. Hugtakið varð fyrst til um þá heimspeki sem kom fram í fornöld og kallaðist "pyrrhonismi", sem fól í sér að maður ætti að fresta því að fella dóma og losa sig við allar skoðanir til þess að öðlast sálarró. Skilgreining. Efahyggja er sú heimspekilega afstaða að maður ætti að fresta því að fella dóma eða að fullyrða um hvernig hlutirnir eru. Efahyggjumaður heldur því "ekki" fram að þekking sé ómöguleg (sem myndi fela í sér að fella dóm um möguleika þekkingar). Slík afstaða er skilgreind sem "neikvætt viðhorf til þekkingar". Raunhyggja er náskyld efahyggju en þó ekki sama afstaðan. Raunhyggjumenn líta á raunhyggjuna sem hagnýta málamiðlun efahyggju og kreddufullra vísinda. Stundum er efahyggju lýst sem „róttækri raunhyggju“. Saga. Efahyggja varð til í Grikklandi til forna. Hún átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru "akademískir heimspekingar", það er að segja þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.Kr. Á 3. öld f.Kr. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram. Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís (um 360 – 275 f.Kr.) sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur "neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu". Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.Kr., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri "raunverulegur" efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes. Önnur notkun orðsins efahyggja. Orðin „efahyggja“ og „efahyggjumaður“ er stundum notað um þá sem eru fullir efasemda í garð fullyrðinga á ákveðnu sviði, til dæmis í garð trúarbragða eða svonefndra hjáfræða. Stundum eru þessi viðhorf aðgreind frá heimspekilegri efahyggju og nefnd "efasemdahyggja". Aðferðafræðileg efahyggja. Aðferðafræðileg efahyggja, sem er stundum nefnd vísindaleg efahyggja, er það viðhorf að ekki beri að fallast á neina fullyrðingu að óathuguðu máli. Efahyggjunni er þannig beitt sem tæki til að halda aga og til að varna gegn því að vísindin fallist á ótraustar fullyrðingar. Frægasta beiting aðferðafræðilegrar efahyggju er sennilega hjá franska heimspekingnum René Descartes (1596 – 1650). Trúarleg efasemdahyggja. Trúarleg efasemdahyggja er viðhorf til trúarbragða og trúarlegra fullyrðinga. Trúarlegur efasemdamaður þarf ekki nauðsynlega að vera guðleysingi en stundum er orðið notað á þann hátt. Demókrítos. Demókrítos eða Δημοκριτος (fæddur um 450 f.Kr. í Abderu í Þrakíu - dáinn um 370 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur. Demókrítos var nemandi Levkipposar og ásamt honum upphafsmaður eindahyggjunnar (atómkenningarinnar). Það er nær ógerningur að segja hvaða skoðanir tilheyrðu Demókrítosi og hverjar tilheyrðu Levkipposi. Demókrítos er sagður hafa verið glaðvær maður og var stundum nefndur „heimspekingurinn hlæjandi“ andstætt Herakleitosi, sem var þekktur sem „heimspekingurinn grátandi“. Engin verka Demókrítosar hafa varðveist í heild sinni en varðveitt eru brot úr vekum hans. Vísindi. Demókrítos var frumkvöðull í stærðfræði, einkum rúmfræði. Engin brot hafa varðveist úr stærðfræðilegum verkum hans en titlar verkanna eru þekktir (t.d. "Um tölur", "Um rúmfræði"). Hann var meðal þeirra fyrstu sem tóku eftir því að keila hafi þriðjung af rúmáli sívalnings með sama grunnflatarmál. Heimspeki. Frægastur er Demókrítos þó fyrir eindahyggjuna sem kveður á um að allt sé úr örsmáum eindum sem nefndust ódeili (atóm). Aristóteles segir að kenning Demókrítosar um efni, sem er nefnd eindahyggja (atómismi), hafi verið viðbragð við kenningu Parmenídesar, sem afneitaði tilvist hreyfingar, breytingar og tómsins. Parmenídes færði rök fyrir því að tilvist hlutar gerði ráð fyrir að hann hefði ekki „orðið til“, vegna þess að ekkert verður til úr engu. Enn fremur færði hann rök fyrir því að hreyfing væri ómöguleg, vegna þess að maður yrði að hreyfast inn í „tómið“ og (þar sem hann lagði að jöfnu tómið og „ekkert“) tómið er ekki til og því er ekki hægt að fara þangað. Demókrítos féllst á að allt sem er til hljóti að vera eilíft og ævarandi en neitaði því að tómið væri það sama og „ekkert“. Þar með er hann fyrsti heimspekingurinn sem vitað er um að hafi fært rök fyrir tilvist algers tómarúms. Til þess að útskýra breytingarnar í kringum okkur með einföldum, óbreytanlegum verundum færði hann rök fyrir því að til séu ýmsar grundvallar verundir sem hafa ætíð verið til en geta raðast saman á ólíkan máta. Hann færði rök fyrir því að eindirnar hefðu einungis ákveðna eiginleika, t.d. stærð, lögun og massa. Allir aðrir eiginleikar, eins og litur og bragð, væru afleiðingar af flóknu samspili eindanna í líkömum okkar og í hlutunum sem við skynjum. Hann taldi að raunverulegir eiginleikar eindanna ákvörðuðu skynjanlega eiginleika hluta. Til dæmis er það sem er biturt eða súrt á bragðið myndað úr hvössum eindum, en það sem er sætt á bragðið er myndað úr sléttari eindum. Samspil þessara einda og eindanna í tungum okkar valda því hvernig við upplifum bragð hluta. Sumir hlutir eru sérstaklega harðir og þéttir vegna þess að eindirnar eru fleiri og þéttari og haldast saman vegna lögunar sinnar (t.d. vegna króka á þeim). Aðrir hlutir eru úr sérlega sléttum og sleipum eindum sem haldast illa saman. Demókrítos taldi að það sem væri raunverulega til væru eindir og tóm. Annað væri einungis til sem safn einda sem gætu leyst upp og endurraðast og hefði því annarlega tilvist, háða eindunum. Eindirnar eru ódeilanlegar og óforgengilegar, eilífar og eru á sífelldri hreyfingu. Þær eru ekki allar eins því þær eru breytilegar að stærð og lögun. Rússnesk rúbla. Rússnesk rúbla (rússneska: "рубль", fleirtala "рубли") gjaldmiðill Rússneska ríkjasambandsins, Abkasíu og Suður-Ossetíu (og áður fyrr, Sovétríkjanna og Rússneska keisaraveldisins). Rúblunni er skipt í 100 kópeka (rússneska: "копейка", fleirtala "копейки"). Hvíta-Rússland og Transnistría nota bæði gjaldmiðla af sama nafni. ISO 4217 gjaldeyriskóði rússnesku rúblunnar er RUB; fyrrverandi kóðinn, RUR, átti við um gildi rússnesku rúblunar fyrir 1998 (1 RUB = 1.000 RUR). Nafngift. Orðið „rúbla“ á rætur sínar að rekja til rússnesku sagnarinnar "рубить" ("rubit"), sem þýðir "að höggva". Á öldum áður var „rúbla“ silfurmoli, af ákveðinni þyngd, sem skorinn var af stærri silfurhleif. Var þetta rússneskt jafngildi vestur-evrópsks marks, sem notað var á miðöldum sem mælieining silfurs og gulls. „Kópeki“ dregur hinsvegar nafn sitt af rússneska orðinu "копьё" ("kop'yo") – spjót. Fyrstu kópekamyntirnar voru slegnar af Moskvu furstadæminu eftir hernám Novograds árið 1478. Þær báru skjaldamerki Moskvu, sem er mynd af Heilögum Georg þar sem hann banar dreka með spjóti. Ber rússneskur kópeki þessa sömu mynd enn í dag. Árbær. Árbær er eitt af fjölmennustu hverfum Reykjavíkurborgar, nefnt í höfuðið á býli sem þar stóð áður. Þar er Árbæjarsafn, þar sem eru varðveitt mörg söguleg hús í Reykjavík. Þar er líka Árbæjarsundlaug sem er einn vinsælasti sundstaður Íslendinga. Íþróttafélagið í hverfinu heitir Fylkir. Til Árbæjarhverfis teljast Selás, Árbær, Ártúnsholt, Bæjarháls, Norðlingaholt og Grafarholt. Hverfið markast af Vesturlandsvegi, Úlfarsá að sveitarfélagamörkum Mosfellsbæjar, til austur og suðurs með sveitarfélagamörkum um Hólmsheiði að Elliðavatni, Elliðaám, syðri kvísl og Reykjanesbraut. Aristófanes. Aristófanes (um 448 – 380 f.Kr.; á grísku ΄Αριστοφανης) var forngrískt gamanleikjaskáld. Ekki er vitað hvar eða nákvæmlega hvenær hann fæddist en sennilega var Aristófanes menntaður í Aþenu. Hann var úr aþensku sveitinni Kudaþenæum. Aristófanes er frægur fyrir gamanleiki sína sem hann samdi fyrir Díonýsosarhátíðina og Lenajuhátíðina í Aþenu. Hann samdi um fjörutíu leikrit en ellefu eru varðveitt. Leikrit hans eru varðveittu gamanleikirnir sem tilheyra skeiði gamla gamanleiksins. Mörg leikritanna voru pólitísk og gerðu oft gys að vel þekktum borgurum og stjórnmálamönnum Aþennu og hegðun þeirra í pelópsskagastríðinu. Vitað er að hann var ákærður fyrir meiðyrði oftar en einu sinni. Frægur gamanleikur, "Froskarnir", fékk þann fáheyrða heiður að vera uppfærður öðru sinni. Samkvæmt síðari tíma ævisagnariturum hlaut hann einnig oðinber verðlaun fyrir "Froskana". Aristófanes kemur fyrir í samræðu Platons, "Samdrykkjunni", og heldur þar fyndna ræðu með goðsagnakenndri greinargerð fyrir tilvist ástarinnar. "Skýin", sem hlutu ekki góðar viðtökur, gerir grín að hinni nýju hreyfingu fræðaranna (sófistanna) sem mjög var í tísku á síðari hluta 5. aldar f.Kr.; Sókrates var aðalpersónan og í leikritinu kemur hann fram sem fræðari, enda þótt hann hafi sjálfur ekki talið sig fræðara. "Lýsistrata" var samin meðan pelópsskagastríðið geisaði milli Aþenu og Spörtu en þar er settur fram friðarboðskapur á gamansaman mátta: konur borgríkjanna tveggja fara í kynlífsbindindi þar til menn þeirra hætta að berjast. Trjákvoða. Trjákvoða, stundum kölluð harpeis, er kolvatnsefnisseyting sem margar jurtir, þá sérstaklega berfrævingar, gefa frá sér. Trjákvoða er meðal annars notuð í lakk og lím. Raf er steingerð trjákvoða, sem m.a. er notuð í skartgripi. Um sálina. Upphaf 1. bókar "Um sálina" á frummálinu (forngrísku). "Um sálina" (eða "De Anima" á latínu) er rit eftir Aristóteles, þar sem sett er fram heimspekileg kenning um eðli lífvera. Umfjöllun hans snýst einkum um þær tegundir sálar sem ólíkar lífverur hafa en forngríska orðið "psykhe" þýddi bæði „sál“ og „lífsafl“. Aristóteles greinir á milli ólíkra ferla hjá ólíkum lífverum. Jurtir hafa getuna til að nærast, vaxa og fjölga sér, sem er lágmarksgeta lífvera. Dýr hafa auk þessa skynjun og (takmarkað) minni og geta hreyft sig. Menn hafa allt þetta auk vitsmuna og rökhugsunar. Sálarhugtakið sem Aristóteles notar er einungis fjarskylt nútímahugtakinu. Aristóteles telur að sálin sé "form" eða "eðli" lífvera; að hún sé ekki aðgreind frá líkamanum sem hún er í; að sálin sé það sem gerir lífveru að lifandi veru og þar með að hugmyndin um sálarlausan líkama eða sál í rangri tegund líkama sé eintóm vitleysa. (Hann íhugar möguleikann á að ákveðinn hluti sálarinnar - skynsemishluti hennar -geti hugsanlega verið til án líkama.) Erfitt er að sætta þessi atriði við hugmyndina um sál sem „anda“ sem dvelur í líkama. "Um sálina" er skipt í þrjár bækur. Fyrsta bók fjallar um skoðanir fyrri heimspekinga og setur fram viðfangsefnið og rannsóknaraðferðina. Niðurstaðan er sú að sá sé það sem veldur því að lífvera er lifandi. Í annarri bók er umfjöllun Aristótelesar um hinar þrjár ólíku tegundir eða hina þrjá ólíku hluta sálarinnar og virkni þeirra. Aristóteles fjallar um „næringarhluta“ sálarinnar og „skynjunarhluta“ sálarinnar. (1) Allar tegundir lífvera, jurtir jafnt sem dýr, verða að geta nærst og fjölgað sér. (2) Öll dýr hafa skynjun; í það minnsta hafa þau öll snertiskyn, sem Aristóteles færir rök fyrir að liggi til grundvallar öllum hinum skilningarvitunum, og þau geta upplifað ánægju og sársauka, sem er einfaldasta tegund skynjunar. Ef þau geta upplifað ánægju og fundið til sársauka, þá hafa þau einnig þrár. Sum dýr hafa að auki önnur skilningarvit (sjón, heyrn, bragðskyn) og sum hafa öflugri skilningarvit (getuna til að greina á milli hluta á flókinn hátt, ekki einungis ánægju og sársauka.) Hann ræðir um hvernig þetta virkar. Sum dýr hafa enn fremur minni, ímyndunarafl og þau geta hreyft sig. Þriðja bók fjallar um skynsemishluta sálarinnar, sem einungis skynugar skepnur hafa, en það eru menn. Í sumum köflum seint í þessari bók snýr Aristóteles aftur til fyrri spurninga á að því er virðist óskipulegan máta. Því hafa sumir fræðimenn getið sér þess til að þessir kaflar hafi ekki upphaflega tilheyrt bókinni og hafi verið bætt við seinna vegna mistaka. (Meðal þessara kafla er frægur kafli um hina „virku skynsemi“) Stóra siðfræðin. "Stóra siðfræðin" (eða "Magna Moralia" á latínu) er ritverk sem er eignað Aristótelesi en sumir hafa efast um að sé ósvikið eða réttilega eignað honum. Eigi að síður hafa fræðimenn eins og J.L. Ackrill fært rök fyrir að verkið sé ósvikið. Þeir færa rök gegn því segja gjarnan að verkið hljóti að vera eftir einhvern náinn Aristótelesi, ef til vill eftir einhvern nemenda hans. Verkið er álitið einfaldara og óþroskaðra verk en "Siðfræði Níkomakkosar" sem er meginverk Aristótelesar um siðfræði. Úrölsk tungumál. Landfræðileg dreifing samóyedískra, finnskra, úgrískra og Yukaghir tungumála. Úrölsk tungumál eru fjölskylda um 30 tungumála sem samtals telja 20 milljón málhafa. Nafngift málafjölskyldunnar er dregin af því svæði þar sem uppruni þess er talinn liggja sem er nálægt Úralfjöllum. Þau lönd sem hafa flesta málhafa eru Eistland, Finnland, Ungverjaland, Noregur, Svíþjóð, Rúmenía, Rússland og serbneska héraðið Vojvodína. Stærstu úrölsku málin með tilliti til fjölda málhafa eru eistneska, finnska og ungverska. Ættartré. Innri bygging úrölsku málafjölskyldunnar hefur verið umdeild frá því hún var fyrst sett fram. Tvær undirfjölskyldur, finnsk-úgríska og samójedíska, eru aðgreindar innan úrölsku málafjölskyldunnar. Forveri þeirra er talin vera tungumál sem nefnt er for-úralska. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að finna sambandið á milli úralskra mála og þeirra tungumála sem yfirleitt eru talin til hinna stóru málafjölskyldnanna. Besta sambandið (þótt það sé ekki óumdeilt) er líklegast á milli úralskra mála og júkagir. Kenningar um sérstök tengsl við altaísk mál voru áður mjög vinsælar en hafa fallið í ónáð í seinni tíð. Kristín Ómarsdóttir. Kristín Ómarsdóttir (f. 24. september 1962) er íslensk skáldkona, sem gefið hefur út ljóð, smásögur, skáldsögur og leikrit. Hún vakti fyrst athygli fyrir leikritið "Draumar á hvolfi" sem vann fyrstu verðlaun í leikritarkeppni Þjóðleikhússins árið 1985 og sýnt var á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1987. Verk Kristínar hafa verið gefin út eða sýnd á Íslandi, Frakklandi, Svíþjóð, Finnlandi og Bandaríkjunum. Kristín hefur einnig tekið þátt í myndlistarsýningum og unnið í samstarfi við myndlistarfólk. Hugbúnaður. Hugbúnaður er eitt eða fleiri tölvuforrit, sem notuð eru í tölvum og eru til ákveðinna nota. Hugbúnaður myndar andstæðu vélbúnaðar sem vísar til hins efnislega rafeindabúnaðar sem hugbúnaðurinn stýrir. Hugbúnaður framkvæmir forritaskipanir annað hvort með því að framkvæma einstaka forritaskipanir fyrir vélbúnað eða sendir skipanir til annars hugbúnaðar. Hugbúnaður getur verið varanlegur hluti af vélbúnaði (fastbúnaður) og getur verið fjöldaframleiddur eða smíðaður samkvæmt pöntun (sérlausnir). Ýmsar tegundir hugbúnaðar. Talað er um frjálsan eða opinn hugbúnað þegar notandinn má nota hugbúnaðinn að vild og gera á honum breytingar. Rökaðgerð. Rökaðgerð (Boolean Operations) heitið er dregið af nafni stærðfræðings sem var frumkvöðull á þessu sviði, George Boole. Einn biti er minnsta eining sem við getum haft og getur annaðhvort verið 0 eða 1 (sem stendur fyrir nei og já eða ósatt og satt), rökaðgerðir eru aðgerðir sem má nota á þennan bita hvort sem hann er einn eða í hópi annarra (1 eða 0 eða 10). Frumaðgerðirnar. Frumaðgerðirnar eru NOT (ekki), AND (og) og OR (eða). NOT. NOT er aðgerð sem er framkvæmd á aðeins einum bita og er útkoman andstæðan við upprunalega bitann. AND. AND er aðgerð sem er framkvæmd á tveimur bitum, þegar útkoman er 1 þá þurfa báðir bitarnir að vera 1 en í öllum öðrum tilvikum verður útkoman 0. Bitanna köllum við a og b. OR. OR er aðgerð sem er framkvæmd á tveimur bitum eins og AND, þegar útkoman úr or er 1 þá er 1 tilstaðar í öðrum hvorum bitanum eða báðum og útkoman verður 0 þegar báðir bitarnir eru 0. Bitanna köllum við a og b. Aðrar rökaðgerðir. Til eru aðgerðir sem eru gerðar út frá hinum aðgerðunum, t.d. XOR, NAND og NOR XOR. XOR er aðgerð sem er notuð á tvo bita og er samsett úr AND, OR og NOT, þegar útkoman er 1 þá er 1 í öðrum hvorum bitanum en ekki báðum. Notum tvo bita og köllum þá a og b, ! merkir NOT. NAND. NAND er aðgerð sem er notuð á tvo bita og er samsett úr OR og NOT, aðeins þegar báðir bitarnir eru 1 þá er útkoman 0 annars er hún 1. Notum tvo bita og köllum þá a og b, ! merkir NOT. NOR. NOR er aðgerð sem er notuð á tvo bita og er samsett úr AND og NOT, útkoman verður 0 þegar einhver bitana er 1. Notum tvo bita og köllum þá a og b, ! merkir NOT. Grafarvogur. Grafarvogur er hverfi í Reykjavík, sem afmarkast af ósum Elliðaár í vestri, samnefndum vogi í suðri og Vesturlandsvegi í austri, sveitafélagsmörkum að Mosfellsbæ og sjó. Hverfið er fjölbýlt og er það enn í uppbyggingu. Í hverfinu er ein kirkja, Grafarvogskirkja. Póstnúmer í Grafarvogi er 112. Árið 2013 voru íbúar Grafarvogs 17.148. Til Grafarvogshverfis teljast Hamrar, Foldir, Hús, Rimar, Borgir, Víkur, Engi, Spöng, Staðir, Höfðar, Bryggjuhverfi, Geirsnef, Gufunes og Geldinganes. Grafarvogur dregur nafn sitt af bænum Gröf, sem nú er í eyði en stóð innst við hann, við Grafarlæk fyrir sunnan Keldur. Gálgaás. Gálgaás er klettur á bæjarstæði Egilsstaða. Kletturinn stendur rétt austan við Egilsstaðakirkju og gengur dags daglega undir nafninu Gálgaklettur, hjá börnum, sem í gegnum tíðina hafa notið þess að bregða á leik í klettunum. Sagan segir að þar hafi Valtýr á grænni treyju bóndi á Eyjólfsstöðum, verið tekinn saklaus af lífi fyrir morð og þjófnað á vinnumanni sem sendur hafði verið til Reykjavíkur með silfur í bræðslu. Fjórtán árum eftir þann atburð fannst rétti morðinginn, sem einnig hét Valtýr og var hann hengdur á sama stað. Um árabil mátti skoða bein, sem sagt var að væru bein Valtýs, í kassa sem hékk utan á klettinum en nú hefur skjöldur til minningar um þennan atburð leyst þau af hólmi. Jón Björnsson rithöfundur vakti söguna af Valtý á grænni treyju til lífs á ný, með leikgerð sinni af atburðunum, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu. OMX Iceland 15. Gengi OMXI 15 á árunum 1998 til 2009. OMX Iceland 15, eða úrvalsvísitala kauphallarinnar er vísitala sem samanstendur af 15 félögum skráðum á Aðallista Íslensku kauphallarinnar. Valið er í vísitöluna tvisvar á ári, í júní og desember. Við val félaga í vísitöluna er litið til kauphallarviðskipta á 12 mánaða tímabili og markaðsvirðis í lok tímabilsins. Jimmy Carter. James Earl „Jimmy“ Carter, Jr. (fæddur 1. október 1924) er bandarískur stjórnmálamaður. Hann var 39. forseti Bandaríkjanna (á árunum 1977-1981)og vann friðarverðlaun Nóbels árið 2002. Jimmy Carter tók við af Gerald Ford sem að hafði áður verið varaforseti, en hann tók við embættinu af Richard Nixon sem sagði af sér vegna Watergatemálsins. Jimmy Carter tókst ekki ætlunarverk sitt, sem var að vinna bug á efnahagsvanda sem ríkti á þessum tíma í Bandaríkjunum. Verðbólga tók að magnast og atvinnuleysi jókst. Jimmy Carter var demókrati. Ronald Reagan tók við af honum árið 1981. Carter, Jimmy Gítar. Gítar er strengjahljóðfæri. Hann hefur oftast 6 strengi sem gerðir er úr næloni á klassískum gíturum en stáli eða nikkel og stáli á kassagíturum og rafmagnsgíturum. Strengirnir eru venjulega stilltir í E A D G B E " en aðrar stillingar eru alls ekki óalgengar. Gítar hefur þverbönd á gripbrettinu (nema sérstakir bandalausir gítarar). Rétthentir gítarleikarar slá á strengina með hægri hendi og velja nótur og hljóma með vinstri hendi en öfugt er farið með örvhenta gítarleikara. Hljóð myndast þegar slegið er á streng og hann titrar með þeim afleiðingum að kassi og háls gítarsins óma og mynda hljóm. Gítarar eru annað hvort kassagítarar, rafmagnsgítarar eða bæði (hálfkassagítarar). Rafmagnsgítarar eru tengdir við gítarmagnara sem kemur í stað kassans við að magna upp hljóminn. Á gítarhausnum má finna stilliskrúfur, sem stilla strengi gítarsins að tiltekninni tónhæð. Hálsinn er með gripabretti þar sem myndaðir eru hljómar með fingrunum og á sjálfum búknum er að finna brú sem að festir strengina niður, og ef um rafmagnsgítar um ræðir þá eru þar líka nemar ("pickup") sem nema titringinn og ýmsir stillitakkar (t.d. fyrir hljóðstyrk og tón). Gítarinn á rætur sínar að rekja allt að 5000 ár aftur í tímann, en svo lengi hafa verið til hljóðfæri sem svipar til gítarsins. Gítarinn sem við þekkjum í dag kemur frá Spáni er um þúsund ára gamall. Gítarinn er eitt af grunnhljóðfærunum í blús og rokki en er einnig vel þekktur t.d. í djasstónlist. 24 (sjónvarpsþáttur). "24" er bandarískur sjónvarpsmyndaflokkur, sem Fox Network framleiðir fyrir fyrirtæki Rons Howard Imagine Entertainment og er sýnd víða um heim. Hver árgangur fjallar um atburði eins dags í lífi Jacks Bauer, alríkislögreglumanns hjá Counter Terrorist Unit eða CTU í Los Angeles, sem leikinn er af Kiefer Sutherland. Þátturinn sjallar einnig um samstarfsfólk Jacks hjá CTU í Los Angeles, ýmsa hryðjuverkamenn og starfsfólk Hvíta hússins. Rauntímaeðli þáttanna gefur þeim yfirbragð mikillar spennu, sem lögð er áhersla á með tifandi stafrænni klukku sem birtist af og til, m.a. fyrir og eftir auglýsingahlé og í enda hvers þáttar. Í hverjum þætti er sýnt frá atburðum á ýmsum stöðum og fylgt er eftir ævintýrum ólíkra persóna sem allar eru flæktar í sömu atburðarásina. Joel Surnow og Robert Cochran skópu "24" en fyrsti þátturinn var sýndur árið 2001. Yfirlit yfir efni hvers árgangs. Hingað til hefur hver árgangur fylgt svipaðri formúlu. Þættirnir, sem gerast að verulegu leyti í Los Angeles, snúast einkum um baráttu Jacks Bauer og Counter Terrorist Unit þegar þjóðaröryggi Bandaríkjanna er ógnað, m.a. af hryðjuverkamönnum. Ýmsar fórnir sem koma á óvart, svik og annað ráðabrugg eru algeng. Auk aðalógnarinnar eru ýmsar aukaatburðarásir í hverjum árgangi, sem vara allnokkra þætti og eru samofnar meginatburðarásinni, sem hefur sjálf tilhneigingu til þess að einu sinni eða tvisvar þegar líður á árganginn. Jack Bauer stendur oft frammi fyrir gríðarmikilli persónulegri sálarangist. Hver árgangur gerist á „rauntíma“ og hefst á ólíkum tíma dags. Hver þáttur lýsir atburðum einnar klukkustundar og hver árgangur lýsir atburðum sólarhrings og er 24 þættir. Hver þáttur hefst á því að Kiefer Sutherland í gervi Jack Bauer segir: „Eftirfarandi gerist milli [tími] og [tími]“. 1. dagur. Í fyrsta árgangi eru hryðjuverkamenn með það á prjónunum að ráða af dögum forsetaframbjóðandann, David Palmer, en hryðjuverkamennirnir hafa augastað á eiginkonu Jacks Bauer og dóttur þeirra að Bauer óvörum. Jack grunar að fólk sem hann vinnur með kunni að hafa átt hlut að máli í hvoru tveggja og reynir samtímis að verja Palmer og komast til botns í því hvers vegna konu hans og dóttur hefur verið rænt. 2. dagur. Í öðrum árgangi tekst Jack á við dauða konu sinnar og versnandi samband sitt við dóttur sína, sem telur að hættuleg atvinna Jacks hafi valdið dauða móður sinnar. Bauer er ekki lengur á launaskrá hins opinbera en forseti Bandaríkjanna, David Palmer, reiðir sig á Jack sem eina manninn sem hann getur treyst til að komast til botns í því hver sé að hóta að sprengja kjarnorkusprengju í Los Angeles og til að hindra að það gerist. Samtímis þessu verður til aukaatburðarás í kringum Kate Warner, sem er að skipuleggja brúðkaup systur sinnar og verðandi mágs síns, þegar CTU grunar að brúðguminn gæti verið viðriðinn áform hryðjuverkamannanna. 3. dagur. Í þriðja árgangi hefur Jack snúið aftur til starfa eftir að hafa lokið verkefni undir dulargevi, þar sem hann komst inn í raðir Salazar fjölskyldunnar, sem er eiturlyfjahringur með tengsl við hryðjuverkamenn. Á sama tíma er líki, sem er sýkt af dauðlegri veiru, kastað úr sendibíl hjá höfuðstöðvum heilbrigðisyfirvalda alríkisins. Hinn nýi félagi Jacks er ungur en hæfur maður, Chase Edmunds, sem á í ástarsambandi með dóttur Jacks, sem nú vinnur fyrir CTU. Jack og Chase verða nú að finna hryðjuverkamennina, sem bera ábyrgð á veiru-árásinni og eyða öllum sýnum veirunnar áður en henni er sleppt út í andrúmsloftið. Í þessum árgangi á Jack einnig við eiturlyfjavanda að stríða, sem á uppruna sinn í síðasta verkefni hans. 4. dagur. Í fjórða árgangi vinnur Jack Bauer í Washington D.C. fyrir varnarmálaráðuneytið en á í ástarsambandi með dóttur varnarmálaráðherrans, Audrey Raines. CTU starfar nú undir nýjum skipunum frá forsetanum en nýr yfirmaður CTU kallar Jack á sinn fund vegna yfirvofandi hryðjuverkaárásar. Varnarmálaráðherranum og dóttur hans er hins vegar rænt og Jack verður að reyna að bjarga þeim úr haldi ræningjanna. Eftir að þeim er bjargað átta þau sig á að mannránið var notað til að dylja áform um að valda ofhitnun og bráðnun í bandarískum kjarnorkuverum um land allt. En þetta reynist aftur vera einungis toppurinn á ísjakanum. 5. dagur. Í fimmta árgangi hefur Jack breytt nafni sínu í Frank Flynn og er að reyna að hefja nýtt líf utan CTU en honum berast þær fregnir að reynt hefði verið að ráða af dögum alla þá sem vissu að hann væri enn á lífi og að Palmer, fyrrverandi forseti, og Michelle Dessler, fyrrum samstarfskona Jacks, hefðu verið drepin. Einhver hefur reynt að koma sökinni á Jack og hann verður ásamt starffólki CTU að finna út hver stendur á bak við ráðabruggið samtímis því að hafa uppi á stolnu sentox taugagasi og uppræta samsæri sem teygir sig alla leið til Hvíta hússins og vopnaframleiðandans Omicron Corporation. 6. dagur. Í lok 5. dags hafði Jack verið handsamaður af kínverskum yfirvöldum fyrir innbrot í kínverska sendiráðið í Los Angeles sem leiddi til dauða kínversks embættismanns. Í upphafi 6. dags hefur Wayne Palmer, sem nú er forseti Bandaríkjanna, samið við kínversk stjórnvöld um að fá Jack lausan úr haldi eftir 20 mánuði í haldi. Hryðjuverkamenn fremja sjálfsmorðsárásir um gervöll Bandaríkin undir forystu Abu Fayed sem hefur tekist að sannfæra bandarísk stjórnvöld um að hann muni hjálpa þeim að handsama hryðjuverkamanninn Assad, sem þau telja ranglega að hafi skipulagt árásirnar. Fyrir hjálpina vill Fayed að bandarísk yfirvöld afhendi honum Jack Bauer. Aðalleikarar. Ítarlegra yfirlit má finna á lista yfir persónur í 24 og lista yfir aukapersónur í 24" Ketill ilbreiður. Ketill illbreiður Þorbjarnarson tálkna var einn landnámsmanna Íslands og nam Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals. Ketill ílengdist þó ekki í Arnarfjarðardölum heldur fór að Berufirði hjá Reykjanesi en skildi eftir sig nafnið Ketildalir í Arnarfirði. Kingmanrif. Kingmanrif er kóralrif í Norður-Kyrrahafi, um miðja vegu milli Hawaii og Bandarísku Samóa og er nyrst Línueyja. Það er yfirráðasvæði Bandaríkjanna undir stjórn bandaríska sjóhersins. Rifið var uppgötvað af Edmund Fanning skipstjóra árið 1789. Það var innlimað af Bandaríkjunum 10. maí 1922. Varsímaeyja. Varsímaeyja eða Wake-eyja er baugeyja í Norður-Kyrrahafi á leiðinni milli Honolúlú og Gvam. Varsímaeyja er yfirráðasvæði Bandaríkjanna undir stjórn bandaríska innanríkisráðuneytisins. Aðgangur að eyjunni er takmarkaður og allar framkvæmdir þar á hendi bandaríska flughersins, bandaríska hersins og þjónustufyrirtækisins "Chugach McKinley, Inc.". Þótt talað sé um Varsímaeyju í eintölu, þá eru eyjarnar í raun þrjár umhverfis lónið í miðjunni. Þær heita Wake-eyja, Wilkes-eyja og Peale-eyja eftir foringjum í tveimur leiðangrum þangað 1796 og 1840, en það var spænskur landkönnuður, Álvaro de Mendaña de Neira, sem uppgötvaði eyjuna fyrstur árið 1568 og nefndi hana „San Francisco“. Slétturnar miklu. Slétturnar miklu táknaðar með grænum lit Slétturnar miklu eða gresjurnar miklu eru gríðarstór flöt gresja austan við Klettafjöllin í Norður-Ameríku. Þær ná yfir, í heild eða að hluta, bandarísku fylkin Nýju-Mexíkó, Texas, Oklahoma, Colorado, Kansas, Nebraska, Wyoming, Montana, Suður-Dakóta og Norður-Dakóta, og kanadísku héruðin Alberta, Manitóba og Saskatchewan. Gresjurnar miklu voru bithagar stórra hjarða villtra vísunda sem ýmsir ættbálkar indíána veiddu sér til viðurværis. Síðar voru þær nýttar undir nautgriparækt og enn síðar jarðrækt þótt þurrkar gerðu bændum erfitt fyrir. Kyrrahafsjaðar. Kyrrahafsjaðar er hugtak sem notað er til hægðarauka yfir þau lönd sem liggja umhverfis Kyrrahafið, aðallega vestanmegin og einkum þegar rætt er um hraða efnahagslega þróun þessa svæðis og aukið efnahagslegt mikilvægi þess á síðustu áratugum á kostnað Evrópu og austurstrandar Norður-Ameríku. Leikfélag Vestmannaeyja. Leikfélag Vestmannaeyja er leikfélag sem hefur starfað í Vestmannaeyjum frá 1910. Leiklistarstarfsemi hófst í Eyjum um miðja 19. öld. Aðdragandi að stofnun félagsins mun hafa verið sýning á leikritinu "Ævintýri á gönguför" ("Eventyr paa Fodreisen") eftir Jens Christian Hostrup snemma um veturinn 1910 á vegum kvenfélagsins Líknar sem þá og lengi síðan hélt einnig uppi leikstarfsemi við ýmis tækifæri. Hið nýstofnaða leikfélag fékk strax lánuð leiktjöldin úr Ævintýrinu og setti upp sýningu þá um haustið. Leiksýningar. Leikfélag Vestmannaeyja hefur undanfarin ár, sett upp tvær sýningar. Eina að vori og eina að hausti. Hans Christian Ørsted. Hans Christian Ørsted (f. 14. ágúst 1777 — d. 5. mars 1851) var danskur eðlisfræðingur, efnafræðingur og lyfjafræðingur. Hann er einn þekktasti vísindamaður Danmerkur fyrir uppgötvun sína á rafsegulfræði. Hann var drifkrafturinn á bakvið stofnun Danska tækniháskólans (DTU) og var fyrsti rektor hans. Í dag heitir rafmagnsverkfræðideild skólans eftir honum. Uppgötvun rafsegulfræði. Hans Christian uppgötvaði áhrif rafmagns á segulsvið fyrir tilviljun þegar hann var að undirbúa sig fyrir fyrirlestur árið 1820. Hann tók eftir því að nál á áttavita sem hann hafði hjá sér hreyfðist þegar hann kveikti og slökkti á rafhlöðu sem hann var að vinna með. Rannsóknir hans höfðu meðal annars mikil áhrif á franska vísindamanninn André-Marie Ampère. Einingin fyrir styrk segulviðs í cgs-einingakerfinu er kennd við Ørsted. Ungmennafélagið Valur. Ungmennafélagið Valur á Reyðarfirði var stofnað 27. desember 1936. Stofnfundur félagsins var haldinn í Barnaskólahúsinu og voru fundarmenn 22. Stjórn var kosin Emil Magnússon formaður, Páll Beck ritari og Margrét Þorsteinsdóttir gjaldkeri. Það er mjög athyglisvert að Emil og Páll voru 15 ára og Margrét 14 ára. Félagið fór vel af stað og hélt fundi einu sinni í mánuði. Strax á fyrsta fundi voru kosnir 6 félagsmenn til næstu starfsnefndar sem áttu að skipuleggja næsta fund. Verklegar framkvæmdir. Eitt að markmiðum félagsins var skógrækt og verndun skógarleifa. Grænafellið er einn fallegasti staður í Reyðarfirði og er saga Grænafellsins samofinn sögu ungmennafélagsins frá þessum tíma. Hreppsnefnd og Ungmennafélagið gerðu samkomulag um að félagið fengi Grænafellið til varðveislu. Svæðið var girt og notað til útivistar, þar voru haldnar hátíðarsamkomur, íþróttamót og kappleikir. Félagið stóð einnig fyrir gróðursetningu á svæðinu. Sundlaug. Eitt af aðalbaráttumálum félagsins var bygging sundlaugar. Árið 1947 kemur fram í gjörðarbók félagsins að vel hafi gengið að safna dagsverkum og fé til byggingar sundlaugar. En sundlaugarmálið sofnaði til ársins 1981 þegar núverandi íþróttahús var tekið í notkun. Íþróttahúsinu var breytt í sundlaug nokkra mánuði á ári. Skemmtun. Ungmennafélagið stóð fyrir margskonar heilbrigðum skemmtunum og oft lauk fundum með söng, hljóðfæraleik, upplestri og leikþáttum. Einnig voru haldnir mál- og skemmtifundir, kvikmyndasýningar, dansnámskeið, bingókvöld og ýmsar nefndir. Margir góðir menn hafa stýrt félaginu í gegnum tíðina. Marinó Sigurbjörnsson var formaður lengst allra eða 13 ár. Árið 1981 má segja að starfsemi félagsins hafi tekið miklum breytingum með stofnun hinna ýmsu sérráða eftir íþróttagreinum. Fyrsta sundmót félagsins var haldið 17. júní 1982. Drómasýki. Drómasýki er svefntruflun sem stafar að öllum líkindum af röskun á REM-svefni fólks (einnig kallaður bliksvefn eða draumsvefn). Fólk sem þjáist af drómasýki getur lent í því að fá svokölluð svefnflog þar sem allt í einu leitar á það svo mikil syfja að því finnst það knúið til þess að sofna. Einnig getur fólk fengið slekjuköst þar sem vöðvalömun sem einkennir REM-svefn virðist koma á óeðlilegum tíma en fólk heldur samt meðvitund. Svefnrofalömun er enn eitt einkennið þar sem fólk getur sig hvergi hreyft þegar það er á milli svefns og vöku. Að auki getur fólk fundið fyrir svefnhöfgaofskynjunum en þá sér það, heyrir eða skynjar á annan hátt ýmislegt sem ekki er neinn fótur fyrir í raunveruleikanum. Möguleg skýring á þessu er að ofskynjanirnar séu draumar sem komi á vitlausum tíma. Andrij Sjevtsjenko. Andrij Sjevtsjenko (úkraínska: "Андрій Миколайович Шевченко", fæddur 29. september 1976 í borginni Dvrkivshchyna í Úkraínu) er knattspyrnumaður og hefur undanfarin ár verið einn marksæknasti framherji Evrópu. Hann skoraði meira en 100 mörk í Seríu A og var árið 2004 valinn Knattspyrnumaður Evrópu. Saga. Sjevtsjenko hóf feril sinn með Dynamo Kiev sem er frá samefndri borg í Úkraínu. Þangað kom hann 9 ára gamall þegar unglingaþjálfari liðsins sá hann spila á vinsælu knattspyrnumóti. Dynamo Kiev var eitt af skemmtilegri liðum Evrópu á sínum tíma og vann m.a. titilinn í heimalandi sínu fimm ár í röð, frá 1995 til 1999. Óhætt er að fullyrða að það ár hafi Kænugarðsliðið verið með eitt besta lið Evrópu, þeir unnu m.a. Barcelona 4-0 heima og úti í átta liða úrslitum en töpuðu fyrir Bayern Munchen í undanúrslitum. Sjevtsjenko varð markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar þá með 10 mörk skoruð. Eftir það ævintýri var hann svo keyptur til Milan liðsins. Silvio Berlusconi, forseti félagsins, ákvað að leggja út fyrir honum og greiddi fyrir hann háa fjárhæð, alls 25 milljónir dollara. Þar dvaldi Sjevtsjenko til 2006 þegar hann var keyptur til Chelsea F.C. á Englandi. Sumarið 2008 fór hann svo til Milan á Ítalíu en sneri aftur til síns gamla uppeldisfélags eftir eins árs dvöl. Sjevtsjenko átti stóran þátt í því að Úkraína komst í fyrsta skipti í úrslit heimsmeistarakeppninar í fótbolta sem haldin var í Þýskalandi sumarið 2006. Samtals hefur hann leikið 70 landsleiki fyrir land sitt og skorað í þeim 36 mör. 14. júlí 2004 giftist hann bandarísku fyrirsætunni Kristen Pazik. Athöfnin fór fram í Washington án vitundar fréttamanna og ljósmyndara. AK-47. AK-47 ("Avtomat Kalashnikova 1947") er rússneskur hríðskotariffill (sjálfvirkur riffill) sem hannaður var af Mikhail Kalashnikov árið 1947 og hefur verið framleiddur í fyrrum Sovétríkjunum og nú Rússlandi alveg síðan. Fyrirtækið IZH hefur alla tíð annast framleiðslu vopnsins og gerir enn. AK-47 og fjöldinn allur af tilbrigðum hans eru mest seldu vopn í heiminum í dag, en yfir 100 milljón svona vopn hafa verið framleidd. Saga AK-47. Mikhail Kalashnikov var byrjaður að hanna vopnið strax í huganum þegar hann á lá á sjúkrahúsi árið 1943, eftir að hafa verið særður í orrustunni við Bryansk. Svo árið 1947 hannaði hann þetta einfalda og endingargóða vopn undir áhrifum frá M1 Garand rifflinum. Margir vilja meina að hann hafi líka verið mikið undir áhrifum frá þýska StG44 rifflinum, en Kalashnikov neitar því sjálfur. Eftir nokkra byrjunarörðuleika var byrjað að dreifa AK-47 til sovéskra hermanna árið 1956. Virkni AK-47. AK-47 er þekktur sem endingargóður, einfaldur, öruggur og öflugur hríðskotariffill. Hann skýtur 7.62 × 39 mm byssukúlum á 710m/s hraða. Hann er þó ekki mjög langdrægur né nákvæmur, en upp á móti þessu vegur endingargildið. Hann dregur um 300 metra af nákvæmni (þ.e. sé skotið á skotmark, en allt að 800 metra sé skotið á svæði) og skýtur býsna hratt, eða um 600 kúlum á mínútu (gefið að hann þyrfti að sjálfsögðu ekki að endurhlaða). Aphex Twin. Richard D. James árið 2005 Aphex Twin eða Richard D. James eins og hann heitir réttu nafni (fæddur 18. ágúst 1971) er breskur raftónlistarmaður. Richard James er að margra mati einn frumlegasti og mest spennandi tónlistarmaður nútímans og sumir ganga svo langt að kalla James „Mozart samtímans“. Richard James hefur gefið út fjöldan allan af breiðskífum, stuttskífum og smáskífum, bæði undir nafninu Aphex Twin en líka undir öðrum nöfnum (m.a. annars vegna deilu sinnar við fyrrum útgáfufyrirtæki sitt Warp Records), t.d. sem AFX, Caustic Window og Polygon Window. Stíl James er kannski ekki auðvelt að negla niður í nokkrum orðum en margir flokka hann undir Acid Techno, IDM, Drill and Bass og Ambient. Sjálfur flokkar hann tónlistina sína sem „Braindance“. James er þekktur fyrir að gefa skemmtileg blaða- og útvarpsviðtöl þar sem hann lýgur miskunnarlaust og fíflast í spyrjendum. Til eru margar sögur um hann, m.a. að hann hafi keypt sér skriðdreka og kafbát á eBay og hafi smíðað eigin hljóðgervla og búi í fyrrum banka. Lítið er vitað um sannleiksgildi allra þessara sagna en þó er talið víst að hann búi í raun í umræddum banka. Í dag á hann plötufyrirtækið Rephlex Records ásamt vini sínum Grant Wilson Claridge. Eldey. Eldey er klettadrangur um 15 km suðvestan við Reykjanes sem er 77 metra hár. Eldey er þverhnípt og illkleif á alla vegu og er úr lagskiptu móbergi. Á Eldey er mikill súlubyggð, og árið 1844 var síðasti geirfuglinn drepinn þar vegna áhuga safnara á að eignast uppstoppað eintak. Eldey var friðuð árið 1940 og síðan lýst friðland árið 1974 samkvæmt náttúruverndarlögum. Súlur á Eldey. Á Eldey er ein af stærri súlubyggðum heims, með um 14.000 - 18.000 súlupör sem verpa þar á hverju ári. Lífseigt hald manna er að varpið í Eldey sé það stærsta í heimi en það er ekki rétt. Stærsta súlubyggð í heimi er á St. Kildu við Skotland en þar verpa 60.428 pör.Súlubyggðin í Eldey var fyrst metin 1939 af Vevers og Venables en 1949 af Þorsteini Einarssyni o.fl. Þeir töldu fuglana af báti en aðrir klifruðu upp á eyna til aða aðstoða við talninguna. 1953 var fyrst talið af stækkuðum ljósmyndum og hefur sú aðferð verið notuð nokkrum sinnum síðan. Beinar talningar og talningar af myndum gefa ekki alveg sambærilegar niðurstöður. Huxley, Fisher, Vevers og Þorsteinn Einarsson fengu 15.178 hreiður 1949 og töldu Eldey þá vera stærstu súlubyggð í heimi. Áreiðanlegustu tölurnar síðustu áratugi er að finna í tveimur greinum fuglafræðingsins Arnþórs Garðarssonar í tímaritinu Bliki. Þar sést að fjöldi súluhreiðra í Eldey hefur haldist svipaður undanfarna áratugi; 16.888 (1953), 18.200 (1961), 15.546 (1977), 14.194 (1983), 14.531 (1985), 16.030 (1999). Tölur eftir 1999 hafa ekki verið birtar. VYRE. VYRE er hugbúnaðarfyrirtæki í London sem framleiðir vefumsjónarkerfið Vyre Unify. VYRE er afsprengi íslenska fyrirtækisins Salt kerfi sem tók þátt í.com sprengjunni og stofnaði útibú í New York og London og breytti þá nafni sínu í Vyre. Fyrir árið 2003 var fyrirtækið keypt af breskum fjárfestum sem fjármögnuðu þróun á Vyre Unify 4.0. Í dag er fyrirtækið með skrifstofur í London þar sem 20 starfsmenn þar af 5 Íslendingar starfa. TM Software er í þróunarsamstarfi við Vyre og hefur umboð fyrir vöruna á Íslandi í dag. Súla (fugl). Súla (fræðiheiti: "Morus bassanus" og einnig "Sula bassana") er sjófugl sem heldur sig úti á rúmsjó nema yfir varptímann í apríl og maí þegar hún sækir í klettaeyjar í Norður-Atlantshafinu til að verpa. Hún er stærsti sjófugl Evrópu með vænghaf milli 170 til 180 cm og fuglinn sjálfur um 90 til 100 cm langur. Fræðinafn sitt dregur hún af eyjunni Bass Rock við Firth of Forth í Skotlandi. Súlur eru einkvænisfuglar og trygglyndar við varpsetur. Súlur geta orðið nokkuð gamlar og eru taldar verpa 12 sinum að meðaltali. Parið heilsast með þanda vængi bringu við bringu og strjúka saman nefjum. Ungfuglar eru dökkbrúnir fyrsta árið en lýsast með ári hverju þar til þeir verða kynþroska við fimm ára aldur. Veiðiaðferð súlunar er kallað "súlukast". Þær steypa sér hátt úr lofti, úr 10 til 40 metra hæð og lóðrétt niður ef að fiskurinn er djúpt í sjó. Loftsekkir framan á fuglinum verkar sem púðar og í kastinu mynda beinagrind og vöðvar spjótlaga líkamsform. Um 2/3 hlutar heildarstofnsins halda til umhverfis Bretlandseyjar. Eitt stærsta súluvarp í heimi er á Bonaventure-eyju við Kanada en þar verpa um 60.000 pör, en stærstu vörp í Evrópu eru á eyjunum Bass Rock og St. Kilda báðar við Skotland. Eldey undan Reykjanesi er meðal stærri súluvarpa í heimi, en þar verpa um 14.000 - 18.000 pör árlega. Á Íslandi verpir súlan einungis á fáeinum stöðum, fyrir utan Eldey, í Súlnaskeri í Vestmanneyjum, á Langanesi, Melrakkasléttu og á eyjunni Skrúði í Fáskrúðsfirði. Talið er að heildarstofninn við Ísland sé milli 40.000 til 50.000 fuglar. Lífseig mýta segir að varpið í Eldey sé það stærsta í heimi en það er ekki rétt. Við talningu í Kanada voru þar samtals 77700 pör árið 1999. Við Bretlandseyjar töldust samtals 230 þús. súlupör árið 2000. Þar er stærsta súlubyggð í heimi, á St. Kilda, með 60428 pörum 1994-95 og áætluð vera 61340 árið 2000. Þar voru þegar orðin um 50 þús. varppör um 1960. Árið 2000 voru sex aðrar súlubyggðir á Bretlandseyjumn stærri en Eldey, Bass Rock við Edinborg (44110), Ailsa Craig við vesturströnd Skotlands (35825), Grassholm í Wales (30688), Little Skellig á Írlandi (28799) og Mermaness í Hjaltlandseyjum (16386). Það er því löngu liðin tíð að Eldey sé stærsta súlubyggð í heimi en þar eru vissulega flest súlupör verpandi hér við Ísland. Þann 20. janúar 2008 var leiðangur farinn til Eldeyjar en tilgangur ferðarinnar var að koma upp á eyjunni sem sendir myndefni frá eyjunni allan sólarhringinn. Þar sést Súlubyggðin í Eldey mjög vel. Pelíkanfuglar. Pelíkanfuglar (fræðiheiti: "Pelecaniformes") eru ættbálkur sjófugla sem einkennast af því að vera með sundfit milli allra fjögurra tánna. Þeir telja um 57 tegundir í sex ættkvíslum, meðal annars skarf og súlu. Pelíkanfuglar verpa í varpnýlendum. Súluætt. Súluætt (fræðiheiti: "Sulidae") er ætt sjófugla af ættbálki pelíkanfugla sem stinga sér eftir æti. Heiltölutag. Heiltölutag (í forritunarmálum oft "int" í forritunarmálunum C og Java, "integer" í forritunarmálinu BASIC) er einföld gagnastærð sem ber ekki aukastafi. Hún er notuð til að geyma misstórar stærðir heiltalna. Hægt er að stilla heiltölurnar þannig að þær séu t.d. bara jákvæðar stærðir og taka þær þá helmingi meira af jákvæðum tölum en engar neikvæðar. Dæmi. Hér er smá dæmi úr JAVA kóða Gagnastærð. Það eina sem tölva skilur er ON og OFF skipanir. En þegar þessum einföldu skipunum er raðað upp í ákveðin form þá er hægt að byggja upp flókin gögn. Tölvan skilur þessar ON/OFF grunneiningar og eru þær kallaðar bitar. Þessar skipanir má líkja við hlið sem hleypir rafmagni í gegnum sig þegar það er opið(1) og hleypir ekki rafmagni í gegnum sig þegar það er lokað(0). Þegar að bitum er raðað upp til að mynda flókin gögn þá eru þeir settir saman í átta bita hópa sem kallaðir eru bæti. Bætin mynda einingu þar sem við getum myndað tölur (í tugakerfi) frá 0 upp í 255. Með einu bæti erum við komin með minnstu mögulegu vistfangaeiningu í tölvu. Með öðrum orðum þá er vistfangalegt minnsta mögulega eining sem hægt er að sækja í minni, og þess vegna er talað um bæti þegar að talað er um gagnastærðir. Kennaraháskóli Íslands. Kennaraháskóli Íslands var háskóli fyrir kennaramenntun á Íslandi. Hann sameinaðist Háskóla Íslands 1. júlí 2008 og varð eitt fimm sviða þar, Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kennaraháskólinn menntaði fyrst og fremst stéttir sem starfa við kennslu og umönnunarstörf og rannsóknir. Nemendur skólans voru um 2300 á B.A., B.Ed. og B.S. sviði en einnig er hægt að stunda við skólann diplómunám og framhaldsnám til M.A. og doktorsprófs. Kennaraháskólinn starfaði í 100 ár. Fjarnám og upplýsingatækni. Kennaraháskólinn hefur lagt áherslu á fjarnám og nám sem notar ýmsa tæknimiðla. Rúmlega helmingur nemenda skólans stundar fjarnám. Saga. Kennaraskóli Íslands var stofnaður með lögum árið 1907 en kennslan hófst haustið 1908 í nýreistu húsi að Laufásvegi 81. Það hús er kallað Gamli kennaraskólinn og er nú friðað. Kennaramenntun á Íslandi hófst í Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1892, fyrst sem stutt námskeið og síðar sem viðbótarbekkur við gagnfræðaskóla. Kennaraskólinn var í fyrstu þriggja ára skóli en var lengdur í fjögur ár árið 1943. Við skólann var starfrækt æfingadeild fyrir æfingakennslu kennaranema. Frá árinu 1947 voru inntökuskilyrði í kennaranám landspróf og gagnfræðapróf en fram að þeim tíma var algengt að nemendur kæmu í skólann eftir eitt eða tvö ár í héraðsskóla, gagnfræðaskóla eða öðrum framhaldsskólum. Auk þess mátti ljúka kennaranámi á einu ári eftir stúdentspróf og var það gert í sérstakri stúdentsdeild. Fyrsti áfangi nýbyggingar Kennaraháskólans við Stakkahlíð var tekinn í notkun árið 1962. Á lóð skólans var reistur barnaskóli sem tók við hlutverki æfingadeildarinnar. Hann hét áður Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands en heitir nú Háteigsskóli og er einn af grunnskólum Reykjavíkur án sérstakra tengsla við Kennaraháskólann. Eftir 1990 hefur vaxandi áhersla verið lögð á framhaldsnám og útskrifuðust fyrstu nemendurnir með M.Ed. gráðu árið 1996. Nýjar námsbrautir bættust við þegar Kennaraháskólinn, Fósturskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Þroskaþjálfaskólinn voru sameinaðir í ársbyrjun 1998. Nú fara fram viðræður um mögulega sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Húsakynni. Aðalbygging Kennaraháskólans er við Stakkahlíð. Þar var tekin í notkun nýbyggingin Hamar árið 2002. Kennsla í list- og verkgreinum fer fram í Listgreinahúsi skólans í Skipholti 37. Skrifstofur margra kennara og stofnana innan skólans eru í Skipholti og Bolholti. Íþróttanám fer fram í Íþróttafræðasetri skólans á Laugarvatni. Stefnt er að því að Menntavísindasvið flytji úr Stakkahlíð og verði staðsett á háskólasvæðinu vestur í bæ. Túlkur (tölvunarfræði). Túlkur er forrit sem keyrir önnur forrit. Þetta er andstæða þýðanda sem keyrir ekki forritið sem sett er inn, heldur þýðir það yfir á annað tungumál, sem er oftast keyrsluhæft vélamál og er vistað í skrá fyrir seinni tíma keyrslu sem sjálfstæð eining. Forrit sem skrifað er fyrir túlk þarf því alltaf á túlkinum að halda til að keyra, en forrit sem er þýtt er óháð þýðandanum. Það getur verið mögulegt að keyra sama forritskóðann hvort sem er með túlki eða með því að þýða það og keyra síðan vélarmálið. Það tekur lengri tíma að keyra forrit með túlki en að keyra þýddan kóða, en það tekur minni tíma að túlka hann, en að þýða kóðann og síðan keyra hann. Túlkun er sérstaklega mikilvæg þegar verið er að gera frumgerðir, þar sem breyta-túlka-villuleita hringurinn er oft mun styttri heldur enn breyta-þýða-villuleita hringurinn er. Túlkun kóða er hægari en keyrsla á þýddum kóða vegna þess að túlkurinn verður að brjóta niður og greina hvert skipun í forritinu í hvert skipti sem hann er keyrður og framkvæma umbeðnar aðgerðir á meðan þýddi kóðinn framkvæmir aðeins aðgerðirnar. Aðgangur að breytum er líka hægari í túlkun vegna að kortlagning á vísunum í geymsluúrræði eru gerðar aftur og aftur á keyrslutíma í stað þess að leyst sé úr því við þýðingu. Kennaramenntun. Kennaramenntun er stefna og starfsemi sem miðar að því að þjálfa kennara til starfa. Kennaramenntun er oft skipt í grunnmenntun og símenntun (endurmenntun) starfandi kennara. Kennaramenntun á Íslandi. Margir barnaskólar voru stofnaðir í þéttbýli á síðari hluta 19. aldar. Þegar skólum fjölgaði þá jókst þörf fyrir kennara. Árið 1887 var lagt fyrir Alþingi frumvarp um menntun alþýðu á Íslandi. Það var í 15 köflum og fjallaði einn kafli þess um kennaramenntun. Frumvarpið var fellt. Hinn 23. febrúar 1889 var Hið íslenska kennarafélag stofnað en á fyrsta aðalfundi þess var flutt tillaga um að skora á Alþingi að gera alþýðukennurum kleift að mennta sig áður en þeir tækjust á hendur barnakennslu. Árið 1895 kaus Alþingi nefnd, sem samdi frumvarp um barnakennslu og undirbúningsmenntun barnakennara. Í frumvarpinu var lagt til að stofna kennaraskóla í Flensborg í Hafnarfirði þar sem yrðu tveir fastir kennarar. Frumvarpið náði ekki fram að ganga, það var endurflutt 1897 og 1899 en ávallt fellt. Nýtt frumvarp um kennaraskóla var lagt fram árið 1903 og var þá gert ráð fyrir að kennaraskóli yrði í Reykjavík. Það var endurflutt 1905 en fellt og flutt aftur 1907 og var þá samþykkt. Flensborgarskóli. Kennaramenntun á Íslandi hófst í Flensborgarskóla. Veturinn 1891 flutti Jóhannes Sigfússon cand. theol. kennari við skólann og síðar yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík einn fyrirlestur á viku í Flensborgarskóla um uppeldi og kennslu. Þessir fyrirlestrar voru fyrir utan hinn hefðbundna skólatíma. Eftir að landshöfðingi gaf út reglugerð um kennarafræðslu þann 1. febrúar 1892, þar sem gert var ráð fyrir kennarafræðslu á stuttum námskeiðum ár hvert, hófst kennsla í námskeiðsformi við Flensborgarskóla 1892 og stóð til 1895 en féll þá niður vegna ónógrar þátttöku. Nemendur voru ekki margir í þessu námi. Fyrsta árið voru þeir aðeins fimm. Árið 1896 var námskeiðinu breytt í eins vetrar skóla er starfaði sem þriðji bekkur við Flensborgarskóla. Hélst sá háttur þangað til Kennaraskóli Íslands var stofnaður. Kennslugreinar í kennaranáminu í Flensborg voru kristinfræði, uppeldisfræði, íslenska, danska, landafræði, náttúrufræði, tölvísi, teikning og kennsluæfingar. Kennaraefni hlýddu á kennslu í barnaskólanum í Flensborg fyrri part vetrar en seinni part vetrar kenndu þau sjálf 4-5 stundir á viku. Algengasta kennsluformið í Flensborg var fyrirlestrar og kennaranemar þurftu að skila mörgum ritgerðum yfir veturinn t.d. þurftu þau að skila 20 ritgerðum um uppeldisfræðilegt efni og 30 ritgerðum í íslensku. Brautskráðir kennarar frá kennaradeildinni í Flensborg voru alls 121, 111 piltar og 10 stúlkur. Kennaraskóli Íslands. Kennaraskóli Íslands tók til starfa haustið 1908. Þar var þriggja ára nám frá 1. október til 31. mars ár hvert. Kennslugreinar voru íslenska, danska, saga, landafræði, náttúrufræði, reikningur, rúmfræði, skrift, teikning, handavinna, leikfimi, söngur, kristinfræði, uppeldis- og kennslufræði og kennsluæfingar. Við skólann voru skipaðir 3 fastir kennarar. Kennarar skólans áttu auk grunnnámsins að hafa á hendi framhaldskennslunámskeið fyrir lýðskólakennara. Skólatíminn var svo lengdur í 7 mánuði árið 1924 og enska tekin upp sem námsgrein. Með lögum frá 14. apríl 1943 varð kennaranám fjórir vetur í stað þriggja áður og með lögum um kennaranám frá 14. apríl 1947 var skólatíminn lengdur í 8 mánuði og mælt fyrir um að stofnaður yrði æfingaskóli. Árið 1963 voru samþykkt lög sem heimiluðu starfrækslu sex deilda við kennaraskólann: almennrar kennaradeildar, stúdentadeildar, menntadeildar, framhaldsdeildar, undirbúningsdeildar sérnáms og handavinnudeildar. Kennaraskólinn starfaði fyrst við Laufásveg en framkvæmdir hófust 1958 við skólahús í Stakkahlíð og árið 1962 hófst bókleg kennsla í 1. áfanga nýbyggingar. Um langt skeið var kennsla í verklegum greinum áfram í gamla skólahúsinu við Laufásveg. Kennaraháskóli Íslands. Kennaraskólanum var breytt í Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og náminu breytt í þriggja ára háskólanám þar sem inntökuskilyrði voru stúdentspróf eða sambærilegt próf. Bókavörður var fastráðinn að bókasafni Kennaraháskólans árið 1979. Háskóli Íslands. Þrjár háskóladeildir við Háskóla Íslands höfðu menntun kennara að markmiði en það voru heimspekideild, félagsvísindadeild og verkfræðideild. Fyrstu árin var eingöngu ein námsbraut í heimspekideild auk forspjallvísinda, það var nám til meistaraprófs í íslensku. Árið 1934 urðu námsbrautir tvær, kennarapróf í íslenskum fræðum og meistarapróf í íslensku. Nám til B.A. prófs hófst í verkfræðideild árið 1966 en markmið þess var einkum að mennta kennara til kennslu í raungreinum í gagnfræðaskólum. Sama ár hófst einnig nám til B.A. prófs í félagsvísindum. Félagsvísindadeild var stofnuð 25. maí 1976 en meðal kennslugreina var uppeldis- og kennslufræði. Aðrir skólar. Aðrir skólar sem menntað hafa kennara eru Húsmæðrakennaraskóli Íslands sem stofnaður var með reglugerð 11. maí 1942 og Íþróttaskólinn á Laugarvatni sem falið var að mennta íþróttakennara með lögum frá 15. maí 1942. Kennaradeildir hafa einnig verið við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík og Tónlistarskóli Reykjavíkur hefur útskrifað tónlistakennara. Kennaradeild er starfrækt við Háskólann á Akureyri. Háskólinn í Reykjavík býður upp á B.Ed. nám í íþrótta- og kennslufræði og stærðfræði og M.Ed. í lýðheilsu- og kennslufræðum og stærðfræði. Jarviseyja. Jarviseyja er óbyggð 4,5 km² stór eyja í Suður-Kyrrahafi um miðja vegu milli Hawaii og Cooks-eyja. Hún er yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Engin vatnsból eru á eyjunni og engin höfn, en í Millersville eru leifar byggðar frá árunum 1935 til 1942 sem er stundum notuð sem veðurstöð. Mjótt kóralrif er umhverfis eyjuna. Eyjan var uppgötvuð 21. ágúst 1821 af breska skipinu "Eliza Francis" sem var í eigu Edwards, Thomas og William Jarvis. Bandaríkin gerðu tilkall til eyjarinnar 1857 og innlimuðu hana formlega árið 1858, en yfirgáfu hana 1879 eftir að hafa numið þaðan mikið af gúanói. Bretland innlimaði eyjuna 1889 en nýtti hana ekki frekar. Bandaríkjamenn tóku eyjuna svo aftur yfir árið 1935. Komur í eyjuna eru háðar sérstöku leyfi. Princeton-háskóli. Princeton-háskóli (enska: "Princeton University") er staðsettur í bænum Princeton í New Jersey og er fjórði elsti háskólinn í Bandaríkjunum. Princeton-háskóli, sem er oft talinn einn besti háskóli Bandaríkjanna, hefur auk þess að bjóða upp á grunnnám og framhaldsnám í hugvísindum, raunvísindum og félagsvísindum, arkítektaskóla, verkfræðiskóla og skóla fyrir stjórnsýslu- og alþjóðafræði. Við skólann eru stundaðar rannsóknir á mörgum sviðum, meðal annars í rafgaseðlisfræði, veðurfræði, og á þotuhreyflum. Háskólinn er á tveimur háskólasvæðum. Aðalháskólasvæðið er í miðbæ Princeton en auk þess er háskólasvæði í lundi skammt frá bænum og nefnist „The Forestal Campus“. Þar eru rannsóknarstofur fyrir rafgaseðlisfræðiverkefni (Princeton Plasma Physics Laboratory, PPPL) og veðurfræðirannsóknir. Samvinna er með háskólanum og Brookhaven National Laboratories. Aðalbókasafn háskólans er Firestone-bókasafnið (gefið af Harvey S. Firestone og tekið í notkun 1948) en auk þess er veglegt bókasafn í listasafni háskólans. Skólinn var stofnaður undir heitinu "College of New Jersey" árið 1746 en nú er annar skóli rekinn undir heitinu College of New Jersey. Upphaflega var skólinn í bænum Elizabeth í New Jersey. Árið 1756 var skólinn fluttur til Princeton og nafni skólans var formlega breytt í „Princeton University“ árið 1896. Enda þótt skólinn hafi í upphafi verið rekinn sem skóli á kristnum grundvelli, með „Presbyterian“ viðhorf, er háskólinn ekki lengur kristinn háskóli og gerir engar trúarlegar kröfur til nemenda sinna. Princeton University er einn af átta skólum sem kenndir eru við „bergfléttudeildina“ eða Ivy League. Í skólanum eru á fimmta þúsund grunnnemar og um tvö þúsund framhaldsnemar. Starfsmenn skólans er rúmlega ellefu hundruð talsins. Núverandi forseti háskólans er Shirley Tilghman. Saga skólans. Princeton University var stofnaður af hópi kristinna manna og var í fyrstu ætlað að mennta presta. Skólinn tók til starfa í Elizabeth í New Jersey undir heitinu College of New Jersey og Jonathan Dickinson var fyrsti forseti skólans. (Lagt var til að skólinn yrði nefndur eftir ríkisstjóranum, Jonathan Belcher, en því var hafnað.) Annar forseti skólans var faðir Aaron Burr; sá þriðji var Jonathan Edwards. Árið 1756 var skólinn færður til Princeton, New Jersey. Frá þeim tíma er skólinn flutti til Princeton árið 1756 og þar til Stanhope Hall var byggt árið 1803 var Nassau Hall, nefnt eftir Vilhjálmi III af Englandi sem kominn var af Orange-Nassau ættinni (eða Oranje-Nassau á hollensku), eina bygging skólans. Meðan á sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna stóð var bærinn Princeton hertekinn af báðum aðilum og byggingar skólans urðu fyrir miklum skemmdum. George Washington, hershöfðingi, og hans menn unnu sigur í orrustunni um Princeton, sem var háð á engi skammt frá í janúar árið 1777. Tveir af heldri borgurum Princeton skrifuðu undir sjálfstæðisyfirlýsinguna og um sumarið 1783 kom meginlandsþingið saman í Nassau Hall en þar með varð Princeton í reynd að höfuðborg Bandaríkjanna í fjóra mánuði. Nassau Hall, sem var illa leikið af fallbyssukúlum og eldum, var endurbyggt af Joseph Henry Latrobe, John Notman og John Witherspoon en nú hefur húsið verið endurbyggt verulega og stækkað frá upphaflegri hönnun Roberts Smith. Í gegnum tíðina hefur hlutverk þess breyst frá því að vera alhliða skólahúsnæði, með skrifstofum, heimavist, bókasafni, og skólastofum, í það að hýsa einungis skólastofur en nú er þar stjórnsetur háskólans. Guðfræðideildin (Princeton Theological Seminary) skildi við háskólann árið 1812 vegna deilna um námsefni í guðfræði. Með þessu fækkaði nemendum og stuðningi við skólann um hríð. Segja má að háskólinn hafi verið lítt kunnur þegar James McCosh, forseti, tók við völdum árið 1868. Þá tvo áratugi sem hann var við völd umturnaði hann námsskrá skólans, lét auka mjög rannsóknir í vísindum og byggja fjölda nýrra bygginga í gotneskum stíl sem síðan hefur einkennt háskólasvæðið allt. Árið 1896 var heiti skólans formlega breytt úr College of New Jersey í Princeton University til heiðurs bænum þar sem skólinn hefur aðsetur. Á sama ári stækkaði skólinn mjög og varð formlega að „rannsóknarháskóla“ (university). Undir forystu Woodrows Wilson (árið 1905) voru gerðar umbætur í kennslumálum og voru fyrirlestrar leystir af hólmi af persónulegri kennslu fárra nemenda með hverjum kennara í hverri grein. Var þetta mikil nýlunda. Árið 1930 var Institute for Advanced Study, sem ekki er tengt háskólanum, stofnuð í Princeton og varð fyrsta heimavistarrannsóknarstofnunin fyrir fræðimenn í Bandaríkjunum og var Albert Einstein skipaður meðal fyrstu prófessora hennar. Á 20. öld hafa fræðimenn, rannsóknarfólk og fyrirtæki streymt til Princeton frá öllum heimshornum. Árið 1969 hleypti Princeton-háskóli inn fyrsta kvenkyns grunnnemanum. Árið 1887 hafði háskólinn reyndar starfrækt systurskóla í bænum Princeton, á Evelyn og Nassau götum, og nefndist hann Evelyn College for Women en eftir um það bil áratug var hann lagður niður. Mörgum árum síðar ákvað stjórn skólans að hleypa inn konum og sneri sér að því að umbreyta starfsemi skólans og aðstöðu í „kvenvænlegan“ skóla. Stjórnin hafði vart lokið þessu í apríl 1969 þegar inntökudeildin þurfti að byrja að senda út inntökubréf. Til að fjármagna fimm ára langa áætlun skólans um þetta voru honum fengnar 7,8 milljónir bandaríkjadala til þess að þróa nýja aðstöðu sem átti á endanum að hýsa um 650 kvenkyns nemendur við Princeton um árið 1974. 148 stúlkur, þar af um 100 nýnemar auk skiptinema sem voru lengra komnir í námi, hófu nám við Princeton University 6. september 1969 og var fjölmiðlafár af þeim sökum. Princeton-háskóli hefur hýst ýmsa fræga fræðimenn, vísindamenn, rithöfunda og stjórnmálamenn, þ.á m. þrjá forseta Bandaríkjanna, Woodrow Wilson, Grover Cleveland og John F. Kennedy, sem varði haustönn fyrsta árs síns í háskóla við háskólann áður en hann yfirgaf skólann vegna veikinda; síðar hóf hann nám við Harvard University. Paul Robeson, skemmtikraftur og baráttumaður fyrir borgaralegum réttindum, ólst upp í Princeton og listamenn frá Ítalíu, Skotlandi og Írlandi hafa lagt að mörkum til byggingarsögu bæjarins. Arfleifð þessi, sem spannar alla sögu amerískrar byggingarlistar, er varðveitt í byggingum sem hannaðar voru af arkítektum á borð við Benjamin Latrobe, Ralph Adams Cram, McKim, Mead & White, Robert Venturi og Michael Graves. Um Princeton. Meðal „Ivy League“-skólanna er Princeton-háskóli almennt talinn einbeita sér mest að grunnnemunum. Princeton býður upp á tvær námsgráður í grunnnámi: B.A.-gráðuna (sem heitir A.B. gráða í Princeton) og B.S.-gráðuna í verkfræði (sem heitir B.S.E. gráða í Princeton). Námskeið í hugvísindum eru venjulega annaðhvort málstofur eða vikulegir fyrirlestrar auk umræðutíma, sem nefnast „precept“ (stytting á „preceptorial“). Til að brautskrást verða allir A.B. nemar að ljúka rannsóknarritgerð á síðasta ári og einu eða tveimur viðamiklum sjálfstæðum rannsóknarverkefnum, sem nefnast „junior papers“ eða „JPs“. Þeir verða einnig að fullnægja skilyrði um tveggja anna nám í erlendu máli og ákveðnum kröfum um dreifingu á einingum. B.S.E. nemar uppfylla aðrar kröfur með minni kröfum um dreifingu eininga en yfirleitt þó nokkrum námskeiðum innan raunvísindanna og minnst tveggja anna langt sjálfstætt rannsóknarverkefni. Princeton-háskóli býður upp á rannsóknatengt framhaldsnám (einkum doktorsnám til Ph.D.-gráðu) og telst vera í fremstu röð á mörgum sviðum, m.a. stærðfræði, eðlisfræði, hagfræði, sagnfræði, fornfræði og heimspeki. Aftur á móti hefur skólinn ekki umfangsmikla starfsþjálfun líkt og margir háskólar — til dæmis er engin læknadeild, hjúkrunarfræðideild, tannlæknadeild eða viðskiptafræðideild (skammlíf lagadeild lagði upp laupana árið 1852). Frægasti starfsþjálfunarskóli Princeton er Woodrow Wilson School of Public and International Affairs (betur þekktur innan veggja skólans sem „Woody Woo“), sem var stofnaður árið 1930 sem „School of Public and International Affairs“, en nafninu var breytt árið 1948. Skólinn býður einnig upp á starfsþjálfun á framhaldsstigi í verkfræði og arkitektúr. Bókasöfn háskólans hafa að geyma yfir 11 milljónir bóka og aðalbókasafn skólans, Firestone Library, hýsir yfir sex milljónir bóka og telst eitt stærsta háskólabókasafn veraldar (og er raunar stærsta bókasafn veraldar með „opinn aðgang að bókum“). Bókasafnið er hins vegar ekki opið almenningi. Auk Firestone hafa margar fræðigreinar eigin bókasöfn, þ.á m. arkitektúr, listasaga, Austur-Asíufræði, verkfræði, jarðfræði, alþjóðafræði og miðausturlandafræði. Efribekkingar í sumum deildum geta tekið frá lesborð á Firestone-safninu. Princeton University hefur einnig þriðju stærstu háskólakapellu veraldar, Princeton University Chapel. Kapellan, sem er vel kunn fyrir gotneskan stíl sinn, hýsir eitt stærsta og verðmætasta safn af steindu gleri í Bandaríkjunum. Skólasetning jafnt sem skólaslit fyrir brautskráða nemendur eru haldin í kapellunni. Whig Hall. Fyrir framan er Cannon Green. Háskólasvæðið, sem er á 2 km²; svæði, hefur margar byggingar í nýgotneskum stíl, flestar frá 19. öld og snemma á 20. öld. Skólinn er í um klukkustundarfjarlægð frá tveimur stórborgarsvæðum, New York-borg og Philadelphiu. Aðalstjórnsýslubygging skólans, Nassau Hall, var byggð árið 1756 og var þinghús Bandaríkjanna um skamma hríð árið 1783. Stanhope Hall (sem eitt sinn var bókasafn en er núna lögreglustöð háskólans og samskiptastöð) og East College og West College, hvort tveggja heimavist, fylgdu í kjölfarið. Þrátt fyrir að margar bygginganna sem voru síðar byggðar – einkum heimavistirnar á norðanverðu háskólasvæðinu – hafi verið byggðar í gotneskum stíl er háskólinn nokkurs konar suðupottur bandarískrar byggingarlistar. Grísk hof (Whig Hall og Clio Hall) standa við túnið sunnan við Nassau Hall leikhúsið Murray-Dodge Hall er vestan við túnið við gangveginn til bókasafnsins. Nútímabyggingar eru einkum á vestanverðu og sunnanverðu háskólasvæðinu, hverfi sem 14 hæða hár Fine Hall turn gnæfir yfir. Fine, sem er heimili stærðfræðideildarinnar, hannaður af Warner, Burns, Toan og Lunde og tekinn í notkun árið 1970, er hæsta bygging háskólans. Meðal nýlegra bygginga má nefna Frist Campus Center (sem bregður fyrir í sjónvarpsáttum um lækninn House). Höggmyndir prýða háskólasvæðið víða, m.a. verk eftir Henry Moore, Clement Meadmoore og Alexander Calder. Við enda háskólasvæðisins eru Delaware og Raritan skurðirnir frá því árið 1830 og Carnegie-vatn, sem er manngert stöðuvatn sem auðkýfingurinn Andrew Carnegie gaf skólanum undir kappróður. Princeton-háskóli er meðal auðugustu háskóla veraldar en fjárfestingar skólans nema rúmlega tíu milljörðum bandaríkjadala og er haldið uppi af gjöfum fyrrverandi nemenda og fjárfesta. Hluti af fjármunum skólans er fjárfestur í listasafni hans, þar sem eru m.a. verk eftir Claude Monet og Andy Warhol auk annarra kunnra listamanna. Princeton-háskóli er auðugastur „Ivy League“ skólanna miðað við fjölda nemenda. Fjárhagsstuðningur. Princeton Review útnefndi Princeton-háskóla einn þeirra skóla sem auðveldast væri að hafa efni á í Bandaríkjunum. Skólinn hefur nýtt auð sinn til að laða til sín nemendur með styrkjum og niðurfellingu gjalda og árið 2001 hætti skólinn að veita námslán en veitir öllum nemendum styrk í staðinn sem uppfylla skilyrði fyrir slíkt. Þetta skref, sem á sér enga hliðstæðu, fylgdi í kjölfarið á því að byrjað var að efla fjárhagsaðstoð skólans upp úr 1998. Í því fólst meðal annars að: hleypa inn erlendum nemendum óháð fjárhagslegri þörf, rétt eins og bandarískum nemendum; að hætta að taka til greina verðmæti heimilis í útreikningum á því hversu mikið ætlast er til að foreldrar borgi til skólans; draga úr ætluðu framlagi frá nemandanum sjálfum; og draga úr kröfum um að tekjuminni nemendur vinni með námi eða vinni á sumrin. Bæði Princeton Review og US News geta þess að Princeton hafi fæsta skuldsetta brautskráða nemendur. Þar sem nemendur taka ef til vill lán eftir sem áður til að standa straum af ýmsum kostnaði gera skólayfirvöld ráð fyrir að nemendur brautskráist að meðaltali með skuldir upp á 2360 dali. Meðaltal á landsvísu í Bandaríkjunum er um 20.000 dalir. Um 60% þeirra sem munu brautskrást 2009 njóta einhvers konar fjárhagsaðstoðar. Grunnnám. Grunnnemar skólans samþykkja að fylgja reglu um heiðarleg vinnubrögð sem nefnist „honor code“. Nemar skrifa undir öll próf sem þeir taka í skólanum með orðunum „I pledge my honor that I have not violated the Honor Code on this examination“ eða „ég heiti og legg að veði heiður minn að ég hafi ekki brotið gegn reglunni um heiðarleg vinnubrögð á þessu prófi“. Einnig er gerð sú krafa til nemenda að þeir greini nefnd sem rekin er af nemendum sjálfum frá öllum grunsemdum um svindl. Vegna þessa kerfis þreyta nemendur oftar en ekki próf án yfirsetu kennara eða annarra starfsmanna skólans. Það er litið alvarlegum augum reynist nemandi sekur um óheiðarleg vinnubrögð og hlýtur hann þunga refsingu, stundum rekinn frá námi. Hvers kyns æfingar utan námskeiða eru utan umdæmis nefndarinnar en oft er þó ætlast til að nemendur skrifi undir og heiti heiðarlegum vinnubrögðum t.d. að þeir hafi ekki gerst sekir um ritstuld („This paper represents my own work in accordance with University regulations“ eða „ritgerð þessi er mitt eigið verk í samræmi við reglur háskólans“). Flestir nemendur búa á háskólasvæðinu á heimavistum. Nýnemar og annars árs nemar búa allir á heimavistum, en þriðja og fjórða árs nemar eiga þess kost að búa utan háskólasvæðisins. Fáir velja að gera það vegna þess að leigukostnaður í bænum Princeton er nokkuð hár. (Margir sem búa utan háskólasvæðisins bjuggu í bænum áður en þeir hófu nám í skólanum.) Félagslíf grunnnema á sér að miklu leyti stað í svonefndum „átklúbbum“ sem efribekkingar eiga kost á að gerast félagar í og gegna að ýmsu leyti svipuðu hlutverki og bræðra- og systrafélög á öðrum háskólasvæðum. Samkeppnin um inntöku í skólann er gríðarlega mikil og samkvæmt tímaritinu Atlantic Monthly er samkeppnin næstmest allra háskóla í Bandaríkjunum á eftir MIT. Um 10% umsækjenda fá inntöku í skólann. Samkvæmt inntökustefnu skólans eru ákvarðanir teknar um umsóknir óháð efnahag nemenda. Einungis er valið eftir verðleikum nemenda burtséð frá því hvort þeir geta staðið straum af skólagjöldunum eða ekki. Ólíkt öðrum háskólum sem gera ráð fyrir að nemendur taki lán til að standa straum af skólagjöldunum borgar Princeton University einfaldlega með þeim nemendum sem hafa ekki efni á skólavistinni. Princeton University var fyrsti háskólinn til þess að taka upp slíka „námslánalausa” stefnu árið 2001. Þrátt fyrir þessa stefnu eru nemendur skólans oft taldir íhaldssamari og hefðbundnari en nemendur margra annarra skóla. Svo virðist sem skólayfirvöld telji orðsporið til vandræða og Princeton haldið uppi strangri stefnu um margbreytileika meðal nemenda. Árið 1869 keppti Princeton University við Rutgers háskóla í fyrsta ruðningsleiknum milli háskóla og tapaði með 4 mörkum gegn 6. Metingur skólans við Yale, sem hefur verið í gangi síðan 1873, er næstelstur í amerískum ruðningi. Á undanförnum árum hefur Princeton staðið sig vel í körfuknattleik karla, lacrosse karla og kvenna og róðri bæði karla og kvenna. Princeton á einnig eitt besta ræðulið bandaríkjanna, American Whig-Cliosophic Society, sem er meðlimur í American Parliamentary Debating Association og hefur haldið heimsmeistarakeppni í kappræðum háskólaliða. Heimavistir. Walker, 1903 og Cuyler Hall Heimavistir grunnema eru heimili nýnema, annars árs nema og nokkurra þriðja og fjórða árs nema. Hver heimavist hefur auk íbúða nemenda matsal, lesherbergi, bókasöfn, myrkraherbergi og ýmis önnur þægindi. Heimavistir Princeton-háskóla eru sem stendur fimm talsins en auk þess er ein til viðbótar í byggingu. Rockefeller College og Mathey College á norðvesturhluta háskólasvæðisins; gotnesk stíll bygginganna prýðir gjarnan bæklinga frá skólanum. Wilson College og Butler College, á sunnanverðu háskólasvæðinu, eru nýrri byggingar, sérstaklega byggðar til þess að vera heimavistir. Forbes College, sem er suðvestan við suðvesturhorn háskólasvæðisins, var áður hótel, sem háskólinn keypti og stækkaði til þess að hýsa grunnnema. Princeton hóf byggingu sjöttu heimavistarinnar, sem heitir Whitman College í höfuðið á styrktaraðilanum, Meg Whitman, stjórnarformans eBay, seint árið 2003. Hin nýja heimavist verður byggð í nýgotneskum byggingarstíl og er hönnuð af Demetri Porphyrios. Cleveland Tower á Old Graduate College. Princeton hefur eina heimavist fyrir framhaldsnema, sem heitir Graduate College og er rétt handan við Forbes College við útjaðar háskólasvæðisins. Staðsetning heimavistarinnar var niðurstaða deilu milli Woodrows Wilson og Andrew Fleming West sem var þá rektor framhaldsskólans. Wilson vildi fremur að heimavistin væri á miðju háskólasvæðinu en West vildi að framhaldsnemar byggju fjarri skarkala grunnnemanna. West hafði betur. Stór bygging í gotenskum stíl er meginbygging Graduate College. Cleveland Tower prýðir bygginguna. Nýbyggingarnar New Graduate College hýsa fleiri nemendur. Þessar nýrri byggingar eru ekki í sama gotneska stíl og upphaflega heimavistin og minna helst á Butler College, yngstu heimavist grunnnemanna að Whitman College undanskilinni. Heimavistirnar eru þó annað og meira en íbúðarhúsnæði og matsalir því á hverri heimavist myndast gjarnan sterk vinabönd milli þeirra sem þar búa og ýmsar uppákomur eru haldnar fyrir íbúa hverrar heimavistar, t.d. gestafyrirlesarar (svo sem Edward Norton, sem hélt sérstaka forsýningu á Fight Club á háskólasvæðinu), og ýmsar ferðir. Gjarnan er farið á leiksýningar til New York borgar. Ferðir á ballett sýningar eru ætíð vinsælar líkt og óperuferðir og leiksýningar á Broadway. Íþróttir. Princeton er gjarnan meðal fremstu íþróttaliða Ivy League skólanna. Princeton Review sagði skólann 10da mesta íþróttaskóla Bandaríkjanna. Time Magazine telur skólann einnig meðal meðal sterkustu skólanna í háskólaíþróttum. Sports Illustrated hefur einnig talið Princeton University meðal þeirra tíu sterkustu í háskólaíþtóttum. Lacrosse lið skólans, bæði karla- og kvennaliðið, hafa unnið marga NCAA titla á undanförnum árum. Körfuknattleikslið Princeton er ef til vill þekktasta liðið í Ivy League deildinni. 6. nóvember 1869 lék lið Princeton fyrsta háskólaleikinn í amerískum ruðningi gegn liði Rutgers á heimavelli þeirra síðarnefndu. Í dag leika liðin ekki í sömu deild en skólarnir etja þó kappi í flestum öðrum íþróttgreinum. Nassau Hall. Nassau Hall er elsta bygging skólans. Nassau Hall er megin stjórnsýslubygging háskólans. Byggingin, sem er nefnd eftir Vilhjálmi III af Englandi sem komin var af Orange-Nassau ættinni (eða Oranje-Nassau á hollensku), er elsta bygging skólans. Cannon Green. Cannon Green er sunnan við aðaltún skólans. Í miðjunni er grafin í jörðu fallbyssa, sem stendur upp úr jörðinni og er venjulega máluð appelsínugul ár hvert. Önnur fallbyssa er grafin fyrir framan Whig Hall. Báðar fallbyssurnar voru grafnar í jörðu til að forða þeim frá því að vera stolnar af nemendum nærliggjandi skóla. Í óskarsverðlauna myndinni A Beautiful Mind gerist eitt atriði á Cannon Green. John Nash leikur leik við keppinaut sinn í skólanum í miðjum garðinum. McCarter Theater. McCarter Theater er mörgum kunnugt sem eitt af bestu leikhúsum landsins. Listasafn Princeton University. Listasafn Princeton University er eitt besta háskólalistasafn í Bandaríkjunum. Stefna listasafnsins var í upphafi að veita nemendum beinan aðgang að listaverkum til þess að auðga anda þeirra og veita innblástur. Gestir safnsins eru þó mun fleiri en einungis nemendur og starfsfólk skólans, enda telst safnið í hópi betri safna í New Jersey. Listaverkin eru um 60.000 talsins og eru allt frá fornminjum til nútímalistaverka, einkum frá svæðum við Miðjarðarhafið, Vestur-Evrópu, Kína, Bandaríkjunum, og Suður Ameríku. Listasafnið á safn af grískum og rómverskum fornminjum, meðal annars leirmuni, marmarastyttur, bronsstyttur og rómverskar mósaíkmyndir frá uppgreftri skólans í Antíokkíu. Frá evrópskum miðöldum eru höggmyndir, munir úr málmum, og gleri. Á meðal málverkanna frá Vestur Evrópu eru mikilvæg verk frá endurreisnartímanum til nítjándu aldar, og verkum frá 20. öld og samtímanum fer fjölgandi. Kínverskir listmunir eru mikilvægur liður í safninu. Þá á safnið merka muni frá menningu Mayanna í Suður Ameríku. Princeton í skáldskap. Í kvikmyndinni Batman Begins kemur fram að Bruce Wayne var nemandi í Princeton, enda þótt hann hafi kosið að klára ekki námið eftir að hann hafði snúið aftur heim (það er fullt starf að vera leðurblökumaðurinn). Kvikmyndin A Beautiful Mind frá 2001 gerist í Princeton University og í henni eru góðar myndir frá háskólasvæðinu. (Kvikmyndin var byggð á ævisögu Johns Nash sem var prófessor við Princeton.) Kvikmyndin I.Q., með Meg Ryan og Tim Robbins í aðalhlutverkum og Walter Matthau sem Albert Einstein gerist í Princeton. Atriði þar sem persóna Tims Robbins heldur fyrirlestur er tekið upp í herbergi 302 í Frist Campus Center. Bókin "Belladonnaskjalið", auk nokkurra ráðgátubóka eftir Ann Waldron, m.a. "The Princeton Murders", "Death of a Princeton President" og "Unholy Death in Princeton" gerast á háskólavæði Princeton University og Princeton Theological Seminary. Sjónvarpsátturinn House M.D. notar loftmyndir af háskólasvæðinu til að gefa mynd af hinum skáldaða spítala Princeton-Plainsboro Teaching Hospital. Frist Campus Center er byggingin, sem er notuð í þáttunum til að sýna ytra útlit sjúkrahússins. Sondra Huxtable í The Cosby Show féll út úr Princeton. Rafgas. Rafgas eða plasmi er algengasti efnishamur alheims, sem samanstendur úr orkumiklum hlöðnum ögnum. Rafgas er almennt kallað „fjórði efnishamurinn“ ásamt hinum þremur, sem eru þéttefni, vökvi eða gas. Sólstjörnur eru að mestu úr rafgasi, en rafgas er sjaldséð á jörðu, a.m.k. í lengri tíma, því mjög sérstakar aðstæður þarf til að það myndist, en elding er dæmi um rafgas á jörðinni. V for Vendetta. V for Vendetta er myndasögu ritröð sem var skrifuð af Alan Moore frá 1982 til 1985 og teiknuð að mestu af David Lloyd. Sagan fjallar um dystópíu framtíð í Bretlandi þar sem dularfullur stjórnleysingi berandi Guy Fawkes-grímu vinnur að því að koma fasískri stjórn landsins frá og hefur mikil áhrif á fólkið sem hann kynnist. Sagan var kvikmynduð 2005 og bar sama heiti. Lúxemborgíska. Lúxemborgíska (lúxemborgíska: "Lëtzebuergesch", franska: "Luxembourgeois", þýska: "Luxemburgisch"), er vesturgermanskt tungumál sem talað er í Stórhertogadæminu Lúxemborg. Málið varð opinbert í landinu árið 1984, auk frönsku og þýsku. Um 300.000 manns eiga lúxemborgísku að móðurmáli, en um 500.000 manns búa í Lúxemborg. Flygill. Flygill er sú gerð píanóa, sem oftast er notuð á tónleikum, og er hönnuð þannig að rammi og strengir séu láréttir, fremur en lóðréttir eins og í stofupíanóum. Strengir flygla eru lengri en í öðrum píanóum og veldur þetta meiri tónstyrk, sem hentar vel fyrir stóra sali. Vegna umfangs síns eru flyglar af fullri stærð ekki eins algengir í heimahúsum og hin uppréttu stofupíanó, en til eru styttri flyglar hannaðir með takmarkað pláss í huga. Nokkrir af frægustu framleiðendum flygla eru Steinway & Sons, Bösendorfer, Yamaha og Kawaii. Straumur-Burðarás. Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. (Straumur) (OMX:) er íslenskur fjárfestingarbanki, sem varð til við samruna fyrirtækjanna Burðaráss og Straums. Nú teygir Straumur anga sína til tíu landa, sem innihalda meðal annars Bretland, Danmörku, Svíþjóð, Finnland og Tékkland og er sjötta stærsta fyrirtækið í íslensku Kauphöllinni. Saga. Árið 1914 var Eimskipafélag Íslands stofnað. Félagið sá um skiparekstur milli Íslands og útlanda. Árið 1989 var Burðarás stofnað og sá um fjárfestingar Eimskipafélagsins í öðrum rekstri. Þremur árum síðar var Eimskipafélaginu skipt upp í þrjár sjálfstæðar einingar, eina til að sjá um fiskveiðimál, aðra til að sjá um flutninga, bæði á sjó og landi en sú þriðja átti að sjá um fjárfestingar. Þannig varð Burðarás að dótturfélagi Eimskipa. Árið 2002 eignaðist Landsbanki Íslands meirihluta í Eimskipum. Breytingar urðu þá á félaginu. Fyrst var útgerðin, sem bættist við Eimskipafélagið árið 1999 við yfirtöku á nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum, seld frá félaginu. Burðarás var síðan gert að móðurfélagi. Að lokum var skipareksturinn seldur frá Burðarási árið 2005. Fjárfestingarfélagið Straumur var stofnað árið 2001 upp úr Hlutabréfasjóðnum og VÍB. Straumur keypti í framhaldi af því Brú fjárfestingar og fjárfestingabankann Framtak og fékk fjárfestingabankaleyfi árið 2004. Í ágúst 2005 var ákveðið í framhaldi af stjórnarfundum Burðaráss, Straums, Eimskipafélags Íslands og Landsbanka Íslands að sameina Straum og Burðarás. Úr þessu varð stofnun Straums-Burðaráss í október 2005, stærsta fjárfestingarbanka á Íslandi. Höfuðstöðvar Straums eru í Borgartúni 25, Reykjavík. Fjármálaeftirlitið beitti neyðarlögunum á Straum Burðarás þann 9.Mars 2009 til að bjarga tugmilljarða innistæðum sem Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir áttu í bankanum og yfirtók rekstur hans, vegna þessa féllu hlutabréf í félaginu niður um 98,83% þann sama dag í Kauphöll Íslands. Línueyjar. Kort af Kíribatí þar sem Línueyjar eru hægra megin merktar sem "Line Islands" Línueyjar eru röð af baugeyjum í miðju Kyrrahafi, sunnan við Hawaii. Þær skiptast í Norður-Línueyjar norðan við miðbaug, og Suður-Línueyjar, sunnan við miðbaug. Flestar norðureyjarnar eru hluti af Kíribatí, þar á meðal Jólaeyja, Fanningeyja og Washingtoneyja, en óbyggðu eyjarnar Palmýraeyja og Kingmanrif eru undir yfirráðum Bandaríkjanna. Suðureyjarnar eru allar óbyggðar. Þær sem heyra undir Kíribatí eru Maldeneyja, Starbuckeyja, Flinteyja, Vostokeyja og Karólínueyja en Bandaríkjunum tilheyrir aðeins Jarviseyja. Big Boss. Big Boss er tölvuleikjapersóna úr Metal Gear-seríunum. Í Metal Gear var hann yfirmaður sérsveitarinnar FOXHOUND, og sendi hann Solid Snake til þess að fara í Outer Heaven og eyðileggja Metal Gear. En þegar Snake lauk verkefninu komst hann að því að Big Boss stóð á bak við þetta og sigraði hann í bardaga, en Big Boss dó ekki. Hann kom aftur í Metal Gear 2 og Snake drap hann þar. Fyrri ár. Big Boss (undir nafninu Jack) hóf feril sinn þegar hann kynntist The Boss, lærimeistara sínum, sem kenndi honum bardagatækni, þ.á m. bardaga í návígi. Eftir það var hann í sérsveitum bandaríska hersins (Green Berets) og gékk síðan til liðs við leyniþjónustu Bandaríkjanna. Þar kynntist hann fyrrum SAS-meðlimnum Zero sem stofnaði sérsveit innan leyniþjónustunnar sem hét FOX. Virtuous Mission. Big Boss átti að framkvæma fyrsta verkefnið fyrir FOX 1964, sem var laumuverkefni, undir dulnafninu Naked Snake. Hann átti laumast í gegnum sovéska frumskóga og bjarga rússneskum vísindamanni að nafni Sokolov, sem var neyddur að búa til kjarnorkuvopn handa Krústjoff. Í miðju verkefni mætti hann GRU majór að nafni Ocelot en hann sigraði hann léttilega. Þegar hann hafði komið Sokolov í burtu mætti hann The Boss, sem hafði gengið í lið með óvinum Krústjoffs sem ætluðu að nota vopn Sokolovs gegn Krústjoff. The Boss sigraði Snake (Big Boss) og náði Sokolov. Snákaátsaðgerðin ("Operation Snake Eater"). Big Boss var sendur aftur viku seinna til þess að klára verkefnið sitt: bjarga Sokolov; eyðileggja kjarnorkuvopnið, ásamt nýjum fyrirmælum: að drepa Volgin, yfirforingi óvina Krústjoffs, og The Boss. Hann mætti Ocelot nokkrum sinnum. Big Boss tókst að klára verkefnið en hlaut varanleg meiðls: hann misst hægra augað og varð sorgbitinn við að drepa The Boss. Eftir það fékk titilinn Big Boss af Johnson forseta en gat aldrei fyrirgefið sjálfum sér fyrir að drepa The Boss. Sköpun FOXHOUND. 1970 réðst FOX-sérsveitin gegn Bandaríkjastjórn. Zero majór var handtekinn af Bandaríkjaher og Big Boss var fangaður af FOX. Big Boss hittir í fangelsinu ungan mann að nafni Roy Campbell. Saman sleppa þeir og komast að áætlunum FOX. Þeir sjá líka að þeir geta ekki stöðvað FOX sjálfir og verða því að fá óvinahermenn að vinna saman með sér og saman stofna Campbell og Big Boss sérsveitina FOXHOUND. Les Enfants Terribles-verkefnið. 1972 var ákveðið að prófa nýja einræktunaraðferð til þess að skapa hinn fullkomna hermann. Það var valið mesta stríðsmann 20. aldarinnar: Big Boss. Big Boss var í dái vegna meiðsla úr orrustu. Það var frjóvgað egg þannig að átta fóstur urðu til en sex þeirra var eytt. Og eftir stóðu tveir klónar sem voru ekki með sömu eiginleikana vegna þess að vísindamennirnir vildu athuga hvernig hver eiginleiki Big Boss mundi hafa áhrif á þá. Einn var með yfirmennskugen Big Boss, á meðan hinn var með svokölluðu veiku genin, hermennsku genin. En það var ekki nóg, því þeir bjuggu til annað klón sem hafði bæði veik- og yfirmennskugen. Klónunum þremur var síðan skipt í sundur og voru aldir upp á mismunandi stöðum, s.s.: Bandaríkjunum og Englandi. Á fullorðinsaldri áttu þeir að hljóta dulkóða Big Boss og mundu þeir þá heita Liquid Snake, Solid Snake og Solidus Snake. Outer Heaven. 1995 fóru af stað hræringar í áður óþekktu Suður-Afríkuríki sem kallaði sig Outer Heaven. Þeir voru vel vopnaðir og ætluðu sér að nýta nýtt kjarnorkutæki sem kallaðist Metal Gear til ná heimsyfirráðum. Vesturveldin heimtuðu að Big Boss sendi Gray Fox til sjá um málið. Big Boss sendi Gray Fox til Outer Heaven en hann náðist var tekinn til fanga. Þá heimtuðu vesturveldin að Big Boss sendi nýjan mann. Og hann sendi nýliðan Solid Snake. Áætlun Big Boss var að Snake mundi mistakast en svo fór ekki. Snake eyðilagði Metal Gear og sigraði Big Boss. Zanzibar. Big Boss dó ekki heldur fór hann í felur til að hefja uppreisn Asíuríkisins Zanzibar sem var styrkt af málaliðum. Rússar reyndu að senda heri sína gegn þeim en málaliðarnir sigruðu. Þessi tími kallaðist „Málaliðastríðið“. Seinna tekur við olíukreppa 1999 og maðurinn sem fann upp OILIX, lausnina á henni, var rænt og tekinn til Zanzibar. Yfirvöld fengu yfirmann FOX-HOUND, Roy Campbell ofursta, til að senda Solid Snake til Zanzibar. Og í ljós kom að Gray Fox og Big Boss ætluðu að nýta OILIX til þess að veita Zanzibarlandi hernaðaryfirráð og það gerðu þeir einnig með nýjum Metal Gear. Gray Fox stýrði honum en Snake sigraði hann og Big Boss. Ástæður Big Boss. Í tölvuleiknum Metal Gear Solid 3: Snake Eater, sem fjallar um sögu Big Boss 1964, var sýnt að Big Boss snéri gegn Bandríkjunum út af því að hann þurfti að drepa The Boss. Sagt er að hann hafi viljað að nota Outer Heaven og Zanzibar til þess að búa til hinn fullkomna heim hermanna: Stríð úti um allan heim þar sem hermanna yrði minnst sem hermanna en ekki peða. Ekki er vitað hvernig Big Boss fjármagnað virkin tvö. Sumir telja að hann hafi notað Arfleið „Heimspekinganna“ en sumir telja það hafi verið byggt á mútum. Í Metal Gear Solid 3 fær maður samúð með Big Boss og sér hlutina frá hans sjónarhorni. En hann hefnir sín á mjög ófyrirsjánlegan hátt. Næstu leikir. Í Metal Gear 2: Solid Snake drap Solid Snake Big Boss og í „hliðarleiknum“ Metal Gear 2: Snake's Revenge er Big Boss vélvera. Í Metal Gear Solid er sagt að lík hans sé geymt frosið og hryðjuverkamennirnir ætla sér að nota erfðaefni Big Boss í að gera sig sterkari. Í Metal Gear Solid 2: Sons of Liberty er bara talað um hann. Þótt Solidus sé með sama útlit og Big Boss, þá er hann það ekki. Á forsíðumynd Metal Gear Solid 4: Guns of the Patriots sést Big Boss, þannig að hann er líklegur til að koma fram í þeim leik og er hugsanlega ekki dáinn, eða kannski kemur hann fram sem vélvera. En þetta eru allt pælingar sem maður getur velt fyrir sér fram og til baka. Skúfönd. Skúfönd (fræðiheiti: "Aythya fuligula") er fremur lítil önd sem er algeng um alla Evrasíu og Norður-Ameríku. Skúfendur eru farfuglar að mestu. Þær verpa 7-12 eggjum yfirleitt í dreifðum byggðum innanum aðra fugla í mýrum og við gróin stöðuvötn. Þeir kafa allt að sex metra eftir æti, sem er skelfiskur, vatnaskordýr, litlir krabbar og jurtir. Skúfendur gera sér hreiður í sefi eða kjarri þar sem það er vel falið. Varpið byrjar í júní og kollan liggur ein á eggjunum þar til þau klekjast út eftir um fjórar vikur. Útlit. Skúfendur eru fremur litlar endur með langan háls. Bæði kyn eru með fjaðraskúf á hausnum sem yfirleitt hangir niður eftir hnakkanum. Goggurinn er stuttur og breiður og blágrár á lit. Karlkyns skúfendur eru svartar með hvítan kvið og undir vængjunum. Kvenfuglar eru brúnleitir, en dekkri á haus, háls og bak. Þær eru líka hvítar undir vængjunum. Augu ungfugla eru brún en heiðgul á fullorðnum fuglum. Skúfendur eru 40-47 cm á lengd og vænghafið er 65-72 cm. Þær verða um 700 grömm að þyngd. Á Íslandi. Elstu heimildir um skúfönd á Íslandi eru frá lokum 19. aldar en hún er fremur algeng sjón, t.d. við Tjörnina í Reykjavík. Þær skúfendur sem sjást hér hafa komið frá Bretlandseyjum þar sem þær halda sig á veturna. Veiðar á skúfönd eru leyfðar á Íslandi frá 1. september til 15. mars. Meðalveiði síðustu ár er rúmlega 200 fuglar á ári. Andaætt. Andaætt (fræðiheiti: "Anatidae") er ætt fugla sem inniheldur endur, gæsir og álftir. Fuglar af þessari ætt fljóta á vatni, synda með sundfitum og sumir þeirra kafa eftir æti. Þeir eru með sundfit og misflatan gogg. Fjaðrir þeirra hrinda frá sér vatni vegna sérstakrar fitu. Andafiður, æðardúnn og gæsadúnn hefur lengi verið notað í sængur og kodda. Margir fuglar af þessari ætt eru líka vinsælir matfuglar og sumir eru ræktaðir sem húsdýr í þessum tilgangi. Þessir fuglar eru líka kallaðir vatnafuglar þar sem þeir lifa við vötn eða votlendi. Þeir hafa sundfit milli tánna og goggur margra er flatur með þyrnistönnum sem auðveldar þeim að sía fæði úr vatni. Karlfuglinn er ávalt stærri og yfirleitt skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars. þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Nýjar flugfjaðrir eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum á þessum tíma. Felubúningur er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi eftir að þeir verða fleygir að nýju. Endur], gæsir og álftir eru mjög áberandi fuglar. Þeir teljast allir til andaættar ásamt nokkrum skyldum fuglum. Andaættin er sú ætt fugla á Íslandi sem telur flestar tegundir. Flokka má andættina í buslendur, kafendur og fiskiendur. Þegar buslendur leita sér ætis undir yfirborði vatns, fer haus, háls og hálfur búkurinn á kaf en stélið stendur beint upp í loftið. Kafendur fara alltaf á kaf við fæðuöflun og synda undir yfirborðinu í stað þess að vera með stélið upp í loftið. Líkamsbyggingin er líka nokkuð frábrugðin, meðal annars er yfirborð sundfitjanna stærra og tærnar hlutfallslega lengri miðað við líkamsstærð. Fætur kafanda eru aftar á líkamanum en hjá buslöndum og eru þær því uppréttar þegar þær ganga. Ólíkt buslöndum kemur helsta fæða kafanda úr dýraríkinu, smáir fiskar og seiði. Fiskiendur er endur sem hafa sérhæft sig í að kafa eftir fiski og krabbadýrum. Oftast kafa þær niður á talsvert dýpi, meira en 1 metir, til að ná bráðinni. Hægt er að sjá margar tegundir fugla af andaætt við Tjörnina í Reykjavík. Tungufljót (Árnessýslu). Tungufljót er lindá í Biskupstungum sem kemur ofan af Haukadalsheiði. Verður hún til úr mörgum litlum lindá en seinnipart sumars getur hún verið jökullituð af vatni úr Sandvatni. Á ánni eru þrjár brýr, sú elsta rétt fyrir ofan fossinn Faxa en hin yngri mun ofar, eða við bæinn Brú. Yfir hana fer vegurinn milli Geysis og Gullfoss. Nýjasta brúin var opnuð 1991 er rétt ofan við Reykholt í landi Fells og Króks. Hún stytti vegalendir fyrir Bræðratunguhverfið í næsta þéttbýliskjarna, Reykholt, um 17 kílómetra. Í framhaldi af nýjustu Tungufljótsbrúnni er verið að byggja brú yfir Hvítá yfir í Hrunamannahrepp en því verki skal lokið haustið 2010. Tungufljót rennur í Hvítá fyrir neðan bæinn Bræðratungu. Tungufljót (Vestur-Skaftafellssýslu). Tungufljót er á á Skaftártunguafrétti sem á upptök sín í Svartahnúksfjöllum. Gljúfur Tungufljóts er djúpt og þröngt og sorfið í móbergsklappir. Þegar neðar kemur sameinast áin Ásavatni í svokölluðu Flögulóni. Við bætist einnig Hólmsá svo verður til Kúðafljót. Önd. Önd er almennt heiti á nokkrum tegundum fugla af andaætt ("Anatidae"), sem einnig inniheldur gæsir og svani. Flokkunarfræðilegri skiptingu anda í undirættir er betur lýst í greininni um andaætt. Endur eru vatnafuglar eða sjófuglar og eru minni en gæsir og svanir. Endur eru með breiðan flatan gogg sem hentar vel til að plægja botninn. Þær nýta sér fjölbreytt æti, svo sem vatnagróður, skordýr, fisk og skelfisk. Sumar geta kafað djúpt eftir æti (kafendur) en flestar láta sér nægja að stinga höfðinu ofan í vatnið (buslendur). Buslendur eru með sérstakar plötur sem liggja eftir goggnum innanverðum og virka eins og skíði hjá skíðishvölum. Þessar síur gera þeim kleift að sía vatn út um gogginn en halda fæðunni eftir. Kafendur eru þyngri en buslendur, sem gerir þeim kleift að kafa dýpra en gerir þeim jafnframt erfiðara fyrir að hefja sig til flugs. Einstaka tegundir (gulendur) hafa sérhæft sig í að veiða stærri fiska. Steggir eða blikar hjá norðlægum andategundum eru oft með skrautlegan fjaðraham sem þeir fella á sumrin og verða þá líkari kvenfuglunum. Margar andategundir verða tímabundið ófleygar meðan á fjaðrafelli stendur; þá leita þær uppi örugg svæði þar sem nægt æti er að finna. Fjaðrafellir er venjulega undanfari flutninga hjá farfuglum. Sumar andategundir, sérstaklega þær sem verpa á kaldari svæðum á norðurhveli Jarðar, eru farfuglar, en aðrar ekki. Sumar tegundir, sérstaklega í Ástralíu, þar sem regn er ótryggt, lifa flökkulífi og leita uppi tímabundin vötn og polla sem myndast við staðbundið regn. Karlendur eru kallaðar „steggur“ eða „bliki“ á íslensku, en kvenfuglar ýmist einfaldlega „önd“ eða „kolla“. Endur og menn. Á mörgum stöðum eru villiendur (þar með taldar ræktaðar endur sem er sleppt) veiddar af skotveiðimönnum. Endur eru ræktaðar (aliendur) fyrir kjöt, egg, dún og fiður. Þær eru líka ræktaðar sem skrautfuglar og haldnar á andatjörnum eða sýndar í dýragörðum. Allar tegundir alianda nema moskusönd eru afkomendur stokkandarinnar. Margar aliendur geta orðið miklu stærri en villtir frændur þeirra með 30 sm skrokklengd (frá hálsi að stéli) og geta hæglega gleypt norræna froskinn ("Rana temporaria"). Gerð er lifrarkæfa úr andalifur sem líkist gæsalifrarkæfu. Orðsifjafræði. Orðið „önd“ er komið af frumgermanska orðinu "*anuð-", "*anið-" og "*anað-" sem kom úr indóevrópsku rótinni "*anǝt-". Orðið er samstofna mörgum Evrópumálum; til dæmis færeyska orðinu "ont"; nýnorska, sænska og danska orðinu "and", miðlágþýska orðinu "ant", fornháþýska orðunum "anut", "anat" og "anit"; nýháþýska orðinu "ente", fornenska orðinu "ænid" og "enid". "eend" í hollensku, "anas" í latínu og "antas" í litháísku. Samanber latneska orðinu "anas" sem hefur eignarfallið "anatis"; forngríska orðin νησσα (nēssa) or νηττα (nētta). Enska orðið "duck" er komið af sögninni „to duck“, að beygja sig niður eða undir eitthvað (engilsaxneska: "*dūcan") samanber „að dúkka“. Starkaðsver. Starkaðsver heita gróðurlendur á Gnúpverjaafrétti fyrir innan Skúmstungur og Innri-Skúmstungnaá. Í verinu miðju er steinn einn stór þar sem þjóðsögur segja að Bárðdælingur nokkur að nafninu Starkaður hafi orðið úti. Hafi hann ætlað að hitta unnustu sína í Gnúpverjahreppi. Nótt eina þennan vetur dreymdi stúlkuna draum þar sem maðurinn vitjaði hennar og fór með vísubrot. Um Starkaðsver lá Sprengisandsleið hin forna. Stórkonugróf. Stórkonugróf (eða Tröllkonugróf) heitir gil austan við Búrfellsháls í Þjórsárdal. Við gilið fann Gísli Gestsson safnvörður leifar fornrar smiðju og rauðablásturs árið 1952. Þjóðsögur segja að í gilinu hafið búað tröllkona í fornöld. Þórunnarkelda. Þórunnarkelda kallast laut ein fyrir innan Minna-Núp í Gnúpverjahreppi. Segir þjóðsaga frá vinnukonu nokkurri í Stöng sem dreymdi fyrir dauða sínum ef hún myndi ekki flýta sér fram í sveit. Morgunin eftir biður hún húsbónda sinn að lána sér hest, því hún þurfi nauðsynlega að komast af bæ. Hann lær henni hest, sem venjulega var dauðstyggur, svo enginn gat handsamað hann. En nú stóð hann grafkyrr og Þórunni gat þeyst fram í sveit. Þegar hún kemur fram undir Minna-Núp hnýtur hestur hennar í laut einni og verður henni litið tilbaka. Sér hún þá hver Þjórsárdalur stendur i ljósum logum. Líklega hefur hér verið um Heklugos að ræða. Erfðir (forritun). Í hlutbundinni forritun eru erfðir notaðar til þess að láta nýskilgreinda klasa erfa eiginleika frá öðrum klösum sem hafa verið skilgreindir. Klasar sem erfa frá öðrum klösum eru kallaðir "afleiddir" klasar og taka yfir eða erfa eiginleika og hegðun annars klasa sem yfirleitt er kallaður grunnklasi. Erfðir eru notaðar í öllum helstu forritunarmálum samtímans, þær eru ómissandi hluti af hlutbundinni forritun. Þegar einn klasi erfir annan þá er hægt að nota allar skilgreindar aðferðir í arfleidda klasanum í notkun klasans. Erfðir eru oft kallaðar alhæfing (e. generalization), því til verður samband á milli klasanna sem kallað er "is-a" á ensku. Sem dæmi, „epli“ og „appelsína“ eru hvort tveggja „ávöxtur“. Við segjum að ávöxtur sé almennara hugtak sem nær yfir epli, appelsínu o.s.frv. Þannig getum við sagt, úr því að „epli er ávöxtur“, að epli erfi alla eiginleika sem eru sameiginlegir öllum ávöxtum. Þannig er „ávöxtur“ einnig „matvæli“, og þannig má fara fram og til baka. Fjölerfðir. Sum forritunarmál, til dæmis Perl, styðja fjölerfðir. Þar er hægt að búa til klasa sem erfa eiginleika frá mörgum grunnklösum. Þannig gæti klasi sem kallaðist „hundur“ verið afleiddur frá klösunum „spendýr“ og frá „gæludýr“. Búrfjöll. Búrfjöll eru fjallgarður úr móbergi sem liggur norðaustur af Langjökli á milli Hundavatna og Seyðisárdranga í nokkurs konar framhaldi af Þjófadalafjöllum, en milli þeirra er Djöflasandur. Hæsti tindur Búrfjalla er 966 metrar yfir sjávarmáli. Árið 1973 fórst í Búrfjöllum flugvélin "Vor" með öllum farþegum. Menntaskólinn Hraðbraut. Menntaskólinn Hraðbraut eða einfaldlega Hraðbraut er íslenskur framhaldsskóli sem tók til starfa árið 2003 en var formlega stofnsettur, en þó ekki starfræktur, árið 1996. Nafn skólans hlýst af því að hægt er að ljúka stúdentsprófi á tveimur skólaárum í stað fjögurra, en aldrei fyrr hefur gefist kostur á tveggja ára framhaldsskólanámi á Íslandi. Á þessum tveimur skólaárum skiptist námið upp í 15 lotur, þar af 7 lotur fyrra skólaárið og 8 lotur hið síðara, þar sem hver lota er 6 vikur (nema síðasta lotan sem er aðeins 2 vikur). Nemendur geta valið um náttúrufræðibraut og málabraut, en báðar brautirnar leggja umtalsverða áherslu á raunvísindi; svo sem stærðfræði og líffræði og er auk þess lögð sterk áhersla á enskukennslu. Saga. Menntaskólinn Hraðbraut er einkarekinn framhaldsskóli og var formlega stofnaður þann 1. ágúst 1996 en skólinn tók til starfa haustið 2003. Hann er lítill í samanburði við aðra íslenska framhaldsskóla, sem flestir hafa um 200-500 nemendur. Fyrstu nemendur skólans útskrifuðust með stúdentspróf árið 2005. Um skólann. Menntaskólinn Hraðbraut er til húsa að Faxafeni 10, í Reykjavík, í húsi Framtíðarinnar og nýtur góðra samgangna við allt höfuðborgarsvæðið. Skólagjöld nema um 200.000 kr. á ári og hann rúmar um 180 nemendur. Skólastjóri er Ólafur Haukur Johnson og aðstoðarskólastjóri er Jóhanna Magnúsdóttir. Skólastjórn er skipuð fjórum aðilum sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna nemenda, starfsmanna, foreldra og eigenda. Hlutverk skólastjórnar er að leggja áherslur í starfi skólans. Hún gerir árlega starfsáætlun fyrir skólann í samráði við skólastjóra. Skólastjórnin fylgist jafnframt með því að starfsáætluninni sé framfylgt og er þar að auki skólastjóra til aðstoðar við stjórnun skólans. Brottfall nemenda við Hraðbraut er hlutfallslega hærra en meðalbrottfall við aðra Íslenska menntaskóla sem er um 16,4%, en brottfall nemenda í Hraðbraut er um 17,6%. Skólinn er í eigu Hraðbrautar ehf. sem er í eigu skólastjóra og eiginkonu hans. Eignuðust þau 100% hlut í fyrirtækinu um áramótin 2008-2009 eftir að hafa keypt hlut Gagns ehf., Nýsis hf., og Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Áður áttu hjónin helmings hlut. Fyrirmynd. Fyrirmynd Menntaskólans Hraðbrautar er Sumarskólinn. Í Sumarskólanum hefur nemendum á framhaldsskólastigi boðist að taka áfanga sem fást viðurkenndir af þeirra framhaldsskóla í sumarfríi framhaldsskólanna til að flýta útskrift sinni. Fjöldi nemenda og skipting kynja. Að neðan er tafla sem sýnir nemendafjölda skólans frá upphafi og kynjahlutföll. Athygli vekur að konur hafa alltaf verið fleiri en karlar í Hraðbraut að undanskildu árinu 2007 þegar karlkyns nemendur voru einum fleiri. Námsskipulag. Skipulag náms við Menntaskólann Hraðbraut er með öðru móti en almennt gerist í skólum á framhaldskólastigi, þar sem hann sameinar skólakerfi sem hingað til hafa verið ráðandi; eða kosti bekkjarkerfis og áfangakerfis. Skólinn notast við bekkjarkerfi að því leyti að nemendur fylgja að mestu sama nemendahópnum frá upphafi skólaársins til enda, en hann notast við áfangakerfi að því leyti að námsárinu er skipt upp í lotur, og ljúka nemendur ákveðnum áföngum (oftast þremur) í hverri lotu, en á fyrsta árinu eru 7 lotur, og á því síðara eru 8. Fyrsta ár. Fyrsta árið er skólinn starfræktur frá miðjum ágúst og lýkur um miðjan júní, þar sem jólafríið hefst snemma í desember og lýkur í byrjun janúar. Á fyrra árinu eru teknar fyrir 7 lotur þar sem í hverri eru þrír áfangar kenndir. Annað ár. Annað árið er skólinn starfræktur frá miðjum ágúst til júní, þar sem jólafríið hefst snemma í desember og lýkur í byrjun janúar. Á síðara árinu eru teknar fyrir 8 lotur þar sem í hverri eru þrír áfangar kenndir, nema í síðustu lotunni þar sem aðeins tveir áfangar eru teknir fyrir. Loturnar. Námið í Hraðbraut samanstendur af 15 lotum þar sem hver lota er því sem næst sex vikur að lengd (samtals er allt námið um 90 vikur með 15 frívikum). Í hverri lotu eru þrír þriggja eininga áfangar kenndir í senn (nema í fimmtándu og síðustu lotu skólans þar sem kenndir eru tveir þriggja eininga áfangar), og að henni lokinni hefst næsta lota og þannig koll af kolli. Í hverri lotu er kennt í fjórar vikur og svo eru prófin þreytt í fimmtu vikunni. Að því loknu er hlé í eina viku (svo kölluð "frívika"), nema nemandi hafi ekki staðist próf, og þá þarf hann að taka próf úr námsgreinunum sem hann féll í, í sjöttu vikunni. Nemendur ljúka því 9 einingum í hverri lotu að frátalinni síðustu lotu þar sem þeir klára aðeins 6 einingar. Endurupptektarpróf. Ef nemandi fellur á upptektarprófi (þ.e.a.s. ef hann hefur fallið í sama fagi tvisvar) fær hann möguleika á að taka próf sem gildir hundrað prósent af einkunninni gegn gjaldi, eða endurupptektarpróf. Ef nemandi fellur líka í því prófi er hann fallinn í skólanum, þó mögulegt sé að semja um þetta við fulltrúa skóla. Stundaskrá. a> til lærdóms, ein vika til prófs og ein vika annað hvort til upptöku eða frís. Stundaskráin er þannig að kennt er þrjá daga í viku, þ.e. mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Þessa daga er kennt frá kl. 8:30 - 16:05. Hinsvegar er yfirseta á þriðjudögum og fimmtudögum þar sem yfirsetukennari situr yfir nemendum, sem þá læra á eigin spýtur. Setið er yfir nemendum hvern þessara daga frá kl. 8:30 - 16:05. Íþróttir. Annað atriði við námsskipulag sem er ólíkt öðrum skólum er íþróttakennsla við skólann, en gert er ráð fyrir því í námsskrá framhaldsskólanna að nemendur fái tilsögn í líkamsrækt allan námstímann en vegna þess að námið við skólann stendur aðeins 4 annir taka nemendur hans einungis fjóra áfanga í íþróttum. Verkleg íþróttakennsla skólans fer fram í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu, Glæsibæ. Bókasafn. Ekki er bókasafn við Hraðbraut, en skólinn hefur samning við Borgarbókasafn Reykjavíkur um aðgang nemenda. Kennslustofur. Í hverri stofu er þráðlaust net og prentari en kennslustofur skólans eru átta talsins, að meðtalinni einni raungreinastofu. Á veggjum allra skólastofa er texti; ljóð, brot eða úrtök úr sögum eða málsháttum, og var þetta sett upp við upphaf skólaársins 2006-2007. Raungreinastofan. Raungreinastofan er fjölnota stofa. Þar fer sjaldan fram kennsla nema við krufningar og tilraunir, en annars er hún notuð sem rannsóknarstofa; þar sem það eru nettengdar tölvur, sem nemendur geta nýtt sér við upplýsingaöflun og vinnslu verkefna og oftar en ekki er stærðfræðikennari þar á heimalærdómsdögum til að hjálpa nemendum með vandamál. Fundastofan. Fundastofan er stofa númer 1 í Hraðbraut. Þar eru skjávarpi, hátalari; stólar og sófar og hentar hún því vel fyrir fundi, samkomur, kynningar, leikrit o. s. frv. Nemendafélagsstofan. Nemendafélagsstofan er stofa þar sem kjörnir stjórnarmenn nemendafélagsins vinna, skipuleggja böll, uppákomur og ýmislegt fleira. Félagslíf. Félag nemenda í skólanum heitir Autobahn, og stendur það fyrir öflugu félagslífi og er þátttaka nemenda almennt virk. Þemadagar. Í hverri törn eru þemadagar þar sem nemendum er gefinn kostur á því að klæða sig eftir ákveðnu þema í einn ákveðinn dag. Dæmi um þema sem hafa komið upp eru bleikur dagur, appelsínugulur dagur, klæðskiptinga dagur, veisluklæða dagur, her dagur og goth dagur. Við lok dags eru gefin stjörnuverðlaun fyrir besta strákinn, bestu stelpuna og besta bekkin og fær sá bekkur sem hefur fengið flestar stjörnur í lok ársins verðlaun; eins og að fara út að borða eða ferð í bíó fyrir allan bekkinn. Framhaldsskólakeppnir. Árlega tekur Hraðbraut þátt í ógrynni af framhaldsskólakeppnum svo dæmi má nefna; Morfís, Gettu Betur, stærðfræði-, paintball- og hæfileikakeppni. Nefndir og klúbbar. Innan skólans er starfrækt nemendafélagið Autobahn, sem merkir einmitt "Hraðbraut" á þýsku, og hefur það verið starfrækt frá stofnun skólans og sér um að skipulagningu samkvæma- sem og þema-vikna; listafélag; málfundafélag; ritnefnd og vídeónefnd, sem sér um að halda vídeo-kvöld. Samkvæmi og böll. Árlega eru haldin samkvæmi á vegum Hraðbrautar, og má þar helst nefna jólaböll, busaböll, árshátíðarböll og útskriftarball. Einnig eru haldin önnur böll, og taka nemendur oft upp á því að halda böll á eigin vegum. Gettu betur. Þegar Menntaskólinn Hraðbraut var nýstofnaður, voru fjölfróðir nemendur leitaðir uppi í spurningalið skólans þar sem þjálfari var fenginn til að undirbúa krakkana undir keppnina, en komst Hraðbraut þá í undanúrslit (árið 2004) í sinni fyrstu þátttöku. Spurning um persónulega hagi. Persónuvernd úrskurðaði að Menntaskólinn Hraðbraut megi ekki spyja út í persónulega hagi umsækjanda (eins og hvort þeir ættu við lestrarörðugleika að stríða eða hvort þeir hefðu neytt fíkniefna) eins og hann hefur gert hingað til. Helga Sigurjónsdóttir segir að skólinn hafi notað svör við þessum spurningum til þess að meta það hvaða umsækjendur „eigi enga von um að ná árangri og taka þá því ekki inn í skólann.“ Helga segist vera á móti slíkum aðferðum. Skólastjóri Hraðbrautar, Ólafur Haukur Johnson segir úrskurð Persónuverndar ekki koma til með að hreyfa staf í starfi skólans og sagði þetta einungis hafa verið tilraun þeirra til að afla þessara upplýsinga. Engum hefur hinsvegar verið vísað frá vegna þessara upplýsinga, þannig að aldrei hefur þurft að reyna á þær. Á forsendum atvinnulífsins, ekki faglegum. Margir hafa gagnrýnt að umræða styttingu náms til stúdentsprófs, og Menntaskólann Hraðbraut, er ekki á faglegum forsendum heldur á forsendum atvinnulífsins og áherslunar á að koma nemendum sem fyrst út á vinnumarkaðinn. Þar má til dæmis nefna grein sem varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, skrifaði árið 2003 þar sem hún gagnrýnir þessa áherslu. Þar skrifar hún m.a.: „Gegnum þessum faglegu rökum má vitaskuld tefla öðrum faglegum rökum. Í umræðum um Hraðbrautina hefur hins vegar ekki heyrst mikið af slíku, nema þá helst að nauðsynlegt sé að fólk komist fyrr út á vinnumarkaðinn eða í annað nám. Þau rök duga hins vegar í sjálfu sér skammt.“ Styttri námstími á kostnað félagslífs. Önnur algeng gagnrýni á skólann er að vegna þess hve hratt skólinn er tekinn njóti nemendur ekki eins mikils félagslífs og nemendur við aðra menntaskóla. Góð breyting. Einnig hefur verið bent á hvernig skólinn sé góð breyting miðað við menntaskóla á þeim tíma, og að hann veiti nemendum kost á hraðari yfirferð í námi, og námsskipulag sem henti þeim betur. Sölumennska í Menntaskólanum Hraðbraut. Menntaskólinn Hraðbraut hefur ekki stefnu varðandi sölumennsku innan skólans samkvæmt könnun sem Neytendasamtökin gerðu árið 2003. Það hefur komið fyrir að fyrirtækjum hefur verið gefið leyfi fyrir því að vera með kynningarbása eða sölustarfsemi í skólanum og nemendafélagið Autobahn hefur leyfi til þess að hafa samband við fyrirtæki í sambandi við sölumennsku sem tengist nemendum. Skólinn hefur hinsvegar aldrei haft fjárhagslegan ávinning af því að fyrirtæki markaðsetji vörur sínar innan skólans. Árið 2003 veitti Hraðbraut nemendum sínum hvorki kennslu í fjármálum né neytendafræðslu, en árið 2005 hófst kennsla í "lífsleikni 103" en þar er farið yfir hvort þessara efna. Endurskoðun á samstarfi við ríkið árið 2010. Mennta- og menningarmálaráðuneytið birti tilkynningu 1. október 2010. Þar segir meðal annars, að ríkisendurskoðun hafi að beiðni ráðuneytisins lokið úttekt á framkvæmd á þjónustusamningi þess „við Menntaskólann Hraðbraut og birt skýrslu með niðurstöðum hennar. Telur ráðuneytið niðustöður úttektarinnar gefa tilefni til þess að taka samstarf þess við skólann til endurskoðunar og meta kosti þess að halda því áfram. Við þá endurskoðun mun ráðuneytið leggja áherslu á að hagsmuna nemenda sé gætt og að vel sé farið með almannafé." Fréttir. Hraðbraut Hraðbraut Óákveðið fornafn. Óákveðið fornafn er fornafn sem á við einn eða fleiri hlut, veru eða stað. Óákveðin fornöfn í íslensku. Allur, annar hvor, annar tveggja, hvor tveggja, allur. Sjálfur, sumur, slíkur og þvílíkur. Listi yfir öll algengustu óákveðnu fornöfnin. Allur, annar hvor, annar tveggja, hvor tveggja, allur. Óákveðna fornafnið „hvor tveggja“. "Hvor tveggja" beygist þannig að fyrri hlutinn beygist eins og spurnarfornafnið „hvor“ en töluorðið „tveggja“ er óbeygt. Til er gamla óákveðna fornafnið "hvortveggi" í einu orði þar sem fyrri liðurinn beygist eins og í "hvor tveggja" en seinni liðurinn eins og veikt lýsingarorð. Óákveðin fornöfn í ensku. Óákveðin fornöfn í ensku geta verið aðrir setningarhlutar en óákveðin fornöfn. Óákveðna fornafnið "many" („margir“) í setningunni "many disagree with his views" („margir eru honum ósammála“) getur verið lýsingarorð í setningunni "many people" („margt fólk“) og nafnorð eins og í setningunni "a good many of the students had skipped class" („stór hluti nemandanna höfðu skrópað“). Af þessari ástæðu eru dæmi gefin til aðgreiningar ef merking er torskilin. Fornafn. Fornöfn eru fallorð sem bæta ekki við sig greini né stigbreytast og eru því auðgreinanleg frá nafnorðum og lýsingarorðum. Fornöfn beygjast í kynjum, tölum og föllum. Þau standa í sama setningarhluta og nafnorð, ýmist með þeim (hliðstæð) eða ein (sérstæð). Fasismi. a>. Hann var gerður að tákni fasistahreyfinga um alla Evrópu. Fasismi ("fascismo" á ítölsku), var stjórnmálahreyfing sem á upptök sín á Ítalíu frá 1922 til 1943 þegar fasistar, undir stjórn Benito Mussolini, voru við völd á Ítalíu. Nafnið er dregið af latneska orðinu "fascis" sem merkir „knippi“ (axarvöndur) og á uppruna sinn í litlum hópum uppgjafarhermanna úr Fyrri heimsstyrjöldinni og atvinnulausra ungmenna ("Fasci italiani di combattimento" - bókst. „ítölsk bardagaknippi“) sem tókust á við jafnaðarflokkana og samtök verkafólks á þeim umrótstímum sem fylgdu í kjölfar styrjaldarinnar. Þessir hópar fengust við skipuleg verkfallsbrot þegar allsherjarverkföll lömuðu einhver svið þjóðlífsins, líkt og oft gerðist á þessum tímum, og reyndu að hleypa upp baráttufundum verkalýðsfélaga og vinstriflokka með ólátum og slagsmálum. Fasisma mætti flokka sem andkommúníska stjórnmálahreyfingu eða -flokk sem notast við herafl eða lögreglu til að halda uppi aga. Fasistar sóttu ýmislegt til bolsévismans, svo sem flokksræði þar sem aðeins einn flokkur situr á þingi og mikil afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu, þar með talið þjóðnýtingu heilla iðngreina, svo sem orkuiðnaðarins og fjölmiðla. Að auki einkenndist orðræða fasismans af mikilli þjóðernishyggju og kynþáttahyggju sem ásamt tilhneigingu til útþenslustefnu gat leitt til þversagnarkenndra niðurstaðna þegar t.d. þeir sem aðhylltust fasisma í einu landi lentu í þeirri stöðu að nágranni þeirra hugðist leggja land þeirra undir sig í nafni sömu stefnu. „Fasískar“ stjórnmálahreyfingar, þar á meðal nasismi, dreifðust um Evrópu á millistríðsárunum 1918 - 1939. Fasískar hreyfingar náðu völdum um lengri eða skemmri tíma í mörgum löndum Evrópu, þar á meðal í Þýskalandi, Austurríki, Ungverjalandi, Rúmeníu, á Spáni og í Portúgal. Fasistaflokkar voru líka stofnaðir í Bretlandi og Bandaríkjunum en náðu ekki vinsældum. Persónufornafn. Í fornu máli var yfirleitt greint á milli tvítölu og fleirtölu, og var tvítalan „við“ og „þið“, en fleirtalan „vér“ og „þér“. Hinar fornu fleirtölumyndir „vér“ og „þér“ (í öllum föllum) er nú á tímum hátíðlegt mál: „Vér Íslendingar!“ eða „Faðir vor“. "Þér" er auk þess notað þegar þérað er, þ.e. ein persóna ávörpuð með þér: „Gerið þér svo vel.“ Sagnorð og lýsingarorð eru í fleirtölu þegar þérað er: „Þér eruð boðnir.“ Hraðbraut. Hraðbraut er þjóðvegur sem er hannaður fyrir öruggan hraðakstur vélknúinna ökutækja með því að fjarlægja öll samlæg gatnamót. Það eru því engin gatnamót á hraðbraut, aðeins aðreinar og afreinar. Hraðbrautir eru venjulega með að minnsta kosti tvær akreinar í báðar áttir og samfellt vegrið. Hraðbrautir eru oft valkostur við annað þjóðvegakerfi og oft þarf að greiða vegtoll ýmist þegar ekið er inn á eða út af hraðbraut. Algengur hámarkshraði á hraðbraut er á milli 100 og 150 klst. Hönnun. Hraðbrautir hafa engin gatnamót við aðrar götur né lestarteina. Interstate brúin á milli Oregon og Washington er þó eitt dæmi um þar sem ökumenn þurfa að bíða eftir skipaumferð. Gatnamót hraðbrauta eru hönnuð á þann veg með undirgöngum eða brúm. Göngustígar við hraðbrautir fara jafnframt um undirgöng og brýr. Þessi gatnamót eru gerð með útskoti lengst til hægri sem ætluð er ökumönnum sem ætla að beygja á næstu götu eða fara inn á hraðbrautina. Hraðbrautir eru hannaðar fyrir meiri hraða ökutækja en gengur og gerist á götum. Hraðbrautirnar hafa meiri fjölda upplýsingamerkja en venjulegar götur svo að ökumenn átti sig strax á hvert akreinin liggur. Skilti sem sýna hvar séu gatnamót yfir á næstu götu eru oft sett í nokkra kílómetra fjarlægð. Þversnið. Þversnið af hraðbraut með vegamerkingum. Tveggja akreina hraðbrautir, sem eru oft óaðskildar eru byggðar þegar umferðarþungi er lítill og hægrireglan er lítið notuð. Í sumum tilfellum eru tveggja akreina hraðbrautir byggðar til að auðvelda breytingu þeirra yfir í fjögurra akreina hraðbraut í aðra áttina. Hraðbrautir eru ýmist með tvær akreinar en allt að 16 eða fleyri alls. Flestu akreinarnar á hraðbraut er að finna í Missiauga, Ontario þar sem hraðbraut 401 með aðreinum sínum hefur 18 akreinar á þeim kafla þar sem gatnamót eru við hraðbraut 403 og hraðbraut 427. Svipað kerfi er notað í San Diego, Kaliforníu á alríkisvegi 5. Þessar hraðbrautir nota aðreinar til að aðgreina umferð sem liggur um svæðið frá þeim sem eru að beygja út af hraðbrautinni. Jafnframt eru til sérstakar akreinar fyrir bíla með marga farþega til að hvetja fólk að deila saman með sér bíl. Fyrir utan tveggja akreina hraðbrautir er eyjur sem aðgreina umferð í gangstæðar áttir. Þessi eyja getur verið graslötur eða vegrið. Oft eru þessar tvær lausnir notaðar á sömu hraðbrautinni á þann hátt að þar sem rými fyrir hraðbrautina er takmarkað eru vegrið frekar notuð. Saga. Fyrsta hraðbrautin var byggð í Berlín. Vegurinn var vegatollskildur og var lagður 1912 og opnaður 1921. Í dag er vegurinn hluti af E51 og hluti af Autobhan hraðbrautar neti Þýskalands. Ástralía. Hraðbrautir eru í Ástralíu við borgirnar Sydney, Melbourne, Brisbarne og Perth. Einu stórborgirnar sem eru tengdar með hraðbraut eru Sydney og Canberra en áform eru um að tengja Sydney við Melbourne og Brisbane með hraðbraut. Í Ástralíu tíðkast að vegaxlir hraðbrauta séu opnar hjólreiðafólki. Fyrir vikið eru vegaxlir í Ástralíu breiðari en tíðkast annarstaðar. Danmörk. Fyrsta hraðbrautin í Danmörku var opnuð 23. janúar 1956 á milli Jægersborg og Brådebæk, rétt norðan við Kaupmannahöfn. Hraðbrautir í Danmörku voru lengi merktir sem H vegir, en eftir að ríkið gekk í Evrópusambandið voru þeir allir endurmerktir sem E vegir eins og í öðrum ríkjum sambandsins. England. Varnarmálaráðuneyti Bretlands gaf út skýrslu 1946 sem takmarkaði bíla á ákveðnum vegum. Þessar takmarkanir tóku gildi með lögum 1949. Fyrsta hraðbrautin í Englandi var opnuð 1958 og kallaðist "M6 Preston Bypass". Frá þeim tímapunkti voru margar hraðbrautir byggðar til ársins 1980 og allar voru þær merktar sem M-vegir. Árið 1986 var opnaður hringvegur í kringum London og árið 1996 hafði heildarlengd hraðbrauta í Englandi náð 3.000 km. Ísland. Á Íslandi er engin löggjöf um hraðbrautir og eru því engir vegir skilgreindir sem slíkir. Hins vegar fer svokölluðum tvöföldum vegum fjölgandi á Suðvesturlandi. Af þeim er Reykjanesbraut hvað líkust hraðbrautum og er stundum rætt um að færa hana upp um flokk. Vegagerðin vinnur að því að fjölga vegriðum á brautinni en ekki hefur verið vilji til að hækka hámarkshraða þar. Japan. Fyrsta hraðbrautin í Japan var opnuð 1963 á milli Tókýó og Osaka. Svíþjóð. Fyrsta hraðbrautin í Svíþjóð var opnuð 1953 á milli Malmö og Lund. Knattspyrnusamband Íslands. Knattspyrnusamband Íslands eða KSÍ er félagasamband íþróttafélaga sem keppa í knattspyrnu. Félagið hefur yfirumsjón með skipulagi knattspyrnu á Íslandi. Félagið var stofnað 26. mars árið 1947 og voru aðildarfélögin fjórtán í upphafi: Fram, KR, Víkingur og Valur úr Reykjavík, Haukar og FH úr Hafnarfirði, Kári og KA frá Akranesi, Þór og KA frá Akureyri, Þór og Týr frá Vestmannaeyjum, og Íþróttabandalag Ísafjarðar og Íþróttabandalag Siglufjarðar. Lýsingarorð. Lýsingarorð eru fallorð sem lýsa fyrirbrigðum, verum eða hlutum; "góður" drengur, "veikur" maður. Þau beygjast í öllum föllum, eintölu og fleirtölu eins og nafnorð og þekkjast einkum af annars vegar merkingu sinni og hins vegar stigbreytingunni ("góður, betri, bestur"). Lýsingarorð geta verið í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni. Lýsingarorð þiggja fall, tölu og kyn af nafnorði sem þau standa með eða vísa til. Fallbeyging. Lýsingarorð hafa flest bæði sterka og veika beygingu. Fer beygingin eftir því með hverju lýsingarorðið stendur í setningu. Þegar lýst er óákveðnu nafnorði, t.d. "góður maður", er lo. sterkt. Þegar lýst er ákveðnu nafnorði, t.d. "góði maðurinn" eða "sá góði maður", er lo. oftast veikt. Veik beyging endar á sérhljóði í öllum föllum eintölu og fleirtölu, annars er lýsingarorðið sterkt: "Þreyttur hestur" (sterkbeygt lýsingarorð, á við óákveðið nafnorð); "þreytti hesturinn" (veikt lýsingarorð, á við ákveðið nafnorð). Einnig má segja að endi lýsingarorðið á samhljóða í eignarfalli eintölu sé það sterkt. Sum lýsingarorð hafa aðeins sterka beygingu, t.d. "miður, nógur". Önnur hafa aðeins veika beygingu, t.d. "aflvana, sammála, vansvefta, miðaldra, glaðsinna, ráðþrota, hugsi, þurfi", og stigbreytast þau ekki. Stigbreyting. Flest lýsingarorð stigbreytast. Stigin eru þrjú; frumstig, miðstig og efsta stig. Er stigbreytingin regluleg ef stigin eru öll mynduð af sama stofni; "rík"ur - "rík"ari - "rík"astur. Miðstigið myndast af því að bæta við stofninn endingunum "-ari" eða "-ri" (í kk. og kvk.) "-ara" eða "-ra" (í hk.). Á efsta stigi eru tilsvarandi endingar "-astur" eða "-stur" (í kk.), "-ust" eða "-st" (í kvk.) og "-ast" eða "-st" (í hk.). Stundum verða hljóðavíxl í stofni lýsingarorða sem stigbreytast reglulega; "stór - stærri - stærstur"; "djúpur - dýpri - dýpstur". Stigbreytingin er óregluleg ef miðstig og efsta stig myndast af öðrum stofni en frumstig, t.d. "illur - verri - verstur". Af sumum lýsingarorðum vantar frumstigið og eru miðstigið og efsta stigið þá oftast myndum af atviksorðum og forsetningum. Flest þessara orða merkja átt, stefnu eða röð í tíma og rúmi. Dæmi; (austur) "- eystri (austari) - austastur"; (aftur) "- aftari - aftastur"; (nær) "- nærri - næstur". Sum lýsingarorð stigbreytast ekki og eru óbeygjanleg með öllu, t.d. "hugsi, aflvana, andvaka, örgeðja, dauður, miður, nógur". Sýna má stig þeirra með því að skeyta framan við orðunum "meir" og "mest". Staða lýsingarorða. Lýsingarorð getur þó staðið í nf., et., hk. en á við orð í þgf. og lagar sig því ekki að fallinu sem það á við; t.d. "barninu er illt; stúlkunni er kalt". Skautafélag Reykjavíkur. Skautafélag Reykjavíkur var stofnað 7. janúar 1893 og er eitt af elstu íþróttafélögum í landinu. Stofnandi var Axel Tulinius. Hafði hann fengið leyfi hjá bæjarstjórn til að dæla vatni á Tjörnina og afgirða svæði til skautahlaups. Nokkur gróska var í félaginu og skautahlaup iðkað af miklum krafti. 1895 lagðist félagið í dvala og vaknaði ekki aftur til lífsins fyrr en 1908. Sá sem stóð fyrir því var norskur verslunarmaður, Lorentz H. Möller, en hann hafði tröllatrú á íslenskum skautahlaupurum og spáði því að innan nokkurra ára yrði Íslendingur heimsmeistari í skautahlaupi. Skautafélagið starfaði óslitið til ársins 1927 þó svo að óblítt veður hafi stundum sett strik í reikninginn varðandi skautahlaup á Tjörninni. Enn og aftur var skautafélagið endurvakið og gerðist það árið 1936, sá félagið þá um framkvæmdir við skautasvellið á Tjörninni. Söguágrip. Árið 1946 mælti Jóhann Hafstein fyrir frumvarpi á Alþingi um æskulýðshöll í Reykjavík. Átti æskulýðshöllin meðal annars að innihalda skautasvell. Ekkert varð úr byggingu íþóttahallarinnar og þegar að kom að teikningu Laugardalshallarinnar voru áform um skautasvell gleymd. Árið 1957 var ákveðið að gera tilraun með að koma upp skautasvelli á íþróttavellinum á melum. Gafst það mjög vel og gátu Reykvíkingar og aðrir skautað sér til ánægju þar til ársins 1984 en þá var Melavöllurinn rifinn. Árið 1970 var samþykkt á ársþingi ÍBR að koma upp vélfrystu skautasvelli og var heppileg staðsetning talin vera í Laugardalnum. Ekki varð neitt úr þeim framkvæmdum fyrr en árið 1990 og þurfti skautafólk því að bíða eftir svellinu í nær tvo áratugi. Svellið naut strax mikilla vinsælda og fljótlega voru stofnuð þrjú ný skautafélög, Skautafélagið Þór, Listskautafélag Reykjavíkur og Ísknattleiksfélagið Björninn. Árið 1998 rann upp langþráður draumur skautafólks en þá var byggt yfir skautasvellið í Laugardalnum. Tvö skautafélög voru þá starfandi, Skautafélag Reykjavíkur og Ísknattleiksfélagið Björninn. Innan þeirra beggja eru starfandi tvær deildir, listhlaupadeild og íshokkýdeild. Skautahlaupið náði ekki fótfestu hjá skautafélögunum eftir að vélfrysta svellið kom til sögunnar og hefur ekki verið iðkað innan þeirra síðan. Árið 2003 var byggt nýtt skautasvell í Reykjavík og er það staðsett í Egilshöll í Grafarvogi. Skautafélagið Björninn flutti alla starfsemi sína þangað og eru Reykjavíkurfélögin með aðstöðu í sitt hvorri skautahöllinni. Tvö önnur skautafélög eru starfandi í landinu, Skautafélag Akureyrar og Íshokkýfélagið Narfinn. Innan Skautafélags Akureyrar eru starfandi 3 deildir, listhlaupadeild, íshokkýdeild og krulludeild, en einungis er iðkaður ísknattleikur í Narfanum. Guantanamera. Guantanamera (Stúlkan frá Guantánamo) er kúbverskt lag sem er líklegast þekktast af þjóðernissöngvum Kúbu. Textinn er byggður á ljóði eftir kúbverskt skáld og þjóðernissinna José Martí en umsamið af Julián Orbón. Tónlistina samdi José Fernández Díaz. Til eru nokkrar útgáfur af laginu en endanleg útgáfa innihélt erindi úr ljóði Martí „Yo soy un hombre sincero“. Spörfuglar. Spörfuglar (fræðiheiti: "Passeriformes") eru ættbálkur fugla sem inniheldur meira en helming allra fuglategunda heims, eða yfir 5.400 tegundir. Margir fuglar af þessum ættbálki eru góðir söngfuglar með flókið raddhylki. Ungarnir gapa eftir mat í hreiðrinu. Dæmi um spörfugla eru maríuerla, hrafn og stari. Tvinnfallagreining. Tvinnfallagreining er sá armur stærðfræðinnar sem fjallar um föll sem eru skilgreind á hlutmengjum tvinntalnasléttunnar formula_1, s.k. tvinngild föll. Föll, skilgreind á allri tvinntalnasléttunni nefnast heil föll. Þó að svo virðist ekki í fyrstu hefur hún mikið notagildi í raunveruleikanum, til dæmis má beita aðferðum tvinnfallagreiningar við að reikna út ýmis heildi úr raunfallagreiningu á auðveldan hátt. Líkt og raunfallagreining einbeitir sér að samfelldum og diffranlegum föllum eru mikilvægu föllin í tvinnfallagreiningu svokölluð fáguð föll. Hægt er að skilgreina þau á nokkra jafngilda vegu, en einn þeirra er að fall sé fágað ef það er formula_1-deildanlegt í sérhverjum punkti; það er ef markgildið er til fyrir öll "z" í skilgreiningarmengi fallsins. Athugið að hér má breytan "h" taka tvinntölur sem gildi. Tvinnfallagreining er þó talsvert frábrugðin raunfallagreiningunni sem hún sprettur upp úr. Sem dæmi má nefna að fáguð föll geta ekki haft staðbundna hágildispunkta nema þau séu föst, fágaðar varpanir eru alltaf opnar og að ef tvö fáguð föll taka sömu gildi á mengi sem inniheldur þéttipunkt eru þau sama fallið. Samsvarandi fullyrðingar í raunfallagreiningu eru langt frá því að vera sannar. Upphaf og saga. Tvinnfallagreining í þeirri mynd sem við þekkjum í dag er tiltölulega ung grein innan stærðfræðinnar, upphaf hennar má rekja til byrjun 19. aldar, þó að tvinntölurnar hafi verið þekktar í einhverri mynd frá 16. öld. Þennan tímamun má að mestu leyti rekja til þess að framan af voru tvinntölur frekar óljóst fyrirbæri. Það var ekki fyrr en menn fóru að setja þær fram í tvívíðu hnitakerfi, og seinna þegar William Hamilton lagði traustan grunn að þeim, að tvinntölur fengu sama þegnrétt og rauntölur innan stærðfræðinnar. Margir af helstu stærðfræðingum síðari tíma hafa lagt eitthvað af mörkum til tvinnfallagreiningar, svo sem Carl Friedrich Gauß og Leonhard Euler, en nöfnin sem koma upp aftur og aftur eru Bernard Riemann og Augustin Cauchy. Riemann er sennilega best þekktur fyrir tilgátu sína um núllstöðvar zetafallsins, sem kölluð er Riemann tilgátan, og ein af mikilvægustu setningum tvinnfallagreiningarinnar er kennd við Cauchy. Báðir lögðu þeir mikið af mörkum, en með ólíkum hætti. Á meðan Cauchy leit á tvinnfallagreiningu sem undirflokk raunfallagreiningar í fleiri en einni breytistærð sá Riemann hana fyrir sér á rúmfræðilegri hátt. Bæði sjónarmiðin eru enn við lýði í dag og þykir það hverjum manni hollt að kynnast þeim báðum, séu þeir að fást við tvinnfallagreiningu á annað borð. Í dag fara helstu rannsóknir fram í margvíðri tvinnfallagreiningu, sem er talsvert ólík tvinnfallagreiningu í einni breytistærð. Þó er tvinnfallagreining í einni breytistærð ennþá mikilvæg sökum snertiflatar hennar við talnafræði, en mörg vandamál í talnafræði má líta á sem vandamál í tvinnfallagreiningu og leysa þau þar. Sem dæmi má nefna að tilgáta Riemanns tengist nokkuð óvænt spurningu um dreifingu frumtalnanna. Helstu niðurstöður. Ein af undirstöðusetningum tvinnfallagreiningar er setning Cauchys, en í einni mynd segir hún að ef "U" er stjörnusvæði í formula_1 og "f" fágað fall á "U", þá er fyrir sérhvern lokaðan veg "γ" í "U". Til eru almennari útgáfur af Cauchy-setningunni en athyglisverð afleiðing af henni er svokölluð Cauchy-formúla, sem segir að ef "U" er stjörnusvæði og "γ" vegur sem sker sjálfan sig aldrei, þá gildir um öll "z" í innmengi vegarins að en það segir okkur að gildi fallsins "f" innan ferilsins ákvarðast algerlega af gildum þess á honum. Önnur mikilvæg niðurstaða er undirstöðusetning algebrunnar, sem segir að sérhver margliða yfir tvinntölurnar hafi núllstöð í formula_1. Af mörgum fallegum niðurstöðum er að taka, en við látum nægja að nefna eina í viðbót, sem er stóra setning Picards. Hún segir að ef fágað fall "f" er heilt, það er skilgreint á öllu formula_1, þá taki það öll - nema í mesta lagi eitt - gildi í tvinntalnasléttunni, annars sé það fast. Eins og svo oft áður eru engar sambærilegar niðurstöður til í raunfallagreiningu. I Adapt. I Adapt var íslensk hljómsveit sem spilaði Hardcore pönk tónlist. I Adapt var ein þekktasta Hardcore-hljómsveitin á Íslandi. Hljómsveitin var stofnuð snemma árið 2001 og voru fyrstu tónleikar hennar haldnir stuttu eftir það. Fyrstu tónleikarnir voru 10 ára afmælistónleikar hljómsveitarinnar Forgarður helvítis. Hljómsveitin fór í allnokkrar tónleikaferðir um Evrópu, þá aðallega um Bretland. Hljómsveitin tilkynnti síðla árs 2007 að hún hefði í hyggju að leggja upp laupana og að síðustu tónleikar hljómsveitarinnar yrðu að öllum líkindum á Uppsveiflukvöldi Monitor þann 6. desember 2007. Stuttu seinna gengu Birkir og Arnar Már til liðs við hljómsveitina Celestine, þar sem Birkir tók við trommunum en Arnar hélt sig við bassann. Geit. Geit (fræðiheiti: "Capra aegagrus hircus" eða "Capra hircus") er algengt húsdýr, undirtegund villigeitar sem lifir í Suðvestur-Asíu og Austur-Evrópu. Geitur eru eitt af elstu húsdýrunum og talið að þær hafi verið tamdar fyrir um tíu þúsund árum í Sagrosfjöllum Íran. Af þeim eru nýtt mjólk, kjöt, ull og skinn. Geitamjólk er auðmeltari en kúamjólk. Karldýr geitar heitir hafur, kvendýrið huðna og afkvæmin kiðlingar. „Landnámsgeitin“. Íslenski geitarstofninn hefur verið fluttur til landsins við landnám og verið einangraður í landinu í yfir þúsund ár. Geitur virðast alla tíð hafa verið fáar á landinu. Eftir að talning hófst hefur stofninn farið niður í nokkra tugi dýra, þannig að ætla má að skyldleiki sé mikill. Hins vegar virðist hann hafa meira viðnám en ætla mætti við jafnmikinn skyldleika sem gefur tilefni til að ætla að fjölbreytileiki hafi varðveist milli lítilla einangraðra hjarða. Núverandi stofn telur um 400 dýr. Sagrosfjöll. Sagrosfjöll (persneska: رشته كوه زاگرس; kúrdíska: Çîyayên Zagrosê) eru stærsti fjallgarður Íraks og næststærsti fjallgarður Írans. Þau ná yfir 1500 km leið frá Kúrdistan við landamæri Írans og Íraks að Persaflóa og enda við Hormússund. Fjöllin mynda nokkra samhliða fjallgarða og eru sömu gerðar og af sama aldri og Alpafjöll. Hæsti tindur er Zard Kuh 4548 metra hár. Zenon frá Sídon. Zenon frá Sídon (1. öld f.Kr.) var epikúrískur heimspekingur og samtímamaður Cícerós. Í ritinu "Um eðli guðanna" ("De Natura Deorum") (1. 34) segir Cíceró að Zenon hafi verið fullur fyrirlitningar í garð annarra heimspekinga og hafi jafnvel gengið svo langt að kalla Sókrates „attíska bavíanann“. Eigi að síður fjalla bæði Díogenes Laertíos og Cíceró um Zenon af virðingu og lýsa honum sem nákvæmum og fáguðum hugsuði. Zenon taldi að hamingja væri ekki einungis fólgin í því að vera ánægður og farnast vel heldur einnig í raunhæfri von um að slíkt ástand myndi vara áfram. Póseidóníos fjallaði sérstaklega um skoðanir Zenons í einni ritgerða sinna. Zenon frá Tarsos. Zenon frá Tarsos (forngríska: Ζηνων) var stóískur heimspekingur og nemandi Krýsipposar. Hann tilheyrði tímabili miðstóuspekinnar. Zenon nam ásamt Díogenesi frá Babýlon og Antípater frá Tarsos. Kenningar Zenons í stóuspeki eru ókunnar en hann tók við af Krýsipposi. Díogenes tók síðar við af Zenoni en ekki er vitað hve lengi Zenon var í forsvari fyrir stóuspekina. Svo virðist sem hann hafi fallist á allar kenningar stóuspekinnar fyrir utan að hann hafnaði því að heimurinn myndi farast í eldi. Metrodóros. Metrodóros (331–278 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og fylgismaður Epikúrosar. Þrátt fyrir að hann hafi verið einn fjögurra meginmálsvara epikúrismans hafa einungis brot úr ritum hans varðveist. Epikúros sagði hann ekki vera frumlegan hugsuð. Aspasíus. Aspasíus (um 100-150) var perípatetískur (þ.e. aristótelískur) heimspekingur. Hann samdi skýringarrit við ýmis ritverk Aristótelesar og ritið "Libellus de naturalibus passionibus" en einungis er varðveittur hluti af skýringarriti Aspasíusar við "Siðfræði Níkomakkosar" eftir Aristóteles. Það er meðal elstu skýringarritanna við ritverk Aristótelesar og sem slíkt er það mikilvægt skjal fyrir heimspekisagnfræðinga. Ekkekrates. Ekkekrates var samkvæmt Platoni pýþagórískur heimspekingur frá gríska bænum Flíos. Hann kemur fyrir í samræðu Platons "Fædoni". Hann hittir fyrir Fædon, sem samræðan heitir eftir, einhvern tímann eftir aftöku Sókratesar og biður Fædon um að segja sér söguna af síðustu stundum hins fræga heimspekings. Megnið af samræðunni fer svo í upprifjun Fædons á sögunni en Ekkekrates grípur inn í af og til og spyr spurninga um samræðurnar sem eru endursagðar. Lítið er vitað um Ekkekrates annað en það sem kemur fram hjá Platoni. Það eina sem verður vitað um heimspekilegar skoðanir hans er að hann var pýþagóringur sem þekkti til Sókratesar og bar mikla virðingu fyrir honum. Aþenodóros frá Kanönu. Aþenodóros frá Kanönu eða Aþenodóros Kananítes (forngríska: ̉Αθηνόδωρος Κανανίτης) (um 74 f.Kr. – 7 e.Kr.) var stóískur heimspekingur. Hann fæddist í bænum Kanana, nærri Tarsos (í dag í Tyrklandi). Faðir hans hét Sandon. Aþenodóros var nemandi Poseidóníosar frá Ródos og kennari Octavíanusar (síðar Ágústusar) í Apolloníu. Svo virðist sem Aþenodóros hafi fylgt Octavíanusi til Rómar árið 44 f.Kr. og haldið áfram að kenna honum þar. Sagt er að þar hafi hann skammað keisarann í viðurvist annarra og sagt honum að fara þylja upp stafrófið áður en hann reiddist. Síðar sneri Aþenodóros aftur til Tarsos þar sem hann átti mikinn þátt í að hrekja Boethos frá völdum og semja nýja stjórnarskrá fyrir borgina, en það leiddi til þess að í borginni komst til valda fámennisstjórn hliðholl Rómaveldi. Strabó, Cíceró og Evsebíos höfðu miklar mætur á Aþenodórosi. Ekkert þessara verka er varðveitt en Aþenodóros var Cíceró innan handar þegar Cíceró samdi "Um skyldur" ("De Officiis") og sumir hafa getið sér þess til að rit Aþenodórosar hafi haft áhrif á Senecu og Pál postula frá Tarsos. Í kjölfar andláts Aþenodórosar var haldin árleg hátíð með fórnum í Tarsos honum til heiðurs. Aþenodóros Kordylíon. Aþenodóros Kordylíon (forngríska: Ἀθηνόδωρος Κορδυλίων) (uppi um miðja 1. öld f.Kr.) var stóískur heimspekingur, fæddur í Tarsos. Hann var bókavörður við bókasafnið í Pergamon, þar sem hann var þekktur fyrir að fjarlægja kafla úr bókum um stóuspeki væri hann þeim ósammála. Í ellinni fluttist hann til Rómar, þar sem hann bjó með Cato yngra til dauðadags. Hippasos. Hippasos frá Metapontum, fæddur um 500 f.Kr. í Grikklandi hinu mikla var forngrískur heimspekingur. Hann er sá nemandi Pýþagórasar sem er talinn hafa uppgötvað að ferningsrótin af 2 er óræð tala. Þetta uppgötvaði Hippasos í miðri siglingu en hinir pýþagóringarnir köstuðu honum fyrir borð því þeir vildu ekki trúa að þessi mikilvæga tala gæti verið annað en hlutfall heilla talna. Hans er einnig minnst fyrir tilraunir sínar á hljómburði og bergmáli. Lítið er varðveitt af ritverkum hans. Hólaskógur. Hólaskógur kallast landspilda neðarlega á Gnúpverjaafrétti, austan undir Stangarfjalli. Þó nafnið bendi til trjágróðurs er þar engan skóg að finna, þó það sé talið að þarna hafi áður verið skógur og skógarítök Gnúpverja. Hólaskógur stendur milli "Karnesings" og Hafsins. Í Hólaskógi er fjallmannakofi sem byggður var 1998. Nuuk. a> í bakgrunniNuuk er hið grænlenska heiti á höfuðstað Grænlands sem á dönsku nefnist Godthåb og var þess vegna áður fyrr stundum nefndur Góðvon á íslensku. Hið opinbera nafn bæjarins, Nuuk, er frá því að Grænland fékk heimastjórn árið 1979. Nuuk þýðir „tangi“ á grænlensku. Nuuk er hluti af sveitarfélaginu Sermersooq og íbúafjöldi er um 15.000. Heimastjórn Grænlands, þing og háskóli hafa aðsetur í Nuuk. Nuuk stendur við Davis-sund á suðvesturströnd Grænlands, á tanga þar sem tveir djúpir firðir skerast inn í landið. Má segja að bærin skiptist í tvennt, annars vegar eldri hluti sem nefndur er "Koloniehavn" og eru þar aðallega byggingar frá 18. og 19. öld. Hins vegar byggingar sem eru aðallega frá seinni hluta 20. aldar, meðal annars stór fjölbýlishús. Bærinn Nuuk hefur vaxið hratt. Um 1950 var íbúafjöldi einungis um 1000 manns og hefur hinn hraði vöxtur leitt til margvíslegra félagslegra vandamála. Atvinnulífið í Nuuk einkennist af fiskvinnslu, stjórnsýslu og ferðaþjónustu. Höfnin er oftast opin allt árið og við bæinn er einnig alþjóðlegur flugvöllur. Það var trúboðinn Hans Egede sem stofnaði Godthåb sem trúboðsstöð og verslunaraðsetur árið 1728 í umboði danakonungs. Þar sem nú stendur bærinn Nuuk var á tímum norrænna manna á Grænlandi nefnt Vestribyggð og er enn mikið af leifum þess tíma að finna í grendinni. Lúðrasveit Reykjavíkur. Lúðrasveit Reykjavíkur (skammst. LR) er íslensk lúðrasveit sem var formlega stofnuð þann 7. júlí 1922. Sveitin varð til við sameiningu tveggja félaga, Lúðrafélagsins Hörpu og Lúðrafélagsins Gígju. Fyrsti stjórnandi hennar var Otto Böttcher, þýskur hornleikari sem fenginn hafði verið hingað til lands af Jóni Leifs. Lúðrasveitin hefur síðan 1922 átt höfuðstöðvar í Hljómskálanum, sem er staðsettur við Tjörnina í Reykjavík og Hljómskálagarðurinn heitir eftir, en það hús var byggt sérstaklega fyrir sveitina (upphaflega ætlað Lúðrafélaginu Hörpu). Upphaflega voru aðeins fullorðnir karlmenn í sveitinni, en með tímanum hefur yngra fólk bæst í hópinn, ásamt því sem konur eiga nú fastan sess í sveitinni. Núverandi stjórnandi er Lárus Halldór Grímsson, sem einnig stjórnar Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar, en upp úr þeirri sveit hafa flestir af yngstu spilurum LR komið undanfarin nokkur ár. Sveitin heldur yfirleitt þrenna eða ferna tónleika á vetri, flesta í Reykjavík, en stundum á öðrum stöðum á landinu. Á þessum tónleikum er gjarnan leikin djasstónlist, þjóðlagatónlist, kvikmyndatónlist, eða dægurlagaútsetningar, en einnig kemur klassísk tónlist fyrir. Á sumrin er spilað við ýmis tækifæri, oft úti og þá gjarnan marserað við ættjarðarlög eða bandaríska marsa. Hokkaidō. Hokkaidō (japanska: 北海道 "Hokkaidō", þýðir bókstaflega: „Norðanhafsvegurinn“), áður þekkt sem Ezo, er næst stærsta eyja Japans og stærsta umdæmi hina 47 umdæma Japans. Tsugaru sundið aðskilur Hokkaidō frá eyjunni Honshu til suðurs, en Seikan göngin, sem eru neðansjávar-göng, tengja Hokkaidō við Honshu. Stærsta borgin í Hokkaidō, Sapporo, er einnig höfuðborg umdæmisins. Saga Hokkaidō. Fornritið Nihonshoki (sem er oft kallað ferðasögur Japans) er sagt vera fyrsta skráða ritið sem minnist á Hokkaidō. Samkvæmt textanum, leiddi Abe no Hirafu fram stóran sjóher og landgönguher til norðursvæða frá 658 til 660 of komst í samband við Mishihase og Emishi. Einn af þeim stöðum sem var á leið Hirafu var nefndur Watarashima, og er það oft talið vera Hokkaidō nútímans. Hinsvegar hafa margar kenningar verið á sveimi sem draga í efa nákvæmni þessara atburða. Sem dæmi má taka staðsetningu Watarashima og sú trú að Emishibúar í Watarishiwa hafi í raun verið forfeður nútíma Ainubúa. Á meðan á Nara og Heian tímabilunum stóð, versluðu íbúar Hokkaidō gjarnan við Denwa svæðið. Frá miðöldum var fólk frá Hokkaidō kallað Ezo. Um sama tíma varð Hokkaidō kallað Ezochi eða Ezogashime. Ezobúar veiddu sér aðalega til matar bæði á landi og á sjó og öðluðust hrísgrjón og járn í gegnum samskipti við Japani. Landafræði. Sounkyo, gil á Daisetsu-zan eldfjalla svæðinu Eyjan Hokkaidō er staðsett við norður enda Japans nálægt Rússlandi og strandlínur við Japanshaf, Okhrskhaf og Kyrrahaf. Miðja eyjunnar nokkurn fjölda af fjöllum og eldfjalla klettasvæðum. Það eru nokkrar stórar borgir í Hokkaidō svosem Sapporo og Asahikawa í miðju svæðinu og ströng Hakodate snýr að Honshū. Nokkrar smáar eyjar fylgja umdæmi Hokkaidōs eins og Rishiri, Okushiri, and Rebun. Jarðskjálftavirkni. Jarðskjálfti sem mældist 8 á Richter varð nálægt Hokkaidō 25. september árið 2003 klukkan 19:50:07 (UTC). Árið 1993 mældist annar jarðskjálfti 7,8 á Ricterskala, og oldi hann flóðbylgju (tsunami) sem gereyðilagði Okushiri. Tengt efni. Höfundur manga og anime seríunnar, Full Metal Alchemist, Hiromu Arakawa fæddist í Hokkaidō. Barokk. Barokk er nafn yfir listastefnu og tímabilið sem stefnan einkenndi. Stefnan einkenndist af miklu skrauti, flúri og þungri tilfinningu. Barokk með léttri tilfinningu er yfirleitt kallað rokkokó. Stefnuna má rekja til Rómar í kringum 1600 en þaðan breiddist hún út um Evrópu. Barokktónlist. Í tónlist er barokk samheiti yfir bæði barokk og rokkokó. Barokktónlist einkennist af miklu flúri, trillum og flóknum tónavafningi. Ein aðalástæða þess að ekki er greint milli barokks og rokkokó í tónlist er að flytjendur barokktónlistar hafa mikið frelsi, nóturnar sýna aðeins byggingu lagsins en svo eiga flytjendur að spinna í skraut og flúr í tónlistina sem gerir hana misþunga eftir flytjendum. Keðjulaglínur og kontrapunktar voru algengar á þessu tímabili (þó misvinsælar eftir tónskáldum) og á bestu bæjum var samin keðjulaglína með þremur eða fjórum upphafsstöðum. Barokktónsmíðar eru gjarnan á formi sónata, konserta, kantata og óratoría. Óperur urðu til á barokktímanum. Björgólfur Thor Björgólfsson. Björgólfur Thor Björgólfsson (f. 19. mars 1967) er íslenskur kaupsýslumaður. Hann er þekktur erlendis sem Thor Björgólfsson. Björgólfur Thor var fyrsti Íslendingurinn sem komst á lista Forbes Magazine yfir 500 ríkustu einstaklinga heims. Í mars 2008 voru eignir hans metnar á 3,5 milljarða dollara, eða um 227 milljarða króna. Björgólfur Thor hefur mikið verið gagnrýndur í kjölfar bankahrunsins á Íslandi í október 2008, meðal annars fyrir að vera aðaleigandi Landsbankans í gegnum fjárfestingafélag sitt Samson ehf sem stóð fyrir hinum umdeildu Icesavereikningum. Landsbankinn var yfirtekinn af ríkinu í kjölfar bankahrunsins. Árið 2009 var Björgólfur metinn á um 1 milljarð dollara og er því enn ríkasti maður íslands. Björgólfur hefur fallið um 400 sæti hjá Forbes listanum. Ævi. Björgólfur er sonur Björgólfs Guðmundssonar, sem einnig var fyrirferðamikill í íslensku viðskiptalífi. Móðir Björgólfs er Þóra Hallgrímsson, dóttir Hallgríms Fr. Hallgrímssonar forstjóra Skeljungs og Margrétar Thors, sem var dóttir dansk-íslenska athafnamannsins Thors Jensen og heitir Björgólfur eftir honum. Hann er giftur Kristínu Ólafsdóttur og eiga þau eitt barn. Heimili hans er í London en hann á hús við Óðinsgötu 5 og Fjölnisveg 3. Björgólfur Thor lauk námi í viðskiptafræði frá New York University árið 1991. Hann rak síðan skemmtistaðinn á Hotel Borg ásamt Skúla Mogensen og síðan Tunglið. Björgólfur fór fljótlega eftir það, eða árið 1993, til Sankti Pétursborgar í Rússlandi ásamt föður sínum og Magnúsi Þorsteinssyni til að setja á fót gosdrykkjaverksmiðjuna "Gosann". Rekstur verksmiðjunnar var erfiður framan af, bæði vegna málaferla innan fyrirtækisins og erfiðra viðskiptaaðstæðna í Rússlandi. Fjárfestingar. Björgólfur og félagar færðu sig um set í lok tíunda áratugarins og keyptu rekstur Bravo bruggverksmiðjunnar. Fljótlega hófst þar framleiðsla á Botchkarov bjór sem sló í gegn í heimalandinu. Heineken keypti Bravo árið 2002, fyrir $400 milljónir. Í kjölfar einkavæðingu ríkisbankanna árið 2002 keypti Samson ehf 45% hlut í Landsbanka Íslands. Kaupin voru fjármögnuð með 3 milljarða króna láni frá Kaupþingbanka. Árið 2000 fjárfesti Björgólfur í gegnum Samson í félaginu Pharmaco og árið 2002 keypti Samson einnig lyfjafyrirtækið Delta og sameinaði það Pharmaco undir nafninu Actavis. Einnig keypti Björgólfur Thor, í gegnum nokkra milliliði, stóran hlut í Eimskipafélagi Íslands árið 2003. Landsbankinn eignaðist líka fjárfestingabankann Burðarás og sameinaði hann fjárfestingafélaginu Straumi, undir nafninu Straumur-Burðarás. Björgólfur Thor var einnig mjög virkur á fjarskiptamörkuðum, sérstaklega í Austur-Evrópu, og átti m.a. stóran hlut í símafyrirtækinu Novator í Búlgaríu. Fyrirtæki hans, Novator, Nova stundaði einnig fjarskiptaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Bankahrunið. Í kjölfar bankahrunsins var Landsbankinn ríkisvæddur og skömmu seinna varð eignarhaldsfélag Björgólfs, Samson gjaldþrota. Félag hans Novator Pharma hefur einnig staðið í ströngu vegna láns frá Deutsche Bank sem hljóðar uppá 700 milljarða króna. Það var notað til kaupa á Actavis sem var í stærstum hluta í eigu Samson ehf. Þetta var stærsta lán Deutsche Bank og einnig stærsta einstaka lánið sem á að ganga upp í Icesave reikninga Landsbankans. Í júlí óskuðu Björgólfsfeðgar eftir því að felldir yrðu niður 3 af 6 milljörðum af láni sem þeir höfðu fengið hjá Búnaðarbankanum til kaupa á Landsbankanum, þeirri beiðni var hafnað. Talið er að um 12 milljarðar króna voru fluttar úr félögunum Samson ehf og Straum-Burðarás inn á um eitt hundrað reikninga á skattaskjólseyjum m.a. Caymaneyja. Þessu hefur Björgólfur neitað. Í kjölfar bankahrunsins blossaði upp mikil reiði í garð auðmannsins, og hafa skemmdarverk verið unnin m.a. á húsnæði í hans eigu og Hummer-bifreið sem hann er skráður fyrir. Dreki (goðsagnavera). Dreki er goðsagnavera sem kemur fram í mörgum ævintýrum og goðsögnum. Drekum er venjulega lýst sem ormi eða snák með fætur sem býr yfir einhverjum yfirnáttúrulegum kröftum (t.d. gat drekinn Smeyginn dáleitt fólk með reyk sem kom úr nösunum á honum og spúið eldi úr kjaftinum). Þeir eru sumir hverjir með vængi en stærð þeirra er allt frá því að vera eins og lítil eðla upp í ferlíki sem er nær risaeðlu að stærð. Í vestrænum goðsögum eru drekar venjulega ferfættir, vængjaður meinvættur sem spúa eldi eða eitri, en í austrænum sögum eru þeir oft eins og slöngur með fætur og fullt af fálmurum og góðir og rosalega vitrit en tákna stundum heppni og gæfu. Miðberg. Miðberg er félagsmiðstöð fyrir 6 til 16 ára börn, stofnað árið 1999. Miðberg tók við af elstu félagsmiðstöð landsins, Fellahelli, og þjónar efra- og neðra-Breiðholti. Miðberg leggur áherslu á að vera með forvarnir og að stuðla að jákvæðum félagsþroska. Þar skiptist starfið upp í tvo hluta; annarsvegar barnastarf og hins vegar unglingastarf. Undir Miðberg fellur félagsmiðstöðin Hólmasel sem sinnir Seljahverfi. Hans Egede. Hans Egede (fæddist 31. janúar 1686 í Harstad, Noregi – lést 5. nóvember 1758 í Falster, Danmörku) var lútherskur trúboði sem oft er nefndur Postuli Grænlands. Samkvæmt hefð kynntist Egede frásögnum um norræna menn á Grænlandi þegar hann þjónustaði á eyjunum í Lofoten. Í maí 1721 fékk hann leyfi hjá Friðriki IV danakonungi til að leita uppi þessa týndu Grænlendinga og endurkristna þá ef þeir væru gengnir af trúnni. Átti hann einnig að endurvekja eignarrétt Noregs á Grænlandi. Noregur og Danmörk voru á þessum tíma í ríkjasambandi með sameiginlegan konung. Egede tók land á vesturströnd Grænlands 3. júlí 1721. Leitaði hann eftir norrænum mönnum en fann enga. Þá hafði ekkert samband verið við norræna menn á Grænlandi í um 300 ár. Egede fann hins vegar fyrir inuíta og hófst handa um kristið trúboð meðal þeirra. Hann lagði sig eftir að læra grænlensku og snéri ýmsum kristnum textum á það mál. Það var hægara sagt en gert meðal annars vegna þess að fjöldamörg vestræn hugtök voru ekki til í hugarheimi Grænlendinga. Eitt dæmi er brauð sem ekki var til og ekki heldur nein hliðstæða. Í þýðingu sinni á Faðir vor lét hann línuna „Gef oss í dag vort daglegt brauð“ samsvara „Gef oss í dag vorn daglega sel“. Egede stofnaði þorpið Godthåb (sem nú er nefnt Nuuk), sem nú er höfuðborg Grænlands. Herrnhuta trúboðar fengu leyfi 1733 að setja upp eigin trúboðsstöð suður af Nuuk. Með þeim fylgdi hlaupabóla sem varð faraldur um Grænland upp úr 1734 og féllu margir í sjúkdóminum meðal annarra Gertrud, kona Hans Egede. Hann snéri aftur til Kaupmannahafnar 1736 ásamt dætrum sínum og einum syni. Eftir varð sonurinn Poul Egede sem einkum er þekktur fyrir starf sitt við að skapa grænlenskt ritmál og málfræði. Hans Egede var skipaður biskup yfir Grænlandi 1741. Skriðdreki. Skriðdreki er brynvarið og vopnað ökutæki á skriðbeltum sem notað er í hernaði, herlöggæslu eða friðargæslu. Fyrsti skriðdrekinn var smíðaður í Bretlandi en fljótlega fylgdu Frakkar á eftir. Aukin notkun skriðdreka í fyrri heimsstyrjöld gerði það að verkum að skotgrafahernaður varð fljótt úreltur, þar sem skriðdrekar gátu auðveldlega ekið yfir skotgrafir og brotst gegnum víglínuna. Upphaflega var skriðdrekum ætlað það hlutverk að styðja við fótgöngulið, en í seinni heimsstyrjöld voru myndaðar sérstakar bryndeildir, sem fóru með skiðdreka í fararbroddi við árásir, sbr. leifturstríð. Þrjú atriði skipta máli við hönnun skriðdreka: "skotgeta", "hreyfanleiki" og "brynvörn". Við hönnun skriðdreka er reynt að ná málamiðlun milli allra þriggja þátta, því t.d. er ekki unnt að auka skotgetu né brynvörn að öðru óbreyttu án þess að það komi niður á hreyfanleika. Allir skriðdrekar eru búnir einni aðalbyssu, sem yfirleitt hvílir á hreyfanlegum turni ofan á skriðdrekanum. Þessar byssur eru með þeim hlaupvíðustu sem notaðar eru í hernaði, aðeins fáeinar stórskotaliðs fallbyssur eru stærri. Einnig eru margir skriðdrekar búnir minni vélbyssum til að granda óbrynvörðum farartækjum og til sjálfsvarnar. Þrátt fyrir mikla þyngd er skriðdreki tiltölulega lipurt farartæki og er hannaður til að aka yfir flestar gerðir landslags, en mýri og skógur eru torfær skriðdrekum. Hreyfanleiki skiðdreka nýtast best á opnum og tiltölulega sléttum svæðum, en verulega dregur úr hreyfanleika og virkni skriðdreka í borgarumhverfi. Skriðdrekar eru mjög orkufrekir og eru því ofast flutti á vígvöll með öðrum faratækjum, t.d. lest eða flutningabíl. skriðdreka eru gerð úr stál-, ál- og keramikplötum og hún á verka þannig að skeyti kastist af brynvörninni frá skriðdrekanum eða að hlífa áhöfn, vopnabúnaði og drifbúnaði frá sprengivirkni skeytanna og sprengibrotum. Brynvörnin er þykkust framan á skriðdrekanum og á skotturni, en þynnst að ofanverðu og aftan. Hægt er að auka virkni brynvarnar með því að halla henni eða með því að hafa hana sprengivirka, en þá springur sprengiefni í brynvörninni sem á að gera óvinaskeytið hættulaust. a> skriðdreki þakinn plötum með sprengivirkri brynvörn er mikilvægur eiginleiki skriðdreka, eins og allra vígtóla, sem fæst með því að gera þá lága og hljóðláta og mála í felulitum. Reyksprengjur eru notaðar til að mynda reykvegg framan við skriðdreka til að hylja hann fyrir andstæðingi og eins er mögulegt að mynda þykkan og ógegnsæan reykjarmökk úr útblæstri með því að ýra dísilolíu í hann. Flestir skriðdrekar eru knúnir áfram af díselvélum og með stóra rafmagnsmótora til að snúa skotturni o.fl. Áhöfn skriðdreka eru 3 til 4 menn: "foringi", "skytta", "hleðslumaður" (nema ef sjálfhleðslubúnaður er til staðar) og "ekill". Skriðdrekar ráðast oftast á óvin með beinni árás framan frá, en þar sem snúa má skotturni 360° þá geta þeir einnig skotið til hliðar og fyrir aftan skriðdrekann. Í skriðdrekaorrustu hefur sá oftast betur sem nær að skjóta fyrsta skotinu, þ.a. að miklu skiptir að áhöfnin vinni hratt og fumlaust. Foringinn situr efst í skotturninum og reynir að finna skotmark og skipar skyttunni að skjóta á það. Ekki síður er mikilvægt að dyljast og því reynir ekillinn að aka eftir landslagi og ekur jafnvel í var á meðan hleðslumaður hleður aðalbyssuna. Samkvæmt hefð er skriðdrekum skipt í þrjá þyngdraflokka: "létta", "miðlungs" og "þunga". Við hönnun nútímaskriðdreka er reynt að sameina kosti allra þyngdraflokka og kallast þeir þá orrustuskriðdrekar (enska "Main Battle Tanks") og geta verið allt að 65 tonn að þyngd. Skriðdrekaskot eru hönnuð til að granda aðallega öðrum skriðdrekum og skiptast í tvo meginflokka, hásprengifim skot og hraðfara fleygskot. Háprengifim skot eru tiltölulega hægfara og vinna á brynvörn með því að sprengja sprengihleðslu utan á koparkeilu fremst í skotinu, sem við sprenginguna þjappast saman og myndar mjóan geisla af bráðnum málmi sem bræðir gat á brynvörnina. Hraðfara fleygskot þeyta hvössum fleyg úr þungmálmi (yfirleitt úrani) á miklum hraða sem brýst í gegnum brynvörnina. Einnig eru til skot sem sameina báða eignileikana. Hásprengifimt skriðdrekaskot. Sjá má koparhólk innan í sprengjunni, sem við sprengingu þrýstist saman og bráðnar og myndar þannig mjóan geisla af bráðnum málmi sem bræðir gat á brynvörn.Hraðfara fleyskot, þar sem greinilega má sjá fleyginn Til eru sérstaka skriðdrekabyssur og eldflaugabyssur sem geta grandað skiðdrekum. Mörg önnur vopn vinna á þeim, s.s. jarðsprengjur, vegsprengjur og flugskeyti, sem eiga það flest sameiginlegt að vinna á brynvörninni þar sem hún er þynnst, þ.a. ofan og neðan frá og að aftan. Slík vopn verða stöðugt fullkomnari þ.a. framtíð orrustuskriðdreka er ótrygg. Helstu veikleikar skriðdreka eru hversu þungir þeir eru og dýrir í rekstri, þörf fyrir sérþjálfað áhöfn og viðhaldslið og möguleiki að vinna á þeim með mun ódýrari og einfaldari vopnum. Ólkílegt er að hannaðir verði þyngri skriðdrekar en núverandi orrustuskriðdrekar, þ.a. þróun næstu ára miðar að því að gera þá léttari, betur brynvarða og torséðari í ratsjám (Stealth-tækni) og finna nýja orkugjafa til að knýja þá áfram. 1. Belti, 2. Fallbyssa, 3. Bretti, 4. Reyksprengjuverplar, 5. Turn, 6. Grill, 7. Stjórnturn með sjónpípu, 8. Vélbyssa samása fallbyssu, 9. Skrokkur, 10. Stafnvélbyssa Malcolm X. Malcolm X (19. maí 1925 — 21. febrúar 1965) fæddur Malcolm Little, einnig þekktur sem Detroit Red, El-Hajj Malik El-Shabazz, og Omowale. Hann var til langs tíma talsmaður Nation of Islam (NOI). Hann stofnaði Muslim Mosque, Inc. og Organization of Afro-American Unity. Uppruni og fjölskylda. Malcolm er fæddur í Omaha, Nebraska 19. maí 1925. Foreldrar hans hétu Earl og Louise Little. Faðir hans var baptista-prestur sem predikaði um aðskilnað svartra og hvítra. Hann predikaði undir áhrifum Marcusar Garvey, en hann var einn helsti hvatamaður þess að svart fólk búsett í Bandaríkjunum færi aftur til Afríku og byggju til nýtt samfélag þar. Earl aðhylltist þessa kenningu en hún kallaðist „back to Africa“. Talið er að faðir Malcolms hafi verið drepinn af Ku Klux Klan meðlimum sem kölluðu sig „Black Legion“. Móðir Malcolms var úrskurður geðveik árið 1939 og send á geðveikrahæli og var þar næstu 26 árin. Þar til börn hennar náðu henni út. Malcolm átti sjö systkini, tvær systur Hilda og Yvonne, og fimm bræður þá Wilfred, Philbert, Reginald, Wesley og Robert, svo átti hann þrjú hálf systkini Ellu, Mary og Earl. Öll voru þau tekin og sett á hvert sitt fósturheimili þegar móðir þeirra var send á hæli. „Á unga aldri var Malcolm mikill skólamaður, hann útskrifaðist úr farmhaldsskóla með hæstu einkunnir í bekknum sínum og hafði mikin hug á því að stunda lögfræði. En þegar uppáhalds kennari hans tilkynnti Malcolm að lögfræði væri „ekki starf fyrir niggara“ þá missti hann löngun til að vera i skóla og hætti. Glæpamaðurinn og Fangelsið. Fimmtán ára að aldri kemur Malcolm til Boston til að dvelja hjá systur sinni. Malcolm stundaði vafasama starfsemi með félaga sínum Shorty. Hann varð þekktur undir nafnu Red vegna þess að hár hans var rautt, líklegast arfgengt frá afa sínum sem var hvítur og hafði nauðgað ömmu hans. Malcolm var orðinn eiturlyfjasali, fíkill, innbrotsþjófur, hórumangari og var í ólöglegu braski í veðmálum. Árið 1946 voru hann og félagi hans Shorty handteknir af lögreglu en þá var hann aðeins tvítugur. Dómur Malcolms hljóðaði uppá tíu ár en hann afplánaði einungis sjö vegna góðrar hegðunar. Í fangelsinu fékk Malcolm enn eitt nafnið á sig, Satan vegna þess að hann blótaði mikið og þá sérstaklega Guði og Biblíunni. Í fangelsinu nýtti hann tímann til að læra og bæta menntun sína. Bróðir Malcolms Reginald sendi honum iðulega bréf í fangelsið og byrjaði að kynna hann fyrir íslamskri trú. Reginald var þá meðlimur í íslamska félaginu „Nation Of Islam“ (hér eftir verður Nation Of Islam skrifað sem N.O.I.). Reginald sagði honum frá Íslam og hvað fælist í því að vera múslimi. Malcolm lærði að fólkið sem kom frá Afríku hafði verið múslimar áður en það var sent til Bandaríkjana. „N.O.I. lýstu því yfir að þeir væru svart samfélag sem studdi aðskilnað svartra og hvíta“. Undir áhrifum leiðtoga N.O.I. Elijah Muhammed lærði Malcolm um múslima og Íslam. Malcolm gerðist meðlimur N.O.I. í fangelsi og predikaði yfir samföngum sínum. Fyrstu samskipti þeirra Malcolm og Elijah voru í gegnum bréfaskriftir. Þann 7. ágúst 1952 var Malcolm laus úr fanglesi en þá var hann orðinn nýr maður sem hafði snúið bakinu við gömlum glæpaferli og orðinn bókstafstrúaður múslimi. Dauði Malcolms. Frá því að Malcolm snér aftur til Bandaríkjana var hann í stöðugri hættu á að vera drepinn. Stöðugar lífshótanir áttu sér stað í garð Malcolms og fjölskyldu hans, Malcolm hætti að ferðast einn og skyldi ekki fjölskyldu sína eftir neins staðar og var alltaf með lífverði með sér. Malcolm virðist ekki hafa ætlað að láta bugast og gerði hvað hann gat til að koma boðskap sínum til skila, hinum nýja boðskap um að svartir og hvítir ættu að búa saman í sátt og samlyndi. Margar árasir voru gerðar á hann og fjölskyldu hans, sem dæmi má nefna að húsið hans var brennt að nóttu til, bílsprengja átti að sprengja Malcolm og margt fleira. Þessar hótanir og morðtilraunir voru allar framkvæmdar af meðlimum N.O.I. 21. febrúar 1965 var Malcolm drepinn. Malcolm var að halda ræðu á Manhattan þegar þrír menn ruddust inn í salinn og skutu Malcolm til bana, hann var skotinn fimmtán sinnum. Mennirnir þrír, Talmadge Hayer, Norman 3X butler og Thomas 15X voru allir meðlimir í N.O.I. Ári seinna voru þeir allir dæmdir fyrir morð af fyrstu gráðu. 27. febrúar 1965 var Malcolm jarðsettur í Ferncliff kirkjugarðinum í New York. Fimmtán hundruð manns mættu að jarðaför Malcolms. Þegar átti að grafa líkið tóku vinir Malcolms skóflurnar og grófu hann sjálfir. Franska byltingin. Franska byltingin eða stjórnarbyltingin í Frakklandi er samheiti yfir miklar hræringar í stjórnmálum þar í landi sem stóðu sem hæst á árunum 1789 – 1795. Byltingarinnar er minnst fyrir þá dramatísku atburði sem leiddu til aftöku einvaldsins í valdamesta konungsríki álfunnar árið 1793 og setningar stjórnarskrár sem tryggðu hinni nýju stétt borgara aukin réttindi. Byltingin markaði tímamót táknrænna straumhvarfa í menningar- og stjórnmálasögunni. Margir sagnfræðingar tengja umskipti í hugarfari við viðburði byltingarinnar, endalok eldri heimsmyndar og stjórnarhátta og upphaf nútímalegra, vestrænna í viðhorfa og stjórnmála. a> (1735 – 1813), sem heitir Prise de la Bastille („Ráðist á Bastilluna“) Undir lok 18. aldar voru hugmyndir Upplýsingarinnar allsráðandi í franskri menningu. Birtíngur Voltaires var með vinsælli bókum með ádeilu sinni á stríðsrekstri og hugmyndir Rousseaus um samfélagssáttmálann, að þegn og stjórnarherrar hefðu gagnkvæmum skyldum að gegna, hlutu góðan hljómgrunn hjá almenningi. Kirkjan átti undir högg að sækja gagnvart þeirri sókn reynsluhyggju sem vísindamenn eins og Francis Bacon, Isaac Newton og David Hume höfðu lagt grunninn að. Allt þetta gróf undan ítökum konungs og aðalsins. Árið 1787 höfðu tekjur franska ríkisins dregist mikið saman vegna efnahagskreppu. Konungurinn, Loðvík 16., vildi auka tekjur sínar með því að leggja álögur á ýmsa þá sem höfðu notið skattfríðinda, svo sem jarðeigendur. Þetta mæltist illa fyrir og aðalsmenn og klerkastétt neyddu konung til að boða til stéttaþings vorið 1789. Stéttaþing höfðu ekki verið haldin í Frakklandi síðan 1614. Á þinginu 1789 sátu lögstéttirnar þrjár, aðall, klerkar og þriðja stétt, hver út af fyrir sig á þinginu. Við atkvæðagreiðslur átti hver stétt að hafa eitt atkvæði og þannig mátti tryggja að atkvæði þriðju stéttar hefðu ekki úrslita áhrif, svo sem til að leggja af forréttindi hinna stéttanna. Þegar til átti að taka neituðu fulltrúar þriðju stéttar að fara eftir þessum reglum og kröfðust þess að þingið kæmi saman í einni deild. Þá var reynt að slíta þinginu og sölum þess lokað fyrir fulltrúum þriðju stéttar. Þeir létu þó ekki deigan síga og hittust ásamt stuðningsmönnum sínum úr hópi aðals og presta á tennisvelli í Versölum og sóru þess eið að skilja ekki fyrr en þeir hefðu útbúið stjórnarskrá. Þann 11. júlí 1789 gerði Lúðvík 16. helsta ráðgjafa sinn Jaques Necker útlægan og hóf handa við að stokka upp innan stjórnkerfisins. Þá brást almenningur í París við með uppreisn og réðist á Bastilluna, fangelsi í París, og unnu hana á sitt valda þremur dögur síðar. Í ágúst 1789 var lénsveldisskipulagið afnumið og stuttu seinna voru réttindi mannsins yfirlýst að fyrirmynd bandarísku stjórnarskránni. Árið 1792 lýsti Frakkland stríði á hendur Austurríki. Ógnarstjórnin réði ríkjum 1793 – 1794. Árið 1795 var komið á fót stjórn fimm þjóðstjóra sem fóru með framkvæmdavaldið og hélst það skipulag þangað til herforinginn Napóleon Bonaparte (Anni) tók völdin í sínar hendur árið 1799. Revolver Ocelot. Revolver Ocelet eða Ocelot er persóna úr Metal Gear Solid-seríunum. Hann líkist Lee van Cleef. Ocelot er þekktur fyrir færni sína með Single Action Army-sexhleypur. Aðdáendur Ocelots eru hrifnastir af handahreyfingum hans. Upphaf. Ocelot fæddist 1944 sem einskilgetið barn The Boss og The Sorrow, en hann var tekinn frá þeim af Heimsspekingunum(The Philosophers) og var örugglega alinn að hluta í Bandaríkjunum. Ocelot var þá seinna sendur til Sovétríkjanna og GRU-ofurstinn Volgin tók hann að sér. Hann var mjög góð skytta og náði mjög ungur stöðu sem majór. Hann var mikill aðdáandi kúrekamynda og fékk sér stígvél með sporum. Hann æfði sig í að halda byssum á lofti fyrir nokkurs konar rússneska rúllettu og æfði sig mikið með skammbyssur. Hann stofnaði meira að segja sérsveit innan Spetsnaz, sem kallaðist Ocelot-deildin. Virtuous Mission. 1964 fékk Volgin boð frá The Boss(hún vissi ekki að Ocelot væri sonur hennar). Hún ætlaði að ganga í lið með þeim og hún ætlaði ná Sokolov. Ocelot ætlaði sér að hitta hana en vissi ekki að Big Boss(þá undir nafninu Naked Snake) væri á staðnum og tókst Big Boss að sigra hann og 6 menn úr Ocelot-deildinni. Big Boss ráðlagði honum að nota marghleypur í stað sjálfvirkra skammbyssna. Síðar er Volgin hafði náð Sokolov og kjarnorkuvopni hans, sá Ocelot Volgin sprengja rannsóknarstöð Sokolovs með Davy Crockett-kjarnorkuvörpu. Operation Snake Eater. Big Boss kom aftur og Ocelot mætti honum með skreytta útgáfu af Single Action Army-sexhleypu og Big Boss sagði honum að sú byssa væri gagnslaus. Og skipti hann henni fyrir tvær Black Powder-útgáfur. Þeir mættust nokkru sinnum aftur en þeir luku aldrei bardaga sínum. Hann fékk áhuga á pyndingum þegar hann fylgdist með Volgin pynda Big Boss og leit á Big Boss sem einskonar læriföður. Ocelot olli líka að Big Boss missti hægra augað þegar hann framkvæmdi rússneska rúllettu. Í lok verkefnisis var upplýst að Ocelot væri að vinna fyrir CIA og KGB. Ocelot náði upplýsingum Metal Gear af Granin, sovéskum uppfinningamanni og erkióvini Sokolovs. En Big Boss náði þeim af honum einhvern veginn. Seinni ár. Fátt er vitað um Ocelot eftir fall Sovétríkjanna 1991, en hann virðist hafa unnið nokkur verkefni fyrir KGB og vann þar sem pyndingameistari. Hann tók að sér ýmis verkefni frá Patriots(annað nafn yfir The Philosophers). Og þar á meðal að hafa gætur á George Sears(Solidus Snake). Eftir að Solidus varð forseti fékk hann Ocelot til þess ganga í FOXHOUND til að fá Liquid Snake til að hefja uppreisn í FOXHOUND og ná yfir upplýsingar um nýjan Metal Gear, Metal Gear REX, á Shadow Moses-eyju. Metal Gear Solid. Ocelot var hægrihandarmaður Liquids 2005 á Shadow Moses-atvikinu og var fenginn til að yfirheyra DARPA-forstjórann og forstjóra ArmsTech um kóðanna að Metal Gear REX. En DARPA-forstjórinn vissi hver Ocelot var og Ocelot drap hann fyrir það í pyndingu en lét það líta út eins og slys. Síðar barðist hann við Solid Snake en missti hægri hendina í miðjum bardaga af einhverri ninju. Ocelot komst yfir upplýsingar Metal Gear REX og slapp. Árin á milli MGS1 og MGS2. Solidus og Ocelot ákváðu að nýta sér þessar upplýsingar til að byggja nýjan Metal Gear, en Patriots ráku Solidus úr embætti og réðu nýjan forseta í hans stað(James Johnson). Solidus faldi sig og lét Ocelot selja upplýsingar Metal Gear á svarta markaðnum. Solidus fjármagnaði líka aðgerð til að láta hægri handlegg af líki Liquids Snake á hægri handlegg Ocelots í Lyon. En persónuleiki Liquids braust stundum í gegn og náði stjórn á honum. Solidus og Ocelot fréttu af skemmdarverkum Solids Snake og Dr. Emmerichs á Metal Gear útgáfunum sem var verið að byggja eftir upplýsingunum sem Ocelot seldi. Solidus og Ocelot grófu upp upplýsingar um nýjan Metal Gear sem landgönguliðið var að smíða gegn hinum Metal Gear-tækjunum, sem fékk nafnið Metal Gear RAY. Þeir ginntu Snake og Dr. Emmerich í að rústa Metal Gear-tæki landgönguliðanna svo þeir yrðu handteknir. Ocelot hafði samband við gamlan GRU-ofursta að nafni Sergei Gurlukovich til að hjálpa sér að ná nýja Metal Gear-tækinu. Metal Gear Solid 2: Sons of Liberty. Árið 2007 laumaðist Snake um borð í tankskipið sem landgönguliðarnir notuðu til að smygla Metal Gear-tækinu. Ocelot og Gurlukovich(og dóttir Gurlukovich, Olga) réðust um borð og drápu landgönguliðana. Þegar allt virtist ganga Gurlukovich í hæginn uppljóstraði Ocelot að hann ynni fyrir Patriots og drap Gurlukovich og yfirforingja landgönguliðanna. Hann sökkti tankskipinu og stal Metal Gear RAY. Olga og Snake sluppu lifandi. Ocelot hjálpaði Patriots að senda annað tankskip sem var fullt af olíu og sökkti því á sama stað. Patriots lét byggja hreinsistöð að nafni Big Shell á staðnum til þess að byggja nýtt Metal Gear-tæki að nafni Arsenal Gear. Þeir ætluðu að sanna að S3-forritið þeirra gæti ráðið við hvaða aðstæður sem er og fengu Ocelot að líkja eftir Shadow Moses-atvikinu. Síðan 29. apríl 2009 réðst Solidus á Big Shell með fyrrum SEAL-sérsveitinni Dead Cell og her Gurlukovich undir stjórn Olgu. Þeir héldu nokkrum gíslum þ.á m. James Johnson forseta. Patriots sendu Raiden inn til sjá um hryðjuverkamennina en þeir vissu ekki að Solid Snake hafði laumast í gegn líka. Ocelot mætti Raiden nokkrum sinnum og drap Johnson forseta. Hann útskýrði allt fyrir Solidus, Solid Snake, Raiden og Dead Cell þegar að verkefni Patriots virtist ætla að ganga upp. En Liquid tók við völdin og ætlaði sér að drepa Patriots. Hann fór í burtu á Metal Gear RAY. Metal Gear Solid 4: Guns of the Patriots. Í 15 mínútna sýnishorni af MGS4 á E3-hátíðinni hefur Liquid algjörlega stjórnun yfir Ocelot. Hann á víst núna að heita Liquid Ocelot. Liquid Ocelot hefur komið á stoðir stríði í Miðausturlöndum þar sem að einkaherfyrirtæki og málaliðar eru helstir í hlutverkum. Liquid Ocelot ætlar sér að endurskapa Outer Heaven sem Big Boss skapaði 1995. Warcraft. Warcraft er heiti á herkænskutölvuleikjaséríu sem er og var mjög vinsæl. Þrír leikir hafa komið út og ýmsar viðbætur hafa fylgt þeim. Fyrstu tveir leikirnir fjalla að mestu um stríð milli manna og orka í ævintýra heiminum sem einfaldlega er kallaður „Warcraft heimurinn“, í síðari leikjum bættust við fleiri lið eða tegundir, "náttálfar" og "hinir ódauðlegu". Massi. Tölvugerð mynd af frummynd eins kílógramms. Massi er eitt af grunnhugtökum eðlisfræðinnar og gefur til kynna hve mikið efnismagn tiltekið fyrirbæri hefur að geyma. Í sígildri eðlisfræði er massi efniseginleiki óháður tregðukerfum (ólíkt þyngd) og byggist massahugtakið aðallega á verkum Isaac Newtons. Í nútímaeðlisfræði veitir afstæðiskenningin aðra sýn á massa og er mikilvæg viðbót við lögmál Newtons. SI-grunnmælieining massa er kílógramm. Formleg skilgreining. Í dag er litið á massa sem grunnstærð innan eðlisfræðinnar, þ.e. massi er ekki stærð sem leidd er af öðrum stærðum. Eitt kílógramm er viðmiðunarmassa, nánar tiltekið massi ákveðins málmstykkis sem varðveitt er í París. Unnt er að mæla massa hlutar án þess að taka tillit til nokkurra annarra eðlisfræðilegra stærða, ef málmstykkið góða er haft til viðmiðunar og notað sem grunneining mælikerfis. Tregðumassi. þar sem „F“ er heildarkraftur sem verkar á hlutinn, „m“ tregðumassi hlutarins og „v“ hraði hans. þar sem „a“ er hröðun hlutarins. Þessi jafna nefnist annað lögmál Newtons. Hér sést að eftir því sem sem hröðun hlutar er meiri, því meiri kraft þarf til að valda þessari hröðun þegar massi hlutarins helst sá sami. Þá má einnig segja, að ef gefa á tveimur hlutum með ólíkan massa jafnmikla hröðun, þarf meiri kraft til að hraða þeim hlut sem hefur meiri massa. Við höfum því sýnt fram á sannindi fullyrðingarinnar um tregðumassa í upphafi þessarar efnisgreinar. Þyngdarmassi. Hér stendur „t“ fyrir tregðumassa og „m“ fyrir þyngdarmassa (gravitation) hlutanna „a“ og „b“. „G“ er þyngdarfasti Newtons og „r“ fjarlægðin milli massamiðju hlutanna. Hvor hlutur togar í hinn með aðdráttarkraftinum „F“. Samkvæmt því sem við höfum lært um „tregðumassa“ verður breyting á hreyfingu hlutar ef krafti er beitt á hann. Þegar hlutir „a“ og „b“ toga hvor í annan breyta þeir því hraða og/eða stefnu hvors annars. Þegar hlutur verður fyrir áhrifum af þyngdarmassa annars hlutar, segjum við að sá fyrrnefndi sé innan þyngdarsviðs hins síðarnefnda. Þriðja lögmál Newtons lýsir því yfir að allir kraftar eigi sér gagnstæðan kraft (actio-reactio). Aðdráttarkraftur hlutar „a“ á sér einmitt gagnstæðan kraft í aðdráttarkrafti hlutar „b“; hlutirnir tveir toga því nákvæmlega jafnt hvor í annan, aðeins í gagnstæðar áttir. Jafngildi þyngdar- og tregðumassa. Tregðumassi og þyngdarmassi eru í raun sami hluturinn. M.a. má sýna fram á þetta með því að taka til athugunar hluti í frjálsu falli, líkt og Galileo Galilei gerði á sínum tíma. Hann sýndi fyrstur manna fram á að allir hlutir falla jafnhratt til jarðar, séu núningskraftar andrúmsloftsins ekki teknir með í reikninginn (þessar athuganir gerði hann reyndar ekki úr Skakka turninum í Pisa eins og oft er haldið fram). þar sem „M“ táknar þyngdarmassa en „m“ tregðumassa. Hér má sjá hvernig hlutfall þyngdar- og tregðumassa er fasti (hér táknaður með „K“) þá og því aðeins að allir hlutir í frjálsu falli hafi þyngdarhröðunina „g“. Með þyngdarhröðun jarðar sem fasta og athuganir Galileo að vopni, sést að K er í raun fasti eins og við héldum fram. Þyngdarmassi og tregðumassi eru því jafngildir. Massi og nútímaeðlisfræði. þar sem „E“ táknar orku, „m“ massa og „c“ ljóshraða. Í hverju kílógrammi af efni býr samkvæmt þessu gríðarmikil orka, sem samsvarar hér um bil 9.1016 Joule (þar sem c = 3.108 m/s). Massi er einnig eitt aðalviðfangsefni almennu afstæðiskenningarinnar. Hún gerir ráð fyrir að massi sveigi tímarúmið, sem hefur margvíslegar afleiðingar. Nálægt gríðarmassamiklum hlutum svo sem svartholum getur þessi sveigja orðið mælanleg sem ljósvik; aðeins þannig eru svarthol greinanleg. Þá er talið að þyngdarbylgjur verði til þegar mikill massi umbreytist snögglega í orku (svo sem við Miklahvell eða þegar sprengistjarna springur). Þyngdarkrafturinn er sá kraftur þar sem massi kemur mest við sögu. Einna minnst er þó vitað um þann kraft af höfuðkröftunum fjórum, en uppi eru hugmyndir um að þyngdarkrafturinn sé orsök samspils efnis við hina svonefndu „Higgs-bóseind“ („Guðseindina“ svokölluðu). Sú kenning myndi einnig útskýra af hverju hlutir hafa yfirhöfuð massa. Stóri sterkeindahraðallinn í CERN á að gefa svar við því hvort þessi kenning fái staðist eður ei. Vísindaleg flokkun. Vísindaleg flokkun er flokkun sem líffræðingar beita til að flokka lifandi og útdauðar lífverur. Nútíma flokkun á rætur sínar að rekja til verka Carl von Linné sem flokkaði lífverur samkvæmt sameiginlegum útlitseinkennum. Carl von Linné var grasafræðingur og byggði flokkun sína á plöntum einkum á fjölda fræfla. Hann kom einnig fram með tvínafnakerfið. Flokkunarkerfið byggir á stigskiptri flokkun þannig að skyldar tegundir mynda saman ættkvíslir, skyldar ættkvíslir mynda ættir o.s.frv. Þessi flokkun hefur verið endurbætt síðan Charles Darwin kom fram með þróunarkenningu sína. Dæmi. Meðfylgjandi er dæmi um venjulega flokkun á fimm tegundum en þær eru: Ávaxtafluga ("Drosophila melanogaster") sem er svo algeng í erfðafræðirannsóknastofum, maður ("Homo sapiens"), gráerta ("Pisum sativum") sem Gregor Mendel notaði við uppgötvanir sínar í erfðafræði, berserkjasveppur ("Amanita muscaria") og E. coli bakterían ("Escherichia coli"). Hinir átta flokkar eru feitletraðir. Einnig koma fram undirflokkar. Svartur. Svartur er hluti af upplifun manna á litum, sem þýðir að hlutur sýnist "svartur" ef augað nemur ekkert ljós frá honum. Eðlisfræðilega eru litir skilgreindir sem sýnilegt ljós innan tiltekinna bylgjulengda, en þar sem "svartur" þýðir fjarvera sýnilegs ljóss þá flokkast svartur ekki til lita. Í daglegu tali er þó talað um "svartan lit" og átt við lit hlutar, sem er það dökkur að hann endurkastar nær engu sýnilegu ljósi. Leifur heppni. Leifur heppni Eiríksson (um 980 — um 1020) var landkönnuður sem er sagður hafa komið til Norður-Ameríku fyrstur Evrópubúa. Talið er að Leifur hafi fæðst um árið 980 á Íslandi, sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar og Þjóðhildar konu hans. Hann flutti með foreldrum sínum til Grænlands ungur að árum, ásamt bræðrum sínum, Þorvaldi og Þorsteini. Í Grænlendinga sögu segir frá því að Leifur keypti skip Bjarna Herjólfssonar sem hafði áður villst til Norður-Ameríku, en steig ekki á land. Um árið 1000 sigldi Leifur frá Grænlandi og kom fyrst að Hellulandi (líklega Baffinsland). Hann sigldi því næst sunnar og kemur nú að skógi vöxnu landi (Marklandi), líklega Labrador. Að lokum er talið að hann hafi komið til Nýfundnalands. Leifur nefndi það Vínland eftir að hann fann þar vínber. Einnig voru þar ár fullar af fiski og grasið grænt árið um kring. Á Vínlandi byggðu Leifur og fylgismenn hans nokkur hús og höfðust við yfir veturinn. Á heimleiðinni til Grænlands bjargaði Leifur 15 skipsbrotsmönnum af skeri og fékk upp úr því nafngiftina ‚hinn heppni‘. Richard Bett. Richard Arnot Home Bett er bandarískur prófessor í heimspeki og fornfræði við Johns Hopkins University í Baltimore í Maryland. Hann lauk B.A. gráðu frá Oxford University í Bretlandi og Ph.D. gráðu frá UC Berkeley. Hann varr 1994-5 félagi við Center for Hellenic Studies í Washington DC 1994-1995. Frá janúar 2000 til júní 2001 var hann framkvæmdastjóri bandarísku heimspekisamtakanna American Philosophical Association. Bett sérhæfir sig í forngrískri heimspeki en hefur einnig mikinn áhuga á siðfræði og þekkingarfræði jafnt í fornöld sem nútíma og á heimspeki Friedrichs Nietzsche. Heimild. Bett, Richard Bett, Richard H.D.F. Kitto. Humphrey Davy Findley Kitto (6. febrúar 1897 – 21. janúar 1982) var breskur fornfræðingur. Hann fæddist í Stroud, Gloucestershire. Kitto skrifaði doktorsritgerð sína árið 1920 við University of Bristol, þar sem hann varð prófessor árið 1944. Hann kenndi við háskólann í Bristol þar til fór hann á eftirlaun árið 1962. Kitto fékkst einkum við gríska harmleiki og þýddi m.a. verk eftir Sófókles. Árið 1951 kom út bók hans "The Greeks" sem var inngangsrit ætlað almenningi. Í bókinni fjallar Kitto um allar hliðar grískrar menningar í fornöld, en bókin þykir sígild og nýtur enn mikilla vinsælda. Heimild. Kitto, Humphrey Davy Findley Wikipedia. Wikipedia () er frjálst alfræðirit sem er búið til í samvinnu, með svokölluðu wiki kerfi. Fyrir utan almennan alfræðitexta, er alfræðiefnið á síðunni oft tengt í almanök og landafræðiskrár, að auki er haldið utan um nýlega atburði. Fram að júní 2009 féll mestallur texti á Wikipedia undir Frjálsa GNU handbókarleyfið en þá var skipt yfir í Creative Commons Attribution-ShareAlike (CC-by-SA) 3.0. Myndir og margmiðlunarefni falla stundum undir önnur skilyrði. Mest af efnisinnihaldi Wikipedia er komið frá notendum. Allt efnið er síbreytilegt og það verður aldrei fullkomnað. Vegna þessa er Wikipedia einstætt viðfangsefni. Forsaga. Sú hugmynd, að geta safnað allri þekkingu á einn stað, á rætur sínar að rekja allt til Alexandríusafnsins og Pergamon til forna. Með tilkomu internetsins, reyndu margir að búa til internetalfræðirit. Talsmaður frjáls hugbúnaðar, Richard Stallman, benti á notagildi „frjálsrar alhliða alfræðibókar og menntunarauðlindar“ árið 1999. Hann lýsti stofnun Wikipedia sem „spennandi frétt“ og frjálsi hugbúnaðarsjóðurinn hans hvetur fólk til þess að taka þátt og miðla efni. Þann 20. september 2004 fóru greinarnar yfir 1 milljón. Milljónasta greinin var á hebresku og var um fána Kazakhstan. Saga. Fyrir utan einstaka tæknilega örðugleika hefur enski hluti Wikipedia starfað óslitið frá 10. janúar 2001. Nokkuð er hins vegar á reiki hvenær íslenski hlutinn var stofnaður, og fer allt eftir því hvernig er talið. Fyrsta gagnagrunnsbreytingin á íslenska hlutanum var gerð á greininni „WIKIng“ (sem síðar var eytt) þann 6. desember 2002 klukkan 19:43 UTC+0 á dönsku og sú næsta nær ári síðar þann 24. nóvember 2003 á nýnorsku, fyrstu viðbótinni á íslensku var hins vegar gerð 5. desember 2003 kl. 11:54 um morgun og má telja að með henni hafi saga íslensku útgáfunnar hafist. Hugbúnaður & vélbúnaður. Hugbúnaðurinn sem upprunalega keyrði Wikipedia hét UseModWiki. Hann var skrifaður af Clifford Adams („skref I“). Fyrst þurfti að nota CamelCase fyrir tengla; en fljótlega varð hægt að nota þá aðferð, sem nú er notuð (tengill). Í janúar 2002, byrjaði wikipedia að keyra á PHP wiki kerfi, sem notaði MySQL gagnagrunnskerfi, og bættust margir nýjir möguleikar við (og í leiðinni gerði CamelCase tengla ónothæfa). Nýja kerfið var sérstaklega skrifað fyrir Wikipedia verkefnið af Magnus Manske („skref II“). Eftir þó nokkurn tíma, hægðist mikið á kerfinu og það var nánast ómögulegt að gera neitt. Ýmsar breytingar og uppfærslur voru gerðar en þjónuðu aðeins tímabundnum tilgangi. Þá endurskrifaði Lee Daniel Crocke allt wiki kerfið frá grunni og hefur nýja útgáfan verið í notkun síðan í júlí 2002 („skref III“). Núverandi hugbúnaður heitir MediaWiki og er hann í notkun í mörgum öðrum verkefnum. Sá sem nú sér aðallega um að laga galla kerfisins og viðhald á gagnagrunninum heitir Brion Vibber. Árið 2003 hafði sambandsleysi þjónsins rýrt „framleiðslugetu“ notenda. Margir kvörtuðu undan vandamálum með að breyta greinum og miklum hægagangi. Vandamálið var vegna þess að aðeins var einn þjónn að keyra öll wiki verkefnin. Frá og með júní 2004, keyra verkefnin á níu tileinkuðum þjónum sem eru staðsettir í Flórída. Nýja uppsetningin samanstendur af einum gagnagrunnsþjóni og þrem vefþjónum, sem allir keyra stýrikerfið Fedora. Þjónarnir framreiða allar beiðnir, og túlka allar síður til notenda. Til að auka hraða frekar, eru síður sem óskráðir notendur biðja um geymdar í skyndiminni þar til þeim er breytt af einhverjum notanda, sem gerir það óþarfa að túlka vinsælustu síðurnar aftur og aftur. Beiðnir úr skyndiminni eru framreiddar af tveimur Squid þjónum. Annar Squid þjónninn þjónar líka sem tölvupóstþjónn Wikipedia. Í febrúar 2005 var haldin söfnun fyrir nýjum vélbúnaði 75.000$ USD, söfnunin tókst vel og fór 15% yfir áætlað mark. Lögreglan á Íslandi. Lögreglan er ríkisstofnun sem hefur það meginhlutverk að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu. Í lögreglulögunum frá 1996 er hlutverk stofnunarinnar útlistað nánar. Einnig er þar tekið fram að dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar, en ríkislögreglustjóri stýri henni í hans umboði. Lögregluþjónar eru meðal fárra ríkisstarfsmanna sem mega beita valdi í starfi sínu. Alltaf þurfa þeir þó að gæta að því að beita ekki meira valdi en nauðsynlegt er. Hlutverk lögreglu. Íslenska lögreglan hefur margþættu hlutverki að gegna samkvæmt lögum. Skipta þar mestu lögreglulögin, lög um meðferð sakamála og umferðarlögin. Hefur lögreglan reyndar einhverju hlutverki að gegna í samtals 80 núgildandi lögum. Að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Helsta leiðin til að vinna að markmiðum þessa ákvæðis er almennt eftirlit lögreglu. Einkennis- sem óeinkennisklæddir lögregluþjónar starfa um allt land við eftirlit og eru til taks allan sólarhringinn. Að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins. Í þeim tilgangi hefur verið unnið að öflugu forvarnastarfi um allt land undir handleiðslu ríkislögreglustjóra og lögreglunnar í Reykjavík. Fræðsla til barna, unglinga og fullorðinna fer reglulega fram um flest málefni samfélagsins og haldið er uppi öflugu eftirliti með heimilum fólks um stórar ferðahelgar. Að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum. Að uppljóstran brota starfa aðallega rannsóknarlögregluþjónar. Í sumum tilvikum eru störf þeirra mjög sérhæfð, sérstaklega hjá lögreglunni í Reykjavík. Að rannsókn lokinni eru málin send löglærðum fulltrúum eða saksóknara til frekari ákvörðunar um framhaldið. Lög um merðferð opinberra mála eru mjög ítarleg um hvernig rannsókn mála skuli fara fram, sérstaklega hvað varðar þvingunarúrræði lögreglu, t.d. hlerun, handtöku og gæsluvarðhald svo eitthvað sé nefnt. Að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að. Einkennisklædd lögregla sér aðallega um þennan hluta starfsins. Lögregla gengir mikilvægu hlutverki þegar neyð skapast og þá getur viðbragðsflýtir skipt miklu. Til að tryggja sem best árangur þessa starfs tók lögreglan yfir rekstur almannavarna árið 2003 og starfsrækir fjarskiptamiðstöð lögreglu, en hún sér um öll neyðarútköll lögreglu sem berast til Neyðarlínunnar 112. Einnig er það hlutverk lögreglu að stýra leit og björgun fólks á landi í samvinnu við björgunarsveitir. Að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á. Í fjöldamörgum lögum sem snerta rekstur annarra ríkisstofnana er fjallað um að sú stofnun geti kallað til lögreglu til að framfylgja ákvörðun þeirrar stofnunar. Að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. Samstarf lögreglu við tollgæsluna og landhelgisgæsluna er mjög víðfemt og líklega skýrasta dæmið um ofangreint lagaákvæði. Samstarfið við tollgæsluna snýr aðallega að því að sporna við innflutningi fíkniefna, en samstarfs við Landhelgisgæsluna er margofnara, þjálfun er að hluta til sameiginleg, sérstaklega þjálfun í sprengjuleit og eyðingu og þjálfun sérsveitar ríkislögreglustjórans. Að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju. Tvö atriði er sérstaklega talin upp í lögum um meðferð opinberra mála sem falla ágætlega að þessu ákvæði, það er skylda lögreglu til að rannsaka slys og bruna. Þetta ber að gera þrátt fyrir að ekki sé ástæða til að ætla að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Saga lögreglunnar. Á þjóðveldistíma var dómsvaldið bundið við Alþingi, þar sem goðar gátu dæmt menn fyrir brot sem þeir áttu að hafa framið. Ekkert framkvæmdavald var til í landinu til að fylgja dómnum eftir heldur þurfti sá sem brotið var á, eða ættingjar hans að honum látnum, að sjá til þess að dómnum væri framfylgt. Fljótlega eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd var nýr lagabókstafur tekinn upp, Jónsbók. Valdsmenn, umboðsmenn konungs, fengu þar hlutverk í íslensku samfélagi, og giltu þau lög fram á 18. öld. Valdsmenn þessir voru einnig kallaðir sýslumenn og var gert að handtaka þjófa og aðra misindismenn og sjá um að framfylgja dómum. Upp frá þessu urðu sakamál opinber mál og blóðhefndir lögðust af. Lítil þróun varð í löggæslumálum á Íslandi fyrr en rétt fyrir aldamótin 1800. Bruni í Innréttingum Skúla Magnússonar árið 1778 varð til þess að vaktarar voru settir við verksmiðjurnar á næturnar. Fljótlega var vaktaranum sagt upp hjá Innréttingunum en annar var ráðinn til starfa hjá Reykjavíkurkaupstað. 15. apríl 1803 var svo skipaður bæjarfógeti í Reykjavík og hafði hann tvo einkennisklædda lögregluþjóna sér til aðstoðar, báða danska. Fyrsti íslenski lögregluþjóninn, Jón Benjamínsson, tók til starfa árið 1814 og árið 1859 varð löggæsla á Íslandi alíslensk. Lög um lögreglusamþykktir voru samþykkt á Alþingi árið 1891 og upp frá því var hafist handa við að ráða lögregluþjóna á helstu þéttbýlisstöðum víðsvegar um landið. Lögreglumönnum fjölgaði svo jafnt og þétt á landinu, sérstaklega í Reykjavík, í upphafi 20. aldar. Árið 1933 var stofnuð ríkislögregla á Íslandi í kjölfar óeirða sem urðu 1932 á bæjarstjórnarfundi í Reykjavík. Þrátt fyrir þetta voru flestir lögregluþjónar starfsmenn bæjarfélaga og varð ekki breyting þar á fyrr en 1972. Þá tók ríkið yfir rekstur lögreglu og hefur síðan þá aðeins verið eitt lögreglulið á Íslandi. Rannsóknarlögregla ríkisins var stofnuð 1977 og sá um að rannsaka öll sakamál, þ.e. öll brot á almennum hegningarlögum. Einnig var hún öðrum embættum til aðstoðar. Á árinu 1982 var Sérsveit ríkislögreglustjóra stofnuð, þegar fyrstu sérsveitarmennirnir luku æfingum með norsku sérsveitinni, sem ber nafnið Beredskapstroppen. Árið 1992 urðu frekari breytingar á skipulagi lögreglu þegar dómsvald var tekið af sýslumönnum og fært til sérstakra héraðsdómstóla. Lög um meðferð opinberra mála voru endurskrifuð í leiðinni og færð í nútímalegra horf. Embætti ríkislögreglustjóra var stofnað árið 1997 samfara því að Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður. Var rannsóknarskylda mála flutt að flestu leyti aftur til sýslumanna í þeim tilgangi að flýta málsmeðferð. Stjórnskipulag lögreglu. Dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar á Íslandi. Í umboði hans fer ríkislögreglustjóri með daglega stjórn lögreglu í landinu. Aðalhlutverk embættis ríkislögreglustjóra er að samhæfa og samrýma lögregluliðin í landinu, svo sem með rekstri bílaflota og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga. Ríkislögreglustjóri fer því sjaldnast með eiginlega stjórn, nema í þeim tilvikum sem talið er að málin séu það víðfeðm að annað sé ekki gerlegt. Má þar nefna greiningardeild, alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sem sér um öll samskipti við erlend lögreglulið, sérsveit ríkislögreglustjóra sem sér um vopnaða öryggisgæslu og útköll þar sem vopnaðrar lögreglu er þörf. Töluverðar skipulagsbreytingar innan lögreglunnar tóku gildi 1. janúar 2007, lögregluembættum fækkaði þá úr 26 í 15. Veigamesta breytingin var sú að embættin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði voru sameinuð í eitt embætti fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Á Suðurnesjum voru embættin á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík sameinuð. Á landsbyggðinni var lögreglustjórn í eftirfarandi sýslumannsumdæmum færð undir annan lögreglustjóra: Búðardalur var færður undir embættið í Borgarnesi; Bolungarvík, Hólmavík og Patreksfjörður undir Ísafjörð; Ólafsfjörður og Siglufjörður undir Akureyri; Höfn undir Eskifjörð og Vík undir Hvolsvöll. Stærsta lögreglulið landsins er lögregla höfuðborgarsvæðisins. Starfsemi þess skiptist niður í þrjú svið: löggæslusvið, lögfræði- og ákærusvið og stjórnsýslu- og þjónustusvið, yfir hverju sviði er aðstoðarlögreglustjóri. Löggæslusviðið skiptist svo í þrjár deildir sem lúta stjórn yfirlögregluþjóna: almenna deild, umferðardeild og rannsóknardeild. Rannsóknardeild er einnig skipt niður eftir þeim málaflokkum sem eru til rannsóknar, s.s. fíkniefnadeild, auðgunarbrotadeild, ofbeldisbrotadeild og kynferðisbrotadeild. Við lögreglu höfuðborgarsvæðisins er einnig starfandi tæknideild, undir löggæslusviði, en hún sinnir einnig útköllum á landsvísu. Þar eru framkvæmdar margvíslegar tæknirannsóknir, allt frá töku fingrafara til DNA-rannsókna. Fyrir utan embættið á höfuðborgarsvæðinu eru sérstakar rannsóknardeildir starfræktar við embættin á Suðurnesjum, Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði og Selfossi. Deildirnar á Akranesi, Akureyri, Eskifirði og Selfossi ná einnig yfir önnur embætti í viðkomandi landshlutum. Embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var áður undir stjórn utanríkisráðuneytisins en ekki dómsmálaráðuneytisins eins og önnur sýslumannsembæti landsins. Þetta kom til af því að stór hluti embættisins var bandarísk herstöð. Breyttar aðstæður í kjölfar brottfarar varnarliðsins á árinu 2006 urðu til þess að embættið var fært undir dómsmálaráðuneytið þann 1. janúar 2007 samhliða því sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli tók við lögreglustjórn á öllum Suðurnesjum. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli sinnir nokkrum sérhæfðum störfum, aðallega varðandi eftirlit á varnarsvæðinu og landamæraeftirlit. Lögreglumenn. Til að geta starfað sem lögreglumaður þarf einstaklingur að vera orðinn 20 ára, hafa lokið tveggja ára framhaldsnámi, hafa hreinan sakaferil og vera andlega og líkamlega heilbrigður samkvæmt læknisvottorði. Lögregluskóli ríkisins hefur verið rekinn sem sjálfstæð stofnun síðan 1988. Áður hafði skólinn verið hluti af lögreglunni í Reykjavík, en eiginleg þjálfun lögregluþjóna hófst árið 1938. Nám við skólann tekur nú eitt ár, tvær annir við skólann og ein önn við starfsþjálfun hjá lögregluembættunum. Starf lögreglumanna er mjög fjölþætt. Sýnilegasti hlutinn er líklega einkennisklædd lögregla við eftirlit á vegum úti. Ásamt því að sinna eftirlit með umferð sér einkennisklædd lögregla líka um flest útköll sem upp koma. Flóra þeirra er óendanleg og eru fyrstu menn á vettvang flestra alvarlegra brota einkennisklæddir lögreglumenn í útkalli. Þeir sjá um þær aðgerðir sem þarf að framkvæma á vettvangi, hvort sem það er handtaka brotamanna eða lokun vettvangs svo frekari rannsóknarvinna geti farið fram. Störf rannsóknarlögreglumanna er einnig mjög mismunandi. Í flestum tilvikum er verið að rannsaka glæp sem hefur átt sér stað og verið tilkynnt um, t.d. líkamsárásir og þjófnaði. Einn flokkur mála sker sig út úr hvað þetta varðar, þar skiptir mestu að lögreglumenn séu vel á verði og rannsaki mál á eigin spýtur, það er fíkniefnamál. Áður hefur verið minnst á tæknideild lögreglunnar í Reykjavík sem er sérhæfð í rannsókn brotavettvanga. Frá árinu 2003 hefur verið unnið ötult verk við að efla stjórnunareiningar innan lögreglunnar með sérstöku stjórnunarnámi fyrir yfirmenn. Starf þetta er unnið í samvinnu framhaldsdeildar lögregluskóla ríkisins og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Einkenni og tign. Lögreglustjóri, varalögreglustjóri, yfirlögregluþjónn, aðstoðaryfirlögregluþjónn, aðalvarðstjóri/lögreglufulltrúi, varðstjóri/rannsóknarlögregluþjónn, Til að geta orðið lögreglustjóri eða varalögreglustjóri þarf viðkomandi að uppfylla sömu skilyrði og sett eru til að hljóta skipun sem héraðsdómari. Tignarheitin aðalvarðstjóri og lögreglufulltrúi er jafnhá, sem og tignarheitin varðstjóri og rannsóknarlögregluþjónn. Skiptingin er tilkomin vegna þess munar sem er á störfum rannsóknardeilda og almennra deilda. Aðalvarðstjórar stýra vöktum og varðstjórar stýra einstökum lögregluþjónum. Á hinn bóginn stýra lögreglufulltrúar rannsóknardeildum og rannsóknalögregluþjónar stýra rannsókn einstakra mála. Afleysingamenn og héraðslögregluþjónar eru þeir sem eru ráðnir til lögreglustarfa án þess að hafa lokið prófi frá lögregluskóla ríkisins. Afleysingamenn eru ráðnir til lengri tíma, en héraðslögregluþjónar eru aðallega notaðir á landsbyggðinni til að styrkja liðin þegar stærri viðburðir eru í gangi. The Telepathetics. The Telepathetics er íslensk hljómsveit, öðru nafni Gizmo, sem komst í úrslit Músiktilrauna árið 2002. Saga. Sveitin var stofnuð árið 2000 af þeim fjórum meðlimum sem að nú skipa sveitina — en fyrstu árin kom sveitin fram undir nafninu "gizmo". Seinna var breytt um nafn og tekið upp nafnið "The Telepathetics". Árið 2005 komst sveitin í fréttirnar þegar að það spurðist út að útgáfumógúllinn Alan Mcgee, þekktastur fyrir að hafa uppgötvað Oasis, sýndi The Telepathetics áhuga. Mcgee var staddur á Íslandi og þannig atvikaðist að hann sá sveitina spila á tónleikum og bauð hljómsveitinni í kjölfarið til London til að spila í hinni svokölluðu Death Disco tónleikaseríu á Notting Hill Arts Club. Í kjölfar London ferðarinnar gaf hljómsveitin út sína fyrstu breiðskífu, Ambulance árið 2006 eftir tveggja ára upptökuferli. Á þessum tveimur árum hafði sveitin hljóðritað plötuna þrisvar sinnum, en var aldrei fyllilega ánægð með afraksturinn. Það var ekki fyrr en að platan var tekin upp í fjórða sinni — í Sundlauginni, hljóðveri Sigur Rósar — að platan var loks gefin út. Platan var gefin út af útgáfufyrirtækinu TeleTone ehf sem er í þeirra eigu, en um dreifingu sáu 12 tónar. Upplagið, sem var 1000 eintök, seldist upp. Ný plata. Sumarið 2009 tilkynnti sveitin það á Facebook síðu sinni að verið væri að vinna að nýrri plötu. Reiknirit. a> eru stundum notuð til að skýra reiknirit með myndrænum hætti. Reiknirit (einnig algrím, sjaldnar reiknisögn eða algóriþmi) er lausnaraðferð og skilgreint sem endanlegt mengi vel skilgreindra fyrirmæla til að leysa verkefni. Reiknirit skilar fyrirfram skilgreindri niðurstöðu að gefnu upphafsskilyrði. Reiknirit eru einkum notuð í stærðfræði og tölvunarfræði við lausn vandamála. Saga. Reiknirit er einnig kallað "algrím" eða "algóriþmi". Uppruna orðsins algóriþmi má rekja til stærðfræðings sem var uppi á 10. öld, Abu Abdullah Muhammad bin Musa al-Khwarizmi. Al-Khwarizmi er af mörgum talinn upphafsmaður nútíma algebru og var hann sannfærður um að hægt væri að leysa öll stærðfræðileg vandamál ef þeim væri skipt upp í minni skref. Eitt frægasta reiknirit allra tíma er reiknirit Evklíðs sem finnur stærsta sameiginlega deili tveggja heiltalna, en það var birt árið 300 fyrir Krist. Fyrsta reikniritið sem skrifað var fyrir tölvur var skrifað af Ada Byron árið 1842, en það var aldrei útfært. Framsetning reiknirita. Reiknirit eru oft í upphafi hönnunar skrifuð í sauðakóða sem er nokkurs konar millistig almenns ritmáls og forritunarmáls og er því óháð því forritunarmáli sem reikniritið verður útfært í. Það auðveldar útfærslu reikniritsins í hinum ýmsu forritunarmálum, enda er sauðakóðinn auðskiljanlegur öllum forriturum óháð forritunarbakgrunn þeirra. ef tala er slétt tala þá hækka tölu um einn heilan og deila svo í hana með tveimur Dæmi um sama reiknirit í C++ if (nr % 2 == 0) nr = (nr + 1) / 2; Nokkrar tegundir reiknirita. Reiknirit geta verið einföld þar sem þau eru framkvæmd í röð eins og farið sé eftir uppskrift. Reiknirit geta líka verið flóknari. Sum reiknirit nota samanburð og rökaðgerðir til að ákvarða næsta skref, sbr. dæmið hér að ofan, önnur nota lykkjur og ítrun og enn önnur eru endurkvæm. Til eru margar gerðir leitarreiknirita sem leita að tilteknu staki í lista t.d. Dæmi um slík reiknirit eru t.d. línuleg leit og tvíundarleit. Einnig eru til mörg röðunarreiknirit. Algengast þeirra er sennilega reikniritið quick-sort. Reikniritið margfaldar saman heiltölurnar frá 1 og til og með 9. Einnig kallað hrópfall. for (int i = 2, i < 10, i++) Fallið kallar í sjálft sig með n-1 þar til n er minna en 1 og reiknar sig svo til baka. Greining reiknirita. Við greiningu reiknirita erum við að skoða hvort reiknirit sé ákjósanlegt. Þar er aðallega horft til tveggja þátta, einfaldleika og skilvirkni. Greining reiknirita er mjög mikilvæg þar sem við getum oft valið um fleiri en eitt reiknirit til lausnar á sama vandamáli. Það er mikilvægt að skilvirkni reiknirits sé skoðuð áður en það er útfært. Þá er notast við sauðakóða framsetningu reiknirits. Einfaldleiki reiknirita. Einfalt reiknirit er auðvelt að útfæra, prófa, viðhalda og sýna fram á að það sé rétt. Kostir einfaldra reiknirita eru því margir en sé reiknirit mjög óskilvirkt og það eigi að nota til að leysa stórt vandamál er það í raun ónothæft þó það sé mjög einfalt. Skilvirkni reiknirita. Reiknirit eru misskilvirk. Til eru reiknirit sem tekur marga mannsaldra að leysa vandamál sem önnur skilvirkari reiknirit leysa á svipstundu. Það er því mikilvægt ef leysa á stórt vandamál að reikniritið sé skilvirkt. Skilvirkni er mæld í vaxtarhraða keyrslutíma, big Oh, annars vegar og minnisnotkun hins vegar. Þegar vandamálið sem leysa á er mjög lítið, t.d. að raða 10 stökum skiptir skilvirkni ekki öllu máli. Skammbyssa. Skammbyssa er lítið handskotvopn sem skjóta má úr með annarri hendi, orðið nær yfir allar hleðslu aðferðir svo lengi sem skeftið er búið til fyrir eina hendi. Eru ýmist notaðar til margvíslegrar íþróttaiðkunar, sjálfsvarnar, í hernaði og löggæslu.Samuel Colt hannaði og smíðaði fyrstu sexhleypuna. Skammbyssur eru yfirleitt hálfsjálfvirkar, en til eru fáeinar alsjálfvirkar skammbyssur, t.d. Glock 18 og Beretta 93R. "Loftskammbyssur" nota samþjappað loft sem drifefni, sem gjarnan fæst úr kolsýruhylki, og eru einkum notaðar til afþreyingar eða við iðkun skotfimi. Klaufdýr. Klaufdýr (fræðiheiti: "Artiodactyla") eru ættbálkur spendýra sem hvíla þyngd sína jafnt á þriðju og fjórðu tá, fremur en bara á þeirri þriðju, líkt og hófdýr. Klaufdýr telja um 220 tegundir, þar á meðal mörg algeng húsdýr, líkt og úlfalda, svín, geitur og kindur. Essemm. Essemm - Markaðsmiðlun & Ráðgjöf er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1983 sem hönnunar og auglýsingastofa. Á þeim árum sem fyrirtækið hefur starfað, hefur það unnið fyrir fjölmörg íslenzk fyrirtæki og stofnanir við mótun stefnu í markaðsmiðlun og framleiðslu kynningarefnis. Essemm starfaði einnig á sænskum markaði um sjö ára skeið við framleiðslu sjónvarpsauglýsinga og heimildarmynda. Árið 1990 kom Essemm á fót deild undir nafninu Vistaskipti & Nám ("Vista X Change") sem sérhæfði sig í alþjóðlegum menningarskiptum. Vistaskipti óx úr lítilli skrifstofu sem annaðist milligöngu um au pair-ráðningar erlendis, í það að verða stærsti aðilinn sem sérhæfði sig í ferðaþjónustu fyrir ungt fólk. Vistaskipti var selt til ferðaskrifstofunnar Stúdentaferðir ehf árið 2002. Essemm stofnaði nýja deild árið 2004, Lingo-Málamiðlun sem hefur það markmið að auðvelda einstaklingum þátttöku í alþjóðlegu samfélagi með því að aðstoða þá við að læra tungumál og kynnast nýjum háttum í öðrum menningarheimum. Lingó-málamiðlun býður lausnir sem auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að taka þátt í alþjóðasamfélaginu; námskeið á sviði tungumála og menningarlæsis, auk náms á háskólastigi við alþjóðlega fagháskóla. Sérstaða Lingo-Málamiðlunar í felst í mikilli uppsafnaðri þekkingu á sviði menningarskipta og víðtækum tengslum, í mörgum þjóðlöndum. Erlendir samstarfsaðilar eru um 50 talsins og í 12 löndum. Allt eru þetta viðurkenndir aðilar, sem bjóða úrvalsþjónustu á sínu sviði. Lingo-Málamiðlun notar upplýsingatækni til hins ítrasta í starfsemi sinni, með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í rekstri - en ekki síður til að veita góða þjónustu og standa undir nafni sem upplýsingaveita um nám og störf erlendis. Hverfi. Hverfi er ákveðinn hluti byggðar, ýmist í dreifbýli eða þéttbýli. Orðið hefur verið notað frá fornu fari í íslensku um sveitir og sveitarhluta (Kelduhverfi, Fljótshverfi, Reynishverfi, Rangárhverfi) eða þyrpingar þar sem nokkrir bæir standa þétt, oft hjáleigur kringum höfuðból, eins og til dæmis gildir um Miðnesshrepp sem myndaður er af sjö hverfum, talin að sunnan: Stafneshverfi, Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi, Bæjarskershverfi, Sandgerðishverfi, Flankastaðahverfi og Kirkjubólshverfi. Stundum standa bæirnir svo þétt að byggðin er eins og svolítið þorp. Orðið „hverfi“ er dregið af orðinu „umhverfi“, sem kemur fyrir í íslenskum fornritum á forminu „umhverfis“. Í forn-ensku er til samsvarandi orð „ymb-hweorfan“, í merkingunni „í nánasta umhverfi“. Hverfi í þéttbýli er afmarkað svæði innan byggðarinnar. Slíkt hverfi hefur oft einhver sérkenni, stundum eru húsin öll af svipaðri stærð eða gerð. Algengt er að götur séu nefndar svipuðum nöfnum sem ef til vill hafa öll sömu endingu og dregur hverfið þá oft nafn af því (Fellahverfi, Salahverfi). Í öðrum tilvikum er hverfið kennt við ákveðið kennileiti (Fossvogshverfi), hús eða bæ sem stóð þar þegar hverfið fór að byggjast (Skuggahverfi, Grímsstaðaholt) eða sérkenni byggðarinnar (Smáíbúðahverfi). Í nútímaskipulagi íbúðarhverfa eru þau oft afmörkuð þannig að þau tengjast aðalgötu með safngötu og er þar með ekki hægt að keyra í gegnum hverfin. Þetta er til þess að sporna við mikill umferð og draga úr slysahættu. Fingur. Fingur er útlimur á hendi manns, á hvorri hendi eru venjulega fimm fingur. Á hverjum fingri er nögl. Fingur eru einnig stundum kallaðir "framkrókar" eða "guðsgafflar". Önnur nöfn. (úr þjóðsagnasafni Ólafs Davíðssonar). Sviti. Sviti er vökvi sem myndast í svitakirtlum í húð ýmissa spendýra. Svitinn kemur út á yfirborðið, einkum við áreynslu, andlegt álag og í hita og á þannig þátt í að tempra líkamshitann. Sviti innheldur uppleyst sölt og úrgangsefni úr líkamanum. Orðið "horvatn" er haft um svita úr mögrum mönnum, og er aðallega notað í hálfkæringi. Kantaraborg. Kantaraborg (enska: Canterbury) er borg og biskupsstóll í Kent í Suðaustur-Englandi. Þar situr erkibiskupinn af Kantaraborg sem er höfuð ensku biskupakirkjunnar. Íbúar eru um 40 þúsund. Borgin var stofnuð af Rómverjum á grunni eldri byggðar. Hún hefur verið sæti erkibiskupsins af Englandi frá 597. Thomas Cranmer. Thomas Cranmer (2. júlí 1489 – 21. mars 1556) var erkibiskup af Kantaraborg frá 1533 og þjónaði í tíð Hinriks VIII og Játvarðs VI. Hann er talinn upphafsmaður ensku biskupakirkjunnar. Hann var brenndur á báli að skipun kaþólsku drottningarinnar Maríu I. Ronald Reagan. Ronald Wilson Reagan (6. febrúar 1911 – 5. júní 2004) var fertugasti forseti Bandaríkjanna (1981 – 1989) og þrítugasti og þriðji ríkisstjóri Kaliforníu (1967 – 1975). Fjölskylda. Ronald Reagan fæddist í Tampico í Illinois í Bandaríkjunum, sonur hjónanna Nelle Clyde Wilson Reagan (24. júlí 1883 – 25. júlí 1962) og John Edward Reagan (1883 – 1941) en fyrir áttu þau John Neil Reagan (16. september 1908 – 11. desember 1996). Árið 1940 giftist Reagan leikkonunni Jane Wyman (5. janúar 1917 – 10. september 2007). Saman eignuðust þau tvö börn, Maureen Elizabeth Reagan (4. janúar 1941 – 8. ágúst 2001) og Christine Reagan (26. júní 1947 – 27. júní 1947) og ættleiddu þriðja barnið,[Michael Edward Reagan (f. 18. mars 1945). Reagan og Wyman skildu árið 1949. Reagan giftist leikkonunni Nancy Davis árið 1952 og varð hún forsetafrú Bandaríkjanna á árunum 1981-1989. Nancy er betur þekkt sem Nancy Reagan. Saman eiga þau tvö börn, Patti Davis (f. 21. október 1952) og Ronald Prescott Reagan (f. 28. maí 1958). Ferill í stjórnmálum. Ronald og Nancy Reagan að halda upp á sigur Reagans sem ríkisstjóra Kaliforníu á Biltmore-hótelinu í Los Angeles. Ronald Reagan var upphaflega félagi í Demókrataflokknum í Bandaríkjunum en skipti yfir í Repúblikanaflokkinn árið 1962. Árið 1966 var hann kjörinn ríkisstjóri Kaliforníu og endurkjörinn árið 1970. Reagan bauð sig fram í forkosningum repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 1976 en tapaði fyrir Gerald Ford. Árið 1980 bauð hann sig aftur fram í forkosningum og vann þá og var tilnefndur forsetaframbjóðandi repúblikana. Í kjölfar þess hlaut hann yfirburðakosningu gegn sitjandi forseta, Jimmy Carter, og tók við forsetaembættinu 20. janúar 1981. Að loknu fyrsta kjörtímabili sínu sem forseti Bandaríkjanna bauð hann sig aftur fram og hlaut aftur yfirburðakosningu gegn frambjóðanda demókrata, Walter Mondale árið 1984, og hófst því annað kjörtímabil hans 20. janúar 1985. Ronald Reagan var þekktur fyrir andstöðu sína við kommúnisma, sem lýsti sér í harðri afstöðu gegn Sovétríkjunum. Hann átti þátt í lokakafla kalda stríðsins með viðræðum við aðalritarann Mikhaíl Gorbatsjov en þeir áttu meðal annars fund í Höfða í október 1986. Sama ár hófst Íran-kontra hneykslið sem vakti harða gagnrýni á forsetann en hann neitaði í fyrstu vitneskju um ólöglegar vopnasendingar til kontraskæruliða í Níkaragva. Forsetatíð. Reagan var 69 ára gamall þegar hann var kjörinn forseti og er elsti einstaklingurinn til að taka við embættinu. Í innsetningarræðunni 1981, sem hann skrifaði sjálfur, staðhæfði hann að „í yfirstandandi erfiðleikum er ríkisvaldið ekki lausnin á vandamálum okkar, heldur sjálft vandamálið“ (e: In this present crisis, government is not the solution to our problem; government is the problem) og vísaði þar til þess efnahagsvanda sem Bandaríkin stóðu frammi fyrir, hárri verðbólgu, efnahagslægð og atvinnuleysi. Tuttugu mínútum eftir að Reagan sór embættiseið var 52 bandarískum gíslum sleppt en þeim hafði verið haldið föngnum í 444 daga í bandaríska sendiráðinu í Tehran, höfuðborg Íran. Morðtilræði. Þann 30. mars 1981 var Ronald Reagan sýnt morðtilræði fyrir utan Hilton hótel í Washington D.C. Auk forsetans særðust þrír menn í árásinni. Árásarmaðurinn John Hinckley Jr. skaut sex skotum að forsetanum. Eitt skot hæfði fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins James Brady í höfuðið, annað hæfði lögreglumann í bakið og hið þriðja hæfði einn lífvarða forstans. Síðasta skotið endurkastaðist af bíl forsetans og hæfði hann í handlegginn og vinstra lunga. Litlu munaði að verr færi, því skotið staðnæmdist fáeinum sentimetrum frá hjarta hans. Forsetinn náði fljótt fullum bata, sömu leiðis lífvörðurinn og lögreglumaðurinn. Fjölmiðlafulltrúi forsetans, James Brady, var hins vegar bundinn við hjólastól enda alvarlega slasaður. Ásamt konu sinni helgaði Brady krafta sína baráttu gegn ofbeldisverkum þar sem skotvopnum er beitt. Við hann er kennd "The Brady Campaign" og "The Brady Center to Prevent Gun Violence", sem hafa verið áberandi í þessari baráttu. Í kjölfar árásarinnar vaknaði umræða um nauðsyn hertrar löggjafar gegn óheftri vopnaeign. Reagan lýsti sig þó engu að síður andsnúinn hertri löggjöf gegn skammbyssueign. John Hinckley Jr. var sýknaður af morðákæru, þar sem hann var talinn ósakhæfur vegna geðsýki. Markmið Hinckley með árásinni var að ná athygli leikkonunnar Jodie Foster, en hann hafði talið sér trú um að með því að myrða forseta Bandaríkjanna gæti hann náð ástum hennar. Áður en Reagan varð forseti hafði Hinkckley lagt á ráðin um að myrða Jimmy Carter. Í gegnum söguna hefur fjöldi tilrauna verið gerður til að ráða forseta Bandaríkjanna af dögum. Þó fjórar hafi tekist (Abraham Lincoln, James. A. Garfield, William McKinley og John F. Kennedy) hafa flestar hafa mistekist, árásarmennirnir ekki næð að komast í tæri við forsetann, ekki hæft hann, eða verið yfirbugaðir í þann mund er þeir hugðust fremja ódæðið. Af forsetum Bandaríkjanna eftir stríð voru gerðar tilraunir til að ráða Harry Truman og Richard Nixon af dögum. Í báðum tilfellum voru árásarmennirnir yfirbugaðir í skotbardaga. Tvær tilraunir voru einnig gerðar til að ráða Gerald Ford af dögum. Eins og þekkt er var John F. Kennedy ráðinn af dögum í Dallas, Texas. Reagan er fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til að særast en lifa af morðtilraun. Efnahagsstefna. Þegar að Reagan tók við af Jimmy Carter var verðbólga í Bandaríkjunum 12,5%. Undir stjórn Paul Volcker, seðlabankastjóra Bandaríkjanna (1979 – 1987) tókst að koma böndum á verðbólgu, og þegar Reagan lét af völdum var verðbólga komin niður í 4,4%. Eitt helsta markmið og kosningaloforð Reagan var að lækka skatta. Reagan stóð við það loforð með stórri skattalækkun árið 1981. Þó Reagan hafi hækkað skatta að nýju árin 1982 og 1983 er hans fyrst og fremst minnst fyrir þessa stóru skattalækkun, enda hafði hún í för með sér umtalsverðar breytingar á bandaríska skattkerfinu, þar sem skattar í hæstu hátekjuþrepunum voru lækkaðir úr 70% í 50%. Hátekjuskattar voru lækkaðir enn frekar árið 1986. Reagan réðst einnig í umtalsverða afreglun á flestöllum sviðum efnahagslífsins. Reglum var meðal annars létt af fjármálafyrirtækjum, þar með talið sparisjóum, sem átti þátt í sparisjóðahruninu í lok áratugarins (e: "the Savings and Loan Crisis", eða "S&L Crisis"). Utanríkisstefna. Þann 23. október árið 1983 í Beirút var gerð árás á bandaríska friðargæsluliða og dóu 241 og meira en 60 særðust þegar að vöruflutningabíll með sprengiefni sprakk. Reagan vildi hernaðaraðgerðir gegn Hezbollah en ekkert varð úr þeim. Aðeins tveimur dögum seinna, þann 25. október gerðu Bandaríkjamenn innrás í Grenada þar sem valdarán hafði átt sér stað. Árásin var stutt en var samt fyrsta stóra hernaðaraðgerð Bandaríkjanna síðan í Víetnam. í þessu stríði létust 16 bandarískir hermenn og 116 særðust. í desember sama á eftir að ný ríkisstjórn tók við í Grenada var bandaríska herliðið dregið til baka. Tilraunir Reagan til að auka völd og áhrif Bandaríkjanna í Mið-Ameríku voru ekki allar jafn árangursríkar, samanber Íran-kontra hneykslið. Reagan fór í að efla bandaríska herinn gegn Sovétríkjunum sem hann kallaði hið vonda heimsveldi í einni af sínum ræðum og hann spáði því að kommúnisminn myndi falla og að þessi hugsjón væri enn einn sorglegi kaflinn í sögu mannkynsins. Reagan og ríkistjórn hans var mikið í mun að styðja við and-kommúnískar hreyfingar, meðal annars í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til að koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnismans. Stuðningur Bandaríkjanna við afganska uppreisnarmenn var einn liður í að enda hersetu Sovétmanna í Afganistan en dæmið átti eftir að snúast við seinna meir þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan árið 2001. Árið 1983 var stjörnustríðs áætlunin kynnt og fól hún það í sér að verja Bandaríkin fyrir kjarnorkuárás annarra ríkja og talið að þessi áætlun hafi flýtt fyrir endalokum kaldastríðsins. Gagnrýnendur lýstu utanríkisstefnunni hjá Reagan sem árásagjarnri og að hann talaði fyrir stríðsrekstri. Það var svo árið 1985 að spennan fór að slakna á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna með tilkomu Mikhails Gorbachev. Hann boðar breytingar sem leiddu til betri samskipta á milli þessara stórvelda. Eftir forsetatíð. Reagan gekkst undir nokkrar aðgerðir vegna krabbameins þegar hann var forseti en hann lét af embætti árið 1989. Árið 1994 var hann greindur með Alzheimer-sjúkdóminn og hann lést árið 2004 þá 93 ára að aldri. Hann er einn vinsælasti forseti Bandaríkjanna og hafa skoðanakannanir iðulega sýnt það. Tenglar. Reagan, Ronald Skeiðará. Skeiðará er um 30 km löng jökulá sem rennur úr Skeiðarárjökli á sunnanverðum Vatnajökli og kvíslast yfir Skeiðarársand út í sjó. Vegna stöðugrar bráðnunar íss í Grímsvötnum undir jöklinum eru jökulhlaup algeng í ánni (Skeiðarárhlaup). Ferdinand og Ísabella. Ísabella (t.h.) og Ferdinand (t.v.) á Maríumynd eftir Fernando Gallego 1490-1495. Ferdinand og Ísabella eða kaþólsku konungshjónin (spænska: "Los Reyes Cátolicos") á við um Ísabellu I af Kastilíu og Ferdinand II af Aragon. Þau eru jafnan talin stofnendur spænska konungsríkisins með giftingu sinni 1469. Þau luku því verki að vinna Spán frá márum ("Reconquista") með því að leggja undir sig Granada 1492. Þau fengu hvort um sig titilinn „kaþólskur konungur“ frá Alexander VI páfa. Þau fjármögnuðu einnig ferðir Kólumbusar og annarra til Nýja heimsins sem jók enn á veldi þeirra og efldi stöðu þeirra í Evrópu. Blýantur. Blýantur er skriffæri sem samanstendur af efni sem gefur frá sér lit, sem notað er til skriftar og teikningar og viðarhulstri. Blýantar eru vanalega notaðir á pappír. Litarefnið er oftast grafít en stundum eru notuð önnur efni sem og kol eða snyrtivörur. Blý var eitt sinn notað í blýanta en því var hætt þegar í ljós kom að það var hættulegt heilsu manna. Nafnið hefur engu að síður haldist. Blýantar hafa stundum strokleður á endanum, fest með járni. Ólíkt blýöntum notast pennar við fljótandi efni, þ.e. blek. Orðsifjar. Orðið „blýantur“ er tökuorð af danska orðunum "blyant" eða "bliant" sem eru styttar útgáfur á orðinu "blyantspen". "Blyantspen" er líklega stytting á orðinu "blyantimon" sem þýðir „antimonblandaður blýmálmur“. Framleiðsla. Nú til dags eru blýantar framleiddir með því að blanda saman fínum grafít og leirdufti, svo er blandað vatni og langir spagettí-legum strengum og síðan eru þeir hitaðir í sérstökum ofni. Síðan eru strengunum dýft í olíu eða bráðið vax sem rennur inní smálar holur á efninu, sem leiðir til auðveldari og mýkrar skriftar. Margir blýantar (oftast þeir sem notaðir eru við listir) eru merktir með Evrópskum skala sem nær frá „H“ (hardness, harðleika) to „B“ (blackness, svertu) sem og „F“ (fine point, fínleika), og flokkast hinn hefðbundni ritblýantur undir „HB“. Lögun blýanta. Flestir blýantar eru sexhyrndir ef litið er á þá með þverskurði. Það er þægilegt að halda á þannig blýöntum og þeir stoppa ef þeir rúlla á láréttu svæði. Blýantar smiða eru flatari að lögun, sem mun einnig ekki rúlla og leyfir nákvæmari staðsetningu við það að teikna línur. Annað. Blýantsstungur eru algeng orsök slysa hjá ungum börnum. Blýbroddur getur skilið eftir sig grátt ummerki sem getur enst í húðinni í nokkur ár. Þetta leiddi að hinni gömlu hjátrúna að blý bútar gætu farið í gegnum blóðrásarkerfið og uppí heilann, og oldið hálfvisku í þeim sem fá slík sár. En auðvitað eru blýantar gerðir úr graffít (kolefni) en ekki blýi, og er því ekki hættulegt. Kýrenuheimspeki. Kýreningar voru róttækir nautnahyggjumenn. Stefnan þeirra varð til á 4. öld f.Kr. en stofnandi hennar var Aristippos frá Kýrenu (eða dóttursonur hans sem hét sama nafni). Kýreningar héldu því fram að æðst gæða væri ánægja og að líkamleg ánægja væri eftirsóknarverðari en andleg ánægja, því hún væri sterkari og fjörugri ánægja. Þeir höfnuðu því einnig að maður skyldi slá því á frest að sækjast eftir ánægju vegna langtímasjónarmiða, annaðhvort vegna þess að meiri ánægja fengist með því að standast freistinguna eða vegna þess að það hefði óþægindi í för með sér síðar ef maður léti undan, svo sem timburmenn. Að þessu leyti voru þeir talsvert frábrugðnir epikúringum, sem töldu að andleg ánægja væri eftirsóknarverðari en líkamleg ánægja og að í öllu skyldi gæta hófs. Kýreningar töldu einnig að einungis væri hægt að þekkja með vissu eigin upplifanir hverju sinni, til dæmis að maður fyndi sætt bragð núna, en ekki væri hægt að þekkja eðli þeirra hluta sem valda skynjunum okkar, til dæmis að hunang sé sætt á bragðið. Enn fremur neituðu þeir því að hægt væri að vita nokkuð um upplifanir annarra. Aristippos frá Kýrenu. Aristippos (435 – 366 f.Kr.) var grískur heimspekingur, fæddur í Kýrenu í Afríku (nú í Líbýu). Hann mun hafa verið velkunnur fylgjandi Sókratesar og Platon getur hans í samræðunni "Fædoni", þar sem síðustu stundum Sókratesar er lýst, en ein persóna samræðunnar lýsir yfir undrun vegna þess að Aristippos hafi ekki verið við hlið Sókratesar er dauðadómi hans var framfylgt. Aristippos mun þá hafa verið á eynni Ægínu ásamt öðrum kunningja Sókratesar, Kleombrotosi. Að öðru leyti er Aristipposar hvergi getið í samræðum Platons. Honum bregður hins vegar fyrir í ritum Xenophons. Samkvæmt Æskínesi hafði Aristippos upphaflega komið til Aþenu „sökum frægðar Sókratesar“. Díogenes Laertíos segir allnokkrar sögur um Aristippos og veru hans við hirð Díonýsíosar og Díonýsíosar yngra. Annaðhvort Aristippos sjálfur eða dóttursonur hans, sem hét í höfuðið á afa sínum, stofnaði skóla Kýreninga, sem hélt fram nautnahyggju og sjálfshyggju. Dóttir Aristipposar eldra, Arete frá Kýrenu, var sögð hafa verið heimspekingur sjálf og hafa menntað Aristippos yngra, sem í kjölfarið var nefndur "Mētrodidaktos" eða „hinn móðurmenntaði“. Hvorki ritverk Aristipposar eldra né Aristipposar yngra eru varðveitt. Samtök íslenskra skólalúðrasveita. Samtök íslenskra skólalúðrasveita (skammst. SÍSL) eru samtök um samstarf íslenskra skólalúðrasveita sem stofnuð voru þann 15. október 1983. Meginhlutverk SÍSL er að halda landsmót skólalúðrasveita og að standa fyrir útsetningum á íslenskum lögum fyrir sveitirnar. Samtökin starfrækja einnig sameiginlega lúðrasveit, Lúðrasveit æskunnar, sem ætluð er til að veita lengra komnum skólalúðrasveitarmeðlimum tækifæri til að spreyta sig á meira krefjandi verkum, og eru þá yfirleitt fengnir erlendir stjórnendur. Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar. Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar (áður Skólahljómsveit Vesturbæjar) er íslensk skólalúðrasveit sem starfrækt er í Vesturbæ Reykjavíkur. Hljómsveitin býður upp á kennslu á blásturs- eða slagverkshljóðfæri og tónfræði samhliða spili með sveitinni, og er hún einkum ætluð nemendum á grunnskólastigi. Hljómsveitinni er skipt í þrjár deildir fyrir mislangt komna: yngri sveit, miðsveit og eldri sveit. Í yngri sveitinni eru nemendur allt frá átta ára aldri, sem eru margir nýbyrjaðir að læra á hljóðfæri, en elstu nemendur í þeirri eldri eru nú 15 ára gamlir. Núverandi stjórnandi er Lárus Halldór Grímsson, sem einnig stjórnar Lúðrasveit Reykjavíkur, en æfingaaðstaða skólahljómsveitarinnar er í Hljómskálanum, húsi Lúðrasveitar Reykjavíkur. Lárus Halldór Grímsson. Lárus Halldór Grímsson (f. 13. desember 1954) er íslenskur hljómsveitarstjóri, hljóðfæraleikari, blásarakennari og tónskáld. Hann stjórnar Lúðrasveit Reykjavíkur og Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar. Hann kennir bæði í tengslum við Skólahljómsveit Vesturbæjar og við Tónlistarskóla Seltjarnarness á þverflautu, klarínett og saxófón. Lárus byrjaði 10 ára gamall að spila á þverflautu með Skólahljómsveit Vesturbæjar. Árið 1971 hóf hann svo nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem hann hélt áfram flautunáminu. Árið 1979 fór hann til Hollands og gekk í skólann "Institut voor sonologie" í Utrecht, þar sem hann lærði mikið hjá Jaap Vink. Lárus lauk námi þaðan árið 1984, en hélt áfram störfum við stofnunina. Tónsmíðar Lárusar eru mestmegnis raftónlist, en á seinni árum hefur hann snúið sér meira að hljóðfæratónlist. Fædon frá Elís. Fædon frá Elís (4. öld f.Kr.) var grískur heimspekingur og stofnaði elíska skólann í heimspeki. Fædon var frá borginni Elís. Hann fæddist undir lok 5. aldar f.Kr. Í stríðinu milli Elís og Spörtu árið 401-400 f.Kr. var hann herleiddur og gerður að þræli í Aþenu, þar sem hann varð frægur fyrir fegurð sína. Hann varð nemandi Sókratesar, sem bar hlýjan hug til hans. Hann virðist hafa þekkt náið til Kebesar og Platons, sem nefndi eftir honum samræðu, "Fædon". (Æskínes reit einnig samræðu sem hét called "Fædon"). Aþenajos greinir aftur á móti frá því að hann hafi þvertekið fyrir sannleiksgildi alls þess sem Platon eignaði honum og að samband sitt við Platon hafi verið stirt. Stuttu eftir dauða Sókratesar sneri Fædon aftur til Elís, þar sem Ankipylos, Moskos og Pleistanos voru meðal nemenda hans. Pleistanos tók við skólanum af honum. Síðar færðu Menedemos og Askiepiades skólann til Eretríu, þar sem hann varð þekktur sem Eretríuskólinn og er oft vísað til hans (t.d. af Cíceró) ásamt Megöruskólanum. Ekki er vitað hverjar kenningar Fædons voru né er mögulegt að álykta um það af samræðu Platons. Ritverk hans voru öll í formi samræðna en ekkert þeirra er varðveitt. Aþenajos. Aþenajos (gríska Αθηναιος "Athenaios"; uppi um 200) var grískur rithöfundur. Hann er stundum kallaðir Aþenajos frá Nákratis vegna þess að hann fæddist og starfaði í Nákratis í Egyptalandi. Lítið er vitað um Aþenajos annað en það sem lesa má í varðveittum ritum hans. Aþenajos samdi að minnsta kosti tvö verk sem eru ekki varðveitt en hans er einkum minnst fyrir ritsafnið "Deipnospekingarnir" eða "Deipnosophistae". Verkið er skrifað í formi samræðu þar sem ýmsar persónur deila um margvísleg málefni. Munaður, mataræði, heilsa, kynlíf, tónlist, kímnigáfa og grísk orðabókagerð eru allt efni sem tekin eru til umfjöllunar en mest er fjallað um mat, vín og skemmtun (af þeim sökum er verkið stundum nefnt "Vitringaveislan"). Án verka Aþenajosar myndi skorta mikilvægar upplýsingar um fornöldina og mörg grísk skáld væru ekki þekkt (þeirra á meðal Arkilokkos). 13. bók "Deipnoskepkinganna" er ein mikilvægasta heimildin um kynferði í Grikklandi hinu forna. Milman Parry. Milman Parry (1902 – 3. desember 1935) var bandarískur fornfræðingur. Hann nam við University of California í Berkeley (til B.A. og M.A. gráðu) og Sorbonne háskóla í París (til doktorsgráðu). Parry var nemandi málvísindamannsins Antoine Meillet við Sorbonne. Parry umturnaði rannsóknum á Hómer og hómerskviðum. Í doktorsritgerð sinni, sem var gefin út á frönsku á þriðja áratug 20. aldar, sýndi hann fram á að stíll Hómers einkenndist af mikilli notkun fastra orðasambanda, svonefndra formúla, sem ætlað var að merkja eitthvað sérstakt en voru löguð að ólíkum þörfum bragsins. Í bókum sínum sem komu út í Bandaríkjunum á 4. áratugnum setti Parry fram þá tilgátu að gera yrði grein fyrir séreinkennum stíls Hómers á grundvelli þess að um munnlegan kveðskap væri að ræða (hin svonefnda "munnlega formúlu tilgáta"). Nemandi Parrys, Albert Lord, þróaði hugmyndina um Hómer sem munnlegt skáld áfram, einkum í ritinu "The Singer of Tales" (1960). Milli 1933 og 1935 fór Parry, sem þá var ‚associate professor‘ (eða dósent) við Harvard háskóla, tvær ferðir til Júgóslavíu, þar sem hann rannsakaði og tók upp munnlegan kveðskap Suður-Slava. Greinasafn Parrys kom út að honum látnum en Adam Parry, sonur hans, ritstýrði því: "The Making of Homeric Verse: The Collected Papers on Milman Parry". Adam Parry (ritstj.) (Oxford: Oxford University Press, 1971). Safn Milmans Parry af upptökum og uppskriftum suðurslavnesks kveðskapar er nú geymt í Widener bókasafni Harvard háskóla. Parry lést af völdum voðaskots árið 1935. Tengill. Parry, Milman Parry, Milman Fornöld. Fornöld er tímabil í mannkynssögunni sem nær frá upphafi "sögulegs tíma", þ.e. frá þeim tíma sem til eru ritaðar heimildir um, og til miðalda. Tímabilið áður en sögulegur tími hófst kallast "forsögulegur tími". Ritaðar heimildir komu ekki fram á sama tíma alls staðar og því lýkur forsögulegum tíma í raun ekki alls staðar samtímis. Fyrstu rituðu heimildirnar eru fleygrúnir frá Súmer frá því 3000-3500 f.Kr. Því má segja að sögulegur tími hefjist fyrst þar. Klassísk fornöld er hugtak sem er notað í fornaldarsögu Grikklands og Rómaveldis. Í Grikklandi er sá tími oftast miðaður við árið 776 f.Kr. þegar ólympíuleikarnir voru fyrst haldnir, enda þótt til séu töluvert eldri ritaðar heimildir á grísku. Í sögu Rómar er miðað við hefðbundið ártal fyrir stofnun borgarinnar 753 f.Kr., þrátt fyrir að ritaðar heimildir á latínu séu nokkru yngri. Enda þótt deilt sé um hvenær fornöld eigi að teljast lokið er oftast miðað við fall Vestrómverska ríkisins sem venju samkvæmt er sagt hafa átt sér stað árið 476. Í sögu Austrómverska ríkisins mætti ef til vill miða endalok fornaldar við árið 640, en þá féll Alexandría í hendur Aröbum. Það tímabil sem nær yfir breytinguna frá fornöld til miðalda er síðfornöld, sem skarast að stórum hluta við ármiðaldir. Hugtakið „fornöld“ var fyrr á árum oft notað í sögu Íslands um tímabilið frá landnámsöld fram til loka þjóðveldisins, 1264, eða jafnvel fram um 1300. Þetta er elsti hluti Íslandssögunnar, auk þess sem þetta tímabil þótti vera nokkur hliðstæða við gullöld Grikkja og Rómverja, t.d. hvað bókmenntasköpun snertir. Í seinni tíð hafa sagnfræðingar farið að nota hugtakið miðaldir um þetta tímabil, enda fellur það undir miðaldir í sögu Evrópu. Klassísk fornöld. Klassísk fornöld er hugtak sem er notað um grísk-rómverskan tíma, þ.e. fornaldarsögu Grikklands og Rómaveldis. Í sögu Grikklands er sá tími oftast miðaður við árið 776 f.Kr. þegar ólympíuleikarnir voru fyrst haldnir, enda þótt til séu töluvert eldri ritaðar heimildir á grísku. Í sögu Rómar er miðað við hefðbundið ártal fyrir stofnun borgarinnar 753 f.Kr., þrátt fyrir að ritaðar heimildir á latínu séu nokkuð yngri. Enda þótt deilt sé um hvenær fornöld eigi að teljast lokið er oftast miðað við fall Vestrómverska ríkisins en þá er venjan að miða við árið 476. Í sögu Austrómverska ríkisins mætti ef til vill miða endalok fornaldar við árið 640 en þá féll Alexandría í hendur Aröbum. Hugtakið "klassískur tími" er notað bæði um sögu Grikklands og Rómaveldis og vísar þá til þess tíma í klassískri fornöld sem talinn er vera blómatími þessara svæða. Í sögu Grikklands er 5. og 4. öld f.Kr. kallaðar klassískur tími en tímabilið þar á undan kallast snemmgrískur tími; oftast er upphaf klassíska tímans í Grikklandi miðað við Persastríðin, annaðhvort orrustuna við Maraþon (490 f.Kr.) eða endalok styrjaldarinnar eftir orrustuna við Plataju (479 f.Kr.), en endalok hans miðast við upphaf hellenísks tíma, sem hófst árið 323 f.Kr. þegar Alexander mikli lést. Í sögu Rómar er klassískur tími venjulega talinn sá tími þegar skrifuð var svonefnd "gullaldarlatína". Sá tími er talinn vara frá 80 f.Kr. til 14 e.Kr. Moses I. Finley. Sir Moses I. Finley (Moses Israel Finkelstein) (20. maí 1912 – 23. júní 1986) var bandarískur og breskur fornfræðingur og sagnfræðingur. Finley fæddist árið 1912 í New York borg. Foreldrar hans voru Nathan Finkelstein og Anna Katzenellenbogen. Hann lést árið 1986 sem breskur ríkisborgari. Finley hlaut menntun sína við Syracuse University og Columbia University. Hann hlaut M.A. gráðu í lögfræði en flest útgefin rit hans fjalla um fornaldarsögu, einkum félagslegar og hagsögulegar hliðar klassískrar fornaldar. Finley kenndi við Columbia University og City College of New York, þar sem hann varð fyrir áhrifum frá meðlimum Frankfurt skólans, sem störfuðu í útlegð í Bandaríkjunum. Árið 1952, meðan á kalda stríðinu stóð, var Finley rekinn frá kennslustöðu sinni við Rutgers University; árið 1954 var hann kallaður fyrir þjóðaröryggisnefnd bandaríska þingsins og spurður hvort hann hefði verið meðlimur í kommúnistaflokki. Hann skýldi sér á bakvið fimmta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar og neitaði að svara. Í kjölfarið átti Finley erfitt með að finna vinnu í Bandaríkjunum og því fluttist hann til Bretlands, þar sem hann kenndi fornfræði við Cambridge University árum saman, fyrst sem fyrirlesari í félagslegri og hagsögulegri fornaldarsögu við Jesus College (1964–1970), síðan sem prófessor í fornaldarsögu (1970–1979) og að lokum sem skólameistari við Darwin College (1976–1982). Hann víkkaði umfang fornfræðinnar frá því að fást eingöngu við textafræði til þess að fjalla einnig um menningu og samfélag. Finley varð breskur þegn árið 1962 og meðlimur í bresku akademíunnni árið 1971. Hann var sleginn til riddara árið 1979. Heimild. Finley, Moses I. Finley, Moses I. Finley, Moses I. Finley, Moses I. Reynir Örn Leósson. Reynir Örn Leósson (11. febrúar 1939 - 30. desember 1982) var íslenskur aflraunamaður. Reynir var sonur Þóru Friðriksdóttur og Leós Guðmundssonar. Hann flutti ungur til Reykjavíkur, síðar til Njarðvíkur og enn síðar til Eyjafjarðar. Reynir var járnsmiður að iðn og starfaði við vélsmíðar, vörubílakstur og bifreiðaviðgerðir, en bifreiðaviðgerðirnar stundaði hann þar til hann lést. Reynir var ungur þegar fyrst fór að bera á miklum kröftum hans, og hann var mjög ungur þegar hann fór að hefja aflraunir. Hann ferðaðist víða um ævina og sýndi aflraunir sínar. Meðal aflrauna hans var að brjótast út úr fangaklefa, en hann var þó settur vel hlekkjaður inn í klefann. Það að brjótast úr hlekkjunum og svo út úr fangaklefanum tók hann um 6-7 klukkustundir samanlagt. Einnig lyfti hann 290kg. tunnu auðveldlega á hné sér. Einnig lyfti hann upp vinstra framhjóli bifreiðar sinnar, Volvo vörubifreið, upp um 13mm., en biðfreiðin vó 12 tonn og hefur þurft togkraft upp á 2.650 kg. til að lyfta bifreiðinni svo hátt. Fyrir það afrek að brjótast út úr fangaklefanum komst Reynir í heimsmetabók Guinness. Einnig gerði Reynir kvikmynd um sjálfan sig, nefnda „Sterkasti maður heims“, og kvikmyndir um öryggi á vinnustöðum ásamt fleiru. Manga. Mynd af Wikipe-tan, Manga-lukkudýri Wikipedia. Manga (漫画 eða まんが) er japanska og er haft um teiknimyndabækur og prentaðar myndasögur. Utan Japans eru þær einnig kallaðar Manga eða japanskar teiknimyndabækur. Manga-sögur þróuðust við blöndun "ukiyo-e" og hinum vestræna teiknistíl (að miklu leyti frá Disney) og tóku þær á sig núverandi mynd stuttu eftir seinni heimsstyrjöldina. Þær eru oftast prentaðar í svarthvítu, en stundum er kápan og nokkrar af fyrstu síðunum í bókinni í lit. Þær manga-sögur sem njóta vinsælda er oft breytt í anime og er það gert til að þær höfði til stærri markhóps. Þótt það sé ekki eins algengt er anime seríum stundum breytt í manga (og má þar helst nefna "Neon Genesis Evangelion"). Bókstaflega mætti þýða "manga" sem „handahófskenndar myndir“. Orðið komst fyrst í almenna notkun seint um 18. öld þegar verk eins og myndabókin „Shiji no yukikai“ eftir Santo Kyoden (1798) og „Myndir hundrað kvenna“ eftir Aikawa Minwa, sem hafði að geyma fjölda mynda úr teiknibókinni frægu "ukiyo-e" eftir listamanninn Hokusai. Hinsvegar var "giga" (sem þýðir bókstaflega „fyndnar myndir“) teiknuð af ýmsum listamönnum um 12. öld, og voru líkar manga að því leyti að mikil áhersla var lögð á því að segja sögu og notast við einfaldar og listrænar línur. Langaleit. Langaleit (eða Sandleit) kallast innsta svæði Gnúpverjaafréttar, frá Hnífá inn að Arnarfelli hinu mikla. Í austri afmarkast svæðið af Þjórsá og því er stærstur hluti Þjórsárvera innan Lönguleitar. Fjallmannakofi er við Þjórsá, á Bólstað, á móts við Sóleyjarhöfða. Langaleit er nokkuð ströng leit fyrir fjallmenn, því nær allar jökulkvíslar Þjórsár renna um hana, á leið sinni frá Hofsjökli. Þessar ár geta vaxið hratt og þarf fólk að þekkja vel til þeirra. Laxárdalur (Skeiða- og Gnúpverjahreppi). Laxárdalur er bær í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem stendur á bökkum Stóru-Laxár. Rennur áin þar í gljúfri sem kallast Laxárgljúfur og eru þar tvö steintröll sem þjóðsögur segja að hafi steinrunnið í einni veiðiferð sinni. Laxárholt. Laxárholt heitir holt eitt við Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi. Þar er talið að þingstaður Hrunamanna hafi verið fram á 16. öld. Leirá (Hrunamannahreppi). Leirá er ein af þverám Stóru-Laxár á Hrunamannaafrétti. Upptök sín á hún í Leirárleirum og Frægðarveri og rennur svo fram með Mikluöldu. Síðasta spölinn að Stóru-Laxá rennur hún í djúpu gljúfri. Leppistungur. Leppistungur kallast svæði á Hrunamannaafrétti í tungunum milli Fúlár, Kerlingarár og Sandár. Svæðið er nokkuð fyrir sunnan Kerlingarfjöll og draga nafn sitt af Stóra- og Litla-Leppi. Í Leppistungum er nokkuð vel gróið og er þar samnefndur fjallmannaskáli. Loðmundur (fjall). Loðmundur er 1.432 metra hátt fjall í Kerlingarfjöllum. Stendur hann stakur norðaustast í fjöllunum. Hann er brattur og girtur hamrabelti efst. Á tveimur stöðum er einstigi upp á koll fjallsins, en kollurinn sjálfur er flatur að ofan. Merkurhraun. Merkurhraun kallast hraunspilda á mörkum Flóa og Skeiða. Merkurhraun er hluti af Þjórsárhrauni, sem rann fyrir um 6.000 árum síðan. Jarðvegur á þessu svæði er þunnur, svo hraunstrýtur standa á mörgum stöðum upp úr mosaþembunum. Nafn sitt dregur hraunið af bænum Mörk sem var á þessu svæði, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Miklafell. Miklafell er 1.456 metra hátt fjall í austurbrún Hofsjökuls. Er það mjög áberandi af Sprengisandi. Á kolli þess er jökulhetta, auk þess sem er skriðjökulstunga austan í því sem nefnist Tungufönn. Miklavatn (Fljótum). Miklavatn er 7,4 km² stöðuvatn í Fljótum í Skagafirði og er annað stærsta stöðuvatn héraðsins. Grandinn Hraunamöl skilur það frá sjó en frárennsli úr vatninu er um Hraunaós. Vatnið er gamall fjörður en grandinn hefur svo hlaðist upp og lokað honum. Í vatninu er mikil silungsveiði en þar sem sjór gengur oft inn í vatnið og það er saltara á botninum veiðast þar einnig ýmsir sjávarfiskar. Í Miklavatn renur Fljótaá úr Stífluvatni en einnig renna í það smærri ár og lækir. Snemma á 20. öld var til umræðu að grafa skipgengan skurð í gegnum Hraunamöl og gera hafskipahöfn í Miklavatni en ekkert varð úr þeim áformum. Á 5. áratug aldarinnar höfðu sjóflugvélar sem stunduðu síldarleitarflug bækistöð á Miklavatni á sumrin. Undirforrit. Undirforrit (fall, aðferð eða stefja'") eru safn setninga í forritum sem eru endurnýtanlegar. Notkun undirforrita. Þau eru gagnleg ef við höfum forritsbút sem þarf að framkvæma oft. Við spörum pláss með því að geyma forritsbútinn á einum stað í minni. Forrit sem kallar á undirforrit þarf ekki að vita neitt um smáatriðin. Þetta eykur læsileika forrita. Kóðadæmi úr C og C++. þar sem x er gefið gildið sem kemur úr undirforritinu ferningstala() þegar talan y er sett í gegnum það, talan y hefur þarna gildið formula_1 og er send í gegnum undirfallið sem margfaldar hana með sjálfri sér og því verður formula_2. Myrkavatn. Myrkavatn er stöðuvatn norður af Þingvallasveit, skammt vestan Leggjabrjóts. Öxará rennur úr Myrkavatni. Nautabú í Skagafirði. Nautabú er bær í Skagafirði, á Neðribyggð í Lýtingsstaðahreppi. Þar var mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1946 til 2004, en síðan sjálfvirk veðurstöð. Nautalda. Nautalda er 669 metra hátt móbergsholt milli Hnífár og Miklukvíslar, sunnan Nauthagajökuls í Hofsjökli. Austan Nautöldunnar er Nauthaginn. Um Nauthaga og Nautöldu lá leiðin inn í Arnarfell hið mikla en í Nauthaga eru volgrur sem ferðalangar gátu baðað sig í. Nauthagi. Nauthagi kallast gróðursvæðið upp af Illaveri, austan Nautöldu á Gnúpverjaafrétti á Íslandi. Í Nauthaga eru 25-45°C heitar laugar. Nauthaginn er í um 600 metra hæð en þó er mikil gróska í blómjurtum á þessu svæði. Nafn sitt dregur Nauthaginn af því að árið 1847 fundust þarna tvö naut sem höfðu týnst frá Jóni Guðmundssyni ritstjóra þegar hann flutti frá Kirkjubæjarklaustri til Reykjavíkur. Þarna hafa nautin fundið góðan haga, þó skjóllaus sé. Norðlingaalda. Norðlingaalda er 658 metra hátt fell á sunnanverðum Fjórðungssandi. Aldan er mikil um sig en þó ber ekki mikið á henni í landslaginu. Hún er í vesturátt frá Eyvafeni. Sprengisandsleið hin forna liggur austan við Norðlingaöldu. Samkvæmt fyrirhuguðum veituframkvæmdum Landsvirkjunar í Þjórsárverum ætti að rísa stífla frá Norðlingaöldu og austur fyrir Þjórsá. Ófærutangi. Ófærutangi heitir klettabelti vestan við Þjórsá, innst í Gljúfurleit. Fram af Ófærutanga þurfa fjallmenn að klífa til að hefja göngur sínar um Þjórsárgljúfur. Ófærutangi samanstendur af þremur háum stöllum sem gangnamenn þurfa að stökkva niður. Verk þetta er nokkuð hættulegt. Fossinn Dynkur er stuttan spöl ofar í Þjórsá. Forngríska. Forngríska er það tímabil í grískri málsögu sem samsvarar klassískri fornöld. Tímabilinu má skipta gróflega í fjögur smærri tímabil: mýkenskan tíma, snemmgrískan tíma, klassískan tíma og síðklassískan tíma eða síðfornöld. Gríska er indóevrópskt tungumál Mállýskur. Gríska var farin að greinast í ólíkar mállýskur áður en grískumælandi hópar fólks settust fyrst að í Grikklandi en þó ekki að fullu fyrr en eftir landnámið. Arkadísku-kýpversku mállýskurnar virðast vera skyldastar mýkenískri grísku, sem er elsta skráða málstig grískunnar, talað á meginlandi Grikklands og á Krít um 16.-11. öld f.Kr.; sennilega eru arkadísku-kýpversku mállýskurnar komnar af mýkensku mállýskunni. Norðvestur-grísku mállýskurnar eða dórísku mállýskurnar eru mest frábrugðnar öllum hinum. Deilt er um tengsl milli æólísku og attísku-jónísku mállýskanna á elsta stigi þeirra. Umtalsverð áhrif mállýskanna hver á aðra gera að verkum að erfitt er að vita með vissu hvernig tengslum er háttað á milli þeirra. Eftir landvinninga Alexanders mikla á 4. öld f.Kr. varð til ný stöðluð mállýska sem er nefnd koine eða samgríska mállýskan, sem var að mestu leyti byggð á attísku en í afar einfölduðu formi og undir áhrifum frá ýmsum öðrum mállýskum. Bókmenntamállýskur. Forngrískar bókmenntir voru einungis skrifaðar á nokkrum mállýskum. Elstu bókmenntir Grikkja eru Hómerskviður en þær voru samdar á tilbúinni mállýsku, sem er oftast nefnd „hómerísk“ gríska og er blanda af jónískri grísku og (í minna mæli) æólískri grísku auk nokkurra skáldlegra séreinkenna. Grískur kveðskapur var áfram saminn á æólísku (m.a. lesbísku) og jónísku, og síðar á attísku (harmleikir) en kórljóð voru þó ætíð höfð á dórísku. Bókmenntir á óbundnu máli voru samdar á jónísku og attísku. Sumir gamanleikir endurspegla aðrar mállýskur. Philadelphia. Philadelphia er sjötta stærsta borg Bandaríkjanna og stærsta borg Pennsylvaníu. Frá árinu 1854 hafa borgarmörkin verið þau sömu og sýslumörk Philadelphiasýslu og frá 1952 hafa borgar- og sýsluyfirvöld spannað yfir sama landsvæðið, en samt sem áður er sýslan enn til sem sérstakt svæði í Pennsylvaníu. Íbúafjöldi borgarinnar 1. júlí 2006 var áætlaður 1.448.394. Í borginni er þriðji stærsti miðbæjarkjarni Bandaríkjanna, á eftir New York og Chicago. Philadelphia er næststærsta borgin á austurströnd Bandaríkjanna á eftir New York. Stórborgarsvæði Philadelphiu er það fjórða stærsta í Bandaríkjunum samkvæmt núverandi opinberri skilgreiningu en á svæðinu búa um 5,7 milljónir manna.Samkvæmt öðrum skilgreiningum er stórborgarsvæði Philadelphiu það sjötta stærsta á eftir stórborgarsvæði San Francisco og Washington-Baltimore. Philadelphia er helsta borgin á stórborgarsvæði Delawaredals. Philadelphia er ein elsta borg Bandaríkjanna og ein sú þýðingamesta í sögu landsins. Á 18. öld var borgin um skamma hríð önnur höfuðborg landsins og fjölmennasta borgin. Á þeim tíma var hún mikilvægari en bæði Boston og New York-borg í stjórnmálum og viðskiptum en Benjamin Franklin átti mikinn þátt í að gera borgina að mikilvægri miðstöð stjórnmála, viðskipta og menntunar. Fram til ársins 1854, þegar borgarmörkin urðu þau sömu og sýslumörk Philadelphiu sýslu, afmarkaðist borgin af South Street, Vine Street, Delaware fljóti og Schuylkillánni. Með stækkun borgarinnar bættust við þau svæði sem í dag eru Vestur-Philadelphia, Suður-Philadelphia, Norður-Philadelphia og Norðaustur-Philadelphia sem og Þýska hverfið og mörg smærri hverfi. Philadelphia er einnig einn stærsti háskólabær Bandaríkjanna en í borginni búa um 120.000 háskólanemar, sem stunda nám í háskólum innan borgarmarkanna, en um 300.000 nemendur stunda nám á stórborgarsvæðinu. Landafræði. Samkvæmt bandarísku hagstofunni United States Census Bureau þekur borgin 369,4 km² (142,6 mi²). Þar af eru 349,9 km² (135,1 mi²) þurrlendi og 19,6 km² (7,6 mi²) undir vatni, en það eru 5,29% alls svæðisins. Helstu vatnsföllin eru Delaware-fljót, Schuylkill-áin, Cobbs Creek, Wissahickon Creek og Pennypack Creek. Lægsti punktur innan borgarmarkanna er 3 m (10 fet) yfir sjávarmáli, nærri Fort Mifflin í Suðvestur-Philadelphia þar sem Delaware- og Schuylkill-árnar mætast. Hæsti punkturinn er í Chestnut Hill, 132 m (432 fet) yfir sjávarmáli, nærri Evergreen Place, rétt norðan og vestan við Evergreen Avenue. Veðurfar. Veðurfar er temprað með fjórum árstíðum. Sumrin eru heit og rök, einkum í júlí og ágúst. Haust og vor eru venjulega mild. Úrkoma er að mestu jöfn árið um kring, með um sex til níu rigningardaga á mánuði, að meðaltali um 1068 mm (42 tommur) á ári. Vetur geta verið kaldir en sjaldan fer hitinn niður fyrir -10 °C. Snjókoma er afar breytileg. Sumir vetur eru snjóþungir en aðra snjóar lítið. Í miðborginni og úthverfum borgarinnar í New Jersey snjóar venjulega lítið en norðan og vestan við stórborgarsvæðið snjóar meira. Meðalhitinn í janúar er milli -4 °C (25 °F) og 4 °C (39 °F). Í júlí er meðalhitinn milli 21 °C (70 °F) og 30 °C (86 °F) en þegar hitabylgjur skella á um sumur getur hitinn hæglega náð 35 °C (95 °F). Mesti kuldi sem skráður hefur verið var -22 °C (-7 °F) árið 1984 en mesti hiti sem skráður hefur verið var 40 °C (104 °F) árið 1966. Snemma hausts og seint um vetur er venjulega þurrasti tíminn. Febrúar er úrkomuminnsti mánuðurinn með 69,8 mm (2,74 tommur) úrkomu. Sumrin eru venjulega rök og úrkomumikil en úrkoma er mest í júlí með 111,5 mm (4,39 tommur) úrkoma. Hagkerfi. Hagkerfi Philadelphiu byggir einkum á framleiðslu, matvælaiðnaði og fjármálaþjónustu. Í borginni er starfrækt kauphöll, sem er elsta kauphöll Bandaríkjanna. Lýðfræði. Árið 2000 voru íbúar Philadelphiu 1.517.550, fjöldi heimila 590.071 og fjölskyldur 352.272 talsins, með 4.337,3 íbúa/km² (11.233,6 íbúa/mi²). 45,0% íbúanna voru hvít, 43,2% af afrískum upruna, 0,2% voru bandarískir frumbyggjar, 4,4% af asískum uppruna, 0,05% voru frá Kyrrahafseyjum, 4,7% voru af öðrum kynþætti og 2,2% voru af fleiri en einum kynþætti. 8,5% íbúanna voru af suður-amerískum uppruna. Börn undir 18 ára aldri bjuggu á 27,6% heimilanna og 32,1% íbúanna voru hjón í sambúð. 33,8% íbúanna voru einstæðingar. 25,3% borgarbúa voru yngri en 18 ára, 11,1% voru á aldrinum 18 til 24 ára, 29,3% voru á aldrinum frá 25 til 44 ára, 20,3% voru á aldrinum 45 til 64 ára og 14,1% voru 65 ára eða eldri. Aldursmiðgildið var 34 ár. 86,8 karlmenn voru á hverjar 100 konur. Tekjumiðgildi fyrir hvert heimili í borginni var 30.746 dalir og 37.036 dalir fyrir hverja fjölskyldu. Tekjumiðgildi karlmanna var 34.199 dalir, en kvenna 28.477. 22,9% íbúanna og 18,4% fjölskyldna voru undir fátæktarmörkum. 31,3% allra undir 18 ára og 16,9% allra eldri en 65 ára voru undir fátæktarmörkum. Matur. Philadelphia er þekkt fyrir samlokur, sem kallast „cheesesteaks“ og eru gjarnan kenndar við borgina, þ.e. Philadelphia cheesesteak eða einfaldlega Philly cheesesteak. Prentmiðlar. Í Philadelphiu eru gefin út tvö stór dagblöð, "Philadelphia Inquirer" og "Philadelphia Daily News". Einnig koma út vikuleg blöð, þ.á m. "Philadelphia Business Journal", "Philadelphia Weekly", "Philadelphia City Paper", "South Philly Review" og "Philadelphia Gay News". "Philadelphia Magazine" er tímarit sem kemur út mánaðarlega. Glæpir. Líkt og í mörgum bandarískum borgum jukust glæpir í Philadelphiu jafnt og þétt á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Morðtíðni náði hámarki árið 1990 með 503 morð, með 31,5 morð á 100.000 íbúa. Mestallan tíunda áratug 20. aldar voru framin að meðaltali um 400 morð á ári í borginni. Árið 2002 náði morðtíðni í borginni lágmarki með 288 morð en árið 2005 hafði fjöldi morða aftur náð 380, með 25,85 morð á 100.000 á íbúa. Almenningsskólar. Skólakerfi borgarinnar heitir "School District of Philadelphia" og þjónar það öllum hverfum borgarinnar. Í öllum skólum borgarinnar klæðast nemendur skólabúningum. Einkaskólar. Í Philadelphiu eru fjölmargir kaþólskir einkaskólar. Flugvellir. Tveir flugvellir þjóna Philadelphiu, Philadelphia International Airport (PHL) og Northeast Philadelphia Airport (PNE), og eru þeir báðir innan borgarmarkanna (PHL teygir sig út fyrir borgarmörkin). PHL þjónar jafnt innanlandsflugi sem utanlandsflugi en PNE þjónar smærri flugáætlunum einstaklinga og fyrirtækja. Sannkjör. Sannkjör eru þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að staðhæfing geti talist sönn. Ísland þarf til dæmis að vera eyja til þess að staðhæfingin „Ísland er eyja“ geti talist sönn og til þess að staðhæfingin „Ísland er stærra en Grænland“ geti talist sönn þarf Ísland að vera stærra en Grænland. Bandaríski heimspekingurinn Donald Davidson hefur sett fram þá kenningu að merking staðhæfingar sé fólgin í því að þekkja sannkjör hennar. Samkvæmt þessu skilur maður staðhæfingu ef og aðeins ef maður veit hvernig heimurinn þyrfti að vera til þess að hún gæti talist sönn. Á hliðstæðan máta má segja að maður skilji spurningu og skipun ef og aðeins ef maður veit hvaða upplýsingar þyrftu að koma fram til að svara spurningunni og hvað þyrfti að gera til þess að hlýða skipuninni. Leikslokasiðfræði. Leikslokasiðfræði eða afleiðingasiðfræði er sú tegund siðfræðikenninga sem heldur því fram að að afleiðingar athafnar ákvarði hvort hún sé siðferðilega rétt eða röng, með öðrum orðum að spyrja skuli að leikslokum. Leikslokasiðfræðikenning heldur því fram að siðferðilega rétt athöfn sé sú sem hefur bestar afleiðingar. Íslensku orðin „leikslokasiðfræði“ og „afleiðingasiðfræði“ eru þýðingar á enska orðinu „consequentialism“, sem G.E.M. Anscombe bjó til í ritgerð sinni frá árinu 1958 „Siðfræði nútímans“ („Modern Moral Philosophy“). Frægasta leikslokasiðfræðikenningin er nytjastefnan, sem á rætur að rekja aftur til Davids Hume (1711-1776) og Jeremys Bentham (1748-1832) en frægasti málsvari hennar var John Stuart Mill (1806-1873) sem setti kenninguna fram í riti sínu "Nytjastefnan" árið 1861. Meginmunurinn á nytjastefnunni og annarri leikslokasiðfræði er sá að nytjastefnan heldur því fram að bestu afleiðingarnar séu fólgnar í því að hámarka hamingju sem flestra. Nytjastefnan er ef til vill útbreiddasta og vinsælasta leikslokasiðfræðikenningin en hámarkshamingjulögmál nytjastefnunnar er eigi að síður ekki nauðsynlegt einkenni á allri leikslokasiðfræði. Leikslokasiðfræðingur gæti t.a.m. haldið því fram að bestu afleiðingarnar séu ekki fólgnar í því að hámarka hamingju sem flestra, heldur auka jöfnuð meðal manna sem mest. Nytjastefna. Nytjastefna er leikslokasiðfræðikenning. Samkvæmt nytjastefnunni eru aðgerðir réttar eftir því sem leiða til ánægju, rangar eftir því sem þær leiða til hins gagnstæða, í heiminum öllum. Tilgangsfræði nytjastefnunar fellur undir sældarhyggju. Sagnfræðilega á hún rætur að rekja aftur til Davids Hume (1711-1776) og Jeremys Bentham (1748-1832) en frægasti málsvari hennar var John Stuart Mill (1806-1873) sem setti kenninguna fram í riti sínu "Nytjastefnan" árið 1861. Líkt og leikslokasiðfræðikenningar heldur nytjastefnan því fram að afleiðingar athafnar ákvarði siðferðilegt réttmæti hennar. Meginmunurinn á nytjastefnunni og annarri leikslokasiðfræði er sá að nytjastefnan heldur því fram að bestu afleiðingarnar séu fólgnar í því að hámarka hamingju sem flestra. Þetta er nefnt „hámarkshamingjulögmálið“. Nytjastefnan er ef til vill útbreiddasta og vinsælasta leikslokasiðfræðikenningin. Æðra forritunarmál. Æðra forritunarmál eða hámál er forritunarmál sem í samanburði við lágmál er að jafnaði óhlutbundnara, auðveldara í notkun og auðveldara í flutningi milli verkvanga (mismunandi örgjörva eða stýrikerfa). Dæmi um hámál eru t.d. C++, Java og Delphi. Eftir að forrit hefur verið smíðað í hámáli er það vistþýtt yfir í svokallað vélamál svo það sé keyranlegt á tölvunni. Refasveit. Refasveit kallast byggðarlagið við enda Langadalsfjalls innst við Húnafjörð, frá Blönduósi að Laxá. Við sjóinn eru háir bakkar, en annars einkennist sveitin af melum, móum og mýrun. Í sveitinni eru fjögur vötn; Langavatn nyrst, svo Hólmavatn, Réttarvatn og loks Grafarvatn syðst. Rauðukambar. Rauðukambar eru líparít-hryggir sem kljúfa Þjórsárdal í tvo botna. Vestan kambanna rennur Bergálfsstaðaá en Fossá og Fossárdalur fyrir austan þá. Vestan við Rauðukamba er Þjórsárdalslaug, sem Landsvirkjun bjó til úr afgangssteypu frá Búrfellsvirkjun. Á þessum stað er jarðhiti, sem nýttur er í laugina. Knattspyrnufélagið Fram. Knattspyrnufélagið Fram, Fram Reykjavík eða einfaldlega Fram er íslenskt íþróttafélag staðsett í Reykjavík. Félagið er eitt elsta íþróttafélag Íslands. Það var stofnað 1. maí 1908. Núverandi formaður félagsins er Ólafur I. Arnarsson. Fram heldur úti æfingum í knattspyrnu, handbolta, Taekwondo og skíðagreinum. Þá er starfrækt innan félagsins almenningsíþróttadeild og sérstakur hópur Framkvenna. Innan Fram hafa einnig verið starfræktar körfuknattleiksdeild og blakdeild. Upphafsárin (1908 - 1928). Knattspyrnufélagið Fram varð til vorið 1908 í miðbæ Reykjavíkur. Stofnendurnir voru nokkrir piltar á fermingaraldri eða þar um bil, sem bjuggu á svæðinu umhverfis Tjarnargötu. Einn í hópnum, Pétur J.H. Magnússon, hafði fest kaup á knetti og var hann óspart notaður þá um sumarið. Fyrsta tæpa árið var knattspyrnufélag þetta afar óformlegur félagsskapur. Engin stjórn var skipuð, engin lög samin og félagið hafði ekki einu sinni fengið nafn. Úr þessu var bætt á fyrsta formlega fundinum, þann 15. mars 1909. Þá komu piltarnir úr fótboltafélaginu í miðbænum saman á fundi, enda farið að styttast í vorið og áframhaldandi knattspyrnuæfingar. Nú var þörf á formlegri félagsskap til að safna fyrir boltakaupum, ákveða búning o.s.frv. Pétur J.H. Magnússon var kjörinn fyrsti formaður félagsins, laganefnd skipuð og samþykkt að nafn þess yrði Knattspyrnufélagið Kári, eftir Kára Sölmundarsyni úr Njálu. Káranafnið var frá upphafi umdeilt og á félagsfundi nokkrum vikum síðar var því breytt í Knattspyrnufélagið Fram. Ýmsar skýringar eru mögulegar á þessu heiti. Ein er sú að nafnið standi einfaldlega fyrir atviksorðið "fram", en slík félaganöfn má t.d. finna í Danmörku (sbr. Frem og Fremad). Önnur skýring er sú að félagið heiti eftir Fram, skipi heimskautafarans Friðþjófs Nansens. Þá er ekki ólíklegt að Framarar hafi horft til nafns Heimastjórnarfélagsins Fram, sem var helsta bakland Hannesar Hafstein ráðherra. Þegar á þessum fyrsta bókfærða fundi, miðuðu Framarar stofndag sinn við fyrsta maí 1908. Ekki er þó ljóst hvernig sú dagsetning var fengin. Um svipað leyti var Knattspyrnufélagið Víkingur stofnað á sömu slóðum. Víkingar miða stofndag sinn við 21. apríl 1908, þótt forsendur þeirrar dagsetningar séu ekki ljósar. Benda Framarar á að stofnendur Víkings hafi verið yngri en stofnendur Fram og líklega ekki fengið að vera með stóru strákunum. Gera bæði félögin því tilkall til að vera næstelsta knattspyrnufélag Reykjavíkur. Fótboltafélag Reykjavíkur, sem síðar tók sér nafnið Knattspyrnufélag Reykjavíkur, stóð um þessar mundir fyrir fótboltaæfingum á velli sem ruddur hafði verið vestur á Melum. Piltarnir í Fram fengu stundum að nota völlinn, en ekki kom þó til greina að sinni að félögin tvö mættust í kappleik á jafnréttisgrundvelli. Til þess var aldursmunurinn of mikill. Upphaf Íslandsmótsins. Reykvískir íþróttamenn ákváðu að koma sér upp íþróttavelli, sem vera skyldi tilbúinn fyrir landsmót UMFÍ sem haldið yrði í bænum sumarið 1911. Íþróttasamband Reykjavíkur var stofnað í þessu skyni árið 1910 og var Fram meðal stofnaðila, þótt meðlimir þess væru ekki nema 14 til 17 ára gamlir. Melavöllurinn var vígður þann ellefta júní 1911. Að því tilefni var efnt til stutts sýningarleiks milli Fram og Fótboltafélags Reykjavíkur. Þótt Fótboltafélagið tefldi fram hálfgerðu varaliði, var búist við ójöfnum leik unglinga gegn fullorðnum mönnum og munu Framarar hafa fengið loforð um að ekki yrði tekið of hart á þeim. Viðureigninni lauk óvænt með markalausu jafntefli og varð því mikil spenna fyrir fyrstu alvöru viðureign félaganna sem fara skyldi fram viku síðar á landsmóti UMFÍ. Landsmótið var margra daga íþróttahátíð sem setti Reykjavíkurbæ á annan endann. Flestir voru áhorfendurnir þó á knattspyrnuleik Fram og Fótboltafélagsins þann sautjánda júní. Framarar fóru með sigur af hólmi í þessum fyrsta opinbera knattpspyrnuleik tveggja íslenskra félaga, 2:1. Friðþjófur Thorsteinsson skoraði bæði mörk Fram, það seinna á lokamínútunni. Sigur Framara á landsmótinu 1911 blés félagsmönnum kapp í kinn og ákváðu þeir að stofna til Íslandsmóts sumarið eftir. Skotið var saman fyrir verðlaunagrip og auglýst eftir þátttökuliðum. Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu var svo haldið árið 1912 með þátttöku Fram, Vestmanneyinga og Fótboltafélagsins. Lauk því með sigri þeirra síðastnefndu. Löng sigurganga. Þar sem Framarar höfðu stofnað til Íslandsmótsins og keypt bikarinn, litu þeir svo á að mótið væri í þeirra einkaeigu. Fram lýsti eftir þátttökuliðum, sá um skipulagninguna og hirti allan ágóðann. Þetta leiddi til deilna um mótshaldið og árin 1913 og 1914 skráðu Framarar sig einir til leiks og unnu án keppni. Lausn fékkst í málið með því að mótunum var fjölgað. KR-ingar stóðu fyrir Reykjavíkurmóti og síðar stofnuðu Valsmenn og Víkingar sín eigin mót. Engum blöðum var þó um að fletta hvert væri sterkasta knattspyrnulið höfuðstaðarins mestallan annan áratuginn. Leikmenn KR voru í það elsta, en Valsmenn og Víkingar enn of ungir að árum. Framarar voru hins vegar á besta aldri og höfðu yfir að búa fjölhæfum íþróttamönnum sem voru í fremstu röð í flestum keppnisgreinum. Auk meistaratitlanna 1913 og 1914 urðu Framarar Íslandsmeistarar: 1915, 1916, 1917, 1918, 1921, 1922, 1923 og 1925. Félagið vann því tíu af fjórtán fyrstu Íslandsmótunum. Við þætta bættust sex Reykjavíkurmeistaratitlar, auk þess sem Fram vann keppnina um Íslandshornið þrjú ár í röð 1919-21 og þar með verðlaunagripinn til eignar, en Íslandshornið var keppni sem Valur stóð fyrir. Framarar áttu einnig stóran þátt í komu fyrsta erlenda knattspyrnuliðsins til Íslands árið 1919 þegar Danmerkurmeistararnir í Akademisk Boldklub komu í keppnisferð. Með danska liðinu lék um þær mundir Framarinn Samúel Thorsteinsson. Drottnunarstaða Fram meðal íslenskra knattspyrnuliða fékk þó skjótan endi. Leikmenn liðsins voru flestir á sama aldri og lögðu skóna á hilluna um svipað leyti. Lítil rækt hafði verið lögð við yngri flokka og því engir til að taka við. 1927 tapaði Fram öllum leikjum sínum á Íslandsmótinu og gat varla skrapað saman í lið. Alvarlega var rætt um að leggja félagið niður eða sameina það Víkingum. Árið 1928 sendi Fram svo ekki lið til keppni á Íslandsmótinu í fyrsta og eina skipti. Endurreisnarárin (1928 - 1946). Hvorki fyrr né síðar í sögu sinni hefur tilvera Knattspyrnufélagsins Fram staðið jafn tæp og vorið 1928. Félagið var í raun ekki starfandi, félagatalið týnt og sjóðurinn tómur. Ekki tókst að tefla fram liði á Íslandsmótinu og yngri flokkarnir voru daprir. Við þessar óhrjálegu aðstæður kom hópur manna undir forystu Guðmundar Halldórssonar að félaginu og reif starfið upp á nýjan leik. Meðal annars létu stjórnin hanna merki félagsins, sem enn er við lýði. Eitt og annað var gert til að efla Fram félagslega, s.s. hafin útgáfa félagsblaðs og þjálfun yngri flokka tekin fastari tökum. Á fjórða áratugnum færðist þungamiðjan í starfsemi Fram austur á bóginn. Upphaflega var Fram miðbæjarlið, en nú voru uppeldissvæði nýrra leikmanna í götunum ofan Laugavegar, einkum í kringum Njálsgötuna. Eftir sem áður voru öflugar Fram-nýlendur annars staðar í bænum, s.s. í Pólunum, kringum Ljósvallagötuna og á Grímsstaðaholti. Árið 1937 föluðust Framarar eftir því að fá úthlutað landi undir eigið félagssvæði. Óskað var eftir svæðinu sunnan Sundhallarinnar. Var ætlunin meðal annars að reisa fjölnota íþróttahús til knattspyrnu- og skautaiðkunar. Þessi áform gengu ekki eftir og kom þar einkum tvennt til. Annars vegar töldu ýmsir félagsmenn brýnna að stofna skíðadeild og reisa skíðaskála en að koma upp knattspyrnuvelli. Hins vegar var reiknað með því að íþróttafélögin í Reykjavík myndu koma sér upp sameiginlegu íþróttasvæði við Nauthólsvík og þörfin fyrir eigin knattspyrnuvöll yrði þá að mestu úr sögunni. Ný verkefni. Þótt Fram styrktist jafnt og þétt félagslega allan fjórða áratuginn leið nokkur tími uns áhrifa þess tók að gæta á stigatöflunni. Frá 1929-38 hafnaði liðið aldrei ofar en í þriðja sæti á Íslandsmótinu, þar sem keppnisliðin voru yfirleitt fjögur eða fimm. Í ljósi þessa hófstillta árangurs, kann að virðast skringilegt að Knattspyrnusamband Danmerkur skuli hafa boðið Frömurum í keppnisferð til Danmerkur í tilefni af fimmtíu ára afmæli sambandsins árið 1939. Sennilega má tengja þá ákvörðun við það hversu stóran þátt Fram átti í að taka á móti Akademisk boldklub tuttugu árum fyrr. Hlutverk Framliðsins á afmælismóti Dananna var óljóst. Liðið var kynnt sem áheyrnarfulltrúi á óopinberu Norðurlandamóti í knattspyrnu og aldrei kallað annað en “íslenska liðið” og þannig gefið fastlega í skyn að um landslið Íslands væri að ræða. Fram keppti ekki á mótinu en lék nokkra vináttuleiki við úrvalslið danskra héraða með góðum árangri. Liðið mætti líka vel undirbúið til leiks undir stjórn þýsks þjálfara, Hermanns Lindemanns, leikmanns Eintracht Frankfurt. Stífar æfingar fyrir ferðina og meðan á henni stóð skiluðu sér óvænt í fyrsta meistaratitli Fram í fjórtán ár á Íslandsmótinu 1939. Nokkrum mánuðum eftir að hafa unnið Íslandsmótið, tókust sumir leikmanna meistaraflokks á við nýtt hlutverk. Handknattleiksíþróttin hafði náð fótfestu í nokkrum skólum, s.s. í Menntaskólanum í Reykjavík, Flensborgarskólanum og Háskólanum. Knattspyrnumenn gripu stundum í þessa skringilegu íþróttagrein á inniæfingum yfir vetrarmánuðina, en lítil alvara hafði fylgt því fálmi. Snemma árs 1940 var hins vegar efnt til fyrsta Íslandsmótsins í handknattleik. Framarar sendu lið til keppni, þótt hluti leikmanna kynni varla reglurnar. Jafnframt var sent inn lið í 2. flokki. Þótt árangurinn yrði rýr, markaði hann upphafið að reglulegri þátttöku Fram í handknattleiksmótum. Með tímanum komst meiri festa á handboltaiðkunina, hún hætti að vera aukageta knattspyrnumanna félagsins yfir vetrarmánuðina og öðlaðist sjálfstætt líf. Handknattleikurinn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra flokkaíþrótta að bæði kynin hófu að iðka hann um svipað leyti. Þannig var keppt bæði í karla- og kvennaflokki á Íslandsmótinu 1940. Til samanburðar þótti tilhugsunin um keppni í kvennaknattspyrnu fráleit á þessum árum. Þráinn Sigurðsson formaður Fram 1943-46, var áhugasamur um að útvíkka starfsemi félagsins og knúði það í gegn að Fram kæmi sér upp kvennaflokki í handknattleik. Hugmyndin fékk blendnar undirtektir, en náði þó fram að ganga og árið 1945 sendi Fram í fyrsta sinn lið til keppni á Íslandsmóti kvenna. Fljótlega varð liðið eitt af skrautfjöðrum félagsins og hafði mjög jákvæð áhrif á starfsemi þess. Félagssvæði í Skipholti. Draumur reykvískra íþróttamanna um alhliða æfinga- og keppnissvæði í Fossvogi fauk út í buskann þegar Ísland var hernumið og alþjóðlegum flugvelli var komið fyrir í Vatnsmýrinni. Í kjölfarið varð ljóst að þörfin á félagssvæði Fram var orðin knýjandi. Stjórnendur félagsins leituðu ýmissa lausna við vandanum, s.s. að falast eftir kaupum á Hálogalandi, íþróttahúsi hernámsliðsins. Þá var sótt um lóð á svokölluðum Mómýrarbletti, þar sem Ármann var síðar til húsa. Vorið 1945 skipti Reykjavíkurbær skyndilega um skoðun varðandi Mómýrarblettinn. Vilyrðið sem fengist hafði var tekið til baka, en þess í stað bauð bærinn upp á lóð í gömlu grjótnámi fyrir neðan Stýrimannaskólann, við Skipholt. Tilboðinu var tekið og framkvæmdir hófust af kappi innan fáeinna daga. Þann tuttugasta ágúst sama ár vígðu Framarar nýjan malarvöll sinn við Skipholt. Fram varð þar með fyrsta Reykjavíkurfélagið til að eignast eigin völl. Skömmu síðar var hafist handa við byggingu félagsheimilis Fram á svæðinu. Árin við Stýrimannaskólann (1946 - 1972). Það leið ekki á löngu uns Framarar fóru að njóta ávaxtanna af nýja vellinum. Sumrin 1946-48 lék liðið undir stjórn skosks þjálfara, James McCrae, sem stýrði Frömurum til Íslandsmeistaratitils tvö fyrri árin. Sumarið 1946 var sérlega eftirminnilegt. Eftir Danmerkurferðina 1939 hafði staðið til að Framarar tækju á móti dönskum knattspyrnuflokki sumarið 1940. Allar slíkar heimsóknir lágu niðri á stríðsárunum, en að því loknu tóku Framarar upp þráðinn á ný. Nú höfðu forsendur hins vegar breyst. Ísland var orðið lýðveldi og danska knattspyrnusambandið bauð fram landslið sitt. Ekki þótti við hæfi að félagslið sæi eitt um að skipuleggja fyrsta landsleik hins unga ríkis. Varð því úr að Fram og Knattspyrnuráð Reykjavíkur stóðu saman að komu Dananna og skiptu með sér kostnaði og tekjum. Danska liðið keppti þrjá leiki í ferðinni: gegn íslenska landsliðinu, Fram og Reykjavíkurúrvalinu. Meistaratitlarnir 1946 og 1947 mörkuðu ekki upphafið að nýju stórveldistímabili. Framarar urðu næst Íslandsmeistarar í knattspyrnu árið 1962. Vaxtarbroddurinn var hins vegar í yngri flokkunum sem voru mjög sigursælir á sjötta áratugnum. Iðkendurnir voru líka geysimargir og nutu Framarar þar legu sinnar. Fjölmenn hverfi voru að byggjast upp í Reykjavík norðanverðri, s.s. í Laugarnesi og Vogunum. Sátu Framarar lengi vel einir að þeim krakkaskara. Stórveldi í handbolta. Árið 1950 urðu Framarar Íslandmeistar í bæði karla- og kvennaflokki í handknattleik. Sigur karlaliðsins var óvæntur og sló ekki tóninn fyrir frekari afrek í bráð. Kvennaliðið hafði hins vegar verið í mikilli sókn árin á undan. Frá 1950 til 1954 urðu Framstúlkur Íslandsmeistarar í öll fimm skiptin. Við það bættust nokkrir meistaratitlar í utanhússhandbolta, en sú keppnisgrein var í talsverðum metum á þessum árum, þótt keppni í henni hafi lagst af í seinni tíð. Þessari fyrstu gullöld handknattleikskvenna í Fram lauk skyndilega um miðjan sjötta áratuginn, þegar öflugir leikmenn settu skóna á hilluna. Um það leyti sem vegur kvennaliðsins fór að fara minnkandi, byrjuðu karlarnir að rétta úr kútnum fyrir alvöru. Frampiltum var spáð góðum árangri á Íslandsmótinu 1959, en enduðu í fallsæti. Sigur í annarri deild árið eftir var aldrei í hættu og við tók tímabil tveggja turna í íslenskum karlahandbolta. Fram og FH deildu á milli sín öllum Íslandsmeistaratitlum frá 1959 til 1972. Þar af unnu Framarar sjö sinnum (1962, 1963, 1964, 1967, 1968, 1970 og 1972). Oftar en ekki voru viðureignir þessara liða hinir eiginlegu úrslitaleikir um meistaratitilinn. Landslið Íslands var sömuleiðis borið uppi af leikmönnum úr Fram og FH. Árið 1962 varð Fram fyrsta íslenska félagið til að taka þátt í Evrópumóti í flokkaíþrótt. Þá kepptu Framarar við dönsku meistarana í Skovbakken frá Árósum og töpuðu 28:27 í framlengdri viðureign. Leikið var í Danmörku, enda var íþróttahús bandaríska hersins á Miðnesheiði eini löglegi handknattleiksvöllur á Íslandi. Úr þessu var bætt í desember 1965, þegar Laugardalshöllin var tekin í notkun og aðalheimkynni handknattleiksmanna færðust úr Hálogalandi. Í trausti þess að húsið yrði tilbúið í tíma, höfðu Framarar samið um að taka á móti tékkneskum handboltaflokki, Baník Karviná. Þegar líða tók að komudegi vöknuðu menn upp við vondan draum, þar sem mikil smíðavinna var eftir. Sá Karl Benediktsson, þjálfari Framliðsins, þá um að skipuleggja vinnu Framara og handknattleiksmanna úr öðrum liðum. Unnið var nótt við nýtan dag og tókst að ljúka verkinu sama dag og Tékkarnir mættu. Var viðureign Reykjavíkurúrvalsins og Karviná vígsluleikur hallarinnar. Landþrengsli í grjótnáminu. Þegar malarvöllur Framara var tekinn í notkun haustið 1945 var hann talinn sá besti í bænum. Vellinum hrakaði hins vegar mjög sumarið 1948 þegar hann var notaður sem geymslusvæði fyrir síld sem mokað var upp í Hvalfirðinum sama sumar. Það leið því ekki á löngu uns Framarar fóru að svipast um eftir nýju framtíðarfélagssvæði, þar sem unnt yrði að koma upp grasvöllum. Fljótlega beindist athyglin að Kringlumýrinni og á fimmtíu ára afmæli Fram, vorið 1958, tilkynnti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri að Reykjavíkurbær hefði samþykkt að afhenda Frömurum landspildu við Safamýri. Þegar til átti að taka reyndist þó erfitt að innheimta loforðið. Það tók embættismenn bæjarins mörg ár að mæla út lóðamörkin og enn lengri tíma að ráðast í nauðsynlega jarðvegsvinnu. Álftamýrarskóli tók til starfa árið 1964 og fór þá loks að þokast eitthvað áleiðis í málum Fram. Árið 1969 var lokið framkvæmdum við íþróttahús skólans ásamt búningsaðstöðu og um svipað leyti var útbúinn malarvöllur. Framarar hófu þegar að nýta húsið og völlinn. Í nokkur misseri var Fram í raun starfrækt á tveimur stöðum: í Safamýri og við Skipholt, en eftir að brotist var inn í félagsheimilið í Skipholti á árinu 1972 og innanstokksmunir lagðir í rúst, var ákveðið að skilja endanlega við gömlu grjótnámuna. Framkvæmdatímar (1972 – 1994). Árið 1972 var viðburðaríkt hjá Frömurum. Auk þess að flytja úr Skipholti í Safamýri, urðu karlalið félagsins Íslandsmeistarar í bæði handbolta og fótbolta. Tæpur aldarfjórðungur átti eftir að líða uns Framarar urðu næst Íslandsmeistarar karla í handbolta og þótt knattspyrnumennirnir þyrftu ekki að bíða jafn lengi, voru ekki síður blikur á lofti á þeim bænum. Á sjötta áratugnum og í upphafi þess sjöunda voru Framarar stórveldi í yngri flokkunum í knattspyrnu. Iðkendur voru margir og til þess tekið hversu vel væri haldið utan um unglingastarfið. Með tímanum tók að fjara undan þessu. Nýbyggingarhverfin sem séð höfðu Fram fyrir stríðum straumi drengja urðu grónari og börnunum fækkaði. Á sama tíma fór unglingastarfið að eflast hjá öðrum félögum sem jafnframt eignuðust betri félagssvæði með grasvöllum og félagsaðstöðu. Frá 1968 til 1980 vannst aðeins einn Íslandsmeistaratitill í yngri flokkum, í þriðja flokki pilta 1972. Þessi þróun olli forráðamönnum Fram áhyggjum. Niðurstaða þeirra var sú að forgangsmál væri að koma upp félagsheimili. Byrjað hafði verið að teikna slíkt mannvirki þegar árið 1965. Ráðist var í framkvæmdir við húsið árið 1973 og var lokið við fyrri áfanga þess tveimur árum síðar. Í húsinu voru búningsklefar og lágmarks skrifstofu- og félagsaðstaða, en ákveðið var að láta stækkun heimilisins bíða betri tíma. Um svipað leyti voru sett upp flóðljós á malarvellinum. Bikarliðið Fram. Þótt yngri flokkarnir ættu erfitt uppdráttar á áttunda áratugnum, var karlaliðið í knattspyrnu á betra róli. Liðið var yfirleitt um miðja deild og hafnaði í öðru sæti árin 1975 og 1976. Fram tók nokkrum sinnum þátt í Evrópukeppnum, án þess þó að komast áfram úr fyrstu umferð. Minnisstæðastir voru leikirnir við Günter Netzer og félaga hans í spænska stórliðinu Real Madrid haustið 1974. Í bikarkeppni KSÍ áttu Framarar velgengni að fagna. Félagið hafði fyrst orðið bikarmeistari árið 1970, en fyrstu árin var bikarkeppnin heldur lágt skrifað haustmót sem fram fór á Melavelli að Íslandsmótinu loknu. Fram varð bikarmeistari 1973, 1979 og 1980. Í tvö seinni skiptin eftir sigurmörk á lokamínútunum. Óvelkominn kvennaflokkur. Sumarið 1968 var efnt til knattspyrnuleiks milli handknattleiksstúlkna úr Fram og KR, sem vakti nokkra athygli og ruddi brautina fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Fyrsti opinberi kvennaknattspyrnuleikurinn á Íslandi fór svo fram árið 1970. Það var stuttur sýningarleikur milli Reykjavíkur og Keflavíkur á undan karlalandsleik við Norðmenn á Laugardalsvelli. Fyrsta Íslandsmót kvenna innanhúss var haldið 1971 og sumarið 1972 hófst Íslandsmót kvenna utandyra. Keppnisliðin voru flest skipuð stúlkum sem æfðu handknattleik á veturna. FH-ingar voru með öflugasta liðið á þessum fyrstu árum, en Fram veitti þeim einna harðasta keppni. Eftir dapurt gengi sumarið 1979, ákvað stjórn knattspyrnudeildar að senda ekki lið til keppni sumarið 1980. Sú ákvörðun var tekin í óþökk leikmanna liðsins. Ástæðan var fyrst og fremst sú að forráðamenn deildarinnar töldu að nógu mikið álag væri á æfingarvellina, þótt kvennaliðið bættist ekki við. Þegar kvennaflokkurinn var lagður niður, gengu leikmennirnir til liðs við önnur félög, s.s. Breiðablik og KR. Í þeim hópi voru konur sem áttu eftir að vinna fjölda titla og leika fyrir Íslands hönd. Strax ári síðar skiptu Framarar um skoðun og reyndu að endurvekja kvennaflokkinn. Hann náði hins vegar aldrei fyrri styrk, uns hann lognaðist útaf árið 1993. Nýir menn í brúnni. Í byrjun níunda áratugarins urðu mikil umskipti í rekstri knattspyrnudeildar Fram. Nýir menn settust í stjórn og mynduðu hóp sem átti eftir að bera deildina uppi næstu árin. Halldór B. Jónsson var formaður knattspyrnudeildarinnar frá 1981 til 1993 og átti hvað stærstan þátt í þessum breytingum. Aðstaða knattspyrnumanna félagsins snarbatnaði á þessum árum. Sumarið 1983 fjölgaði grasvöllunum úr einum í tvo. Árið áður var ákveðið að ráðast í stækkun félagsheimilisins í stað þess að hefja byggingu íþróttahúss. Olli sú ákvörðun raunar talsverðum deilum og óánægju innanhússíþróttamanna. Unglingastarfið var stóreflt. Knattspyrnuskóli var stofnaður fyrir yngstu iðkendurna árið 1980 og var það nýjung. Þá naut félagið góðs af nálegðinni við nýja miðbæinn sem var að byggjast upp í Kringlumýri. Strætisvagnasamgöngur voru prýðisgóðar og því gat Fram dregið til sín stóra hópa iðkenda úr fjarlægum hverfum, ekki hvað síst úr Breiðholti, þar sem ÍR og Leiknir áttu erfitt uppdráttar. Í meistaraflokki urðu sömuleiðis breytingar. Árin 1982-83 var þjálfari Framliðsins Pólverjinn, Andrzej Strejlau. Þótt liðið félli niður um deild fyrra árið, héldu stjórnendur félagsins tryggð við Strejlau sem fór með það beint aftur upp úr annarri deildinni. Á þessum tveimur árum lagði sá pólski mikilvægar undirstöður að hinu sigursæla Framliði níunda áratugarins. Gullöld Ásgeirs Elíassonar. Ásgeir Elíasson tók við Frömurum fyrir sumarið 1985 og þjálfaði í sjö ár samfleytt. Í allt var Ásgeir þjálfari Fram í tólf ár, lengst allra sem gegnt hafa starfinu. Framlið níunda áratugarins var eitt hið öflugasta í íslenskri knattspyrnusögu. Það sigraði í bikarkeppni KSÍ árin 1985, 1987 og 1989. Íslandmeistaratitillinn kom í hlut Framara 1986, 1988 og 1990. Árangur Framara í Evrópukeppnum var sömuleiðis eftirtektarverður á köflum. Má þar nefna 3:0 heimasigur á sænsku bikarmeisturunum í Djurgårdens IF haustið 1990 og naumt 1:2 tap gegn spænska liðinu Barcelona sama ár. Árið eftir féllu Framarar svo úr leik í Evrópukeppni meistaraliða eftir tvö jafntefli gegn Panathinaikos. Eftir leikina við gríska liðið sneri Ásgeir Elíasson sér að þjálfun íslenska landsliðsins. Við tók tímabil óstöðugleika og tíðra þjálfaraskipta. Um svipað leyti varð talsverð endurnýjun í stjórn knattspyrnudeildar. Halldór B. Jónsson lét af formennsku árið 1993 og við tóku mörg mögur ár. Handboltakarlar á fallanda fæti. Íslandsmeistaralið Fram í karlaflokki í handbolta 1972 var firnasterkt. Hafði það t.a.m. á að skipa fjórum af burðarásum íslenska landsliðsins, þeim Axel Axelssyni, Björgvin Björgvinssyni, Sigurði Einarssyni og Sigurbergi Sigsteinssyni. Framtíðin virtist sömuleiðis björt, enda margir efnilegir leikmenn í herbúðum Framara og aðstöðumál félagsins búin að snarbatna með tilkomu íþróttahúss Álftamýrarskóla. Yfirburðatímar Fram og FH reyndust hins vegar á enda runnir. Ný félög, Valur og Víkingur voru á uppleið. Hafnfirðingar héldu sínu en Framarar urðu að láta undan síga. Eftir því sem leið á áttunda áratuginn færðist Framliðið niður töfluna, uns árviss fallbarátta varð raunin. Vorið 1983 féllu Framarar loks niður í aðra deild, í annað sinn í sögunni. Eftir tveggja ára dvöl í annarri deild lék Fram á ný meðal þeirra bestu veturinn 1985-86. Næstu árin einkenndust af fallbaráttu, skamma dvöl í annarri deild og svo enn meira fallströgl, uns Framarar féllu í fjórða sinn vorið 1993. Í það skipið var fjárhagur handknattleiksdeildarinnar orðinn afar bágur og aðstöðuleysið félaginu fjötur um fót, á sama tíma og önnur Reykjavíkurlið gátu státað af heimavöllum í eigin íþróttahúsum. Sigursæll kvennaflokkur. Eftir Íslandsmeistaratitlana fimm í byrjun sjötta áratugarins leið nokkur tími uns handknattleiksstúlkurnar í Fram náðu að blanda sér í titilbaráttu. Árið 1970 tókst liðinu að rjúfa sigurgöngu Valskvenna og við tók langt tímabil í íslenskum kvennahandknattleik þar sem Fram og Valur höfðu algjöra yfirburði. Af 21 Íslandsmeistaratitli sem í boði var frá 1970 til 1990 unnu Framstúlkur fjórtán. (1970, 1974, 1976, 1977, 1978, 1979, 1980, 1984, 1985, 1986, 1987, 1988, 1989 og 1990.) Stofnað var til bikarkeppni í kvennaflokki árið 1976 og urðu Framarar fljótt sigursælasta lið þeirrar keppni frá upphafi. Handknattleikskonur Fram voru um árabil helsta skrautfjöður félagsins. Ekki taldi handknattleiksfólk félagsins þó nóg að gert í aðstöðumálum. Á árunum í kringum 1980 var hart deilt innan Fram um hvort setja skyldi í forgang stækkun félagsheimilisins eða hefja framkvæmdir við íþróttahús. Félagsheimilið varð ofan á og talsverður tími átti eftir að líða uns íþróttahússmálið varð til lykta leitt. Þegar það loks gerðist hafði inniíþróttadeildum Fram raunar fækkað um tvær. Körfuknattleikur var tekinn upp í Fram árið 1970, en lognaðist út af 1987. Blakdeild starfaði frá 1978 til 1991. Þótt ýmsir samverkandi þættir skýri dauða þessara deilda, átti aðstöðuleysið þar ótvírætt stóran hlut að máli. Framarar í Eldborgargili. Þegar á fjórða áratugnum var samþykkt á aðalfundi Fram að félagið reyndi að koma sér upp skíðaskála. Um árabil voru starfræktar nefndir til að vinna að þessu markmiði en lítið varð úr framkvæmdum. Árið 1972 var rykið dustað af þessum áformum. Skíðadeild Fram var stofnuð sama ár. Formaður hennar var Steinn Guðmundsson. Hin unga skíðadeild kom sér fyrir í Eldborgargili í Bláfjöllum. Á næstu árum átti talsverð uppbygging sér stað á skíðasvæði félagsins, sem náði hámarki árið 1990 þegar nýr og glæsilegur skíðaskáli var tekinn í notkun. Starfsemi skíðadeildar Fram hefur alla tíð staðið í tengslum við árferði. Deildin hefur fyrst og fremst snúist um barna- og unglingastarf, en minna verið um afreksfólk í fullorðinsflokki. Óviss framtíð (1994 -). Knattspyrnufélagið Fram stóð á krossgötum vorið 1994. Nýtt íþróttahús var tekið í notkun í Safamýrinni, það fyrsta sem félagið hafði haft til eigin umráða í sögu sinni. Húsið var reist í formannstíð Alfreðs Þorsteinssonar og var staðfesting þess að Fram teldi nánustu framtíð sína liggja í Háaleitis- og Bústaðahverfi, en miklar vangaveltur höfðu verið uppi um mögulega flutninga félagsins í austurbyggðir Reykjavíkur. Með nýrri stjórn var horfið frá hugmyndum um mögulega flutninga eða sameingu Fram við önnur félög, þess í stað var leitast við að byggja upp félagið á Safamýrarsvæðinu. Tók sú hugmyndavinna á sig óvenjulegar myndir, t.d. var velt upp þeim kosti að selja mestallt félagssvæðið undir framlengingu á verslunarmiðstöðinni Kringlunni, en koma fyrir keppnisvelli á þaki hennar. Um það leyti sem handknattleiksfólk í Fram fékk eigið hús til umráða, rýrnaði félagsaðstaða Framara þegar Íþrótta- og tómstundaráð tók félagsheimilið á leigu undir félagsmiðstöðina Tónabæ. Í kjölfarið komu Framarar sér upp nýrri félagsaðstöðu í tengslum við íþróttahúsið, sem og gervigrasvelli ásamt búningsklefum. Gervigrasvöllurinn var loks tekinn í notkun árið 2006 og mátti félagssvæði Fram í Safamýri þá teljast tilbúið. Nokkur mögur ár. Frömurum var snögglega kippt niður á jörðina eftir brotthvarf Ásgeirs Elíassonar. Í stað þess að berjast um meistaratitla og vinna afrek í Evrópukeppni, hafnaði liðið næstu árin um eða fyrir neðan miðja deild. Sumarið 1995 máttu Framarar svo sætta sig við neðsta sætið og fall í fyrsta sinn í þrettán ár. Á sama tíma fóru skuldir knattspyrnudeildarinnar jafnt og þétt vaxandi. Ásgeir Elíasson sneri aftur í Safamýrina og leiddi liðið á ný upp í efstu deild, þar sem hann stýrði því næstu þrjú árin. Á þeim tíma var ráðist í nýstárlega rekstrartilraun. Stofnað var félag um rekstur meistaraflokks og talsverðu hlutafé safnað, sem mynda skyldi höfuðstól til að standa vörð um fjárhaginn. Raunin varð sú að öllu fénu var brennt upp á mettíma og verulegum skuldum safnað til viðbótar, án þess að nokkur árangur næðist á vellinum. Frá 1998 til 2004 áttu Framarar í harðri fallbaráttu á hverju einasta sumri, þar sem liðið bjargaði sér yfirleitt frá falli í síðustu umferð oft með ótrúlegum hætti. Tímabilið einkenndist af miklum óstöðugleika. Þjálfarar voru látnir fara nánast á hverju ári og miklar breytingar urðu á leikmannahópnum frá ári til árs. Haustið 2005 varð fallið ekki umflúið og næsta sumar lék fram í næst efstu deild í fjórða sinn í sögunni. Aftur í toppbaráttu. Eftir skamma dvöl í næst efstu deild tóku Framarar upp fyrri iðju og voru nærri því að falla haustið 2007 og í kjölfarið lét þjálfarinn Ólafur Þórðarson af störfum. Í hans stað var ráðinn Þorvaldur Örlygsson, sem vakið hafði athygli fyrir árangur sinn með sterkt en varnarsinnað lið Fjarðabyggðar. Undir stjórn Þorvaldar komst langþráður stöðugleiki á leik Framliðsins. Sumarið 2008 höfnuðu Framarar í þriðja sæti úrvaldsdeildar og komust þannig í Evrópukeppni í fyrsta sinn í fjöldamörg ár. Árið eftir var árangurinn viðlíka góður, fjórða sætið í deildarkeppninni auk þess sem liðið komst í úrlitaleik bikarkeppninnar en tapaði í vítaspyrnukeppni. Þorvaldur var enn við stjórnvölinn árin 2010 og 2011. Fyrra árið lenti liðið í fimmta sæti, en hið síðara bjargaði það sér frá falli eftir æsilegan lokasprett. Fyrra árið urðu þau tímamót að Framarar tefldu fram meistaraflokksliði kvenna í fyrsta sinn frá árinu 1993 og hófu keppni í næstefstu deild. Viðspyrna í handknattleiknum. Handknattleiksdeild Fram gekk í gegnum erfið ár í byrjun tíunda áratugarins. Rekstur karlaliða meistaraflokka í íþróttinni varð stöðugt dýrari. Erlendir leikmenn urðu algengari og íslenskir leikmenn gerðu í auknum mæli kröfur um greiðslur. Ár frá ári reyndist Frömurum því erfiðara að standa í sterkustu liðunum. Karlalið Fram lék í annarri deild í þrjú keppnistímabil, frá 1993 til 1996. Á árinu 1994 var nýtt íþróttahús félagsins í Safamýri tekið í notkun og þar með gjörbreyttust rekstrarforsendur deildarinnar. Haustið 1995 var Guðmundur Þ. Guðmundsson ráðinn þjálfari karlaliðsins og leiddi það upp í efstu deild í fyrstu tilraun, ekki hvað síst fyrir tilstyrk rússneska línumannsins Olegs Titovs. Undir stjórn Guðmundar komst karlalið Fram í fremstu röð í íslenskum handbolta í fyrsta sinn í fjöldamörg ár. Liðið lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn 1998 en beið lægri hlut. Árið eftir unnu Framarar bikarmeistaratitil eftir sigur á Stjörnunni. Næstu ár á eftir var Framliðið í hópi sterkari liða og komst undantekningarlítið í fyrstu eða aðra umferð úrslitakeppni Íslandsmótsins, án þess þó að gera verulegar atlögur að tiltlinum. Veturinn 2005-06 urðu Framarar hins vegar Íslandsmeistarar karla í fyrsta sinn frá 1972 og kom sú niðurstaða talsvert á óvart. Guðmundur Þ. Guðmundsson hafði þá tekið við þjálfun liðsins á nýjan leik. Leikið var með nýju keppnisfyrirkomulagi. Úrslitakeppnin var aflögð en þess í stað keppt í einni fjórtán liða deild. Var meistaratitllinn tryggður með stórsigri á botnliði Víkings/Fjölnis í lokaumferðinni í Safamýri. Löng bið í kvennaflokki. Árið 1990 unnu Framstúlkur tvöfalt í meistaraflokki í handknattleik. Það reyndist hins vegar síðasti Íslandsmeistaratitill flokksins í meira en tvo áratugi. Um nokkurra ára skeið áttu Framstúlkur í fullu tré við önnur sterkustu lið landsins. Bikarkeppni HSÍ vannst t.a.m. árin 1995 og 1999. Eftir það var sem botninn dytti úr kvennaboltanum. Ár eftir ár tefldu Framarar fram ungum og reynslulitlum liðum sem oftast nær enduðu við botn deildarinnar. Yngri flokkar félagsins voru hins vegar sterkir allan tímann. Það skilaði sér að lokum í sterku meistaraflokksliði sem hafnaði í öðru sæti á Íslandsmótinu 2008 og lék til úrslita á árunum 2009 til 2012, auk þess að verða bikarmeistari í tvígang. Eftir að hafa mátt sætta sig við silfurverðlaun á Íslandsmótinu fimm ár í röð hlutu Framstúlkur sinn tuttugasta Íslandsmeistaratitil eftir sigur á Stjörnunni vorið 2013. Nýjar félagsdeildir. Árið 2003 varð Fram fyrsta Reykjavíkurfélagið til að stofna sérstaka almenningsíþróttadeild. Deildin hafði þá raunar starfað óformlega í tengslum við félagið um langs árabil eða frá árinu 1995. Almenningsíþróttadeildin stendur fyrir ýmiskonar líkamsrækt og leikfimi fyrir íbúa á starfsvæði Fram, auk þess að skipuleggja íþróttaskóla fyrir börn. Tækvondódeild Fram var stofnuð árið 2005 og hefur frá upphafi haft allnokkurn fjölda iðkenda. Tengill. Fram Fram Mýrasýsla. Kort sem sýnir staðsetningu Mýrasýslu Mýrasýsla er sýsla á Vesturlandi sem nær frá Hvítá í Borgarfirði að Hítará. Sýslan er alls 3.270 km². Náttúrufar. Úti fyrir strönd Mýrasýslu eru ótal sker og er aðgrunnt að ströndinni. Mestur hluti sýslunnar er láglendur og kallast hann einu nafni "Mýrar" og ná þær allt inn að Norðurá og Gljúfurá meðfram Hvítá. Mýrarnar eru víða illar yfirferðar, með lágum klapparholtum inn á milli. Holt þessi eru mörg hver vaxin birkikjarri. Upp af Mýrunum ganga síðan dalir inn í hálendið; helstu dalir eru Hítardalur, Hraundalur með Langavatnsdal, Norðurárdalur og Þverárhlíð austust. Mýrasýslan öll er gróðursæl og er gróðurlendið útbreiddast á Mýrum og eru afréttir grösugir einnig. Í Mýraeldum vorið 2006 skemmdist þónokkurt gróðurlendi en líklegt er talið að það muni ná sér á einhverjum áratugum. Stjórnsýsla. Mýrasýsla er lögsagnarumdæmi með Borgarfjarðarsýslu og hefur sýslumaður aðsetur sitt í Borgarnesi. Sveitarfélög innan Mýrasýslu eru tvö, Borgarbyggð og Hvítársíðuhreppur. Kjördæmið. Mýrarsýsla var kjördæmi í Alþingiskosningum fram til 1959, er Vesturlandskjördæmi var myndað. Martin Heidegger. Martin Heidegger (26. september 1889 – 26. maí 1976) var þýskur heimspekingur. a>, þar sem Heidegger ólst upp. Gröf Martins Heidegger í Meßkirch. Heidegger hafði áhrif á marga aðra heimspekinga en meðal nemenda hans voru Hans-Georg Gadamer, Hans Jonas, Emmanuel Levinas, Hannah Arendt, Xavier Zubiri og Karl Löwith. Maurice Merleau-Ponty, Jean-Paul Sartre, Jacques Derrida, Michel Foucault, Jean-Luc Nancy og Philippe Lacoue-Labarthe kynntu sér einnig verk hans ítarlega. Auk þess að vera mikilvægur hugsuður í hefð fyrirbærafræðinnar er Heidegger álitinn mikilvægur hugsuður í tilvistarspeki, afbyggingu, túlkunarfræði og póstmódernisma. Hann reyndi að beina vestrænni heimspeki frá frumspekilegum og þekkingarfræðilegum spurningum og í áttina að verufræðilegum spurningum, það er að segja, spurningum um þýðingu verunnar, eða hvað það þýðir „að vera“. Heidegger var meðlimur í nasistaflokknum og hefur verið umdeildur m.a. af þeim sökum. Edmund Husserl. Edmund Gustav Albrecht Husserl (8. apríl 1859, Prostějov – 26. apríl 1938, Freiburg) var þýskur heimspekingur, sem er þekktur sem „faðir“ fyrirbærafræðinnar. Husserl fæddist inn í gyðingafjölskyldu í Prostějov (Prossnitz) í Moravíu í Tékkóslóvakíu (sem var þá hluti af Austurríki-Ungverjalandi). Hann var nemandi Franz Brentano og Carl Stumpf en hafði síðar mikil áhrif á Edith Stein, Eugen Fink, Martin Heidegger, Jean-Paul Sartre og Maurice Merleau-Ponty meðal annarra. Árið 1887 gerðist hann kristinn mótmælandi. Hann kenndi heimspeki í Halle frá 1887, þá í Göttingen sem prófessor frá 1901 og að lokum í Freiburg im Breisgau frá 1916 til 1928 þegar hann settist í helgan stein. Hann hélt þó áfram að fást við og skrifa um heimspeki og nota bókasafnið í Freiburg þar til honum var meinað að gera það vegna gyðinglegs uppruna síns. Helstu ritverk. Husserl, Edmund Husserl, Edmund Háskóli. Háskóli er menntasofnun þar sem fer fram æðri menntun og vísindalegar rannsóknir. Námsgráður sem veittar eru í háskólum eru í grófum dráttum á þremur stigum: "baccalaureus" gráður (til dæmis B.A.- og B.S.-gráður eða sambærilegar gráður) eru gráður veittar að loknu grunnnámi; meistaragráður ("magister" gráður) eru veittar að loknu eins eða tveggja ára framhaldsnámi; og að lokum eru doktorsgráður veittar að loknu umfangsmiklu rannsóknatengdu framhaldsnámi en doktorsgráða er æðsta námsgráða sem veitt er. Íslensk og erlend hugtakanotkun. Íslenska orðið „háskóli“ er notað jafnt um alla skóla á háskólastigi. Á öðrum tungumálum er oft gerður greinarmunur annars vegar á þeim skólum á háskólastigi þar sem einungis eða að langmestu leyti fer fram kennsla á grunnstigi eða á afar takmörkuðu sviði (svo sem tæknivísindum eða viðskiptum) og hins vegar á skólum þar sem kennsla fer fram í flestum greinum vísinda, bæði á grunn- og framhaldsstigi og rannsóknarstarfsemi er öllu umfangsmeiri. Á ensku er til að mynda gerður greinarmunur á „college“ og „university“, þar sem „college“ er skóli á háskólastigi, sem veitir námsgráður einkum á grunnstigi, ef til vill á takmörkuðu sviði (samanber til dæmis viðskiptaháskóla eða „business college“) en orðið „university“ er notað um háskóla þar sem kenndar eru allar helstu greinar vísinda, veittar eru námsgráður á framhaldsstigi og rannsóknarstarfsemi er venjulega töluvert meiri en í þeim skólum sem teljast vera „college“. Sams konar greinarmunur endurspeglast meðal annars í norsku orðunum „høyskole“ („høgskole“ á nýnorsku) og „universitet“, dönsku orðunum „højskole“ og „universitet“ og sænsku orðunum „högskola“ og „universitet“. Af þessum sökum hefur verið lagt til að kalla íslenska háskóla sem samsvara „university“ eða „universitet“ "rannsóknarháskóla" en láta öðrum skólum eftir orðið „háskóli“. Háskóli Íslands væri þá dæmi um rannsóknaháskóla en Kennaraháskóli Íslands, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst væru venjulegir háskólar. The Latin Library. The Latin Library er vefsíða sem hýsir latneska texta í almannaeigu. Textarnir eru fengnir frá mismunandi stöðum. Margir voru skannaðir inn úr bókum sem eru lausar undan höfundarétti. Aðrir voru halaðir niður af ýmsum síðum á veraldarvefnum (sumar þeirra eru ekki lengur til). Leyfi hefur fengist fyrir birtingu flestra nýrri textanna. Textarnir eru ekki ætlaðir til nýtingar í rannsóknum og þeim er ekki ætlað að leysa af hólmi fræðilegar útgáfur með handritaskýringum. Á vefsíðunni eru engar þýðingar. William L. Carey í Fairfax, Virginíu, heldur síðunni við, sem er hluti af stærra Ad Fontes Academy vefsíðu. Sextos Empeirikos. Sextos Empeirikos (uppi á 2. og 3. öld) var læknir og heimspekingur. Sennilega bjó hann í Alexandríu og Aþenu. Sextos nam hjá Heródótosi, sem var læknir í Róm. Sem læknir tilheyrði hann „raunhyggjuskólanum“ (eða "empíríska" skólanum, líkt og nafnið gefur til kynna). Í heimspeki var hann efahyggjumaður, nánar tiltekið pyrrhonisti. Deilt er um hversu frumleg rit Sextosar voru og að hvaða marki hann styðst við rit eldri efahyggjumanna en rit hans eru merkustu varðveittu heimildirnar um forna efahyggju. Rit Sextosar voru gefin út á grísku með latneskri þýðingu í Genf árið 1562. Þau voru lesin víða á 16., 17. og 18. öld, einkum "Frumatriði pyrrhonismans". Þau höfðu mikil áhrif m.a. á Michel de Montaigne og David Hume meðal annarra. Ritverk. Sextos virðist hafa byggt rit sín töluvert á ritum eldri efahyggjumanna, einkum Ænesidemosar og Agrippu, sem voru uppi á 1. öld f.Kr. og 1. öld e.Kr. Rit þeirra eru aftur á móti ekki varðveitt og því er ekki mögulegt að leggja mat á að hve miklu leyti Sextos styðst við annan hvorn þeirra fremur en hinn. Heimspeki. Pyrrhonistar voru efahyggjumenn. Þeir töldu "ekki" að það væri ekki hægt að vita neitt; hvernig væri hægt að vita það? Þetta viðhorf skilgreindu þeir sem "neikvæða kenningu" um þekkingu. En efahyggjumaður getur ekki leyft sér að halda fram "neinni" kenningu. Þess í stað frestuðu pyrrhonistar dómi um hvort hægt væri að vita eitthvað. Sextos neitar því ekki að hægt sé að upplifa eitthvað en frestaði dómi um hvort hægt væri að fjalla um það sem maður upplifir á hlutlægan hátt. Sextos getur t.d. fallist á að hunang "virðist" vera sætt á bragðið en haldið því fram að það sé vafamál hvort það "sé í eðli sínu" sætt eða sé sætt "í raun". Fullyrðingin „hunang "er" sætt“ virðist fela í sér meira en einungis frásögn af upplifun manns, nefnilega dóm um hvernig hunang er í raun og veru; þann dóm getur efahyggjumaður ekki fellt. Þess vegna segir Sextos að alltaf þegar pyrrhonistinn segir „x er F“ eigi hann við „x virðist vera F“ enda streitist efahyggjumaðurinn ekki á móti því hvernig hlutirnir virðist vera, sýndinni. Sextos segir að til þess að öðlast sálarró ("ataraxia") þurfi maður fyrst að losa sig við skoðanir manns og „fresta dómi“, það er að segja finna jafnvægi milli sérhverrar staðhæfingar og neitunar hennar og trúa svo hvorugri í kjölfar þess að maður getur ekki skorið úr um hvor sé sönn eða rétt. Það er mikilvægt að átta sig á að frestun dóms er ekki niðurstaðan í röksemdafærslu, heldur sálfræðileg afleiðing þess að geta ekki skorið úr um hvor kenningin eða staðhæfingin er sönn. Fræðimenn deila um hvort og að hve miklu leyti pyrrhonisti geti leyft sér að hafa skoðanir yfirhöfuð. Sumir telja að Sextos eigi við allar skoðanir og að pyrrhonistinn megi ekki hafa neinar skoðanir. Aðrir telja að þau séu ekki skilaboðin og að pyrrhonistinn geti haft fjölmargar skoðanir en það skipti máli hvernig maður myndar sér skoðanir sínar. Meðal fræðimanna sem hafa haldið fram hinu fyrrnefnda eru Myles Burnyeat og Jonathan Barnes. Burnyeat telur að pyrrhonistinn megi ekki hafa skoðun á neinu sem getur verið satt eða ósatt. Hann má einungis hafa skoðanir á upplifunum sínum, en samkvæmt Burnyeat var það viðtekið og óumdeilt viðhorf í forngrískri heimspeki að einungis staðhæfingar um "ytri" veruleika gætu verið sannar eða ósannar. Barnes telur að efahyggjumaðurinn megi ekki hafa neinar skoðanir, einkum og sér í lagi „heimspekivísindalegar skoðanir - kenningar eða kreddur“ (e. „philosophico-scientific opinions - doctrines, principles, tenets“) um neitt sem er óljóst. Hann getur hins vegar tjáð upplifanir sínar með venjulegu máli, t.d. sagt „hunangið er sætt“ þegar honum virðist hunangið vera sætt. Samkvæmt túlkun Barnes er óljóst hvort efahyggjumaðurinn getur haft venjulega skoðun eins og „það er kvöld“. Michael Frede hefur haldið fram síðarnefndu túlkuninni.. Samkvæmt henni útilokar Sextos ekki allar skoðanir, heldur getur efahyggjumaður haft skoðanir á hverju sem er svo lengi sem þær eru ekki niðurstöður röksemdafærslu, leiðir ekki af slíkum niðurstöðum eða eru afleiðingar heimspekilegra eða vísindalegra pælinga. Skoðanir efahyggjumannsins mega til að mynda vera viðteknar hugmyndir í samfélagi hans og afleiðingar uppeldis hans. En hverjar skoðanirnar eru skiptir engu máli. Inntak þeirra skiptir ekki máli, samkvæmt þessari túlkun, ólíkt túlkun Barnes og Burnyeat. Samkvæmt þessari kenningu getur efahyggjumaður því jafnvel trúað á tilvist guðs eða að guð sé ekki til eða að dygð sé góð. Hann getur aftur á móti ekki verið þeirrar skoðunar að dygðin sé "í eðli sínu" góð. Gagnrýni. Ein helsta gagnrýnin á efahyggju til forna var á þá leið að ef efahyggjumenn hefðu engar skoðanir, þá gætu þeir ekkert gert, ekkert aðhafst, ekkert sagt. Hvernig getur efahyggjumaður til dæmis gengið út um dyr ef hann ekki einungis veit ekki að dyrnar eru fyrir framan hann, heldur hefur enga skoðun á málinu? Sextos tekur skýrt fram að þegar efahyggjumaðurinn segir „x er F“ eigi hann við „x virðist vera F“. Ekkert kemur í veg fyrir að efahyggjumaðurinn segi frá því hvernig honum virðist hlutirnir vera. Ef túlkun Michaels Frede er rétt, þá hæfir gagnrýnin um aðgerðaleysi efahyggjumannsins ekki í mark heldur, því efahyggjumaðurinn getur haft hvers kyns skoðanir, svo fremi sem hann réttlætir ekki skoðanir sínar með rökum eða leiðir þær af kenningum. Sé túlkun Barnes rétt, þá er möguleiki á því að efahyggjumaðurinn hafi hversdagslegar skoðanir eins og „þarna eru dyrnar“ þótt hann hafi ekki heimspekivísindalegar skoðanir. Ef túlkun Burnyeats er rétt, þá hefur efahyggjumaðurinn engar skoðanir en eftir sem áður er ljóst af því sem Sextos segir að efahyggjumaðurinn streitist ekki á móti sýndinni og því ætti hann að geta stuðst við sýndina til að rata á dyrnar þótt hann fallist ekki á að hafa neina skoðun um hvar dyrnar séu. Will Durant. William James Durant (5. nóvember 1885 — 7. nóvember 1981) var bandarískur sagnfræðingur, heimspekingur og rithöfundur. Tengill. Durant, Will Durant, Will Ólafur Ólafsson (kaupsýslumaður). Ólafur Ólafsson (fæddur 23. janúar 1957) er íslenskur kaupsýslumaður. Hann var ráðinn forstjóri Samskipa hf. árið 1990. Árið 2003 varð hann starfandi stjórnarformaður Samskipa. Hann kom við sögu í baráttunni um Ker hf. og var í forsvari fyrir Kjalar ehf. sem hafði betur gegn fjárfestingarfélaginu Gretti hf. í baráttunni um félagið. Ólafur er stjórnarformaður Alfesca og einnig Kjalars invest sem er annar stærsti hluthafi Kaupþings banka. Hann fór fyrir hópnum sem keypti Búnaðarbankann. Í upphafi árs 2007 stofnaði Ólafur, ásamt konu sinni Ingibjörgu Kristjánsdóttur landslagsarkitekt, velgerðarsjóð sem ætlað er að styrkja fátæk börn í Afríku til mennta. Hjónin lögðu fram einn milljarð króna sem stofnfé sjóðsins. Sumarið 2007 hófust deilur milli Ólafs og nágranna hans í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, þar sem Ólafur á sumarbústað. Kvörtuðu nágrannarnir undan hávaða frá þyrlu sem Ólafur notar til að ferðast milli Reykjavíkur og sumarbústaðar síns, en hann gaf lítið fyrir kvartanirnar. Í maí 2009 var svo gerð húsleit í fyrirtækjum í eigu Ólafs og einnig í sumarbústað hans í sambandi við kaup Al Thani á hlut í Kaupþingi. Ok. Ok er 1.198 metra há dyngja úr grágrýti vestan Kaldadals. Á toppi hennar var samnefndur jökull sem er nú horfinn með öllu. Dyngjan myndaðist við hraungos á hlýskeiði síðla á ísöld. Næfurholt. Næfurholt er efsti bær á Rangárvöllum, við rætur Heklu. Bærinn hefur oftar en einu sinni verið færður vegna náttúruhamfara. Þó svo að bærinn sé mjög nálægt Heklu sést hún ekki heiman frá bænum, vegna þess hve hár hálsinn er fyrir austan bæinn. Alnæmi. Merki alnæmissjúklinga og þeirra sem styðja alnæmissýkta er rauður borði Alnæmi (eða eyðni) er samsafn einkenna og sýkinga (heilkenni), sem stafar af skertu ónæmi líkamans vegna smitunar af veirunni HIV (e. human immuno-deficiency virus). Alnæmi smitast á milli manna með sæði, blóðvökva eða öðrum líkamsvessum. Alnæmissjúkdómurinn var fyrst greindur 18. júní 1981 í Los Angeles í fimm samkynhneigðum körlum. Engin þekkt lækning er til við HIV smiti en með meðferð er hægt að hægja á gangi sjúkdómsins og jafnvel halda honum niðri um tíma. Talið er að vírusinn hafi upphaflega komið úr öpum í Afríku. Áætlað er að 38,6 milljónir séu smitaðir af sjúkdóminum og að hann hafi dregið 25 milljónir manna til dauða. Tveir af hverjum þrem eyðnissmituðum búa í Afríku sunnan Sahara. 1497. Leið Vasco da Gama til Indlands. Nýaldarheimspeki. a> (1596-1650) er oft nefndur faðir nútímaheimspeki Nýaldarheimspeki er sú heimspeki nefnd, sem var stunduð á nýöld og tók við af miðaldaheimspeki og heimspeki endurreisnartímans. Venjulega er litið svo á að nýaldarheimspeki nái yfir tímabilið frá 17. öld til 19. aldar. En stundum er 19. öldin talin sérstakt tímabil. Upphaf nýaldarheimspeki er venjulega rakið til franska heimspekingsins Renés Descartes en sporgöngumenn hans glímdu að verulegu leyti við þær gátur heimspekinnar, sem hann hafði glímt við. Segja má að áherslubreyting hafi átt sér stað með Descartes, þar sem frumspekin vék fyrir þekkingarfræðinni sem mesta grundvallarviðfangsefnis heimspekinnar. Auk þessa má rekja áherslubreytingu í aðferðum heimspekinga til Descartes en á miðöldum var heimspekin einkum stunduð í formi skólaspekinnar, þar sem rök frá kennivaldi og greining á fornum textum með aðstoð aristótelískrar rökfræði voru höfð í fyrirrúmi. Á endurreisnartímanum komu að vísu fram fjölmargar nýjar hugmyndir sem drógu í efa kennivaldið, sem lá þó ætíð til grundvallar orðræðunni. Á þessum tíma leituðust heimspekingar við að smíða alltumvefjandi heimspekikerfi, sameinuðu þekkingarfræði, frumspeki, rökfræði, og siðfræði og oft stjórnmál og náttúruvísindi í eitt kerfi. Immanuel Kant flokkaði forvera sína í tvo hópa: rökhyggjumenn og raunhyggjumenn. Heimspeki nýaldar, einkum 17. og 18. aldar heimspeki, er oft lýst sem átökum þessara tveggja hefða. Þessi skipting er þó að einhverju leyti ofureinföldun og það er mikilvægt að hafa í huga að heimspekingarnir, sem um ræðir, töldu ekki sjálfir að þeir tilheyrðu þessum heimspekihefðum, heldur að þeir störfuðu allir innan einnar og sömu hefðarinnar. Þrátt fyrir að flokkunin sé á suman hátt villandi er hún enn notuð í dag. Helstu rökhyggjumennirnir eru venjulega taldir hafa verið Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz en helstu raunhyggjumennirnir voru John Locke og (á 18. öld) George Berkeley og David Hume. Þeir fyrrnefndu töldu að hugsanlegt væri (þótt ef til vill væri það ómögulegt í raun) að alla þekkingu væri hægt að öðlast með skynseminni einni; þeir síðarnefndu höfnuðu þessu og töldu að öll þekking yrði til með skynjun, úr reynslu. Stundum er sagt að deilan hafi snúist um tilvist „áskapaðra hugmynda“. Rökhyggjumenn tóku sér stærðfræði sem fyrirmynd þekkingar en raunhyggjumenn litu frekar til náttúruvísindanna. Þessi áhersla á þekkingarfræði liggur til grundvallar flokkun Kants. Flokkunin væri öðruvísi væri litið á hina ýmsu heimspekinga eftir frumspekilegum, siðfræðilegum eða málspekilegum kenningum þeirra. En jafnvel þótt þeim sé áfram skipt í hópa eftir þekkingarfræðilegum kenningum er þó ýmislegt við skiptinguna að athuga: til dæmis féllust flestir rökhyggjumenn á að í raun yrðum við að reiða okkur á vísindin um þekkingu á hinum ytra heimi og margir þeirra fengust við vísindalegar rannsóknir; á hinn bóginn féllust raunhyggjumenn almennt á að "a priori" þekking væri möguleg í stærðfræði og rökfræði og af þremur helstu málsvörum raunhyggjunnar hafði einungis Locke einhverja þjálfun eða sérþekkingu í náttúruvísindum. Á þessum tíma urðu einnig til sígildar stjórnspekikenningar einkum hjá Thomas Hobbes í ritinu "Leviathan" og Locke í ritinu "Two Treatises of Government". Á 17. öld hafði heimspekin náð að slíta sig lausa frá guðfræði. Þótt heimspekingar ræddu enn um guð – og færðu jafnvel rök fyrir tilvist hans — var það gert innan heimspekilegrar orðræðu með heimspekilegum rökum. Á upplýsingartímanum á 18. öld hélt þetta ferli áfram og heimspekin sagði nær algerlega skilið við guðfræði og trúarbrögð. Anaxímenes. Anaxímenes (á forngrísku: Άναξιμένης) frá Míletos (585 - 525 f.Kr.) var grískur heimspekingur frá síðari hluta 6. aldar f.Kr., sennilega yngri samtímamaðr Anaxímandrosar og er sagður hafa verið nemandi hans eða vinur. Anaxímenes taldi að loft væri uppspretta alls. Hann tók eftir því að loft gat tekið á sig ólíka eiginleika, orðið heitt eða kalt, þurrt eða rakt með þynningu og þéttingu. Þegar loft þynnist kólnar það en hitnar þegar það þéttist. Loft var einnig talið tengjast lífi og vexti. Mýrin (bók). Mýrin er bók eftir rithöfundinn Arnald Indriðason. Tökur hófust á samnefndri bíómynd í mars mánuði árið 2006 í leikstjórn Baltasars Kormáks. Mýrin hefst á því að rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur er kallaður til í Norðurmýrina. Þar hefur roskinn maður fundist að nafni Holberg myrtur og í skúffu er mynd af legsteini fjögurra ára gamalli stúlku að nafni Auður sem tengist miklum fjölskylduharmleik. Á sama tíma hverfur ung kona úr brúðkaupi og óþægilegar minningar hellast yfir rannsóknarlögreglumanninn. Bókin hefur hlotið gríðarlegar vinsældir utan Íslands. Flatey á Breiðafirði. Plássið við Grýluvog; yst til vinstri Eyjólfshús (gult) og Eyjólfspakkhús (grænt), næst Stórapakkhús (brúnt) og samkomuhúsið áfast því (er í hvarfi við Vog) og fremst Vogur (blár) sem var aðsetur verslunarstjóra og prestsetur. Flatey á Breiðafirði er stærsta Vestureyjan á Breiðafirði og tilheyra henni alls 40 eyjar og hólmar. Hún er talin að hafa myndast undir afli skriðjökla á ísöld og þegar jökulfarginu létti hafi hún risið upp úr sæ. Flatey er um 2 km á lengd og um hálfur km þar sem hún er breiðust. Eyjan er flatlend, þó gengur hæðarhryggur eftir henni endilangri. "Lundaberg" er hæsti hluti hennar, nærri norðausturenda hennar. Vestureyjarnar liggja á stórri megineldstöð sem kennd er við Flatey og finnst því víða jarðhiti og margskonar stuðlaberg. Flatey er flokkuð undir þjóðjörð af ríkinu og er eyjan talin sem náttúruperla og menningarafurð Íslands. Mikið fuglalíf er á eyjunni og er hluti hennar friðaður (sérstaklega á varptíma) síðan 1975. Flatey er því tilvalinn staður fyrir fuglaskoðendur. Gjöful fiskimið liggja allt í kringum eyjuna en í undirdjúpunum kringum Flatey er ekki aðeins fiskur heldur einnig merkar fornleifar; tvö skip. Annað sökk á 18. öld og hitt á 19. öld. Saga. Byggð í Flatey á rætur sínar að rekja allt aftur á landnámsöld þegar Þrándur mjóbeinn nam eyjarnar vestan Bjarneyjarflóa og bjó hann í Flatey. Flatey hefur þá yfirburði framyfir aðrar Vestureyjar að hún er stærst og lá vel við - stutt er á fiskimið og í aðrar eyjar. Höfnin, skeifulaga eyja á móts við "Þýskuvör", var sjálfgerð frá náttúrunnar hendi og veitir hún var í flestum áttum. Á 12. öld bjó í eyjunni Þorsteinn Gyðuson sem var ríkur maður og voldugur. Í hans búskapartíð var byggt klaustur í eynni, var það reist 1172 en flutt að Helgafelli 1184. Það stóð þar sem nú kallast "Klausturhólar", á háhrygg eyjarinnar, upp af "Innstabæjarmýri". Við sáluhliðið stendur jarðfastur steinn sem klappaður hefur verið í bolli, svo fólk gæti signt sig áður en það gekk í gegn. Í Sturlungu er Flateyjar getið, en ekkert svo hægt sé að glöggva sig á lífinu og búsháttum þar. Flateyjarbók getur þess að á eftir Sturlungaöld hafi sumar ættir í landinu risið hærra en aðrar og hafi Englendingar meðal annars slæðst til landsins og stundað viðskipti og fiskveiðar. Upp úr 1520 eignast Jón Björnsson af ætt Skarðverja, sem þá var ein af höfuðættum landsins, Flatey og var eyjan þá búin að vera í fjölskyldunni í að a.m.k. fjóra ættliðiði. Á sama tíma eignast Jón Flateyjarbók. Hún var geymd í eynni fram til 15. september 1647 þegar Brynjólfur biskup fékk hana að gjöf og færði konungi að gjöf. Þá var bókin orðin 250 ára, enda skrifuð á 14. öld. Þegar einokunarverslunin var lögleidd á Íslandi 1602 höfðu Hollendingar og Þjóðverjar stundað verslun í eynni, og halda því greinilega áfram því 6. október 1659 sökk hollenskt kaupskip í höfninni. Það er sagt hafa verið vopnað 14 fallbyssum. Það vekur upp ýmsar spurningar að svona stórt verslunarskip skuli hafa verið í Flatey, og sérstaklega vegna þess að það var vopnað. 1660 er getið um tvö hollensk skip en síðan heyrist ekkert um kaupskipaferðir næstu 120 árin. Á þessum tíma ríkti því stöðnun í því stórveldi sem eyjan hafði áður verið, enda þurftu eyjaskeggjar að sækja upp á land til að versla. 18. júní 1777 varð Flatey kauptún og hófst verslun þar sama ár. Verslunarsvæðið náði yfir Vestureyjarnar og sveitirnar á Barðaströnd. Í byrjun 20. aldar gekk vélbátur milli Flateyjar og hreppanna í Barðastrandar- og Dalasýslu. Kaupfélag Flateyjar var sett á laggirnar 1920, lítið í byrjun en stækkaði til muna þegar verslun Guðmundar Bergsteinssonar lagðist af. Kaupfélagið verslaði og stundaði viðskipti fram yfir 1950. Milli 1940 og '50 voru stofnuð útgerðar og hraðfrystingarfélög. Frystihúsið á "Tröllenda" var byggt og jafnframt bryggjan, en atvinnureksturinn mætti halla á leið sinni og lognaðist fljótt út af. Í Flatey hafa verið þekktir fræðimenn sem stóðu framarlega í alþýðumenntun á Íslandi og má þar nefna Gísla Konráðsson, sem bjó í eynni síðustu áratugi ævinnar. Bókhlaðan í Flatey var önnur í röðinni af bókasöfnum sem reist voru á Íslandi og barnaskóli var snemma reistur þar. Árið 1926 var síðan reist kirkja á eyjunni - Flateyjarkirkja. Hún er mjög sérstök að því leyti að innandyra er hún eins og stórt listaverk. Allt loftið og altaristöfluna málaði Baltasar listmálari og er það einstök upplifun að koma í kirkjuna. Hafa nú bæði kirkjan og bókasafnið nýlega verið endurgerð. Fólksfjöldi. Þegar manntal fór fram 1703 voru 20 heimili í Flatey með 106 íbúa, en að auki voru nokkrir húsmenn með fjölskyldur sínar. 1801 voru heimilin 17 og íbúarnir 81 að tölu. 1845 voru í eynni 143. Um aldamótin 1900 stóð byggðin í Flateyjarhrepp í sem mestum blóma og voru íbúarnir allt að 400. Lagðist síðan byggð að mestu af. Enn eru þó tvö lögbýli í Flatey. Húsin eru vel varðveitt og er þetta ein merkasta heild gamalla húsa á Íslandi. Flest húsin eru frá 19. öld og byrjun 20. aldar og bera íbúðarhúsin, verslunarhúsin og pakkhúsin í Flatey vitni um bjartsýni og uppgang um aldamótin 1900. Húsin eru í einkaeigu og eru notuð sem sumarhús og er eyjan því full af lífi á sumrin. Eigendur húsanna eru flestir afkomendur Flateyinga og lítið er um að ný hús séu byggð nema á grunni eldra húsa. Eftirsóknarvert þykir að eiga sumarhús í Flatey vegna góðs veðurfars og kyrrsældar. Breiðafjarðarferjan Baldur siglir frá Stykkishólmi til Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Eyjaskeggjar fá rafmagn sitt frá díselrafstöð sem rekin er á eynni, en lengi hefur verið rætt um að leggja þangað streng. Vatnið er fengið úr brunnum á eynni, en þegar vatnsþörfin er mikil er bætt við með flutningi frá meginlandinu. Flatey í kvikmyndum og bókum. Flatey er vinsælt sögusvið í kvikmyndum og bókum. Sakamálasagan Flateyjargátan eftir Viktor Arnar Ingólfsson gerist þar og eyjan er sögusviðið í barnabókinni Flateyjarbréfin eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttir. Bókin Síðasta skip suður eftir Jökull Jakobsson og Baltasar fjalla um Flatey og Breiðafjarðareyjar í máli og myndum. Kvikmyndin Ungfrúin góða og húsið og Brúðguminn eru teknar upp í Flatey. Anaxímenes frá Lampsakos. Anaxímenes frá Lampsakos (uppi um 380 – 320 f.Kr.) var grískur mælskufræðingur og sagnaritari, sem Alexander mikli hafði mikið dálæti á. Anaxímenes fylgdi Alexander í leiðangri þess síðarnefnda til Persíu. Hann skrifaði um sögu Grikklands og um Filippos II og epískt kvæði um Alexander (brot eru varðveitt hjá Muller (ritstj.) í "Scriptores Rerum Alexandri Magni"). Sem mælskufræðingur var hann einarður andstæðingur Ísókratesar og skóla hans. Sumir telja að ritið "Mælskufræði handa Alexander" ("Rhetorica ad Alexandrum"), sem er venjulega talið með verkum Aristótelesar þótt almennt sé það talið ranglega eignað honum, sé í raun réttri eftir Anaxímenes; aðrir telja að verkið sé mun yngra. Liquid Snake. Liquid Snake er persóna úr Metal Gear Solid. Hann var yfirmaður hryðjuverkamanna í Metal Gear Solid. Uppruni. Liquid Snake fæddist ásamt Solid Snake og Solidus Snake gegnum Les Enfants Terribles-verkefnið 1972. Honum var gefið yfirmennsku gen Big Boss eða sterku genin í gegnum einrækunaraðferðina. Liquid var alin upp í Englandi og gekk til liðs við bresku leyniþjónustuna. Vitað er að hann hafi barist sem táningur í Flóa stríðinu og gekk síðar í FOXHOUND. Hann mætti Big Boss einu sinni sem sagði honum allt. En sagði Liquid (hugsanlega til að ögra honum) að hann væri veikari klónin; leifar til þess að búa til Solid Snake. Liquid hataði Big Boss fyrir og varð mjög reiður þegar að Solid Snake drap hann. Metal Gear Solid. Í Metal Gear Solid leiðir Liquid uppreisn ásamt fimm öðrum meðlimum í FOXHOUND, þ.á m. hægrihandarmaður hans Revolver Ocelot. Þeir heimta lík Big Boss of einn milljarð dollara. Þeir tóku yfir kjarnorkustöðina á Shadow Moses-eyju til þess að nota nýjan Metal Gear. Þeir þurfa dulkóða sem aðeins DARPA-stjórinn og yfirmaður ArmsTech vita. Liquid lætur Ocelot pynda þá en DARPA-stjórinn drepst við pyndingu(sem Ocelot ætlaði sér að gera). Þeir komust að kóða ArmsTech-forstjórans en þurfa báða kóðanna. Liquid ákeður að nýta Solid Snake með því að láta drepa Master Miller, vin Snakes, og þykist vera hann til að láta Snake virkja Metal Gear með lykilkorti. Allt fer eins áætlað og Metal Gear virkjast en Snake, ásamt hjálpar Gray Fox, eyðileggur Metal Gear. Liquid fær Snake upp á lík Metal Gear og segir honum frá uppruna þeirra. Þeir berjast með hnefunum á Metal Gear en Liquid deyr við veiru sem yfirvöld létu setja í Snake(Snake vissi ekki af því). Metal Gear Solid 2: Sons of Liberty. Í Metal Gear Solid missti Ocelot hægri hendina út af Gray Fox. Eftir Shadow Moses-atvikið flýr Ocelot og selur upplýsingar Metal Gear á svarta markaðnum. Síðan fer hann í aðgerð í Lyon til þess að setja á sig hægri handlegg og sker hægri handlegg Liquids af og lætur setja hann á sig. En persónuleiki Liquids brýst stundum út og tekur völdin. Þjóðskjalasafn Íslands. Þjóðskjalasafn Íslands er stofnun sem sér um varðveislu ýmissa opinberra skjala sem einkaskjala. Tilskipun um safnið var gefin út af landshöfðingja þann 3. apríl 1882, en að vísu hét það þá Landsskjalasafn. Húsnæði safnsins var frá árinu 1882 til 1900 á lofti Dómkirkjunnar, en flutti þaðan í Alþingishúsið, og flutti aftur í Safnahúsið við Hverfisgötu árið 1909. Framtíðarstaður safnsins er við Laugaveg 162. Harry S. Truman. Harry S. Truman (8. maí 1884 – 26. desember 1972) var 33. forseti Bandaríkjanna, árin 1945 til 1953. Truman tók við af Franklin D. Roosevelt eftir andlát þess síðarnefnda. Truman tók við stjórnartaumunum á mjög viðkvæmum tímapunkti, undir lok Síðari Heimsstyrjaldarinnar. Efnahagur Bandaríkjanna var sá öflugasti í heimi en efnahagir annarra heimsvelda voru í lamasessi eftir hildarleik stríðsátaka. Truman varð kunnur fyrir Truman-kennisetninguna í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem hann setti fyrst fram í ræðu 12. mars 1947 en hún mælti fyrir um að Bandaríkin myndu beita sér fyrir því að takmarka útbreiðslu kommúnisma með ráðum og dáðum. Þessi tímapunktur er af sumum talinn marka upphaf kalda stríðsins. Í samræmi við kennisetninguna samþykkti Bandaríkjaþing að styrkja Grikkland og Tyrkland bæði efnahagslega og með hergögnum í þeirri von að kommúnistar kæmust ekki til valda. Þeim varð að ósk sinni, þar eð bæði Grikkir og Tyrkir gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1952. NATO var einmitt stofnað í apríl 1949 og voru Bandaríkin og Ísland á meðal stofnaðila. Seðlabanki Íslands. Seðlabanki Íslands er ríkisstofnun sem fer með stjórn peningamála á Íslandi. Meginmarkmiðið með stjórn peningamála er stöðugleiki í verðlagsmálum, en einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Jafnan er stefnt að því að halda verðbólgu og atvinnuleysi lágu. Seðlabankastjóri er Már Guðmundsson, en Arnór Sighvatsson er aðstoðarseðlabankastjóri. Norðmaðurinn Svein Harald Øygard var tímabundið skipaður seðlabankastjóri 27. febrúar 2009, fyrstur útlendinga til að gegna því embætti. Seðlabanki Íslands hefur einkarétt á því að koma íslenskum peningum, það er seðlum og mynt, í umferð. Jafnframt á bankinn að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þar með talið greiðslujöfnuð í landinu og við útlönd. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á enn fremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð. Skipulag. Bankastjórn Seðlabankans er í höndum seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og stýra þeir daglegu starfi í bankanum. Bankastjórn ber ábyrgð á rekstri bankans og hún tekur ákvarðanir í öllum helstu málefnum hans, þar með talið um vexti bankans, svokallaða stýrivexti. Seðlabankinn er sjálfstæð ríkisstofnun og starfar samkvæmt lögum sem Alþingi hefur sett. Forsætisráðherra skipar bankastjóra til fimm ára. Alþingi kýs sjö fulltrúa í bankaráð að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráðið fundar að jafnaði tvisvar í mánuði og hefur meðal annars eftirlit með því að starfsemi bankans sé í samræmi við þau lög og þær reglur sem starfa ber eftir. Seðlabanki Íslands var stofnaður með lögum árið 1961, en seðlabankastarfsemi á Íslandi á sér mun lengri sögu, áður hafði Landsbanki Íslands haft umsjón með peningamál á Íslandi. Núgildandi lög um Seðlabanka Íslands eru lög nr. 36/2001. Árið 2011 voru tvö ný svið stofnuð innan Seðlabankans, þau nefnast "fjármálastöðugleiki" annars vegar og "greiðslukerfi" hins vegar. Hlutdeild í hruninu. Á árinu 2008 féll íslenska krónan jafnt og þétt og náði sú þróun hámarki í bankahruninu um haustið. Seðlabanki Íslands bar hér nokkra ábyrgð en frá og með 2001 hafði Fjármálaeftirlitið verið aðskilið frá bankanum til að auðvelda verkskiptingu. Þar með fækkaði lögbundnum skyldum bankans til eftirlits. Eftir sem áður var það hlutverk Seðlabankans að vera „banki bankanna” en lítill gjaldeyrisvarasjóður dró mjög úr trúverðugleika hans sem slíks. Davíð Oddsson, sem einn þriggja bankastjóra seðlabankans, var víða gagnrýndur fyrir örlagaríkar ákvarðanir og var neyddur til þess að segja af sér árið 2009. Ríkisendurskoðun gagnrýndi útlánastefnu bankans gagnvart fjármálafyrirtækjum vegna lítilla eða engra krafna um tryggð veð. Afsrkifa þurfti um 170 milljarða íslenskra króna vegna þessa. Hagfræðingarnir Phillipp Bagus og David Howden skrifðu bók sem kom út 2011. Hún nefnist: "Deep Freeze Iceland´s Economic Collapse" og þar halda þeir því fram að raunveruleg ástæða fyrir hruninu hafi verið slæm stefna Seðlabankans: Vextir voru of lágir, bankarnir of stórir til að falla, húsnæðislán voru með ríkisábyrgð og bankarnir tóku skammtímalán erlendis til að fjármagna langtímaskuldabréf. Firestone Library. Firestone bókasafn, hæðir B og C Harvey S. Firestone Memorial Library er aðalbókasafn Princeton University. Það var tekið í notkun árið 1948. Bókasafnið var stækkað árið 1971 og aftur árið 1988 og hýsir nú yfir 80 kílómetra (50 mílur) af bókahillum. Sjálf byggingin virðist ekki ýkja stór að utan en flestar bækur eru geymdar á þremur kjallarahæðum neðanjarðar sem ná yfir stærra svæði en byggingin sjálf ofan jarðar. Firestone bókasafnið er ekki stærsta háskólabókasafn veraldar en hýsir þó fleiri bækur miðað við nemendafjölda skólans en nokkurt annað háskólabókasafn Bandaríkjanna. Firestone bókasafn er stærsta bókasafn veraldar með opinn aðgang að bókastöflunum. Mörg lessvæði eru í bókasafninu og hafa flestar deildir skólans eigið lesherbergi. Arkesilás. Arkesilás (Ἀρκεσίλαος) (316 – 241 f.Kr.) var grískur heimspekingur og upphafsmaður "nýju Akademíunnar" —efahyggjuskeiðs Akademíunnar. Arkesilás fæddist í Pitane í Æólíu. Hann hlaut þjálfun sína hjá stærðfræðingnum Átolýkosi frá Pitane og síðar í Aþenu hjá Þeófrastosi og Krantori, sem fékk hann til að ganga til liðs við Akademíuna. Hann kynntist Pólemoni og Kratesi náið og tók við stjórn skólans af honum. Díogenes Laertíos segir að líkt og eftirmaður hans, Lakýdes, hafi Arkesilás dáið vegna ofdrykkju en vitnisburður annarra (m.a. Kleanþesar) og lifnaðarhættir Arkesilásar gera söguna tortryggilega. Arkesilás var í miklum metum meðal Aþeninga. Kenningar hans, sem ráða verður af skrifum annarra (Cíceró, "Akademían" 1. 12, iv. 24; "Um ræðumanninn" iii. 18; Díogenes Laertíos iv. 28; Sextos Empeirikos "Gegn kennimönnum" vii. 150, "Frumatriði pyrrhonismans" i. 233), fólu í sér árás á stóuspekina, einkum hugmyndina um φαντασια καταληπτιχη (örugga skynjun, eða sannreynanlega skynreynslu), sem sjálfstyrkjandi mælikvarða á sannleikann. Hann hélt því fram að styrkur sannfæringar skipti engu máli enda má venjulega finna jafnsterka sannfæringu um hið gagnstæða. Óvissan sem felst í skynjun á einnig við um niðurstöður skynseminnar. Af þessum sökum verður maður að sætta sig við sennileika, sem nægir manni til að lifa lífinu. Hann beitti aðferð Sókratesar í kennslu en skildi ekki eftir sig nein rit. Hugsun hans var sögð afar frjó og röksemdafærslur hans báru venjulega vitni um ríka kímnigáfu hans. Lakýdes. Lakýdes frá Kýrenu var grískur heimspekingur, sem tók við stjórn Akademíunnar í Aþenu af Arkesilási um 241 f.Kr.. Sumir telja að Lakýdes hafi verið upphafsmaður "nýju Akademíunnar" en samkvæmt vitnisburði fornmanna fylgdi hann almennt kenningum Arkesilásar. Hann hélt fyrirlestra í garði sem hét eftir honum og Attalos I frá Pegamon gaf honum. Hann hélt við hefðum Akademíunnar í 26 ár. Hann er sagður hana samið ritgerðir en engin þeirra er varðveitt. Áður en hann dó sagði hann starfi sínu lausu og nemendur hans, Evandros og Telekles, tóku við af honum. Ýmsar sögur fara að Lakýdesi, sem einkennast öðru fremur af kaldhæðni og þykja ekki sennilegar. Að öðru leyti birtist Lakýdes okkur sem fágaður maður, vinnusamur og góður ræðumaður. Samkvæmt Aþenajosi (x. 438) og Díogenes Laertíosi (iv. 60) dó hann vegna ofdrykkju, en lofræða Evsebíosar ("Praep. Ev." xiv. 7) um hann gerir söguna tortryggilega, því samkvæmt Evsebíosi var Lakýdes í öllu hófsamur maður. John Rawls. John Rawls (21. febrúar 1921 – 24. nóvember 2002) var bandarískur heimspekingur, prófessor í stjórnspeki við Harvard University og höfundur bókanna "A Theory of Justice" (1971), "Political Liberalism", ' og "The Law of Peoples". Margir fræðimenn telja að hann sé mikilvægasti stjórnspekingur 20. aldar. Rawls hefur einnig haft mikil áhrif í siðfræði. Heimild. Rawls, John Rawls, John Baruch Spinoza. Benedictus de Spinoza eða Baruch Spinoza (24. nóvember 1632 – 21. febrúar 1677) var hollenskur heimspekingur. Hann var kallaður "Baruch Spinoza" af eldri meðlimum trúarsafnaðar síns og var þekktur sem "Bento de Espinosa" eða "Bento d'Espiñoza" í heimabæ sínum Amsterdam. Hann er talinn einn af merkustu rökhyggjuheimspekingum nýaldar. Rit hans bera vott um mikla þjálfun í stærðfræði. Spinoza var sjónglerjaslípari að atvinnu en á hans tíma voru það spennandi fræði vegna uppgötvana sem sjónaukar gerðu mögulegar. Heimspeki Spinoza hafði fyrst mikil áhrif eftir andlát hans og eftir að ritverk hans komu út að honum látnum. Heimspeki. Spinoza var undir miklum áhrifum frá stóuspeki. Líkt og stóumenn hélt hann því fram að „Guð“ og „Náttúra“ væri tvö nöfn á sama veruleika, það er að segja einnar og sömu undirstöðu alheimsins, hinnar eiginlegu verundar og að aðrar minni „verundir“ væru birtingamyndir hennar. En þótt Spinoza væri algyðistrúar líkt og stóumenn voru ýmsar aðrar hugmyndir hans æði frábrugðnar hugmyndum stóumanna. Tenglar. Spinoza, Baruch Spinoza, Baruch 1415. Jan Hus brenndur á báli. 1414. Jóhannes XXIII lenti í óhappi á leið sinni á kirkjuþingið í Konstanz. Hengigarðarnir í Babýlon. Hengigarðarnir í Babýlon voru eitt af sjö undrum veraldar. Ekki er fullvíst hvort þeir voru til í þeirri mynd sem þeim er lýst í heimildum. Enginn af þeim sem skrifaði um þá hafði séð þá með eigin augum, heldur studdust við sögur. Saga. Hengigarðarnir og veggirnir umhverfis Babýlon voru byggðir af kónginum Nebúkadnesar II, að því er talið er um 600 f.Kr. Babýlon var forn borg í Babýlóníu, sem var ríki eða fylki í Mesópótamíu til forna, sem var um það bil þar sem Írak nútímans er. Samkvæmt sögnum, þá var ástæðan fyrir byggingu Hengigarðana sú, að kona Nebúkadnesars, Amyitis, var með heimþrá. Hún var dóttir konungsins frá Medes og land hennar var stórgert, með fjöllum og með eindæmum grænt og ræktað. Svo henni leiddist óskaplega sólbökuð flatneskjan í Mesópótamíu. Þess vegna datt konungi í hug að gleðja hana með því að reisa risastórt gervifjall til þess að endurgera heimkynni hennar. Hengigörðunum hefur verið lýst af forngrískum sagnfræðingum, meðal annars Straboni og Díodórosi frá Sikiley, en annars er lítil sönnun fyrir tilvist þeirra. Sumir telja að þetta sé jafnvel bara einhver saga sem átti sér aldrei neina stoð í raunveruleikanum. Ein rök fyrir því er sú staðreynd að gríski sagnfræðingurinn Heródótos gerði góða grein fyrir Babýlonborg en minntist aldrei á Hengigarðana. Það var árið 450 f.Kr., um 150 árum eftir byggingu þeirra. Hann gerir ítarlega grein fyrir hinum geysimikla vegg sem umkringdi borgina og einnig fyrir Babelturninum, sem reis fyrir ofan borgina. En ekkert um garðana. Lýsing. Gríski landafræðingurinn Strabon (á 1. öld f.Kr.) og gríski sagnfræðingurinn Díodóros frá Sikiley, höfðu báðir lýst görðunum sem eins konar hvelfingum sem risu hver ofan á annarri og hvíldu á ferköntuðum súlum. Þær voru holar að innan og innihéldu mold til þess að planta stærstu trjánum í. Súlurnar og hvelfingarnar áttu að vera úr bökuðum múrsteinum og asfalti. Síðan hékk gróðurinn út yfir svalir og brúnir. Það hefur verið tilkomumikið að sjá þetta gróðri þakta risafjall gnæfa upp úr sólbakaðri sléttunni. En það sem virkilega gerir Hengigarðana jafnmerkilega og raun ber vitni er sú staðreynd að fólk undraðist mikið hvernig allur þessi gróður hélst lifandi því það þurfti að vökva hann allan. Það hafa fundist töflur sem útskýra nokkuð sem líkist skrúfu Arkímedesar sem notuð var til þess að lyfta vatninu upp þessa miklu hæð. Þaðan hefur það síðan runnið niður fjallið og vökvað plönturnar á hverjum palli. Þýðing. Nafnið Hengigarðarnir, eða Svifgarðarnir eins og þeir eru stundum nefndir, valda stundum misskilningi, þar eð fólk sér fyrir sér garða sem hanga eða svífa í lausu lofti. Íslensku heitin gefa slíkt eilítið í skyn, þó ekki alveg, þar eð þau tengja sig við orð eins og hengibrú eða svifferju, svo eitthvað sé nefnt, en þau fyrirbæri hanga ekki í lausu lofti. En merkingin brenglaðist í sumum málum þegar þýtt var úr forngrísku ("krematos") eða latínu ("pensilis"). Þessi orð merkja í raun: „slútir yfir“. Í sumum tungumálum valda þýðingarnar misskilningi þar eð fólk sér fyrir sér garða sem hanga í lausu lofti bókstaflega. Galápagoseyjar. Galapagoseyjar, er eyjaklasi undan strönd Ekvadors og tilheyra þær landinu. Þar er fjölbreytt dýralíf og mikil náttúrufegurð. Þær eru í dag meðal annars þekktar fyrir rannsóknir Charles Darwin á dýralífi eyjanna en þær rannsóknir voru ein af undirstöðum þróunarkenningarinnar sem hann setti fram í "Uppruna tegundanna". Seifsstyttan í Ólympíu. Seifsstyttan í Ólympíu í Grikklandi hinu forna var eitt af sjö undrum veraldar. Hún var að líkindum stærsta stytta sem nokkurn tímann hefur verið gerð innanhúss. Uppruni. Uppruni styttunnar kemur frá Ólympíuleikunum en þeir eiga sínar rætur að rekja í Ólympíu, sem er um 150 km vestur frá Aþenu. Þar voru bæði íþróttavellir og heilagur staður fyrir hof til dýrkunar guðanna. Þar hafði verið Seifshof en seinna meir fannst mönnum það of lítið fyrir jafnmikinn guð og Seif, svo á árunum 470 – 460 f.Kr. var hafist handa að byggja nýtt hof handa Seifi. Hofið þótti vera með best gerðu dórísku hofum sem til voru, en svo fannst fólki að það væri of einfalt og innantómt fyrir Seif, svo það var beðið um að fylla plássið með styttu af Seifi sjálfum. Smíði. Smíði styttunnar lauk á 3. ári eftir 85. Ólympíuleikana, eða árið 456 f.Kr. að því er talið er. Styttusmiðurinn var hinn þekkti Feidías. Sagt var að faðir Seifs á himnum væri Krónos en Feidías væri faðir Seifs á jörðu. Þessi mesta stytta allra tíma stóð í meira en 800 ár. Hún skemmdist allnokkuð í jarðskjálfta um 170 f.Kr. Samt stóð hún enn um margar aldir. Að lokum var hún rifin í sundur, líklega að undirlagi Konstantíns keisara, og pakkað niður, því að til stóð að flytja hana til Konstantínópel. Af því varð þó aldrei og að lokum fórst styttan í eldi um það bil árið 462. Musterið stóð mun lengur, en féll þó í jarðskjálfta á 6. öld. Enduruppgötvun. Staðsetning Ólympíu er þekkt og þar hefur oft verið grafið eftir fornminjum. Árið 1829 fundu franskir vísindamenn útlínur hofsins og brot af höggmynd sem skv. heimildum var í hofinu. Nokkrum áratugum seinna, eða árið 1875, fundu þýskir vísindamenn undirstöður flestra bygginga Ólympíu, auk fleiri brota úr Seifshofinu og fundu meira að segja leifar af lauginni sem innihélt olíu fyrir styttuna. Merkilegasti fundurinn var þó eflaust árið 1958 þegar verkstæði Feidíasar fannst undir mun yngri kristinni kirkju. Þar fundust mörg verkfæri, efni og útreikningar sem voru notuð við gerð styttunnar. Með það til hliðsjónar gátu fornleifafræðingar endurgert líkamsbyggingu styttunnar. Einnig hefur fundist mynt sem gefur hugmynd um útlit styttunnar. Lýsing. Hún stóð í hofi Seifs og er talin hafa verið um 12 metra há (40 fet), sem er ámóta og hæð venjulegs 4 hæða húss. Styttan sýndi Seif sitjandi í hásæti, skikkjuklæddan og með ólívukrans á höfði. Í hægri lófa sér hélt hann á vængjaðri gyðju sigursins, Níke, sem var mjög smávaxin í samanburði við Seifsstyttuna sjálfa, en var þó stærri en nokkur maður. Í vinstri hendi hélt hann veldissprota, sem á sat örn. Seifur var sveipaður skikkju, sem gerð var úr gulli og féll í fellingum niður fætur hans. Að ofan var hann að nokkru leyti nakinn og allt bert hold var gert úr fílabeini. Dökkir hlutar styttunnar voru gerðir úr íbenviði. Öll styttan og hásætið voru ríkulega skreytt með gleri, gimsteinum og dýrum málmum, einnig var sætið allt útskorið og málað. Framan við styttuna var sérstök tjörn á gólfinu, sem þjónaði því hlutverki að endurvarpa sólarljósinu, sem barst inn um dyrnar, upp á styttuna og veita henni þannig dýrðarljóma í rökkrinu innan musterisveggjanna. Það er haft fyrir satt að andlit Krists eins og það lítur út á íkonamyndum miðalda og í rétttrúnaðarkirkjunni, sé í raun andlit Seifsstyttunnar. Mynd af styttunni og höfði hennar er til á grískum bronspeningi frá um það bil 125 og á rómverskum peningi frá sama tíma. Til eru fjölmargar lýsingar á Seifsstyttunni, bæði í bundnu máli og óbundnu, skrifaðar af mönnum, sem sannanlega sáu hana. 1452. Friðrik 3. keisari í krýningarskrúða. Okavangofljót. Okavangofljót er fjórða lengsta fljót í sunnanverðri Afríku. Það rennur um 1700 kílómetra leið frá Angóla (þar sem það heitir Cubango-fljót), eftir landamærunum við Namibíu og inn í Botsvana þar sem það rennur út í Okavangofen við norðurenda Kalaharíeyðimerkurinnar. Úlfljótsvatn. Úlfljótsvatn er 2,45 km² stöðuvatn í Soginu, rétt sunnan við Þingvallavatn. Orkuveita Reykjavíkur keypti virkjanaréttindi í ofanverðu Soginu á árunum 1929-1933. Ljósafossvirkjun varð til þess að vatnið stækkaði nokkuð. Þar hafa verið reknar sumarbúðir á vegum skátahreyfingarinnar, sem keypti land við vatnið 1940, og þar hafa verið haldin Landsmót skáta á Íslandi.Skátar eru með skála bátaleigur og leiktæki þarna en þar eru líka bústaðir. Jesse James. Jesse James á ljósmynd frá 1876 Jesse James (5. september 1847 – 3. apríl 1882) var frægur bandarískur byssumaður og útlagi í Villta vestrinu. Hann var frá Missouri og gerðist skæruliði í her Suðurríkjanna í Amerísku borgarastyrjöldinni 1864, aðeins sextán ára gamall. Eftir að stríðinu lauk hóf hann feril sem bankaræningi og lestarræningi í Iowa, Texas, Kansas og Vestur-Virginíu með James-Younger-genginu (ásamt bróður sínum, Cole Younger og fleiri fyrrum skæruliðum). Tengsl hans við borgarastyrjöldina og litríkur glæpaferill gerðu hann að alþýðuhetju í lifanda lífi. Hann var skotinn í hnakkan af einum liðsmanni sínum sem ætlaði sér að innheimta 10.000 dollara lausnargjaldið sem sett var til höfuðs honum. Thomas Hobbes. Thomas Hobbes (5. apríl 1588 – 4. desember 1679) var enskur heimspekingur. Bók hans, "Leviathan", sem kom út 1651, lagði línurnar fyrir vestræna stjórnmálaheimspeki. Þótt Hobbes sé í dag best þekktur stjórnmálaheimspeki sína fékkst hann þó við ýmis önnur efni innan heimspekinnar, meðal annars siðfræði og þekkingarfræði, og einnig fékkst hann við sagnfræði og vísindi, til dæmis rúmfræði. Aukinheldur hefur greinargerð Hobbes fyrir mannlegu eðli sem samvinnu manna í sína eigin þágu reynst lífseig hugmynd innan heimspekilegrar mannfræði. Tenglar. Hobbes, Thomas Hobbes, Thomas Jean-Jacques Rousseau. Jean-Jacques Rousseau (28. júní 1712 – 2. júlí 1778) var fransk-svissneskur heimspekingur á upplýsingaöldinni. Stjórnmálaviðhorf hans höfðu meðal annars áhrif á frönsku byltinguna, tilurð sósíalisma og þjóðernishyggju. Ef til vill ber fræg tilvitnun í bók hans, "Samfélagssáttmálann", best vitni um arfleifð hans sem róttæks byltingarmanns: „Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“. Samfélagssáttmálinn. "Samfélagssáttmálinn", sem kom úr árið 1762, er ef til vill frægasta verk Rousseaus og varð fljótt eitt af áhrifamestu ritum í stjórnspeki í vestrænni heimspeki. Í ritinu setur Rousseau fram kenningu sína um grundvöll réttmæts stjórnarfyrirkomulags. Rousseau þróar þar áfram einhverjar af hugmyndum þeim sem hann hafði áður sett fram í grein sinni „Stjórnspekileg hagfræði“ (fr. "Economie Politique") sem birtist í alfræðiriti Diderot, "Encyclopédie". Rousseau hélt því fram að náttúrulegt ástand væri frumstætt ástand án laga og siðferðis og að menn hafi gefið það upp á bátinn vegna ávinningsins af samhjálp og nauðsynjar hennar. Þegar samfélagið þróaðist hafi verkaskipting og einkaeign neytt menn til þess að setja sér lög. Á afturfararskeiði samfélagsins hefur maðurinn tilhneigingu til þess að keppa sífellt við náungann en á sama tíma reiðir sig æ meira á samborgara sína. Þetta tvöfalda álag ógnar bæði afkomu hans og frelsi. Þetta sýnir að maðurinn hefur gert mistök, mannlegt samfélag er ekki eins og það ætti að vera. Rousseau segir að því sé um að kenna að fólk hafi gleymt hver tilgangur þess væri og þess vegna hafi það vikið af réttri leið. Heimurinn eins og hann er núna er ekki eins og Guð ætlaði honum að vera, samfélagið er óreiðukennt og erfitt: „Maðurinn er frjáls en er hvarvetna í hlekkjum. Sá sem telur sjálfan sig annars herra er ekki síður þræll en hinn.“ ("Samfélagssáttmálinn" 17). Mannkyninu er ætlað að vera frjálst en til þess að svo geti orðið er þörf á umfangsmiklum breytingum á samfélagi manna. Lausn Rousseaus er sú að beita skynseminni til þess að upplýsa fólk og breyta lífsstíl þess. Maðurinn gæfi þá upp á bátinn náttúrurétt sinn úr því að hann getur nú verið frjáls og dafnað. Þetta leiðir af almennum vilja fólksins sem tryggir að engum öðrum er skylda á herðar lögð og menn hlýða einungis sjálfum sér. Ef fólk breytti á hinn bóginn einungis með hliðsjón af sínum eigin hagsmunum, þá bryti það í bága við almannaviljann. Uppeldisfræði. Rousseau setti fram hugmyndir sínar um uppeldi og menntun í "Émile eða Um menntun", skáldað verk sem fjallar um uppvöxt ungs drengs að nafni Émile sem er undir umsjá Rousseaus sjálfs. Rousseau elur drenginn upp í sveitinni, þar sem hann telur að fólki sé eðlilegast að vera, fremur en í borginni, þar sem við lærum einungis slæma siði. Markmið menntunar segir Rousseau að sé að læra að lifa lífinu réttlátlega. Þessu marki er náð með því að vera undir handleiðslu leiðbeinanda sem getur leiðbeint nemandanum í gegnum hinar ýmsu lærdóma. Uppvöxtur barna skiptist í þrjú skeið. Fyrsta skeiðið nær fram að tólf ára aldri eða svo en þá eru reikningur og flókin hugsun vart möguleg og börn lifa eins og dýr. Annað skeiðið nær frá tólf ára aldri til sextán ára aldurs en þá þroskast skynsemin. Og að lokum frá sextán ára aldri en þá fullorðnast einstaklingurinn. Á þessu skeiði ætti unglingurinn að læra einhverja iðn, svo sem trésmíði. Trésmíðin er tekin sem dæmi af því að hún felur bæði í sér sköpun og hugsun en ógnar ekki siðgæði manns. Á þessum aldri kynnist Émile ungri konu, sem hann tekur saman með. Bókin byggir á hugsjónum Rousseaus um heilbrigt líferni. Drengurinn verður að finna út hvernig hann getur fylgt félagslegri tilhneigingu sinni án þess að láta ginnast af löstum einstaklingshyggju borgarlífsins og sjálfsmeðvitund. Greinargerð Rousseaus fyrir menntun Émiles hæfir hins vegar ekki stúlkum jafn vel. Menntunin sem Rousseau mælir með fyrir Sophie, ungu stúlkunni sem Émile á að giftast, er í mikilvægum atriðum frábrugðin menntun Émiles. Menntun Sophie miðar að því að að gera hana undirgefna húsbónda sínum en menntun Émiles miðar að því að gera hann að eigin herra. Þetta er ekki tilviljun heldur höfuðatriði í uppeldis- og menntunarfræði Rousseaus og liggur til grundvallar greinarmuni hans á einkalífi og hinu opinbera lífi stjórnmálanna, eins og Rousseau telur að það geti verið og ætti að vera. Trúarheimspeki. Rousseau var á sínum tíma einkum umdeildur vegna skoðana sinna í trúmálum. Sú kenning hans að maðurinn sé í eðli sínu góður er ósamrýmanleg kristnum kenningum um erfðasyndina og náttúruleg guðfræði hans, sem sett er fram í ritinu "Émile" varð til þess að bókin var bönnuð bæði í hinni kalvinísku Genf og í hinni kaþólsku París. Í "Samfélagssáttmálanum" segir Rousseau að sannir fylgjendur Jesú yrðu ekki góðir borgarar. Þetta var ein ástæða þess að bókin var bönnuð í Genf. Rousseau reyndi að verjast gagnrýni á trúarskoðanir sínar í opnu bréfi sínu til Christophe de Beaumont, erkibiskups í París. Tenglar. Rousseau, Jean-Jacques Rousseau, Jean-Jacques Rousseau, Jean-Jacques Rousseau, Jean-Jacques Rousseau, Jean-Jacques Rousseau, Jean-Jacques Friedrich Nietzsche. Friedrich Wilhelm Nietzsche (15. október 1844 – 25. ágúst 1900) var þýskur fornfræðingur, textafræðingur og heimspekingur. Gagnrýni hans á menningu, trúarbrögð og heimspeki síns tíma snerist að verulegu leyti um spurningar um jákvæð og neikvæð viðhorf til lífsins í hinum ýmsu siðferðiskerfum. Ritverk Nietzsches einkennast af kraftmiklum stíl, skarpskyggni og hárfínni nálgun við viðfangsefnið. Nietzsche var ekki gefinn mikill gaumur meðan hann lifði en á síðari hluta 20. aldar hefur hann hlotið viðurkenningu sem mikilvægur hugsuður í nútímaheimspeki. Á 20. öld hafði hann mikil áhrif á tilvistarspeki, fyrirbærafræði, póststrúktúralisma og póstmódernísk viðhorf. Skiptar skoðanir eru um hvernig beri að túlka heimspeki Nietzsches. Stíll hans og róttæk gagnrýni á viðtekin gildi og hugmyndina um hlutlægan sannleika valda erfiðleikum í túlkun verka hans. Sumar af meginkenningum hans eru að harmleikur sé játun lífsins, hugmyndin um eilífa endurkomu hins sama, höfnun á platonisma, kristni, jafnaðarhugsjónum 19. aldarinnar. Æviágrip. Friedrich Wilhelm Nietzsche fæddist þann 15. október árið 1844. Hann ólst upp í smábænum Röcken, skammt frá Leipzig. Hann var nefndur eftir Friðriki Vilhjálmi 4., Prússakonungi, sem varð 49 ára gamall daginn sem Nietzsche fæddist. Foreldrar Nietzsches voru Carl Ludwig (1813–1849), lútherskur prestur og fyrrverandi kennari, og eiginkona hans Franziska Oehler (1826–1897). Þau giftust árið áður en Nietzsche fæddist. Systir hans, Elisabeth Förster-Nietzsche, fæddist árið 1846 og yngri bróðir þeirra Ludwig Joseph Nietzsche tveimur árum síðar. Faðir Nietzsches lést árið 1849 og Ludwig Jospeh ári síðar. Fjölskyldan fluttist þá búferlum til Naumburg, þar sem hún bjó hjá föðurforeldrum Nietzsches og ógiftum föðursystrum hans tveimur. Eftir að amma Nietzsches lést árið 1856 flutti Nietzsche ásamt móður sinni og systur í eigið hús. Nietzsche gekk í drengjaskóla og síðar í einkaskóla þar sem hann eignaðist vinina Gustav Krug og Wilhelm Pinder, sem báðir voru úr virðulegum fjölskyldum. Árið 1854 hóf hann nám við "Domgymnasium" í Naumburg en þegar hann hafði sýnt að hann hafði mikla tónlistarhæfileika og góða málakunnáttu hlaut hann inngögnu í Schulpforta skólann, þar sem hann nam frá 1858 til 1864. Þar kynntist hann Paul Deussen og Carl von Gersdorff. Á þessum árum samdi hann bæði ljóð og tónverk. Í Schulpforta hlaut Nietzsche mikilvæga menntun í bókmenntum, einkum forngrískum og latneskum bókmenntum. Hann var einnig í fyrsta sinn í burtu frá fjölskyldu sinni og kristnu smábæjarsamfélagi. Eftir að Nietzsche lauk grunnámi sínu árið 1864 hóf hann nám í guðfræði og klassískri textafræði við Háskólann í Bonn. Að fyrstu önninni lokinni hætti hann í guðfræði móður sinni til mikilla vonbrigða og glataði trúnni. Hann einbeitti sér að textafræðinni undir leiðsögn Friedrichs Wilhelms Ritschl. Ári síðar elti hann Ritschl til Leipzig og nam við háskólann þar. Þar kynntist hann Erwin Rohde. Árið 1865 kynntist Nietzsche ritum Arthurs Schopenhauer og las einnig rit Friedrichs Alberts Lange, "Geschichte des Materialismus" ("Sögu efnishyggjunnar") ári síðar. Hvort tveggja veitti honum mikla örvun og víkkuðu sjóndeildarhring hans út fyrir textafræðina. Árið 1867 gerðist Nietzsche sjálfboðaliði í prússneska stórskotaliðinu í Naumburg í eitt ár. En hann meiddist er hann féll af hestbaki í mars árið 1868 og gat því ekki gegnt herþjónustu. Síðar sama ár kynntist hann Richard Wagner. Nietzsche hóf starfsferil sinn sem textafræðingur en sneri sér síðar að heimspeki. Þegar hann var 24 ára gamall fékk hann prófessorsstöðu í klassískri textafræði við Háskólann í Basel en sagði stöðunni lausri árið 1879 vegna slæmrar heilsu sinnar, sem hrjáði hann það sem eftir var ævinnar. Árið 1889 fór hann að sýna einkenni alvarlegrar geðbilunar og síðustu ár ævinnar var hann í umsjá móður sinnar og systur. Hann lést þann 25. ágúst árið 1900. Ofurmennið. Eitt af mikilvægustu hugtökunum í heimspeki Nietzsches er ofurmennið (á þýsku "Übermensch"). Nietzsche stillir ofurmenninu upp andspænis síðasta manninum, sem virðist vera eins konar ýkt útgáfa af stefnumarkinu sem var sameiginlegt pólitískum hugsjónum frjálslyndra demókrata, borgaralegra afla, sósíalista og kommúnista. Fleirtalan Übermenschen (ofurmennin) kemur aldrei fyrir í ritum Nietzsches en sú staðreynd skilur þau að frá túlkun nasista á ritum hans. Michael Tanner hefur haldið því fram að ofurmenni merki mann sem lifi lífinu handan ánægju og þjáningar „vegna þess að gleði og sársauki eru... óaðskiljanleg.“ Eilíf endurkoma hins sama. Önnur hugmynd Nietzsches er hugmyndin um eilífa endurkomu hins sama. Fræðimenn eru ekki á einu máli um hvernig beri að túlka hugmyndina. Samkvæmt einni túlkun var Nietzsche að setja fram hugsunartilraun til að skera úr um hver það er sem lifir lífinu í raun af hreysti: Maður verður að ímynda sér að lífið sem við lifum endi ekki einfaldlega þegar maður deyr, heldur endurtaki það sig aftur og aftur um alla eilífð, þannig að sérhvert augnablik endurtaki sig nákvæmlega eins og áður, endalaust. Þeir sem hryllir við hugmyndinni hafa enn ekki lært að elska og meta lífið á þann máta sem Nietzsche myndi dást að; en þeir lifa lífinu rétt sem taka hugmyndinni fagnandi. Sumir fræðimenn telja að Nietzsche hafi átt við eitthvað annað og meira en hugsunartilraun og að hann hafi meint hana í bókstaflegri skilningi. Afleiðingin væri þá sú að það væri enn mikilvægara að lifa lífinu rétt, úr því að maður mun lifa sama lífinu á nýjan leik. Hugmyndin er meðal annars reifuð í "Hinum hýru vísindum" og í "Svo mælti Zaraþústra". Tenglar. Nietzsche, Friedrich Nietzsche, Friedrich Nietzsche, Friedrich Nietzsche, Friedrich Søren Kierkegaard. Søren Aabye Kierkegaard (5. maí 1813 – 11. nóvember 1855) var danskur heimspekingur og guðfræðingur, sem er venjulega talinn faðir tilvistarspekinnar. Hann brúaði bilið milli hegelskrar heimspeki og þess sem varð síðar tilvistarspeki. Kierkegaard gagnrýndi heimspeki Hegels harðlega og það sem hann sá sem innantóm formlegheit dönsku kirkjunnar. Mörg verka hans fjalla um trúarleg stef, eins og eðli guðstrúar, kristna kirkju sem stofnun, kristilega siðfræði og guðfræði og geðshræringar og tilfinningar manns þegar maður stendur frammi fyrir tilvistarfræðilegum ákvörðunum. Af þessum sökum er heimspeki Kierkegaards stundum lýst sem kristilegri tilvistarspeki og tilvistarspekilegri sálarfræði. Vandasamt er að skilgreina og túlka verk Kierkegaards, þar sem hann samdi flest eldri verka sinna undir dulnefnum og notaði svo ólík dulnefni til að gera opinberlega athugasemdir við og gagnrýna önnur verk sín undir öðrum dulnefnum. Af þessum sökum er fremur erfitt að greina á milli raunverulegra skoðana og viðhorfa Kierkegaards og þeirra sem hann notar eingöngu til þess að rökstyðja sig sem skálduð persóna. Ludwig Wittgenstein sagði að Kierkegaard hafi verið „dýpsti hugsuður nítjándu aldar“. Tenglar. Kierkegaard, Søren Kierkegaard, Søren Kierkegaard, Søren Franz Brentano. Franz Clemens Honoratus Hermann Brentano (16. janúar 1838 Marienberg am Rhein (nærri Boppard) – 17. mars 1917 Zürich) var austurrískur heimspekingur og sálfræðingur. Hann hafði áhrif á ýmsa aðra hugsuði, svo sem Edmund Husserl og Alexius Meinong, sem tóku upp og þróuðu áfram kenningar hans. Tenglar. Brentano, Franz Brentano, Franz Brentano, Franz Brentano, Franz Arthur Schopenhauer. Arthur Schopenhauer (22. febrúar 1788 – 21. september 1860) var þýskur heimspekingur. Hann er frægastur fyrir rit sitt "Heimurinn sem vilji og ímynd". Hann er vel kunnur sem heimspekilegur svartsýnismaður, sem sá lífið sem í eðli sínu illt, tilgangslaust og þjáningarfullt. Við nánari athugun kemur þó í ljós að í samræmi við austræn trúarbrögð, sem höfðu mikil áhrif á hann, einkum hindúismi og búddismi, sá hann frelsun eða lausn undan þjáningum í fagurfræðilegum hugleiðingum, samúð með öðrum og meinlætalifnaði. Hugmyndir hans höfðu mikil áhrif bæði í heimspeki og sálfræði og á tónlist og bókmenntir. Tenglar. Schopenhauer, Arthur Schopenhauer, Arthur George Berkeley. George Berkeley (12. mars 1685 – 14. janúar 1753), einnig þekktur sem Berkeley biskup'", var áhrifamikill írskur heimspekingur, sem setti fram hughyggjukenningu, sem er ágætlega lýst með slagorðinu „"Esse est percipi"“ eða „að vera er að vera skynjaður“. Kenningin er í hnotskurn sú að það eina sem við getum þekkt séu skynjanir okkar og hugmyndir um hluti en ekki sértekningar á borð við „efni“. Berkeley samdi nokkur rit en frægust þeirra eru sennilega "Ritgerð um lögmál mannlegrar þekkingar" ("Treatise Concerning the Principles of Human Knowledge") (1710) og "Þrjár samræður Viðars og Huga" ("Three Dialogues between Hylas and Philonous") (1713) (nafn Philonous, sem er málsvari Berkeleys sjálfs, þýðir „sá sem elskar hugann“ en Hylas, sem er nefndur eftir forngríska orðinu fyrir efni (einkum við), er málsvari heimspeki Johns Locke). Árið 1734 gaf Berkeley út "Greinandann" ("The Analyst"), sem var gagnrýni á undirstöður vísindanna og hafði mikil áhrif á þróun stærðfræðinnar. Borgin Berkeley í Kaliforníu er nefnd eftir honum. Tenglar. Berkeley, George Berkeley, George Berkeley, George Berkeley, George An Essay Concerning Human Understanding. a> útgáfu Ritgerðar um mannlegan skilning. "An Essay Concerning Human Understanding" eða "Ritgerð um mannlegan skilning" er annað tveggja áhrifamestu ritverka Johns Locke; hitt verkið er "Ritgerð um ríkisvald" ("Second Treatise on Civil Government"). "Ritgerð um mannlegan skilning", sem kom fyrst út árið 1689, fjallar fyrst og fremst um undirstöður mannlegrar þekkingar og skilnings. Locke lýsir mannshuganum sem auðu blaði ("tabula rasa") við fæðingu, sem reynslan fyllir út. Verkið var eitt af meginritum um raunhyggju á nýöld og hafði mikil áhrif á ýmsa heimspekinga upplýsingartímabilsins, meðal annars David Hume og George Berkeley. Rit Immanuels Kant, "Gagnrýni hreinnar skynsemi" ("Kritik der reinen Vernunft") var samið m.a. sem viðbragð við heimspeki Lockes. Á nútímanum hafa margir fræðimenn rakið upphaf sjálfsins til Ritgerðar um mannlegan skilning. Locke samdi "Ritgerð um mannlegan skilning" á 18 ára löngu tímabili. Í „Bréfi til lesandans“ skrifar Locke að hugmyndin að verkinu hafi kviknað í samræðum hans við vini sína. Þegar samræðurnar virtust hjakka í sama farinu sagði Locke að þeir næðu engum árangri án þess að rannsaka ítarlega „okkar eigin getu... hvaða viðfang skilningur okkar gæti eða gæti ekki höndlað“. Samræðurnar áttu sér stað um 1671 en það ár gerði Locke tvö uppköst að ritinu. Hann hélt áfram að vinna við það í tæplega tvo áratugi, endurskoða og auka við upphaflega afstöðu sína. Þótt ritið sé skráð síðan 1690 kom það í raun fyrst út árið 1689. Heimild. Essay Concerning Human Understanding, An A Treatise of Human Nature. "A Treatise of Human Nature" eða "Ritgerð um mannlegt eðli" er rit eftir skoska heimspekinginn David Hume, sem kom út á árunum 1739–1740. Hume samdi "Ritgerðina" í Frakklandi 26 ára gamall. Þótt margir fræðimenn telji nú "Ritgerðina" vera mikilvægasta rit Humes og eitt mikilvægasta rit í sögu heimspekinnar hlaut hún ekki góðar viðtökur í Bretlandi í upphafi. Hume sjálfur lýsti viðtökunum þannig að bókin hefði „fallið dauð úr prentvélinni“. Hume vildi vita hvort "Ritgerðin" hlyti góðar viðtökur og ef svo yrði ætlaði hann að ljúka við verkið með því að auka við "Ritgerðina" bækur um stjórnmál og samfélagsgagnrýni. Það gerði hann ekki vegna þess hvernig verkinu var tekið. Þegar Hume hafði komist að þeirri niðurstöðu að vandi "Ritgerðarinnar" væri stílfræðilegur fremur en boðskapur hennar endurvann hann hluta efnisins í "Rannsókn á skilningsgáfunni". Sú bók naut ekki heldur mikilla vinsælda en var þó betur tekið en "Ritgerðinni". "Ritgerð um mannlegt eðli" er nú laus undan höfundarrétti. Heimild. Treatise of Human Nature, A Gagnrýni hreinnar skynsemi. "Kritik der reinen Vernunft" eða "Gagnrýni hreinnar skynsemi" er rit um heimspeki eftir þýska heimspekinginn Immanuel Kant (1724-1804). Kant hóf að samja ritið árið 1770 en það kom fyrst út árið 1781 og önnur endurskoðuð útgáfa árið 1787. Ritið er oft nefnt „fyrsta gagnrýnin“ en Kant fylgdi verkinu eftir með "Gagnrýni verklegrar skynsemi" ("Kritik der praktischen Vernunft") (1788) og "Gagnrýni dómgreindar" ("Kritik der Urteilskraft") (1790). "Gagnrýni hreinnar skynsemi" er af mörgum talin áhrifamesta og mikilvægasta rit Kants og áhrifamesta og mikilvægasta rit í sögu vestrænnar heimspeki. Í verkinu reynir Kant að brúa bilið milli rökhyggju og raunhyggju og að bregðast við raunhyggju Johns Locke (1632-1704) og ekki síst róttækri raunhyggju Davids Hume (1711-1776), sem Kant kvað hafa „vakið sig af kreddublundi“. Heimild. Gagnrýni hreinnar skynsemi Gagnrýni hreinnar skynsemi 1430. Kort af Evrópu árið 1430 Vatnsdalur. Vatnsdalur er 25 km langur dalur í Austur-Húnavatnssýslu. Í dalnum nam Ingimundur gamli Þorsteinsson land samkvæmt því sem segir í Landnámu, og bjó hann á Hofi. Vatnsdalsvegur er 40 km langur og liggur um dalinn, beggja vegna Vatnsdalsár. Náttúrufar. Vatnsdalur er grösugur og búsældarlegur dalur sem gengur inn til suðurs milli Vatnsdalsfjalls, sem er 1018 m hátt, í austri og Víðidalsfjalls, sem er 993 m. Næsti dalur vestan við hann er Víðidalur, en til austurs er Sauðadalur næstur, svo Mjóidalur og að lokum Svínadalur. Við mynni dalsins að vestan eru Vatnsdalshólar, sem sagðir eru óteljandi. Þeir eru flestir keilumyndaðir og eru taldir hafa orðið til við jarðskrið úr Vatnsdalsfjalli fyrir um 10.000 árum. Í Þrístöpum vestast í Vatnsdalshólum fór fram síðasta aftaka á Íslandi árið 1830, þegar Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin fyrir morð. Innan við hólana er stöðuvatnið Flóðið, sem varð til árið 1720, þegar skriða úr Vatnsdalsfjalli stíflaði Vatnsdalsá, sem rennur um dalinn, og eyddi bænum Bjarnastöðum. Áin sem nú rennur úr vatninu heitir Hnausakvísl. Vatnsdalsá er ein af betri laxveiðiám landsins og í henni er líka mikil silungsveiði. Í landi Kornsár fyrir miðjum dal er alldjúp, sérkennileg smátjörn sem nefnist Kattarauga, á henni eru tvær fljótandi eyjar og er hún friðlýst náttúruvætti. Trjálundur er í Þórdísarlundi og við Ólafslund. Inn af dalnum er Grímstunguheiði, víðlent afréttarland sem áður tilheyrði stórbýlinu Grímstungu, þar sem áður var prestssetur og kirkjustaður. Vestan við hana er Haukagilsheiði, kennd við bæinn Haukagil í Vatnsdal. Vatnsdalur er þéttbýl sveit og þar er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta. Kirkja er á Undirfelli og þar er einnig rétt sveitarinnar. Altbier. Altbier (þýska: gamall bjór) er bjórstíll sem á uppruna sinn að rekja til Düsseldorf og Niederrhein í Þýskalandi. Framleiðsla. Altbier er öl og því bruggaður með gersveppi. Þrátt fyrir nafnið þá er bjórinn frekar ferskur. Hann er ekki geymdur lengi heldur aðeins þær örfáu vikur sem hann er hafður í tunnum. Nafnið vísar til að þetta sé gamall bjórstíll, þ.e. bjórstíll sem var til áður en Pilsner og Lager bjórar urðu vinsælir. Altbier er yfirgerjaður öfugt miðað við Pilsner og Lager bjóra, þ.e. hann er látinn gerjast við hátt hitastig yfir nokkra daga, og er því skyldur belgísku og bresku öli að einhverju leyti. Útlit og bragð. Altbier er koparlitaður, frekar þurr, en mikið humlaður. Hann er bruggaður samkvæmt "Reinheitsgebot" sem eru gamlar þýskar viðmiðunarreglur, eða hreinleikalög sett af Vilhjálmi IV hertoga yfir Bæjaralandi árið 1516. Þessar reglur eru í dag einungis viðmiðun, og er næstum einungis staðbundin við Þýskaland og Tékkland. Venjulegur Altbier hefur alkóhólinnihald að 4,5% rúmmáls. Steinbítur. Steinbítur (fræðiheiti: "Anarhichas lupus") er fiskur sem lifir í sjó um allt Norður-Atlantshafið, bæði að austan og vestan. Hann er sívalur og aflangur og hreistrið er smátt og inngróið sem gerir hann sleipan. Einn bakuggi liggur eftir endilöngum hryggnum og sömuleiðis einn langur gotraufaruggi frá gotraufinni að sporði að neðan. Eyruggarnir eru stórir og hringlaga. Bakugginn og bakið eru blágrá að lit með dökkum þverröndum, en kviðurinn er ljósari. Í bæði efri og neðri góm er steinbítur með sterkar vígtennur til að bryðja skeljar skeldýra og krabbadýra sem hann nærist á. Hann missir þessar tennur um hrygningartímann í október-nóvember og sveltur þá þar til nýjar tennur vaxa. Hann verður yfirleitt um 80 cm langur, en getur orðið allt að 125 cm. Hann heldur sig á leir- eða sandbotni á 20-300 metra dýpi. Steinbítur er langmest veiddur á línu, en kemur einnig í botnvörpu og dragnót. Hann er vinsæll matfiskur, með þétt, hæfilega feitt, hvítt kjöt sem er auðvelt að matreiða. Steinbítar. Steinbítar (fræðiheiti: "Anarhichadidae") eru ætt borra sem finnast á landgrunni í köldum sjó í norðanverðu Kyrrahafi og Atlantshafi. Þeir nærast við botninn á skeldýrum og krabbadýrum sem þeir bryðja með sterkum framtönnum og jöxlum. Stærstur steinbíta verður "Anarrhichthys ocellatus" sem nær 240 cm lengd. Tegundir. Fimm tegundir steinbíta skipa sér í tvær ættkvíslir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og alþingismaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Steinunn Valdís varð þriðja konan til að gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík, á árunum 2004-2006. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur í þrettán ár, 1994-2007, fyrir Reykjavíkurlistann og Samfylkinguna. Steinunn Valdís var kjörin á Alþingi í kosningunum 12. maí 2007 og baðst í kjölfarið lausnar úr borgarstjórn. Hún sat sinn síðasta borgarstjórnarfund á kvenréttindadaginn, 19. júní 2007. 1. júní 2010 sagði hún svo af sér þingmennsku í kjölfar umræðu um styrki sem hún þáði í prófkjörsbaráttu sinni fyrir sæti í borgarstjórn. Tónlistarskólinn í Reykjavík. Tónlistarskólinn í Reykjavík er íslenskur tónlistarskóli sem stofnaður var árið 1930, en hann er elsti tónlistarskóli landsins sem enn starfar. Skólinn hefur aðsetur í Skipholti í Reykjavík og býður upp á tónlistarnám á miðstigi, framhaldsstigi og háskólastigi. Námi við skólann er lokið með burtfararprófi í hljóðfæraleik, söng eða tónsmíðum. Tónlistarskólinn starfrækir einnig sinfóníuhljómsveit (Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík) sem ætluð er til að þjálfa hljóðfæraleikara skólans. Núverandi skólastjóri er Kjartan Óskarsson, en aðstoðarskólastjóri Óskar Ingólfsson. Hugleiðingar um frumspeki. "Hugleiðingar um frumspeki" eða "Meditationes de Prima Philosophia" (undirtitill: "þar sem færðar eru sönnur á tilveru Guðs og greinarmun sálar og líkama", eða "in qua Dei existentia et animae immortalitas demonstratur") er heimspekilegt ritverk eftir franska heimspekinginn René Descartes. Ritið kom fyrst út á latínu árið 1641. Frönsk þýðing eftir hertogann af Luynes, unnin í samvinnu við Descartes, kom út árið 1647 undir titlinum "Méditations Metaphysiques". Ritið samanstendur af sex "hugleiðingum", þar sem Descartes hafnar fyrst trú sinni á alla hluti sem hann getur ekki verið fullkomlega viss um og reynir svo að sýna fram á hvað hann getur vitað með vissu. Í "Hugleiðingunum" er að finna ítarlegustu framsetningu Descartes á frumspeki sinni, sem er ítarlegri og lengri umfjöllun um efni fjórða kafla bókar hans "Orðræðu um aðferð" sem kom fyrst út árið 1637. Descartes fjallar einnig um frumspeki í ritinu "Lögmál heimspekinnar" frá árinu 1644, sem hann samdi sem einskonar inngangsrit um heimspeki. Alþýðubandalagið. Alþýðubandalagið var upphaflega kosningasamtök sem voru stofnuð 4. apríl 1956. Kjarninn í samtökunum voru Málfundafélag jafnaðarmanna, sem skildi við Alþýðuflokkinn, og fylgdi Hannibal Valdimarssyni og Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn undir forystu Einars Olgeirssonar. Þjóðvarnarflokkurinn, undir forystu Gils Guðmundssonar, gekk til liðs við Alþýðubandalagið 1963. Samtökin buðu fram lista í öllum alþingiskosningum og bæjarstjórnarkosningum frá stofnun þeirra til og með 1967. Alþýðubandalagið varð stjórnmálaflokkur 1968, fyrst undir forystu Ragnars Arnalds. Alþýðubandalagið bauð síðast fram í bæjarstjórnarkosningunum 1998 - þó í Reykjavík undir merkjum R-listans, en í alþingiskosningunum 1995 hétu framboð þess framboð Alþýðubandalagsins og óháðra. Alþýðubandalagið var fyrst gert að formlegum stjórnmálaflokki á landsfundi 1.-3. nóvember 1968. Það leiddi til þess að tveir af forystumönnum flokksins, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson, sögðu sig úr flokknum og stofnuðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna haustið 1969. Hannibal og fylgismenn hans höfðu boðið fram í Alþingiskosningunum 1967 undir merkjum I-lista meðan flestir Alþýðubandalagsmenn skipuðu G-lista. Árið 1999 tók Alþýðubandalagið þátt í stofnun Samfylkingarinnar, ásamt Samtökum um kvennalista, Alþýðuflokknum og Þjóðvaka. Þrír þingmenn Alþýðubandalagsins sættu sig þó ekki við þetta samstarf og stofnuðu Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Einn þingmanna Alþýðubandalagsins gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Dagblaðið Þjóðviljinn var málgagn flokksins þar til það hætti að koma út 1992. Hannibal Valdimarsson. Hannibal Valdimarsson (13. janúar 1903 – 1. september 1991) var einn umdeildasti og um leið litríkasti stjórnmálaleiðtoginn á vinstri kantinum á Íslandi um og upp úr miðri 20. öld. Hann var mikill baráttumaður fyrir réttindum verkafólks og trúði á nauðsyn sterkrar verkalýðshreyfingar. Hannibal var formaður í tveimur stjórnmálaflokkum, Alþýðuflokknum og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna og kosningabandalaginu Alþýðubandalaginu. Hann var þó alla tíð eindreginn jafnaðarmaður. Hann barðist oft af kappi fyrir skoðunum sínum en þótti ekki alltaf auðveldur í samstarfi og var lítið gefinn fyrir málamiðlanir. Hannibal hóf þátttöku í pólitík á Ísafirði upp úr 1930 og varð fljótlega leiðtogi þeirra sem kallaðir voru "Ísafjarðarkratar" og þóttu mjög harðsnúnir og róttækir þó þeir ættu litla samstöðu með kommúnistum. Hannibal neitaði meðal annars að fylgja Héðni Valdimarssyni til liðs við kommúnista þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1938. Hann var fyrst kosinn á þing 1946 fyrir Alþýðuflokkinn. Seinna klauf hann þó Alþýðuflokkinn og gekk til samstarfs við Sósíalistaflokkinn í kosningabandalagi 1956 sem forsvarsmaður Málfundafélags jafnaðarmanna. Þegar Alþýðubandalaginu var breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk árið 1968 og hann sá fyrir að sósíalistar mundu ráða lögum og lofum í honum sagði hann skilið við fyrri samstarfsmenn og stofnaði nýjan flokk, Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Hannibal var einnig forseti Alþýðusambands Íslands 1954 - 1971. Eftir að Hannibal hætti afskiptum af stjónmálum gerðist hann bóndi í Selárdal í Arnarfirði og átti þar heima. Fjölskylda. Hannibal var fæddur í Fremri-Arnardal í Eyrarhreppi 13. janúar 1903, dó 1. september 1991. Foreldrar hans voru Valdimar Jónsson bóndi og Elín Hannibalsdóttir. Hannibal var bróðir Finnboga Rúts Valdimarssonar alþingismanns. Hann er faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum utanríkisráðherra, og Arnórs Hannibalssonar, fyrrum heimspekiprófessors við Háskóla Íslands. Hannibal var kvæntur Sólveigu Sigríði Ólafsdóttur (fædd 24. febrúar 1904). Þau áttu saman börnin: Arnór Kjartan (fæddur 1934), Ólaf Kristján (fæddur 1935), Elínu (fædd 1936), Guðríði (fædd 1937) og Jón Baldvin (fæddur 1939). Hannibal átti einnig synina Ingjald (fæddur 1951) með Hólmfríði Ingjaldsdóttur og Isleif Weinem (fæddur 1934). Menntun. Hannibal tók gagnfræðapróf á Akureyri 1922 og kennarapróf frá Johnstrup Statsseminarium í Danmörku 1927. Stjórnmál. Hannibal sat á alþingi frá 1946 til 1974 fyrir Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Hann var félags- og heilbrigðismálaráðherra 1956 — 1958, samgöngu- og félagsmálaráðherra 1971 — 1973. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1952 — 1954, Alþýðubandalagsins (kosningabandalags Sósíalistaflokksins og Málfundafélags jafnaðarmanna) 1956 — 1968 og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna frá stofnun þeirra 1969 — 1974. Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn. Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn, oftast nefndur einfaldlega Sósíalistaflokkurinn, var íslenskur stjórnmálaflokkur sem starfaði frá 1938 til 1968 þegar Alþýðubandalagið var gert að formlegum stjórnmálaflokki. Hann var myndaður af Kommúnistaflokki Íslands og hluta úr Alþýðuflokknum á grundvelli hugmyndarinnar um breiðfylkingu alþýðu gegn fasisma sem síðasta þing Komintern árið 1935 hafði sett fram og sem Einar Olgeirsson barðist fyrir á Íslandi. 1956 tók Sósíalistaflokkurinn þátt í stofnun kosningabandalagsins Alþýðubandalagsins ásamt Málfundafélagi jafnaðarmanna og Hannibal Valdimarssyni. Þegar Alþýðubandalagið varð að stjórnmálaflokki árið 1968 gekk Sósíalistaflokkurinn sjálfkrafa inn í það. Með því var flokkurinn lagður niður. Sósíalistafélag Reykjavíkur neitaði að ganga í Alþýðubandalagið og hélt áfram sjálfstæðu starfi í nokkur ár áður en það hætti starfsemi. Birgitta Haukdal. Birgitta Haukdal Brynjarsdóttir (fædd 28. júlí 1979 á Húsavík), er söngkona popphljómsveitarinnar Írafár. Birgitta Haukdal hefur tekið þátt í ýmsum leikritum og tónleikum. Hún byrjaði feril sinn í áheynarprufu fyrir ABBA-sýningu sem stóð yfir í þrjú ár. Þá hefur hún meðal annars leikið Sandy í leikritinu „Grease“. Barentshaf. Barentshaf er hafsvæði í Norður-Íshafi norðan við Noreg og Rússland. Það heitir eftir hollenska landkönnuðinum Willem Barents. Það markast af Noregshafi og Svalbarða í vestri, Frans Jósefslandi í norðri og Novaja Semlja í austri. Við suðurenda hafsins eru hafnarborgirnar Varðey (Noregi) og Múrmansk (Rússlandi). Þar við ströndina leggur ekki allt árið um kring vegna Norður-Atlantshafsstraumsins sem flytur hlýjan sjó úr Golfstraumnum norður fyrir Evrópu. Dvergþorskur. Dvergþorskur eða skreiðungur (fræðiheiti: "Trisopterus minutus") er lítill fiskur af þorskaætt sem lifir í tempruðum sjó við strönd Evrópu, frá Noregi að Miðjarðarhafi og Atlantshafsströnd Marokkó. Hann er rauðbrúnn á lit með áberandi skeggþráð. Hann verður allt að 40 sm langur og finnst venjulega í litlum torfum við sand- eða leirbotn á 10-300 metra dýpi. Gullna hindin. "Gullna hindin" var enskt galíon, þekktust sem flaggskip Francis Drake sem hann sigldi á umhverfis jörðina 1577-1580. Upphaflega hét skipið "Pelíkaninn", en Drake endurskírði það rétt áður en hann lagði inn í Magellansund, í höfuðið á Sir Christopher Hatton, sem hafði fjármagnað ferðina og sem hafði gullinn hjört í skjaldarmerki sínu. Tvær eftirlíkingar eru af skipinu; ein í Southwark í London og önnur í hafnarbænum Brixham í Devonskíri. Klarínett. B-klarínett (t.v.) og A-klarínett (t.h.) með þýsku klappakerfi. Ath. að munnstykki vantar á A-klarínettið. Klarínett eða klarínetta er tréblásturshljóðfæri. Hljóðpípa þess er nær sívalningslaga, og einfalt blað er notað til að framkalla tóninn. Nafnið er dregið af ítalska orðinu "clarino", sem þýðir trompet, að viðbættri smækkunarendingunni -et, en fyrstu klarínettin höfðu skæran tón líkt og trompett. Til eru margar gerðir klarínetta, og er klarínettufjölskyldan stærsta fjölskylda tréblásturshljóðfæra, en hún hefur á þriðja tug meðlima. Mörg þessara klarínetta hafa fallið að mestu úr notkun eða eru frekar sjaldgjæf, og oft eru algengari hljóðfærin notuð til að spila tónlist sem skrifuð var fyrir þau. Algengasta klarínettið er sópranklarinett í B, sem jafnan er kallað einfaldlega klarinett, og oftast er átt við það þegar orðið er notað stakt. LOL (netslangur). LOL (einnig stafað lol) er ensk skammstöfun (og slangur) sem stendur fyrir „laughing out loud“ sem þýðir á íslensku „hlæja upp hátt“ eða „Laughing Out Loud“ sem þýðir „mikil hlátrasköll“. Þessi skammstöfun er fyrst og fremst notuð á vefsíðum og í rauntímaspjalli sem fer fram á netinu, en þar skrifar fólk „LOL“ til að sýna að það hafi farið að hlæja eða hafi þótt eitthvað fyndið. Lol getur einnig staðið fyrir „lots of love“ sem þýðir á íslensku „mikil ást“. ROTFL, sem stendur fyrir „rolling on the floor laughing“, hefur svipaða merkingu. Ritstjórar Skírnis. "(Skírnir kom ekki út árið 1904)" Mokkakaffi. Mokkakaffi (eða Mokka eða Kaffi Mokka) er reyk- og áfengislaust kaffihús á Skólavörðustíg í Reykjavík, stofnað 24. maí árið 1958 og er því eitt af elstu kaffihúsum í Reykjavík. Mokka var stofnað af Guðmundi Baldvinssyni og Guðnýju Guðjónsdóttur og rekur Guðný staðinn enn í dag, en Guðmundur dó 9 nóvember 2006. Guðmundur hafði kynnst ítalskri kaffihúsamenningu á námsárum sínum á Ítalíu. Í kaffihúsinu eru haldnar sýningar á málverkum. Espressóvélin sem var flutt inn til landsins og notuð í kaffihúsinu var sú fyrsta sem barst til landsins. Kaffihúsið kemur víða við sögu í íslenskum bókmenntum, t.d. í bók Steinunnar Sigurðardóttur, Sólskinshestur. Skoruþörungar. Skoruþörungar (fræðiheiti: "Dinophyceae") eru stærsti flokkur svipuþörunga. Þessir þörungar mynda þörungablóma við strendur þegar líður á sumar og sumar tegundir þeirra eru helsta ástæðan fyrir hættulegum eiturefnum í skelfiski eins og kræklingi. Skoruþörungar eru flokkaðir eftir sköpulagi en taldir vera af samsíða þróunarlínum. Þeir hópar sem eru með hulu eru flokkaðir í fjóra ættbálka eftir því hvernig brynplötur þeirra raðast. Ættbálkar (auk ýmissa ættkvísla) skoruþörunga sem eru án hulu eru taldir vera fjölstofna (þ.e. tilheyra ólíkum þróunarlínum). Ebólafljót. Ebólafljót er fljót í norðvesturhluta Austur-Kongó. Það rennur í Mongalafljót sem er þverá Kongófljóts. Charlie Chaplin. Sir Charles Spencer Chaplin, Jr, KGB, (16. apríl 1889 – 25. desember 1977), best þekktur sem Charlie Chaplin'", var leikari sem fæddur var á Bretlandi. Hann var einn frægasti leikari fyrstu Hollywood kvikmyndanna og einnig þekktur sem afbragðsgóður leikstjóri. Ein þekktasta persóna hans var „umrenningurinn“: heimilislaus maður með framkomu og mannasiði hefðarmanns, sem gengur um í kjólfatajakka, útskeifur í víðum buxum og of stórum skóm, með kúluhatt, bambusstaf og yfirvaraskegg. Chaplin var einn af mest skapandi persónuleikunum í þöglu myndunum. Auk þess að leika leikstýrði hann, skrifaði, framleiddi og fjármagnaði sínar eigin myndir. Chaplin kynntist leikhópum og leiksviði mjög ungur og snemma komu fram einstakir tjáningarhæfileikar (mime). Hann ferðaðist víða upp úr 1900 með Fred Carno leikhópnum og 1913 gerði hann samning við Mack Sennet hjá Keystone kvikmyndafélaginu. Fljótt varð hann einn þekktasti skemmtikraftur heims og sá fyrsti sem sameinaði grín og drama á hvíta tjaldinu. Myndir eftir hann eru meðal annars "The Kid" sem var fyrsta mynd hans í fullri lengd. Einnig voru myndirnar "Gullæðið", "Nútíminn" og "Einræðisherrann" mjög vinsælar. Chaplin, Charlie Chaplin, Charlie Gesta Danorum. "Gesta Danorum"-handrit frá um 1200 með eigin hendi Saxa. Gesta Danorum (latína: "afrek Dana") er rit um sögu Danmerkur eftir "Saxo Grammaticus" (Saxa málspaka), ritað á latínu um aldamótin 1200, að beiðni Absalons erkibiskups. Hún skiptist í tvo hluta: bækur 1-9 sem fjalla um fornaldarsögu (sbr. Fornaldarsögur Norðurlanda) og endar á Gormi gamla, sem talinn er fyrsti eiginlegi konungur Danmerkur. Bækur 10-16 fjalla svo um röð Danakonunga frá Gormi og lýkur með sigri Knúts VI á Vindum árið 1186. Stærsti einstaki hluti verksins er bók 14 sem er nærri einn fjórði hluti þess og fjallar um valdatíð Valdimars Knútssonar (Valdimars I) og fyrstu valdaár Knúts VI. Larry Page. Lawrence E. „Larry“ Page (fæddur 26. mars 1973) stofnaði Google ásamt Sergey Brin. Larry er fæddur i Lansing í Michigan-fylki í Bandaríkjunum og er með gráðu í tölvunafræði frá Stanford háskóla. Skv. Forbes er Larry 27. ríkasti maður heims, með metnar eignir upp á 12.8 milljarða dollara. Tengill. Page, Larry Kalmarsambandið. Kista Margrétar I í dómkirkjunni í Hróarskeldu Kalmarsambandið var net konungssambanda milli Norðurlandanna Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sem sameinaði þessi lönd undir einn konung 1397. Þetta þýddi þó ekki að löndin yrðu eitt ríki og ríkisráð og stéttaþing landanna störfuðu áfram sjálfstætt. Sambandið styrkti stöðu aðalsins í löndunum gagnvart vaxandi áhrifum Hansakaupmanna. Hagsmunaárekstrar urðu að lokum til þess að sambandið leystist upp með því að Svíar losuðu sig endanlega undan Danakonungum í kjölfar Stokkhólmsvíganna 1520 og gerðu Gústaf Vasa I að konungi. Eftir stóð þá Danmörk-Noregur í konungssambandi sem stóð til 1814 og Ísland og Færeyjar urðu hlutar þess ríkis, en höfðu verið í konungssambandi við Noreg áður. Kalmarsambandið var myndað af Margréti miklu, dóttur Valdimars Atterdag í sænsku borginni Kalmar, eftir sigur sameinaðs hers Dana og Svía á her sænska konungsins, Alberts af Mecklenburg. Paul Ricœur. Paul Ricœur (27. febrúar 1913, Valence – 20. maí 2005, Chatenay Malabry) var franskur heimspekingur, sem er einkum þekktur fyrir að sameina fyrirbærafræðilegar lýsingar og túlkanir í anda túlkunarfræðinnar. Hann kenndi heimspeki við Sorbonne háskólann í París. Tenglar. Ricœur, Paul Ricœur, Paul Hans-Georg Gadamer. Hans-Georg Gadamer (11. febrúar 1900 – 13. mars 2002) var þýskur heimspekingur, sem er þekktastur fyrir rit sitt "Sannleikur og aðferð" ("Wahrheit und Methode"). Tenglar. Gadamer, Hans-Georg Gadamer, Hans-Georg Karl Jaspers. Karl Theodor Jaspers (23. febrúar 1883 – 26. febrúar 1969) var þýskur geðlæknir og heimspekingur, sem hafði mikil áhrif á nútímaguðfræði, -geðlæknisfræði og heimspeki. Jaspers, Karl Jaspers, Karl Jaspers, Karl Stokkhólmsvígin. Stokkhólmsvígin á koparstungu frá 1676 Stokkhólmsvígin voru dráp á mestmegnis aðalsfólki og geistlegum stuðningsmönnum Stens Sture og áttu sér stað frá 4. til 10. nóvember 1520 í kjölfarið á innrás Kristjáns II Danakonungs. Blóðbaðið náði hámarki 8. nóvember þegar um hundrað manns voru teknir af lífi. Forsaga víganna voru átök milli sænskra stuðningsmanna Kalmarsambandsins, sem Gustav Trolle, erkibiskupinn í Uppsölum, leiddi, og þeirra sem vildu sjálfstæði Svíþjóðar og Sten Sture leiddi. 19. janúar særðist Sten Sture til ólífis í orrustunni við Bogesund. Ekkja Stures, Christina Gyllenstierna var svo sigruð í orrustunni við Uppsali 6. apríl og gafst upp 7. september með því skilyrði að stuðningsmenn þeirra nytu friðhelgi. 4. nóvember var Kristján krýndur af Trolle erkibiskupi í Storkyrkan í Stokkhólmi. Að kvöldi þess dags kallaði Kristján foringja sína á fund og skömmu síðar fóru hermenn inn í salinn og tóku alla gesti konungs höndum. Daginn eftir var fólkið dæmt til dauða fyrir villutrú af erkibiskupnum. Karlmennirnir voru hálshöggnir eða þeim drekkt og margar sænskar aðalskonur voru sendar til Danmerkur í fangelsi. Kristján lét meðal annars hálshöggva tvo biskupa og sagt er að hann hafi látið grafa upp lík Stens Sture og brenna það. Ludwig Andreas Feuerbach. Ludwig Andreas Feuerbach (28. júlí 1804 – 13. september 1872) var þýskur heimspekingur, sem var undir miklum áhrifum frá G.W.F. Hegel. Hann var trúleysingi og hélt því fram að kristnin væri dauð kennisetning. Hann gagnrýndi hughyggju Hegels og var þar með orðinn talsmaður efnishyggju. Kenningar hans ásamt þráttarhyggju Hegels urðu helstu uppsprettur að kenningum Marxs og Engels um sögulega efnishyggju. Hann hafði m.a. áhrif á þýska guðfræðinginn David Friedrich Strauss. Ævi. Ludwing fæddist í Landshut í Bavaríu í Þýskalandi og var sonur Paul Feuerbach, þekkts dómara. Tengill. Feuerbach, Ludwig Andreas Feuerbach, Ludwig Andreas Skildinganes. Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni. Skildinganes var jörð í Reykjavík við Skerjafjörð sem heyrði undir lögsagnarumdæmi Seltjarnarness til ársins 1932. Á jörðinni liggja nú Reykjavíkurflugvöllur að stærstum hluta, Skerjafjarðarhverfi („Stóri-Skerjafjörður“ og „Litla-Skerjafirði“) auk Nauthólsvíkur. Jörðin náði þannig frá Sundskálavík, vestan við Suðurgötu, yfir hálfa Vatnsmýrina að Öskjuhlíð. Gatan sem liggur í sveig eftir nesinu þar sem Skildinanesbæirnir stóðu heitir Skildinganes. Elstu heimildir um jörðina eru bréf þar sem skólameistara í Skálholti eru lagðar jarðir til uppihalds 1553 og síðan bréf 1556 þar sem Knud Stensen hirðstjóri leggur jarðir Skálholtsstaðar á Álftanesi og Seltjarnarnesi undir konung. Skildinganesbæirnir voru við vesturströndina sunnan við Sundskálavík þar sem núna er hverfið Skerjafjörður og hétu Austurbærinn og Vesturbærinn (rifnir) og Reynisstaðir þar sunnan við (nú Skildinganes 15), en margar hjáleigur voru í landinu, meðal annars Nauthóll sem Nauthólsvík heitir eftir. Rétt eftir aldamótin 1900 keyptu nokkrir menn hálfa jörðina og stofnuðu Hlutafélagið Höfn sem átti að standa að byggingu hafnaraðstöðu fyrir Reykjavík í Skerjafirðinum. 1913 hóf síðan félagið Harbours and Piers Association Ltd, sem meðal annars var í eigu Einars Benediktssonar, hafnarframkvæmdir við Nauthólsvík sem strax var hætt við. Fossafélagið Títan keypti síðan eignina af Harbours and Piers 1918 með það fyrir augum að reisa höfn, en stærstur hluti landareignar þess félags var síðar tekinn eignarnámi undir Reykjavíkurflugvöll. Eystrasaltsráðið. Eystrasaltsráðið er samstarfsvettvangur Eystrasaltslandanna (þ.e. þeirra ríkja sem eiga strönd að Eystrasalti) auk Íslands, Noregs og Evrópusambandsins. Ráðið var stofnað í Kaupmannahöfn í mars árið 1992 af utanríkisráðherrum landanna. Ráðið hefur haldið árlegar ráðstefnur frá upphafi og aðalskrifstofa hefur verið rekin í Stokkhólmi frá árinu 1998. Ísland gerðist aðili að ráðinu 1995 og fer með formennsku í því frá 1. júlí til 30. júní 2006. Aðalfundur ráðsins 2006 var haldinn í Reykjavík 7.-8. júní. Tengt efni. Norræna ráðherranefndin Skerjafjörður. Kort sem sýnir staðsetningu Skerjafjarðar, Kollafjarðar og Hafnarfjarðar. Skerjafjörður er fjörður sem gengur inn úr Faxaflóa sunnan við Kollafjörð og norðan við Hafnarfjörð. Skerjafjörður liggur frá norðvestri til suðausturs milli Seltjarnarness og Álftaness og heitir eftir Lönguskerjum í miðjum firðinum. Hann er víða grunnur og skerjóttur eins og nafn hans bendir til. Innst greinist fjörðurinn í Lambhúsatjörn á Álftanesi, Arnarnesvog, Kópavog og Fossvog. Sem hverfi í Reykjavík er átt við Stóra-Skerjafjörð sunnan Reykjavíkurflugvallar og Litla-Skerjafjörð norðan við hann. D12. D12 er bandarísk rapphljómsveit, frá Detroit í Michigan-ríki. Hljómsveitin var stofnuð árið 1990, en komst fyrst í sviðsljósið þegar aðalsprautan á bak við sveitina, Eminem, sneri aftur til Detroit til að koma hljómsveitinni á kortið, en þeir félagar, sem eru sex, höfðu gert með sér samning við stofnun hljómsveitarinnar. Sá samningur kvað á um að ef einhver þeirra yrði frægur, skyldi hann snúa aftur heim þegar hann væri búinn að „meika það“, og fara aftur að rappa með sveitinni. Detroit. Detroit, einnig kölluð bílaborgin, er 11. fjölmennasta borg Bandaríkjanna með rúmlega 900.000 íbúa. Detroit er í Michigan-ríki. Deftones. Deftones er nýmetal- (eða alt-metal-) rokksveit frá Sacramento í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Sveitin var stofnuð einhvern tímann árin 1989-90, og er í gangi enn þann dag í dag. Meðal frægustu laga eru "My Own Summer (Shove It)", "Hexagram", "Change (in the House of Flies)", "Bored", og "Be Quiet and Drive (Far Away)". Annað. Stef, gítarleikari er með hliðarverkefni sem kallast Kush, en meðal annarra meðlima er B-Real úr Cypress Hill. Chino, söngvari er með hliðarverkefni sem kallast Team Sleep. Lag með þeirri sveit hefur verið á einni Deftones-plötu. Chino Moreno er spænskt nafn, og myndi á íslensku útleggjast sem „kínverji með brúnt hár“. Hansasambandið. Koparstunga frá 15. öld sem sýnir Hansakugg. Hansasambandið var bandalag verslunarborga, aðallega í Norður-Þýskalandi, sem tókst að koma á einokun á verslun á Eystrasalti og um alla Norður-Evrópu. Það hlaut nafn sitt af þýska orðinu "Hanse" sem merkir hópur eða félag. Hansasambandið varð til á 13. öld í kringum hina öflugu verslunarborg Lýbiku (Lübeck) sem hagnaðist á verslun með salt og silfur. Lýbika var auk þess útskipunarhöfn fyrir Hamborg. Milli borganna var árið 1398 grafinn elsti skipaskurður í Evrópu; Stecknitzskurðurinn milli ánna Trave og Saxelfar. Hansasambandið var bandalag kaupmanna í verslunargildum borganna og þeir héldu árlega fundi, Hansadaga, oftast í Lýbiku, en sambandið rak líka stóra vörulagera og skrifstofur í London, Brügge, Björgvin og Hólmgarði. Á fundum voru teknar ákvarðanir út frá sameiginlegum hagsmunum félagsmanna. Með því að beita borgir viðskiptaþvingunum tókst sambandinu að ná fram vilja sínum gagnvart yfirvöldum á hverjum stað, en flota sambandsins var líka hægt að breyta í öflugan herflota ef á þurfti að halda. Hansakaupmenn versluðu einnig við Íslendinga á tímabili, sem kallað hefur verið "Þýska öldin". Skipin sem Hansakaupmenn notuðu til vöruflutningar á Eystrasalti og í Norðursjó voru svokallaðir Hansakuggar, sem voru afkomendur knarrarins sem norrænir menn notuðu við landkönnun og verslun. Hansakuggurinn hafði mikið lestarrými og var vel búinn til að verjast sjóræningjum. Kort sem sýnir verslunarleiðina sem Hansasambandið réði yfir. Hansakaupmenn náðu undir sig allri verslun með vörur frá Eystrasalti, þar með töldu verðmætu rafi og skinnum. Það varð því forgangsmál fyrir ung konungsríki Norðurlanda að ganga milli bols og höfuðs á sambandinu. Sérstaklega reyndu Danakonungar að berjast gegn sambandinu, en höfðu lítinn árangur sem erfiði fyrr en leið á 16. öld. Um 1400 hófu hollenskir og enskir kaupmenn að sigla norður fyrir Jótland um Eyrarsund inn á Eystrasalt. Við þetta missti Hansasambandið einokunarstöðu sína. Með aðgerðum eins og Eyrarsundstollinum 1429 og verslunareinokun 1602, tókst Danakonungum smám saman að veikja stöðu sambandsins. Síðasti Hansadagurinn var haldinn 1669 af þeim borgum sem eftir voru í sambandinu; Lýbiku, Hamborg, Brimum, Danzig (Gdansk), Rostock, Brúnsvík, Hildesheim, Osnabrück og Köln. Eftir það var sambandið ekki til í reynd. Hansestadt. Nokkrar þýskar borgir notast ennþá við einkunnina „Hansestadt“ eða „Freie Hansestadt“ í nafni sínu með tilvísun til þessarar fortíðar. Þetta eru borgirnar Brimar, Greifswald, Lýbika, Rostock, Stralsund og Wismar. Dyrfjöll. Dyrfjöll eru í Norður-Múlasýslu, hluti af fjallgarðinum milli Fljótsdalshéraðs og Borgafjarðar eystri. Fjöllin bera nafn af klettaskarði sem er í fjallgarðinum og kallast það Dyr og eru þær í 856 metra hæð. Hæsti tindur þeirra er í 1136 metra hæð yfir sjó og nefnist hann Innra-Dyrfjall. Er hann mjög torfær og var fyrst klifinn árið 1952, af þeim Vilhjálmi Einarssyni, Jóhanni Ólasyni og Steinþóri Eiríkssyni. Dyrfjöll eru oft kölluð „útverðir Austurlands í norðri“. Ludvig Harboe. Ludvig Harboe (16. ágúst 1709 – 15. júní 1783) var danskur prestur, Hólabiskup 1741 til 1745 og jafnframt Skálholtsbiskup eitt ár frá 1744 til 1745 og Sjálandsbiskup frá 1757. Ludvig Harboe var prófastssonur frá Slésvík og gekk í menntaskóla í Hamborg. Hann lærði síðan í háskólunum í Rostock, Wittenberg og Jena. 1741 var hann sendur af danska kirkjustjórnarráðinu ("kirkekollegiet") til Íslands til að rannsaka fræðslumál ásamt Jóni Þorkelssyni Thorcilliusi og ferðuðust þeir um landið á sumrum og könnuðu læsi hjá unglingum 12-17 ára en sátu á Hólum á vetrum. Hann sendi og frá sér nokkrar tilskipanir sem biskup, meðal annars um húsaga, skriftamál, hjónabandið o.fl. Harboe fór með vald Hólabiskups frá 1741 til 1745 og Skálholtsbiskups 1744 til 1745 þar sem báðir biskupar voru þá nýdánir, en hann hlaut ekki formlega biskupsvígslu fyrr en hann sneri aftur til Kaupmannahafnar 1745. 1746 tók hann við biskupsstólnum í Niðarósi í Þrándheimi. 1748 sneri hann aftur og giftist Frederikke Louise Hersleb dóttur þáverandi Sjálandsbiskups, Peder Hersleb. Nokkrum mánuðum fyrr hafði tengdafaðir hans gert hann að aðstoðarmanni sínum og við lát hans 1757 varð Ludvig Harboe Sjálandsbiskup, sem hann var til dauðadags. Þegar Ludvig Harboe kom til Kaupmannahafnar árið 1745 kom Jón Eiríksson, síðar konferensráð með honum en Harboe hafði tekið ástfóstri við Jón og reyndist mikill velgjörðarmaður hans. Jón fylgdi biskupi til Niðaróss. Karneades. Karneades (um 214 í Kýrenu á Norður-Afríku – 129 f.Kr.) var efahyggjumaður og fyrsti heimspekingurinn til að lýsa yfir að viðleitni frumspekinga, sem leituðust við að uppgötva skynsamlega merkingu í trúarlegum skoðunum, væri fánýt og til einskis. Um árið 159 f.Kr. hafði hann hafist handa við að hrekja allar kreddukenningar (allar kenningar sem ekki voru efahyggjukenningar), einkum kenningar stóumanna og jafnvel kenningar epikúringa, sem efahyggjumenn höfðu áður hlíft. Karneades var akademískur efahyggjumaður. Það er að segja, hann tilheyrði Akademíunni, sem var á hans tíma efahyggjuskóli. Karneades hélt skólanum áfram á þeirri línu. Virðing hans og kennivald var svo mikil að eftir andlát hans fannst akademingum mikilvægara að túlka og verja skoðanir hans en Sókratesar og Platons. Hann samdi engin rit en lét nemendum sínum (t.d. Kleitomakkosi) eftir að þræta um raunverulegt heimspekilegt inntak röksemdafærslna hans. Kenning Karneadesar, jafnvel í fáguðustu útgáfu sinni, fjallar einungis um huglæga birtingu sannleikans. Venjulega hefur hún verið talin líkindahyggja. Karneades ályktaði að reynsla byggð á skynjun, sem er sennilegri en allt annað, sé sú sem við byggjum á þegar við myndum okkur skoðanir sem er okkur mikilvægt. (sjá, Long & Sedley, "The Hellenistic Philosophers"). Karneades mun hafa verið fyrstur til að greina á milli rökfræðilegrar nauðhyggju, þekkingarfræðilegrar nauðhyggju og orsakanauðhyggju. Zenon frá Kítíon. Zenon frá Kítíon (333 — 264 f.Kr.) var grískur heimspekingur frá borginni Kítíon á Kýpur. Hann var sonur kaupmanns. Zenon gerðist lærlingur Kratesar, þekktasta hundingja Grikklands þess tíma. Hann gerðist þó sjálfur kaupmaður til 42 ára aldurs en þá hóf hann að kenna heimspeki við súlnagöng í Aþenu. Skólinn dró nafn sitt af súlnagöngunum ("stoa poikile"), stóuspeki. Engin ritverk Zenons eru varðveitt en kenningar hans hafa varðveist í frásögnum annarra, þ.á m. meginhugmynd hans um að sálarró sé best að öðlast með í gegnum skeytingarleysi til ánægju og sársauka. Ævisagnaritarinn Díogenes Laertíos fjallaði í löngu máli um ævi og störf Zenons. Díogenes bregður upp litríkri mynd af persónu Zenons en fer þó ekki nema grunnt í heimspekilegar kenningar hans. Zenon var sagður hafa lifað meinlætalífi en það kemur heim og saman við áhrifin frá hundingjunum, sem vöruðu alla tíð í stóuspeki a.m.k. að einhverju leyti. Hann hélt því fram að maðurinn sigri heiminn með því að sigra sig sjálfan. Með því að venja sig á að skeyta engu um sársauka og ánægju öðlast stóumaðurinn visku, sem hlýst af því að hafa stjórn á geðshræringum sínum og ástríðum. Zenon lést um 264 f.Kr. Díogenes Laertíos greinir þannig frá dauða hans: „Þegar hann yfirgaf skólann hrasaði hann og braut fingur því hann brá fyrir sig höndinni. Um leið hrópaði hann orð Níóbe: ‚Ég er að koma, hví kallar þú á mig?‘“ Zenon aflaði sér mikillar virðingar í lifanda lífi vegna heimspekilegra kenninga sinna. Hann var heiðraður m.a. með gylltri kórónu og og grafhýsi var reist handa honum til að heiðra siðbætandi áhrif hans á ungdóminn. Panætíos. Panætíos frá Ródos (um 185-180 til 110-108 f.Kr.) var grískur heimspekingur og stóuspekingur. Hann var fæddur á Ródos en sennilega menntaður í Pergamon af Kratesi frá Mallos og síðar í Aþenun, þar sem hann sótti fyrirlestra hjá Díogenesi frá Babýlon, Krítolási og Karneadesi. Síðar fór hann til Rómar, þar sem hann vingaðist við Laelius og Scipio yngra. Hann bjó sem gestur á heimili þess síðarnefnda og fylgdi honum til Egyptalands og Litlu Asíu (143 eða 141 f.Kr.). Hann sneri aftur til Rómar með Scipio, þar sem hann vann ötullega að því að kynna stóuspekina og gríska heimspeki. Meðal nemenda hans voru fjölmargir Rómverjar af aðalsættum, t.d. spámaðurinn Q. Mucius Scaevola og Q. Aelius Tubero. Eftir morðið á Scipio árið 129 f.Kr. dvaldi hann í Aþenu og Róm til skiptis en aðallega í Aþenu, þar sem hann tók við af Antípater frá Tarsos sem skólastjóri stóíska skólans. Aþeningar buðu honum ríkisborgararétt en hann hafnaði boðinu. Gozewijn Comhaer. Gozewijn Comhaer (um 1375 – 20. júlí 1447) var Skálholtsbiskup frá 1435 eða 1437 eftir konungsskipan, en faðir hans var gullsmiður og varð myntsláttumeistari Eiríks af Pommern. Gozewijn fæddist í Deventer í Hollandi og gekk í karþúsarregluna árið 1400. 1407 var hann kjörinn príor í klaustrinu í Zelem í Belgisch-Limburg. Sjö árum síðar hélt hann til móðurklaustursins Grande Chartreuse við Grenoble í Frakklandi. Hann ferðaðist á vegum reglunnar um Norður-Þýskaland og Danmörku og kynntist konungi í gegnum föður sinn. Hann var svo gerður að biskupi í Skálholti en heimildum ber ekki saman um hvort það var 1435 eða 1437. Svo mikið er víst að 22. nóvember 1436 gaf Hinrik 6. Englandskonungur út skjal þar sem fram kemur að Gozewijn Comhaer biskupi skuli heimilt að fara til Íslands með fylgdarliði og skipa út vistum, nauðsynjavöru til guðsþjónustuhalds, vefnaðarvöru og fleiru. Gozewijn kom til Íslands 1437 og tveimur árum seinna hélt hann prestastefnu fyrir allt landið, þar sem biskupslaust var á Hólum; Jón Bloxwich, sem þá var biskup, kom aldrei til Íslands. Gozewijn var á landinu til hausts 1440, sigldi þá út en kom aftur 1442. Hann mun hafa ferðast mikið um landið. Í árslok 1444 hélt hann til Englands og komst þaðan til Hollands, þaðan sem hann hélt til Grande Cartreuse þar sem hann lést 1447. Á biskupstíma hans hófu Hollendingar að sigla til Íslands til að versla. Af nafni hans eru dregin íslensku karlmannsnöfnin Gottsvin og Guðsveinn. Georg Wilhelm Friedrich Hegel. Georg Wilhelm Friedrich Hegel (27. ágúst 1770 í Stuttgart í Þýskalandi – 14. nóvember 1831 í Berlín í Þýskalandi) var þýskur heimspekingur fæddur í Stuttgart í Württemberg, í dag í suðvestur Þýskalandi. Áhrif hans hafa verið þónokkur á margvíslega hugsuði, þeirra á meðal hafa verið aðdáendur hans (F.H. Bradley, Sartre) og andstæðingar hans (Kierkegaard, Schopenhauer, Heidegger, Schelling). Hann er einkum þekktur fyrir tilraun sína til að setja fram alltumvefjandi verufræðilegt kerfi frá rökréttum upphafspunkti. Tenglar. Hegel, Georg Wilhelm Friedrich Hegel, Georg Wilhelm Friedrich Fyrirbærafræði andans. "Fyrirbærafræði andans" ("Phänomenologie des Geistes") (1807) er heimspekilegt ritverk eftir þýska heimspekinginn G.W.F. Hegel (1770 - 1831). Það er almennt talið mikilvægasta ritverk Hegels og þýsku hughyggjunnar eftir Kant. Hegel leit sjálfur á verkið sem undirstöðu seinni verka sinna. Í því kannar hann eðli og þróun andans, sýnir hvernig hann þróast í genum ferli sem einkennist af innri mótsögnum, sem kallast þrættir. Hegel rekur þróun mannsandans frá frumstæðu upphafi hans í skynreynslu í gegnum öll form huglægni og hlutlægni, m.a. í listum, trúarbrögðum og heimspeki, til altækrar þekkingar, sem felur allt þróunarferlið í sér sem hluta af sjálfri sér. Þar með setur hann einnig fram altækt frumspeki-, siðfræði- og stjórnspekikerfi. Gottlob Frege. Friedrich Ludwig Gottlob Frege (8. nóvember 1848 í Wismar – 26. júlí 1925 í Bad Kleinen) var þýskur stærðfræðingur, heimspekingur og rökfræðingur, sem er álitinn faðir nútímarökfræði. Hann er einnig einn af upphafsmönnum rökgreiningarheimspeki. Ævi. Faðir Freges var kennari, sem sérhæfði sig í stærðfræði. Frege hóf háskólanám við háskólann í Jena árið 1869 en færði sig til Göttingen að tveimur árum liðnum. Þar hlaut hann doktorsgráðu í stærðfræði árið 1873. Árið 1875 sneri hann aftur til Jena sem fyrirlesari. Árið 1879 varð hann dósent og árið 1896 prófessor. Frege hafði einungis einn nemanda, sem varð sjálfur frægur, Rudolf Carnap. Börn hans létust öll áður en þau uxu úr grasi en árið 1905 ættleiddi hann son. Árum saman var Heinrich Scholtz við háskólann í Münster, þar sem handritum Freges var komið fyrir eftir andlát hans, eini fræðimaðurinn, sem sýndi Frege einhvern áhuga. Mörg þeirra handrita, sem Frege lét eftir sig, glötuðust í síðari heimsstyrjöldinni. Fyrsta enska þýðingin á verkum Freges kom út árið 1950. Rökfræði. Sem rökfræðingur er Frege víða talinn jafnast á við Aristóteles, Kurt Gödel og Alfred Tarski. Byltingarkent rit hans, "Hugtakaskrif" ("Begriffsschrift") (1879) hratt af stað nýju tímabili í sögu rökfræðinnar. Margar nýjungar voru kynntar í ritinu. Frege fann upp umsagnarrökfræði, þökk sé uppgötvun hans á mögnurum, sem síðar varð alsiða að nota í stærðfræði og leystu ýmis vandamál úr miðaldaheimspeki. Magnararnir sem Bertrand Russell beitti í lýsingarhyggju sinni og í ritinu "Principia Mathematica" (ásamt Alfred North Whitehead) voru á endanum Frege að þakka. Frege var málsvari þess viðhorfs að reikninfræði væri smættanleg í rökfræði, þ.e. einskonar rökfræðihyggju. Í riti sínu "Frumreglur Reikningslistarinnar" ("Grundgesetze der Arithmetik") (1893, 1903), sem höfundur gaf út á eigin kostnað, reyndi hann að leiða lögmál reikningslistarinnar út frá rökfræðilegum frumsendum. Þegar annað bindið var á leið í prentun frétti Frege af þverstæðu Russells í bréfi frá Russell sjálfum. Þversögnin ljóstraði upp um að kerfið, sem var sett fram í "Frumreglunum" væri ekki sjálfu sér samkvæmt. Frege greindi frá mótsögninni í viðauka sem bætt var við annað bindi á síðustu stundu og reyndi að bjarga kerfinu með nokkrum breytingum. Það tókst honum ekki að gera. Tegundakenning Russells, mengjafræðikenning Ernsts Zermelo og Johns von Neumann og rökfræði George Boolos (1998) eru allt tillögur um lagfæringar á frumsendum Freges. Rökfræði Freges hlaut litlar undirtektir meðan hann var á lífi. Hugmyndir hans breiddust einkum út vegna þeirra sem hann hafði áhrif á, einkum Giuseppes Peano og Russells. Heimspeki. Frege hafði lítið álit á tilraunum til að gera grein fyrir merkingu með því að höfða til „hugrænna“ (sálfræðilegra) skýringa. Upphaflega gekk honum allt annað til en að svara spurningum um merkingu; hann ætlaði sér að nota nútímarökfræði til að setja fram undirstöður reikningslistarinnar. Fyrst hófst hann handa við að svara spurningunni „Hvað er tala?“ eða „Til hvaða hluta vísa töluorð („einn“, „tveir“, o.s.frv.)?“ Í rannsóknum sínum stóð hann á endanum frammi fyrir því verkefni að greina og skýra hvað merking er og hann setti fram nokkrar mikilsverðar kenningar á því sviði. Þrátt fyrir lof Bertrands Russell var Frege eigi að síður lítt kunnur sem heimspekingur meðan hann sjálfur lifði. Hér breiddust kenningar hans einnig út einkum vegna þeirra sem hann hafði áhrif á, þ.á m. Edmund Husserl, sem hann átti bréfasamskipti við og deildi við á prenti, og Ludwig Wittgenstein. Hefði Wittgensteins ekki notið við, hefði Frege ef til vill aldrei hlotið viðurkenningu sem heimspekingur. Meginrit Wittgensteins, "Rökfræðileg ritgerð um heimspeki" og "Rannsóknir í heimspeki", voru öðrum þræði tilraunir til þess að komast til botns í rökfræði og heimspeki Freges. Tenglar. Frege, Gottlob Frege, Gottlob Frege, Gottlob Frege, Gottlob Bernard Bolzano. Bernard Placidus Johann Nepomuk Bolzano (5. október 1781 – 18. desember 1848) var tékkneskur stærðfræðingur, guðfræðingur, heimspekingur og rökfræðingur. Hann fæddist í Prag. Frægustu setningar hans eru Bolzano-Weierstrass setningin í mengjafræði og Bolzano setningin í stærðfræðigreiningu. Einnig sannaði hann fyrstur manna setninguna um hreiðruð bil. Tengill. Bolzano, Bernard Bolzano, Bernard Bolzano, Bernard 1411. Jóhannes XXIII mótpáfi bannfærir Jan Hus. Viðey. Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni. Viðey er stór eyja í Kollafirði rétt utan við Reykjavík. Hún er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli. Vesturhluti hennar er stór höfði sem tengist megineynni um mjótt eiði og kallast Vesturey. Í eynni eru Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa. Í október 2007 var reist listaverkið Friðarsúlan í eynni. Saga. Talið er að búið hafi verið í eyjunni frá því fljótlega eftir landnám. 1225 var þar stofnað klaustur af Ágústínusarreglu sem stóð til 1550. Síðar var rekið í eynni bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikraspítali. Um miðja 18. öld reisti Skúli Magnússon það hús sem nú stendur í eynni og bjó þar frá 1754. 1817 keypti Magnús Stephensen eyjuna og rak þar búskap og stofnaði þar prentsmiðju. 1907-1914 var Milljónafélagið umsvifamikið í útgerð og skipaflutninga í eynni sem ætlunin var að gera að umskipunarhöfn. Á þeim árum myndaðist í eynni um 100 manna þorp á Sundabakka á austurenda Viðeyjar. Kárafélagið keypti síðar eigur Milljónafélagsins um 1920 þegar það síðarnefnda varð gjaldþrota og rak þar síðan togaraútgerð og fiskvinnslu. Á þessum árum var Viðeyjarstöð einnig umskipunarhöfn Sameinaða danska gufuskipafélagsins, þar var kolageymsla fyrir dönsku varðskipin og birgðastöð og umskipunarhöfn DDPA-félagsins. Mikil vatnssala var einnig í Viðey og salt- og kolasala. Seinna fór að halla undan fæti. 1931 hætti Kárafélagið starfsemi og þorpið fór síðan alveg í eyði 1943. Vatnstankurinn á Sundabakka er núna félagsheimili Viðeyinga (aðsetur "Viðeyingafélagsins"). 1986 eignaðist Reykjavíkurborg Viðey alla með kirkjunni og Viðeyjarstofu, en sá hluti eyjarinnar var gjöf ríkisins til borgarbúa á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Fyrir átti borgin mestan hluta eyjarinnar. Náttúra Viðeyjar. Ýmsar nytjajurtir vaxa í Viðey. Þar er mikið um vallhumal og hægt að finna túnætisveppi. Víða um eyjuna vex kúmen. Skúli fógeti flutti kúmenjurtina til Viðeyjar. Skúli mun hafa sótt það austur að Hlíðarenda, en Gísli Magnússon, sýslumaður þar, einn af fyrstu íslensku náttúrufræðingunum jafnan nefndur "Vísi Gísli", mun hafa flutt plöntuna til íslands um 100 árum áður en Skúli settist að í Viðey, þ.e. um 1660. Á haustin er oft farið í ferðir út í Viðey til að tína kúmen. Útilistaverk í Viðey. Í Viðey eru nú tvö útilistaverk eftir heimsþekkta listamenn; "Áfangar" eftir Richard Serra og "Friðarsúlan" eftir Yoko Ono. "Áfangar" eftir bandaríska myndhöggvarann og mínimalistann Richard Serra er röð af súlnapörum úr stuðlabergi sem liggja umhverfis Vestureyna. Verkið var sett upp fyrir Listahátíð í Reykjavík 1992. "Friðarsúlan" er verk eftir japansk-bandarísku listakonuna Yoko Ono, sett upp til minningar um John Lennon árið 2007. Verkið er stór ljóskastari sem sendir ljóskeilu upp í loftið frá sólarlagi til miðnættis tvo mánuði að hausti, frá gamlársdegi til þrettánda og við vorjafndægur. Frá 2005 til 2007 stóð verkið "Blind Pavilion" eftir Ólaf Elíasson ofan við landstjórahúsið í Viðey. Það var lítill skáli með veggi úr hallandi mislitum glerflötum. Verkið var upphaflega framlag Danmerkur til Feneyjatvíæringsins árið 2003. Fellabær. Fellabær er þéttbýliskjarni á Fljótsdalshéraði norðan Lagarfljóts á móts við Egilsstaði. Þar bjuggu 448 manns 1. desember 2007. Landsbókavörður Íslands. Titill forstöðumanns Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns (og Landsbókasafns Íslands þar áður). Lundi. Lundi (fræðiheiti: "Fratercula arctica") er fugl af svartfuglaætt, og af ættkvísl lunda. Latneska heitið "Fratercula" merkir „smábróðir“ og vísar til litarins á fjaðraham fuglsins sem minnir á klæðnað munka, en fuglinn er líka oft kallaður „prófastur“ eða „prestur“ á íslensku. Goggur lundans er marglitur röndóttur um fengitímann. Lundar eru sjófuglar sem kafa sér til matar. Þeir verpa í stórum nýlendum í holum sem þeir grafa í jarðveginn. Lundinn er staðfugl en heldur sig úti á rúmsjó yfir veturinn. Alþingiskosningar 1963. Alþingiskosningar 1963 voru kosningar til Alþingis Íslands sem haldnar voru 9. júní 1963. Kosningaþátttaka var 91,1%. Í kosningunum hélt Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks velli með 32ja þingmanna meirihluta. 14. nóvember tók Bjarni Benediktsson við forsætisráðuneytinu af Ólafi Thors og Jóhann Hafstein tók við ráðuneytum Bjarna: dóms- og kirkjumálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Niðurstöður. Forseti Alþingis var kjörinn Birgir Finnsson, Alþýðuflokki. Póseidóníos. Póseidóníos (forngríska: Ποσειδώνιος) frá Ródos (ο Ρόδιος) eða frá Apameu" (ο Απαμεύς) (um 135 - 51 f.Kr.) var grískur heimspekingur, stóuspekingur, stjórnmálamaður, stjörnufræðingur, landafræðingur, sagnfræðingur og kennari. Hann var talinn lærðasti maður síns tíma. Ekkert verka hans er varðveitt í heild sinni. Ævi. Póseidóníos, sem fékk viðurnefnið „íþróttamaðurinn“, fæddist grískum foreldrum í rómversku borginni Apameu í norðurhluta Sýrlands, við ána Orontes. Hann lést að öllum líkindum í Róm eða á Ródos. Póseidóníos lauk æðri menntun sinni í Aþenu, þar sem hann var nemandi Panætíosar, helsta heimspekings stóíska skólans. Um árið 95 f.Kr. settist hann að á Ródos, þar sem mikil gróska var í vísindalegum rannsóknum. Stjórnmál. Á Ródos tók Póseidóníos þátt í stjórnmálum og gegndi hann ýmsum mikilvægum embættum þar. Hann varð m.a. „prýtanis“ (forseti kosinn til sex mánaða í senn) Ródos. Hann var í sendinefnd, sem fór til Rómar árið 87 - 86 f.Kr.. Líkt og margir grískir menntamenn taldi Póseidóníos að Rómaveldi gæti komið á jafnvægi í milliríkjasamskiptum. Tengsl hans við rómverska yfirstétt voru honum ekki einungis mikilvæg sem stjórnmálamanni, heldur komu þau sér einnig vel fyrir hann sem vísindamann. Þau gerðu honum m.a. kleift að ferðast í vestur yfir á yfirráðasvæði Rómverja sem hefði annars verið ómögulegt grískum ferðamanni. Ferðalög. Þegar Póseidóníos hafði komið sér fyrir á Ródos fór hann í vísindaleiðangra um Rómaveldi og jafnvel út fyrir yfirráðasvæði Rómar a.m.k. einu sinni en ef til vill oftar. Hann ferðaðist um Grikkland, Spán, Afríku, Ítalíu, Sikiley, Dalmatíu, Gallíu, Lígúríu, Norður-Afríku og um austanvert Adríahaf. Í Gallíu rannsakaði Póseidóníos Kelta. Hann skrifaði um upplifun sína af því að búa með þeim: um menn sem fengu greitt fyrir að láta skera sig á háls almenningi til skemmtunar og höfuðkúpur sem voru negldar á dyr. Hann veitti því athygli að Keltar héldu í heiðri drúída, sem Póseidóníos taldi vera heimspekinga, og ályktaði að jafnvel meðal barbara „létu stolt og ástríða undan fyrir viskunni og að Ares dáist að Menntagyðjunum“. Póseidóníos ritaði landafræðilega lýsingu á löndum Kelta, sem hefur ekki varðveist en talið er að hafi verið ein þeirra heimilda sem Tacitus studdist við er hann ritaði "Germaníu". Skóli. Póseidóníos öðlaðist virðingu og kennivald sem fræðimaður vegna ritverka sinna og fyrirlestra og hann varð frægur maður bæði í Grikklandi og í Rómaveldi. Skóli varð til í kringum hann á Ródos. Dóttursonur hans, Jason, fylgdi honum um hvert fótmál og hélt skóla Póseidóníosar gangandi á Ródos. Lítið er vitað um skipulag skólans en ljóst er að til hans streymdu nemendur jafnt grískir sem rómverskir. Varðveitt rit. Póseidóníos var þekktur úti um hinn grísk-rómverska heim sem fjölfræðingur vegna þess að hann var lærður í nær öllum greinum vísinda síns tíma, ekki ósvipað Aristótelesi og Eratosþenesi. Hann reyndi að setja fram heildstætt kerfi mannlegrar þekkingar, sem átti að útskýra og leiðbeina um mannlega hegðun. Póseidóníos skrifaði um náttúruspeki (þ.m.t. veðurfræði og landafræði), stjörnufræði, stjörnuspeki og spádóma, jarðskjálftafræði, jarðfræði og steinefnafræði, vatnafræði, grasafræði, siðfræði, rökfræði, stærðfræði, sagnfræði, mannfræði og hervísindi. Rannsóknir hans voru umfangsmiklar. Engin rita hans eru varðveitt í heild sinni. Aftur á móti hafa fundist brot úr ritum hans og auk þeirra eru þekktir titlar á bókum hans og helstu viðfangsefni þeirra. Heimspeki. Póseidóníos leit svo á að heimspekin væri æðst vísindanna og allar aðrar greinar vísinda væru undir hana settar, hún ein gæti útskýrt heiminn. Öll verk hans, allt frá náttúruvísindum til sagnfræðilegra verka, voru í eðli sínu heimspekileg. Hann féllst á hina hefðbundnu stóísku þrískiptingu heimspekinnar í náttúruspeki (þ.m.t. eðlisfræði, frumspeki og guðfræði), rökfræði (þ.m.t. þekkingarfræði) og siðfræði. Að hætti stóumanna taldi hann að þessir þrír flokkar væru óaðskiljanlegir og tengdir hver öðrum, sem einskonar náttúruleg og lífræn heild. Hann líkti þeim við lífveru, þar sem náttúruspekin var holdið, rökfræðin var stoðkerfið, sem heldur lífverunni saman, og siðfræðin – mikilvægasti hlutinn – var sálin. Hann taldi að alheimurinn væri eins tengdur, líkt og hnn væri sjálfur lífvera, með „kosmískri hluttekningu“. Þótt hann væri staðfastur stóumaður var Póseidóníos, eins og Panætíos og aðrir stóumenn hans tíma, undir áhrifum frá ýmsum öðrum heimspekistefnum. Hann fylgdi ekki aðeins eldri stóumönnum að málum, heldur einnig Platoni og Aristótelesi. Talið er að ef til vill hafi Póseidóníos samið skýringarrit við samræðuna "Tímajos" eftir Platon en það er óvíst. Hann var fyrsti stóuspekingurinn sem hvarf frá þeirri skoðun að ástríðurnar væru dómar byggðir ávillum og hélt í staðinn fram kenningu Platons um að ástríðurnar tilheyrðu mannlegu eðli. Póseidóníos kenndi að mannssálin hefði auk skynseminnar skap (reiði, valdaþrá, o.s.frv.) og löngun (þrá eftir kynlífi og mat). Siðfræðin fjallaði að hans mati um hvernig ætti að fást við ástríðurnar og gera skynsemina að stýrandi afli sálarinnar. Póseidóníos hélt fram stóísku kenningunni um alheimsskynsemina, "logos", sem varð á endanum hluti kristinnar kenningar (sbr. upphaf "Jóhannesarguðspjalls": „Í upphafi var orðið ("logos") og orðið var hjá guði og orðið var guð“). Póseidóníos hélt einnig fram stóísku kenningunni um endalok alheimsins í eldi. Náttúruspeki. Í náttúruspeki hélt Póseidóníos fram stóísku kenningunni um „kosmíska hluttekningu“, lífræn innri tengsl alls sem gerist í heiminum, milli himins og jarðar, sem væru hluti af vitrænni hönnun, sem sameinaði menn og alla hluti aðra í heiminum, jafnvel þá sem væru aðskildir í tíma og rúmi. Panætíos, kennari hans, hafði dregið í efa spádómsgáfu en Póseidóníos notaði kenninguna um kosmíska hluttekningu til að styðja trú sína á spádóma - hvort sem er með hjálp stjörnuspekinnar eða í gegnum draumspá - sem eins konar vísindalega forspá. Stjörnufræði. Nokkur brot úr ritum Póseidóníosar um stjörnufræði eru varðveitt í ritgerðeftir Kleómedes, "Um hringhreyfingu himintunglanna" en fyrsti kafli annarrar bókar virðist hafa verið meira eða minna tekinn upp úr riti eftir Póseidóníos. Póseidóníos setti fram þá kenningu að sólin gæfi frá sér lífsnauðsynlegan kraft, sem gegnsýrði heiminn. Hann gerði tilraun til þess að mæla fjarlægð og stærð sólarinnar. Um árið 90 f.Kr. komst Póseidóníos að þeirri niðurstöðu að stjarnfræðieiningin væri "a"0/"r"E = 9893, sem er alltof lítið. Niðurstöður mælinga hans á stærð sólarinnar voru hins vegar mun nákvæmari en niðurstöður annarra grískra stjörnufræðinga, m.a. Aristarkosar frá Samos, og gáfu til kynna að hún væri mun stærri en þeir höfðu ætlað. Póseidóníos reiknaði einnig út stærð og fjarlægð Tunglsins. Póseidóníos smíðaði sólkerfishermi, ef til vill ekki ósvipaðan Antikyþera klukku. Samkvæmt Cíceró sýndi sólkerfishermir Póseidóníosar daglega hreyfingu sólar, tungls og fimm annarra reikistjarna. Stærðfræði. Auk rita sinna um rúmfræði er Póseidóníosi eignaður heiðurinn af því að hafa lagt fram stærðfræðilegar skilgreiningar og fyrir að hafa fjallað um tækniheiti á borð við „setningu“ og „þraut“. Veðurfræði. Í ritum sínum um veðurfræði studdist Póseidóníos við Aristóteles. Hann setti fram kenningar um orsakir skýjamyndunar, þoku, vinds, rigningar, frosts, haglélja, eldinga og regnboga. Landafræði, þjóðháttafræði og jarðfræði. Póseidóníos hafði orðið frægur utan heimspekinnar a.m.k. á áttunda áratug 1. aldar f.Kr. í kjölfar útgáfu á verkinu "Um hafið og nálæg svæði". Þetta rit var ekki einungis almenn kynning á landafræði samkvæmt vísindalegri þekkingu þess tíma, heldur jók það einnig á vinsælar kenninga hans um innra tengslanet heimsins, með því að sýna hvernig ólík öfl verkuðu hvert á annað og hvernig innri tengsl heimsins vörðuðu einnig mannlegt líf, jafnt í stjórnmálum sem einkalífi. Í ritinu fjallaði Póseidóníos meðal annars um kenningu sína um áhrif veðurfars á skapgerð manna, sem fól í sér „landafræði kynþáttanna“. Þessi kenning var ekki einvörðungu vísindaleg, heldur hafði hún einnig pólitíska hlið -- rómverskir lesendur voru upplýstir um að veðurfræðileg áhrif staðsetningar Ítalíu væri nauðsynlegt skilyrði örlaga þeirra að ríkja yfir heiminum. Sem stóumaður gerði Póseidóníos hins vegar ekki greinarmun á siðmenntuðum Rómverjum sem herrum heimsins og „frumstæðara“ fólki. Póseidóníos mældi ummál jarðar út frá stöðu stjörnunnar Canopus. Kleómedes greinir frá því að Póseidóníos hafi stuðst við hæð Canopus á himni til að áætla muninn á legu Ródosar og Alexandríu. Vegna villu í athugunum hans komst hann að þeirri niðurstöðu að ummál jarðar væri 240.000 stadíur eða um þriðjungi minni raunverulegt ummál jarðar.. Líkt og Pýþeas taldi hann tunglið ráða sjávarföllum. Póseidóníos hafði hins vegar á röngu að standa um orsökina. Hann hélt tunglið vera blöndu af lofti og eldi og ályktaði að varmi frá tunglinu væri orsök sjávarfallanna, vegna þess að hitinn væri nægur til að valda útþenslu vatns en ekki nægur til að valda uppgufun. Hann skrifaði niður athugasemdir um jarðskjálfta og eldfjöll, þ.á m. greinargerð um eldgos á æólísku eyjunum norðan Sikileyjar. Sagnfræði og hernaðarvísindi. Í sagnfræðiritum sínum tók Póseidóníos upp þráðinn þar sem Pólýbíos hafði hætt. Hann mun hafa ritað um sögu tímabilsins frá 146 - 88 f.Kr. í 52 bindum. Þar heldur hann áfram greinargerðinni, sem Pólýbíos hóf, um ris og útþenslu Rómaveldis, sem hann virðist hafa stutt. Póseidóníos tók sér ekki til fyrirmyndar hlutlausari stíl Pólýbíosar. Hann leit svo á að atburðir, sem gerðust af mannavöldum, ættu sér sálfræðilegar skýringar; hann hafði skilning á mannlegum ástríðum og mannlegri heimsku en afsakaði þær ekki í sagnfræðilegum erkum sínum og notaði frásagnarlist sína til þess að hafa áhrif á viðhorf lesenda. Póseidóníos taldi „söguna“ ná frá jörðu til himins; mannkyn var ekki einangrað, hver þjóð með eigin stjórnmálasögu, heldur var mannkynið allt hluti af alheiminum, "kosmos". Sagnfræðileg verk hans snerust því ekki um stjórnmálasögu þjóða eða einstaklinga í einangrun, heldur fjallaði hann um öll öfl og alla þætti mannlegrar hegðunar, sem tengjast umhverfi þeirra (landafræðilega þætti, veðurfar, náttúruauðlindir, næringu). Til dæmis tók Póseidóníos til greina veðurfar í Arabíu, áhrif sólarinnar, sjávarföllin og veðurfar til að útskýra þjóðareinkenni fólks þar. Rómverski sagnaritarinn Arríanus kvartaði yfir því að rit Póseidóníosar um hernað, "Hernaðarlistin", væri samið „fyrir sérfræðinga“, sem gefur til kynna að Póseidóníos hafi ef til vill sjálfur haft reynslu af hernaði eða hafi ef til vill nýtt sér þá þekkingu sem hann hafði frá Pompeiusi, kunningja sínum. Orðspor og áhrif. Póseidóníos varð í lifanda lífi víðfrægur fyrir rit sín um nær öll helstu svið heimspekinnar um allan hinn grísk-rómverska heim og fornir höfundar vitnuðu oft í verk hans þ.á m. Cíceró, Lívíus, Plútarkos, Strabó (sem kallaði Póseidóníos „lærðasta mann meðal heimspekinga fyrr og síðar“), Kleómedes, Seneca yngri, Díódóros Sikúlos (sem studdist við verk Póseidóníosar sem heimild í ritinu "Bibliotheca historia" ("Sögulegt bókasafn") auk margra annarra. Þótt skrúðlegur og mlskufræðilegur ritstíll hans hafi fallið úr tísku skömmu eftir andlát hans var Póseidóníos lofaður hástert í lifanda lífi fyrir stíl sinn. Póseidóníos virðist hafa átt góð samskipti við yfirstéttir Rómar sem sendiherra frá Ródos. Hann átti vingott við marga stjórnmálamenn í fremstu röð seint á lýðveldistíma Rómar, þ.á m. Cíceró og Pompeius og báðir heimsóttu hann til Ródos. Cíceró sótti fyrirlestra hjá honum sem ungur maður (77 f.Kr.) og þeir skrifuðust síðar á. Í ritinu "Um endimörk góðs og ills" ("De Finibus Bonorum et Malorum") fylgir Cíceró náið eftir endursögn Póseidóníosar á siðfræði Panætíosar. Póseidóníos kynntist Pompeiusi þegar Pompeius var sendiherra Rómar á Ródos og Pompeius virðist hafa heimsótt Póseidóníos tvisvar, fyrst árið 66 f.Kr., þegar hann átti í átökum við sjóræningja, og svo aftur árið 62 f.Kr., þegar hann var í hernaði í austri og bað þá Póseidóníos um að rita ævisögu sína. Til að sýna Póseidóníosi virðingu hélt Pompeius niðri vendi sínum ("fasces") frammi fyrir dyrum Póseidóníosar. Velleius, Cotta og Lucilius aðrir Rómverjar sem sóttu Póseidóníos heim. Ptolemajos hreifst af fágun vísindalegra aðferða Póseidóníosar. Hann kaus að halda fram niðurstöðum Póseidóníosar fremur en eldri og réttari niðurstöðum Eratosþenesar, sem leiddi m.a. til þess að næstu 1500 árin var niðurstaða Póseidóníosar um ummál jarðar talin vera rétt. Póseidóníos renndi stoðum undir stóuspekina með vísindum síns tíma. Hann gerði næstmest, á eftir kennara sínum Panætíosi, til þess að breiða stóuspeki út um hinn rómverska heim, bæði í ræðu og riti. Öld síðar sagði Seneca að Póseidóníos hefði verið sá sem mest hefði haft fram að færa til heimspekinnar. Áhrif hans á heimspekina vöruðu til fram á miðaldir, líkt og sjá má af færslum í "Suda", hinu stóra alfræðiriti frá miðöldum. Eitt sinn töldu fræðimenn sig greina áhrif Póseidóníosar í skrifum nær allra höfunda, hvort sem þaðátti við rök að styjast eður ei. Í dag virðist Póseidóníos vera viðurkenndur sem afar fjölhæfur heimspekingur og vísindamaður, ekki að öllu leyti frumlegur hugsuður en hann hafði ákveðna breidd, sem í samræmi við stóísku kenninguna sem hann hélt fram, tengdi alla hluti og orsakir þeirra og alla þekkingu í eina heild. Póseidóníos gýgurinn á tunglinu er nefndur eftir honum. Kabúl. Kabúl er höfuðborg Afganistan. Íbúafjöldi er talinn vera 2.206.300 samkvæmt tölum frá árinu 2003. Borgin er í 1.800 metra hæð yfir sjó, og er hægt að ferðast frá henni til Tadsjikistan í veggöngum. Lagarfljót. Lagarfljót er jökulá sem fellur um Fljótsdalshérað. Frá upptökum þess undan Eyjabakkajökli og niður í Fljótsdal nefnist fljótið Jökulsá í Fljótsdal en þar tekur við stöðuvatnið Lögurinn. Vatnið er 35 km langt og telst þriðja stærsta stöðuvatn á Íslandi og dýpi þess er allt að 112 metrar. Ósar Lagarfljóts eru við Héraðsflóa og hefur fljótið þá fallið um 140 km langa leið frá upptökum sínum. Lagarfljót er sjötta lengsta á Íslands. Helstu þverár Lagarfljóts eru Kelduá, Grímsá og Eyvindará. Samkvæmt þjóðsögum lifir vatnaskrímslið Lagarfljótsormurinn í fljótinu. Við Lagarfljót standa til dæmis Egilsstaðir, Fellabær, Hallormsstaður og Eiðar. Hringvegurinn liggur yfir Lagarfljót við Egilsstaði um 301 metra langa brú sem var sú lengsta á Íslandi þegar hún var byggð. Fljótið er stíflað á tveimur stöðum til raforkuframleiðslu. Fyrst neðan Eyjabakkafoss með 38 metra hárri stíflu sem nefnist Ufsarstífla og er hluti Kárahnjúkavirkjunar og einnig neðar við Lagarfossvirkjun. Með Kárahnjúkavirkjun var rennsli Jökulsár á Brú einnig að mestu veitt yfir í Jökulsá í Fljótsdal sem hefur haft mikil áhrif á rennsli, grugg og hitastig í Lagarfljóti. Ljótipollur. Ljótipollur er sprengigígur á Landmannaafrétti. Sunnan hans er Frostastaðavatn. Ljótipollur er syðsti gígurinn í Veiðivatna-goskerfinu. Ljótipollur er fagurrauður með háa gígbarma og vatni í botninum. Vatnið er mjög djúpt. Í vatninu er nokkur veiði þó svo það sé að- og frárennslislaust og veiðist einungis urriði sem getur oft orðið nokkur pund. Löngufjörur. Löngufjörur kallast skeljasandsfjörur og leirur úti fyrir Eyja- og Miklaholtshreppi. Ná þær frá Hítarnesi vestur að Búðum á Snæfellsnesi. Löngufjörur eru vinsæll staður fyrir hestamenn að ferðast um því hægt er að þeysa um fjörurnar. Öruggara er fyrir ókunnuga að njóta leiðsagnar kunnugra, því að sæta þarf sjávarföllum og fylgjast vel með gangi flóðs og fjöru. Knarrarósviti. Knarrarósviti er 26 metra hár viti sem stendur við Knarrarós austan við Stokkseyri. Vitinn stendur á landi Baugsstaða og er svæðið kallað kampur. Vitinn er skýrður eftir ós sem er fyrir framan hann sem kallaður er Knarrarós.Hann var byggður árið 1939. Pjaxi. Pjaxi er gróðursæll hvammur í Hvítárgljúfri, nokkuð fyrir neðan Gullfoss. Einstigi er niður í hvamminn, en hann er vestan árinnar. Nafnið er talið komið af latneska orðinu "pax" sem merkir friður. Lílongve. Kort sem sýnir staðsetningu Lílongve innan Malaví Lílongve (enska: "Lilongwe") er höfuðborg Malaví. Borgin er í suð-vesturhluta landsins, vestan við Malaví-á. Árið 2003 voru íbúar borgarinnar 440.500 talsins, sem gerir hana aðra stærstu borg landsins, eftir Blantyre. Saga. Þorpið Lílongve byggðist upp á bökkum Malaví-ár og varð síðar miðja stjórnsýslu landsins á fyrri hluta 20. aldar, á þeim tíma sem landið var bresk nýlenda. Þjóðbrautir milli norður- og suður-hluta landsins fara um Lílongve og einnig vegurinn til Sambíu. Hún er því nokkuð vel staðsett með tilliti til samgangna. Árið 1975 fékk borgin formlega stjórnsýsluumráð landsins, en áður hafði borgin Zomba haft þau. Pommern. Pommern (pólska: "Pomorze"; þýska: "Pommern", "Pommerellen"; kassúbíska: "Pòmòrze", "Pòmòrskô"; latína: "Pomerania", "Pomorania") er hérað við suðurströnd Eystrasaltsins sem skiptist milli Þýskalands og Póllands um fljótið Oder og nær frá ánni Vislu í austri að Recknitz í vestri. Póllandsmegin skiptist Pommern í þrjú fylki ("województwo"): Zachodniopomorskie (Vestur-Pommern), Pomorskie (Pommern) og Kujawsko-Pomorskie (Kujavíska Pommern). Þýskalandsmegin er Pommern hluti af sambandslandinu ("Bundesland") Mecklenburg-Vorpommern. Bingu wa Mutharika. Bingu wa Mutharika (fæddur 24. febrúar 1934 - 5. april 2012) var malavískur stjórnmálamaður, hagfræðingur og forseti Malaví þegar hann dó. Hann tók við embætti 24. maí 2004 af Bakili Muluzi. Mutharika fæddist í Thyolo sem Ryson Webster Thom en á 7. áratug síðustu aldar breytti hann nafni sínu í Bingu Mutharika. Seinna bætti hann millinafninu wa inn í nafnið til að leyna sig Hastings Kamuzu Banda sem leitaði með logandi ljósi um allan heim eftir andstæðingum sínum. Faðir Mutharika var kaþólskur grunnskólakennari heima í Thyolo og nam Bingu hjá föður sínum, en seinna meir fór hann til Indlands til að nema hagfræði við Háskólann í Delí. Hann hlaut síðan Ph.D–gráðu í hagfræði frá Pacific Western University í Los Angeles. Hann starfaði við ríkisstjórn bæði Sambíu og Malaví eftir að hafa gegnt herskyldu í malavíska hernum. Hann komst á þing Sameinuðu þjóðanna árið 1978 og gegndi meðal annars embætti forstjóra viðskipta- og fjárveitinga-deildar Afríku. Tónkvíslin. "Tónkvíslin" er söngkeppni sem Nemendafélag Framhaldsskólans á Laugum heldur og kepptu áður 5 grunnskólar úr næsta nágrenni með en nú hefur þeim fjölgað og í dag keppa 9 grunnskólar auk Framhaldsskólans á Laugum í tvískiptri keppni. Í keppninni er annars vegar valið framlag framhaldsskólans fyrir Söngkeppni framhaldsskólanema og hinsvegar er valið besta atriðið úr grunnskólunum. Keppnin er haldin í íþróttahúsinu við tjörnina á Laugum í Reykjadal. Grunnskólarnir sem taka þátt í keppninni eru Litlulaugaskóli á Laugum, Stórutjarnaskóli í Ljósavatnsskarði, Borgarhólsskóli á Húsavík, Hafralækjarskóli í Aðaldal, Reykjahlíðarskóli í Mývatnssveit, Grunnskóli Raufarhafnar, Grunnskóli Þórshafnar, Grunnskóli Kópaskers og Vopnafjarðarskóli. 2008. Tónkvíslin 2008 var haldin 17. febrúar. Alls tóku 28 keppendur þátt í 17 atriðum, 7 atriði komu úr grunnskólunum og 10 atriði úr Framhaldsskólanum. 2007. Tónkvíslin 2007 fór fram 18. mars og alls tóku 18 atriði þátt í keppninni. 7 úr grunnskólunum en 11 úr Framhaldsskólanum á Laugum. Kynnar keppninnar voru Jónas Stefánsson og Elín Frímannsdóttir. Dómnefnd skipuðu Pétur Ingólfsson, Stefán Jakobsson og Ína Valgerður Pétursdóttir 2006. Tónkvíslin 2006 fór fram 6. mars og alls tóku 20 atriði þátt í keppninni 2006. 11 úr grunnskólunum en 9 úr Framhaldsskólanum á Laugum. Kynnar keppninnar voru Guðmundur Rúnar Ingvarsson og Jóhann Gunnar Kristjánsson. Dómnefnd skipuðu Guðni Bragason, Guðmundur Jónsson og Erna Þórarinsdóttir. 1481. Spænski rannsóknarrétturinn lét brenna fjölda trúskiptinga á báli. 1448. a>, ríkisstjóri og síðar konungur Svíþjóðar. 1483. a> og Ríkharður bróðir hans bíða örlaga sinna í Lundúnaturni. Falklandseyjastríðið. Falklandseyjastríðið voru vopnuð átök milli Breta og Argentínumanna um yfirráð yfir Falklandseyjum og Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyjum í Suður-Atlantshafinu á vormánuðum 1982. Deilur um yfirráð yfir eyjunum höfðu staðið lengi og herforingjastjórnin í Argentínu hugsaði sér að draga athygli almennings frá bágu efnahagsástandi og mannréttindabrotum með því að leggja eyjarnar undir sig með skjótum hætti og nýta sér þannig þjóðernishyggju til að þjappa þjóðinni saman við bakið á stjórninni. Argentínumenn töldu sig eiga stuðning annarra ríkja vísan, einkum Bandaríkjamanna. Stríðið hófst með innrás hers Argentínumanna á eyjunni Suður-Georgíu 19. mars 1982 og hernámi Falklandseyja og lauk með uppgjöf Argentínu 14. júní 1982. Hvorugur aðili gaf út formlega stríðsyfirlýsingu. Argentínumenn litu á aðgerðir sínar sem endurtöku eigin lands og Bretar litu á þetta sem innrás á breskt yfirráðasvæði. Styrjöldin hafði víðtæk áhrif í löndunum tveimur. Í Argentínu jók það enn á vandræði herforingjastjórnarinnar og flýtti fyrir falli hennar, og í Bretlandi átti það þátt í að styrkja stjórn Thatchers. Stríðið er eina dæmið um nútímasjóhernað eftir Síðari heimsstyrjöldina. Aðdragandi. Kaflaskil urðu í samskiptum Breta og Argentínumanna varðandi eyjarnar þegar yfirmaður argentínska hersins, Leopoldo Galtieri hershöfðingi, steypti ríkjandi herforingjastjórn af stóli í desember 1981. Vegna slæms þjóðfélagsástands og óróa ætlaði Galtieri að reyna að sameina þjóðina um einn hjartfólgnasta málstað hennar; endurheimt "Las Malvinas". Galtieri taldi ýmis teikn á lofti um að innrás á komandi mánuðum væri hagkvæm. Mikilvægastur var stuðningur Bandaríkjanna sem Galtieri taldi ótvíræðan. Argentínumenn gáfu tilefni til að ætla að innrás væri yfirvofandi með ýmsum leiðum og litu á skort á viðbrögðum frá Bretum sem merki um að þeir myndu ekki reyna að verja eyjarnar með valdi, enda gerðu þeir sér grein fyrir að argentínski herinn stæðist ekki hernaðarmátt Breta ef þeir kysu að beita honum. Innrásin á Suður-Georgíu. 19. mars kom hópur argentínskra borgara upp búðum á Suður-Georgíu og dró argentínska fánann að húni. Breski landstjórinn óskaði eftir því við þá að þeir létu stimpla vegabréf sín, en þeir neituðu þar sem það hefði þýtt viðurkenningu á yfirráðum Breta yfir eyjunni. 25. mars komu svo argentínskir sérsveitarmenn til eyjarinnar með herskipinu "Bahía Paraiso" og brátt bættist freigátan "Guerrico" við. Saman gerðu skipin árás á flokksdeild frá breska hernum sem fyrir var á eynni 3. apríl. Orrustan stóð í tvær klukkustundir og lauk með sigri Argentínumanna sem misstu nokkra menn. Einn breskur hermaður særðist. Breskir borgarar og hermenn í Grytviken voru síðan fluttir burt frá eynni. Innrásin á Falklandseyjar. Argentínski flotinn hafði verið að undirbúa innrás á Falklandseyjar í marga mánuði, enda var yfirmaður flotans, Anya flotaforingi harður stuðningsmaður aðgerðarinnar. Innrásartíminn var samt óheppilegur, því frá apríl til júlí er vetur á suðurhvelinu. Innrás í apríl myndi tákna sjóhernað við verstu aðstæður. Á móti kæmi að Bretar þyrftu að berjast í sama veðri 8000 mílur frá heimalandi sínu. Sjálf innrásinn hófst morguninn 2. apríl 1982. Á eyjunum var fyrir lítill hópur breskra landgönguliða og í stað þess að gefast upp gegn innrásarliðinu var gefin skipun um að verja landhöfðingabústaðinn, auk þess að gera innrásarliðinu erfitt fyrir. Þrátt fyrir hetjulega vörn skipaði landstjóri Breta á eyjunum, Rex Hunt, liðinu að gefast upp 4. apríl. Bresku hermennirnir voru handsamaðir og sendir heim til Bretlands í gegnum Úrúgvæ. Viðbrögð SÞ. Hertaka Falklandseyja og Suður-Georgíu kom eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir almenning í Bretlandi. Raddir um ábyrgð og afsagnir gerðust háværari með hverjum deginum sem leið. Einna hörðust var gagnrýnin á utanríkisráðherrann, Carrington lávarð sem sagði af sér stuttu síðar. Bandaríkjunum var mikið í mun að halda friðinn milli þessara tveggja bandamanna sinna. Argentína var mikilvægur hlekkur í stefnu Bandaríkjanna að koma í veg fyrir að kommúnistar næðu völdum í Suður-Ameríku og Bretar voru helstu bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu. 2. apríl hafði sendiherra Breta hjá Sameinuðu þjóðunum, Sir Alan Parson, tekist að fá samþykkta í öryggisráðinu ályktun 502, sem fór fram á að Argentínumenn drægju herlið sitt burt frá eyjunum. Til þess að fá ályktunina samþykkta þurfti minnst 2/3 atkvæða sem gat reynst erfitt. Frakkar beittu stjórn Tógó þrýstingi. Fulltrúar Jórdaníu höfðu ákveðið að greiða atkvæði gegn Bretum, en það breyttist þegar Margaret Thatcher hringdi í Hussein Jórdaníukonung sem skipaði fulltrúum sínum að styðja Breta. Meira að segja tilraunir Argentínumanna til að fá Rússa til að beita neitunarvaldi sínu fóru út um þúfur og þeir sátu hjá. Ályktun öryggisráðsins var mikið áfall fyrir Argentínumenn. Meðal ráðamanna í Washington voru skiptar skoðanir um deiluna. Sumir aðstoðarmenn forsetans töldu deilur um jafn fámennan eyjaklasa og Falklandseyjar vera of lítilvægilegt mál til að stofna sambandi við vinaþjóð í Suður-Ameríku í hættu. Aðrir bentu á að Atlantshafsbandalagið væri enn mikilvægara og svo var Reaganstjórninni mjög í mun að hafa góð tengsl við stjórn Thatchers. Bretar vígbúast. Á sama tíma fyrirskipaði Margaret Thatcher breska hernum að vígbúast með það að markmiði að endurheimta eyjarnar. Á eyjunum settust nú að um 10.000 argentínskir hermenn. Argentínski herinn byggði skipulag sitt á bandaríska kerfinu líkt og er algengt í Suður Ameríku og víðar, með megináherslu á vopnabúnað í stað menntunar og þjálfunar hermanna. Þannig voru Argentínumenn töluvert betur búnir er Bretar. Aðalriffill þeirra var sá sami og Breta, þ.e. belgíski FAL-riffilinn, en munurinn var sá að argentínska útgáfan var sjálfvirk og gat þar með haldið uppi töluvert meiri skothraða en bresku rifflarnir. Nánast allur búnaður Argentínumanna, frá stígvélum upp í sprengjuvörpur, var betri. Algengt var að bresku hermennirnir stælu stígvélunum af látnum andstæðingum sínum enda héldu þau betur vatni. Á móti kom að í argentínska hernum voru tvítugir lítt þjálfaðir drengir sem komu úr loftstlagi og landslagi gerólíku því sem var á Falklandseyjunum og áttu nú að verja eyjarnar fyrir einum stærsta og best þjálfaða her í heimi. Fyrst þurftu Bretar að koma liði sínu suður. Þeir þurftu síðan að sigra stærsta flota Suður-Ameríku og flugher sem réði yfir 200 flugvélum. Einn bresku yfirmannanna orðaði það þannig að þetta yrði engin lautarferð. Mikilvægur hlekkur í aðgerðinni var Ascension-eyja, lítil eyja í miðju Atlantshafinu. Það sem gerði notkun eyjarinnar mögulega var tilvera Wideawake-flugvallar sem á einni nóttu breyttist úr því að vera rólegasti flugvöllur heims í það að vera einn sá fjölfarnasti. Flugflutningadeild Konunglega breska flughersins myndaði strax loftbrú á milli eyjunnar og höfuðstöðva þeirra í Oxfordskíri. Opinberlega höfðu bandarísk yfirvöld á eyjunni ekki leyfi til að aðstoða Bretana en í reynd fluttu bandarískar flugvélar mikið af matvælum fyrir Breta. Flotadeildir Breta og Argentínumanna. 4. apríl gaf Thatcher út formlega skipun þess efnis að flotinn skyldi leggja í haf út innan 48 klukkustunda frá innrásinni. Meðal stjórnmálamanna var almenn trú á að fælingarmáttur breska hersins myndi nægja til að ljúka deilunni án átaka. Fjöldinn allur af skipum úr kaupskipaflotanum var tekinn með valdi í þjónustu flota hennar hátignar. Þessi misliti hópur samanstóð m.a. af flutningaskipum, olíubirgðaskipum og ferjum. Stærst þeirra var skemmtiferðaskipið SS Canberra. Vitneskja breska flotans um þann argentínska var bundin við uppflettiritið "Jane's fighting ships". Argentínski flotinn var stærsti floti Suður-Ameríku árið 1982. Hann var þó töluvert smærri en sá breski. Mest munaði um flugmóðurskipið "ARA Veinticinco de Mayo" ("25. maí"), sem Bretar höfðu reyndar smíðað í lok seinni heimstyrjaldar. Fullklárað sem "HMS Venerable" var það selt til Hollands og nefndist þá "Karel Voorman". Hollendingar seldu argentínska flotanum skipið árið 1968 og höfðu Argentínumenn gert ýmsar umbætur á því. Aðalvopn skipsins voru átta bandarískar Skyhawk-sprengjuvélar og hinar fullkomnu frönsku Super Etendards-þotur búnar hinu skæða Exocet AM.39 skeytum. Exocet var franskt flugskeyti hannað til að granda skipum. Orrustuvélarnar slepptu skeytinu á nokkru færi og um leið tók ratsjá í nefi þess við og stýrði skeytinu í höfn. Önnur flotadeild var mynduð í kringum aldursforsetann beitiskipið "ARA General Belgrano". "Belgrano" var smíðað árið 1938 af bandaríska flotanum og nefndist þá USS Phoenix. Það var eitt fárra skipa sem slapp óskaddað úr árás Japana á Perluhöfn í desember 1941. Phoenix var selt argentínska flotanum árið 1951. Árið 1982 hafði skipið verið búið Exocet MM.40 flugskeytum sem er stærri útgáfa af Exocet AM.39. Í fylgd beitiskipsins voru tveir aldnir fyrrum bandarískir tundurspillar smíðaðir í seinni heimstyrjöldinni, ARA "Hipolito Bouchard" og "ARA Piedra Bueno", sem báðir voru búnir Exocet skeytum. Belgranodeildin var að vissu leyti skipuð úreltum skipum en var engu að síður gríðaleg ógn fyrir breska flotann. Endurheimt Suður-Georgíu. Bretar hófu aðgerðir til að endurheimta Suður-Georgíu með því að senda sérsveitarmenn 21. apríl. Aðgerðirnar fóru illa af stað vegna vonds veðurs. Hópur SAS sérsveitamanna varð næstum úti á jökli einum. Þrjár þyrlur voru sendar til að koma þeim ofan af jöklinum en svo illa fór að tvær þeirra brotlentu. Þriðju þyrlunni tókst loks að koma mönnunum heilum á húfi til skips. Engin slys urðu á fólki. Bresku herskipunum sem störfuðu undan Suður-Georgíu stafaði mikil hætta af argentínska kafbátnum "Santa Fe". Raunar hafði báturinn haft ísrannsóknarskipið "HMS Endurance" í sigtinu litlu áður, en skipherrann, Horatio Bicain, þekkti einn yfirmanna skipsins og hlífði því. Tilangur fararinnar var að setja um 100 landgönguliða á land í Leith. Kafbátarleitarþyrlan Wessex III frá tundurspillinum "HMS Antrim" var á eftirlitsflugi þegar hún varð "Santa Fe" vör ofansjávar. Þyrlan gerði árás með djúpsprengjum sem ollu aðeins minni háttar skemmdum. Stuttu seinna gerðu tvær Wasp-þyrlur frá "HMS Endurance" og Lynx-þyrlan frá "HMS Brilliant" aðra árás. Eitt úrelt AS.11-flugskeyti annarrar Wasp-þyrlunar fór í gegnum útsýnisturninn á "Santa Fe" án þess að springa. Einn bátsverja varð þó fyrir skeytinu og missti annan fótinn. Tundurskeyti frá Lynx tókst heldur ekki að granda kafbátnum. Skeytið, sem eltir hljóð frá skotmarkinu, fann ekki bátinn, enda var hann ofansjávar. Auk þessa létu þyrlurnar vélbyssukúlum rigna yfir bátinn. Breska herliðinu var flogið í tveim ferðum í land við Brown-fjall þaðan sem áætlað var að ráðast á argentínska setuliðið. Bretum til mikillar undrunar gáfust Argentínumennirnir upp þremur tímum síðar án þess að hleypa af skoti. Yfirmaður setuliðsins í Leith, Lagos að nafni, var eftir stríðið leiddur fyrir herrétt og sakaður um að hafa brotið þá meginreglu argentínska hersins að yfirmaður mætti ekki gefast upp fyrr en hann hefði hleypt af síðasta skoti sínu og að minnsta kosti tveir þriðju manna hans væru fallnir. Niðurstaða réttarins er ekki kunn. Degi síðar gafst Astiz yfirliðþjálfi upp ásamt fjórtán manna liði sínu í Leith. Alls var 151 Argentínumaður handtekinn. Upphaf átaka. Þann 30. apríl lýsti breska herstjórnin því yfir að Falklandseyjar væru algert bannsvæði. Þar með var öll umferð skipa og flugvéla, argentínskra og annarra, bönnuð. Undir lok mánaðarins reyndi á taugar bresku skipsáhafnanna og yfirmanns breska flotans, Woodwards flotaforingja. Argentínsk Boeing farþegaflugvél flaug ítrekað yfir flotanum og gat þar með gefið yfirmönnum argentínska hersins greinargóðar upplýsingar um staðsetningu bresku skipanna. Sea Harrier þotur voru jafnan sendar upp til að bægja vélinni frá. Woodward leitaði til yfirmanna sinna í Northwood og fékk að lokum leyfi til að skjóta vélina niður. Óboðni gesturinn hafði heimsótt flotann í þrjá daga í röð. En á fjórða degi ætlaði Woodward að skjóta hana niður með Sea Dart flugskeyti. Hefði hann gert það hefði hernaðaleiðangri Breta líklega lokið þar, því rétt áður en Woodward heimilaði skotið kom í ljós að um brasilíska farþegaflugvél var að ræða. Argentínska vélin lét ekki sjá sig oftar. Bretar hefja aðgerðir. Hin eiginlega hernaðaraðgerð gegn Falklandseyjum hófst aðfaranótt 1. maí. Stríðið hófst með lengsta flugi konunglega breska flughersins í allri sögu hans. Aðgerðin var nefnd „Black buck“ og fól í sér maraþonflug tveggja aldraðra Vulcan-sprengjuflugvéla alla leið frá Ascension til Falklandseyja (um 3.750 mílur) til þess að varpa sprengjum á Stanleyflugvöll. Þessi leiðangur útheimti þátttöku fimmtán Victor-eldsneytisflugvéla og eldsneytis að andvirði um tveggja milljóna punda. Deilt hefur verið um árangurinn af leiðangrinum. Til dæmis þurfti önnur Vulcan-þotan að snúa við tiltölulega snemma þar sem gluggi í stjórnklefanum vildi ekki lokast. Hin ótrúlega flókna eldsneytisáætlun stóðst glæsilega þrátt fyrir að ókyrrð í lofti ylli nokkrum skemmdum á eldsneytisbúnaði. Mestu vonbrigði leiðangursins voru samt þau að af 21 sprengju sem var varpað hitti aðeins ein sjálfa flugbrautina. Þrátt fyrir allt var tilgangi árásinar náð, þ.e. að hindra hraðskreiðar flugvélar argentínska flughersins í að athafna sig á vellinum. Fyrstu flugorrusturnar. Þennan sama dag mættust flugvélar þjóðanna í fyrstu flugorrustum stríðsins. Þrjár argentínskar Mirage-flugvélar freistuðu þess að skjóta niður tvær Harrier-þotur sem voru á eftirlitsflugi austur af eyjunum. Mirage-þoturnar, sem voru töluvert hraðfleygari, skorti mjög flugþol og þegar þær urðu varar við Harrier-þoturnar sneru þær við. Bresku flugmönnunum tókst að koma andstæðingum sínum gjörsamlega í opna skjöldu og skutu eina Mirage-þotuna niður. Önnur argentínsk vél varð hins vegar fyrir því óláni að vera skotin niður af loftvarnasveitum argentínska setuliðsins. Fyrstu loftorrusturnar höfðu sýnt yfirburði bresku Harrier-þotanna og sérstaklega bresku flugmannanna. Bandaríska Sidewinder AIM-9L flugskeytið sem var aðalvopn Harrier-þotanna hafði sannað yfirburði sína yfir franska Matra-flugskeytinu sem Argentínumenn notuðu. Aðalmunurinn fólst í því að Sidewinder-skeytið leitaði uppi hitaútblástur skotmarksins meðan Matra notaðist við ratsjábylgjur. Síðarnefnda aðferðin var á þessum tíma orðin úrelt vegna ratsjárbylgjunema sem er að finna á nútíma orrustuþotum sem gerði þeim kleift að forðast skeytin. "Belgrano" sökkt. Á meðan argentínski flugherinn átti á brattan að sækja gegn flugmönnum konunglega flotans, freistaði Allara flotaforingi um borð í "ARA 25 Mayo" að ráðast á breska flotann þann 2. maí. Floti Allara, sem var staddur um 300 mílum norðvestur af þeim breska, var á góðri leið með að koma Woodward og flota hans í opna skjöldu, ef ekki hefði komið til njósnaflug Ians Mortimers lautinants sem af algjörri tilviljun fann flotann. Fyrirhuguð árás Skyhawk-sprengjuflugvélanna um borð í argentínska flugmóðurskipinu fór út um þúfur sökum skorts á vindi, en það er afar sjaldgæft í Suður Atlantshafinu. Fyrir sunnan eyjuna var kafbáturinn "HMS Conqueror" hins vegar búinn að finna beitiskipið "ARA General Belgrano". Woodward hafði því góðar upplýsingar um staðsetningu þess. Woodward taldi argentínska flotann vera að leiða sig í gildru. Engar sannanir hafa fundist um hvort Belgrano hafi átt að taka þátt í árás Allara. Woodward taldi nú ofar öllu að sökkva Belgrano en þar sem Belgrano var fyrir utan bannsvæðið var ljóst að það gæti litið illa út fyrir Breta að sökkva jafn stóru skipi á jafn viðkvæmum tíma. Woodward varð þó ekki hnikað. Eftir mikið þras meðal ráðamanna í Northwood fékkst leyfið frá forsætisráðherranum. Skilaboð voru tafarlaust send til kafbátsins en vegna bilunar komust þau ekki til skila fyrr en eftir nokkra töf. Svo virðist sem hvorki Belgrano né fylgdartundurspillarnir tveir hafi haft kveikt á hljóðsjám sínum og því verið einskis varir um ferðir breska kafbátsins. Skipherra "HMS Conqueror" hafði val um tvær tegundir af tundurskeytum. Annars vegar skeyti sem hannað var fyrir seinni heimstyrjöld eða nýtt fullkomið tundurskeyti. Eldra skeytið var skammdrægara en hafði stærri sprengjuhleðslu sem var talinn eiga meiri líkur á að rjúfa brynvörn argentínska beitiskipsins. Belgrano varð fyrir tveim tundurskeytum sem rufu göt á síðu skipsins. Svo virðist sem vatnsheld skilrúm skipsins hafi ekki verið lokuð. Belgarano hafði verið eitt af fáum skipum Bandaríkjanna til að sleppa óskaddað frá árás Japana á Perluhöfn 1941 en var nú skráð í sögubækurnar sem fyrsta skipið til að vera sökkt af kafbáti frá lokum seinni heimstyrjaldar. "Conqueror" hraðaði sér af vettvangi. Tundurspillarnir reyndu í örvæntingu sinni að granda kafbátnum með djúpsprengjum en án árangurs. Af áhöfn skipsins, um 1042 mönnum, létust 368. Hár aldur skipsins og léleg þjálfun og röng viðbrögð áhafna tundurspillanna áttu sinn hlut í mannfallinu. Viðbrögð við árásinni. Viðbrögð heimsins létu ekki á sér standa. Ríki Suður-Ameríku voru sérstaklega harðorð gagnvart Bretum og stuðningur meðal Frakka, Spánverja og Ítala fór þverrandi. Eftir á að hyggja var þetta ef til vill mikilvægasti hernaðarsigur Breta í stríðinu eða eins og yfirmaður flotans í London, Fieldhouse flotaforingi, orðaði það síðar: „Við skárum hjartað úr argentínska flotanum“. Tveimur dögum síðar svöruðu Argentínumenn fyrir sig útséð varð um frekari friðarviðræður. "HMS Sheffield" sökkt. Árdegis 4. maí höfðu Augusto Bedacarratz yfirlautinant og Armando Mayora liðþjálfi lagt af stað frá bækistöð sinni á Eldlandi á Super Etendards-þotum sínum. Klukkan 08:15 hafði argentínsk Neptune-könnunarflugvél greint ratsjásendingar sem taldar voru frá breska flotanum. Tilgangur leiðangurs þeirra var að granda öðru eða báðum bresku flugmóðurskipunum með nýjum Exocet AM.39 flugskeytunum. Flugmóðurskipin voru eðlilega það mikilvægasta sem Woodward hafði á að skipa. Öryggi þeirra var því fyrir mestu og því var lögð áhersla á að halda þeim jafnan í hæfilegri fjarlægð frá fluggeisla argentínskra flugvéla. Í kringum þau myndaði svo flotinn fimm laga varnarmúr. Harrier-þoturnar og flugskeyti mynduðu aðalvörnina en birgðaskip voru einnig vísvitandi látin umkringja skipin til þess að villa um fyrir Exocetflugskeytinu. Um kl 11:00 skutu þeir Bedacarratz og Mayora flugskeytum sínum og sneru við. Ratsjámerkið sem Neptune vélin hafði greint reyndust ekki vera flugmóðurskipin heldur tundurspillarnir "Glasgow", "Coventry" og "Sheffield", sem voru notaðir sem viðvörunarkerfi fyrir flotann. "Glasgow" greindi ratsjámerki annarrar Super Etendards vélarinnar og sendi á loft tálbeitu (litlar álflyksur sem tæla ratsjá flugskeyta) og sneri jafnframt stefninu í átt að ógninni (til að mynda sem minnst ratsjárendurvarp). Nokkuð hafði borið á fölskum viðvörunum um morguninn og dagana áður, svo yfirmaður samræmdra loftvarna um borð í "Invincible" hafði fyrirvara á viðvörunum "Glasgow". En á meðan stefndu Exocetskeytin í átt að "Sheffield". Syðst (og næst flugskeytunum) í varnarlínunni var eitt reyndasta herskip Breta í loftvörnum á þessum tíma. Nokkrum vikum áður hafði áhöfn "Sheffield", undir stjórn hins reynda Sam Salts kafteins, sýnt glæsilega frammistöðu í loftvarnaræfingum. Menn hafa deilt um hvað raunverulega gerðist. Ein skýringin, og ef til vill sú mikilvægasta, er að á sama tíma var skipið að senda reglubundin skilboð í gegnum gervihnattabúnaðinn SCOT. Við það að SCOT búnaðurinn var í gangi gat komið í veg fyrir að ratsjár skipsins greindu ratsjárbylgjur Super Etendard vélarinnar og Exocetskeytins. Önnur skýring sem án efa hefur átt sinn þátt í atburðarásinni var að hvorki skipherrann né tveir sérhæfðir vopnaforingjar (PWO Principle Weapons Officer) voru staðsettir í aðgerðamiðstöðinni á þessum tíma. Það telst í sjálfu sér ekki vítavert en svo virðist hins vegar að gleymst hafi að setja einhvern til ábyrgðar. Annað flugskeytið hitti Sheffield um mitt skipið nokkru fyrir ofan sjólínu og braust djúpt inn í skipið. Menn eru ekki sammála um hvort skeytið hafi í raun sprungið, en óbrunnið eldsneyti flugskeytisins gerði engu að síður mikinn skaða og fyllti skipið á örskammri stundu af kolsvörtum eitruðum reyk. Sheffield átti ekki á hættu á að sökkva, en þar sem það var rafmagnslaust gat það ekki varið sig. Um kl. 17 ákvað Salt skipherra að skipa áhöfninni að hörfa frá borði. Alls létust 20 sjóliðar og aðrir 24 særðust í árásinni. Af þessu lærðu Bretar hversu mikilvægt var að hafa sérhæfðar viðvörunarflugvélar tiltækar. Síðustu slíku vélarnar sem konunglegi flotinn notaðist við, Fairey Gannet, höfðu horfið úr notkun með síðasta stóra flugmóðurskipinu "HMS Ark Royal" nokkrum árum áður. "Sheffield" og systurskip þess höfðu verið að veita slíka þjónustu. Mikilvægi slíkra véla kemur aðallega til vegna lögunar jarðar sem veldur því að meira að segja langdrægustu ratsjárkerfi heims mynda svarta bletti. Í kjölfarið var nokkrum Sea King-þyrlum breytt og þær teknar í notkun undir lok stríðsins. Einnig lærðist þeim að framvegis yrði að taka viðvaranir alvarlega. Raunar töldu menn fyrst að um tundurskeytaárás hefði verið að ræða og eyddu miklum tíma í að hafa upp á ímynduðum kafbátum um allt Atlantshafið. "HMS Sheffield" sökk sex dögum síðar og er nú friðlýst stríðsgröf þeirra 19 sjóliða sem þar liggja. Árás á "HMS Glasgow" og "HMS Brilliant". 12. maí sendi Woodward "HMS Glasgow" og "HMS Brilliant" norður fyrir Austur-Falklandseyjar. Viðbrögð Argentínumanna létu ekki á sér standa. Átta Skyhawk-þotur voru sendar til að gera árás á skipin. Sea Harrier-þoturnar voru í miðjum vaktaskiptum og upp úr hádegi birtist fyrri flugvélasveitin á ratsjám "Brilliant". "Glasgow" brást til varnar og reyndi að skjóta skotmörkin niður með Sea Dart flugskeytum. En flaugarnar vildu ekki fara á loft þar sem salt hafði gert skotpallinn óvirkan. Á "Brilliant" hröðuðu menn sér að gera Sea Wolf kerfið tiltækt. Kerfinu var hér í fyrsta sinn beitt í stríði. Tvær Skyhawkvélar voru skotnar niður og sú þriðja beygði frá brennandi flökum hinna tveggja. Fjórða þotan náði að varpa einni sprengju, en hún missti marks. Eftir að hafa varpað sprengjunni á "Glasgow" villtist hún inn á bannsvæði argentískra flugvarnaliða og var skotin niður. Innan fimm mínútna birtist seinni sveitin. Að þessu sinni tók Sea Dart-kerfi "Glasgow" við sér og hafði uppi á skotmörkunum, en þá kom upp dularfull bilun í skotpalli skipsins og "Brilliant" þurfti að taka við að nýju. Að þessu sinni brást Sea Wolf-kerfið og flugvélarnar gátu varpað sprengjum á "Glasgow" óáreittar. Aðeins ein sprengja hæfði skipið og fór inn í það öðrum megin og út hinum megin án þess að springa. Einu skemmdirnar voru rofnir rafmagnskaplar og vatnsleki sem varð þó til þess að "Glasgow" þurfti að fara heim fyrst allra skipanna í flotanum. Herinn sendur á vettvang. 25. maí hafði breska ríkistjórnin ákveðið að senda liðsauka suður á bóginn. Liðsaukinn var þrjú herfylki og mynduðu þau 5. stórfylkið, undir stjórn Tony Wilsons stórfylkisforingja. Herfylkin voru: 1/7. herfylki Gúrkahersveitar hertogans af Edinborg, 1. herfylki velsku varðanna og 2. herfylki skosku varðanna. Gúrkahersveitin sækir stærstan hluta mannafla síns til Nepal, samkvæmt friðarsamningum þjóðanna 1815. Hermenn frá Nepal höfðu barist í báðum heimstyrjöldunum fyrir hönd Breta og voru taldir með best þjálfuðu hersveitum í heimi. Valið á hinum herfylkjunum var öllu umdeildara. Bæði herfylkin þjónuðu á þessum tíma sem lífverðir Englandsdrottningar, velsku verðirnir í Windsor en þeir skosku við Buckinghamhöll. Sveitirnar eru engu að síður þjálfaðir í venjulegum hernaði en fá eðli málsins samkvæmt minni þjálfun en aðrar sveitir breska hersins. Strangur agi og mikil hefð var talin vega upp á móti reynsluleysi þeirra. Þar með var væntanlegur innrásarher Breta orðinn átta herfylki eða um 10.000 menn. Þetta var stærsti her sem Bretar höfðu beitt frá lokum Seinni heimstyrjaldar. Til að flytja þennan mikla mannafla var mesta djásn breskra skipasmíða, "SS Queen Elisabeth II", tekið á leigu. Landganga Breta. Um morguninn 21. maí gengu Bretar í land á Falklandseyjum. Valinn var djúpur fjörður á vesturhluta Austureyjunnar, San Carlos-fjörður. San Carlosfjörðurinn skiptist miðja vegu í tvo firði. Í þeim nyðri er að finna húsaþyrpinguna Port San Carlos. Þykk skýjahula lá lágt yfir sundinu þegar landgangan hófst, besta veður sem Bretar gátu vænst. Nútíma landgönguhernaður gerir yfirleitt ráð fyrir því að þyrlur séu notaðar og breski sjóherinn hafði raunar verið fyrstur til að nota þá aðferð í Súesdeilunni 1956, en þar sem ekkert þyrlumóðurskip var tiltægt neyddust Bretar til að nota landgöngupramma. Innrásin var því lítið frábrugðin innrásinni í Normandí fimmtíu árum fyrr. Um kl. 10:30 hóf argentínski flugherinn linnulausar loftárásir á breska flotann í Falklandseyjasundi. Varnir Breta í sundinu byggðust aðallega á Sea Harrier þotum, en vandamálið var að skipið sem átti að samhæfa varnirnar, "HMS Antrim", gat ekki greint óvinavélarnar fyrir háum fjöllum fyrr en þær voru komnar inn í sundið, en þá var það orðið alltof seint. Fyrsti hluti árársinnar stóð frá 10:30 til 13:00. Eftir átök morgunsins kom smáhlé í aðgerðir Argentínumanna. Síðdegis hófst seinni hluti orrustunnar um Falklandseyjasundið; hún stóð yfir í um eina klukkustund og skildi eftir sig miklu meiri eyðileggingu. Þegar kvölda tók þann 21. maí 1982 linnti árásum Argentínumanna. Sjálf innrásin hafði tekist framar vonum og mannfall ekkert, að undanskildum þrem þyrluflugmönnum. Sjóherinn hafði hins vegar misst 25 menn. Eitt skip var sokkið, tvö mjög sködduð, tvö önnur minna löskuð og tvö ("Plymouth" og "Yarmouth") höfðu sloppið alveg. Hlutverk herskipanna hafði ávallt verið að draga athyglina frá „verðmætari“ skipum flotans. Hefðu argentínsku flugmennirnir til dæmis gert árás á farþegaskipið "Canberra" hefði það valdið miklu meiri skaða. Út frá því sjónarmiði hafði framganga herskipanna skilað því sem til var ætlast. Talið er að þrettán argentínskar flugvélar hafi verið skotnar niður þennan dag. Menendez undirhershöfðingi taldi aðeins um tvö herfylki að ræða og að innrásin ætti að slá ryki í augu Argentínumannanna. Hin raunverulega árás Breta yrði án efa gerð nær Stanley. Í Buenos Aires þrýsti Galtieri hershöfðingi mjög á Menendez að reyna að bregðast við innrásinni. Máttlitlir könnunarleiðangrar argentínskra sérsveitamanna var það eina sem Menendez mátti við enda bjó her hans yfir afar litlum sóknarmætti. Árangur þeirra varð heldur ekki til að styrkja hann því hermennirnir neyddust til að leita á náðir Breta þegar kuldinn fór að segja til sín. Menendez hélt sig því við upprunalegu áætlunina, þ.e. að leggja allt kapp á að halda Stanley. Árásin á "Broadsword" og "Coventry". 25. maí er þjóðhátíðardagur Argentínu og Bretar töldu afar líklegt að argentínska stjórnin myndi nota þennan dag til að freista þess að greiða Bretum náðarhöggið. Norður af Falklandseyjasundi voru freigátan HMS "Broadsword" og tundurspillirinn HMS "Coventry" á vakt frá 22. maí. Hinn reyndi skipherra "Broadsword", Bill Canning, hafði stungið upp á því við yfirmann sinn, Sandy Woodward flotaforingja, að skipin yrðu staðsett þar til að styrkja loftvarnakerfi Breta, svo unnt yrði að láta skipin í sundinu vita af væntalegum árásum í tíma. "Coventry" var ætlað að beita langdrægum Sea Dart flugskeytum. Woodward og starfslið hans höfðu ekki búist við atlögu úr þessari átt. Árásin var nánast eins og árásin á HMS "Broadsword" átti að hafa það hlutverk að verja skipin með Sea Wolf flugskeytum ef einhver skotmörk slyppu í gegn. Sjónarmið skipherranna um hvernig þessi „flugskeytagildra“ skyldi útfærð voru afar ólík. David Hart-Dyke, skipherra "Coventry", vildi staðsetja skipin utar þannig að eyjarnar trufluðu ekki ratsjárkerfi þeirra. Canning taldi hins vegar mikilvægara að skipin væru í talstöðvarsambandi við skipin í Falklandseyjasundinu og því væri ráðlegast að vera nær landi. Canning hafði meiri reynslu og sjónarmið hans urðu ofan á. Þennan dag hélt argentínski flugherinn sínu striki og gerði árásir á flotann í sundinu, en án teljandi árangurs. Fyrir utan biðu svo "Coventry" og "Broadsword" og freistuðu þess að skjóta niður flugvélar á heimleið. Um borð í Coventry var spænskumælandi yfirmaður. Hann hleraði einn argentínska flugmanninn senda upplýsingar um staðsetningu skipanna til Argentínu. Skipherrarnir ákváðu samt að halda um kyrrt. Sex Skyhawk sprengjuþotur lögðu af stað frá Argentínu með þeim tilgangi að ráðast á skipin. Tvær þotanna neyddust til að snúa við vegna bilana en hinar fjórar héldu förinni áfram. Þær flugu yfir Vestur-Falklandseyjar líkt og þær væru að fara að gera árás á skipin í San Carlosfirði, en beygðu snögglega af leið og flugu norður í átt að skipunum. Ratsjárkerfi Broadsword varð fljótt vart við vélarnar en Sea Dart kerfi "Coventry" gat hins vegar ekki náð þeim fyrr en þær kæmu yfir sjó. Tvær Sea Harrier þotur voru til taks og flugumferðarstjórinn um borð í Coventry leiðbeindi flugmönnunum á skotmörkin. En um leið og Sea Harrier þoturnar voru komnar í nærri því örugga stöðu til að skjóta vélarnar niður, skipaði "Coventry" þeim að láta vélarnar óáreittar þar sem "Coventry" hugðist skjóta þær niður með Sea Dart flugskeytakerfinu. Þetta voru reginmistök. Sea Dart flugskeytin misstu marks. Tvær Skyhawk vélanna flugu nú í átt að "Broadsword". "Broadsword" gerði Sea Wolf flugskeytin tilbúin, en þá kom óvænt bilun í ljós. Ratsjá Sea Wolf kerfisins greindi tvö skotmörk nánast hlið við hlið, réði ekki við það og slökkti á sér. Of skammur tími var til að endurstilla kerfið og þrjár sprengur féllu á skipið. Tvær misstu marks en sú þriðja fór í gegnum það og eyðilagði Lynx-þyrlu skipsins um leið og hún lenti í sjónum án þess að springa. Hinar tvær Skyhawk vélarnar birtust þá allt í einu. Broadsword tókst að miða vélarnar út með Sea Wolf skeytunum en þá beygði "Coventry" í veg fyrir Broadsword þannig að Canning neyddist til að aflýsa skotinu. "Coventry" var á flótta undan árásinni. Þrjár sprengjur féllu og sprungu allar. Ástæðan var talin vera sú að nokkrum dögum áður hafði heimsþjónusta breska ríkisútvarpsins BBC birt frétt um það af hverju sprengjur Argentínumannanna spryngju ekki. Í Argentínu var því brugðið á það ráð að nota franskar sprengjur búnar hvellhettu sem sprakk við högg. "HMS Coventry" sökk á skömmum tíma og 19 skipverjar létu lífið. Mistök á mistök ofan höfðu kostað Breta sitt fjórða skip í stríðinu. Árás á flugmóðurskipaflotann. Aðeins tveim mínútum eftir að fréttirnar um endalok "Coventry" bárust flaggskipinu "HMS Hermes" var gerð árás á flugmóðurskipaflotann. Tvær Super Etendards vélar búnar sínu Exocet-flugskeytinu hvor nálguðust nú flotann úr norðri. Flugmennirnir flugu lágt uns þeir greindu flotann á ratsjárskjám, þá hækkuðu þeir flugið, skutu flugskeytunum og sneru við. Á vegi annars flugskeytisins varð "HMS Ambuscade", systurskip "Ardents" og "Antelope". Þetta sama skip hafði orðið fyrst til að greina ratsjármerki Etendard-vélarinnar og lét flotann vita. Snögg viðbrögð voru mikilvæg og skipið skaut nú upp tálbeitum (Chaff-álflygsum) til að afvegaleiða ratsjársendi flugskeytisins. Það tókst og flugskeytið beygði frá Ambuscade en stefndi nú beint á risaflutningaskipið "MV Atlantic Conveyor". "MV Atlantic Conveyor" hafði verið með flotanum í aðeins sex daga. Um borð var ýmislegur búnaður, mikilvægastur þó þrjár Chinook flutningarþyrlur auk Wessex-flutningarþyrla. Eftir klukkutíma átti skipið að sigla suður til eyjanna og koma þyrlunum í land. Skipið var ekki búið Chaff-tálbeitum svo að eina vörn hins gamalreynda skipherra, Ians Norths, var að snúa skutnum í átt að flugskeytinu í von um að það myndi stoppa það. En skipið náði ekki að snúa sér og skeytið fór inn í það að aftanverðu og stöðvaðist djúpt inni í því. Ekki er vitað hvort flugskeytið sprakk, en líkt og í "Sheffield" áður kviknaði mikill eldur. Af 160 manna áhöfn dóu tólf. Þeirra á meðal var skipherrann. Með birgðaskipinu fórst mikilvægur þyrlufloti og átti það eftir að hamla mjög öllum aðgerðum Breta á Falklandseyjum. Goose Green. Klukkan 2 um morguninn 27. maí hófu fjórar sveitir 2. fallhlífaherfylkis Breta árás á Goose Green, sem er næststærsta þorpið á eyjunum á eftir Stanley. Orrustan var hörð og stóð allan daginn og nóttina og fram á næsta dag þar til argentínska setuliðið gafst upp. Orrustan um Goose Green var ein sú harðasta í öllu stríðinu. Mikilvægi hennar stafaði ekki síst af því að þetta var í fyrsta skipti sem hermenn þjóðanna mættust í alvöru orrustu. Sigurinn gerði Bretum kleift að koma sér fyrir á vesturhluta Austur-Falklandseyja. Árásin á "HMS Avenger". Á sama tíma gerði argentínski flugherinn árás á breska flotann. Skotmarkið var sem fyrr flugmóðurskipin bresku en á vegi Super Étendardsþotunnar var freigátan HMS Avenger. Freigátan var nýkomin suður til Falklandseyja og hafði verið að flytja SBS njósnahópa landgönguliða á land hér og þar um eyjurnar. Sunnan við Avenger var varnarlína (ekki ósvipuð þeirri sem HMS Sheffield var í 4. maí) þriggja 42-gerðar tundurspilla. Nyrsta skipið í línunni var HMS Exeter og það var Exeter sem fyrst varð vart við árásina. Exeter sendi boð um hana til Avenger sem misskildi boðin um flugskeytin á þann veg (þeir töldu þau vera tvö) að þau kæmu úr norðri þegar skeytið stefndi í átt að skipinu úr suðri. Stuttu seinna gerði áhöfn Avenger grein fyrir mistökum sínum. Þá var orðið of seint að snúa við svo skipið hægði á sér og stefndi bógnum (framparti skipsins) í átt að því og hóf skothríð af 4,5 þumlunga fallbyssu sinni. Skipverjum til mikillar ánægju sáu þeir eldhnött á himnum og töldu sig hafa skotið niður annað skeytið á flugi. HMS Ambuscade sem var statt sunnar sá hins vegar Exocetskeytið fljúga sakleysislega framhjá flotanum. Eldhnötturinn hafði raunar verið argentínsk Skyhawkvél sem hafði orðið fyrir Sea Dart flugskeyti frá Exeter. Hinar þrjár Skyhawkvélarnar stefndu í átt að Avenger. Eins og skipið sneri var ekki hægt að beita Sea Cat flugskeytunum svo að áhöfnin þurfti að láta fallbyssuna duga. Vélarnar þrjár gerðu árás en allar sprengjurnar lentu í sjónum sitt hvoru megin við skipið. Ein vélin hringsnerist af völdum þrýstings sem varð vegna sprengingar í sjónum undir henni og brotlenti. Avenger slapp óskadduð úr árásinni og tók með sér brak úr Skyhawkvélinni sem minjagrip (yfirkafarinn um borð neitaði víst að taka með líkamsleifar flugmannsins eins og næstráðandi skipsins hafði farið fram á!). Black Buck 6. Þann 2. júní var Black Buck sex leiðangurinn farinn. Tilgangurinn var að eyðileggja ratsjástöð argentínska setuliðsins við Stanley, en eins og áður hefur komið fram þá höfðu yfirmenn loftvarnasveitanna reynt að notfæra sér ratsjár sínar til að miða út staðsetningu bresku flugmóðurskipanna. Vulcanþotan var í þeim tilgangi búin sérhæfðum amerískum Shrike-gagnratsjárflugskeytum. Það hafði verið keypt til að leysa bresk/franska Matraflugskeytið af hólmi en það var talið hafa þolað illa langt flug undir væng einnar Vulcanþotunnar alla leið frá Bretlandi. Tveir slíkir leiðangrar voru farnir með takmörkuðum árangri. Í seinni leiðangrinum neyddist Vulcanþotan til að nauðlenda í Brasilíu eftir að eldsneytisrani vélarinnar brotnaði. Árásin á Bluff Cove. Þann 30. maí tók Jeremy Moore undirhershöfðingi við yfirstjórn breska landhersins á Falklandseyjum af Julian Thompson, sem gat nú einbeitt sér að stjórn þriðja stórfylksins. Fimmta stórfylkið, undir stjórn Tonys Wilsons stórfylkisforingja, var á sama tíma komið til eyjanna. Wilson reyndi að koma tveimur hersveitum skosku varðanna og velsku varðanna yfir á austurhluta eyjarinnar þar sem þau áttu að koma sér upp búðum í Bluff Cove í aðdraganda orrustunnar um Stanley. Vegna erfiðra aðstæðna varð að flytja sveitirnar með skipum. Röð mistaka varð til þess að Argentínski flugherinn náði að skipuleggja árás á skipin og landgönguprammana óvarin í víkinni. 48 breskir hermenn létust og eitt skipið sökk. Orrustan um Stanley. Lokakafli stríðsins var orrustan um höfuðstaðinn, Stanley. Yfirmaður argentísnka setuliðsins, Menendez, hafði um 11.000 manna herlið á eyjunum gegn svipuðum fjölda Breta. Tvær hersveitir voru staðsettar á Vestur-Falklandseyju og áttu ekki eftir að koma við sögu. Árás Bretanna var framkvæmd í tveim liðum. Aðfaranótt 11. júní gerðu herfylki 3. stórfylkisins árás vestan megin við argentínsku varnarlínuna á meðan 5. stórfylkið fylgdi því eftir með árás austan megin frá tveimur dögum síðar. Flugherinn og sjóherinn og sérsveitir studdu aðgerðir hersins. Með þessum árásum tókst Bretum að brjóta mótspyrnu Argentínumanna á bak aftur og Menendez leitaði eftir heimild forsetans til að hefja umræður um uppgjöf. Uppgjöf Argentínu. Eftir ófarirnar gaf Galtieri Menendez leyfi til að gefast upp teldi hann það óumflýjanlegt. Menendez óskaði eftir vopnahléi og viðræðum um uppgjöf. Bretar gengu að tillögunni um vopnahlé og sendu samningamenn til Stanley til að ræða við Menendez. Klukkan 9:30 kvöldið 14. júní skrifaði Menendez undir yfirlýsingu um uppgjöf fyrir hönd liðs síns á eyjunum. Stríðinu um Stanley var lokið en herforingjastjórnin í Buenos Aires hafði enn ekki viðurkennt ósigurinn. Um 10.000 Argentínumenn voru teknir til fanga. Allir voru fluttur innan viku til Argentínu að undanskildum sérvöldum 500 manna hóp sem var að mestu kominn til síns heima innan mánaðar. 20. júní gafst ellefu manna argentínskt herlið á Suður-Sandvíkureyjum upp fyrir breskum landgönguliðum. Nokkrum mánuðum síðar var aftur búið að setja upp argentínska fánann þó engir hermenn væru á eyjunum. Eftirleikurinn. Minnismerki um Falklandseyjastríðið í Ushuaia í Argentínu. Í Bretlandi varð nokkur umræða um hvað gera skyldi við þá hermenn sem grafnir höfðu verið á eyjunum. Samkvæmt venju eru breskir hermenn grafnir við vígvöllinn þar sem þeir falla, en meirihluti aðstaðenda fór fram á að lík þeirra yrðu flutt heim sem varð að lokum ofan á. Enn eru nokkur lík breskra hermanna grafin í herkirkjugarði við San Carlos. Breska ríksstjórnin bauð herforingjastjórninni að flytja lík argentínsku hermannanna heim að stríðinu loknu en hún hafnaði því. Nokkrar fjölskyldur hafa þó flutt ættinga sína heim á síðastliðnum 20 árum. Galtieri vék seinna á árinu fyrir öðrum hershöfðingja. Ári síðar voru haldnar kosningar í Argentínu og lýðræði aftur komið á. Ósigur landsins í Falklandseyjastríðinu boðaði þannig endalok herforingjastjórnarinnar. Breska ríkisstjórnin kom á fót um þúsund manna landvarnarliði á eyjunum í kjölfar stríðsins. Milljónum punda er árlega varið í uppihald þess og til reksturs herflugvallar sem var byggður árið 1986. Þrátt fyrir að samskipti landanna hafi verið góð síðustu ár þá hefur framtíð Falklandseyja ávallt verið ofarlega í huga Argentínumanna. Flokkur (flokkunarfræði). Flokkur innan líffræðinnar er hugtak sem notað er innan flokkunarfræðinnar til að lýsa hóp dýra sem öll tilheyra sömu fylkingu. Innan hvers flokks geta síðan verið mismunandi ættbálkar. Norðurlandaófriðurinn mikli. Norðurlandaófriðurinn mikli var styrjöld milli bandalags Rússlands, Dansk-norska ríkisins og Saxlands og Póllands (og Prússlands og Hannóver frá 1715) og Svíþjóðar, en ástæður styrjaldarinnar eru fyrst og fremst sú valdastaða sem Svíar höfðu komið sér upp við Eystrasalt á kostnað þýsku furstanna, Dana og Rússa undir Pétri mikla. Stríðið hófst með árás bandalagsþjóðanna á Svía 1700 og lauk með Nystad-samningnum og Stokkhólmssamningunum 1721. Til að byrja með unnu Svíar hvern sigurinn á fætur öðrum en kusu að halda styrjöldum áfram, í stað þess að ljúka stríðinu á sínum forsendum. Stríðsgæfan snerist svo Rússum í vil eftir að herfarir Svía inn í Rússland 1709 höfðu dregið úr styrk þeirra og að lokum unnur Rússar stóran sigur í orrustunni við Poltava. Niðurstaða styrjaldarinnar var að Rússar urðu stórveldi við Eystrasalt í stað Svía áður. Eystrasaltslöndin. Eystrasaltslöndin eru þrjú ríki við austari strönd Eystrasaltsins. Þau eru Eistland, Lettland og Litháen. Önnur lönd við Eystrasalt eru Rússland, Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland og Pólland en öll þessi lönd mynda saman Eystrasaltsráðið ásamt Noregi, Íslandi og Evrópusambandinu. Eistland, Lettland og Litháen voru undir stjórn Sovétríkjanna frá 1940-1941 og 1944(1945)-1991. Þau eru núna sjálfstæð lýðræðisríki með eigin þing og eru öll meðlimir að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu síðan 2004. Fyrir utan svipaða söguþróun á 20. öldinni er í raun ekki margt sem Eystrasaltslöndin eiga sameiginlegt. Eistneska er finnsk-úgrískt mál en Lettneska og Litháíska eru Baltnesk tungumál sem er undirgrein indó-evrópskra mála. Eistar og Lettar eru gjarnan lútherstrúar á meðan Litháar eru kaþólskir. Rússar sem búa í mismiklum mæli í öllum löndunum eru yfirleitt í Rétttrúnaðarkirkjunni. Af þessum sökum er Eistland oft álitið hafa sterkust tengsl við Norðurlöndin en Litháen við Mið-Evrópu ekki síst vegna aðildar sinnar að Pólsk-litháíska samveldinu frá 16. til 18. aldar. Drammen. Drammen er borg í Buskerud-fylki í Noregi. Íbúafjöldi var 116.641 árið 2006 en 57.759 bjuggu innan marka sveitarfélagsins. Í gegnum borgina rennur Drammenselva sem hefur verið lífæð hennar í gegnum tíðina. Borgin og áin eru stundum kölluð Dröfn á íslensku. Drammen er vinabær Stykkishólms. Saga. Hellaristur í Drammen eru taldar vera 6-7.000 ára gamlar. Þá var sjávarstaða hærri en hún er í dag, svo mannvistarleyfar voru nokkuð hátt í ásunum kringum borgina. Stærsta hellaristan sýnir elg og líffæri hans nokkuð vel. Í raun byggðist Drammen þrjú aðskilin þorp; Bragernes, Strømsø og Tangen. Þessi þrjú sameiðustu þó árið 1811 sem Drammen eins og hún er í dag. Þegar skógarhögg var sem mest í Buskerud rak timbrið niður Drammenselva niður að Drammensfirði, þar sem það var unnið, sagað og flutt til kaupandans. Í kringum Drammen var því mikil iðnaður í kringum sagirnar og pappírsframleiðslu. Allt fram á 9. áratug síðustu aldar fór allt skolp óhreinsað í Drammenselva en nú hefur verið gerð breyting á, og er áin að breytast út skolp-æð með 300 m³/s í eina bestu laxveiðiá landsins. Náttúra. Drammen liggur í dal milli tveggja ása og rennur Drammenselva í botni hans. Norðan við dalinn er Bragernesåsen og sunnan hans er Konnerudåsen. Í báðum ásum eru skíðasvæði sem eru opin frá desember fram í apríl. Í Drammen er auðvelt að komast út í skóg og liggja þar stígar um allar trissur. Þessir stígar nýtast vel hvort sem er sumar eða vetur, enda eru troðnar skíðaleiðir um báða ásanna. Stjórnmál. Borgarstjóri Drammen er Tore Opdal Hansen og situr hann fyrir Hægrimenn. dweaffesjeffshebsfubhfeuhfswuf gooby pls 3:3 tiem 2 go pley otsid bois, and raep all of dem kids aka CHIIIILDREN ^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^ Sjáland. Kort sem sýnir Sjáland (rautt). Sjáland (danska: "Sjælland") er stærsta eyja Danmerkur, með meira en tvær milljónir íbúa sem flestir búa í höfuðborginni, Kaupmannahöfn og nágrannabyggðum. Sjáland er 7.031 km² að stærð. Eyrarsund skilur milli Sjálands og Svíþjóðar austan megin en Eyrarsundsbrúin liggur þar yfir. Vestan megin skilur Stóra-Belti milli Sjálands og Fjóns, en Stórabeltisbrúin liggur þar yfir. Richard Popkin. Richard H. Popkin (27. desember 1923 – 12. apríl 2005) var einn áhrifamesti heimspekisagnfræðingur á síðari hluta 20. aldar. Rit hans frá 1960, "The History of Scepticism from Erasmus to Descartes" upplýsti marga heimspekinga og hugmyndasagnfræðinga um áður óviðurkennd áhrif pyrrhonisma Sextosar Empeirikosar á vestræna heimspeki á 16. og 17. öld. Richard Popkin fæddist á Manhattan. Foreldrar hans voru Louis og Zelda Popkin, sem ráku saman lítið almannatengslafyrirtæki. Eftir að hann hafði lokið B.A. gráðu hóf hann doktorsám við Columbia University og hlaut Ph.D. gráðu þaðan árið 1950. Hann kenndi við ýmsa bandaríska háskóla, m.a. University of Connecticut, University of Iowa, University of California San Diego, Washington University í St. Louis og University of California Los Angeles. Hann var einnig gistiprófessor við háskólann í Tel Aviv. Hann var stofnandi International Archives of the History of Ideas. Hann var fyrsti ritstjóri "Journal of the History of Philosophy". Auk heimspekilegra rita hans vakti bók hans "The Second Oswald", sem kom út árið 1966, eftirtekt, en það var meðal fyrstu bókanna sem dróu í efa kenninguna um að einungis hefði ein skytta átt aðild að morðinu á John F. Kennedy. Popkin var veitt Nicholas Murray Butler orðan af Columbia University og hann var kosinn félagi í American Academy of Arts and Sciences. Á efri árum bjó Popkin í Pacific Palisades í Kaliforníu ásamt konu sinni, Julie Greenstone (1924-). Hann lést af völdum lungnaþembu í Los Angeles í apríl árið 2005. Ekkja Popkins er Julie Popkin, sem hann kvæntist árið 1944. Þau áttu saman þrjú börn. Dóttir hans, Margaret Popkin, lést í maí 2005. Dansk-norska ríkið. Kort sem sýnir umfang Dansk-norska ríkisins um 1780 Dansk-norska ríkið var ríki á árunum 1536 til 1814. Kalmarsambandið leið undir lok við það að Svíþjóð gekk út úr því þannig að eftir urðu Danmörk og Noregur ásamt þeim löndum sem stóðu í konungssambandi við Noreg, sem á þeim tíma voru Ísland, Færeyjar og Grænland (að nafninu til). Þetta ríki var kallað Dansk-norska ríkið en stundum var talað um Danska ríkið eða Danaveldi því miðstöð stjórnsýslunnar var í Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur. Konungur þurfti eftir sem áður að leita samþykkis þings hvers lands um sig, fram að einveldishyllingunni, en í reynd var það einungis formsatriði. 1405. a> er oft talin ein fyrsta femíníska bókin. Jóhannes Páll 2.. Jóhannes Páll II (opinber útgáfa á latínu: "Ioannes Paulus PP. II"), fæddur í Póllandi 18. maí 1920 og skírður Karol Józef Wojtyła var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 16. október 1978 til dauðadags. Jóhannes Páll páfi II. lést í Róm þann 2. apríl árið 2005 á 85. aldursári eftir erfið veikindi, meðal annars hjarta- og nýrnabilun. 1403. a> vígður. Hann var síðasti páfinn sem sat í Avignon. 1436. a> Tveir enskir Íslandsbiskupar gengu á fund hans þetta ár. 1418. Búrgundarmenn undir forystu Jóhanns óttalausa halda innreið sína í París. Belgsegl. Belgsegl eða spinnaker er sérstök gerð af segli til að sigla undan vindi (lens). Belgsegl eru þríhyrnd, stór og belgmikil, yfirleitt úr léttum nælonefnum, og er beitt fyrir framan bátinn, hengt í siglutoppinn. Yfirleitt er notað léttur útleggjari út frá mastrinu að neðanverðu til að halda kulborðshorni belgseglsins úti og stilla það miðað við vindátt. Þau skiptast í samhverf og ósamhverf belgsegl (gennaker). Stafangur. Stafangur (norska: "Stavanger") er borg í Rogaland-fylki í Noregi. Íbúar sveitarfélagsins voru 114.401 árið 2005 en alls 180.000 innan hinna eiginlegu borgarmarka, en borgin nær einnig yfir Sola, Randaberg og Sandnes. Nágrannasveitarfélög eru Randaberg og Rennesøy í norðri, Sandnes í suðri og Sola í vestri. Náttúra. Stafangur stendur á meginlandi Noregs en til borgarinnar heyra einnig eyjarnar í kring. Flatarmál sveitarfélagsins alls er 67,67 km² og er hæsti punkturinn Jåttånuten, 139 m yfir sjávarmáli. Atvinnulíf. Um þessar mundir er Stafangur „olíuhöfuðborg“ Noregs, því olíufyrirtækið Statoil hefur höfuðstöðvar sínar þar í bæ. Þar er líka stórt olíusafn og öll umferð út á olíuborpallana í Norðursjó fer um Sola flugvöll fyrir utan Stafangur. Björgvin. Björgvin (að fornu Björgyn) (norska: Bergen) er næst stærsta borg Noregs, staðsett í Hörðalandsfylki í vestur Noregi. Borgin liggur á milli sjö fjalla og er sagt að þar rigni alla daga ársins. Björgvin hefur verið kaupstaður síðan á dögum Ólafs konungs kyrra (d. 1093), og var oft aðsetur konunga áður fyrr. Borgin er næst stærsta borg Noregs með 267 160 íbúa árið 01.10.12, þar af 267 160 innan sveitarfélagsins. Fredrikstad. Gamla Glemmen kirkjan í Fredrikstad Fredrikstad er borg í Austfold-fylki í Noregi. Stendur hún við ósa stærstu ár Noregs, Glommu. Íbúar borgarinnar voru 70.791 1. janúar 2006 og eru nágrannasveitarfélögin Råde, Sarpsborg og Hvaler. Saga. Fredrikstad var stofnað árið 1567 og fékk nafn sitt árið 1569, þá í höfuðið á Friðriki II Danakonungi. Í raun var verið að endurreisa Sarpsborg, sem er 15 km ofar, eftir að Svíar höfðu brennt hana til grunna í stríði Dansk-norska ríkisins og Svíþjóðar. Í Norðurlandaófriðnum mikla (1700 - 1721) var floti Dansk-norska ríkisins með heimahöfn í Fredrikstad. Atvinnulíf. Fredrikstad hefur alltaf verið mikil verslunarborg, vegna þess hve vel hún liggur til, ekki langt frá landamærum Svíþjóðar. Þar í borg voru stórar sögunarmyllur sem tóku við trjábolum sem flutu niður ánna. Stefán Snævarr. Stefán Snævarr (fæddur 1953 í Reykjavík á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við háskólann í Lillehammer í Noregi. Stefán fæst einkum við stjórnspeki og fagurfræði. Auk rita um heimspeki hefur Stefán gefið út skáldverk og ljóðabækur. Árið 2010 vann hann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri ritgerðarsamkeppni International Association for Aesthetics fyrir ritgerðina "Aesthetic Wisdom". Menntun. Stefán lauk meistaraprófi í heimspeki við háskólann í Osló árið 1986. Hann lauk doktorsprófi við háskólann í Bergen árið 1998. Árið 2003 varð hann prófessor í heimspeki við háskólann í Lillehammer. Heimir Geirsson. Heimir Geirsson (f. 1954) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við ríkisháskólann í Iowa. Menntun. Heimir lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1979. Hann lauk B.A.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1981. Að námi loknu við Háskóla Íslands hélt Heimir til Bandaríkjanna. Hann lauk M.A.-prófi í heimspeki frá University of Nebraska og doktorsprófi frá sama skóla árið 1988. Doktorsritgerð Heimis hét "Names and Beliefs" og var unnin undir leiðsögn Albert Casullo. Logi Gunnarsson. Logi Gunnarsson (fæddur 1. nóvember 1963) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Universität Potsdam í Þýskalandi. Logi fæst einkum við siðfræði, frumspeki og heimspeki Wittgensteins. Jón Ólafsson (heimspekingur). Jón Ólafsson (fæddur 1964) er íslenskur heimspekingur. Menntun. Jón lauk B.A.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1989. Að námi sínu loknu við Háskóla Íslands hlaut Jón styrk til náms við Moskvuháskóla og dvaldi eitt ár í Moskvu. Eftir tveggja ára starf á fréttastofum Ríkisútvarpsins, hélt Jón til Bandaríkjanna þar sem hann nam heimspeki við Columbia University. Hann hlaut doktorsgráðu frá Columbia árið 2000. Doktorsritgerð Jóns heitir "Conflict and Method: An Essay on Dewey" og fjallar um heimspeki bandaríska heimspekingsins Johns Dewey. Eftir að námi lauk var hann forstöðumaður Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands um þriggja ára skeið, en gegnir nú stöðu prófessors og forseta félagsvísindadeildar við Háskólann á Bifröst. Erlendur Jónsson. Erlendur Ping Hwa Sen Jónsson (f. 1948) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hann lauk Ph.D. gráðu í heimspeki frá University of Cambridge á Englandi. Árið 1994 lauk Erlendur B.S. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Erlendur var stundakennari við Háskóla Íslands 1978-1987. Hann varð dósent árið 1987 og prófessor árið 1996. Helstu rannsóknar- og kennslusvið Erlendar eru rökfræði og málspeki, þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Erlendur býr og starfar í Reykjavík. Hann er kvæntur Hönnu Maríu Siggeirsdóttur, lyfjafræðingi, og saman eiga þau tvo syni, Jón Helga og Guðberg Geir. Kristján Kristjánsson (f. 1959). Kristján Kristjánsson (fæddur 1959) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri. Kristján lauk B.A. gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1983, M.Phil prófi í heimspeki við University of St. Andrews á Skotlandi árið 1988 og doktorsprófi við sama skóla árið 1990. Doktorsritgerð Kristjáns hét "Freedom as a Moral Concept". Páll Skúlason. Páll Skúlason (f. 1945 á Akureyri á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1965. Hann stundaði nám í heimspeki við kaþólska háskólann í Louvain í Belgíu og lauk þaðan B.A. gráðu árið 1967 og doktorsgráðu árið 1973. Doktorsritgerð Páls, sem hét "Du Cercle et du Sujet: problèmes de compréhension et de méthode dans la philosophie de Paul Ricoeur", fjallaði um heimspeki franska heimspekingsins og túlkunarfræðingsins Pauls Ricœur. Páll varð lektor í heimspeki við Háskóla Íslands árið 1971 og var skipaður prófessor árið 1975. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum við Háskóla Íslands. Páll var þrisvar sinnum deildarforseti Heimspekideildar (1977-1979, 1985-1987 og 1995-1997) og rektor Háskólans 1997-2005. Páll var meðal stofnenda Norrænu heimspekistofnunarinnar og í stjórn hennar frá 1980. Hann var formaður Félags áhugamanna um heimspeki 1981-1986. Sigrún Svavarsdóttir. Sigrún Svavarsdóttir (fædd 25. febrúar 1958) er íslenskur heimspekingur og dósent (e. associate professor) í heimspeki við Ohio State University. Sigrún lauk B.A. gráðu í heimspeki frá University of Washington árið 1982 og Ph.D. gráðu frá University of Michigan árið 1993. Doktorsritgerð Sigrúnar hét "Thinking in Moral Terms". Arnór Hannibalsson. Arnór Hannibalsson (24. mars 1934 – 28. desember 2012) var íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Arnór lauk meistaraprófi í heimspeki frá háskólanum í Moskvu og doktorsprófi í heimspeki frá háskólanum í Edinborg á Skotlandi. Arnór fékkst einkum við fagurfræði, söguspeki, þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Arnór var sonur Hannibals Valdimarssonar og konu hans, "Sólveigar Ólafsdóttur" og átti sex systkini, þ.á m. Ólaf Hannibalsson og Jón Baldvin Hannibalsson og tvo hálfbræður. Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlakona og frambjóðandi til embættis forseta Íslands árið 2012, er dóttir Arnórs. Richard Rorty. Richard McKay Rorty (4. október 1931 í New York – 8. júní 2007) var bandarískur heimspekingur. Rorty kenndi heimspeki við Wellesley College, Princeton University og University of Virginia en síðast almenna bókmenntafræði við Stanford University. Rorty var í upphafi rökgreiningarheimspekingur en komst síðar í kynni gagnhyggjuna, einkum í gegnum rit Johns Dewey, sem hafði veruleg áhrif á viðhorf hans. Hann varð auk þess fyrir áhrifum frá W.V.O. Quine og Wilfrid Sellars. Síðar varð Rorty æ meira fyrir áhrifum frá meginlandsheimspeki, t.d. höfundum á borð við Søren Kierkegarrd, Martin Heidegger, Michel Foucault og Jacques Derrida. Tengill. Rorty, Richard Rorty, Richard 1419. a> Upphafsstafur úr biblíunni sem kennd hefur verið við hann. 1456. Erlendis. Vlad Tepes, öðru nafni Drakúla. 1457. Erlendis. Prentun hófst í Þýskalandi laust eftir miðja 15. öld. 1467. a>. Málverk eftir Hans Burgkmair eldri. Paul McCartney. Paul McCartney á sviði í Prag. Sir James Paul McCartney (fæddur 18. júní 1942) er breskur söngvari, tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann var einn af meðlimum Bítlanna. Hann er í heimsmetabók Guinnes fyrir að vera sá tónlistarmaður og lagahöfundur sem mestum árangri hefur náð í tónlistarsögunni, með 60 gulldiska og 100 milljónir seldra platna. Missir. Paul missti bæði móður sína, Mary McCartney, þann (31. október 1956) og konu, Lindu Louise Eastman McCartney, þann (17. apríl 1998), úr brjóstakrabbameini. Paul hefur skipulagt marga tónleika í baráttu gegn brjóstakrabbameini. Ferðir Til Íslands. Paul McCartney hefur einu sinni komið til Íslands, þar sem hann meðal annars fór í Perluna. George Harrison. George Harrison (25. febrúar 1943 – 29. nóvember 2001) var gítar- og sítarleikari, söngvari, laga- og textahöfundur, upptökustjóri og plötu- og kvikmyndaframleiðandi. Hann var einn af fjórum meðlimum Bítlanna og síðar einn af fimm meðlimum súperhljómsveitarinnar Traveling Wilburys. Hann aðhylltist Hindúisma á 7. áratug 20. aldar og mátti greina það í ýmsum verka hans síðar. Harrison var tvígiftur. Fyrrri kona hans var fyrirsætan Pattie Boyd og voru þau gift frá 1966 til 1974. Seinni kona hans var Olivia Trinidad Arias. Þau eignuðust einn son: Dhani Harrison. Harrison var náinn vinur Erics Claptons. Hann er sá eini af Bítlunum sem gaf út sjálfsævisögu. Hún kom út 1980 og heitir Ég um mig frá mér til mín (I Me Mine). Hann lést úr hálskrabbameini þann 29.nóvember árið 2001. Vasco da Gama-brúin. Vasco da Gama brúin er brú yfir Tagus ána sem rennur um Lissabon, Portúgal. Hún er lengsta brú í Evrópu, eða alls 17.200 metrar. Brúin var nefnd í höfuðið á portúgalska landkönnuðinum Vasco da Gama. Brúin var hönnuð fyrir jarðskjálfta 4,5 sinnum stærri en jarðskjálftinn sem lagði Lissabon í rúst árið 1755 (talinn vera 8,7 á Richter-skala) og hún þolir allt að 250 kílómetra vindhraða á klukkustundu. Vinna við brúna hófst árið 1995 og hún var opnuð fyrir umferð þann 29. mars árið 1998, aðeins 18 mánuðum eftir að vinna við hana hófst og 500 árum eftir að Vasco da Gama fann sjóleiðina frá Evrópu til Indlands. Það kostar 2,15 evrur að fara yfir brúna til norðurs en farþegar á suðurleið greiða ekkert gjald. Vodafone. Vodafone Group er breskt farsímafyrirtæki með höfuðstöðvar í Newbury, Berkshire, Englandi. Fyrirtækið er stærsta farsímafyrirtæki heimsins, sé miðað við veltu, og starfar í 27 löndum. Fyrirtækið á jafnframt samvinnu við önnur fyrirtæki (án þess að eiga hlut í þeim) í 32 löndum. Nafn fyrirtækisins stendur fyrir VOice-DAta-Fax-Over-NEt. Serra da Estrela. Serra da Estrela (ísl: "fjallgarður stjarna") er hæsti fjallgarður Portúgals og í honum er hæsti tindurinn á meginlandi Portúgals (Pico fjallið á Asóreyjunum er hærra), 1.993 metrar. Konungur Portúgals, João V, skipaði svo fyrir á 19. öld að 7 metra hár turn yrði reistur á tindinum svo hann næði 2000 metrunum. Madredeus. Madredeus er portúgölsk hljómsveit sem helst er þekkt fyrir að blanda saman fado og nútíma þjóðlagatónlist. Nafn hljómsveitarinnar er dregið af klaustri þar sem hljómsveitin byrjaði að spila, "Madre de Deus" (ísl: guðsmóðirin). Hróður hljómsveitarinnar barst utan Portúgals þegar bandaríski leikstjórinn Wim Wenders bað um að fá að nota tónlist hennar í kvikmyndinni "Lisbon Story". Hljómsveitin hefur selt yfir 3 milljónir platna um allan heim. Eça de Queirós. José Maria Eça de Queirós eða einfaldlega Queiroz (25. nóvember, 1845 – 16. ágúst, 1900) er frægasti rithöfundur portúgala fyrr og síðar. Meðal verka hans eru: "Glæpur föður Amaro" ("O Crime do Padre Amaro"), "ráðgáta Sintra vegarins" ("O Mistério da Estrada de Sintra") og "Bazilio frændi" ("O Primo Bazilio"). Eneasarkviða. "Eneasarkviða" (á latínu "Aeneis") er latneskur kvæðabálkur í 12 bókum eftir rómverska skáldið Virgil (Publius Vergilius Maro) samið á s.hl. 1. aldar f.Kr. (milli 29 og 19 f.Kr.) og segir frá sögunni um Eneas, Trójukappa, sem flúði Tróju við fall hennar og endaði uppi á Ítalíu, þar sem niðjar hans stofnuðu Róm. Kvæðið er samið undir "hetjulagi" eða sexliðahætti og er rétt tæplega 9.900 ljóðlínur. Hefðin. Eneas kemur fyrir í Hómerskviðum en var þegar orðinn að rómverskri goðsögn þegar Virgill samdi "Eneasarkviðu". Virgill tók upp og umbreytti hefðinni um ferðalög og ævintýri Eneasar og lausleg tengsl hans við stofnun Rómar. Þrátt fyrir að persónan Eneas eigi sér langa sögu sem nær alla leið aftur til Hómers var persóna hans fremur óræð og litlaus að öðru leyti en því að Eneas hafði löngum verið tengdur við skyldurækni og guðrækni. Virgill gerði úr Eneasi flóknari persónu, sem gegndi hlutverki þjóðarhetju, sem tengdi sögu Rómar og Tróju, og varpaði dýrðarljóma á hefðbundnar rómverskar dygðir og réttlætti völd júlíönsku-kládísku ættarinnar sem niðja stofnenda, hetja og guða Rómar og Tróju. (Ascanius, sonur Eneasar, var einnig þekktur undir nafninu Júlus og var talinn ættfaðir júlíönsku ættarinnar. Eneas var sjálfur sonur Venusar) Áhrif. "Eneasarkviða" er eitt fárra verka á latínu sem nær allir latínunemar hafa þurft að lesa, ásamt verkum Júlíusar Caesars, Cícerós, Óvidíusar og Catullusar. Þessa stöðu innan námsefnis í latínu og klassískum fræðum náði "Eneasrakviða" raunar stuttu eftir andlát Virgils. Afleiðing þessa er m.a. sú að ýmis orðatiltæki úr kvæðinu hafa alkunna á latínu, rétt eins og línur úr verkum Shakespeares hafa unnið sér sess í ensku og á sama hátt eru ýmis orðatiltæki á íslensku komin úr "Hávamálum" og Íslendingasögunum. Til dæmis mætti nefna fræga línu úr 2. bók þar sem presturinn Laocoon varar Tróverja við að taka við trójuhestinum: "Quiduid id est, timeo Danaos et dona ferentis" — „Hvað svo sem það er, þá óttast ég Grikki, einnig þegar þeir færa gjafir“ ("Eneasarkviða" II.49). Samhengi. Kvæðið var samið á miklum umbrotatímum í Róm, jafnt félagslegum sem í stjórnmálum. Rómverska lýðveldið var "de facto" fallið, enda þótt það væri enn til í orði kveðnu; borgarastríð hafði leikið rómverskt samfélag illa og eftir að heil kynslóð hafði liðið, þar sem sundrung hafði ríkt, gróf skyndilegur friðartími og velmegun undan hefðbundnum félagslegum hlutverkum og menningarlegum stöðlum. Ágústus, sem frá 27 f.Kr. var fyrsti keisari Rómaveldis, reyndi að vinna gegn þessu með því að ýta undir hefðbundnar hugmyndir um rómverskt siðgæði og "Eneasarkviða" er talin endurspegla þá viðleitni. Eneas kemur fyrir sem dyggur maður, trúr og tryggur, sem tekur hollustu sína við land sitt og örlög ætíð fram yfir eigin ágóða. "Eneasarkviða" reynir auk þess að renna stoðum undir völd Júlíusar Caesars (og þar með einnig völd kjörsonar hans, Ágústusar og erfingja hans). Sonur Eneasar, Ascanius, er nefndur Ilus (skylt "Ilíon", sem er annað á Tróju), er endurnefndur "Júlus" og Virgill gerir hann að forföður "júlíönsku ættarinnar", ættar Júlíusar Caesars. Þegar Eneas heimsækir undirheima fær hann að heyra spádóm um mikilleika niðja sinna. Enn fremur fær Vulcanus honum vopn og herklæði, þ.á m. skjöld, sem á eru myndir sem sýna framtíð Rómar, þar sem lögð er áhersla á keisara Rómar, m.a. Ágústus. Einnig mætti minnast á samband Tróverja og Grikkja í Enesarkviðu. Samkvæmt Eneasarkviðu voru Tróverjar forfeður Rómverja og óvinir þeirra voru hersveitir Grikkja, sem sátu um Tróju, tóku borgina og rændu hana og rupluðu en þegar "Eneasarkviða" var samin var Grikkland hluti af Rómaveldi og Grikkir nutu nokkurrar virðingar, þar sem þeir voru taldir siðmenntuð þjóð. Virðingu Rómar eru þó bjargað af því að í goðsögninni um Trójustríðið gátu Grikkir einungis sigrað Tróverja með vélbrögðum, trójuhestinum, en ekki í opnum bardaga. Saga "Eneasarkviðu". "Eneasarkviða" er fágað og flókið kvæði; sagan segir að Virgill hafi einungis samið þrjár línur á dag. Virgill tók Hómverskviður sér til fyrirmyndar. Eneasarkviða, sem er nokkurn veginn sömu lengdar og "Ódysseifskviða" Hómers, er ókláruð: allnokkrar línur eru einungis hálf-samdar og síðari hluta línunnar vantar. Aftur á móti er ekki óalgengt að í epískum keðskap séu ókláraðar, undeildar eða illa varðveittar línur, og af því að "Eneasarkviða" var samin og varðveitt í rituðu formi (ólíkt t.d. Hómverskviðum, sem voru munnlegur kveðskapur) er "Eneasarkviða" heilla verk en flest epísk kvæði. Enn fremur er umdeilt hvort Virgill ætlaði slíkum línum að vera kláraðar. Sumar væri erfitt að klára og í sumum tilfellum eykur stuttleiki línunnar á dramatískan endi málsgreinar. Þegar Virgill lést lét hann eftir sig fyrirmæli um að "Eneasarkviða" skyldi brennd vegna þess að verkið væri óklárað. Virgill hafði einnig orðið ósáttur við hluta söguþráðarins í 8.bók þar sem Venus og Vulcanus liggja saman sem hjón og ætlaði sér að breyta söguþræðinum svo að hann hæfði betur rómversku siðgæði. Af þessum sökum einnig óskaði hann þess að kvæðið yrði brennt að honum látnum. Ágústus fyrirskipaði hins vegar að óskir skáldsins yrðu hafðar að engu og eftir örlitlar breytingar var "Eneasarkviða" gefin út. Á 15. öld voru gerðar tvær tilraunir til þess að semja viðauka við "Eneasarkviðu". Aðra tilraunina gerði Pier Candido Decembrio (en viðauki hans var aldrei kláraður) en hina gerði Maffeo Vegio og var viðauki hans oft hafður með í prentuðum útgáfum af "Eneasarkviðu" á 15. og 16. öld sem "Supplementum". Söguþráður Eneasarkviðu. "Eneasarkviða" segir frá kappanum Eneasi sem kemst undan þegar Grikkir leggja Trójuborg í rúst og er förinni, samkvæmt æðra valdi, heitið til Ítalíu að stofna borg og ættir Latverja. Örlögin hafa ætlað honum að stofna þar voldugt ríki. Á milli falls Tróju og komuna til Ítalíu lendir Eneas í ýmsum ævintýrum, á t.d. í stuttu ástarsambandi við drottninguna Dídó, stofnar borg (Akestu) og fer til undirheima ásamt völvunni Síbyllu á fund hinna látnu og sér framtíð þess lands sem hann á eftir að stofna. Nokkrar þýðingar. Frægasta þýðing "Eneasarkviðu" er ef til vill ensk þýðing eftir 17. aldar skáldið John Dryden. Þó er auðvitað erfitt um slíkt að dæma, enda verkið verið þýdd á ófá tungumál. Ein þekktasta enska nútímaþýðing á kviðunni er eftir Robert Fitzgerald og kom fyrst út 1981. Haukur Hannesson hefur þýtt Eneasarkviðu í heild sinni á íslensku á óbundið mál, en sú þýðing kom út 1999. Áður höfðu aðeins verið þýdd brot úr henni, eins og t.d. Kristján Jónsson fjallaskáld sem þýddi hluta úr þriðju bók með fornyrðislagi. Heilsokkar. Heilsokkar (eða hæðarsokkar'") eru sokkar sem ná vel upp fyrir hné. Vattarsaumur. Vattarsaumur er saumur með stórri nál úr tré, beini eða málmi. Líkt og í prjóni og hekli var þráðurinn lykkjaður en í grundvallaratriðum var aðferðin annars eðlis. Áferðin á vattarsaum svipar til hekls en teygjanleikinn er ekki sá sami. Vattarsaumur er forn saumaðferð sem notuð var áður en Íslendingar lærðu að prjóna. Jótland. Jótland er meginlandshluti Danmerkur. Skaginn er ekki með náttúruleg landamæri í suðri þar sem hann tengist evrópska meginlandinu en þau skil hafa ýmist legið eftir Saxelfi, Egðu, Danavirki, dansk-þýsku landamærin frá 1920 eða við Konungsá. Nafnið Jótland þýðir einfaldlega „land Jótanna“, en „Jótar“ er hugsanlega skylt orðinu „ýtar“ sem þýðir menn. Annar möguleiki og líklegri er að Jótland/Jutland sé afbrigði af nafninu Götaland, sem af Svíum er borið fram Jötaland. Egða. Egða (danska: "Ejderen"; þýska: "Eider") er fljót sem myndar söguleg landamæri milli hertogadæmanna Slésvíkur og Holsetalands. Á miðöldum markaði áin landamæri Danmerkur og Þýskalands. Egða er um 180 km löng og er lengsta fljót í þýska sambandsríkinu Slésvík-Holtsetalandi. Upptök hennar eru sunnan við Kíl og þaðan rennur hún bugðótta leið út í Norðursjó. Hún rennur í gegnum bæina Bordesholm, Kíl, Rendsborg, Friedrichstadt og Tönning. Á 110 kílómetra kafla er hún skipgeng þar eð hún er hluti af Egðuskurðinum og Kílarskurðinum. Hampshire County (Vestur-Virginíu). Hampshire er sýsla í austurhluta Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi sýslunnar var 21.542 árið 2004. Sýslan er 1.670 km² að flatarmáli. Hampshire er gömul sýsla í Vestur-Virginíu. Sýslan var mynduð 1753 úr hlutum sýslanna Frederick og Augusta. Sýslan dregur nafn sitt af Hampshire í Englandi. Sveitarfélög. Hampshire Skandinavíuskaginn. Skandinavíuskagi í samhengi við Fennóskandíuskagann Skandinavíuskaginn er skagi út frá norðausturhluta meginlands Evrópu. Skaginn er hluti af Fennóskandíuskaganum. Engin gefin mörk eru þar sem Skandinavíuskagi hefst en yfirleitt er það skilgreint eftir hugsaðri línu frá Kirkenes í Noregi suður að norðurströnd Botníuflóa. Þar með lendir rák af Finnlandi á skaganum. Annars er það Noregur og Svíþjóð sem skipta skaganum á milli sín. Skandinavíuskagi er um 1 850 kílómetra langur og milli 370 og 805 kílómetra breiður eða um 770 000 km². Skaginn er umlukinn hafi nema þar sem hann tengist inn á Kolaskaga. Að norðan Barentshaf; að vestan Noregshaf; að suðvestan Norðursjór ásamt Kattegat og Skagerak; að austan Eystrasalt með Botníuflóa. Mikill fjallgarður gengur suður allan skagann og er hann hæstur vestanmeginn, á landsvæði Noregs. Hæstu tindar eru Glittertinden sem er 2.470 m hár og Galdhøpiggen sem er 2.469 metrar. Stærsti jökull á meginlandi Evrópu er Jostedalsbreen í Noregi. Um fjórðungur skagans er norðan við heimskautsbaug. Nyrsti oddi skagans er Nordkap í Finnmark fylki í Noregi og sá syðsti er Smygehuk í Skáni í Svíþjóð. Os Lusíadas. Os Lusíadas (í þýðingu "Lúsitaníumennirnir", eða "Íbúar Lúsitaníu") er ljóðabálkur sem talinn er eitt af höfuðverkum portúgalskra bókmennta. Hann var skrifaður af Luís de Camões, var fyrst prentaður árið 1572 og fjallar um portúgölsku landafundina á 14. – 17. öld. Það tók höfundinn um 30 ár að skrifa ljóðabálkinn. Camões las ljóðabálkinn fyrir Sebastian, konung Portúgals, sem varð svo uppnæmur að hann varð staðráðnari en fyrr í að leggja í krossferð, sem að endingu kostaði hann lífið. 1490. a>. Í heimalandi sínu er hún talin til dýrlinga og kölluð heilög Jóhanna en hún hefur þó aldrei verið tekið formlega í dýrlingatölu. Emma Watson. Emma Charlotte Duerre Watson (fædd 15. apríl 1990) er bresk leikkona sem best er þekkt fyrir hlutverk sitt sem Hermione Granger í kvikmyndunum um Harry Potter. Æska. Emma er sú yngri af tveimur börnum Chris og Jacqueline Watson, sem bæði eru lögfræðingar, en þau eru nú skilin. Emma á yngri bróður sem heitir Alex. Sem ung stelpa gekk hún í Dragon School, undirbúningsskóla í Oxford. Árið 2003 var hún komin í Headington School, stúlknaskóla sem einnig er staðsettur í Oxford. Áður en Emma fór að leika í Harry Potter-myndunum hafði hún litla reynslu af leiklist, en sú reynsla sem hún hafði samanstóð einungis af aðalhlutverkum í skólaleikritum, meðal annars í "Arthur: The Young Years" og "The Happy Prince". Af öðru skólatengdu sem hún tók þátt í má nefna Daisy Pratt-ljóðakeppnina, þar sem hún vann fyrstu verðlaun fyrir hennar árgang sjö ára gömul. Ferill. Emma var valin til að leika Hermione Granger tíu ára gömul og var ellefu ára árið 2001 þegar fyrsta mynd hennar, "Harry Potter og viskusteinninn", kom út. Síðan hefur hún leikið í öllum framhaldsmyndunum: "Leyniklefanum" (2002), "Fanganum frá Azkaban" (2003),"Eldbikarnum" (2004)., "Fönixreglunni"(2006) og "Blendingsprinsinum" (2008). Aðdáendur Harry Potter-bókanna hafa tjáð skiptar skoðanir um túlkun Emmu á Hermione: sumir telja hana smellpassa í hlutverkið; aðrir telja að hún nái ekki að sýna veikleika Hermione og segja að hún sé „of snoppufríð“ fyrir hlutverkið — nokkuð sem sumir kvikmyndagagnrýnendur taka undir — en í bókunum er Hermione lýst sem „plain“, þ.e. hvorki „fallegri“ né „ljótri“. Eitthvað er kvartað um að hún leggi of mikla áherslu á setningar sínar og hreyfi augabrúnirnar í sífellu. Persónuleiki Hermione hefur hins vegar breyst lítillega í meðför leikstjóranna en sumir aðdáendur sagnanna kvarta yfir þeim breytingum sem það veldur í samskiptum aðalpersónanna þriggja. Fimmtán ára gömul varð Emma yngsta leikkonan til að komast á forsíðu tímaritsins "Teen Vogue". Í febrúar 2006 hófust tökur á "Harry Potter og Fönixreglunni", sem mun koma út þann 13. júlí 2007, en þar mun Emma halda áfram hlutverki sínu sem Hermione. Tenglar. Watson, Emma Watson, Emma Watson, Emma Á bleikum náttkjólum. Á bleikum náttkjólum er hljómplata sem Megas gaf út árið 1977 í samstarfi við Spilverk Þjóðanna. Það var Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi sem fékk Megas til að ganga í eina sæng með Spilverki Þjóðanna og skapa Á bleikum náttkjólum. Egill Ólafsson fékk kjallara á Bergstaðastrætinu lánaðan hjá tengdaföður sínum til æfinga og þar vörðu hljómlistarmennirnir sumrinu í að stilla saman strengi. Upptökur fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði og hófust þær yfirleitt seinni part kvölds. Þegar spurðist út hvað væri í gangi, vakti það furðu margra að þessir listamenn störfuðu saman því þeir þóttu nokkuð ólíkir. Ýmsir sem þekktu til birtust í stúdíóinu til að sannreyna orðróminn og gefa góð ráð. Auk Spilverksins komu nokkrir aðrir tónlistarmenn að gerð plötunnar svo sem Karl Sighvatsson. Útlit plötunnar sá Kristján Kristjánsson um. Á framhlið plötunnar er þrívíddar collage þar sem stuðst er að nokkru við texta plötunnar í táknmyndum en einnig spilar tíðarandinn inn í myndverkið. Þegar platan kom út var gerð sjónvarpsauglýsing sem tekin var upp í Iðnó en hún var stöðvuð eftir tvær birtingar vegna ósæmilegs innihalds. Einnig kom platan út á snældu og fylgdi þar aukalag sem ekki var á plötunni. Megas og Spilverk þjóðanna - Sjónvarpsauglýsing Jafna Eulers. Jafna Eulers eða Eulersjafna er aljafna kennd við Leonhard Euler. Hún er gjarnan kölluð fegursta jafna stærðfræðinnar því hún inniheldur nokkrar grundvallaraðgerðir stærðfræðinnar: samlagningu, veldisfall og margföldun og fimm grundvallartölur: 0, 1, π, e og i. Krabbadýr. Krabbadýr (fræðiheiti: "Crustacea") eru stór undirfylking liðdýra sem telur um 55.000 tegundir; þar á meðal krabba, humra, rækjur, marflær og hrúðurkarla. Krabbadýr finnast ýmist í vatni eða sjó en nokkrar tegundir lifa eingöngu á þurru landi. Odsherred. Odsherred eða Ods Herred er hérað í Holbæk Amt á Norðvestur-Sjálandi í Danmörku. Nafnið þýðir bókstaflega Oddahérað og dregur hafn sitt af Sjálandsodda sem skagar út frá eyjunni í vestur. Frá oddanum eru ferjusiglningar til Árósa og Ebeltoft. Áður fyrr tengdist héraðið Sjálandi um mjótt eiði, en landfyllingar hafa fyllt upp í Lammefjorden austan megin við eiðið frá 1873. Héraðið á strönd að Sejerø Bugt í vestri, Hesselø Bugt í Kattegat í norðri og Isefjorden og Lammefjorden í austri. Í Odsherred eru margir vinsælir sumardvalarstaðir, eins og höfnin í Rørvig og skemmtigarðurinn Sommerland Sjælland. Dragsholmhöll (reist 1250) er helsti herragarður héraðsins. Á miðöldum tilheyrði héraðið Vestursýslu Sjálands en varð síðar hluti af Dragsholmléni (eftir herragarðinum og fyrrum biskupssetrinu Dragsholmhöll) sem árið 1660 varð að Dragsholm Amti sem að síðustu féll undir Holbæk Amt árið 1793, sem frá 1970 heyrir undir Vestsjællands Amt. Í Odsherred er einn gamall kaupstaður, Nykøbing með yfir 7.000 íbúa, og margir minni bæir. Við sameiningu sveitarfélaga í Danmörku 2007 munu öll sveitarfélögin þrjú í Odsherred sameinast í eitt. Sólvagninn fannst árið 1902 í Trundholmmýri í Odsherred. Hann er nú til sýnis á Danska þjóðminjasafninu. Kelduhverfi. Kelduhverfi (kemur úr "keldu-" „dý, pyttur, fen“ + "hverfi") er sveit sem liggur fyrir botni Axarfjarðar og er vestasta sveit í Norður-Þingeyjarsýslu. Kelduhverfi liggur milli Jöklusár á Fjöllum og Tjörness. Hegranes. Hegranes kallast landsvæðið milli kvísla Héraðsvatna í Skagafirði og er í rauninni eyja í Vötnunum, um 15 km á lengd og með allháum klettaásum en vel gróið á milli. Vesturós Vatnanna er fast upp við nesið vestanvert en að austan eru breiðir og víðlendir sandar áður en komið er að Austurósnum. Þar suður af er óshólmasvæði með fjölbreyttu fuglalífi og gróðri sem kallast Austara-Eylendið og er það á náttúruminjaskrá. Hegranes var áður sérstakt sveitarfélag, Rípurhreppur, en tilheyrir nú Sveitarfélaginu Skagafirði. Í landi jarðarinnar Garðs í Hegranesi var áður héraðsþing Skagfirðinga, Hegranesþing, og þar var einnig stundum haldið fjórðungsþing Norðlendinga. Kirkja sveitarinnar er á Ríp. Einn fyrsti kvennaskóli landsins var stofnaður í Ási í Hegranesi haustið 1877 en starfaði þar aðeins eitt ár. Í Keldudal í Hegranesi hefur farið fram umfangsmikill fornleifauppgröftur og þar hafa verið grafnar upp rústir frá 10.-12. öld. Skagerrak. Skagerrak er sund inn úr Norðursjó milli suðausturstrandar Noregs, Jótlands í Danmörku og suðvesturstrandar Svíþjóðar (Bohuslän). Suður úr Skagerrak liggur Kattegat sem tengist við Eystrasalt um Eyrarsund, Litla-Belti og Stóra-Belti. Bein lína frá Grenen á Skagen á Norður-Jótlandi að Marstrand í Svíþjóð greinir á milli Skagerrak og Kattegat. Oslóarfjörður gengur norður úr Skagerrak. Tungusveit (Strandasýslu). Tungusveit er heiti á sveitinni sem liggur sunnan megin við Steingrímsfjörð á Ströndum og nær frá Kollafjarðarnesi yst við norðanverðan Kollafjörð að Hrófá, skammt utan við Hólmavík. Sveitin heitir eftir bænum Tröllatungu þar sem farið er upp á Tröllatunguheiði þar sem landnámsmaðurinn Steingrímur trölli á að hafa reist bæ sinn. Húnaflói. Firðir inn af Húnaflóa og þéttbýlisstaðir í Húnavatnssýslum Húnaflói er breiður flói á milli Stranda (Krossaness) og Skagastrandar í Húnaþingi. Hann er um 50 km breiður og 100 km langur. Sunnan og austan úr Húnaflóa ganga firðirnir Hrútafjörður, Miðfjörður og Húnafjörður og vestan megin Bjarnarfjörður, Steingrímsfjörður, Kollafjörður og Bitrufjörður. Austan megin eru bæirnir Blönduós og Skagaströnd. Engey (Kollafirði). Kort sem sýnir örnefni í Reykjavík og nágrenni. Engey er næststærsta eyjan á Kollafirði á eftir Viðey. Þar er nú viti sem var reistur árið 1902 en áður fyrr var búið í eynni og var þar oft margbýli. Elstu heimildir um byggð í Engey eru í Njálu. Í eynni var kirkja frá 1379 til 1765. Eyjan varð hluti af Reykjavík árið 1978. Á 19. öld voru skipasmiðir úr Engey þekktir og svokallað Engeyjarlag á bátum varð algengasta bátalagið um allan Faxaflóa. Fremstur þessara skipasmiða var Kristinn Magnússon, sem smíðaði 220 skip og báta á árunum 1853-1875. Hann þróaði einnig seglabúnað sem varð almennur á Faxaflóasvæðinu og stundaði þilskipaútgerð í félagi við Geir Zoëga og fleiri. Búið var í eynni til 1950. Öll hús í eynni voru brennd árið 1966, enda þá grautfúin og að falli komin. Við eyjuna er kennd Engeyjarættin, afkomendur Snorra Sigurðssonar ríka, sem bjó mjög lengi í eynni og lést þar hátt á níræðisaldri árið 1841. Til hennar heyrir til dæmis Bjarni Benediktsson, sem var forsætisráðherra frá 1963 til 1970, Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og Ragnhildur Helgadóttir fyrrverandi ráðherra. Nokkrar hernaðarminjar eru í Engey en á árum heimsstyrjaldarinnar síðari voru þar reist virki til að verja innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn. Þar er meðal annars neðanjarðarstjórnstöð. Minjarnar þar eru betur varðveittar en víða annars staðar vegna þess að eyjan fór í eyði fljótlega eftir að stríðinu lauk. Í sveig út frá suðurodda eyjarinnar liggur langt sker, Engeyjarboði, sem sjór rétt flýtur yfir á fjöru. Ljósbauja gegnt Reykjavíkurhöfn merkir enda boðans. Lappland. Lappland eða Samaland (samíska: Sápmi) er það menningarsvæði sem samar byggja eða hafa byggt í gegnum tíðina. Lappland nær yfir norðurhluta Skandinavíu og Kólaskaga og skiptist milli Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Rússlands. 1494. Karl 8. Frakkakonungur heldur innreið sína í Flórens. 1431. a> fyrir rétti. Málverk eftir Paul Delaroche. 1441. Kristsmynd í koptískri kirkju í Eþíópíu. Krónborgarhöll. Krónborgarhöll eða Krúnuborgarhöll (danska: "Kronborg Slot") er höll sem stendur við Eyrarsund 1 km norðan við Helsingjaeyri í Danmörku, þar sem sundið er mjóst milli Helsingjaeyrar og Helsingjaborgar Svíþjóðarmegin. Höllin er ferhyrnd í endurreisnarstíl, byggð á árunum 1574 til 1585. Friðrik II Danakonungur lét byggja höllina á grunni miðaldavirkisins Króksins sem Eiríkur af Pommern hafði látið reisa á þessum stað til að framfylgja innheimtu Eyrarsundstolls af öllum skipum sem áttu leið um sundið. Margir ferðamenn líta á höllina sem "Elsinore" sem er höll konungs í "Hamlet" eftir William Shakespeare. Shakespeare hefur hugsanlega fengið hugmyndina að nafninu úr sögum enskra sjómanna sem séð höfðu höllina þegar þeir biðu þess að greiða tollinn á Helsingjaeyri. Árið 2000 var Krúnuborgarhöll tekin á heimsminjaskrá UNESCO. Spurningakeppni fjölmiðlanna. Spurningakeppni fjölmiðlanna er spurningakeppni sem RÚV stóð fyrir árlega frá 1989 til 2008, þegar hún fluttist yfir til Bylgjunnar. Er henni útvarpað um páskana. Helstu fjölmiðlar landsins senda tveggja manna lið til keppni en hún er útsláttarkeppni þar sem einn fjölmiðill stendur uppi sem sigurvegari. 2001. Umsjónarmaður: Sveinn H. Guðmarsson og Björn Þór Sigbjörnsson 2002. Umsjónarmaður: Sveinn H. Guðmarsson 2003. Umsjónarmaður: Sveinn H. Guðmarsson 2004. Umsjónarmaður: Ævar Örn Jósepsson 2005. Umsjónarmaður: Ævar Örn Jósepsson 2006. Umsjónarmaður: Ævar Örn Jósepsson 2009. Umsjónarmaður: Logi Bergmann Eiðsson 2010. Umsjónarmaður: Logi Bergmann Eiðsson 2011. Umsjónarmaður: Logi Bergmann Eiðsson 2012. Umsjónarmaður: Logi Bergmann Eiðsson Valdimar sigursæli. Valdimar sigursæli eða Valdimar 2. (28. júní 1170 – 28. mars 1241) var sonur Valdimars Knútssonar og konu hans, Soffíu af Minsk. Hann tók við konungdómi í Danmörku árið 1202 af bróður sínum, Knúti 6. sem lést barnlaus. 1188 varð hann hertogi í Slésvík og 1202 konungur Danmerkur eftir lát bróður síns. Hann hélt áfram því starfi föður síns og bróður að vinna lönd undir dönsku krúnuna. Fyrst lagði hann Holtsetaland undir sig og síðan Þéttmerski, Lýbiku og Hamborg, norðurströnd Pommern og eyjuna Rügen. Þegar páfi bað hann um að leggja í krossferð til Palestínu ákvað hann heldur að ráðast inn í Eistland (sem þá var enn ekki kristið land) til aðstoðar sverðriddurum. Í orrustunni við Lyndanise 15. júní 1219 lagði hann Eistland undir sig. Hann var tekinn til fanga árið 1223 í veiðiferð ásamt syni sínum af Hinriki af Schwerin sem var undirsáti hans. Honum var sleppt 1226 gegn því að hann gæfi upp tilkall til þeirra norðurþýsku héraða sem hann hafði lagt undir sig. Ári síðar réðst hann inn í Þýskaland til að ná þeim aftur, en beið ósigur í orrustunni við Bornhöved 22. júlí og varð að sætta sig við að landamærin milli Danmerkur og Þýskalands yrðu aftur færð frá Saxelfi að Egðu. Ólafur hvítaskáld dvaldist við hirð Valdimars konungs, síðasta árið sem hann lifði, 1240–1241. Í Knýtlinga sögu segir að Ólafur hafi numið af honum marga fræði. ("Íslensk fornrit" 35, 315). 1170. a> myrtur. Mynd úr handriti frá 13. öld. Helsingjaeyri. Helsingjaeyri (danska: "Helsingør") er bær á austurströnd Sjálands í Danmörku með um 61.000 íbúa. Bærinn stendur við Eyrarsund þar sem sundið er grennst milli Sjálands og Helsingjaborgar á Skáni í Svíþjóð. Bílferja gengur milli bæjanna. Elstu heimildir um bæinn eru frá 1231 en hann fékk kaupstaðarréttindi 1426 frá Eiríki af Pommern um leið og Eyrarsundstollurinn var settur á og virkið Krókurinn reist og síðar Krúnuborgarhöll. Ólafskirkjan er elsta bygging bæjarins, en þar var Dietrich Buxtehude m.a. organisti um tíma. Konungur Danmerkur. Konungur Danmerkur, Danakonungur eða drottning Danmerkur, Danadrottning er þjóðhöfðingi Danmerkur. Brønshøj. Brønshøj er eitt af úthverfum Kaupmannahafnar, Danmörku. Það er staðsett í vestari hluta Kaupmannahafnar á milli Utterslev, Husum, Rødovre, Friðriksbergs og Norðurbrúar. Hverfið er byggt í kringum restina af sveitaþorpinu Brunshoga og býr þar aðallega millistéttarfólk í einbýlishúsum. Íbúafjöldi í Brønshøj árið 2006 var um 39.000 manns. Lágþýska. Lágþýska (einnig niðursaxneska eða plattþýska) er þýsk mállýska. Hið opinbera heiti tungumálsins á lágþýsku er nedersaksisch eða plattdüütsch. Lágþýska er vesturgermanskt tungumál og skyldast ensku, frísnesku, hollensku og afríkönsku (tungumáli í Suður-Afríku). IP-tala. IP-tala eða IP-númer (frá "Internet P'"rotocol" sem merkir ‚Netsamskiptareglur‘) er tala sem gefin er hverri nettengdri tölvu þannig að hver tölva hafi sér vistfang. Fjórða útgáfa IP samskiptareglunnar (IPv4) sem var sú fyrsta til að ná útbreiðslu notar 32-bita (fjögurra-bæta) IP-tölur sem geta í mesta lagi skilgreint 4.294.967.296 (formula_1) vistföng. IPv4 er enn langmest notaðasta reglan en arftaki hennar, IPv6 sem notar 128-bita tölur og getur skilgreint formula_2 vistföng, er enn lítið notuð. IPv4-tala er af gerðinni x.x.x.x en dæmi um það er 91.198.174.225 sem er vistfang. Þá er hvert x tala á bilinu 0 til 255. Dæmi um IPv6-tölu er 2001:0db8:0000:0000:0AA3:0000:1428:57ab. Egill Einarsson. Egill Einarsson (fæddur 13. maí 1978), betur þekktur sem Gillzenegger (einnig nefndur Störe, Gillz, Stóri G, Big G, Þykki,G Höfðinginn,DJ Muscle Boy og G-Man) er íslenskur fjölmiðlamaður, hnakki, tónlistarmaður, fyrirsæta og vaxtarræktargarpur. Ferill. Egill hefur starfað við ýmsa fjölmiðlun, meðal annars sem pistlahöfundur hjá "Bleiku og bláu" og sem útvarpsmaður á útvarpsstöðinni KissFM en hann er líklega þekktastur fyrir sjónvarpsþátt sinn á sjónvarpsstöðinni Sirkus og bók sína, "Biblíu fallega fólksins". Í bókinni leggur hann línurnar fyrir þá sem langar til að tilheyra hópi „fallega fólksins“. Egill var í hljómsveitinni Merzedes Club sem tók þátt í undankeppni Eurovision árið 2008. Egill var meðhöfundur símaskrárinnar 2011 sem gefin er út af fyrirtækinu Já. Þann 2. desember 2011 greindu fjölmiðlar frá því að átján ára stúlka hafði kært Egil „Gillzenegger“ Einarsson og kærustu hans fyrir nauðgun. Eftir að ásakanir á hendur Agli um kynferðisbrot og áður en nokkuð hafði verið dæmt í málinu, ákvað Já að bjóða fólki sérhannaða límmiða til þess að líma yfir myndina af honum sem prýðir forsíðuna endurgjaldslaust. Slíkir miðar voru prentaðir en fóru aldrei í dreifingu og ákveðið var að nota þá ekki. Kærunum gegn Agli var vísað frá af saksóknara árið eftir. 50 Cent. 50 Cent í Hollandi í janúar 2006. Curtis James Jackson III (fæddur 6. júlí 1975) er bandarískur rappari sem gengur undir listamannsnafninu 50 Cent. Vorið 2007 bárust fréttir af því að íslenski auðmaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefði borgað 50 Cent háar fjárhæðir til þess að koma fram í fertugsafmæli sínu sem haldið var á Jamaíka. Game (rappari). Jayceon Terell Taylor er bandarískur rappari sem gengur undir listamansnafninu Game. Hann var áður meðlimur í G-Unit og vinur 50 Cent, en hann hætti í G-Unit eftir illdeilur við hann. Fyrirætlaðir eru tónleikar með honum á Íslandi þann 18. desember 2010 á Broadway. Deimos. Deimos er hið ytra tveggja tungla reikistjörnunnar Mars en hitt tunglið er Fóbos. Deimos er að mestu úr kolefni og ís og hefur mestu endurskinshæfni allra fyrirbæra í sólkerfinu. Þvermál Deimosar er innan við 20 km og er lögun hnattarins nokkuð óregluleg. Eins og tungl jarðarinnar snýr Deimos alltaf sömu hlið að Mars. Bandaríski stjörnufræðingurinn Asaph Hall uppgötvaði Deimos árið 1877 þegar Mars var í gagnstöðu og sólnánd. Yfirborð Deimosar er þakið þykku lagi ryks svo smáatriði yfirborðsins sjást illa. Ólíkt Fóbosi kemur Deimos upp í austri og sest í vestri. Mikið af því sem vitað er um Deimos er afrakstur Mariner- og Viking geimferðaáætlunar Geimferðastofnunar Bandaríkjanna. Deimos og Fóbos eru nefnd eftir sonum Aresar í grískri goðafræði. Bjarnarfjörður nyrðri. Bjarnarfjörður nyrðri er eyðifjörður á milli Dranga og Skjaldabjarnarvíkur á Ströndum. Í fjörðinn rennur jökulá úr Drangajökli, sem veldur því að hann er grunnur inn í botni og gott er að vaða þar yfir. Tvö kotbýli stóðu við Bjarnarfjörð, Skaufasel norðanmegin og Fornasel sunnan megin. Í firðinum er mikið um sel. Skjaldabjarnarvík. Skjaldabjarnarvík er nyrsta víkin á Ströndum sunnan Geirólfsgnúps og var áður nyrsta býli í Strandasýslu. Landamerki voru við Geirólfsgnúp að norðan, en um Bjarnarfjarðará í botni Bjarnarfjarðar nyrðri að sunnan. Bæjarhúsin stóðu norðarlega í víkinni sem kölluð var Skjaldarvík í daglegu tali. Víkin fór í eyði árið 1947. Sunnan til í Skjaldarvík er Sunndalur og á milli hans og Bjarnarfjarðar er fjallið Rönd. Fram af því gengur nes sem á er holtaröð sem heita Þúfur. Sagt er að í einu holtinu sé landnámsmaðurinn Skjalda-Björn Herfinnsson heygður, hundurinn hans í öðru og skip hans skjöldum prýtt í þeirri þriðju. Á leiðinni frá Þúfum inn í Bjarnarfjörð er lítið nes á miðri hlíðinni sem heitir Skaufasel. Hinu megin við fjörðinn er síðan Meyjarsel í landi Dranga. Líklegt er að þarna hafi verið býli til forna, en síðar selstaða og beitarhús. Einn þekktasti bóndi í Skjaldabjarnarvík er Hallvarður Hallsson (um 1723-1799). Hann var sonur Halls Erlendssonar frá Horni, þótti forn í skapi og einrænn. Hallvarður er grafinn í túninu í Skjaldarbjarnavík og er vel hugsað um leiði hans. Það hefur tíðkast allt fram á okkar daga að heita á Hallvarð. Evrópska efnahagssvæðið. Lituðu löndin mynda saman EES Evrópska efnahagssvæðið (EES) er sameiginlegt markaðssvæði 31 ríkis í Evrópu sem komið var á með EES-samningnum og tók formlega gildi 1. janúar 1994. Aðild að EES eiga öll 28 aðildarríki Evrópusambandsins, sambandið sjálft og 3 aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Sviss er eina EFTA-ríkið sem stendur utan EES þar sem að aðild að samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi. EES-samningurinn veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu. Fjórfrelsið svokallaða gildir á öllu svæðinu en það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað. Að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl. Tilurð og saga. Fyrir tíð EES hafði hvert EFTA-ríki sjálfstæð samskipti við EB (forvera ESB). Árið 1984 var efnt til sameiginlegs ráðherrafundar EFTA og EB í Lúxemborg með það að markmiði að efla viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum á milli bandalaganna. 1989 hófust formlegar samningaviðræður sem stóðu til 1991 en þá var samningsuppkastið sent Evrópudómstólnum til umfjöllunar. Dómstóllinn gerði athugasemd við grein í samningnum sem fjallaði um sérstakan EES-dómstól sem skyldi fjalla um deilumál vegna framkvæmdar samningsins. Slíkur dómstóll var talinn brjóta á Rómarsamningnum sem kveður á um að Evrópudómstóllinn fer einn með dómsvaldið innan ESB. Niðurstaðan var að stofnaður var sérstakur EFTA-dómstóll til að leysa úr deilumálum frá EFTA-ríkjunum. Á Íslandi veitti Alþingi stjórnvöldum heimild til að staðfesta EES-samninginn með því að samþykkja lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 þann 12. janúar 1993. Málið var mjög umdeilt og til marks um það var það samþykkt í þinginu með 33 atkvæðum á móti 23 en 6 sátu hjá. Alþýðuflokkurinn og megnið af Sjálfstæðisflokkinum samþykktu en Alþýðubandalagið, megnið af Kvennalistanum, hálfur Framsóknarflokkurinn og þrír Sjálfstæðismenn voru á móti. Hinn helmingur Framsóknarmanna og einn þingmaður Kvennalistans sátu hjá. Andstaðan við samningin var að hluta til komin af ótta við afleiðingar aukins viðskiptafrelsis (t.d. að útlendingar myndu kaupa upp jarðir á Íslandi í stórum stíl) en einnig vegna þess að margra mati felur samningurinn í sér óásættanlegt framsal á sjálfstæði þjóðarinnar til alþjóðastofnunar. Því hefur einnig verið haldið fram að samningurinn kunni að brjóta á stjórnarskrá Íslands sem að gerir ekki ráð fyrir því að löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald sé framselt. Kristján 6.. Kristján 6. (30. nóvember 1699 – 6. ágúst 1746) tók við sem konungur Dansk-norska ríkisins við lát föður síns Friðriks 4. 12. október 1730. Hann er þekktastur fyrir að hafa innleitt vistarbandið í Danmörku vegna þrýstings frá landeigendum sem skorti vinnuafl á tímum efnahagslegrar lægðar. Eitt af fyrstu embættisverkum hans var að svipta seinni konu föður síns meirihluta af arfi sínum og senda hana til herragarðsins í Clausholm þaðan sem faðir hans hafði numið hana á brott. Kristján og drottningin, Sophie Magdalene af Brandenburg-Kulmbach, voru trúuð og aðhylltust píetisma. Kristján lét banna allar skemmtanir á sunnudögum og 1735 gaf hann út helgidagatilskipun þar sem kirkjusókn varð skylda, að viðlögðum refsingum. 1736 gaf hann út tilskipun um að fermingar væru skylda. Hann þótti innhverfur og þunglyndur og hélt sig mest heima við sem gerði hann óvinsælan. Hann lét reisa margar nýjar byggingar til að undirstrika konungsvaldið svo sem Eremitage og upphafið að Kristjánsborgarhöll. Þessar framkvæmdir voru fjármagnaðar með tekjum af Eyrarsundstollinum en áttu sinn þátt í að veikja efnahagslífið enn frekar. 1736 var Kúrantbankinn, forveri danska seðlabankans, stofnaður. Botnmálning. Botnmálning er sérstök málning til að mála með botn á bátum (að utanverðu). Hún er hönnuð með það fyrir augum að koma í veg fyrir að gróður myndist á skrokk bátsins neðan sjólínu sem annars myndi draga úr siglingarhæfni bátsins og eyðileggja skrokkinn á trébátum. Botnmálning getur líka haft það hlutverk að hindra tæringu á stálbátum eða auðvelda flæði vatns umhverfis skrokkinn á keppnisbátum. Á skútuöld áttu skip oft í miklum vandræðum með hrúðurkarla og þara sem greri á skipsskrokknum og dró verulega úr siglingarhæfni skipsins. Koparþynnur voru festar á botn bátsins til að koma í veg fyrir þetta. Nútíma botnmálningar innihalda gjarnan koparoxíð eða önnur eiturefni, svo sem lífræn efnasambönd tins, sem koma í veg fyrir gróðurmyndun. Vörnin eyðist með tímanum og því þarf að endurnýja botnmálninguna reglulega. Slíkar botnmálningar valda mismikilli mengun en gerðar hafa verið tilraunir með botnmálningar sem ekki innihalda kopar eða tin. Algengt var að TBT (tributýltin) væri notað í þessar málningar en efnið getur meðal annars valdið tvíkynjun nákuðunga. Sveppir. Sveppir (fræðiheiti: "fungi", eintala: "fungus") eru um margt sérstæðar lífverur og því flokkaðir í sitt eigið ríki, svepparíkið. Lengi vel voru þeir samt flokkaðir með plöntum enda við fyrstu sýn líkari þeim en dýrum. Grundvallarmunur er þó á sveppum og plöntum þar sem plöntur eru frumbjarga og með blaðgrænu til ljóstillífunar en sveppir geta ekki ljóstillífað og myndað sína eigin næringu sjálfir, heldur eru rotverur og nærast á lífveruleifum svo sem dauðum plöntuhlutum og dýraleifum. Þeir passa heldur ekki í hóp með dýrum vegna þess að þeir draga í sig næringu í stað þess að melta hana og þeir hafa frumuvegg. Tiltölulega stutt er síðan sveppir voru færðir úr plönturíkinu og í sitt eigið ríki. Sveppir geta tekið yfir mjög stór svæði; það sem étið er af sveppnum, hatturinn (aldinið), eru einungis kynfæri sveppþráðakerfis sem er ofan í jörðinni, stundum á margra hektara svæði. Sveppir eru margir fjölfruma og vaxa þræðirnir í endann, en ger er ágætt dæmi um einfruma svepp. Fléttur teljast til sveppa en þær eru ólíkar öðrum sveppum að því leiti að þær eru sambýli svepps og þörunga eða baktería sem jafnframt gerir þær frumbjarga. Sumir sveppir tengjast einnig rótarendum plantna og mynda með þeim svepprót. Á Íslandi eru til um 550 tegundir kólfsveppa sem geta orðið það stórir að vel má sjá þá með berum augum. Suma þeirra má borða en aðrir eru eitraðir. Þegar sveppir eru tíndir verður alltaf að ganga vel úr skugga um að um óeitraðar sveppategundir sé að ræða, að þeir séu bragðgóðir og óskemmdir. Í heiminum öllum eru um 1.000 sveppategundir ætar en það er aðeins lítill hluti þeirra 30.000 tegunda kólfsveppa og 33.000 tegunda asksveppa sem þekktar eru. Alls eru þekktar nálægt 80.000 tegundir sveppa í heiminum en talið er líklegt að tegundir þeirra séu um 1.5 milljónir talsins. Ítarlegasta umfjöllun um sveppi á Íslandi er í "Sveppabókinni", eftir Helga Hallgrímsson. Frumbjarga. Lífverur eru sagðar frumbjarga búi þær til lífræn efni úr koltvíoxíð með því að nota ljós eða ólífræn efni, eins og vetnissúlfíð, sem orkugjafa. Allar grænar plöntur eru frumbjarga þar sem þær fá orku sína frá sólinni, af þessum sökum eru þær oftast undirstaða næringar í vistkerfum. Einstaka aðrar lífverur eru þó frumbjarga, til dæmis vinna nokkrar bakteríur orku úr ólífrænum efnum og eru undirstaða næringar í vistkerfum á stöðum eins og djúpt í hafi eða hellum þar sem sólarljós nær ekki til lífveranna. Buskerud. Kort sem sýnir staðsetningu Buskerud innan Noregs Buskerud er fylki í Noregi. Nágrannafylki þess eru Osló, Upplönd, Þelamörk, Vestfold, Sogn og Firðafylki og Hörðaland. Heildarflatarmál fylkisins er 14.930 km² og íbúar voru 245.225 árið 2005. Fylkið er í landshlutanum Austurland. Náttúrufar. Fylkið nær frá Hurum í Óslóarfirði inn til Hallingdals og Harðangursheiðar. Inn til fjalla eru mörg dalverpi og fjallgarðar en austar og neðar í fylkinu er láglendara og skiptast á lágir, grónir ásar og dalir. Fylkið er allt skógi vaxið, upp að hæðarmörkum skóga í fjallendum. Þar tekur við hefðbundnari heiðagróður. Lengsta á Buskerud er Numedalslågen, en hún hefur upptök sín á Hörðalandi og rennur í Óslóarfjörð í Vestfold. Stærstu stöðuvötnin eru Tyrifjorden og Krøderen, en það fyrrnefnda er fimmta stærsta vatn Noregs. Atvinna. Helstu atvinnuvegir í fylkinu eru landbúnaður, skógarhögg og alls kyns iðnaður auk þess sem þjónusta er vaxandi atvinnugrein. Stærsta borg og jafnframt aðsetur stjórnsýslu fylkisins er Drammen. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Buskerud er blár björn á silfurgráum bakgrunni. Ástæðan er sú að fram á 8. áratug síðustu aldar voru margir bjarnarstofnar í fylkinu. Blái liturinn á að endurspegla kobaltbláa litinn sem framleiddur var í Modum en grái liturinn á að endurspegla silfurnámurnar í Kongsberg. Lier (Noregi). Lier er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Flatarmál þess er 303 km² og íbúarfjöldinn var 21.874 í byrjun árs 2006. Nágrannasveitarfélög Lier eru Drammen, Modum, Hole, Bærum, Asker, Røyken, Nedre Eiker og Øvre Eiker. Lier-dalurinn er þekkt landbúnaðarsvæði og þar eru ræktuð jarðarber, epli og grænmeti. Finnemarka-svæðið liggur innan sveitarfélagsmarkanna en það er mest villtur skógur og tilvalinn staður til útivistar. Þéttbýlisstaðir í Lier eru nokkir; stærstu heita Lierbyen, Tranby, Sylling, Reistad, Nøste, Gullaug og Lierskogen. Kristjánsborgarhöll. Kristjánsborgarhöll (Christiansborg) er stór höll á Slotsholmen í miðborg Kaupmannahafnar á hólmanum Slotsholmen í Mið-Kaupmannahöfn. Þar eru aðsetur Folketinget (danska þingsins), skrifstofa danska forsætisráðuneytisins og danska hæstaréttsins. Höllin var ein aðalbúseta konungsfjölskyldunnar til 1794 en nú notar hún hið konunglega móttökuherbergi, hallarkapelluna og hin konunglegu hesthús. Í höllinni eru því þrjár helstu valdastofnanir ríkisins: framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið. Er þetta eini staðurinn í heiminum sem öll þessi valdastig eru undir sama þaki. Kristjánsborgarhöll er í eigu danska ríkisins og er rekin af höllinni og eignarstofnun. Sem afleiðing af tveimur alvarlegum eldsvoðum ber Kristjánsborg í dag vitni um þrjú tímabil í danska arkitektúrnum. Fyrsti eldsvoðinn varð árið 1794 og annar árið 1884. Lokið var við helsta hluta af núverandi höll árið 1928 og er hann í hinum sögufræga Nýbarokk, rókókóstíl. Kapellan er síðan 1826 og er í nýklassískum stíl. Kastali Absalons. Samkvæmt danska annálsritaranum Saxo Grammaticus, byggði Absalon biskup í Hróarskeldu kastala árið 1167 á lítilli eyju fyrir utan Kaupmannahafnar hafnir. Konungurinn Valdimar mikli hafði gefið Absalon bæinn Höfn sem er nú þekktur sem Kaupmannahöfn. Kastalinn var byggður upp með 5 metra háum steinmúr sem lokaði af nokkrar byggingar, eins og höll biskupsins, kapellu og nokkrum minni byggingum. Við dauða Absalon biskups, 1201, fóru eignir hans, kastalinn og Kaupmannahöfn, til biskupanna í Hróarskeldu. Nokkrum áratugum síðar, hófts hins vegar bitur valdabarátta á milli konungsvaldsins og kirkju. Í næstum tvær aldir var eignarhald kastalans og borgarinnar mikið þrætuefni á milli milli konunga og biskupa. Þá voru einnig oft árásir á kastalann frá utanaðkomandi aðilum, til dæmis frá Vind sjóræningjum og Hansasambandinu, og á árunum 1249 – 1259 var það hernumið og rændu. Eftir að sigra Valdimar atterdag, árið 1368, sendi Hansasambandið 40 steinsmiði til að rífa kastalann, stein eftir stein. Kastalinn hafði lengi valdið Hansasambandinu miklum óþægindi í viðskiptum þeirra á Eyrarsundinu og var nú kominn tími til að fjarlægja hann. Kaupmannahafnarkastali. Málverk af Kaupmannahafnarkastala frá 1698 Ofan á rústum kastala Absalons biskups var reistur nýr kastali sem fékk nriðafnið Kaupmannahafnarkastali. Kastalinn var enn í eigu biskupanna í Hróarskeldu þar til Eiríkur af Pommern, konungur, hrifsaði kastalann til sín árið 1417. Frá þeim tíma varð Kaupmannahafnarkastalinn að eign konungsvaldsins. Kastalinn varð hin konunglega búseta þegar Kristófer af Bæjaralandi flutti til Kaupmannahafnar 1443. Frá miðri 15. öld var kastalinn að hinum opinbera konungsstað og aðsetur dönsku ríkisstjórnarinnar. Kastalinn var endurbyggð nokkrum sinnum. Um 1720 endurreisti Friðrik IV alveg kastalann, en kastalinn varð svo þungur að veggirnir tóku að gefa eftir og sprynga. Það varð því alveg ljóst að Kristján IV, eftirmaður Friðriks IV, þurfti að byggja alveg nýjan kastala þegar hann tók við völdum 1730. Niðurrif á hinum yfirdrifna og úrelta Kaupmannahafnarkastala hófst árið 1731, til að búa til pláss fyrir fyrstu Kristjánsborgarhöllina. Rústir kastala Absalons og Kaupmannahafnarkastalans voru grafnar upp í upphafi 20. aldar og má sjá þær í dag undir núverandi höll. Fyrsta Kristjánsborg. Fyrsta Kristjánsborgin, séð yfir reiðvöllinn Þegar Kristján VI kom til valda fannst honum höllin vera þröng og dimm. Hann ákvað að byggja nýja höll alveg frá grunni, þetta skyldi verða hinn fyrsta Kristjánsborg. Arkitekt hallarinnar var Elias David Häusser en Laurids de Thurah og Nicolai Eigtved sáu um innanhúsarkitektinn. Vinnan byrjaði árið 1731 með niðurrifi á Kaupmannahafnarhöllinni. Mikið af landi í kring var keypt upp og hreinsað til þess að það væri hægt að byggja yfir gamla virkissíkið. Konungurinn lagði hornsteinninn 21. apríl 1733 og eftir það hófst uppbyggingin á nýrri höll. Höllin varð íbúðarhæf árið 1740 og sama ár, 5. október, urðu hesthúsin klár fyrir hesta konungs og vagna. Kristján VI flutti inn með pomp og prakt ásamt kveðjuveislu, þann 26. nóvember, þar sem hin konunglega fjölskylda flutti frá sínu tímabundna heimili, Fredriksberg Slot. Kristjánsborg stóð nú sem stórkostleg rókókóhöll, með reiðvöllum og kapellu sem var staðsett á sama stað og núverandi kapella. Þetta var mjög dýrt og var byggingarkostnaðurinn yfir helmingi tekna á ári fyrir allt ríkið eða sem verðmæti allra eigna á Sjálandi. Höllin var í allt 6 hæðir: Kjallari, jarðhæð (eða kvennahæðin), millihæðir (mezzanin), konungshæðin, hæð krónprinsins og efsta millihæðin; þessar hæðarskiptingar voru yfirfærðar frá Kaupmannahafnarhöllinni en gefið ný nöfn. Eins og nöfnin gefa til kynna höfðu konungshjónin íbúðir á konungshæðinni ásamt íbúð drottingarinnar í Norðurvængnum (móti hallarkirkjunni). Af gangnum að hæðinni var skipt á milli einkaherbergja konungs, móttökusals og sal hæstaréttar. Jarðhæðin var innréttuð sem skrifstofur og efst upp bjó starfsfólkið. Fyrri eldsvoðinn. Í meira 50 ár var stórkostlegt hirðlíf í höllinni en þann 26. febrúar 1794 braust út eldur frá einum skorsteini í einu herbergja erfðaprinsins. Eldurinn þróaðist verulega á næstu klukkustundum og vann mikill mannfjöldi, ekki bara að því að bjarga höllinni og dýrmætu innbú hennar, heldur einnig nærliggjandi hverfum sem glóðin fauk yfir. Höllin og hallarkirkjan brunnu og olli eldsvoðinn hallaríbúum miklu eignartjóni. Konungsfjölskyldan missti mikið af innbúi sínu og ómetanlegum listaverkum. Önnur Kristjánsborg. Eftir eldsvoðann 1794 vantaði að taka frumkvæðið og byggja nýja höll enda var þetta dýr framkvæmd. Það var ekki fyrr en árið 1803 að Kristján VII, konungur, ákvað þóknunina fyrir þann sem myndi skipuleggja og hafa umsjón með byggingu bæði nýrrar hallar, nýs ráðhúss og dómshúss fyrir Kaupmannahöfn. Hinn nýja Kristjánsborg var teiknuð af C.F. Hansen arkitekt, sem hafði sent inn hugmynd af verkefninu árið 1800. Stór hluti ytri múrsins og innri milliveggja lifðu eldinn af og voru endurnýttir. Við nýju hönnunina voru turninn og reiðvellirnir fjarlægðir en þetta hafði verði einn stærsti hluti af fyrri höllinni. Við þessa breytingu færðist aðalinngangurinn að höllinni að Hallartorginu. Hönnun nýju hallarinnar var í nútíma klassískum stíl sem var andstæða fyrri stíla, rókókó og barokks. Höllin hafði samt enn 6 hæðir eins og sú fyrri. Seinni eldsvoðinn. Kristjánsborg númer tvö brann þann 3. október 1884 þótt fólk hafi verið vakandi yfir eldhættunni af fyrri reynslu. Þannig höfðu verið byggðir eldveggir, járndyr, menn settir á vakt og slökkvikerfi útbúið en byggingin hafði þann veikleika að það var mikið af holrúmu þar sem eldur gæti breiðst út. Eldurinn kviknaði nálægt Rigsdagsalnum, þingsalur, og aftur var það ofn sem orsakaði það. Eldurinn dreifði sér fljótt um mið- og suðurvæng hallarinnar og eftir nokkurn tíma gáfust menn upp á því að bjarga höllinni og einbeittu sér að því að bjarga kirkjunni og reiðvöllunum sem tókst með dramatískum átökum. Samt var náð það góðum tökum á eldinum að það náðist að bjarga mest öllu innbúinu, bókum, silfrinu og fleiru. Þannig að tapið núna var ekki nærri eins stórt og í fyrri eldsvoðanum. Þriðja Kristjánsborgin. Thorvald Jørgensen, arkitekt, vann hönnunarsamkeppni um hönnun á þriðju (og núverandi) Kristjánsborgarhöll, sem byggð var frá 1907 – 1928. Hornsteinn hallarinnar var lagður 15. nóvember 1907. Höllin átti að vera heimili konungsfjölskyldurnar, starfssvæði löggjafans og dómstóla. Höllin var byggð í Nýbarokk stíl, með járnbentri steinsteypu með granítyfirborði. Brot úr höll C.F. Hansen voru varðveitt í norðurhlið hallarinnar, sem snýr að garði prins Jörunds (Prins Jørgens Gård). Þakið var upprunalega flísalagt, en eftir söfnun á landsvísu, var flísunum skipt út fyrir kopar, 1937 – 1938. Vindhana með tveimur kórónum var síðar bætt við turninn og varð þá 106 metra á hæð og þar með hæsti turninn í borginni. Við undirstöðuvinnuna komu rústir kastala Absalons og rústir Kaupmannahafnarkastalans í ljós. Það var ákveðið að gera þær aðgengilegar almenningi og var hin sögulega sýning opnuð árið 1924. Folketinget (Danska þingið). Fyrsta hæð þingsins er hannað í kringum anddyrið, sem er 80 metra langur salur með þingdeildinni (fyrrum neðri deild) sem staðsett er á öðrum endanum og landsþingsdeild (fyrrum efri deild) í hinum endanum. Ásamt salnum eru ýmis herbergi svo sem skrifstofa ræðumanna og skrifstofa stjórnvalda. Hið konunglega móttökuherbergi. Konunglegu móttökuherbergin í Kristjánsborgarhöll eru staðsett á fyrstu og annarri hæð í norðurhluta hallarinnar. Herbergin eru notuð við opinber störf eins og veislur, kvöldverði ríkisins, áramótafögnuð, háttvísar viðurkenningar, ríkisfundi og áhorfendur þeirra. Konunglegu móttökuherbergin eru ríkulega skreytt með húsgögnum og listaverkum sem bjargað var úr fyrri hölllunum tveimur, sem og skreytingar eftir nokkra bestu listamenn Danmerkur eins og Nikolaj Abraham Abildgaard, Christoffer Wilhelm Eckersberg, Laurits Tuxen, Joakim Skovgaard og Bjørn Norgaard. Til að komast að konunglegu móttökuherbergjunum þarf að ganga í gegnum Drottningarhliðið (Dronningeporten) og í gegnum sal Halberdiers (Drabantsalen) og þá ertu kominn að konunglega stiganum (Kongetrappen). Fyrir neðan stigann er áheyrnarsalur (Audiensgemakket) og ráðstefnusalur (Statsrådssalen). Drottningin tekur á móti gestum annan hvern mánudag og mætir á þing stjórnvalda eins og kröfur gera ráð fyrir, yfirleitt á miðvikudögum. Ný lög sem þingið hefur samþykkt þarf drottningin einnig að samþykkja. Áheyrnarsalurinn og ráðstefnusalurinn eru þeir einu tveir salirnir sem eru lokaðir almenningi. Konungsstiginn veitir aðgang að turnsalnum (Tårnsalen). Turnsalurinn sýnir röð af veggteppum þar sem myndefnið er frá dönskum þjóðlögum, ofið eftir teiknimyndum sem málaðar eru af Joakim Skovgaard. Andspænis hallartorginu er hásætisherbergið (Tronsalen) þar sem erlendir sendiherrar kynna Margréti Þórhildi drottningu trúnaðarefni sín. Hásætisherbergið veitir aðgang að svölunum þar sem konungar eru krýndir. Hásætisherbergið er skreytt með stóru loftmálverki eftir Kræsten Iversen, sem sýnir danska fánann, Dannebrog, og hvernig hann féll af himni í Eistlandi árið 1219. Fredensborgarsalur er einnig eitt af móttökuherbergjunum (Fredensborgsalen) þar sem Laurits Tuxen hefur málað Kristján IX konung og alla fjölskyldu hans saman í Fredensborgarhöll og hluta af bókasafni drottningarinnar. Stóri salurinn er sá stærsti af öllum konunglegu móttökuherbergjunum. Salurinn er 40 metra langur og er lofthæðin 10 metrar og umlykur myndlist salinn allan. Salurinn tekur 400 gesti í sæti og er notaður fyrir stórveislur, ríkiskvöldverði og móttökur. Stóri salurinn var gerður upp í tilefni af 60 ára afmæli Margrétar Þórhildar drottningar. Listamaðurinn Bjørn Norgaard hengdi upp sautján veggteppi sem segja frá sögu Danmerkur. Veggteppin voru gjöf frá danska atvinnulífinu í tilefni af 50 ára afmæli drottningarinnar. Alexanderssalur (Alexandersalen) er nefndur eftir marmara loftrönd Bertel Thorvaldsen, „Alexander mikli kemur til Babýlon“. Loftröndin var gerð fyrir seinni Kristjánsborgarhöll og hlutar hennar lifðu eldinn af. Þeir hlutar voru síðar gerðir upp og festir í þessum sal. Salurinn er notaður fyrir smærri móttökur og opinbera kvöldverði, oft í tengslum við heimsóknir ríkisins. Hallar-kapellan. Hallar-kapellann eins og hún lítur út í dag Saga kapellunnar í Kristjánsborgarhöll fer aftur til fyrstu Kristjánsborgarhallarinnar, sem var byggð af verkamanninum Elias David Häusser á árunum 1733 – 1745. Kristján VI konungur var hrifin af arkitektúr og réð hann ungan og hæfileikaríkan arkitekt að nafni Nicolai Eigtved, til að hanna kapelluna í höllinni (1738-42). Eigtved greip tækifærið og hannaði eina frægustu rókókó innréttingu Danmerkur. Árið 1974 kviknaði í höllinni og var þá ákveðið að rífa hana alveg niður. Hins vegar varð aldrei af niðurrifinu. Arkitektinn Christian Frederik Hansen sem var falið það verkefni að reisa höllina að nýju árin 1803 – 1828, fékk einnig það verkefni að reisa kapelluna árið 1810. Verkið hófst árið 1813 og var þáverandi grunnur og múrverk notað eins og hægt var. Kirkjan og aðalbygging hallarinnar var byggt í Nýklassískum stíl með hvelfingu ofan á aðal innanhússvæði kirkjunnar. Kirkjan var vígð á Hvítasunnu, 14. maí 1826 til að marka 1000 ára afmæli innleiðingu kristindóms til Danmerkur. Annar eldsvoði varð í höllinni árið 1884 en kirkjan brann ekki, þar sem eldurinn var stoppaður í byggingunum sem tengdu kirkjuna við höllina. Hins vegar náðu örlögin kirkjunni þann 7. júní 1992. Hún brann til jarðar, líklega kviknaði í út frá flugeldum sem var verið að skjóta upp eftir Hvítasunnu hátíðina. Í eldsvoðanum 1992 brann þakið, hvelfingin og milli-hæðin og innbúið skemmdist illa. Stuttu eftir þetta ákvað danska hallar- og eigna stofnunin (e. Dansih Palace and Properties Agency) sem heyrir undir danska fjármálaeftirlitið að endurbyggja kapelluna í samstarfi við teiknistúdíó Erik Møllers og Jens Fredslund, eftirlitsmann opinberra bygginga. Engar teikningar voru til af hvelfingunni eða þakinu en með aðferðum í fornleifafræði bygginga (e. building archaeology) var hægt að sjá hvar hvelfingin hafði verið byggð og gerði það mögulegt að endurbyggja bæði hvelfinguna og þakið. Einnig voru notaðar sögulega nákvæmar bygginga aðferðir í gegnum endurreisnar ferlið. Danskir smiðir gátu ekki tekið að sér það erfiða verk að endurreisa og endurskapa innri scagliola. Einn af fremstu sérfræðingum Þýskalands, Manfred Siller tók að sér verkið og kenndi dönskum gifssmiðum þá virðulegu byggingarlist. Endurreista kirkjan var vígð 14. janúar 1997 til að fagna valdaafmæli Margrétar II drottningar. Endurbyggingin var verðlaunuð þeim virtu Europa Nostra verðlaunum. Rústir fyrir neðan höllina. Undir núverandi Kristjánsborgarhöll liggja rústir kastala sem Absalon biskup átti og Kaupmannahafnar kastali. Þegar undirstöður núverandi Kristjánsborgarhallar voru í byggingu rákust vinnumenn á rústir nokkurra bygginga og hluta af hallarvegg. Sérfræðingar frá Þjóðminjasafni Danmerkur voru fengnir til að grafa upp rústirnar sem láu undir innri hallargarðinum. Áhugi almúgans á þessum rústum, sem eru frá árinu 1167, var mikill. Það var því ákveðið að ekki skyldi grafið yfir rústirnar aftur heldur yrðu þær varðveittar. Til þess að hlífa rústunum var byggð steypt bygging sem var á sínum tíma sú stærsta sem hafði sést í Danmörku þegar hún var reist árið 1908. Rústirnar sem lágu undir hallartorginu voru grafnar upp árið 1917 og var einnig byggð hlíf yfir þær. Rústirnar hafa verið sjáanlegar almenningi frá árinu 1924. Sýningin á rústunum var gerð upp á árunum 1974-77 og hefur verið meira og minna ósnert síðan þá. Reiðvellir. Sýningarvellirnir eru nú það eina sem eftir stendur af fyrstu Kristjánsborgarhöllinni. Þeir samanstanda af tveimur samhverfum álmum eða vængjum með beinu, lágu og þröngu hesthúsi og í framhaldi af því hárri, breiðri byggingu og þröngu bognu hesthúsi, á eftir því kemur svo einnar hæðar þröng bygging við endann sem lokar af vængina við lok Frederiksholms kanalinn. Árið 1742 varð norðurálman sú fyrsta sem var kláruð. Byggingarvinna við suðurálmuna hófst í júní 1740 en var stöðvuð um haustið sökum erfiðleika við að skaffa efni. Vinnan byrjaði ekki aftur fyrr en í janúar 1744, þá undir eftirliti af ungum arkítekt, Nicolai Eigtved. Listrænt innsæi Eigtveds varð til þess að suðurálman varð mun fegurri en norðurálman. Árið 1746 voru 87 veiðihestar og 165 vagnahestar fluttir inn í nýju hesthúsin, þeir yrðu aldrei svona margir aftur. Á árunum 1766-67, byggði arkitektinn Jardin Nicolas-Henri leikhús fyrir ofan stóru hesthúsin. Það hýsir nú Theatre Museum eða Leikhússafnið. Á reiðvöllunum er nú hægt að sjá Leikhússafnið og Konunglegu hesthúsin. Marmarabrúin og sýningarskálarnir. Í upphaflegu verkefni Häusser af fyrstu Kristjánsborg voru álmur hallarinnar tengdar með varðhúsi við enda Frederiksholms sýkisins og hengibrúr sem fór yfir sýkið. Nefndin sem stýrði byggingu hallarinnar var ekki sátt við tillöguna og bað ungu arkitektina tvo sem unnið höfðu fyrir konunglegu byggingarnefndina, Nicolai Eigtved og Lauritz de Thurah, að koma með aðra tillögu. Tillaga þeirra innifól meðal annars varanlega brú yfir Fredriksholms kanalinn og mynda þar með aðalinngang að höllinni og tveimur sýningarskálum sem stóðu meðfram veginum og lokuðu völlunum milli álmanna. Bæði brúin og skálarnir voru í hinum nýja rókókó stíl. Ábyrgðin var sett á Eigtved, sem var aðalmaðurinn á bak við verkefnið. Brúin var sérstaklega glæsileg — þakin sandsteinaskreytingum eftir myndhöggvarann Louis August le Clerc. Gangstígurinn var lagður með norskum marmara, þaðan kemur nafnið Marmarabrúin (Marmorbro), og var gangvegurinn einnig steinlagður. Sýningarskálarnir voru alveg jafn glæsilegir og brúin. Þeir voru þaktir sandsteinum frá Saxlandi, og myndhöggvarinn Johan Christof Petzoldt skreytti íhvolf þökin með einkennum konunglega parsins og fjórar fígúrur á hverju þaki sem táknuðu jákvæða og einkennandi kosti parsins. Innanhúshönnuðurinn var í höndum yfirsmiðs hirðarinnar Jacob Fortling. Marmarabrúin og skálarnir voru fullbúnir árið 1744. 1996 var Kaupmannahöfn evrópska menningarhöfuðborg, þá rekstraraðilar eignanna klárað endurreisn sýningarsvæðisins og hallanna en það hafði tekið mörg ár. Marmarabrúin og sýningarskálarnir voru endurreistir á árunum 1978 til 1996 af arkitektnum Erik Hansen og sýningarsvæðið á árunum 1985 til 1996 af Konunglegu eftirlitsmönnum skráðra ríkisbygginga. Eiríkur af Pommern. Eiríkur af Pommern (f. 1382, d. 4. apríl 1459) varð konungsarfi í Kalmarsambandinu þegar Margrét Valdimarsdóttir mikla ættleiddi hann árið 1389 eftir lát Ólafs sonar hennar. Hann var síðan konungur Noregs 1389-142 sem Eiríkur 3., konungur Danmerkur 1396-1439 sem Eiríkur 7. og konungur Svíþjóðar 1396-1439, en þar hafði hann ekkert númer og var einfaldlega kallaður Eiríkur af Pommern, eins og hefur raunar einnig verið gert í hinum ríkjunum eftir hans dag. Kalmarsambandið. Eiríkur hét upphaflega "Bugislav" og var sonur Vratislavs af Pommern og Maríu af Mecklenburg, eina eftirlifandi barnabarns Valdimars atterdag. Hann var einnig afkomandi Magnúsar hlöðuláss Svíakonungs og Hákonar háleggs Noregskonungs. Bugislav var sendur til Danmerkur árið 1389, sjö ára að aldri, til að alast upp hjá Margréti ömmusystur sinni, og um leið var nafni hans breytt. Hann var hylltur sem konungur Noregs í Þrándheimi 8. september sama ár. Árið 1396 var hann lýstur konungur Danmerkur og síðan Svíþjóðar og þann 17. júní 1397 var hann krýndur konungur allra landanna - og þar með einnig Finnlands og Íslands - í dómkirkjunni í Kalmar í Svíþjóð. Við sama tækifæri var gengið frá samningi um ríkjasamband sem síðan hefur verið nefnt Kalmarsambandið. Þótt Eiríkur hefði verið krýndur stýrði Margrét þó í raun öllum ríkjunum til dauðadags 1412. Hjónaband. Árið 1402 hóf Margrét drottning samningaviðræður við Hinrik 4. Englandskonung um bandalag milli Englands og Norðurlanda. Hún vildi að Eiríkur gengi að eiga Filippu, dóttur Hinriks, en sonur Hinriks, sem síðar varð Hinrik 5., giftist Katrínu systur Eiríks. Af bandalaginu varð þó ekki vegna þess að Englendingar vildu draga Norðurlönd inn í Hundrað ára stríðið við Frakka, sem þá geisaði, en Margrét vildi það ekki. Ekkert varð af tvöfalda brúðkaupinu en þó varð úr að Eiríkur og Filippa giftust 26. október 1406 í Lundi. Hún var þá tólf ára. Fátt er vitað um hjónaband þeirra en Eiríkur treysti Filippu meðal annars til að stýra ríkinu þegar hann fór í langferð um Evrópu og raunar allt til Landsins helga 1423-1425. Þau voru hins vegar barnlaus, nema hvað Filippa ól andvana barn árið 1429, eftir meira en tuttugu ára hjónaband, og lést svo ári síðar. Katrín systir Eiríks giftist aftur á móti Jóhanni af Pfalz-Neumarkt og varð móðir Kristófers af Bæjaralandi, arftaka Eiríks. Samtímaheimildir benda til þess að Eiríkur hafi verið vel gefinn, framsýnn og dugmikill og hann var einnig heimsmaður, vel máli farinn og átti auðvelt með að heilla fólk, ekki síst konur. En hann virðist líka hafa verið skapmikill og mjög þrjóskur. Hann var ljósrauðhærður og rauðbirkinn, vel vaxinn og góður íþróttamaður. Konungur og sjóræningi. Eitt helsta keppikefli Eiríks var að draga úr völdum og áhrifum Hansasambandsins á Norðurlöndum og árið 1422 bannaði hann Hansakaupmönnum að versla milliliðalaust í Danmörku. Og árið 1429 kom hann á Eyrarsundstollinum sem átti eftir að verða aðaltekjulind danskra konunga fram á miðja 19. öld. Öll erlendi skip sem sigldu um Eyrarsund urðu að koma við á Helsingjaeyri og greiða toll af farmi sínum. Ríkisár Eiríks af Pommern einkenndust þó öðru fremur af átökum við greifana í Holtsetalandi um yfirráð yfir Suður-Jótlandi. Honum varð þó ekkert ágengt en átökin íþyngdu efnahag ríkisins sem leiddi til þess að aðallinn í Svíþjóð og Danmörku varð honum andsnúinn og norskir bændur gerðu uppreisn. Þegar Filippa drottning lést 1430 var Eiríkur nærri fimmtugur og barnlaus. Hann vildi að frændi hans, Bugislav af Pommern, yrði arftaki sinn en það vildi danski aðallinn ekki samþykkja. Þá fór Eiríkur í eins konar konunglegt verkfall og flutti til Visby á Gotlandi 1439. Þar lifði hann meira eða minna á sjóránum. Árið 1440 var hann settur af og systursonur hans, Kristófer af Bæjaralandi, tók við konungdómi í ríkjunum þremur. Eiríki var við það tækifæri boðið að vera áfram konungur Noregs, enda héldu Norðmenn lengur tryggð við hann en aðrir, en er sagður hafa svarað því til að betra væri að vera sjóræningjaforingi á Gotlandi en konungur í Noregi. Á Íslandi hélt þó Teitur ríki Gunnlaugsson í Bjarnanesi tryggð við Eirík til dauðadags, kvaðst aldrei hylla annan konung að Eiríki lifandi og neitaði að hylla bæði Kristófer af Bæjaralandi og Kristján 1. Kristófer af Bæjaralandi lést 1448 og við tók Kristján I. Eiríkur af Pommern lét honum þá Visby eftir í skiptum fyrir leyfi til að snúa aftur til Pommern, þar sem hann lést 1459. Eftir lát Filippu drottningar hafði hann tekið saman við Sessilíu nokkra, sem verið hafði hirðmey Filippu, og fylgdi hún honum til Gotlands og síðan til Pommern. Kongsberg. Kongsberg er sveitarfélag og borg í Buskerud-fylki í Noregi. Íbúafjöldi 1. janúar 2006 var 23.315 og flatarmál sveitarfélagsins er 792 km². Kongsberg er syðsta sveitarfélag fylksins og liggur að Þelamörku og Vestfold. Nágrannasveitarfélög þess eru Flesberg, Øvre Eiker, Hof, Skien, Siljan, Lardal, Notodden og Sauherad. Í gegnum bæinn rennur áin Numedalslågen. Saga. Kongsberg var stofnað af Kristjáni IV árið 1624, en árið áður hafði fundist silfur á staðnum. Konungur kallaði til þýska námumenn og voru námur grafnar inn í bergið á svæðinu. Mikið silfur var unnið allt fram til ársins 1805, en þá var námunum lokað. Vinna í þeim hófst síðan aftur árið 1816 en lokað að alvöru árið 1957. Í mannfjöldatalningu árið 1764 var Kongsberg annar stærsti bær Noregs, á eftir Björgvin sem þá var stærsti bærinn. Kongsberg fékk kaupstaðarréttindi árið 1802. Menning. Í Kongsberg er einkar gott skíðasvæði og Kongsberg Jazz Festival hefur verin haldin á hverju ári síðan 1964. Hallvarður Hallsson. Hallvarður Hallsson bóndi, skáld og skipasmiður var uppi á ofanverðri 18. öld. Talið er að hann hafi fæðst um 1723 en hann lést árið 1799. Móðir hans var Sigríður Hallvarðsdóttir en faðir hans var Hallur Erlendsson á Horni. Hallvarður kvæntist ekki og eignaðist engin börn. Hann bjó í Skjaldabjarnarvík á Ströndum alla ævi. Hallvarður var fjölfróður og sagður fjölkunnugur. Hann gagnrýndi klerkastéttina og kenningar prestanna og lenti í útistöðum við kirkjuhöfðingja fyrir slælega kirkjusókn. Hallvarður var grafinn í óvígðri mold í Skjaldabjarnarvík og hefur það viðhaldið galdraryktinu sem af honum fór. Er sagt að þetta hafi verið ósk hans. Leiðið er afgirt og merkt í Skjaldabjarnarvík. Drangar. Bærinn Drangar á Ströndum er nokkuð norðan við Drangaskörð. Þar var föst búseta allt til ársins 1966 og fjölskyldan sem síðast bjó á Dröngum dvelst þar enn sumarlangt. Á Dröngum standa mörg merkileg hús, m.a. mjög forn hákarlahjallur sem nýverið var lagfærður. Enginn akvegur liggur að Dröngum en vegurinn norður strandir endar við Hvalá í Ófeigsfirði sem þó er brúuð mönnum og kindum 10 -15 km sunnar. Yfir bænum gnæfir Bæjarfjall. Hlunnindi eru gríðarmikil á Dröngum, selveiði, æðarvarp og viðarreki. Bænhús var forðum á Dröngum, enda langt að sækja næstu kirkju. Skammt norðan við Dranga fellur Húsá til sjávar, á henni er göngubrú. Vestur af ánni er Laugamýri þar sem heitt vatn er að finna. Þorvaldur Ásvaldsson, faðir Eiríks rauða, var landnámsmaður á Dröngum. Er sagt að hann sé heygður að Meyjarseli, sem er nokkuð norðan við Dranga. Þar eru miklar tóftir á Meyjarselstanga. Upp af tanganum eru þrír Selhólar og á Þorvaldur að hvíla í einum þeirra. Fram af Meyjarselstanga er Tólfmannaboði. Þar eiga að hafa farist 12 menn sem voru á leið til messu á Dröngum á gamlársdag. Ígor Stravinskíj. Ígor Fjodorovítsj Stravinskíj (rússneska: И́горь Фёдорович Страви́нский) (17. júní 1882 - 6. apríl 1971) var eitt mikilvægasta tónskáld tuttugustu aldar. Hann fæddist í bænum Oranienbaum í Rússlandi, en flutti síðar til Parísar í Frakklandi og seinna til New York í Bandaríkjunum. Hann er þekktastur fyrir þrjá balletta sem hann samdi snemma á ferli sínum; "L'Oiseau de feu" (Eldfuglinn), "Pétrouchka" og "Le sacre du printemps" (Vorblótið). Stravinskíj, Ígor Líkindi. Líkindi eða líkur eru mælikvarði í líkindafræði á því hversu líklegt er að tiltekinn atburður gerist. Skilgreining á líkindum er vandasöm, en fræðimenn skipta sér að öllu jöfnu í tvær höfuðfylkingar hvað þetta varðar. Þá myndar þrenndin formula_10 líkindarúm. Höfuðsetning tölfræðinnar. Höfuðsetning tölfræðinnar eða meginmarkgildissetning tölfræðinnar (stundum kölluð höfuðsetning líkindafræðinnar eða einfaldlega höfuðsetningin) er setning í stærðfræði sem segir að dreifing meðaltala slembiúrtaka úr þýði nálgast normaldreifingu því betur sem fleiri úrtök eru tekin (þ.e. þá verður úrtak meðaltalanna stærra). Slembibreyta. Slembibreytur eru, í stærðfræði, breytur sem taka á sig handahófskennt gildi. Slembibreytur fylgja einhverri dreifingu, sem segir til um líkindi ákveðinna gilda þeirra. Gotland. Gotland merkt inn á kort af SvíþjóðGervihnattamynd af Gotlandi Gotland er stór eyja í Eystrasalti sem tilheyrir Svíþjóð. Hún er um 90 km austan við meginlandið. Eyjan er hvortveggja eitt sveitarfélag og fylki, "Gotlands Kommun". Höfuðstaður eyjarinnar er Visby. Auk sjálrar höfuðeyjarinnar, Gotlands, tilheyra einnig Fårö, Karlseyjarnar og Gotska Sandön eyjaklasanum. Á eyjunum hafa fundist 42 000 fornminjar. Mállýskan sem töluð er á Gotlandi nefnist gotlenska (eygotneska) en hún er enn talsvert ólík ríkissænsku bæði í framburði og málfari. Orðaforði gotlenskunnar er mun líkari íslensku en flestar aðrar mállýskur Svía. Þó að gotlenska sé nú einungis mállýska á hún rætur í sjálfstætt fornmál, nefnt Forngotlenska. Á miðöldum var Gotland mikilvægur verslunarstaður og sjóræningjahöfn. Visby gekk í Hansasambandið og varð ein af lykilborgum sambandsins. 1280 lögðu Svíar eyjuna undir sig og 1361 komu Danir, undir stjórn Valdimars atterdag. Eyjan var undir dönskum yfirráðum þar til eftir friðarsamninginn í Brømsebro 1645. Þegar Eiríkur af Pommern fór í konunglegt verkfall 1439 settist hann að í Visby og stundaði þaðan sjórán á Eystrasalti. 1449 lét hann Kristjáni I eyjuna eftir. Samuel Beckett. Samuel Beckett (13. apríl 1906 – 22. desember 1989) var írskur leikritahöfundur, skáldsagnahöfundur og ljóðskáld. Hann hlaut árið 1969 nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Tengill. Beckett, Samuel Múlasni. Múlasni er afkvæmi ösnu og hests. Múlasnar eru oftast ófrjóir vegna þess að þeir eru með 63 litninga, en hross er með 64 og asnar 62. Afkvæmi hryssu og asna heitir múldýr. Karldýr múlasna eru alltaf ófrjó eins og karldýr múldýra. Til er eitt dæmi um að kvenmúlasni hafi átt afkvæmi með asna. Þetta gerðist í Kína 1981. Afkvæmið reyndist vera skringiskepna (Dragon Foal), sem var með litningapör ýmist asni-hestur eða asni-asni, en ekki bara asni-hestur eins og vísindamenn höfðu búist við. Nedre Eiker. Nedre Eiker er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Ásamt Øvre Eiker kallast svæðið Eiker. Flatarmál sveitarfélagsins er 12 km² og íbúafjöldi 1. janúar 2006 var 21.653. Nágrannasveitarfélögin eru Drammen, Hof, og Øvre Eiker. Fjórir eiginlegir bæir eru í sveitarfélaginu, Krokstadelva og Solbergelva norðan Drammenselva og Mjøndalen og Steinberg liggja sunnan hennar. Øvre Eiker. Øvre Eiker er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Nágrannasveitarfélög þess eru Nedre Eiker, Kongsberg, Flesberg, Hof, Modum og Sigdal. Stærsti bærinn í Øvre Eiker er Hokksund en einnig eru þar bæirnir Vestfossen, Darbu, Skotselv og Ormåsen. Hæsti punktur sveitarfélagsins er Myrhogget, 707 m.y.s. Sveitarstjóri er Anders B. Werp sem situr fyrir hægrimenn. Múldýr. Múldýr (fræðiheiti: "Equus mulus") er afkvæmi hryssu og asna. Múldýr eru oftast ófrjó vegna þess að þau eru með 63 litninga, en hross er með 64 og asnar 62. Afkvæmi hests og ösnu heitir múlasni. Engin þekkt dæmi eru til um frjó karlmúldýr, en síðan 1527 eru til um 60 skráð dæmi um kvenmúldýr, sem áttu afkvæmi með ýmist hesti eða asna. Antígóna (Sófókles). Antígóna er harmleikur eftir Sófókles ritað um 442 f.Kr. eða fyrr en á því ári var hann frumsýndur í Aþenu. Harmleikurinn er eitt þriggja leikrita sem kölluð hafa verið Þebuleikirnir og byggjast á arfsögnum um konungsættina í Þebu. Hin tvö leikritin eru Ödipús konungur og Ödipús í Kolónos, samin seinna en lýsa atburðum sem eiga að hafa gerst fyrr í sögunni en efni Antígónu. Bakgrunnur sögunnar. Í elstu gerðum sögunnar fer útför Pólíneikesar fram á meðan Ödipús er enn konungur í Þebu. Í verki Sófóklesar á hún sér ekki stað fyrr en eftir útlegð og dauða Ödipúsar. Þegar Ödipús fór frá sem konungur Þebu lét hann konungdæmið í hendur sona sinna Eteóklesar og Pólíneikesar sem samþykktu að skiptast á að fara með konungdóm á hverju ári. En þeir sviku loforðið við föður sinn sem bölvaði þeim fyrir vanræksluna. Eftir fyrsta árið neitaði Eteókles að stíga niður fyrir bróður sinn sem þá réðst á Þebu ásamt stuðningsmönnum sínum. Báðir bræðurnir falla í átökunum og Kreon kemst til valda. Kreon er ættingi Ödipúsar, hann er bróðir Jóköstu drottningar Lajosar konungs af Þebu. Véfrétt Apollons hafði ráðið Laiusi frá því að geta börn þar sem sonur hans mundi vega hann og ganga að eiga móður sína. Jókasta elur honum engu að síður son og lét Laius þá bera hann út. Sveinninn var skilinn eftir á Kíþaironsfjalli með gegnumstungna fætur. En ekki beið hann bana heldur fann smalamaður konungs Korinþu barnið og færði Polýbosi konungi þeirrar borgar það. Polýbos elur sveininn upp sem sinn eigin son og kallar Ödipús. Ödipús stendur í þeirri trú að hann sé sonur Polýbosar og drottningar hans, Meropu, en dag einn lendir hann í rifrildi við jafnaldra sína sem gefa í skyn að ekki sé allt með felldu varðandi foreldra hans. Heldur þá Ödipús til véfréttarinnar í Delfí til að komast að sannleikanum og fær það svar að hann skuli forðast föðurland sitt því þar muni hann drepa föður sinn og giftast móður sinni. Laius lagði konungdæmið í hendur Kreoni við brottför sína til véfréttarinnar í Delfí þar sem hann vildi leita ráða vegna hins ógurlega sphinx sem þá hrjáði íbúa í Þebu. Laius mætir Ödipúsi á leiðinni sem neitar að víkja úr vegi fyrir honum. Endar fundur þeirra á því að Ödipús drepur Laius, grunlaus um að hann hafi verið faðir hans. Þegar boð koma um dauða Laiusar konungs býður Kreon konungdæmið og hönd systur sinnar hverjum þeim sem geti frelsað borgina undan sphinxnum. Ödipús svarar gátum sphinxins rétt og sigrar hann með þeim hætti. Hann giftist Jóköstu og verður konungur Þebu. Eignast Ödipús og Jókasta fjögur börn, synina Eteókles og Pólíneikes og dæturnar Antígónu og Ísmenu. Af hjónabandi þeirra hlaust það að drepsótt mikil kom í landið og véfréttin í Delfí sagði að henni myndi ekki létta fyrr en banamaður Lajosar yrði gerður útlægur úr ríkinu. Setti Ödipús af stað rannsókn um þetta mál og komst loksins sannleikurinn upp á borðið, Ödipús hafði óafvitandi banað föður sínum og gifst móður sinni. Þebuleikir Sófóklesar, þ.e. leikritin Antígóna, Ödipús konungur og Ödipús í Kolónos fjalla um þessa sögu, en Antígóna tekur síðasta hluta sögunnar fyrir. Söguþráður. Leikritið segir frá Kreoni, nýjum konungi Þebu, sem bannar Antígónu að greftra lík bróður síns, Pólíneikesar, þar sem hann hefur gerst sekur um landráð. Konungurinn vill að Pólíneikes hljóti þá refsingu sem landráðamanni beri og að lík hans verði hundum og hræfuglum að bráð öðrum til viðvörunar. Antígóna telur sér siðferðilega skylt að veita bróður sínum sómasamlega útför og gerir það gegn vilja konungs sem dæmir hana þá til dauða. Dauðadómur konungs yfir Antígónu veldur konunginum mikilli óhamingju. Sonur Kreons konungs og unnusti Antígónu er Hemon sem ann henni svo mikið að hann sviptir sig lífi. Dauði Hemons veldur mikilli geðshræringu hjá móður hans, Evrídíku drottningu, og verður til þess að hún sviptir sig einnig lífi. Kreon iðrast stórlega yfir ákvörðunum sínum og í lok leikritsins er hann niðurbrotinn maður og fullur eftirsjár. Bæði eru Kreon og Antígóna einstrengingsleg en hafa bæði nokkuð til síns mál. Hvorugt vill láta undan fyrir hinu. Heimspekingurinn Georg Wilhelm Friedrich Hegel taldi Antígónu eitt besta dæmi heimsbókmenntanna um átökin milli einstaklingsins og ríkisvaldsins. Í forngrískum trúarbrögðum var það viðhorf manna að fengju menn ekki greftrun kæmust þeir ekki til undirheima og gætu ekki sameinast forfeðrum sínum. Kreon er kominn út fyrir svið ríkisvaldsins með því að meina Antígónu að grafa lík bróður síns. Antígóna neitar að samþykkja að réttvísi og refsingar gildi jafnt um látna sem lifandi. Systir hennar, Ísmena, er raunsærri og gerir mikið úr því að þær séu konur sem ekki eigi að skipta sér af stjórn ríkisins. Viðtökur. Leikritið var vinsælt á 20. öld og var Kreoni þá gjarnan líkt við einræðisherra þeirrar aldar. Mikið var gert í því að heimfæra verkið yfir á nútímann. Leikritið var flutt í þýðingu Jóns Gíslasonar í útvarpi árið 1959. Árið 1969 var það sett upp og tengdu gagnrýnendur það við ýmsa atburði sem þá voru að gerast, til dæmis stúdentauppreisnir, hungursneyð í Bíafra og Víetnamstríðið. Árið 2009 var Antígóna aftur flutt í útvarpi og þá til heiðurs Helga Hálfdanarsyni sem einnig hefur þýtt verkið. Frásögnin um Antígónu hefur verið vinsælt efni í bækur, leikrit og tónsmíðar. Hún hefur til dæmis verið notuð í óperum af Carl Orff og Ton de Leeuw. Ríkisdagur. Ríkisdagurinn (þýska: "Reichstag"), var lagaþing Hins heilaga rómverska keisaraveldis, Norður-Þýskalands og Þýskaland þangað til 1945. Þýska lagaþingið kallast í dag Sambandsdagurinn eða Sambandsþingið, en bygging þingsins kallast Ríkisdagsbyggingin eða „das Reichstagsgebäude“ á þýsku. Hróarskelda. Hróarskelda (danska: Roskilde) er bær í samnefndu sveitarfélagi í Hróarskelduamti á dönsku eyjunni Sjálandi, 30 km vestan við Kaupmannahöfn. Sveitarfélagið er 81 km² að flatarmáli og þar bjuggu 83.022 árið 2012. Í fyrirhuguðum umbótum á sveitarstjórnarstiginu í Danmörku verður Hróarskelda sameinuð nágrannasveitarfélögunum Gundsø og Ramsø en hið sameinaða sveitarfélag mun áfram bera nafn Hróarskeldu. Bærinn er gamall og var höfuðstaður Danmerkur frá upphafi konungdæmisins til u.þ.b. 1400 þegar Kaupmannahöfn tók við því hlutverki. Dómkirkjan í Hróarskeldu er frá 12. og 13. öld og var fyrsta dómkirkjan í gotneskum stíl sem var hlaðin úr múrsteinum. Hún var eina dómkirkjan á Sjálandi fram á 20. öld. Kirkjan er greftrunarstaður danskra kónga og drottninga og vinsæll áningarstaður ferðamanna, 125.000 manns heimsækja hana árlega. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1995. Í Hróarskeldu er miðstöð rannsókna og endurgerða á víkingaskipum í Víkingaskipasafninu. Þar er hægt að skoða fimm skip ólíkrar gerðar sem sökkt var í Hróarskeldufjörð árið 1070 og voru grafin upp 1962. Á safnasvæðinu er höfn og nokkur verkstæði sem sérhæfa sig í smíði víkingaskipa. Nálægt bænum hefur verið haldin tónlistarhátið árlega á sumrin frá 1971. Hróarskelduhátíðin er sú stærsta sem haldin er á Norðurlöndum og með þeim stærri í Evrópu. Hurum. Hurum er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Það liggur á tanga milli Drammens- og Óslóarfjarða. Flatarmál þess er 163 km² og íbúafjöldinn 1. janúar 2006 var 8.913. Bara eitt sveitarfélag liggur að Hurum; Røyken. Nokkrar þéttbýlismyndanir eru í Hurum, s.s. Sætre, Filtvet, Tofte og Holmsbu. Syðst á tanganum er ferðamannastaðurinn Rødtangen með vinsælli sandströnd. Røyken. Røyken er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Það liggur á Hurum-tanganum og nágrannasveitarfélög þess eru Hurum í suðri og Lier og Asker í norðri. Flatarmál sveitarfélagsins er 112 km² og íbúafjöldi 1. janúar 2006 var 17.594. Flestir íbúanna búa í bæjunum Slemmestad, Spikkestad, Røyken og Hyggen. Kristófer af Bæjaralandi. Kristófer af Bæjaralandi (26. febrúar 1416 – 6. janúar 1448) var kjörinn konungur Kalmarsambandsins eftir að Eiríkur af Pommern var settur af 1440 og samþykktur af þingum Svíþjóðar 1441 og Noregs 1442. Hann var sonur Jóhanns af Pfalz-Neumarkt og Katrínar, systur Eiríks. Hann var valinn sem ríkisstjóri af danska aðlinum 1439 og gerður að konungi árið eftir. Aðallinn í ríkisráðinu vildi konung sem væri þeim leiðitamur. Þegar Kristófer tók við völdum virtist framtíðin ekki björt fyrir Kalmarsambandið, því bæði Noregur og Svíþjóð höfðu sagt sig úr því og árið 1441 gerðu jóskir bændur uppreisn. Bændahernum varð vel ágengt í fyrstu en síðar tókst Kristófer að vinna sigur á þeim og foringjar bændanna voru líflátnir. Kristófers hefur einna helst verið minnst fyrir hörkuna sem hann beitti bændurna eftir að hann barði uppreisnina niður. Seinna sama ár tókst Hans Laxmand erkibiskupi að komast að samkomulagi við Svía um að Kristófer yrði tekinn til konungs í Svíþjóð en Karl Knútsson Bonde fékk þó Gotland og Eyland að léni. Kristófer var hylltur sem konungur Svíþjóðar 13. nóvember. Árið eftir tókst Hans Laxmand einnig að semja um að Kristófer skyldi erfa norsku krúnuna. Hann var krýndur konungur Danmerkur 1. janúar 1443. Kristófer veitti Kaupmannahöfn kaupstaðarréttindi 1443 og staðfesti hana sem höfuðborg. Um leið var verslun við útlendinga bönnuð í ríkjum Danakonungs og Eyrarsundstollurinn settur á að nýju. Þetta líkaði Hansasambandinu vitaskuld illa og hótuðu Hansaborgirnar að ganga í bandalag við Eirík af Pommern gegn Kristófer. Kristófer neyddist því til að veita Hansakaupmönnum að nýju réttindi til að versla milliliðalaust í ríkjum sínum. Líklega var það líka vegna þrýsting frá Hansasambandinu sem Kristófer giftist í september 1445 Dórótheu af Brandenburg, dóttur Jóhanns markgreifa þar. Þau eignuðust engin börn og þegar Kristófer lést þremur árum síðar lauk setu afkomenda Valdimars atterdags á konungsstóli. Dóróthea drottning var aðeins 17-18 ára þegar hún varð ekkja. Hún giftist Kristjáni 1. 1449 og varð ættmóðir Aldinborgarættar. Frímúrarareglan. Merki Frímúrarareglunnar, bæði til með og án G-sins sem ekki er vitað hvað þýðir. Frímúrarareglan er alþjóðlegt bræðrafélag sem að eigin sögn byggist á sameiginlegum siðferðisgildum meðlima og trú á æðri máttarvöld. Ekki er vitað um uppruna Frímúrarareglunnar en því hefur verið haldið fram að hún hafi verið stofnuð allt frá tímum byggingar Musteris Salómons konungs og fram á 17. öld. Áætlað er að í dag séu um fimm milljónir félaga, þar af tvær milljónir í Bandaríkjunum og um hálf milljón í Englandi, Skotlandi og Írlandi. Leynd hvílir yfir þeim siðum sem viðhafðir eru á fundum frímúrara og hefur það kallað á margar samsæriskenningar, tortryggni og jafnvel ofsóknir í gegnum tíðina. Sem fyrr segir rekur Frímúrarareglan sögu sína til a.m.k. aftur til miðalda en ekki er þekkt hvernig hún varð til þó að margar tilgátur hafi verið settar fram um það. Tengt efni. Frímúrareglan á Íslandi Valdimar atterdag. Valdimar atterdag eða Valdimar 4. (um 1320 – 24. október 1375) var konungur Danmerkur frá 1340 til dauðadags. Hann var yngsti sonur Kristófers 2., sem dó 1332. Danmörk hafði verið án konungs í átta ár þegar Valdimar, sem hafði alist upp í Suður-Þýskalandi við hirð keisarans, var valinn til að vera konungur eftir að Geirharður greifi, sem haldið hafði Danmörku sem tryggingu vegna skulda, var myrtur árið 1340 af Niels Ebbesen 1340. Ákveðið var að ríki Valdimars skyldi ná yfir nyrsta hluta Jótlands og suðurmörk þess vera um Limafjörð. Afganginn af Jótlandi fékk hann með því að greiða 35 þúsund mörk silfurs og samþykkt var að greifarnir gæfu síðar upp Kalø, Horsens, Kolding og Ribe. Stórar landareignir fékk hann síðan þegar hann giftist Heiðvigu dóttur Eiríks 2. hertoga af Slésvík. Árið 1346 seldi Valdimar Eistland, sem hafði verið danskt frá 1219, til Þýsku riddaranna fyrir tíu þúsund mörk. Með lánum, harðri skattheimtu og pólitík náði hann að leysa út Sjáland. 1357 tókst Valdimar að vinna úrslitasigur á þýsku greifunum við Broberg á Fjóni og 1360 lagði hann Skán undir sig. Skánarmarkaðurinn með síld gaf honum miklar tekjur. Hann réði aðeins fjórðungi af Jótlandi þegar hann settist á konungsstól en tuttugu árum seinna hafði hann náð því öllu og eyjunum og Skáni að auki á sitt vald. Svarti dauði gekk um Danmörku á þessu tímabili en manndauðinn í Danmörku mun þó ekki hafa verið alveg jafnmikill og í Noregi. Árið 1361 lagði Valdimar Gotland undir sig eftir blóðugar orrustur, en lenti þá gegn Hansasambandinu og fékk sendar 77 stríðsyfirlýsingar frá Hansaborgunum. Hansasambandið reyndist Valdimar ofjarl og hann beið nokkra ósigra og missti í þeim eina eftirlifandi son sinn, Kristófer. 1368 neyddist hann síðan til að flýja frá Danmörku og eyða ári í útlegð við hirð keisarans en notaði raunar tækifærið og fór í pílagrímsferð til Jerúsalem. 24. maí 1370 þurftu Danir að undirrita friðarsamkomulag í Stralsund og meðal annars láta Hansasambandinu eftir Skánarmarkaðinn í fimmtán ár og réttinn til að velja eftirmann Valdimars. Árið 1371 sneri svo Valdimar aftur til Danmerkur. Hann dó haustið 1375, þegar hann var í þann veginn að koma á dönskum yfirráðum í Slésvík að nýju, og hlaut hinstu hvílu í klausturkirkjunni í Sórey. Kona Valdimars (g. 1340) var Heiðveig, dóttir Eiríks hertoga af Slésvík og systir Valdimars 3., sem var Danakonungur 1326-1330 og síðar hertogi af Slésvík. Þau áttu sex börn, þrjú dóu í bernsku, sonurinn Kristófer féll í bardaga við Hansakaupmenn tæplega tvítugur, Ingibjörg giftist Hinrik af Mecklenburg og var amma Eiríks af Pommern en dó 23 ára, og yngst var Margrét, sem var eina barnið sem lifði föður sinn. Hún var gift Hákoni 6. Noregskonungi og átti einn son, Ólaf, sem hún fékk föður sinn til að útnefna ríkiserfingja þótt hann hefði áður verið búinn að útnefna Albrecht son Ingibjargar. Ólafur var einnig ríkisarfi Noregs og Svíþjóðar. Hann varð Danakonungur fimm ára að aldri, þegar afi hans dó, en móðir hans stýrði ríkinu. Eftirmæli. Uppruni viðurnefnis Valdimars er umdeildur. Merkingin kann að vera bókstafleg, „aftur dagur“ og vísa til þess að þegar hann hóf að stækka ríkið og hefja Danmörku aftur til vegs og virðingar hafi mönnum þótt sem dagaði á ný, en einnig hefur það verið skýrt sem afbökun úr lágþýsku, „Ter Tage“, og merkir þá „þvílíkir dagar“. Í Danmörku fékk hann líka viðurnefnið „hinn illi“ vegna skattheimtunnar, en hans er fyrst og fremst minnst sem konungsins sem sameinaði Danmörku í eitt ríki. Því afreki hans var mjög haldið á lofti á 19. öld, þegar Danir tókust á við Þjóðverja um yfirráð í Slésvík og Holtsetalandi. Niðurlönd. Niðurlönd er heiti sem notað var áður á þau ríki sem liggja á láglendinu umhverfis árósa ánna Rínar, Scheld og Meuse þar sem þær renna út í Norðursjó. Svæðið samsvarar að hluta til Hollandi, Belgíu og Lúxemborg, en algengara er að nota hugtakið Benelúxlöndin um þau saman. Sögulega hefur hugtakið "Niðurlönd" verið notað um ýmis ríki á þessu svæði, sbr. Spænsku niðurlönd (1581-1713) og Konungsríkið Niðurlönd (1815-1830). Í ensku er hugtakið notað sem heiti á Hollandi, þar sem hið eiginlega Holland er í raun aðeins ein sýsla í Hollandi. Í hollensku er hins vegar notuð eintalan "Nederland" fyrir Holland en "Nederlanden" yfir hin sögulegu Niðurlönd. Tryggvi Þórhallsson. Tryggvi Þórhallsson (9. febrúar 1889 – 31. júlí 1935) var forsætisráðherra Íslands árin 1927 til 1932. Hann var sonur Þórhalls Bjarnasonar biskups. Hann lærði guðfræði, tók vígslu 1913 og var prestur á Hesti í Borgarfirði til 1916, en þá fluttist hann til Reykjavíkur og var settur dósent í guðfræði við Háskóla Íslands en árið 1917 varð hann ritstjóri Tímans og gegndi því starfi í 10 ár. Hann var kjörinn þingmaður Strandamanna fyrir Framsóknarflokkinn 1923. Hann var gerður að foringja flokksins og myndaði ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar sem sat frá 1927-1932. Í þeirri stjórn var hann atvinnumálaráðherra auk þess að fara með forsætisráðherraembættið. Hann var þekktastur fyrir að hafa rofið þing árið 1931, rétt áður en til stóð að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn hans. Í kosningunum sem fylgdu fékk Framsóknarflokkurinn meirihluta þingsæta með aðeins 35% kjörfylgi, en eitt af hitamálunum sem leiddu til vantrauststillögunnar og þingrofsins voru fyrirhugaðar umbætur í kosningakerfinu, þar sem til stóð að fjölga þingmönnum Reykvíkinga á kostnað landsbyggðarinnar. Stjórn Tryggva sat því áfram en fór frá vorið 1932. Árið 1933 sagði Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum ásamt fleirum og stofnaði Bændaflokkinn, sem fékk þrjá þingmenn í kosningunum 1934 en sjálfur féll Tryggvi í Strandasýslu fyrir Hermanni Jónassyni. Hann dró sig þá að mestu í hlé frá stjórnmálum, enda orðinn heilsuveill og lést ári síðar. Tryggvi var bankastjóri Búnaðarbankans frá 1932 til æviloka. Svíakonungar. Svíþjóð hefur verið konungsríki svo langt aftur sem sögur herma. Í Heimskringlu, Íslendingasögunum, Bjólfskviðu og fleir fornum ritum eru allmargir Svíakonungar tilnefndir sem alls er óvíst um hvort þeir hafi í raun verið til og eru þeir nefndir sögukonungarnir í sænskri sagnfræði. Tímasetning konunga í eftirfarandi lista er óviss allt fram að Sörkvi eldra. Torontó. Torontó er höfuðstaður Ontariofylkis í Kanada. Borgin stendur á norðvesturbakka Ontariovatns. Toronto er fjölmennasta borg Kanada með tæplega 2,5 milljónir íbúa (5 milljónir ef nágrannabyggðir eru taldar með) og er miðstöð menningar og efnahagslífs í landinu. Staðurinn þar sem borgin stendur var fundarstaður indíána og Frakkar reistur þar virki árið 1750. Borgin óx hratt á 19. öld þegar hún varð viðkomustaður innflytjenda til Kanada. Ójafna Chebyshevs. Ójafna Chebyshevs er ójafna í líkindafræði sem segir að í líkindadreifingum eða úrtökum eru næstum öll gildi nálægt meðaltalinu. Til dæmis eru aldrei fleiri en 1/4 gildanna í meiri en 2 staðalfrávika fjarlægð frá meðaltalinu, og aldrei meira en 1/9 gildanna í meira en 3 staðalfrávika fjarlægð. Ójafnan er nefnd eftir Pafnuty Chebyshev, sem sannaði hana fyrstur manna. Ójafna Chebyshevs er mikið notuð í ályktunartölfræði, þá sér í lagi í tengslum við normaldreifingar. Þar gildir að 95% staka eru innan tveggja staðalfrávika frá meðaltalinu. Ójafnan. Þar sem að E(X) táknar væntigildið á X, og Var(X) táknar dreifni þess. Einföld sönnun. Sönnum að ójafna Chebyshevs gildi fyrir slembibreytuna X. Setjum fyrst formula_6. Þá er Y slembibreyta. Þá gildir að væntigildið á Y er formula_7. Sem er ójafna Chebyshevs ef skipt er út E(Y) fyrir Var(X) og formula_10 fyrir formula_11. Bolzanosetningin. Hringurinn sýnir "c", bláu línurnar sýna lokaða bilið "a,b". Bolzanosetningin er setning kennd við tékkneska stærðfræðinginn Bernard Bolzano. Hún segir að ef að fall "f" er samfellt á lokuðu bili "[a, b]", og að "f(a)" og "f(b)" hafa gagnstæð formerki, þá sé til tala "c" á opna bilinu "]a,b[" þannig að "f(c) = 0". Orða má setninguna lauslega þannig að ef samfellda fallið skipti um formerki á bilinu, þá skeri það x-ásinn einhvers staðar á bilinu. Sönnun. Tökum eftir að þetta mengi er ekki tómt, þar sem formula_1 og því formula_5. Auk þess er það takmarkað að ofan þar sem formula_6 fyrir öll x úr A. Skilgreinum því næst efri mörk A sem "c". Sýnum að "c" hljóti að vera núllstöð fallsins "f". Ef formula_7 þá er til formula_8 þannig að formula_9 ef formula_10. Það hefur í för með sér að formula_11 er yfirtala mengisins A, en það er í mótsögn við að "c" sé efra mark, þ.e. minnsta yfirtala mengisins A. Ef formula_12, þá er til formula_8 þannig að formula_14 ef formula_15. Sér í lagi er formula_16 og því formula_17, en það er í mótsögn við að formula_18 fyrir öll x úr A. Eini möguleikin er því að formula_19. Enn fremur er ljóst að "c" er úr opna bilinu (a,b) vegna þess að formula_20 og formula_21. Bolzano-Weierstrass setningin. Bolzano-Weierstraß setningin er setning kennd við tékkneska stærðfræðinginn Bernard Bolzano, og þýska samstarfsmann hans Karl Weierstraß. Á rauntalnalínunni. Sérhvert óendanleg, takmarkað hlutmengi í rauntalnamenginu formula_1 hefur þéttipunkt í formula_1. Einnig væri hægt að segja: Sérhver takmörkuð rauntalnaruna hefur samleitna hlutrunu. Almennt. Sérhvert óendanlegt, algjörlega takmarkað hlutmengi í firðrúmi M hefur þéttipunkt í M. Konungur Svíþjóðar. Konungur Svíþjóðar er þjóðhöfðingi Svíþjóðar, þar sem er þingbundin konungsstjórn. Sænska konungsveldið er eitt af þeim elstu í heimi en listar yfir konunga Svíþjóðar hefjast venjulega á Eiríki sigursæla (d. 995). Modum. Modum er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Flatarmál þess er 517 km² og íbúafjöldinn var 12.585 1. janúar 2006. Nágrannasveitarfélög þess eru Krødsherad, Ringerike, Hole, Lier, Øvre Eiker og Sigdal. Helstu atvinnuvegir héraðsins eru þjónusta, s.s. við ferðamenn, og landbúnaður. Við bæinn Åmot var kobaltverksmiðja Blaafarveværket sem var stærsti atvinnustaðurinn í héraðinu á sínum tíma. Í sveitarfélaginu er einnig Vikersundbakken, sem er skíðastökkspallur. Hole. Hole (úr norrænu: "hóll") er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Flatarmál þess er 195 km² og íbúafjöldinn var 5.307 1. janúar 2006. Nágrannasveitarfélög Hole eru Hringaríki, Bærum, Lier og Modum. Hole stendur við stöðuvatnið Tyrifjorden. Saga. Fram til áramótanna 1963/1964 var Hole sjálfstætt sveitarfélag en þá um áramótin féll það inn í Ringerike sveitarfélagið. Árið 1977 varð Hole svo aftur sjálfstætt sveitarfélag og hefur verið svo síðan. Gautland. Gautland er syðsti hluti Svíþjóðar. Gautland (sænska: "Götaland") er syðstur þriggja landshluta Svíþjóðar (hinir tveir eru Svíaríki og Norðurland). Gautland skiptist í héruðin Skán, Halland, Blekinge, Smálönd, Eyland, Gotland, Vestur-Gautland, Austur-Gautland, Dalsland og Bohuslän. Tertíertímabilið. Tertíertímabilið eða bara tertíer (=„þriðja tímabilið“) er jarðsögulegt tímabil sem kemur á milli krítartímabilsins og kvartertímabilsins. Tímabilið nær nokkurn veginn frá dauða risaeðlanna fyrir 65 milljónum ára að upphafi síðustu ísaldar fyrir um 2,6 milljónum ára. Ísland verður til á tertíertímabilinu fyrir um 20 milljónum ára. Hróarskeldusáttmálinn. Kort sem sýnir þau lönd sem Svíar fengu með Hróarskeldusáttmálanum Hróarskeldusáttmálinn var friðarsamningur milli Danmerkur og Svíþjóðar gerður í Hróarskeldu 26. febrúar 1658 eftir afgerandi ósigur Dana í Svíastríðunum. Með sáttmálanum fengu Svíar endanleg yfirráð yfir Bohuslän (sem áður hafði tilheyrt Noregi), Hallandi, Skáni og Blekinge, auk Þrændalaga og Borgundarhólms. Með samningnum fengu Svíar loks yfirráð yfir suðurhluta Gautlands sem þeir hafa enn í dag og náttúruleg landamæri í suðri. 17. júlí sama ár réðist Karl Gústaf X aftur inn í Danmörku með það að augnmiði að leggja hana alla undir sig. Hann settist um Kaupmannahöfn en íbúar borgarinnar vörðust hetjulega og náðu að halda umsátrið nógu lengi út til að hollenski flotinn næði að koma þeim til bjargar og sigra sænska flotann í orrustunni um Eyrarsund 8. nóvember. 1659 var afgangurinn af Danmörku smám saman leystur undan yfirráðum Svía með aðstoð Hollendinga og 1660 var undirritaður Kaupmannahafnarsáttmálinn sem gaf Dönum aftur Þrændalög (sem gert höfðu uppreisn gegn Svíum) og Borgundarhólm. Kristinn Ágúst Friðfinnsson. Kristinn Ágúst Friðfinnsson (f. 27. ágúst 1953 í Reykjavík) er sóknarprestur í Selfossprestakalli. Uppruni, fjölskylda og menntun. Foreldrar Kristins voru hjónin Ósk Sophusdóttir (f. 1930) og Friðfinnur Kristinsson (1926 - 1982). Maki Kristins er Anna Margrét Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur (f. 1955). Börn þeirra: Friðfinnur Freyr viðskiptafræðingur (f. 1980), Melkorka Mjöll BA í heimspeki, lögfræðinemi (f. 1981), Magnús Már verkfræðinemi (f. 1986) og Kolbeinn Karl viðskiptafræðingur, meistaranemi við CBS í Kaupmannahöfn (f. 1987). Kristinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1975, lærði einsöng við Tónlistarskóla Reykjavíkur 1975 - 1978 og lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1981. Lokaritgerð hans fjallaði um félagslega siðfræði. Hann annaðist um tíma á námsárunum aðstoðað í Hveragerðis- og Selfossprestaköllum. Kristinn stundaði einnig framhaldsnám í sifjarétti, trúarlífssálarfræði, sálgæslufræði og klínískri samtalstækni. Helstu störf. Kristinn kenndi alls fjögur ár siðfræði við Þroskaþjálfaskóla Íslands en síðar tungumál á Selfossi, auk þess að halda námskeið, flytja fyrirlestra og leiðbeina við Þingborgarskóla. Hann fékkst við fréttaritun og dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið 1978 - 1984 en síðar hjá Útvarpi Suðurlands. Hann var sóknarprestur í Staðarprestakalli í Súgandafirði 1981 - 1984, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar 1984 - 1985 og vann við tryggingaráðgjöf 1986 - 1988. Hann gegndi í forföllum sem sóknarprestur í Seljaprestakalli í Reykjavík 1988, í dómkirkjusöfnuðinum 1989 og á Selfossi 1994. Var aðstoðarprestur í Árbæjarkju 1989 - 1991 og annaðist helgihald í safnkirkju Árbæjarsafns í Reykjavík frá 1989, sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli í Árnessýslu frá 1991 og þjónaði einnig Laugardælum og Villingaholti. 2009 bættist Selfosssókn við prestakall hans, sem þá fékk nafnið Selfossprestakall. Kristinn var trúnaðarmaður fatlaðra á Suðurlandi frá 1993 - 2011. Hann hefur nokkrum sinnum verið settur meðdómandi í héraði í sifjaréttarmálum. Félags- og trúnaðarstörf. Kristinn var forseti Nemendafélags MH, sat í Stúdentaráði HÍ og í stjórn þess og var fulltrúi stúdenta í háskólaráði og fleiri nefndum skólans. Hann var allmörg ár stjórnarmaður í Æskulýðssambandi Íslands og í Æskulýðsráði Reykjavíkur, auk heldur formaður í nefnd um rekstur æskulýðsmiðstöðvarinnar Bústaða og fulltrúi á ráðstefnum og fundum um námsmanna- og æskulýðsmál (meðal annars Evrópuráð æskunnar í Hollandi 1979 og höfuðborgarráðstefna Norðurlanda um æskulýðsmál 1980). Fulltrúi á Evrópuþingi presta 1994. Í æskulýðsnefnd Þjóðkirkjunnar 1981 - 1984. Skipaður 1983 í undirbúningsnefnd "Alþjóðaárs æskunnar 1985". Í stjórn Prestafélags Íslands 1992 - 1998, varaformaður um tíma en lengst kjarafulltrúi. Beitti sér fyrir endurskoðun á siðareglum presta. Skipaður 1995 í nefnd um aukatekjur presta. Formaður Sunddeildar Ungmennafélags Selfoss og í aðalstjórn UMFS frá 1999. Tók 1998 við umhverfisverðlaunum Árborgar fyrir hönd Sunddeildarinnar, en sjálfur hafði Kristinn tekið þátt í götuhreinsun á vegum hennar. Sat einnig í mörgum öðrum nefndum hjá hinu opinbera og félagasamtökum. Leiklistarferill og ritstörf. Kristinn hefur komið fram í að minnsta kosti 17 kvikmyndum. Hann lék ferjumanninn í Börnum náttúrunnar (1991), læriföður í Myrkrahöðingjanum (2000), prestinn í lokaatriði 101 Reykjavík (2000) og annan prest í myndinni Mýrin (2006). Auk þess kom hann fram í Hvítum mávum (1985), stuttmynd byggðri á þjóðsögu um niðurkvaðningu draugs í Villingaholtskirkjugarði (2004), Bjólfskviðu (2006), Den brysomme mannen (2006), Reykjavik Whale Watching Massacre (2009), Hótel jörð (2009), Óróa (2010), Kurteisu fólki (2011), Borgríki (2011), Rétti, framhaldsþættir í sjónvarpi (2012), Hreinu hjarta, heimildarmynd (2012) og fleiri myndum. Kristinn hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, meðal annars í "Kirkjuritið" og "Þroskahjálp". Hann þýddi tvær víðlesnar bækur eftir Norman Vincent Peale: "Fjársjóður jólanna" (1993) og "Máttur bænarinnar" (1994, 2000). Hann var ritstjóri "Orðsins" 12. - 13. árg. 1977 - 1979, ritstýrði og sá um útgáfu á "Fréttabréfi Húseigendafélagsins" og sat í ritnefnd "Kirkjuritsins". Ottawa. Ottawa er höfuðborg Kanada og er í Ontario-ríki. Í Ottawa situr löggjafarþing landsins og þar búa líka yfirlandstjóri Kanada, sem er fulltrúi Elísabetar Bretadrottningar, formlegs þjóðarleiðtoga Kanada, og forsætisráðherrann. Í Ottawa búa um 808.000 manns (2001). Jónas frá Hriflu. Jónas Jónsson (fæddur á Hriflu í Suður-Þingeyjarsýslu, 1. maí 1885, dáinn í Reykjavík 19. júlí 1968), oftast kenndur við fæðingarstaðinn og nefndur Jónas frá Hriflu. Jónas var formaður Framsóknarflokksins í tíu ár og dóms- og kirkjumálaráðherra 1927—1932. Jónas var mjög umdeildur maður á sinni tíð. Ekki má rugla Jónasi frá Hriflu við Jónas frá Hrafnagili, höfund "Íslenskra þjóðhátta". Menntun. Jónas stundaði nám við Möðruvallaskóla og er sagt að þar hafi forystuhæfileikar hans komið í ljós fyrir alvöru. Hann sótti um inngöngu í Latínuskólann í Reykjavík árið 1905, en hann hafði átt í miklum bréfasamskiptum við skólapilta í Framtíðinni og taldi sig loksins hafa safnað nægum fjármunum til að standa straum af skólagöngunni. Skemmst er frá því að segja að rektor skólans, Steingrímur Thorsteinsson, hafnaði umsókninni á þeirri forsendu að Jónas væri of gamall. Jónas safnaði þá styrkjum til náms við lýðháskólann í Askov í Danmörku og hélt síðan til Englands og nam við Ruskin College í Oxford. Sá skóli var rekinn af bresku samvinnuhreyfingunni og verkalýðshreyfingunni og má segja að hann sé fyrsti verkamannaháskólinn í heimi. Jónas hafði frá blautu barnsbeini verið mikill áhugamaður um ensku og taldi sig því slá tvær flugur í einu höggi með því að fara þangað; hann lærði ensku og kynntist nýjum straumum. Eftir nám - Stjórnmál. Við komuna heim til Íslands árið 1909 snerist hann gegn nýríkum Íslendingum. Stuttu eftir komuna hóf hann afskipti af stjórnmálum og varð landskjörinn þingmaður árið 1922 og dómsmálaráðherra 1927. Hann hafði þó verið viðloðandi stjórnmál mun lengur og er hann talinn hafa verið sá sem ruddi nýrri flokkaskipan braut í landinu og þannig riðlað gamla valdahlutfallinu í landinu. Þá tók hann sem dómsmálaráðherra margar óvinsælar ákvarðanir og spunnust af miklar deilur. Ber þar helst að nefna "læknadeiluna, fimmtardómsfrumvarpið og Íslandsbankamálið." Jónas sat á Alþingi frá 1922 til 1949 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var einnig dóms- og kirkjumálaráðherra 1927—1932. Jónas var formaður Framsóknarflokksins á árunum 1934-1944. Önnur störf. Jónas skrifaði mikið, bækur, bókarkafla og greinar í blöð og tímarit einkum um alls konar þjóðfélagsmál ekki síst um samvinnumál. Hann var ötull hvatamaður að stofnun Menntaskólans að Laugarvatni og færði skólanum hvítbláann að gjöf. Saga Norðurlanda. Norðurlönd (að Íslandi undanteknu) um 1020 Norðurlönd (að Íslandi undanteknu) um 1219. Guli liturinn sýnir svæði sem Danir hertóku 1219, sá rauði sýnir svæði þýsku Sverðsreglunnar, "Schwertbrüder" Norðurlönd (að Íslandi undanteknu) 1658. Græni liturinn sýnir svæði sem Svíþjóð afhenti Danmörku aftur 1660 Saga Norðurlanda nær alla leið aftur á steinöld, en síðan þá hefur fólk búið á Norðurlöndum. Venjulega er sagt að víkingaöldin hafi staðið yfir frá 793 til 1066. Við þessi ártöl er miðað vegna þess, að 793 er árið þegar víkingar réðust á eyjuna Lindisfarne (Lindesfarne) við strönd Norðymbralands á Norður-Englandi, og 1066 er árið þegar Haraldi þriðja af Noregi, sem einnig er nefndur Haraldur harðráði, mistókst að ráðast inn í England. Einnig kann viðgangur kristinnar trúar á Norðurlöndum að hafa átt þátt í því að víkingaferðir lögðust af. Eftir víkingaöldina tók við tímabil sem kennt er við Kalmarsambandið og stóð í u.þ.b. 130 ár. Þetta var tímabil þar sem Norðurlönd voru sameinuð undir einni konungstjórn í Danmörku. Vegna óánægju Svía með þá tilhögun leystist þetta samband upp um 1523 og Danmörk og Noregur mynduðu eitt konungsveldi meðan Svíþjóð myndaði annað og náði það yfir svæði það sem kallast Svíþjóð og Finnland í dag. Næstu 300 árin breytast hagir lítið en mikið er um ófrið milli Svíþjóðar og Danmerkur-Noregs og vann Svíþjóð æ meira á. Einnig stóð Danmörk-Noregur í stríði við Prússa um lendur í suðri sem endaði með ósigri Danmerkur-Noregs. Í lok Napóleonsstyrjaldanna neyddust Danir 1814 að láta Noreg af hendi til Svíþjóðar og Helgoland til Bretlands. Noregur og Svíþjóð voru þó ekki sameinuð heldur voru undir sameiginlegri konungsstjórn. Árið 1808 hertók Rússland austurhluta sænska ríkisins, en Finnland og Svíþjóð höfðu þá verið eitt ríki í yfir 700 ár. Stórfurstadæmið Finnland varð hluti af rússneska keisaradæminu. Áratugirnir 1830-1860 einkenndust mjög af svonefndum skandinavisma í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Innblásnir af þjóðernishyggju og fornaldarljóma leituðust menn við að efla samstarf þessara landa og einingu á stjórnmálasviði og raunar var miðað að því að mynda norrænt ríkjabandalag. Þótt ekki hafi orðið úr lagði Skandinavisminn grunninn að nútíma samstarfi Norðurlandanna. Einn afrakstur var þó myntbandalag Dana, Svía og Norðmanna sem hélst 1873-1914. Það var þó ekki fyrr en 1952 með stofnun Norðurlandaráðs og Norræna vegabréfasambandinu 1957 að formlegt samstarf ríkjanna allra tók á sig form og efldist síðan við stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar 1971. Þróun ríkja á Norðurlöndunum. 1/ Álandseyjar teljast vera í ESB með Finnlandi en njóta vissra undanþága frá lögum sambandsins. 2/ Landnámsmenn Færeyja og Íslands voru af norrænum og keltneskum uppruna. 3/ Grænland byggðist út frá Íslandi á 10. öld en var numið af inúítum á 13. öld. Norræna byggðin lagðist af á 15. öld en Grænland taldist enn hluti Noregs og síðar Dansk-norska ríkisins að nafninu til. Danir hófu síðan skipulegt trúboð á Grænlandi 1721. Hreiðruð bil. Hreiðruð bil á rauntalnalínunni er runa af bilum sem eru hreiðruð innan í hvoru öðru. Ef að formula_1 eru lokuð bil, og formula_2, þá er gildir skv. setningunni um hreiðruð bil, sem Bernard Bolzano sannaði fyrstur, að Þetta er sértilfelli af reglu um hreiðruð mengi, þar sem að bil eru mengi. Cantor-Lebesgue fallið. Cantor-Lebesgue fallið, eða eintæktarfall Lebesgue, er fall í stærðfræði sem sýnir að til sé eintækt vaxandi fall á Cantor menginu. Það er nefnt eftir Georg Cantor og Henri Lebesgue, en sá síðarnefndi skilgreindi það. Orust. Kort sem sýnir staðsetningu Orust Orust er eyja í Skagerrak við strönd Bohuslän í Svíþjóð og er þriðja stærsta eyja Svíþjóðar, á eftir Gotlandi og Eylandi. Eyjan myndar ásamt nærliggjandi eyjum sveitarfélagið Orust Kommun. Sunnan við eyjuna er eyjan Tjörn. Kosningar á Íslandi. Á Íslandi eru almennar kosningar haldnar til að velja forseta lýðveldisins, Alþingi og sveitastjórnir. Stórfurstadæmið Litháen. Kort sem sýnir Pólsk-litháíska samveldið árið 1619 Stórfurstadæmið Litháen (litháíska: "Lietuvos Didžioji Kunigaikštystė", hvítrússneska: "Вялі́кае Кня́ства Літо́ўскае (ВКЛ)", úkraínska: "Велике Князівство Литовське (ВКЛ)", pólska: "Wielkie Księstwo Litewskie") var ríki við Eystrasaltið frá 12. öld fram á 18. öld. Það var stofnað af litháum á fyrri hluta 12. aldar til að bregðast við ágangi sverðbræðra og náði brátt yfir það sem í dag heitir Litháen auk stórs hluta þess sem nú er Hvíta-Rússland. 1386 gekk stórfurstadæmið í konungssamband við Pólland (Pólsk-litháíska bandalagið), einkum vegna uppgangs Stórfurstadæmisins Moskvu. 1569 varð stórfurstadæmið sjálfstæður hluti af Pólsk-litháíska samveldinu þar til því var skipt upp 1795. Kvasir. Kvasir var í norrænni goðafræði maður skapaður úr hráka ása og vana. Sáttagerð þeirra var að spýta í ker, en þar sem þeir vildu ekki láta hrákann týnast gerðu þeir úr honum mann, Kvasi, sem var svo vitur að hann vissi svör við öllu. Tveir dvergar, Fjalar og Galar, buðu honum heim, drápu hann og létu blóðið renna í tvö ker, Són og Boðn og einn ketil, Óðreri. Þeir blönduðu svo hunangi við blóðið og brugguðu af mjöð sem gaf hverjum sem hann drakk skáldskapargáfu. Suttungur jötunn komst yfir mjöðinn og Óðinn drakk hann síðan allan eftir að hafa ginnt Gunnlöðu, dóttur Suttungs, til að leyfa sér að smakka. Þegar Óðinn hafði drukkið mjöðinn flaug hann á brott í arnarham og jötuninn á eftir, en þegar hann kom að veggjum Ásgarðs létu æsir út ker sem hann spýtti miðinum í og er það skáldskapargáfan sem menn hljóta, en sumt gekk aftur úr honum, sem er kallað skáldfíflahlutur, og hefur það hver sem vill. TF-SIF (þyrla). TF-SIF var fyrsta þyrla í eigu Landhelgisgæslu Íslands en hún kom til landsins árið 1985. TF-SIF var af gerðinni Aerospatiale Dauphin II SA-365 N og rúmaði alls fimm áhafnarmeðlimi og átta farþega. Hreyflar þyrlunnar voru tveir, báðir af gerðinni Turbomeca Arriel 1C og voru 700 hestöfl hvor um sig. Þyrlan nauðlenti á sjó sumarið 2007 og var eftir það metin ónýt. Hremmingar. Þyrlan lenti í ýmsum hremmingum á þeim 22 árum sem hún var í notkun. 2001. Árið 2001 var þyrlan í eftirlitsflugi og var stödd á Snæfellsnesi þegar hún lenti í láréttum vindstróki með þeim afleiðingum að spaðarnir skárust í stél og jafnvægisstýri. 2007. 16. júlí 2007 neyddist flugstjóri þyrlunnar til þess að nauðlenda henni á sjó við Straumsvík. Þyrlan missti skyndilega afl á öðrum hreyfli í æfingaflugi. Öllum áhafnarmeðlimum var bjargað stuttu eftir að þyrlan lenti. Þyrlan var metin ónýt eftir slysið. Afrek SIF og áhafnar hennar. 1987 - Barðinn GK 475. Áhöfn þyrlunnar TF-SIF bjargar 9 manna áhöfn við erfiðustu aðstæður björgunnar. Stefan Banach. Stefan Banach (30. mars 1892 í Kraków, þá Austurríki-Ungverjaland, nú Pólland — 31. ágúst 1945 í Lwów, Sóvétríkjunum, nú Úkraína), var pólskur stærðfræðingur. Hann var einn af höfuðpaurum Lwów skólans í stærðfræði fyrir heimstyrjaldirnar. Hann kenndi sjálfum sér stærðfræði að mestu, en snilli hans var uppgötvuð af Julisuz Mien fyrir slysni, og síðar Hugo Steinhaus, sem er sagður hafa komið að honum á spjalli við annan nema á bekk í skrúðgarði. Þegar að seinni heimsstyrjöldin hófst var Banach forseti Pólska stærðfræðafélagsins og prófessor í háskólanum í Lwów. Þar sem að hann skrifaðist á við vísindaakademíuna í Úkraínsku sóvétríkjunum, og var þar félagi, og jafnframt í góðri samvinnu við sóvéska stærðfræðinga, þá fékk hann að halda stöðu sinni eftir að sóvéska hernámið hófst. Hann lifði af hernám Þjóðverja sem stóð frá júlí 1941 til febrúars 1944, en hann vann sér þá til matar með því að gefa blóðsugum að borða af blóði sínu í flekkusóttsrannsóknarstofnun Rudolfs Weigl. Heilsu hans hrakaði á þessum tíma, og hann fékk lungnakrabbamein. Eftir stríðið var Lwów innlimað inn í Sóvétríkin, og Banach lést áður en að hann komst aftur til fæðingarborgar sinnar, Kraków. Hann er jarðaður í Lyczakowski kirkjugarðinum. Heimildir. Banach, Stefan Banach-rúm. Banach-rúm er fullkomið, staðlað vigurrúm. Það er nefnt eftir Stefan Banach, sem fyrst skilgreindi og rannsakaði slík rúm. Skilgreining. Banach-rúm er vigurrúm sem er fullkomið normað vigurrúm. Það þýðir að það sé vigurrúm "V" yfir svið rauntalna eða tvinntalna ásamt staðli (normi) ‖·‖ þannig að sérhver Cauchyruna (með tilliti til firðarinnar d(x, y) = ‖x − y‖) í "V" eigi sér markgildi í "V". Alþingiskosningar 2003. Alþingiskosningarnar 2003 fóru fram þann 10. maí. Í fyrsta skipti var kosið samkvæmt nýrri kjördæmaskipan. Á kjörskrá voru 211.304 en kosningaþátttaka var 87,7%. Stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks undir forystu Davíðs Oddssonar hélt þingmeirihluta sínum þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fjórum sætum. Samfylkingin bætti við sig þremur sætum, Frjálslyndi flokkurinn tveimur, Vinstri-grænir töpuðu einum manni og Framsóknarflokkurinn stóð í stað. Forseti Alþingis var kjörinn Halldór Blöndal, Sjálfstæðisflokki en 2005 tók Sólveig Pétursdóttir við embættinu. Nýi garður. Nýi-Garður er ein af byggingum Háskóla Íslands á háskólalóðinni milli Odda og Lögbergs, gegnt Norræna húsinu. Hann var byggður sem stúdentagarður og tekinn í notkun árið 1943. Á 10. áratug 20. aldar var hlutverki hússins breytt og hýsir það nú skrifstofur kennara í heimspekideild auk ýmissa tengdra stofnana, s.s. Hugvísindastofnunar og tungumálamiðstöðvarinnar. Þar fer fram hluti af kennslu íslensku fyrir erlenda stúdenta. Framhaldsskólastærðfræði. __NOTOC__ ATH: Hér er um tilraunastarfsemi að ræða, en ekki um fullmótaða grein. Taka skal innihaldi þessarar greinar með mikilli varúð! Hér er námsefni í áföngum í stærðfræði lýst eftir því sem þau eru skilgreind í aðalnámsskrá framhaldsskólanna. Alþingiskosningar 1999. Alþingiskosningarnar 1999 fóru fram 8. maí. Á kjörskrá voru 201.408 en kjörsókn var 84,1%. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt öruggum þingmeirihluta, Framsókn tapaði þremur mönnum en Sjálfstæðismenn bættu við sig einum en fylgi þeirra hafði ekki verið meira síðan í kosningunum 1974. Þessar kosningar voru þær fyrstu eftir verulega breytta flokkaskipun í íslenskum stjórnmálum. Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Kvennalistinn og Þjóðvaki voru nú ekki lengur í framboði heldur ákváðu þessir flokkar að bjóða fram saman undir merkjum Samfylkingar í því sjónarmiði að búa til breiðfylkingu jafnaðarmanna og félagshyggjufólks. Nokkrir þingmenn og varaþingmenn Alþýðubandalagsins gátu þó ekki hugsað sér að taka þátt í slíku og stofnuðu nýjan vinstri flokk: Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Þriðji nýji flokkurinn sem lét að sér kveða var svo Frjálslyndi flokkurinn undir stjórn Sverris Hermannssonar sem stofnaður var haustið 1998 og lagði mikla áherslu á málefni fiskveiðistjórnunar. 17,7% fylgi á Vestfjörðum tryggði flokknum tvo menn inn á þing. Forseti Alþingis var kjörinn Halldór Blöndal, Sjálfstæðisflokki Golfklúbburinn Vestarr. Golfklúbburinn Vestarr er golfklúbbur í Grundarfirði. Hann var stofnaður árið 1995. Árið eftir var byrjað að byggja upp 9 holu golfvöll austan við Grundafjörð, í svokallaðri Suður-Bár. Þar heitir nú Bárarvöllur eftir Bari á Ítalíu, þar sem sjómenn hafi haft kapellu. Nafnið klúbbsins, Vestarr, kemur frá Vestarri Þórólfssyni sem er sagt að hafi verið fyrsti landnámsmaður í Eyrarsveit. Um hann má lesa í Eyrbyggjasögu. Heimildir. Vestarr Gráblika. Gráblika (latína: "Altostratus") er tegund miðskýja. Oftast rignir úr grábliku, en hún er getur verið undanfari regnþykknis. Amiga 500. Commodore Amiga 500 var borðtölva sem sett var á markað af Commodore í apríl 1987. Hún gekk á 7,09 MHz Motorola 68000 örgjörva. Commodore Amiga 500 var aðalkeppinautur Atari 520ST. Benjamín dúfa (kvikmynd). "Benjamín dúfa" er íslensk kvikmynd byggð á samnefndri bók. Tónlistarþróunarmiðstöðin. Tónlistarþróunarmiðstöðin er vettvangur fyrir unga tónlistarmenn til að skapa, taka upp og flytja tónlist gegn vægu verði. Miðstöðin er staðsett við Hólmaslóð 2 og er hugarfóstur utangarðsmannsins Danna Pollock sem sér um allan rekstur. Hellirinn er tónleikasalur félagsins og státar af tækjabúnaði af fullkomnustu gerð. Geta þá allir félagsmenn haldið þar tónleika og komið sér á framfæri. Berkjukvef. Bronkítis eða berkjukvef er öndunarfærasjúkdómur sem leggst gjarnan á reykingamenn og íbúa í borgum þar sem mikið af svifryki og mengun er í lofti. Bronkítis lýsir sér sem þurr hósti, andnauð, þreyta og hiti. Oft fylgir einhverskonar hvítt slím með hóstanum, en ef það slím verður gult eða grænt á lit er komin sýking. Bronkítis getur einnig fylgt venjulegu kvefi. Bronkítis varir venjulega ekki lengur en rúma viku og hægt er að nota venjuleg astmalyf til að slá á einkennin, en ef það varir lengur en í 2 mánuði þarf að fara til læknis og láta útiloka lungnakrabbamein. Sigdal. Sigdal er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Íbúafjöldinn var 3.501 1. janúar 2006 og flatarmál sveitarfélagsins er 842 km². Nágrannasveitarfélögin eru Flå, Krødsherad, Modum, Øvre Eiker, Flesberg, Rollag og Nore og Uvdal. Mestur hluti íbúanna býr í þremur þéttbýlisstöðum; Prestfoss, Solumsmoen og Eggedal. Flå. Flå er sveitarfélag í Buskerud-fylki í Noregi. Íbúar sveitarfélagins voru 998 1. janúar 2006 og flatarmál þess er 705 km². Nágrannasveitarfélög eru Sør-Aurdal í norðri, Ringerike í austri, Krødsherad og Sigdal í suðri, Nore og Uvdal í vestri og Nes í norðvestri. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Flå sýnir björn, en svæðið var gósenland bjarna á þeim tíma sem birni var enn að finna í Buskerud. Edmund Hillary. Sir Edmund Hillary á Suðurskautslandinu Edmund Hillary (fæddur 20. júlí 1919 - 11. janúar 2008) var nýsjálenskur fjallamaður og landkönnuður sem er þekktastur fyrir að hafa verið fyrstur til að ná tindi Everestfjalls, ásamt Tenzing Norgay, 29. maí 1953. Hann náði einnig á Suðurpólinn 4. janúar 1958. Marco Polo. Marco Polo og félagar koma til kínverskrar borgar - myndskreyting úr handriti "Il Milione" Marco Polo (15. september 1254 – 8. janúar 1324) var feneyskur kaupmaður og landkönnuður sem var, ásamt föður sínum Niccolò og frænda Maffeo, fyrstur Vesturlandabúa til að ferðast til Kína eftir Silkiveginum og heimsækja stórkaninn Kúblaí Kan sem þá ríkti yfir Kína. Um ferðir hans var skrifuð bókin "Il Milione" (dregið af auknefni Polo-feðga í Feneyjum eftir einum forföður þeirra, "Emilione") eftir frásögn hans sjálfs sem hann hafði fyrir Rustichello da Pisa þar sem þeir sátu saman í fangelsi í Genúa 1298-1299. Henry Ford. Henry Ford (30. júlí 1863 – 7. apríl 1947) var stofnandi bílaframleiðandans Ford Motor Company 1903 sem var eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að notast við færibandavinnslu til að fjöldaframleiða ódýra bíla. Aðferðir þær sem fyrirtæki hans beitti við framleiðslu bifreiða urðu sýnidæmi fyrir nýjar aðferðir og ollu þannig byltingu í efnahagslífi heimsins á 20. öld. Með þessum aðferðum urðu bifreiðar í fyrsta sinn nægilega ódýrar til að verkafólk gæti keypt þær. Fordismi varð almennt hugtak yfir fjöldaframleiðslu, tiltölulega há laun verkafólks samfara lágu verði til neytenda. Henry Ford varð einn af frægustu og ríkustu mönnum heims á sinni tíð. Æviágrip. Henry Ford var fæddur og upp alinn á sveitabæ rétt fyrir utan borgina Detroit og fékk áhugan á vélum strax á unga aldri. Þegar hann varð 16 ára fór hann til Detroit til að vinna í verksmiðju og afla sér upplýsinga um vélar. Hans stærsti draumur var að smíða fyrsta farartækið sem gæti keyrt sjálft. Hann stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki árið 1903 en það var eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem notaði færiband til að auðvelda framleiðsluna. Hugmynd hans var að smíða bíl sem væri nógu ódýr fyrir almenning, fyrirferðalítill og hraðskreiður. Færibandið olli miklum framförum í iðnbyltingunni. Ford hafði lagt af stað með þetta allt saman einn og árið 1912, hafði hann átta þúsund manns í vinnu og útibúin voru orðin 28. Hagnaðurinn var kominn upp í 42 milljónir dala og var hann á tímabili talinn vera auðugasti maðurinn í heiminum. Hann lést svo úr elli þann 7. apríl 1947. Upphafið af bílnum. Faðir Fords var stórbóndi sem átti um 1000 ekrur af landi en móðir Henrys dó þegar hann var enn þá á ungaaldri. Henry var mjög duglegur og hjálpaði pabba sínum en vanrækti þó ekki námið og var mjög áhugasamur. Eftir að hann lauk skóla, 16 ára gamall, vildi hann flytja í borgina til að læra meira. Hann flutti í borgina Detroit en þar var mikið um járn- og málmvinnslur og staðurinn því fullkominn fyrir ungling sem hafði áhuga á vélum og smíði. Honum langaði samt sem áður ekkert að vinna við að smíða, honum langaði að þekkja vélina og læra á það hvernig hún virkaði. Þegar hann fór í borgina vonaðist faðir hans eftir að hann kæmi fljótlega aftur en Henry fékk vinnu á verkstæði þar sem gert var við gufuvélar. Á þessum tíma var bensínvélin enn þá óþekkt og alls staðar notað gufuafl. Eftir þriggja ára starf í verksmiðjunni taldi hann sig hafa lært allt sem hann gat þarna svo hann sagði upp vinnunni. Hann sótti um vinnu á öðrum stað og vann þar þangað til hann taldi sig hafa lært allt. En þá flutti hann heim aftur og breytti smiðjunni í smáverkstæði þar sem hann dundaði sér við að smíða fyrstu gufuvélina sem átti að koma í stað hestsins. Hann kveikti undir katlinum, þrýstingurinn jókst og hjólin fóru að snúast en vélin komst ekki lengra en 20 metra því að ketillinn var of lítill. Stuttu síðar kynntist hann sprengihreyflinum og vildi ólmur fá svoleiðis í sinn „hestvagn“. Síðar setti hann sprengihreyfilinn í hestvagninn og lét síðan bensín í staðin fyrir ljósgas sem hafði áður verið notað á hreyfla. Faðir hans hafði ekki mikla trú á honum og bauð honum 200 hektara land ef hann myndi hætta þessu braski. Hann tók þessu tilboði vegna þess að hann hafði þá kynnst stúlku, að nafni Clara Bryant, sem honum langaði til að giftast og vildi koma sér fyrir svo þau gætu gift sig. En hann gafst ekki upp á bensín hreyflinum og fékk góðan stuðning frá konu sinni sem hafði gríðarlegan áhuga á því sem hann var að gera. Þau urðu að flytja til Detroit til þess að hann gæti einbeitt sér að smíða vélar því að of mikill tími fór í það að rækta upp jörðina. Hann fékk vinnu á rafmagnsverkstæði sem var alveg nýr heimur fyrir hann og á meðan kom hann sér sjálfur upp verkstæði. Þar byrjaði hann á fyrstu vélinni sinni alveg frá grunni. Fyrsti bíllinn. Fyrsti bíllinn sem Ford hannaði. Úti í heimi voru margir sem reyndu að smíða bílinn en enginn hafði sama markmið og Ford það er að smíða ódýra bíla fyrir almenning. Árið 1892 lauk hann við fyrsta vélknúna vagninn, hann vann þó að honum í eitt ár til að fullgera hann áður en nokkur fékk að sjá hann. Þetta var fjögurra hestafla hreyfill sem notaður var í vélina. Vagninn var hægt að aka á tvenns konar hraða annars vegar 16 km/klst og hins vegar 32 km/klst. Vagnstjórinn þurfti að taka í handfang og flytja reim til þess að skipta um hraða. Til þess að koma vélinni af stað var notuð sveif. Tíu árum eftir að hann byrjaði á vélinni var hún tilbúin. Henry fór til borgarstjórans til að fá leyfi til að aka bílnum svo hann yrði ekki handtekinn og það var fyrsta ökuleyfið sem gefið var út í Ameríku. Árið 1893 eignuðust þau hjónin soninn Ebsel Bryant Ford og það sama ár hófu keppinautar að koma fram. Fyrsta bílinn sinn seldi Ford fyrir 200 dali og strax byrjaði hann að smíða bíl númer tvö en hann var miklu betur útbúinn en hinn og gat meðal annars bæði keyrt áfram og aftur á bak. Yfirmenn hans í rafmagnsverksmiðjunni voru ekki ánægðir með að hann væri að vinna í bensínhreyflinum og vildu að hann myndi finna upp uppfinningar sem tengdust rafmagni. Hann var ekki ánægður með það og sagði upp vinnunni. Á þessum tímum var mikil samkeppni og keppinautur hans í Detroit var farinn að framleiða 1400 bíla á einu ári. En Ford vildi ekki bregðast því sem hann lagði upp með og stefndi á að smíða bíl sem var léttur og almenningur gat keypt. Ford á spjöld sögunnar. Þann 10. október árið 1901 tókst Ford að hanna ódýran, kraftmikinn og lítinn bíl og skoraði hann þá á Alexander Winton, sem þá hafði smíðað öflugasta bílinn sem þá var til, í kappakstur. Fólk hafði ekki mikla trú á þessum bíl sem Ford var á vegna þess hversu lítill hann var. En Ford sigraði þessa keppni og kom sér þannig fram í sviðsljósið. Á þessum tíma komu upp á sjónarmiðið margir bílar sem eru þekktir í dag eins og Oldsmobile, Auburn, Cadillac og Studebaker. Árið 1903 lýstu 27 keppinautar Fords því yfir að þeir skildu stöðva öll viðskipti við þá bílaframleiðendur sem ekki voru í þeirra félagi. Þeir buðu Ford strax að vera með en hann afþakkaði það þar sem að þeirra markmið var að hanna dýra og hraðskreiða bíla. Þeir höfðu ekki áhuga á að hanna bíl fyrir almenning. Ford barðist drengilega gegn þessum mönnum og auglýsti það að hann ætlaði sér að bæta heimsmetið í kappakstri. Hann smíðaði bíl sem var lítill og mjög hraðskreiður. Þann 12. janúar árið 1904 fór hann svo og keppti og bætti heimsmetið en þá ók hann á 147 km/klst. Árið 1909 var Ford í fararbroddi og hafði náð að hanna bíltegund sem kölluð er Módel T. Þessi bíltegund var eins og hann hafði hugsað sér, ódýr fyrir fjölskyldur, hraðskreiður og varð fljótt metsölubíll í Bandaríkjunum. Færibandið og Fordisminn. Með aukinni bílaframleiðslu fann Ford upp færiband til notkunar til að hraða á framleiðslunni. Notkunin byggðist á því að hver starfsmaður sæi um aðeins eitt eða mjög fá verk af mikilli nákvæmni og hraða. Þessi tækninýjung breiddist hratt úr um öll Bandaríkin. Færibandið var hins vegar ekki tekið í notkun í Evrópu fyrr en í og eftir fyrri heimstyrjöldina. Þetta hafði bæði góðar og slæmar afleiðingar fyrir verkamennina. Erfiðið varð minna, betri aðstaða og oft betri laun en þar á móti jókst hins vegar streitan og vinnuhraðinn varð oft miklu meiri. Í fyrri heimstyrjöldinni jókst eftirspurn í Bandarískar hernaðarvörur og ýtti það undir að vörur yrðu fjöldaframleiddar. Þarna kom sér að góðum notum uppfinning Fords. Færiböndin voru drifin áfram með litlum mótorum. Fyrir utan færibandið var Ford einnig höfundur af svokölluðum fordisma en fordismi gerði ráð fyrir tengslum á milli verkfæra og verkamanna í iðnbyltingunni. Atvinnurekendur áttu frekar að huga að sköpun í atvinnulífi en hagnaðinum. Sá ágóði sem vannst átti annað hvort að fara í fjárfestingar fyrir fyrirtækið eða dreifast á milli starfsfólksins. Henry Ford gaf barnabarninu sínu Henry Ford II fyrirtækið í arf en hann lést svo sjálfur tveimur árum seinna eða 7. apríl 1947 þá 84 ára að aldri. Heimildir. Ford, Henry Jonas Gahr Støre. Jonas Gahr Støre (fæddur 25. ágúst 1960) er utanríkisráðherra Noregs í annarri ríkisstjórn Jens Stoltenbergs. Støre tilheyrir norska verkamannaflokknum. Ævi. Hann gekk í Berg-menntaskólann í Ósló og hlaut eftir það þjálfun hjá norska sjóhernum. Seinna nam hann stjórnmálafræði í París og hóf doktorsnám við London School of Economics en hætti fljótt við. Þá lá leið hans fyrst til lagadeildar Harvard-háskóla þar sem hann kenndi í eitt skólaár. Frá 1986 til 1989 stundaði hann fræðastörf við Norwegian School of Management. Á árunum 1989 til 1995 starfaði hann sem ráðgjafi hjá forsætisráðuneyti Noregs. Því næst var hann sendiherra Noregs hjá SÞ frá 1995 til 1998. Á eftir fylgdi staða hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni undir Gro Harlem Brundtland. Því næst var hann ráðinn starfsmannastjóri Jens Stoltenbergs 2000-1. Jonas vann 2002 til 2003 hjá norsku hugveitunni "Econ Analyse" og 2003 til 2005 sem framkvæmdastjóri norska Rauða krossins. Tenglar. Støre, Jonas Gahr Johann Gutenberg. Johann Gutenberg eða Johannes Gensfleisch zur Laden zum Gutenberg (um 1398 – 3. febrúar 1468) var þýskur málmsmiður og uppfinningamaður sem öðlaðist frægð fyrir að finna upp aðferð við að nota lausa leturstafi í prentun. Árið 1448 fann hann upp meðal annars málmblöndu fyrir leturgerð, prentblek með olíu sem bindiefni, aðferð til að steypa leturstafina í nokkru magni með mikilli nákvæmni og nýja gerð prentvélar sem byggðist á vínberjapressu. Með því að sameina þessar nýjungar í nýtt framleiðslukerfi tókst honum að fjöldaframleiða bækur með miklum hraða og betri gæðum en þekktust í prentvinnslu fram að því. Prenttæknin olli byltingu í bókaútgáfu og þar með útbreiðslu hugmynda og lærdóms í allri Evrópu. Árið 1455 sýndi Gutenberg fram á getu þessarar nýju tækni með því að prenta Biblíu í tveimur bindum og selja fyrir 300 flórínur eintakið. Þetta var umtalsvert lægra verð en handskrifuð Biblía kostaði áður. Í dag eru þekkt ellefu heil eintök af Gutenbergbiblíunni. Biblían var þó ekki fyrsta prentaða bókin sem Gutenberg gaf út þar sem hann hafði áður gefið út "Ars Minor", hluta af kennslubók Aelius Donatus í latneskri málfræði. Edward Jenner. Edward Jenner (17. maí 1749 – 26. janúar 1823) var enskur sveitalæknir sem uppgötvaði bólusetningu gegn bólusótt með því að nota vægt afbrigði kúabóluveirunnar. Hann kom með þá tilgátu að vökvi sem mjaltakonur fengu úr sárum eftir kúabólu verndaði þær gegn bólusótt. Hann prófaði þessa tilgátu sína árið 1796 á ungum dreng og sýndi fram á að aðferðin skapaði ónæmi fyrir bólusótt. Alexander Graham Bell. Bell talar í frumgerð símans 1876 Alexander Graham Bell (3. mars 1847 – 2. ágúst 1922) var skosk-bandarískur vísindamaður og uppfinningamaður. Hans er einkum minnst fyrir að hafa fundið upp símann (þótt bæði Antonio Meucci og Elisha Gray hafi einnig fundið upp síma óháð Bell). Hann er einnig talinn hafa fundið upp fyrsta málmleitartækið. Mælieiningin "bel" (desíbel) heitir í höfuðið á honum. Hann var virkur í hreyfingunni í kringum mannkynbótastefnuna í Bandaríkjunum. Mælieiningin Bel er kennd við hann. Bell, Alexander Graham Bell, Alexander Graham Ný félagsrit. Ný félagsrit var tímarit, sem hafði það meginmarkmið að kynna skoðanir Jóns Sigurðssonar fyrir íslensku þjóðinni. Það kom út árlega tímabilin 1841–1864 og 1869–1873 auk þess sem það kom út árið 1867. Samanlagt voru þetta 30 árgangar, mestmegnis ritaðir af Jóni Sigurðssyni sjálfum. Sumardagurinn fyrsti. Sumardagurinn fyrsti, einnig kallaður "Yngismeyjardagur", er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu frá 19.-25. apríl (þ.e. fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl). Sumardagurinn fyrsti var lengi messudagur eða til 1744. "Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns". Hvað átt er við með "góðu sumri" í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings. Solomon Asch. Sálfræðingurinn Solomon Asch (14. september 1907 - 20. febrúar 1996) er aðallega þekktur fyrir félagssálfræðirannsóknir sínar á hópþrýstingi, þar sem hann sýndi fram á að fólk getur verið tilbúið til að samþykkja skoðanir sem augljóslega eru rangar ef meirihluti manna gerir það. Verk Asch urðu kveikjan að umdeildum tilraunum félagssálfræðingsins Stanley Milgram, og Asch var leiðbeinandi Milgrams í doktorsverkefni hans við Harvard-háskóla. Elizabeth Loftus. Elizabeth Loftus er sálfræðingur sem fæst helst við rannsóknir á minni, sérstaklega á minnisbrenglun. Hún er fræg fyrir tilraunir sem sýndu að hægt er að mynda hjá fólki falskar minningar. Stanley Milgram. Stanley Milgram (1933-1984) var félagssálfræðingur, sem gerði mikilvægar og umdeildar tilraunir á hlýðni og undirgefni, svokallaðar Milgramtilraunir. Döðlupálmi. Döðlupálmi (fræðiheiti: "phoenix dactylifera") er pálmi, sem er ræktaður víða vegna þess að hann ber æta ávexti, sem kallaðir eru döðlur. Döðlur eru trefja- og sykurríkar og innihalda C vítamín. Explosions in the Sky. Explosion in the Sky er bandarísk post-rock hljómsveit sem var stofnuð í Austin, Texas árið 1999. Hljómsveitina skipa "Munaf Rayani" og "Mark Smith", sem eru gítarleikarar, "Micheal James" sem leikur á bassa og "Chris Hrasky" trommuleikara. Hljómsveitin leikur melódískt instrumental rokk, í anda Mogwai og Sigur Rósar og er á mála hjá útgáfufyrirtækinu Temporary Residence Limited. Drangey. Drangey er eyja fyrir miðjum Skagafirði. Hennar er fyrst getið í Grettis sögu en Grettir hafðist þar við seinustu ár sín ásamt bróður sínum Illuga og þrælnum Glaumi. Hann var veginn í eynni. Eyjan hefur stundum verið nefnd „Vorbær Skagfirðinga“, en þeir sóttu til hennar bæði egg og fugl á hverju vori. Drangey er að mestu úr móbergi. Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þótt mest beri þar á svartfuglategundum: stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Stuttnefjan og langvían verpa í bjarginu sjálfu en álkan einkum í urðum undir því. Lundinn grefur sér aftur á móti holur á brúnunum. Auk þess verpa rita og fýll í björgunum og hrafn og valur eiga sér þar einnig griðland. Í gamalli þjóðsögu segir að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir fjörðinn þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur Kerling sunnan hennar. Karl var fast fyrir norðan eyna en er nú löngu fallinn. Sigið er eftir eggjum í Drangey, en áður fyrr var fuglinn einnig veiddur á fleka sem lagðir voru á sjóinn. Voru þeir alsettir snörum úr hrosshári og nefndust „snöruflekar“. Voru þrír flekar jafnan tengdir saman með um það bil tveggja faðma löngum spotta. Saman nefndust þeir „niðurstaða“. Veiðimenn héldu lengst af til í byrgjum á Fjörunni sem er við eyna sunnanverða. Þaðan reru þeir einnig til fiskjar. Var þar allt upp í 200 manna verstöð þegar flest var og fyrir kom að fuglafli fór yfir 200 þúsund í mestu aflaárum. Flekaveiðar lögðust af 1966. Alexandre Dumas eldri. Alexandre Dumas á ljósmynd frá 1860 Alexandre Dumas, pére, upphaflega Dumas Davy de la Pailleterie (24. júlí 1802 – 5. desember 1870) var franskur rithöfundur, best þekktur fyrir sögulegar skáldsögur sínar sem hafa gert hann að einhverjum víðlesnasta höfundi heims. Hann sögur hans (s.s. D'Artagnan-bækurnar og "Greifinn af Monte Christo") komu gjarnan fyrst út sem bókaraðir eða framhaldssögur í tímaritum og dagblöðum. Hann skrifaði einnig mörg leikrit og blaðagreinar. Einn sonur hans og alnafni gerðist einnig rithöfundur og eru þeir því nefndir Alexandre Dumas eldri ("pére" - faðir, á frönsku) og Alexandre Dumas yngri ("fils" - sonur). Síðrokk. Síðrokk ("e. post-rock") er jaðarrokks stefna. Í raun ætti þó frekar að tala um post-rock sem hugtak, þar sem að mjög ólík bönd geta flokkast undir þessa stefnu. Stefnan lýsir sér þannig að hljómsveitirnar spila instrumental-rokk á tilraunakenndan máta. Hljóðfærunum er oft beitt á óhefðbundin hátt, rafáhrif má oft greina og lagasmíðarnar eru töluvert flóknari en gerist hjá flestum rokkhljómsveitum. Djass-áhrif eru einnig sterk, sumar hljómsveitir spila spunakennda tónlist á meðan aðrar hallast af ambient-stefnu Brian Enos. Post-rock er í raun tilraun til að fara lengra með rokktónlistina, brjótast úr stöðnuðum lagasmíðum rokksins og innleiða ferskan hljóm í rokkheiminn. Maður að nafni Simon Reynolds skapaði hugtakið post-rock og lýsti því svona: "Það er þegar rokk hljóðfærum er beitt en ekki í þágu rokksins. Gítarinn er notaður til að framkalla ákveðinn hljómblæ og áferð í stað þess að spila riff". Upphaf stefnunar. Erfitt að er segja nákvæmlega hvenær það var sem stefnan varð til. Ýmiss bönd hafa lagt margt til hennar, þar má nefna My Bloody Valentine, Stereolab og Slint. En flesir eru þó á því máli að Tortoise hafi verið fyrsta bandið sem hægt var að flokka sem post-rock band. Í verkum þeirra má finna allar þessar áherslur sem fyrr var talað um: djass-, raf- og ambientáhirf að undanskildu rokkinu. Annað band sem var brautriðjandi í senunni var Mogwai. Þeir voru þó að vinna með töluvert öðruvísi hugmyndir en Tortoise. Þeir fara lengra út í ambient og enn lengra út í rokk. Á köflum dettur hlustandanum í hug dauðarokk þegar þeir hlusta á Mogwai. Mogwai eru helstu áhrifavaldar stefnunnar. Hljómsveitirnar. Post-rock sveitirnar eru ólíkar eins og þær eru margar. Í ljúfari kanntinum eru bönd eins og Tristeza og Lanterna. Tristeza spila hæg og melódísk lög undir miklum áhrifum frá raftónlist á meðan Lanterna hafa skapað sér sinn eigin hljóm með því að notast mikið við kassagítara. Aðrar eru undir miklum klassískum áhrif og beita fiðlum, sellóum og blásturshlóðfærum óspart, þar má nefna Godspeed You Black Emperor! og Sickoakes. Enn aðrar færast nær málmi og spila þungt og tilfinningaþrungið rokk, I'msonic rain, ISIS og Red Sparrows. Og svo djass- og spunakenndar eins og Do Make Say Think. Ekki má gleyma konungum konstrúktorsins, Explosions in the Sky. Þeir leika fallegt melódískt rokk sem hægt og rólega breytist yfir í dramatíska þungarokkskafla. Íslenskar hljómsveitir. Íslenska hljómsveitin Sigur Rós er meðal stærstu nöfnum síðrokks stefnunar á heimsvísu en meðal annara íslenska síðrokkshljómsveita má til að mynda nefna Miri, Úlpu, Kimono og Sofandi. Bifröst (þorp). Bifröst er háskólaþorp í Norðurárdal í Borgarbyggð sem byggst hefur upp í kringum Háskólann á Bifröst. Þar voru 269 íbúar með lögheimili 1. desember 2005 en heildaríbúafjöldi er nær 700. Tony Hillerman. Tony Hillerman (f. 27. maí 1925) er bandarískur rithöfundur sem skrifar glæpasögur. Hann barðist í síðari heimsstyrjöldinni og fékk orðu fyrir frammistöðu sína þar. Eftir stríðið hóf hann störf sem blaðamaður og kenndi síðan blaðamennsku við University of New Mexico. Fyrsta bók hans, "The Blessing Way", kom út 1970. Þrjár af bókum Tony Hillerman hafa komið út á íslensku: "Haugbrjótar" ("A Thief of Time") 1990, "Flugan á veggnum" ("The Fly on the Wall") 1990 og "Talandi guð" ("Talking God") 1992. Hillerman, Tony Benedikt Sveinsson (yngri). Benedikt Sveinsson (2. desember 1877 – 16. nóvember 1954) var íslenskur stjórnmálamaður, ritstjóri, bókavörður og bankastjóri. Benedikt fæddist á Húsavík, sonur Sveins Víkings Magnússonar, veitingamanns, og Kristjönu Guðnýjar Sigurðardóttur, húsmóður og ljósmóður. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1901 og tók próf í forspjallsvísindum árið eftir. Hann stafaði við blaðamennsku og ritstjórn til 1915. Árið 1917 varð hann gæslustjóri Landsbankans og bankastjóri 1918-1921. Árið 1922 var hann ráðinn útgáfustjóri að sögu Alþingis. Hann var bókavörður í Landsbókasafninu frá 1931 og síðan skjalavörður í Þjóðskjalasafni frá 1941-1948. Hann annaðist útgáfu á mörgum Íslendingasögum fyrir Sigurð Kristjánsson bóksala og skrifaði fjölda blaða- og tímaritagreina um sögu Íslands, tungu, bókmenntir og ýmis þjóðmál. Benedikt var alþingismaður Norður-Þingeyinga 1908-1931, lengst af fyrir Sjálfstæðisflokk (eldri) en frá 1927 fyrir Framsóknarflokk. Hann var forseti neðri deildar Alþingis 1920-1930. Hann var mikill baráttumaður fyrir sjálfstæði Íslands en þegar sambandslagafrumvarpið var afgreitt á Alþingi 1918 barðist hann hart gegn samþykkt þess og var eini þingmaður neðri deildar sem greiddi atkvæði gegn því, þar sem hann taldi það ekki ganga nógu langt. Benedikt kvæntist Guðrúnu Pétursdóttur frá Engey árið 1904 og átti með henni sjö börn, Svein, Pétur, Bjarna, Kristjönu, Ragnhildi, Guðrúnu, Ólöfu. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1914—1920. Í fullveldisnefnd 1917—1918. Í verðlagsnefnd 1918—1919. Forseti Hins íslenska þjóðvinafélags 1918—1920. Kosinn í Grænlandsnefnd 1924. Sat í mörg ár þing Fiskifélags Íslands. Í mþn. um bankamál 1925. Elsass. Kort sem sýnir héraðið Elsass í Frakklandi Elsass (þýska/alsatíska: "Elsass"; franska: "Alsace") er hérað í austurhluta Frakklands og liggja landamæri þess að Þýskalandi og Sviss. Héraðið var hluti af hinu heilaga rómverska keisaradæmi þegar það varð innlimað með valdi af Frakklandi á 17. öld. Eins og Lothringen hefur Elsass skipst á að vera hluti af Frakklandi og Þýskalandi. Tungumál Elsass er alsatíska, allemannísk mállýska af þýskum stofni. Bertolt Brecht. Bertolt Brecht eða Eugen Berthold Friedrich Brecht (10. febrúar 1898 – 14. ágúst 1956) var eitt af áhrifamestu leikskáldum 20. aldar. Hann þróaði nýja tegund leikhúss sem hann kallaði epískt leikhús. Hann er einna þekktastur fyrir "Kákasíska krítarhringinn" (Der kaukasische Kreidekreis), sem hann samdi sem flóttamaður í Hollywood og "Mutter Courage", og kannski einna mest fyrir "Túskildingsóperuna" (Dreigroschenoper). Ævi. Brecht fæddist í Ágsborg og flutti síðar til Berlínar þar sem hann skrifaði meðal annars "Túskildingsóperuna" (1928) og "Uppgangur og hrun Mahagonníborgar" (1930) sem Kurt Weill samdi tónlistaina við. Þegar Adolf Hitler vann kosningarnar 1933 flutti Brecht úr landi og hóf langvinnt flakk um heiminn sem endaði að lokum í Bandaríkjunum. Flestum verkum Brechts frá þessum tíma er beint gegn fasisma. Á tímum Kalda stríðsins lenti hann á svörtum lista vegna tengsla við kommúnista. Hann flutti aftur til Evrópu og þáði boð um að setjast að í Austur-Berlín þar sem hann bjó til dauðadags. Kenningar Bertolt Brecht. Leikhúsið átti að mati hans ekki að taka þátt í fyrir fram tapaðri samkeppni við kvikmyndina við að skapa blekkingu líkt og í leikhúsi natúralismans, heldur vera eins konar tilraun með aðstæður. Með því að nota framandgervingu (V-effekt) má koma í veg fyrir að áhorfendur lifi sig inn í atburðarásina. Í verkum hans notast hann við klippingu þar sem framvindan er skyndilega rofin með einhverjum hætti, t.d. með söngatriði. Ágústus. Ágústus einnig nefndur Augustus, Caesar Ágústus, Caesar Augustus, Octavíanus eða Octavíanus Ágústus (Latína:IMPERATOR CAESAR DIVI FILIVS AVGVSTVS; 23. september 63 f.Kr. – 19. ágúst 14 e.Kr.), var fyrsti og einn mikilvægasti keisari Rómaveldis, enda þótt hann upphefði ekki stöðu sína og kysi fremur titilinn "princeps", sem þekktist frá lýðveldistímanum og er venjulega þýddur „fyrstur borgaranna“. Nafn Ágústusar, sem hét raunverulega Octavíanus og þar áður Octavíus, var upphaflega virðingartitill (myndaður af sögninni "augeo", sem þýðir að auka eða upphefja, lofa eða dýrka), sem öldungaráð Rómar veitti honum árið 27 f.Kr. Sú venja er meðal sagnfræðinga að nota nafnið Octavíanus til að vísa til hans fyrir árið 27 f.Kr. en Ágústus eftir árið 27 f.Kr. Verður þeirri reglu fylgt hér. Octavíanus var erfingi Júlíusar Caesars, sem var ömmubróðir hans. Eftir morðið á Caesari gekk Octavíanus í bandalag með Marcusi Antoniusi og Marcusi Lepidusi. Þegar slitnaði upp úr bandalaginu kom til átaka milli Marcusar Antoniusar og Octavíanusar, sem hafði betur. Í kjölfarið komst Octavíanus til valda í Róm. Hann viðhélt hefðum rómverska lýðveldisins að forminu til en var í reynd sjálfráður einvaldur í yfir 40 ár. Valdatími hans myndar skiptinguna á milli lýðveldistímans og keisaratímans í Róm en keisaratíminn er venjulega talinn hefjast árið 27 f.Kr. Hann batt enda á borgarastríð sem áður hafði geisað og leiddi Róm inn í nýjan tíma hagsælda og friðar, "Pax Romana" eða "Rómarfriðarins". Hann var giftur Liviu Drusillu í 51 ár. Uppvaxtarár. Ágústus fæddist í Róm (eða Velletri) 23. september, 63 f.Kr. og hlaut nafnið Gaius Octavíus. Faðir hans, sem hét einnig Gaius Octavíus, var af virtri en tiltölulega lítt þekktri ætt riddarastéttar og var landstjóri Macedoniu. Skömmu eftir að Octavíus fæddist gaf faðir hans honum eftirnafnið Thurinus'", hugsanlega til að minnast sigurs síns á Thuriubúum vegna þrælauppreisnar meðal þeirra. Móðir hans, Atia Balba Caesonia, var systurdóttir Júlíusar Caesars, sem varð brátt sigursælasti herforingi Rómar og kjörinn einvaldur ("dictator") ævilangt. Hann varði æskuárum sínum hjá afa sínum nærri Veletrae (í dag Velletri). Árið 58 f.Kr., þegar hann var fjögurra ára gamall, lést faðir hans. Lengst af æskunnar bjó hann hjá stjúpföður sínum, Luciusi Marciusi Philippusi. Árið 51 f.Kr., þegar hann var ellefu ára, flutti hann útfararræðu ömmu sinnar, Julíu, eldri systur Júlíusar Caesars. Hann klæddist "toga virilis" fimmtán ára gamall og var kjörinn í "Collegium Pontificum", sem var ráð æðstu presta ríkisins. Caesar fór fram á að Octavíus væri með í liði sínu í herför sinni til Afríku en Atia andmælti og sagði hann of ungan. Næsta ár, 46 f.Kr., féllst hún á að leyfa honum að fylgja Caesari til Spánar en hann varð veikur og gat ekki ferðast. Þegar hann hafði náð sér sigldi hann af stað en lenti í sjávarháska; þegar hann hafði komist á land með nokkrum félaga sinna fór hann yfir landsvæði óvinanna og náði til herbúða Caesars. Caesar þótti mikið til þessa koma. Þeir og Octavíus sneru aftur heim saman og Caesar breytti erfðaskrá sinni í laumi. Leiðin til valda. Þegar Júlíus Caesar var ráðinn af dögum 15. mars 44 f.Kr. var Octavíus við nám í Apolloniu í Illyríu. Þegar erfðaskrá Caesars var lesin kom í ljós að Caesar, sem átti engin skilgetin börn, hafði ættleitt frænda sinn sem kjörson sinn og erfingja. Vegna ættleiðingarinnar tók Octavíus við nafninu Gaius Iulius Caesar. Samkvæmt rómverskri hefð átti hann einnig að bæta við sem eftirnafni "Octavíanus" til að gefa til kynna upprunalegu fjölskyldu sína. Hins vegar er enginn vitnisburður um að hann hafi nokkurn tímann notað nafnið "Octavíanus". Marcus Antonius hélt því seinna fram að hann hefði greitt fyrir ættleiðingu sína með því að gera Caesar kynferðislega greiða en Suetonius segir í ævisögu Ágústusar að ásökunin hafi einungis verið rógburður. Octavíanus, eins og hann er venjulega nefndur á þessu tímabili ævi sinnar, safnaði liði í Apolloniu. Hann hélt yfir til Ítalíu og fékk liði sínu gamalreynda liðsforingja úr herliði Caesars og fékk stuðning þeirra með því að leggja áherslu á stöðu sína sem erfingi Caesars. Hann var einungis átján ára gamall og var af þeim sökum hvað eftir annað vanmetinn af keppinautum sínum um völdin. Í Róm var Marcus Antonius við stjórn. Hann myndaði bandalag með Marcusi Antoniusi og Marcusi Aemiliusi Lepidusi, sem höfðu verið helstu samherjar Caesars. Bandalag þeirra er kallað síðara þremenningasambandið og fól í sér skiptingu valda til fimm ára og var stutt lögum, ólíkt hinu óformlega fyrra þremenningasambandi Pompeiusar, Caesars og Marcusar Liciniusar Crassusar. Þremenningarnir hrintu af stað áformum um að svipta um þrjú þúsund öldungaráðsmenn og tvö hundruð manns af riddarastétt eigum sínum og jafnvel lífinu, einkum þá, sem voru viðriðnir morðið á Caesari. Að öllum líkindum réð fjárskortur miklu um ákvörðunina en þeir þörfnuðust fjár til að borga hermönnum sínum.. Marcus Antonius og Octavíanus héldu svo í herleiðangur gegn Brútusi og Cassiusi, sem höfðu lagt á ráðin um morðið á Caesari. Þeir höfðu safnað liði og flúið til austurs. Við Filippí í Macedoniu sigraði her Marcusar Antoniusar og Octavíanusar her Brútusar og Cassiusar, sem frömdu í kjölfarið sjálfsmorð (42 f.Kr.). Að orrustunni lokinni var á ný lagt á ráðin um fyrirkomulag þremenningasambandsins: Octavíanus sneri aftur til Rómar en Marcus Antoníus hélt til Egyptalands, þar sem hann gerðist bandamaður Kleópötru, fyrrum elskhuga Julíusar Caesars og móður barnungs laungetins sonar Caesars, Caesarions. Lepidus var nú greinilega orðinn valdaminni en Octavíanus og Antoníus og sætti sig við umráð yfir skattlandinu Afríku. Marcus Antoníus átti í ástarsambandi við Kleópötru meðan hann var í Egyptalandi og áttu þau saman þrjú börn, Alexander Helios, Kleópötru Selene og Ptolemajos Fíladelfos. Árið 40 f.Kr. yfirgaf Antoníus Kleópötru og giftist Octavíu yngri, systur Octavíanusar, til þess að strykja bandalagið við hann. Octavía ól honum tvær dætur, sem hétu báðar Antonía. Árið 37 f.Kr. yfirgaf Antoníus Octavíu og hélt enn á ný aftur til Egyptalands til þess að vera með Kleópötru. Rómaveldi var þá í reynd skipt á milli Octavíanusar í vestri og Antoníusar í austri. Antoníus herjaði í austur. Octavíanus aflaði sér bandamanna í Róm, treysti völd sín og bar út róg um að hollusta Antóníusar væri nú með Egyptum og að hann hefði tekið upp siði þeirra og venjur. Spennan varð sífellt meiri og að lokum, árið 32 f.Kr., lýsti öldungaráðið opinberlega yfir stríði á hendur „erlendu drottningunni“, til að forðast yfirbragð enn eins borgarastríðsins. Stríðið varði ekki lengi: í Actiumflóa við vesturströnd Grikklands mættust flotarnir í mikilli orrustu, þar sem mörg skip brunnu og fórust og þúsundir manna fórust í báðum liðum. Octavíanus bar sigur úr býtum en Antóníus og Kleópatra flúðu til Egyptalands. Octavíanus elti þau og eftir annan ósigur framdi Antoníus sjálfsmorð. Kleópatra framdi einnig sjálfsmorð þegar útskýrt hafði verið fyrir henni hvernig hún yrði höfð til sýnis í sigurgöngu Octavíanusar í Róm og Caesarion yrði „slátrað miskunnarlaust“. Ágústus á að hafa sagt að „tveir Caesarar væru einum of margir“ þegar hann fyrirskipaði líflát Caesarions.. Octavíanus verður Ágústus: „principatið“. Octavíanus hafði töglin og hagldirnar í vesturhelmingi Rómaveldis fyrir orrustuna við Actium árið 31 f.Kr. en eftir þá orrustu og ósigur Antoníusar og Kleópötru var austurhluti Rómaveldis einnig á hans valdi og hann var því í reynd orðinn einráður yfir öllu ríkinu. Áralöng borgarastríð höfðu alið á stjórnleysi en lýðveldið var engu að síður ekki reiðubúið fyrir að Octavíanus gerðist einvaldur. Octavíanus gat þó ekki hefið upp völd sín án þess að hætta á frekari borgarastríð meðal rómverskra herforingja og jafnvel þótt hann sæktist ekki eftir neinni valdastöðu kröfðust aðstæður þess að hann tæki tillit til velferðar ríkis og byggða. Octavíanus leysti upp sínar eigin hersveitir og boðaði til kosninga þar sem hann var kosinn ræðismaður; sem slíkur var hann nú löglega kosinn yfirmaður rómverskra hersveita, þrátt fyrir að hann hefði leyst upp einkaher sinn. Fyrra samkomulagið. Árið 27 f.Kr. afsalaði Octavíanus opinberlega hluta af völdum sínum til öldungaráðsins og bauðst til að afsala sér þeim völdum, sem hann hafði yfir Egyptalandi, sem hafði orðið einkaeign hans í kjölfar sigurs hans á Kleópötru. Sagan hermir að tillaga Octavíanusar um að segja af sér ræðismannsembætti hafi leitt til óeirða meðal lægri stétta, plebeia, í Róm. Öldungaráðið og fylgismenn Octavíanusar komust að samkomulagi, sem kallast fyrra samkomulagið. Octavíanus fékk völd landstjóra í vesturhluta Rómaveldis og í Sýrlandi — þeim landsvæðum, þar sem næstum 70% rómverskra hersveita voru. Ödungaráðið veitti honum einnig titlana "Augustus" og "princeps". "Augustus" var titill, sem hafði trúarlegan fremur en pólitískan blæ. Í trúarbrögðum samtímans táknaði hann kennivald yfir mönnum, sem náði langt út fyrir opinberar skilgreiningar á tiltekinni stöðu eða embætti. Aukinheldur hjálpaði nafnbreytingin að greina á milli annars vegar þess tíma, þegar Octavíanus vann ötullega að því að treysta völd sín, stundum með harkalegum aðgerðum, og hins vegar stjórnar hans sem Ágústusar, sem ríkti með velvild. "Princeps" þýðir „fyrstur“ eða „fyrsti leiðtogi“. Titillinn hafði verið notaður í rómverska lýðveldinu um þá, sem þjónuðu ríkinu vel; til dæmis hafði Pompeius haft þennan titil. Enn fremur var Ágústusi leyft að bera lárviðar- og eikarkórónu. Þetta var ef til vill hættulegasta breytingin. Kórónunni var venjulega haldið yfir höfði rómversks herforingja í sigurgöngu og kórónuberinn endurtók í sífellu „mundu að þú ert dauðlegur“ í eyru herforingjans. Ef til vill ber sú staðreynd að Ágústusi var ekki aðeins veitt kórónan heldur rétturinn til að bera hana á höfði sínu skýrt vitni um tilurð einveldis. Aftur á móti ber að árétta að hvorki titlarnir né kórónan veitti Octavíanusi nein aukaleg völd. Í skilningi laganna var hinn nýi Ágústus ekkert annað en gríðarlega virðulegur rómverskur borgari, sem gegndi embætti ræðismanns. Þessar ákvarðanir voru afar óvenjulegar fyrir öldungaráð Rómar en á hinn bóginn var öldungaráðið ekki lengur sama samkunda yfirstéttamanna sem hafði ráðið Caesar af dögum. Bæði Antoníus og Octavíanus höfðu hreinsað öldungaráðið af grunsamlegum meðlimum og komið fyrir sínum eigin fylgismönnum í stað þeirra. Ekki er vitað hversu frjálsar hendur öldungaráðið hafði eða hvað fór fram á bak við tjöldin. Síðara samkomulagið. Árið 23 f.Kr. lét Ágústus af völdum sem ræðismaður en hélt eftir herstjórnarvaldinu, "imperium", sem var fólgið í embættinu. Þetta leiddi til annarrar málamyndunar milli Ágústusar og öldungaráðsins, sem kallast síðara samkomulagið. Ágústusi voru fengin völd lýðsforingja ("tribunicia potestas") en þó ekki titilinn. Þetta leyfði honum að kalla saman þingið eða boða til funda eftir eigin hentisemi og leggja fram mál, veitti honum neitunarvald yfir ákvörðunum lýðfunda og þingsins, boða til og stjórna kosiningum og til að tala fyrstur á öllum fundum. Í lýðsforingjavöldum Ágústusar fólust einnig völd, sem voru venjulega fólgin í embættti censors, þar á meðal rétturinn til að hafa umsjón með opinberu siðgæði og rýna í lög til þess að tryggja að þau væru í þágu almennings sem og að geta haldið þjóðskrá (census) og ákvarða aðild að öldungaráðinu. Enginn lýðsforingi Rómar hafði nokkurn tímann haft þessi völd og ekkert fordæmi var fyrir því að sameina völd lýðsforingja og censors í eina stöðu. Ágústus var ekki heldur kosinn í embætti censors. Enn er deilt um hvort Ágústusi voru fengin þessi völd með lýðsforingjavöldum sínum eða hvort hann einfaldlega tók sér þessi völd. Auk valda lýðsforingja voru Ágústusi einum falin herstjórnarvald innan borgarmarka Rómar: allar hersveitir í borginni, sem höfðu áður verið undir stjórn embættismanna borgarinnar, lutu nú stjórn Ágústusar. Ágústus fékk enn fremur "imperium proconsulare maius" eða vald yfir öllum fyrrum ræðismönnum en það þýddi að hann gat skipt sér af stjórn allra skattlanda og breytt ákvöðrunum allra landstjóra. Með "maius imperium" var Ágústus sá eini sem gat hlotið sigurgöngu í Róm þar eð hann var orðinn yfirmaður alls herafla Rómar. Svo virðist sem lægri stéttir Rómar hafi ekki skilið til fulls allar pólitískar afleiðingar síðara samkomulagsins. Þegar Ágústus bauð sig ekki fram í kosningum til ræðismanns árið 22 f.Kr. var aftur óttast að öldungaráðið væri að reyna að hrekja Ágústus, sem var álitinn „bjargvættur fólksins“, frá völdum. Árið 22, 21 og 20 f.Kr. brást lýðurinn við með óeirðum og leyfði einungis að einn ræðismaður væri kosinn hvert ár, að því er virðist til þess að skilja hina stöðuna eftir fyrir Ágústus. Árið 19 f.Kr. ákvað öldungaráðið að lokum að leyfa Ágústusi að bera einkennismerki ræðismanns opinberlega og frammi fyrir öldungaráðinu. Stundum er þessi ákvörðun nefnd þriðja samkokmulagið. Þetta virðist hafa lægt óeirðaröldurnar; óháð því hvort Ágústus var í reynd ræðismaður kom hann almenningi fyrir sjónir sem slíkur. Hafa ber í huga að öll varanleg og lögleg völd rómverska ríkisins voru í höndum öldungaráðsins og fólksins. Ágústusi voru fengin sérstök völd en einungis sem fyrrum ræðismaður og embættismaður á vegum öldungaráðsins. Ágústus kom aldrei fram sem konungur eða einvaldur og lét einungis ávarpa sig með titlinum "princeps". Eftir að Lepidus lést árið 13 f.Kr. tók hann einnig við embætti æðsta prests, pontifex maximus, sem var mikilvægasta embætti innan rómverskra trúarbragða. Völd og titlar rómverskra keisara einskorðuðust síðar við þau völd og þá titla sem Ágústus hafði haft. Til þess að sýna auðmýkt höfnuðu nývígðir keisarar þó oft einum eða fleiri titlum sem Ágústus hafði borið. Eftir því sem á valdatíma þeirra leið sönkuðu keisarar þó að sér öllum völdunum og titlunum, óháð því hvort öldungaráðið hafði veitt þeim þessi völd eða ekki. Lárviðarkórónan, einkennismerki ræðismanns og síðar purpurarauð klæði herforngja í sigurgöngu ("toga picta") urðu að einkennisklæðnaði keisara og héldust fram á býsanskan tíma. Jafnvel germanskir þjóðflokkar, sem réðust inn í fyrrum vesturhluta Rómaveldis tóku upp einkennisklæðnað keisaranna fyrir æðstu valdastöður sínar. Valdatími. Ágústus, sem hafði komist til valda af dirfsku, ríkti af miklum hyggindum. Hann hlaut nær óskoruð völd en færði Róm 40 ára langan friðartíma með miklum hagsældum fyrir borgarana, sem nefnist "Pax Romana" eða rómarfriður. Endurskipulagning hersins. Ágústus bjó til fyrsta fastaher og fyrsta fasta sjóher Rómar og lét koma rómverskum hersveitum fyrir meðfram landamærunum, þar sem þær gátu ekki haft afskipti af stjórnmálum. Sérsveitir hersins, lífvörður keisarans, voru í Róm og vörðu keisarann. Hann kom einnig reglu á fjármál og skattheimtu Rómar. Ágústus stjórnaði gríðarlegum fjármunum, sem bárust hvaðanæva frá yfirráðasvæðum Rómaveldis, og nýtti þá meðal annars til að halda hernum ánægðum. Landsbyggðarstefna og stækkun Rómaveldis. "Prima Porta styttan af Ágústusi". Rómaveldi stækkaði mjög á valdatíma Ágústusar. Stríð var háð í fjallahéruðum í norðurhluta Spánar árin 26 til 19 f.Kr. og leiddu að lokum til þess að Rómverjar náðu yfirráðum yfir svæðinu. Í kjölfar árása Galla hernámu Rómverjar svæði í kringum Alpana. Landamæri Rómaveldis voru færð fram að náttúrulegum landamærum Dónár og Galatia var hernumin. Í vestri reyndu Rómverjar að ná fótfestu á landsvæðum Germana en voru að lokum sigraðir í orrustunni um Teutoburgskóg árið 9 e.Kr. Í kjölfarið féllust Ágústus og eftirmenn hans á að líta á Rín sem varanleg landamæri Rómaveldis. Í austri lét Ágústus nægja að koma á rómverskum yfirráðum yfir Armeníu og landsvæðum sunnan Kákasusfjalla. Hann lét veldi Parþa eiga sig og hélt góðum samskiptum við þá og árið 20 f.Kr. samdi hann við þá um að skila Rómverjum hermerkjum, sem þeir höfðu tapað í orrustunni við Carrhae. Bretland. Í riti Ágústusar "Res Gestae" (orðrétt "Hlutir gerðir") kemur fram að hann hafi tekið á móti tveimur konungum Bretlands. Hann hugleiddi innrás en hætti við hana. Indland. Í starfsliði Ágústusar var Indverji og hann tók á móti sendinefndum frá Indlandi Félagslegar umbætur, nýsköpun og skemmtanir í Róm. Ágústus kom á fót samgönguráðuneyti, sem lagði nýtt vegakerfi vítt og breitt um Rómaveldi — með því bötnuðu samgöngur, samskipti, póstburður og verslun. Ágústus stofnaði einnig fyrsta slökkvilið veraldar og stofnaði lögreglusveitir í Róm. Hann nýtti gríðurleg auðævi, sem bárust víða að frá skattlöndum, til þess að halda hernum ánægðum með rausnarlegu kaupi og til að halda íbúum Rómar ánægðum með mikilfenglegum leikum. Hann nýtti leikana og aðrar uppákomur til að heiðra sjálfan sig og sína nánustu og jók þannig á vinsældir sínar. Byggingaráform í Róm. Ágústus montaði sig af því að hann hefði "fundið Róm úr múrsteini en skilið við hana úr marmara" (þótt það hafi varla átt við um fátækrahverfi borgarinnar). Þessi verkefni eru skráð sem verkefni hans en hann tók ekki heiðurinn af þeim af ásettu ráði. Ágústus hvatti einnig aðra til þess að hrinda í verk byggingaráformum, svo sem Lucius Cornelius Balbus (minor) og Crypta Balbi. Hagstjórn. Líkt og allir keisarar skattlagði Ágústus landbúnað of mikið og varði skattfénu í herinn, hof og leika. Laun og verðlag voru hins vegar látin vera og það gerði mörkuðum mögulegt að njóta sín. Þegar Rómaveldi hætti að þenjast út og herfang hætti að berast frá sigruðum löndum byrjaði efnahagurinn að staðna og að lokum versnaði hann. Valdatími Ágústusar er því að sumu leyti álitinn hápunktur valda og hagsældar Rómaveldis. Ágústus fékk uppgjafarhermönnum jarðir og reyndi að lífga við landbúnað en höfuðborgin var þó áfram háð innfluttu korni frá Egyptalandi. Trúmál. Ágústus studdi dyggilega við átrúnað á rómverska guði, einkum Apollon, og lét sem sigur Rómar á Egyptalandi væri sigur rómverskra guða á egypskum guðum. Rómverskar hefðir. Ágústus fékk Virgil til að semja "Eneasarkviðu" í von um að auka þjóðarstolt Rómverja og stolt þeirra á hefðum sínum og sögu (einn af þeim titlum sem hann hafði afþakkað áður en hann hlaut titilinn Ágústus var Rómúlus, sem ‚annar stofnandi‘ Rómar). Átak í siðferðismálum. Ágústus hóf átak í siðferðismálum. Hann studdi hjónabönd, fjölskyldur og barneignir – og gekk jafnvel svo langt að refsa skírlífi eftir að ákveðnum aldri var náð – en hvatti fólk gegn munaðarlífi, lauslæti og frjálslyndi í kynlífi (þar með talið vændi og samkynhneigð), og framhjáhaldi. Ástæðan var fólksfækkun meðal yfirstétta. Átak Ágústusar var að mestu leyti án árangurs (hann gerði jafnvel sína eigin dóttur og – kannski í tengslum við hana – Óvidíus útlæg frá Róm vegna kynferðislegra hneykslismála.) Menningarmál. Ágústus var menningarjöfur og studdi dyggilega við bakið á skáldum, listamönnum, og arkítektum. Valdatími hans er álitinn gullöld latneskra bókmennta. Hóratíus, Propertius, Tíbúllus, Lívíus, Óvidíus og Virgill blómstruðu allir undir verndarvæng hans en urðu að launa fyrir sig með því að heiðra hann og vera honum þóknanlegir. (Óvidíus var gerður útlægur frá Róm, sennilega fyrir frjálslyndi í siðferðismálum, sem var Ágústusi ekki þóknanlegt) Ævilok. Á endanum náði Ágústus að vinna hylli flestra menntamanna Rómar. Margir litu aftur til blómatíma lýðveldisins með fortíðarþá en viðruðu ekki skoðanir sínar opinberlega. Vinsældir hans jukust meðal almennings vegna leikanna sem hann hélt til heiðurs sjálfum sér og vinum sínum og vandamönnum. Þegar Ágústus lést var óhugsandi að snúa aftur til gamla fyrirkomulagsins. Hann hafði ríkt í 40 ár og nánast enginn var á lífi sem mundi þá tíma þegar lýðveldið blómstraði og borgarastríð geisuðu ekki. Spurningin var nú einungis hver myndi taka við af Ágústusi. Arftaki. Völd Ágústusar voru svo traust og alger að hann gat útnefnt arftaka sinn en slíkt hafði ekki verið til siðs frá upphafi lýðveldistímans. Í fyrstu var útlit fyrir að Ágústus myndi útnefna systurson sinn Marcus Claudius Marcellus, sem hafði kvænst dóttur Ágústusar Júlíu eldri. Marcellus lést hins vegar af völdum matareitrunar árið 23 f.Kr. Frásagnir síðari tíma sagnaritara herma að eiginkona Ágústusar, Livia Drusilla, hafi borið ábyrgð á eitruninni og öðrum dauðsföllum en það er alls óvíst að hún hafi átt hlut að máli. Eftir fráfall Marcellusar gifti Ágústus dóttur sína einum helsta bandamanni sínum, Marcusi Agrippu. Þeim varð fimm barna auðið: Gaius Caesar, Lucius Caesar, Vipsania Julia, Agrippina eldri og Postumus Agrippa, svo nefndur vegna þess að hann fæddist eftir andlát föður síns, Marcusar Agrippu. Áform Ágústusar um að gera elstu dóttursyni sína að erfingjum sínum urðu ljós þegar hann ættleiddi þá sem sína eigin syni. Ágústus virtist einnig taka stjúpsyni sína, syni Liviu frá fyrra hjónabandi, Nero Claudius Drusus Germanicus og Tíberíus Claudius, fram fyrir aðra eftir að þeir höfðu hernumið stóran hluta af landsvæðum Germana. Þegar Agrippa lést árið 12 f.Kr. skildi Tíberíus, sonur Liviu, við konu sína og kvæntist ekkju Agrippu, Júlíu, dóttur Ágústusar. Tíberíus fór með lýðsforingjavöld Ágústusar um hríð en settist í helgan stein stuttu síðar. Synir Júlíu, sem Ágústus hafði ættleitt, Gaius og Lucius, létust um aldur fram, árið 4 og 2 e.Kr. og Drusus hafði látist nokkru fyrr (9 f.Kr.). Í kjölfarið var Tíberíus kallaður til Rómar og ættleiddur af Ágústusi. Þann 9. ágúst árið 14 e.Kr. lést Ágústus. Postumus Agrippa og Tíberíus höfðu verið útnefndir erfingjar hans. Postumus hafði hins vegar verið gerður útlægur og var líflátinn um svipað leyti. Ekki er vitað hver fyrirskipaði líflát hans en gatan var greið fyrir Tíberíus til þess að taka við völdum stjúpföður síns. Arfleifð Ágústusar. Teikning af Ágústusi gerð eftir Prima Porta styttunni. Ágústus var tekinn í guðatölu stuttu eftir andlát sitt og bæði eftirnafn hans, sem hann hafði erft eftir ömmubróður sinn, Caesar, og titillinn "Augustus" urðu að varanlegum titlum rómverskra valdhafa næstu 400 árin og voru enn í notkun í Konstantínópel fjórtán öldum eftir dauða hans. Á mörgum tungumálum varð "caesar" að orði um "keisara", líkt og í þýsku ("Kaiser"), hollensku ("keizer") og rússnesku ("Czar") auk íslensku. Dýrkun hins guðdómlega Ágústusar hélst þar til kristni var gerð að ríkistrú á 4. öld. Þess vegna eru margar vel varðveittar styttur og brjóstmyndir af fyrsta og að sumu leyti mikilvægasta keisaranum. Í grafhýsi Ágústusar voru upphaflega bronssúlur með áletrunum um ævi hans og störf, "Res Gestae Divi Augusti". Ágústusar er getið í Lúkasarguðspjalli (2:1). Margir telja að Ágústus hafi verið besti keisari Rómaveldis. Gjörðir hans lengdu svo sannarlega líftíma Rómaveldis og hann kom á friðar- og farsældartíma, "Pax Romana" eða "Pax Augusta" (Rómarfriður eða Ágústusarfriður). Hann var myndarlegur, vel gefinn, ákveðinn og lævís stjórnmálamaður en ef til vill ekki eins heillandi og Júlíus Caesar eða Marcus Antonius. Ágústmánuður (á latínu "Augustus") er nefndur eftir Ágústusi. Áður hafði hann heitið Sextilis (sjötti mánuður rómverska tímatalsins). Víðkunn saga segir að ágúst hafi 31 dag vegna þess að Ágústus vildi að sinn mánuður væri jafnlangur og mánuður Julíusar Caesars, júlí en þessi saga er uppspuni 13. aldar fræðimannsins Johannesar de Sacrobosco. Sextilis hafði 31 dag áður en mánuðurinn var nefndur eftir Ágústusi og hann var ekki valinn vegna lengdar sinnar. Þegar litið er á valdatíma Ágústusar og arfleifð hennar ætti ekki að vanmeta lengd valdatímans þegar árangurinn er metinn. Fólk fæddist og náði miðjum aldri án þess að þekkja neitt annað stjórnarfyrirkomulag en „principatið“. Hefði Ágústus dáið fyrr, (til dæmis árið 23 f.Kr.), þá litu málin öðruvísi út. Því verður mannfall og sá skaði sem borgarastríð ullu yfirstéttum lýðveldistímans sem og langvarandi stjórn Ágústusar að teljast mikilvægir þættir í umbreytingu rómverska lýðveldisins í einveldi í raun. Eigin reynsla Ágústusar, þolinmæði hans, góður smekkur hans og skilningur hans á stjórnmálum voru einnig mikilvægir þættir í umbreytingunni. Hann beindi ríkinu inn á ýmsar brautir, sem vörðu um aldir, allt frá tilvist fastahers á eða nærri landamærum ríkisins, til ættarveldisins, sem einkennir oft keisaraveldi, til skreytingar höfuðborgarinnar á kostnað keisarans. Merkasta arfleifð Ágústusar var friður og farsæld, sem einkenndi ríkið næstu tvær aldirnar undir því stjórnkerfi, sem hann hafði skapað. Hann varð fyrirmyndin um góðan keisara og þótt allir keisarar tækju sér nafn hans, Caesar Augustus, stóðust einungis fáir samanburð við hann, svo sem Trajanus. Ágústus í dægurmenningu. Ágústus lenti í 18. sæti á lista Michaels H. Hart yfir 100 áhrifamestu persónur sögunnar. Tengt efni. Ágústus, Caesar Ágústus, Caesar Snorri Hjartarson. Snorri Hjartarson (22. apríl 1906 – 27. desember 1986) var rithöfundur og ljóðskáld. Foreldrar Snorra voru Hjörtur Snorrason, bóndi og alþingismaður, og Ragnheiður Torfadóttir frá Ólafsdal, húsfreyja. Þau bjuggu á Hvanneyri þegar Snorri fæddist en fluttu síðar í Arnarholt í Stafholtstungum. Snorri bjó lengi í Noregi. Hann stundaði myndlistarnám við Listaháskólann í Osló, undir leiðsögn Axel Revold frá 1931 til 1932. Fyrsta ritverk Snorra kom út á norsku árið 1934, en það var skáldsagan "Høit flyver ravnen". Snorri er þekktastur fyrir ljóðabækur sínar á íslensku. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981 fyrir ljóðabókina "Hauströkkrið yfir mér". Snorri var bókavörður við Borgarbókasafnið eftir að hann flutti aftur til Íslands. Ævar Örn Jósepsson. Ævar Örn Jósepsson (fæddur 25. ágúst 1963 í Hafnarfirði) er íslenskur útvarpsmaður og rithöfundur. Menntun. Ævar gekk í Lækjarskóla og lauk grunnskólanámi (9. bekk, sem samsvarar 10. bekk nútímans) í Flensborg eins og aðrir Hafnfirðingar í þá tíð. Flutti í Skilmannahreppinn ásamt foreldrum og hundi sumarið 1979 og stundaði nám við Fjölbrautaskólann á Akranesi (nú Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi). Skrapp sem skiptinemi til Belgíu með ICYE (nú AUS) sumarið 1981 og dvaldi meðal Belga fram á sumarið 1982. Þar lærði hann að meta bjór og franskar með majónesi að verðleikum. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðabraut í desember 1983, eftir 7 anna nám. Þá flutti hann til Reykjavíkur strax í janúar 1984 og hóf störf við Landsbanka Íslands, í gjaldeyrisdeildinni í aðalbankanum. Hann lauk Magisterprófi frá Albert-Ludwigs Universität í Freiburg í Þýskalandi, 1994, í heimspeki og enskum bókmenntum. Áður stundaði hann nám í fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og heimspeki við háskólann í Stirling, Skotlandi veturinn 1986 til 1987. Starfsferill. Ævar starfaði við dagskrárgerð í útvarpi, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi, frá 1995, aðallega í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 og Speglinum. Jafnframt var hann umsjónarmaður Sunnudagskaffis Rásar 2 veturinn 2004 – 2005 og spurningakeppni fjölmiðlanna páskana 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008. Þá stýrði hann umræðuþáttum undir nafninu Korter í kosningar vorið 2007 og sunnudagsþættinum Endurvinnslunni á Rás 2 veturinn 2007 - 2008. Einnig hefur hann unnið við blaðamennsku með hléum, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi, frá 1994, m.a. á Morgunpóstinum, Vísi.is, tímaritinu Skýjum o.fl. Þýðingar í lausamennsku, ýmsar greinar, skýrslur, sjálfshjálparbækur o.fl. Bankastarfsmaður frá 1984 – 1986, dagskrárgerð í sjónvarpi 1986 (Poppkorn með Gísla Snæ Erlingssyni), og í útvarpi 1987 og 1988. Poppskríbent Þjóðviljans einhvern tímann á þessu tímabili. Sjónvarp. "Svartir englar", sjónvarpsþáttaröð í sex hlutum, byggð á sögunum Skítadjobb og Svartir englar, var sýnd í Ríkissjónvarpinu á haustmánuðum 2008. Leikstjóri var Óskar Jónasson, handrit skrifuðu Sigurjón Kjartansson og Margrét Örnólfsdóttir. Jóhann Jóhannsson gerði tónlistina en Arnar Þórisson stýrði kvikmyndatöku. Framleiðandi: Sagafilm. Með helstu hlutverk fóru Sigurður Skúlason (Stefán), Sólveig Arnarsdóttir (Katrín), Steinn Ármann Magnússon (Guðni) og Davíð Guðbrandsson (Árni). Annað. Ævar var kjörinn formaður SKS, Skandinaviska Kriminalsällskapet, 2004, og hefur gegnt því embætti síðan. Samveldisleikarnir 2006. Samveldisleikarnir 2006 voru haldnir í Melbourne í Ástrali dagana 15. til 26. mars. Þetta voru stærsta íþróttamót í borginni frá því að Ólympíuleikarnir voru haldnir þar árið 1956. Íþróttagreinar. Á Leikunum 2006 var keppt í 16 íþróttagreinum, þar af 12 einstklings og 4 liðsgreinum. Samtals var keppt í 247 æfingum. Innan borðtennis, fimleika og kraftlyftinga voru einnig æfingar fyrir fatlaða. Life in Slow Motion. "Life in Slow Motion" er sjöunda breiðskífa breska söngvarans David Gray og kom hún út árið 2005. A New Day at Midnight. "A New Day at Midnight" er sjötta breiðskífa breska tónlistarmannsins David Gray. Kom hún á eftir hinni vinsælu White Ladder-plötu sem kom tónlistarmanninum á kortið. A New Day at Midnight náði þó ekki eins miklum vinsældum og fyrrirrennari hennar. White Ladder. "White Ladder" er fjórða breiðskífa breska tónlistarmannsins David Gray. Platan kom út árið 1998 en hún sló ekki í gegn fyrr en árið 2000. Platan er óvenjuleg að því leyti að David tók hana alla upp sjálfur heima í íbúðinni sinni og gaf hana síðan út undir eigin merkjum. Godspeed You! Black Emperor. Godspeed You Black Emperor! er kandadískt síðrokkshljómsveit sem var stofnuð árið 1994. Sveitin er nefnd í höfuðið á svarthvítri heimildamynd sem gerð var 1976 og fjallaði um japanskt mótorhjólagengi sem kallaði sig „The Black Emperors“. Hljómsveitin er gefin út af Constellation Records, sem sérhæfir sig í síðrokki og hefur myndað sterka stefnu gegn kapítalisma. Mannaskipti hafa verið töluverð, en þegar mest var, voru 15 manns í sveitini. Ýmis hliðarverkefni hafa því orðið til, þar má nefna A Silver Mt. Zion, Fly Pan Am og 1-Speed Bike. Hljómsveitin. Hljómur sveitarinnar byggist fyrst og fremst á framúrstefnulegu rokki í bland við klassík. Aftur á móti notar hún mikið "sampl" sem aðalsprauta bandsins, Efrim Menuck, safnar. Þessi sömpl eru mörg mjög ólík - börn að syngja frönsk ljóð, lestir og viðtöl við presta og gamla menn. Einnig notar hljómsveitin mínímalíska óhljóða kafla til þess að brúa bilið á milli kafla. Uppbygging og kaflaskipti einkenna mjög lög bandsins og hefur ekki enn verið gefið út lag með sveitinni sem er styttra en 10 mínútur. Flest lögin eru þó á milli 15 og 20 mínútna löng. Bandið er einstaklega pólitíkst og birtist það bæði í hinum ýmsu sömplum sem prýðir plötur þeirra og í textunum á plötuumslögum þeirra. Eitt sinn hefur hljómsveitin meira að segja verið handtekin vegna gruns um að vera hryðjuverkamenn. Sumir vilja meina að Godspeed sé Kristileg hljómsveit. Í fysta lagi er það vegna orðsins „Godspeed“, en það er breskt orðatiltæki, sem þýðir nokkurn veginn „gangi þér vel“. Í öðru lagi er það vegna sampls sem finna má í laginu Static, en þar talar maður um frelsun sína. Allt trúarlegt sem birtist í verkum Godspeed er birt í kaldhæðni. Hljómsveitin er trúlaus og á móti efnishyggju og kapítalisma. Lucanus. Marcus Annaeus Lucanus (3. nóvember 39 - 30. apríl 65) var rómverskt skáld og er af mörgum talinn meðal bestu höfunda á síðklassíska tímabilinu eða á svonefndri „silfuraldarlatínu“. Lucanus var að störfum á valdatíma Nerós og naut þónokkurra vinsælda. Hann hlaut verðlaun fyrir kveðskap árið 60. Söguljóð hans, "Pharsalia" (sem í handritum heitir "Bellum civile" eða "Borgarastríðið"), fjallaði um borgarastríðið í Róm um miðja 1. öld f.Kr. milli Júlíusar Caesars og Pompeiusar og fékk góðar viðtökur. Aftur á móti féll hann úr náð valdhafa og var viðriðinn samsæri Gaiusar Calpurniusar Pisos. Þegar upp komst að hann hefði gerst sekur um landráð var hann neyddur til þess að fremja sjálfsmorð með því að láta sér blæða út. Áður en hann lést hafði hann ásakað ýmsa aðra í von um að verða náðaður, m.a. móður sína. Faðir hans var tekinn af lífi í kjölfarið en móðir hans slapp, sem og ekkja hans Polla Argentaria, og hlaut lof Statiusar á valdatíma Domitianusar. Að Lucanusi látnum var afmælisdagur hans haldinn hátíðlegur. Eitt árið var flutt ljóð í tilefni dagsins, sem enn er varðveitt; þar er ekkja Lucanusar ávörpuð og ýmislegt kemur fram um ævi og störf Lucanusar (Statius, "Silvae", II.7). Söguljóð Lucanusar um borgarastríðið var óklárað þegar hann lést og er handritageymd kvæðisins fremur flókin vegna fjölda uppskrifta sem ber oft ekki saman. Verk hans höfðu gríðarleg áhrif á skáldskap og leikritun á 17. öld. Shelley, Southey og Macaulay lofuðu allir verk hans mjög. "Pharsalia" er til í íslenskri þýðingu frá 12. eða 13. öld, sem síðari hluti "Rómverja sögu". Silfuraldarlatína. Silfuraldarlatína, silfurlatína eða síðklassísk latína er það skeið í latneskri málsögu og bókmenntasögu nefnt sem nær yfir 1. og 2. öld e.Kr. eða frá 14 - 180. Silfuraldarlatína er tímabilið á eftir gullaldarlatínu og á undan síðfornaldarlatínu. Tímabil gull- og silfuraldarlatínu er nefnt klassísk latína. Bókmenntir þessa tímabils hafa stundum verið álitnar verri eða ómerkilegri en bókmenntir gullaldarlatínunnar og því getur orðið „silfuraldarlatína“ haft neikvæðan blæ. Aftur á móti þykir mörgum gagnrýnin á höfunda silfuraldarinnar ósanngjörn og margir þeirra hafa fengið mikla athygli fræðimanna undanfarið. Tímabili silfuraldarlatínu má skipta í tvennt: tímabil róttækra tilrauna á síðari hluta 1. aldar og „nýklassisissmi“ á 2. öld. Á valdatímum Nerós og Domitianusar reyndu skáld á borð við Lucius Annaeus Seneca, Lucanus og Statius fyrir sér með nýjan stíl, sem hefur hefur verið lofaður og lastaður jafnt af gagnrýnendum síðari tíma. Bókmenntir þessa tíma bera vitni um mælskufræði í menntun Rómverja. Höfundar eru oft háfleygir, framandi orðaforði og orðanotkun og fáguð orðatiltæki eru víða í ritum þeirra. Verk frá síðari hluta 1. aldar bera oft merki um áhuga höfunda á ruddalegu ofbeldi, göldrum og öfgakenndum ástríðum. Vegna áhrifa frá stóuspeki dvínaði mikilvægi guðanna en geðshræringar og orsakir þeirra eru mikilvægt stef. Geðshræringar eins og reiði, stolt og öfund fá nánast líffærafræðilega meðhöndlun í formi bruna, bólgu og uppsöfnunar blóðs eða galls. Statius lýsir jafnvel innblæstri sönggyðjanna sem „hitasótt“. Þótt eindregnum aðdáendum klassískrar gullaldarlatínu, bæði í fornöld og á nýöld, hafi ekki líkað öfgar þessara skálda bæði í efnistökum og stíl voru þau eigi að síður í miklu uppáhaldi evrópskra menntamanna á endurreisnartímanum og meðal margra enskra skálda módernismans. Við lok 1. aldar voru ýmsir höfundar farnir að bregðast við og Tacitus, Quintilianus og Juvenalis bera allir vitni um endurlífgun hófstilltari stíls undir áhrifum frá klassískri latínu á valdatíma Trajanusar og antonísku keisaranna. Á silfuröldinni voru einnig samdar tvær skáldsögur á latínu sem eru varðveittar: "Gullni asninn" eftir Apuleius og "Satyricon" eftir Petronius. Meðal höfunda silfuraldarinnar eru Petronius, Seneca, Phaedrus, Persius, Quintilianus, Lucanus, Statius, Valerius Flaccus, Silius Italicus, Tacitus, Martialis, Juvenalis, Plinius yngri, Suetonius, Aulus Gellius, og Apuleius. Fjallahjól. Fjallahjól eru reiðhjól á breiðum dekkjum með allt að 27 gírum og sérhönnuð til að ferðast um utan malbikaðra vega. Fyrstu fjallahjólin komu á sjónarsviðið á níunda áratug tuttugustu aldar og voru þau hönnuð út frá Schwinn Balloon-hjólinu. Tegundir fjallahjóla. Undanfarin ár hefur komið fram á sjónarsviðið fjöldinn allur af tegundum og mismunandi afbrigði af reiðhjólum. Fjallahjól eru framleidd með annað hvort framdempara eða með tveimur dempurum; einum að framan og einum að aftan. Slík hjól eru kölluð víðavangshjól eða cross-country. Ferðahjólin eru einnig vinsæl. Yfirleitt eru það einfaldlega hefðbundin fjallahjól með aukaútbúnaði, s.s. brettum og bögglaberum en þeir allra hörðustu fjárfesta í sérútbúnum ferðahjólum með sérstöku lagi og miklu af sérsniðnum útbúnaði. Nú seinustu ár hafa einnig komið fram hjól sem líkjast BMX-hjólum og eru mest notuð í brautum, á stökkpöllum og innanbæjar. Fjallabrun er orðið vinsælt sport víða um heim og er því oft líkt við snjóbrettaæðið. Sérútbúin hjól sem líkjast einna helst mótorkrosshjólum eru notuð í þessa íþrótt en keppnir eru haldnar víða um heim. Free-ride-hjól eru svo nýjasta æðið en sá stíll er sóttur til Bresku Kólumbíu í Kanada þar sem hjólað er eftir mjög tæknilega erfiðum leiðum, oft á uppbyggðum pöllum, með ýmsum þrautum og stökkpöllum. Þessi hjól eru mitt á milli fjallabrunshjóla og víðavangshjóla, yfirleitt með dempurum að framan og aftan svipað og fjallabrunshjólin en oft léttari og meðfærilegri. Stonehenge. Stonehenge er mannvirki frá nýsteinöld og bronsöld, gert úr risasteinum staðsett við Amesbury í Wiltshire í Englandi, um það bil 13 km í norðvestur frá Salisbury. Stonehenge var upprunalega byggt sem virkisgarður sem er samansettur úr risastórum steinum og er einna þekktastur forsögulegra staða í heiminum. Fornleifafræðingar halda að steinarnir séu frá um 2500 f.Kr. til 2000 f.Kr. þó, að umlykjandi virkisgarðarnir og gröfin, séu elsti hluti fornminjanna, en þau eru frá því um 3100 f.Kr.. Stonehenge og nánasta umhverfi er á Heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1986. Staðurinn er friðaður að breskum lögum sem "Scheduled Ancient Monument". Svipað mannvirki sem heitir Avebury, liggur ekki svo langt frá Stonehenge. Upprunafræði. "Stonehenge Complete" eftir Christopher Chippendale segir orðið Stonehenge koma frá engilsaxnesku orðunum „stān“, sem merkir steinn og öðru hvoru orðinu „hencg“, sem þýðir karmur eða „hen(c)en“, sem merkir gálgi eða píningartól. Miðaldagálgar voru gerðir úr einum klump sem lagður var þversum yfir tvo aðra lóðrétta klumpa, sem minnir nokkuð á byggingarlag Stonehenge. Heimastjórnarflokkurinn. Heimastjórnarflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var myndaður utan um ákveðna stefnu í stjórnarskrármálinu rétt fyrir aldamótin 1900. Heimastjórnarflokkinn skipuðu andstæðingar Valtýskunnar á Alþingi og börðust fyrir því að komið yrði á heimastjórn með því að Íslandsráðgjafi væri staðsettur á Íslandi en ekki í Kaupmannahöfn líkt og áður. Heimastjórnarflokkurinn fékk helming atkvæða í Alþingiskosningum 1900 en naut ekki meirihluta á þingi fyrr en eftir kosningarnar 1902. Heimastjórn var svo samþykkt með breytingu á stjórnarskránni 1902. Hannes Hafstein, einn aðalforystumaður flokksins, var skipaður fyrsti ráðherra Íslands 1. febrúar 1904. Flokkurinn missti meirihluta sinn á þingi þegar „uppkastið“ (drög að sambandslögum um samband Íslands og Danmerkur) var fellt eftir Alþingiskosningar 1908 þar sem andstæðingar þess úr Sjálfstæðisflokki (kosningabandalags Þjóðræðisflokksins og Landvarnarflokksins) fengu meirihluta. Hannes Hafstein sagði af sér ráðherraembætti eftir að vantrauststillaga hafði verið samþykkt. Eftir Alþingiskosningar 1911 stofnuðu ýmsir fylgismenn Heimastjórnarflokksins, svo sem Hannes Hafstein og Stefán Baldvin Stefánsson, Sambandsflokkinn ásamt hluta Sjálfstæðisflokksins með það að augnamiði að koma með ný drög að sambandslögunum 1912 („bræðingurinn“). Hannes varð aftur ráðherra fyrir þennan flokk sama ár. Þegar Sambandsflokkurinn leið undir lok 1914 gengu flestir fylgismenn hans aftur í Heimastjórnarflokkinn. Í borgarstjórnarkosningum 1918 buðu ýmsir úr Heimastjórnarflokki og Sjálfstæðisflokki fram sameiginlegan lista undir nafni Sjálfstjórnarflokksins. Síðast bauð Heimastjórnarflokkurinn fram í Alþingiskosningum 1919 og fékk þá 13 þingmenn en hafði að auki stuðning fjögurra þingmanna utan flokka. 1920 gengu ýmsir þingmenn flokksins í Utanflokkabandalag hægri manna á þingi. Sama ár varð Lögrétta, málgagn Heimastjórnarflokksins, að vikublaði Morgunblaðsins. 1922 varð Utanflokkabandalagið að Sparnaðarbandalaginu og við kosningarnar 1923 gengu leifar Heimastjórnarflokksins inn í kosningabandalag með Sparnaðarbandalaginu og Sjálfstæðisflokki sem nefndist Borgaraflokkurinn sem síðar varð Íhaldsflokkurinn 1924. Útgáfumál. Árið 1905 einkenndist af hatrömmum átökum á sviði stjórnmálanna, sem náðu hámarki í deilunum um símamálið. Hafði Björn Jónsson beitt blaði sínu Ísafold ákaft í þessu orðaskaki. Komust Heimastjórnarmenn að þeirri niðurstöðu að hreyfing þeirra þyrfti á öflugum málgögnum að halda. Voru í því skyni stofnsett tvö ný blöð sem hófu útgáfu í ársbyrjun 1906. Annars vegar vikublaðið Lögrétta í ritstjórn Þorsteins Gíslasonar. Þorsteinn hafði áður fylgt Valtýingum, andstæðingum Heimastjórnarflokksins að málum. Lögrétta kom út til ársins 1936, en hafði þá um alllangt skeið verið gefin út í nánum tengslum við Morgunblaðið. Á Akureyri stofnuðu Heimastjórnarmenn blaðið Norðra, sem gefið var út til ársins 1916. Íslandsráðgjafi. Íslandsráðgjafi eða Íslandsráðherra var ráðherraembætti sem búið var til með stjórnarskrá Íslands 1874. Íslandsráðgjafi skyldi bera upp til staðfestingar í danska ríkisráðinu mál sem vörðuðu Ísland. Íslandsráðgjafinn sat í Kaupmannahöfn en Landshöfðingi fór með æðsta vald á Íslandi á ábyrgð Íslandsráðgjafa. Embættið var frá upphafi aukageta dómsmálaráðherra Danmerkur. Íslendingar voru frá upphafi óánægðir með þessa skipan mála og vildu endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem lyktaði með heimastjórn 1904 þegar ráðherra Íslands varð til sem embætti á Íslandi. Lyf. Samkvæmt ákvæðum 5.gr. lyfjalaga frá 1994 eru lyf skilgreind sem "efni eða efnasambönd sem gegna sérstakra verkana á tiltekin líffæri eða líffærakerfi". Ætlun lyfja er að bæta heilsu þeirra einstaklinga sem taka þau. Lyf geta verið ávanabindandi og hægt er að misnota ýmis lyf. Þó er sterklega ráðið gegn því að lyf séu misnotuð þar sem það getur skaðað heilsu og dregur úr almennum lífsgæðum einstaklings. Fíkniefni eru ávanabindandi lyf sem í flestum tilvikum eru bönnuð í kaupum og sölu. Lyfjaform. Lyf eru til á mismunandi formum, og fara formin eftir því hvaða leið lyfin fara í blóðrás. Inntökulyf eru gleypt, og er frásog þeirra í gegnum meltingarveg yfir í blóðrás. Töflur - Forðatafla, Sýruþolin tafla, freyðitafla. i.d. - intradermalt - í húð s.c. - subcutant - undir húð i.v. - intravenous - bláæð duft eða úði sem viðkomandi andar að sér.(sbr.Astmi-Astmasprey) Sóknarprestur. Sóknarprestur er prestur sem þjónar afmörkuðu landfræðilegu svæði, prestakalli, með einni eða fleiri sóknum. Sóknarprestar eru opinberir embættismenn sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipar. Gerður er greinarmunur á sóknarprestum og prestum. Í hverju prestakalli er aðeins einn sóknarprestur. Prestar geta hins vegar verið einn eða fleiri innan prestakalls. Þeir eru skipaðir af biskupi. Ef fleiri prestar starfa innan prestakalls er sóknarprestur þeirra fremstur og ber ábyrgð samkvæmt því. Hraungerðisprestakall. Hraungerðisprestakall er eitt af tíu prestaköllum Árnesprófastsdæmis. Í prestakallinu eru þrjár sóknir: Hraungerðissókn, Laugardælasókn og Villingaholtssókn. Sóknarprestur er sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson. Prestakall. Prestakall (áður kallað brauð) landfræðilegt þjónustusvæði presta þjóðkirkjunnar, sem nær til breytilegs fjölda sókna. Kirkjuþing setur starfsreglur um skipan prestakalla. Skylt er að hafa sóknarprest í hverju prestakalli en fleiri prestar geta verið starfandi í einu prestakalli. Ilmenít. Ilmenít (FeTiO3) er veikt segulmögnuð járn-svört eða stál-grá steind sem finnst í myndbreyttu- eða djúpbergi. Nafnið dregur steindin af fundarstað sínum í Il'menski-fjöllum, nærri Miass í Rússlandi. Ilmenít er mest unnið úr fjörusandi. Það er samsett úr járn-títanoxíði á kristölluðu formi. Unnið ilmenít er mest notað sem hráefni í litarefni. Afurð þeirrar vinnslu er títan-díoxíð sem er afar hvítt efni og notað sem grunnur í hágæða málningu. Í fjörusandi finnst ilmenít yfirleitt sem hringlaga agnir sem eru um 0,1 - 0,2 mm í þvermál. Tunglilmenít. Ilmenít finnst í bergi á Tunglinu og árið 2005 notaði NASA Hubble-geimsjónaukann til að staðsetja þar svæði sem innihalda steindina í ríkum mæli, en það gæti verið mikilvægt ef horft er til hugsanlegrar Tunglstöðvar í framtíðinni. Ilmenít myndi vera uppspretta járns og títans sem byggingarefna og einnig væri hægt að vinna úr steindinni súrefni. Alessandro Costacurta. Alessandro Costacurta varnarmaður AC Milan fæddist þann 24. apríl 1966 í Orago á Ítalíu. Fyrsta leik sinn spilaði hann 24. ágúst 1986 gegn Sambenedettese í ítölsku bikarkeppninni. Sama ár var hann lánaður til Monza sem lék í C1 deildinni þar sem hann lék 30 deildarleiki. Fyrsta deildarleik sinn fyrir AC Milan spilaði Costacurta síðan árið 1987 gegn Verona á útivelli, átti leikjum hans fyrir Milan heldur betur eftir að fjölga og eru þeir í dag orðnir 440 og í þeim er hann aðeins búinn að skora 2 mörk. Ítölsku deildina vann hann í fyrsta skipti árið 1988 eftir baráttu við Napoli þar sem Diego Maradona var liðsmaður. 1989 og 1990 unnu Milan Evrópukeppni meistaraliða (síðar meistaradeildina). Á þessum árum (1988 - 1994) var Milan með sitt besta lið í sögunni en með Costacurta í liðinu voru þá ekki ómerkari menn en Paolo Maldini fyrirliði núverandi liðs, Carlo Ancelotti (núverandi þjálfari Milan), Frank Riikard (þjálfari Barcelona), Franco Baresi, Ruud Gullit, Marco van Basten og margir fleiri. Árin 1992 – 1994 unnu Milan ítölsku deildina öll árin og settu m.a. met þar sem þeir léku 58 leiki í röð án taps sem ekki enn hefur verið slegið og er ólíklegt að nokkurt lið í Evrópuboltanum leiki það eftir í nánustu framtíð. 1994 vann Milan yfirburðasigur í úrslitaleik meistaradeildarinnar gegn Barcelona. Fyrir leikinn var talað um að Barcelona mundi vinna öruggan sigur þar sem sóknin, sem átti að vera Barcelona, mundi pakka vörninni (Milan) saman en annað átti heldur betur eftir að koma í ljós. Milan vann í þessum leik einn eftirminnilegasta sigur í sögu meistaradeildarinnar 4:0. Costacurta missti árið 1994 af bæði úrslitaleiknum gegn Barcelona og sömuleiðis úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar þegar Ítalir töpuðu í vítaspyrnukeppni gegn Brasilíu. Leikir Costacurta með Milan í deild eru orðnir 440 og rúmlega 190 í öðrum mótum. Með landsliðinu lék hann 59 leiki og skoraði 2 mörk. Hann lék í HM 1994 og 1998 og einnig EM 1996. Barít. Barít (Þungspat) (BaSO4) er steind gerð úr baríumsúlfati. Hún er almennt hvít eða litlaus og er megin uppspretta baríns. Barít finnst oft í blý-sink æðum í kalksteini, í útfellingum á hverasvæðum og í hematítmálmgrýti. Barít finnst oft með steindunum anglesíti og celestíti. Nafnið barít er dregið af gríska orðinu "barus" (þungt). Barít er t.d. notað í málningar- og pappírsframleiðslu. Fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar. Fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar (stundum kallað Stjórn hinna vinnandi stétta) er heiti á fyrstu ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem var samsteypustjórn Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins mynduð eftir Alþingiskosningar 1934 og tók til starfa 28. júlí. Þetta var í fyrsta skipti sem verkamannaflokkur átti aðild að ríkisstjórn á Íslandi. Meginverkefni stjórnarinnar var að takast á við þau vandamál sem fylgdu kreppunni sem á Íslandi stóð frá 1931 til 1940. Stjórn hinna vinnandi stétta var fyrsta ríkisstjórnin sem gerði með sér opinberan málefnasamning. Stjórnin sammæltist um víðtækar efnhags- og félagslegar umbætur. Hún kom í fyrsta sinn á heildstæðri löggjöf um almannatryggingar og bætti fátækralögin, sem voru með helstu baráttumálum Alþýðuflokksins, en flokknum tókst ekki að koma fram löggjöf um atvinnuleysisbætur. Um leið var komið skipulagi á sölu landbúnaðarafurða með afurðasölulögum sem meðal annars leiddi til stofnunar staðbundinna mjólkursamlaga með einkarétt á sölu mjólkur á tilteknu landsvæði, og grænmetisverslunar ríkisins með einkarétt á innflutningi grænmetis til landsins, auk þess sem komið var á einkarétti ríkisins á ýmsum öðrum sviðum bæði inn- og útflutnings og eftirliti með öðrum. Stjórnin kom á fót skipulagsnefnd atvinnumála sem átti m.a. að reyna að útrýma atvinnuleysi. Reistar voru skorður við innflutningi með innflutningshöftum og innflutningstollar lagðir á innfluttan iðnvarning um leið og reynt var að koma á innlendri framleiðslu á sem flestum sviðum. Framsóknarflokkurinn var ríkjandi flokkur í samstarfinu og það að atvinnuleysistryggingamálið skyldi ekki nást í gegn varð Alþýðuflokknum áfall. Þegar árið 1934 hafði Kommúnistaflokkur Íslands hafið tilraunir í þá átt að fá Alþýðuflokkinn með sér í breiðfylkingu alþýðu en Alþýðuflokkurinn vildi ekki ljá máls á því. Héðinn Valdimarsson hélt þá afram viðræðum við Kommúnista og 1937 var hann rekinn úr Alþýðuflokknum fyrir að stunda slíkar viðræður gegn ákvörðun flokksins. 1938 stofnaði hann Sameiningarflokk alþýðu - Sósíalistaflokkinn með Kommúnistum. Í febrúar 1937 urðu harðvítugar deilur á Alþingi þegar Alþýðuflokkurinn lagði til að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Kveldúlfur, sem meðal annars var í eigu Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna skulda þess við Landsbanka Íslands. Framsóknarflokkurinn hafnaði tillögunni og ekkert varð úr aðgerðum. Kveldúlfur bætti síðan skuldastöðu sína verulega á næstu árum. Í kosningum þetta sama ár bætti Framsóknarflokkurinn við sig fjórum þingmönnum en Alþýðuflokkurinn missti tvo þannig að stjórnin bætti við meirihluta sinn. Í apríl 1938 tók Skúli Guðmundsson, Framsóknarflokki, við embætti atvinnumálaráðherra af Haraldi Guðmundssyni. 17. apríl 1939 var svo mynduð þjóðstjórn á Alþingi með þátttöku Sjálfstæðisflokksins vegna þess að brýnt þótti að fella gengi krónunnar til hagsbóta fyrir sjávarútveginn og vegna þess að mönnum þóttu blikur á lofti í alþjóðamálum. Harrý og Heimir. Harrý og Heimir var útvarpsleikrit sem var flutt á útvarpstöðinni Bylgjunni. Aðalleikendur voru Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson. Örn Árnason var sögumaður. Þáttaraðirnar um einkaspæjarann Harrý Rögnvalds og hinn hundtrygga aðstoðarmann hans, Heimi Snitzel, urðu tvær; ein ellefu þátta (24-30 mín) 1988 til 1989 og einn fjörutíu þátta (7 mín) árið 1993. Árið 2009 frumsýndi Borgarleikhúsið leikritið "Harrý og Heimir - með öðrum morðum" eftir Karl Ágúst, Örn og Sigurð sem léku jafnframt aðalhlutverkin, en leikritið er unnið up úr fjörutíu þátta útvarpsleikritsseríunni. Skömmu fyrir frumsýningu var hljóðmynd leikritsins stolið. Baltasar Kormákur. Baltasar Kormákur (Samper) (fæddur 27. febrúar 1966) er íslenskur leikari og leikstjóri. Foreldrar hans eru Kristjana Guðnadóttir Samper og spænski listamálarinn Baltasar Samper. Baltasar útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990. Baltasar Kormákur og eiginkona hans, Lilja Pálmadóttir reka saman framleiðslufyrirtækið og hefur það framleitt ýmis sviðsverk, kvikmyndir og sjónvarpsefni. Napóleonsstyrjaldirnar. Napóleonsstyrjaldirnar er samheiti yfir margar styrjaldir. Hverjar þessar styrjaldir eru og hvenær þær hófust er mismunandi eftir fræðimönnum en sumir segja að fyrsta Napóleonstyrjöldin hafi verið þegar Napóleon Bonaparte (sem styrjaldirnar eru nefndar eftir) náði völdum í Frakklandi árið 1799, en aðrir vilja meina að fyrsta styrjöldin hafi verið ófriðurinn á milli Stóra-Bretlands og Frakklands sem hófst 1803, en allir eru þó sammála um lok þessa tímabils með sigri breskra og rússneskra hermanna á her Napóleons í orrustunni við Waterloo og undirritun friðarsáttmála þann 20. nóvember, 1815. Alheimurinn. Alheimurinn er hugtak sem getur haft mismunandi merkingar, en yfirleitt er átt við umhverfi mannsins í víðum skilningi, sem felur í sér allt efni og rúm. Í trúarlegum skilningi er alheimurinn einnig bústaður guða og annara vera. Stjörnufræðingar nota orðið oft um þann hluta geimsins, sem að mögulegt að rannsaka en í íslensku hefur einnig tíðkast að kalla jörðina og allt sem henni tilheyrir "alheim". Alheimurinn er viðfangsefni heimsfræðinnar, sem reynir með vísindalegum aðferðum að geta sér til um uppruna hans, uppbyggingu, eðli og endalok. Samkvæmt heimsfræðinni er hægt að rekja upphaf alheimsins til sérstæðu sem kölluð er „miklihvellur“ sem jafnframt er heitið á ríkjandi kenningu um upphaf alheimsins, en talið er að þá hafi tími og rúm orðið til og því hægt að tala um upphaf. Þetta þykir sennilegasta kenningin þar sem hún felur að kenningum Einsteins um afstæði og lögmáli Hubbles, en samkvæmt því er rauðvik fjarlægra vetrarbrauta staðfesting á að alheimurinn sé að þenjast út. Alheimurinn er oftast sagður vera um 13,7 milljarða ára gamall með skekkju upp á 1%. Þá er hinsvegar ekki ljóst hvort gögnin eða líkanið, sem var notað séu nógu nákvæm eða rétt. Gróflega má áætla að þessi tala sé um 10-20 milljarða ára gamall. Um þróun og endalok alheimsins eru svo ýmsar kenningar til, þar má nefna tilgátuna um heljarhrun. Strassborg. Strassborg (franska: "Strasbourg", þýska: "Straßburg", elsassþýska eða allemanníska: "Strossburi") er höfuðborg og mikilvægasta borgin í Elsass-héraðinu í norðausturhluta Frakklands. Fólkfjöldi borgarinnar er 250.000 manns, en á stór-Strassborgarsvæðinu búa 612.000 manns (650.000 manns, ef taldir eru með íbúar Þýskalands megin við landamærin). Evrópuþingið er í borginni að hálfum hluta og hálfum hluta í Brussel í Belgíu. Einnig eru til húsa í Strassborg Evrópuráðið og Mannréttindadómstóll Evrópu. Tækniskóli Íslands. Tækniskóli Íslands var stofnaður árið 1964 og með tilvist hans var ætlað að brúa bilið milli iðnmenntunar og háskólanáms. Tækniskólinn var færður á háskólastig árið 2002 og tók þá upp nafnið Tækniháskóli Íslands. Árið 2005 sameinuðust Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík undir nafni Háskólans í Reykjavík. Tækniháskóli Íslands. Tækniháskóli Íslands (THÍ) fyrrum Tækniskóli Íslands var sameinaður Háskólanum í Reykjavík sumarið 2005 undir nafni Háskólans í Reykjavík. Tækniskóli Íslands var færður uppá háskólastig árið 2002 og var nafn skólans breytt í Tækniháskóla Íslands. THÍ var staðsettur við Höfðabakka 9, 110 Reykjavík. Árið 2005 sameinuðust Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík undir nafni Háskólans í Reykjavík. Námið. Í Tækniháskóla Íslands er "Frumgreinadeild", en þar er námið á framhaldsskólastigi og er það ein sérstaða skólans. Nám á frumgreinadeild er ætlað að tengja saman iðnaðar- og háskólanám. Nemendur sem útskrifast úr frumgreinadeild hafa forgang til náms í öðrum greinum skólans sem eru á háskólastigi. Metaðsókn var í Tækniháskólann árin 2003 og 2004 og fengu færri að stunda nám við skólann en vildu. Frumgreinadeild. Frumgreinadeild er námsdeild á framhaldsskólastigi í Tækniháskóla Íslands. Quintus Claudius Quadrigarius. Quintus Claudius Quadrigarius (uppi á 1. öld f.Kr.) var rómverskur sagnaritari, sem skrifaði um sögu Rómar í riti sínu "Annales" ("Annálar"), sem var í a.m.k. 23 bókum. Frásögn Quadrigariusar hófst á innrás Galla árið 390 f.Kr. og náði a.m.k. fram yfir dauða Súllu og e.t.v. lengra. Sagnaritarinn Títus Lívíus styðst m.a. við Quadrigarius sem heimild (frá sjöttu bók rits síns "Ab urbe condita"). Aulus Gellius vitnar orðrétt í alllangan kafla úr riti Quadrigariusar í verki sínu "Attískar nætur" (IX. 13), þar sem er lýst einvígi milli Rómverjans Títusar Manliusar Torquatusar og ónefnds Galla. Stíll Quadrigariusar var fremur einfaldur og fornlegur og þótti þurr en rit hans var talið mikilvægt. Heimild. Quadrigarius Torfhildur Hólm. Torfhildur Hólm (2. febrúar 1845 – 14. nóvember 1918) var íslenskur rithöfundur. Hún var fyrsti íslenski rithöfundurinn sem skrifaði sögulegar skáldsögur og hún var einnig fyrsta íslenska konan sem skrifaði skáldsögur. Ungdómsár og Vesturheimur. Torfhildur fæddist á Kálfafellsstað í Skaftafellsýslu 2. febrúar 1845. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Einarson prestur og Guðríður Torfadóttir. Torfhildur lagði stund á ensku og hannyrðanám í Reykjavík. Hún giftist Jakobi Hólm verslunarstjóra á Hólanesi nyrðra en varð ung ekkja því maður hennar lést eftir eins árs hjónaband. Torfhildur flutti til Vesturheims árið 1876 og fyrsta skáldsaga hennar Tárablómið birtist árið 1879 í vestur-íslenska blaðinu Framfara. Fyrstu listamannslaunin. Torfhildur kom aftur til Íslands árið 1889. Alþingi ákvað að veita henni skáldalaun 500 krónur á ári. Torfhildur var fyrsti Íslendingurinn til að fá listamannalaun. Torfhildur gaf út bókmenntatímaritið Draupnir á árunum 1891 til 1908 og tímaritið Dvöl á árunum 1901 til 1917. Verk Torhildar voru vinsæl meðal almennings en síður meðal gagnrýnenda. Sjá má áhrif frá Torfhildi í verkum Halldórs Laxness Íslandsklukkunni og fyrsta skáldsaga Halldórs var að hans eigin sögn verkið Afturelding sem dregur nafn sitt frá skáldsögu Torfhildar Eldingu. Ein sögupersóna Halldórs ber nafnið Garðar Hólm. Torfhildur í augum bókmenntafræðinga. Soffía Auður Birgisdóttir taldi hana vera „brautryðjanda á sínu sviði“ og að hún „hikaði ekki við það að fara inn á „svið karlmanna““. Einnig taldi hún verk hennar vera aðalega siðferðislegs eðlis, og Hulda virðist hafa frekar reynt að bæta siðferði og trúarlíf Íslendinga en að koma fram róttækum hugmyndum kvenfrelsis. Theódóra Thoroddsen. Theódóra Thoroddsen (einnig ritað Theodora; fædd að Kvennabrekku í Dölum 1. júlí 1863 - dáin í Reykjavík 23. febrúar 1954) var íslenskt skáld. Hún er einkum þekkt fyrir þulur sínar. Ævi. Theódóra fæddist á heimili sínu í Dölum en foreldrar hennar voru Guðmundur Einarsson prestur og Alþingismaður (móðurbróðir Matthíasar Jochumssonar skálds), og Katrín Ólafsdóttir dóttir Sívertsens í Flatey. Hjónin eignuðust 15 börn en Theódóra var yngst þeirra þriggja sem náðu fullorðinsaldri. Hin tvö voru Ásthildur og Ólafur. Theódóra stundaði nám í Kvennaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist 1879. Hún giftist Skúla Thoroddsen lögfræðingi og flutti til Ísafjarðar þegar maður hennar varð sýslumaður þar. Maður hennar var dæmdur frá embætti 1893 en þau bjuggu áfram á Ísafirði í nokkur ár og ráku þar verslun. Árin 1901 fluttu þau suður, fyrst til Bessastaða en fluttu til Reykjavíkur árið 1908. Skúli og Theódóra eignuðust þrettán börn. Þau voru: Unnur húsfreyja, Guðmundur prófessor og yfirlæknir, Þorvaldur lést í frumbernsku, Skúli yfirdómslögmaður og alþingismaður, Þorvaldur fór til Vesturheims, Kristín Ólína yfirhjúkrunarkona og skólastýra, Katrín læknir, alþingismaður og bæjarfulltrúi, Jón lögfræðingur og skáld, Ragnhildur húsfreyja, Bolli borgarverkfræðingur, Sigurður verkfræðingur og alþingismaður, Sverrir bankafulltrúi, María Kristín húsfreyja. Þulur Theódóru voru fyrst gefnar út 1916. Guðmundur Thorsteinsson (Muggur), systursonur hennar, myndskreytti. Þær voru endurútgefnar 1938 (Sigurður Thoroddsen myndskreytti útgáfuna þá ásamt Muggi), 1950, 1981 og 2000. Ritsafn Theódóru kom út 1960. Um útgáfuna sá Sigurður Nordal. "Eins og gengur" (smásögur) kom út 1920. Kvæði, stökur og sagnir Theódóru eru birtar víða, meðal annars í "Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna í Reykjavík" (1911-1931). Hún þýddi sögur úr öðrum málum og safnaði einnig þjóðsögum. "Islandsk folketru" var útgefin í Kristjaníu 1924, eftir handriti hennar. Theódóra var einnig mikilvirk og listfeng hannyrðakona. Sýningar hafa verið haldnar með verkum hennar. Skíðastökk. Skíðastökk er íþróttagrein þar sem stokkið er fram af skábraut með stökkpalli og reynt er að svífa eins langt og auðið er. Bæði eru gefin stig fyrir stökklengd og stíl. Í skíðastökki eru notuð sérstök skíði sem eru breiðari og lengri en þau sem eru notuð í alpagreinum t.d. Festingunum svipar til gönguskíða eða telemark, þ.e.a.s. skórnir eru aðeins fastir við tærnar. Skíðastökk er upprunnið í Noregi. Keppt er á tveim mismunandi stærðum af pöllum og almennt er stokkið eitt æfingastökk og tvö stökk sem gefin eru stig fyrir. Prestastefna. Prestastefna er í lúterskum sið þing presta í tilteknu biskupsdæmi sem boðað er til af viðkomandi biskupi og sem hefur það hlutverk að fjalla um mál er varða presta, helgisiði og kenningu kirkjunnar. Škoda Felicia. Škoda Felicia er fólksbíll frá Škoda Auto bílaframleiðandanum sem tók við af Škoda Favorit 1995. Felicia var því með fyrstu tegundum Škoda sem var með vél og fleiri íhluti frá Volkswagen, sem tók Škoda yfir árið 1991. Škoda Felicia er til í útgáfum með 1.3, 1.6 og 1.9 lítra vélum, sem fimm dyra hlaðbakur, skutbíll og sendibíll. Framleiðslu Felicia var hætt árið 2000, ári eftir að Škoda Fabia kom fyrst út. Tegundirnar hafa fengið mjög misjafna dóma enda misvel búnar eftir útgáfu og árgerð. Almennt hefur Škoda Felicia fengið góða dóma fyrir endingu, innrými og verð, en verri fyrir kraft (einkum 1.3 vélarnar). Oliver Cromwell. Oliver Cromwell (25. apríl 1599 – 3. september 1658) var enskur herforingi og stjórnmálamaður sem leiddi uppreisnina gegn konungsveldinu í Bretlandi í ensku borgarastyrjöldinni. Þegar konungsvaldið var lagt niður 1648 og Enska samveldið varð til var hann í raun einráður og ríkið aðeins lýðveldi að nafninu til og 1653 leysti Cromwell upp langa þingið með valdi, þar sem þá leit út fyrir að það myndi leysa upp her hans, sem taldi þá 50.000 menn. Hann varð því einráður sem æðsti verndari Englands, Írlands og Skotlands frá 16. desember 1653 til dánardags. Sonur hans tók við alræðisvaldinu en reyndist óhæfur, og innan tveggja ára frá láti Cromwells var konungsvaldið endurreist, tíu árum eftir að Karl I Englandskonungur var hálshöggvinn. Hann fæddist í Huntingdon, Cambridge-skíri og hóf nám við Cambridge-háskóla en lauk ekki prófi. 1628 tók hann sæti á Enska þinginu fyrir Huntingdon. Karl I konungur leysti upp þetta þing 1629 en neyddist til að kalla það saman aftur í Biskupastríðinu 1640 (Langa þingið). Margir þingmenn vildu neita konungi um nýja skatta þar til hann samþykkti að stjórna landinu í samráði við þingið. Þegar Enska borgarstyrjöldin braust út 1642 gekk Cromwell í þingherinn og stofnaði riddaraliðsflokk í heimasveit sinni. Hann var þá 43 ára og hafði enga reynslu af stríði. Hann reis skjótt í tign innan hersins þar sem hann þótti góður herstjóri og þegar Karl var handsamaður 1646 stjórnaði hann hernum og var því í aðstöðu til að nota hótanir um valdbeitingu til að fá sínu framgengt í þinginu. Baðmull. Baðmull eða bómull eru trefjar sem vaxa utanum fræ baðmullarrunna, sem eru runnar af ættkvíslinni "Gossypium", sem vex í hitabeltinu og heittempruðum svæðum jarðar. Baðmullartrefjar eru oftast spunnar í þráð sem er ofinn í mjúkt klæði. Baðmull er mest notaða náttúrulega efnið í fatnaði í dag. Vinnsla baðmullar. Baðmull er unnin úr fræhárum baðmullarplöntunnar. Fræhárin eru yfirleitt 20-38mm en geta þó verið 10-6mm. Þegar blómin af baðmullarplöntunni falla kemur í staðinn grænt ber. Þegar berið er orðið fullvaxta verður það brúnt og opnast. Hvítir baðmullarþræðir koma þá í ljós. Baðmullarplanta getur orðið allt að fimmtán ára gömul og er helst ræktuð í Kína, Japan, Indlandi, Afríku, á Suðurhafseyjum og í Suður-Ameríku. Baðmull er flokkuð eftir eiginleikum í þrjá höfuðflokka eftir lengd þráðanna, hreinleika og lit. Einnig skiptir máli hversu fínir þræðirnir er, teygjanleiki þeirra, styrkur, viðloðunarhæfni og slitþol. Eiginleikar baðmullar. Baðmull er sterkt efni og teygjanlegt. Það þolir vel sólarljós og tekur vel við vökva, raka og lit. Baðmullinn þolir vel þvott og straujun á háum hita. Við þvott styttist lengd þráðanna um 10%, en þvermál þeirra um 5%. Baðmullarþræðirnir innihalda ekki loft og hafa því litla einangrunareiginleika. Baðmull krumpast og vill taka í sig óhreinindi. Frederik Christopher Trampe. Frederik Christopher Trampe (19. júní 1779 – 18. júlí 1832) greifi var danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður yfir Íslandi á árunum 1806-1813 að undanskildu tímabili því þegar Jörundur hundadagakonungur réði hér ríkjum. Trampe var sonur Adams Trampe greifa, sem var af gamalli aðalsætt frá Pommern, og konu hans Gertrud Poulsen Hoffmann. Hann varð stúdent 1794 og lauk lögfræðiprófi 1798. Hann var um tíma foringi í danska hernum en árið 1804 hætti hann herþjónustu og varð amtmaður í Vesturamti á Íslandi. Árið 1806 tók hann við stiftamtmannsembættinu af Ólafi Stefánssyni, þá aðeins 27 ára að aldri. Hann var útnefndur kammerherra árið 1808. Trampe greifi, eins og hann er oft titlaður, var einn af aðalpersónum þeirra atburða sem áttu sér stað sumarið 1809 þegar Jörundur hundadagakonungur rændi völdum á Íslandi. Trampe var tekinn til fanga af Jörundi og Englendingunum sem voru í fylgd með honum og hafður í haldi um borð í skipi þeirra í rúma tvo mánuði. Hann var tímabundið settur af sem stiftamtmaður og Benedikt Gröndal þvingaður til að gegna embætti hans á meðan. Eftir að Trampe losnaði úr haldi um haustið fór hann til Englands til að reyna að fá valdaræningjunum refsað en varð ekki ágengt. Hann kom ekki aftur til Íslands, heldur fór til Danmerkur og var árið 1810 skipaður stiftamtmaður í Þrándheimsstifti og amtmaður í syðra Þrándheimsamti. Árið 1814 studdi hann Kristján Friðrik prins (síðar Kristján 8.) þegar Norðmenn kusu hann konung sinn og eftir að sjálfstæðistilraunin rann út í sandinn og Svíar tóku völd í Noregi munaði litlu að Trampe missti stöðu sína. Honum tókst þó að halda henni og ávann sér traust hinna nýju valdhafa. Hann gegndi stiftamtmannsembættinu til dauðadags, eða í 22 ár. Fyrsta kona Trampe, sem hann giftist átján ára að aldri árið 1797, var barónsekkjan Sophie Frederikke Heinrich (1765 – 1801), sem var fjórtán árum eldri. Árið 1808 gekk hann að eiga hina sextán ára Anna Dorothea Colbjørnsen en hún dó fáeinum mánuðum síðar. Þriðja kona Trampe (gift 1810) var greifadóttirin Amalia Ulrica Frederika Schmettow (1791 – 1856). Málmgrýti. Málmgrýti (e. ore) kallast útfellingar steinda, sem innihalda verðmæta málma í nægjanlegu magni til arðbærrar vinnslu. Gautaborg. Gautaborg (á sænsku) er næst stærsta borg Svíþjóðar og stærsta borgin á vesturströndinni. Samkvæmt manntali 2008 voru íbúar 500 085 í sjálfri borginni og samanlagt 905 729 með samvöxnum sveitarfélögum. Saga. Gautaborg rekur sögu sína aftur til 12. aldar, en þá stóð kaupangur miklu ofar en nú og hélt áfram að færast til þar til borgin staðfestist. Á miðöldum var borgin Lödöse mikilvægur verslunarstaður og gluggi til vesturs, hún var um 40 kílómetra norður af núverandi Gautaborg upp með Gautafljóti (Göta älv). Lengi vel var öll eða mest öll núverandi vesturströnd Svíþjóðar hluti af Noregi (eða Dansk-norska ríkinu) allt fram á 17. öld. Það var einungis í kringum árminni Gautafljóts sem Svíaríki náði fram að sjó vestanmegin. Margar tilraunir voru gerðar til að stofna bæi nær hafinu en Lödöse, en það var ekki fyrr en 1621 sem Gústaf II Adólf Svíakonungi tókst að stofna borgina Gautaborg á eyjunni Hisingen. Styrjaldir í kjölfarið leiddu til þess að Danmörk neyddist til að afsala sér 1658 héruðunum Halland, suður af Gautaborg og Bohuslän norður af borginni fyrir utan Skán. Það voru Hollendingar sem einkum settu svip sinn á hina núverandi Gautaborg í fyrstu. Enn sér þessa merki, því að hin eldri og meiri háttar hús eru með hollensku byggingarlagi, og sundin inni í borginni, svo sem Stora Hamnkanalen eru eftir hollenskri fyrirmynd. Þegar til þess er litið að í fyrstu bæjarstjórn Gautaborgar sátu 7 Svíar, einn Skoti og tíu Hollendingar, sést vel hvílík ítök Hollendingar höfðu í borginni. Hollendingar kölluðu einnig borgina um tíma: „Nýja Amsterdam“. Efnahagslíf. Frá upphafi hefur Gautaborg haft afar gott hafnarstæði, þar er nú stærsta á Norðurlöndum. Kaupmennska og skipaútgerð hafa verið mikilvægur þáttur í efnahagslífinu, þar að auki hafa mörg stærstu stóriðnaðfyrirtæki Svíþjóðar haft aðsetur í Gautaborg með stórar verksmiðjur eins og til dæmis SKF, Volvo og Ericsson, en einnig minni fyrirtæki eins og Hasselblad. Á allra síðustu áratugum hefur atvinnulífið tekið miklum stakkaskiptum með lokun allra helstu skipasmiðja og fleiri stærri verksmiðja. Í stað þess hafa komið ýmiss konar minni hátæknifyrirtæki og þjónustufyrritæki. Stjórnmál. Jafnaðarmenn hafa lengi haft meirihluta í sveitarstjórnarkosningum í Gautaborg en þar hafa einning frjáslyndir verið fjölmennir. Kommúnistar hafa einning verið óvenju öflugir og kom ein grein þeirra aðeins við íslenska stjórnmálasögu á áttunda áratugnum en flestir forsprakkar KSML - KFÍ-ml höfðu stundað nám í Gautaborg og tekið þátt í starfi KFML(r) sem síðar varð. Sá flokkur hefur enn fulltrúa í sveitarstjórn Gautaborgar. Íslendingar í Gautaborg. Stór hópur íslendingar flutti búferlum til Gautaborgar í atvinnuleit í lok sjöunda og byrjun áttunda áratugs síðustu aldar, þegar sem mest atvinnuleysi var á Íslandi. Fóru flestir þeirra í störf hjá stóru verksmiðjufyrirtækjunum. Mjög margir þeirra hafa ílenst og er fjölmenn nýlenda Íslendinga og athafnasamt Íslendingafélag í borginni. Eru þá ótaldir allir þá námsmenn sem stundað hafa og stunda nám við hina ýmsu háskóla. Á þessum áratug hafa margir unglæknar flutt til Gautaborgar til að verða sérlæknar. Á Sahlgrenska Universitetssjukhuset eru margir íslenskir læknar. Malmö. (Málmey eða Málmhaugar) er þriðja stærsta borg Svíþjóðar, á suðvesturhorni Skáns, andspænis Kaupmannahöfn við Eyrarsundið. Íbúar eru 271.000. Malmö varð snemma ein af helstu iðnaðarborgum Norðurlanda en hefur á síðustu áratugum átt í miklum erfiðleikum með að aðlagast nýjum tímum. Íbúar Malmö eiga rætur víða, um 24% íbúa eru fæddir erlendis og er um helmingur nemenda í grunnskólunum svo nefndir nýbúar eða afkomendur þeirra. Einnig eru fjölmargir múslimar í borginni eða um 16% íbúa. Með brúartengslum við Kaupmannahöfn hefur menningar- og efnahagslíf Malmö fengið nýtt líf. Saga. Kort af Malmö frá 1580 Malmö á rætur að rekja til ferjustaðar fyrir erkibiskupinn af Lundi á 13. öld og var þá danskt land. Lundur er um 20 kílómetra norðaustur af Malmö. Bygging Sankt Petri kirkjunnar hófst 1290, hún er ein af elstu gotnesku kirkjubyggingunum á Norðurlöndum og sú elsta í núverandi Svíþjóð. Svipaðar kirkjur er að finna víða á því svæði sem Hansakaupmenn störfuðu á. Malmö var miðstöð Hansakaupmanna við Eyrarsund og einn af mikilvægusta bæjum Danaveldis. Eftir að Svíakonungar náðu undir sig Skáni 1648 varð hlutverk Malmö allt annað. Verslun og efnahagslíf dróst mjög saman og var þanning komið 1730 að einungis 282 íbúar voru í borginni. Það er ekki fyrr en á seinni hluta 19.aldar sem Malmö nær sér á strik að nýju og áttu nýir samgönguhættir með járnbrautarlestum mikinn þátt í því. Landlýsing. Malmö liggur á 13°00' austur og 55°35' norður. Borgin er syðsti bær í Svíþjóð og er skemmra þaðan til ítölsku borgarinnar Mílanó en nyrstu sænsku borgarinnar Kiruna. Með Eyrarsundsbrúnni varð Malmö aftur nátengd Kaupmannahöfn. Brúin var vígð 1. júlí ár 2000 og er 8 kílómetra löng. Öll tengingin, brú, tilbúin eyja (Piparhólminn) og göng undir hluta sundsins er 16 kílómetra löng. Þetta hefur gjörbreytt samgöngum, meðal annars fara lestir milli Malmö og Kaupmannahafnar á 20 mínútna fresti yfir brúna. Efnahagslíf. Efnahagslíf Malmö einkendist lengi af þungaiðnaði og ekki síst skipasmíði þar sem stærst og frægast var Kockums. Nú eru flestar skipsmiðjur lokaðar og sama á við um annan þungaiðnað. Er mikið atvinnuleysi í Malmö af þessum orsökum. Íslendingar í Malmö. Stór hópur Íslendinga fluttist búferlum til Malmö í atvinnuleit í lok sjöunda og byrjun áttunda áratugs síðustu aldar, þegar sem mest atvinnuleysi var á Íslandi. Fóru margir þeirra í störf hjá Kockums. Mjög margir þeirra hafa ílengst og er fjölmenn nýlenda Íslendinga og athafnasamt Íslendingafélag í borginni. Malmö var fyrrum kölluð Málmhaugar á íslensku. Óháði söfnuðurinn. Óháði söfnuðurinn er íslenskt trúfélag utan þjóðkirkjunar. Óháði söfnuðurinn er kristin kirkja líkt og Þjóðkirkjan. Kirkja óháða safnaðarins er staðsett við Háteigsveg í Reykjavík og safnaðarprestur er Pétur Þorsteinsson. Óháði söfnuðurinn er fríkirkja, og var stofnaður út frá hópi sem klauf sig úr Fríkirkjunni í Reykjavík. Nemandi. Nemandi er einstaklingur sem nemur, þ.e. lærir ákveðnar upplýsingar eða þjálfar með sér hæfileika með aðstoð kennara. Kennsla fer oftast fram í skólum. 1347. Útbreiðsla Svarta dauða um miðja 14. öld. 1357. a> var fyrr á öldum notuð sem aftökuaðferð víða og nokkur dæmi eru um að það hafi verið gert á Íslandi. 1333. a> með nöfnum þeirra Erlings, Bjarna og Eindriða. 1319. a>. Myndin er elsta þekkta evrópska prófílmálverkið. Herfylki. Herfylki er hernaðareining sem, að öllu jöfnu, samanstendur af tveimur til sex undirfylkjum og yfirleitt undir stjórn undirofursta. Þegar herfylki eru hluti af stærri hernaðareiningum eru þau oft mjög sérhæfð. Til dæmis eru átta sérhæfð undirfylki í hverri vélvæddri fótgönguliðsdeild rússneska hersins. Sjálfstæð herfylki í herjum smærri ríkja eru hinsvegar oft samansett úr fjölbreyttum einingum. Svo sem blöndu fótgönguliðsundirfylkja og skriðdrekaundirfylkja. Hjarta. Hjartað er líffæri milli lungna í miðmæti ("mediastinum"). Hjartað er sjálfvirkur rauður vöðvi sem herpist saman og slakar á í takt, og sér þannig um blóð flæði um blóðrásarkerfi líkamans. Uppbygging og gerð. Hjarta spendýra er fjórhólfa og efri hólfin hvoru megin kallast "gáttir" (eða "ullinseyru") en neðri hólfin "hvolf". Þannig skiptist hjartað í vinstri og hægri gáttir og vinstri og hægri hvolf. Hjartað virkar sem tvöföld dæla þar sem hægri hluti þess tekur við súrefnissnauðu blóði frá stóru blóðhringrásinni, sem liggur um líkama og útlimi, og dælir því til lungna (litlu hringrás). Þannig kemur súrefnisríkt blóð frá lungum inn í vinstri hluta hjartans sem svo sér um að dæla blóðinu út til vefja líkamans. Sé hjartað skoðað sést greinilega hvor hlutinn dælir lengra og gegn hærri þrýstingi, því veggir vinstra hjartahvolfs eru mun þykkari en aðrir veggir í samræmi við álag. Milli gátta og hvolfa eru hjartalokur sem opnast og lokast reglulega samfara blóðdælingunni. Slíkar lokur er einnig að finna á aðalæðum frá hjartanu. Hjartsláttarhljóðið eru smellir í hjartalokunum. Hjartavöðvinn er sérhæfður vöðvi úr sérhæfðum vöðvafrumum sem geta starfað óháð heildinni, svo sem í næringarlausn. Þessar frumur dragast saman í takt fyrir tilstilli rafboða sem koma frá gúlpshnúti í vegg hægri gáttar. Hjartað er umlukið sterkum, tvöföldum bandvefspoka með vökva á milli. Þessi poki nefnist gollurshús og ver hjartað hnjaski. Hjartað hefur eigið æðakerfi, kransæðar, sem veitir blóði um vöðvann sjálfan. Kransæðakerfi þetta gerir hjartað því sem minnst háð annarri starfsemi lífverunnar. Sjúkdómar. Hjartaáfall er oft afleiðing langvinns hjartasjúkdóms og getur leitt til skyndilegs dauða. Þá er hjartaþelsbólga sjúkdómur sem t.d. orsakast af smiti S. aureus. Blóðrásarkerfi. Blóðrásarkerfi er sú hringrás sem blóð fer um æðar líkamans. Hjartað heldur þessari hringrás gangandi með taktföstum slætti. Æðarnar í blóðrásarkerfinu eru þrennskonar; Slagæð. Slagæð er æð, sem flytur (súrefnisríkt) blóð frá hjarta um líkamann og út í háræðarnar. Lungnaslagæðin er þar undanskilin en hún flytur súrefnissnautt blóð frá hjarta til lungnanna. Slagæðar eru þykkari en bláæðar, sem flytja súrefnissnautt blóð aftur til hjartans, svo að þær standast þrýstinginn, sem myndast í þeim þegar hjartað slær. Bláæð. Bláæðar eru æðar sem flytja súrefnissnautt blóð frá háræðum um líkamann og til hjartans. Lungnabláæðin er þar undanskilin en hún flytur súrefnisríkt blóð frá lungum til hjartans. Þrýstingur er minni í bláæðum en í slagæðum og eru æðaveggir bláæða því almennt þynnri. Mest munur um vöðvalag í miðhjúp æðanna. Í bláæðum eru lokur, bláæðalokur, sem hindra því að blóðið renni tilbaka í æðunum sökum mismunar á þrýstingi. Bilun í slíkum lokum valda æðahnútum. Háræð. right Háræðar eru fínar æðar sem tengja saman slagæðar og bláæðar. Í háræðum eru næringarefni úr blóðinu tekin upp í nærliggjandi vefi. Í lungum liggja háræðar um lungnaberkjur og þá verður súrefnissnautt blóð að súrefnisríku blóði. Flokkskvísl. Flokkskvísl, sem gengur einnig undir nöfnunum riðill, sveit og lið, er hernaðareining sem samanstendur af 5 til 11 hermönnum. Flokkskvíslum er, í sumum herjum, skipt niður í tveggja til fjögurra manna skotsveitir. Yfirleitt fara liðþjálfar eða korporálar fyrir flokkskvíslum. Flokkskvísl er minnsta lágeining í fótgönguliðssveitum og sérsveitum rússneska hersins. Rauð blóðkorn. Rauð blóðkorn eða rauðkorn eru algengustu blóðkorn í blóði. Þau eru disklaga, kjarnalaus, og sjá um að tengjast súrefni og koltvísýringi og bera það um líkamann. Rauð blóðkorn eru mynduð í beinmerg en einnig í milta hjá ungviði og eitlum og lifur í fóstri. Rauð blóðkorn eru, eins og nafnið bendir til, rauð að lit sem stafar af hemóglóbíni (eða blóðrauða). Það inniheldur járn sem binst súrefni og koltvísýringi. Koltvísýringur getur þó einnig bundist próteinefni rauðu blóðkornanna. Líftími rauðkorna eru fáar vikur en stundum mánuðir. Fjöldi þeirra fer eftir súrefnisþörf líkamans. Þannig geta þolin hlaupadýr fengið auka skammt úr milta á meðan önnur dýr, svo sem maðurinn þarf að þjálfa sig upp til að þola slíka áreynslu. Blóðflaga. Blóðflögur eru frumubrot sem taka þátt í storknun blóðs og kekkjun þess. Flokksdeild. Flokksdeild er hernaðareining sem samanstendur af 2-4 flokkskvíslum og er, iðulega, undir stjórn liðsforingja. Góðrarvonarhöfði. Góðrarvonarhöfði er klettóttur höfði á Atlantshafsströnd Suður-Afríku. Hann er líklega best þekkti höfðinn í sunnanverðri Afríku, en þó ekki sá syðsti, en sá er í um 150 km fjarlægð til suðausturs frá Góðrarvonarhöfða og heitir Agulhashöfði. Hins vegar var fyrsta sigling fyrir Góðrarvonarhöfða árið 1488 af portúgalanum Bartholomeu Dias stórt skref í átt til opnunar siglingaleiðar milli Evrópu og Austurlanda fjær. Súnní. Súnní er stærsta fylkingin innan íslam, en íslömsk trú klofnaði í tvo meginmeiði á sjöundu öld í kjölfar deilna um eftirmann Múhameðs spámanns. Annarsvegar eru súnní-múslímar, eða súnnítar, sem eru mikill meirihluti múslíma í heiminum, og hins vegar sjía-múslímar, eða sjítar, sem eru í minnihluta í heiminum. Sjítar eru þó í meirihluta í Írak og Íran. Súnnítar trúa því að eftirmaður Múhameðs hafi ekki tekið við spámannshlutverkinu, Múhameð hafi verið síðasti spámaðurinn. En hann hafði einnig verið veraldlegur leiðtogi múslíma og einhver þurfti að taka við því hlutverki. Alí, tengdasonur Múhameðs, var fjórði kalífi (sá sem stjórnar á jörðinni í umboði guðs) múslíma, en var myrtur árið 661. Þá tók helsti andstæðingur hans við kalífadómi, en átök þeirra voru undirrótin að klofningi íslams í súnní- og sjía-sið. Heitið á sjía-sið er dregið af „shi'at Ali“, eða „fylgismenn Alís“. Þeir telja Alí hafa verið þann eina sem hafi með réttu gegnt kalífadómi. Hugmyndafræðilegur munur á súnní- og sjía-sið er í grundvallaratriðum sá að sjítar telja að Múhameð hafi átt sér andlega arftaka, þótt hann hafi verið síðasti spámaðurinn. Þessir arftakar eru nefndir imamar. Þeir hafa í krafti innblásturs meira innsæi í eðli guðdómsins en venjulegir menn hafa. Þess vegna geta þeir túlkað Kóraninn, helgirit múslíma, og áttað sig á duldum boðskap sem þar er að finna en venjulegir menn sjá ekki. Samkvæmt súnní-sið, sem kenndur er við hefð, eða troðnar slóðir, er Kóraninn skiljanlegur öllum sem vilja lesa hann og leita lærdóms um hann. Ekkert í honum er hulið venjulegum mönnum. Þar er enginn dulinn boðskapur. 90% múslíma fylgja „súnna“ eða kennisetningum spámannsins og trúa á lögmæti kalífana (arftakanna), sem valdir voru til að leiða múslíma eftir dauða spámannsins. Hera Björk Þórhallsdóttir. Hera Björk Þórhallsdóttir (fædd 29. mars 1972 í Reykjavík) er íslensk söngkona. Hún ólst upp í Breiðholti og gekk í Ölduselsskóla og seinna í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hera Björk byrjaði ung að syngja og söng meðal annars inn á auglýsingar og barnaplötuna „Göngum við í kringum“ fyrir 12 ára aldur. Hún hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavík haustið 1989 og lærði söng hjá söngvurunum Rut Magnússon, Bergþóri Pálssyni, Elínu Ósk Óskarsdóttur, Ernu Guðmundsdóttur ofl. Hera Björk keppti í Hæfileikakeppni Suðurlands árið 1988 og hafnaði þar í fyrsta sæti með lagið "Perfect" sem hljómsveitin Fairground Attraction gerði frægt á sínum tíma. Seinna keppti Hera Björk í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Fjölbrautarskólans í Breiðholti og lenti þar í öðru sæti með lagið „Án þín“. Hera Björk hefur tekið þátt í uppfærslum á Rocky Horror Picture Show, Evitu, Litlu Hryllingsbúðinni og Kysstu mig Kata. Hún lék og söng einnig í sýningunni Sirkús Skara Skrípó í Loftkastalanum 1996-1997. Hera Björk hefur komið víða við í íslensku skemmtanalífi, var m.a. í hljómsveitunum Orgill, Sweetý og 17Vélar. Hún hefur sungið inn á fjölmargar plötur, bæði sóló sem og bakraddir. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu Ilmur af jólum árið 2000 og fékk hún góða dóma og viðtökur. Hera Björk stjórnaði sjónvarpsþættinum Stutt í Spunann á RÚV veturinn 1999-2000 ásamt leikaranum Hjálmari Hjálmarssyni. Hún kom einnig fram í Áramótaskaupi Sjónvarpsins 2005. Hera Björk er búsett í Kaupmannahöfn og starfar sem söngkona og söngkennari víða um Evrópu. Flæmingjaland. Flæmingjaland, Flandur eða Flandern er sambandsland í konungsríkinu Belgíu. Nágrannar Flæmingjalandsins eru Holland og Frakkland auk sambandslandanna Vallands og Brussel. Undirfylki. Undirfylki er hernaðareining, sem samanstendur, yfirleitt, af þremur til fjórum flokksdeildum. Foringjar undirfylkja hafa yfirleitt tignargráðu höfuðsmanns eða majórs. Undirofursti. Undirofursti er tignargráða, eða stöðuheiti í hernaði, sem er á milli majórs og ofursta. Undirofurstar eru foringjar sem hafa skipunarbréf frá æðsta yfirmanni viðkomandi hers og bera meiri ábyrgð en þeir, lægra settu, foringjar er ekki hafa slíkt bréf. Alfred Tarski. Alfred Tarski (14. janúar 1901, Varsjá Póllandi – 26. október 1983, Berkeley Kaliforníu) var pólskur rök- og stærðfræðingur. Hann var meðlimur Stærðfræðiskólans í Varsjá á millistríðsárunum og virkur stærðfræðingur í BNA eftir 1939 (þegar hann fór til Bandaríkjana). Hann skrifaði um grannfræði, rúmfræði, mælingafræði, stærðfræðilega rökfræði, mengjafræði og um undirstöður stærðfræðinar en mest um módelfræði og algebrulega rökfræði. Ævisöguritarar hans Anita Feferman og Solomon Feferman (sem lærði undir honum) rituðu að hann væri „einn af mestu rökfræðingum allra tíma“. Banach–Tarski þversögnin. a> og þannig myndaðar tvær nýjar kúlur af sömu stærð. Banach–Tarski þversögnin er stærðfræðileg sönnun, kennd við Alfred Tarski og Stefan Banach, sem gengur út á að sýna fram á að sé kúla hlutuð niður í óendanlega og ómælanlega hluta sína sé hægt að nota þessa hluta til þess að búa til tvær nýjar kúlur sem eru af sömu stærð og sú sem hlutarnir komu frá með því einu að hliðra þeim til og snúa. Sönnunin er þversögn, þar sem að hún stangast á við almenna skynsemi en er þó ekki í mótsögn við frumsendur mengjafræðinar. Margliða. þar sem formula_4 er náttúrleg tala, jafnframt hæsta veldi breytistærðarinnar og kallast "stig" margliðunnar. T.d. er margliðan formula_5 af öðru stigi þar sem annað veldi er hæsta veldið og stuðullinn formula_6, formula_7 og stuðullinn formula_8. Stæðan formula_9 þar sem formula_1 er breyta, er dæmi um margliðu, en ekki stæðan formula_11 því hún inniheldur deilingu með margliðu og er því rætt fall sem er hlutfall tveggja margliðna (á sama hátt og formula_12 og formula_13 eru heiltölur en formula_14 er ekki heiltala heldur ræð tala). Undirstöðusetning algebrunnar segir að sérhver margliða hafi jafn margar tvinntölurætur og "stig margliðunnar", þó sumar eða allar ræturnar geti verið "margfaldar". Ef allir stuðlar margliðu eru núll kallast hún núllmargliða, en er óáhugaverð nema sem sértilvik. Aldinborg. Aldinborg (háþýska: "Oldenburg", lágþýska: "Ollnborg") er fjórða stærsta borg þýska sambandslandsins Neðra-Saxlands með 160 þús íbúa. Borgin er staðsett norðarlega í Neðra-Saxlandi, rétt fyrir vestan borgríkið Bremen. Aldinborg var lengi vel undir danskri stjórn. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Oldenburg er rautt borgarvirki á gulum grunni. Í hliðinu er gulur og rauður skjöldur. Það er greifaskjöldur Aldinborgar. Sagan segir að skjöldurinn eigi uppruna sinn af bardaga við ljón. Þegar ljónið var drepið, hafi Hinrik IV keisari rekið tvo fingur í ljónsblóðið og strokið þeim yfir gulan skjöld sigurvegarans. Skjaldarmerkið í heild má rekja allt aftur til 1307 en var formlega tekið upp aftur 1927. Orðsifjar. Oldenburg hét upphaflega Aldenburg, sem er dregið af þýsku orðunum "alt" og "burg". Það merkir "Gamla borgin" eða "Gamli bærinn". "Alden-" breyttist svo í "Olden-" með mállýskunni. Merkilegt er að íslenska heitið, Aldinborg, er nær upphaflega heitinu en núverandi þýska heitið. Söguágrip. Aldinborgarkastali var aðsetur greifanna og hertoganna Bærinn myndaðist við vað yfir ána Hunte á leiðinni frá Bremen til Jever í Austur-Fríslandi á 10. öld. Hann kemur fyrst við skjöl 1108. Oldenburg varð snemma greifadæmi og sátu greifarnir í samnefndum kastala. Bærinn óx hins vegar hægt og hlaut ekki borgarréttindi fyrr en 1345. 1448 varð Kristján greifi í Aldinborg að konungi í Danmörku og kallaði sig Kristján I. Hann var fyrsti konungur Danmerkur frá Aldinborgarætt, sem ríkti all til 1863. Borgin slapp að öllu leyti við þátttöku í 30 ára stríðinu, þökk sé greifanum Anton Günther. Þegar Tilly nálgaðist borgina með keisarahernum, tókst Günther með diplómatískum leiðum að fá Tilly til að hlífa borginni. Greifinn hafði þróað sérstakt hestakyn, Aldinborgarkynið, og gaf hann Tilly marga úrvals hesta, sem var rausnarleg gjöf. Tilly þáði þá og hélt á brott. Anton Günther lést hins vegar í pestinni 1667. Þar sem hann var barnlaus, erfði frændi hans greifadæmið, en það var Friðrik III Danakonungur. Þar með var Aldinborg orðin að danskri borg. En 1676 nær gjöreyðilagðist borgin er þrjár eldingar laust niður og brunnu flest húsin. Íbúar flykktust á brott og voru þeir aðeins 3000 í upphafi 18. aldar. 1773 eignast Holstein-Gottorp-ættin borgina, sem verður þar með að hertogadæmi. Hertoginn var þó sjaldan í Aldinborg, en hafði aðsetur sitt í borginni Slésvík. Með Vínarfundinum 1815 varð Aldinborg að stórhertogadæmi. 1918 afþakkaði síðasti stórhertoginn, Friðrik Ágúst, eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri. Aldinborg varð þá að fríríki innan Weimar-lýðveldisins. Borgin slapp við loftárásir heimstyrjaldarinnar síðari og var hluti af breska hernámssvæðinu. Henni var gert að taka við þúsundum flóttamanna og fór íbúatalan við það yfir 100 þús. 1973 var Carl von Ossietzky háskólinn stofnaður í borginni. Viðburðir. Blómasýning er haldin árlega í upphafi mars. Sýningin er bæði innan- og utandyra og má þá líta á blóm, plöntur og skreytingar á samtals 16 þús m² svæði. Tugþúsundir manna sækja sýningu þessa heim. Í júní er hátíðin Christopher Street Day (CSD) haldin, en það er hátíð samkynhneigðra. Um sumarið eru tvennar tónlistarhátíðir: Oldenburger Promenade og Oldenburger Kultursommer. Í báðum tilfellum er um útitónleikaraðir að ræða úr mismunandi tónlistarstefnum. Síðan 1998 hefur siglingakeppnin Waschzuber-Regatta farið fram á heimasmíðuðum þvottabölum í læknum Haaren. Þátttakendur er oftast krakkar. Bodiam kastali. Bodiam kastali er staðsettur í Austur-Sussex, Englandi. Hann var bygður árið 1385 af Sir Edward Dallingridge, formlegum riddara hjá Edward III konungi Englands. Kastalinn er ótrúlega fallegur að sjá og afar merkileg bygging. Talið er að kastalinn hafi verið byggður í varnarlegum tilgangi til að hrinda burt hugsanlegum árásum Frakka. En kastalinn var samt frekar byggður til sýnis en sem raunverulegt varnartól. Kastalinn minnir óneitanlega á sandkastala og er eflaust fyrirmynd margra slíkra. Ætla mætti að hann hefði verið mótaður af fötu og skóflu. Kastalinn er algerlega umlukinn sýki. Suðurhlutinn hefur svokallaðan miðturn, eða postern turn. Til hægri frá postern turninum er aðalsalurinn. Kastalinn hefur hornturna á öllum fjórum hornum. Meirihlutinn af innri byggingu kastalans eyðilagðist í Enska borgarastríðinu. Norðurhlið kastalans hefur hliðvarðhús og brú. Hornturninn þar til hægri inniheldur síðan kapellu. Kastalinn var orðinn niðurníddur þegar hann var endurbættur af Lord Curzon og ánafnaði hann kastalanum til National Trust í Englandi árið 1926. Baksund. Baksund er sundaðferð sem er skyld skriðsundi, nema hvað legið er á bakinu. Handahreyfingar eru nær þær sömu og í skriðsundi, nema hvað hendin er til hliðar við líkamann þegar hún klárar takið, en í skriðsundi er hún undir honum. Fótatök eru þau sömu og í skriðsundi, oft kölluð skriðsundsfótatök. Í baksundi þarf líkaminn að velta vel í hverju taki til að fá sem mest spyrnu með höndunum. Keyta. Keyta er staðið hland úr húsdýrum sem notað var til þvotta og þrifa á Íslandi fyrir tilkomu sápu. Meðan nóg er af þvagefni í keytu myndast ammóníak í sífellu og leysist upp í vatninu. Vatnslausnin er basísk og leysir því upp sýrur, þar á meðal óhreinindi. Þvottavirkni keytunnar er að hluta til svipuð og virkni venjulegrar sápu. Áður fyrr var keytu blandað saman við vatn þegar ull var þvegin eftir rúningana á vorin. Hlóðir. Hlóðir í eldhúsi í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Á öðrum hlóðunum er stór pottur með hlemmi settur beint á hlóðirnar, á hinum er ketill á járngrind. Hlóðir er opið eldstæði hlaðið úr steinum. Á Íslandi virðast eldstæði sem notuð voru til matargerðar upphaflega hafa verið úti á miðju gólfi og verið fremur lág en síðar á öldum hækkuðu þau og voru víðast hvar færð upp að veggjum og þannig eru flestar þær hlóðir sem varðveist hafa. Aftan við þær var í eldvarnaskyni svokallað bakhlað, oftast úr grjóti en þegar kom fram á 20. öld var stundum notuð járnplata. Í hverjum hlóðum gátu verið nokkur eldstæði, oft misstór, aðskilin með hellum eða steinhleðslum. Í kringum hlóðirnar var grjóthleðsla, hlóðabálkur, og þar voru pottar, katlar og önnur tól geymd. Í hverri eldstó var eldhol, þar sem eldurinn logaði, og þar undir var oft annað hol, sem kallaðist öskustó eða ónn. Á milli hellanna yfir öskustónni var rifa og um hana trekkti undir eldinn til að glæða hann. Öskunni var svo skarað ofan í öskustóna og hún látin kólna þar. Einstakir hlutar hlóða eru öskustó, öskuónn, hlóðahella, eldhella, eldstó, hlóðavik, hlóðasteinar, hlöð og hlöðusteinar. Stundum var skarað var í eldinn með teini (skörungi) og físibelgur hafður við eldstó. Tóskapur. Tóskapur er notað fyrir vinnu úr ull á íslenskum sveitabæjum. Um veturnætur þegar haustvertíð lauk hófst tóskaparvinna (tóvinna) og stóð hún til jóla. Ullin var tætt og unnið svokallað smáband en það voru heilsokkar, hálfsokkar og vettlingar. Þetta var prjónað í höndum úr tvinnuðu bandi. Lengd heilsokka var eins og handleggur á fullorðnum manni, frá fingurbroddi í öxl og lengd hálfsokka var að olboga. Allur tóskapur var þæfður og klæddur á fótlaga fjalir (sokkatré) meðan hann þornaði. Tóvinna var mikil til sveita og voru unnar bæði voðir og prjónles. Prjónles skiptist í duggarales og smáles (smáband). Smáband og annað prjónles var verslunarvara. Varmaland. Varmaland er þéttbýli sem byggst hefur í kring jarðhitasvæði í Stafholtstungum í Borgarbyggð. Byggðin er staðsett í tungunni milli Hvítár og Norðurár og búa þar um 20 manns að staðaldri. Á Varmalandi er starfræktur leik- og grunnskóli fyrir aðliggjandi sveitir og 1946 var stofnsettur þar Húsmæðraskóli Borgfirðinga. Húsmæðraskólinn á Varmalandi var rekinn af heimamönnum til 1978 þegar ríkið tók við rekstri skólans, sem varð við það Hússtjórnarskólinn á Varmalandi. Ýmiss tengd starfsemi hefur verið í skólahúsnæðinu á sumrum, svo sem veitinga- og gistihús og hvíldar- og hressingarheimili. Heimavist og skóli fyrir nærliggjandi byggðir á Mýrum tók til starfa á Varmalandi 1954. Um aldamótin 1900 var byggt lítið býli, Laugaland skammt þar frá sem nú er Varmaland. Þar var síðan hlaðin upp sundlaug er naut nálægðar við jarðhita frá náttúrulegum hverum sem þar er að finna. Veggjalaug heitir stærsti hverinn sem þar er nýttur og þar rétt hjá er Minni-hver sem einnig er nýttur sem orkugjafi til margvíslegra þarfa á Varmalandi. Þriðji hverinn heitir Kvennaskólahver og er vatn hveranna, auk þess að vera notað til upphitunnar á húsakosti og sundlaug Varmalands einnig notað til umfangsmikillar ylræktunnar í þeim fjölmörgu gróðurhúsum sem þar eru starfrækt. Einar K. Guðfinnsson. Einar Kristinn Guðfinnsson (2. desember 1955) er forseti Alþingis. Einar hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 1991 og var sjávarútvegsráðherra 2005-2007 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009. Fjölskylda. Einar fæddist í Bolungarvík og ólst þar. Einar er sonur hjónanna Guðfinns Einarssonar fyrrverandi forstjóra, sem nú er látinn, og konu hans Maríu K. Haraldsdóttur, húsmóður. Eiginkona Einars er Sigrún J. Þórisdóttir, lengst af kennari en nú starfsmaður SP Fjármögnunar og á hann þrjú börn: Guðfinn Ólaf, Sigrúnu Maríu og Pétur. Nám og störf. Einar Kristinn lauk stúdentprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði vorið 1975 og gerðist þá blaðamaður Vísis, sem þá var undir ritstjórn Þorsteins Pálssonar. Voru það viðburðarík ár, enda margt að gerast á fjölmiðlamarkaðnum, s.s. stofnun Dagblaðsins – DB og aukin fjölmiðlaharka í tengslum við hið kunna Geirfinnsmál. Einar Kristinn hóf nám í stjórnmálafræði við Essex háskóla á Bretlandseyjum haustið 1977 og lauk prófi árið 1980. Einar Kristinn gerði hlé á námi sínu skólaárið 1979-80 þegar alþingiskosningar brustu óvænt á en eftir því var leitað að hann kæmi heim og blandaði sér í slaginn. Þann vetur settist hann í fyrsta sinn á þing, í hálfan mánuð. Að loknu námi sneri Einar Kristinn ásamt Sigrúnu eiginkonu sinni til Bolungarvíkur, þar sem hann vann við skrifstofustörf og síðar útgerðarstjórn hjá fyrirtækjum Einars Guðfinnssonar hf. en Sigrún sneri sér að kennslu en vann þó um skeið á skrifstofunni hjá EG hf. Störf á Alþingi. Vorið 1991 var Einar Kristinn kosinn á Alþingi og sat þá í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd og landbúnaðarnefnd. Í kosningunum árið 1995 leiddi hann framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum að loknu öflugu prófkjöri og varð eftir þær kosningar fyrsti þingmaður Vestfirðinga sem hann var allar götur síðan, eða þar til kjördæmið var lagt niður. Að loknum kosningum 1995 var Einari Kristni falinn formennska í samgöngunefnd Alþingis og sat þá jafnframt í félagsmálanefnd. Á kjörtímabilinu 1999 til 2003 var hann lengst af formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis og frá áramótum 2002/2003 tók hann við formennsku í efnahags og viðskiptanefnd. Lét Einar Kristinn þá af formennsku í sjávarútvegsnefnd en sat þar áfram auk þess að sitja í utanríkismálanefnd og sem formaður kjörbréfanefndar. Á því kjörtímabili sem hófst við kosningarnar 10. maí 2003 settist Einar Kristinn í utanríkismálanefnd og sjávarútvegsnefnd og var áfram formaður kjörbréfanefndar. Árið 1998 var Einar Kristinn kjörinn í stjórn þingflokks Sjálfstæðisflokksins og var varaformaður hans kjörtímabilið 1999 til 2003. Hann tók síðan við formennsku þingflokksins 22. maí 2003 og var þingflokksformaður til 26. september 2005. Einar Kristinn var sjávarútvegsráðherra 2005-2007 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009. Einar Kristinn var kjörinn forseti Alþingis á fyrsta þingdegi, 6. júní 2013, að loknum alþingiskosningum 2013. Einar hefur næstlengsta þingreynslu núverandi þingmanna á Alþingi, aðeins Steingrímur J. Sigfússon hefur setið lengur á Alþingi. Einar Kristinn hefur verið fulltrúi Alþingis á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU), fyrst á árinu 1991. Árið 1998 tók hann við formennsku Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins og hefur sinnt því síðan. Frá árinu 2001 hefur Einar Kristinn og verið formaður einnar af fjórum meginnefndum sambandsins; um efnahags-, viðskipta - og félagsmál. Breytingar urðu á skipulagi IPU árið 2003 og á þingi þess í Santíagó í Chile var hann kjörinn formaður einnar af helstu nefndum Alþjóðaþingmannasambandins (var fjarstaddur). Vorið 2002 kaus þing IPU Einar Kristinn síðan til þess að vinna skýrslu um fjármögnun þróunarverkefna, var skýrslan rædd og tekin afstaða tekin til hennar á þingi IPU í Genf haustið 2003. Var hún samþykkt eftir miklar, fjörugar og á tíðum harðar umræður. Þá var Einar Kristinn formaður nefndar um málefni Mið- Austurlanda á þingi IPU í Marrakesh í Marokkó á árinu 2001. Var afar vandasamt að koma þar saman sameiginlegu áliti þar sem í nefndinni sátu m.a.bæði fulltrúar Palestínuaraba og Ísraels. Félagsstörf. Einar Kristinn hefur tekið þátt í margþættu félagsstarfi. Upphafið má segja að hafi verið þegar hann var kjörinn formaður málfundafélags Menntaskólans á Ísafirði, þá sat hann í stjórn skólafélagsins, í skólastjórn sem fulltrúi nemenda og var í margvíslegu öðru félagsstarfi. Árin 1975 – 1977 sat Einar Kristinn í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna undir formennsku Friðriks Sophussonar. Sú stjórn mótaði hina merku stefnumótun sem kunn er undir nafninu Báknið burt. Gefið var út m.a. blað sem dreift var um land allt þar sem sjónarmið SUS voru kynnt og ritstýrði Einar Kristinn því. Vesturland blað vestfirskra sjálfstæðismanna og Einar Kristinn hafa átt langa samleið. Upphaflega á árunum 1977 til 1991 þegar hann ritstýrði blaðinu en síðan þá hefur Einar Kristinn oftlega annast útgáfu jólablaðs Vesturlands auk þess að ritstýra einstaka blaði, allt eftir því sem tími hefur unnist til. Á árunum 1982 til 1990 var hann formaður Fræðsluráðs Vestfjarða og um líkt leyti formaður skólanefndarinnar í Bolungarvík. Á þeim tíma sem Einar Kristinn var útgerðarstjóri EG hf. sat hann um tíma í stjórn og var í samninganefndum fyrir Útvegsmannafélag Vestfjarða og sótti nokkur þing LÍÚ. Hann varð fyrst fulltrúi á Fiskiþingi árið 1985 og sat þar til 1991 og sem stjórnarformaður Fiskifélags Íslands 1994 til 1998. Einar Kristinn sat í stjórn Byggðastofnunar árin 1995 til 2001, var formaður byggðanefndar forsætisráðherra árin 1998 til 1999, sat í hafnarráði frá árinu 1999 til 2003 og var formaður Ferðamálaráðs Íslands frá vorinu 2002 allt þar til hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra. Einar Kristinn tók árið 2004 sæti í nefnd á vegum forsætisráðherra sem hefur með stefnumótun í Evrópumálum að gera. Snælda. Snælda er handverkfæri, teinn (hali) úr tré með snúð úr tré, beini, steini eða blýi og hnokka úr eir eða járni á öðrum enda. Notað til að spinna/tvinna band. Vaðmál. Vaðmál er þykkofið ullarefni með skávend og var notað í ýmis konar klæði, ábreiður, tjöld og segl. Vaðmál til klæðagerðar var unnið í svokölluðum kljásteinavefstól. Á íslenskum sveitabæjum var vaðmál ofið bæði til heimilisnota og sem gjaldmiðill. Á miðöldum voru vöruskipti algengasti verslunarmátinn og verðgildi hluta var miðað við vaðmál (álnir vaðmáls) og kýr (kúgildi). Á þjóðveldisöld var ullin þvegin, kembd, spunnin og ofin í mislanga vaðmálsstranga. Það voru framleiddar tvær tegundir vaðmáls en það voru vöruvaðmál og hafnarvaðmál. Vöruvaðmál sem einnig var kallað vara var ódýrara og óvandaðra. Allt verðlag var miðað við alin vöru. Eitt kýrverð var metið til 120 álna vaðmáls. Vaðmál er talin ein helsta útflutningsverslunarvara Íslendinga frá tólftu öld og fram á þá fjórtándu. Flestar vörur voru verðlagðar í vaðmáli en kvikfénaður var metinn í kúgildum. Hundrað að fornu merkti fyrst 120 álnir vaðmáls þar sem hver alin skyldi vera af tilskilinni stærð og réttum gæðum. Þegar fram leið urðu tengslin við vaðmálið ógleggri og virðast vera með öllu horfin á 17. öld. Vaðmál sem ætluð voru til sparifata voru lituð úr brúnspæni og járnvitrióli og var litarefnið keypt í kaupstöðum. Spariföt voru einnig lituð svört og það gert með hellulit. Rekkjuvoðir voru úr hvítu vaðmáli og brekán úr grófu tvöföldu bandi alla vega litu. Ullarkambur. Ullarkambur er áhald til að kemba ull sem getur verið gert í höndunum eða með vél. Þegar kembt er í höndunum eru ætíð notaðir tveir kambar sem dregnir eru hvor yfir annan til að greiða úr hárunum. Rokkur. Handknúið eða fótstigið verkfæri með (all) stóru kasthjóli, til að spinna ull e.þ.h. og vinda þráðinn upp á snældu. Haukugla. Haukugla ("Surnia ulula") er meðalstór ugla af ugluætt ("Strigidae"). Haukskenningin vísar til lögunar vængjanna, sem svipa til hauksvængja, og hins langa stéls. Haukuglan er eini meðlimur ættkvíslarinnar "Surnia". Ýmsir meðlimir ættkvíslarinnar "Ninox" eru einnig kallaðir haukuglur. Haukuglan er 35–45 cm löng of hefur 69–82 cm vænghaf. Hún hefur kringluleitt höfuð og gul augu, dökkbrúna bakhlið og röndótta framhlið. Söngur hennar minnir á loftbólur og hljómar u.þ.b. eins og "lúlúlúlúlúl". Haukuglur er að finna í barrskógum tempraða beltisins, bæði í Norður-Ameríku og Evrasíu, venjulega við mörk opnari skógarsvæða. Uglurnar búa sér til hreiður í stórum holum í trjám eða nýta sér yfirgefin hreiður annarra stórra fugla. Þær hræðast menn ekki mjög, og gera árás ef komið er of nálægt ungum þeirra. Haukugla er að hluta til dægurfugl, og veiðir [voles] (þýðingar óskað) og smáfugla, m.a. þresti. Hún bíða átekta á grein og nýtir sér snöggt flug til að ná bráð sinni. Hún hefur mjög góða heyrn og getur dýft sér í snjó til að ná nagdýrum undir yfirborðinu. Haukuglan er ekki farfugl, en á það til að ferðast suður fyrir varpsvæði sín. Kljásteinn. Kljásteinn er steinn til að hengja neðan í uppistöðu í vef og halda henni strengdri. Kljásteinar geta verið náttúrulegir steinar sem gat hefur verið gert í gegnum eða steinar sem gataðir voru frá náttúrunnar hendi. Kljásteinar finnast stundum margir saman í uppgröftum og er það talin vísbending um að þar hafi staðið vefstaður. Kljásteinavefstólar eru þeir vefstólar nefndir sem notuðust við slíka steina. Slíkur vefstólll hefur einnig verið nefndur "standvefstóll" eða "steinavefstóll". Það var danski vefstóllinn sem leysti kljásteinavefstólinn af hólmi. John Backus. John Backus (3. desember 1924 – 17. mars 2007) var bandarískur tölvunarfræðingur, helst þekktur fyrir fyrsta high-level forritunarmálið (FORTRAN) og þróun á Backus-Naur form eða BNF. Backus, John Rúningur. Rúningur er sú vinna innan landbúnaðar að klippa eða reyta ull af kindum. Rúningur er í dag stundaður með vélklippum en áður voru notaðar handklippur eða hnífar. Sumar tegundir sauðfjár er hægt að reyta, enda fella þær ullina einu sinni til tvisvar á ári. Venjulega rýjar einn maður kindina, oftast leggur hann hana en sumstaðar tíðkast það að kindin standi og annar maður haldi henni eða hún bundin við staur eða annað. Byrjað er að rýja kviðinn og telst sú ull rusl eða verri ull og flokkast ekki með bak- og síðu-ullinni. Sumstaðar telst ullin af lærum kindarinnar einnig rusl, t.d. í Noregi. Næst eru klippt í klofi kindarinnar, þar næst annað lærið, oft það hægra, og upp á bak. Smám saman kemst kindin úr ullinni en rúningsmaðurinn breytir stöðu kindarinnar eftir því sem hann klippir hana. Ekki mega rúnar og órúnar kindur ganga saman ef þær síðarnefndu eiga eftir að ganga í gegnum rúninginn því rusl og ló eyðileggur ullina á henni. BNF. BNF er setningafræði sem notast er við í samhengisfrjálsri málfræði; semsé formleg aðferð til að lýsa formlegu máli. Skammstöfunin stendur fyrir Backus-Naur Form, en stóð áður fyrir Backus Normal Form. John Backus átti mikin þátt í þróun BNF en Peter Naur átti mikinn þátt í að koma BNF í almenna notkun innan tölvunarfræðinnar, og því er BNF látið standa fyrir Backus-Naur Form. BNF á sér einnig rætur í málvísindum, því málvísindamaðurinn Noam Chomsky skilgreindi samhengisfrjálsar mállýskur áður en Backus eða Naur skilgreindu BNF. Dæmi um BNF Form. ::= | () | ::= + | - | * | / Þessi BNF skilgreining lýsir máli sem inniheldur strengi sem eru segðir ("formúlur") með heiltölugildum og venjulegum reikniaðgerðum. EBNF er líka algeng aðferð til að skilgreina málfræði forritunarmála Peter Naur. Peter Naur (25. október 1928) er danskur tölvunarfræðingur og Turing-verðlaunahafi. Hann var ritstjóri á forritunarmálinu ALGOL 60 og átti mikin þátt í að koma BNF (Backus-Naur form) í almenna notkun innan tölvunarfræðinnar. Naur, Peter Blóðvökvi. Blóðvökvi ("plasma") er gulleitur vökvi sem inniheldur storkuefni, þá helst fibrín. Blóðvökvi án storkuefna kallast "sermi". Helmingur blóðs er blóðvökvi. Einnig er í blóðvökva mikið magn uppleystra salta og fjöldi jóna. Sem dæmi má nefna natríum-, kalíum-, klór- og kalsíumjónir. Ef ekki eru kalsíumjónir í blóði (Ca+2) þá storknar það ekki. Þó takmarkar það ekki blóðstorknun í líkamanum, maður væri dáinn úr kalkskorti áður en skorturinn hamlaði blóðstorknun. Þetta hefur samt hagnýta þýðingu, því að við blóðgjöf eru kalsíumjónirnar teknar úr blóðinu með sítratlausn (kalsíumsítrat er mjög torleyst) og kemur það í veg fyrir að það storkni. 1353. Myndskreyting úr flæmskri útgáfu af Tídægru frá 1432. Jákvæð játunarregla. Aðskilnaðarregla, aðskilnaðarháttur (á latínu "modus ponens") eða jákvæð játunarregla er í rökfræði form gildrar rökhendu. Fullt heiti þessarar tegundar röksemdafærslu er raunar "modus ponendo ponens" til aðgreiningar frá neikvæðri játunarreglu, "modus tollendo ponens". Hins vegar er nærri því ætíð átt við jákvæðu játunarregluna þegar talað er um "modus ponens" (játunarreglu) án nánari skilyrðingar. Röksemdafærslan hefur tvær forsendur. Fyrri forsendan er skilyrðissambandið eða „ef-þá“ setningin, nefnilega að P gefi til kynna Q. Önnur forsendan er að P, þ.e. "forliður" skilyrðissambandsins, sé sönn. Af forsendunum tveimur má álykta að Q, "bakliður" skilyrðissambandsins, hljóti að vera einnig sönn. Þótt röksemdafærslan sé gild er þó ekki víst að nein fullyrðinganna sé sönn; það að röksemdafærslur á þessu formi séu gildar segir okkur einungis að niðurstaðan hljóti að vera sönn ef forsendurnar eru báðar sannar. Það er rétt að hafa í huga að gild röksemdafærsla sem styðst við eina eða fleiri ósanna forsendu er sögð vera "ekki rétt" en ef röksemdafærslan er gild og allar forsendur hennar eru jafnframt sannar, þá er röksemdafærslan sögð vera "rétt". Neikvæð játunarregla. Neikvæð játunarregla eða "modus tollendo ponens" er í rökfræði form gildrar röksemdafærslu. Ekki má rugla "modus tollendo ponens" saman við "modus ponendo ponens" eða jákvæða játunarreglu, sem er yfirleitt kölluð einfaldlega "modus ponens". Þar sem formula_4 stendur fyrir rökfræðilega ályktun („Þess vegna q“). Í grófum atriðum er röksemdafærslan á þá leið að önnur forsendan segir að annaðhvort P eða Q hljóti að vera satt; síðan segir seinni forsendan að annar hvor liðurinn sé ósannur; við ályktum þess vegna að það hljóti að vera hinn liðurnn sem er sannur, fyrst annar hvor var sannur og búið er að útiloka annan þeirra. Með öðrum orðum játum við P með því að neita Q og þaðan er nafn reglunnar komið: neikvæð játunarregla. Skarað og óskarað eða. Í fyrra dæminu að ofan er hvort tveggja hugsanlegt að um skarað og óskarað eða sé að ræða. Ég fæ mér súpu eða salat – eða kannski fæ ég mér hvort tveggja; það að fá sér annan réttinn þarf ekki að útiloka að maður fái sér hinn réttinn líka. Hins vegar má hugsa sér samhengi eins og þar sem um tilboð á veitingahúsi er að ræða og í tilboðinu stendur manni einungis til boða að fá sér annan réttinn í forrétt; þá útilokar maður salatið ef maður fær sér súpuna og öfugt. Í seinna dæminu hér að ofan er hins vegar eðlilegt að líta svo á að um óskarað eða sé að ræða, enda geta ekki bæði liðin unnið leikin, þ.e.a.s. annaðhvort vinnur Valur eða KR en ekki bæði liðin. (Ef hvorugt liðið tapar og leikurinn endar með jafntefli, þá hefur hvorugt liðið unnið.) Á íslensku er "eða" oft tvíræð og óljóst hvort verið er að meina. Miklu munar þó þegar kemur að því að vega og meta röksemdafærslur á borð við neikvæða játunarreglu. Dæmið að ofan er af svonefndri jákvæðri neitunarreglu eða "modus ponendo tollens": okkur er kleift að neita Q með því að játa P en þó einungis að því gefnu að um óskarað eða sé að ræða í fyrri forsendunni. Ef um skarað eða væri að ræða væri ekkert hægt að álykta af forsendunum tveimur. Neikvæð neitunarregla. Neitunarháttur (á latínu: "modus tollens") eða neikvæð neitunarregla er í rökfræði form gildrar rökhendu. Fullt heiti þessarar tegundar röksemdafærslu er raunar "modus tollendo tollens" til aðgreiningar frá jákvæðri neitunarreglu, "modus ponendo tollens". Hins vegar er nærri því ætíð átt við neikvæðu neitunarregluna þegar talað er um "modus tollens" (neitunarreglu) án nánari skilyrðingar. "Modus tollens" er formlega heitið á "óbeinni sönnun". Þar sem ⊢ stendur fyrir rökfræðilega ályktun („Þess vegna er P ósönn“). Röksemdafærslan hefur tvær forsendur. Sú fyrri er skilyrðissambandið eða „ef-þá“ setningin, nefnilega að P gefi til kynna Q. Seinni forsendan er að það sé ósatt að Q. Af þessum forsendum tveimur má álykta að það hljóti að vera ósatt að P. (Hvers vegna? Því ef það væri satt að P, þá væri satt að Q skv. forsendu 1; en það er ekki satt að P skv. forsendu 2.) Gefum okkur að forsendurnar séu sannar. Ef Jón er morðinginn, þá verður hann að eiga öxi; og það er staðreynd að Jón á ekki öxi. Hvað leiðir af þessu? Að hann var ekki morðinginn. Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar röksemdafærsla er gild, þá er röklega nauðsynlegt að niðurstaðan sé líka sönn, "ef" forsendurnar eru sannar. Gefum okkur að við komumst að því að það sé ekki í raun satt að ef Jón sé morðinginn, þá verði hann að eiga öxi; kannski komumst við að því að hann gat fengið öxi lánaða hjá einhverjum öðrum. Það þýðir að fyrri forsendan er "ósönn". En það þýðir hins vegar ekki að röksemdafærslan sé "ógild", enda er það áfram satt að "ef" forsendurnar væru sannar (og í þessu tilviki eru þær það ekki af því að við breyttum dæminu), þá "yrði" niðustaðan að vera sönn líka. Röksemdafærsla getur verið gild þótt forsendur hennar séu ósannar. Með slíkum röksemdafærslum, það er að segja þar sem að minnsta kosti ein forsenda er ósönn, er hægt að fá út ósanna niðurstöðu þótt röksemdafærslan sé gild. "Modus tollens" röksemdafærslur urðu alræmdar þegar austurríski vísindaheimspekingurinn Karl Popper notaði slíka röksemdafærslu í tillögu sinni að svari við tilleiðsluvandanum. Jákvæð neitunarregla. Jákvæð neitunarregla eða "modus ponendo tollens" er í rökfræði form gildrar röksemdafærslu. Ekki má rugla "modus ponendo tollens" saman við "modus tollendo tollens" eða neikvæða neitunarreglu, sem er yfirleitt kölluð einfaldlega "modus tollens". Ef fullyrt er að önnur hvor tveggja staðhæfinga sé sönn, þá leyfir jákvæð neitunarregla manni að álykta að annar liðurinn sé ósannur ef fullyrt er að hinn sé sannur, en einungis þó ef eðunin í upphaflegu fullyrðingunni um að önnur tveggja staðhæfinga sé sönn er ósköruð. Á íslensku er "eða" oft tvíræð og óljóst hvort verið er að meina. Miklu munar þó þegar kemur að því að vega og meta röksemdafærslur á borð við neikvæða játunarreglu. Hér er jákvæðri neitunarreglu beitt: okkur er kleift að neita Q með því að játa P en þó einungis að því gefnu að um óskarað eða sé að ræða í fyrri forsendunni. Ef um skaraða eðun væri að ræða væri ekkert hægt að álykta af forsendunum tveimur. Neitun forliðar. Neitun forliðar eða neitun ef-setningarinnar er formleg rökvilla. Rök af þessu tagi heita neitun forliðar vegna þess að annað skrefið í röksemdafærslunni felst í því að neita forlið skilyrðissambandsins. Þetta er formleg rökvilla og röksemdafærslur af þessu tagi eru ógildar, enda leiðir niðurstöðuna ekki af forsendunum. Niðurstöðuna leiðir augljóslega ekki af forsendunum enda gæti niðurstaðan hæglega verið ósönn þótt báðar forsendurnar væru sannar. (Ég get verið með augun lokuð þótt ég sé ekki sofandi). Hér er fyrri forsendan sönn, jafnvel þótt Arnaldur Indriðason sé ekki forseti Íslands, því þar sem Arnaldur Indriðason er Íslendingur, þá gildir eftir sem áður að "ef" hann er forseti Íslands, þá er forseti Íslands Íslendingur. Seinni forsendan er einnig sönn, því Arnaldur Indriðason er ekki forseti Íslands. Af þessu leiðir hins vegar ekki að forseti Íslands (sem er Ólafur Ragnar Grímsson þegar þetta er skrifað) sé ekki Íslendingur. Þegar um flóknari röksemdafærslur er að ræða geta rökvillur sem þessar verið sannfærandi, t.d. vegna ruglings á "ef" og "ef og aðeins ef". Ef fyrri forsendan segir „ef og aðeins ef“ frekar en „ef“, þá er neitun forliðar ekki ógild rök. Til dæmis: Ef ég loka "alltaf" augunum þegar ég er sofandi og ég loka þeim "einungis" þegar ég er sofandi (en aldrei þegar ég er vakandi), þá gildir að ef ég er ekki sofandi, þá er ég ekki með lokuð augun. Játun bakliðar. Játun bakliðar eða Játun þá-setningarinnar er formleg rökvilla. Rökvillan felst í því að álykta á grundvelli bakliðar skilyrðissambands að forliðurinn sé sannur. Hér er fyrri forsendan sönn, jafnvel þótt Arnaldur Indriðason sé ekki forseti Íslands, því þar sem Arnaldur Indriðason er karlmaður, þá gildir eftir sem áður að "ef" hann er forseti Íslands, þá er forseti Íslands karlmaður. Seinni forsendan er einnig sönn, því Ólafur Ragnar Grímsson, sem er núverandi forseti Íslands, er karlmaður. Af þessu leiðir hins vegar ekki að Arnaldur Indriðason sé forseti Íslands. Hér er fyrri forsendan sönn, enda er enginn maður ódauðlegur. Gefum okkur að seinni forsendan sé einnig sönn. Af forsendunum leiðir ekki að Jón sé mennskur; Jón gæti til dæmis verið hundur eða köttur, hamstur eða naggrís. Í öllum tilfellum væri Jón þá dauðlegur og seinni forsendan um leið sönn en niðurstaðan væri ósönn vegna þess að hundar og kettir, hamstrar og naggrísir eru ekki manneskjur. Þetta sýnir að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum og því er um rökvillu að ræða. Athuga skal að jafnvel þótt Jón væri maður og niðurstaðan væri sönn, þá væri samt um ógilda röksemdafærslu að ræða af því að "í öllum röksemdafærslum á þessu formi" leiðir niðurstöðuna ekki af forsendunum, jafnvel þótt hægt sé að „fylla inn í eyður“ rökformsins þannig að báðar forsendurnar væru sannar og svo vildi til (eins og ef Jón væri maður) að niðurstaðan væri einnig sönn. Post hoc-rökvilla. "Post hoc ergo propter hoc" er nafn á rökvillu, sem er stundum nefnd "post hoc"-rökvillan á íslensku. Nafnið er á latínu og þýðir „á eftir þessu, þess vegna út af þessu.“ Stundum er rökvillan einfaldlega kölluð post hoc. "Post hoc"-rökvillan felst í því að gera ráð fyrir að fylgni sé vegna orsakatengsla, þ.e. að ef eitthvað gerist á eftir einhverju öðru, þá hljóti fyrri atburðurinn að hafa valdið þeim síðari. Þessi villa er oft æði freistandi vegna þess að tímaröð er innbyggð í orsakavensl — það er satt að orsökin fer ætíð á undan afleiðingunni. Vandinn liggur í því að draga ályktun einungis á grundvelli fylgninnar, sem er ekki alltaf góð vísbending um orsakatengls. Með öðrum orðum, þá er það ekki satt að undanfarandi atburður sé ávallt orsök atburðar eða atburða sem fylgja í kjölfarið. Rök af þessu tagi eru grundvöllur margskonar hjátrúar með því að tengja tvo hluti eða atburði sem tengjast ekki í raun. Til dæmis, ef maður sér pening á götunni og tekur hann upp og fær síðar góðar fregnir, þá gæti viðkomandi farið að halda að peningafundurinn hafi leitt til góðu fregnanna og kannski að peningurinn sé lukkugripur eða eitthvað slíkt, enda þótt aðeins hafi verið um tilviljun að ræða. Post hoc-villan er nátengd rökvillu sem kallast fylgnivillan en fylgnivillan kveður á um að regluleg fylgni atburða þurfi ekki að segja fyrir um orsakatengsl. Fylgnivilla. Fylgnivilla, einnig þekkt undir latnesku heiti sínu "cum hoc ergo propter hoc" (þ.e. „með þessu, þess vegna út af þessu“) er rökvilla þar sem haldið er fram að atburður sé orsök annars atburðar eða annarra atburða sem gerast samtímis honum eða í kjölfarið á honum. Fylgnivillan er afbrigði af post hoc rökvillunni; munurinn er í hnotskurn sá að post hoc rökvillan gerir ráð fyrir fáum eða einstökum atburðum en fylgnivillan felst aftur á móti í því að gera ráð fyrir að regluleg fylgni sé vegna orsakasambands á milli atburða. 1. "B" veldur "A". Þetta dæmi er auðskilið. Það er mikil fylgni á milli þess hve margir eru að slökkva eldinn og hve eldurinn er stór end það þýðir ekki að slökkviliðsmenn séu eldsupptökin. Ef eldurinn er stór þá eru fleiri slökkviliðsmenn boðaðir á staðinn en ef eldurinn er lítill. 2. Þriðji atburðurinn "C" veldur "A" og "B". Þetta er dæmi um fylgnivilluna, en að ofan er ályktað að það að fara að sofa í skónum valdi höfuðverk. Líklegra er atburður "C", eða áfengisdrykkja, hafi valdið þessu. Dæmið að ofan minnist ekki á það hvenær ís er mest seldur, þ.e. um sumarið- en það er sá tími sem flestir synda. 3. Tilviljun. Rökin fela í sér villu. Til dæmis er litið framhjá möguleikannum á að fylgnin sé tilviljun. Óháð því hversu sannfærandi tölfræðin kann að vera er eigi að síður ótækt að álykta um orsakasamband einungis á grundvelli fylgninnar. Ef neysla á súkkulaði og bólugröftur færu saman í öllum menningarsamfélögum og fylgnin héldist áratugum eða öldum saman mætti segja að hún gæfi okkur sterka vísbendingu. Eigi að síður er alltaf mögulegt að eitthvað annað en súkkulaðineyslan valdi bæði súkkulaðineyslunni og bólugreftrinum og því getur ályktun á grundvelli fylgninnar einnar aldrei verið alveg traust. 4. "A" veldur "B" og "B" veldur "A". Kjörgaslögmálið formula_1 lýsir sambandi á milli þrýstings og hita, og sýnir beina fylgni á milli beggja hluta. Ef massinn er stuðull þá mun aukinn hiti valda meiri þrýstingi, og aukinn þrýstingur mun valda meiri hita. Dæmi um fylgnivillur. Spaugilegt dæmi um rökvillu af þessu tagi var eitt sinn í þætti um "Simpson fjölskylduna" (7. þáttaröð, „Much Apu About Nothing“). Borgin hafði varið milljónum dollara í að hanna nýjar „bjarndýravarnir“ vegna þess að sést hafði til bjarndýrs á vappi í vikunni áður. Sísanna. Sísanna, röksannindi eða klifun er fullyrðing sem er nauðsynlega sönn því neitun hennar felur í sér mótsögn. Svo dæmi sé tekið: „annaðhvort dey ég fyrir fimmtugt eða ekki“. Klifun (stílbragð). Klifun, runklifun eða anafóra er stílbragð sem felst í endurtekningu orða, oft til að leggja áherslu á eitthvað. Helstu gerðir klifunar eru síklifun ("epizeuxis"), forklifun ("anafóra"), bakklifun ("epifóra") og rammaklifun ("symploke"). Klifun á ekkert skylt við stagl eða nástöðu. Veni, vidi, vici. Veni, vidi, vici (íslenska: ég kom, ég sá, ég sigraði) er fleyg lína af vörum Júlíusar Caesar, en hún var notuð til að lýsa sigurförum hans eftir bardagann um Zela. Uppsalir. Uppsalir (á sænsku "Uppsala") er borg í Svíþjóð um 70 km norðan við Stokkhólm. Uppsalir er fjórða stærsta borg Svíþjóðar, íbúar eru 130 000. Saga. Upphaflega voru Uppsalir nokkrum kílómetrum norðan við núverandi borgarstæði. Það svæði er nú nefnt "Gömlu Uppsalir" ("Gamla Uppsala"), núverandi svæði var nefnt "Eystri Árósar" ("Östra Aros"). Samkvæmt miðaldaheimildum, sérlega Adam af Brimum, voru Gömlu Uppsalir miðstöð ásatrúar í Svíþjóð, meðal annars eru til lýsingar á stórum styttum af ásunum í aðalhofinu. Eftir kristnitöku á 11. öld hætti dýrkun á ásunum og í þeirra stað urðu Uppsalir mikilvæg miðstöð kirkjunnar. Erkibiskupsdæmi Svíþjóðar var stofnað í Uppsölum árið 1164. Núverandi Uppsalir voru upphaflega hafnarstaður Gömlu Uppsala. Árið 1274 tóku Eystri Árósar við hlutverki Gömlu Uppsala þegar upphafleg dómkirkja brann og erkibiskupsdæmið var flutt. Samtímis hófst bygging Dómkirkjunnar í Uppsölum sem stendur enn. Er hún byggð í dæmigerðum gotískum stíl og er ein stærsta kirkja í Norður-Evrópu með 118 m háum turnum. Elsti og ef til vill virtasti háskóli á Norðurlöndum er Háskólinn í Uppsölum, sem stofnaður var 1477. Við háskólann er meðal annars frægur grasagarður sem stofnaður var af jurtafræðingnum Carl von Linné. Fjölmargir íslendingar hafa stundað nám við háskólann. Efnahagslíf. Fyrir utan háskólann og háskólasjúkrahúsið, sem mjög setja svip á borgina, eru rannsóknir tengdar líftæknifræði og eins lyfjaframleiðsla mikilvægir þættir í efahags- og atvinnulífi Uppsala. Skammtafræði. Skammtafræði eða skammtaaflfræði er sú grein innan kennilegrar eðlisfræði sem fjallar um eðli öreinda og rafsegulbylgja. Skammtafræðin reis upp úr eðlisfræði 19. aldarinnar þegar eðlisfræðingar voru farnir að fá mæliniðurstöður sem stönguðust á við sígildu eðlisfræði eins og t.d. svarthlutageislun, litróf frumeinda og fleiri mælingar. Kenningar hennar eru grundvöllur ýmissa faga innan eðlis- og efnafræðinnar, svo sem kjarneðlisfræðinnar, öreindafræðinnar og rafsegulfræðinnar. Helstu frumkvöðlar skammtafræðinnar voru Max Planck, Albert Einstein, Niels Bohr, Werner Heisenberg, Max Bonn, Erwin Schrödinger og fleiri. Orðsifjar. "Skammtafræði" fékk nafn sitt frá því að mælistærðir eins og orka eða hverfiþungi geta ekki alltaf tekið hvaða gildi sem og nefnist það "skömmtun" („"quantization"“ á ensku). Sígild eðlisfræði. Sígild eðlisfræði er samheiti yfir nokkrar greinar eðlisfræðinnar. Yfirleitt er talað um þá eðlisfræði sem var til á 19. öld sem sígild eðlisfræði og þá er átt við um sígildra aflfræði, rafsegulfræði, varmafræði og ljósfræði. Öreindafræði. Öreindafræði eða háorkueðlisfræði er grein innan eðlisfræðinnar, sem reynir að lýsa eiginleikum og víxlverkun efnis og geislunar. Staðallíkanið lýsir öreindum og víxlverkun þeirra. Einnig er fjallað um grunnkraftana fjóra: sterka og veika kjarnakraftinn, rafsegulkraftinn og þyngdarkraftinn. Við rannsóknir í öreindafræði eru notaðir orkumiklir eindahraðlar, sem skjóta samstæðum öreindum, t.d. róteindum af miklu afli þannig að þær rekast hverjar á aðra. Við áreksturinn myndast aragrúi annarra einda sem eru rannsakaðar nákvæmlega til að fá vitneskju um innri gerð eindanna sem rákust saman. CERN er stærsta öreindarannsóknastofa í heimi, en hún er norðvestur af Genf í Sviss á landamærum Frakklands og Sviss. Stóri sterkeindahraðallinn liggur um bæði löndin. Þétteðlisfræði. Þétteðlisfræði eða storkufræði er víðtæk grein innan eðlisfræðinnar, sem fjallar um stórsæja eiginleika þéttefnis, t.d. rafleiðni, fasaskipti og seguleiginleika og beitir aðferðum skammtafræðinnar til að tengja saman smá- og stórsæja eiginleika þéttefnis. Gallblaðra. Gallblaðra er perulaga líffæri sem mörg spendýr hafa og geymir gall þangað til líkaminn þarf á því að halda. Lifrin myndar gall til að hjálpa til við meltingu á fæðu en stundum of mikið af því og þá geymist umframmagn þess í gallblöðrunni. Skeifugörnin sér síðan um að mynda hormón sem segja gallblöðrunni hvenær hún á að losa gall inn í meltingarkerfið. Algengur sjúkdómur tengdur gallblöðrunni eru gallsteinar sem eru litlar saltagnir sem myndast í gallblöðrunni og sanka að sér kólestróli þangað til gallblaðran fer að bólgna út og veldur sársauka. Rím. Rím nefnist það þegar orð eða orðhlutar hljóma saman, t.d. góður - rjóður; sveit - leit. Sé rímorð eitt atkvæði kallast það "einrím" eða "karlrím" en séu rímorð tvö atkvæði er það kallað "tvírím" eða "kvenrím". Þriggja atkvæða rím kallast "þrírím" eða "veggjað rím". Rím getur einnig verið hálfrím, sem einnig er nefnt sniðrím eða skothent rím og þá eru sérhljóð rímorða ekki eins, aðeins samhljóðin. Sem dæmi má nefna land og grund og einnig þvaðra og hnoðri. Víxlrím er það þegar 1. og 3. lína ríma saman, 2. og 4. lína ríma saman o.s.frv. Runurím er það þegar t.d. 1. og 2. lína ríma saman, 3. og 4. lína ríma saman o.s.frv. Gild röksemdafærsla. Í rökfræði er röksemdafærsla gild ef og aðeins ef niðurstöðuna leiðir af forsendunum, en annars er hún "ógild". Gert er ráð fyrir að af sönnum forsendum leiði aldrei ósannindi og því gildir að ef röksemdafærsla er gild, þá er ómögulegt að forsendurnar séu sannar en niðurstaðan ósönn. Ef form röksemdafærslunnar er slíkt að það er hægt að finna a.m.k. eitt dæmi þess að röksemdafærsla á því formi hafi einungis sannar forsendur en jafnframt ósanna niðurstöðu, þá er röksemdafærslan ógild. Dæmi. Röksemdafærslur á þessu formi eru gildar; það er ómögulegt að forsendurnar séu báðar sannar en niðurstaðan jafnframt ósönn. Rétt röksemdafærsla. Í rökfræði er röksemdafærsla rétt ef og aðeins ef Rétt röksemdafærsla. Röksemdafærslan er "gild" vegna þess að niðurstöðuna leiðir af forsendunum (það er ómögulegt að forsendurnar séu báðar sannar en niðurstaðan samt ósönn) og hún er auk þess "rétt" vegna þess að báðar forsendurnar eru sannar. Gildar en ekki réttar röksemdafærslur. Niðurstaða þessarar röksemdafærslu er ósönn (George Bush er Bandaríkjamaður en ekki Íslendingur). Röksemdafærslan er eigi að síður "gild" vegna þess að niðurstöðuna leiðir af forsendunum – "form" röksemdafærslunnar er slíkt að það er óhugsandi að "ef" forsendurnar eru báðar sannar geti niðurstaðan samt verið ósönn; í þessu tilviki eru forsendurnar ekki báðar sannar, því það er ósatt að allir menn séu Íslendingar. Og þar með er röksemdafærslan ekki "rétt" þótt hún sé gild, því réttar röksemdafærslur eru einungis gildar röksemdafærslur þar sem "allar forsendurnar eru sannar". Hér er enn á ný gild röksemdafærsla, á sama formi og báðar röksemdafærslurnar að ofan. Ólíkt seinni röksemdafærslunni að ofan er niðurstaða þessarar röksemdafærslu sönn, samt er þessi röksemdafærsla ekki "rétt", ólíkt fyrri röksemdafærslunni að ofan. Þessi röksemdafærsla er gild vegna þess að niðurstöðuna leiðir af forsendunum (það er engin leið að forsendurnar séu báðar sannar en niðurstaðan jafnframt ósönn); hér er niðurstaðan sönn og síðari forsendan einnig en fyrri forsendan er hins vegar ósönn (því það eru ekki öll dýr fjórfætt) og þar með er röksemdafærslan ekki "rétt", þótt hún sé "gild" og hafi sanna niðurstöðu. Lucius Annaeus Seneca. Lucius Annaeus Seneca (stundum nefndur Seneca yngri eða bara Seneca) (um 4 f.Kr. – 65 e.Kr.) var rómverskur heimspekingur, stjórnmálamaður og rithöfundur á skeiði síðklassískrar latínu. Ævi. Seneca fæddist í Córdoba á Spáni. Hann var annar sonur Helviu og Marcusar (Luciusar) Annaeusar Senecu (Senecu eldri), sem var auðugur mælskufræðingur. Eldri bróðir Senecu, Gallio, varð landstjóri í Grikklandi (þar sem hann hitti Pál postula um árið 52). Seneca var frændi skáldsins Lucanusar, sem var sonur yngri bróður Senecu, Annaeusar Mela. Sagan hermir að Seneca hafi verið óheilsuhraustur í æsku og hann hafi verið sendur til Rómar í nám. Hann hlaut þjálfun í mælskufræði og kynntist stóuspeki hjá Attalosi og Sotioni. Vegna veikinda sinna dvaldi Seneca í Egyptalandi árið 25-31 og hlaut meðferð þar. Þegar hann sneri aftur hóf hann feril sem lögmaður og náði nokkrum árangri. Um árið 37 var hann næstum því drepinn vegna deilu við keisarann Caligula, sem hlífði honum einungis vegna þess að hann taldi að hinn veiklulegi Seneca yrði ekki langlífur hvort sem er. Árið 41 sannfærsði Messalina, eiginkona Claudiusar keisara, mann sinn um að senda Senecu í útlegð til Korsíku vegna framhjáhalds við Juliu Livillu. Í útlegðinni fékkst hann við heimspeki, náttúrufræði og skriftir. Árið 49 lét fjórða eiginkona Claudiusar, Agrippina yngri, kalla Senecu aftur heim til Rómar til þess að kenna syni hennar, Luciusi Domitiusi, sem seinna varð Neró keisari. Þegar Claudius lést árið 54 tryggði Agrippina að Neró yrði hylltur sem keisari í stað sonar Claudiusar, Britannicusar. Fyrstu fimm árin, "quinquennium Neronis", stjórnaði Neró vel og var undir áhrifum frá Senecu og Sextusar Afraniusar Burrusar. En áður en langt um leið höfðu Seneca og Burrus glatað áhrifum sínum á Neró og stjórn hans varð gerræðislegri. Þegar Burrus lést árið 62 settist Seneca í helgan stein og varði tíma sínum æ meira í fræðimennsku og skriftir. Árið 65 var Seneca sakaður um að eiga aðild að samsæri um að ráða Neró af dögum, pisoníska samsærinu. Engin réttarhöld voru haldin en Neró fyrirskipaði Senecu að svipta sig lífi. Sagnaritarinn Tacitus gerir grein fyrir sjálfsmorði Senecu. Þegar Seneca var látinn ætlaði eiginkona hans, Pompeia Paulina, að svipta sig lífi einnig en Neró dæmdi hana til lífs og neyddi hana til þess að lifa. Ritverk. Meðal ritverka sem Senecu eru eignuð eru satíra, ritgerð um veðurfræði, fjöldi heimspekilegra ritgerða og bóka, 124 bréf (bókmenntaform ekki sendibréf) um siðfræðileg efni og níu harmleikir. Einn af harmleikjunum sem honum eru eignaðir, "Octavia", er greinilega ekki réttilega eignaður honum. Honum bregður þó fyrir í leikritinu. Deilt er um það hvort hann hafi verið höfundur annars harmleikanna, "Hercules". Í heimspeki var Seneca stóumaður. Hann lagði áherslu á hagnýtingu spekinnar svo að hún gagnaðist lesandanum í lífinu. Hann taldi einkum og sér í lagi mikilvægt að maður horfðist í augu við eigin dauðleika. Mörg bréfanna fjalla um hvernig maður skyldi nálgast dauðann. Harmleikir Senecu. Ómögulegt er að segja hvort harmleikirnir voru einhvern tímann uppfærðir eða ekki: engar vísbendingar benda til þess né heldur mælir nokkuð gegn því. þýski fræðimaðurinn Leo komst að þeirri niðurstöðu að harmleikir Senecu væru lestrarleikrit, þ.e. leikrit einkum ætluð til lestur. Leikritin hafa þó verið sett á svið í nútímanum. Erfitt er að ákvarða hvenær harmleikirnir voru samdir enda er hvergi vísað til þeirra í öðrum rituðum heimildum frá fornöld. Lögð hefur verið til afstæð tímaröð leikritanna á bragfræðilegum grundvelli en fræðimenn eru enn ekki á einu máli um það. Óhugsandi er að þeir hafi allir verið ritaðir sama árið. Harmleikir Senecu eru ekki byggðir beint á grískum harmleikjum og þótt áhrifa Evripídesar gæti sumstaðar eru megin áhrifin eigi að síður frá Óvidíusi. Leikrit Senecu voru mikið lesin í evrópskum háskólum á miðöldum og höfðu því mikil áhrif á leikritun á endurreisnartímanum, einkum á enskar bókmenntir. "Ekki er fullvíst um öll ártöl" Seneca húmanisti. Ýmsir höfundar á miðöldum töldu að Senecu hefði verið snúið til kristinnar trúar af Páli postula og sumir húmanistar litu á baðið þar sem hann svipti sig lífi sem eins konar dulda skírn. Dante Alighieri hafði Senecu eigi að síður í helvíti í "Gleðileiknum guðdómlega". Tenglar. Seneca, Lucius Annaeus Seneca, Lucius Annaeus Rondó (útvarpsstöð). Rondó er útvarpstöð sem Ríkisútvarpið sendir stafrænt út á höfuðborgarsvæðinu, einnig er hún send út í gegnum netið frá heimasíðu RúV. Útvarpstöðin sendir aðeins út klassíska tónlist og djass. Kurt Cobain. Kurt Donald Cobain (20. febrúar 1967 – 5. apríl 1994) var söngvari, gítarleikari og lagasmiður rokkhljómsveitarinnar Nirvana. Kurt Cobain var ekki bara góður að semja tónlist heldur var hann mjög flínkur að teikna og mála. Árið 1991 kom frægasta lag Nirvana út og heitir það „Smells Like Teen Spirit“ og önnur fræg lög eftir hann eru til dæmis „About A Girl“, „Come As You Are“, „Lithium“ og „Rape Me“. Kurt Cobain var giftur söngkonunni Courtney Love og átti eitt barn með henni sem heitir Frances Bean Cobain. Þann 5. apríl 1994 fyrirfór Kurt Cobain sér. Cobain, Kurt Són. Són er íslenskt tímarit um óðfræði sem hóf göngu sína árið 2003 og kemur út einu sinni á ári. Í ritinu er fjallað um ljóðagerð og kveðskap í aldanna rás. Þar eru einnig birt frumsamin og þýdd ljóð. Ritið dregur nafn af kerinu Són sem var eitt þriggja íláta sem skáldamjöðurinn var varðveittur í til forna, eftir því sem segir í Snorra-Eddu. Ritstjórar eru Kristján Eiríksson, Rósa Þorsteinsdóttir og Þórður Helgason. Af Són eru komin út átta hefti (2011). La Tradukisto. La Tradukisto ("Þýðandinn") er tímarit á esperantó sem kom fyrst út 12. mars 1989 á hundrað ára afmæli rithöfundarins og esperantistans Þórbergs Þórðarsonar og er ritið helgað honum. Kristján Eiríksson hóf að gefa út La Tradukisto fyrir nemendur sína í Menntaskólanum að Laugarvatni og var það þá aðeins 8 blaðsíður skrifaðar á ritvél. La Tradukisto kemur út þrisvar á ári eins og í upphafi: 12. mars, 12. júlí og 12. nóvember. Standa þessar dagsetningar ætíð á haus blaðsins þótt oft seinki útgáfunni eitthvað. Blaðið hefur stækkað með árunum og hefur frá og með 29. hefti verið 24 blaðsíður fyrir utan kápu. Flestir áskrifenda eru Íslendingar en upp á síðkastið hafa allmargir útlendingar farið að kaupa ritið og á það sér nú áskrifendur í 24 þjóðlöndum utan Íslands. La Tradukisto er tvískipt tímarit. Þýðingar úr íslensku á esperanto spanna um það bil tvo þriðju hluta ritsins en þýðingar úr esperanto á íslensku um þriðjung. La Tradukisto er eina tímarit á Íslandi sem eingöngu birtir þýðingar. Blaðið er gefið út á Laugarvatni. Freigáta. Franska freigátan "La Boudeuse" um 1766. Freigáta er heiti sem notað hefur verið yfir ýmsar tegundir herskipa í gegnum tíðina. Á skútuöld komu freigátur fram á sjónarsviðið undir lok 17. aldar sem herskip með tvö dekk þar sem aðeins það efra var byssudekk en það neðra hýsti áhöfnina. Freigátur voru því minni en orrustuskip þess tíma sem voru með tvö byssudekk. Freigátur voru fullbúin skip, hraðskreiðar og þóttu mjög meðfærilegar. Þær voru yfirleitt þrímastra með trjónu að framan, en lausar við íburðamikla kastala sem einkenndu fyrri skipstegundir. Á síðari hluta 19. aldar var hætt að nota þetta heiti og skip sem áður voru kölluð freigátur voru kölluð beitiskip. Eftir Síðari heimsstyrjöldina eru herskip sem eru minni en tundurspillir en stærri en korvettur kölluð freigátur. Pink Floyd. Pink Floyd er bresk rokkhljómsveit. Hún er ein frægasta og áhrifamesta sveit allra tíma en plötur þeirra m.a "Dark Side of the Moon" og "The Wall" eru með frægari plötum nútímans og er Dark Side of the Moon líka með söluhærri plötum í heiminum. Pink Floyd var upp á sitt besta á 8. áratug tuttugustu aldar. Stofnun Pink Floyd. Árið 1964 stofnuðu vinurnir og skólafélagarnir Roger Waters, Richard Wright og Nick Mason hljómsveit sem hét Sigma 6. Þeim gekk ekki vel að koma sér á framfæri og næstu tvö árin skiptu þeir oft um nafn á sveitinni og fengu til liðs við sig ýmsa hljóðfæraleikara. Þeim byrjaði ekki að ganga vel fyrr en um haustið 1966 þegar Roger skipti af gítar yfir á bassa og þeir fengu gítarleikarann Syd Barrett til liðs við sig. Syd stakk upp á því að þeir breyttu nafninu á hljómsveitinni úr Sigma 6 í The Pink Floyd Sound, eftir blúslistamönnunum Pink Anderson og Floyd Council. Hét hljómsveitin svo um tíma en síðan var nafnið stytt í Pink Floyd. Stuttu eftir að Syd byrjaði í sveitinni tóku þeir upp sína fyrstu smáskífu, „Arnold Layne“. Þann 5. ágúst árið 1967 sendu þeir frá sér plötuna "The Piper at the Gates of Dawn" og með henni öðluðust þeir töluverðar vinsældir sem neðanjarðarhljómsveit í London. Stuttu áður en þeir ætluðu að leggja af stað í tónleikaferð til Bandaríkjanna til að fylgja eftir plötunni veiktist Syd alvarlega vegna ofnotkunar á LSD. Var það ekki í fyrsta skiptið sem hann veiktist út af eiturlyfjanotkun. Í lok ársins 1967, réðu þeir svo David Gilmour, sem var æskuvinur Rogers og Syds, sem varagítarleikara, ef ske kynni að Syd yrði of dópaður til að geta spilað. Gerðist það æ oftar að Syd gat ekki spilað og á endanum var Gilmour ráðinn sem aðalgítarleikari hljómsveitarinnar en Syd hafður baksviðs. Hljómsveitin reyndi að halda í Syd, að því að hann samdi flest öll lögin sem þeir gáfu út, en að lokum urðu þeir samt að láta hann fara því að LSD-neyslan hafði gert hann geðveikan. Pink Floyd án Syd Barrets. Eftir að Syd hætti átti sveitin frekar erfitt með að fóta sig aftur og er það líklegast ástæðan fyrir því að árið 1968 gerðist frekar lítið hjá henni, þeir gáfu út eina smáskífu, „More“, sem Barbet Schroders hafði beðið þá að semja fyrir samnefnda kvikmynd sína. Myndin og smáskífan urðu vinsæl í Evrópu. Árið 1969 gáfu þeir út tvöfalda plötu sem hét "Ummagumma". Platan innihélt sóló-stúdíólög sem hver meðlimur sveitarinnar hafði samið og tónleikaupptökur. Snemma á árinu 1970 sendu þeir frá sér nýja plötu, "Atom Heart Mother", sem kom út 5. nóvember og innihélt m.a. lagið „If“. Varð sú plata býsna vinsæl. Allt næsta árið þar á eftir fór í gerð plötu sem nefndist "Meddle" og kom hún út 11. nóvember 1971. Á henni voru m.a. lögin „One Of These Days“ og „Echoes“. Allir meðlimir Pink Floyd hafa sagt að það hafi fyrst verið á "Meddle, sérstaklega í „Echoes“ (sem er 23 mínútur að lengd), sem sveitin áttaði sig á því hvert þeir vildu stefna tónlistarlega séð. Árið 1972 hélt Pink Floyd tónleika í Pompeii sem voru teknir upp og gefnir út og fengu nafnið "Live At Pompeii". Gullaldartímabil Pink Floyd. Árið 1973 var mjög stórt ár í sögu sveitarinnar, en það ár gáfu þeir út sína áttundu breiðskífu, "Dark Side of the Moon". Hún er næst söluhæsta breiðskífa allra tíma, á eftir "Thriller" með Michael Jackson. Platan er líka sú plata sem hefur verið lengst á bandaríska topp 200-listanum, en alls var hún þar í 724 vikur, eða í rúm 14 ár. Með lög á borð við „Time“, „Money“, „Us And Them“, „Brain Damage“, „The Great Gig In The Sky“ og „Eclipse“ tókst Pink Floyd endanlega á ná af sér neðanjarðarstimplinum og verða að heimsfrægri stórhljómsveit. Næsta plata sveitarinnar var "Wish You Were Here" en hún kom út 15. september 1975. Var platan tileinkuð Syd Barret. Hún náði líka gríðarlegum vinsældum og komst meðal annars í fyrsta sætið á Billboard-vinsældalistanum. Meðan á tökum á plötunni stóð hafði Syd komið óvænt í heimsókn til þeirra til að óska þeim til hamingju með velgengni þeirra. Hann var mjög illa farin, hann hafði rakað öll hár af hausnum á sér, líka augnbrýrnar (það var vitnað í þetta í myndinni "The Wall", þar sem aðalsögupersónan, Pink rakar af sér augnbrýrnar) og var orðin svo feitur að hljómsveitin þekkti hann ekki í fyrstu. Roger tók þessa heimsókn mjög nærri sér og ákvað hann að semja lag um Syd; „Shine On You Crazy Diamond“. Lögin á plötunni eru fimm: „Shine On You Crazy Diamond partur 1“, „Welcome To The Machine“, „Have A Cigar“, „Wish You Were Here“ og „Shine On You Crazy Diamond partur 2“ og urðu þau öll vinsæl, en sérstaklega „Wish You Were Here“ og báðir partar „Shine On You Crazy Diamond“. Næsta platan, "Animals", kom út einu og hálfu ári eftir "Wish You Were Here" og innihélt hún tvö lög sem Roger Waters vildi ekki hafa á Wish You Were Here-plötunni; „Dogs“ og „Sheep“. Platan er sérstök að því leiti að hún fjallar um mismunandi gerðir af fólki og er hverjum hóp líkt við ákveðna dýrategund. Platan varð nokkuð vinsæl, en ekki næstum því eins vinsæl og fyrri plöturnar tvær. Árið 1978 tók sveitin stutt hlé því David og Rick voru að taka upp sólóplötur. Á meðan hafði Roger samið tvær plötur. Sú fyrri þeirra þótti ekki nógu góð en varð samt sólóplata Rogers, "The Pros and Cons of Hitch-hiking". Seinni platan var hins vegar betri og fékk hún heitið "The Wall". Hún kom út 30.nóvember 1979. Platan var tvöföld og innihélt hún mörg af frægustu lögum Pink Floyd, eins og t.d. „Another Brick in the Wall, Pt. 2“, „Mother“, „Hey You“ og „Comfortably Numb“, en gítarsólóið í því lagi er af mörgum talið vera það besta sem nokkur tímann hefur verið samið. Rick Wright hætti í hljómsveitinni á meðan upptökum á "The Wall" stóð vegna ádeilna milli þeirra Roger. Þann 26. febrúar fór sveitin tónleikaferðalag til að fylgja plötunni eftir. Voru tónleikarnir í leikhússtíl þar sem meðal annars var reistur veggur þvert yfir sviðið. Rick spilaði með á tónleikaferðalaginu og fékk laun fyrir. Kvikmynd var gerð um plötuna og kom hún út árið 1982. Var henni leikstýrt af Alan Parker og Bob Geldof lét aðalhlutverkið. Seinna á árinu kom út platan "The Final Cut" (sem upphaflega átti að heita "Spare Bricks") sem innihélt lög sem ekki komust á "The Wall". Þegar þarna var komið við sögu var sambandið milli meðlima hljómsveitarinnar orðið frekar stirt. Þeir gáfu ekki út fleiri plötur og árið 1984 hættu þeir. Pink Floyd án Roger Waters og lok hljómsveitarinnar. Ekkert gerðist í tvö ár, en árið 1986 talaði David við Nick um endurkomu sveitarinnar. Roger varð ekki ánægður með það og fór í mál við þá um tónlistina og nafnið sjálft. Hann tapaði málinu en fékk rétt til að spila Pink Floyd-lög á eigin tónleikum og einnig fékk hann eignarrétt yfir "The Wall" og "The Final Cut". Árið 1987 kom svo út platan "A Momentary Lapse of Reason" sem innihélt 10 lög. David samdi flest öll lögin á plötunni og tók við af Roger sem aðallagahöfundur sveitarinnar. Eftir að platan kom út fengu þeir Rick Wight aftur til liðs við sig og fór hann með þeim á túrinn sem fylgdi plötunni. Sjö árum síðar kom síðan út platan "The Division Bell" sem innihélt meðal annars lagið „High Hopes“. Tónleikaferðalagið sem fylgdi var sex mánaða langt og á því spiluðu þeir "Dark Side of the Moon" en það höfðu þeir ekki gert í 20 ár. Á þessu ferðalagi voru líka teknir upp einir tónleikar sem fram fóru á Earls Court-vellinum í London. Tónleikarnir voru gefnir út á geisladisk og DVD og er þetta eina upptakan sem til er af Pink Floyd að flytja Dark Side Of The Moon. Eftir tónleikaferðalagið hætti sveitin síðan. 16. janúar 1996 fékk Pink Floyd inngöngu í The Rock and Roll Hall of Fame ásamt David Bowie og fleirum. Pink Floyd kom svo saman aftur 2. júlí árið 2005 á Live 8-tónleikunum í Hyde Park í London. Roger Waters spilaði líka með og var það í fyrsta skiptið í 24 ár sem hljómsveitin spilaði öll saman. Roger Keith „Syd“ Barrett lést úr krabbameini 7. júlí í 2006. Hann var 60 ára gamall. Hann átti hvorki konu né börn. Syd hafði þjáðst af geðveiki frá því hann hætti í Pink Floyd. Útgefið efni. Í heildina hefur Pink Floyd gefið út yfir 30 plötur og smáskífur. Ættbálkur (flokkunarfræði). Ættbálkur er flokkunarfræðilegt hugtak sem á við um hóp dýra sem öll tilheyra sama flokki. Innan hvers ættbálks geta verið mismunandi ættir. Ætt (flokkunarfræði). Ætt er flokkunarfræðilegt hugtak sem lýsir hóp dýra sem öll tilheyra sama ættbálki. Innan hverrar ættar geta verið mismunandi ættkvíslar. Maður. Maður (fræðiheiti: "Homo sapiens sapiens", hinn vitri vitiborni maður) er tegund prímata sem ganga uppréttir á tveimur fótum ólíkt öðrum prímötum. Þeir hafa afar þróaðan og flókinn heila sem gerir þeim kleift að beita rökhugsun, tungumálum og sjálfsskoðun. Vitsmunir og frjálsar hendur hafa leitt til þess að þeir nota fleiri verkfæri, og í meiri mæli, en nokkur önnur þekkt tegund. Þróun mannsins spannar allt að 7 milljónir ára. Líkt og flestir prímatar eru menn forvitnir að eðlisfari. Menn eru sérstaklega leiknir í því að nýta sér samskiptakerfi til sjálfstjáningar og skoðanaskipta. Mennirnir skapa flókin samfélagsmynstur uppbyggð af hópum sem annaðhvort vinna saman eða eru í samkeppni hver við aðra og ná allt frá fjölskyldum til heilla þjóða. Samskipti manna hafa myndað fjölbreytilegar siðvenjur, athafnir, siðareglur, gildi, félagslega staðla og lögmál sem eru hornsteinar mannlegs samfélags. Menn hafa einnig skýra velþóknun á fegurð og fagurfræði, sem hefur í sambland við þörf þeirra eftir sjálfstjáningu leitt til menningarlegrar nýsköpunar eins og lista, bókmennta og tónlistar. Mennirnir eru einnig þekktir fyrir þörf sína til að skilja og hafa áhrif á umheiminn í kringum sig. Þeir leitast við að skilja og stjórna náttúrulegum ferlum í gegnum trúarbrögð, vísindi, heimspeki og goðafræði. Þessi náttúrulega forvitni hefur leitt til þróunar háþróaðra verkfæra og kunnáttu. Mennirnir eru eina tegundin sem kann að kveikja eld, sem matreiðir fæðu sína, klæðir sig og notar ýmsar aðrar tæknilegar aðferðir. Karlkyns maður nefnist karl, en kvenkyns maður kona. Heymor. Heymor kallast það hey og annað rusl sem sest í ull sauðkinda. Mikið heymor rýrir ullina mjög, og bændur sem selja ull reyna að hafa hana sem hreinasta til að auka sölumöguleika hennar. Erfitt er að hreinsa heymor úr ullinni og því getur heymorið jafnvel haldist í henni þar til búið er að marghreinsa hana. Stækjugula (stækja), heymor og þóf (til dæmis þófasneplar úr eldra reyfi) eru helstu meðferðargallar á íslenskri ull. Red Hot Chili Peppers. Red Hot Chili Peppers er bandarísk rokkhljómsveit frá Los Angeles í Kaliforníu. Hljómsveitin var stofnuð af þeim Anthony Kiedis, Michael 'Flea' Balzary, Jack Irons og Hillel Slovak. Árin 1983 - 1990. Hljómsveitin var stofnuð árið 1983 og hét þá "Tony Flow and the Miraculously Majestic Masters of Mayhem" en nafnið breytist fljótt í "Red Hot Chili Peppers". Fjórmenningarnir söfnuðu í kringum sig stórum hópi aðdáenda miðað við að þeir höfðu ekki enn gefið út plötu, fólki fannst gaman af þessari hljómsveit aðallega útaf brjáluðum sviðsframkomum og hvað það var mikið stuð á tónleikum með þeim. Sem dæmi komu þeir oft fram alveg naktir eða með sokka á kynfærunum. Árið 1983 sömdu þeir við upptökufyrirtæki en Irons og Slovak hættu í bandinu til að einbeita sér að öðru verkefni þeirra, "What Is This?". Inn komu í staðin Cliff Martinez á trommur og Jack Sherman á gítar. Þeirra fyrsta plata sem bar nafnið Red Hot Chili Peppers, en hún kom út árið 1984. Platan olli aðdáendum vonbrigðum og var talið að Andy Gill, upptökustjóri, hafi ekki staðið sig vel og ekki náð að fanga andann sem áður hafði komið fram á tónleikum sveitarinnar. Tónleikaferðalagið í kjölfar plötunnar olli líka vonbrigðum vegna vandamála á milli gítarleikarans Sherman og hinna í hljómsveitinni, sem endaði að með því að hann var rekinn árið 1985. Þetta olli því hins vegar að Slovak kom aftur í bandið. Árið 1986 tók George Clinton (úr Parliament-Funkadelic) við upptökustjórnun og þeir félagar Kiedis, Flea, Slovak og Martinez tóku upp undir stjórn Clintons, plötuna "Freaky Styley". Plötunni var lýst sem fönki í hröðum pönk stíl. Platan innihélt meðal annars endurgerð af lagi Sly & the Family Stone, "If You Want Me To Stay", og smellina "Jungle Man" og "Catholic School Girls Rule", sem áttu eftir að heyrast í útvarpsstöðvum framhaldsskóla. Platan náði þó ekki til almennings. Sama ár yfirgaf Martinez bandið, fljótlega eftir útgáfu "Freaky Styley" og Jack Irons hlaut hlutverk trommuslagara á ný. Næsta plata var gefin út í september 1987 og var tekin upp af Michael Beinhorn. Sú plata fékk nafnið "The Uplift Mofo Party Plan" og var eina platan sem hinir fjórir upprunalega Red Hot Chili Peppers meðlimir tóku upp saman. Þessi plata var fyrsta plata þeirra til að komast á topp 200 listan í Billboard, samt sem áður var velgengni plötunnar ekki eins mikil og hún hefði getað verið. Hljómsveitin hélt í tónleikaferðalag til Evrópu í fyrsta sinn en fíkniefna-vandamál Slovaks urðu til þess að hann varð næstum rekinn. Hann náði sér samt á strik á ferðalaginu um Evrópu 1988 og öll vandamál virtust leyst. En þann 27. júni ’88 fannst Slovak látinn í íbúðinni sinni eftir að hafa tekið of stóran skammt af heróíni. Irons hætti skömmu síðan því hann vildi ekki halda áfram vegna dauða vinar síns. Kiedis og Flea ákváðu að halda áfram með bandið og fengu til sín þá D.H. Peligro á trommur og Dwayne 'Blackbird' McKnight á gítar. Þeir stoppuðu samt stutt og fljótlega voru þeir Chad Smith (trommur) og John Frusciante (gítar) komnir í bandið. Næsta plata þeirra, "Mother’s Milk" einkenndist af fönki, rappi, metal og jazzi og kom út í ágúst 1989. Á plötunni er lag Jimi Hendrix, "Fire", spilað og er það seinasta upptakan sem tekin var með Slovak. Fyrsta lagið þeirra sem náði á top 10 lista í Bandaríkjunum, "Knock Me Down", Stevie Wonder lagið "Higher Ground", lagið "Magic Johnson" (tileinkað uppáhalds körfuboltafélggi þeirra; L.A. Lakers), "Stone Cold Bush" og "Pretty Little Ditty" náðu að koma hljómsveitinni á blað í tómlistarheiminum. Þeir ferðuðust um allan heim í níu mánuði og nutu gífurlegra vinsældra. Árin 1990-2006. Red Hot Chili Peppers réðu Rick Rubin til að taka upp fimmtu plötuna. Sú plata, "Blood Sugar Sex Magik", var tekin upp 1991 og gefin út í september, átti eftir að veita bandinu heimsfrægð. Platan innihélt frábær lög eins og "Give It Away" (fyrsta lagið þeirra til að komast í 1. sæti vinsældarlista), "Under The Bridge", "Breaking The Girl" og "Suck My Kiss". Platan seldist í 7 milljón eintökum í Bandaríkjunum einum. "Blood Sugar Sex Magic" hefur stundum verið köllum besta plata Red Hot Chili Peppers, frábær blanda af fönki, metal, pönki, hip-hopi, rokki og smá blús með. Frægðin fór þó illa í John Frusciante og átti hann erfitt með að höndla frægðina. Þetta átti í för með sér að samskipti hans við hina meðlimi sveitarinnar urðu verri og verri og endaði það með því að hann hætti í maí 1992. Hins vegar kom Dave Navarro í hans stað. Eina plata þeirra með Navarro, "One Hot Minute" var gefin út árið 1995 og fékk misgóða dóma, aðalega vegna samskiptaörðuleika hjá Navarro og hinna í bandinu. "On Hot Minute" einkennist af funk/metal/jazzi en samt var aðeins meiri áhersla á harðan metal og á plötunni voru nokkur af lengstu lögum Red Hot Chili Peppers. Fyrir utan lélega dóma komu fram á plötunni smellurinn "My Friends", "Warped", "Aeroplane" og "Coffie Shop". Snemma á árinu 1998 hætti svo Navarro til að einbeita sér að sólóferli sínum. On Hot Minute seldist í 4 milljónum eintaka. Þeir félegar í Red Hot Chili Peppers vilja í dag samt ekki líta á þessa plötu sem Red Hot Chili Peppers plötu heldur eins konar tilraun. Þeir unnu miklu meira í stúdíói en þeir höfðu gert áður og var vinnan við þessa plötu mjög mikil. Lögin voru flóknari og textarnir voru dýpri eða þeir lýsa meira tilfinningum. Eftir að Navarro hætti, spilaði bandið aldrei lög af On Hot Minute nema kannski að stundum spilaði Flea lagið "Pea". Ástæðan fyrir því var að lögin voru ekki í stíl John Frusciante. Frusciante kom aftur í sveitina 1998 eftir að hafa eytt tíma í afvötnun og gefa út tvær sóló plötur. Hann hjálpaði til með næstu plötu; "Californication", sem kom út 1999. Platan átti þrjú lög í fyrsta sæti vinsældarlistana, þau "Scar Tissue" (vann Grammy-verðlaun), "Otherside" og "Californication" en lög á borð við "Around the World" og "Road Trippin" urðu einnig nokkuð vinsæl. Hljómsveitin fór í tveggja ára tónleikaferðalag og voru nokkrir af þeirra stærstu tónleikum haldnir þ.a.m í Moskvu fyrir 200.000 manns. Eftir að hafa farið aftur í stúdío í nóvember 2001, gaf Red Hot Chili Peppers plötuna "By The Way". Þessi plata er lang rólegasta plata þeirra félaga og inniheldur hún tvö lög sem fóru í efsta sæti vinsældarlista; "By The Way" og "Can't Stop". The Peppers fóru á tveggja ára tónleikaferðalag og gáfu út annan DVD disk, "Live At The Slane Castle" árið 2003 og tóku upp lög fyrir Greatest Hits plötuna. Árið 2004 gáfu þeir síðan sína fyrstu hljómleika-plötu og er hún tekin upp í Hyde Park í London og heitir hún einfaldlega Live In Hyde Park. Deilatafla. Deilatafla er tafla yfir þætti talna. Tekið er dæmi um deilatöflu talnanna 1 til 1000. Með orðinu deilir er átt við sérhverja tölu, "a", sem gengur upp í tiltekinni tölu, "b", þar sem a og b eru heilar, pósitífar tölur. Sem dæmi eru deilar tölunnar 7 1 og 7 og deilar tölunnar 36 eru 1, 2, 3, 4, 6, 9, 12, 18 og 36. Talan 1 er deilir sérhverrar tölu og sérhver tala er deilir sjálfrar sín. Þeir deilar sem eru minni en talan sjálf kallast eiginlegir deilar. Sé summa eiginlegra deila minni en talan sjálf (dæmi: 10) kallast talan fátækleg tala (e.: "deficient number"). Ef summa eiginlegra deila er stærri en talan sjálf (dæmi: 36) kallast hún auðug tala (e.: "abundant number"). Sé summa eiginlegu deilanna jöfn tölunni sjálfri, kallast hún fullkomin tala (dæmi: 6). Í töflunni eru fátæklegar tölur merktar með - (mínus), auðugar með + (plús) og fullkomnar tölur eru feit- og skáletraðar. Aðeins ein tala hefur einn deili og ekki fleiri, það er talan 1 og kallast hún eining(in). Sumar tölur hafa nákvæmlega tvo deila, sem eru 1 og talan sjálf, þær tölur kallast frumtölur og eru óþáttanlegar. Allar aðrar tölur (heilar, pósitífar) kallast samsettar tölur og eru þáttanlegar. Til eru ýmsar deilireglur eða hjálparaðgerðir t.a. kanna hvort tala sé deilanleg með ákveðinni tölu. Athugið: ν("n") er fjöldi af jákvæðum deilum "n", þar með talið 1 og "n" sjálf. σ("n") er summan af öllum jákvæðum deilum "n", þar með talið 1 og "n" sjálf. Tölur þar sem summa jákvæðra deila að frádregni tölunni sjálfri er minni en talan (σ("n")-"n" "n") eru merktar (σ("n")-"n")+; og þær þrjár tölur (undir 1000) sem eru fullkomnar (σ("n")-"n" = "n") eru "feit- og skáletraðar". Þórólfur Árnason. Þórólfur Árnason var borgarstjóri í Reykjavík frá 1. febrúar 2003 til 1. desember 2004. Þórólfur sagði af sér í kjölfar umræðunnar um samráð olíufélaganna og því hneyksli sem því fylgdi, en hann hafði verið framkvæmdastjóri hjá Essó nokkrum árum áður. Þórólfur var einnig fyrsti forstjóri Tals og forstjóri Icelandic Group. Þórólfur var valinn markaðsmaður ársins árið 2002. Hann var forstjóri Skýrr frá árinu 2006 til 2009 þegar Skýrr sameinaðist LandsteinumStreng, Eskli og Kögun undir merkjum Skýrr. Foreldrar Þórólfs eru Sr. Árni Pálsson og Rósa Björk Þorbjarnardóttir. Systkini Þórólfs eru Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur á Borg á Mýrum, Anna Katrín Árnadóttir spænskukennari og Árni Páll Árnason alþingismaður. Þórólfur er kvæntur Margréti Baldursdóttur og eiga þau saman börnin Baldur Þórólfsson (f. 1985) og Rósu Björk Þórólfsdóttur (f. 1988). Anastasia. Hin keisaralega hátign yfirhertogaynja Anastasía af Rússlandi (18. júní 1901 – 17. júlí 1918) var yngst af dætrum Nikulásar II rússakeisara. Hún var skírð Anastasía Nikolaevna Rómanova eða Великая Княжна Анастасия Николаевна Романова á rússnesku. Ævi. Anastasía var sögð stelpuglopi og afar klár, hún þótti góð eftirherma og var þekkt fyrir að líka kaldhæðna kímni. Hún og eldri systir hennar María voru kölluð „litla parið“ innan fjölskyldunar og þær deildu saman herbergi eins og tvær eldri systur þeirra. Anastasía átti einn yngri bróður, Alexei, sem haldinn var dreyrasýki. Mamma þeirra hafði stöðugar áhyggjur af Alexei, en ólíklegt þótti að hann myndi komast til fullorðinsára. Anastasía var afar hrifinn af dýrum og átti líka tvo hunda, Shipka og Jemmy, en henni þótti mjög vænt um þá báða og þeir fylgdu henni jafnan. Anastasía og allar aðrar konur í fjölskyldu hennar höfði rauðbrúnt hár og blá augu, en þær þóttu alltaf vera einstaklega fallegar. Foreldra Anastasíu og systkina hennar vildu þeim allt hið besta í lífinu og voru afar ástríkir foreldrar. Þær systurnar kunnu allar ensku og rússnesku og voru vel menntaðar. Þær deildu mjög miklu s.s. herbergjum, en vegna einangrunar þeirra frá umheiminum voru þær fremur barnalegar. Gömul "þjóðsaga" segir að þegar fjölskylda hennar var tekinn af lífi í Síberíu 1918 hafi hún í raun ekki látist. Geimsteinar áttu að hafa verið saumaðir í kjól hennar voru sagðir hafa bjargað henni. Hún hafi síðan látist dauð og komist undan. Þess má geta að nokkrar konur hafa gefið sig fram í gegnum árin undir því yfirskini að vera Anastasía en Það er nú buið að algjörlega afsanna þessa sögu. Anastasía Nikolaevna Romanova var myrt ásamt fjölskyldu sinni á þann 17. júlí 1918 af leynilögreglu bolsévika. Lík hennar var ekki fundið við uppgröft 1991 (lík Alexei fannst heldur ekki) fyrr en þegar í 2008 sögðu nokkrir rúsnesskir vísindamenn frá því að í 2007 höfðu fundist tvö lík af ungum manni of ungri konu nálægt Ekaterinburg, líklega líkin af hinum 13 ára Tsarevich og Anastasíu sjálfri. Í mars árið 2009 sannaði Dr. Michael Coble með hjálp DNA-prófs að lík allra fjögurra yfirhertogaynjanna (Anastasíu og systra hennar) hefðu verið fundin og að öll keisarafjölskyldan hefði þar með verið myrt þann 17. júlí 1918. Samt sem áður hefur Þessi saga orðið til þess að ýmsar kvikmyndir hafa verið gerðar, sú fyrsta 1928 og sú nýjasta 1997, frægasta útgáfan er líklegast Anastasia þar sem aðalhlutverk leika Ingrid Bergman, Yul Brynner og Helen Hayes. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (fædd 31. desember 1954) er yfirmaður UN Women í Afganistan og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, utanríkisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík. Ingibjörg Sólrún er dóttir Ingibjargar J. Níelsdóttur (fædd 23. febrúar 1918) húsmóður og Gísla Gíslasonar (fæddur 30. nóvember 1916, látinn 23. október 2006) verslunarmanns í Reykjavík. Menntun. Ingibjörg lauk stúdentsprófi árið 1974 frá Menntaskólanum við Tjörnina (sem nú nefnist Menntaskólinn við Sund) og BA-prófi í sagnfræði og bókmenntum við Háskóla Íslands árið 1979. Eftir BA-próf fór hún til Danmerkur þar sem hún var gestanemandi við Hafnarháskóla frá 1979-1981. Hún kom aftur til Íslands og stundaði cand.mag. nám í sagnfræði við Háskóla Íslands á árunum 1981-1983. Starfsferill. Ingibjörg Sólrún var borgarfulltrúi í Reykjavík 1982-1988 og aftur 1994-2006. Hún var ritstjóri kvennatímaritsins Veru á árunum 1988-1990, þingkona Kvennalistans 1991-1994 og borgarstjóri Reykjavíkurborgar frá árinu 1994 til 2003. Ingibjörg Sólrún var utanríkisráðherra á árunum 2007-2009. Ingibjörg Sólrún sigraði Össur Skarphéðinsson í formannskjöri í póstkosningu á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005. Hlaut Ingibjörg 7.997 atkvæði, eða um tvo þriðju atkvæða, og Össur 3.970, eða um þriðjung. Ingibjörg Sólrún gegndi formennsku í fjögur ár, þar til í mars 2009. Á árunum 2003-2005 var hún varaformaður Samfylkingarinnar. Hún sat á Alþingi fyrir Reykjavík á árunum 2005-2009. Ingibjörg Sólrún hefur verið yfirmaður UN Women, stofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna, frá haustinu 2011. H.C. Andersen. Hans Christian Andersen, betur þekktur sem H.C. Andersen, (2. apríl 1805 – 4. ágúst 1875), var danskt skáld og rithöfundur sem þekktastur er fyrir ævintýri sín, þá sérstaklega „Prinsessuna á bauninni“ og „Litlu hafmeyjuna“. Ævintýri hans hafa verið þýdd á mörg tungumál. Barnæska. Hans Christian Andersen fæddist árið 1805 í Óðinsvéum í Danmörku. Flest allar enskar uppsprettur nota nafnið „Hans Christian Andersen“ en í Danmörku og í öðrum löndum í Skandinavíu er notað eingöngu „H.C. Andersen.“ Nafnið hans er hefðbundið danskt nafn og er notað sem einfalt nafn, þó að það sé upphaflega samsetning tveggja einstakra nafna. Faðir Andersens hélt víst að hann tilheyrði aðlinum. Amma hans sagði honum að fjölskyldan hefði einhvern tíma verið af æðri þjóðfélagsstétt. Ævintýri. Meðal þekktustu ævintýra hans eru "Eldfærin" og "Prinsessan á bauninni" (1835), "Litla hafmeyjan" og "Nýju fötin keisarans" (1837), "Litli ljóti andarunginn" (1843), "Snædrottningin" (1844), "Litla stúlkan með eldspýturnar" (1845) og "Hans klaufi" (1855). Ævintýrin hafa verið þýdd yfir á mörg tungumál. Ævintýri Andersens. Árið 1835 kom fyrsta ævintýrið eftir hann út. Ævintýrin voru ekki mikils metin í fyrstu og seldust illa. Önnur verk eftir hann voru þó vinsæl, þ.e. skáldverkin O.T. (1836) og Kun en Spillemand (1837). Tenglar. Andersen, Hans Christian Andersen, Hans Christian Andersen, Hans Christian Márar. "Vörðurinn", austurlandafantasía eftir Jean-Léon Gérôme (1824-1904) Márar voru íbúar Magreb og síðar Íberíuskagans á miðöldum. Márar voru þannig að uppruna til Berbar, hirðingjar frá Vestur- og Norður-Afríku sem aðhylltust íslam. Orðið kemur úr grísku: "mauros", sem merkir dökkur, og var það hugtak sem Rómverjar notuðu um íbúa Afríku. Landaheitin Máritanía og Marokkó eru dregin af sama orði. Árið 711 réðust Márar inn á Íberíuskagann og lögðu stærstan hluta hans undir sig á næstu átta árum. Þegar þeir reyndu að halda áfram yfir Pýreneafjöllin voru þeir stöðvaðir af Karli hamar í orrustunni við Tours árið 732. Landinu var skipt upp í mörg lén undir Kalífanum í Kordóba. Veldi Almóhada og Almoravída voru márísk (berbísk) stórveldi sem komu upp á 11. og 12. öld. Kristnu smáríkin sem lifðu af í norðvesturhluta Spánar juku smám saman við veldi sitt og árið 1212 náði bandalag þessara ríkja að reka múslimsku höfðingjana frá stærstum hluta landsins. Konungdæmið Granada var þó áfram múslímskt konungsríki til 1492 þegar þeir gáfust upp fyrir her Ferdinands og Ísabellu. Oxford Classical Texts. Oxford Classical Texts eða "Scriptorum Classicorum Bibliotheca Oxoniensis" er ritröð sem gefin er út af Oxford University Press. Í ritröðinni eru gefnir út textar á klassísku málunum, forngrísku og latínu, með textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum í svonefndum apparatus criticus. Í ritröðinni eru birt verk flestra mikilvægustu höfunda fornaldar en þó yfirleitt ekki verk vísindalegs og stærðfræðilegs eðlis, líkt og t.a.m. verk Evklíðs. Í bókunum er formálinn ávallt á latínu sem og allar skýringar. Loeb Classical Library. Loeb Classical Library er ritröð, sem er gefin út af Harvard University Press. Í ritröðinni eru gefnir út allir helstu bókmennta- heimspeki- og vísindatextar klassískrar fornaldar, þ.e. á forngrísku og latínu. Í bókunum eru textarnir bæði á frummálinu, hægra megin í hverri opnu, og í enskri þýðingu, vinstra megin í hverri opnu. Auk söguljóða og lýrísks kveðskapar, harmleikja og gamanleikja og rita um sagnfræði, landafræði, heimspeki, vísindi og læknisfræði, mælskufræði og ræðumennsku eru einnig gefin út verk þeirra kirkjufeðra, sem studdust mjög við heiðna menningu. Ágóði vegna útgáfunnar er nýttur í námsstyrki fyrir framhaldsnema í klassískum fræðum við Harvard University. Tilurð. James Loeb átti upphaflega hugmyndina að ritröðinni og stofnaði hana. T.E. Page, W.H.D. Rouse og Edward Capps ritstýrðu fyrstu bindunum, sem komu út hjá William Heineman and company árið 1912. Bækurnar voru frá upphafi innbundnar í grænu og rauðu litunum (grísku textarnir eru grænir en latnesku textarnir eru rauðir), sem einkenna bækurnar í dag. Síðan þá hefur mikill fjöldi bóka komið út í ritröðinni og og margar elstu þýðingarnar hafa veruð endurskoðaðar jafnvel nokkrum sinnum. Viðtökur. Enda þótt fornfræðingar noti ógjarnan Loebs bækur (sem hafa einungis lágmarks apparatus criticus) og telji þær öðru fremur vera þýðingar með texta til hliðsjónar fremur en fræðilega útgáfu á textunum með þýðingu til hliðsjónar, og margir almennir lesendur séu lítt hrifnir af stílnum á ensku þýðingunum (sem er oft fórnað til þess að þýðingarnar megi vera eins nákvæmar og kostur er), eru Loeb útgáfurnar eigi að síður afar útbreiddar. Harvard University tók að öllu leyti við ritröðinni árið 1989 og á undanförnum árum hafa verið gefin út árlega fjögur eða fimm endurskoðuð bindi. Árið 2001 hóf Harvard University Press útgáfu á nýrri ritröð bóka með svipuðu formi. Í ritröðinni I Tatti Renaissance Library koma út lykilverk frá miðöldum og endurreisnartímanum á frummálinu (venjulega latínu) með enskri þýðingu til hliðar; bækurnar eru innbundnar eins og Loeb bækurnar en eru bláar á litinn. (Bækurnar eru hins vegar í öðru broti.) The Perseus Project. "The Perseus Project" (sem er enska fyrir Perseifs verkefið) er verkefni, sem unnið er að í Tufts University og felst í því að gera aðgengilegar á stafrænu formi mikilvægar heimildir í húmanískum fræðum. Verkefninu er stýrt af fornfræðideildinni. Verkefnið var sett á laggirnar árið 1987 en þá var hafist handa við að safna efni er varðaði rannsóknir á Grikklandi hinu forna. Tveir geisladiskar hafa verið gefnir út og árið 1995 var sett upp vefsíða, sem hýsir nú Perseus Digital Library. Frá því að verkefnið hófst er það búið að vinda upp á sig; nú er safnað textum á grísku og latínu, enskum textum frá endurreisnartímanum, ritgerðum Edwins Bolles og efni er varðar sögu Tufts University. Yfirritstjóri verkefnisins er Gregory Crane. Oxford Classical Dictionary. "Oxford Classical Dictionary" (eða "OCD") er alfræðirit á ensku um klassíska fornöld, þ.e. hvaðeina er varðar Rómaveldi og Grikkland hið forna. Ritið kom fyrst út árið 1949. Önnur útgáfa kom út árið 1970 undir ritstjórn Nicholas G.L. Hammond og H.H. Scullard og þriðja útgáfa kom út árið 1996 undir ritstjórn Simon Hornblower og Antony Spawforth, sem er enn núverandi útgáfa (2005) en hefur þó verið endurskoðuð. Alfræðiritið er einnig fáanlegt á geisladisk. Í ritinu eru rúmlega 6000 greinar um allt frá daglegu lífi Forn-Grikkja og Rómverja til landafræði, trúarbragða og sögulegra persóna. Í ritinu eru tilvísanir í viðurkenndar fræðilegar útgáfur frumheimilda auk þess sem bent er á nýleg fræðirit. Heimspeki 20. aldar. Heimspeki 20. aldar einkenndist af klofningi heimspekinnar í rökgreiningarheimspeki og svonefnda meginlandsheimspeki en hvor tveggja á rætur sínar að rekja til ákveðinnar þróunar í heimspeki seint á 19. öld. Meginlandsheimspekin sótti einkum innblástur sinn til þýsku hughyggjunnar og til hugsuða á borð við Sören Kierkegaard (1813 – 1855), Friedrich Nietzsche (1844 – 1900), Franz Brentano (1838 – 1917) og Edmund Husserl (1859 – 1938). Hún blómstraði í fyrstu einkum á meginlandi Evrópu og hlaut þaðan nafnið. Rökgreiningarhefðin spratt upp úr tilraunum heimspekinga til að finna traustari grunn fyrir rökfræðina og til að smætta alla stærðfræði í rökfræði sem og frá áhuga þeirra á máli og merkingu. Rökgreiningarheimspekingar sóttu sumir innblástur sinn í enska raunhyggjuhefð, meðal annars til Davids Hume (1711 – 1776) og Johns Stuarts Mill (1806 – 1873), enda þótt mikilvægir hugsuðir rökgreiningarhefðarinnar kæmu frá meginlandi Evrópu. Meginlandsheimspekin. Á sama tíma og rökfræðin var að ryðja sér rúms í Ameríku og á Bretlandi varð til önnur hreyfing á meginlandi Evrópu. Undir áhrifum frá Franz Brentano þróaði Edmund Husserl nýja aðferð til að rannsaka mannleg vandamál í ritum sínum "Röklegar rannsóknir" ("Logische Untersuchungen") (1900 – 1901) og "Hugmyndir um hreina fyrirbærafræði og fyrirbærafræðilega heimspeki" ("Ideen zu einer reinen Phänomenologie und phänomenologischen Philosophie") (1913). Aðferðin, sem nefnist fyrirbærafræði, var notuð til að rannsaka smáatriði mannlegrar reynslu og meðvitundar til þess að komast að mestu grundvallar staðreyndum um mannlega tilvist. Rannsóknin fól ekki einvörðungu í sér athuganir á því hvernig heimurinn kemur okkur fyrir sjónir heldur einnig athuganir á hugsunum manns og hvar og hvernig þær verða til. Martin Heidegger (1889 – 1976) og Maurice Merleau-Ponty (1908 – 1961) þróuðu þessa aðferð áfram. Heidegger víkkaði út rannsóknarsvið fyrirbærafræðinnar til að koma orðum að heimspekilegri túlkunarfræði. Túlkunarfræði er aðferð við að túlka sögulega texta með því að leiða hugann að því hvaða hugsanir höfundurinn hljóti að hafa hugsað að gefnum þeim áhrifum sem höfundurinn var líklegur til að hafa orðið fyrir á sínum tíma og í sínu umhverfi. Heidegger lagði áherslu á tvö ný atriði í heimspekilegri túlkunarfræði: Að lesandinn nemur merkingu textans í nútímanum og að verkfæri túlkunarfræðinnar megi nota til að túlka meira en bara texta (til dæmis „félagslegan texta“). Hans-Georg Gadamer (1900 – 2002) og Paul Ricoeur (1913 – 2005) lögðu síðar sitt af mörkum til heimspekilegrar túlkunarfræði. Um miðja 20. öld þróaðist tilvistarspekin eða existentíalisminn í Evrópu, sem var vinsæl heimspeki með rætur að rekja til 19. aldar í verkum Sørens Kierkegaard og Friedrichs Nietzsche. Tilvistarspekin þróaðist einkum í Frakklandi og Þýskalandi. Tilvistarspekin hafnaði hugmyndinni um mannlegt eðli en reyndi þess í stað að laða fram getu hvers og eins til að „lifa raunverulega“, eða með öðrum orðum er hver manneskja fær um að skilgreina og ákvarða eigið líf. Helsti málsvari tilvistarspekinnar var Jean-Paul Sartre (1905 – 1980), einkum í ritinu ' ("L'être et le néant") (1943). Aðrir áhrifamiklir tilvistarspekingar voru Albert Camus (1913 – 1960), Simone de Beauvoir (1908 – 1986) og Karl Jaspers (1883 – 1969). Rökgreiningarheimspekin. Þegar Bertrand Russell og Alfred North Whitehead gáfu út ritið "Principia Mathematica" árin 1910 – 1913 varð stærðfræðileg rökfræði miðlæg í frumspekilegum rökræðum en slíku hlutverki hafði hún ekki gegnt áður. Bernard Bolzano og Gottlob Frege höfðu áður hafist handa við að skapa rökfræðinni traustari grundvöll en það var ekki fyrr en "Principia" kom út sem heimspekingar fóru að gefa þessu verkefni gaum. Með auknum áhuga á stærðfræðilegri rökfræði reis rökfræðileg raunhyggja til vinsælda ásamt skyldum stefnum, sem áttu allar sameiginlegt að treysta á reynsluathuganir. Heimspekingar á borð við Rudolf Carnap (1891 – 1970) og Karl Popper (1902 – 1994) álitu einungis sannreynanlegar eða hrekjanlegar fullyrðingar vera ósvikna heimspeki. Allt sem ekki var hægt að leiða af prófanlegum fullyrðingum var álitið vera hjátrú eða kredda. Ekki var lengur ríkjandi samkomulag í Ameríku og Bretlandi um miðja 20. öldina um neina eina meginhugmynd í heimspeki, líkt og áður hafði verið en almenna heimspekilega aðferð má greina í þeirri heimspeki sem þar var stunduð á þeim tíma. Árið 1921 gaf Ludwig Wittgenstein út bókina "Rökfræðileg ritgerð um heimspeki" ("Tractatus Logico-Philosophicus"). Heimspeki hversdagsmáls varð til sem viðbragð við þessari bók og var haldið á lofti af Gilbert Ryle, J.L. Austin og nokkrum öðrum. Þeir heimspekingar sem aðhylltust heimspeki hversdagsmáls áttu mörg almenn viðhorf sameiginleg með ýmsum eldri heimspekingum (til dæmis Jeremy Bentham, Ralph Waldo Emerson og John Stuart Mill) og var sá rannsóknarvettvangur sem einkenndi heimspeki í enskumælandi löndum á síðari hluta aldarinnar. Þeir gerðu ráð fyrir að gátur á einu sviði heimspekinnar væri hægt að leysa óháð gátum á öðrum sviðum heimspekinnar. Heimspekin er því ekki sameinuð heild, heldur mengi óskyldra vandamála. Meðal merkra heimspekinga sem hafa fallist á þetta almenna viðhorf að einhverju eða öllu leyti eru P.F. Strawson, Donald Davidson, Hilary Putnam, John Rawls, Noam Chomsky og meginlandsheimspekingurinn Mikhail Bakhtin. Á grundvelli athugasemda um iðkun heimspekinnar sem Wittgenstein gerði í síðara stóra riti sínu, "Rannsóknum í heimspeki" ("Philosophische Untersuchungen") (1953), þar sem hann bendir á að góð nálgun við heimspeki hljóti sjálf að vera byggð á nákvæmum athugunum á merkingu máls, tók nýr hópur heimspekinga upp á sína arma aðferðafræðilega efahyggju. Þessa varð meðal annars vart í verkum W.V.O. Quine og Wilfrids Sellars sem sameinuðust um náttúruhyggju, heildarhyggju (í andstöðu við megnið af því sem telst til rökgreiningarheimspeki), verkhyggju og afneitun hluthyggju í anda Platons. Áhrif utan heimspekinnar. Á 20. öld urðu ýmsir atburðir til þess að grafa undan rótgróinni trú manna á undirstöður þekkingar og ýmis gildi. Heimspekingar 20. aldar reyndi meðal annars að bregðast við nýjum félagslegum, hagfræðilegum, vísindalegum, siðferðislegum og rökfræðilegum vandamálum með ýmsum hætti, til að mynda með því að endurbæta, umbreyta eða hrekja og hafna eldri hugmyndum. Í vísindaheimspeki, heimspeki stærðfræðinnar og þekkingarfræði virtust koma fram ósamrýmanleg sjónarmið til meðvitundar og viðfangs hennar og mátti sjá þess merki meðal annars í djúpstæðum muni á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki, sem áttu báðar rætur að rekja til upphafs aldarinnar og loka 19. aldar. Framfarir í eðlisfræði, vitsmunavísindum, stýrifræði, erfðafræði og málvísindum, bókmenntir og tilkoma kvikmynda sem listforms höfðu áhrif á heimspekina. Sögulegir atburðir mótuðu heimspekina einnig, líkt og fyrri heimsstyrjöldin, Rússneska byltingin, tilkoma fasismans, síðari heimsstyrjöldin, helförin, notkun kjarorkuvopna á Japan, áframhaldandi nýlendustefna, stofnun Sameinuðu þjóðanna, nýr hljómgrunnur hugmynda um mannréttindi, Víetnamstríðið, fall Sovétríkjanna og endalok kalda stríðsins, áframhaldandi ójöfnuður í heiminum, endurnýjun „bókstafstrúar“ í kristnu, gyðinglegu, íslömsku og hindúísku samhengi og að því er virðist regluleg þjóðarmorð kipptu stoðunum undan ýmsum heimspekilegum kenningum um mannlega skynsemi og olli því að æ meiri kröfur voru gerðar til siðfræði, stjórnmálaheimspeki og trúarheimspeki. Hraðar tækninýjungar og afleiðingar þeirra, meðal annars í læknavísindum og á umhverfið, vöktu einnig upp nýjar spurningar í siðfræði. Þess skal gæta að ofmeta þó áhrif þessara atburða og nýjunga á þróun heimspekinnar. Það sem mótaði heimspeki 20. aldar þó öðru fremur var heimspekin sjálf. Upphaf þeirrar heimspeki sem var í brennidepli á fyrri hluta 20. aldar má rekja til nýjunga í heimspeki undir lok 19. aldar. Heimspeki á síðari hluta 20. aldar var að miklu leyti viðbragð við því sem hafði gerst í heimspeki á fyrri hluta aldarinnar. Heyrnarleysi. Heyrnarleysi er fötlun þar sem viðkomandi getur ekki heyrt. Skylt hugtak er heyrnarskerðing þar sem geta að einhverju leyti heyrt, en illa þó. Heyrnarleysi og heyrnarskerðing er skilgreind út frá mælingum sem segja til um hversu illa viðkomandi heyrir. Einstaklingur er greindur heyrnarskertur ef heyrn hans er á bilinu 41 – 85 desibel. Slík skerðing hefur í för með sér að einstaklingurinn á erfitt með að skilja talmál, en getur nýtt sér heyrnartæki. Heyrnarlaus einstaklingur heyrir nánast ekki neitt. Heyrn hans er á bilinu 85 –100 desibel. Hann getur ekki skilið talað mál, þó svo hann noti heyrnartæki. Hann þarf því að nota táknmál í samskiptum sínum. Sú hugmynd að heyrnarlausir séu ekki fatlaðir heldur tilheyri fyrst og fremst málminnihlutahópi nýtur vaxandi fylgis í vestræna heiminum. Tvennt aðskilur heyrnarlausa sem málminnihlutahóp frá öðrum málminnihlutahópum. Annars vegar fá heyrnarlausir aðgang að máli sínu og menningu á mismunandi aldri, en það fer eftir því hvenær heyrnarleysið uppgötvast og hversu fljótt einstaklingurinn fer að læra táknmálið. Hins vegar tilheyra heyrnarlaus börn heyrandi foreldra öðrum menningarheimi en foreldrarnir. Samfélag heyrnarlausra hefur vaxið upp af tengslum milli manna með sameiginlega reynslu sem felst ekki eingöngu í því að búa í hljóðum heimi, heldur talar það fólk táknmál og á sína sögu, menningu og listir. Heyrnarleysi fellur undir 2. grein laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og njóti þeirra réttinda og verða að gegna þeim skyldum sem lög þau kveða á um. Judas Priest. Judas Priest er hljómsveit sem spila svokallaðan breskt nýbylgju metal eða bara metal. Hún var stofnuð árið 1969 af K.K. Downing og Ian Hill. Stroh. Stroh er sterkt romm frá Austurríki. Það er framleitt sem "Stroh 40", "Stroh 54", "Stroh 60", og "Stroh 80", en nöfnin benda til alkóhól innihalds drykkjanna; 40%, 54%, 60% og 80%. Sjía. Sjía eða shía (frá arabíska orðinu شيعة, sem er stytting á "shi`at `Ali" شيعة علي, sem þýðir bókstaflega „fygjendur Alís“) er næst stærsta trúfélag innan íslam. Eintalan á arabísku er "shi`i" (شيعي). Ali ibn Abi Talib var frændi spámannsins Múhameðs, tengdasonur hans og arftaki (í augum sjía-múslima). Sjía er önnur stærsta fylkingin innan íslam. Hugmyndafræðilegur munur á súnní- og sjía-sið er í grundvallaratriðum sá, að sjítar telja að Múhameð hafi átt sér andlega arftaka, þótt hann hafi verið síðasti spámaðurinn. Þessir arftakar eru nefndir imamar. Þeir hafa í krafti innblásturs meira innsæi í eðli guðdómsins en venjulegir menn hafa. Þess vegna geta þeir túlkað Kóraninn, helgirit múslíma, og áttað sig á duldum boðskap sem þar er að finna en venjulegir menn sjá ekki. Erfðadeilur. Föstudagsmoskan í Isfahan í Íran Sjía-múslimir hafa fyrir satt að Múhameð hafi valið Ali sem arftaka sinn og leiðtoga múslima að sér látnum. Einungis þeir sem fylgja Ali fylgja í raun hefðum og kenningum Múhameðs. Súnní-múslimar álíta hins vegar að Múhameð hafi ekki valið eftirmann sinn. Umar og Abu Bakr, tveir nánustu samverkamenn Múhameðs, völdu að honum látnum Abu Bakr sem leiðtoga múslima og fyrsta kalífann. Ali og fylgismenn hans, þar á meðal fjölskylda Múhameðs, viðurkenndu ekki þetta val. Í hefð súnní-múslima er kalífat Abu Bakrs hins vegar bæði löglegt og upphaf að réttri túlkun á hefð og reglum Múhameðs. Þessar sögulegu deilur höfðu í för með sér ólíkar túlkanir af ýmsum hlutum Kóransins og fremur öðru túlkanir og viðurkenningar á mismunandi hadíðum sem í raun stjórna trúarhefð múslima. Samkvæmt súnní-sið, sem kenndur er við hefð, eða troðnar slóðir, er Kóraninn skiljanlegur öllum sem vilja lesa hann og leita lærdóms um hann. Ekkert í honum er hulið venjulegum mönnum. Þar er enginn dulinn boðskapur. Í sjía-sið hafa því imamarnir kennivald, en í súnní-sið hafa engir menn kennivald. Imamarnir njóta leiðsagnar almættisins og geta því orðið trúarlegir leiðtogar venjulegs fólks sem ekki hefur þetta sérstaka samband við almættið. Sjítar bíða þess að imam geti orðið samfélagsleiðtogi og kennt hinn rétta veg. Kennimenn hafa því sterka stöðu meðal sjíta. Sjía-þjóðfélög. Engar nákvæmar tölur eru um hlutfall sjía af fjölda múslima í heiminum. Þó er allmennt álitið að um það bil 20% múslima fylgi sjía. Meirihluti sjía-múslima býr í vesturhluta Asíu. Þeir eru í meirihluta eða mjög stór hluti íbúa í Íran, Aserbaídsjan, Írak, Jemen, Líbanon og Barein. Í Katar, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru fjölmennir minnihlutahópar sjía-múslima og einnig í austurhluta Sádi-Arabíu. Eftir valdatöku Wahhabía 1926 í Sádi-Arabíu hefur það opinberlega verið glæpur að tilheyra sjía í því landi. Þeir eru ofsóttir og útilokaðir frá námi og störfum. Einnig er sjía-múslimum í pílagrímsför oft gert erfitt fyrir af yfirvöldum í Sádi-Arabíu. Talsvert fjölmennir hópar sjía-múslima eru einnig í Tyrklandi, Afghanistan, Pakistan og Indlandi. Íranska þjóðin tók ajatollanum Ruhollah Khomeini sem imam, þótt hann liti ekki sjálfur á sig sem slíkan. Þess vegna hafði hann það ægivald í landinu sem raun bar vitni. Meginlandsheimspeki. Meginlandsheimspeki vísar til annarrar tveggja meginhefða í heimspeki á 20. öld. Meginlandsheimspekin blómstraði í fyrstu einkum á meginlandi Evrópu og hlaut þaðan nafnið. Hún var lengi ríkjandi heimspeki á meginlandinu en hin meginhefðin á 20. öld, rökgreiningarheimspekin, naut einkum vinsælda í hinum enskumælandi heimi. Meginlandsheimspeki sótti einkum innblástur sinn til þýsku hughyggjunnar og til hugsuða á borð við Søren Kierkegaard (1813 – 1855), Friedrich Nietzsche (1844 – 1900), Franz Brentano (1838 – 1917) og Edmund Husserl (1859 – 1938). Hún er almennt talin ná utan um fyrirbærafræði, tilvistarspeki, túlkunarfræði, formgerðarstefnu, síð-formgerðarstefnu og póstmódernisma, afbyggingu, franska kvenhyggju, Frankfurt skólann, sálgreiningu (í heimspeki), heimspeki Friedrichs Nietzsche og Sørens Kierkegaard og flestar gerðir marxisma og marxískrar heimspeki. Eric Prydz. Eric Prydz (fæddur 19. júlí 1976) er sænskur plötusnúður og tónlistarmaður. Smáskífan hans "Call on me", sem kom út árið 2004, komst í efsta sæti breska vinsældarlistans. Call on Me. Lagið er byggt á lagi Steve Winwood "Valerie" sem kom út árið 1982 og var endurútgefið 1987. Steve aðstoðaði Eric við að endurhljóðrita sönginn til að fella að nýju útgáfunni af laginu. Myndbandið. Myndbandið við lagið sýnir hóp aerobic-iðkenda í líkamsræktarstöð undir handleiðslu kvenkennara. Myndbandið er allt á kynferðislegu nótunum, og er sagt líkjast líkamsræktarstöðvar-atriði í myndinni "Perfect" (1985) með þeim John Travolta og Jamie Lee Curtis. Grínútgáfa hefur verið gerð af myndbandinu og sýnir hún karlmenn stunda iðju kvennana í upprunalegu útgáfunni og karlkennara. Einnig hafa hermenn í bandaríska hernum gert myndband, þar sem þeir leika líkamsræktarkempurnar. Oddbjarnarsker. Oddbjarnarsker eða Skeri er eyja á Breiðafirði og tilheyrir hún svokölluðum Vestureyjum. Löngum voru þar margar verbúðir og mest er talið að hafi verið 30 verbúðir á skerinu. Róðrar lögðust þó af á 20. öld. Skerið er talið vera nefnt eftir Oddbirni gamla, sem er talinn hafa numið land hér eða að minnsta kosti stundað róðra úr skerinu. Náttúrufar. Oddbjarnarsker er hvergi hátt, þó hæst austantil og eru sandstrendur um það nær allan hringinn. Inni á skerinu hefur melgresi numið land. Í fjöruborðinu á einum stað eru "Vatnssteinar", þrjú jarðhitauppstreymi. Vatnið er 70 til 80°C og voru forðum settir blýtappar í tvö þeirra til að auka vatnsflæði í því þriðja - því sem auðveldast var að taka vatn úr. Aðrar vatnslindir eru engar í eynni. Í skerinu er mikil lundabyggð og er það grösugt af fugladriti. Í því miðju er lítil laut sem nefnist "Skötutjörn" en þar var jafnan gert að þeim fiski sem dreginn var þar á land. Höfn í Hornafirði. Höfn í Hornafirði er þéttbýlisstaður við Hornafjörð á Suðausturlandi. Þar bjuggu 1.662 þann 31. desember 2005. Búseta hófst á Höfn árið 1897 þegar kaupmaðurinn Ottó Tulinius fluttist þangað, ásamt fjölskyldu sinni, frá Papósi. Smám saman myndaðist þar þéttbýli í kringum verslun og útgerð og varð bærinn að sérstökum hreppi, Hafnarhreppi, í ársbyrjun 1946, en hafði fram að því heyrt undir Nesjahrepp. Höfn fékk kaupstaðarréttindi í árslok 1988. Hinn 12. júlí 1994 sameinuðust Höfn og Nesjahreppur á ný, ásamt Mýrahreppi, undir nafninu "Hornafjarðarbær". Þann 6. júní 1998 sameinuðust svo Hornafjarðarbær, Bæjarhreppur, Borgarhafnarhreppur og Hofshreppur undir nafninu Sveitarfélagið Hornafjörður og hefur sveitarfélagið heitið það alla tíð síðan. Tilvísanir. Höfn í Hornafirði séð úr Óslandi Kokkteilsósa. Kokkteilsósa er heiti yfir kalda, ljósrauða sósu, sem að grunni er yfirleitt majónes, en stundum sýrður rjómi. Við það er svo bætt tómatsósu, sinnepi og kryddi. Á Íslandi er sósan töluvert vinsæl og notuð með skyndibitum, helst með frönskum kartöflum sem gjarnan er dýft í sósuna. Flestir eru líklega sammála um að kokkteilsósa teljist til ruslfæðis. Kokkteilsósa dregur nafn sitt af rækjukokkteil sem var vinsæll veisluréttur um allan heim eftir miðja 20. öld. Kokkteilsósan var mjög vinsæl á veitingastaðnum Tommaborgurum snemma á níunda áratug 20. aldar. Áður var algengast að bera hana fram með fiski eða skelfiski, en með skyndibitamenningunni komst sú hefð á að bera hana fram með frönskum kartöflum. Vísanir í dægurmenningu. Kokkteilsósa kom fyrir í einu atriða kvikmyndarinnar Með allt á hreinu. Þar var hún blönduð m.a. með lýsi eða laxerolíu til að gera hana óæta, en í myndinni kemur fram að sósan hafi batnað til muna við þetta. Í auglýsingum Icelandair „Góð hugmynd frá Íslandi“ (2006) biður breti um „cocktail sauce“ með frönskunum sínum. Skátafélagið Hraunbúar. Skátafélagið Hraunbúar er virkt skátafélag með aðsetur í Hafnarfirði sem var stofnað þann 22. febrúar árið 1925. Meðalfjöldi meðlima seinustu 10 ár eru um 170 talsins. Tengill. . - Mikið af upplýsingum um Hraunbúa er aðgengilegt á síðunni. Ósungið rokk. Ósungið rokk (instrúmental rokk) er notað yfir rokk þar sem ekkert er sungið. Oft eru sérstakir kaflar í lagi skilgreindir sem ósungnir þar sem söngur stöðvast og hljóðfærin aðeins notuð. Hljómsveitir sem einbeita sér að ósungnu rokki hafa þá sérstöðu að hafa engan forsprakka (sem er oftast söngvarinn) og hljóðfæraleikararnir fá að njóta sín betur og sýna listir sínar. Þó var algengt á 9. áratug tuttugustu aldar að gítarleikari varð forsprakki hljómsveitanna. Hljóðfæratónlist. Hljóðfæratónlist (stundum kölluð instrúmental tónlist eða ósungin tónlist) er tónlist þar einungis er notast við hljóðfæri. Tómatsósa. Tómatsósa er sósa unnin úr tómötum. Önnur hefðbundin hráefni eru edik, sykur, salt og ýmis krydd, einnig er algengt að laukur, sellerí eða annað grænmeti sé notað í sósuna. Skógláp. Skógláp'" (e. shoegazing) er ákveðin tegund rokktónlistar sem gengst upp í tilraunamennsku og notast mikið við allavega hljóðhrifatæki. Skógláparar forvinna oft tónlistina og skapa svokallaða hljóðveggi og einnig sérstakt „hljóðlandslag“ (e. soundscape) til að skapa vissa stemmingu. Hugtakið skógláp dregur nafn sitt af sviðsframkomu þeirra sem leika tónlistina, en þeir eru yfirleitt fremur látlausir og virðast vera að horfa á skóna sína. Oftast á það við um gítarleikarana. Í raun og veru eru þeir þó að fást við hljóðhrifatækin sem stjórnað er með fótunum og liggja á sviðsgólfinu. Skógláparar voru ekki kraftmiklir flytjendur og gáfu ekki áhugaverð viðtöl sem hamlaði þeim að brjótast fram í markaðssenuna í Bandaríkjunum. Hljómsveitirnar náðu yfirráðum í Bresku tónlistarsenunni í þrjú ár, en árið 1992 þá tók gruggið (e. grunge) við og ýtti skóglápurunum til hliðar. Stefnan ruddi sér rúms seint á 9. áratug 20. aldar og er hljómplata  "Isn't anything" oft talin marka upphaf stefnunnar. Dinosaur Jr., The Jesus & Mary Chain og The Cocteau Twins voru einnig mjög áberandi í stefnunni. Stefnan þróaðist áfram og hljómsveitir eins og Ride breyttu sinni stefnu og bættu við sækadelíu sjöunda áratugar á meðan hljómsveitin Cocteau Twins þróaðist út í drauma popp (e.dream pop). Stíll. Það er mikil ádeila um sannar skóglápara hljómsveitir og sumir telja að þær séu aðeins örfáar vegna þess hversu sérstækur hljómur hljómsveitanna er. Kevin Shields sem var einn af sköpurum skóglápara stefnunnar úr hljómsveitinni sagði að hljómsveitin hans hafði hljóm sem hann líkti við ló/kuski á nál (e. fluff on the needle). Hljómsveitin notaði hljóðhrifatæki til að skapa svokallaðan gítar hljóðvegg sem var svo há að hún náði að grafa sönginn undir langvarandi gítarhljómi. Áhrifshljóðin létu hljóminn vara í sínum eigin tónlistarheimi, með söng, bassa og trommum sem voru undirlögð af gítarhljómum og sínus-bylgjum (e. sine-waves). Skógláp var ekki gert fyrir augað heldur aðeins fyrir það sem kallaðist hreint hljóð (e. pure sound). Hljóðið í tónlistinni var alltaf óbærilega hátt með löngum gítar riffum og afskræmdum bylgjum (e. waves of distortion). Hljómsveitirnar notuðust mikið við hljóðhrifatæki, óvenjulega magnaranotkun og voru með tilraunastarfsemi í hljóðupptökuverum. Tímaritið Sounds sáu þessar hljómsveitir á sviði og út frá því bjuggu þeir til nafnið "skógláparar" eða "shoegazing". Þannig varð til slangur sem festist við stefnuna. Tilraunastarfsemi þeirra við hljóðhrifatækin voru innbástur fyrir nafnið og var það svo stytt í "shoegaze" seinna meir. “Fyrir okkur þá tengdist þetta mest þeim staðreyndum að við vorum ekki það góð í að syngja og spila á sama tíma, þannig að við þurftum að horfa á gítarinn allan tímann til að sjá. Við spiluðum mikið af barre nótum, nótur sem fara upp og niður hálsin á gítarnum, þannig að þú varst að einbeita þér mest að því." Sagði Andy Sherriff, söngvari og gítarleikari í My Bloody Valentine. Hljómsveitin er talin vera upphafshljómsveit skóglápara stefnunnar. Meðlimir stofnuðu hljómsveitina í Dublin, Írlandi og það var ekki fyrr en þeir gáfu plötuna Isn‘t anything árið 1988 að hljómsveitin byrjaði að slá í gegn. Hún setti nokkurskonar staðla skóglápara stefnunnar og varð mjög vinsæl í Bretlandi sem leiddi til þess að þeir náðu athygli Sire/Warner Bros sem urðu útgáfufyrirtæki þeirra í Bandaríkjunum. Í dag er hljómsveitin ennþá gífurlega vinsæl og gefur nýjum skóglápurum mikinn innblástur. Senan sem fagnar sjálfum sér. Skógláp var einnig kallað "senan sem fagnar sjálfum sér" út af nánu sambandi á milli skóglápara hljómsveita sem voru uppi á þeim tíma. Í staðin fyrir að vera í samkeppni þá fögnuðu þau hvor öðru og spiluðu á tónleikum hvors annars, eyddu tíma og fóru á bari saman. úr hljómsveitinni sagði að "senan sem fagnar sjálfum sér" hafi verið uppfinning Steve Sutherland, sem var þá ritstjóri. Upprunalega var sú staðhæfing hrós fyrir stefnuna því að allir voru vinalegir og stuðningsamir fyrir hvort annað. Það tíðkaðist að hljómsveitir voru mjög skaðsamar og eigingjarnar gangvart keppinautum sínum. Endir stefnunnar og ný byrjun. Talið er að stefnan hafi endað þegar draumakennda skóglápara bandið flosnaði upp árið 1995. Upphaflega stefnan hafði þá brennt út og fer ekki aftur að sjást fyrr en um 2010 og að deginum í dag er þá kallað nu-gaze. Tómas A. Tómasson. Tómas A. Tómasson (oft kallaður Tommi) er íslenskur veitingamaður og einn eiganda og stofnenda Hamborgarabúllu Tómasar. Áður rak hann keðju hamborgarastaði undir nafninu Tommaborgarar en þeir veitingastaðir voru fyrsta skyndibitakeðjan á Íslandi. Veitingarekstur. Tommi rak Festi í Grindavík frá 1974 til 1977. Að loknu námi í Bandaríkjunum í hótel- og veitingarekstri stofnaði hann Tommaborgara 14. mars 1981. Útibú spruttu upp út um allt land og urðu 26 talsins. Eftir þrjú ár hætti Tommi rekstri Tommaborgara, en síðan hefur hann rekið Hard Rock Café og Hótel Borg, auk þess sem hann stofnaði Kaffibrennsluna árið 1996 og sá um rekstur til ársins 2002. Þar fást enn hamborgarar sem kallast Tommaborgarar. Þann 14. mars 2004, klukkan 11 fyrir hádegi, þegar 23 ár voru liðin frá opnun Tommaborgara, opnaði Tommi nýjan hamborgarastað sem heitir Hamborgarabúlla Tómasar. Búllan er staðsett í bátslaga húsi að Geirsgötu 1, en útibú hafa verið stofnuð við Bíldshöfða í Reykjavík, á Egilsstöðum (Miðvangi 13)og í Hafnarfirði (Reykjavíkurvegi 62). Hljóðlega af stað. Hljóðlega af stað er fyrsta breiðskífa Hjálma. Öllum að óvörum, þar með talið þeim sjálfum, skaust hún efst á sölulista landsins. Świętochłowice. Świętochłowice (framburður: [ˌɕvjɔ̃tɔxwɔˈviʦɛ] er bær í Suður-Póllandi þar sem búa 55.500 manns (2005). Bærinn er staðsettur í Sílesíuhéraði (síðan 1999), en áður var hann í Katowice-héraði (1975–1998). Hjálmar (breiðskífa). "Hjálmar" er önnur breiðskífa Hjálma. Árið 2009 var platan valin í 41. sæti yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum vefjarins Tónlist.is. Örgjörvi. Örgjörvi er samrás sem geymir miðverk tölvu. Hugtakið örgjörvi á oftast við eina kísilflögu sem situr á móðurborði, en hugtakið gjörvi er notað um fleiri en eina einingu sem sinna sama verki. Örgjörvi framkvæmir forritaðar skipanir sem geta snúist um að framkvæma reikniaðgerðir eða samskipti við jaðartæki og minni. Örgjörva er að finna í nánast öllum rafeindatækjum með einhvers konar tölvustýringu eins og t.d. þvottavélum, örbylgjuofnum, hraðamælum fyrir hjól, myndbandstækjum, sjónvörpum, geislaspilurum og bifreiðum. Klukkun örgjörva. Einn þekktasti eiginleiki örgjörva er klukkutíðni og er það einn sá eiginleiki sem fólk lítur helst á við kaup á einkatölvu. Klukkutíðni örgjörva er mæld í riðum (táknað Hz, Hertz). Árið 2006 er klukkutíðni í nýjum einkatölvum oftast á bilinu eitt til fjögur gígarið. Rafrásir örgjörvans innihalda m.a. rásaeiningar sem kallast vippur (e. "flip flops"). Þegar vippur eru klukkaðar (þ.e. stjórnað af rafmerki sem kallast klukkupúlsar) finnast ýmis gagnleg not fyrir þær sem notuð eru í örgjörvum. Eftir því sem örgjörvinn er klukkaður hraðar því fljótari er hann að framkvæma skipanirnar. Það sem kemur í veg fyrir að hægt sé að auka klukkuhraða upp úr öllu valdi er að erfitt er að framkalla nægilega nákvæman óbjagaðan klukkupúls og láta öll innri merki hans ná að halda skýru gildi sem er annaðhvort af eða á (núll eða einn). Örgjörvi hitnar einnig meira eftir því sem hann er klukkaður hraðar. Það er vegna þess að aðalbyggingareining hans er svokallaður CMOS smári sem hitnar hraðar við aukna klukkutíðni (CMOS notar mjög litla orku þegar hann heldur óbreyttri stöðu en notar fast magn af orku við að skipta um stöðu og sú orka umbreytist einmitt í varmaorku). Yfirleitt er ofhitnun örgjörva ráðandi þáttur í að ekki sé hægt að klukka örgjörva hraðar og hafa áhugamenn yfirklukkað tölvunar sínar annað hvort í stuttan tíma eða með kælibúnaði (gjarnan frumlegum og framandlegum) og þannig fengið tölvur sínar til að vinna örlítið hraðar. Helstu einingar örgjörva. Gisti (e. "register") eru mjög hraðvirk minnishólf sem oftast geyma eitt orð hvert. Gistin eru notuð til að geyma ýmis gildi á meðan örgjörvinn er að vinna með þau. Sum gisti gegna ákveðnu hlutverki (e. special purpose register) og önnur eru eru til „almennra nota“ og getur forritari sem forritar á smalamáli (e. Assembly language) fengið beinan aðgang að þeim og getur notað þau í hvað sem honum dettur í hug (e. general purpose register). Dæmi um gisti með ákveðið hlutverk eru forritsteljari (e. Program Counter; PC) sem inniheldur vistfang næstu skipunar, skipanagisti (e. Instruction Register; IR)) sem inniheldur skipanakóða (e. Op code) skipunarinnar sem verið er að framkvæma, Memory Data Register (MDR) sem inniheldur gagnaorð sem verið er að flytja í eða úr minni og Memory Address Register (MAR) sem inniheldur vistfang sem á að lesa úr minni eða minnisvistfang sem á að skrifa í. Reikniverk (e. "ALU"; "Arithmetic Logic Unit") eru stafrænar rásir sem geta framkvæmt reikniaðgerðir eins og t.d. samlagningu, frádrátt, hliðrun og rökaðgerðir eins og EKKI (skilar andstæðu þess sem það fær), EÐA (annað eða bæði—einig kallað EÐA—skilar jákvæðu eða sanni ef það fær e–r sannindi), EÐA (þ.e. EKKI OG/EÐA; skilar sannindum ef reikniverkið fær mismun), NÉ (þ.e. OG/EÐA EKKI skilar sannindum ef reikniverkið fær einungis ósannindi) og OG (þ.e. EKKI OG/EÐA EKKI, EKKI NÉ eða EÐA EKKI; skilar einungis ósannindum ef rökaðgerðin fær ósannindi (e. NOT, OR, XOR, AND, NOR). Allar rökaðgerðirnar taka við tveim kostum (e. input) nema EKKI (e. NOT) — sem tekur bara við einum og er hægt að mynda þær allar með grunnaðgerðunum tveim: EKKI (e. NOT) og OG/EÐA (e. OR). Braut (e. "bus") er flutningsleið milli eininga örgjörvans. Ef leggja á saman gildi í gistum eða flytja gildi milli gista þá eru brautir sú flutningsleið sem er notuð til að færa gildi milli gistanna og reikniverksins þar sem samlagnin er framkvæmd. Algengt er að örgjörvar hafi fleiri en eina braut og sinna þær oft mismunandi hlutverkum, t.d. flytja sumar brautir bara vistföng, aðrar flytja gildi einungis ákveðnar leiðir (t.d. tildæmis flytja sumar einungis frá gistum (e. general purpose registers) til reikniverks meðan aðrar flytja frá reikniverki til gista). Skipana afkóðari er stundum hluti af stýrieiningu, Skipana afkóðari, afkóðar skipanakóðann og færir niðurstöðuna til stýrieingarinnar. Stýrieining (e. "Control Unit"), Stýrieiningin framkallar stýrimerki sem stjórna framkvæmd hverrar skipanar. Flest stýrimerki eiga sér sér línu sem er annaðhvort kveikt á eða slökkt á. Dæmi um stýrimerki geta t.d. verið: merki sem lætur gildi gistis út á braut, merki sem lætur gisti taka gildið sem er á braut og merki sem lætur reikniverkið leggja saman og skila niðurstöðunni í ákveðið gisti. Ílags- og frálagseining (e. "O device"; I/O = "input/output"). Sér um samskipti við jaðartæki eins og t.d. prentara, skjá, lyklaborð, mýs. Flýtiminni (e. "cache") geyma gildi úr aðalminni sem mikið eru notuð og er einskonar speglun á hluta þess. Aðgangur að flýtiminni er margfallt hraðari (færri klukkupúlsar) heldur en að aðalminni. Ekki eru allir gjörvar með aðalminni og eru ýmist á sömu kísilflögu (L1 eða level 1 cache) og örgjörvinn, og á sér flögu (L2 eða level 2 cache). Margir örgjörvar hafa bæði. Afköst örgjörva. Afköst örgjörva eru gjarnan mæld með svokölluðum SPEC prófum. SPEC er stofnun sem er ekki er rekin í hagaðarskini sem sér um að framkvæma prófin. Prófin ganga út á það að láta örgörva keyra sér valin forrit og bera tíman sem það tekur saman við tíman sem það tekur valda viðmiðunarvél að keyra sama forrit. formula_1 þar sem t er tíminn sem það tekur örgjörva (ásamt aðalminni og e.t.v. fleiri einingum) að keyra eitthvert tiltekið forrit. n er fjöldi skipana í forritinu, s er fjöldi klukkupúlsa sem það tekur að meðaltali að framkvæma hverja skipun í forritinu. r er klukkutíðni örgjörvans. Auðvelt er að sjá að ekki bara klukkutíðnin; r hefur áhrif á afkastagetu örgjörvans heldur einnig fjöldi skipana sem þarf að framkvæma; n og fjöldi klukkupúlsar sem það þarf til að framkvæma hverja skipun; s. Til að minnka s er algengt að notuð sé pípun (e. "piping", "pipelining"), þá er byrjað að keyra skipun áður en að búið er að keyra skipunina á undan. Til að keyra skipun þarf fyrst að ná í hana (e. fetch) síðan afkóðahana (decode), og að lokum framkvæma hana (e. "execute"). Þessi þrjú stig eru unnin af mismunandi hlutum örgjörvans og geta allar einingarnar verið meðhöndlað mismunandi skipanir samtímis (oft þarf þó fleiri einingar eins og t.d. fleiri brautir til þess að það sé hægt). Pípun getur látið s (meðal klukkupúlsafjöldi per skipun í forriti) stefna á 1 Hægt er að notast við superscalar arkítektúr sem þýðir að fleiri en ein skipun á sama pípustigi (e. "pipestage") m.ö.o hægt er að ljúka keyrslu fleiri en einnar skipunar á sama klukkupúlsi, þ.a. hægt er að ná s niður fyrir 1. Notkun flýtiminnis (e. "cache") getur stytt allverulega sóknartíma í minni og þannig sem gerir einnig kleift að halda s sem lægstu. Að minnka n (fjöldi skipana í forriti) er oftast í höndum þýðandans (e. "compiler", hugbúnaður sem breyrir forritskóða af hærra stigs forritunarmáli (e. "higher level programing language") í skipanir á vélamáli), einnig getur forritari haft áhrif á það (sérstaklega ef hann forritar á smalamáli en smalamál krefst ekki þýðanda). Einnig eru CISC ("complex instrucion set computer") með oftast með lærra n þar sem þeir hafa stærra skipana sett (einnig kallað skipana mengi) og sérhæfðari skipanir en aftur á móti hafa CISC örgjörvar oftast hærra s, þar sem erfiðara er að pípa þá og hanna superscalar CISC gjörva auk þess sem þeir eru oftast með svokallaða örforritaða stýriseiningu ("microprogrammed control unit") meðan RISC ("reduced instruction set computer") örgjörvi hefur t.d oftastsvokallaða harðvíraða (e. "hardwired") stýriseiningu sem er erfiðari að hanna (sérstaklega fyrir stórt og flókið skipanasett) en er hraðvirkari. RISC örgjörvar ná meiri afkastagetu því að þó að þeir hafi hærri n því að reynslan er sú að flóknu skipanirnar í CISC örgjörvans (sem RISC örgjörvinn hefur ekki og þarf því að keyra nokkrar skipanir til að vinna sama verk), eru ekkert rosalega tíðar í flestum forritum sem tölva þarf að framkvæma, þess fyrir utan má oftast klukka RISC örgjörva hraðar. Það ber að taka fram að til eru örgjörvar sem eru hannaðir til að sinna ákveðnum sérhæfðum hlutverkum og eru þá hannaðir með skipanasett í samræmi það og CISC örgjörvar geta verið fljótari að vinna sum sérhæfð verkefi. Helstu framleiðendur og hönnuður örgjörva. Framleiddu örgjörva í Apple tölvur fram til ársins 2006. Framleiddu 68k línuna og PowerPC í samstarfi við IBM línurnar. Framleiddu og hönnuðu fullt af örgjörvum og voru stærstir og leiðandi framan af. Framleiða POWER örgjörva seríuna. Einn helstu örgjörvaframleiðandi fyrir einkatölvur frá og með 9. áratugnum. Framleiddu x86 línuna sem m.a. Pentium örgjörvar tilheyra. Þeir keyrðu Dos og Windows stýrikefrin. Nýjasta flaggskip Intel er Quad Core örgjörvinn sem keyrir bæði Windows og Mac OS stýrikefri. Framleiða örgjörfa með nánast samskonar skipanasetti og x86 örgjörfar frá intel og eru í harðri samkeppni við þá. Einnig má nefna fleiri eins og t.d. Toshiba, Texas Instruments, Microchip (framleiða PIC örgjörva) og Siemens. Með allt á hreinu. Tónlistar og grínmyndin "Með allt á hreinu" fjallar um tvær hljómsveitir, Stuðmenn og Gærurnar (réttu nafni Grýlurnar), ástir og afbrýði meðlima þeirra og spaugilegar uppákomur í ferðalagi þeirra um Ísland. Myndin heldur aðsóknarmeti í kvikmyndahúsum á Íslandi. Borgir í Sviss. Eftirfarandi er listi yfir borgir í Sviss. Nafn viðkomandi kantónu eða fylkis er í sviga fyrir aftan nafn borgarinnar. Z. Sviss Brain Police. Brain Police er íslensk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð 12. nóvember 1998 af þeim Jóni Birni Ríkarðsyni, Herði Stefánsyni og Vagni Leví Sigurðssyni. Nafn sveitarinnar, Brain Police, er komið frá meistara Frank Zappa. Á fyrstu plötu Zappa er lag, sem heitir "Who are the Brain police", og nafn sveitarinnar dregur nafn sitt af laginu. Fyrsta plata sveitarinnar, "Glacier Sun", var gefin út árið 2000. Platan var gefin út á netinu, og Brain Police eru taldir frumkvöðlar fyrir það afrek. Í dómi "Morgunblaðsins" um plötuna segir: „Ég geri mér í hugarlund að strákarnir hafi vísvitandi ætlað að hafa hljóminn svona þykkan, drullugan og skítugan en þessi tilætlan þeirra verður hins vegar til þess að hann verður fremur máttlítill.“. Sama ár tók hljómsveitin upp lagið "Crash and burn" fyrir kvikmyndina Óskabörn þjóðarinnar. Eftir þessa upptöku hætti upphaflegi söngvari hljómsveitarinnar. Brain Police byrjaði að leika án söngs á meðan að þeir leituðu að nýjum söngvara. Söngleysið varð til þess að hljómsveitin hætti um tíma en fann hún að lokum söngvara, í vini á vínylkvöldi hljómsveitarinnar, á Akureyri. Maðurinn sem fyllti í skarðið hét Jens Ólafsson og honum var í kjölfarið boðið að verða söngvari hljómsveitarinnar. Árið 2002 gaf Brain Police út þriggja laga kynningarplötuna "Master Brain". Í umsögn "Morgunblaðsins" um smáskífuna segir: „fengur að Jens Ólafssyni söngvara sem bættist í hópinn fyrir skömmu en áður var hann í hinni norðlensku Toy Machine. Tilkoma hans hefur verið sem vítamínsprauta á sveitina“. Í kjölfarið, einu ári eftir útgáfu kynningarplötunar fékk hljómsveitin nokkur verðlaun í tónlistarverðlaunum, útvarpstöðvarinnar Radíó X og tímaritsins Undirtóna. Brain Police voru valdir með björtustu vonina, lag ársins og söngvara ársins. Sama ár, fékk hljómsveitin tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunana, fyrir hljómplötu ársins. Stuttu eftir það skrifaði hljómsveitin undir samning við Eddu útgáfu. Hljómsveitin stefnir aftur í hljóðver til að gefa út plötu undir merkjum Hitt, sem er undirmerki Eddu.Platan hét einfaldlega "Brain Police" og var hún gefin út í október árið 2003. Í inngangstefi plötunnar segir: „Læsið dætur ykkar inni. Brain Police eru mættir!“. Ári síðar gáfu Brain Police út þriðju plötu sína, "Electric Fungus". Á þriðju plötunni er að finna heimildarmynd um gerð plötunnar og myndband við lagið "Coed Fever". Seinasta plata Brain Police var gefin út tveimur árum síðar, árið 2006. Á plötunni voru tveir svíar við upptökustjórn, þeir Stefan Boman og Chips K. Platan, sem heitir "Beyond the wasteland" var gefin út október árið 2004 af Skífunni. Útvarpsþátturinn Poppland á Rás 2 valdi þessa fjórðu plötu Brain Police sem plötu vikunar þann 18. september 2006. Árið 2007, var svo hljómsveitin á ferðinni á íslensku tónlistarháttíðinni, Icelandic Airwaves. 31. maí 2010 gáfu Brain Police menn út þá tilkynningu á facebook síðu sinni að þeir hefðu ákveðið að hætta ótímabundið. 31. janúar 2011 tilkynntu Brain Police að þeir væru komnir saman aftur og þeir myndu spila á Eistnaflugi það árið en það yrðu þó sennilega einu tónleikar þeirra 2011. 2012 spiluðu þeir á tveimur erlendum tónlistarhátíðum, Desertfest og Hellfest. Glacier Sun. "Glacier Sun" er fyrsta breiðskífa íslensku hljómsveitarinnar Brain Police. Hún kom út árið 2000 og var tekin upp í Studio ofheyrn. Upptökum stjórnaði Haraldur Ringsted. Master Brain. "Master Brain" er smáskífa með Brain Police sem kom út árið 2002. Brain Police (breiðskífa). "Brain Police" er breiðskífa með Brain Police sem kom út árið 2003. Hobbitinn. "Hobbitinn" eða "Hobbit" (enska: "The Hobbit") er ævintýraskáldsaga eftir breska rithöfundinn J.R.R. Tolkien sem fjallar um leiðangur hobbitans Bilbó Bagga með þrettán dvergum og vitkanum Gandalfi til Fjallsins eina þar sem þeir ætla sér að endurheimta fjarsjóð úr höndum dreka að nafni Smeyginn. Sagan kom fyrst út 21. september 1937 sem barnabók, en hún er eins konar inngangur að Hringadróttinssögu, sem Tolkien skrifaði síðar. Bókin kom fyrst út á íslensku árið 1978 í þýðingu feðganna Úlfs Ragnarssonar og Karls Ágústs Úlfssonar. Hún hefur einnig komið út í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Sólstafir. Sólstafir er íslensk metalsveit sem stofnuð var árið 1995. Á þeim tíma sem hún hefur verið starfandi hefur hún gefið út tvær breiðskífur, fjórar smáskífur og þrjá „promo“ diska. Í Norðri. "Í Norðri" er smáskífa með Sólstöfum sem kom út árið 1995. Til Valhallar. "Til Valhallar" er smáskífa með Sólstöfum sem kom út árið 1996. Endurútgáfa. Til Valhallar var endurútgefin í Rússlandi, 2003 af Oskorei Productions. Promo Tape September 1997. Promo Tape September 1997 er smáskífa með Sólstöfum sem kom út árið 1997. Unofficial promo 1998. "Unofficial promo 1998" er smáskífa með Sólstöfum sem kom út árið 1998 Altstätten. Altstätten (SG) er borg í Sviss, nærri St. Gallen. Íbúafjöldinn er rúmlega 10 þúsund. Í Blóði Og Anda. "Í Blóði og Anda" er breiðskífa með Sólstöfum sem kom út árið 2002. Black Death. "Black Death" er breiðskífa með Sólstöfum sem kom út árið 2002. Promo 2004. Promo 2004 er smáskífa með Sólstöfum sem kom út árið 2004. Masterpiece of Bitterness. "Masterpiece of Bitterness" er breiðskífa með Sólstöfum sem kom út árið 2005. Amtmannsstígur. Amtmannsstígur er gata í Reykjavík. Hún liggur frá Lækjargötu að Ingólfsstræti. Tvær götur koma þvert á Amtmannsstígin en það eru Skólastræti sem endar við götuna og Þingholtsstræti sem þverar hana. Gatan er um það bil 150 metrar, liggur frá vestri til austurs og hækkar mót austri. Nafn götunnar á rætur sínar að rekja til þess að amtmaður á 19. öldinni reisti sér hús sem stóð við austurenda götunnar. Við götuna standa fá íbúðahús sem og tvö hús Menntaskólans í Reykjavík og er annað þeirra kallað eftir götunni í daglegu tali nemenda. Betlehemsturninn. Betlehemsturninn (portúgalska: Torre de Belém) er 5 hæða viti (og virki) sem er í Betlehemshverfinu í Lissabon í Portúgal. Turninn var reistur á árunum 1515 til 1521 samkvæmt skipun frá Manuel I (1515 - 1520) með það að markmiði að verja höfnina í Betlehem og Jerónímos-klaustrið. Upphaflega var turninn á eyju í Tagus-ánni miðri, en þar sem rennsli árinnar breyttist í kjölfar jarðskjálftans árið 1777 varð eyjan samvaxin landinu og breyttist í tanga. Turninn hafði áður staðið af sér jarðskjálftann mikla sem lagði Lissabon í rúst árið 1755. Betlehemsturninn var hannaður af Diogo og Francisco Arruda í hinum portúgalska Manueline-stíl og er í reynd eina dæmið um byggingu í Portúgal sem eingöngu er í þeim stíl. Turninn hefur verið notaður sem fangelsi, bæði af spænsku hernámsliði og Dom Miguel (1828 - 1834). Árið 1807 eyðilögðu franskar hersveitir efstu tvær hæðirnar en þær voru síðar endurbyggðar. Turninn er hins vegar frægastur fyrir að vera sá staður þaðan sem landkönnuðir Portúgala lögðu af stað til að kanna ný lönd á 16. og 17. öldinni. Turninn er opinn ferðamönnum og geta gestir skoðað dýflissurnar og fetað sig eftir þröngri leið upp á 35 metra hátt útsýnissvæði þar sem hægt er að horfa yfir Tagus-ána auk minnismerkisins um landvinninga Portúgala (Padrão dos Descobrimentos). Turninn er á heimsminjaskrá UNESCO. Gustave Eiffel. Alexandre Gustave Eiffel (15. desember 1832 – 27. desember 1923) var franskur verkfræðingur og arkitekt sem sérhæfði sig í mannvirkjum úr stáli. Hann er frægastur fyrir að hafa hannað Eiffelturninn, byggður á árunum 1887 - 1889, fyrir heimssýninguna í París 1889 og víravirkið í Frelsisstyttuna í New York. Schweizerpsalm. Schweizerpsalm eða svissneski sálmur er þjóðsöngur svisslendinga og er til á fjórum tungumálum, þýsku, frönsku, ítölsku og rómönsku. Lagið kom fyrst til skjalana árið 1841 en það er eftir Alberich Zwyssig. Texinn er eftir Leonhard Widmer. Árið 1961 var svo ákveðið að hafa þetta sem þjóðsöng Sviss en áður var ljóðið Rufst Du mein Vaterland eftir laginu God Save the Queen. Á þýsku. Gott, den Herrn, im hehren Vaterland. Kann ich froh und selig träumen! Gott, den Herrn, im hehren Vaterland Tritt die Sonne klar und milde, Gott, den Herrn, im hehren Vaterland Bist du selbst uns Hort und Wehr, Gott, den Herrn, im hehren Vaterland. Á frönsku. Sur nos monts, quand le soleil Et prédit d'un plus beau jour le retour, Les accents émus d'un coeur pieux. Joue encore dans le bois noir, Le coeur se sent plus heureux près de Dieu. Loin des vains bruits de la plaine, L'âme en paix est plus sereine, Les accents émus d'un coeur pieux. Notre coeur pressent encore le Dieu fort; Dieu nous bénira du haut des cieux Des grands monts vient le secours; Garde la foi des aïeux, Vis comme eux! Mets tes biens, ton coeur, ta vie! Que Dieu bénira du haut des cieux. Á ítölsku. Quando bionda aurora il mattin c'indora l'alma mia t'adora re del ciel! Se di stelle è un giubilo la celeste sfera Te ritrovo a sera o Signor! Se di nubi un velo m'asconde il tuo cielo pel tuo raggio anelo Dio d'amore! Quando rugge e strepita impetuoso il nembo m'è ostel tuo grembo o Signor! Á rómversku. Imni naziunal Svizzer (Psalm svizzer Rumantsch Grischun) En l'aurora la damaun ta salida il carstgaun, Mia olma senta ferm Dieu en tschiel, il bab etern, Dieu en tschiel, il bab etern. Er la saira en splendur da las stailas en l'azur Mia olma senta ferm Dieu en tschiel, il bab etern, Dieu en tschiel, il bab etern. Ti a nus es er preschent en il stgir dal firmament, Mia olma senta ferm Dieu en tschiel, il bab etern, Dieu en tschiel, il bab etern. Cur la furia da l'orcan fa tremblar il cor uman alur das ti a nus vigur, Tutpussent! stas ti franc a nus fidaivel. Mia olma senta ferm Dieu en tschiel, Il bab etern, Dieu en tschiel, il bab etern La Marseillaise. La Marseillaise er þjóðsöngur Frakklands, skrifaður af Claude Joseph Rouget de Lisle árið 1792. Ensím. Ensím (eða lífhvatar) eru venjulega stór prótein (13.000-500.000 Dalton) sem hraða efnahvörfum í frumum. Það er þessi hæfileiki ensíma að „hvata hvörf“ sem skilur ensím frá öðrum próteinum. Í frumum eru ensím tengd við frumuvegg, himnur, leyst upp í umfrymi eða dreifð í kjarnanum. Mismunandi magn er af ensímum í mismunandi vefjum og frumutegundum. Ensím eru nokkuð óstöðug og við litlar breytingar á hitastigi eða sýrustigi geta þau misst virkni sína. Geimsteinn (upptökuver). Geimsteinn er upptökuhljóðver og útgáfufyrirtæki sem Rúnar Júlíusson, fyrrverandi meðlimur hljómsveitarinnar Trúbrots, og kona hans, María Baldursdóttir, stofnuðu saman 1976. Það er nú elsta starfandi tónlistarútgáfa og stúdíó landsins, en stúdíóhluti fyrirtækisins var þó ekki opnaður fyrr en árið 1982. Fyrirtækið hefur séð um útgáfu hljómsveita og tónlistarmanna á við Hljóma, Trúbrot, Rúnar Júlíusson, Bjartmar Guðlaugsson, Hjálma og Deep Jimi and The Zep Creams. Öglir. Öglir (fræðiheiti: "Archaeopteryx", úr grísku: ἀρχαίος „forn“ + πτερυξ „vængfjöður“) lifði á síðjúra og árkrít þar sem nú er Þýskaland, og er elsti og frumstæðasti fugl sem þekktur er. Uppgötvun fyrsta sýnisins, "Archaeopteryx lithographica", árið 1861, tveimur árum eftir að Charles Darwin gaf út "Uppruna tegundanna", setti af stað miklar umræður um þróun og hlutverk millistigssteingervinga (e. "transitional fossils"). Síðar hafa fundist fleiri sýni af ögli, og eru þau nú orðin tíu talsins. Öll sýni sem fundist hafa eru úr kalksteinslagi við bæinn Solnhofen í Þýskalandi. Hinn fíni kalksteinn, sem geymir nákvæmt mót af smáatriðum í líkamsbyggingu sem oftast sjást ekki í steingervingum, er notaður í steinprentsplötur, en til þess vísar lýsingin "lithographica" („steinprents-“). Öglirinn sýnir mörg einkenni þeirrar greinar risaeðla sem nefnist þrítáungar ("Theropoda"). Uppgötvun nokkurra vel geymdra fiðraðra risaeðla í Kína á tíunda áratugnum staðfesti í augum margra vísindamanna tengslin milli risaeðla og fugla. Simon & Garfunkel. Simon & Garfunkel er bandarískur dúett skipaður Paul Simon og Art Garfunkel. Þeir stofnuðu sveitina "Tom and Jerry" árið 1957 en urðu í raun ekki frægir fyrr en 1965 þegar smáskífan "Sound of Silence" kom út. Tónlist þeirra var fyrirferðarmikil í kvikmyndinni "The Graduate" sem sendi þá enn hærra upp á stjörnuhimininn. Burg Eltz. Burg Eltz er miðalda kastali staðsettur á hæðum fyrir ofan Moselle á milli Koblenz og Trier, í þýskalandi. Kastalinn er enn þá í eigu sömu fjölskyldu og bjó í kastalanum fyrir 800 árum. Sumir hlutar kastalans eru opnir almenningi, þar á meðal fjársjóðir kastalans, málverk og fleira sem eigendur kastalans hafa safnað saman allt frá 12. öld. Það er hægt að komast að kastalanum með bíl eða gangandi frá næstu lestarstöð, sem er í grenndinni. Kastalinn er umkringdur trjám og gróðri við þrjár hliðar Elzbach árinnar, norðurhluta Moselle árinnar. Kastalinn var staðsettur rétt hjá rómverskri kaupleið milli ríku bóndabæjanna og markaða þeirra. Þjappað mengi. Þjappað mengi er mengi í grannrúmi, sem hefur ákveðinn, mikilvægan eiginleika, ekki síst í firðrúmum. Þessi tvö skilyrði eru jafngild í firðrúmi en seinna skilyrðið er notað sem skilgreining á þjöppuðu mengi í grannrúmi. Jafnframt leiða þau af sér að mengið er lokað og takmarkað. Í formula_1 er það nægjanlegt að mengi sé lokað og takmarkað til þess að það sé þjappað, en fyrir almenn firðrúm er það fremur sjaldgæft. Lögmál Hofstadters. Lögmálið var sett fram af Douglas Hofstadter í bókinni Gödel, Escher, Bach sem var gefin út árið 1979. Oft er vísað í lögmálið í tengslum við verkefnaskipulag, sérstaklega í hugbúnaðarþróun. Lögmálið inniheldur sjálfstilvísun, en smækkar aldrei niður í fáfengilegt tilfelli. Það er að segja, alveg sama hversu oft reiknað er með lögmálinu mun það samt alltaf taka lengri tíma en von var á. Það er því ekki bara erfitt að áætla þann tíma sem verkefni munu taka, heldur er það "óendanlega" erfitt. Lögmál Murphys. Lögmál Murphys er mjög almennt lögmál sem segir að ef að nokkur möguleiki sé til staðar á því að eitthvað fari illa, þá muni það fara illa. Almennt má segja að lögmálið feli það í sér, að sérhver atburður, sem hefur líkur stærri en núll, muni fyrr eða síðar eiga sér stað. Caernarfonkastali. Horft inn að Caernarfon kastala, séð (frá vinstri til hægri) Svarti turninn, Chamberlains-turninn og Arnarturninn. Caernarfonkastali var byggður í bænum Caernarfon á Norður-Wales af Játvarði 1. Englandskonungi í kjölfarið á vel heppnuðu stríði við furstadæmin. Þjóðsagan segir að sonur hans, síðar Játvarður 2. hafi fæðst þar 1284 en um það eru engar viðurkenndar heimildir. Lögmál Parkinsons. Lögmálið var fyrst sett fram af C. Northcote Parkinson í bókinni ' sem gefin var út árið 1958. Það er sett fram sem afleiðing af mikilli reynslu Parkinsons á breskri skriffinsku. Samkvæmt Parkinson þá er lögmálið afleiðing tveggja samverkandi krafta. Annarsvegar vilja embættismenn fjölga undirmönnum sínum, en ekki keppinautum, og hinsvegar skapa embættismenn vinnu hver fyrir annan. Hann benti líka á að á hverju ári varð 5-7% aukning á starfsmannafjölda í opinberri þjónustu, „óháð breytingum á magni vinnu (ef nokkrar voru)“. Lögmálið hefur verið aðlagað að tölvuiðnaðinum, þar sem að sagt er að "gagnamagn mun aukast þar til að allt tiltækt pláss er í notkun." Þetta er byggt á þeirri athugun að kaup á meira minni ýti undir notkun minnisfrekari aðferða; en á síðastliðnum 10 árum hefur magn minnis í tölvum (bæði vinnsluminnis og geymsluminnis) tvöfaldast á 18 mánaða fresti (sjá lögmál Moores). Lögmálið hefur verið útvíkað enn frekar sem: „"Kröfur sem gerðar eru til auðlindar aukast alltaf þar til að auðlindin er fullnýtt."“ - Þetta gæti átt við um náttúruauðlindir, raforku, tíma eða mannauð, svo að dæmi séu tekin. Jet Black Joe. Saga. Sveitin varð strax mjög vinsæl og eignaðist sterkan aðdáendahóp. Jet Black Joe fékk góðar móttökur víða um Evrópu og fengu bæði plötusamninga og spiluðu víðsvegar um evrópu. Páll Rósinkranz var tilnefndur sem söngvari ársins þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt fyrir árið 1992. Árið 1996 lagði hljómsveitin upp laupana í framhaldi af því að Páll Rósinkranz frelsaðist og sneri sér frá þeim lífsstíl sem hafði einkennt Jet Black Joe. Páll Rósinkranz frelsaðist og hætti í Jet Blak Joe meðan tilboð hlóðust inn frá erlendum plötufyrirtækjum, þar á meðal One little Indian UK og Pioner rec Japan. Lokatónleikar sveitarinnar voru haldnir í Austin, Texas. Í framhaldi af upplausn Jet Black Joe stofnaði Hrafn Thoroddsen hljómsveitina Ensími sem er ennþá starfandi. Í framhaldi af upplausn Jet Black Joe stofnaði Gunnar Bjarni gítarleikari og helsti lagasmiður Jet Black Joe hljómsveitirnar Jetz, M-Poppins, F.R.O.G og Sjalgæfa fugla(lög við ljóð Einars Más Guðmundssonar). Gunnar Bjarni starfaði frá 2000-2005 í New York á Manhattan með hljómsveit sinni F.R.O.G (Free Range Overground). Þar vann Gunnar Bjarni og söngkonan Karo með mönnum eins og Ron Saint Germain (Sonic Youth, Soundgarden, 311, Creed),og Jeff Tomei (Smashing Pumpkins-Siamese dream) og Daniel Wise (Scissors Sisters). Nýjasta verkefni Gunnars Bjarna 2011 er MC289. Endurkoma. Sumarið 2001 komu Gunnar Bjarni Ragnarsson og Páll Rósinkrans fram á Eldborgarhátíðinni undir nafni Jet Black Joe. Í framhaldi náði hljómsveitin aftur miklum vinsældum, bæði hjá gömlum aðdáendum og nýrri kynslóð sem uppgvötaði rokktónlist Jet Black Joe. Sveitin hélt áfram að spila opinberlega og gaf í framhaldinu út tvær plötur: "Greatest Hits" og "Full Circle", sem innihélt glæný lög. Full Circle. "Full Circle" er breiðskífa með hljómsveitinni Jet Black Joe sem kom út árið 2006. Greatest Hits (Jet Black Joe). "Greatest Hits" er safnplata með öllum frægustu lögum Jet Black Joe. Platan kom út árið 2002 hjá Skífunni. You Can Have It All. "You Can Have It All" er breiðskífa með Jet Black Joe sem kom út árið 1996. Gítarleikari. Gítarleikari er sá maður sem spilar á gítar. Francis Ford Coppola. Francis Ford Coppola (fæddur 7. apríl 1939 í Detroit í Michigan) er bandarískur kvikmyndagerðarmaður. Hann ólst upp í New York. Faðir hans var tónlistarmaðurinn Carmine Coppola og móðir hans var leikkona. Hans frægustu kvikmyndir eru "Guðfaðirinn 1", "2" og "3". Nikulás Kópernikus. Nikulás Kópernikus (19. febrúar, 1473 – 24. maí, 1543) var pólskur stjörnufræðingur sem fyrstur lagði fram nútíma útgáfu tilgátunar um að jörðin snerist í kringum sólina, og var sú kenning nefnd sólmiðjukenningin og birti Kópernikus hana í bók sinni "Um snúninga himintunglanna". Hann fæddist í borginni Toruń í Prússlandi sem þá var undir konungsveldi Póllands. Kópernikus var mikill fræðimaður, en hann nam ásamt stjörnufræði meðal annars stærðfræði, læknisfræði og hagfræði. Sólmiðjukenning hans markaði tímamót í framfarasögunni og voru störf hans útfærð af Galíleó Galílei og Jóhannes Kepler, síðar var sólmiðjukenningin svo sönnuð af Isaac Newton. World of Warcraft. World of Warcraft er spunaleikur sem er hluti af Warcraft seríunni sem kemur frá tölvuleikja fyrirtæki sem heitir Blizzard. Leikurinn er fjölnotendanetleikur og er einn þeirra vinsælustu. Eins og í öðrum spunaleikjum búa leikmenn sér til sögupersónu og taka þátt í söguþræðinum með öðrum notendum. Hægt er að velja um tvö lið sem eru í stríði við hvort annað, „Bandalagið“ eða „Hjörðin“. Sagan á sér stað stuttu eftir atburði '. Spilun leiksins felur í sér að taka að sér ýmis verkefni sem maður ýmist leysir einn eða í hóp. Hægt er að velja um nokkur starfssvið, svo sem járnsmiður, sem meðal annars geta búið til vopn og brynjur. Meðal annara starfa sem hægt er að sinna eru fláning, leðurvinna, námugröftur, grasafræði, skartgripasmíði, verkfræði. Geta allar stéttir valið sitt megin sérsvið, eins og Prestar geta orðið Myrkir Sóknaprestar, en notast þeir þá við svarta galdra. Eins getur Stríðsmaður ákveðið að taka að sér það verkefni að gerast verndari hópsins, en þá tekur hann að sér það verkefni að vernda hópinn með því að skaða óvininn til þess að hann ráðist á verndarann í staðinn fyrir hópinn. Smá upplýsingar. World of Warcraft eins og er, hefur 4 uppfærslur, The Burning Crusade, Wrath of the Lich King, Cataclysm og Mists of Pandaria. Hver leikmaður skapar sér ákveðna persónu í leiknum sem ákvarðar það hvaða stétt hann eða hún mun spila og hvaða kynþætti persónan muni tilheyra. Eitt af mikilivægari ákvörðunum leikmannsins, sem eiga eftir að hafa gífurleg áhrif á spilun og aðlögun leikmanna er valið milli "flokksklíka" sem eru tvær: "Alliance" og "Horde" í hverri klíku eru 6 kynþættir. Hver þáttur hefur sínar eigin stéttir. Einnig getur leikmaður valið milli LGU og LGL kerfi. LGU kerfið stendur fyrir Leikmaður Gegn Umhverfi sem þýðir að leikmaður spilar á móti tölvunni, en LGL stendur fyrir Leikmaður Gegn Leikmanni og spilar leikmaðurinn þá á móti öðrum leikmanni, sem getur verið hvar sem er í heimi. Í báðum kerfunum eru verðlaunin betri vopn og klæðnaður sem er undirstaða hvers leikmanns. Þessir hlutir ákvarða hve sterkur leikmaðurinn er og hvað leikmaðurinn er búinn að afreka. Mýrahreppur (A-Skaftafellssýslu). Mýrahreppur var hreppur í Austur-Skaftafellssýslu, vestan megin Hornafjarðar. Hann varð til, ásamt Nesjahreppi, 14. nóvember 1876 þegar Bjarnaneshreppi var skipt í tvennt. Sveitin var kölluð Mýrar og var sérstök sókn, sem fram til 1899 var kennd við hinn forna kirkjustað Einholt. Hinn 12. júlí 1994 sameinaðist Mýrahreppur Nesjahreppi á ný, ásamt Höfn í Hornafirði, undir nafninu "Hornafjarðarbær". Nesjahreppur. Nesjahreppur var hreppur í Austur-Skaftafellssýslu, austan megin Hornafjarðar. Hann varð til, ásamt Mýrahreppi, 14. nóvember 1876 þegar Bjarnaneshreppi var skipt í tvennt. Nesjahreppur náði yfir sveitina Nes. Verslunar- og útgerðarbærinn Höfn myndaðist upphaflega innan Nesjahrepps, en var gerður að sérstöku hreppsfélagi, Hafnarhreppi, í ársbyrjun 1946. Hinn 12. júlí 1994 sameinaðist Nesjahreppur Mýrahreppi á ný, ásamt Höfn í Hornafirði, undir nafninu "Hornafjarðarbær". Hornafjarðarbær. Hornafjarðarbær var sveitarfélag í Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu. Hann varð til 12. júní 1994 við sameiningu Hafnar í Hornafirði, Nesjahrepps og Mýrahrepps. Hið nýja sveitarfélag varð þó skammlíft, því aðeins fjórum árum síðar, hinn 6. júní 1998, sameinaðist það Hofshreppi, Borgarhafnarhreppi og Bæjarhreppi undir merkjum "sveitarfélagsins Hornafjarðar". Borgarhafnarhreppur. Borgarhafnarhreppur var hreppur í Austur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Borgarhöfn í Suðursveit. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Borgarhafnarhreppur Hofshreppi, Hornafjarðarbæ og Bæjarhreppi undir merkjum "sveitarfélagsins Hornafjarðar". Hofshreppur (A-Skaftafellssýslu). Hofshreppur var hreppur í Austur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Hof í Öræfum. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Hofshreppur Borgarhafnarhreppi, Hornafjarðarbæ og Bæjarhreppi undir merkjum "sveitarfélagsins Hornafjarðar". Bæjarhreppur (A-Skaftafellssýslu). Bæjarhreppur var hreppur í Austur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Bæ í Lóni. Hreppurinn varð til ásamt Bjarnaneshreppi árið 1801 þegar Holtahreppi var skipt í tvennt. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Bæjarhreppur Hofshreppi, Borgarhafnarhreppi og Hornafjarðarbæ undir merkjum "sveitarfélagsins Hornafjarðar". Bjarnaneshreppur. Bjarnaneshreppur var hreppur í Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu, kenndur við kirkjustaðinn Bjarnanes. Bjarnaneshreppur varð til árið 1801 þegar Holtahreppi var skipt í tvennt og hét hinn hlutinn Bæjarhreppur. 14. nóvember 1876 var Bjarnarneshreppi síðan skipt í tvennt, í Nesjahrepp og Mýrahrepp. Holtahreppur (A-Skaftafellssýslu). Holtahreppur var hreppur í austanverðri Austur-Skaftafellssýslu. Hreppurinn dró nafn sitt af Holti á Mýrum og náði hann frá sýslumörkum í austri yfir Lón, Nes og Mýrar, allt vestur að Heinabergsvötnum. Árið 1801 var hreppnum skipt í tvennt um Vestrahorn. Varð eystri hlutinn að Bæjarhreppi og hinn vestari að Bjarnaneshreppi. Hornafjörður. Hornafjörður er fjörður á Suðausturlandi. Í hann rennur Hornafjarðarfljót og skilur það að sveitirnar Mýrar og Nes. Austan fjarðarins er bærinn Höfn í Hornafirði. Árið 1897 hófst búseta á Höfn þegar Ottó Tulinius kaupmaður og Valgerður Friðriksdóttir eiginkona hans fluttust þangað búferlum. Höfn varð þá verslunarstaður og einnig eini þéttbýlisstaður Austur-Skaftafellssýslu. Árið 1998 gengu öll sveitarfélög Austur-Skaftafellssýslu í eina sæng. Þótt hið nýja sveitarfélag kenni sig við Hornafjörð er það í raun mun víðfeðmara, nær að auki yfir Suðursveit, Öræfi og Lón. Í Suðursveit er að finna Jökulsárlón á Breiðamerkursandi sem að er ein þekktasta náttúruperla Íslands og dregur það árlega að fjölda ferðamanna til sýslunnar ásamt Þjóðgarðinum í Skaftafelli, Lónsöræfum, Ingólfshöfða og fjölda annarra náttúruperla í sýslunni. Fjölgun ferðamanna hefur stóraukið ferðaþjónustu í sýslunni og skapað mikla vinnu yfir sumartímann sem skólafólk hefur verið duglegt að nýta sér. Einnig er starfrækt í Suðursveit menningasetur tileinkað Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi sem að var fæddur og uppalinn á Hala í Suðursveit og er þar hægt að fræðast um líf og skrif skáldsins. Aargau. Aargau er þýskumælandi kantóna í norðurhluta Sviss og liggur að Þýskalandi. Hún er jafnframt fjórða fjölmennasta kantónan. Höfuðborgin heitir Aarau. Lega og lýsing. Aargau er tíunda stærsta kantónan í Sviss með 1.404 km2. Hún er nær nyrst í Sviss og á landamæri að Þýskalandi. Rínarfljót myndar náttúruleg landamæri þar á milli. Í Aargau sameinast fjórar af fimm stærstu ám Sviss: Rín, Aare, Reuss og Limmat. Aðrar kantónur sem lggja að Aargau eru: Basel-Landschaft og Solothurn fyrir vestan, Bern fyrir suðvestan, Luzern fyrir sunnan, Zug fyrir suðaustan og Zürich fyrir austan. Aargau er ein þeirra kantóna sem varla ná að Alpafjöllum, en þau eru fyrir sunnan kantónuna. Hæsta fjallið í kantónunni er aðeins 908 metra hátt. Íbúar eru 581 þús talsins, sem gerir Aargau að fjórðu fjölmennustu kantónu Sviss. Aðeins Zürich, Bern og Vaud (Waadt) eru fjölmennari. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Aargau er samsett úr tveimur helmingum. Til vinstri er svartur hálfskjöldur með hvítri á fyrir miðju. Til hægri er blár hálfskjöldur með þremur hvítum stjörnum. Svarti liturinn táknar fósturmoldina, blái liturinn táknar loftið, hvítu línurnar tákna vatnið (þ.e. árnar) og stjörnurnar tákna eld. Vinstri helmingurinn stendur fyrir kantónuna í heild, með ána Aare fyrir miðju. Hægri helmingurinn stendur fyrir bróðurlegu sameiningu hinna þriggja trúarbragða: Kaþólsku kirkjuna, reformeruðu kirkjuna og gyðingdóm. Skjaldarmerkið var tekið upp 1803 þegar Aargau varð formlega að kantónu í Sviss. Orðsifjar. Aargau er samsett orð. "Aar" stendur fyrir ána Aare og láglendið þar í kring. "Gau" merkir landsvæði eða hérað. Heitið Aargau kom fyrst fram árið 768. Söguágrip. Héraðinu Aargau skipt í þrjár skammlífar kantónur á tímum helvetíska lýðveldisins (1798–1803). Á kortinu sjást árnar miklu vel. Í upphafi bjuggu keltar á svæðinu, en Rómverjar settust þar að snemma á 1. öld e.Kr. Fyrsta rómverska hervirkið reist við samflæði Aare, Reuss og Limmat árið 14 e.Kr. Þar reis svo rómverska borgin Vindonissa. Aðrar rómverskar borgir voru t.d Aquae Helveticae (Baden í dag) og Augusta Raurica (Kaiseraugst í dag). Um miðja 3. öld fóru germanir að ráðast inn í héraðið, aðallega alemannar. Rómverjar hörfuðu að lokum milli 401-406 og námu alemannar þá land. Héraðið hafði kristnast á 4. öld, en árið 346 var biskupsstóll stofnaður í Augusta Raurica. Á tímum þýska ríkisins voru tvær valdaættir sem mestu ítökin áttu í héraðinu, Kyburg-ættin og Habsborgarættin. 1415 varð ósætti milli Sigismundi keisara og Friðriki frá Habsborg á ríkisþinginu í Konstanz. Sigismundur bauð þá nágrönnum Aargau að hrifsa til sín öll lönd Habsborgara. Kom þá til átaka í öllu héraðinu. 1526 hófust siðaskiptin í héraðinu. En eftir síðari Kappeler-stríðið 1531 milli kaþólikka og mótmælenda voru íbúar neyddir til kaþólsku á ný. Það var ekki fyrr en eftir orrstuna við Villmergen 1712, þar sem kaþólikkar töpuðu gegn ofurefli frá Bern og Zürich, að reformeraða kirkjan náði yfirhöndinni á ný. 1798 hertóku Frakkar héraðið, sem og alla Sviss. Þá voru þrjár kantónur myndaðar úr héraðinu Aargau og nálægum héruðum: Kantónan Aargau, kantónan Fricktal og kantónan Baden. Árið síðar, 1799, sló í orrustu milli Frakka og Austurríkismanna við ána Aare. Þar sigruðu Frakkar, en nærsveitir voru að hluta lagðar í rúst. Íbúar kantónanna þriggja voru óánægðir með fyrirkomulag landamæranna, þannig að Napoleon sjálfur gaf tilskipun um að sameina þær allar í eina stóra kantónu. Þetta gerðist 1803 og hlaut nýja kantónan nafnið Aargau. Höfuðborgin varð Aarau. 1813 fóru þýskar, rússneskar og austurrískar hersveitir yfir Rínarfljót og hröktu alla Frakka burt. Hin nýja kantóna var við það að klofna í sundur, en fulltrúar hennar á Vínarfundinum fengu því framgengt að viðhalda henni eins og Napoleon hafði ákvarðað tíu árum áður. Á 19. öld þróaðist kantónan frá því að vera bændahérað í iðnaðarhérað. 1848 keyrðu fyrstu járnbrautirnar um kantónuna og með henni kom þungaiðnaðurinn. Árið 1900 voru enn um 43% vinnufærra manna í landbúnaðarstörfum, en 42% í iðnaði og 14% í þjónustu. Á síðustu árum hefur iðnaðurinn og þjónustan aukist talsvert. Vatnspípa. Vatnspípa eða hookah er sértök tegund pípu þar sem reykurinn er síaður í gegnum vatn. Vatnspípan er upprunninn frá Mið-Austurlöndum eða Asíu, og er meðal annars notuð til þess að reykja tóbak, epli og aðra ávexti, kryddjurtir af ýmsu tagi, og cannabis. Soul of a New Machine. "Soul of a New Machine" er fyrsta breiðskífa Fear Factory, frá árinu 1992. Demanufacture. "Demanufacture" var önnur breiðskífa Fear Factory (sé EP-platan "Fear is the Mindkiller" ekki talin með). Remanufacture - Cloning Technology. Remanufacture - Cloning Technology er breiðskífa frá hljómsveitinni Fear Factory frá árinu 1997. Platan er endurhljóðblöndun á fyrri plötu sveitarinnar Demanufacture sem kom út 1995. Árið 2005 voru plöturnar endurútgefnar saman í tvöfaldri útgáfu. Obsolete. "Obsolete" er breiðskífa með Fear Factory sem kom út árið 1998. Digimortal. Digimortal er breiðskífa með Fear Factory. Concrete. Concrete er breiðskífa frá hljómsveitini Fear Factory, gefin út árið 2002. Archetype. "Archetype" er breiðskífa með Fear Factory sem kom út árið 2004. Transgression. "Transgression" er breiðskífa með Fear Factory sem kom út árið 2005. Fear Factory. Fear Factory er bandarísk þungarokkshljómsveit sem var stofnuð árið 1990. Textar hljómsveitarinnar fjalla einkum um tækniþróunina og að hún eigi eftir að koma mannkyninu í koll, að mannkynið verði úrelt og vélarnar taka við. Einkenni hljómsveitarinnar er hraður trommu- og bassataktur. Drum and bass. Drum and bass er tegund af elektrónískri danstónlist. Helstu einkenni eru að hraðinn er u.þ.b. 165 til 175 slög á mínútu og trommutaktarnir eru af breakbeat gerð. „Drum and bass“ tónlist hefur verið skipt í urmul undirflokka og má þar nefna jump-up, Liquid Funk og techstep. Ráðandi útgáfuform var lengi vínylplatan en með bættri stafrænni plötusnúðatækni hafa Mp3 skrár náð aukinni og almennari útbreiðslu. Fatboy Slim. Fatboy Slim (16. júlí, 1963, Quentin Leo Cook eða Norman Cook) er breskur tónlistarmaður sem semur og mixar danstólist að atvinnu. Á 9. áratugnum var hann meðlimur í bresku sveitinni The Housemartins Vinnsluminni. Vinnsluminni (einnig nefnt aðal minni eða innra minni) er minni í tölvu sem örgjörvi getur vísað beint í með vistföngum. Vinnsluminni gegnir því hlutverki að geyma gögn og forrit á meðan tölva er að vinna með þau sem og gögn og forrit sem þykir líklegt að tölvan muni bráðlega vinna með. Vinnsluminni eru yfirleitt hraðvirk og eru oftast RAM. Vinnsluminni getur líka verið lesminni (ROM) og er það oftast að mjög litlum hluta til í heimilistölvum. Vinnsluminni í heimilistölvum eru tengd við northbridge kubbinn á móðurborðinu. Lyklaborð. Lyklaborð er jaðarbúnaður fyrir tölvur. Notandi ýtar á hnapp og sendir þá tölvunni skilaboð. Yfirleitt eru lyklaborð með um eða yfir 108 hnappa sem eru stafrófið A-Z, 0-9 og ýmsir aðrir. Listi yfir útgáfur Microsoft Windows. Tímaás. Listinn hér að neðan sýnir Stýrikerfin frá Microsoft stýrikerfum í tímaröð og hvernig uppbyggingin þeira er, 16 bit - 32 bit(x86) - 64 bit(x64). Heimild. Windows Móðurborð. AT móðurborð fyrir Intel 386 örgjörva. ATX móðurborð fyrir AMD K-7 örgjörva. Móðurborð er margbrotinn tölvuíhlutur sem hýsir a.m.k. einn örgjörva, tengir saman aðra tölvuíhluti og stýrir þeim. Móðurborð er oftast stök prentplata sem er fest ýmist í botn eða í hliðina á tölvukössum og er því oftast stærsti íhluturinn. Á móðurborðinu eru ýmsar "brautir" sem gögn, vistföng, stýrimerki og fleira fer um, og notast þær við mismunandi tækni. M-10001. M-10001 er lest með díselvél smíðuð af General Motors. Tasmaníuskolli. Tasmaníuskolli eða Tasmaníudjöfull (fræðiheiti: "Sarcophilus laniarius") er kjötetandi pokadýr sem finnst aðeins á eyjunni Tasmaníu á okkar dögum. Tasmaníuskollinn er eini meðlimur ættkvíslarinnar "Sarcophilus". Hann er svipaður að stærð og hundar, riðvaxinn og vöðvamikill, og er stærsta kjötetandi pokadýr heims. Tasmaníuskollinn hefur svartan feldi, er illa lyktandi, sem magnast þegar dýrinu er ógnað, hefur mjög háværan og óhugnanlegan skræk og er grimmur þegar hann nærist. Skollinn veiðir sér til matar og étur hræ, er einlífisvera, en étur þó einstaka sinnum í félagi við aðra skolla. Tasmaníuskollinn dó út á meginlandi Ástralíu um 400 árum fyrir komu Evrópubúa (1788). Hann var álitinn skaðræðisgripur og ógn við búfénað á Tasmaníu og var því veiddur til ársins 1941 en þá var hann friðaður. Stofninn hefur minnkað síðan seint á 20. öld vegna skæðs andlitskrabbameins og er hann nú að komast í útrýmingarhættu. Ríkisstjórn Tasmaníu vinnur að því að draga úr áhrifum krabbameinsins á stofninn. IPod. iPod er lína stafrænna tónlistarspilara, sem hannaðir eru og markaðssettir af Apple. iPod hefur einfalt notendaviðmót, sem hannað er í kringum miðlægt skrunhjól (undantekning er þó iPod shuffle og iPod Touch). iPod classic geymir gögn á hörðum diski, en smærri gerðirnar, iPod shuffle, iPod nano og iPod touch, geyma gögnin í flash-minni. Eins og flestir stafrænir tónlistarspilarar getur iPod einnig nýst sem gagnageymslutæki. Saga og hönnun. iPodinn var upphafið að innreið Apple á tónlistarmarkaðinn. Á þeim tíma voru stafrænar myndavélar og mp3-spilarar frekar stórir og klunnalegir, þannig að Apple ákvað að bjarga málunum. Ipodar eru til í mörgum litum s.s. gráum, bláum, grænum, bleikum og fleira. Vélbúnaðarverkfræðingur Apple, Jon Rubinstein, setti þá saman teymi verkfræðinga til þess að hanna iPodinn, m.a Tony Fadell og hönnuðinn Jonathan Ive. Varan var hönnuð og þróuð á innan við ári og kynnt almenningi þann 23. október 2001. Steve Jobs, framkvæmdastjóri Apple, sagði að með iPod, með 5GB minni, gætir þú haft "1000 lög í vasanum". Apple fékk utanaðkomandi fyrirtæki, Pixo til þess að hanna notendaviðmót iPodsins undir stjórn Steve Jobs. Hugbúnaður. iPod getur spilað MP3, ACC, M4A og AIFF ásamt fleirum. Með iPod photo var einnig hægt að skoða myndir á JPEG, BMP, GIF, TIFF og PNG sniðum. 5. kynslóðar iPodar geta einungis spilað myndefni sem þjappað er með MPEG-4 þjöppunarstaðlinum. Upphaflega var iPodinn einungis til notkunar með Apple tölvum. En 2. kynslóðar iPodar virkuðu með Windows. iPod styður ekki MIDI, Ogg eða FLAC hljóðskráarsniðin. Notendaviðmót. Skipt er um valmöguleika með því að "skrolla" um viðmótið. iPod touch er með snertiskjá líkt og iPhone og hefur því ekki skrunhjól. Stýrikerfi. Stýrikerfi iPodsins er geymt í vinnsluminni tækisins, sem er 32 MB, 5. kynslóðar tæki hafa þó 64 MB vinnsluminni. Tengimöguleikar. Upphaflega var FireWire notað til þess að tengja iPodinn við tölvu en seinna kom á markaðinn 30 pinna USB 2.0 tengi sem gerði iPodinn aðgengilegri PC tölvum. Rafhlaða iPodsins er einnig hlaðin með því að stinga USB snúrunni í straumbreyti sem síðan er settur í innstungu. Saint-Dié-des-Vosges. Saint-Dié-des-Vosges er borg í Lorraine í norðausturhluta Frakklands. Fólksfjöldi árið 1999 var 22.569 og heildarflatarmálið borgarinnar er 46,15 km². Íbúar borgarinnar eru kallaðir "Déodatiens". Mount Cook. Mount Cook er hæsta fjall Nýja Sjálands og Eyjaálfu. Hæsti tindur þess er í 3754 metra hæð yfir sjávarmáli. Tom Fyfe, George Graham og Jack Clarke klifu það fyrstir árið 1894. Keðjulisti. Tengdur listi eða keðjulisti er, í tölvunarfræði, gagnagrind sem einkennist af því að hver hnútur í listanum hefur gildi, og bendi á annan hnút. Eintengdir listar. Eintengdir listar, eða einfaldlega "tengdir listar" eru listar, þar sem hver hnútur hefur einungis einn bendi sem bendir á næsta hnút á eftir. Þetta eru algengustu og einföldustu tengdu listarnir. Tvítengdir listar. Tvítengdir listar hafa tvo benda og bendir annar á næsta hnút á eftir og hinn bendir á næsta hnút á undan. Þannig má fara í báðar áttir eftir listanum. Línulega tengdir listar. Línulega tengdur listi er almennt heiti á lista þar sem eru bæði fyrsti hnútur og aftasti hnútur; bæði eintengdir og tvítengdir listar eru línulega tengdir. Aftasti hnúturinn bendir ekki á neitt, og er því núllbendir og sömuleiðis er enginn hnútur "á undan" fyrsta hnút. Hringtengdur listi. Hringtengdur listi er listi þar sem allir hnútarnir í listanum tengjast í hring. Hann getur verið tvítengdur eða eintengdur. Enginn hnútur í slíkum lista hefur núllbendi og allir hnútar búa yfir þeim eiginleika að til sé annar hnútur sem bendir á hann. Breyta má línulega tengdum lista í hringtengdan lista með því að tengja saman fyrsta og aftasta hnútinn. Fjöltengdur listi. Fjöltengdur listi er listi þar sem að hver hnútur vísar á fleiri en einn hnút. Fjöltengdir listar eru oft notaðir til þess að geyma tré. Fjöltengdur listi getur verið skilgreindur á ýmsa vegu, en oftast eru þeir einfaldlega samsetningar af öðrum tegundum tengdra lista. Til dæmis gæti fjöltengdur listi verið í grunninn hringtengdur listi, nema að hver hnútur hefur að auki tilvísun línulega tengdan lista. Bendir (hljóðfæri). Bendir er hefðbundin trommutegund sem notuð er um gjörvalla Norður-Afríku. Ólíkt tambúrínu hefur það engar hringlur, en hinsvegar hefur það oft sneril (yfirleitt gerður úr görnum) sem dregin er þvert yfir hausinn. Tromman er svo slegin með puttum eða lófa, og tónninn hefur mjög víbrandi eiginleika. Ljón. Ljón (fræðiheiti: "Panthera leo") eru næststærst (eftir tígrum) kattardýranna og eru talin eitt af aðalsmerkjum hinnar villtu náttúru Afríku. Þau hafa verið dýrkuð af afrískum ættbálkum í margar aldir fyrir styrk sinn og fegurð. Ljón eru einu stóru kattardýrin sem halda sig í hópum. Þau öskra einnig hæst allra kattardýra og geta öskur þeirra heyrst í allt að átta kílómetra fjarlægð. Heimkynni. Heimkynni ljóna eru lituð græn. Þrátt fyrir hið þekkta gælunafn "konungur frumskógarins" og "konungur dýranna" (sjá listann yfir gælunöfn), þá lifa flest ljón á flatlendi og hafast við á sléttunni. Fyrr á tímum lifðu ljón um nánast gjörvallt meginlandið. Í dag sjást þau nær einungis í mið- og Suður-Afríku en auk þess finnst afar smár stofn ljóna í Gir skóginum á Indlandi. Útlit. Ljón hafa gulbrúnan feld og geta orðið allt að 3 m að lengd með rófu og upprétt náð allt að 120 cm hæð. Karlljónin eru stærri en ljónynjurnar og geta vegið á við fimm manneskjur eða rúm 250 kg. En eldri og stærri ljónynjur vega yfirleitt á við þrjár og hálfa manneskju eða um 180 kg. Fullorðin karldýr þekkjast af þykkum makka, sem liggur í kringum höfuðið og niður hálsinn og stundum alveg niður á maga. Engin önnur kattartegund hefur jafn áberandi mun á karl- og kvendýri. Bæði karlljón og ljónynjur hafa barta á enda rófunar, nokkuð sem engin önnur kattaregund hefur. Í barta karlljóna er beitt bein. Gömul þjóðsaga hermir að ljónin noti bartann til að slá sig til reiði fyrir bardaga. Mataræði. Ljón éta yfirleitt stóra bráð eins og t.d. gasellur, sebrahesta, villigrísi og buffala. Þau hafa verið þekkt fyrir að geta ráðið niðurlögum svo stórrar bráðar sem ungra gíraffa. Þegar harðnar í ári og fæðu fer að skorta ráðast ljónin líka á minni dýr og sækja jafnframt í bráð og hræ sem önnur dýr hafa veitt. Fæðuöflun. Ljón eru félagslynd dýr og lifa í stórum hópum. Í hverjum hópi eru yfirleitt þrjú skyld fullvaxta karldýr með allt að þrjátíu ljónynjur og hvolpar. Kvendýrin eru yfirleitt frekar skyld hvert öðru. Ljónynjurnar sjá að mestu um veiðar og vinnu í hópnum þó svo að einstök ljónynja sé fullfær um að veiða upp á sitt einsdæmi ef þörf krefur. Kvendýrin reynast líka vera fljótari og betri til veiða en karldýrin. Kvenljón geta náð miklum hraða, eða allt að 60 km/klst meðan á eltingaleik stendur. Ljón eru mjög þolinmóð og geta setið um bráðina svo klukkutímum skiptir en eltingaleikurinn stendur aðeins yfir í örfáar mínútur. Eftir að bráð hefur verið drepin, þá öskra ljónynjurnar nokkur lágvær öskur sem segja hinum ljónunum að koma og fá sér að éta. Fullorðin karldýr koma fyrst, svo ljónynjurnar og síðast hvolparnir. Oftast getur bráð ljóna hlaupið mun hraðar en meðalljón. Þess vegna veiða ljónin í vel skipulögðum hópum og læðast upp að bráðinni og reyna helst að umkringja hana áður en þau skjótast upp úr hávöxnu grasinu. En grasið á afrísku sléttunum er hvorki grænt né snöggt, heldur mjög hávaxið og er ljósbrúnt mest allt árið og er feldur ljónanna svipaður á litinn. Því falla ljónin vel inn í umhverfið sem gerir það erfitt fyrir önnur dýr að sjá þau. Litir sem gera dýr svona lík umhverfi sínu eru oftast kallaðir felulitir. Ljónin veiða oftast í myrkri til að forðast hættulegan hita miðdegissólarinnar. Það hjálpar þeim líka að fela sig fyrir bráðinni. Ljón hafa afar góða nætursjón svo myrkrið hefur lítil áhrif á veiðihæfni þeirra. Þó svo að fullorðnu karldýrin sjái ekki um veiðar, þá þjóna þau vissulega mikilvægu hlutverki. Karlljónin eru mun sterkari en kvenljónin sem gerir hann að mun betri verndara fyrir hjörðina. Þegar kvendýrin eru á veiðum kemur það sérstaklega í hlut karldýranna að gæta hvolpanna fyrir ógnum og rándýrum eins og hýenum. Ljón nota vöðvana og bardagatæknina til þess að gæta óðalsins og hvolpanna og halda óvinum í fjarlægð. Stundum geta þessir óvinir verið önnur ljón. Ung karlljón eru rekin burt frá hjörðinni af eldri karlljónum um það leyti sem þau verða kynþroska. Þessi ungu karlljón eru kallaðir utangarðsljón. Þeir ferðast einir eða með bræðrum sínum. Utangarðsljónin ræna oft mat frá smærri rándýrum, eins og hýenum, sem þeir reka í burtu. Utangarðsljónin veiða fyrir sjálf sig þar til þau eru fær um að taka að sér sína eigin hjörð. Uppeldi. Ljónynjur fæða venjulega tvo til fjóra hvolpa. Hvolparnir fæðast með doppóttan feld, sem hjálpar þeim að falla inn í grasið á sléttunni. Þegar ljónsungarnir eldast þá hverfa doppurnar. Aðeins nokkurra mánaða gamlir verða ljónsungarnir afar leikglaðir. Þeir elta hver annan um allar trissur og stökkva á allt sem hreyfist. Þessir leikir kenna ungunum grundvallaratriðin við veiðar og hjálpa þeim að verða góð veiðiljón þegar þeir eldast. Hvolparnir eru aldir upp í hópum. Í hópnum eru það ekki bara mæðurnar sem að sjá um ungana, því aðrar ljónynjur sjá einnig um ljónsungana og oftar en ekki þá verða tvær ljónynjur eftir á meðan á veiðum stendur til að passa hvolpana. Ef að ljónshvolpur verður munaðarlaus, þá er það afar algengt að aðrar ljónynjur taki við uppeldinu, ef til vill frænka eða eldri systir. Þegar ungt karlljón verður eins árs gamalt þá er það rekið burt frá hjörðinni af forystukarlinum eða körlunum. En ef forystukarlinn er orðin gamall og veikburða þá gerast þess dæmi að yngra ljónið berst við hann annað hvort eitt eða með hjálp annarra ungra karlljóna. Ef unga ljónið ber sigur úr býtum mun það taka við forustuhlutverkinu. Að öðrum kosti eru ungu ljónin hrakin á brott og gerast þá utangarðsljón, svo sem áður segir. Nokkrar staðreyndir um ljón. Ljón eru einnig þekkt fyrir að... Trommusett. Trommusett er safn slagverkshljóðfæra sem raðað er upp á þægilegan hátt þannig að einn hljóðfæraleikari geti leikið á þau öll samtímis. Algeng uppstilling trommusetts með tveimur pákum (e. tom tom), gólfpáku (e. floor tom), bassatrommu, sneriltrommu, hi-hat og crash og ride málmgjöllum Ekki er óalgengt að fleiri slagverkshljóðfærum sé bætt við trommusett. Léonin. Léonin (1135 - 1190 eða 1201) var tónskáld, talinn Frakki, sem bjó í París á 12. öld. Hann er eitt fyrsta þekkta tónskáld fjölraddaðs Organum. Léonin telst til Notre Dame skólans í fjölröddun og er fyrsti meðlimur þess skóla sem þekktur er með nafni. Talið er að hann hafi átt stóran (ef ekki allann) þátt í að setja saman bókina sem í daglegu tali er kölluð Magnus Liber (latína: Mikla bókin) og er eitt mikilvægasta safn organum tónlistar sem nokkurntíman hefur verið sett saman. Allt sem vitað er um Léonin er komið úr skrifum Anonymous IV, sem var nemi sem vann við Notre Dame nokkrum áratugum eftir Léonin. Te. Te er seyði sem búið er til úr laufblöðum og brumi af terunnanum (fræðiheiti: "Camellia sinensis"). Te getur þó einnig átt við efnin sem notuð eru til að brugga seyðið, þ.e.a.s. þurrkuð lauf teplöntunnar sem stundum eru bætt með kryddi, jurtum eða ávöxtum. Te er náttúruleg uppspretta koffíns og teofýllíns. Í sumum löndum er hellt upp á te í tekatli. Jurtate á oftast við um seyði sem bruggað er án telaufa og inniheldur aðeins jurtir og ávexti. Dæmi um jurtate er rósaldinte og kamillute. Þar sem ekki er um raunverulegt te að ræða er oft talað um jurtaseyði. Í þessari grein er aðeins talað um te í bókstaflegri merkingu, þ.e.a.s. seyði úr telaufum. Um 3,2 milljónir tonna af tei voru framleidd á heimvísu árið 2004 (). Teræktun. Terunninn vex villtur í heittempruðu monsún loftslagi Asíu við rætur Himalajafjalla og verður allt að fimm til fimmtán metra hár. Dæmi eru þó um 30 metra háa terunna. Mörg skordýr herja á teplöntuna, svo sem stökktifur, míti, tólffótungar og termítar. Terunnar eru bæði ræktaðir í tempruðu og heittempruðu loftslagi. Í tempruðu loftslagi eru bestu aðstæðurnar hátt yfir sjávarmáli. Ræktaðir terunnar eru klipptir niður undir tvo metra til að auka laufvöxt og auðvelda aðgengi að laufblöðunum. Helstu ræktendur tes eru Indland, Kína, Bangladess, Pakistan, Íran, Srí Lanka, Taívan, Japan, Indónesía, Nepal, Ástralía, Argentína og Kenía. Innan teverslunarinnar eru Srí Lanka og Taívan enn kölluð sínum gömlu nöfnum, "Ceylon" og "Formosa". Verkun og flokkun. Þrjár megin gerðir tes — grænt, dökkt og svart — fást með mismunandi verkun telaufsins. Lauf terunnans byrja að visna og oxast fljótlega eftir að þau hafa verið týnd ef þau eru ekki þurrkuð. Ef þau eru þurrkuð snemma fæst grænt te en svart te ef þeim er leyft að oxast lengur. Dökkt te eða "oolong" te (mandarín: "wūlóngchá" eða „svart drekate“) er nokkurskonar millistig græns og svarts tes. Verkunin er lík bruggun byggs, þar sem að mjölvi er breytt í sykur. Laufin dökkna smám saman þegar blaðgrænan brotnar niður og sútunarsýra losnar. Næsta skref er að ákveða hvenær stoppa á oxunina, en það er gert með því að hita laufin svo að vatn gufar upp. Stundum er talað um gerjun telaufa þó svo að engin raunveruleg gerjun eigi sér stað, þar sem ekkert ger er til staðar og það myndast ekkert alkóhól. Ef ekki er fylgst vandlega með raka- og hitastigi vaxa sveppir í teinu. Ef það gerist valda þeir gerjun og myndun eiturefna sem sum hver eru krabbameinsvaldandi. Þegar raunveruleg gerjun á sér stað þarf því að henda uppskerunni. Te úr íslenskum jurtum. Á Íslandi voru sumar plöntutegundir tíndar til tegerðar eins og t.d.: rjúpnalauf, þrílit fjóla og æruprís (bládepla), sem nefnist hárdepla ("veronika oficinalis") í Flóru Íslands. En líka blóðberg, vallhumall, sortulyng og aðalbláberjalyng. Selló. Selló séð frá tveim mismunandi sjónarhornum Selló, einnig kallað hné- eða knéfiðla, er strokhljóðfæri í fiðlufjölskyldunni. Alþjóðanafnið selló er í raun stytting á orðinu violoncello sem er ítalska og þýðir „lítið violone“, en íslenska nafnið kné- eða hnéfiðla er dregin af því að sellóleikarinn hefur hljóðfæri sitt milli hnjáa sinna þegar hann spilar, og áður fyrr hvíldi það á þeim. Í dag hvílir selló á pinna sem kemur neðan úr því. Það er með fjórum strengjum sem stilltir eru í fimmundum, C G d og a, það er einni áttund neðar en strengir lágfiðlu. Hæsta nóta sem skrifa má fyrir selló samkvæmt almennum rithefðum er c sem þýðir að tónsvið sellós er 4 áttundir. Selló er vinsælt einleikshljóðfæri. Það er eitt af hljóðfærum strengjakvartetts. Selló er eitt af hljóðfærum sinfóníuhljómsveitar. Tónlist fyrir selló er rituð í F-lykli Þekktastu einleiksverk fyrir selló eru umdeilanlega Selló svítur Bachs, BWV 1007-1012. Bassi (söngrödd). Raddsvið dæmigerðs bassasöngvara sýnt á píanó nótnaborði Bassi er karlmanns söngrödd. Hún er dýpsta röddin í blönduðum kór. Dæmigert raddsvið bassa er frá í kringum E sem er á fyrstu aukalínu fyrir neðan nótnastrengi í f-lykil. og upp á e' sem er á annarri aukalínu fyrir ofan nótnastrengi í F-lykli. Bassapartar eru nánast undantekningarlaust skrifaðir í F-lykli. Þekktasti bassasöngvari Íslands er Kristinn Sigmundsson. Hrúga (tölvunarfræði). Hrúga er gagnagrind. Hægt er að hugsa sér hrúgu sem tvíundartré þar sem að sérhver hnútur er stærri eða jafn öllum hnútum í undirtrjám sínum. Það má einnig líta svo á að hnútur sé minni en eða jafn foreldri sínu, hafi það slíkt. Þessi eiginleiki er kallaður "hrúgueiginleikinn". Einnig verður tréð að vera fullkomið (e. complete), það er klára verður að setja hnúta á sérhvert þrep (e. level) trésins áður en fara má á næsta þrep fyrir neðan. Fylki (tölvunarfræði). Í tölvunarfræði eru fylki ein einfaldasta gerð gagnagrinda. Fylki geyma raðað mengi af stökum, og yfirleitt eru stökin af sömu stærð og gagnatýpu. Vísað er í einstök stök með raðnúmeri þeirra innan fylkisins, sem er kallaður "vísir". Vísarnir eru yfirleitt heiltölur, ólíkt tilvísanafylkjum, þar sem að vísar geta verið strengir eða óraðaðar tölur. Sum fylki eru "margvíð", sem þýðir að notaðir eru fleiri en einn vísir fyrir hvert stak. Fylkið er þá röðuð "n-nd". Tví- og þrívíð fylki eru algengustu margvíðu fylkin. Flest forritunarmál eru með fylki af einhverju tagi. Sum forritunarmál á borð við APL, J og sumar útgáfur FORTRAN hafa skilgreinda almennari virkni virkja og falla til þess að virka á gegnsæan hátt yfir fylki jafnt sem venjulegar breytur. Fylkjaeiginleikar forritunarmála. Mismunandi forritunarmál hafa mismunandi eiginleika hvað fylki varðar. Stafli (tölvunarfræði). Stafli (einnig kallaður hlaði eða troðröð) er mikið notuð gagnagrind. Það einkennist af því að nýjasta stakið á hlaðanum er það fyrsta sem fjarlægist. Líta má á hlaðann sem nokkurskonar rör sem er lokað að neðan, þar sem að til þess að ná neðsta stakinu úr þarf að fjarlægja öll stökin ofan af. Til eru staflabundin forritunarmál eins og Forth og PostScript. Hlutröðunarvensl. Mengi allra hlutmengja af, raðað eftir þátttöku stakanna. Hlutröðunarvensl eru vensl sem skilgreina röðun staka í mengi. Hlutröðunarvensl eru sjálfhverf, andsamhverf og gegnvirk. Mengi ásamt hlutröðunarvenslum er kallað ýmist "raðað mengi", "raðmengi", "hlutraðað mengi" eða "hlaðmengi". Tvö stök, "a" og "b", í raðmengi formula_1 eru sögð "sambærileg" ef að formula_2 eða formula_3. Ef að hvorugt gildir eru þau sögð "ósambærileg". Ef að formula_1 er raðmengi og sérhver tvö stök eru sambærileg er raðmengið sagt "alraðað" eða "línulega raðað", og formula_5 er kölluð alröðunarvensl. Alröðuð mengi eru gjarnan kallaðar "keðjur". Mengi er sagt "vel raðað" ef að sérhvert hlutmengi þess sem er ekki tómamengið hefur minnsta stak. Velröðun er forsenda þrepasönnunar. Dæmi. Stafrófsröð er annað dæmi um velröðun. Andlát (hljómsveit). Andlát er íslensk rokkhljómsveit sem var stofnuð í ágúst árið 2000. Meðlimir voru þeir Siggi T (söngur), Haukur (sem einnig var í MYRA og Squirt) á bassa, Valur (Squirt og Ask the Slave) á trommum og Ingi (SnaFu, I adapt) á gítar. Saga. Hljómsveitin byrjaði að æfa í bílskúr í Vesturbænum. Demóið „Salt“ var gefið út af Harðkjarna nokkrum mánuðum seinna. Fljótlega var farið að leita að auka gítarleikara og voru nokkrir sem prufuðu, þar á meðal Snorri (B-Eyez) og Smári Tarfur (Belford). Á endanum var það Bjarki (Finnegan) sem var valinn gítarleikari fyrir hljómsveitina. Stefnan var tekin á músíktilraunir 2001 og sigraði hljómsveitin þar. Þá var Ingi valinn besti gítarleikarinn. Árið 2002 hætti Ingi í hljómsveitinni og Maggi (Gyllinæð, Stegla) kom inn á trommur og Valur færði sig yfir á gítarinn. Andlát gáfu út diskinn „Mors Longa“ árið 2004 og fóru í tónleikaferðalag um Evrópu til að auglýsa diskinn. Hljómsveitin ákvað að hætta eftir ferðina þar sem meðlimimum langaði að fara að einbeita sér að öðrum hlutum. Andlát komu fram á kveðjutónleikum árið [2005] og léku fyrir fullu húsi í Norðurkjallaranum. 2006 komu Andlát saman í seinasta skipti til að taka upp efni fyrir DVD-disk um hljómsveitina. Salt (Demo). "Salt" er "demo" með Andláti sem kom út árið 2001. Mors Longa. "Mors Longa" er breiðskífa með Andláti sem kom út árið 2004. Electric Fungus. "Electric Fungus" er breiðskífa með Brain Police sem kom út árið 2004. FIFO. FIFO er gagnagrind sem einkennist af því að það fyrsta sem kemur inn er það fyrsta sem kemur út. Nafnið er komið af enska hugtakinu First In, First Out eða fyrstur kemur, fyrstur fer. FIFO er einfaldasta gerð biðraðar. FIFO gagnagrindur eru oft notaðar í netkerfum og samskiptum milli forrita í tölvukerfum. Þá eru þær gjarnan kallaðar "pípur". Kimono (hljómsveit). Kimono er íslensk hljómsveit sem gaf fyrst frá sér efni árið 2002 á samnefndri smáskífu. Eftir það má segja að leiðin hafi legið upp. Þeir hafa gefið út tvo stærri diska eftir það; Mineur-Aggresif árið 2003 og Arctic Death Ship árið 2005. Kimono hafa undanfarið túrað víða um Evrópu og virðast áheyrendum líka vel það sem þeir sjá og heyra. Útistöður. Þeir lentu í útistöðum við annað þýskt band seinnihluta ársins 2005 sem kallaði sig einnig Kimono, í Berlín í Þýskalandi. Meðlimir þess höfðu farið á netið og fundu aðeins eitt band sem hét Kimono í Bandaríkjunum og hugsuðu sem svo að þessi íslenska Kimono næði aldrei til Þýskalands, hvað þá til Berlín. Svo sáu þeir að íslenska Kimono sveitin væri á leiðinni til Berlín og settu sig í samband við lögfræðing og kærðu þá fyrir að „stela“ nafninu sínu, þannig að íslenska Kimono réð lögfræðing og töluðu lögfræðingar hljómsveitana tveggja saman. Þar sem íslenska Kimono var búin að gefa út tvær plötur sem fengu þónokkra umfjöllun í Þýskalandi unnu þeir málið. Meðlimir. Þráinn Óskarsson lék á trommur með hljómsveitinni á tímabili. Kimono. Konur klæddar sem Maiko (lærlings Geisha). Sumstaðar í Kyoto eru túristaþjónustur sem bjóða ferðamönnum uppá að klæðast eins og Maiko eða Geisha gegn borgun. Kimono EP. "Kimono EP" er smáskífa með Kimono sem kom út árið 2002. Mineur-Aggresif. "Mineur-Aggresif" er breiðskífa með Kimono sem kom út árið 2002. Arctic Death Ship. "Arctic Death Ship" er breiðskífa með Kimono sem kom út árið 2005. Ofskynjunarsveppir. Ofskynjunarsveppir eru sveppir sem hafa hugvíkkand áhrif þegar þeirra er neytt. Röðunarreiknirit. Röðunarreiknirit eða röðunaralgrím eru aðferðir til að raða stökum í tiltekna röð, til dæmis frá því minnsta til hins stærsta, eða frá því stærsta til hins minnsta. Algeng röðunarreiknirit. Í þessari töflu er "n" fjöldi færslna sem á að raða og "k" er fjöldi aðgreinanlegra færslna (þ.e., eftir að endurteknar færslur hafa verið fjarlægðar). Dálkarnir „best“, „meðaltal“ og „verst“ gefa tímaflækju hverju sinni. Þar sem að "k" er ekki notað er álitið að "k" sé fasti. „Minni“ gefur til kynna hversu mikið aukalegt minni þarf umfram það sem listinn tekur. Þessi tafla lýsir röðunarreikniritum sem nota ekki samanburðarröðun. Sem slík eru þau ekki takmörkuð af O("n"log("n")) neðri mörkum. Tímaflækjur eru miðuð við "n", fjölda staka, og "k", stærð hvers staks. Þessi tafla lýsir röðunarreikniritum sem eru óraunhæf fyrir raunverulega notkun sökum hrikalegrar tímaflækju eða þarfar á mjög sértækum búnaði. Víxlunarröðun. Víxlunarröðun (e. "bubble sort") er einföld aðferð til þess að raða gögnum. Reikniritið byrjar í byrjun gagnanna. Það ber saman fyrstu tvö stökin, og ef að fyrra stakið er stærra en hið síðara, þá víxlar það þeim. Þessi aðgerð er endurtekin fyrir hvert einasta par, uns að endanum er komið. Þá er byrjað upp á nýtt, og það sama gert þar til að engin víxlun fer fram í heila umferð. Í versta tilfelli er ítrað jafn oft og stökin eru. Þrátt fyrir einfaldleikann er þetta reiknirit mjög seinvirkt, og það er sjaldan notað nema í kennslu. Ögn betra afbrigði, "hristiröðun", gengur fram og til baka í stað þess að fara alltaf áfram. Snarröðun. Snarröðun (e. "quicksort") er svokallað deili- og drottnunarreiknirit (e. divide and conquer algorithm), það sem það brýtur verkefnið niður í sífellt smærri parta, allt þar til verkefnin verða svo smá í sniðum að auðvelt er að leysa þau. Til að raða fylki skiptir snarröðun því í tvo hluta með sérstakri aðgreiningaraðferð eða sneiðun (e. partition operation). Til að skipta fylki er valið svokallað skiptistak (e. pivot). Öll stök sem eru minni en skiptistakið eru sett framan við það, og öll stök sem eru stærri en skiptistakið eru sett aftan við það. Skiptistakið er þá komið á sinn rétta stað í fylkinu. Síðan er endurkvæmni notuð til að raða þessum tveimur undirfylkjum með nákvæmlega sömu aðferð. Þetta er endurtekið allt þar til undirfylkin eru orðin svo lítil að þau innihalda aðeins eitt stak. Að sjálfsögðu má þá líta á þau sem röðuð. Snarröðun er, eins og nafnið bendir til, yfirleitt mjög hraðvirk, en erfitt er að útfæra hana þannig að hún verði stöðug. Hraði snarröðunar fer þó að miklu leyti eftir því hversu vel tekst að velja gott skiptistak. Bestu skiptistökin skipta fylki í tvo svo til jafna hluta. Hrúguröðun. Hrúguröðun (e. "heapsort") er eins konar valröðun. Þessi röðun ákvarðar stæsta (eða minnsta) stak og raðar því aftast (eða fremst) í lista. Önnur stök fylgja síðan þessu valda staki. Valröðun keyrir á O(n^2) hraða en hrúguröðun vinnur mun hraðar með því að nota gagnagrind sem kallast hrúga sem er tvíundartré þar sem foreldri er ávallt stærra en börnin. Þegar gögn hafa verið gerð að hrúgu þá er rótin í trénu ávallt stærsta (eða minnsta) stakið af öllum. Innsetningarröðun. Innsetningarröðun (e. "insertion sort") er einfalt reiknirit sem virkar nokkuð vel þegar raða á tiltölulega smáum lista af stökum, sérstaklega þegar listinn er þegar í næstum réttri röð. Innsetningarröðun er líka oft notuð sem hluti af betri röðunaraðferðum, svo sem snarröðun. Innsetningarröðun gengur þannig fyrir sig að farið er í gegnum hvert stak listans, eitt í einu, og það sett á réttan stað í nýjum röðuðum lista. Þegar innsetningarröðun er notuð á fylki getur nýi raðaði listinn verið hluti af sama fylki og hinn upphaflegi. Aftur á móti getur þetta verið tímafrekt, þar sem rýma þarf fyrir nýja stakinu með því að færa öll stökin sem á eftir því koma um eitt sæti. Skeljaröðun (sjá hér fyrir neðan) er önnur útgáfa af innsetningarröðun sem virkar betur en venjuleg innsetningarröðun til að raða stórum gagnasöfnum. Sameiningarröðun. Sameiningarröðun (e. "mergesort") nýtir þann eiginleika hversu auðvelt það er að sameina tvo raðaða lista. Röðunin byrjar á að bera saman fyrstu tvö stökin í hvorum lista fyrir sig og afritar minna stakið (eða stærra ef raða á stærsta stakinu fyrst) í nýjan lista. Heldur síðan áfram og ber þá fyrsta stakið í listanum sem var með hærra stak í fyrsta samanburðinum við annað stakið í seinni listanum. Röðunaraðferðin býr til þessa tvo röðuðu lista með því að skipta upprunalega listanum sem á að raða í tvennt, síðan hvorum þessarra nýju lista í tvennt aftur og svo framvegis þangað búið er að búta upprunalega listann niður í lista sem einungis geyma eitt stak hver. Að því loknu eru þessir einingalistar sameinaðir tveir og tveir í einu og mynda þá raðaðan lista með tveimur stökum. Því næst eru þeir listar sameinaðir og svo framvegis þangað til allir undirlistar hafa verið sameinaðir í heilan fullraðaðan lista. Skeljaröðun. Skeljaröðun (e. "Shell sort") var fundin upp af Donald Shell árið 1959. Hún bætir bóluröðun og innsetningarröðun með því að færa stökin sem raða á í stærri skrefum en fyrrnefndar aðferðir. Ein útfærsla á skeljaröðun er þannig að gögnunum er raðað í tvívítt fylki. Síðan er hverjum dálki fylkisins raðað með innsetningarröðun. Þessi aðferð er heldur hæg fyrir stór gagnasöfn, en er ein hraðvirkasta aðferðin til að raða litlum gagnasöfnum (með 1000 stök eða færri, um það bil). Annar kostur við skeljaröðun er að hún þarf tiltölulega lítið minnispláss. Valröðun. Valröðun (e. "selection sort") virkar þannig að fundið er minnsta stakið í lista (eða stærsta, allt eftir því hvort raða á frá minnsta til stærsta, eða frá stærsta til minnsta). Síðan er skipt á því og fyrsta staki listans. Þetta er svo endurtekið fyrir afganginn af listanum (fremsta stakinu, sem nú er raðað, er sleppt). Hrúguröðun (sjá fyrir ofan) bætir valröðun umtalsvert með því að nota hrúgu sem gagnagrind. Þannig verður auðveldara að finna og fjarlægja minnsta (eða stærsta) stakið. Innhorfsröðun. Innhorfsröðun (e. "Introsort" eða "introspective sort") er röðunarreiknirit sem David Musser hannaði árið 1997. Það notar snarröðun, en skiptir yfir í hrúguröðun um leið og endurkvæmnin er orðin visst djúp. Afleiðingin nýtir sér bestu eiginleika beggja reiknirita, með versta tilfellið O("n" log "n"), og keyrslu sambærilega við snarröðun á dæmigerðum gagnasettum. Sökum þess að bæði reikniritin sem það byggist á eru samanburðarraðannir, þá er það einnig slíkt. Kapalröðun. Kapalröðun er röðunarreiknirit byggt á köplum sem er einkar hentugt til þess að finna lengstu vaxandi hlutrunu. Spilið. Markmið spilsins er að ljúka því með eins fáar hrúgur og hægt er. D. Aldous and P. Diaconis lögðu til að 9 eða færri hrúgur skyldu teljast sigur fyrir n=52, en líkurnar á því eru um það bil 5%. Röðunarreiknirit. Sé gefið "n" staka fylki með raðvenslum, má líta á það sem safn spila með (enn óþekktu) tölfræðilega röðun hvers staks sem vísi. Í spilinu er aldrei notað raunverulegt gildi spilanna nema við samanburð, og afstæð röðun hverra tveggja staka í fylkinu er vel skilgreind (það er að segja, það er ekki gert ráð fyrir að tvö stök taki sama gildið). Nú skal spilið spilað, með eigingjörnu aðferðinni, þ.e. að setja spilið alltaf á þá hrúgu sem er lengst til vinstri af þeim sem má setja spilið í. Í hverju skrefi spilsins eru tölugildin vaxandi frá vinstri til hægri. Til þess að heimta raðaða fylkið í lok keyrslu skal taka lægstu spilin af efstu röð þar til að hrúgurnar tæmast. Að finna lengstu vaxandi hlutrunu. Fyrst skal beita röðunarreikniritinu eins og því er lýst að ofan. Fjöldi hrúga er lengd lengstu vaxandi hlutrunu. Þegar spili er komið fyrir efst á hrúgu skal setja bendi frá því að efsta staki hrúgunnar á undan, sem gera má fyrir að hafi haft lægra gildi. Í lokin má rekja sig eftir bendunum til þess að fá lengstu vaxandi hlutrunu í öfugri röð. Deili- og drottnunarreiknirit. Í tölvunarfræði eru deili- og drottnunarreiknirit mikilvæg tegund reiknirita. Þau brjóta viðfangsefnið aftur og aftur niður í tvö eða fleiri einfaldari vandamál af sömu eða svipaðri gerð uns þau verða nægilega einföld til að leysast með beinum hætti. Lausnir hinna minni vandamála eru síðan sameinuð til þess að fá lausn á hinu upprunalega vandamáli. Útfærsla. Deili- og drottnunarreiknirit eru auðveldlega útfærð sem ítrunarföll. Þannig eru hlutalausnirnar geymdar á kallhlaðanum. Einnig er hægt að útfæra slík reiknirit án þess að nota ítrun, en þá eru hlutalausnirnar geymdar í gagnagrind á borð við hlaða, biðröð eða FIFO. Með þessari aðferð er hægt að velja með mun auðveldari hætti hvaða minni vandamál reikniritið skuli fást við næst, sem er mjög mikilvægur eiginleiki í sumum lausnum, svo sem "breidd fyrst ítrun" og "greina og afmarka" aðferðinni við bestun falla. Afbrigði. Eitt afbrigði af deili- og drottnunarreikniritum eru minnkunar- og drottnunarreiknirit, þar sem að lokaniðurstaðan er aðeins háð einni milliniðurstöðu. Það getur verið gott að höndla slík verkefni sérstaklega, þar sem þau eru yfirleitt leysanleg með lausnum af hluta hinna minni verkefna. Auk þess er oft auðveldara að greina þau en önnur deili- og drottnunarvandamál. Ílag: Listi af tölum "L", sem er ekki tómur. Úttak: Stærsta talan í listanum "L". Ílag: Listi af tölum "L", sem er ekki tómur. Úttak: Stærsta talan í listanum "L". Kallhlaði. Í tölvunarfræði er kallhlaði (e. "procedure call stack") hlaði þar sem geymdar eru upplýsingar um þau föll sem búið er að kalla í, en hafa ekki enn skilað úttaki. Á sumum tölvukerfum eru úttaksgildi fallanna sett á kallhlaðann, þar sem að fallið sem gerði kallið getur vitjað þess, en þó er algengara að niðurstöður fallanna séu sett á almennari hlaða. Gagnagrind. Gagnagrind eða gagnaskipan er, í tölvunarfræði, aðferð til þess að geyma gögn í tölvu þannig að hægt sé að nálgast þau á skilvirkan hátt. Oft getur vel valin gagnagrind gert það að verkum að hægt sé að nota mjög hraðvirk reiknirit sem henta verkefninu sem er fyrir hendi. Valið á gagnagrind hefst jafnan á vali á almennri gagnagrind, svo sem fylki, lista, hlaða eða hrúgu. Gagnagrindur eru útfærðar með þeim grunntýpum, tilvísunum og aðgerðum sem forritunarmálið býður upp á. Mismunandi gerðir gagnagrinda eru nytsamleg við lausnir á mismunandi vandamálum. Þannig eru B-tré sérlega hentug í gagnagrunnum, meðan FIFO eru hentugri í einföldum einátta boðskiptum. Ísbjörn. Ísbjörn eða hvítabjörn (fræðiheiti: "Ursus maritimus" sem er latína og þýðir "sjávarbjörn"), er sérstök tegund af stórum bjarndýrum sem lifir á hafís umhverfis Norðurheimskautið. Útlit. Hvítabjörninn er stærsta núlifandi rándýr sem fyrirfinnst á landi. Hann er um tvisvar sinnum þyngri en Síberíutígrar og ljón. Flest karldýrin eru um 400 til 600 kíló að þyngd, en geta náð allt að 800 kg þyngd. Stærsti hvítabjörn sem viktaður hefur verið var veiddur í Alaska árið 1960. Hann var um 880 kg og uppreistur var hann 3,38 metrar. Kvendýrið (sem kallað er birna) er u.þ.b. helmingi minna en karldýrið eða um 200 til 300 kg. Skrokklengd karldýra er að jafnaði um 2,6 metrar en kvendýra 2,1 metrar. Afkvæmi bjarna nefnast húnar og vega um 600 til 700 grömm við fæðingu. Búsvæði. Ísbirnir hafast við með ströndum og á hafís á norðurskautssvæðinu. Stundum reika þeir langt inn í land eða fljóta mörg hundruð kílómetra til hafs á ís. Þeir mynda ákveðna stofna, ætíð á sömu slóðum. Dýrin eru mjög víðförul og leggja oft upp í langferðir, að því er virðist án þess að hafa nokkurn sérstakan ákvörðunarstað, og fara þeir í ferðum sínum milli Alaska, Svalbarða og norðurstranda Síberíu. Hvítabirnir lifa frekar óreglulegu lífi. Þeir skipta til dæmis ekki sólarhringnum niður í dag og nótt, stundum sofa þeir ekki í marga daga, en þess á milli liggja birnirnir í leti. Talið er að þetta óreglulega líf ísbjarnanna sé vegna þess að þeir lifa á heimskautasvæðinu, þar sem dagar eru mislangir með miðnætursól á sumrin. Fæðuval. Gagnstætt skógarbirni frænda sínum er ísbjörn algert rándýr. Hann lifir nær einungis á kjöti og hann étur langmest af sel sem er um 90% af fæðu ísbjarna. Ísbirnir eru ágætir í að synda og synda mjög örugglega en hægt. Ísbjörn getur verið í kafi í u.þ.b. 2 mínútur en selir geta verið í kafi í hálftíma, þannig að ísbjörn getur ekki veitt sel á sundi. Hann veiðir selinn með því að gera skyndiárás og kemur honum þannig á óvart. Ísbirnir eru afar leiknir við að læðast eftir bráð sinni og fara mjög varlega. Ísbjörninn er líka í góðum felubúningi, alveg snjóhvítur. Hann situr fyrir selnum með því að loka undankomuleiðum til sjávar. Hann veiðir einnig með því að bíða í sjónum og stökkva svo upp á land eftir selnum. Þriðja aðferðin við að ná selnum er að liggja upp á ísnum hjá loftopi og bíða eftir að selur komi. Þar sýna ísbirnir mikla þolinmæði og geta legið hreyfingarlausir í margar klukkustundir. Ísbirnir éta allar selategundir, auk þess éta þeir stundum rostunga sem eru erfiðari bráð, enda geta þeir vegið allt 1500 kíló. Ísbirnir éta að auki hræ af öllum gerðum. Á sumrin gæða þeir sér einnig á alls kyns gróðri til að bæta meltinguna og borða jafnvel þara. Ísbirnir geta hlaupið mjög hratt, en þreytast fljótt og verða þeir stundum svo uppgefnir að þeir standa ekki í lappirnar. Ef þeir eru eltir reyna þeir sem fyrst að forða sér í sjóinn og geta synt jafnvel dögum saman. Vetrardvali. Einungis birnur sem ganga með húna, og þær sem eiga eins árs húna, leggjast í dvala í híði yfir veturinn. Vetrardvalinn er einskonar svefn, og er líkamsstarfsemi dýranna þá í lágmarki, til þess að spara orku. Karldýrin eru virk allan veturinn, en grafa sig stöku sinnum í skafl til að hlífa sér við óveðrum. Fullorðnir ísbirnir eru miklir einfarar og ef þeir sjá hver annan halda þeir fjarlægð sín á milli sem á helst ekki að vera minni en 100 metrar. Deilur eru sjaldséðar. Æxlun og meðganga. Fengitíminn er frá mars til maí, einkum þó í apríl. Meðgöngutíminn er 7-8 mánuðir og eignast ísbirnir yfirleitt tvo húna. Þeir verða kynþroska 4-5 ára gamlir og hámarksaldur þeirra er 25-30 ár. Stofninn er talinn vera um 20 þúsund dýr og eru dýrin útrýmingarhættu og þess vegna alfriðuð. Karldýrin koma til birnanna, dveljast hjá þeim í nokkra daga og maka sig. Síðan yfirgefa þeir þær strax aftur. Síðan gerist ekki neitt þar til um haustið því að frjóvguð eggin bíða þangað til, en þá byrjar eggið að þroskast. Þegar hafið frýs fara birnurnar í land og gera sér vetrarhíði undir skafli. Síðan snjóar í opið og híðið lokast alveg nema með nokkrum loftgötum. Raunverulegur þroskatími fóstra er ekki nema um tveir mánuðir og fæðast húnarnir því um áramótin. Þeir eru litlir, vanþroska og hjálparlausir. Þeir liggja marga mánuði í híðinu og lifa á móðurmjólkinni. Birnan er mjög hreinleg, hún gerir stundum gat á híðið til að koma út skít og þvagi frá ungviðinu, sjálf hefur hún enga meltingu né hægðir. Um mánaðamótin mars – apríl fer birnan að fara út með húna sína við og við. Þeir vega þá um 10-12 kíló en skortir úthald og eru ekki færir um að fara langt. Húnarnir eru um 18 mánuði á spena en samt farnir að háma í sig selkjöt. Venjulega eru þeir með móður sinni til tveggja og hálfs árs aldurs, svo verða þeir kynþroska á 4. eða 5. ári. Birnur sjást oft á ráfi í kringum híðin sín á vorin, það eru mæður sem misst hafa húna sína. Friðun ísbjarna og samlíf með mönnum. Þótt ísbirnir séu alfriðaðir gildir sú undantekning að frumbyggjaþjóðir eins og inúítar og jakútar mega veiða þá samkvæmt gömlum hefðum. Þær veiðar eru aðeins leyfðar til eigin neyslu eða til annars brúks. Um miðja 20. öldina voru þeir réttdræpir hvar sem þeir fundust og voru stundaðar miklar veiðar á ísbjörnum. Amerískir auðjöfrar stunduðu t.d. það sport að skjóta þá úr flugvélum og einnig úr snjóbílum í Alaska. Þá fór að fækka ört í stofninum og er giskað á að ísbirnir hafi verið á milli 5-20 þúsund, og er seinni talan sú tala sem oftast er talað um núna, áður en Sovétmenn friðuðu ísbirni árið 1956. Fylgdu svo fleiri þjóðir í kjölfarið þangað til hvítabjörninn var loks alfriðaður 1966. Nú er stofninn talinn vera um 20 þúsund dýr. Samkvæmt mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana). Þar sem ísbjarnaveiðar eru stundaðar verða dýrin afar tortryggin gagnvart mönnum, en á afskekktari stöðum þar sem þeir eru látnir í friði eru þeir forvitnir um menn og framandi hluti eins og tjöld eða báta. Það eru ekki miklar líkur á því að ísbjörn í góðu ásigkomulagi ráðist á menn, en það getur breyst ef hann er svangur, særður, reittur til reiði eða hræddur. Hann varar þó við með því að gnísta tönnum eða hvæsa áður hann leggur til atlögu. Íbúar í Norður-Síberíu hafa kvartað yfir því að vegna friðunar þá hræðist birnirnir ekki menn lengur og geti þess vegna orðið mjög hættulegir. Um 1965 kom upp vandamál í Churchill við Hudsonflóa, sem er lítill bær með um 2000 íbúum. Ísbirnir komu inn í bæinn á haustin og fóru þeir út um allt og sóttu sérstaklega í ruslahauga. Þetta varð svo mikið vandamál að nokkrir birnir voru drepnir og margir fluttir burt, og gefið var leyfi til að handsama alla birni sem voru til vandræða eða drepa þá. Í dýragörðum eru ísbirnir taldir mjög hættulegir og óáreiðanlegir. Það er aldrei hægt að vita hverju þeir taka upp á. Þeir bindast aldrei vináttuböndum við starfsmenn eins og mörg önnur dýr gera. Þeir rjúka oft upp í ofsa ef þeir eru truflaðir og eru taldir hættulegustu rándýrin í görðunum. Gagnstætt skógarbjörnum er erfitt að ala ísbirni upp í dýragörðum. Það kemur fyrir að móðir afneitar húnum sínum og ræðst á þá, drepur og étur. Ísbirnir við Ísland. Ísbirnir hafa ætíð verið gestir á Íslandi og borist hingað með rekís frá Svalbarða, Jan Mayen og Austur-Grænlandi. Á seinni tímum hefur þessum heimsóknum farið fækkandi því lítið hefur verið um hafís. Þó komu hér tveir ísbirnir á land árið 2008. Sá fyrri kom á land á Skaga, milli Húnaflóa og Skagafjarðar, í lok maí 2008, og var felldur þann 3. júní við Þverárfjallsveg, miðja vegu milli Sauðárkróks og Skagastrandar, (sjá sérgrein: Þverárfjallsbjörninn). Nokkrum dögum seinna, eða þann 16. júní, sást annar í grennd við bæinn Hraun á Skaga (sjá sérgrein: Hraunsbirnan). Þann 27. janúar árið 2010 var vart við lítinn hvítabjörn við Sævarland í Þistilfirði. Hann var felldur sama dag. Þann 2.mai árið 2011 kom ísbjörn á ströndum við vestfirði. Ísbirnir í Íslendingasögunum. Víða er minnst á ísbirni í Íslendingasögum, en á þeim gömlu skinnblöðum er alltaf talað um bjarndýr eða hvítabirni. Segir t.d. frá hvítabirni í Króka-Refs sögu, en í þeirri sögu færir Bárður Haraldi konungi Sigurðssyni hvítabjörn að gjöf. Og í Landnámu segir frá Ingimundi, en... Straight edge. Straight edge er ákveðin tegund lífstíls. Íslenska þýðingin „hreinn lífstíll“ hefur dúkkað upp en notkun þess hefur ekki náð fótfestu. Hugtakið felur í sér að neyta hvorki áfengis, tóbaks né annarra fíkniefna. Einnig er mjög algengt að þeir sem aðhyllast "straight edge" lífstílinn séu grænmetisætur og stundi ekki kynlíf nema í ástarsambandi. Stundum eru skammstafanir á borð við „sXe“ og „SxE“ notaðar auk bókstafsins X sem tákn fyrir "straight edge". Nokkuð algengt er að þeir sem eru "straight edge" húðflúri á sig X. Talið er að upphaf þess að X var notað sem tákn fyrir "straigt edge" megi rekja til þess að á tónleikum þar sem áfengi var selt voru hendur einstaklinga undir lögaldri merktar með X-i svo að auðveldara væri fyrir dyraverði að henda krökkum undir lögaldri út ef þau færu að neyta áfengis. Svo fór fólk með lögaldur að skrifa (og jafnvel húðflúra) X á höndina á sér til að gefa til kynna að það neyti ekki áfengis. Nafnið Straight Edge kemur úr lagi eftir pönk-hljómsveitina Minor Threat. Lagið sem heitir Straight Edge fjallar um það að drekka ekki né neyta eyturlyfja. Steve Vai. Steven Siro Vai (fæddur 6. júní 1960) er bandarískur gítarleikari og fyrrverandi meðlimur í hljómsveit Frank Zappa. Hann er af mörgum talinn vera einn fremsti gítarleikari okkar tíma. Sagan. Fæddur og uppalinn í Carle Place í Long Island, New York, Steve Vai var fjórði af fimm börnum foreldra sinna. Ást systur hans á tónlist hafði snemma mikil áhrif á hann og hann byrjaði aðeins 6 ára gamall að spila á orgel, um 10 ára aldur byrjaði hann að spila á harmóniku. Hann og systir hans Lillian byrjuðu snemma að reyna að spila saman, þau hlustuðu á plötur og spiluðu undir. Vai hlustaði aðallega á Led Zeppelin. Árin 1971 - 1972 gekkst Vai í lið við þrjá stráka í hljómsveit að nafni The Ohio Express (þeir áttu samt ekki heima nálægt Ohio), einn spilaði á bassa, annar á trommur og söng og sá þriðji söng og spilaði á gítar. Vai var ekki byrjaður að spila á gítar á þessum tíma en byrjaði með því að spila á hljómborð og syngja en spilaði svo á gítar seinna meir. Einn daginn bauðst honum að kaupa gítar á 5 dollara, hann greip tækifærið, safnaði sér peningnum og keypti gítarinn. Hann þorði samt sem áður ekki segja neinum frá þessu því honum fannst það alltof svalt fyrir hann að spila á gítar. Dag einn ákváðu hann og Frank Stroshol (gítarleikarinn í The Ohio Express) að fara í gítartíma einhvers skrítins gítarista sem kunni virkilega að spila; Joe Satriani. Þeir mættu í alla tíma og fylgdust vel með. Loks kom að því að þeir máttu ekki æfa lengur í kjallara Frank Stroshol og þar með endaði The Ohio Express. Sú hljómsveit sem var næst í vegi Vai var Cirus, í þessari hljómsveit kom Vai fyrst fram á sviði. Því miður kom að því að hinn gítarleikarinn sagði einfaldlega „annaðhvort fer Vai eða ég“, og svo hætti hann að mæta á æfingar. Seinna sagði trommarinn það sama (þeir voru að æfa í kjallaranum hans svo að hann vissi að hann væri úr myndinni og fór). Loks komst Vai svo í hljómsveit þar sem hann gat verulega skemmt sér, það var hljómsveitin Rayge. Þeir spiluðu allt mögulegt t.d. Led Zeppelin, Alice Cooper, Kiss o.fl. Þeir spiluðu í partíum, á börum og í leikfimishúsum, lentu í slagsmálum, voru meðal annars handteknir. Árið 1977 stofnaði Vai Jimi Hendrix „cover“-band með trommara og bassaleikara. 18 ára að aldri vildi Vai komast í Berklee College of Music í Boston og pabbi hans seldi líftrygginguna sína til að koma honum í skólann. Fyrsta hljómsveitin sem Vai stofnaði í Berklee var Axis (1978-1979), þeir spiluðu mikið saman og í þessari hljómsveit samdi Vai mikið af efni sem var seinna hljóðritað á plötuna Flex-Able (1984). Seinni hljómsveitin sem Vai stofnaði í Berklee var Morning Thunder (1979). Hljómsveitin þróaði sína eigin tónlist og æfði lengi frameftir. Frank Zappa hafði alltaf verið einn af uppáhalds gítarleikurum Vai. Hann útsetti lag eftir Zappa á gítar og sendi honum síðan, Zappa var svo hrifinn af þessu að hann bað Vai að koma og spila fyrir sig. Síðar bauð hann honum að ganga til liðs við hljómsveitina sína árið 1980. Vai fór á hljómleikaferðalag með Zappa og hann kallaði hann ýmsum viðurnefnum eins og "Stunt Guitarist" og "Little Italian Virtuoso". Vai spilaði á plötur með Zappa eins og t.d. Tinsel Town Rebellion (maí 1981), You Are What You Is (september 1981), Ship Arriving Too Late (1982), Man From Utopia (1983) auk Them or Us og Thing Fish (1984) áður en hann hætti. Fyrir árið 1984 hafði Vai byggt sér sitt eigið upptöku stúdíó og fór hann þá að fikta við að blanda saman Jazz, Rokk og Klassík. Á endanum voru þessi verk gefin út sem platan Flex-Able, platan hefur mjög mikil áhrif frá Frank Zappa. Nokkru seinna á sama ári gaf Vai út sína seinni sóló plötu Flex-Able Leftovers. 1984 stofnaði hann bandið The Out Band, þau spiluðu aðeins saman nokkrar æfingar og spiluðu einu sinni á sviði. Fyrsta bandið hans í California var The Classified, skemmtileg hljómsveit sem spilaði "fyndna" tónlist. Bandið 777 var gott "djamm" band með honum var Stu Hamm á bassa (þeir höfðu spilað mikið saman og verið saman í nokkrum hljómsveitum áður) og Chris Farzier á trommur. Fullt af efni frá þessari hljómsveit varð seinna mikið af kjarna plötunnar sem Vai gaf seinna út Passion And Warfare. Eftir að hljómsveitin Alcatrazz hafði rekið gítarleikarann Yngwie J. Malmsteen gekkst Vai til liðs við þá. Hann hafði einn dag til að læra allt heila prógrammið þeirra og áður en hann fór á sviðið. Og enginn af áhorfengunum vissi að Malmsteen hafði verið rekinn. Þegar tónleikarnir voru að byrja öskruðu allir nafnið hans, Vai segist enn þá eiga upptökurnar af viðbrögðum fólksins þegar hann labbaði á sviðið. Og með þeim spilaði Vai á disk árið 1985 sem heitir Disturbing The Peace. Árið 1986 kom Vai fram sem var gítarleikari djöfulsins í myndinni Crossroads. Eftir það fékk hann tilboð frá vini sínum og bassaleikara Billy Sheehan um að fara í prufu um starf í sólóhljómsveit söngvarans David Lee Roth sem hafði hætt í hljómsveit Eddie Van Halen fyrir stuttu. Vai fékk giggið og varð "frægur á einni nóttu". 1986 sendu þeir frá sér plötu sem heitir Eat ‘Em & Smile, sú plata varð ein af efstu hard rock útgáfum þetta árið en Vai segir að honum finnist platan vera ein sú besta rokk platan frá þeim áratugi. Einnig spilaði hann með David Lee Roth á plötunni Skyscraper árið 1988. Vai og Sheehan öðluðust mikla frægt fyrir hæfni sína á hljóðfæri sín og komust á forsíður margra gítar magasína í nokkur ár eftirá. Árið 1988 gerði Vai samning við Ibanez hljóðfæra-fyrirtækið um sína eigin línu af gíturum sem kallast JEM. Um árið 1989 gekkst hann til liðs við Popp/Metal hljómsveitarinnar Whitesnake. Ástæðan fyrir þessu var sú að gítarleikarinn sem þeir voru með hafði skemmt á sér höndina við að spila gítaræfingu sem hann fann í einhverri bók. Sama ár spilaði Vai á plötuna Slip of the Tounge með Whitesnake. Ári seinna (1990) gaf Vai út þriðju sóló plötuna sína yfirallt sem heitir Passion & Warfare. Platan var byggð á draumum sem Vai hafði dreymt sem unglingur. Platan sló gull og Vai var viðurkenndur sem einn besti gítarleikari þessara tíma. Einnig bjó Vai til sjö strengja gítar í gegnum Ibanez um þetta leyti. Á þessum tíma stofnaði Vai sína eigin hljómsveit sem hét VAI eina platan sem gefin út var með þeim heitir Sex & Religion, á þessari plötu var sungið, ólíkt fyrri sólóplötu Vai. Platan olli vonbrigðum þannig að Vai sneri sér aftur að instumental lögum, hélt sig við sóló ferlinn í hljómsveit sinni Steve Vai og gaf út plöturnar Alien Love Secrets, Fire Garden (1996), endurútgáfa af Flex-Able Leftovers plötunni (1998) og síðan The Ultra Zone (1999). Árið 2001 gaf Vai út sína fyrstu live plötu í fullri lengd sem heitir Alive In An Ultra World og einnig gaf hann út takmarkaða útgáfu af 10 diska boxi sem hann kallar The Secret Jewell Box. Vai stendur nú uppi með fjórar Grammy tilnefningar og ein Grammyverðlaun, konu, tvö börn, fullt af reynslu og virðingu og er talinn einn af bestu gítarleikurum okkar tíma. Ekki er Vai búinn í tónlistarbransanum enn og er hann enn á fullu og jafnvel af meiri krafti en áður í mörgum verkefnum. G3. Seint á tíunda áratugnum sameinuðust Steve Vai og Joe Satriani aftur saman og héldu árlegt tónleikaferðalag sem þeir kölluðu G3 þar sem þeir tveir spiluðu vanalega auk einhvers auka gítarleikara, en svo var annar gítarleikari valinn næsta ár. Þeir gáfu svo út live plötu með tónleikunum árið 1997. N-Ameríka: Joe Satriani, Steve Vai og Eric Johnson. N-Ameríka: Joe Satriani, Kenny Wayne Shepherd og Robert Fripp. Heimildir. Vai, Steve Georg Friedrich Händel. Georg Friedrich Händel (23. febrúar 1685 – 14. apríl 1759) var þýskt/enskt tónskáld, fiðlu- og orgelleikari. Hann fæddist í Halle í Þýskalandi, en faðir hans var hárskeri og skurðlæknir. Hann hlaut góða menntun og reyndi fyrir sér í lögfræðinámi áður en hann sneri sér alfarið að tónlistinni. Hann lærði bæði orgel- og fiðluleik, en það voru vinsælustu hljóðfæri þess tíma. Händel hóf starfsferil sinn sem organisti við kalvinska dómkirkju í Halle, en strax árið eftir komst hann að sem fiðluleikari við óperuna í Hamborg. Þar spilaði hann einnig á sembal. Það var í Hamborg sem fyrsta ópera Händels, "Almira", var frumsýnd árið 1703. Hann ferðaðist síðan og starfaði á Ítalíu og setti meðal annars upp óperuna "Agrippínu" í Feneyjum. Verk hans hlutu góða dóma og varð hann brátt þekktur um alla álfuna. Árið 1710 var hann ráðinn hljómsveitarmeistari hjá Georg kjörfusta af Hannover og seinna, þegar furstinn varð Georg 1. Englandskonungur, starfaði hann hjá honum sem hirðtónlistarstjóri og einkakennari dætra hans. Samhliða starfinu í Hannover byrjaði Händel að semja og setja upp óperur í London og eyddi því sem eftir var af starfsævinni þar í borg. Händel var afkastamikið tónskáld og samdi fjölbreytta tónlist. Eftir hann liggja 40 óperur, einleiksverk fyrir óbó og orgel og nokkrar óratoríur. Verk hans eru dæmi um hvernig veraldleg og trúarleg tónverk urðu sífellt tengdari á þessum tíma. Rui Costa. Rui Manuel César Costa (fæddur 29. mars, 1972 í Lissabon), vanalega aðeins kallaður Rui Costa (framburður: /ʁuj 'kɔʃ.tɐ/) er portúgalskur knattspyrnumaður og núverandi knattspyrnustjóri portúgalska liðsins S.L. Benfica. Hann lék vanalega stöðu sóknarglaðs miðjumanns. António Lobo Antunes. António Lobo Antunes (1. september 1942) er einn vinsælasti rithöfundur Portúgala. António Lobo Antunes fæddist í Lissabon og gaf út fyrstu skáldsöguna sína árið 1979 og kallaðist hún Fílaminni (Memória de Elefante). Hann hefur nokkrum sinnum verið orðaður við Bókmenntaverðlaun Nóbels. Tratado das Paixões da Alma (1990) A Ordem Natural das Coisas (1992) A Morte de Carlos Gardel (1994) Olhares 1951-1998 (1999) (co autoria de Eduardo Gageiro) Não Entres Tão Depressa Nessa Noite Escura (2000) Que farei quando tudo arde? (2001) Letrinhas das Cantigas (edição limitada, 2002) Boa Tarde às Coisas Aqui em Baixo (2003) Eu Hei-de Amar Uma Pedra (2004) História do Hidroavião (conto, reedição 2005) D'este viver aqui neste papel descripto: cartas de guerra ("Cartas da Guerra", 2005) Ontem Não Te Vi Em Babilónia (2006) O Meu Nome é Legião (2007) Örvhentur maður. Örvhentir eru þeir nefndir sem nota vinstri höndina sem aðalhönd, öfugt við rétthenta sem nota hægri höndina. Um 13% jarðarbúa eru örvhentir. Rannsóknir hafa sýnt að örvhentir hafa betra minni en rétthentir, en að hinir síðarnefndu eru rökrænni í hugsun. Þetta hefur með sérhæfingu heilahvelana að gera. Sökum þess hve hlutfallslega fáir eru örvhentir eru flest verkfæri ætluð rétthendum, en þó eru til verslanir sem sérhæfa sig í hlutum fyrir örvhenta. Þekktir örvhentir einstaklingar. Margir frægir einstaklingar hafa verið og eru örvhentir. Vinstristefna. Vinstristefna í stjórnmálum er hugtak sem gjarnan er notað um sameignarstefnu (kommúnisma), jafnaðarstefnu eða frjálslynda jafnaðarstefnu og skilgreint sem andstæða hægristefnu. Nafnið er dregið af því að í frönsku byltingunni sátu frjálslyndir fulltrúar þriðju stéttarinnar (bænda, borgara, verkamanna) yfirleitt vinstra meginn við forsetastólinn á stéttaþingum samkvæmt venju sem hófst 1789. Aðallinn sem tilheyrði annarri stéttinni sat yfirleitt hægra meginn. Það er ennþá hefðin í franska löggjafarþinginu (Assemblée Nationale) að þingmenn sitji vinstra eða hægra meginn í salnum í samræmi við pólitíska stefnu sína. Merkingin hefur breyst nokkuð í tímans rás, upprunalegu vinstri-mennirnir á franska stéttaþinginu voru vel efnaðir borgarar sem að studdu frjálst markaðshagkerfi og lágmarksríkisafskipti, gildi sem að á okkar dögum þykja fremur hægrisinnuð. Andstæðingar þeirra á hægri kantinum voru þá íhaldsmenn og konungssinnar sem studdu óbreytt ástand en einnig lentu þeir í andstöðu við vaxandi samtök verkamanna og launafólks sem höfðu aðrar áherslur. Sígaretta. Sígaretta eða vindlingur er skorið tóbak sem er vafið inn í pappír og reykt. Nú til dags er mjög algengt að sígarettur hafi síu í munnstykkinu. Sígarettur innihalda nikótín sem er ávanabindandi auk tjöru og fjölda annarra skaðlegra efna. Talið er að árlega megi rekja dauða fjölda fólks beint til sígarettureykinga. Talið er að spænskir fátæklingar hafi fundið sígarettuna upp á 18. öld þar eð þeir muldu niður stubbana af vindlum sem efnaðra fólk henti á götuna, vöfðu mylsnunni inn í pappír og reyktu. Á 19. öld var farið að bæta örlítilli tjöru í pappírinn sem sígarettur eru vafðar úr. Það var gert til þess að bruninn yrði hægari og jafnari, en eykur óhollustu sígarettunnar til muna. Hægristefna. Hægristefna í stjórnmálum er hugtak sem gjarnan er notað um íhaldsstefnu eða frjálshyggju eða þá að það er einfaldlega skilgreint sem andstaða vinstristefnu. Alræðishyggja og þjóðernishyggja eru stundum talin falla undir hægristefnu eða öfgahægristefnu (sjá fasismi) en stundum vinstristefnu. Nafnið er dregið af sætaskipun á stéttaþingum í Frakklandi í frönsku byltingunni þar sem konungssinnar sátu hægra megin við forsetastólinn. Hinir upphaflegu hægri menn voru íhaldsmenn sem að vildu halda í óbreytt ástand á meðan vinstri menn voru róttækir og vildu breytingar. Síðan þá hefur merkingin breyst töluvert og nú er frjálshyggja gjarnan talin til hægristefnu sem er nú oftar skilgreind sem andstæðan við sameignarstefnu eða jafnaðarstefnu á vinstri vængnum. Margir líta þó svo á að hinn einfaldi hægri-vinstri mælikvarði sé ekki fullnægjandi til að gera greinarmun á ólíkum stjórnmálastefnum í nútímanum. Guillaume de Machaut. Guillaume de Machaut (u.þ.b. 1300 - 1377) var franskt tónskáld og ljóðskáld á miðöldum. Hann var einn þeirra seinustu í langri hefð skálda sem bæði sömdu ljóð og tónlist við þau. Innan tónlistar telst hann eitt mikilvægasta tónskáld Ars Nova stefnunnar. Hann átti mikilvægan þátt í þróun mótettunnar og einnig veraldlegum sönglögum (svo sem lai, virelai og ballöðu). Hann var líka sá fyrsti sem vitað er um að hafi samið alla hluti hefðbundinnar messu (áður voru mismunandi messuþættir samdir af mismunandi tónskáldum), en hún heitir Messe de Nostre Dame. Pérotin. Pérotin (uppi í kring um aldamótin 1200) var tónskáld á miðöldum, líklega franskur, sem tilheyrði Notre Dame skólanum í fjölröddun. Ásamt Léonin er hann frægasti meðlimur þess skóla. Þrátt fyrir það hefur ekki verið hægt að færa sönnur á að Pérotin hafi starfað við Notre Dame dómkirkjuna í París. Bókin Magnus Liber inniheldur eitthvað af verkum eftir hann, en hú inniheldur einnig verk Léonins. Hann er, líkt og Léonin, þekktur nær eingöngu af ritum Anonymous IV. Philippe de Vitry. Philippe de Vitry (31. október 1291 – 9. júní 1361) var franskt tónskáld, tónfræðingur og ljóðskáld. Hann var einn helsti tónfræðingur Ars Nova tímabilsins og fann hann upp það heiti. Vitað er að hann var frá París og lærði mjög líklega við Parísarháskóla. Hann var við hirðir nokkurra Frakkakonunga og vann líka um tíma við andpáfahirðina í Avignon. Þar að auki varð hann biskup seint á ævinni. Vitry er oft talinn hafa þróað ísóryþma og var einnig mjög nýungagjarn í nótnaritun, einkum hvað varðar hryn. Voynich-handritið. Voynich-handritið er ritað með óþekktu letri Voynich-handritið er dularfull myndskreytt bók af óþekktum uppruna, skrifuð, að talið er, einhvern tímann á milli 14. og 17. aldar af óþekktum höfundi, með óþekktu ritkerfi og á óþekktu tungumáli. Á þeim tíma sem vitað hefur verið um handritið hefur það orðið viðfangsefni áhugamanna sem og fagmanna á sviði dulmálsfræði, bókmenntafræði, sagnfræði og annarra vísindagreina. Meðal annarra hafa frægir dulmálsfræðingar seinni heimstyrjaldarinnar reynt að ráða í það, en engum hefur tekist að finna merkingu nokkurs einasta orðs. Þessi langa hefð fyrir árangursleysi hefur rennt stoðum undir þá skoðun að handritið sé einfaldlega mjög stórt gabb; merkingarlaus runa af handahófsvöldum táknum. Handritið er nefnt eftir pólsk-ameríska fornbókasalanum Wilfrid M. Voynich, sem fékk bókina í hendurnar árið 1912. Í dag er hún þó skrásett sem "MS 408" í Beinecke bókasafni sjaldgæfra bóka við Yale. Fyrsta nákvæma eftirprentun var gefin út 2005. Lýsing. „Jurta“-hlutinn er myndskreyttur með blómamyndum „Líffræði“-hlutinn hefur þéttan texta og myndir af nöktum konum að baða sig. Teikningarnar í „líffræði“-hlutanum eru tengdar saman með rörakerfi. Gildandi viðmið gera ráð fyrir að bókin hafi upprunalega verið 272 blaðsíður að lengd, bundin inn í 17 örkum sem hver hefur 16 blaðsíður. Um 240 blaðsíðanna, sem eru úr bókfelli, eru eftir. Bilin sem eru eftir í blaðsíðunúmerum bókarinnar, sem virðast yngri en afgangur bókarinnar, gefa til kynna að þó nokkrar blaðsíður hefur vantað þegar Voynich fékk handritið í hendurnar. Fjaðurstafur var notaður til þess að skrifa texta bókarinnar, og til þess að teikna útlínur allra teikninga, en lituð málning var notuð til þess að lita teikningarnar. Litunin virðist yngri en afgangur textans, og virðist hafa verið gerð af viðvaningi. Textinn. Textinn er greinilega ritaður frá vinstri til hægri, með lítillega ójafnri hægri spássíu. Lengri textabútar eru brotnir upp í efnisgreinar, stundum með stjörnum á vinstri spássíu, eins og til þess að gefa til kynna upptalningu. Það er engin augljós greinarmerkjasetning. Rás textans er jafn, þ.e., textinn er ritaður með jöfnum hætti, hver stafur og hvert orð jafn vel skrifað, sem gefur til kynna að sá sem skrifaði textann hafi skilið það sem hann var að skrifa. Handritið gefur ekki neinar vísbendingar um að hvert tákn hafi verið úthugsað sérstaklega áður en að það var ritað. Textinn samanstendur af yfir 170.000 einstökum stafbrigðum sem almennt eru aðskilin hvert frá öðru með bilum. Flest stafbrigðin eru rituð með einu eða tveimur pennastrikum, þ.e. samfelldum línum án þess að lyfta pennanum. Það eru deilur um það hvort að sum tákn séu aðskilin eða ekki, en ljóst er að stafrófið samanstendur af 20-30 einstökum stafbrigðum sem ná yfir nær allan textann; undantekningarnar eru nokkur „undarleg“ tákn, sem koma aðeins einu sinni eða tvisvar fyrir. Stærri bil aðgreina textann í um 35.000 „orð“ af misjafnri lengd. Þau virðast fylgja hljóðfræðilegum eða ritfræðilegum reglum af einhverju tagi, til dæmis eru ákveðin tákn sem verða að birtast í öllum orðum (líkt og sérhljóðar í íslensku). Að sama skapi koma sum tákn aldrei á eftir öðrum, sum eru gjarnan tvítekin en önnur ekki. Tölfræðileg greining textans leiðir í ljós svipuð mynstur og finnast í náttúrlegum tungumálum. Til dæmis fylgir tíðni orða Zipf dreifingu, og orðaóreiðan (um 10 bitar/orð) er mjög svipuð óreiðunni í ensku eða latínu. Sum orð koma aðeins fyrir í vissum hlutum, eða jafnvel aðeins á örfáum síðum, en önnur koma fyrir alls staðar í handritinu. Það eru mjög fáar endurtekningar meðal þeirra c.a. 1.000 merkinga sem fylgja teikningunum. Í "jurtakaflanum" kemur fyrsta orðið á hverri síðu aðeins fyrir á þeirri síðu, og það kann að vera nafn plöntunnar sem rætt er um. Að þessu frátöldu er mál Voynich handritsins mjög ólíkt evrópskum tungumálum að ýmsu leyti. Til dæmis eru nánast engin orð með fleiri en tíu stöfum, og eins- og tveggja stafa orð eru líka fátíð. Dreifing stafa um orðin er líka fremur sérkennileg: sumir stafir koma aðeins fyrir í upphafi orðs (líkt og "þ"), sum aðeins í enda orðs, og önnur aðeins á miðsvæði orðs; en þetta er mun algengara í arabískum málum heldur en rómönsku, grísku eða kýrillísku. Endurtekningar virðast algengari en í evrópskum málum. Það eru tilvik þar sem að sama algenga orðið kemur fyrir þrisvar í röð. Orð sem eru eins nema að einum staf endurtakast gjarnan líka. Það eru aðeins nokkur orð í handritinu skrifuð á að því er virðist latnesku letri. Á síðustu síðunni eru fjórar línur sem eru skrifaðar í (fremur bjöguðum) latneskum stöfum, en í þeim koma tvö orð fyrir í óþekkta ritkerfinu. Letrunin líkist evrópskum 15. aldar stafrófum, en orðin sem koma fyrir í línunum fjórum eru merkingarlaus í öllum þekktum tungumálum. Einnig er röð af teikningum í "stjörnufræði" hlutanum þar sem að nöfn tíu mánaða (mars til desember) eru rituð í latnesku letri. Stafsetning nafnanna er svipuð og í miðaldatungumálum Frakklands og Íberíuskaga. Hins vegar er ekki vitað hvort að þessi stöku latnesku orð eru hluti upprunalega handritsins eða hvort að þeim hafi verið bætt við síðar. Saga. Saga handritsins er enn að hluta óþekkt, sérstaklega elsti hluti hennar. Þar sem að stafróf handritsins líkist ekki neinu þekktu ritkerfi og texti þess enn ekki afkóðaður eru einu nytsamlegu upplýsingarnar um aldur bókarinnar og uppruni teikningarnar, þá sérstaklega klæðaburður og hárstíll mannanna í teikningunum, og byggingarstíll kastalanna sem sjást. Öll þessi einkenni eru evrópsk, og byggt á þeim rökum hafa sérfræðingar ályktað að bókin hafi verið skrifuð milli 1420 og 1520. Þessi ályktun er styrkt með mörgum öðrum vísbendingum. Fyrsti þekkti eigandi handritsins var Georg Baresch, lítið þekktur gullgerðarmaður sem bjó í Prag snemma á 17. öld. Baresch virðist hafa vitað jafn lítið eða minna en við vitum um þetta „finngálkn“ sem „tók upp pláss að óþörfu í bókasafninu“. Þegar hann frétti að Athanasius Kircher, Jesúíti frá Collegio Romano, hafði gefið út koptíska (eþíópíska) orðabók og „ráðið“ egypsk hýróglýfur, þá sendi hann sýni af ritkerfinu til Kirchers í Róm tvívegis, þar sem að hann bað um vísbendingar. Í bréfi sínu til Kirchers árið 1639, sem Rene Zandbergen hafði upp á nýlega, kemur fram elsta þekkta tilvísun í handritið. Það er óvitað hvort að Kircher hafi svarað beiðninni, en hann virðist hafa verið nægilega áhugasamur til þess að reyna að kaupa bókina, sem Baresch neitaði að selja. Þegar að Baresch dó féll bókin í hendur vinar hans, Jan Marek Marci (Johannes Marcus Marci), sem þá var rektor í Univerzita Karlova í Prag. Hann sendi bókina rakleiðis til Kircher, sem var gamall vinur hans. Bréf sem Marci skrifaði og festi við kápuna frá árinu 1666 er enn fast við handritið. Engar heimildir eru til um bókina næstu 200 árin, en að öllum líkindum var hún geymd ásamt bréfasafni Kirchers í bókasafni Collegio Romano. Það var líklega þar þar til að hermenn Victors Emmanuels II Ítalíukonungs hertóku borgina árið 1870 og lögðu undir sig ríki páfans. Nýja ítalska ríkisstjórnin ákvað að leggja hald á ýmsar eigur kirkjunnar, þar með talið bókasafn Collegiosins. Niðurstöður rannsókna Xavier Ceccaldi og annarra hafa leitt í ljós að rétt áður en að þetta gerðist voru margar bækur úr bókasafni háskólans flutt í persónuleg söfn kennaranna, en þau söfn voru undanskilin hernáminu. Bréfasafn Kirchers var meðal þessa, og þar með Voynich handritið líka. Það sést á því að það er enn þá merkt ex libris Petrus Beckx, sem var æðsti maður Jesúítareglunnar og rektor háskólans á þeim tíma. Einkasafn Beckx var flutt síðar til Villa Mondragone í Frascati, stórrar hallar nærri Róm sem að Jesúítareglan keypti árið 1866 og hýsti höfuðstöðvar Collegio Ghisleri. Um 1912 leið Collegio Romano mikinn fjárskort og ákvað að selja hluta eigna sinna. Wilfrid Voynich keypti þrjátíu handrit af þeim, þar með talið handritið sem nú ber nafn hans. Eftir dauða hans 1930 erfði ekkja hans, Ethel Lilian Voynich, handritið - en Ethel er þekkt fyrir að hafa skrifað söguna "The Gadfly". Hún lést árið 1960 og lét vinkonu sinni, Anne Nill, handritið eftir. Árið 1961 seldi Nill svo bókina til fornbókasala að nafni Hans P. Kraus. Kraus gat ekki fundið neinn kaupanda, og gaf Yale háskóla bókina árið 1969. Tilgátur um höfund. Mörg nöfn hafa komið upp í sambandi við vangaveltur um höfund handritsins. Hér verða vinsælustu tilgáturnar skoðaðar. Roger Bacon. Í bréfi sínu til Kircher skrifaði Marci að Raphael Mnishovsky hafi sagt bókina einu sinni hafa verið keypta af Rúdolfi II bóhemíukeisara fyrir 600 dúkata. Rudolf trúði því, samkvæmt bréfinu, að höfundur ritsins hafi verið fransesíumunkurinn og Roger Bacon. Þrátt fyrir að Marci hafi sagst vera að fara umfram sína þekkingu með þessari staðhæfingu, þá tók Wilfrid Voynich þessu mjög alvarlega, og gerði sitt besta til þess að sanna þessa tilgátu. Staðfesta hans í málinu hafði mikil áhrif á allar tilraunir til afkóðunar næstu 80 árin. Afturámóti hafa fræðimenn sem hafa skoðað Voynich handritið í samanburði við önnur verk Roger Bacons algjörlega hafnað þessari tilgátu. Þess má jafnframt geta að Raphael Mnishovsky lést árið 1644, og Rudolf hlýtur að hafa keypt ritið áður en að honum var steypt af stóli árið 1611, um 55 árum áður en að Marci skrifaði bréfið sitt. John Dee. Voynich trúði því að sá sem að hafði selt Rudolfi keisara ritið hafi einungis getað verið John Dee, stærðfræðingur og stjörnuspekingur við hirð Elísabetar I Bretadrottningar. Hann var þekktur fyrir að eiga stórt safn rita eftir Roger Bacon. Dee og aðstoðarmaður hans Edward Kelley bjuggu í Bóhemíu í nokkur ár, þar sem að þeir vonuðust eftir því að geta selt þjónustu sína keisaranum. Hins vegar er hvergi minnst á sölu ritsins í dagbókum Dees, sem eru mjög nákvæmar, þannig að það er talið ólíklegt að salan hafi nokkru sinni farið fram. Ef að höfundur handritsins er ekki Roger Bacon þá hverfur tengingin við Dee algjörlega, en Dee sjálfur kann að hafa skrifað ritið og sagt að Bacon hafi verið höfundurinn, í von um að ná að selja það síðar. Edward Kelley. Edward Kelley, sem var samferðamaður Dees til Prag, var sjálftitlaður alkemisti sem kvaðst gata breytt kopar í gull með því að nota dularfullt duft sem hann gróf út úr grafhýsi biskups í Wales. Sem aðstoðarmaður Dees, og sjáari, kvaðst hann geta kallað fram engla í kristalskúlu, og hafði langar samræður við þá, sem Dee skrifaði niður. Tungumál englanna var kallað enochíska, nefnt eftir Enoch, föður Methúsalems í Biblíunni. Samkvæmt goðsögninni var Enoch „tekinn“ til Guðs af englum, og fékk hann leiðsögn um himnaríki, sem hann skrifaði bók um eftir endurkomu sína til jarðar. Bókin kallast ýmist "Enochsbók" eða "Fyrsta bók Enochs". Sumir hafa haldið því fram að Kelley hafi skapað enochíska málið til þess að gabba John Dee, og hafi jafnframt skáldað upp Voynich handritið til þess að gabba keisarann (sem var þá þegar að greiða Kelley fyrir alkemísk störf sín). En á sama hátt og áður eru allar tengingar við Edward Kelley jafn fjarstæðukenndar ef að Roger Bacon er ekki höfundur ritsins. Wilfrid Voynich. Sumir héldu því fram að Voynich kynni sjálfur að hafa skáldað Voynich handritið. Sem reyndur fornbókasali hafði hann bæði þekkinguna og aðstöðuna; og glötuð og endurheimt bók eftir Roger Bacon væri mjög verðmæt. Hins vegar hefur aldursgreining á handritinu, sem og fundur bréfs Bareschs til Kircher, útilokað þennan möguleika. Jacobus Sinapius. Stöðuljósmynd af fyrstu síðu Voynich handritsins sem Voynich tók einhvern tímann fyrir 1921 sýnir óljósa skrift sem búið er að þurrka út. Með ýmsum efnum er hægt að ná fram textann „"Jacobj `a Tepenece"“. Það er álitið að hér sé átt við Jakub Horcicky frá Tepenec, sem var betur þekktur undir latneska nafni sínu, Jacobus Sinapius. Hann var sérfræðingur í grasalækningum og jafnframt einkalæknir Rúdolfs II og umsjónarmaður grasagarða hans. Voynich og margir á eftir honum hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi áletrun gefi til kynna að Jacobus hafi átt Voynich handritið á undan Baresch. Hann leit á þetta sem staðfestingu á sögu Raphaels. Aðrir hafa stungið upp á því að Jacobus hafi sjálfur skrifað ritið. Hins vegar er skriftin ósamstæð við undirskrift Jacobusar, sem Jan Hurich fann nýlega í gömlu skjali. Það er enn mögulegt að skriftin á fyrstu síðunni ("f1r") sé frá síðari eiganda eða bókaverði, og sé ágiskun viðkomandi á því hver skrifaði ritið. Í sögubókum jesúíta sem Kircher hafði aðgang að er Jacobus eini alkemistinn úr hirð Rúdolfs II sem fær heilsíðuumfjöllun, meðan vart er minnst á ýmsa aðra, til dæmis Tycho Brahe. Efnin sem Voynich notaði hafa skemmt bókfellið svo mikið að varla er hægt að sjá skriftina í dag. Af þessum sökum eru sumir sem halda að Voynich hafi falsað skriftina til þess að styrkja tilgátuna um Roger Bacon. Jan Marci. Jan Marci kynntist Kircher þegar hann fór fyrir sendinefnd frá Univerzita Karlova til Rómar árið 1638. Á næstu 27 árum skrifuðust fræðimennirnir tveir á um ýmisleg vísindaleg málefni. Ferð Marcis var hluti af baráttu aðskilnaðarsinna innan háskólans fyrir sjálfstæði frá jesúítum, sem ráku Clementiunum háskólann í Prag. Þrátt fyrir þessa viðleitni voru háskólarnir tveir sameinaðir árið 1654 undir stjórn jesúíta. Þetta hefur leitt suma til þess að halda að pólitísk biturð gagnvart jesúítum hafi leitt Marci til þess að falsa Baresch bréfin, og síðar Voynich handritið, í tilraun til þess að eyðileggja mannorð Kirchers. Persónuleiki Marcis og þekking virðast passa við þessa tilgátu, og Kircher var mjög sjálfsöruggur, víðlesinn, og talinn alvitur, þó svo að hann sé þekktur í nútímanum meira fyrir sín stóru mistök heldur en raunveruleg afrek. Hann var mjög auðvelt skotmark. Baresch bréfin líkjast að vissu leyti gabbi sem Andreas Mueller notaði eitt sinn gegn Kircher. Hann skáldaði upp ólæsilegt handrit og sendi til Kircher ásamt bréfi sem sagði það vera frá Egyptalandi. Hann bað Kircher um þýðingu, sem Kircher gat gefið honum undir eins. Þess má geta að einu sannanirnar sem til eru um tilvist Georgs Baresch eru bréfin þrjú sem eru send til Kircher, eitt frá honum sjálfum (1639) og tvö frá Marci (um ári síðar). Það er einnig sérkennilegt að bréfaskipti Marci og Kirchers enduðu skyndilega árið 1665, með viðhengda bréfinu á Voynich handritinu. Mótlæti Marcis gagnvart jesúítum er hins vegar algjörlega byggt á getgátum. Hann var Kaþólskur og stundaði nám til þess að verða jesúíti, og var gerður að heiðursmeðlim í jesúítareglunni rétt fyrir dauða sinn 1667. Raphael Mnishovsky. Raphael Mnishovsky, vinur Jan Marci sem var uppruni sögunnar um Roger Bacon, var sjálfur dulmálsfræðingur (meðal annars), og fann upp dulmál sem hann sagði að væri óbrjótanlegt (ca. 1618). Þetta hefur ýtt undir þá kenningu að hann hafi búið til Voynich handritið sem dæmi um sitt fullkomna dulmál, og gert Baresch þar með óaðvitandi að tilraunadýri. Eftir að Kircher gaf út bók sína um koptísku segir kenningin að Raphael hafi ákveðið að það yrði enn meiri sigur ef að Kircher gæti ekki ráðið dulmálið, og hafi sannfært Baresch um að leita hjálpar hjá honum. Hann hefur þá spunnið upp söguna um Roger Bacon til þess að hvetja Baresch áfram. Vissulega gefur áfast bréf Marcis til kynna að hann hafi grunað að það væri lygi á ferðinni. Þó eru engar haldbærar sannanir fyrir þessari kenningu. Anthony Ascham. Dr. Leonell Strong, vísindamaður sem starfar við krabbameinsrannsóknir og fæst við dulmálsfræði í hjáverkum, gerði tilraun til þess að afkóða Voynich handritið. Strong sagði lausnina á Voynich handritinu felast í sérkennilegu tvöföldu kerfi jafnmunaruna og margföldu stafrófi. Hann hélt því fram að Voynich handritið hafi verið skrifað af enska 16. aldar rithöfundinum Anthony Ascham, sem skrifaði meðal annars "A Little Herbal" (1550). Þó svo að Voynich handritið innihaldi vissulega hluta sem tengjast fræðasviði Aschams, þá eru margir sem spyrja sig hvaðan Anthony Ascham kann að hafa fengið slíka þekkingu á dulmálsfræði. Margir höfundar. Prescott Currier, dulmálsfræðingur hjá bandaríska sjóhernum, fékkst við handritið á 7. áratug 20. aldar, og sá hann að hægt væri að aðgreina blaðsíðurnar í „jurta“ hlutanum í tvennt, "A" og "B", sem hafa mjög ólíka tölfræðilega eiginleika og smávægilega ólíka handskrift. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Voynich handritið hljóti að vera verk tveggja eða fleiri höfunda, sem notuðu mismunandi mállýskur eða réttritunarreglur, en þekktu báðir ritkerfið. Nýlegar rannsóknir hafa þó vakið spurningar um þessa niðurstöðu. Sérfræðingur í greiningu rithanda sá aðeins eina rithönd í öllu handritinu. Einnig, þegar að aðrir hlutar handritsins eru skoðaðir kemur í ljós að "A" og "B" skriftirnar eru á sitthvorum endanum á skriftarstílnum, sem gefur til kynna að þeir hlutar hafi verið skrifaðir með mjög löngu millibili. Antonio Averlino. Árið 2006 lagði Nicholas Pelling til í bók sinni, "The Curse of the Voynich", að hugsanlegur höfundur handritsins sé Antonio Averlino, arkitekt frá Flórens sem starfaði í hirð erkihertogans í Mílanó, Fransesco Sforza. Röksemdafærslan er sú að Averlino skrifaði fjölmargar bækur fyrir Sforza og í þeim vísaði hann gjarnan á önnur rit sem hann kvaðst hafa skrifað en hafa aldrei fundist. Þau rit voru sögð innihalda teikningar og lýsingar á uppfinningum Averlinos. Þá telur Pelling að blómateikningarnar séu dulkóðaðar myndir af gangverki véla, og þar sé meðal annars að finna teikningu af mjög einföldum sprengihreyfli. Þessi kenning er af mörgum talin afar góð, enda rökstudd með mjög ítarlegri greinargerð og ótrúlega mörgum tilvísunum. En þó er afkóðunartilraunin sem er sett fram í bókinni álitin frekar vafasöm -- hún byggir lítið á þekktum staðreyndum og styðst mest við hugmyndir sem birtust Bandaríska úrsmiðinum Steve Eckwall í sýn. Jurtir. Fyrsti hluti bókarinnar er án nokkurs vafa um jurtir eða grös, en flestar tilraunir til þess að greina plönturnar, ýmist með raunverulegum sýnum eða stílgerðum teikningum úr öðrum samtíma grasafræðibókum hafa mistekist. Aðeins örfáar plöntur (meðal annars þrenningarfjóla og meyjarhár) hafa verið greindar með nokkurri vissu. Þær myndir úr „jurta“-hlutanum sem passa við myndir úr „lyfjafræði“-hlutanum virðast vera betur teiknuð afrit, nema hvað það er búið að bæta við ýmsum hlutum sem upp á vantaði með ýktum smáatriðum. Sumar plantanna virðast vera samsettar — rætur einnar tegundar ásamt laufblöðum og stika annarrar, með blómum hinnar þriðju. Sólblóm. Brumbaugh trúði að ein teikninganna sýndi sólblóm frá nýja heiminum, sem myndi aðstoða við að dagsetja handritið og vekja áhugaverða möguleika varðandi uppruna þess. Þó er líkingin ekki mikil, sérstaklega ef að hún er borin saman við upprunalegu villtu sólblómin. Þar sem að skali teikninganna er óþekkt gæti hún vel verið af öðrum blómum úr sömu fjölskyldu, þar með talið baldursbrá, rómversk kamilla (gæsajurt), og margar aðrar tegundir alls staðar að úr heiminum. Alkemía. Laugarnar og rörin í „líffræði“-hlutanum kunna að gefa til kynna tengsl við efnaspeki eða gullgerðarlist, sem myndi einnig vera mikilvægt ef að bókin innihéldi leiðbeiningar um gerð lækningajurta. Hins vegar deila samtíma alkemíubækur myndmáli þar sem að ferlum og efnum er lýst með sérstökum myndum (fálki, froskur, maður í grafhýsi, o.þ.a.), og stöðluðum táknum í textanum (hringur með krossi, o.þ.h.), og engin þeirra hefur verið fundin í Voynich handritinu. Efnaspeki og grasafræði. Sergio Toresella, sérfræðingur í fornum grasalækningaritum, benti á að Voynich handritið gæti verið efnaspekirit um grasalækningar — sem hefur svo til ekkert við efnaspeki að gera, heldur er einfaldlega uppskáldað grasalækningarit með skálduðum myndum, sem falslæknar myndu bera með sér til þess að heilla viðskiptavini sína. Það var lítil stofa sem fjöldaframleiddi slíkar bækur í norðurhluta Ítalíu, rétt um það skeið sem að Voynich handritið kom til sögunnar. Hins vegar eru þær bækur mjög frábrugðnar Voynich handritinu, bæði í stíl og uppsetningu. Auk þess voru þær alltaf skrifaðar á skiljanlegu máli. Stjörnuspeki og grasafræði. Stjörnuspekilegar athuganir voru oft mikilvægar í söfnun grasa, blóðgun og öðrum læknisfræðilegum aðgerðum á því tímabili sem talið er að handritið hafi verið skrifað, eins og sjá má til dæmis í ritum Nicholasar Culpeper. Hins vegar, ef að þekktu dýrahringstáknin eru undanskilin, og ein teikning sem sýnir kannski pláneturnar sem þekktar voru á þessum tíma, þá hefur engum tekist að leggja neina merkingu í teikningarnar með þekktum stjörnuspekiaðferðum, hvorki evrópskum né af öðrum toga. Smásjár og stjörnukíkjar. Hringlaga teikning í „stjörnuspeki“-hlutanum sýnir óreglulega lagaðan hlut með fjórum sveigðum örmum sem hafa verið túlkaðir sem mynd af stjörnuþoku sem gæti aðeins verið fengin með stjörnukíki. Aðrar teikningar hafa verið túlkaðar sem myndir af frumum, séðar í gegnum smásjá. Þetta myndi gefa til kynna að um væri að ræða ungt nútímarit frekar en miðaldarit. Hins vegar eru efasemdir um túlkanirnar. Við nánari athugun virðist miðja „stjörnuþokunar“ vera vatnspollur. Borgarkort. Nicholas Pelling tengdi í bók sinni "The Curse of the Voynich" hringlaga myndir sem koma fyrir á svokallaðri ' í ritinu við 15. aldar kort af borginni Mílan á Ítalíu. Með því að vinna út frá því að um huglæg landakort sé að ræða, sem sýna þó mjög lítið um raunverulega legu landsins heldur frekar bara hvar ákveðin landamerki eru afstæð við hvert annað, náði hann að mynda tengingar við borgirnar Feneyjar og Pavia. Þó eru sex myndir í viðbót á rósettusíðunni sem hafa ekki enn þá verið staðgreindir með þessum hætti. Stafadulmál. Samkvæmt þessari kenningu inniheldur Voynich handritið texta á evrópsku tungumáli, og að það hafi verið gert ólæsilegt með því að rita hvern staf í „stafrófi“ Voynich handritsins. Þetta hefur verið tilgátan að baki flestum afkóðunartilraunum 20. aldar, meðal annars óformlegs hóps dulmálsfræðinga hjá NSA sem William F. Friedman leiddi í upphafi 5. áratugarins. Einföld stafavíxldulmál (á borð við Dulmál Sesars) er hægt að útiloka, þar sem að þau eru mjög auðbrjótanleg með tíðniárás, þannig að afkóðunartilraunir hafa aðallega miðast við fjölstafrófsdulmál, sem Leone Battista Alberti fann upp í kringum 1460. Til þessa flokks dulmála er fræga Vigenere-dulmálið, sem má styrkja með notkun núlltákna (merkingarlaus tákn) og/eða sambærileg tákn, umröðun stafa, fölsk orðabil, og þaðan af. Sumir gerðu ráð fyrir því að sérhljóðum hafði verið eytt áður en að dulkóðun hófst. Það hafa margir kvaðst hafa afkóðað handritið með þessum hætti, en engin þeirra er almennt viðurkennd, aðallega sökum þess að afkóðunarkerfi þeirra hafa byggst á svo mörgum getgátum að það væri hægt að finna merkingarbæran texta í hvaða handahófskennda textastreng sem er. Stærstu rökin fyrir þessari kenningu eru þau að notkun sérkennilegs stafrófs getur varla haft aðra útskýringu en þá að það sé tilraun til þess að fela upplýsingar. Roger Bacon þekkti dulmál, og dulmálsfræði varð fyrst að rannsakaðri fræðigrein um þetta leyti. Hins vegar eru rökin gegn þessu þau að stafadulmál myndu eyðileggja náttúrlegu tölfræðilegu eiginleika handritsins, svo sem lögmál Zipfs. Auk þess komust fjölstafrófsdulmál ekki í almenna notkun fyrr en á 16. öld, sem er frekar seint miðað við hvenær talið er að Voynich handritið hafi verið skrifað. Kóðabókardulmál. Samkvæmt þessari kenningu eru „orðin“ í Voynich handritinu raunverulega kóðar sem þarf að fletta upp í þar til gerðri orðaskrá eða kóðabók. Helstu rökin fyrir þessari kenningu eru að innri gerð og lengd orða eru svipuð lengdum rómverskra talna, sem á þeim tíma hefðu verið eðlilegt val fyrir kóða. Hins vegar eru kóðabókardulmál aðeins nytsamleg fyrir stutt skilaboð, þar sem að þau eru mjög tímafrek í notkun — bæði til lestrar og til skrifta. Við þetta bætist að ef að slíkt dulmál hefði verið notað er líklegt að skriftin væri ekki jafn samfelld og raun ber vitni. Myndrænt dulmál. James Finn lagði til í bók sinni "Pandora's Hope" (2004) að Voynich handritið væri í rauninni myndrænt dulkóðuð hebreska. Þegar að orðin í Voynich handritinu hafa verið skráð, með hjálp EVA, er hægt að lesa mörg orðanna sem hebresk orð sem endurtaka sig með mismunandi afmyndunum, til þess gerðar að rugla lesandann. Til dæmis er orðið "AIN" í handritinu hebreska orðið fyrir "auga". Það kemur einnig fram í forminu "aiin" og "aiiin". Önnur afbrigði myndrænna dulmála hafa verið lögð til. Helstu rökin fyrir þessari skoðun eru að þau myndu útskýra það hvað gengi illa að afkóða dulmálið, sökum þess að stærðfræðilegar aðferðir hafa verið notaðar fyrst og fremst. Helstu rökin gegn þessari tilgátu eru þó að slík dulkóðun gerir ráð fyrir mikilli hæfni afkóðarans, þar sem að allan texta mætti sjá út á fjölmarga vegu. Það væri erfitt að vita hve mikilli túlkun þyrfti að beita á textann, og allt umfram það yrði háð smekk afkóðarans. Örskrift. Eftir uppgötvun þess árið 1912 var ein fyrsta tilraunin til þess að aflæsa ráðgátu handritsins, og jafnframt sú fyrsta af mörgum fölskum fullyrðingum um rétta afkóðun þess, gerð af William Newbold hjá Pennsylvaníuháskóla árið 1921. Tilgátan hans var að sýnilegi textinn væri merkingarlaus, en að hver stafur sé samsettur af runu örsmárra tákna sem eingöngu er hægt að sjá með stækkunargleri. Þessi tákn, sem byggð væru á forngrískri hraðskrift áttu að mynda annað stig skriftar sem innihéldi raunverulegu upplýsingar textans. Byggt á þessari þekkingu hélt Newbold því fram að hann hafði afkóðað heilu efnisgreinarnar sem sönnuðu að Roger Bacon hafi skrifað ritið með notkun samsettrar smásjár um fjögur hundruð árum á undan Leeuwenhoek. Á hinn boginn fann John Manly hjá Chicagoháskóla marga alvarlega galla við kenninguna. Hvert tákn átti að hafa margar merkingar, með engri áreiðanlegri leið til þess að greina á milli þeirra. Aðferð Newbolds fólst einnig í því að endurraða stöfum eftir hentisemi uns skiljanleg latína kæmi fram. Þessir eiginleikar gerðu það að verkum að það væri hægt að lesa hvað sem er út úr táknunum. Þó svo að hefð sé fyrir hebreskri örskrift er hún hvergi nærri jafn þjöppuð og flókin og táknin sem Newbold greindi. Við nánari athugun kemur í ljós að þetta eru ummerki þess að blekið hafi brotnað þegar það þornaði á bókfellinu, eins og gerist oft. Þökk sé nákvæmu athugunum Manlys er örskriftarkenningunni í dag hafnað. Dulritun. Þessi tilgáta segir að texti handritsins sé að mestu merkingarlaus, en inniheldur mikilvægar upplýsingar faldar í smáatriðum, til dæmis annar stafur hvers orðs, eða fjöldi orða í hverri línu. Þessi aðferð, sem kölluð er dulritun (e. "steganography", úr grísku: "falin skrift"), er mjög gömul, og er henni fyrst lýst af Jóhannesi Trithemiusi árið 1499. Sumir hafa stungið upp á því að rétti textinn sé fenginn með notkun gataspjalds af einhverri tegund. Það er erfitt að sanna eða afsanna þessa kenningu, þar sem að dulrituð skjöl eru mjög misjafnlega vandleyst. Helstu mótrökin fyrir því að þetta sé dulritað er sú að dulkóðaður texti stríðir gegn helsta tilgang dulritunar, sem er að fela tilvist leynda textans. Sumir hafa lagt það til að merkingarbæri textinn sé kóðaður í lengd og lögun mismunandi stafa. Það eru til dæmi um dulritun frá þessum tíma sem nota lögun stafa (t.d. skáletrun á móti venjulegum stöfum) til þess að fela upplýsingar. Hins vegar, þegar að skjalið er rannsakað náið virðast stafir Voynich handritsins vera mjög náttúruleg, og undir miklum áhrifum frá ójöfnu yfirborði bókfellsins. Óþekkt náttúrlegt mál. Málvísindamaðurinn Jacques Guy lagði það til að Voynich handritið gæti verið á einhverju óþekktu náttúrlegu tungumáli, skrifað án dulkóðunnar í einhverju uppfundnu ritkerfi. Orðauppbyggingin er vissulega lík þeirri sem er mörg tungumálum austur- og miðasíu, þá sérstaklega Sínó-Tíbetísk mál (kínverska, tíbetíska og búrmíska), Austurasíumál (vítetnamíska, kambódíska, o.s.frv.) og hugsanlega Tai mál (taílenska, laoska, o.s.frv.). Í mörgum þessara mála hafa „orðin“ aðeins eitt atkvæði, og atkvæðin eru afar fjölbreytt, til dæmis hafa þau mismunandi tónun. Þessi kenning hefur töluverðan sögulegan trúverðugleika. Þó svo að þessi tungumál höfðu að öllu jöfnu sín eigin ritkerfi voru þau oft óhugnanlega flókin fyrir vesturlandabúa, sem varð til þess að mörg atkvæðaritkerfi voru fundin upp, flest öll með latnesku letri, en stundum með uppfundnum stafrófum. Þó svo að þekktu dæmin eru mun yngri en Voynich handritið eru sögulega þekktir hundraðir landkönnuða og trúboða sem gætu hafa gert það - jafnvel fyrir för Marco Polo á þrettándu öld, en sérstaklega eftir að Vasco da Gama fann sjóleiðina að austurlöndum árið 1499. Höfundur Voynich handritsins gæti jafnframt verið austurasískur en búsettur í Evrópu, eða menntaður í evrópsku trúboði. Helstu rökin með þessari kenningu er að það samræmist öllum tölfræðilegum eiginleikum handritsins sem búið er að prófa fyrir, þar með talið tvöföldun og þreföldun orða (sem finnast í kínverskum og víetnömskum textum með mjög svipaðri tíðni og það í Voynich handritinu). Það útskýrir einnig skort á tölum og vestrænum málfræðieiginleikum á borð við greini og tengisagnir, og almennt hvað myndskreytingarnar eru furðulegar. Aðrar hugsanlegar vísbendingar eru tvö stór rauð tákn á fyrstu síðunni, sem hafa verið borin saman verið kínverska bókatitla, á hvolfi og illa afrituð. Einnig virðist árinu vera skipt í 360 gráður frekar en 365 daga, og í 15 gráðu hópa sem byrja á fiskunum, sem eru dæmi um kínverskt landbúnaðardagatal. Helstu mótrökin fyrir þessu eru að enginn (þar með talið fræðimenn við vísindaakademíuna í Beijing) hefur getað fundið skýr dæmi um asíska táknfræði eða asísk vísindi í myndskreytingunum. Síðla árs 2003 lagði pólski fræðimaðurinn Zbigniew Banasik fram þá tillögu að handritið væri ritað í Manchu málinu (talað í Manchúríu, leppríki Japans fyrir upphaf seinni heimstyrjaldarinnar, nú skipt milli Kína og Mongólíu) og gaf hann ófullkomna þýðingu á fyrstu síðu handritsins. Helstu verkfæri afkóðara. Þeir sem að eru að leitast eftir hinni sönnu merkingu Voynich handritsins hafa komið sér upp ýmsum tólum til þess verks. Síðutilvísanakerfi. Þá er vísað í tiltekna blaðsíðu, til dæmis bakhlið blaðsíðu 14, þá er ritað "f14v". Sumar síður eru samanbrotnar inní bókinni og er þá hvert brot kallað útflétting. Þá fær hver útflétting sitt eigið númer sem bætist við aftan við. Til dæmis hefur "f73" þrjár útfléttingar, og er vísað í framhlið þriðju útfléttingar með "f72r3". EVA. Þar sem að "f1r" þýðir að þetta sé úr "folio" 1, "recto"; "P3" merkir þriðja efnisgrein blaðsíðunnar, "16" er hér línunúmerið á blaðsíðunni, og síðasti bókstafurinn segir til um hvaða umritun er verið að nota. Hér eru sýndar fimm mismunandi umritanir á línu 16, vegna þess að mönnum ber ekki saman um hvernig eigi að umrita síðasta orðið. Sverrir Hermannsson. Sverrir Hermannsson (f. 26. febrúar 1930) er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðar þingmaður fyrir Frjálslynda flokkinn, sem hann stofnaði eftir að hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum. Sverrir er þekktur fyrir skrautlegt málfar. Hann er faðir Margrétar Sverrisdóttur og tók 20. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar fyrir Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum árið 2007. Ætt. Sverrir fæddist á Svalbarði í Ögurvík við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru Hermann Hermannsson útvegsbóndi þar og kona hans Salóme Rannveig Gunnarsdóttir. Sverrir kvæntist þann 27. desember 1953 Gretu Lind Kristjánsdóttur (f. 25. júlí 1931, d. 20. nóvember 2009). Þau eignuðust fjórar dætur og einn son auk einnar fósturdóttur. Menntun. Sverrir lauk stúdentsprófi frá MA árið 1951. Hann útskrifaðist svo með viðskiptafræðipróf frá HÍ 1955. Veturinn 1954-1955 sat hann í stúdentaráði ásamt því að vera formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Sverrir var síðan formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1957-1958. Starfsferill og félagsstörf. Sverrir hefur starfað víða. Helst ber að nefna að hann var formaður og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra verslunarmanna frá stofnun þess 1957 til 1972 og forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins 1975-1983. Eftir að Sverrir hætti á þingi 1988 varð hann bankastjóri Landsbanka Íslands og gegndi því starfi til 1998. Stjórnmálastarf. Ungur gekk Sverrir í Sjálfstæðisflokkinn og settist fyrst á þing í apríl 1964 sem varaþingmaður Austurlands. Hann náði svo kjöri sem þingmaður Austurlandskjördæmis í kosningunum 1971 og hélt þingsætinu til 1988 þegar hann hvarf til starfa í Landsbankanum. Sverrir var oft áberandi á þingi og var forseti neðri deildar 1979-1983. Hápunktinum á sínum ferli innan Sjálfstæðisflokksins náði Sverrir í fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þar sem hann var ráðherra. Hann var iðnaðarráðherra frá 26. maí 1983 - 16. okt. 1985 en eftir að Þorsteinn Pálsson kom inn í stjórnina var hann menntamálaráðherra til 28. apríl 1987 (gegndi samt störfum til 8. júlí). Sverrir sat í Norðurlandaráði 1975-1983 og aftur 1987-1988. Stuttu eftir að hann hætti sem bankastjóri stofnaði Sverrir ásamt stuðningsmönnum sínum Frjálslynda flokkinn og var formaður flokksins frá upphafi til ársins 2003. Hann sat svo á þingi 1999-2003 fyrir Reykvíkinga og var aldursforseti á Alþingi það kjörtímabil. Eysteinn Jónsson. Eysteinn Jónsson (fæddur 13. nóvember 1906, dó 11. ágúst 1993) var einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum Íslands á 20. öld. Hann hóf stjórnmálaferil sinn mjög ungur, aðeins 27 ára gamall, þegar hann tók fyrst setu á Alþingi. Hann var einn af leiðtogum Framsóknarflokksins alla tíð og eindreginn jafnaðarmaður og stuðningsmaður samvinnuhreyfingarinnar. Fjölskylda. Eysteinn var sonur Jóns Finnssonar prests og Sigríðar Hansínu Hansdóttur. Hann var kvæntur Solveigu Eyjólfsdóttur (fædd 2. nóvember 1911, dáin 29. júní 1995). Þau áttu saman börnin Sigríði (fædd 1933), Eyjólf (fæddur 1935), Jón (fæddur 1937), Þorberg (fæddur 1940), Ólöfu Steinunni (fædd 1947) og Finn (fæddur 1952). Menntun. Eysteinn tók Samvinnuskólapróf 1927. Framhaldsnám í Englandi 1929. Stjórnmál. Eysteinn var kosinn alþingismaður tæplega 27 ára og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn nær samfellt í 40 ár (1933-1974), sem þingmaður Suður-Múlasýslu til 1959 og eftir það var hann þingmaður Austurlandskjördæmis. Hann var ráðherra árin 1934-1942 og 1947-1958, lengst af sem fjármálaráðherra. Þegar hann gerðist ráðherra í fyrsta sinn 1934 var hann einungis 27 ára gamall og því yngsti maðurinn til þess að setjast í ríkisstjórn fyrr og síðar. Þingferli lauk hann sem forseti Sameinaðs þings 1971-1974. Eysteinn var alla tíð einn af helstu forystumönnum Framsóknarflokksins, fór fyrir þingflokknum 1934 og 1943-1969 og var formaður flokksins á árunum 1962-1968. Ritstörf. Eysteinn samdi ýmsa bæklinga og fjölda greina um stjórnmál og þar að auki um náttúruverndar- og útivistarmál. Úrval þeirra birtist í ritsafninu Sókn og vörn (1977). Vilhjálmur Hjálmarsson ritaði Ævisögu Eysteins Jónssonar í þrem bindum (1983—1985). Rán (glæpur). Japanskur kaupmaður rændur, mynd frá því í kringum 1860. Rán er glæpur sem felst í því að beita hótunum eða ofbeldi til þess að komast ólöglega yfir eigur annarra. Sá sem fremur rán kallast ræningi. Skilgreining á ráni er mismunandi eftir lögsögum en því fylgir þó iðulega strangari refsing en þjófnaði þar sem ofbeldi eða þvingun hefur ekki verið beitt. Aðrir glæpir eru kenndir við rán en eru yfirleitt meðhöndlaðir sérstaklega í lögum. Til dæmis mannrán, sjórán eða flugrán. Í hegningarlögum Íslands eru rán álitin alvarlegust auðgunarbrota og hægt er að dæma menn til allt að 16 ára fangelsisvistar í sérstaklega alvarlegum tilvikum skv. Johann Strauss II. Johann Strauss II (25. október 1825 – 3. júní 1899) var austurrískt tónskáld á rómantíska tímabilinu. Hann var þekktastur fyrir valsana sína, stundum nefndur konungur þeirra. Faðir hans, Johann Strauss I, var líka tónskáld og einnig bræður hans Josef Strauss og Eduard Strauss. Johann Strauss II varð þó þekktasta tónskáld ættarinnar og átti mikinn þátt í að gera valsa jafn vinsæla í Vínarborg og raun bar vitni. Strauss, Johann Strauss, Johann Guillaume Dufay. Guillaume Dufay (einnig skrifað Du Fay eða Du Fayt) (5. ágúst 1397 - 27. nóvember 1474) var fransk- flæmskt tónskáld og tónfræðingur snemma á endurreisnartímabilinu. Hann var eitt áhrifamesta tónskáld Evrópu á miðri 15. öld. Hann samdi tónlist af öllum helstu gerðum síns tíma, bæði trúarlega og veraldlega. William Byrd. William Byrd (1540 - 4. júlí 1623) var enskt endurreisnartónskáld. Ævi hans teygir sig í raun inn á Barokk tímabilið, en þrátt fyrir að hljómborðstónlist hans hafi í raun markað upphaf Barokkstílsins í orgel- og harpsíkordtónlist, samdi hann ekki í hinum nýja stíl. Hann er meðal annars merkilegur fyrir tengsl sín við rómversk-kaþólsku þrátt fyrir að hafa unnið við hirð mótmælandans Elísabetar I. Hann samdi tónlist fyrir hefðbundin kaþólsk tilefni, þar á meðal þrjár messur. Þar að auki samdi hann þó mikið af veraldlegri tónlist og var hann talinn meistari madrígala. Orlande de Lassus. Orlande de Lassus, (einnig kallaður Orlando Lassus, Orlando di Lasso, Roland de Lassus eða Roland Delattre) (1532 (mögulega 1530) – 14. júní 1594) var fransk- flæmskt tónskáld á síðari hluta endurreisnartímans. Ásamt Palestrina er hann í dag talinn helsti fulltrúi pólýfóníu niðurlenska skólans. Hann var frægasta og áhrifamesta tónskáld Evrópu við lok 16. aldar. Lassus skrifaði yfir 2000 verk af öllum gerðum fyrir rödd sem til voru á hans tíma. Þar á meðal eru 530 mótettur, 175 ítalskir madrígalar og villanellur, 150 franskir chansons og 90 þýsk lieder. Hann samdi ekkert, svo vitað sé, fyrir hljóðfæri, sem er merkilegt í ljósi þess hversu mikið hann samdi og að hljóðfæratónlist var að vinna sér æ fastari sess á þeim tíma sem hann var að semja tónlist. Vindur. Vindar eru loft á hreyfingu í lofthjúpi. Orsök vinda er þrýstistigull, svigkraftur eða ójöfn hitun lofts við yfirborð. Þegar sólin hitar upp loft við yfirborðið, þá léttist það og stígur upp og verður þá til lágþrýstisvæði. Þegar hlýja loftið stígur dregur það með sér kaldara loft í neðri loftlögum og vindur myndast. Háþrýstisvæði verður til þar sem loft kólnar mjög (til dæmis algengt yfir Grænlandsjökli) og leitar því niður vegna þyngdar sinnar. Loft streymir út á við frá háþrýstisvæðinu. Á norðurhveli jarðar blása vindar réttsælis umhverfis hæð en rangsælis umhverfis lægð. Þessu er öfugt farið á suðurhveli jarðar. Þess vegna er norðanátt á Íslandi ef hæð er yfir Grænlandi og lægð er á sama tíma fyrir austan Ísland, svo að dæmi sé tekið. Að sama skapi skapast austanátt ef að lægð er fyrir sunnan landið, en hæð fyrir norðan það. Í veðurskeytum er gefinn vindhraði, oftast mældur í metrum á sekúndu (m/s) eða hnútum (kn), sem eru mikið notaðir í sjómennsku og flugi og vindátt, sem gefin er í bogagráðum. Beaufortkvarðinn er þó enn mikið notaður til að gefa vindhraða. Veðurstofa Íslands, ásamt öðrum, mælir og skráir vinda á og umhverfis Ísland. Johannes Ockeghem. Johannes Ockeghem (u.þ.b. 1410 í Saint-Ghislain, Belgíu - 6. febrúar 1497, í Tours, Frakklandi) var tónskáld á endurreisnartímanum og leiðandi í annari kynslóð niðurlenska skólans. Hann er stundum sagður vera mikilvægasta tónskáldið á milli Guillaume Dufay og Josquin Des Prez. Ekki hafa varðveist mörg af verkum hans. Þekktar eru 14 messur og ein sálumessa, 9 mótettur, 1 söngmótetta og 21 chansons. Hann var engu að síður þekktur á sínum tíma um gervalla Evrópu fyrir tilfinningaþrungna tónlist sína. Josquin Des Prez. Josquin Des Prez (u.þ.b. 1450 til 1455 - 27. ágúst 1521) var fransk- flæmskt tónskáld á endurreisnartímanum. Hann var frægasta evrópska tónskáldið á milli Guillaume Dufay og Palestrina og er vanalega talinn mikilvægur í tengslum við niðurlenska skólann. Vinsældir hans stöfuðu ekki aðeins af því að hann var eitt mest menntaða, hæfileikaríkasta og frumlegasta tónskáld síns tíma, en vegna þess hversu hæfileikaríkur hann var í því að sameina hinar ýmsu vinsælu tónsmíðaaðferðir síns tíma. Hann samdi aðallega trúarlega tónlist, en þó nokkuð af chansonum sem sumir eru enn sungnir reglulega í dag. Phil Selway. Philip „Phil" James Selway (fæddur 23. maí, 1967 í Abingdon, Oxfordshire, Englandi) er trommari hljómsveitarinnar Radiohead. Hárnákvæm taktfesta hans og fjölbreytni í trommuleik hefur gefið hljómsveitinni sinn einstaka hljómblæ. Philip er ári eldri en hinir meðlimir hljómsveitarinnar að frátöldum Jonny Greenwood sem er fjórum árum yngri en Phil. Philip, eða Phil eins og hann er oftast kallaður, gekk í sveitina eftir að frumstæð trommuvél þeirra bilaði og þeir höfðu ekki efni á nýrri. Áður en Radiohead nutu velgengni lærði Phil ensku og sögu við Liverpool Polytechnic. Hann hafði farið á hljómleikaferðalög með ýmsum tónlistarmönnum og unnið sem enskukennari að auki. Phil á eiginkonu, Kate, og þrjá syni: Leo, Jamie og Patrick (sem Kid A, Amnesiac og Hail to the Thief voru tileinkaðir í sömu röð) Verkefni utan hljómsveitarinnar. Ólíkt félögum hans í Radiohead, Thom Yorke og Jonny Greenwood, hefur Phil ekki unnið mikið við tónlist utan hljómsveitarinnar. Samt sem áður hefur hann á undanförnum árum orðið virkari í samvinnu við aðra listamenn. Hann hefur verið í samstarfi við The Samaritans sem styrktarmaður og félagi í mörg ár. Phil hefur einnig komið fram með Dive Dive í mars 2005 og leikið í kvikmyndinni Harry Potter and the Goblet of Fire sem meðlimur í hljómsveitinni The Wyrd Sisters ásamt félaga sínum í Radiohead Jonny Greenwood og Jarvis Cocker söngvara Pulp Rumiko Takahashi. Rumiko Takahashi (f. 1957) er japönsk mangaka og er hún höfundur þekktra myndasagna eins og "Urusei Yatsura", "Maison Ikkoku", "Mermaid Saga", "2", "One Pound Gospel" og "Inu Yasha". Hún er fædd 10. október 1957 í Niigata. Þegar hún var 18 ára gömul teknaði hún fyrstu myndasögu sína "Kyojin no Hoshi". 1978 til 1987 birtist "Urusei Yatsura" reglulega í blaðinu "Shonen Sunday". Nokkrum árum síðar var gerð teiknimyndaröð úr þeirri sögu. 1987 byrjaði hún að teikna "Ranma 1/2" og varð hún þekkt um allan heim út af þessum Manga. Á Íslandi er hún þekktust fyrir verkin "Ranma 1/2" og "Inu Yasha". Úr þeim og einnig nokkrum öðrum sögum hennar voru gerðir teiknimyndaþættir sem voru sýndir úti um allan heim. "Rumiko Takahashi" er nú ein af ríkustum persónum Japans. Karlkyn (málfræði). Karlkyn er í málfræði eitt af þremur kynjum fallorða. Kvenkyn (málfræði). Kvenkyn er í málfræði eitt af þremur kynjum fallorða. Hvorugkyn. Hvorugkyn er í málfræði eitt af þremur kynjum fallorða. Góð leið til að vita hvort orð sé hvorugkyn er að setja mitt fyrir aftan orðið. Til dæmis „húsið mitt“. Danski fáninn. Þjóðfáni Dana, kallaður Dannebrog, og fyrrverandi fáni Íslendinga, er rauður fáni með hvítum krossi sem nær út í jaðra fánans. Hönnun krossfána Dana var síðar höfð að leiðarljósi þegar fánar Svíþjóðar, Noregs, Finlands og Íslands voru hannaðir. Á tíma Kalmarsambandsins var danski fáninn einnig fáni Noregs allt fram til 1821 með smávægilegum breytingum og fáni Íslands allt fram til 1913 þegar Íslendingar vildu fá nýjan fána, helst bláan með hvítum krossi, sem kallaður hefur verið Hvítbláinn. Nýr íslenskur fáni var samt ekki samþykktur opinberlega fyrr en 17. júní 1944. Danski fáninn er elstur allra þjóðfána sem nú eru í notkun. Saga hans er rakin allt aftur til 14. aldar. Litirnir á danska fánanum tákna eld og frið. A. A (borið fram a) er fyrsti bókstafur fönikísks stafrófsins svo og flestra afkomenda þess, til að mynda þess latneska. A var þó ekki sérhljóði eins og í hinu víðnotaða latneska stafrófi, heldur tákn fyrir öndun. Þegar Grikkir tóku upp skrifmál breyttist þetta því að hljóðið hentaði ekki hljóðum grískrar tungu. Bókstafurinn A þróaðist líklegast út frá híeróglýfum Egypta eða frum-semíska stafrófinu. Brúnsvík. Brúnsvík (þýska: Braunschweig) er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 248 þúsund íbúa. Borgin var lengi vel höfuðborg samnefnds furstadæmis. Lega. Braunschweig liggur við ána Oker mjög austarlega í Neðra-Saxlandi, rétt vestan við gömlu landamærin að Austur-Þýskalandi (Saxlandi-Anhalt). Næstu borgir eru Wolfsburg til norðausturs (30 km), Hannover til vesturs (50 km) og Magdeburg til austurs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið sýnir rautt ljón, stígandi til vinstri, á silfurlituðum grunni. Ljónið var áður fyrr tákn Hinriks ljón úr Welfen-ættinni sem réði ríkjum í Braunschweig á 12. öld. Merki þetta var opinberlega tekið upp á ný 1953. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Brunswik. "Bruns" er sennilegast dregið af mannanafninu Bruno og "wik" merkir "bær". Borgarheitið hefur ekkert með litinn brúnan að gera ("braun" á þýsku). Orðið Braunschweig birtist fyrst 1573 þegar reynt var að rita Brunswik, en á þeim tíma var réttritun ekki til sem slík. Núverandi heiti varð þó ekki endanlega fastsett fyrr en við nýmyndun furstadæmisins 1814. Það má geta þess að íslenski rithátturinn (Brúnsvík) er miklu nær upphaflega heitinu en þýska heiti nútímans. Miðaldir. Bronsljónið sem Hinrik ljón setti upp var fyrsta bronsstyttan norðan Alpa. Samkvæmt ljóðinu Reimchronik var bærinn stofnaður árið 861 af Bruno hertoga. Hann átti að hafa byggt hús og kirkjur við ána Oker og nefnt bæinn eftir sjálfum sér. Öruggt er þó að borgin var samsett úr 5 litlum þorpum sem sameinuðust í einn stærri bæ. Fornleifafundir hafa staðfest tímasetninguna. Um miðja 12. öld varð Hinrik ljón (Heinrich der Löwe) hertogi í Saxlandi og Bæjaralandi. þar sem hann var frændi Friðriks Barbarossa keisara. Hann kaus Brúnsvík sem aðsetur sitt en síðan þá hefur borgin verið höfuðborg greifadæmis eða furstadæmið með hléum fram á 20. öld. 1166 setur Hinrik ljón upp bronsstyttu af ljóni, fyrstu bronsstyttuna norðan Alpa. Ljónið var merkið um yfirráð Hinriks og verður að aðalsmerki og skjaldarmerki borgarinnar. Ljónsstyttan er enn til á safni í borginni. Í kjölfarið lætur Hinrik reisa nýja dómkirkju. Eftir daga Hinrik varð Brúnsvík að mikilli óróaborg. Borgarráð og íbúar fundu ekki hljómgrunn og deildu um ýmis mikilvæg mál. 1374 var svo komið að múgur manns setti borgarráðið í heild sinni í herkví og hélt þeim föngnum í tvö heil ár. Á þessum óróatíma var borgin rekin úr Hansasambandinu, sem það hafði gengið í áður. Á 14. öld klofnaði Saxland í smærri greifadæmi. Þá myndast greifadæmið Braunschweig-Wolfenbüttel, og var Brúnsvík höfuðborg þess. 1430 lýsti borgin yfir sjálfstæði sem borgríki og fluttu greifarnir þá til Wolfenbüttel. Siðaskipti og stríð. 1521 komu fyrstu lútersku kennimenn til borgarinnar og hófu að predika nýju trúna. 1528 kom Johannes Bugenhagen til borgarinnar. Hann var einn ötullasti siðaskiptamaður síns tíma og samstarfsmaður Lúthers. Á aðeins þremur mánuðum bjó hann til nýja handbók um framkvæmd guðsþjónustur í nýja siðnum. Borgarráð meðtók hana og tilkynnti formlega siðaskiptin í öllum kirkjum og samkomustöðum. Bugenhagen innleiddi siðaskiptin víða í Þýskalandi, en einnig í Danmörku og Noregi. Í 30 ára stríðinu var borgin aldrei hernumin. Bæði kom það til að borgarráðið náði með diplómatískum ráðum að sefja hina ýmsu heri, meðan aðrar borgir voru herteknar af keisarahernum. Í annan stað var Brúnsvík afar vel varin með borgarmúrum og ánni Oker. Borgin lýsti yfir hlutleysi og auk þess tók Gústaf Adolf II Svíakonungur borgina undir sinn verndarvæng 1632, án þess þó að koma inn í hana sjálfa með her sinn. 1635 samdi borgin sérfrið við keisarann og fékk því að vera í friði þar sem eftir lifði stríðs. Á hinn bóginn geysaði skæð pest í borginni 1657-58. 1671 náðu greifarnir í Wolfenbüttel að hertaka borgina. Við það missti Brúnsvík sjálfstæði sitt. Greifarnir fluttu aðsetur sitt hins vegar ekki aftur til borgarinnar fyrr en 1753. Uppgangstímar. Eðlisfræðingurinn Gauss fæddist í Brúnsvík 1777 Hertoginn Karl I. stofnaði háskóla í Brúnsvík 1745 sem varð að miðstöð upplýsingatímans í héraðinu. Meðal helstu kennara var Gotthold Ephraim Lessing, eitt merkasta skáld Þjóðverja á upplýsingatímanum. 1806 tók hertoginn Karl Vilhjálmur Ferdinand þátt í orrustunni við Jena og Auerstedt, þar sem hann barðist með prússum gegn Napoleon. Napoleon sigraði þar og Karl hertogi féll. Í kjölfarið lét Napoleon hertaka Brúnsvík og var hún innlimuð í konungsríkinu Vestfalíu til 1813. Á Vínarfundinum 1814 var ákveðið að endurreisa furstadæmið Braunschweig-Wolfenbüttel. 1838 var járnbrautartengingu komið á milli Brúnsvík og Wolfenbüttel en þar var fyrsta ríkisrekna járnbrautin í Þýskalandi. Með tilkomu járnbrautarinnar hófst iðnvæðingin í borginni. 1866 réðust prússar inn í konungsríkið Hannover og barðist Brúnsvík með prússum. Fyrir vikið hélst furstadæmið sjálfstætt, meðan prússar innlimuðu Hannover. 1871 varð Prússland hins vegar að keisararíki og varð Brúnsvík þá að hálfsjálfstæðu ríki innan keisararíkisins. Nýrri tímar. Nasistar með fjölmennustu göngu samtímans í Þýskalandi 1918 lagðist keisararíkið af í Þýskalandi. Furstinn í Brúnsvík var látinn segja af sér og varð héraðið að lýðveldi innan Weimar-lýðveldisins. Mikill æsingur einkenndi þennan tíma. Í borginni kom til uppþota og verkfalla. Í apríl 1919 lamaðist borgin í allsherjarverkfalli. Stjórnin í Berlín sendi þá 10 þúsund manna her og brynbíla sem hertók borgina og kom skikki á íbúana og borgarráð. Aðgerðin tókst vel og viðhélst Brúnsvík sem lýðveldi. Á uppgangstímum nasista var Adolf Hitler gestur í Brúnsvík. Í október 1931 var hann viðstaddur fjöldagöngu nasista þar, er 100 þúsund manns gengu til stuðnings við málstaðinn. Þetta var stærsta fjöldaganga eins hóps á tíma Weimar-lýðveldisins. Hitler var á þessum tíma enn austurrískur ríkisborgari, en hann hafði sótt um þýskt ríkisfang í nokkrum þýskum borgum síðan 1925 en alls staðar fenguð neitun. Það var Brúnsvík sem veitti honum þýska ríkisborgarréttinn (ekki borgin Brúnsvík, heldur lýðveldið Brúnsvík). Þetta var nauðsynlegt fyrir Hitler til að geta orðið kanslari í Þýskalandi (sem hann varð aðeins nokkrum mánuðum seinna) og hefur Brúnsvík oft verið harðlega gagnrýnd fyrir sinn þátt í þessu ferli. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum. Þær verstu voru gerðar nóttina 14.-15. október 1944. 90% miðborgarinnar eyðilagðist. Bandaríkjamenn hertóku borgina 12. apríl 1945 eftir mikla bardaga, enda voru nasistar staðráðnir í að berjast til síðasta manns. 5. júní var borgin eftirlátin Bretum, enda var hún á hernámssvæði þeirra. Hreinsunarstarfið í borginni tók heil 17 ár, enda var borgin nánast rústir einar. Uppbygging miðborgarinnar var mjög umdeild, enda var ákveðið að rífa rústir gamalla og vinsælla húsa, til dæmis furstahöllina (kastalann). Hún var þó endurreist frá grunni frá og með 2005. Íþróttir. Aðalíþróttafélag borgarinnar er Eintracht Braunschweig. Knattspyrnudeild karla varð þýskur meistari 1967. Kvennadeildin í hokkí hefur þrisvar orðið þýskur meistari. Í ruðningi hefur liðið American Footballer margfalt orðið þýskur meistari og Evrópumeistari. Árlega fer fram Maraþonhlaup milli Brúnsvíkur og Wolfenbüttel. Megumi Tachikawa. Megumi Tachikawa (japanska: 立川 恵 "Tachikawa Megumi", fædd 22. febrúar) er mangaka sem þekkt er fyrir myndasögur eins og "Saint Tail", "Dream Saga" og "Cyber Idol Mink". Fyrsta birta verk hennar var sagan "16-sai no Tiara", árið 1992. Stöðuvatn. Stöðuvatn eða einfaldlega vatn (oft notað í fleirtöluforminu "vötn") er samansafns vatns í landslagi sem algjörlega er umkringt af landi. Flest stöðuvötn í heiminum innihalda ósalt vatn (ferskvatn). Jafnan er jafnvægi milli inn og úrrennslis þó svo hæð yfirborðs geti sveiflast til t.d. eftir árferði. Inn- og úrrennsli er oftast í formi lækja eða áa. Stundum getur þó runnið í og úr vötnum neðanjarðar. Ef vatn nær mikilli stærð er talað um innhaf. Vötn á Íslandi. Nokkur vötn á Íslandi er t.d.; Massamiðja. Massamiðja eða þyngdarpunktur er sá punktur í agnakerfi, sem hegðar sér að ýmsu leyti eins og miðja heilsteypts massa. Massamiðjan ræðst af massa og staðsetningu agna í kerfinu og lögun kerfisins. Skilgreining. þar sem notast var við breytuskiptin "dm" = ρ "dV" í síðast heildinu. Glæpur. Glæpur, lögbrot eða afbrot er brot á lögum þess lands, sem brotið er framið í. Sá brotlegi nefnist afbrotamaður og sætir nær undantekningarlaust refsingu að lögum, ef upp kemst um hann. Urusei Yatsura. Urusei Yatsura (jap. うる星やつら) eða "Lum: Urusei Yatsura" og "The Return of Lum: Urusei Yatsura" er manga eftir Rumiko Takahashi. Það birtist 1978-1987 og var einnig gerð Anime-sería sem var sýnd 1981-1986. Einnig voru gerðir nokkrir tölvuleikir milli 1987 og 2005. Söguþráðurinn. Sagan fjallar aðallega um Ataru og Lum og fullt af óhöppum. Ataru bað Lum óvart að giftast sér og varð hún þá ástfangin af honum. En hann missti áhuga á henni og hélt áfram að elta aðrar stelpur. En Lum varð mjög afbrigðissöm og refsar honum með eldingum. Nú býr Lum hjá fjölskyldu hans Atarus og einnig býr Ten hjá þeim. Þeir Ataru og Ten rífast stöðugt og leggja herbergið hans í rúst. Þegar Mendou, ríkasti strákur Japans, kemur fyrst í skólann fær hann óvart borð í hausinn, kastað af Shinobu sem var í reiðiskasti og verður hún strax skotin í honum. En hann hefur bara áhuga á Lum. Hann og Ataru verða mestu fjandmenni vegna ástar Mendou til Lumar og ást hennar til Ataru. Allt verður enn flóknara þegar fleiri persónur bætast við. Þá lítur þetta einhvern veginn svona út: Lum elskar Ataru. Ataru elskar Shinobu og Sakura. Sakura elskar Tsubame. Shinobu elskar Mendou. Mendou elskar Lum. Rei elskar Lum og svo framvegis... Sagan er byggð á mörgum litlum smásögum með litlu samhengi. Í þeim birtast oft skrýtnar geimverur og ógnarlegar ófreskjur. "Urusei Yatsura" fjallar í stuttu máli um ást, óheppni, furðulegar verur og ómögulega atburði. Donald Davidson. Donald Davidson (6. mars 1917 – 30. ágúst 2003) var bandarískur heimspekingur og „Willis S. and Marion Slusser“ prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Rit hans hafa verið gríðarlega áhrifamikil í nær öllum greinum heimspekinnar frá 7. áratug 20. aldar en einkum í hugspeki og málspeki. Þrátt fyrir að skrif hans séu flest í formi stuttra ritgerða og byggi ekki öll á einni tiltekinni kenningu þykja þau eigi að síður bera merki um ákveðna einingu — sömu aðferðunum og hugmyndunum er beitt á fjölmörg vandamál sem eru að því er virðist ótengd. Davidson fléttar einnig saman áhrifum frá mörgum öðrum heimspekingum, m.a. (en ekki eingöngu) Aristótelesi, Immanuel Kant, Ludwig Wittgenstein, F.P. Ramsey, W.V.O. Quine og G.E.M. Anscombe. Æviágrip. Davidson nam heimspeki við Harvard-háskóla undir leiðsögn Alfreds Norths Whitehead, meðal annarra, og skrifaði doktorsritgerð um "Fílebos" eftir Platon. Á námsárunum hafði hann einkum áhuga á hugmyndasögu í víðum skilningi en vegna áhrifa frá W.V.O. Quine, sem hann kallaði lærimeistara sinn, fór hann smám saman að fá áhuga á nákvæmari aðferðum og vandamálum rökgreiningarheimspekinnar. Á 6. áratug 20. aldar vann Davidson með Patrick Suppes að því að þróa nýja nálgun við ákvörðunarfræði. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að ómögulegt væri að einangra skoðanir og langanir manns hverja frá annarri, þ.e.a.s. að það yrðu ávallt margar leiðir til þess að greina athafnir manns með vísun til langana hans, gildismats eða hvað viðkomandi var að reyna. Niðurstöðurnar eru sambærilegar kenningu Quines um þýðingabrigði og er mikilvægur þáttur í mörgum hugmyndum Davidsons í hugspeki. Þekktustu rit hans eru ritgerðir frá 7. áratug 20. aldar og fjalla um athafnafræði, hugspeki og málspeki en snerta stundum á fagurfræði, heimspekilegri sálfræði og sögu heimspekinnar. Davidson ferðaðist víða og átti ótalmörg áhugamál. Hann hafði einkaflugmannsréttindi, lék á píanó, smíðaði útvarpstæki og var hrifinn af fjallgöngum og brimbrettum. Hann giftist þrisvar sinnum (síðasta eiginkona hans var heimspekingurinn Marcia Cavell). Hann var forseti bæði austur- og vesturdeildar American Philosophical Association og kenndi við Stanford-háskóla, Princeton-háskóla, Rockefeller-háskóla, Harvard-háskóla, Oxford-háskóla og Chicago-háskóla. Frá 1981 til dauðadags kenndi hann heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Árið 1995 hlaut hann Jean Nicod-verðlaunin. Athafnir, ástæður og orsakir. Davidson vakti mikla athygli í kjölfar ritgerðar sem hann birti árið 1963, „Athafnir, ástæður og orsakir“, þar sem hann reyndi að hrekja ríkjandi viðhorf, sem oft er eignað Wittgenstein, að ástæður manns til athafna geti ekki verið orsakir athafna hans. Davidson færði á hinn bóginn rök fyrir því að það að benda á ástæður til að útskýra athafnir einhvers sé „tegund af venjulegri orsakaskýringu“.. Athöfn "A" er útskýrð með því sem Davidson kallar "meginástæðu", sem felst í jákvæðu viðhorfi (löngun í víðum skilningi) gagnvart markmiðinu "M" og þeirri skoðun að það að framkvæma athöfnina "A" sé leið til þess að ná markmiðinu "M". Til dæmis gæti meginástæða einhvers fyrir því að taka með sér regnhlífina þegar rignir verið sú að viðkomandi vilji haldast þurr og telur að með því að hafa með sér regnhlífina takist honum að blotna ekki. Davidson hélt fram þessu viðhorfi, sem staðfestir að verulegu leyti alþýðusálfræði, meðal annars vegna þess að enda þótt orsakalögmálið verður að vera nákvæmt og vélrænt þurfa útskýringar með tilvísun til ástæðna ekki að vera það. Davidson færði rök fyrir því að sú staðreynd að útskýringar á ástæðum eru ekki svo nákvæmar þýddi ekki að það að maður hefði ástæðu til einhvers gæti ekki í sjálfu sér verið ástand sem gæti haft orsakaráhrif á hegðun. Davidson fylgir kenningunni eftir í ýmsum öðrum af ritgerðum sínum. Löglaus einhyggja. Í ritgerðinni „Mental Events“ (1970) setti Davidson fram teiknaefnishyggju um hugann: teikn eða tilfelli hugrænna ferla eru ekkert annað en teikn eða tilfelli efnislegra ferla. Áður höfðu heimspekingar haft áhyggjur af því að það það reyndist ógerningur að halda fram smættarefnishyggju sem lýsti því eftir hvaða lögmálum hugræn ferli — eins og sú skoðun að himininn sé blár eða að langa í súkkulaði — samsvöruðu efnislegum ferlum eins og taugaboðum í heilanum. Davidson færði rök fyrir því að slíkar smættir væru ekki nauðsynlegar í teiknaefnishyggju: það væri mögulegt að sérhvert einstakt hugarferli væri ekkert annað en samsvarandi efnislegt ferli án þess að eitthvert lögmál gilti um samband gerða eða tegunda (til aðgreiningar frá teiknum) hugarferla annars vegar og efnislegra ferla hins vegar. En Davidson færði rök fyrir því að sú staðreynd að smættir af því tagi væru ómögulegar þýddi ekki að hugurinn sé eitthvað umfram virkni heilans. Davidson nefndi því kenningu sína löglausa einhyggju (e. anomalous monism): einhyggja af því að hún kveður á um að á endanum sé einungis eitthvað eitt (þ.e. hugarferli eru á endanum efnisleg ferli); löglaus vegna þess að engin lögmál gilda um samsvörun hugrænna ferla og efnislegra ferla. Davidson færði rök fyrir því að löglausa efnishyggju leiddi af þremur sennilegum tilgátum. Í fyrsta lagi gerir hann ráð fyrir að aukagetuhyggja sé röng — það er að segja sú kenning að hugurinn sé eitthvað umfram efnislegar orsakir sínar (er aukageta þeirra) en hefur ekki orsakaráhrif á hið efnislega. Í öðru lagi gerir Davidson ráð fyrir löghyggju um orsakavensl en samkvæmt henni orsakar einn atburður annan ef og aðeins ef það gildir undantekningarlaust lögmál um sambandið milli atburðanna. Í þriðja lagi gerir hann ráð fyrir reglunni um lögleysi hugans en samkvæmt henni gilda engin (undantekningarlaus) lögmál um hugarferli. Davidson færði rök fyrir því að af þessum þremur tilgátum leiði að orsakavenslin milli hins hugræna og hins efnislega gildi einungis milli ákveðinna tilfella eða teikna hugrænna ferla en að tegundir eða gerðir hugrænna ferla séu löglausar. Teiknaefnishyggja sé því rétt og hið hugræna séu álög (e. supervenience) á hinu efnislega. Sannleikur og merking. Árið 1967 birti Davidson greinina „Truth and Meaning“ þar sem hann færði rök fyrir því að það yrði að vera hægt að lýsa reglum allra tungumála sem hægt er að læra með endanlegri lýsingu, enda þótt á tungumálinu væri hægt að mynda óendanlegan fjölda setninga — eins og gera má ráð fyrir að náttúruleg tungumál séu. Ef ekki væri hægt að lýsa reglum málsins í endanlegri lýsingu, þá væri ekki hægt að læra málið af reynslunni (sem er endanleg) líkt og menn læra tungumál sín. Af þessu leiðir að það hlýtur að vera mögulegt að setja fram merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál sem getur lýst merkingu óendanlegs fjölda setninga á grundvelli endanlegs fjölda frumsendna. Davidson fylgdi í kjölfar Rudolfs Carnap og annarra og færði einnig rök fyrir því að merking setningar væri fólgin í sannkjörum hennar og greiddi þannig götu sannkjarakenninga í merkingarfræði nútímans. Í stuttu máli lagði hann til að það hlyti að vera mögulegt að greina endanlegan fjölda málfræðireglna í tungumáli og útskýra hvernig hver og ein þeirra virkar þannig að mynda mætti augljóslega sannar fullyrðingar um sannkjör allra þeirra óendanlega mörgu setninga sem hafa sannkjör. Það er að segja, það verður að vera hægt að gefa endanlega kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál; prófsteinninn á það hvort kenningin er rétt er sá hvort hún getur myndað allar setningar á forminu „'p' er sönn ef og aðeins ef p“ (t.d. „'Snjór er hvítur' ef og aðeins ef snjór er hvítur“). (Þessar setningar nefnast T-jafngildi: Davidson fær hugmyndina að láni frá Alfred Tarski.) Davidson setti kenninguna fyrst fram í John Locke-fyrirlestrunum sem hann flutti í Oxford og í kjölfarið reyndu fjölmargir heimspekingar að þróa davidsonskar kenningar í merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál. Davidson lagði margt fram til slíkrar kenningar í ritgerðum um tilvitnanir, óbeinar ræður og lýsingar á athöfnum. Þekking og skoðun. Eftir 8. áratuginn varð hugspeki Davidsons fyrir æ meiri áhrifum frá heimspeki Sauls Kripke, Hilarys Putnam og Keiths Donnellan en allir höfðu þeir sett fram truflandi gagndæmi gegn svonefndri „lýsingarhyggju“ um merkingu. Lýsingarhyggjan, sem á rætur að rekja til kenningar Bertrands Russell um ákveðnar lýsingar (og ef til vill til rits Wittgensteins "Tractatus Logico-Philosophicus"), kvað á um að tilvísun nafns — það er að segja til hvaða persónu eða hlutar nafnið vísar — réðist af skoðunum manns um þess sem bæri nafnið. Ef einhver trúir til dæmis að „Aristóteles stofnaði Lýkeion“ og „Aristóteles kenndi Alexandri mikla“, um hvern eru þá þessar skoðanir? Aristóteles, bersýnilega. En Hvers vegna? Russell segði að skoðanir manns væru um hvað svo sem gerði flestar setningarnar sannar. Ef tveir menn kenndu Alexandri en einungis einn stofnaði skólann Lýkeion, þá hljóta skoðanir manns að vera um þann sem gerði hvort tveggja. Kripke og fleiri færðu rök fyrir því að kenningin stæðist ekki og að viðfang skoðana manns réðust að miklu eða öllu leyti af því hvernig maður hefði myndað þessar skoðanir og kynnst þessum nöfnum og hvernig eða hvort mögulegt væri að rekja orsakir notkunar þessara nafna frá þeim sem notar nafnið núna aftur til þess er bar upphaflega nafnið. Davidson tók þessa kenningu upp og í verkum sínum frá 9. áratugnum fékkst hann við ýmis vandamál varðandi það að tengja skoðanir fyrstu persónu við skoðanir annarrar og þriðju persónu. Svo virðist sem skoðanir fyrstu persónu (t.d. „ég er svöng“) séu myndaðar á allt annan hátt en skoðunum þriðju persónu (þ.e. skoðun einhvers annars um mig að „hún er svöng“) Hvernig má það vera að þær hafi sama inntakið? Davidson nálgaðist spurninguna með því að tengja hana við aðra spurningu: Hvernig geta tvær manneskjur haft skoðanir um sama hlutinn? Hann bregður upp mynd af þríhyrningssamræmingu: Skoðanir manns um mann sjálfan, skoðanir manns um annað fólk og skoðanir manns um heiminn verða til samtímis. Margir heimspekingar í sögunni höfðu sýnt tilhneigingu til þess að smætta tvær af þessum tegundum skoðana og þekkingar í þá þriðju: Descartes og Hume héldu að eina þekkingin sem maður hefði í upphafi væri sjálfsþekking. Sumir af rökfræðilegu raunhyggjumönnunum (og sumir segðu einnig Wittgenstein og Wilfrid Sellars) héldu að við hefðum í upphafi einungis skoðanir á hinum ytri heimi. Að mati Davidsons er ómögulegt að maður hafi einungis eina af þessum þremur tegundum skoðana; allir sem hafa skoðanir af einu tagi hljóta að hafa einnig skoðanir af hinu taginu. Túlkun frá rótum. Túlkun frá rótum er kenning sem Davidson telur að skipti höfuðmáli fyrir skilning á eðli tungumáls, hugar og þekkingu. Hún er fólgin í hugsunartilraun þar sem maður ímyndar sér að maður sé í samfélagi þar er talað tungumál sem maður skilur alls ekki. Aukinheldur eru engar orðabækur til enda tungumálið áður óþekkt. Hvernig gæti maður lært þetta tungumál? Ein hugmyndin er sú að maður hafi kenningu sem leyfir manni að mynda setningar á forminu ‚s þýðir að p‘ fyrir allar setningar viðfangsmálsins (þ.e. tungumál samfélagsins), þar sem s er nafn setningar í viðfangsmálinu og p er setningin eða þýðing hennar í umsagnarmálinu, þ.e. því tungumáli sem kenningin er sett fram á. Davidson hafnar þó þessari tillögu á þeim forsendum að orðalagið ‚þýðir að‘ varði ekki einungis umtak orðanna sem fylgja heldur einnig inntak þeirra. Davidson skiptir því orðalaginu ‚þýðir að‘ út fyrir tengingu sem varðar einungis umtak setningarinnar; úr því að umtak setningarinnar er ekkert annað en sanngildi hennar verður tengingin sanngildistenging. Davidson velur tvígildistenginguna — ef og aðeins ef — fyrir kenningu sína um merkingu. Valið er augljóst af því að það sem þarf er jafngildi merkingar setninganna s og p. En nú er vandi á ferð: ‚s ef og aðeins ef p‘ er ekki málfræðilega rétt setning af því að tengingin verður að tengja tvær yrðingar en s er nafn yrðingar (setningar) en ekki yrðingin sjálf. Til þess að gera s að yrðingu verður að finna því umsögn. Hvaða umsögn fullnægir s ef og aðeins ef setningin sem s nefnir eða þýðing hennar er tilfellið? Með öðrum orðum hvaða umsögn fullnægir „bananar eru gulir“ ef og aðeins ef bananar eru gulir? Svarið er sannleiksumsögnin (þ.e. ‚er satt‘ eða ‚er sönn‘). Davidson ályktar því að kenning um merkingu verður að vera þannig að hún geti myndað setningu á fominu ‚s er sönn ef og aðeins ef p‘ fyrir sérhverja setningu í viðfangsmálinu. Sannleikskenning tungumáls getur því gegnt starfi kenningar um merkingu fyrir þetta sama tungumál. Þessi niðurstaða gerir Davidson kleift að byggja á verkum Alfreds Tarski þegar hann setur fram kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál. Tarski sýndi hvernig unnt væri að setja fram kenningu um merkingu fyrir tilbúin tungumál. Davidson álítur því þrjár spurningar skipta höfuðmáli fyrir túlkun frá rótum. Í fyrsta lagi, er hægt að setja fram sannleikskenningu fyrir náttúruleg tungumál? Í öðru lagi, að gefnum þeim vitnisburði sem túlkendur frá rótum geta búist við að hafa, geta þeir þá sett fram og sannreynt kenningu um sannleika fyrir tungumálið sem þeir vilja túlka? Í þriðja lagi, mun kenning um sannleika nægja til þess að gera túlkandanum kleift að skilja tungumálið? Davidson hefur sýnt með því að byggja á verkum Tarskis að fyrstu spurningunni er hægt að svara játandi. Að hvaða vitnisburði má gera ráð fyrir að túlkandinn hafi aðgang? Davidson bendir á að merking og skoðanir séu óaðskiljanlegar. Maður telur að setning sé sönn að gefnum skoðunum hans og því hvernig hann skilur setninguna. Ef túlkandinn vissi að maðurinn tryði því sem setning segir þegar viðkomandi heldur að hún sé sönn, þá væri hægt að draga ályktun um merkingu setningarinnar. Og öfugt, ef túlkandinn vissi að hvernig einhver skildi setningu þegar hann héldi að hún væri sönn, þá væri hægt að draga ályktun um skoðun viðkomandi. Davidson leyfir því túlkandanum ekki að hafa aðgang að skoðununum sem vitnsiburði enda leiddi það til hringavitleysu. Í staðinn leyfir Davidson að túlkandinn geti dregið skynsamlegar ályktanir um hvenær mælandinn telur að setning sé sönn án þess að túlkandinn viti neitt um tilteknar skoðanir eða merkingu. Þannig getur túlkandinn sett fram tilgátu sem tengir mælandann og setninguna til tiltekna stöðu mála á tilteknum tímapunkti. Dæmið sem Davidson gefur er af þýskumælandi manni sem segir „Es regnet“ þegar það rignir. Davidson heldur því fram að enda þótt mælandinn geti haft rangt fyrir sér um stöðu mála í sumum tilvikum (til dæmis gæti þýskumælandi maður sagt „Es regnet“ jafnvel þótt það rigni ekki), þá grafi það ekki undan kenningunni. Það er vegna þess að skoðanir mælandans verða að vera "að mestu leyti" réttar og mótsagnarlausar (en ekki allar réttar). Ef þær væru það ekki bærum við ekki einu sinni kennsl á mælandann sem mælanda. Þetta er velvildarlögmál Davidsons í verki og það er það sem leyfir túlkandanum að treysta á að vitnisburðurinn sem hann safnar muni gera honum kleift að sannreyna sannleikskenninguna fyrir tungumálið. Við fyrstu sýn gæti virst sem sannleikskenning nægi ekki til þess að túlka tungumál frá rótum. Því ef sannkjör eru allt sem máli skiptir, hvernig væri þá þá hægt að sýna fram á að óreglulegar setningar eins og ‚„Schnee ist weiss“ er sönn ef og aðeins ef snjór er hvítur og gras er grænt‘ væru ósannar? (Vandinn er hér sá að það er satt að gras er grænt og því myndi allur vitnisburður túlkandans samrýmast því að setningin væri sönn en samt sem áður hefur sú staðreynd að gras er grænt ekkert með það að gera að snjór er hvítur og kemur merkingu þýsku setningarinnar ekki við.) Davidson færir rök fyrir því að þótt að tungumál séu fólgin í samseningu sé merking einu að síður heildstæð: setningar byggja á merkingu orðanna í setningunni en merking orðanna í setningunni veltur samt líka á merkingu setningarinnar sem heildar. Og þetta á að tryggja að þýðingarbrigðin verði ekki svo mikil að árangursrík samskipti geti átt sér stað. Túlkun frá rótum varðar því nauðsynleg og nægjanleg skilyrði samskipta. Skilyrðin eru: að til þess að bera kennsl á mælanda sem mælanda verði að gera ráð fyrir að skoðanir hans séu að mestu leyti réttar og mótsagnarlausar; þýðingarbrigði grafa ekki undan samskiptum af því að merkign er heildstæð. Tenglar. Davidson, Donald Davidson, Donald G.E. Moore. George Edward Moore, venjulega þekktur sem G.E. Moore, (4. nóvember 1873 – 24. október 1958) var áhrifamikill enskur heimspekingur sem var menntaður og kenndi síðar við Cambridge-háskóla. Hann var, ásamt Bertrand Russell, Ludwig Wittgenstein og (á undan þeim) Gottlob Frege, einn af upphafsmönnum rökgreiningarheimspekinnar. Moore er þekktastur fyrir vörn sína fyrir heilbrigðri skynsemi, fyrir siðfræði sína, og fyrir þverstæðu sem nefnd er eftir honum. Margir heimspekingar dáðust að honum og hann hafði þónokkur áhrif en er nú á dögum lítt þekktur utan fræðilegrar heimspeki. Ritgerðir Moores eru rómaðar fyrir skýrleika. Meðal frægustu rita hans eru bókin "Lögmál siðfræðinnar" ("Principia Ethica") og ritgerðirnar „Afsönnun hughyggjunnar“ („The Refutation of Idealism“), „Til varnar heilbrigðri skynsemi“ („A Defence of Common Sense“) og „Sönnun á tilvist hins ytra heims“ („A Proof of the External World“). G.E. Moore lést 24. október 1958. Skáldið Nicholas Moore og tónskáldið Timothy Moore voru synir hans. Moore var mikilvægur meðlimur í leynisamtökunum Cambridge-postulunum. Tengt efni. Moore, G.E Moore, G.E Moore, G.E. Amalíuborg. Amalíuborg (danska: "Amalienborg Slot") er höll í Kaupmannahöfn í Danmörku. Höllin er bústaður dönsku konungsfjölskyldunnar. Amalíuborg er fjórar nákvæmlega eins hallir í rókokóstíl sem standa umhverfis átthyrnt torg. Höllin var byggð fyrir fjórar aðalsfjölskyldur í miðju Frederiksstaden-hverfinu sem stofnað var af Friðriki 5. Hallirnar fjórar. Stytta af Friðriki V sem stendur á miðju Amalíuborgartorgi Núverandi Amalíuborg stendur á grunni tveggja eldri halla. Fyrsta Amalíuborgin var Soffíu Amalíuborg sem var byggð af Soffíu Amalíu, drottningu Friðriks 3. á árunum 1669 – 1673. Þessi höll brann til grunna 19. apríl 1689 vegna óperusýningar þar sem sviðsljósin kveiktu í leikmyndinni. Eldurinn varð til þess að 170 manns fórust. Önnur Amalíuborgin var reist sem lítill sumardvalarstaður af Friðriki 4. eftir aldamótin 1700. Núverandi Amalíuborg er talin hugmynd Johanns Hartwigs Ernst Bernstorff, sendiherra Dana í París og var reist að undirlagi Moltkes hirðmarskálks Friðriks 5. Hún var teiknuð af byggingameistara konungs, Nicolai Eigtved. Bygging hallarinnar hófst 1750 og var lokið við að byggja allar fjórar hallirnar 1760. Þegar Kristjánsborgarhöll brann 26. febrúar 1794 keypti konungsfjölskyldan hallirnar fjórar og gerði að bústað sínum. Samkvæmt teikningum Eigtveds af Fredrikstad og Amalíuborgar höllunum voru hallirnar fjórar, sem umkringdu torgið, byggðar sem höfðingjasetur fyrir fjölskyldur af heldri ættum. Allar hallirnar eru eins að utan en mjög ólíkar að innan. Svæðið sem átti að byggja hverja höll á var gefið völdum aðalsmönnum til að byggja á. Seinna meir voru þeir undanþegnir sköttum og skyldum. Eina skilyrðið var að hallirnar ættu að fylgja tilteknum byggingarstíl Fredrikstad og ættu að vera byggðar innan ákveðinna tímamarka. Byrjað var að reisa hallirnar á vestur hliðinni árið 1750. Þegar Eigtved dó árið 1754 var búið að byggja báðar vestur hallirnar. Vinnan á hinum höllunum var haldið áfram af samstarfsmanni Eigtveds, Lauritz de Thurah, samkvæmt áætlunum Eigtveds. Hallirnar voru fullgerðar árið 1760. Allar hallirnar fjórar voru með aðalinngang sem sneri að Amalíugötu og þjónustuinngang sem sneri að Frederiksgade. Höll Kristjáns VII. Höll Kristjáns VII var upprunalega byggð fyrir Adam Gottlob Moltke. Þetta er suðvestur höllin og hefur hún verið notuð síðan 1885 til að hýsa og skemmta þekktum gestum sem og fyrir hátíðarhöld. Höll Moltkes var reist á árunum 1750 – 1754 af bestu iðnaðarmönnum og listamönnum þeirra tíma undir eftirlits Eigtved. Þetta var dýrasta höllin af öllum fjórum höllunum á byggingartíma hennar og hafði stórfenglegustu húsgögnin. Samkomusalurinn (Riddersalen) var með útskurði eftir Louis August le Clerc, málverk eftir François Boucher og skreytingar eftir Giovanni Battista Fossati og eru þekktar víða sem fínustu dönsku Rococo innréttingar. Höll Kristjáns VIII. Höll Kristjáns VIII er einnig þekkt sem höll Levetzau og var upprunalega byggð fyrir Christian Frederik Levetzau, sem sat í ráðgjafarnefnd konungs, árin 1750-1760. Þetta er norðvestur höllin og var heimili Friðriks Danaprins til ársins 2011. Eftir að Eigtveds dó árið 1754, fór umsjón með byggingu hallarinnar yfir í hendur Lauritz de Thurah sem var konunglegur arkitekt og sá hann um að verkið væri framkvæmt eftir áætlunum Eigtveds. Höll Friðriks VIII. Höll Friðriks VIII er einnig þekkt sem höll Brockdorffs. Þetta er norðaustur höllin og var heimili Ingrid Danadrottningu þangað til hún lést árið 2000. Höllin hefur nýlega verið uppgerð og er heimili Friðriks krónprins og Mary krónprinsessu. Höllin var upprunalega byggð fyrir Joachim Brockdorff um 1750. Brockdorff dó árið 1763 og eignaðist Adam Gottlob Moltke yfirþjónn þá höllina. Moltke seldi hana tveimur árum seinna til Friðriks V. Höll Kristjáns IX. Höll Kristjáns IX er einnig þekkt sem höll Schacks. Þetta er suðaustur höllin og hefur verið heimili konungsfjölskyldunnar síðan 1967. Byrjað var að byggja hana um 1750 af Eigtveds og hafði arkitektinn Christian Josef Zuber fyrst umsjón með byggingunni svo Philip de Lange. Konunglegu verðir. Amalíuborgar er gætt dag og nótt af lífvörðum drottningar (danska: "Den Kongelige Livgarde"). Konunglegu verðirnir hjá Danska hernum hafa þann tilgang að vernda öryggi drottningar. Verðirnir leggja af stað klukkan 11:30 frá Rósenborgarhöll og ganga um götur Kaupmannahafnar. Á hverjum degi á hádegi er varðarskipting en þá ganga þeir saman í röðum að sínu varðarhúsi og skipta um stöður. Þegar drottningin eða aðrir fjölskyldumeðlimir Konungsfjölskyldunnar dvelja í bústað sínum fylgir ávallt hljómsveit með lífvörðunum en það er ávallt látið lífverðina vita með fyrirvara ef svo er. Hver vörður er á tveggja tíma vakt. Þar standa verðirnir til skiptis fyrir framan mjög áberandi varðarhús og svo ganga þeir fram og til baka fyrir framan höllina. Eftir þessar tvær klukkustundir er skipting varða. Í varðarhúsinu er alltaf geymd rauð kápa. Hún er notuð þegar veðrið er kalt eða það er rigning. Þegar skipting varða á sér stað fer yfirmaður yfir öll varðarhúsin og kíkir á bak við kápurnar. Það er gömul hefð en fyrir mörgum árum áttu verðirnir til að fela kærustur sínar á bak við kápurnar á meðan á vakt stóð. Þetta er mjög líklegast ekki að gerast í dag en samt sem áður er þetta skylda yfirmannana enn þá. Skipting sem á sér stað á hádegi er mjög vandað verk. Ferðafólkið er mest í hádeginu og það tekur myndir af skiptingunni og því verður allt að vera rétt og fagmanlega gert hjá Dönsku konunglegu vörðunum. Amalíugarður. Amalíugarður (danska: Amaliehaven) er lítill garður staðsettur á milli Amalíuborgar og gosbrunnsins í Frederiksstaden-hverfinu í miðbæ Kaupmannahafnar. Garðurinn er nokkuð nýlegur þar sem hann var opnaður 1983 en hann var gjöf frá A.P. Møller og Chastine McKinney Møller stofnuninni. Sonic Youth. Sonic Youth er rokk-hljómsveit frá New York-borg í New York-fylki í Bandaríkjunum. Sonic Youth byrjaði að spila árið 1981. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2006. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2006 voru haldnar 27. maí 2006 en framboðsfrestur rann út 6. maí. Kosið var til sveitarstjórnar í 79 sveitarfélögum, þar af 60 með listakosningu og 19 með óbundinni kosningu. Sjálfkjörið var í tveimur sveitarfélögum, Breiðdalshreppi og Tjörneshreppi, þar sem einungis einn listi bauð fram á hvorum stað. Óbundin kosning fór fram í sveitarfélögunum Skorradalshreppi, Helgafellssveit, Eyja- og Miklaholtshreppi, Reykhólahreppi, Súðavíkurhreppi, Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Skagabyggð, Akrahreppi, Grímseyjarhreppi, Hörgárbyggð, Svalbarðsstrandarhreppi, Grýtubakkahreppi, Skútustaðahreppi og Svalbarðshreppi, þannig að í þessum sveitarfélögum voru allir kjósendur í framboði sem ekki höfðu skorast undan endurkjöri, en það geta þeir einir, sem sátu í sveitarstjórn á síðasta kjörtímabili. 216.191 manns voru á kjörskrá fyrir kosningarnar, eða 5,5% fleiri en í kosningunum 2002, þar af voru 4.468 erlendir ríkisborgarar. Kosningarnar voru athyglisverðar að því leyti að landsmálaflokkarnir buðu nú fram undir eigin nafni á fleiri stöðum en áður. Í Reykjavík buðu Vinstri hreyfingin - grænt framboð, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin nú fram sitt í hvoru lagi, en höfðu áður boðið þrisvar fram saman undir merkjum Reykjavíkurlista. Af landsmálaflokkunum voru það einkum Vinstri-grænir og Frjálslyndi flokkurinn sem bættu nokkuð við sig fylgi og fengu fulltrúa á stöðum þar sem þeir höfðu engan fyrir. Limp Bizkit. Limp Bizkit er bandarísk rapp/rokk hljómsveit. Hljómsveitin var mynduð 1995 og meðlimir hennar eru Fred Durst söngvari, Wes Borland gítarleikari, Sam Rivers bassaleikari, John Otto trommari og DJ Letal. Haf. Haf eða sjór er samfelld vatnslausn sem þekur meirihluta yfirborðs jarðar eða 71%. Selta sjávar er um 3,5%, mestmegnis vegna borðsalts (natríumklóríðs). Talið er að allt líf hafi hafist í vatni en sumar lífverur byrjuðu síðar að færa sig upp á yfirborðið og af þeim er talið að líf á yfirborðinu sé komið. Sjór er samt ennþá heimkynni allflestra lífvera á jörðinni en þar má t.d. finna spendýr svo sem hvali og seli og aragrúa fiska og margt fleira. Um 60-70% súrefnis verður til fyrir tilstilli ljóstillífunar í plöntusvifi og þara sem finna má í hafinu. Sjórinn hagar sér að mörgu leyti eins og andrúmsloft jarðar, hreyfingar og breytingar í loftslagi og höfum eru afar tengd. Vindar valda hreyfingu á hafinu og í þeim myndast hafstraumar. Öldurnar sem myndast vegna þessara hreyfinga spila stóran þátt í mótun jarðar, þ.e. þegar öldur brotna á ströndum brjóta þær niður berg o.s.frv. Veðurbreytingar eru meiri og ofsafengnari yfir hafi en á landi þar sem hitabreytingar eru örari. Annað afl sem hefur mikil áhrif á höfin er aðdráttarafl tungls og sólar, en áhrif þess veldur svokölluðum sjávarföllum. Sjónum er venjulega skipt í fimm úthöf, þ.e. Atlantshaf, Kyrrahaf, Indlandshaf, Norður-Íshaf og Suður-Íshaf en þau skiptast síðan í minni flóa og höf. Þar sem höfin mæta eyjaklösum og meginlöndum verða til jaðarhöf og innhöf. Minni hlutar hafs þar sem það mætir landi eru kallaðir sjór, sund, vík, vogur, flói og fjörður. Manngerðir skipaskurðir, eins og Súesskurðurinn og Panamaskurðurinn, eru gerðir til að tengja saman hafsvæði. Ísland liggur á mörkum þriggja hafa: Grænlandshafs, Íslandshafs og Noregshafs. Framtíð. Framtíðin er hugtak sem haft er um ókomna tíð, það sem gerist í framtíðinni á eftir að gerast. Í þessum skilningi er framtíðin andstæða fortíðarinnar og nútíðarinnar. Tilleiðsla. Tilleiðsla eða aðleiðsla er röksemdafærsla þar sem alhæft er út frá takmörkuðum vitnisburði. Í tilleiðslu styðja forsendurnar niðurstöðuna en tryggja hana ekki. Dæmi um tilleiðslu. Dæmið sýnir glögglega eðli tilleiðslu: dregin er almenn ályktun út frá hinu einstaka. En þar sem ályktað er út fyrir forsendurnar er niðurstaðan ekki örugg. Ef við erum ekki viss um að hafa séð hverja einustu kráku í heiminum – sem er ómögulegt í framkvæmd – þá er alltaf mögulegt að til sé ein sem er öðruvísi á litinn. (Það mætti bæta því við skilgreiningu á kráku að hún sé svört; en ef tveir „krákulegir“ fuglar væru nákvæmlega eins fyrir utan litinn, þá myndum við segja að önnur krákan væri svört en hin væri nýtt og sjaldgæft afbrigði t.d. blárrar kráku – við myndum samt sem áður segja að hvort tveggja væri afbrigði kráku.) Tilleiðsluvandinn. Áhrifamenn. Francis Bacon, Isaac Newton og ýmsir aðrir a.m.k. fram á síðari hluta 19. aldar töldu að tilleiðsla væri kjarninn í vísindalegri aðferð – tilleiðslu er beitt nú á dögum, enda þótt einnig sé beitt afleiðslu og ályktun um bestu skýringuna. Þegar tilleiðslu er beitt í vísindum eru gerðar athuganir og á grundvelli þeirra er alhæft. Ef tilleiðslu er beitt skynsamlega og af nákvæmni gerir hún öðrum kleift að sleppa því að gera samskonar athuganir og leyfir þeim að styðjast í staðinn við alhæfinguna til að spá fyrir um hvað muni í framtíðinni eiga sér stað við tilteknar aðstæður. Til dæmis er mögulegt að álykta út frá athugunum sem sýna að vatn frjósi við 0 °C við sjávarmál að næst þegar við sjáum vatn í 0 °C við sjávarmál muni það frjósa – en bara ef tilleiðslan virkar. Þegar slík forspá reynist rétt, þá styður það athuganirnar, og forspáin sem reyndist rétt bætist í þeirra hóp; það sýnir þó ekki fram á áreiðanleika tilleiðslu sem slíkrar, nema á grundvelli tilleiðslu. Vandinn er þá sá að finna réttlætingu fyrir slíkri ályktun. David Hume. David Hume setti vandann fram í "Rannsókn á skilningsgáfunni". Hume færði m.a. rök fyrir því að það sé ekki röklega nauðsynlegt að framtíðin verði neitt í líkingu við fortíðina. Að réttlæta tilleiðslu á þeim grundvelli að hún hafi virkað í fortíðinni jafngildir því að gefa sér það sem sýna skal fram á. Þá væri tilleiðslu beitt til þess að réttlæta tilleiðslu og það er ekkert annað en hringavitleysa. Enn fremur þarf ekki nema eitt tilfelli til þess að hrekja alhæfinguna, enda þótt fjölmargar aðrar athuganir séu samrýmanlegar henni. Hume leiddi einnig rök að því að það sé enginn röklegur grundvöllur fyrir trúnni á einsleitni náttúrunnar. Afstaða Humes var sú að í stað óuppbyggilegrar róttækrar efahyggju um hvaðeina væri hann að halda fram vísindalegri efahyggju byggðri á heilbrigðri skynsemi, þar sem óhjákvæmileiki tilleiðslu er tekinn gildur (en ekki útskýrður). Hume benti á að sá sem færi fram á gild afleiðslurök fyrir öllu myndi svelta, vegna þess að viðkomandi myndi til dæmis ekki "gera ráð fyrir" á grundvelli fyrri athugana hvenær árs skyldi sá eða hver seldi brauð eða jafnvel að brauð hefði áður nært hann sjálfan og aðra. Arfleifð Hume er eigi að síður sú að hafa sýnt að í tilleiðslu er ekki möguleiki á algerri fullvissu, jafnvel þegar engin tilfelli eru um hið gagnstæða. Bertrand Russell fjallaði um greiningu Humes í 6. kafla bókar sinni "Gátum heimspekinnar" frá 1912. Karl Popper. Karl Popper, áhrifamikill vísindaheimspekingur, reyndi að leysa vandann í samhengi vísindalegrar aðferðar, að hluta með því að halda því fram að vísindin styðjist ekki fyrst og fremst við tilleiðslu, heldur afleiðslu, og gerði modus tollens að kjarna kenningar sinnar. Samkvæmt þessari kenningu ætti maður, þegar lagt er mat á vísindalega kenningu, að hyggja fremur að þeim gögnum sem brjóta í bága við hana heldur en þeim gögnum sem styðja hana. Popper gekk lengra og fullyrti að tilgáta sem gefur ekki færi á að hún vera prófuð með athugunum eða tilraunum sé óvísindaleg. Þeir sem gagnrýna aðferð Poppers við að leysa vandann, eins og hinn frægi nytjastefnumaður Peter Singer, leiða hins vegar rök að því að Popper sé einungis að gera óskýrt hvert hlutverk tilleiðslu er í vísindum með því að fela hana í afsönnun. Með því eiga þeir við að staðhæfingin að eitthvað hafi verið hrakið sé í sjálfri sér vísindaleg kenning og það sé einungis hægt að gera ráð fyrir henni með tilleiðslu. Af þessum sökum, meðal annarra, líta nútímavísindi á allar tilgátur og kenningar sem bráðabirgða kenningar, sem eru staðfestar misvel fremur en að þær séu sannar eða ósannar staðhæfingar. Nelson Goodman. Nelson Goodman setti fram nýja útgáfu tilleiðsluvandans í greininni „Nýi vandinn um tilleiðslu“ (1966). Goodman setti fram hugmynd um nýjan lit, „grauðan“. Hlutur er grauður ef hann er grænn fram að einhverjum tímapunkti og rauður æ síðan. „Nýi“ tilleiðsluvandinn er sá hvernig hægt er að vita að hlutir sem virðast vera grænir eða rauðir séu grænir eða rauðir en ekki grauðir; hvernig er til dæmis hægt að vita að gras sé grænt en ekki grautt? Venjulegu vísindalegu viðbrögðin við vandanum eru fólgin í beitingu rakhnífs Ockhams. Robert A. Kaster. Robert A. Kaster (fæddur 6. febrúar 1948 í New York borg) er bandarískur fornfræðingur, prófessor í fornfræði og „Kennedy foundation professor“ í latínu og latneskum bókmenntum við Princeton-háskóla. Menntun og störf. Kaster lauk A.B. gráðu í fornfræði frá Dartmouth College árið 1969. Hann stundaði framhaldsnám í fornfræði við Harvard-háskóla og lauk þaðan M.A. gráðu árið 1971 og doktorsgráðu árið 1975. Doktorsritgerð Kasters fjallaði um handritageymd "Eneasarkviðu" Virgils á 9. öld. Kaster kenndi klassísk fræði við Harvard-háskóla árin 1972-73 og við Colby College árin 1973-74. Árið 1975 varð hann assistant professor (lektor) við University of Chicago. Hann varð associate professor (dósent) 1982 og prófessor árið 1989. Hann kenndi við háskólann í Chicago til ársins 1997, síðasta árið sem „Avalon Foundation Distinguished Service Professor in the Humanities“. Árið 1997 varð Kaster prófessor í fornfræði og „Kennedy Foundation Professor“ í latínu og latneskum bókmenntum við Princeton-háskóla. Kaster hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir störf sín, m.a. John Simon Guggenheim Memorial Foundation Fellowship 1991-92 og Charles J. Goodwin Award of Merit (veitt af American Philological Association) 1991 fyrir bók sína "Guardians of Language". Heimild. Kaster, Robert A. Heklugos árið 1104. Eldgosið í Heklu árið 1104 er stærsta gos í Heklu á sögulegum tíma og var gjóskumyndunin um 2 km³. Ekkert hraun kom upp í gosinu. Gosið er annað stærsta öskugos á Íslandi á sögulegum tíma, á eftir gosinu í Öræfajökli árið 1362. Gosið er einnig það kísilríkasta af öllum sögulegum gosum í Heklu. Býli í um 70 km fjarlægð frá gosupptökum gjöreyðilögðust, en erfitt hefur reynst að leggja nákvæmt mat á hversu mikil eyðileggingin var af völdum gossins. Gjóskugeirinn frá gosinu barst til norðurs. Heklugos árið 1693. Heklugos árið 1693 var kísilríkt blandgos. Engar heimildir eru til um gjóskufall utan Íslands. Gosið stóð yfir í 7 eða 10,5 mánuði. Upphafsfasinn, sem stóð yfir í u.þ.b. 1 klst. framleiddi mest af gjóskunni (90%) sem myndaðist í gosinu. Gjóskan barst að mestu leyti í VNV. Gjóskufallið olli víða tjóni á fiski, búfénaði og fuglum, sem drápust í kjölfar flúoreitrunar. Heklugos árið 1300. Heklugos árið 1300 var kísilríkt blandgos. Engar heimildir eru til um gjóskufall utan Íslands. Gosið var það næststærsta á sögulegum tíma og var upphafsfasinn mjög sprengivirkur (plínískur). Gjóska barst til norðurs og olli miklum skemmdum ásamt harðindum um veturinn sem kom í kjölfarið. Gosið stóð yfir í um 12 mánuði. Heklugos árið 1766. Heklgosið árið 1766 var kísílríkt blandgos. Engar heimildir eru til um gjóskufall utan Íslands. Gosið var það lengsta í Heklu á sögulegum tíma og var upphafsfasi gossins mjög sprengivirkur (plínískur), með mikill gjóskuframleiðslu fyrstu 5-6 klukkustundirnar. Gjóskan barst að mestu leyti í norður. Þrátt fyrir tjón af völdum gjóskufalls, varð það ekki eins mikið og í Heklugosinu árið 1693, þar sem að gjóskugeirinn lá austan við byggð svæði á sunnanverðu Íslandi. Mikil hraunframleiðsla var í gosinu (1,3 km3) og sú mesta í Heklu á sögulegum tíma. Aðeins í gosinu í Lakagígum árið 1783 var meiri hraunframleiðsla. Gosið stóð yfir, en fór dvínandi, frá lok ágúst 1767 og fram í mars 1768. Heklugos árið 1158. Heklugosið árið 1158 er annað gos í Heklu á sögulegum tíma, en það fyrsta þar sem hraunframleiðsla á sér stað. Gjóskulagið sem myndaðist við gosið er einungis nýlega þekkt og er stefna gjóskugeirans í norðaustur. Í gosinu er áætlað að myndast hafi 0,33 km³ af gjósku (reiknað sem nýfallinn gjóska). Jarðefnafræðileg samsetning gjóskunnar er talsvert frábrugðin gjóskunni frá gosinu árið 1104 en kísilinnihaldið er um 67-68%. Foss. Foss er landslagsþáttur sem myndast þegar á, lækur eða fljót rennur fram af stalli, sem getur t. d. verið fjallsbrún, bergstallur eða klöpp og fellur niður í t.d. gljúfur, gil eða dal eða á undirlendi. Saga stjórnleysisstefnu. Saga stjórnleysisstefnu er venjulega talin hefjast í uppafi 18. aldar en sumir telja þó að stjórnleysisstefnu–fyrirkomulag hafi verið að finna í forsögulegum menningarsamfélögum (það er þó afar umdeilt). Hugmyndir sem telja má líkar komu fram í fornöld og hafa sumir stjórnleysingjar tileinkað sér Taóisma sem auðuga uppsprettu hugmynda. Einnig er hægt að finna svipaðar hugmyndir meðal heimspekinga Forn-Grikkja, þ.á m. Zenons, upphafsmanns stóuspekinnar. Nokkrir stjórnleysingjar hafa enn fremur dregið hugmyndir sínar úr kristni. Fyrsti nútímahöfundurinn sem mælti með aflagningu ríkisvalds var William Godwin, en sú skoðun kom fram í "Fyrirspurn varðandi pólitískt réttlæti", sem kom út 1793. Stjórnleysi var notað sem móðgandi heiti gegn vinstri vængnum í frönsku byltingunni, en prentarinn Pierre-Joseph Proudhon tók það upp til að lýsa stefnu sinni í ritinu "Hvað er einkaeign?" árið 1840. Upphaf nútímahreyfingarinnar. Hreyfingin er yfirleitt talin byrja með öðrum hvorum þeirra Godwin eða Proudhon. Fleiri höfundar sem höfðu afgerandi áhrif á síðari tíma stjórnleysingja, þar á meðal Max Stirner og Josiah Warren skrifuðu á sama tíma, en þeir titluðu sig ekki stjórnleysingja, eins og Proudhon gerði. Samfélagsskipan í Evrópu var í miklu róti á þessum tíma, en þessir höfundar voru að mestu tengdir gamla skipulaginu; sérstaklega var greinilegt að hugmyndir Proudhon og Warren gerðu ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda. Aðrir, t.a.m. Mikhaíl Bakúnín, voru nátengdari samfélaginu sem var að myndast, þar sem fjöldinn allur af eignalausum verkamönnum flæktist um. Áhrifin sem þetta hafði á hann, ásamt með samskiptum við Proudhon, varð til þess að Bakunin varð leiðandi hugmyndasmiður í verkalýðshreyfingum í nokkrum Evrópulöndum, ásamt t.d. Élisée Reclus. Byltingar og bótaferli. Proudhon hafði haldið fram gagnsemi hægfara umbóta til þess að koma samfélagshugmyndum sínum í framkvæmd. Bakunin áleit hinsvegar að byltingar væri þörf. Þrátt fyrir þetta tóku þeir báðir þátt í byltingunum í Frakklandi 1848. Proudhon bauð sig fram sem þingfulltrúa; Bakunin þvældist í götubardögum. Það sama ár birtist Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx. Í hringiðu mismunandi jafnaðarstefnustrauma sem erfitt var að henda reiður á varð fljótlega hægt að greina þrjá nýja strauma: Samvinnuhyggju í anda Proudhon, samyrkjustefnu Bakunins, og svo sameignarstefnu Marx. Fólk sem tengdist öllum þessum straumum kom að stofnun fyrsta alþjóðasambandsins. Deilum Marx við stjórnleysingjana — fyrst og fremst Bakunin, sem var óbifandi andstæðingur pólitískra hugmynda Marx — lauk með því að stjórnleysingjum var vísað úr sambandinu. Margir rekja andúð þá sem síðan hefur verið sterk milli stjórnleysingja og Marxista til þessa atburða. Verkalýðshreyfingin í BNA var mun minni og veikari, og hafði lengi mun minna af þróun stjórnleysisstefnu þar í landi að segja. Þar þróuðu menn á borð við Lysander Spooner og Benjamin Tucker hugmyndir Proudhon áfram í aðra átt en Evrópumennirnir og héldu inni atriðum á borð við markaðshyggju og umbótastefnu undir nafni stjórnlausrar einstaklingshyggju og gerðu ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda líkt og Proudhon og Warren gerðu, meðan ein grunnhugmynd stjórnleysis hefur almennt verið meiri sameign. Aðrir héldu áfram með hugmyndir Proudhon um nýjar gerðir gjaldmiðla. Í upphafi tuttugustu aldar. Um 1890 og nokkuð fram yfir aldamót myndaðist nokkuð öflug hreyfing innan frönsku verkalýðshreyfingarinnar; þessi hreyfing var nefnd ‚syndikalism‘, sem má nokkurn veginn þýða sem "samtakahyggja". Grunnforsendur samtakahyggjunnar voru þær að verkalýðsfélög væru helsta og besta aðferð öreigastéttarinnar til að ná völdum í samfélaginu. Hugmyndir samtakahyggjumanna fóru því að verulegu leyti saman við hugmyndir stjórnleysingja á borð við Bakunin, sem einnig hafði haldið fram mikilvægi verkalýðsfélaga. Samtakahyggja náði talsverðum árangri, og varð hún ráðandi afl í frönsku verkalýðshreyfingunni um tíma, og á Spáni allt fram til ósigurs C.N.T./F.A.I. í borgarastríði á árunum 1936–1939. Ameríska verkalýðsfélagið Industrial Workers of the World hafði einnig áhrif langt út fyrir það sem meðlimatölur gefa í skyn. Á svipuðum tíma lögðu aðrir stjórnleysingjar áherslu á mikilvægi annarra en verkamanna í heildarhreyfingunni. Ennfremur lögðu þeir áherslu á vandkvæðin á því að ákvarða eðlileg laun fyrir vinnu, og vildu almennt afnema alla skömmtun á veraldlegum gæðum — vildu s.s. hreina sameignarhyggju. Áberandi talsmenn þeirrar hugmyndar voru m.a. Pjotr Kropotkin og Errico Malatesta. Áhrif þeirra hafa einnig verið mikil, en einkum má benda á Úkraínu, þar sem svarti herinn hafði mikil áhrif frá 1917 til 1921. Einnig höfðu hugmyndir þeirra talsverð ítök á Spáni og hafa verið nokkuð sterkar í rómönsku Ameríku. Spænska borgarastríðið. Í borgarastríðinu sem hófst á Spáni árið 1936 voru stjórnleysingjar áberandi, og í norðausturhéruðum Spánar voru stjórnleysingjar ráðandi afl um tíma. Fyrir áhrif þeirra breyttust Katalónía og Aragónía í einskonar sósíalistasvæði um tíma, og samfélagsbreytingar þar urðu mun víðtækari en annars staðar á svæði lýðveldissinna. Efnahagskerfi svæðisins, sem var í molum bæði eftir kreppuna miklu og uppreisn fasista, var tekið yfir af verkamönnum. Ástandið entist þó ekki lengi. Lýðveldið varð að verjast ásókn fasistahersins, en hafði til þess litla getu. Frakkar og Bretar tóku sig saman um að setja Spán í hafnbann á meðan á stríðinu stæði; því var einskis stuðnings að vænta frá öðrum lýðræðisríkjum heimsins. Sovétríkin sendu þó hergögn og nokkra aðstoð gegn u.þ.b. helmingi gullforða lýðveldisins. Á meðan sendu Hitler og Mussolini heilar hersveitir á vettvang og einræðisstjórnin í Portúgal veitti opinskátt aðstoð yfir landamærin. Misvægið sem þannig myndaðist og almennt álit manna að lýðveldisöflin yrðu að vinna saman gegn fasistum leiddi til þess að yfirstjórn C.N.T. gerði hið ómögulega: Stjórnleysingjar tóku sæti í ríkisstjórn. Í kjölfarið dró úr byltingaranda landsmanna; hersveitir stjórnleysingja, sem margar hverjar höfðu náð góðum árangri, voru felldar inn í almenna herinn og hægt og bítandi færðust völdin á hendur kommúnistaflokknum. Í byrjun maí 1937 brutust út óeirðir í Barcelona í kjölfar árásar lögreglusveita á símstöð sem framkvæmd var eftir skipun frá kommúnistaflokknum. Leiðtogar C.N.T. hvöttu félagsmenn til að leggja niður vopn sín, sem gerðist að lokum. Eftir þetta var P.O.U.M., flokkur tengdur trotskíistum, bannaður undir því yfirskyni að hann hafi verið njósnahópur fyrir þýska og ítalska fasista. Áhrif stjórnleysingja snardvínuðu eftir þessa atburði. Kalda stríðið. Stjórnleysisstefna gleymdist að miklu leyti eftir seinni heimsstyrjöld, þar sem heiminum var skipt í áhrifasvæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, og í stjórnmálaumræðu komst ekkert fyrir nema kapítalismi og kommúnismi – sem menn kynntu gjarnan sem baráttu milli frelsis og gerræðis. Yfirlýstir stjórnleysingjar tóku lítinn þátt í flestum byltingum og uppreisnartilraunum sem áttu sér stað eftir heimsstyrjöldina, en allnokkrar þeirra hafa fallið mjög vel að hugmyndum þeirra; t.a.m. í Ungverjalandi árið 1956 og í París 1968. Á umrótsskeiði sjöunda áratugarins kom þó fram nokkuð af nýstárlegri fræðihugsun, og sérstaklega hófu umhverfis- og jafnréttissinnar að láta kveða að sér; stjórnlaus jafnréttishyggja og stjórnlaus umhverfisstefna koma báðar fram sem sjálfstæðar hugmyndastefnur á þessum tíma. Aukið frjálslyndi í Marxisma hafði einnig þau áhrif að víxlverkun milli stjórnleysisstefnu og Marxista af ýmsu tagi jókst á ný. Upphaf 21. aldar. Fylgi stjórnleysisstefnu hefur heldur farið vaxandi á síðustu árum, en endurkoma víðtækra and-kapítalistahreyfinga og andstæðinga svonefndrar hnattvæðingar hefur að miklu leyti byggst á hugmyndum hennar. Mótmælafundurinn í Seattle árið 1999 markaði á nokkurn hátt tímamót í hreyfingunni, en Indymedia var m.a. sett á fót skömmu eftir fundinn. Einnig vakti svarta sveitin talsverða athygli þar. Margir hafa sagt að nýleg tækniþróun hafi gert mun auðveldara að kynna stjórnleysisstefnu fyrir fólki, en sérstaklega má benda á notkun farsíma eða internets til að skipuleggja og koma saman laustengdum hópum sem oft starfa óafvitandi eftir hugmyndum stjórnleysingja. Margir stjórnleysingar tengja einnig hreyfinguna í kringum frjálsan hugbúnað við stefnuna. Stjórnleysis félagshyggja. Stjórnleysis félagshyggja eru ýmis afbrigði stjórnleysisstefnu sem einkennast fyrst og fremst af andstöðu við markaðshagkerfi. Félagshyggjustjórnleysi er fjölmennara meginafbrigði stjórnleysisstefnu, en hitt er stjórnleysis einstaklingshyggja. Stefnan hefur verið tengd róttækum verkalýðsfélögum og ýmsum bændahreyfingum frá upphafi, en hún hefur einnig orðið fyrir áhrifum úr ýmsum öðrum áttum. Ólíkt einstaklingshyggjustjórnleysi hafa félagshyggjustjórnleysingjar sögulega lagt mikla áherslu á nauðsyn félagslegrar byltingar, og telja almennt að ekki sé hægt að ná fram stjórnleysi með hægfara umbótum. Sögulega má segja að þrír meginstraumar hafi ráðið ferð í stefnunni: Stjórnleysis samyrkju-, sameignar- og samtakahyggjur. Stjórnleysis samyrkjustefna. Stjórnleysis samyrkjuhyggja markaði upphaf félagshyggjustjórnleysis, en nafnið fékk hún ekki fyrr en önnur afbrigði höfðu komið fram. Helsti munurinn á samyrkjuhyggjumönnum og sameignarhyggjumönnum felst í því að samyrkjuhyggjumenn telja að einhverskonar umbunarkerfi yrði nauðsynlegt fyrst eftir byltinguna. Stjórnleysis sameignarstefna. Stjórnleysis sameignarhyggja byggir á þeirri hugmynd að ekki sé hægt að ákvarða hver „réttmæt“ umbun einstaklings er, og því sé ekki hægt að gera neinn mannamun í skiptingu lífsgæða. Þeir halda því ennfremur fram að nauðsynlegt sé að framfylgja þessari hugmynd strax frá upphafi, enda sé annars hætta á því að ný skiptingarkerfi festist í sessi. Stjórnleysis samtakahyggja. Stjórnleysis samtakahyggja, ólíkt hinum tveimur greinunum, snýst fyrst og fremst um ákveðna aðferðafræði. Áhangendur hennar telja að skipulag framtíðarsamfélagsins verði að endurspeglast í þeim stofnunum og samtökum sem stefna að myndun þess og leggja í því skyni fram ákveðið skipulag á verkalýðsfélögum. Á margan hátt má telja samtakahyggjuna vera arftaka samyrkjuhyggju en þó er ekki erfitt að finna sameignarhyggjumenn sem einnig aðhyllast hugmyndir samtakahyggjunnar. Hóratíus. Quintus Horatius Flaccus, (8. desember 65 f.Kr. – 27. nóvember 8 f.Kr.), þekktur sem Hóratíus og stundum sem Hóras, var helsta skáld lýrísks kveðskapar í Rómaveldi á valdatíma Ágústusar. Ævi. "Séu lestir mínir fáir og óverulegir en ég er að öðru leyti heiðarlegur maður, getirðu bent á einungis fáa bletti á annars óaðfinnanlegu yfirborði, geti enginn sakað mig um græðgi, illsku eða óhóf, sé ég hreinn og beinn (svo ég hæli nú sjálfum mér) og sé ég vinum mínum vinur í raun, þá á faðir minn heiðurinn skilinn... Eins og mál hafa æxlast verðskuldar hann þakklæti mitt og lof. Ldrei gæti ég skammast mín vegna slíks föður né finn ég neina þörf, líkt og margir, til að afsaka mig fyrir að vera sonur leysingja. Satires "1.6.65-92" Eftir morðið á Júlíusi Caesar gekk Hóratíus í herinn undir stjórn Brútusar. Hann tók þátt í orrustunni við Filippí en bjargaði lífi sínu á flótta. Hann sneri aftur til Ítalíu eftir að þeir sem höfðu barist gegn hinum sigursæla Octavíanusi höfðu verið náðaðir. Faðir hans var þá látinn og jörð þeirra hafði verið gerð upptæk. Hóratíus bjó við sára fátækt. Eigi að síður gat hann keypt sér stöðu sem ritari á skrifstofu quaestors (gjaldkera) og það gerði honum kleift að draga fram lífið og iðka kveðskap sinn. Hóratíus tilheyrði sama hópi skálda og menntamanna og Virgill og Lucius Varius Rufus. Þeir kynntu hann fyrir Maecenasi, vini og trúnaðarmanni Octavíanusar Ágústusar. Maecenas varð styrktaraðili Hóratíusar og náinn vinur og gaf Hóratíusi jörð nærri Tibur, í dag Tivoli. Ritverk. Fornfræðingar álíta Hóratíus almennt vera, ásamt Virgli, mestan allra skálda á latínu. Fjölmargir latneskir frasar sem enn eru í notkun eru komnir úr kvæðum Hóratíusar, t.d. „"carpe diem"“ (nýttu daginn), „"dulce et decorum est pro patria mori"“ (sætt er og viðeigandi að deyja fyrir föðurlandið) og „"aurea mediocritas"“ (gullni meðalvegurinn). Kvæði hans eru undir grískum bragarháttum (eins og verk elstu skáldanna á latínu), allt frá sexliðahætti, sem hæfir latínunni vel, til flóknari bragarhátta eins og saffískum hætti, sem hæfa latínunni og latneskri setningafræði ekki alltaf jafnvel. Enginn annar höfundur á latínu notar þessa hætti af jafnmiklum þokka, jafnmikilli nákvæmni og léttleika, þótt Catullus komist stundum nálægt því. Cornelius Nepos. Cornelius Nepos (um 100-24 f.Kr.) var rómverskur rithöfundur og sagnaritari. Hann var sagður hafa fæðst í Hostilia, þorpi í Galliu Cisalpinu skammt frá Verona. Gallískur uppruni hans er staðfestur af Ausoniusi og Plinius eldri kallar hann "Padi accola" (þann sem býr við ána Pó, "Naturalis Historia" III.22). Hann var vinur Catullusar, sem tileinkaði honum ljóð (I.3), Ciceros og Titusar Pomponiusar Atticusar. Evsebíos segir hann hafa verið á lífi á fjórða ári valdatíma Ágústusar en þá mun hann fyrst hafa farið að fá lof fyrir skrif sín. Plinius eldri getur þess að hann hafi látist á valdatíma Ágústusar ("Naturalis Historia" IX.39, X.23). Rit. "Chronica", sem Catullus virðist vísa til í tileinkun sinni á ljóði sínu til Neposar. Ausonius getur verksins einnig í 16. bréfi sínu til Probusar og það gerir Aulus Gellius einnig í "Noctes Atticae" ("Attískar nætur") (XVII.21). Talið er að ritið hafi verið í þremur bókum. "Exemplorum libri". Charisius vísar í aðra bók verksins og Aulus Gellius í fimmtu bók þess (VI.18, 19). "De Viris Illustribus" ("Um fræga menn"). Aulus Gellius endursegir sögu um Cato úr þessu riti (IX.8). "De Vita Ciceronis" ("Um ævi Ciceros"). Aulus Gellius leiðréttir villu í verkinu (XV.28). "Epistulae ad Ciceronem" ("Bréf til Ciceros"). Útdráttur úr verkinu er varðveittur hjá Lactantiusi ("Divinarum Institutionem Libri Septem" III.15). Óljóst er hvort verkið var nokkurn tímann gefið út formlega. Plinius yngri minnist á kvæði eftir Nepos og Nepos minnist sjálfur á eigið verk, "De Historicis", í ævisögu sinni um Dion. Hann minnist einnig á lengri ævisögu Catos í lok þeirrar ævisögu sem varðveitt er um ævi Catos og segir að hún hafi verið rituð að beiðni Titusar Pomponiusar Atticusar. Eina rit Neposar sem er varðveitt er "Excellentium Imperatorum Vitae" ("Ævisögur framúrskarandi herforingja"), sem kom í leitirnar á valdatíma Theodosiusar I og var talið vera eftir málfræðinginn Amelius Probus, sem færði það keisaranum með tileinkun á latínu í bundnu máli. Hann hélt því fram að verkið væri eftir móður sína eða föður sinn (handritum ber ekki saman) og afa sinn. Þrátt fyrir augljósar spurningar (eins og vhers vegna formálinn ávarpar einhvern sem heitir Atticus fyrst verkið átti að vera tileinkað Theodosiusi) virðist enginn hafa dregið í efa að Probus væri höfundur þess. Pétur Cornerus uppgötvaði um síðir ævisögur Catos og Atticusar í handritum að bréfum Ciceros. Hann bætti þeim við ævisögurnar sem þegar voru þekktar, þrátt fyrir að rithöfundurinn segist sjálfur vera samtímamaður og vinur Atticusar og handritin hafi borið titilinn "E libro posteriore Cornelii Nepotis" („úr síðustu bók Corneliusar Neposar“). Útgáfa Dionysiusar Lambinusar frá árinu 1569 hafði skýringar sem sýndu á stílfræðilegum grundvelli að ritið var eftir Nepos og engan annan. Fræðimenn hafa síðan mildað þetta sjónarmið, þeir fallast á rök Lambinusar sem sýna að verkið sé eftir Nepos en nú er talið að Probus hafi líklega stytt ævisögurnar þegar hann bætti við tileinkun sinni til Theodosiusar. "Ævisaga Atticusar" er á hinn bóginn talin vera eftir Nepos einan. Tenglar. Nepos, Cornelius Þjóðvarnarflokkur Íslands. Þjóðvarnarflokkur Íslands var stofnaður í Reykjavík 15. mars 1953. Var flokkurinn óbeint framhald af Þjóðvarnarfélaginu sem starfaði frá 1946 til 1951. Fremsta baráttumál flokksins var að Ísland segði sig úr Atlantshafsbandalaginu og að bandaríski herinn hyrfi úr landi. Hugmyndafræði flokksins var byggð á þjóðernishyggju og félagshyggju og gagnrýndi meðal annars Sósíalistaflokkinn fyrir fylgni hans við Sovétríkin. Flokkurinn fékk tvo menn kjörna á Alþingi 1953, Gils Guðmundsson og Berg Sigurbjörnsson en missti bæði sætin í kosningunum 1956. Hann fékk hins vegar fulltrúa í sveitarstjórnum í Reykjavík og á Akureyri. Við kosningarnar árið 1963 bauð Þjóðvarnarflokkurinn fram í samvinnu við Alþýðubandalagið og komst Gils Guðmundsson þá aftur á þing og sat þar til 1979. Þjóðvarnarflokkurinn hætti flokksstarfsemi árið 1963. Flokkurinn gaf út vikublaðið Frjáls þjóð sem kom út 1952-1968, seinustu árin á vegum útgáfufélagsins Hugins. Samtök frjálslyndra og vinstrimanna. Samtök frjálslyndra og vinstrimanna var jafnaðarmannflokkur sem klofnaði úr Alþýðubandalaginu 1969. Í kosningum til alþingis fékk flokkurinn 5 menn kjörna árið 1971 og 2 menn kjörna árið 1974. Það var einkum Hannibal Valdimarsson (sem var formaður Alþýðubandalagsins 1956-1968) sem stóð fyrir stofnun hins nýja flokks ásamt Birni Jónssyni. Voru þeir algjörlega mótfallnir því að Alþýðubandalagið yrði gert að formlegum flokki, undir merkjum sósíalisma, í stað kosningabandalags eins og verið hafði. Meðal varaþingmanna samtakanna kjörtímabilið 1974-1978, má nefna Ólaf Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson. 1974 til 1976 var Ólafur Ragnar Grímsson formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna, sem þá voru í reynd nánast liðin undir lok. Hann bauð sig fram í Austurlandskjördæmi á vegum samtakanna í Alþingiskosningunum 1974 en náði ekki kjöri, en kom tvisvar inn á Alþingi sem varaþingmaður, 1974 og 1975. Tenglar. Villandi er, að telja að Samtök frjálslyndra og vinstrimanna hafi verið klofningslið úr Alþýðubandalginu. Að vísu koma Hannibal Valdimarsson þaðan og með honum Málfundafélag jafnaðarmanna, sem ekki hvað síst var skipað Vestfirðingum. En innan samtakanna voru einnig vinstrisinnaðir menntamenn, sem litu á Alþýðubandalagið sem staðnaðan kredduflokk. Þá voru og ýmsir í Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna úr forystuliði tiltölulegra fámennra verkalýðsfélaga, s.s. Félagi ófaglærðs starfsfólks í veitingahúsum. Þetta fólk var gjarnan án tengsla við gömlu flokkana. Mastodon. Mastodon er bandarísk hljómsveit frá borginni Atlanta í Georgíu. Oftast er talað um að Mastodon spili "heavy metal" en deilur ríkja um hvaða undirflokki hljómsveitin tilheyrir. Stíll sveitarinnar einkennist af þungum og oft á tíðum teknískum gítarleik, flóknum og jazz-skotnum trommuleik, drynjandi bassa og rifnum söng. Saga sveitarinnar. Mastodon var stofnuð árið 1999 þegar Brann Dailor og Bill Kelliher, fyrrverandi meðlimir Today is the Day og Lethargy, fluttu til Atlanta og hittu Troy Sanders, fyrrverandi meðlim Four Hour Fogger og Social Infestation, og Brent Hinds, fyrrverandi meðlim Four Hour Fogger. Sveitin hljóðritaði "demo" árið 2000 sem er oftast kallað „9 song demo“. Á þeim upptökum syngur Eric Saner, sem var söngvari sveitarinnar um skamma hríð þegar hún var að byrja. Eftir að sveitin hafði tekið upp annað demo sem kom út á 7" myndadisk hjá plötufyrirtækinu Reptilian Records skrifaði sveitin undir plötusamning við plötufyrirtækið Relapse Records árið 2001. Sama ár gaf sveitin út sína fyrstu opinberu útgáfu, þröngskífuna Lifesblood og fylgdu henni eftir árið 2002 með breiðskífunni Remission. Lagið March of the Fire Ants náði töluverðum vinsældum. Árið 2004 gaf sveitin svo út þemaplötuna Leviathan sem er byggð á Moby Dick, skáldsögu eftir Herman Melville. Platan hlaut mikið lof og var valin plata ársins 2004 af tímaritunum Revolver, Kerrang!, og Terrorizer. Nýlega skrifaði sveitin undir samning við Warner Music. Árið 2006 var 9 song demo endurútgefið af Relapse Records undir nafninu „The Call of the Mastodon“. Auk þess gaf sveitin út DVD-mynddisk sem bar heitið „The Workhorse Chronicles“. Mynddiskurinn inniheldur heimildarmynd um sögu sveitarinninnar, tónleikaupptökur og tónlistarmyndbönd. Nýjasta platan þeirra, Blood Mountain, kom út árið 2006 við góðar undirtektir gagnrýnenda. Sveitin mun einnig flytja lagið Orion á plötunni sem er plata gefin út af Kerrang! til heiðurs Metallica. Merapifjall (Java). Merapifjall er keilulaga eldfjall á eynni Jövu í Indónesíu. Það er virkast allra eldfjalla í Indónesíu og hefur gosið 68 sinnum síðan 1568. Nafnið þýðir í raun Eldfjall. Það er afar nálægt borginni Yogyakarta og þúsundir búa í hlíðum þess í allt að 1.700 metra hæð yfir sjávarmáli en fjallið er um 3.000 m hátt. Borgaraleg óhlýðni. Borgaraleg óhlýðni (e. "Civil Disobedience" nefnd eftir samnefndu riti) felst í því að fara ekki eftir ákveðnum lögum, kröfum eða skipunum stjórnvalda eða yfirvalda án þess að beita líkamlegu ofbeldi en ávalt gangast við sök sinni ef hún er einhver. Bandaríski rithöfundurinn Henry David Thoreau ruddi braut nútíma hugmynda um borgaralega óhlýðni í ritgerð sinni „Resistance to Civil Government — Civil Disobedience“ árið 1849. Borgaraleg óhlýðni hefur verið notuð í mótmælaskyni svo sem gegn breskri heimsvaldastefnu á Indlandi, aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku og í Evrópu gegn nasistum. Frægustu einstaklingarnir sem beitt hafa þessum aðferðum eru líklegast Mahatma Gandhi og Martin Luther King. Borgaralega óhlýðni hefur verið ein af megin mótmælaaðferðum stjórnleysingja og annarra aðgerðarsinna seinni árin tildæmis í mótmælum víða um heim gegn hnattvæðingu og stofnunum eins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Alþjóðabankanaum. Heklugos árið 1947. Heklugos árið 1947 var sambærilegt við, eða örlítið minna en Heklugos árið 1510 og hófst 29. mars eftir 102 ára goshlé. Gosið stóð í um 13 mánuði. Frægt er að gjóska úr þessu gosi féll í Álandseyjaklasanum í Eystrasalti og í Finnlandi. Einnig féll gjóska á skip suður af Íslandi, en virðist ekki hafa fallið á Bretlandseyjar. Heklugos árið 1206. Heklugos árið 1206 var kísilríkt blandgos. Ekki eru til neinar heimildir um gjóskufall utan Íslands. Gjóskan barst í norðaustur yfir óbyggð svæði. Heklugos árið 1222. Heklugos árið 1222 var kísilríkt blandgos. Ekki eru til heimildir um gjóskufall utan Íslands. Lítið er vitað um gosið, fyrir utan hvenær það hófst. Heklugos árið 1341. Heklugos árið 1341 var kísilríkt blandgos. Ekki eru til heimildir um gjóskufall utan Íslands. Þrátt fyrir að gosið hafi verið minniháttar, barst gjóska engu að síður í vestur og suðvestur yfir byggð. Mikill skepnufellir virðist hafa orðið af völdum flúoreitrunar. Heklugos árið 1389. Heklugos árið 1389 var kísilríkt blandgos. Ekki eru til heimildir um gjóskufall utan Íslands. Gosið varð líklega á seinni hluta ársins 1389 og gjóskan barst aðallega í suðaustur. Norðurhraun rann. Kirkjustaðurinn Skarð hið eystra, Tjaldastaðir og e.t.v. fleiri bæir hurfu undir hraun. Heklugos árið 1510. Heklugos árið 1510 er mjög sambærilegt við Heklugos árið 1947. Sprengikrafturinn var þó líklega meiri í þessu gosi. Gjóskan barst til suðausturs. Kísilinnihald gosefna er um 62% (wt SiO2) og er jarðefnafræðileg samsetning gjóskunnar nánast alveg eins og gjóskunnar frá gosinu árið 1947. Gjóska frá þessu gosi hefur fundist bæði í Skotlandi og á Írlandi. John Dowland. John Dowland (1563 – 20. febrúar 1626) var enskt tónskáld, söngvari og lútuleikari við upphaf barokktímabilsins. Í dag er hann þekktastur fyrir lagið „Flow My Tears“. Lítið er vitað um fyrri hluta ævi Dowlands annað en það að hann fæddist annaðhvort í London eða Dublin. Vitað er að hann fór til Parísar árið 1580 þar sem hann vann fyrir breska sendiherrann við frönsku hirðina. Þar snerist hann til rómversk-kaþólskrar trúar og sagði hann að þau trúskipti hefðu leitt til þess að hann fékk ekki vinnu við hirð mótmælandans Elísabetar I. Hann sagði þó engum af hinum nýju trúarbrögðum sínum. Í staðinn vann hann í mörg ár fyrir Kristján IV Danakonung. Hann flutti aftur til Englands árið 1606 og árið 1612 fékk hann vinnu við hirð Jakobs I sem lútuleikari. Hann lést í London. Mest af tónlist Dowlands var fyrir hans eigið hljóðfæri, lútuna. Þar á meðal eru nokkrar bækur af verkum fyrir einleikslútu, lútusöngvar (fyrir lútu og einn söngvara), keðjulög með undirleik lútu og nokkur verk fyrir lútu og víól. Dowland, John Krossviður. a>“ smíðaður úr krossviði. Ystu (ljósu) lögin eru úr betri viði en þau innri (dökku). Krossviður er unninn viður sem búinn er til með því að líma saman lög af viðarspæni. Krossviður er plötuefni sem er mikið notaður í byggingariðnaði og við hvers kyns smíðar. Stundum er hann framleiddur þannig að harðari og mýkri viður skiptast á, en yfirleitt er krossviður framleiddur úr mýkri viðartegundum en ekki úr harðvið. Viðarspænirnir eru lagðir í kross þannig að æðarnar snúa alltaf 90° miðað við lagið á undan og eftir. Lögin eru síðan pressuð saman með hita og límd með sterku lími. Krossviður er mjög stöðugur viður sem verpist ekki eða minnkar vegna þess að æðarnar liggja í kross og toga þannig í allar áttir. Krossviður er mikið notaður þar sem þörf er á léttu, sveigjanlegu byggingarefni sem auðvelt er að vinna hratt og auðvelt er að endurnýta. Hann er þannig notaður t.d. við bátasmíðar (þá með vatnsheldu lími) og leikmyndagerð, svo eitthvað sé nefnt. Masónít. Masónít (eftir vörumerkinu "Masonite") er unninn viður sem framleiddur er með aðferð Masons, sem er aðferð til að tæta við með gufu þannig að úr verði langar viðartrefjar. Aðferðin var fundin upp af William H. Mason, yfirverkfræðingi hjá Thomas Alva Edison, þegar hann var að leita leiða til að framleiða pappír úr viðarkurli. Viðartrefjarnar eru pressaðar saman í plötur með hita. Ekkert lím er notað þar sem plöturnar límast með náttúrulegu tréni úr viðnum. Vegna þess hvað trefjarnar eru langar þola masónítplötur vel að vera sveigðar og þola einnig vel tog. Masónít er mjög stöðugt („dautt“) efni og verpist ekki eða minnkar með tímanum. Masónít var fundið upp 1924 og fjöldaframleiðsla hófst 1929. Það var lengst framanaf 20. öldinni notað í klæðningar á veggi og loft innanhúss, báta o.s.frv. en vinsældir þess hafa dvínað mjög á síðustu áratugum um leið og önnur efni, eins og t.d. MDF hafa rutt sér til rúms. Masónít er þó enn notað til að smíða líkön og af myndlistarfólki, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnleysis einstaklingshyggja. Stjórnleysis einstaklingshyggja ("e. Individualist anarchism") er hugtak yfir ýmis afbrigði stjórnleysisstefnu sem leggja höfuðáherslu á frelsi einstaklingsins og ganga út frá því að hagsmunum hans sé betur borgið með lágmarkaðri samvinnu við aðra, til dæmis styðja þeir ekki hugmyndir eins og samyrkjubú sem dæmi, heldur gera frekar ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda þar sem einstaklingurinn og/eða hann og fjölskilda hanns, án þess þó að nýta aðkeypta vinnu annarra nema í undantekninga tilfellum, myndi grunneiningu samfélagsins. Einnig gera þeir ráð fyrir séreign ólíkt flestum öðrum stjórnleysingjum, en þessi séreign er þó bundin við heimili og atvinnurekstur hvers einstaklings. Einstaklingssinnaðir stjórnleysingjar styðja flestir markaðshagkerfi, þó það sé ekki algilt. Ennfremur hafa þeir almennt aðhyllst hægfara umbætur sem heppilegustu leiðina að framtíðarsamfélaginu. Upphaf einstaklingshyggjustjórnleysis má rekja til Pierre-Joseph Proudhon, en samvinnuhyggja hans byggir upp margar af þeim hugmyndum sem síðari tíma einstaklingshyggjustjórnleysingjar héldu fram. Max Stirner og Josiah Warren höfðu einnig mikil áhrif þótt þeir titluðu sig ekki stjórnleysingja. Hreifingin þróaðist fyrst og fremst í bandaríkjunum á seinnihluta nítjándualdar á meðan félagshyggju stjórnleysi var meira ríkjandi í Evrópu. Þar þróuðu menn á borð við Lysander Spooner og Benjamin Tucker hugmyndir Proudhon áfram og héldu inni atriðum á borð við markaðshyggju og umbótastefnu og gerðu ráð fyrir samfélagi sjálfstæðra atvinnurekenda líkt og Proudhon og Warren gerðu, meðan ein grunnhugmynd félagshyggju stjórnleysis hefur almennt verið sameign. Drög að sjálfsmorði. "Drög að sjálfsmorði" er tónleikaplata sem Megas gaf út árið 1979. Þegar hann ákvað að taka upp Drög að sjálfsmorði, sem átti að fylgja „konseptalbúmaelítunni“ á þeim tíma var ekki til nægt fjármagn til að taka hana upp í stúdíói og þess vegna var hún hljóðrituð á tvennum tónleikum, sem haldnir voru í MH 5.nóv 1978 við góðar undirtektir. Hljóðfæraleikarar á plötunni fyrir utan Megas eru Björgvin Gíslason, Guðmundur Ingólfsson, Lárus Grímsson, Pálmi Gunnarsson og Sigurður Karlsson. Hljóðblöndun í sal annaðist Magnús Kjartansson. Eftir DAS hvarf Megas í nokkurn tíma og uppi voru sögusagnir um að hann hefði stytt sér aldur. Joe Jackson. Joe Jackson (f. 11. ágúst 1954) er breskur tónlistarmaður sem einkum er þekktur fyrir smellina „Is She Really Going Out With Him?“ frá 1979, „Stepping Out“ 1982, „Breaking Us In Two“ 1983 og „You Can't Get What You Want (Till You Know What You Want)“ 1984. Hann sló fyrst í gegn með breiðskífunni "Look Sharp!" sem kom út 1979. Hann hefur síðustu ár verið ötull baráttumaður gegn reykingabönnum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ráðstjórn. Ráðstjórn er stjórnarfyrirkomulag sem byggir á lagskiptum ráðum til ákvarðanatöku. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um skipulag slíkra ráða, en grunnfyrirkomulag þeirra er yfirleitt svipað. Þar er gert ráð fyrir ýmsum staðbundnum ráðum; oft ráðum verkamanna, en einnig t.d. hermanna, stúdenta, eða jafnvel íbúa á tilteknu svæði. Þessi ráð senda svo málsvara í stærri ráð, sem aftur senda málsvara í enn stærri ráð. Með þessu fyrirkomulagi vilja stuðningsmenn meina að tryggt verði að ákvarðanir verði teknar í samræmi við vilja sem flestra. Tilraunir til að koma einhvers konar ráðstjórnafyrirkomulagi á laggirnar hefa verið gerðar hvað eftir annað á 20. öld. Má þar meðal annars nefna Rússland 1905 og aftur í kring um byltinguna 1917, (ráð heitir sovét (cове́т) á rússnesku) þar af nafnið Sovétríkin eða Ráðstjórnarríkin); Þýskaland í nóvemberuppreisninni 1918, Spánn í borgarastyrjöldinni 1936 - 1939 og í Ungverjalandi 1956. Ráðstjórnarríkin höfðu slíkt fyrirkomulag sem hugmyndafræðilegan bakgrunn, en stuðningsmenn ráðstjórnar – þar á meðal Rosa Luxemburg, Anton Pannekoek, Nestor Makhno og Pjotr Kropotkin – hafa viljað meina að ráðstjórn hafi í raun aldrei verið þar. Röksemdir þeirra felast meðal annars í þeirri staðreynd að Bolsévikkaflokkurinn hafi notað ráðin á þann hátt að miðstjórn flokksins, Politburo og að lokum aðalritari hans, hafi gefið skipanir sem undirmenn þeirra hafi síðan þröngvað í gegnum ráðin. Það eru einkum stjórnleysingjar og syndikalistar ásamt vinstri-kommúnistum sem hafa haft ráðstjórnarhugsjónina sem grundvallaratriði í hugmyndafræði sinni. Scisma. Scisma var ítölsk hljómsveit sem starfaði á árunum frá 1993 til 2000. Hljómsveitin flutti aðallega tilraunakennt rokk undir djassáhrifum. Textar hljómsveitarinnar voru þekktir fyrir að blanda enskum orðum óhikað inn í þar sem þau gátu passað (t.d. vegna ríms). Stofnendur hljómsveitarinnar voru Paolo Benvegnù (söngur), Michela Manfroi (píanó), Giorgia Poli (bassi), Diego De Marco (gítar), Danilo Gallo (trommur) og Antonella Ianniello (hljómborð). 1994 bættist söngkonan Sara Mazo í hópinn. Hljómsveitin leysti sjálfa sig upp árið 2000 en kom síðast fram í Flórens árið 2003. Hljómsveitin gaf fyrst sjálf út sjö laga hljómsnælduna "Pezzetti di Carta" (1993) og síðan 1995 hljómdiskinn "Bombardano Cortina". Eftir það gerði hún samning við EMI og gaf út diskinn "Rosemary Plexiglas" 1997 sem náði nokkrum vinsældum. 1999 kom út "Armstrong" með smellinum „Tungsteno“ og að síðustu það sama ár "L'innocenza". Ludvig Holberg. Ludvig Holberg (3. desember 1684 – 27. janúar 1754) var danskt leikritaskáld og fræðimaður. Holberg fæddist í Björgvin, Noregi. Hann lést árið 1754. Lífshlaup. Ludvig Holberg fæddist þann 3. desember árið 1684 í norska menntabænum Björgvin. Holberg var ynstur sex bræðra. Faðir hans, Christian Nielsen Holberg, dó á fyrsta aldursári Ludvigs. Fjölskylda Ludvigs missti á svipuðum tíma allar eignir sínar í bruna í Björgvin en móður Ludvigs tókst samt sem áður að veita börnum sínum gott uppeldi. Eftir dauða móður hans árið 1695 var Holberg sendur til ættingja sinna í Guðbrandsdal. Hann fluttist þó fljótlega aftur til Björgvinar og bjó þá hjá móðurbróður sínum, Peder Lem og gekk í latínuskóla. Ludvig fluttist til Kaupmannahafnar árið 1702 en þurfti þaðan að hverfa til þess að stunda heimiliskennslu hjá prófasti einum þar sem hann æfði sig í að predika. Hann undi sér ekki í þessari stöðu og fór aftur til Kaupmannahafnar og hóf nám í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla og stundaði sjálfsnám í lögfræði, sögu og tungumálum. Hann var ekkert sérlega spenntur fyrir guðfræðinni og lét sér nægja það nám sem dugði til prestvígslu. Þar eftir sinnti hann aftur heimiliskennslu en nú hjá Smith lektor í Björgvin, en ferðadagbækur Smiths vöktu útþrá Holbergs. Hann skrapaði saman aurum sínum og lagði land undir fót. Hann flakkaði til Hollands í von um að geta haft lifibrauð sitt af tungumálakennslu og þýðingum en fólk forðaðist að ráða hann sökum aldurs, þá var Holberg aðeins tvítugur. Hann varð því uppiskroppa með peninga og þurfti að snúa aftur heim. Hann afréð þó ekki að fara til Björgvinjar og mæta gagnrýni ættingja sinna. Í stað þess fór hann til Kristianssands en voru næg störf sem hugnuðust Holberg. Hann tók að starfa við tungumálakennslu og í Kristianssandi naut hann ungdómsára sinna. En Holberg gat ekki setið lengi kyrr og slóst í för með námsmanninum Brix til Oxford á Englandi, þar sem hann nýtti árin 1706-8 í háskólanum þar. Hann kunni vel við sig þarna og kenndi frönsku og tónlist og nam sjálfur heimspeki og raunvísindi. Hann eyddi einnig mikið af tíma sínum á bókasafni skólans og í að ræða við aðra nemendur á latínu. Í Oxford byrjaði Holberg á bókinni sinni; "Kynning á sögu evrópskra ríkja" sem var fyrsta yfirlit yfir mannkynssöguna á dönsku. Árið 1708 ferðaðist Holberg til Kaupmannahafnar og sá nú ekki meira af föðurlandi sínu. Hann reyndi að afla fjár með því að halda fyrirlestra um ferðalög sín, en það reyndist ekki góður fjárafli. Hann réði sig þá sem aðstoðarferðfélaga prófessorsonar nokkurs og þeir ferðuðust til Dresden og Leipzig. Eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar var hann ráðinn sem heimakennari hjá aðmírálnum F. E. Gjedde. Stuttu seinna fékk hann stöðu í Borch Kollegium þar sem hann hélt fyrirlestra um ferðalög, söguritun, tónlist og tungumálanám. Einnig nýtti hann tíma sinn í að rita bókina "Introkuktion til det forrige Seculi danske Historie" og sendi uppkast af henni til kóngsins sem útnefndi hann sem „extraordinær Professor“, stöðu sem skapaði honum hvorki skyldur né laun og hann neyddist til að yfirgefa Kollegíumið. Mörgum þótti hann ekki verðskulda titilinn þar sem hann hafði ekki magistergráðu. Holberg hafði nú ekkert lífsviðurværi en fékk loks smá styrk sem hann nýtti til sinnar fjórðu og stærstu reisu. Hann lagði af stað vorið 1714 og ferðaðist til Hollands og Belgíu og svo loks til Parísar þar sem hann bjó í hálft annað ár. Þrátt fyrir nokkuð stöðuga innkomu gat Holberg ekki staðist mátið og yfirgaf Holland og fór til Ítalíu. Hann nýtti árin 1715 og 1716 í að skoða minnismerki og sögu Rómarborgar, en honum var meinaður aðgangur að bókasöfnum sökum andstöðu hans við kaþólsku. Í Róm heillaðist hann af áhugaleikhúsum líkt og hann gerði einnig í Frakklandi og þessi götuleikhús áttu eftir að hafa stór áhrif á skrif hans seinna. Árið 1716 sneri Holberg aftur heim til Kaupmannahafnar. Hann réði sig í kennslu við Kaupmannahafnarháskóla og tók í fyrstu aðeins einu lausu stöðuna; frumspeki. Seinna kenndi hann latínu og loks fékk hann stöðuna sem hann hafði beðið eftir og var ráðinn til sögukennslu. Ferðalög Holbergs voru aðalinnblástur hans í seinni skrifum hans. Reynslan af ferðalögunum þroskaði hann sem listamann sem og siðferðislega. Gamlir latneskir gamanleikir og nýrri franskir gamanleikir veittu honum innblástur, en þá sá hann í götuleikhúsum Parísar og Rómarborgar. Skrifum hans má skipta í þrjú tímabil. Hugmyndafræði. Holberg hitti danska vísindamanninn Jacob Winsløw í París. Winsløw reyndi án árangurs að snúa Holberg til kaþólskrar trúar en það gerði lítið annað en að gera Holberg andsnúinn kaþólsku. Holberg var þrátt fyrir það enginn heiðingi, heldur var hann lútherstrúar. Holberg gagnrýndi kristinfræðikennslu grunnskóla og sagði að börn yrðu að vera komin til manns áður en þau lærðu kristni. „Ef maður lærir guðfræði áður en maður er kominn til manns, verður maður aldrei að manni.“ Holberg trúði á skynsemi einstaklingsins og taldi að fyrsta markmið kennslu ætti að vera að kenna nemendunum að nota sín eigin rök og að fylgja tilfinningunni, í stað þess að læra utan að heilu skólabækurnar með páfagaukaströggli. Þessi hugmyndafræði Holbergs var ný af nálinni í kennslu. Holberg velti einnig fyrir sér hvernig svona mikil illska gæti fyrirfundist í heiminum þegar allir ættu að geta látið skynsemina ráða. Þar með fjarlægðist hann guðfræðilegar hugmyndir um illsku og nálgaðist þær frá rökfræðilegu sjónarhorni. Holberg var opinn fyrir gagnrýni á Biblíuna og hafði engar áhyggjur af útbreiðslu sólmiðjukenningarinnar. Hann aðhyltist frumgyðistrú (deisma) en fylgjendur hennar trúa á guð með rökrænum hætti. Þeir trúa því að guð hafi skapað alheiminn, en skipti sér ekki af honum eftir það. Holberg trúði ekki á syndafallið heldur aðhyltist frjálsan vilja mannsins. Með ritum sínum vildi hann upplýsa almenning til að bæta samfélagið. Hann var mun hrifnari af stórborgum, sneisafullum af menningu, heldur en smábæjum og náttúru. Fjármál Holbergs. Líf Holbergs var látlaust fyrstu árin. Hann aflaði sér viðurværis með einkakennslu og sem ferðafélagi heldri manna. Hann reyndi einnig fyrir sér sem einkaþjálfari í Kaupmannahafnarháskóla. Hann fékk styrk til háskólanáms í öðrum löndum, aðallega í skólum sem voru mótmælendatrúar, en það líkaði Holberg ekki. Hann vildi helst sækja nám þar sem menn rifust sem mest um ýmis málefni. Á meðan á dvöl hans í Englandi stóð byrjaði Holberg að skrifa fræðirit um sögu. Seinna skrifaði hann einnig lögfræðirit. Til að efnast sem mest gaf hann sjálfur út verkin sín og seldi þau á einblöðungum til áhugasamra. Hann fékk einnig norskan útgefanda til að gefa út lögfræðibók sína en fjárhagslegur grundvöllur þessara útgáfa var ekki mikill. Holberg ferðaðist yfirleitt fótgangandi í sparnaðarskyni og eins til þess að halda malaríunni niðri, en hann smitaðist af henni á ferðum sínum suður á bóginn. Seinna þegar hann var kominn til meiri efna fjárfesti hann í fasteignum og keypti meðal annars Brorupgård og Tersløsegård. Sá síðarnefndi er eina fasteign Holbergs sem hefur varðveist, en hinar brunnu eða voru rifnar. Það má sjá á bréfaskiptum Holbergs að hann var íhaldsamur í fjármálum og vildi meðal annars ekki hækka laun kennara við Havrebjerg. Holberg sagði sjálfur að hann væri aðeins tilbúinn að eyða peningum ef að þeim var eytt til nytsamlegara hluta, svo sem lyfja fyrir bændurna á bóndabæjunum hans. Hann studdi einnig Sorø-háskólann á meðan hann var á lífi þar sem mjög erfitt var á fjármagna skólastarf. Holberg var ógiftur og barnlaus svo að á gamalsaldri ánafnaði Sorø-háskólanum öllum eignum sínum eftir sinn dag. Konungurinn gaf honum þá barónstitil og skipaði svo fyrir um að hann þyrfti ekki að greiða skatta af eignum sínum. Holberg dó í Kaupmannahöfn árið 1754 og var jarðsettur í Sorøkirkjukarðinum. Það er greinilegt að Holberg hafði ekki aðeins áhrif á danska menningu með leikritum sínum heldur var fræðilegt innlegg hans einnig gífurlegt. Hann skrifaði margar fræðibækur sem jafnvel eru enn í dag notaðar til kennslu. Sagnfræðiverk. Holberg, Ludvig Holberg, Ludvig Holberg, Ludvig Le Mont Saint Michel. Le Mont Saint Michel úr suðri Mont Saint Michel er lítil klettótt örfiriseyja út af Normandí, rúmlega einn kílómetra frá norðurströnd Frakklands við ósa Couesnon árinnar í grennd við Avranches nálægt mörkum Normandí og Bertangaskaga (Bretagne). Upprunalega myndaði Couesnon áin mörkin á milli þeirra og á nokkurra ára fresti færði hún sig milli árfarvega og þar af leiðandi tilheyrði Mount Saint Michel þessum héruðum til skiptis. Árbakkinn hefur nú verið lagaður og er Mont Saint Michel síðan formlega í Normandí. Í Le Mount Saint Michel er einnig klaustur Benediktsmunka. Það er snautt um pláss á eynni því kirkjur og klaustrið taka bróðurpartinn af öllu landi eynnar. Undir flestum byggingum leynast lög af fornum kirkjum sem byggðar voru frá 11. öld til 16. aldar og oft hver ofan á aðra, þannig að saga hennar og kristninnar er æði löng. Á spíru aðalkirkjunnar trónir gullstytta af St. Michael, en hún er alls 155 metra yfir sjávarmáli. Styttan var hönnuð af listamanninum Emmanuel Frémie. Jónas H. Haralz. Jónas H. Haralz (fæddur 6. október 1919, dáinn 13. febrúar 2012) var íslenskur hagfræðingur. Foreldrar hans voru Haraldur Níelsson og Aðalbjörg Sigurðardóttir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólann í Reykjavík 1938, stundaði nám í efnaverkfræði við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi 1938- 1940, nám í hagfræði, tölfræði, stjórnmálafræði og heimspeki við Stokkhólmsháskóla 1940-'45 og lauk MA-prófum í þeim greinum 1944. Jónas hefur verið sæmdur stórriddarakrossi íslensku Fálkaorðunnar, norsku Olavs-orðunni, sænsku Nordstjãrnan-orðunni og sæmdur heiðursdoktorstitli í hagfræði við Viðskiptadeild Háskóla Íslands þann 25. júní 1988. Eftir Jónas liggur mikill fjöldi greina og álitsgerða um hagfræði, atvinnumál og stjórnmál. Hann var virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi og auk þess að starfa sem bankastjóri. Jónas var þekktur fyrir að vera aðalhönnuður efnahagsaðgerða Viðreisnarstjórnarinnar svokölluðu. Birgir Baldursson. Birgir Baldursson (fæddur 2. október 1963) er íslenskur trommuleikari. Hann hefur leikið í fjölmörgum hljómsveitum og á ótal plötum. Birgir varð þekktur sem trommari í hljómsveitunum SH draum og Bless. Síðan spilaði hann í nokkur ár með Sálinni hans Jóns míns en átti ekki samleið með þeirri hljómsveit. Birgir hefur þar að auki trommað með Unun, Kombóinu, Heiðu og Heiðingjunum svo fáar séu nefndar. Birgir hefur einnig látið að sér kveða í þjóðmálaumræðunni. Hann er heitur trúleysingi og stjórnarmaður í Vantrú. Vantrú. Vantrú er félag trúleysingja sem rekur samnefnt vefrit. Vefritið var stofnað í ágúst 2003 og formlegt félag árið 2004. Vefritið hefur oft verið umdeilt vegna hispurslausra greinaskrifa um trúmál og efahyggju. Yfirlýst stefna félagsins er að veita mótvægi við boðun hindurvitna. Félagið. „Tilgangur félagsins er að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum.“ Félagið hefur veitt trúleysingjum sem ekki hafa viljað koma fram undir nafni tækifæri til að tjá sig opinberlega á vef sínum. Vefurinn. Vefritið Vantrú.is er stærsta vefrit sinnar tegundar á Íslandi. Vefritið er uppfært daglega eða því sem næst, og opið er fyrir athugasemdir við hverja færslu. Auk þess er á vefnum opið spjallborð. Vantrú hefur haldið uppi þeim sið að hafa aprílgabb á hverju ári. Önnur starfsemi. Auk þess að reka vefritið hefur Vantrú staðið fyrir árlegu páskabingói Vantrúar á Austurvelli til að mótmæla ákvæðum í helgidagalöggjöf. Bingóið er haldið á föstudaginn langa og er því ætlað að vekja athygli á ákvæði helgidagalöggjafar sem bannar meðal annars „skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram“ á ákveðnum „helgidögum þjóðkirkjunnar“. Einnig er því ætlað að vekja athygli á óeðlilegu sambandi ríkis og kirkju. Þó þessi hefð sé nýlega komin til hafa talsmenn Vantrúar heitið því að þessu verði haldið áfram þar til lögin verða endurskoðuð. Boðið hefur verið upp á kakó og kleinur meðan skemtuninn fer fram. Þann 1. október 2004 bauð Vantrú alþingismönnum upp á skyr fyrir setningu þings í Dómkirkjunni. Með því vildu Vantrúarmenn minna á aðskilnað ríkis og kirkju og mál Helga Hóseassonar, sem var á staðnum í boði Vantrúar, og er m.a. þekktur fyrir að hafa ausið skyri yfir þingmenn, forseta og biskup við setningu Alþingis árið 1972. Einnig hafa talsmenn Vantrúar tekið þátt í trúmálaumræðum í útvarpi og sjónvarpi og á síðum dagblaða. Gagnrýni. Félagið hefur eignast marga óvini með beinskeyttri og óvenju harkalegri umfjöllun um viðkvæm málefni. Hafa þeir þess vegna fengið á sig mikla og harða gagnrýni. Þótt móttökur páskabingósins hafi almennt verið góðar hefur þetta athæfi verið gagnrýnt harðlega meðal annars af biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni, og fleiri kirkjunnar mönnum. Meðal annars sagði Kristján Björnsson, sóknarprestur í Vestmannaeyjum, uppákomuna vera „fíflalega“. Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson stundakennara Háskóla Íslands til Siðanefndar háskólans fyrir ummæli um félagið sem hann lét falla í kennslustund og spunnust af því harðar deilur innan Háskólans. Vantrú dró síðar kæruna til baka og sagði málið hafa ónýst vegna viðbragða starfsmanna Háskólans. Boyzone. Boyzone var írsk strákahljómsveit sem var stofnuð árið 1993. Sveitin lagði upp laupana árið 2000. Hljómsveitarmeðlimir voru þeir Ronan Keating, Stephen Gately, Keith Duffy, Shane Lynch og Mikey Graham. Boyzone var einkar vinsæl á Bretlandi en einnig víðar í Evrópu. Hljómsveitin var stofnuð 18. nóvember 1993 og kom fyrst fram í sjónvarpsþættinum "Late night show" í írska ríkissjónvarpinu. Flest vinsælu lög sveitarinnar voru endurgerðar útgáfur annarra tónlistarmanna, s.s. Bee Gees og Cat Stevens. Mjólkursýra. Mjólkursýra (C3H6O3) er lífræn sýra sem myndast í vöðvum eða rauðum blóðkornum. Hún verður til við "ófullkomið niðurbrot" þrúgusykurs í vöðvum sem á sér stað vegna skorts á súrefni og berst út í blóðrásina og þaðan til lifrarinnar sem breytir mjólkursýrunni aftur í þrúgusykur og sendir aftur út í blóðrásina og þaðan til vöðvanna. Ferli þetta nefnist mjólkursýruhringurinn. Einnig geta mjólkursýrubakteríur framleitt mjólkursýru með gerjun. Þegar vöðvar eru undir miklu álagi og lungun ná ekki að sjá þeim fyrir nægilegu súrefni þá verður ófullkomið niðurbrot á glúkósa ráðandi vegna þess að það krefst minna magns súrefnis en fullkomið niðurbrot á glúkósa. Lengi vel var talið að söfnun mjólkursýru í vöðvum væri valdur að harðsperrum en það hefur verið sýnt fram á að svo er ekki og að harðsperrur myndist við slit á vöðvum. Svarta sveitin. Svört sveit í Washington D.C., 2003 Svarta sveitin (e. "Black bloc") er ótilgreindur hópur manna sem aðhyllist aðferðarfræði sem hefur verið notuð í mótmælum undanfarna tvo áratugi eða svo. Almennt er talið að þessir hópar samanstandi mestmegnis af stjórnleysingjum, en þar sem markmiðið er að torvelda lögreglu að þekkja þátttakendur er erfitt að fullyrða hverjir séu þar á ferð. Enginn fastur hópur eða stofnun stendur fyrir svörtu sveitinni, heldur taka þeir þátt sem vilja. Fyrir kemur að fleiri en ein svört sveit sé starfandi í mótmælum. Aðferðir sveitanna miða að því að torvelda lögreglu að koma höndum yfir þátttakendurna og að þekkja þá aftur. Í því skyni er klæðnaður svipaður, alsvartur, notast við grímur og í sumum tilvikum skyggð gleraugu. Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana eru bókmenntaverðlaun sem veitt eru af Félagi starfsfólks bókaverslana í desember á hverju ári. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2000 sama ár og félagið var stofnað. Verðlaunin eru veitt í miðju jólabókaflóðinu og vekja vanalega mikla athygli. Tilnefndar eru þrjár bækur í sjö flokkum og er sú besta af þremur skreytt með sérstökum borða og þannig auðkennd í bókaverslunum. Félag starfsfólks bókaverslana veitir einnig verðlaunin Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta á Viku bókarinnar. Hermann Jónasson. Hermann Jónasson (fæddur 25. desember 1896, látinn 22. janúar 1976). Hermann var leiðtogi Framsóknarflokksins stóran hluta 20. aldar og þar með einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum aldarinnar. Hann sat á Alþingi í yfir þrjátíu ár og gegndi embættum forsætis- dóms- og landbúnaðarráðherra í ýmsum ríkisstjórnum. Hann var þar að auki lögreglustjóri í Reykjavík 1929 - 1934. Auk þess má nefna að Hermann var Glímukóngur Íslands árið 1921. Fjölskylda. Hermann var sonur Jónasar Jónssonar bónda og trésmiðs og Pálínu Björnsdóttur. Hann var kvæntur Vigdísi Oddnýju Steingrímsdóttur (fædd 4. október 1896, dáin 2. nóvember 1976). Þau áttu saman börnin Herdísi (1927), Steingrím (1928) (síðar forsætisráðherra) og Pálínu (1929). Lúðvík Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, hafði lengi haldið því fram að hann væri óskilgetinn sonur Hermanns og höfðaði barnsfaðernismál árið 2004. Niðurstaða DNA-rannsóknar kom árið 2007 um að 99,9% líkur væru á Lúðvík væri sonur Hermanns. Menntun. Hermann tók lögfræðipróf 1924 og varð hæstaréttarlögmaður 1945. Kynnti sér lögreglumál á Norðurlöndum og í Þýskalandi 1928. Stjórnmál. Hermann var kosinn alþingismaður 1934 og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn fram til 1967. Hann var skipaður forsætisráðherra og jafnframt dóms- og kirkjumálaráðherra og landbúnaðarráðherra 28. júlí 1934, einnig atvinnu- og samgöngumálaráðherra frá 20. mars til 2. apríl 1938 og fór með kennslumál og utanríkismál frá 20. mars 1938 til 17. apríl 1939, lausn frá embætti 7. nóvember 1941, en gegndi störfum til 18. nóvember. Skipaður að nýju 18. nóv. 1941 forsætisráðherra og jafnframt dómsmála- og landbúnaðarráðherra, lausn 16. maí 1942. Skipaður 14. mars 1950 landbúnaðarráðherra, lausn 11. sept. 1953. Skipaður 24. júlí 1956 forsætisráðherra og jafnframt landbúnaðar- og dómsmálaráðherra, lausn 4. des. 1958, en gegndi störfum til 23. des. 1958. Hermann var formaður Framsóknarflokksins 1944 – 1962. Vika bókarinnar. Vika bókarinnar er vikulöng dagskrá á Íslandi sem er sérstaklega helguð bókinni og er haldin í kringum alþjóðlegan dag bókarinnar (UNESCO) á dánarafmæli Williams Shakespeare og Miguel de Cervantes 23. apríl ár hvert og sumardaginn fyrsta sem ber upp á bilinu 19. - 25. apríl. Félag starfsfólks bókaverslana veitir verðlaunin Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta í viku bókarinnar ár hvert. Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta. Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta eru sérstök viðurkenning sem Félag starfsfólks í bókabúðum veitir árlega einum aðila fyrir framlag til íslenskra bókmennta. Verðlaunin eru veitt í Viku bókarinnar. The Damned. Dave Vanian á tónleikum The Damned árið 2006. The Damned er pönkhljómsveit frá Croydon á Englandi. Hljómsveitin var stofnuð árið 1976 og varð fyrsta breska pönkhljómsveitin til að gefa út smáskífu og breiðskífu og fara í hljómleikaferð um Bandaríkin. Upphaflega voru meðlimir hljómsveitarinnar fjórir; Dave Vanian (David Lett), Captain Sensible (Raymond Burns), Rat Scabies (Chris Millar) og Brian James (Brian Robertson). Þrír þeirra höfðu áður verið í Masters of the Backside ásamt Chrissie Hynde og David Zero en sú hljómsveit var eitt af hugarfóstrum Malcolm McLarens sem síðar varð framkvæmdastjóri Sex Pistols. The Damned hefur síðan oft skipt um mannskap, en söngvarinn Dave Vanian er sá eini sem verið hefur með frá upphafi. The Damned spiluðu fyrst fyrir áheyrendur sem upphitunarhljómsveit fyrir Sex Pistols á 100 Club í London 6. júlí 1976 og gáfu út smáskífuna "New Rose" 22. október hjá Stiff Records. Kahimi Karie. Kahimi Karie (カヒミ・カリィ,frönsku auk japönsku. Hún er einkum þekkt fyrir barnslega, hvíslandi rödd. Þórarinn Tyrfingsson. Þórarinn Tyrfingsson (fæddur 1947) er yfirlæknir á Vogi. Romano Prodi. Romano Prodi (f. 9. ágúst 1939 í Reggio Emilia) er ítalskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Hann hefur áður verið forsætisráðherra 1996 til 1998 og var forseti Evrópuráðsins frá 1999 til 2004. Prodi er menntaður í lögfræði frá kaþólskum háskóla í Mílanó og hóf snemma þátttöku í stjórnmálum á vegum Kristilega demókrataflokksins. 1966 fékk hann stöðu sem prófessor í stjórnmálafræði við Bologna-háskóla sem hann gegnir enn. Frá 1978 til 1979 var hann iðnaðarráðherra í fjórðu ríkisstjórn Andreottis þar sem hann samdi meðal annars lög um stjórn stórfyrirtækja í miklum erfiðleikum. Sem ráðherra þótti hann tæknilegur fremur en pólitískur og hann blandaði sér lítt í pólitísk átök innan demókrataflokksins. 1982 var hann skipaður formaður stofnunar fyrir endurreisn iðnfyrirtækja sem rekur hlut ríkisins í stórum einkafyrirtækjum (eignarhaldsfélag í eigu ríkisins) og gegndi því starfi til 1988 og tókst þar að snúa eilífu tapi í hagnað. 1993 tók hann aftur við stjórninni, í þetta sinn til að sjá um sölu á hlutum ríkisins í bönkum og matvælafyrirtækjum. 1996 var hann valinn leiðtogi kosningabandalags vinstri- og miðjuflokka (Ólífubandalagsins - "L'Ulivo") sem tókst að sigra í kosningunum það ár og mynda þingmeirihluta með stuðningi kommúnista. Valið á Prodi stafaði fyrst og fremst af því að hann þótti hafa nokkuð hreina pólitíska fortíð og var því sá sem allir aðilar kosningabandalagsins gátu komið sér saman um. Sem forsætisráðherra náði hann þó nokkrum vinsældum og þótti snjall í tilsvörum. Fyrstu ríkisstjórn Prodis tókst að koma böndum á ríkisfjármálin og ná hlutfallinu milli fjárlagahallans og landsframleiðslu langt niður fyrir það hámark sem kveðið var á um í Maastricht-sáttmálanum. Ríkisstjórn Prodis átti ævinlega í erfiðleikum vegna skorts á stuðningi frá kommúnistum sem voru óbundnir af málefnaskrá kosningabandalagsins. Á endanum sagði hann af sér embætti og Massimo D'Alema tók við forsætisráðuneytinu. 1999 stofnaði Prodi sína eigin stjórnmálahreyfingu Ítalska demókrataflokkinn sem átti að minna á Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum. Sama ár var hann útnefndur forseti Evrópuráðsins. Í stjórnartíð hans urðu nokkrir merkisáfangar í sögu Evrópuráðsins, meðal annars upptaka Evrunnar 2002 og stækkun Evrópusambandsins til austurs 2004. Þegar forsetatíð hans lauk var aftur litið til hans sem leiðtogaefnis vinstri-miðflokkanna og 2005 bauð nýtt kosningabandalag, Einingarbandalagið ("L'Unione") með þátttöku hluta kommúnistaflokksins, fram í sveitarstjórnarkosningum. Í þingkosningunum í apríl 2006 hlaut Einingarbandalagið nauman meirihluta (einungis 25.000 atkvæða meirihluta) sem tryggði því aðeins tveggja sæta meirihluta í öldungadeildinni. 17. maí tók hann við stjórnarmyndunarumboði úr hendi nýkjörins forseta Ítalíu, Giorgio Napolitano. Miklar deilur um utanríkisstefnu stjórnarinnar leiddu til þess að öldungadeildin felldi stefnuskrá Massimo D'Alema, utanríkisráðherra 20. febrúar 2007. Tveimur dögum síðar sagði Prodi af sér forsætisráðherraembætti. Prodi sagðist ekki myndu mynda aðra stjórn nema hann fengi fullan stuðning allra flokka meirihlutans og lagði fram tólf skilyrði sem leiðtogar allra flokkanna samþykktu. Í kjölfarið hvatti Napoletano hann til að mynda nýja ríkisstjórn en sjá jafnframt til þess að hann fengi traustsyfirlýsingu frá báðum deildum þingsins. Í öldungadeildinni var yfirlýsingin samþykkt með naumum meirihluta, 162 atkvæðum gegn 157, en miklum meirihluta í fulltrúadeildinni, eða 342 atkvæðum gegn 198. Í janúar 2008 gerðist það að dómsmálaráðherrann, Clemente Mastella, leiðtogi lítils miðjuflokks, UDEUR Popolari, sagði af sér eftir að eiginkona hans var sett í stofufangelsi sökuð um spillingu. Í upphafi lýsti hann yfir áframhaldandi stuðningi við ríkisstjórnina en dró hann síðan til baka. UDEUR er með þrjá öldungadeildarþingmenn og því var meirihluti Prodis þar í reynd fallinn. Vegna þessa lét Prodi aftur reyna á traustsyfirlýsingu í báðum deildum 23. janúar en í þetta sinn var hún felld af öldungadeildinni með 161 atkvæði gegn 156. Einn sat hjá. Meðal þeirra þingmanna vinstri-miðjubandalagsins sem greiddu atkvæði gegn stjórninni voru, auk Mastella, Lamberto Dini, Domenico Fisichella og Franco Turigliatto. 6. febrúar 2008 leysti Napolitano forseti þingið upp og boðaði til nýrra kosninga. Prodi tilkynnti að hann myndi ekki verða forsætisráðherraefni vinstriflokkanna í annað sinn og tók Walter Veltroni við sem leiðtogi þeirra. Í kosningunum í apríl vann nýstofnaður hægriflokkur, Hús frelsisins, undir forystu Berlusconis, nokkuð góðan sigur og myndaði ríkisstjórn en þarf að reiða sig á stuðning Norðurbandalagsins til að halda meirihluta í báðum þingdeildum. Prodi, Romano Prodi, Romano Stjórnleysis samtakahyggja. Rauðsvarti fáninn, sem hefur frá upphafi verið tengdur stjórnleysis samtakahyggju. Stjórnleysis samtakahyggja (e. "anarkó-syndikalismi") er ákveðið afbrigði stjórnleysisstefnu, sem leggur megináherslu á mikilvægi áhrifa verkamanna á vinnustöðum sínum. Til að hámarka þessi áhrif leggja stuðningsmenn samtakahyggju áherslu á samstöðu verkafólks, styrk verkamannasamtaka, og nauðsyn beinna aðgerða. Þeir taka þátt í verkalýðsfélögum í því skyni að gera úr þeim öfluga byltingarhreyfingu sem myndi síðan mynda grunninn að samfélagsskipulaginu eftir byltingu. Verkalýðsfélög með samtakahyggju að leiðarljósi hafa náð allnokkrum árangri víða, meðal annars á Spáni og í Frakklandi. Uppbygging þeirra er nokkuð frábrugðin hefðbundnum verkalýðsfélögum, sem skýrist af ofangreindum hugmyndum. T.a.m. gera þau ekki greinarmun eftir starfsgreinum; allir verkamenn á tilteknum vinnustað tilheyra sama verkalýðsfélaginu og taka sameiginlegar ákvarðanir. Ákvarðanir teknar þannig eru, ennfremur, ekki háðar samþykki neinna yfirmanna; efri lög samtakanna hafa ekki skipanavald yfir þeim neðri. Þannig er samtakahyggja form ráðstjórnar. Hver vinnustaður sendir svo málsvara á fundi fleiri vinnustaða – e.t.v. fundi mismunandi hluta einnar verksmiðju, eða allra fyrirtækja í bæjarfélagi, eða allra félaga í sama iðnaði. Síðast en ekki síst, telja samtakasinnar að gagnslaust sé að nota óbeinar aðgerðir, eins og kjör þingfulltrúa eða samningaviðræður einar saman til að bæta kjör verkamanna; heldur sé nauðsynlegt að beita öllum tiltækum aðferðum, og ber þar helst á verkföllum. Full Force Galesburg. "Full Force Galesburg" er hljómplata með hljómsveitinni The Mountain Goats. Platan inniheldur lög samin og spiluð af John Darnielle. Flest lögin eru flutt af John sem syngur og spilar á gítar og eru þau tekin upp á hljóðsnælduupptökutæki. Þó eru tvö lög sem má heyra fiðlutóna og einnig hjálpar Peter Hughes, úr Nothing Painted Blue, til í nokkrum lögum. John Darnielle. John Darnielle (fæddur 16. mars í Bloomington, Indiana) er bandarískur tónlistarmaður og meðlimur The Mountain Goats. Tónlist. John Darnielle er best þekktur sem leiðtogi hljómsveitarinnar The Mountain Goats og er hann oft á tíðum eini meðlimur þeirrar hljómsveitar. Hann spilar á gítar, syngur og semur öll lög og texta hljómsveitarinnar. Hann er vel þekktur fyrir lágstemmdar upptökuaðferðir (sem heyrist vel á plötunni "Full Force Galesburg") sem felast í því að hann kýs helst að taka upp lögin á hljóðsnælduupptökutæki, þó hefur hann færst nær upptökuveri síðustu ár. Nýjasta platan hans, "The Sunset Tree", var tekin upp algjörlega í upptökuveri. Þekktir nemendur Menntaskólans í Reykjavík. Þetta er listi yfir þekkta nemendur Menntaskólans í Reykjavík. Fighting Shit. Fighting Shit er íslensk hljómsveit sem spilar hratt „hardcore pönk“. Hljómsveitin var stofnuð árið 2003 og spilaði hún fyrst um sinn svokallað „thrashcore“ en hefur með tímanum þróast út í að spila framsæknara „hardcore“. Sveitin hefur spilað á mörgum tónleikum hérlendis sem og erlendis. Saga sveitarinnar. Árið 2003 langaði þá Kolbein Þór Þorgeirsson og Þóri Georg Jónsson að stofna harðkjarnahljómsveit sem spilaði hraðan og hráan harðkjarna. Fyrst um sinn deildu þeir húsnæði með íslensku pönk-sveitinni Innvortis og spilaði Þórir á trommur og Kolbeinn söng. Þeir fengu til liðs við sig Loft nokkurn Einarsson á gítar. Seinna fengu þeir til liðs við sig Ólaf Þór Arnalds, trommuleikara og loks Inga Erni Árnason, bassaleikara. Eftir það spilaði Þórir á gítar ásamt Lofti og hélt liðskipan þannig. Nafn sveitarinnar varð til í gríni en hefur haldist frá fyrsta degi. Liðsmenn sveitarinnar segja það þó nokkuð táknrænt á vissan hátt þar sem við „berjumst öll við skít á hverjum degi“. Þeir spiluðu sína fyrstu tónleika í Undirheimum FB með bandarísku harðkjarnasveitinni Stretch Arm Strong. Þar fluttu þeir lög af fyrstu plötu sinni, sem bar heitið „Tuned For Thrash“. Hún kom út árið 2003 og var gefin út af Hryðjuverk Records. Platan þótti hröð og lögin sutt, en stutt lög eru oft einkennandi fyrir thrashcore tónlistarstefnuna. Árið 2004 gáfu þeir svo út deiliskífu með metal-sveitinni Brothers Majere og bar hún titilinn „Thrash vs. Metal“. Á henni voru lögin ekki alveg jafnhröð og lagasmíðarnar þóttu þróaðri. Árið 2005 gáfu þeir svo út aðra deiliskífu með bresku sveitinni Dead After School og bar hún heitið Bothered. Á henni þóttu lögin nokkuð melódískari og framsæknari en áður. Skífan var gefin út af breska útgáfufyrirtækinu Cat N' Cakey Records. Um vorið 2006 kom svo út það verk sem þykir framsæknast hingað til, „Forgotten Daughters, Abandoned Sons“. Sú plata var einnig gefin út af Cat N' Cakey Records. Fighting Shit hafa iðulega farið í tónleikaferðalög um Bretland í kjölfar útgáfna sinna og hefur sveitin vakið nokkurra athygli þar í landi. Strútar. Strútar (fræðiheiti: "Struthioniformes") eru ófleygir fuglar sem rekja uppruna sinn til Gondvanalands. Ólíkt öðrum fuglum hafa strútar engan kjöl á kviðskildinum og skortir því alveg hentuga festu fyrir vængvöðvana. Þeir gætu því ekki flogið jafnvel þótt þeir hefðu vængi til þess. Wulffmorgenthaler. Wulffmorgenthaler eru myndasögur sem birtst hafa á Netinu eftir Danina Anders Morgenthaler (myndir) og Mikael Wulff (texti). Myndasagan hóf göngu sína á hönnunargáttinni en færði sig fljótlega yfir á eigið lén. Hún hefur einnig birst í danska tímaritinu Kaskelot og dagblaðinu Politiken. Myndasagan hefur sérstakan stíl sem minnir eilítið á "Far Side" eftir Gary Larson og notar, líkt og Larson, mennsk dýr. Hver saga er sögð í einum ramma. Húmorinn er oft bæði kaldhæðinn og ofbeldisfullur. Sjónvarpsþættirnir. Vorið 2005 voru svo framleiddir sjónvarpsþættir með sama nafni af Zentropa, framleiðslufyrirtæki Lars von Trier, fyrir Danska ríkisútvarpið (DR2) þar sem höfundar myndasögunnar sitja í leikmynd sem minnir á barnaþætti og fá til sín þekktar persónur úr myndasögunni eins og íkornann Magrit og bláa flóðhestinn Dolph. Inn á milli eru svo föst innslög um fornleifafræðingana Ansgar og Loke, spurningaþáttinn Vupti úr safni sjónvarpsins, Túkandrenginn sem er 28% fugl og skólaljósmyndarann Bent. Um haustið var framleidd ný þáttaröð, Dolph og Wulff, sem í þetta sinn snerist aðallega um flóðhestinn og Wulff sem búa til þemaþætti um hluti eins og skemmtanabransann og dönsk stjórnmál. Þessari þáttaröð var síðan fylgt eftir með Dolph og Wulff og venner vorið 2006 þar sem uppsetningin er spjallþáttur í sjónvarpssal og þar sem fleiri dýr úr myndasögunni birtast. Francisco Pizarro. Francisco Pizarro á olíumálverki eftir óþekktan málara frá því um 1540 Francisco Pizarro y González (16. mars 1478 – 26. júní 1541) var spænskur landvinningamaður sem lagði undir sig Inkaveldið og stofnandi borgarinnar Líma í Perú. Hann var frændi Hernán Cortés, fæddist í Trujillo á Spáni og ferðaðist fyrst til Vestur-Indía árið 1502. 1513 fylgdi hann Vasco Núñez de Balboa yfir Panamaeiðið að strönd Kyrrahafsins. Í Panama gerðist hann nautgripabóndi. Fyrstu leiðangrarnir til Perú. 1524 frétti hann frá landkönnuðinum Pascual de Andagoya af stóru landi til suðurs sem héti Birú þar sem væri gnægð gulls. 1524 hélt hann með 80 menn í fyrstu landvinningaferð sína með skipi suður eftir ströndinni í félagi við hermann að nafni Diego de Almagro. Skipið náði ekki suður fyrir það sem nú heitir Kólumbía og þeir lentu í slæmu veðri og matarskorti þannig að Pizarro ákvað að snúa heim að svo búnu. 1526 hélt hann í sína aðra ferð og náði þá suður að strönd Perú (við Tumbez) þar sem hann hitti fyrir íbúana og sá lamadýr í fyrsta skipti. Frá íbúunum heyrðu þeir af voldugum konungi í suðri en héldu heim við svo búið. Nýr landstjóri í Panama bannaði þá frekari landkönnun til suðurs þannig að Pizarro hélt til Spánar 1528. Þar hitti hann Karl V sem studdi hann og Ísabella drottning lét hann fá skjal sem heimilaði honum að leggja Perú undir sig. Sigur á Inkaveldinu. Með bréfið upp á vasann hélt Pizarro til Trujillo og fékk bræður sína í lið með sér. Hann sigldi síðan til Nýja heimsins með þrjú skip og 180 menn. 1532 lagði hann að strönd Perú en lenti þá í átökum við innfædda í orrustunni við Puná þar sem þrír af mönnum hans létu lífið. Hernando de Soto, annar landvinningamaður, hélt þá í leiðangur inn í landið og sneri aftur með boð frá Inkanum Atahualpa. Pizarro og menn hans gengu þá í tvo mánuði til að hitta Inkann í Cajamarca. Þegar þangað var komið neitaði Inkinn þeim um leyfi til að vera í landinu þannig að til bardaga kom. Í orrustunni við Cajamarca 16. nóvember 1532 sigruðu Spánverjar her Inkans, tóku heiðursvörð hans af lífi og hann sjálfan til fanga. Pizarro lét síðan dæma hann til dauða fyrir að hafa myrt bróður sinn Hvaskar og gert samsæri gegn Pizarro. Hann var tekinn af lífi með kyrkingu 29. ágúst 1533. Endalok Pizarros. Ári síðar lagði Pizarro undir sig Cusco, höfuðborg Inkaveldisins. Þrátt fyrir að lýsa yfir aðdáun sinni á fegurð borgarinnar ákvað hann að stofna nýja höfuðborg, Líma, við ströndina. Deilur milli Pizarro-bræðra og Almagros um mörk yfirráða þeirra leiddu til orrustunnar í Las Salinas 1538 þar sem Almagro var sigraður og síðan tekinn af lífi. Synir og stuðningsmenn hans skipulögðu síðan samsæri gegn Pizarro og myrtu hann 26. júní 1541. Buckminster Fuller. Richard Buckminster Fuller (12. júlí 1895 – 1. júlí 1983) var bandarískur arkitekt og uppfinningamaður sem er meðal annars þekktur fyrir kúluhúsið, eina mannvirkið sem eykur styrk sinn eftir því sem það er stærra. Fuller, Buckminster Marcel Proust. Valentin-Louis-Georges-Eugène-Marcel Proust (10. júlí 1871 – 18. nóvember 1922) var franskur rithöfundur. Meginverk hans er "Í leit að glötuðum tíma" ("À la recherche du temps perdu") sem eru sjö skáldsögur upp á samtals 3.200 síður. Verkið nær yfir lokaskeið gullaldar frönsku borgarastéttarinnar, "La belle époque", um og eftir aldamótin 1900. Hann var undir sterkum áhrifum frá Leó Tolstoj og er oft líkt við Thomas Mann. Tengill. Proust, Marcel The Daily Princetonian. "The Daily Princetonian" er dagblað rekið af nemendum Princeton-háskóla. Blaðið kemur út fimm daga vikunnar meðan þegar kennt er en þrjá daga í viku á upplestrartímanum í janúar og maí. "The Daily Princetonian", oft kallað "The Prince", var annað háskólablaðið í Bandaríkjunum til að koma út daglega. Blaðið var stofnað árið 1876 og kom þá út á tveggja vikna fresti með nafninu "The Princetonian". Nafni blaðsins var breytt í "The Daily Princetonian" árið 1892. Á blaðinu starfa nú um 100 nemendur. Lesendur blaðsins eru um 8000 og árleg velta blaðsins er um $400.000. Tengill. Daily Princetonian, The Daily Princetonian, The Daily Princetonian, The Pergamon. Pergamon (gríska: Πέργαμος, í dag Bergama í Tyrklandi) var forngrísk borg í norðvestur Anatólíu, um 26 km frá Eyjahafi, við útnesinu norðan við ána Kaíkos (í dag Bakırçay), sem varð mikilvægt konungdæmi á helleníska tímanum undir stjórn Attalída 282-129 f.Kr.. Attalídar, niðjar Attalosar, föður Fíletærosar, sem komst til valda árið 282 f.Kr., voru meðal dyggustu bandamanna Rómverja af hellenísku konungdæmunum. Undir stjórn Attalosar I studdi Pergamon Róm gegn Filipposi V af Makedóníu í fyrsta og öðru makedóníska stríðinu og aftur undir stjórn Evmenesar II gegn Perseifi af Makedóníu í þriðja makedóníska stríðinu. Fyrir stuðning sinn gegn Selevkídum fengu Attalídar að launum öll fyrrum yfrráðasvæði Selevkída í Litlu Asíu. Attalídar ríktu af skynsemi og örlæti. Mörg skjöl eru varðveitt sem sýna hvernig Attalídar studdu við vöxt bæja með því að senda hæfa |handverksmenn og með skattaívilnun. Þeir leyfðu grísku borgunum á yfirráðasvæði sínu að halda sjálfstæði sínu í orði kveðnu og sendu gjafir til menningarborga Grikklands, svo sem Delfí, Delos og Aþenu. Þeir unnu sigur á innrásarher kelta. Háborg Pergamonborgar var skipulögð eftir fyrirmynd háborgar Aþenu, Akrópólis-hæð. Altarið mikla frá Pergamon er nú varðveitt á Pergamon safninu í Berlín. Í Pergamon var næstbesta bókasafn fornaldar, á eftir bókasafninu í Alexandríu. Þegar Ptólemajar hætti að flytja út papyrus, að hluta vegna samkeppni og að hluta vegna skorts, fundu Pergamonbúar upp nýja aðferð til að varðveita rit, á skinni sem nefndist "pergaminus". Þetta var kálfskinn, forveri skinnhandrita miðalda og pappírs. Þegar Attalos III lést án erfingja árið 133 f.Kr. arfleiddi hann Rómverja að öllu konungdæminu til þess að koma í veg fyrir að borgarastríð brytist út. Skammt frá borginni var helgidómur Asklepíosar lækningaguðsins. Þangað kom fólk sem átti við heilsufarsvandamál að stríða og baðaði sig í vatni úr helgri lind. Sagt var að Asklepíos vitjaði sjúklinganna í draumi og segði þeim hvernig þeir skyldu vinna bug á meinsemdum sínum. Fornleifafræðingar hafa fundið fjölmargar gjafir frá gestum staðarins, svo sem litlar leirstyttur af líkamshlutum, sem vafalaust táknuðu það sem hafði læknast. Á 1. öld e.Kr. var kirkjan í Pergamon ein af sjö kirkjum kristninnar sem eru ávarpaðar í "Opinberunarbók Jóhannesar" ("Op. Jóh." 1:11). Elvis Presley. Elvis Aaron Presley (8. janúar 1935 - 16. ágúst 1977) var bandarískur tónlistarmaður sem naut mikilla vinsælda á síðustu öld. Hann var líka þekktur sem The King,King of Rock'n Roll,Elvis the Pelvis og The Hillbilly Cat. Meðal laga hans eru In The Ghetto, Jailhouse Rock og Blue Suede Shoes. Elvis Presley var kallaður til herskyldu í bandaríska hernum árið 1958 fram til 1960 og dvaldi í Þýskalandi megnið af þeim tíma. Þar kynntist hann Prscilla Wagner (síðar Priscilla Presley) og giftu þau sig 1. maí árið 1967 og eignuðust 1968 dótturina Lisu Marie Presley. Spunaspil. Spunaspil sem hlutverkaleikur eða hlutverkaspil eru tegundir af spilum þar sem leikendur fylgja engum ákveðnum reglum eða búa sér sjálfir til reglurnar. Oft eru spunaspil þannig að hver hefur sitt hlutverk eða leikur eina persónu og þau tengjast oft ævintýrum og goðsögnum. Spunaspil getur einnig átt við tónlist, þar sem spilað er af fingrum fram. Minerva McGonagall. Minerva McGonagall er sögupersóna í bókunum um Harry Potter. Hún er ummyndunarkennari og aðstoðarskólastjóri í skólanum Hogwarts og tók við skólastjórn við lát Dumbledores skólastjóra í lok sjöttu bókarinnar. Hún er einnig hamskiptingur og getur breytt sér í kött. McGonagall er ströng og alvarleg, en styður Dumbledore skólastjóra í einu og öllu. Hún er yfirmaður Gryffindor-heimavistarinnar og meðlimur í Fönixreglunni. Fönix. Mynd af fönix úr skepnubók Aberdeen. Fönix er goðsagnavera, nánar til tekið rauður og gullinn fugl sem endar lífdaga sína með því að brenna sjálfan sig á bálkesti til þess að endurfæðast. Hann var álitin heilagur. Goðsögnin er líklegast upprunninn frá Egyptalandi en hefur síðan þá orðið hluti af goðafræðum annarra menninga. Sjálfsmark. Sjálfsmark eða sjálfskarfa er notað um það þegar leikmenn í íþróttum svo sem körfubolta, fótbolta, handbolta eða öðrum íþróttum þar sem á að skora mörk; skora röng mörk og gefa andstæðingum sínum stig. Eragon. Eragon er fyrsta skáldsagan í bókaflokknum "Arfleiðin" eftir Christopher Paolini. Bokin fjallar um 16 ára drekariddara úr Algesíu. Hann veit ekki hver faðir sinn er, né móðir. Hann var alinn upp hjá bróður mömmu sinnar, Garrow, og fjölskyldu hans. Þegar Eragon er eitt sinn að veiða uppi á Hrygg finnur hann fallegan bláan stein sem hann tekur með sér heim. Hann reynir að selja steininn en það gengur illa, sérstaklega vegna þess að fólkið í þorpinu hans, Carvahall, er ekki mjög hrifið af Hrygg. Síðan kemur í ljós að steinninn fagri er drekaegg og úr honum klekst dreki. Eragon elur hann upp með leynd en þegar útsendarar veldisins fara á stjá og drepa Garrow neyðist Eragon til þess að flýja ásamt drekanum sínum og sagnaþulinum Brom. Eragon er hugrakkur og heiðarlegur, stundum svolítið tregur og ef að Safíra, drekinn hans væri ekki að passa upp á Eragon væri hann löngu farinn sér að voða. Pokémon. er fyrirbæri skapað af Satoshi Tajiri árið 1995 sem tölvuleikjarisinn Nintendo hefur einkaumboð á. Frá því að það var upphaflega gefið út á Game Boy hefur Pókemon-fyrirbærið orðið næst velgengnasta tölvuleikjasería í heimi á eftir Maríó-seríunni. Síðar hafa verið búnir til anime-þættir, manga-bækur, safnspil, leikföng, bækur og margt annað úpp úr Pókemon-seríunni. Um Pókemona. Pokémonarnir sjálfir eru verur sem líkjast ýmsum raunverulegum dýrum. Upprunalegu Pokémonarnir voru 151 talsins en eru þeir núna 649. Í Pókemon-heiminum eru til Pokékúlur sem eru holar kúlur sem hægt er að opna og kalla Pókemoninn þangað inn. Þeir eru síðan látnir berjast af mennskum pokémon-þjálfurum. Flestir Pókemonar geta þróast milli stiga líkt og mörg dýr (eins og lirfa verður að púpu sem verður svo að fiðrildi), en flestir þeirra geta þróast af einu stigi yfir á annað (t.d. Caterpie - Metapod - Butterfree) og breytast í útliti og fá nýja krafta á hverju stigi. Pikachu/Riolu er eitt af 649 tegundum Pokémondýra. Hálflína. Hægri hálflína er, í stærðfræði, hlutmengi af mengi rauntalna, formula_1 sem uppfyllir það skilyrði að ef talan "a" er stak í hálflínunni, þá eru allar tölur sem eru stærri en "a" einnig í hálflínunni. Vinstri hálflína er samskonar, nema þá eru allar tölur minni en "a" stök í hálflínunni. Almennari skilgreining. Almennt er hægt að skilgreina hálflínur fyrir öll mengi sem hafa skilgreind hlutröðunarvensl. Þá eru hálflínur í formula_9, mengi ræðra talna, oft notaðar sem grunnur til þess að skilgreina mengi rauntalna út frá. Ef "R" eru hlutröðunarvensl á eitthvað mengi "A", þá er hægri hálflína á menginu skilgreind sem formula_10, gefið að formula_11 sé túlkað sem yfirtala mengisins. Opið mengi. Opið mengi er mengi sem inniheldur engan af jaðarpunktum sínum. Fyllimengi opins mengis er lokað mengi og iður opins mengis er mengið sjálft. Mengi geta verið bæði opin og lokuð, eða hvorki opið né lokað. Grunnmengi eru til dæmis bæði opin og lokuð, og mengi sem inniheldur suma, en ekki alla jaðarpunkta sína er hvorugt. Sammengi opinna mengja er opið mengi og sömuleiðins endanleg sniðmengi opinna mengja. Jaðar (mengjafræði). Jaðar í mengjafræði á við mismengi lokunar og iðurs tiltekins mengis, en stök þess mengis kallast jaðarpunktar og þeir geta verið teljalegir eða óteljalegir. Skilgreining. Punktur "p" kallast jaðarpunktur í menginu "S" ef og aðeins ef sérhver lokuð kúla um "p" á sér stök bæði úr "S" og úr fyllimengi þess, "Sc". Fyllimengið hefur sama jaðar og "S" sjálft. Mengi allra jaðarpunkta mengisins kallast "jaðar" þess, og er það gjarnan táknað formula_1. Aðgát skal þó höfð, þar sem að táknið formula_2 er einnig notað til þess að tákna hlutafleiður. 1361. a>. Björgvinjarkaupmenn höfðu einkaleyfi á Íslandsverslun um skeið. Mangaka. Mangaka (japanska: 漫画家) er japanskt heiti á höfundum teiknimynda. Utan Japans er orðið fyrst og fremst notað yfir höfundum manga. Viðskeytið "-ka" þýðir "sérfræðingur". Fyllimengi. Fyllimengið er hér táknað AC með fjólubláum grunni. Grunnmengið er táknað með U og gefna mengið með A. Fyllimengi á við tiltekið mengi "A" og er mengi þeirra staka í grunnmenginu, sem ekki eru stök í "A", táknað með "A" C eða A'. M.ö.o. má skilgreina fyllimengi sem mismengi grunnmengis og gefins mengis. Sé "A" mengi, þá er formula_1, þar sem að "U" er grunnmengi. Stundum er fyllimengi táknað með yfirstrikun, formula_2, en sá ritháttur stangast á við ritháttinn fyrir lokun mengis. Af þeim sökum hefur táknunin "A"C orðið vinsælli, en "C"-ið táknar enska orðið "complement". 1349. Munkar sem sýkst hafa af plágunni fá blessun hjá presti. 1367. a>. Pétur og Englendingar til vinstri. Þjóðstjórn. Þjóðstjórn er ríkisstjórn sem mynduð er með aðild allra eða flestra þeirra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á löggjafarþingi. Slíkar stjórnir eru yfirleitt myndaðar þegar alvarlegt kreppuástand eða stríðsástand ríkir og tryggja þarf stöðugleika. Samkvæmt skilgreiningu eru þjóðstjórnir því meirihlutastjórnir. Á Íslandi hefur einu sinni verið mynduð þjóðstjórn, Þjóðstjórnin þann 17. apríl 1939, með þátttöku Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Hermanns Jónasssonar. Ástæðan var yfirvofandi styrjöld í Evrópu. Saltsýra. Saltsýra er vatnsleyst vetnisklóríðgas (HCl(g)). Hún er afar sterk og er mikið notuð í iðnaði. Magasýrur mannsins eru að mestu saltsýra. Þar sem sýran er afar ætandi ætti að gæta ýtrustu varúðar við meðhöndlun hennar. Maurasýra. Maurasýra er einföldust karboxylsýra. Formúla þess er CH2O2 eða HCOOH. Maurasýra heitir svo því maurar og ýmis önnur skordýr sprauta maurasýru frá sér þegar þau bíta eða stinga. Sýruna er einnig að finna í plöntum, svo sem í brenninetlunni. Saltpéturssýra. Saltpéturssýra (kallað "aqua fortis" eða „sterkt vatn“ í gullgerðarlist) er eitruð sýra sem er afar ætandi. Fræðiheitið er vetnisnítrat (e."Nitric acid") og efnafræði formúlan HNO3. Því ætti að geyma saltpéturssýru við hitastig undir 0 °C til að hindra slíkt efnahvarf. (NO2) sem er leyst upp í saltpéturssýru litar sýruna gula eða rauða við hærra hitastig. Hrein saltpéturssýra er hvít þegar hún kemst í snertingu við loft en sýra blönduð "nitrogen dioxide" myndar rauðbrúna gufu. Notkun. Saltpéturssýra er fyrst og fremst notuð til áburðarframleiðslu. Er hún þá blönduð með "ammóníakii" sem gefur af sér "ammonium nitrate" til að gera hann skaðlausari. Þessi áburðarblanda er um 75-80% af um 26M tonna árlegri framleiðslu (1987). Einnig er hún notuð við gerð sprengiefnis svo sem nítróglusserín, trinitrotoluene (TNT) og cyclotrimethylenetrinitramine og til að hreinsa og leysa upp málma. Auk þess er hún notuð í hreinsivörur til hreinsunar á verkfærum í matvæla-og mjólkurframleiðslu og þá er algengt að blanda 5-30% saltpéturssýru og 14-40% fosfórsýru. Slysahætta af saltpéturssýru. Saltpéturssýra getur verið mjög skaðleg. Sem dæmi má nefna slys sem varð í Tyrklandi árið 1965 þar sem 23 farþegar í rútu biðu bana eftir að hafa stokkið í skurð fullan af saltpéturssýru þegar rútan lenti í árekstri við flutningabíl fullan af sýrunni. Sýran lak ofan í skurðinn sem báðir bílarnir ultu ofan í og héldu farþegarnir að kviknað hefði í bílnum og reyndu að bjarga sér með því að stökkva ofan á skurðinn. Átján manns létust samstundis en fimm á sjúkrahúsi. Sum líkin höfðu brunnið svo illa að ekki einu sinni beinin voru eftir. Kviknað getur í saltpéturssýra þegar hún kemst í samband við ýmis lífræn efni svo sem terpentínu. Staðarhóls-Páll (Páll Jónsson). Páll Jónsson, iðulega kallaður Staðarhóls-Páll, (um 1534 – 10. apríl 1598) var af Svalbarðsætt, sonur Jóns Magnússonar ríka á Svalbarði og Ragnheiðar á rauðum sokkum. Hann var sýslumaður og bjó um tíma á Staðarhóli í Dalasýslu en lengst af á Reykhólum í Reykhólasveit. Páll nam í Munkaþverárklaustri og einnig utanlands. Hann var talinn einn mestur lagamaður á sinni tíð og þótti heldur harðdrægur í viðskiptum. Hann kvæntist Helgu Aradóttur, sem var dóttir Ara sonar Jóns biskups Arasonar 2. janúar 1558, og unnust þau mjög í fyrstu en ástir þeirra kólnuðu brátt og versnaði allur vinskapur. Kvað Páll þá heldur ósnoturlega um hana (sjá hér), en hafði áður ort til hennar eldheit ástarljóð. Þau slitu svo að lokum samvistir. Páll var frumlegt skáld og í kveðskap hans gætir talsvert ljóðrænnar náttúrurómantíkur sem fremur minnir á miðevrópskan skáldskap þess tíma en íslenskan. Stefán Ólafsson (f. 1619). thumb Stefán Ólafsson (um 1619 – 29. ágúst 1688) var skáld, prestur og prófastur í Vallanesi. Hann fæddist á Kirkjubæ í Hróarstungu, sonur síra Ólafs Einarssonar skálds en Einar Sigurðsson í Eydölum var afi hans. Stefán var ungur settur til mennta, fyrst í Skálholtsskóla en síðar í Kaupmannahafnarháskóla. Hann sökkti sér á þeim árum mjög niður í norræn fræði og þýddi meðal annars Völuspá á latínu. Eftir fimm ára dvöl í Kaupmannahöfn sneri Stefán aftur til Íslands sumarið 1648. Árið eftir varð hann prestur í Vallanesi og síðar prófastur og þar bjó hann til dauðadags. Stefán orti mikið, bæði sálma og veraldleg kvæði. Er sumt af skáldskap hans létt og lipurt, gjarnan ort við lög og ætlað til söngs. Stefán er eitt hinna austfirsku skálda. Vetnissýaníð. Vetnissýaníð er afar rokgjarn vökvi með efnaformúluna HCN. Sé það leyst í vatni verður til blásýra. Vetnissýaníð er litlaust, baneitrað, rokgjarnt og gufar upp við 26 °C eða rétt fyrir ofan herbergishita. Sölt vetnissýaníðs eru kölluð sýaníð. Um 300 ppm af HCN í andrúmslofti er nóg til að drepa mann á nokkrum mínútum. Það er framkallað við gasklefaaftökur í Bandaríkjunum. Lordi. Lordi er finnsk þungarokkshljómsveit sem sigraði í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2006. Sveitin er þekkt fyrir að koma ávallt fram í skrímslabúningum, raunar neita þeir alfarið að láta taka af sér myndir eða fara í viðtöl án búninganna. Nafnið er samsvarandi enska orðinu „lord“ sem getur þýtt ýmislegt í íslensku. Sveitin hefur verið starfandi síðan 1992 en gaf út sína fyrstu plötu 2002. 2006 tók hún svo þátt í undankeppni Eurovision í Finnlandi með lagi "„Hard Rock Hallelujah“" sem hún sigraði með nokkrum yfirburðum. Hljómsveitin var þó nokkuð umdeild sem framlag Finna í aðalkeppninni í Aþenu bæði í Finnlandi sem og annars staðar í Evrópu, t.d. neitaði Kýpur að spila myndbandið við lag þeirra. Sveitin hefur verið sökuð um djöfladýrkun en herra Lordi, söngvari hennar, hefur vísað því á bug enda hefur hún m.a. sent frá sér lög eins og "„The Devil is a Loser“" (djöfullinn er aumingi). Lordi vann þó keppnina með 292 stigum, 44 fleiri en lagið sem var í öðru sæti, og mesta stigafjölda sem hefur sést í keppninni frá upphafi. Þetta var einnig fyrsti sigur Finnlands í Eurovision sem aldrei hafði lent í hærra sæti en því sjöunda. Ummyndun. Ummyndun eða myndbreyting er þegar fólk, dýr eða hlutir breyta um form. Í bókmenntum eru ummyndanir stundum tengdar göldrum, t.d. í "Ódysseifskviðu" Hómers, "Gullna asnanum" eftir rómverska rithöfundinn Apuleius og í bókunum um Harry Potter. Galdrarnir eru stundum taldir vera misjafnlega erfiðir eftir því hverju og í hvað hlutunum er breytt. Ummyndun er námsgrein í Hogwartsskóla, kennd af Minervu McGonagall. Spádómur. Spádómur er umsögn um framtíðina. Þeir sem hafa þennan hæfileika nefnast "spámenn" eða "spákonur". Skanderbeg. Skanderbeg eða George Kastrioti (1405 – 17. janúar 1468) er albönsk þjóðhetja sem minnst er fyrir baráttuna gegn Tyrkjaveldi. Uppruni. Gjergj Kastrioti, sem seina varð Skenderbeg, var yngsti sonur Gjon Kastrioti, prins í mið Albaníu. Gjergj Kastrioti fæddist í Krúja árið 1405. Móðir hans var prinsessan Vojisava. Saga: Í Tyrklandi og soldáninn. Gjon Kastrioti, faðir Skenderbegs, tapaði stríði við Tyrki árið 1423 og varð að gefa alla fjóra strákana til soldánsins. Einn af strákum var Gjergj Kastrioti-Skenderbeg sem þá var átján ára. Soldáninn neyddi alla fjóra strákana til að gerast múslimar. Þess vegna þurfti Gjergj Kastrioti að taka upp nafnið Skenderbeg. Skenderbeg var hjá soldáninum í tuttugu ár og hann kom aftur til heimalandsins og í borg sína Krúja árið 1443. Í þann tíma sem hann var hjá soldáninum lærði Skenderbeg í herskóla. Honum líkaði best við sverðið og að ríða á hestbaki. Soldáninum Múrat fannst Skenderbeg mjög góður og leyfði honum að lifa en hann drap bræður hans. Skenderbeg varð herstjóri hestamanna soldánsins. Skenderbeg tók þátt í mörgum stríðum hjá soldáninum og snéri alltaf aftur sem sigurvegari. Þegar Skenderbeg var hjá soldáninum réðust Tyrkir inn í Albaníu. Þess vegna var hann mjög miður sín og vildi einhvern megin koma í veg fyrir það. Hann sá tækifærið þegar soldáninn sendi hann til að berjast á móti kristnum mönnum í Evrópu, þeir höfðu sem leiðtoga Janosh Huniad frá Ungverjalandi. Herirnir tveir, mættust í Konovica nálægt Nish í Serbíu. Skenderbeg barðist ekki og flúði ásamt albönskum hermönum sínum til Albaníu. Skenderbeg neyddi fulltrúa soldánsins til að gefa honum undirskrift um að soldáninn samþykkti að sleppa borg hans Krúja. Hann fór til Albaníu og án þess að fara í stríð náði hann heimaborg sinni. Um leið og hann kom kallaði hann á fólkið sitt til að berjast á móti Tyrkjum. Í kastala sínum dró hann að húni svartan og rauðan fána. Þessi fáni er enn í dag fáni Albana. Valdartíð. Eftir að hafa tekið borg sína Krúja, náði Skenderbeg öðrum stöðum sem Tyrkir höfðu lagt undir sig í Albaníu. Skenderbeg skipaði öllum Albönum sem höfðu tekið íslam trú að gerast aftur kristnir en þeir sem neituðu yrðu hálshöggnir. Þetta blóðbað var hluti af áætlun hans um að losna undan áhrifum Tyrkja. Fólkið dáðist að honum fyrir það hvernig hann slapp frá Tyrkjum. Þetta var hans sterkasta vopn því þaning gat hann sameinað albani. Hann kallaði saman alla leiðtoga landsins og sagði þeim að sameinast til að fara í stríð við Tyrki. Þekktustu leiðtogarnir voru Pal Dukagjini, Pjeter Shpati, Gjergj Balsha, Andrea Topia, Theodor Muzaka og Stefan Cernojoviq frá Svartfjallalandi. Þeir söfnuðust saman 2. mars 1444 í dómkirkjunni St. Kolli og Skenderbeg var valinn leiðtogi allra herjanna. Stríðin. Þegar Gjergj Kastrioti-Skenderbeg upphóf stríðið, var her Tyrkja enn þá í borgunum Vlora, Kanina, Gjirokastra, Berat og Elbasan, vegna þess að tyrkir höfðu lagt undir sig öll Balkanskagalöndin árið 1389 í „Kosovo bardaganum“ undir stjórn Serba. Búlgaria féll árið 1393. Janosh Huniad frá Ungverjalandi var eini kristni leiðtoginn sem enn þá var að berjast. Í júni 1444 sendi Soldáninn 25 þúsund manna her til að berjast á móti Gjergj Kastrioti-Skenderbeg. Leiðtogi þeirra var Ali Pasha. Skenderbeg varð var við komu þeirra og gerði þeim fyrirsát í dal nokkrum. Hann umkringdi óvinina og drap sjö þúsund menn af her Tyrkja en Skenderbeg missti tvöþúsund. Eugen páfi IV blessaði sigur hans og Ladislav, konungur Póllands og Ungverjalands, Dúka frá Borbonje og Filip le Bón frá Frakklandi heilsuðu upp á hann. Frá og með 1444 sendi Soldáninn her á hverju ári til þess að berjast á móti Skenderbeg en Skenderbeg vann þá alla. Að lokum fór soldánin Murat II árið 1450 sjálfur ásamt miklum fjölda hers til að berjast á móti Skenderbeg og umkringdi kastala hans í Krúja. Í fimm mánuði vörðust Albanar í stjórn Skenderbeg kastalann í Krúja og að lokum gáfust Tyrkir upp og fóru. Í fyrsta sinn hafði það gerst að her Tyrklands tapaði í fylgd soldánsins. En Albanar höfðu misst allt of mikið. Til þess að halda áfram stríðinu á móti Tyrkjum bað Skenderbeg um hjálp frá Alfonso V. Samningurinn var undirskrifaður 26. mars árið 1451. Fyrir hverja orrustu á móti tyrkjum borgaði hann Alfonso fyrir hjálpina. Árið 1451 giftist Skenderbeg Androniku en hún var af höfðingjaætt. Ævilok. Árið 1457 sendi soldáninn her með 80 þúsund hermenn á móti Skenderbeg. Tyrkir töpuðu stríðinu í þetta sinn líka og drápust 30 þúsund hermenn þeirra. Eftir þennan sigur gerði Kalikst páfi III Skenderbeg að herstjóra Vatikans. Afkomandi soldánsins Múrats, soldáninn Mehmet, sendi nokkrum sinnum her til að berjast ámóti Skenderbeg í Krúja en allar tilraunir hans voru án árangurs. Þá ákvað Soldán Mehmet að fara sjálfur í stríð á móti Skenderbeg. Hann lagði af stað með 200 þúsund hermenn. Hann umkringdi kastala Skenderbeg í Krúja en Albanir gáfust ekki upp allt þangað til Skenderbeg lést 17. janúar 1468 vegna sjúkdóms. Skenderbeg er mesta þjóðhetja Albana. Afleiðing. Þessi stríð voru mjög eyðileggjandi og þreytandi fyrir albana, bæði líkamlega og andlega. Í fimmhundruð ára stjórn Tyrkja á Balkanskaganum voru Albanar beittir mesta harðræðinu. Tyrkir sundruðu Albönum og neyddu þá til þess að skipta um trú, svo enn í dag eru Albanar mjög sundrað fólk. 1315. Erlendis. a>. Hún eyddi síðasta æviárinu í dýflissu og varð aldrei drottning Frakklands. Sambandslögin. Sambandslögin voru lög um samband Íslands og Danmerkur sem voru samþykkt árið 1918 í þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum meirihluta (90,9% greiddra atkvæða). Kosningaþátttaka var 43,8%. Ísland varð þar með fullvalda og frjálst ríki í konungssambandi við Danmörku, þjóðirnar höfðu sama þjóðhöfðingja, Danakonung, sem þá var Kristján 10. Danir skyldu fara með utanríkismál Íslendinga í umboði þeirra og ríkisborgararéttur átti að vera gagnkvæmur milli ríkjanna. Auk þess voru ákvæði til bráðabirgða um að Danir sæju um landhelgisgæslu fyrir Íslendinga og hæstiréttur Danmerkur yrði æðsti dómstóll Íslendinga þar til þeir kysu að taka bæði málin í sínar hendur. Hæstiréttur Íslands var stofnaður tveimur árum seinna 1920. Samninginn var hægt að endurskoða eftir 1940. 1. desember er almennt kallaður fullveldisdagurinn til minningar um þá samþykt Sambandslaganna að Ísland var viðurkennt sem fullvalda og frjálst ríki. Íslenski fáninn var dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni. Lítið var samt um hátíðahöld, og olli spánska veikin þar mestu um. 1330. Erlendis. a>). Mynd úr handriti frá 14. öld. Einar Sigurðsson í Eydölum. Einar Sigurðsson í Eydölum (1539 – 15. júlí 1626) var helsta trúarskáld sinnar tíðar. Hann var ungur settur til mennta og nam í Hólaskóla. Var hann alllengi prestur í Nesi í Aðaldal og bjó þar við heldur þröngan kost. Einar missti fyrri konu sína frá ungum börnum en kvæntist fljótlega aftur og átti margt barna með seinni konu sinni. Fljótlega eftir að Oddur sonur hans varð biskup í Skálholti veitti hann föður sínum Eydali í Breiðdal og við þann bæ er Einar jafnan kenndur. Eydalir voru gott brauð og þar stóð hagur hans með blóma. Hann var góðvinur Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum og naut þess í ýmsu. Biskup leitaði til Einars er hann fór að undirbúa útgáfu kristilegs kvæðasafns sem út kom 1612 og gengið hefur undir nafninu "Vísnabók Guðbrands". Fyrsti hluti þeirrar bókar er að mestu eftir Einar. Hann kvað gjarnan trúarleg kvæði undir vikivakaháttum og er "Kvæði af stallinum Kristí" („Nóttin var sú ágæt ein...“) einna þekktast slíkra kvæða eftir hann. Einar er eitt hinna austfirsku skálda. Bandamenn (seinni heimsstyrjöldin). Bandamenn í Síðari heimsstyrjöldinni voru þau ríki sem börðust gegn Öxulveldunum. Til bandamanna teljast aðallega Bretland, Frakkland, Sovétríkin, Kína og Bandaríkin en fleiri smærri þjóðir voru líka hluti af bandalaginu. Forsaga. Árið 1904 höfðu Frakkland og Bretland gengið í hernaðarbandalag sem var í fullu gildi við upphaf Seinni heimsstyrjaldarinnar. Á fjórða áratugnum voru blikur á lofti í evrópskum stjórnmálum. Ríkisstjórnir Breta og Frakka óttuðust báðar aukinn hernaðarmátt Þýskalands og höfðu fullan hug á að standa saman ef til stríðs við Þjóðverja kæmi. Frakkar voru líka bandamenn Pólverja. Bretar og Pólverjar voru ekki í bandalagi en forsætisráðherra Bretlands, Neville Chamberlain, hafði heitið Pólverjum stuðningi, ef Þjóðverjar réðust á þá. Sovétmenn höfðu á árinu 1939 gert samning við Þjóðverja um að ríkin tvö myndu ekki ráðast á hvort annað. Bandamenn í stríðinu. Þegar Þjóðverjar réðust á Pólverja þann 1. september 1939 stóðu Bretar og Frakkar við skuldbindingar sínar gagnvart Pólverjum og sögðu Þjóðverjum stríð á hendur á næstu dögum. Margar nýlendur Breta sögðu Þjóðverjum sömuleiðis stríð á hendur fáum dögum síðar. Það reyndist Þjóðverjum auðvelt að hernema Pólland og hvorki Bretar né Frakkar veittu Pólverjum neinn verulegan hernaðarstuðning í baráttu þeirra Þjóðverja. Bretar sendu her til Frakkalands til að hjálpa Frökkum að verjast hugsanlegri þýskri innrás en þegar sú innrás kom reyndust franski og breski herinn þess lítt megnugir að stöðva Þjóðverja. Frakkland beið mikinn ósigur og ríkisstjórn Frakklands gafst upp. Hópur franskra herforingja fór í útlegð til Lundúna þar sem þeir mynduðu útlagastjórn. Eftir að Þjóðverjar réðust á Sovétríkin 1941 hófu Bretar og Sovétmenn náið samstarf gegn Þýskalandi. Bandaríkjamenn voru hlutlausir fyrstu mánuði stríðsins en höfðu þá stutt Breta og síðar Sovétmenn leynt og ljóst. Eftir að stríð Bandaríkjamanna við Japani hófst tóku þeir að beita sér beint gegn Japan og Þýskalandi og bandamönnum þeirra. Ríki sem á einhverjum tímapunkti voru hluti af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni. Fyrir utan þau ríki sem komu fram áður eru mjög mörg sem teljast hluti af bandamönnum. Þess ber þó að geta að eftir að ljóst var orðið að Þjóðverjar myndi tapa stríðinu í Evrópu og Japanir í Kyrrahafi og ákveðið hafði verið a stofna Sameinuðu þjóðirnar voru sett þau inngönguskilyrði að viðkomandi ríki lýsti Öxulveldunum stríð á hendur. Flest löndin á listanum lögðu ekkert fram til stríðsrekstursins. Jón Þorláksson á Bægisá. Jón Þorláksson á Bægisá (fæddur í Selárdal í Arnarfirði 13. desember 1744 - dáinn 21. október 1819) var prestur, kröftugt skáld og einn mikilvirkasti þýðandi 18. aldar. Hann var einn af boðberum upplýsingarinnar á Íslandi. Tímarit þýðenda á Íslandi heitir "Jón á Bægisá" í höfuðið á honum. Jón ólst að nokkru upp í Fljótshlíðinni. Hann var settur í Skálholtsskóla og útskrifaðist þaðan 1763 með góðum vitnisburði. Næstu ár var hann í þjónustu Magnúsar Gíslasonar amtmanns og síðan Ólafs Stephensens amtmanns, tengdasonar Magnúsar. Árið 1768 vígðist Jón til Saurbæjarþinga í Dalasýslu en varð að láta af prestskap vegna barneignar með Jórunni Brynjólfsdóttur í Fagradal og fór allt á sömu leið er hann fékk aftur prestsembætti. Þessu næst fór Jón að vinna hjá Hrappseyjarprentsmiðju sem stofnuð var 1773. Þýddi hann þá kvæði eftir norska skáldið Kristian Tullin og voru þau gefin út, ásamt nokkrum frumortum kvæðum hans, í Hrappsey 1774. Sama ár kvæntist Jón Margréti, dóttur Boga Benediktssonar í Hrappsey og hófu þau búskap í Galtardal. Árið 1788 fékk Jón að vígjast til Bægisár í Öxnadal í Hólabiskupsdæmi. Margrét, kona Jóns, og Guðrún, dóttir hans, urðu eftir í Galtardal og bjó Margrét þar til dauðadags 1808. Jón bjó á Bægisá til æviloka 1819 og þar vann hann sín merkustu bókmenntastörf. Þar þýddi hann "Tilraun um manninn" (e. "An Essay on Man") eftir enska skáldið Alexander Pope og "Paradísarmissi" (e. "Paradise Lost") eftir enska skáldið John Milton. Þá þýddi hann einnig "Messíasardrápu" (þ. "Der Messias") eftir þýska skáldið Friedrich Gottlieb Klopstock. Jón orti og mikið sjálfur og var margt af því í léttum dúr. Alþjóðasamtök kommúnista. Alþjóðasamband kommúnista eða Komintern (alþjóðlegt heiti: "Comintern", kýrillískt letur: Коминтерн), oft kallað "þriðja alþjóðasambandið" voru alþjóðleg samtök kommúnista, stofnuð í Moskvu 1919. Fyrsta alþjóðasambandið hafði Karl Marx stofnað, og annað alþjóðasambandið var í höndum jafnaðarmanna. Ágreiningsefni kommúnista og jafnaðarmanna var hvort aðeins bæri að fara lýðræðisleiðina að settu marki eins og jafnaðarmenn vildu eða gera byltingu, ef þess þyrfti, eins og kommúnistar töldu. Skipulag og starfsemi Kominterns. Fyrsti forseti Kominterns var rússneski kommúnistinn Grígoríj Zínovjev, 1919–1926. Annar forseti sambandsins var Níkolaj Búkharín, 1926–1928. Búlgarski kommúnistinn Georgíj Dímítrov var síðasti forseti þess, 1935–1943. Fimm manna framkvæmdanefnd stjórnaði sambandinu á milli þinga. Komintern skipulagði byltingartilraunir víða um heim, meðal annars í Þýskalandi og Eistlandi. Margir aðildarflokkar Kominterns voru bannaðir vegna ólöglegrar starfsemi, til dæmis finnski kommúnistaflokkurinn. Í bókinni "Í álögum", sem kom út í tveimur bindum á íslensku 1942 og 1944, lýsti Jan Valtin, réttu nafni Richard Krebs, undirróðri og skemmdarverkum á vegum Kominterns. Náin tengsl mynduðust á milli leynilögreglu Ráðstjórnarríkjanna og Kominterns, og var forstöðumaður starfsmannadeildar Kominterns, Míkhaíl Trílísser, í raun og veru yfirmaður hinnar erlendu deildar leynilögreglunnar og notaði þá dulnefnið Míkhaíl Moskvín. Talið er, að 133 af 492 starfsmönnum Kominterns hafi týnt lífi í hreinsunum Stalíns. Komintern var lagt niður að skipun Stalíns 1943 þegar hann vildi þóknast bandamönnum sínum í seinni heimsstyrjöldinni, Bretum og Bandaríkjamönnum. Íslendingar á þingum Kominterns 1920–1928. Fulltrúar íslenskra kommúnista á öðru þingi Kominterns í Moskvu 1920 voru Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson. Á Lenín að hafa á því þingi haft orð á hernaðarlegu mikilvægi Íslands í hugsanlegri styrjöld. Á því þingi voru Moskvusetningarnar samþykktar, meðal annars með atkvæðum íslensku fulltrúanna, en þær kváðu á um skilyrðislausa hlýðni einstakra kommúnistaflokka við Komintern. Fulltrúar íslenskra kommúnista á þriðja þingi Kominterns í Moskvu 1921 voru Ólafur Friðriksson og Ársæll Sigurðsson. Eftir það þing tók Ólafur Friðriksson með sér munaðarlausan ungling til Íslands, sem vísað var úr landi vegna smitandi augnsjúkdóms, og urðu af því átök, sem kölluð hafa verið „Drengsmálið“. Fulltrúi íslenskra kommúnista á fjórða þingi Kominterns í Moskvu 1922 var Ólafur Friðriksson. Olli utanför hans hörðum deilum í Alþýðuflokknum, en hann var þá ritstjóri "Alþýðublaðsins". Margir Alþýðuflokksmenn voru andvígir Komintern. Fulltrúi íslenskra kommúnista á fimmta þingi Kominterns í Moskvu 1924 var Brynjólfur Bjarnason. Var þar samþykkt ályktun um Ísland, sem kvað á um, að stofna þyrfti sérstakan kommúnistaflokk í landinu, en ekki fyrr en eftir nokkurn undirbúning. Fulltrúar íslenskra kommúnista á sjötta þingi Kominterns í Moskvu 1928 voru Einar Olgeirsson og Haukur Siegfried Björnsson. Aðild að Komintern. Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson voru fulltrúar Alþýðuflokksins á öðru þinginu 1920. Íslendingar á næstu þingum Kominterns voru hins vegar ekki fulltrúar Alþýðuflokksins, heldur Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur, sem Ólafur Friðriksson og bandamenn hans í röðum ungra kommúnista réðu yfir. Samband ungra kommúnista, sem stofnað var snemma árs 1924, var hins vegar aðili að Alþjóðasambandi ungra kommúnista, sem var í samstarfi við Komintern. Þegar Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður 29. nóvember 1930, gekk hann í Komintern og varð deild í honum. Um tuttugu Íslendingar stunduðu nám í byltingarskólum Kominterns í Moskvu, Lenínskólanum og Vesturskólanum, en markmið þeirra var að þjálfa dygga flokksmenn, ekki aðeins í marxískum fræðum, heldur líka í byltingartækni. Kunnastur íslensku námsmannanna var Benjamín H. J. Eiríksson, en á meðal þeirra voru einnig tveir alþingismenn sósíalista, Þóroddur Guðmundsson og Steingrímur Aðalsteinsson, og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, Eggert Þorbjarnarson. Eggert Þorbjarnarson starfaði á skrifstofu Kominterns í Moskvu 1934–1973. Hann var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, 1943–1957. Fulltrúar íslenskra kommúnista á sjöunda (og síðasta) þingi Kominterns í Moskvu 1935 voru Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson (sem var áheyrnarfulltrúi). Kommúnistaflokkur Islands var lagður niður 1938, þegar kommúnistar gengu til samstarfs við vinstra arm Alþýðuflokksins og stofnuðu Sósíalistaflokkinn. Ráðherra Íslands. Ráðherra Íslands var ráðherraembætti í ríkisstjórn Danmerkur sem tók við af embætti Íslandsráðgjafa eftir stjórnarskrárbreytingu sem samþykkt var 1902 og tók gildi 1. febrúar 1904. Ráðherra Íslands hafði aðsetur á Íslandi (heimastjórn) og fór með framkvæmdavaldið í umboði Alþingis til 1917 þegar fyrsta samsteypustjórnin var mynduð og embætti forsætisráðherra Íslands búið til. Jósef Stalín. Jósef Stalín (18. desember 1878 – 5. mars 1953, georgíska იოსებ სტალინი, rússneska Иосиф Сталин) var sovéskur stjórnmálamaður. Hann var um áratugaskeið í reynd einvaldur í Sovétríkjunum. Æska. Stalín fæddist í bænum Gori í Georgíu sem þá tilheyrði Rússlandi. Hans rétta nafn var Jósef Vissarionovitsj Dsjugasjvili en tók upp eftirnafnið „Stalín“ árið 1912, merkti það „úr stáli“ eða „stálmaðurinn“. Faðir hans var skósmiðurinn Vissarion Dsjugasjvili frá Ossetíu en móðir hans hét Ekaterína og var frá Georgíu. Faðir hans vildi að Jósef yrði skósmiður en það vildi móðir hans ekki. Hún hafði miklar væntingar til sonar síns og vildi að hann yrði prestur. Stalín sótti grunnskólann í heimaborg sinni en árið 1894, eftir að faðir hans lést, flutti hann ásamt móður sinni til Tíblísi, höfuðborgar Georgíu, og hóf nám við prestaskóla. Þegar Jósef var ungur gerðist faðir hans mjög drykkfeldur og barði bæði hann og móður hans. En móðir hans elskaði hann út af lífinu og lagði allt í sölurnar fyrir frama hans. Ekaterína kallaði son sinn oft Soso og birti hann kvæði og ljóð undir því dulefni þegar hann varð eldri (en þó löngu áður en hann náði völdum) og var hann virt skáld í Georgíu. Móðir hans sagði að Soso hafi alltaf verið góður strákur. Upphaf afskipta af stjórnmálum. Í Tíblísi komst hinn ungi Stalín í kynni við kenningar Marx og gekk til liðs við sósíaldemókrataflokk Rússlands. Sá flokkur hafði verið bannaðar af keisarastjórninni og Stalín var rekinn úr prestaskólanum þegar upp komst að hann væri meðlimur flokksins. Eftir að hafa verið rekinn úr skólanum hóf Stalín störf fyrir sósíademókrataflokkinn og vann að ýmiss konar áróðursstarfsemi fyrir flokkinn og skipulagði meðal annars verkföll. Þegar sósíaldemókrataflokkurinn klofnaði árið 1903 í hreyfingar mensévíka og bolsévíka gekk Stalín til liðs við bolsévika. Hann hélt áfram að vinna að byltingu, tók þátt í fjáröflun fyrir flokkinn meðal annars með bankaránum og var margsinnis tekinn fastur af lögreglunni. Árið 1912 tók Stalín sæti í miðstjórn Bolsévikaflokksins. Byltingin og borgarastríðið. Eftir febrúarbyltingina studdi Stalín til að byrja með samstarf við ríkistjórn Karenskís, en snerist seinna á sveif með Lenín sem hafnaði samstarfi við Karenskí. Eftir októberbyltinguna vann Stalín með nýrri ríkisstjórn bolsévíka. Hann vann mikið að málefnum tengdum þjóðernisminnihlutahópum sem bjuggu innan Rússlands, enda sjálfur Georgíumaður og málið honum því hugleikið. Í borgarastríðinu var hann liðsforingi í rauða hernum. Aukin völd innan flokksins. Árið 1922 var Stalín kjörinn aðalritari miðstjórnar kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Við fráfall Leníns, sem hafði verið óumdeildur leiðtogi flokksins, hófst mikil barátta um völdin í flokknum. Höfuðfjandmaður Stalíns í þeirri baráttu var Trotskí. Eftir margra ára baráttu tókst Stalín að koma því til leiðar að á flokksþingi 1927 voru Trotskí og fleiri andstæðingar hans reknir úr flokknum. Iðnvæðing og endurskipulagning. Eftir að hafa haft sigur í innanflokksátökunum var Stalín orðinn valdamesti maður Sovétríkjanna. Stalín var þeirrar skoðunar, að ef Sovétríkin ættu að eiga sér framtíð yrðu þau að iðnvæðast. Fyrir byltinguna hafði Rússland verið skammt á veg komið í iðnvæðingu og margra ára borgarastyrjöld hafði veikt efnahag landsins enn meira. Árið 1928 leit fyrsta fimm ára áætlunin dagsins ljós. Enn fremur var ákveðið að endurskipuleggja landbúnaðinn í samyrkjubú. Sú stefna mætti víða mótspyrnu í sveitum landsins, en yfirvöld gengu fram af mikilli grimmd gegn andstæðingum endurskipulagningarinnar. Fimm ára áætlanirnar reyndust vel til að auka iðnframleiðslu Sovétríkjanna, en þær leiddu ekki til mikilla kjarabóta fyrir almenning, því höfuðáhersla var lögð á auknar fjárfestingar í iðnaði framyfir einkaneyslu. Sér í lagi jókst framleiðslan í þungaiðnaði mikið. Stalín beitti sér af grimmd og miskunnarleysi gagnvart þeim, sem hann taldi andstæðinga sína. Komið var á fót kerfi fangabúða sem meintir andstæðingar hans voru sendir í. Milljónir manna og jafnvel heilar þjóðir voru sendar í slíkar búðir, flestir án saka eða fyrir afskaplega litlar sakir. Meðal þeirra sem lentu í hreinsunum Stalíns á 4. áratugnum voru fjölmargir yfirmenn rauða hersins, þar á meðal Mikhail Tukhachevsky, hershöfðingi, sem var dæmdur til dauða af herdómstól í júní 1937. Hreinsanir Stalíns innan hersins veiktu stjórn rauða hersins og átti það eftir að hafa alvarlegar afleiðingar þegar innrás Þjóðverja hófst árið 1941. Seinni heimsstyrjöldin. Árið 1939 höfðu Sovétmenn og Þjóðverjar gert með sér samning um að ráðast ekki hvorir á aðra. Margir kommúnistar sáu þess konar samstarf við nasista sem svik við kommúnismann. Í júní 1941 brutu Þjóðverjar samninginn og réðust á Sovétríkin. Sovétmenn nefndu stríðið „föðurlandsstyrjöldina miklu“. Enda þótt Stalín hefði átt von á að til átaka gæti komið við Þjóðverja bjóst hann ekki við innrásinni árið 1941 og voru Sovétríkin bæði hernaðarlega og iðnaðarlega illa undirbúin fyrir stríðið. Stalín var yfirmaður herafla Sovétríkjanna og stjórnaði sjálfur stríðinu gegn Þjóðverjum. Þjóðverjar unnu til að byrja með mikla sigra, en voru að lokum yfirbugaðir. Seinustu árin og tíminn eftir fráfall Stalíns. Eftir seinni heimsstyrjöldina stóðu Sovétríkin uppi sem annað risaveldanna tveggja. Tíminn frá lokun seinni heimsstyrjaldar til dauða Stalíns markaðist að miklu leyti af upphafi kalda stríðsins. 5. mars 1953 lést Stalín. Hann var í fyrstu hylltur sem hetja og líki hans var komið fyrir í grafhýsi við hlið grafhýsis Leníns. Í leynilegri ræðu á flokksþingi kommúnistaflokksins 1956 fordæmdi Krútsjoff, sem þá var orðinn leiðandi maður innan flokksins, Stalín. Eftir það flokksþing var stefnu flokksins gangvart Stalín breytt og hann var nú fordæmdur sem harðstjóri. Stalínismi. Stalín lagði lítið af mörkum til kommúnískrar hugmyndafræði (eða í það minnsta marx-lenínismans). Stalín samdi þó ritgerðirnar „Marxismi og þjóðarspurningin“, sem Lenín hreifst mjög af, og „Trotskíismi eða lenínismi“. Heildarútgáfa ritverka Stalíns kom út í þrettán bindum árið 1949. Árið 1936 lýsti Stalín því yfir að sovéskt samfélag samanstæði af tveimur stéttum sem væru ekki í andstöðu hvor við aðra: verkamenn og bændur. Stéttirnar samsvöruðu tveimur tegundum eigna á framleiðsluöflum í Sovétríkjunum: ríkiseignir annars vegar (á vinnustöðum verkafólksins) og sameignir hins vegar (á samyrkjubúum bændanna). Auk þessara tveggja stétta viðurkenndi Stalín stétt menntamanna. Hugmyndin um stéttir sem eru ekki í andstöðu hver við aðra var nýlunda sem þekktist ekki úr kenningum Leníns. Tenglar. Stalín, Jósef Látra-Björg. Látra-Björg eða Björg Einarsdóttir (1716-1784) var kennd við Látra á Látraströnd þar sem hún var uppalin. Þar mun hún og lengst af hafa verið heimilisföst. Hún var alla tíð einhleyp og fór oft á milli bæja, einkum á seinni árum sínum. Björg var stórskorin og mikil vexti og þótti karlmannsígildi til allra verka. Hún sótti sjó frá Látrum á sínum yngri árum og kvað þá gjarnan um átök hafsins. Vísur Látra-Bjargar eru margar hverjar sérkennilegar, kraftmiklar og stundum kaldhæðnar. Snúast þær oftast um daglegt líf og baráttu manna við náttúruöflin. Eftir hana liggur mikill fjöldi vísna um sveitir (t.d. Fnjóskadal, Fjörður, Melrakkasléttu o.fl.), þar sem hún ber lof á sumar en last á aðrar. Og mátti valdsmaður láta svo búið standa. Bjarni Thorarensen. Bjarni Thorarensen (30. desember 1786- 25. ágúst 1841) var amtmaður fyrir norðan og austan sem bjó að Möðruvöllum. Þrátt fyrir miklar embættisannir orti Bjarni talsvert og var hann helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi. Ævi. Bjarni fæddist á Brautarholti á Kjalarnesi. Móðir Bjarna var Steinunn, dóttir Bjarna Pálssonar landlæknis og faðir hans Vigfús Þórarinsson. Vigfús varð sýslumaður í Rangárvallasýslu 1789 og sat á Hlíðarenda í Fljótshlíð og er Bjarni alinn þar upp. Hann lærði hjá einkakennurum undir stúdentspróf og lauk því 15 ára. Bjarni sigldi síðan til Kaupmannahafnar og lauk lagaprófi frá Hafnarháskóla er hann stóð á tvítugu en starfaði síðan í danska kansellíinu í nokkur ár. Bjarni mun hafa hlustað á einhverja af þeim fyrirlestrum sem Henrich Steffens hélt í Kaupmannahöfn 1802-1803 um rómantísku stefnuna og hann hreifst af skáldum er ortu í hennar anda, svo sem danska skáldinu Adam Oehlenschlager og þýska skáldinu Friedrich Schiller. Bjarni sneri til Íslands 1811 og varð nokkru síðar dómari í Landsyfirréttinum og þjónaði auk þess stiftamtmanns- og amtmannsembættinu í suðuramtinu í afleysingum 1814-1815 og aftur 1817-1819. Hann varð síðan sýslumaður í Árnessýslu 1820 en 1822 varð hann aftur dómari við Landsyfirréttinn og bjó í Gufunesi. Eftir nokkrar raunir í kvennamálum, sem hann kenndi Magnúsi Stephensen alfarið um, kvæntist hann Hildi, dóttur Boga Benediktssonar úr Hrappsey, og áttu þau fjölda barna. Bjarni kom að stofnun Fjallvegafélagsins árið 1831 sem hafði það að markmiði að bæta samgöngur á Íslandi. Bjarni var skipaður amtmaður í Norður- og austuramtinu árið 1833. Flutti hann þá að Möðruvöllum í Hörgárdal og bjó þar til dauðadags og þar er hann einnig grafinn. Mörg þekktustu ljóð Bjarna eru ættjarðar- eða náttúruljóð, svo sem "Íslands minni" (Eldgamla Ísafold), "Ísland" (Þú nafnkunna landið sem lífið oss veitir) og "Veturinn" en hann orti einnig alkunn ástarljóð og erfiljóð. Af þeim síðastnefndu er þekktast kvæðisbrotið sem hann orti eftir Baldvin Einarsson og hefst á orðunum „Ísalands / óhamingju / verður allt að vopni.“ Actavis. Höfuðstöðvar Actavis Group í Hafnarfirði Actavis er vörumerki fyrirtækisins Actavis Group h.f., eins stærsta samheitalyfjafyrirtækis heims. Fyrirtækið er með aðalstöðvar á íslandi og var skráð á aðallista Kauphallar Íslands þar til í júlí 2007, undir stuttnefninu ACT. Actavis á Íslandi framleiðir og selur lyf og lyfjahugvit bæði innanlands sem utan en sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Samheitalyf er jafngilt og frumlyfið sem það er borið saman við. Það hefur sama virka innihaldsefni, í sama magni. Mikil áhersla er lögð á gæðamál og uppfylla lyfjaverksmiðjur og tækjabúnaður félagsins kröfur um góða framleiðsluhætti í lyfjagerð. Eitt af markmiðum Actavis er að vera með þeim fyrstu með samheitalyf á markaðinn þegar einkaleyfi renna út en Ísland er einkar hagstætt þegar kemur að einkaleyfaumhverfi. Fyrirtækið var stofnað sem innkaupasamband lyfsala árið 1956 og hét þá Pharmaco. Hjá fyrirtækinu starfa nú í heildina um 10.000 manns, en fyrirtækið er með starfsemi í meira en 40 löndum. Fyrirtækið er í eigu Novators, fyrirtækis Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þýski stórbankinn Deutsche Bank þurfti að afskrifa 407 milljónir evra, eða um 66 milljarða íslenskra króna, vegna Actavis árið 2011. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (6. október 1826 á Eyvindarstöðum á Álftanesi – 2. ágúst 1907) var íslenskt skáld og rithöfundur. Ævi. Benedikt var sonur Sveinbjarnar Egilssonar og konu hans, Helgu Gröndal, sem var dóttir Benedikts Gröndals landsyfirréttardómara og skálds. Hann lærði í Bessastaðaskóla og nam síðan náttúrufræði og bókmenntir við Hafnarháskóla. Hann kenndi síðan nokkur ár við Lærða skólann í Reykjavík en hélt svo aftur utan og dvaldi um tíma í Þýskalandi og Belgíu. Eftir það fór hann aftur í Hafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi í norrænum fræðum fyrstur Íslendinga. Hann fluttist síðan aftur til Íslands og dvaldi lengst af í Reykjavík og kenndi þar um nokkurra ára skeið við Lærða skólann. Benedikt var afar fjölhæfur maður. Hann var snilldar teiknari, lagði sig eftir náttúrufræði og tungumálum, var ljóðskáld í rómantískum anda og samdi leikrit og sögur. Hann lést í litlu húsi sem stendur að baki Vesturgötu 16, en þar bjó hann síðustu ár ævi sinnar. Frægasta verk hans er líklega Heljarslóðarorrusta, gamansaga um orrustuna við Solferino 1859 og ýmsa samtímaatburði aðra, erlenda sem innlenda. Söguna skrifaði hann í stíl fornaldarsagna og er fyndni hennar ekki síst fólgin í þeim fáránleika sem skapast af því. Benedikt var einn af stofnendum Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) og fyrsti formaður þess. Formannstíð hans var 1889-1900. 24. Árið 24 (XXIV) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á laugardegi. Jack Bauer. Jack Bauer er aðalpersónan í bandarísku sjónvarpsþáttunum 24 og er leikin af Kiefer Sutherland. Bakgrunnur. Jack Bauer fæddist í Kaliforníu og er af þýskum og bandarískum ættum. Bauer nam enskar bókmenntir við UCLA. Hann lauk M.A.-gráðu í afbrotafræði og lögfræði frá UC Berkeley. Að námi loknu gekk Bauer til liðs við lögregluna í Los Angeles og starfaði í sérsveit hennar. Síðar gegndi hann herþjónustu í sérsveitum bandaríska hersins, Delta Force. Svo virðist sem Bauer hafi einnig starfað fyrir CIA áður en hann hóf störf fyrir Counter Terrorist Unit. Tenglar. Bauer, Jack Gregory Nagy. Gregory Nagy (borið fram /nɑʒ/) er prófessor í fornfræði við Harvard-háskóla. Nagy er sérfræðingur um Hómer og forngrískan kveðskap. Nagy er þekktur fyrir að víkka út kenningu Milmans Parry og Alberts Lord um munnlegan kveðskap "Ilíonskviðu" og "Ódysseifskviðu". Hann er núverandi framkvæmdastjóri Center for Hellenic Studies, skóla sem Harvard rekur í Washington DC. Hann er Francis Jones prófessor í forngrískum bókmenntum og prófessor í almennri bókmenntafræði við Harvard. Blaise Nagy, bróðir Gregorys, er einnig prófessor í fornfræði og kennir við College of the Holy Cross í Worcester í Massachusetts. Forsætisráðherra Íslands. Sitjandi forsætisráðherra er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Tímaröð íslenskra forsætisráðherra. Tímaásinn sýnir forsætisráðherra Íslands í tímaröð og tímabilið sem þeir gegndu embætti. a> var forsætisráðherra og síðar forseti Íslands a> varð fyrsti ráðherra Íslands frá og með 1. febrúar 1904. a> sat fimm sinnum sem forsætisráðherra Jón Magnússon (f. 1859). Jón Magnússon (16. janúar 1859 – 23. júní 1926) var íslenskur stjórnmálamaður, þingmaður fyrir Heimastjórnarflokkinn og náinn samstarfsmaður Hannesar Hafstein. Hann tók við forystu flokksins af Hannesi og varð forsætisráðherra í fyrstu samsteypustjórninni sem mynduð var 1917. 1924 varð hann aftur forsætisráðherra fyrir Íhaldsflokkinn og gegndi því embætti til dauðadags. Jón var kvæntur Þóru Jónsdóttur. Árið 1912 luku þau við að reisa sér glæsilegt íbúðarhús, Hverfisgötu 21, sem enn stendur. Ronaldinho. Ronaldo de Assis Moreira, þekktastur sem Ronaldinho, (21. mars 1980 í Porto Alegra í Brasilíu) er brasilískur knattspyrnumaður. Hann leikur með Flamengo í Brasilíu en lék áður með Gremio í Brasilíu og síðan með Paris Saint German í París í Frakklandi. Frakkarnir seldu hann til F.C. Barcelona á Spáni þar sem hann hann vann tvo Spánartitla og Meistaradeild Evrópu einu sinni. Ronaldinho er mjög þekktur fyrir að vera alltaf brosandi á vellinum og eru fáir leikmenn jafn glaðir og hann á meðan á leik stendur. Ronaldinho var valinn besti leikmaður heims tvö ár í röð (2004 og 2005). Don Rosa. Gioachino 'Keno' Don Hugo Rosa, eða einfaldlega Don Rosa, (fæddur 29. júní 1951) er einn þekktasti höfundur og teiknari Andrésar Andar myndasagnanna. Nýjasta sagan hans heitir "The Prisoner of White Agony Creek" eða „Fanginn í Hvítkvalarlæk“. Sagan á bak við teiknarann. Don Rosa ólst upp við að lesa myndasögublöð systur sinnar um Andrés Önd. Aðalteiknarinn þá var Carl Barks og var hann mikill innblástur fyrir Rosa. Í heimabæ sínum skapaði hann myndasögur fyrir blaðið „The Louisville Times“ sem nefndust „The Pertwillaby Papers“ og „Captain Kentucky“. Eftir mörg ár hætti hann í starfi sínu, sem hann hafði erft eftir föður sinn, og fór til útgáfufyrirtækisins Gladstone, sem þá gaf út Disney myndasögurnar. Hann spurði útgefendurna hvort þeir hefðu not fyrir teiknara. Þeir jánkuðu því. Nokkrum vikum seinna kom fyrsta andarsagan eftir Don Rosa, "The Son of the Sun", út í tímaritinu "Uncle $crooge". Sagan var byggð á einni „Captain Kentucky“ sögunni. Einkenni. Don Rosa er þekktur fyrir mikil smáatriði í teikningum. Hann þekkir heim Carl Barks mun betur en flestir aðrir teiknarar. Hann felur yfirleitt skammstöfunina D.U.C.K. í fyrsta ramma í sögu, en hún stendur fyrir "Dedicated to Uncle Carl from Keno", eða "tileinkað Carl frænda frá Keno". Rosa, Don Jean-Baptiste Lully. Jean-Baptiste Lully, upprunalega Giovanni Battista Lulli (28. nóvember 1632 – 22. mars 1687), var franskt barokktónskáld, fæddur á Ítalíu. Hann vann mestan hluta ævi sinnar við hirð Loðvíks 14. Frakkakonungs. Hann varð franskur ríkisborgari árið 1661. Hann var eitt helsta tónskáld síns tíma og er talinn upphafsmaður franskrar óperu. Tónlist hans er meðal annars þekkt fyrir mikinn lífleik í hröðum köflum og dýpt og tilfinninganæmi í þeim hægu. Hann lést eftir að hafa slegið í fót sinn með stafnum sem í þá daga var notaður til að stjórna hljómsveitum sem olli miklu sári og ígerð, en Lully neitaði að láta fjarlægja tána. Bólu-Hjálmar. Hjálmar Jónsson, betur þekktur sem Bólu-Hjálmar, (fæddur á Hallandi í Eyjafirði 29. september 1796, dáinn í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði 25. júlí 1875) var bóndi og ljóðskáld. Móðir Hjálmars, Marsibil Semingsdóttir, var heimilislaus þegar hún eignaðist hann, kom að kvöldi dags að Hallandi á Svalbarðsströnd og tók léttasótt um nóttina. Daginn eftir fór vinnukona á Hallandi, Margrét að nafni, með barnið áleiðis til hreppstjórans og bar það í poka. Hún kom við á Dálksstöðum og húsmóðirin þar, ekkja að nafni Sigríður Jónsdóttir, fann svo til með drengnum að hún tók hann í fóstur og ól hann upp til átta ára aldurs. Þá fór hann til föður síns, Jóns Benediktssonar, og ólst þar upp. Hjálmar flutti að Silfrastöðum í Skagafirði 1820 og kynntist þá konu sinni, Guðnýju Ólafsdóttur á Uppsölum, en mæður þeirra voru systur. Þau bjuggu fyrst á Bakka í Öxnadal en fluttu svo aftur til Skagafjarðar og bjuggu fyrst á Nýjabæ í Austurdal í fimm ár. Árið 1829 fluttu þau að Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, hjáleigu frá Uppsölum og við þann bæ var Hjálmar jafnan kenndur. Hjálmar var ekki vinsæll í sveitinni og þegar nágrönnunum þótti fé heimtast illa féll grunur á hann og gerðu hreppstjórar þjófaleit hjá þeim hjónum 1838. Þau voru sýknuð af ákærum um sauðaþjófnað ári síðar en hröktust burt frá Bólu. Sauðaþjófnaður var einhver alvarlegasti glæpur bændasamfélagsins og féll Hjálmari kæran mjög þungt. Guðný dó 1845 og eftir það var Hjálmar í húsmennsku, lengst af í Minni-Akragerði í Blönduhlíð og síðar í Grundargerði þar rétt hjá. Hann bjó við heldur þröngan kost og átti oft í erjum við nágranna sína og orti um þá. Hjálmar var listfengur og oddhagur og hafa varðveist eftir hann fagurlega útskornir gripir. Hann var og fljúgandi hagorður og myndvís í skáldskap sínum. Í ljóðum hans gætir gjarnan biturleika vegna slæmra kjara og ekki vandar hann samferðamönnum sínum alltaf kveðjurnar. Minnismerki um Bólu-Hjálmar í minningarlundi við Bólu, sem gerður var 1955. í Akrahrepp, ég má nú deyja úr sulti, nakleika, kröm og kvöl. Kvein mitt ei heyrist, skal því þegja. en illgjarnir þeir sem betur mega. Í þessu dæmi og mörgum öðrum kvæðum Hjálmars gætir beiskju og gagnrýni sem á afar lítið skylt við þann rómantíska þjóðfrelsislofsöng sem „lærðu“ skáldin sungu um þessar mundir. Hjálmar var frægur fyrir níðkveðskap og þótti bæði óvæginn og illskeyttur. Því átti hann sér ýmsa óvildarmenn en hann átti líka marga vini og var oft fenginn til að skemmta í veislum því hann var fróður og góður sögumaður, skemmti fólki með kveðskap og gat verið hrókur alls fagnaðar þegar hann vildi. Hann andaðist í beitarhúsum frá Brekku í Seyluhreppi árið 1875 og var jarðsettur á Miklabæ við hlið Guðnýjar konu sinnar. Listi yfir ráðuneyti Íslands. Þetta er listi yfir ráðuneyti Íslands. Konungsríkið Ísland (1918–1944). sat uns Jón Þorláksson var skipaður 8.7.1926 Lýðveldið Ísland (1944–núverandi). Sat uns hann var skipaður 10.10. 1970 Einar H. Kvaran. Einar H. Kvaran (1859 – 1938) fæddist í Vallanesi í Suður-Múlasýslu og ólst upp í Blöndudalshólum í Austur-Húnavatnssýslu og Goðdölum í Skagafirði en faðir hans var prestur á báðum þessum stöðum. Einar varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1881 og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn og lagði þar stund á hagfræði við Hafnarháskóla en lauk ekki prófi. Eftir Kaupmannahafnarveruna var Einar lengi ritstjóri, fyrst vestanhafs og síðan á Íslandi. Hann var mikill spíritisti og átti þátt í að stofna Sálarrannsóknarfélag Íslands. Þegar Einar var í Kaupmannahöfn var raunsæisstefnan sem óðast að ryðja sér til rúms á Norðurlöndunum. Hann hreifst af stefnunni og gaf út tímaritið "Verðandi" 1882 með þremur félögum sínum þar sem þeir birtu eftir sig verk í anda hinnar nýju stefnu. Einar var mikilvirkur höfundur og skrifaði bæði skáldsögur og smásögur í raunsæilegum stíl. Dervish (hljómsveit). Dervish er írsk þjóðlagahljómsveit sem hefur gefið út 10 hljómplötur. Hljómsveitin var stofnuð 1989 af þeim Liam Kelly, Shane Mitchell, Martin McGinley, Brian McDonagh og Michael Holmes. Hljómsveitin lenti í síðasta sæti Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2007 með laginu „They Can't Stop The Spring“. Gestur Pálsson. Gestur Pálsson (25. september 1852 – 19. ágúst 1891) var íslenskur rithöfundur sem dó í Vesturheimi. Hann var einn af fjórmenningunum sem gáfu út tímaritið Verðandi og voru kenndir við það og nefndir "Verðandimenn". Gestur fæddist á Miðhúsum í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum árið 1875 og hélt síðan til Kaupmannahafnar, þar sem hann nam guðfræði við Hafnarháskóla um tveggja ára skeið en hvarf frá námi án þess að ljúka prófi. Hann kom svo heim, dvaldi í eitt ár á heimaslóðum í Reykhólasveit og trúlofaðist þar stúlku en hélt síðan aftur til Kaupmannahafnar að ljúka námi. En nokkru eftir að þangað kom fékk hann bréf frá unnustu sinni, sem sleit trúlofuninni. Varð honum mikið um það og smátt og smátt flosnaði hann aftur upp úr námi. Árið (1882), um það bil sem Kaupmannahafnardvölinni lauk, gaf hann ásamt þeim Einari H. Kvaran, Hannesi Hafstein og Bertel Þorleifsyni út tímaritið Verðandi, þar sem þeir birtu eftir sig verk í anda raunsæisstefnunnar en hún var þá sem óðast að ryðja sér til rúms á Norðurlöndunum. Framlag Gests var smásagan "Kærleiksheimilið", ein þekktasta saga hans. Eftir námsdvölina í Kaupmannahöfn bjó Gestur í nokkur ár í Reykjavík, oft við þröngan kost, og fékkst þá meðal annars við kennslu og skrifstofustörf. Einnig ritstýrði hann blöðum, fyrst "Þjóðólfi" og síðan "Suðra", en útgáfu þess blaðs var hætt 1886. Gestur fluttist til Winnipeg árið 1890 þar sem hann tók við ritstjórn "Heimskringlu", sem var blað Íslendinga í Vesturheimi. Ekki varð ritstjóraferill hans þó langur þar því hann dó úr lungnabólgu í Winnipeg árið eftir. Þá var hann raunar í þann veginn að hætta störfum vegna deilna við útgefendur blaðsins. Gestur var einlægur fylgjandi raunsæisstefnunnar og skrifaði sögur í anda hennar. Hann er þekktastur fyrir smásögur sínar en ýmsar blaðagreinar hans þykja þó með því besta sem eftir hann liggur. Þær voru beittar og lýstu eindregnum skoðunum höfundar síns, sem átti tíðum í hörðum ritdeilum við aðra ritstjóra á þeim tíma, einkum Jón Ólafsson ritstjóra Þjóðólfs og Valdimar Ásmundsson ritstjóra "Fjallkonunnar". Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi. Þetta er listi yfir kosningar til sveitarstjórna á Íslandi sem venjulega eru haldnar á fjögurra ára fresti. Kreari. Kreari (úr ensku: "Crayer") var lítið seglskip, um 30 tonna, með eitt rásegl sem algengt var að nota til vöruflutninga og úthafssiglinga í Norður-Atlantshafi á 14. og 15. öld. Skipið var breitt og óþjált í siglingu en með hlutfallslega mikla lestargetu. Súðbyrðingur. Súðbyrðingur er það kallað þegar skipshliðin (byrðingurinn) er smíðuð þannig að borðin eru fest langsum á kjöltréð þannig að hvert borð skarast við borðin á undan og eftir (skarsúð). Þessi aðferð var notuð við skipasmíðar frá því fyrir 9. öld og er eitt af því sem einkennir t.d. víkingaskip. Íslenskir árabátar voru smíðaðir með þessum hætti fram á 20. öld. Í dag er þessi aðferð enn notuð við smíði lítilla árabáta eins og hinna svokölluðu færeyinga. Sama stallalag á skipshliðinni er einnig stundum haft á plastbátum þar sem það gefur bátnum aukinn stöðugleika. Sléttbyrðingur. Sléttbyrðingur er það kallað þegar hliðar báta (byrðingurinn) eru smíðaðir þannig að borðin liggja utan á grindinni hlið við hlið og mynda þannig samfellda slétta bátshlið. Í mörgum Evrópumálum er orðið yfir sléttbyrðing (t.d. þýska: "Kraweelbeplankung") dregið af heiti karavellunnar sem var spænsk seglskipategund frá 15. öld og var sléttbyrt. Víkingaskip. Víkingaskip er heiti sem notað er yfir ýmsar gerðir skipa sem notuð voru í Norður-Evrópu á víkingaöld eða frá því á 9. öld og fram á 12. öld. Þessi skip voru mismunandi að stærð en öll svipuð að gerð, þ.e. súðbyrt með eitt, ferhyrnt rásegl miðskips, sveigt kjöltré og háa stafna og hliðarstýri. Þeim var bæði hægt að sigla og róa, þótt erfitt sé að hugsa sér að hægt hefði verið að hreyfa til dæmis knörrinn mikið með þeim hætti. Dreki (skip). Dreki er víkingaskip, svonefnt langskip, sem var skreytt útskornu drekahöfði í stafni. Loggorta. Loggorta (úr hollensku: "logger") er lítið, tvímastra seglskip með svonefnd loggortusegl, sem eru uppmjó, skáskorin rásegl og sameina kosti langsegla og þversegla. Skip með þessu lagi voru algengust í Norður-Frakklandi við Ermarsund frá 18. öld til 20. aldar þar sem þau voru notuð sem lítil fiskiskip og flutningaskip. Maison Ikkoku. Maison Ikkoku (jap. めぞん一刻 "mezon ikkoku") er Manga eftir Rumiko Takahashi sem birtist vikulega 1980-1987 í japanska blaðinu Big Comic Spirits. Úr því var gerð Anime-sería sem var sýnd 1986-1988 og einnig nokkrar myndir. Söguþráðurinn. Yusaku Godai reynir að komast í Háskólann og flytur hann til þess í "Maison Ikkoku". Þar hittir hann húsvörðinn Kyoko Otonashi. Hann verður ástfanginn af henni og reynir hennar vegna enn meir að komast inn í skólann til að geta fengið góða vinnu eftir á. En Shun Mitaka elskar hana líka og er hann ríkur og þegar kominn með góða vinnu. Í fyrstu neitar hún báðum en þeir þrengja meir og meir að henni. Íbúarnir í "Maison Ikkoku" eru mjög hrifnir af þessu ástandi og stríða þau Yusaku út af þessu. Hann er aumingi sem kemst varla í gegnum skólann en á hinn bóginn er Mitaka ríkur og lítur mjög vel út. Hvað getur aumingja Yusaku gert? Til að flækja málið á hann tvær kærustur, Kozue og Ibuki. En Mitaka er neyddur af frænda sínum til að giftast annarri stúlku. En það er hið versta mál. Þó að Yusaku og Mitaka séu þolinmóðir geta þeir ekki beðið í eílífu, meðan að til eru aðrar sætar stelpur að velja um. Kyoko þarf því að velja fljótt áður en það verður um seinan. Rásegl. Rásegl eru á seglskipum ferhyrnd eða þríhyrnd segl sem hanga í rá uppi í reiðanum. Slík segl geta verið alveg ferhyrnd eins og á víkingaskipum, en oftast mjókka þau upp og eru trapisulaga þar sem auðveldara er að beita bátnum í hliðarvindi með því að stýra klónum. Þau eru ýmist þversum (skautasegl) á ská (loggortusegl) eða langsum (gaffalsegl, bermúdasegl) miðað við mastrið. Flest stærri þilskip á skútuöld voru rásigld (sbr. fullbúin skip). Á minni bátum, eins og íslensku árabátunum, tóku gaffalsegl eða spritsegl smám saman við af þverseglum á 18. og 19. öld enda henta þversegl mjög illa til að sigla beitivind og eru því erfiðari í meðförum. Korvetta. Korvetta er heiti á litlu léttvopnuðu herskipi sem var aðeins léttari en freigátan og var notuð til eftirlits og strandvarna. Áður fyrr var heitið notað á þrímastra seglskip með fallbyssur aðeins á efsta þilfari sem notað var til njósna eða til að bera skilaboð. Hásiglt skip. Hásiglt skip er stórt seglskip með hefðbundnum seglbúnaði og nær yfir jafnt skonnortur sem fullbúin skip eins og barkskip eða klippara. Hásigld skip eru með eitt eða fleiri toppsegl og toppstangir, ólíkt nútímaseglskútum. Hugtakið varð fyrst almennt með tilkomu árlegu siglingakeppninnar "Tall Ships' Races" sem er keppni á langri leið með sögulegum skipsgerðum. Fullreiðaskip. Fullreiðaskip eða fullrikkari er hásiglt seglskip með minnst þremur möstrum með ráseglum. Slík skip voru notuð sem úthafsskip á skútuöld á 18. og 19. öld þar til gufuskipin leystu þau af hólmi. Gaffalsegl. Þrímastra skonnorta með þrjú gaffalsegl og tvo gaffaltoppa. Gaffalsegl er ferhyrnt rásegl sem beitt er langsum og haldið er uppi af rá sem nefnist gaffall. Gaffallinn er hífður upp með tveimur dragreipum þar sem annað er við mastrið en hitt (upphalarinn) stjórnar hallanum á gafflinum. Stundum er lítið toppsegl, gaffaltoppur, dregið upp fyrir ofan gaffalinn. Þessi tegund segla var algeng á afturmastri (messansiglu). Þar sem gaffalsegl eru mjög meðfærileg, auðvelt að venda og hægt að sigla með þeim beitivind, tóku þau smám saman við af þverseglum á minni bátum. Skonnortur eru með gaffalsegl á öllum möstrum. Beiting (siglingar). Beiting í siglingum lýsir því hvernig seglum er hagað eftir vindi þegar siglt er á seglskútum. Kulborð(i) ("vindborði") er sú hlið bátsins sem snýr að vindi og hléborð(i) ("skjólborði") sú sem snýr undan. Beitt er á stjórnborða þegar vindur kemur á stjórnborða (þegar stjórnborði er kulborðs) og öfugt. Beitivindur. Þegar siglt er skáhallt á móti vindi er talað um að sigla beitivind, beita upp í vindinn, bíta eða flaska. Þá er bóman eða ráin höfð eins samsíða bátnum og hægt er. Ef beitt er of stíft upp í vindinn fer vindurinn úr seglunum og þau blakta (þau kelur). Vissar gerðir seglskipa (s.s. skonnorta og slúppa) eiga betra með að sigla beitivind en aðrar. Erfiðara er að sigla beitivind með þverseglum en langseglum. Þegar siglt er beint móti vindi þarf skipið að krusa, krussa eða slaga þannig að fyrst er beitt á eitt borð, síðan á hitt og svo koll af kolli. Vindurinn er yfirleitt aldrei stöðugur úr einni átt, heldur sveiflast nokkrar gráður með vissu millibili og hægt er að nýta sér það til að auka hraða að marki. Við land er líka hægt að nýta sér þá staðreynd að vindáttin sveigist til við landslagsþætti eins og höfða, víkur og nes. Hver vending dregur úr ferð skipsins og því reynir skipstjóri að lágmarka þann fjölda vendinga sem þarf til að ná settu marki. Talað er um að beita hátt eða stíft þegar reynt er að sigla eins mikið móti vindi og skipið ræður við án þess að seglin kali, en gefa meira eftir eða láta meira undan þegar vindurinn er tekinn meira á hlið. Hliðarvindur. Siglt er hliðarvind eða hliðarkylju þegar vindurinn kemur á bátinn á hlið. Þá er bóman höfð í um 30° horni miðað við bátinn. Undanhald. Bitahöfuðsbyr er þegar siglt er skáhallt undan vindi. Lens eða undanhald er þegar vindurinn kemur aftan á bátinn. Þegar siglt er lens er bóman höfð í 90° horni miðað við bátinn. Beggja skauta byr er þegar vindur kemur beint aftan á bátinn. Á bátum með langsegl er þá hægt að beita þeim sitt á hvað þannig að t.d. framsegl og stórsegl standa út af sínu hvoru borðinu og bæði seglin fá jafnmikinn vind. Vending. Að snúa bátnum þannig að vindurinn komi á aðra hlið bátsins en áður er kallað að venda. Stagvending er þegar vent er upp í vindinn en kúvending þegar vent er undan vindi. Stagvending er auðveldari þar sem staða bómunnar breytist lítið. Reiði (skip). Reiði er allur sá útbúnaður seglskipa sem fær vindinn til að knýja skipið áfram. Reiðinn er því öll siglutré (bæði rár og siglur), seglin sjálf og stögin sem halda öllu á sínum stað. Reiðinn er festur við skipsskrokkinn. Hann er að hluta fastur (fastareiði) og að hluta laus (lausareiði) til að hægt sé að beita seglum eftir vindi. Eintrjáningur. Eintrjáningur (eða eikja) er frumstæður árabátur sem er hogginn til með því að hola út gegnheilan trjástofn. Eintrjáningur er elsta bátagerð sem fundist hefur, þeir elstu frá steinöld, hafa fundist við fornleifauppgröft í Þýskalandi. Orðið "Eikja" er oftast haft um eintrjáninging sem er búinn til úr innanholaðri eik. Eintrjáningar voru notaðir af indíánum í Norður- og Suður-Ameríku. Til að hola út trjástofninn var notast við eld, auk hinna ýmsu amboða. Til að auka stöðugleika eintrjáningsins fyrir lengri siglingar er sett á hann flotholt, einn eða fleiri minni drumbar festir með löngum trésköftum þannig að þeir liggja samsíða bátnum í vatninu. Grímur Thomsen. Grímur Thomsen (15. maí 1820 – 27. nóvember 1896) var íslenskt skáld, bókmenntafræðingur, þingmaður og bóndi. Nám og störf Gríms. Grímur var fæddur og uppalinn á Bessastöðum en faðir hans, Þorgrímur Tómasson gullsmiður (kallaði sig Tomsen), var skólaráðsmaður þar. Grímur lærði í heimaskóla hjá séra Árna Helgasyni í Görðum. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi 17 ára sigldi hann til Kaupmannahafnar og lauk hann meistaraprófi í samtímabókmenntum frá Hafnarháskóla 1845, ritgerð hans fjallaði um Byron lávarð. Níu árum seinna var honum veitt doktorsnafnbót við Kaupmannahafnarháskóla. Í Kaupmannahöfn kom hann að útgáfu Nýrra félagsrita ásamt Jóni Sigurðssyni. Grímur starfaði árum saman í utanríkisþjónustu Dana en fluttist síðan alfarinn til Íslands og settist að á Bessastöðum, sem hann keypti af konungi. Grímur sat lengi á Alþingi og bjó á Bessastöðum til dauðadags. Grímur sótti sér gjarnan yrkisefni í fortíðina að hætti rómantískra skálda og þótti nokkuð forn í hugsun. Grímur og Danir. Sagt er að Grímur hafi fyrstur manna vakið athygli Dana á Byron lávarði, því að áður en Grímur skrifaði ritgerð sína um hann, áttu Danir ekkert rit að gagni um hann. Hann vakti einnig fyrstur eftirtekt Dana á Johan Ludvig Runeberg og útvegaði honum riddarakross hjá Halli ráðgjafa. En merkast var þó það, að Grímur kenndi Dönum að meta H.C. Andersen og ævintýri hans. Áður en Grímur skrifaði um hann hafði Andersen ort og ritað ævintýri í nær heilan mannsaldur og borið það eitt úr býtum, að Danir höfðu skammað hann jafnt og þétt sem fábjána og hálfvita. Sögusagnir af Grími og hinni belgísku tungu. Grímur átti tal við háttsettan mann frá Belgíu. Sá fór að spyrja um ýmislegt frá Íslandi og meðal annars hvaða mál Íslendingar töluðu. Grímur svaraði því til að það væri íslenska, hin gamla norræna tunga Eddukvæðanna. "Já", segir hinn, "þið menntamennirnir. En hvaða mál talar skrílinn?" Þá svaraði Grímur: "Skríllinn. Hann talar auðvitað belgísku." Jón Thoroddsen eldri. thumb Jón Thoroddsen (5. október 1818 eða 1819 – 8. mars 1868) var sýslumaður og rithöfundur og er frægastur fyrir að hafa skrifað fyrstu íslensku skáldsöguna með nútímasniði. Jón fæddist á Reykhólum á Barðaströnd. Hann stundaði nám í Bessastaðaskóla og fór síðan til Kaupmannahafnar og las lög við Hafnarháskóla. Jón varð sýslumaður Barðstrendinga og bjó bæði í Flatey á Breiðafirði og Haga á Barðaströnd. Síðar varð hann sýslumaður Borgfirðinga og bjó á Leirá. Jón var lipurt ljóðskáld en er þó kunnastur fyrir að hafa skrifað fyrstu íslensku skáldsögurnar með nútímasniði. Eru það Piltur og stúlka sem kom út 1850 og Maður og kona sem hann dó frá ólokinni en hún var gefin út 1876, átta árum eftir dauða hans. Báðar eru sögurnar rómantískar ástarsögur sem gerast í íslenskri sveit. Aðalpersónur þeirra eru fremur litdaufar en aukapersónum er mörgum listilega vel lýst og hafa sumar lifað með þjóðinni fram á þennan dag, sbr. Gróu á Leiti. Grímur Skútuson. Grímur Skútuson (d. 1321) var norskur munkur sem var vígður til biskups í Skálholti en komst aldrei til Íslands. Hann var áður munkur af Benediktsreglu og ábóti í Hólmi. Raunar má segja að ekki hafi gengið vel að koma eftirmanni Árna Helgasonar á biskupsstól því að eftir að hann dó var prestur að nafni Ormur Þorsteinsson kosinn og fór hann út með skipi um sumarið til að taka vígslu. Hann dó í Noregi um veturinn óvígður. Þá var Ormur nokkur Steinsson kosinn í hans stað en hann var tregur til, fór í suðurgöngu til Rómar og dó á leiðinni. Það var ekki fyrr en lát hans fréttist til Noregs sem Grímur var kosinn og vígður en hann dó um vorið eða sumarið 1321 á meðan beðið var eftir siglingu til Íslands. Þótt hann væri ekki biskup nema þrjá mánuði tókst honum að eyða drjúgu fé úr sjóðum Skálholtsstóls í kveðjuveislur sínar. Þess vegna var hann kallaður Skurð-Grímur og er stundum ekki talinn með í biskuparöðinni. Íhaldsflokkurinn. Íhaldsflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður í Reykjavík 24. febrúar 1924 af tuttugu alþingismönnum sem höfðu átt aðild að Borgaraflokknum í Alþingiskosningunum 1923. Íhaldsflokkurinn var fyrsti eiginlegi hægriflokkurinn á Íslandi, myndaður í andstöðu við Framsóknarflokkinn og Alþýðuflokkinn, og hafði á stefnuskrá sinni að lækka álögur á fyrirtæki og leggja niður og sameina ríkisfyrirtæki og stofnanir. 22. mars 1924 tókst Íhaldsflokknum að mynda ríkisstjórn með stuðningi Bjarna Jónssonar frá Vogi sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins sat til 1927 undir þremur forsætisráðherrum: Jóni Magnússyni (sem lést frá embættinu), Magnúsi Guðmundssyni og Jóni Þorlákssyni. Í kosningunum 1927 missti flokkurinn meirihluta á þingi og Framsóknarflokkurinn myndaði ríkisstjórn með hlutleysi Alþýðuflokksins. 1929 sameinuðust svo Íhaldsmenn Frjálslyndum og mynduðu Sjálfstæðisflokkinn þar sem fyrsti formaður var Jón Þorláksson. Kristján Jónsson fjallaskáld. Kristján Jónsson fjallaskáld (20. júní 1842 – 9. apríl 1869) fæddist í Krossdal í Kelduhverfi og ólst upp í þeirri sveit og í Öxarfirði. Á árunum 1859-1863 var hann vinnumaður á Hólsfjöllum. Fór hann þá að birta kvæði eftir sig í blöðum, meðal annars Dettifoss, og var þá farið að kalla hann fjallaskáld. Kristján fór í Lærða skólann í Reykjavík 1864 en sagði sig úr honum 1868 og gerðist barnakennari í Vopnafirði þar sem hann dó árið eftir, aðeins tuttugu og sex ára að aldri. Bölmóður og vonleysi einkennir mörg ljóða Kristjáns eins og reyndar var algengt í ljóðum margra síðrómantískra skálda. Sigurður Breiðfjörð. a> mynd af honum eftir minni. H. P. Hansen gerði þessa stungu eftir teikningu Helga. Sigurður Breiðfjörð ("Eiríksson") (4. mars 1798 – 1846) var fæddur í Rifgirðingum á Breiðafirði. Sigurður fór ungur til Kaupmannahafnar og nam þar beykisiðn. Þar kynntist hann einnig dönskum skáldskap og hreifst einkum af ljóðum skáldsins Jens Baggesen. Eftir að Sigurður kom heim fékkst hann við verslun og beykisiðn. Hann fór síðan aftur til Kaupmannahafnar og hugðist nema þar lög en úr því varð lítið og fékk hann þá vinnu hjá einokunarverslun Dana á Grænlandi og var þar í þrjú ár. Á þeim árum orti hann ýmislegt, meðal annars Númarímur sem jafnan eru taldar bestar rímna hans. Eftir veru sína á Grænlandi dvaldist hann á Íslandi til æviloka. Sigurður orti geysimikið, einkum rímur, og er trúlega þekktasta rímnaskáld sem uppi hefur verið. Sigurður hvílir í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Steingrímur Thorsteinsson. Steingrímur Thorsteinsson (1831 – 1913) fæddist á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1851 og sigldi síðan til Kaupmannahafnar og settist í Hafnarháskóla. Þar hóf hann nám í lögum en hætti því og lagði stund á fornmálin, grísku og latínu, og sögu og norræn fræði. Hann kom til Íslands 1872 og gerðist þá kennari við Lærða skólann í Reykjavík og varð að lokum rektor hans og því embætti hélt hann til dauðadags. Steingrímur var mikilvirkur þýðandi og sneri meðal annars á íslensku Þúsund og einni nótt og þýddi Ævintýri og sögur eftir H. C. Andersen. Þá þýddi hann fjölda ljóða eftir ýmis frægustu skáld Evrópu og orti sjálfur í anda rómantísku stefnunnar. Var hann eindreginn fylgismaður Jóns Sigurðssonar í þjóðfrelsisbaráttunni og sýnir kvæði hans Vorhvöt vel afstöðu hans í stormum þeirra átaka. Sonur Steingríms var Haraldur Hamar. Þorsteinn Erlingsson. Þorsteinn Erlingsson (27. september 1858 – 28. september 1914) fæddist í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og ólst upp í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð. Þorsteinn orti mikið og er ádeila á kirkju og ríkjandi hefðir í þjóðfélaginu ríkur þáttur í skáldskap hans. Að öðrum þræði var hann mikill unnandi þjóðlegra hefða og náttúru landsins og speglast hvort tveggja í ljóðum hans. Kveðskapur hans er léttur og lipur og má segja að í honum togist á raunsæi og rómantík. Ljóðasafn hans nefnist "Þyrnar". Þorsteinn var mikill dýravinur og skrifaði dýrasögur. Þá fékkst hann og nokkuð við þýðingar. Foreldrar hans hétu Þuríður Jónsdóttir og Erlingur Pálsson. Miklir erfiðleikar voru við fæðingu hans og var það Skúla lækni að þakka að Þorsteinn lifði hana af. Þorsteinn átti tvíburasystur, Helgu, sem var skírð í höfuðið á ömmu þeirra og Þorsteinn sömuleiðis látinn heita í höfuðið á fósturafa sínum. Amma Þorsteins, Helga Erlingsdóttir, bjó þá ásamt seinni manninum sínum, Þorsteini Einarssyni, í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, sem eins og margir vita, eru sögustaðir Njálu. Þorsteinn fékk þó ekki að vera lengi heima því foreldrar hans bjuggu í mikilli fátækt og aðeins eins mánaðar gamall var hann tekinn í fóstur af Helgu, ömmu hans, og Þorsteini fósturafa hans. Hann átti heima í Hlíðarendakoti þangað til hann var 18 ára gamall. Hann naut mikillar umhyggju í Hlíðarendakoti af öllum þeim sem bjuggu með honum og minntist hann þessa tíma vel. Þorsteinn fór að yrkja ungur, hann var skapstór en líka viðkvæmur og kom blanda af þessu tvennu víða fram í ljóðum hans. Meðal náfrænda Þorsteins var móðurbróðir Helgu í Hlíðarendakoti, Páll Jónsson. Páll var prestur og var mjög vinsæll maður á sinni tíð. Hann var einnig skáld. Fólki þótti hann gáfaður og ágætlega hagorður, en hafði ekki metnað né tíma til þess að sinna skáldskapinu. Þorsteinn hafði miklar mætur á Páli og minntist hans oft. Fyrstur manna til að taka eftir því hvað Þorsteinn væri efnilegur var enginn annar en Jón Jónsson, sem var söðlasmiður, hann hvatti því Þorstein til þess að yrkja. Sumarið 1876 fóru fleiri að taka eftir því sem í Þorsteini bjó, og voru það þeir Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinsson, tvö þjóðskáld Íslands. Talið er að Jón söðli hafi talað við þá Matthías og Steingrím, enda litlar líkur á því að ungur piltur eins og Þorsteinn færi að senda slíkum stórmönnum ljóðin sín. Eftir þetta dvaldi hann mest hjá þeim Matthíasi og Steingrími. Steingrímur kenndi honum latínu og Matthías útvegaði honum fjárstyrk. Þetta var stórt tækifæri sem Þorsteinn fékk, því vissulega hefði hann endað sem smábóndi, með afar þröngt sjónarhorn og því hefði hann aldrei átt kost á jafnfjölbreyttri reynslu né jafn góðri menntun. Þorsteinn fluttist til Reykjavíkur árið 1876, og hóf þar skólagöngu sína. Varð þó fyrst að vera í undirbúningsnámi í eitt ár. Matthías og Steingrímur fengu þriðja þjóðskáldið, Benedikt Gröndal, til liðs með sér til að undirbúa hann undir skólann og skapaðist mikil vinátta á milli Benedikts og Þorsteins sem hélst órofin til æviloka. Þeir Steingrímur og Þorsteinn voru einnig miklir vinir. Þorsteinn hafði þó ekki jafn góð tengsl við Matthías. Það skýrist meðal annars á því að íslenskir stúdentar á Hafnarárum Þorsteins fundu sér til deiluefnis Matthías og Steingrím. Mætti þá segja með vissu að Þorsteinn hafði verið með Steingrími í liði og var því greinilegur skoðanamunur með þeim Matthíasi og Þorsteini. Það verður þó að segjast að Þorsteinn kunni að meta skáldskap Matthíasar og þótti honum ljóðin hans skína af mikilli fegurð. Þetta ár birti hann einnig í fyrsta sinn kvæði á prenti, sem kom út í Þjóðólfi og var það erfiljóð um sveitunga hans. Þorsteinn var í lærða skólanum í Reykjavík í sex ár, frá 1877 til 1883. Á þessum tíma virtist hann hafa ekki kynnst nýju bókmenntastefnu sem tók að myndast á Norðurlönum (raunsæisstefnunni), enda var Steingrímur mikill rómantíker og benti honum frekar á rit eldri skálda, innlendra og útlendra. Á þessum tíma hafði hann birt nokkur ljóð í anda Steingríms Thorsteinssonar, um fegurð náttúrunnar og sælu æskunnar. Í sumum ljóðum sást einnig heimshryggðaráhrif frá Kristjáni Fjallaskáldi sem áttu það til með að byrja með mikilli jákvæðni en enduðu svo á frekar þunglyndislegan hátt, til dæmis ljóðið Æskan sem einnig einkennist af tvísæi. Orðinn stúdent, ákvað Þorsteinn að sigla til Kaupmannahafnar og læra lögfræði þar. Hann áttaði sig samt fljótt á því að lögfræðinám væri ekki hans áhugamál svo hann sýndi því námi lítinn áhuga. Hann hætti því að læra lögfræði og ákvað að læra málfræði og tungumál sem hann sýndi mun meiri áhuga og innritaðist loks í norrænu, en lauk aldrei prófi vegna veikinda og fátæktar. Á meðan hann dvaldi í Kaupmannahöfn kynntist hann mörgum íslenskum stúdentum, þeirra á meðal Hannesi Hafstein. Í Kaupmannahöfn fór Þorsteinn að þroskast sem skáld og hafði afturhaldssöm stjórn sem hélt þegnum borgarinnar í eymd, mikil áhrif á hann. Þetta ástand breytti honum í jafnaðarmann löngu áður en sú kenning barst til Íslands. Hann skrifaði bréf þar sem kom meðal annars fram hvað honum fyndist um rómantískan skáldskap. Þar kom einnig fram að honum væri farið að leiðast að yrkja um fegurð náttúrunnar og indæli. Ljóðin hans á Kaupmannahafnarárunum bera þó best vitni á því hvað sálarlífið hans breyttist mikið. Hann gerðist meðal annars auðvaldshatari, lýðvaldsdýrkari, smælingjaástvinur, kirkjuhatari og guðstrúarleysingi. Það ber þó að hafa í huga að það sem gerði hann að trúarleysingja var hin gamla, algenga guðshugmynd kirkjunnar. Guð er skilgreindur á þann hátt að hann eigi að vera óendanlega voldugur konungur, í öðrum orðum, almáttugur. Samkvæmt þessu ætti hinn almáttugi guð ekki að leyfa öllum þessum svívirðingum og kúgunum viðgangast ef hann ætti að vera talinn góður. Þorsteini fannst guð því ekki vera til, og ef hann væri til þá vildi Þorsteinn ekki ganga þeim konungi á hönd sem leyfði allt þetta gerast. Þorsteinn var þó ekki trúlaus maður, það sem hann trúði á megi teljast jafn mikilvægt og að trúa á guð. Hann trúði á fegurðina, réttlætið, kærleikann og sannleikann. Þetta sýnir að þótt Þorsteinn hafi breytt um viðhorf á veröldinni þá hætti hann aldrei að taka eftir fegurðinni hennar. Í Kaupmannahöfn vann Þorsteinn fyrir sér með stundakennslu en lifði samt í fátækt. Um 1890 kvæntist hann danskri ekkju sem sennilega hefur bjargað honum frá hungursdauða, og upp úr því fór hann að birta ný ljóð á prenti. Hann sneri aftur til Íslands árið 1895 á vegum Valtýs Guðmundssonar til þess að kanna fornar húsarústir. Á Íslandi kynntist hann sautján ára stúlku, Guðrúnu Jónsdóttur, og heillaðist gersamlega af henni. Hann varð þó að fara aftur til Kaupmannahafnar og sneri loks heim fyrir fullt haustið 1896. Konan hans kom til hans sumarið eftir en var þó bara í nokkra mánuði, þá fór hún aftur til Danmerkur og áttu þau aðeins bréfaskipti eftir það. Margt bendir til þess að Þorsteinn elskaði hana ekki, hún fékk engin ástarljóð frekar en landið hennar. Á Íslandi sneri hann sér að blaðamennsku og var ritsjóri Bjarka á Seyðisfirði og síðan Arnfirðings á Bíldudal. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1902 og bjó þar síðan til æviloka. Á þeim árum hitti hann Guðrúnu Jónsdóttur aftur og varð hún þá seinni kona hans. Þau eignuðust saman tvö börn. Þrátt fyrir það að þau lifðu í fátækt, þar sem tekjur af ristörfum og stundakennslu Þorsteins voru litlar, voru þau hamingjusöm enda elskuðu þau hvort annað. Þorsteinn lést svo úr lungnabólgu 28. september árið 1914, sem var daginn eftir 56. afmælið hans. Þótt Þorsteinn Erlingsson mætti teljast sem blanda af bæði rómantísku – og raunsæisskáldi, vilja flestir flokka hann sem raunsæisskáld. Meginástæða fyrir því er sú að raunsæisljóðin sem hann orti þegar hann dvaldi í Kaupmannarhöfn ertu talin vera merkilegustu ljóð eftir hann. Þau voru byltingarljóð sem höfðu mun meiri áhrif en rómantísku ljóðin hans. Þorsteinn hafði þó óveruleg áhrif á skáldakynslóðina sem kom fram um aldamótin, miðað við vinsældir hans meðal almennings. Skýring á því er eflaus sú hve lítil endurnýjun fólst í formi ljóða hans. Honum tókst þó að forðast þær klunnalegu umorðanir sem einkenndu mikið af kveðskap 19. aldar. Þorsteinn gaf út ljóðabók árið 1897 sem hét "Þyrnar" og einkenndust mörg ljóð í henni af hvössum ádeilum. Vert er að minnast á menningarkvæði sem hann orti sem olli frægasta hneyksli íslenskra bókmennta í útlöndum sem var kallað Raskhneykslið, árið 1887. Jeffrey Dahmer. Jeffrey Lionel Dahmer (21. maí 1960 – 28. nóvember 1994) var bandarískur raðmorðingi og kynferðisafbrotamaður, sem var m.a. haldinn náhneigð og stundaði mannát. Dahmer myrti 17 unga menn á árunum 1978 til 1991 sem flestir voru af afrísku eða asísku bergi brotnir. Yngri ár. Dahmer fæddist í Milwaukee, Wisconsin. Þegar hann var átta ára gamall flutti hann með fjölskyldu sinni til Bath í Ohio. Dahmer var feminn frá unga aldri. Sem krakki naut hann þess að pynta dýr og á kynþroskaaldri fór hann að dreyma um að gera hið sama við manneskjur. Dahmer var illa meðhöndlaður í æsku og þjáðist mjög af lágu sjálfsmati og skorti á sjálfstrausti. Foreldrar hans tóku eftir því og vildu hjálpa honum með því að gefaa honum hund. Einning fékk hann að skýra yngri bóðir sinn, hann valdi nafnið David. Foreldrar hans skildu á meðan hann var táningur. Skóla árin. Jeffrey byrjaði ungur að drekka og var orðinn alkohólisti áður en hann varð 16 ára. Hann gekk í Ohio State University. Hann var þekktur sem bekkjar trúðurinn í skólanum sínum og var hann oft að fíflast. Það var orðið svo alvarlegt að hann var byrjaður að fá borgað fyrir að vera með fíflalæti í verslunarmiðstöð. Her. Faðir hans fékk hann til að ganga í herinn þar sem hann starfaði sem herlæknir. Dahmer var staðsettur í Þýskalandi en var seinna rekinn vegna drykkjusýki. Árið 1988 var Jeffrey handtekinn fyrir að áreita 13 ára gamlan dreng kynferðislega. Þar með var hann skráður kynferðisafbrotamaður. Stuttu eftir þetta byrjaði hann að myrða fólk, sem endaði með handtöku hans 1991. Morð. Dahmer framdi sitt fyrsta morð þegar hann var átján ára gamall. Hann myrti Stephen Hicks. Jeffrey var á leiðinni heim úr búðinni þegar hann sá puttaling. Jeffrey bauð honum far, puttalingurinn hét Stephen Hicks. Jeffrey fór með Stephen heim til sín þar sem þeir drukku saman. Þegar Stephen vildi fara þá fór Jeffrey fyrir veg hans og sagði Jeffrey að hann vildi ekki að Stephen færi. Þá kom til átaka og enduðu þau þannig að Jeffrey sló Stephen með lóði í hausinn og kyrkti síðan Stephen. Jeffrey skar líkið í búta og gróf það á ruslahaugunum. Hann framdi 16 önnur morð á árunum 1978 til 1991. Flest fórnarlömbin voru svört. Hann bauð þeim heim til sín og er þangað var komið gaf hann þeim drykk sem hann var búinn að lauma í svæfingarlyfi og eftir að þeir sofnuðu kyrkti hann þá, skar líkin í búta. Borðaði þau og geymdi sum líkin í klakabaði svo hann gæti notað þau til að stunda kynlíf með. Sumarið 1991 var Dahmer á „hátindi“ sínum, myrti um það bil einn dreng á viku. Dahmer var dæmdur 1991. Hann fékk fimmtánfaldan lífstíðardóm eða 957 ár. Í fangelsinu réðst á hann annar fangi sem sló hann með lóði. Dahmer dó síðan seinna af áverkum. Beruneshreppur. Beruneshreppur var hreppur við Berufjörð í Suður-Múlasýslu, kenndur við kirkjustaðinn Berunes. Hinn 1. október 1992 sameinaðist Beruneshreppur Búlandshreppi og Geithellnahreppi undir nafninu "Djúpavogshreppur". Búlandshreppur. Búlandshreppur var hreppur í Suður-Múlasýslu. Hann varð til 15. apríl 1940 úr nyrsta hluta Geithellnahrepps, umhverfis kauptúnið Djúpavog. Hinn 1. október 1992 sameinaðist Búlandshreppur Geithellnahreppi og Beruneshreppi undir nafninu "Djúpavogshreppur". Geithellnahreppur. Geithellnahreppur (áður Álftafjarðarhreppur) var hreppur í Suður-Múlasýslu sunnanverðri, kenndur við bæinn Geithellar við Álftafjörð. Hreppurinn náði upphaflega yfir Álftafjörð og Hamarsfjörð allt að Búlandstindi, en 15. apríl 1940 var nyrsti hlutinn umhverfis kauptúnið Djúpavog gerður að sérstökum hreppi, Búlandshreppi. Hinn 1. október 1992 sameinaðist Geithellnahreppur Búlandshreppi og Beruneshreppi undir nafninu "Djúpavogshreppur". Austurland. Kort af Íslandi sem sýnir Austurland litað rautt. Austurland er það landsvæði á Íslandi sem nær frá Langanesi að Eystrahorni. Að norðanverðu eru Bakkaflói og Héraðsflói, þar sem Jökulsá á Brú og Lagarfljót renna út í sjó, en síðan koma Fljótsdalshérað og Austfirðir. Á Austurlandi eru tvær sýslur: Norður-Múlasýsla og Suður-Múlasýsla; og sveitarfélögin Skeggjastaðahreppur, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Mjóafjarðarhreppur, Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur. Frá 1959 til 2003 voru þingmenn Austurlandskjördæmis, þingmenn Austurlands. Joseph Goebbels. Paul Joseph Goebbels (29. október 1897-1. maí 1945) var þýskur stjórnmálamaður. Hann er þekktastur fyrir störf sín sem áróðursmálaráðherra í ríkisstjórn nasista í Þýskalandi 1933-1945. Æska og uppvöxtur. Goebbels fæddist 1897 í Rheydt þar sem í dag er sambandslandið Nordrhein-Westfalen. Hann var sonur Friedrich Göbbels og Katarínu, konu hans. Goebbels átti tvo eldri bræður og tvær yngri systur. Goebbels dúxaði á stúdentsprófi sínu 1917 og gaf sig að því loknu fram sem sjálfboðaliða við þýska herinn. Af heilsufarsástæðum þótti Goebbels óhentugur til herþjónustu og herinn tók ekki við honum. Goebbels nam bókmenntafræði og heimspeki og skilaði 1921 inn doktorsritgerð sinni um Friedrich Wilhelm von Schütz. Eftir námsárin vann Goebbels ýmis störf, þar á meðal sem blaðamaður og í banka. Stjórnmálaferill. Eftir ósigur þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni var Goebbels rótlaus í stjórnmálunum. Hann hafnaði kapítalisma og var bæði þjóðernissinni og gyðingahatari. Um tíma gældi Goebbels bæði við hugmyndir þjóðernissinnaðra og sósíalískra flokka. 1924 gekk Goebbels til liðs við þjóðernisjafnaðarmannaflokkinn. Hann þótti framan af ferli sínum tilheyra vinstri væng flokksins, sem þótti leggja meiri áherslu á jafnaðarmennsku en á þjóðernisstefnu. Hann klifraði hratt metorðastigann innan flokksins og var gerður að yfirmanni flokksins í Berlín og Brandenborg. Hann þótti vinna þróttmikið starf fyrir flokkinn á svæði, sem að öllu jöfnu var talið vera vígi sósíaldemókrata og kommúnista. Goebbels var gerður að yfirmanni áróðusstarfs flokksins á landsvísu og eftir valdatöku nasista 1933 að áróðursmálaráðherra. Áróðursmálaráðherra. Í starfi sínu sem áróðursmálaráðherra var það ábyrgð Goebbels að koma boðskapi flokksins og foringjans til þýsku þjóðarinnar. Hann þótti góður ræðumaður og var oft álitinn einskonar holdgervingur stefnu ríkisstjórnarinnar. Frægasta ræða Goebbels mun vera ræða sem hann flutti í Sportpalast-íþróttahöllinni í Berlín 1943 þar sem hann kunngjörði að Þjóðverjar hyggðust heyja hið algera stríð. Andlát og eftirmæli. Goebbels framdi sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín þann 1. maí 1945, einum degi á eftir Hitler. Goebbels og eiginkona hans, Magda frömdu bæði sjálfmorð eftir að hafa gefið börnum sínum sex eitur. Goebbels er fyrst og fremst minnst sem talsmanns nasista, þar sem hann kom svo oft fram fyrir hönd flokksins og foringjans. Hans er líka minnst sem gyðingahatara, en Goebbels fór aldrei leynt með óbeit sína á gyðingum. Hinsvegar er umdeilt hvort Goebbels hafi átt hlut að skipulagningu helfararinnar, sérílagi eftir að dagbækur Goebbels voru gefnar út en hann var færði dagbækur frá 1923 til dauðadags. Goebbels, Joseph Reiknistofnun Háskóla Íslands. Reiknistofnun Háskóla Íslands er tölvudeild Háskóla Íslands. Meðal verkefna stofnunarinnar eru notendaþjónusta innan háskólans, uppbygging og rekstur upplýsinganets H.Í. og hönnun og smíði Uglu. Kalmar (borg). Kalmar er borg sem stendur við Kalmarsund í Suðaustur-Svíþjóð. Borgin er sú þriðja stærsta í Smálöndum á eftir Jönköping og Växjö með 33.788 íbúa árið 2000. Eylandsbrúin tengir borgina við eyjuna Eyland í Eystrasalti. Nintendo DS. Nintendo DS (oft skammstafað DS eða NDS), er leikjatölva frá Nintendo í lófastærð sem hefur tvo skjái. Hún var gefin út árið 2004. Nafnið "DS" stendur fyrir enska heitið "Dual-Screen" ("tveggja-skjáa") eða "Developers' System" ("þróunarkerfi"). Hönnunin á DS líkist skel en hún getur opnast og lokast lárétt (sbr. Game Boy Advanced SP og Game & Watch). Árið 2006 var DS endurhönnuð, og gefin út undir nafninu DS Lite. Virkni. Aðalstarfsemi DS er að spila tölvuleiki; enda er margmiðlunar spilun ekki byggð inn í tölvuna. Nintendo vonar að ný stjórnkerfi og fídusar í DS muni hvetja hönnuði og forritara til að hanna nýjar gerðir af leikjum sem og að höfða til nýs markhóps sem hafi ekki áður spilað tölvuleiki útaf því hve flóknir þeir líta út. Helsti munur á DS og forverum/keppinautum hennar er augljóslega að vélin hefur tvo skjái. Vélin hefur einnig hljóðnema og neðri skjár hennar er snertinæmur. DS styður einnig þráðlausa nettengingu með 802,11b staðli, og heimilar það fólki að tengjast við aðra DS notendur á stuttu færi (eða frá 9 -30 metrum eftir aðstæðum) eða í gegnum Nintendo Wi-Fi þjónustuna með því að tengjast Wi-Fi heitum reitum. Steingrímur trölli. Steingrímur trölli er sá landnámsmaður sem á að hafa numið Steingrímsfjörð á Ströndum samkvæmt sögn í Landnámu. Hann á að hafa byggt sér bæ í Tröllatungu og haft skip uppi við Hrófá. Til er þjóðsaga um að hann sé heygður með fjársjóði sínum í Steingrímshaugi í Staðarfjalli ofan við Staðarkirkju. Grímsey á Steingrímsfirði er þó samkvæmt Landnámu ekki kennd við Steingrím trölla, heldur Grím Ingjaldsson, sem hafði þar vetursetu, föður Sel-Þóris. Í Landnámu er sagt að Oddur munkur sé kominn af Steingrími trölla. Hugsanlegt er að sögur um Steingrím trölla hafi orðið til þess að til varð jólasveinninn Steingrímur sem kemur aðeins fyrir í tveimur nafnaþulum með nöfnum jólasveina sem Jón Árnason fékk frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni (f. 1835) frá Stað í Steingrímsfirði. Sveinn spaki Pétursson. Sveinn spaki Pétursson (~1420 – 1476) var biskup í Skálholti frá 1466 til 1476. Ekkert er vitað um ætt hans nema hvað Oddur Pétursson, prestur á Hrepphólum og síðar í Stafholti í Hrunamannahreppi 1474-1491 eða lengur mun hafa verið bróðir hans. Sveinn var orðinn kirkjuprestur í Skálholti 1448 og var þar því alla biskupstíð Marcellusar, sem aldrei kom til Íslands en sendi umboðsmenn sína. 1462 var hann orðinn officialis og tók svo við biskupsembætti af Jóni Stefánssyni Krabbe, sem dó 1465. Sagt er að hann hafi verið fróður og margkunnandi. Ýmsar þjóðsögur eru til um spádómsgáfu hans, meðal annars að hann hafi spáð fyrir um eftirmenn sína og siðaskiptin. Í þjóðsögum er einnig sagt að sumir hafi talið hann kunnað hrafnamál, en aðrir segja að það væri ekki hrafn, heldur einhver andi í hrafnslíki, illur eða góður, sem hann hefði mök við. Annars er fátt vitað um biskupstíð hans. Hann virðist ekki hafa verið mikill framkvæmdamaður og þóttu húsakynni á biskupssetrinu í lélegu ástandi þegar hann féll frá. Sú ágiskun er til að Sveinn spaki sé sá maður sem kallaður var Skáld-Sveinn og orti "Heimsósóma" en fyrir því eru lítil rök. Nintendo DS Lite. Nintendo DS Lite (einnig: DS Lite) er endurbætt útgáfa af handhægu leikjatölvunni Nintendo DS sem gefin var út árið 2006. Það eru þó nokkrir munir á DS og DS Lite meðal annars að; stærð hennar er auðsjáanlega minni en stærð Nintendo DS, skjárinn á DS Lite er skarpari, hægt er að velja á milli 4 birtustillinga á DS Lite, og snertiskjárinn er næmari og sterkbyggðari þannig að hann rispast ekki eins auðveldlega. Einnig er tölvan þó nokkuð léttari en upprunalega DS tölvan. Wii. Wii (borið fram eins og enska persónufornafnið "we", IPA: /wiː/) er leikjatölva frá Nintendo, sem áður var þekkt undir dulnefninu "Revolution", er erfingi Nintendo GameCube og er keppinautur Xbox 360 frá Microsoft og PlayStation 3 frá Sony á heimsmarkaði. Athyglisverð þykir hin þráðlausa fjarstýring Wii, Wii fjarstýringin, en hana má nota sem benditæki og hún skynjar hreyfingu og snúning í þremur víddum. Tölvan notast við WiiConnect24, sem leyfir notendum að ná í uppfærslur og að taka á móti og senda skilaboð í gegnum netið, og notar WiiConnect24 afar lítið rafmagn. Nintendo minntist fyrst á tölvuna árið 2004 á fréttafundi á E3 og sýndi hana svo á E3 2005. Satoru Iwata sýndi frumgerð fjarstýringarinnar í september 2005 á Tokyo Game Show. Á E3 2006 vann Wii "Game Critics Awards" fyrir „Best á sýningu“ og „Besta tæki“. Í desember 2006 var Wii kjörinn „Stóri sigurvegarinn í heimilisskemmtun“ ("Grand Award Winner in Home Entertainment") í blaðinu "Popular Science". Tölvan fór fyrst í sölu árið 2006. Fjarstýring. Fjarstýringin fyrir Wii (þekkt undir nafninu Wii remote, Wii-fjarstýring eða Wii-mote) notast við hreyfiskynjun í leikjatölvuspilun, sem er áður óþekkt. Þetta er notað á marga vega eins og; ef notandi sveiflar Wii-fjarstýringunni þá sveiflar persónan í leiknum sverði, sker í uppskurði, sveiflar veiðistöng, sker grænmeti, miðar byssu og svo framvegis. Möguleikarnir eru margir, og vegna þessarar tegundar spilunar koma fram margir leikir sem ekki hefði verið hægt að búa til áður. Potentiam. Potentiam er íslensk þungarokkshljómsveit sem var stofnuð árið 1997. Hljómsveitin hefur gefið út þrjár breiðskífur. Fyrstu tvær í gegnum ítalska útgáfufyrirtækið Avantgarde records, en hina þriðju gegnum Þýska útgáfufyrirtækið Schwarzdorn Producion og gáfu þá út "Years in the Shadows" sem samanstóð af demó upptökum frá árunum 2003 og 2005. Meðlimir. Meðlimir Potentiam eru einnig starfandi með öðrum sveitum ss. Sólstöfum, Fortíð, Curse, Ask the Slave og Kontinuum. Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum. Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum (1857-1933) var íslensk ljósmóðir og skáld. Ólöf fæddist á Sauðadalsá á Vatnsnesi og ólst upp þar á nesinu. Hún lærði ljósmóðurfræði hjá Jónassen lækni í Reykjavík og sigldi síðan til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Eftir heimkomuna var hún um fimm ára skeið ljósmóðir í Reykjavík en giftist þá Halldóri Guðmundssyni og fluttu þau norður að Hlöðum í Hörgárdal og við þann bæ er Ólöf jafnan kennd. Þar bjó hún yfir þrjátíu ár. Eftir það flutti hún til Akureyrar og síðustu árin bjó hún í Reykjavík. Ólöf orti talsvert og skrifaði sögur og ævintýri. Hún gaf út tvö ljóðasöfn og hétu þau bæði "Nokkur smákvæði". Þá skrifaði hún minningar frá bernskuárum sínum á Vatnsnesi og lýsir þar vel örbirgðinni og allsleysinu sem hún var alin upp við. Kvikmynd. Kvikmynd er röð mynda sem birtar eru með stuttu millibili svo að áhorfandanum virðist sem þær hreyfist, þ.e.a.s. persónur og hlutir á myndinni hreyfast til. Til þess að búa til kvikmyndir eru oftast notaðar myndavélar sem taka margar myndir í tímaröð inn á filmu eða á stafrænu formi. Hljóð er einnig tekið upp samtímis og er síðan spilað í takt við kvikmyndina svo áhorfandinn upplifir hljóðið í samhengi við myndirnar. Kvikmyndir eru einnig teiknaðar eða gerðar í þrívídd, þá er notaður tölvubúnaður og öðruvísi myndavélar og hljóðið er tekið upp í hljóðveri. Rússneska. Rússneska (rússneska: русский язык, ["russkij izyk"],) er slavneskt tungumál sem er talað í Rússlandi en er einnig algengt samskipta- og móðurmál í öðrum fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna t.d. Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Úkraínu og Kasakstan. Rússneska er rituð með afbrigði af kýrillísku letri. Hún er eitt þriggja mála sem nú eru notuð sem teljast til austurslavnesku málagreinarinnar, hin tvö eru úkraínska og hvítrússneska. Elstu heimildir ritaðar á austur-slavnesku máli eru frá 10. öld. Rússneskan hefur í gegnum aldirnar orðið fyrir miklum áhrifum frá kirkjuslavnesku, sem telst til suðurslavneskra mála, bæði hvað varðar orðaforða og málfræði. Þar að auki er í málinu gífurlegt magn tökuorða úr frönsku og þýsku yfir hugtök í stjórnmálum, vísindum og tækni. Greining. Rússneska er austur-slavneskt mál innan indóevrópskrar málaættar. Austurslavnesk eru enn fremur úkraínsku og hvítrússnesku. Grundvallar orðaforði, orðmyndunarreglur auk annarrar málfræði og ekki síst bókmenntahefðin hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá kirkjuslavnesku. Kirkjuslavneska sem er enn notuð sem helgimál rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar er suðurslavneskt mál, á meðan að rússneska er austurslavnesk. Mörg orð í nútíma rússnesku ritmáli eru líkari nútíma búlgörsku en úkraínsku eða hvítrússnesku. Austurslavneski orðaforðinn hefur þó oft varðveist í talmáli í ýmsum rússneskum mállýskum. Nafnorð hafa 6 föll. Auk þeirra 4 sem við þekkjum úr íslensku eru staðarfall og tækisfall. Rússneska hefur hvorki ákveðinn né óákveðinn greini og tengisögn í nútíð (er) er ekki notuð. Viktor er námsmaður - Viktor sdutent. Útbreiðsla. Rússneska er opinbert mál í Rússlandi og eitt af opinberum málum í Kasakstan, Kirgistan og Hvíta-Rússlandi. Hún er ein af sex opinberun málum Sameinuðu þjóðanna. Rússneska er aðallega töluð í Rússlandi en er einnig mikið notuð í fyrrum Sovétríkjum. Fram að árinu 1917 var rússneska eina opinbera málið í Rússneska keisaradæminu (að undanteknu Stórfurstadæminu Finnlandi). Á sovéska tímabilinu var opinber stefna að öll mál væru jafnrétthá, en í raun var rússneska hið opinbera mál og var notast mest við hana í öllu opinberu. Eftir upplausn Sovétríkjanna árið 1991 hafa nánast öll hin nýfrjálsu ríki lagt mikið kapp á að styrkja þjóðartungu sína á kostnað rússneskunnar. Í Lettlandi, þar sem meira en þriðjungur íbúa hafa rússnesku að móðurmáli, hefur staða málsins verið mjög umdeild. Stærsti hluti rússneskumælandi íbúa fluttu til landsins frá Rússlandi þegar það var undir hæl Sovétríkjanna og eiga margir Lettar erfitt með að sætta sig við að þeir séu fullgildir íbúar landsins. Sama er í Eistlandi þar sem um fjórðungur íbúa er rússneskumælandi. Í þeim Austur-Evrópulöndum sem voru aðildarlönd að Varsjárbandalaginu var rússneska skyldunám í öllum skólum. Eftir upplausn Sovétveldisins hefur hlutverk rússnesku sem samskiptamál í þessum löndum minnkað verulega og má segja að enska hafi algjörlega tekið yfir því hlutverki hjá yngra fólki. Mállýskur. Mállýskumunur hefur verið mjög mikill í rússnesku þó að munur á milli mállýskna hafi minnkað mikið á 20. öld. Mállýskumunur er bæði hvað varðar framburð, orðaforða og málfræði. Sú rússneska sem notuð er opinberlega og kennd í skólum byggist á mállýsku Moskvusvæðisins. Stafagerð. Rússneska er rituð með afbrigði af kýrillísku letri sem samanstendur af 33 bókstöfum. Fjallabyggð. Fjallabyggð er sveitarfélag nyrst á Tröllaskaga á Íslandi. Sveitarfélagið varð til 11. júní 2006 við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar, að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum 2006. Forsenda fyrir sameiningu bæjanna var að ráðist yrði í gerð Héðinsfjarðarganga sem eru nú orðin að veruleika. Héðinsfjarðargöng og vegspottarnir sem tengjast göngunum eru um 15 kílómetrar. Stysta leiðin á milli þessa tveggja bæja áður en göngin komu voru 62 km löng um Lágheiði, fært um sumartímann og 234 km yfir Öxnadalsheiði þegar Lágheiði er ófær. Norðurþing. Norðurþing er sveitarfélag í Þingeyjarsýslum á Íslandi. Það varð til við sameiningu Húsavíkurbæjar, Öxarfjarðarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Kelduneshrepps sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu í janúar 2006 og tók gildi 10. júní í kjölfar sveitarstjórnakosninganna 2006. Gunnar Pálsson. Gunnar Pálsson (2. ágúst 1714 – 2. október 1791) var íslenskur prestur, fræðimaður og skáld á 18. öld. Gunnar var fæddur á Upsum á Upsaströnd, sonur Páls Bjarnasonar prests þar og konu hans, Sigríðar Ásmundsdóttur. Bróðir hans var Bjarni Pálsson landlæknir en alls voru systkinin 12 sem upp komust. Gunnar nam fyrst í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1735. Hann sigldi síðan til Kaupmannahafnar og tók guðfræðiprófi við Hafnarháskóla. Vegna fátæktar varð hann að hraða námi sínu sem mest og fékk konungsleyfi til að gangast undir próf eftir aðeins 8 mánaða nám. Þegar Ludvig Harboe kom til Íslands 1741 til að hafa eftirlit með kirkjumálum sá hann fljótt að Sigurður Vigfússon, sem þá var skólameistari á Hólum, var ekki hæfur til starfsins. Hætti Sigurður því vorið 1742 en Harboe fékk Gunnar í skólameistarastarfið í staðinn og gegndi hann því allt til 1753 við ágætan orðstír. Árið 1753 varð Gunnar prestur og jafnframt prófastur í Hjarðarholti í Dölum. Því embætti gegndi hann í rúm 30 ár en búnaðist illa, bæði voru mikil harðindi upp úr miðri öldinni og svo var Gunnar ekki mikill búmaður, hafði meiri áhuga á skáldskapariðkun og fræðistörfum. Hann safnaði því skuldum og átti í erfiðleikum þess vegna, auk þess sem honum urðu á embættisglöp og fékk áminningar út af því. Í móðuharðindunum flosnaði séra Gunnar upp og hætti prestsskap en sonur hans tók við Hjarðarholti. Séra Gunnar flutti haustið 1785 vestur að Reykhólum og fékkst þar við kennslu og fræðistörf þar til hann lést. Gunnar var lærður maður og talinn eitt helsta skáld sinnar tíðar. Kveðskapur hans naut vinsælda á 18. og 19. öld en er nú mestallur fallinn í gleymsku. Þó er talið líklegt að hann hafi ort stafrófsvísurnar „A, b, c, d, e, f g“ og eru þær í stafrófskveri sem hann samdi og gaf út og heitir "Lítið ungt stöfunarbarn". Hann fékkst einnig við skýringar á fornyrðum og skrifaði prentsmiðjusögu Íslands. Hann átti óvenjulega gott bókasafn og skildi eftir 120 bindi í Dölum þegar hann flutti vestur í Reykhóla. Bréfasafn hans kom út í tveimur bindum á árunum 1984-1997. Kona Gunnars var Margrét Erlendsdóttir prests Guðbrandssonar á Kvíabekk í Ólafsfirði. Þau áttu einn son, Pál Gunnarsson prest, síðast í Saurbæjarþingum. Bær. Bær er þétt byggð með hundruðum til nokkur þúsund íbúa. Almennt er bær talinn stærri byggð en þorp en minni en borg. Bær getur líka verið borgarhluti. Einnig er orðið haft um sveitabæ og er sú merking upprunalegri. Reyklausi dagurinn. Reyklausi dagurinn er dagur tileinkaður baráttunni gegn reykingum og ber upp á 31. maí ár hvert. Honum var komið á 1987 af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni til þess að vekja athygli á skaðsemi tóbaksreykinga. Fyrsti reyklausi dagurinn var haldinn 31. maí 1988. Flóahreppur. Flóahreppur er hreppur í austanverðum Flóa. Afmarkast hann af Árborg í vestri, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Hvítá í norðri, Þjórsá í austri og Atlantshafi í suðri. Hreppurinn varð til 10. júní 2006 við sameiningu þriggja hreppa; Hraungerðishrepps, Villingaholtshrepps og Gaulverjabæjarhrepps. Vefrit. Vefrit er ígildi tímarits á netinu. Það eru nokkur atriði sem hægt er að nota til aðgreina vefrit og blogg. Vefrit hafa marga greinahöfunda (þó eru til hópblogg), lengri greinar, reglulegri birtingar (ekki bara þegar höfundur fær innblástur) og einhvers konar ritstjórn. Blogg eru oftast hugsuð sem dagbækur á meðan vefrit er venjulega með skilgreint þema, t.d. fjallað um nýjustu fréttir eða inniheldur sértækar fræðigreinar (eins og heimspekivefritið Pathways). Giuseppe Scarampella. Giuseppe Scarampella var ítalskur fiðlusmiður, sem fæddist í bænum Brescia árið 1838. Hann var kominn af mikilli ætt fiðlusmiða en faðir hans, Paolo Scarampella, fékkst við fiðlusmíði og svo gerðu bræður hans tveir einnig, Angelo Scarampella og Stefano Scarampella, sem hefur átt mestum vinsældum að fagna í seinni tíð. Giuseppe hlaut fyrstu tilsögn í fiðlusmíðum hjá föður sínum en komst síðar í læri hjá Nicoló Bianchi í París fyrir tilstilli ítalska fiðlusnillingsins og tónskáldsins Antonio Bazzini, sem var á þeim tíma áberandi í tónlistarlífi Mílanó og Brescia. Samnemendur hans hjá Bianchi voru meðal annarra Eugenio Praga og Riccordo Antoniazzi. Eftir heimkomuna hóf hann störf hjá fiðlusmiðnum Luigi Castellini í Flórens en búseta hans í höfuðborg Toskanahéraðs varð þess valdandi að hann komst í vinfengi við marga af fremstu tónlistarmönnum Ítalíu auk þess sem honum gáfust tækifæri til að gaumgæfa hljóðfæri eldri meistara. Bróðir hans, Stefano, hlaut nokkra tilsögn í fiðlusmíði frá eldri bróður sínum, Giuseppe, en síðar meir varð hann einn mestur fiðlusmiða Ítalíu. Hann stofnsetti smíðaverkstæði í Brescia árið 1881 en fluttist fimm árum síðar til Mílanó, þar sem hann bjó til æviloka. Stefano varð mun afkastameiri en Giuseppe var og fiðlur hans og knéfiðlur eru sannkölluð meistaraverk. Stefano var mjög litríkur persónuleiki. Hann safnaði uppstoppuðum fuglum og hafði yndi af stangveiði. Hann var þó hvorki þekktur né efnaður í lifanda lífi. Þrátt fyrir það var hann gæddur miklum persónutöfrum síðustu æviárin. Fjölmargir fiðlusmiðir litu á hann sem læriföður sinn, þó aðeins einn þeirra, Geatano Gadda, hafi verið í eiginlegu læri hjá honum. Boccia. Boccia er keppnisíþrótt sem líkist keiluspili og bocca. Hún er hugsuð fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Hún er meðal annars ein af opinberum greinunum sem keppt er í á Ólympíuleikum fatlaðra og er spiluð í yfir 40 löndum á heimsvísu. Markmiðið er að kasta boltum sem næst hvítum bolta á afmörkuðum velli. Annað hvort keppa einstaklingar sín á milli eða þriggja manna lið hvor á móti öðru. Boltar andstæðinganna eru í sitthvorum litnum til aðgreiningar (oftast rauðir og bláir). Það lið sem byrjar kastar hvíta boltanum út á völlinn og kastar síðan fyrsta boltanum sínum. Síðan kastar andstæðingurinn, sá sem er fjær hvíta boltanum kastar áfram þar til að kemst nær, annað hvort með því að koma boltanum sínum nær eða koma hinum boltunum frá. Einnig er hægt að koma hvíta boltanum út af vellinum, þá er hann staðsettur á sérstökum punkti inna á vellinum miðjum, þetta getur breytt stöðu leiksins afar snögglega. Þegar keppt er í liðum skiptir ekki máli í hvaða röð er kastað innan liðsins, það er oftast ákveðið á meðal liðsmanna út frá því hver er í besta færinu. Þegar allir hafa komið boltunum frá sér eru samlitir boltar sem eru nær hvíta boltanum en næsti mótlitur taldir sem stig handa viðeigandi liði. Boltar utan vallar eru ógildir. Í einstaklingskeppni er kastsvæðinu skipt í tvo helminga sem þeir skipta svo um á milli lota. Í liðakeppni eru sex hlutar og liðunum dreift sitt á hvað og á milli lota skipta þau um hluta. Liðin ráða innra með sér hvar hver og einn liðsmaður er staðsettur. Venjulega eru einn til tveir dómarar á vellinum. Þegar þeir eru tveir er gjarnan einn sem sér um stigatöfluna á meðan hinn sér um að mæla fjarlægð á milli boltana og gefa merki með lituðum spjöldum um hver á að kasta næst ef vafi leikur á. Dómarinn sér einnig um að meta hvort boltar eru utan eða innan vallar, auk þess sem þeir fylgjast með því hvort stigið sé út af kastsvæðinu þegar kastað er. Ef það gerist er boltin ógildur. Keppnisíþrótt. Keppnisíþróttir eru þær íþróttir sem stundaðar eru í keppni við aðra. Margar íþróttir eru yðkaðar bæði sem skemmtun eða heilsubót og sem keppnisíþrótt. Þegar íþróttir eru stundaðar í kappi verða þær gjarnan meira spennandi og skemmtilegri, ýmsir hafa þó gagnrýnt þær á þeim grundvelli að þær séu niðurbrjótandi fyrir meirihlutan sem tapar og það sé hægt að njóta íþrótta sem þeirrar heilsubótar sem þær eru þrátt fyrir að engin keppni sé með í spilinu. Keppnisíþróttir eru algengt afþreyingarefni jafnvel fyrir þá sem ekki stunda þær og í kringum það skapast oft sérstök menning (sjá fótboltabullur). Það er heldur ekki óalgengt að einhverskonar veðmál tengist áhorfinu, menn tippa til dæmis á fótboltaleiki eða veðja á veðhlaupahesta. Skíðaíþróttir. Skíðaíþróttir eru af mörgum toga en eiga þó það sameiginlegt að ferðast er um á uppsveigðum fjölum sem renna vel á snjó og ís sé þeim beitt rétt. Venjulega er þeim skipt niður í alpagreinarnar og norrænar greinar. Auk þeirra er skíðaskotfimi og t.d. telemark. Til alpagreina telst svig, stórsvig og brun. Til norræna greina, skíðaganga, skíðastökk og norræn tvíkeppni. Svig. a> keppir í svigi árið 2008. Svig er alpagrein þar sem svigað er mjög ört á skíðum. Svigskíði eru töluvert styttri en stórsvigsskíði og eru meira útbreið. Þegar keppt er í svigi eru sett upp port eins og í stórsvigi og bruni, nema hvað bilið er töluvert minna og það er bara ein stöng hvoru megin án flaggs. Stangirnar eru til skiptis rauðar og bláar til að gefa til kynna röðina sem á að fara í gegnum portin. Stangirnar eru nánast undantekningalaust slegnar niður þar sem keppendurnir reyna að fara sem næst henni til að geta hafið næstu beygju eins ofarlega og unt er og eru því oftast með hlífar á sköflungunum og framan á stöfunum. Venjulega eru farnar tvær ferðir, og ný braut lögð fyrir seinna skiptið. Keppendurnir fá að skoða brautina allavega einu sinni áður en þeir fara af stað. Portaverðir fylgjast með því í hverri ferð hvort keppandi fari í gegnum portið með bæði skíðin í hvert skipti. Samanlagður tími úr báðum ferðum ræður svo úrslitum. Vélbátur. Vélbátur eða mótorbátur er vélknúinn bátur (oftast) með skrúfu. Vélbátar geta verið allt frá litlum opnum skeljum með litla díselvél innanborðs (eða utanborðsmótor) til allt að 500 feta risasnekkjum með flókinni vélasamsetningu. "Hraðbátur" (eða "spíttbátur") er lítill vélbátur sem er hannaður til að ná sem mestum hraða. Keppt er á hraðbátum (t.d. gúmmíbátum) í hraðbáta- og spyrnukeppni. Á Íslandi hófst vélbátaútgerð uppúr aldamótunum 1900 og var í fyrstu stunduð á opnum bátum eða skútum sem flestar höfðu áður verið knúnir með árum eða seglum, en í þá var sett vél (glóðarhaus). En síðar fór útgerðin fram á stærri trillum og síðan á sífellt stærri skipum. Sergio Peresson. Sergio Peresson (1913-1991) var ítalskur fiðlusmiður. Margir af fremstu hljóðfæraleikurum tuttugustu aldarinnar spiluðu á hljóðfæri hans. Í þeim flokki voru meðal annarrra Yehudi Menuhin, Jaime Larido, Isaac Stern, Eugene Fodorog Ivan Galamian. Hann smíðaði einnig knéfiðlu Jacqueline de Pré sem Daniel Baremboim gaf henni árið 1970. Síðan dauða hennar bar að garði hefur sellóið verið í eigu breska sellóleikarans Alison Elderidge. Norman Caroll, konsertmeistari fílharmóníuhljómsveitar Philadelphi, sem sjálf er eigandi tveggja Peresson fiðla, hefur lýst honum sem mestum allra fiðlusmiða. Peresson fæddist í borginni Udine á Ítalíu árið 1913 en hóf ekki fiðlusmíðar fyrr en 1943. Eftir síðari heimsstyrjöldina flutti hann til Venezuela þar sem hann hélt við hljóðfærum sinfóníuhljómsveitarinnar. Á fyrri hluta sjöunda áratugarins fluttist hann til Bandaríkjanna þar sem hann hóf störf hjá William Moenning & Sons í Philadelphiu. Árið 1970 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki í Haddonfield, New Jersey. Árið 1982 hætti hann fiðlusmíðum vegna mikils álags frá vinunni. Hann lést af völdum hjartááfalls á heimili sínu árið 1991, 78 ára gamall. Tengill. Peresson, Segio Antonio Stradivari. Antonio Stradivari (1644 – 1737) var ítalskur fiðlusmiður og líklega einn mesti fiðlusmiða sögunnar. Latnesk útgáfa af nafni hans, Straduvarius og stytting á því „Strad“ eru oft notuð yfir hljóðfæri hans. Stutt ævilýsing. Ekki eru til nákvæmar heimildir um fæðingardag fiðlusmiðsins Antonio Stradivari en flestar þeirra benda til þess að hann hafi fæðst árið 1644(The date 1644 was first disputed in 1883 by E. J. Payne in an article in Groves´ Dictionary, quoting the violin,) þó svo að aðrar segi til um að hann hafi fæðst 1649 eða 1650. Hann var sonur hjónanna Alessandro Stradivari og Önnu Moroni. Hugsanlega hefur hann starfað sem lærlingur á verkstæði Amatis frá 1667-69. Árið 1680 kom hann á fót eigin verkstæði við Piazza San Domenico og brátt fór orð af gríðarlegri færni hans um alla Ítalíu. Hann byrjaði á því að smíða fiðlur líkar þeim sem Amati smíðaði en síðar meir kom persónulegri tónn í verkin og honum fór fram. Þykkt viðarins á hinum ýmsu stöðum var nákvæmlega úthugsuð, form snigilsins breyttist og meiri litur færðist í lakkið. Flestir fiðluleikarar eru á einu máli um það að bestu hljóðfæri hans hafi verið smíðuð á árunum frá 1695-1725. Hljóðfæri smíðuð næstu fimm árin þykja ekki jafn góð. Hljóðfæri smíðuð eftir þennan tíma, merkt honum eru hugsanlega smíðuð af sonum hans tveimur Omobono og Francesco. Stradivari merkti hljóðfæri sín áletruninni "Antonius Stradivarius Cremonensis Faciebat Anno (ártal)" en hin síðari ár merkti hann þau "Sotto la Desciplina d'Antonio Stradivari F. in Cremona". Antonio Stradivari lést í Cremona 18. desember 1737 og var greftraður í San Domenico Basilíkunni. Auk fiðla smíðaði hann hörpur, lágfiðlur og knéfiðlur sem þykja ekki gefa fiðlunum neitt eftir. Af um 1100 hljóðfærum sem Stradivari smíðaði um ævina eru 650 enn til í dag. Varðveisla verkanna. Hljóðfæri Stradivaris eru líklega verðmest allra hljóðfæra sem fáanleg eru og njóta ómældrar virðingar meðal einleikara víða um heim. Sem dæmi um verð einnar Stradivari fiðlu má nefna að 16.maí 2006 seldist fiðla hans Hamarinn á uppboði í New York fyrir 3.544.000$ (eða um 270.000.000 ISKR). Sem dæmi um fræg hljóðfæri Stradivaris má nefna knéfiðluna Duportstradinn sem hefur verið í eigu Mstislav Rostropovich síðan 1974 og Hertogafrúna af Polignac í eigu fiðluleikarans Gil Shaham. Síðan á 18 öld hafa þúsundir hljóðfæra verið merkt sem hljóðfæri Stradivaris en síðan 1891 hefur oft verið bætt við merkið áletrunum á ensku svo sem „Made in Checkoslovakia“ eða „Made in Germany“. Stærsta safn Stradivari hljóðfæra í heiminum tilheyrir konungi Spánar en það samanstendur af tveimur fiðlum, víólu og tveimur sellóum og er til sýnis í fyrrverandi konungshöll Spánar. The Library of Congress í Bandaríkjunum á einnig nokkurt safn Stradivari hljóðfæra. Ásatrúarfélagið Bifröst. Åsatrufellesskapet Bifrost (á íslensku: Ásatrúarfélagið Bifröst) norskur trúarsöfnuður sem helgaður er trú á Æsi og önnur norræn goðmögn. Bifröst er bæði sambandsfélag ásatrúfélaga og blóthópa hér og þar í Noregi sem og eigin söfnuður. Söfnuðurinn var stofnaður árið 1996. Sem opinberlega viðurkenndur trúarsöfnuður nýtur Bifröst opinbers stuðnings og hefur einnig vígslurétt. Nick Hornby. Nick Hornby (17. apríl 1957) er enskur skáldsagna– og ritgerðahöfundur sem býr í London. Hann skrifar gjarnan um þráhyggjur og sitthvað tengt eigin áhugamálum: íþróttir og tónlist. Sum ritverk hans hafa verið notuð í kvikmyndir. Tenglar. Hornby, Nick How to Be Good. How to be Good er skáldsaga eftir enska rithöfundinn Nick Hornby. Sagan fjallar um Katie og þá tilvistarkreppu sem hún er að kljást við. Hjónaband hennar og hins kaldhæðna rithöfundar Davids er afar lélegt og hún reynir því að skilja við hann. David breytist síðan snarlega eftir heimsókn til heilara að nafni DJ Goodnews. Hann lætur af allri kaldhæðni og leiðindum og reynir hvað eftir annað að breyta rétt í einu og öllu, m.a. að laga hjónabandið. Sjósleði. Sjósleði, sjóþota eða sjóköttur er lítið, hraðskreitt, vélknúið skemmtitæki á sjó eða vatni sem siglt er þannig að ökumaðurinn situr eða stendur á því fremur en í, líkt og á bátum. Í útliti minnir það helst á snjósleða og er með stýrishandföng líkt og snjósleðar og hjól. Á sumum gerðum er gefið inn eldsneyti með því að toga stýrið niður. Þetta tryggir að sleðinn stoppi ef ökumaður dettur af. Sjósleðar eru oftast knúnir áfram með vatnsþrýstidælu sem dregur vatnið inn undir sleðann og þrýstir því aftur úr honum. Þeir geta náð miklum hraða og auðvelt er að stýra þeim í krappar beygjur. Tveir til fjórir geta setið saman í einni röð á sleðanum. Margir framleiðendur snjósleða og vélhjóla, s.s. Arctic Cat, Yamaha og Kawasaki, framleiða líka sjósleða. Knattspyrnufélagið Valur. Valur er íslenskt íþróttafélag sem hefur aðstöðu að Hlíðarenda við Laufásveg í Reykjavík. Félagið var stofnað 1911 af drengjum í KFUM, að hluta til að tilstuðlan séra Friðriks Friðrikssonar. Starfsemi félagsins nú til dags er ekki einungis bundin við knattspyrnu, hjá Val er hægt að æfa knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik. Félagið hefur í gegnum tíðina náð mjög góðum árangri á Íslandsmótum í bæði knattspyrnu og handknattleik. Valur er sigursælasta boltaíþróttafélag Íslands með 68 Íslandsmeistaratitla í knattspyrnu, handknattleik og körfubolta og 37 bikarmeistaratitla í sömu greinum eða 105 stóra titla. Tenglar. Valur Valur Valur Terry Pratchett. Sir Terence David John Pratchett OBE (28. apríl 1948) er enskur ævintýrarithöfundur, líklega þekktastur fyrir Discworld bókaröðina. Af öðrum verkum hans má nefna "Johnny Maxwell þríleikinn" og "Bromeliad þríleikinn". Hann vinnur einnig náið með þeim sem yfirfæra verk hans á önnur form, t.d. tölvuleiki og leikrit. Pratchett hóf að skrifa 13 ára gamall, og 15 ára gamall hafði hann fengið sín fyrstu verk birt opinberlega. Fyrsta skáldsagan hans, "The Carpet People", var gefin út 1971. Fyrsta "Discworld" bókin, "The Colour of Magic", kom út 1983, og síðan þá hefur Pratchett skrifað u.þ.b. tvær bækur á ári. Terry Pratchett var söluhæsti rithöfundur Bretlandseyja á tíunda áratug 20. aldar. Í febrúar 2007 höfðu bækur hans selst í u.þ.b. 50 milljónum eintaka á heimsvísu og verið þýddar á 33 tungumál. Um þessar mundir er Pratchett næstmest lesni rithöfundurinn í Bretlandi, og í sjöunda sæti yfir erlenda rithöfunda í Bandaríkjunum. Lesendahópi Pratchetts er oft lýst sem "költ" ("e. cult"). Þann 13. desember 2007 var það tilkynnt að Terry Pratchett væri með Alzheimer sjúkdóminn. Íslenskar þýðingar. Mál og Menning gaf út,Flóttinn" (e. Truckers) árið 1997 og,Undir berum himni" (e. Diggers) árið 2000 í ritröðinni,Ævintýri Nálfanna". Báðar bækurnar eru í þýðingu Þorgerðar Jörundsdóttur (f.1969). Tónleikur gaf út,Litbrigði galdranna" (e. The Colour of Magic) árið 2007 í þýðingu Jóns Daníelssonar (f.1949) og furðuljósið árið eftir. Íslenskar leikgerðir. Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setti upp Örlagasystur eftir bók Terry Pratchett, Wyrd Systers, árið 2003 í Austurbæ. Leikgerðin, sem er eftir Stephen Briggs, var þýdd af Gunnari Frey Steinssyni. Leikstjórar voru Atli Rafn Sigurðsson og Brynhildur Guðjónsdóttir. Heimildir. Pratchett, Terry Pratchett, Terry Nirvana (hljómsveit). Nirvana var gruggrokk-hljómsveit sem var starfandi á síðari hluta níunda áratugarins fram að miðjum tíunda áratugsins. Hljómsveitin hætti störfum eftir að söngvari og gítarleikari sveitarinnar, Kurt Cobain, lést 5.apríl 1994. Saga hljómsveitarinnar. Nirvana var stofnuð árið 1987 í Aberdeen Washington, þegar Kurt Cobain kynntist Krist Novoselic, í gegnum hljómsveitina "The Melvins". Áður en þeir stofuðu Nirvana, voru þeir í mörgum hljómsveitum saman. "Bleach" var heitið á fyrstu breiðskífu sveitarinnar og kom hún út árið 1989. Eftir Bleach kom Nevermind árið 1991, þekktasta skífa þeirra félaga. Incesticide, sem var þriðji diskurinn, kom út árið 1992, og eru á þeim disk 'B-sides'. Síðasti diskurinn sem kom út meðan Nirvana var ennþá starfandi, var In Utero, árið 1993. Seinna eftir að Nirvana hætti, komu út nokkrir diskar. MTV Unplugged in New York kom út í nóvember 1994. From the Muddy Banks of Wishkah kom út 1996, sem eru tökur frá tónleikum á árunum 1989-1994. High Fidelity. High Fidelity er skáldsaga eftir Nick Hornby. Bókin kom út fyrst út árið 1995 og kvikmynd byggð á sögunni kom út árið 2000, en John Cusack lék aðalhlutverkið. Sagan fjallar um plötbúðareigandann Rob sem eyðir tímanum í að búa til lista yfir topp 5 plötur og hluti í lífinu. Hann rifjar upp verstu 5 sambandsslitin sem hann hefur gengið í gegnum, verst voru sambandslitin við Lauru. Þegar faðir hennar fellur frá rennur það upp fyrir þeim báðum að þau eiga samleið og því hefja þau aftur samvistir. Víóla. Víóla eða lágfiðla (einnig stundum kölluð "alto" upp á frönsku eða "bratche" upp á þýsku) er strengjahljóðfæri í fiðlufjölskyldunni. Hún er einskonar millistig milli fiðlu og sellós. Strengir hennar eru vanalega stilltir áttund ofar en strengir sellósins (og hafa þar af leiðir sömu nöfn) og fimmund neðar en fiðlunnar (og eru þar af þrír strengir af fjórum þeir sömu). Dýpsti strengurinn er stilltur á mið-C, hinir í fimmundum upp á við: G D og A. Víóla og fiðla eru mjög skyld hljóðfæri, og fyrir þá sem ekki þekkja þau vel getur verið mjög erfitt að þekkja þau í sundur í sjón. Víólan er hinsvegar miklu stærri en fiðla, og þýðir alþjóðanafnið yfir fiðlu, violin, í raun lítil víóla. Haldið er á víólu á sama hátt og fiðlu: annar endinn er settur milli höku og axlar hljóðfæraleikarans, og vinstri hendin teygð út að hinum endanum. Spilað er á hljóðfærið líkt og önnur í fiðlufjölskyldunni: Með vinstri hendi er þrýst niður á strengina til að ákvarða tónhæð og með þeirri hægri eru lengdargildi ákvörðuð, oftast notandi boga. Til eru sérstakir víólubogar, en nú til dags eru sumir víóluleikarar farnir að nota fiðluboga. Þeir sem ekki gera það, aftur á móti, eru oft mjög ósammála slíkri notkun. Nótur fyrir víólu eru skrifaðar í alt-lykli, sem er ein gerð c-lykils. Hún er eitt aðeins tveggja hljóðfæra sem notar þann lykil undir eðlilegum kringumstæðum, hitt er básúna (sem þó notar oft f-lykil). Í samspili, einkum þegar önnur strengjahljóðfæri eru til staðar, er hlutverk víólunnar oftar en ekki að, ásamt annarri fiðlurödd (ef henni er að skipta), spila millirödd milli radda sellós og fyrstu fiðlu. Helstu víóluleikarar. Lionel Tertis (1876 – 1975) Fæddist í Englandi, sonur pólskra innflytjenda. Fjölmörg tónverk voru skrifuð annaðhvort af hans tilstuðlan eða honum til heiðurs, m.a. Víólu konsert Waltons, Sónata eftir Arnold Bax o.fl. Einnig var Elgar selló konsertinn umskrifaður (af Elgar sjálfum) vegna fyrirspurnar Tertis. Á þeim tímum þótti ekkert tiltöku mál að spila á minni víólur (oft 3/4 stærð) til að auðvelda spilamennskuna, þó þetta kæmi oft niður á tóngæðum. Tertis neitaði þessu alfarið og vildi fá stóra víólu til að fá sem ríkastan hljóm, en fann aðeins of stórt eða of litið hljóðfæri. Upp úr þessum hugleiðingum hófst mikið samstarf við fiðlusmiðinn Richardson og Tertis-víólu módelið var upphaf af miklum breytingum í smíði víóla. William Primrose Paul Hindemith Yuri Bashmet Nabuko Imai Rivka Golani Kim Kashkashian Tabea Zimmerman Garth Knox Konsertar. Béla Bartók William Walton Victor Berlioz - Haraldur í Ítalíu Paul Hindemith - Schwanendreher Benjamin Britten - Lacrimae G. Telemann C. Stamitz F. Hoffmeister sónötur. Johannes Brahms, 2 sónötur fyrir víólu og píanó Dmitri Shostakovich Henry Vieuxtemps Franz Schubert - arpeggione Sóló verk. Paul Hindemith - 4 sóló sónötur Max Reger - 3 svítur C-lykill. C-lykill er lykill notaður í nótnaskrift til að tákna staðsetningu nótunnar mið-C. Hann var á öldum áður mest notaði lykillinn, og var til einn fyrir hverja söngrödd. Í dag eru einungis alt- og tenór-lyklarnir notaðir. Þeir eru með sjaldgæfustu lyklunum: Alt-lykill er vanalega notaður af víólum og tenór Viola da Gama og stundum notaður af básúnum, tenór-lykillinn er stundum notaður af fagottum, sellóum, kontrabössum og básúnum til að forðast of mikið af aukalínum. Myndir af þessum tveimur lyklum eru hér til hliðar. Utanborðsmótor. Utanborðsmótor er lítil, færanleg vél sem er notuð til að knýja báta áfram. Þeir eru hugsaðir sem sjálfstæðar einingar með vél, hjálparkerfi og skrúfu og eru hengdir utaná skut bátsins. Utanborðsmótorar eru líka notaðir sem stýri þar sem hægt er að snúa þeim í festingunni. Helsti kosturinn við utanborðsmótora er að auðvelt er að taka þá af vegna flutninga eða viðhalds. Oftast eru utanborðsmótorar líka bæði léttir og ódýrir miðað við hestöfl. Yfirleitt eru utanborðsmótorar einfaldar tvígengisvélar, en stærri fjórgengisvélar hafa smám saman rutt sér rúms, meðal annars þar sem þær menga minna. Einnig eru til utanborðsmótorar sem ganga fyrir rafmagni. Fyrsti utanborðsmótorinn var búinn til af norsk-bandaríska uppfinningamanninum Ole Evinrude árið 1909. Svartfjallaland. Svartfjallaland eða Montenegró er land í suðaustanverðri Evrópu á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu, Kosóvó og Albaníu. Svartfjallaland var hluti Júgóslavíu mestalla 20. öldina en hafði verið sjálfstætt áður. Eftir upplausn Júgóslavíu á 10. áratug 20. aldar voru einungis Svartfjallaland og Serbía eftir í ríkjasambandi, fyrst undir nafni Júgóslavíu en síðar sem Serbía og Svartfjallaland. Svartfellingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 21. maí 2006 að rjúfa sambandið við Serba og var sjálfstæði formlega lýst yfir 3. júní sama ár. Wright-bræður. Wright bræður voru bandarískir bræður að nafni Wilbur og Orville sem fyrstir flugu flugvél. Árið 1903 urðu tímamót í sögu mannkyns því þá tókst þeim Wilbur Wright (1867 – 1912) og Orville Wright (1871 – 1948) fyrstum manna að ná því að koma mannaðri vélflugu á loft. Fyrsta flug þeirra bræðra varði í 12 sekúndur og vélin náði 20 feta hæð. Þó flugið hafi ekki verið langt þá afsönnuðu þeir kenningar lærðra vísindamanna um að vél sem væri þyngri en loftið gæti ekki flogið. Þetta fyrsta flug átti einnig eftir að skipta sköpum fyrir framtíðarsýn manna því 20. öldin átti efir að verða flugöldin í samgöngusögunni. Uppeldi bræðranna. Wright bræður ólust upp í Dayton, Ohio í Bandaríkjunum. Faðir þeirra, Milton Wright var biskub „í kirkju sameinaðra bræðra í kristi“ og hann var einnig ritstjóri dagblaðs sem kirkjan gaf út. Vegna starfa föður þeirra, þurfti fjölskyldan að flytjast oft en þau seldu aldrei hús fjölskyldunnar í Dayton. Í húsinu voru tvö bókasöfn, annars vegar bókasafn með guðfræðilegu efni og hins vegar bókasafn með fjölbreyttu efni að öðru tagi. Í því umhverfi sem þeir bræður ólust upp í voru börn kvött til að stunda andlega íhugun og til að rannsaka það sem vakti forvitni þeirra. Bræðurnir undu hag sínum við lestur bóka á bókasafni fjölskyldunnar og í gegnum veru sína þar kviknaði áhugi Wright bræðra á flugi. Þegar Wilbur var ellefu ára og Orville sjö ára gaf pabbi þeirra þeim litla leikfangaþyrlu sem var gerð úr korki, bambus og pappír og svo teygju sem var snúið upp á til þess að láta spaðann snúast. Þetta leikfang byggðist á uppfinningu franska brautryðjandans í flugi, Alphonse Penaud. Bræðrunum fannst þyrlan svo merkileg að þeir eyddu næstu árum á eftir í að byggja samskonar þyrlur nema þeir reyndu alltaf að stækka þær en því meir sem þeir stækkuðu þær því verri urðu flugeiginleikarnir. Bræðurnir hættu eftir nokkurra ára tilraunir að þróa þyrluna og snéru sér að tilraunum með flugdreka. Áhuginn jókst á flugi. Áhugi þeirra dvínaði á fluginu í kjölfar tíðra frétta af ofurhugum allstaðar í heiminum sem létu lífið við allskyns misheppnaðar flugtilraunir. Árið 1889 snéru þeir bræður sér að því að hanna prentvél til að prenta út eigið vikublað á pappír sem varð síðar að dagblaði. Nokkrum árum síðar eða 1892 opnuðu þeir reiðhjólaverslun og 4 árum seinna hófu þeir framleiðslu á reiðhjólum undir eigin vörumerki. Sama ár, 1896, lést þýski flugmaðurinn Otto Lilienthal þegar hann var að gera tilraunir með mannaða svifflugu. Þetta brautryðjendastarf Lilienthals sýndi að mannað flug væri mögulegt. Fréttir af þessu slysi vökta athygli Wright bræðra og varð til þess að áhugi þeirra á flugi glæddist á ný. Bræðurnir viðuðu að sér öllu efni sem þeir komust yfir er varðar flug og lásu það, auk þess sem þeir rannsökuðu hvað það var sem Lilienthal hafði flaskað á. Ástæða slyssins reyndist vera að Lilenthal var ekki með neinn jafnvægisbúnað í flýgildi sínu, heldur notaði hann eigin líkama til að halda jafnvægi á flýgildinu. Eftir víðamiklar athuganir þeirra bræðra hófu þeir að hanna sína eigin svifflugu. Til þess að fá fullnægjandi lyftigetu fyrir stórar svifflugur þurftu Wright bræður að finna stað í Bandaríkjunum þar sem vindar voru meiri og stöðugri heldur en í nágrenni við þá í Dayton. Wilbur skrifaði Willis L. Moore, yfirmanni bandarísku veðurstofunnar í nóvember 1899 og bað hann um upplýsingar um veðurfarslegar aðstæður um allt land. Þegar þeir bræður höfðu fengið upplýsingarnar þá ákváðu þeir að flytjast til Kitty Hawk í Norður-Karólínu, því aðstæður voru mjög góðar þar. Bræðurnir eyddu næstu árunum þar (1900-1902) og gerðu tilraunir á flugdrekum auk þess sem þeir framkvæmdu yfir 700 vel heppnuð flug á svifflugum. Þeir bjuggu einnig til vindgöng þar sem þeir prófuðu allskyns laganir á vængjum. Þessar tilraunir leiddu þá að leyndardómum flugsins, hinni fullkomnu lögun vængsins. Eftir að bræðurnir höfðu uppgötvað hvernig vængurinn þarf að vera gerður svo að hann virki sem lyftitæki var næsta skref hjá þeim að vélvæða flýgildið. Þá stóðu þeir frammi fyrir öðru vandamáli. Það fannst enginn vélaframleiðandi sem gat útvegað þeim nógu létta og öfluga vél, auk þess sem framleiðendurnir höfðu jafn litla sem enga trú á einhverjum reiðhjóla-smiðum úr litlu sveitaþorpi. Lærðir vísindamenn höfðu gefið út þá kenningu áður að það væri ekki hægt að láta vél fljúga sem væri þyngri en loftið og vélarframleiðendurnir trúðu ekki að bræðurnir myndu kollvarpa þeirri kenningu. Fyrsta flugvélin verður til. Wright bræður gerðu sér fljótt grein fyrir því þeir þyrftu að hanna sinn eigin mótor sjálfir. Þeir hófust handa við að hanna og smíða létta og hentugan vélbúnað í flugfarið. Þeim tókst að hanna framúrskarandi bensínhreyfil sem var svo öflugur að þeir máttu alveg við því að þyngja vélina. Það gerðu þeir með því að styrkja hana svo hún myndi þola frekar þau átök sem í vændum voru með auknu flugi. Fyrsta flugferðin. Þann 14. desember 1903 var komið að því að láta reyna á áralanga vinnu þeirra bræðra. Þeir drógu fána að húni til að láta nágranna sína, sem voru starfsmenn hjá nærliggjandi veðurathugunarstöð, vita hvað stæði til. Þegar stundin rann svo upp var fjöldi áhorfenda mættur til að verða vitni af fyrsta vélknúna flugi sögunnar. Bræðurnir köstuðu pening upp á hver skildi fljúga fyrstu ferðina og var það eldri bróðurinn, Wilbur, sem hlaut þann heiður. Reynslan var ekki mikil og var flugið alveg eftir því, flugvélin reis allt of hratt upp og þegar hún hafði náð fjögra og hálfs metra hæð þá „stallaði“ vélin og hrapaði aftur til jarðar. Wilbur sakaði ekki en flugvélin skemmdist þó lítillega. Bræðurnir voru sammála um það að þetta flug hefði ekki talist sem raunveruleg flugferð enda flaug vélin ekki nema 30 metra á þremur og hálfri sekúndu. Þrátt fyrir misheppnaða flugferð þá neituðu bræðurnir að gefast upp og gerðu aðra tilraun þrem dögum seinna eða 17. desember. Það var dreginn fáni að húni í annað sinn en undirtektirnar voru mun minni heldur en í fyrra skiptið því aðeins fjórir karlmenn mættu auk eins stráks. Einn áhorfandanna var ljósmyndari sem freistaði þess að ná mynd af þessum sögulega viðburði. Aðstæður voru ekki eins góðar og bræðurnir vonuðust til því það var frost og mikill vindur. Þeir létu það ekki á sig fá og létu til skarar skríða. Orville fór um borð, flaug vélinni og náði að halda henni á lofti í tólf sekúndur og flaug hann henni 36 metra. Sama dag flugu bræðurnir þrjár ferðir til viðbótar, síðasta ferðin var lang lengst þeirra, hún stóð yfir í 59 sekúndur og flaug vélin 260 metra. Þeir þurftu að vísu að hætta eftir fjórðu ferðina því vélin hafði skemmst örlítið í þeirri ferð. Atburðurinn þótti ekki fréttnæmur í fyrstu. Eftir flugin voru bræðurinr að vonum himinlifandi og fóru þeir út að veðurathugunarstöðina til að senda föður sínum skeyti og segja frá atburðunum og tilkynna honum að þeir væru væntanlegir heim. Þá fengu þeir skeyti til baka frá símritaranum í Norfolk og hann spurði hvort hann mætti senda skeytið áfram á vin sinn sem starfaði fyrir eitt af dagblöðum bæjarins. Bræðurnir svöruðu: „Alls ekki“, en samt sem áður birtist fréttin. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina tókst ekki að finna neitt vitni þannig að hann skáldaði inn í eyðurnar og sauð saman allsherjar lygasögu, sem var full af vitleysum. Þegar upphaflega skeytið sem bræðurnir sendu komst loks til Deyton höfðu margar hendur komist að skeytinu og innihald þess hafði breyst mikið. Til dæmis var lengsti flugtíminn orðinn 57 sekúndur í stað 59 sekúndna og nafnið Orville hafði breyst í Orevelle. Þegar fréttirnar bárust svo loks til heimabæjar þeirra bræðra, Dayton, þóttu þær ekki fréttnæmar og dagblöðin minntust lítið sem ekkert á afrek þeirra Wright bræðra. Annað dagblaðið í bænum skrifaði örlitla grein að um atburðinn og gerði lítið úr honum. Í henni stóð að bræður úr bænum hefðu hermt eftir evrópskum loftfarastjóra, sem var þekktur fyrir loftförin sín. Sökum áhugaleysis blaðanna liðu mörg ár þar til afrekið komst í hámæli. En Wright bræður létu lítið og lélegt umtal ekki á sig fá og héldu áfram að þróa flugvélarnar. Wilbur sagði eitt sinn „Ef ég talaði mikið, myndi ég líkjast páfagauk, fugli sem talar mikið en flýgur lítið.“ Flugvélarnar urðu betri og áhuginn á þeim jókst. Árið 1905 voru þeir búnir að ná svo góðu valdi á stjórnun flugvélanna að þeir gátu lent þeim aftur á sama stað og þær tóku á loft. Bræðurnir héldu áfram að þróa flugvélar og voru fremstir á því sviði í nokkur ár. Árið 1908 flaug Orville flugvél þeirra bræðra í fyrsta sinn flug sem stóð yfir í meira en eina klukkustund. Það gerðist á sýningu í Fort Myer í Virginiu fyrir Bandaríkjaher og það leiddi af sér sölu á flugvélum til Bandaríkjahers sem urðu jafnframt fyrstu flugvélar hersins og jafnframt heimsins. Sama ár flaug Wilbur yfir hundrað flug í Frakklandi og stóð það lengsta yfir í tvær klukkustundir og nítján mínútur. Að lokum. Wilbur lést árið 1912, langt fyrir aldur fram, aðeins 45 ára að aldri úr taugaveiki sem hann hafði glímt við síðan hann lenti í slysi á íshokkíkappleik ungur að árum. Orville lést árið 1948, 77 ára að aldri, úr hjartaáfalli. Íþrótt. Íþrótt er líkamleg eða andleg æfing eða keppni sem fer fram samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum. Fólk stundar íþróttir af ýmsum ástæðum, til að sigra í keppni, til að ná besta árangri, til að halda sér í góðu líkamlegu og andlegu formi eða einfaldlega ánægjunnar vegna. Íþróttir eru flokkaðar á ýmsan hátt, til dæmis í einstaklingsíþróttir og hópíþróttir, keppnisíþróttir og almenningsíþróttir. Íþróttir hafa verið stundaðar í einhverri mynd af mönnum frá alda öðli. Dunkerque. Dunkerque (hollenska: "Duinkerke") er hafnarborg í Nord-héraði sem nú tilheyrir Frakklandi en var áður hluti af Flandri. Borgin er um tíu kílómetrum sunnan við landamæri Belgíu. Nafnið kemur úr vestur-flæmsku: "duin", sem merkir sandalda, og "kerke" sem merkir kirkja. Á 17. öld var Dunkerque bækistöð hinna svokölluðu Dúnkarka, flota sjóræningjaskipa, verslunarskipa og fiskiskipa sem barðist gegn flota Hollendinga í Áttatíu ára stríðinu og sem fiskuðu meðal annars á Íslandsmiðum. 26. maí til 4. júní 1940 fór þar fram orrustan um Dunkerque milli herja Þjóðverja og Breta og Frakka. Johnstoneyja. Johnstoneyja er baugeyja í Norður-Kyrrahafi á milli Hawaii og Marshalleyja (staðsetning: 16°45′N 169°30′W). Fjórar eyjar standa up úr kóralrifinu; tvær náttúrulegar eyjar: Johnstoneyja og Sandeyja, auk tveggja manngerðra eyja: Norðureyju og Austureyju. Baugeyjan heitir í höfuðið á James Johnston skipherra sem uppgötvaði hana 10. desember 1807. Hún er yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Rafmagn. Rafmagn á almennt við fyrirbæri, sem verða vegna rafhleðsla, hvort sem þær eru kyrrstæðar ("stöðurafmagn") eða á hreyfingu, en þá myndast rafstraumur. Rafstraumur skiptist í jafnstraum og riðstraum. Rafhleðslur mynda rafsvið, en rafspenna er mælikvarði á styrk þess. Oft er orðið "rafmagn" notað til að lýsa raforku. Fræðigreinar sem fjalla um rafmagn og hagnýtingu þess nefnast rafmagnsfræði eða raffræði. Rafmagn er ódýrast í Reykjavík af öllum Norðurlöndunum. Saga. Samkvæmt fornum heimildum um forngríska heimspekinginn Þales frá Míletos (um 600 f.Kr.) þá þekktu Forn-Grikkir stöðurafmagn. Þeir fundu það út að ef þeir nudduðu skinni við ákveðin efni t.d. raf þá drógust efnin hvort að öðru. Grikkirnir tóku eftir að hlutir úr rafi drægju að sér létt efni eins og hár, einnig fundu þeir út að ef þeir nudduðu rafið nægjanlega lengi þá gátu þeir jafnvel fengið neista til að hlaupa. Bagdad-rafhlaðan sem fannst í Írak 1938 er talin vera síðan 250 fyrir Krist en hún er talin af mörgum hafa verið notuð til að gullhúða skartgripi. Ítalski læknirinn Girolamo Cardano gerði hugsanlega fyrst grein fyrir sambandi raf- og segulafls í De Subtiliate (1550). Árið 1600 hélt Enski vísindamaðurinn William Gilbert áfram með vinnu Girolamo og færði hana á hærra plan, en William bjó til ensku orðin electric og electricity en þau eru dregin af Gríska orðinu ηλεκτρον (en. amber)(is. raf) en íslenska orðið rafmagn er dregið af því. Otto von Guericke fylgdi í fótspor hans árið 1660 en hann fann upp stöðurafmagnsrafal. Aðrir Evrópskir frumkvöðlar voru Robert Boyle, sem árið 1675 hélt því fram að rafræðileg öfl gætu virkað í lofttómi, Stephan Gray sem árið 1729 flokkaði efni sem leiðara og einangrara og C. F. Du Fay en hann greindi fyrstur manna á milli þess sem nú flokkast sem jákvæð og neikvæð hleðsla. Layden-krukkan, nokkurs konar þéttir fyrir rafafl í miklu magni, var fundin upp í Laiden-háskólanum af Pieter van Musschenbroek árið 1745. árið 1747 notaði William Watson, Layden-krukkuna þegar hann uppgötvaði að útleysing stöðurafmagns jafngilti rafstraum. Í júní árið 1752 kynnti Benjamin Franklin rannsóknir sínar á rafmagni og tilgátum því tengdu með sínum frægu en jafnframt stórhættulegu tilraunum sem fólust í því að hann flaug flugdreka meðan þrumuveður stóð yfir. í kjölfarið á þessum tilraunum fann hann upp eldingavarann og kom á tengslum milli eldinga og rafmagns. Það er annaðhvort Franklin (oftar) eða Ebenezer Kinnersley (sjaldnar) sem er talin bera ábyrgð á nútíma skilgreiningum á jákvæðri og neikvæðri hleðslu rafmagns. Það var gert á síðari hluta 19. aldarinnar. Listi yfir persónur í Njálu. Listi yfir persónur í Brennu-Njáls sögu. Aðalpersónur eru breiðletraðar. Þar sem auðvitað má deila um hvað sé „aðalpersóna“ var hér höfð sú viðmiðun, að viðkomandi sé getið á minnst þremur mismunandi blaðsíðum sögunnar (í þeirri útgáfu, sem hér er handbær). Alexa Vega. Alexa Ellesse Vega (fædd 27. ágúst 1988) er bandarísk leikkona. Hún hóf kvikmyndaferil sinn á myndinni "Little Giants" aðeins sex ára gömul. Hún er þekktust fyrir leik sinn í "Spy Kids"-kvikmyndunum. Ævisaga. Alexa Vega fæddist í Miami á Flórída. Faðir hennir er kólumbískur en móðir bandarísk. Hún á tvær systur; Makenzie Vega og Krizia Vega. Þær eru báðar leikkonur eins og Alexa. Hún á líka tvær hálfsystur sem heita Margaux Vega og Greylin James. Einnig á hún hálfbróður sem heitir Jet James. Alexa bjó með fjölskyldu sinni í Flórída þar til hún var fjögurra ára gömul þegar hún flutti til Kaliforníu. Hún er næstelst af systkynum sínum. Ferill. Alexa lék nokkur gestahlutverk í þáttum eins og "Bráðavaktinni", "Follow the Stars Home" og "The Bernie Mac Show". Hún hafði leikið smáhlutverk í myndum eins og "Little Giants", "Twister" og "Ghost of Missisippi". Árið 2001 fékk hún að leika persónu í þríleiknum Spy Kids. Þessar myndir voru geysivinsælar og sú síðasta var gerð í þrívídd. Hún söng tvö lög inná myndirnar ("Island of Dreams" og "Game Over"). Árið eftir lék hún í stelpumyndinni "Sleepover" þá 16 ára gömul. Sama ár var hún valin ein af flottustu leikkonum ársins af tímaritinu "Vanity Fair". Orrustan um Stalíngrad. Sovéskir fótgönguliðar á bökkum Volgu Orrustan um Stalíngrad (nú Volgograd) var ein sú mannskæðasta og um leið ein mikilvægasta orrusta í seinni heimsstyrjöldinni, milli Sovétríkjanna annars vegar og Þjóðverja og nokkurra bandamanna þeirra hins vegar. Orrustan hófst með umsátri þýska hersins um borgina Stalíngrad í Suður-Rússlandi 17. júlí 1942. Í kjölfar umsátursins hófust blóðugir bardagar um hluta borgarinnar sem Sovétmenn vörðu frækilega. Orrustunni lauk með árangursríku aðgerðinni Úranus sem fól í sér að Rauði herinn umkringdi sjötta her Þjóðverja sem hafði náð stærstum hluta Stalíngrads. Þjóðverjar gáfust upp 2. febrúar 1943. Mannfall var gríðarlegt og er áætlað um tvær milljónir manna hafi látist, sem gerir orrustuna eina blóðugustu í sögunni. Hún gjörbylti gangi styrjaldarinnar en her Þriðja ríkisins varð fyrir svo miklum skakkaföllum að hann náði aldrei aftur fyrri styrk. Sigur Sovétmanna, sem einnig urðu fyrir miklu tjóni, breytti gangi stríðsins og tókst þeim smám saman að frelsa hernumin svæði í Sovétríkjunum og síðar að gjörsigra her Þriðja ríkisins vorið 1945. Upphaf umsátursins. 17. júlí 1942 er talað um að orrustan um Stalíngrad hafi hafist en þann 23. ágúst komust hersveitir sjötta hers Þjóðverja fyrst að úthverfum hinnar miklu iðnaðarborgar við bakka Volgu. Með því hófst hið blóðuga umsátur um Stalíngrad sem átti eftir að verða vendipunktur í seinni heimsstyrjöldinni. Þremur dögum áður hafði opinber tilkynning verið gefin út í Þýskalandi um að Stalíngrad væri hernaðarlegt takmark þýska innrásarhersins í Rússlandi. Hertaka Stalíngrads var fyrst eingöngu hluti af áætlun um að ná olíulindum Sovétmanna í Kákasus og með því næðu Þjóðverjar að loka á samgöngur til Suður-Rússlands. Í Stalíngrad fór fram mikil framleiðsla á hergögnum, dráttarvélum og T-34 skriðdrekum Sovétmanna. Hins vegar varð fljótlega megin orsök að svo hart var barist um borgina að hún bar nafn leiðtoga Sovétríkjanna. Hitler var uppfullur af gremju og hatri eftir að hafa mistekist að ná Moskvu veturinn áður og vildi sanna yfirburði Þýskalands með því að hertaka borgina sem táknrænan yfirburð. Þjóðverjar bjuggust við því að borgin myndi falla á nokkrum dögum en Stalín var ekki á því að tapa borginni sem bar nafn hans og gerði allt til að tapa henni ekki og með því varð meiri áhersla lögð á að ná Stalíngrad en olíulindunum í Kákasus sem voru þó hernaðarlega mikilvægari. Götubardagar. Í upphafi umsátursins lét þýski flugherinn rigna sprengjum yfir borgina sem olli eyðileggingu og dauða. Áhrif loftárásarinnar urðu hins vegar öfug miðað við hvað Þjóðverjar bjuggust við. Sovétmenn urðu fokvondir og fylltust gífurlegu baráttuþreki. Vasily Chuikov, hershöfðingi varnarhersins, lagði allt í sölurnar til að verja Stalíngrad. Chuikov fyrirskipaði að allir í borginni ættu að víggirða hverja einustu götu og til þess voru rústir hrundra húsa notaðar ásamt öðru tiltæku. Hermennirnir áttu að berjast hart um hvert einasta hús í borginni, ekki gefa neitt eftir fyrr en í fulla hnefana. Með loftárásunum voru Þjóðverjar búnir að gera besta mögulega vígvöll fyrir Sovétmenn til að verja borgina. Þýski herinn gat lítið nýtt sína tæknilegu yfirburði í götubardögunum en hertæknin sem þurfti að beita stríddi gegn öllu sem þýsku hermennirnir höfðu lært í hernaðarlist. Lítið var um stóra bardaga heldur endalausar skærur að hálfu Sovétmanna. Sex til átta manna árásarhópar voru settir saman og komu þeir sér upp ýmsum vopnum sem gátu drepið hljóðlaust svo sem hnífum og tálguðum skóflum. Sovétmenn voru sérlega góðir í því að fela sig og þurftu Þjóðverjar sífellt að vera viðbúnir umsátri hvort sem það var dagur eða nótt. Árásarhópar réðust mjög oft til atlögu á nóttunni svo það var lítið um svefn hjá Þjóðverjunum sem minnkaði baráttuþrek þeirra. Sovéski flugherinn gerði sitt besta til að halda Þjóðverjunum vakandi með stöðugum loftárásum á næturna en svona sluppu óreyndu rússnesku flugmennirnir við að berjast við reynda flugmenn Þjóðverja. Með óhugnalegu návígi og stöðugum næturárásum brutu Sovétmenn niður allan baráttuanda Þjóðverja. Hetjur Stalíngrads. Vasily Zaitsev í Stalíngrad, október 1942 Til þess að bæta „móralinn“ í Rauða hernum var hafið upp á ýmsum mönnum sem höfðu sýnt mikið hugrekki eða hæfileika í orrustunni og þeir notaðir til að hvetja aðra í hernum til að gera hið sama. Flestar hetjurnar voru leyniskyttur Rauða hersins og auglýstu stjórnvöld hve marga fasista hver skytta hafði drepið. Frægasta leyniskyttan var Vasily Zaitsev og tókst honum að drepa 149 Þjóðverja. Zaitsev var settur yfir þjálfun ungra leyniskyttna og nemendur hans voru kallaðir zaichata eða unghérar en Zaitsev þýðir héri. Hin hljóðláta leyniskytta Zikan drap hins vegar flesta Þjóðverja en hann drap 224. Hetjurnar voru hins vegar ekki bara leyniskyttur en Manenkov var þekktur fyrir skot sín með skriðdrekariffli en í einum bardaganum náði hann að eyðileggja sex skriðdreka. Vinogradov var einnig þekktur sem besti handsprengjuvarparinn og sagður einn besti „Fritzaveiðarinn“. Þjóðverjar blekktir. Þótt varðlið Sovétmanna hefði varist vel gátu þeir ekki haldið aftur af Þjóðverjunum og neyddust alltaf til að hörfa lengra inn í borgina, nær bökkum Volgu. Sovétmenn áttu orðið erfitt með að fá hergögn og liðsauka vegna þess að allir flutningar fóru um Volgu. Flutningarnir fóru fram á ýmsum bátum og prömmum sem sigldu frá austurbakkanum en Þjóðverjar gerðu sitt besta til að sökkva sem flestum bátum Sovétmanna með loft- og stórskotaárásum. Þegar veturinn harðnaði byrjaði Volga að frjósa sem gerði flutninga enn erfiðari yfir ánna. Þjóðverjarnir áttuðu sig á þessu og héldu að þeim væri að takast að sigra varnarliðið. En sama hversu slæmt ástandið leit út héldu Zhukov hershöðingi og menn hans sig við einkunnarorð varnarliðsins „Fyrir varnarlið Stalíngrad er ekkert land handan Volgu“. Ekki var þó öll von Rússa úti því yfirmaður herráðs Rauða hersins, Georgy Zhukov, skipulagði aðgerð Úranus sem átti eftir að umturna gangi stríðsins. Zhukov lét safna gífurlega stórum her með mikilli leynd. Hann sendi herinn síðan að frekar rólegum stöðum við víglínuna til að þjálfa hann en þetta villti um fyrir þýsku leyniþjónustunni. Aðgerð Úranus fól í sér að umkringja innrásarher Þjóðverja í Stalíngrad og ná Stalíngrad aftur. Zhukov og hershöfðingjar hans skipulögðu árásina í þaula. Þeir létu alla óbreytta borgara flytja í burtu sem voru innan við 24 kílómetra frá víglínunni svo herinn gæti notað hús þeirra til að fela sig á leið sinni í átt að víglínunni. Leyndin var svo mikil við herflutningana að þeir færðu sig aðeins á milli staða á nóttunni. Á meðan voru aðrar herdeildir annars staðar við víglínuna en þar sem Úranus aðgerðin átti að fara fram að þykjast gera sig klára fyrir sókn til að villa um fyrir Þjóðverjum. Þann 19. nóvember var búið að safna saman rúmlega milljón manns við þrjár víglínur við Stalíngrad. 7:20 að rússneskum tíma hlóðu hermennirnir á sprengjuvörpu-stöðvunum og stórskotaliðið vopn sín og fljótlega skalf jörðin undan kraftinum í stórskotaliðinu sem hóf skotárás sína á Þjóðverja. Sovéskir hermenn sem voru annars staðar á víglínunni höfðu ekki hugmynd um hvað var að gerast því tekist hafði að halda aðgerðinni Úranus leynilegri. Ráðist var á víglínurnar norðan og sunnan megin við Stalíngrad. Bandamenn Þjóðverja, Rúmenar, vörðust frækilega við víglínurnar en áttu ekki möguleika gegn þessari stórsókn og mættust herir Rússanna þann 22. nóvember og voru þar með búnir að umkringja Stalíngrad. Sovétmenn þjörmuðu síðan smátt og smátt að Þjóðverjunum og neyddu þá til að hörfa í átt að Stalíngrad. Friedrich Paulus var hershöfðingi yfir sjötta her Þjóðverja í Stalíngrad. Hann fékk þær skipanir frá Hitler að halda borginni, ekki reyna að brjótast út úr hring Sovétmenna og berjast til síðasta manns. Eina leið Þjóðverja til að fá birgðir var flugleiðina en aldrei náðist að flytja nægar birgðir svo herinn var að svelta og ekki hjálpaði að veturinn harðnaði með gífurlegu frosti. Þann 8. janúar var Paulusi boðið að gefast upp en hann harðneitaði og þann 24. janúar var honum aftur boðið að gefast upp en þá bannaði Hitler alla uppgjöf en Paulus hafði beðið Hitler um að fá að bjarga lífi hermanna sinna. 31. janúar 1943 gafst Paulus upp gegn skipunum Hitlers ásamt 24 öðrum hershöfðingjum og 2. febrúar gafst allur herinn upp. Eingöngu voru 91.000 hermenn eftir lifandi af sjötta hernum en upphaflega voru um 330.000 menn í honum. Stór hluti uppgjafarhermannanna létust í haldi Sovétmanna en þeir hugsuðu lítið um fangana fyrst um sinn og píndu þá eins mikið og þeir gátu uppfullir af hatri gagnvart framferði Þjóðverja gegn Sovétmönnum í innrás sinni. Áhrif orrustunnar. Sigur Sovétmanna í orrustunni um Stalíngrad markaði upphaf hruns Þjóðverja en sjötti herinn hafði verið einn kröftugasti her sem Þjóverjar höfðu safnað. Framleiðsla Sovétmanna og Bandaríkjamanna á vígbúnaði varð margfalt meiri en framleiðsla Þjóðverja svo að þeir áttu aldrei séns á að ná aftur fyrri styrk. Talið er að yfir 800.000 hermenn frá Öxulveldunum hafi týnt lífi sínu í kringum orrustuna en á móti er talið að Rauði herinn hafi tapað um 1.100.000 hermönnum og 40.000 óbreyttir borgarar látist. 1945 var Stalíngrad tilnefnd sem Hetjuborg Sovétríkjanna fyrir vörnina á móðurlandinu. 40 árum eftir orrustuna lést Chuikov hershöfðingi sem hafði stjórnað vörnum Stalíngrads og síðar leitt Rauða herinn í vel heppnaðri innrás í Berlín. Nítján hundruð áttatíu og fjögur. "1984" eða "Nítján hundruð áttatíu og fjögur" ("Nineteen Eighty-Four" á frummálinu) er skáldsaga eftir George Orwell sem gerist árið 1984. Hún gerist í dystópítískri framtíð þar sem ríkið ræður öllu, jafnvel hugsunum þegna sinna. Hún er oft talin ein áhrifamesta bók 20. aldar og hefur hún verið sett í flokk með "Veröld ný og góð" eftir Aldous Huxley og "Við" eftir Jevgeníj Zamjatín sem ein þekktasta dystópíska skáldsaga sögunnar. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Hersteins Pálssonar, Thorolf Smith og Gunnars Dal árið 1951 undir heitinu "Nítján hundruð áttatíu og fjögur: skáldsaga". Serbía. Serbía er landlukt land á Balkanskaga í suðaustanverðri Evrópu. Þá á landamæri að Ungverjalandi í norðri, Rúmeníu og Búlgaríu í austri, Makedóníu og Kósóvó í suðri og Svartfjallalandi, Bosníu og Hersegóvínu og Króatíu í vestri. Serbía var stærsti og fjölmennasti hluti Júgóslavíu á meðan hún var við lýði á 20. öldinni og myndaði ásamt Svartfjallalandi hið laustengda bandalag Serbíu og Svartfjallaland sem slitið var eftir að Svartfellingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 að lýsa yfir sjálfstæði. Svartfjallaland lýsti formlega yfir sjálfstæði 3. júní sama ár og serbneska þingið lýsti því yfir 5. júní að Serbía væri arftaki bandalagsins. Dystópía. Dystópía er skálduð samfélagsmynd sem er andstæða útópíu. Orðið er komið úr grísku og þýðir bókstaflega „vondur staður“. Oftast er átt við alræðis- og valdaboðssinnaða ríkisstjórn eða annarskonar kúgað samfélag. Dæmi um dystópíu er alræðissamfélagið í skáldsögunni Nítján hundruð áttatíu og fjögur eftir George Orwell. Stanley (bátur). Stanley var fyrsti fiskibáturinn á Íslandi til að vélvæðast. Um var að ræða sexæring sem í var sett dönsk glóðarhausvél sem var um 2 hestöfl. Eigendur bátsins voru Sophus J. Nielsen verslunarstjóri og Árni Gíslason formanns. Báturinn var fyrst sjósettur með vélina 25. nóvember 1902 við Hnífsdal í Ísafirði. Maraþonhlaup. Maraþonhlaup, eða bara Maraþon er staðlað langt langhlaup kennt við borgina Maraþon á Grikklandi. Maraþonhlaup er 42,195 km langt og er það vegalengdin sem boðberi nokkur er sagður hafa hlaupið með skilaboð um sigur í bardaganum við Maraþon frá þeirri borg til Aþenu. Sagan segir að hann hafi ekkert stansað á leiðinni og hafi látist um leið og hann skilaði af sér boðunum. Maraþon eru oft hlaupin um borgir og taka oft mjög margir þátt í hverju hlaupi. Þá eru oft hlaupin með til dæmis hálfmaraþon, þar sem hlaupinn er 21,1 km auk þess sem stundum er fjórðungur vegalengdarinnar hlaupinn. Meðal frægustu maraþonhlaupa heims eru þau sem fram fara í New York, London og Chicago. Á Íslandi fara árlega fram fjögur maraþonhlaup. Félag maraþonhlaupara stendur fyrir tveimur hlaupum, öðru í mars (marsþon) og hinu í október (haustþon). Mývatnsmaraþon hefur verið þreytt síðan 1995 og Reykjavíkurmaraþon síðan 1989. Íslandsmet í maraþonhlaupi á Kári Steinn Karlsson, 2:17,12, sett 25. september 2011 í Berlín. Magnús Guðbjörnsson hljóp Maraþonhlaup fyrstur Íslendinga árið 1926. Hann hljóp þá frá Kambabrún vestur á Íþróttavöllinn í Reykjavík á 3:15,15. Ekki var þó um nákvæmlega mælda vegalengd að ræða, heldur var hlaupið áætlað rétt rúmur 41 km. Félag maraþonhlaupara heldur utan um árangur allra Íslendinga sem hlaupið hafa maraþon í löglegri keppni. Einund. Einund er minnsta skilgreinda tónbilið í tónfræði, en það er þegar sama nótan er spiluð í sömu áttund og því er bilið á milli nótnanna ekkert. Hálftónsbil. Hálftónsbil er minnsta tónbilið á díatónískum hljóðfærum (sem eru flest hljóðfæri sem við þekkjum). Á píanói er hálftónsbil á milli tveggja samliggjandi nótna og á gítar er hálftónsbil á milli tveggja samliggjandi banda. Hálftóns- og heiltónsbil eru notuð sem mælieiningar á tónbil í tónfræði. Eitt hálftónsbil jafngildir lítilli tvíund, tvö hálftónsbil jafngilda stórri tvíund, þrjú hálftónsbil jafngilda lítilli þríund og ekkert hálftónsbil jafngildir einund. Heiltónsbil. Heiltónsbil er helmingi stærra en hálftónsbil og því næst minnsta tónbilið í díatónískri tónlist. Algengt er að melodíur eða sönglínur ferðist á milli nótna með heiltónsbilum en þá er talað um laglínan sé í skrefagangi. Í uppbyggingu kirkjutóntegunda og þar á meðal dúrs og hreins molls eru aðeins notuð heil- og hálftónsbil, í öllum þeim tónstigum eru sjö nótur og á milli allra nótnanna heiltónsbil nema tvisvar á milli tveggja nótna er hálftónsbil. Listi yfir íslenska hella. Eftirfarandi er listi yfir íslenska hella og hvar þá er að finna. Listinn er ekki tæmandi. Útför. Útför (jarðarför eða greftrun) er athöfn þar sem fráliðnir eru kvaddir, slík athöfn er oft trúarlegs eðlis og mjög formleg. Athafnirnar eru að ýmsum toga, þær eru breytilegar eftir menningu, trú, siðum og aðstæðum. Algengast er að jarðnesku leyfarnar séu grafnar eða brenndar. Önnur þekkt aðferð er að búa til smyrlinga og varðveita þá í grafhvelfingum eða í jörðu. Þessi siður, að koma fyrir jarðneskum leifum látinna á ákveðnum stað, er eitt af því sem einkennir manneskjur. Eitt og annað. Í íslensku slangri er stundum talað um "blesspartí" í merkingunni jarðarför. Postojna-hellar. Postojna-hellar (slóvenska: "Postojnska jama", þýska: "Höhlen von Postojna, Adelsberger Höhlen" [eldra]; ítalska: "Grotte di Postumia") er um 20 km langt karsthellakerfi í suðvesturhluta Slóveníu, skammt frá bænum Postojna. Hellakerfið er það stærsta í Slóveníu og með þeim stærstu í Evrópu. Postojna-hellarnir eru því einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Slóveníu. Saga. Hellunum var fyrst lýst á 17. öld af Janez Vajkard Valvasor. Luca Čeč uppgötvaði nýjan hluta hellisins á 18. öld. Rafljósum var komið fyrir í hellunum árið 1872 og við það jukust vinsældir hellanna gífurlega. Dýrategundir. Í hellinum lifa ýmsar tegundir dýra sem finnast hvergi annars staðar. Merkilegastur þykir blinda salamandran (l."proteus anguinus"), "mannlegi fiskurinn", sem er svo kallaður sökum þess að hann skortir litarefni. Hún getur lifað í allt að 100 ár, og getur lifað í allt að 5 ár í senn án matar. Fyrirtækið. "Fyrirtækið" (enska: "The Corporation") er kanadísk kvikmynd frá árinu 2003 sem fjallar á gagnrýnin hátt um nútíma hlutafélög og greinir hegðun þeirra eins og um persónu væri að ræða en samkvæmt bandarískum lögum eru hlutafélög með sömu réttindi og persóna. Ýmsar hliðar eru athugaðar og svo komist að þeirri niðurstöðu að um geðsjúkan einstakling sé að ræða. Í myndinni koma fram frægir viðskiptajöfrar, fræðimenn og pólitíkusar. Myndinn hefur verið gagnrýnd fyrir að sýna ekki fleiri hliðar málsins og taka eindræga afstöðu með ákveðinni hugmyndafræði. Suðurland. Kort af Íslandi sem sýnir Suðurland litað rautt. Suðurland er suðurhluti Íslands. Til hans hafa venjulega talist Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla. Í kjölfar þess að Suðurkjördæmi var búið til færist í vöxt að telja einnig Austur-Skaftafellssýslu (sveitarfélagið Hornafjörð) til Suðurlands. Fjölmennustu sveitarfélög á Suðurlandi eru sveitarfélagið Árborg og Vestmannaeyjabær. Marthe. Marthe er kvennmannsnafn. Það er almennt í Noregi. Nafnið er sambærilegt nafninu Marta og er einskonar norsk útgáfa af því. Ein manneskja heitir Marthe á Íslandi. Rín (fljót). Rín er eitt af stærstu fljótum Evrópu Rín er þriðja lengsta fljót í Evrópu og ein mikilvægasta samgönguleið álfunnar. Rín á upptök sín í svissnesku Ölpunum, nálægt St. Gotthard. Hún rennur meðfram landamærum Austurríkis og svo Liechtenstein, uns hún rennur inn í Bodensee. Þar myndar hún víðáttumikla óshólma, þeir stærstu í Mið-Evrópu inni í landi. Eftir það myndar hún landamæri milli Sviss og Þýskalands og nokkru seinna landamæri Þýskalands og Frakklands. Eftir langa leið um Þýskaland, þar á meðal um Ruhr-héraðið, rennur hún loks um Holland, þar sem hún rennur til sjávar í Norðursjó. Í Hollandi klofnar aðalfljótið og myndar nokkra arma. Þeirra helstir eru Waal, Lek og IJssel. Meðalrennsli fljótsins er um 2.000 m³/sek og það er alls 1.230 km langt. Við Schaffhausen í Sviss myndar fljótið Rínarfossinn, en hann er vatnsmesti foss Evrópu. Margar stórar borgir eru á bökkum Rínarfljóts og eru miklir flutningar upp og niður eftir ánni. Hægt er að sigla upp eftir Rín frá Hollandi og alla leið til Basel og Rheinfelden í Sviss. Áin hefur gegnt mikilvægu hlutverki í hernaði og margir kastalar eru á bökkum hennar. Rín hét "Rhenus" á tímum Rómverja, en heitir "Rhein" á þýsku og "Rhin" á frönsku og Rijn á hollensku. Iðnbyltingin. a> var notuð til að dæla vatni upp úr kolanámum. Iðnbyltingin var tímabil mikillar iðnvæðingar, sem hófst síðla á 18. öld í Bretlandi, og hafði í för með sér gríðarlega fólksfjölgun og nýjungar í landbúnaði, sem lögðu grunninn að aukinni framleiðni, bæði með auknu vinnuafli og stærri markaði fyrir afurðirnar. Bylting varð í framleiðsluháttum í vefnaðariðnaði, einkum með tilkomu gufuvélarinnar og þéttbýlisþróunin, straumur fólks úr sveitum til borganna, þýddi að það myndaðist gnægð vinnuafls, sem lagði grunninn að iðnborgum nítjándu aldar. Með stækkandi mörkuðum, bæði vegna fólksfjölgunar heimafyrir og stækkandi markaðssvæða í Afríku og Ameríku, var til staðar næg eftirspurn fyrir vefnaðinn. Gufuvélin var einnig nýtt í nýrri kynslóð samgangna, í eimreiðum og gufuskipum. Með tilkomu stáls sem byggingarefnis ásamt röð nýrra uppgötvana í samskiptatækni á seinni hluta 19. aldar var tónninn settur fyrir áframhaldandi tækniþróun 20. aldar. Orsakir. Iðnbyltingin hefur verið skilgreind sem hraðskreiður kafli fólksfjölgunar og framfara í landbúnaði og tækniþróun umhverfis aldamótin 1800 í Bretlandi, síðar á meginlandi Evrópu. Hún fól í sér endurbætur í landbúnaði, svo sem afgirðingu almenninga og sameiningu sundurleitra landskika, sem jók bæði ræktarland og tækifæri landeigenda til umbóta þess. Við þessa skiptingu fjölgaði stórlandeigendum, og voru innleiddar nýjar korntegundir, kynbætur húsdýra og aðrar betrumbætur. Jafnvel áður en þessar umbætur hófust hafði fólksfjölgunar orðið vart víða í Evrópu, en það var í Bretlandi sem fyrst eftir hana kom til umbóta. Þær bárust svo til Belgíu, Frakklands og loks Þýskalands. Afgirðingu lands í Bretlandi var flýtt með dýrlegu byltingunni 1688, þegar þingið fékk aukin völd, en landeigendur, sem sáu sinn hag vænstan í afgirðingu, réðu þar ríkjum. Á undangengnum öldum höfðu einnig átt sér stað framfarir í vísindum, þótt slíkt dugi skammt sem skýring fyrir iðnbyltingu eitt og sér, enda voru Bretar á þessum tíma aftar á merinni en Frakkar hvað vísindarannsóknir varðaði. Bretar voru þó með tryggar auðlindir fyrir vefnaðariðnað sinn, þann iðnað sem helst óx í upphafi iðnbyltingar. Höfðu þeir langa hefð sauðfjárræktar og ullarframleiðslu, en einnig aðgang að indverskri baðmull, sem og baðmull frá nýlendunum vestanhafs. Einnig voru í Bretlandi til staðar kola- og járngrýtisnámur. Meðal mikilvægustu tækninýjunga iðnbyltingarinnar voru gufuvélarnar, en þær voru upphaflega smíðaðar til að dæla vatni úr námum. Er þeirra frægust gufuvél James Watt, en hún var endurbót á vél Thomas Newcomen. Fólst endurbótin í að láta kælingu gufunnar, sem olli þeim undirþrýstingi sem knúði vélina, eiga sér stað í sér hólfi, sem ekki þyrfti að hita aftur áður en það var aftur fyllt gufu. Voru þessar vélar iðulega settar í mynni kolanáma, og gengu þær þar fyrir afgangskolum. Að auki smíðaði Watt tveggja strokka gufuvél, sem gat valdið snúningshreyfingu. Greiddi það leið nýtingar hennar á fleiri sviðum, til dæmis í verksmiðjum. Iðnaður. Fyrir verksmiðjuvæðingu vefnaðariðnaðarins var kostnaðarmannakerfið ríkjandi. Sá þar kostnaðarmaðurinn um kaup hráefnis, til dæmis ullar, og stundum aðbúnaðar. Flutti hann það milli vinnufólks í sveitabæjum eða verkstæðum, þar sem hver sá um ákveðinn hluta framleiðsluferlisins. Kostnaðarmaðurinn greiddi svo laun vikulega þegar hann sótti afraksturinn. Með vaxandi eftirspurn, meðal annars vegna stækkandi markaða í Ameríku og Afríku, reyndu kostnaðarmenn að finna fleiri verkamenn til framleiðslu, en það dugði ekki til lengdar án framfara í tækjabúnaði. Fyrsta í röð nýjunga í vefnaðariðnaði var fljúgandi skytta John Kay, sem ruddi sér til rúms eftir miðja átjándu öld, en hún tvöfaldaði framleiðni vefstólanna. Var þá helsti flöskuhálsinn spunavélarnar, en við því var séð skömmu eftir 1760, með tilkomu spuna-jenný, sem spann tífalt hraðar en rokkur. Richard Arkwright fékk svo einkaleyfi á vatnsrammanum 1769, spunavél sem gekk fyrir vatnsafli, og risu nú verksmiðjur og verkamannabústaðir við ár og fossa. Það sama ár kom James Watt fram með endurbætur á gufuvélinni, og ekki leið á löngu fyrr en Samuel Crompton tengdi tveggja strokka gufuvél Watt við spunavél í „múldýrinu“, en með því fluttist vefnaðariðnaðurinn aftur í þéttbýli. Fólksflutningar. Stöðugir fólksflutningar til þéttbýla höfðu löngum átt sér stað fyrir iðnbyltinguna, en þar voru fæðingartíðnir og lífslíkur svo lágar að utan innflytjenda var þar fólksfækkun. Orsakaðist það meðal annars af tíðum faröldrum smitsjúkdóma. Síðla á 17. öld hafði þessum faröldrum fækkað, og hefur það líklega verið upphaf fólksfjölgunarinnar sem einkenndi iðnbyltinguna. Þessa fækkun sjúkdóma má þó ekki rekja til aukins hreinlætis eða læknisfræðilegrar þekkingar, sem kom til síðar. Samvirk afleiðing þessa þátta og aukins iðnaðar í þéttbýli var tilurð og stækkun iðnborga. Verkamenn þessara iðnborga bjuggu við fátæklegar aðstæður og lélegt starfsumhverfi. Engu að síður var samfélag Bretlands frjálslegra en annarra landa, og leyfði meiri félagslegan hreyfanleika. Áður fyrr hafði fólk, bæði í Bretlandi og annars staðar, unnið við nauðþurftabúskap, og eins og gengur og gerist við slíkar aðstæður var lífsviðurværi þeirra upp á veðurfarið komið. Þegar í iðnborgir án félagsþjónustu var komið voru verkamenn háðari hagssveiflum en veðri. Þó skar á milli að í iðnborgum var ekki sú félagslega samhjálp sem heimaiðjan bauð upp á. Samgöngur. Á 19. öld varð bylting í samgöngum með tilkomu járnbrauta. Frá 1760-1830 hafði orðið geysileg fjölgun í vatnaleiðum í Bretlandi, sem spöruðu mikinn flutningskostnað, en beint eftir þeim tók við járnbrautaæði. Fyrsta járnbrautin sem eimreið gekk eftir var verk George Stephenson, en hún lá milli Stockton og Darlington. Frægð Stephenson var hins vegar innsigluð við opnun leiðar hans milli Manchester og Liverpool 1830, en á henni gekk eimreiðin hans Eldingin (e. "The Rocket"), sú hraðskreiðasta síns tíma. Hófst þá mikil járnbrautavæðing í Evrópu, þar sem 1840 voru 1.800 mílur járnbrauta, en þrjátíu árum síðar 65.000. Tilraunir Robert Fulton með gufuskip á Hudsonfljóti 1807 mörkuðu upphaf vélvæðingar skipaiðnaðarins, þótt gufuskip hafi átt við harðari samkeppni að etja en eimreiðarnar, seglskipin. Það háði gufuskipum í fyrstu að vera knúin áfram með veikbyggðum spaðahjólum, vandi sem var leystur með uppfinningu John Ericson, skipsskrúfunni, árið 1837. Með henni og járnsskipsskrokkum tóku gufuskip um miðja nítjándu öld fram úr seglskipum hvað hagkvæmni varðaði. Tækniframfarir. Framfarir í tæknimálum við upphaf iðnbyltingarinnar voru hvatar að frekari framförum. Úr kola- og járngrýtisnámum þurfti að dæla vatni, sem gufuvélar Newcomen og Watt gerðu. Þær gengu sjálfar fyrir kolum og gufuvélar þess síðarnefnda voru smíðaðar úr járni, og þegar tvígengisvél hans var tengd við vefnaðarbúnað var fljótt tekið að smíða hann líka úr járni frekar en timbri, styrkleikans vegna. Næsta skref í byggingarefnum var stál. Hugvitsmaðurinn Henry Bessemer fékk röð einkaleyfa 1855-6 fyrir aðferð sína til framleiðslu stáls úr fosfórlausu járngrýti, og með betrumbótum Friedrich Siemens á framleiðsluferlinu og aðferð Sidney Gilchrist Thomas til að fjarlægja fosfór úr járngrýti var árið 1876 leiðin greið fyrir stórfellda stálframleiðslu, en þangað til höfðu menn þurft að reiða sig á ört dvínandi námur fosfórlauss járns til hennar. Fyrir heimssýninguna í París 1889 hannaði Gustave Eiffel svo turn úr hinu nýja byggingarefni, Eiffelturninn. Einnig komu til sögunnar nýir orkugjafar, olía annars vegar og raforka framleidd með olíu eða virkjun vatnsfalla hins vegar. Hófst virkjun olíulinda 1859 í Bandaríkjunum, en rafallinn var fundinn upp 1870. Um miðbik nítjándu aldar og þar til skömmu eftir aldamótin 1900 komu einnig fram ritsími Samuel Morse, talsími Alexander Graham Bell, loftskeytatækni Guglielmo Marconi, vélfluga Wrightbræðra og loks færibandaframleiddir bílar Henry Ford. Var þar með kominn vísir að tækniþróun tuttugustu aldar. Formerki (tónlist). Formerki í tónlist eru tákn notuð í nótnaskrift, sem framan við nótu merkir að nótan færist upp eða niður um hálftónsbil. Til að hækka nótu er notaður kross (♯) en til að lækka hana er notað bé (♭). Formerki eru ýmist föst eða laus. Ef þau eru föst eru þau afturkölluð með afturköllunarmerki (♮) sem gildir út taktinn sem það er í. Ef þau eru laus gilda þau aðeins út viðkomandi takt og því þarf ekki að afturkalla þau nema það eigi að gera innan sama takts. Laus formerki. Laus formerki eru formerki sem merkt eru á undan nótunni. Þau gilda fram að næsta taktstriki þar sem þau eru sjálfkrafa afturkölluð eða ef afturköllunarmerki afturkallar þau. Laus formerki geta verið bæði krossar og bé og einnig geta nótur verið tvíhækkaðar með exi (x) eða tvílækkuð með tveim béum (♭♭). Laus formerki eru vanalega notuð til að bregða út af tóntegundinni sem spilað er í á meðan föstu formerkin eru oftast notuð til að tákna hvaða tóntegund spilað er í. Þó hægt sé að skrifa alla tónlist einungis með lausum formerkjum þá gæti það reynst óhreinlegt til lengdar. Föst formerki. Föst formerki eru formerki sem sett eru á byrjun nótnastrengjanna til að tákna að tilteknar nótur séu alltaf breyttar nema annað sé tekið fram. Algengast er að þetta sé gert til að skilgreina tóntegundir. Dæmi: Ef spilað er í F-dúr sem hefur eitt bé er merkt bé strenginn þar sem nótan H er á eftir nótnalyklinum á nótnablaðinu. Þá verða öll H að B, nema annað sé tekið fram, en það er einmitt einkenni F-dúrs. Þegar notuð eru föst formerki eru þau skrifuð í tiltekinni röð eftir því hvernig þau hlaðast upp miða við fimmundahringinn. Föst formerki saman standa einungis af annað hvort krossum eða béum, engar tóntegundir hafa blönduð formerki, þó laus formerki geti verið af öllum toga. Nútímatónlist hefur oft enga fasta tóntegund en ef svo er eru yfirleitt notuð laus formerki. Röð fastra formerkja. Til að nota töfluna þarftu að vita hversu mörg formerki tóntegundin sem þú ert að athuga er með. Ef þú sérð á nótnablaði þrjá krossa við nótnastafinn þá geturðu séð á töflunni að krossarnir eru í réttri röð F C G (og tóntegundin a-dúr/fís-moll sjá fimmundahringinn). Að sama skapi ef tóntegundin hefur fimm bé (des-dúr/b-moll) sérðu að formerkin eru í réttri röð H E A D G. Eins og sést á töflunni hér að ofan er röð fastra lækkunarmerkjá (béa) öfug við röð fastra hækkunarmerkja (krossa). Tvíhækkannir og tvílækkannir. Tvíhækkanir og tvílækkanir geta átt sér stað þegar verk flakka í fjarlægar tóntegundir frá C dúr/a moll. Tvíhækkun er merkt með xi (x) og tvílækkun merkt með tvem béum (bb). Þessar tvíhækkuðu/tvílækkuðu nótur eiga þó alltaf samsvarandi nótu sem mætti skrifa á einfaldari hátt fyrir hljóðfæraleikara. Til dæmis er tvíhækkað F sama nóta og G og tvílækkað E sama nóta og D. Þær eru ekki sömu nóturnar í tónfræðilegu samhengi en fyrir hljóðfæraleikara eru þessar nótur á sama stað á hljóðfærinu. Þess vegna er tvíhækkunum og tvílækkunum stundum sleppt og nóturnar einfaldaðar fyrir flytjandann. Tónbil. Tónbil er bilið milli tveggja nótna í tónlist. Bilið er mælt í nótnabókstöfum en þar sem stundum er heiltónsbil milli bókstafa og stundum hálftóns þá þarf að nota litil, stór, hrein, minnkuð og stækkuð tónbil til að tákna alla fræðilega möguleika á tónbilum. Útskýringardæmi. Til að þekkja stærð tónbilsins geturðu einfaldlega talið bókstafina (með tilliti til að H sé milli A og C í stað bés og að eftir G komi A aftur). Bilið milli A og C er til að mynda þríund því AHC eru þrír bókstafir, að sama skapi er bilið milli F og A þríund því FGA eru þrír bókstafir en samt er ein fleiri nóta milli F og A heldur en A og C. Það gerir að verkum að A-C er lítil þríund og F-A er stór þríund. Einnig ef við værum með lækkaða nótu í A-C sumsé A-Ces þá væri ennþá um að ræða þríund en hún væri minni en litla þríundin og því minnkuð þríund að sama skapi ef A væri hækkaði í F-A sumsé F-Aís þá væri um að ræða stækkaða þríund. Hrein tónbil. Hrein tónbil eru af þeirri stærð að þau ná alltaf jafn mörgum nótum á milli sín sama hvar þau eru spiluð. Því eru þau aldrei stór né lítil og þar af leiðandi hrein. Hrein tónbil geta þó verið stækkuð og minnkuð. Stækkaða ferundin/minnkaða fimmundin. Vegna eðli hreinna fimmunda og hreinna ferunda myndast gat á milli þeirra, þar sem ekkert „náttúrulegt“ (stórt, lítið, hreint) tónbil er. Þetta gerir það að verkum að eina leiðin til að spila 6 hálftónsbil (eða hálfa áttund) er með stækkaðri ferund eða minnkaðri fimmund. Þess má geta að sökum þess hversu erfitt þykir að syngja þetta tónbil var það ekki notað fyrr á öldum. Það þótti og hljóma illa, enda mjög ómstrítt, og var kallað kallað "diabolus in musica" eða tónskratti. Samhljóma tónbil. Samhljóma tónbil eru tónbil sem eru tónfræðilega ólík en eru spiluð eins á hljóðfærið og hljóma eins fyrir hlustandan. Þar sem tónbil eru notuð í samræmi við tóntegundir og hljóma getur það heitið mismunandi nöfnum en hljómað alveg eins. Dæmi: Stór tvíund hljómar alveg eins og minnkuð þríund enda jafn stór bil og spilað eins á hljóðfærin. Stækkuð ferund hljómar alveg eins og minnkuð fimmund, stækkuð sjöund hljómar alveg eins og áttund, minnkuð tvíund hljómar alveg eins og einund og svo má lengi telja. Tónbil stærri en áttund. Þegar verið er að tala um tónbil er staðsetning nótna í áttundum yfirleitt sleppt og því verður stór níund tæknilega það sama og stór tvíund og stór þrjátu og þrírund verður því líka stór tvíund. Stærðfræðileg útskýring. Þegar talað er um tónbil er verið að tala um hlutfall milli nótna og því tvöfalda áttundir hlutfallið en hafa engin bein áhrif. Ein áttund er 2:1, það er efri nótan er með helmingi hraðari sveiflutíðni en nótan fyrir neðan. Því getum við séð að áttund gefur okkur ekkert brot og ekkert hlutfall til að vinna með. Ef við erum með stóra þríund þá er hlutfall hærri nótunnar 5:4 miða við þá lægri. Þetta gerir það að verkum að stór tíund (áttund + þríund) sem er með hlutfallið 10:4 má þátta í áttund og þríund eða 2:1 * 5:4 sem sýnir að sama brot stendur eftir og hjá þríund. Earl Grey (te). Earl Grey er svart te bragðbætt með bergamíu. Þetta var uppáhalds tetegund Douglas Adams. Ólympíuleikarnir. Ólympíuleikarnir (eða ólympsku leikarnir) eru alþjóðlegt fjölíþróttamót sem haldið er á fjögurra ára fresti og skiptist í Sumarólympíuleikana og Vetrarólympíuleikana þar sem keppt er í vetraríþróttum. Ólympíuleikarnir eru byggðir á Ólympíuleikunum fornu sem haldnir voru í Grikklandi í fornöld og voru endurvaktir af Frakkanum Pierre de Coubertin seint á 19. öld. Fyrstu Sumarólympíuleikarnir voru haldnir árið 1896 í Aþenu og fyrstu Vetrarólympíuleikarnir árið 1924 í Chamonix í Frakklandi. Upphaflega voru þessi tvö mót haldin á sama ári, en frá 1994 er tveggja ára bil á milli þeirra. Júdó. Júdó eða japönsk glíma er bardagaíþrótt sem Japaninn Jigoro Kano setti á stofn árið 1888. Kano byggði Júdó á eldri vopnlausri bardagaaðferð sem heitir jiu jitsu og byggist á gripum og lásum úr glímu. Hann bætti við ströngum reglum sem vörðuðu samskipti íþróttamanna innan æfingarsalar og byggja á japönskum hefðum auk reglna um íþróttina sjálfa. Júdó merkir bóstaflega „hinn mjúki vegur“. Judo á Íslandi. Eftir að hnefaleikar voru bannaðir með samþykki Alþingis 19. desember 1956 hófu hnefaleikamenn að leita fyrir sér í öðru sporti og varð úr að margir hófu að æfa Judoíþróttina. Glímufélagið Ármann í Reykjavík var fyrsta félagið sem hóf að æfða Judo og var fyrsti þjálfari félagsins Þjóðverjinn Frihelm Geyer. Leitast var við fá Íslenska þjálfar og í þeim tilgangi var Sigurður H. Jóhannsson valin til að fara erlendis til Judonáms, hann er talinn einn helsti brautryðjandinn júdó-íþróttarinnar hérlendis. Hann gekkst fyrir stofnun júdódeildar í Ármanni árið 1957 og voru með honum í fyrstu stjórn, þeir Þorkell Magnússon og Björn Eyþórsson, sem einnig voru fyrrum hnefaleikamenn. Einnig unnu þeir Reimar Stefánsson og Ragnar Jónsson mikið að framgangi íþróttarinnar. Árið 1958 fór Sigurður til Kaupmannahafnar í júdóskóla og tók þar sín fyrstu próf. Hann dvaldi einnig við júdóæfingar í London árið 1960. Er heim kom miðlaði hann þekkingu sinni og kynnti þjálfunaraðferðir og keppnisreglur. Fyrsti Íslendingurinn til að bera svart belti var Ragnar Jónsson. Árið 1967 var Júdófélag Reykjavíkur formlega stofnað, en hafði þá æft og keppt um tveggja ára skeið. ÍSÍ lét málefni júdómanna til sín taka og árið 1968 var sett á stofn sérstök Júdónefnd innan ÍSÍ til að sinna málefnum þeirra og undirbúa stofnun sérsambands. Nefndin efndi einnig til júdódags og fyrsta opinbera mót á Íslandi. Að vísu höfðu verið haldin nokkur innan- félagsmót í æfingasölum félaganna. Mótið fór fram 11. mars 1970. Keppendur voru átján frá Ármanni en fjórtán frá JFR og urðu þeir síðarnefndu hlutskarpari. Í úrslitaglímu sigraði Sigurður Kr. Jóhannsson (alnafni upphafsmannsins) Svavar Carlsen, en Japanarnir Kobayashi og Yamamoto sýndu og kenndu ýmis atriði júdósins. Fyrsta Íslandsmeistaramótið var síðan haldið 1971 og þá sigraði Svavar Carlsen í þungavigt, Sigurjón Kristjánsson í millivigt og opnum flokki. Júdósamband Íslands var stofnað 28. janúar 1973, að forgöngu júdónefndar ÍSÍ og stóðu fjö félög að stofnuninni. Fyrstu stjórn JSÍ skipuðu þeir Eysteinn Þorvaldsson, formaður. Jón Ö. Þormóðsson, Óttar Halldórsson, Sigurður H. Jóhannsson og Þórhallur Stígsson. Svavar Carlsen var fyrsta stjarna Íslendinga í júdó. Hann var Íslandsmeistari 1974-76 og hlaut silfur á Norður- landamótinu 1973. Á NM 1974 vann sveit Íslands silfurverðlaun í flokkakeppni og á NM 1975 unnu þeir Gísli Þorsteinsson og Halldór Guðbjörnsson til verðlauna í sínum þyngdarflokkum. Gísli Þorsteinsson og Halldór Guðbjörnsson unnu báðir silfurverðlaun. Gísli Þorsteinsson (Einarssonar) vann það afrek 1976 að verða Norðurlanda- meistari en Halldór Guðbjörnsson vann brons, sama ár hefst þátttaka okkar í júdó á Ólympíuleikum. Árið 1977 unnu þeir svo báðir Gísli og Halldór til gullverðlauna og Viðar Guðjónsson og Svavar Carls unnu Silfur í sínum flokkum. Flestum er kunn hin glæsilega sigurganga á Íslands- og Norðurlandamótum, sem náði hámarki er hann hreppti bronsverðlaun á Ólympíuleikunum 1984. Beltakerfi og klæðnaður í Júdó. Í Júdó er notast við galla með þykkum kraga, belti og buxur. Gallinn og buxurnar eru úr þéttu og sterku efni til að rifna síður við átök. Júdóiðkendur hafa belti í lit sem gefur til kynna hversu langt kominn iðkandinn er í greininni. Beltakerfi eru ekki eins alls staðar í heiminum. Á Íslandi eru beltin í röðinni frá lægstu til hæstu gráðu: hvítt, gult, appelsínugult, grænt, blátt, brúnt og loks svart. Keppni. Júdó er meðal annars ólympísk keppnisíþrótt. Sigur í keppni fæst með því að kasta andstæðingnum með tæknilega fullnægjandi kasti, halda honum í löglegu fastataki í 15 sekúndur eða að þvinga hann til uppgjafar með lási eða svæfingartaki. Einnig er hægt að sigra viðureign á stigum sem fengist hafa m.a. fyrir tæknilega ófullkomin köst ef tímamörk viðureignarinnar renna út. Kalvin og Hobbes. Calvin margfaldar sig í bókinni "Scientific Progress Goes "Boink". Kalvin og Hobbes eru myndasögur eftir Bill Watterson og heita eftir aðalpersónunum tveimur, Kalvin og Hobbes. Kalvin er hugmyndaríkur en óstýrilátur sex ára drengur með mikið ímyndunarafl. Hobbes er tuskudýrið hans, en í huga Kalvins er Hobbes lifandi. Á Íslandi birtist myndasagan fyrst árið 1986 í Þjóðviljanum undir nafninu Kalli og Kobbi. Síðar hefur myndasagan um þá Kalvin og Hobbes birst í Morgunblaðinu. U2. U2 er írsk rokkhljómsveit sem stofnuð var 1976 í Dublin. Sveitin hefur verið ein vinsælasta hljómsveit heims allt frá 9. áratug síðustu aldar. Meðlimir hennar eru Bono (rétt nafn Paul Hewson), Larry Mullen, The Edge (David Howell Evans) og Adam Clayton. Ásamt því að spila á tónleikum og ferðast um heiminn er hún dugleg við að berjast fyrir mannréttindum og styrkir ýmis konar mannúðarstörf. Bogfimi. Bogfimi er sú iðja að skjóta örvum af boga. Í gegnum aldirnar hefur bogfimi verið notuð í hernaði og til veiða en er nú stunduð einnig sem nákvæmnisíþrótt og er ólympíugrein. Saga. Elstu áreiðanlegu heimildir um bogfimi eru frá því fyrir um 50 þúsund árum. Boginn hefur líklega átt uppruna sinn í veiðisamfélögum, og var síðar gert að stríðsvopni. Bogar tóku við af atlatl sem helsta aðferð við að skjóta. Merki eru um bogfimi á forsögulegum tíma í öllum heimsálfum nema Ástralíu, sem sýnir að bogfimi er bæði einföld og fjölbreytt. Bogfimi í Evrópu. Siðmenningar fornaldar, þá sér í lagi Makedóníumenn, Grikkir, Persar, Indverjar og Kínverjar, notuðu mikinn fjölda bogaskytta í herjum sínum. Örvar reyndust sérlega áhrifaríkar gegn þéttum herfylkingum, og notkun bogaskytta réð oft úrslitum í stríðum. Bogaskyttur riðu stundum á hestbaki til þess að sameina hraða og langdrægni. Apollon, Ódysseifur og aðrar goðsagnaverur voru oft málaðar með boga í hönd. Á miðöldum var bogfimi mun minna notuð í hernaði í Vestur-Evrópu en almennt er talið. Bogaskyttur voru oft verst launuðu hermenn herja, og jafnvel voru þeir teknir úr röðum bænda. Þetta var fyrst og fremst raunin sökum þess hve ódýrt var að koma upp fullbúinni bogaskyttu miðað við það hvað það kostaði að útbúa hermann með góða brynju og sverð. Bogar voru sjaldan miklir áhrifavaldar í stríðum þá og voru álitnir leikföng eða smælingjavopn af hefðarfólki. Víkingar notuðu þó boga í miklum mæli, með góðum árangri, í ránsferðum um alla strandlengju Vestur-Evrópu, og jafnvel langt inn á Miðjarðarhaf á 9. og 10. öld. Á tíma hundraðárastríðsins voru Englendingar byrjaðir að nota stóra hópa bogaskytta sem öflugt vopn í hernaði. Ensku langbogarnir voru til á hverju heimili, en frjálsum bændum var skipað að æfa reglulega frá unga aldri. Sérhver strákur fékk boga í sinni hæð, og voru haldnar keppnir til þess að hvetja fólk til árangurs. Í hundraðárastríðinu skutu breskir langbogahermenn af bogunum með tveimur fingrum; vísifingri og löngutöng. Franskir hermenn sem náðu að hertaka bogaskytturnar hjuggu þá gjarnan af þeim þá fingur, og er upp frá því komin sú ögrun sem þekkist á Bretlandseyjum enn í dag, að sýna þessa tvo putta sundurglennta sem tákn um sigur. Í bardaga myndu þeir gjarnan skjóta tveimur örvum í senn, öðrum hátt og öðrum lágt. Þær myndu hæfa andstæðinginn samtímis úr mismunandi stefnum, og gerðu þannig allar varnartilraunir erfiðar. Tilkoma bodkin hausa varð til þess að örvarnar höfðu meiri áhrif á skildi og brynjur. Lásbogar eru upprunnir frá klassíska tímabilinu, en urðu fremur vinsælir á miðöldum. Það tók mörg ár að þjálfa langbogahermann, en hver sem er gat orðið sæmilega fær með lásboga á tiltölulega stuttum tíma. Lásbogar höfðu svipað afl og drægni og langbogar, en helsti ókostur þeirra var hve langan tíma það tók að endurhlaða þær. Það að lásbogar gátu skotið í gegn um brynjur olli ótta meðal lénsherrana, og var vopnið því bannað í öðru Lateranaráðinu, í það minnsta meðal kristinna manna, en með litlum árangri. Tilkoma skotvopna gerði úreldaði boga í hernaði. Þó svo að bogar höfðu meiri drægni og gátu skotið hraðar en fyrstu byssurnar, þá gátu byssur skotið í gegnum velflestar brynjur og þurfti litla kunnáttu eða þjálfun til þess að beita þeim. Síðari þróun gaf skotvopnum smám saman kosti fram yfir boga í drægni, nákvæmni, og að lokum hleðslutíma. Þegar að bogar fóru að glata vinsældum sínum mátti sjá ýmsar konunglegar tilskipanir sem kváðu á um bogfimiiðkun allra vopnbærra karlmanna, en það náði hámarki með tilskipun Henry VIII um að öll íþróttaiðkun væri bönnuð á sunnudögum, að bogfimi undanskilinni. Bogfimi í Asíu. Bogfimi hafði einnig náð mikilli útbreiðslu í Asíu. Í nútímanum er enn iðkuð bogfimi í Asíulöndum, en er ekki stunduð sem alþjóðleg keppnisíþrótt. Miðasískar skyttur voru einstaklega færar í að skjóta af hestbaki, og Mongólir notuðu það til gríðarlegra landvinninga. Þeir skutu andstæðinginn þegar þeir nálguðust hann, og snéru sér svo við á hnakkinum til þess að skjóta aftur eftir að þeir fóru fram hjá. Örvar þeirra voru mýkri og sveigjanlegri en vestrænar örvar, með minni fjöðrum. Bogfimi var mjög útbreidd í Indlandi, og fjallar eitt af helstu trúarritum Hindúisma, Bragavad Gita, um hetjudáðir bogaskyttunnar Arjuna og samskipti hans við guðina. Bogi hans, "Gandiva", er Indverskur samoki sverðsins Excalibur. Bogfimi á Íslandi. Á Íslandi er lítil hefð fyrir bogfimi, en þó þekkist hún lítillega úr Íslendingasögunum. Frægastur er Gunnar á Hlíðarenda í þessu samhengi, en hann er sagður hafa átt boga sem aldrei missti marks, en vitað er að bogi hans hefur verið útlitslega frábrugðinn þeim bogum sem tíðkuðust á þessum tíma. Nýlegar kenningar gefa til kynna að boginn kunni að hafa verið húnbogi, kominn til Íslands frá Asíu í gegnum Miklagarð eða Kænugarð, og þangað frá Silkiveginum. Þá hefur fundist beinhringur með sérkennilegum rákum og fallegum myndskreytingum sem Þórarinn Eldjárn taldi að væri þumalhringur fyrir bogskyttur frekar en „servíettuhringur fornaldar“. Hann var síðar neyddur til þess að draga þessa kenningu til baka. Bogfimi hefur ekki verið stunduð lengi sem íþróttagrein á Íslandi. Árið 1974 var Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík stofnað, og hófust þá skipulagðar æfingar á bogfimi. Ári síðar hófust bogfimiæfingar á Akureyri hjá Íþróttafélaginu Akri, sem þá hét "Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri". Nú eru einnig stundaðar æfingar á bogfimi hjá Íþróttafélaginu Nesi í Reykjanesbæ. Það eru þó fæstir þeirra sem æfa bogfimi undir merkjum þessarra félaga sem eru fatlaðir, heldur er mjög blandaður hópur fatlaðra og ófatlaðra. Á Íslandsmóti fatlaðra, sem haldið er á vegum Íþróttasambands fatlaðra árlega, er keppt í þremur flokkum í bogfimi að jafnaði; þ.e. karla- og kvenna flokkum fatlaðra og opnum flokki þar sem allir hafa getað tekið þátt, jaft fatlaðir sem ófatlaðir. Bogfiminefnd starfar á vegum ÍSÍ sem hefur það hlutverk að vinna að framgangi bogfimi á Íslandi, og er Íslandsmót í bogfimi haldið á vegum ÍSÍ árlega, en árið 2006 var haldið forgjafarmót í fyrsta skiptið. Einar Bragi Sigurðsson. Einar Bragi Sigurðsson (fæddur 7. apríl 1921 á Eskifirði, dáinn 26. mars 2005 í Reykjavík) var íslenskt skáld og þýðandi. Ævi og störf. Einar varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1944. Sumarið 1945 kvæntist hann Kristínu Jónsdóttur frá Ærlækjarseli í Öxarfirði. Hann nam listasögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi (1945-1946) og Stokkhólmi (1950-1953). Hann stofnaði tímaritið "Birting" eldra 1953 og gaf það út í tvö ár. Þá var hann ábyrgðarmaður "Birtings" yngra 1955-1968 og ritstjóri ásamt Jóni Óskari, Thor Vilhjálmssyni og Herði Ágústssyni. Birtingur var barátturit fyrir nýjum stefnum í bókmenntum og listum og hafði meðal annars víðtæk áhrif á viðhorf manna til ljóðlistar. Bókmenntastörf Einars Braga eru mikil að vöxtum og margvísleg. Hann skrifaði í fimm bindum "Eskju" (Eskifirði 1971-1986), sögu heimabyggðar sinnar, sem byggir á mjög umfangsmikilli heimildaleit. Önnur þrjú bindi með sögulegum fróðleik heita "Þá var öldin önnur" (Reykjavík 1973-1975), efnið úr Austur-Skaftafellssýslu og Austfjörðum, að mestu leyti heimildarannsókn höfundar. Efnislega dálítið skyld er bókin "Heyrt og munað" (Reykjavík 1978), sem Guðmundur Eyjólfsson frá Þvottá ritaði en Einar Bragi bjó til prentunar. Eitt sögulegt rit enn heitir "Hrakfallabálkurinn - Viðtöl við Plum kaupmann í Ólafsvík" (Reykjavík 1982), og er að vísu ekki ritað í fræðilegum stíl en samt reist á skjalarannsóknum í Kaupmannahöfn, eins og kemur fram í eftirmála. Einnig gaf Einar Bragi út bernskuminningar sínar, "Af mönnum ertu kominn" (Reykjavík 1985). Þá þýddi hann nokkrar skáldsögur og fjölda leikrita. Ber þar hæst "Hús Bernhörðu Alba" eftir Federico Garcia Lorca og leikrit Augusts Strindbergs og leikrit Henriks Ibsens, hvors um sig í tveim bindum. Einna snarastur þáttur í ritmennsku Einars Braga er þó ljóðagerð. Hann var skeleggur baráttumaður fyrir endurnýjun formsins á 20. öld og má segja að hann hafi farið fyrir atómskáldunum svonefndu. Einar Bragi var stöðugt að fága ljóð sín og eru síðari ljóðabækur hans strangt endurskoðað úrval þeirra fyrri. Í eftirmála við "Í ljósmálinu" segist hann ánægður „ef takast mætti að ljúka einu boðlegu ljóði fyrir hvert ár ævinnar. Segja má, ég hafi alltaf verið að yrkja sömu bókina…“ Og bætir síðan við í lokin: „Ég hlýt því að biðja grandvara lesendur að taka aldrei mark á öðrum ljóðabókum mínum en þeirri seinustu og reyna að týna hinum, séu þeir ekki búnir að því.“ Í ljósi þessa er eftirtektarvert að sjá að í seinustu bók hans með frumsömdum ljóðum, "Ljós í augum dagsins", eru aðeins fjörutíu ljóð. Hún kom út þegar fimmtíu ár voru liðin frá útkomu þeirrar fyrstu. Einar Bragi fékkst mikið við ljóðaþýðingar, einkum á síðari árum. Er ekki síst fengur að þýðingum hans á ljóðum eftir grænlensk samtímaskáld í bókinni "Sumar í fjörðum" (1978) og þýðingum hans á ljóðum Sama. Hefur hann gefið út sjö bækur með þýðingum samískra bókmennta og kynnt skáldin og samíska menningu fyrir Íslendingum. Moritz Leuenberger. Moritz Leuenberger (fæddur þann 21. september 1946 í Biel) er svissneskur stjórnmálamaður. Moritz Leuenberger er í flokki sósíaldemókrata (SPS/PSS). Tengill. Leuenberger, Moritz Mississippifljót. Mississippifljót er annað lengsta fljót Bandaríkjanna á eftir Missourifljóti sem rennur í Mississippi. Samanlagt mynda fljótin tvö langstærsta fljótakerfi Norður-Ameríku. Aðalþverá Mississippifljóts er Ohiofljót. Upptök fljótsins eru í Itascavatni norðvesturhluta Minnesota, og þaðan rennur það 3.733 km leið að Mexíkóflóa. Mississippifljót rennur í gegnum tvö fylki; Minnesota og Louisiana, en myndar auk þess landamæri Wisconsin, Iowa, Illinois, Missouri, Kentucky, Arkansas, Tennessee og Mississippi. Titikakavatn. Titikakavatn er stærsta stöðuvatn Suður-Ameríku og hæsta stóra stöðuvatn heims, í 3.851 m hæð yfir sjávarmáli. Yfirborð þess er um 8.300 ferkílómetrar að stærð. Vatnið er á hásléttu í Andesfjöllum á landamærum Bólivíu og Perú. Það er 280 metra djúpt þar sem það er dýpst, en meðaldýpt þess er á milli 140 og 180 metrar. Sauðfé. Sauðfé (fræðiheiti "Ovis aries") eru ullarklædd, fjórfætt jórturdýr (ættkvísl "Ovis"). Sauðfjárkyn eru talin upprunin í fjallendum Tyrklands og Írans (fræðiheiti "Ovis orientalis"), en vísbendingar eru um það sauðfjárkyn frá því um 9.000 f.Kr. Hjörðin. Sauðfé er hóp- og flóttadýr sem getur hlaupið undan óvini sínum. Við meiri ræktun og aukna áherslu á kjötgæði hefur hraði dýrsins minnkað umtalsvert. Þó hefur náttúrulegum óvinum fækkað, því nú er fénu víðast hvar haldið innan girðingar og eftirlit haft með því. Margar sauðfjártegundir eru hyrndar til að verjast árás en einnig til að berjast um tign og stöðu í fjárhópnum. Einnig eru til hnýflóttar kindur (sem hafa lítil og/eða óregluleg horn) og kollótt fé, sem hefur ekki horn. Fengitími ánna er hjá flestum kynjum að hausti og kallast það að kindin sé blæsma, eða gangi, 30 til 36 klukkustundum fyrir egglos. Beiðslishringurinn tekur 16 til 17 daga, það er að ærnar ganga á svo margra daga fresti. Meðganga er nokkuð mismunandi milli tegunda, en algeng lengd er 142 dagar. Þegar ærin fæðir afkvæmi sitt kallast það burður. Mjög algengt er að ærnar eigi 2 lömb hver, en bæði færri og fleiri afkvæmi eru einnig algeng. Ekki gengur burðurinn alltaf sem skyldi og því þarf maðurinn stundum að grípa inn í, sérstaklega ef lömbin eru flækt saman, þau komi einungis með höfuð aftur í grind eða komi á afturlöppunum. Við eðlilegan burð liggur höfuð lambsins milli beggja framlappanna. Tegundir. Í heiminum eru margar sauðfjártegundir sem hafa ólíka eiginleika. Sumar eru ræktaðar til kjötframleiðslu, aðrar til ullarframleiðslu og sumar til mjólkurframleiðslu. Margar tegundir búa yfir ólíkum eiginleikum, t.d. íslenska sauðkindin, sem bæði er nýtt til kjöt- og ullarframleiðslu. Ólíkar tegundir hafa ólíka liti og líkamsbyggingu, auk þess sem ullin er ólík milli þeirra. Sumar tegundir hafa í raun ekki ull, heldur eru frekar hærðar og missa undirhárin (þelið) á sumrin og haustin. Þessar tegundir þrífast frekar þar sem er heitt í veðri og eru einnig vinsælar sem tómstundadýr eða félagar. Litaerfðir. Sauðfé hefur 3 megin-litaerfðasæti, A-, B- og S-sæti. A-sæti hefur 5 erfðavísa sem erfast eftir röðinni, mest ríkjandi efst en B-sætið segir til um hvort kind verður svört eða mórauð. Svart, B, ríkir yfir mórauðu, b. Þannig er arfhrein svört kind með erfðavísinn BB, arfblendin svört Bb en mórauð bb. Til að litur í B-sæti komi fram þarf að vera aa-erfðavísir í A-sæti. S-sætið segir til hvort kind verði einlit eða tvílit (flekkótt). Einlitt er ríkjandi yfir tvílitu svo flekkóttar kindur eru allar með ss-erfðavísi. Í hvítum kindum kallar S-sætið fram gult (ríkjandi) eða hreinhvítt sé kindin arfhrein víkjandi (ss). Nafngiftir. Afkvæmi kinda kallast lömb, hrútlömb eru karlkyns en gimbrar kvenkyns. Fullorðin kvenkyns kind kallast ær en karlkynið nefnist hrútur. Geltur hrútur kallast geldingur fyrsta veturinn en síðar sauður. Kindur á fyrsta vetri kallast einu nafni gemlingar eða gemsar. Móðurlaus lömb sem gefið er úr pela eða flösku kallast heimalningar (heimaalningar) eða heimalingar, heimagangar eða pelalömb. Lömb sem eru móðurlaus en fá ekki mjólk úr pela kallast graslömb. Menningararfur. Hrúturinn (Aries), fyrsta stjörnumerki dýrahringsins. Myndin er fengin úr gömlu stjörnukorti. Í kristinni trú merkir lamb hið saklausa og góða en jafnframt var Jesús Kristur góði fjárhirðirinn. Fjárhirðar koma fram á fleiri stöðum í kristinni trú, en einnig í gyðingdómi, þar sem gyðingar fagna frelsi sínu frá Egyptalandi. Hrúturinn (Aries) er eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Tímabil hrútsins varir frá vorjafndægri 21. mars til 19. apríl samkvæmt vestrænni stjörnuspeki, en frá 19. apríl til 13. maí samkvæmt Hindúatrú og austurlenskri stjörnuspá. Orðið sauður hefur verið notað sem meinyrði á karlmönnum gegnum tíðina. Ef karlmaður er borinn saman við sauð, þá er verið að benda á karlrembu, sóðaskap eða fávisku. Carl Philipp Emanuel Bach. Carl Philipp Emanuel Bach (8. mars 1714, 14. desember 1788) var þýskt tónskáld og einn upphafsmanna klassíska tímabilsins. Hann var annar sonur Johanns Sebastians Bachs og Mariu Barböru Bach. Hann átti upprunalega að fara út í réttarfarsvísindi, og útskrifaðist með gráðu úr þeim 1738, en ákvað þá að snúa sér alfarið að tónlistinni. Þó hann hafi fallið nokkuð í gleymsku á 19. öld, og hafi verið talinn koma illa út í samanburði við föður sinn, var hann eitt áhrifamesta tónskáld klassíska tímabilsins. Joseph Haydn fékk mikinn hluta af menntun sinni með því að skoða verk Bachs, Wolfgang Amadeus Mozart sagði um hann „Hann er faðirinn, við erum börnin“. Hann var eitt fyrsta tónskáldið síðan á tímum Orlande di Lassus og Claudio Monteverdi sem notaði hljómræn blæbrigði á þeirra eigin forsendum, en það er eitt af því sem einkennir mjög tónlist eftir hans tíma og er gott dæmi um þau miklu áhrif sem hann hafði. Aralvatn. Skip sem varð eftir á þurru landi þegar Aralvatn þornaði upp. Kort sem sýnir hvernig Aralvatn hefur hopað frá 1960 Aralvatn er salt stöðuvatn í Mið-Asíu á landamærum Úsbekistans og Kasakstans. Vegna nýrra áveitukerfa sem Sovétríkin gerðu í kringum árnar Amu Darja og Syr Darja hefur það minnkað um 60% frá 1960. Saltmagn í vatninu hefur þrefaldast, en auk þess er það mjög mengað þar sem affall frá þungaiðnaði og áburður hafa safnast fyrir í því. Engar ár renna úr Aralvatni. Hjalti Þór Vignisson. Hjalti Þór Vignisson (fæddur á Hornafirði 24. janúar 1978) er núverandi bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, en hann tók við bæjarstjórastólnum af Alberti Eymundssyni. Hjalti er stúdent frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Bajkalvatn. Bajkalvatn er stöðuvatn í sunnanverðri Síberíu í Rússlandi. Það er dýpsta og elsta stöðuvatn heims og inniheldur 20% af öllu ferskvatni jarðar með um 23.000 km³ af vatni. Í vatninu er gríðarlega fjölbreytt lífríki og 60% allra dýrategunda í vatninu finnast þar eingöngu. Eina spendýrið sem lifir í vatninu er bajkalselur ("Phoca sibirica") sem er afbrigði hringanóra. Lítið var vitað um vatnið fyrr en Síberíujárnbrautin var lögð kringum aldamótin 1900. Í vatninu eru þörungar sem hreinsa óhreinindi úr vatninu Níagarafossar. Níagarafossar eru röð gríðarstórra fossa í Níagarafljóti í austurhluta Norður-Ameríku á landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Þeir skiptast í þrjá fossa: Skeifufossa, Ameríkufossa og minni Brúðarslörsfossa til hliðar við Ameríkufossa. Níagarafossar eru ekki sérlega háir, en mjög breiðir. Þeir eru vatnsmestu fossar Norður-Ameríku. Þeir eru bæði gríðarlega vinsæll áfangastaður ferðamanna og mikilvæg uppspretta raforku. Rómanska Ameríka. Kort sem sýnir Rómönsku Ameríku Rómanska Ameríka er sá hluti Ameríku þar sem rómönsk tungumál eru opinber tungumál. Hugtakið nær þannig yfir öll lönd Suður-, Mið- og Norður-Ameríku sunnan landamæra Bandaríkjanna, fyrir utan löndin Jamaíku, Barbados, Belís, Gvæjana og Súrínam þar sem enska og hollenska eru opinber tungumál. Tuttugu lönd teljast til Rómönsku Ameríku og þar af er Brasilía langstærst. Þar er töluð portúgalska, ólíkt flestum hinum löndunum þar sem spænska er töluð. Kóralrifið mikla. Kóralrifið mikla er stærsta kóralrif heims. Það er yfir 2000 km að lengd og sést utan úr geimnum. Það er í Kóralhafi utan við austurströnd Ástralíu. Rifið er samfelld lína um 900 eyja og 3000 kóralrifja sem liggja skáhallt út frá strönd Queensland þannig að fjarlægð þess frá ströndinni eykst eftir því sem sunnar dregur. Rifið er í dag að mestu leyti friðað. Rifið var uppgötvað af James Cook þegar eitt af skipum hans, barkskipið "HMS Endeavour", strandaði á því árið 1770. Með því að létta skipið mikið tókst að bjarga því þrátt fyrir að kórallinn ylli gríðarlegum skemmdum á skipsskrokknum. Frægasta slysið sem orðið hefur á rifinu er strand freigátunnar "HMS Pandora" sem sökk þar 29. ágúst 1791. Yfir þrjátíu manns týndust í slysinu, þar á meðal fjórir uppreisnarmenn af skipinu "HMS Bounty" sem áhöfn "Pandora" hafði tekið höndum á Tahítí. Renminbi. Renminbi (kínverska: 人民幣; einfölduð kínverska: 人民币; bókstaflega: „gjaldmiðill fólksins“) eða júan (kínverska: 元 eða 圆) er opinber gjaldmiðill meginlands Alþýðulýðveldisins Kína. Hann er gefinn út af Alþýðubanka Kína, sem er seðlabanki alþýðulýðveldisins. Opinber skammstöfun fyrir gjaldmiðilinn samkvæmt ISO 4217-staðlinum er CNY, en oft er notast við skammstöfunina „RNB“. Gjaldmiðilstáknið er ¥ or Ұ, en á kínversku er yfirleitt notast við rittáknið 元. Eyjahaf. Eyjahaf (í fornu máli nefnt Grikksalt) (gríska: Αἰγαῖον Πέλαγος; tyrkneska: Ege Denizi) er hafsvæði í austanverðu Miðjarðarhafi á milli Grikklands og Anatólíuskagans. Það tengist Marmarahafi og Svartahafi um Dardanellasund og Bosporussund. Í suðri afmarka Krít og Ródos hafið frá meginhluta Miðjarðarhafs. Norður-Íshaf. Norður-Íshafið er 14.090.000 km² stórt úthaf á Norðurslóðum sem umlykur Norðurpólinn. Það er minnst af fimm úthöfum jarðar og það grynnsta; 1.205 metra djúpt að meðaltali og 3.440 metra djúpt þar sem það er dýpst. Stór hluti hafsins er þakinn íshellu sem breytist bæði að stærð og lögun eftir árstíðunum. Lönd sem liggja að Norður-Íshafinu eru Noregur, Rússland, Bandaríkin, Kanada, Grænland og Ísland. Brahmani. Brahmani er meðlimur yfirstéttarinnar í samfélagi hindúa. Þeir eru gjarnan prestar, kennarar og gúrúar. Regnskógur. Regnskógur er skógi vaxið búsvæðabelti þar sem meðalúrkoma er meiri en 1500 mm á ári og er meiri en uppgufun. Einkenni regnskóga er gríðarlega fjölbreytt lífríki bæði jurta og dýra. Aðeins 6% jarðar eru þakin regnskógi en helmingur allra dýra- og jurtategunda heims lifir þar. Regnskógar framleiða úðaefni sem eru mikilvæg fyrir skýjamyndun og hafa þannig áhrif á hitastig á jörðinni. Að auki taka regnskógar upp mikið af koltvísýringi og framleiða súrefni og hafa þannig mikil áhrif á samsetningu andrúmsloftsins. Stærstu regnskógar heims eru í kringum Amasónfljótið (Amasónfrumskógurinn), í Níkaragva, á stóru svæði frá suðurhluta Júkatanskaga að El Peten og Belís í Mið-Ameríku, á stórum svæðum í Afríku við miðbaug, frá Kamerún að Austur-Kongó, á svæðum í Suðaustur-Asíu frá Mjanmar til Indónesíu og Papúu-Nýju Gíneu, í austurhluta Queensland í Ástralíu og í sumum hlutum Bandaríkjanna. Utan hitabeltisins er regnskóga að finna í Bresku Kólumbíu, suðausturhluta Alaska, vesturhluta Óregon og Washington, vesturhluta Kákasus, hlutum Balkanskaga, Nýja Sjálandi, Tasmaníu og austurhluta Ástralíu. Dreifbýli. a> þar rétt hjá er dreifbýli. Dreifbýli eða strjálbýli er landsvæði þar sem fólk býr dreift, ólíkt þéttbýli (eins og bæjum og borgum) þar sem margt fólk býr þétt saman. Skilgreining á dreifbýli er samt nokkuð á reiki og getur átt við jafnt um sveitir þar sem eingöngu eru stórjarðir og eins hverfi þar nokkur býli eða íbúðarhús eru saman í bæjaþyrpingu. Dreifbýli er fyrst og fremst notað sem andstæða við hugtakið þéttbýli, en algengt er að leggja merkingu orðsins „sveit“ í hugtakið dreifbýli, þ.e. svæði þar sem aðalatvinnuvegir tengjast landbúnaði. Rúpía. Einnar rúpíu peningur frá Srí Lanka Rúpía (₨ eða Rs) er heiti á gjaldmiðli Indlands, Pakistan, Srí Lanka, Nepal, Máritíus og Seychelleseyja auk Indónesíu og Maldíveyja. Heitið er dregið af orði í sanskrít, "rūp" eða "rūpā" sem merkir silfur. Pakistanska og indverska rúpían skiptast í hundrað "paísa". Chicago. Chigaco er meðal annars þekkt fyrir glæsilega skýjakljúfa. Chicago, stundum ritað Síkagó, er stórborg í miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Hún er þriðja fjölmennasta borg landsins, með 2,85 milljónir íbúa árið 2006. Hún stendur á suðvesturströnd Michiganvatns og er stærsta borgin í fylkinu Illinois. Stór-Chicago svæðið, almennt þekkt sem Chicagoland hefur um 9,7 milljón íbúa skipt niður á fylkin Illinois, Wisconsin og Indiana og þar með er það þriðja stærsta borgarsvæði Bandaríkjanna. Chicago er í Cook sýslu sem hefur 5.376.741 íbúa (árið 2000) og er þar með næstfjölmennasta sýsla Bandaríkjanna. Borgin liggur meðfram suðvesturströnd Michiganvatns og er mikilvæg miðstöð samgangna, iðnaðar, stjórnmála, menningar, fjármála, lyfjaiðnaðar og menntunar. Borgin var stofnuð árið 1833 á hafnarstæðinu milli mikluvatna og Mississippi árinnar. Brátt varð hún samgöngumiðstöð Norður Ameríku. Árið 1893 var borgin valin ein af tíu áhrifamestu borgum heims. Saga. a> skömmu áður en byggingu lauk 1911 Um miðja 18. öld var svæðið fyrst og fremst byggt af Potawatomi ættbálknum. Fyrsti landneminn í Chicago var Haitibúinn Jean Baptiste Pointe du Sable en hann settist að um 1770 og giftist Potawatomi konu. Hann stofnaði þar fyrstu vöruskiptastöðina á svæðinu. Árið 1803 byggði Bandaríkjaher virkið Fort Dearborn, sem var lagt í rúst árið 1812 í Fort Dearborn fjöldamorðunum. Ottawa ættbálkurinn, Ojibwa ættbálkurinn og Potawatomi ættbálkurinn gáfu landið eftir til Bandaríkjanna með St. Louis samningnum árið 1816. Þann 12. ágúst 1833 var bærinn Chicago skipulagður með 350 íbúum og sjö árum síðar voru íbúar orðnir 4000 talsins. Chicago fékk borgarréttindi þann 4. mars 1837. Chicago var ein af mest ört vaxandi borgum heims á fyrstu öld sinni. Íbúafjöldin komst upp í eina milljón fyrir 1890. Frá árinu 1848 hefur borgin verið mikilvægur tengihlekkur milli austur- og vesturhluta Bandaríkjanna, þá fyrst með opnun Galena & Chicago Union Railroad, fyrstu járnbraut Chicagoborgar, sem og Illinois og Michigan skipaskurðsins sem leyfði gufuskipum og seglskipum að fara af mikluvötnum að Mississippi í gegnum Chicago. Sístækkandi efnahagur laðaði að borginni marga nýja íbúa frá sveitahéröðum og írsk-amerískir, pólsk-amerískir, sænsk-amerískir og þýsk-amerískir innflytjendur fluttust til borgarinnar í hrönnum. Árið 1880 bjuggu um 299 þúsund manns í borginni en um aldamótin 1900 voru þeir orðnir 1,7 milljónir. Eftir mikinn eldsvoða árið 1871 sem eyðilagði þriðjung borgarinnar, þar með talið viðskiptahverfið eins og það lagði sig, upphófst mikil uppsveifla tengd endurbyggingunni. Það var á þessum endurreisnarárum sem fyrsti skýjakljúfurinn var byggður með stálgrind (1885). Árið 1893 var haldin í borginni Word's Columbian Exposition hátíðina í mýrinni þar sem nú er Jackson Park. Hátíðin dró að sér 27,5 milljón gesti. Einu ári fyrr hafði Chicago Háskóli verið stofnaður á þessum stað. Borgin var upphafsstaður verkalýðsdeilna á þessum árum, sem fól meðal annars í sér Haymarket óeirðirnar 4. maí 1886. Áhyggjur af félagslegum vandamálum meðal fátækari stétta borgarinnar leiddu til stofnunnar Hull House árið 1889. Árið 1855 byrjaði Chicago að byggja fyrsta heildstæða skolpkerfi Bandaríkjanna, en til þess þurfti að hækka margar götur miðborgarinnar um allt að þremur metrum. Með þessu fór skolp og iðnaðarúrgangur beint út í Chicago á og þaðan í Michiganvatn og mengaði þar með vatnsbólið sem borgarbúar fengu drykkjarvatn sitt úr. Borgaryfirvöld brugðust við með því að leggja göng um þrjá kílómetra út í vatnið en rigningar á vorin báru skolpið út að inntaksrörunum. Loks var brugðið á það ráð að leysa vandann með því að snúa straumstefnu Illinois-ár við. Á þriðja áratug 20. aldar varð borgin víðfræg fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Glæpónar á borð við Al Capone börðust hver við annan á meðan að bjórbannið átti sér stað. En á sama tíma var mikil uppbygging í iðnaði ásamt því sem að þúsundir blökkumanna fluttust til Chicago og annarra norðlægra borga á þessum tíma. Þann 2. desember 1942 var fyrsta stýrða kjarnahvarfið framkvæmt í háskólanum í Chicago, sem var einn af upphafspunktum Manhattan verkefnisins. Á sjötta áratugnum fluttust margir efri- og millistéttaríbúar úr miðborginni í úthverfin og skildu eftir sig fjölmörg fátæk hverfi. Árið 1968 hýsti borgin Landsþing Bandaríska Demókrataflokksins og byrjaði byggingu á Sears turni (sem árið 1974 varð hæsta bygging heims) og O'Hare flugvellinum. Árið 1983 varð Harold Washington fyrsti blökkumaðurinn til þess að gegna embætti borgarstjóra eftir einn krappasta kosningaslaginn í sögu borgarinnar. Frambjóðandi repúblikannaflokksins, Bernard Epton, auglýsti framboð sitt með slagorðinu „áður en það er um seinan“, sem talið var skýrskotun til kynþáttafordóma. Á síðasta hluta 20. aldar varð mikil breyting á borginni og mörg hverfi sem áður höfðu verið mestmegnis yfirgefin hafa tekið sér líf að nýju. Nafn borgarinnar. Nafnið "Chicago" er frönsk mynd orðsins "shikaakwa" (villilaukur) úr Miami tungumálinu. Uppruni gæluheitisins "Vindasama borgin" er umdeild (sjá listann yfir gælunöfn). Algengasta skýringin er sú að dagblöð í New York hafi búið til nafnið til þess að lýsa mæðuleysi íbúa borgarinnar í umræðunni um hvort Chicago skyldi fá að hýsa heimssýninguna 1893. Hins vegar eru þekkt tilvik gæluheitisins eins langt aftur og 1876 í dagblöðum frá Cincinnati. Hagtölur. Árið 2006 var áætlað að 2.873.790 íbúar bjuggu í Chicago. Manntal Bandaríkjanna áætlar 2.842.518 sama ár. Árið 2000 var heildarmanntal, þá voru 2.896.016 manns í borginni, 1.061.928 heimili og 632.909 fjölskyldur í borginni. Það samsvarar einum fimmta íbúa Illinois-fylkis og 1% af íbúum Bandaríkjanna. Íbúaþéttleiki var 4.923 íbúar á ferkílómetra. Miami. Miami er stórborg á suðurodda Flórída í Bandaríkjunum. Í júlí 2006 bjuggu 404.048 manns í borginni sjálfri en um fimm milljónir búa í borginni og nágrannabyggðum hennar. Borgin óx hratt á árunum eftir Síðari heimsstyrjöldina og íbúafjöldinn tók síðan enn einn kipp eftir byltinguna á Kúbu 1959. Allt frá þeim tíma hefur Miami verið áfangastaður innflytjenda frá ýmsum löndum Rómönsku Ameríku. Um tveir þriðju hlutar borgarbúa eru af rómönskum ættum og í borginni eru þrjú opinberlega viðurkennd tungumál; enska, spænska og haítí-kreólska. Blak. Blak er ólympíu- og boltaíþrótt þar sem tvö sex-manna lið spila hvort gegn öðru en hátt net skilur vallarhelminga þeirra að. Liðin fá stig ef þau koma boltanum í gólf andstæðingsins, andstæðingurinn fær á sig villu eða slær boltann út af vellinum. Saga. Blakið var fundið upp 1895 af kennara við KFUM-búðir í Massachusetts í Bandaríkjunum, en hann óskaði eftir leik sem hægt væri að stunda innanhúss og að margir gætu leikið í einu. Hann samdi því reglur fyrir "Mintonette", en hann var mun fágaðari en körfuknattleikurinn sem fundinn var upp á sama tíma. Alþjóða blaksambandið ("Fédération Internationale de Volleyball" (FIVB)) var stofnað árið 1947 og það hélt fyrsta heimsmeistaramótið fyrir karla árið 1949 og fyrir konur árið 1952. Blakið varð ólympíugrein árið 1966. Strandblak var tekið inn í FIVB árið 1986 og það varð ólympíugrein árið 1996. Fyrsta landið, utan Bandaríkjanna, til að taka upp blakiðkun var Kanada upp úr 1900. Í kjölfarið fylgdi Evrópa (en íþróttin er sérlega vinsæl á Ítalíu, í Serbíu og í Hollandi), Rússlandi og í Asíuríkjum á borð við Kína. Völlur og bolti. Blakvöllurinn er 18 metra langur og 9 metra breiður með 1 metra háu neti sem skilur vallarhelmingana að. Efra borð netsins á að vera í 2.43 metra hæð frá gólfi í karlakeppnum en 2.24 metra hæð í kvennakeppnum. 3 metra frá netinu inn á hvorn vallarhelming er "sóknarlínan" en hún skiptir vallarhelmingunum í fram- og afturvarnir. Blakbolti er léttur bolti, um 65-67 cm í ummál. Boltinn er gerður úr saumuðu leðri eða gerviefnum. Stöður leikmanna inná vellinum. Mynd sem sýnir hvernig leikmenn skipta um stöður innan vallar Þegar lið öðlast uppgjafarréttinn verða liðsmenn að skipta um stöður með því að taka sér næstu stöðu sem fyrir kemur réttsælis. Á myndinni sést númeraður blakvöllur sem sýnir stöður leikmanna á vellinum. Leikmaður í stöðu 1 fer í stöðu 6, leikmaður í stöðu 6 fer í 5 og svo koll af kolli, leikmaður í stöðu 1 tekur uppgjöf. Leikmenn 1, 5 og 6 eru í „afturlínu“ og leikmann 2, 3 og 4 eru „frammi“. Gangur leiksins. Kastað er upp á hvort liðið fær uppgjafarréttinn. Liðin stilla sér upp, þrír í fremri röð og þrír í þeirri aftari. Þegar gefið er upp þarf boltinn að komast yfir netið, og má snerta það. Lið andstæðingsins reynir að koma boltanum aftur yfir netið með því að slá boltann, þó ekki oftar en þrisvar sinnum. Oftast er fyrsta snerting tekin innan á framhandleggjum þegar þeir eru lagði í V-stöðu og boltinn gefinn fram að netinu þar sem önnur snerting er með "fingurslagi" til þriðja leikmannsins sem stekkur upp og "smassar" boltann niður og yfir netið. Til að sporna gegn smössum stillir hitt liðið sér upp í "hávörn" og stekkur á móti boltanum, þétt upp við netið. Þeir mega þó ekki snerta það, annars er dæmt "net". Ef boltinn kemst framhjá hávörninni verða aftari menn að verjast boltanum með "lágvörn"(tiger). Stigagjöf. Ef boltinn lendir í gólfinu, eða villa er dæmd, fær það lið sem ekki fékk á sig villuna stig, hvort sem það átti uppgjöfina eða ekki. Liðið sem hlaut stigið vinnur einnig uppgjafarréttinn. Ef liðið sem fékk stigið gaf upp heldur leikmaðurinn, sem gaf upp, áfram að gefa upp. Hins vegar, ef liðið sem fékk stigið gaf ekki upp, snúa leikmennirnir rangsælis og skipta um stöður. Til að vinna leik þarf lið að vinna þrjár hrinur og til að vinna hrinu þarf að skora 25 stig. Ef staðan hinsvegar er t.d. 24-25, þá vinnur liðið sem er fyrst að ná tveggja stiga forskoti. Ef leikurinn fer í fimmtu hrinu, þá er sú hrina einungis upp í 15, og er skipt um vallarhelming þegar annað liðið kemst í átta stig. En eins og áður þarf að vinna með að minnsta kosti tveimur stigum. Strandblak. Strandblak er nýlegri útgáfa blaks, en það hefur þróast frá tómstundagamni sem stundað hefur verið á ströndum um allan heim. Helsti munurinn er sá að í strandblaki eru tveir í liði í stað 6 í venjulegu blaki. Innanhúss strandblak. Innanhúss strandblak hefur rutt sér til rúms, en þetta er gert til að hægt sé að spila strandblak í hvaða veðri sem er. Margir skólar t.d. í Bandaríkjunum breyta nú frá hefðbundnum innanhússvelli í strandblaksvöll vegna þess hve miklu munar á meiðslum og slysum. Sandurinn sem notaður er dempar öll föll. Í innanhúss strandblaki eru bæði notuð tveggja manna og sex manna lið og hafa háskólaliðin 6 leikmenn. Sitjandi blak. Hreyfihamlaðir gátu fyrst árið 1956 snúið sér að blakiðkun. Völlurinn er 10 x 6 metrar og netið er 0.8 metra hátt og efri brún þess er í 1,55 metra hæð hjá körlum en 1,15 metra hæð hjá konum. Keppendur sitja á gólfinu og þegar boltanum er blakað verður önnur rasskinnin eða upphandleggur að nema við gólfið. Karlar kepptu í sitjandi blaki á Ólympíuleikum fatlaðra 1980 en konurnar ekki fyrr en árið 2004. Blindandi blak. Blindandi blak er spilað þannig að ógegnsætt lak er breitt yfir netið svo liðin sjái ekki hvort annað. Hávarnir, smöss og uppgjafir þar sem boltanum er hent upp í loftið eru bönnuð. Blindandi blak er skemmtileg afþreying fyrir áhorfendur vegna þess að þeir sjá boltann en ekki iðkendurnir. Níu-manna blak. Níu-manna blak þróaðist í Asíu á árunum 1920 til 1930 þegar bandarískir trúboðar kynntu leikinn í Kína. Veggjablak. Veggjablak er samruni veggjatenniss og blaks. Veggjatennisvellinum er skipt í tvo helminga og boltinn má skoppa eftir hliðarveggnum til að komast yfir á helming andstæðingsins. Ef boltinn snertir loftið eða veggina fyrir aftan leikmennina er hann úr leik. Leikurinn er hraður og maður þarf að vera fljótur að hugsa næsta leik. Knattblak. Knattblak er samblanda knattspynu og blaks, en einungis eru leyfilegar þær snertingar sem notaðar eru í knattspyrnu, það er með fótum, höfði, bringu og öxlum. Íþróttin er ættuð frá Brasilíu og reynir á leikni leikmannsins. Hafís. Hafís er samheiti yfir ís sem flýtur á hafinu. Af honum eru tvær megintegundir, "rekís" og "lagnaðarís". Rekís er sá ís sem rekur utan af hafi og leggst stundum upp að landi, einkum þegar kalt er í ári. Að ströndum Íslands kemur hann einkum úr norð-vestri, frá íshafinu í kring um Grænland. Lagnaðarís verður hins vegar til í landsteinum, og frekar sjaldan nema á allra köldustu vetrum, enda frýs saltvatn ekki fyrr en við töluvert lágt hitastig. Það er kallað að sjó "leggi" þegar yfirborð hans frýs. Hafís hefur löngum verið óvinsæll á Íslandi. Honum fylgir kalt loft og stundum fylgja honum ísbirnir. Auk þess getur hann verið hættulegur skipum eða beinlínis gert siglingar ófærar. Siglingar á norðurslóðum gerbreyttust á 20. öld, þegar menn fóru að smíða ísbrjóta, skip sem eru nógu sterkbyggð og kraftmikil til að geta plægt í gegn um ísbreiðu og þannig rutt leiðina fyrir önnur skip. Þjóðhöfðingi. Þjóðhöfðingi er manneskja sem gegnir æðsta pólitíska embætti ríkis. Í lýðveldum er þjóðhöfðinginn vanalega forseti, í konungdæmum konungur eða drottning. Enn fremur þekkist að þjóðhöfðinginn sé geistlegur, svo sem í Vatíkaninu, þar sem páfinn er þjóðhöfðingi. Það er mjög misjafnt milli landa hversu mikil völd þjóðhöfðingi hefur. Sumir þjóðhöfðingjar fara með mikil völd í stjórnkerfinu, til dæmis í Bandaríkjunum, Rússlandi og Frakklandi, en annars staðar eru völdin lítil í raun þótt þau séu oft mikil formlega séð, til dæmis á Íslandi, Bretlandi, í Þýskalandi og á Norðurlöndunum. Á Íslandi er forsetinn þjóðhöfðingi þó svo forsætisráðherra hafi í raun meiri völd. Drottning. Drottning er kona sem er gift konungi eða hefur erft konungdæmi og gegnir hlutverki konungs. Meðal þekktra drottninga samtímans, sem fara með konungsvald, má nefna Margréti Þórhildi Danadrottningu, Elísabeti II Bretadrottningu og Beatrix Hollandsdrottningu. Meðal þekktra drottninga fortíðarinnar, sem fóru með konungsvald, má nefna Viktoríu Bretadrottningu, Elísabeti I Bretadrottningu, Margréti I Valdimarsdóttur, drottningu Kalmarsambandsins, Boadeccu drottningu Kelta og Kleópötru drottningu af Egyptalandi. Margrét Þórhildur. Margrét Þórhildur eða Margrét 2. (Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid) (fædd 16. apríl 1940) er drottning og þjóðhöfðingi konungdæmisins Danmerkur. Hún er dóttir Friðriks 9. konungs, sem var krónprins þegar hún fæddist. Hún er gift Hinrik ("Henri Marie Jean André greifi af Laborde og Monpezat") (fæddur 11. júní 1934) og eiga þau tvo syni: Friðrik krónprins og Jóakim. Drottningin hefur fengist við ýmsa listsköpun og haldið sýningar á verkum sínum. Minsk. Minsk (hvítrússneska: Менск /mʲensk/, Мінск /mʲinsk/; rússneska: Минск /mʲinsk/) er höfuðborg Hvíta-Rússlands. Íbúafjöldi er áætlaður um 1.780.000. Borgin hýsir meðal annars höfuðstöðvar Samveldis sjálfstæðra ríkja sem er samstarfsvettvangur fyrrum Sovétlýðvelda. Borgin hefur verið stofnuð af Austur-Slövum á 9. öld og var síðan hluti af Polatsk-furstadæminu undir lok 10. aldar. Árið 1129 var furstadæmið innlimað af Garðaríki en 1146 varð það aftur sjálfstætt. 1242 varð borgin hluti af Stórfurstadæminu Litháen og síðan Pólsk-litháíska samveldinu. Borgin var lögð í rúst í nokkrum meiriháttar styrjöldum á 17. og 18. öld (Pólsk-rússneska stríðið, Norðurlandaófriðurinn mikli) og var að lokum innlimuð af Rússum 1793. Borgin óx hratt á 19. öld og járnbrautin milli Moskvu og Varsjár var lögð um hana 1846. Fyrir Síðari heimsstyrjöldina var íbúafjöldinn kominn í um 300 þúsund. Þjóðverjar náðu borginni á sitt vald skömmu eftir innrásina í Sovétríkin sumarið 1941 og hernámsliðið notaði borgina sem höfuðstöðvar. 1944 náðu Sovétmenn síðan borginni aftur eftir mikla bardaga þar sem meirihluti hennar var lagður í rúst og íbúafjöldinn um 50 þúsund. Eftir stríðið var borgin endurreist með byggingum í sovéskum stíl. 1972 náði íbúafjöldinn einni milljón. 1990 varð borgin höfuðborg hins nýstofnaða Hvíta-Rússlands. Vín (Austurríki). Vín eða Vínarborg (þýska: "Wien") er höfuðborg Austurríkis og stærsta borg landsins. Þar búa rúmlega 1,7 milljónir manna en 2,4 milljónir búa á stórborgarsvæðinu. Vín var áður fyrr aðsetur Habsborgaranna og hefur í margar aldir verið höfuðborg þýska ríkisins, sem og Austurríkis þegar það gekk úr ríkinu á 19. öld. Vín er mikil ráðstefnuborg. Þar eru einnig aðsetur fjölda alþjóðastofnanna. Miðborgin, sem og nokkrar aðrar byggingar, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin Vín er að sama skapi eigið sambandsland í Austurríki, það fjölmennasta, en jafnframt það minnsta. Lega og lýsing. Vín liggur við Dóná nær austast í Austurríki. Meginhluti borgarinnar er vestan fljótsins. Norðausturjaðar Alpafjalla nema við vestri borgarmörkin. Landamærin að Slóvakíu eru aðeins 30 km til austurs, til Ungverjalands 50 km til suðurs og til Tékklands 70 km til norðurs. Næstu stærri borgir eru Wiener Neustadt til suðurs (55 km),Bratislava í Slóvakíu til austurs (60 km) og St. Pölten til vesturs (65 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Vínar er hvítur kross á rauðum grunni, ekki ólíkt danska fánanum, en formið er öðruvísi. Krossinn kemur fyrst fram á 13. öld. Ekki er ljóst hvaðan hann er til kominn en líklegt er að hann tengist krossferðum. Krossmerkið er stundum sett sem brjóstskjöldur á svartan örn. Litirnir eru frá 1395 og eru litir Habsborgarættarinnar, sem og Austurríkis. Fáni Vínarborgar eru tvær láréttar rendur, rauð og hvít (öfugt við pólska fánann). Orðsifjar. Borgin hét Vindobona á tímum Rómverja. En núverandi heiti er ekki dregið af því, heldur af ánni Wien sem rennur í Dóná á borgarsvæðinu. Orðið er komið úr keltnesku og merkir "skógarlækur". Heitið Wien kemur fyrst fram á skjali frá 881 og hefur lítið breyst í gegnum aldirnar. Önnur tungumál nota heitið í eilítið annarri mynd. Þannig heitir borgin á ensku og rómönsku málunum Vienna. Á slavneskum málum heitir borgin yfirleitt Bécs. Á slóvensku heitir borgin hins vegar Dunaj, sem vísar til Dónár. Saga Vínarborgar. Rómverskar minjar undir markaðstorginu Hoher Markt Rómverjar. Í upphafi bjuggu keltar á núverandi borgarstæði. En í lok 1. aldar e.Kr. tóku Rómverjar svæðið og reistu þar bæði herstöð og almennan bæ. Hundrað árum síðar, árið 180 e.Kr., lést rómverski keisarinn Markús Árelíus í bænum úr ótilgreindri veiki en hann hafði farið í herför gegn markómönnum. Ekki er nákvæmlega vitað hversu lengi Rómverjar bjuggu í bænum en eftir 430 finnast engar vísbendingar um meiriháttar byggð á borgarstæðinu. Trúlega eyddist bærinn í þjóðflutningunum miklu á 5. öld. Einhver byggð var þó þar en talið er að langbarðar hafi búið í gamla rómverska bænum. Seinna fylgdu slavar og avarar. Höfuðborg. Strax á 6. öld var héraðinu stjórnað frá Bæjaralandi. 788 hernam Karlamagnús allt svæðið og innlimaði frankaríkinu sínu. Svæðið í kringum Vín var hin svoköllaða avaramörk (Awarenmark), en almennt landnám franka og bæjara var stopult. Í upphafi 10. aldar réðust Ungverjar í héraðið og hertóku Vín. Þeir voru ekki hraktir austur aftur fyrr en 955 er Otto I keisari sigraði þá í stórorrustunni við Lechfeld. 976 var markgreifadæmið Ostarichi stofnað af Babenberg-ættinni og stjórnuðu þeir Vín næstu aldir. Ekki er vitað hvenær hún hlaut borgarréttindi, en á skjali frá aldamótum 1100 kemur fram að Vín sé borg. 1155 flutti Hinrik II (kallaður Jasormigott) til Vínar og gerði hana að aðsetri sínu. Þetta var upphafið að höfuðborgarstatus Vínar. Strax árið eftir varð héraðið að greifadæmi og varð Vín því aðsetur greifa. Í lok þriðju krossferðarinnar 1192 var Ríkharður ljónshjarta Englandskonungur handtekinn í Erdberg við Vín og fluttur sem fangi til Vínar. Leópold V greifi hlaut 50 þúsund silfurmörk í lausnargjald frá Englendingum. Fyrir þann pening var myntslátta sett upp í borginni og borgarmúrar reistir. Vín varð að mikilli verslunarborg við Dóná. Árið 1276 brann borgin þrisvar: 28. mars, 16. apríl og 30. apríl. Fjöldamörg hús eyðilögðust og eirði eldurinn heldur ekki kirkjum, klaustrum og greifakastalanum. Tveir þriðju hlutar borgarinnar eyðilögðust eða stórskemmdust. Habsborgarar. Fram að ofanverðri 13. öld réði Babenberg-ættin Vín og hérðinu í kring. En 1278 átti Ottokar II frá Bæheimi í erjum við Habsborgarættina, sem þá var með aðallönd sín á Württemberg-svæðinu. Til orrustu kom og í henni sigraði Rúdolf I af Habsborg, sem eftir það hrifsaði til sín Vín. Síðan þá hefur Vín verið í höndum Habsborgarættarinnar allt til 1918. Í fyrstu voru Habsborgarar ekki vel liðnir í borginni, enda var sú ætt aðeins enn ein hertogaættin. En þeir hófu byggingarframkvæmdir í borginni, sem stækkaði ört. 1365 var háskólinn í Vín stofnaður, sem einnig var mikil lyftistöng fyrir borgina. Þegar Habsborgarhertoginn Albrecht V var kjörinn þýskur konungur 1438 (sem Albrecht II) varð Vín allt í einu höfuðborg þýska ríkisins. Albrecht varð aldrei keisari. Það varð hins vegar eftirmaður hans, Friðrik III árið 1440. Síðan þá hefur Vín verið höfuðborg ríkisins til 1806 þegar Napoleon lagði ríkið niður, og keisaraborg allt til 1918. Þrátt fyrir það voru konungarnir ekki allir ráðagóðir og vinsælir. 1485 settist einn fjandmaður Habsborgaranna, Matthías Corvinus, um Vín og hertók hana eftir margra mánaða umsátur. Hún varð hans umráðasvæði allt til dauðadags 1490. Sjálfur var keisarinn ekki einráður í Vín fyrr en 1522 þegar hann lét taka helstu stjórnarleiðtoga borgarinnar af lífi. Fyrra umsátur Tyrkja. Tyrkir sitja um Vín 1529 Árið 1529 stóðu íbúar Vínar fyrir mikilli ógn. Tyrkir höfðu náð fótfestu á Balkanskaga og sóttu nú að Austurríki. Þann 27. september hófu þeir umsátur um borgina undir forystu soldánsins Súleimans I. Íbúar Vínar voru skelfingu lostnir. Margir þeirra flúðu en á hinn bóginn tókst nokkur þúsund hermönnum frá þýska ríkinu og spænsku Habsborgarlöndum að komast til borgarinnar áður en umsáturshringurinn lokaðist. Tyrkir voru hins vegar með nær 250 þúsund manna lið. Eftir nokkra bardaga ákvað Súleiman að hætta umsátrinu sökum versnandi veðurs, en vetur var í nánd og birgðaflutningar erfiðir. Þeir höfðu misst 40 þúsund manns í bardögum við múrana. Þann 14. október hurfu Tyrkir úr landi og borgin slapp að þessu sinni. Tyrkir birtust aftur 1532 en þá hafði Karli V keisara tekist að safna miklu liði. Súleiman réðist því ekki á Vín að þessu sinni, heldur lét sér nægja að ræna og rupla annars staðar í Austurríki. 30 ára stríðið. Íbúar Vínar tóku siðaskiptum opnum örmum snemma á 16. öld. Keisarinn og hirð hans héldu fast við kaþólsku kirkjuna. Ekki kom til uppþota, né heldur ruddist múgur manna inn í kirkjur borgarinnar eins og annars staðar gerðist í ríkinu. En ástandið var samt þrungið og erfitt. Keisarinn bauð Jesúítum til Vínar til að stemma stigu við siðaskiptunum. Árið 1600 hófust gagnsiðaskipti kaþólsku kirkjunnar. Þau voru sérlega grimmileg í Austurríki og Vín. Fólk var neytt til kaþólskrar trúar á ný, rekið burt, handtekið og eigur gerðar upptækar. Í upphafi 30 ára stríðsins má heita að Vín væri algjörlega kaþólsk á ný. Stríðið hófst er fulltrúum keisarans í Prag var hent út um glugga á furstahöllinni. Bæheimur sagði sig úr ríkinu. Strax í upphafi söfnuðu íbúar Bæheims herliði og réðust á keisaraborgina Vín 5. júní 1619. En borgarherinn náði að hrinda árásinni eftir nokkra daga. Vín kom lítið við sögu stríðsins á ný fyrr en 1643 en á því ári birtist sænskur her undir stjórn Lennart Thorstenssons. En hann ákvað að leggja ekki í hernað á Vínarborg að þessu sinni, heldur eyða nærsveitum. Thorstensson var aftur á ferðinni fyrir utan Vín 1645. Þá kom til mikilla bardaga sem stóðu yfir í fjóra daga. Að lokum drógu Svíar sig til baka. Síðara umsátur Tyrkja. Tyrkir sitja um Vín 1683 1683 birtust Tyrkir aftur við borgardyr Vínar. Að þessu sinni undir forystu stórvesírsins Kara Mústafa. 14. júlí var umsáturshringur lagður um borgina. Þrátt fyrir ákafar árásir á Vín náðu Tyrkir ekki að komast inn fyrir borgarmúrana. Í ágúst hafði Leopold I keisari safnað nægu liði til að þramma til Vínar. Með í för voru hermenn frá Bæjaralandi, Frankalandi, Saxlandi, Sváfalandi og Feneyjum. Einnig mætti pólskur her til Vínar. 12. september var stórorrustan við Kahlenberg háð, en staðurinn er við Vín. Meðan sú orrusta stóð yfir gerði herinn í Vínarborg útrás og réðust á Tyrki. Eftir tólf tíma bardaga létu Tyrkir undan síga og flúðu af vettvangi. Þannig bjargaðist Vín en fræðimenn telja reyndar að ósigur Tyrkja hafi bjargað Austurríki öllu og jafnvel fleiri ríki í Mið- og Vestur-Evrópu. Napoleonsstríðin. Eftir brotthvarf Tyrkja óx borginn enn, bæði innan múra og utan. Keisarinn lét reisa margar nýjar barokkbyggingar, enda var Vín ein mesta borg Evrópu á þessum tíma. Borgin kom ekki beint við sögu í næstu evrópsku styrjöldum 18. aldar, svo sem spænska erfðastríðinu, austurríska erfðastríðinu og 7 ára stríðinu. En í Napoleonsstríðunum í upphafi 19. aldar var Vín tvisvar hertekin af Frökkum. Í fyrra sinnið, 13. nóvember 1805, fór yfirtaka borgarinnar friðsamlega fram. Napoleon sjálfur gisti í Schönbrunn-höllinni. Frakkar stóðu hins vegar stutt við, því eftir nokkra daga fór franski herinn til Bæheims, þar sem Napoleon sigraði í stórorrustunni við Austerlitz (þríkeisaraorrustunni). Árið síðar var þýska ríkið lagt niður. Hin mýmörgu furstadæmi voru endurskipulögð. Úr sumum varð konungsríki, til dæmis Bæjaraland, og voru flest leppríki Frakklands. Austurríki hélst hins vegar við sem keisaradæmi. Frans II, sem var síðasti keisari ríkisins, tilkynnti þá af svölum hallar sinnar í Vín að þýska ríkið hefði verið leyst upp og að Austurríki væri þaðan í frá eigið keisararíki. Hann sjálfur varð þá að Frans I keisara Austurríkis. Hans aðsetur var áfram Vín, sem minnkaði í að vera aðeins höfuðborg Austurríkis. Árið 1809 réðist Napoleon af alvöru á Vín. Eftir látlausa skothríð með fallbyssum gafst borgin upp. Aftur gisti Napoleon í Schönbrunn-höll, Frans I til mikils ama. Skömmu síðar mætti austurrískur her til borgarinnar og barðist við Frakka í Aspern í maí 1809 (sem í dag er borgarhluti Vínar). Þar beið Napoleon sinn fyrsta ósigur í stórorrustu. Napoleon sigraði hins vegar í orrustunni við Wagram í Neðra Austurríki og hertók Vín á ný. Í ágúst hélt hann upp á fertugsafmæli sitt í Vín. Hann sat í borginni í fimm mánuði og stjórnaði ríki sínu þaðan. Napoleon yfirgaf Vín ekki fyrr en með útmánuðum 1809. Vínarfundurinn. Eftir fall Napoleons 1814 var haldin gríðarmikil ráðstefna í Vín um framtíðarskipan ríkja í Evrópu. Ráðstefnan kallaðist Vínarfundurinn (Wiener Kongress). Fundarstjóri var utanríkisráðherra landsins, Metternich fursti. Allir helstu leiðtogar í Evrópu sóttu ráðstefnuna, sér í lagi frá Rússlandi, Bretlandi, Austurríki, Prússlandi, Frakklandi, kirkjuríkisins og margra annarra smærri ríkja. Vín var næsta árið pólitísk þungamiðja Evrópu. Ráðstefnan hófst 18. september 1814. Á vormánuðum 1815 strauk Napoleon úr útlegð frá eyjunni Elbu og safnaði nýju liði. Komst þá skriður á samninga og lauk ráðstefnunni 9. júní, aðeins níu dögum áður en orrustan við Waterloo átti sér stað. 19. öldin. Eftir brotthvarf Frakka hófst iðnvæðingin hægt og sígandi. Fyrsta járnbrautin keyrði til Vínar 1837 en siglingar í Dóná voru enn ákaflega mikilvægar. Árið 1848 fór byltingarandi yfir götur Vínarborgar, sem annars staðar. Eftir mikil mótmæli neyddist Metternich fursti til að segja af sér, en hann var ákaflega íhaldssinnaður og dró taum keisarans. En í október varð bylting. Uppreisnarmenn náðu Vín á sitt vald eftir mikil uppþot og bardaga við lífverði keisarans. 26. október mætti keisaraherinn til borgarinnar og náði að hertaka hana á ný. 2000 manns biðu bana í götubardögum. Að lokum sagði Ferdinand I keisari af sér, þar sem sýnt þótti að hann væri ekki vandanum vaxinn. Nýr keisari varð Frans Jósef I. Eftir byltinguna óx borginn enn. 1858 ákvað keisari að rífa niður alla borgarmúra til að skapa meira byggingapláss og í kjölfarið þandist borgin út. Vín varð að heimsborg. Árið 1873 var heimssýningin haldin þar í borg, sú fimmta sinnar tegundar og sú fyrsta í þýskumælandi landi. 1890 voru ýmsir nágrannabæir innlimaðir í Vín, sem við það stækkaði að mun og hlaut enn frekara rými fyrir ný borgar- og iðnaðarhverfi. Margir slavar fluttu til Vínar. Þannig bjuggu árið 1900 rúmlega 250 þús Tékkar og Slóvakar í borginni, auk annarra slava. Ástæðan fyrir hinum fjölmörgu útlendingum var að keisaradæmið náði á þessum tíma yfir stóran hluta Balkansskaga. Íbúafjöldinn alls nam á aldamótaárinu 1,8 milljón og óx hratt fram að upphaf fyrra stríðs. Gyðingar voru 12% af íbúum. Árið 1910 var íbúafjöldinn orðinn rúmar tvær milljónir en þar með varð Vín fjórða borg heims sem fór yfir tvær milljónir (áður voru það New York, London og París). Stríðsárin. Vín kom ekki beint við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. En á stríðsárunum var mikill skortur á nauðsynjavörum þar. Endalok stríðsins markaði einnig endalok keisararíkisins þar. Frans II sagði af sér. 12. nóvember 1918 var lýðveldið Austurríki stofnað í þinghúsinu í Vín. Það með var Vín ekki lengur keisaraborg. Borgin var þó gríðarlega stór miðað við smæð landsins. 1920 var sambandslandið Vín stofnað, sem við það splittaði sig frá sambandslandinu Neðra Austurríki. 1932 komst fasistinn Engelbert Dollfuss til valda sem kanslari. Í stjórnmálaóróa tímans var hann drepinn 1934 í hálfgerðri byltingu á götum Vínar. Mikill stjórnmálaórói einkenndi Vín næstu árin. Dagana 12. – 13. mars 1938 hertóku nasistar Vín er Adolf Hitler innlimaði Austurríki í Þriðja ríkið. 15. mars sótti Hitler borgina heim og lét hilla sig. Á sama tíma varð Austurríki aðeins hérað Þýskalands. Vín var því ekki lengur höfuðborg í skamman tíma. Hún var hins vegar næststærsta borg þriðja ríkisins á eftir Berlín. Með innlimum nokkurra bæja og nærsveita varð Vín hins vegar stærsta borg ríkisins að flatarmáli. Áður en árinu lauk var búið að brenna öll 92 bænahús gyðinga í Vín. Í borginni voru um 180 þúsund gyðingar. Um 120 þúsund náðu að flýja úr landi. Þar á meðal sálfræðingurinn Sigmund Freud, sem var af gyðingaættum. Á næstu árum voru allir hinir, 60 þúsund gyðingar, fluttir burt úr borginni. Flestir létu lífið í útrýmingarbúðum. Í stríðslok voru gyðingar í Vín aðeins rúmlega fimm þúsund. Heimstyrjöldin síðari fór að mestu fram fjarri borginni. En 17. mars 1944 varð borgin fyrir fyrstu loftárásum bandamanna. Þyngstu árásirnar áttu sér stað 12. mars 1945. Takmarkið var að eyðileggja olíustöðvarnar við borgarmörkin. En sökum veðurs var sprengjum varpað af handhófi og hittu þær borgina sjálfa. Alls létust tæplega níu þúsund manns í árásunum. Samt slapp Vín langbest allra austurrískra borga frá loftárásum, enda eyðilagðist aðeins um 28% hennar. Hernám. 6. apríl stóðu sovéskar hersveitir við borgarmörk Vínar. Nasistar veittu gríðarlegt viðnám og urðu Sovétmenn að berjast nánast um hvert hús. Það tók hér um bil viku að hertaka borgina alla. Tala fallinna er á reiki en reikna má með minnst 20-37 þúsund látnum í bardögunum. Tæp 50 þúsund þýskir hermenn voru teknir til fanga. Strax 29. apríl fengu austurrískir stjórnmálamenn aðgang að þinghúsinu á ný og var lýðveldið samdægurs endurstofnað. Sovétmenn voru í fyrstu einráðir í Vín, en um haustið var borginni skipt upp í fjögur hernámssvæði milli Sovétmanna, Breta, Bandaríkjamanna og Frakka (eins og Berlín). Á hernámsárunum var borgin endurreist. Fimmtungur borgarinnar hafði eyðilagst, það er að segja 87 þúsund íbúðir. Í miðborginni einni voru rúmlega þrjú þúsund sprengjugígar. Brýr höfðu verið sprengdar og vatnsleiðslur voru ónýtar. Mikil efnahagsuppsveifla einkenndi næstu ár. Hins vegar stóð íbúafjöldinn í stað, enda var Vín rétt vestan við járntjaldið og hafði misst mikið bakland. 15. maí 1955 hittust sigurveldin ásamt austurrísku stjórninni í Belvedere-höllinni í Vín og undirrituðu austurríska þjóðarsamninginn. Í honum kvað á um að Austurríki yrði sjálfstætt ríki á ný og að hernámsveldin flyttu brott allt herlið sitt. Þar með endurheimti Austurríki sjálfstæði sitt á ný, sex árum á eftir Vestur- og Austur-Þýskaland. Síðustu erlendu hermennirnir yfirgáfu Vín í október á sama ári. Eftirstríðsárin. Kennedy og Krústsjov hittast í Vín 1961 Við sjálfstæði Austurríkis hófst nýr kafli í byggingasögu borgarinnar. Samfara nýjum byggingum risu einnig mikil samgöngumannvirki. Vöxturinn og efnahagur Vínar var svo ör að borgin sótti um Ólympíuleikana fyrir árið 1964. Fyrir rest hlaut Tókíó þó heiðurinn. Erlendar stofnanir fluttu hins vegar til Vínar. Fyrsta stofnunin var Alþjóða kjarnorkumálastofnunin árið 1965. Af öðrum stofnunum má nefna OPEC, ÖSE og ýmsar hliðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Vín er líka vinsæl ráðstefnuborgí dag. 1961 hittust John F. Kennedy og Nikita Krústsjov í Vín til að ræða um tilslakanir í kalda stríðinu. Eftir fall járntjaldsins opnuðust markaðir og möguleikar í nágrannalöndunum í austri. 2003 stofnaði Vín viðskipta- og efnahagssvæðið Centrope, sem nær frá austurhluta Austurríkis og inn í landamærahéruð Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands. Vín og Bratislava eru þungamiðjur í þessu svæði. Menntun. Vín er helsta miðstöð mennta og menningar í Austurríki og þar eru fjölmargar menningarstofnanir, söfn og skólar. Meðal annarra eru Háskólinn í Vín, Tækniháskólinn í Vín, Læknaskólinn í Vín, Hagfræði- og viðskiptaháskóli Vínar og Tónlistar- og sviðslistaháskóli Vínar. Einnig eru þar alþjóðlegar menntastofnanir á borð við Alþjóðlega Amaedus-tónlistarskólann í Vín, Alþjóðlega bandaríska skólann í Vín, Alþjóðlega Dónárskólann, Alþjóðaháskólann í Vín og Lauder-viðskiptaskólann. Viðburðir. Manngert skautasvell fyrir framan ráðhúsið í Wiener Eistraum. Wiener Eistraum er heiti á skautasvelli sem sett er upp fyrir framan ráðhúsið í janúar. Borgarbúar bregða þá fyrir sig betri fætinum og fara á skauta svo hundruðum þúsundum skiptir. Svellið er opið í fimm vikur og meðaltal gesta um 450 þúsund. Samfara því er ráðhúsið lýst upp og ýmsir tónlistarviðburðir fara fram. Viennafair er heiti á einni stærstu sýningu Austurríkis á nútímalistum. Sýningin samanstendur af um 115 smærri sýningum frá ýmsum löndum. Wiener Festwochen er nokkurs konar menningarhátíð borgarinnar. Hún stendur yfir í fimm vikur, yfirleitt í maímánuði. Life Ball er stærsta góðgjörðarhátíð Evrópu til stuðnings eyðnissjúklinga. Hér er um stórt galaball að ræða með þátttöku frægs fólks úr ýmsum geirum. Einnig er tískusýning í boði. Opnunarræðuna flytur þekktur einstaklingur: 2001 – 2005 var það Elton John; 2006 – 2008 Sharon Stone; 2009 Eva Longoria; 2010 meðal annarra Whoopi Goldberg og Bill Clinton; 2011 meðal annarra Bill Clinton og Janet Jackson. Árið 2011 söfnuðust tæpar tvær milljónir evra. Donauinselfest er heiti á tónlistarhátíð á eyju í Dóná. Henni var hleypt af stokkunum 1984 og stendur yfir í þrjá daga. Allt að þrjár milljónir manna sækja tónleikana heim. Kvikmyndahátíð við ráðhúsið fer fram í júlí og ágúst. Á hverju kvöldi er sýnd upptaka af óperu eða tónleikum á útisviði og er öllum aðgengileg. Allt að 700 þúsund manns sækja sýningarnar heim. Viennale er kvikmyndahátíð í Vín. Til hennar var stofnað 1960 og fer fram í október ár hvert, fjórtán daga að lengd. Sýndar eru myndir úr öllum geirum og eru að lokum verðlaunin Wiener Filmpreis veitt fyrir bestu myndina. Íþróttir. Vinsælasta íþrótt borgarbúa er sund, en þá íþrótt iðka fleiri en í nokkurri annarri íþrótt. Böðin í borginni eru bæði innanhús og utanhús. Aðalknattspyrnulið borgarinnar eru tvö: SK Rapid Wien og FK Austria Wien. Rapid hefur 32 sinnum orðið austurrískur meistari (síðast 2008), einu sinni þýskur meistari (1941 er Austurríki var innlimað Þýskalandi), fjórtán sinnum bikarmeistari og tvisvar komist í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa (1985 og 1996). Austria hefur 23 sinnum orðið austurrískur meistari (síðast 2006), 27 sinnum bikarmeistari og einu sinni komist í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa 1978 (tapaði þá fyrir Anderlecht). Heimaleikvangur liðsins, Ernst Happel Stadion, er einnig notaður fyrir heimaleiki landsliðsins. Þar hafa þrír úrslitaleikir í Meistaradeild Evrópu farið fram. Aðrar íþróttir sem mikið eru stundaðar í Vín eru íshokkí, ruðningur, blak og handbolti. Ruðningsliðið Raiffeisen Vikings Vienna hefur fjórum sinnum unnið Evrópukeppnina í þeirri íþrótt. Frægustu börn borgarinnar. Auk þess eru 13 keisarar þýska ríkisins fæddir í Vín. Byggingar og kennileiti. Parísarhjólið er nánast helgigripur í augum Vínarbúa Kíl. Loftmynd af gamla miðbænum í Kiel Kíl eða Kiel er hafnarborg í Norður-Þýskalandi í Kílarflóa við strönd Eystrasalts og er höfuðborg sambandslandsins Slésvíkur-Holtsetalands. Íbúafjöldi er 239 þúsund. Borgin hefur verið aðalhafnarborg og skipasmíðastöð Þýskalands frá miðri 19. öld. Hún er við eystri enda Kílarskurðarins sem tengir Eystrasaltið við Norðursjó. Borgin er þekkt fyrir Kílarvikuna ("Kieler Woche") sem er stærsti siglingar|siglingaviðburður heims. Lega og lýsing. Kíl liggur við botn Kílarflóa sem gengur suður inn úr Eystrasalti. Kílarskurðurinn gengur í flóann rétt norðan við miðborgina. Stór hluti vesturstrandar Kílarflóans samanstendur af hafnarsvæði. Næstu borgir eru Lübeck til suðausturs (75 km), Flensborg til norðurs (90 km) og Hamborg til suðurs (95 km). Orðsifjar. Kíl hefur ætíð heitið svona, en hefur ýmist verið stafsett "Kyle", "Kyl" eða "Kil". Það merkir "þröngur fjörður" eða "þröngur vatnsfarvegur" (sbr. Andakíll í Borgarfirði). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítt netlulauf á rauðum skildi. Í netlulaufinu er múraður svartur bátur. Netlulaufið á rauða skildinum er merki Schauenburg-ættarinnar sem stjórnaði Slésvík-Holtsetalandi til 1460. Báturinn merkir að Kiel er hafnarborg. Múrsteinarnir merkja borgarréttindin. Upphaf. Það var Schauenborgargreifinn Adolf IV. af Holtsetalandi sem stofnaði borgina Kíl milli 1233 og 1242. Hún var lengi vel nyrsta borg þýska ríkisins. 1242 fékk Kíl borgarréttindi og 1283 fékk borgin inngöngu í Hansasambandið, en var þó aldrei eins virk í því og margar aðrar borgir. Kíl var rekin úr sambandinu 1518. Siðaskiptin og háskóli. Kíl í kringum árið 1600. Horft til norðurs. Mynd eftir Georg Braun og Franz Hogenberg. Siðaskiptin í borginni hófust 1526 er Marquard Schuldorp, ættaður frá Kíl, sneri heim eftir að hafa lært hjá Marteini Lúter í Wittenberg. Borgarráðið var hrifið af kennslu hans og ákvað að taka upp nýja siðinn. Kaþólskir kennimenn voru reknir úr borginni og klaustrið var lagt niður. 1665 var háskólinn í borginni stofnaður. Hann fékk húsnæði í gamla klaustrinu og var nyrsti háskóli Þýskalands allt til 1946 er háskóli var stofnaður í Flensborg. 19. öldin. 1813 var Kíl hertekin af Svíum, sem myndað höfðu bandalag gegn Napoleon. Kíl tilheyrði tæknilega séð Danmörku, en Danmörk hafði kosið að versla við Frakka, í trássi við hafnbannið sem Bretar höfðu sett á Frakkland. Í janúar 1814 var gert friðarsamkomulag í Kíl. Þar voru Danir neyddir til að ganga í bandalagið gegn Napoleon og misstu auk þess Noreg til Svíþjóðar. Danir fengu þó að halda Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. 1848 var myndað nokkurs konar lýðþing í Kíl, þar sem krafist var slita við Danmörku og sameiningu við þýska ríkið. Menn gripu til vopna, en Danir sigruðu uppreisnarmenn í orrustunni við Idstedt (nálægt Flensborg). 1864 sagði Bismarck kanslari Dönum stríð á hendur og hertók Slésvík-Holtsetaland. Kíl varð því endanlega þýsk borg, þó að flestir borgarbúar hafi öldum saman frekar tengst þýska ríkinu en Danmörku. 1867 var Kíl formlega gerð að herskipahöfn. Þar voru einnig skipasmíðastöðvar, bæði fyrir herskip og almenn skip. 1882 fór fyrsta Kílarvikan fram. 1895 var Kílarskurðurinn (á þýsku:"Nord-Ostsee-Kanal") tekinn í notkun, en hann varð strax að mest notaða skipaskurði heims. Nýrri saga. Í nóvember 1918 gerðu sjóliðar í Kíl uppreisn. Þetta var upphafið að nóvemberbyltingunni í Þýskalandi, sem leiddi að stórum hluta til þess að Þjóðverjar gáfust upp í heimstyrjöldinni fyrri og stofnað var Weimar-lýðveldið. En Kíl galt þess dýru verði að vera herskipahöfn. Borgin varð fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari. Um 80% af borginni eyðilagðist. Bretar hernámu borgina 1945 og var hún á hernámssæði þeirra. 1947 var stofnað þing í Kiel og 1949 gengur Slésvík-Holtsetaland í nýstofnað Sambandsríki Þýskalands. Kiel verður höfuðborg. Íþróttir. Kílarvikan er heimsþekkt siglingakeppni sem fer árlega fram í Kíl Leipzig. Leipzig er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Saxlandi með 515 þús íbúa. Borgin reis sem miðstöð verslunar þar sem árnar Pleiße, Weiße Elster og Parthe mætast. Háskólinn í Leipzig var stofnaður árið 1409 og fyrsta langlínujárnbrautin í Þýskalandi var lögð milli Leipzig og Dresden árið 1839. Leipzig var á árum áður höfuðborg prentlistarinnar. Í borginni bjó og starfaði tónskáldið Johann Sebastian Bach mestan hluta ævi sinnar. Lega. Leipzig liggur sunnarlega í gamla Austur-Þýskalandi, um 60 km fyrir norðan tékknesku landamærin, en 90 km fyrir vestan pólsku landamærin. Næstu stærri borgir eru Halle til norðvesturs (20 km), Chemnitz til suðvesturs (80 km) og Dresden til austurs (100 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Leipzig er lóðrétt tvískiptur skjöldur. Til vinstri er svart ljón á gulum grunni, en ljónið er tákn markgreifans af Meissen. Til hægri er tvær blár lóðréttar línur á gulum grunni. Þær eiga að merkja súlur markgreifans frá Landsberg. Merki þetta kom fyrst fram 1468 sem innsigli en varð svo að skjaldarmerki. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Lipzc eða Libzi og er dregið af slavneska orðinu libc, sem merkir "þar sem linditrén vaxa". Leipzig hefur stundum verið nefnd Hlaupsigar á íslensku. Upphaf. Leipzig er upphaflega slavneskt þorp. Í landnámi germana er kristni stofnuð þar. 1015 kemur Leipzig fyrst við skjöl, en þá lést Eido I biskup af Meissen þar. Lítið er vitað um bæinn eftir það, en 1165 veitti markgreifinn Otto hinn ríki frá Meissen bænum borgarréttindi. 1409 var háskólinn í borginni stofnaður og kallaðist þá Alma Mater Lipsiensis. Hann er með allra elstu háskólum á þýskri grundu. Leipzig er einnig elsta sýningarborg heims ("Messestadt"), en þar fór fyrsta sýning á handiðnum og öðrum vörum fram 1497. Það var Maximilian keisari sem veitti borginni sýningarréttindin. 1439 keypti greifinn Friðrik hinn þrætugjarni markgreifadæmið Meissen og varð Leipzig því hluti af kjörfurstadæminu Saxlandi. Siðaskipti. Kappræður milli Marteins Lúthers og Johannes Ecks 1517 hóf Marteinn Lúther mótmæli sín gegn kaþólsku kirkjunni. Hann stóð í stappi við kirkjumenn og aðra lærða um gagnrýni sína í tvö ár. En 1519 bauð háskólinn í Leipzig báðum aðilum að hittast og útkljá málin sín í milli. Fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar mætti Johannes Eck og átti hann í kappræðum við Lúther frá 27. júní til 16. júlí. Aðalumræðuefnin voru þrenn. Í fyrsta lagi var tekist á um óskeikulleika páfans, en Lúther var þeirrar meiningar að sannleikurinn ætti að grundvallast á ritningunni, ekki á manneskju. Í öðru lagi var rökrætt um frelsun. Meðan Eck staðhæfði að maðurinn frelsist af verkum (með sakramentunum og boðorðunum), staðhæfði Lúther að maðurinn frelsist af náð einni saman. Loks var tekist á um aflátssöluna, en Lúther fordæmdi hana fullum hálsi. Báðir aðilar hrósuðu sigri þegar kappræðunum lauk 16. júlí. En þó að segja mætti að hvorugum aðila hafi gengið betur, þá var ljóst að með þessum fundi var klofningurinn milli Lúthers og kaþólsku kirkjunnar endanlega fullkomnaður. Siðaskiptin sjálf urðu ekki í borginni fyrr en 1539. Það var Lúther sjálfur, ásamt siðaskiptamanninum Justus Jonas, sem komu þeim á með predikunum sínum og atorku. 30 ára stríðið. Í 30 ára stríðinu var Leipzig lengi vel utan við atburði. En 1631 átti sér stað stórorrustan við Breitenfeld, við norðurjaðar borgarinnar. Þar leiddu saman hesta sína sameinaður her Svía og saxa með undir stjórn Gústafs Adolfs með 47 þús manns annars vegar og keisaraher undir stjórn Tillys með 40 þús manns hins vegar. Orrustan var hörð, en að lokum báru Svíar sigur úr býtum. Tilly særðist og féll af hesti sínum. Fall kaþólskra var gífurlegt, en margir gengu einnig í lið með Svíum. Í kvöldhúminu tókst Tilly að komast undan til borgarinnar Halle, en aðeins 600 manns voru þá enn með honum. Þetta var stærsti ósigur Tillys í 30 ára stríðinu. Ári síðar fór önnur stórorrusta fram milli sömu aðila við Lützen, um 10 km fyrir suðaustan Leipzig. Að þessu sinni fór Wallenstein sjálfur fyrir keisarahernum. Orrustan var hörð og mannfall mikið á báða bóga. Þar féll Gústaf Adolf, en hvorugur aðilinn náði að sigra í orrustunni. Svíar sátu í Leipzig frá 1642 til 1650. Á árinu sem Svíar yfirgáfu borgina var gefið út dagblaðið Einkommende Zeitung og er það elsta dagblað heims. Listamenn. Minnisvarði um Johann Sebastian Bach fyrir framan Tómasarkirkjuna, en Bach starfaði mestan hluta ævi sinnar í Leipzig. Þegar Leipzig fékk sína fyrstu götulýsingu 1701 var hún kölluð "‘Litla París.’" Stórsýningar voru í gangi á vissum árum og var borginni mikil lyftistöng. Í Leipzig voru ýmsir listamenn að námi og að starfi. Þar má nefna tónskáldið Georg Philipp Telemann, en hann nam tónlist í borginni í upphafi 18. aldar og stofnaði tónlistarskólann Collegium musicum. 1723-1750 var Johann Sebastian Bach búsettur í borginni og starfaði sem organisti og tónlistarstjóri í Tómasarkirkjunni. Það var á þessum tíma sem Bach samdi sín þekktustu verk, s.s. Jóhannesarpassíuna, Matteusarpassíuna, Jólaóratóríuna og H-moll messuna. Þjóðskáldið Goethe nam við háskólann í Leipzig 1764-68. Nokkuð seinna, 1835-1847, var Felix Mendelssohn Bartholdy tónlistarstjóri borgarinnar. Þjóðabardaginn. Barist við Leipzig í þjóðabardaganum mikla Sökum aðstoðar saxa við Frakka leyfði Napoleon Saxlandi að verða konungsríki 1806. Landið var þá örlítið stærra en Saxland er í dag. Eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 dró til stórorrustu við Leipzig. Frakkar höfðu lagt leið sína til Saxlands, enda var konungur landsins vilhollur Frökkum. Saxar gengu í raðir Frakka, en andspænis þeim stóðu Prússar, Austurríkismenn, Rússar og jafnvel Svíar. Fleiri þjóðarbrot voru í báðum liðum, en fræðimenn telja að um 600 þús manns hafi tekið þátt í þessari orrustu. Hún stóð í þrjá daga, frá 16. – 19. október 1813. Það var ekki fyrr en á þriðja degi að bandamenn náðu að hrekja Frakka á brott, en þetta var mesti ósigur Napoelons fram að þessu á orrustuvellinum. Ósigur þessi varð þess valdandi að Frakkar voru hraktir burt af þýskri grundu. Auk þess hertóku bandamenn Leipzig sem Frakkar höfðu haldið. Blücher herforingi lét handtaka Friðrik Ágúst I, konung Saxlands, vegna landráðs og flytja hann til Prússlands. Aðrir merkir atburðir 19. aldar var opnun fyrstu langlínujárnbrautar Þýskalands 1839, en hún gekk milli Leipzig og Dresden. Nýrri tímar. Í upphafi 20. aldar óx Leipzig gríðarlega. Íbúafjöldinn náði ekki 100 þús fyrr en 1871, en var kominn 750 þús á 4. áratugnum. Leipzig var þar með 5. stærsta borg Þýskalands. Borgin varð fyrir gífurlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. 18. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina, en þeir skiluðu henni til Sovétmanna 2. júli, enda var hún á sovéska hernámssvæðinu. Með hertökunni var blómatími borgarinnar endanlega liðinn. Sem hluti af Austur-Þýskalandi átti Leipzig erfitt uppdráttar, bæði í atvinnumálum og efnahagsmálum. Leipzig hafði aldrei verið mikil iðnaðarborg, enda sérhæft sig í þjónustu. 1982 hóf presturinn Günter Johannsen þögul mótmæli á mánudögum ásamt söfnuði sínum í Nikulásarkirkjunni gegn ofríki kommúnista. Nokkrum árum síðar höfðu mótmæli þessi aukist, enda vel sótt af fólki utan safnaðarins. 1989 fengu mótmælin pólitískt vægi er allt að 400 þús manns tóku þátt, en þau voru mikilvægur liður í falli Berlínarmúrsins og sameiningu Þýskalands. Í dag er Leipzig enn mikilvæg háskóla- og sýningarborg ("Leipziger Messe"). Stórfyrirtæki sem opnað hafa starfsemi þar eru m.a. BMW, Porsche, Siemens og Amazon. Íþróttir. Þýska knattspyrnusambandið (DFB) stofnað í Leipzig árið 1900. Fyrsta þýska knattspyrnuleiktíðin hófst 1902 og lauk vorið 1903. Fyrsti þýski meistarinn varð VfB Leipzig, en félagið hefur þrisvar alls orðið þýskur meistari (síðast 1913). Á tímum kommúnisma var heiti félagsins breytt í Lokomotive Leipzig. Sem slíkt varð það fjórum sinnum austurþýskur bikarmeistari og komst í úrslit Evrópukeppni bikarhafa 1987 (tapaði þá fyrir Ajax Amsterdam). Íþróttaleikvangur borgarinnar heitir Zentralstadion og á aðsóknarmet í Þýskaland, en árið 1958 komu 120 þús manns að sjá Wismut Karl-Marx-Stadt leika gegn 1. FC Kaiserslautern. Þekktir stúdentar háskólans í Leipzig. Í háskólanum hafa margir þekktir einstaklingar stundað nám. Þeirra á meðal eru: Tycho Brahe, Goethe, Gottfried Wilhelm Leibniz, Friedrich Nietzsche, Georg Friedrich Telemann, Richard Wagner og Angela Merkel. Byggingar og kennileiti. Minnisvarðinn um þjóðabardagann er 91 metra hár. Tómasarkirkjan var starfsvettvangur Johanns Sebastians Bach Nikulásarkirkjan var miðpunktur mótmælanna gegn kommúnistastjórninni Gamla ráðhúsið er safn í dag Maltöl. Maltöl er sætt, svotil óáfengt öl sem bruggað er úr malti líkt og annar bjór. Maltöl inniheldur gersveppi, en hefur þó ekki undirgengist alkohólmyndandi gerjun að neinu marki, því gerinu er sáð í ölmeskið við 0°C eða þar um bil. Malt er því óáfengt, eða svo lítið áfengt að það er ekki tilkynningarskylda á flöskunum. Íslenskt maltöl er framleitt af Ölgerð Egils Skallagrímssonar og Vífilfelli. Malt er vinsælt á jólunum, og er því þá gjarnan blandað saman við appelsín, og jafnvel kók. Malt. Malt eða melt korn er korn (oftast bygg) sem hefur verið látið spíra að hluta í raka, en spírunin er stöðvuð með hita áður en hún er að fullu gengin um garð. Við spírun myndar byggið meltingarhvatann amýlasa sem brýtur sterkju byggsins niður í smærri sykrur við ákveðið hitastig í meskingu þannig að tvísykran maltósi verður til. Malt er grunnþáttur við bruggun öls eins og t.d. bjórs, maltöls og viskímeskis, en er einnig notað við brauðgerð („maltbrauð“) og fleira. Hitastig, tími og loftstreymi við stöðvun spírunar ræður miklu um eiginleika maltsins og eru malt flokkað eftir því hve mikið eða lítið það er ristað. Mikið ristað malt gefur dökkan lit og ákveðið brennt bragð sem þykir æskilegt í suma bjóra og viskí. Karamellumalt, súkkulaðimalt, kristalmalt, svart malt, brúnt malt og reykt malt eru afurðir mismunandi aðferða við þurrkun/ristun. Superman. Superman (eða "Kal El") er sögupersóna í teiknimyndablöðum eftir Jerry Siegel og Joe Shuster. Í sögunni er hann ofurmenni frá annarri plánetu sem heitir Krypton. Hann kemur til Jarðarinnar eftir að heimaplánetan hans eyðileggst. Seinna voru gerðir þættir byggðir á teiknimyndablöðunum og fljótlega fylgdu 4 bíómyndir á eftir. Nýverið hafa verið sýndir þættir byggðir á æskuárum Superman sem heita í höfuðið á bænum sem hann ólst upp á, Smallville. Superman er með einstaka krafta, frægastur af þeim er hæfileikin til að fljúga. Adventures of Superman eru þættir sem þróaðir voru úr útvarpsleikriti. Hann býr á Krypton og verður svo sendur niður til Jarðar vegna þess að plánetan er að tortýmast vegna sólin dregur hana nær sér með þeim afleiðingum að hún springur. Hann komst óhultur il Jarðar í smárri eldflaug sem faðir hans hafði smíðað. Þegar hann lenti voru indæl hjón að keyra framhjá þegar allt í einu kemur eldflaugin niður úr loftinu. Þau ólu hann upp og ber hann nafnið Clark Kent. Þegar hann eldist reynist svo að hann er öðruvísi en allir krakkarnir, t.d. helypur hraðar, hefur röntgensjón og margt fleira. Þegar kemur að því að hann flytur að heiman frá Smallville. Hann fær sér vinnu hjá Daily Planet og þar hittir hann Lois Lane. Eftir þetta vinnur hann að fréttum sem Clark Kent og Superman. Hann tekur sér mörg verkefni fyrir höndum og nær alltaf að bjarga deginum. Grænlandssund. Lágþrýstisvæði yfir Grænlandssundi, 4. september 2003 Grænlandssund nefnist sundið sem liggur á milli Grænlands og Íslands, í öðrum tungumálum er það kennt við Danmörku. Norðaustur af sundinu liggur Jan Mayen. Sundið tengir saman Norður-Íshaf og Atlantshaf og er 480 km langt en 290 km breitt þar sem það er þrengst. Austur-Grænlandsstraumurinn flæðir til suðurs í gegnum sundið og ber með sér ísjaka út í Atlantshafið. Þar eru gjöful fiskimið. Í seinni heimsstyrjöld háðu Þjóðverjar og Bretar mikla sjóorrustu á sundinu í maí 1941. Þýsku skipalestina leiddi orrustuskipið Bismarck. Í orrustunni misstu Bretar skip sitt HMS Hood, með því fórust 1415 menn en 3 var bjargað. Í kjölfarið upphófst mikill eltingarleikur sem leiddi til þess að Bismarck var loksins sökkt sunnar í Atlantshafi. Strandabyggð. Strandabyggð er sveitarfélag á Ströndum. Það varð til við sameiningu Hólmavíkurhrepps og Broddaneshrepps sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu í apríl 2006 og tók gildi 10. júní í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006. Þá var einnig kosið um þrjár tillögur að nafni nýs sameinaðs sveitarfélags og var hægt að velja á milli þriggja nafna, Strandahreppur, Strandabyggð og Sveitarfélagið Strandir. Í kosningunum hlaut nafnið Strandabyggð flest atkvæði, eða 95, en margir skiluðu auðu eða ógiltu seðlana sína með því að skrifa annað nafn. Flestir sem ógiltu seðilinn með þessum hætti munu hafa skrifað nafnið Hólmavíkurhreppur. Bygg. Bygg (fræðiheiti: "Hordeum vulgare") er mikilvæg kornafurð af grasaætt sem er ræktuð bæði til manneldis og skepnueldis. Árið 2006 var bygg í fjórða sæti yfir mest ræktuðu kornafurðir heims. Bygg er komið af villibyggi ("Hordeum spontaneum") sem vex í Mið-Austurlöndum. Bygg er gjarnan slegið sem grænfóður. Byggræktun á Íslandi. Bygg er aðallega ræktað á Íslandi til að kornþroska en einnig sem grænfóður eða sem skjólsæði með grasfræi. Stundum er það ræktað eitt og stundum í blöndu með vetrarrepju. Bygg sem á að slá sem grænfóður má rækta með vetrarrýgresi. Á Íslandi er eingöngu ræktað sumarbygg. Bygg sem heilsæði er slegið í lok kornfyllingar en áður en kornið fer að þorna. Grænfóðurbygg eða byggheilsæði getur gefið þurrefnisuppskeru sem nemur 5-12 þurrefnistonnum á hektara en kornuppskera af byggi er venjulega milli 2,5 til 6 þurrefnistonn á hektara. Bygg er best að rækta í móajarðvegi eða sendinni jörð. Sýrustig jarðvegs þarf að vera hátt. Sáð er um 200 kg á ha ef eingöngu er sáð byggi. Sáðdýpt er 2 -4 sm. Hvalfjarðarsveit. Hvalfjarðarsveit er sveitarfélag við norðanverðan Hvalfjörð á Vesturlandi. Það varð til við sameiningu Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps, Leirár- og Melahrepps og Skilmannahrepps sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu þann 20. nóvember 2004 en tók ekki gildi fyrren í kjölfar sveitarstjórnakosninganna 2006. Ekkert aðalskipulag er í gildi en notast er við eldri aðalskipulög hreppanna. Taípei. Taípei eða Tæpei (kínverska: 臺北市 eða 台北市; einfölduð kínverska: 台北市) er höfuðborg Lýðveldisins Kína og stærsta borgin í Taívan. Íbúafjöldi var 2.618.058 í mars 2006. Langanesbyggð. Langanesbyggð er sveitarfélag á og við Langanes á norðausturhorni Íslands. Það varð til við sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu þann 8. apríl 2006 og tók gildi 10. júní í kjölfar sveitarstjórnakosninganna 2006. Lübeck. Norðurálma ráðhússins í Lübeck. Til vinstri sér í annan turn Maríukirkjunnar. Lübeck (oft skrifað Lýbika á íslensku og stundum Lýbekk) er hafnarborg við ósa Trave á Eystrasaltsströnd Þýskalands og önnur stærsta borg Slésvíkur-Holsetalands. Borgin var höfuðborg Hansasambandsins og er á heimsminjaskrá UNESCO vegna glæsilegra bygginga í gotneskum stíl. Lega og lýsing. Lübeck er næststærsta borgin í Slésvík-Holtsetalandi. Hún er hafnarborg við ána Trave, suðaustarlega í sambandsríkinu. Austustu borgarhverfin stóðu við múrinn sem aðskildi Þýskaland á tímum kalda stríðsins. Miðborgin er umlukin vatni, en þar er samflæði ána Trave og Wakenitz. Utar við Trave er hinn stóra höfn Skandinavienkai, en hún er stærsta þýska höfnin við Eystrasalt. Þaðan er siglt til ýmissa áfangastaða við Eystrasalt og víðar. Yst er borgarhlutinn Travemünde en þar rennur áin Trave til sjávar í Eystrasalti. Travemünde er heilsu- og baðstrandarbær. Næstu stærri borgir eru Schwerin til suðausturs (60 km), Hamborg til suðvesturs (65 km) og Kíl til norðvesturs (80 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið sýnir tvíhöfða svartan örn á gulum skildi. Örninn er ríkisörninn, sem merki um að Lübeck var fríborg í ríkinu, allt þar til hún varð hluti af Slésvík-Holtsetalandi. Merkið kom fyrst fram 1450 og er þar með elsta skjaldarmerki Slésvíkur-Holtsetalands. Í erninum er hvítrautt brjóstmerki. Hvítt og rautt eru borgarlitirnir en þannig eru allir Hansafánar Orðsifjar. Lübeck er nefnd eftir slaveska bænum "Luibice", sem merkir "Hin yndislega". Á íslensku hefur heitið Lýbíka stundum verið notað. Borgin er einnig kölluð "Stadt der Sieben Türme", ("Borg hinna sjö turna"), vegna þess að kirkjurnar fimm í miðborginni mynda samanlagt sjö turna sem sjást langt að. Upphaf. Slavar settust að á svæðinu í kringum 700 e.Kr. Slavneska þorpið stóð rétt fyrir norðan núverandi miðborgareyju, við samflæði Schwartau og Trave, og hét Liubice. Sá bær kemur fyrst við skjöl árið 819 og er sennilegt að þá þegar hafi verið einhvers konar virkisveggur í kringum hann. Ranar, slavneskur ættbálkur, brenndu bæinn til kaldra kola 1127. Á þessum tímum stendur landnám þýskra fursta yfir í norður- og austurhluta núverandi Þýskalands. Það var Adolf II. greifi af Schauenurg og Holtsetalandi sem stofnaði borgina Lübeck árið 1143 og nefndi hana eftir heiti gamla slavneska bæjarins. Borgin var fyrsta hafnarborg Þjóðverja við Eystrasalt og var það raunar tilgangur með stofnun hennar að efla samgöngur og verslun við borgir og landsvæði við Eystrasalt. Adolf byggði kastalavirki á núverandi miðborgareyju, en varð að afsala sér borginni allri til Hinriks ljóns ("Heinrich der Löwe") vegna afskipta sinna af danska krúnustríðinu. Eftir daga Hinriks áttu hinir og þessir aðilar borgina. 1226 veitti Friðrik II keisari borginni leyfisbréf til að vera fríborg, það er óháð furstum og konungum. Hansaborgin Lübeck. Lübeck 1820. Fyrir miðju er markaðstorgið. Til hægri er ráðhúsið fræga. Í bakgrunni er Maríukirkjan. 1227 háði Lübeck, ásamt þýskum bandamönnum, sigursæla orrustu við Valdimar II Danakonung við Bornhöved í Holtsetalandi. Í kjölfarið varð Lübeck mikilvægasta verslunarborgin við Eystrasalt. Þetta markaði upphaf Hansakaupmanna. Hansasambandið myndaðist ekki við einhvern stóratburð, heldur þróaðist smám saman af verslunarmönnum í hinum og þessum hafnarborgum. 1356 var fyrsti Hansadagurinn haldinn í Lübeck svo vitað sé. En framan af var borgin Visby á Gotlandi aðalaðsetur Hansakaupmanna. Þegar Valdimar IV Danakonungur (kallaður Atterdag) hertók Visby 1361, fluttist það hins vegar til Lübeck. 1369 náði lýbískur sjóher að vinna danska Helsingjaborg í Svíþjóð (sem þá var dönsk). Við þann atburð og þau viðskiptasambönd sem Lübeck náði við það, var borgin á hátindi veldis síns. Hún var þá meðal þriggja stærstu borga þýska ríkisins, ásamt Köln og Magdeburg. Lübeck og Hamborg voru í nánu samstarfi og náðu góðu skipulagi saman. Meðan Hamborg verslaði aðallega við Norðursjó, einbeitti Lübeck sér aðallega við Eystrasalti. Á ofanverðri 14. öld var Stecknitz-skipaskurður lagður milli Alster (sem rennur í gegnum Hamborg) og Trave (sem rennur í gegnum Lübeck). Skurðurinn tengdi því Eystrasalt við Norðursjó. Það auðveldaði samstarfið og verslunina á allan hátt. Á næstu öldum háði Lübeck hins ýmsu sjóstríð við Dani um verslunarforréttindi í Eystrasalti og hafði borgin stundum betur, stundum verr. Eyjan Borgundarhólmur (Bornholm) var t.d. lýbísk 1525–1576. Í 30 ára stríðinu náði Lübeck að halda hlutleysi sínu og græddi meira að segja á stríðinu. 1629 voru friðarsamningar gerðir í borginni milli keisarahersins og Kristjáns IV Danakonungs, en sá síðarnefndi beið ósigur í stríðinu eftir aðeins stutta þátttöku. Eftir stríðslok gekk verslunin hins vegar hratt til baka. Landafundirnir miklu voru í algreymingi og siglingaþjóðir eins og Englendingar, Hollendingar, Portúgalar og Spánverjar voru búnir að koma sér upp nýlendum í Afríku og Asíu. Hansamenn urðu færri. Síðasti Hansadagur í Lübeck fór fram 1669. Eftir það lagði Hansaverslunin upp laupana í Lübeck, en einnig í Hamborg og Bremen. Lübeck var þá bara venjuleg hafnarborg við Eystrasalt. Síðustu aldir. Dómkirkjan og hluti af miðborginni brennur eftir loftárásir Breta 1942. Eftir fall þýska ríkisins 1806 við tilkomu Napoleons, leit út fyrir að Lübeck og nærsveit yrðu sjálfstæð. En Frakkar hertóku borgina þegar þeir eltu Blücher herforingja og var hún undir franskri stjórn til 1813. Eftir Vínarfundinn var borgin sjálfstæð. Hún var enn sjálftætt borgríki innan prússneska ríkisins þegar það var stofnað 1871. Á nasistatímanum fóru fram hreinsanir í borginni. Helmingur gyðinga hafði yfirgefið borgina. Rétt rúmlega 200 urðu eftir og voru þeir fluttir brott. Aðeins 3 þeirra lifðu nasistatímann af. 1942 varð Lübeck fyrir gríðarlegum loftárásum. Bretar höfðu verið að skipuleggja nýjar aðferðir við loftárásir og var Lübeck fyrsta þýska stórborgin sem varð fyrir barðinu á þeim. Margar byggingar í hinni sögufrægu miðborg eyðilögðust eða skemmdust. Skömmu seinna bað svissneski diplómatinn og forseti Alþjóða Rauða krossins, Carl Jacob Burckhard, borginni griða, til að geta sett upp hafnaraðstöðu fyrir Rauða krossinn í borginni. Bandamenn samþykktu þetta og því slapp Lübeck við frekari loftárásir og skemmdir af völdum stríðsins. 23. apríl 1945 kom Heinrich Himmler til Lübeck til að bjóða bandamönnum vopnahlé í gegnum sænska greifann Bernadotte, en Harry S. Truman, Bandaríkjaforseti, hafnaði því. Nokkrum dögum seinna hertóku breskir hermenn borgina nær átakalaust og héldu henni fram að stofnun sambandslýðveldisins. Hún varð landamæraborg að Austur-Þýskalandi. Í hverfinu Schlutup var nyrsta landamærastöð þýsku ríkjanna. 1987 var hluti miðborgarinnar settur á heimsminjaskrá UNESCO, en það var í fyrsta sinn sem heill borgarhluti fékk slíkan heiður í Norður-Evrópu. Byggingar sem hér um ræðir eru m.a. ráðhúsið mikla, Koberg-svæðið í heild, litlu göturnar milli Péturskirkjunnar og dómkirkjunnar, Salthúsin og Holstentor, svo eitthvað sé nefnt. Byggingar og kennileiti. Holstentor er eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Til hægri er Péturskirkjan, til vinstri Maríukirkjan. Stuttgart. Stuttgart er höfuðborg þýska sambandslandsins Baden-Württemberg. Borgin stendur á hæðóttu landi við ána Neckar. Íbúar eru rétt rúmlega 600 þúsund í borginni sjálfri, en um þrjár milljónir á stórborgarsvæðinu. Lega. Stuttgart liggur við norðausturjaðar Svartaskógs í suðvesturhluta Þýskalands. Frönsku landamærin eru 60 km til vesturs, en þau svissnesku 100 km til suðurs. Næstu stærri borgir eru Esslingen til suðausturs (10 km), Ludwigsburg til norðurs (15 km), Tübingen til suðurs (40 km) og Pforzheim til norðvesturs (50 km). Orðsifjar. Borgin hét upphaflega "Stutgarten", sem merkir "hrossagarður". Stute er "meri", garten er "garður", "býli" eða "bær". Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Stuttgart er svartur prjónandi hestur á gulum grunni. Hesturinn kom fyrst fram í skildi frá 1312 og vísar til þess að borgin var eitt sinn stóðgarður konungs. Núverandi merki er frá 1938. Söguágrip. Stuttgart í kringum 1650. Mynd eftir Matthäus Merian. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru VfB Stuttgart og Stuttgarter Kickers. VfB Stuttgart hefur 5 sinnum hefur orðið þýskur meistari (síðast 1997), komst í úrslit Evrópukeppni meistaraliða 1989 (tapaði þá fyrir Napoli) og í úrslit Evrópukeppni bikarhafa 1998 (tapaði þá fyrir Chelsea). Tveir íslenskir knattspyrnumenn hafa leikið með félaginu, Ásgeir Sigurvinsson (1982-1990) og Eyjólfur Sverrisson (1990-1994). Stuttgarter Kickers hefur aldrei orðið meistari, en lenti í öðru sæti 1908 og komst í úrslit í bikarkeppninni 1987. Það leikur í neðri deildum. Nokkrir leikir í HM 1974 og HM 2006 fóru fram í Mercedes-Benz-Arena (áður Neckar-Stadion) í Bad Cannstadt. Stuttgart var vettvangur EM í frjálsum 1986 og HM í frjálsum 1993. Kvennaliðið CJD Feuerbach í blaki er þrefaldur þýskur meistari. Félagið er um þessar mundir ekki með aðallið sökum fjárhagsörðugleika. Viðburðir. Gamall Bugatti á Retro Classics Sankti Pétursborg. Eitt af mörgum síkjum í Sankti Pétursborg Sankti Pétursborg (rússneska: Санкт-Петербург) er borg sem stendur á Kirjálaeiðinu við ósa árinnar Nevu þar sem hún rennur út í Kirjálabotn í Norðvestur-Rússlandi. Um 4,7 milljónir bjuggu í borginni árið 2002. Borgin var sett á stofn af Pétri mikla árið 1703 sem evrópsk stórborg og var höfuðborg Rússlands fram að Októberbyltingunni 1917. Í fyrri heimstyrjöldinni árið 1914 var borgin nefnd Pétursborg, þ.e. þýsku orðin,sankt" og,burg" voru fjarlægð úr nafninu. Fimm dögum eftir andlát Vladimirs Leníns, 26. janúar 1924 var borgin nefnd Leníngrad eftir honum. Í fyrstu forsetakosningunum í Rússlandi 19. júní 1991 var nafni borgarinnar breytt til fyrra horfs - Sankti Pétursborg. Zhang Liao. Mynd af Zhang Liao úr bók frá 17.öld Zhang Liao (169-222) var herforingi undir Cao Cao, stofnanda Wei, á tímabili Austur Han Keisaradæmisins og hinna svo nefndu þriggja konungsríkja í Kína til forna. Hann tók þátt í mörgum herferðum, þar með taldar þær sem farnar voru gegn afkomendum Yuan Shaos og Wuhuan ættbálkanna. En hann var mest þekktur fyrir sigur sinn í bardaganum við Xiaoyao jin (Auðvelda vað) árið 208, þar sem hann varði borgina Hefei gegn her Sun Quans. Fyrri ár. Sem heimamaður í Mayi, var Zhang Liao upprunalega skírður Nie. Hann starfaði sem héraðsstjórnar fulltrúi/embættismaður á sínum yngri árum. Er lok Han veldisins nálgaðist, heillaðist Ding Yuan, landstjóri Bingzhou, af hernaðarlist Zhang Liaos og skráði hans sem nýliða. Árið 189 leiddu Ding Yuan og trúr aðstoðarmaður hans, Lu Bu, hermenn sína inn í Luoyang til að aðstoða He Jin við að eyða hinni valdamiklu „geldinga“ þjóð. Hins vegar var He Jin fljótlega myrtur af „geldingunum“ og höfuðborgin féll í ringulreið. Dong Zhuo, smákóngur frá Liangzhou, þráði völd og ætlaði að setja „brúðukeisara“ á keisarastólinn. Þessi áætlun fór ekki vel í marga í höfuðborginni, þar með talinn Ding Yuan. Hins vegar var Lu Bu fenginn til að svíkja og drepa Ding Yuan. Smákóngarnir stofnuðu fljótlega bandalag gegn Dong Zhuo, sem var neyddur til að flytja höfuðborgina vestur til Chang’an. Þar sveik Lu Bu í annað sinn meistara sinn og drap Dong Zhuo. Hann var síðan yfirbugaður af fyrrverandi herforingjum Dong Zhuos, þeim Li Jue og Guo Si. Lu Bu flúði þá til Xuzhou ásamt Zhang Liao. Árið 198 var Lu Bu sigraður af Cao Cao í Xiapi. Zhang Liao gekk þá í lið Cao Caos, þar sem hernaðarlegir hæfileikar hans urðu loksins þekktir. Hann tók þátt í mörgum herferðum, þar með talinn bardaginn við Guandu og herferðin norður gegn Yuan Shang, Yuan Tan og Wuhuan ættbálkunum. Bardaginn við Auðvelda vað (Xiaoyao jin - 逍遥津).. Eftir ósigur Cao Caos við Rauðu kletta (Chì Bì - 赤壁之戰) árið 208, setti hann Zhang Liao, Yue Jin og Li Dian í Hefei ásamt 7000 mönnum til að verjast gegn framsókn suðræna smákóngsins Sun Quan. Fljótlega leiddi Sun Quan mikið stærri her til Hefei. Samkvæmt leiðbeiningum Cao Caos, tóku Zhang Liao og Li Dian 800 hermenn til að hindra óvininn við Leisure Ford. Þegar dagaði lagði hópurinn af stað með Zhang Liao fremst í fylkingunni. Herforinginn þeysti inn í raðir óvinanna og einn síns liðs drap hann marga af hermönnum óvinarins. Um leið og hann kunngerði nafn sitt, þaut hann beint í átt að Sun Quan sem hafði skjól uppá hæð. Þegar hann sá að Zhang Liao hafði mikið færri menn en hann sjálfur, skipaði hann mönnum sínum að umkringja óvininn. Leiðandi hóp af mönnum, braust Zhang Liao fljótlega út úr hringnum. Þeir sem enn voru umkringdir kölluðu þá til hans: „Herforingi, ætlar þú að yfirgefa okkur?“ Þá sneri Zhang Liao við og reið aftur inn í hringinn og frelsaði restina. Sun Quan kallaði aftur menn sína og hörfaði um tíma. Þegar Zhang Liao sneri aftur hafði hann umsjón með styrkingu varnanna. Eftir tveggja vikna umsátur gat Sun Quan ekki tekið Hefei og varð að snúa heim. Zhang Liao leiddi þá hermenn sína á eftir þeim. Nokkrum sinnum komust þeir nálægt því að ná Sun Quan. Cao Cao var mjög ánægður og veitti Zhang Liao titillinn „Herforingi sem sigrar austrið“. Seinni ár. Eftir að Cao Pi tók við af Cao Cao árið 220, var Zhang Liao hækkaður í „Herforingi fremstu víglínunnar“ og var aftur sendur til Hefei til að verjast gegn árásum Wu konungríkisins. Árið 221 ferðaðist Zhang Liao til Xuchang vegna áheyrnar við Cao Pi, sem líkti herforingjann við Shao Hu. Hins vegar veiktist Zhang Liao fljótlega eftir það og dó árið eftir í Jiangdu. Eftir dauða hans var honum gefinn heiðurstitillinn „Míng Lang Jūn “, sem þýddi „Ákveðni markgreifinn“. Sonur Zhang Liaos, Zhang Hu, þjónaði einnig konungsríkinu Wei sem aðstoðarforingi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson (f. 26. apríl 1946), er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Verslunarskólanum 1968 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1974. Vilhjálmur hefur verið mjög virkur í flokksstarfi innan Sjálfstæðisflokksins og var í stjórn Heimdallar 1965-67. Hann sat í stjórn SUS 1971-1977 og var þar af varaformaður 1973-1977. Vilhjálmur var kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1982. Vilhjálmur var jafnframt í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 1986 til 2006, þar af var hann formaður 1990-2006. Vilhjálmur var borgarstjóri í 16 mánuði, 2006-2007, í valdatíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og formaður borgarráðs 24. janúar til 21. ágúst 2008, í valdatíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista. Hann tók við embætti forseta borgarstjórnar 21. ágúst 2008 og gegndi því út kjörtímabilið er hann hætti í borgarstjórn eftir 28 ára samfellda setu. Vilhjálmur var oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 2003-2008. Ernest Rutherford. Ernest Rutherford, 1. barón Rutherford af Nelson, OM, PC, FRS (30. ágúst 1871 – 19. október 1937) var kjarneðlisfræðingur frá Nýja Sjálandi. Hann er þekktur sem „faðir“ kjarneðlisfræðinnar og einn brautryðjenda svigrúmskenningarinnar, meðal annars með uppgötvun Rutherforddreifingar kjarna í gullplötutilrauninni. Tenglar. Rutherford, Ernest Rutherford, Ernest Nikola Tesla. Nikola Tesla (10. júlí 1856 í Smiljan í Króatíu – 7. janúar 1943 í Manhattan, New York) var serbnesk-bandarískur uppfinningamaður, eðlisfræðingur, véla- og rafmagnsverkfræðingur. Uppfinningar hans og kennileg verk eru undirstaða riðstraumskerfa. Á meðal uppfinninga hans eru útvarpið, fjölfasaafldreifikerfið og riðstraumsmótorar sem stuðluðu að iðnbyltingunni síðari. SI-mælieining segulstyrks, tesla, er nefnd í höfuðið á honum. Uppvaxtarár. Nikola Tesla fæddist árið 1856 þann 10. júlí. Hann fæddist í þorpinu Smiljan í Króatíu ásamt þremur systrum sínum og bróður. Tesla kom af serbneskum ættum. Faðir hans, séra Milutin Tesla, og móðir hans, Djuka Mandic, voru bæði frá Serbíu. Eftir grunnnám í Karlovac í Króatíu fór Tesla í háskólanám í Graz í Austurríki árið 1875 að læra það sem hann dáði mest, rafmagnsverkfræði. Tesla var bráðgáfaður nemandi og var þekktur þar fyrir að reita kennarana til reiði með efasemdum sínum um efnið. Tesla var þá helst mótfallinn því að eina leið til að skila raforku væri jafnstraumur. Tesla var þeirrar skoðunar að jafnstraumur væri ekki nógu góð leið til að skila raforku þá aðallega út af stuttu vegalengdina sem raforkan skilaði sér. Tesla var viss um að betri leið væri til. Tesla hugaði því mikið að riðstraumskenningum og var mikill áhugamaður þess fyrirbæris. En riðstraumur var þá draumahugmynd í vísindaheiminum sem margir hverjir höfðu ekki mikla trú á að yrði að veruleika. Í miðri háskólagöngu sinni í Austurríki veiktist faðir hans og Tesla fór heim. Stuttu síðar lést hann og Tesla fór aldrei aftur til Austurríkis í skólann. Starfsár. Tesla var í fjárhagsvandamálum og fékk sér því vinnu í Búdapest í Ungverjalandi í fyrirtæki sem sérhæfði sig í símskeytum. Tesla örvænti mikið menntunarleysi sitt en hélt þó enn í draum sinn að verða frumkvöðull í rafmagnsverkfræði. En á meðan Tesla var í Búdapest fékk hann hugmyndir um segulsvið sem snerist og byrjaði að þróa spanvél sem seinna myndi gefa tækifæri á nýtingu riðstraums. Árið 1882 fékk hann starf við að betrumbæta rafmagnstækjabúnað í Parísarborg. Hann skaraði þar fram úr, varð þekktur sem verkfræðingur og smíðaði sína fyrstu spanvél. Sama ár fór Tesla heim frá Frakklandi í flýti til rúmliggjandi móður sinnar. Eftir andlát hennar veiktist Tesla en náði bata þremur vikum seinna. Árið 1884 hélt hann för sinni til New York eftir að hafa verið boðið vinnu þar frá Thomas Edison. Þar átti Tesla að vinna við að betrumbæta og endurhanna vélar Edisons. Edison bauð Tesla 50.000 dala bónus fyrir að endurbæta jafnstraumsrafal Edisons. Tesla var ekki hrifinn af tækjabúnaði sem studdist við jafnstraum en vann samt sem áður hörðum höndum að öllu sem Edison lagði fyrir hann. Tesla ætlaði að nota peninginn til að opna sitt eigið fyrirtæki þar sem hann gæti einbeitt sér að sínum eigin uppfinningum. Tesla stóð við sinn hluta samningsins en Edison borgaði honum ekki. Tesla sagði upp hjá Edison og stofnaði sitt eigið fyrirtæki. Fyrirtækið sérhæfði sig í ljósum og Tesla fann upp betri ljós en áður voru þekkt og Tesla fékk einkaleyfi á þeim. Ekki leið á löngu þangað til fjárfestar fyrirtækisins létu Tesla fara og hann varð aftur atvinnulaus. Frá 1886 til 1887 vann hann sem verkamaður og hugaði að uppfinningunum í frítíma sínum. Árið 1887 þegar Tesla var búinn að útfæra sína fyrstu riðstraumsvél og kynna hana kom George Westinghouse, helsti samkeppnisaðili Edisons á þeim tíma, og keypti einkaleyfið af Tesla og fékk hann í vinnu hjá sér. Mikil samkeppni í viðskiptum braust út á milli jafnstraumskerfum Edisons og riðstraumskerfum Tesla og Westinghouse en Tesla og Westinghouse höfðu betur í samkeppninni. Fljótlega opnaði Tesla sína eigin rannsóknarstofu þar sem hann gat unnið að uppfinningum sínum. Til að stilla ró fólks á riðstraumsnotkun, hélt hann sýningar á rannsóknarstofu sinni þar sem hann kveikti ljós þráðlaust með því að láta rafmagn leika um líkama sinn. Árið 1891 fann hann upp „Tesla coil“ en það hefur mikið verið notað í útvörpum, sjónvörpum og fleira. Árið 1893 fengust Tesla og Westinghouse til þess að sjá um lýsinguna á stórhátíð í Chicago. Það tókst svo vel hjá þeim að allir urðu sannfærðir um að riðstraumskerfi Tesla væri framtíðin, brátt voru einungis riðstraumskerfi um allt land. Árangurinn varð til þess að þeir fengu samning við að virkja Niagara-fossa en ekki Edison. Virkjunin flutti rafmagn rúma 35 kílómetra til Buffalo. Rafmagn var þá venjulegur hlutur á öllum heimilum þökk sé Tesla. Colorado og Wardenclyffe. Árið 1899 fór Tesla til Austur-Colorado og smíðaði þar rannsóknarstofu með stóru járnmastri. Þar byrjaði hann að huga að flutningi rafmagns þráðlaust. Í Colorado var kjörin loftlagsaðstaða fyrir ragmagnstilraunir auk þess sem Tesla fékk þar fría orku. Tesla hafði hugsað sér að nota yfirborð jarðar og lofthjúp hennar sem leiðara og senda orku hvert sem er á jörðinni. Í einni tilraun sinni í Colorado hlóð Tesla tíu milljón voltum í jörðina og straumurinn fluttist í gegnum alla jörðina og til baka í mastrið. Straumurinn braust út úr járnmastri Tesla sem 40 metra löng bogadregin elding. Þessi elding er enn stærsta elding sem gerð hefur verið af manna höndum. Þessi tilraun varð til þess að orkurafallinn sem hann fékk orku frá brann upp og hann fékk ekki lengur fría orku. Tesla fluttist aftur til New York og valdi samskiptaflutning sem aðalverkefni sitt frekar en raforkuflutning. Westinghouse styrkti ekki Tesla en J. P. Morgan veitti honum heimild til að byggja sér nýtt aðsetur á Long Island en Morgan var auðugasti maður Bandaríkjanna þá. Tesla fór að vinna í byggingu á stærri og vandaðari útgáfu af rannsóknarstofunni í Colorado, nefnt Wardenclyffe. Tesla ætlaði sér að nota Wardenclyffe-turninn sem útvarpssendi en hann vonaðist einnig til þess að nýta hann til orkudreifingar einn daginn. Það var hætt við verkefnið seinna vegna fjárhagsvandamála. Seinni ár. Nokkrum árum seinna komst Guglielmo Marconi í fjölmiðlana fyrir að finna upp útvarpið. Hugmyndin hans var sú nákvæmlega sama og Tesla hafði kynnt áður þegar ákveðið var að byggja Wardenclyffe. Marconi sagðist ekki hafa kynnst því sem Tesla hafi gefið frá sér og eignaði sér heiðurinn á útvarpinu. Tesla kærði Marconi, vann það mál og er nú þekktur sem uppfinningamaður útvarpsins. Árið 1917 hlaut hann Edison orðuna en það var hæstvirtasta orða sem æðsta stofnun rafmagnsverkfræðinga í Bandaríkjunum gat veitt. 7. janúar 1943 lést Nikola Tesla úr hjartaáfalli á hótelherbergi í Manhattan í New York. Þrátt fyrir að hafa selt einkaleyfi sitt á riðstraumskerfum sínum, dó hann skuldugur. Í gögnum sem fundust eftir dauða hans var að finna upplýsingar um gereyðingarvopn sem hann hafði unnið að í nokkur ár. Tenglar. Tesla, Nikola Tesla, Nikola Tesla, Nikola Tesla, Nikola Voltaire. François-Marie Arouet (21. nóvember 1694 – 30. maí 1778), betur þekktur undir pennanafninu Voltaire, var franskur rithöfundur og heimspekingur. Hann er þekktastur fyrir hnyttni sína, heimspekileg skrif og stuðning við mannréttindi, einkum trúfrelsi og óhlutdræg réttarhöld. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Voltaire var afkastamikill höfundur og samdi verk af fjölvíslegum toga, til að mynda leikrit, ljóð, skáldsögur, ritgerðir, söguleg og vísindaleg rit; yfir 20.000 bréf og rúmlega 2.000 bækur og bæklinga. Í orði var Voltaire ötull stuðningsmaður félagslegra umbóta, þrátt fyrir lög um stranga ritskoðun og hörð viðurlög við brotum gegn þeim. Þá telst hann til þess hóps upplýsingarmanna (ásamt Montesquieu, John Locke og Jean-Jacques Rousseau) sem höfðu með verkum sínum og hugmyndum áhrif á mikilvæga hugsuði sem tengdust amerísku og frönsku byltingunum. Af íslenskuðum verkum Voltaires er þekktust grallaraskáldsagan "Candide, ou l'Optimisme", sem í íslenskun Halldórs Laxness nefnist "Birtíngur" og kom fyrst út árið 1945. Birtíngur hefur tvisvar sinnum verið endurútgefinn af Hinu íslenzka bókmenntafélagi í bókaflokknum "Lærdómsrit Bókmenntafélagsins". Í sama bókaflokki kom út árið 2007 þýðing Hólmgríms Heiðrekssonar á skáldsögunni Zadig, sem á íslensku nefnist Zadig eða örlögin, og fjallar um leit titilpersónunnar að hamingjunni og könnun hennar á raunverulegum verðleikum ýmissa lystisemda. Fyrstu skref. François-Marie Arouet fæddist í París. Hann var yngstur fimm barna (aðeins þrjú komust á legg) þeirra François Arouet (f. 1650, d. 1. janúar 1722), lögbókanda, og konu hans, Marie Marguerite d'Aumart (f. u.þ.b. 1660, d. 13. júlí 1701), sem var af göfugum ættum. Voltaire gekk til náms hjá jesúítum í Collège Louis-le-Grand (1704 – 1711). Þar lærði hann latínu og grísku. Síðar á ævinni náði hann afburðatökum á ítalíu, spænsku og ensku. Undir lok skólagöngu sinnar hafði Voltaire ákveðið að gerast rithöfundur. Sú staðfesta gekk þvert á óskir föður hans, sem vildi að hann yrði lögfræðingur. Voltaire þóttist starfa sem aðstoðarmaður lögfræðings í París, en varði mestum hluta tíma síns í að yrkja ljóð. Þegar faðir hans komst að hinu sanna, sendi hann Voltaire í laganám, að þessu sinni til Caen í Normandí. Voltaire þráaðist við og hélt áfram að rækta samband sitt við skáldgyðjuna. Einnig skrifaði hann ritgerðir og sagnfræðistúdíur. Hnyttni Voltaires kom honum í mjúkinn hjá ýmsum hástéttarfjölskyldum sem hann umgekkst. Faðir hans togaði í spotta og kom honum í starf ritara hjá sendiherra Frakklands í Hollandi. Þar varð Voltaire ástfanginn af frönskum flóttamanni sem nefndist Catherine Olympe Dunoyer. Faðir Voltaires kom í veg fyrir að þeim tækist að strjúka á brott saman og Voltaire var gert skylt að snúa aftur til Frakklands. Fyrstu ár Voltaires tengdust flest París á einn eða annan hátt. Hann komst snemma í kast við hið opinbera vegna þróttmikilla árása sinna á stjórnvöld og kaþólsku kirkjuna. Þetta leiddi meðal annars til nokkurra tugthúsvista, auk útlegðarskeiða. Nafnið „Voltaire“. François-Marie Arouet tók upp nafnið „Voltaire“ árið 1718, í senn sem höfundarnafn og til daglegra nota. Orðið er talið byggjast á stafabrenglun (anagrami) á „AROVET LI“, latneskri stafsetningu eftirnafns hans, Arouet, og upphafsstafa orðanna „le jeune“ (hinn yngri). Nafnið endurómar einnig í öfugri röð atkvæði nafn sveitaseturs í Poiteu-héraðinu í Frakklandi: „AirVault“. Upptaka nafnsins „Voltaire“, í kjölfar fangelsunar höfundarins í Bastillunni, markar í augum margra formlegan aðskilnað hans frá fjölskyldu sinni og fortíð. Á það má raunar einnig benda að Voltaire notaði, svo vitað sé, að minnsta kosti 178 höfundarheiti á ferli sínum. Síðari ár. Hin hvassa, hnyttna og oft gagnrýna tunga Voltaires gerðu hann afar óvinsælan á meðal margra samtíðarmanna sinna í Frakklandi. Þar var hástéttin ekki undanskilin. Háðsleg tilsvör og skrif Voltaires leiddu til þess að hann var dæmdur í útlegð frá Frakklandi. Á meðan á henni stóð dvaldist hann á Bretlandseyjum. Sú reynsla sem Voltaire varð fyrir þar átti eftir að lita ýmsar skoðanir hans og skrif í framtíðinni. Eftir næstum þriggja ára útlegð í Bretlandi sneri Voltaire aftur til Parísar og gaf út ritgerðarsafnið Heimspekilegar hugleiðingar um hina ensku. Í þessu riti sínu komst hann að þeirri niðurstöðu að hin stjórnarskrárbundna konungsstjórn í Englandi væri þróaðari og samræmdist betur mannréttindum en franska stjórnarfyrirkomulagið, einkum hvað trúfrelsi snerti. Hugmyndir Voltaires mættu mikilli andstöðu. Ritgerðir hans voru brenndar og höfundurinn neyddist að nýju til að yfirgefa París. Næst hélt hann til Château de Cirey, herragarðs á mörkum Champagne- og Lorraine-héraðanna. Þar stofnaði hann til ástarsambands við markgreifynju nokkra, Gabrielle Émilie le Tonnelier de Breteuil að nafni. Sambandið entist í fimmtán ár og byggðist að stórum hluta á vitsmunalegum skyldleika þeirra tveggja. Í sameiningu söfnuðu þau yfir 21.000 bókum til rannsókna og varðveislu. Auk þess framkvæmdu þau tilraunir í náttúruvísindum í rannsóknarstofu Château de Cirey. Voltaire hafði nú lært af reynslunni. Hann gætti þess að verða sem minnst uppsigað við yfirvöld og einbeitti sér að skrifum og rannsóknum á sviði vísinda og sagnfræði. Meðal áhrifavalda hans var breski vísindamaðurinn Sir Isaac Newton og enski heimspekingurinn og vinur hans John Locke. Voltaire þótti lífið á herragarðinum (ATH.) þó takmarkað er til lengdar lét. Í Parísarheimsókn árið 1744 varð hann að nýju ástfanginn, nú af frænku sinni, Marie Louise Mignot. Löngu síðar bjuggu þau saman, hugsanlega einungis á platónskum forsendum, og héldust saman allt til dauða Voltaires. Markgreifynjan, sem einnig hafði orðið sér úti um elskhuga, lést af barnsförum árið 1749. Eftir dauða markgreifynjunnar hélt Voltaire til Parísar. Þar ritaði hann að líkindum eitt hið fyrsta sem skrifað var af vísindaskáldskap; sendiherrar frá framandi plánetu koma til jarðarinnar og verða vitni af heimskupörum mannkyns. Enn og aftur tókst honum svo að reita ráðamenn til reiði og fá þá til að kveikja í verkum sínum. Voltaire var ekki vært í París, svo að hann hélt til Geneva, og síðan til Ferney, þar sem hann átti eftir að verja síðustu tuttugu árum ævi isinnar. Þar ritaði hann árið 1759 skáldsöguna Birtíng, háðsádeilu á verk Gottfried Wilhelm Leibniz. Fimm árum síðar gaf hann svo út öndvegisrit sitt á sviði heimspeki, Dictionnaire Philosophique, safn greina sem fjölluðu einkum um sögu kristninnar og kenningar og kreddur innan trúarbragðanna. Dauði og greftrun. Í febrúar árið 1778 hélt Voltaire til Parísar í fyrsta skipti í tuttugu ár, með það fyrir augum að vera viðstaddur frumsýningu nýjasta harmleiks síns, Irene. Ferðalagið spannaði fimm daga og tók mjög á rithöfundinn, sem kominn var á 84. aldursár sitt. Hinn 28. febrúar taldi Voltaire að sinn tími í þessum heimi væri þrotinn. Hann skrifaði: „Ég dey við tilbeiðslu guðs, fullur hlýju í garð vina minna, án kala til óvina minna, og lýsi frati á hjátrú.“ Hann náði sér þó á strik og lifði að sjá frumsýningu leikverksins. Honum hrakaði hins vegar fljótt aftur, og lést hinn 30. maí árið 1778. Til er saga sem hermir að prestur nokkur hafi á hinstu stundu Voltaires hvatt hann til að afneita í orði djöflinum og snúa sér til guðs, og þá hafi skáldið mælt: „Nú er ekki rétti tíminn til að eignast fleiri óvini.“ Á dánarbeðinum neitaði Voltaire að draga til baka gagnrýni sína á kirkjuna. Því var lagt bann við kristilegri útför hans. Engu að síður tókst vinum hans að grafa hann leynilega í klaustri Scellières í Champagne-héraðinu áður en bannið var gefið út. Heili hans og hjarta voru varðveitt hvort í sínu lagi. Síðar leit Þjóðarþing Frakklands á hann sem fyrirrennara að frönsku byltingunni og lét flytja jarðneskar leifar hans til Parísar. Þar var blásið til heljarmikillar athafnar með hljóðfæraleik og lúðrablæstri. Er áætlað að milljón manns hafi flykkst um stræti borgarinnar í skrúðgöngu sem haldin var af þessu tilefni. Líkamsleifar Voltaires eru nú geymdar í París. Þess má geta að þýdd hefur verið á íslensku spænska bókin El Corazon de Voltaire eða Hjarta Voltaires, eftir rithöfundinn Luis López Nieves. Í bókinni vaknar spurning um það hvort ein þjóðargersema Frakka, hjarta Voltaires, sem varðveitt er í skríni í París, sé raunverulega úr hugsuðinum kunna. Ljóðlist. Voltaire sýndi frá unga aldri hæfileika á sviði ljóðlistar. Fyrstu útgefnu verk hans voru enda af þeim toga. Hann samdi í senn lengri verk og fjölmörg styttri. Hin síðarnefndu eru jafnan talin fremri hinum lengri. Laust mál. Stór hluti verka Voltaires voru skrifuð sem hluti af ritdeilum. Birtíngur ræðst til að mynda gegn því hlutleysi sem sprettur af bjartsýnisheimspeki Leibniz, auk þess sem stórum hluta verkna hans var beint gegn kirkjunni. Megnið af skrifum hans felur í sér hvassa ádeilu. Einhver þekktasta tilvitnun sem tíðum er eignuð Voltaire er rangfeðruð. Þá er hermt að hann hafi ritað: „Ég er ósammála því sem þú segir, en ég mun fram í rauðan dauðan verja rétt þinn til þess að halda skoðun þinni fram.“ Í raun réttri komu þessi orði úr penna Evelyn Beatrice Hall. Hins vegar eru honum réttilega eignuð orðin: „Ef guð væri ekki til, þá væri nauðsynlegt að finna hann upp.“ Og einning, „Almenn skynsemi er ekki svo almenn.“ Bréf. Voltaire stóð í miklum einkalegum bréfaskriptum á meðan hann lifði og skrifaði meira en 20.000 bréf. Safnútgáfa Theodores Besterman af þessum skrifum Voltaires spannar 102 bindi. Mörgum þykir ritfimi höfundarins rísa hátt í ýmsum þessara skrifa og ekki einungis bera vott um hnyttni hans og málsnilld, heldur einnig hlýjan vinhug, næmt tilfinningaskyn og skarpa hugsun. Seattle. Seattle er borg í norðvesturhluta Bandaríkjanna í Washingtonfylki á milli Pugetsunds og Washingtonvatns. Áætlaður íbúafjöldi 1. júlí árið 2006 var 582.454 manns en 3,8 milljónir í borginni og nágrannabyggðum. Seattle er þekkt sem fæðingarstaður gruggtónlistar og kaffihúsakeðjunnar Starbucks. Draumalandið - sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. "Draumalandið getur einnig átt við: samnefnda kvikmynd" Draumalandið - sjálfshjálparhandbók handa hræddri þjóð er bók eftir Andra Snæ Magnason. Hún er ádeila á hina svokölluðu stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda, kennslubók í að afhjúpa blekkingu og leiðbeining um leiðir til að marka nýja stefnu. Bókin vann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006. Bókin hefur vakið mikla athygli og er að einhverju leyti ástæða þess að Andra var boðið að halda fyrirlestur árið 2006 í virtri fyrirlestraröð Cornell háskólans. Kvikmynd byggð á efni bókarinnar er væntanleg í kvikmyndahús. San Antonio. San Antonio er borg í Texas í Bandaríkjunum. Hún heitir í höfuðið á heilögum Antoníusi frá Padúa, en spænskur leiðangur áði í dalnum á nafnadegi hans árið 1691. Borgin stendur við San Antonio-ána og trúboðskirkjan Alamo þar sem orrustan um Alamo fór fram árið 1836 er í borginni. Borgin er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og um 20 milljónir manna heimsækja borgina árlega. Meðal þess sem dregur ferðamenn að er San Antonio River Walk, net gangbrauta og brúa við ána þar sem hún rennur gegnum borgina. Houston. Houston er stærsta borg Texas í Bandaríkjunum. Hún er fjórða stærsta borg Bandaríkjanna með yfir tvær milljónir íbúa. Borgin er þekkt fyrir olíuiðnað. Höfnin í Houston er sjötta stærsta höfn heims og stærsta útflutningshöfn Bandaríkjanna. Borgin heitir í höfuðið á Sam Houston sem varð tvisvar forseti Texas um það leyti þegar borgin var sett á stofn upp úr 1836. Hanoí. Hanoí (víetnamska: Hà Nội; hán tự: 河内) er höfuðborg Víetnam. Borgin hefur verið höfuðstaður þess sem í dag heitir Víetnam allt frá því á 11. öld, fyrir utan árin frá 1954 til 1976 þegar hún var höfuðborg Norður-Víetnam. Borgin stendur á bökkum Rauðár. Hold. "Hold" var fjögurra laga stuttskífa (tólf-tomma) hljómsveitarinnar HAM sem kom út í takmörkuðu upplagi hjá Smekkleysu SF árið 1988. Á umslagi plötunnar og veggmynd sem því fylgdi var alblóðugur maður nakinn á bílskúrsgólfi með bundið fyrir augun. Það plötuumslag vakti hörð viðbrögð. Á stuttskífunni Hold má finna lög eins og Hold, Svín, Auður Sif, Transylvanía og Trúboðssleikjari en Hrafn Gunnlaugsson, þáverandi dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, bannaði sýningu myndbands við lagið Trúboðssleikjari í Ríkissjónvarpinu vegna ofbeldis. Breiðskífan Buffalo Virgin kom út ári síðar og var stefnt á heimsfrægð. Buffalo Virgin. "Buffalo Virgin" var fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar HAM, en áður hafði komið út stuttskífan "Hold". "Buffalo Virgin" innihélt lög á borð við „Death“ og „Egg ya hummie“ sem var útúrsnúningur á orðskrípinu „Eggjahommi“. Platan var gefin út af One Little Indian, í Englandi. Rio de Janeiro. Rio de Janeiro eða Ríó (portúgalska: "Janúaráin") er stórborg í Brasilíu með yfir sex milljónir íbúa. Hún er önnur stærsta borg landsins á eftir São Paulo og var höfuðborg þess til 1960. Borgin er þekkt fyrir baðstrendur, eins og Copacapana og Ipanema, fallegt borgarstæði milli fjallanna við suðurströnd Guanabaraflóa, og glæsilega kjötkveðjuhátíð þar sem sambaskólar keppa sín á milli í að setja upp sem glæsilegasta skrúðgöngu. Ríó er einnig þekkt fyrir stór fátækrahverfi, "favelas", í hæðunum umhverfis borgina. Árið 2009 var borgin valin til þess að halda Ólympíuleikana árið 2016. Skert flog. "Skert flog" er breiðskífa með upptökum af tónleikum HAM á skemmtistaðunum Gauki á Stöng þann 14. júní 2001. Platan kom út nokkrum mánuðum síðar hjá Hitt records, dótturfélagi Eddu miðlunar, sama ár. Á tónleikunum voru fjórir gestasöngvarar sem sungu í gregorískum stíl í laginu „Musculus“. CBGB‘s 7. ágúst 1993. "CBGB's 7. ágúst 1993" er breiðskífa með upptökum frá tónleikum sveitarinnar HAM á skemmtistaðnum CBGB´s í New York 7. ágúst 1993. Skemmtistaðurinn er þekktur fyrir að hafa verið hýsill grasrótarsenu New York-borgar á pönktímabilinu og hafa margar þekktar hljómsveitir leikið á staðnum. Austurbæjarbíó. Austurbæjarbíó eða Austurbær er kvikmynda- tónleika- og leikhús sem stendur við Snorrabraut í Reykjavík. Það var reist af nokkrum athafnamönnum í Reykjavík á árunum 1945 til 1947 og formlega opnað 25. október það ár. Aðstandendur voru jafnframt forystumenn Tónlistarfélagsins í Reykjavík sem hafði verið stofnað 1932. Hönnuðir hússins voru arkitektarnir Hörður Bjarnason og Gunnlaugur Pálsson. Salurinn tekur um 800 manns í sæti á einu gólfi. Hann var innréttaður með tilliti til tónlistarflutnings og fyrir framan kvikmyndatjaldið var svið sem gat borið 40 manna hljómsveit. Húsið var stærsta samkomuhús landsins við opnun þess. Frá upphafi var vinsælt að halda tónleika í húsinu þegar ekki voru sýndar kvikmyndir. Fyrstu kvikmyndirnar sem sýndar voru voru "Ég hef ætíð elskað þig" ("I've Always Loved You") og "Hótel Casablanca" ("A Night in Casablanca"). Húsið var vettvangur fyrir miðnæturrevíur á vegum fyrst Íslenzkra tóna og síðar Leikfélags Reykjavíkur sem hélt þær sem fjáröflun fyrir Borgarleikhúsið. 1955 til 1975 var skemmtistaðurinn Silfurtunglið rekinn á efri hæð hússins. Sambíóin eignuðust Austurbæjarbíó 1985 og 1987 var nafni hússins breytt í Bíóborgin. Bíóborgin var fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi sem setti upp THX-hljóðkerfi. 2002 var kvikmyndasýningum hætt í húsinu og var ætlunin að rífa húsið og reisa þar fjölbýlishús. Hætt var við þær áætlanir og húsið hefur síðan verið nýtt sem leikhús og samkomuhús. Þar hafa meðal annars verið settir upp nokkrir vinsælir söngleikir síðustu ár. Austur-Hérað. Austur-Hérað var sveitarfélag á Austurlandi. Það varð til 7. júní 1998 við sameiningu 5 sveitarfélaga: Egilsstaðabæjar, Eiðahrepps, Hjaltastaðarhrepps, Skriðdalshrepps og Vallahrepps. Hinn 1. nóvember 2004 sameinaðist Austur-Hérað Fellahreppi og Norður-Héraði undir nafninu "Fljótsdalshérað". Norður-Hérað. Norður-Hérað var sveitarfélag á Austurlandi. Það varð til 27. desember 1997 við sameiningu 3 sveitarfélaga: Jökuldalshrepps, Hlíðarhrepps og Tunguhrepps. Hinn 1. nóvember 2004 sameinaðist Norður-Hérað Fellahreppi og Austur-Héraði undir nafninu "Fljótsdalshérað". Helgi Sverrisson. Helgi Sverrisson (fæddur 1961 í Hafnarfirði) er íslenskur kvikmyndaleikstjóri. Helgi hefur unnið að gerð heimildamynda, sjónvarpsþátta og kvikmynda í ríflega tvo áratugi. Helgi vinnur nú að gerð myndarinnar L7 Hrafnar, sóleyjar og myrra ásamt Eyrúnu Jónsdóttur. Með aðalhlutverk fara Victoria Ferrell, Laddi, Edda Björgvinsdóttir, Pétur Einarsson, Magnús Ólafsson, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Ísak Hinriksson, Jóhanna Jónas, Sigríður Björk Baldursdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Sigurður Hjaltason, Bjartmar Þórðarson. The Higher Force (Stóra planið) í leikstjórn Ólaf Jóhannessonar sem var frumsýnd árið 2007. S stuttmynd sem var sýnd í Ríkissjónvarpinu 2007. Húnar. Mynd sem sýnir veldi Húna þegar það var sem stærst. Húnar voru evróasískir hirðingjar sem gerðu með sér ýmis bandalög og réðust inn í Suðaustur-Evrópu um 370 e.Kr. Þeir rændu og rupluðu þar sem þeim sýndist og gerðu bandalög við ýmsar germanskar þjóðir sem voru óvinir Rómaveldis (Austgotar, Vandalar og Langbarðar). Frægastur Húna er Atli Húnakonungur sem sameinaði alla Húna og var síðasti og voldugasti konungur Húnaveldisins. Fall Húnaveldisins markaðist við fyrsta ósigur Atla í bardaga við Katalánsvelli árið 451 þar sem Atli mætti rómverska herstjóranum Flaviusi Aëtiusi, Vestgotum og Búrgundum. Tveim árum síðar lést Atli og óljóst var hver af hans óteljandi sonum ætti að taka við veldinu. Á meðan rifist var um hver yrði næsti konungur Húnaveldis nýttu óvinsamlegar germanskar þjóðir tækifærið og risu gegn Húnum. Þar með liðaðist veldi þeirra í sundur og var úr sögunni. Húnar. Þeir voru upprunalega hirðingjar frá miðhluta Asíu. Þeir komu frá rússnesku steppunum og héldu inní Austur-Evrópu 400-410 e.kr. Fréttir um landvinninga Húnanna breiddust útum Evrópu eins og eldur í sinu og urðu til þess að margir germanskir ættbálkar sáu sig tilneydda til að hörfa inní Vestrómverska ríkið sem stóð þá á brauðfótum. Hvað var svona hryllilegt við Húnana? Þeir voru frábærir hestamenn og bjuggu yfir tveim uppfinningum sem gerði þá nánast óstöðvandi: Nýrri gerð af boga sem var gerður úr við, dýrabeinum og lími. Þessi gerð boga varð til þess að hermenn áttu mun auðveldara með að miða af hestbaki. Fræg eru orð Gissurs Gotakonungs: „Eigi gera Húnar oss felmtraða né hornbogar yðrir.” Hin uppfinningin var ístaðið sem gerði þeim kleift að stjórna hestinum án handa. Evrópubúar, sem höfðu vanist skipulögðum bardögum tveggja stórra fylkinga með fótgöngulið sem kjarna, vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar Húnarnir birtust skyndilega, létu örvum rigna yfir þá og hurfu síðan jafnskjótt og þeir komu. Sumir vildu jafnvel meina að Húnarnir væru kentárar! Eftir að hafa farið ránshendi kringum Konstantínópel og austurhluta Evrópu komu þeir sér fyrir á sléttum Ungverjalands. Þaðan gátu þeir skipulagt frekari herferðir á leifar Vestrómverska ríkisins. Árið 434 komst til valda meðal Húnanna maður nokkur að nafni Atli. Þessi maður er þekktur sem einn mesti hershöfðingi og harðstjóri mannkynssögunnar. Hann vissi hversu auðveld bráð Rómverjar voru og árið 447 hélt hann inná Balkanskagann, rændi og ruplaði borgir Býsans og fór ekki fyrr en að Keisarinn hafði lofað honum reglulegum skatti. Árið 451 skipulagði Atli innrás inní Norður – Frakkland þar sem herir hans fóru rænandi og ruplandi. Hann mætti sameinuðum her Rómverja og Vestgota við Katalánsvelli og var það hans fyrsti ósigur. Ári seinna hafði hann komið upp nýjum her og réðst núna á Ítalíuskagann og stoppaði ekki fyrr en við borgahlið Rómar, þar stöðvaðist her hans, aðframkominn af plágum og hungri, og átti Atli fund við Páfann. Páfinn virðist hafa haft mikil áhrif á hann því hann snéri frá Ítalíu eftir þennan fund. Árið 453 Dó Atli á eigin brúðkaupsnótt og tveimur árum eftir það voru Húnar endanlega sigraðir. Djakarta. Djakarta er höfuðborg Indónesíu og stærsta borg landsins með 8,8 milljónir íbúa. Borgin stendur á norðvesturströnd eyjunnar Jövu. Borgin er gömul hafnarborg. Portúgalar lögðu borgina undir sig 1619, nefndu hana "Batavíu" og gerðu hana að höfuðstöðvum Hollenska Austur-Indíafélagsins. Japanir lögðu borgina síðan undir sig í Síðari heimsstyrjöldinni árið 1942 og nefndu hana aftur Djakarta og því nafni hélt hún þegar ríkið Indónesía var stofnað árið 1949. Christoph Willibald Gluck. Cristoph Willibald (von) Gluck (2. júlí 1714 - 15. nóvember 1787) var þýskt tónskáld á klassíska tímabilinu. Hann er einkum þekktur sem eitt mikilvægasta óperutónskáld þess tímabils og það verk hans sem einna frægast er í dag er óperan Orfeo ed Euridice (Orfeus og Evredís). Meðan nýjunga hans í óperusmíð voru að hann fór að sleppa algjörlega resitatívinu (talaða hlutanum), og reyna að minnka mikilvægi frægu söngvaranna og auka mikilvægi söguþráðarins, en á þeim tíma voru óperur oft hálfgert samdar í kringum ákveðna söngvara og því sem næst lausar við söguþráð. Þetta lagði grunninn fyrir síðari tíma óperumeistara svo sem Wagner. Fólk var þó ósammála um hversu sniðugar þessar breytingar væru á ævi Glucks sjálfs. Gagnrýnendur skiptust í tvær fylkingar, önnur sem studdi endurbætur Glucks og hina sem studdu hinn hefðbundnari Niccolò Piccinni. Gluck vann meirihluta starfsævi sinnar í Vín, en lærði í Prag og bjó einnig í nokkur ár í París. Hann var gerður að riddara af Benedikt XIV páfa árið 1756 og eftir það notaði hann titilinn Ritter von Gluck eða Chevalier de Gluck. Hjálendur Bandaríkjanna. Hjálendur Bandaríkjanna nefnast þau yfirráðasvæði Bandaríkjanna sem tilheyra ekki neinu af hinum 50 fylkjum eða Washington D.C. sem telst vera alríkissvæði. Allt eru þetta eyjur í Kyrrahafi og Karíbahafi, sumar þeirra byggðar en flestar óbyggðar. Staða þessara svæða er einnig misjöfn, sum þeirra njóta nánast fullrar sjálfsstjórnar. Íbúar hjálendanna teljast margir vera bandarískir ríkisborgarar en þeir borga ekki skatta til Bandarísku alríkisstjórnarinnar, taka ekki þátt í forsetakosningum og né kjósa þeir þingmenn með atkvæðisrétt á Bandaríkjaþing (Púertó Ríkó kýs þó áheyrnarfulltrúa). Palmyraeyja. Palmyraeyja er óbyggð baugeyja í Norður-Kyrrahafi. Eyjan er bandarískt yfirráðasvæði en er öll í einkaeigu, hún er 12 ferkílómetrar að flatarmáli. Istanbúl. Istanbúl eða Mikligarður (tyrkneska: "İstanbul"; gríska: "Κωνσταντινούπολις"; latína: "Constantinopolis"; íslenska áður fyrr: "Mikligarður") er stærsta borg Tyrklands og fyrrum höfuðborg Tyrkjaveldis frá því skömmu eftir fall borgarinnar fyrir her Mehmets 2. þar til það var leyst upp 1922. Borgin stendur beggja vegna Bosporussunds. Hún er eina borg heims sem stendur í tveimur heimsálfum; bæði í Evrópu (Þrakíu) og Asíu (Anatólíu). Árið 2000 bjuggu um átta milljónir í borginni sjálfri og tíu milljónir í nágrenni hennar sem gerir hana eina af stærstu borgum Evrópu. Hin ýmsu nöfn borgarinnar. Istanbúl hefur borið mörg nöfn. Hún var fyrst byggð af grískum nýlendumönnum frá Megöru um 660 árum f.Kr. og hét þá "Býzantíon" ("Býzans"). Árið 330 e.Kr. gerði Konstantín mikli, keisari Rómaveldis, borgina að höfuðstað hins rómverska ríkis og var bærinn síðan kallaður "Konstantínópel" (þ.e. Konstantínusarborg). Á víkingaöldinni og lengur kölluðu norrænar þjóðir bæinn "Miklagarð" (Hin mikla borg). Hið almenna nafn hans meðal Tyrkja er "Stambul" eða "Istambul" en í stjórnarbréfum Tyrkja er bærinn kallaður "Dar-i-Seadet" (hamingjunnar hús) eða "Bab-i-Seadet" (hamingjunnar port). Hinar slavnesku þjóðir kölluðu Istanbúl lengi vel "Zarigrad" (þ.e. keisarabæ). Prófessor Kettleburn. Prófessor Kettleburn er fyrrverandi kennari í ummönnun galdraskepna við Hogwartsskóla, Hann hætti kennslu árið 1993 en Rubeus Hagrid tók þá við kennslunni. Lyon. Lyon (framburður: /ljɔ̃/) er borg í austanverðu Frakklandi og önnur stærsta borg landsins. Lyon er höfuðstaður héraðsins Rhône-Alpes. Borgin var stofnuð af Rómverjum árið 43 f.Kr. og hét "Lugdunum". Hún var staðsett við upphaf þeirra vega sem Rómverjar lögðu um Gallíu. Síðar varð hún höfuðborg ríkis Búrgunda frá 5. öld til 7. aldar. Microsoft Windows. Microsoft Windows er fjölskylda stýrikerfa fyrir einkatölvur þó að aðrar útgáfur séu til, t.d. fyrir netþjóna og lófatölvur. Microsoft hannar, þróar, styður, og er framleiðani Windows stýrikerfin og Windows er ein af stærstu framleiðsluvörum þeirra. Byrjunin. Það var árið 1985 sem Microsoft kynnti fyrst til sögunnar stýrikerfið Windows. Var það þá viðbót við MS-DOS sem mótsvar við hinu grafíska notendaviðmóti sem Apple Macintosh gerði frægt. Með samningum við IBM, stærsta tölvuframleiðandann á þessum tíma, náði Microsoft markaðsyfirráðum í stýriskerfasölu með um 90% markaðshlutdeild. MS-DOS vinnuumhverfi. Fyrsta útgáfan af Windows, Windows 1, kom út árið 1985 eins og áður segir en var ekki heilt stýrikerfi heldur grafískt viðmót fyrir MS-DOS en sú útgáfa náði aldrei miklum vinsældum. Windows 2 kom út 1987 og náði aðeins meiri vinsældum en forveri þess. Það var Í útgáfu 2.03 varð mikil breyting, þá voru kynntir svokallaðir fljótandi gluggar. Apple Inc. lögsótti þá Microsoft þar sem talið var að höfundarréttur Apple væri brotinn. Þremur árum seinna lét Microsoft frá sér útgáfu 3. Sú útgáfa var sú fyrsta frá Microsoft til að seljast í meira en 2 milljónum eintaka fyrsta hálfa árið á markaðnum. Það hafði mun þróaðra viðmót og hægt var að vera með mörg forrit í gangi í einu. Windows NT. Windows NT stýrikerfin eru með nýjan stýrikerfiskjarna en MS-DOS og eru nýjustu stýrikerfin fyrir heimanotendur (“skjáborðs tölvur“) og eru meðal annars Windows XP, Windows Vista og hið fyrirhugaða Windows 7 stýrikerfi í þessum flokki. Windows ME. Það kerfi átti að vera mikið tímamótaverkefni en fór í vaskinn vegna skorts á stöðugleika, Windows ME var oft kallað Mistake Edition. Með Windows ME kom einnig Windows Movie Maker til sögunnar og var síðasta Windows stýrikerfið sem notaðist við Windows 9x kjarnann. Windows XP. Í Október 2001 sendi Microsoft frá sér Windows XP. Það var nokkuð endurbætt útgáfa af Windows NT kjarnanum. Með Windows XP kom einnig endurbætt notandaviðmót. Windows XP var hannað með bæði skrifstofu- og heimanotkun í huga og gefnar voru út tvær útgáfur, Windows XP Home Edition og Windows XP Professional. Í raun voru kerfin eins að því undanskildu að ýmsir eiginleikar voru faldir eða óvirkir í Home Edition. Árið 2003 kom svo út Media Center-viðbótin. Windows Vista. Vista var sett í sölu til almennings 30. janúar, árið 2007. En þá var það búið að vera í boði fyrir stórnotendur frá 30. nóvember, 2006. Windows 7. Windows 7 kom út árið 2009. Tenglsanet. Myndin hér að neðan sýnir tengsl Windows-stýrikerfanna sinna á milli. Flateyjardalur. Flateyjardalur er dalur sem liggur norð-austantil á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa og nær frá Landsenda í vestri til Hágangna í austri. Suður úr Flateyjardal liggur Flateyjardalsheiði til móta Fnjóskárdals og Dalsmynnis. Dalurinn tilheyrir nú Þingeyjarsveit en áður Hálshreppi frá 1972 og einnig fyrr á öldum, en frá 1907-1972 voru Flateyjardalur og Flatey sérstakt sveitarfélag, Flateyjarhreppur. Fallegt þykir á Flateyjardal á sumrin en þar er mikið vetrarríki og snjóþyngsli og samgöngur oft torveldar af þeim sökum. Um dalinn liggur nú jeppafær slóði yfir Flateyjardalsheiði, sem einungis er þó fær að sumri. Vegna erfiðra samgangna fór dalurinn í eyði um miðja 20. öld en þar mátti finna allnokkur býli. Síðasti bærinn sem fór í eyði var Brettingsstaðir neðri árið 1953. Íbúðarhúsið á bænum stendur enn og er notað ásamt tveimur öðrum reisulegum húsum á dalnum, á Brettingsstöðum efri og Jökulsá, sem sumarhús. Sóknarkirkja Flateyjardals og Flateyjar, sem liggur á Skjálfandaflóa skammt undan landi, hafði verið í Flatey frá fornu fari en í jarðskjálfta árið 1872 laskaðist hún og þarfnaðist endurbyggingar. Þar sem kirkjugarðurinn í Flatey var útgrafinn og þörf á að flytja kirkjuna til var ákveðið að flytja hana í land var og að Brettingsstöðum, en á þessum tíma voru álíka margir íbúar í eynni og á Flateyjardal. Það tók þó sinn tíma og var kirkjan á Brettingsstöðum ekki vígð fyrr en 1897. Smám saman fækkaði þó fólki í landi en eyjarskeggjum fjölgaði og eftir að dalurinn var allur farinn í eyði var kirkjan flutt aftur út í eyna. Þar var hún endurvígð 17. júlí 1960 en nokkrum árum síðar fór Flatey einnig í eyði. Saga Flateyjardals er samofin sögu Finnboga ramma sem fæddist þar, á bænum Knarrareyri, en hann var garpur mikill, þótt gæfa hans væri misjöfn. Landnámsmaður í dalnum er sagður hafa verið Eyvindur Loðinsson, faðir Ásbjarnar dettiáss, föður Finnboga. Mumbai. Mumbai (áður Bombay) er stórborg á Salsette-eyju við vesturströnd Indlands. Borgin er höfuðstaður fylkisins Maharashtra. Hún er fjölmennasta borg Indlands og ein af stærstu borgum heims með áætlaðan íbúafjölda þrettán milljónir árið 2006 og tuttugu milljónir samtals í borginni og næsta nágrenni hennar. Mumbai er miðstöð viðskipta og afþreyingariðnaðarins á Indlandi. Þar er ein besta höfn í Indlandshafi og þar eru Seðlabanki Indlands og Indverska kauphöllin staðsett. Þar er einnig miðstöð framleiðslu kvikmynda á hindí („Bollywood“). Týros. Týros (arabíska: الصور aṣ-Ṣūr, föníska: Ṣur, latína: Tyrus, akkadíska: Ṣurru, hebreska: צור Ṣōr, gríska: Τύρος Tyros) er borg við Miðjarðarhafsströnd Líbanon miðja vegu milli Akkó og Sídon. Borgin var reist af Föníkumönnum og þar eru fjöldinn allur af minjum frá fornöld og tímum krossferðanna. Kaffi. Kaffi er koffínríkur drykkur sem gerður er úr brenndum fræjum kaffirunnans (kaffibaunum) og er yfirleitt borinn fram heitur eða ískaldur. Kaffi er ein algengasta verslunarvara heims, næst á eftir hráolíu. Heimsframleiðsla kaffis var 6,7 milljón tonn árlega 1998-2000. Langmesta framleiðslan fer fram í Brasilíu. Kaffirunninn er upprunninn í Eþíópíu og var fluttur þaðan til Jemen á miðöldum þar sem hafnarborgin Mokka varð helsta útflutningshöfn kaffis. Kaffi náði miklum vinsældum á Arabíuskaganum og var flutt á markað í Evrópu á 16. öld af Hollenska Austur-Indíafélaginu og Breska Austur-Indíafélaginu. Það náði síðan mikilli útbreiðslu í Evrópu og Norður-Ameríku á 17. öldinni. Bragð kaffis fer fyrst og fremst eftir tegund en einnig eftir ræktunarskilyrðum, meðhöndlun, brennslu, mölun og aðferð við uppáhellingu. Grasafræði kaffis. 1 "center cut", 2 fræhvíta, 3 silfurhýði (epidermis), 4 pergament (endocarp), 5 pektín lag, 6 aldinkjöt (mesocarp), 7 hýði Kaffirunninn er planta af ættbálknum Rubiaceæ, ætthvíslinni coffea. Runninn telur rúmlega 90 tegundundir en aðeins örfáar þeirra eru ræktaðar til framleiðslu. Tvær hellstu tegundir kaffis sem notaðar eru til ræktunar eru Coffea Arabica og Coffea Canephora, þekkt sem róbusta. Arabica hefur tvisvar sinnum fleiri litninga en róbusta og gefur af sér kaffi með flóknari bragðeiginleika, á meðan róbusta er harðgerðari og fljótvaxnari. Arabica telur um 75-80% af kaffiframleiðslu á heimsvísu, en robusta er um 20%, Coffea liberica er svo undir 2% af heimsframleiðslu og aðrar tegundir eru ræktaðar í enn minna magni. Kaffibaunir eru fræ kaffirunnans sem vaxa inni í ávöxtum þess, kölluðum berjum. Kaffiberið skiptist í nokkur lög, yst er hýðið (exocarp), svo kemur aldinkjötið (mesocarp), næst koma pergamentið (endocarp) og svo silfurhýðið (epidermis) sem saman mynda þunna húð utan um fræin í miðju bersins. Kaffiber innihalda venjulega tvær baunir hvert, lítill hluti kaffiberja inniheldur þó aðeins eina baun, ástæði þess er sú að aðeins eitt fræ bersins hefur frjóvgast. Slíkar baunir kallast "peaberry" vegna ávalar lögunar þeirra, sem orsakast af því að þær vaxa ekki á móti annarri baun. Peaberry baunir eru oft flokkaðar frá öðrum, enda fæst fyrir þær hærra verð. Einnig kemur einstaka sinnum fyrir að kaffiber innihaldi þrjár baunir. Ræktun. Kaffirunninn er uppruninn í norðaustanverðri Afríku en vex nú í allan hringinn um hnöttinn á milli 25 breiddargráðu norður og 25 breiddargráðu suðurs. Ræktunarskilyrði skipta miklu máli við kaffiræktun, runnarnir þurfa réttan jarðveg og veðurfar. Arabica vex í 550 til 1100 metra hæð á heittempruðum svæðum og í 1100 til 2000 metra hæð við miðbauginn, hún þarf 15-24 °C meðalhita. Robusta vex hinns vegar allt frá sjávarmáli og upp í 800 metra og þrífst best í 24-30 C meðalhita. kaffirunnar geta orðið allt að 12 metra háir, þar sem þeir vaxa villtir. Við ræktun kaffis eru runnarnir hins vegar klipptir niður í um 2 metra hæð til þess að auðveldara sé að hirða þá og tína berin á uppskerutíma. Runnarnir bera smá hvít blóm sem gefa af sér ber sem eru græn á meðan þau eru óþroskuð, en ýmist rauð eða gul þegar þau eru orðin þroskuð. Arabica ber tvær uppskerur á ári við miðbauginn, en eina á heittempruðum svæðum. Á þeim svæðum sem bera tvær uppskerur á ári eru runnarnir nánast stöðugt í blóma og á sömu greininni geta verið blóm, óþroskuð ber og fullþroskuð ber, bændurnir þurfa því að koma oft að sama runnanum yfir uppskerutímann til þess að tína fullþroskuðu berin. Þurr vinnsla. Við þurr vinnslu eru fullþroskuð ber fyrst sorteruð frá greinum, laufi, steinum og óþroskuðum berjum sem hafa læðst með við tínsluna. Berin eru svo lögð til þerris í sólinni, þeim er snúið reglulega svo að þau þorni jafnt og til þess að fyrirbyggja mygluvöxt, það getur tekið allt að fjórum vikum að þurrka berin. Rakastig berjanna er um 60% fyrir þurrkun, en undir 12.5% eftir hana. Kaffiberin eru geymd í sílóum þar til þau eru send í millu þar sem aldinkjötið er flysjað utan af baununum í þartilgerðum vélum. Baunirnar eru þá tilbúnar til þess að pakka þeim í sekki og flytja þær út. Blaut Vinnsla. Við verkun á þvegnu kaffi eru fullþroskuð ber sorteruð frá öðrum með því að setja þau í vatn, fullþroskuðu berin sökkva til botns en óþroskuð og ofþroskuð ber, ásamt greinum og laufum fljóta á yfirborðinu. Fullþroskuðu berin eru sett í vél sem fjarlægir aldinkjötið utan af baununum, eftir verður þó þunn slikja af aldinkjöti utan um baunirnar. Til þess að losa þessa slikju utan af baununum eru þær settar í tanka fulla af vatni þar sem slikjan gerjast og brotnar niður. Baunirnar eru svo skolaðar í hreinu vatni og lagðar til þerris. Pergamentið er fjarlægt utan af baununum í vélum og þeim er pakkað. Uppruni og saga kaffidrykkju. Hálendi Afríku eru nátturuleg heimkynni kaffirunnans. Talið er að kaffineysla sé upruninn þar sem nú í dag er Eþíópía og að ræktun kaffis hafi jafnvel verið hafinn á níundu öld. Kaffi barst svo til Yemen frá Eþíópíu og fyrstu skriflegu heimildirnar um kaffineyslu eru frá fimmtándu öldinni í Yemen, þar sem kaffi var orðið hluti trúarathafna Sufi bræðralagsins. Þaðan breyddist kaffineysla út um hinn íslamska heim með Sufi fræðunum, fyrst til Egyptalands og svo um öll Mið-Austurlönd. Innan heimsveldis Ottomana var kaffidrykkja fyrst bönnuð af trúarlegum ástæðum, rétt eins og alkahól. Kaffi var hinns vegar gríðarlega vinsælt þar og mikið notað til þess að halda vöku við langan bænalestur og lögunum var því breytt. Kaffihefðin barst frá Ottómönum til Ítalíu og náði að vörum páfa árið 1600, þegar prestar báðu Clement VIII um að banna þennan drykk sem þeim þótti djöfullegur. Páfanum þótti hins vegar kaffið smakkast vel og sagan segir að hann hafi ákveðið að snúa á Satan með því að blessa kaffið og hafa þar með drykkin af honum. Hinn nýblessaði drykkur náði fljótt vinsældum á Ítalíu og í kjölfarið á því breyddist kaffineysla út um Evrópu. Kaffihús urðu fljótt samkomustaðir þar sem skrafað var um pólitík, dægurmál og annað. Kaffihúsamenningin var fljót að skjóta rótum sínum um Evrópu eftir að fyrsta kaffihúsið á ítalíu var opnað árið 1645, en þrjátíu árum síðar voru kaffihús á Englandi orðin 3000 talsins. Kaffi varð vinsælla en te í Bandaríkjunum eftir "teboðið" í Boston, árið 1671, þegar borgarbúar mótmæltu háum sköttum á tei með því að henda þremur skipsförmunum af því í sjóinn. Arabar höfðu fremst af verið einir um kaffirækt, en hina nýja eftirspurn beggja vegna Atlandshafsinns gerði kaffi að verðmætri verslunarvöru fyrir nýlenduveldin. Hollendingar komust yfir græðlinga á seinni hluta sautjándu aldar og hófu ræktun á eyjunni Jövu í Indónesíu og á Malbar á Indlandi. Það var svo 1714 að borgarstjóri Amsterdam gaf frakkakonungnum Louis XIV kaffiplöntu í vináttuheimsókn þess síðarnefnda. Liðsforingi úr franska sjóhernum að nafni Gabriel de Clieu komst yfir græðlinga af þeirri plöntu sem hann fór með til eyjarinnar Maritinique í Karabíska hafinu. Ræktunin þar gekk vonum framar og er allt kaffi í Vestur-Indíum, Brasilíu og Kólumbíu komið af kaffiplöntunum í Martinique. Fyrsti kaffibúgarður Brasilíu var svo stofnaður árið 1727 og landið varð fljótt helsta kaffiræktunar land heimsins og er það enn. Innan við öld síðar var kaffi orðið hversdagsdrykkur, í stað þess að vera forréttindi aðalsinns, og nú í dag er kaffi drukkið af miljónum manns um allan heim. Linspire. Linspire, áður þekkt sem LindowsOS, er Linux dreifing sem byggir á Debian verkefninu. Linspire er ætlað til þess að auðvelda notkun Linux stýrikerfisins fyrir heimili, skóla og notendur í fyrirtækjum. Linspire leitast við að byggja upp GNU/Linux dreifingu sem er einföld í notkun fyrir hinn almenna tölvunotanda en uppfyllir ekki endilega kröfur þeirra sem eru lengra komnir og búa yfir meiri þekkingu. Síðasta stöðuga útgáfa Linspire, er útgáfa 5.1 sem gefin var út 21. apríl 2006. Hún inniheldur KDE 3.3.2, Xorg 6.9.0, GCC 3.4.3 og útgáfu 2.6.14 af linux kjarnanum. Freespire. Þann 24. apríl 2006 tilkynnti Kevin Carmony forstjóri Linspire útgáfu Freespire. Þessi nýja dreifing fylgir sama líkani og Fedora Core dreifingin sem studd er af Red Hat og Red Hat samfélaginu síðan árið 2003. Novell kom einnig á fót samskonar "samfélagsstuddu" verkefni tengdu SUSE dreifingu sinni sem nefnist OpenSUSE á seinni hluta árs 2005. Freespire mun byggja á Debian verkefninu, verða keyrt áfram af Freespire samfélaginu og verða nátengt Linspire dreifingunni. Kristjanía. Fríríkið Kristjanía (danska: "Fristaden Christiania" eða "Det Fri Christiania", "„Staden“", færeyska: Frístaðurin Christiania), stundum kölluð „Stína“ á íslensku, er lítið þorp á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn með u.þ.b. 800 skráða íbúa. Einstaklingur sem býr í Kristjaníu er kallaður "Christianit" ("en nitte"). Þannig hljómar hinn skorinorði texti sem kalla má stefnuyfirlýsingu staðarins. Íbúar Kristjaníu hafa barist fyrir að fá að lifa samkvæmt þessum markmiðum frá stofnun fríríkisins. Fimm umtalsverðar breytingar hafa þó átt sér stað á reglunum síðan: 1) Engin hörð vímuefni (í „junkblokaden“ árið 1979 voru heróínneytendum staðarins settir tveir valkostir; meðferð eða brottvísun af svæðinu). 2) Engin merki á bökum jakka (vegna vandræða og ofbeldis af völdum rokkaragengisins Bullshit); 3) Engin vopn; 4) Ekkert ofbeldi; 5) Engin verslun með íbúðir og aðrar byggingar. Við þetta má bæta óformlegum reglum eins og banni við akstri bíla og banni við ljósmyndun á Pusherstreet. Þar sem Kristjanía er sjálfsstýrt svæði þá er það íbúanna sjálfra að framfylgja reglunum og sjá til þess að gestir virði þær. Gert er út um mál á borgarafundum þar sem t.d. er kveðið upp úr um hvort nýir íbúar fái að setjast þar að. Kristjanía hefur lengi verið fræg fyrir ýmsar tilraunir með rekstrarform sem byggja á samvinnuforminu og notkun beins lýðræðis við stjórnun. Leikskóli Kristjaníu þykir t.d. mjög merkilegur. Kristjanía átti frumkvæði að sölu lífrænt ræktaðra matvæla og þar voru hönnuð og smíðuð Kristjaníuhjól með vagni að framan. Ýmis ferðaþjónusta hefur fylgt miklum straumi gesta í Kristjaníu og þar eru rekin veitingahús og kaffihús. Saga Kristjaníu. Fáni Kristjaníu; Hringirnir eru einfaldlega punktarnir yfir i-in í orðinu „Christiania“ sem upphaflega stóð í merkinu. Kristjaníu var hleypt af stokkunum árið 1971 þegar íbúar frá Kristjánshöfn brutust inn á afgirt svæði þar sem stóðu yfirgefnar herbúðir ("Baadsmandsstræde Kaserne"). Ástæðan var sú að óánægðir foreldrar óskuðu eftir leikvelli fyrir börn sín og tóku málið í eigin hendur. Fljótlega fluttu þó hippar og ýmsir heimilislausir einstaklingar inn og settust að í tómum byggingunum. Árum saman reyndu yfirvöld með hálfum huga að fjarlægja íbúana, en það hefur enn ekki tekist, að hluta til vegna almenns stuðnings dönsku þjóðarinnar við fríríkið. Þó má bæta við að framtíð fríríkisins hefur verið mjög óviss síðustu ár þar sem hægrisinnuð ríkisstjórn tók við völdum í Danmörku árið 2001 sem hefur beitt íbúana miklum þrýstingi með lögregluvaldi og breytingum á reglugerðum. Í upphafi var svæðið einungis aðgengilegt á tveimur stöðum en í dag eru margir inngangar, þ.á m. tveir svokallaðir höfuðinngangar. Kristjanía er bíllaus bær og einkaakstur er bannaður. Íbúarnir og fyrirtæki staðarins eiga nú u.þ.b. 130 bíla sem ekki má leggja inni á svæðinu. Íbúarnir byggðu þó 91 bílastæði í útjaðri svæðisins án nokkurar sýnilegrar aðstoðar vegamálayfirvalda og nágranna sinna í Kristjánshöfn sem þó höfðu lagt hart að fríríkinu og kvartað yfir stöðugu aðstreymi hasskaupenda. Hasssala. Kristjanía er heimsfræg fyrir hið svokallaða „"Pusher Street"“, rétt fyrir innan aðalinnganginn á Kristjánshöfn, þar sem opinber hassverslun var lengi vel við lýði. Hass er ekki talið ólöglegt á svæðinu en hins vegar er brugðist hart við neyslu eða sölu harðari efna. Salan á "Pusher Street" er meginástæða reglulegra átaka íbúa við lögregluna. Þá er venjulega lagt hald á stærri peningaupphæðir og einstaka sinnum vopn og þýfi. Í janúar 2004 tóku hasssalar á "Pusher Street" þá ákvörðun að hætta allri opinberri sölu og rifu sölubása sína niður. Síðan þá hefur lögreglan reglulega framkvæmt rassíur til að stöðva hasssölu í Kristjaníu. Júní 2012 viðurkenndi lögreglan í Danmörku uppgjöf sína á að stöðva hasssöluna. Windows XP. Windows XP er tegund stýrikerfa frá Microsoft fyrir heima- og skrifstofunotkun. Bókstafirnir XP koma úr enska orðinu "exp'"erience" sem merkir „reynsla“ eða „upplifun“. Windows XP fékk þróunarnafnið "Whistler" og er fyrsta notendavæna stýrikerfið frá Microsoft sem notast við NT-kjarnann. Microsoft sendi Windows XP frá sér þann 25. október 2001 og árið 2006 er það talið eitt vinsælasta stýrikerfi á markaðnum þar sem um 400 milljónir leyfa hafa verið seldar. Útgáfur. Þegar Windows XP kom á markað voru aðeins tvær stórar útgáfur af Windows XP. Fyrsta var "Windows XP Home" sem var sértaklega gerð fyrir heimilis notendur og sú seinni var "Windows XP Professional" sem var hugsað fyrir fyrirtæki og stofnanir og studdi tengingar við Windows netkerfi. Windows XP Proferssional var með marga flókna möguleika sem venjulegur notandi mundi ekki nota. Þessir möguleikar voru til staðar í XP Home en það var bara slökkt á þeim og var alltaf hægt að kveikja á þeim. Þriðja úgáfa Windows XP sem er kölluð "Windows XP Media Center Edition" kom út árið 2002, Media Center var aðallega til að auka stuðning við margmiðlun. Það komu nýjar útgáfur af Windows XP Media Center Edition á hverju ári, frá 2002 til 2006. Ólíkt Windows XP Home og Professonal var Media Center aldrei selt eitt og sér heldur var það vanalega selt uppsett á nýjum tölvum og voru þær merktar með uplýsingum um að XP Media Center væri inn á tölvunni. Tvær 64-bita(x64) útgáfur af Windows XP komu einnig út, Windows XP 64-bit Edition og Windows XP Professional x64 Edition. Þessar útgáfur voru hannaðar fyrir 64-bita(x64) Við mið-2008 var enn verið að selja þessi stýrikerfi í búðum bæði stök og sem uppsett stýrikerfi í nýjum tölvum. Þjónustu pakkar. Microsoft einstaka sinum gefur út þjónustupakka fyrir stýrikefinn sín til að bæda við eiginleikum og betrum bæta stýrikerfið. Þjónustu pakki 1. Þjónustu pakki 1 ("Service Pack 1" á Ensku) fyrir Windows XP var gefinn út, 9. september, 2002. Breytingar í þjónustu pakka 1 voru T.D: USB 2.0 stuðningur, .NET stuðningur og öryggis bætingar. Ásamt því var líka ný útgáfa af "Windows Messenger", útgáfa númer 4.7. Þjónustu pakki 2. Þjónustu pakki 2 ("Service Pack 2" á Ensku) var gefinn út 6. ágúst, 2004, eftir nokkrar tafir. Þjónustu pakki 2 var miðaður í átt að meira öruggi. Ólíkt öðrum þjónustu pökkum, bætti þjónustu pakki 2, við eiginleikum við Windows XP, sem voru T.D: Betrum bætan eldvegg, "pop-up" hindrana kerfi fyrir "Internet Explorer 6" og stuðning fyrir "bluetooth". Þjónustu pakki 2 bætti við nýjum öryggisþáttum, svo sem eldvegg sem heitir "Widows firewall". Einnig var bætt öryggi fyrir tölvupóst og vefvafra.Þjónustu pakki 2 innihélt líka Windows Öryggismiðstöð ("Windows Security Center" á ensku), sem gaf yfirsýn yfir öryggisatriði, t.d upplýsingar um vírusvarnarforrit, Windows uppfærslur og nýja eldvegginn. Þjónustu pakki 3. Þjónustu pakki 3 ("Service Pack 3" á ensku) var gefinn út til dreifingaraðila, 21. Apríl, 2008 og til almennings, með notkun "Microsoft niðurhal" og "Windows Uppfærslur", 6. mai 2008 Þjónustu pakki 3 mun fara í sjálfvirka uppfærslur í kringum, Júní-Júlí, 2008. Microsoft gaf út yfirlit yfir þjónustu pakkann sem lýsti nýjum eiginleikum sem er bæði aðeins fyrir Windows XP en sumir eiginleikar komu frá Windows Vista.Samtals 1.174 endurbætur voru í þjónustu pakka 3. En sem komið er, er út gáfa af Þjónustu pakki 3 aðeins fáanleg fyrir 32-bita (x86) kerfin. Stuðningstími. Stuðningur fyrir Windows XP, sem er án þjónustu pakka, var hætt 30. september, 2004. Stuðningur fyrir Windows XP, með þjónustu pakka 1, var hætt 10. október, 2006 Windows XP þjónustu pakki 2 mun missa stuðning sinn, 13. Júlí, 2010, næstum sex árum eftir að það varð fáanlegt. Microsoft mun hætta almennri dreifingu á Windows XP til almennings 30. Júlí, 2008, 17 mánuðum eftir að Windows Vista var gefið út. Windows 1.0. Windows 1.0 kom út þann 20. nóvember 1985 og var byggt á VisiOn gluggakerfinu sem að Microsoft hafði keypt af VisiCorp árinu áður. Windows 1.0 var fyrsta tilraun Microsoft til að hafa áhrif á fjölnota tölvur með grafísku notendaviðmóti. Windows 1.0 var fyrsta stýrikerfið frá Microsoft með stuðningi við mýs. Vélbúnaðarkröfur. Til að keyra Windows 1.0 þurfti tölva að vera með MS-DOS 2.0 uppsett, 256 KB í skyndiminni og tvö, tveggja leshausa diskadrif eða harðan disk. Í Windows 1.0 voru ekki fljótandi gluggar/forrit á skjánum heldur var þeim staflað upp eins og veggflísum. Windows NT 4.0. Windows NT 4.0 var fjórða stóra stýrikerfið frá Microsoft í NT línunni. Windows NT 4.0 kom út 29. júlí 1996, það er 32ja bita, sem þýðir að það noti 32ja bita örgjörva. Með meiri stöðugleika en fyrri Windows kerfi jókst stuðningurinn við hin ýmsu netkerfi Netþjónar. Ofangreindir netþjónar eru hluti af BackOffice línunni. Kúluskítur. Kúluskítur er heiti kúlulaga vaxtarforms grænþörungsins "Aegagropila linnaei" (fræðiheiti), en hann getur einnig tekið á sig önnur form. Kúluskíturinn leikur þýðingarmikið hlutverk í lífríki þeirra stöðuvatna sem hann finnst í, m.a. sem skjól lítilla dýrategunda og kísilþörunga. Kúluskítur er grænleitur, loðinn og getur orðið allt að 15cm í þvermál. Skíturinn er í raun vefur hárfínna þráða sem vaxa út frá miðju og mynda þannig kúlaga flóka. Hver kúla er sjálfstæð planta sem liggur laus frá botni vatnsins. Talið er að hann lifi einungis á örfáum stöðum í heiminum, og aðallega í tveimur stöðuvötnum, þ.e. í Mývatni og í Akanvatni í Japan. Í Japan er honum haldinn sérstök hátíð í október með skrúðgöngu og dansi. Mývetningar hafa tekið sér japani að vissu leyti til fyrirmyndar og hafa frá 2003 efnt til kúluskítshátíðar á haustinn. Nafngift og orðsifjar. Nafnið kúluskítur er tilkomið frá bændum í Mývatnssveit sem almennt kalla allan þann gróður sem festist í netum þeirra, „skít“. Önnur heiti eru vatnamýll, vatnadúnn, vatnaskúfur, kúluskúfur. Snæfell (Eyjabakkajökull). Snæfell er 1833 metra há megineldstöð úr líparíti og móbergi. Skiptar skoðanir eru á því hvort eldstöðin er virk eða óvirk. Fjallið stendur um 20 km norðaustan Brúarjökuls í norðanverðum Vatnajökli og er hæsta fjall utan jökla á Íslandi. Uppganga er tiltölulega auðveld frá Snæfellsskála en á toppi fjallsins er sísnævi þaðan sem mikið og víðfeðmt útsýni er til allra átta. Austan við fjallið eru Eyjabakkar sem er gróið svæði og kjörlendi gæsa. Á Vesturöræfum vestan fjallsins halda hreindýr mikið til og má oftast sjá til þeirra. Sídon. Sídon (arabíska: صيدا Ṣaydā) er þriðja stærsta borg Líbanon. Borgin stendur á strönd Miðjarðarhafsins um 40 km norðan við Týros og tæpum 50 km sunnan við Beirút. Sídon var mikilvægust og hugsanlega elst borga Föníkumanna en síðar lögðu Grikkir og Rómverjar borgina undir sig. Íbúafjöldinn árið 2000 var um 200.000. Trója. Frá rústunum sem Schliemann gróf upp og taldi vera hina sögufrægu Tróju. Trója eða Ilíon (gríska: Τροία "Troia", Ίλιον "Ilion"; latína: "Troia", "Ilium") er sögufræg borg í Asíu og miðpunktur sögunnar um Trójustríðið sem kemur fyrir í ýmsum grískum söguljóðum frá fornöld, en langþekktust þeirra eru Hómerskviður: "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða". Venjan er að telja borgina hafa staðið nærri strönd Eyjahafsins í Anatólíu í norðvesturhluta Tyrklands suðvestan við Dardanellasund undir Idafjalli þar sem síðar reis borgin Ilíum á tímum Ágústusar keisara. Á 8. áratug 19. aldar gróf þýski fornleifafræðingurinn Heinrich Schliemann svæðið upp og fann þar mörg byggingarstig borgar. Eitt af þessum byggingarstigum, Tróju VII, taldi hann vera leifar hinnar fornu Tróju sem kemur fyrir í Hómerskviðum en sú ályktun er enn umdeild. Míletos. Míletos (gríska: Μίλητος) var fornfræg hafnarborg í Jóníu á vesturströnd Anatólíu þar sem nú er Tyrkland við ósa Meanderfljóts. Búið var í borginni frá bronsöld til tíma Tyrkjaveldis en eftir því sem höfnin fylltist upp af framburði árinnar varð hún ónothæfari og borgin var að lokum yfirgefin. Í dag eru rústir hennar um 10 km frá ströndinni. Sparta. Sparta (dóríska: Σπάρτα, attíska: Σπάρτη) er borg á suðurodda Grikklands. Í fornöld var hún höfuðborg borgríkisins Lakedaímón (gríska: "Λακεδαιμων") sem almennt er kallað Sparta eftir borginni. Á klassíska tímanum var Sparta voldugast allra grísku borgríkjanna og tilraunir Aþeninga til að velta Spörtu úr þeim sessi leiddu til Pelópsskagastríðanna 431 f.Kr. til 404 f.Kr. og ósigri Aþenu. Hoplítar Spörtu biðu sinn fyrsta ósigur í orrustunni við Leuktra gegn Þebverjum 371 f.Kr. og þegar Filippos II frá Makedóníu hóf að leggja Grikkland undir sig var herveldi Spörtu varla nema svipur hjá sjón. Nútímaborgin Sparta stendur nokkrum kílómetrum frá staðnum þar sem borgin stóð til forna. Mýkena. Mýkena (forngríska: Μυκῆναι /myˈkɛːnai/; nútímagríska: Μυκήνες /miˈcinɛs/) var borg sem átti sitt blómaskeið á mýkenska tímabilinu í sögu Grikklands sem kennt er við hana og nær frá um 1600 f.Kr. til um 1100 f.Kr. Í "Hómerskviðum", sagnakvæðum sem samin voru á 8. eða 7. öld f.Kr. er Agamemnon konungur Mýkenu leiðtogi Grikkja í Trójustríðinu. Delfí. Delfí (gríska: Δελφοί "Delfoi") er borg á hásléttu á Parnassosfjalli í Grikklandi. Í fornöld var borgin einkum þekkt sem staðurinn þar sem hægt var að ráðgast við véfrétt Appollons í hofi hans og þar sem "Omfalos" „nafli heimsins“ var geymdur. "Píþó" var hofið í Delfum nefnt. Spádísin í Píþó (einnig nefnt Delfahof) hét "Föba" og var hún dóttir Jarðar. Hún sat á þrífættu hásæti og sá fram í tímann eða spáði fyrir honum með óræðum textum. Fórnarnautið í Delfí nefndist "Hósíóter": það var ekki einungis "hosios", heilagt, heldur hosíóter, sá sem helgar. Helgunina öðluðust menn með því að snerta það. Ástralskur fótbolti. Ástralskur fótbolti leikinn á krikketvellinum í Melbourne Ástralskur fótbolti er íþróttagrein sem, þrátt fyrir nafnið, líkist meira rúgbý eða gelískum fótbolta en eiginlegum fótbolta. Leikurinn fer fram á sporöskjulaga velli (eins og krikketvelli, en þeir eru oft notaðir) og markmiðið er að skora í mörk á sitthvorum enda vallarins. Mörkin eru tvö og hvort fyrir sig er markað af fjórum stöngum, tveimur eiginlegum markstöngum, og tveimur svokölluðum „fyrir aftan“ stöngum. 18 leikmenn eru í hvoru liði og er boltinn sem spilað er með svipaður rúgbíbolta nema aðeins minni og rúnaðari. Ástralskur fótbolti er, líkt og nafnið gefur til kynna, fundinn upp í Ástralíu. Þar er hans sterkasta vígi, og nánar tiltekið er hann langmest iðkaður í Victoriufylki og höfuðborg þess Melbourne. Undanfarið hefur hann verið að breiðast nokkuð um heiminn, og er meðal annars iðkaður á Nýja Sjálandi, Bretlandi og í Japan. Þessi lönd, og fleiri til, hafa tekið þátt í heimsmeistaramótinu í áströlskum fótbolta. Ástralía tekur ekki þátt í því móti enda langsterkasti aðilinn í greininni. Golf. Golf er íþrótt þar sem leikmenn reyna að koma kúlu í holu í sem fæstum höggum og er notast við kylfur með mismunandi fláa. Golf er ein af fáum íþróttum sem ekki er spiluð á ákveðið stórum velli eða vallarhelmingi, stærðin fer eftir stærð golfvallarins. Golf er talið vera frá Skotlandi og hefur verið spilað í að minnsta kosti 500 ár á Bretlandseyjum. Elsti golfvöllur í heimi er Old Course völlurinn í St. Andrews. Golf eins og við þekkjum það í dag hefur verið spilað á Old Course í um 600 ár, svipaðar íþróttir voru þó leiknar nokkrum öldum fyrr. Uppbygging golfvalla. Golfvellir skiptast í brautir sem hver hefur eina holu. Algengar vallarstærðir eru 9 eða 18 holu vellir sem hafa þá 9 eða 18 brautir. Teigar. Golfleikur hefst ávallt á teig hverrar brautar en þar er svæði til að slá kúlunni í átt að holu. Á teigi er notað tí sem hækkar kúluna frá vellinum. Tí má ekki nota í seinni höggum. Þrír ólíkir teigar eru á hverri braut og skiptast þeir á milli þeirra sem nota þá. Þannig fá atvinnumenn einn teig, karlar (áhugamenn) einn og konur og börn (áhugamenn) einn. Vellir sem hafa fjóra teiga eru þó líka til þ.e. atvinnumenn karlar (hvítir), áhugamenn karlar (gulir), atvinnumenn konur (bláir) og svo áhugamenn konur og börn (rauðir) Braut. Þegar slegið er af teig er reynt að hitta á brautina, á brautinni geta verið margar hindranir s.s sandgryfjur, hólar og hæðir, tré og allt það sem venjulega má sjá í okkar daglega umhverfi. Í kringum brautina er þykkur graskargi, eða röff á daglegu máli golfara. Flötin. Á flötinni, eða "greeninu", er holan staðsett. Flatir hafa mismunandi halla og er grasið þar oftast betur hirt en á öðrum hlutum golfvallarins. Gangur leiksins. Þar sem leikurinn gengur út á það að komast hringinn (allar holurnar) á sem fæstum höggum er oft viðmiðunarhöggfjöldi gefinn upp og kallast hann par vallar. Algengt par vallar er 72 en par holu fer aldrei yfir fimm. Kúlunni slegið. Til að koma kúlunni í holu er notuð golfkylfa. Þegar kúlu hefur verið slegið má ekki taka hana upp nema hún sé á flöt og þá með því að merkja staðsetningu hennar með flatarmerki. Leikmaður notar eins mörg högg og þarf til að koma kúlunni í rétta holu en þó er siður að taka boltann upp þegar komin eru fjögur högg yfir pari og fara yfir á næstu braut, sérstaklega þegar aðrir leikmenn bíða eftir því að leika brautina. Höggin þurfa að vera blanda af nákvæmni og lengd og er leikurinn því blanda af líkamlegri áreynslu og nákvæmni. Útbúnaður. Í golfi eru ekki gerðar kröfur til dýrs útbúnaður, en skulu leikmenn þó klæðast snyrtilegum klæðnaði. Kylfur þarf til leiksins og eru ólíkar útfærslur notaðar við ólík markmið. Trékylfur. Trékylfur eru lengstu kylfurnar í pokanum og eru notaðar þegar slá þarf löng högg. Fláinn á trékylfum er frá 7,5° til 31° gráður. Skaftið er um 100 - 105 cm, lengdin má ekki fara yfir 47 tommur. Járn. Járnin eru til styttri högga en trékylfurnar, járn hafa númer frá 1 og upp í 9 eftir fláa, því hærri tala, því meiri flái. Pútter. Pútterinn (Potspaðinn) er notaður þegar boltinn liggur á flötinni, þá reyna kylfingar að sjá breikið (hallann) og ímynda sér hvernig boltinn eigi eftir að rúlla. Pútterinn er s.s. notaður í stutt og nákvæm högg. Joseph Haydn. Franz Joseph Haydn (31. mars eða 1. apríl 1732 - 31. maí 1809), oftar kallaður einfaldlega Joseph Haydn, var austurrískt tónskáld á klassíska tímabilinu. Hann hefur meðal annars verið nefndur „faðir sinfóníunnar“ og „faðir strengjakvartettsins“. Hann bjó alla sína ævi í Austurríki og meirihluta starfsævi sinnar vann hann fyrir hina ríku Eszterházy fjölskyldu á hinu afskekkta setri þeirra. Sú einangrun frá umheiminum og öðrum tónskáldum mikinn hluta ferilsins, að hans eigin sögn, neyddi hann til þess að vera frumlegur. Meðal helstu áhrifavalda Haydns voru C.P.E. Bach og Gluck, en áhrif Haydns sjálfs náðu til nær allra tónskálda sem á eftir honum komu. Helst ber þó að nefna Beethoven, sem hann kenndi í nokkur ár og í raun má segja að í upphafi ferils síns hafi Beethoven hálfgert verið að herma eftir Haydn og Mozart. Xiahou Dun. Xiahou Dun (?-220) var herforingi undir Cao Cao, stofnanda Wei, á tímabili Austur Han keisaradæmisins og hinna þriggja konungsríkja í Kína til forna. Upprunalega ættarnafn Cao Caos var Xiahou, en faðir hans, Song, var ættleiddur af Cao fjölskyldunni, þannig að Dun og Cao voru skyldir. Sem einn af traustustu herforingjum Cao Caos, aðstoðaði Xiahou Dun smákónginum í herferðum hans gegn Lu Bu, Liu Bei og Sun Quan. Xiahou Dun missti vinstra augað í bardaga árið 198 og varð lítt þekktur sem„“Blindi Xiahou“ í skýrslum og hersveitum, sem ergdi hann mikið. Ímynd hans sem eineygður stríðsmaður varð seinna vinsælt í skáldsögunni "Romance of the Three Kingdoms", þar sem sagt var að hann hafi kippt örinni, sem hitti hann í augað, út og síðan hafi hann étið augað. "Chronicles of the Three Kingdoms" lýsir Xiahou Dun sem hæverskum og örlátum manni. Hann kom með kennarann sinn persónulega í búðirnar svo að hann gæti haldið áfram að læra á vígvellinum. Hann dreifði einnig öllum auði sem hann átti, tók bara úr fjárhirslunni í neyð og átti ekkert. Eftir dauða hans var honum gefinn titillinn Marquis Zhong, sem þýðir „Dyggi Markgreifinn“. Ævi. Xiahou Dun var fæddur í Qiao-sýslu. Þegar hann var 14 ára drap hann mann sem móðgaði kennarann hans. Skapbráður persónuleiki hans var vel þekktur eftir það. Árið 190 gekk Xiahou Dun í lið Cao Caos þar sem sá síðarnefndi var að safna saman her til að hjálpa í bandalaginu gegn Dong Zhuo, harðstjórnandi smákóngurinn sem hélt keisaranum í gíslingu. Xiahou Dun hafði gefið nálæga aðstoð til Cao Caos í fyrstu bardögunum gegn Dong Zhuo sem og í bardaganum við Yanzhou, og var gerður að fulltrúa herforingi. Hins vegar þjáðist hann af mikilli niðurlægingu árið 194 þegar honum var haldið í gíslingu í hans eigin búðum. Þegar það gerðist var Cao Cao að leiða herferð gegn Tao Qian, landstjóra Xuzhou sem Cao Cao ásakaði um að hafa drepið föður sinn, þar sem hann lét Xiahou Dun um að vernda borgina Puyang. Hins vegar, Zhang Miao og Chen Gong, ásamt nokkrum öðrum þegnum Cao Caos, gerðu uppreisn. Þeir löggðu á ráðin með Lu Bu, miklum stríðsmanni leiðandi flakkandi her, og hertóku fljótlega mestan hluta Yanzhou. Xiahou Dun safnaði strax saman léttu riddaraliði og hélt til Juancheng, þar sem fjölskylda Cao Caos átti heima. Á leiðinni mætti Xiahou Dun her Lu Bus. Lu Bu forðaðist áreksturinn og hélt til Puyang. Þar sem herforinginn var í burtu var Puyang fljót að falla. Lu Bu sendi sendifulltrúa til Xiahou Dun og þóttist gefast upp. Maður Lu Bus tók síðan Xiahou Dun í gíslingu innan í hans eigin tjaldi og krafðist þess að fá hátt lausnargjald. Heppilega, var undiroki Xiahou Duns, Han Hao, rólegur og kom skipulagi á ringulreiðina. Hann tók fljótlega stjórn yfir hermönnunum og neitaði að semja við fangarana. Svo skipaði hann mönnunum að ráðast inn í tjald Xiahou Duns. Óviðbúnir svona hörðu svari, gáfust svikararnir upp og voru teknir af lífi. Þegar Cao Cao frétti af uppreisninni, sneri hann strax til baka og sat um Lu Bu í Puyang. Eftir rúmlega 100 daga „pattstöðu“, neyddi hungursneyð Lu Bu til að gefa eftir staðsetningu sína og leita skjóls undir Liu Bei í Xiapi. Hins vegar snerist Lu Bu fljótlega gegn gestgjafa sínum og tók yfir Xiapi og rak Liu Bei til nærlyggjandi bæjarins Xiaopei. Árið 198 sendi Lu Bu aðstoðarmann sinn Gao Shun til að gera árás á Xiaopei. Vegna bónar frá Liu Bei, Cao Cao sendi Xiahou Dun til að ráðast á Gao Shun, En Xiahou Dun tapaði orrustunni, en á meðan hún stóð var hann hittur af ör, sem Cao Xing skaut, í vinstra augað. Eftir að Cao Cao hafði leitt her sinn persónulega til að ganga frá Lu Bu, umbunaði hann Xiahou Dun með því að hækka hann í tign upp í „Jianwu herforingja“. Xiahou Dun leiddi síðan landbúnaðaráætlun í nálægð við Chenliu. Hann sagði verkamönnunum að byggja stíflu uppmeð Taishou ánni til að gera stóra tjörn. Hann hvatti síðan fólkið til að rækta hrísgrjón í yfirflæddu landinu. Áætlunin hjálpaði fólkuni mikið á árum mikilla hungursneyða. Eftir dauða Cao Caos árið 220, neyddi afkomandi hans, Cao Pi, síðasta keisara Han veldisins til að segja af sér og hrifsaði síðan krúnuna sem fyrsti keisari konungsríkisins Wei. Cao Pi gerði Xiahou Dun þá að yfirhershöfðingja. En Xiahou Dun dó úr veikindum nokkrum mánuðum seinna, eins og hann væri að fylga Cao Cao inní framhaldslífið. 1000. a>n í Vestmannaeyjum, reist til að minnast 1000 ára afmælis kristnitökunnar. a> eða Stefán 1. Ungverjalandskonungur. Mynd úr handriti frá 14. öld. Mošovce. Mošovce er þorp á Turiec svæðinu í Slóvakíu. Saga. Margar vel varðveittar byggingar eru til marks um 770 ára sögu Mošovce. Fyrst var minnst á Mošovce í tengslum við gjöf sem Adrew II færði borginni. Mošovce var upphaflega samsett úr tveimur þorpum; það fyrra, "Machyuch", var staðsett þar sem í dag er "Starý Rad", það seinna, "Terra Moys", var þar sem í dag er "Vidrmoch". Af nafni "Terra Moys" var síðar nafn Mošovce dregið. Talið er að merking nafnsins sé "Terra Mojs" (Land of Mojs), gert er ráð fyrir að þorpið hafa á einhverjum tímapunkti tilheyrt menni að nafni "Mojs". Mojs gæti einnig verið stytting á Slavneska nafninu "Mojtech", líkt og nöfnin "Vojtech" og "Mojmír". Í gegnum aldirnar hefur nafn þorpsins verið síbreytilegt, meðal nafna eru "Mossovych", "Mosocz", "Mossowecz", "villa regia Mayos alio nomine Mossovych", "oppidioum Mayus sue Mosocz", "Mosocz olim Mayus" til nafnsins sem borgin ber nú, Mošovce. Nafn eins hluta Mošovce, upphafleg þorpið "Chornukov", hefur varðveist til þessa dags sem "Čerňakov". Mošovce þróaðist upphaflega sem konungleg bær með umtalsvert sjálfræði, og frá miðri 14. öld sem bær með mikil forréttindi undir stjórn konunglega kastalans, Blatnica. Árið 1527 féll bærinn í hendur Révay fjölskyldunnar sem dró til baka öll forréttindi Mošovce í um 400 ár. Í gegnum aldirnar var Mošovce mikilvægur handverksbær fyrir allt Turiec svæðið. Handverk jókst og óx ótrúlega hratt, og um tíma voru starfandi 15 handverks smiðjur; skó smiðjan og hin fræga feld smiðjan voru þær sem lengst lifðu. Í dag einkennist Mošovce af ferðamanna iðnaði enda mikið í borginni að sjá. Upphaflegur architectura húsí í Mošovce Hvað er að sjá? Eitt merkasta einkenni Mošovce er hið nærri tveggja alda gamla Óðal, byggt í klassískum Rococo stíl með stórum enskum garði. Aðrir staðir sem vert er að skoða eru meðal annars: Fæðingastður Ján Kollár, kaþólsk kirkja byggð í ný-gotneskum stíl með afar verðmætu altari sem staðsett er nákvæmlega þar sem áður var altari, lútersku kirkjunnar sem byggð var 1788, grafhýsi sem nú hýsir handverks safn, Art-Nouveau gróðurhús og pavilón frá 1800. Náttúra. Umhverfi Mošovce er sannarlega einstakt. Samspil sögulegra manngerðra trjá ganga og náttúrulegra trjá lunda skapar einstaklega áhrifaríkt og fallegt landslag, sem virkar sem framlenging skóglendis nærlyggjandi "Veľká Fatra" fjalla. Einstakar kalksteinn og dropasteins myndanir, sem og falleg náttúra í nærlyggjandi dölum, Blatnická og Gaderská, draga að ferðamenn frá öllum heimshornum. Menning og hefðir. Mošovce hefur getið af sér marga sögufræga einstaklinga. Með þeirra eru: Frico Kafenda (1883-1963), tónskáld; Anna Lacková-Zora (1899-1988), rithöfundur; Štefan Krčméry (1892-1955), bókmennta gagnrínandi, sagnfræðingur og ljóðskáld; Júr Tesák Mošovský, barrok leikritaskáld; og Miloslav Schmidt, stofnandi sjálfboðaliðs slökviliða í Slóvakíu. Hinsvegar er eflaust mikilvægasti einstaklingurinn sem fæðst hefur í Mošovce, hið þekkta slavneska ljóðskáld, heimspekingur og lúterski predikarinn Ján Kollár (1793-1852), sem hafi mikil áhrif á bókmenntir tveggja þjóða með ljóðrænu verki sínu "Slávy Dcera". Verk hans hafa verið lögð til grundvallar hugmyndum og verkum nútíma þjóðernissinna. Það hefur verið þýtt yfir á flest slavnesku tungumálin, auk fjölda annarra tungumála. Manchester. Manchester er borg í norðvesturhluta Englands. Íbúafjöldi er 503 þúsund en yfir tvær milljónir búa á stórborgarsvæðinu. Bærinn myndaðist á tímum Rómverja, en hann breyttist fyrst í stórborg með iðnbyltingunni þegar svæðið varð miðstöð baðmullarvinnslu og vefnaðariðnaðar. Bridgewater-skurðurinn, sem er fyrsti eiginlegi skipaskurðurinn í Bretlandi, var opnaður 1761 til að flytja kol úr kolanámum við Worsley til Manchester. Fyrsta járnbrautin fyrir farþegalestir í heiminum var lögð frá Manchester til Liverpool og opnaði 1830. Lega og lýsing. Manchester liggur á sléttlendi rétt vestan við Pennínafjöll og um 50 km fyrir austan ströndina að Írlandshafi. Næstu stærri borgir eru Bolton fyrir norðvestan (20 km), Liverpool til vesturs (50 km), Stoke til suðurs (60 km) og Leeds til norðausturs (60 km). Fljótið Mersey rennur til vesturs í gegnum borgina uns það mundar í Merseyside. Í borginni sjálfri búa rúmlega hálf milljón, en á stórborgarsvæðinu búa 2,2 milljónir manna. Þannig er Manchestersvæðið þriðja stærsta stórborgarsvæðið í Englandi (á eftir London og Birmingham). Í Manchester er höfn sem liggur við skipaskurðinn Manchester Ship Canal. Orðsifjar. Rómverjar nefndu staðinn Mamucium. Það er líklega fengið að láni úr keltnesku, en mamm merkir "brjóst" (þ.e. "lítil hæð"). Aðrir vilja meina að mamm merki "móðir", sem vísar í gyðju í ánni Medlock. Chester er dregið af latneska orðinu castra, sem merkir "búðir" (rómverska herstöðin). Þegar engilsaxar settust að á staðnum gáfu þeir honum heitið Memeceaster, sem þróaðist í Manchester. Íbúar Manchester eru kallaðir Mancunians. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er tvískipt. Fyrir neðan er rauður flötur með þremur gulum skáhöltum línum. Fyrir ofan er seglskip á hafi en það vísar til þess að Manchester var og er miðstöð verslunar. Skjaldarberarnir eru antílópa til vinstri og ljón til hægri. Antílópan merkir iðni en ljónið yfirráð. Bæði dýrin eru með rauðu rós Lancashire, sem er konungsmerki. Efst er hnattlíkan með býflugum. Hnötturinn er tákn um heimsverslun borgarinnar. Býflugurnar eru tákn um iðni en Manchester er upphafsstaður iðnbyltingarinnar. Neðst er borði með áletruninni "Concilio et Labore", sem merkir "Með visku og iðni". Skjaldarmerkið var veitt 1842, ellefu árum áður en bærinn fékk borgarréttindi. Rómverjar. Endurgert borgarhlið Rómverja í Manchester Það voru Rómverjar undir stjórn Gnaeusar Iuliusar Agricola sem reistu virki á staðnum 79 e.Kr. meðan þeir herjuðu á keltneska þjóðflokkinn Briganta. Virki þetta var gert úr torfi og viði. Það var endurgert árið 160 og aftur árið 200. Í kjölfarið myndaðist byggð í grennd við virkið er verslunarmenn og iðnaðarmenn settust þar að. Virkið var yfirgefið á miðri 3. öld, þó að fámennur hópur rómverskra hermanna hafi verið á staðnum allt fram til þess tíma er Rómverjar yfirgáfu landið árið 407. Miðaldir. Gamlar byggingar við Shambles Square frá miðri 16. öld Eftir brotthvarf Rómverja var svæðið meira eða minna autt. Engilsaxar settust að á staðnum á 7. öld, en vísbendingar eru um að keltar og Danir hafi búið í og við staðnum. Nokkur konungsríki mynduðust. Í stríði milli þeirra er líklegt að bænum Manchester hafi verið eytt 620 af Edwin frá Norðymbralandi og aftur 870 af Dönum. Manchester sjálft var hluti af konungsríki Mersíu (Mercia). Eftir daga Mersíu, þegar normannar hertóku England 1066, varð Manchester hluti af Salford-sýslu í Lancashire. Þar réði Gesle-ættin ríkjum í tvær aldir, sem aftur var undir konung Englands sett. Snemma á 13. öld fékk Manchester markaðsréttindi. Á 14. öld settust iðnaðarmenn frá Flæmingjalandi að í Manchester og hófu vefnað. Þetta var upphafið að miklum iðnaði í bænum og varð hann brátt að leiðandi miðstöð iðnaðar í Lancashire. Uppgangur. Í borgarastyrjöldinni á 17. öld gekk Manchester til liðs við þingið (Cromwell) og því sátu konungsmenn um borgina. Manchester var ekki með varnarmúra en náði samt að verjast. Þegar konungdómurinn var endurreistur í Englandi 1660 missti Manchester því öll þingsæti sín fyrir næstu tvær aldir. Þrátt fyrir það varð mikill efnahagslegur uppgangur í borginni, fyrst og fremst með vefnaði og verslun. Til að mynda betri verslunarleiðir voru árnar Irwell og Mersey gerðar skipgengar 1736. Árið 1761 var Bridgewater-skurðurinn tekinn í notkun en hann er elsti skipaskurður Bretlands. Með tilkomu hans varð bylting í samgöngum á svæðinu. Skip fluttu aðallega kol til Manchester. Þá varð borgin orðin leiðandi í framleiðslu og sölu á vefnaðarvörum. Iðnbyltingin. Baðmullarverksmiðjur í Manchester í kringum 1820 Fyrsta járnbraut heims fyrir farþega var tekin í notkun 1830 og gekk hún milli Manchester og Liverpool Þegar aldamótin 1800 gengu í garð átti sér stað mikil bylting í vefnaðarmálum borgarinnar. Með tilkomu gufuvélarinnar jukust afköst vefnaðar til muna. Allar aðstæður fyrir uppgang iðnaðar voru til staðar í Manchester. Kol, skipaaðgengi, mannafl og vefnaður. Á fyrstu áratugum 19. aldar varð Manchester fyrsta og fremsta iðnborg í heimi. Hún hlaut viðurnefnið Cottonpolis og Warehouse City sökum mikils vefnaðar og verslunar. Annars konar iðnaður þreifst einnig og má þar nefna vélaiðnað og efnaiðnað. Samgöngur voru bættar í takt við vöxt borgarinnar. Skipaskurðirnir voru betrumbættir og fyrsta járnbrautarlest heims með farþega tók til starfa 1830. Hún gekk milli Manchester og Liverpool. Auk farþega flutti lestin einnig vörur til hafnarinnar í Liverpool. Íbúatala borgarinnar margfaldaðist. 1801 voru íbúar stórborgarsvæðisins 328 þúsund, 1821 voru þeir 526 þúsund og 1851 voru þeir orðnir rúmlega milljón. Þeir voru komnir í rúmar tvær milljónir áður en öldin var á enda. Árið 1900 var borgin orðin níunda stærsta borg heims. Manchester var einnig fyrsta borg heims þar sem símakerfi tók til starfa. 1894 var enn einn skipaskurður grafinn sem gerði úthafsskipum kleift að sigla til hafnar í Manchester. Fyrsta tilbúna iðnaðarhverfi heims reis 1896-1910 í Trafford Park þar sem m.a. Ford og Westinghouse ráku verksmiðjur. Samfara iðnbyltingunni og kapítalismanum komu upp kröfur um bætt skilyrði verkalýðsins. Friedrich Engels dvaldi lengi í Manchester og notaði hann aðstæður þar í verk sitt "The Condition of the Working Class in England in 1844". Karl Marx sótti Engels heim í Manchester og sá aðstæðurnar með eigin augum. Fyrstu verkalýðsþingin voru haldin í Manchester 1868. Borgin var einnig höfuðvígi verkamannaflokksins í Englandi, sem og kvenréttindahreyfingin. Þegar komið var fram á 20. öldina höfðu nágrannaborgir eins og Bolton og Oldham farið fram úr Manchester hvað fjölda vefmyllna varðaði. En Manchester var áfram leiðandi í framleiðslu baðmullarvara, enda voru 65% af heimsafurðum unnin á stórborgarsvæðinu. Borgin átti mjög undir högg að sækja í heimstyrjöldinni fyrri og sérstaklega í kreppunni miklu á fjórða áratugnum. Nútími. Höfnin í Manchester í upphafi 20. aldar Manchester breyttist mikið í heimstyrjöldinni síðari. Gamli vefnaðurinn minnkaði til muna, en við tók hervæðing. Til að mynda voru herflugvélar framleiddar þar (Avro-vélar og Rolls Royce-mótorar). Því varð borgin fyrir loftárásum þýska flughersins. Þær verstu áttu sér stað 22.-24. desember 1940 (Christmas Blitz) er 467 þungum sprengjum og 37 þús eldsprengjum var varpað á borgina. Stór hluti miðborgarinnar eyðilagðist, þar á meðal 165 vöruhús, 200 fyrirtæki og fjölda annarra húsa. 30 þúsund önnur hús skemmdust, þar á meðal dómkirkjan. Þó biðu aðeins 376 manns bana. Eftir stríð breyttist atvinnulíf borgarinnar aftur. Sökum skemmda í miðborginni var hún endurbyggð en nútíma byggingar voru hafðar í fyrirrúmi. Baðmullarmarkaðurinn hrundi en verslun jókst. Höfnin stækkaði og var þriðja stærsta höfn Englands 1963. Þegar gámaskipin komu til sögunnar minnkaði vægi hafnarinnar, því að skipin stækkuðu og komust ekki lengur um skipaskurðina. Höfninni var að mestu lokað 1982. Þungaiðnaður minnkaði sömuleiðis talsvert, en við tók upplýsingatæknin, fjármagnsfyrirtæki, fjölmiðlar og samskiptatækni. Í borginni eru til dæmis 60 bankar og í fjármagnsgeiranum starfa fimmtán þúsund manns. Í gegnum tíðina hefur írski lýðveldisherinn (IRA) framið hryðjuverk í Manchester. Tvær sprengjur sprungu 1992. Þann 15. júní 1996 sprengdi IRA stóra sprengju (1,5 tonn) við verslunarmiðstöð í miðborginni. Skemmdir voru gríðarmiklar. Mörg hús urðu illa úti og rúður brotnuðu í nær kílómeters fjarlægð. 200 manns slösuðust. Þetta var mesta sprenging sem orðið hefur í Bretlandi fyrr eða síðar. 2006 reis Beetham Tower, hæsta bygging Bretlands utan London og hæsta íbúðahús Evrópu á sínum tíma. Turninn er 169 m hár. Íþróttir. Íbúar í Manchester fylgjast með knattspyrnuleik á skermi í miðborginni Manchester hefur ávallt verið mikið íþróttaborg. Tvisvar hefur borgin sótt um Ólympíuleikana (sumarleikana 1996 og 2000), en fékk ekki. Hins vegar voru samveldisleikarnir haldnir þar 2002. Í borginni eru tvö stór knattspyrnufélög: Manchester United og Manchester City. Greater Manchester Run er árlegt borgarhlaup þar sem hlaupið eru 10 km. Þeir eru tengdir Great City Games, þar sem 110 m hlaup fer fram á götunni Deansgate. Manchester er einnig ein helsta rúgbýborgin í Englandi. Þar eru tvö stór lið og nokkur smærri. Eitt elsta rúgbýfélag heims er Mancunians RL en það var stofnað 1860. Krikket er einnig mikið stundað í borginni. Völlurinn Old Trafford Cricket Ground er einn sá þekktasti í Englandi. Meistarakeppnin milli Englands og Ástralíu (kölluð "The Ashes") hefur verið haldin í Manchester síðan 1882. Manchester Velodrome er fyrsta hjólreiðakapphöll í Englandi. Hún var reist fyrir samveldisleikana 2002 en hefur síðan þá verið mikil lyftistöng fyrir hjólreiðaíþróttina í borginni. Höllin hefur haldið HM í íþróttinni nokkrum sinnum. Frægustu börn borgarinnar. Gallagher-bræður í Oasis eru frá Manchester Kóladrykkur. Kóladrykkur með klaka og sítrónusneiðum. Kóladrykkur eða kóla er sætur gosdrykkur sem venjulega inniheldur karamellulit og koffín. Bragðið kemur yfirleitt úr blöndu bragðefna sem unnin eru úr vanillu, kanil og sítrus. Nafnið kóla er dregið af nafni kólahnetunnar frá Vestur-Afríku sem er skyld kakótrénu og var upphaflega notuð til að gefa kaffín í drykkinn. Flestir kóladrykkir eru svartir á lit. Til er gríðarlegur fjöldi tegunda kóladrykkja um allan heim, bæði á heimsmarkaði og eins á staðbundnum mörkuðum. Dæmi um stór vörumerki eru Coca Cola, Pepsi Cola, Royal Crown (RC-kóla), Virgin Cola, Inca Cola, sem er upphaflega frá Perú, og Mecca Cola sem er markaðssett sérstaklega fyrir múslima. Á Íslandi hafa í gegnum tíðina komið fram ýmis séríslensk vörumerki eins og t.d. Ískóla sem var framleitt af Sól hf og Bónuskóla sem er framleitt fyrir Bónusverslanirnar. Emily Dickinson. Emily Dickinson (10. desember 1830 – 15. maí 1886) var bandarískt ljóðskáld. Þótt hún hafi verið nær óþekkt meðan hún lifði hefur hún síðan verið talin með bestu skáldum Bandaríkjanna á 19. öld. Þekkt eru 1789 ljóð sem hún skrifaði, en einungis örfá þeirra voru gefin út meðan hún lifði. Nokkur ljóða Emily Dickinson hafa komið út á íslensku í þýðingu Hallbergs Hallmundarsonar í tveimur ritum 1991 og 1994. Anton Tsjekhov. Anton Pavlovítsj Tsjekhov (rússneska: "Антон Павлович Чехов") (17. janúar 1860 – 2. júlí 1904) var rússneskt leikskáld og smásagnahöfundur. Leikrit hans höfðu mikil áhrif á leikhúsið í upphafi 20. aldar en hans er einnig minnst fyrir framúrskarandi smásögur, mörg hundruð talsins, sem hann skrifaði alla ævina. Tsjekhov fæddist í héraðinu Taganrog við Asóvshaf. Hann var af alþýðufólki og byrjaði að skrifa sem unglingur. Hann fékk inngöngu í Ríkisháskólann í Moskvu þar sem hann lærði læknisfræði. Í Moskvu fór hann að gefa út smásögur í bókmenntatímaritum, oft undir dulnefnum. Hann varð brátt nokkuð þekktur en leit lengst af á skrifin sem áhugamál. 1887 fékk hann hin eftirsóttu Púskínverðlaun fyrir smásagnasafnið "Rökkur". Fjögur helstu leikrit Tsjekhovs, "Mávurinn", "Vanja frændi", "Þrjár systur" og "Kirsuberjagarðurinn", voru skrifuð í anda natúralismans og voru sett upp kringum aldamótin 1900 í Listaleikhúsi Moskvu (Московский художественный академический театр им. Чехова). Leikhúsið var stofnað af Konstantín Stanislavskíj 1897 sem þar þróaði Stanislavskíj-aðferðina sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á leiklist alla 20. öldina. Tenglar. Tsjekhov, Anton Tsjekhov, Anton Dardanellasund. Dardanellasund (gríska: "Δαρδανελλια"; tyrkneska: "Çanakkale Boğazı") áður þekkt sem Hellespontus eða Hellusund er mjótt sund í norðvesturhluta Tyrklands sem tengir Marmarahaf við Eyjahaf. Það er aðeins 1,2 til 6 km breitt. Líkt og Bosporussund skilur það milli Evrópu og Asíu. William Shakespeare. a> telja sumir vera af Shakespeare. William Shakespeare (26. apríl 1564 – 23. apríl 1616) var enskur leikari, leikskáld og ljóðskáld. Hann samdi um 38 leikrit, 154 sonnettur og önnur ljóð. Leikrit hans náðu töluverðum vinsældum meðan hann lifði og eftir að hann lést varð hann smám saman mikilvægari í samhengi bókmennta á ensku og nú á dögum er ekki óalgengt að hann sé kallaður mesti rithöfundur á enskri tungu fyrr og síðar. Hann hefur jafnan verið kallaður þjóðskáld Englendinga eða „hirðskáldið“ ("the bard"). Leikritunarferli Shakespeares er stundum skipt í þrjá meginhluta; fyrstu gamanleikina og sögulegu leikritin (t.d. "Draumur á Jónsmessunótt" og "Hinrik IV, 1. hluti"), miðtímabilið þegar hann skrifar flesta frægu harmleikina (eins og "Rómeó og Júlía", "Óþelló", "Makbeð", "Hamlet" og "Lé konung") og seinni rómönsurnar ("Vetrarævintýri" og "Ofviðrið"). Mörg af leikritunum eru endurgerðir eldri leikrita líkt og þá tíðkaðist. Íslenskar þýðingar. Ýmsir hafa fengist við að þýða Shakespeare á íslensku, svo sem Matthías Jochumsson, Steingrímur Thorsteinsson, Helgi Hálfdanarson,Daníel Á. Daníelsson og Þórarinn Eldjárn. Helgi Hálfdánarson er sá eini sem hefur þýtt öll leikrit Shakepeares og telja margir þýðingar hans einstakar. Helgi viðheldur stakhendu ("blank verse") frumtextans, en notar auk þess stuðla í hverri línu, en sumstaðar stuðla og höfuðstaf. Daníel Á. Daníelsson, læknir á Dalvík, þýddi allar sonnettur Shakespeares. Edgar Allan Poe. a> af Edgar Allan Poe frá 1848. Edgar Allan Poe (19. janúar 1809 – 7. október 1849) var bandarískt skáld, smásagnahöfundur, ritstjóri, gagnrýnandi og einn af forkólfum rómantísku stefnunnar í Bandaríkjunum. Poe er þekktastur fyrir hryllingssögur sínar en hann var einnig frumkvöðull á sviði ritunar glæpasagna (þrjár sögur um Auguste Dupin) og er jafnvel talinn til fyrirrennara vísindaskáldsagna, en Jules Verne var undir miklum áhrifum frá honum. Poe var talsmaður listar listarinnar vegna og gagnrýndi harðlega bandarískar bókmenntir sem á þeim tíma einkenndust af bókum sem reyndu að koma á framfæri tilteknum siðfræðilegum eða trúarlegum boðskap. Vegur hans varð enda meiri utan Bandaríkjanna lengst framan af. Tenglar. Poe, Edgar Allan Poe, Edgar Allan Alexandr Púshkín. Málverk af Púshkín eftir Vasilíj Trópinín 1827. Alexandr Sergejevítsj Púshkín (rússneska: "Александр Сергеевич Пушкин") (6. júní 1799 – 10. febrúar 1837) var rússneskt rómantískt skáld og rithöfundur og frumkvöðull rússneskra nútímabókmennta. Hann átti upphafið að notkun þjóðtungunnar sem bókmenntamáls. Hann var af gömlum rússneskum aðalsættum en aðhylltist róttækar umbótahugmyndir sem aflaði honum lítilla vinsælda hjá stjórnvöldum. Skoðanir hans ollu því að hann átti erfitt með að fá verk sín gefin út. Hann lést af sárum sem hann hlaut í einvígi við meintan ástmann eiginkonu sinnar, Natalíu. Tengill. Púshkín, Alexandr Púshkín, Alexandr Púshkín, Alexandr Miguel de Cervantes. Miguel de Cervantes Saavedra (29. september 1547 – 23. apríl 1616) var spænskur rithöfundur, skáld og leikskáld sem er þekktastur fyrir skáldsöguna "Don Kíkóta frá Mancha" ("El ingenioso hidalgo Don Quijote de la Mancha") sem margir telja vera fyrstu nútímaskáldsöguna. Cervantes lærði eitt ár í Madrid og flutti eftir það til Ítalíu, en áhrif frá ítölskum bókmenntum eru greinileg í verkum hans. Hann barðist í orrustunni við Lepanto 1571, tók þátt í ýmsum öðrum sjóorrustum og þjónaði sem hermaður í Napólí og Palermó. 1575 var skip sem hann var á tekið af sjóræningjum og hann og bróðir hans voru hnepptir í þrældóm í Algeirsborg. Fimm árum síðar var hann leystur út og sneri aftur til Madrid. Á Spáni hélt hann flökkulífi sínu áfram og vann meðal annars sem birgðakaupmaður fyrir flotann ósigrandi og fékkst við skattheimtu. Um tíma var hann bannfærður, varð gjaldþrota og lenti minnst tvisvar sinnum í fangelsi. Hann hóf feril sinn með því að skrifa leikverk og kvæði en áttaði sig fljótlega á því að hann skorti hæfileika á því sviði. Með "Don Kíkóta" vildi hann notast við skýrt hversdagsmál til að lýsa raunverulegum aðstæðum og háttum fólks. Fyrsti hlutinn kom út 1605 og aflaði honum strax nokkurs orðspors. Árið 1606 settist hann endanlega að í Madrid. Annar hluti "Don Kíkóta" kom síðan út 1615. Tenglar. Cervantes, Miguel de Cervantes, Miguel de Hadíða. Hadíð (arabíska الحديث, fleirtala á arabísku er "ahadith", þýðir nánast „frásögn“, „hefð“) er hugtak í íslam yfir stuttar frásögur af eða um Múhameð eða einhvern af nánustu fylgjendum hans. Tilgangur þessara frásagna er að varpa ljósi á hvað er rétt „hefð“ (sunna) til lausnar á ákveðnu vandamáli. Hadíðurnar hafa sérlega mikilvægu hlutverki að gegna við túlkanir á sharía-réttarreglum hins íslamska réttarkerfis. Hver hadíða samanstendur oftast af tveimur hlutum, "isnad" (stuðningur) og "matn" (aðalhluti, innihald). Isnadinn er listi yfir þær persónur sem borið hafa frásögnina, það er að segja alla frásagnarkeðjuna allt frá dögum Múhameðs og þar með hvers konar tiltrú sé hægt að leggja á hana. Fjöldi hadíða er í núverandi söfnum mjög mikill - hundruð þúsunda - en margar þeirra eru einungis afbrigði. Andstæðar frásagnir eru einnig teknar með og er túlkun og íhugun á þessum mótsetningum sérstakur hluti af námi í íslömskum rétti. Sunní og shía múslimar hafa ekki sameiginleg hadíð-söfn og viðurkenna í mörgum tilvikum ekki sömu hadíður. F. Scott Fitzgerald. F. Scott Fitzgerald (24. september 1896 – 21. desember 1940) var bandarískur rithöfundur þekktur fyrir skáldsögur sem lýsa lífi ungs fólks á millistríðsárunum (djasstímabilinu). Frægasta bók hans er "Hinn mikli Gatsby" ("The Great Gatsby") sem kom út 1925. Íslensk þýðing Atla Magnússonar 1987, undir nafninu "Gatsby", 2. útgáfa 2008: "Hinn mikli Gatsby". Á síðari hluta 4. áratugarins fluttist hann til Hollywood og bjó þar og vann til dauðadags. Tenglar. Fitzgerald, F. Scott Edna St. Vincent Millay. Edna St. Vincent Millay (22. febrúar 1892 – 19. október 1950) var bandarískt ljóðskáld og leikskáld. Hún vakti snemma athygli fyrir ljóð sín og var annar handhafi Pulitzer-verðlaunanna. Eftir fyrri heimsstyrjöldina bjó hún í Greenwich Village þar sem hún varð þekkt fyrir bóhem líferni, tvíkynhneigð og fjölmörg ástarsambönd. Ljóð hennar „Þeim vörum sem ég kyssti“ kom út í þýðingu Þorsteins Gylfasonar á geisladisknum "Ef ég sofna ekki í nótt" (2001) í flutningi Páls Óskars Hjálmtýssonar og Moniku Abendroth. Tengill. Millay, Edna St. Vincent Otto von Bismarck. Otto Eduard Leopold von Bismarck, fursti og hertogi af Lauenburg, kallaður járnkanslarinn, (1. apríl 1815 – 30. júlí 1898) var einn framsæknasti aðals– og stjórnmálamaður Evrópu á 19. öld. Hann var forsætisráðherra Prússlands á árunum 1862–1890 og skipulagði sameiningu Þýskalands (1871). Bismarck var kanslari Norður–Þýska ríkjabandalagsins frá 1867 og svo kanslari sameinaðs Þýskalands til frá 1871 til 1890. Bismarck var mikill frjálshyggjumaður. Hann lagði megin áheyrslu á réttarfar og efnahagsmál. Hann var brautryðjandi í löggjöf þjóðverja. Bismarck efldi prússneska herinn til muna. Stríð Prússa við Dani hófst árið 1864. Þar fékk Bismarck Austurríkismenn til liðs við sig. Prússar og Austurríkismenn unnu stríðið með afburðum og fengu því hertogadæmin Slésvík og Holstein í hendurnar. Styrjöld Prússa við Austurríkismenn hófst 1866. Prússar höfðu sigur af hólmi og gerðu friðasamning við Austurríkismenn. Bismarck var hönnuður Norðurþýska bandalagsins. Eftir þessa sókn Prússa reittu þeir Frakka til reiði. Frakkar lýstu stríði á hendur Prússa 1870. Prússar gerðu eins og áður, unnu orrustuna og eignuðust því Alsace og hluta af Lorraine. Áhugi Bismarcks á velferðarmálum dvínaði við aukna stjórn sósíaldemókrata. Bismarck lét af völdum árið 1890. Bismarck var kallaður „járnkanslarinn“ sem var tilvísun í fræga ræðu sem hann hélt um sameiningu Þýskalands, en það var hans skoðun að það yrði sameinað með „með járni og blóði“ en ekki umræðum og kosningum á þingi. Orrustuskipið "Bismarck" var kennt við hann. Á yngri árum. Otto von Bismarck fæddist þann 1 apríl 1815 í Schönhausen í Prússlandi. Foreldrar hans voru Ferdinand von Bismarck og Wilhelmine Mencken. Móðir Bismarcks setti hann á stofnunina Plamann fyrir framsækin börn í Berlín þegar að hann var sjö ára, þrátt fyrir fátækt fjölskyldunnar. Hann var í fimm ár í skólanum en fór svo í íþróttaskólann Fredrick William í þrjú ár. Hann tók háskólapróf 1832. Bismarck átti ekki langt að sækja með pólitíska áhuga sinn, því faðir hans var mikill áhrifavaldur í þessum málum. Móðir Bismarcks kvatti hann til að læra lögfræði sem og hann gerði í Háskólanum að Göttingen í keisaradæminu af Hanover. Eftir góða tilraun til þess að ná skólanum fór hann í prússneska herinn. Eftir að móðir hans lést árið 1839 fékk hann tækifæri til þess að hætta í hernum í því samhengi að fara að hjálpa föður sínum sem að var að ganga í gegnum fjárhagslega erfiðleika og erfiðleika við að sinna búinu. Eiginkona Bismarcks var Johanna von Puttkamer. Þau voru mjög hamingjusamlega gift. Pólitíkin. Bismarck er þekktastur fyrir pólitískar skoðanir sínar. En hann var brautriðjandi í velferðarmálum. Hann gerði sameiningu Þýsklalands að veruleika. Bismarck var Prússneskur landeigandi rétt eins og faðir sinn og var hann mjög ákveðinn í að fá sínu framgengt. Það eru deilur um það hvort að það megi kalla hann þýskan þjóðernissinna, því hann var nú frá upphafi til enda Prússi. Það var ekki aðeins sameining Þýskalands sem að Bismarck hafði áhuga á heldur að efla Prússland sem forusturíki í nýju þýsku ríkjasambandi. Hann lagði mikla áheyrslu á prússneska herinn. Bismarck var í flokki frjálslyndra þjóðernissinna, því hann vildi gera betur úr réttarfari og efnahagsmálum. Hann var einnig á móti kaþólsku kirkjunni. En stefna fjálslyndra þjóðernissinnana var ekki alveg að sama sniði gagnvart kaþólsku kirkjunn en því baðst Bismarck sátta við kaþólsku kirkjuna. Bismark fannst félagslegt réttlæti mest spennandi. Það má sjá á orðum Bismarcks um að verkamaður, sem nýtur ellilauna, sé sáttari við tilveruna og láti betur að stjórn en hinn, sem ekkert slíkt ætti í vændum, lýsi afstöðu Bismarcks til þýskra sósíalista. Hann vildi draga úr byltingarhyggju verkalýðsins með því að bæta afkomuöryggi hans. Þýkalandskeisara hafði tvisvar verið sýnt banatilræði árið 1878 og var þá Bismarck fenginn til að setja lög til verndar öryggi ríkisins. Árið 1862 varð Bismarck kansklari Prússlands. Hann var í rauninni fenginn í verkið til þess að efla prússneska herinn en þingið hafði verið nískt við að veita fjármagn til verksins. En hann fékk síðan sínu framgengt og hækkaði skatta til þess að vélvæða herinn. Sameining Þýskalands. Fyrsti áfangi við sameiningu Þýskalands var stríð Prússa við Dani 1864, þar sem að járnkanslarinn fékk Austurríkismenn með í lið. Þetta var mjög öflugt lið enda sigruðu þeir Dani og þurftu Danir að láta af hendi hertogadæmin Slésvík og Holstein. Eftir þetta var stríð Prússa við Austurríkis menn óhjákvæmilegt, sú styrjöld hófst 1866 en stóð aðeins yfir í fáeinar vikur og endaði með algjörum sigri Prússa. Prússar gerðu þó friðasamning við Austurríkismenn og héldu þau landeignum sínum nokkurnvegin óbreyttum. Öll þýsk ríki norðan Mainfljóts sameinuðust í Norðurþýska bandalaginu undir stjórn Bismarcks og Prússa. Eftir þetta allt höfðu Prússar algjörlega ógnað forystuhlutverki franska keisaradæmisins. Þetta efldi til stríðs Prússa við Frakka, og sendu Frakka stríðsyfirlýsingu í hendur Prússum haustið 1870. Þar var Napóleon 3. tekinn til fanga, Napóleon lagði niður völd og lýsti yfir stofnun þriðja lýðveldisins í Frakklandi. Bismarck afrekaði mjög margt fyrir Prússa, hann var með það alveg á hreinu hvernig ætti að fara að. Hann hélt áfram að setja skatt og efla þar með her og þjóð. Einnig lagði hann verndartoll á innflutt korn til að tryggja efnahagslega afkomu Prússa. Bismarck helgaðist þeirri ástæðu að trúnaður þýskra sósíaldemókrata væri fyrst og fremst bundin alþjóðlegum stéttarhagsmunum verkalýðsins en ekki ríkisvaldinu eða persónu keisarans. Því árið 1878 beitti Bismarck fram þeirri lagasetningu um að bann yrði gegn pólitískri flokksstarfssemi sósíaldemókrata. 1880 beitti hann fyrir sér setningu víðtærar tryggingalöggjafar og gerðist með því brautriðjandi á því sviði. Þrátt fyrir bann flokksstarfssemi sósíaldemókrata gátu þeir boðið sig fram í kosningum. Fylgni sósíaldemókrata fór sívaxandi og því áhugi Bismarcks á velferðamálum dvínandi. Bismarck lét af völdum 1890. Heimildir. Bismarck, Otto Handbolti. Handknattleikur eða handbolti er hópíþrótt þar sem tvö sjö manna lið keppast um að koma bolta í mark. Einn liðsmaður úr hvoru liði er markmaður og er sá eini sem má stíga inn í markteiginn á sínum vallarhelmingi. Í vörn standa hinir sex utan teigsins og reyna að hindra sókn andstæðinganna, í sókn sækja þeir að hinu markinu og reyna koma boltanum í mark andstæðinganna. Liðsmenn mega ekki taka fleiri en þrjú skref án þess að drippla boltanum og mega ekki halda boltanum án þess að senda eða skjóta í meira en þrjár sekúndur. Í hvoru liði eru tveir hornamenn, tvær skyttur, einn miðjumaður, einn línumaður og einn markmaður. Handboltakappleikur er hraður og yfirleitt eru skoruð mörg mörk miðað við aðrar knattíþróttir. Handbolti er vinsæl íþrótt á Íslandi og hafa íslenskir handboltamenn náð góðum árangri bæði hér heima og erlendis í gegnum árin. Uppruni handknattleiks á Íslandi. Valdimar Sveinbjörnsson íþróttakennari flutti handknattleik til Íslands árið 1921, en hann var þá nýkominn heim frá námi við Íþróttakennaraskóla Danmerkur. Á næstu árum var notast við handknattleik í íþróttakennslu á nokkrum stöðum á landinu, svo sem í Vestmannaeyjum og í Hafnarfirði undir stjórn Hallsteins Hinrikssonar. Fyrsti skráði handboltaleikurinn fór fram milli tveggja stúlknaliða í Hafnarfirði sumarið 1925. Fyrstu árin var handknattleiksiðkun fyrst og fremst bundin við skóla á borð við Flensborgarskólann, Menntaskólann í Reykjavík og Háskólann. Með tímanum fóru hefðbundnu íþróttafélögin þó að leggja stund á þessa grein, meðal annars í tengslum við inniæfingar knattspyrnumanna á vetrum. Fyrsta Íslandsmótið í handbolta var haldið í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu árið 1940. Lengi vel var keppt í handknattleik bæði innanhúss og utan. Með tímanum fór áhugi á utanhússhandknattleik þó minnkandi og lagðist keppni í greininni endanlega af í kringum 1980. Handknattleikssamband Íslands var stofnað árið 1957. Sér það meðal annars um rekstur landsliða Íslands sem náð hafa góðum árangri á stórmótum. Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 og bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í Austurríki árið 2010 en hafnaði í 6. sæti á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011. Fjodor Dostojevskíj. Fjodor Míkhajlovítsj Dostojevskíj (rússneska: "Фёдор Миха́йлович Достое́вский") (11. nóvember 1821 – 9. febrúar 1881) var rússneskur rithöfundur sem hafði mikil áhrif á bókmenntir 20. aldar. Verk hans lýsa oft einstaklingum á jaðri samfélagsins, vegna fátæktar eða innra andlegs ástands. Hann er oft talinn upphafsmaður tilvistarstefnunnar. Fyrsta bók hans, "Fátækt fólk", kom út 1846. 1849 var hann handtekinn fyrir þátttöku í byltingaraðgerðum gegn Nikulási 1. keisara og sendur í þrælkunarbúðir í Omsk í Síberíu. Hann losnaði úr fangelsi 1854 en þurfti að eyða næstu fimm árum í herþjónustu í Síberíuherdeildinni. Á þeim árum gerðist hann kristinn og varð síðar mikill andstæðingur níhílistahreyfingarinnar. 1860 sneri hann aftur til Sankti Pétursborgar þar sem hann reyndi að reka bókmenntatímarit ásamt bróður sínum Mikhaíl með litlum árangri. 1864 lést eiginkona hans og bróðir hans skömmu síðar. Við þetta sökk Dostojevskíj í þunglyndi og spilafíkn sem gerði skuldastöðu hans enn verri en hún var fyrir. "Glæpur og refsing" ("Преступление и наказание"), sem sumir telja hans besta verk, kom út sem framhaldssaga í tólf hlutum árið 1866. 1867 ferðaðist hann til Vestur-Evrópu, giftist aftur og hóf að skrifa "Fávitann" ("Идиот"). Síðustu árum sínum eyddi hann á heilsuhælum, en hann þjáðist af flogaveiki alla ævi. Helstu verk. Dostojevskíj, Fjodor Lýðræði. Almennar kosningar eru ein undirstaða fulltrúalýðræðis. Lýðræði er vítt hugtak yfir þær stjórnmálastefnur sem byggja á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Grunnútgangspunkturinn er því að valdið í tilteknu samfélagi manna eigi sér frumuppsprettu á fólkinu. Fyrr á öldum, allt fram að nútímanum, var fullveldi talið til óskoraðs guðdómleika konunga á Vesturlöndum. Almenningur lét ekki til sína taka fyrr en franska byltingin var gerð. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er vísað til sameiginlegs „"réttar fólksins"” sem ekki hafði áður spurst til. Fulltrúalýðræði er algengasta mynd lýðræðis í dag. Sökum takmarkana á tíma og aukinni sérþekkingu sem þarf til þess að taka ákvarðanir um hin ýmsu mál sem skipta máli hefur orðið til sérhæfð verkaskipting þar sem stjórnmálamenn bjóða sig fram til embætta. Þessir stjórnmálamenn þiggja umboð fólksins í kosningum og gerast þannig fulltrúaar almennings sem taka ákvarðanir fyrir hans hönd. Beint lýðræði felur í sér beina þátttöku fólksins í ákvarðanatöku, án fulltrúa eða annarra milliliða. Beint lýðræði er sjaldgæfara stjórnafyrirkomulag en sem dæmi má nefna mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna í Sviss. Sögulega er eitt þekktasta dæmið um beint lýðræði fengið frá Forn-Grikklandi þegar borgríkið Aþena var og hét. Skilyrði lýðræðis. Nokkur skilyrði þarf að uppfylla til þess að stjórnarfar geti talist lýðræðislegt. Valdhafar þurfa að vera kosnir. Kosningar þurfa að vera haldnar með reglulegu millibili sem má ekki vera mjög langt. Þetta tímabil er nefnt kjörtímabil og er fjögur ár að meðaltali eða þar um bil. Einnig þarf að ríkja tjáningarfrelsi því ef því er stjórnað hvað fólk veit getur það ekki tekið upplýstar ákvarðanir. Það fylgir því að fólk þarf að hafa aðgengi að mismunandi upplýsingum. Tiltölulegt frelsi þarf að ríkja meðal fjölmiðla. Ýmiss borgaraleg réttindi þurfa að vera til staðar s.s. félagafrelsi til þess að fólk geti saman unnið að hagsmunamálum sínum. Benda verður á að þótt ríki teljist réttarríki og stjórnarskráin hafi fögur fyrirheit að geyma þýðir það ekki að reyndin sé svo. Í Sovétríkjum kommúnismans setti Stalín stjórnarskrá í desember 1936 þar sem í orði kveðnu var tryggt mál-, prent- og félagafrelsi en reyndin var önnur. Nauðsynlegt er að lögreglan og herinn í landinu sé undir stjórn lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Eðli málsins samkvæmt eru þessar tvær valdastofnanir færar um að taka stjórnina í sínar hendur og því nauðsynlegt að þær hafi ekki sjálfsforræði. Þessu til viðbótar er það talið skilyrði fyrir þróun raunverulegs lýðræðis að til staðar sé markaðsskipulag. Það þýðir þó alls ekki að markaðsskipulag komi í veg fyrir ólýðræðislegt stjórnarfar eins og fjölmörg dæmi sanna. Á sama tíma krefst lýðræði tiltölulegs efnahagslegs jafnaðar. „"Á milli markaðarins og lýðræðis er … viss togstreita, því markaðurinn vinnur gegn jöfnuði af því tagi sem er hagstæður lýðræðinu og lýðræðið krefst þess oft að þrengt sé að einkaeign og markaði með ýmsum hætti."” Kosningaréttur. Rétturinn til þess að kjósa, kosningarétt, er takmarkaður. Víðast hvar er miðað við 18 ára kosningaaldur, það að borgarar nái fullorðinsaldri, og að viðkomandi sé ríkisborgari þess lands þar sem kosið er. Sumsstaðar eru aðrar takmarkanir og sögulega hefur kosningaréttur meðal annars verið bundinn við þjóðerni, kyn, kynþátt og eignir. Á Íslandi fengu konur fyrst kosningarétt árið 1915. Í Sviss þurftu þær að bíða til ársins 1975. Kosningakerfi. Miklu máli skiptir hvernig kosningakerfi er í landinu, hvort um sé að ræða hlutfallslega listakosningu eða ein- eða tvímenningskjördæmi. Fyrst þarf að ákvarða hversu mörg kjördæmi eiga að vera. Í Ísrael er landið allt eitt kjördæmi en kjördæmi Íslands eru sex talsins. Kjördæmi eru fleiri ef ástæða þykir til að aðlaga dreifingu þingmanna eftir landfræðilegri legu. Þannig tryggja mismunandi landamæri kjördæma ákveðinn fjölda þingmanna innan þeirra, hvort sem um er að ræða einmenningskjördæmi eða listakjördæmi. Kosningakerfi gefa góða vísbendingu um það hvers kyns flokkakerfi myndast. Ein- og tvímenningskjördæmi stuðla að öðru óbreyttu að flokkakerfi tveggja ráðandi flokka, líkt og í Bretlandi. Hlutfallslegt listakerfi stuðlar hins vegar að aukinni valddreifingu og fjölflokkakerfi þar sem minnihlutahópar komast frekar að. Búðahreppur. Búðahreppur var hreppur við innanverðan Fáskrúðsfjörð á Austfjörðum. Hann varð til árið 1907 við að kauptúnið á Búðum var skilið frá Fáskrúðsfjarðarhreppi. Hinn 1. október 2003 sameinaðist Búðahreppur Stöðvarhreppi undir nafninu "Austurbyggð". Sveitarfélögin Austurbyggð, Fjarðabyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppur og Mjóafjarðarhreppur sameinuðust undir nafni Fjarðabyggðar þann 9. júní 2006. Við sameininguna urðu íbúar Fjarðabyggðar samtals 5.522 talsins. Stöðvarhreppur. Stöðvarhreppur var hreppur við Stöðvarfjörð á Austfjörðum. Hann var áður hluti Breiðdalshrepps, en var gerður að sérstökum hreppi árið 1905, eftir að kauptún var tekið að myndast á Kirkjubóli norðan fjarðarins. Hinn 1. október 2003 sameinaðist Stöðvarhreppur Búðahreppi undir nafninu "Austurbyggð". Jane Austen. Jane Austen (16. desember 1775 – 18. júlí 1817) var enskur rithöfundur, fræg fyrir sögur sínar um mið- og yfirstéttarkonur. Frægasta verk hennar er "Hroki og hleypidómar" ("Pride and Prejudice") sem kom fyrst út 1813. Hún gaf verk sín út nafnlaust og þau vöktu töluverða athygli, en nafnleysi hennar gerði það að verkum að hún var ekki í tengslum við aðra rithöfunda. Þótt hún hafi skrifað á rómantíska tímanum fylgdi hún ekki rómantísku bókmenntastefnunni, heldur einkennast verk hennar af skynsemishyggju og hún beitir háði gegn tilfinningasemi. Hún var fyrst upphafin sem einn mesti rithöfundur á enska tungu nokkrum áratugum eftir dauða sinn, eða á Viktoríutímabilinu. Tenglar. Austen, Jane Walt Whitman. Walter „Walt“ Whitman (31. maí 1819 – 26. mars 1892) var bandarískt skáld, blaðamaður og húmanisti sem fæddist á Long Island í New York. Frægustu verk hans eru ljóðasöfnin "Grasblöðin" ("Leaves of Grass") og "Drum-Taps". Hann hóf feril sinn sem blaðamaður og ritstjóri. Hann missti vinnu sína sem ritstjóri á "Daily Eagle" vegna andstöðu sinnar við þrælahald og gaf eftir það sjálfur út safnið "Grasblöðin" sem hann átti síðar eftir að breyta og bæta við fyrir nýjar útgáfur nánast alla ævina. Grasblöðin komu út á íslensku í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar 1994, endurútg. 2002, og nefnist bókin Söngurinn um sjálfan mig. Tenglar. Whitman, Walt Mark Twain. Samuel Langhorne Clemens (30. nóvember 1835 – 21. apríl 1910), betur þekktur sem Mark Twain, var bandarískur rithöfundur sem varð gríðarlega vinsæll bæði sem rithöfundur og fyrirlesari á sinni tíð. Hann fæddist í Missouri í Suðurríkjunum og vann meðal annars sem stýrimaður á fljótabáti á Mississippifljóti. Þegar Þrælastríðið brast á myndaði hann herflokk með félögum sínum en lenti aldrei í átökum og hélt með bróður sínum vestur til Nevada þar sem hann reyndi meðal annars fyrir sér í námavinnslu en gekk illa. Eftir þetta fékk hann vinnu við dagblað í Virginia City í Nevada og tók upp rithöfundarnafnið Mark Twain 1863. Frægasta verk hans er skáldsagan "Stikilberja-Finnur" ("The Adventures of Huckelberry Finn") sem er talin með sígildum meistaraverkum bandarískra bókmennta þar sem hann blandar saman kímni, óhefluðu alþýðumáli og beittri samfélagsgagnrýni. Önnur þekkt verk eru "Sagan af Tuma litla" ("The Adventures of Tom Sawyer") og "Heiðurspiltur í hásæti" ("The Prince and the Pauper"). Tenglar. Twain, Mark Nathaniel Hawthorne. Nathaniel Hawthorne (4. júlí 1804 – 19. maí 1864) var rómantískur bandarískur rithöfundur og smásagnahöfundur sem er talinn með sígildum höfundum bandarískra bókmennta. Hann fæddist í Salem í Massachusetts og margar af sögum hans gerast í Nýja Englandi á nýlendutímanum. Þekktustu verk hans eru smásögur hans og skáldsögurnar "The Scarlet Letter", "The House of the Seven Gables", "The Blithedale Romance" og "The Marble Faun", sem komu allar út á 6. áratugnum. Hawthorne, Nathaniel Molière. Jean-Baptiste Poquelin (15. janúar 1622 – 17. febrúar 1673) betur þekktur sem Molière, var franskt leikskáld, leikstjóri og leikari. Hann fæddist í París, sonur bólstrara, en lærði í hinum virta menntaskóla Collège de Clermont sem rekinn var af Jesúítum. 1643 stofnaði hann leikhóp ásamt ástkonu sinni, Madeleine Béjart og fleirum og tók upp listamannsnafnið Molière til að hlífa föður sínum við þeirri skömm að eiga leikara fyrir son. Þessi leikhópur varð gjaldþrota 1645 og hann lenti í skuldafangelsi sem faðir hans leysti hann úr. Eftir það flakkaði hann um í fjórtán ár með Madeleine og skemmti í þorpum. Á þessu flakki hitti hann prinsinn af Conti sem gerðist styrktaraðili leikhópsins sem tók sér nafn hans. 1658 kom Molière aftur til Parísar og lék þar í Louvre (sem þá var leigð út fyrir leiksýningar), meðal annars í eigin farsa "Le docteur amoureux". Leikhópur hans sameinaðist frægum ítölskum "Commedia dell'arte" leikhóp og hann tróð upp í leikhúsi þeirra, "Petit-Bourbon". 18. nóvember 1659 setti hann þar upp leikritið "Les Précieuses Ridicules" sem aflaði honum nokkurrar athygli og mikillar gagnrýni. Á næstu árum setti hann mörg fleiri gamanleikrit á svið sem mörg gengu vel. 1662 flutti leikhópurinn yfir í Théâtre du Palais-Royal og Molière giftist Armande, sem hann áleit vera systur Madeleine, en sem var í raun laundóttir hennar sem hún átti með öðrum manni. Þetta varð vatn á myllu óvina Molières sem héldu því nú fram að hann hefði gifst dóttur sinni. Loðvík 14. hélt verndarhendi yfir honum, veitti honum fastan lífeyri og samþykkti að gerast guðfaðir fyrsta sonar hans. 1664 samdi Molière tvö verk með tónlist eftir Jean-Baptiste Lully. Sama ár var eitt frægasta verk hans, "Tartuffe" ("Le Tartuffe, ou L'Imposteur"), sett á svið og olli miklu hneyksli fyrir það hvernig hann gagnrýndi yfirstéttirnar. Konungur sjálfur mun hafa mælst til þess að verkið yrði tekið af sviði og Molière skrifaði með hraði nýtt verk, "Don Juan" ("Dom Juan, ou le Festin de Pierre") til að setja upp í staðinn. 1666 kom síðan út "Mannhatarinn" ("Le Misanthrope") sem er almennt talið besta verk Molières en náði ekki miklum vinsældum í fyrstu. Áfram notaði hann tónlist Lullys í verkum eins og "Le Bourgeois Gentilhomme" en skrifaði minna þar sem hann var orðinn veikur. Síðasta verk hans, "Ímyndunarveikin" ("La Malade Imaginaire") var frumsýnt 10. febrúar 1673, en Molière féll niður á sviðinu á fjórðu sýningu og lést skömmu síðar. Sagt var að hann hefði verið í gulum fötum og síðan hefur það verið talinn ólánslitur meðal leikara. Reyðarfjarðarhreppur. Reyðarfjarðarhreppur var hreppur við Reyðarfjörð á Austfjörðum. Heyrði hann undir Suður-Múlasýslu. Í kjölfar fólksfjölgunar og þéttbýlismyndunar á Eskifirði og Búðareyri var ákveðið að skipta hreppnum í þrennt árið 1907. Varð þá Eskifjörður að sérstökum hreppi, Eskifjarðarhreppi, og ströndin utan hans að Helgustaðahreppi. Reyðarfjarðarhreppur náði eftir það aðeins yfir innri hluta Reyðarfjarðar, innan Eskifjarðar. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Reyðarfjarðarhreppur Eskifjarðarkaupstað og Neskaupstað undir nafninu "Fjarðabyggð". Helgustaðahreppur. Helgustaðahreppur var hreppur á Austfjörðum í Suður-Múlasýslu. Lá hann norðan megin Reyðarfjarðar, utan Eskifjarðar, kenndur við bæinn Helgustaði. Hreppurinn var stofnaður árið 1907 þegar Reyðarfjarðarhreppi var skipt í þrennt. Hinn 1. janúar 1988 sameinaðist Helgustaðahreppur Eskifjarðarkaupstað. Frá 1998 hefur hann verið hluti Fjarðabyggðar. Norðfjarðarhreppur. Norðfjarðarhreppur var hreppur á Austfjörðum, í norðanverðri Suður-Múlasýslu. Hreppnum var skipt í tvennt árið 1913 þegar kauptúnið við Norðfjörð var gert að sérstökum hreppi, "Neshreppi", sem síðar varð að Neskaupstað. Sveitarfélögin tvö sameinuðust á ný 11. júní 1994, þá undir merkjum Neskaupstaðar, sem svo varð hluti Fjarðabyggðar árið 1998. Langston Hughes. Langston Hughes (1. febrúar 1902 – 22. maí 1967) var bandarískt skáld, rithöfundur, leikskáld og blaðamaður og einn af forystumönnum Harlem-endurreisnarinnar í New York á 3. áratugnum. Hann var talsmaður þess að þeldökkir Bandaríkjamenn ættu að vera stoltir af kynþætti sínum og fékk því á sig þá ásökun síðar að hann væri fylgjandi kynþáttahyggju og talinn úreltur eftir því sem kynþáttaaðskilnaður lét undan síga í Bandaríkjunum. Hann átti þó áfram sína fylgjendur og var síðar upphafinn aftur í mannréttindabaráttunni á 7. áratugnum. Hughes, Langston Hrafn Gunnlaugsson. Hrafn Gunnlaugsson (fæddur 17. júní 1948 í Reykjavík) er íslenskur kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur. Hann er sonur Gunnlaugs Þórðarsonar hæstaréttarlögmanns (f. 14. apríl 1919, d. 20. maí 1998) og Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu (f. 15. október 1923). Kona hans er Edda Kristjánsdóttir og eiga þau fjögur börn. Systir Hrafns er Tinna Gunnlaugsdóttir, leikkona og Þjóðleikhússtjóri. Menntun. Hrafn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968. Eftir það hélt hann til Svíþjóðar og lærði við Háskólann í Stokkhólmi og lauk þaðan Fil. kand. prófi árið 1973. Ári síðar lauk hann prófi í kvikmyndagerð frá Dramatiska institutet í Stokkhólmi. Hann hefur einnig próf í spænsku frá Universidad de la Habana á Kúbu, sem hann lauk árið 1996. Helstu störf. Hrafn varð snemma þjóðþekktur fyrir þáttagerð í útvarpi, en hann sá um Útvarp Matthildi á sínum tíma ásamt félögum sínum, Davíð Oddssyni og Þórarni Eldjárn. Hann starfaði sem fréttaritari Morgunblaðsins í Svíþjóð á námsárunum, var framkvæmdastjóri Listahátíðar 1976 og 1978 og formaður Listahátíðar 1988. Starfaði sem leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu og einnig um tíma hjá sænska ríkissjónvarpinu. Hjá RÚV-Sjónvarpi var hann leiklistarráðunautur 1977 - 1982, dagskrárstjóri 1987 - 1989 og framkvæmdastjóri 1993 - 1994. Auk þess ýmis félagsstörf. Verk. Auk þessa margir sjónvarpsþættir og viðtöl. Verðlaun og viðurkenningar. Hrafn hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir kvikmyndir sínar. Til dæmis hlaut hann gullnu bjölluna fyrir eina af sínum fyrstu myndum. Heimild. Samtíðarmenn A-Í, Vaka-Helgafell, 2003, Pétur Ástvaldsson ritstjóri. Flensborg. Olof Samson gangur(sund) er í elsta hluta bæjarins. Danska bókasafnið sést í bakgrunni. Flensborg eða Flensburg (lágþýska og danska: "Flensborg", frísneska: "Flansborj", "Flensborag") er þýskur bær fyrir botni Flensborgarfjarðar, rétt sunnan við landamærin við Danmörku. Íbúar bæjarins eru um 89.000. Bærinn er þriðji stærsti bær í sambandslandinu Slésvík-Holtsetalandi. Orðsifjar. Flensburg hét Flensaburg á 12. öld. Heitið er dregið af ánni "Flenså", en hafa ber í huga að héraðið var danskt áður fyrr. Þar var þá reist virki (Burg á þýsku). Merkingin er því "Virkið við ána Flenså". Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Flensburg eru tvö blá ljón sem birtast bak við rauðan turn. Efst er netlulaufið sem táknar Holtsetaland. Ljónin tákna hertogadæmið Slésvík. Turninn stendur fyrir borgarréttindi Flensburg. Saga. Flensborg varð til eins og margir aðrir austurjóskir kaupstaðir á 12. öld. Árið 1284 fékk Flensborg kaupstaðarréttindi. Á sama tíma var Maríukirkja við Nyrðratorg reist. Hundrað árum síðar var Nikolajkirkjan reist við Suðurtorg. Miðsvæðið í bænum var þingstaður. Á 15. öld lét Margrét 1. reisa Duborgarhöllina og lést síðar úr pestinni um borð í skipi í Flensborgarhöfn. Fyrstu velmegunardagar Flensborgar voru frá 1450-1600, þá var bærinn miðpunktur mikillar Eystrasaltsverslunar. Bærinn var stærsti verslunarbær danska konungsríkisins með um 5000 íbúa og kaupflota með 200 skipum. Annað velmegunartímabíl var frá 1775 til 1806, þegar skip frá bænum sigldu alla leið til Dönsku Vestur-Indía og náðu þar í sykurreyr, tóbak og romm. Frá þessum tíma eru mörg nýklassísk kaupmannshús og yfirstéttarhús í bænum. Eftir tap Dana við Dybbøl, Slagurinn við Dybbøl, árið 1864 varð bærinn hluti af þýska keisaradæminu. Árið 1920 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla og völdu 75% bæjarbúa að bærinn yrði hluti af Þýskalandi fremur en danska konungsríkinu. Bærinn varð því þýskur kaupstaður. Í dag er bærinn hluti af þýska sambandslandinu Slésvík-Holtsetalandi, sem svo er hluti af Þýskalandi. Bærinn er verslunarstaður og miðstöð landamæraviðskipta við Dani. Einnig er ferðamannaþjónustan mikilvæg bænum, sem og skipaumferð. Flensborg er mikill menningarbær, með þýsk og dönsk leikhús, bókasöfn, kirkjur og skóla. Um 4000 nemar stunda nám við Flensborgarháskóla. Í Mörvík er menntamiðstöð þýskra sjóliða. Tungumál. Í sambandslandinu Slésvík-Holtsetalandi eru töluð fjölmörg tungumál og mállýskur. Hin opinberu tungumál sambandslandsins eru háþýska,lágþýska, ríkisdanska og frísneska. Einnig tala íbúarnir suðurjósku, sem er talin vera mállýska, þó að það sé umdeilt. Í Flensborg er töluð þýska auk dönsku. Norðurfrísneska er ekki lengur töluð í bænum. Í bænum er einnig töluð mállýska sem er kölluð "petu" eða "petuh". Sú mállýska er sambland af háþýsku eða lágþýsku með dönskum áhrifum. Fjölmargir þýskumælandi íbúar Flensborgar skilja dönsku og bera margir þeirra dæmigerð dönsk ættarnöfn. Íþróttir. Þekktasta íþróttafélagið í borginni er Flensburg-Handewitt, sem keppir í handbolta. Félagið myndaðist við samruna félaganna TSB Flensburg og Handewitter SV árið 1990. Félagið varð þýskur meistari 2004, bikarmeistari 2003, 2004 og 2005, og Evrópumeistari 2001. Nokkrir Íslendingar hafa leikið með liðinu, s.s. Alexander Petersson og Ólafur Gústafsson. Loðmundarfjarðarhreppur. Loðmundarfjarðarhreppur var hreppur í Norður-Múlasýslu, í Loðmundarfirði á norðanverðum Austfjörðum. Hinn 1. janúar 1973 var Loðmundarfjarðarhreppur sameinaður Borgarfjarðarhreppi undir nafni hins síðarnefnda. Hurling. Camán og sliotar (spýta og kúla) Hurling (Írska: "Iomáint"), einnig kölluð "spýtnaslagur" í háði, er hópíþrótt af keltneskum uppruna sem spiluð er utan dyra með spýtum og kúlu. Hurling er fyrst og fremst spiluð á Írlandi, og er sögð vera hraðasta keppnisíþrótt heims með tilliti til framgangs leiksins (hinsvegar ferðast kúlan til dæmis hraðar í hokký). Hurling líkist "shinty", sem spilað er fyrst og fremst í Skotlandi, "cammag" sem spilað er á Mön og bandý eins og það var spilað áður fyrr á Englandi og í Wales. Hurling kallast camogie þegar konur spila það. Hurling er ein af þjóðaríþróttum Írlands. Markmið leiksins. Markmið leiksins er að skora mörk og stig, og það lið sem situr uppi með fleiri heildarstig vinnur. Lið samanstendur af 15 leikmönnum. Spýtan, sem kölluð er "camán" (oft einnig kölluð "hurley") er gerð úr rótum asks, og er að jafnaði 64-97cm að lengd, með flötum fleti andstæðis haldfanginu sem kallast "bas". Kúlan, sem kallast "sliotar", er gerð úr korki en þakin leðri að utanverðu, og er 65mm að þvermáli. Camán markvarðarins hefur tvöfallt stærri "bas" en annarra leikmanna, til þess að auðveldara sé að stöðva "sliotar", en vel slegin kúla getur ferðast á 150 km/klst, og komist um 80 metra. Venjulegir leikmenn kjósa oftast að hafa "bas" sinn minni til þess að minnka vindmótstöðu þegar þeir slá kúluna. Á meðan á leik stendur sækja leikmenn fram gegn marki mótherjans, og vernda sitt eigið mark. Þegar kúlan er á jörðinni má slá í hana með spýtunni, eða lyfta henni upp í loft, þar sem má slá hana aftur eða grípa hana í allt að fjórar sekúndur eða fjögur skref, hvort sem er á undan. Ef kúlan er gripin á lofti verður leikmaðurinn að halda henni í lágmark fjórar sekúndur eða fjögur skref, en hann má sparka í hana eða slá henni frá sér, hvort heldur með hendi eða spýtunni. Leikmaður má bera kúluna á "bas"-fletinum eins lengi og hann vill. Þar sem að árekstrar leikmanna eru algengir er mælt með notkun hjálms með andlitsbrynju, en hennar er krafist hjá leikmönnum undir 18 ára aldri. Leikvöllur. Leikið er á rétthyrndum grasvelli sem er 130-150 metrar á lengd, og 80-90 metrar á breidd. H-laga mörk eru við hvorn enda vallarins, með net á neðri hluta marksins. Samskonar leikvöllur er notaður fyrir Írskan fótbolta, en ákveðið var að samræma leikvelli íþróttanna tveggja til þess að hægt yrði að samnýta þá. Línur eru dregnar þvert á völlinn í 13m, 20m og 65m fjarlægð frá hvorri marklínunni. Minni leikvellir og mörk eru notuð fyrir börn. Liðin. Liðin samanstanda af fimmtán leikmönnum (markverði, tveimur hornvörðum, einum fullverði, þremur hálfvörðum, tveimur miðjumönnum, þremur hálfsókarmönnum, tveimur hornsóknarmönnum, og einum fullsóknarmanni), ásamt þremur varamönnum. Hver leikmaður ber númer á bilinu 1-15. Markvörðurinn er ætíð númer 1, og hann klæðist treyju í öðrum lit. Tímavarsla. Millisýsluleikir fullorðinna eru 70 mínútur að lengd, skipt í tvo 35 mínútna hálfleiki. Allir aðrir leikir eru 60 mínútur, en fyrir 13 ára og yngri má stytta leikina niður í 50 mínútur. Tímavarsla er í höndum dómara sem skeytir stopptíma aftan við hvorn hálfleikinn fyrir sig. Ef útsláttarleikur endar með jafntefli er leikurinn endurtekinn. Ef endurtekningin endar með jafntefli er leikurinn framlengdur um 20 mínútur. Ef leikurinn er enn í jafntefli er leikurinn endurtekinn aftur. Í deildarkeppnum eru leikir æ sjaldnar endurteknir í fyrstu, en í stað þeirra eru leikir framlengdir og svo endurteknir. Stundum hafa vítakeppnir verið notaðar, en það telst óalgengt. Mörk og stig. Stig fást fyrir að koma kúlunni í mark andstæðingsins. Mörkin eru H-laga eins og í Rugby og Amerískum fótbolta, en hafa net frá þverslánni og niður eins og í fótbolta. Stangirnar eru sjö faðma (6.37 metra) frá hvorum öðrum, og þversláin er sjö fetum (2.12m) yfir jörðu. Ef kúlan fer yfir þverslánna er veitt stig, og reglumaður reisir hvítan fána. Ef kúlan fer undir þverslánna er veitt mark, sem er þriggja stiga virði, og grænn fáni er reistur af reglumanni. Markið er varið af markverði. Stig eru skráð á forminu -. Til dæmsi endaði Írlandsmeistaramótið 1995 með: Clare 1-13 Offaly 2-8. Þar af vann Clare-sýsla með „einn-þrettán á móti tveir-átta“ (16 stig á móti 14). Talað er um 0-11 sem „ellefu stig“, aldrei „núll-ellefu“. 2-0 er lesið „tvö mörk“, aldrei „tveir-núll“. 0-0 er kallað „engin stig“. Umsjónarmenn. Dómarinn sér um að skrá stig, stöðva og hefja leik, gefa fríleiki, skrá brot og vísa leikmönnum út af. Línumenn bera ábyrgð á að sýna dómaranum hver á bolta sem fer á línuna. Hliðarlínumaðurinn sér um að útskiptingar leikmanna séu löglegar, og að gefa til kynna lengd tíma sem líður þegar leikur stöðvast (sem dómari ákveður). Reglumennirnir sjá um að meta stigin, og segja dómaranum hvers eðlis skotið var. Allir umsjónarmennirnir eiga að láta dómarann vita um hvað sem kann að hafa yfirsést, þó svo að það sé sjaldgæft. Dómari hefur úrslitavald um allar ákvarðannir. Saga. Minnst er fyrst á hurling í Brehon lögunum sem hugsanlega voru rituð fyrir 400 f.Kr. Síðar er minnst á hurling í þjóðsögunni um Táin Bó Cuilgne, þar sem að hetjan Cúchulainn keppti í hurling í Emain Macha. Ritið Meallbreatha lýsir refsingum fyrir að meiða aðra leikmenn í ýmsum leikjum, sem flestar hverjar líkjast hurling. Seanchás Mór umræðurnar á Brehon lögmálunum segja að sonur rí (konungs) mætti láta bronshúða spýtuna sína, en aðrir mættu einungis nota kopar. Það var einnig ólöglegt að gera hurley spýtu upptæka. Á 13. öld voru sett lög í Kilkenny sýslu þar sem að hurley var bannað sökum þess hve ofbeldisfullt það þótti. Árið 1527 var ritað í Galway: „"At no time to use ne occupy ye hurling of ye litill balle with the hookie sticks or staves, nor use no hand balle to play without the walls, but only the great foot balle."“ Árið 1587 kvartaði Lord Chancellor William Gerrarde yfir því að enskir nýbúar í Munster væru byrjaðir að tala írsku og spila hurling. Íslandsbanki. Íslandsbanki hf. er viðskiptabanki sem starfræktur er á Íslandi. Bankinn rekur 21 útibú á Íslandi auk bankaþjónustu á internetinu. Bankinn var stofnaður undir nafninu Nýi Glitnir af ríkinu í október 2008 á grundvelli neyðarlaganna til þess að taka yfir íslenskar eignir og skuldbindingar Glitnis banka. Bankinn tók upp nafnið Íslandsbanki 20. febrúar 2009 en það var fyrra nafn Glitnis banka frá stofnun hans 1990 til 2006 auk þess sem banki með sama nafni var starfandi á árunum 1904 til 1930. Stofnun. Stofnun Íslandsbanka í núverandi mynd kom til vegna bankahrunsins á Íslandi í október 2008. Stjórnendur Glitnis banka höfðu leitað til Seðlabankans í lok september um aðstoð vegna yfirvofandi lausafjárvanda bankans. Var um það samið að ríkið myndi eignast 75% hlut í bankanum og greiða 600 milljónir evra fyrir. Það samkomulag kom aldrei til framkvæmda heldur var rekstur Glitnis tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) og skilanefnd sett yfir rekstur hans þann 7. október 2008 samkvæmt heimild sem FME var veitt með neyðarlögunum. Með sömu lögum var ríkinu veitt heimild til að stofna til nýrra fjármálafyrirtækja til að taka yfir hluta af starfsemi þeirra fyrirtækja sem FME tæki yfir. Á grundvelli þeirrar heimildar var Nýi Glitnir banki stofnaður 9. október 2008 og tók hann við eignum um skuldbindingum hins fallna Glitnis banka nokkrum dögum síðar. Ekki varð nein röskun á rekstri útibúa eða aðgengi viðskiptavina að innlánsreikningum þrátt fyrir umskiptin. Birna Einarsdóttir var ráðin sem bankastjóri Nýja Glitnis banka en 97 starfsmenn Glitnis banka misstu vinnuna. Uppgjör, endurfjármögnun og eignarhald. Í kjölfar bankahrunsins var mikil óvissa um verðmat á þeim eignum og skuldbindingum sem fluttar voru úr hinum föllnu bönkum yfir í nýju bankana, þar á meðal hinn nýja Íslandsbanka. Því mati lauk 15. apríl 2009 og var þá gert ráð fyrir að það yrði gert opinbert. Það var þó ekki gert heldur fóru viðræður fram milli ríkisins og kröfuhafa Glitnis banka um uppgjör vegna eignanna sem fluttar voru úr gamla bankanum yfir í þann nýja án þess að verðmatið væri gert opinbert. Í desember 2009 lauk því uppgjöri með því að kröfuhafar Glitnis banka tóku við eignarhaldi á 95% í Íslandsbanka en ríkið hélt eftir 5%. 65 milljarðar króna komu inn í bankann sem hlutafé, þar af 3,25 milljarðar frá ríkinu í samræmi við eignarhlut þess. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í bankanum og skipar einn mann í stjórn hans. Eignarhaldsfélagið ISB Holding ehf. fer með eignarhlut kröfuhafa Glitnis banka og skipar sex stjórnarmenn. Glitnir hóf málshöfðun í New York gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Þorsteini Jónssyni og endurskoðendafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers. Áður hafði slitastjórnin kyrrsett eignir Jóns Ásgeirs. Tilgangur málsóknarinnar er að endurheimta eignir frá þeim stefndu. Dómnum var vísað frá með því skilyrði að stefndu myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla, eða aðfarahæfi þeirra erlendis. Wesleyan-háskóli í Ohio. Wesleyan-háskóli (enska: "Ohio Wesleyan University") er staðsettur í bænum Delaware í Ohio og er fjórði elsti háskólinn í Bandaríkjunum. Háskólinn hefur auk þess að bjóða upp á grunnnám og framhaldsnám í hugvísindum, raunvísindum og félagsvísindum, arkítektaskóla, verkfræðiskóla, og skóla fyrir stjórnsýslu- og alþjóðafræði. Álftavershreppur. Álftavershreppur var hreppur í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við sveitina Álftaver. Hreppurinn varð til, ásamt Skaftártunguhreppi, árið 1886 þegar Leiðvallarhreppi var skipt í þrennt. Hinn 10. júní 1990 sameinaðist Álftavershreppur Leiðvallarhreppi og Skaftártunguhreppi á ný, og Kirkjubæjarhreppi og Hörgslandshreppi að auki, undir nafninu "Skaftárhreppur". Leiðvallarhreppur. Leiðvallarhreppur var hreppur í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Leiðvöll í Meðallandi, sem var þingstaður hreppsins en er nú í eyði. Til forna náði hreppurinn yfir þrjár sveitir: Meðalland, Álftaver og Skaftártungu, en var skipt í þrennt árið 1886. Vestan Kúðafljóts og Hólmsár varð að Álftavershreppi, ofan Hólmsár að Skaftártunguhreppi en austan Kúðafljóts hét áfram Leiðvallarhreppur. Hinn 10. júní 1990 sameinuðust hrepparnir þrír á ný og auk þess Kirkjubæjarhreppur og Hörgslandshreppur, undir nafninu "Skaftárhreppur". Skaftártunguhreppur. Skaftártunguhreppur var hreppur í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við sveitina Skaftártungu. Hreppurinn varð til, ásamt Álftavershreppi, árið 1886 þegar Leiðvallarhreppi var skipt í þrennt. Hinn 10. júní 1990 sameinaðist Skaftártunguhreppur Álftavershreppi og Leiðvallarhreppi á ný, og Kirkjubæjarhreppi og Hörgslandshreppi að auki, undir nafninu "Skaftárhreppur". Kirkjubæjarhreppur. Kirkjubæjarhreppur var hreppur í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við Kirkjubæjarklaustur (áður Kirkjubær) á Síðu. Hreppurinn varð til úr vestari hluta Kleifahrepps þegar þeim hreppi var skipt í tvennt árið 1892, en eystri hlutinn varð að Hörgslandshreppi. Hinn 10. júní 1990 sameinaðist Kirkjubæjarhreppur Álftavershreppi, Leiðvallarhreppi, Skaftártunguhreppi og Hörgslandshreppi undir nafninu "Skaftárhreppur". Hörgslandshreppur. Hörgslandshreppur var hreppur í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Hörgsland á Síðu. Hreppurinn varð til úr eystri hluta Kleifahrepps þegar þeim hreppi var skipt í tvennt árið 1892, en vestari hlutinn varð að Kirkjubæjarhreppi. Hinn 10. júní 1990 sameinaðist Hörgslandshreppur Álftavershreppi, Leiðvallarhreppi, Skaftártunguhreppi og Kirkjubæjarhreppi undir nafninu "Skaftárhreppur". Kleifahreppur. Kleifahreppur var hreppur í Vestur-Skaftafellssýslu, kenndur við bæinn Kleifar á Síðu. Árið 1892 var Kleifahreppi skipt í tvennt um Geirlandsá. Varð vestari hlutinn að Kirkjubæjarhreppi og hinn eystri að Hörgslandshreppi. Þeir sameinuðust á ný hinn 10. júní 1990, ásamt Álftavershreppi, Leiðvallarhreppi og Skaftártunguhreppi undir nafninu "Skaftárhreppur". Harper (Líberíu). Kort af Líberíu - Harper er neðst til hægri. Harper er borg sem stendur á syðsta odda Líberíu, Palmas-höfða í Maryland-sýslu allrasyðst í landinu. Höfðinn er vesturmörk Gíneuflóa. Borgin var mikilvæg stjórnsýslumiðstöð áður fyrr en var að miklu leyti lögð í rúst í borgarastríðinu. Hún er núna á valdi Friðargæsluliðs SÞ og í hægri endurbyggingu. Ljósavatnshreppur. Ljósavatnshreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, kenndur við kirkjustaðinn Ljósavatn. Hreppurinn náði lengst af yfir tvær sveitir meðfram Skjálfandafljóti: Köldukinn og Bárðardal, en árið 1907 var honum skipt í tvennt og varð þá syðri hlutinn að Bárðdælahreppi, en sá nyrðri hét áfram Ljósavatnshreppur. Afmarkaðist hann af Skjálfandafljóti að austan og hátindum Kinnar- og Víknafjalla að vestan. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Ljósavatnshreppur Bárðdælahreppi, Hálshreppi og Reykdælahreppi undir nafninu "Þingeyjarsveit". Bárðdælahreppur. Bárðdælahreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu. Náði hann yfir allan Bárðardal, beggja vegna Skjálfandafljóts. Hreppurinn varð til árið 1907, þegar Ljósavatnshreppi var skipt í tvennt. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Bárðdælahreppur Ljósavatnshreppi á ný og Hálshreppi og Reykdælahreppi að auki, undir nafninu "Þingeyjarsveit". Hálshreppur. Hálshreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu. Náði hann yfir bæði Fnjóskadal og Flateyjardal, auk Flateyjar á Skjálfanda. Flatey og Flateyjardalur voru gerð að sérstökum hreppi, "Flateyjarhreppi", árið 1907. Flateyjarhreppur var sameinaður Hálshreppi á ný 1. mars 1972, enda þá kominn í eyði. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Hálshreppur Ljósavatnshreppi, Bárðdælahreppi og Reykdælahreppi undir nafninu "Þingeyjarsveit". Reykdælahreppur. Reykdælahreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu. Náði hann frá Skjálfandafljóti að vestan, yfir Reykjadal ofan Vestmannsvatns og mestan hluta Laxárdals. Hreppurinn varð til undir lok 19. aldar þegar Helgastaðahreppi var skipt í tvennt, í Reykdælahrepp og Aðaldælahrepp. Hinn 9. júní 2002 sameinaðist Reykdælahreppur Hálshreppi, Ljósavatnshreppi og Bárðdælahreppi undir nafninu "Þingeyjarsveit". Unified Modeling Language. Unified Modeling Language (UML) er staðlað myndmál sem er notað við hugbúnaðarþróun. UML er skilgreiningarmál sem lýsir hugbúnaðarkerfum myndrænt. Málið er mjög ítarlega skilgreint, og því er hægt að lýsa kerfum á ótvíræðan hátt, en málið er einnig notað á óformlegan hátt til að útskýra hugmyndir um hönnun. Þekktasta tegund UML rits er svokallað klasarit sem lýsir klösum og venslum milli klasa. Einnig eru til rit sem lýsa högun kerfisins gagnvart notanda og rit sem sýna hvernig klasar vinna saman að tilteknu verki. Til eru fjölmargir ritlar fyrir UML rit, og er misjafnt að hve miklu leyti þeir halda utan um hugbúnaðarferlið. Sum forrit geta búið til UML rit út frá kóða, eða farið í hina áttina og búið til beinagrind af kóða út frá UML ritum. Hlutbundin forritun. Hlutbundin forritun er forritunaraðferð sem felst í því að brjóta forritið niður í svokallaða klasa. Klasi er lýsing á tegund hlutar. Til dæmis má hugsa sér hlut sem heitir Jón sem er af taginu "Maður". Hlutbundin forritun gengur út frá þeirri hugmynd að í stað þess að hugsa um forrit sem frístandandi stefjur er forritið hugsað sem safn af hlutum. Klasar og hlutir. Klasi er skilgreining á tegund hlutar. Fyrst er skrifaður klasi sem er skilgreining á þessari tegund, og eftir það er hægt að búa til hluti af þessari tegund og gefa þeim skipanir. Klasaskilgreining inniheldur skilgreiningu á svokölluðum tilviksbreytum og aðferðum. Tilviksbreytur eru breytur sem hver hlutur af þessari tegund inniheldur. T.d. ef við erum með klasa "Maður" sem hefur tvær tilviksbreytur, "nafn" og "símanúmer", þá getum við búið til marga hluti af þessum klasa, sem hver um sig hefur mismunandi nafn og símanúmer. Aðferð er skipun sem hægt er að gefa hlut af þessum klasa. Þannig væri t.d. eðlilegt að skilgreina aðferð "sendaSMS" sem myndi senda skilaboð á númerið sem er geymt í tilviksbreytunni "símanúmer". Því má kannski líta svo á að klasi sé lýsing á gögnum og safn af aðferðum sem vinna með þessi gögn. Hlutur er svo eitt tilvik af þessum klasa. UML-rit eru oft notuð við hlutbundna forritshönnun. Erfðir eru eitt af meginhugtökum hlutbundinnar forritunar. Anthony Hopkins. Sir Philip Anthony Hopkins (f. 31. desember 1937) er velskur leikari. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal Óskarsverðlaunin, Golden Globe-verðlaunin og Emmy-verðlaunin. Hann er fæddur og uppalinn í Wales, en fékk bandarískan ríkisborgararétt árið 2000. Hann er einna mest þekktur fyrir leik sinn í kvikmyndunum um mannætuna Hannibal Lecter. St. Gallen (kantóna). St. Gallen er þýskumælandi kantóna í sambandsríkinu Sviss. Höfuborgin heitir sömuleiðis St. Gallen. Lega og lýsing. St. Gallen er sjötta stærsta kantóna Sviss með 2.026 km2. Hún liggur norðaustast í landinu og umlykur tvíkantónurnar Appenzell Innerrhoden og Appenzell Ausserrhoden. Aðrar kantónur sem liggja að St. Gallen eru Glarus fyrir sunnan, Schwyz og Zürich fyrir vestan og Thurgau fyrir norðan. St. Gallen liggur einnig að Austurríki og Liechtenstein. Nyrst afmarkar Bodenvatn kantónuna, en þar eru vatnalandamæri að Þýskalandi. Rínarfljót myndar næstum því gervöll austurlandamæri kantónunnar. Íbúar eru rúmlega 460 þús talsins, sem gerir St. Gallen að fimmtu fjölmennustu kantónunni í Sviss. Höfuðborgin heitir einnig St. Gallen. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki St. Gallen sýnir fimm prik sem umkringja öxi. Bæði er hvítt, en bakgrunnur og bönd eru græn. Prikin og öxin eru rómversk að uppruna. Knippið allt er tákn dómsins. Hvíti liturinn er litur sakleysis og grænt er litur frelsis. Prikin eru eiginlega átta, þótt aðeins fimm þeirra séu sjáanlegar, og standa þær fyrir hin átta héruð sem St. Gallen samanstendur af. Merki þetta var formlega tekið upp 1803 er Napoleon stóð að stofnun Helvetíska lýðveldisins. Orðsifjar. St. Gallen er nefnd eftir kristniboðanum heilögum Gallusi frá Írlandi, en hann stofnaði klaustur þar sem nú er borgin St. Gallen. Gallus er latína, en germanski rithátturinn er Sankt Gallen. Söguágrip. St. Gallen er einstök kantóna að því leyti að svæðið var soðið saman af ólíkum héruðum, ólíkt því sem gerðist hjá flestum öðrum kantónum. Þegar sýnt þótti að Frakkar höfðu æ meiri áhrif á Sviss, lýstu nokkur héruð yfir sjálfstæði sínu, hvert um sig. Stærst þessara héraða var klausturríkið St. Gallen, sem hafði haft víðtæk yfirráð fyrir sunnan Bodenvatn í margar aldir. En 1798 hertók Napoleon Sviss og leysti þessi smáu ríki upp. Þau urðu að tveimur nýjum kantónum, ásamt hálfkantónunum Appenzell og Glarus, sem fengu heitin Säntis og Linth'". Þessar tvær kantónur urðu skammlífar, því 1803 ásetti Napoleon sér að skeyta þessum kantónum í eina stóra kantónu. Svisslendingar fengu þó framgengt að tvíhéruðin Appenzell og Glarus fengu kantónustatus á ný, en afgangur svæðisins var settur saman í eina stóra kantónu, sem fékk heitið St. Gallen. Klaustrið St. Gallen missti við það öll yfirráð sín. Eftir fyrri ósigur Napoleons 1814 lá við að hin nýja kantóna leystist í sundur, enda mynduðust eigin sjálfstæðishreyfingar í hverju héraði. Þessu tókst þó að afstýra, en enn sem komið er er kantónan sundurslitin og án meginkjarna. Eftir júlíbyltinguna í Frakklandi 1830 fór óánægju- og uppreisnaralda yfir kantónuna, sem endaði með því að kantónan fékk nýja stjórnarskrá, sem íbúarnir samþykktu í mars 1831. Þrátt fyrir aukið lýðræði, áttu íbúar í erfiðleikum með að mynda eina heild, enda var spenna milli héraða, en einnig milli trúarbragða. Flestir eru kaþólskir, en stór minnihlutahópur eru mótmælendur. Það var ekki fyrr en með nýrri stjórnarskrá 1861 sem alvöru friður komst á innan kantónunnar, en hún kallast gjarnan friðarstjórnarskráin ("Friedensverfassung"). Sviss var hlutlaust ríki í heimstyrjöldinni fyrri. Við lok hennar 1918 sótti vestasta hérað Austurríkis, Vorarlberg, um inngöngu í Svissneska sambandið. Vorarlberg liggur við St. Gallen og skilur Rínarfljótið á milli. Kantónan St. Gallen studdi þessa umsókn mjög, en sigurvegarar styrjaldarinnar ákváðu 1919 að leyfa ekki þessa tilflutninga, enda hafði Sviss verið hlutlaust ríki og átti ekki að hljóta meira land. St. Gallen varð því áfram norðaustasta kantóna Sviss. Millistríðsárin voru einkennandi fyrir kreppuna miklu. Til marks um hana má nefna að 55 þús manns urðu atvinnulausir í vefnaðariðnaðinum í og í kringum borgina St. Gallen. Sviss var einnig hlutlaust í heimstyrjöldinni síðari, en margir flóttamenn lögðu leið sína til kantónunnar St. Gallen. Einnig eftir stríð, en þúsundir Ungverja flúðu þangað eftir misheppnaða byltingu þar 1956 og sömuleiðis Tékkar eftir vorið í Prag 1968. Flóttamenn voru velkomnir í fyrstu, enda næga vinnu að fá. En á níunda áratugnum snerist almenningsálitið gegn þeim. 2001 fékk kantónan nýja stjórnarskrá og 2003 var kantónunni skipt í átta kjördæmi. Graubünden. Graubünden ("Grigioni" á ítölsku, "Grischun" á retórómönsku, "Grisons" á frönsku) er stærsta kantónan í Sviss með rúmlega 7.100 km2. Hún er jafnframt austasta kantónan. Graubünden er eina kantónan í Sviss þar sem retórómanska er viðurkennt tungumál, ásamt þýsku og ítölsku. Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið er samsett úr öllum þremur svæðum sem Graubünden samanstendur af. Neðst er svartur geithafur, uppi til vinstri er svört og hvít rönd, en uppi til hægri er krosslaga merki í bláum og gulum lit. Merkið var samsett 1932 og viðurkennt 1933. Fram að því voru þessi merki sýnd aðskilin. Nafnafræði. Héraðið myndaðist síðla á 14. öld sem samband þriggja svæða og hét þá Drei Bünde (Þríbandalagið). Íbúar Zürich og Austurríkis uppnefndu héraðið Graue Bund (Gráa bandalagið), en þetta heiti var tekið upp í héraðinu fyrir 1486. Í helvetíska lýðveldinu var héraðið tekið upp í Sviss og nefndist kantónan Retía, en 1803 var heitinu opinberlega breytt í Graubünden. Pablo Neruda. Pablo Neruda (12. júlí 1904 – 23. september 1973) var höfundarnafn skáldsins Ricardo Eliecer Neftalí Reyes Basoalto frá Síle. Hann er talinn með mestu skáldum á spænsku á 20. öld og fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1971. Hann er hvað þekktastur fyrir ljóðabók sína Canto General ("Óðurinn mikli"). Neruda var alla tíð eindreginn kommúnisti og var sendiherra Síle í Madríd í spænsku borgarastyrjöldinni. Hann varð aðdáandi Stalíns og hélt trúnaði sínum við flokkslínuna til dauðadags, þrátt fyrir að viðurkenna síðar að persónudýrkun á Stalín hefði verið röng. 1945 varð hann öldungadeildarþingmaður. Hann slapp naumlega í útlegð 1948 eftir að hafa gagnrýnt harðlega stjórn Gabriel González Videla sem vinstri flokkarnir höfðu þó stutt til valda og var næstu ár á flakki um Evrópu. Hann sneri aftur til Síle 1952 sem stuðningsmaður Salvador Allende þegar einræði González Videla var að hruni komið. Oscar Wilde. Oscar Fingal O'Flahertie Wills Wilde (16. október 1854 – 30. nóvember 1900) var írskt skáld, rithöfundur og leikskáld sem var með þekktustu skáldum á enska tungu á síðari hluta Viktoríutímabilsins. Þekktustu meistaraverk hans eru "Myndin af Dorian Gray" og "Hreinn umfram allt". Hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir samkynhneigð 1895. Henrik Ibsen. Henrik Johan Ibsen (20. mars 1828 – 23. maí 1906) var norskt leikskáld sem ruddi brautina fyrir raunsæisleikhúsið við lok 19. aldar með verkum sem náðu heimsathygli eins og "Pétur Gautur" (með tónlist eftir Edvard Grieg), "Brúðuheimilið", "Þjóðníðingur" og "Hedda Gabler". Mörg af verkum hans gagnrýndu borgaralegt samfélag Viktoríutímabilsins og brutu blað í leikhúsi þess tíma með því að bjóða ekki upp á lausn sem fólst í sáttum eða sigri aðalpersónanna í lok leikrits. Talið er að verk hans séu þau sem oftast eru enn sett upp, á eftir verkum Shakespeares. Básendar. Básendar (Bátsandar) voru fyrrum kaupstaður og útræði á Reykjanesskaga vestanverðum. Básendar eru sunnarlega á Miðnesi (Romshvalanesi), nálægt Höfnum. Höfnin var langt og mjótt lón, sem var eins og bás austur og inn í landið. Básendar voru verslunarstaður að minnsta kosti frá 1484 til 1800 þar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Hinrik Hansen var kaupmaður á Básendum í lok 18. aldar og hefur verið nefndur síðasti kaupmaðurinn á Básendum enda var aldrei verslað né búið á Básendum eftir að hann fór þaðan. Yfir Básenda gekk Básendaflóðið árið 1799 og lagðist þá verslun þar af. Uppreisnin í Ungverjalandi. Uppreisnin í Ungverjalandi átti sér stað á milli 23. október og 10. nóvember árið 1956. Uppreisnin hófst meðal námsmanna sem gengu mótmælagöngu í höfuðborginni Búdapest að ungverska þinghúsinu. Hluti námsmannanna reyndi að koma kröfum sínum á framfæri í ungverska útvarpinu en sá hópur var tekinn höndum. Er mótmælendur fyrir utan kröfðust lausnar þeirra skaut ungverska leyniþjónustan að mótmælendunum. Við fréttirnar af þessum átökum brutust út óeirðir um allt land. Ungversku ríkisstjórninni var bolað burt. Ríkisstarfsmenn hliðhollir Sovétríkjunum voru fangelsaðir eða teknir af lífi. Ný ríkisstjórn lýsti því yfir að Ungverjaland myndi segja sig frá Varsjárbandalaginu og koma á lýðræðislegum kosningum. Upphaflega vildu yfirvöld í Kreml taka upp samningaviðræður við hina nýju ríkisstjórn. Þetta breyttist þó fljótt og Rauði herinn réðist inn þann 4. nóvember og barði uppreisnina niður. Um 2500 ungverskir uppreisnarmenn og 720 sovéskir hermenn létust í átökunum og þúsundir annarra særðust. Um 200 þúsund Ungverjar flúðu land, þ.á.m. til Íslands. Ein afleiðing uppreisnarinnar var dvínandi fylgi við marxískar hugmyndir á Vesturlöndum. Yfirlit. Eftir heimsstyrjöldina síðari lenti Ungverjaland undir stjórn Sovétríkjanna og árið 1949 var það gert að kommúnísku einræðisríki undir stjórn Mátyás Rákosi og Kommúnistaflokks Ungverjalands. Mátyás Rákosi var síðan neyddur til að leggja upp störf sín og tók þá Ernő Gerő við. Þann 23. október 1956 söfnuðust nemendur Tækniháskólans í Ungverjalandi saman á Bem-torginu í Búdapest og settu á svið gjörning til stuðnings hugmyndum pólverjans Władysław Gomułka sem vöktu vonir meðal Austur-Evrópubúa um bætt kjör og meira sjálfstæði þjóðanna. Brátt bættust fleiri í hópinn og brátt snerist samkoman upp í mótmæli gegn Sovétstjórninni. Fleiri og fleiri Ungverjar flykktust að og brátt færðist hópurinn, sem þá taldi yfir 100.000 manns, yfir Dóná og nálgaðist nú þinghúsið. Mótmælin voru friðsamleg. Mótmælin höfðu fram að þessu verið friðsamleg en snerust þó upp í algjöra ringulreið þegar Ungverska öryggislögreglan (ÁVH) skaut að mótmælendunum. Sovéska hernum, sem hafði staðsettur verið í Ungverjalandi síðan 1945, var skipað að ráða niðurlögum mótmælendanna en hermennirnir óhlýðnuðust. Stjórnvöld sáu ekki fyrir sér að Ernő Gerő gæti risið gegn mótmælunum og gerðu því hinn vinsæla Imre Nagy að forsætisráðherra. Þann 4. nóvember voru sovéskar herdeildir, staðsettar í öðrum löndum, sendar til Ungverjalands. Ólíkt blóðsúthellingunni þann 23. október var þessi barátta ekki aðeins háð með byssum og örfáum skriðdrekum, heldur komu Sovétar með 6000 skriðdreka, sprengjur og flugskeyti. Ungverski herinn brást óskipulega við, en almenningurinn sjálfur veitti þó harða og skipulagða mótspyrnu. Þar af leiðandi urðu það ekki miðstéttarhverfin sem urðu verst úti, heldur fátækra- og iðnaðarhverfin. Þann 10. nóvember fóru verkamanna- og stúdentafélög fram á vopnahlé. Verkamannafélögin sömdu beint við Sovéska herinn dagana 10.-19. nóvember og fengu með því lausn nokkurra stríðsfanga, en ekki fram kröfu sinni að Sovétríkin slepptu taumnum lausum og færu frá Ungverjalandi. Ný ríkistjórn var skipuð með stjórnmálamanni að nafni János Kádár, sem naut stuðnings Sovétríkjanna, í forystu og hann gegndi embætti forsætisráðherra allt til ársins 1988. Verkamenn og stúdentar reyndu að mótmæla með verkföllum og vopnaðri mótspyrnu fram á mitt árið 1957. Mótmælin skiluðu litlum árangri. Áhrif á Íslandi. Til Íslands komu 52 flóttamenn frá Ungverjalandi. Fimmvörðuháls. Fimmvörðuháls nefnist svæðið milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Leiðin yfir hálsinn frá Skógum yfir í Þórsmörk er ein allra vinsælasta gönguleið landsins, en hún er um 22km löng og hækkun um 1000m. Á hálsinum er skáli ferðafélagsins Útivistar sem er glæsilegur og vandaður. Rétt sunnan við hálsinn er Baldvinsskáli, hann var endurnýjaður 2012 af Ferðafélagi Íslands og er góður áningarstaður fyrir göngufólk. Leiðin er sérstaklega fögur ef gengið er frá suðri til norðurs enda óvanalega mikið af fossum í Skógá og útsýn falleg niður í Þórsmörk þegar komið er yfir hálsinn. Jöklarnir ná saman á hálsinum svo gengið er að nokkru leyti í snjó. Ásamt kjarrlendi Þórsmerkur og grösugum heiðunum sunnan til gerir það að verkum að leiðin er mjög fjölbreytt, en getur þó einnig verið varasöm því skjótt skipast veður í lofti í nálægð við jökla. Eldgos í Fimmvörðuhálsi 2010. Fréttir af eldgosi við Eyjafjallajökul fóru að berast eftir miðnætti þann 21. mars. Samkvæmt sjónarvottum sáust fyrstu ummerki um gosið rétt fyrir miðnætti þann 20. mars eða kl 23:58. 2010. Plagíóklas. Plagíóklas tilheyrir hópi feldspata og er þar af leiðandi sílíkat-steind. Lýsing. Til plagíóklasa teljast steindir sem samanstanda af natríumfeldspat (NaAlSi3O8) og kalsíumfeldspat (CaAl2Si2O8) í mismunandi hlutföllum. Plagíóklasar verða basískari eftir því sem Ca-hlutfallið verður hærra. Plagíóklasar eru oft með samsíða rendur (e: striation) sem hjálpa við að bera kennsl á þá og er glært eða hvítt á litinn. Útbreiðsla. Plagíóklasar eru kalsíumríkir í basalti og gabbrói en natríumríkir í granófýri og graníti. Í andesíti er jafnmikið af hvoru og sumstaðar er það mikið af hvítum plagíóklas dílum í berginu að það líkist blóðmöri, dæmi um þetta er Þjórsárhraun. Grimmsbræður. Grimmsbræður (þýska: "Brüder Grimm") voru bræðurnir Jacob Grimm (1785-1863) og Wilhelm Grimm (1786-1859). Þeir voru þýskir málvísindamenn sem þó eru langþekktastir fyrir útgáfu sína á þjóðsögum sem þeir söfnuðu við rannsóknir sínar á hljóðbreytingum í germönskum málum. Þjóðsagnaútgáfa þeirra varð fyrirmynd að hliðstæðum útgáfum um allan heim, meðal annars "Þjóðsögum Jóns Árnasonar". Slík útgáfa varð snar þáttur í þjóðernisrómantík í Evrópu á 19. öld. Dæmi um þeirra ævintýri eru: Mjallhvít, Þyrnirós og Öskubuska. Rainer Maria Rilke. Rainer Maria Rilke (4. desember 1875 – 29. desember 1926) er eitt af helstu skáldum þýskrar tungu á 20. öld. Hann fæddist í Prag í Bæheimi sem þá var hluti Austurríkis-Ungverjalands. Rilke orti bæði á bundnu máli og óbundnu og er stundum talinn með módernistum. Rilke er meðal annars þekktur fyrir "Dúínó-tregaljóðin" sem Kristján Árnason þýddi á íslensku. Rilke skrifaði einnig yfir 400 ljóð á frönsku. Sandsteinn. Sandsteinn er setberg úr samanbundnum sandkornum, aðallega kvarsi. Sandkornin eru 0,063-2 mm að þvermáli. Myndun. Sandsteinn myndast þegar laus sandur festist saman, og myndast því eins og lausi sandurinn. Ólíkt kalksteini eða kolum myndast sandsteinn ekki lífrænt þar sem hann samanstendur af afgöngum veðraðra steina. Kvars er mjög veðrunarþolin steind, auk þess að vera algeng steind í grjóti. Mikilvægustu myndunarstaðir sandsteins eru höfin, aðallega grunn höf nálægt meginlandsflekum. Sandurinn kemur að mestu frá fasta landinu og flyst með ám og hafstraumum á setstað sinn. Einnig er til sandsteinn sem myndast hefur á meginlandi. Aðallega er það sandsteinn sem myndast hefur með hjálp vatns (ár), minna er um sandstein þar sem kornin hafa flust á setstað með hjálp vinda. Þegar yngri jarðlög setjast ofan á sandinn myndast þrýstingur á jarðlagið. Steindir falla úr sjó eða grunnvatni og binda sandinn. Myndunin tekur frá nokkrum áratugum upp í fleiri milljón ár. Hómer. a>. Talin eftirmynd af grískri höggmynd. Hómer (gríska: Ὅμηρος "Hómēros") er goðsagnakennt skáld sem á að hafa verið uppi í Grikklandi á 8. öld f.Kr. Honum eru eignuð meðal annars sagnakvæðin "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða". Venjan er að telja hann hafa fæðst í Jóníu og einnig átti hann að vera blindur. Að öðru leyti er ekkert vitað um Hómer og kvæðin sem honum eru eignuð hafa líklega mótast um langan aldur í munnlegri geymd. Dashiell Hammett. Samuel Dashiell Hammett (27. maí 1894 – 10. janúar 1961) var bandarískur rithöfundur sem varð frægur fyrir harðsoðnar leynilögreglusögur. Meðal frægustu bóka hans er "Möltufálkinn" um leynilögreglumanninn Sam Spade. Hann barðist í Fyrri heimsstyrjöldinni og fékk þá spænsku veikina og síðar berkla sem áttu eftir að hrjá hann það sem eftir var ævinnar. Eftir stríðið vann hann við ýmis störf, meðal annars á leynilögreglustofu, drakk mikið og byrjaði að skrifa. Skáldsögur hans komu út 1929 til 1934 en eftir það hætti hann skrifum og helgaði sig starfi fyrir vinstrihreyfinguna í Bandaríkjunum. 1937 gekk hann í Bandaríska kommúnistaflokkinn. Í síðari heimsstyrjöldinni tókst honum að komast í herinn, þrátt fyrir veikindi, og var liðþjálfi í bandaríska hernum alla styrjöldina. Við upphaf Kalda stríðsins á McCarthy-tímabilinu lenti hann á svörtum lista þar sem hann neitaði að gefa upp nöfn annarra meðlima í kommúnistaflokknum. Hammett, Dashiell Lev Tolstoj. Lev Níkolajevíts Tolstoj (eða Leó Tolstoj) (rússneska: "Лев Никола́евич Толсто́й"; 9. september 1828 – 20. nóvember 1910) var rússneskur rithöfundur og leikskáld, heimspekingur og stjórnmálaspekingur, stjórnleysingi, grænmetisæta og friðarsinni. Hann var meðlimur Tolstoj-ættarinnar sem er gömul og áhrifamikil rússnesk aðalsætt og var forríkur landeigandi. Hann er talinn með mestu rithöfundum Rússa. Með frægustu verkum hans eru "Stríð og friður" og "Anna Karenína". Hann boðaði og reyndi að lifa í anda kristilegrar stjórnleysisstefnu. Carl Sandburg. Carl Sandburg (6. janúar 1878 – 22. júlí 1967) var bandarískur rithöfundur, skáld, blaðamaður og sagnfræðingur af sænskum ættum sem vann hin eftirsóttu Pulitzer-verðlaun tvisvar; einu sinni fyrir ævisögu Abrahams Lincoln og í annað sinn fyrir ljóðasafn sitt "The Complete Poems of Carl Sandburg". Hann gaf út tvö söfn með frumsömdum þjóðsögum, "Rootabaga Stories" (1920) og "More Rootabaga Stories" (1923). Sögurnar hafði hann samið fyrir dætur sínar og þar sem honum þótti að bandarísk borgarbörn vantaði þjóðsögur sem ættu við það umhverfi sem þau þekktu. Tenglar. Sandburg, Carl Mary Shelley. Mary Shelley (30. ágúst 1797 – 1. febrúar 1851) var enskur rithöfundur sem er einkum þekkt fyrir vísindaskáldsöguna "Frankenstein" ("Frankenstein, or the Modern Prometheus"). Hún var dóttir femínistans Mary Wollstonecraft og stjórnleysingjans William Godwin. Hún giftist enska rómantíska skáldinu Percy Bysshe Shelley sem drukknaði eftir sex ára hjónaband. Tenglar. Shelley, Mary Byron lávarður. Byron lávarður eða George Gordon Byron, 6. barón af Byron (22. janúar 1788 – 19. apríl 1824) var enskt rómantískt skáld sem varð ekki síður frægur fyrir hneykslissögur sem um hann gengu en sagnakvæði sín eins og "Bandingjann í Chillon", "Manfreð" og "Don Júan". Byron hefur stundum verið kallaður Byron Bretatröll á íslensku. Byron átti í fjölmörgum ástarsamböndum. Hann var auk þess talinn hafa átt barn við hálfsystur sinni og lést að lokum í Grikklandi þar sem hann hafði ætlað sér að berjast fyrir málstað Grikkja í sjálfstæðisstríðinu gegn Tyrkjaveldi. Dóttir hans (og eina skilgetna barn hans) var Ada Lovelace sem síðar varð fræg fyrir að lýsa virkni fyrstu eiginlegu tölvunnar; greiningarvélar Babbages. Murasaki Shikibu. Murasaki Shikibu (紫 式部; um 973 – um 1014 eða 1025) var japönsk skáldkona og rithöfundur sem þjónaði við japönsku keisarahirðina á Heiantímabilinu. Hún er einkum fræg fyrir "Söguna af Genji" sem sumir vilja telja fyrstu skáldsöguna í nútímaskilningi. Æskýlos. Æskýlos (Æskílos eða Aiskýlos) (gríska: "Αἰσχύλος"; 525 f.Kr. – 456 f.Kr.) var leikskáld frá Aþenu í Grikklandi. Hann var einn þriggja mestu harmleikjaskálda Grikkja (hinir tveir eru Evripídes og Sófókles). Verk. Að auki er varðveitt verkið "Prómeþeifur bundinn" (stundum nefnt "Prómeþeifur fjötraður" eða bara "Prómeþeifur") sem var eignað Æskýlosi í fornöld en nútímafræðimenn hafa dregið í efa að verkið sé réttilega eignað Æskýlosi. Isaac Asimov. Isaac Asimov (2. janúar 1920 – 6. apríl 1992) var bandarískur rithöfundur og lífefnafræðingur af rússneskum gyðingaættum. Hann er þekktur fyrir vísindaskáldsögur sínar og fjölmörg vísindarit fyrir almenning. Ein skáldsaga hans, "Stálhellar", sú fyrsta í vélmennasyrpu hans, hefur komið út á íslensku í þýðingu Geirs Svanssonar. Á æviferli sínum skrifaði hann meira en 400 bækur sem spanna allt Dewey-flokkunarkerfið að undanskildri heimspeki. Hann var einn verkadrýgsti rithöfundur 20. aldarinnar. Áhrifa hans gætir í mörgum verkum síðari höfunda, til dæmis Star Wars myndum George Lucas. Asimov, Isaac Fallorð. Fallorð eru orð sem fallbeygjast, þ.e. greinirinn „hinn“, nafnorð, lýsingarorð, töluorð og fornöfn, og hafa auk þess kyn og tölu. Frumlag er fallorð í nefnifalli:8 og andlag er yfirleitt fallorð í aukafalli sem stýrist af áhrifssögn:10 og sagnfylling er alltaf fallorð í nefnifalli:11 og einkunn er fallorð sem stendur með öðrum orðum.:12 Sagnorð. Persónur og tölur sagna. Sumar sagnir eru aðeins notaðar í "þriðju persónu eintölu". Þær beygjast ekki eftir persónum en skýra aðeins frá því að eitthvað eigi sér stað, án þess að getið sé hver valdi því. Kallast slíkar sagnir ópersónulegar. Þessar sagnir eru margvíslegar en oft tákna þær veðurfar, komu dagstíma og árstíma, ástand eða líðan o.fl. Dæmi; "snjóar, rignir,hitnar, kólnar, dagar, kvöldar, vorar, haustar, hungrar, þyrstir, batnar, versnar." Fallorð fyrstu, annarrar eða þriðju persónu í aukafalli stendur oft með ópersónulegri sögn en ákveður þó ekki persónuna. Sögnin "batnar" er t.d. óbreytt hvort sem fyrir framan hana stendur "mér, þér, okkur, ykkur" o.s.frv. Þetta er vegna þess að fallorð í aukafalli ákveður aldrei persónu sagnar. Ópersónulega sögnin breytist ekki; er ávallt eins og 3. persóna eintölu persónulegu sagnarinnar. Meðal annarra sagna sem eru ýmis persónulegar eða ópersónulegar má nefna; bera, fjölga, fækka, leggja, reka. Nokkrar ópersónulegar sagnir hafa fallorð í þolfalli; "mig" dreymir, fýsir, grunar, hungrar, langar, lystir, skortir, vantar, verkjar, þyrstir. Einhverjir hafa tilhneigingu til notkunar þágufalls með þessum sögnum, t.d. „?mér langar“, og er sú tilhneiging kölluð "þágufallssýki". Þykir hún ekki til eftirbreytni. Ekki er ólíklegt að þessi „sýki“ stafi af því að nokkrar sagnir hafa fallorð í þágufalli; "mér" batnar, þykir, líkar, líður, gagnar, dugir, sem getur valdið ruglingi. Sagnirnar hlakka (til) og kvíða eru persónulegar og ráðast því af nefnifalli; "ég hlakka til, við kvíðum fyrir." Forðast ætti notkun aukafalla með þessum sögnum. Ending íslenskra sagnorða. Í nafnhætti er oftast notað -a með nokkrum undantekningum og miðmyndarsagnir í nútíma íslensku enda á "-st". Áhrifssagnir og áhrifslausar sagnir. Sagnir greinast í áhrifssagnir () og áhrifslausar sagnir (). Áhrifssögn. Sögn sem stýrir falli er fallvaldur og kallast sú sögn áhrifssögn. Áhrifssagnir valda því að fallorð sem þær stýra standa í aukafalli. Fallorðið sem stendur með áhrifssögninni kallast andlag. Áhrifslaus sögn. Sögn sem ekki stýrir falli kallast áhrifslaus sögn eins og "vera", "verða", "heita" og "þykja." Orðin sem með þeim standa kallast sagnfyllingar. Þessi fallorð geta verið nafnorð eða lýsingarorð. Orsakarsagnir. Orsakarsögn er ný sögn sem má mynda af annarri kennimynd margra sterkra sagna. Orsakarsögn hefur ekki sömu merkingu og sögnin sem hún er mynduð af, en þær eru oft merkingarlega skyldar. Orsakarsögn hefur alltaf veika beygingu og oft á sér stað i-hljóðvarp við myndun hennar. Af annari kennimynd sagnarinnar „að brjóta“ sem er „ég braut“ má draga orðið „að breyta“. Það að „au“ breytist í „ey“ kallast i-hljóðvarp. Af annari kennimynd sagnarinnar „að fara“ sem er „ég fór“ má draga orðið „að færa“. Það að „ó“ breytist í „æ“ kallast i-hljóðvarp. Orsakarsagnir má mynda af eftirfarandi sögnum; "rísa", "líta", "sitja", "þrífa", "sleppa", "drekka", "sjóða", "fljóta", "rjúka", "spretta", "hníga". Sjálfstæðar og ósjálfstæðar sagnir. Sögn er sjálfstæð þegar hún segir fulla hugsun ásamt því orði sem ákveður persónu hennar, t.d. "maðurinn hlær". Annars er sögnin ósjálfstæð, t.d. "maðurinn heitir...". Greinir. Greinir getur skiptst í ákveðinn greini () sem gefur til kynna að verið sé að tala um einn ákveðinn hlut eða manneskju og sem skiptist í íslensku í viðskeyttan greini og lausan greini eða óákveðinn greini () sem gefur til kynna að verið sé að tala um einhverja manneskju eða hlut. Í íslensku. Greinir í íslensku skiptist í ákveðinn greini () og óákveðinn greini (). Ákveðinn greinir er orðið „hinn“ sem beygist eftir kyni, tölum og föllum. Enginn sérstakur óákveðinn greinir er til í íslensku, og til að tákna hann er orðinu ekki breytt (hestur, maður, barn, sófi). Greini í íslensku er ýmist skeytt á undan lýsingarorði sem er hliðstætt nafnorði (laus greinir; „"hinn" góði maður“) eða skeyttur aftan við nafnorð (viðskeyttur greinir; „maður"inn"“, „kon"an"“, „barn"ið"“) og fellur þá "h" framan af honum og stundum einnig "i"; „tunga"n"“, „hestar"nir"“, „fjall"ið"“, einkum þegar fall nafnorðsins endar á sérhljóða eða "r" í fleirtölu. Viðskeyttur greinir. Nokkur sérnöfn í íslensku eru nær alltaf rituð með viðskeyttum greini eins og Perla"n", Kringla"n", Jörð"in", Páfi"nn", Skeifa"n", Spöngi"n", irk"ið" og Esja"n". Í þýsku. Greinirinn í þýsku er breytilegur eftir falli orðsins en ólíkt íslensku, þá er hann aldrei viðskeyttur orðinu sjálfu, þótt það komi upp einhverjar aðstæður þar sem aðrir stafir eru viðskeyttir aftan við fallorðið. Greinirinn fylgir föstum reglum og eru engar undantekningar á honum sjálfum. Það feitletraða sýnir viðskeytið eftir falli, kyni og tölu. Eignarfornöfnin mein, dein, sein, ihr, unser, euer og ihr (Ihr ef þérun) taka líka að sér þessar endingar. Eins og sést á töflunum, þá er greinirinn fyrir fleirtöluna óháður kyni. Auk þess sést að óákveðni greinirinn tekur að sér endingarnar frá ákveðna greininum. Töluorð. Töluorð eru fallorð sem tákna tölu, röð, fjölda eða stærð einhvers. Þau bæta hvorki við sig greini né stigbreytast. Skipting. Töluorð skiptast í hrein töluorð eða frumtölur (t.d. "einn, tveir, þrír") og raðtölur (t.d. "fyrsti, annar, þriðji") og blönduð töluorð sem greinast í tölunafnorð ("tugur", "tvennd", "fjarki"...), tölulýsingarorð ("einfaldur", "þrefaldur", "sjötugur", "einir", "tvennir", "þrennir"), og töluatviksorð ("tvisvar", "tvívegis", "þrisvar" og "þrívegis"). Frumtölur. Frumtölur tákna tölur (einn, tveir, þrír, fjórir). Þær beygjast í föllum en fimm og framvegis beygjast ekki (eru eins í öllum föllum). Frumtölururnar "einn", "tveir", "þrír" og "fjórir" fallbeygjast sem og allar tölur sem innihalda áðurnefndar tölur ("tuttugu og einn", "fjörutíu og þrír", "níutíu og fjórir") og nokkrar aðrar tölur ("hundrað", "þúsund", "milljón" o.s.frv.). Annars fallbeygjast frumtölur ekki. Raðtölur. Raðtölur eru töluorð sem tákna röð ("fyrsti", "annar", "þriðji", "fjórði", "fimmti".. o.s.fv.) sem beygjast allar í föllum. Raðtölurnar beygjast yfirleitt eins og veik lýsingarorð í frumstigi (en þó ekki raðtölurnar "fyrsti" og "annar"). Annað. Með fleirtöluorðum eru notuð töluorðin "einir, tvennir, þrennir" og "fernir" en ekki fleiri. 1. FC Kaiserslautern. 1. FC Kaiserslautern (gælunafn: Rauðu djöflarnir) er þýskt knattspyrnufélag stofnað í Kaiserslautern í sambandslandinu Rheinland-Pfalz. Félagið varð til við samruna Germania 1896 og FG Kaiserslautern og hét félagið FC 1900. Eftir nokkra aðra samruna fékk félagið sitt endanlega nafn árið 1932. Saga félagsins. Fyrri hluta 20. aldar var félagið mestum í neðri deildum og eftir seinni heimsstyrjöldina var suðvestur hluti Þýskalands hernumin af Frökkum og spilaði FCK í norður/suður deild en síðar spiluðu þeir í Oberliga. Að lokum slepptu Frakkar tökum á fótboltanum og árið 1947 vann FC Kaiserslautern Norðurdeildina með yfirburðum og er það helst að þakka þeim bræðrum Ottmar og Fritz Walter. FC Kaiserslautern spilaði stóra rullu í þýska boltanum snemma á 6. áratugnum, en þeirra fyrsti Þýskalandsmeistaratitill var 1951. Á HM 1954 voru fimm leikmenn Kaiserslautern í liði Vestur-Þýskalands, en það ár varð Vestur Þýskaland heimsmeistari. Árið 1963 var núverandi Bundesliga sett á koppinn og var árangur Kaiserslautern það góður að þeir fengu aðvera í hóp 16 liða sem mynduðu þá deild. FC Kaiserslautern hefur oft spilað til úrslita í bikarnum en náði ekki alla leið í bikarnum fyrr en 1990. Ári seinna urðu þeir Þýskalandsmeistarar. Árið 1996 urðu þeir bikarmeistarar en lentu það ár í 16. sæti í Bundesligu og féllu þar með. Árið 1997 spiluðu þeir því í 2. Bundesligu en komust örugglega upp. Eitt merkasta ár í sögu rauðu djöflana var árið 1998 en þá náðu þeir því einstaka afreki að sigra deildina undir stjórn Ottho Rehagel. Er það í fyrsta skipti í sögu deildarinnar að lið sem er nýkomið upp sigri á sínu fyrsta ári. Síðasti áratugur hefur verið félaginu þungur í skaut. Miklir fjárhagserfiðleikar, m.a. vegna byggingar nýs leikvangs hafa gert félaginu erfitt fyrir. FC Kaiserslautern er nú á hraðri leið upp í deild þeirra bestu, Bundesliguna, en liðið er með afgerandi forustu í Bundesligu 2. Liðið afrekaði það að slá út hið taplausa lið Bayer Leverkusen í DFB bikarnum en beið lægri hlut gegn Werder Bremen, sem nú er komið alla leið í úrslit. Hetjur FCK. Þekktustu nöfn FCK eru bræðurnir Ottmar og Fritz Walter, Werner Kohlmeyer, Horst Eckel og Werner Liebrich. Eiga þessir leikmenn það sameiginlegt að hafa orðið heimsmeistarar með Vestur Þýskalandi 1954. Að öllum öðrum ólöstuðum er nafn Fritz Walters þekktast. Þekktir leikmenn hin síðari ár má nefna Andreas Brehme (1981-1986), Hans-Peter Briegel, Mario Basler (1989-1991 og 2003-2004), Michael Ballack (1997-1999), Miroslav Klose (1999-2004) Fritz Walter. Fritz fæddist 31. október 1920 í Kaiserslautern og spilaði allan sinn feril með félaginu eða til ársins 1959. Fritz spilaði 379 leiki fyrir félagið og gerði 306 mörk. Hann varð Þýskalandsmeistari 1951 og 1953. Fritz Walter spilaði 61 sinni fyrir hönd Þýskalands og gerði 33 mörk. Fritz Walter hlaut ýmsar viðurkenningar m.a. frá FIFA og DFB. Fritz var dáður hjá aðdáendum félagsins og mun nafn hans vera ódauðlegt í hugum margra FCK aðdáenda. Árið 2000 var nýr leikvangur félagsins skýrður í höfuð Fritz: Fritz Walter Stadium. Fritz Walter átti sér draum, en það var að sjá HM leik á Fritz Walter Stadium með bróður sínum Ottmar og vini þeirra Horst Eckel. Draumurinn rættist ekki en Fritz lést árið 2002 á 82. aldursári. Smáorð. Smáorð eru flokkur óbeygjanlegra orða (án fall- eða tíðbeyginga). Jóakim Aðalönd. Jóakim Aðalönd, eða Scrooge McDuck eins og hann heitir á frummálinu sínu, er móðurbróðir Andrésar Andar. Hann var skapaður af Carl Barks, einum þekktasta teiknara Disney-myndasagna. Hann kom fyrst fram í myndasögunni „Christmas on Bear Mountain“ og á að vera ríkasta önd í heimi. Fyrsti peningur sem hann vann sér inn var 10 krónur og var happapeningurinn hans. Það er mikið talað um fjársjóðsferðir hans og Gullæðið í Klondike. Stjórnvitringurinn (Platon). "Stjórnvitringurinn", "Stjórnspekingurinn" eða "Stjórnmálamaðurinn" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Verkið er í formi samræðu milli Sókratesar, Þeódórosar, nemanda hans, annars nemanda að nafni Sókrates (sem er nefndur Sókrates yngri) og ónafngreinds aðkomumans frá borginni Eleu. Samræðan er eins konar framhald samræðunnar "Fræðarinn", þar sem þeir Sókrates, Þeætetos og aðkomumaðurinn eiga í rökræðum. John M. Cooper segir megintilgang samræðunnar vera þann að útskýra að sérfræðiþekkingar sé þörf þeim sem stjórnar. Stjórnvitringurinn er sá sem býr yfir þessari sérfræðiþekkingu um hvernig eigi að stjórna réttlátlega og vel og með hagsmuni borgaranna að leiðarljósi. Þetta á ekki við um þá sem fara með völdin í raun, eins og aðkomumaðurinn bendir á. Þeir gefa í skyn að þeir búi yfir þessari þekkingu en eru í raun og veru bara eftirhermur. Atviksorð. Atviksorð eru smáorð sem beygjast hvorki í falli né í tíðum (óbeygjanleg) og lýsa því oft hvernig, hvar eða hvenær eitthvað gerist. Þau líkjast lýsingarorðum enda hafa atviksorð þá sérstöðu á meðal smáorða að sum atviksorð stigbreytast (eins og "‚aftur - aftar - aftast‘; ‚lengi - lengur - lengst‘; ‚inn - innar - innst‘; ‚vel - betur - best‘"), en eru þau þó annars eðlis en lýsingarorð. Fyrir utan stigbreytinguna eru þau óbeygjanleg eins og önnur smáorð. Oft eru atviksorð „stirðnuð“ föll, gamlir aukafallsliðir, og stundum álítamál hvernig greina skuli. Meginhlutverk atviksorða. Meginhlutverk atviksorða er að standa með sögnum, lýsingarorðum eða öðrum atviksorðum og skerpa eða að greina nánar um merkingu setningarinnar, eða orðanna sem þau standa með. Atviksorð standa ekki með nafnorðum. Að standa með sögnum. Atviksorð standa oftast með sögnum til að þrengja eða tilgreina nánar merkingu þeirra. Að standa með lýsingarorðum. Atviksorð geta staðið með lýsingarorðum og skerpt eða ákvarðað nánar merkingu þeirra. standa með öðrum atviksorðum. Atviksorð geta staðið með öðrum atviksorðum og ákvarðað enn frekar eða kveðið nánar á um merkingu þeirra. Flokkun atviksorða. Nokkur ao. standa utan allrar flokkunar; t.d. "ekki, já, nei, einnig, líka" o.s.frv. Atviksorð verður oftast að forsetningu þegar það stýrir falli en fallstýring er ekki hlutverk atviksorða. Hvorugkyn lýsingarorða verður oft að atviksorði. Atviksorð og lýsingarorð. Þótt atviksorðum svipi til lýsingarorða er setningarleg staða þeirra ólík, enda laga atviksorð sig ekki að fallorði en það gera lýsingarorð. Með því að breyta tölu fallorðsins eða kyni má greina hvort vafaorðið lagi sig að fallorðinu eða ekki. Algengt er að atviksorð hafi endinguna "-lega" (‚fallega‘, ‚bráðlega‘, ‚seinlega‘). Ef hægt er að setja endinguna "-lega" á vafaorðið án þess að merking setningarinnar afbakist er það oftast atviksorð. Íþróttabandalag Akraness. Íþróttabandalag Akraness (ÍA) er íþróttabandalag íþróttafélaga á Akranesi og starfar samkvæmt lögum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og íþróttalögum. Íþróttamaður Akraness. Íþróttamaður Akraness hefur verið valinn á hverju ári frá 1977 en þar áður hafði valið farið fram árin 1972 og 1965. Nafnháttarmerki. Nafnháttarmerkið er einfaldasti orðflokkurinn, en eina orðið í honum er óbeygjanlega smáorðið „að“ á undan sögn í nafnhætti (til dæmis „að tala“, „að lesa“) en þaðan kemur einmitt nafn orðflokksins. Nafnháttarmerki eru hvorki notuð á eftir núþálegu sögnunum „munu“, „skulu“, „mega“ og „vilja“ (til dæmis "ég skal koma") né í samhliða upptalningu í síðari lið eða liðum ("hann kann hvorki að lesa né skrifa", "hún var góð að reikna og skrifa"). Sagnir eru oft í nafnhætti þó að nafnháttarmerkið sé ekki til staðar. Orðið „að“ er ekki alltaf nafnháttarmerki- en það getur til dæmis verið atviksorð, forsetning og samtenging. Sjá greinina um orðið „að“. Upphrópun. Upphrópun er óbeygjanlegt smáorð sem hrópað eða kallað er upp og lýsir tilfinningum, t.d. undrun, gleði, viðbragð, ótta, afstöðu og sorg. Upphrópun getur jafngilt heilli setningu; t.d. "Ha?" Upphrópun getur stundum orðið að nafnorði, t.d. "Sagðirðu ha?". Bæta þær þá við sig greini eins og önnur nafnorð; "Þú ert nískur á jáin." Heimild. Upphrópun (skammstafað sem uh.) er óbeygjanlegt smáorð sem hrópað eða kallað er upp og lýsir tilfinningum, t.d. undrun, gleði, viðbragð, ótta, afstöðu og sorg. Samtenging. Samtenging er óbeygjanlegt smáorð sem tengir saman einstök orð, orðasambönd (t.d. "hnífur og skeið", "þetta er hnífur en hitt er skeið") eða setningar. Samtengingar eru ýmist eitt orð (einyrtar samtengingar) eða fleiri (fleiryrtar eða fleygaðar samtengingar). t.d. "og - eða, svo - að, af því að, hvorki - né" o.s.frv. Flokkanir. Samtengingar skiptast í tvo aðalflokka eftir setningarhlutverkum, aðaltengingar og aukatengingar. Aðaltengingar. Aðaltengingar tengja saman einstök orð eða setningarliði, tvær hliðstæðar aðalsetningar eða tvær eða fleiri aukasetningar. Aukatengingar. Mörg orð geta eftir stöðu sinni og merkingu tilheyrt samtengingum eða öðrum orðflokkum. Til dæmis eru orðin "þegar, og, síðan" ýmist samtengingar eða atviksorð; "þegar" er atviksorð þegar það merkir "undireins, strax" en annars samtenging; "og" er atviksorð þegar það merkir "líka, einnig" en annars samtenging; "síðan" er samtenging þegar hægt er að setja "eftir" í þess stað (t.d. "margt hefur gerst síðan við hittumst") enn annars er það atvikorð og má þá setja "eftir það" í stað þess (t.d. "ég hef ekki séð hann síðan"). Evripídes. Evripídes (forngríska: "Ευριπίδης"; um 480 – 406 f.Kr.) var yngstur stóru harmleikjaskáldanna þriggja (hin voru Sófókles og Æskýlos) sem sömdu fyrir Díonýsosarhátíðina í Aþenu. Í fornöld var talið að hann hefði skrifað 92 verk, en fjögur þeirra eru líklega eftir Kritías. Átján verk eru enn til í heilu lagi, en misstór brot af flestum hinna eru þekkt. Hann er einnig þekktur fyrir að hafa samið "Kýklópann", eina satýrleikinn sem enn er til í heilu lagi. Meðal þekktustu verk hans eru harmleikirnir "Alkestis", "Medea", "Elektra" og "Bakkynjurnar". Evripídes er frægur fyrir lýsingar sínar á lyndiseinkunnum og skapbrigðum karla og kvenna, enda er mælt að Sófókles hafi sagt: "Ég lýsi mönnunum eins og þeir ættu að vera en Evripídes eins og þeir eru". Hildegard von Bingen. Hildegard von Bingen úr miðaldahandriti. Hildegard von Bingen (íslenska: "Hildigerður frá Bingen") (16. september 1098 – 17. september 1179) var abbadís af Benediktsreglu, dulspekingur, rithöfundur og tónskáld frá Rínarlöndum í hinu Heilaga rómverska keisaradæmi. Hún þótti framúrskarandi predikari og skrifaði bækur sem fjalla um guðfræði, læknisfræði og lífeðlisfræði. Hún skildi eftir sig níu bækur, yfir hundrað bréf, 72 lög og 70 ljóð. Hún var einnig sterkur leiðtogi kvenþjóðarinnar til jafnréttis. Ævisaga. Það er ekki alveg vitað hvenær Hildegard fæddist en ályktað er að hún hafi fæðst árið 1098. Hún fæddist inn í aðalsætt og var tíunda barn foreldra sinna. Frá því Hildegard var lítil sá hún ýmsar sýnir og varð fyrir opinberunum, hún átti einnig við ýmis veikindi að stríða. Foreldrar Hildegard, Hildebert og Mechthilde, gáfu hana unga að aldri, líklegast átta ára, í klaustur í Rínarlöndunum þar sem hún fékk handleiðslu nunnu sem hét Jutta. Í klaustrinu lærði Hildegard að lesa, skrifa og syngja á latínu. Þær lásu einnig saman úr Biblíukvæðum og sálmum, hugleiddu, fóru með bænir og unnu handavinnu. Á þessum tíma er talið að Hildegard hafi lært að spila á saltara. Þá fékk Hildegard oft heimsókn frá Volmar, sem hugsanlega kenndi henni einfalda nótnaskrift sem varð til þess að Hildegard leiddist áfram í nótnaskrifum og fór að semja sjálf. Þegar Jutta lést bað Abbot Kuno, ábótinn af Disibondenberg, Hildegard að gerast abbadís. Hildegard vildi hinsvegar meiri sjálfstæði fyrir sig og nunnurnar og spurði Abbot Kuno hvort þær mættu flytja til Rupertsberg, ætlunin var að koma upp nunnuklaustri. Ábótinn neitaði því en þá fór Hildegard til erkibiskupsins, Henrys I af Mainz, og fékk samþykki frá honum. Þegar átti svo að flytja nunnurnar varð Hildegard svo veik að hún var rúmliggjandi og gat ekki hreyft sig. Ábótinn ákvað þá að vera samvinnuþýður og hjálpaði nunnunum að flytja og færði þeim þeirra eigin klaustur í Rupertsberg. Hildegard ásamt tuttugu nunnum fluttu til Sankti Rupertsberg klaustursins árið 1150, Volmar varð forstöðumaður klaustursins ásamt ritari Hildegard. Árið 1165 stofnaði Hildegard annað klaustur fyrir nunnurnar sínar í Eibingen. Hildegard sagðist hafa fyrst séð óvenjulegar sýnir þegar hún var þriggja ára en fór ekki að skilja þær almennilega fyrr en um fimm ára aldur. Hún áttaði sig á því að þetta voru hæfileikar sem hún gat ekki útskýrt fyrir öðrum. Hildegard útskýrði að hún sá ljós guðs í gegnum skilningarvitin fimm: sjónina, bragðið, skynið, heyrnina og lyktina. Í fyrstu hikaði Hildegard við að deila sýnum hennar með öðrum, hún sagði bara Juttu frá sem síðan sagði Volmar frá, kennara Hildegard og ritara seinna meir. Í gegnum lífið fékk Hildegard margar sýnir og árið 1141, þá 42 ára að aldri, fékk hún þá sýn að sögn frá guði að hún ætti að skrifa niður það sem hún sá og heyrði en þá var hún enn þá mjög hikandi að segja frá hæfileikum sínum. Með því að skrifa allt niður myndi hún öðlast traust almúganns. Hildegard lést 17. september árið 1179, þá 81 ára. Þegar hún lá fyrir dauðanum sögðust nunnurnar hafa séð tvo ljósageisla koma ofan frá himninum og inn þar sem hún lá. Helstu afrek. Eitt þekktasta verk Hildegard er siðaleikritið Ordo Virtutum og er talið að hún hafi samið það 1151. Siðaleikritið samastendur af einradda söng og sextán köflum af vel sömdu efni. Í framhaldinu af Ordo Virtutum samdi Hildegard mikið af helgisöngvum, þeim var svo safnað saman í eitt verk kallað Symphonia armoniae celestium revelationum. Sinfónían inniheldur víxlsöng, sálma, keðjusöngva og svörun. Tónlist Hildegard er einrödduð og helst sjaldan inn fyrir söngsvið hvers raddar. Það er hægt að sjá mjög sterkt samband á milli textans og lagsins en það var ekki algengt á þessum tíma. Lög hennar bjóða einnig upp á margs konar túlkunnarmöguleika. Í framhaldi af tónlistinni skrifaði Hildegard þar að auki þrjár bækur um yfirnáttúrulegar sýnir. Fyrsta bókin heitir Scivias og lauk hún henni árið 1151. Bækurnar "Liber Vitae meritorum" og "De operatione Dei" komu þar í kjölfarið, seinustu bókinni lauk hún þá 75 ára að aldri. Í bókunum byrjar hún á því að segja frá sínum sýnum og skrifar svo um biblíuskýringuna á þeim. Bækurnar voru samþykktar af páfanum og voru mjög vinsælar í kjölfarið, þær voru svo prentaðar í París árið 1513 vegna mikillra vinsælda á miðöldum. Ásamt því að skrifa bækur um sýnir skrifaði Hildegard einnig texta um lækningarmátt náttúrunnar, sem ber nafnið "Causae et Curae". Í textanum lýsir Hilegard náttúrunni í kringum hana, þar á meðal alheiminum, dýrunum, plöntunum, steinunum og steinefnunum. Hún sagði að „allir hlutir sem settir eru á jörðina eru fyrir mennina“. Hildegard var mjög áhugasöm um náttúruvernd og var mjög vel þekkt fyrir lækningarmáttinn hennar þar sem hún notaðist við ýmsar jurtir, tinktúrur og eðalsteina. Eitt dæmið um lækningarmátt hennar var þegar hún gaf blindum manni sjón með því að nota Rínarvatnið. Hildegard útbjó einnig til stafróf sem hún notaði við skrif sín á latínu, kallað Litterae Ignota, þetta var hennar nútímalega latína. Stafrófið hennar hafði marga kosti yfir það stafróf sem var í notagildi þá og það var hægt að mynda orðin mun betur en áður. Hildegard notaði einnig stafrófið til að mynda samstöðu innan nunnuklaustursins. Öll skrif Hildegard, tónverk, bækur og textar eru hýst í handritageymslu í Riesenkodex. Tenglar. Von Bingen, Hildegard Von Bingen, Hildegard Von Bingen, Hildegard Forsetning. Sumar forsetningar (á, eftir, fyrir, í, með, undir, við, yfir) geta stýrt tveimur föllum, t.d. "Í stofuna" (þf.), "Í stofunni" (þgf.). Merking ræður þessu; hreyfing eða stefna er alltaf í þolfalli en dvöl eða kyrrstaða í þágufalli; t.d. Hann lagði blaðið "á borðið" (þf.), blaðið liggur "á borðinu" (þgf.). Forsetning og fallorð mynda sameiginlega forsetningarlið; t.d. þeir tala "um bóndann" (fs. + no.). Fleiri en eitt fallorð geta fylgt forsetningunni og myndað forsetningarliðinn; t.d. "frá gamla manninum". Forsetningarliðir mynda merkingarheild og verða ekki slitnir í sundur þótt orðaröðin breytist; t.d. hann kemur "í dag", "í dag" kemur hann. Forsetning getur staðið ein og sér, þ.e. án fallorðs, en verður þá að atviksorði; t.d. ég þakka "fyrir" (fallorði sleppt). Að sama skapi eru margar forsetningar upprunalega atviksorð sem verða að forsetningum þegar þau stýra falli, t.d. garðurinn er "neðan" árinnar. Orðin fram, heim, inn, út, upp, niður eru aldrei forsetningar í íslensku. Afturbeygt fornafn. Afturbeygða fornafnið er fornafn sem er ekki til í nefnifalli heldur beygist það bara í aukaföllum (þolfalli, þágufalli og eignarfalli) og vísar það til frumlagsins í setningunni. Í íslensku. Aðeins er til eitt afturbeygt fornafn í íslensku eða orðið sig. Beygist það eins í öllum kynjum (hún elskar sig, hann elskar sig, það elskar sig) og báðum tölum (hann drap sig, þeir drápu sig). Dæmi. Afturbeygða fornafnið vísar aftur til þriðju persónu sem áður hefur verið tiltekin og af því er nafn þess dregið; „Afturbeygða eignarfornafnið“. Sumir málfræðingar telja eignarfornafnið "sinn" eiga heima í flokki afturbeygðra fornafna þar eð það vísar aftur til þriðju persónu. Þessi skilgreining er umdeild og á sér ekki hefð í íslenskri málfræði. Sinn er þó stundum kallað „afturbeygt eignarfornafn“. Í latínu. Aðeins er til eitt afturbeygt fornafn í latínu og er það orðið "se". Beygist það í öllum föllum nema nefnifalli og staðarfalli. Flateyjarhreppur (S-Þingeyjarsýslu). Flateyjarhreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu norðvestanverðri. Náði hann yfir Flatey á Skjálfanda og fimm bæi á Flateyjardal uppi á landi. Hreppurinn var stofnaður árið 1907 en hafði fram að því tilheyrt Hálshreppi. Flateyjardalur fór í eyði 1953 en byggð hélst úti í Flatey til ársins 1967 en þá fluttust síðustu íbúarnir á brott. Flateyjarhreppur var sameinaður Hálshreppi á ný 1. mars 1972. Helgastaðahreppur. Helgastaðahreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, kenndur við bæinn Helgastaði í Reykjadal. Helgastaðahreppi var skipt í tvennt undir lok 19. aldar, í Aðaldælahrepp og Reykdælahrepp. Eignarfornafn. Eignarfornöfn eru fornöfn og eru helst "minn" og "þinn" í íslensku en "vor" og "sinn" teljast einnig til eignarfornafna. Sumir málfræðingar telja eignarfornafnið "sinn" eiga heima í flokki afturbeygðra fornafna þar eð það vísar aftur til þriðju persónu. Þessi skilgreining er umdeild enda nýleg og á sér ekki hefð í íslenskri málfræði. Í fornu máli voru eignarfornöfn þremur fleiri: okkarr, ykkarr og yðarr. Þau beygðust öll á sama veg og nokkurn veginn eins og fornöfnin "annar" og "nokkur" í nútímamáli. Eignarfornöfnin í íslensku. Á íslensku er meginreglan að hafa eignarfornöfn á eftir, en ekki á undan nafnorði. Dæmi: "Sonur minn er tólf ára". Óeðlilegt þykir að snúa þessu við og segja: "Minn sonur er tólf ára" þar eð slík orðaröð er ekki eðlileg í íslensku (heldur í ensku). En frá þessari meginreglu er undantekning og hún er veigamikil. Ef leggja þarf sérstaka áherslu á eignarfornafnið, er réttlætanlegt að færa það fram fyrir. Dæmi: "Vera má að þú hafir mikið fylgi, en minn stuðning færðu aldrei". Það er þó ekki einhlítt. Í töluðu máli má ná réttum tóni, þótt orðaröðin sé eftir venjulegum lögmálum tungunnar. "En stuðning minn færðu aldrei". Fleira kemur til sem undantekning frá meginreglunni. Það eru föst orðatiltæki t.d. Eins og: "Sinn er siður í landi hverju". Einnig má líta til orða Benedikts Gröndal: "Mitt er að yrkja, ykkar að skilja". Sitthvað í kveðskap lætur oft meginregluna lönd og leið vegna hrynjandi, ríms og stuðla, og jafnvel tilfinningalegra blæbrigða, og þá getur jafnvel verið „rétt“ að hafa eignarfornafnið fyrirsett. En meginreglan er samt sterk í íslensku, eins og sést t.d. á orðum Rósu Guðmundsdóttur frá Fornhaga: "Augun mín og augun þín'", ó, þá fögru steina!"... Hin forna beyging á vor. Athugið að stofninn oss- í fornmáli kemur því aðeins fyrir, að endingin byrji á sérhljóða, en stofninn ór- því aðeins, að endingin byrji á sérhljóða eða fallið sé endingarlaust. Annars er stofn orðsins í fornmáli vár-, miðmáli vór-, og í nýmáli vor-. „Afturbeygt eignarfornafn“. Sinn er stundum nefnt eina „afturbeygða eignarfornafnið“, þó það sé umdeilt. Ábendingarfornafn. Ábendingarfornöfn eru fornöfn sem „benda á“ aðra hluti eða fyrirbæri en þaðan er kemur nafnið. Ábendingarfornöfn í íslensku. Í íslensku eru aðeins þrjú orð sem flokkast sem ábendingarfornöfn en það eru fornöfnin "sá", "þessi" og "hinn". "Hitt" beygist eins og greinirinn nema í nefnifalli og þolfalli í hvorugkyni þar sem ábendingarfornafnið er h"itt" en greinirinn "hið". Eins og greinir tengja hliðstæð ábendingarfornöfn nafnorðið sem þau standa með við þekktar persónur, hluti eða hugmyndir; "þessi maður er ágætis náungi", "hinn maðurinn er óþokki". Sérstæð ábendingarfornöfn jafngilda fornafni og nafnorði; "sá er góður". Óákveðin ábendingarfornöfn eru orðin "slíkur, sjálfur, samur (sami), þvílíkur" og beygjast þau sem sterk lýsingarorð. Spurnarfornafn. Spurnarfornöfn eru í íslensku fornöfnin hver, hvor, hvaða og hvílíkur. "Hvað" var upphaflega sérstakt fornafn en hefur runnið saman við "hver" og er nú aðeins notað sérstætt. "Hvor" beygist eins og eignarfornafnið vor en hvaða hefur sömu mynd í öllum kynjum og föllum og báðum tölum. Það notað um annan af tveimur; t.d. "hvor strákanna skrópaði"? "Hvílíkur" beygist eins og sterkt lýsingarorð (ríkur). Það er oftast notað í upphrópunum; t.d. "hvílík vitleysa!" "Hver" og "hvor" geta einnig verið óákveðin fornöfn en þá má setja "sérhver" í stað hver og "hvor um sig" fyrir hvor; t.d. "hver (sérhver) er sjálfum sér næstur", "hann gaf hvorum drengjanna (hvorum um sig) snoppung". Tilvísunarfornafn. Tilvísunarfornafn er fornafn sem er að margra dómi ekki til í íslensku. Orðin "sem" og "er" eru þá talin tilvísunartengingar enda eru þau óbeygjanleg (standa í sama kyni og tölu og fallorðið sem þau vísa til) og standa fremst í aukasetningum eins og aðrar tengingar. Það þykir málgalli, þegar tengiorðinu að er hnýtt aftan í tilvísunarfornafnið sem, Gavrilo Princip. Princip í fangelsi í Theresienstadt Gavrilo Princip (serbnesk kyrillíska: "Гаврило Принцип"; 25. júlí 1894 – 28. apríl 1918) var Bosníuserbi sem barðist fyrir þann málstað að allir Suður-Slavar fengju sjálfstæði frá Austurríki-Ungverjalandi og að Bosnía yrði hluti Serbíu. Hann myrti Frans Ferdinand erkihertoga, ríkisarfa Austurrísk-ungverska keisaradæmisins og eiginkonu hans, Soffíu af Hohenberg, þegar þau voru í opinberri heimsókn í Sarajevó 28. júní 1914. Atvikið, sem varð þekkt sem morðin í Sarajevó, varð til þess að Austurríki lýsti yfir stríði á hendur Serbum, sem aftur leiddi af sér fyrri heimsstyrjöldina. Fidel Castro. Fidel Alejandro Castro Ruz (f. 13. ágúst 1926) er fyrrverandi forseti Kúbu og ríkti sem einræðisherra. Hann leiddi byltinguna á Kúbu, ásamt Che Guevara og fleirum, og hafði sigur 1. janúar 1959. Hann varð forsætisráðherra Kúbu 18. febrúar það ár. Brátt kólnuðu samskipti Kúbu og Bandaríkjanna þegar stjórn Castros hóf að taka eignarnámi land sem tilheyrði bandarískum stórfyrirtækjum eins og United Fruit. Stjórnin hallaði sér þá að Sovétríkjunum og undirritaði olíukaupasamning við þau 1960. Castro og stjórn hans breyttu Kúbu smám saman í flokksræði þar sem komið var á samyrkjubúum í landbúnaði, land tekið eignarnámi og iðnaður þjóðnýttur. Innrásin í Svínaflóa. Strax 1961 voru Bandaríkjamenn orðnir staðráðnir í að koma honum frá völdum og CIA skipulagði innrásina í Svínaflóa sem mistókst gersamlega. 1. maí sama ár lýsti Castro því yfir að Kúba væri sósíalískt ríki og afnam frjálsar kosningar. 7. febrúar 1962 settu Bandaríkin algjört viðskiptabann á Kúbu. Kúbudeilan. Spennan magnaðist enn árið 1962 þegar Kúbudeilan hófst við það að skip frá Sovétríkjunum reyndu að flytja miðdrægar eldflaugar til Kúbu. Bandaríkjamenn brugðust við með því að mynda varnarhring skipa um Kúbu sem stöðvuðu og leituðu í öllum skipum sem hugðust sigla til eyjunnar. Kúbverjar óttuðust innrás Bandaríkjamanna svo á endanum varð samkomulag milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna að Sovétríkin hættu við uppsetningu eldflauganna á Kúbu gegn því að Bandaríkjamenn hyrfu á brott frá ströndum Kúbu og að þeir fjarlægðu sams konar eldflaugar sem beindust gegn Sovétríkjunum á Ítalíu og í Tyrklandi. Deilan er almennt talin það einstaka atvik á tímum Kalda stríðsins sem helst hefði getað leitt til kjarnorkustyrjaldar. Eftir Kúbudeiluna var Kúba örugglega á áhrifasvæði Sovétríkjanna sem keyptu útflutningsvörur þeirra og styrktu efnahag landsins með ýmsum hætti. Eftir fall Sovétríkjanna 1989 lenti Kúba í alvarlegum efnahagsþrengingum þegar viðskiptabannið fór fyrir alvöru að segja til sín. Frá 1991 hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmt viðskiptabannið á hverju ári. Einræðisstjórn Castros. Strax eftir valdatöku sína lét Castro taka af lífi helstu stuðningsmenn forvera síns, einræðisherrans Batista, líklega um 600 manns. Á sjöunda áratug voru milli sjö og tíu þúsund manns teknir af lífi af stjórnmálaástæðum á Kúbu og um 30 þúsund fangelsaðir fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Fljótlega eftir valdatöku Castros voru settar upp vinnubúðir, til dæmis El Manbu í Camagüey-héraði, þar sem þrjú þúsund stjórnmálafangar voru vistaðir. Talið er, að samtals hafi í stjórnartíð Castros um 100 þúsund Kúbverjar setið í fangelsi eða vinnubúðum og milli 15 og 17 þúsund manns verið teknir af lífi vegna stjórnmálaskoðana sinna. Fyrsta stjórnarár Castros flýðu um 50 þúsund manns lands, aðallega menntamenn, læknar, lögfræðingar og kennarar. Samtals er talið, að um tvær milljónir Kúbverja (af ellefu) séu landflótta erlendis, aðallega í Bandaríkjunum. Castro lét fyrstu stjórnarár sín handtaka marga fyrrverandi stuðningsmenn sína, meðal annars Hubert Matos, og halda yfir þeim sýndarréttarhöld. Stofnuð var stjórnmálalögregla til að hafa gætur á hugsanlegum andstæðingum sósíalistastjórnarinnar, Dirección General de Contra-Inteligencia (DGCI), sem stundum var kölluð „Rauða Gestapó“. Flugumenn Castro myrtu ýmsa andstæðinga hans erlendis, til dæmis Elias de la Torriente í Miami og Aldo Vera í Puerto Rico. Báðir höfðu þeir barist eins og Castro gegn Batista. Castro þrengdi frá upphafi mjög að kaþólsku kirkjunni. Í maí 1959 lokaði hann öllum háskólum hennar, og í september sama ár rak hann á annað hundrað presta úr landi. Njóta Kúbverjar enn mjög takmarkaðs trúfrelsis. Stjórnvöld á Kúbu hafa líka verið mjög fjandsamleg samkynhneigðu fólki. Ritskoðun stjórnvalda bitnaði einnig á rithöfundum. Skáldið Herberto Padilla flýði Kúbu 1980 og skáldið Reinaldo Arenas, sem hafði lengi setið í fangelsi fyrir skoðanir sínar, hvarf úr landi sama ár. Castro sendi kúbverskar hersveitir til Angóla, þar sem geisaði borgarastríð 1975-1989, og féllu milli sjö og ellefu þúsund hermenn hans þar. Veikindi og afsögn sem forseti. 21. júlí 2006 veiktist Castro alvarlega og lá sjúkralegu fram til 2. desember. Á meðan sat bróðir hans, Raul, um stjórnartaumana en í desember tilkynnti Fidel að hann væri á ný tekinn við sem forseti. Lítið hefur sést til hans eftir að hann veiktist og oft hafa vaknað spurningar hvort hann væri lífs eða liðinn. Fidel ríkti fram til 19. febrúar 2008 þegar hann ákvað að segja af sér. Tíðbeyging sagna. Eiginlegar tíðir sagna í íslensku eru tvær; nútíð og þátíð. Íslenskan gerir formlegan greinarmun á nútíð og þátíð sagna; "hann talar" (nt.), "hann talaði" (þt.). Þessar sex tíðir hafa allar sérstaka merkingu sem snertir stöðu atburðar eða verknaðar miðað við tímann í setningunni. Núliðin og þáliðin tíð gefa til kynna að verknaði sé lokið. Framtíð með munu lýsir óloknum verknaði en henni fylgir oft vafi. Hrein framtíð er oftast mynduð með nútíðarsniði; „Ég "tala" á morgun“. Þáframtíð segir að verknaði sé lokið en sýnir óvissu. Skildagatíðirnar tákna skilyrtan verknað. Hjálparsagnir geta verið fleiri en ‚hafa‘ og ‚munu‘, til dæmis ‚skulu‘, ‚vilja‘, ‚vera‘, ‚verða‘ og ‚ætla‘. Hættir sagna í íslensku. Sögn hefur svokallaða hætti eftir því hvernig eitthvað er látið í ljós. Hættirnir sýna afstöðu málnotanda til þess sem stendur í setningunni, svo sem vissu og óvissu, möguleika, skipun, ósk. Hættir íslenskra sagna greinast í persónuhætti og fallhætti. Persónuhættir. Persónuhættir eru þrír í íslensku (framsöguháttur, viðtengingarháttur og boðháttur) og beygjast eftir persónum. Framsöguháttur. Framsöguháttur lætur í ljós hlutlausa frásögn, beinar fullyrðingar (hvort sem þær eru sannar eða ósannar) og beinar spurningar. Dæmi: „ég "fer" á morgun“, „"ferðu" á morgun?“ Viðtengingarháttur. Viðtengingarháttur lætur í ljós eitthvað skilyrðisbundið, hugsanlegt, mögulegt, ósk, bæn og svo framvegis. Hann dregur nafn sitt af því að hann er mikið notaður þegar aukasetningar tengjast aðalsetningum. Dæmi: „ég kæmi ef ég gæti“ „ég færi ef ég treysti mér“, „ég held að hann komi.“ Viðtengingarháttur er til í persónum, tölum, tíðum og myndum. Boðháttur. Boðháttur lætur í ljós boð, beiðni eða skipun. Hann stendur alltaf fremst í setningu. Dæmi: „"Far"ðu.“ „"Kom" inn.“ Í íslensku er sögn í boðhætti í nútíð og aðeins í 2. persónu eintölu og fleirtölu. Nafnháttur. Nafnháttur er nafn sagnarinnar (nafnorðsmynd), svipað og nefnifall nafnorðs, og þekkist á smáorðinu (nafnháttarmerkinu) „að“ sem undanfara; „að vera“, „að fara“, „að geta“ og svo framvegis. Sagnir í nafnhætti enda oftast á "-a"; „lesa“, „skrifa“, „skoða“. Lýsingarháttur nútíðar. Lýsingarháttur nútíðar endar alltaf á -andi; „hlæjandi“, „hrífandi“, „sofandi“ og svo framvegis. Hann gegnir líku hlutverki og lýsingarorð. Sérstæður lýsingarháttur nútíðar verður stundum að nafnorði; „nemandi“, „verjandi“, „eigandi“ og svo framvegis og hafa slík orð fært sig í flokk nafnorða. Oft er orði, orðstofni eða forskeyti aukið framan við lýsingarhátt nútíðar og telst orðið þá lýsingarorð; til dæmis: „hálfgrátandi“ og „óalandi“. Lýsingarháttur þátíðar. Lýsingarháttur þátíðar gegnir einnig líku hlutverki og lýsingarorð og er stundum nefndur "lýsingarorð þolandans" vegna þess að oftast á hann við eitthvað sem einhver verður fyrir; til dæmis: „hann var "skammaður"“, „hún var "lamin"“. Lýsingarháttur þátíðar endar á "-ð, -d, -t" eða "-inn/-in, -ður, -dur, -tur" og fær endingar eftir kynjum og tölum eins og lýsingarorð, einn fallhátta; til dæmis „"brennt" barn forðast eldinn“, „engin verður "óbarinn" biskup“, „hann er "kominn"“. Lýsingarháttur þátíðar er notaður með sögnunum „hafa“, „vera“, „verða“; til dæmis: „hún hafði "sofið"“, „hann er "valinn"“, „hann verður "sóttur"“. Lýsingarháttur þátíðar kemur einnig oft fyrir með sögnunum „geta“, „eiga“ og „fá“; til dæmis: „ég get "farið"“, „hann fær engu "ráðið"“, „þú átt það "skilið."“. Stundum er orði, orðstofni eða forskeytið aukið framan við lýsingarhátt þátíðar; til dæmis: „útsofinn“, „alfarnir“, „ókomnir“ og ætti þá að greina hann sem lýsingarorð. Nicolas Poussin. Nicolas Poussin (15. júní 1594 – 19. nóvember 1665) var franskur listmálari sem hafði mikil áhrif á franska klassíska skólann í myndlist. Hann bjó lengst af í Róm utan þrjú ár þegar hann var hirðmálari hjá Loðvík 13. Myndefni hans var nánast allt tekið úr bókmenntum og sögu fornaldar. Fyrst um sinn málaði hann í stíl Caravaggios, líkt og flestir gerðu á þeim tíma, en síðar þróaði hann stíl sem markaði afturhvarf til einfaldleika klassíska stílsins sem átti eftir að einkenna evrópska myndlist meira en hundrað árum síðar. Hann var því heldur lítils metinn í Frakklandi barrokktímans á síðari hluta 17. aldar en varð fyrirmynd franskra listamanna á 18. og 19. öldinni eins og Jacques-Louis David og Paul Cézanne. Poussin, Nicolas Jackson Pollock. Paul Jackson Pollock (28. janúar 1912 – 11. ágúst 1956) var áhrifamikill bandarískur listmálari í bandarísku hreyfingunni sem var kennd við abstrakt expressjónisma, eða þá grein hennar sem kölluð var "action painting", eftir Síðari heimsstyrjöldina. Þekktasta tækni hans fólst í því að láta málningu drjúpa úr pensli á liggjandi léreft. Þetta varð til þess að hann fékk auknefnið „Jack the Dripper“. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í sýningarsal Peggy Guggenheim í New York árið 1943. Pollock átti við þunglyndi og áfengissýki að stríða og lést að lokum í bílslysi þar sem hann ók undir áhrifum. Reykjahreppur. Reykjahreppur var hreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, kenndur við bæinn Reyki í Reykjahverfi. Hreppurinn varð til úr syðri hluta Tjörneshrepps, þegar honum var skipt í tvennt 1. janúar 1933. 9. júní 2002 sameinaðist Reykjahreppur Húsavíkurkaupstað undir nafninu "Húsavíkurbær". Sagnmyndir. Sagnir hafa þrjár myndir, germynd, miðmynd og þolmynd. Ræðst notkun þeirra af því hvort áhersla er fremur lögð á geranda eða þolanda. Germynd. Germynd er algengasta sagnmyndin. Áherslan er á geranda setningarinnar; t.d. "Jón klæddi sig, móðirin klæðir drenginn." Miðmynd. Miðmynd þekkist á því að endingin "-st" (sem kallast miðmyndarending) bætist við germyndina (t.d. "Jón klæddist"). Á undan miðmyndarendingunni falla þó niður endingarnar "-ur", "-r" og "r-ð" Miðmynd segir frá því hvað gerandi/gerendur gerir/gera við eða fyrir sjálfan/sjálfa sig, t.d. "hann leggst, þeir berjast." Fyrir kemur að germynd lítur út sem miðmynd, t.d. "þú stökkst út í lækinn". Til að greina á milli er hentugt að skipta um persónu eða tölu; "þú stökkst út í lækinn - > ég stökk út í lækinn" - sem leiðir í ljós germynd þar eð endingin "-st" verður að vera í öllum persónum í miðmynd. Miðmyndarsögn. Sumar sagnir eru aðeins til miðmynd (t.d. sagnirnar "nálgast", "vingast", "óttast", "öðlast", "ferðast", "heppnast" og "kallast") og eru þær kallaðar "miðmyndarsagnir". Miðmyndarending. Miðmyndarending er endingin "-st" (áður "-zt" og í forníslensku "-sk") sem bætt er við germyndina til að mynda miðmynd. Miðmyndarendingin í forníslensku. Um árið 1200 endaði "-umk" í fyrstu persónu eintölu þar sem "-mk" hlutinn er komin af orðinu mik (gömul mynd persónufornafnsins mig), og í öllum öðrum beygingarmyndum endaði hún á "-sk" sem er komið orðinu sik (sem er gömul mynd afturbeygða fornafnsins sig). Upp úr 1200 fær 1. persóna einnig endinguna "-sk"/"-zk" í staðin fyrir "-mk". Hætt var að nota "-sk" um lok 13. aldar (um 1300) og endingin "-z" notuð í staðinn. Á 14. öld komu endigarnar "-zt" og "-zst" fram (og virðist framburðurinn þá orðinn "st" eins og hann er núna) en á 15. öld er endingin "-zt" nær eingöngu notuð. Á 15. öld koma fram nýjar endingar; "-nzt" og "-zt" og síðar "-nst" og "-st". Á 17. öld var farið að bæta við endinguna "-st" þannig að hún varð "-ustum" (berj"ustum"). Á 18. öld endurvöktu málhreinsunarmenn gömlu miðmyndarendinguna "-umst" og er það endingin sem notuð er í dag (köll"umst", berj"umst", elsk"umst"..) Og svo miðmyndarsögnin "kallast" sé tekin til dæmis í öllum persónum; Hin nýja þolmynd. Hin hefðbundna þolmynd sem notuð hefur verið í gegnum tíðina er notuð af bæði eldri og yngri málnotendum. En upp á síðkastið hafa margir yngri málnotendur tekið upp á því að nota það sem kallast nýju þolmyndina. Nafnháttur. Nafnháttur er einn fallhátta sagna. Nafnháttur er nafn sagnarinnar svipað og nefnifall nafnorðs, og þekkist oft á nafnháttarmerkinu að sem undanfara. Nafnháttur er algengastur í nútíð. Nafnháttur er oftast sú fyrsta kennimynd sagnar sem gefin er upp í orðabókum. Sagnbeyging. Beygingar sagna greina þær í flokkana veikar, sterkar og blandaðar sagnir. Frumhlutar sagnarinnar, sem aðrar orðmyndir hennar myndast af, kallast kennimyndir hennar. Strikið tilstrik (n-strik, strik sem er jafnbreytt bókstafinum "n") er stundum notað við upptalningu beygingarmynda. Veikar sagnir. Mun fleiri veikar sagnir eru að finna í íslensku en sterkar. Sterkar sagnir. Kemur þá stundum fram merkingarmunur eftir því hvort sögnin er veik eða sterk. Blandaðar sagnir. Til blandaðra sagna í íslensku teljast núþálegar sagnir og ri-sagnir. Núþálegar sagnir kallast svo sökum þess að nútíð sagnanna er er mynduð líkt og þátíð sterkra sagna, þ.e. með hljóðskiptum í stofni orðs. Þátíð þeirra er hins vegar veik og hefur sömu viðskeyti og þátíð veikra sagna. Þessar sagnir eru alls 11; "eiga, mega, knega, unna, kunna, muna, munu, skulu, þurfa, vita, vilja". ði-sagnir hafa endinguna ði í þátíð en beygjast að öðru leyti sem sterkar sagnir. Þær eru 4 í nútíma íslensku; "róa, gróa, rúa, snúa. Kennimyndir sagna. Kennimyndir sagna eru áþekkar kenniföllum nafnorða og taka mynd af háttum sagnarinnar. Af þeim eru aðrar myndir sagnarinnar dregnar. Önnur og þriðja kennimynd verða til af sagnarstofni (nafnháttur að frádreginni endingunni "-a") með endingum í þátíð; -aði, -ði, -di, -ti; og lýsingarhætti þátíðar; -að, -t. Orðabækur ættu að sýna þátíðarendingu veikra sagna; "mála, -aði;" en allar kennimyndir sterkra sagna (og núþálegra); "bíta, beit, bitum, bitið". Munu og skulu eru ófullkomnar sagnir og vantar því tvær síðustu kennimyndirnar en þó er til viðtengingarháttur þátíðar; mundi/myndi, skyldi. Afleiddar myndir sagna. Afleiddar myndir sagna myndast af kennimyndum. Tvær þeirra eru myndaðar af fyrstu kennimynd en ein ef þeirri þriðju. Auguste Rodin. François-Auguste-René Rodin (12. nóvember 1840 – 17. nóvember 1917) var franskur myndhöggvari. Hann var úr verkamannafjölskyldu en fékk ungur áhuga á myndlist. Hann ferðaðist til Ítalíu 1875 og varð fyrir miklum áhrifum frá verkum Michelangelos. Fyrstu verk hans sem sýnd voru opinberlega fengu á sig þá gagnrýni að þau væru of raunsæ og hann var ásakaður fyrir að taka mót af lifandi fólki. Þetta varð til þess að hann gætti þess síðar að hafa höggmyndir sínar ekki í réttri stærð. Með tímanum varð hann vinsæll meðal auðmanna í Frakklandi og víðar og fékk fjölda verkefna við gerð minnismerkja og brjóstmynda. Á heimssýningunni 1900 fékk hann sinn eigin bás en um aldamótin var hann orðinn einn af þekktustu listamönnum Frakklands og var með stóra vinnustofu með hóp nemenda og aðstoðarfólks. Upp úr aldamótunum fékkst hann einkum við að gera risaútgáfur af fyrri verkum sínum eins og "Hugsuðinum". 1905 gerðist Rainer Maria Rilke einkaritari hans í eitt ár. Rodin, Auguste Saga rokksins 1988 - 1993. "Saga rokksins 1988-1993" var önnur breiðskífa hljómsveitarinnar HAM sem kom út árið 1993. Platan var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna í flokkinum besta plata ársins. Lengi lifi. "Lengi lifi" er breiðskífa hljómsveitarinnar HAM og inniheldur upptökur frá yfirlýstum lokatónleikum hljómsveitarinnar á skemmtistaðnum Tunglinu þann 4. júní 1994. Stuttu eftir tónleika Ham, brann Tunglið. Árið 2009 var platan valin í 39. sæti yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum vefjarins Tónlist.is. Dauður hestur. Dauður hestur er breiðskífa hljómsveitarinnar HAM sem kom út eftir að hljómsveitin hafði lagt upp laupana. Platan inniheldur upptökur sem upphaflega voru aðeins ætlaðar fyrir kvikmyndina "Sódóma Reykjavík". Í þessum málum sem öðrum fóru Ham liðar yfir strikið og notuðu fjárveitingar frá framleiðendum kvikmyndarinnar til þess að taka upp heila plötu í stað þeirra nokkurra laga sem eru á plötu með kvikmyndatónlist úr "Sódómu Reykjavík". Þessi plata er ólík öðrum plötum Ham fyrir þær sakir að öll lögin eru sungin á ensku. Platan bar einnig heitin "Dead Horse", "En død hest" og "Equus Mortuus", sem sýndi alþjóðleika Ham liða. Listi yfir kirkjur á Íslandi. Eftirfarandi er listi yfir kirkjur á Íslandi. Frá fornu fari er talið frá fyrstu kirkju í Skálholtsbiskupsdæmi sem er Skeggjastaðakirkja í Múlaprófastsdæmi og svo réttsælis hringinn í kringum landið. Hér er miðað við stöðu prófastsdæma og prestakalla um aldamótin 2000 - 2001. Kirkjur á Íslandi eru á fjórða hundrað. Stjörnumerktar kirkjur (*) eru ekki sóknarkirkjur. Fylgihnöttur. Fylgihnöttur er geimfyrirbæri á sporbaug um mun massameira geimfyrirbæri, s.n. "móðurhnött". Reikistjarna er fylgihnöttur sólstjörnu, en oftast er átt við reikistjörnur sólkerfisins. Fylgihnettir reikistjarna nefnast tungl, en tunglið er eini fylgihnöttur jarðar. Þrívítt form. Kúla. Kúla er einfaldasta þrívíða formið, og einkennist af því að allir punktar á yfirborði hennar eru í sömu fjarlægð frá miðju hennar. Sívalningur. Sívalningur hefur hringlaga grunnflöt, og hliðar hans standa beint upp af grunnfletinum. Keila. Keila hefur hringlaga grunnflöt, en hliðar hans stefna inn að miðju eftir því sem ofar dregur og enda í punkti. Teningur. Teningur hefur ferningslaga grunnflöt og ferningslaga hliðar sem standa upp af grunnfletinum Falur Harðarson. Falur Harðarson (fæddur 1968 í Keflavík) er íslenskur körfuknattleiksmaður. Hann hóf ungur að æfa körfuknattleik og lék lengst af með Keflavík en lék einnig eitt ár með finnska liðinu ToPo Honka og einn vetur með KR. Hann lék einnig í fjögur ár í háskóla í Suður-Karólínu, Bandaríkjunum. Falur lék 106 A-landsleiki á ferlinum, síðast árið 2000. Eftir farsælan feril sem leikmaður tók Falur við þjálfun meistaraflokks karla hjá Keflavík ásamt Guðjóni Skúlasyni (2004-2005) og leiddu þeir félagar liðið til sigurs í Íslandsmótinu. Jacques Chirac. Jacques René Chirac (f. 29. nóvember 1932) er franskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti Frakklands. Hann var kosinn í embætti árið 1995 og aftur 2002 en síðara kjörtímabil hans rann út árið 2007. Í krafti embættis síns var hann einnig meðfursti Andorra og stórmeistari Frönsku heiðursfylkingarinnar. Áður var Chirac borgarstjóri Parísar 1977 til 1995 auk þess að gegna embætti forsætisráðherra tvívegis; fyrst 1974 til 1976 og aftur 1986 til 1988. Smaladrengirnir. Smaladrengirnir er hljómsveit, sem var stofnuð árið 1996 og voru fyrstu meðlimir hennar Bragi Þór Valsson, Óskar Þór Þráinsson, Viktor Már Bjarnason og Fjalar Sigurðarson. Fyrsta verkefni sveitarinnar var að spila í Gettu betur fyrir hönd MH. Ári síðar gengu þeir Hugi Þórðarson, Hjörtur Þorbjörnsson og Jóhannes Baldvin Jónsson í sveitina, og á vormánuðum 1998 Daníel Brandur Sigurgeirsson, en þá voru þeir Viktor og Fjalar hættir. Sumarið 1998 léku Smaladrengirnir í Galtalæk og voru þá skipaðir þeim Braga, Óskari, Huga, Hirti, Jóhannesi og Daníel. Eftir það hættu þeir Hjörtur og Jóhannes og komst hópurinn þar með í endanlega mynd. Vorið 1999 tók hópurinn þátt í Músíktilraunum og lék lögin "Whiskey on the way", "Í Músíktilraunum", og "Fiskarnir tveir". Ekki tókst þeim að komast úr undankeppninni en fengu þá umsögn hjá gagnrýnendum keppninnar að þeir hefðu sæmt sér vel á Íslandsmótinu í félagsvist. Tvö þessara laga rötuðu svo á fyrstu og einu breiðskífu hljómsveitarinnar, Strákapör, sem var gefin út haustið 2001. Hópurinn hefur svo leikið við ýmis tækifæri, þá aðallega á árshátíðum, afmælum, þorrablótum, kaffisamsætum, fermingum og öðrum samkomum. Pablo Picasso. Pablo Picasso (25. október 1881 – 8. apríl 1973) var spænskur listmálari og myndhöggvari og einn af þekktustu listamönnum 20. aldar. Hann er einkum þekktur fyrir að hafa þróað kúbismann ásamt Georges Braque. Picasso var sonur listamanns og listaskólakennara í Malaga. 1895 flutti fjölskyldan til Barselóna þar sem hann hóf nám hjá föður sínum. Hann hóf nám við Listaakademíuna í Barselóna en hvarf frá námi eftir nokkra mánuði og setti upp sína eigin vinnustofu. Þar tók hann upp ættarnafn móður sinnar, Picasso, til að honum yrði ekki ruglað saman við föður hans. 1904 flutti hann til Parísar þar sem hann bjó mestalla ævina eftir það, til 1961 þegar hann fluttist til Cannes. Áhugi á myndlist frá Afríku 1906 varð til þess að myndlist Picassos þróaðist út í það sem síðar var kallað kúbismi. 1907 sýndi hann verkið "Les Demoiselles d'Avignon" sem markar upphaf þeirrar listastefnu, þótt hún næði ekki hátindi sínum fyrr en tveimur árum síðar. Claude Monet. "Impression, soleil levant" eftir Monet sem impressjónisminn heitir eftir. Claude Monet (14. nóvember 1840 – 6. desember 1926) var franskur listmálari sem er einn af upphafsmönnum impressjónismans; listastefnu sem kom upp meðal listamanna í París á síðari hluta 19. aldar. Hann fékkst fyrst og fremst við landslagsmálverk sem hann málaði undir berum himni. Monet var giftur Camille Doncieux og áttu þau synina Jean og Michel. Eftir dauða Camille árið 1879 fór Monet að búa hjá Alice Hochedé sem sjálf átti 6 börn. Þegar fréttir bárust af dauða Ernest Hochedé 1892 gátu Alice og Monet loksins gift sig. Þau bjuggu í bænum Giverny en í garðinum þar málaði Monet margar frægustu myndir sínar. Monet, Claude Raffaello Sanzio. Raffaello Sanzio betur þekktur sem Rafael (6. apríl 1483 – 6. apríl 1520) var ítalskur listmálari og byggingameistari á endurreisnartímanum. Faðir hans var hirðmálari í Úrbínó. 1504 hélt hann til Flórens þar sem hann lærði hjá bæði Leonardo da Vinci og Michelangelo Buonarroti. 1508 flutti hann til Rómar þar sem hann var strax ráðinn af Júlíusi 2. til að mála sum af herbergjunum í páfahöllinni í Vatíkaninu. 1515 fékk hann það verkefni að sjá um skráningu og varðveislu fornra höggmynda í Vatíkansafninu. Andy Warhol. Andy Warhol (6. ágúst 1928 – 22. febrúar 1987) var bandarískur listamaður, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann var einn af frumkvöðlum popplistar í Bandaríkjunum á 6. áratugnum. Hann er einkum þekktur fyrir litsterk málverk og silkiþrykk með myndum af hversdagslegum hlutum. Hann fékkst einnig við myndir af frægum persónum eins og Marilyn Monroe, Elvis Presley, Elizabeth Taylor og Jacqueline Kennedy Onassis. Hann gerði yfir sextíu kvikmyndir og vann verkefni í kringum hljómsveitina Velvet Underground. Andy Warhol var 3 barn foreldra sinna þeirra Ondrej Varhola og júlia. Andy átti 2 eldri bærðu Paul (1923) og John (1925) Foreldrar Andy voru tékkóslóvenskir innflytjendur en þau komu til bandaríkjanna árið 1921. Andy útskrifaðist frá Schenley High School árið 1945. Eftir úrskrift var draumurinn að verða kennari í listgreinum en plönin breyttust snögglega þegar hann komst óvænt inn í Carnegie Institute of Technology og lærði hann þar aulýsingateiknun. Andy útskrifaðist árið 1949 með B.A gráðu í fagurlist og grafískri hönnun. Warhol, Andy Warhol, Andy Flatey á Skjálfanda. Flatey er eyja á Skjálfanda um 2,5 kílómetra frá landi utan við Flateyjardal. Hún er um 2,62 ferkílómetrar að flatarmáli og rís hæst 22 metra yfir sjó. Byggð var í eyjunni frá 12.öld fram til 1967 þegar hún lagðist af vegna einangrunar og skorts á endurnýjun fólks. Náði íbúafjöldi mest að vera 120 manns um 1943. Fiskveiðar voru aðalatvinnuvegur eyjaskeggja auk kvikfjárræktar en hlunnindi voru einnig nokkur af rekaviði, fuglavarpi og sel. Frá upphafi 20. aldar var í eyjunni starfrækt kaupfélag og barnaskóli sem m.a. íbúar á Flateyjardal sóttu þjónustu til enda hafnaraðstaða í eyjunni mun betri en í landi. Á móti kom að eyjaskeggjar sóttu kirkju að Brettingsstöðum á Flateyjardal allt þar til byggð í dalnum lagðist af (1953) og kirkjan var flutt út í Flatey (vígð að nýju 1960). Í eyjunni standa enn nokkur myndarleg hús sem haldið er við af afkomendum íbúa. Snæfjallaströnd. Snæfjallaströnd heitir landsvæðið við norðanvert Ísafjarðardjúp frá Kaldalóni að Jökulfjörðum. Sunnan við svæðið er Langadalsströnd. Engir bæir eru í byggð á ströndinni en nokkur eyðibýli. Skammt utan við ströndina er Æðey. Konstantínus mikli. Gaius Flavius Valerius Aurelius Constantinus (27. febrúar 272 – 22. maí 337), oft kallaður Konstantínus mikli eða heilagur Konstantínus (af austur-kaþólskum), var keisari Rómaveldis á árunum 306 til 337. Hann er frægastur fyrir að hafa lögleitt kristni inn í rómverska keisaradæmið árið 313 og fyrir að halda kirkjuþingið í Nikeu árið 325. Hann er einnig þekktur fyrir að hafa endurbyggt borgina Byzantion, sem hann nefndi þá "Nova Roma" (Nýja Róm), en nafni hennar var síðar breytt í Konstantínópel honum til heiðurs. Hann gerði hana að höfuðborg Rómaveldis og varð hún síðar höfuðborg austrómverska keisaradæmisins. Leiðin til valda. Konstantínus var sonur Constantiusar Chlorusar og Helenu. Constantius hafði verið í lífvarðasveit Aurelianusar og verið skipaður landsstjóri í Dalmatiu, af Diocletianusi. Árið 288 var Constantius skipaður yfirmaður lífvarðasveitar Maximianusar og giftist á svipuðum tíma Theodoru, stjúpdóttur Maximianusar, eftir að hafa skilið við Helenu. Árið 293 var fjórveldisskipulagið kynnt til sögunnar þegar Diocletianus og Maximianus (sem höfðu titilinn "augustus"), skipuðu hvor um sig einn undirkeisara ("caesar"). Constantius var útnefndur "caesar" í vesturhluta Rómaveldis af Maximianusi og á sama tíma útnefndi Diocletianus Galerius sem sinn undirkeisara. Eftir útnefningu föður síns flutti Konstantínus til hirðar Diocletianusar í Nicomediu (núverandi Izmit í Tyrklandi). Þegar Diocletianus og Maximianus sögðu af sér árið 305 varð Constantius "augustus" í vesturhluta Rómaveldis og Galerius í austurhlutanum. Við skipun undirkeisara var hinsvegar gengið var framhjá Konstantínusi því Flavius Valerius Severus var skipaður "caesar" í vesturhlutanum og Maximinus Daia í austurhlutanum. Að sama skapi var gengið framhjá Maxentiusi syni Maximianusar. Síðar á árinu 305 yfirgaf Konstantínus Nicomediu og fór ásamt föður sínum í herferð gegn Pictum í Skotlandi. Herferðin entist fram á árið 306 án teljandi árangurs en heilsa Constantiusar fór sífellt versnandi og hann lést í júlí 306, í Eboracum (York). Herdeildirnar í Bretlandi lýstu Konstantínus þá augustus yfir vesturhluta Rómaveldis en Galerius vildi að Severus yrði "augustus" og bauð Konstantínusi að verða "caesar", sem Konstantínus samþykkti. Svæðið sem Konstantínus stjórnaði var Bretland, Gallía, Hispania og sá hluti Germaniu sem var sunnan Rínar. Höfuðborg hans var Augusta Treverorum (Trier). Caesar í vesturhluta Rómaveldis. Stytta af Konstantínusi í York þar sem hann var fyrst hylltur sem keisari. Fjórveldisskipulagið stóð því enn; tveir yfirkeisarar ("augustus") og tveir undirkeisarar ("caesar"). Málin flæktust hinsvegar nokkrum mánuðum síðar þegar Maxentius var lýstur augustus í Róm. Severus fór þá með her gegn honum en Maxentius mútaði herdeildum Severusar og Severus var tekinn til fanga og síðar tekinn af lífi. Því næst freistaði Galerius þess að kveða niður þessa uppreisn Maxentiusar en mistókst að ná Róm á sitt vald og neiddist til að flýja. Konstantínus blandaði sér ekki í þessi átök í bili og hélt sínum herdeildum fyrir utan Ítalíu. Í stað þess einbeitti hann sér að því að tryggja landamæri ríkisins við Rín og barðist við Buctera og Franka. Maximianus steig þá aftur fram á sjónarsviðið og fékk Konstantínus til þess að lýsa yfir stuðningi við Maxentius en í staðinn studdi Maximianus að Konstantínus tæki sér titilinn "augustus". Til að innsigla samkomulagið giftist Konstantínus Faustu, dóttur Maximianusar. Konstantínus veitti Maxentiusi þó engann hernaðarlegan stuðning. Maximianus fór þá til sonar síns í Róm en sinnaðist fljótlega við hann og reyndi að ræna völdum af honum. Maxentius hafði hinsvegar meiri stuðning og Maximianus neyddist til að yfirgefa borgina. Árið 308 var svo haldin ráðstefna til þess að reyna að bjarga fjórveldisskipulaginu. Niðurstaða ráðstefnunnar var sú að Galerius var áfram "augustus" í austurhlutanum og Maximinus Daia var "caesar". Í vesturhlutanum var Licinius, vinur Galeriusar, skipaður "augustus" en Konstantínus var ennþá "caesar". Konstantínus hafði reyndar byrjað að kalla sjálfan sig "augustus" fyrir ráðstefnuna og hann hélt því áfram eftir hana. Maxentius og Maximianus voru hvorugur opinberlega viðurkenndir sem keisarar á ráðstefnunni, en Maxentius hafði þó ennþá stuðning í Róm. Maximianus dvaldi við hirð Konstantínusar í Gallíu á árunum 309 til 310 en gerði þá eina tilraun enn til þess að ná keisaratitli. Konstantínus hafði þá sett hann yfir hluta herafla síns, sem átti að vera til taks ef Maxentius myndi ráðast inn í Gallíu. Maximianus tilkynnti þá að Konstantínus hefði látist og lýsti sjálfan sig keisara. Hermennirnir voru hinsvegar hliðhollir Konstantínusi og Maximianus neyddist til að flyja. Konstantínus náði honum þó fljótlega og tók til fanga. Stuttu síðar framdi Maximianus sjálfsmorð. Átök um völdin. Licinius. Hann var fyrst bandamaður Konstantínusar en síðar andstæðingur. Fjórveldisskipulagið hrundi endanlega eftir að Galerius lést, árið 311. Í kjölfarið mynduðu Konstantínus og Licinius hernaðarbandalag gegn Maxentiusi og Maximinusi Daia. Licinius barðist við Maximinus um yfirráð yfir austurhlutanum á meðan Konstantínus barðist við Maxentius um völd í vesturhlutanum. Herir Konstantíusar og Maxentiusar mættust í þremur bardögum árið 312 og bar Konstantínus sigurorð í þeim öllum. Í síðasta bardaganum, við Milvian brúnna rétt fyrir utan Róm, féll Maxentius. Eftir það var Konstantínus eini keisarinn í vesturhlutanum. Árið 313 náði Licinius að sigra Maximinus Daia og tryggja sér þar með völd í austurhluta Rómaveldis. Heimsveldinu var nú skipt á milli þeirra; Licinius stjórnaði austurhlutanum og Konstantínus vesturhlutanum. Bandalag þeirra Konstantínusar og Liciniusar stóð þó ekki lengi því herir þeirra börðust í bardaga annaðhvort árið 314 eða 316 og í öðrum árið 317, en eftir það komust þeir að samkomulagi um vopnahlé og að þeir myndu skipa syni sína í stöðu undirkeisara. Crispus og Constantinus 2., synir Konstantínusar, og Licinianus, sonur Liciniusar, urðu því allir "caesar" árið 317. Næstu árin héldu Konstantínus og Licinius friðinn en stríð braust út á milli þeirra aftur árið 324. Ástæðan var sú að umburðarlyndi Liciniusar í garð kristinna var farið að minnka og það sætti Konstantínus sig ekki við. Herir þeirra mættust í þremur bardögum og hafði Konstantínus betur í þeim öllum. Í kjölfarið var Licinius tekinn af lífi og Konstantínus var einn keisari yfir öllu Rómaveldi eftir það. Konstantínus og kristni. Konstantínusar er einna helst minnst fyrir það að hafa verið fyrsti kristni keisari Rómaveldis. Það er ekki ljóst hvenær á lífsleiðinni hann snerist til kristinnar trúar en hann lét ekki skíra sig fyrr en árið 337, skömmu áður en hann lést. Árið 313 gáfu Konstantínus og Licinius út sameiginlega tilskipun sem kvað á um að öll trúarbrögð væru lögleg innan heimsveldisins. Þar með var ekki lengur refsivert að aðhyllast kristna trú. Alla tíð síðan hefur Konstantínus verið álitinn dýrlingur á meðal ýmissa kirkjudeilda. Árið 325 hélt Konstantínus kirkjuþingið í Nikeu. Þar var reynt að samþætta kenningar hinna mismunandi greina kristninnar sem þá höfðu myndast í Rómaveldi. Síðustu árin. Árið 326 lét Konstantínus taka son sinn Crispus og Faustu eiginkonu sína af lífi. Crispus var ekki sonur Faustu heldur Minervinu, fyrri konu Konstantínusar. Crispus hafði verið gerður að "caesar" árið 317 og hann hafði hjálpað föður sínum að sigra Licinius árið 324 er hann stýrði flota Konstantínusar sem bar sigurorð af flota Liciniusar. Ástæðurnar fyrir aftökunum eru ekki ljósar en hugsanlegt er að Crispus og Fausta hafi verið í leynilegu sambandi. Árið 330 gerði Konstantínus "Nova Roma" (sem hét áður Byzantion) að höfuðborg Rómaveldis. Borgin var þá stækkuð til muna og eftir dauða Konstantínusar var hún nefnd Konstantínópel honum til heiðurs. Hún var svo höfuðborg Austrómverska keisaradæmisins í yfir 1000 ár eftir það. Konstantínus var afar farsæll herforingi og eftir að hafa sameinað heimsveldið undir einum keisara einbeitti hann sér að því að berjast við germanska þjóðflokka á norður-landamærum ríkisins. Árið 332 barðist hann gegn Gotum og árið 334 gegn Sarmatium. Árið 337 hafði hann skipulagt mikla herferð gegn Persum en hann veiktist áður en af henni varð. Konstantínus lést 22. maí 337. Synir hans þrír, sem hann átti með Faustu, Constantinus 2., Constantius 2. og Constans tóku þá við af honum sem keisarar. Síðasti sameiginlegi forfaðir allra núlifandi lífvera. Þegar ættartré þeirra lífvera sem nú byggja jörðina er skoðað, virðist ljóst, meðal annars af sameiginlegri notkun allra lífvera á samsvarandi kjarnsýrum, að þessar lífverur eiga allar ættir sínar að rekja til sameiginlegs uppruna. Þar með virðist líklegt að á einhverjum tímapunkti lifði síðasta lífveran sem allar núlifandi lífverur geta rakið uppruna sinn til, þótt fátt sé vitað um þessa lífveru. Þessi lífvera hefur að öllum líkindum verið mjög einföld að gerð, og talið er að hún hafi lifað fyrir um 3,5 milljörðum ára síðan. Það er vert að geta þess að það er ekki sjálfgefið að þessi lífvera hafi verið einfaldasta lífvera sem hugsast getur, og þetta var að öllum líkindum ekki fyrsta lífveran. Auk þess er vel mögulegt að þegar þessi lífvera var á lífi hafi hún deilt jörðinni með öðrum lífverum sem ekki tókst að koma ár sinni jafnvel fyrir borð og dóu út Kjarnsýra. Kjarnsýra er lífefnafræðileg stórsameind sem gerð er úr línulegum fjölliðum af ýmist deoxýríbókirnum (DNA) eða ríbókirnum (RNA). Hlutverk kjarnsýra felst ýmist í að varðveita erfðaupplýsingar (DNA, RNA sumra veira) eða að hafa hvötunar-, stjórnunar- eða boðberavirkni (RNA). Mahathir bin Mohamad. Mahathir bin Mohamad (f. 10. júlí 1925) var forsætisráðherra í Malasíu frá 1981 til 2003. Í stjórnartíð hans tók efnahagslíf landsins miklum breytingum og framleiðsluiðnaður varð meginatvinnuvegur í stað landbúnaðar. Landið nútímavæddist hratt og lífsgæði jukust. Mahathir stjórnaði landinu í anda þjóðarkapítalisma, þar sem hagsmunir þjóðarinnar og stórfyrirtækja eru sagðir fara saman. Á stjórnartíð hans fór ríkið út í ýmis risaverkefni eins og byggingu Petronasturnanna sem voru hæsta bygging heims til ársins 2003. Jafnframt var hann gagnrýndur fyrir einræðistilburði gagnvart stjórnarandstöðunni. Ísafjarðardjúp. Firðir, þorp, eyjar og fjöll við Ísafjarðardjúp Ísafjarðardjúp heitir einn dýpsti fjörður á Íslandi og er hann eitt megineinkenni Vestfjarða enda sker hann næstum Vestfjarðarkjálkan sundur. Oft er nafn fjarðarins stytt og hann nefndur Djúpið. Í eldri heimildum er allur fjörðurinn nefndur Ísafjörður en Ísafjarðardjúp hétu hinir djúpu álar sem ganga út úr firðinum. Ísafjarðardjúp er um 20 km breitt við mynni þess, á milli Grænuhlíðar og Óshlíðar en er innar um 7 til 10 km að breidd. Frá mynni Djúpsins inn í botn innsta fjarðarins, Ísafjarðar, er um 120 km vegalengd. Inn úr Ísafjarðardjúpi ganga margir aðrir firðir og víkur; sunnan við Djúpið eru Bolungarvík, Skutulsfjörður, Álftafjörður, Seyðisfjörður, Hestfjörður, Skötufjörður, Mjóifjörður, Vatnsfjörður, Reykjarfjörður, Ísafjörður. Norðan Djúpsins er Kaldalón, Langadalsströnd og Snæfjallaströnd. Norðan við sjálft Djúpið eru Jökulfirðir. Við Djúpið standa fjórir þéttbýlisstaðir; Bolungarvík, Hnífsdalur (hluti Ísafjarðarbæjar), Ísafjörður (við Skutulsfjörð) og Súðavík (við Álftafjörð). Þrjár eyjar eru á Djúpinu; Æðey, Vigur og Borgarey. Paul Cézanne. Paul Cézanne, sjálfsmynd frá um 1875. Paul Cézanne (19. janúar 1839 – 22. október 1906) var franskur listmálari sem brúar bilið á milli impressjónisma 19. aldar og framúrstefnu fyrri hluta 20. aldar. Hann er þannig talinn til póstimpressjónista. Hann varð snemma fyrir áhrifum frá impressjónistanum Camille Pissarro og fékkst lengi vel við mannsmyndir í landslagi en áhersla hans á rúmfræðilegu formin í myndinni gerðu að hann varð síðar mikill áhrifavaldur hjá kúbistunum. Hann bjó við tiltölulega einangrun í Provençe í Suður-Frakklandi og sýndi lítið alla ævi. Michelangelo Buonarroti. Michelangelo di Lodovico Buonarroti (6. mars 1475 – 18. febrúar 1564) var ítalskur myndhöggvari, listmálari og arkitekt sem uppi var á endurreisnartímanum. Hann var gríðarlega fjölhæfur listamaður, vann ótrúlegt magn stórra listaverka og skildi jafnframt eftir sig mikið af bréfum, skyssum og minningaritum. Hann er sá listamaður 16. aldar sem hvað mest er vitað um. Með frægustu verkum hans eru höggmyndirnar "Davíð" og "Pietà", freskurnar í loftinu í Sixtínsku kapellunni og hvolfþakið á Péturskirkjunni í Róm. Rembrandt. Rembrandt Harmenszoon van Rijn (15. júlí 1606 – 4. október 1669) var hollenskur listmálari sem var uppi á tímabili sem kallað hefur verið "Gullöld Hollands". Hann er einkum þekktur fyrir myndir af fólki, persónusköpun og sterkar andstæður ljóss og skugga. Hann fékkst einnig við gerð prentmynda með ætingu. Hann málaði næstum hundrað sjálfsmyndir sem gefa einstaka mynd af því hvernig hann leit út á ólíkum æviskeiðum. Æviskeið Rembrandts. Rembrandt var fimmta barn málarans Harmens Gerritz(son) van Rijn. Börn hans voru allt í allt níu talsins. Þann 20. maí 1620 innritaðist Rembrandt í bókmennta- og heimspekideild háskólans í Leyden, fæðingarborg sinni í Hollandi. Hann var þá sextán ára. Háskólavistin varð þó ekki löng, því þegar á árinu 1621 er Rembrandt skráður lærisveinn í málarastofu Jacobs Izaacs Swaneburg. Tveimur árum síðar hélt hann í framhaldsnám til Amsterdam hjá Pieter Lastmann og ef til vill einnig hjá Jan Pijnas. Árið 1625 kom hann aftur til heimaborgar sinnar og opnaði málarastofu í félagi við jafnaldra sinn, Jan Lievens, og öðlaðist fljótt talsverðan frama. Árið 1632 sest hann að í húsi málarans, listaverkasalans og útgefandans Heyndricks Uylenburchs í Amsterdam. Tveimur árum seinna, eða árið 1634, kvænist hann Saskiu, auðgri dóttur Rombertus van Uylenbuchs, borgarráðsmans í Leewarden og mági Heyndricks. Þau höfðu þá verið trúlofuð frá því í júní árið áður. 1639 keypti Rembrandt stórglæsilegt íbúðarhús þar sem nú heitir Jodenbreestraat fyrir 13 þúsund flórínur. Húsið er enn til staðar og hýsir nú hið litla Rembrandtsafn, kallað Rembrandtshuis. Árið 1642, þann 5. júní, lést eiginkona hans, Saskia, og lætur eftir sig soninn Titus, sem fæddist í september árið áður. Rembrandt lét gera grafhvelfingu yfir hana í Oude Kerk (Gömlu kirkju). Árið eftir, 1643, réð hann til sín Geerthge Dircx sem barnfóstru Títusar. Milli þeirra þróaðist síðan samband, sem lauk árið 1649. Sama ár hóf Hendrickjie Stoffels, 23 ára gömul þjónustustúlka störf hjá Rembrandt. Árið 1654 var Rembrandt margsinnis kvaddur fyrir rétt til að svara til saka fyrir að hafa tekið sér Hendrickjie fyrir ástkonu. Hún hlaut þungar áminningar og var bönnuð altarisganga. Um líkt leyti fór að halla undan fæti hjá Rembrandt og fjárhagskröggur að hrjá hann. Á árunum 1656-7 lét Rembrandt selja eignir sínar á uppboði og fékk sér minna og yfirlætislausara húsnæði í Rosengraacht. Árið 1661 lést Hendrickje og átta árum síðar 1669 lést Rembrandt sjálfur, 63 ára gamall. Gas. a> er myndað úr mörgum lofttegundum. Gas eða lofttegund er efnishamur, sem einkennist af frjálsum frumeindum og sameindum, sem leitast við að fylla geyma, sem þau eru í. Loft er mikilvægasta gasblanda á jörðinni. Rafgas er efnishamur, sem einkum samanstendur af jónum. Sumt gas hegðar sér líkt og vökvar, en mynda ekkert skýrt yfirborð. Gas er mjög háð hita og þrýstingi og kjörgas er algengasta líkan af gasi sem notað er til að reikna breytingar í hita, þrýstingi eða þéttleika. Vatnsgufa er lofttegund. Þegar vatn sýður hættir hiti vatnsins að aukast og helst stöðugur í 100 °C. Við hamskiptin verður vatnið að vatnsgufu. Geimur. Lofthjúpur jarðar og geimurinn utan við hann (dökkbláa svæðið). Vetrarbrautin NGC 3628 er í geimnum í 35 milljóna ljósára fjarlægð frá Jörðu. Geimurinn nefnist rúmið, sem umlykur stjarnfræðileg fyrirbæri, þ.m.t. öll geimfyrirbæri, jörðina, sólkerfið, geimgeislun o.s.frv. Mestallur massi alheims er í geimfyrirbærum, svo sem í geimþokum, sólstjörnum og reikistjörnum, en milli þeirra er efnislítið rúm sem aðallega inniheldur vetni, algengasta efnið í alheimi. Auk vetnis er þar líka að finna rafsegulgeislun, rafsegulsvið, fiseindir og (samkvæmt kenningum) hulduefni og hulduorku. Mörk geimsins. Mörk geimsins eru skilgreiningaratriði; lofthjúpar reikistjarna enda ekki snögglega heldur þynnast smátt og smátt eftir því sem ofar dregur. Loftþrýstingurinn við lofthjúp jarðar í 100 km hæð er um 1 Pa. Þar eru dregin viðmiðunarmörk sem nefnd er "Kármánlínan". Þegar farið er framhjá henni verður erfitt að mæla loftþrýsting vegna áhrifa geislaþrýstings frá sólinni og vindþrýstings sólarvinda. Alþjóðastofnunin FAI (franska: "Fédération Aéronautique Internationale"), sem skilgreinir staðla sem varða íþróttir í háloftunum, miðar við að geimurinn hefjist við Kármán-línuna, í 100 km hæð yfir yfirborði jarðar. Í Bandaríkjunum teljast þeir hins vegar geimfarar sem ferðast í yfir 50 mílna hæð (um 80 km). Geimferðastofnun Bandaríkjanna miðar endurkomumörk geimferða við 76 mílur (122 km) þar sem lofthjúpsdraginn byrjar að vera áberandi. Eðli geimsins. Geimurinn er það fyrirbæri sem kemst næst því að vera tómarúm í náttúrulegu ástandi. Í geimnum er nær engin tregða og því geta sólstjörnur, reikistjörnur og tungl ferðast óhindraðar eftir sporbaugum sínum. En jafnvel í hinu efnisrýra fjargeimsefni eru talin vera nokkur vetnisatóm í hverjum rúmmetra (til samanburðar eru billjarðar vetnissameinda í hverjum rúmmetra af andrúmslofti á jörðinni). Þetta gerir það að verkum að rafsegulgeislun getur ferðast mjög langar vegalengdir. Í fjargeimsefni getur ein ljóseind ferðast milljarða ljósára. Hlutar geimsins. Geimurinn skiptist í mörg svæði eftir því hvaða umhverfi og „vindar“ eru ríkjandi á hverjum stað. Hlutar geimsins eru líka skilgreindir út frá fjarlægð þeirra frá jörðu. Grenndargeimur er sá hluti geimsins þar sem áhrifa jarðarinnar gætir mest. Hann nær frá efstu lögum lofthjúps jarðar og inniheldur rafhvolf jarðar og segulhvolf jarðar. Van Allen-beltið er líka í grenndargeimnum. Svæðið innan tunglbrautar er stundum kallað geimurinn neðan tungls. Nærgeimur er geimurinn í sólkerfi okkar. Hann er fullur af nærgeimsefni og nær út að sólhvörfum þar sem umhverfi Vetrarbrautarinnar byrjar að hafa meiri áhrif en segulsvið og öreindaflæði sólarinnar. Miðgeimur er geimurinn milli sólkerfanna í Vetrarbrautinni. Hann er fullur af miðgeimsefni og nær að útmörkum Vetrarbrautarinnar þar sem tómið milli stjörnuþoka tekur smám saman við. Lagaleg staða. Alþjóðalög um geiminn byggja á Samningi um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum frá 1967. Í samningnum er kveðið á um að öllum sé frjálst að kanna geiminn og einstök ríki geti ekki helgað sér hluta hans. Samningurinn bannar líka notkun kjarnavopna í geimnum. 1. janúar 2008 höfðu 98 ríki undirritað samninginn og önnur 27 ríki staðfest hann. Milli 1958 og 2008 hefur Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sett fram fjölda ályktana um geiminn. Yfir 50 ályktanir varða alþjóðlega samvinnu um friðsamleg markmið og hindrun vígbúnaðarkapphlaups í geimnum. Nefnd um friðsamlega nýtingu geimsins á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur auk þess lagt fram fjóra geimlagasamninga. Samningur um athafnir ríkja á tunglinu og öðrum himinhnöttum (Tunglsamningurinn) var saminn árið 1979 og fjallaði um alþjóðlega lögsögu yfir tunglinu, en ekkert ríki sem leggur stund á mannaðar geimferðir hefur staðfest hann. Rafsegulsvið. Rafsegulsvið er svið sem allar rafhlaðnar agnir mynda, og er viðfangsefni rafsegulfræði. Ef rafhlaðin ögn er kyrrstæð myndar hún rafsvið, en ef hún er á hreyfingu myndar hún bæði rafsvið og segulsvið. Raf- og segulsegulsvið eru ekki óháð hvort öðru, heldur nátengd hvort öðru þ.a. breytingar á öðru veldur breytingum á hinu. Því er eðlilegt að tala um rafsegulsvið, þegar fengist er við rafhlaðanar agnir í segulsviði (sjá Lorentzkraftur). Afstæðiskenningin sýndi fram á að hreyfing er afstæð, og ekki er hægt að segja til um hvort ögn er kyrrstæð eða ekki - það fer eftir áhorfandanum. Þar af leiðir að rafsvið og segulsvið eru órjúfanlega bundin, þar sem einn áhorfandi sér rafsvið sér annar segulsvið, og raunar lýsti Einstein segulsviðinu sem afstæða hluta rafsviðsins. Samverkun rafsviðs og segulsviðs var fyrst lýst á stærðfræðilegan hátt með jöfnum Maxwells. Rafsvið. Rafsvið er svið sem myndast í tímarúmi umhverfis rafhlaðnar agnir. "Styrkur rafsviðs" er táknaður með E og hefur SI-mælieininguna volt á metra, tákað með V/m. Rafsegulmagn er heiti á víxlverkun raf- og segulsviðs við rafhlaðna hluti, en því er lýst stærðfræðilega með jöfnum Maxwells. Coulombslögmál lýsir rafsviðskrafti milli tveggja punkthleðsla. þar sem P er "skautunarvigur" og ε0 er rafsvörunarstuðull lofttæmis. þar sem χ er einingarlaus stærð, s.n. "rafviðtak" og lýsir hvernig efnið bregst við ytra rafsviði. þar sem formula_5 er rafsvörunarstuðull. Segulsvið. a>svarf raðar sér samsíða segulsviðslínum umhverfis segul. Segulsvið er svið í tímarúmi þar sem segulkraftur verkar á rafhleðslur á ferð og segla. "Styrkur segulsviðs" er vigurstærð táknuð með B og hefur SI-mælieininguna tesla (T). Vigurstærðin H er einnig notuð yfir styrk segulsviðs, en hún hefur mælieininguna amper á metra (A/m). Tengsl vigranna tveggja H og B er B = μ H, þar sem μ er segulsvörunarstuðull. Segulsvið myndast umhverfis rafstraum, segla og breytileg rafsvið. Víxlverkun raf- og segulsviðs er lýst stærðfræðilega með jöfnum Maxwells. Loftsteinn. Loftsteinn er lítið himinfyrirbæri, sem aðdráttarafl jarðar dregur með miklum hraða um lofthjúpinn. Við ferð sína hitnar loftsteinninn mikið vegna núnings við sameindir andrúmsloftsins þannig að hann verður sjálflýsandi. Sést þá ljósrák á næturhimni og nefnist stjörnuhrap. Yfirleitt brenna loftsteinar til agna í lofthjúpinum en þeir stærstu lenda á yfirborðinu og mynda gíga. Minnstu loftsteinarnir eru á stærð við sandkorn, en þeir geta verið mun stærri. Hoba-loftsteinninn er stærsti loftsteinn sem fundist hefur á jörðu. Nánar um loftsteina. Loftsteinar eru efnisagnir utan úr geimnum sem dragst inn í gufuhvolfið vegna aðdráttarafls jarðar. Þegar þeir falla í átt til jarðar á leið sinnni gegnum gufuhvolfið, verða þeir glóandi af hitanum sem myndast vegna loftmótstöðunnar sem þeir verða fyrir. Flestir loftsteinar eru taldir mjög litlir, aðeins nokkur grömm. Þar af leiðandi brenna flestir þeirra upp í andrúmsloftinu á leið sinni til jarðar. Einstaka sinnum er loftsteinn það stór að hluti af honum kemst klakklaust gegnum allt gufuhvolfið og fellur á jörðina. Nokkrir slíkir hafa fundist og eru varðveittir á söfnum eða jafnvel þar sem þeir lentu. Loftsteinar eru gerðir úr ýmsum efnasamböndum. Mest ber þó á járni. Önnur frumefni sem fyrir koma í þessum efnasamböndum eru (eftir tíðni þeirra) kalsíum, mangan, magníum, krómíum, kísill, nikkel og natríum. Í Murchison loftsteininum fundust amínósýrur sem talið er að hafi myndast í geiminum, og er það undirstaða ýmissa kenninga um tilurð lífs. Eftir að amínósýrur fundust einnig í Orgueil, Ivuna og Murray loftsteinunum var talið næsta víst að amínósýrur gætu myndast í ískristöllum utan jarðar. Fjöldi og uppruni loftsteina. Ágiskanir um fjölda þeirra loftsteina sem koma inn í gufuhvolf jarðar á hverjum degi eru mjög mismunandi, allt frá 200.000 upp í 185.000.000. En hver sem hin raunverulega tala er, þá sjást að meðaltali um 10 loftsteinar (stjörnuhröp) á hverri klukkustund á stjörnubjartri nótti frá einum punkti á yfirborði jarðar. Ágiskanir um magn þess massa sem bætist við jörðina á hverjum degi vegna loftsteina er álíka mismunandi og ágiskanir um fjölda þeirra, eða allt frá nokkrum tonnum upp í rúm 100 tonn. Sannast hefur að mikill fjöldi þeirra loftsteina sem koma inn í gufuhvolf jarðar á uppruna sinn að rekja til halastjarna. Þegar hali þeirra myndast dreifist hann um gifurlega stórt svæði og verða efnisagnir hans þá stundum á vegi jarðarinnar á braut hennar umhverfis sólu. Tim Berners-Lee. Tim Berners-Lee (f. 8. júní 1955) hefur á stundum verið kallaður faðir veraldarvefsins, og átti mikinn þátt í því að koma honum á stofn. Árið 1980, á meðan Berners-Lee vann hjá CERN, lagði hann til verkefni byggt á stiklutexta og bjó til frumgerð sem nýtti eiginleika þess. Árið 1984 áttaði hann sig á því að stiklutexti ætti einstaklega vel við Internetið og þegar sú tenging var komin á var veraldarvefurinn fæddur. Berners-Lee skrifaði fyrsta vefþjóninn, fyrsta vafrann og fyrsta vefritilinn. Hugmyndirnar að baki veraldarvefnum eru einfaldar, það sem Berners-Lee gerði var að sameina þær á nýjan hátt svo úr varð tól sem býður upp á margfalt meiri möguleika en áður var mögulegt. Berners-Lee áttaði sig líka á því að það væri jafnmikilvægt fyrir þróun vefsins að það væri auðvelt að skrifa vefsíður og að það væri auðvelt að lesa þær, en sú var þó varla raunin fyrr en með tilkomu wiki forrita. Bill Gates. Bill Gates í Kaupmannahöfn 2004. William Henry Gates III eða Bill Gates eins og hann er nánast undantekningarlaust kallaður (fæddur 28. október 1955) er stofnandi og stjórnarformaður Microsoft og var áður framkvæmdastjóri og æðsti yfirmaður hugbúnaðarþróunar hjá Microsoft. Bill Gates hefur verið í hópi ríkustu manna heims síðustu ár. Árið 1999 komust eignir hans til skamms tíma yfir 100 milljarða bandaríkjadala og var hann fyrsti maðurinn til að verða „hundrað-milljarðamæringur“. Eignir hans í dag eru töluvert minni, eða um 45 milljarðar bandaríkjadala. Þetta er að hluta til vegna þess að hlutabréfaverð í hátæknifyrirtækjum hefur lækkað en einnig vegna þess að hann hefur gefið um 30 milljarða bandaríkjadala til Bill & Melinda Gates-stofnunarinnar, sem er stærsta góðgerðarstofnun í heimi, og styrkt aðrar stofnanir um minni fjárhæðir. Bill Gates hefur nú þegar gefið yfir helming eigna sinna til góðgerðarmála og hefur tilkynnt að hann muni gefa milli 95% og 99% af eigum sínum til góðra málefna áður en hann deyr. Fyrir utan peningaframlög hefur Bill Gates lagt sitt af mörkum til að auka skilning og meðvitund um hörmungar þær sem eiga sér stað í þróunarlöndunum, og hefur þar notið aðstoðar Bono (söngvara hljómsveitarinnar U2), Jeffrey Sachs, og nú síðast vinar síns Warren Buffet sem tilkynnti í lok júní 2006 að hann myndi gefa allar sínar eigur til sjóðsins sem Gates-hjónin reka, og tvöfalda þar með stærð hans. Tenglar. Gates, Bill Gates, Bill Gates, Bill Steve Jobs. Steve Jobs (24. febrúar 1955 – 5. október 2011) var einn þriggja stofnenda Apple (hinir voru Steve Wozniak og Ronald Wayne), og var í upphafi stjórnandi fyrirtækisins og aðaldriffjöður. Samband hans við fyrirtækið var stormasamt og á miðjum níunda áratugnum hrökklaðist hann frá fyrirtækinu í kjölfar valdabaráttu og deilna um stefnu fyrirtækisins. Eftir að Jobs yfirgaf Apple stofnaði hann tölvufyrirtækið NeXT og keypti hlut í Pixar teiknimyndagerðarfyrirtækinu. Jobs kom þó aftur til Apple og tók stóran þátt í stjórnun og vöruþróun þar. Pixar sameinaðist Walt Disney-fyrirtækinu árið 2006 og við það fékk Jobs sæti í stjórn þess fyrirtækis. Donald Knuth. Donald Ervin Knuth (fæddur 10. janúar 1938) er tölvunarfræðingur, stærðfræðingur og prófessor emeritus við Stanford háskóla í Kaliforníu. Knuth hefur átt mikinn þátt í þróun tölvu- og hugbúnaðarmála á síðustu áratugum, og skrifaði meðal annars bókina "The Art of Computer Programming". Hann hefur verið upphafsmaður stærðfræðilegrar aðferðarfræði í hugbúnaðarþróun og hannað ýmis hugbúnaðarkerfi, svo sem umbrotskerfið TeX. Knuth, Donald Knuth, Donald Dennis Ritchie. Dennis MacAlistair Ritchie (9. september 1941 – 12. október 2011) var tölvunarfræðingur með háskólagráður í eðlisfræði og stærðfræði, sem átti mikinn þátt í þróun ýmissa hugbúnaðarkerfa, forritunarmála og stýrikerfa. Meðal þeirra verkefna sem hann vann að voru ALTRAN, forritunarmálið B, BCPL, forritunarmálið C, Multics, og Unix. Ritchie, Dennis John Williams. John Towner Williams (f. 8. febrúar 1932) er eitt þekktasta kvikmyndatónskáld sögunnar. Hann hefur verið tilnefndur til 45 Óskarsverðlauna sem eru fleiri tilnefningar en nokkur annar hefur fengið að undanskildum Walt Disney. Hann hefur fengið 5 Óskarsverðlaun, fyrir myndirnar Fiddler On the Roof (1971), Jaws (1975), (1977), E.T. the Extra-Terrestrial (1982) og Schindler's List (1993). Verk John Williams einkennast af mikilfenglegri sinfóníutónlist og það er lítið sem ekkert um tónlistarlaus atriði í kvikmyndum með tónlist eftir hann. Hann hefur verið mjög vinsæll í ævintýraheimum og má nefna kvikmyndir á borð við Star Wars, Superman, Harry Potter, Indiana Jones og Jurassic Park. John Williams er afkastamikill tónsmiður og árið 2005 komu út myndirnar Munich, Memoirs of a Geisha, War of the Worlds og sem allar innihéldu tónlist eftir John Williams. Árið 2005 valdi American Film Institute 25 bestu amerísku kvikmyndatónlistarverk síðustu hundrað ára. Þar átti John Williams þrjú verk: "Star Wars IV: A New Hope" í fyrsta sæti, "Jaws" í sjötta og "E.T. the Extra-Terrestrial" í fjórtánda. Hans Zimmer. Hans Zimmer (fæddur 12. september 1957) er þýskt tónskáld starfandi í Bandaríkjunum, frægastur fyrir að semja kvikmyndatónlist. Hann hóf feril sinn í tónlist spilandi á hljómborð og hljóðgervla með hljómsveitum svo sem Ultravox og The Buggles. Hann sló í gegn í kvikmyndatónlist með þemalagi myndarinnar Rain Man árið 1988, sem hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir. Síðan þá hefur hann samið tónlist við margar þekktar kvikmyndir. Sem dæmi má nefna The Gladiator, Crimson Tide, The Rock, Black Hawk Down, The Last Samurai, The Da Vinci Code og Lion King. Vincent van Gogh. Vincent Willem van Gogh (30. mars 1853 – 29. júlí 1890) var hollenskur listmálari sem flokkaður er með póstimpressjónistunum. Verk hans eru í dag með þeim verkum sem hæst verð fá á listaverkauppboðum. Einkenni á verkum hans eru sterkir litir og sýnilegar pensilstrokur. Hann þjáðist af geðveiki þótt ekki sé vitað hvers eðlis hún var nákvæmlega. Hann var oftar en einu sinni lagður inn á geðspítala og framdi að lokum sjálfsmorð. Tenglar. van Gogh, Vincent Georgia O'Keeffe. Georgia Totto O'Keeffe (15. nóvember 1887 – 6. mars 1986) var áhrifamikil bandarísk listakona á 20. öld. Hún er einkum þekkt fyrir verk sem eru á mörkum abstrakt og fígúratífrar listar og sýna náttúruleg form; landslag, dýr, blóm og kletta. Tenglar. O'Keeffe, Georgia Lee Kuan Yew. Lee Kuan Yew (kínverska: 李光耀; pinjin: Lǐ Guāngyào; f. 16. september 1923) var fyrsti forsætisráðherra Singapúr frá 1959 til 1990 og er enn einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins. Þegar hann sagði af sér völdum árið 1990 var hann sá forsætisráðherra sem lengst allra hafði setið í embætti. Hann hefur jafnframt verið gagnrýndur fyrir einræðistilburði og fyrir að nota kærur til að halda pólitískum andstæðingum niðri. Drottningin af Saba. Drottningin af Saba er nefnd í fyrstu konungabók Biblíunnar og annarri kroníkubók, auk Kóransins og eþíópískrar hefðar. Í Biblíunni er sagt frá heimsókn hennar til Salómons konungs Ísraels með gríðarmiklar gjafir þar sem hún hafði heyrt mikið látið af visku hans. Hvar konungsríkið Saba hefur verið er umdeilt en líklega hefur það verið þar sem nú er Eþíópía eða Jemen. Hún er ekki nafngreind í Biblíunni en samkvæmt eþíópískri hefð hét hún Makeda og í Kóraninum er hún nefnd Bilqis. Dúrra. Dúrra eða súdangras (fræðiheiti: "Sorghum") er ættkvísl kornjurta af grasaætt sem nær allar eru upprunnar í hitabeltinu í Austur-Afríku. Ein tegund er þó upprunnin í Mexíkó. Jurtin er ræktuð í Suður- og Mið-Ameríku og Suður-Asíu. Jurtin þolir vel bæði þurrka og hita. Kornið er einkum notað í skepnufóður en það er líka unnið í mjöl til manneldis og til að brugga bjór. Getnaðarvörn. Getnaðarvörn er hvers konar búnaður, lyf, læknisfræðilegar aðgerðir eða annað sem ætlað er að koma í veg fyrir getnað þegar stundað er kynlíf. Fjölmargar getnaðarvarnir eru til á markaðnum, svo sem smokkar, pillan, lykkjan, hettan. Sumir álíta skírlífi getnaðarvörn. Fóstureyðing. Sovésk veggmynd sem hvetur konur til að láta framkvæma fóstureyðingu á spítala en ekki af ljósmóður. Fóstureyðing er læknisfræðilegt inngrip í meðgöngu, ætlað til að stöðva meðgönguna og eyða fóstrinu. Er einföld læknisfræðileg aðgerð á fyrstu vikum meðgöngu og er í raun öruggari en fæðing. Á Íslandi eru margar fóstureyðingar framkvæmdar, en víða um heim er mikið deilt um réttmæti fóstureyðinga og þær eru bannaðar í sumum ríkjum. Fóstureyðingarpilla er lyf notað til að stöðva meðgöngu á fyrstu sólarhringum meðgöngunnar. Samkynhneigð. Samkynhneigð nefnist það þegar einstaklingur laðast að einstaklingum af sama kyni. Það að vera samkynhneigður þýðir að maður laðast bæði tilfinningalega og kynferðislega af öðrum af sama kyni. Samkynhneigðir karlmenn eru oft kallaðir "hommar" og samkynhneigðar konur "lesbíur". Til eru fleiri kynhneigðir en samkynhneigð og gagnkynhneigð, og þekktust þar á meðal er tvíkynhneigð en þá laðast fólk að báðum kynjum. Þá er til svokölluð persónuhneigð eða pansexual, ókynhneigð eða asexual og pomosexual en það er fólk sem skilgreinir ekki kynhneigð sína. Svo er aftur til transfólk en það er fólk sem upplifir sig í röngum líkama og gengst því undir kynleiðréttingarferli. Transfólk getur haft mismunandi kynhneigðir. Mjög niðrandi er að tala um transfólk sem kynskiptinga. Algengt samheiti yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, persónuhneigða, transfólk og fleiri sem ekki falla undir hið gagnkynhneigða regluveldi er „hinsegin“. Erfitt getur reynst að átta sig á kynhneigð sinni og tekur fólk oft mörg ár að gera sér fyllilega grein fyrir henni. Allir hafa rétt á því að velja sjálfir hvað þeir kjósa að kalla sína kynhneigð og getur ofbeldi falist í því að neita fólki um að lifa eftir sinni sannæringu eða að neyða á það merkimiða sem það er ósammála. Samkynhneigð, eða að haga sér að öðru leyti ekki eftir reglum samfélagsins, verður enn þá fyrir miklum fordómum víðsvegar um heim og eru hatursglæpir allt of algengir gagnvart samkynhneigðu fólki. Á Íslandi. Til eru félög og samtök sem fjalla um málefni samkynhneigðra eða eru á vegum þeirra. Eru aðal baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi og eru staðsett í Reykjavík. Ungliðahreyfingin er undirfélag Samtakanna 78 og er fyrir fólk í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Reglulegir fundir kl. 20:00 öll sunnudagskvöld í Regnbogasal Samtakanna 78, á laugarveginum. Símanúmer og tölvupóstfang er að finna inná síðu samtakanna. Fræðslu- og stuðningssamtök fyrir hinsegin fólk á Norðurlandi. Reglulegir fundir í Húsinu (4. hæð í félagsmiðstöðinni Rósenborg) alla miðvikudaga frá klukkan 19:30-21:30. Baráttufélag hinsegin stúdenta og fólks í háskólum Íslands. Reglulegir fundir á föstudögum kl. 20:30 í Regnbogasal Samtakanna 78. Félag transfólks á Íslandi. Hittist fyrsta miðvikudag hvers mánaðar kl. 20:00 í Regnbogasal Samtakanna 78. Frekari upplýsingar er að finna á síðu Samtakanna '78 Samkynhneigð til forna. Rómverski sagnaritarinn Tacitus segir frá því í riti sínu Germaníu að Germanar tíðkuðu að hegna mönnum fyrir ergi. Forn-Grikkjum þótti ekki tiltölumál að leggja lag sitt við yngissveina og sögðu þá hæfa til ásta en konur til undaneldis. Rómverjar höfðu almennt ekki horn í síðu homma þótt þeir væru ekki eins frjálslyndir og Grikkir í þessum efnum eins og ráða má af orðlaginu hjá Tacitusi. Skáld á borð við Catullus, Tibullus og Martialis ortu til ástmanna sinna og drógu ekkert undan. Sumir Rómverjar virðast þó hafa bendlað samkynhneigð við Grikki og útlendinga og ekki þótt slíkar hneigðir til fyrirmyndar. Að koma út (úr skápnum). Margt fólk sem laðast að fólki af sama kyni „koma út úr skápnum“ (eða einfaldlega „koma út“), eins og það er stundum kallað, á einhverjum tímapunkti í lífinu. Þetta er vegna þess að samfélagið gerir ráð fyrir því að allir séu gagnkynhneigðir frá fæðingu nema annað komi fram. Mikilvægur hluti réttindabaráttu hinsegin fólks er að berjast gegnum þessum skaðlegu hugmyndum. Oftast er því lýst í þremur tímabilum. Fyrsta tímabilið er að „þekkja sjálfa/n sig,“ og uppgötvun eða ákvörðun þess að einstaklingurinn sé opinn fyrir sambandi við manneskju af sama kyni. Þessu er oft lýst sem að koma út fyrir sjálfum sér. Næsta tímabil felur í sér ákvörðunina að segja öðrum frá, það er að segja fjölskyldu, vinum, vinnufélögum og svo framvegis. Þetta getur gerst allt frá unga aldri, um 11 ára, og upp í fertugs aldurinn og eldri. Þriðja skeiðið felur meira í sér að lifa almennt og opinskátt sem samkynhneigður einstaklingur í sínu samfélagi. Benda má á að gagnkynhneigt fólk þarf vanalega ekki að gagna í gegnum sama ferli. Réttindabarátta sam-, tví-, fjölkynhneigðra og transfólks. Undanfarna áratugi hefur réttindabarátta sam-, tví-, og fjölkynhneigðra tekið stakkaskiptum. Í hinum vestræna heimi er það oft tengt Stonewall mótmælunum árið 1969, þegar átök brutust út við Stonewall barinn í New York borg. Á Íslandi var það Hörður Torfason sem vann mikið frumkvöðlastarf þegar hann opinberaði samkynhneigð sína. Í kjölfarið varð hann fyrir miklum fordómum og fluttist brott af Íslandi um tíma. Árið 2010 var gifting fólks af sama kyni lögleidd af íslenska ríkinu, og sést þar hversu langt baráttan hefur náð að ganga. Engu að síður er mikið sem á eftir að vinna í - sam- og tvíkynhneigt fólk verður ennþá fyrir fordómum, hefur skort á fyrirmyndum í samfélaginu, ennþá er gert ráð fyrir því að fólk sé gagnkynhneigt þangað til annað komi fram, og svo er kynhneigð fólks sett í samband við kyngervi þeirra, þ.e. karlmenn sem eru ekki taldir nógu karlmannlegir oft kallaðir hommar, og sama um konur sem eru ekki taldar nógu kvenlegar. Tengist þetta feðraveldinu og öðrum kúgunarkerfum. Á Íslandi er staða hinsegin fólks nokkuð góð, og samkynhneigðir mega ganga í hjónaband og njóta fullra lagalegra réttinda. Félagslegum réttindum og samþykki innan samfélagsins er þó enn ábótavant, og eru fordómar og illgjörvi á hlut hinsegin fólks enn til staðar. Sauðaneshreppur. Sauðaneshreppur var hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu, kenndur við kirkjustaðinn Sauðanes. Hreppurinn var 728 km² að flatarmáli og náði yfir mestallt Langanes og heiðarnar milli Hafralónsár og sýslumarka. Kauptúnið Þórshöfn var skilið frá Sauðaneshreppi í ársbyrjun 1947 og gert að sérstökum hreppi, "Þórshafnarhreppi". Hrepparnir tveir sameinuðust á ný 11. júní 1994, þá undir nafni Þórshafnarhrepps. Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Þórshafnarhreppur svo Skeggjastaðahreppi undir nafninu "Langanesbyggð". Endurreisnin. Vitrúvíski maðurinn eftir Leonardo da Vinci. Endurreisn eða endurreisnartímabilið var tímabil í mannkynssögu, sem tók við af miðöldum. Það var blómaskeið í listum og vísindum, sem hafði töluverða hliðsjón af listum og hugmyndum Forn-Grikkja og Rómverja. Endurreisnin er venjulega talin hefjast á Ítalíu á 14. öld og hafi síðan borist þaðan um Evrópu allt til síðari hluta 16.aldar og því staðið frá síðmiðöldum fram á nýöld. Ítalska skáldið Dante Alighieri er oft talinn standa á mörkum miðalda og endurreisnar og skáldið Francesco Petrarca hefur verið kallaður fyrsti endurreisnarmaðurinn. Stundum hefur endurreisnin verið nefnd Endurlífgunaröld eða Endurfæðingin á íslensku. Það er þó sjaldgæft. Upphaflega var hugtakið endurreisn ("rinascimento" sem þýðir orðrétt "endurfæðing") notað af Giorgio Vasari sem ritaði æviþætti um helstu listamenn Ítalíu á 16. öld og þá í þeirri merkingu að í myndlist hefðu menn aftur tekið upp listræn viðmið, tækni og viðhorf sem ríktu á klassíska tímanum. Hugtakið var fyrst og fremst notað í listasögu fram til síðari hluta 19. aldar þegar sagnfræðingar tóku að nota það til að lýsa einhvers konar vatnaskilum sem skildu milli hinna myrku miðalda og nútímans. Á meðan list miðalda einkenndist af trúarlegri innri leit þá einkennist list á endurreisnartímanum af veraldlegri sýn, athyglin beinist að hinu jarðneska lífi og manninum. Húmanismi, mannhyggja eða manngildisstefna var megin menntastefna endurreisnarinnar. Á endurreisninni var tekið að líta á hið einstaka sem lykil að hinu almenna og áhersla lögð á vísindarannsóknir og beinar athuganir á náttúrunni. Fornmenntastefna. Fornmenntastefna var stefna meðal íslenskra menntamanna sem einkenndist af áhuga á íslenskum fornritum sem rituð höfðu verið á miðöldum. Hingað barst fornmenntastefnan með húmanískum straumum í siðbreytingunni sem áttu uppruna sinn í Endurreisninni. Fyrsta Íslandssagan var skráð í letur af Arngrími lærða og atburðir líðandi stundar voru skráðir í annála. Farið var að safna skipulega og rannsaka gömul handrit m.a. handrit Íslendingasagna. Hadríanus. Publius Aelius Traianus Hadrianus (24. janúar 76 – 10. júlí 138) var keisari Rómaveldis frá 117 til 138 af aelísku ættinni. Hann var sá þriðji af góðu keisurunum fimm. Hann var ættingi Trajanusar sem ættleiddi hann sem erfingja sinn á dánarbeðinu. Hann barði niður aðra gyðingauppreisnina 135 sem leiddi til herferðar gegn gyðingdómi; gyðingum var bannað að fara inn í Jerúsalem og Júdea var endurskírð "Syria Palaestina". Í valdatíð hans ríkti þó friður að mestu leyti og hann einbeitti sér að því að styrkja innviði ríkisins með opinberum framkvæmdum og varnarvirkjum eins og "Hadríanusarmúrnum" í norðurhluta Bretlands. Leiðin til valda. Hadríanus var fæddur árið 76, í Róm eða í Italicu á Spáni. Fjölskylda hans var frá Italicu, og hann var skyldur Trajanusi keisara, sem einnig var frá Italicu. Eftir að faðir hans lést, árið 86, var Hadríanus að hluta til í umsjá Trajanusar, sem þá var orðinn háttsettur í rómverska hernum. Trajanus útvegaði Hadríanusi stöðu í hernum og síðar stöðu dómara í Róm. Þegar Nerva valdi Trajanus sem eftirmann sinn, árið 97, var Hadríanus orðinn yfirmaður í hernum og var valinn til þess að færa Trajanusi hamingjuóskir frá hernum. Þegar Nerva lést svo árið eftir var Hadríanus staðráðinn í að færa Trajanusi, sem þá var í herferð við Rín, fréttirnar. Þrátt fyrir að ýmsir keppinautar hafi reynt að hindra Hadríanus tókst honum að komast fyrstur til Trajanusar og lét hann vita að hann væri orðinn keisari. Í kjölfarið urðu Hadríanus og Trajanus nánir vinir og árið 100 giftist Hadríanus frænku Trajanusar, Vibiu Sabinu. Hjónabandið styrkti enn tengsl Hadríanusar við keisarann en samband hans við eiginkonuna virðist alla tíð hafa verið slæmt, þó þau hafi engu að síður verið gift allt þangað til Sabina lést árið 136 eða 137. Í keisaratíð Trajanusar hlaut Hadríanus fjölmörg mikilvæg embætti; hann var herforingi í öðru stríðinu í Daciu (105 – 106), hann var praetor árið 106 og landstjóri í Pannoniu árið 107. Árið eftir varð hann ræðsimaður (consul) aðeins 32 ára gamall, en það var lágmarksaldur til að gegna því embætti. Árið 114 hélt Trajanus í herferð til Parþíu og lét hann þá Hadríanus stjórna hinu hernaðarlega mikilvæga skattlandi Syriu. Um sumarið 117 var Trajanus orðinn dauðvona og á leið til Rómar. Hann lést áður en þangað var komið og í kjölfarið var tilkynnt að hann hefði ættleitt Hadríanus á dánarbeðinu og gert hann að eftirmanni sínum. Sögusagnir voru þó á kreiki um að Trajanus hafi látist án þess að kjósa sér eftirmann en að eiginkona hans, Plotina, hafi leynt dauða hans í nokkra daga og sent öldungaráðinu í Róm bréf þar sem hún leitaðist eftir að tryggja stuðning þess við Hadríanus. Þegar sá stuðningur var tryggður hafi hún loks tilkynnt um dauða Trajanusar. Valdatími. Eitt af fyrstu embættisverkum Hadríanusar var að yfirgefa tvö stór skattlönd sem Trajanus hafði innlimað inn í Rómaveldi árið 116. Þetta voru Armenia og Mesopotamia, en Hadríanus taldi að ómögulegt yrði að verja þessi svæði gegn árásum Parþa. Hann lét herinn draga sig til baka vestur yfir Efrat fljót, sem myndaði eftir það eins konar náttúruleg landamæri ríkisins í austri. Staða Hadríanusar sem arftaki Trajanusar virðist ekki hafa verið fyllilega trygg í upphafi keisaratíðar hans, því ýmsir aðrir menn, sem gegnt höfðu mikilvægum embættum í stjórnartíð Trajanusar, komu einnig til greina. Á fyrsta embættisári Hadríanusar voru fjórir menn, sem allir höfðu verið ræðismenn í tíð Trajanusar, teknir af lífi. Þessar aftökur voru fyrirskipaðar af öldungaráðinu, hugsanlega fyrir tilstuðlan yfirmanns lífvarðaðasveitar Hadríanusar, Attianusar. Opinber ástæða aftakanna var sú að þessir menn áttu að hafa lagt á ráðin um samsæri gegn Hadríanusi. Ýmsir öldungaráðsmenn töldu þó að raunveruleg ástæða aftakanna væri sú að Hadríanus vildi losa sig við þessa valdamiklu keppinauta og leggja hald á auðæfi þeirra. Margir aðalsmenn snerust því gegn Hadríanusi. Hadríanus sjálfur hélt því fram að hann hefði ekki vitað af aftökunum fyrr en eftirá og sór þess opinberan eið að hann bæri ekki ábyrgð. Auk þess lofaði hann öldungaráðinu að engir fleiri úr þeirra röðum yrðu teknir af lífi án réttarhalds í hans keisartíð. Engu að síður hafði þessi atburður varanleg áhrif á samskipti Hadríanusar við öldungaráðið og var hann alla tíð óvinsæll á meðal meðlima þess. Brjóstmynd af Hadríanusi. Hann var fyrstur rómverskra keisara til að láta gera myndir af sér með alskegg. Ferðalög og innanríkismál. Hadríanus ferðaðist meira og víðar um Rómaveldi en flestir aðrir keisarar. Hann ferðaðist meðal annars um landamærahéruð heimsveldisins og lagði áherslu á að styrkja herinn og landamæri ríkisins. Hadríanus lét af útþennslustefnu forvera síns og lagði meiri áherslu á varnir. Þekktasta dæmið um varnarstefnu hans er líklega Hadríanusarmúrinn á norðanverðu Bretlandi. Hadrianus lét hefja byggingu múrsins árið 121, þegar hann ferðaðist um svæðið, og átti hann að verja skattlandið Britanniu gegn árásum Picta, sem þá bjuggu í núverandi Skotlandi. Einnig lét hann styrkja varnarmannvirki í Germaniu þegar hann var á ferð á þeim slóðum. Annar tilgangur ferða Hadríanusar var að kanna innviði ríkisins og stjórn skattlandanna. Á þessum ferðalögum heimsótti hann nánast öll svæði ríkisins, frá Hispaniu í vestri til Judeu í austri og frá Egyptalandi í suðri til Bretlands í norðri. Hann var á ferðalögum á árunum 121 – 125, 128 – 132 og 134 – 136. Víða þar sem hann kom við lét hann halda mikilfenglegar skemmtanir og réðist í ýmis konar framkvæmdir. Hadríanus var mikill aðdáandi grískrar menningar og lista og hann heimsótti Aþenu þrisvar sinnum á ferðum sínum, en þar kom hann af stað ýmsum umfangsmiklum byggingaframkvæmdum. Hadríanus vann sér nokkra hylli meðal almennra borgara Rómar þegar hann ákvað að afskrifa skuldir sem hann taldi að ógerningur væri að innheimta. Heildarupphæðin var gríðarleg summa, talin vera í kring um 900 milljón silfurmyntir. Einnig styrkti hann sjóð sem Trajanus hafði komið á fót, "alimenta", sem var notaður til þess að aðstoða fátæk börn. Reglulegur korninnflutningur til Rómar var gríðarlega mikilvægur fyrir almenna hylli keisaranna og því stóð Hadríanus fyrir miklum hafnarframkvæmdum í nágrenni Rómar, til þess að tryggja að nægt kornframboð væri í höfuðborginni. Á meðal frægustu mannvirkja sem Hadríanus lét byggja í Rómaborg eru Pantheon hofið og Grafhýsi Hadríanusar. Pantheon var endurbygging á hofi sem var byggt á tíma Ágústusar, en eyðilagðist í eldsvoða. Hvolfþakið á Pantheon er eitt þekktasta dæmið um mikilfenglegan rómverskan arkitektúr og bygging þess er gjarnan álitin hafa verið verkfræðilegt afrek þess tíma. Grafhýsi Hadríanusar var byggt skömmu fyrir dauða hans og þar var hann grafinn. Margir af eftirmönnum Hadríanusar voru einnig grafnir í grafhýsinu sem í dag er einnig þekkt sem Castel Sant'Angelo. Einkalíf. Þó að Hadríanus hafi verið giftur Vibiu Sabinu í yfir 35 ár telja flestir nú að Hadríanus hafi verið samkynhneigður eða tvíkynhneigður. Hjónabandið var ekki hamingjusamt og sagt var að Sabina hafi á einum tímapunkti framkallað eigið fósturlát því hún vildi ekki ala upp skrímsli sem líktist Hadríanusi. Sabina átti í samböndum við aðra menn og þeirra á meðal var sagnaritarinn Suetonius, sem fyrir vikið var rekinn úr starfsliði keisarans. Fornar heimildir herma að Hadríanus hafi átt náin sambönd, bæði við karlmenn og við giftar konur. Frægast er þó samband hans við ungan mann að nafni Antinous. Antinous var aðeins táningur þegar Hadríanus og hann urðu mjög nánir og talið er að þeir hafi átt í ástarsambandi. Antinous var í fylgdarliði keisarans á ferðum hans um Rómaveldi en árið 130, þegar Hadríanus var á ferð um Egyptaland, drukknaði Antinous í Níl. Hadríanus syrgði Antinous mjög og stofnaði meðal annars nýja borg, Antinopolis, nálægt staðnum sem hann drukknaði, honum til heiðurs. Hadríanus lét byggja glæsilegt setur fyrir sjálfan sig í Tibur, um 30 km frá höfuðborginni. setrið var á meðal stærstu byggingaverkefna sem Hadríanus lét ráðast í og samanstóð það af um 30 byggingum á um 280 hektara svæði. Byggingar og svæði á landareigninni fengu svo nöfn ýmissa frægra staða sem Hadríanus hafði heimsótt á ferðum sínum. Bygging setursins tók tíu ár, frá 125 til 135 og síðustu ár valdatíma síns stjórnaði Hadríanus heimsveldinu að mestu frá setrinu. Hadríanus var mikill aðdáandi bókmennta og skrifaði sjálfur nokkur verk. Mest af því sem hann skrifaði hefur glatast, þar á meðal endurminningar hans, en nokkur ljóð hafa þó varðveist. Kvikmyndir tengdar Íslandi. Eftirfarandi er listi yfir kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem á einhvern hátt er tengt Íslandi eða íslendingum. Þó eru undanskildar þær kvikmyndir sem eru framleiddar á Íslandi. Kurt Gödel. Kurt Gödel (28. apríl 1906 – 14. janúar 1978) var rökfræðingur, stærðfræðingur og stærðfræðispekingur. Hann er álitinn einn merkasti rökfræðingur allra tíma og gjörbylti hann hugsun manna á sérsviðum sínum í þá mund sem Bertrand Russell, A.N. Whitehead og David Hilbert voru að reyna beita rökfræði og mengjafræði til þess að glöggva á frumsendum stærðfræðinnar. Þekktastur er hann fyrir ófullkomleikasetningar sínar tvær sem hann birti árið 1931, þá 25 ára að aldri og aðeins einu ári eftir að hafa fengið doktorsgráðu frá Háskólanum í Vín. Frægari setningin segir að hvert endurkvæmt frumsendukerfi samkvæmt sjálfu sér, er lýst getur reikningi náttúrulegra talna, inniheldur forsendur sem eru sannar en eru ekki sannanlegar innan þess kerfis. Einnig sýndi hann fram á að "samfellutilgátuna" væri ekki hægt að afsanna með frumsendum mengjafræðinnar ef frumsendurnar eru ekki mótsagnakenndar. Albert Einstein var góðvinur Gödels, en Einstein hjálpað Gödel að komast til Bandaríkjanna og við að fá ríkisborgararétt þar. Kurt Gödel lést í Bandaríkjunum vegna geðveiki sinnar. Hann neitaði að borða annað en heimaeldaðan mat konu sinnar, en ofsóknaræði fékk hann til að trúa því að illir menn væru að reyna eitra fyrir honum. Hann dó því úr sulti stuttu eftir að kona hans lést. Tenglar. Gödel, Kurt Konfúsíus. Konfúsíus (kínv. "Kongzi" 孔子) (551 f.Kr. – 479 f.Kr.) var kínverskur heimspekingur sem hafði gífurleg áhrif á menningu Kína og nágrannalanda. Hann bjó í Lu-ríki á austurströnd Kína sem nú er Shandong-hérað. Á tíma Konfúsíusar tók að bera á alvarlegum brestum í Zhou-keisaraveldinu sem hafði verið við lýði síðan á 11. öld f.Kr. Valdabarátta upphófst á milli fursta og hertoga smærri svæða innan ríkisins og upplausn keisaraveldisins blasti við. Konfúsíus hafði miklar áhyggjur af þessari þróun. Einkum óttaðist hann að allsherjar siðrof myndi eiga sér stað á meðal almennings sem gæti leitt til borgarastyrjaldar, ofbeldis og ógnarstjórna. Segja má að heimspeki hans sé tilraun til að stemma stigu við slíkri þróun. Konfúsíus var hefðarsinni. Hann leit svo á að samfélaginu væri best farið að treysta í sessi þá siði og þær venjur sem höfðu ríkt á blómaskeiði Zhou-veldisins um þremur öldum áður. Í seinni tíð hefur þetta oft verið skilið sem svo að Konfúsíus hafi verið afturhaldssinni sem vildi einfaldlega snúa aftur til fortíðar. Deila má um hvort að þetta sé sanngjarnt mat á heimspeki hans. Í "Samræðum Konfúsíusar" (kínv. "Lunyu" 论语), sem er samansafn tilvitnana í Konfúsíus og frásagna af honum sem skráð hafa verið af lærisveinum hans, gefur hann oftsinnis til kynna að siði og venjur verði að laga að aðstæðum. Þessi þáttur er settur fram með enn skýrari hætti af þekktasta eftirmanni Konfúsíusar, Mensíusi. Stöðugt streymi tímans og stöðugar breytingar eru grundvallarforsendur í hugsun konfúsista. Áhersla er því á þróun og framvindu. Hins vegar er leitast við að finna stöðugleika með því að byggja á traustum grundvelli. Þannig segir Konfúsíus að sá geti talist vitur sem færi fram hið nýja með því að rýna í hið forna. Siðir (kínv. "li" 礼) er lykilhugtak í hugsun Konfúsíusar. Upphaflega vísar hugtakið til fórnarathafna og tilheyrði Konfúsíus hópi lærdómsmanna sem voru sérfræðingar í þessum athöfnum. Lærdómsmenn þessir kölluðust "ru jia" 儒家 og hefur það sem kallast konfúsismi á Vesturlöndum gengið undir þessu nafni í Kína. Með Konfúsíusi fékk siðahugtakið mun víðari skírskotun og tók þá að vísa einnig til kurteisi í samskiptum og almennra velsæmisviðmiðana. Siðir eru ekki niðurjörvaðar reglur heldur samfélagsleg viðmið sem verða til í samskiptum manna á milli og eru í stöðugri mótun og aðlögun að aðstæðum. Konfúsíus taldi að samfélag sem byggði á siðum væri farsælla en samfélag sem byggir á lögum og refsingum og því vildi hann draga sem mest úr hinum síðarnefndu. Segja mætti að siðir vinni „innan frá“ en lög og refsingar „utan frá“ og því væru þau ekki líkleg til árangurs þegar til lengri tíma er litið. Markmið Konfúsíusar var að sannfæra valdhafa um að hrinda heimspeki sinni í framkvæmd. Hann ferðaðist því um í fjölda ára og leitaðist við að fá áheyrn hjá valdhöfum hinna ýmsu ríkja veldisins. Gengu tilraunir þessar brösuglega og lenti Konfúsíus oftar en ekki í lífsháska. Þegar hann var um fimmtugt var honum hins vegar veitt ráðherrastaða í Lu-ríki og gegndi hann þeirri stöðu í nokkur ár með góðum árangri. Spilling innan ríkisins varð hins vegar til þess að hann þurfti að láta af störfum og flýja land. Hann hélt áfram ferðalögum sínum en varð lítið ágengt og sneri aftur í Lu-ríki árið 484, þá 67 ára að aldri. Þar eyddi hann síðustu ævidögum sínum við kennslu og hugsanlega ritstörf þar til hann lést fjórum árum síðar. Áhrif. Varla verða áhrif Konfúsisma eða Konfúsíusarhyggju ofmetin. Á 1. öld e.Kr. var konfúsísk heimspeki (konfúsíusismi) gerð að opinberri hugmyndafræði kínverska keisaraveldisins og gegndi hún því hlutverki allt þar til síðasta keisaraveldið féll árið 1911. Kínversk menning væri í dag allt önnur án þeirra áhrifa sem konfúsísk hugsun hefur haft á hana í rás sögunnar. Hin gífurlegu áhrif sem Kína hafði á nágrannaríki sín allt fram á 19. öld hafa einnig gert að verkum að þjóðir á borð við Japan, Kóreu, Víetnam og Singapore eru að mjög miklu leyti mótaðar af konfúsískri hugsun. Hugsun þessi er margþætt og hefur þróast til að verða nokkuð önnur en sú sem Konfúsíus setti fram fyrir meira en 2500 árum, en samkvæmni hennar er þó glettilega mikil og "Samræður Konfúsíusar", sem til eru á íslensku í þýðingu Ragnars Baldurssonar, eru konfúsískum hugsuðum enn ein mikilvægasta uppspretta nýstárlegra hugmynda. 1366. a>-bjórinn hefur verið bruggaður frá 1366 í Leuven. Hesíódos. Hesíódos (gríska: "Ἡσίοδος") var grískt skáld sem var uppi um 700 f.Kr. Eftir hann liggja verkin "Goðakyn" (um uppruna heimsins og ættir guðanna) og "Verk og dagar". Lítið er vitað um ævi Hesíódosar umfram það sem kemur fram í verkum hans. Hann var frá Böótíu og segist vera einfaldur bóndi sem hafi orðið af föðurarfi sínum vegna svika bróður síns. Hann er ein helsta heimild okkar um gríska goðafræði, landbúnað, stjörnufræði og tímatal á tímum Forn-Grikkja. Edward Gibbon. Edward Gibbon (8. maí 1737 – 16. janúar 1794) var enskur sagnfræðingur, þekktur fyrir verk sitt "The History of the Decline and Fall of the Roman Empire" sem kom út í mörgum bindum á árunum 1776 til 1788. Hann var undir miklum áhrifum frá skynsemishyggju upplýsingarinnar og taldi útbreiðslu kristni vera helstu ástæðu afturfarar á miðöldum. Hann bjó í mörg ár í Lausanne í Sviss og leit að ýmsu leyti á sig fremur sem Svisslending en Englending. Hann skildi ákveðið á milli frumheimilda og eftirheimilda og tók þær fyrrnefndu fram yfir þær síðarnefndu. Meðal annars þess vegna hefur hann verið talinn með fyrstu nútímasagnfræðingunum. Tengill. Gibbon, Edward Gibbon, Edward Vladímír Lenín. Vladímír Ilyich Lenín (22. apríl 1870 – 21. janúar 1924, rússneska: Владимир Ильич Ленин), fæddur sem Vladimir Ilyich Ulyanov (rússneska: Владимир Ильич Ульянов) var leiðtogi bolsévísku hreyfingarinnar í Rússlandi snemma á 20. öld. Hann var maðurinn á bak við fjölda byltinga og átti þátt í að steypa rússneska keisaranum af stóli. Hann var fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna og af mörgum talinn einn merkasti stjórnmálamaður sögunnar. Ævisaga. Lenín fæddist 22. apríl 1870 í bænum Simbirsk, Rússlandi. Foreldrar hans hétu Ilya Nikolaevich Ulyanov (1831-1886) og Maria Alexandrovna Blank (1835-1916) og var hann þeirra þriðja barn af þeim fimm sem þau áttu. Fjölskylda Leníns var ágætlega efnuð og var hann skírður til grísk kaþólskrar trúar. Árið 1887 þegar Lenín var sautján ára að aldri var eldri bróðir hans hengdur fyrir að eiga aðild að morðtilræði á keisaranum. Eftir þetta varð Lenín mjög róttækur, sem varð til þess að stuttu seinna var hann rekinn úr háskóla fyrir mótmæli, eftir að hafa fengið orð á sig sem nokkuð góður námsmaður, þá sérstaklega í latínu. Hann hélt þó áfram að læra sjálfstætt og árið 1891 fékk hann réttindi til þess að stunda lögmennsku. Lenín starfaði þó stutt sem lögmaður og fór hann að stunda vinstri áróður og læra um marxisma í Pétursborg. Það leiddi þó til þess að árið 1895 sat hann í fangelsi í heilt ár og var síðan sendur í refsivist til þorpsins Shushenskoye í Síberíu. Þar kynntist hann stúlku að nafni Nadezhdu Krupskayu, þau giftust stuttu síðar og átti hún eftir að standa með honum í gegnum súrt og sætt. Hann gaf svo út ritið "Þróun Kapítalisma í Rússlandi". Byltingarsinni. Þegar útlegðinni var lokið eyddi hann þónokkrum tíma í að ferðast innan Rússlands og víðar í Evrópu og var þá duglegur að gefa út tímarit og bækur og var þar meðal annars í slagtogi með mönnum eins og Plekhanov og Trotsky. Það var á þessum tíma sem hann tók upp byltingarnafnið Lenín og er talið að það sé í eftir ánni Lenu sem rann við Shushenskoye. Árið 1903 klofnaði sósíaldemókrataflokkurinn í bolsévíka og mensévíka. Lenín hafði þá verið duglegur undanfarin ár að útbreiða boðskap sínum um byltingu og kommúnisma. Hann var foringi bolsévíka sem þýðir „stuðningsmenn meirihlutans“ en nafnið var dregið af því að í kosningum um aldamótin fengu þeir meirihluta atkvæða, það átti þó ekki eftir að vera svo alltaf. Julius Martov leddi svo mensévíka sem þýðir „stuðningsmenn minnihlutans“ af sömu ástæðu. Bolsévíkar voru mun róttækari í hugsun en mensévíkar og viltu skjóta byltingu verkalýðsins í Rússlandi en mensévíkar vildu búa til sterkan lýðræðislegan stjórnmálaflokk og fannst Lenín vera með einræðistilburði. Í hvert skipti sem menn reyndu að sameina sósíaldemókrataflokkinn var Lenín alltaf þar til að stöðva það með kröfum um byltingu. Það fór þó þannig að bolsévíkar töpuðu miklu fylgi og mensévíkar voru komnir með mun meira af fólki á bak við sig. Lenín hélt áfram að ferðast um Evrópu að útbreiða boðskap kommúnismans, mest megnis útlægur frá Rússlandi. Á ferðum sínum hitti hann annan útlægan Rússa í París að nafni Inessa Armand, en hún átti eftir að verða hjákona hans síðar. Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 var Lenín staðsettur í Sviss. Flestir leiðtogar rússneskra sósíalista vildu þá ganga til friðarsamninga en Lenín hvatti verkalýðinn til að stofna til byltingar og kollvarpa kapítilöskum stjórnvöldum sínum með vopnum og valdi. Árið 1917 varð svokölluð Febrúarbyltingin í Rússlandi, en þeir voru reyndar með öðruvísi dagatal heldur en almennar vesturþjóðir og því gerðist hún í rauninni í mars. Í þessar byltingu var keisaranum steypt af stóli og við tók bráðabirgðastjórn sem ætlaði að klára stríðið á mun skemmri tíma heldur en allt stefndi í. Það gekk þó ekki allt upp sem skildi og í apríl kom Vladimar Lenín aftur til Rússlands frá Sviss til að leiða bolsévíka, fyrsta verk hans var að lýsa yfir því að önnur bylting, bylting verkalýðsins væri yfirvofandi og var þar með vitað að ekki náðist eining á meðal stjórnamanna í Rússlandi strax. Lenín flúði þó aftur frá Rússlandi til Finnlands eftir að hafa verið sakaður um að vera handbendli Þjóðverja en hann fékk fjármagn frá þeim. Lenín var þó ekki lengi fjarverandi en hann sneri aftur í nóvember. Nóvember í hinum vestræna heimi var reyndar október í Rússlandi og eftir því nefnist Októberbyltingin sem Lenín leiddi og steypti endanlega bráðabirgðastjórninni af stóli. Sú bylting byggðist á því að byltingarmennirnir, undir stjórn Trotskys, réðust á mikilvægustu staði stjórnvalda og náðu þannig að þvinga bolsévíka til valda. Í kjölfarið bönnuðu bolsévíkar alla stjórnmálaflokka og blöð frá þeim, þjóðnýttu banka og einkaeignir og bönnuðu nánast öll viðskipti. Fyrrverandi eigendur þessara eigna fengu engar bætur og Lenín sagði að hann ætlaði að koma peningunum og eignum til bændasamfélagsins. Hann var viss um að hægt væri að koma á sósíalísku stjórnarkerfi í Rússlandi og var tilbúinn að beita öllum brögðum til þess. Andstæðingar hans voru þessu mjög mótfallnir og bentu á hættuna á að þetta gæti leitt til einræðis. Langstærsta vandamál Rússlands átti hins vegar eftir að leysa og það var staða Rússlands í fyrri heimsstyrjöldinni. Það var hins vegar eitt fyrsta verk bolsévísku stjórnarinnar, með Lenín í forystu, að semja vopnahlé við Þjóðverja. En margir telja að með því hafi Rússar svikið Bandamenn, sem voru aðallega Bretar og Frakkar. Lenín var búinn að vera í góðu sambandi við Þjóðverja og má segja að hann hafi verið ákveðið vopn í þeirra höndum gegn Bandamönnum en þeir höfðu styrkt hann með fjármagni og fleiru til að tryggja að hann kæmist til valda. Það varð svo að friðarsamningar voru undirritaðir í pólsku borginni Brest-Litovsk í mars 1918 og þurftu Rússar að gangast undir harða friðarskilmála Þjóðverja. Í kjölfar friðarsamningana blossaði upp mikill hiti í Rússlandi og fannst andstæðingum bolsévíka að samningarnir væru afar óhagstæðir fyrir Rússland. Í kjölfarið varð borgarastyrjöld þar sem rauðliðar (her bolsévíka) og hvítliðar (her andstæðingana) börðust í hörðum bardaga í þrjú ár. Þrátt fyrir að hvítliðar hafi notið stuðnings Bandamanna, fór það svo að rauðliðar báru sigur úr býtum og var það ekki síst herkænsku Trotskys og pólitísk viska Leníns. Í þessu stríði voru mörg ódæðisverk framin af hálfu beggja aðila, það sýndi þó betur fram á að Lenín var tilbúinn að beita öllum brögðum til þess að sjá Rússland sem sósíalískt ríki. Bolsévíkar stofnuðu sérstaka leynilögreglu sem nefndist Cheka en var einnig kölluð rauða ógnvaldið. Hennar verkefni voru að elta niðri pólitíska andstæðinga og í raun alla sem bolsévíkar töldu óvini sína og taka þá af lífi. Ekki er vitað með vissu hversu mörg mannslíf þetta ógnvald kostaði en tölur á bilinu 13 þúsund til 140 þúsund hafa verið nefnd. Vald Leníns hafði stóraukist á frekar skömmum tíma og þann 30. ágúst, árið 1918 var hann skotinn, hann lifði þó af, en mjög líklegt er að þessi meiðsl hafi átt þátt í dauða hans nokkrum ára seinna. Eftir að Lenín og hans menn voru komnir með völdin í Rússlandi fóru þeir að líta til Evrópu til þess að breiða út boðskap sinn og stofnaði hann til þess Alþjóðasamband kommúnista. Árið 1918 breyttu þeir nafni sósíaldemókrataflokksins í Rússneska kommúnistaflokkinn. Árið 1919 reyndi Lenín að boða byltinguna með því að ráðast inn í Pólland en þar töpuðu þeir illa og ákváðu því að bíða með að breiða út byltinguna til betri tíma. Endalok Leníns. Eftir banatilræðið árið 1918 þorðu menn ekki að fjarlægja kúluna úr Lenín vegna þess hve nálægt hún var mænunni og er það talið afar líklegt að það hafi átt sinn þátt í veikindum Leníns. Árið 1922 fékk hann heilablóðfall sem lamaði hann hægra megin. Eftir þessi meiðsl dró Lenín sig að mestu úr sviðsljósinu en hélt áfram að skrifa leiðbeiningar að heiman um hvernig átti að stjórna hlutunum. En þar mátti til að mynda finna gífurlega mikla gagnrýni á þann sem átti eftir að taka við af honum, Stalín. Þar talaði hann sérstaklega um að Stalín væri ekki efni í leiðtoga og menn þyrftu að passa sig á honum. Eftir að Lenín hafði fengið nokkur heilablóðföll í viðbót, lést hann árið 1924. Þá var Stalín búinn að tryggja sér það mikil völd að ekki var hægt að stöðva hann í að verða næsti leiðtogi kommúnista Sovétríkjanna. Margir hafa leitt hugann að því eftir á að ef Lenín hefði ekki látist, hvort hann hefði haldið áfram sem leiðtogi Sovétríkjanna. Ef marka má hversu mikið hann var búinn að mildast í skrifum síðustu ár sín, þá má leiða líkur að því að Sovétríkin hefðu sennilega farið allt aðra leið heldur en þá leið sem Stalín leiddi þau. Allt er það þó getgátur og er staðreyndin sú að Stalín tók upp einhverjar öfgafyllstu stefnur bolsévíka frá því fyrir 1921 eins og ógnvald og efnahagsstjórn. Thomas Paine. Thomas Paine (29. janúar 1737 - 8. júní 1809) var rithöfundur, fræðimaður og hugsjónamaður sem átti mikinn þátt í að vinna sjálfstæðismálinu í Bandaríkjnum fylgis og er því talinn með feðrum Bandaríkjanna. Verk hans "Common Sense" ("Almenn skynsemi") varð grundvöllurinn að sjálfstæðisyfirlýsingunni 1776. Averróes. Averróes (arabíska: ابوالوليد محمد بن احمد بن محمد بن رشد, Abū l-Walīd Muhammad ibn Ahmad ibn Muhammad ibn Rushd; einnig "Averroes" eða "Averrhoës" eða einfaldlega "Ibn Rushd") (1126 – 11. desember 1198) var spænsk-marokkóskur heimspekingur, læknir, lögfræðingur og guðfræðingur. Ásamt Avicenna er Averróes sá sem helst ber að þakka fyrir varðveislu þekkingar á mörgum af ritum fornaldar. Hann skrifaði handbók í læknisfræði og útleggingar á nær öllum ritum Aristótelesar. Hann reyndi að samræma heimspeki og íslam og taldi að heimspeki og trúarbrögð væru ekki andstæður heldur væri hægt að leita sannleikans fyrir tilstilli beggja. Nautgripur. Nautgripur (fræðiheiti: "Bos taurus") er klaufdýr af ættkvíslinni "Bos". Nautgripir eru jafnframt jórturdýr. Carolus Linnaeus skilgreindi ættkvíslina sem þrjár ólíkar tegundir, "Bos taurus " sem evrópsku nautgripina, "Bos indicus" sebúinn og loks úruxinn, "Bos primigenius", sem er útdauð tegund frum-evrópskra nautgripa. Nafngiftir. Nautgripir eða stórfé er nafn yfir alla hjörðina eða dýr í fleirtölu. Karldýrin kallast naut, tarfur eða tuddi á meðan kvendýrin nefnast kýr. Afkvæmi kúnna eru kálfar, og skiptast þeir í kvígukálfa og nautkálfa. Kvígur kallast eldri kálfar, sérstaklega þegar þær hafa fengið í sig kálf. Kvígur sem hafa borið einu sinni kallast fyrsta-kálfs-kvígur en eftir annan burð falla þær undir skilgreininguna "kýr". Gelt naut kallast "uxi" eða "geldingur" á meðan graðnaut kallast "griðungur". Lífeðlisfræði. Þar sem nautgripir eru jórturdýr þá melta þeir tugguna í tveimur skrefum. Kýr hafa fjóra magasekki sem kallast keppur, laki, vinstur og vömb. Gripirnir jórtra með því að elgja upp lítið meltri tuggu (þ.e.a.s. selja henni upp í munnholið), tyggja hana þá aftur og kyngja henni síðan enn á ný og þá taka bakteríur vambarinnar við og brjóta niður trénið í átunni. Kýrnar ganga 9 mánuði með kálfinn en fæðing kálfsins kallast burður. Laó Tse. Laozi, Laó Tse, Laó-tse, Laótse eða Laó Tzu (kínverska: 老子) var mikilvægur kínverskur heimspekingur. Nafn hans merkir „gamli meistarinn“ en gæti einnig þýtt „gamla barnið“ sem vísar jafnt til visku hins aldna sem aðlögunarhæfni og sveigjanleika hins unga. Til eru ýmsar frásagnir af Laozi og samkvæmt kínverskri hefð var hann uppi á 6. öld f.Kr. en ólíklegt er að hann hafi raunverulega verið til. Honum er eignuð "Bókin um veginn og dygðina" ("Dao de jing" 道德经) sem er grunnrit í daóisma en ýmislegt bendir til að ritið hafi verið sett saman af ýmsum höfundum á 4. öld f.Kr. á tímabili hinna stríðandi ríkja. Bahá'í trúin. Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar í Haifa í Ísrael Bahá'í trúin eru ung trúarbrögð stofnuð á 19. öld í Persíu (nú Íran) af Mírzá Husayn 'Alí (1817-1892) sem síðar fékk titilinn Bahá'u'lláh (dýrð Guðs). Fylgjendur bahá'í trúarinnar eru kallaðir bahá'íar. Þeir eru um sex milljónir í yfir tvöhundruð löndum. Bahá’í trúin er, frá landfræðilegu sjónarmiði, talin næst útbreiddasta trú heims á eftir kristni. Bahá'í ritin tala um það að öll helstu trúabrögð heims séu frá Guði komin og tala gjarnan um „stighækkandi opinberun“. Þetta hugtak er oft útskýrt með skólagöngu. Skólinn er aðeins einn en kennararnir margir. Mannkynið þroskast stig af stigi og þarf því alltaf á nýjum kennara að halda til að leiðbeina því á andlegri og félagslegri þroskagöngu þess í samræmi við þarfir þess og aðstæður hverju sinni. Þeir sem Búddha talaði til á sínum tíma þurftu á öðrum boðskap að halda en þeir sem Múhameð talaði til mörg hundruð árum seinna. Nokkrir af þessum miklu fræðurum og andlegum leiðtogum mannkynsins voru Abraham, Krishna, Móses, Saraþústra, Búddha, Kristur og Múhammeð. Bahá’íar líta á Bahá’u’lláh sem nýjasta fræðarann í þessari röð og telja hann kominn með boðskap fyrir mannkynið á tímum einingar og gífurlegra breytinga á högum þess. Bahá’í ritin segja að Guð muni halda áfram að senda mönnunum boðbera sína meðan mannkynið lifir á jörðunni. Aðalatriði kenninga bahá'í trúarinnar eru að Guð sé einn, trúabrögðin séu af einni og sömu rót og mannkynið sé eitt. Iðkun bahá'í trúarinnar fer einkum fram á heimilum trúaðra eða öðrum samkomustöðum sem samfélög bahá'ía nota. Sjö tilbeiðsluhús bahá'ía hafa verið reist, eitt í hverri heimsálfu, og þrjú til viðbótar eru á áætlun. Þau hafa öll níu dyr sem tákn um einingu þeirra níu heimstrúarbragða sem eru þekkt í sögu mannkynsins. Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er í Haifa í Ísrael og þar er aðsetur æðstu stjórnar trúarinnar sem og helgistaðir hennar. Þó búa engir bahá'íar í Ísrael í dag nema tímabundið í tengslum við Heimsmiðstöðina. Kommúnistaávarpið. Kommúnistaávarpið (þýska: "Das Manifest der Kommunistischen Partei") er eitt af áhrifamestu áróðursritum heims. Það kom fyrst út á þýsku 21. febrúar 1848. Það var pantað sem stefnuskrá Kommúnistafylkingarinnar og voru þeir Karl Marx og Friedrich Engels höfundar þess. Það leggur línurnar fyrir byltingu öreiganna gegn oki kapítalismans til að koma á stéttlausu samfélagi. Það hefst á setningunni „Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu - vofa kommúnismans.“ og endar á slagorðinu „Öreigar allra landa, sameinist!“ Bergljót Arnalds. Bergljót Arnalds (fædd 15. október 1968 í Reykjavík) er rithöfundur og leikkona sem er best þekkt fyrir barnabækur sínar, Stafakarlana og Talnapúkann. Bergljót var umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins 2001 nótt sem var barnatími sýndur á Skjá Einum frá 1999 til 2001. Bergljót hlaut viðurkenningu Menningarsjóðs SPRON (1998) og AUÐAR-verðlaunin (2000) fyrir verk sín. Bergljót hefur leikið ýmis hlutverk bæði á sviði og í kvikmyndum. Meðal annars lék hún Dolly í Djöflaeyjunni, Lucy í Dracula og Stellu í Sporvagninn Girnd. Bergljót hefur einnig talsett ýmsar teiknimyndir. Eyjólfur Jónsson (sundkappi). Jón Eyjólfur Jónsson (f. 18. maí 1925 - d. 29. nóvember 2007) í Reykjavík) kallaður Eyjólfur sundkappi var íslenskur lögreglumaður og íþróttamaður sem vakti mikla athygli á 6. áratug 20. aldar fyrir ýmis sjósund, svo sem Drangeyjarsund 1957, frá Reykjavík til Akraness 1958, frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og Vestmannaeyjasund 1959 og frá Hrísey til Dalvíkur 1960. Hann gerði einnig tvær tilraunir til að synda yfir Ermarsund, fyrstur Íslendinga, en varð frá að hverfa í bæði skiptin. Eyjólfur var auk þess einn af aðalhvatamönnum að stofnun íþróttafélagsins Þróttar þar sem hann var gerður að heiðursfélaga 1989. Ævisaga hans, skrifuð af Jóni Birgi Péturssyni, kom út árið 2004. Ítarefni. (Jón Eyjólfur Jónsson) Eyjólfur var annar af stofnendum Þróttar knattspyrnufélagsins, sem stofnað var á Grímstaðarholtinu, ásamt Halldóri "Fisksala" Sigurðssyni. Íþróttahöllin í Laugardal. Íþróttahöllin í Laugardal, Laugardalshöllin eða Höllin er um 6.500 m² íþrótta-, tónleika-, sýningar- og ráðstefnuhöll í Laugardalnum í Reykjavík. Laugardalshöll var lengi vel stærsta íþrótta- og tónleikahús landsins og hefur í gegnum tíðina hýst ýmsa stórviðburði eins og tónleika Led Zeppelin 1970, skákeinvígi Fischers og Spasskíjs 1972 og Heimsmeistaramótið í handbolta 1995. Í Laugardalshöll hafa auk þess oft verið haldnar stórar vörusýningar, svo sem heimilissýningarnar og atvinnuvegasýningar af ýmsu tagi. Laugardalshöllin var teiknuð af Gísla Halldórssyni arkitekt 1959 og reist af Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Hún var vígð 6. desember árið 1965 en fyrsti íþróttaleikurinn sem þar fór fram var leikur úrvalsliðs Reykjavíkur í handbolta gegn Baník Karviná frá Tékkóslóvakíu 4. desember 1965. Árið 2005 var hafist handa við að reisa 9.500 m² stálgrindarhús viðbyggt við Laugardalshöllina þar sem salurinn verður sérhannaður með tilliti til frjálsra íþrótta. Tengill. Laugardalur Klukkustund. Klukkustund eða klukkutími er mælieining fyrir tíma, táknuð með h, en er ekki hluti alþjóðlega einingakerfisins (SI). (Algeng íslensk skammstöfun er) Klukkustund eru sextíu mínútur, eða 3.600 sekúndur, sem er um það bil 1/24 hluti sólarhrings. Skriðuklaustur. Fornleifauppgröftur á Skriðuklaustri. Gunnarshús í baksýn. Skriðuklaustur er menningar- og fræðasetur og fornfrægt stórbýli í Fljótsdalshreppi á Austurlandi. Þar var samnefnt munkaklaustur af Ágústínusarreglu frá 1493 til 1552 og var Skriðuklaustur síðasta klaustrið sem stofnað var á Íslandi í kaþólskum sið. Saga. Hjónin Hallsteinn Þorsteinsson og Sesselja Þorsteinsdóttir á Víðivöllum gáfu klaustrinu jörðina Skriðu í Fljótsdal árið 1500 en þá hafði það starfað þar um hríð. Fyrsti príorinn þar hét Narfi og var hann vígður árið 1497 en ári síðar var aðeins einn munkur í klaustrinu. Raunar er talið að munkarnir hafi aldrei orðið fleiri en sex talsins. Við siðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi 1542 voru fjórir munkar í klaustrinu auk príorsins. Konungur gaf út bréf um að haldinn skyldi lestrarskóli í klaustrinu en það bréf var síðan tekið aftur og árið 1552 runnu eignir klaustursins til Danakonungs en klaustrið átti þá um 40 jarðir víða um Austurland. Jarðeignirnar voru síðan leigðar umboðsmönnum sem oft sátu á Skriðuklaustri og höfðu gjarna sýsluvöld í Múlaþingi. Einn þeirra var Hans Wium sýslumaður, sem þekktastur hefur orðið fyrir tengsl sín við Sunnefumál. Sunnefa dó í varðhaldi á Skriðklaustri árið 1767. Kirkja var á Skriðuklaustri frá 1496 og stóð klausturkirkjan fram á 18. öld en eftir það var byggð önnur og minni kirkja sem var svo lögð af árið 1792. Gunnar Gunnarsson. Gunnar Gunnarsson rithöfundur settist að á Skriðuklaustri árið 1939 og bjó þar til 1948. Sumarið og haustið 1939 lét hann reisa sér íbúðarhús á bænum sem jafnan er kennt við hann og kallað Gunnarshús. Það er teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger, sem var góðvinur Gunnars, og er í bæheimskum stíl. Húsið er 315 m² grunnfleti, tvær hæðir og ris, alls yfir 30 herbergi. Árið 1967 var annað íbúðarhús byggt á jörðinni og hlaut nafnið Skriða. Gunnar ánafnaði ríkissjóði jörðina með gjafabréfi, með því skilyrði m.a., að nýting hennar yrði til menningarauka („Jarðeign þessi skal vera ævarandi eign íslenzka ríkisins. Hún skal hagnýtt á þann hátt, að til menningarauka horfi, t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili.“). Tilraunabú í sauðfjár- og jarðrækt á vegum RALA var rekið þar frá 1949 til 1990. Stofnun Gunnars Gunnarssonar eða Gunnarsstofnun var sett á laggirnar árið 1997 og hefur Gunnarshús og Skriðu til umráða, ásamt lóð í kringum húsin. Þar er menningar- og fræðasetur sem rekið er árið um kring. Skúli Björn Gunnarsson hefur verið forstöðumaður frá árinu 1999. Fornleifarannsóknir. Rannsóknir og uppgröftur hófust þar vorið 2000 og stóðu til vors 2012 undir stjórn Dr. Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings. Þann rúma áratug sem rannsóknin stóð yfir unnu 131 starfsmaður með Steinunni. Yfir 13000 gripir og bein fundust á rannsóknarsvæðinu sem var um 1500 m2 að stærð. Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Dr. Steinunni Kristjánsdóttur kom út síðla árs 2012 og var hún tilnefnd til þriggja bókmenntaverðlkauna fyrir verk sitt, til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka, Viðurkenningar Hagþenkis og Fjöruverðlaunanna sem henni hlotnuðust. Klaustrið og kirkjan. Rannsóknirnar benda til þess að byggingar klaustursins hafi verið vel úr garði gerðar og að skipulag húsa og kirkju hafi fylgt víðteknum venjum um skipulag klaustra sem kennt er við St. Gallen í Sviss. Þó hefur ekkert klaustur fylgt því skipulagi í þaula. Lágu kirkja og klaustrið saman og mynduðu afmarkaða þyrpingu. Klausturkirkjan var vígð 1512 (ísl. Fornbr.safn) og hefur innanmál hennar verið um 93 m2. Mældist hún 15 m löng og 5.7 m breið utan eins útskots sem var norðanmegin. Skiptist hún í framkirkju, miðskip og kór, með hálfþili milli kórs og miðskips. Kirkjan var úr torfi og grjóti en timburklædd að innan í hólf og gólf. Margar koparleifar fundust í gólfi kirkjunnar sem benda til að þak og stafn hafi verið koparklætt. Tveir inngangar voru á kirkjunni, að vestanverðu fyrir almenning og að norðanverðu fyrir reglubræður enda styðst þaðan yfir í klausturbygginguna sjálfa. Klausturhúsin. Skiptust í hin helgu rými vestanmegin og hin veraldlegu rými austanmegin. Hin helgu rými eða vesturhlutinn lá næst kirkjunni og skiptist í næturtröppu sem var gangur er tengdi kirkju og klausturhús. Hitunarhús sem var um 18.5m2 að stærð og var búið ofni (ekki þó hlóðum eða eldstæði). Slík herbergi voru í öllum klaustrum. Svefnskáli reglubræðra, en í því rými fundust rúmstæði, var um 30m2. Kapítulinn var á enda gangsins og hefur hann verið klæddur timbri í hólf og gólf vegna allra timburleifanna sem þar fundust. Kapítulinn var um 23m2 með bogadregnu útskoti. Eitt rými um 10m2 að stærð fannst einnig í þessum hluta. Það var eingöngu innangengt að utan og fundust í því leifar tveggja seyða og má leiða líkum að því að um hafi verið að ræða einhvers konar þvotta- eða baðhús. Hin veraldlegu rými eða austurhlutinn skiptist í matsal um 20m2, þar fundust eldsummerki og leifar skordýra, niðurstöður greininga Hrannar Konráðsdóttur skordýrafornleifafræðings á gólflögum sýna fram á það. Einnig fundust þar fræ villiepla ("Malus sylvestris"). Í suðausturhorni matsalarins voru tröppur upp á sjúkraloft sem lá fyrir ofan gestaskálann. Í því gólflagi fundust einnig koparleifar og talið er að þak þessa hluta klausturhúsanna hafi einnig verið koparklætt. Salirnir hafa hvor um sig verið um 64m2. Austan við matsalinn var eldhúsið sem mældist 32m2 að flatarmáli. Í gólflögum fundust dýrabein og matarleifar og eldstæðið var um 2 metrar í þvermál. Niðurgrafið herbergi var við hlið gestaskálans, talið er að það sé búr, en þar fundust leifar matar, myglu, skordýra sem fylgja mönnum og dýrabeina. Austasti hlutinn skiptist í opið vinnurými, geymslu sem var um 16m2 sem í fannst mikið af brenndum höfuðlúsaleifum. Suðaustasta rýmið hefur verið túlkað sem kjötskemma, þar sem gólflagið benti til eldunar og geymslu matvæla. Kirkjugarður. Kirkjugarðurinn hefur verið um 441m2 að stærð og innan hans var brunnur og ræsi. Í það minnsta 295 einstaklingar á öllum aldri voru jarðsettir þar, þann stutta tíma sem klaustrið starfaði. Garðurinn var svæðisskiptur, norðanmegin og austan voru sjúklingar jarðaðir og reglubræður einnig austanmegin. Leikmenn (vinnufólk) sunnan og vestanmegin og velgjörðarmenn og –konur klaustursins innan kirkju. Ekki er vitað hverjir voru jarðaðir þarna eða hvaðan fólkið kom, en margir voru jarðaðir í líkkistum, hvort sem um var að ræða velgjörðafólk, reglubræður, sjúklinga eða leikmenn. Beinagrindur sjúklinganna vöktu mikla athygli rannsakenda. Fornmeinafræðingar fundu út að margvíslegir kvillar hrjáðu þetta fólk. Sjúklingarnir hafa verið frá börnum til gamalmenna og engum hefur verið úthýst. Reynt hefur verið að lina þjáningar allra þeirra sem leituðu ásjár í klaustrið og að bæta mein þeirra. Meðal sjúkdóma og annarra kvilla sem greindust í beinum voru sullaveiki, berklar, liðagigt, lungnabólga, Downs-heilkenni, klofinn gómur og sárasótt. Mörg tilfelli sárasóttar benda til þess að sjúkdómurinn hafi verið orðinn landlægur hér á sama tíma og annars staðar í Evrópu. Einnig fundust tvær beinagrindur með dularfulla áverka sem benda annað hvort til slyss eða morðs. Ungur maður fannst með bæði herðablöð illa brotin og höfuðkúpa konu var með augljósan skurð eftir einhvers konar eggvopn. Niðurstöður. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna hefur Skriðuklaustur verið starfrækt sem sjúkrastofnun utan hins reglubundna klaustur- og trúarlífs, auk þess sem hún sinnti því hlutverki að mennta prestlærlinga. Grænmeti og lækningajurtir hafa verið ræktuð á staðnum og nóg hefur verið að bíta og brenna í klaustrinu meðan það starfaði. Enginn hefur liðið skort sem þar dvaldi og vann, enda var það ríkt af jörðum og fjármunum. Byggingar hafa verið stórar, reisulegar og vel úr garði gerðar. Skordýragreiningar benda til þess að húsakynni hafi verið hlý og þurr. Deildar meiningar hafa verið um tilvist leikmanna (vinnufólk) í íslenskum klaustrum, en suðurhluti kirkjugarðs bendir til annars þar sem kirkjugarðurinn var svæðisskiptur og eingöngu klausturkirkjugarður en ekki sóknarkirkjugarður. Það magn matar- og dýrabeinaleifa sem fundust renna líka stoðum undir þá kenningu að leikmenn hafi verið til staðar á klausturtíma. Segja má að öll sú starfsemi sem fór fram innan klausturveggjanna hafi þarfnast leikmanna, því erfitt hefur verið fyrir fimm reglubræður að kenna prestlærlingum, elda, þrífa, sinna skjalagerð og hjúkra öllum þeim sjúklingum sem þar dvöldust, utan þess að sinna sínu trúarlega starfi. Varpar þessi rannsókn nýju ljósi á klausturlíf á Íslandi á kaþólskum tíma. Persía. Persneska keisaradæmið í kringum 500 f.Kr. Persía er sögulegt nafn yfir það land sem í dag nefnist Íran. Það er einnig oft notað sem nafn á nokkrum stórum keisaradæmum sem þaðan hefur verið stjórnað. Kris Kristofferson. Kris Kristofferson (f. 22. júní 1936) er bandarískur kántrýsöngvari, laga- og textahöfundur og kvikmyndaleikari. Hann er þekktastur fyrir lög á borð við „Me and Bobby McGee“, „Sunday Mornin' Comin' Down“ og „Help me make it through the Night“. Flest lög sín hefur hann samið einn en stöku sinnum í samvinnu við aðra. Ungdómsárin. Kris fæddist í Brownsville í Texas. Foreldrar hans voru á faraldsfæti en settust loks að í San Mateo í Kaliforníu þar sem Kris lauk framhaldsskólanámi. Faðir hans var yfirmaður í bandaríska flughernum og reyndi að beina syni sínum út á braut hermennskunnar án árangurs. Kris var vaxandi rıthöfundur á þessum tíma og fékk skólastyrk við Merton College í Oxford á Englandi, en hafði áður gengið í Pomona College í Bandaríkjunum. Á skólaárunum í Bretlandi hóf hann að yrkja texta og söng á plötur fyrir Top Rank Records undir nafninu "Kris Carson". Þessar plötur nutu ekki mikilla vinsælda. Árið 1960 lauk hann meistaragráðu í enskum bókmenntum. Hann giftist æskuástinni, Fran Beer sama ár. Loks gekk hann í herinn, varð liðsforingi og lærði þyrluflug og nýttist það honum vel. Snemma á 7. áratugnum var hann staðsettur í Þýskalandi og þar sneri hann sér aftur að tónlist og stofnaði hljómsveit. Árið 1965 hætti hann í hernum og tók upp þráðinn við textagerð. Þá var hann orðinn kennari í West Point-herskólanum. Tónlistarferill. Kris flutti til Nashville í Tennessee og var ákveðinn í að slá í gegn. Hann vann allt sem til féll á meðan hann reyndi að koma sér á framfæri. Hann átti í fjárhagserfiðleikum vegna meðfædds sjúkdóms sonar síns og þau hjónin skildu. Hann vann við að sópa gólf hjá Columbia Studios í Nashville og hitti þar Johnny Cash, sem fékk hjá honum nokkur lög, sem hann gerði svo ekkert með. Svo varð hann húsvörður hjá sama fyrirtæki og var í þeirri stöðu þegar Bob Dylan var að hljóðrita þar breiðskífuna "Blonde on Blonde" árið 1966. Hann gat stundum fylgst með upptökum en þorði ekki að ónáða goðið af ótta við að verða rekinn úr vinnunni. Þá vann hann einnig sem þyrluflugmaður á eigin vegum. Árið 1966 kom út lag eftir hann, sem Dave Dudley söng, „Viet Nam Blues“, og náði það nokkrum vinsældum. Á næsta ári gekk hann til liðs við Epic Records og gaf út tveggja laga plötu með lögunum „Golden Idol“ og „Killing Time“, en þau náðu ekki miklum vinsældum. Á næstu árum fór árangur að koma í ljós með lögum eins og „Jody and the Kid“, „From the Bottle to the Bottom“, „Sunday Mornin' Comin' Down“, „Once more with Feeling“, „Your Time's Comin'“, „Me and Bobby McGee“, „Best of all Possible Worlds“ og „Darbys Castle“. Sumir flytjendurnir voru mjög þekktir í bransanum og má hér sem dæmi nefna Ray Stevens, Jerry Lee Lewis, Faron Young og Roger Miller, en hann söng þrjú síðast nefndu lögin. Loks tókst Kristofferson að ná athygli Johnny Cash með því að lenda þyrlu sinni fyrir utan villu hans og gefa honum nokkrar spólur með lögum eftir sig. Það varð til þess að Johnny Cash kynnti hann sérstaklega á þjóðlagahátíðinni Newport Folk Festival. Árið 1970 hóf Kristofferson feril sinn sem söngvari. Fyrsta LP-platan var Kristofferson og innihélt nokkur ný lög og nokkur eldri. Hún var gefin út af Monument Records og náði ekki árangri. Þessi plata var hins vegar gefin út aftur ári síðar undir nafninu "Me and Bobby McGee" og þá fóru hjólin að snúast. Eftirspurn eftir lögum hans og textum jókst og stóru nöfnin fóru að falast eftir verkum hans, svo sem Waylon Jennings, Bobby Bare, Sammi Smith og Johnny Cash. Árið 1970 varð honum eftirminnilegt, því tvær stofnanir kusu sitt hvort lag hans lag ársins, en það voru lögin „For the Good Times“ flutt af Ray Price, kosið af Academy of Country Music og „Sunday Morning Coming Down“ flutt af Johnny Cash, kosið af Country Music Association. Þetta er í eina skiptið sem þessar tvær stofnanir hafa kosið tvö lög sama höfundar á sama árinu. Árið 1971 kom platan "Pearl" með Janis Joplin út, nokkru eftir dauða hennar. Sú plata skartaði laginu „Me and Bobby McGee“, sem hefur orðið heimsfrægt í flutningi hennar. Fleiri lög fylgdu í kjölfarið flutt af mörgum frægum söngvurum. Nefna má „Help Me Make It Through the Night“ sem flutt var af Joe Simon og einnig af O.C. Smith, „Me and Bobby McGee“ flutt af Jerry Lee Lewis, Patti Page söng „I'd Rather Be Sorry“ og Peggy Little söng „I've Got to Have You“. Á sama ári gaf hann út aðra breiðskífu sína, "The Silver Tongued Devil and I"; sló hún í gegn og kom honum alveg endanlega inn á kortið. Skömmu síðar lék hann í sinni fyrstu kvikmynd, "The Last Movie", og kom einnig fram á Isle of Wight Festival. Árið eftir lék hann í "Cisco Pike" og gaf út þriðju breiðskífu sína, "Border Lord". Á henni voru eingöngu ný lög og salan var dræm. Hann fékk Grammy-verðlaun það ár, mörg lög hans voru tilnefnd og sum unnu til ýmissa verðlauna. Fjórða breiðskífan, "Jesus Was a Capricorn" fór af stað hægt og hljótt, en lagið „Why Me“, sem hann gaf út á smáskífu, varð vinsælt og örvaði mjög sölu á stóru plötunum. Kvikmyndaferill. Næstu árin einbeitti hann sér að kvikmyndaleik. Hann lék í "Blume in Love" og "Pat Garrett and Billy the Kid". Einnig giftist hann aftur og var nýja konan hans Rita Coolidge. Með henni gerði hann albúmið "Full Moon", sem hann svo fylgdi eftir með nokkrum smáplötum og fékk tilnefningar til Grammy-verðlauna. En fimmta breiðskífan, "Spooky Lady's Sideshow", reyndist algert flopp og eftir það lá leiðin niður á við. Nokkrir söngvarar héldu áfram að nota lög hans og texta, en hin hrjúfa rödd hans og anti-popp-hljómurinn héldu aðdáendum hans sjálfs í lágmarki. Hann lék í kvikmyndunum "Bring Me the Head of Alfredo Garcia", "Convoy", "Alice Doesn't Live Here Anymore", "Vigilante Force", "The Sailor Who Fell from Grace with the Sea" og "A Star Is Born", þar sem hann lék á móti Barböru Streisand. En ferill hans á tónlistarsviðinu var allur niður á við og albúmið "Shake Hands with the Devil" náði engum vinsældum. Næsta kvikmynd hans, "Freedom Road", var ekki gefin út í Bandaríkjunum og eftir það skildu þau Rita. Á sama tíma voru aðrir söngvarar að ná frábærum árangri með lögum hans, til dæmis Lena Martell með lagið „One Day at a Time“ og svo Willy Nelson með LP-plötuna "Willy Nelson Sings Kris Kristofferson", sem reyndist metsöluplata. Næsta kvikmynd Kristoffersons var "Heaven's Gate". Hún var mislukkuð og ferill hans var á enda um skeið. Framhaldið. Árið 1982 kom út platan "The Winning Hand", með áður óútgefnum lögum fluttum af honum sjálfum, Dolly Parton, Willy Nelson og Brendu Lee. Þau höfðu öll verið á samningi hjá sama plötufyrirtækinu upp úr 1960. Þessi plata var vinsæl sem kántrýplata en náði litlum vinsældum utan þess. Nú giftist hann í þriðja sinn og varð Lisa Meyers þriðja eiginkona hans. Hann lék í kvikmyndunum "The Lost Honor of Kathryn Beck", "Flashpoint" og "Songwriter". Í þeirri síðastnefndu lék einnig Willy Nelson, og saman gáfu þeir út plötu með lögum úr myndinni og náði hún miklum vinsældum. Þeir héldu áfram samstarfi og ásamt Waylon Jennings og Johnny Cash stofnuðu þeir stjörnubandið The Highwaymen. Fyrsta albúmið frá þeim hét "Highwayman" og varð vinsælt. Þeir héldu áfram samstarfi um skeið. Árið 1985 lék Kris aðalhlutverk í "Trouble in Mind" og gaf út albúmið "Repossessed", sem var mjög pólitískt meðvitað, sérstaklega lagið „They Killed Him“ (sem einnig hafði verið flutt af Bob Dylan, sem tileinkaði það hetjum sínum: Martin Luther King, Jesú og Mohandas Gandhi). Á svipuðum tíma kom hann fram í "Amerika", sem var umdeild sjónvarpsþáttaröð. "Highwayman 2" kom út 1990 og þrátt fyrir vinsældir þeirrar plötu og viðvarandi samstarf og gott gengi The Highwaymen fóru vinsældir Kris sjálfs minnkandi eftir 1990. Hann gekk hins vegar í endurnýjun lífdaga í kvikmyndunum eftir 1996, en þá kom út myndin "Lone Star" og svo fljótlega "Blade", "Blade II", "Blade Trinity", "A Soldier's Daughter Never Cries", "Fire Down Below", endurgerð á "Planet of the Apes", "Payback" og "The Jacket". Kris Kristofferson var kosinn í Nashville Songwriters' Hall of Fame árið 1977, Songwriters' Hall of Fame 1985 og í Country Music Hall of Fame árið 2004. Árið 2006 hlaut hann verðlaunin Johnny Mercer Award frá Songwriters' Hall of Fame. Síðasta albúmið hans heitir "This Old Road" og er plata með nýju efni, hún kom út í júní 2006. Félagsmál. Kris er félagi í Veterans for Peace, sem eru friðarsamtök fyrrverandi hermanna og sem slíkur fór hann í nokkrar ferðir til Níkaragva með friðarsinnanum S. Brian Willson á níunda áratugnum. Framkvæmdarvald. Framkvæmdavald er einn af öngum þrískiptingu ríkisvalds, ásamt löggjafarvaldi og dómsvaldi. Handhafar framkvæmdarvalds sjá um að fræmkvæma þá stefnu sem sett er af löggjafarvaldi og úrskurðað um af dómsvaldi. Á Íslandi er forseti Íslands æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins, eins og segir til um í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Hann framselur valdið forsætisráðherra sem svo deilir því niður á aðra ráðherra. Flest allar stofnanir ríkisins tilheyra framkvæmdarvaldi, t.d. lögregla, Fiskistofa, Félagsmálaráðuneyti, sýslumannsembætti og Seðlabanki Íslands. Innan framkvæmdavalds eru þó nokkur skörun við löggjafar- og dómsvald, t.d. með setningu reglugerða og úrskurðum deilumála. Er litið á það sem eðlilegan hlut þar sem löggjafarvaldið setur reglur um hvenær megi setja reglugerðir og flest öllum úrskurðum er hægt að vísa til dómsstóla. Hippókrates. Hippókrates (um 460 f.Kr. – um 377 f.Kr.) var forngrískur læknir sem oft er kallaður „faðir læknisfræðinnar“. Honum er eignað safn um sextíu ritgerða um læknisfræði, "Corpus Hippocraticum" eða „ritsafn Hippókratesar“, þar sem hvers kyns hjátrú og töfralækningum er hafnað og grunnur lagður að læknisfræði sem vísindagrein. Ritgerðirnar hafa raunar verið skrifaðar af ólíkum höfundum með ólíkar skoðanir á árunum 430 f.Kr. til 200 f.Kr. Þekktust þessara ritgerða er "Hippókratesareiðurinn". Hammúrabí. Efri hluti steinsins með lögum Hammúrabís. Hammúrabí (akkadíska: úr amorísku "ˤAmmurāpi", „Ættingin er læknir“ ("ˤAmmu" „ættingi í föðurætt“ + "Rāpi" „læknir“)) var sjötti konungur Babýlon. Hann lagði Súmer og Akkad undir sig og batt enda á síðasta súmerska konungsveldið frá Isin og lagði þar með alla Mesópótamíu undir Babýlon. Hann var fyrsti konungur Babýlóníu sem hann ríkti yfir frá 1792 f.Kr. þar til hann lést 1750 f.Kr. Hann er þekktastur fyrir lög Hammúrabís sem voru höggvin í stein og stillt upp á áberandi stað, þótt fáir gætu lesið þau. Lögin eru elsta þekkta dæmið um heildstæða löggjöf. Kringilsárfoss. Kringilsárfoss (eða Töfrafoss) er ca. 25m hár foss í Kringilsá sem fær vatn sitt að mestu úr Brúarjökli. Rétt neðan við fossinn sameinast áin Jökulsá á Dal. Þegar uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar, Hálslón (eftir haust 2006), er í hæstu vatnsstöðu fer fossinn að mestu á kaf í vatn og er því aðeins til hluta úr ári. Sauðárfoss. Sauðárfoss er ca. 20m hár foss í Sauðá í Sauðárdal. Rétt neðan við fossinn rennur áin í Jökulsá á Dal. Þegar uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar, Hálslón hefur fyllst (eftir haust 2006) fer fossinn á kaf í vatn og hverfur. Appelsína. Appelsína (gamalt nýyrði var glóaldin; ekki mikið notað; skáldaorð: gullepli) er ávöxtur sítrustrésins "Citrus sinensis". Appelsínur eiga uppruna sinn að rekja til Suðaustur-Asíu, en til greina sem upprunastaðir appelsínunar koma Indland, Pakistan, Víetnam eða Kína. Orðið appelsína. Í sumum tungumálum, t.d. hollensku ("Sinaasappel") og íslensku, merkir orðið appelsína "epli frá Kína". Endingin "-sína" í orðinu appelsína er í raun gamalt heiti á Kína, en það var nefnt "Sína" á Latínu hér áður fyrr. Eldra íslenskt heiti á appelsínu er "eyjarepli", en það er þannig til komið að fyrstu appelsínurnar sem Íslendingar kynntust komu frá Sikiley. Landsvæðið milli Minho- og Douro-ánna. Landsvæðið milli Minho og Douro ánna er sögufrægt landsvæði í Portúgal og er oft vísað í svæðið sem einfaldlega Minho. Á 19. og 20. öld var það eitt af sex óopinberum landsvæðum Portúgals. Þegar Portúgal var skipt niður í núverandi svæði árið 1936, var þessu sögufræga landsvæði skipt niður í tvo smærri hluta: Douro Litoral og Minho. Í dag nær landsvæðið til umdæmi borganna Braga, Porto, Viana do Castelo, auk hluta af Aveiro og Viseu. Herranótt. Herranótt er leikfélag Menntaskólans í Reykjavík. Sögu leikfélagsins má rekja allt aftur á átjándu öld þegar skólapiltar í Skálholtsskóla hófu skólaárið á nokkurs konar uppistandi þar sem aðhlátursefnið voru ræður presta á staðnum. Hafði leikhátíðin á sér brag vikivakahátíða, þar sem menn klæddust í hin ýmsu gervi og brugðu sér í allra kvikinda líki. Í gegnum árin þróaðist svo uppistandið yfir í uppsetningu á leikritum á sviði og fylgdi nafnið Herranótt ávallt, jafnvel þó skólinn flyttist um set reglulega og skipti um nafn; úr Skálholtsskóla í Hólavallarskóla, þaðan í Bessastaðaskóla og loks Menntaskólann í Reykjavík (áður Latínuskólinn og Hinn lærði skóli). Talið er að fyrsta leikrit Herranætur hafi verið leikritið "Bjarglaunin" (eftir Geir Vídalín), sem einnig er jafnvel talið fyrsta íslenska leikritið sem leikið er á sviði. Því má segja að til Herranætur megi rekja upphaf íslenskrar leiklistarsögu. Frá því Menntaskólinn í Reykjavík komst í sitt núverandi húsnæði við Lækjargötu í Reykjavík árið 1846 hefur Herranótt sett upp leikrit á hverju ári nær óslitið. Hrísgrjón. Hrísgrjón eru fræ tveggja tegunda grasplantna, "Oryza sativa" og "Oryza glaberrima", sem eru upprunnar í Asíu og Afríku en til eru ótal afbrigði. Villihrísgrjón eru ekki eiginleg hrísgrjón heldur af annarri, náskyldri, ættkvísl grass sem er upprunnin í Norður-Ameríku. Hrísgrjón eru gríðarlega mikilvæg fæðutegund manna um allan heim. Meira en einn fimmti hluti allra hitaeininga sem menn neyta kemur úr hrísgrjónum. Hrísgrjónajurtin er einær jurt sem verður 1 til 1,8 m á hæð með löng mjó blöð. Hún er yfirleitt ræktuð á flæðiökrum þar sem hún þolir vel stöðugan raka og vatnið hindrar illgresi. Hrísgrjón eru ræktuð svona: Fræ eru sett í litla potta og svo eru plönturnar settar á vatnsborna reiti. Svo er beðið í fjóra mánuði og þá er tekið hrísgrjónin. (Það eru tvær uppskerur á ári). Aðalskipulag. Aðalskipulög eru gerð fyir svæði til þess að tryggja að íbúabyggð er ekki á áhættusvæði, og til þess að tryggja að iðnaður sé í sátt og samlindi við ráðandi öfl. Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag og skal taka til alls lands viðkomandi sveitarfélags. Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnu sína um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu til minnst 12 ára. Ný skipulags- og byggingarlög tóku gildi í byrjun árs 1998. Samkvæmt lögunum er allt landið skipulagsskylt og því þarf aðalskipulag að ná yfir allt land sveitarfélagsins en ekki eingöngu þéttbýlisstaði eins og oft var þegar unnið var skv. eldri skipulagslögum. Miðað við núverandi sveitarfélagaskiptingu eru 30 sveitarfélög með aðalskipulag unnið skv. gildandi lögum, þar af eru 21 með aðalskipulag sem nær yfir allt sveitarfélagið. Vegna sameiningar sveitarfélaga á undanförnum árum eru 9 sveitarfélög með nýlegt aðalskipulag sem nær eingöngu yfir hluta viðkomandi sveitarfélags. Í 50 sveitarfélögum er í gildi aðalskipulag unnið skv. eldri skipulagslögum og í flestum þeirra, eða í 39 talsins, nær skipulagið eingöngu til hluta sveitarfélagsins og þá yfirleitt þéttbýlisstaða. Í 11 tilvikum nær aðalskipulagið yfir allt land sveitarfélagsins. Þess má geta að í 5 sveitarfélögum eru í gildi fleiri en eitt aðalskipulag, unnin á grundvelli eldri og núgildandi laga, sem skýrist af sameiningu sveitarfélaga á undanförnum árum. Í 23 sveitarfélögum er ekkert aðalskipulag í gildi en skv. skipulags- og byggingarlögum þurfa öll sveitarfélög að vera komin með aðalskipulag sem nær yfir allt land sveitarfélagsins árið 2008. Í mörgum þessara sveitarfélaga er unnið að gerð aðalskipulags. Skipulagsvinna. Skipulagsvinna hefur átt sér stað um heim allan, fyrstu byggðaskipulög í vestanverðri evrópu byggðu á þörfinni til að geta bælt niður borgaruppreistnir með hervaldi. Breiðstrætin í París eru dæmi um slíkt skipulag, þar sem hægt var að beyta stórskotaárás á almenna borgara sem voru að mótmæla, og þannig náð tökum á óreðu með góðu skipulagi. Breiðstrætin skiluðu sér í auðveldari vöru og fólksflutningum til og frá borgarkjarnanum, sem varð til þess að viðskipti og mannlíf blómstruðu. Skipulagsstofnun. Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála og Skipulagsstofnun er honum til ráðgjafar. Hlutverk Skipulagsstofnunar er meðal annars að hafa eftirlit með framkvæmd skipulagslaga, veita ráðgjöf og fylgjast með stöðu Skipulagsskylda. Landið allt er skipulagsskylt. Bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir, sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar. Þar eru sett fram markmið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, atvinnusvæði, náttúruvernd, samgöngur o.fl. Í skipulagsáætlunum skal meðal annars lýsa náttúru og aðstæðum öllum á skipulagssvæðinu við upphaf áætlunarinnar og forsendum þeirrar stefnu sem hún felur í sér. Útdráttur úr 9. grein. Skipulagsferillinn. Ákvörðun um gerð skipulags. Samráð við almenning og hagsmunaaðila um mótun tillögu. Kynning á tillögu áður en hún verður lögð fyrir bæjarstjórn til formlegrar afgreiðslu. Kynning fyrir „umsagnaraðilum“. Formleg kynning á tillögu skv. 18. grein skipulags- og byggingarlaga. Umsögn um athugasemdir. Endanleg tillaga. Afgreiðsla í nefndum. Samþykkt bæjarstjórnar. Umsögn Skipulagsstofnunar. Auglýsing á umsögnum við athugasemdum. Staðfesting. Útgáfa. Kynning. Við gerð skipulagsáætlana skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið. Samráð við almenning og hagsmunaaðila um mótun tillögu. Kynning á tillögu áður en hún verður lögð fyrir bæjarstjórn til formlegrar afgreiðslu. 18. grein Kynning á skipulagstillögu. Áður en tillaga að aðalskipulagi eða verulegum breytingum á því er tekin til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, markmið hennar og forsendur kynnt íbúum sveitarfélagsins á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Skal kynningin auglýst með áberandi hætti. Einnig skulu tillögurnar kynntar sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga. Að lokinni kynningu skal tillagan lögð fyrir sveitarstjórn til fyrri umræðu. Sveitarstjórn skal að henni lokinni senda Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar. Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst henni skal tillagan auglýst óbreytt samkvæmt 18. grein. Telji Skipulagsstofnun að tillagan fullnægi ekki settum kröfum um aðalskipulag skal hún leita samkomulags við sveitarstjórn um breytingar. Náist ekki samkomulag er sveitarstjórn engu að síður heimilt að auglýsa tillöguna en sýna skal athugasemdir Skipulagsstofnunar við hana. 17. grein Ríó-yfirlýsingin. Með Ríó-yfirlýsingunni frá 1992, sem Ísland er aðili að, voru staðfestar nokkrar grundvallarreglur í samskiptum manns og umhverfis, er stuðla eiga að sjálfbærri þróun. Þar á meðal eru fjórar meginreglur og yfirlýsingar sem settar eru fram til að treysta grundvöll sjálfbærrar þróunar, réttindayfirlýsingar, varúðarreglan, mengunarbótareglan og nytjagreiðslureglan. Yfirlýsingin leggur þær skyldur á herðar ríkisstjórna að vinna eigin framkvæmdaáætlun (Dagskrá 21) í umhverfismálum og skyldar sveitarstjórnir að vinna að staðbundinni framkvæmdaáætlun, svokallaðri Staðardagskrá 21. Lykilhugtakið í yfirlýsingunni er sjálfbær þróun en það er þróun samfélags sem tekur mið af vistfræðilegum, hagrænum, menningarlegum og félagslegum þörfum núlifandi og komandi kynslóða. Grundvallarhugsunin er sú að aðgerðir og breytni á heimavelli stuðli að betra umhverfi á heimsvísu. Ríó-yfirlýsingin. Í Ríó-yfirlýsingunni segir að mannkyninu beri réttur til að lifa heilbrigðu og auðgandi lífi í sátt við náttúruna. Þar er einnig minnst á réttinn til þróunar, sem beri að nýta með þeim hætti að komið sé af sanngirni til móts við umhverfisog þróunarþarfir núlifandi og komandi kynslóða. Tekið er fram að hver einstaklingur eigi rétt á upplýsingum um umhverfið, ástand þess og aðgerðir á sviði umhverfismála. Einnig á hver einstaklingur rétt á þátttöku í ákvarðanatöku sem snertir nánasta umhverfi hans. Varúðarreglan. kveður á um að ekki skuli ráðast í framkvæmd sem kann að hafa alvarleg áhrif á umhverfið nema að sýnt sé fram á að hún hafi ekki slík áhrif. Mengunarbótareglan. kveður á um að þeir sem spilla umhverfinu beri kostnað við mótvægisaðgerðir og bætur á þeim skaða sem þeir valda. Nytjagreiðslureglan. kveður á um að þeir sem nýta náttúrulegar auðlindir til ágóða og ánægju greiði kostnað sem til fellur við stjórn, viðhald og verndun auðlindanna. Tenglar. Íslensk stjórnmál Żagań. Żagań er bær í Lubusz-héraði í Póllandi vestanverðu. Íbúar voru 26.665 árið 2004. Bikini Kill. Bikini Kill var hljómsveit sem spilaði hrátt ræflarokk og söngtextar hennar einkenndust af róttækum femínisma. Kathleen Hanna, Kathi Wilcox og Tobi Vail stofnuðu hljómsveitina í Olympiu, Washington í október 1990, en Billy Karren var einnig í hljómsveitinni. Eftir að hljómsveitin hafði gefið út fjórar plötur; "Pussy Whipped", "Reject All American" smáskífurnar og geisladiskaútgáfu af fyrstu tveimur hljómplötunum sundraðist hún árið 1998. Kill Rock Stars. Kill Rock Stars (Rock Stars Kill, Stars Kill Rock) er tónlistarútgáfufyrirtæki sem var stofnað árið 1991 af Slim Moon sem er með aðsetur í Olympiu, Washington í Bandaríkjunum. Kill Rock Stars gefa m.a. út hljómsveitir eins og Bikini kill, Bratmobile, Unwound og The Melvins. Kathleen Hanna. Kathleen Hanna (fædd 12. nóvember 1968) er bandarísk tónlistarkona og textar hennar eru flestir feminískir eða pólítiskir. Hanna hefur verið í mörgum hljómsveitum um æfina en fægustu eru þó Bikini kill og Le Tigre og var hún söngkonan í þeim báðum. Einnig hefur hún átt sjálfstæðan feril undir nafninu Julie Ruin. Hanna, Kathleen Dodoitsu. Dodoitsu er japanskt ljóðform sem hófst til vegs undir lok Jedótímabilsins. Dotdoitsu fjalla oft um hversdagslega hluti svo sem ástir og vinnu en undirtónninn er jafnan kómískur. Ljóðlínurnar eru fjórar og atkvæðafjöldinn skiptist svo: 7-7-7-5. Pussy Whipped. "Pussy Whipped" er hljómplata sem Riot Grrrl-hljómsveitin Bikini Kill gaf út árið 1994. Lög pötunnar einkennast af femíniskum textum og hrárri pönktónlist. Nevermind. "Nevermind" er önnur plata bandarísku gruggrokkhjómsveitarinnar Nirvana. Hún kom út árið 1991 og varð gífurlega vinsæl. Einn heitasti smellur hljómsveitarinnar er lagið „Smells Like Teen Spirit“. Reject All American. "Reject All American" er plata sem bandaríska hljómsveitin Bikini Kill gaf út árið 1996. Presthólahreppur. Presthólahreppur var hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu, kenndur við bæinn Presthóla í Núpasveit. Náði hreppurinn yfir meginhluta Melrakkasléttu, frá ósum Sandár vestan megin að Ormarsá austan megin. Kauptún mynduðust á Raufarhöfn og Kópaskeri og var Raufarhöfn gerð að sérstökum hreppi í ársbyrjun 1945. Presthólahreppur sameinaðist Öxarfjarðarhreppi 17. febrúar 1991, undir merkjum Öxarfjarðarhrepps. Bloc Party. Bloc Party er bresk hljómsveit sem spilar tónlist kennda við indie-rokk rokk og síð-pönk. Fyrsti diskurinn þeirra heitir "Silent Alarm" og er talinn vera ein besta frumraun breskrar hljómsveitar í langan tíma. Sauðanes (N-Þingeyjarsýslu). Sauðanes er kirkjustaður og prestssetur á Langanesi, nokkuð fyrir norðan Þórshöfn. Kirkjan á staðnum er helguð Ólafi konungi úr kaþólskum sið og var byggð árið 1889 en altaristaflan er frá árinu 1742. Sauðanes (Upsaströnd). Sauðanes er eyðibýli á Upsaströnd við Eyjafjörð. Á Sauðanesi bjó Þorvaldur Rögnvaldsson skáld, en þátt um hann er að finna í Þjóðsögum og munnmælun Jóns Þorkelssonar. Við Sauðanes kom "Eyjafjarðarskotta" á land, en hana höfðu hollendingar sent til Eyjafjarðar til að kvelja og drepa allar konur í Vaðlaþingi. Þorvaldur stóð á ströndu þegar Skottu bar þar að og gat komið í veg fyrir að hún ynni konum mein, en í stað þess drap hún nokkrar kýr og drekkti manni í Eyjafjarðará. Fjallahreppur. Fjallahreppur var hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu sunnanverðri. Hreppurinn var stofnaður árið 1893 þegar Skinnastaðarhreppi var skipt í tvennt. Nyrðri hlutinn varð að Öxarfjarðarhreppi. Hinn 1. janúar 1994 sameinaðist Fjallahreppur Öxarfjarðarhreppi á ný undir merkjum hins síðarnefnda. Skinnastaðarhreppur. Skinnastaðarhreppur (oft ritað Skinnastaðahreppur) var hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu, kenndur við kirkjustaðinn Skinnastað í Öxarfirði. Til forna var hann oft nefndur Ærlækjarhreppur eftir þingstaðunum á Ærlæk. Árið 1893 var Skinnastaðarhreppi skipt í tvennt, í Öxarfjarðarhrepp og Fjallahrepp. Eyðibýli. Eyðibýli kallast bújörð (tún og fasteignir) sem ekki er í ábúð og er ekki nýtt lengur til búskapar af eiganda. Oftast eru íbúðar- og útihús á jörðinni illa farin af veðri og vindum. Ekki er nákvæmlega vitað hvað eyðibýli eru mörg á Íslandi en ljóst má vera að þau eru einhvers staðar á bilinu 100 til 3000. Þá eru mannlaus hús innan stærri sveitarfélaga til dæmis í Reykjavík. Stundum eru tún notuð af nágrannabæjum til beitar eða sláttar. Rufus Wainwright. Rufus McGarrigle Wainwright (fæddur 22. júlí, 1973) er kanadísk-bandarískur söngvari/lagahöfundur. Breiðskífur. Wainwright, Rufus Hróarskelduhátíðin. Hróaskelduhátiðin (danska: "Roskilde Festival") er tónlistarhátíð sem haldin er á hverju sumri utan við Hróarskeldu í Danmörku. Hátíðin er ein af elstu tónlistarhátíðum Evrópu. Fyrsta hátíðin var haldin árið 1971 með aðeins 10.000 áhorfendum, 20 hljómsveitum á einu sviði og stóð í tvo daga. Alan Shearer. Alan Shearer (fæddur 13. ágúst 1970) er enskur knattspyrnumaður. Hann lék sem framherji en hefur nú lagt knattspyrnuskóna á hilluna. Hann hóf feril sinn hjá Southampton en fór síðan til Blackburn Rovers þar sem hann sló fyrst í gegn. Hann varð Englandsmeistari með félaginu árið 1994 en var síðan keyptur til Newcastle United og hefur leikið þar síðan eða þar til hann hætti knattspyrnuiðkun 2006. Arnarfjörður. Arnarfjörður er annar stærsti fjörðurinn á Vestfjörðum eftir Ísafjarðardjúpi og er rétt sunnan við miðju kjálkans. Hann er um 30 km langur inn í botn Dynjandisvogs, 5 til 10 km breiður og afmarkast hið ytra af Kópanesi að sunnan og Sléttanesi að norðan. Inn úr honum skerast nokkrir minni firðir og vogar. Lýsing. Sæbrött hamrafjöll liggja að firðinum yst, einkum að norðan, og hvarvetna er undirlendi lítið. Tvö forn eldfjöll eru við Arnafjörð, Kópur yst á Kópanesi og Kaldbakur við miðja norðurströndina. Í kringum Kaldbak fær landslagið sérstakan svip. Þar eru dalir og skörð, nær engir klettar en annars staðar kambar og strýtur og þar er líparít ráðandi bergtegund. Annars er aðalbergtegundin blágrýti, á milli blágrýtishraunlaganna er víða surtarbrandur og steingerðar og kolaðar plöntuleifar. Engin eldgos hafa orðið á Vestfjörðum síðustu 10 miljón árin. Norðan við Langanes sem skiptir Arnarfirði eru Dynjandisvogur og Borgarfjörður. Sunnan Langanes eru Suðurfirðirnir: Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Ketildalir heitir einu nafni röð af stuttum dölum sem ná eftir allri strandlengjunni á suðurströnd Arnarfjarðar, frá Kópsnesi inn að Bíldudalsvogi, og voru þeir flestir byggðir áður fyrr. Arnarfjörður er allur mjög djúpur nema sandrif gengur út frá Langanesi. Í innfjörðum Arnarfjarðar er víða mikil veðursæld þar sem þeir eru umkringdir háum fjöllum og eru þeir víða vaxnir birkikjarri. Í botni Borgarfjarðar er Mjólkárvirkjun, sem nýtir vatnsföll ofan af Glámuhálendinu til rafmagnsframleiðslu. Í botni Dynjandisvogs er fossinn Dynjandi sem er mesti foss á Vestfjörðum. Norðan Arnarfjarðar er Hrafnseyri, kirkjustaður og fyrrum prestssetur. Bærinn hét upphaflega Eyri en hefur frá 13. öld verið kenndur við höfðingjann og lækninn Hrafn Sveinbjarnarson, sem þar bjó. Þar fæddist 17. júní 1811 Jón Sigurðsson, einn helsti leiðtogi í frelsisbaráttu íslendinga á 19. öld. Byggð. Áður voru þrjú sveitarfélög í Arnarfirði: Auðkúluhreppur, Suðurfjarðahreppur og Ketildalahreppur. Síðarnefndu hrepparnir tveir sameinuðust árið 1987 undir nafninu Bíldudalshreppur og hafa verið hluti af sveitarfélaginu Vesturbyggð frá 1994 en Auðkúluhreppur sameinaðist Þingeyrarhreppi árið 1990 og hefur verið hluti af Ísafjarðarbæ frá 1996. Bíldudalur er eina kauptúnið við Arnarfjörð. Það á sér langa og merka sögu, þar var meðal annars einn af verslunarstöðum einokunarverslunarinnar. Fljótlega eftir að verslun var gefin frjáls í lok 18. aldar eignaðist Ólafur Thorlacius verslunina og rak þaðan þilskipaútgerð og flutningaskip og seldi fisk beint til Spánar. Pétur J. Thorsteinsson rak einnig mikinn atvinnurekstur á Bíldudal milli 1880 og 1910 með útgerð og verslun. Fram undir miðja 20. öld var Arnarfjörður þéttbyggður en nú eru einungis örfáir bæir eftir í byggð. Lítið undirlendi er víðast við fjörðinn og voru flestir bæir í fjarðarbotnum og í fjallshlíðum þar sem eitthvað underlendi var. Sjóróðrar voru stundaðir jafnhliða búskap frá öllum bæjum. Sjósókn var þó erfið á árabátum nema frá þeim bæjum sem voru utarlega í firðinum. Verstöðvar voru því reistar á ystu nesjum þar sem hægt var að lenda árabátum og má víða sjá rústir og aðrar leifar á ystur nesjum. Um tíma voru uppi áætlanir um að setja upp olíuhreinsunarstöð í Hvestudal við sunnanverðan Arnarfjörð. Skrímsli. Margar sögur eru um skrímsli í Arnarfirði og er hann á stundum talin vera mesti skrímslafjörður á Íslandi. Fjörulallar voru víða, svo og ýmsar aðrar ókindir, í og við sjó. Dæmi voru um að togarar fengju skrímsli í vörpuna. Landnám. Samkvæmt Landnámu er Arnarfjörður kenndur við landnámsmanninn Örn, en þar segir svo: „Örn var maður ágætur. Hann var frændi Geirmundar heljarskinns. Hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði, svo vítt sem hann vildi.“ Samkvæmt Landnámu keypti Án rauðfeldur Grímsson land af Erni milli Langaness og Stapa í Arnarfirði og bjó sjálfur á Eyri. Dufan, leysingi Ánar, bjó í Dufansdal. Í Landnámu segir einnig að: „Ketill ilbreiður son Þorbjarnar tálkna, nam dali alla frá Kópanesi til Dufansdals.“ Við hann eru Ketildalir kenndir. Einnig nam Geirþjófur Valþjófsson Suðurfirði alla og bjó í Geirþjófsfirði. Apar. Apar (fræðiheiti: "Anthropoidea") eru einn af undirættbálkum fremdardýra, með stutt trýni, litsjón og grip á öllum ganglimum. Rafsegulgeislun. Rafsegulgeislun eða rafsegulbylgjur eru samheldnar bylgjur í segulsviði og rafsegulsviði sem sveiflast hornrétt hvor á aðra og þvert á útbreiðslustefnuna (sú stefna sem bylgjurnar ferðast í). Rafsegulgeislun getur líka verið í formi einda sem streyma um sem litlir orkuskammtar, þær eru kallaðar ljóseindir (sjá tvíeðli ljóss). Öll rafsegulgeislun flytur með sér orku og þarf ekki efni til að berast um í (gagnstætt hljóðbylgjum t.d.). Þó er hraði rafsegulbylgja háður eiginleikum umhverfisins sem lýst er með rafsvörunarstuðli (formula_1) og segulsvörunarstuðli (formula_2). Rafsegulgeislun stafar ýmist glóa heitra hluta eða vegna ljóma ýmissa efnahvarfa t.d. þar sem ekki þarf hita til. Rafsegulgeislun er stundum bara kölluð ljós, en oftast er þó átt við sýnilegt ljós. Í tómarúmi er raf- og segulsvörunarstuðlarnir: formula_3 og formula_4. Ljóshraðin í tómarúmi er því: formula_5. Þegar ljós ferðast í efni stækka þessir stuðlar og því verður ljóshraðin minni. Ragnheiður Jónsdóttir. a> 1684. Þessi mynd er fyrirmynd að myndinni á íslenska 5000 kr. seðlinum. Búnaður kvennanna er svartar hempur, hvítir faldar og barðahattar ofan á földunum. Ragnheiður „yngri“ Jónsdóttir (f. 1646, d. 1715) var prófastsdóttir úr Vatnsfirði, dóttir séra Jóns Arasonar (f. 1606, d. 1673) og Hólmfríðar Sigurðardóttur konu hans. Sagt var um Hólmfríði, móður Ragnheiðar, að hún hafi pantað erlendis frá gylltan lit í hár sitt. Ragnheiður var ein tólf systkina og varð eiginkona tveggja biskupa á Hólum. Hún var þriðja kona (1674) Gísla Þorlákssonar og seinni kona Einars Þorsteinssonar (1696) en hann varð bráðkvaddur eftir aðeins eins mánaðar hjónaband. Ragnheiður þótti einn besti kvenkostur á Íslandi á sinni tíð og var mikilvirk hannyrðakona. Eftir að Ragnheiður varð ekkja, og fluttist frá Hólum, bjó hún langa hríð á Gröf á Höfðaströnd með Odd digra bróðir sinn sem ráðsmann. Ragnheiður tók nemendur í hannyrðanám, bæði meðan hún var biskupsfrú á Hólum 1674 til 1684, og einnig meðan hún bjó á Gröf. Myndir af Ragnheiði prýða íslenska 5000 króna seðilinn. Reynt var að finna myndefni sem tengdist íslenskum konum og framlagi þeirra þegar kvennafrídagurinn var nýafstaðinn og kona, Vigdís Finnbogadóttir, orðin forseti Íslands og var Ragnheiður ein af þeim konum í Íslandssögunni sem heimildir eru um. Á framhlið seðilsins er Ragnheiður og fyrri maður hennar Gísli Þorláksson biskup ásamt tveimur fyrri konum Gísla. Á bakhlið seðilsins er Ragnheiður ásamt tveimur stúlkum við hannyrðir og til hliðar er fangamark úr sjónabók Ragnheiðar. Stórt barokkmálverk sem Ragnheiður lét gera og sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu er grunnurinn að mannamyndunum. Á seðlinum sést hún sitja í stól með kistusæti sem hún átti og nú er varðveittur í Þjóðminjasafninu, einnig heldur hún á sjónabók sem er til á safninu. Einnig er stuðst við og altarisklæði úr Laufáskirkju sem talið er hennar verk og með hennar fangamarki. Sjónabók, stóll, tvær fatakistur, trafaöskjur, a.m.k. tvö bréf og handskrifuð sálmabók merkt Ragnheiði hafa varðveist. Heimildir. Ragnheiður Jónsdóttir Ragnheiður Jónsdóttir Gísli Þorláksson. Gísli Þorláksson (f. 11. nóvember 1631, d. 22. júlí 1684) var Hólabiskup frá 1657 til dauðadags 1684, eða í 27 ár. Foreldrar: Þorlákur Skúlason biskup á Hólum og Kristín Gísladóttir kona hans. Gísli fæddist á Hólum og ólst þar upp. Hann brautskráðist úr Hólaskóla 1649 og fór utan sama haust. Skráður í Kaupmannahafnarháskóla 3. desember 1649. Kom aftur til landsins 1652, var skólameistari á Hólum 1654–1656. Eftir fráfall föður síns var hann kosinn biskup á prestastefnu 21. apríl 1656, aðeins 24 ára. Fór utan um sumarið og var vígður 10. maí 1657. Kom að Hólum 7. júlí sama ár og var biskup til dauðadags, 1684, þá 52 ára. Gísli var friðsamur maður, lítillátur, örlátur og vel látinn, en þótti hvorki mikill lærdómsmaður né hafa háar gáfur. Var og reynslulítill þegar hann tók við embætti, en naut ætternis síns. Fyrri hluta biskupsferils síns stóð hann nokkuð í skugga Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem var atkvæðameiri maður. Gísli átti um tíma í hörðum deilum við Jón Eggertsson á Ökrum og fleiri. Gísli er einna kunnastur fyrir áhuga sinn á myndlist. Hann hafði lengi í þjónustu sinni Guðmund Guðmundsson bíld frá Bjarnastaðahlíð. Eru til mörg verk sem Guðmundur vann fyrir Gísla og Ragnheiði Jónsdóttur þriðju konu hans. Þekktast þeirra er skírnarsárinn í Hóladómkirkju, frá 1674. Ritstörf: "Húspostilla" 1–2 (Gísla-postilla), Hólum 1667–1670, að nokkru þýdd. Þýddi einnig spurningakver handa börnum, "Examen Catheceticum", Hólum 1674. Orti latínukvæði til Runólfs Jónssonar 1651. Hafði umsjón með prentsmiðjunni á Hólum og lét prenta þar rúmlega 40 bækur. Þekktust þeirra er frumútgáfa Passíusálma Hallgríms Péturssonar 1666. Árið eftir að Gísli dó, 1685, var prentuð önnur útgáfa "Gísla-postillu", og einnig "Kristileg líkpredikun Gísla Thorlákssonar" eftir Þorstein Gunnarsson. Voru það síðustu bækur prentaðar á Hólum á 17. öld, áður en prentsmiðjan var flutt suður í Skálholt. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru nokkrar skjalabækur Gísla, m.a. bréfabók hans (óheil) og prestastefnubók, prentaðar 1983: "Prestastefnudómar og bréfabók Gísla biskups Þorlákssonar". Gísli var barnlaus með öllum konum sínum. Þórðarhellir. Þórðarhellir er í austanverðri Reykjarneshyrnu í Árneshreppi á Ströndum, rúmlega klukkutíma gang frá bænum Litlu-Ávík, 2-3 km. Þórðarhellir er undir háu hamrabelti og frá honum er brött 20-30 metra grjótskriða niður að sjó. Fjaran veit nokkurn veginn í austur og er fyrir opnu hafi. Skammt fyrir utan Þórðarhelli ganga forvaðar í sjó fram, svonefnt Landskegg, og er sú leið ófær undir Reykjarneshyrnu til bæjarins Reykjarness. Hyrnan er einnig ókleif úr þessari átt. Eina færa leiðin að Þórðarhelli er gönguleiðin sem liggur frá Litlu-Ávík, þræða verður fjárgötur í bröttum skriðum og klöngrast um stórgrýti niðri í víkum. Þórðarhellir er 10,5 metrar á breidd og 12 metrar á lengd. Mesta hæð hans er 3,10 metrar. Hann er hæstur til suðausturs en lækkar mjög til jaðranna. Mynni Þórðarhellis er mjög lágt og frekar mjótt og verður að skríða grjótskriðu niður á við til að komast inn í hellinn. Leifar af hleðslu, hægra megin þegar komið er inn í hellinn voru sýnilegar í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Nú sjást engin óræk merki um mannvist í hellinum. Sagnir herma að Þórðarhellir sé gamalt útilegubæli og tvennum sögum fer af því hvaða Þórð hellirinn er kenndur við. Segja sumar sögur að hann sé kenndur við Þórð galdramann Guðbrandsson, bónda á Munaðarnesi, sem brenndur var fyrir galdra 1654. Þjóðsaga segir að hann hafi sloppið úr brennunni og leitað til bóndans í Litlu-Ávík sem hafi leynt honum í hellinum. Önnur munnmæli herma að hellirinn dragi nafn af Þórði sakamanni sem leyndist í hellinum um hríð. Ástir tókust með honum og heimasætunni á Litlu-Ávík og flutti hún í hellinn til hans og ól honum barn. Bóndinn í Litlu-Ávík brást ókvæða við þegar hann frétti hvar dóttir hans hélt til og fór með lið manna í hellinn og nam stúlkuna og barnið á brott. Veittust mennirnir að Þórði en hann varðist þeim ofan af klettasyllu í Hyrnunni og kastaði í þá grjóti. Sagt var að bóndinn hefði látist af áverkum af völdum Þórðar. Hið íslenska Biblíufélag. Hið íslenska Biblíufélag er félag sem var stofnað 10. júlí 1815 til að vinna að útgáfu og útbreiðslu Biblíunnar á Íslandi. Félagið var stofnað fyrir tilstuðlan ensks manns, Ebenezer Henderson, sem hér var á ferð um þær mundir að tilhlutan hins volduga enska biblíufélags. Félagið er elsta starfandi félag á Íslandi. Haglél. Haglél eða hagl er tegund úrkomu, sem fellur úr éljaskýjum og er glærar eða mattar og oft harðar ískúlur, 5 til 50 mm að þvermáli. Í einstaka tilfellum eru höglin svo stór að þau valda tjóni á mannvirkjum og gróðri. Johann Wolfgang von Goethe. Johann Wolfgang von Goethe (28. ágúst 1749 – 22. mars 1832) var þýskur rithöfundur, ljóðskáld, dramatúrg, vísindamaður og heimspekingur sem skrifaði meðal annars leikritið "Fást", skáldsöguna "Raunir Werthers unga" og "Zur Farbenlehre" um litafræði. Hann var hluti af þýsku bókmenntahreyfingunni "Sturm und Drang" við upphaf rómantíska tímabilsins. Goethe átti ríkan þátt í að koma rómantísku hreyfingunni á legg og hafði mikil áhrif á hana. Með orðum George Eliot var Goethe "stærsti andi þýskrar ritlistar... og hinn síðasti sanni heimsmaður á þessari jörðu". Meðal verka Goethes eru umdeildar vísindakenningar sem hafa verið bæði heimspekingum og listamönnum innblástur og jafnvel raunvísindamönnum, en hugmyndir hans um plöntur og þróun dýra voru þróaðar áfram af náttúrufræðingum, þeirra á meðal var Charles Darwin. Ein virtasta menningarstofnun heims, Goethe-Institut, heitir eftir honum en hún hefur það hlutverk að breiða þýska menningu út um heimsbyggðina. Genf. Genf (franska: Genève, ítalska: Ginevra, retó-rómanska: Genevra) er borg í Sviss og höfuðstaður kantónunnar Genf. Þar eru aðsetur ýmissa alþjóðlegra stofnana og samtaka. Borgin er einnig miðstöð fjármála- og viðskiptalífs. Samkvæmt Forbes-listanum er Genf ein dýrasta borg heims til að búa í. Lega og lýsing. Genf er suðvestasta borgin í Sviss. Hún stendur við suðvesturenda Genfarvatns á báðum bökkum árinnar Rón, sem þar fellur úr vatninu. Borgin er við landamæri Frakklands og líkist því nokkuð frönskum borgum menningarlega séð. Hún hefur þanist mikið út undanfarna áratugi og margir útbæjarkjarnar myndast. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Genfar er tvískiptur. Til vinstri er hálfur svartur örn með rauðar klær, nef, tungu og kórónu á gulum grunni. Til hægri er gulur lykill á rauðum grunni. Örninn er tákn um þýska ríkið. Lykillinn er tákn um furstabiskupana sem stjórnuðu Genf í gegnum aldirnar. Merki þetta kom fram á 15. öld. Skjaldarmerkið er bæði notað af kantónunni og borginni Genf. Söguágrip. Jóhannes Kalvín umbreytti Genf bæði í trúmálum og stjórnmálum Það voru keltar sem reistu víggirta borg sem þeir nefndu Genava. Rómverjar hertóku hana um 120 f.Kr. Júlíus Caesar sat í Genf árið 58 f.Kr. og meinaði helvetum að flytjast vestur yfir ána Rón. Borgin varð kristin á 4. öld og varð að biskupsdæmi þegar árið 381. Síðar varð Genf hluti af frankaríkinu og Búrgúnd. Árið 1032 tilheyrði Genf þýska ríkinu. Mjög snemma urðu biskuparnir ráðandi afl í borginni og landsvæðinu í kring. Friðrik Barbarossa keisari staðfesti yfirráð biskupanna árið 1162. Yfirráð þessi vöruðu allt til 16. aldar, er Genf gerði samning við Sviss, án þess þó að ganga í sambandið. Þegar íbúarnir tóku siðaskiptum á árunum 1534-36, ráðgerðu kaþólskar kantónur Sviss, sem og hertoginn í Savoy, að hertaka Genf og neyða íbúana til kaþólskrar trúar á ný. En Bern var fljótari fyrir. Borgin sendi herlið til Genfar, sem rak alla fulltrúa Savoy og kaþólsku kantónanna burt. Í júlí 1536 kom Jóhannes Kalvín til Genfar og umbylti trúarsiðum borgarbúa. Hann kom á harðri trúarstjórn, bannaði allar skemmtanir og setti ströng trúarlög. Stjórn hans líktist helst trúarofstæki. Mörgum andstæðingum var harðlega refsað og hundruðir flúðu borgina. Kalvín stofnaði trúarskóla og fluttu margir nemar þaðan kalvínismann til Niðurlanda, Englands og Skotlands. 1584 gerði Genf annan friðarsamning við svissneska sambandið, en kaþólsku kantónurnar voru harðlega á móti því að hleypa Genf inn í sambandið sem nýrri kantónu. Savoy gerði enn eina tilraun til að hrifsa borgina til sín 1602. Nóttina 11. – 12. nóvember réðust hermenn hertogans af Savoy á borgina en voru strádrepnir. Enn í dag er haldið upp á sigurinn í Genf. Á 18. öld gerðu íbúar Genfar nokkrar uppreisnir gegn borgarstjórninni. 1782 náðu íbúar að hrekja ráðamenn burt og mynda eigin stjórn. En hún varaði ekki lengi, því Frakkar ruddust inn í borgina og hertóku hana. Gamla stjórnkerfið var aftur sett á. En þegar franska byltingin var vel á veg komin 1791, kröfðust íbúar meira lýðræðis á ný. Aftur var gerði bylting 1792 og að þessu sinni hrökluðust ráðamenn borgarinnar endanlega burt. Margir voru teknir af lífi. Gerð var gagnbylting með tilheyrandi óeirðum. Það var ekki fyrr en 1796 sem ró komst á í borginni. 1798 hertóku Frakkar Genf og var hún frönsk meðan Napoleons naut við. Eftir fall Napoleons 1815 yfirgáfu Frakkar borgina, sem tekin var inn í svissneska sambandið. Genf var síðasta héraðið sem tekið hefur verið inn í Sviss sem kantóna. (Yngsta kantónan, Júra, er nefnilega eingöngu splittun á franska hluta Bernar). Á 19. öldinni var Genf mjög opin fyrir listir og vísindi, en hún varð einnig að iðnaðar- og verslunarborg. Borgarmúrarnir voru rifnir, nýjar götur og brýr voru lagðar, stofnuð voru söfn. Genf varð einnig að ráðstefnuborg. Rauði krossinn var stofnaður í Genf 1863, háskóli 1873. Árið 1920 var aðsetur Þjóðabandalagsins fluttar til Genfar. Síðan þá hafa margar alþjóða stofnanir flutt aðalskrifstofur sínar til Genfar. Alþjóðastofnanir. Aðsetur Alþjóða rauða krossins í Genf Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Servette FC Genéve. Félagið hefur sautján sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 1999), sjö sinnum bikarmeistari (síðast 2001) og þrisvar deildarbikarmeistari (síðast 1980). Árlega er Maraþonhlaup haldið í borginni síðan 2005. Fyrsta hlaupið var dramatískt, þar sem þrír hlauparar komu nær samtímis í mark. Aðeins 0,6 sekúndur skildi þá að. Sigurvegarinn var Eþíópíumaðurinn Tesfaye Eticha, en hann hefur alls sigrað fjórum sinnum í hlaupinu. Frægustu börn borgarinnar. Henry Dunant, stofnandi Rauða krossins, fæddist í Genf Dúr. Nöfn nótnanna í dúrtónstiganum í solfa-kerfinu eru: "do, re, mí, fa, so, la, tí (og do)". Á píanóhljómborðinu er einfaldasti dúrtónstiginn C-dúr (sjá mynd 1). Hann er einstakur að því leyti að hann er eini dúrtónstiginn þar sem hækkaðar eða lækkaðar nótur koma ekki fyrir á nótnastrengnum og sem notast þar af leiðandi ekki við svartar nótur á hljómborðinu. Þegar dúr- (og moll-) tónstigar eru skrifaðir út verður að setja nótu á hvert strik og hvert bil milli strika á nótnastrengnum og ekki má vera fleiri en eitt formerki við neina þeirra. Þetta þýðir að í tóntegundartáknun geta aðeins verið hækkunar- eða lækkunarmerki (krossar eða bé); í venjulegum dúrtónstigum eru aldrei bæði. Dúrtónstiginn er hinn sami og kirkjutóntegund sem nefnist Jónísk tóntegund. Uppbygging dúrtónstiga. 1 2 3 4 5 6 7 8 S - S - L - S - S - S - L Hér táknar S heiltón, sem samsvarar því að fara upp um tvær nótur og L táknar hálftón sem samsvarar því að fara upp um eina nótu. Sérhver dúrtónstigi í vestrænni tónlist er byggður upp af þessum "skrefum", í þeirri röð sem sést hér að ofan. Á hljómborði sést að fjarlægðin frá C til D er tvær nótur, sé sú svarta á milli þeirra talin með. Fjarlægðin frá D til E er einnig tvær nótur að svörtu nótunni milli þeirra meðtalinni. Síðan frá E upp á F er aðeins ein nóta. Þess vegna, ef byggja á upp D-dúr tónstiga, væri byrjað með því að færa sig upp frá D til E (tvær nótur) og síðan frá E upp á Fís (aftur tvær nótur) og svo frá Fís upp á G (ein nóta), alveg eins og gert var í C-dúr tónstiganum: tveir heiltónar, þá hálftónn. Í kjölfarið á þessu kæmu þrír heiltónar og einn hálftónn til að ljúka hvort sem er C- eða D-dúr tónstiganum. Heiti nótna með formerkjum. Hefð er fyrir því að kalla lækkað H B. Greining tónstiga með hækkunarmerkjum. Í tónlist tengjast tónstigar og tóntegundatáknanir náið. Rita þarf tóntegundartáknun - sem samanstendur af vissum fjölda hækkunar- eða lækkunarmerkja - til að vita hvaða nótur tiltekinn dúrtónstigi á að hafa. Auðveld en tímafrek leið að þessu væri að nota mynztur tóns/tóns/hálftóns/o.s.frv. sem gefið var að ofan. Ef við veljum að rita D-dúr-tónstiga vitum við strax að hann byrjar á D. Næsta nóta verður heiltón ofar - E. Nótan þar á eftir verður verður öðrum heiltón ofar, en það er ekki einfaldlega F eins og kynni að virðast augljóst. Af því munurinn á E og F er hálftónn (eins og sést af því að á píanóhljómborðinu er engin svört nóta á milli þeirra) þarf að hækka F-ið upp í "Fís" til að fá fram heiltónsbil. G -dúr - 1 kross - Fís D -dúr - 2 krossar - Fís, Cís A -dúr - 3 krossar - Fís, Cís, Gís E -dúr - 4 krossar - Fís, Cís, Gís, Dís H -dúr - 5 krossar - Fís, Cís, Gís, Dís, Aís Fís-dúr - 6 krossar - Fís, Cís, Gís, Dís, Aís, Eís Cís-dúr - 7 krossar - Fís, Cís, Gís, Dís, Aís, Eís, Hís F C G D A E H Fjörutíu Celsíus Gráður Duga Alveg Einstaklega Hlýlega Þegar betur er að gáð, passar síðasta formerkið sem bætt er við, saman við "frumtón" (fyrstu nótu) tónstigans sem kemur tveimur fimmundun á undan honum (í þessari töflu, tveim línum ofar). Gagnleg regla til að þekkja dúrtónstiga með hækkunarmerkjum er að frumtónninn er ávallt hálftón yfir síðasta hækkunarmerkinu. Greining dúr-tónstiga með lækkunarmerkjum. F -dúr - 1 bé - B B -dúr - 2 bé - B, Es Es -dúr - 3 bé - B, Es, As As -dúr - 4 bé - B, Es, As, Des Des-dúr - 5 bé - B, Es, As, Des, Ges Ges-dúr - 6 bé - B, Es, As, Des, Ges, Ces Ces-dúr - 7 bé - B, Es, As, Des, Ges, Ces, Fes H E A D G C F Hér Er Alveg Drullu Gaman Cannes Frans Aftur er áþekkt en viðsnúið samhengi milli frumtóna og formerkja. Frumtónninn er næstsíðasta béið í hverri tóntegund. Fimmundahringurinn. Þetta er gagnleg leið til að finna tóntegundartáknun dúr-tóntegunda. Sé byrjað efst á C og farið þaðan réttsælis um hringinn táknar hver nýr bókstafur nýjan tónstiga, fimmund ofar en næsti á undan. Þetta þýðir að hver nýr tónstigi (réttsælis) þarf nýtt hækkunarmerki í tóntegundartáknunina. Finna má krossafjöldann með því að lesa hann af bókstöfunum réttsælis frá F að telja. T.d., ef við þyrftum að vita hve margir, og hvaða, krossar eru í E-dúr-tónstiganum, tökum við eftir því að E er í 4. sæti - hann þarf 4 krossa. Þeir eru (lesið af frá F): Fís, Cís, Gís, Dís. Sé staðið frammi fyrir dúr-tónstiga með 5 krossum í tóntegundartáknuninni, væru taldir 5 frá efstu stöðu og endað á H - það er H-dúr. Á svipaðan hátt má búa til tóntegundartáknanir með béum. Hver nýr bókstafur frá F að telja táknar nýjan tónstiga og staða bókstafsins gefur til kynna béafjöldann. Béin sem um er að ræða eru lesin rangsælis frá B. B er í 2. sæti þannig að hann hefur 2 bé: B og Es. Munur dúr- og moll-tónstiganna. Sjá dúr og moll. Austfirðir. Austfirðir er samheiti fjarða á vogskorinni austurströnd Íslands. Austfirðir eru taldir frá Glettingi að Eystrahorni: Húsavík, Loðmundarfjörður, Seyðisfjörður, Mjóifjörður, Norðfjörður, Hellisfjörður, Viðfjörður, Sandvík, Vöðlavík, Eskifjörður (sem gengur inn úr Reyðarfirði), Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður, Breiðdalsvík, Berufjörður, Hamarsfjörður, Álftafjörður. Austasti tangi Austfjarða er Gerpir og er hann á milli Sandvíkur og Vöðlavíkur. Í Sandvík var austasta byggð á Íslandi fram á 20. öld. Einhliða einangrun Japan. a> í Japan við upphaf einangrunarinnar (japönsk trérista frá 1644-1648). Einhliða einangrun Japan (japanska: 鎖国, "Sakoku") hófst árið 1641 og stóð í tvær aldir, eða til 1853. Einangrunin var uppistaða í utanríkisstefnu Tokugawa-stjórnarinnar á Jedótímabilinu. Dauðarefsing lá við því að koma til Japans eða fara frá Japan. Dauðarefsing við því að yfirgefa Japan var ekki aflögð fyrr en á Meiji-tímabilinu. Undantekning á reglunni var verslun Hollendinga á Dejima-eyju í Nagasaki. Í Nagasaki fóru og fram viðskipti við Kína og á Tsushima-svæðinu í Nagasaki fóru fram viðskipti við Kóreumenn. Kóreumenn stunduðu og viðskipti á Ryukyu-eyju við suðvestanverða Kyushu. Til viðbótar sendu kaupsýslumennirnir reglulega sendinefndir til sjógunsins í Jedó. Einangruninni var framfylgt svo stjórnin gæti haft hemil á samskiptum við önnur ríki. Síðar var hún notuð til að verja japanskar auðlindir fyrir ágangi útlendinga og takmarka útflutning á japönskum málmum. Þórarinn Eldjárn. Þórarinn Eldjárn rithöfundur og skáld er fæddur 22. ágúst 1949 í Reykavík. Foreldrar hans voru Kristján Eldjárn og Halldóra Ingólfsdóttir Eldjárn. Þórarinn las bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Lundi í Svíþjóð frá 1969 - 1972, íslensku við Háskóla Íslands 1972 - 1973, bókmenntir í Lundi 1973 - 1975 og lauk þaðan fil kand prófi vorið 1975. Þórarinn var búsettur í Stokkhólmi á árunum 1975 - 79. Frá árinu 1975 hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi og hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagna og skáldsagna. Auk þess hefur hann þýtt mikið Norðurlandamálum og ensku, meðal annars rit eftir Göran Tunström, Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll og leikrit eftir William Shakespeare. Þórarinn hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur fyrir börn í samstarfi við systur sína, myndlistarkonuna ((Sigrún Eldjárn|Sigrúnu Eldjárn, og hafa þær hlotið fjölmargar viðurkenningar. Verk eftir Þórarin hafa verið þýdd á Norðurlandamál og skáldsaga hans, Brotahöfuð á fleiri mál. Þórarinn Eldjárn er kvæntur Unni Ólafsdóttur veðurfræðingi. Meiji-tímabilið. Meiji-tímabilið var tímabil umbyltingar í japönsku þjóðlífi. Japanskeisari tók völdin í sínar hendur. Mutsuhito, síðar Meiji keisari, keisari hinnar upplýstu stjórnar, ríkti frá 1867 til 1912. Tímabilið hófst á Meiji-byltingunni (明治維新, "Meiji-ishin") sem átti sér stað á árunum 1866-1869, þ.e. meðan andspyrna Sjogúnstjórnarinnar og íhaldsmanna var brotin á bak aftur. Byltingin var hvati að iðnvæðingu Japans. Ryoma, sjálfur frá Shikoku, fékk til samstarfs við sig Takamori, frá Kyushu, og Takayoshi, frá vestur-Honshu, og settu þeir sig upp á móti veldi Sjogúnstjórnarinnar. Meiji umbæturnar hófust eftir komu Matthew Perry og svörtu skipanna 8. júlí 1853. Perry neyddi Sjogúninn til að skrifa undir friðar- og vináttu samning 31. mars 1854, samningurinn batt enda á einhliða einangrun Japans, sem leiddi svo til undirritunar Harris-samkomulagsins um vinskap og viðskipti 29. júlí 1858. Hvorttveggja keisarinn og Sjogúninn voru andvígir opnun Japan. Sjónabók. Sjónabók var teiknuð bók með uppdráttum - útrennslum sem einnig voru nefndar svo - til að sauma, vefa og prjóna eftir. Varðveist hafa níu handrit sjónabóka frá 17. öld til seinni hluta 19. aldar, sjö eru í Þjóðminjasafni Íslands, eitt í einkaeign á Íslandi og eitt í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn en auk þess hafa varðveist fáeinir stakir uppdrættir á blöðum og innan um annað efni í handritum og í einu tilviki á spássíu í handriti heilagra manna sagna frá 14. öld. Meðal sjónabóka sem hafa varðveist er sjónabók Ragnheiðar Jónsdóttur og sjónabók Jóns Einarssonar í Skaftafelli sem uppi var á 18. öld. Strá. Strá er blómberandi stilkur grasa (af grasaætt "Poaceae") og stara ("Cyperaceae"). Strá grasa eru hol að innan og hafa hné en strá stara eru fyllt. Sum eru þrístrend. "Hálmur" er strá af þresktu korni, kornstrá. 2008. Árið 2008 (MMVIII) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á þriðjudegi. Mary Wollstonecraft. Mary Wollstonecraft (27. apríl 1759 – 10. september 1797) var breskur rithöfundur, femínisti og heimspekingur. Hún var gift rithöfundinum og fríþenkjaranum William Godwin og átti með honum dóttirina Mary Godwin sem síðar varð Mary Shelley þegar hún giftist skáldinu Percy Bysshe Shelley. Þekktasta verk Mary Wollstonecraft er "A Vindication of the Rights of Woman" sem fjallaði um nauðsyn þess að drengir og stúlkur hlytu sömu menntun og sem átti að vera andsvar við "Émile" eftir Jean-Jacques Rousseau. Hún var þeirrar skoðunar (sem þá var alls ekki almenn) að konur hefðu jafna skynsemi á við menn og ættu þar með að njóta sömu réttinda. Tenglar. Wollstonecraft, Mary Wollstonecraft, Mary Abraham Lincoln. Ljósmynd af Abraham Lincoln frá 8. nóvember 1863. Abraham Lincoln (12. febrúar 1809 – 15. apríl 1865) var bandarískur stjórnmálamaður og sextándi forseti Bandaríkjanna á tímum Þrælastríðsins frá 1861 til 1865. Lincoln var meðlimur Repúblikanaflokksins. Eitt helsta baráttumál Lincolns var að binda enda á þrælahald og varð það stór þáttur í sigri hans í forsetakosningunum árið 1860. Þegar Lincoln tók við embætti í mars 1861 voru sjö suðurríkjanna sem vildu halda áfram þrælahaldi búin að segja sig úr lögum við Bandaríkin og stofnað með sér Bandalagsríki Ameríku. Bandaríska borgarastríðið eða þrælastríðið hófst 12. apríl 1861 og lauk 3. apríl 1865 með ósigri suðurríkjanna. Þó rétturinn til að stunda þrælahald hafi verið deiluefnið sem leiddi til stríðsins var það þó ekki ástæða þess að þrælastríðið var háð, því eining ríkisins var Lincoln alla tíð efst í huga. Árið 1863 gaf Lincoln þrælum í suðurríkjunum frelsi með frelsisveitingunni (e: "emancipation proclamation"). Árið 1864, meðan stríðið var enn ekki útkljáð var Lincoln endurkjörinn forseti með miklum yfirburðum. Sex dögum eftir að herir suðurríkjanna gáfust upp var Lincoln hins vegar myrtur af leikaranum John Wilkes Booth en hann stóð með Suðurríkjunum í Þrælastríðinu. Lincoln er einn fjögurra forseta Bandaríkjanna sem hafa verið ráðnir af dögum meðan þeir sátu í embætti. Bandarískir sagnfræðingar eru almennt þeirrar skoðunar að Lincoln sé einn áhrifamesti og mikilvægasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. Tenglar. Lincoln, Abraham Thomas Jefferson. Thomas Jefferson (13. apríl 1743 – 4. júlí 1826) var þriðji forseti Bandaríkjanna frá 1801 til 1809 og aðalhöfundur Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar 1776. Hann stofnaði Demókratíska repúblikanaflokkinn gegn Sambandsstjórnarflokki Alexanders Hamiltons. Hann var frjálslyndur lýðveldissinni og var fylgjandi trúfrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju. Jefferson er einn svokallaðra „landsfeðra“ Bandaríkjanna. Ferill. Thomas Jefferson var aðalhöfundur sjálfsstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna. Hann var einn af aðalhugmyndasmiðum uppreisnarmanna. Þegar hann svo varð einn af þingmönnum Virginíufylkis lagði hann fram lagafrumvarp þar sem kveðið var á um afnám erfðaréttar elsta sonarins. Héðan af myndu öll systkini erfa jafnt nema erfðaskrá taki annað fram. Þegar frelsisstríð Bandaríkjanna hófst varð hann fylkisstjóri Virginíu fylkis og slapp tvívegis naumlega frá því að vera handsamaður af Bretum á meðan átökum stóð. (Hann var seinna á ferlinum ásakaður um að vera heigull, því hann varð ekki eftir til að berjast gegn Bretum heldur flúði). Hann var sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi eftir stríðið, og sennilega útskýrir það að hluta til andstöðu hans við stríð gegn Frakklandi síðar. Þegar Thomas Jefferson var beðinn um að samþykkja stjórnarskrá Bandaríkjanna var hann í vafa. Hann vildi ekki fá sterka ríkisstjórn eins og var lýst í stjórnarskránni, sem eiginlega var samin af Federalistum. Hann samþykkti þó stjórnarskrána með einu skilyrði: The Bill of Rights. Thomas Jefferson var stuðningsmaður þess að Bill Of Rights yrði samþykkt. Frumvarpið var lagt fram af James Madison árið 1789 og inniheldur fyrstu tíu stjórnarskrárbreytingarnar (enska: amendment). Jefferson krafðist þess að þegnar Bandaríkjanna hefðu málfrelsi, trúfrelsi og fundafrelsi. Þetta neyddust Federalistar til að samþykkja því Jefferson var afar vinsæll í Virginíu, stærsta fylkinu á þeim tíma, enda var hann fyrrum ríkisstjóri þess. Ein afleiðing þess að Bill of Rights frumvarpið var samþykkt var sú að allar götur síðan hefur stjórnarskráin verndað rétt almennra borgara til að eiga skotvopn, því önnur breytingin gengur út á frelsi til þess að bera vopn. Thomas Jefferson var utanríkisráðherra (secretary of state) í forsetatíð George Washingtons, en lenti í deilum við Alexander Hamilton fjármálaráðherra (secretary of treasure) um hvort stofna ætti landsbanka. Jefferson var á móti ríkisreknum banka en Hamilton studdi hann. Þessar deilur leiddu til þess að 1793 sagði Jefferson upp starfi sínu. Árið 1796 bauð hann sig fram til forseta, á móti John Adams, en endaði sem varaforseti. Þetta gerðist vegna þess að kjörmenn kusu tvo frambjóðendur en tilgreindu ekki hvaða atkvæði færi til forsetaframbjóðanda og hvaða atkvæði færi til varaforsetaframbjóðanda, sá sem fékk svo flest atkvæði samtals varð forseti og sá sem fékk næstflest atkvæði varð varaforseti. Árið 1800 bauð hann sig aftur fram gegn Adams og tókst þá að vinna sigur. Jefferson fékk atkvæði 73 kjörmanna í kosningunum en Adams 65. Varaforsetaefni Jeffersons, Aaron Burr, fékk hinsvegar einnig 73 atkvæði samtals og átti því jafnan rétt og Jefferson á því að gera tilkall til forsetaembættisins, sem hann og gerði. Svo fór að fulltrúadeild þingsins þurfti að skera úr um úrslitin og kaus þá Jefferson sem forseta og Burr sem varaforseta. Fyrra kjörtímabil. Fyrra kjörtímabil Jefferson var afar rólegt. Hann skar niður í herkvaðningu, einbeitti sér að því að borga upp skuldir ríkisins og lækkaði skatta. Þetta gerði hann óhemju vinsælan. Einnig þá tókst honum að koma því í gegn Federalistum til gremju, að aðskilja framkvæmdavald og dómsstóla. En þrátt fyrir að Jefferson væri forseti voru Federalistar en með tögl, haldir og ítök víðsvegar í framkvæmda og dómsvaldinu. 1804 vann Jefferson stórsigur í kosningum. En á næsta kjörtímabili áttu ýmis vandamál eftir að koma upp. Meðal annars fyrstu stríðsátök í sögu BNA að frelsisstríðinu undanskildu. Seinna kjörtímabil Jefferson. Á fyrra kjörtímabili sínu hafði Thomas aðskilið dóms- og framkvæmdavald, dregið úr sköttum og úr hernaðaruppbyggingu. John Adams hafði haft mikinn áhuga á hernaðaruppbyggingu, en Thomas verið á móti henni. Á þessu kjörtímabili átti hann eftir að skipta um skoðun og hallast yfir á málstað Federalista hvað varðar alla veganna utanríkismál. (Þeir sem vilja fá útskýringar á hverjir Federalistar og Repúblikanar eru verða að lesa fyrri greinar). Á fyrra kjörtímabili hafði efnahagur BNA blómstrað sem aldrei fyrr, sem má þakka t.d. lágum sköttum og iðnvæðingu. En utanríkisaðgerðir Thomasar áttu eftir að breyta ýmsu. Bresk herskip höfðu tekið bandaríska kaupmenn sem sigldu á Atlantshafa fasta og þvingað til þess að ganga í breska herinn og taka þátt í stríðinu gegn Frökkum. Stríðið sem var á milli Breta og Frakka var farið að hafa alvarleg áhrif á utanríkisviðskipti BNA og sér í lagi eftir að Thomas lýsti viðskiptabanni á bæði Frakkland og Bretland til að andmæla stríðinu. Bandarísk skip komust ekki í hafnir á meginlandi til þess að versla við lönd undir stjórn Napóleons. (Með öðrum orðum nærri allt meginland Evrópu). Á sama tíma ákvað Jefferson að hætta að borga mútur til Barbarísins í Trípolí. Á þessum tíma í byrjun 19. aldar hafði sá siður tíðkast í nokkur hundruð ár að bjarga bandarískum sæförum úr gíslingu sjóræningja frá norðurströnd afríku með því að múta sjóræningjunum. Norðurafrískir sjóræningjar er vandamál sem við ættum að kannast við úr Íslandssögunni. Þeir sem rændu Tyrkjaguddu voru þó undir forystu Hollendinga og komu frá Alsír. Þessir sjóræningjar voru frá Líbýu, sem er reyndar næsta land við hliðin á. En Thomas Jefferson ákvað að lýsa stríði á hendur sjóráni. Hann sendi bandaríska flotann út á Miðjarðarhaf og réðst á Líbýu. Þessar hernaðaraðgerðir kostuðu Jefferson árás á Boston og neyddu hann til þess að styrkja Bandaríska flotann og hækka skatta. Á móti þá batt hann enda á sjórán. Ég skil ekki af hverju þetta stríð er aldrei borið saman við stríð Bush gegn hryðjuverkum, því í eðli sínu eru þau ekki hrikalega ólík. (Fyrir utan það að Jefferson er hlynntur málfrelsi og mannréttindum og Bush, tja...þið afsakið þetta pólitíska innskot, ég ætla að reyna að vera hlutlaus restina af greininni). Hræsnarinn Thomas Jefferson. Það var Thomas Jefferson sem keypti Louisiana af Frökkum og tvöfaldaði stærð BNA fyrir 15 milljónir dollara. Hann leyfði Lewis, sem var hernaðarráðgjafi í Hvíta húsinu að fara af stað með könnunarleiðangur yfir svæðin, betur þekkt sem The Lewis & Clark expedition. Sjálfur var Thomas efins um kaupin á Louisiana því hann var ekki viss um að það væri hlutverk ríkisstjórnarinnar að kaupa landsvæði. Það má bæta því við að þessi kaup áttu eftir að kosta marga indíána lífið, þegar landnemar tóku að flæða yfir svæðin. Thomas Jefferson hélt því oft á lofti að allir menn væru jafnir og var opinberlega á móti þrælahaldi. Þó átti hann fullt af þrælum heima á plantekrunni sinni sem er svartur blettur á ferli manns sem kom trúfrelsi og málfrelsi inn í stjórnarskránna. Baskaland. Baskaland (spænska: "País Vasco"; baskneska: "Euskadi") er eitt af hinum spænsku sjálfstjórnarsvæðum í N-Spáni. Hluti af Baskalandi liggur einnig í suðvesturhluta Frakklands, á frönsku Pays Basque). Hið franska Baskaland er við Biskajaflóann. Höfuðstaður þess er Vitoria. Aðrar stórar borgir eru Bilbo (Bilbao) og Donostia (San Sebastian). Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Eleanor Roosevelt með yfirlýsinguna á spænsku. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er yfirlýsing um það sem telja skuli mannréttindi, þ.e. réttindi allra einstaklinga, sem samþykkt var af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 1948. Einn aðalhvatamaðurinn að gerð yfirlýsingarinnar, Eleanor Roosevelt, kallaði hana Magna Carta alls mannkyns. Yfirlýsingin var skrifuð í kjölfar Síðari heimsstyrjaldarinnar þar sem ýmsir töldu Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna ekki nægilega sterka sem viðbrögð við hörmungum styrjaldarinnar og glæpum nasista. Mannréttindayfirlýsingin lýsir markmiðum og er ekki lagalega bindandi, enda ekki undirrituð sem slík af neinum. Hins vegar hefur hún virkað mjög sterkt sem tæki til að þrýsta á ríki að virða hana og bæta löggjöf til samræmis við hana. Syd Barrett. Roger Keith „Syd“ Barrett (6. janúar 1946 – 7. júlí 2006) var enskur söngvari, lagahöfundur, gítarleikari og listamaður. Þekktastur var hann fyrir að hafa verið einn af stofnmeðlimum rokkhljómsveitarinnar Pink Floyd. Hann var þó ekki virkur sem tónlistarmaður nema í nokkur ár en dró sig svo út úr sviðsljósinu og hafði lítil samskipti við umheiminn frá því á 8. áratugnum til dánardags. Þrátt fyrir það hafa bæði lagasmíðar hans og sérstæður söngstíll reynst mikill áhrifavaldur annarra tónlistarmanna. Blantyre (Malaví). Blantyre er fjölmennasta borg Malaví með um það bil 650 þúsund íbúa (2003). Blantyre er höfuðborg Blantyre-héraðs auk þess sem konungshöllin og hæstiréttur landsins er í borginni. Borgin er nefnd eftir Blantyre í Skotlandi eftir heimabæ David Livingstone sem kannaði svæðið. Monkey Bay. Monkey Bay eða Apaflói er bær í Malaví sem stendur við suðurenda Malaví-vatns. Borgin hefur rúmlega 10 þúsund íbúa (1998) og er í Mangochi-héraði. Í bænum er sjúkrahús þar sem læknanemar, meðal annars frá Íslandi, vinna sjálfboðaliðastarf. Æðarfugl. Æðarfugl eða æður (fræðiheiti: "Somateria mollissima") er stór sjóönd sem útbreidd norðan megin á strandlengju Evrópu, Norður Ameríku og Síberíu. Hann verpir á Norðurslóðum og sums staðar í norðurhluta tempraða svæða en hefur vetursetu í suðurhluta tempraðra svæða þar sem oft má sjá þá í stórum flokkum í flæðarmálinu. Æðarfugl er algeng andartegund á Norðurslóðum. Hann er um 2 kg að þyngd, 50 - 71 cm stór og vænghafið er 80 - 108 cm. Hann er með stærstu andartegundum og er kubbslega vaxinn, gildvaxinn og flatvaxinn með aflangt og stórt höfuð. Karlfuglinn sem nefnist bliki er hvítur að ofan og svartur að neðan, með svarta hettu, roðalitaða bringu og græna flekki á hnakka en vængirnir eru svartir með hvítum fjöðrum. Kvenfuglinn sem nefnist kolla er brún á lit. Æðarfugl er þungur á sér á flugi en er mikill sundfugl og góður kafari. Útbreiðsla og atferli. Æðarfugl í dýragarði í EnglandiÆður verpir nærri sjó og er oft í stórum og þéttum hólmum. Hreiðrið er opið og fóðrað með dúni. Kollan verpir venjulega 4-6 eggjum í maí til júní. Hún fóðrar hreiðrið að innan með æðardúni sem hún reitir af brjósti sér. Æðarfugl er staðfugl á Íslandi og hópar sig saman svo til allt árið og eru hóparnir oft mjög stórir. Utan varptímans heldur æðarfugl sig oft við árósa, víkur og voga í þúsundatali. Æðarfugl nær 10-20 ára aldri. Æðarfuglar halda til meðfram ströndinni allt árið. Uppruni kollunnar ræður hvar varpstaður er, en varpið hefst um miðjan maí. Útungungartíminn er um 4 vikur. Innan við sólarhring eftir að ungarnir fæðast leitar kollan með þá út á sjó í fæðuleit. Við fjaðrafelli hópa blikarnir sig saman á stöðum þar sem fæða er nóg og þeir öruggir. Geldfuglar halda sig á sömu slóðum, en kollurnar mynda oft sérhópa síðari hluta sumars. Blikarnir byrja þegar í júní að hópast saman í fellihópa en blikahóparnir leysast svo upp í september til október og paramyndun hefst. Áætlað er að fjöldi æðarfugla sem hafa vetursetu á Íslandi sé um 973 þúsund. Fæða æðarfugls. Æðarfugl lifir á kræklingum og öðrum lindýrum sem hann veiðir í sjó. Æðarfuglar afla yfirleitt fæðunnar á minna en 15 metra dýpi. Æðarfuglar gleypa marga smávaxna kræklinga við hverja köfun. Á útmánuðum er loðna og loðnuhrogn oft aðalfæða æðarfugla. Kollur með unga éta fyrst og fremst marflær. Eftirsóttasta fæða fullorðins æðarfugls er samlokur, einkum kræklingar og skyldar tegundir en sniglar eru í öðru sæti. Æðarfugl étur einnig krabbadýr eða skrápdýr, einkum krossfiska, sæbjúgu og ígulker. Nytjar af æðarfugli. Æðarfugl er einn mesti nytjafugl á Íslandi. Árið 1786 var sett ákvæði í lög um takmarkaða friðun en frá árinu 1847 hefur æðarfugl verið alfriðaður. Öll meðferð skotvopna er bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. Oft er umferð um æðarvarp bönnuð á varptíma. Æðarvarp er mikilvæg hlunnindi á mörgum bújörðum og á árinu 1987 höfðu 419 jarðir dúntekjur. Flest æðarvörp á Íslandi eru tilbúin þ.e. mótuð af eigendum æðarvarpsins. Landeigendur vaka yfir varpinu og hæna að æðarfugla en stugga burtu og skjóta vargfugla, refi og minka. Æðardúnn hefur verið nýttur öldum saman m.a. í sængur og kodda og sem einangrun í kuldafatnað. Nytjar af æðarfugli á Íslandi hafa numið um 3.000 kg af æðardúni á ári. Úr hverju hreiðri fást 15 - 20 grömm af æðardún, þannig að um 60 hreiður þarf til að fá í 1 kíló af dún. Æðarfugl er ein mikilvægasta fæða íslenska arnarins. Æðarkóngur. Æðarkóngur (fræðiheiti: "Somateria spectabilis") er stór sjóönd sem verpir á norðurhveli jarðar á Norðurslóðum við strandir Norðaustur-Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Hreiður æðarkóngs er fóðrað með dúni en það er á túndru nálægt sjó. Kollan verpir 4 til 6 eggjum. Æðarkóngur fer á veturna suður á bóginn til Noregs og austurhluta Kanada þar sem fuglarnir safnast saman í stóra hópa við sjávarsíðuna. Æðarkóngur lifir á kræklingum og lindýrum úr sjó. Æðarkóngur er minni en æðarfugl og er auðþekktur á því að blikinn er svartur með hvíta bringu og marglitt höfuð. Kollan, æðardrottning, er brún á lit. Seyðisfjarðarhreppur. Seyðisfjarðarhreppur eins og hann var til 1895 Seyðisfjarðarhreppur var hreppur í Seyðisfirði á Austfjörðum. Heyrði hann undir Norður-Múlasýslu. Á 19. öld óx upp útgerðarbær í botni fjarðarins. Fékk hann kaupstaðarréttindi sem "Seyðisfjarðarkaupstaður" í ársbyrjum 1895 og var skilinn frá hreppnum. Hinn 1. apríl 1990 sameinaðist Seyðisfjarðarhreppur Seyðisfjarðarkaupstað á ný, að þessu sinni undir merkjum kaupstaðarins. Æðarfuglar. Æðarfuglar (fræðiheiti: "Somateria") eru ættkvísl sjóanda og telur þrjár tegundir fugla sem allar verpa á norðurhveli. L33t. L33t (jafnvel leet eða 1337) er mállýska á Internetinu sem er einkum viðloðandi í kringum tölvuleiki og skurk. L33t (Leet) er dregið ef enska orðinu "elite" (úrval) sem merkir að viðkomandi sé yfir aðra hafinn. Mállýskan er mynduð úr styttum enskum orðum þar sem bókstöfum er skipt út fyrir áþekka tölustafi, í stað A er ritað 4, í stað E er ritað 3 og svo framvegis. Há- og lágstafanotkun er valfrjáls. Saga. Uppruni L337 má rekja til spjallborða níunda áratugsins. Á slíkum spjall borðum var mikils metið að vera með „elite“-auðkenni á spjallborðskerfinu. Slíkt auðkenni veitti notendum aðgang að ýmsum skjölum, leikjum og sérstökum spjallsvæðum. Ein kenning er að kerfið hafi verið þróað til að komast hjá textasíum. Slíkar síur komu í veg fyrir að hægt væri að ræða hluti sem voru á gráu löglegu svæði svo sem hökkun og innbrot í hin ýmsu tölvukerfi. Þó að málið hafi rætur sínar að rekja til hakkara samfélagsins er skrifmátinn nú tiltölulega vítt útbreyddur og vilja margir meina að það sé orðin hluti af pop-menningu samtímans. Með tilkomu félgaslegra vefja hafa línurnar milli hinn hefbundna l337 og hin ný til komna broskalla menningu orðnar óljósar. Margir vilja meina að þeir séu hluti af sama kerfi en aðrir að broskallar séu allgjörlega sér flokkur út af fyrir sig. Lítt þekktari afbrigði sem notast við samsetningu tákna og nærri engir tölu- né bókstafi eru þó enn í notkuni undir upprunalegum formekjum kerfisins, að hylja og brengla samskipti. Málið er einning notað stundum sem forritunar mál. Stafsetning. Eitt af einkennismerkjum leet er hin sérstaka nálgun þess þegar kemur að stafsetningu. Það byggist aðalega á því að það tákn sem notað er sé einungis líkt hinum upprunalega staf til þess að stafsetningin sé gild. Að því leyti bygist leet ekki á hefðbundnu stafrófi þar sem hver stafur hefur merkingu útaf fyrir sig heldur á útlitinu. Orð í sjálfu sér þurfa einungis að lýta svipað út og upprunaleg eftirmynd þeirra til þess að skiljast í leet. Orðaforði. Fjöldamörg orð sem eiga uppruna sinn í l337 eru núorðin hluti af hinum almenna slangur forða internetsinst til dæmis orðið „pwned“. Drifkrafturinn á bak við uppbyggingu orðaforða L337 í byrjun voru algengar stafsetningar eða innsláttarvillur, einkum orð þar sem stafurinn „z“ var bætt aftan við orð til dæmis orðið „skillz“. Önnur orð þróuðust upp úr styttingum eða skammstafanir annarra orða. Þekktustu dæmi um slíkt eru án ef orðin Lol (laugh-out-loud) og OMG (Oh-My-God). Páfagaukar. Páfagaukar eða páfar (fræðiheiti: "Psittaciformes") eru ættbálkur fugla sem telur um 365 tegundir. Venjulega er þeim skipt í tvo undirættbálka; kakadúa og páfagaukaætt eða eiginlega páfagauka. Allir fuglar af þessum ættbálki hafa einkennandi sveigðan gogg og snúa tveimur klóm fram og tveimur aftur. Páfagaukar lifa á flestum hlýrri stöðum heimsins og finnast tegundir á Indlandi, í Vestur-Afríku og Suðaustur-Asíu. Langflestir páfagaukar heimsins koma þó frá Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og Ástralasíu. Strandfuglar. Strandfuglar eða fjörufuglar (fræðiheiti: "Charadriiformes") er fjölbreyttur ættbálkur fugla sem telur um 350 tegundir sem lifa um allan heim. Flestir strandfuglar lifa nærri vatni og lifa á smádýrum en sumar tegundir eru sjófuglar og aðrar finnast í skógum. Svartfuglar. Svartfuglar (fræðiheiti: "Alcidae") eru ætt strandfugla. Þeir líkjast að sumu leyti mörgæsum þar sem þeir eru svartir og hvítir á lit, sitja uppréttir og lifa við sjó. Þeir eru þó alls óskyldir þeim. Flestar tegundir svartfugla eru búsettar í Kyrrahafi, en í Atlantshafi og N-Íshafi eru alls sex tegundir auk geirfugls sem er útdauð. Þær tegundir sem helst teljast til svartfugla eru: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi og haftyrðill. Langvía, stuttnefja og álka eru að mörgu leyti líkar tegundir, varpa í björgum og nefnast einu nafni svartfugl. Stærstu byggðir þeirra eru Látrabjarg, Hornstrandabjörgin og Grímsey. Svartfuglar éta aðallega uppsjávarfisk eins og sandsíli, loðnu og síld og krabbadýr eins og ljósátu og marflær. Lundi étur mest sandsíli og loðnu, Haftyrðill mest svifkrabbadýr. Teista er grunnsævisfugl og leitar að æti við botn. Svartfuglar eru vel fleygir (nema geirfuglinn sem nú er útdauður) og góðir sundfuglar og kafarar en gangur þeirra er klaufalegur að sjá. Vegna þess hve vængir þeirra eru stuttir þurfa þeir að blaka þeim mjög hratt til að halda sér á lofti. Svartfuglar lifa á opnu hafi og koma aðeins í land til að makast og verpa. Sumar tegundir, eins og t.d. langvía, eyða þó stærstum hluta ársins í að verja varpstæði sitt fyrir öðrum fuglum. Sumar tegundir verpa í mjög stórum varpnýlendum í klettum, en aðrar verpa í minni hópum við grýttar strendur og enn aðrar, eins og lundinn, verpa í holum. Allar tegundir svartfugla mynda varpnýlendur. Veiðar eru leyfðar á álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda hér á landi. Veiðitímabilið er 1. september til 10. maí. Lundar. Lundar (fræðiheiti: "Fratercula") eru ættkvísl svartfugla sem telur þrjár tegundir fugla sem allir eru 35-40 sm á hæð með breiðan gogg sem verður mjög litríkur um fengitímann. Fjaðrahamurinn er svartur, grár eða hvítur, stundum með gulum fjöðrum. Lundar eru sjófuglar sem kafa eftir æti. Þeir verpa aðeins einu eggi í holu sem þeir yfirleitt grafa út í moldarbarð nærri hafi. Ein tegund lunda, lundi, verpir á Íslandi. Dúfnafuglar. Dúfnafuglar eða dúfnfuglar (fræðiheiti: "Columbiformes") eru ættbálkur fugla sem inniheldur tvær ættir: dúðaætt ("Raphidae") sem hinn útdauði dúdúfugl tilheyrði, og hina gríðarstóru dúfnaætt. Meitilfuglar. Meitilfuglar (fræðiheiti: "Coraciiformes") eru ættbálkur litríkra landfugla sem inniheldur meðal annars þyrla, býsvelgi, hrana og horna. Þeir eru venjulega með þrjár klær sem snúa fram og eina aftur. Uglur. Uglur (fræðiheiti: "Strigiformes") eru ættbálkur fugla sem telur um 222 tegundir. Uglur eru yfirleitt einfarar og næturdýr sem lifa á skordýrum, litlum spendýrum og öðrum fuglum þótt sumar tegundir séu sérhæfðar í að veiða fisk. Uglur finnast um allan heim nema á Suðurskautslandinu, stærstum hluta Grænlands og á afskekktum eyjum. Uglur skiptast í tvær ættir: ugluætt og turnuglur. Ránfuglar. Ránfuglar (fræðiheiti: "Accipitriformes") eru ættbálkur fugla sem inniheldur meðal annars hauka, erni og gamma, eða 225 tegundir í allt. Stundum er ekki gerður greinarmunur á fálkum og öðrum dagránfuglum og flokkurinn kallaður fálkungar ("Falconiformes"). Haförn. Haförn (fræðiheiti: "Haliaeetus albicilla") er mjög stórvaxinn ránfugl af haukaætt. Haförn verpir í norðurhluta Evrópu og Asíu. Haförnum var næstum útrýmt í Evrópu en með friðun og aðgerðum hefur tekist að endurreisa varp sums staðar. Hafernir eru alls staðar sjaldgæfir en ernir eru þó flestir við strendur Noregs. Hafernir eru oftast staðfuglar. Haförn er um 70-90 sm langur og vænghaf hans er 200 -240 sm. Fuglinn vegur um 5 kg. Karfuglar eru mun minni en kvenfuglar. Haförninn hefur breiða ferhyrnda vængi og stórt höfuð. Fullorðinn örn er brúnn en höfuð og háls er ljósara, stélið er hvítt og goggur og fætur gulir. Á ungum fuglum er stél og goggur dökkt og stélið verður hvítt með svartri rönd þegar fuglinn eldist. Ernir verða kynþroska 4 til 5 ára gamlir. Ernir parast fyrir lífstíð og þegar annar fuglinn fellur frá þá getur tekið hinn mörg ár að finna nýjan maka. Ernir gera sér stundum hreiður í hrúgu af kvistum í tré eða á klettasyllum. Hreiður íslenskra arna er stundum mikill birkilaupur en eru oftar hrúga eða dyngja úr þangi, hvanndrjólum og grasi. Hreiðurgerðin er viðaminni ef ernirnir hafa hreiðrað um sig í sjávarhólmum. Sömu hreiðrin eru oftast notuð ár eftir ár. Ernir verpa einu til þremur eggjum og líða nokkrir dagar á milli eggjanna. Ernir fara að liggja á þegar einu eggi er orpið og álegutíminn er 35 dagar. Ungarnir verða fleygir um 10 vikna gamlir. Foreldrarnir þurfa að mata ungana fyrstu 5-6 vikurnar en eftir það rífa þeir sjálfir í sig bráðina. Algengast er að aðeins einn ungi komist upp í arnarhreiðri, tveir ungar komast upp í þriðja hverju hreiðri. Íslenski arnarstofninn. Arnarstofninn á Íslandi telur 65 fullorðin pör (2005) og hefur rúmlega þrefaldast frá því að bannað var að eitra fyrir tófu árið 1964. Árið 2005 komust 36 arnarungar á legg og eru það fleiri en nokkru sinni síðan farið var að fylgjast með arnarvarpi árið 1959. Aðalheimkynni arnarins eru við Breiðafjörð en þar halda nú til rúmlega 40 pör eða 2/3 hlutar stofnsins. Hafernir verptu fyrr á öldum yfirleitt á óaðgengilegum stöðum, í ókleifum klettum eða hólmum í ám og vötnum. Sennilegt er að ernir kjósi að verpa á láglendi en hafi hrakist upp í hamra vegna ofsókna manna. Þegar ernir voru friðaðir og búseta í eyjum og nytjar af eyjum minnkaði um miðja 20. öld þá fluttu ernir heimkynni sín að mestu leyti úr hömrum í landi út í tanga og hólma. Haförninn er á Íslandi oftast aðeins nefndur örn, og á þeim svæðum þar sem hann verpir er hann kvenkenndur af heimamönnum og nefndur assa (bæði kynin) Jötungíma. Jötungíma (fræðiheiti: "Langermannia gigantea") er sveppur af físisveppaætt sem getur myndað risavaxin aldin. Á Íslandi hefur jötungíma fundist í Hrunamannahreppi, á Þríhyrningi í Hörgárdal og á Leirhafnartorfunni á Melrakkasléttu. Talið er að sveppur sem fannst í Bolungarvík í júlí 2006 sé jötungíma. Á Skáni í Svíþjóð fannst árið 1909 jötungíma sem var 60 cm í þvermál og vóg 14 kíló. Aldinið stækkar feikihratt og getur innihaldið 10 milljarða gróa. Þytfuglar. Þytfuglar (fræðiheiti: "Apodiformes") eru ættbálkur fugla sem inniheldur þrjár lifandi ættir: svölungaætt ("Apodidae"), trjásvölungaætt ("Hemiprocnidae") og ætt kólibrífugla ("Trochilidae") sem og mögulega tvær útdauðar ættkvíslar, "Aegialornithidae" og "Jungornithidae". Alí ibn Abu Talib. Alí ibn Abu Talib eða ‘Alī ibn Abī Ṭālib (arabíska: علي بن أﺑﻲ طالب‎ persneska: علی پسر ابو طالب‎ - 599-661) var einn fyrstu leiðtoga íslam. Súnnímúslimar trúa því að hann hafi verið sá fjórði og síðasti hinna fjögurra Réttleiddu Kalífa en sjítar að hann hafi verið fyrsti imaminn og fyrsti lögmæti kalífinn. Hann var frændi Múhameðs og eftir að hann giftist Fatima Zahra varð hann einnig tengdasonur hans. Sjítar, og sumir súnníar, halda því fram að Alí hafi verið fyrsti karlmaðurinn sem snerist til íslams. Sumir sjítar vilja þó meina að rangt sé að segja að Alí hafi verið snúið til íslam, heldur hafi hann verið það sem kallast "hanif", það er einhver sem aðhylltist eingyðistrú (aðra en kristni eða gyðingdóm) fyrir tíma íslams. Maís. (Frá vinstri til hægri) Teosinte, náttúruleg maísplanta og maísstöngull dagsins í dag. Maís (fræðiheiti: "Zea mays") er kornjurt sem fyrst var ræktuð í Mið-Ameríku og breiddist út víða um heim eftir að Evrópubúar komu þangað á 15. öld. Maís er sú korntegund þar sem erfðabreytt afbrigði eru orðin stærstur hluti af heildaruppskerunni; árið 2009 voru 85% af öllum maís sem ræktaður er í Bandaríkjunum erfðabreytt afbrigði en maís er algengasta korntegundin þar í og ræktaður á 37% kornakra landsins. Um 40% af heimsuppskerunni eru ræktuð í Bandaríkjunum en önnur helstu maísræktarlönd eru Kína, Brasilía, Mexíkó, Indónesía, Indland og Frakkland. Uppruni nafnsins. Hugtakið "maís" er dregið af spænsku formi frumbyggjaorðsins „tanío“ sem notað er fyrir maísframleiðsluna. Maísframleiðsan var upphaflega notuð í Bretlandi og Írlandi, þar sem hann var venjulega kallaður sykurmaís. Algengasta form á plöntunni þekkir fólk vel. Sykurmaís er safnað fyrir og er borðað sem grænmeti frekar en korn. Annað algengt orð yfir maís er korn. Þetta var upphaflega enska hugtakið fyrir korn uppskeru í Norður Ameríku. Merking þess hefur verið takmörkuð frá 19. öld til maís, eins og það var stytt úr „Indian korn“. Hugtakið Indian korn vísar sérstaklega til marglitaðs „akurkorns“ (Flint korn) ræktunarafbrigðis. Í vísindalegri og formlegri notkun er „maís“ venjulega notað í alþjóðlegu samhengi. Í Bretlandi, Ástralíu og öðrum enskumælandi löndum er orðið „maís“ oft notað í samhengi matreiðslu, sérstaklega í nafngiftum. Vörur eins og poppkorn, kornflögur og baby maís. „Maís“ er notað í landbúnaði og vísindum. Í Suður-Afríku er maís almennt nefndur „mielie“ eða „mealie“ frá portúgalska orðinu „milho“. Mielie er máltíð sem er tengd jörðinni. Afurðir. Af maísframleiðslu í Bandaríkjunum, sem er um 40% heimsframleiðslunnar, er einungis 1/40 notaður til manneldis. Dæmi um afurðir til manneldis úr maís eru poppkorn, mjöl, olíur, korn, sýróp og ýmiss konar áfengi og mjöður. Stærstur hluti heimsframleiðslunnar er notaður í dýrafóður og í Evrópu eru afurðir úr maís jafnvel notaðar sem fiskibeita. Maís er ekki eingöngu til átu heldur má vinna úr honum plast og ýmis efni. Á síðustu árum hefur eldsneyti verið unnið úr maís í auknum mæli. Þetta hefur orðið til þess að bændur hafa fengið betur greitt fyrir framleiðsluna og heimsmarkaðsverð á maís tifar í takt við heimsmarkaðsverð á hráolíu. Þessi eldsneytisframleiðsla og tenging við heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur áhrif á matvælaverð. Maís er eitt af undrum landbúnaðar. Maís, eins og við þekkjum hann í dag, er ræktaður úr náttúrulegri maísplöntu og villtu plöntunni Teosinte. Erfðamengi maísplöntunar hefur verið raðgreint að mjög stórum hluta. Erfðamengi hennar er með um 32000 gen, sem er um 7000 fleiri en það sem finna má í erfðamengi mannsins. Ræktun. Maís er upprunninn í Mexíko en hefur verið ræktaður í Evrópu frá því á 15. öld. Ræktunin hefur tekið mjög miklum breytingum á síðustu áratugum og ræktunarlína maís færst norðar með hverju árinu. Ástæður þess eru breytingar á veðurfari og miklar framfarir í kynbótum og ræktun kornsins. Nú eru til afurðir í Skandinavíu sem hægt er að rækta til fullþroska maískólfa, tvo afbrigði sem annars vegar eru notuð til matjurtasölu og eins sem fóður fyrir skepnur. Á Íslandi hafa allnokkrir bændur reynt fyrir sér í maísrækt en með misjöfnum árangri þó. Þrátt fyrir að menn telji aðstæður hér ekki svo frábrugðnar aðstæðum annars staðar, til dæmis í Skotlandi, þar sem maísræktun gengur vel hefur árangurinn hérlendis látið á sér standa. Samkvæmt dönskum ráðleggingum er miðað við 145 kg köfnunarefnis (N), 35 kg fosfórs (P) og 160 kg kalíns (K) á hvern hektara í maísrækt. Þá er nauðsynlegt að áburðurinn innihaldi bæði bór (B) og brennistein (S). Mjög gott er að nota búfjáráburð til þess að uppfylla snefilefnaþarfir en í kúamykju eru til dæmis bæði bór og brennisteinn. 45 tonnum af kúamykju, 2,80 kg fjölmóða, 145 kg köfnunarefni (N), 37 kg fosfór (P) og 162 kg kalín (K). Þessu til viðbótar er nauðsynlegt að bera á bórax sem inniheldur 14,9% bór. Miða má við um 7-8 kg/ha með mykju en tvöfalt það magn þar sem ekki er borinn búfjáráburður á. Hafrar. Hafrar (fræðiheiti: "Avena sativa") eru kornjurt af grasaætt sem ræktuð er bæði til manneldis og sem skepnufóður, einkum fugla- og hestafóður. Stráin eru líka gefin sem fóður og notuð á gólf í básum. Haframjöl er t.d. notað í hafragraut og kex. Sojabaun. Sojabaun (fræðiheiti: "Glycine max") er einær belgávöxtur, upprunninn í Austur-Asíu. Sojabaunir hafa verið ræktaðar í þúsundir ára og til eru ótal kvæmi sem vaxa í frá 20 sm að 2 metra hæð. Demantur. Hér sést vel hvernig ljós brotnar í demöntum. Demantur er eitt þekktasta fjölgervingsform kolefnis vegna þess hve algengir demantar eru í iðnaði og skartgripagerð. Algengi þeirra í iðnaði stafar af því að þeir eru afar harðgerðir, en demantar eru sterkasta efnið sem þekkist (sjá knattkol). Í skartgripagerð er einkum sóst eftir eiginleika þeirra til að brjóta ljós en einnig vegna hörku. Demantar eru afar verðmætir en þau 26 tonn sem árlega eru unnin úr námum eru um 700 milljarða króna virði. Demantar myndast í náttúrunni undir gríðarlegum þrýstingi og hita í jörðu niðri. Demantar eru einnig framleiddir en stærð þeirra og gæði eru ekki mikil og því eru þeir aðeins notaðir í iðnaði. Um 100.000 kílógrömm af iðnaðardemöntum eru framleiddir árlega. Frumsenda. Frumsendur eða frumsetningar eru setningar eða frumforsendur sem allar aðrar forsendur innan gefins frumsendukerfis eru afleiður af. Frumsendur eru ósannaðar, en gengið er út frá því að þær séu sannar. Öll stærðfræði í dag byggir á slíkum frumsendum, en sú hefð að byggja stærðfræðilega þekkingu á frumsendum er komin frá heimspekingum Grikklands til forna. Fyrir þann tíma var öll stærðfræði byggð á reynslu, þær formúlur voru notaðar sem reynst höfðu vel. Margar þeirra hafa síðar reynst réttar og hafa verið sannaðar. Leviathan. Leviathan er eitt áhrifamesta stjórnmálarit mannkynssögunar ritað af Thomas Hobbes meðal annars í mótmælaskyni við konungsinna sem trúðu að vald konunga væri komið frá Guði. Ritið inniheldur mikið af endurbættum kenningum Jean Bodin um fullvalda ríki með borgarlegum lögum (samfélagssáttmála) sem kirkjan er m.a. undirgefin. Kjarnorka. Kjarnorka er hugtak, sem haft er um þá orku sem leyst er úr læðingi atómkjarna, með kjarnasamruna eða kjarnaklofnun. Eina nýtanlega aðferðin í dag til að vinna orku úr atómkjarna er með kjarnaklofnun. Allir kjarnakljúfar hita vatn til að framleiða gufu, sem er síðan breytt í vélaorku til að framleiða rafmagn eða hreyfiorku. Árið 2005 kom 15% af öllu rafmagni í heiminum frá kjarnorku. Notkun. Stök kjarnorku-eldsneytiseining flutningaskipsins "NS Savannah". Árið 2005 útvegaði kjarnorka 6,3% af allri orkunotkun heimsins og 15% af rafmagninu. Bandaríkin, Frakkland og Japan standa fyrir 56,5% af þessu. Samkvæmt alþjóða kjarnorkumálastofnuninnni (IAEA) eru 439 kjarnaofnar í notkun í heiminum árið 2007, í 31 landi. Bandaríkin framleiða mestu kjarnorkuna en 19% af heildarraforkunotkun þeirra er framleitt með kjarnorku en Frakkland framleiðir hæst hlutfall síns rafmagn úr kjarnorku — 78% árið 2006. Í Evrópusambandinu útvegar kjarnorka 30% af rafmagninu. Kjarnorkustefnan er ólík milli Evrópusambandslanda og sum, eins og Austurríki, Eistland og Írland, hafa engin virk kjarnorkuver. Mörg hernaðarfarartæki og sum borgaraleg farartæki nota kjarnaklofnun til orkuvinnslu, til dæmis kafbátar og ísbrjótar. Saga. Fyrsta kjarnaklofnunin á tilraunastofu var framkvæmd af Enrico Fermi árið 1934 þegar lið hans skaut á úran með nifteindum. Árið 1938 náðu þýsku efnafræðingarnir Otto Hahn og Fritz Strassmann, ásamt austurrísku eðlisfræðingunum Lise Meitner og bróðursyni Lise Meitner, Otto Robert Frisch, að stjórna tilraunum með úran sem hafði verið skotið á nifteindum. Þau komust að því að ofurlítil nifteindin klýfur kjarna þykkrar úran frumeindarinna í tvo nokkuð jafna hluta, sem var talin furðuleg niðurstaða. Fjölmargir vísindamenn, meðal annars Leó Szilard sem var einn af þeim fyrstu, gerðu sér grein fyrir því að ef klofnun leysti úr læðingi viðbótarnifteindir, þá gæti það leitt til sjálffæðandi keðjuverkunar. Í Bandaríkjunum, þar sem Fermi og Szilard höfðu báðir sest að, gerðu þeir fyrsta kjarnaofninn Chicago Pile-1, sem náði markástandi 2. desember 1942. Þessi vinna varð partur af Manhattan-verkefninu, sem byggði stóra kjarnaofna við Hanford til þess að framleiða plútón til notkunar í fyrstu kjarnavopnunum, sem voru notuð á borgirnar Híroshima og Nagasaki. Rafmagn var framleitt í fyrsta skipti með kjarnaofni þann 20. desember árið 1951 við EBR-I tilraunastöð nálægt Arco í Idaho, sem upphaflega framleiddi um 100 kW. Tækni. Þegar nifteind, hinni óhlöðnu kjarnaeind, er skotið á úrankjarna, klofnar hann í ýmis léttari efni. Eitt slíkt ferli leiðir til myndunar frumefnanna tellúrs og sirkons (auk tveggja nifteinda), annað til klofnings úrans í frumefnin barín og krypton (auk þriggja nifteinda). Kjarnakljúfar nota óstöðug geislavirk frumefni, sem henta til kjarnasundrunar á borð við samsætuna úran235, sem hefur 92 róteindir og 143 nifteindir. Í þessu skyni er úran, sem er unnið úr grjóti auðgað þannig að um þrjú af hundraði þess innihaldi úran235-samsætuna áður en það er notað til að mynda töflur eða pillur úr úranoxíði. Sérstakar tangir, sem innihalda frumefnin kadmín og bór, eru notaðar til að stjórna kjarnaklofnuninni með því að draga í sig nifteindir og hægja á ferlinu. Þannig er keðjuverkuninni haldið gangandi um leið og komið er í veg fyrir að kjarnakljúfurinn ofhitni. Í flestum kjarnakljúfum er varminn sem myndast við klofnunina leiddur með vökva á borð við vatn eða stundum sem fljótandi natrín til varmaskiptis þar sem gufa er mynduð. Vökvinn í varmaskiptinum rennur eftir lokuðu ferli og er gufan sem myndast notuð til að knýja rafala. Gífurleg orka losnar úr læðingi við sundrun frumtengja efnisheimsins. Samkvæmt kenningu Einsteins um samband massa og orku er mismuninum á heildarmassanum fyrir og eftir klofninginn umbreytt í orku samkvæmt jöfnu hans E=mc2 frá árinu 1905. Kjarnasamruni. Kjarnasamruni er þegar kjarnar tveggja atóma sameinast og við það losnar massi og orka, mun meira en í kjarnaklofnun. Orka sólarinnar kemur frá kjarnasamruna þar sem tvö vetnisatóm sameinast í helíum atóm. Til að stuðla að kjarnasamruna á rannsóknarstofu þarf að herma eftir ferlum í sólinni og tengja saman í beinum árekstri tvö tvívetnisatóm sem renna saman í helín atóm. Slíkum árekstri er fremur erfitt að koma á og stjórna, einkum vegna þess að hitastigið í þessum manngerða sólarsamruna er mjög hátt og engin þekkt efni hafa þá nauðsynlegu eiginleika sem þarf til að halda slíkum ofurheitum hrærigraut í skefjum. Af þessum sökum er komið fyrir segulspeglum í kjarnaofninum við tilraunir með kjarnasamruna, en speglarnir mynda á milli sín öflugt segulsvið, sem hefur hemil á hrærigrautnum í nokkurs konar segulskál. Umhverfisáhrif. Geislavirkur úrgangur er helsti akkilesarhæll kjarnaklofnunar. Meðal afurða slíkrar klofnunar er samsætan plútón239 sem hefur 24.000 ára helmingunartíma eða einn þann lengsta sem um getur. Skilvirkasta leiðin til að geyma geislavirkan úrgang er að koma honum fyrir í steinsalti eða kalsínsúlfati. Sumir umhverfisverndarsinnar hafa haft horn í síðu kjarnorkunnar, enda hafa þeir ekki samþykkt þær aðferðir og þá tækni sem beitt er við geymslu geislavirks úrgangs. Á hitt ber að líta að vinnsla kjarnorku leiðir til mun minni losunar koldíoxíðs en til dæmis bruni kola til orkuvinnslu og á þessi staðreynd þátt í að þessi orkugjafi er nú skoðaður í nýju ljósi. Geislavirkni er mjög hættuleg öllu lífi. Vandamálið sem fylgir hinum geysilega langa líftíma aukaafurðanna er mikil hindrun og ókostur. Jákvæða hliðin er hins vegar sú að hlutfallslega lítið magn af koldíoxíði verður til við orkuvinnsluna (). Karl Marx. Karl Heinrich Marx (5. maí 1818 – 14. mars 1883) var gríðarlega áhrifamikill þýskur hagfræðingur, heimspekingur og stjórnmálaspekingur sem er frægastur fyrir greiningu sína á mannkynssögunni í anda þráttarhyggju Hegels sem röð átaka milli stétta. Hann greindi samfélag kapítalismans (þ.e. samfélagið eins og það er eftir iðnbyltinguna) og taldi meðal annars að reglulegar og sívaxandi efnahagskreppur væru innbyggðar í hagkerfis og myndu á endanum leiða til hruns þar sem stéttlaust samfélag tæki við. Marx tók virkan þátt í stjórnmálahræringum um og eftir miðja 19. öld. Hann skrifaði Kommúnistaávarpið ásamt Friedrich Engels 1848 og var leiðandi við stofnun Fyrstu alþjóðasamtaka verkalýðsins í London 1864. Höfuðrit hans "Auðmagnið" ("Das Kapital") kom út 1867. Útfærslur á jafnaðarstefnunni sem byggja á verkum Marx eru oft kallaðar marxismi. Marxismi hafði gríðarleg áhrif á stjórnmál og vísindi á 19. og 20. öld, ekki síst eftir Októberbyltingu bolsévika í Rússlandi 1917. Tenglar. Marx, Karl Marx, Karl James Mill. James Mill (6. apríl 1773 – 23. júní 1836) var skoskur sagnfræðingur, heimspekingur og hagfræðingur. Mill lærði guðfræði í Edinborgarháskóla en flutti síðan til London 1802 þar sem hann fékkst við greinarskrif fyrir dagblöð og tímarit þar til hann gaf út meginverk sitt "History of British India" (sem kom út í sex bindum 1818 – 1819 og síðar í tíu bindum 1872) þar sem hann rekur sögu breskra yfirráða á Indlandi og gagnrýnir harðlega stjórn landsins á ýmsum tímum. Á þeim tíma var hann starfsmaður hjá Breska Austur-Indíafélaginu og hafði því mikil áhrif á þróun stjórnar Breska heimsveldisins á Indlandi þótt hann hefði aldrei komið þangað og byggði greiningu sína aðeins á heimildum. Í hagfræði var hann á sömu línu og David Ricardo. "Elements of Political Economy" kom út 1821. "Analysis of the Phenomena of the Human Mind" sem kom út 1835 er síðan tilraun til að greina sálarlífið í anda skosku upplýsingarinnar sem hafði áhrif á sálfræði og siðfræði. James Mill var faðir heimspekingsins og hagfræðingsins Johns Stuarts Mill sem lýsti honum sem nokkuð skapstyggum manni. Magna Carta. Útgáfa af Magna Carta frá 1225 Magna Carta er enskur lagabálkur sem upphaflega var gefinn út árið 1215. Nafnið er runnið úr latínu og þýðir „bálkurinn mikli“ (bókstaflega „blaðið mikla“). Magna Carta er markverð fyrir þær sakir að hún hafði mikil áhrif á þá löngu stjórnsýslusögu sem leiddi til nútímalagaumhverfis sem byggist á stjórnarskrárvörðum reglum og réttindum. Magna Carta varð til í kjölfar ágreingings milli páfa, Englandskonungs og enskra baróna, sem varðaði réttindi konungsins. Magna Carta takmarkaði rétt konungsins og gerði honum skylt að lúta tilteknum lögum og reglum. Magna Carta, sem er í raun samansafn af ýmsum lagaskjölum, var uppfærð oftar en einu sinni á miðöldum, en í upphafi 19. aldar höfðu flest ákvæði hennar verið numin úr gildi. Engu að síður hefur hún áhrif enn í dag, því hugmyndir úr Magna Carta höfðu áhrif á smíð bandarísku stjórnarskrárinnar. Þrælahald. Þrælahald kallast það þegar menn eru meðhöndlaðir, lagalega eða félagslega, sem eign annarra manna. Fyrr á tímum var þrælahald oft löglegt og eignarréttur landeigenda og annarra efnamanna náði ekki einungis til landareigna og húseigna heldur einnig til vinnuafls. Slíkir þrælar áttu ekki rétt á launagreiðslum og voru að öllu leyti háðir ákvörðunum eigenda sinna en þeir gátu þá skipað þeim fyrir verkum og hlutverkum og selt þá eins og hverja aðra eign. Löglegu þrælahaldi hefur nú verið nánast útrýmt en ólöglegt þrælahald þar sem fólki er haldið nauðugu viljugu við vinnu tíðkast þó enn. Auk þess er stundum talað um að um þrælahald sé að ræða þegar starfsfólk ákveðinna atvinnurekenda fær mjög lág laun og á mjög erfitt með að skipta um vinnu, til dæmis vegna þess að það skuldar atvinnuveitandanum laun, til dæmis vegna ferðakostnaðar, húsnæðis eða jafnvel verkfæranna sem það notar við vinnu sína. Kynjamismunun. Kynjamismunun er mismunun gagnvart fólki á grundvelli kynferðis þess. Lagalegt misrétti kynja er ákveðin gerð kynjamismununar og gilda þá aðrar reglur um karla en konur. Eins getur mismununin verið félagsleg, til dæmis ef atvinnurekendur leitast við að ráða fólk af öðru kyninu frekar en hinu eða greiða öðru kyninu kerfisbundið lægri laun. Sólkerfi. Sólkerfi er heiti yfir tiltekna stjörnu ásamt fylgihnöttum, t.d. reikistjörnur, halastjörnur og lofsteinar. Ekki talað um sólkerfi nema stjarna hafi fylgihnetti - stakar stjörnur eða tvístirni eru því vanalega ekki talin til sólkerfa. Með sólkerfinu er átt við sólkerfi það sem hefur jörðina sem fylgihnött. Stórar tölur. Stórar tölur eru tölur, sem vegna stærðar sinnar eru lítt notaðar af almenningi frá degi til dags, en koma gjarnan fyrir á sviði vísinda, verkfræði, fjármála o.s.frv. og hafa fengið sérstök heiti. (Getur einnig átt við stórar prímtölur.) Heiti yfir tvær mismundandi tölur geta verið skrifuð eins og borin fram svipað í tveimur tungumálum og því valdið misskilningi. Því eru heiti talnanna á amerískri og breskri ensku birt í töflunni hér að neðan. Þúsund. Þúsund er heiti yfir stóra tölu, sem er tugur hundruða og er táknuð með "1.000" eða eða "103". Tímabilið þúsund ár nefnist árþúsund. Talan þúsund er táknuð með M í rómverskum tölustöfum. Milljarður. Milljarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000, sem 109, eða sem þúsund milljónir. Í bandarískri ensku er milljarður oftast nefndur "billion", sem er einn þúsundasti af billjón. Billjón. Billjón er heiti yfir stóra tölu, milljón milljónir, sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000, sem 1012, eða sem þúsund milljarðar. Í bandarískri ensku þýðir "billion" milljarður, sem er einn þúsundasti úr billjón. Sjá einnig umfjöllun um stórar tölur. Billjarður. Billjarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000, sem 1015, eða sem þúsund billjónir. Trilljón. Trilljón er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000, sem 1018, eða sem þúsund billjarðar. Sjá einnig umfjöllun um stórar tölur. Trilljarður. Trilljarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000.000, sem 1021, eða sem þúsund trilljónir. Kvaðrilljón. Kvaðrilljón er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000.000.000, sem 1024, eða sem þúsund trilljarðar. Kvaðrilljarður. Kvaðrilljarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000.000.000.000, sem 1027, eða sem þúsund kvaðrilljónir. Kvintilljón. Kvintilljón er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000, sem 1030, eða sem þúsund kvaðrilljarðar. Stjörnuþoka. a> er dæmigerð þyrilþoka, rúmlega 50 þúsund ljósár í þvermál, og í um það bil 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðu. Stjörnuþoka er þyrping fjölmargra stjarna og annarra stjarnfræðilegra fyrirbæra, sem haldast í nágrenni hvert við annað vegna sameiginlegs þyngdarsviðs stjörnuþokunnar. Orðið nágrenni er auðvitað afstætt, og stjörnuþokur eru mjög stórar. Dæmigerðar stjörnuþokur geta verið frá þúsundum til hundraða þúsunda ljósára í þvermál og innihaldið allt frá því um tíu milljónum (107) stjarna, og upp í billjón (1012) stjörnur. Í flestum tilvikum er vegalengdin á milli stjörnuþoka talin í milljörðum ljósára, en þó eru til stjörnuþokur sem eru mun nær, og þess eru jafnvel dæmi að tvær stjörnuþokur „rekist saman“. Talið er að finna megi svarthol í miðju allra störnuþoka. Sólkerfið er í stjörnuþoku sem nefnist Vetrarbrautin. HDTV. Háskerpusjónvarp eða HDTV („high-definition television“) er gerð stafrænna sjónvarpstækja sem bjóða upp á betri upplausn en hefðbundin sjónvörp (sjá: NTSC, SECAM og PAL). Flest slík sjónvörp eru breiðtjalda. Skammstöfunin HDTV er notuð jöfnum höndum um framsetningu háskerpumynda og sjónvarpstækin sem notast við háskerputækni. Upplausnin er allt að tífalt betri en í öðrum tækjum og myndlínurnar helmingi fleiri. Vetrarbrautin. Teikning sem sýnir hvernig Mjólkurslæðan gæti litið út, séð úr fjarlægð. Vetrarbrautin (stundum kölluð Mjólkurslæðan) nefnist stjörnuþokan sem sólkerfið tilheyrir. Vetrarbrautin er þyrilþoka, ein af milljörðum stjörnuþoka í alheimnum og hluti grenndarhópsins. Þvermál Vetrarbrautarinnar er 100 000 ljósár. Vetrarbrautarhnit er himinhvolfshnitakerfi, sem miðar "hæð" himinfyrirbæris við Vetrarbrautarsléttuna og "lengd" við miðju Vetrarbrautarinnar. Unix. Unix eða UNIX er hópur stýrikerfa fyrir tölvur, það fyrsta skrifað á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldarinnar á Bell ransóknarstofum bandaríska símarisans AT&T. Seinna komu svo fram fleiri útgáfur, bæði frá ýmsum fyrirtækjum sem og áhugamönnum undir flaggi GNU hreyfingarinnar. Unix kerfi eru hönnuð sem fjölnotenda- og fjölforrita-umhverfi sem auðvelt er að breyta fyrir mismunandi vélbúnað. Einkenni þeirra eru einkum einfaldar textaskrár notaðar alls staðar sem hægt er, skipanalína, skráakerfi með möppuhugtak og framsetning vélbúnaðar og forritasamskipta sem textaskráa. Linux er hópur frjálsra stýrikerfa, sem eru náskyld Unix. Brauð. a> eins og það sem hér sést er gert með því að taka afleggjara af deiginu og geyma til að nota í næsta deig. Brauð er mikilvæg grunnfæða sem búið er til með því að baka, gufusjóða eða steikja brauðdeig. Deigið er gert úr mjöli og vatni, en salti er yfirleitt bætt við auk lyftiefnis eins og lyftidufti eða geri. Brauð inniheldur auk þess oft krydd (til dæmis kúmenfræ) og heil korn (til dæmis sesamfræ eða valmúafræ). Vegna mikils glútens sem gefur deiginu teygjanleika og mýkt, er hefðbundið hveiti, einnig þekkt sem brauðhveiti, algengasta kornið sem notað er í framleiðslu á brauði en brauð er einnig gert úr mjöli annarra hveititegunda, þar á meðal durum og spelti, rúgi, bygg, maís og höfrum, sem yfirleitt, en þó ekki alltaf er blandað við hefðbundið hveiti. Saga brauðsins. Brauð er eitt af elstu tilbúnum matvælunum. Í Evrópu hafa fundist 30 þúsund ára gamlar sterkjuleifar á steinum sem notaðir voru til að mala plöntur og mögulegt er að á þeim tíma hafi sterkjan verið tekin úr rótum plantna, til dæmis burkna, dreift á slétta klöpp, sett yfir eld og eldað í frumstætt form flatbrauðs. Um 10.000 f.Kr., við upphaf nýsteinaldar þegar landbúnaður fór að verða útbreiddur, varð korn undirstöðuefni í brauðgerð. Mikil framför varð í brauðgerð árið 1961 með þróun Chorleywood-aðferðarinnar, þar sem notuð er mun vélrænni vinna en áður þekktist á deigið til að draga verulega úr gerjunartímanum, og þeim tíma sem tekur að framleiða brauð. Ferlið sem gerir ráð fyrir notkun korns með lágu próteinmagni, er nú almennt notað um allan heim í stórum verksmiðjum. Þess vegna er hægt að framleiða brauð á stuttum tíma og á lágum kostnaði fyrir bæði framleiðanda og neytanda. Framreiðsla og neysla. Brauð er hægt að bera fram bæði heitt eða við stofuhita. Þegar brauðið er bakað getur það síðan verið ristað í brauðrist. Það er oftast borðað með höndum, annaðhvort eitt og sér eða með öðrum matvælum. Brauði er hægt að dýfa í vökva, svo sem ýmis konar sósur, ólífuolíu eða súpu. Hægt er að setja alls konar álegg á brauð, sem oft er smurt með ýmsum tegundum af smjöri áður en áleggið er sett á, eða gera úr því samlokur sem geta innihaldið ýmis afbrigði af kjötáleggi, osti, grænmeti, sultum og kryddtegundum. Matarsykur. Matarsykur eða strásykur (C12H22O11 er efnajafnan fyrir strásykur) er sætt efni úr súkrósa sem er unninn úr sykurrófum eða sykurreyr og fleiri jurtum til neyslu. Sykur er hvítleit kristölluð tvísykra sem er notuð sem sætuefni í mat og drykki og til geymslu á matvælum. Sykur er til í ýmsum myndum en algengastur er hvítur sykur, flórsykur, púðursykur og hrásykur. Molasykur er sykur sem hefur verið pressaður og mótaður eða sagaður í teninga. Sykur er oft notaður í ýmiss konar bakstur og margvíslega rétti, ekki síst ábætisrétti, sæta drykki, sælgæti og annað slíkt en einnig til að bragðbæta rétti af ýmsu tagi, enda þykir flestum sætt bragð gott. Raunar er sykur í einhverju formi í mjög mörgum unnum matvælum af öllu tagi. Sykur er orkuríkur en næringarsnauður og þykir því ekki hollur, auk þess sem hann veldur tannskemmdum) og getur orsakað sjúkdóma. Saga. Talið er að sykurreyr sé uppruninn í Suður- eða Suðaustur-Asíu, e.t.v. bæði á Indlandi og Nýju Gíneu. Um 200 f.Kr. byrjuðu Kínverjar að rækta sykurreyr. Nearkos, einn af herforingjum Alexanders mikla sagði að sykur væri: „reyr sem gefur af sér hunang án býflugna“. Það var þó ekki fyrr en Arabar gerðu sykurvinnslu að iðnaði á miðöldum sem sykur fór að flytast til Evrópu í einhverju magni. Á 16. og 17. öld barst sykurreyr til Brasilíu og síðar Karíbahafseyja, sem urðu brátt helsta sykurræktarsvæði heimsins og voru þrælar helsta vinnuaflið á plantekrunum. Eftir því sem sykurplantekrunum fjölgaði féll sykur í verði og hætti að vera rándýr munaðarvara en það var þó ekki fyrr en farið var að vinna sykur úr sykurrófum ræktuðum í Norður-Evrópu snemma á 19. öld sem hann varð ódýr. Nú eru um 30% af sykurframleiðslu heimsins unnin úr sykurrófum. Tóbak. Tóbak er efni sem unnið er úr blöðum tóbaksjurta (fræðiheiti: "Nicotiana") sem eru ættkvísl jurta af náttskuggaætt upprunnin í Norður- og Suður-Ameríku. Tóbaks er yfirleitt neytt með því að reykja það sem píputóbak eða í vindlum eða sígarettum. Tóbaks er líka neytt með því að tyggja það (skro, munntóbak), taka það í vörina eða sjúga það inn í gegnum nefið (neftóbak). Tóbaksneysla á uppruna sinn meðal indíána í Nýja heiminum en þessi siður breiddist hratt út um allan heim eftir landafundina á 15. öld. Litið er á tóbaksreykingar sem meiri háttar heilbrigðisvandamál vegna þess hve það er stór áhrifaþáttur í tíðni krabbameins auk ýmissa öndunarfæra- og hjartasjúkdóma. Hveiti. Hveiti (fræðiheiti: "Triticum") er ættkvísl jurta af grasaætt. Hveiti er korn sem upphaflega er frá frjósama hálfmánanum svæði Austurlöndum nær og Eþíópíu en nú ræktað um allan heim. Árið 2007 var heimsframleiðslu á hveiti 607 milljónir tonna, sem gerir það að þriðja mest framleiddu kornafurð á eftir maís (784 milljón tonn) og hrísgrjón (651 milljón tonn). Árið 2009 var heimsframleiðsla á hveiti komin í annað sæti á eftir maís eða 682 milljónir tonna. Hveiti er yfirleitt malað í mjöl sem notað er til að búa til brauð, kökur, pasta og kúskús og einnig í bjórgerð og vodka svo eitthvað sé nefnt. Trefjaríkt hveitiklíð er einnig notað bæði til manneldis og í skepnufóður. Sumt fólk hefir ofnæmi fyrir glíadíni sem er að finna í hveiti og kallast sá sjúkdómur Celiac sjúkdómur. Hveiti er ræktað á ökrum og svo er það unnið eftir að það er týnt upp út ökrunum. Hveiti er ræktað á fleiri landsvæðum en önnur korn og er mikilvægasta stöðuga fæðan fyrir mannkynið. Alþjóðaviðskipti í hveiti er meiri en fyrir alla aðra ræktun samanlagt. Á heimsvísu er hveiti leiðandi uppspretta próteina úr jurtaríkinu í mennskri fæðu, hveiti hefur hærra prótein innihald en allt annað korn jafnvel maís eða hrísgrjón. Á sama hátt eru margar tegundir til af hveiti og sú tegund sem mest hefur verið notuð í bakstur nefnist í flokkunarkerfi lífvera Triticum aestivum. Önnur tegund af hveiti sem mikið hefur verið á heilsuvörumarkaðnum síðustu ár er kölluð í daglegu tali spelt og nefnist Triticum spelta í flokkunarkerfinu. Þegar spelt kom á markaðinn var fullyrt að þeir sem hefðu ofnæmi fyrir hveiti og einnig þeir sem eru með glútenóþol (celiac sjúkdóm) myndu þola spelt. Einstaklingar með glútenóþol, sem prófuðu þessa vöru, komust fljótt að því að þessi fullyrðing stóðst engan veginn. Indira Gandhi. Indira Priyadarshini Gandhi (19. nóvember 1917 - 31. október 1984) var indverskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Indlands 1966-1977 og 1980-1984 dóttir Jawaharlal Nehru fyrsta forsætisráðherra Indlands alls óskyld Mohandas Gandhi. Hún var móðir Rajiv Gandhi forsætisráðherra Indlands 1984-1989. Hún giftist Feroze Gandhi 1942. Indira Gandhi var myrt af tveimur lífvörðum sínum, sem voru síkar, sem hefnd fyrir það þegar indverski herinn gerði árás á Gullna hofið, helgidóm síka í Amritsar í júní 1984. Sítróna. Sítróna (stundum nefnt gulaldin) fræðiheiti: "Citrus x limon") er blendingsafbrigði sítrustrés sem er ræktað á hitabeltinu og á heittempruðum svæðum. Heiðgulur ávöxturinn inniheldur súran safa sem inniheldur 5% sítrussýru og með sýrustig 2 til 3. Sítrónutréð getur orðið allt að sex metrar á hæð en er yfirleitt mun minna. Mikið ræktuð til matar og er mjög C-vítamínríkur ávöxtur. Tívolíið í Kaupmannahöfn. Tívolíið í Kaupmannahöfn er skemmtigarður í miðju Kaupmannahafnar, höfuðborgar Danmerkur. Tívolíið var stofnað af Georg Carstensen. Upphafið. Innblásturinn að Tívolíinu voru hinir rómantísku lystigarðar sem spruttu upp um alla Evrópu á 19. öld. Forsprakkinn að Tívolíinu, Georg Carstensen, hafði litið svoleiðis lystigarða augum á ferðum sínum og bað Kristján VIII um leyfi til þess að mega stofna og reka Tivolí og Vauxhall í fimm ár. Nafnið Tívolí kom frá Tívolíinu í París en Vauxhall var lystigarður í Lundúnum. Tívolí og Vauxhall var staðsett rétt hjá Vestervold sem var á þeim tíma hersvæði. Carstensen og arkitektinn H.C. Stilling (1815-1891) teiknuðu Tívolíið í sameiningu. Uppbyggingin gekk fljótt fyrir sig. Smíðarnar hófust í maí árið 1843 og var opnað strax sama ár. Margar af byggingunum voru þó ekki fullbúnar fyrr en árið eftir. Árið 1856 misstu svæðin herfræðilegan tilgang sinn og Tívolíið fékk nægt pláss til að vaxa. Vaxtarstefna Kaupmannahafnar hefur valdið því að Tívolíið er nú ekki utan við bæinn heldur staðsett í hjarta hans. Pantomimeleikhúsið. Þegar fyrstu gestirnir spígsporuðu inn í Tívolíið árið 1843 sáu þeir Pantomimeleikhúsið standa vinstra megin, rétt innan við Tívolíhliðið. Tívolíið var úr viði og máluðu lérefti en entist illa og árið 1874 úrskurðuðu verkfræðingarnir að rífa þyrfti gamla Pantomimeleikhúsið og byggja nýtt. Leikhúsið var endurhannað af Vilhelm Dahlerup arkitekt, en hann hannaði einnig Konunglega Leikhúsið í Danmörku. Kínverskur stíll einkenndi endurhönnunina en Dahlerup skoðaði myndir af kínverskum byggingum og ráðfærði sig við verkfræðinga sem höfðu lært í Austurlöndum. Páfuglstjaldið, sem er eitt af einkennum Tívolíssins, var þó ekki hugmynd Dahlerups, heldur átti Bernhard Olsen, þáverandi Tívolístjóri hana. Það þarf fimm manns til að loka og opna tjaldið. Litasamsetningin, sem var endurskoðum á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar af Hans Hansen, er mjög þýðingarmikil. Hansen vildi að litasamsetningin fylgdi hinum kínversku hefðum að sem mestu leyti, en viðurkenndi þó að það væri auðvitað erfitt fyrir evrópskan arkitekt að setja sig inn í allan symbólismann sem austurlenskri hönnun fylgir. Rauði liturinn stendur fyrir yang (hið karlmannlega) og er mest áberandi. Litirnir grænn og blár standa fyrir yin (hið kvenlega) og eru áberandi á þverslám og þvíumlíku. Að lokum stendur guli liturinn sem oft hefur verið nefndur einkennislitur Kína fyrir hið kvenlega. Kvenlegu litirnir eru meira áberandi á ferhyrningslaga fletum á meðan karlmannlegu litirnir eru yfirleitt á kringlóttum fletum. Merking táknanna kínversku sem voru yfir sviðinu féllu í gleymsku en þýða „Gleðjist með fólkinu“. Hans Hansen leitaði að uppruna þeirra og fann út að orðin koma frá kínverska heimspekingnum Meng-Tse: „Hamingjan fæst með því að deila gleði sinni með fólkinu“. Hringbogi. Hringbogar voru mikið notaðir í Rómverskri byggingarlist. Hringboga má oft finna í höllum og söfnum. Einnig voru einhvers konar sigurhringbogar byggðir um allt Rómaveldi. Þeir voru minnismerki til heiðurs keisurum og öðru fyrirfólki eða til að minnast einhvers sigurs. Á þeim voru einn eða fleiri hringbogalaga inngangar og oft var vegur í gegn. Þessi stíll breiddist út og þó það sé mest af slíkum minnismerkjum á Ítalíu má finna þau um allan heim, þ.á m. í Frakklandi, á Spáni, Litlu-Asíu og Norður-Afríku. Fyrst voru þetta venjulega stórar steinblokkir með einu hringbogalaga opi í gegn um, sjá t.d. Títusarsigurbogann í Róm. Nú á tímum má finna dæmi um svona boga sem hafa verið byggðir mun seinna. Þar má nefna Sigurbogann í París í Frakklandi, Brandenborgarhliðið í Berlín, Sigurbogann í München, Marmarabogann í Lundúnum og Washington Arch í New York. Íslensk dæmi um hringbogann má finna í kirkjum um allt land og sem dæmi má nefna gluggana í Bessastaðakirkju. Þeir eru hringbogalaga og voru gerðir af Finni Jónssyni sem afmælisgjöf handa Ásgeiri Ásgeirssyni, fyrrverandi forseta íslenska lýðveldisins. Sitjandi Naut. Sitjandi Naut eða Tȟatȟáŋka Íyotake (um 1831 – 15. desember 1890) var æðsti höfðingi Hunkpapa-ættbálksins af þjóð Súindíána. Hann leiddi 1200 Sjeyenne- og Súindíána gegn 7. riddaraliðssveitinni undir stjórn George Armstrong Custer í orrustunni við Little Bighorn 25. júní 1876. Eftir orrustuna flýði hann ásamt liði sínu til Kanada þar sem hann bjó til 1881 þegar þau sneru aftur með friðhelgi. Síðar ferðaðist hann með Buffalo Bill Cody og tók þátt í Villta vesturssýningu hans þar sem hann kom gjarnan fram og bölvaði áhorfendum á tungumáli Lakótaindíána. Þegar andadansinn breiddist út meðal indíána sem tilraun til að reka hvíta manninn burt frá löndum þeirra tóku bandarísk stjórnvöld að líta á Sitjandi Naut sem ógnun og reyndu að handtaka hann á heimili hans. Til átaka kom með þeim afleiðingum að Sitjandi Naut og sonur hans Krákufótur voru drepnir. Pétur mikli. Pétur mikli á málverki frá 1838. Pétur 1. Rússakeisari eða Pétur mikli (rússneska: "Пётр I Алексеевич"; 9. júní 1672 – 8. febrúar 1725) ríkti yfir Rússlandi frá 7. maí 1682 til dauðadags. Fyrir 1696 var hann meðstjórnandi veiks hálfbróður síns Ívans 5. undir forsjá hálfsystur sinnar Soffíu Alexejevnu. Hann reyndi að Evrópuvæða Rússland og með því að hefja útþenslustefnu til suðurs og vesturs tókst honum að gera Rússland að evrópsku stórveldi. Í Norðurlandaófriðnum mikla náði hann að sigra Svía, fá aðgang að Eystrasalti og stofna borgina Sankti Pétursborg á Kirjálaeiðinu sem hann hugðist gera að höfuðborg. G8. G8 (Group of Eight) eru samtök átta af stærstu efnhagsveldum heims, þau eru: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada, Rússland og Þýskaland. Samanlagt mynda þessi lönd 65% af hagkerfi heimsins. Þekktasta starfsemi G8 felst í hinum árlega fundi leiðtoga ríkjanna en einnig eru haldnir margir minni fundir. G8 er ekki formleg alþjóðastofnun með höfuðstöðvar eða eigið starfsfólk heldur skiptast aðildarríkin á að fara með forsæti í samtökunum eitt ár í senn og taka þá jafnframt að sér að hýsa þá fundi sem haldnir eru á vegum þeirra, þar á meðal þriggja daga leiðtogafund um mitt árið. Á fundunum er fjallað um efnahagsmál, alþjóðastjórnmál, hernaðarmál, löggæslu, umhverfismál og hvað annað sem skiptir máli í alþjóðlegu samhengi. Upphaf G8 samstarfsins má rekja til þess að forseti Frakklands, Valéry Giscard d'Estaing bauð leiðtogum 6 stærstu iðnríkjanna til fundar í Frakklandi árið 1975 og lagði til að slíkir fundir yrðu haldnir árlega, sá félagsskapur var kallaður G6. 1976 varð G7 til með þátttöku Kanada. Eftir lok kalda stríðsins fór Rússland smátt og smátt að taka meiri þátt í starfi samtakanna og varð fullgildur meðlimur 1997. Hvítur. Hvítur er hluti af skynjun manna á litum og á við ljós sem felur í sér allar bylgjulengdir sýnilegs ljóss. Innan eðlisfræðinnar flokkast "hvítur" þó ekki til lita, því að hvítt ljós felur í sér alla liti litrófsins, í jöfnum mæli. Vegna takmörkunar á skynjun augans er hægt er að búa til lit sem virðist hvítur með því að blanda saman frumlitunum þremur: rauðum, grænum og bláum, og er sú aðferð meðal annars notuð í sjónvörpum og tölvuskjám. Grænn. Grænn er litur. Hér til hliðar má sjá hvernig tveir mismunandi litastaðlar skilgreina grænan. Skilgreiningarnar lýsa litum með sömu bylgjulengd en mismunandi birtustig. Gulur. Gulur er litur sem orsakast af rauðu og grænu ljósi, og því er gulur ekki frumlitur þegar um ljósblöndun er að ræða. En þegar lituðu bleki er blandað saman er gulur frumlitur, sem ásamt bláum lit myndar grænan. James Bond. James Bond er skáldsagnapersóna úr bókum eftir Ian Fleming. Um hann hafa einnig verið gerðar margar kvikmyndir. Almennar upplýsingar. James Bond er myndarlegur breskur njósnari með einkennisnúmerið 007, sem þýðir að hann hefur leyfi til að drepa. Hann ferðast um heiminn og notar gáfur sínar, bardagakunnáttu og hátækni til þess að sigra illmenni sem sækjast eftir heimsyfirráðum. Ian Fleming notaði þó ekki mikil tæki og tól í bókum sínum en þau urðu eitt af helstu einkennum Bonds þegar myndirnar komu út. Önnur helstu einkenni Bonds eru m.a. að hann er hrifinn að vodka-martini („shaken, not stirred”), Walther PPK skammbyssan hans og sá vani hans að kynna sig sem: „Bond, James Bond“. Fleming nefndi James Bond eftir líffræðingi sem hafði það nafn. Fleming var mikill fuglaáhugamaður og þegar hann rakst á eintak af bókinni: "A Field Guide to the Birds of the West Indies" vissi hann strax að hann myndi nefna njósnarann eftir nafni höfundarins (vildi einnig hafa það sem einfaldast). Bond persónan er þó að einhverju leyti byggð á einkalífi Flemings. Rithöfundurinn vissi að hann ætti að hafa dýran og góðan lífsstíl. Hann var einnig byggður á manni sem Fleming hitti á Estoril spilavítinu í Portúgal á meðan hann sinnti störfum í seinni heimsstyrjöldinni. Einnig kom fyrsta bókin frá þeim stað en það var "Casino Royale". Persónulegar upplýsingar. Andrew Bond, faðir James Bond, var skoskur og móðir hans, Monique Delacroix, var svissnensk. Bæði dóu þau í slysi sem átti sér stað meðan þau voru í fjallaklifri þegar Bond var aðeins 11 ára gamall. Hann flutti til Kent til frænku sinnar, Miss Charmian Bond, og var skjaldamerkið á heimilinu: „Orbis non sufficit” sem þýðir: „heimurinn nægir ekki“ á latínu. Þetta slagorð kom í myndunum "On Her Majesty’s Secret Service" og "The World is not Enough". James Bond var örstutta stund í Eton menntaskólanum og fór svo yfir í Fettes menntaskólann. Hann sótti svo í háskólann í Genf en 1941 fór hann yfir í breska flotann. Þaðan vann hann sig upp í bresku leyniþjónustunnar. Mikið hefur verið rætt um fæðingardag. Samkvæmt bók Johns Pearson, "James Bond: The Authorized Biography of 007", fæddist Bond 11. nóvember 1920. Engin bóka Flemings styður það en í bók hans "You Only Live Twice" segir að hann hætti í skóla 17 ára gamall og fór strax í breska flotann (það þýðir að hann fæddist einhvern tímann árið 1924). Í bókinni "From Russia With Love" er sagt frá því þegar hann keypti fyrsta bílinn sinn (Bentley) sem átti að gerast 1933. Það þýðir að hann hafi verið of ungur til að keyra hvort sem hann hefði fæddist 1920 eða 1924. Hann ætti þá að vera fæddur einhvern tímann á 2. áratug 20. aldar. Ian Fleming. Ian Fleming, höfundur flestra bókanna, skrifaði margar bækur og smásögur um persónuna frá árunum 1953-1964. En eftir dauða hans árið 1964 voru aðrir rithöfundar sem héldu persónunni gangandi, þ.á m. Kingsley Amis, John Pearson, John Gardner, Raymond Benson og Charlie Higson. Áhuginn. James Bond myndaröðin er, eins og stendur, númer tvö á lista yfir tekjuhæstu myndaraðirnar, á eftir Star Wars myndaröðinni. Upprunalegu bækur Flemings voru yfirleitt dekkri og dýpri heldur en blandan um einstakt illmenni, ófyrirsjáanleg söguþráð og kynæsandi konur sem falla fyrir Bond sem er venjuleg blanda Bond myndanna. Myndirnar stækkuðu Q-deildina eða tæknideildina og oftast var söguþráður myndanna og bókanna ekki sá sami. Leikararnir. Fyrsti leikarinn til að túlka Bond var Bandaríkjamaðurinn Barry Nelson og var það í myndinni Casino Royale 1954 sem framleidd var af CBS sjónvarpsstöðinni. Árið 1956 lék Bob Holnenn rödd Bonds í suður-afrískum útvarpsþætti í gerð af Moonraker. MGM átti nú eftir að gera 21 Bond mynd og voru fyrstu fimm leiknar af Sean Connery sem að mörgum er talinn besti Bondinn. George Lazenby gerði eina mynd og kom Sean Connery aftur og gerði svo eina í viðbót. Næstu sjö voru leiknar af Roger Moore og því næst Timothy Dalton sem gerði tvær og Pierce Brosnan næstu fjórar. Daniel Craig er búin að fara með aðalhlutverk Bonds þremur myndum, m.a. Casino Royale en það er fyrsta MGM gerðin af henni en hún hefur verið gerð tvisvar áður. Þrjár James Bond myndir sem MGM framleiddu ekki voru: Casino Royale (1954), Casino Royale (1967), þar sem David Niven fór með hlutverk njósnarans, og Never Say Never Again (1983), sem var endurgerð kvikmyndarinnar Thunderball frá 1964. Sean Connery lék Bond í henni eins og hann hafði gert árið 1964 í Thunderball. Framleiðsla. Albert R. Broccoli og Harry Saltzman voru fyrstu framleiðendur Bond myndanna (þ.e. MGM séríunnar) og byrjuðu þeir á Dr. No þar sem Sean Connery lék njósnarann. Eftir að myndin The Man with the Golden Gun kom út settist Harry Saltzman í helgan stein. Albert R. Broccoli hætti svo árið 1989. Framleiðslufyrirtækið EON Productions sá um framleiðsluhlið Bonds allt til ársins 1989 og hafði þá hver mynd staðið sig vel varðandi tekjur nema einstakar inni á milli. Fróðleiksmolar. Margir halda að framleiðendur Bond-myndanna myndu aldrei ráða Bandaríkjamann til að leika hann en í raun hefur það gerst tvisvar og einnig boðið í að leika hann. Adam West hafði tækifæri á að leika í On Her Majesty's Secret Service þegar Sean Connery ákvað að hætta. Að lokum féllst George Lazenby á að leika í henni og samþykkti Sean Connery að leika aftur í Bond mynd og var það myndin Diamonds are Forever eftir að Bandaríkjamaðurinn John Gavin hafnaði því. James Brolin átti að taka við af Roger Moore í myndinni Octopussy en framleiðendurnir lokkuðu Moore til að gera tvær í viðbót. Roger Moore var lengi eini Englendingurinn sem hefur leikið Bond í MGM seríunni. Sean Connery er skoskur, George Lazenby frá Ástralíu, Timothy Dalton er hálfur Ítali, hálf velskur og Pierce Brosnan er írskur. Reyndar er Daniel Craig enskur, sem og David Niven. Ian Fleming var svo hrifinn og vildi ólmur að Sean Connery léki fyrsta Bondinn að hann breytti persónu Bonds og lét föður hans verða skoskan. Holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri. Holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit í Vestfirðingafjórðungi er einn fjögurra holdsveikraspítala á Íslandi sem heimilað var að stofna með konungsbréfum 10. maí 1651 og 12. maí 1652. Engin lækning við holdsveiki var viðhöfð á spítalanum því tilgangur holdsveikraspítalanna var að einangra holdsveikisjúklinga og koma í veg fyrir að þeir smituðu aðra. Þórir Guðmundsson var fyrsti forstöðumaður eða hospítalsforstandari Hallbjarnareyrarspítala eða frá fardögum 1653 og var þá hafist handa við að reisa spítalann og innheimta spítalafiskinn sem var aðaltekjustofn spítalans. Fyrstu fjórir vistmennirnir komu á Hallbjarnareyrarspítala vorið 1655. Þá tók við forstöðumannsstarfinu Jón Jónsson á Hraunskarð í Hraunskarði í Neshrepp. Híbýli vistmanna á Hallbjarnareyri virðast hafa verið þokkaleg fyrstu árin á meðan spítalinn var nýbyggður en versna þegar frá líður. Í manntalinu frá 1703 sem tekið er í Eyrarsveit þá er Hallbjarnareyri nefnd Hospítalseyri og þá eru fjórir vistmenn eða hospítalimir á Hallbjarnareyrarspítala. Árið 1796 var reist nýtt spítalahús á Hallbjarnareyri en það var árið 1816 orðið svo fúið að ekki var hættulaust að hafast við í því um veturinn. Nýtt hús handa sjúklingum er reist árin 1817 til 1818. Það kostaði 65 ríkisdali. Þorleifur Þorleifsson tók við Hallbjarnareyri á fardögum 1840 og bjó þar til 1857. Þegar Þorleifur fór frá Hallbjarnareyri bauðst hann til að taka að sér þann eina spítalalim sem þá var á lífi fyrir helmingi minni meðgjöf en greitt hafi verið með honum á Hallbjarnareyri. Jamie Lee Curtis. Jamie Lee Curtis (fædd 22. nóvember, 1958) er bandarísk leikkona og barnabókahöfundur sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Halloween myndunum, A Fish Called Wanda og True Lies. Einkalíf. Curtis er fædd og uppalin í Los Angeles, Kaliforníu og er af dönskum og ungverskum-gyðinga uppruna. Foreldrar hennar eru leikararnir Janet Leigh og Tony Curtis. Curtis hefur verið gift leikaranum Christopher Guest síðan 1984 og saman eiga þau tvö börn sem þau ættleiddu. Curtis stundaði nám í félagsráðgjöf við "Háskólann við Pacific" í Stockton, Kaliforníu árið 1976. Hætti hún eftir aðeins eina önn til þess að koma leiklistarferli sínum á framfæri. Curtis er bloggari fyrir "Huffington Post" vefsíðuna. Þann 3. september 1998 var Curtis heiðruð með stjörnu á Hollywood Walk of Fame, stjarnan er staðsett við 6600 Hollywood Blvd. Góðgerða og pólitísk málefni. Í mars 2012, kom Curtis fram ásamt Martin Sheen og Brad Pitt í uppfærslu Dustin Lance Black á leikritinu "8" sem fjallar um hjónabönd samkynhneigða. Sýningin var haldin við Wilshire Ebell Theatre og var sýnd á Youtube til að safna fjárframlögum fyrir samtökin "American Foundation for Equal Rights". Curtis var heiðursgestur á fjáröflunarsamkomu árið 2003 fyrir "Women in Recovery, Inc." samtökin sem hjálpa konum í neyð. Hefur hún einnig unnið mikið fyrir "Children Affected by AIDS Foundation" þar sem hún hefur verið kynnir á "Dream Halloween" samkomunni í Los Angeles sem haldin er í október á hverju ári. Barnabækur. Curtis hefur skrifað tíu barnabækur sem hún hefur unnið í samstarfi við listamanninn Laura Cornell. Bækurnar eru gefnar út af HarperCollins. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Curtis var árið 1977 í þættinum "Quincy M.E.". Hefur hún síðan þá komið fram í þáttum á borð við Columbo, Charlie´s Angels, "Buck Rogers in the 25th Century" og The Drew Carey Show. Frá 1977-1978 lék Curtis í þættinum "Operation Petticoat" þar sem hún lék Lt. Barbara Duran. Árið 1989 var Curtis boðið eitt af aðalhlutverkunum í "Anything But Love" þar sem hún lék Hannah Miller til ársins 1992. Curtis var með stórt gestahlutverk í NCIS árið 2012, þar sem hún lék Dr. Samantha Ryan. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Curtis var árið 1978 í hryllingsmyndinni Halloween þar sem hún lék Laurie Strode. Myndin varð mjög vinsæl og fékk Curtis titilinn "öskurdrottningin". Eftir myndina kom hún fram í hryllingsmyndunum The Fog, Prom Night og Terror Train. Árið 1981 endurtók Curtis hlutverkið sem Laurie Strode í Halloween II og talaði svo inn á þriðju myndina sem kom út árið 1982.Curtis endurtók hlutverk sitt aftur árið 1998 sem Laurie Strode í fjórða sinn í myndinni og aftur árið 2002 í. Hefur Curtis einnig leikið í kvikmyndum á borð við "Perfect", "Un homme amoureux", A Fish Called Wanda þar sem hún lék á móti John Cleese og Kevin Kline, Forever Young, True Lies, House Arrest, The Tailor of Panama og Freaky Friday. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science of Fiction, Fantasy and Horror Films verðlaunin Cognac Festival du Film Policier verðlaunin Tenglar. Curtis,Jamie Lee Taugadeildin. Taugadeildin var íslensk síð-pönkhljómsveit sem starfaði frá hausti 1980 til hausts 1981. Veturinn 2004 kom hljómsveitin saman á ný. Hljómsveitin var stofnuð af Árna Daníel Júlíussyni (bassi) og Óskari Þórissyni (söngur). Árni Daníel hafði verið söngvari pönkhljómsveitarinnar Snillinganna sem stofnuð var í Kópavogi 1979 og starfaði veturinn 1979-1980. Óskar hafði starfað með Fræbblunum vorið 1979. Fljótlega gengu þeir Arnór Snorrason gítarleikari, sem verið hafði í Snillingunum og Kormákur Geirharðsson trommuleikari til liðs við Taugadeildina. Arnór hætti snemma vors 1980 og gekk þá Óðinn Guðbrandsson til liðs við hljómsveitina sem gítarleikari. Einnig gekk hljómborðsleikarinn Þorsteinn Hallgrímsson í Taugadeildina. Hljómsveitin hafði meðal annars notast við trommuheilann Elísabetu I sem var síðan lagður til hliðar. Egill Lárusson gekk svo í hljómsveitina sem söngvari og þannig skipuð var hún lengst af. Taugadeildin var undir miklum áhrifum frá breskum póst-pönk hljómsveitum eins og Joy Division, Gang of Four og Pop Group. Taugadeildin lék á mörgum hljómleikum vorið og sumarið 1981 við vaxandi vinsældir, meðal annars á Hótel Borg. Taugadeildin spilaði í Laugardalshöllinni tvisvar sinnum, í síðara skiptið á tónleikunum Annað hljóð í strokkinn, með Þey, Fræbbblunum, Baraflokknum og mörgum fleiri hljómsveitum. Haustið 1981 kom út fjögurra laga plata með hljómsveitinni á vegum Fálkans. Taugadeildin hætti störfum um svipað leyti. Árni Daníel gekk síðan í Q4U en Óskar stofnaði Mogo Homo ásamt Óðni Guðbrandssyni. Q4U. Q4U var íslensk pönkhljómsveit, sem stofnuð var veturinn 1980-1981. Upphaflegir meðlimir voru Elínborg Halldórsdóttir ("Ellý") söngkona, Berglind Garðarsdóttir ("Linda") söngkona, Steinþór Stefánsson gítarleikari, Gunnþór Sigurðsson bassaleikari, Helgi trommari og Már hljómborðsleikari. Helgi hætti fljótlega og Már einnig. Í stað Helga kom Kormákur Geirharðsson. Hljómsveitin æfði og spilaði fjölmörg lög og kom fram á mörgum hljómleikum. Meðal annars hitaði hún upp fyrir hljómsveitina The Fall á Hótel Borg haustið 1981. Um vorið kom hljómsveitin fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík og vakti þar mikla athygli fyrir spennandi útlit og tónlist. Þessi útgáfa hljómsveitarinnar lognaðist út af skömmu síðar. Sama vor fór Ellý að vinna með Árna Daníel Júlíussyni í hljómsveitinni Handan grafar. Þessi samvinna leiddi til þess að Gunnþór Sigurðsson kom til liðs við Ellý og Árna og Q4U nafnið var endurreist. Óðinn Guðbrandsson úr Taugadeildinni var ráðinn gítarleikari en í stað trommuleikarans Kormáks var ráðinn trommuheilinn Elísabet II (TR-808 trommuheili frá Roland). Gunnþór lék á bassa en Árni Daníel á hljómborð. Óðinn hætti um haustið og Danny Pollock, sem áður hafði verið gítarleikari í Utangarðsmönnum, tók við hlutverki hans. Þannig skipuð tók hljómsveitin upp sex laga plötuna "Q1". Platan kom út vorið 1983 og skömmu síðar gekk Kormákur aftur til liðs við hljómsveitina. Þannig skipuð tók hljómsveitin upp fjögur lög í hljóðveri Labba í Mánum, Glóru, en hætti síðan störfum. Hljómsveitin kom aftur saman sumarið 1996, lék á tónleikum og kom fram í sjónvarpi. Um haustið var gefin út geisladiskurinn Q2 með 34 lögum hljómsveitarinnar og tengdra hljómsveita, T42 og Þetta er bara kraftaverk. Í þessari útgáfu hljómsveitarinnar voru Ellý, Gunnþór, Árni Daníel, Ingólfur Júlíusson á gítar og Guðmundur Gunnarsson úr Tappa tíkarrass á trommur. Árið 2010 kom hljómsveitin saman enn á ný. Nú voru í henni Ellý, Gunnþór, Árni Daníel, Ingólfur og Guðjón Guðjónsson trommuleikari. Hljómsveitin hefur leikið á tónleikum, m.a. Iceland Airwaves 2011, og tvær erlendar útgáfur hafa gefið út safnplötur með efni hljómsveitarinnar. Í júlí 2011 kom út safnplatan Best of Q4U á vegum brasilísku útgáfunnar Wave Records í Sao Paulo. Í apríl 2013 kom síðan út 16 laga LP-plata (vínyl) á vegum bandarísku útgáfunnar Dark Entries í San Fransisco. Í sama mánuði féll gítarleikari hljómsveitarinnar, Ingólfur Júlíusson, frá af völdum hvítblæðis. Hann varð 42 ára gamall. Áður en hann lést hafði hljómsveitin samið og æft efni á nýja plötu, og er nú unnið að því að ganga frá því efni til útgáfu. Útgefið efni. "Q2" (Norður og niður 1996) "Best of Q4U" (Wave Records 2011) "Q1 Deluxe Edition 1980-1983" (Dark Entries 2013) Brú. Brú er mannvirki sem oftast spannar illfært bil milli tveggja staða, hvort sem er yfir á, gil, gjótu, dal, veg, stöðuvatn eða sjó. Fyrstu brýrnar voru úr viði, trjádrumbar, síðar voru steinar notaðir til brúarsmíði og loks stál og steinsteypa. Turn. Turn er hátt mannvirki þar sem hæð er oftast meiri en breidd. Turnar eru oft byggðir fyrir hagnýt not sem hafa má af þeim hvort sem er vegna útsýnis eða til að auka drægni hljóðs sem frá þeim berst hvort sem það er klukknahljómur eða útvarpsbylgjur. Turnar hafa jafnframt verið reistir í trúarlegum tilgangi, í fagurfræðilegum tilgangi og til að spara landrými. Nagli. Nagli er notaður í smíðum til að festa saman tvo hluti. Naglar eru mjóir hlutir, oft úr hörðum málmi, til dæmis úr stáli eða járni. Áður fyrr voru trénaglar einnig notaðir. Yfirleitt er annar endinn á naglanum oddhvass, en haus á hinum endanum sem barið er á þegar naglinn er rekinn í. Yfirleitt er hamar notaður til að reka nagla í gegnum hlutina sem á að festa saman. Naglar eru framleiddir í ýmsum lengdum og útgáfum eftir því til hvers á að nota þá. Naglar eru stundum kallaðir saumur. Naglar voru í upphafi mjög dýr vara enda var framleiðsluferlið seinlegt og kostnaðarsamt. Hver nagli var sérsmíðaður og þurfti járnsmiðurinn að hita járnið, slá það í tein, sem síðan var rekinn í gegnum til þess gerða löð til að forma hann endanlega. Síðan var hausinn mótaður eða sleginn út eins og það er nefnt á fagmáli. Til að gefa dæmi um verðmæti naglans þá eru dæmi þess að gömul hús hafi verið brennd til þess að geta endurnýtt naglana úr því. Það var ekki fyrr en um 1600 að fyrsta nagla-vélin var smíðuð. Þetta var í raun vinnubekkur sem var útbúinn með hömrum sem slógu naglana í gegnum löð. Enn var hátturinn sá að naglinn var sérsmíðaður. Það kom þó að því að vélar sem gátu létt undir framleiðslu nagla komu á markað, en það gerðist á iðnbyltingartímanum í kringum 1800 og var það vísirinn að fjöldaframleiðslu naglans eins og við þekkjum í dag. Naglar eru einnig í bíldekkjum til að nota í hálku og svo er stundum talað um að menn séu naglar. Þá er átt við að þeir séu óvenjulega harðir af sér. Innrautt ljós. Innrautt ljós er rafsegulgeislun með lengri bylgjur en sýnilegt ljós en styttri en útvarpsbylgjur. Bylgjulengdin er á milli 750 nm og 1 mm.Mynd af hundi, tekin með innrauðu ljósi Innrauðar bylgjur eru í hættulegri kantinum en útvarpsbylgjur því þær eru orkumeiri. Innrauðir geislar eru meðal annars í þjófarvarnarkerfum, fjarstýringum og sumum símum. Genfarsáttmálarnir. Genfarsáttmálarnir eru fjórir sáttmálar sem kenndir eru við borgina Genf í Sviss þar sem þeir voru samþykktir. Sáttmálarnir voru þeir fyrstu til þess að koma á fót alþjóðlegum reglum varðandi mannúðarskyldur ríkja í stríði. Það var að frumkvæði Henry Durant sem ráðist var í gerð sáttmálanna en hann beitti sér mjög fyrir því að slíkar reglur yrðu settar eftir að hafa orðið vitni að hryllingi stríðs í orrustunni við Solfernino. Fyrsti Genfarsáttmálinn fylgdi eftir stofnun Alþjóðaráðs Rauða krossins árið 1863. Allir fjórir sáttmálarnir voru síðast endurskoðaðir og samþykktir á ný 1949, aðallega í samræmi við breytingar sem áður höfðu verið gerðar og einnig var margt tekið upp úr Haagsáttmálunum frá 1907. Nánast öll sjálfstæð ríki heimsins (um 200 talsins) hafa skrifað undir og fullgilt Genfarsáttmálana. Útfjólublátt ljós. Fugl birtist þegar Visa greiðslukorti er ljómað með útfjólubláu ljósi. Útfjólublátt ljós er rafsegulgeislun með styttri bylgjulengd en sýnilegt ljós. Útfjólublá geislun getur skaðað kollagen og því flýtt fyrir öldrun húðar. Útfjólublátt ljós er notað fyrir dauðhreinsun vinnusvæða og verkfæra en er einnig notað í matvælavinnslu til að fjarlægja óæskilegar örverur. Akíra Kúrósava. Akíra Kúrósava (黒澤 明) (23. mars 1910 - 6. september 1998) er margverðlaunaður japanskur kvikmyndaleikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur. Ferill hans spannaði 50 ár, frá fyrstu mynd hans "Sugata Sanshiro" 1943 að þeirri síðustu Madadayo 1993. 1954 gerði hann kvikmyndina "Sjö samúræjar" sem hann fékk ári síðar silfurljónið á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. 1976 fékk hann Óskarsverðlaun fyrir bestu elendu kvikmyndina; "Dersu Urzala". 1980 hlotnaðist honum gullpálminn á Kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir "Kagemusha" og tveimur árum síðar fékk hann gullljónið í Feneyjum fyrir glæstan feril. 1990 var honum veitt heiðursviðurkenning fyrir glæstan feril á Óskarsverðlaunaafhendingunni. The Rolling Stones. Rolling Stones er ensk hljómsveit sem braust til frægðar og frama á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar. Líkt og með margar breskar rokksveitir voru Stones undir áhrifum margskonar tónlistastefna, einkum rafmagnaðs blús frá Bandaríkjunum og snemmborins rokks. Um miðjan sjöunda áratuginn höfðu Stones náð sínum tón, gítargrunni, sem var fyrirmynd þungs rokks. Stones höfðu áhrif á ímynd uppreisnagjarnra ungmenna, sem hjálpaði þeim að ná þeim vinsældum sem þeir njóta og að hafa þau áhrif sem hljómsveitin hefur haft. Rolling Stones hafa selt yfir 240 milljónir platna um víða veröld. Nafnið “Rollin' Stones” var fyrst notað 12. júlí 1962, þegar þeir hlupu í skarðið fyrir Blues Incorporated á Marquee Club. Upphaf Rolling Stones. Ian Stewart fæddist árið 1938. Hann kemur til sögunnar þegar hann brást við auglýsingu, í tímaritinu Jazz News, frá Brian Jones. Brian Jones fæddist af Cheltenham, í miðjustéttarfjölskyldu. Hann varð afar fær hljóðfæraleikari. Hann spilaði á harmonikku, orgel, tréspil, sítar, bjöllur, saxafón, sembal en skaraði mest framúr í gítarspili. Þeir urðu góðir vinir, og spiluðu báðir jazz músík. Mick Jagger fæddist 26. júlí 1943 af miðjustéttarfjölskyldu og var skýrður Michael Phillip Jagger. Mick Jagger og Keith Richards gengu í sama grunnskóla og kynntust þar. Mick flutti síðan burt og misstu þeir samband við hvorn annan. Eftir það fór Mick í "London School Of Economics”, en sagði þar fljótlega skilið við námið til að gerast tónlistarmaður. Sagan segir að Mick Jagger hafi hitt Keith Richards á brautarstöð í Dartford á Englandi. Könnuðust þeir við hvorn annan, og höfðu þeir báðir áhuga á því að stofna band. Þeir hófu síðan samstarf og stofnuðu hljómsveitina Litle Boy Blue and the Blue Toys. Stuttu eftir stofnun "little Boy Blue" hittu þeir Brian Jones, en hann gerðist gítarleikarinn í hljómsveitinni. Mick og Keith höfðu áður komið fram með ýmsum hljómsveitum en nú gerðist Mick söngvari hljómsveitarinnar. Það varð síðan Brian Jones sem stakk upp á nafninu The Rolling Stones í höfuðið á lagi eftir Muddy Waters „Rollin Stone Blues”. Árið 1965 gáfu þeir út lagið I cant get no, Satisfaction og urðu þá aðal þáttakendur Bresku innrásarinnar til vesturheims. Eftir miklar vinsældir bauð Brian Jones, Ian að ganga til liðs við hljómsveitina. Hann þáði það boð og gerðist píanóleikarinn. seinna slógst í hópinn trommari að nafni Charlie Watts og bassaleikari að nafni Bill Wyman. Þeir komu í fyrsta skipti fram í bresku sjónvarpi í tónlistarþættinum Thank Your Lucky Stars árið 1963 þar sem upptökustjórinn ráðlagði Andrew að losa sig við þennan munnstóra og ljóta söngvara þ.e. Mick Jagger, ekkert varð úr því. 16. apríl sama ár, er fyrsta plata The Rolling Stones gefin út í Englandi „The Rolling Stones" hún fer beint í 1. sæti breska listans, en strax eftir ógnarvinsældirnar byrjaði að síga á ógæfuhliðina. 10. maí sama ár eru Mick og Keith ákærðir fyrir að hafa verið með eiturlyf á sér og sama dag er ráðist inn í íbúð Brian Jones og hann tekin fastur og ákærður fyrir eign á ólöglegu fíkniefni. Seinna þetta ár er Mick Jagger dæmdur sekur fyrir eign á ólöglegum efnum, hann settur í fangelsi yfir nótt og var úrskurðað að hann fengi 3ja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og 300 punda sekt. Keith var dæmdur í 1 ár fangelsi og sektaður um 500 pund fyrir að eiga fíkniefni. 30 júní sama ár eru þeir lausir úr fangelsi eftir að trygging hafði verið greidd upp á 7000 pund fyrir þá. Rolling Stones 1966-1969. Mikið vatn var nú runnið til sjávar. Seinustu tvö árin höfðu ekki verið hljómsveitarmeðlimum góð, en hljómsveitin naut samt mikilla vinsælda. Þeir seldu mikið af plötum og urðu þekktir um allan heim. Árið 1966 áhváðu „Rolling Stones” að reyna að svara vinsældum Bítlanna, með því að gera þéttari plötur. Fyrsta tilraunin var platan Aftermath. Brian Jones hafði meðal annars mikil áhrif á stíl plötunnar. Hann hlustaði á fjölbreytta tónlist og niðurstaðan var fjölbreyttur diskur. Hann hélt áfram að hafa þessi sömu áhrif á hljómsveitina, og árið 1967 gáfu þeir út plötuna Between the Buttons. Sú plata var með miklum popp-áhrifum. Það komu upp ýmsar deilur í kringum plötuna, meðal annars var þeim iðulega bannað að koma fram án þess að breyta einhverjum textanum o.s.frv. Mick og Keith voru báðir handteknir fyrir að vera með eiturlyf í fórum sínum í febrúar 1967, þremur mánuðum seinna var Jones handtekin fyrir sömu ákæru. Þeir fengu allir fangelsisdóm. Árið 1968 var gamli umboðsmaðurinn orðin þreyttur á dópruglinu í strákunum og skiptu „Rolling Stones” því um umboðsmann. Maðurinn gekk undir nafninu Allen Klein og honum tókst að hafa mikil áhrif á bandið. Hann fékk þá til að færa sig frá poppinu sem þeir voru að ýtast út í, og yfir í gamla góða rokkið og rólið. Fyrsta platan sem þeir gáfu út með þessum umboðsmanni var smáskífan og smellurinn „Jumpin Jack Flash” sem fór beint á toppinn í bandaríkjunum. Í framhaldinu kom platann „Beggar’s Banquet” sem var gefin út um haustið 1968. platan hefði líklegast verið gefin fyrr út en hafði verið geymd hjá útgáfendum, vegna þess að þeim líkaði ekki við myndefnið á plötunni. Plata þessi var var öðruvísi en þær plötur sem „Rolling Stones” voru vanir að gera, og einkenndist blúsrokki. Á meðan á upptökunni á plötunni stóð var Brian Jones ílla haldinn er hann sökk meir og meir í eiturlyfjafíkn. Mikill ágreiningur var milli hans og Mick og Keith. Því hætti hann í bandinu 3. júlí 1969. Minna en mánuði seinna fannst hann látinn í sundlauginni sinni. Dómari í málinu úrskurðaði að þetta hafi verið dauði vegna óhapps, en fjöldi orðróma ríkti um dauða hans mörg ár á eftir. Eftir dauða hans réðu Rolling Stones Mick Taylor í hans stað. Hann hafði áður verið gítarleikari hljómsveitarinnar Bluesbreakers. Næsta plata þeirra bar heitið Let It Bleed. Hún kom út í desember 1969. í framhaldi af plötunni fóru þeir á sitt fyrsta tónleikaferðalag sem stóð yfir í þrjú ár. Þeir fengu frábæra dóma og allt gekk mjög vel. Hinsvegar fóru tónleikar þeirra í Altamont Speedway vægast sagt úr böndunum. Um var að ræða ókeypis tónleika og sagt er að hljómsveitin Grateful Dead hafi bent Stones á að ráða Hell’s Angels fyrir öryggisgæslu, og þeir gerðu það. Sú ákvörðun átti þó eftir að hafa alvarlegar afleiðingar. Sýningin var ekki nógu vel skipulögð og áður en langt leið á sýninguna, var ungur maður að nafni Meredith Hunter drepinn af öryggisverði. Þetta hafði í för með sér heiftarleg áhrif á fjölmiðla sem endaði með því að þeir drógu þeir sig í hlé frá tónleikahöldum. Þeir gáfu út lagið Sympathy for the Devil í framhaldi af þessu. Rolling Stones 1970-1981. Eftir hléið, gaf hljómsveitin út plötuna Get Yer Ya-Ya’s Out sem þótti ágætis tónleikaplata. Þetta reyndist vera seinasta plata þeirra fyrir útgefanda-fyrirtækið Decca i London. Eftir þetta stofnaði hljómsveitin sitt eigið útgáfufyrirtæki, Rolling Stones Records, sem varð dótturfyrirtæki Atlantic Records. Mick lék í kvikmynd eftir Nicolas Roeg, og giftist Nikaragúamódelinu Bianca Pérez-Mora Macías. Parið lifði hinu ljúfa lífi, á meðan Keith lapti dauðann úr skel. Árið 1971 gáfu Rolling Stones út plötuna Sticky Fingers og hafði Keith þar umfangsmikil áhrif á tónlistarsmíð hljómsveitarinnar. Seinna sama ár fóru þeir til Frakklands. Sagt er að þeir hafi farið þangað til að flýja skattheimtumenn ásamt öðru. Þar tóku þeir upp tvöfalda plötu sem fékk nafnið „Exile on Main Street” og var hún gefin út í Maí 1972. Í framhaldi af þessari plötu fór hljómsveitin að liðast í tvennt. Mick vildi vera súperstjarna og einbeitti sér að því, en Keith var orðin mikill dópisti. Þeir gáfu út plötuna „Goats Head Soup” árið 1973 og svo „It’s Only Rock ‘n’ Roll” árið 1974. báðar plöturnar lentu efst á topp sölulistum, en þóttu hvorugar sérlega góðar. Mick Taylor gítarleikari hljómsveitarinnar hætti í hljómsveitinni eftir að „It’s Only Rock ‘n’ Roll” var gefinn út. Eftir gítarleikaramissinn höfðu þeir áheyrnarprufur í von um að finna nýjan gítarleikara. Jeff Beck var meðal þeirra sem reyndi fyrir sér, en var þó ekki valinn. Gítarleikari, sem hafði meðal annars spilað fyrir Rod Stewart að nafni Ron Wood var fengin til liðs við hljómsveitina, en það var ekki fyrr en tveimur árum seinna eða 1976. Á þessum tíma voru allir meðlimir hljómsveitarinnar með ýmis að vinna með öðrum tónlistarmönnum, og voru bæði bassaleikarinn Bill og gítarleikarinn Ron voru að gefa út sólóplötur. Keith var handtekinn í Kanada árið 1977 fyrir að vera með Heróín í fórum sér. Hann fékk skilorðsbundin dóm og fór í meðferð. Mörgum grunaði að hljómsveitin væri nú að leggja upp laupanna, en 1978 komu þeir þó saman til að taka upp plötuna „Some Girls” sem var þeirra svar við pönkinu. Ímynd hljómsveitarinnar rokkaði mikið, varð mjög góð eftir „Some Girls” en svo gáfu þeir út „Emotional Rescue” þá versnaði ímyndin aftur. Platan var gefin út árið 1980, og einsog flestar aðrar Rolling Stones plötur lennti hún efst á topplistum, en fékk þó „volga dóma”. Árið 1981 gáfu þeir svo út plötuna „Tattoo You” sem fékk mun betri dóma en fyrri platan. Þessi plata var sú seinasta þar sem „Rolling Stones” bókstaflega drottnuðu á topplistum, tónleikasölum og útvarpstöðvum í kringum útgáfur. Rolling Stones eftir 1981. Hljómsveitarmeðlimirnir voru ekki sammála hvað gera skyldi. Mick vildi að hljómsveitin fetaði í fótspor annara hljómsveita sem voru vinsælar á þeim tíma, en Keith vildi að þeir héldu sig trúfasta við aðdáendurnar og rokkið. Hljómsveitin var í miklu uppnámi. Í framhaldi af þessu kom út plata árið 1983 sem bar titilinn „Undercover”. Hún þótti alls ekki „þétt”, fékk slæma dóma og seldist ekki vel. Næsta plata þeirra „Dirty Work” kom út árið 1986 og gekk en verr. Þeir áhváðu að fara ekki í tónleikaferðalag í framhaldi af seinni plötunni. Keith sagði skilið við hljómsveitina í bili og bjó til sína eigin sólóplötuna „Talk is Cheap” sem kom 1988. Hún fékk góða dóma og fór í gull. Þessi plata varð til þess að Mick og Keith komu aftur saman seinna þetta sama ár, og gáfu út plötuna „Steel Weels” sem fékk ágætis dóma. Tónleikaferðalagið gaf þó plötunni lítið eftir og gaf hagnað upp á 140 milljón dollara. Næst var gefin út platan „Flashpoint” árið 1991 sem var tónleikaplata frá „Steel Weels” tónleikum. Eftir þessa plötu hætti bassaleikarinn Bill Wyman í hljómsveitinni og gaf út ævisögu sem hann nefndi „Stone Alone”. Þeir leytuðu ekki strax að nýjum bassaleikara vegna þess að allir voru að vinna að eigin verkefnum. Hljómsvetin kom ekki almennilega saman aftur fyrr en 1994 þegar bassaleikarinn Darryl Jones kom til liðs við þá. Hann hafði meðal annars spilað með Sting. Útkoman var mjög góð, þeir gáfu út plötuna „Voodoo Lounge” sem fékk bestu dóma sem þeir höfðu fengið lengi, og tónleikaferðalagið gekk mjög vel. Platan vann einnig Grammy verðlaun fyrir bestu rokkplötuna. Árið 1997 gáfu þeir út „Bridges to Babylon” og fóru í tónleikaferðalag. 1998 héldu fóru þeir í ennþá eitt tónleikaferðalag, en tóku eftir það fjögurra ára hlé og komu ekki aftur fram fyrr en 2002. Þá gáfu þeir út bestu smellina á plötu og héldu tónleikaferðalag. Aftur 2004 gáfu þeir út tónleikaplötu og héldu tónleikaferðalag í framhaldi af útgáfu plötunnar. Hljómsveitin er enn í dag starfandi en hefur þó ekki gert neitt framúrskarandi síðan 1981. Þeir ferðast núna um heiminn, gamlir rokkarar, halda tónleika fyrir nýja og gamla aðdáendur, og hafa meðal annars komið til Íslands. Flugsund. Flugsund er sundaðferð skyld bringusundi, en e.t.v. líkari skriðsundi. Handatök eru svipuð og í skriðsundi, nema að báðar hendur fara í einu. Fótatökin eru svipuð sveiflum sporðablaðka á sjávarspendýrum, fótunum er sveiflað samtímis upp og niður. Flugsund er oft sagt vera erfiðasta sundið.. Ágústínus. Veggmynd af Ágústínusi frá Róm. Heilagur Ágústínus frá Hippó (13. nóvember 354 – 28. ágúst 430) var biskup í Hippo Regius í Norður-Afríku og er talinn til kirkjufeðranna. Hann fæddist í bænum Tagaste í rómverska skattlandinu Númidíu þar sem nú er Alsír. Hann lærði mælskulist í Karþagó og gerðist eftir það kennari og fór árið 383 til Rómar til að opna þar skóla í mælskulist. Þar varð hann fyrir áhrifum frá nýplatónisma og gerðist kristinn líkt og móðir hans var, en áður hafði hann aðhyllst meðal annars manikeisma. 388 sneri hann aftur til Tagaste og komst þar í samband við biskupinn Valeríus frá Hippo (nú Annaba í Alsír) sem gerði Ágústínus að aðstoðarmanni sínum. 395 tók hann biskupsvígslu og varð eftirmaður Valeríusar þegar hann dó 396. Hann lagði grunninn að eins konar skipulagi meðal biskupa og skrifaði reglur fyrir munklífi (Ágústínusarregla). Hann byrjaði árið 413 að skrifa sjálfsævisöguna "Játningar" sem eru hans þekktasta verk, ásamt verkinu "Guðsríki" ("De civitate Dei"). Matsuo Bashō. Matsuo Bashō (japanska: 松尾 芭蕉; 1644 – 28. nóvember 1694) var frægasta skáld Jedótímabilsins í Japan. Hann var einkum þekktur fyrir hækur sem hann samdi sem einfaldar stökur í hópkveðskapsforminu "haikai no renga". Ríki. Ríki er samtök stjórnmálastofnana sem hefur umboð ákveðins fólksfjölda til þess að búa til lög og vald til þess að framfylgja þeim á ákveðnu landsvæði. Oftast er notuð skilgreining Max Webers að ríki hafi einokun á lögmætri valdbeitingu á afmörkuðu landsvæði. Í þessu samhengi er talað um fullveldi ríkja. Innlent fullveldi hefur ríki ef íbúar þess líta á það sem lögmætt. Alþjóðlegt fullveldi hefur ríki hljóti það einnig slíka viðurkenningu frá samfélagi þjóðanna. Ríki getur tilheyrt sambandsríki sem hefur miðstýrða ríkisstjórn yfir sér. Dæmi um slík sambandsríki eru Bandaríkin og Þýskaland. Ríkjaskipulagið sem nú er útbreitt um allan heim þróaðist yfir langan tíma. Með Vestfalíufriðnum við lok Þrjátíu ára stríðsins árið 1648 er almennt nokkur sátt um að marka megi upphaf nútímalegs ríkjaskipulags. Þá var gerður sáttmáli um að ráðamenn eins lands myndu ekki íhlutast í málefnum annars heldur virða landamæri þess, eins konar fullveldisregla. Sér í lagi í Evrópu jókst í hópi ríkja á næstu öldum. Eftir fyrri heimsstyrjöldin var Þjóðabandalagið stofnað, með það að augnamiði að sameina hagsmuni ríkja og tryggja að ófriður endurtæki sig ekki. Þá var það samþykkt að þjóðir heims hefðu sjálfsákvörðunarrétt. Þjóðabandalaginu tókst ekki ætlunarverk sitt, óeining ríkti um starf þess. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. Nýlenduveldin urðu þá flest að láta af nýlendustefnu sinni og hlutu margar þjóðir í Afríku og Asíu sjálfstæði á næstu árum og áratugum. Vogarstöng. a> þar sem F1D1 = F2D2. Vogarstöng er stjarfur hlutur sem snúið er um vogarás til þess að margfalda þann kraft sem beitt er á gefin hlut. Dæmi um verkfæri sem beitt er í þessum tilgangi er t.d. kúbein. Þar sem vinna er kraftur margfaldaður með vegalengd er hægt að draga úr nauðsynlegum krafti til þess að lyfta einhverju með því að auka lengdina á vogarstönginni og auka þar með vegalengdina sem þarf til að framkvæma sambærilega vinnu. Þetta er kallað að breyta kraftahlutfallinu. Kapítalismi. Kapítalismi eða auðvaldsskipulag er hagkerfi þar sem framleiðslutæki eru almennt í einkaeign og vinnandi fólk fær laun fyrir að selja vinnuafl sitt og vinna við þau. Verð á vörum og þjónustu, sparnaður, laun, fjárfestingar og framleiðsla ákvarðast oftast af markaðslögmálum. Þeir sem telja kapítalisma vera æskilegt hagkerfi eru oft kallaðir "auðvaldssinnar" eða "auðhyggjumenn". Stundum eru þeir kallaðir "kapítalistar", þótt það orð eigi strangt til tekið við fólk sem lifir á arðinum af eignum sínum, atvinnutækjum, fasteignum eða fjármagni. Sumir fræðimenn telja að rétt sé að nefna mörg hagkerfi sem kenna sig við kapítalisma, t.d. hin norrænu velferðarríki, blönduð hagkerfi vegna þess hversu stórt hlutverk ríkið leikur í efnahagnum og eignarhald þess sé annars eðlis en einkaeignarhald. Aðrir álíta að í þjóðfélagi þar sem hagkerfið er á annað borð kapítalískt, sé ríkiseign eða ríkisrekstur ekki annars eðlis í sjálfu sér, heldur önnur útfærsla á kapítalískum rekstri. Saga kapítalismans. Kapítalismi þróaðist upp úr viðskiptum kaupmanna og iðnaðarmanna í Vestur- og Mið-Evrópu á miðöldum, við það að efnaðir kaupmenn fóru að sniðganga iðngildi í borgum og fá í staðinn sveitafólk til að vinna vörur með t.d. vefnaði og spuna. Kaupmennirnir lögðu til verkfærin og hráefnin og sveitafólkið fékk peninga, sem það sá annars sjaldan, í skiptum fyrir vinnuafl sem var ódýrara en vinnuafl iðnaðarmannanna. Þessir framleiðsluhættir grófu undan iðngildunum, og með tímanum fóru efnamennirnir að safna verkfærum og hráefnum saman á einum stað, þangað sem verkamennirnir svo komu til að vinna við þau. Þannig náðist meiri hagkvæmni í framleiðslunni og stórir vinnustaðir urðu til. Mennirnir sem unnu á þessum verkstæðum voru aðfluttir sveitamenn, sem sóttu í atvinnu í borgunum. Brottflutningur þeirra frá sveitunum olli spennu í lénskerfinu, og gróf undan bændaánauð og kvaðavinnu sem það byggðist á. Þannig hrörnuðu efnahagslegar undirstöður lénskerfisins, og valdastaða aðalsins um leið, samhliða því sem ný stétt kapítalista, borgarastéttin, varð til og styrktist smám saman í sessi. Iðnaðarkapítalismi. Með iðnbyltingunni á 18. öld og fram á þá 19., urðu vatnaskil í sögu kapítalismans. Gufuknúnar vélar: spunavélar, vefstólar, vatnsdælur, myllur, eimreiðar, valsar, físibelgir, o.fl., juku framleiðni verkamanna til muna. Þessi nýja tækni gerði það kleift að hanna betri framleiðslutæki en áður höfðu þekkst. Efnaðir iðjuhöldar gátu frekar fjárfest í tækninýjungum, og þannig stuðlaði kapítalisminn að frekari þróun framleiðslutækja, og gerir enn. Fjármálakapítalismi. Við fjárfestingar sínar nutu kapítalistar góðs af bankakerfinu, sem var að taka á sig mynd um svipað leyti og iðnaðarkapítalisminn, en þar gátu þeir fengið fjármagn lánað til að koma sér upp framleiðslutækjum. Bankakerfið þróaðist yfir í að verða sjálfstæð grein af kapítalismanum, fjármálaauðvald (e. "finance capital"). Sérgrein þess er að taka hærri vexti af útlánum sem það veitir heldur en það gefur af innlánum sem það tekur við. Í bankakerfinu og á fjármálamörkuðum er meðal annars verslað með gjaldmiðla, verðbréf, afleiður og önnur flókin fjármálatæki, sem flest grundvallast á væntingar um framtíðargróða af fjárfestingum. Einkenni og tilbrigði við þau. Kapítalískt hagkerfi hefur nokkur sterk einkenni: Einkaeignarhald á framleiðslutækjum og auðlindum; markaðshagkerfi; arðrán; samþjöppun eigna og kreppu. Einkaeign. Einkaeign er langalgengasta form eignarhalds í kapítalisma. Þá á kapítalistinn framleiðslutæki og hráefni og ræður fólk til þess að vinna við framleiðslutækin og framleiða verðmæti úr hráefnum með vinnu sinni. Einkaeignin er gjarnan í formi fyrirtækja sem geta verið í eigu margra kapítalista. Tilbrigði við einkaeign geta m.a. verið ríkiskapítalismi, þar sem ríkið rekur fyrirtæki á sama hátt og einkaaðilar, eða samvinnurekstur, þar sem hópur fólks rekur fyrirtæki í sameiningu og vinnur við það sjálft, en hefur samskipti við önnur fyrirtæki á markaðsgrundvelli. Segja má að einkaeignin nái jafnframt til launafólksins. Öfugt við eldra hagskipulag býr það hvorki við beint þrælahald, bændaánauð, vistarband né átthagafjötra, og á sig því sjálft. Á þessu eru til undantekningar, til dæmis þrælahald í Suðurríkjum Bandaríkjanna á öndverðri 19. öld og þrælkunarbúðir í Þriðja ríkinu. Markaður. Algengasta fyrirkomulag kapítalista til þess að skiptast á verðmætum — hráefnum, tækjum, unnum vörum eða vinnuafli — er að gera það á markaði. Á markaði reynir hver og einn að fá eins mikið og hann getur í skiptum fyrir eins lítið og hann getur, og þar gilda lögmál framboðs og eftirspurnar. Markaðsfyrirkomulag er þó ekki algilt; til dæmis þekktist hjá fasistum í Evrópu 20. aldar að grípa til kapítalísks hálf-ríkisrekins áætlunarbúskapar með korporatískum aðferðum. Hagnaður. Í kapítalísku hagkerfi lifa flestir á því að selja kapítalistum vinnu sína í formi tíma, erfiðis, orku og hugvits, en þiggja í staðinn laun fyrir. Kapítalistinn sækist eftir að fá meira í sinn hlut en hann lætur af hendi, þ.e. "hagnað" ("arð") og því heldur hann eftir hluta af verðmætunum sem launamaðurinn býr til með vinnu sinni. Kapítalisti réttlætir slíkt fyrirkomulag með vísan til þess að hann á eða ræður yfir framleiðslutækjum og ber því fjárhagslega ábyrgð á þeim og tekur áhættu með því að reka þau. Í marxískum fræðum er talað um arðrán og að launafólk sé "arðrænt" þegar það gangi að þessum kostum, enda sé því nauðugur einn kostur í kapítalísku samfélagi. Samþjöppun eigna. Innan kapítalískra framleiðsluhátta gætir sterkrar tilhneigingar til þess að eignir safnist á fáar hendur. Annars vegar veldur því arðránið, sem er fjallað um að ofan, að menn græða peninga á því að eiga framleiðslutæki og ráða sér launafólk, og gróðanum geta þeir varið í ný framleiðslutæki eða önnur verðmæti. Hins vegar keppa kapítalistar hverjir við aðra í ódýrri framleiðslu: Hagkvæmari framleiðsluhættir keppa þá óhagkvæmari út af markaðnum með því að geta boðið lægra verð fyrir vörur og þjónustu. Þetta nefnast hlutfallsyfirburðir, eiginleikar sem breski hagfræðingurinn David Ricardo bar kennsl á í áhrifamikilli bók sem kom út 1817. Þegar tvö fyrirtæki keppa á sama markaði og annað nær forskoti sem hitt vinnur ekki upp, þá verður það gjarnan gjaldþrota sem verr gengur, eða þá að það sem betur gengur kaupir það. Í báðum tilfellum stækkar það fyrirtæki sem er rekið á hagkvæmari hátt markaðshlutdeild sína og eigendurnir hagnast. Kreppa. Kapítalísk hagkerfi ganga reglubundið í gegn um kreppur. Þær eru af ýmsu tagi, en meðal þeirra helstu eru fjármálakreppa og offramleiðslukreppa. Fjármálakreppur verða þegar hagnaður af fjárfestingum og verðbréfaviðskiptum minnkar, og ávöxtunartækifærum fækkar. Þá halda fjárfestar að sér höndum, eftirspurn eftir eignum minnkar vegna minnkandi gróðavonar, verðið fellur og fleiri fjárfestar draga fé sitt út af markaðnum. Offramleiðslukreppur verða þannig að framleiðslan mettar markaðinn og framboðið fer fram úr eftirspurninni. Til þess að reyna að halda sínum hlut óskertum reynir hvert fyrirtæki að framleiða sig út úr vandanum eða hagræða hjá sér til að bæta stöðu sína. Hagræðingin getur falist í einföldum uppsögnum eða fjárfestingu í betri framleiðslutækjum, sem minnka þörfina fyrir vinnuafl. Eftir því sem fleiri missa vinnuna, minnkar kaupmáttur neytenda til að kaupa vörur og þar með minnkar eftirspurnin, rekstur fyrirtækjanna verður erfiðari og sum verða gjaldþrota. Í hagkerfi þar sem hver er öðrum háður veldur þetta keðjuverkun sem leiðir til almennrar kreppu. Gagnrýni á kapítalisma. thumb Margir hafa orðið til þess að gagnrýna kapítalisma. Þeirra frægastur er líklega Karl Marx, sem skilgreindi og greindi hann í grundvallarriti sínu "Auðmagninu", og fleiri ritum. Auk einfaldrar greiningar, rakti hann marga þá meinbugi sem hann sá á hagkerfi kapítalismans og spáði því að það yrði á endanum sjálfu sér verst, hvað sem réttlæti og ranglæti liði. Hann áleit að innbyggðar mótsetningar mundu á endanum knésetja kerfið og að samkvæmt lögmálum sögunnar hlyti vinnandi fólk (öreigastéttin) að taka völdin í sínar hendur. Þrátt fyrir margar tilraunir hefur þetta hvergi heppnast fram til þessa. Aðrir hafa einkum gagnrýnt kapítalismann fyrir ranglæti, misrétti og rányrkju. Sumir telja að hægt sé að setja lög og reglugerðir sem haldi óæskilegum hliðum kapítalismans í skefjum. Aðrir telja að lög og reglugerðir haldi ekki slæmu hliðunum heldur þeim góðu í skefjum. Þá eru þeir til sem telja að ekkert dugi annað en allsherjar afnám kapítalismans, og loks þeir sem telja að hægt sé að láta kraftinn í hagkerfi kapítalismans „draga áfram“ velferðarkerfi og aðra samneyslu og vera þannig öllu samfélaginu til blessunar. Breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes sagði að kapítalismi væri „sú ótrúlega trú að ótrúlegustu menn myndu gera ótrúlegustu hluti á stórkostlega betri hátt öllum til góða.“ Saffó. Forn grísk brjóstmynd af Saffó. Saffó (attíska: "Σαπφώ" ("Sapfó"); eólíska: "Ψάπφω" ("Psapfο")) var forngrísk skáldkona sem sögð var fædd í Eressos á eyjunni Lesbos einhvern tíma milli 630 og 612 f.Kr. og hafa dáið kringum 570 f.Kr. Lítið hefur varðveist af kvæðum hennar en hún hafði gríðarlega mikil áhrif og talin með ljóðskáldunum níu í Grikklandi; hún var stundum nefnd "tíunda menntagyðjan". Verk hennar voru samin á eólísku fyrir söng með undirspili lýru. Kvæði hennar eru með þeim fyrstu sem fjalla um veraldlega hluti og reynslu einstaklingsins. Í sumum þeirra talar ljóðmælandinn um ást sína til kvenna, sem hefur gefið tilefni til að ætla að hún hafi verið samkynhneigð og orðið "lesbía" var þannig dregið af nafni eyjarinnar Lesbos. Aspasía. Teikning af höggmynd af Aspasíu. Aspasía (um 469 f.Kr. – 406 f.Kr.) var ástkona Períklesar og meistari bæði í mælskulist og ritlist. Eftir lát eiginkonu hans um 445 f.Kr. bjó hún hjá honum sem eiginkona hans. Heimili þeirra í Aþenu varð miðstöð fyrir rithöfunda, listamenn og hugsuði eins og Anaxagóras og Feidías. Bæði Platón og Æskínes tala um að hún hafi haft mikil áhrif bæði á mælskulist og stjórnmálaskoðanir Períklesar. Grænmeti. Grænmeti er matreiðsluhugtak sem er ekki skýrt skilgreint og á sér enga stoð í líffræði heldur er hefðbundið og huglægt. Allir hlutar matjurtar sem fólk borðar er þannig grænmeti, nema það sem er í matargerð kallað ávextir, auk korns, hneta og kryddjurta. Grænmeti er þannig gert úr laufinu (t.d. kál), stilknum (spergill), rótinni (t.d. kartafla), blóminu (t.d. spergilkál) og lauknum (t.d. hvítlaukur). Að auki eru ýmsir ávextir skilgreindir sem grænmeti, t.d. agúrka, grænmergja, grasker, lárpera og jafnvel belgbaunir. Sumt grænmeti má borða hrátt, en annað þarf að elda áður en hægt er að borða það. Grænmeti er oftast notað í rétti sem eru ekki sætir, til dæmis forrétti, aðalrétti og salöt. Nokkrar tegundir grænmetis eru notaðar í eftirréttum, eins og til dæmis rabarbari og gulrót. Flokkun. Í daglegu tali er greint milli grænmetis og ávaxta. Ávextir eru yfirleitt taldir sætir, en grænmeti ekki. Í grasafræði er merking orðsins ávöxtur hins vegar nákvæmari: ávöxtur er það sem vex úr egglegi á dulfrævingi. Þess vegna eru sumar jurtir sem eru yfirleitt flokkaðar sem grænmeti, eins og eggaldin, paprikur og tómatar, flokkaðar sem ávextir í grasafræði. Flestar korntegundir eru líka í raun grænmeti, auk pipars, rauðs pipars og margra annarra kryddtegunda. Sumar jurtir, eins og maís og gulertur, eru aðeins kallaðar grænmeti meðan þær eru ófullþroskaðar. Skilgreining á því hvað telst til grænmetis er ólík í ólíkum löndum og ólíkum tungumálum. Í Brasilíu eru lárperur til dæmis álitnar vegar ávextir af því þær eru oft notaðar í eftirréttum, en í öðrum löndum, eins og í Mexíkó eða Bandaríkjunum, eru þær flokkaðar sem grænmeti af því þær eru notaðar í salöt og sósur. Næring. Grænmetis má neyta á ýmsa ólíka vegu, hvort sem er í aðalréttum eða sem snarl. Það magn næringarefna sem grænmeti inniheldur er breytilegt eftir tegundum. Hins vegar inniheldur grænmeti almennt séð lítið prótín eða fitu, en getur innihaldið mikið af vítamínum, steinefnum, trefjaefnum og kolvetnum. Talið er að grænmeti innihaldi andoxunarefni og önnur gagnleg efni sem vinna gegn gerlum, sveppum, veirum og krabbameini. Kartafla. Kartafla eða jarðepli (fræðiheiti: "Solanum tuberosum") er fjölær jurt af náttskuggaætt sem er mikið ræktuð fyrir sterkjurík hnýði á neðanjarðarrenglum. Kartöflur eru í fjórða sæti yfir mest ræktuðu ferskvöru heims (á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís). Kartöflur eru upprunnar í Andesfjöllum, nánar tiltekið í suðurhluta Perú rétt norðan við Titikakavatn samkvæmt nýlegri rannsókn. Frá Suður-Ameríku barst kartaflan til Evrópu með spænskum og portúgölskum landvinningamönnum á síðari hluta 16. aldar. Elstu heimildir um kartöflurækt í Gamla heiminum eru frá Kanaríeyjum árið 1567. Kartaflan náði sér þó ekki á strik sem undirstöðufæða í Evrópu fyrr en um tvö hundruð árum síðar og þá sem svar við harðindum sem ollu uppskerubresti í hinni hefðbundnu kornrækt. Kartöfluræktin í Evrópu byggðist á fáum afbrigðum og var því veik fyrir sjúkdómum eins og kartöflumyglu sem olli uppskerubresti á mörgum stöðum í Evrópu á fimmta áratug 19. aldar. Kartaflan er undirstöðuhráefni í evrópskri matargerð og Evrópubúar og Bandaríkjamenn eru enn mestu kartöfluneytendurnir en síðustu áratugi hefur kartöfluræktun farið ört vaxandi í Asíu. Kína er nú stærsti kartöfluframleiðandinn á heimsvísu með um fimmtung heimsframleiðslunnar. Árið 2008 var ár kartöflunnar, en á hverju ári tileinka Sameinuðu þjóðirnar árið einhverju málefni sem varðar heill mannkyns. Ástæðan fyrir valinu er sú að kartaflan er talin geta hjálpað til að ná einu af átta þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem er að fækka þeim um helming sem líða skort og hungur vegna fátæktar fyrir árið 2015. Orðsifjar. Heiti kartöflunnar á hinu forna tungumáli quechua, sem Inkarnir töluðu, er "papa", og það orð er enn notað í Suður-Ameríku, Mexíkó og á Kanaríeyjum sbr. ljóðið „Oda a la papa“ („Óður til kartöflunnar“) eftir Pablo Neruda: „PAPA, / te llamas / papa / y no patata, / no naciste castellana: [...]“ („"PAPA" / heitir þú / "papa" / og ekki "patata", / þú varst ekki frá Kastilíu...“). Enska orðið "potato" er komið úr spænsku "patata" sem fékk orðið frá orði taínoindíána á Haítí yfir hinar óskyldu sætu kartöflur "batata". Íslenska orðið „kartafla“ er tökuorð frá danska orðinu "kartoffel" sem kemur frá þýsku; "Kartoffel" eða "Tartuffel" sem kemur af ítalska orðinu "tartufolo" (þaðan í fríúlísku: "cartúfula" og frönsku: "cartoufle") af "tartufo" sem merkir „jarðsvepps“. Annað íslenskt orð yfir kartöflur, „jarðepli“, er hugsanlega komið úr hollensku, "aardappel", sem tók það úr frönsku, "pomme de terre". Finnska heitið "peruna" er dregið af gamla sænska heitinu "jordpäron" „jarðperur“. Lýsing. Kartöflugrös eru beinvaxin og ná 60-150 sm hæð. Þegar líður á haustið falla þau og gulna. Blöðin eru fjöðruð, með sjö til níu tenntum eða heilrendum laufum. Blómin eru lítil með fimm krónublöð og vaxa í klasa efst á stönglinum með gula fræfla. Liturinn er frá gulum að silfruðum. Einhver þyngsta kartafla sem vitað er um vó 11,3 kg og var grafinn upp í Líbanon. Eftir blómgun mynda sum kartöfluafbrigði lítil græn aldin sem líkjast grænum dvergtómötum. Í hverju aldini geta verið allt að 300 fræ sem hægt er að skilja frá aldininu með því að setja nokkur aldin í blandara á hægasta snúning með vatni þannig að aldinkjötið flýtur upp en fræin sökkva. Öll ný kartöfluafbrigði eru ræktuð upp af fræjum. Kartöflualdin innihalda mikið magn af eiturefninu sólaníni og eru því óæt. Býflugur sjá um aðfrævun en sjálffrævun á sér líka stað. Hægt er að fjölga öllum kartöflum kynlaust með því að gróðursetja hnýði eða bita af hnýði með minnst tvö augu, eða með afskurði, sem er notaður í gróðurhúsaræktun til að fá heilbrigt útsæði. Sum kartöfluafbrigði mynda aldrei fræ (hafa ófullkomin blóm) og fjölga sér því aðeins með hnýðinu. Hnýðin eru æti hluti plöntunnar og myndast á endanum á neðanjarðarrenglum. Hnýðið myndast við það að í endanum safnast ljóstillífuð kolvetni frá kartöflugrasinu þegar það hefur náð fullum vexti. Hnýðin eru því forðabúr plöntunnar. Ljósskortur, hiti og raki í moldinni hefur allt áhrif á hnýðismyndunina. Þegar daga styttir, hiti lækkar og raki eykst hefur það þau áhrif að renglarnir framleiða meira sýtókínín, jurtahormón sem örvar frumuskiptingu. Þegar hnýðið hefur myndast verður það aðalvaxtarvefur plöntunnar og allur annar vöxtur minnkar. Hnýðin eru hulin þunnu hýði en undir því eru korklag, sáldvefur, viðarvefur og mergur. Allir þessi vefir tengjast „augunum“ sem spírurnar vaxa út úr og liggja í dvala meðan hnýðið þroskast en geta síðar myndað nýtt gras. Uppruni og saga. Náttúrufræðingar eru almennt sammála um að kartaflan sé upprunnin í Andesfjöllum, allt frá Kólumbíu til norðurhluta Argentínu. Langmesta líffræðilega fjölbreytni, bæði villtra og ræktaðra afbrigða, er að finna þar sem nú er Perú. Kartöflur sem eru ræktaðar þar eru ekki allar af sömu tegund. Algengasta tegundin er "Solanum tuberosum spp. andigena" sem er fjórlitna með 48 litninga. Síðan eru fjórar tegundir tvílitninga (með 24 litninga) sem heita "Solanum stenotomum", "Solanum phureja", "Solanum goniocalyx" og "Solanum ajanhuiri", tvær tegundir þrílitninga "Solanum chaucha" og "Solanum juzepczukii", og loks einn ræktaður fimmlitningur "Solanum curtilobum". Talið er að fólk hafi tekið að rækta kartöflur við Titikakavatn fyrir átta til sex þúsund árum síðan. Kartöfluyrki frá Andesfjöllum hafa aðlagast stuttum dögum og afbrigði frá Chile hafa aðlagast löngum dögum. Nægar vísbendingar eru um að kartaflan sem barst til Evrópu á 16. öld hafi verið frá Andesfjöllum en hún hefur síðan aðlagast löngum dögum á um tveimur öldum. Til þess að aðgreina þessar tvær aðlaganir hafa grasafræðingar skilgreint tvær undirtegundir, "spp. andigena" sem er hin upprunalega tegund í Andesfjöllum, aðlöguð að stuttum dögum, og "spp. tuberosum", sem er evrópska kartaflan sem aðlagast hefur löngum dögum. Aðlögun að löngum dögum hefur líka átt sér stað í yrkjum sem flust hafa sunnar í Suður-Ameríku eftir landvinninga Evrópumanna þar. Erfðafræðileg gögn benda til þess að kartaflan hafi numið land á Indlandi um svipað leyti og í Evrópu og komið þangað með Portúgölum. Á einangruðum stöðum í Himalajafjöllum eru enn ræktuð kartöfluyrki sem líkjast mjög Andesfjallakartöflunni "spp. andigena". Kartöfluræktun í Evrópu. Þegar spænskir og portúgalskir landvinningamenn komu til Suður-Ameríku var kartöflurækt þar langt á veg komin og kartöfluyrkin sem fólk ræktaði orðin gerólík villtu afbrigðunum vegna aldalangra kynbóta. Kartaflan var uppistaða í mataræði íbúa fjallanna og aðaltrúarhátíðir Inkanna voru á sama tíma og kartöflum var sáð eða þær teknar upp. Í Perú vaxa kartöflur í allt að fjögur þúsund metra hæð en maís vex aðeins þar sem frostlaust er. Evrópubúarnir fluttu með sér kartöflur í fyrstu til að tryggja nægar vistir fyrir heimferðina. Þeir komust fljótt að því að neysla á kartöflum dró úr hættu á skyrbjúg. Í Evrópu var kartöflunni fyrst tekið líkt og öðru nýmæli frá Ameríku og hún gróðursett í jurtagörðum aðalsmanna sem skrautjurt. Fyrstu tilraunir til að borða blöð eða aldin kartöflunnar leiddu til eitrunar og magaverkja og urðu til þess að skapa fordóma gagnvart henni. Jafnvel var talið að hún ylli ýmsum sjúkdómum eins og t.d. holdsveiki. Einnig urðu menn varir við að vegna hinna löngu sumardaga gaf kartaflan ekki af sér sömu uppskeru og í Andesfjöllum. Landnám kartöflunnar í Evrópu. Hefð er fyrir því að eigna annað hvort Francis Drake eða Walter Raleigh heiðurinn af því að hafa flutt kartöfluna til Evrópu á 16. öld, en þótt þeir hafi hugsanlega flutt einhverjar plöntur með sér þá eru það líklegast Spánverjar sem hafa fyrstir manna flutt plöntuna til álfunnar. Elsta skipulega kartöfluræktunin í Evrópu var á Tenerífe á Kanaríeyjum sem var viðkomustaður spænskra og portúgalskra skipa á leiðinni til og frá Suður-Ameríku. Þaðan er til farmskrá frá 1567 sem nefnir heimaræktaðar kartöflur fluttar út til Antwerpen í Niðurlöndum. Útbreiðsla kartaflna um Evrópu virðist hafa fylgt tveimur meginleiðum. Ein leiðin lá til Englands, Írlands og Hollands og önnur til Portúgals, Spánar, Ítalíu og Frakklands. Samtímaheimildir eru þó af skornum skammti og kartöflum er þar oft ruglað saman við sætar kartöflur og kassava. Víst er að tilraunir með kartöfluræktun höfðu átt sér stað í mjög mörgum Evrópulöndum um aldamótin 1600. Samkvæmt írskri arfsögn bárust kartöflur fyrst þangað með skipum Flotans ósigrandi sem strönduðu við eyjuna. Kartöfluræktun á Írlandi hófst þegar á 17. öld. Kostir kartöfluræktunar voru ýmsir miðað við hina hefðbundnu kornrækt: hægt er að fá meiri forða úr minna ræktarlandi og kartöflur þarfnast ekki sérstakrar úrvinnslu fyrir matreiðslu líkt og korn (mölun). Kartöflur henta jafn vel fyrir sjálfsþurftarbúskap og félagsbúskap. Kartöfluræktin skapaði grundvöll fyrir smájarðeignir sem síðan var reynt að uppræta á 19. og 20. öld. Fyrstu kartöflurnar í Þýskalandi og Sviss voru ræktaðar sem skrautjurtir í matjurtagörðum sem urðu fyrst útbreiddir eftir Þrjátíu ára stríðið 1648. Þar voru kartöflur kallaðar „hollenskar trufflur“. Friðrik mikli (1712-1786) átti mikinn þátt í útbreiðslu kartöfluræktar í Prússlandi. Þýsk þjóðsaga segir að hann hafi sett vörð um kartöflugarða sína að degi til gagngert til þess að hvetja fólk til að stela úr þeim að nóttu, því það sem svo vel var varið hlaut að vera verðmætt. Kartaflan verður undirstöðufæða. Skipuleg kartöfluræktun í stórum stíl hófst 1684 í Lancashire, 1716 í Saxlandi, 1728 í Skotlandi, 1738 í Prússlandi og 1783 í Frakklandi. Skipuleg kartöflurækt í evrópsku nýlendunum í Norður-Ameríku hófst 1719 í New Hampshire. Meginástæður þess að kartaflan varð undirstöðufæða um alla Evrópu var tíður uppskerubrestur í kornræktinni á síðari hluta 18. aldar en löngu eftir þann tíma voru kartöflur fyrst og fremst ræktaðar sem dýrafóður á mörgum stöðum eða sem matur fyrir fanga. Friðrik mikli sendi Rússum kartöflur til að létta á hungursneyðinni 1774 en rússnesku bændurnir neituðu að snerta þær þar til þeir voru neyddir til þess með tilskipun Katrínar miklu. Kartöflurækt varð ekki útbreidd í Rússlandi fyrr en um miðja 19. öld þegar Nikulás 1. hóf að ganga eftir því að tilskipun Katrínar væri virt. Seint á 18. öld tók almenningur á Norðurlöndum og Bretlandseyjum að borða meira grænmeti almennt, en fram að því hafði fæðan fyrst og fremst verið samsett úr brauðmeti, kjöti og mjólkurvörum. Um sama leyti (af ýmsum ástæðum) varð gríðarleg fólksfjölgun á þessum stöðum samfara iðnbyltingunni. Talið er að íbúafjöldi Írlands hafi tvöfaldast milli 1780 og 1841. Kartaflan og aðrir garðávextir urðu lífsnauðsynleg til að fæða þennan aukna fólksfjölda. Eitt af því sem átti þátt í auknum vinsældum kartöflunnar á 18. öld var sá möguleiki að brugga úr þeim brennivín. Fyrstur til að minnast á þetta í riti var þýski gullgerðarmaðurinn Johann Joachim Becher í ritinu "Närrische Weisheit und weise Narrheit" árið 1680. Í Svíþjóð sýndi Eva Ekeblad fram á þennan möguleika með tilraunum 1748 og benti einnig á önnur not kartöflunnar, eins og t.d. til að framleiða andlitspúður. Smám saman tók kartaflan því við af korni sem undirstaða fyrir bruggun á sterku áfengi á Norðurlöndunum og hefðbundin ákavíti eru nú brugguð úr kartöflum. Kartöflumyglan. Um miðja 19. öld olli kartöflumygla víðtækum uppskerubresti í kartöfluræktun um alla Evrópu. Kartöflumyglan barst með klippurum sem sigldu frá Ameríku til Evrópu. Á þeim stöðum þar sem kartaflan var aðaluppistaða fæðunnar, eins og á Írlandi, olli uppskerubresturinn almennri hungursneyð. Á Írlandi er talið að íbúafjöldinn hafi minnkað um 20-25% milli 1845 og 1852 bæði vegna hungurdauða og stóraukinna fólksflutninga til Ameríku. Kartöflugarðar. Dráttavélar að hreykja að kartöflugrösum (þ.e. hrúga mold að grösunum og drepa þannig illgresi). Myndin er af kartöfluakri í Bandaríkjunum. Um og uppúr Síðari heimsstyrjöldinni urðu matjurtagarðar algengir í þéttbýli þar sem fólk gat leigt lítinn skika fyrir garðrækt til eigin nota. Slík garðrækt hefur verið vinsæl allt fram á síðustu ár 20. aldar. Mikil hækkun lóðaverðs í nágrenni helstu þéttbýlisstaða ryður þó slíkri ræktun ört úr vegi auk þess sem lækkandi hlutur matvælakaupa í útgjöldum heimila gerir efnahagslega hagkvæmni nánast að engu. Kartöfluræktun var lengst af á 20. öld mest í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada þar sem kartöflur eru mikilvægur þáttur í matarmenningu, en þótt neysla kartaflna á mann sé enn mest á þessum stöðum, er Kína nú orðinn stærsti kartöfluframleiðandi heims. Rússland er í öðru sæti. Saga kartöfluræktar á Íslandi. Vitað er að Vísi-Gísli skrifaði syni sínum í Kaupmannahöfn árið 1670 og bað hann um að senda sér kartöflur, ásamt öðrum plöntum, en ólíklegt er að honum hafi orðið að ósk sinni þar sem ekki var farið að rækta kartöflur að ráði í Danmörku fyrr en franskir húgenottar settust að í Fredericia árið 1719 og hófu ræktun þar. Fyrstu kartöflurnar voru borðaðar við dönsku hirðina árið 1770. Fyrstu kartöflurnar á Íslandi. Fyrstur til að rækta kartöflur á Íslandi svo vitað sé var Svíinn Friedrich Wilhelm Hastfer (1722-1768) sem kallaður var Hastfer hrútabarón. Fyrsta uppskera íslenskra kartaflna leit dagsljósið á Bessastöðum sumarið 1758. Hugsanlegt er að fjármaður Hastfers frá búi Alströmers í Alingsås í Svíþjóð hafi sent þær til landsins með hrútunum sem hann sendi þá um vorið. Alströmer hafði einmitt átt upphafið að kartöflurækt í Svíþjóð með því að flytja inn sérþjálfaða vefnaðarverkamenn frá Frakklandi, en þeir fluttu með sér kartöfluræktina. Lítið er annars vitað um ræktun Hastfers og hann minnist ekki á hana sjálfur í bréfum sínum. Sama ár skrifaði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal til Danmerkur og pantaði þaðan kartöflur (sem hafa þá sennilega enn verið lítt þekktar þar í landi). Útsæðið barst honum ekki með skipi fyrr en í ágúst 1759 en með því að setja þær í ker með mold tókst honum að fá smælki undan þeim í október. Ný sending barst honum síðan 4. júní árið eftir. Þessar fyrstu kartöflur sem Björn fékk sendar voru rauðar og hnöttóttar og hafa því hugsanlega verið yrkið sem nú er kallað rauðar íslenskar. Samkvæmt rannsóknum Norræna genabankans eru rauðar íslenskar óaðgreinanlegar frá gammel röd svensk og teljast því sama afbrigðið. Hugsanlegt er því að rauðar íslenskar séu fyrsta kartöfluyrkið sem ræktað var á Íslandi. Haustið 1760 tókst Birni því að fá góða uppskeru af kartöflum. Sama ár hóf Guðlaugur Þorgeirsson prófastur á Görðum á Álftanesi kartöfluræktun og 1762 segist Eggert Ólafsson hafa séð stórar kartöflur hjá honum. Um sama leyti hóf Jón Bjarnason, prestur á Skarðströnd, kartöflurækt sem og Davíð Hansson Scheving sýslumaður í Haga á Barðaströnd. Garðyrkja breiðist út. Þrátt fyrir þessar tilraunir var framanaf fremur lítill áhugi á neyslu kartaflna meðal almennings á Íslandi líkt og í Evrópu. Um 1770 varð uppskerubrestur í Evrópu til þess að kartöflurækt breiddist hratt út. 1772 var gefið út ritið "Stutt aagrip um Jardeplanna Nytsemd og Ræktan" eftir Jacob Kofoed Trojel með styrk frá Konunglega danska landbúnaðarfélaginu en því var dreift ókeypis til Norðmanna, Dana og Íslendinga. Bæði Lauritz Andreas Thodal og Hans Christoph Diederich Victor von Levetzow, stiftamtmenn, hvöttu til garðræktar og kartöfluræktar sérstaklega og landbúnaðarfélagið veitti verðlaun fyrir árangur í kartöflurækt. Vestmannaeyjar 1879. Frydendal-húsið og garðarnir eru fyrir miðri mynd. Kartöflurækt og önnur garðyrkja varð þó ekki algeng á Íslandi fyrr en í upphafi 19. aldar og áttu Napóleonsstyrjaldirnar 1807-1814 og stopular siglingar til landsins á þeim tíma mikinn þátt í því. Árið 1807 kom skip frá Ameríku með kartöfluútsæði fyrir Hans Wilhelm Lever kaupmann sem það ár hóf kartöflurækt í hlíðunum hjá Akureyri en þaðan breiddist síðan ræktunin út um Norðurland og Vesturland. Hugsanlega hafa þær kartöflur verið þær sem nú eru kallaðar gular íslenskar. Sem dæmi um hve kartöfluræktin var lengi að festa sig í sessi á Íslandi má nefna að í Vestmannaeyjum hóf Anne Johanne Ericsen, veitingakona í húsinu Frydendal á Heimaey, fyrst manna þar kartöflurækt 1851 með útsæði sem henni hafði borist með dönsku skipi. Hún hlaut bágt fyrir þetta hjá bændum eyjarinnar sem kunnu því illa að landið væri brotið undir þessa ræktun. Ný yrki á 20. öld. Fyrstu gullaugakartöflurnar bárust til Íslands árið 1931 frá Norður-Noregi og voru ræktaðar á Sámsstöðum í Fljótshlíð af Klemenz Kristjánssyni tilraunastjóra. 1936 til 1942 vann Ólafur Jónsson ráðunautur að því að velja úr íslenskum rauðum til að jafna stærð og þyngd og voru þær kallaðar Ólafsrauðar. Áhugi á garðrækt fór vaxandi meðal almennings á 6. áratugnum og voru um 1800 garðlönd í leigu í Reykjavík árið 1951 (samanborið við um 140 árið 2004) og árið 1954 var stofnað garðleigjendafélag. Á þeim árum var oft rætt um nauðsyn þess að Íslendingar væru sjálfum sér nógir um kartöflur. Tilfinnanlegur skortur var á góðum kartöflugeymslum og fjárfestu sveitarfélög eða félög framleiðenda í gerð þeirra í héraði. 1946 flutti Jóhannes G. Helgason sjö sprengjuskýli hersins úr Hvalfirði og setti niður í Ártúnsholt sem kartöflugeymslur. Þessar geymslur fullnægðu geymsluþörf reykvískra kartöflubænda meðan þær stóðu til boða, en 1961 komust þær í eigu Grænmetisverslunar ríkisins og hættu að geyma fyrir einstaklinga þannig að geymsluskorturinn komst aftur á dagskrá. 25. ágúst 1976 var Félag kartöflubænda á Suðurlandi stofnað vegna óánægju með geymslumálin og verðlagsmálin sem voru á ábyrgð Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Félag kartöflubænda við Eyjafjörð var stofnað í ágúst 1980 og félögin tvö mynduðu síðan Landssamband kartöflubænda 1. maí 1981. Þau íslensku kartöfluyrki sem eru varðveitt í Norræna genabankanum eru þrjú; rauðar íslenskar, gular íslenskar og bláar íslenskar. Ræktun. a>ar auðvelda upptöku kartaflna, hreinsa mold frá og sekkja kartöflurnar. Kartöflur eru ekki ræktaðar af fræjum heldur spírum (líka nefnt álar eða frjónálar) sem vaxa úr augum í gömlum kartöflum (útsæði). Framleiðsla á útsæði fer þannig fram að hluti uppskeru síðasta árs er geymt í kaldri geymslu yfir veturinn. Þegar líður á vorið og hitinn helst lengur en nokkra daga í senn taka kartöflurnar að spíra (ála). Heimaræktun fer yfirleitt þannig fram að settar eru heilar eða hlutaðar kartöflur með minnst tvö augu í mold. Landsframleiðsla á Íslandi árið 2006 var 13.800 tonn. Á síðustu þrjátíu árum hefur hún mest orðið 19.459 tonn árið 1984. Jarðvegur og jarðvinnsla. Almennt séð krefst ræktun kartaflna skjóls, hagstæðrar veðráttu og frjós jarðvegar. Kartöflur þrífast best í moldarbornum sandjarðvegi vegna þess að hann hlýnar snemma að vori og heldur jarðvegshitanum vel. Kartöflur sem vaxa í sandjarðvegi eru alla jafna þurrefnisríkari en kartöflur sem vaxa t.d. í moldar-, leir-, mela- og mýrajarðvegi. Sandjarðvegur hefur einnig þann kost að hann er snemma hægt að vinna og er hann léttur í allri jarðvinnslu. Kartöflum í slíkum jarðvegi er þó hættara við þurrki, stöngulveiki og myglu. Hentugt sýrustig fyrir kartöflur telst vera pH 5,5-6 og því hefur reynst erfitt að rækta kartöflur í skeljasandi. Jarðvinnsla fyrir kartöflurækt felst í því að búa til gljúpt jarðbeð en þær vaxa best í loftríkum jarðvegi. Jarðveginum er snúið við, ýmist með plóg eða minni verkfærum, s.s. gaffli. Næst er akurinn herfaður, með léttu fjaðraherfi eða diskaherfi. Sumir kjósa að nota hreykiplóg í stað annarra plóga. Þá er jarðvegurinn tilbúinn til áburðargjafar og útsetningar. Áburður og næringarþarfir. Eins og aðrar jurtir þarf kartaflan meginnæringarefni plantna til að vaxa: köfnunarefni, fosfór og kalí. Áburðarmagn og tegund áburðar ræðst af jarðvegstegund sem kartöflurnar eru ræktaðar í og yrki. Af þeim efnum sem kartaflan tekur upp úr jarðveginum er kalí þeirra mest en minnst af fosfór. Bæði nýtist tilbúinn áburður sem og búfjáráburður við kartöflurækt en einnig hafa önnur tilfallandi efni s.s. þari verið notuð. Kartöfluyrki. a>" ("Solanum tuberosum spp. andigena") er algengt á Kanaríeyjum og Spáni og gæti verið með fyrstu afbrigðunum sem ræktuð voru í Evrópu. Yrki (ræktunarafbrigði) kartaflna skipta þúsundum. Í einum dal í Andesfjöllum er hægt að finna hundrað ólík afbrigði og hvert býli þar ræktar að jafnaði tíu afbrigði. Fjölbreytnin er langmest í Andesfjöllunum þar sem yrkin eru af átta eða níu ólíkum tegundum, en þau yrki sem notuð eru annars staðar eru öll af undirtegundinni "tuberosum". Talið er að flest afbrigðin hafi orðið til með blöndun ræktaðs afbrigðis við eitthvað af þeim tvö hundruð villtu afbrigðum sem vitað er um. Munurinn á ræktuðum og villtum kartöflum er mikill og stafar af áhrifum valræktunar á þær fyrrnefndu. Gæði afbrigðanna er metið eftir vaxtarhraða, magni uppskeru, stærð kartaflnanna og þurrefnisinnihaldi sem getur verið mismunandi eftir ræktunarskilyrðum. Frá því skipulegar tilraunir með kartöfluræktun hófust á Íslandi um aldamótin 1900 hafa verið prófuð um 700 yrki. Aðeins fjögur yrki voru í stofnrækt á Íslandi árið 2005: Gullauga, Helga, Premiere og Rauðar íslenskar. Skaðvaldar. Kartafla sýkt af kartöflumyglu er innfallin, korkuð og mygluð að innan. Skaðvaldar í kartöflurækt eru margvíslegir. Kulda- og frostskemmdir, mýs, skordýr (t.d. kartöflubjalla), sniglar (t.d. "Deroceras reticulatum"), sveppir, bakteríur og veirur geta gert usla í ræktuninni og í kartöflugeymslum. Þá er ótalið það illgresi sem dregur úr vexti kartaflanna. Frægasti kartöflusjúkdómurinn er líklega kartöflumygla sem olli víðtækum uppskerubresti og hungursneyð í Evrópu um miðja 19. öld. Kartöflumygla kemur enn upp en helsta ráðið við henni er að gæta þess nota aðeins útsæði frá viðurkenndum framleiðanda og halda sig við mygluþolin afbrigði. Til eru ýmis efni til að fyrirbyggja kartöflumyglu áður en sáð er og eins til að vinna á henni eftir að smit er farið af stað. Myglan er harðgerð og getur borist langa leið með vindi. Hún verður því auðveldlega að landlægum faraldri. Bæði lirfur og fullvaxnar kartöflubjöllur éta lauf kartöflunnar. Ormar. Kartöfluhnúðormur ("Globodera pallida" og "Globodera rostochiensis") Sniglar. "Deroceras reticulatum" Skordýr. Aldinbori ("Melolontha melolontha") · "Aphis fabae" - lús · Ferskjublaðlús ("Myzus persicae") · Gróðurhúsakartöflublaðlús ("Aulacorthum solani") · Kartöflubjalla ("Leptinotarsa decemlineata") · Kartöflublaðlús ("Macrosiphum euphorbiae") · Kálygla ("Agrotis segetum") · "Lygus pabulinus" - títa · "Psylliodes affinis" - bjalla. Sveppir. Blettaveiki ("Alternaria solani") · Blöðrukláði ("Polyscytalum pustulans") · Fusarium-rotnun ("Fusarium") · Hnúðbikarsveppur ("Sclerotinia sclerotiorum") · Kartöflumygla ("Phytophthora infestans") · Kranssveppur ("Verticillium albo-atrum") · Phoma-rotnun ("Phoma exigua") · Rótarflókasveppur ("Rhizoctonia solani") · Silfurkláði ("Helminthosporium solani") · Vörtukláði ("Spongospora subterranea") Bakteríur. Flatkláði ("Streptomyces scabies") · Hringrot ("Clavibacter michiganensis spp. sepedonicus") · Stöngulsýki ("Erwinia carotovorum var. atrosepticum") Næring og neysla. Kartöflur eru þekktastar fyrir að innihalda mikið magn sykra (um 26 grömm í meðalstórri kartöflu), mest í formi sterkju. Lítill hluti þessarar sterkju er hvataþolinn og kemur því ómeltur í skeifugörnina. Talið er að þessi sterkja hafi svipuð efnisfræðileg áhrif og trefjar. Magn þessarar sterkju er mjög háð eldunaraðferð. Með því að sjóða og kæla síðan kartöflur eykst magnið umtalsvert, eða nánast um helming. Kartöflur innihalda mörg mikilvæg vítamín og steinefni. Ein meðalstór kartafla (150g) með hýði inniheldur 27 mg af C-vítamíni, eða 45% af RDS, 620 mg af pótassíum (18% af RDS), 0,2 mg af B6-vítamíni (10% af RDS) og snefil af þíamíni, ríbóflavíni, fólínsýru, níasíni, magnesíumi, fosfór, járni og sinki. Auk þess inniheldur kartafla með hýði tvö grömm af trefjum, sem er svipað og margar tegundir heilhveitibrauðs. Að auki innihalda kartöflur plöntuefni eins og karótenóíð og fjölfenól. Sú hugmynd að öll bætiefni kartöflunnar séu í hýðinu er nútímaþjóðsaga því þótt hýðið innihaldi um helming af trefjum kartöflunnar þá er meira en helming allra bætiefna að finna inni í kartöflunni sjálfri, sem og öll næringarefni. Eldunaraðferðin getur haft mikil áhrif á bætiefnainnihald kartöflunnar. Kartöflur eru stundum sagðar hafa háan blóðsykurvísi og eru því ekki á matseðli fólks sem reynir að fylgja mataræði með lágum blóðsykurvísi. Mælingar hafa þó sýnt að blóðsykurvísir kartaflna er mjög breytilegur eftir afbrigði, uppruna og matreiðslu. Matreiðsla. Kartöflur eru mikilvægur þáttur í matarmenningu í Evrópu og Ameríku og flest lönd í þessum heimshlutum eiga sér vinsæla rétti þar sem steiktar kartöflur, kartöflumús eða soðnar kartöflur eru meðlæti. Sjaldgæft er að þær séu borðaðar einar og sér. Kartöflur eru framreiddar á ýmsan hátt, heitar og kaldar, afhýddar eða með hýði, heilar eða í bitum. Nauðsynlegt er að sjóða þær, steikja eða baka fyrst til að brjóta sterkjuna niður. Með útbreiðslu skyndibitamenningar frá Norður-Ameríku hafa kartöfluflögur og franskar kartöflur orðið þekktar um allan heim. Kartöfluréttir. Nokkrir þekktir kartöfluréttir eru til dæmis bakaðar kartöflur, bátakartöflur, brúnaðar kartöflur, dillkartöflur, franskar kartöflur, kartöflupasta, kartöflubaka, kartöflubrauð, kartöfluflögur, kartöflugratín, kartöflumús, kartöflurösti, kartöflusalat, kartöflustrá, "patatas bravas", rósmarínkartöflur. Önnur not. Mjölvinn í kartöflum hefur líka verið notaður sem vatnsleysanlegt lím og sem bindiefni í málningu og þykkingarefni í unnin matvæli (sbr. dextrín). Þekktasta dæmi um þykkingarefni úr kartöflum er kartöflumjöl. Hráar kartöflur eru oft skornar út sem skreytingar eða stimplar. Í ýmsum löndum er hefð fyrir því að brugga áfengi úr kartöflusterkju og átti sú aðferð þátt í að auka hylli kartöflunnar. Á Norðurlöndum tíðkaðist þessi hefð einkum vegna þess að innflutningur á kornbrennivíni var bannaður. Bæði vodka og ákavíti eru venjulega brugguð úr kartöflum þótt til séu tegundir sem eru bruggaðar úr korni. Íslenskt brennivín er einmitt kartöflubrugg sem var upphaflega bruggað úr rúgi. Kartöflur sem fóður. Í þeim löndum þar sem skilyrði til kartöfluræktar eru góð nýtast þær sem fóður fyrir búfé, sérstaklega fyrir kýr, svín og stundum hænsni. Þær eru ýmist hráar eða súrsaðar og gjarnan gefnar sem hluti af heilfóðri, þ.e. blandað saman við aðrar tegundir fóðurs til að mynda eina heilstæða fóðurblöndu. Þær geymast vel í útistæðum eða votheysgeymslum. Eiturefni í kartöflum. Aldin (ber) kartöflunnar eru eitruð þar sem þau innihalda mikið magn sólaníns. Kartöflugrös og aldin sem koma stundum efst á stöngulinn innihalda hættulega mikið magn af eiturefninu sólaníni, sem finnst í öllum jurtum af náttskuggaætt, en magn þess í kartöflunum sjálfum er svo lítið að það er skaðlaust. Ef kartöflur fá á sig beint sólarljós (sem sést m.a. á því að þær grænka að hluta) getur það örvað myndun sólaníns í hýðinu. Því er ráðlegast að henda dökkgrænum kartöflum og gæta þess að afhýða kartöflur sem fengið hafa á sig ljósgræna slikju. Kartöflur framleiða glýkóalkalóíð eins og sólanín og alfakakónín til að verjast sníkjudýrum og sveppum. Efnin hafa áhrif á bragð kartöflunnar og gera það beiskt. Magn sólaníns í venjulegum kartöflum er oftast innan við 0,2mg/g og þau afbrigði sem eru ræktuð til manneldis eru reglulega mæld með tilliti til þessa. Dæmi eru um að nýtt afbrigði ("Lenape") sem sett var á markað í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum hafi verið tekið af markaði vegna þess að það innihélt hættulega mikið af sólaníni. Ef afbrigðið inniheldur náttúrulega mikið af eitrinu hefur afhýðing lítið að segja. Ef kartöflur eru geymdar lengi, mygla eða fá á sig beint sólarljós getur magnið aukist margfalt, einkum við hýðið þar sem 30-80% sólanínsins verður til. Steiking við 170 °C hita eða meira brýtur eiturefnin í kartöflunni niður en suða hefur engin áhrif á þau. Öruggasta ráðið er því að afhýða vandlega grænleitar kartöflur og gæta þess að borða ekki gömul og mygluð eintök. Örfá þekkt tilfelli sólaníneitrunar af völdum kartaflna hafa komið upp í heiminum frá því sögur hófust og stöfuðu flest af neyslu á ónýtum kartöflum eða kartöflugrasaseyði. Dæmi voru um eitrun vegna neyslu "Lenape"-kartöflurnar og haustið 1978 kom upp alvarlegt eitrunartilfelli meðal breskra skóladrengja sem höfðu borðað kartöflur sem geymdar höfðu verið allt sumarfríið og voru því ársgamlar. Vínber. Vínber eru ávöxtur vínviðarins sem er ættkvísl klifurjurta af vínviðarætt. Berin vaxa venjulega í klösum sem innihalda sex til 300 ber, og geta verið svört, blá, gyllt, græn, fjólublá og hvít. Þau eru étin hrá eða pressuð í safa, sultuð eða látin gerjast til að búa til vín. Úr fræjunum er unnin olía. Eintracht Frankfurt. Eintracht Frankfurt er þýskt knattspyrnufélag stofnað í Frankfurt am Main í sambandslandinu Hessen. Járnburður. a> með því að ganga á glóandi járni. Járnburður var eldraun (guðsdómur) til að sannreyna sekt eða sakleysi. Járnburður fólst í því að viðkomandi var látinn bera glóandi járn. Ef hann hlaut ekki skaða af var það merki um að hann væri saklaus. Fræg dæmi um járnburð eru þegar Poppó biskup sýndi Haraldi blátönn og Dönum fram á mátt guðs með því að klæða sig í glóandi járnhanska. Annað dæmi er þegar Inga frá Varteigi, móðir Hákonar gamla Noregskonungs sýndi fram á rétt faðerni hans með því að bera glóandi járn. Norski fáninn. Norski fáninn er þjóðfáni Noregs. Hann var opinberlega tekinn í notkun árið 1821. Fáninn er svokallaður krossfáni eins og fánar allra hinna Norðurlandanna eru. Hlutföllin í litum fánans eru, talið lárétt frá stöng: 6:1:2:1:12, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 6:1:2:1:6. Elliði Vignisson. Elliði Vignisson (fæddur 28. apríl 1969) var ráðinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum 15. júní 2006. Elliði er menntaður sálfræðingur og kenndi í nokkur ár við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum, hann hefur setið í bæjarstjórn Vestmannaeyja frá 2003 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Súkkulaði. Súkkulaðiplötur - dökkt súkkulaði, ljóst súkkulaði og mjólkursúkkulaði Súkkulaði er matvara unnin úr kakó. Það er algeng uppistaða í margs konar sælgæti, kökum, ís og ábætisréttum. Súkkulaði er eitt vinsælasta bragðefni í heiminum. Súkkulaði er búið til úr kakóbaunum sem eru gerjaðar, ristaðar og malaðar. Baunirnar vaxa á kakótrénu (fræðiheiti: "Theobroma cacao") og á það uppruna sinn að rekja til mið Ameríku og Mexíkó, en er núna einnig ræktað í hitabeltinu. Kakótréð hefur verið ræktað frá dögum Maja og Azteka. Kakóbaunir eru beiskar og bragðmiklar. Súkkulaði leysir endorfín út í líkamann og sumir segja að tilfinningin sé lík því að vera ástfangin(n). Það sem í daglegu máli er kallað súkkulaði er sykruð blanda af kakódufti og feiti sem í er bætt ýmsum öðrum efnum svo sem mjólkurdufti. Súkkulaði er oft framleitt í litlum mótum og tengist neysla þess ýmsum hátíðum og er þá t.d. framleiddar súkkulaðikanínur eða páskaegg á páskum. Nafnið súkkulaði kemur líklega úr Nahuatl tungumálinu sem er mál frumbyggja í miðri Mexíkó. Ein kenning er að það komi frá orðinu "xocolatl" á Nahuatl máli og það merki "xocolli" sem þýðir beiskur og "atl" sem þýðir vatn. Málfræðingar hafa bent á að í mörgum mállýskum af Nahuatl sé súkkulaði 'chicolatl' sem er orð yfir eins konar þeytara sem notaðir voru til að hræra í kakódrykkjum. Fundist hafa fornleifar sem benda til að Majar hafi drukkið súkkulaði fyrir 2600 árum. Astekar tengdu súkkulaði við frjósemisgyðjuna Xochiquetzal. Í nýja heiminum var drukkinn beiskur og kryddaður drykkur úr súkkulaði sem nefndist "xocoatl". Í þessum drykk var m.a. vanilla og chilípipar. Xocoatl var notaður sem eins konar orkudrykkur. Súkkulaði var munaðarvara í Ameríku fyrir daga Kristófer Kólumbusar og kakóbaunir voru oft notaðar sem gjaldmiðill. Kristófer Kólumbus færði Ferdinand og Isabellu á Spáni nokkrar kakóbaunir en það var svo Hernando Cortes sem kynnti Evrópumönnum þessa nýju vöru. Fyrsta skráða sendingin af súkkulaði til gamla heimsins var send með skipi frá Veracruz til Seville árið 1585. Á þeim tíma var súkkulaði enn þá neytt sem drykkjar en Evrópumenn bættu við sykri og mjólk, létu chilipiparinn eiga sig en bættu í vanillu í staðinn. Á 17. öld var súkkulaðineysla munaður meðal aðalsmanna í Evrópu. Súkkulaði var drykkur yfirstéttarinnar. Það voru sérstök súkkulaðihús þar sem hefðarfólk kom saman. Hér er teikning af súkkulaðihúsi í London 1807. Kakó. Kakó eða kakótré (fræðiheiti: "Theobroma cacao") er lítið (4–8 m hátt) sígrænt tré sem á uppruna sinn í hitabeltissvæðum í Suður-Ameríku en vex nú víða í hitabeltinu. Fræ kakótrésins eru notuð í kakóduft og súkkulaði. Kakótréð vex í hæðum Andesfjalla í 200–400 m og á Amazon svæðinu og á vatnasvæðum Orinoco árinnar. Kakótréð þarf rakt loftslag, frjósaman jarðveg og úrkomu. Það vex í skógarbotni og þrífst best í skugga annarra trjáa. Laufin eru 10–40 sm löng og 5–20 sm breið. Blómin eru lítil eða 1–2 sm að þvermáli. Fræbelgur kakótrésins er 15–30 sm langu og 8–10 sm breiður og breytist frá gulu í appelsínugult þegar það þroskast og vegur um 500 g fullþroskað. Í fræbelgnum eru 20 til 60 fræ sem venjulega eru kölluð baunir, klædd í hvítan belg. Fræin innihalda 40–50% kakósmjör. Mikilvægasta virka efnið í þeim er Theobromine. Íslenskar þýðingar á erlendum kvikmyndaheitum. Hér er að finna íslenskar þýðingar á erlendum kvikmyndaheitum eins og þau hafa sést á plakötum, spólu-hulstrum, dvd-hulstrum, auglýsingum, í kvikmyndagagrýni, textavarpi og öðrum opinberum stöðum í auglýsingaskyni. Sjaka. Sjaka (um 1787 – 22. september 1828) var hákonungur Súlúmanna á því svæði sem í dag er héraðið KwaZulu Natal í Suður-Afríku frá 1816 til dauðadags. Hann byggði upp stórt miðstýrt konungsveldi með því að leggja nálæga ættbálka undir sig með hervaldi. Þegar hann komst til valda 1816 réði hann yfir um 1500 manna en þegar hann lést taldi ríki hans 250.000 íbúa. Joutseno. Joutseno er bær í Finnlandi. Fólksfjöldi er 10849 (2005). Konungsríkið Sardinía. Konungsríkið Sardinía var konungsríki sem stóð þar sem nú er Norðvestur-Ítalía frá 1297 til 1861 þegar Ítalía var sameinuð. Ríkið var stofnað svo að segja úr engu sem sárabót fyrir Jakob réttláta konung Aragón eftir átök Angevína og Aragón um Konungsríkið Sikiley (sem meðal annars hafði leitt til sikileysku aftansöngvanna 1282). Með sérstakri tilskipun gerði Bónifasíus 8. páfi Jakob að konungi Sardiníu með "licentia invadendi" fyrir Sardiníu og Korsíku. Konungar Aragón og Spánar (frá 1479) ríktu yfir konungsríkinu sem í reynd náði bara yfir Sardiníu. Við lok Spænska erfðastríðsins 1713 fékk hertoginn yfir Savoja, Viktor Amadeus 2., yfirráð yfir Sikiley. Spánn reyndi að leggja aftur aftur undir sig eyjarnar 1720 sem lauk með ósigri og friðarsamningum í Hag þar sem Viktor Amadeus fékk Sardiníu í skiptum fyrir Sikiley sem Austurríska keisaradæmið fékk. Konungsríkið Sardinía var síðan konungsríki Savojaættarinnar þar til við sameiningu Ítalíu að ákveðið var að Ítalía yrði konungsríki og óskað eftir því að konungur Sardiníu gerðist konungur Ítalíu. Þrátt fyrir nafnið var stærstur hluti ríkisins í Fjallalandi og Savoja og höfuðborg ríkisins var Tórínó. Savoja. Savoja (franska: "Savoie", próvensalska: "Savouè"; ítalska: "Savoia") er hérað í Vestur-Evrópu, í vesturhluta Alpafjalla á milli Grevevatns, Rhône og Mont-Cenis, sem varð til, ásamt frjálsum fylkjum Sviss, við fall frankverska konungsríkisins Búrgundar. Savoja hélt eftir það sjálfstæði sem greifadæmi (sjá "greifinn af Savoja") stofnað 1003 og síðan sem hertogadæmi (sjá "hertoginn af Savoja") frá 1416 til 1714 þegar hertogadæmið var tengt við Konungsríkið Sardiníu sem líka fól í sér sameiningu við héraðið Fjallaland á Norðvestur-Ítalíu. Í kjölfar sameiningar Ítalíu var Savoja innlimað að stærstum hluta í Frakkland vegna samkomulags sameiningarsinna á Ítalíu við Napóleon 3.. Samband Suðaustur-Asíuríkja. Kort af löndum sem eru fullgildir meðlimir Sambands Suðaustur-Asíuríkja. Löndin sem um ræðir eru merkt með bláum lit. Þar að auki hefur Papúa Nýja Gínea áheyrnarfulltrúa og Austur Tímor hefur sótt um sömu stöðu. Konungsríkið Navarra. Pýreneaskagi árið 1030, þegar Navarra (gulbrúna svæðið efst í miðju) var stærst (múslimaríkið er grænt á kortinu). Konungsríkið Navarra (líka þekkt sem "Konungsríkið Pamplóna") er talið hafa þróast út frá héraðinu Pamplóna á Norður-Spáni og Suður-Frakklandi þegar leiðtogi Baska, Íñigo 1. Íñiguez Arista, var kjörinn konungur þar 824 og gerði uppreisn gegn Frönkum. Á tímum Rómverja bjuggu Vaskónar á þessu svæði og voru þeir forfeður Baska. Þeim tókst að halda tungu sinni og siðum og hvorki Vísigotum né Márum tókst að ná þeim fullkomlega á sitt vald. Árið 778 unnu Baskar frægan sigur á her Franka í orrustunni í Rocevaux-skarði, eða Rúnsivalsbardaga, eins og hann kallast í "Rólandskvæði". Um hálfri öld seinna var höfðinginn Iñigo Arista kjörinn konungur Pamplona og var það fyrsti vísirinn að konungsríkinu Navarra, sem náði síðan hátindi sínum á valdaskeiði Sanchos 3. Navarrakonungs eða Sanchos mikla, sem var frá því um 1000 til 1035. Þá náði ríkið yfir allt núverandi Navarrahérað, Baskaland (þar næst vestan við) og Rioja-hérað, auk svæða sem nú tilheyra Kantabríu, Kastilíu og Aragóníu. Eftir hans dag skiptist Navarra á milli sona hans og varð aldrei aftur jafnstórt og öflugt. a> og (með kórónu) spænska sjálfstjórnarhéraðsins Navarra. Á árunum 1076-1134 var landið í konungssambandi við Aragóníu og stjórnað þaðan. Garcia Ramirez, dóttursonur El Cid og afkomandi launsonar Sanchos 3., endurreisti svo konungsríkið Navarra 1134. Raunar var það fyrst þá sem nafnið Navarra kom fram; áður var talað um konungsríkið Pamplona í heimildum þótt nú sé Navarra-nafnið alltaf notað. Sonur Garcia Ramirez var Sancho 6., vel menntaður og hæfur konungur sem styrkti ríkið mjög og tapaði aldrei orrustu. Hann stofnaði höfuðborgir Baska, Vitoria-Gasteiz og San Sebastian. Dóttir hans var Berengaría Englandsdrottning, kona Ríkharðs ljónshjarta. Bróðir hennar, Sancho 7. (Sancho sterki) varð konungur eftir föður sinn. Hann tapaði vesturhluta ríkisins í hendur Alfons 8. Kastilíukonungs en átti aftur á móti stóran þátt í sigri bandalags kristnu ríkjanna á Spáni á En-Nasir kalífa í orrustunni við Las Navas de Tolosa árið 1212, en eftir hana skrapp ríki múslima á Pýreneaskaga ört saman. Sancho sterki var barnlaus og systursonur hans, Teóbald af Champagne, erfði krúnuna. Þar með styrktust mjög tengsl Navarra við Frakkland og Frakkakonunga. Sonardóttir hans, Jóhanna, erfði ríkið þegar hún var barn að aldri. Hún giftist Filippusi 4. Frakkakonungi og var Navarra í ríkjasambandi við Frakkland frá 1276-1328 en þá skildi leiðir því sonardóttir Jóhönnu, Jóhanna 2., sem ekki átti erfðarétt að frönsku krúnunni, varð þá drottning Navarra og síðan ríktu afkomendur hennar þar. Árið 1512 hertók Ferdínand Aragóníukonungur þann hluta Navarra sem var sunnan Pýreneafjalla, Efri-Navarra, og innlimaði hann í konungsríkið Spán ári síðar. Konungsfjölskyldan hraktist norður yfir Pýreneafjöll. Lægri-Navarra (franska: "Basse-Navarre)" eða sá hluti Navarra sem var norðan fjallanna var áfram sjálfstætt konungsríki sem var að vísu örsmátt en konungar þar áttu stór lén í Frakklandi og ríkið var því heldur öflugra en stærðin benti til. Aðalaðsetur konungsfjölskyldunnar var í Pau í Béarn-héraði, sem var þar næst fyrir austan og tilheyrði Navarrakonungum. Navarra hélt sjálfstæði út öldina en gekk í ríkjasamband við Frakkland þegar konungurinn, Hinrik 3., varð konungur Frakklands sem Hinrik 4. og taldist svo til Frakklands eftir 1620. Það var þó ekki fyrr en í frönsku byltingunni, þegar Loðvík 16. var tekinn af lífi, sem titillinn „konungur Frakklands og Navarra“ féll niður. Neil Armstrong. Neil Armstrong (5. ágúst 1930 – 25. ágúst 2012) er fyrrverandi bandarískur geimfari og flugmaður. Hann er frægastur fyrir að hafa verið fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Það gerði hann í annarri og síðustu geimferð sinni, með Apollo 11 þann 20. júlí 1969. Hann varði, ásamt Buzz Aldrin tveimur og hálfri klukkustund á yfirborði tunglsins á meðan Michael Collins var á sporbraut fyrir ofan. Tenglar. Armstrong, Neil Valgerður Sverrisdóttir. Valgerður Sverrisdóttir er fyrrum utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, en hún er eina konan sem hefur gengt því embætti hingað til. Hún er fædd 23. mars 1950, dóttir Sverris bónda Guðmundssonar (1912-1992) á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi og konu hans, Jórlaugar Guðrúnar Guðnadóttur (1910-1960). Valgerður er af Lómatjarnarætt. Bóndi hennar er Arvid Kro (f. 1952) og eiga þau þrjár dætur, Önnu Valdísi (f. 1978), Ingunni Agnesi (f. 1982) og Lilju Sólveigu (f. 1989). Hún lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1967. Valgerður varð varaþingmaður Norðurlandskjördæmis eystra 1984, en sat á Alþingi sem alþingismaður 1987-2009; sem þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra til 2003, en fyrir Norðausturkjördæmi eftir kjördæmabreytinguna 2003 og sat á þingi fyrir kjördæmið til ársins 2009. Veturna 1988-1989 og 1990-1991 var hún 2. varaforseti sameinaðs þings, og veturna 1992-1995 1. varaforseti Alþingis. 1995-1999 var hún þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún hefur setið í fjölda þingnefnda fyrir flokkinn. Valgerður gegndi embætti iðnaðar-og viðskiptaráðherra á árunum 1999-2006 og átti sem slík í útistöðum vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Valgerður tók við embætti utanríkisráðherra, fyrst kvenna, 15. júní 2006, af Geir H. Haarde, sem varð forsætisráðherra eftir að Halldór Ásgrímsson sagði af sér. Því starfi gegndi hún til 24. maí 2007 þegar Framsóknarflokkurinn hvarf úr ríkisstjórn. Valgerður Sverrisdóttir var kjörin varaformaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi 10. júní 2007 og tók við formennsku þann 17. nóvember 2008 eftir að þáverandi formaður, Guðni Ágústsson, sagði af sér þingmennsku og formennsku í flokknum um leið. Hún gaf ekki kost á sér í formannskjöri á flokksþingi í janúar 2009 og var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur, kjörinn formaður í hennar stað. Júrí Gagarín. Júrí Alexejevítsj Gagarín (rússneska: "Юрий Алексеевич Гагарин"; 9. mars 1934 – 27. mars 1968) var rússneskur geimfari og fyrsti maðurinn sem fór út í geiminn 12. apríl 1961. Hann lærði flug samhliða vélvirkjun og var herflugmaður á orrustuflugvélum. 1960 var hann valinn ásamt 20 öðrum til að taka þátt í Vostok-áætluninni. Eftir strangt þjálfunarferli var hann valinn til að verða fyrsti maðurinn í geimnum. Valið stóð milli hans og German Títov sem varð síðan annar maðurinn í geimnum. 12. apríl 1961 fór Gagarín út í geiminn með Vostok 1. Samkvæmt fjölmiðlum á hann að hafa sagt þegar hann var kominn á braut um jörðu, "Ég sé engan guð hérna uppi". Gagarín lést í flugslysi þegar MiG-15 orrustuflugvél sem hann stýrði hrapaði. Juan Sebastián Elcano. Juan Sebastián Elcano (líka skrifað del Cano eða Elkano) (1486/1487 – 4. ágúst 1526) var baskneskur landkönnuður í þjónustu spænska heimsveldisins. Hann stýrði flota Magellans umhverfis hnöttinn eftir að Magellan hafði verið drepinn á Filippseyjum 27. apríl 1521. 1525 tók hann þátt í Loaísa-leiðangrinum sem ætlaði að sigla umhverfis jörðina en dó úr næringarskorti í Kyrrahafi ásamt flestum áhafnarmeðlima auk Loaísa sjálfs. Óbó. Óbó (eða hápípa) er tréblásturshljóðfæri af flokki tvíblöðunga. Orðið „óbó“ er komið af franska orðinu: „hautbois“ sem merkir bókstaflega „Hátt eða hávært tré“. Einstaklingur sem spilar á óbó er kallaður óbóleikari. Halldór Laxness nefnir hljóðfærið "óbóu" (kenniföllin "óbóa", "-u", "-ur"). Hljóðfærið. Tónn óbósins hefur gríðarlegt magn yfirtóna og því er auðvelt að stilla önnur hljóðfæri eftir honum. Til dæmis er alltaf stillt eftir óbóinu í sinfóníuhljómsveitum. Tónsvið þess er frá B til g’’’, margir óbóleikarar ná hærra, alveg upp á cís’’’’ en það tónsvið þykir ekki mjög fimt nema með sérsmíðuðum blöðum (sem virka þá verr neðar á tónsviðinu). Miðað við önnur tréblásturshljóðfæri hefur óbóið mjög þykkan en næstum skerandi tón, samt er algengt að honum sé lýst sem angurværum. Hljóðpípa óbósins er í laginu eins og löng og mjó keila með afskornum oddi, rúmlega 60 cm löng, í stað odds tekur við munnstykkið. Óbóið er oftast búið til úr grendilla-viði (afrískur svartviður) en blaðið er úr bambus og stöpullinn, stysti, efsti og þrengsti hluti hljóðpípunnar, er ýmist úr bronsi eða nikkel. Óbóið er í fjórum pörtum, neðsti og víðasti parturinn heitir bjalla, næst kemur „neðra stykkið“, svo toppstykkið og loks munnstykkið eða blaðið. Óbóblöð. Óbóblað eru tvær nákvæmlega tilskornar bambusflísar settar á móti hvor annarri, börkurinn snýr út, bundnar við stöpul. Óbóblöð eru frá 6 til 7,5 cm löng og eru í kringum 7 mm breið og u.þ.b. 2 μm þunn alveg fremst, en þar eru þau breiðust og þynnst. Hvernig bambusinn í óbóblaðinu er tálgaður skiptir máli niður í minnstu smáatriði. Þess vegna eru öll óbóblöð sem atvinnuóbóleikarar nota handsmíðuð, oftast af þeim sjálfum en aðrir kaupa þau af óbóleikurum sem hafa helgað sig blaðasmíði. Mestu máli skiptir að blaðið „passi við óbóleikarann“, að blaðið hæfi þeirri munnsetningu og blæstri sem óbóleikarinn hefur tamið sér og að styrkleikar þess séu þeir sem óbóleikarnum finnst skipta máli. Til að mynda þurfa þykk blöð yfirleitt meira loft og erfiðara er að gera styrkleikabreytingar með þeim en á móti kemur að þau hafa yfirleitt mun „þykkari“ eða „myrkari“ tón og eru yfirleitt háværari en það eru eiginleikar sem mörgum þykja heppilegir í sinfóníuhljómsveitum þar sem óbóleikarinn þarf oft að spila stuttar einleiksstrófur og tréblásararnir almennt þurfa að gæta þess að vera ekki yfirgnæfðir af stórum strengjasveitum og málmblástursthljóðfærunum. Þar að auki ræður lengd blaðsins, og hve mikið af berkinum er skrapað af, fínstillingu hljóðfærisins. Ending óbóblaða er yfirleitt 1 - 24 mánuðir. Ráða gæði bambussins sem þau eru gerð úr og hvernig óbóleikarinn fer með þau mestu um endingartímann. Saga hljóðfærisins. Heckelfónn Elstu heimildir um dúudúk, forföður óbósins, eru 1500-3000 ára gamlar. Skálmpípa (shawm) er stærsta skrefið í áttina að nútímaóbóinu en hún kom fram á 12. öld. Skálmpípan var þróuð upp úr súrna, tvíblöðungi af þeirri tegund þar sem varirnar snerta ekki blaðið þegar spilað er (eins og t.d. sekkjapípu). Næsta skref var tekið við upphaf barrokktímabilsins þegar barrokkóbóið var þróað og fyrst notað við frönsku hirðina. Ásamt því að finna hljóðfærið upp eru Jean Hotteterre og Michel Philidor II taldir hafa verið fyrstu óbóleikararnir. Á 19. öld var Böhm takkakerfinu bætt við og tóngæðin þróuðust í átt að kröftugri en slípaðri tóni nútímaóbósins. Önnur hljóðfæri í óbófjölskyldunni. Tenór-útgáfa óbósins, enskt horn (stundum kallað englahorn), er sennilegast næstfrægasti meðlimur óbófjölskyldurnar en margir þekkja leiðandi sóló þess í öðrum kafla 9. sinfóníu Dvořáks. Ástaróbó eða altóbó var í miklu uppáhaldi hjá J. S. Bach en hefur ekki náð eins góðri fótfestu í seinni tíma verkum og enska hornið. Baritónóbóið kom fram í endanlegri mynd árið 1889 og var notað í risavöxnustu síðrómantísku sinfóníuhljómsveitunum. Heckelfónn er annað hljóðfæri í óbófjölskyldunni með sama tónsvið og baritónóbó, kynnt til sögunnar árið 1904. Hljóðpípa þess er mun víðari en baritónóbósins sem gefur Heckelfóninum kraftmeiri tón. Oft er heckelfóninum og baritónóbóinu ruglað saman. Talið er að tónskáld eins og Gustav Holst, sem skrifuðu fyrir svokallað „bassaóbó“ (í verk eins Pláneturnar), hafi einfaldlega ekki þekkt hljóðfærin í sundur eða verið sama um hvort hljóðfærið spilaði partinn. Í dag eru því partarnir spilaðir sitt á hvað af heckelfón og baritónóbói (þó oftar af baritónóbói þar sem aðeins 165 heckelfónar hafa verið framleiddir). Richard Strauss skrifaði hins vegar sérstaklega part fyrir heckelfón í verk sín en fyrsti heckelfónpartur veraldar var skrifaður í óperuna Salóme. Helstu tónverk. Konsertar eftir Johann Sebastian Bach, Tomaso Albinoni, Georg Friedrich Händel, Antonio Vivaldi, Carl Ditters von Dittersdorf, Wolfgang Amadeus Mozart, Richard Strauss og Ralph Vaughan Williams. Einn allra vinsælasti óbókonsertinn er merktur Joseph Haydn en flestir efast um að hann hafi samið konsertin, óvíst er hver raunverulegur höfundur konsertsins sé. Sónötur eftir Francis Poulenc, Paul Hindemith, Georg Friedrich Händel og Camille Saint-Saëns. Verk fyrir eitt óbó eru sjaldgæf. Þó njóta „Myndbreytingar“ Óvidíusar (Metomorphoses (after Ovid)) eftir Benjamin Britten og Sequenza VII eftir Luciano Berio nokkurra vinsælda. Í sinfóníuhljómsveit eru yfirleitt tveir óbóleikarar, stundum bætist sá þriðji við og spilar hann þá oftast á enskt horn. Í sinfónískum verkum eru mjög oft stuttir einleikskaflar fyrir óbóið, til dæmis í: Hamlett (fantasíuforleikur) og í byrjun 2. kafla í sinfóníum 1 og 4 eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky, í byrjun annars kafla fiðlukonserts eftir Johannes Brahms og mörgum fleiri (listi afar ófullkominn). Í Kammertónlist á óbóið sinn stað. Trío-sónöturnar sex eftir Jan Dismas Zelenka fyrir tvö óbó, fagott og basso continuo þykja mikil meistaraverk og hafa spilað stærsta partinn í að endurvekja minningu þessa gleymda meistara. Tríó fyrir tvö óbó og enskt horn eftir Ludwig van Beethoven var eitt vinsælasta verk hans meðan hann lifði. Mozart og Bohuslav Martinů sömdu báðir óbókvarteta og ekki má gleyma hlutverki óbósins í tréblásarakvintetum. Jökuldalshreppur. Jökuldalshreppur var hreppur í Norður-Múlasýslu. Náði hann yfir Jökuldal allan beggja megin Jökulsár á Brú og heiðabyggðirnar þar vestur af. Sveitin Jökulsárhlíð heyrði áður undir hreppinn en varð að sérstökum hreppi, Hlíðarhreppi, árið 1887. Hinn 27. desember 1997 sameinuðust Jökuldalshreppur og Hlíðarhreppur á ný, ásamt Tunguhreppi, undir nafninu "Norður-Hérað", sem síðan varð hluti Fljótsdalshéraðs árið 2004. Hlíðarhreppur. Hlíðarhreppur var hreppur í Norður-Múlasýslu. Náði hann yfir sveitina Jökulsárhlíð vestan megin Jökulsár á Brú. Hreppurinn var stofnaður árið 1887, en hafði fram að því heyrt undir Jökuldalshrepp. Hinn 27. desember 1997 sameinuðust Hlíðarhreppur og Jökuldalshreppur á ný, ásamt Tunguhreppi, undir nafninu "Norður-Hérað", sem síðan varð hluti Fljótsdalshéraðs árið 2004. Tunguhreppur. Tunguhreppur var hreppur í Norður-Múlasýslu, kenndur við sveitina Hróarstungu milli Jökulsár á Brú og Lagarfljóts. Hreppurinn varð til, ásamt Fellahreppi, þegar Tungu- og Fellnahreppi var skipt í tvennt á 19. öld. Hinn 27. desember 1997 sameinaðist Tunguhreppur Jökuldalshreppi og Hlíðarhreppi, undir nafninu "Norður-Hérað", sem síðan varð hluti Fljótsdalshéraðs árið 2004. Fellahreppur. Fellahreppur var hreppur í Norður-Múlasýslu, kenndur við sveitina Fell vestan Lagarfljóts. Hreppurinn varð til, ásamt Tunguhreppi, þegar Tungu- og Fellnahreppi var skipt í tvennt á 19. öld. Hinn 1. nóvember 2004 sameinaðist Fellahreppur Austur-Héraði og Norður-Héraði undir nafninu "Fljótsdalshérað". Tungu- og Fellnahreppur. Tungu- og Fellnahreppur var hreppur í Norður-Múlasýslu. Náði hann yfir sveitirnar Hróarstungu og Fell milli Lagarfljóts og Jökulsár á Brú. Á 19. öld var hreppnum skipt í tvennt, í Tunguhrepp og Fellahrepp. Skriðdalshreppur. Skriðdalshreppur var hreppur í Suður-Múlasýsla. Náði hann yfir allan Skriðdal og afdali hans. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Skriðdalshreppur Vallahreppi, Egilsstaðabæ, Eiðahreppi og Hjaltastaðarhreppi undir nafninu "Austur-Hérað". Austur-Hérað varð svo hluti Fljótsdalshéraðs árið 2004. William Blake. William Blake (28. nóvember 1752 – 12.ágúst 1827) var enskt ljóðskáld, listmálari og prentari. Hann var lítt þekktur meðan hann lifði en er nú álitinn einn sá áhrifamesti í sögu ljóðagerðar og myndlistar á tímum Rómantíkarinnar. Hann hefur verið kallaður „án efa besti listamaður sem Bretland hefur alið af sér“. Þrátt fyrir að hafa aldrei stigið fæti út fyrir Bretland samdi Blake fjölbreytt og mjög táknrænt ritsafn þar sem ímyndunaraflið réð ríkjum. Með óhefðbundnu skoðunum hans á málum eins og trú, siðgæði, list og pólitík hefur Blake orðið þekktur sem bæði þjóðfélagslegur uppreisnarseggur og „hetja ímyndunaraflsins“ sem spilaði stórt hlutverk í að þróa Rómantíkina gegn Rökhyggjunni. Þessi efni eru kjarni textans í þekktasta verki Blakes, "Söngvar sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar". William Blake fæddist 28. nóvember 1757 í London. Hann var annar í röðinni af fimm börnum sem fæddust þeim Catherine og James Blake. William kom af miðstéttarfólki og starfaði faðir hans sem sokkavörusali. Sem barn gekk William ekki í skóla heldur kenndi móðir hans honum heima. Talið er að Blake fjölskyldan hafi verið andófsmenn sem tilheyrðu (Móravísku?) kirkjunni. Biblían hafði snemma mikil áhrif á William og sótti hann innblástur í Biblíuna alla sína ævi. Sem barn sá William sýnir þar sem hann hélt því fram að hann sæi Guð við gluggann hjá sér og tré alsett englum. Hann var einnig bráðger á list mjög snemma. Árið 1772 eftir nokkurra ára nám í Teikniskóla Henry Pars varð William lærlingur hjá leturgrafa meistaranum James Basire. Þar dvaldi hann í sjö ár eða til ársins 1779 þá fór William að stunda nám við The Royal Academy of Arts (Listaháskóli) en hann var ósammála listkenningum kennara sinna og einbeitti sér í staðinn að leturgröftrun. Þannig komst hann í samband við róttæka bóksalann Joseph Johnson og samlistamenn eins og Thomas Stothard, John Flaxman og Henry Fuseli. Það var aðallega í gegnum fyrirhöfn John Flaxman að William fékk borgað fyrir vinnu sína. Árið 1782 giftist William Catherine Boucher og var hún honum trú alla tíð. William kenndi henni að lesa, skrifa og hjálpa til við gerð bóka hans. William fékk fyrst athygli fyrir ljóðagerð sína í gestastofu Séra A.S. Mathew þar sem hann las ljóð sín og stöku sinnum söng þau við lög sem hann samdi. Árið 1783 fjármögnuðu Séra Matthew og John Flaxman útgáfu Ljóðrænar skyssur (Poetical Sketches) sem var fyrsta ljóðasafn Williams. Árið 1787 missti William yngri bróður sinn Robert og seinna hélt hann því fram að hann talaði við anda hans „með ímyndunaraflinu“. Á sama tíma var hann að þróa tækni sína við að (lýsa bækur – illuminated printing) Hann notaði fyrst þessa aðferð árið 1788 við gerð tveggja fræðirita sem kölluðust There Is No Natural Religions og All Religions Are One en þau benda á kosti ímyndunaraflsins í stað rökréttar heimspeki. Tvö önnur verk Úr söngvum sakleysisins og The Book of Thel voru prentuð árið 1789. William leturgróf plöturnar (fyrir lýstu verkin), prentaði þær persónulega og litaði hvert verk fyrir sig. Bækur hans eru eins sjaldgæfar eins og þær eru fallegar. (Þar af leiðandi varð innkoma hans lítil og kom í veg fyrir að orðspor hans og verk yrðu þekkt utan vina og vandamanna.) Útbreiðsla frönsku byltingarinnar árið 1789 kom William í róttækan félagsskap Joseph Johnson, Joseph Priestly, Thomas Paine og Mary Wollstonecraft. Þau ræddu um demókratískar byltingar í Ameríku og Frakklandi og pólitísku og félagslegu ringulreiðina sem þau ollu heima fyrir, málefni sem urðu aðalyrkisefni hans t.d. The French Revolution og America:Prophecy. Skoðanir Williams stungust á við skoðanir ríkisstjórnarinnar þar af leiðandi hafa margir velt því fyrir sér hvort hann faldi skoðanir sínar í ljóðum sínum um dulúð til að sleppa við ámæli ríkistjórnarinnar. Árið 1790 fluttu William og kona hans til Lambeth þar sem hann skrifaði mörg verk og nokkur sem tilheyrðu Sjáandabókunum (Prophetic Books) þ.á.m. The Book of Athania og The Song and Book of Los. Í þessum verkum þróaði William táknrænu (goðafræðina) sem hann kynnti í Tiriel og The Book of Thel þar sem William reyndi að „útskýra sögu sína, sögu Englands, sögu heimsins, forsögulegan tíma og eðli eilífðarinnar“. Fræðimenn eru sammála um að goðafræði hans nær hápunkti í The Four Zoas: The Torments of Love & Jealousy in the Death and Judgement of Albion the Ancient Man sem hann byrjaði líklegast að semja í Lambeth. Frá 1800-1803 bjuggu William og kona hans í sjávarþorpinu Felpham þar sem þau bjuggu við stuðning ljóðskáldsins William Hayley. Hversdagsleiki olli William gremju/óþægindum þar sem hann var svo mikill draumóramaður. William og frú fluttu að lokum aftur til London árið 1803 en heimkoma þeirra var ekki glaðleg þar sem William var ásakaður um að hafa hreytt uppreisnarorðum á meðan hann rak hermann að nafni Scofield úr garði sínum í Felpham. Það var réttað yfir honum og var hann sýknaður árið 1804. Næsta þýðingarmikla verk Williams var árið 1808 og var það útgáfa af Robert Blairs The Grave (Gröfin) sem fékk meiri athygli en öll hans verk til samans. Árið 1809 ákvað William að opna einkasýningu á málverkum sínum sem hann hélt að myndi auglýsa verk hans og réttlæta skoðanir hans á (framsýnni) fagurfræði en sýningin var illa mætt og lýsingarnar í bæklingunum sem fylgdu sýningunni fengu þessa fáu gesti sem sóttu sýninguna til að gera gys af honum. Á sínum seinni árum kláraði William Jerúsalem hans síðasta og lengsta spámannsbók og gerði seríur af leturgröftruðum myndskreytingum fyrir The Book of Job sem er nú víða álitin hans besta listaverk. Hans seinni verk voru (heimiluð?) snemma á þriðja áratug 18. aldar af John Linnell einn af ungum listamönnum sem tilheyrði hópi listamanna sem kölluðu sig „Ancients“ sem hjálpuðu William í ellinni. William Blake lést 12.ágúst árið 1827 og var hann jarðaður 5 dögum seinna í Dissenter kirkjugarðinum í Bunhill Fields þar sem foreldrar hans voru einnig jarðaðir. William Blake er dýrlingur í Kaþólsku Gnostic-kirkjunni. Einnig eru veitt Blake verðlaunin fyrir trúarlega list (The Blake Prize for Religious Art) en þau voru fyrst veitt í Ástralíu árið 1949. Árið 1957 var minnisvarði reistur í Westminster Abbey til minningar um hann og konu hans. B B Cannibal Corpse. Cannibal Corpse er bandarísk dauðarokkhljómsveit frá Buffalo, New York fylki, og var stofnuð árið 1988. Cannibal Corpse hefur gert tíu plötur, og ellefta kemur út árið 2009. Sinfónía. Sinfónía er kaflaskipt tónlistarform. Orðið sinfónía er tekið úr grísku og beinþýðist „samhljómur“, stundum eru sinfóníur kallaðar "hljómkviður", sem er íslensk þýðing sem ekki hefur náð fótfestu. Saga sinfóníunnar. Sinfóníur voru upphaflega forleikir, bakgrunnstónlist eða millispil. Þær voru hlutar í stærri verkum, spilaðar af tiltölulega litlum hljómsveitum og einnig var orðið sjálft notað sem samheiti yfir alls kyns tónlist. Á 18. öld varð formið smám saman fastmótaðra og loks varð fjögurra kafla sónötuform orðið partur af skilgreiningunni á sinfóníu. Við lok 18. aldar tóku hljómsveitirnar að stækka og fleiri hljóðfæri að bætast við, þessi þróun hélt áfram allt til loka Síðrómantíska tímabilsins, en þá náði hún hámarki í risavöxnum sinfóníum Mahlers þar sem formið er teygt út yfir ystu mörk og flytjendurnir skiptu hundruðum. Haífa. Horft yfir gröf Bábsins og höfnina í Haífa. Haífa (hebreska: "חיפה") er hafnarborg í Ísrael sem liggur á norðurströnd landsins við Miðjarðarhaf, nálægt landamærum Líbanons. Íbúafjöldi er um 300.000. Bærinn hefur lengi verið þekktur sem dæmi um það að ólíkir trúarhópar geti búið saman í sátt og samlyndi. Í borginni eru sérstök iðnaðarhverfi, eins og Matamgarðurinn, þar sem mörg ísraelsk og alþjóðleg hátæknifyrirtæki eru með rannsóknar- og þróunardeildir. Í Haífa er heimsmiðstöð Bahá'í trúarinnar þar sem meðal annars er grafhýsi Bábsins á Karmelfjalli. Regla Karmelíta var stofnuð á fjallinu á miðöldum. Höfnin í Haífa er stærsta farþegahöfn Ísrael og með stærstu útskipunarhöfnum landsins. Articolo 31. Articolo 31 er ítölsk rapp/hip-hop-hljómsveit sem var stofnuð árið 1993. Lög hljómsveitarinnar eru í blönduðum frjálsum stíl sem byggir á melódískum söng og sömpluðum þekktum laglínum. Upphaflega átti hún að heita "Articolo 41" eftir þeirri grein í stjórnarskrá Ítalíu sem heimilar undanþágu frá herskyldu vegna taugaóstyrks, en því var breytt í "Articolo 31" eftir 31. grein stjórnarskrár Írlands sem fjallar um málfrelsi. Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar, "Strade di città", kom út 1993 og náði töluverðum almennum vinsældum, fyrst ítalskra hip-hop-hljómplatna. Önnur skífa, "Messa di vespiri" kom út 1994 og 1995 átti hljómsveitin sumarsmell ársins með „Ohi, Maria! (Ti amo)“ og eftir það hefur hver breiðskífan reynst annarri vinsælli. Síðast gaf hljómsveitin út tónleikaplötuna "La riconquista del Forum" árið 2004. Jean Sibelius. Jean Sibelius (8. desember 1865 - 20. september 1957) var finnskt tónskáld sem samdi einkum rómantíska tónlist. Hann var fæddur Johan Julius Christian Sibelius en hóf að nota nafnið Jean (frönsk útgáfa af Johan) á námsárum sínum. Hann var frá borginni Hämeenlinna í sænskumælandi hluta Finnlands. Sibelius var undir miklum áhrifum frá rómantískri þjóðernisstefnu sem var mjög vinsæl í Finnlandi á ungdómsárum hans og er tónlist hans oft sögð mikilvægur hluti þjóðarstolts Finna. Meðal frægustu verka hans eru Finlandia, Valse Triste og Karelia svítan. Claudio Monteverdi. Claudio Monteverdi (15. maí 1567 (skírður) - 29. nóvember 1643) var ítalskt tónskáld á mótum endurreisnar- og barokktímabilanna. Hans tónlist er oft sögð mynda eins konar brú milli þessara tveggja skeiða í tónlistarsögunni. Monteverdi samdi fyrsta verkið sem kallast getur ópera í nútímaskilgreiningu þess orðs, "Orfeus". Sinfóníuhljómsveit. Sinfóníuhljómsveit er hljómsveit fjölmennari en tuttugu og inniheldur bæði klassísk blásturs- og strengjahljóðfæri auk slagverks. Sveitir fjölmennari en um fimmtán sem innihalda aðeins strengjahljóðfæri eru kallaðar strengjasveitir og sveitir fjölmennari en um fimmtán sem innihalda aðeins blásturshljóðfæri eru kallaðar lúðrasveitir. Það má segja að sinfóníuhljómsveit sé í raun sambræðingur strengja- og lúðrasveita þótt lúðrasveitir séu oftast fjölmennari en blásaraflokkurinn í sinfóníuhljómsveit, en það er vegna hljóðstyrks blásturshljóðfæra, sem er mun meiri heldur en hljóðstyrkur strengjahljóðfæra. Stundum eru sinfóníuhljómsveitir kallaðar "fílharmóníuhljómsveitir", þær eru að engu leiti öðruvísi en sinfóníuhljómsveitir. Nafnið er bara notað ef það eru tvær sinfóníuhjómsveitir á sama stað sem vilja draga nafn sitt af staðnum, til dæmis Sinfóníuhljómsveit Berlínar og Berlínarfílharmónían. Saga sinfóníuhljómsveitarinnar. Saga sinfóníuhljómsveitarinnar á rætur sínar að rekja til loka 17. aldarinnar eða barokktímabils klassískrar tónlistar. Á barokktímabilinu komu fram fyrstu drög að föstum hljómsveitum, áður höfðu hljóðfærin yfirleitt spilað sjálfstætt eða bara í þeim hópum sem hentaði hverju sinni. Tvær megingerðir voru af barokk hljómsveitum, annars vegar minni sveitir sem voru 8-14 manns og hinsvegar stærri sveitir sem voru um 20 manns. Þetta voru þá yfirleitt tvær fiðlur, lágfiðla, selló, kontrabassi, fagott og sitthvað fleira en umfram allt var yfirleitt orgel eða semball. Stærri hljómsveitir þekktust varla, þó vakti ítalski fiðluleikarinn og tónskáldið Arcangelo Corelli athygli fyrir að nota allt að 40 manna strengjasveitir í flutningi á nokkrum verka sinna. Á klassíska tímabilinu komu fram ný hljóðfæri á borð við píanó og klarínett. Þau urðu vinsæl en fengu ekki öruggt sæti í sinfóníuhljómsveitinni fyrr en á rómantíska tímabilinu, einnig fjölgaði fiðlum og ýmsum hljóðfærum og önnur hljóðfæri bættust í hópin. Erfitt er að setja tölu á hversu margir voru í hljómsveitinni en oft var hljóðfæraleikarakostur frekar naumur og var þá notast við það sem var á staðnum. Blásarar voru fáir en t.a.m. í fyrstu sinfóníum Haydns og konsertum Mozarts er aðeins notast við tvö horn og tvö óbó. Trompet, flauta, fagott og slagverkshljóðfæri voru einungis notuð í stærri verkum klassíska tímabilsins sbr. Júpíter sinfóníu Mozart nr. 41 sem var hans síðasta verk skrifað fyrir sinfóníuhljómsveit. Undir lok klassíska tímabilsins eða um miðja 19. öld átti Beethoven stóran þátt í að stækka hljómsveitina og undirbúa rómantísku hljómsveitina. Beethoven tók í notkun málmblásturshljóðfæri eins og básúnu og gaf þeim einleiksparta sem hafði ekki tíðkast áður. Einnig fékk bassaklarinett einleiksparta ásamt því að fjölga hljóðfærum til að magna styrk þeirra og í fimmtu sinfóníunni er kontrafagott notað í fyrsta sinn. Á rómantíska tímabilinu komu fram flest hljóðfærin og stækkaði hljómsveitin um vel helming. Endanleg mynd kom á franska hornið, túban kom fram á sjónarsviðið, enskt horn og harpan fengu líf. Hljómsveitin stækkaði og bæði komu ný hljóðfæri og fjöldi fyrri hljóðfæra jókst. Þessi þróun tók mikið stökk með Sálumessu Hector Berlioz, en um 150 manna sinfóníuhljómsveit ásamt yfir 250 manna kór frumflutti verkið. Berlioz var einnig fyrsta tónskáldið sem samdi beint á blað fyrir sinfóníuhljómsveitina og var mesti frumkvöðull rómantíska tímabilsins í hugmyndaríkri notkun á bæði nýjum og gömlum hljóðfærum. Um 1900 kom fram stærsta mynd sinfóníuhljómsveitarinnar og voru þá 171 hljóðfæraleikarai og 850 söngvarar í bæði kór og einsöng í 8. sinfóníu Mahlers. Uppröðun sinfóníuhljómsveita hefur ekki verið breytt eftir þetta en þær hafa verið í mismunandi stærðum og gerðum innan þess sem áður hefur komið fram. Abrútsi. Abrútsi (ítalska: "Abruzzo") er hérað á Ítalíu með um 1,3 milljónir íbúa. Höfuðstaður héraðsins er L'Aquila. Héraðið á landamæri að Marke í norðri, Latíum í vestri og Mólíse í suðri. 64% af landsvæði héraðsins eru fjöll (Appennínafjöllin). Í héraðinu eru hæstu tindar fjallgarðsins með Gran Sasso (2.914 m). Fjórir þjóðgarðar og nokkur friðlönd eru í fjöllunum. Kort sem sýnir staðsetningu Abrútsi á Ítalíu. Beirút. Beirút (arabíska: بيروت)‎ er höfuðborg Líbanons og aðalhafnarborg landsins. 1,2 milljónir manna búa í borginni sjálfri og 2,1 milljónir í nágrannabyggðum hennar. Fyrir borgarastríðið í Líbanon var Beirút gjarnan kölluð „París Mið-Austurlanda“ vegna þess hve andrúmsloftið þar var alþjóðlegt og frjálslegt. Borgin er ævaforn og elstu heimildir um hana eru frá 15. öld f.Kr.. Asvanstíflan. Asvanstíflan eru tvær stíflur við fyrstu flúðirnar í Níl við borgina Asvan. Stíflugerð á þessum stað hófst 1899 og þjónaði þeim tilgangi að jafna vatnsmagnið í Níl og binda þannig enda á flóð- og þurrkatímabil, auk þess að framleiða rafmagn og veita vatni í áveitukerfi til jarðræktar. Fyrsta stíflan var reist af Bretum og lauk byggingu hennar 1902. Brátt kom í ljós að hún var of lág og hún var hækkuð í tveimur áföngum sem lauk 1912 og 1933. 1946 flæddi áin yfir stífluna og var ákeðið að í stað þess að hækka hana enn einu sinni að reisa nýja stíflu 6 km ofar í ánni. Áætlanagerð hófst skömmu eftir byltingu Nassers 1952 og fyrst ætluðu Bandaríkin og Bretland að lána fé til verksins en þau drógu það til baka 1956. Egyptar þjóðnýttu þá Súesskurðinn, sem leiddi til Súesdeilunnar, og nýttu tekjurnar af honum til að fjármagna stíflugerðina. Um þriðjungur kostnaðarins var þó greiddur af Sovétríkjunum sem gjöf og stíflan sjálf var hönnuð af sovésku verktakafyrirtæki. Vinna við hana hófst 1960 og miðlunarlónið náði fullri hæð 1976. Stóra Asvanstíflan er 3600 m á lengd og 111 m há. Miðlunarlónið, Nasservatn, er 480 km langt og 16 km breitt þar sem það er breiðast og þekur 6000 km² svæði. Mannkynssaga. Lógaritmískur skali sem sýnir mannfjöldaþróun á jörðinni Mannkynssaga er saga mannkyns sem hefst á fornsteinöld, en jarðsaga er saga jarðarinnar, þar á meðal saga lífs áður en maðurinn kom til. Sá tími sem engar ritheimildir eru til um er kallaður forsögulegur tími en með skrift og rituðum heimildum hefst sögulegur tími. Forsögulegur tími hefst á fornsteinöld en upphaf nýsteinaldar markast af landbúnaðarbyltingunni (milli 8000 og 5000 f.o.t.) í frjósama hálfmánanum. Á bronsöld þróuðust stór menningarríki sem eru kölluð vöggur siðmenningar: Mesópótamía, Egyptaland hið forna og Indusdalsmenningin. Hefðbundin sagnaritun skiptir sögu ólíkra heimshluta í ólík tímabil. Til dæmis er algengt að notast við konungsættir til að afmarka söguleg tímabil. Í mörgum heimshlutum eru til einhvers konar „klassísk“ tímabil, miðtímabil og nútími, en þessi tímabil ná gjarnan yfir ólík tímaskeið. Í sögu Indlands nær til dæmis klassíska tímabilið frá 230 f.o.t. til 1200 e.o.t., „miðtímabil“ frá 1200 til um 1600 og nýöld frá 1600 til okkar daga. Í sögu Ameríku nær „klassíska“ tímabilið frá 200 til 900 þegar majar mynduðu stór menningarríki, en tímabilið frá 900 til upphafs landvinningatímans 1519 er kallað „póstklassíska“ tímabilið. Í samtímanum tvinnast saga ólíkra heimshluta saman vegna hnattvæðingarinnar. Mannkynssagan nær yfir um 2,4 milljón ár, frá því ættkvíslin "Homo" kom fyrst fram á sjónarsviðið til okkar daga. Fyrir um 200.000 árum þróuðust nútímamenn og allar aðrar tegundir af ættkvíslinni dóu smám saman út. Landbúnaðarbyltingin átti sér stað fyrir um 10.000 árum og um 5.000 árum síðar tóku menn að notast við ritmál svo sögulegur tími er í raun agnarlítill hluti af mannkynssögunni mældur í árum. Egilsstaðir. Egilsstaðir eru bær sunnan Lagarfljóts á Fljótsdalshéraði, skammt frá Lagarfljótsbrú. Frá miðri 20. öld hefur bærinn þróast hratt sem helsta verslunar- og þjónustumiðstöð Austurlands, enda mætast þar þjóðvegir úr öllum áttum. Saga. Í skrifuðum heimildum er getið um Egilsstaði sem þingstað frá fimmtándu öld. Getið er um Eyvindará í Droplaugarsonasögu og Fljótsdælu. Þéttbýlismyndun á Egilsstöðum má rekja til Jóns Bergssonar (1855-1923), stórbónda, sem lagði grunninn að aukinni verslun og þjónustu á Egilsstaðabýlinu með byggingu á stóru íbúðarhúsi þar í upphafi 20. aldar. Húsið var einnig nýtt til ferðaþjónustu. Jón keypti jörðina Egilsstaði í lok 19. aldar vegna staðsetningar en hann á að hafa sagt: „Hér verða vegamót“, sem reyndust orð að sönnu. Ásamt öðrum hafði Jón einnig frumkvæði að stofnun Kaupfélags Héraðsbúa (KHB) með aðsetur þar árið 1909. Brýr yfir Lagarfljót og Eyvindará og „akbraut" yfir Fagradal fylgdu í kjölfarið. Í framhaldinu var póst- og símaþjónustu fyrir austurland valinn staður á Egilsstöðum. Árið 1947 var stofnað kauptún að frumkvæði stjórnvalda, með lögum frá Alþingi. Var það einsdæmi á þeim tíma að stjórnvöld hefðu forgöngu um stofnun nýs sveitarfélags og að byggðinni væri valinn staður af skipulagsnefnd ríkisins með þeim ásetningi að þar rísi þéttbýli. Kauptúnið varð hluti af nýjum hreppi, Egilsstaðahreppi, og lögðu nágrannahrepparnir Vallahreppur og Eiðahreppur land til hans. Í lögum um stofnun Egilsstaðahrepps var ákveðið að hreppurinn skyldi ná yfir jarðirnar Egilsstaði, Kollsstaði og Kollsstaðagerði í Vallahreppi og jarðirnar Eyvindará, Miðhús og Dalhús ásamt eyðibýlinu Þuríðarstöðum í Eiðahreppi. Land undir kauptúnið var tekið eignarnámi úr landi Sveins Jónssonar á Egilsstöðum og greitt af ríkissjóði samkvæmt mati. Við stofnun sveitarfélagsins var fjöldi íbúa aðeins 110 manns. Bærinn fór fljótt að vaxa og dafna og hafði íbúafjöldinn tífaldast árið 1980, og nam þá 1.133 manns. Egilsstaðir fengu kaupstaðarréttindi sem Egilsstaðabær árið 1987. Í ársbyrjun 2011 hafði íbúafjöldi Egilsstaða tvöfaldast á þrem áratugum og nam hann þá 2.257 manns. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Egilsstaðabær Vallahreppi, Skriðdalshreppi, Eiðahreppi og Hjaltastaðarhreppi undir nafninu "Austur-Hérað". Austur-Hérað varð svo hluti Fljótsdalshéraðs árið 2004. Antonín Dvořák. Antonín Dvořák (8. september 1841 – 1. maí 1904) var tékkneskt rómantíkurtónskáld. Hann var þekktur meðal annars fyrir notkun sína á þjóðlagastefjum í sinfóníu– og kammertónlist sinni. Hann byrjaði að læra tónlist um leið og hann byrjaði í skóla sex ára gamall. Síðar lærði hann í eina orgelskólanum í Prag og varð á endanum þekktur fiðlu- og víóluleikari. Dvořák hóf starfsferil sinn í tónlist sem víóluleikari í leikhúshljómsveit undir stjórn Bedřich Smetana en fór smám saman að snúa sér að tónsmíðum. Hann bjó í Bandaríkjunum í þrjú ár, 1892 – 1895, og kenndi tónsmíð í New York en á meðan dvöl hans stóð samdi hann sum af sínum þekktustu verkum svo sem Sinfóníu frá nýja heiminum, Ameríkukvartettinn og sellókonsert í h-moll. Dvořák hafði tvímælalaust mikil áhrif á bandaríska tónlist, enda var það yfirlýst stefna hans að reyna að búa til einskonar þjóðlegan bandarískan „hljóm“ handa hinni nýju þjóð. Mikil og augljós áhrif af verkum hans má heyra í kvikmyndatónlist nútímans. Dvořák, Antonín Dvořák, Antonín Sinfónía frá nýja heiminum. Sinfónía frá nýja heiminum er níunda sinfónía Antonín Dvořáks. Sinfónían er í e-moll og hefur ópusnúmerið 95. Hún er fyrsta verkið sem Dvořák samdi eftir að hann tók við kennarastöðu sinni við New York. Í sinfóníuna notaði Dvořák Norður-Amerísk þjóðlög innflytjenda frá Evrópu en þau, ásamt heimþránni sem Dvořák þjáðist af í New York setja svip sinn á verkið. Gustav Mahler. Ljósmynd af Mahler frá árinu 1909. Gustav Mahler (7. júlí 1860 - 18. maí 1911) var austurrískt tónskáld við lok rómantíska tímabilsins. Þar að auki var hann hljómsveitarstjóri og var á sínum eigin líftíma helst þekktur sem slíkur. Hann samdi meðal annars níu sinfóníur og mjög mikið af "lieder". Mahler hóf píanónám sex ára gamall og þegar hann var fimmtán ára komst hann inn í Konservatoríið í Vín þar sem hann lærði aðallega píanóleik en þó eitthvað í tónsmíðum. Eftir þrjú ár þar fór hann í Vínarháskóla þar sem hann lærði meðal annars hjá Anton Bruckner. Þar lærði hann heimspeki og sögu ásamt tónlist. Meðan hann lærði þar samdi Mahler sína fyrstu alvarlegu tónsmíð, Das klagende lied. Hann hóf stjórnunarferil sinn árið 1880 og sjö árum síðar var hann farinn að stjórna Niflungahringi Wagners (en Wagner var einmitt það tónskáld sem hafði einna mest áhrif á Mahler). Þess má geta að Mahler hélt því fram að allar sínar sinfóníur væru „níundu“, en með því átti hann við að þær væru allar af svipuðum mikilfengleik og níunda sinfónía Beethovens. Þar að var Mahler mjög trúaður á þá vinsælu hjátrú að tónskáld látist alltaf eftir sína níundu sinfóníu, því gaf hann sinni níundu ekkert númer. Hann lést engu að síður meðan hann var að skrifa þá tíundu. Tenglar. Mahler, Gustav Mahler, Gustav Philly cheesesteak. Ostakjötloka frá Pat's King of Steak Ostakjötloka eða cheesesteak, þekkt utan Philadelphiu sem Philadelphia cheesesteak, Philly cheesesteak eða steak and cheese er samloka með þunnum sneiðum af steiktu nautakjöti og osti. Ostakjötlokan varð til í Philadelphiu árið 1930 og er talin einkennandi fyrir borgina. Saga. Pat Olivieri er sagður hafa fundið upp ostakjötlokuna þegar hann setti sneitt nautakjöt í brauð. Hann hóf að selja þennan nýja mat í pylsustandi sínum. Maturinn varð svo vinsæll að Olivieri opnaði eigið veitingahús árið 1930. Veitingahúsið er enn til og heitir nú Pat's King of Steaks. Á vefsíðu veitingahússins kemur fram að upphaflega hafi samlokan verið nefnd „steak sandwich“ (kjötloka) (ekki „cheesesteak“) en „eftir því sem tíminn leið vildu bæði starfsmenn og viðskiptavinir breytingu... osti var bætt við.“ Joe Vento hjá Geno's heldur því fram að hann hafi verið fyrstur til þess að bæta við osti. Ostur. Amerískur ostur, provolone og cheez whiz eru þrjár megintegundir osts sem notaðar eru í ostakjötlokur. Svissneskur ostur og cheddar eru stundum notaðir og flestir staðir sem selja einnig pizzur bjóða einnig upp á mozzarella ost. Ostakjötlokur eru einnig fáanlegar án osts og kallast þá einfaldlega "kjötlokur" ("steak sandwich"). Pöntunarvenjur. Á stöðum sem selja ostakjötlokur í Philadelphiu eru sérstök hefð fyrir því hvernig ostakjötlokur eru pantaðar. Einkum þarf að taka fram hvers konar ost maður vill fá og hvort maður vill pönnusteiktan lauk á samlokuna eða ekki. Venjan er að panta „wit“ ef maður vill lauk en „witout“ vilji maður sleppa lauknum. Til dæmis segir maður „I'd like a provolone wit,“ vilji maður panta ostakjötloku með provolone osti og lauk. Venjan er að biðja um aukaálegg síðast, svo sem steikta sveppi eða papríku, t.d. „I'd like an American witout and peppers.“ Sumir ostakjötlokustaðir taka ekki við pöntunum nema hefðirnar séu virtar. Staðir sem selja ýmiss konar mat, svo sem pizzur og annan skyndibita, auk ostakjötlokanna fylgja yfirleitt ekki þessum hefðum. Ostapólitík. Í forsetakosningunum árið 2004 fór frambjóðandi demókrata, John Kerry á Pat's Steaks í suðurhluta Philadelphiu og gerðist sekur um að panta ostakjötloku með svissneskum osti. Að því er fram kom í "Philadelphia Daily News", „flissuðu fréttamenn“ því „í Philadelphiu er það að panta svissneskan ost á ostakjötloku eins og að halda með Dallas á Eagles leik. Þetta er ekki bara pólitísk ranghugsun, heldur getur þetta einnig leitt til þess að maður fái á baukinn.“ Frægir veitingastaðir. Af öllum ostakjötlokustöðum Philadelphiu eru Pat's og Geno's Steaks langfrægastir. Þessir frægu keppinautar eru hvor sínum megin götunnar á 9. götu og Passayunk Avenue í suðurhluta Philadelphiu. Pat's King of Steaks. Pat's Steaks, stofnað 1930 af Pat Olivieri, er sagður fyrsti ostakjötlokustaðurinn. Hann er einkum þekktur fyrir að nota þunnt skorið nautakjöt ólíkt keppinautinum Geno's Steaks sem sker kjötið í grófari sneiðar. Geno's Steaks. Geno's Steaks, stofnað 1966, er einn frægasti ostakjötlokustaður heims. Hann er þekktur fyrir að nota þykkari kjötsneiðar ólíkt keppinautinum Pat's Steaks sem sker kjötið í þynnri sneiðar. Best of Philly verðlaunahafar. Eftirfarandi er listi yfir veitingastaði í Philadelphiu sem hafa unnið „Best of Philly“ verðlaunin fyrir ostakjötlokur. Aretha Franklin. Aretha Louise LaTundra Franklin (fædd 25. mars 1942) er bandarísk söngkona sem syngur einkum gospel-, sálar- og ryþmablústónlist. Hún hefur oft verið nefnd drottning sálartónlistarinnar. Hún er sú kona sem hefur fengið næstflest Grammyverðlaun, á eftir Alison Krauss. Franklin fæddist í Tennesseefylki í Bandaríkjunum en ólst upp í Detroit, Michigan. Pabbi hennar var prestur og sem barn söng hún ásamt systrum sínum í kirkjukórnum í kirkjunni hans. Þær sungu fyrst inn á upptöku fjórtán ára að aldri. Hún átti nokkur vinsæl lög í upphafi sjöunda áratugsins hjá Columbia útgáfufyrirtækinu, „Rock-a-bye Your Baby with a Dixie Melody“ þeirra frægast. Árið 1967 skipti hún yfir til Atlantic útgáfufyrirtækisins og þá komst hún fyrst almennilega á skrið. Meðal þekktustu laga sem Franklin hefur sungið eru „Respect“, „(You Make Me Feel Like) A Natural Woman“ og „I Say a Little Prayer“ (sem hafði þegar verið gefið út í flutningi Dionne Warwick). Franklin, Aretha Heimili. Heimili er staður þar sem einstaklingur eða fjölskylda býr. Międzyrzec Podlaski. Międzyrzec Podlaski er borg við fljótið Krzna í miðhluta Póllands. Edvard Grieg. Edvard Hagerup Grieg (fæddur 15. júní 1843 í Bergen - látinn 4. september 1907 í Bergen) var norskt tónskáld og píanóleikari á rómantíska tímabilinu. Meðal þekktustu verka hans er tónlistin við leikritið Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen og píanókonsert í a-moll. Ævisaga. Grieg var fæddur í Bergen og átti tónelska fjölskyldu, fyrsti píanókennari hans var til að mynda móðir hans. Þegar hann var fimmtán ára hitti hann norska fiðluleikarann Ole Bull. Sá hvatti foreldra hans til að senda hann í áframhaldandi tónlistarnám í Konservatoríinu í Leipzig. Þangað fór hann og stundaði einkum píanónám. Árið 1863 fluttist hann til Kaupmannahafnar. Þar kynntist hann ýmsum tónskáldum, meðal annars hinum norska Rikard Nordraak (sem samdi norska þjóðsönginn) sem varð góður vinur Griegs og veitti honum mikinn innblástur. Nordraak lést skömmu síðar og samdi Grieg jarðarfaramars honum til heiðurs. Árið 1868 skrifaði Franz Liszt norska menntamálaráðuneytinu og hvatti það til þess að veita honum ferðastyrk svo þeir gætu hist. Það gerðu þeir í Róm tveimur árum síðar og sýndi Grieg Liszt fyrstu fiðlusónötu sína sem Liszt var mjög hrifinn af. Þegar þeir hittust næst nokkrum mánuðum síðar skoðaði Liszt píanókonsert Griegs og spilaði hann beint af blaði. Þá fékk Grieg líka nokkur ráð varðandi útsetninguna fyrir hljómsveit. Þegar Grieg lést árið 1907 eftir langvarandi veikindi var ösku hans og konu hans komið fyrir í grafhýsi í fjalli rétt hjá húsi þeirra, Troldhaugen. Tónlist Griegs var mjög innblásin af norskum þjóðlögum og var, í anda rómantíkunnar, almennt mjög þjóðleg. Kurteisi. Kurteisi er samskiptaform sem auðveldar tjáskipti milli tveggja eða fleiri einstaklinga. Kurteisi er yfirleitt notuð þegar ókunnugir eru að hittast í fyrsta skipti en hún getur sömuleiðis verið órofa hluti hversdagslífs einstaklinga sem þegar eru tengdir. Kurteisi fylgir ákveðnum reglum sem þó eru mismunandi eða jafnvel gjörólíkar eftir menningarsvæðum. Orðsifjar. Riddarasögur bárust til Íslands um 13. öld og báru með sér ný orð eins og "kurteisi" sem kemur af fornfranska orðinu "curteisie". Claude Debussy. Claude Debussy (22. ágúst 1862 - 25. mars 1918) var franskt tónskáld á rómantíska tímabilinu. Ævi. Hann byrjaði að nema klassíska tónlist þegar hann var 9 ára og vöktu hæfileikar hans mikla athygli og fékk Debussy inngöngu í Paris Conservatoire aðeins 11 ára gamall, þegar hann var 22 ára hélt hann til Rómar til frekari náms og var þar í tvö ár. Hann var undir miklum áhrifum frá síðrómantískum tónskáldum eins og Wagner og einkennust tónverk Debussy af rómantískum og jafnframt dramatískum blæ. Upp úr 1890 gaf hann út lagasafnið „The Suite Bergmansque“ sem inniheldur meðal annars lagið „Clair de Lune“. Margir segja að Clair de Lune sé sannkallað meistaraverk, fallegt og töfrandi. Verkið byrjar einfalt, eins og að sólin sé að setjast og máninn að koma upp, skínandi í allri sinni dýrð. Það er eins og tunglið sé að berjast við skýin um að sjást, um að komast fram og lýsa á jörðina og svo í lokin kemur mjög svipaður kafli og í byrjun, sólin er að koma upp og tunglið að hverfa af sviðsljósinu og deyja. Clair de lune þýðir "Skýrt tunglskin" eða "hreint tungl". Debussy samdi „Children’s Corner Suite“ árið 1909 sem hann tileinkaði dóttur sinni og inniheldur það rómantísk og dramatísk verk auk nokkurra skemmtilegra verka eins og „Golliwogg’s Cake-Walk“, sem margir píanóleikarar hafa spreytt sig á að spila. Verkið er hratt og fjörugt og ber sömu einkenni og lag sem leikið hefur verið í fjölleikahúsi. Á árunum 1913-1915 gaf hann út ymis verk, balletta, sónatínur, Etýður og verk fyrir hljómsveit. Öll verk hans einkenndust af miklu drama og rómantík eða þá voru þau í léttari kanntinum, fjörug og hröð. Debussy skipti skyndilega um stíl og síðustu sónatínurnr sem hann samdi voru líkari fyrri verkum sínum, tærari, einfaldari. Claude Debussy lést 25. mars 1918 af völdum krabbameins. Það var mikið uppþot í Frakklandi á þessum tíma og var ekki mögulegt að minnast hans með hefðbundinni útför. Claude Debussy er enn þekktur fyrir að hafa verið innblástur í mörg tónskáld 20. aldarinnar. Lög hans áttu engin sín lík á þessum tíma og 20. aldar tónlist átti eftir að taka meira mið af því hvernig lögin hans voru. Það sem einkennir tónlist Debussy fram yfir hefðbundna evrópska tónlist framan af var meðal annars það hvernig hann notaðist við pedalinn á píanóinu, mun dreifðari og frjálsari og gefur það verkum hans sérstakann blæ og hvernig brotnir hljómar úr mismunandi tónstigum var blandað saman og mynduðu exótíska hljóma sem pössuðu saman þrátt fyrir andstæður sínar. Flestir píanóleikarar kynnast verkum hans fyrr eða síðar en auðvitað hafa verk hans verið útsett fyrir nánast öll möguleg hljóðfæri, auk þess sem hann samdi balletta, sinfóníur og óperur. Frægasta verk hans er sennilega Clair de Lune sem hefur meðal annars prýtt kvikmyndir eins og Ocean’s Eleven og Dog Soldiers. Félagssálfræði. Félagssálfræði er nátengd sálfræði og félagsfræði, og er ýmist talin undirgrein annað hvort sálfræðinnar eða félagsfræðinnar. Félagssálfræði fjallar um hvernig einstaklingar skynja aðra, hafa áhrif á þá, og tengjast þeim. Einkum er rannsakað hvernig hópar og einstaklingar hafa áhrif á einstaklinginn, hvernig einstaklingurinn hefur áhrif á hópa og hvernig hópar hafa áhrif á aðra hópa. Aðalrannsóknaraðferðir í félagssálfræði eru tilraunir. Þekktar tilraunir eru meðal annars Milgramtilraunirnar og fangelsistilraun Stanford-háskóla. Meðal þekktra fyrirbæra í félagssálfræði eru áhorfendahrif. Félagssálfræðilegar spurningar eru til dæmis: „Hvers vegna gerir hópur fólks eitthvað, gegn vilja sínum, vegna þrýstings eins aðila?“, „Hvers vegna lætur einstaklingur undan hópþrýstingi?“ og „Hvers vegna kemur hópi fólks betur saman við einn hóp fremur en annan?“. Tilraunasálfræði. Tilraunsálfræði er jafngömul sálfræðinni. Í tilraunasálfræði er tilraunaaðferð náttúruvísinda beitt til að rannsaka huga, heila og hegðun manna, og jafnvel dýra. Aðrar aðferðir eins og viðtöl, spurningalistar og ferilkannanir eru lítið sem ekkert notaðar. Nú á dögum er tilraunasálfræði nánast einungis aðferðafræði, fremur en sérstök undirgrein, og starfa þeir sem nýta sér þessar tilraunaaðferðir innan greina eins og hugrænnar sálfræði, skynjunarsálfræði, atferlisgreiningar og lífeðlislegrar sálfræði. Tilraunasálfræði hefur líka snertifleti við félagssálfræði, klíníska sálfræði og þroskasálfræði, þó að í þeim greinum séu einnig notaðar aðrar aðferðir en tilraunir. Nafnið, tilraunasálfræði, er enn notað, en þó einkum í nöfnum félagasamtaka, vísindatímarita og kúrsa í háskólum. Mercer-sýsla. Mercer-sýsla er sýsla í bandaríska fylkinu New Jersey. Mercer-sýsla er á stórborgarsvæði New York borgar. Sýslan eftir hershöfðingjanum Hugh Mercer, sem lést í orrustunni um Princeton árið 1777. Íbúafjöldi í sýslunni var 350,761 árið 2000. Mercer-sýsla er 79. tekjuhæsta sýsla Bandaríkjanna miðað við höfðatölu með $27.914 árstekjur á einstakling. Landfræði. Sýslan er 593 km² (229 mi²) að stærð. Þar af eru 585 km² (226 mi²) þurrlendi en 8 km² (3 mi²) er undir vatni. Alls eru um 1,27% lansvæðisins undir vatni. Sýslan er að ðmestu flatlendi og láglendi með nokrrum hæðum nær Delaware fljóti. Hæsti tindur sýslunnar er Baldpate Mountain skammt frá Pennington og er tindur fjallsins 146,3 m (480 fet) yfir sjávarmáli. Lægsti punktur er við sjávarmál mefram Delaware fljóti. Borough of Princeton, New Jersey. Princeton Borough eða Borough of Princeton (stundum skrifaða „boro“ ávegaskiltum) er bæjarfélag í New Jersey og annað tveggja bæjarfélaga sem mynda Princeton. Princeton Borough er í Mercer-sýslu og er umkringt af Princeton Township, þaðan sem það klofnaði árið 1894. Árið 2000 voru íbúar Princeton Borough 14.203 talsins. Princeton University er að mestu innan marka Princeton Borough en sumir angar háskólans teygja sig þó út í Princeton Township. Princeton Township og Borough of Princeton mynda saman svæðið „Princeton, New Jersey“ lík og um eitt bæjarfélag væri að ræða þótt engin formleg tengsl séu milli bæjarfélaganna. Tengill. Princeton, Borough of Princeton, Borough of Princeton, Borough of Princeton Township. Princeton Township er bæjarfélag í Mercer-sýslu í New Jersey í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi bæjarfélagsins var 16.027 árið 2000. Í Princeton township er Institute for Advanced Study, sem er einkarekin rannsóknarstofnun þar sem m.a. Albert Einstein, Kurt Gödel, John Forbes Nash og og ýmsir aðrir nóbelsverðlaunahafar hafa unnið. Princeton University er að mestu leyti innan bæjarmarka Borough of Princeton, sem er inni í Princeton Township, en angar háskólasvæðisins teygja sig inn í Princeton Township. Princeton Township og Borough of Princeton mynda saman svæðið „Princeton, New Jersey“ lík og um eitt bæjarfélag væri að ræða þótt engin formleg tengsl séu milli bæjarfélaganna. Princeton (New Jersey). Princeton, New Jersey er heiti á hluta af Mercer-sýslu í New Jersey í Bandaríkjunum. Princeton greinist í tvö bæjarfélög, annar svegar Princeton Township og hins vegar Princeton Borough, sem klauf sig frá Princeton Township árið 1894 vegna deilu um skólaskatta. Princeton Borough er umkringt af Princeton Township. Af þessum sökum er stundum talað um „the two Princetons“ eða „Princetonin tvö“. Bæjarfélögin tvö tóku seinna höndum saman í skólamálum og hafa samvinnu með sér um ýmislegt annað. Þrisvar sinnum hefur verið kosið um að sameina aftur bæjarfélögin en tillagan hefur ávallt verið felld, naumlega þó. Í Princeton m.a. að finna Princeton University. Háskólasvæðið er að mestu leyti innan bæjarmarka Princeton Borough en teygir sig einnig út í Princeton Township auk þess sem háskólinn á landsvæði í öðrum nærliggjandi bæjarfélögum, svo sem West Windsor Township. Skólinn var stofnaður árið 1746 og er annar tveggja háskóla í New Jersey sem stofnaðir voru fyrir Frelsisstríð Bandaríkjanna (Rutgers University er hinn háskólinn). Í júlí 2005 kusu CNN/Money og "Money magazine" Princeton í 15. sæti á lista yfir. Dr. Mister & Mr. Handsome. Dr. Mister & Mr. Handsome er íslensk hljómsveit sem spilar raf– og danstónlist. Upprunalegu meðlimir hljómsveitarinnar eru Ívar Örn Kolbeinsson (Dr. Mister) og Guðni Rúnar Gunnarsson (Mr. Handsome) en Egill Tómasson (Snake) gítarleikari bættist síðar við í hópinn sem og Pétur Jökull Jónasson (Gentleman) á hljómborð. Fyrsta breiðskífa þeirra hét "Dirty Slutty Hooker Money" og var jafnframt fyrsta plata tónlistarútgáfunnar COD Music og fékk því vörunúmerið COD001. Sigurjón M. Egilsson. Sigurjón Magnús Egilsson fæddist þann 17. janúar árið 1954. Sigurjón starfaði á Dagblaðinu Vísi en hélt yfir á Fréttablaðið þegar það hóf störf árið 2001 og starfaði lengi sem fréttaritstjóri þar. Um mitt ár 2006 tók hann svo við ritstjórn Blaðsins sem Ár og dagur gaf út, nú Árvakur. Hann hætti þar í desember 2006 og var ráðinn ritstjóri DV. Í byrjun árs 2008 gerðist Sigurjón ritstjóri Mannlífs. Var rekinn þaðan af útgefandanum Hreini Loftssyni. Starfar nú á Bylgjunni og gefur út og ritstýrir Iðnaðarblaðinu og Útvegsblaðinu. Stýrisprengja. Stýrisprengja er sprengja sem hægt er að stýra að skotmarki sínu með mikilli nákvæmni og er ætlað að lágmarka eyðileggingu þeirra hluta sem eru í nágrenni þess sem á að sprengja. Stýrisprengjum er stýrt með notkun gervihnatta og leysitækni. Skútuöld. Skútuöld er það tímabil í mannkynssögunni þegar seglskip voru ríkjandi samgöngutæki og uppistaðan í landkönnun, landvinningum og landnámi Evrópubúa í fjarlægum heimshlutum. Tímabilið nær nokkurn veginn frá orrustunni við Lepanto, síðustu stóru sjóorrustunni þar sem flest skipin voru galeiður knúnar með árum, til orrustunnar við Hampton Roads 1862 þegar gufuknúin skip sýndu fram á yfirburði í hernaði gagnvart seglskipum. Í þrengri skilningi nær skútuöld einkum yfir tímabilið frá byrjun 19. aldar fram yfir miðja öldina, þegar seglskip náðu áður óþekktum stærðum og sigldu með tugþúsundir evrópska landnema til Nýja heimsins, Afríku og Eyjaálfu. Skipsskrokkur. Skipsskrokkur, bátsskrokkur eða bolur er skrokkurinn eða skelin á skipi eða báti. Skrokkurinn flýtur á vatni og myndar veggi og gólf bátsins. Ef skrokkurinn er gerður úr efni sem er léttara en vatn getur hann flotið, jafnvel þótt báturinn fyllist af vatni. Skrokkar sem eru gerðir úr efnum sem eru þyngri en vatn geta samt flotið þar sem þeir innihalda nægilegt magn lofts þannig að samanlagður þéttleiki skrokksins og loftsins verður minni en þéttleiki vatnsins. Fyrstu bátsskrokkar sem gerðir hafa verið voru líklega holir trjábolir (eintrjáningar) en þegar á steinöld hefur mönnum tekist að smíða báta úr grind sem húðir voru strengdar á. Síðar var farið að smíða skipsskrokka úr viði með því að festa borð á grind þannig að borðin sköruðust (súðbyrðingur) eða lægju saman (sléttbyrðingur). Með tímanum þróaðist skipsskrokkurinn og skip fengu bæði kjöl og kjölfestu sem gáfu aukinn stöðugleika. Í dag er algengt að smíða báta úr trefjaplasti en stærri skip úr stáli. Þegar skipskrokkur er rifinn er efni hans oft nothæft aftur. Efni þetta er nefnt "slátur". Flauta (skip). Flauta (úr hollensku: "fluyt", borið fram „flæt“) var seglskip sem kom fram á Hollandi á 17. öld og var hannað sem flutningaskip með hlutfallslega mikið lestarrými. Flautum var ætlað að flytja farm á langferðum til Vestur- og Austur-Indía með lágmarksáhöfn. Flautur voru þannig með minna af fallbyssum til að auka geymslupláss og voru með bómur og blakkir til að flytja farminn til. Þessi skipstegund var mikið notuð af Hollenska Austur-Indíafélaginu á 17. og 18. öld. Hönnun flautunnar byggðist á galíoninu og þversniðið var perulaga. Lestin var við vatnsborðið en efra þilfarið mjótt, meðal annars til að minnka Eyrarsundstollinn sem var reiknaður eftir flatarmáli efra þilfarsins. Flautur voru oft búnar fallbyssum, bæði til að verjast sjóræningjum og eins voru þær notaðar sem varaskip í hernaði. Maríuhöfn. Maríuhöfn (Mariehamn á sænsku, Maarianhamina á finnsku) er höfuðstaður Álandseyja, sem lúta finnskri stjórn. Í Maríuhöfn eru aðsetur ríkisstjórnar Álandseyja, sem og þingsins, og býr rúmur helmingur íbúa Álandseyja í bænum. Bærinn heitir eftir Maríu Alexandrovnu, keisaraynju Alexanders II af Rússlandi, en Álandseyjar, eins og Finnland, lutu stjórn Rússa um hríð þar til Rússneska keisaraveldið leið undir lok árið 1917. Jan Dismas Zelenka. Jan Dismas Zelenka (fæddur 16. október 1679 - látinn 23. desember 1745) var bæheimskt tónskáld á barokktímabilinu. Ævi. Zelenka fæddist í smábænum Louňovice, litlum markaðsbæ suðaustan við Prag. Þar var faðir hans skólastjóri og organisti. Um æsku hans er lítið vitað en miðað við staðsetningu, stöðu föður hans og kaþólska trú hans er líklegast að hann hafi gengið í Jesúítaskólann Clementium í Prag. Zelenka var mjög góður violoneleikari og árið 1710 gekk hann til liðs við konunglegu sinfóníuhljómsveitina í Dresden, sem Rameau lýsti síðar sem fullkominni. Þangað til hafði Zelenka verið í þjónustu Hartigs baróns í Prag. Zelenka spilaði í Dresden-hljómsveitinni til dauðadags. Ambulance. "Ambulance" er fyrsta plata íslensku hljómsveitarinnar The Telepathetics. Hún kom út þann 24. júlí 2006 og inniheldur 10 lög. Upptökur fóru fram í hljóðveri Sigur-Rósar, Sundlauginni á vormánuðum 2006. Stjórn upptöku, hljóðblöndun og hljóðvinnsla var í höndum Birgis Jóns Birgissonar og um strengja- og málmblástursútsetningar (í Poor Evelyn og O.K.) sá Pétur Þór Benediktsson betur þekktur sem Pétur Ben. Platan er gefin út af hljómsveitinni sjálfri undir merkjum TeleTone, en dreifing er í höndum 12 tóna. Platan var tekin upp lifandi á tæpri viku. Öll Lög og allir textar eru eftir hljómsveitina. Framleidd voru 1000 eintök sem eru uppseld. Óvíst er að upplagið verði meira. Skötuselur. Skötuselur (fræðiheiti: "Lophius piscatorius") er botnfiskur sem lifir í austanverðu Atlantshafi við Ísland til Múrmansk og allt suður til Gíneuflóa. Hann finnst hvorki við Grænland né við austurströnd Norður-Ameríku. Skötuselur hefur fundist allt í kringum Ísland, en er algengari sunnan og vestan landsins. Skötuselur er gríðarlega hausstór og kjaftvíður. Neðri kjálkinn nær fram fyrir þann efri. Munnurinn er breiður og nær yfir allt höfuðið og í báðum kjálkum eru hvassar tennur sem allar vísa aftur. Engin bráð sleppur ef skötuselur nær að læsa skoltunum utan um hana. Skötuselur getur notað ugga á kviðnum sem eins konar fætur og gengið eftir sjávarbotninum en þar felur hann sig í sandi og þangi. Fiskurinn fellur afar vel inn í botngróður og tekur breytingum eftir botngróðri og líkist sjálfur þangi og getur því falið sig þar sem mest er um æti. Kvenfiskar geta orðið meira en 2 metra langir. Stærsti skötuselur sem hefur veiðst við Ísland var 134 sm langur. Mikill munur er á útliti og stærð karlkyns og kvenkyns fiska. Karlkyns skötuselur er miklu minni en kvenfiskur eða um 20-30% af stærð kvenkyns skötusels. Kvenfiskurinn hefur fálmara sem hann notar sem agn til að ginna bráð en karlfiskurinn hefur enga fálmara og getur því lítið veitt. Hann verður að finna kvenfisk og bíta sig fastan við húð hans. Við bitið gefur karlfiskurinn frá sér hvata sem leysir upp og meltir bæði húð kvenfisksins og munn karlfisksins og karlfiskurinn verður þannig sníkjudýr á líkama kvenfiskins og nærist á blóði og hrörnar með tímanum í að verða aðeins eistu sem dæla sæði eftir þörfum inn í líkama kvenfisksins. Fiskurinn hefur þrjá langa fálmara ofan á höfðinu sem hann notar sem tálbeitu til að lokka til sín bráð. Magi skötuselsins getur þanist afar mikið út og geta skötuselir étið bráð sem er stærri og þyngri en þeir sjálfir. Lífshlaup. Hrogn skötuselsins svífa um í þunnu einföldu lagi af glæru slímkenndu efni sem er 60-90 sm breitt og 8 til 9 metra langt. Skötuselur vex um 15-20 cm fyrsta árið og á þriðja ári er hann orðinn 50 cm langur. Hann verður kynþroska þegar hann hefur náð 75-80 cm lengd. Sýra. Sýrur eru efni sem losa frá sér formula_1 jónir (í vatnslausn) og eru með sýrustig lægra en sjö. (Sjá sýru-basa hvarf.) Til eru bæði rammar sýrur og daufar sýrur, en í römmum sýrum losa allar sýrusameindirnar formula_1 jónina út í lausnina óháð styrk þeirra fyrir, en í daufum sýrum losnar aðeins hluti formula_1 jónanna, misstór eftir styrk (sýrustigi). Mikilvæg tegund daufra sýra eru lífrænar sýrur, en það eru lífræn efni með carboxyl hóp (sýruhóp)) við endann, þ.e. formula_4 en þá verður efnahvarfið formula_5, þar sem formula_6 er misstór efnahópur. Allar þær sýrur sem líkaminn notar í sínum daglegu störfum (fyrir utan saltsýru í maganum) eru lífrænar sýrur. Minesweeper. Minesweeper er einstaklingstölvuleikur sem forritarinn Robert Donner samdi árið 1989. Leikurinn gengur út á að finna og merkja öll tundurduflin (eða jarðsprengjurnar) án þess að þau springi. Enska heiti leiksins, "Minesweeper" þýðir tundurduflaslæðari. Leikurinn hefur verið útfærður fyrir mörg stýrikerfi, en þekktasta útgáfan er sú sem fylgir Microsoft Windows. Leikurinn. Í upphafi leiksins þarf spilandinn að opna nokkra reiti til að hafa grunn fyrir framtíðaraðgerðum. Líkurnar á því að opna jarðsprengju í fyrsta leik eru fjarlægar en stundum er forritið skrifað þannig að ekki sé hægt að lenda á sprengju í fyrstu aðgerðinni. Þegar reitur er opnaður er annað hvort hægt að lenda á sprengju, tómum reit eða tölu. Leikurinn reynir því á að spilarinn geti fundið út með rökleiðslu hvar jarðsprengjurnar eru staðsettar og þarf oft að íhuga hvaða tölur eru á nærliggjandi reitum. Með þjálfun er hægt að klára leikinn á styttri tíma. Sprengjur. Opni spilarinn reit sem inniheldur jarðsprengju, þá endar leikurinn með tapi. Þá reiti sem innihalda jarðsprengjur á að merkja með flaggi og endar leikurinn þegar búið er að merkja alla jarðsprengjurnar með flaggi án þess að hafa flaggað ranga reiti. Tölureitir. Tölurnar í þessum reitum er fjöldi jarðsprengja í þeim reitum sem liggja að viðkomandi reit. Tómir reitir. Þegar spilari lendir á tómum reit munu allir tengdir reitir afhjúpast í allar áttir þangað til lent er á tölureit. Kjaftagelgjur. Kjaftagelgjur (fræðiheiti: "Lophiiformes") eru ættbálkur mestmegnis djúpsjávarfiska, þótt sumar ættir, eins og t.d. froskfiskar, lifi aðeins á grunnsævi. Einkenni á kjaftagelgjum er sú veiðiaðferð sem þær beita og felst í því að fyrsti geislinn í bakugga fiskanna hefur breyst í langan sprota sem stendur uppúr höfði fisksins milli augnanna og er með þykkan sepa á endanum sem fiskurinn hreyfir til eins og agn til að laða bráðina að. Þar sem flestar tegundir kjaftagelgja lifa í undirdjúpunum þar sem sólarljósið nær ekki að veita birtu er agnið lýst upp með lífljómun frá bakteríum sem lifa í samlífi með fisknum. Þjóðfræði. Þjóðfræði heyrir í senn til hug- og félagsvísinda, enda fjalla þjóðfræðingar jöfnum höndum um aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar eru sögur og sagnir, heimilis- og atvinnuhættir, trú og tónlist, siðir og venjur, hátíðir og leikir, klæðnaður og matarhættir, svo fátt eitt sé nefnt. Áhersla er lögð á hvernig fólk mótar líf sitt og umhverfi undir kringumstæðum sem það hefur ekki mótað sjálft og hvernig fólk lifir í samfélagi hvert við annað í þeim margvíslegu hópum sem það tilheyrir. Þjóðfræði hefur verið kennd við Háskóla Íslands frá árinu 1972. Byrjað var að kenna þjóðfræði við félagsvísindadeild árið 1980, en hún varð sjálfstæð námsbraut árið 1985 og aðalgrein til BA-prófs þremur árum síðar. The Foreign Monkeys. The Foreign Monkeys er hljómsveit úr Vestmannaeyjum sem sigraði Músíktilraunir 2006. Bókmenntarýni. Bókmenntarýni er rannsókn á, umfjöllun um, mat og túlkun á bókmenntum. Nútímabókmenntarýni tekur oft mið af svonefndri bókmenntakenningu (eða bara kenningu, „theoríu“), sem er heimspekileg umfjöllun um aðferðir og markmið bókmenntarýninnar. Bókmenntarýnar eru ekki alltaf kenningasmiðir og beita ekki alltaf kenningu enda þótt þetta tvennt sé náskylt. Skiptar skoðanir eru um hvort líta beri á bókmenntarýni og bókmenntakenningu sem aðskilin svið fræðilegrar umfjöllunar um bókmenntir. Til dæmis er ekki gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu í "Johns Hopkins Guide to Literary Theory and Criticism" og þar eru orðin nánast ávallt notuð saman til að lýsa einu og sama hugtakinu. Sumir bókmenntarýnar telja bókmenntarýnina einfaldlega vera beitingu kenningar enda fjalli bókmenntarýni ávallt um bókmenntir en þó út frá sjónarhóli einhverrar kenningar. Nútímabókmenntarýni er oft gefin út í formi ritgerða og bóka. Akademískir bókmenntarýnar kenna í bókmenntafræðideildum og öðrum deildum þar sem bókmenntir eru kenndar og gefa út verk sín í fræðitímaritum. Vinsælir bókmenntarýnar gefa gjarnan út í víðlesnum tímaritum svo sem "New York Times Book Review", "New York Review of Books", "London Review of Books", "The Nation", "The Times Literary Supplement" og "The New Yorker". Bókmenntarýni í fornöld og á miðöldum. Sennilega er bókmenntarýni jafngömul bókmenntunum. Eitt elsta og mikilvægasta rit um bókmenntarýni í fornöld er gamanleikur Aristófanesar "Froskarnir" en það vann til verðlauna á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 405 f.Kr. Í leikritinu etur Aristófanes saman harmleikjaskáldunum Æskýlosi og Evrípídesi og ber saman ólíkan stíl þeirra og viðhorf. Árásir Platons á skáldskapinn sem annars stigs eftirlíkingu, sem væri einskis virði, voru lengi afar áhrifamiklar. Á 4. öld f.Kr. skrifaði Aristóteles "Um skáldskaparlistina", bók um bókmenntir og bókmenntagreinar með ítarlegri umfjöllun um ýmis samtímaverk. Aristóteles var jákvæðari í garð skáldskapar en lærifaðir hans, Platon. Í "Um skáldskaparlistina" beitir Aristóteles í fyrsta sinn hugtökunum mimesis (eftirlíking) og kaþarsis (hreinsun), sem enn eru mikilvæg í bókmenntafærði. "Um skáldskaparlistina" var mikilvægasta rit bókmenntafræðinnar alveg fram á 19. öld. Á helleníska tímanum stunduðu fræðimenn í Alexandríu bókmenntarýni og textafræði af mikilli natni. Það er ekki síst þeim að þakka að margir textar grískra bókmennta hafa varðveist til okkar dags, t.d. "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða" Hómers. Merkastir alexandrísku fræðimannanna voru Zenódótos, Aristófanes frá Býzantíon og Aristarkos frá Samóþrake. Verk Longínosar, "Um hið háleita" (Περὶ ὕψους), frá 1. öld fjallar einkum um áhrifamátt góðra bókmennta og er ásamt riti Aristótelesar, "Um skáldskaparlistina", mikilvægasta rit fornaldar um bókmenntarýni. Á miðöldum fékkst bókmenntarýni oft við trúarlega texta og nokkrar langlífar hefðir í túlkunarfræði og ritskýringu, sem hófust í rannsókn á trúarlegum textum, hafa haft mikil áhrif á rannsóknir veraldlegra texta. Bókmenntarýni á endurreisnartímanum. Bókmenntarýni á endurreisnartímanum studdist við hugmyndir klassískra höfunda, einkum Aristótelesar, um einingu forms og efnis. Nýklassisismi ruddi sér til rúms, þar sem bókmenntir voru taldar miðlægar hverri menningu og skáld og rithöfundar voru taldir varðveita langa bókmenntahefð. Tilurð bókmenntarýni á endurreisnartímanum má rekja til enduruppgötvunar Vestur-Evrópubúa á klassískum textum og ekki síst til latneskrar þýðingar á riti Aristótelesar "Um skáldskaparlistina" sem kom út árið 1498. Áhrif Aristótelesar voru gríðarleg á þessum tíma. Annar áhrifamikill bókmenntarýnir á endurreisnartímanum var Lodovico Castelvetro sem samdi skýringarrit við rit Aristótelesar "Um skáldskaparlistina" árið 1570. Bókmenntarýni á 19. öld. Með bresku rómantíkinni á fyrri hluta 19. aldar urðu til nýjar fagurfræðilegar hugmyndir í bókmenntafræði, þ.á m.hugmyndin að viðfangsefni bókmennta þyrfti ekki alltaf að vera fallegt, göfugt eða fullkomið, heldur gætu bókmenntirnar sjálfar gert hversdagslegt viðfangsefni háleitt. Þýska rómantíkin, sem fylgdi fast á eftir þýska klassisismanum, lagði áherslu á fagurfræði hins brotakennda, sem kann að virðast furðunútímalegt nútímalesendum, og mat mikils "Witz" – það er að segja „hnyttni“ eða „kímnigáfu“ af ákveðnu tagi – mun meira en hin alvörugefna rómantík enskumælandi landa. Seint á 19. öld komu fram á sjónarsviðið þónokkrir höfundar sem eru betur þekktir fyrir bókmenntarýni sína en þeirra eigin bókmenntaverk, svo sem Matthew Arnold. Rússnesk formhyggja og nýrýnin. Þrátt fyrir mikilvægi allra fyrri strauma í bókmenntarýni eru þær hugmyndir sem nú eru efst á baugi nær allar komnar frá nýjum hugmyndum sem komu fram snemma á 20. öld. Snemma á 20. öld varð sá skóli hugsunar sem kallast rússnesk formhyggja, og skömmu síðar nýrýni í Bretlandi og Norður-Ameríku, allsráðandi í fræðilegri umfjöllun um bókmenntir. Báðar stefnur lögðu áherslu á nákvæmnisletur texta og hófu hann yfir almenna umfjöllun um meiningu höfundar (svo ekki sé minnst á sálarástand hans eða ævisöguleg atriði, sem urðu nánast bannorð) eða viðbrögð lesenda. Þessi áhersla á form og áhersla á „orðin sjálf“ hefur lifað af dvínandi fylgi kenninganna sjálfra. Bókmenntakenning. Í enskumælandi menntastofnunum var nýrýnin meira eða minna ríkjandi fram á síðari hluta 7. áratugar 20. aldar. Um það leyti fór að breiðast út heimspekilegri bókmenntakenning, undir áhrifum frá strúktúralisma, síðan póststrúktúralisma og fleiri anga af meginlandsheimspeki. Þessi þróun hélt áfram fram á miðjan 9. áratug 20. aldar þegar áhugi á „kenningu“ náði hámarki. Margir bókmenntarýnar, eflaust enn undir áhrifum kenningar, hafa síðar látið sér nægja að túlka bókmenntir fremur en að skrifa sérstaklega um aðferðafræðilegar og heimspekilegar forsendur þess. Bókmenntarýni nú um mundir. Í dag er áhugi á bókmenntakenningu og meginlandsheimspeki til samhliða í bókmenntadeildum háskóla ásamt íhaldsamari bókmenntarýni sem væri nýrýni eflaust þóknanleg. Deilur um markmið og aðferðir bókmenntarýni, sem einkenndi bókmenntarýna mjög á árum áður þegar „kenning“ var að ryðja sér til rúms, hafa lognast út af að mestu leyti (þótt þær eigi sér af og til stað) og mörgum bókmenntarýnum finnst þeir nú hafa gnægð aðferða og nálgana til að velja um. Sumir bókmenntarýnar vinna einkum með fræðilegan texta en aðrir einbeita sér að lestri bókmenntaverka. Áhugi á meginverkum Vestrænna bókmennta er enn mikill en margir bókmenntarýnar sýna einnig bókmenntum minnihlutahópa og kvenna aukinn áhuga og enn aðrir bókmenntarýnar, undir áhrifum frá menningarfræði, lesa vinsælar bókmenntir eins og myndasögur eða reyfara. Margir bókmenntarýnar fást einnig við kvikmyndafræði eða fjölmiðlafræði. Sumir skrifa um bókmenntasögu en aðrir beita aðferðum og niðurstöðum félagssögu á bókmenntarannsóknir. Bókmenntarýni í fornöld. Bókmenntarýni í fornöld er bókmenntarýni sú er ástunduð var í fornöld. Bókmenntarýni felur í sér rannsókn á, umfjöllun um, mat og túlkun á bókmenntum. Sennilega er bókmenntarýni jafngömul bókmenntunum en vestræn bókmenntarýni á rætur að rekja til forngrískra höfunda sem hófu fræðilega ástundun bókmenntarýni. Upphaf bókmenntarýninnar. Eitt elsta og mikilvægasta rit um bókmenntarýni í fornöld er gamanleikur Aristófanesar "Froskarnir" en það vann til verðlauna á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 405 f.Kr. Í leikritinu etur Aristófanes saman harmleikjaskáldunum Æskýlosi og Evrípídesi og ber saman ólíkan stíl þeirra og viðhorf. Evripídes og Æskýlos, sem eru báðir látnir í leikritinu, keppa um sæti mesta harmleikjaskáldsins við kvöldverðarborið í Hadesarheimum. Guðinn Díonýsos, sem var kominn að sækja Evripídes vegna skorts á skáldum í uppheimum, á að dæma. Evripídes heldur því fram að persónur sínar séu betri vegna þess að þær eru rökréttari og raunsærri en Æskýlos telur að fullkomnari persónur í leikritum sínum séu betri því þær séu betri fyrirmyndir. Æskýlos vinnur keppnina og fær að fara með Díonýsosi en lætur Sófóklesi eftir sæti sitt meðan hann er í burtu. Árásir Platons á skáldskapinn sem annars stigs eftirlíkingu, sem væri einskis virði, voru lengi afar áhrifamiklar. Þær er einkum að finna í 2., 3. og 10. bók samræðunnar "Ríkið" en svo virðist sem afstaða hans í garð skáldskapar hafi síðar mildast þónokkuð. Samræðan "Jón" er einnig mikilvæg en hún fjallar um skáldlegan innblástur og það hvort skáldskapur sé listgrein eða kunnáttugrein ("tekne") eða ekki. Á 4. öld f.Kr. skrifaði Aristóteles "Um skáldskaparlistina", bók um bókmenntir og bókmenntagreinar með ítarlegri umfjöllun um ýmis samtímaverk. Aristóteles var jákvæðari í garð skáldskapar en lærifaðir hans, Platon. Í "Um skáldskaparlistina" beitir Aristóteles í fyrsta sinn hugtökunum „mimesis“ (eftirlíking) og „kaþarsis“ (hreinsun), sem enn eru mikilvæg í bókmenntafærði. "Um skáldskaparlistina" var mikilvægasta rit bókmenntafræðinnar alveg fram á 19. öld. Ritgerð rómverska skáldsins Hóratíusar, "Skáldskaparlistin" ("Ars poetica") er samin í anda Aristótelesar. Helleníski tíminn. Á helleníska tímanum stunduðu fræðimenn í Alexandríu bókmenntarýni og textafræði af mikilli natni. Það er ekki síst þeim að þakka að margir textar grískra bókmennta hafa varðveist til okkar dags, t.d. "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða" Hómers. Merkastir alexandrísku fræðimannanna voru Zenódótos, Aristófanes frá Býzantíon og Aristarkos frá Samóþrake. Díonýsíos frá Halikarnassos er mikilvæg heimild frá 1. öld f.Kr. Hann samdi m.a. ýmsar ritgerðir um mælskufræði. Rit hans "Um orðaskipan" (Περι Συνθησεως Ονοματων) fjallaði um orðaröð í mismunandi gerðum kveðskapar. "Um eftirlíkingu" (Περι Μιμησεως) fjallar um bestu fyrirmyndirnar í ólíkum bókmenntagreinum og hvernig bæri að líkja eftir þeim. Hann samdi einnig skýringarrit við ræður attísku ræðumannanna (Περι των Αττικων Ρητορων) sem fjallaði einkum um stíl og efnistök Lýsíasar, Ísajosar og Ísókratesar. Verkið "Um hinn aðdáunarverða stíl Demosþenesar" (Περι λεκτικης Δημοσθενους δεινοτητος) fjallaði um stíl Demosþenesar sérstaklega. Bókmenntarýni á keisaratímanum í Róm og í síðfornöld. Tveir mikilvægir bókmenntarýnar 1. aldar voru Longínos og Quintilianus. Verk Longínosar, "Um hið háleita" (Περὶ ὕψους), fjallar einkum um áhrifamátt góðra bókmennta og er ásamt riti Aristótelesar, "Um skáldskaparlistina", mikilvægasta rit fornaldar um bókmenntarýni. Marcus Fabius Quintilianus var rómverskur kennari í mælskufræði. Hann samdi rit um menntun og vitsmunalegt uppeldi ræðumanna en í ritinu, "Um menntun ræðumannsins" ("Institutio oratoria"), er að finna margvíslega umfjöllun um bæði grískan og latneskan kveðskap, sagnaritun, heimspeki og ræðumennsku. Mat Quintilianusar á fornum höfundum hefur verið afar áhrifamikið og var snar þáttur í mótun smekks nútímamanna á verkum fornaldar. Frekara lesefni. Ford, Andrew, "The Origins of Criticism. Literary Culture and Poetic Theory in Classical Greece" (Princeton: Princeton University Press, 2002). Aristófanes frá Býzantíon. Aristófanes frá Býzantíon () (Býzantíon 257 – Alexandría 180 f.Kr.) var grískur fræðimaður, einkum þekktur fyrir framlag sitt til Hómersfræða en einnig fyrir textafræðilega vinnu sína á textum annarra klassískra höfunda fornaldar, svo sem Pindarosar og Hesíódosar. Hann tók við af Eratosþenesi sem bókasafnsstjóri við bókasafnið í Alexandríu. Aristófanesi er eignuð uppfinning ákvæðismerkja sem notuð eru í grísku til að gefa til kynna framburð. Ákvæðismerkin urðu nauðsynleg þegar ítónun grískunnar vék fyrir áherslum á helleníska tímanum. Á þessum tíma breiddist gríska hratt út um mikil landsvæði í kjölfar sigra Alexanders mikla og hlaut stöðu alþjóðlegs samskiptamáls, "lingua franca", í austri (og tók við af ýmsum semískum málum). Ákvæðismerkjunum var ætlað að leiðbeina um framburð grísku í eldri bókmenntaverkum. Dauði. Legsteinn yfir gröf í kirkjugarði. Dauði eða andlát er endalok virkrar starfsemi lifandi veru. Einnig nær hugtakið dauði yfir dauða hluti eins og sófa og borð. Ýmsar skilgreingingar eru til á dauða og þegar ekki er um að ræða læknisfræðileg inngrip fara þær í flestum tilvikum saman. Með tilkomu tækninnar hefur þó skilgreiningin á dauða orðið talsvert flóknari. Áður fyrr var oftast miðað við að dauði ætti sér stað þegar hjartsláttur og öndun voru ekki lengur til staðar. Með aðstoð læknisfræðinnar er nú oft hægt að endurræsa hjartað og öndunarfærin, svo nú eru þessi einkenni kölluð klínískur dauði. Í nútímalæknavísindum er því oftast notað hugtakið heiladauði, sem er samsett mæling á því hvort heilastarfsemi er endanlega hætt og útilokað að koma henni af stað aftur. Þegar allar lífverur af einhveri tegund deyja er talað um útdauða. Gerlar. Gerlar eða bakteríur (fræðiheiti: "Bacteria") eru stór og mikilvægur hópur dreifkjörnunga. Þeir eru yfirleitt flokkaðir sem sérstakt ríki aðgreint frá ríkjum forngerla og fjórum ríkjum heilkjörnunga eða sem sérstakt yfirríki eða lén. Þar til á 9. áratug 20. aldar voru gerlar og forngerlar flokkaðir saman í ríkið "Monera" en á grundvelli erfðafræðirannsókna eru þessir tveir hópar nú aðgreindir í tvö ríki. Gerlar eru algengustu lífverur sem til eru og finnast nánast alls staðar í náttúrunni, í jarðvegi, vatni og lofti, auk þess sem þeir lifa í sambýli við aðrar lífverur og eru í mörgum tilfellum nauðsynlegir líkamsstarfssemi lífveranna. Nokkrir gerlar valda þó sýkingum og teljast því sýklar, en sýklalyf eru notuð til að vinna á þeim. Formgerð. Ýmsar formgerðir finnast meðal gerla. Dæmigerð gerilfruma er um 0,5 til 1,0 míkrómetrar að þvermáli og um 0,5 til 5,0 míkrómetrar að lengd. Einstaka tegundir geta þó vikið töluvert frá þessu stærðarbili. Þannig verða til dæmis "Thiomargarita namibiensis" og "Epulopiscium fishelsoni" alt að hálfur millimetri (500 míkrímetrar) að lengd og eru því sýnilegir berum augum. Smæstu gerlarnir eru um 0,2 míkrómetrar að þvermáli. Algengustu formgerðir gerla eru annars vegar kúlulögun, en hana hafa svokallaðir kúlugerlar eða "kokkar" (dregið af gríska orðinu "κόκκος" sem þýðir korn), og hins vegar ílöng gerð, en hana hafa svokallaðir stafgerlar eða "bacillusar" (dregið af latneska orðinu "baculus" sem þýðir stafur eða prik). Litur. Litir eru mikilvægur þáttur í skynjun flestra einstaklinga Litur er huglæg upplifun, sem verður til af því að mannsaugað greinir endurkast ljóss með bylgjulengdir, sem spanna hið sýnilega litróf. Í eðlisfræðilegum skilningi eru "hvítur" og "svartur" ekki litir, því að hvítt felur í sér endurkast allra bylgjulenda í jöfnum mæli, en "svartur" þýðir fjarvera sýnilegs ljóss. Í daglegu tali er þó talað um "hvítan" og "svartan lit". Litur getur einnig átt við eiginleika tiltekinna hluta eða efna, sem ræðst af því hvaða bylgjulengdir yfirborð hlutarins drekkur í sig og hvaða bylgjulengdum hann endurvarpar. Til dæmis er hlutur grænn ef hann drekkur í sig flestar bylgjulengdir sýnilegs ljóss en endurvarpar ljósi af þeirri samsetningu sem mannsaugað greinir sem grænt. Litblinda er augngalli, sem lýsir sér í því að litblindir eiga örðugt með að greina að suma liti, til dæmis rauðan og brúnan. Dagatal. Forsíða fyrsta Íslandsalmanaksins frá árinu 1837 Almanak eða dagatal er útgáfa upplýsinga fyrir ákveðið tímabil, eins og viðurkenndu stjarnfræðilegu tímatali eða Almanaksári, skiptu í ár, mánuði, vikur, daga osf., eða eftir öðrum oftast náttúrulegum viðmiðunum eins og sáningu og uppskeru, skíðaalmanak osf. Upplýsingum í almanökum er raðað í lista eða töflur eftir eðli þeirra og til hvers innihald þeirra skal notað. Í almennum almanökum eru upplýsingar um hluti svo sem sjávarföll, gang tunglsins og himintunglanna, veðurupplýsingar, stærðar-og tímamælingar, einnig upplýsingar eins og um tunglmyrkva, sólmyrkva, halastjörnur, kirkju-og veraldlegarhátíðir ásamt ýmsum öðrum fróðleik tengdum tilteknum tíma eða dögum í viðkomandi almanaki eða Almanaksári. Íslandsalmanakið. Frá árinu 1921 hafði Háskóli Íslands einkaleyfi á útgáfu almanaka og dagatala á Íslandi. Það einkaleyfi var fellt úr gildi árið 2009 og nú má hver sem er búa til Almanak og dagatöl. Frá 4. nóvember 1921 fékk Háskóli Íslands einkaleyfi til að gefa út almanök og dagatöl á Íslandi. Yfirumsjón með útgáfu Almanaks Háskóla Íslands hefur Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur haft. Á vef Almanaksins stendur: „Almanak Háskólans, öðru nafni [Íslandsalmanakið, hefur komið út samfellt síðan 1837. Það er því mun eldra en Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags sem hóf göngu sína árið 1875. Þessum tveimur ritum er oft ruglað saman, sem skiljanlegt er, því að Þjóðvinafélagið fékk í öndverðu heimild til að taka Almanak Háskólans upp í almanak sitt. Hefur sú hefð haldist síðan, ef frá eru talin árin 1914-1918 þegar ritin voru algjörlega aðskilin. Frá 1923 til 1973 framseldi Háskóli Íslands einkaleyfi sitt til almanaksútgáfu til Þjóðvinafélagsins, og á því tímabili annaðist félagið útgáfu beggja almanakanna. Almanak Háskólans er nú gefið út í 4000 eintökum og Almanak Þjóðvinafélagsins í 1700 eintökum. Einkaleyfi Háskólans til útgáfu almanaka, sem veitt var með lögum nr. 25 frá 27. júní árið 1921, var fellt úr gildi með lögum nr. 13 hinn 7. mars árið 2008. Breytingin miðaðist við áramótin 2008-2009.“ Maurildi. Maurildi er ljósfyrirbæri í hafi sem stafa af lífljómun frá skoruþörungum sem nefnast á fræðimáli Noctiluca. Þessir einfrumungar gefa við áreiti frá sér ljósblossa sem verður vegna efnahvarfa fosfórsameinda. Í ritinu Atli eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal sem út kom út árið 1777 segir: "Ef maurildi sést mikið í sjó, boðar sunnanátt og þeyvind, oftast hvassan". Þyngdarlögmálið. þar sem "m" er þyngdarmassi hlutanna "a" og "b", "G" er þyngdarfastinn (6.67 × 10−11 N m² kg-2) og "r" fjarlægð milli massamiðju hlutanna. Hvor hlutur togar í hinn með aðdráttarkraftinum "F". Samkvæmt því sem við höfum lært um "tregðumassa" verður breyting á hreyfingu hlutar ef krafti er beitt á hann. Þegar hlutir "a" og "b" toga hvor í annan breyta þeir því hraða og/eða stefnu hvors annars. Þegar hlutur verður fyrir áhrifum af þyngdarmassa annars hlutar, segjum við að fyrrnefndur hlutur sé innan þyngdarsviðs þess síðarnefnda. Almenna afstæðiskenningin. Almenna afstæðiskenningin er annar meginþáttur afstæðiskenningarinnar, sem Albert Einstein setti fram árið 1916. Fjallar hún einkum um þyngdaraflið og lýsir hreyfingu hluta með öðrum hætti en tíðkast í sígildri eðlisfræði. Takmarkaða afstæðiskenningin. Takmarkaða afstæðiskenningin er annar af meginhlutum afstæðiskenningarinnar, sem Albert Einstein setti fram árið 1905. Aristarkos frá Samóþrake. Aristarkos (, 220? - 143 f.Kr.?), frá grísku eyjunni Samóþrake, var málfræðingur og er einkum minnst fyrir að vera áhrifamesti fræðimaður Hómersfræða. Hann var bókasafnsstjóri bókasafnsins í Alexandríu og virðist hafa tekið við þeirri stöðu af kennara sínum Aristófanesi frá Býzantíon. Hann ritstýrði mikilvægustu útgáfunni á texta Hómerskviða og er sagður hafa bætt við ákvæðismerkjum þeim sem Aristófanes, kennari hans, bjó til. Sennilegt þykir að annaðhvort hann eða, sem er líklegra, annar alexandrískur fræðimaður, Zenódótos, beri ábyrgð á skiptingu "Ilíonskviðu" og "Ódysseifskviðu" í 24 bækur hvorri. Samkvæmt upplýsingum í Suda samdi Aristarkos 800 ritgerðir () um ýmis efni en allar hafa glatast. Brot eru arðveitt í ýmsum fornum ritskýringum. Sögum um dauða Aristarkosar ber ekki saman, þótt þær séu á einu máli um að hann hafi dáið meðan á ofsóknum Ptolemajosar VIII stóð. Samkvæmt einni sögu þjáðist Aristarkos af ólæknandi bjúg og á þá að hafa svelt sig til dauða í útlegð á Kýpur. Tengsl Aristarkosar við textafræði, textarýni og bókmenntarýni hafa getið af sér hugtakið "aristark" (e. "aristarch") sem er notað um þann sem er góður og skynsamur texta- og bókmenntarýnir. Jón Ólafsson (Indíafari). Jón Ólafsson „Indíafari“ (4. nóvember 1593 – 3. maí 1679) var íslenskur rithöfundur og ævintýramaður, frá Svarthamri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Hann er hvað þekktastur fyrir ferð sína til Indlands sem hann segir frá í ævisögu sinni sem er einstök heimild um aldafar og mannlíf á þeim tímum. Foreldrar hans váru Ólafur Jónsson og Ólöf Þorsteinsdóttir. Af 14 börnum þeirra náðu þrjú fullorðinsaldri. Faðir hans dó úr blóðsótt þegar Jón var sjö ára. Árið 1615 kom Jón sér um borð í enskt skip og samdi við skipstjórann um far til Englands. Þaðan lá leið hans til Danmerkur þar sem hann gerðist byssuskytta á herskipum Kristjáns IV Danakonungs. Fljótlega lá leið hans norður í Hvítahaf, til Svalbarða og árið 1622 sigldi hann suður fyrir Góðrarvonarhöfða, til Seylon sem nú kallast Srí Lanka. Síðar dvaldist hann í virki í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi. Árið 1624 var hann fluttur slasaður til Danmerkur eftir sprengingu í fallbyssu. Tveimur árum síðar kom hann til Íslands aftur og var að Bæ á Rauðasandi. Hann kvæntist Ingibjörgu Ólafsdóttur og fór með henni heim í Álftafjörð, og bjó þá að Tröð. Þaðan héldu þau hjónin til Vestmannaeyja, þar drukknaði Ingibjörg, og sonur þeirra lést skömmu síðar. Aftur kvæntist Jón Þorbjörgu Einarsdóttur og eignaðist soninn Ólaf, sem nokkur ætt er frá kominn. Með Þorbjörgu bjó hann að á Uppsölum í Álftafirði og loks til æviloka í Eyrardal, á konungsjörð. Á gamals aldri ritaði hann ævisögu sína (um 1661). Frásögnin skiptist í tvo meginhluta og greinir sá fyrri frá dvöl hans í Danmörku og ferðinni til Svalbarða, en hinn síðari lýsir Indlandsferð hans. Þriðja hlutanum bætti sonur Jóns við og greinir hann frá ævi Jóns eftir heimkomuna til Íslands. Í meginatriðum er hægt að staðfesta frásögn Jóns með samtímaheimildum. Sums staðar tilgreinir hann þó rangt ár eða misminnir um persónur og embætti. Hann var gæddur góðri frásagnargáfu og eru lýsingar hans á mannlífinu í Kaupmannahöfn og siðum framandi þjóða mjög líflegar. Æfisagan þykir einstæð heimild um mannlíf og herþjónustu í danska flotanum á 17. öld. Hafa Danir látið gera útdrátt úr henni sem lestrarefni handa börnum og unglingum í dönskum skólum. Aristarkos frá Tegeu. Aristarkos frá Tegeu var samtímamaður Sófóklesar og Evripídesar, sem samdi yfir 70 harmleiki og vann að minnsta kosti tvisvar til verðlauna. Einungis eru varðveittir titlar tveggja leikrita ásamt einni línu en rómverska skáldið Enníus studdist mikið við leikrit hans um Akkilles. Honum er meðal annars hrósað fyrir að vera stuttorður því eins og fram kemur í Suda var hann „fyrstur til þess að semja leikrit í núverandi lengd leikrita“ Eiturþörungar. Eiturþörungar eru svifþörungar í sjó sem innihalda eiturefni sem skaðleg eru mönnum og dýrum. Við ákveðin hagstæð skilyrði fjölgar þörungum mikið og þeir mynda stórar breiður í sjónum sem kallast þörungablómi. Eitrun hjá mönnum lýsir sér sem skelfiskeitrun þ.e. menn veikjast eftir að hafa neytt eitraðs skelfisks sem nærst hefur á eitruðum þörungum. Eftirlit með eiturþörungum. Með vaxandi fisk- og skeldýraeldi er fylgst betur með magni eitraðra svifþörunga í sjó og þörungablóma. Eitranir af völdum þörunga virðast hafa aukist og er það talið geta verið af manna völdum t.d. vegna aukinna skipaferða og vegna þess að aukið magn næringarefna berst til sjávar vegna mengunar af mannavöldum. Sennilegt er þó talið að stóraukið eftirlit og mælingar skýri aukninguna að stóru leyti og eitrun af völdum þörunga sé ekki nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni. Sagnir um eiturþörunga. Sagnir herma að fyrir mörgum öldum hafi Indjánar í Norður-Ameríku forðast að borða kræklinga vissa hluta ársins. Elsta ritaða heimildin um þörungablóma eitraðra þörunga er í Biblíunni í Mósebók 7. versi 20-21 en þar stendur að allt vatn í ánni Níl hafi orðið að blóði og fiskarnir dáið. Fyrsta skráða tilvikið í heiminum um dauðsfall vegna skelfiskeitrunar er frá árinu 1793 í Bresku Kolumbíu í Kanada en þá lést maður úr áhöfn landkönnuðarins Georg Vancouver eftir neyslu skelfisks. Hvers vegna eru sumir þörungar eitraðir? Það eru um 200 þörungategundir sem geta verið eitraðar. Það eru ýmsar kenningar um hvers vegna þörungar framleiða eiturefni. Ein kenningin er að eiturefnin séu efni sem þörungar nota til boðskipta, til að finna hvern annan við kynjaða æxlun. Önnur kenning er að eiturefnin hjálpi þörungunum í lífsbaráttunni með því að hindra vöxt og þar með samkeppni annarra þörunga og komi í veg fyrir að dýrasvif éti hina eitruðu þörunga. Eiturþörungar og efnavopn. Nokkrar tegundir skoruþörunga framleiða eitrið saxitoxin. Það er baneitrað og afar skjótvirkt og er eitt af þeim efnum sem mögulegt er að nota sem efnavopn í hernaði. Ígulker. Ígulker (eða sæegg) (fræðiheiti: "Echinoidea") eru flokkur sjávarlífvera með harðar samvaxnar plötur alsettar broddum. Þau eru skrápdýr eins og krossfiskar og sæbjúgu og eru fimmgeislótt eins og önnur skrápdýr og hafa hundruð lítilla blaðkna sem þau nota til að hreyfa sig. Broddar ígulkerja eru vanalega 1 - 2 sentimetrar á lengd og eins til tveggja millimetra þykkir og ekki mjög beittir. Algengir litir ígulkerja eru svartir og grænir tónar, ólívugrænir, brúnir, fjólubláir og rauðir. Skel þeirra er kúlulaga alsett broddum. Skel fullorðinna dýra er venjulega 3 til 10 sentimetrar í þvermál. Ígulker eru algeng í öllum heimshöfum. Algengustu tegundir ígulkerja á grunnsævi við Ísland eru kollakoppur ("Strongylocentrotus droebachiensis") og marígull ("Echinus esculentus"). Aðalfæða ígulkerja er þörungar. Við vissar aðstæður til dæmis þegar dýrum sem lifa á ígulkerjum fækkar þá geta ígulker fjölgað sér mikið og raskað vistkerfi sjávar með því að útrýma öðrum lífverum á sjávarbotninum. Kynfæri ígulkerja eru étin hrá eða soðin. Vertollur. Vertollur eða uppsáturgjald var gjald sem útvegsmenn urðu að greiða landeigendum fyrir aðstöðu (vergögn) í verstöðvum. Aðstaðan gat verið land undir verbúð, skipastöður, réttur til torf- og móskurðar, skiptivöllur, malir til fiskþurrkunar, grjóttak í fiskgarða og byrgi og hjallstæði. Algengast var fyrr á öldum að vertollur væri greiddur í fiski. Vertollar voru miðaðir við fjölda ára á áraskipum eða við fjölda skipsverja sem róa. Vertollar lögðust af þegar komið var fram á 20. öld og ríki og sveitarfélag fara að innheimta hafnargjöld. Gapastokkur. Gapastokkur er refsitól sem var notað til að niðurlægja afbrotamenn og var oft gert úr klofnum og götuðum stokk eða viðarborðum. Refsiþoli hafði hendur og háls í götum gapastokksins og stundum jafnvel fætur eða aðeins fætur. Gapastokkur gat þó einnig verið aðeins staur með hálshring, en þeir gengu undir nafninu stjaki. Á Íslandi var gapastokkur refsitæki um tíma, sérstaklega við minniháttar afbrotum og óhlýðni. Fyrst er lagt til að hann verði tekinn í notkun til að refsa þeim sem brutu lög um lausamennsku, flakk og betl árið 1685, en komst ekki í almenna notkun fyrr en á 18. öld og sérstaklega eftir að Húsagatilskipunin var lögfest 1746. Þeir voru þá gjarnan við kirkjur og refsiþolinn festur í gapastokkinn honum til niðurlægingar á messudögum. Íslenskir gapastokkar voru ekki eins og gapastokkar erlendis, jafnvel þó þeir hafi verið nefndir gapastokkar. Mætti í raun frekar kalla þá hespur, því þeir voru líkari hand- og fótajárnum sem voru á fjölförnum stöðum. Gapastokkurinn var aflagður á Íslandi með tilskipun árið 1809. Vertíð. Vertíð er sá tími árs sem bændur og vinnumenn fóru í verstöð til fiskveiða. Á árabátaöld voru vertíðir þrjár, sumarvertíð, vetrarvertíð og haustvertíð. Fiskigöngur réðu mestu um hvenær vertíð hófst. Þeir sem fóru í verið kölluðust vermenn. Verferðir milli heimilis og verstaðar voru oft löng ferðalög og á þeim fylgdu vermenn ákveðnum verleiðum sem mótast höfðu í aldanna rás. Í verinu bjuggu vermenn í verbúðum. Vetrarvertíð var mikilvægasta vertíðin í íslenska bændasamfélaginu, á veturna var minni þörf fyrir vinnuframlag í sveitum og einmitt á þeim tíma voru fiskigöngur mestar á mið við Suður- og Vesturland. Þá héltu menn úr öðrum landshlutum til Suðurnesja, Breiðafjarðar og Vestfjarða. Vermenn lögðu af stað í verið á vetrarvertíð um miðjan janúar en ferðin gat tekið marga daga. Þegar Gregoríska tímatalið var tekið upp árið 1700 hófst vetrarvertíð fyrsta virkan dag eftir kyndilmessu 2. febrúar og stóð yfir í 14 vikur. Smám saman komst á sú venja að vertíðin stóð til 11. maí. Á Suðurlandi hófst vorvertíð 12. maí og stóð til Jónsmessu 24. júní. Haustvertíð hófst á Mikjálsmessu 29. september og stóð til Þorláksmessu að vetri 23. desember. Skelfiskeitrun. Skelfiskeitrun er heiti á fjórum eitrunareinkennum sem koma einkum til vegna neyslu á samlokum (kræklingum, kúskeljum, ostrum og hörpuskel). Þessir skelfiskar eru síarar, þ.e. þeir sía fæðuna úr sjónum, og því safnast fyrir í þeim eitur sem framleitt er af svifþörungum eins og svipuþörungum og kísilþörungum. Vegna þessa er neysla á skelfiski varasöm þegar mikið er um sviflægan þörungablóma sem við Ísland gerist einkum þegar sjórinn hlýnar á vorin. Mælingar hafa sýnt að magn hættulegra þörunga getur verið yfir viðmiðunarmörkum frá mars allt fram í lok desember á vissum stöðum. Af þessum fjórum tegundum eitrunar er PSP-eitrun langskæðust þar sem hún getur leitt til bráðadauða. Mæling. Mæling er mat á lengd, þyngd, rúmmáli eða öðrum eiginleikum, í samanburði við staðlaða einingu af sama tagi, sem er þá grunneining eða mælieining. Niðurstaða mælingarinnar verður þá tiltekið margfeldi af grunneiningunni. Til dæmis er vegalengd oft táknuð sem margfeldi af metrum eða kílómetrum. Mæling er alla jafna aðgreind frá talningu. Niðurstaða mælingar er rauntala, og er aldrei algerlega nákvæm. Niðurstaða talningar er náttúruleg tala og getur verið algerlega nákvæm. Til dæmis getum við vitað að það eru nákvæmlega 12 egg í eggjabakka, en við getum aldrei vitað "nákvæmlega" hvað þau eru þung. Til að gera mælingar einfaldari (og í sumum tilfellum mögulegar), eru notuð ýmis mælitæki, svo sem hraðamælar, hitamælar, vogir og voltmælar. Yfirleitt er nauðsynlegt að stilla öll flóknari mælitæki með hliðsjón af þeim grunneiningum sem þau byggja mælingar sínar á. Ýmsir hafa reynt að skilgreina mælingar í stuttu máli, svo sem William Shockley, sem lýsti hugtakinu þannig: "Mæling er samanburður við staðal". Maeling also applies to the actions of fans of the band Sparks (comprised of brothers Ron and Russell Mael). Maeling is interchangable with any verb, even naughty ones recently. It is widely held that the act of Maeling intensifies whatever verb it replaces as an act of utter awesomeness akin to the music of Sparks. Peningar. Peningar, eða fé er í hagfræði sérhver vara eða hlutur, sem hægt er að nota sem greiðslu eða skiptimynt og til varðveislu eða mælingar verðmæta. Í sumum tilfellum er þess einnig krafist að peningar geri kleift að fresta afhendingu „raunverulegra“ verðmæta. Í daglegu tali eru peningar samnefnari við opinbera gjaldmiðla tiltekinna ríkja. Mikilvægi peninga felst í því að þeir gera vöruskipti óþörf en vöruskipti eru oft óhagkvæm þar sem þau byggjast á því að báðir aðilar viðskipta hafi vöru sem gagnaðilinn hafi áhuga á. Með peningum er málið einfaldað þar sem hægt er að afhenda einum aðila vöru í skiptum fyrir peninga og greiða svo öðrum aðila fyrir þá vöru sem óskað er eftir. Peningaseðlar og greiðslukort eru mikið notuð við verslun með smávöru. Algengt er orðið að millifæra peninga rafrænt í heimabönkum. Ávísanir (tékkar) og gíróseðlar voru mjög mikið notaðir á Íslandi fyrir tíma greiðslukortanna. Viðskipti. Viðskipti í sinni einföldustu mynd felast í því að ákveðinn aðili skiptir við annan aðila á vörum eða þjónustu og öðrum verðmætum. Viðskipti eru viðfangsefni viðskiptafræðinnar og hagfræðinnar. Lögfræði. Enskur réttarsalur á 19. öld. Lögfræði er fræðigrein sem hefur að markmiði að rannsaka lög og lögskýringargögn, lýsa þeim og skýra. Með lögum er bæði átt við lög í þrengri merkingu þ.e. fyrirmæli lögjafans í lagaformi og einnig lög í víðara skilningi þ.e. skráðar og óskráðar réttareglur. Réttarreglur, sem ekki stafa beint frá löggjafanum, geta m.a. átt stoð í venju, lögjöfnun, fordæmum eða eðli máls. Fræðigreinar lögfræðinnar. Tvær megingreinar lögfræði eru; allsherjarréttur og einkaréttur og er sú skipting rakin til rómaréttar. Ekki eru allir fræðimenn sammála um þessa skiptingu. Til allsherjarréttar teljast reglur um skipulag og starfsháttu ríkisins, um réttarstöðu einstaklinga gagnvart ríkinu. Einkarétturinn fjallar hins vegar aðallega um réttarreglurnar um réttarstöðu einstaklinga innbyrðis og samskipti þeirra sín á milli. Þá vilja fræðimenn nú flokka þjóðarrétt og réttarfar í tvo sjálfstæða flokka. (tilv í danska wikipediu). Í danmörku tilheyrir herréttur einnig allsherjarrétti. Þá greinist hvert réttarsvið í undirflokka. Nám í lögfræði. Lögfræði er kennd við nokkra háskóla á Íslandi en var áður fyrr eingöngu bundin við Háskóla Íslands. Þá stunda margir framhaldsnám erlendis eða leggja stund á erlenda lögfræði eingöngu. Lögfræðin beinist að því að kenna að finna rökrétta niðurstöðu í réttarlegum vafamálum og rannsaka réttinn. Kenndar eru reglur um val og túlkun gagna og einstakar fræðigreinar teknar fyrir. Námið skiptist í grunnnám sem lýkur með BA gráðu, þá er Mastersnám sem er jafnframt embættispróf og lokapróf fyrir flesta. Einnig bjóða íslenskir háskólar upp á doktorspróf í lögum. Störf lögfræðinga. Störf sem lögfræðingar geta unnið eru fjölbreytt. Nokkrir vinna að lagavísindum þ.e. stunda vísindalegar rannsóknir og skrif um lögfræðileg efni. Lögfræðingar starfa fyrir hið opinbera - allar greinar ríkisvaldsins og fyrir sveitarfélög. Dómarar eru löglærðir og aðstoðarmenn þeirra, fjölmargir lögfræðingar starfa innan stjórnsýslunnar. Með sífellt flóknara lagalegu umhverfi fyrirtækja vegna alþjóðlegra skuldbindinga er vaxandi þörf fyrir lögfræðinga hjá alls kyns fyrirtækjum. Þá starfa margir lögfræðingar sem sjálfstæðir ráðgjafar og málflutningsmenn. Grikkland hið forna. Grikkland hið forna um miðja 6. öld f.Kr. Grikkland hið forna vísar til hins grískumælandi heims í fornöld. Það vísar ekki eingöngu til þess landsvæðis sem Grikkland nær yfir í dag, heldur einnig landsvæða þar sem grískumælandi fólk bjó í fornöld: Kýpur og Eyjahafseyja, Jóníu í Litlu Asíu (í dag hluti Tyrklands), Sikileyjar og Suður-Ítalíu (nefnt Stóra Grikkland eða "Magna Graecia" í fornöld) og til ýmissa grískra nýlendna til dæmis í Kolkis (við botn Svartahafs), Illyríu (á Balkanskaga við strönd Adríahafs), í Þrakíu, Egyptalandi, Kýrenæku (í dag Líbýa), suðurhluta Gallíu (í dag Suður-Frakkland), á austur og norðaustur Íberíuskaga, í Íberíu (í dag Georgíu) og Táris (í dag Krímskaga). Tímabilið nær frá því er grískumælandi menn settust fyrst að í Grikklandi á 2. árþúsundi f.Kr. og nær til loka fornaldar og upphafs kristni (kristni varð til áður en fornöld lauk en kristin menning er venjulega ekki talin til klassískrar fornaldarmenningar Grikklands). Flestir sagnfræðingar telja að í Grikklandi hinu forna liggi rætur vestrænnar menningar. Grísk menning hafði mikil áhrif á Rómaveldi, sem miðlaði menningunni áfram til margra landa Evrópu. Aukinheldur hafði enduruppgötvun Vestur-Evrópubúa á forngrískri menningu á 14. – 17. öld afgerandi áhrif á evrópska menningu. Hún hefur haft gríðarlega mikil áhrif á tungumál, stjórnmál, menntun, heimspeki, vísindi og listir Vesturlanda. Hún var megininnblástur endurreisnarinnar í Vestur-Evrópu en hafði aftur mikil áhrif á ýmsum nýklassískum skeiðum á 18. og 19. öld í Evrópu og Norður-Ameríku. Tímabil. Það eru engin hefðbundin ártöl sem allir eru sammála um að marki upphaf eða endi fornaldarmenningar Grikklands. Áður fyrr var miðað við upphaf Ólympíuleikanna árið 776 f.Kr. en fæstir sagnfræðingar gera það nú um mundir. Flestir láta tímabilið ná aftur til Mýkenumenningarinnar, sem hófst um 1600 f.Kr. en leið undir lok um 1150 f.Kr. Aftur á móti telja margir að hin áhrifamikla mínóíska menning, sem blómstraði einkum á Krít (og er einnig nefnd Krítarmenningin) en einnig á meginlandi Grikklands á undan Mýkenumenningunni, hafi verið svo frábrugðin grískri menningu síðari tíma að hana beri að flokka út af fyrir sig. Blómaskeið mínóísku menningarinnar endaði á 14. öld f.Kr. en menningin leið ekki endanlega undir lok fyrr en um 1200 f.Kr., skömmu áður en Mýkenumenningin leið undir lok. Eigi að síður er Mýkenumenningin gjarnan talin með Grikklandi hinu forna en ekki mínóísk menning. Við endalok Mýkenumenningarinnar (og upphaf járnaldar) hefjast svokallaðar myrkar aldir í sögu Grikklands (1100 – 800 f.Kr.) en þær einkennast af stöðnun og hnignun. Nýlendutíminn (800 – 500 f.Kr.) tekur við af myrku öldunum. Klassíski tíminn (490 – 323 f.Kr.) er talinn gullöld grískrar menningar. Helleníski tíminn fylgdi í kjölfar klassíska tímans og er venjulega talinn ná allt fram til ársins 31 f.Kr. þegar her Octavíanusar sigraði her Marcusar Antoníusar og Kleópötru við Actíum (en er stundum talinn enda árið 146 f.Kr. þegar Rómverjar náðu í reynd yfirráðum yfir Grikklandi). Eftir lok helleníska tímans er oft talað um grísk-rómverskan tíma og grísk rómverska menningu en óljóst er við hvað skal miða endalok grískrar fornaldar. Upphaf miðalda er oft miðað við „fall“ Vestrómverska ríkisins árið 476 þegar síðasta keisara Rómar, Rómúlusi Ágústusi, var steypt af stóli. Það hafði hins vegar ekki afgerandi áhrif á Grikkland sem var hluti Austrómverska ríkisins, sem féll ekki fyrr en árið 1453. Margir miða við lok 3. aldar en þá er komið fram í síðfornöld; eftir þann tíma fór í hönd hningnunarskeið í grískum bókmenntum samtímis uppgangi kristninnar, sem telst ekki til grískrar fornaldarmenningar. Einnig mætti miða við árið 640 þegar Arabar náðu grísku borginni Alexandríu í Egyptalandi á sitt vald. Uppruni. Talið er að Grikkir hafi komið niður Balkanskaga úr norðri í nokkrum bylgjum frá þriðja árþúsundi f.Kr. Síðasta bylgjan var hin svonefnda „innrás“ Dóra. Tímabilið frá 1600 f.Kr. til um 1100 f.Kr. kallast mýkenskur tími. Á þessum tíma á Agamemnon, konungur í Mýkenu, að hafa leitt grískan her til Tróju, setið um borgina og lagt hana í rúst. Frá þessu segir meðal annars í Hómerskviðum. Tíminn frá 1100 f.Kr. til 8. aldar f.Kr. er nefndur „myrkar aldir“ í sögu Grikklands en engar ritaðar heimildir eru varðveittar frá þessum tíma. Fornleifar frá þessum tíma eru einnig fátæklegar. Í síðari tíma heimildum á borð við Heródótos, Pásanías og Díodóros frá Sikiley eru stundum stutt yfirlit yfir sögu tímabilsins og konungar taldir upp. Ris Grikklands. Meyjarhofið í Aþenu var byggt á 5. öld f.Kr. Á 8. öld f.Kr. lauk myrku öldunum í sögu Grikklands, sem höfðu gengið í hönd eftir fall Mýkenumenningarinnar. Grikkir höfðu glatað þekkingu sinni á ritmálinu sem þeir bjuggu yfir áður, línuletri B, en í staðinn löguðu þeir fönikískt letur að eigin þörfum og bjuggu til grískt stafróf. Frá því um 800 f.Kr. eru til ritaðar heimildir. Grikkland var ekki stjórnmálaleg heild og skiptist upp í mörg sjálfstæð borgríki. Á þessu má finna landfræðilegar skýringar: sérhver eyja, sérhver dalur og slétta er einangruð frá nágrannabyggðum annaðhvort af hafinu eða fjallgörðum. Velmegun jókst og Grikkjum fjölgaði umfram það sem landrými leyfði (samkvæmt Mogens Herman Hansen fjölgaði Grikkjum meira en tífalt frá 800 f.Kr. til 350 f.Kr., frá því að vera um 700.000 yfir í að vera um 8-10 milljónir talsins). Um 750 f.Kr. hófst 250 ára langur nýlendutími í sögu Grikklands. Grikkir þurftu land og þeir stofnuðu nýlendur úti um allt. Í austri voru fyrstu nýlendurnar stofnaðar í Litlu Asíu (í dag Eyjahafsströnd Tyrklands). Þá stofnuðu þeir nýlendu á Kýpur og við strendur Þrakíu, við Marmarahaf og suðurströnd Svartahafs. Að endingu náðu grískar nýlendur alla leið norðaustur til Úkraínu. Í vestri stofnuðu þeir nýlendur við strendur Adríahafs (þar sem í dag eru Albanía og Serbía), á Sikiley og Suður-Ítalíu, þá á Suður-Frakklandi, Korsíku og jafnvel norðaustur Spáni. Grikkir stofnuðu einnig nýlendur á Norður-Afríku, í Egyptalandi og Líbýu. Borgirnar Sýrakúsa, Napólí, Marseille og Istanbúl eiga rætur að rekja til grískra nýlendubyggða: Sýrakúsa, Neapólis, Massilía og Býzantíon. Á 6. öld f.Kr. var Grikkland orðið að mál- og menningarsvæði sem var miklu stærra en Grikkland nútímans. Grískar nýlendur lutu ekki stjórn móðurborganna en héldu oft tengslum við þær, bæði trúarlegum og viðskiptalegum. Jafnt heima sem að heiman skipulögðu Grikkir sig í sjálfstæð samfélög og borgríkið ("polis") varð grundvallareining grískrar stjórnsýslu. Á þessum tíma voru miklar efnahagslegar framfarir í Grikklandi og í nýlendunum og jókst einkum verslun og iðnaður. Lífsgæði jukust einnig töluvert. Sumar rannsóknir benda til þess að meðalstærð grísks heimilis hafi fimmfaldast á tímabilinu frá 800 f.Kr. til 300 f.Kr. Á efnahagslegum hátindi sínum á 4. öld f.Kr. var gríska hagkerfið það þróaðasta í heimi. Sumir sagnfræðingar telja það hafa verið eitt þróaðasta hagkerfi fyrir iðnbyltinguna. Þetta sést meðal annars á meðaldaglaunum grískra verkamanna. Þau voru um fjórum sinnum hærri (í korni talið um 13 kg) en laun egypskra verkamanna (um 3 kg). Stjórnmál. Upphaflega voru grísku borgríkin konungdæmi en mörg þeirra voru afar lítil og hugtakið „konungur“ ("basileus") getur gefið villandi mynd af valdhöfunum. Völdin voru að verulegu leyti hjá fámennum hópum landeigenda, enda var ávallt skortur á og mikil eftirspurn eftir landi. Þessir landeigendur urðu að aðli sem barðist oft innbyrðis um jarðnæði. Um svipað leyti varð til stétt verslunarmanna (eins og ráða má af tilurð myntpeninga um 680 f.Kr.). Í kjölfarið urðu stéttaátök tíð í stærri borgum. Frá 650 f.Kr. varð aðallinn að berjast til að verða ekki velt úr sessi og til að missa ekki völdin til konunga ("tyrranos"; orðið getur þýtt konungur eða harðstjóri). Á 6. öld f.Kr. voru nokkur borgríki orðin ráðandi í Grikklandi: Aþena, Sparta, Kórinþa og Þeba. Þau höfðu öll náð völdum yfir sveitunum í kringum sig og smærri borgum í nágrenni við sig. Aþena og Kórinþa voru orðin mikil sjóveldi og verslunarveldi að auki. Aþena og Sparta urðu keppinautar í stjórnmálum en metingur þeirra varði lengi og hafi mikil áhrif á grísk stjórnmál. Í Spörtu hélt landeignaraðallinn völdum og völd þeirra voru treyst í stjórnarskrá Lýkúrgosar (um 650 f.Kr.). Sparta komst undir varanlega herstjórn með tveimur konungum. Sparta drottnaði yfir öðrum borgríkjum á Pelópsskaga, að Argos og Akkaju undanskildum. Konungdæmið var á hinn bóginn lagt niður í Aþenu árið 683 f.Kr. og umbætur Sólons komu á hófstilltri stjórn aðalsins. Aðalsmenn misstu síðar völdin í hendur harðstjórans Peisistratosar og sona hans, sem gerðu borgina að miklu sjó- og verslunarveldi. Þegar sonum Peisistratosar var velt úr sessi kom Kleisþenes á fyrsta lýðræði heims í Aþenu (500 f.Kr.). Þjóðfundur allra frjálsra borgara (karla) fór með völdin. Þó ber að hafa í huga að einungis hluti af karlmönnum borgarinnar höfðu borgararéttindi; þrælar, frelsingjar og aðfluttir nutu ekki stjórnmálaréttinda. Persastríðin. Í Jóníu (í dag Eyjahafsströnd Tyrklands) gátu grísku borgríkin, þeirra á meðal miklar menningarmiðstöðvar á borð við Míletos og Halikarnassos, ekki haldið sjálfstæði sínu og komust undir stjórn Persaveldis á síðari helmingi 6. aldar f.Kr. Árið 499 f.Kr. gerðu Grikkir uppreisn, jónísku uppreisnina, og Aþena ásamt öðrum grískum borgum kom þeim til hjálpar. Dareios I Persakonungur bældi uppreisnina niður og að því loknu, árið 490 f.Kr., sendi hann flota til meginlands Grikklands til að refsa Grikkjunum. Persarnir stigu fæti á Attíkuskaga en voru sigraðir í orrustunni við Maraþon af grískum her undir stjórn aþenska herforingjans Míltíadesar. Tíu árum síðar sendi sonur Dareiosar, Xerxes I, miklu stærri her landleiðina til Grikklands. Spartverski konungurinn Leonídas I tafði framgöngu persneska hersins við Laugaskörð en Persar gátu á endanum sigrað spartverska herinn. Xerxes hélt áfram til Attíkuskaga, þar sem hann tók Aþenu og brenndi hana. Aþeningar höfðu flúið borgina sjóleiðina. Undir stjórn Þemistóklesar sigruðu þeir persneska flotann við Salamis. Ári síðar sigruðu Grikkir undir stjórn spartverska herforingjans Pásaníasar Persana endanlega við Plataju. Aþenski flotinn veitti þá persneska flotanum eftirför á Eyjahafi og árið 478 f.Kr. náðu þeir borginni Býzantíon. Aþena myndaði nú bandalag með öllum eyríkjunum og nokkrum bandamönnum á meginlandinu og kallaði það Deleyska sjóbandalagið af því að fjárhirslur bandalagsins voru á eynni Delos. Spartverjar tóku á hinn bóginn upp einangrunarstefnu og leyfðu Aþenu að koma á fót sjó- og verslunarveldi sínu í friði. Gullöld Aþenu. Í kjölfar Persastríðanna varð Aþena allsráðandi í grískum stjórnmálum. Veldi Aþenu var óskorað á sjó en Aþena var einnig helsta viðskiptaveldi Grikklands, þótt Kórinþa veitti verðuga samkeppni. Mesti stjórnmálamaður þessa tíma var Períkles, sem veitti fjármununum sem aðildarríki Deleyska sjóbandalagsins greiddu til þess að byggja upp Aþenu, meðal annars Meyjarhofið og aðra minnisvarða í borginni. Um miðja 5. öld f.Kr. var sjóbandalagið orðið að aþensku veldi og til marks um það var flutningur fjárhirslu bandalagsins frá Delos í Meyjarhofið árið 454 f.Kr. Auður Aþenu laðaði hæfileikaríkt fólk hvaðanæva að frá Grikklandi og skóp einnig auðuga yfirstétt sem studdi við listamenn. Aþenska ríkið studdi einnig menntun og listir, einkum byggingarlist. Aþena varð miðstöð grískra bókmennta, heimspeki (sjá gríska heimspeki) og lista (sjá gríska leikritun). Margar af þekktustu persónum Vestrænnar menningar bjuggu í Aþenu á þessum tíma: harmleikjaskáldin Æskýlos, Sófókles og Evripídes, gamanleikjaskáldið Aristófanes, heimspekingarnir Anaxagóras, Sókrates, Platon og Aristóteles, sagnaritararnir Heródótos, Þúkýdídes og Xenofon, skáldin Símonídes og myndhöggvarinn Feidías. Borgin varð, með orðum Períklesar, „skóli Grikklands“. Önnur ríki Grikklands sættu sig í fyrstu við forystu Aþenu í áframhaldandi átökum við Persa en eftir að íhaldsmaðurinn Kímon hrökklaðist frá völdum árið 461 f.Kr. varð heimsveldisstefna Aþenu sífellt opinskárri. Eftir sigur Grikkja í orrustunni við Evrýmedon árið 466 f.Kr. voru Persar ekki lengur ógn og sum ríki, eins og Naxos, reyndu að ganga úr Deleyska sjóbandalaginu en voru neydd til þess að láta af slíkum tilraunum. Hinir nýju leiðtogar Aþenu, Períkles og Efíaltes, leyfðu samskiptum Aþenu og Spörtu að versna og árið 458 f.Kr. braust út stríð. Nokkrum árum síðar höfðu átökin litlu breytt um valdajafnvægið og samið var um 30 ára frið milli Deleyska sjóbandalagsins og Pelópsskagabandalagsins (þ.e. Spörtu og bandamanna hennar). Á sama tíma var háð síðasta orrustan milli Grikkja og Persa, sjóorrusta við Salamis á Kýpur. Í kjölfar hennar var samið um frið, Kallíasarfriðinn svonefnda, árið 450 f.Kr. milli Grikkja og Persa. Pelópsskagastríðið. Árið 431 f.Kr. braust stríð út að nýju milli Aþenu og Spörtu og bandamanna þeirra. Heimildum ber ekki saman um tilefni stríðsins. Aftur á móti eru fornir sagnaritarar (Þúkýdídes og Plútarkos) sammála um þrjár meginorsakir stríðsins. Fyrir stríðið kom upp deila milli Kórinþu og einnar af nýlendum hennar, Korkýru (í dag Korfú) og Aþena blandaði sér í málið. Skömmu síðar kom upp deila milli Kórinþu og Aþenu um yfirráð yfir Pótidaju, sem leiddi á endanum til þess að Aþeningar sátu um Pótidaju. Að lokum gáfu Aþeningar út nokkrar efnahagslegar tilskipanir sem eru þekktar sem „Megörutilskipanirnar“ en samkvæmt þeim var borgin Megara beitt viðskiptaþvingunum. Ríki Pelópsskagabandalagsins sökuðu Aþenu um að brjóta gegn friðarsamningum þrjátíuára friðarins með öllum áðurnefndu gjörðum sínum og Sparta lýsti yfir stríði á hendur Aþenu. Margir sagnfræðingar telja þetta einungis vera tilefni stríðsins. Þeir færa rök fyrir því að undirliggjandi orsakir hafi verið síaukinn pirringur Spartverja og bandamanna þeirra á yfirgangi Aþenu í grískum stjórnmálum. Stríðið varði í 27 ár, að hluta til vegna þess að Aþena (sjóveldi) og Sparta (hernaðarveldi á landi) áttu erfitt með að ná tökum hvor á annarri. Hernaðaráætlun Spörtu var í upphafi sú að gera innrás á Attíkuskaga en Aþeningar gátu hörfað inn fyrir borgarmúrana. Plága braust út í Aþenu meðan á umsátrinu stóð og olli miklu mannfalli. Períkles var meðal þeirra sem létust. Á sama tíma setti aþenski flotinn menn á land á Pelópsskaga og vann sigur í orrustunum við Nápaktos (429 f.Kr.) og Pýlos (425 f.Kr.). En hvorugur aðilinn gat unnið fullnaðarsigur. Eftir nokkurra ára stríð samdi aþenski stjórnmálamaðurinn Níkías um frið sem við hann er kenndur árið 421 f.Kr. Árið 418 f.Kr. brutust þó átök út að nýju milli Spörtu og bandamanna Aþenu í Argos og rofnaði þá friðurinn milli Aþenu og Spörtu. Sparta sigraði sameiginlegan her Aþenu og bandamanna hennar í Orrustunni við Mantineu. Stríðsæsingamenn komust aftur til valda í Aþenu í kjölfarið. Leiðtogi þeirra var Alkibíades. Árið 415 f.Kr. sannfærði Alkibíades Aþeninga um að senda herlið til Sýrakúsu, bandamanna Spörtu á Sikiley. Þótt Níkías hafi verið fullur efasemda um Sikileyjarleiðangurinn var honum falið að stjórna leiðangrinum ásamt Alkibíadesi. Þegar Alkibíades var borinn sökum í hneykslismáli flúði hann til Spörtu og sannfærði Spartverja um að senda hjálparsveitir til Sýrakúsu. Afleiðingin varð sú að leiðangurinn misheppnaðist algerlega og allt herlið Aþenu var þurrkað út. Níkías var tekinn höndum og tekinn af lífi. Þegar hér er komið sögu hafði Sparta byggt flota (með hjálp Persa) og ógnaði nú yfirráðum Aþenu á sjónum. Spartverjar höfðu framúrskarandi herforingja að nafni Lýsandros. Hann hernam Hellusund og kom þannig í veg fyrir að Aþena gæti flutt inn korn frá botni Svartahafs. Aþeningar sáu nú fram á hungursneyð og sendu síðasta flota sinn gegn Lýsandrosi, sem vann afgerandi sigur í orrustunni við Ægospotamí (405 f.Kr.). Aþena hafði nú misst flota sinn og var nærri gjaldþrota. Árið 404 f.Kr. leituðu Aþeningar friðar og Sparta setti fyrirsjáanlega ströng skilyrði fyrir friði: Aþena missti borgarmúra sína, flota sinn og allar eigur sínar erlendis. Andlýðræðisleg öfl tóku völdin í Aþenu með stuðningi Spörtu. Veldi Spörtu og Þebu. Við lok Pelópsskagastríðsins var Sparta valdamesta borgríki Grikklands en þröngsýni spartversku hernaðarelítunnar reyndist Spörtu fjötur um fót. Innan nokkurra ára höfðu lýðræðissinnar á ný náð völdum í Aþenu og öðrum borgum. Árið 395 f.Kr. viku spartversk stjórnvöld Lýsandrosi úr starfi og Sparta varð af yfirráðum sínum á sjó. Aþena, Argos, Þeba og Kórinta kepptu við Spörtu um yfirráð en Þeba og Kórinta höfðu áður verið bandalagsríki Spörtu í Kórintustríðinu, sem lauk árið 387 f.Kr. án sigurs. Sama ár kom Sparta öðrum grískum borgríkjum rækilega á óvart með Antalkídasarsáttmálanum við Persa, en samkvæmt honum létu Spartverjar Persum eftir grísku borgirnar í Jóníu og á Kýpur. Þannig var aldarlöngum sigri Grikkja á Persum snúið við. Sparta reyndi síðan að veikja veldi Þebu, sem leiddi til stríðs þar sem Þeba myndaði bandalag með fyrrum óvinum Spörtu, Aþenu. Þebversku hershöfðingjarnir Epamínondas og Pelopídas unnu afgerandi sigur í orrustunni við Levktra 371 f.Kr. Í kjölfar orrustunnar lauk stórveldistíma Spörtu en stórveldistími Þebu hófst. Aþena endurheimti að miklu leyti þau völd sem hún hafði áður haft vegna þess að stórveldistími Þebu var stuttur. Þegar Epamínondas lést í orrustunni við Mantineu 362 f.Kr. missti borgin mesta leiðtoga sinn og eftirmenn hans létu leiðast út í tíu ára langt stríð gegn Fókis sem hafði ekkert upp úr sér. Árið 346 f.Kr. leituðu Þebverjar til Filipposar II í Makedóníu og báðu hann um hjálp í átökunum gegn Fókis og blönduðu þannig Makedóníu í grísk stjórnmál í fyrsta sinn. Uppgangur Makedóníu. Konungdæmið Makedónía varð til á 7. öld f.Kr. Það kom lítið við sögu í grískum stjórnmálum fyrir 5. öld f.Kr. Filippos konungur Makedóníu var metnaðargjarn maður sem hafði hlotið menntun sína í Þebu. Í upphafi 4. aldar f.Kr. vildi hann auka ítök sín á Grikklandi. Einkum vildi hann hljóta viðurkenningu sem nýr leiðtogi Grikklands í baráttunni fyrir frelsi grísku borgríkjanna í Litlu Asíu undan stjórn Persa. Með því að taka borgirnar Amfipolis, Meþone og Potidaja náði hann völdum yfir gull- og silfurnámum Makedóníu. Með þessu hafði hann orðið sér úti um auðlindir sem hann gat nýtt til að gera draum sinn að veruleika. Filippos náði yfirráðum yfir Þessalíu 352 f.Kr. og Þrakíu og árið 348 f.Kr. réð hann yfir öllu landsvæðinu norðan Laugaskarða ("Þermopylai"). Hann nýtti auð sinn til að múta grískum stjórnmálamönnum og kom á fót „makedónskum stjórnmálaflokki“ í öllum grískum borgríkjum. Afskipti hans af stríðinu milli Þebu og Fókis færðu honum mikla virðingu og gáfu honum tækifæri á að ná miklum áhrifum í grískum stjórnmálum. Aþenski stjórnmálamaðurinn Demosþenes hvatti Aþeninga til þess að standa gegn áhrifum Filipposar í frægum ræðum (filippísku ræðunum). Árið 339 f.Kr. mynduðu Þeba og Aþena bandalag gegn síauknum áhrifum Filipposar. Filippos rést gegn þeim og hélt inn í Grikkland og sigraði bandalagsríkin í orrustunni við Kæróneu árið 338 f.Kr. Venjulega er litið svo á að hningnun borgríkisins hafi hafist eftir ósigurinn við Kæróneu, enda þótt borgríkin hafi að mestu leyti verið sjálfstæð ríki allt þar til Rómverjar náðu yfirráðum. Filippos reyndi að heilla Aþeninga með gjöfum en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann kom á fót Kórintubandalaginu og tilkynnti að hann myndi ráðast gegn Persíu til þess að frelsa grísku borgríkin og hefna fyrir innrásir Persa á öldinni sem leið. En áður en hann gat komið áformum sínum í verk var hann ráðinn af dögum 336 f.Kr. Veldi Alexanders mikla. Tvítugur sonur Filipposar, Alexander, tók við að föður sínum. Hann hóf þegar í stað að undirbúa það að hrinda í framkvæmd áformum föður síns. Hann fór til Kórintu þar sem grísku borgríkin viðurkenndu hann sem leiðtoga Grikkjanna en hélt síðan norður til að gera her sinn reiðubúinn. Herinn sem hann hélt með til Persíu var í meginatriðum makedónskur her, en margir hugsjónarmenn frá öðrum borgríkjum gengu í herinn. En þegar Alexander var önnum kafinn í Þrakíu barst honum fregn um uppreisn grísku borgríkjanna. Hann hélt suður í skyndi, hertók Þebu og jafnaði borgina við jörðu, öðrum grískum borgum víti til varnaðar. Árið 334 f.Kr. hélt Alexander til Litlu Asíu og sigraði Persa við ána Granikos. Þar með réð hann yfir jónísku strandlengjunni og hann fór sigurför um grísku borgirnar sem hann hafði frelsað. Þegar hann hafði útkljáð mál í Litlu Asíu hélt hann suður á bóginn gegnum Kilikíu inn í Sýrland, þar sem hann sigraði Dareios III í orrustunni við Issos 333 f.Kr. Þá hélt hann í gegnum Fönikíu til Egyptalands, sem hann náði á sitt vald án mikillar mótspyrnu. Egyptar tóku vel á móti honum sem frelsara undan kúgun Persa. Dareios var nú viljugur til þess að semja um frið og Alexander hefði getað haldið heim sigri hrósandi. En Alexander var staðráðinn í að leggja undir sig Persíu og gerast sjálfur herra. Hann hélt í norðaustur gegnum Sýrland og Mesópótamíu og sigraði Dareios aftur í orrustunni við Gaugamela 331 f.Kr. Dareios flúði og var drepinn af eigin þegnum. Alexander var nú herra yfir öllu Persaveldi og réði yfir Susa og Persepolis án mótspyrnu. Grísku borgríkin voru enn á ný að reyna að komast undan stjórn Makedóníu. Í orrustunni við Megalopolis árið 331 f.Kr. sigraði Antipater, fulltrúi Alexanders, Spartverja, sem höfðu neitað að ganga í Kórintubandalagið og viðurkenna yfirráð Makedóníu. Alexander hélt lengra í austur, þangað sem nú eru Afganistan og Pakistan, allt að Indusdalnum, og 326 f.Kr. hafði hann náð til Punjab héraðs. Hann hefði getað lagt leið sína niður meðfram Ganges til Bengal hefði ekki herinn, sem var fullviss um að hann væri á endimörkum heimsins, neitað að fara lengra. Alexander sneri aftur nauðugur viljugur og lést úr hitasótt í Babýlon árið 323 f.Kr. Veldi Alexanders leystist upp skömmu eftir andlát hans en landvinningar hans breyttu Grikklandi varanlega. Þúsundir Grikkja ferðuðust með honum eða á eftir honum til að nema land eða flytjast til nýrra grískra borga sem hann hafði stofnað. Mikilvægust þessara borga var Alexandría í Egyptalandi. Grískumælandi konungdæmi voru stofnuð í Egyptalandi, Sýrlandi, í Íran og Baktríu. Helleníski tíminn var hafinn. Samfélag. Ein helstu einkennin á forngrísku samfélagi voru skiptingin í frjálsborna menn og þræla, ólík staða kynjanna, tiltölulega lítil stéttarskipting á grundvelli ætternis og mikilvægi trúarbragða. Lifnaðarhættir í Aþenu voru dæmigerðari en einkennileg samfélagsgerð Spörtu. Samfélagsgerð. Einungis frjálsir menn höfðu full borgaraleg réttindi í borgríkinu. Í flestum borgríkjum, ólíkt Róm, fylgdu engin lagaleg forréttindi hárri samfélagsstöðu. Til dæmis fylgdu engin forréttindi því að fæðast inn í tiltekna fjölskyldu. Stundum sáu tilteknar fjölskyldur um opinberar trúarathafnir en venjulega fylgdu því engin völd. Í Aþenu var íbúum skipt í fjórar stéttir eftir efnahag. Fólk gat skipt um stétt ef það eignaðist pening. Í Spörtu hlutu allir karlkyns borgarar titilinn „jafningi“ ef þeir luku menntun sinni. Konungar Spörtu, sem voru tveir og sáu um herstjórn og trúmál í borginni, komu úr tveimur tilteknum fjölskyldum. Þrælar höfðu hvorki völd né stöðu. Þeir áttu rétt á að stofna fjölskyldu og eiga eignir en höfðu engin pólitísk réttindi. Um 600 f.Kr. hafði vinnuþrælkun breiðst út um allt Grikkland. Á 5. öld f.Kr. voru þrælar um þriðjungur alls fólksfjöldans í sumum borgríkjum. Þrælar utan Spörtu gerðu nær aldrei uppreisn af því að þeir voru af of mörgum þjóðernum og voru of dreifðir til að geta tekið höndum saman. Flestar fjölskyldur áttu þræla sem sáu um heimilið og almenna vinnu. Jafnvel fátækar fjölskyldur gátu átt einn eða tvo þræla. Eigendum var ekki frjálst að berja eða drepa þræla sína. Eigendur lofuðu oft að veita þrælum sínum frelsi síðar meir til að hvetja þrælana til að leggja harðar að sér. Ólíkt því sem gerðist í Róm hlutu þrælar sem var veitt frelsi ekki borgararéttindi. Í staðinn urðu þeir hluti af stétt réttindalausra þegna ásamt aðfluttu fólki frá öðrum löndum eða öðrum borgríkjum sem bjó í borginni. Borgríkin sjálf áttu einnig þræla. Þessir opinberu þrælar voru sjálfstæðari en þrælar í einkaeign og bjóu í eigin heimilum og önnuðust sérhæfð störf. Í Aþenu voru þrælar hins opinbera meðal annars þjálfaðir í að vera á varðbergi gagnvart fölsuðum peningum en hofþrælar þjónuðu guði tiltekins hofs. Í Spörtu var sérstök tegund þræla sem nefndir "helótar". Helótar voru grískir stríðsfangar í eigu ríkisins en lánaðir út til fjölskyldna. Þeir sáu um jarðrækt og unnu húsverk svo að konurnar gætu einbeitt sér að því að ala upp hraust börn. Karlarnir vörðu tíma sínum í þjálfun sem hoplítar og stunduðu hernað. Eigendur helóta voru helótum strangir og helótanir gerðu oft uppreisn. Daglegt líf. Daglegt líf í grísku borgríkjunum hélst lengi óbreytt. Fólk sem bjó innan borgarmarkanna bjó í lágum sambýlishúsum eða einbýlishúsum eftir því hvernig fjárhagur þess var. Íbúðarhús, opinberar byggingar og hof voru byggð í kringum torgið ("agora"). Fólk bjóu einnig í smærri þorpum og á sveitasetrum um sveitir landsins. Í Aþenu bjór meirihluti fólksins utan borgarmarkanna (það er giskað á að af 400.000 íbúum hafi 160.000 manns búið innan borgarmúranna en það er mikil borgarmyndun miðað við óiðnvætt samfélag). Venjulegt grískt heimili var einfalt miðað við nútímaheimili. Á heimilinu voru svefnherbergi, geymslur og eldhús umhverfis innri garð. Meðalstærð heimilis var um 230 m² á 4. öld f.Kr. og var það töluvert stærra en híbýli annarra samfélaga, sem bendir til betri hags borgaranna. Á heimili bjuggu tveir foreldrar ásamt börnum sínum en venjulega engir aðrir ættingjar. Karlar unnu fyrir fjölskyldunni en konur héldu heimilið og sáu um þrælana. Þrælarnir sóttu vatn í krukkur úr opinberum brunnum, elduðu, þrifu og höfðu auga með börnunum. Karlar höfðu aðskilin herbergi til að taka á móti gestum vegna þess að karlkyns gestir máttu ekki vera í herbergjum þar sem konur og börn vörðu sínum tíma. Auðugir karlar buðu stundum vinum sínum í heimsókn á samdrykkjur. Olíulampar voru notaðir til lýsingar en á lömpunum var ólífuolía. Húsin voru hituð með því að brenna kol. Húsgögn voru einföld og fá, oftast stólar, borð og rekkjur. Kringlukastarinn eftir Mýron, endurgerð frá 2. öld e.Kr. Flestir Grikkir unnu við landbúnað, ef til vill 80% fólksfjöldans, sem er svipað hlutfall og í flestum óiðnvæddum samfélögum. Jarðvegurinn á Grikklandi er sjaldan frjór og regn ófyrirsjáanlegt. Rannsóknir benda til þess að veðurfar hafi lítið breyst frá því í fornöld. Því þurfti að líkindum oft að grisja og plægja. Nautgripir voru nýttir til að plægja akurinn en flest var unnið með berum höndum. Grískir bændur reyndu að eiga korn afgangs til að geta lagt af mörkum á hátíðum og til að geta keypt leirker, fisk, salt og málmhluti. Forngrískur matur var einnig fábrotinn. Fátækt fólk át einkum bygggraut með lauk, ávexti og ost eða ólífuolíu. Fáir átu kjöt reglulega, nema þegar dýrum var fórnað á opinberum hátíðum. Bakarar seldu nýbökuð brauð daflega. Vín þynnt með vatni var algengasti drykkurinn. Grískur fatnaður tók litlum breytingum í gegnum tímann. Bæði karlar og konur klæddust stuttum kytrlum. Kyrtlarnir voru oft litríkir. Um mittið hafði fólk belti. Í köldu veðri klæddist fólk kápum og hafði húfur eða hatta en í heitu veðri klæddist það sandölum í stað leðurstígvéla. Konur báru skartgripi og settu á sig andlitsfarða - einkum púður sem gerði húðina ljósari álitum. Karlar létu sér vaxa skegg þangað til Alexander mikli kom af stað þeirri tísku að raka sig. Forngrísk læknislist var afar takmörkuð. Hippókrates átti mikinn þátt í því að skilja að hjátrú og læknismeðferð á 5. öld f.Kr. Jurtameðferð var beitt til að draga úr sársauka og læknar gátu framkvæmt uppskurð í einhverjum tilvikum. En þeir áttu engin ráð gegn sýkingum svo að jafnvel heilbrigðir einstaklingar gátu dáið mjög skyndilega úr sýkingu óháð aldri. Karlar stunduðu líkamsrækt á hverjum degi til að halda sér hraustum og reiðubúnum til að gegna herþjónustu. Næstum því hvert einasta borgríki átti að minnsta kosti einn líkamsræktarsal, þar sem einnig var baðaðstaða, fyrirlestrasalur og garður. Í flestum borgum (að Spörtu undanskilinni) máttu einungis karlar æfa í líkamsræktarsölunum og menn voru naktir þegar þeir æfðu. Hátíðir á vegum ríkisins veittu afþreyingu og skemmtun. Guðirnir voru heiðraðir með keppnum í tónlist, leiklist og kveðskap. Aþeningar montuðu sig af því að í þeirra borg væri hátíð næstum því annan hvern dag. Stórar samgrískar hátíðir voru haldnar í Ólympíu, Delfí, Nemeu og Isþmíu. Íþróttamenn og tónlistarmenn sem unnu þessar keppnir gátu orðið ríkir og frægir. Dýrasta og vinsælasta keppnisgreinin var kappreiðar. Menntun. Lengst af í fornaldarsögu Grikklands var menntun ekki á vegum hins opinbera, nema í Spörtu. Á helleníska tímanum stofnuðu sum borgríki opinbera skóla. Einungis auðugar fjölskyldur höfðu efni á að ráða kennara. Drengir lærðu að lesa, skrifa og vitna í bókmenntir. Þeir lærðu einnig að syngja og leika á hljóðfæri og hlutu þjálfun í íþróttum til að undirbúa þá fyrir herþjónustu. Þeir námu ekki til að undirbúa sig fyrir starf, heldur til að verð a nýtir þjóðfélagsþegnar. Stúlkur lærðu einnig að lesa, skrifa og einfaldan reikning svo þær gætu séð um heimilið. Þær hlutu nánast aldrei menntun eftir barnæsku. Lítill hluti drengja hélt menntun sinni áfram eftir barnæsku. Til dæmis má nefna herskóla Spartverja. Á táningsárum námu þeir heimspeki en það hún var hugsuð sem sðferðismenntun fyrir lífið, og mælskufræði svo þeir gætu flutt góðar og sannfærandi ræður fyrir dómstólum eða á þingi. á klassíska tímanum var þessi menntun nauðsynleg sérhverjum metnaðarfullum ungum manni. Samskipti auðugra drengja við eldri lærimeistara var snar þáttur í menntun þeirra. Unglingurinn lærði af því að fylgjast með lærimeistara sínum ræða um stjórnmál á torginu, með því að aðstoða hann við að rækja borgaralegar skyldur sínar, með því stunda æfingar með honum í líkamsræktinni og með því að fylgja honum á samdrykkjur. Ríkustu nemendurnir héldu áfram í framhaldsnám í skóla í einhverri stórborg. Skólarnir voru reknir af frægum kennurum. Meðal frægra skóla í Aþenu voru Akademían og Lykeion. Lýrufuglar. Lýrufuglar (fræðiheiti: "Menuridae") eru ætt spörfugla, sem telur aðeins tvær tegundir, skartlýrufugl ("Menura novahollandiae") og prinslýrufugl ("Menura alberti") sem báðar lifa í Ástralíu. Stundum eru lýrufuglar flokkaðir í sér undirættbálk ásamt kjarrhölum. Á mörgum myndum af skartlýrufuglum eru þeir með stélfjaðrinnar upp eins á páfugli en í raun leggja þeir þær alveg yfir sig. Skartlýrufuglar herma stundum eftir hljóðum. Lýrufuglar voru lengi veiddir vegna fjaðranna og eru þeir núna sjaldgæfir. Lítið er vitað um hinn mannfælna prinslýrufugl. Fimmundahringurinn. Fimmundarhringurinn er hringur sem notaður er í tónfræði til að átta sig á tengslum milli tóntegunda. Á utanverðum hringnum eru merktar inn dúr tóntegundir og í innanverðum hringnum eru sammarka moll tóntegundir. Eins og sjá má á myndinni hefst hringurinn á C dúr/a moll þar sem þessar tóntegundir hafa engin föst formerki. Farið er síðan upp og niður í fimmundum sitt hvoru megin niður hringinn og bætist eitt formerki við í hverju skrefi. Fimmund upp er G dúr/e moll með einum krossi og fimmund niður er F dúr/d moll með einu béi. Matur. Matur er hvert það efni sem menn borða og drekka sér til næringar og ánægju. Það sem önnur dýr éta er hins vegar kallað fæða eða fóður. Efnafræðilega er uppistaðan í flestum mat vatn, kolvetni, fita og prótín. Flest af því sem fólk hefur til matar eru afurðir jurta eða dýra, þótt til sé matur unninn úr sveppum; til dæmis áfengi sem er afurð gersvepps. Elsta aðferðin við öflun matvæla er með veiðum og söfnun. Í dag nota þó flest mannleg samfélög fjölda aðferða, svo sem landbúnað, eldi og fiskveiðar, og þótt veiðar og tínsla þekkist meðfram þá eru þessar aðferðir ekki uppistaðan í matvælaöflun nútímasamfélaga. Menningarsamfélög eiga sér yfirleitt greinilega matarhefð, safn hefðbundinna matreiðsluaðferða, geymsluaðferða og matarsmekk sem er rannsóknarefni matreiðslufræði. Mörg samfélög búa við gríðarlega fjölbreytni í mat, bæði hvað varðar framleiðslu, vinnslu og matreiðslu. Þessi fjölbreytni stafar meðal annars af virkum matvælamarkaði sem er meginuppistaða útflutnings í mörgum löndum. Í mörgum samfélögum eru stundaðar rannsóknir á matarvenjum. Þótt menn séu alætur, þá hafa trúarbrögð og önnur félagsleg atriði, eins og t.d. siðferði, mikil áhrif á það hvaða matar er neytt. Áhyggjur af mataröryggi stafa meðal annars af matareitrunum sem valda mörgum dauðsföllum árlega. Einnig eru matarvenjur rannsakaðar út frá hollustu og hættunni á lífstílssjúkdómum. Margar fræðigreinar fást við rannsóknir á mat. Nokkrar þær helstu eru næringarfræði, matvælafræði og matreiðslufræði. Söguleg þróun. Menn eru alætur dýr sem geta neytt hvorttveggja afurða af jurtum og dýrum. Vísbendingar þykja benda til þess að í frumdaga manneskjunnar hafi menn nýtt veiðimensku og söfnun við frum fæðuöflun; notað staðbundnar jurtir og drepið dýr. Talið er að síðar hafi menn nýtt eld við matreiðslu er maðurinn þróaðist frá Homo erectus, þó er ekki loku fyrir það skotið að eldun hafi hafist fyrr. Í það minnsta fyrir tíu þúsund árum hafði maðurinn þróað landbúnað. Hafði það mannfjölgun í för með sér, myndun borga og aukna útbreiðslu smitsjúkdóma. Matarneysla og eldun hefur breyst, með tíma, staðsetningu og menningu. Málsverðir. Skammtur matar sem borinn er á borð er málsverður. Tíminn sem menn borða/snæða málsverð er máltíð. Máltíð er félagsleg athöfn, oft þáttur í menningar- eða trúartengdum athöfnum. Málsverður nýtist hvort sem er einstaklingum ellegar fleira fólki til næringar. Fjöldi málsverða sem neytt er af einstaklingum á einum degi, magn, samsetning og tímasetning þeirra er breytileg. Fjölbreytnin getur skýrst af staðbundnum þáttum á borð við loftslag, umhverfi, hagsæld, menningu, hefð og iðnvæðingu. Í samfélögum hvar framboð matar hefur aukist til muna eru málsverðir seldir forsteiktir, tilbúnir til neyslu á veitningastöðum og öðrum sambærilegum smásölustöðum. Matarframleiðsla og öflun matar. Matar hefur verið aflað með búskap, fiskveiðum sem og öðrum veiðum og söfnun auk annarra aðferða sem hafa staðbundið mikilvægi en skipta ekki máli fyrir aðra. Nú til dags meðal þróðaðra þjóða er framboð matvæla í væxandi mæli byggt á landbúnaðar, stórbúskap, fiskeldi og fiskveiði tækni. Tækni sem miðar að hámörkun magns framleiddra matvæla, með sem minnstum tilkostnaði, með hagnýtingu vélbúnaðar. Nýting verkfæra og skordýraeiturs leiðir til aukins afraksturs ólíkt skordýrum og spendýrum sem draga úr afrakstri. Nýlega hefur sjálfbærum landbúnaði vaxið ásmegin, vegna krafna neytenda. Sjálfbær landbúnaður felur í sér líf-fjölbreytni, staðbundna sjálfbærni og lífræna ræktun. Alþjóðaviðskiptastofnunin og Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópu sambandsins hafa víða áhrif á framleiðslu matvæla, sama má segja um þjóðríki, lög og stríð. Sá "matur" sem búfénaður étur er fóður og innheldur venjulega hey eða korn. Matreiðsla. Þó sumra matartegunda geti verið neytt án matreiðslu, er nauðsynlegt að meðhöndla mörg matvæli áður en þeirra er neytt, hvort sem er af öryggis ástæðum eða með hliðsjón af lystfengni matarins, með því að bæta/auka bragð. Einfaldasta matreiðsla getur falið í sér, þvott, skurð, hreinsun eða viðbót annarra matvæla eða kryddjurta. Einnig getur eldun, hitun, kæling, gerjun eða blöndun við annan mat talist til einfaldrar matreiðslu. Mest öll matreiðsla fer fram í eldhúsi. Matvælaframleiðsla. Framan af takmarkaðist matvæla framleiðsla af þeim aðferðum sem þekktust og voru notaðar til geymslu á matvælum, pökkun þeirra og flutning. Fólst framleiðslan aðalega í söltun, kryddun, þurrkun, lageringu og reykingu. Með iðnbyltingunni, nýrri tækni og stærri mörkuðum, jókst matvælaframleiðsla. Geymsluaðferðir bötnuðu, pökkun og merking matvæla batnaði sem og flutningur matvæla. Í upphafi 21. aldarinnar eru nokkrir stórir fjölþjóðlegrir matvæalaframleiðslurisar sem skarta mörgum vel þekktum vörumerkjum. Matvælatækni. Við matvælaframleiðslu eru margskonar tækni notuð til að auka gæði, öryggi lengja neyslu tíma og draga úr kostnaði. Tæknin er nýtt við framleiðslu og vinnslu matvæla, pökkun, flutning og dreifingu. Verslun með mat. Vörumerki eru áberandi á matvælum Matur er verslunarvara á heimsmarkaði. Úrval matvæla takmarkast ekki lengur af staðbundinni fábreytni eða skömmum ræktunar tíma. Frá 1961 til 1999 óx útflutningur matvæla um 400%. Sum ríki reiða sig á útflutning matvæla. Alþjóðaviðskiptastofnuninni er ætlað að koma á frjálsum viðskiptum. Smásala. Á tímum sjálfsþurftarbúskapar var verslun með mat í lágmarki, hvert bú framleiddi fyrir sig, síðar, með sérhæfingu, fluttu framleiðendur mat á markað hvar þeir áttu í viðskiptum við verslunarmenn. Á tímum einokunar fluttu bændur umframframleiðslu býlisins til kaupmannsins og tóku út þá voru sem þá vanhagaði um. Í Evrópu var vanalega einn dag í viku markaðs dagur hvert bændur fluttu með sér afrakstur vikunnar og seldu kaupmönnum sem keyptu svo þeir gætu selt síðar sínum viðskiptamönnum. Með iðnbyltingu og þróun framleiðslu aðferða, var hægt að selja og dreifa fjölbreyttu úrvali matvæla til fjarlægra staða. Um það leyti komu nýlenduvöruverslanir til sögunnar. Á 20. öldinni komu stórmarkaðir til sögunnar sem buðu upp á gæða matvæli á lægra verði með stærðarhagkvæmni. Í lok 20. aldar fór að kræala af stórum vöruhúsum sem reist voru utan við byggðakjarna á ódýru landi. Nægjusemi. Skortur á mat leiðir til vannæringar og að endingu hungurs. Slíkt er oft tengt við hungursneyð, sem felur í sér skort matar í heilu samfélögunum sem hefur slæmar afleiðingar, hefur áhrif á heilsu og dánartíðni. Talið er að á ári hverju deyi um 40 milljónir manna úr hungri. Á stríðstímum er skortur á mat mestur. Mataraðstoð. Matarhjálp getur hjálpað þeim sem svelta. En vanhugsuð matarhjálp getur valdið nýjum vandamálum með raski á staðbundnum mörkuðum með mat, vegna lægra verðs á afurðum. Komið hefur fyrir að mataraðstoð hefur verið notuð í pólitískum tilgangi. Öryggi. Matarsýkingar, einnig þekktar sem "matareitranir" af völdum baktería, toxins eða eiturs. Vandamálið hefur verið viðurkennt sem sjúkdómur frá dögum Hippókratesar. Matareitrun var notuð til að verða mönnum að aldurtila á dögum Rómaveldis. Á miðöldum voru smakkara í flestum hirðum. Með tilkomu hreinlætisvitundar, kælingar og meindýraeyðingar dróg úr tíðni matareitrana. Uppgötvanir Louis Pasteurs, Justus von Liebig og fleiri vísindamanna bættu meðhöndlun, öryggi og lengdu geymslutíma matvæla. Krossmengun og slæleg hitastjórnun eru helstu orsakir matareitrunar. Ofnæmi. Sumt fólk er ofnæmt fyrir ákveðnum tegundum matvæla. Matarvenjur. Matarvenjur hafa mikil áhrif á heilsu og dánartíðni. Áhyggjur af matareitrunum hafa lengi og víða haft áhrif á neyslumynstur. Menn hafa lært að forðast mat sem leiða til veikinda. Ýmsir telja slíkt skýra hefðbundin trúarleg skilyrði sem sett hafa verið. Því til viðbótar hafa nokkrir hópar fólks ákveðið að sniðganga mat unninn úr dýrum. Nýlega er farið að bera á því að fólk hafi líkindi á ýmsum sjúkdómum til hliðsjónar þegar ákveðið er hverskonar matar skuli neytt. Einnig er til grænmetishyggja, en þær manneskjur sem aðhyllast hana kallast grænmetisætur. Næring í mat. Næring í mat er flokkuð í nokkra hópa á borð við fitur, prótín, og kolvetni, einnig steinefni og vítamín. Því til viðbótar innihalda matvæli vatn og trefjar. Fallhlífastökk. Fallhlífastökk kallast sú íþrótt eða athöfn þegar manneskja hægir fall sitt úr mikilli hæð með þar til gerðri fallhlíf. Fallhlífastökk er notuð til íþróttaiðkunnar og í hernaði. Nútíma fallhlífastökk hefur átt sér stað í um það bil tvær aldir. Heimildir um fallhlífarstökk sem keppnisgrein má finna frá fjórða áratug þessarar aldar, en greinin varð að alþjóðlegri íþróttagrein árið 1951. Fallhlífastökk hófst árið 1965 á Íslandi er þáverandi flugmálstjóri Agnar Kofoed Hansen stökk fyrstur manna fallhlífastökk hér á landi. Var það á kringlóttri fallhlíf upp á gamla mátann en í dag eru öll stökk sem ekki eru framkvæmd af björgunarsveitum eða í hernaði framkvæmd á ferkantaðri fallhlíf sem bíður uppá möguleika að geta stýrt fallhlífinni svo lengi sem hæð og svif fallhlífarinnar gefur svigrúm til. Yfirleitt er stokkið úr 10.000 - 13.500 feta hæð (3000-4000 metrar) út úr flugvél en að auki gera djarfir stökkvarar oft tilraunir með fallhlífastökk af háum brúm eða jafnvel skýjakljúfum, svokallað BASE-stökk. Fallhlífastökkvari sem stekkur úr flugvél, lætur sig falla úr um 4000 metra hæð,í frjálsu falli í nokkra stund, áður en hann opnar fallhlífina (oft í um 800-1000 metra hæð) sem hægir á hraða hans, þannig að hann geti lent óhultur. Þegar stökkvari lendir ferkantaðri fallhlíf þá er svifi fallhlífarinnar breytt úr því að svífa niður í það að svífa áfram sem orsakar það að stökkvarinn finnur ekki meira fyrir því að lenda en að labba niður af gangstéttarkanti. Hizbollah. Hizbollah, eða flokkur Guðs, er íslömsk samtök sjía í Líbanon. Samtökin samanstanda bæði af stjórnmálaflokki auk vopnaðra sveita. Samtökin voru stofnuð árið 1982 með það að markmiði að berjast gegn hersetu Ísraela í Líbanon, sem þá höfðu nýverið ráðist inn í landið. Hersetu Ísraela lauk árið 2000 en Hizbollah hélt vopnaðri baráttu sinni áfram, meðal annar undir því yfirskini að frelsa Shebaa landsvæðið, í suðausturhluta landsins, úr höndum Ísraela. Núverandi leiðtogi samtakanna er Hassan Nasrallah. Lopapeysa. Börn í lopapeysum með hefðbundnu mynstri.Bolurinn er prjónaður á hringprjóna og síðan klippt ef peysan á að vera hneppt eða með rennilás Lopapeysa er handprjónuð peysa úr íslenskri ull. Hefðbundnar lopapeysur eru í sauðalitum með tvíbönduðu mynstri á hringlaga herðastykki. Þær komu fyrst fram á 6. áratugi 20. aldar en óvíst er hvar og hvernig. Ein tilgáta er að mynstrin séu tilkomin vegna áhrifa frá perlusaumi á grænlenskum kvenbúningum og önnur að þau endurspegli áhrif frá peysum sem farið var að prjóna í Bohusléni í Suður-Svíþjóð á 5. áratugnum. Sumir vilja eigna frú Auði Laxness hönnun lopapeysunnar, en engar heimildir finnast fyrir því og er því líklega um sögusögn að ræða þótt talið sé að hún hafi ásamt fleirum átt þátt í þróun peysunnar. Stríðsskáld. Stríðsskáld (en. war poet) er hugtak sem kom fyrst fram á dögum fyrri heimstyrjaldarinnar. Mörg fremstu skáld þeirrar tíðar börðust þá á vígvöllum Evrópu og miðluðu reynslu sinni í gegnum ljóðformið. Mörg þeirra týndu lífi, svo sem Rupert Brooke og Wilfred Owen, en önnur héldu lífi og gagnrýndu vitfirringu stríðsins frá sjónarhóli skotgrafarhermanns sem glatað hefur trúnni á manneksjuna og má þar nefna Edmund Blunden og Siegfried Sassoon. Hugtakið sem slíkt er enskt að uppruna. Eflaust hafa skáld í herbúðum Þjóðverja ekki verið síðri en hin fyrstu eiginlegu stríðsskáld voru ensk þó Frakkar eignuðust einnig sín stríðsskáld. Sé tekið mark á orðum bókmenntafræðingsins Patrick Bridgewater líkjast þýsku skáldin Anton Scnack og August Stramm hinum ensku stríðsskáldum hvað mest. Spurningunni um hvað geri skáld að stríðsskáldi er vandsvarað. Í augum alþýðunnar sýndu þau stríðið eins og það leit út í augum hermannsins og um leið tilfinningar hans. Sum skáld sem þjónuðu stríðsherrunum (meðal annars Robert Graves) gerðu stríðið ekki að yrkisefnum sínum. Rupert Brooke. Rupert Chawner Brooke (fæddur 3. ágúst 1887 - látinn 23. apríl 1915) var enskt skáld. Hann fæddist í Rugby í Warwickshire og hlaut þar undirstöðumenntun. Síðar stundaði hann nám í Cambridge við King's College eða frá 1913. Brooke gekk snemma til liðs við Bloomsbury félagsskapinn þar sem margir félagsmeðlimir dáðu hann fyrir skaldskaparhæfilann en aðrir fyrir líkamlega fegurð. Írska skáldið William Butler Yeats lýsti honum sem fegursta unga manni Englands. Brooke tilheyrði þó einnig öðrum félagsskap rithöfunda en hann var eitt Georgísku skáldanna og var mikilvægast hinna svokölluðu Dymockskálda sem kenndu sig við bæinn Dymock í Gloucestershire, þar sem hann dvaldist fyrir heimstyrjöldina fyrri. Brooke ferðaðist víða, m.a. um Bandaríkin, Kanada og Suðurhafseyjar í þeim tilgangi að skrifa ferðadagbækur fyrir The Westminster Gazette. Um tíma átti hann í ástarsambandi við leikkonuna Cathleen Nesbitt. Sævarr. Sævarr er íslenskt karlmannsnafn og eldri ritháttur af Sævar. Þessi ritháttur var ekki leyfður í upprunalegum mannanafnalögum og það tók Steingrím Sævarr Ólafsson sjö ár að fá það samþykkt hjá mannanafnanefnd. Samþykki fékkst loks í júlí 2006. Hrefna. Hrefna (einnig nefnd hrafnreyður, hrafnhvalur og léttir'") er sjávarspendýr af ætt reyðarhvala eins og hnúfubakur, langreyður, sandreyður og steypireyður. Flokkun. Hrefnum er skipt í tvær tegundir, önnur tegundin er algeng á norðurhveli jarðar ("Balaenoptera acutorostrata") og hin tegundin lifir nálægt suðurskautinu og á suðurhveli jarðar ("Balaenoptera bonaerensis"). Hrefnur á norðurhveli eru svo flokkaðar í þrjá undirtegundir sem eru hrefnur af Mið-NorðurAtlandshafsstofni (MI), hrefnur í Norður-Kyrrahafi og dverghrefnur. Lýsing. 3. Svört eða dökkgrá að lit að ofan 4. Horn eins og sigð í laginu 7. Hvít eða ljósgrá að neðan 9. Hvít rönd á báðum bægslum 11. Frammjótt höfuðLíkami hrefnu er straumlínulaga og er höfuðið stutt og áberandi frammjótt. Hrefnan er svört eða dökkgrá á baki, gráleit á hliðum og hvít á kvið. Hvít þverrönd á bægslum er eitt aðaleinkenni hrefnu á norðurhveli. Blástur (útöndunargufa) hrefnu sést ekki nema við sérstök skilyrði. Spik liggur í fellingum (rengi) að neðanverðu framan til. Spikfellingarnar eru um 50 til 70 talsins. Hrefna er næstminnsta tegund skíðishvala og sú minnsta sem heldur sig á norðurhveli. Kvendýr og karldýr eru að meðaltali 6.9 og 7.4 m löng við kynþroska sem verður þegar dýrin ná 5-8 ára aldri. Kýrnar(kvendýrin) eru aðeins stærri en tarfarnir (karldýrin). Tarfar við Ísland verða kynþroska 5 ára, og kvendýr einu ári eldri. Hámarkslengd hrefnu er áætluð frá 9.1 m. til 10.7 m hjá kvendýrum og frá 8.8 m til 9.8 m hjá karldýrum. Bæði kynin vega venjulega 4-5 tonn við kynþroska og hámarksþyngd getur verið 14 tonn. Hrefnur lifa venjulega í 30-50 ár en geta orðið 60 ára. Elsta hrefna sem hefur verið aldursgreind við Ísland var 43 ára tarfur. Bak, horn og blástursop sjást strax þegar hrefna kemur upp á yfirborðið til að anda. Hrefnur eiga til að koma upp úr djúpinu á mikilli ferð og stökkva skyndilega upp úr sjónum og hafa vegna þess sums staðar fengið nafnið léttir. Hrefnan blæs 3-5 sinnum milli djúpkafana og stingur sér síðan í djúpið. Djúpkafanir vara oftast í 2-5 mínútur en hrefna getur verið allt að 20 mínútur í kafi. Hámarkshraði hrefnu á sundi er áætlaður 20-30 km/klst. Mökun, meðganga og burður. Í Norður-Atlandshafi fer mökun fram á tímabilinu desember til maí en nær hámarki í febrúar. Meðgöngutími hrefnu er 10 mánuðir og fæðast því flestir kálfar í desember. Nýfæddir kálfar eru 2.4 til 2.8 m langir. Þeir nærast á mjólk í um fimm mánuði og vega þá um 700 kg og eru orðnir 4,5 m á lengd við lok mjólkurtímabilsins. Fæða. Háhyrningur er eina dýrið fyrir utan manninn sem vitað er að lifi á hrefnu. Fjöldi og dreifing. Hrefnustofninn í mið og norðaustur Atlantshafi er áætlaður 184,000 (2004). Talið er að hrefnustofninn í heiminum sé yfir 1 milljón dýr, þar af 700 til 800 þús. í Suður-Íshafinu. Hrefnustofn á íslenska landgrunninu er talinn um 56 þúsund dýr. Hrefnur eru dreifðar um öll höf og finnast oft við ísröndina á heimskautasvæðum sem og í hitabelti en kjörsvæði þeirra eru úthafsvæði. Hrefnur eru fardýr sem ferðast að heimskautunum á vorin og í átt að miðbaug á haustin. Munur virðist á farhegðun hrefnu við Ísland eftir kyni, kýrnar koma fyrr á vorin og fara einnig fyrr á haustin. Hrefnur eru algengastar við Ísland á tímabilinu maí til september og finnast þá á landgrunninu allt í kringum landið. Hrefnuveiðar. Kvóti á hrefnuveiðum Norðmanna (blá lína, 1994-2006) og veiðar (rauð lína, 1946-2005) í tölum (Hagtölur frá norskum stjórnvöldum) Í norrænum fornritum eru heimildir um hvalveiðar allt frá árinu 800. Á 11. öld var algengt að veiða hrefnur með skutli. Í Vestur-Noregi tíðkaðist að reka hrefnur inn í firði og drepa þær með eiturörvum. Hrefnur voru ekki veiddar við Ísland fyrr en á 20. öld. Hrefnuveiðar voru stundaðar á Íslandi á smábátum á árunum 1914 til 1985. Hrefnuveiðar voru fyrst stundaðar á Ísafjarðardjúpi en síðar einnig frá Breiðafirði, Húnaflóa, Eyjafirði og Austfjörðum. Veiðarnar jukust verulega eftir 1960 og voru um 200 dýr á ári á árunum 1975 - 1985. Norskir smábátar stunduðu einnig hrefnuveiðar við Ísland á árunum 1948 til 1975. ‎Mikill styrr hefur staðið um hvalveiðar á alþjóðavettvangi undanfarna áratugi. Hrefnuveiðar eru nú eingöngu stundaðar af Íslendingum, Norðmönnum, Grænlendingum og Japönum. Hrefnuveiðar voru ekki stundaðar við Ísland frá því að bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum í ábataskyni var sett árið 1986 þar til Íslendingar tóku aftur upp vísindaveiðar á hval árið 2003 í kjölfarið á endurinngöngu landsins í hvalveiðiráðið 2002. Hrefnuveiðar í atvinnuskyni voru svo hafnar árið 2007. Talið er að hrefnustofninn við Ísland þoli veiðar á a.m.k. 200 - 300 dýrum á ári án þess að skerðast. Hvalaskoðun. Hrefnur eru ein algengasta hvalategundin og því auðveldara að sýna hrefnur en ýmsar aðrar tegundir. Hrefnur eru forvitnar og koma oft upp til að skoða fólk. Hvalaskoðun er sums staðar á Íslandi orðin mikilvæg tekjulind í ferðamennsku t.d. á Húsavík. Léttir. Léttir (fræðiheiti "Delphinus delphis") einnig nefndur höfrungur eða eiginlegur höfrungur er fremur lítill tannhvalur og er ein af tveimur tegundum í ættkvíslinni "Delphinus". Þeir eru hluti af ættinni "Delphinidae" og er minnsta höfrungategundin við Ísland. Lýsing. Léttir er grannvaxinn og straumlínulaga, bolurinn sívalur fremst en þynnist aftur. Trýnið er svart, langt og mjótt og afmarkað frá háu enninu. Þeir eru svartir eða dökkgráir að ofan með hvítan kvið. Litamynstur er allbreytilegt milli svæða, bakið er þó svart og ljós. hliðarnar ýmist gulleitar, brúnar eða hvítar. Frá dökkri augnumgjörð er start strik fram á trýni. Hornið er fremur stórt, miðsvæðis á bakinu og aftursveigt. Bægslin eru meðalstór og eru breiðust við búkinn og mjókka þaðan fram í endana. Útbreiðsla og hegðun. Létti er fremst að finna á hitabeltis- og heittempruðum hafsvæðum milli40-60°N og 50°S og er algengastur á landgrunnsvæðum en einnig á úthafi. Fæðan er breytileg eftir svæðum og árstíma en er aðallega ýmsar tegundir uppsjávarfiska og smokkfiska. Léttir kafar allt niður að 200 metra dýpi í leit að fæðu. Þeir eru afar hraðsyndir og hafa þeir mælst á hraða yfir 64 kílómetra á klukkustund. Léttir sést oftast í stórum hópum, hundruð eða þúsundir einstaklinga. Þó virðist vaðan vera samsett úr fjölmörgum einingum sem hver um sig inniheldur fáeina tugi einstaklinga. Léttir er oft í slagtogi við aðrar höfrungategundir og fylgir einnig stundum stórhvölum, til dæmis langreyði og steypireyð. Þeir fylgja einnig oft skipum og bátum. Veiðar og fjöldi. Stofnstærð léttis í heiminum er óþekkt en rannsóknir á afmörkuðum svæðum benda til að tegundin geti verið algengasta hvalategundin í heiminum. í reglulegum hvalatalningaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunnar við Ísland sýna að þéttleikinn er mestur sunnan við 57°N en tegundin hefur nokkrum sinnum sést vestan við landið. Veiðar á létti hafa verið stundaðar í Svartahafi, Miðjarðarhafi og við Perú. Léttir er meðal þeirra hvaltegunda sem drepast í mestu magni í viðarfærum, sérlega í hringnót og reknet á úthafi. Lest (skip). Lest er þar sem afli fiskiskipa er geymdur. Lestar geta verið mismunandi stórar eftir skipunum sem þær eru í. Í frystitogurum er yfirleitt bara ein stór lest en í uppsjávarskipum, þ.e. skip sem veiða uppsjávarfisk t.d. loðnu, síld, kolmunna, makríl, eru margar lestar. Í togurum og bátum er yfirleitt bara ein stór lest. Lest. Lest getur átt við tvo mismunandi hluti Áll. Áll (fræðiheiti: "Anguilla anguilla") er langur og slöngulaga fiskur. Tvær álategundir eru í Atlantshafi, evrópski állinn og ameríski állinn ("Anguilla rostrata"). Evrópski állinn hefur 114 hryggjaliði en sá ameríski 107. Hrogn og lirfur. Álar hrygna á vorin í Þanghafinu (Sargasso hafinu) við austurströnd Mið-Ameríku. Hrygning fer fram á 400-700 m dýpi í úthafinu þar sem sjávardýpi er um 6000 m. Hrogn og lirfur eru sviflæg. Lirfurnar(Leptocephalus) berast með Golfstraumnum að ströndum Evrópu og Ameríku og tekur það ferðalag um eitt ár. Áður var talið að ferðalagið tæki þrjú ár. Gleráll. Glerálar um 8 sm langir, hjarta og tálkn sjáanleg Lirfurnar myndbreytast þegar þær nálgast strendur og kallast þá glerálar. Glerálar eru glærir og um 6 - 8 sm langir. Glerálar sækja að strönd og ganga í feskvatn. Smám saman verða þeir gulbrúnir á litinn og nefnast þá álaseiði. Glerálar og álaseiði ganga í ferskvatn að sumarlagi. Göngur ála eru háðar hita í vatni og gengd er meiri í hlýjum sumrum. Ef fossar eru á leið ála upp árnar þá skríða álarnir upp raka kletta eða gras framhjá fossum. Guláll. Lífsskilyrði fyrir ála í uppeldi (gulála) eru best í grunnum vötnum á láglendi sem hlýna að sumarlagi. Álar í fersku vatni éta ýmis smádýr á botninum. Álar vaxa um 5-6 sm á ári. Álar er hitakærir og kjörhiti þeirra til vaxtar er 22-23 °C. Bjartáll. ungir álar af Ameríkustofnu, 25 sm langir‎ Þegar áll hefur náð um 35 - 100 sm lengd þá sækir hann í Þanghafið til að hrygna. Hann tekur áður miklum útlitsbreytingum, augun stækka, bakið dökknar, kviður verður silfurlitur og slím á húð minnkar. Slímug húð ála er talin vera vörn gegn breytingu á saltinnihaldi vatns. Állinn hættir að éta, magi og garnir hans skreppa saman en kynfæri taka að þroskast. Á þessu skeiði nefnist áll bjartáll. Hængar eru þá 35-50 sm að lengd og 60-200 g þungir og hrygnur 45-100 sm langar og vega 100 g - 2000 kg. Fundist hafa álar sem eru 125 sm og 6 kg. Það er háð vaxtarskilyrðum hvenær álar yfirgefa ferskvatn og halda út á haf. Á Íslandi eru álar líklega 8-14 ára þegar ganga bjartála hefst. Göngur ála aukast þegar hiti lækkar að hausti. Göngurnar er mestar að næturlagi. Ferð bjartála á hrygningarstöðvar í Þanghafinu er allt að 6500 km löng. Talið er að álarnir haldi sig á um 50 - 400 metra dýpi á meðan á ferðinni stendur. Álar deyja að hrygningu lokinni. Álastofninn í Evrópu. Talið er að fjöldi ála sem nær ströndum Evrópu hafi minnkað um 90% frá 1970. Mögulegt er að það stafi af náttúrulegum sveiflum eða ofveiði, sé af völdum sníkjudýra eða vegna þess áll getur ekki gengið í ár vegna hindrana t.d. af völdum vatnsaflsvirkjanna. Talið er að fækkun ála megi að einhverju leyti rekja til mengunar af völdum PCB. Álaveiðar og álaeldi. Álaveiðar eru stundaðar með fléttuðum netum. Áll er mikilvægur matfiskur í mörgum strandhéruðum. Reyktur áll er hluti af sænsku jólahlaðborði. Þanghafið. Þanghafið er svæði í miðju Atlantshafinu. Svæðið er aflangt og skil þess markast af hafstraumum. Það er um 1,100 km breitt og 3,200 km langt og nær frá 70 gráðum vestur til 40 gráða vestur og frá 25 gráðum norður að 35 gráðum norður. Bermúda er staðsett nálægt vesturmörkum Þanghafsins. Þanghafið er mjög salt og er oft talið líflaust en þar flýtur mikið þang á yfirborði sjávar. Þanghafið gegnir lykilhlutverki í göngum ála sem klekjast þar út og fara seinna í lífinu aftur í Þanghafið til að hrygna. Sæfarendur frá Portúgal uppgötvuðu Þanghafið á 15 öld. Kristófer Kólumbus skrifaði um þangið á yfirborði Þanghafsins. Mynd af dreifingu og stærð álalirfa sýna hvar Þanghafið er staðsett. Þanghafið er nálægt Bermúda og í Bermúda þríhyrningnum og hafa sæferendur frá fornu fari haft illan bifur á þessu svæði og óttast að þangið skemmi skrúfur skipa og skip strandi þar. Olsztyn. Olsztyn er 22. stærsta borg Póllands og höfuðborg Warmińsko-mazurskie sýslu. Steingrímur Hermannsson. Steingrímur Hermannsson (22. júní 1928 – 1. febrúar 2010) var verkfræðingur og forsætisráðherra. Hann gegndi einnig ýmsum öðrum ráðherraembættum á starfsævi sinni, auk þess að vera alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn árin 1971 - 1994. Steingrímur var sonur Hermanns Jónassonar fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Steingrímur Hermannsson sat í stjórn fjölmargra stofnana, þar á meðal Millennium Institute í Arlington í Virginíu, Landvernd og Hjartavernd. Hann hefur hlotið heiðursverðlaunin California Institute of Technology's Alumni Distinguished Service Award (1986), Illinois Institute of Technology's Professional Achievement Award (1991), gullmedalíu frá Íþróttasambandi Íslands (1990) og Paul Harris Fellow frá Rotary-hreyfingunni í Reykjavík. Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948, lauk B.Sc.-prófi í rafmagnsverkfræði frá Illinois Institute of Technology árið 1951 og M.Sc.-prófi frá California Institute of Technology árið 1952. Steingrímur var tvíkvæntur og eignaðist sex börn, þrjú í hvoru hjónabandi. Guðmundur Steingrímsson, alþingis-, tónlistar- og blaðamaður, er sonur Steingríms. Sirkus (sjónvarpsstöð). Sirkus er íslensk sjónvarpsstöð, rekin af 365 miðlum. Hún hóf útsendingar sumarið 2005. Síld. Síld (fræðiheiti: "Clupea harengus") er fisktegund sem finnst beggja vegna Atlantshafsins þar sem hún safnast í stórar torfur eða flekki. Síld er algengasta fisktegund í heimi. Síldartorfur. a> í Eystrasalti.Sama fjarlægð er milli allra fiska í torfu og þeir synda allir í sömu áttina. Sennilega berast boð á milli fiskanna í torfunni. Komi styggð að fiskunum getur torfan beygt til hægri eða vinstri á örskotstundu eða synt upp eða niður. Í síldartorfu eru oft 10 til 100 þúsund en í torfum geta líka verið margar milljónir fiska. Sennilegt er að torfan sé náttúruleg vörn gegn ásókn annarra sjávardýra. Afræningjar síldar í náttúrunni eru selir, hvalir, þorskar og aðrir stórir fiskar. Síldartorfur fara oft 50 km leið á hverjum degi í marga daga í röð. Auðvelt er fyrir veiðimenn að fylgjast með torfum með rafeinda- og bergmálstækni. Lýsing á síld. Síld getur orðið 54 sm löng og 500 g þung. Heimkynni. Heimkynni síldarinar eru í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi finnst hún frá Barentshafi suður til Biskajaflóa, í Norðvestur-Atlantshafi er hún við Grænland og frá Labrador suður til Hatterashöfða í Norður-Karólínuríki Bandaríkjanna. Við Ísland er síld allt í kringum landið. Síldin er uppsjávar- og miðsævisfiskur þótt hún hrygni við botn. Hún finnst frá yfirborði og niður á 20-250 metra dýpi, er ekki sérlega viðkvæm fyrir seltustigi sjávar og á það jafnvel til að flækjast upp í árósa. Fæða. Aðalfæða síldar er ýmis konar sviflæg smákrabbadýr svo sem rauðáta en einnig ljósáta, loðna, sandsíli og lirfur þessara fiska. Síldin eltir rauðátuflekki. Þegar þörungar blómstra og smákrabbadýr eins og rauðáta hafa nóg æti þá er fæða fyrir síld nánast ótakmörkuð. Þess vegna getur síldin safnast saman í stóra flekki eða torfur og er mikil fjöldi einstaklinga á litlu svæði. Það dregur úr vexti þörunga á vetrarlagi og þar með versna lífsskilyrði þeirra dýra sem síld lifir á. Síldin hefur þá minna æti en bregst við því með að safna mikilli búkfitu og innyflamör á sumrin. Stofnar á Íslandsmiðum. Allt frá 1970 hafa síldveiðar Íslendinga nær eingöngu byggst á einum og sama síldarstofninum, íslensku sumargotssíldinni. Þessu var þó ekki þannig háttað fyrr á árum því að við Ísland hefur veiðst síld úr þremur síldarstofnum, það er að segja íslenskri sumargotssíld, íslenskri vorgotssíld og norsk-íslenska síldarstofninum. Tveir hinir fyrstnefndu hrygna við Ísland en hinn síðasttaldi við Noreg. Íslenska sumargotssíldin. Í samanburði við marga aðra síldarstofna er íslenski sumargotsstofninn ekki stór. Á seinni hluta 6. áratugarins og fram um 1965 er talið að hrygningarstofninn hafi verið á bilinu 150 – 280 þúsund tonn. Um og upp úr 1960 var farið að veiða sumargotssíldina í hringnót árið um kring. Við það jókst aflinn úr 15 – 50 þúsund tonnum í 70 – 130 þúsund tonn. Á árunum 1968 – 1971 var svo mjög að stofninum sorfið að ársaflinn varð aldrei meiri en 10 – 15 þúsund tonn þrátt fyrir gífurlega sókn. Stofninn hrundi og 1972 voru veiðar bannaðar nema í rannsóknaskyni. Með tilkomu veiðibannsins náði íslenska sumargotssíldin sér furðu fljótt á strik. Upphafið var árgangurinn frá 1971 og afkomendur hans frá 1974 og 1975, en kynþroskaaldur sumargotssíldarinnar lækkaði um 1 – 2 ár meðan stofninn var hvað minnstur. Hóflega hefur verið veitt úr íslenska sumargotsstofninum seinustu 25 árin, oftast 20 – 25% á ári en það er nálægt kjörsókn. Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa. Stórir árgangar hafa verið algengir allt frá 1979 og hrygningarstofninn telst nú vera um hálf milljón tonna og aflinn um 100 þúsund tonn á ári. Umgengni um þennan fiskstofn seinasta aldarfjórðunginn er nú alls staðar talin skólabókardæmi um hagkvæma stjórn fiskveiða. Íslenska vorgotssíldin. Líkt og sumargotssíldin hrundi íslenski vorgotssíldarstofninn vegna ofveiði og ef til vill náttúruhamfara á 7. áratug 20. aldar. Á þeim er þó sá reginmunur að sumargotsstofninn náði smám saman fyrri stærð en íslensk vorgotssíld finnst nánast ekki lengur. Norsk-íslenski síldarstofninn. Norsk-íslenski síldarstofninn er langstærstur af þessum þremur og er raunar stærsti síldarstofn sem um getur. Hann hrygnir einkum við Noreg en einnig við Færeyjar og kom í ætisleit til Íslands á sumrin og fyllti þá firði og flóa. Þetta var hin fræga Norðurlandssíld. Hún þótti feitari og ljúffengari en önnur síld til söltunar og var alþekkt á mörkuðum sem Íslandssíld þótt hún væri reyndar af norskum uppruna. Á hafísárunum (1965 – 1969) hraktist síldin frá Norðurlandi vegna sjávarkulda og átuleysis. Um það leyti hrundi norsk-íslenski síldarstofninn. Aflinn hafði þá skömmu áður farið í tvær milljónir tonna. Þar af veiddu Norðmenn um 500 þúsund tonn af ókynþroska smásíld. Ef miðað er við fjölda er smásíldarveiðin yfirgnæfandi og olli mestu um hrun stofnsins. Norsk-íslenska síldin var í mikilli lægð næstu 20 árin og hélt sig þá eingöngu við strendur Noregs. Eftir 1990 hefur stofninn loks braggast og náð fyrri stærð við lok tíunda áratugar tuttugustu aldarinnar. Þrátt fyrir þetta hefur hann ekki komið aftur á grunnmið norðanlands. Ómögulegt er að spá fyrir um það hvenær þessi stærsti síldarstofn veraldar heimsækir okkur í líkum mæli og á árum áður en líklega er það háð því að stofninn haldist stór, vetursetustöðvarnar færist frá Noregsströndum til Austfjarða og góðæri ríki á Íslandsmiðum. Hoyvíkursamningurinn. Hoyvíkursamningurinn er fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja sem kenndur er við bæinn Hoyvík í Færeyjum þar sem skrifað var undir hann 31. ágúst 2005. Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem færeysk stjórnvöld gera við annað ríki og er einnig víðtækasti fríverslunarsamningurinn sem íslensk stjórnvöld hafa gert. Samningurinn tekur meðal annars til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, stofnsetningarréttur, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, samkeppni, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Þá tekur samningurinn einnig til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur en Ísland hefur aldrei áður samið um fulla fríverslun með landbúnaðarvörur. Samningurinn leggur einnig bann við mismunun af öllu tagi. Takmarkanir á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi eru þó undanþegnar í samningnum og eru áfram í gildi í báðum löndunum. Samningnum er einnig ætlað að efla samvinnu landanna á öllum sviðum sem snerta hagsmuni þeirra, þar á meðal má nefna menntun, menningu, samgöngur, orkumál, umhverfismál, heilbrigðismál o.s.frv. Færeyska Lögþingið samþykkti samninginn 2. maí 2006 með 24 atkvæðum gegn 2 en 4 sátu hjá. Alþingi samþykkti hann 3. júní sama ár með öllum greiddum atkvæðum (46). Einnig þarf danska þingið að staðfesta hann til þess að hann taki gildi. Á ársfundi Vestnorræna ráðsins 21. ágúst 2006 var samþykkt ályktun þess efnis að kannaðir yrðu möguleikarnir á aðild Grænlands að samningnum, þannig yrði til vestnorreænt fríverslunarsvæði. Skógarþröstur. Skógarþröstur (fræðiheiti: "Turdus iliacus") er spörfugl sem verpir í furu- og birkiskógum og á freðmýrarsvæðum í Norður-Evrópu og Asíu. a>. Skógarþrestir verpa oft á jörðu. Skógarþrösturinn lifir aðallega á skordýrum og ormum á varptímanum en á öðrum tímum árs lifir hann mikið á berjum og fræjum. Hreiður þrasta eru oftast í runnum eða á jörðu. Þeir safnast oft saman í stóra hópa að haust- og vetrarlagi. Skógarþrestir verpa sjaldan í Bretlandi og á Írlandi en algengt er að þeir hafi þar vetursetu. Hann er að mestu leyti farfugl en á Íslandi heldur stór hópur þeirra til allt árið. Furur. Furur (fræðiheiti: "Pinus") er ættkvísl af þallarætt. Misjafnt er eftir höfundum hversu margar tegundir eru taldar til ættkvíslarinnar en þær eru á bilinu frá 105 til 125. Furutré eru upprunnin á norðurhveli jarðar en hafa verið ræktuð um allan heim. Furutré eru sígræn tré með þykkan börk og innihalda mikið af trjákvoðu. Nálarnar eru langar og grænar og vaxa í knippi umhverfis greinarenda. Furur flokkast í tveggja- og fimmnálafurur eftir því hversu margar nálar eru í knippi. Loðna. Loðna (fræðiheiti: "Mallotus villosus") er smávaxinn fiskur sem heldur sig í torfum uppi í sjó. Loðnan er algeng í köldum og kaldtempruðum sjó á norðurhveli jarðar. Stærstu loðnustofnar þar eru í Barentshafi og á Íslandsmiðum. Á sumrin er loðnan við íshafsröndina þar sem hún étur dýrasvif. Stór loðna étur ljósátu og önnur smákrabbadýr. Afræningjar loðnu eru m.a. hvalir, selir og þorskur. Loðnan hrygnir á sandbotni og við sandstrendur 2-6 ára og drepst yfirleitt að lokinni hrygningu. Hrygna nær allt að 20 sm lengd og hængur verður allt að 25 sm langur. Þegar mikið er af síld í Barentshafinu virðist það hafa neikvæð áhrif á loðnuna, sennilega bæði vegna samkeppni um æti og vegna þess að síldin étur loðnuhrogn. Loðna og vistkerfi sjávar. Útbreiðsla og göngur loðnu við ÍslandLjósgrænt svæði er ætisvæðiBlátt svæði er útbreiðsla ungloðnuRautt svæði er hrygningarstöðvarGrænar örvar sýna ætisgöngurBláar örvar sýna göngur til baka frá ætissvæðumRauðar örvar sýna hrygningargöngurLoðnan er mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar við Ísland. Loðna er aðalfæða þorsks og flestallir fiskar sem éta aðra fiska lifa á loðnu einhvern hluta ævi sinnar. Loðnan lifir á svifdýrum og er í 3. þrepi fæðupýramídans. Í gegnum loðnu flyst orka úr norðurhöfum inn í vistkerfi sjávar við Ísland. Fullorðin loðna sækir í æti norður í Íshaf að sumarlagi. Á haustin gengur loðnan svo aftur í átt til Íslands. Frá október og fram að hrygningu loðnu í mars er hún mikilvæg fæða ýmissa nytjafiska. Loðnuveiðar. Mynd af loðnu á íslenskum tíu krónupeningiLoðna er brædd og notuð í fiskifóður og lýsisframleiðslu, en er einnig notuð til manneldis. Loðnuhrogn eru eftirsótt matvara í Japan. Loðnuveiðar eiga sér aðallega stað þegar hrygningarstofninn þéttist fyrir austan landið og gengur réttsælis með Suðurlandi að vetrarlagi, á leið til hrygningar. Sjávarútvegsráðuneyti ákvarðar það magn loðnu sem má veiða hverju sinni og styðst við þá aflareglu að hrygningarstofninn sé ekki minni en 400 þús tonn, eftir að veiðum lýkur. Hafrannsóknastofnun mælir stærð uppvaxandi árganga reglubundið, en endanleg mæling á stærð hrygningargöngunnar fæst ekki fyrr en hún er farin að þéttast, um sama leyti og veiðar eru að hefjast. Af þessu leiðir að lokaákvörðun um heildarafla er oft tekin um miðja vertíð, sem tíðkast yfirleitt ekki um langlífari tegundir sem halda sig á íslensku landgrunni allt sitt líf. Hrygningarstofn loðnu er mjög misstór milli ára, enda samanstendur hann að mestu leyti af einum einasta árgangi, 3 ára fiski. Þetta endurspeglast í árlegum loðnuafla sem hefur sveiflast á bilinu 0 (fiskveiðiárið 1982-1983, óvenju lítill hrygningarstofn) til 1571 þús tonn (1996-1997) og var 377 þús tonn 2006-2007. Fiskveiðiárið 2007-2008 mældist lítill hrygningarstofn og voru veiðar stöðvaðar 21. til 27. febrúar, á meðan ítrekaðar mælingar Hafrannsóknastofnunar stóðu yfir. Eftir að stofninn hafði mælst yfir 400 þús tonn tilkynnti sjávarútvegsráðherra stighækkandi aflamark, síðast 207 þús tonn þann 3. mars. Gengis Kan. Gengis Kan á kínverskri mynd. Genghis Khan, (1162? - 18. ágúst 1227) "Чингис Хаан". Leiðtogi Mongólíu og herforingi sem sameinaði mongólska þjóðflokka og stofnaði Mongólska veldið 1206-1368 víðfemasta ríki sögunnar. Genghis var fæddur sem Temüjin sonur Borjigin í Hentiy í Monólíu. Þó Genghis sé almennt álitinn sem blóðþyrstur vígamaður er hann í heimalandi sínu talinn faðir mongólsku þjóðarinnar sem sameinaði hirðingja þjóðflokka Lech Wałęsa. Lech Walesa talar á ráðstefnu. Lech Wałęsa (fæddur 29. september 1943 í Popowo Póllandi) var leiðtogi verkalýðsfélagsins Samstöðu og forseti Póllands frá 22. desember 1990 til 23. desember 1995. Árið 1983 hlaut Lech friðarverðlaun Nóbels. Lech starfaði sem rafvirki í Lenín Skipasmíðastöðinni í Gdansk frá árinu 1967 til 1976 og aftur í nokkra mánuði árið 1980. Árið 1969 kvæntist Lech Danuta Gołoś og eiga þau 8 börn. Ferill. Lech var dæmdur fyrir andfélagslega hegðun, vegna verkfalls sem hann efndi til árið 1970 og sat í eitt ár í fangelsi. Lech var handsamaður nokkrum sinnum árið 1979 fyrir að skipuleggja samtök fjandsamleg ríkinu. Í águst 1980 varð Lech að leiðtoga verkfallsmanna í Gdansk og fylgdu verkamenn víðar um Pólland í kjölfar verkfallsmanna í Gdansk með ólöglegum verkföllum. Í september heimilaði stjórn komúnista lögleg félagssamtök. Verkfallsmenn gerðu Samstöðu að lögleguum samtökum og var Lech kjörinn formaður Samstöðu. 11. desember 1981 var Lech auk ríflega 1.000 félagsmönnum í Samstöðu handsamaður. Þann 13. desember 1981 lýsti Wojciech Jaruzelski því yfir að herlög giltu í landinu. Lech losnaði ekki úr haldi fyrr en 14. nóvember 1982. Þó Lech væri formlega titlaður verkamaður í skipasmíðastöðinni var hann í raun í stofufangelsi til ársins 1987. Danuta kona Lechs tók við Friðarverðlaunum Nóbels að honum fjarstöddum, andvirði verðlaunanna ánafnaði hann Samstöðu. Árið 1988 efndi Lech enn á ný til verkfalls, að þessu sinni með það fyrir augum að Samstaða yrði viðurkennd á ný og fengi á ný sinn áður unna lögmæta sess sem verkalýðsfélag. Að átta dögum liðnum féllust stjórnvöld á að ræða við Samstöðu, viðræðurnar leiddu til þess að Samstaða varð viðurkennd sem verkalýðsfélag og efnt yrði til hálffrjálsra þingkosninga. Samstaða var sigurvegari þingkosninganna 1989. Fyrir árslok 1989 hafði Lech náð að mynda fyrstu ríkisstjórn í Varsjárbandalagslandi án þátttöku kommúnista. 9. desember 1990 vann Lech pólsku forsetakosningarnar. Hann var gagnrýndur í forsetatíð sinni og tapaði forsetakosningunum 1995 Þrátt fyrir að hafa breytt Póllandi úr kommúnísku ríki með þvingandi stjórn og veikan efnahag í sjálfstætt lýðræðisríki með hagvexti. Í forseta kosningunum árið 2000 hlaut Lech um 1% atkvæða. 10. maí 2004 var alþjóðlegi flugvöllurinn í Gdańsk nefndur eftir Lech; Gdańsk Lech Wałęsa flugvöllur. Atli Húnakonungur. Atli Húnakonungur (406 – 453) var síðasti og voldugasti konungur Húna. Hann ríkti yfir stærsta veldi Evrópu síns tíma frá 434 til dauðadags. Veldið náði frá Svartahafi að Mið-Evrópu og frá Dóná að Eystrasalti. Hann var svarinn andstæðingur hvors tveggja Austrómverska ríkisins sem og þess Vestrómverska. Tvívegis réðst hann inn á Balkanskaga og umkringdi Konstantínópel í seinni innrásinni. Í Vestur-Evrópu hefur hans verið minnst fyrir miskunarleysi en sumar sögur lýsa honum sem heiðvirðum konungi. Martin Luther King, Jr.. Martin Luther King, 28. ágúst 1963 Martin Luther King yngri (15. janúar 1929 – 4. apríl 1968) var frægasti leiðtogi Afrískættaðra Bandaríkjamanna og mannréttindabaráttu þeirra á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar. Hann var ráðinn af dögum í Memphis. 18. júní 1953 kvæntist hann Corettu Scott og eignuðust þau fjögur börn. 14. október 1964 varð King yngsti maðurinn til að hljóta friðarverðlaun Nóbels. Æviágrip. Martin Luther King fæddist 15. janúar 1929 í Atlanta. Móðir hans hét Alberta King og hún var kennari þar. Faðir hans hét Martin Luther King og hann var prestur og leiðtogi svartra manna í Atlanta. Martin Jr. hét upprunalega Michael King en lét breyta nafni sínu í Martin Luther. Hann gekk í opinberan skóla í Georgíu sem var einungis fyrir blökkumenn. Hann útskrifaðist úr menntaskóla fimmtán ára að aldri. Hann útskrifaðist með B.A. gráðu frá Morehouse Háskólanum árið 1948 en það var sami háskóli og faðir hans og afi höfðu útskrifast úr. Hann fór í háskóla í Boston þar sem hann kynntist Corettu Scott sem hann giftist 18. júní 1953. Þau eignuðust fjögur börn, þau Bernice, Yolöndu, Martin III og Dexter. King Jr. ólst upp í umhverfi þar sem ekki var mikið um kynþáttafordóma en upplifði þá engu að síður mjög ungur. Hann hafði andúð á kynþáttafordómum og helgaði líf sitt því að vinna á gegn þeim. Hann var 27 ára þegar hann tók þátt í fyrstu friðsamlegu mótmælunum. Það var þegar blökkumenn fóru að sniðganga strætisvagnana í Montgomery. Blökkumenn stofnuðu félagið Montgomery Improvement Association sem stóð fyrir friðsamlegum mótmælum. King Jr. var kosinn leiðtogi félagsins. Árið 1957 var haldin ráðstefna sem King Jr. fór á. Þar voru stofnuð samtök kristinna leiðtoga í Suðurríkjunum, sem stóðu fyrir mótmælabaráttu blökkumanna. Þann 28. ágúst 1963 hélt King Jr. ræðuna „Ég á mér draum“ fyrir um 200.000 manns sem höfðu safnast saman hjá minnismerki Lincolns. King Jr. vann friðarverðlaun Nobels 1964 og var þá yngsti maðurinn sem hafði unnið þau, einungis 38 ára gamall. King Jr. var skotinn til bana þann 4. apríl árið 1968. Æska. Martin Luther King Jr. fæddist inn í millistéttarfjölskyldu og átti góða æsku. Foreldrar hans voru bæði háskólamenntuð og faðir hans og afi voru báðir prestar. Sjálfur hlaut hann fína menntun. Hann ólst upp í Aburn Avenue, þar voru einhver stærstu og voldugustu blökkumannafyrirtæki og kirkjur landsins og var hann því síst af öllu í umhverfi þar sem fordómar gegn blökkumönnum voru ráðandi. Þrátt fyrir það þá upplifði hann samt mjög ungur fordóma, sem hann skildi ekki alveg á þeim tíma. Þegar hann var tveggja til þriggja ára átti hann tvo leikfélaga sem bjuggu á móti honum. Þessir vinir hans voru hvítir. Oft þegar hann kom í heimsókn, leyfðu foreldrar strákanna þeim ekki að leika við hann, komu með mikið af afsökunum fyrir því að þeir gætu það ekki en voru þó ekki beint dónaleg. Þegar King Jr. var um sex ára sagði einn af leikfélögum hans honum að þeir mættu ekki lengur leika sér saman vegna þess að foreldrar hans vildu það ekki. Nú voru þeir að fara í skóla þar sem aðskilnaður kynþátta var og því gætu þeir ekki verið vinir lengur. King Jr. var góður námsmaður og hann fór í menntaskólann í Atlanta þegar hann var 15 ára. Hann langaði til þess að verða læknir eða lögfræðingur en faðir hans vildi að hann færi í guðfræði og yrði prestur. King Jr. sagðist sjálfur ekki hafa mikinn áhuga á guðfræðinni. Hann ákvað þó að það hentaði honum best að verða prestur og fór því í prestaskóla í Pennsylvaníu. Þetta var fyrsti skólinn sem King Jr. fór í þar sem ekki var aðskilnaður svartra og hvítra. Hlutföllin voru þó ójöfn, í skólanum voru í kringum hundrað hvítir en aðeins þrír svartir menn. King Jr. var mjög góður námsmaður og var boðið að fara í háskólann í Boston til að taka doktorsgráðu, hann var fyrsti blökkumaðurinn sem var boðið þetta. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það hentaði honum best að vera prestur. King Jr. fór í háskóla í Boston og gekk vel. Þar var hann kynntur fyrir Corettu Scott sem seinna varð eiginkona hans. Þegar þau hittust í fyrsta sinn sagði King henni að hún væri allt sem hann væri að leita að í eiginkonu. Þau giftust svo þann 18. júní 1953 og eignuðust fjögur börn. Börnin hétu Bernice, Yolanda, Martin III og Dexter. King Jr. hafði frá upphafi andúð á kynþáttaaðskilnaði. Hann barðist fyrir því að afnema aðskilnað kynþátta, án þess að beita ofbeldi, sem hann hafði einnig andúð á. Hann tileinkaði líf sitt baráttunni fyrir frelsi og að aðskilnaður kynþátta yrði afnuminn. Barátta blökkumanna. Martin Jr. tók þátt í fyrstu friðsamlegu baráttu blökkumanna, þar sem barist var fyrir því að aðskilnaður kynþátta yrði afnuminn. Það var árið 1956 í höfuðborg Alabama, Montgomery, þegar Martin Jr. var 27 ára. Allir blökkumenn tóku sig saman um að sniðganga strætisvagna. Þetta kom í kjölfar þess að blökkukonan Rosa Parks neitaði að gefa eftir sæti sitt í strætó þegar hvítur maður falaðist efitr því. Aðgerðarsinnar stofnuðu þá félag sem nefndist Montgomery Improvement Association og barðist fyrir réttindum blökkumanna. King Jr. var kosinn leiðtogi félagsins vegna þess að hann var ungur, vel þjálfaður og var það nýr í bænum að hann hafði ekki eignast sér neina óvini. Þar sem að blökkumenn voru 70% þeirra sem ferðuðust með strætisvögnunum bar þessi barátta árangur. Það var þó ekki fyrr en 382 dögum seinna en þá þurftu blökkumenn ekki að víkja úr sætum fyrir hvítum mönnum, þeir höfðu jöfn réttindi í strætisvögnunum. Þetta þýddi ekki að blökkumenn væru jafnir þeim hvítu, þvert á móti, því enn var langt í land. Margir hvítir menn voru ósáttir við sigur blökkumanna í Montgomery og kvöldið eftir samkomulagið þar, um strætisvagnana, urðu sex sprengingar í svertingjahverfunum. Fjórar kirkjur blökkumanna voru lagðar í rúst ásamt tveim heimilum. Dagana 10 – 11. janúar 1957 var haldin ráðstefna í kirkju í Atlanta. Á hana mættu 60 foringjar blökkumanna, sem börðust fyrir jöfnum rétti blökkumanna og hvítra manna. Flestir þessara manna voru prestar og var King Jr. í hópnum. Þeir stofnuðu samtök kristinna leiðtoga í Suðurríkjunum (SCLC). Það gaf King Jr. möguleika á því að flytja mál blökkumanna víða. Hann hélt marga fyrirlestra í öllum landshlutum og ræddi þau málefni sem snertu kynþáttamisrétti. Í febrúar 1960 settust fjórir ungir blökkumenn við matarborð á veitingarstað í borginni Greensboro í Norður-Carolinu. Blökkumönnum var heimilt að versla á staðnum en ekki að setjast niður í matsalnum og panta sér mat. Eigendurnir, sem voru hvítir, fylgdust með þeim og veitingarstúlkurnar þóttust hvorki heyra í þeim né taka eftir þeim þegar þeir voru að reyna að panta sér mat og sátu þeir því þarna þar til staðnum var lokað. Daginn eftir komu þeir aftur með 25 vini sína með sér og hélt þetta áfram dag eftir dag og alltaf voru fleiri þátttakendur. Þessi mótmæli breiddust út til 14 borga í Suðurríkjunum. Engin skipulögð samtök voru að baki þessarar setu blökkumanna og um haustið tók King Jr. sjálfur þátt í mótmælasetunni. Þann 28. ágúst 1963 var Washington gangan gengin, frá minnisvarða Washington að minnismerki Lincolns. Um 200.000 manns gengu þessa göngu og söfnuðust saman að henni lokinni við minnismerki Lincolns þar sem að leiðtogar mannréttindabaráttunnar töluðu. Áhrifamesta ræðan var „Ég á mér draum“ ræðan sem Martin Jr. hélt. Árangurinn var mikill og árið 1963 var til dæmis aðskilnaður blökkumanna og hvítra manna afnuminn í mörgum skólum. Umskiptin í skólunum voru gífurleg og breiddust fljótt út. Árið 1964 vann King Jr. Friðarverðlaun Nobels þegar hann var einungis 38 ára. Þá var hann yngsti maðurinn sem hlotið hafði þessa viðurkenningu. Hann gaf allt vinningsféð til áframhaldandi mannréttindabaráttu blökkumanna. Dauði Martins Luthers King. Martin Luther King Jr. var í borginni Memphis í Tennessee þann 4. apríl árið 1968. Þar var hann til þess að sýna svörtum flutningaverkamönnum stuðning en þeir voru í verkfalli. Hann gisti á móteli og á svölunum á mótelinu var hann skotinn til bana. Skotið hæfði hann í hálsinn og skemmdi neðri kjálkann. Martin Jr. hlaut einnig mænuskaða. Innan við klukkustund síðar lést Martin Luther King Jr. á slysavarðstofu St. Jósefs sjúkrahússins í Memphis. Morðinginn fannst, hann hét James Earl Ray og var fyrrum fangi. Hann játaði strax á sig morðið til þess að sleppa við dauðarefsingu. Vegna þess að hann játaði strax, var ekki talin nein þörf á því að halda réttarhöld og því veit enginn hvers vegna Ray drap King Jr. Ray var sendur í fangelsi og dó þar árið 1998. Fjölskylda Martins hélt því fram að FBI hefði fengið Ray til þess að fremja morðið en vegna þess að það voru engin réttarhöld veit enginn hvers vegna Martin Luther King Jr. var drepinn. Eftir dauða Martin Luther Kings Jr. bárust fjölskyldu hans fimmtíuþúsund bréf, símskeyti, kort, blóm og aðrar samúðarkveðjur frá fólki allstaðar að úr heiminum. Það sýndi hversu merkur og mikilvægur maður Martin Luther King Jr. var. Tilvitnanir. Frægar tilvitnanir í ræðu sem Martin flutti 28. ágúst 1963 á tröppum minnismerkis um Abraham Lincoln að lokinni göngu fyrir vinnu og frelsi. Louis Pasteur. Louis Pasteur (27. desember 1822 – 28. september 1895) var franskur efnafræðingur og prófessor við miðstöð öl- og vínaframleiðenda. Hann hafði mikil áhrif á matvælafræði og lagði grunninn að því sem við köllum í dag gerilsneyðingu, en á flestum erlendum tungumálum útleggst það sem pasteurisation. Pasteur gerði einnig mikilvægar rannsóknir á sviði örverufræða í tengslum við sjúkdóma sem þær valda, og hafði sterkar skoðanir um sjálfkviknun lífs, sem var mikið hitamál á þeim tíma. Þá þróaði hann einnig bóluefni gegn hundaæði, sem var sennilega hans mesta afrek. Þar að auki uppgötvaði hann að örverur berast með lofti og sú uppgötvun átti eftir að hafa afgerðandi áhrif á rannsóknir Josephs Lister. Æskuár og nám. Louis Pasteur fæddist árið 27. desember 1822 í Dole, Frakklandi. Hann var alinn upp við mikla ættjarðarást þar sem faðir hans hafði gegnt stöðu liðsforingja í her Napoleons á Pýreneaskaga. Fljótlega eftir fæðingu Pasteur fluttist fjölskylda hans til Arbois, þar sem hann gekk í grunnskóla. Kennara Pasteur fannst ekki mikið til hans koma en hann sagði meðal annars að hann væri óefnilegasti nemandinn í bekknum. Árið 1848 hélt Pasteur samt sem áður til Parísar í skóla, að loknu grunnnámi. Hann hætti hins vegar fljótlega í þeim skóla sökum heimþrár. Þá flutti hann sig yfir í skóla nær heimabæ sínum, Konunglega menntaskólann í Besancon, þar sem hann hlaut fyrst titilinn Bachelor of Letters og síðar Bachelor of Science en hann hlaut aðeins miðlungseinkunn í efnafræði. Hann hélt áfram í efnafræðinámi og lauk doktorsprófi. Árið 1848 bauðst Pasteur síðan að gerast prófessor við háskólann í Strassburg. Þar kynntist hann dóttur háskólarektorsins, Marie Laurent, og þau giftu sig í maí 1849. Grunnurinn lagður að gerilsneyðingu. Árið 1845, þegar Pasteur var 32 ára, var hann gerður að prófessor í efnafræði og forseti vísindadeilar við háskólann í Lille. Þar gerði hann tilraunir með bruggframleiðslu en þá var það hulin ráðgáta hvers vegna bjór í sumum kerum varð gæðaminni en annar, þrátt fyrir sömu aðferðir við bruggunina. Pasteur komst að því að í bjórkerum með góðum bjór voru gerlarnir hnöttóttir. Í kerunum þar sem lakari bjórinn var voru gerlarnir beinir og langir. Í lakari kerunum höfðu örsmáir gerlar gerjað bjórinn, til þess að koma í veg fyrir þessa gerjun datt Pasteur í hug að hita vökvann upp í 60 °C. Þar með varð til hin upprunalega gerilsneyðing eða „pasteurisation“. Pasteur og sjálfkviknun lífs. Árin 1860 – 1861 skrifaði Pasteur í tímarit Vísindaakademíunnar fjórar greinar um sjálfkviknun. Hann skrifaði einnig eina grein sem birt var í öðru tímariti árið 1861. Hann hlaut verðlaun árið 1862 fyrir síðastnefndu greinina en Vísindaakademían hafði lofað þeim verðlaunum sem tækist best til með að varpa ljósi á spurninguna um sjálfkviknun lífs, með vel útfærðum tilraunum. Tilraunir Pasteurs voru ákaflega einfaldar, en líka mjög vel framkvæmdar og niðurstöðurnar stóðu ekki á sér. Frægustu tilraunir hans voru tilraunir með svonefndar svanahálsflöskur. Tilraunirnar voru framkvæmdar þannig að næringarlausn var sett í flöskur, soðin og þannig dauðhreinsuð. Stúturinn á flöskunni er síðan hitaður vel og teygt úr honum út í mjóan S-laga háls. Með þessu var tryggt að loft kæmist að lausninni, en allar bakteríur og örverur falla til botns neðst í hálsinum. Enginn örverugróður myndaðist í lausnunum og af því mátti draga þá ályktun að líf kviknaði ekki að sjálfu sér. Pasteur komst reyndar að því, líkt og Heinrich Schröder hafði áður gert, að í sumum lausnum dugði ekki langvarandi suða við 100 °C. Eins og Schröder komst hann að því að þetta átti meðal annars við um mjólk en hann sýndi þó fram á að suða við 110 °C undir þrýstingi dygði til þess að drepa í henni allar örverur. Áhrif á læknavísindi. Árið 1870 ríkti styrjöld milli Frakka og Prússa. Mjög margir létu lífið í henni, flestir vegna blóðeitrunar. Pasteur birti árið 1865 ritgerð um mjólkurgerjun. Englendingurinn og læknirinn Joseph Lister las þessa ritgerð. Hann hafði lengi gert sér grein fyrir því að hreinlæti væri nauðsynlegt á skurðstofunni en nú áttaði hann sig á því að það væri ekki nóg, þar sem fullt af bakteríum væru í loftinu. Árið 1874 skrifaði Lister þessi Pasteur bréf og sagði honum frá þeim árangri sem hann hafði náð með því að sótthreinsa áhöld og gæta ýtrasta hreinlætis. Þar nefndi hann til að mynda tölur sem sýndu fram á að dauðsföll af völdum blóðeitrunar höfðu snarminnkað á skurðstofu hans. Ef fleiri læknar hefðu kynnt sér aðferðir Listers hefðu talsvert færri týnt lífinu í styrjöldinni. Pasteur hélt nú á fund í franska læknaakademíinu með þetta bréf. Þar var ekki mikið mark tekið á honum þrátt fyrir eldheitan málflutning hans. Það liðu mörg ár þar til skoðanir þeirra Pasteurs og Listers voru viðurkenndar. Bólusetningar. Árið 1880 var Pasteur fenginn til þess að rannsaka kjúklingakóleru. Honum tókst að lækna hana á tiltölulega skömmum tíma. Það gerði hann með einangrun sýkilsins, ræktun lítils magns af sýklum og bólusetja síðan fuglana með sýklinum. Þannig gerði hann kjúklingana ónæma fyrir kjúklingakóleru. Hann er talinn hafa tryggt Frökkum meiri ágóða með björgun alifuglaræktunar heldur en sem samsvaraði þeirri upphæð sem þeir þurftu að greiða Þjóðverjum í stríðsbætur eftir 1870. Sömu aðferðum beitti hann á miltisbrand með sama góða árangrinum. Nú sneri Pasteur sér að hundaæði. Það reyndist alls ekki hættulaust fyrir hann sjálfan þar sem hann var margsinnis bitinn af óðum hundum. Hann var líka svo ákafur í að finna lækningu gegn sjúkdómnum að einu sinni saug hann munnvatn úr óðum hundi upp í sig í gegnum pípu. Að lokum fann hann síðan blóðvökva sem læknaði sjúkdóminn með því að sprauta honum inn í æðar nýbitins hunds. Nú var spurningin bara hvort það sama virkaði á menn. Tækifærið kom þegar óður hundur hafði bitið ungan strák, Joseph Meister. Pasteur ákvað þá að prófa á drengnum sömu lækningu og hafði virkað svo vel á hundana. Þetta olli honum miklum sálarkvölum þar sem hann vissi ekki hvaða áhrif þetta myndi hafa á drenginn og hann var mjög stressaður yfir að eitthvað myndi fara úrskeiðis. Hann bólusetti drenginn tólf sinnum á tíu dögum. Þetta virkaði og drengurinn náði fullri heilsu. Endalok. Fljótlega eftir þetta afrek hófst söfnun til byggingar Pasteurrannsóknarstofnunnar í París. Söfnunin tók ekki langan tíma og mikið af fólkinu sem kom að byggingu stofnunarinnar ýmist gaf vinnu sína eða gerði það fyrir lítið. Pasteurstofnunin var fullgerð þann 14. nóvember 1888 og var þá strax tekin í notkun. Síðar voru byggðar Pasteurstofnanir í mörgun öðrum löndum. Fyrst um sinn sáu þessar stofnanir aðeins um rannsóknir á sviði hundaæðis en síðan fóru þær að rannsaka ýmsa smitsjúkdóma. Louis Pasteur féll frá þann 28. september 1895, þá tæplega 73 ára að aldri. Alfred Nobel. Alfred Nóbel (21. október 1833 - 10. desember 1896) var sænskur efnafræðingur, verkfræðingur og uppfinningamaður. Hann uppgvötaði dínamít og var eigandi Bofors vopnaverksmiðjanna. Auðlegð hans var notuð til að stofna Nóbelsverðlaunin. Martin Scorsese. Martin Scorsese (fæddur 17. nóvember 1942) er bandarískur kvikmyndaleikstjóri. Martin hefur verið fimm sinnum tilnefndur til Óskarsverðlauna en aldrei hlotið. Kvikmyndir sem hann leikstýrir fjalla ósjaldan um umhverfi sem líkist uppruna hans sjálfs, ítalskt-amerískt umhverfi. Heimildarmyndir. Scorsese, Martin H. G. Wells. Herbert George Wells (21. september 1866 - 13. ágúst 1946) var breskur rithöfundur sem er þekktastur fyrir vísindaskáldsögur sínar. Skrif hans spönnuðu þó nánast alla flokka sem ritverk flokkast í. Hann var gríðarlega afkastamikill rithöfundur og rit hans skipta fleiri tugum. Flest verk hans hafa einhvern félagslegan eða pólitískan boðskap. Hann var sósíalisti og er oft nefndur, ásamt Jules Verne og Hugo Gernsback, „faðir vísindaskáldsögunnar“. Þekktasta bók hans er án efa "Innrásin frá Mars" (e. "War of the Worlds"). Söngleikur sem sló í gegn og tvær stórmyndir hafa verið gerðar eftir henni. Önnur fræg verk Wells eru "Tímavélin", "Ósýnilegi maðurinn" og "Eyja dr. Moreau". Eftir öllum þessum verkum hafa verið gerðar fleiri en ein kvikmynd. Tenglar. Wells, H.G. Astrid Lindgren. Astrid Lindgren (fædd "Astrid Anna Emilia Ericsson" 14. nóvember 1907 - látin 28. janúar 2002) var sænskur barnabókahöfundur. Hún skrifaði m.a. um Línu langsokk, Emil í Kattholti, Lottu og Börnin í Ólátagarði. Tenglar. Lindgren, Astrid Ingmar Bergman. Ingmar Bergman (fæddur 14. júlí 1918, látinn 30. júlí 2007) var sænskur leikstjóri. Sonur danskættaðs prests í Uppsölum. Bergman leikstýrði á sviði og hvítu tjaldi og skrifaði handrit að kvikmyndum. Hann starfaði í rúm sextíu ár og á þeim tíma leikstýrði hann yfir 60 kvikmyndum, skrifaði flest handritin sjálfur, og jafnframt stýrði hann yfir 170 sviðsverkum. Hann er talinn einn af mikilvirkustu og mikilvægustu leikstjórum kvikmyndasögunnar. George Lucas. Georg Lucas (14. maí 1944) er bandarískur kvikmyndaleikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Lucas er frægastur fyrir hinar sex Stjörnustríðsmyndir og Indiana Jones-myndirnar. Tenglar. Lucas, George Katrín mikla. Katrín II, jafnan kölluð mikla (Екатерина II Великая ("Yekaterina II Velikaya"), 2. maí 1729 - 17. nóvember 1796, fædd sem "Sophie Augusta Frederike von Anhalt-Zerbst") — ríkti sem keisaraynja Rússlands í rúm 34 ár frá 28. júní 1762 til dauðadags. Hún var fjarskyld Gústafi þriðja og Karli þrettánda Svíakonungum. Hún giftist krónprinsi Rússlands Pétri af Holstein-Gottorp 21. ágúst 1745. Pétur tók við krúnunni við andlát móður sinnar sem sat einungis sem keisari í hálft ár. Alexander Fleming. Sir Alexander Fleming (6. ágúst 1881 - 11. mars 1955) var skoskur líf- og lyfjafræðingur. Þekktur fyrir uppgötvun á ensíminu lýsósím árið 1922 og einangrun penisillíns úr sveppnum "Penicillium notatum " árið 1928. Fyrir einangrunina hlaut hann Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði árið 1945. Hann var aðlaður árið 1944. Fleming, Alexander Fleming, Alexander Kjöt. Kjöt er vöðvi lífveru (spendýrs eða fugls) sem menn ásamt öðrum dýrum neyta sér til matar. Ho Chi Minh-borg. Ho Chi Minh borg (Víetnamska: Thành phố Hồ Chí Minh) er stærsta borg Víetnam. Hún var mikilvæg hafnarborg í Kambódíu en Víetnamar náðu henni á sitt vald á 16. öld. Hún hét Saigon en nafninu var breytt eftir Víetnamstríðið í „Ho Chi Minh-borg“. Nafnið „Saigon“ er þó enn algengt í almennri notkun. Nafn borgarinnar. Upprunalegt nafn borgarinnar var Gia Dinh en árið 1862, eftir að Frakkar gerðu gervallt svæðið að nýlendu sinni, kusu þeir að nefna borgina „Saïgon“. Árið 1975, þegar Víetnamstríðinu lauk, var nafni borgarinnar breytt í Ho Chi Minh-borg. Saga. Þegar Víetnamskir landnemar komu úr norðri á 17. öld til þess staðar sem borgin stendur voru þar fyrir nokkrir þjóðflokkar, þeirra á meðal Khmerar, Stieng og Ma. Talið er að þessir landnemar hafi aðallega verið fátækir smábændur. Einnig voru með í för hermenn og opinberir fulltrúar sem áttu að taka land í suðri og flóttafangar. Í sögubókum er staðurinn Mo Xoai nefndur sem landnámsstaður, en hann er talinn vera við ströndina þar sem Ba Ria er í dag. Landnemarnir tóku svo meira land, þar á meðal staðinn sem Ho Chi Minh borg stendur. Um 10.000 manns höfðu sest að í borginni um miðja 17. öld. Svæðið í kring um Ho Chi Minh-borg er mjög ákjósanlegt til jarðræktar, en stórfljótið Mekong rennur þarna til sjávar. Af þessari ástæðu hefur landbúnaður verið mikilvægur fyrir uppbyggingu borgarinnar, en einnig voru viðskipti og handverksala stunduð á þessum tíma. Á fyrri hluta 20. aldar var vald Frakka á nýlendum sínum farið að minnka. Auknar skærur og uppreisnir gerðu þeim erfitt fyrir, sérstaklega á tímum heimsstyrjaldanna tveggja. Víetnamskir sjálfstæðissinnar undir forystu Ho Chi Minh náðu valdi yfir landinu í Ágústbyltingunni, en urðu fyrir það miklum skakkaföllum vegna ólæsis flestra íbúanna, hungursneyðar og innrása að stjórn þeirra hélt ekki lengi. Samt sem áður er Ágústbyltingin talin mikilvægt skref í sjálfstæðisbaráttu landsins. Kínverjar réðust inn í landið úr norðri og Bretar úr suðri, en þeir voru á höttunum eftir japönskum uppgjafarhermönnum. Bretar aðstoðuðu Frakka síðan við að hertaka landið aftur. Innrásaherir þessir steyptu byltingarstjórninni af stóli, en þeim hafði verið meinilla við hana frá því hún náði völdum. Frakkar gerðu suðurhluta landsins að sérstakri nýlendu árið 1945 með Saigon að höfuðborg en það skipulag viðhöfðu þeir einnig 100 árum fyrr. Margir borgarbúar sem og aðrir Suður-Víetnamar börðust áfram gegn Franskri hersetu í landinu. Árið 1954 voru Kínverjar hraktir frá norðurhlutanum og hlaut Norður-Víetnam þar með sjálfstæði. Frakkar voru sigraðir við Điện Biên Phủ og yfirgáfu landið. Kommúnistar mynduðu stjórn í Hanoi og áætlað var að kosningar yrðu haldnar tveimur árum síðar til að kjósa um sameiningu landsins. Stjórnin í Saigon undir forsæti Ngo Dinh Diem neitaði hins vegar að halda umræddar kosningar. Hann naut stuðnings Bandaríkjanna sem vildu ekki að kommúnistar næðu völdum í öllu landinu. Ho Chi Minh var tilbúinn að ráðast á Suður-Víetnam færi svo að kosningarnar færu ekki á þann veg að sameining yrði. Í suðri voru kommúnistar og aðrir stjórnarandstæðingar ofsóttir; þeir handteknir eða teknir af lífi. Diem varð sífellt óvinsælli m.a. vegna spillingarmála, og héldu Bandaríkjamenn að sér höndum þegar valdarán var framið og Diem tekinn af lífi. Þetta olli hins vegar auknum óstöðugleika í landinu og nýttu Norður-Víetnamar sér það og juku stuðning við skemmdarverkamenn fyrir sunnan landamærin. Herstjórar í Saigon áttu í sífellt meiri erfiðleikum með að hafa stjórn á skemmdarverkamönnum og stjórnarandstæðingum og kom að því að Bandaríkjamenn fóru að hafa mikil bein afskipti af stjórn Suður-Víetnam. Auknar skærur milli stuðningsmanna kommúnista og Bandaríkjamanna leiddu af sér Víetnamstríðið. Eftir að Norður-Víetnamar náðu öllu landinu á sitt vald voru löndin tvö sameinuð í eitt, og Hanoi gerð höfuðborg. Nafni Saigon var breytt í Ho Chi Minh-borg í höfuðið á stjórnmálamanninum sem hafði verið hvað mest í framlínunni í baráttunni fyrir sjálfstæði landsins. Forsætisráðherra Ísraels. Forsætisráðherra Ísraels er sá sem gegnir forsæti í ríkisstjórn Ísraelsríkis. Yfirleitt er forsætisráðherrann leiðtogi þess flokks sem stærstur er á Knesset, ísraelska þinginu. Forsætisráðherrar. 1 Árið 1968 sameinaðist Mapai öðrum flokkum til að mynda verkamannaflokkinn. 2 Eftir kosningarnar 1984 náðu Likud og verkamannaflokkurinn samkomalgi sem kvað á um að skipt yrði um forsætisráðherra á miðju kjörtímabili. Shimon Peres gegndi starfinu fyrstu tvö árin fyrir verkamannaflokkinn og svo tók Yitzhak Shamir við. Eftir kosningarnar árið 1988 gat Likud stjórnað án stuðnings verkamannaflokksins og Yitzhak Shamir tók við embætti að nýju. 3 Rabin var myrtur af landa sínum meðan hann gegndi embættinu. 4 Þann 21. nóvember 2005 sagði Sharon, auk annarra ráðherra, sig úr Likud meðan hann var enn í embætti vegna deilna um brotthvarf ísraelsmanna frá Gaza og samninga um vesturbakkann. Saman stofnuðu þeir nýjan flokk Kadima sem mun bjóða fram í næstu kosningum. 5 Eftir að Ariel Sharon fékk heilablóðfall þann 4. janúar 2006 tók Ehud Olmert við starfi forsætisráðherra tímabundið. 6 Lést meðan hann gegndi starfinu. Þjóðsöngur Rússlands. Sálmur rússneska sambandsins (Rússneska: Госуда́рственный гимн Росси́йской Федера́ции, Gosudarstvenny Gimn Rossiyskoy Federatsii) er þjóðsöngur Rússlands. Lagið, sem Alexander Alexandrov samdi, er hið sama og var þjóðsöngur Sovétríkjanna 1944-1991, en nýr texti var saminn fyrir sönginn í núverandi mynd. „Sálmur rússneska sambandsins“ tók við af Föðurlandssöngnum, en töluverð óánægja hafði ríkt með hann þar sem það var enginn texti sunginn við hann. Andstæðingar þess að taka upp lag gamla þjóðsöngsins hafa litið svo á að það sé skref aftur til tíma Sovétríkjanna en tillagan var samþykkt á neðri deild Rússneska þingsins, Dúmunni, þar sem 381 var fylgjandi, 51 á móti og einn sat hjá. CAT. CAT (e. Computed axial tomography), oftast nefnt CT á enskri tungu nú til dags, er ein aðferð við sneiðmyndatöku. Myndirnar eru tvívíðar, en með því að vinna þær meira er hægt að búa til þrívíddarmynd af innvolsinu. CAT-tæknin er algengust í heilbrigðisgeiranum, en er líka notuð þar sem ekki má eða ekki er hægt að eyðileggja þann hlut (t.d. vélapartar og fleira í þeim dúr) sem þarf að skoða innvolsið að. Saga. Fyrsta CAT tækið sem var hæft til sölu var þróað af Godfrey Newbol Housfield í Hayes á Englandi hjá stofnun sem hét "THORN EMI Central Research Laboratories". Housfield þróaði hugmyndina árið 1967 og tilkynnti um hana opinberlega árið 1972. Allan McLeod Cormack hjá Tufts-háskóla þróaði samskonar tækni og hann og Housfield deildu saman Nóbelsverðlaunum í læknisfræði árið 1979. Með upprunalegu frumgerðinni frá 1971 tók um fimm mínútur að safna gögnum fyrir hverja mynd og um 2,5 klukkutíma þurfti til að vinna gögnin í tölvu. Fyrsta fullgerða CAT-tækið safnaði gögnum fyrir hverja mynd á um fjórum mínútum og tók um sjö mínútur að vinna gögnin. Myndirnar voru í frekar lítilli upplausn, 80 x 80 píxlar. Fyrsta CAT-tækið var sett upp í Atkinson Morley's-spítalanum í Wimbledon, Englandi og fyrsta myndatakan á sjúklingi var gerð með því árið 1972. Þau tæki sem notuð eru í dag eru mikið breytt frá þeim tækjum sem komu fram fyrst, t.d. taka þau minna pláss og skemmri tíma þarf til að taka myndir. Walt Disney. Walter Elias Disney árið 1954. Walter Elias Disney (5. desember 1901 – 15. desember 1966) er aðallega þekktur fyrir að hanna, leikstýra og framleiða teiknimyndir. Hann er ásamt bróður sínum Roy O. Disney stofnandi Walt Disney fyrirtækisins. Walt Disney og fyrirtæki hans sköpuðu margar eftirminnilegar teiknimyndapersónur; sú þekktasta er Mikki Mús. Mikki Mús var fyrsta persóna Disney kvikmyndafyrirtækisins. Meðal annarra eru Mína Mús, Andrés Önd, Guffi og Plútó. Walter gerði stuttmyndir um þessar persónur til ársins 1937 þegar fyrirtækið gerði sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd Snow White and the Seven Dwarfs (íslenska: Mjallhvít og dvergarnir sjö). Frímerki með mynd af Walt Disney Walt Disney-samsteypan hefur búið til margar vinsælar kvikmyndir, til dæmis Mary Poppins, Snow dogs, Pirates of the Caribbean, Cinderella (íslenska: Öskubuska), Lion king (íslenska: Konungur ljónanna), High school Musical, Bolt, Brother bear (íslenska: Björn bróðir), Bedtime stories og Mulan. Steven Spielberg. Steven Allan Spielberg (f. 18. desember 1946) er bandarískur kvikmyndaleikstjóri sem hefur hlotið fern Óskarsverðlaun fyrir störf sín; árið 1986 fékk Spielberg minningarverðlaun Irving G. Thalberg fyrir framleiðslu kvikmynda, mynd hans "Listi Schindlers" (1993) hlaut Óskarsverðlaunin fyrir bestu leikstjórn og bestu kvikmynd og "Björgun óbreytts Ryans" (1998) fékk verðlaun fyrir bestu leikstjórn. Nefertítí. a> í Berlín.Nefertítí var æðsta eiginkona egypska faraósins Amenhótep IV (síðar nefndur Akhenaten) og tengdamóðir faraósins Tútankamons. Skjaldarmerki Mexíkó. Skjaldarmerki Mexíkó er prýtt mexíkóskum gullerni sem situr á kaktusi og rífur í sig snák. Sagan segir að Astekar hafi reist borg sína þar sem örn sat á kaktusi með slöngu í goggi, en það var talið merki frá guði þeirra. Borg þeirra var þar sem nú er Mexíkóborg. Núverandi skjaldarmerki var tekið í notkun árið 1968 en örninn hefur verið í eldri útgáfum þess um lengri tíma. Þjóðhöfðingjar Danmerkur. Danakonungar hafa í gegnum tíðina ríkt yfir Danmörku og stórum hlutum Norðurlanda, svo sem Noregi, Íslandi, Skáni, einnig Eistlandi og víðar. Um stutt skeið eftir víkingaöld ríktu þeir í Englandi, fyrst að hluta, síðan landinu öllu á tímum Knúts ríka. Þeir áttu einnig lengi ítök í hertogadæmunum Slésvík og Holtsetalandi. Venjan er að telja konungaröðina hefjast með Gormi hinum gamla sem kom frá Englandi um árið 936 og Saxo Grammaticus nefnir Gorm enska. Á undan honum er röð sagnkonunga sem virðast sumir hverjir helst eiga sér fyrirmyndir í smákóngum eða héraðshöfðingjum. Þetta á t.d. við um Ragnar loðbrók. Danmörk er með elstu konungsríkjum í heimi sem hefur haft samfellda röð kónga og drottninga fram á þennan dag. Aðeins japanska Keisaraveldið er eldra. Frá 1413 hafa Danakonungar og -drottningar verið grafin í Hróarskeldudómkirkju. Safn tileinkað sögu dönsku krúnunnar, "De danske kongers kronologiske samling", er í Rósenborgarhöll. Tenglar. Danakonungar Seglabúnaður. Skýringarmynd sem sýnir seglabúnað þrímastra freigátu. Seglabúnaður seglskips er allur sá búnaður sem þarf til að sigla skipinu. Hugtakið lýsir þeirri tegund reiða og segla sem notaður er á tilteknu skipi og sem aðgreinir oft gerð þess. Seglbúnaður skips nær þannig yfir fjölda sigla, tegund og fjölda segla. Seglabúnaður skips er líka breytilegur eftir veðri. Seglabúnaður er hannaður með það fyrir augum að ef skipið missir stýri þá snúi það sér upp í vindinn og kljúfi ölduna fremur en fá hana á hlið. Kirkjubæjarklaustur. Kirkjubæjarklaustur eða Klaustur er sveitaþorp í Skaftárhreppi. Þar voru 114 íbúar 1. desember 2008. Á Kirkubæjarklaustri var áður nunnuklaustur og síðan stórbýli. Kirkjubæjarklaustur hét upphaflega Kirkjubær á Síðu. Bærinn var landnámsjörð og bjó þar Ketill fíflski, sonur Jórunnar mannvitsbrekku, dóttur Ketils flatnefs. Hann var kristinn, en í Landnámu segir að áður hafi þar búið papar og heiðnir menn hafi ekki mátt búa á Kirkjubæ. Ekki er þess getið að Ketill hafi reist sér kirkju en þó kann svo að vera og hefur það þá líklega verið fyrsta kirkja á Íslandi. Þorlákur helgi dvaldist sex vetur á þessum stað á árunum 1162-1168. Nunnuklaustur af Benediktsreglu var stofnað í Kirkjubæ 1186 og var þar til siðaskipta 1542. Á Sturlungaöld var Ögmundur Helgason staðarhaldari í Kirkjubæ en var gerður héraðsrækur eftir að hann lét taka Sæmund og Guðmund Ormssyni af lífi skammt frá Kirkjubæ 1252. Kirkja var á Kirkjubæjarklaustri til 1859 en þá var hún flutt að Prestsbakka. Þekktastur presta þar á síðari öldum er séra Jón Steingrímsson eldklerkur, sem margir trúðu að hefði stöðvað hraunrennslið í farvegi Skaftár við Systrastapa með eldmessu sinni 20. júlí 1783. Hann er grafinn í kirkjugarðinum á Klaustri. Minningarkapella um hann var reist á Kirkjubæjarklaustri og vígð 17. júní 1974. Kirkjubæjarklaustur er í fögru umhverfi við Skaftá og eru þar margir þekktir ferðamannastaðir á borð við Systrastapa, Systrafoss, Stjórnarfoss og Kirkjugólfið. Þar hafa verið gerðar mannaðar veðurathuganir síðan 1926. Grunnskóli er á Klaustri og þar er læknir, dýralæknir og héraðsbókasafn. Þar er gistihús, sundlaug, veitingasala og allmikil ferðamannaþjónusta. Segl. Segl er dúkur sem er hluti af seglbúnaði skips. Seglið tekur á sig vind og knýr þannig áfram seglskipið eða verkar sem hjálparsegl til að draga úr veltingi á vélbát. Þegar beitt er upp í vindinn getur seglið virkað eins og lóðréttur vængur. Á seglskútum er kjölur undir skrokknum sem myndar mótvægi við hliðarkraftinn þegar vindurinn kemur í seglið á hlið við bátinn. Tegundir segla. Slúppa með (1) stórsegl (bermúdasegl) og (2) framsegl (genúasegl). Segl skiptast gróflega í tvo flokka; stórsegl og framsegl, eftir því hvort þau eru fest upp við mastrið eða framan við það (t.d. á stög). Stórsegl skiptast aftur í þversegl og langsegl eftir því hvort þau liggja þvert á skipið eða langsum eftir því. Með langseglum er auðvelt að stagvenda upp í vindinn og krussa eða slaga á móti vindi, en þversegl eru betri þegar siglt er undan vindi. Framsegl skiptast í stagsegl sem fest eru eftir endilöngu stagi, og belgsegl sem eru hengd framan við mastrið á hornunum. Hlutar segls. Hliðar seglsins eru kallaðar „faldur“, „jaðar“, „líg“ eða „lík“. Á langseglum er framfaldurinn sú hlið sem er næst mastrinu og afturfaldurinn á móti, en undirfaldur við bómuna að neðan. Ferhyrnd segl eru líka með yfirfald að ofan. Á þverseglum er framfaldurinn sú hlið sem er kulborðsmegin en afturfaldurinn hléborðsmegin. Horn segls eru háls (fremra horn að neðan), kverk (fremra horn að ofan) hnokki, pikkur eða veðurkló (aftara horn að ofan á ferhyrndu langsegli) og kló (aftara horn að neðan). Á þverseglum eru ráhnokkar við enda ránnar en neðri hornin heita háls og kló eftir því hvernig seglið snýr við vindi þannig að kulborðshornið heitir háls og hléborðshornið kló. Dragreipi eða ráseil er fest í kverkina á langseglum eða rána á ráseglum til að draga seglin upp. Skaut eru bönd sem fest eru í aftara horn seglsins til að aka því til eftir vindi. Talað er um fokkuskaut sem stýrir fokku og stórskaut sem stýrir stórsegli. Á langseglum er stórskaut band sem fest er í bómuna aftanverða og stýrir horni seglsins miðað við bátinn. Á bátum með ráseglum getur auk þess verið stillanlegur beitiás til að halda hléborðsskautinu úti. Hálsinn á ráseglum er venjulega festur við borðstokkinn kulborðsmegin. Mastur. Mastur er hátt og grannt mannvirki sem haldið af uppi með stögum, ólíkt turnum sem haldast uppi af eigin rammleik. Til eru meðal annars útvarpsmöstur, rafmagnsmöstur og möstur á seglskipum, sem kölluð eru siglur eða reiðar. Mastur Langbylgjustöðvarinnar á Gufuskálum (412 m) er hæsta mastur á landi í V-Evrópu. Neró. Nero Claudius Caesar Augustus Germanicus (15. desember 37 – 9. júní 68) var fimmti og síðasti rómverski keisarinn úr ætt Júlíusar Caesars. Hann tók við krúnunni af Claudíusi frænda sínum, sem hafði ættleitt hann. Útbreidd ímynd Nerós, byggð á skrifum andstæðinga hans, er á þá leið að hann hafi verið glaumgosi sem lét sig litlu skipta afdrif ríkisins og almennings. Á þeirri ímynd byggir sú staðhæfing að hann hafi leikið á hörpu meðan Rómaborg brann. Fjölskylda. Neró var fæddur Lucius Domitius Ahenobarbus og var eini sonur Gnaeusar Domitiusar Ahenobarbusar og Agrippinu yngri, systur Calígúla. Faðir hans var fjarskyldur ættingi Ágústusar, en Ágústus var einnig langafi móður hans. Við fæðingu hans var ekki útlit fyrir að Neró yrði nokkurntíma keisari þar sem Calígúla hafði verið krýndur 15. mars sama ár og var þá 24 ára. Keisararnir tveir sem ríktu þar áður, Ágústus og Tíberíus, urðu að endingu 76 og 79 ára. Agrippina, móðir Nerós, bað bróður sinn Calígúla, um að gefa drengnum nafn, í von um að hann kæmist nær ríkiserfðum. Calígúla varð að ósk systur sinnar og gaf drengnum nafnið Claudius, þ.e.a.s. hann lagði til að drengurinn héti Lucius Claudius, sem var ekki í náðinni. Benti nafnið til þess að Calígúla þætti ekki mikið til drengsins koma og að Agrippinu yrði ekki að ósk sinni. Síðar bötnuðu samskipti systkinanna og um tíma var Agrippina í náðinni hjá Calígúla. Þó fór svo að hún var send í útlegð árið 39. Árið 40 lést Gnaeus Domitius eiginmaður Agrippinu og faðir Nerós. Þann 24. janúar 41 var Calígúla keisari ráðinn af dögum og Claudíus krýndur keisari í kjölfarið. Claudíus kvæntist Agrippinu 1. janúar árið 49 og ári síðar, 25. febrúar 50, ættleiddi Claudíus Neró. Claudíus hampaði Neró á ýmsa vegu; hann varð ungur prokonsúll og mynd af honum birtist á myntum. Árið 53 giftist hann stjúpsystur sinni, dóttur Claudíusar, Claudiu Octaviu. Við dauða Claudíusar 13. október 54 varð Neró keisari. Keisarinn. Því hefur verið haldið fram að Agrippina hafi eitrað fyrir manni sínum Claudíusi svo Neró gæti orðið keisari, og að hún hafi í raun stýrt ríkinu fyrst um sinn sökum ungs aldurs Nerós. Hvort sem Neró hafi þótt móðir sín vasast of mikið í hans málum eða ekki, þá versnuðu samskipti þeirra til muna. Að lokum sauð upp úr og Neró lét drepa móður sína árið 59. Liðsmenn hans afsökuðu drápið með þeim rökum að Agrippina hafi sjálf lagt á ráðin um að drepa son sinn. Vitað var að Agrippinu og Poppaeu, kærustu og frillu Nerós, samdi ekki. Árið 62 lést Burrus sem hafði kennt Neró í æsku og verið ráðgjafi hans frá krýningu líkt og Seneca sem óskaði eftir því að draga sig í hlé eftir að hafa aðstoðað Neró við skynsalega stjórn ríkisins. Talið er að þeir hafi smám saman misst trúnað Nerós einkum fyrir tilstilli Poppaeu. Í stað þeirra kallaði Neró á Gaius Ofonius Tigellinus úr 13 ára útlegð sem fljótlega átti í góðu vinfengi við Neró. Síðar sama ár skildi Neró við Claudiu Octaviu svo hann gæti kvænst þungaðri fryllu sinni, Poppaeu. Í fyrstu sakaði hann Octaviu um að hafa verið sér ótrú. Uppskar Neró við þá málaleitan ummæli á þá leið að kynfæri Octavíu væru hreinni en munnur Tigellinusar. Því skildi Neró við Octavíu í ljósi þess að hún væri ófrjó og kvæntist Poppaeu. Poppaea ól Neró dótturina Claudiu Augustu. Skyndilegur dauði Octavíu 9. júní 62 varð þó tiliefni fjölda mótmæla. Tigellinus innleidi í kjölfarið lög við landráðum og fór fjöldi aftaka fram í kjölfarið, þar á meðal aftökur á nokkrum nánum ættingjum Nerós. Á sjöunda áratugnum braust út stríð milli Rómverja og Persa, þar sem barist var um yfirráð yfir Armeníu því þó Armenía tilheyrði Rómaveldi hafði konungur Persa, Vologases 1. tilnenft landstjóra í Armeníu og réðust því Rómverjar inn í Armeníu. Lyktaði ófriðnum á þá leið að Rómverjar skyldu krýna konung Armeníu sem þó skyldi vera persneskur prins. Friðarsamkomulagið var álitið sigur fyrir Neró og ríkti friður á þessum slóðum í um hálfa öld, eða fram til 114 þegar Trajanus rómarkeisari réðst inn í Armeníu. Neró einbeitti sér að stjórnlist, viðskiptum og uppbyggingu menningalegrar miðborgar Rómaveldis. Í stjórnartíð hans var endir bundinn á upreisn Breta (60 – 61) og uppreisn Galla (68) og tengsl við Grikki styrktust. Hermt er að misheppnuð viðleitni til að binda enda á uppreisn á Spáni árið 68 hafi leitt til sjálfsvígs Nerós. Ekki tókst Neró þó að kveða niður uppreisn Gyðinga sem hófst 66 Bruninn mikli. Að kvöldi 18. júlí eða aðfaranótt 19. júlí 64 braust út eldur í nokkrum búðum í suðaustanverðum Circus Maximus. Eldurinn brann í 9 daga. Tacitus skrifaði að Neró hafi séð eldana brenna úr Maecenas turninum og sagt frá því að í bjarma loganna hafi hann sungið hans venjubundna sviðshlutverk. Aðrir herma (;;.) að Neró hafi leikið á lýru (eins konar hörpu) og sungið á Quirinalis hæðinni. Enn aðrir segja að Neró hafi verið órþeytandi í að leita frétta af brunanum og skipulagt aðstoð við þá sem þess þurftu. Vitað er að Neró bauð heimilislausum skjól og kom í veg fyrir hungur með matarútdeilingu og við endurbyggingu Rómar voru götur hafðar breiðari og hús byggð úr múrsteinum. Einn þáttur í endurbyggingunni var bygging hallarinnar Domus Aurea. Almannarómur snerist fljótlega gegn Neró og var honum kennt um brunann og að hann hefði ætlað sér að reisa nýja borg á rústum Rómar og kenna hina nýju borg við sjálfan sig "Neropolis". Tacitus ritaði að Neró hefði notað brunann til að koma sök á kristna menn, að í "fyrstu hefðu þeir sem hefðu játað verið teknir höndum, síðar fleiri, og ekki einungis vegna aðildar að brunanum heldur og vegna haturs þeirra í garð manna. Áður en hinir handteknu voru teknir af lífi voru þeir hafðir til sýnis öðrum til skemmtunar, þar sem dýr drápu þá og hundar rifu í sig líkin" Tacitus. Ekki hafa fundist aðrar heimildir fyrir því að Neró hafi í annan tíma að Neró hafi misbeitt valdi sínu gegn kristnum mönnum. Ekki er ljóst hvort hinir handteknu hafi verið teknir höndum vegna trúar sinnar eða hvort að þeir voru kristnir hafi verið tilviljun. Líkum hefur verið leitt að því að Poppaea hafi haft samúð með Gyðingum í Róm og fyrir hennar tilstilli hafi Neró látið til skara skríða. Neró hækkaði skatta til að fjármagna endurbyggingu Rómar. Órói ríkti í Róm eftir brunann og er talið að Neró hafi fundist hann þurfa að kenna einhverjum um brunann. Ólympíuleikar og endalok. Neró áleit sig mikinn listamann. Þrátt fyrir að ekki hafi þótt rómverskum keisara bjóðandi að bregða sér í hlutverk skemmtikrafts vílaði Neró ekki fyrir sér að stíga á svið og syngja. Var engum heimilað að hverfa af vettvangi meðan Neró stóð á sviði, því hann skyldi vera miðpunktur athyglinnar, hvort sem áheyrendum líkaði betur eða verr. Neró einagraðist, hann neyddi samsærismenn í Pisón samsærinu til að fremja sjálfsmorð, hann heimtaði að vinsæll herforingi, Gnaeus Domitius Corbulo að nafni fremdi sjálfsmorð því Neró taldi að sér stæði ógn af honum. Árið 66 barði Neró Poppaeu til bana. Poppaea gékk þá með annað barn þeirra hjóna en dóttirin Claudia Ágústa hafði dáið sem kornabarn. Neró átti því engan erfingja. Árið 67 fór Neró til Grikklands og söng hann á Ólympíuleikunum. Neró þurfti að múta mótshöldurum sem seinkuðu leikunum og brydduðu upp á hestvagna keppni sem nýrri keppnisgrein að beiðni Nerós. Neró var dæmdur sigur eftir mútugreiðslur. Þegar Neró sneri aftur til Rómar eftir árs fjarveru þótti honum sem andaði köldu í hans garð. Í mars 68 gerði Gaius Julius Vindex, landsstjóri í Galliu Lugdunensis, uppreisn gegn Neró. Vindex hafði lítinn herafla og var fljótlega sigraður í bardaga gegn Luciusi Verginiusi Rufus landsstjóra í Germaniu Superior. Eftir bardagann vildu herdeildir Rufusar lýsa hann keisara en hann neitaði. Servius Sulpicius Galba, sem var landsstjóri í Hispaniu Tarraconensis, hafði lýst yfir stuðningi við uppreisn Vindex. Galba hélt áfram andstöðu við Neró eftir fall Vindex og lýsti yfir hollustu við Öldungadeildina og Rómverja. Með því afneitaði hann valdi Nerós. Stuðningur við Galba jókst stöðugt og að lokum yfirgaf lífvarðasveit Nerós hann og lýsti yfir stuðningi við Galba. Á sama tíma hætti Lucíus Clodíus Macer að senda korn til Rómar frá Afríku. Öldungadeildin lýsti Neró sem óvin ríkisins, hann flúði og framdi sjálfsmorð 9. júní 68. Andáts orð hans voru: "Qualis artifex pereo" („En sá listamaður sem fer til einskis“) áður en hann skar sig á háls. Neró var síðasti keisarinnn af Júlísku-cládísku ættinni og að honum látnum ríkti um tíma mikil óreiða í stjórnun Rómar; á árinu 69 ríktu fjórir keisarar á einu ári, þetta hefur verið kallað ár keisaranna fjögurra. Markús Árelíus. Markús Árelíus Antonínus Ágústus (26. apríl 121 – 17. mars 180) var keisari Rómaveldis á árunum 161 – 180. Hann var fimmti og síðasti keisarinn af hinum „fimm góðu keisurum“ sem ríktu frá 96 til 180. Markús Árelíus var einnig stóískur heimspekingur og ritaði "Hugleiðingar". Fjölskylda. Markús Árelíus var fæddur árið 121, sonur hjónanna Domitiu Lucillu og Marcusar Anniusar Verusar. Marcus Annius Verus var ættaður frá Baeticu, á núverandi Spáni. Afi hans (langafi Markúsar Árelíusar) var fyrsti öldungaráðsmaðurinn ("senator") í ættinni, en fjölskylda hans hafði efnast á ólífurækt. Föðurafi Markúsar Árelíusar (sem einnig hét Marcus Annius Verus) varð ræðismaður ("consul") þrisvar sinnum og hjá honum ólst Markús að miklu leiti upp. Markús átti eina yngri systur, sem hét Annia Cornificia Faustina, og var hún um tveimur árum yngri en hann. Faðir Markúsar lést þegar hann var um þriggja ára. Móðir hans, Domitia Lucilla, var af efnuðu fólki komin og átti fjölskylda hennar þakflísaverksmiðju, sem Markús erfði. Markús giftist Faustinu yngri árið 145. Faustina var dóttir Antónínusar Píusar og hafði áður verið trúlofuð Luciusi Verusi. Markús og Faustina áttu 14 börn saman, þ.á.m. Lucillu og Commodus. Lucilla giftist síðar Luciusi Verusi, en Commodus varð keisari Rómaveldis að föður sínum látnum, árið 180. Faustina hafði orð á sér að eiga marga elskhuga aðra en Markús en engu að síður entist hjónaband þeirra í þrjátíu ár, eða til ársins 175, þegar Faustina lést. Leiðin til valda. Marcus Annius Verus var frændi Trajanusar keisara og einnig var hann mágur Antónínusar Píusar, sem síðar varð keisari. Árið 138 kaus Hadríanus, þáverandi keisari, Antónínus Píus sem eftirmann sinn og ættleiddi hann þann 25. febrúar. Sama dag, að fyrirmælum Hadríanusar, ættleiddi Antónínus Píus Markús Árelíus og Lucius Verus, son Aeliusar Verusar, með það fyrir augum að þeir yrðu eftirmenn hans. Markús var þá 16 ára en Lucius Verus var aðeins 7 ára. Eftir ættleiðinguna urðu Markús og Antónínus nánir og Markús fór að taka að sér opinber störf og skyldur. Árið 139 fékk hann titilinn "Caesar" sem þýddi að hann væri þá undirkeisari og árið 140 var hann ræðismaður ásamt Antónínusi. Sameiginleg stjórn. Við dauða Antónínusar Píusar, 7. mars 161, tók Markús Árelíus við keisaratigninni. Antónínus hafði gert það ljóst skömmu fyrir dauða sinn að Markús ætti að verða arftaki hans með því að senda honum styttu af gyðjunni Fortunu. Valdataka Markúsar var algjörlega átakalaus og það fyrsta sem hann gerði var að deila völdum með Luciusi Verusi, líkt og Hadríanus hafði kveðið á um. Þetta var í fyrsta skipti sem tveir keisarar deildu völdum í Rómaveldi, en slíkt fyrirkomulag varð algengt síðar. Á þessum tíma var orðið illmögulegt að kljást bæði við germanska þjóðflokka í norðri og á sama tíma við Parþa í austri. Lucius Verus barðist við Parþa framan af valdaferli sínum. Hann giftist Lucillu dóttur Markúsar Árelíusar. Lucius Verus lést árið 169 varð Markús þá einn keisari. Parþar. Lucius Verus þurfti snemma á valdaferli þeirra Markúsar að berjast við Parþa um yfirráð yfir Armeníu. Þar hafði verið konungur hliðhollur Rómverjum en Parþar steyptu honum af stóli árið 161. Verus hélt til austur-landamæra ríkisins til að mæta Pörþum og barðist við þá frá 162 til 166. Verus endurheimti Armeníu úr höndum Parþa árið 163, og þar var á ný settur konungur hliðhollur Rómverjum. Parþar voru lagðir að velli árið 166. Verus fagnaði sigrinum í Róm með Markúsi seint á árinu 166 og báðir tóku þeir sér titlana „Armeniacus“, „Parthicus Maximus“ og „Medicus“ af þessu tilefni. Þegar herdeildirnar sneru til baka úr stríðinu báru þær með sér plágu, sem breiddist út og varð að faraldri árið 167. Plágan geisaði í mörg ár og varð Rómarborg sérstaklega illa úti. Germanir. Germanskir þjóðflokkar höfðu ráðist ítrekað á norðanverð landamæri Rómaveldis. Sérstaklega inn í Gallíu og yfir Dóná. Árið 168 héldu Markús og Lucius Verus til norður-landamæranna við Dóná til þess að bregðast við árásunum en ekki reyndist þörf á miklum aðgerðum á þeim tímapunkti og því sneru þeir til baka vorið 169. Á leiðinni heim varð Verus skyndilega alvarlega veikur og lést nokkrum dögum síðar. Eftir að hafa séð um útför Verusar í Róm þurfti Markús fljótlega að halda aftur norður til að mæta germönunum. Germanirnir höfðu náð að ráðast allt suður til Aquileia, borgar á Norður-Ítalíu, og takmark Markúsar var að reka þá aftur norður fyrir landamærin við Dóná. Herbragð Markúsar í stríðinu var að einangra hvern og einn ættbálk innan þjóðflokkanna og berjast við þá sér, og neiða þá þannig til að semja um frið. Þessi stefna Markúsar var árangursrík en einnig tímafrek og varð til þess að keisarinn varði mestum sínum tíma, það sem eftir var valdaferils síns, á vígstöðvunum. Rómverjar börðust undir stjórn Markúsar við germanska þjóðflokka á árunum 169 til 175 og 178 til 180, einkum við Marcomanni og Quadi 172 og 173 og svo við Sarmatia 174. Minntust menn þessara herferða með reisn. Í Róm var reist Súla Markúsar Árelíusar þar sem saga herferðanna var skráð. Árið 175 lýsti landsstjórinn í Sýrlandi, Avidius Cassius, sjálfan sig keisara. Avidius hafði verið einn helsti hershöfðinginn í stríðinu gegn Pörþum, undir stjórn Luciusar Verusar. Þessi uppreisn virðist reyndar hafa verið byggð á þeim miskilningi að Markús hefði látist í stríðinu gegn germönum. Avidius hélt uppreisninni engu að síður áfram eftir að hafa gert sér grein fyrir miskilningnum, og fékk stuðning víðs vegar um austanvert heimsveldið. Markús hélt af stað til þess að mæta honum en Avidius var myrtur, af hermanni hliðhollum Markúsi, áður en til átaka kom. Árið 177 gerði Markús Árelíus Commodus, son sinn, að meðkeisara og stýrði Rómaveldi með honum til dauðadags. Dauði. Markús Árelíus andaðist 17. mars 180 í herleiðangri gegn Marcomönnum og Quadum þar sem nú er Vínarborg. Skömmu síðar voru Germönsku þjóðflokkarnir sigraðir. Ýmsir álita að Rómarfriði hafi lokið við andlát Markúsar Árelíusar. Window Maker. Window Maker er gluggastjóri fyrir Unix-leg stýrikerfi. Window Maker er þekktur fyrir að þurfa minni vinnsluúrræði en sambærilegur hugbúnaður og er því vinsæll á kerfum með takmarkaða vinnslugetu. Stillingar eru gerðar með myndræna forritinu WPrefs en ekki með því að breyta löngum textaskrám líkt og í öðrum léttum gluggastjórum (eins og t.d. Fluxbox, Ion og Ratpoison). Upphaflega hét gluggastjórinn WindowMaker (án bils), en nafninu var breytt eftir átök um netlén við fyrirtækið Windowmaker Software Ltd. sem selur hugbúnað fyrir framleiðslu glugga og hurða. Diablo II. Diablo II er tölvuleikur fra tölvuleikjaframleiðandanum Blizzard Entertainment. Hann kom út bæði fyrir Microsoft Windows og Mac OS árið 2000. Leikinn má bæði leika einn, sem og í fjölspilun yfir internetið. Hann varð fljótt mjög vinsæll fyrir netspilunarmöguleika sinn. Síðar á árinu 2001 kom út aukapakki, "Diablo II: Lord of Destruction" sem innihélt talsverðar viðbætur við leikinn. Keisari Japans. Keisari Japans er tign sem gengur í erfðir. Keisarinn er aðeins þjóðhöfðingi og hefur í raun ekkert pólitískt vald. Líkt og þjóðhöfðingjar margra ríkja gegnir hann aðeins hlutverki sameiningartákns þjóðarinnar, en Japan er síðasta keisaradæmi heims. Keisari Japans hefur ýmist haft tákrænt vald eða raunverulegt vald í gegnum tíðina, en einnig var hann lengi talinn „arahitogami“, eða lifandi guð. Síðasti keisari til að vera talinn guð var Showa, (Hirohito), en hann var neyddur til að afsala sér guðatigninni þegar seinni heimsstyrjöld lauk með ósigri Japana. Hraði. Hraði er vigurstærð, sem lýsir ferð og stefnu hreyfingarinnar. SI-mælieining er metri á sekúndu, táknað m/s. Hraði núll þýðir að hlutur sé kyrrstæður. Hraði bifreiða er mældur í kílómetrum á klukkustund (km/h), en 1 km/h = 0,278 m/s. Ljóshraði, um 300.000 km/s í tómarúmi, er mestu mögulegi hraðinn. Athuga ber að stærð hraðavigursins kallast "ferð" (enska: "speed"), þó yfirleitt sé aðeins talað um hraða þegar átt er við ferð. Skilgreining. Í daglegu tali er orðið hraði oft notað á óformlegan hátt, og getur þá átt við hugtökin ferð eða um meðalhraða. Sé hraði hlutar á tilteknu tímabili þekktur, ásamt upphafsstaðsetningu hans, er hægt að finna staðsetningu hlutarins hvenær sem er á þessu tímabili með því að nota heildun. Meðalhraði. Meðalhraði er sá hraði sem hlutur hreyfist að jafnaði á yfir tiltekna vegalengd. Hægt er að finna hann með því að deila vegalengdinni sem hluturinn fór með þeim tíma sem tók að fara hana. Meðalhraði er táknaður með formula_5 (bókstafurinn "v" með lárétta línu yfir). Eins og þessi táknun ber með sér, þá er meðalhraðinn skilgreindur sem vigur. Ferð. Ferð er stærð hraðavigursins, gjarnan táknuð með bókstafnum "v". Ólíkt hraða hefur ferð enga stefnu, og eining ferðar er vegalengd ("d") á hverja tímaeiningu ("t"). Það sem í daglegu tali er nefnt hraðamælir á bíl mælir því alla jafna ekki hraða heldur ferð, þar sem hann skráir engar upplýsingar um þá stefnu sem ekið er í. Til að fá upplýsingar um stefnuna þyrfti að notast við upplýsingar frá áttavita eða GPS tæki. Athuga ber að oftast er talað um "hraða", þegar átt er við "ferð". Breyting ferðar á tímaeiningu nefnist hröðun. Fjodor Tuttsjev. Tuttsjev Fjodor Ivanovitsj (5. desember 1803 - 27. júlí 1873) var rússneskt ljóðskáld og erindreki. Tuttsjev bjó m.a. í München, Tórínó, þekkti Heine og Schelling. Hann tók engan þátt í bókmenntalífi og taldi sig ekki vera mann bókmenntalistar. Eftir hann eru hér um bil 400 ljóð, sem oft er vitnað í í Rússlandi. Öndverð ljóð Tuttsjevs fylgja skáldskaparhefð 18. aldar. Á 1830-árunum varð evrópskur (sérlega þýskur) rómantismi áberandi í kvæðum hans. Þetta er heimspekilegur (hugleiðslu-) skáldskapur, þar sem meðal helstu efna eru hugleiðingar um alheiminn, mannaörlög og náttúru. Á 1840-árunum skrifaði Tuttsjev nokkrar pólitískar greinar tileinkaðar samskiptum Rússlands og Vesturheimsins. Á 1850-árunum orti skáldið fjölda nístandi ástarljóða þar sem var litið á ást sem harmleik. Þessi ljóð voru síðar sameinuð í svo kallaðan „denisjevu-flokk“, sem var helgaður E.A. Denisjevu ástarkonu Tuttsjevs. Árin 1860-1870 eru pólitísk efni efst á baugi í skáldskap Tuttsjevs. Merkasta kvæðið úr því tímabili er „Silentium!“, bitur þagnaráskorun, þar sem harmað er því að annar maður mun aldrei skilja hinn. „Hugur borinn fram er lygi“ er eitt af oftast tilvitnuðum spakmælum Tuttsjevs auk „Ekki er hægt að skilja Rússland með viti“ og „Okkur er ekki auðið að sjá fyrir hvernig orð okkar endurrómast“. Tenglar. Tuttsjev, Fjodor Tuttsjev, Fjodor Tuttsjev, Fjodor Þyngd. Þyngd hlutar er sá kraftur sem verkar á hlut af völdum þyngdarsviðs. Í daglegu tali eru hugtökin þyngd og massi oft notuð jöfnum höndum þótt í raun sé um tvö aðskilin fyrirbrigði að ræða. Það kemur þó yfirleitt ekki að sök þar sem þyngd hlutar er í réttu hlutfalli við massa hans þegar þyngdarsviðið breytist ekki. Auk þess eru einingar massa oft notaðar þegar rætt er um þyngd í daglegu tali (t.d. kílógrömm), svo þessi ónákvæmni veldur ekki vandkvæðum. Málið verður hins vegar flóknara þegar þyngdarsviðið breytist. Ef 80 kg geimfari fer til tunglsins er massi hans óbreyttur - 80 kg. Þyngd hans (krafturinn sem tunglið togar í geimfarann með) er hins vegar orðin mun minni, eða sú sama og þyngd 13 kg hlutar hér á jörðinni. Þess ber líka að geta að þyngdarsvið jarðarinnar er ekki nákvæmlega það sama alls staðar á yfirborði plánetunnar, svo hlutir hafa í raun örlítið mismunandi þyngd á mismunandi stöðum á jörðinni. Af þeim völdum er nauðsynlegt að stilla nákvæmar vogir fyrir þá staði sem þær eru á. Þyngdarlögmálið skýrir þyngd með aðferðum sígildrar aflfræði, en afstæðiskenningin er skýring nútímaeðlisfræðinnar á þyngd með s.n. tímarúmi. Einingar massa og þyngdar. Einingarnar sem notaðar eru um massa og þyngd eru oft svipaðar eða þær sömu, eins og fram kemur að ofan, og er ástæðan sú að þegar þessar einingar voru valdar var mismunur þyngdar og massa ekki vel skilinn. Þar sem þyngd er kraftur, eru einingar þyngdar (eins og vísindamenn nota þær), þær sömu og einingar krafts. SI-eining þyngdar er þess vegna njúton (N), sem einnig er hægt að tákna sem kg m/s2. SI-eining massa er kílógramm (kg). Þegar orðið kílógramm er notað um þyngd er átt við þann kraft sem verkar á eins kílógramms massa í staðalþyngdarsviði (sem er mjög svipað þyngdarsviði jarðarinnar við sjávarmál). Mælingar á þyngd. Þyngd (eða massa) hlutar má mæla á óbeinan hátt með vog sem notast við lóð. Þá er þyngd hlutarins borin saman við annan hlut með þekkta þyngd (eða massa). Þessi aðferð er óháð þyngdarsviði. Með hefðbundum baðvogum er þyngd mæld með kraftnemum, sem nema kraftinn sem verkar á yfirborð vogarinnar. Þessar vogir skila mismunandi niðurstöðu eftir því í hve sterku þyngdarsviði þær eru, og því þarf að stilla þær ef ætlunin er að mæla með þeim massa (eins og oftast er raunin). Hlutfallsleg þyngd hluta á ýmsum hnöttum. Neðangreindur listi sýnir hlutfallslega þyngd hlutar með tiltekinn massa á reikistjörnunum, miðað við þyngd hans á jörðinni. Rudolf Hess. Rudolf Hess (annar frá vinstri í fyrstu röð) við réttarhöldin í Nürnberg Rudolf Walter Richard Hess (1894-1987, þýska Rudolf Heß) var þýskur stjórnmálamaður. Æska og yngri ár. Hess fæddist í Alexandríu í Egyptalandi og var sonur kaupmannsins Johanns Fritz Hess og Klöru, konu hans. Hess sótti þýska grunnskólann í Alexandríu en fór í menntaskóla í Bad Godesberg í Þýskalandi. Eftir menntaskólann hóf hann nám í Hamborg en lauk því aldrei, því hann gekk sjálfviljugur í þýska herinn þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út. Í hernum var hann til að byrja með í fótgönguliðinu, en seinna flugmaður. Stjórnmálaferill. Eftir stríðið nam Hess við háskólann í München og gerðist þar þjóðernissinni. Á Münchenarárunum kynntist Hess Ernst Röhm og Heinrich Himmler. 1920 gekk Hess í þjóðernisjafnaðarmannaflokkinn og var meðal fyrstu meðlima þess flokks. Hess tók þátt í bjórkjallarauppreisninni 1923. Þegar þjóðernisjafnaðarmenn komust til valda í Þýskalandi 1933 varð Hess ráðherra. Flugið til Englands. 10. maí 1941 flaug Hess til Skotlands í herflugvél i þeirri von að geta liðkað til fyrir friðarsamningum milli Þýskalands og Bretlands. Bretar veittu honum hinsvegar enga áheyrn og settu hann í fangelsi. Hess var hátt settur í þýska kerfinu en þrátt fyrir það og að oft sé talið að Hess hafi átt að vera arftaki Hitlers, gerðu þjóðverjar ekkert í þessu. Hitler sagði eftir að Hess var fangaður (að talið er samkvæmt fyrirframgerðu samkomulagi við Hess) að Hess hefði misst vitið og farið á eigin vegum. Ólíklegt verður að teljast að Hess hefði gert þetta,bara svona sjálfur" í því stífa skipulagi og alræði sem einkenndi Hitler. Viðkvæm hlið á þessu er einnig sú staðreynd að bróðir Bretlandskonungs, sem Hess fór til fundar við í Skotlandi, var talinn hallur undir þjóðverjana, sem var mjög viðkvæmt mál í Bretlandi - og þess vegna hafði Hess væntingar um árangur viðræðna við hann. Bretar plötuðu þó Hess og þarna var hann handtekinn. Nürnbergréttarhöldin. Við réttarhöldin í Nürnberg að stríðinu loknu var Hess gefið að sök að hafa staðið að skipulagningu árásarstríðs og að hafa brotið gegn heimsfriðinum. Hann var af dómstólnum úrskurðaður sekur og dæmdur í ævilangt fangelsi. Eftir dóminn. Dóminn afplánaði Hess í fangelsinu í Spandau og var raunar mikinn hlutan þess tíma sem hann sat þar eini fanginn í fangelsinu. 1987 er hann sagður hafa framið sjálfsmorð í klefa sínum. Austrómverska keisaradæmið. Austrómverska keisaradæmið (oft einnig kallað Býsansríkið eða Miklagarðsríkið) var ríki sem varð til þegar Rómaveldi var varanlega skipt í tvennt, árið 395. Hitt ríkið var kallað það vestrómverska. Saga. Skipting Rómaveldis í austur og vestur átti rætur sínar að rekja til ársins 285 þegar Diocletianus og Maximianus skiptu með sér völdum. Ríkið var aftur sameinað undir einum keisara árið 324 þegar Konstantínus mikli stóð uppi sem sigurvegari í baráttu við Licinius. Árið 330 gerði Konstantínus Konstantínópel (sem áður hét Byzantion) að nýrri höfuðborg Rómaveldis og varð borgin síðan höfuðborg Austrómverska ríkisins. Eftir dag Konstantínusar var Rómaveldi ýmist stjórnað af einum, tveimur eða þremur keisurum í senn. Árið 394 tryggði Theodosius 1. stöðu sína sem keisari yfir öllu heimsveldinu en þegar hann lést árið 395 var ríkinu skipt í austur og vestur á milli sona hans Arcadiusar og Honoriusar. Þessi skipting Rómaveldis reyndist vera varanleg og var helmingunum tveimur stjórnað af mismunandi keisurum þangað til Vestrómverska keisaradæmið leið undir lok árið 476 og það austrómverska stóð eitt eftir. Ríkið náði mestri útbreiðslu á valdatíma Justinianusar 1., sem var keisari á árunum 527 – 565, en hann stefndi að því að vinna á sitt vald öll þau landssvæði sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Þessi stefna Justinianusar tókst ekki en honum tókst þó, með hjálp Belisariusar, helsta hershöfðingja síns, að leggja undir sig bæði Norður-Afríku, af Vandölum, og Ítalíu, af Austgotum. Fljótlega eftir dauða Justinianusar fór ríkið þó að minnka aftur því árið 568 réðust Lombarðar inn í Ítalíu og hertóku stóran hluta skagans. Á 7. öldinni misstu Austrómverjar öll sín landsvæði fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku í hendur Araba. Auk þess misstu þeir stór landssvæði á Balkanskaganum í hendur Búlgara. Ríkið fór aftur að stækka undir stjórn Leo 3. (717 – 741), og á næstu öldum styrktist staða þess á Balkanskaganum og í Anatólíu. Ríkið náði nýjum hápunkti á tíma Basileiosar 2. (976 – 1025) og náði á þeim tíma frá suður-Ítalíu í vestri til Armeníu í austri. Eitt stærsta áfallið sem dundi á Austrómverska keisaradæminu í sögu þess var þegar krossfarar fjórðu krossferðarinnar, sem voru á leið til Egyptalands, flæktust inn í deilur á milli Feneyjinga og Austrómverja. Afleiðing þessa var sú að krossfararnir réðust inn í Austrómverska ríkið og hertóku Konstantínópel árið 1204. Krossfararnir stofnuðu þá ríki með höfuðborg í Konstantínópel sem kallað hefur verið Latneska keisaradæmið og stóð til ársins 1261. Þrjú önnur ríki urðu til á þeim svæðum sem áður tilheyrðu Austrómverska ríkinu. Stærst af þeim var Keisaradæmið í Níkeu sem árið 1261 náði aftur Konstantínópel á sitt vald og endurreisti þar með Austrómverska keisaradæmið. Keisaradæmið stóð til allt fram til ársins 1453 (þó í nokkuð mikið smækkaðri mynd), þegar Tyrkir náðu loks Konstantínópel. Það var helsta vígi rétttrúnaðarkirkjunnar, enda patríarkinn í Konstantínópel opinberlega „fremstur meðal jafningja“ af leiðtogum kirkjunnar. Sleikipinni. Sleikipinni, sleikjó og sleikibrjóstsykur og sjaldnar sleikjubrjóstsykur er tegund sælgætis sem er búin til úr sykri, vatni, litarefnum og fleiru. Sykurleðjan er svo mótuð í form, oft kúlu, og fest á pinna. Pinninn sem sykurleðjan er fest á er oft úr þéttum hvítum pappír en dýrari sleikipinnar eru oft settir á mjó tréprik eða plastprik. Kraftur. Krafti er oft lýst sem því að ýta á eða toga í hlut. Kraftur í sígildri eðlisfræði eru áhrif sem valda hröðun lausra hluta. Er vigurstærð. Nettókrafturinn sem verkar á tiltekinn hlut getur verið summa margra einstakra krafta sem verka á hlutinn. SI-mælieining er njúton, táknuð með N. þar sem F er kraftvigur, "m" massi, v hraði og "t" tími. Kraftur, sem verkar utan massamiðju hlutar myndar snúningsvægi, sem hefur tilheygingu til að snúa hlutunum um s.n. snúningsás. Í nútíma eðlisfræði er oftast talað um kraft sem víxlverkun einda með tilstuðlan annarra einda. T.d. er kjarnakrafturinn leiddur á milli kjarneinda með tilstuðlan miðeinda, rafsegulkrafturinn á milli hlaðinna agna að tilstuðlan ljóseinda og því vilja sumir eðlisfræðingar halda því fram að til séu svokallaða þungeindir sem eiga að leiða þyngdarkraftinn. Bylgja. Bylgja er órói sem berst um rúmið og flytur í mörgum tilfellum orku. Sumar bylgjur, svo sem hljóðbylgjur og sjávaröldur, verða til vegna þess að efni er aflagað og kraftar valda því að efnið leitar aftur í upprunalega stöðu. Aðrar bylgjur, svo sem rafsegulbylgjur geta ferðast í gegnum lofttæmi og byggja ekki á því að þær hafi áhrif á efnið í kringum sig. Þótt bylgjur í efni, og orkan sem þær bera, geti ferðast hratt og langt, flyst efnið í flestum tilfellum lítið úr stað, heldur sveiflast um upphafsstöðu sína. Stærðfræðileg lýsing á bylgjum. formula_1 Þar sem "formula_2" (borið fram "lambda") er lengd bylgjunnar í metrum, "v" er hraði bylgjunnar og "f" er tíðni bylgjunnar. formula_3 Þar sem formula_4 er hornhraði bylgjunnar, eða hversu marga hringi á sekúndu bylgan hreyfist á sekúndu, mælst í radíum á sekúndu. formula_5 Þar sem k er bylgjutala bylgjunnar, mælt í radíönum á metrum, sem svarar til fjölda hringja á hverjum metra. formula_6 er svo samband sem fæst úr því sem nú þegar er komið fram. formula_7 sem segir svo til um samband á milli breytingar á staðsetningu yfir tíma sé jafnt og hornhraði yfir bylgjuölu, sem má leiða út á einfaldan hátt með því að setja inn gildi og stytta rétt út einingar. Þegar verið er að lýsa bylgjum er best að notast við svokallað sínusfall þar sem það er einfaldasta hreyfing á bylgjum. formula_8 Sem gefur gildi á y, sem fall af tveimur breytistærðum, "x" sem er staðsetning sem er á x-ás í hnitakerfi og af "t" sem er tími t-ás, og eins og sést þá myndar þetta þrívítt graf, eða flöt í hnitakerfi. "A" er útslagið eða sveifluvíddin bylgjunnar. Hljóð. Hljóð eða hljóðbylgjur eru þrýstingsbylgjur sem berast í gegnum efni. Eiginleikar hljóðs fara eftir bylgjulengd þess, tíðni og öðrum þeim eiginleikum sem einkenna bylgjur almennt. Hljóðbylgjur ferðast með hljóðhraða, sem er mjög misjafn eftir efnum, en oftast er átt við hraða hljóðsins í lofti. Hann er nálægt því að vera 330 m/s en breytist með hitastigi. Menn skynja hljóð með heyrnarskynfærum sínum, og í sumum tilfellum er orðið hljóð notað einvörðungu um hljóðbylgjur sem menn geta heyrt. Í eðlisfræði er þó hljóð notað í víðtækari skilningi, og titringsbylgjur af hvaða tíðni sem er, og í hvaða efni sem er, eru taldar til hljóðs. Orðið hljóð getur líka þýtt "þögn". Rauði krossinn. Rauði krossinn og rauði hálfmáninn, algengustu tákn Rauðakrosshreyfingarinnar Rauði krossinn er alþjóðleg fjöldahreyfing sem hefur það að markmiði að vernda líf, heilsu og mannréttindi fólks, stuðla að virðingu fyrir mannfólki, og koma í veg fyrir eða lina þjáningar, án þess að gera upp á milli þjóðernis, kynþáttar, trúarskoðana, þjóðfélagsstéttar eða stjórnmálaskoðana. Í íslömskum löndum er í flestum tilfellum notast við rauðan hálfmána í stað rauða krossins á fánum hreyfingarinnar, þar sem krossinn þykir of tengdur kristinni trú, og á ensku er hreyfingin titluð "The International Red Cross and Red Crescent Movement". Einnig hefur verið notuð rauð Davíðsstjarna, en á árinu 2005 var samþykkt nýtt merki, rauði kristallinn, sem hefur engar trúarlegar tilvísanir. Palestína. Gervihnattamynd frá 2003 af svæðinu. Palestína (latína: Palæstina; hebreska: ארץ־ישראל Eretz-Yisra'el, áður einnig nefnt פלשתינה Palestina; arabíska: فلسطين Filasṭīn, Falasṭīn) er eitt margra heita landsvæða á milli Miðjarðarhafsins og árinnar Jórdan svo og nokkurra aðliggjandi landsvæða. Síðustu árþúsund hafa margar mismunandi landfræðilegar skilgreiningar verið notaðar til þess að afmarka það svæði sem kallað er Palestína. Þær skilgreiningar eru allar umdeildar í stjórnmálum. Víðasta skilgreiningin er sú sem notuð var af Bretum þegar þeim var veitt umboð af Þjóðabandalaginu á millistríðsárunum til þess að stjórna Palestínu en það svæði skiptist nú á milli Ísrael og heimastjórnarsvæða Palestínumanna. Frá stofnun Ísraels hefur orðið algengara að heitið Palestína vísi aðeins til þess síðarnefnda. Þetta svæði ber einnig ýmis önnur nöfn, svo sem: Kanaanland, Ísraelsríki og Landið helga. Landamörk og nafngiftir. Í forn-egypskum textum er allt strandsvæði Austurlanda við Miðjarðarhaf á milli Egyptalands og Tyrklands nefnt "R-t-n-u" (venjulega ritað: Retjenu). Retjenu var skipt upp í þrjú svæði og syðsta svæðið, "Djahy", var með u.þ.b. sömu landamæri og Kanaanland, þar sem í dag er Ísrael og heimastjórnarsvæði Palestínumanna. Á járnöld er sennilegt að hið ísraelska konungsríki, sem varð til úr ríki Davíðs um 930 f.Kr., hafi stjórnað Jerúsalem og svæði sem náði yfir þar sem í dag er Ísrael og heimastjórnarsvæði Palestínumanna, auk landsvæða í vestri og norðri sem spannaði þá samanlagt landsvæði sem fellur nokkuð vel við stórtækari skilgreiningu Ísraelsríkis sem lýst er í Gamla testamentinu. Þó eru fornleifar frá þessum tíma sjaldgæfar og umdeildar. Heitið Palestína kemur af filisteum, sem var þjóð sem réðst inn í Palestínu einhvern tímann á 12. öld fyrir krist. Á hebresku er orðið פְּלְשְׁתִּים "felishtim" komið af orðinu פְּלִישָׁה "felisha" sem þýðir innrás. Filistear, sem voru ekki semítar að kyni, voru frá Suður-Grikklandi og voru skyldir Mýkenum. Þeir voru í fyrstu búsettir á strandsléttu sem nefnist Filistía, sem er nokkurn veginn það svæði sem kallað er Gasaströndin í dag, og lögðu fljótlega undir sig alla strandlengjuna frá Gasa til Jaffa og hálendið í austri allt að gyðingabyggðunum sem þar voru. Þessu svæði var skipt í fimm borgríki sem hétu Gasa, Askalon, Asdod, Gat og Ekron. Þeim var stjórnað af svo kölluðum "seren" sem hefur sömu merkingu og gríska orðið "tyrannos" eða harðstjóri eins og það útleggst á íslensku. Í forn-egypskum textum úr leghöllinni Medinet Habu er minnst á þjóð sem tilheyrði Hafþjóðunum og var kölluð "P-r-s-t" (venjulega ritað: "Peleset"). Hún er sögð hafa gert innrás í Egyptaland þegar Ramses 3. var við völd. Talið er afar líklegt að átt sé við filistea. Hebreska heitið feleshet (hebreska: פלשת fəléshseth), er notað í biblíunni um strandsléttuna við Gasa, Filistíu. Assýríski keisarinn Sargon 2. kallaði svæðið "falashtu" í annálum sínum. Um það bil sem Assýringar tóku völdin á svæðinu 722 f.Kr. voru filistear orðnir mikilvægir þegnar á svæðinu. 586 fyrir Krist, þegar kaldískir hermenn undir stjórn babýlonska heimsveldisins fluttu stóran hluta íbúana í þrældóm, þá hvarf með öllu sá bragur sem áður hafði einkennt borgarríki filistea. Á 5. öld f.Kr. ritaði Heródótos á grísku um „hérað í Sýríu, sem kallast "Palaistinêi"“ (latína: "Palaestina"; íslenska: "Palestína"). Landamörk svæðisins sem hann talaði um voru ekki nefnd með berum orðum, en Jósefos notaði sama heiti um lítið strandsvæði, Filistíu. Ptólemajos notaði einnig sama hugtak. Plinius eldri skrifar á latínu um svæði sem er hluti af Sýríu og var áður kallað "Palaestina" og var við austurhluta Miðjarðarhafsins. Á tímum Rómarveldis, náði skattlandið Júdea (ásamt Samaríu) yfir mest allt Ísrael okkar daga og heimastjórnarsvæði Palestínumanna. En í kjölfar Bar Kokhba uppreisnarinnar á annarri öld fyrir Krist reyndu Rómverjar að slíta tengslum Gyðinga við landið með því að endurnefna Júdeu og var það þá kallað "Syria Palaestina". Á tímum Austrómverska keisaradæmisins voru lönd Sýríu–Palestínu, Samaríu og Galíleu sameinuð og gefið nafnið Palestína. Síðan þá hefur Palestína átt við, í landfræðilegum skilningi, þetta svæði á milli Jórdan og Miðjarðarhafs. Heimildir frá 19. öld segja Palestínu liggja á milli hafsins og ónefndra viðskiptaleiða, líklegast Hejaz-Damaskus leiðin austur af Jórdandal. Trúarrit. Í hebresku biblíunni, Gamla testamentinu, er svæðið kallað Kanaanland (hebreska: כּנען) þar til Ísraelar setjast að og þá er það kallað Ísrael (Yisrael). Landsvæðið er einnig nefnt „Land Hebrea“ (hebreska: ארץ העברים, Eretz Ha-Ivrim) svo og nokkur skáldleg heiti: „land, sem flæðir í mjólk og hunangi“, „land, sem [Guð] sór feðrum yðar“, „Landið helga“, „Land Drottins“ og „Fyrirheitnalandið.“ Kanaanslandi er lýst ýtarlega í og þar er talið með Líbanon einnig í. Þetta svæði virðist hafa verið heimaland margra þjóða samkvæmt biblíunni, svo sem Kanaaníta, Hebrea, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. Samkvæmt arfsögnum Hebrea er Kanaanland hluti þess lands sem Guð gaf afkomendum Abrahams, þ.e. landsins sem nær frá Níl til Efrat: „Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat: land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta, Hetíta, Peresíta, Refaíta, Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta.“ (). Atburðir guðspjallanna fjögurra í Nýja testamentinu eiga sér allir stað í Fyrirheitnalandinu. Í Kóraninum er hugtakið "Landið helga" notað (الأرض المقدسة, "Al-Ard Al-Muqaddasah") og það kemur fyrir allavega sjö sinnum. Saga. Uppgrafin hýbýli við Tell es-Sultan. Frá fornsteinöld til nýsteinaldar (1.000.000 – 5000 f.Kr). Leifar manna sem fundist hafa suður af Genesaretvatni í Norður-Ísrarel eru allt að 600.000 ára gamlar. Árið 1925 uppgötvuðu menn „Palistínumanninn“ í Zuttiyeh–hellinum í "Wadi Al-Amud" nærri Zefat, en hann gefur upplýsingar um þróun á þessu svæði. Í hellum Shuqba í Ramallah og "Wadi Khareitun" í Betlehem hafa fundist verkfæri úr stein, við og dýrabeinum sem rakin eru til Natufian menningarinnar (12500 - 10200 f.Kr.) Fleiri fornleifar frá þessu tímabili hafa fundist við "Tel Abu Hureura", "Ein Mallaha", "Beidha" og Jeríkó. Á bilinu 10000–5000 f.Kr. mynduðust jarðyrkjusamfélög. Sönnunargögn þessu til stuðnings hafa fundist við Haug Sultans (arabíska: "Tell es-Sultan", tell þýðir haugur, þó ekki grafhaugur) nærri Jeríkó þar sem fundist hafa ferhyrndir múrsteinar úr leir, ferhyrnd hýbýli, brot úr leirmunum og slitur vefnaðar. Jeríkó hefur því stundum verið lýst sem elstu borg heims. Frá koparöld (4500 – 3000 f.Kr.) til bronsaldar (3000 – 1200 f.Kr.). Menningarsamfélag frá Sýrlandi, sem einkenndist af notkun kopar- og steintóla, fluttist til svæðisins eftir veginum sem liggur frá Jeríkó suður eftir ströndum Dauðahafsins og þaðan til Be'ér Sheva og Gasa. Þessir fólksflutningar efldu þann þéttbýlisvöxt sem þegar var hafinn. Snemma á bronsöld höfðu sjálfstæð kanaanísk borgríki myndast á sléttum og við strandir. Borgríkin voru umlukin veggjum úr leirmúrsteinum og reiddu sig á matarframleiðslu frá nærliggjandi jarðyrkjuþorpum sér til framfærslu. Kanaanísku borgarríkin stunduðu verslun og áttu í stjórnmálasambandi við bæði Egyptaland og Sýrland. Ýmis þéttbýlissvæði sem tilheyrðu Kanaanlandsmönnum voru lögð í rúst í kringum 2300 f.Kr. Stuttu síðar gerðu hirðingjar, sem komu að austan megin Jórdan, innrás og settust að í hæðunum. Kanaanítar urðu fyrir miklum áhrifum á miðri bronsöld frá þeim menningarsamfélögum sem umluktu þá, þ.e. frá Egyptalandi, Mesópótamíu, Fönikíu og Sýrlandi. Margvísleg verslunarsambönd og landbúnaðarefnahagur leiddu til þróunar nýrra leirkeraforma, ræktunar ávaxta og víðtækrar notkunar brons. Greftrunarsiðir frá þessu tímabili benda til þess að menn hafi trúað á líf eftir dauðann. Stjórnmála-, verslunar- og hernaðaratburðir síðla á bronsöld (1450 – 1350 f.Kr) voru skrásettir af sendiherrum og kanaanískum umboðsmönnum Egyptalands á nokkur hundruð leirtöflur sem ganga undir heitinu Amarna bréfin. Um 1250 f.Kr. fluttust filistear að og blönduðust íbúunum sem fyrir voru og töpuðu þannig þjóðareinkennum sínum eftir nokkrar kynslóðir. Járnöld (1200 – 330 f.Kr.). Leirkeraleifar skreyttar með stílfærðum fuglum sem fundist hafa í Asqelon, Ashdod, Gat, Ekron, Gasa eru fyrstu sönnunargögnin fyrir búsetu Filistea á svæðinu. Filistear eru taldir hafa borið með sér járnvopn og stríðsvagna auk nýrrar aðferðar til að gerja vín. Þróun á tímabilinu 1250 til 900 f.Kr. er umdeild, styrinn stendur um það hvort taka eigi frásögn Gamla testamentisins, þar sem Ísraelar sigra Kanaanland, alvarlega. Niels Peter Lemche, biblíufræðingur við Kaupmannahafnarháskóla, sagði í ritgerð sinni að sú frásögn sem birtist í biblíunni „er í mótsögn við nokkra mynd af palestínskum samfélögum til fornra, sem hægt er að gera sér í hugarlund, byggða á fornum heimildum frá svæðinu.“ Tímabil Gamla testamentsins. Þó menn deili um hvort Hebrear hafi komið til Kanaanslands frá Egyptalandi eða komið úr kafi þeirrar fólksmergðar sem á svæðinu var, þá eru menn sammála um að það hafi gerst á milli 13. og 12. öld fyrir Krist. Samkvæmt biblíuhefð var Ísraelsríki stofnað af hebreskum ættbálkum undir stjórn Sál sem varð fyrsti konungurinn um 1020 f.Kr. Árið 1000 f.Kr. var Jerúsalem gerð höfuðborg Ríki Davíðs og um þetta leiti er talið að fyrsta Jahvehofið í Jerúsalem hafi verið reist af Salómon konungi. Um 930 f.Kr. hafði konungsríkið skipst í tvennt, Ísraelsríki í norðri og Júdaríki í suðri. Fornleifar gefa til kynna að síðla á 13. öld, 12. öld og snemma á 11. öld f.Kr. byggðust mörg hundruð óvarin smáþorp og mörg þeirra í fjöllum Palestínu. Á 11. öld fór þeim að fækka en þess í stað reistu menn víggirta bæi. Það dróg úr umsvifum Egypta á svæðinu á þessu tímabili, þó þykir líklegt að Bet She'an hafi verið egypskt virki þar til snemma á 10. öld f.Kr. Stjórnmál samfélagsins einkenndust af illdeilum milli valdamanna þar til um miðja 9. öld þegar nokkrir höfðingjar sameinuðu krafta sýna í stjórnarbandalagi sem var stærra í sniðum en þekktist á bronsöld. Á árunum 722 til 720 f.Kr. var nyðra Ísraelsríki sigrað af assýríska heimsveldinu og Hebrear gerðir útlægir. Árið 586 f.Kr. var Júda sigrað af babýlónska heimsveldinu og Jerúsalem, ásamt Jehóvahofinu, lagt í eyði. Flestir Hebreanna voru sendir í þrældóm til Babýlóníu. Persnesk yfirráð (538 f.Kr.). Eftir myndun persneska heimsveldisins var gyðingum leyft að flytja aftur til þess lands sem trúarrit þeirra nefndu Land Ísraela og þeim veitt sjálfsstjórn. Það var um þessar mundir sem hið síðara Jehóvahof var reist í Jerúsalem. Sabastiye, nærri Nablus, var nyrsta skattland Persa í Palestínu og systu landamæri þeirra voru við Hebron. Sumir íbúanna þjónuðu í hernum og í smærri stöðum innan landstjórnar Persa en flestir stunduðu áfram landbúnað. Um 400 f.Kr. gerðu Nabatear innrás í suðurhluta Palestínu og stofnuðu þar menningarsamfélag við Negev sem varaði fram til 160 f.Kr. Hellenísk yfirráð (333 f.Kr.). Persneska heimsveldið leið undir lok stuttu eftir að Makedóníumenn undir stjórn Alexanders mikla réðust inn í Palestínu. Þegar Alexander lést, án þess að hafa látið eftir sig erfingja, skiptu herforingjar hans landsvæðinu sem hann hafði lagt undir sig á milli sín. Júdea var fyrst undir stjórn Ptólemajaríkis og síðar Selevkídaríkis. Ásýnd landsins breyttist auðsjáanlega vegna mikils vaxtar og þróunar, vegna skipulagningar þéttbýlis og bygginga víggírtra borga. Hellenísk hefð í leirkerasmíð blandaðist þeirri palestínsku. Iðnaður og viðskipti döfnuðu, þá sérstaklega á hellenískum yfirráðasvæðum, svo sem Askalan, Gasa, Jerúsalem, Jaffa og Neblus. Gyðingar í Júdeu höfðu takmarkað sjálfsforræði bæði hvað varðaði trú- og stjórnmál á tímum Antíokkosar 3. Vegna hrifningar á hellenisma og þörf á að skapa einingu meðal íbúa Jerúsalem gegn Rómverjum, sem voru að sækja í sig veðrið, tók Antíokkos 4. upp þá stefnu að aðlaga íbúa Jerúsalem að grískum siðum og draga úr þeim aðskilnaði sem ríkti á milli gyðinga og annarra. Gyðingatrú var bönnuð og lá líflát við. Af þessum sökum reyndu sumir að fela örmul umskurðar. Deilur milli forsprakka umbótastefnunnar Jasons og Menelausar leiddi að lokum til borgarastyrjaldar og íhlutunar Antíokkosar 4. Áframhaldandi ofsóknir á gyðingum leiddu til uppreisnar Makkabea undir stjórn Hasmonea, en þeir unnu fljótlega sigur og var Jónatan Mekkabeus, sonur Hasmoneusar, gerður landstjóri og æðsti prestur Júdeu 152 og hellenistar reknir úr Jerúsalem. Hasmonear deildu um sjálfræði við Aristobúlos 2. og Hyrcanus 2. í um öld þar til rómverski herstjórinn Pompeius kom til landsins. Landið varð þá leppríki Rómverja undir stjórn Hyrcanusar og síðar skattland Rómverja sem landstjóri Sýrlands stjórnaði. Rómversk stjórn (63 f.Kr). Þó svo Pompeius kæmi til Palestínu 63 f.Kr., varð rómversk stjórn ekki sterk fyrr en undir stjórn Heródesar mikla konungs. Þéttbýlisskipulag rómverja einkenndist af því að hanna borgina í kringum aðaltorgið (latína: Forum) þar sem aðalgötur borgarinnar liggja saman — Cardo, sem liggur frá norðri til suðurs og Peladious sem liggur frá austri til vesturs. Borgir voru tengdar saman með miklu vegakerfi sem þjónaði bæði viðskiptalegum og hernaðarlegum tilgangi. Einar merkilegustu fornleifar frá þessum tíma eru Heradion (Tell el-Fureidis) suður af Betlehem og Caesarea. Um það bil sem Jesús er talinn hafa fæðst, var ókyrrð í rómversku Palestínu og beinni stjórn Rómverja var aftur komið á. Kristnir menn voru kúgaðir og þó flestir tækju upp siði Rómverja voru margir, þá sérstaklega gyðingar, sem þoldu illa að vera undir stjórn þeirra. Í fyrra stríði gyðinga við Róm (66-73), hertók Títus Jerúsalem og rændi og eyðilegði musterið svo aðeins stóðu eftir stoðveggir, þar á meðal vestur veggurinn sem kallaður er Grátmúrinn. Árið 135, í kjölfar uppreisnar gyðinga rak rómverski keisarinn Hadrianus alla gyðinga í Júdeu í útlegð og lá líflát við. Þá fluttust gyðingar margir til Samaríu og Galíleu. Tiberias varð höfuðstaður ættfeðra gyðinga sem voru sendir í útlegð. Rómverjar breyttu nafni Júdeu í Sýría-Palestína. Hadrianus keisari (132 e.Kr) endurnefndi Jerúsalem „Aelia Capitolina“ og byggði þar hof til heiðurs Júpíter. Kristin trú var iðkuð á laun og hellenismi hélt áfram að breiðast út í Palestínu undir stjórn Septimius Severus (193 - 211 e.Kr). Nýjar borgir mynduðust við Eleutheropolis (Beit Jibrin), Diopolis (Lydd) og Nicopolis (Emmaus). Yfirráð Austrómverska keisaradæmisins (330 – 640 e.Kr.). Trúskipti Konstantíns keisara um 330 e.Kr. urðu til þess að kristni var gerð að ríkistrú Palestínu. Eftir að móðir hans, keisaraynjan Helena, fann þann stað sem hún taldi að Kristur hafði verið krossfestur á, var Kirkja hinnar helgu grafar byggð í Jerúsalem. Fæðingarkirkjan í Betlehem og Uppstigningarkirkjan í Jerúsalem voru einnig byggðar í stjórnartíð Konstantíns. Því varð Palestína höfuðból pílagríma og meinlætismanna alls staðar að úr heiminum. Mörg klaustur voru byggð, þar á meðal Klaustur heilags Georgs í Wadi al-Qild, Deir Quruntul og Deir Hijle nálægt Jeríkó, og Deir Mar Saba og Deir Theodosius austur af Betlehem. ("Deir" er arabíska og þýðir klaustur). Árið 352 e.Kr. gerðu gyðingar uppreisn gegn býsantískum yfirvöldum í Tiberias og öðrum hlutum Galíleu, en sú uppreisn var kvödd niður með grimmilegum hætti. Um 390 e.Kr. var Palestínu skipt í þrennt, "Palaestina Prima, Secunda og Tertia" (latína fyrir fyrsta, önnur og þriðja Palestína). "Palaestina Prima" samanstóð af Júdeu, Samaríu og Pereu, en landstjórinn var búsettur í Caesareu. "Palaestina Secunda" samanstóð af löndum Galíleu, neðri hluta Jezreeldal, löndum austur af Galíleu og vestur hluta fyrrum Decapolis og sat landstjórinn við stjórnvölinn í Scythopolis. "Palaestina Tertia" samanstóð af Negev, suðurhluta Jórdan og Siníu, en höfuðból landstjórans var í Petru. "Palaestina Tertia" var einnig þekkt sem "Palaestina Salutaris". Árið 536 e.Kr. gerði Justinianus 1. landstjóran í Caesarea að prókonsúl yfir allri Palestínu. Jústinianus taldi að stöðuhækkun landstjórans væri við hæfi þar sem hann væri ábyrgur fyrir „umdæminu sem vor herra Jesús Kristur... birtist á jarðríki“. Þetta útskýrir af hverju Palestína blómgaðist svo undir stjórn Kristinna. Fólksfjölgun í borgum á borð við Caesarea Maritima, Jerúsalem, Scythopolis, Neapolis og Gasa náði hámarki um þessar mundir og gátu þær af sér marga Kristna fræðimenn á sviðum mælsku, sagnaritunar (sbr. Kirkjusaga Eusebiusar) og helgisagnaritunar. Austurrómverska ríkið tapaði yfirráðum yfir Palestínu tímabundið á meðan hernám Persa stóð yfir 614–628 e.Kr. Svo árið 643 tapaði ríkið yfirráðum endanlega þegar Múslimar komu en þeir unnu fullnaðar sigur á býsantíska herliðinu í bardaganum um Yarmouk árið 636. Jerúsalem gafst upp 638 og Caesarea á milli 640 og 642. Kalífadæmi Araba (638 – 1099 e.Kr.). Árið 638 e.Kr. skrifuðu kalífinn Omar ibn al-Khattāb og Sophronius, býsantíski borgarstjóri Jerúsalem, undir "Al-Uhda al-'Omariyya" (Umariyya sáttmálinn) sem kvað á um réttindi og skyldur allra sem ekki voru múslimar í Palestínu. Gyðingum var leyft að snúa aftur til Palestínu í fyrsta skipti eftir 500 ára útlegð sem Rómverjar höfðu rekið þá í og austrómverskir ráðamenn fylgdu eftir. Omar Ibn al-Khattab varð fyrstur sigurvegara Jerúsalem til að ganga inn í borgina. Þegar hann heimsótti þann stað sem í dag kallast Haram al-Sharif, lýst hann því yfir að um heilagan tilbeiðslustað væri að ræða. Þær borgir sem viðurkenndu nýja yfirvaldið voru skrásettar á þessum tíma og voru: Jerúsalem, Nablus, Jenin, Akko, Tiberias, Bet Shean, Caesarea, Lajjun, Lod, Jaffa, Imwas, Beit Jibrin, Gasa, Rafah, Hebron, Yubna, Haifa, Safad and Askalan. Ættveldi Umayyad (661 – 750 e.Kr.). Í stjórnartíð Umayyad-ættarinnar var héraðinu "ash-Sham" (arabíska fyrir Æðra Sýrland), sem Palestína tilheyrði, skipt í fimm umdæmi. "Jund Filastin" (arabíska: جند فلسطين; þýðir bókstaflega „her Palestínu“) var svæði sem teygði sig frá Sínaí til sléttunar við Akko. Helstu borgir voru Rafah, Caesarea, Gasa, Jaffa, Nablus and Jeríkó. Í fyrstu var Lod höfuðborgin, en árið 717 varð nýbyggða borgin Ramla gerð að höfuðstað. "Jund al-Urdunn" (þýðir bókstaflega „her Jórdan“) var norðaustur af Filistíu. Helstu borgir voru Legio, Akko, Beit She'an,Tyre og höfuðborgin var Tiberias. Árið 691 skipaði kalífinn Abd al-Malik ibn Marwan svo fyrir að hefja ætti byggingu Helgidómsins á klettinum þar sem talið var að Múhammeð spámaður hafi hafið næturför sína til himnaríkis, á stalli Jehóvahofsins sem stóð þar áður. Um áratug síðar skipaði kalífinn Al-Walid I svo fyrir að Al-Aqsa moskan yrði byggð. Kristnir menn og gyðingar voru opinberlega titlaðir „Fólk bókarinnar“ í stjórnartíð Umayyad-ættarinnar til þess að undirstrika sameiginlega arfleifð þeirra og Múslima. Kalífadæmi Abbasída (750 – 969 e.Kr.). Palestína skipti Abbasída ekki eins miklu máli og fyrri kalífa, þó komu kalífar með aðsetur í Bagdad á helga staði í Jerúsalem og héldu áfram að byggja við Ramla. Strandsvæði voru víggirt og borgir á borð við Akko, Haifa, Caesarea, Arsuf, Jaffa and Ashkelon fengu fjármagn úr hirslum ríkisins til uppbyggingar. Árlegur markaður var í Jerúsalem 15. september og verslunarmenn frá Písa, Genóa, Feneyjum og Marseilles komu þangað til að versla krydd, sápu, silki, ólífuolíu, sykur og glerbúnað í skiptum fyrir evrópskan varnað. Kristnir pílagrímar komu einnig frá Evrópu og gáfu miklar fjárhæðir til helgistaði kristinna í Jerúsalem og Betlehem. Stjórn Fatimída (969 – 1099 e.Kr.). Fatimídar, með höfuðstöðvar í Túnis, sögðust vera afkomendur Múhameðs spámanns í gegnum dóttir hans Fatímu og lögðu undir sig Palestínu með innrás frá Egyptalandi árið 969. Jerusalem, Nablus, og Askalan voru stækkaðar og endurgerðar í stjórnartíð þeirra. Eftir tíundu öld byrjaði ríkjaskipulagið (þar sem því var skipt í Jund) að eyðast og kalífdæmið skiptist í æ smærri parta. Árið 1071 gerðu Tyrkir innrás og tóku Jerúsalem en töpuðu henni aftur 1098. Kort gert 1890 sem sýnir Palestínu á þessum tíma eins og arabískir landafræðingar lýstu því. Stjórn krossfarana (1099 – 1187 e.Kr.). Í stjórnartíð krossfaranna voru virki, kastalar, turnar og víggirt þorp byggð, endurbyggð og endurgerð um alla Palestínu á dreifbýlissvæðum. Eftirtektarverð eru ummerki byggingarstíls krossfaranna í gamla borgarhluta Akko. Í júlí 1187 vann kúrdíski hershöfðinginn Saladín, með höfuðstöðvar í Kaíró, sigur í bardaganum um Hattin. Saladín hélt áfram sigurför sinni til Jerúsalem. Þar gerði hann samning við krossfaranna og leyfði þeim að halda áfram búsetu í Jerúsalem og árið 1229 gerði Friðrik 2. 10 ára samning sem gaf krossförunum aftur stjórn yfir Jerúsalem, Nasaret og Betlehem. Árið 1270 gerði Baibar súltan krossfarana útlagða úr ríki sínu, en þeir fengu þó að halda bækistöðvum í Akko þar til 1291. Þar með yfirgáfu Evrópubúar Palestínu og héldu aftur til síns heima eða blönduðust fólksmergðinni þar. Mamelukkríkið (1270 – 1516 e.Kr.). Palestína var hluti Damaskus-umdæmis í stjórnartíð Mamelukka, sem höfðu aðsetur í Egyptalandi, og var umdæminu skipt upp í þrjú smærri umdæmi með Jerúsalem, Gasa og Safad sem höfuðborgir. Landið var rómað af arabískum og múslímskum riturum sem „blessað land spámanna og heiðraðra íslamskra leiðtoga,“ múslímskir helgistaðir voru „enduruppgötvaðir“ og þangað sóttu margir pílagrímar. Í fyrri hluta stjórnartíðar Mamelukka (1270 – 1382) voru margir skólar byggðir og leiguhúsnæði fyrir ferðamenn (khan), moskur sem voru umhirðulausar eða eyðilagðar í stjórnartíð krossfaranna voru uppgerðar. Hins vegar var seinni hluti stjórnartíðar þeirra (1382 - 1517) hnignunarskeið þar sem Mamelukkar stóðu í stríði við Mongóla utan Palestínu. Árið 1486 brutust út hernaðarátök við Ósmanaríkið í stríði um vestur Asíu. Herir Mamelukka töpuðu gegn herjum Ottómanns súltansins, Selim I, og þeir misstu stjórn á Palestínu 1516 eftir bardagan um Marj Dapiq. Ósmanaríkið (1516 – 1917 e.Kr.). Eftir sigur Ósmana var Palestína ekki lengur opinbert heiti umdæmisins þar sem Tyrkir nefndu þau gjarnan eftir höfuðborginni. Frá því að Palestína var innlimuð í heimsveldi Ósmana 1516 varð hún að "vilayet" (sem var stjórnsýslueining innan hvers umdæmis) sem tilheyrði Damaskus-Sýrlandi þar til 1660. Svo tilheyrði hún Sídon með hléum þar sem Frakkar tóku Jaffa, Haifa og Caesarea á tímabilinu 7. mars 1799 til júlí 1799. Þann 10. maí 1832 varð Palestína innlimuð af undirkonungnum Muhammed Ali frá Egyptalandi (en tilheyrði áfram Ósmanaríkinu að nafninu til), en í nóvember 1840 féll ríkið aftur í beina stjórn Ósmana. Gamla nafnið, Palestína, var áfram algengt í hálfformlegum umræðum. Mörg dæmi þess hafa varðveist frá 16. og 17. öld. Á 19. öld byrjaði ríkistjórn Ósmanaríkis að nota hugtakið "Arz-i Filistin" (‚Land Palestínu‘). Á meðal menntaðra var hugtakið "Filastin" algengt, þá var átt við alla Palestínu, umdæmis Jerúsalem. Eftir fyrri heimsstyrjöldina töpuðu Ósmanar völdum í Palestínu og Bretar settust við stjórnvölinn. 20. öldin. Í Evrópu, upp að fyrri heimsstyrjöldinni, var nafnið „Palestína“ notað óformlega um það svæði sem náði frá Raphai, sem er suðaustur af Gasa, norður til Nahr el Lītani sem tilheyrir nú Líbanon. Hafið markaði landamærin til vesturs en í austri mörkuðust þau af upphafi eyðimerkur Sýrlands sem var illa skilgreint. Í ýmsum evrópskum heimildum voru landamærin til austurs sögð við Jórdan eða rétt austur af Amman eða einhvers staðar þar á milli. Negev-eyðimörkin var þó ekki talin með. Samkvæmt Sykes-Picot sáttmálanum frá 1916 sáu menn fram á að mest öll Palestína yrði alþjóðlegt verndargæslusvæði undir stjórn Breta eða Frakka þegar Ósmanar höfðu tapað þar völdum. Stuttu eftir það gaf breski utanríkisráðherran Arthur Balfour út yfirlýsingu sína sem kvað á um að í Palestínu yrði Gyðingaathvarf. Egypska leiðangursveitin, leidd af marskálknum Edmund Allenby hertók Jerúsalem 9. desember 1917. Uppgjöf Tyrkja fylgdi í kjölfarið á sigri Breta í bardaganum um Megiddo í september 1918 og höfðu þeir þá náð gjörvallri Palestínu á sitt vald. Palestína í forsjá Breta (1920 – 1948). Palestína og Transjórdanía voru hluti af umdæminu sem Bretum var falið að stjórna af Þjóðabandalaginu. Formleg notkun orðsins „Palestine“ var aftur notuð í ensku þegar Bretum var falið að stjórna Palestínu. Bretar gerðu ensku, hebresku og arabísku opinber tungumál svæðisins. "Palestína" var þá svo nefnd í ensku og arabísku en "Palestína, land Ísraela" ((פלשתינה (א"י) á hebresku. Í júlí 1920 ráku Frakkar Faisal bin Husayn frá Damaskus og enduðu þar með lítilshæfa stjórn hans yfir Transjórdaníu, þar sem höfðingjar höfðu í gegnum árin spyrnt fótum við hvers kyns miðstýrðri stjórn. Höfðingjarnir (arabíska: sheik) sem áður höfðu verið hliðhollir Sharifnum í Mekka báðu Breta að taka við stjórn svæðisins. Herbert Samuel bað um að palestínska yfirráðasvæðið næði einnig til Transjórdaníu en á fundum í Kaíró og Jerúsalem á milli Winston Churchill og Abdullah emírs í mars 1921 var ákveðið að Abdullaj myndi stjórna því svæði (í fyrstu aðeins í sex mánuði) fyrir hönd palestínskra yfirvalda. Sumarið 1921 varð Transjórdanía hluti yfirráðasvæðis Breta að undanskildu heimalandi Gyðinga. 24. júlí 1922 samþykki Þjóðabandalagið skilyrði Breta um yfirráð yfir Palestínu og Transjórdaníu. 16. september var yfirlýsing Balfour svo samþykkt af Þjóðabandalaginu en Transjórdanía undanskilin fyrirhuguðu heimalandi Gyðinga. Þá samanstóð yfirráðasvæði Breta af Palestínu sem var um 23% svæðisins og Transjórdaníu sem var um 77%. Transjórdanía var dreifbýlt svæði þar sem lítið var um náttúruauðlindir og stór hluti þess var eyðimörk. Bandaríkjamenn efuðust um fyrirætlanir Breta og héldu að um áframhaldandi nýlendustefnu væri að ræða. Því var því skotið á frest að veita þeim yfirráð. Svipaðar efasemdir vöknuðu um ásetning Frakka og Ítala. Því neituðu Frakkar að samþykkja bresk yfirráð í Palestínu fyrr en þeirra eigin yfirráð yfir Sýrlandi voru staðfest. Áður en Bretum voru veittir stjórnartaumarnir árið 1923 notuðu þeir stundum hugtakið Palestína um það svæði sem er vestur af Jórdan en kölluðu svæðið austan megin við ánna Trans-Jordan (Transjórdanía) Æ fleiri gyðingar fluttu til svæðisins á þessum tíma. Frímerki frá Palestínu gefið út í stjórnartíð Breta. Loks, snemma árs 1947, lýsti breska ríkistjórnin því yfir að þeir vildu afsala sér umráðum í Palestínu og fela þau í hendur Sameinuðu þjóðanna. Skipting Sameinuðu þjóðanna. Þann 29. nóvember 1947 samþykkti Alsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvískiptingu Palestínu með atkvæðagreiðslu og var 2/3 ríkjanna meðmæltur. Hugmyndin var að leysa úr deilum araba og gyðinga með því að skipta svæðinu á milli þjóðarbrotanna og gera Jerúsalem að verndarsvæði undir stjórn S.þ. Forsprakkar gyðinga samþykktu þessa tillögu en arabar voru mótfallnir og neituðu að taka þátt í samningarviðræðum. Arabísk og múslímsk nágrannalönd voru einnig mótfallinn skiptingu. Samfélag araba brást ókvæða við þegar Æðrinefnd araba (e. Arab Higher Committee), sem var eins konar stjórnmálaflokkur Palestínumanna, lýsti yfir verkfalli og í kjölfarið fylgdu miklar óeirðir. Ísrael var stofnað 14. maí 1948 og næsta dag lauk stjórn Breta yfir Palestínu formlega. Fljótlega eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Ísrael réðust arabískir herir á það (þ.e. herir Líbanon, Sýrlands, Írak, Egyptalands, Transjordan, Her heilagsstríðs, Frelsisher araba og arabar þar búsettir) og hófst þá stríð Araba og Ísraela. Því var skiptingunni aldrei komið í verk. Staðan í dag. 1949 gerðu stríðandi fylkingar vopnahlé og var þá úr sögunni að stofna sjálfstætt ríki Palestínu. Löndum var skipt á milli Ísraela, Egypta, Sýrlands og Jórdaníu. Auk þess svæðis sem Ísraelum var íhlutað samkvæmt áður fyrirhugaðri skiptingu náðu þeir um 26% þess lands vestan við Jórdan sem áður hafði verið undir stjórn Breta. Jórdanía innlimaði um 21% þess lands, sem nú kallast Vesturbakkinn. Jerúsalem var skipt, Jórdanía fékk austurhlutan ásamt elsta hlusta borgarinnar og Jerúsalem vesturhlutan. Gasaströndinn var undir stjórn Egyptalands. Samkvæmt CIA World Factbook, segjast 49% þeirra 10 milljóna sem búa á milli Miðjarðarhafsins og Jórdaníu vera Palestínumenn, arabar, Bedúínar og eða drúsar. Þar af er ein milljón arabískir ríkisborgarar í Ísrael. Hinar fjórar milljónirnar sem ekki eru ríkisborgarar búa á Vesturbakkanum og Gasaströnd. Þeir búa í lögsögu Palestínska þjóðveldisins sem starfar eftir skilyrðum Ísraels. Samkvæmt 49. grein fjórða hluta Genfarsáttmálans er flutningur óbreyttra borgara hernámsþjóðar á hernumið land óheimil, en þrátt fyrir það búa 479.500 ísraelskir landnemar ólöglega á herteknu landi Palestínumanna, þar af 285.800 í 121 landnemabyggðum á Vesturbakkanum og 193.700 í Austur-Jerúsalem. Fyrirhugun. Fyrirhugun er trúarhugmynd um tengsl milli upphafs hlutar og örlaga hans. Tengsl hugtaksins við trú á æðri máttarvöld eru það sem greinir það frá hugtökum eins og andstæðunni milli nauðhyggju og frjáls vilja. Nánar tiltekið snýst fyrirhugun um mátt guðs til að skapa og stjórna sköpunarverkinu og að hve miklu leyti guð ákvarðar fyrir fram örlög hópa og einstaklinga. Fyrirhugun er þungamiðja í kenningum ýmissa hópa mótmælenda. Réttlæting (guðfræði). Réttlæting er í kristinni guðfræði sú athöfn guðs að gera eða lýsa syndara réttlátan fyrir guði. Hvenær, hvernig og að hve miklu leyti þetta gerist er deiluefni milli kirkjudeilda kristinna manna í Vesturkirkjunni og eitt af því sem skilur milli kaþólskra og mótmælenda. Tólf taflna lögin. Tólf taflna lögin ("Lex Duodecim Tabularum" eða einfaldlega "Duodecim Tabulae") var forn löggjöf sem lá til grundvallar rómverskum lögum. Tólf taflna lögin voru meginstoð rómverska lýðveldisins og kjarninn í "mos maiorum" (siðum forfeðranna). Lögin voru rituð um miðja 5. öld f.Kr. Vespasíanus. Titus Flavius Vespasianus (17. nóvember 9 – 23. júní 79), þekktur sem Vespasíanus, var keisari í Rómaveldi frá 69 til 79. Vespasíanus var fyrstur flavísku keisaranna en synir hans Títus og Domitíanus voru við völd eftir hans dag. Vespasíanus komst til valda í lok árs hinna fjögurra keisara. Stjórnartíð hans er einkum þekkt fyrir umbætur sem hann stóð fyrir að fordæmi júlísku-cládísku ættarinnar og fyrir stríð gegn Júdeu. Vespasíanus var hershöfðingi í rómverska hernum í stjórnartíð keisaranna Claudíusar og Nerós. Sem hershöfðingi tók hann þátt í innrás Rómverja í Bretland og hann var sendur af Neró til Júdeu til að kveða niður uppreisn gyðinga á svæðinu. Í Júdeu naut hann aðstoðar Títusar sonar síns þar sem þeir náðu á sitt vald stærstum hluta skattlandsins af uppreisnarherjunum. Áður en þeir náðu Jerúsalem á sitt vald urðu þeir þó að fresta hernaðaraðgerðum þar sem Neró hafði framið sjálfsmorð og Galba orðinn keisari. Galba var þó fljótlega myrtur af Otho sem beið svo ósigur í orrustu gegn Vitelliusi. Í kjölfarið lýstu herdeildirnar í Júdeu og Egyptalandi Vespasíanus keisara og hann náði að tryggja sér völdin eftir að hafa sigrað Vitellius í bardaga árið 69. Dómitíanus. Titus Flavius Domitianus (24. október 51 – 18. september 96), þekktur sem Domitianus, var keisari í Rómaveldi frá 14. september 81 til dauðadags. Hann var sonur Vespasíanusar og konu hans Domitillu. Dómitíanus var síðasti keisarinn af flavísku ættinni, en áður höfðu faðir hans og bróðir hans, Títus, gegnt embættinu. Dómitíanus tók við völdum þegar Títus lést skyndilega árið 81. Dómitíanusi er í heimildum lýst sem grimmum harðstjóra, höldnum ofsóknaræði og er af þeim sökum stundum talinn til hinna svonefndu brjáluðu keisara (andstætt t.d. hinum svonefndu góðu keisurum). Ævi. Dómitíanus var fæddur í Róm árið 51 inn í flavísku ættina. Ættin hafði fengið aukin völd á 1. öldinni í stjórnartíð júlísku-cládísku ættarinnar; afi Dómitíanusar hafði verið skattheimtumaður og faðir Dómitíanusar, Vespasíanus, og föðurbróðir voru öldungaráðsmenn. Vespasíanus var farsæll stjórnmálamaður og hershöfðingi í keisaratíð Nerós. Árið 66 var Vespasíanus sendur, ásamt Títusi, til Júdeu að kveða niður uppreisn á svæðinu. Þeir voru enn í Júdeu árið 68 þegar Neró framdi sjálfsmorð. Árið eftir tryggði Vespasíanus sér svo keisaratignina í borgarastríði sem er þekkt sem ár keisaranna fjögurra. Hann hafði þá stuðning herdeilda í Júdeu og Egyptalandi og hélt til Rómar. Dómitíanus var hins vegar í Róm og var settur í stofufangelsi af Vitelliusi, sem einnig barðist um að verða keisari, en náði að flýja úr höndum hans eftir að Vespasíanus hafði sigrað Vitellius í bardaga. Eftir það var Dómitíanus hylltur sem Titus Flavius Caesar Domitianus. Í stjórnartíð Vespasíanusar fékk Dómitíanus, ólíkt Títusi, fá tækifæri til að sanna sig sem stjórnmálamaður eða hershöfðingi og þó hann hafi nokkrum sinnum fengið embætti konsúls var hann alltaf mun valdaminni en Títus. Þegar Vespasíanus dó árið 79 varð Títus keisari og Dómitíanus var áfram valdalítill. Títus lést svo skyndilega eftir aðeins tvö ár á keisarastóli og var Dómitíanus þá hylltur sem keisari af öldungaráðinu. Sagnaritarar fornaldar tengdu margir Dómitíanus við dauða Títusar og sökuðu hann um að hafa lagt á ráðin um morð, en það er þó ekki talið áreiðanlegt þar sem heimildirnar eru margar mjög hlutdrægar gegn Dómitíanusi. Valdatími. Dómitíanus færði stjórn Rómaveldis nær því að vera einræði en fyrri keisarar höfðu gert og völd öldungaráðsins minnkuðu til muna í stjórnartíð hans, m.a. vegna þess að hann eyddi miklum tíma utan Rómar og hafði því minni samskipti við valdamenn í borginni en fyrri keisarar höfðu haft. Einnig stóð hann fyrir efnahagsumbótum og jók verðgildi mynntarinnar með því að auka silfurmagn í henni. Það fjármagnaði hann með strangri stefnu í skattheimtu. Einnig hélt hann áfram endurbyggingu Rómar eftir brunann mikla árið 64. Á meðal þess sem hann lét byggja var Flavíska höllin á Palatín hæð og hann lét klára byggingu Colosseum, þótt það hafi reyndar verið opnað í valdatíð Títusar. Í stjórnartíð Dómitíanusar var yfirráðasvæði Rómverja á Bretlandi stækkað undir stjórn hershöfðingjans Gnaeusar Juliusar Agricola. Agricola fór í herferð norður til Caledoniu (Skotland) þar sem hann sigraði stóran her Caledona í bardaga árið 83 eða 84. Stór hluti hers Caledona náði þó að flýja og Agricola tókst ekki að leggja svæðið undir sig. Stuttu síðar var hann kallaður heim til Rómar og Dómitíanus fyrirskipaði herdeildum að hörfa úr Caledoniu. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir síðari tíma keisara náðu Rómverjar aldrei að leggja svæðið undir sig. Dómitíanus barðist einnig við Decebalus, konung í Daciu. Dacia var konungsríki norðan Dónár og hafði Decebalus ráðist inn í svæði Rómverja sunnan Dónár. Her Decebalusar var hrakinn aftur norður yfir ánna en herleiðangur rómversks hers inn í Daciu var misheppnaður og því var samið um frið árið 89. Dómitíanus lét einnig styrkja varnir á landamærum Rómaveldis við Rín með því að láta byggja virki og varðturna á stóru svæði sem kallað var Limes Germanicus. Dómitíanus var myrtur árið 96 í samsæri nokkurra starfsmanna hirðar hans. Einn starfsmannanna, Marcus Cocceius Nerva, var í kjölfarið hylltur sem keisari af öldungaráðinu. Títus. Titus Flavius Vespasianus (30. desember 39 – 13. september 81), þekktur sem Títus, var keisari í Rómaveldi frá 79 til 81. Hann tók við völdum af föður sínum Vespasíanusi. Yngri bróðir hans, Dómitíanus, tók við völdum eftir hans dag. Ævi. Títus var fæddur í Róm árið 39, sonur Vespasíanusar og Domitillu eldri. Yngri bróðir hans var Dómitíanus sem síðar varð keisari. Títus varð ungur hershöfðingi og starfaði í Germaníu og á Bretlandi. Árið 66 hófst uppreisn gyðinga í Judeu og var Vespasíanus þá sendur, af Neró keisara, til að kveða hana niður. Stuttu síðar var Títus sendur með liðsauka til Judeu til að aðstoða föður sinn. Árið 68 höfðu Títus og Vespasíanus náð stærstum hluta Judeu á sitt vald en áttu þó eftir að ná Jerúsalem, stærsta vígi gyðinganna, þegar fréttir bárust af dauða Nerós. Hernaðaraðgerðum í Judeu var þá slegið á frest og við tók borgarastyrjöld þar sem Galba, Otho og Vitellius börðust um völdin. Eftir nokkra mánuði á valdastóli var Galba myrtur af stuðningsmönnum Othos og nokkrum mánuðum síðar framdi Otho sjálfsmorð eftir að Vitellius sigraði hann í bardaga. Herdeildirnar í Judeu og Egyptalandi hylltu þá Vespasíanus sem keisara. Vespasíanus fór þá til Ítalíu og sigraði her Vitelliusar, sem var skömmu síðar tekinn af lífi. Títus varð eftir í Judeu og árið 70 hóf hann umsátur um Jerúsalem. Umsátrið varaði í nokkra mánuði og að sögn var mannfallið gríðarlegt. Þar að auki voru tugir þúsunda teknir til fanga og seldir í þrældóm auk þess sem borgin var rænd af Rómverjum og lögð í rúst. Títus fagnaði síðar sigrinum í Róm og Títusarboginn var reistur honum til heiðurs. Ólíkt Dómitíanusi var Títus valdamikill á meðan faðir þeirra var keisari. Hann var m.a. skipaður yfirmaður lífvarðasveitar keisarans auk þess sem hann var konsúll nokkrum sinnum. Hann var því hylltur sem keisari, án nokkurrar mótstöðu, þegar Vespasíanus lést árið 79. Títus hafði aðeins verið keisari í um tvo mánuði þegar eldfjallið Vesúvíus gaus, og lagði borgirnar Pompeii og Herculaneum í rúst. Títus lét í kjölfarið skipuleggja hjálparstarf auk þess sem hann gaf sjálfur háar fjárhæðir til að aðstoða fórnarlömb hamfaranna. Á valdatíma Títusar var Flavíska hringleikahúsið, betur þekkt sem Colosseum, opnað. Bygging þess hafði hafist á valdatíma Vespasíanusar árið 70 og var opnuninni fagnað með miklum hátíðarhöldum sem entust í hundrað daga. Títus lést svo árið 81 úr hitasótt, eftir aðeins tvö ár á valdastóli, og við keisaratigninni tók þá Dómitíanus, yngri bróðir Títusar. Dánarorsök Títusar er ókunn en fornir sagnaritarar kenndu margir Dómitíanusi um að hafa átt sök á dauða hans eða að hann hafi að minnsta kosti ekki látið hlúa að Títusi á meðan hann var veikur. Slíkar getgátur þykja þó ekki áreiðanlegar þar sem Títus var almennt vel liðinn sem keisari en Dómitíanus var óvinsæll. Nerva. Marcus Cocceius Nerva (8. nóvember 30 – 27. janúar 98) var keisari í Rómaveldi eftir dauða Domitíanusar árið 96 þar til hann lést árið 98. Þrátt fyrir stutta valdatíð hefur Nerva verið talinn fyrstur hina svonefndu „fimm góðu keisara“ sem réðu frá 96 til 180 e.kr. Nerva var fyrsti keisarinn til að velja sér eftirmann á meðal þeirra sem hæfastir voru og ættleiða hann frekar en að velja eftirmann sinn meðal skyldmenna eins og tíðkaðist áður og gat þessi hefð af sér hina fyrrnefndu „fimm góðu keisara“. Fjölskylda. Nerva var fæddur í borginni Narni rúmum 80 km norður af Róm í fjölskyldu Marcus Cocceius Nerva og Sergia Plautilla. Fornar heimildir segja að hann hafi annaðhvort verið fæddur 30 eða 35 í þá virðulegu ætt. Faðir hans Nerva eldri var öldungaráðsmaður og afi hans sem bar einnig sama nafn og Nerva var í keisaralega aðstoðarliði Tíberíusar um það leiti sem Nerva fæddist. Þjóðfélagsþjónusta. Ekki er mikið vitað um fyrrihluta ferils Nerva. Þó er ekki talið líklegt að hann hafi farið hinar hefbundnu leiðir eins og í herinn sem tíðkaðist yfirleitt á tímum Rómaveldis. Samkvæmt Tacítusi var Nerva kosinn praetor á valdatíma Nerós árið 65 og lék þar Nerva mikilvægt hlutverk í að svifta hulunni af pisonian samsærinu og fékk fyrir það mikinn heiður og styttur af sér í kringum höllina. Nerva og Vespasíanus störfuðu báðir sem aðstoðarmenn Nerós og því er ekki fráleitt að Nerva hafi þurft að gæta hins unga Domitíanusar þegar Vespasíus var sendur í burtu til að kveða niður gyðingauppreisnina árið 67. Í kjölfarð á dauða Nerós árið 68 var Nerva hliðhollur flavísku ættinni á meðan borgarastyröldinni stóð árið 69, hinu svokallaða ári keisaranna fjögurra. Það ár varð Nerva vitni að valdatöku og falli Galba, Othos og Vitelliusar og að lokum valdatöku Vespasíanusar, fyrsta keisarans af flavísku ættinni. Nerva hélt áfram að þjóna Vespasíanusi og árið 71 fékk Nerva svo loksins verðlaun fyrir tryggð sína með sínu fyrsta ráðgjafastarfi. Hann hélt svo áfram að þjóna sem ráðgjafi undir báðum sonum Vespasíanusar, Títusi og Dómitíanusi. Keisari. Þann 18. september 96 var Domintíanus ráðinn af dögum af samsærismönnum í höllinni og þann sama dag var Marcus Cocceius Nerva krýndur keisari. 30. Árið 30 (XXX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á sunnudegi. 39. Árið 39 (XXXIX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. 9. Árið 9 (IX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. Colosseum. Best varðveitti hlutinn af Colosseum. Colosseum (einnig ritað Coliseum), upprunalega Flavíanska hringleikahúsið (latína: "Amphitheatrum Flavium"), er stærsta hringleikahúsið sem byggt var í Rómaveldi. Það gat upprunalega tekið við 70.000 manns í sæti og var notað fyrir bardaga skylmingaþræla og annarra svipaðra skemmtana. Colosseum var byggt á árunum 72 til 80, það var Vespasíanus sem lét hefja byggingu þess en sonur hans Títus var kominn til valda þegar húsið kláraðist. Það var notað til ársins 217 þegar það skemmdist þegar það varð fyrir eldingu. Það var ekki gert upp fyrr en árið 238 en eftir það var það notað til ársins 524. Hætt var að sýna bardaga skylmingaþræla stuttu eftir að kristni varð ríkistrú en húsið var enn notað fyrir ýmsar aðrar skemmtanir. Á miðöldum átti Colosseum mjög erfiða tíma en þá skemmdist húsið mikið í jarðskjálftum, var notað sem virki og kirkja reist í hluta þess. Þar að auki var mikið af steinunum sem byggingin er gerð úr teknir til að byggja nýjar byggingar, til dæmis fór mikið af marmaranum í Péturskirkjuna. Á síðari tímum hefur Colosseum, eða það sem eftir er af því, orðið eins konar tákn fyrir borgina og hið forna Rómaveldi. Friður. Friður er ástand laust við átök. Oftast er þá um stríðsátök að ræða, og friður er í þeim skilningi andheiti stríðs. En einnig er vísað til friðar sem ástands þar sem læti og persónuleg átök eru ekki til staðar, og er þá samheiti kyrrðar. Enn ein merkingin vísar til hugarástands þar sem einstaklingur á ekki í innri átökum eða efasemdum, og er þá talað um innri frið. Tíberíus. Tiberius Caesar Augustus, fæddur Tiberius Claudius Nero, (16. nóvember 42 f.Kr. – 16. mars 37) var annar keisari Rómar frá dauða Ágústusar árið 14 þar til hann lést sjálfur. Hann var af claudísku ættinni, sonur Tiberiusar Neros og Liviu Drusillu. Móðir hans skildi við föður hans og giftist Ágústusi 39 f.Kr. Tíberíus giftist síðar dóttur Ágústusar (af fyrra hjónabandi) Juliu eldri og var síðar ættleiddur af Ágústusi og varð við það hluti af julísku ættinni. Keisaratignin átti síðan eftir að haldast innan þessara tveggja ætta næstu fjörutíu árin þannig að sagnfræðingar hafa talað um julíska-claudíska veldið. Tíberíusar er minnst sem eins af hæfustu herforingjum Rómaveldis sem lagði grundvöllinn að norðurmörkum heimsveldisins með herförum sínum í Pannóníu, Illyríu, Retíu og Germaníu. Síðar varð hann þekktur sem skapþungur og sérlundaður keisari. Keisaratignin var embætti sem hann óskaði sér aldrei, og valdatíð hans endaði með ógnarstjórn eftir lát sonar hans Drususar árið 23. Árið 26 fluttist hann til eyjarinnar Kaprí og sneri aldrei aftur til Rómar en hélt tengslum við öldungaráðið með bréfaskriftum. Stjórn ríkisins var að mestu leyti í höndum hins ófyrirleitna Sejanusar. Ættleiddur sonur hans, Calígúla, tók við af honum. Æska og uppvöxtur. Tíberíus var sonur Liviu Drusillu og Tiberiusar Neros, en þegar hann var þriggja ára voru foreldrar hans látnir skilja svo að Octavianus (sem síðar varð þekktur sem Ágústus) gæti giftst móður hans. Faðir Tíberíusar lést árið 33 f.Kr. og eftir það var Tíberíus hjá móður sinni og Ágústusi. Árið 16 f.Kr. giftist hann Vipsaniu Agrippinu en með henni eignaðist hann soninn Drusus Julius Caesar árið 13 f.Kr. Ágústus fékk Tíberíus svo til þess að skilja við Vipsaniu til þess að giftast dóttur sinni frá fyrra hjónabandi, Juliu eldri, árið 11 f.Kr. Að sögn var fyrra hjónaband Tíberíusar hamingjusamt, en seinna hjónabandið var alla tíð óhamingjusamt. Árið 6 f.Kr. dró Tíberíus sig út úr sviðsljósinu í Róm og flutti til Rhodos þar sem hann var næstu átta árin. Árið 2 f.Kr. skildi hann við Juliu vegna framhjáhalds hennar. Arftaki Ágústusar. Ágústus hafði ættleitt Lucius og Gaius, syni Juliu dóttur sinnar frá fyrra hjónabandi hennar. Þeir voru ættleiddir árið 17 f.Kr. með það fyrir augum að þeir myndu taka við af honum keisaratigninni. Lucius lést árið 2 og Gaius árið 4 og því þurfti Ágústus að finna nýjan arftaka. Nýji arftakinn reyndist vera Tíberíus því Ágústus ættleiddi hann Hershöfðinginn Tíberíus. Tíberíus hafði sýnt það frá unga aldri að hann var hæfur hershöfðingi, en hann hafði m.a. barist gegn Pörþum árið 20 f.Kr., þar sem hann hefndi fyir ósigur Crassusar 33 árum fyrr. Einnig lagði hann ný landsvæði undir Rómaveldi í Ölpunum, ásamt bróður sínum, Drususi. Eftir að hafa verið ættleiddur af Ágústusi hélt hann til herdeildanna á ný og kvað niður uppreisn á Balkanskaga. Árið 9 stjórnaði hann vörnum við ána Rín eftir að hershöfðinginn Varus hafði tapað bardaganum í Teutoburg skógi þar sem þrjár rómverskar herdeildir (legio) höfðu farist. Valdatími. Tíberíus var augljós erfingi Ágústusar, eftir að sá síðarnefndi lést árið 14, og var því fljótlega hylltur sem keisari af öldungaráðinu. Engu að síður voru ekki allar herdeildirnar tilbúnar til að sverja honum hollustu og uppreisnir áttu sér stað í Pannoniu og við Rín. Drusus sonur Tíberíusar kvað niður uppreisnina í Pannoniu og Germanicus, bróðursonur Tíberíusar sem hann hafði ættleitt, kvað niður uppreisnina við Rín, með nokkrum erfiðleikum. Germanicus jók á hróður sinn sem sigursæll hershöfðingi þegar hann hefndi fyrir ósigur Varusar í Germaníu, á árunum 14 til 16. Árangrinum fagnaði hann í Róm með hátíðarhöldum og var svo í kjölfarið skipaður ræðismaður (consul). Með þessu var hann orðinn líklegastur til þess að verða arftaki Tíberíusar. Germanicus lést hins vegar skyndilega árið 19 og grunur lék á að eitrað hefði verið fyrir honum. Drusus, sonur Tíberíusar, varð þá líklegur arftaki, varð landsstjóri í Pannoniu og síðar ræðismaður, en hann lést einnig skyndilega, árið 23. Síðar kom í ljós að eiginkona hans Livilla og elskhugi hennar, Sejanus, höfðu eitrað fyrir honum. Sejanus. Árið 26 yfirgaf Tíberíus Róm og sneri aldrei þangað aftur. Hann varði mestum sínum tíma á eyjunni Kaprí á setri sem hann kallaði Villa Jovis. Eftir brotthvarf Tíberíusar varð Lucius Aelius Sejanus, yfirmaður lífvarðasveitar keisarans, valdamesti maðurinn í Rómaborg. Sejanus hafði áður styrkt stöðu sína í Róm þegar hann flutti alla lífvarðasveit keisarans inn í borgina, en sveitin hafði áður verið staðsett á víð og dreif í kringum borgina. Með þessu hafði hann hátt í tíu þúsund hermenn undir sinni stjórn inni í borginni. Sejanus bað Tíberíus árið 25 um leyfi til að giftast Livillu, ekkju Drususar, en Tíberíus neitaði því hann áleit Sejanus vera af of lágri stétt. Engu að síður var Sejanus einn af helstu aðstoðarmönnum Tíberíusar og eftir að sá síðarnefndi settist að á Kaprí stjórnaði Sejanus að mestu hverjir fengu að hitta keisarann. Sejanus hóf árið 29 að handtaka ýmsa valdamenn í borginni, til þess að losa sig við alla samkeppni um völdin. Margir voru sakaðir um landráð og teknir af lífi. Á meðal þeirra sem hann lét handtaka voru Agrippina, ekkja Germanicusar, og tveir synir hennar, en þau dóu öll í varðhaldi. Fljótlega uppúr þessu fór að halla undan fæti hjá Sejanusi, því Tíberíus fór að gruna að hann ætlaði sér að taka völdin af sér. Tíberíus sendi bréf til Rómar þar sem hann lét öldungaráðið skipa mann að nafni Macro sem yfirmann lífvarðasveitarinnar, og sá hinn sami handtók Sejanus og lét taka hann af lífi. Síðustu árin. Réttarhöld og aftökur á meintum landráðamönnum héldu áfram þrátt fyrir fráfall Sejanusar, að þessu sinni fyrir tilstuðlan Tíberíusar, enda töldu fornir sagnaritarar að keisarann væri haldinn vænisýki sem hefði farið sífellt versnandi eftir því sem hann eltist. Orðspor Tíberíusar fór sífellt versnandi eftir því sem leið á valdatíma hans, bæði vegna þeirrar ógnarstjórnar sem ríkti í Rómaborg, á meðan keisarinn var fjarverandi, en einnig vegna sögusagna um afbrigðilegar kynhneigðir keisarans. Tíberíus ættleiddi tvo ættingja sína, og hugsanlega arftaka, árið 35. Annars vegar var það eini eftirlifandi sonur Germanicusar og Agrippinu, Gaius (sem er þekktur sem Calígúla), og hins vegar Tiberius Gemellus, sonarsonur Tíberíusar. Gaius hafði þó mun sterkari stöðu þar sem Gemellus var aðeins á táningsaldri. Tíberíus veiktist árið 37 þegar hann var að ferðast í Campaniu, á sunnanverðri Ítalíu. Að lokum varð hann ófær um að halda áfram og lést skömmu síðar, við höfnina í Misenum, nálægt Napólí. Sagnaritarinn Tacitus segir frá því að Calígúla og Macro, yfirmaður lífvarðasveitarinnar, hafi kæft Tíberíus með kodda þegar keisarinn virtist vera að jafna sig af veikindunum. Almenningur fagnaði fráfalli Tíberíusar, enda var hann þá orðinn mjög óvinsæll. Calígúla tók við keisaratigninni án átaka. Erfðaskrá Tíberíusar hafði kveðið á um að Calígúla og Gemellus ættu báðir að taka við keisaratigninni, en hún var lögð til hliðar. Calígúla ættleiddi Gemellus en lét þó fljótlega taka hann af lífi. Heimildir. Scarre, Chris, "Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome" (London: Thames & Hudson, 1995). Claudíus. Tiberius Claudius Caesar Augustus Germanicus (1. ágúst 10 f.Kr. – 13. október 54), áður Tiberius Claudius Drusus Nero Germanicus en þekktastur sem Claudius (stundum skrifað Kládíus), var fjórði rómverski keisarinn af julísku-claudísku ættinni. Hann ríkti frá 24. janúar 41 til dauðadags árið 54. Claudius fæddist í Lugdunum í Gallíu (í dag Lyon í Frakklandi). Foreldrar hans voru Drusus og Antonia Minor. Claudíus var fyrsti rómverski keisarinn sem fæddist utan Ítalíu. Claudíus þótti ekki líklegur til að verða keisari. Sagt var að hann væri fatlaður og fjölskylda hans hafði nánast útilokað hann úr opinberu lífi þar til hann gegndi embætti ræðismanns ásamt frænda sínum Calígúla árið 37. Fötlunin kann að hafa bjargað honum frá örlögum margra annarra rómverskra yfirstéttarmanna þegar Tíberíus og Calígúla ríktu og létu taka marga af lífi sem þeir töldu ógna sér. Þegar Calígúla hafði verið ráðinn af dögum hyllti lífvörður keisarans hann sem keisara en þá var hann síðasti fullorðni karlmaðurinn í sinni ætt. Þrátt fyrir reynsluleysi í stjórnmálum reyndist Claudíus vera hæfur stjórnandi og mikill framkvæmdamaður. Á valdatíma hans stækkaði Rómaveldi allnokkuð og lögðu Rómverjar m.a. undir sig Bretland. Claudíus var áhugasamur um lög og lagasetningu, hann dæmdi í opinberum réttarhöldum og felldi allt að 20 dóma á dag. Aftur á móti þótti hann ekki sterkur stjórnandi, einkum af yfirstéttinni. Claudíus neyddist til að vera sífellt á verði um völd sín og leiddi það til dauða margra rómverskra öldungaráðsmanna. Claudíus átti ekki sjö dagana sæla í einkalífi sínu og var á endanum myrtur af þeim sem stóðu honum næst. Orðspor hans beið hnekki af þessum sökum meðal fornra höfunda. Sagnfræðingar nú á dögum hafa mun meira álit á Claudíusi. Fjölskylda og æska. Claudius fæddist Tiberius Claudius Drusus 1. ágúst, 10 f.Kr. í Lugdunum, Gallíu, á sama degi var altari tileinkað Ágústusi. Hann var þriðja barn Neros Claudiusar Drususar og Antoniu Minor sem lifði, eldri börnin voru Germanicus og Livilla. Antonia kann að hafa alið tvö önnur börn en þau létust ung. Afi hans og amma í móðurætt voru Marcus Antonius og Octavia Minor, systir Ágústusar. Afi hans og amma í föðurætt voru Livia, þriðja kona Ágústusar, og Tiberius Claudius Nero. Á valdatíma sínum kom Claudíus af stað sögusögnum um að Drusus, faðir hans, hefði í raun verið óskilgetinn sonur Ágústusar. Árið 9 f.Kr. lést Drusus óvænt, hugsanlega af slysförum. Claudíus var þá alinn upp af móður sinni, sem giftist ekki aftur. Þegar einkenni Claudíusar urðu ljós versnaði samband hans við fjölskylduna. Antonia sagði hann vera skrímsli og notaði hann sem mælistiku á heimsku. Hún virðist hafa látið Liviu, ömmu drengsins, um hann um nokkurra ára skeið. Livia var engu ljúfari við drenginn og sendi honum margsinnis stutt skammarbréf. Fyrrverandi asnahirði var falið að sjá um drenginn til að beita hann aga, enda talið að ástand hans stafaði af leti og skorti á viljastyrk. Þegar hann varð táningur dró hins vegar úr einkennum hans og fjölskylda hans fór að taka eftir áhuga hans á lærdómi. Árið 7 var sagnaritarinn Lívíus ráðinn sem kennari hans í sagnfræði ásamt Sulpiciusi Flavusi. Claudíus varði miklum tíma með þeim síðarnefnda og með heimspekingnum Aþenodorosi. Ágústus mun hafa verið hissa á skýrleika Claudíusar í ræðumennsku. Vonir um framtíð hans jukust. Valdatími. Sagan segir að eftir að Calígúla var myrtur, hafi meðlimur úr lífvarðasveit hans rekist á Claudíus fyrir tilviljun og farið með hann í höfuðstöðvar lífvarðasveitarinnar, þar sem hann var hylltur sem keisari. Claudíus lét strax hefna fyrir dauða Calígúla; helsti samsærismaðurinn, Cassius Chaerea, var líflátinn og Julius Lupus, sem hafði drepið eiginkonu Calígúla og dóttur, var einnig drepinn. Aðrir sem tóku þátt í samsærinu voru látnir í friði. Claudíus tók örlög Calígúla sem viðvörun fyrir sjálfan sig og viðhafði miklar öryggisráðstafanir í kringum sig. Hann var alla tíð mjög hræddur um líf sitt og lét taka fjölda manns af lífi sem hann grunaði um að ætla að myrða hann. Eiginkona Claudíusar, Messalina, notfærði sér ótta Claudíusar og sannfærði hann um að láta drepa marga óvini hennar og keppinauta. Messalina var þriðja eiginkona Claudíusar og með henni átti hann soninn Britannicus. Hún varð hins vegar alræmd fyrir að eiga marga aðra elskhuga og gekk að lokum svo langt að hún giftist einum þeirra, þó hún væri enn gift Claudíusi. Claudíus óttaðist að hún væri að skipuleggja valdarán og hún og nýji eiginmaður hennar voru tekin af lífi. Heilsufar og persónueinkenni. Brjóstmynd af Claudíusi úr bronsi Sagnaritarinn Suetonius lýsir útlitseinkennum Claudíusar í smáatriðum. Hné hans voru veik og létu undan þunga hans og höfuð hans hristist. Hann stamaði og var óskýrmæltur. Hann slefaði þegar hann varð æstur. Stóumaðurinn Seneca segir í verki sínu "Apocolocyntosis" ("Hinn goðumlíki Claudius tekinn í graskeratölu") að rödd Claudíusar væri ólík öllum landdýrum og hendur hans voru einnig veikburða. Aftur á móti bar hann engin lýti og Suetonius greinir frá því að þegar hann var rólegur og sitjandi hafi hann virst hávaxinn, stæðilegur og virðulegur. Þegar hann reiddist eða varð stressaður urðu einkenni hans verri. Sagnfræðingar eru á einu máli um að þetta hafi verið honum til framdráttar þegar hann tók við völdum. Claudíus hélt því sjálfur fram að hann hefði ýkt einkenni sín til að bjarga lífi sínu. Á 20. öld voru afar skiptar skoðanir á ástandi Claudíusar. Á fyrri helmingi aldarinnar var lömunarveiki viðtekin skýring á ástandi hans. Robert Graves styðst við þessa skýringu í bókum sínum um Claudíus, sem komu fyrst út á 4. áratugnum. Lömunarveiki útskýrir þó ekki öll einkennin og því hefur verið giskað á að heilalömun hafi verið ástæðan, eins og Ernestine Leon hefur lýst veikinni. Fornir sagnaritarar lýsa Claudíusi sem rausnarlegum manni, manni sem sagði lélega brandara, hló óstjórnlega og snæddi hádegisverð með lágstéttarfólki. Þeir draga einnig upp mynd af honum sem blóðþyrstum og grimmum manni, sem var auðveldlega reiddur til reiði (þótt Claudius viðurkenndi sjálfur síðasta persónueinkennið og baðst opinberlega afsökunar á skapofsa sínum). Þeir töldu hann einnig of treystandi og að eiginkonur hans og leysingjar ráðskupust of auðveldlega með hann. En á sama tíma draga þeir upp mynd af honum sem ofsóknaróðum og tilfinningalausum manni, leiðinlegum sem ætti auðvelt með að ruglast. Varðveitt rit Claudiusar sjálfs benda til annars, að hann hafi verið gáfaður maður, vel lesinn og athugull og réttlátur stjórnandi. Claudíus er þess vegna hálfgerð ráðgáta. Síðan „Bréfið til Alexandríumanna“ fannst hefur mikið verið gert til að veita Claudíusi uppreisn æru og og komast að sannleikanum. Pákur. Pákur (ketiltrommur eða ketilbumbur) eru slagverkshljóðfæri af þeirri gerð sem gefa frá sér einn tiltekinn tón. Sjaldan er talað um eina páku vegna þess að alltaf er leikið á tvær eða fleiri pákur saman. Páka er koparskál sem skinn er strengt yfir. Oftast er hægt að strekkja á skinninu með fótstigi og stilla þannig tónhæð hverrar páku. Á pákur er leikið með sérstakri gerð af kjuðum, pákukjuðum. Þeir eru með mjúkt höfuð, oft með trékjarna og feltfóðri, handfangið er vanalega úr viði. Mismunandi kjuðar eru notaðir, jafnvel í sama verki, til að ná fram mismunandi tónblæ úr hljóðfærinu. Pákur þróuðust út frá trumbum, sem voru notaðar í hernaði, og urðu fast hljóðfæri í hljómsveitum á 16. öld og hafa verið það síðan. Algengast er að notaðar séu tvær pákur, önnur stillt á grunntón en hin á fortón tóntegundarinnar sem verkið er í. Frá því á rómantíska tímabilinu (og raunar að einhverju leyti fyrr) hefur þeim þó farið fjölgandi og venjulegt er orðið að hafa fjórar pákur í hveri hljómsveit. Þó það sé mjög sjaldgæft hafa verið samin nokkur verk fyrir pákur og hljómsveit, til dæmis samdi Philip Glass árið 2000 konsert fyrir tvo pákuleikara og hljómsveit, þar sem hvor pákuleikari notar sjö pákur. Guðfinna Jónsdóttir. Guðfinna Jónsdóttir var fædd árið 1899 að Arnarvatni í Mývatnssveit. Þegar hún var sjö ára flutti hún ásamt fjölskyldu sinni að Hömrum í Reykjadal, bæinn sem hún kenndi sig við eftir að hún tók að birta ljóð sín. Fyrstu kvæði hennar sem vöktu athygli komu út í safnritinu "Þingeysk ljóð" árið 1940. Árið eftir kom fyrsta ljóðabók hennar út en árið 1945 sendi hún frá sér aðra ljóðabók. Þessar bækur voru "Ljóð" sem kom út 1941 en sú seinni hlaut heitið "Ný ljóð". Ári eftir útkomu seinni bókarinnar, eða 1946, lést Guðfinna á Kristneshæli af völdum tæringar (berkla). Úrval ljóða skáldkonunnar frá Hömrum kom út 1972 og heitir "Ljóðabók". Kristján Karlsson valdi ljóðin í þá útgáfu og skrifaði inngang að henni. Guðfinna var komin yfir fertugt þegar hún tók að birta ljóð sín. Framan af ævi hafði önnur listgrein átt hug hennar allan en það var tónlistin. Guðfinna lærði snemma á orgel og var m.a. í læri hjá Sigfúsi Einarssyni og Páli Ísólfssyni. Hún var talin í hópi fremstu orgelleikari landsins og kenndi söng og orgelleik bæði á Laugum og á Húsavík um skeið. Guðfinna missti báðar systur sínar úr berklum og glímdi sjálf við þann sjúkdóm stóran hluta ævi sinnar. Þegar heilsan hindraði það að hún gæti setið við orgelið og sinnt því sem stóð huga hennar næst sneri hún sér að ljóðlistinni og lagði í hana alla sína krafta og vitsmuni. Eitt megineinkenni ljóða hennar er næm tilfinning fyrir hljómfalli. Tregatónninn leikur þar víða undir en þó lýsa kvæði hennar af æðruleysi gagnvart dauðanum og bjartsýnni trú á að hún muni ná að uppfylla drauma sína á öðrum stað. Flest kvæði Guðfinnu voru ort eftir nýrómantískri hefð en sum eru þó greinilega af raunsæislegum toga. Algengustu yrkisefni hennar eru nánasta umhverfi hennar heima á Hömrum en náttúrumyndirnar notar hún gjarnan til að koma einhverjum djúpstæðari boðskap á framfæri en fegurð náttúrunnar. Skáldagyðja Guðfinnu er greinilega staðsett í náttúrunni og þangað leitar hún andagiftar og svara í sambandi við æðri rök lífsins. Eftir því sem líður á hinn stutta skáldaferil hennar verða brostnar vonir og togstreitan á milli skyldu og langana æ fyrirferðarmeira viðfangsefni í kvæðum hennar. Í kvæðum Guðfinnu af raunsæislegum toga yrkir hún gjarnan um þá sem minna mega sín. Þessi kvæði hennar teljast tæplega pólitísk en samúðin með þeim sem hafa orðið undir í lífinu er greinileg svo og réttlætiskennd skáldkonunnar. JJ72. JJ72 var indie rokk hljómsveit frá Dublin á Írlandi. Hún hefur gefið út tvær breiðskífur. Maríus. Gaius Maríus (157 f.Kr. — 13. janúar 86 f.Kr.) var rómverskur herforingi og stjórnmálamaður, kosinn ræðismaður (consul) sjö sinnum á stjórnmálaferli sínum. Hann gerði umtalsverðar umbætur á rómverska hernum, sem fólu meðal annars í sér að rómverskir borgarar gátu gengið í herinn þótt þeir væru ekki landeigendur, endurskipulagningu herdeilda ("legiones") í flokka ("cohortes") og breytingar á pilus-spjótinu sem hindruðu það að óvinir gætu kastað því til baka, þar sem það brotnaði við lendingu. Maríus, Gaius Maríus, Gaius Súlla. Lucius Cornelius Sulla Felix eða Súlla (um 138 f.Kr. – 78 f.Kr.) var rómverskur herforingi og alræðismaður ("dictator"). Hann hlaut viðurnefnið Felix — hinn hamingjusami — á eldri árum vegna farsællar herstjórnar sinnar. Honum var oft lýst sem hálfum ref, hálfu ljóni vegna þess að hann var rómaður fyrir að vera klókur og hugrakkur. Hann var óvenjulegur Rómverji að því leyti að hann hafði ríka kímnigáfu og var óútreiknanlegur, bæði í athöfnum og lunderni. Hann var einkar hagsýnn maður en þó afar hjátrúarfullur og trúði á heppni sína. Hann var hygginn maður og gerði ítarlegar hernaðaráætlanir en ef mótlæti lét á sér kræla gat hann einnig brugðist snögglega við og harkalega. Súlla er ef til vill dularfyllstur og torskildastur allra rómverskra stjórnmálamanna og herforingja. Súllu er einkum minnst fyrir ógnarstjórn sína undir lok stjórnmálaferils síns. Að loknu borgarastríði árið 82 f.Kr. fól öldungaráð Rómar Súllu alræðisvald. Í kjölfarið fylgdi ógnarstjórn. Súlla lét taka andstæðinga sína af lífi hundruðum saman. Hann tvöfaldaði stærð þingsins og jók völd þess á kostnað alþýðufunda. Árið 80 f.Kr. lagði Súlla niður völd og hætti afskiptum af stjórnmálum. Súlla, Lucius Cornelius Súlla, Lucius Cornelius Súlla, Lucius Cornelius Orrustan við Actíum. Orrustan við Actíum var sjóorrusta milli herja Octavianusar annars vegar og Marcusar Antoniusar og Kleópötru, drottningar Egyptalands, hins vegar. Orrustan var háð 2. september árið 31 f.Kr. skammt frá rómversku nýlendunni Actíum á norðvestanverðu Grikklandi við Jónahaf. Fyrir flota Octavianusar fór Marcus Vipsanius Agrippa en Antonius stjórnaði sjálfur flota þeirra Kleópötru. Floti Octavianusar hafði sigur. Í kjölfarið varð Octavíanus valdamesti maður Rómar, hlaut titilinn "princeps" Augustus og varð fyrsti keisari Rómaveldis. Af þessum sökum eru endalok lýðveldistímans í Róm stundum miðuð við þessa orrustu. Orrustan við Actíum var síðasta mikla sjóorrustan í fornöld. Actium 31 f.Kr. Púnversku stríðin. Púnversku stríðin voru þrjú stríð milli Rómverja og fönísku borgarinnar Karþagó á annarri og þriðju öld fyrir Krist. Nafn stríðanna er dregið af latneska orðinu "Punici" sem þýddi Karþagóbúar (afbökun af "Poenici", Föníkumenn). Stríðin voru að miklu leyti afleiðing stækkunar áhrifasvæðis Rómar á kostnað áhrifasvæðis hins mikla veldis Karþagó sem þá var. Við lok stríðanna var Karþagóveldið að öllu leyti komið undir vald Rómar. Við byrjun stríðana var Karþagó sterkasti aðilinn á Miðjarðarhafi en við lok þeirra og með sigri Rómverja í Makedóníustríðunum á sama tíma voru Rómverjar búnir að taka við því hlutverki. Fyrsta púnverska stríðið. Fyrsta púnverska stríðið (264 f.Kr. - 241 f.Kr.) var háð á landi og sjó, á Sikiley og í skattlandinu Afríku og á Miðjarðarhafi. Stríðið var báðum þjóðum dýrkeypt en Rómverjar höfðu sigur og lögðu undir sig Sikiley. Í kjölfar stríðsins átti Karþagó erfitt með að verja áhrifasvæði sín og gátu Rómverjar sölsað undir sig eyjurnar Sardiníu og Korsíku nokkrum árum síðar þegar Karþagó átti í fullu fangi með að berja niður uppreisn ósáttra málaliða. Annað púnverska stríðið. Annað púnverska stríðið (218 f.Kr. - 202 f.Kr.) er frægt fyrir herleiðangur Hannibals, herforingja Karþagómanna, yfir Alpana. Hann gerði innrás í Ítalíu úr norðri og sigraði rómverska herinn í nokkrum orrustum en náði aldrei hinu endanlega markmiði að grafa undan stjórnmálasambandi Rómaveldis og bandamanna þess. Spánn, Sikiley og Grikkland komu einnig við sögu og höfðu Rómverjar alls staðar sigur. Að lokum var barist í Africu og Karþagómenn voru sigraði í orrustunni við Zama af rómverskum her undir stjórn Scipios Africanusar. Í kjölfarið voru landsvæði Karþagó takmörkuð við borgarmökin auk þess sem Karþagó varð að greiða himinháar stríðsskaðabætur. Þriðja púnverska stríðið. Þriðja púnverska stríðið (149 f.Kr. - 146 f.Kr.) var að mestu leyti langt umsátur um Karþagó og lauk með því að borgin var lögð í rúst. Átökin má rekja til andstöðu við rómversk yfirráð á Spáni og í Grikklandi og mikils efnahagslegs uppgangs í Karþagó. Her. Her er skiplagður hópur vopnaðra manna, hermanna, sem hlotið hafa þjálfun í vopnaburði og lúta sameiginlegri yfirstjórn. Hugtakið er líka notað yfir ýmsa óformlega vopnaða hópa, t.d. sveitir skæruliða eða skipulögð hjálparsamtök eins og Hjálpræðisherinn. Forsögulegir herir voru líklega myndaðir af mönnum með steina og tréspjót, en í gegnum tíðina hefur vopnabúnaður þróast mikið. Dæmi um þróun vopna er þegar herir tóku í notkun hesta, járnsverð, boga og örvar, umsátursvopn, framhlaðninga og önnur skotvopn. Fastaher, stofnher eða stöðuher er her sem er skipaður atvinnuhermönnum, en her sem gætir hertekins svæðis nefnist setulið. Nútímaher skiptist í landher, flota og flugher og innan herja er ákveðin tignarröð (sjá stöðuheiti í hernaði). Vopnuð átök herja nefnast skærur, stríð eða styrjöld, en styrjöld á einkum við um meiriháttar og langvinn vopnuð átök milli þjóðríkja. Herdómstóll fer með mál hermanna og fanga en um dómstólinn gilda herlög. Genfarsáttmálinn fjallar m.a. um meðferð stríðsfanga. Hermaður. Hermaður er maður sem hefur hlotið þjálfun í vopnaburði og hermennsku og gegnir "herþjónustu" hjá her. Hermenn undir vopnum klæðast einkennisbúningi og lúta heraga. Ef hermaður brýtur af sér meðan hann gegnir herþjónustu er hann dæmdur af herdómstól. Hermaður í herþjónustu, sem deyr í vopnuðum átökum á vígvelli, er sagður hafa "fallið". Skæruliðar eru bardagamenn utan viðurkenndra herja og eiga í vopnuðum átökum við her eða aðra skæruliðahópa. Stríðsmaður er heiti yfir bardagamann ættbálks, t.d. indiána eða zulumanna. Stríðsfangar njóta verndar genfarsáttmála. "Málaliðar", þ.e. hermenn sem taka þátt í hernaði gegn greiðslu, sem teknir eru til fanga á vígvelli teljast ekki stríðsfangar og njóta því ekki verndar genfarsáttmála. Bandaríski herinn telur liðsmenn Al-Kaída ekki skæruliða heldur hryðjuverkamenn og fangar úr þeirra röðum teljast „"ólöglegir bardagamenn"“ sem njóta ekki verndar genfarsáttmála. Dæmi eru um að hermenn og skæruliðar herji gegn sameiginlegum óvini eins og í Víetamstríðinu. Hermaður, sem hefur hætt hermensku kallast "uppgjafahermaður". Útvarp. Útvarpstæki frá því um 1937. Útvarp eða hljóðvarp er tæki eða tækni sem notast við útvarpsbylgjur til að miðla upplýsingum þráðlaust. Getur einnig átt við stofnun eða félag sem miðlar upplýsingum þannig, t.d. Ríkisútvarpið. Í daglegri notkun er þó mun algengara að orðið útvarp sé notað um útvarpstæki, eða útvarpsmóttakara. Slíkt tæki getur tekið við hljóðvarpsútsendingum á ýmsum bylgjulengdum og kóðunartækni. Algengt er að útvarpstæki geti tekið við FM, AM, stuttbylgjuútsendingum og langbylgjuútsendingum Útvarpstækni er einnig notuð við sjónvarp. Díana (gyðja). Díana var veiðigyðja í rómverskri goðafræði. Hún samsvaraði grísku gyðjunni Artemis. Díana var tvíburasystir Apollons. Þau fæddust á eynni Delos. Rómverjar töldu Díönu vera dóttur Júpíters og Latonu. Víkursveit. Víkursveit er fornt nafn á Árneshreppi á Ströndum. Nafnið vísar í Trékyllisvík, en þar var þingstaður og kirkja í hreppnum. Veður. Veður eru hvers kyns fyrirbrigði, sem verða í lofthjúpum, einkum jarðar. Yfirleitt á veður við skammtímafyrirbrigði í veðrahvolfi jarðar, sem sjaldan vara lengur en nokkra daga. Fyrirbrigði í lofthjúpnum sem vara langan tíma nefnast loftslag eða veðurfar. Veðurfræði er vísindagrein sem fjallar um veður og veðurfar og þeir sem hana stunda nefnast veðurfræðingar. Veðurfyrirbrigði eiga oftast rætur sínar að rekja til hitamismunar á mismunandi stöðum á hnettinum, sem orsakast meðal annars af því að svæði nálægt miðbaug fá meiri orku frá sólinni en svæði sem eru nær heimskautunum. Önnur orsök hitamismunar á jörðinni er að mismunandi yfirborð, svo sem úthöf, skóglendi og jöklar, drekka í sig mismikið ljós og hitna því mismikið þegar sólin skín á þá. Vatnsgufa gegnir lykilhlutberki í veðri jarðar, en þegar hún þéttist myndast vatnsdropar eða ískristallar sem mynda skýin, sem sum gefa úrkomu. Mismunandi hiti veldur því að heitara eða kaldara loft rís eða sekkur. Þegar heitt loft þenst út og lyftist upp vegna minni eðlisþyngdar, sogast kaldara loft inn í staðinn, sem veldur vindum á yfirborðinu. Vegna svigkrafts leitar loft til hægri við vindstefnu á norðurhveli, en til vinstri á suðurhveli. Veðrakerfi, s.s. hæðir og lægðir, myndast vegna samspils þrýstikrafts og svigkrafts. Fellibyljir eru víðáttumiklar og öflugar lægðir sem myndast yfir hafi í hitabeltinu. Skýstrokkar eru litlar, en mjög krappar lægðir sem geta myndast hvar sem er, en eru afar sjaldgæfar eftir því sem nær dregur heimskautum. Gerðar eru veðurathuganir á veðurathugunarstöðvum víða um heim, sem eru ýmist mannaðar eða sjálfvirkar. Veðurstofa Íslands framkvæmir veðurathuganir og fylgist með og spáir fyrir veðri á Íslandi og umhverfi þess. Alþjóða veðurfræðistofnunin er alþjóðleg stofnun á svið veðurfræði og skyldra greina. Loftslag. Loftslag og veður. Veður lýsir loftslagsfyrirbrigðum yfir skemmri tíma, en loftslag lýsir uppsöfnuðu veðri á tilteknum stað. Engu að síður eru mörkin á milli veðurs og loftslags ekki skýr, og geta farið eftir samhengi. Þegar hugmyndir um að aðskilja hugtökin loftslag og veður komu fyrst upp, voru loftslagsbreytingar ekki vel þekktar, svo 30 ára meðaltal var talið ríflegt til að lýsa varanlegum eiginleikum. Nú er ljóst að loftslagsbreytingar yfir lengri tíma geta átt sér stað, til dæmis vegna gróðurhúsaáhrifa. Á Veðurstofu Íslands eru m.a. gerðar loftslagsrannsóknir og geymdar skrár um veðurfar á Íslandi. Leikfang. Leikfang er hlutur sem notaður er við leik barna, fullorðinna, eða gæludýra. Ótal tegundir af leikföngum eru framleidd til að skemmta og stytta mönnum (og dýrum) stundir. Leikföng eru þó ekki alltaf sérhönnuð sem leikföng. Til dæmis finnst mörgum börnum gaman að leika sér að pottum og pönnum, og fyrr á tímum léku íslensk börn sér að legg og skel. Leikföng hafa tíðkast frá öræfa alda, og fundist hafa litlir vagnar og önnur leikföng sem eru að minnsta kosti 3.500 ára gömul. Eins er til í dæminu að hlutir sem líta út eins og leikföng séu eingöngu framleiddir til að prýða hillur og verða strax að nokkurskonar safngripum. Leikur. Orðið leikur getur átt við annaðhvort um þá athöfn þegar börn (og í sumum tilfellum fullorðnir) leika sér á óskipulagðan hátt, eða um tiltekið samsafn reglna sem lýsa því hvernig einstaklingur eða hópur á að hegða sér í dægradvöl. Óskipulagður leikur. Börn, fullorðnir og dýr stytta sér oft stundir með því að leika sér á óskipulagðan hátt. Hægt er að leika sér með bolta, bíla og önnnur leikföng, og stundum án allra hjálpartækja. Leikur með leikreglum. Ýmsir leikir, svo sem brennó og snú snú, eru afmarkaðir af tilteknum reglum, sem segja til um það hvernig einstaklingarnir sem taka þátt í leiknum mega haga sér, og stundum einnig um það hver vinnur eða tapar. Oft er erfitt að segja til um það hvort leikir með leikreglum eru íþróttir, spil, eða hvorugt af þessu. Tölvuleikur. Á við um þegar leikið er í tölvu, oftast þá eftir leikreglum. Þá er bæði hægt að spila í leikjatölvu eða forritanlegri tölvu. Hægt er að ná í leiki af netinu eða af geisladiskum og sambærilegum gagnageymslum. Malavískur kvatsja. Kvatsja er gjaldmiðillinn í Malaví. Kvatsjann tók við af malavíska pundinu árið 1971 í hlutfallinu 1 pund = 2 kvatsja. Kvatsja skiptist í 100 "tambala". Kvatsja merkir „sólarupprás“ á Bemba-málinu en tambala merkir „hani“ á Níandja. Kvatsja-seðlarnir eru prentaðir sem 5, 10, 20, 50, 100. 200 og 500 kvatsja á meðan klinkið er 1, 2, 5, 10, 20 og 50 tambala og 1 kvatsja. Seðlabanki Malaví ("Reserve Bank of Malawi") sér um útgáfu peninganna. Dvína (Norður-Dvína). Dvína eða Norður-Dvína (rús. "Severnaya Dvina") er á í Norður-Rússlandi, Evrópuhlutanum. Hún er um 750 kílómetra löng og myndast við samruna ánna Sukhona og Yuk í grennd við Veliki Ustyug. Þaðan rennur áin norður, framhjá borginni Kotlas, síðan í norðaustur og tæmist út í Dvínaflóa, sem er flói inn úr Hvítahafi nálægt borginni Arkhangelsk. Áin er skipgeng og tengist siglingaleiðum á Volgu um Sukhona ána og einnig með skipaskurðum. Ekki má rugla saman Norður-Dvínu og Vestur-Dvínu, sem er talsvert stærri á í Vestur-Rússlandi, Hvítarússlandi og Lettlandi. Dvína (Vestur-Dvína). Dvína eða Vestur-Dvína (rús. Zapadnaya Dvina, lettn. Daugava, þýs. Düna) er á í Vestur-Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Lettlandi. Hún er um 1020 kílómetra löng og kemur upp í Valdaihæðum. Þaðan rennur áin suður, síðan vestur og loks norður og tæmist í Rígaflóa við Ríga, höfuðborg Lettlands. Áin er skipgeng að mestu ofantil (þ.e. í rússneska hlutanum) en vegna fossa og virkjana er hún aðeins að litlu leyti skipgeng neðar. Skurðir tengja ána við árnar Berezina og Dnjepr. Ekki má rugla saman Vestur-Dvínu og Norður-Dvínu, sem er talsvert minni á í Norður-Rússlandi. Neva. Neva er á í Norðvestur-Rússlandi. Áin er stutt, aðeins 74 kílómetrar á lengd. Hún er samt mikilvæg fyrir skipasamgöngur í Rússlandi, því að hún rennur úr Ladogavatni og tæmist í Finnska flóa, sem gengur inn úr Eystrasalti. Skipaskurðir tengja hana við Volgu og Hvítahafið. Við árósana er St. Pétursborg (fyrrum Leningrad). Dnjepr. Dnjepr (Dnjepur eða Danparfljót) er fljót í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu, ein af lengstu ám Evrópu, um 2285 kílómetrar á lengd. Fljótið kemur upp vestan við Moskvu og rennur vestur og suður og tæmist í Svartahaf um 120 kílómetra austan við hafnarborgina Odessa. Áin er geysilega mikið virkjuð, í henni eru yfir 300 raforkuver og margar miklar stíflur. Áin er skipgeng að mestu í tíu mánuði á ári, en hún frýs í tvo mánuði á veturna. Hún er mikilvæg samgönguæð í austanverðri Evrópu. Við hana standa til dæmis borgirnar Kænugarður og Dnjepropetrovsk í Úkraínu. Don. Don er stórfljót í sunnanverðu Rússlandi, 1930 kílómetra langt. Það kemur upp suðaustur af Tula og rennur fyrst til suðausturs en svo til suðvesturs og tæmist í Asóvshaf. Frá beygjunni á fljótinu er styst á milli Don og Volgu og er þar skipaskurður, sem tengir þessi tvö stórfljót saman, 105 kílómetra langur. Stærsta borg við ána er Rostov-na-Donu og er aðalhafnarborgin. Fljótið rennur um frjósamar lendur þar sem ræktað er korn og timbur, einnig eru þar grafin kol úr jörðu. Hægt er að sigla hafskipum til Rostov og fljótaprömmum nálægt 1400 kílómetra upp eftir ánni, sem er því mikilvæg flutningaleið. Til forna hét áin "Tanaís" og er til dæmis rætt um hana undir því nafni í Ynglinga sögu í Heimskringlu. Áin hefur verið verslunarleið síðan á dögum Skíþa. Volga. Volga er stórfljót í Rússlandi, lengsta á Evrópu og mesta siglingaleið innanlands í Rússlandi. Áin kemur upp í Valdaihæðum, sem eru landsvæði á milli Novgorod og Moskvu, og rennur 3700 kílómetra í meginstefnur austur og suður, þar til hún tæmist í Kaspíahaf. Vatnasvið árinnar er nálægt þriðjungi af Evrópuhluta Rússlands. Rússar tala oft um Volgu sem móður Rússlands og er það lýsandi fyrir mikilvægi árinnar. Hún er lygn og breið (10 kílómetrar á breidd sums staðar). Um ána fer nálægt helmingi allra flutninga á ám og vötnum í Rússlandi. Upp eftir ánni er flutt korn, byggingavörur, salt, fiskur og kavíar, en niður er aðallega siglt með timbur. Upptök árinnar í Valdaihæðum eru í aðeins 226 metra hæð yfir sjó og vegna þessarar litlu fallhæðar verður áin mjög lygn og straumhraði er lítill. Frá Volgograd til Kaspíahafs (síðustu 480 kílómetrana) er áin dálítið undir sjávarmáli, því að yfirborðsflötur Kaspíahafs er lægri en meðalflötur sjávar. Við ósana eru víðáttumiklir óshólmar (delta), sem eru myndaðir úr framburði árinnar. Efst í óshólmunum er hafnarborgin Astrakhan. Áin rennur meðfram eða í gegnum fjölda borga og má sem dæmi nefna Uljanovsk, Samara, Saratov og Volgograd. Helstu hafnarborgir við ána eru Tver, Nizhny Novgorod, Kazan, Samara, Volgograd, Astrakhan, Saratov, Yaroslavl og Rybinsk. Áin er skipgeng meginhluta ársins en ís getur valdið vandræðum á veturna og vatnsþurrð síðsumars. Plinius yngri. Gaius Plinius Caecilius Secundus (63 - um 113), betur þekktur sem Plinius yngri'", var rómverskur lögfræðingur, rithöfundur og heimspekingur. Æviágrip. Plinius fæddist í Comum, á Ítalíu. Hann var sonur landeiganda að nafni Lucius Caecilius og konu hans Pliniu. Plinia var systir Pliniusar eldri. Faðir Pliniusar lést þegar Plinius var enn ungur að árum. Hann bjó sennilega hjá móður sinni en vitað er að Lucius Verginius Rufus, sem var frægur fyrir að bæla niður uppreisn gegn Neró keisara, var forráðamaður hans. Plinius hlaut í fyrstu menntun heima en var síðar sendur til Rómar þar sem hann nam mælskufræði hjá Quintilianusi og Nicetesi Sacerdos frá Smyrnu. Plinius varð nú nánari móðubróður sínum, Pliniusi eldri, og þegar Plinius eldri lést þegar Vesúvíus gaus árið 79 erfði Plinius allar eigur frænda síns. Í erfðaskránni kom einnig fram að Plinius eldri ættleiddi systurson sinn en slíkt var ekki óalgengt í Róm. Plinius var álitinn heiðarlegur og hófsamur maður og hlaut hann frama jafnt í hernum og í stjórnmálum ("cursus honorum"). Hann var vinur sagnaritarans Tacitusar og var vinnuveitandi sagnaritarans Suetoniusar. Plinius þekkti einnig til margra annarra vel kunnra manna síns tíma, m.a. heimspekinganna Artemidorosar og Evfrates sem hann kynntist í Sýrlandi. Plinius kvæntist þrisvar sinnum, fyrst þegar hann var um átján ára gamall. Næst giftist hann dóttur Pompeiu Celerinu en ekki er vitað hvenær, og í þriðja skiptið kvæntist hann Calpurniu, sonardóttur Calpurnusar Fabatusar frá Comum. Varðveitt eru bréf þar sem Plinius getur þessa síðastnefnda hjónabands, lýsir tilfinningum sínum til Calpurniu og depurðinni þegar ljóst var að þau gátu ekki átt börn. Plinius lést skyndilega við skyldustörf í Biþyníu um árið 113. Starfsferill. Starfsferill Pliniusar hófst er hann var átján ára gamall og var í meginatriðum hefðbundinn ("cursus honorum"). Plinius starfaði mikið í dómskerfi Rómar, einkum í alþýðudómstólum, sem fjölluðu um erfðamál. Síðar varð hann vel kunnur af því að sækja mál (og verja) í málsóknum á hendur skattlandsstjórum, þ.á m. Baebiusi Massa, landsstjóra Baeticu, Mariusi Priscusi, landstjóra í Afríku, Gaiusi Caeciliusi Classicusi, landstjóra í Baeticu, og Gaiusi Juliusi Bassusi og Varenusi Rufusi, sem voru báðir landstjórar í Biþyníu. Ferill Pliniusar er almennt talinn fyrirmyndardæmi um rómverska metorðastigann og eru fleiri heimildir fyrir honum en starfsferli flestra annarra frá þessum tíma. Plinius starfaði í raun á flestum sviðum stjórnsýslunnar á sínum tíma. Ritverk. Plinius hóf að skrifa fjórtán ára gamall er hann samdi harmleik á grísku. Um ævina samdi hann þónokkuð af ljóðum en flest hafa glatast. Hann þótti einnig mikilfenglegur ræðumaður og kvaðst sjálfur fylgja fordæmi Ciceros en hann var þó háfleygari en Cicero og ekki eins beinskeyttur. Eina ræðan sem er varðveitt eftir hann er "Panegyricus Trajani." Hún var flutt í öldungaráði Rómar árið 100 og er lýsing á Trajanusi og athöfnum hans í formi lofræðu, þar sem hann er einkum borinn saman við Domitianus. Ræðan er þó heimild um ýmsar athafnir keisarans á ýmsum sviðum stjórnmálanna, tildæmis er varða skatta, aga í hernum og verslun. Plinius skilgreindi ræðuna sem ritgerðum "optimus princeps" (hinn besta stjórnanda). "Epistulae". Megnið af varðveittum verkum Pliniusar eru hins vegar "Bréfin" ("Epistulae"), sendi bréf tilvina og vandamanna. Þessi bréf eru einstök heimild um stjórnsýslusögu rómverska keisaradæmisins og daglegt líf í Rómaveldi á 1. öld. Efnistökin eru allt önnur en í "Panegyricus" og sumir líta svo á að Plinius hafi búið til nýtt form bókmennta: bréf sem er ætlað útgáfu. Bókmenntaformið er frábrugðið hefðbundnari sagnaritun, þar sem hlutlægnin situr á hakanum án þess að heimildagildið rýrni. Venjulega er "Bréfunum" skipt í tvennt, bækur 1 til 9, sem Plinius bjó undir útgáfu, og bók 10. Öll bréfin í 10. bók voru skrifuð til Trajanusar keisara eða af honum meðan Plinius gegndi störfum í Biþyníu. Síðastu bókina ætlaði Plinius ekki að gefa út en hún komút að honum látnum. Bækur 1-9. Í þessum bókum lýsir Plinius m.a. eldgosinu í Vesúvíusi og andláti frænda síns og lærimeistara, Pliniusar eldri (VI.16). Vegna lýsingar Pliniusar er nú talað um plinísk eldgos. Í fyrsta bréfinu (I.1), skrifað til Gaiusar Septiciusar Clarusar, lýsir Plinius ástæðum sínum fyrir því að safna saman bréfunum til útgáfu. Sum bréfanna lýsa lífinu á villum Pliniusar og eru mikilvægar heimildir um sögu landslagsarkitektúrs. Þau eru elstu varðveittu heimildirnar um hönnun og notkun garða í fornöld. Efni þessa hluta bréfanna þróast með tímanum. Ferli Pliniusar er lýst í smáatriðum í fyrstu bréfunum. Hann gefur vinum ráð og ýmis meðmæli, ræðir stjórnmál og ýmislegt annað í daglegu lífi Rómverja. Þegar kemur að síðustu tveimur bókum þessa hluta (bókum 8 og 9) er efniðorðið ívið heimspekilegra. Fræðimenn telja að bækur 1 til 3 hafi verið skrifaðar milli 97 og 102, bækur 4 til 7 hafi verið samdar milli 103 og 107 og bækur 8 og 9 hafi verið samdar árin 108 og 109. Þessar bækur voru aðlíkindum gefnar út smám saman milli 99 og 109. Bók 10. Eins og áður var getið eru bréfin í bók 10 öll skrifuð til Trajanusar keisara eða af honum til Pliniusar. Venjulega er talið að þau séu varðveitt í upprunalegri mynd. Sem slík eru þau einstök heimild um stjórnsýslu í rómversku skattlandi þessa tíma og eins um rómverska menningu út af fyrir sig. Auk þess má sjá greinilega þá spillinu sem varð til á ýmsum stigum stjórnkerfisins í skattlöndunum og skeytingaleysið um hana. Bréf X.96 er ein elsta heimildin um kristni og ástæður fyrir ofsóknum á hendur kristnum mönnum. Bréfið um kristnina er athyglisvert vegna þess að efni þess varð ríkjandi viðhorf gagnvart kristnum þaðsem eftir lifði af fornöld. Plinius og Trajanus voru umburðarlyndir gagnvart kristnum mönnum. Kristnir voru ekki teknir fyrir en þeim var refsað líkt og öðrum ef þeir brutu gegn valdstjórninni. Ef þeir voru ásakaðir um glæpi (nafnlausar ásakanir voru ekki teknar gildar) þá áttu þeir þess kost að svara fyrir sig. Einhverjar ofsóknir eru til marks frávik frá þessari reglu en þær heyrðu til undantekninga. Þar sem svör Trajanusar við fyrirspurnum Pliniusar er einnig að finna í bréfasafninu er safnið þeim mun mikilvægari heimild og um leið læsilegra. Bréfin gefa okkur nasasjón persónuleikum Pliniusar og Trajanusar. Stíllinn í bók 10 er allur einfaldari en í fyrri bókum vegna þess að hún átti ekki að vera gefin út. Bókin var gefin út að Pliniusi látnum og lagt hefur verið til að Suetonius, sem var starfmaður Pliniusar, hafi hugsanlega getað ritstýrt henni. Lúða. Lúða, einnig nefnd flyðra, heilagfiski, spraka eða stórlúða (fræðiheiti: "Hippoglossus hippoglossus") er langlífur flatfiskur af flyðruætt. Útbreiðslusvæði lúðu er bæði á grunn- og djúpslóð í Norður-Atlantshafi. Hún er algengust í norðanverðu Noregshafi, við Færeyjar og Ísland og meðfram ströndum Nýfundnalands og Nova Scotia. Lúðan getur orðið allt að 35–40 ára gömul. Lúða og Kyrrahafslúða eru stærstu tegundir flatfiska og geta orðið allt að 3 - 4 m langar. Stærsta lúðan sem veiðst hefur við Ísland var 365 cm og 266 kg. Lúður eru seinkynþroska, hængar verða að meðaltali kynþroska 8 ára og um 90–110 sm, en hrygnur að jafnaði 12 ára og 120–130 sm. Talið að hrygningartími lúðu við Ísland sé frá mars til maí og að lúðan hrygni djúpt suður af Íslandi á allt að 1000 m dýpi. Egg og seiði eru sviflæg í 6–7 mánuði. Líklegt er talið að egg færist upp á við í sjónum eftir hrygningu og að seiðin berist með Atlantsstraumnum upp að suðurströnd Íslands. Ungviðið sest á botn þegar það er um 3–4 sm að lengd og eru uppeldisstöðvar lúðunnar á grunnsævi nálægt ströndu t.d. í Faxaflóa. Lúðan heldur sig á uppeldisstöðvum þar til hún er orðin 3–5 ára en þá fer hún í dýpri sjó í leit að fæðu. Lúðan ferðast langar leiðir, sérstaklega áður en hún verður kynþroska. Merkingar hafa sýnt að lúður ferðast allt frá 500 km og upp í meira en 3 000 km. Lúðan yfirgefur hrygningarsvæði eftir hrygningu á vorin í ætisleit og ganga sumar hrygnur þá á grunnmið. Á haustin og í vetrarbyrjun leitar lúðan aftur á hrygningarsvæðin. Lúðuveiðar við Ísland. Lúða hefur verið veidd í Norður-Atlantshafi í meira en tvær aldir og sums staðar hefur stofninum verið útrýmt. Lúða hefur einnig verið ofveidd við Ísland. Lúðuafli er nú í sögulegu lágmarki, hann var 630 tonn árið 2005. Mestur var afli Íslendinga árið 1951 eða 2364 tonn. Langlífum fiskum sem verða kynþroska seint á lífsleiðinni eins og lúðan er sérlega hætt við ofveiði. Lúðan sem veiðist nú á Íslandsmiðum er að mestu ókynþroska fiskur, veiddur sem meðafli í öðrum veiðum. Lúðuveiðar voru stundaðar fyrir utan Vestfirði árin 1884-1898 af Bandaríkjamönnum. Lúðan var veidd á línu, flökuð og söltuð í tunnur. Lúðan sem var veidd á Íslandsmiðum var stór og oft var veiðin mikil. Seinna fóru fleiri þjóðir að veiða lúðu við Ísland og þá einnig með botnvörpu og seinna með dragnót. Sóknin var mikil og aflinn hríðféll. Lúðueldi. Lúðueldi hefur verið stundað á Íslandi frá 1997 og er áætlað tæp 196 tonn árið 2006. Grálúða. Grálúða (fræðiheiti Reinhardtius hippoglossoides) er flatfiskur af flyðruætt. Grálúða hrygnir seinni hluta vetrar á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands. Eftir hrygningu heldur hluti stofnsins norður og austur fyrir Ísland í ætisleit. Grálúðan lifir aðallega á smáfiski og krabbadýrum og finnst oft á 350-1.600 m dýpi í köldum sjó. Aðalveiðisvæði grálúðu eru hins vegar djúpt úti af Vestfjörðum. Grálúða er aðallega veidd með botnvörpu. Erfitt er að aldursgreina aflann en grálúða er yfirleitt 1-4 kg á þyngd. Grálúða við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar er talin vera sami stofninn. Skarkoli. Skarkoli (eða rauðspretta) (fræðiheiti: "Pleuronectes platessa") er flatfiskur og botnfiskur sem finnst á 0-200 m dýpi á sand- og leirbotni. Skarkoli er algengur á grunnslóð allt í kringum Ísland en mest er af honum við vestan- og sunnanvert landið. Hann grefur sig oft á botninn þannig að augun ein standa upp úr. Algeng stærð hér við Ísland er 30–50 sm. Liturinn er breytilegur eftirbotnlagi og lit botnsins. Hreistur skarkola er slétt og mjög smátt og slétt og ekki skarað. Í roðinu eru misstórir rauðir blettir á dekkri hliðinni, sem kolinn snýr upp. Kjafturinn er lítill og tennurnar smáar. Vinstri hliðin, sem snýr niður, er oftast hvít. Skarkoli lifir á ýmiss konar hryggleysingjum, skeldýrum, smákrabbadýrum og ormum og ýmsum smáfiskum svo sem sandsílum. Veiðar á skarkola. Skarkoli er aðallega veiddur í dragnót og botnvörpu. Skarkolaaflinn var 5.800 tonn árið 2005. Stofn skarkola við Ísland hefur minnkað vegna ofveiði. Lífsferill. Hrygnur verða kynþroska á aldrinum 3 til 7 ára gamlar. Hrygning: Hrygning skarkola við Ísland fer að mestu leyti fram á 50–100 m dýpi í hlýja sjónum fyrir sunnan landið og svo að einhverju leyti í þeim kalda fyrir Norðan. Hrygningin hefst í febrúarlok við sunnanvert landið og stendur hæst í mars og apríl. Við Norðurland hefst hrygning í lok mars með hámarki í maí-júní. Hrygnurnar hrygna eggjum á 3 til 5 daga fresti í um 1 mánuð. Eggin klekjast út eftir um tvær vikur og eru egg og lirfur sviflæg. Lirfurnar myndbreytast eftir 8 til 10 vikur en það fer eftir hitastigi og hvenær þær setjast að þar sem sjávarfalla gætir við sandstrendur. Lirfurnar láta sig berast með straumi og færast nær landi þegar flæðir að og berast með útfallinu fjær landi. Þegar lirfan hefur hafnað á heppilegum stað þá hefst myndbreyting. Það getur tekið allt að 10 daga. Ungviði sest að í grunnu vatni þar sem sjávarfalla gætir og yngstu skarkolarnir stranda stundum í allt að eina viku í grunnum fjörupollum. Þegar skarkolar verða eldri þá sækja þeir út á meira dýpi. Skarkoli er eftirsóttur matfiskur og í Bretlandi er hann oft hafður í "fish and chips". Í Danmörku er skarkoli einn algengasti matfiskurinn. Heitið "rauðspretta" á skarkolanum er gömul dönskusletta (sbr."Rødspætte") í íslensku. Danska heitið er tilkomið vegna hinna rauðu díla sem sjást í roðinu, en innhlaupið R-ið í íslensku útgáfunni, rauðspretta, er afleiðing alþýðuskýringar. Sumstaðar á landinu hefur rauðspretta verið kölluð "rauðspetta", en það er mjög sjaldgæft. Sandkoli. Sandkoli (fræðiheiti Limanda limanda) er flatfiskur af ættinni Limanda. Bæði augu hans eru á sömu hlið eins og hjá öðrum flatfiskum. Sandkoli er vanalega innan við 30 sm langur og undir 1 kg að þyngd. Hann lifir á sandbotni og er algengastur í Norðursjónum. Sandkolaafli við Ísland var 2.100 tonn árið 2005. Sandkoli veiðist aðallega í dragnót á fremur takmörkuðu svæði undan suðvestur- og suðurströndinni. Fullorðinn einstaklingur. Fullorðinn einstaklingur er fullvaxin, kynþroska lífvera, en oftast er átt við fullorðna menn. Maður, sem ekki er fullorðinn, telst vera barn. Unglingur er barn, sem er nærri því að verða fullorðinn maður. Samkvæmt íslenskum lögum telst fullorðinn maður annaðhvort karlmaður eða kona. Í ýmsum samfélögum er algengt að breyting úr barni í fullorðinn einstakling sé afmörkuð með ákveðinni athöfn. Ofauðgun. Ofauðgun er hugtak notað í umhverfisfræði um ástand sem skapast þegar jafnvægi í vistkerfi er raskað með ofgnótt næringarefna sem veldur því að lífverur geta vaxið hömlulaust. Ofauðgun er talin ein tegund af mengun. Skýringarmynd af ofauðgun vegna næringarefna sem renna út í sjó. Sjórinn verður lagskiptur og súrefni þverr í neðri lögum. Ofauðgun sem einkum stafar af afgangi áburðarefna frá landbúnaði er áhyggjuefni á sumum hafsvæðum, ekki síst á grunnum, innilokuðum hafsvæðum nálægt þéttbýli. Helstu áburðarefni sem valdið geta ofauðgun eru köfnunarefni (nitur) og fosfór en auk þeirra má nefna kísilsambönd og ýmis snefilefni. Aukning áburðarefna leiðir til aukinnar frumframleiðni þörunga í yfirborðssjó og á hafsbotni sem hefur síðan í för með sér að þeim sjávardýrum fjölgar sem eru ofar í fæðukeðjunni og lifa beint eða óbeint á þörungum. Óhófleg aukning næringarefna getur hins vegar valdið þörungablóma og hleypt ógnarvexti í þang og valdið því að súrefni í vatni þverr og brennisteinsvetni fer að myndast. Vaxandi fiskeldi í eða við sjó getur haft í för með sér að meira magn af næringarefnum berst út í sjó því fiskur er yfirleitt alinn í sjókvíum á tiltölulega lygnum stöðum inn í fjörðum. Á þeim stöðum er lífríki sjávar viðkvæmt fyrir áburðarefnum og annarri losun frá fiskeldisstöðum. John Mandeville. Heilsíðumynd af John Mandeville frá 1459. Sir John Mandeville er heiti á (líklega skálduðum) höfundi þekktrar ferðabókar frá 14. öld. Bókin er skrifuð á anglónormönnsku á milli 1355 og 1357. Hún náði miklum vinsældum og var þýdd á ýmis tungumál. Þrátt fyrir að þær upplýsingar sem fram koma í henni um fjarlæg lönd (einkum Austurlönd nær) séu bæði ótrúlegar og að stórum hluta ósannar, var hún lengi notuð sem uppflettirit. Sem dæmi má nefna að Kristófer Kólumbus var með eintak um borð þegar hann sigldi til Ameríku. Lítið sem ekkert er vitað um ferðalanginn John Mandeville, en í bókinni kemur fram að hann sé fæddur í Englandi og skrifi bókina í Liège í Frakklandi. Sá hluti verksins sem fjallar um Landið helga byggir hugsanlega á reynslu hins eiginlega höfundar. Aðrir hlutar byggja á öðrum verkum. Eitt af því sem er sérstakt við þetta rit er að það byggir "ekki" með beinum hætti á ferðasögu Marco Polo frá 1299. Honorius Augustodunensis. Honorius Augustodunensis betur þekktur sem Honorius frá Autun (um 1075/80 – um 1151) var vinsæll kristinn guðfræðingur sem ritaði mörg rit um aðskiljanlegustu efni í alþýðlegum stíl þannig að verk hans voru aðgengileg leikmönnum. Lítið er vitað um ævi hans umfram það sem stendur í verkum hans, en þar kemur fram að hann var munkur sem ferðaðist til Englands og var þar hjá Anselm í Kantaraborg. Undir lok ævi hans bjó hann í Skotaklaustri í Regensburg í Þýskalandi. Frægasta rit hans er líklega "Elucidarius", yfirlit yfir trúaratriði kristninnar, en þýðingar á því er meðal annars að finna í Hauksbók frá 1302 - 1310. Útgáfu á norrænni þýðingu á "Elucidariusi" er að finna í Gunnar Harðarson (ritstj.), "Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum", Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1989. A Orrustan við Pydna. Orrustan við Pydna var háð árið 168 f.Kr. og áttust við Rómverjar annars vegar og veldi Antígónída hins vegar. Rómverjar höfðu sigur og markar orrustan upphaf raunverulegra ítaka Rómverja á Grikklandi og endalok veldis Antígónída, makedónískra konunga sem röktu völd sín aftur til Alexanders mikla. Orrustan er einnig talin góð til samanburðar á makedónískri breiðfylkingu og rómverskum herdeildum ("legiones") í hernaði. Margir telja að í orrustunni hafi verið sýnt fram á yfirburði hins rómverska hernaðarskipulags yfir makedónísku breiðfylkinguna en það er umdeilt. Heimild. Pydna -168 Pydna -168 Orrustan við Agrigentum. Orrustan við Agrigentum (Sikiley 261 f.Kr.) var fyrsta skipulagða orrustan í fyrsta púnverska stríðinu og fyrsta stóra orrustan milli Karþagómanna og Rómverja. Orrustan var háð eftir langt umsátur sem hófst árið 262 f.Kr.. Rómverjar höfðu sigur og náðu þannig fótfestu á Sikiley. Lee Hughes. Lee Hughes (fæddur 22. maí 1976 í Smethwick á Vestur-Englandi) er knattspyrnumaður sem hefur spilað með liðum eins og Kidderminster Harriers, West Bromwich Albions, Coventry City og fleiri liðum. Hann spilaði einnig með háskólaliðum fram til ársins 1992 og þá uppgötvuðu stjórnarformenn Kidderminster hann og ekki var hugsað sig tvisvar um og hann genginn til liðs við þá og skoraði 35 mörk á öllu tímabilinu og var þá seldur til WBA á 200.000 pund og þá var ekki aftur snúið. Tímabilið 1998-1999 skoraði hann 31 mark í Ensku fyrstu deildinni sem er það mesta sem leikmaður hefur skorað í efstu deild á Englandi og fyrstu deild. Sumarið 2001 var hann seldur til Coventry City á 5 milljónir punda því hann gat ekki komið WBA upp í efstu deild og um að gera að reyna hjá nýju félagi, enn Coventry menn komust ekki upp og náði Lee Hughes aldrei að skora mark í efstu deild og því var draumur hans úti. Hann sneri aftur til WBA enn það var of seint því að þeir féllu úr úrvalsdeildinni 2003-2004 og lentu í 19. sæti deildarinnar. Dómurinn. Á tímabilinu 2003-2004 var Hughes flæktur inn í bílslysamál þar sem Mercedes CL500 klessti á Renault Scenic nálægt Meriden. Farþegi í Renaultinum dó og Hughes og vinur hans flúðu af vettvangi áður enn þeir skiluðu sér til lögreglu sama dag. Hughes var ákærður fyrir ölvunarakstur og manndráp og var sleppt út gegn tryggingu til þess að leyfa honum að klára tímabilið með WBA sem kom þeim upp í efstu deild, þar sem Hughes var markahæðsti maður WBA með 13 mörk. 9. ágúst 2004 var Lee Hughes dæmdur sekur fyrir ölvunarakstur og að flýja vettvang. Lee Hughes var dæmdur í 6 ára fangelsisvist og misssti ökuskírteinið í 10 ár og ofan á það var samning hans við WBA rift. Í janúar 2005 var áfrýjað enn því var hafnað og segja reglur til um það ef að Lee Hughes verður þægur á meðan fangelsisvistinni stendur þá mun hann sleppa út í ágúst 2007. Enn Hughes situr nú í fangelsinu Featherstone Prison sem er nálægt Wolverhampton og er fylgst með honum á sjálfsvíg vaktinni. Lee Hughes spilar þó samt fótbolta í fangelsinu og spilar bæði með héraðsliði og fangelsisliðinu og vegnar honum vel og búinn að skora þónokkuð mörg mörk. WBA hafa lofað honum að árið 2007 þegar hann sleppur mun hann fá að fara á reynslu með félaginu og spila með þeim hugsanlega á því tímabili en Bryan Robson knattspyrnustjóri WBA sagði einnig að þeir þyrftu mann eins og hann í sóknina Hughes, Lee Cato eldri. Marcus Porcius Cato (á latínu: M·PORCIVS·M·F·CATO) (234 f.Kr., Tusculum – 149 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og rithöfundur, kallaður Cato censor (eða "censorius"), "sapiens" (hinn spaki), Cato gamli ("priscus") eða Cato eldri ("major"), til aðgreiningar frá Cato yngri (afkomanda sínum). Hann kom úr gamalli fjölskyldu alþýðufólks (plebeia), sem hafði hlotið nokkurn frama í hernum en ekki í stjórnmálum. Hann lærði aðstunda landbúnað og helgaði sig honum þegar hann gegndi ekki herþjónustu. Hann kynntist Luciusi Valeriusi Flaccusi, sem hafði miklar mætur á honum, og flutti í kjölfarið til Rómar og varð gjaldkeri (quaestor) (204 f.Kr.), edíll (199 f.Kr.), praetor (198 f.Kr.) og að lokum ræðismaður (195 f.Kr.) ásamt velunnara sínum. Grísk áhrif árómverska menningu voru Cato eitur í beinum. Veldi Karþagó og viðreisn að loknu öðru púnverska stríðinu voru honum einnig þyrnir í augum og lengi lauk hann öllum ræðum sínum í öldungaráði Rómar með orðunum „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði“. Cato yngri. Marcus Porcius Cato Uticencis (95 f.Kr. – 46 f.Kr.), þekktur sem Cato Uticensis eða Cato yngri til aðgreiningar frá langafa sínum Cato eldri, var rómverskur stjórnmálamaður og stóumaður. Hann er minnst fyrir þrjósku sína og þvermóðsku (einkum í átökum sínum við Gaius Júlíus Caesar) og fyrir andúð sína á spillingu í stjórnmálum. Scipio Aemilianus. Publius Cornelius Scipio Aemilianus Africanus Numantinus, stundum nefndur Scipio Africanus yngri (185-129 f.Kr.) var herforingi og stjórnmálamaður í Rómaveldi. Sem ræðismaður stjórnaði hann umsátrinu um og eyðileggingu Karþagó í þriðja púnverska stríðinu árið 146 f.Kr. Hann var síðar leiðtogi andstöðunnar við Gracchusarbræðrum árið 133 f.Kr. Hann var yngri sonur Luciusar Aemiliusar Paullusar Macedonicusar, sem hafði sigrað Makedóníu. Hann barðist í herliði föður síns í orrustunni við Pydna 17 ára gamall. Hann var síðar ættleiddur af Publiusi Corneliusi Scipio, elsta syni Publiusar Corneliusar Scipios Africanusar og nafni hans var breytt í Publius Cornelius Scipio Aemilianus. Heimild. Cornelius Scipio Aemilianus Africanus Numantinus, Publius Cornelius Scipio Aemilianus Africanus Numantinus, Publius Ólafur Páll Torfason. Ólafur Páll Torfason, betur þekktur sem Opee (fæddur 9. febrúar 1984) er íslenskur lagahöfundur og rappari, uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur. 2003 gaf hann út sína fyrstu plötu ásamt tónlistarmanninum Eilífi Erni Þrastarsyni, Eternal, en saman mynduðu þeir hljómsveitina O.N.E. Hljómsveitin gaf út plötuna „One Day“ sama árs og var í kjölfarið tilnefnd til hlustendaverðlauna FM957 og verðlauna Radio X auk þess sem smáskífur af plötunni hlutu góðar viðtökur hlustenda helstu útvarpsstöðva landsins og tónlistarsjónvarpa. Ári síðar hlaut lagið Mess it Up, sem hann gerði ásamt hljómsveitinni Quarashi Hlustendaverðlaun FM957 fyrir besta lag ársins. Myndband við það var þá einnig valið myndband ársins á Íslensku tónlistarverðlaunin. Endurflutningur lagsins við endurkomu Quarashi 2011 til að mynda á Bestu Útihátíðinni hlaut góðar viðtökur. Með árunum hefur Opee kannað fleiri listform en rímur og ljóð. Vorið 2009 lagði hann stund á olíumálun við The New School (Parsons) í New York borg. Einnig lagði hann stund á ljósmyndun á meðan á dvölinni stóð. Viðfangsefnið var götur New York borgar og myndaði hann byggingar, götur og fólk sem á vegi hans varð á meðan á því stóð. En þó er hann líklega helst þekktur fyrir aðkomu sína að tónlist, sviði þar sem hann er enn virkur. Plötur. B.Murray - In dungeon sleeps the party monkey (2009) Ýmsir - Original Melody - Fantastic four (2005) Menntun. Háskóli Íslands - BSc. Business Administration (2009) Copenhagen Business School - MSc. IMM (2011) Scipio Africanus. Publius Cornelius Scipio Africanus Major (á latínu: P·CORNELIVS·P·F·L·N·SCIPIO·AFRICANVS¹) (235 – 183 f.Kr.) var herforingi í öðru púnverska stríðinu og rómverskur stjórnmálamaður. Hans er minnst fyrir að hafa sigrað Hannibal frá Karþagó í orrustunni við Zama. Fyrir vikið hlaut hann viðurnefnið "Africanus" en var auk þess nefndur „hinn rómverski Hannibal“. Hann er almennt talinn með bestu herforingjum hernaðarsögunnar. Heimild. Cornelius Scipio Africanus Major, Publius Cornelius Scipio Africanus Major, Publius Lívíus. Títus Lívíus (um 59 f.Kr. - 17 e.Kr.) var rómverskur sagnaritari sem skrifaði um sögu Rómar í miklu verki sem hét "Frá stofnun borgarinnar" ("Ab Urbe condita"). Sallústíus. Gaius Sallustius Crispus, þekktur sem Sallústíus, (86-34 f.Kr.) var rómverskur sagnaritari. Hann var úr vel kunnri ætt alþýðufólks (plebeia). Sallústíus fæddist í Amiternum í landi Sabína. Sallústíus er einkum þekktur fyrir tvö rit, "Um stríðið gegn Júgúrthu konungi" og "Um samsæri Catilínu". Helsta fyrirmynd hans sem sagnfræðings var gríski sagnaritarinn Þúkýdídes. Hann hafði allmikil áhrif á rómverska sagnaritun, meðal annars á Tacitus sem mat hann mikils. Quintilianus mat Sallústíus einnig mikils, taldi hann betri höfund en Lívíus og taldi hann standast samanburð við Þúkýdídes. Ofangreind tvö rit, "Um stríðið gegn Júgúrthu konungi" og "Um samsæri Catilínu", eru til í íslenskri þýðingu eða endursögn frá 12. öld eða stuttu síðar, undir nafninu "Rómverja saga". Mars (guð). Mars var rómverskur guð hernaðar, sonur Júnóar og Júpiters eða töfrablóms. Upphaflega var Mars guð frjósemi og jarðargróðurs og verndari búfénaðar og akra. Er því leitt að því líkum að Mars sé latnesk/rómversk stæling á frjósemsisguði Etrúra, Maris. Líklega varð Mars stríðsguð sem heitið var á í hernaði með vaxandi útþenslu Rómaveldis. Þá var Mars líkt við gríska guðinn Ares. Samkvæmt goðsögninni var Mars faðir Rómúlusar stofnanda Rómar og töldu Rómverjar sig vera afkomendur guðsins Mars. Mars var þekktur sem rauði guðinn. Átrúnaður. Ólíkt hinum gríska Aresi var átrúnaður á Mars algengur í Rómarveldi, mun algengari en tíðkaðist með aðra guði Rómverja. Mars var einn þriggja helstu guða Rómverja ásamt Júpíter og Quirinusi (Janusi). Með hliðsjón af þýðingu hans fyrir landbúnaðinn gnæfði Mars yfir vormánuðum sem og uppskeruhátíðum. Í stríðsrekstri voru Mars færðar fórnir fyrir upphaf átaka. Veislur voru haldnar Mars til heiðurs í febrúar, mars (sem nefndur er eftir guðinum) og október. Hof. Helsta hof sem tileinkað var guðinum var "Mars Gradivus" norðaustan við "Via Appia". Nágrenni hofsins varð þekkt sem "ad Martis". Rómverski herinn safnaðist saman við hofið þegar haldið var í hernað og hofið var hlaðið lofi þegar heim var snúið úr farsælli herferð. Áhrif. Táknið sem fyrst merkti guðinn Mars Nafn marsmánaðar er dregið af nafni guðsins. Því þótti marsmánuður hentungur til hernaðar. Fjórða reikistjarna sólkerfisins, sú rauða, er nefnd eftir guðinum. Karlkyn og reikistjarnan eru táknuð með sama tákni, tákni guðsins Mars. Í mörgum rómönskum málum draga þriðjudagar nafn sitt af guðnum. Heilmild. Mars Tacítus. Publius eða Gaius Cornelius Tacitus (56 eða 57 – um 117) var rómverskur sagnfræðingur og einn mikilvægasti sagnaritari fornaldar. Tvö megin verk hans voru "Annálarnir" ("Annales") og "Saga Rómar" ("Historiae"). Þeir hlutar verkanna sem varðveittir eru fjalla um valdatíma keisaranna Tíberíusar, Claudíusar, Nerós og þeirra sem voru við völd ár hinna fjögurra keisara. Líklega náðu ritin samanlagt yfir tímabilið frá dauða Ágústusar, fyrsta keisara Rómaveldis, árið 14, til dauða Domitianusar árið 96. Í meginverkum sínum fjallar Tacitus um atburði eins árs í senn. Stíll hans er knappur og á stundum óvenjulegur, en Tacítus er talinn einn mesti stílsnillingur á latneska tungu. Lívíus Andronicus. Lucius Livius Andronicus, oftast nefndur Lívíus Andronicus, (284 – 204 f.Kr.) var grísk-rómverskt leikritaskáld og ljóðskáld sem samdi fyrstu rómversku leikritin og þýddi leikrit frá grísku yfir á latínu. Hann er talinn faðir rómverskrar leikritunar og epísks kveðskapar. Andronicus fæddist sennilega í grísku nýlenduborginni Tarentum á Suður-Ítalíu. Hann var hnepptur í þrældóm og seldur aðalsmanni að nafni Lívíus. Þegar honum hafði verið gefið frelsi tók hann sér nafn fyrrum eiganda síns og tók að sér að kenna Rómverjun leikritun. Hann þýddi grískt leikrit árið 240 f.Kr. og var það fyrsta rómverska leikritið. Mikilvægasta verk hans, "Odysseia", var latnesk þýðing á "Ódysseifskviðu" Hómers. Andronicus, Lucius Livius Satúrnus (guð). Satúrnus var rómverskur guð landbúnaðar á álíkan hátt og Krónos í grískri goðafræði. Maki Satúrnusar var Opa. Satúrnus var faðir Júpíters, Ceresar og Veritas svo einhver barna hans séu nefnd Áhrif. Í ensku máli heita laugardagar eftir Satúrnusi. Sjötta reikistjarnan í sólkerfinu heitir eftir Satúrnusi Heimild. Satúrnus Neptúnus (guð). Neptúnus var hinn rómverski sjávarguð og hliðstæða Póseidons í grískri goðafræði. Neptúnus var guð sjávar, hesta og jarðskjálfta. Gríski guðinn. Á Mýkenutímanum var Póseidon mikilvægari og hafður í meiri metum en Seifur. Í "Ódysseifskviðu" Hómers var Póseidon í stærra hlutverki en Seifur. Í mörgum grískum borgum var Póseidon í aðalhlutverki. Talið er að svo hafi verið enda hafi hann geta valdið jarðskjálftum. Átrúnaður. Sjófarendur hétu allir á guðinn til að tryggja sem öruggasta sjóferð. Áhrif. Áttunda reikistjarna sólkerfisins heitir eftir Neptúnusi. Heimildir. Neptúnus Júpíter (guð). Hinn rómverski guð Júpíter fór í rómverskri goðafræði með samskonar hlutverk og Seifur í þeirri grísku og að einhverju leyti Óðinn í norrænni goðafræði. Nafn hans er komið af sömu indóevrópsku rót og nafn Seifs í grískri goðafræði og nafn Týs í norrænni goðafræði. Júpíter var himnaguð, guð laga og reglufestu. Áhrif. Nafn Júpíters hefur fest sig í sessi með rómönskum málum þar sem fimmtudagur heitir í höfuðið á guðinum. Fimmta reikistjarna Sólkerfisins heitir í höfuðið á guðinum. Heimild. Júpíter Septimius Severus. Lucius Septimius Severus (11. apríl 146 – 4. febrúar 211) var rómverskur herforingi og keisari frá 9. apríl 193 til 211. Hann var fæddur í Leptis Magna (á norðurströnd Líbíu) og var fyrsti keisarinn frá Norður-Afríku og fyrsti keisarinn af severísku ættinni. Leiðin til valda. Septimius Severus var fæddur í Leptis Magna á norðurströnd Afríku. Móðir hans var af ítölskum uppruna en faðir hans, Publius Septimius Geta, var af púnverskum uppruna og tilheyrði valdaætt af svæðinu. Fyrsta kona Severusar var einnig frá Leptis Magna og hét Pacca Marciana, þau giftust í kringum 175 en hún lést skömmu síðar. Annaðhvort árið 186 eða 187 giftist hann svo Juliu Domnu, sem var af valdaætt frá borginni Emesa í Syriu (Sýrlandi). Þau áttu saman tvo syni, Caracalla og Geta. Severus varð öldungaráðsmaður þegar Markús Árelíus var keisari og varð ræðismaður í valdatíð Commodusar. Árið 191 varð hann landstjóri í skattlandinu Pannoniu. Ár keisaranna fimm. Í mars 193 var Pertinax keisari drepinn af lífvarðasveitum sínum, eftir að hafa verið við völd í aðeins nokkra mánuði. Severus var þá fljótlega hylltur sem keisari af herdeildunum í Pannoniu, eða þann 9. apríl 193. Þrír aðrir menn voru þó einnig lýstir keisarar, á svipuðum tíma, víðs vegar í Rómaveldi; Didius Julianus í Róm, Percennius Niger í Syriu og Clodius Albinus í Brittanniu (Bretlandi). Árið 193 hefur af þessum sökum verið kallað ár keisaranna fimm. Severus byrjaði á því að bjóða Clodiusi Albinusi að ættleiða hann og gefa honum titilinn "caesar" (undirkeisari), sem Albinus samþykkti. Eftir það hélt hann til Rómar með herdeildir sínar. Didius Julianus hafði verið lýstur keisari af öldungaráðinu og lífvarðasveit keisarans í Róm og bjóst til að verja borgina gegn Severusi. Stuðningur við Julianus í borginni minnkaði þó jafnt og þétt og áður en langt um leið samþykkti öldungaráðið að lýsa Severus keisara og að dæma Julianus til dauða. Hermaður var sendur til keisarahallarinnar, þar sem hann fann Didius Julianus, yfirgefinn af stuðningsmönnum sínum, og drap hann. Þegar Severus kom til borgarinnar tók hann völdin því átakalaust. Átök við Percennius Niger. Severus bætti nafninu Pertinax við opinbert keisaranfn sitt og hét þá fullu nafni "Caesar Lucius Septimius Severus Pertinax Augustus". Einnig hefndi hann fyrir dauða Pertinax með því að láta drepa þá menn úr lífvarðasveit keisarans sem höfðu átt þátt í morðinu á honum. Eftir þetta hélt hann austur á bóginn til þess að mæta Percennius Niger. Hluti af herafla Severusar hóf árið 193 langt og blóðugt umsátur um borgina Býsantíum (núverandi Istanbul), sem var hliðholl Niger, og entist umsátrið í þrjú ár. Í mars árið 194 mættust Severus og Niger í bardaga við Issus í Anatólíu, þar sem Severus hafði um tvöfalt stærri her og bar sigurorð. Niger flúði bardagann en náðist nokkrum dögum síðar og var drepinn. Eftir að hafa sigrað Niger hélt Severus austur til Efrat fljóts og réðst inn í lítið konungsríki sem hét Osrohene. Ástæðan var sú að ráðist hafði verið á borgina Nisibis við Efrat, sem Rómverjar réðu yfir. Severus innlimaði konungsríkið og gerði að skattlandinu Osrohena. Severus sneri aftur til Rómar árið 196 eftir að her hans hafði loks náð völdum í Býsantíum. Átök við Clodius Albinus. Severus hafði gert friðarsamning við Clodius Albinus, árið 193, á þeim forsendum að hann vantaði erfingja því synir hans væru of ungir. Árið 196 gerði Severus hins vegar elsta son sinn, Caracalla, að undirkeisara, og hafði þar með gert bandalagið við Albinus óþarft. Árið 197 hélt Severus með her gegn Albinusi og þeir mættust í bardaga við Lugdunum (núverandi Lyon). Bardaginn var harður og tvísýnn en á endanum sigraði Severus og tryggði sér þar með endanlega keisaratignina. Í kjölfarið sá Severus til þess að stuðningsmenn Nigers og Albinusar fengju að kenna á því og lét meðal annars taka 29 öldungaráðsmenn af lífi. Stríð gegn Pörþum. Sama ár hélt Severus í herferð gegn Pörþum þar sem þeir höfðu nú ráðist á borgina Nisibis. Severus náði borginni aftur á sitt vald og hélt þá inn í Parþíu og hertók höfuðborgina Ctesiphon í stuttan tíma. Borgin var rænd og talið er að um 100.000 íbúar hennar hafi verið hnepptir í þrældóm af rómverska hernum. Því næst hóf hann umsátur um borgina Hatra en hún stóðst umsátrið og Severus sneri því til baka inn á rómverskt landssvæði. Eftir þessa herferð var búið til nýtt skattland, sem fékk nafnið Mesopotamia og náði yfir lítið svæði austan Efrat fljótsins. Severus fór nú fyrst til Antiokkíu og ferðaðist svo um Palestínu og Egyptaland. Hann fór svo aftur til Rómar árið 202 Síðustu árin. Árið 198 hafði Caracalla, sonur Severusar, verið gerður að með-keisara ("augustus") og Severus hafði einnig fengið hann til þess að giftast dóttur lífvarðaforinga síns og helsta aðstoðarmanns, Publiu Fulviu Plautillu, dóttir, Gaiusar Fulviusar Plautianusar. Plautianus var mun valdameiri en aðstoðarmenn rómarkeisara voru almennt. Hann virðist t.d. hafa stjórnað að mestu hverjir fengu að hafa samskipti við keisarann. Einnig hafði hann orðið sér úti um mikil auðæfi, en hann var almennt ekki vel liðinn. Caracalla var aldrei ánægður með hjónabandið né tengdaföðurinn. Árið 205 ásakaði Caracalla Plautianus um að hafa verið að skipuleggja samsæri gegn Severusi. Hvort sem ásakanirnar voru sannar eða ekki trúði Severus þeim og Plautianus var tekinn af lífi. Árið 208 var Severus orðinn rúmlega sextugur og veikburða af langvinnum veikindum. Engu að síður hélt hann í herferð til Caledoniu (Skotlands) með það að markmiði að leggja svæðið undir sitt vald. Báðir synir hans fylgdu honum í herferðinni. Árið 209 gerði Severus yngri son sinn, Geta, að með-keisara ("augustus"). Caracalla og Geta kom alls ekki saman en samt sem áður hafði Severus nú gert þá báða að erfingjum keisaratitilsins. Herferðin stóð yfir öll árin 209 og 210 en skilaði ekki tilsettum árangri. Septimius Severus lést svo í Eboracum (núverandi York) árið 211. Synir hans, Caracalla og Geta, tóku þá sameiginlega við stjórn ríkisins. Þeir blésu herferðina fljótlega af og héldu til Rómar. Heimildir. Scarre, Chris, "Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome" (London: Thames & Hudson, 1995). Venus (gyðja). Venus var gyðja ástar og fegurðar í rómverskri goðafræði. Venus svipar til Freyju og Friggjar í Norrænni goðafræði, Isisar í egypskri goðafræði og Afródítu í grískri goðafræði. Áhrif. Önnur reikistjarna sólkerfisins heitir eftir gyðjunni. Í rómönskum málum draga föstudagar nafn sitt af ástargyðjunni. Heimild. Venus Seifur. Seifur (á grísku: Ζεύς, (í eignarfalli) Δíος) var höfuðguð grískrar goðafræði. Hann var himnaguð og þrumuguð, guð laga og reglu. Hliðstæða Seifs í rómverskri goðafræði var Júpíter, sem var raunar upphaflega sami indóevrópski guðinn. Seifur var sonur Krónosar og Rheu. Kona hans var Hera, systir hans. Meðal barna hans voru guðirnir Ares, Hefæstos, Aþena, Hermes, Apollon og Artemis, og Afródíta (skv. sumum sögum). Hann átti einnig börn með mennskum konum, þar á meðal Herakles, Helenu fögru og Pollux. Seifsstyttan í Ólympíu telst eitt af sjö undrum veraldar. Plútó (guð). Plútó var rómverskur guð undirheima, hliðstæða Hadesar í grískri goðafræði. Hætt er við að fólk rugli saman Plútó og Plútosi, grískum guð auðs. Heilmild. Plútó Plútos. Plútos (Πλοῦτος) var guð auðs í grískri goðafræði. Hann var sonur Demetru. Seifur blindaði Plútos svo Plútos myndi dreifa auði sínum án fordóma. Heilmild. Plútos Forum Romanum. Forum Romanum var miðbæjarsvæðið sem Róm til forna óx út frá. Í Forum Romanum var miðpunktur viðskipta, menningar, stjórnsýslu og vændis í Rómaveldi. Byggingar. Kort sem sýnir miðbæ Rómar til forna Í Forum Romanum má enn sjá rústir nokkurra þeirra mannvirkja sem stóðu þar áður. Sum eru enn uppistandandi. Orrustan við Carrhae. Orrustan við Carrhae var mikilvæg orrusta sem var háð árið 53 f.Kr. skammt frá bænum Carrhae (í dag í Tyrklandi). Í orrustunni áttust við Rómverjar undir stjórn Crassusar og Parþar undir stjórn Surena. Parþar höfðu yfirburða sigur í orrustunni. Heimild. Carrhae Orrustan við Zama. Orrustan við Zama var háð 19. október árið 202 f.Kr. Hún var síðsta orrustan í öðru púnverska stríðinu. Rómverskur her undir stjórn Scipios Africanusar sigraði her Karþagó undir stjórn Hannibals. Skömmu eftir þennan ósigur á eigin landi óskaði öldungaráð Karþagó eftir friði eftir 17 ára langt stríð. Heimild. Zama Orrustan við Kórinþu. Orrustan við Kórinþu var háð árið 146 f.Kr. Í henni áttust við herir Rómaveldis og Kórinþu. Í orrustunni var Kórinþuborg lögð í rúst. Rómverjar, undir stjórn Luciusar Mummiusar, lögðu borgina í eyði í kjölfar umsáturs árið 146 f.Kr. Þegar Mummius náði borginni á sitt vald lét hann drepa alla karlmenn, seldi konur og börn í þrældóm og brenndi síðan borgina. Hann hlaut viðurnefnið Achaicus (Maðurinn frá Akkaju) sem sigurvegari yfir Akkajubandalaginu. Fornleifarannsóknir benda til þess að einhver búseta hafi verið á svæðinu næstu árin en Júlíus Caesar stofnaði borgina að nýju árið 44 f.Kr., skömmu áður en hann var ráðinn af dögum. Spartacus. Spartacus var skylmingaþræll sem var hnepptur í ánauð af Rómverjum. Hann leiddi þrælauppreisn á árunum 73 f.Kr. til 71 f.Kr., þá þriðju og síðustu sinnar tegundar í Rómaveldi. Uppreisnin var jafnframt sú eina sem átti sér stað á Ítalíuskaganum sjálfum. Uppreisnin. Spartacus, ásamt um 70 fylgismönnum sínum flúðu frá Pompeii í átt að fjallinu Vesúvíusi. Þeir héldu til nærri þeim stað sem Napólí stendur á nú. Fleiri þrælar héðan og þaðan einkum úr dreifbýlinu gengu til liðs við uppreisnarmennina sem að endingu töldu um 70.000 manna herlið. Hópurinn ríkti yfir svæðinu þar sem þeir héldu til. Þar sem hlutfall þræla á móti borgurum var hátt á þessum tíma var þrælauppreisn grafalvarlegt mál fyrir Róm. Öldungadeildin sendi Claudíus Glaber með 3.000 manna herlið til að ráða niðurlögum þrælanna. Claudíus og menn hans króuðu þrælana af á Vesúvíusi en þrælarnir fylgdu Spartacusi niður aðra hlíð fjallsins og svo kom þrælaherinn aftan að hinni rómversku herdeild og gersigraði hana. Spartacus og menn hans sigruðu tvær rómverskar herdeildir áður en hópurinn hélt suður á bóginn. Fjöldi fólks, gamalmenni, börn og konur höfðu þá gengið til liðs við Spartacus í von um frelsi. Að vori hélt hópurinn fylktu liði til norðurs í átt að Gallíu. Öldungadeildin sendi tvo ræðismenn, þá Gellius Publicola og Gnaeus Cornelíus Lentulus Clodianus, hvorn með tvær herdeildir. Gallar og Germanir sem skildu við Spartacus voru sigraðir. Spartacus sigraði hins vegar ræðismennina og herdeildirnar sem þeim fylgdu við Picenum og við Moden sigraði Spartacus Gaius Cassius Longinus, landstjóra Gallíu Cisalpinu. Um það leyti sem hópurinn nálgaðist Gallíu sneri mestallur hópurinn við og hélt suður á bóginn og sigraði tvær herdeildir Marcusar Liciniusar Crassusar. Í árslok 72 f.Kr. sló Spartacus upp búðum í Rhegium skammt frá Messina sundinu. Í ársbyrjun króuðu 8 herdeildir Crassusar Spartacus af í Calabria. Spartacus braust úr herkvínni og komst til Brindísum en herir Crassusar náðu Spartacusi í Lucaníu og var hann veginn í bardaga á bökkum Silarusar. 6.000 fylgismenn Spartacusar voru krossfestir með fram "Via Appia". Um 5.000 fylgismenn Spartacusar sluppu frá Crassusi en voru gersigraðir af Pompeiusi sem fékk heiðurinn af því að hafa ráðið niðurlögum þrælauppreisnarinnar. Upphefð. Spartacus tindurinn á syðri Hjaltlandseyjum við Suðurskautslandið var nefndur eftir þrælaforingjanum. Í kvikmyndum. Ævi Spartacus voru gerð skil í samnefndri kvikmynd frá árinu 1960. Kvikmyndin var í leikstjórn Stanley Kubricks og skartaði stórstjörnum á meðal leikara, þ.á m. Kirk Douglas sem lék Spartacus, Laurence Olivier sem lék Crassus og Peter Ustinov sem fékk Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína. Myndin hlaut alls 4 Óskarsverðlaun og var auk þess tilnefnd í tveim flokkum til viðbótar. Hjónaband. Hjónaband er sáttmáli, oftast siðferðilegur, trúarlegur og lagalegur, milli tveggja einstaklinga um samvistir og sameiginlega ábyrgð, þar sem einstaklingarnir ákveða að eyða ævinni saman og ala upp börn sín í sameiningu. Hjónaband fyrirfinnst í nánast öllum samfélögum manna, og jafnvel í elstu heimildum virðist sem hjónaband hafi verið orðið að hefð. Þótt ýmsir mannfræðingar hafi rannsakað hjónaband í mismunandi samfélögum er lítið vitað um uppruna þess. Oft er haldin sérstök athöfn þegar tveir aðilar ganga í hjónaband og nefnist hún gifting, en eftir athöfnina er gjarnan haldin brúðkaupsveisla. Í vestrænum löndum er yfirleitt um einkvæni að ræða, þar sem einn karlmaður og ein kona ganga í hjúskap og kallast þá "eiginmaður" og "eiginkona", en í öðrum heimshlutum þekkist "fjölkvæni", þar sem einn karlmaður gengur í hjúskap með mörgum konum. Einnig fyrirfinnst "fjölveri", þar sem ein kona er í hjúskap með mörgum karlmönnum, en slíkt er þó mun óalgengara. Á undanförnum árum hafa ýmis vestræn samfélög (þar á meðal Ísland), lögfest heimild samkynhneigðra til staðfesta sambúð með einstaklingi af sama kyni, sem er sambærilegt hjónabandi. Gifting. Gifting í lútherskri kirkju í Köln. Gifting eða brúðkaup (giftumál, hjónavígsla eða pússun) er félagslegur og/eða lagalegur sáttmáli (oftast) tveggja einstaklinga sem innsiglar hjúskaparsamband þeirra en formið er misjafnt eftir þjóðfélögum, trú eða menningarkimum. Mikill munur er á framkvæmd giftingarathafna, meðal annars eftir trúarbrögðum, menningu og þjóðfélagsstétt. Giftingarsiðir og venjur eru mjög mismunandi milli ólíkra þjóðfélaga en þó hafa næstum öll þjóðfélög einhvers konar giftingarathöfn karla og kvenna (og sumstaðar einstaklinga af sama kyni). Giftingarathöfn getur ýmist verið trúarleg, framkvæmd af presti eða öðrum trúarleiðtoga, eða borgaraleg og þá oftast framkvæmd af dómara eða öðrum opinberum fulltrúa sem heimild hefur til að gefa fólk saman. Í sumum löndum er borgaraleg vígsla skylda en margir giftast jafnframt í kirkju; í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og fleiri löndum þarf borgaraleg vígsla fyrst að fara fram áður til kirkjulegrar hjónavígslu kemur en í Bandaríkjunum, Bretlandi, á Norðurlöndum og víðar er kirkjulega vígslan jafnframt lögformleg gifting. Á Íslandi og í mörgum öðrum löndum getur gifting farið fram hvar sem er, innan húss eða utan, svo framarlega sem prestur, dómari eða annar sem réttindin hefur til að vígja hjón fæst til athafnarinnar, en í öðrum löndum, svo sem Bretlandi, má einungis framkvæma hjónavígslu í kirkju, á opinberri skráningarskrifstofu eða á öðrum stað sem hefur fengið til þess leyfi og er opinn almenningi. Undantekningar eru þó gerðar vegna veikinda og annarra sérstakra aðstæðna. Í mörgum þjóðfélögum er aðeins heimiluð gifting tveggja einstaklinga og þá oftast karls og konu. Sumstaðar mega þó tveir einstaklingar af sama kyni giftast og í sumum þjóðfélögum tíðkast fjölkvæni eða fjölveri (sem þó er sjaldgæft). Kona sem giftir sig er nefnd "brúður", en karl sem giftir sig er "brúðgumi". Á íslensku er talað um að karlar og konur giftist (komið af orðinu gifta sem þýðir gæfa), en jafnframt eru karlar oft sagðir "kvænast" eða "kvongast" (komið af orðinu kvon sem þýðir kona). Því er rangt að segja að kona kvænist eiginmanni sínum, hún giftist honum. Brennisteinsvetni. Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S), er litlaus eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum. Brennisteinsvetni myndast oft þegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni án þess að súrefni sé til staðar svo sem í mýrum og í sorp- og mykjutönkum. Brennisteinsvetni er einnig sums staðar að finna í gufu á háhitasvæðum og í vatni. Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig. Sýnt hefur verið fram á að framkalla má dvala hjá músum með brennisteinsvetni. Brennisteinsvetni og örverur. Brennisteinsvetni er þýðingarmikið í hringrás brennisteins á jörðinni. Sumar örverur vinna orku með því að breyta brennisteini í brennisteinsvetni með því að oxa vetni eða lífrænar sameindir. Aðrar örverur losa brennistein frá amínósýrum sem innihalda brennistein. Nokkrar tegundir af bakteríum geta notað brennisteinsvetni sem orkugjafa. Sumar bakteríur nota brennisteinsvetni við ljóstillífun og framleiða með því brennistein. Þessi tegund af ljóstillífun er eldri en sú sem jurtir nota með því að taka inn vatn og losa súrefni. Fyrsta púnverska stríðið. Fyrsta púnverska stríðið (264 f.Kr. – 241 f.Kr.) var stríð milli Rómverja og Karþagómanna. Stríðið var háð bæði á landi og sjó, á Sikiley og í skattlandinu Afríku og á Miðjarðarhafi. Stríðið var báðum þjóðum dýrkeypt en Rómverjar höfðu sigur og lögðu undir sig Sikiley. Í kjölfar stríðsins átti Karþagó erfitt með að verja áhrifasvæði sín og gátu Rómverjar sölsað undir sig eyjurnar Sardiníu og Korsíku nokkrum árum síðar þegar Karþagó átti í fullu fangi með að berja niður uppreisn ósáttra málaliða. Fyrsta púnverska stríðið markaði upphaf sex áratuga langs útþenslutímabils í Rómaveldi þar sem Rómverjar urðu valdamesta þjóðin við Miðjarðarhafið. Sigur Rómaveldis var ögurstund sem leiddi til þess að menningararfleifð Miðjarðarhafsþjóða fornaldar var miðlað til nútímans í gegnum Evrópu fremur en Afríku. Húsið á Kristjánshöfn. Húsið á Kristjánshöfn (danska: "Huset på Christianshavn") er dönsk sjónvarpsþáttaröð sem var framleidd af Nordisk Film fyrir danska ríkisútvarpið 1970 til 1975 og leikstýrt af Erik Balling, Tom Hedegaard og Ebbe Langberg. Þættirnir eru stuttar sögur um fólk sem býr í fjölbýlishúsi. Margir þekktir höfundar (t.d. Leif Panduro og Benny Andersen) voru fengnir til að skrifa handrit. Sjónvarpsþættirnir urðu 84 talsins og voru með vinsælasta sjónvarpsefni sem DR hefur gert í gegnum tíðina. Annað púnverska stríðið. Annað púnverska stríðið (218 f.Kr. – 201 f.Kr.) (sem Rómverjar nefndu „Stríðið gegn Hannibal“) var háð milli Karþagó og Rómverja. Það var annað af þremur stríðum sem hin fyrrum fönikíska nýlenda háði gegn rómverska lýðveldinu, sem réði þá einungis yfir Ítalíuskaganum, um yfirráð yfir vestanverðu Miðjarðarhafi. Nafnið „púnversku stríðin“ er komið af nafni Karþagómanna á latínu sem Rómverjar nefndu þá "Punici" (eldra form "Poenici"). Annað púnverska stríðið er einkum frægt fyrir herleiðangur Hannibals, herforingja Karþagómanna, yfir Alpana. Hann gerði innrás í Ítalíu úr norðri og sigraði rómverska herinn í nokkrum orrustum en náði aldrei hinu endanlega markmiði að grafa undan stjórnmálasambandi Rómaveldis og bandamanna þess. Spánn, Sikiley og Grikkland komu einnig við sögu og höfðu Rómverjar alls staðar sigur. Að lokum var barist í skattlandinu Afríku og Karþagómenn voru sigraði í orrustunni við Zama af rómverskum her undir stjórn Scipios Africanusar. Í kjölfarið voru landsvæði Karþagó takmörkuð við borgarmökin auk þess sem Karþagó varð að greiða himinháar stríðsskaðabætur. Þriðja púnverska stríðið. Þriðja púnverska stríðið (149 f.Kr. – 146 f.Kr.) var þriðja og síðasta stríðið milli Karþagó og Rómar um yfirráð yfir vestanverðu Miðjarðarhafi. Nafnið „púnversku stríðin“ er komið af nafni Karþagómanna á latínu sem Rómverjar nefndu þá "Punici" (eldra form "Poenici"). Stríðið var umfangslítið og var að mestu leyti langt umsátur um Karþagó og lauk með því að borgin var lögð í rúst. Róm sölsaði undir sig öll landsvæði sem enn tilheyrðu Karþagó. Átökin má rekja til andstöðu við rómversk yfirráð á Spáni og í Grikklandi og mikils efnahagslegs uppgangs í Karþagó. Vallarfoxgras. Vallarfoxgras (fræðiheiti: "Phleum pratense") er fjölært gras af ættkvíslinni "Phleum". Vallarfoxgras er ræktað hérlendis og er afar vinsælt til beitar og sláttar. Uppskeran er bæði mikil og orkurík. Tegundin er þó viðkvæm fyrir beit og traðki og nýtist því best í bland við aðrar grastegundir, eins og Vallarsveifgras. Vallarfoxgras vex villt um alla Evrópu, frá Miðjarðarhaf allt norður að 70. breiddarbaug. Frá Evrópu barst það til Bandaríkjanna með landnemum, en það var Daninn Timothy Hansen sem talinn er upphafsmaður ræktunar á vallarfoxgrasi. Upp úr 1720 flutti hann fræ með sér frá Nýja-Englandi til Marylands og vann að útbreiðslu þess. Honum til heiðurs er tegundin enn kölluð Timothy eða Timotei í allmörgum löndum. Líffræði. Vallarfoxgras getur náð 50 til 150 cm hæð og blöðin geta verið allt að 40 cm löng og 1 cm á breidd. Blöðin eru lensulaga og snúa stundum dálítið upp á sig. Blómskipun vallarfoxgrass er axpuntur, sem nefnist einnig kólfur. Hann er snarpur viðkomu vegna stuttra brodda á axögnunum. Vallarfoxgras safnar forða í lauk. Stigull. Falli lýst með svörtum og hvitum lit, og stiglar þess í ýmsum punktum táknaðir með örvum. Stigull er vigur með hnit allra fyrstu hlutafleiða falls. Er notaður til þess að lýsa bratta eða halla falls. Vigurgreining er sú grein stærðfræðinnar sem fæst við vigursvið. Formleg skilgreining. Stigull fallsins formula_1 með tilliti til vigursins formula_2 er táknaður formula_3 þar sem formula_4 (nabla) táknar vigurvirkjann del. Einnig er stigull táknaður með formula_5, formula_6 eða stundum formula_7. Dæmi. Í þremur víddum, er stigullinn oftast ritaður formula_10 í Kartesískum hnitum. Runa. a>, en hún er á hinn boginn takmörkuð. Runu má hugsa sér sem fall með formengið formula_1 og því gilda ýmis hugtök úr fallafræði um þær. Runa er gjarnan táknuð, líkt og fjölskyldur almennt, með svigum, t.d. formula_7. Þá er það oft ritað formula_8, til þess að gefa til kynna að um sé að ræða fjölskyldu þar sem að hvert stak hefur vísi úr mengi náttúrlegra talna. Þá er "n"-ta stak rununnar táknað formula_9. Vaxandi og minnkandi runur. Runa er sögð vaxandi ef hún stækkar eftir því sem á líður, þ.e., að fyrir öll "n" gildir formula_10. Sömuleiðis er runa sögð minnkandi ef að hún minnkar, þ.e., að fyrir öll "n" gildir formula_11. Runur sem eru annað hvort vaxandi eða minnkandi eru kallaðar einhalla. Samleitni. Hafi runa grannmynstur getur hún verið samleitin. Runa er sögð samleitin ef að hún hefur markgildi. Það er að segja, að fyrir öll formula_21 sem eru stærri en 0, þá sé til tala "N", þannig að ef að "n" > "N" þá sé fjarlægðin milli formula_9 og "L" minni en formula_21. Takmarkaðar runur. Runa er takmörkuð ef til er endanleg tala "M", þ.a. |formula_9| markgildi og þá sögð vera samleitin en ósamleitin ef hún hefur ekki markgildi. Ef að fjarlægð milli staka minnkar eftir því sem líður á rununa kallast runan Cauchyruna á firðinni sem fjarlægðin er mæld með. Röð. Röð er runa af summum annarar runu. Til dæmis ef ("x"1, "x"2, "x"3...) er runa, þá má skoða hlutsummurununa ("S"1, "S"2, "S"3...), með Þorvaldur Skúlason. Þorvaldur Skúlason (30. apríl 1906 – 30. ágúst 1984) var íslenskur listmálari sem var einn af frumkvöðlum abstraktlistar á Íslandi og undir áhrifum frá franska kúbismanum sem hann kynntist í Frakklandi á 4. áratugnum. Stærsta safn verka hans er í eigu Listasafns Háskóla Íslands sem stofnað var 1980 með listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, en verk eftir Þorvald voru uppistaða í safni þeirra (117 af 140 verkum). Þorvaldur fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð á Ströndum, sonur faktorsins í Riisversluninni, Skúla Jónssonar, og Elínar Theodórsdóttur. Þegar hann var þriggja ára fluttist fjölskyldan til Blönduóss þar sem hann ólst upp. Fjórtán ára varð hann messadrengur á farþegaskipinu MS Gullfossi, en ári síðar fótbrotnaði hann og stytti sér stundir með teikningum. Haustið 1921 fór hann til Reykjavíkur og fékk tilsögn hjá Ásgrími Jónssyni. 1927 sýndi hann verk sín á 7. almennu listasýningu Listvinafélags Reykjavíkur og 16. febrúar 1928 hélt hann sína fyrstu einkasýningu. Þetta sama ár fór hann í nám við listaháskólann í Osló. 1931 flutti hann til Parísar og til Kaupmannahafnar 1933 og enn til Frakklands 1934. 1940 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Íslands vegna innrásar Þjóðverja. Eftir komuna til Íslands bjó hann mestmegnis í Reykjavík og tók virkan þátt í sýningum Félags íslenskra myndlistarmanna og sýningum Septem-hópsins meðal annars. Hassan Nasrallah. Sayyed Hassan Nasrallah (Arabíska: حسن نصرالله‎) (f. 31. ágúst, 1960 í Burj Hammud, Beirút, Líbanon) er núverandi aðalritari íslömsku hreyfingarinnar Hizbollah. Carlo Ginzburg. Carlo Ginzburg (fæddur í Tórínó 1939) er ítalskur sagnfræðingur og frumkvöðull á sviði einsögu. Þekktastar eru rannsóknir hans á alþýðumenningu og þjóðtrú við upphaf nýaldar, á 16. og 17. öld. Rannsóknir hans á skjölum rannsóknarréttarins vörpuðu nýju ljósi á nornafárið og tengsl þess við alþýðuhefðir í sveitum Evrópu. Rannsóknir hans miðast oft við óvenjulega (og þar með ódæmigerða) einstaklinga, þorpssamfélög eða litla hópa fólks, andstætt félagssögunni sem reynir að varpa ljósi á líf alþýðufólks fyrri tíma með aðferðum félagsfræðinnar og rannsóknum á stórum heildum. Ginzburg er sonur ritstjórans og menningarvitans Leone Ginzburg og rithöfundarins Nataliu Ginzburg. Hann lærði við háskólann í Písa og kenndi síðan sagnfræði við Bologna-háskóla, og háskólana Harvard, Yale og Princeton. 1998 fékk hann rannsóknarstöðu við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Meðal þekktustu rita hans eru "I benandanti" (Einaudi, 1966) og "Storia notturna: Una decifrazione del Sabba" (Einaudi, 1989), sem varpa nýju ljósi á nornafárið í Evrópu, og "Il formaggio e i vermi" (Einaudi, 1976) sem talið er marka upphafið að einsögunni sem sérstakri stefnu innan sagnfræði. Ehud Olmert. Ehud Olmert (hebreska: אהוד אולמרט) (fæddur 30. september, 1945) er tólfti og jafnframt núverandi forsætisráðherra Ísraels. Olmert tók opinberlega við sæti forsætisráðherra Ísraels þann 14. apríl 2006 en hefur í reynd gegnt starfinu frá því 4. janúar sama ár eftir að þáverandi forsætisráðherra, Ariel Sharon, fékk heilablóðfall og féll í dá. Moshe Sharett. Moshe Sharett (hebreska: משה שרת; fæddur Moshe Shertok (hebreska: משה שרתוק) (fæddur 15. október 1894 – 7. júlí 1965) var annar forsætisráðherra Ísraels (1954 - 1955). Sharett var fæddur í Kherson, Úkraínu, sem þá var hluti af rússneska keisaradæminu en flutti til Palestínu árið 1908. Fjölskylda hans tók þátt í að stofna ísraelsku borgina Tel Aviv. Ob. Ob er fljót í Rússlandi, nánar tiltekið í Vestur-Síberíu. Áin er um 3700 kílómetra löng, en sé Irtysh fljótið, sem rennur í Ob, mælt með er lengdin frá upptökum til ósa um 5600 kílómetrar. Þannig mælt er fljótið það fjórða lengsta í heimi. Efsti hluti Ob rennur til norðvesturs í Altaifjöllum, síðan í norðaustur framhjá borgunum Barnaul og Novosibirsk og sameinast ánni Tom. Miðhluti Ob rennur í norðvestur um mýrarskóga Síberíu og þar falla í það árnar Chulym, Ket, og Irtysh. Neðst greinist flótið í tvær kvíslar, Stóra Ob og Litla Ob og rennur þá norður og austur út í Obflóa, sem gengur suður úr Norður-Íshafinu. Flóinn er um 800 kílómetra langur en ekki nema um 60 kílómetrar á breidd. Breidd fljótsins er vaxandi eftir því sem neðar dregur og nálægt ósum er það um 40 kílómetra breitt. Dalurinn, sem miðhluti fljótsins rennur eftir, fer á kaf í flóðum á hverju ári, vegna þess að leysingar eru fyrr á ferð suður í Altaifjöllum heldur en þarna 200 kílómetrum norðar. Fljótið er frosið að mestu í 5 til 6 mánuði á hverju ári, en þrátt fyrir það er það mikilvæg samgönguæð. Helstu hafnarborgir fljótsins eru Novosibirsk, Barnaul, Kamen-na-Obi og Mogochin. Stórt vatnsaflsorkuver er í Novosibirsk. Mestu olíu- og gaslindir Rússlands eru meðfram miðhluta fljótsins. Mikil mengun neðst í fljótinu hefur alveg eytt miklum fiskistofnum, sem áður voru veiddir úr ánni í miklum mæli. Yitzhak Rabin. Yitzhak Rabin (hebreska: יִצְחָק רָבִּין), (fæddur 1. mars 1922 – 4. nóvember 1995) var ísraelskur stjórnmálamaður og hershöfðingi. Hann var fimmti forsætisráðherra Ísraels frá 1974 til 1977 og aftur frá 1992 þar til hann var myrtur árið 1995 af Yigal Amir, hægri öfgamanni sem var á móti Oslóarsamkomulagi Ísraela og Palestínumanna. Rabin var fyrsti forsætisráðherra landsins sem var fæddur í Palestínu, einnig sá fyrsti sem var myrtur og sá annar til að deyja í embætti (sá fyrsti var Levi Eshkol). Árið 1994 fékk Rabin Friðarverðlaun Nóbels ásamt Yasser Arafat og Shimon Peres fyrir að stuðla að friði í Mið-Austurlöndum. Yigal Amir. Yigal Amir (hebreska: יגאל עמיר) (fæddur 23. maí 1970) er ísraelskur hægri öfgamaður sem, þann 4. nóvember árið 1995, myrti þáverandi forsætisráðherra Ísraels, Yitzhak Rabin í Tel Aviv. Amir afplánar nú lífstíðardóm auk 14 ára fyrir samsæri og árás á lífvörð Rabins. Tel Avív. Tel Avív eða Tel Avív-Yafo (hebreska: תֵּל אָבִיב-יָפוֹ; arabíska: تَلْ أَبِيبْ-يَافَا‎ Tal Abib-Yafa) er ísraelsk borg á strönd Miðjarðarhafsins. Nellikubyltingin. Nellikkubyltingin átti sér stað í Portúgal þann 25. apríl 1974 þegar Portúgalar steyptu herforingjastjórn landsins af stóli, en hún hafði haldið völdum í landinu frá árinu 1926. Byltingin var án blóðsúthellinga, þökk sé portúgölskum hermönnum sem óhlýðnuðust þeim fyrirmælum herforingjastjórnarinnar að skjóta á uppreisnarmenn. Byltingin dregur nafn sitt af þeirri staðreynd að portúgalskur almenningur þakkaði hermönnum óhlýðnina með því að stinga nellikum í byssuhlaup þeirra. Portugal Telecom. Portugal Telecom (eða PT) er stærsta símafyrirtæki Portúgals. Fyrirtækið starfar aðallega í Portúgal og Brasilíu en býður einnig upp á símaþjónustu í Marokkó, Gíneu-Bissau, Grænhöfðaeyjum, Mósambík, Austur-Tímor, Angóla, Kenýa, Kína og São Tomé og Príncipe. Lægð (veðurfræði). Lægð eða lágþrýstisvæði í veðurfræði er veðurkerfi þar sem lágur loftþrýstingur er yfir tilteknu svæði á jörðinni. Á norðurhveli blása vindar rangsælis umhverfis lægðir, en öfugt á suðurhveli. Lægðum fylgja gjarnan óstöðug veður, hvassir vindar og úrkoma. Lægð er því gagnstæða hæðar. Gaumstol. Gaumstol er taugasjúkdómur sem yfirleitt stafar af heilaskemmd í hægra hvirfilblaði. Helsta einkenni gaumstols er að sjúklingurinn veitir hlutum vinstra megin við sig litla athygli, gefur þeim svo að segja engan gaum. Þetta getur til dæmis valdið því að gaumstolssjúklingar gleyma að klára matinn vinstra megin á diskinum sínum, eða klæða sig einungis í hægri ermina á peysunni sinni. Amon Tobin. Amon Tobin, skírður "Amon Adonai Santos de Araujo Tobin" ("Antônio Carlos Brasileiro de Almeida Jobim" og "Tom Jobim" í Brasilíu), (7. febrúar 1972) er brasilískur tónlistarmaður. Tónlist hans er gefin út af breska útgáfufyrirtækinu Ninja Tune. Ferill. Amon fæddist í Rio de Janeiro í Brasilíu en fluttist til Evrópu á unglingsaldri og er sagður hafa búið í Portúgal og í Brighton á Englandi þar sem hann gaf út fjórar EP plötur undir nafninu "Cujo" áður en að fyrstu breiðskífunni „Adventures in Foam“ (1996) kom hjá Ninebar útgáfufyrirtækinu. Sama ár skrifaði hann undir hjá Ninja Tune og í kjölfarið fylgdu fjórar breiðskífur sem var öllum tekið vel af sífellt stækkandi hópi aðdáenda. Árið 2004 kom út diskur með upptökum af tónleikum með honum í Solid Steel röðinni. Næsta ár tók Amon nýja stefnu þegar hann samdi tónlistina við tölvuleikinn „Chaos Theory: Splinter Cell 3“ fyrir tölvuleikafyrirtækið Ubisoft sem einnig var gefið út hjá Ninja Tune. Stíll. Tónlistarstíll Amon Tobins er einstakur mjög djass-skotinn og einnig eru töluverð suður-amerísk áhrif bossa nova, samba og batucada. Amon vinnur tónlist sína mestmegnis í hljóðgervlum og sækir hann efnivið sinn víða, m.a. notar hann búta úr öðrum lögum. Með ýmsum stillingum og breytingum á hljóðbútunum tekst honum að brengla og ummynda hljóð þannig að þau verða nær óþekkjanleg samanborið við upprunalegt hljóð. Júnó. Júnó (latína: IVNO) er ein helsta gyðjan í rómverskri goðafræði. Hún samsvarar Heru í grískri goðafræði. Hún er sögð kona Júpíters og móðir Mars. Júnó á að hafa margþætt hlutverk. Meðal annars hefur hún verið tengd við hjónaband, barneignir og fjármál. Rómversk goðafræði. Rómversk goðafræði fjallar um trúarbrögð Rómverja til forna. Hvað varðar goðafræðina sjálfa, það er hvaða goð eru tilbeðin, má segja að þeir hafi að miklu leyti gert gríska goðafræði að sinni eigin. Nöfnin eru oftast önnur en goðin eru engu að síður oft talin þau sömu eða urðu þau sömu eftir því sem grísk menning varð áhrifameiri í Rómaveldi. Einnig tóku þeir upp goð margra annarra þjóða sem þeir náðu yfirráðum yfir. Rómverjar áttu þó sín eigin goð (sem runnu oftast vel inn í gríska jafningja sína) og gerðu skýran greinarmun á sínum eigin og þeim sem þeir tóku upp eftir öðrum. Þeirra eigin goð kölluðu þeir "di indigetes" en þau innfluttu "de novensides". Þrátt fyrir mörg sameiginleg goð var iðkun trúarbragðanna og hugsunin á bak við þau oft á tíðum mjög ólík því sem var í Grikklandi. Rómverjar gerðu mikið af því að tengja goðin við mannfólkið og áttu margar sögur um uppruna sinn og borgar sinnar, hvernig mætti rekja hana til goðanna. Þeir áttu hins vegar ekki mikið af sögum um goðin að gera mannlega hluti, sem Grikkirnir áttu aftur á móti. Háhyrningur. Háhyrningur (fræðiheiti "Orcinus orca") er stórt sjávarspendýr, af tannhvalaætt. Þeir eru ein af þrjátíu og fimm tegundum höfrunga og stærstir af þeim. Háhyrningar eru eina tegundin af ættinni "Orcinus". Þeir eru rándýr, sumir stofnar virðast lifa einkum af fiski en aðrir á ýmsum sjávarspendýrum, selum, rostungum og hvölum. Lýsing. Háhyrningar eru fremur gildvaxnir með stutt trýni. Þeir hafa stórt höfuð stóran sterkbyggðan kjálka en færri tennur en aðrir höfrungar, þær eru hins vegar mjög stórar og sterkbyggðar. Tennurnar er 40-56, 10 til 14 í hvorum kjálka, oddlaga og geta orðið 10 cm langar. Hann notar ekki tennurnar til að tyggja með, heldur til að grípa bráðina og drepa. Hornið er á miðju bakinu og er mjög stórt, allt að 1,8 metra á hæð, mun stærra en hjá öðrum hvölum og einkenni tegundarinnar. Það er mun stærra hjá fullvöxnum törfum en hjá kúm og stækkar mjög hjá törfunum við kynþroska. Hornið sveigist aftur hjá kúm og ungum törfum. Bægslin eru hlutfallslega stór og breið og líkjast spöðum. Fullvaxnir tarfar geta orðið tæplega 10 m. á lengd og allt að 10 tonn að þyngd en kýr eru minni og verða sjaldan stærri en 6 m. og allt að 7 tonn. Litamynstur háhyrnings er mjög afmarkað. Að mestu er hann svartur á baki og hvítur á kviði og litaskilin mjög skörp. Neðri kjálki er hvítur og fyrir aftan augun er áberandi hvítur blettur. Rétt framan við kynfærin ganga hvítar hvíslar upp á hliðarnar. Sporðurinn er hvítur að neðan. Aftan við hornið er svonefndur söðulblettur, óreglulegur grár blettur. Útbreiðsla og hegðun. Háhyrningar eru útbreiddir á öllum heimshöfum, á heimskautasvæðum sem og á hitabeltissvæðum. Þeir eru þó mun algengari á landgrunnssvæðum fjarri hitabeltinu. Að sumrinu sjást háhyrningar oft nærri landi, inni á fjörðum og flóum, en yfir veturinn halda þeir sig á meira dýpi. Það er þó mikill munur á farmynstri háhyrninga og ekki hægt að sjá eitt einhlítt munstur. Háhyrningar hafa sést inni á Miðjarðarhafi og Eystrasalti en eru ekki algengir þar. Norður- og suðurmörk útbreiðslunnar fylgir að mestu ísjaðrinum en þó eru mörg dæmi um háhyrninga inni í rekíssvæðum. Háhyrningar eru algengir við Íslandsstrendur, á sumrin og haustin einna helst á síldarmiðum undan Austfjörðum, Suður- og Vesturlandi en þeir sjást allt umhverfis landið. Þeir elta oft síldar- og loðnuvöður inn í firði. Háhyrningar þurfa fæðu, fisk eða kjöt, sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra daglega og dýr sem er um sjö tonn þarf frá 175 til 350 kg af fæðu á dag. Háhyrningar eru mjög hraðsyntir og árið 1958 mældist eitt dýr synda 55,5 km/klst. í Kyrrahafi. Miklar rannsóknir við vesturströnd Norður-Ameríku sýna að háhyrningar skiptast í tvö aðgreind afbrigði. Þau eru ólík í atferli, fæðuvali, lögun horns, litamynstri og erfðaeinkennum. Þessi tvö afbrigði voru upphaflega kölluð „staðbundna afbrigðið“ (á ensku "residents") og „flakkaraafbrigðið“ (á ensku "transients") en síðar hefur komið í ljós að ekki réttnefni þar sem hópar úr báðum afbrigðum geta verið staðbundin og flakkarar. Hins vegar er fæðuval fyrrnefnda afbrigðisins nánast eingöngu lax og aðrar fisktegundir en sá síðari er sérhæfður í veiðum á spendýrum og fuglum. Hugsanlega verða þessi tvö afbrigði skilgreind sem tvær tegundir í framtíðinni. Óvíst er að hvaða marki þessi afbrigðamunur er sá sami á öðrum svæðum. Háhyrningar eru eins og aðrir höfrungar mikil hópdýr, virðist flakkaraafbrigðið halda sig í fremur litlum hópum, fjölskylduhópum, 2 til 4 dýr, en staðbundna afbrigðið í fremur stærri, 10 allt upp í 50 dýr. Háhyrningar éta fiska, skjaldbökur, seli, hákarla og jafnvel aðra hvali. Háhyrningavaða getur drepið stóra hvali. Veiðar og fjöldi. Keiko í búri Háhyrningar hafa verið veiddir um allan heim en þó í litlum mæli. Þeir hafa verið illa liðnir af fiskimönnum vegna tjóns á veiðarfærum og afla. Háhyrningar hafa verið veiddir lifandi í talverðum mæli til að hafa til sýnis í dýrargörðum. Við Ísland voru 63 dýr veidd í þessum tilgangi á árunum 1976 - 1989 og var það frægasta Keiko. hann var veiddur um 1980 og drapst 2003 eftir misheppnaða tilraun til að enduraðlaga hann að villtu lífi. Óvíst er um heildarfjölda háhyrninga í heiminum en talning 1987-1989 við í Norðaustur-Atlantshafi, það er við ísland, Noreg og Færeyjar, sýndi að þar voru um 13 þúsund dýr. Fjöldin við Ísland var talinn um 5500 dýr. Laugardalur (hverfi). Laugardalur er hverfi í Reykjavík. Til hverfisins teljast borgarhlutarnir Tún, Teigar, Lækir, Laugarnes, Sund, Heimar, Langholt, Vogar, Skeifan og Fen. Hverfið dregur nafn sitt af stóru íþrótta- og útivistarsvæði, Laugardalnum sem er í miðju hverfisins. Á því svæði eru m.a. Þvottalaugarnar, Laugardalslaug, Laugardalshöll, Grasagarður Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Sigurður málari setti fram þá hugmynd árið 1871 að Laugardalur yrði íþrótta- og útivistarsvæði fyrir íbúa Reykjavíkur. Mýrin í Laugardal var ræst fram árið 1946. Í vestur markast hverfið af línu sem dregin er eftir miðri Snorrabraut. Í austur markast hverfið af Elliðaám, syðri kvísl. Í suður markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Hverfisgötu, Laugaveg, Suðurlandsbraut, Grensásveg og Miklubraut. Í norður markast hverfið af sjó. Ásmundarsafn og Listasafn Sigurjóns Ólafssonar eru í Laugardalshverfinu.Þessi söfn eru staðsett í húsum þar sem var heimili og vinnustofur listamannanna Ásmundar og Sigurjóns. Í hverfinu eru grunnskólarnir Langholtsskóli, Laugarnesskóli, Laugalækjarskóli og Vogaskóli. Kirkjur í hverfinu eru Laugarneskirkja, Áskirkja og Langholtskirkja. Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur og kona hans, Valgerður Halldórsdóttir, byggðu hús um 1920 í Laugamýri og nefndu það eftir Laugardal í Biskupstungum, æskuheimili Valgerðar. Íþróttahöllin sem reis þar í grenndinni um 1960 fékk nafn sitt af þessu húsi en síðan festist það smám saman við næsta nágrenni og hin síðustu ár hefur það verið haft um allt hverfið innan marka hins gamla Laugarneslands - og meira til. Eiríkur og Valgerður hófu ræktun við hús sitt og komu upp sannkölluðum sælureit, sem varð löngu seinna undirstaða grasagarðsins í Laugardal. Háliðagras. Háliðagras (fræðiheiti: "Alopecurus pratensis") er grastegund af ættkvíslinni "Alopecurus". Háliðagras vex jafnan í Evrópu og Asíu. Á Íslandi vex tegundin villt og er lítillega notuð til túnræktar. Háliðagras líkist nokkuð Vallarfoxgrasi í útliti. Háliðagras getur orðið allt að 110 cm hátt og hefur frekar breið, slétt blöð. Slíðurhimnan er 1-2 mm á lengd. Tegundin er viðkvæm fyrir ryðsveppi og má því oft greina ryðrauða bletti á blöðum. Axpunturinn, er einnig nefnist kólfur, er sívalur, allangur og mjúkur viðkomu. Háliðagras þrífst best í rökum, frjósömum jarðvegi og er viðkvæmt fyrir þurrki. Það er snemmþroska og er gott fóður ef það er slegið nokkuð snemma því orkugildi þess fellur hratt eftir því sem það sprettur úr sér. Tegundin gefur góða uppskeru og þolir vel beit og traðk. Hinsvegar hentar það illa í blöndu með öðrum tegundum túngrasa, þar sem það er oftast úr sér sprottið á meðan aðrar tegundir eru enn lítið þroskaðar. Vikulokin. Vikulokin er íslenskur útvarpsþáttur í umsjón Önnu Kristínar Jónsdóttur. Hann er á dagskrá Rásar 1 á laugardagsmorgnum milli 11 og 12. Í þáttinn koma að jafnaði þrír gestir sem spjalla um fréttir vikunnar og bera fram sína skoðun á hlutunum. Stjórnskipan Íslands. Stjórnskipan Íslands er skipulag stjórnsýslueininga á Íslandi. Á Íslandi eru aðeins tvö stjórnsýslustig: ríki og sveitarfélög, og tvö dómstig: héraðsdómar og hæstiréttur. Frá 1264 voru sýslur sérstakt stjórnsýslustig á Íslandi, en það var lagt niður í tveimur áföngum; fyrst með nýjum sveitarstjórnarlögum 1986 þegar sýslunefndir voru lagðar niður og vald þeirra fært til sveitarfélaga, og síðan með "lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði" 1989 þegar hlutverk sýslumanna var endurskilgreint. Goðorð, þing og hreppar. Eftir landnám Íslands urðu til einingar sem nefndust goðorð og voru eins konar bandalag bænda við goða sem var fulltrúi þeirra á héraðsþingi þar sem dómar voru kveðnir upp. Alþingi var stofnað 930 og hafði æðsta dómsvald og löggjafarvald en héraðsþingin og fjórðungsþingin voru stig dómsvalds þar fyrir neðan. Nokkru eftir stofnun alþingis, eða 965 var Íslandi skipt í landsfjórðunga og voru þrjú héraðsþing í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur. Goðorð gekk í arf innan fjölskyldna og brátt safnaðist vald á hendur goðanna sem urðu héraðshöfðingjar og goðorðið í reynd að landfræðilegri skiptingu í stað bandalags. Önnur stjórnsýslueining sem líklega hefur verið til frá því fyrir kristnitöku eru hreppar sem voru félög bænda í tiltekinni sveit sem höfðu meðal annars fátækraframfærslu og fjallskil á sinni könnu. Með "Járnsíðu" 1271 og síðan "Jónsbók" urðu hrepparnir að lögskipaðri stjórnsýslueiningu. Hrepparnir voru þannig eiginlegur undanfari sveitarfélaga. Kirkjan á Íslandi hafði sína eigin stjórnsýsluskipan og dómsvald í sérstökum málum fram að siðaskiptum. Sýslumenn, lögmenn og hirðstjóri. Eftir að Ísland gekk Noregskonungi á hönd með "Gamla sáttmála" var komið á nýrri stjórnsýsluskipan í stað goðorðanna. Landsfjórðungunum var þá skipt í sýslur sem sýslumaður hélt að léni frá konungi, en lögmaður var skipaður yfir hvern fjórðung (1271). Yfir allt landið var þá settur hirðstjóri sem var fulltrúi konungs á alþingi og átti að hafa eftirlit með sýslumönnum. Eftir að hirðstjóri varð einkum útlendur lénsherra og sjaldan á Íslandi var fógeti skipaður fulltrúi hans. Einveldið og stiftamtmaður. 1593 var sett upp nýtt dómstig: yfirréttur, þar sem hirðstjóri sat í öndvegi og skipaði að hluta. Hlutverk yfirréttar var meðal annars að sporna við valdi lögmanna en áfram var samt hægt að skjóta málum til konungs sem úrslitavalds, og eftir 1732 til hæstaréttar Danmerkur sem var stofnaður við einveldistökuna. Þegar einveldi var síðan komið á í Dansk-norska ríkinu 1662 missti alþingi löggjafarvald en hélt áfram dómsvaldi. Eftir lát Henriks Bjelkes 1683 var landinu skipaður stiftamtmaður og landfógeti nýtt embætti staðgengils hans en 1688 var því skipt milli amtmanns og landfógeta. Þessir menn voru konungsfulltrúar sem heyrðu undir stjórn rentukammers og kansellís í Kaupmannahöfn. Ömt. 1770 var embætti stiftamtmanns breytt þannig að stiftamtmaður skyldi búa á Íslandi. Þá var landinu skipt í tvö ömt: Suður- og Vesturamt og Norður- og Austuramt. 1787 urðu ömtin þrjú: Suðuramt, Vesturamt og Norður- og Austuramt. 1800 var svo æðsta dómstig landsins landsyfirréttur í Reykjavík. Þar með var hlutverki alþingis á Þingvöllum lokið. Kjördæmi og kaupstaðir. Með endurreisn alþingis sem ráðgjafarþings 1843 var kveðið á um einmenningskjördæmi sem skyldu vera sýslurnar nítján auk kaupstaðarins Reykjavíkur. Sýslur voru síðan sameinaðar eða þeim skipt til að jafna hlutfall þingmanna. Brátt urðu til tvímenningskjördæmi og kaupstöðum var fjölgað sem sérstökum kjördæmum skömmu eftir aldamótin 1900. Kjördæmaskipan Íslands og tilraunir til að breyta kjördæmum og jafna þingmönnum milli kjördæma hafa síðan verið tilefni hatrammra deilna. Með verslunarfrelsi var nokkrum stöðum á Íslandi veitt kaupstaðarréttindi en þau voru fljótlega lögð niður alls staðar nema í Reykjavík sem fékk bæjarstjórn 1833. Fyrir aldamótin 1900 urðu svo Akureyri, Ísafjarðarkaupstaður og Seyðisfjörður kaupstaðir. Kaupstaðarréttindi fólu í sér að kaupstaðirnir voru sérstakt lögsagnarumdæmi aðskilið frá sýslunni. Landshöfðingjatímabilið. 1872 var gefin út tilskipun um hreppa þar sem kveðið var á um kjörnar hreppstjórnir og hreppstjóra sem skyldi vera eins konar löggæslufulltrúi. 1873 var embætti stiftamtmanns lagt niður og landshöfðingi skipaður. Árið eftir gekk stjórnarskrá Íslands í gildi og alþingi fékk löggjafarvald (en konungur hafði neitunarvald) og fjárveitingavaldi. Heimastjórn og fullveldi. Með heimastjórn 1903 færðist framkvæmdavaldið til ráðherra Íslands sem hafði aðsetur á Íslandi. Með fullveldi 1918 og skipan hæstaréttar 1920 hafði dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald færst að fullu til Íslands. Tvö stjórnsýslustig. Eftir miðjan 9. áratug 20. aldar voru síðan sýslurnar og kaupstaðirnir lagðar niður sem sérstakar stjórnsýslueiningar og sveitarfélög tóku við því valdi sem sýslunefndir höfðu haft. Við þessa breytingu urðu stjórnsýslustigin á Íslandi aðeins tvö: ríki og sveitarfélög. Síðan þá hafa sveitarfélög öll haft sömu stöðu að lögum hvort sem þau kallast kaupstaðir eða hreppar eða annað. Squarepusher. Squarepusher er breskur tónlistarmaður sem heitir réttu nafni Thomas Jenkinson. Hann er á samningi hjá breska útgáfufyrirtækinu Warp Records. Ferill. Thomas Jenkinson fæddist í Chelmsford í Essex í Bretlandi og gekk í King Edward VI Grammar School þar. Hann lærði sjálfur á bassa, gítar og trommur og hóf snemma að fikta við trommuheila (Boss DR-660) og hljóðgervla (Akai S950 og S6000). Seinna meir notaðist hann við Reaktor og Eventide Orville forritin fyrir einkatölvur. Thomas hefur gefið út undir öðrum nöfnum en Squarepusher m.a. „Duke of Harringay“, Tom Jenkinson og „Chaos A.D.“. Hann er góðkunningi tónlistarmannsins Richard D. James (betur þekktur sem Aphex Twin). Árið 1995 gaf hann út breiðskífuna „Alroy Road Tracks“ hjá Spymania. Ári eftir fylgdu „Feed me weird things“ og EP-platan „Squarepusher Plays...“ hjá útgáfufyrirtækinu Rephlex. Árið 1997 var hann svo kominn til Warp Records þar sem hann hefur gefið út 9 plötur, sú tíunda, „Hello Everything“ er væntanleg 16. október 2006. Stíll. Thomas notast við hljóðgervla og trommuheila eins og áður hefur komið fram og því er erfitt að fullyrða með nokkurri vissu hvert hann sækir efnivið sinn. Á tónleikum leikur hann þó oft undir á bassa, gítar og trommur. Tónlist hans hefur verið flokkuð sem tilraunakennd dans-tónlist undir djass-áhrifum en þó kennir ýmissa grasa í tónlist hans sem gerir það að verkum að erfitt er að flokka hana. Hugmyndafræði. Í greinaskrifum og viðtölum kemur fram að Thomas hefur þróað með sér sérstaka nálgun gagnvart tónlistarsköpun. Hann telur tölvur eða vélar eiga jafn mikinn þátt í sköpunarferlinu og tónlistarmaðurinn. Hann segir möguleika við sköpun tónlistar að hverju sinni vera háð ytri takmörkunum sem á fyrri öldum hafi verið sérstök hefð klassískrar tónlistar, tungumál og hönnun hljóðfæranna sem notast var við. Í ljósi þessa telur Thomas að til þess að geta samið tónlist megi ekki reyna að ráða yfir eða stjórna vélinni eða tölvunni heldur þurfi að eiga sér stað eins konar samvinna. Þetta ber þó ekki að skilja sem svo að Thomas telji vélar búa yfir einhverskonar meðvitund. Þann misskilning að tónlistarmenn hafi stjórn á hljóðfærunum sínum telur Thomas til vestrænnar einstaklingshyggju og þeirri þráhyggju að vilja skapa sér ódauðlegan minnisvarða. Héraðsdómar Íslands. Héraðsdómar Íslands eru lægra dómstigið af tveimur á Íslandi en dómum þeirra má áfrýja til Hæstaréttar sem er æðra dómstigið. Dómstólarnir eru 8 talsins en þeim var komið á með lögum um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði frá 1989 sem tóku gildi 1992. Núgildandi lög um héraðsdóma eru. Héraðsdómarar skulu vera 38 og skipaðir ótímabundið af dómsmálaráðherra að fenginni umsögn sérstakrar dómnefndar sem skipuð er þremur fulltrúum, einum sem tilnefndur er af Hæstarétti, einum sem tilnefndur er af Dómarafélagi Íslands úr hópi héraðsdómara og einum sem tilnefndur er af Lögmannafélagi Íslands úr hópi starfandi lögmanna. Forsaga. Áður hafði dómsvald í héraði hvílt hjá sýslumönnum og bæjarfógetum nema í Reykjavík þar sem dómsvaldið hvíldi hjá embættum borgardómara, borgarfógeta og sakadómara. Í stærstu kaupstöðum utan Reykjavíkur voru einnig starfandi sérstakir héraðsdómarar við embætti bæjarfógeta. Með lögunum var allt dómsvald fært til hinna nýju héraðsdóma og skerpt var á hlutverki sýslumanna en embætti bæjarfógeta voru lögð niður, embætti borgarfógeta í Reykjavík varð að sýslumanninum í Reykjavík sem fór með sömu störf að dómsvaldinu undanskildu. Lengi hafði verið rætt um fullan aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds á Íslandi, meirihluti þingnefndar sem skipuð var 1914 til að fjalla um málið lagði til slíkan aðskilnað 1916 en Alþingi kaus að ráðast ekki í þær breytingar að svo stöddu. Það var ekki fyrr en mál Akureyrings sem dæmdur var fyrir umferðarlagabrot barst inn á borð mannréttindanefndar Evrópuráðsins (undanfara núverandi Mannréttindadómstóls Evrópu) 1987 að undirbúningur hófst að lagasetningunni. Maðurinn hafði verið dæmdur af fulltrúa bæjarfógetans á Akureyri sem starfaði undir stjórn fógetans sem jafnframt var yfirmaður lögreglunnar sem rannsakaði málið. Málið var kært til mannréttindanefndarinnar á þeirri forsendu að mál sakbornings hefði ekki hlotið meðferð í undirrétti fyrir óháðum dómara. Nefndin ákvað að taka málið til efnismeðferðar sem þýðir að hún taldi líkur á að þetta fyrirkomulag bryti í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómur féll þó aldrei í þessu máli þar sem gerð var sátt sem fól í sér loforð íslenskra stjórnvalda um að ráðast í breytingarnar á kerfinu. Body Worlds. Körperwelten eða Body Worlds er heiti sýningar sem flutt er á milli staða reglulega þar sem sérstaklega meðhöndlaðir líkamar og líffæri eru til sýnis. Heilir mannslíkamar, stök líffærakerfi, líffæri og þversnið af líkömum eru plastaðir (e. plastination) og þeir notaðir sem sýningargripir (fáeina má snerta). Auk þess eru líkamar nokkurra dýra til sýnis (t.d. úlfaldi), þótt svo að mest megnis sé um mannslíkama og –líffærakerfi að ræða. Sumir sýningagripirnir sýna áhrif sjúkdóma á líkaman, svo sem áhrif liðagigtar á hnébein og dauða líkamsvefi eftir heilablóðfall. Á sýningunni má einnig sjá fóstur á hinum ýmsu stigum meðgöngu auk óléttrar konu. Sýningin var hugmynd þýsks líffærafræðings að nafni Gunther von Hagens sem fann upp á plöstunaraðferðinni sem notuð er. Nokkrar hliðstæðar sýningar eru til með öðrum sýningargripum svo sem Body Worlds 2 og 3. Britney Spears. Britney Jean Spears (fædd 2. desember 1981 er bandarísk söngkona, lagahöfundur, dansari, leikkona, höfundur og skemmtikraftur. Hún fæddist í Mississippi og er alin upp í Louisiana og kom fyrst fram í sjónvarpi árið 1992 sem keppandi í "The Star Search Program". Seinna meir lék hún svo í "The All New Mickey Mouse Club" 1993-1994. Árið 1997 skrifaði Britney undir plötusamning við Jive, sem gaf út fyrstu plötuna hennar, ...Baby One More Time árið 1999. Platan náði fyrsta sæti á Billboard Topp 200 listanum og hefur selst í yfir 25 milljónum eintaka um allan heim. Velgengni hennar hélt áfram þegar hún gaf út aðra plötuna sína Oops!... I Did It Again árið 2000, sem gerði hana að poppgoði og gerði það að verkum að hún hafði áhrif á komu unglingapoppsins á tíunda áratugnum. Árið 2001 gaf hún svo út sína þriðju breiðskífu sem bar nafnið Britney. Á svipuðum tíma lék Britney aðalhlutverkið í kvikmyndinni Crossroads. Hún fékk frjálsar hendur á fjórðu plötunni sinni, In the Zone sem kom út 2003, sem gerði hana að einu söngkonunni á tímabili Nielsen Soundscan sem náði fyrstu fjórum plötum sínum í efsta sæti. Fimmta platan hennar, Blackout kom út árið 2007. Sú sjötta í röðinni, Circus kom út árið 2008 og náði einnig fyrsta sæti á Billboard Top 200 með aðalsmáskífunni, "Womanizer" sem er fyrsta lag Spears í yfir tíu ár til að ná fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum. Seinni hluta árs 2009 gaf hún út "Smáskífusafnið" (e. "Singles Collection") sem innihélt m.a. þriðja smellinn henanr "3". Britney hefur selt yfir 83 milljónir platna á heimsvísu (árið 2007). 11. desember 2009 útnefndi tímaritið Billboard Britney næst-söluhæstu manneskjuna á árunum 2000-2009, sem er byggt á sölu platna en líka bestu framkomuna, velgengni á listum og tónleikaferðalögum. Hún er áttundi söluhæsti tónlistarmaður Bandaríkjanna eftir að hafa selt yfir 32 milljóinir eintaka af plötum sínum þar og er hún í fimmta sæti yfir söluhæstu söngkonur áratugarins þar í landi. Forbes tímaritið hefur útnefnt hana í þrettánda sæti yfir áhrifamestu stjörnurnar og halaði hún inn alls 35 milljónum dollara árið 2009. Æska, Mikka Músar Klúbburinn, Frami og Sakleysi. Britney Spars fæddist í McComb, Mississippi og er alin upp í Kentwood, Louisiana sem baptisti. Foreldrar hennar eru Lynne Irene (áður Bridges), fyrrum grunnskólakennari, og Jamie Parnell Spears, fyrrum byggingaverktaki og kokkur. Britney er af enskum ættum, en amma hennar fæddist í London. Spears á tvö systkini, Bryan og Jamie Lynn. Bryan Spears er giftur umboðsmanni Jamie Lynn, Graciellu Rivera. Britney var góð í fimleikum og æfði íþróttina þar til hún var níu ára og keppti í fylkiskeppnum. Hún kom frma í danshópum og söng í kirkjukórnum. Hún hóf göngu í New York City's Professional Performing Arts School þegar hún var átta ára. Foreldrar hennar rifust oft og skildu að lokum árið 2002. Átta ára að aldri, fór Britney í prufur fyrir Mikka Músar klúbbinn sem sýndur var á Disney stöðinni. Þrátt fyrir að vera talin of ung til að taka þátt, kynnti framleiðandi þáttarins hana fyrir umboðsmanni í New York. Britney eyddi þremur sumrum í NYC's Professional Performing Arts School og lék einnig í nokkrum leikritum byggðum á Broadway-leikritum. Árið 1992 náði hún sæti í vinsæla sjónvarpsþættinum "Stjörnuleit" (e. "Star Search"). Hún vann fyrstu umferð keppninnar en tapaði að lokum. 11 ára sneri hún aftur til Disney stöðvarinnar til að fá inn í Nýja Mikka Músar klúbbinn í Lakeland á Flórída. Hún var í þáttunum árin 1993-1004 þangað til hún var 13 ára. Eftir að þátturinn hætti sneri Britney aftur til Kentwood og gekk í skóla í eitt ár. 1997 gekk Britney til liðs við stelpu poppgrúppuna "Sakleysi" (e. Innosence). Seinna þetta sama ár tók hún upp demó og fékk samning hjá Jive plötufyrirtækinu. Hún byrjaði að fara í tónleikaferðir um Bandaríkin styrktum af bandarískum unglingablöðum og að lokum varð hún opnunaratriði fyrir 'N Sync og Backstreet Boys. 1998-2000:...Baby One More Time og Ooops!... I Did It Again. Britney gaf út fyrstu smáskífuna sína, "... Baby One More Time", í október 1998 sem náði fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum í janúar 1999 og var á toppi listans í tvær vikur. Skífan fór strax í efsta sæti breska listans og seldist í yfir 460.000 eintökum, met fyrir konu á þessum tíma og varð með mest seldu smáskífum ársins 1999 og 25. sæti yfir vinsælustu lög Bretlands frá upphafi en hún seldist í alls 1,45 milljónum eintaka. Menning. „... samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“ Bókmenntir. Bókmenntir eru safn texta eða rita, bæði skáldverka og ljóða (fagurbókmennta) og annarra ritverka, svo sem fræðirita. Hugtakið á fyrst og fremst við um ritverk en hefur líka verið notað yfir verk munnlegrar menningar, svo sem þjóðsögur, sönglög og kvæði. Ýmiss konar rit og ritun teljast til bókmennta, til dæmis ljóðlist, leikritun, skáldskapur og fræðiritun. Bókmenntir geta haft mikið gildi fyrir þau samfélög þar sem þær urðu til. Biblían og "Ilíonskviða" eru dæmi um merk ritverk, sem eru veigamikill þáttur í bókmenntaarfi þeirra þjóða sem skrifuðu þau, og Íslendingasögurnar, eins og til dæmis Njála, hafa mótað mjög sjálfsmynd Íslendinga í gegnum aldirnar. Heimsbókmenntir eru bókmenntir sem eru þekktar og hafa haft mikil áhrif á menningu víða um heim. Bókmenntafræði er fræðigrein sem fæst einkum við rannsóknir á bókmenntum, meðal annars með aðferðum bókmenntarýni. Saga. "Hernaðarlistin" eftir Sun Tzu í prentaðri kínverskri bambusbók frá 18. öld. Elstu bókmenntir sem þekktar eru koma frá fyrstu menningarsvæðunum sem notuðust við ritmál, Súmer og Egyptalandi. Elsta dæmið um bókmenntaverk er "Gilgameskviða" sem er talin vera frá því fyrir 2000 f.Kr. Egypska "Dauðrabókin" er talin vera frá 18. öld f.Kr. þótt hlutar hennar séu hugsanlega mun eldri. Þessar elstu bókmenntir innihalda hluti úr munnlegri geymd sem gætu hafa gengið mann fram af manni um aldir áður en þeir voru skrifaðir niður. Elstu indversku "Vedaritin" eru talin vera frá því um 1500 f.Kr. Helgirit hindúa, Purana, og sagnakvæðin "Ramayana" og "Mahabarata" eru frá 5. til 3. öld f.Kr. Þessi rit höfðu mikil áhrif á bókmenntir og listir um alla Asíu. Áhrif þessara bókmennta og þeirra trúarbragða sem þau tilheyrðu urðu til þess að sanskrít var notuð sem bókmenntamál í Suður-Asíu og Suðaustur-Asíu öldum saman. Elstu helgirit gyðinga, bækur "Gamla testamentisins", eru talin vera samin á hebresku frá 8. til 5. aldar f.Kr. þótt elstu þekktu handritin séu Dauðahafshandritin, þau elstu frá 2. öld f.Kr. "Sjötíumannaþýðingin" er þýðing á einum hluta hebresku biblíunnar, "Fimmbókaritinu", á koine grísku á 3. og 2. öld f.Kr. Þessi rit höfðu mikil áhrif á miðaldabókmenntir vegna útbreiðslu abrahamískra trúarbragða á síðfornöld. Bækur "Nýja testamentisins" voru ritaðar á koine grísku á 2. og 3. öld e.Kr. Þegar talað er um fornaldarbókmenntir er yfirleitt átt við bókmenntir á grísku og latínu sem hafa haft mikil áhrif á vestræna bókmenntahefð. Klassískar grískar bókmenntir telja meðal annars "Hómerskviður", ljóð Saffóar og leikrit Æskýlosar, Sófóklesar og Evrípídesar, heimspekirit Platóns og Aristótelesar, sem lagði grundvöllinn að bókmenntafræði með riti sínu "Um skáldskaparlistina", sagnfræðirit Heródótosar og Þúkýdídesar og ævisögur Plútarkosar. Klassískar latínubókmenntir telja verk skáldanna Virgils, Hóratíusar, Propertiusar, Ovidiusar og Juvenalis, leikskáldánna Plautusar og Terentiusar, verk sagnaritarans Tacitusar og ritgerðir heimspekinganna Ciceros og Senecu yngri. Líkt og sanskrít var latína helsta bókmenntamál Evrópu öldum saman, löngu eftir að hún hætti að vera móðurmál íbúa Ítalíuskagans. Klassískar kínverskar bókmenntir eru rit á klassískri kínversku frá því fyrir tíma Qin-veldisins sem hófst árið 256 f.Kr. Þær telja meðal annars helstu verk konfúsíusisma og taóisma (til dæmis "Bókina um veginn"), "Hernaðarlistina" eftir Sun Tzu sem er að uppruna frá 6. öld f.Kr. og verk sagnaritaranna Zuo Qiuming og Sima Qian. Prentun á pappír hófst í Kína á 6. öld en elstu heimildir um prentletur eru frá 10. öld. Frá Kína breiddist prentlistin út með búddismanum um Asíu og þaðan til Evrópu. Evrópubúar fundu síðan upp prentvélina um 1436 sem skapaði forsendur fyrir fjöldaframleiðslu bókmennta og hafði mikil áhrif bæði á form þeirra og innihald. Bókmenntastefnur. a> sem bjó til orðið "súrrealismi". Bókmenntastefnur eru fagurfræðilegar stefnur sem þykir einkenna bókmenntir tiltekins hóps skálda eða rithöfunda eða stefna sem höfundar lýsa sjálfir yfir að þeir fylgi. Bókmenntastefnur geta þannig verið komnar til löngu síðar en þær bókmenntir sem þær lýsa en líka verið samdar áður en nokkrar bókmenntir eru orðnar til sem fylgja þeim, eins og þegar þær eru búnar til með stefnuyfirlýsingu. Bókmenntastefnur eru einkum notaðar til að lýsa bókmenntum frá nýöld. Dæmi um bókmenntastefnur eru rómantíska stefnan, félagslegt raunsæi, módernismi, súrrealismi og dadaismi. Bókmenntaform. Bókmenntir koma fyrir í fjölbreyttum myndum og hefð er fyrir því að greina ólík form framsetningar í nokkra flokka. Algengt er að gera greinarmun á skáldskap og bókmenntum sem setja fram sannverðugar upplýsingar. Eins er algengt að gera greinarmun á framsetningu í bundnu og óbundnu máli. Þá er oft gerður greinarmunur á bókmenntum sem settar eru fram í rituðu máli annars vegar og munnlega hins vegar. Í ritinu "Um skáldskaparlistina" flokkaði Aristóteles skáldskap í leikverk (harmleiki, gamanleiki og satýrleika), ljóð, sagnakvæði og lofkvæði. Öll þessi bókmenntaform voru á þeim tíma aðeins til í bundnu máli og lengst af í vestrænni bókmenntahefð var sett samasemmerki milli bundins máls og fagurbókmennta. Í samtímanum er þessu hins vegar öfugt farið: framsetning í bundnu máli telst fremur til undantekninga nema í ljóðlist. Bókmenntagreinar. Bókmenntum er gjarnan skipt í bókmenntagreinar eftir efnistökum, frásagnarhætti, tón og jafnvel lengd. Bókmenntagreinum ætti ekki að rugla saman við bókmenntaform (t.d. ljóð og myndasaga) eða aldursflokka (t.d. unglingabókmenntir og barnabókmenntir). Dæmi um bókmenntagreinar eru háðsádeila, hjarðkvæði, stofudrama, vísindaskáldskapur og sálmur. Bókstafur. Stórt og lítið ð. Raunar er stórt Ð aðeins notað í texta sem er allur skrifaður með hástöfum. Bókstafur er táknmynd sem er hluti af ákveðnu ritmáli. Í mörgum ritmálstegundum, til dæmis latneska ritmálinu sem flest vestræn tungumál nota, eru bókstafir notaðir til að tákna tiltekin hljóð, en í ýmsum öðrum tegundum ritmáls eru orð eða hugtök táknuð með einstökum stöfum eða táknum. Í hreinu fónemísku stafrófi stendur hver bókstafur fyrir eitt ákveðið hljóð en oft tákna þó stafir fleiri hljóð en eitt. Stundum standa líka tveir bókstafir saman fyrir eitt hljóð — eða jafnvel þrír; dæmi um það er „sch“ í þýsku. Bókstafur getur einnig staðið fyrir tvö eða fleiri mismunandi hljóð og þá eru það ýmist stafirnir í kring eða uppruni orðsins sem hafa áhrif á framburð. Sem dæmi má nefna að í spænsku er stafurinn c borin fram (k) ef hann stendur á undan a, o eða u, eins og í orðunum "cantar", "corto", "cuidado", "colorado" og "catalac", en c er borið fram (s) á undan e og i, eins og í orðunum "centimo" og "ciudad". Bókstafir eru ekki aðeins hljóðtákn, þeir hafa líka ákveðin nöfn, misjöfn eftir tungumálum. Bókstafurinn Z heitir til dæmis "zed" í flestum enskumælandi löndum nema í Bandaríkjunum þar sem hann er kallaður "zee" en á kallast bókstafurinn "seta". Bókstöfum er skipað niður í ákveðna röð og kallast hún stafrófsröð. Stafrófsröðun er misjöfn eftir tungumálum en þó hin sama í meginatriðum. Bókstafir geta einnig haft talnamerkingu og rómverskar tölur eru settar saman úr bókstöfum. Nú er þó yfirleitt notast við arabískar tölur. Segja má að gríska stafrófið, sem varð til fyrir um 3000 árum, sé elsta eiginlega stafrófið þótt það sé runnið frá föníska stafrófinu, því að í því gríska fékk hver samhljóði og hver sérhljóði sinn bókstaf. En stafirnir sjálfir eiga sér flestir mun eldri rætur og eru í raun einfaldaðar útgáfur af táknum úr myndmáli. Stafurinn A er til dæmis upphaflega kominn úr egypsku letri og var þar nautshaus með horn. Föníkumenn tóku hann upp í sitt ritmál og sneru honum á hlið en Grikkir sneru honum á hvolf og þar með var A komið til sögunnar. Í latnesku ritmáli og raunar fleirum eru allir bókstafir til í tvenns konar formi, hástafir og lágstafir (stórir stafir og litlir), og er í mörgum tilvikum mikill munur á útliti þeirra þótt þeir tákni nákvæmlega sama hljóðið. Hástafir eru aðallega notaðir í upphafi málsgreina og sérnafna, í fyrirsögnum eða til að leggja sérstaka áherslu á eitthvert atriði en í þýsku byrja öll nafnorð á hástaf og í mörgum tungumálum byrja öll orð nema smáorð í titlum bóka, kvikmynda og fleira slíkt á hástaf. Kalksvifþörungar. Kalksvifþörungar (fræðiheiti: "Coccolithophores") eru einfrumuþörungar eða plöntusvif af ættkvíslinni Haptophyla. Þeir eru minni en skoruþörungar og kísilþörungar. Þeir eru alsettir örsmáum og fíngerðum plötum úr kalki. Kalksvifþörungar eru sjávarlífverur og er mikil mergð þeirra í ljóstillífunarbelti hafsins. Heimkynni kalksvifþörunga er úthafið. Ein tegund þeirra, Emiliania huxleyi, er algeng á norðlægum slóðum og finnst í miklu magni utan landgrunnsins sunnan við Ísland og allt til Bretlands. Talið er að sú tegund eigi mikinn hlut í varanlegri bindingu kalks og þar með einnig koltvísýrings í hafinu. Stundum er svo mikið af þessum þörungi í hafinu að það litast mjólkurhvítt. Þessi þörungur getur myndað rokgjarnt brennisteinssamband sem talið er að geti valdið niðurbroti á ósoni í lofthjúpi jarðar. Rannsóknir á steingervingum kalksvifþörunga veita upplýsingar um hitastig og seltustig sjávar á mismunandi tímum. Á Bíldudal er verksmiðja sem nýtir þessa þörunga og framleiðir skepnufóður. Kúabúið að Hóli í Önundarfirði hefur notað kalkið í fóður mjólkurkúna með þeirri niðurstöðu að mjólkin sem kýrnar framleiða sé fituríkari og próteinríkari en annars. Umboðsmaður Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er eftirlitsaðili sem hefur eftirlit með stjórnsýslu íslenska ríkisins og sveitarfélaga í umboði Alþingis. Hann hefur ekki eftirlit með Alþingi sjálfu eða stofnunum þess og ekki dómstólum. Hlutverk umboðsmanns er að gæta þess að réttindi borgaranna gagnvart stjórnsýslunni séu virt og að jafnræðisreglan sé höfð í heiðri. Umboðsmaður bregst við skriflegum kvörtunum sem berast til embættisins, en hann getur líka tekið upp hjá sjálfum sér að fjalla um einstök mál. Önnur eftirlitsstofnun starfar á vegum Alþingis en það er Ríkisendurskoðun. Embætti umboðsmanns Alþingis var búið til með lögum nr. 13/1987, en víkkað út til að ná einnig til sveitarstjórna með lögum nr. 85/1997. Lögum um umboðsmann Alþingis var breytt með lögum um rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins á Íslandi sem sett voru í desember 2008. Þannig var Tryggva Gunnarssyni umboðsmanni Alþingis gert kleyft að sitja í nefndinni og var Róbert Spanó prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, nú dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, settur til að gegna embætti umboðsmanns. Búrfellsvirkjun. Búrfellsvirkjun ("Búrfellsstöð") er vatnsaflsvirkjun í Þjórsá utarlega í Þjórsárdal í Gnúpverjahreppi kennd við fjallið Búrfell. Virkjunin var fyrsta stórvirkjun Íslendinga og markaði upphaf svonefndrar stóriðjustefnu. Líkt og með Kárahnjúkavirkjun, sem tók við af Búrfellsvirkjun sem stærsta og aflmesta virkjun landsins, þurfti að flytja inn talsvert af erlendu vinnuafli við byggingu og uppsetningu Búrfellsvirkjunar. Forsaga. Um og uppúr aldamótunum 1900 voru uppi ýmsar vangaveltur um virkjanir á Íslandi. Þá var byrjað að virkja fallvötn í Noregi, Svíþjóð og víðar í Evrópu. Árið 1914 stofnaði Einar Benediktsson Fossafélagið Títan í því augnamiði að rannsaka möguleika virkjunar á Íslandi. Þær rannsóknir framkvæmdi norskur vélfræðingur, Gotfred Sætersmoen að nafni, á árunum 1915-17. Gotfred skilaði af sér áætlunum að virkjunum í Þjórsá, m.a. við Búrfell. Ljóst var að til þyrfti stóriðju, einhvers konar orkufreka verksmiðjuframleiðslu, til þess að virkjunin yrði arðbær. Til greina kom að byggja áburðarverksmiðju en ekkert varð úr þeim áætlunum og söfnuðu þær ryki næstu áratugina. Áhugi íslenskra viðskiptamanna á virkjunum íslenskra fallvatna var töluverður á fyrri hluta 20. aldar en aðstæður voru óhagstæðar. Um þetta leyti var ekki mikil almenn eftirspurn eftir rafmagni. Fyrri heimsstyrjöldin og kreppan mikla urðu til þess að hægja á hjólum efnahagslífssins. Fyrsta virkjun fallvatns á Íslandi varð ekki að raunveruleika fyrr en nokkrum árum síðar þegar Elliðaárnar í Reykjavík voru virkjaðar 1921. Stóriðja. Uppúr miðri síðustu öld voru „fossamálin“ aftur komin í umræðu og hafði hið svissneska fyrirtæki Alusuisse (í dag Rio Tinto Alcan) frumkvæði að samningaumleitunum. Þá var það stefna Viðreisnarstjórnarinnar að styrkja íslenskt efnahagslíf og auka hagvöxt sem var farið að dala eftir uppgang eftirstríðsáranna og var stóriðja talin tryggja áhuga erlendra fjárfesta. Jafnframt voru möguleikar kjarnorku sem ódýrs orkugjafa umtalaðir um þessar mundir og drógu margir þá ályktun að best væri að virkja á meðan enn væri eftirspurn eftir vatnsaflsvirkjunum. Svokölluð stóriðjunefnd sá um rannsóknarvinnu og samskipti við erlend stórfyrirtæki og til greina kom að semja við franska og bandaríska aðila. Til þess að fjármagna framkvæmdina voru tekin lán hjá Alþjóðabankanum sem krafðist sterks aðhalds og stöðugs eftirlits, í ljósi þess að ekki voru fordæmi fyrir viðlíka framkvæmdum á Íslandi. Hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun var stofnað 1965 og var Búrfellsvirkjun fyrsta stórframkvæmd þess. Bygging virkjunarinnar var af meiri stærðargráðu en áður þekktist á Íslandi. Mest unnu tæplega 800 manns við byggingu hennar og á tímabili urðu verktafir vegna skorts á vinnuafli. Þann 28. mars 1966 var samið við svissneska fyrirtækið Alusuisse um byggingu og rekstur Álversins í Straumsvík og átti Búrfellsvirkjun að sjá því fyrir rafmagni. Lög þess efnis voru sett 13. maí og í júní hófst bygging virkjunarinnar. Bandaríska fyrirtækið Harza Engineering Co. Int. (í dag) var fengið til þess að hanna virkjunina og var hún fullgerð 1969, helsti byggingarverktaki var Fosskraft. Miklar deilur urðu um álsamningana og urðu þeir tíðræddir í fjölmiðlum og á Alþingi. Virkjunin. Miðlunarlón Búrfellsstöðvar nefnist Bjarnalón og er 1 km² að stærð, þar sem áður voru Bjarnalækur og Bjarnalækjarbotnar. Vestan við Bjarnalón er Sámsstaðamúli og sunnan er Búrfell. Stíflan við austurenda lónsins er útbúin sérstöku ísskolunarmannvirki og útsýnishús sem kallast Ísakot. Þessi varrúðarráðstöfun var nauðsynleg vegna mikillar ísmyndunar í ánni, sem þó hefur horfið eftir tilkomu Sultartangavirkjunar. Aðrennslisgöng lónsins að Búrfellsstöð eru svo u.þ.b. 1,5 km löng og staðsett í vesturenda lónsins, fallhæðin er 115 m. Frá virkjunarstöðinni rennur vatnið í Fossá sem svo sameinast Þjórsá 2 km sunnar. Á framhlið stöðvarhússins er stór lágmynd eftir Sigurjón Ólafsson og fyrir framan það er einnig verkið Hávaðatröllið eftir hann. Við stöðina starfa 35 manns, í næsta nágrenni við hana er þjóðveldisbærinn Stöng, Hjálparfoss, Háifoss og Gjáin. Í Búrfellsstöð er gagnvirk orkusýning sem kynnir orkuvinnslu og orkunotkun með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sýningin er opin almenningi á sumaropnunartíma stöðvarinnar sem venjulega er frá byrjun júní fram í lok ágúst. Bardagi. Bardagi á yfirleitt við um vopnuð átök milli einstaklinga eða hópa þar sem þeir reyna að hafa sigur (þar sem hagsmunir annars aðilans ná yfirhöndinni yfir andstæða hagsmuni andstæðingsins) með því að beita andstæðinginn ofbeldi og þar sem sá möguleiki er fyrir hendi að þátttakendur séu drepnir, ólíkt slag sem yfirleitt fer fram með berum höndum og þar sem manndráp eru ekki hluti af ætlun þátttakenda. Á fyrri tímum voru þessi tvö hugtök hins vegar stundum notuð sem samheiti. Bardagi er oft háður sérstökum reglum. Það á til dæmis við um einvígi og hólmgöngur. Genfarsáttmálinn er dæmi um reglur um meðferð hermanna í stríði og riddaramennska var á miðöldum hefðir sem vörðuðu hegðun „sannra“ riddara. Viðureign í hnefaleikum kallast,bardagi". Orrusta er dæmi um bardaga milli tveggja herliða í stríði í samræmi við tiltekna hernaðaráætlun. Orrusta. Orrustur fara yfirleitt fram í herförum samkvæmt tiltekinni hernaðaráætlun þar sem herkænska er notuð. Aðili er sagður hafa haft sigur í orrustu þegar andstæðingurinn hefur gefist upp, flúið af hólmi eða verið eytt. Orrustur geta einnig endað með jafntefli ef báðir aðilar hörfa frá áður en niðurstaða er fengin. Sjóorrustur eru orrustur háðar á sjó milli flota viðkomandi herja. Loftbardagi er orrusta í lofti, sem háð er milli loftherja. Hæka. Hæka eða á japönsku er japanskur bragarháttur sem þróaðist út frá "rengu" sem er bragur þar sem tveir eða fleiri kveðast á. Hæka hefur þrjár braglínur með fimm atkvæðatáknum í fyrstu línu, sjö í næstu og fimm í þeirri þriðju. Efni rétt ortrar hæku á að tengjast náttúrunni og innihalda eitt orð (kigo) sem tengist þeirri árstíð sem er þegar hækan er ort. Hækur eru ortar í nútíð og innihalda ekki rím. Efni hækunnar eru yfirleitt tvær (sjaldnar þrjár) einfaldar skynmyndir eða upplifanir á náttúrunni. Þörungablómi. Þörungablómi er afar hröð fjölgun svifþörunga í sjó eða vatni. Venjulega er aðeins ein eða fáar tegundir sem fjölgar gífurlega og sjórinn eða vatnið breytir um lit þegar þar verður mikill fjöldi litafruma. Í þörungablóma geta verið milljónir fruma í millilítra. Þörungablómi getur valdið tjóni í kvíaeldi í sjó vegna þess að það verður súrefnisskortur í vatninu því á nóttunni nota þörungarnir súrefni til öndunar. Einnig þverr súrefnið við rotnun (oxun) þörunga þegar þeir deyja. Sumir þörungar eru eiturþörungar. Þörungablómi í Norðursjónum og Skagerrak Skjal ehf.. Skjal ehf. er stærsta þýðingastofa Íslands, með 14 fastráðna starfsmenn og nokkra tugi verktaka í vinnu. Skjal var stofnað þann 17. júní árið 2000 af þremur einstaklingum með það að markmiði að veita fyrirtækjum og einstaklingum þýðingaþjónustu. Síðar sama ár opnaði fyrirtækið vefsíðu sem bauð upp á þá nýjung að gera viðskiptavinum það kleift að senda verk til þýðingar á Netinu. Upphaflegt viðskiptamódel var að vinna með lítinn kjarna fastráðinna þýðenda og stóran verktakagrunn þar sem áherslan átti að vera á að finna rétta fólkið fyrir hvert verk, byggt á bakgrunni viðkomandi. Fljótlega þróaðist fyrirtækið þó fremur út í að vera þýðingastofa með fastráðna þýðendur sem studdist við verktaka fyrir stærri og stundum sérhæfðari verk. Skjal vinnur með þýðingar á og úr 13 tungumálum, auk þess að styðjast við verktaka fyrir önnur tungumál. Upphaflega var fyrirtækið til húsa að Laugavegi 66 en fluttist árið 2004 að Hverfisgötu 4-6a. Í desember 2007 flutti félagið svo starfsemi sína að Austurstræti 17 þar sem það er enn í dag. Árið 2008 opnaði fyrirtækið skrifstofu í Portó, Portúgal þar sem 6 starfmenn þess starfa við þýðingar á og úr portúgölsku og spænsku. Laugavegur. Laugavegur er helsta verslunargatan í miðbæ Reykjavíkur. Hún liggur frá Bankastræti í vestri að Kringlumýrarbraut til austurs. Þar tekur Suðurlandsbrautin við. Við götuna er fjöldi verslana, næturklúbba, bara og ýmissa þjónustufyrirtækja, auk íbúða. Saga. Lagning Laugavegar var samþykkt í bæjarstjórn árið 1885. Skyldi hann auðvelda fólki ferðir í Þvottalaugarnar sem gatan dregur nafn sitt af. Einnig skyldi þjóðvegurinn út úr bænum koma í framhaldi af Laugavegi, enda höfðu Elliðaár þá verið brúaðar nýlega. Lagning Laugavegar, austur af gamla Vegamótastíg (sem er alls ekki sá sem núna liggur milli Laugavegar og Skólavörðustígs), hófst árið 1886 og var Vegamótastígur þá gerður að hluta Laugavegar. Smáralind. Smáralind er verslunarmiðstöð í Kópavogi og jafnframt sú stærsta á Íslandi, með yfir 70 verslanir og veitingastaði, auk annarrar þjónustu. Smáralind var formlega opnuð tíu mínútur yfir tíu þann 10. október, 2001 sem er stundum skrifað 10:10, 10. 10. '01. Smáralind er verslunarmiðstöð staðsett í Hæðasmára í Kópavogi og er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Byggingin er 63.000 m2 sem gerir hana að stærstu byggingu sem opin er almenningi á landinu. Í Smáralind má finna yfir 80 verslanir og veitingastaði, kvikmyndahús, barnaskemmtistað og fleira. Í Smáralind er einnig að finna Vetrargarðinn sem er afþreyingarmiðstöð Smáralindar. Vetrargarðurinn er samtals 9.000 m2 að stærð og inn í því er 1750 m2 sýningarsvæði þar sem meðal annars hafa verið haldnir ýmsir tónleikar, sýningar, keppnir og ráðstefnur. Hönnun Smáralindar var samstarfsverkefni breska arkitekta- og verkfræðifyrirtækisins BDP og ASK arkitekta. Byrjað var að byggja Smáralind í mars árið 2000 og tók 19 mánuði að byggja hana. ÍSTAK var verktaki við bygginguna. Smáralindin var formlega opnuð þann 10. október árið 2001 klukkan tíu mínútur yfir tíu eða 10:10, 10.10.01. Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf. hefur með eignarhald og rekstur Smáralindar að gera og er öll eiginin í eigu félagsins. Verslanna- og þjónusturými er leigt út af félaginu. Fjöldi gesta sem leggja leið sína í Smáralind á hverju ári eru yfir 4 milljónir. Vefrallý. Vefrallý er verkefni sem lagt er fyrir nemendur í skólastarfi til þess að þjálfa þá í að leita að þekkingu á Netinu og vera snöggir að því. Oftast er vefrallý á því formi að kennari semur spurningalista og gefur upp eina eða fleiri vefslóðir. Vefrallý gengur út á að safna saman og finna upplýsingar. Vefleiðangur. Vefleiðangrar eru oft hópverkefni, nemendur taka að sér ákveðið hlutverk og oft er nemendum skipt í hópa sem eiga að leysa mismunandi verkefni. Vefleiðangrahugmynd er komin frá Bernie Dodge en hann kynnti þessa gerð verkefna árið 1996. Kennarar á Íslandi hafa samið vefleiðangra frá árinu 1998. Ættkvísl (flokkunarfræði). Ættkvísl er hugtak sem er notað við flokkun lífvera. Ættkvísl inniheldur eina eða fleiri tegundir. Tegundir innan sömu ættkvíslar eru formfræðilega líkari hver annarri en tegundum annarra ættkvísla. Heiti ættkvíslarinnar er fyrra heitið í tvínafnakerfinu, en það seinna er tegundarheitið. Ættkvísl í einu ríki getur fengið sama nafn og ættkvísl annars ríkis. Ættkvíslir tilheyra ættum sem er næsta skipting fyrir ofan. Sumum ættkvíslum er skipt í undirættkvíslir. Útgáfufyrirtæki. Útgáfufyrirtæki, útgáfa eða forlag er fyrirtæki sem fæst við útgáfu hugverka, t.d. ritverka (bókaútgáfa), tónlistar (tónlistarútgáfa), dagblaða (blaðaútgáfa) og kvikmynda (kvikmyndaútgáfa). Í hefðbundnum skilningi tryggir útgáfufyrirtæki sér gjarnan einkarétt á útgáfu hugverks tiltekins höfundar með sérstökum útgáfusamningi og tekst á móti það verk á hendur að búa verkið til útgáfu (þróa úr því söluvöru) markaðssetja það og sjá til þess að það sé fjöldaframleitt og því dreift á sölustaði. Samband höfundar og útgáfufyrirtækis er sums staðar skilgreint sem hluti af höfundalögum eða með sérstökum lögum um útgáfusamninga. Unicode. Unicode eða Samkóti er heiti á stöðluðu kerfi í tölvuiðnaði sem gerir tölvum kleift að sýna og meðhöndla texta í flestum ritkerfum heims með samræmdum hætti. Nýjasta útgáfa Unicode samanstendur af meira en 107 þúsund stafatáknum sem styðja 90 mismunandi útgáfur ritkerfa, töflur sem sýna staðsetningu táknanna, aðferðafræði við kóðun, fjölda skilgreininga á stafagerðum svosem hástafi og lágstafi, og margt fleira. Sjálfseignarstofnunin The Unicode Consortium hefur einsett sér að Unicode muni algerlega koma í stað annara staðla um textameðhöndlun, þar sem margir þeirra eru takmarkaðir í stærð og möguleikum, og eru ósamhæfir kerfum á fleiri en einu tungumáli. Árangur Unicode við að sameina stafatöflur hafa leitt til þess að það er orðið afar útbreitt og er ríkjandi við þýðingu og staðfæringu hugbúnaðar. Staðalinn hefur verið innleiddur í margar nýlegar tækninýjungar á hugbúnaðarsviði, svo sem XML, forritunarmálið Java, forritunarumhverfið Microsoft.NET og nútímastýrikerfi. Unicode má innleiða með mismunandi kóðun. Þær vinsælustu eru UTF-8 (sem notar 1 bæti fyrir öll ASCII tákn), UCS-2 (sem nú er úrelt, notar 2 bæti fyrir öll tákn, en inniheldur ekki öll tákn í Unicode staðlinum) og UTF-16 (sem er framlenging á USC-2 og notar þannig 4 bæti fyrir tákn sem ekki eru í USC-2). Miðgarður. Miðgarður er í norrænni goðafræði haft um hina byggðu jörð manna eða garðinn umhverfis hana. Miðgarður er við rætur heimstrésins Yggdrasils og jaðrar við Útgarð þar sem jötnar búa og Álfheima þar sem álfar búa. Miðgarður tengist einnig við Ásgarð með brúnni Bifröst og tengist einnig við undirheima og Hel. Midwayeyja. Midwayeyja er 6,2 km² baugeyja í Norður-Kyrrahafi (nálægt norðvesturenda Hawaii) um tvo þriðju af leiðinni milli Honolúlú og Tókýó. Eyjan er kóralrif sem liggur í hring utanum nokkrar litlar sandeyjar. Eyjarnar eru yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Gauß-Jordan eyðing. Gauß-Jordan eyðing er útgáfa af Gauß-eyðingu í línulegri algebru til þess að breyta fylki í efra stallað form. Þetta er gert til þess að auðvelda lausnir línulegra jöfnuhneppa. Gauß-eyðing. Gauß-eyðing er reiknirit í þeirri undirgrein stærðfræðinnar sem kallast línuleg algebra, sem hefur það hlutverk að breyta fylki í stallað form, til þess að unnt sé að finna lausnir línulegra jöfnuhneppa, finna stétt fylkisins, og finna andhverfu ferningsfylkja. Gæta skal þess að rugla þessu reikniriti ekki saman við Gauß-Jordan eyðingu. Formlega tekur reikniritið inn línulegt jöfnuhneppi sem inntak, og skilar út lausnarvigur þess, sé slíkur vigur til og hann einkvæmt ákvarðaður. Jafngilt er að segja að reikniritið taki inn fylki og breytir því í stallað form. Einfaldar reikniaðgerðir eru notaðar í reikniritinu. Reikniritið er nefnt eftir þýska stærðfræðingnum Carl Friedrich Gauß, en elsta dæmið um notkun þess má finna í kínverska stærðfræðiritinu "Jiuzhang suanshu", eða "níu kaflar um stærðfræðilistina", sem var skrifuð um 150 e.Kr. Yfirlit. Reikniritið er leyst í tveimur skrefum. Fyrsta skrefið (framvirk eyðing) minnkar jöfnuhneppið í ýmist þríhyrnings- eða stallað form, eða skilur eftir gallaða jöfnu án lausnar, sem gefur til kynna að jöfnuhneppið hafi enga lausn. Þetta er gert með notkun einfaldra reikniaðgerða. Seinna skrefið er afturvirk eyðing, sem finnur lausnarvigur jöfnuhneppisins. Við greiningu reikniritsins getur oft verið hentugt að líta svo á að það liði fylkið. Reikniaðgerðirnar þrjár sem notaðar eru (margfalda röð með tölu, víxla röðum, og leggja raðir saman) eru jafngild því að margfalda upprunalega fylkið með andhverfanlegum fylkum vinstra megin frá. Fyrsti hluti reikniritsins reiknar LU-þáttun, og seinni hlutinn skrifar upprunalega fylkið sem margfeldi einkvæmt ákvarðaðs andhverfanlegs fylkis og einkvæmt ákvarðaðs fylkis á efra stallaformi. Vöðuselur. Vöðuselur (fræðiheiti: "Phoca groenlandica" eða "Pagophilus groenlandicus") er skjöldóttur selur sem lifir í Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafi. Hann er talsvert algengur flækingur við Ísland. Íslenska nafnið er dregið af því að áður fyrr gengu stórar vöður af þessum sel til Íslands og voru þeir þá veiddir í stórum stíl, en úr þessu dró verulega á 19. öld. Einkenni. Vöðuselur er svipaður landsel að stærð, um 170 til 180 cm langur fullvaxinn og 120 til 140 kg á þyngd. Fullvaxinn er brimillinn svartskjöldóttur með svartan haus og svartan dindil. Urtan er svipuð á lit en þó heldur ljósari. Ungir selir eru einlitir gráir með svörtum blettum. Vöðuselirnir eru félagslynd dýr og eru oftast margir saman á ferðinni. Útbreiðsla. Vöðuselurinn skiptist í þrjá stóra stofna eftir kæpingarsvæðum. Óljóst er hvort og hvernig þeir blandast utan kæpingartímans. Vöðuselurinn mjög háður hafís og fylgir honum allt árið. Hann heldur sig gjarnan í rekísbreiðum og að vetrarlagi í jaðri hafíshellunnar. Æti og lifnaðarhættir. Vöðuselir éta mest loðnu, síli og síld, en þeir éta einnig þorsk, rækju, ljósátu og smokkfisk. Þeir kafa iðulega allt að 100 metra dýpi. Vöðuselir fara árlega langar leiðir milli kæpingarstöðva og fæðustöðva, þær lengstu um 2 500 km. Á kæpingartímanum safnast vöðuselir í stóra hópa með fleiri þúsund dýr á sama stað. Kóparnir fæðast í febrúar lok eða byrjun apríl og eru þá um 80-85 cm á lengd og 10-11 kg á þyngd. þegar kóparnir fæðast eru fæðingarhárin gul á lit en hvítnar á fáeinum dögum. Þegar kópurinn er um tvær og hálfa viku gamall fer hann að fara úr fæðingarhárinu og fær silfurgráan feld með óreglulegu dökku munstri. Við 14 mánaða aldur verða blettirnir stærri og greinilegri. Brimillinn heldur þessu litarfari fram að kynþroska þegar hann fær hin sérstæða svartskjöldótta lit. Urturnar fá hins vegar ekki þennan lit fyrr en um 12 ára aldur. Bæði urtur og brimlar verða kynþroska milli 4 og 6 ára aldur. Kóparnir eru á spena í um 12 daga og bæta þá sig um 30-40 kg á þeim tíma. Eftir að kópurinn hættir á spena hefur urtan mök við einn eða fleiri brimla og reynir síðan að éta eins mikið og hún getur áður en hún fer úr hárum. Kóparnir far að synda um 4 vikna aldur og sjá um sig sjálfa upp frá því. Brimlarnir halda sig við kæpingasvæði eins lengi og það stendur yfir í von um að geta haft mök við eins margar urtur og færi gefst á. Vöðuselirnir safnast í stóra hópa í apríllok og maí til að fara úr hárum. Á meðan á því stendur, tvær til þrjár vikur, éta selirnir ekkert. Ísbirnir og háhyrningar eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn, en einnig er viða til að rostungar hafi drepið vöðusel. Veiði og nyt. Fyrir utan hringanóra hefur vöðuselurinn verið mikilvægasta veiðidýr Inuíta á Grænlandi. Á suðurhluta Grænlands er selveiði aðallega stunduð sem aukastarf sjómanna en á norður og austur Grænlandi og í byggðum Inuíta í Kanada er veiðinn enn aðalstarf árið um kring og er bæði kjötið og skinnin nýtt. En það eru þó ekki Inuítar sem hafa stundað mest veiði á vöðusel heldur einkum Kanadamenn, Norðmenn og Rússar. Einkum hefur verið sóst eftir kópaskinn áður en þeir færu úr fæðingarhárunum. Algeng veiðiaðferð var að rota kópana og síðan flá þá á staðnum. Hafa miklar deilur staðið um þessa veiðiaðferð þar sem ýmis samtök, t.d. Greenpeace, og einstaklingar hafa sakað veiðimennum að flá kópana lifandi. Þeir hafa hins vegar borið þessar ásakanir af sér sem lygar, en víst er að þessi selveiði getur verið mikið blóðbað þar sem þúsundir sela eru samankomnir til að kæpa. Vöðuselur á Íslandi. Vöðuselur sést á Íslandi á veturna og vorin þegar mikill hafís er við landið. Hann er algengur flækingur hér. Áður fyrr komu vöðuselir reglulega, stundum í stórum hópum (eða "kjórum" eins og stórar selahjarðir voru kallaðar) norðan og vestan. Þótti mikið happ þegar vöðurnar komu að landinu og var mikið lagt á sig til að veiða selinn. Veiðar voru stundaðar á vöðuselum frá miðjum vetri og fram undir páska. Ein af veiði aðferðunum var svo nefnd "uppidráp", en þau fólust einfaldlega í því að rota selinn á landi. Önnur veiðiaðferð var kölluð "ráarveiði" eða "skutulveiði" og fór þannig fram að selurinn var skutlaður tveimur skutlum, dreginn að bátnum og rotaður. Frá seinustu áratugum 19. aldar hefur lítið verið um vöðusel við Ísland og engar selavöður sem áður tíðkuðust. Miðborg Reykjavíkur. Lækjartorg í Kvosinni, séð frá Austurstræti. Miðborg Reykjavíkur eða Miðbær Reykjavíkur (stundum nefnd Miðbærinn, Austurbær eða gamli Austurbær) er hverfi í Reykjavík sem inniheldur elstu hluta borgarinnar. Hverfinu tilheyra hverfahlutarnir Tjarnarbrekka, Víkin, Arnarhóll, Skuggahverfi, Laufás, Spítalahlíð, Þingholt, Ásgarður, og Tungan. Í miðborginni er miðstöð stjórnsýslu á Íslandi. Þar eru Alþingishúsið, Stjórnarráðshúsið og Hæstiréttur Íslands. Flest ráðuneytin eru með skrifstofur sínar við Arnarhól. Reykjavíkurhöfn er fyrir norðan Kvosina. Í miðborginni eru líka helstu kennileiti borgarinnar eins og Tjörnin, þar sem Ráðhús Reykjavíkur er staðsett, og Hallgrímskirkja efst á Skólavörðuholti. Þjónustumiðstöð fyrir miðborgina og Hlíðar er á Skúlagötu 21. Í hverfinu eru tveir grunnskólar; Tjarnarskóli og Austurbæjarskóli, og þrír framhaldsskólar; Menntaskólinn í Reykjavík, Iðnskólinn í Reykjavík og Kvennaskólinn í Reykjavík. Saga. Kvosin um miðja 19. öld. Hverfinu tilheyrir elsti hluti borgarinnar, Kvosin, þar sem fyrst tók að myndast þorp með Innréttingunum á síðari hluta 18. aldar í núverandi Aðalstræti. Þar er nú eitt hús varðveitt frá þeim tíma, Aðalstræti 10. Veturinn 2001 fór fram fornleifauppgröftur við suðurenda Aðalstrætis þar sem rannsakaðar voru leifar skála frá landnámsöld og menn hafa ímyndað sér að þarna hafi verið skáli Ingólfs Arnarsonar sem fyrstur hóf varanlega búsetu á Íslandi. Hverfið á sér bæði langa og fjölbreytta byggingasögu en þar er að finna byggingar frá öllum tímum frá 18. öld fram á 21. öldina. Byggð. Í miðborginni er mjög blönduð byggð, en verslanir og önnur fyrirtæki eru helst staðsett í Kvosinni og við tilteknar götur, eins og Laugaveg og Skólavörðustíg. Töluvert er um atvinnuhúsnæði innan um íbúðir í hverfinu svo jafnvel er ómögulegt að skilgreina hluta þess sem annað hvort atvinnusvæði eða íbúðabyggð. Íbúar í miðborginni voru rúmlega 8300 talsins árið 2012. Formleg afmörkun. Í suður og vestur markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur: Suðurbugt (austurendi), Geirsgötu, Norðurstíg, Vesturgötu, Garðastræti, Túngötu, Suðurgötu, Sturlugötu, Oddagötu, Eggertsgötu, Njarðargötu, beinni línu að horni Einarsness/Skeljaness, Skeljanes og þaðan í sjó. Í austur markast hverfið af línu sem er dregin um Snorrabraut, gamla Flugvallarveg og Hlíðarfót. Háaleiti og Bústaðir. Háaleiti og Bústaðir er hverfi í Reykjavík. Til hverfisins teljast Háaleiti, Múlar, Kringlan, Bústaðir, Fossvogur, Smáíbúðahverfi og Blesugróf. Í vestur markast hverfið af línu sem dregin er eftir miðri Kringlumýrarbraut. Í austur markast hverfið af Reykjanesbraut. Í norður markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Suðurlandsbraut, Grensásveg og Miklubraut. Í suður markast hverfið af sveitarfélagamörkum Kópavogs. Kjalarnes (hverfi). Kjalarnes (einnig "Grundarhverfi") er hverfi í Reykjavík. Til Kjalarness teljast Kjalarnes og Álfsnes. Hverfið hefur verið hluti Reykjavíkur frá 1998. Áður en hverfið varð hluti af Reykjavík, var það í Kjalarneshreppi. Í hverfinu er sundlaug, íþróttahús og skóli sem heitir Klébergsskóli, sem er elsti grunnskóli Reykjavíkur. Í hverfinu er líka glerverksmiðja sem heitir Gler í Bergvík og býr til alls konar glerlistir, en einnig má finna einingaverksmiðju ásamt öðrum iðnaði. Íbúar hverfisins eru tæplega 838 manns. Selaættkvísl. Selaættkvísl (fræðiheiti: "Phoca") er ættkvísl eiginlegra sela sem telur sjö tegundir, þar á meðal hinn útbreidda landsel og ferskvatnsselinn bajkalsel sem lifir eingöngu í Bajkalvatni. Grafarholt og Úlfarsárdalur. Grafarholt og Úlfarsárdalur er hverfi í Reykjavík. Hverfið markast af Vesturlandsvegi, Úlfarsá að sveitarfélagamörkum Mosfellsbæjar, til norðurs og austurs með sveitarfélagamörkum að og um Úlfarsfell að Vesturlandsvegi. Skólar í hverfinu eru þrír: Ingunnarskóli, Sæmundarskóli og Dalskóli. Einnig eru 4 leikskólar þeir heita: Maríuborg, Geislabaugur, Reynisholt og Dalsskóli (líka grunnskóli). Í Grafarholti er eitt vatn og heitir það Reynisvatn. Úlfarsá rennur í gegnum mörk Úlfarsársdals og Grafarholts og breytist svo í Korpúlfsstaðaá við Vesturlandsveg, svo er Úlfarsfell fyrir ofan hverfið það er 296 metra hátt. Kjalarnes. Kjalarnes er nes sem skagar út í miðjan Faxaflóa sunnan megin við mynni Hvalfjarðar, gegnt Akranesi. Á Kjalarnesi er fjallið Esja. Undir rótum Esjunnar er vogskorið láglendi og fram úr því ganga nesin Álfsnes, Brimnes og Kjalarnes. Leiruvogur er sunnan við Álfsnes, norðan við það er Kollafjörður, Hofsvík skerst inn í strönd Kjalarness og svo er Hvalfjörður norðan við það. Á Kjalarnesi er 550 manna þorp sem nefnist Grundarhverfi. Kjalarnes var áður sérstakt sveitarfélag en er nú hluti Reykjavíkur. Suðurmörk Kjalarness eru við Leirvogsá en norðurmörkin við Kiðafellsá. Mörk milli Kjalarness og Kjósar liggja eftir hábungu Esju og síðan Skálafells. Láglendið er víðast hvar allvel gróið og skóglendi er í hlíðum Esju upp frá Mógilsá. Á Kjalarnesi var líklega fyrsta eða eitt fyrsta héraðsþing landsins og var það að einhverju leyti undanfari Alþingis. Þingið var snemma flutt að Þingnesi við Elliðavatn en hélt þó áfram nafninu Kjalarnesþing. Vesturbær Reykjavíkur. Vesturbær er hverfi í Reykjavík. Til hverfisins teljast Gamli Vesturbærinn, Bráðræðisholt, Grandahverfi, Hagahverfi, Melar, Skjól, Grímsstaðaholt, Skildinganes og Litli Skerjafjörður. Þjónustumiðstöð Vesturbæjar er í Vesturgarði á Hjarðarhaga. Í Vesturbænum eru Háskóli Íslands og fimm grunnskólar: Melaskóli, Hagaskóli, Landakotsskóli, Vesturbæjarskóli og Grandaskóli. Íþróttafélagið KR er með íþróttahús og völl í Vesturbænum og tengist hverfinu sérstaklega. Hringbraut skiptir hverfinu í tvennt. Norðan megin er Landakot með hinni kaþólsku Kristskirkju og Landakotsspítala. Þar er líka Grjótaþorpið þar sem er að finna nokkur elstu hús borgarinnar vestan megin við Kvosina. Fyrir norðan Vesturbæinn er Vesturhöfnin í Reykjavíkurhöfn með Grandagarði og Örfirisey. Fyrir utan Grandagarð eru Hólmasund og Hólmasker milli grandans og Akureyjar. Sunnan megin við Hringbrautina eru Melarnir þar sem standa mörg af húsum háskólans og handan við þá stúdentagarðar og flugstöðin fyrir Reykjavíkurflugvöll sem skilur milli Skildinganess (Stóra Skerjafjarðar) vestan megin og Litla Skerjafjarðar austan megin. Ströndin sem liggur að Skerjafirði norðan við Skildinganesið heitir Ægissíða. Þar voru áður trillukarlar með aðstöðu í skúrum. Íbúar Vesturbæjar (sunnan og norðan Hringbrautar) voru rúmlega 16.000 árið 2012. Formleg afmörkun. Í austur markast hverfið af Suðurbugt (austurendi), Geirsgötu, Norðurstíg, Vesturgötu, Garðastræti, Túngötu, Suðurgötu, Sturlugötu, Oddagötu, Eggertsgötu, Njarðargötu, beinni línu að horni Einarsness/Skeljaness, að Skeljanesi og þaðan í sjó. Sögulegt yfirlit ævintýraheims Rowling. Aðdáendur hafa tekið saman sögulegt ágrip skáldsagnaheims Harry Potter-bókanna sem miðast við þær litlu upplýsingar um atburði utan sögusviðs bókanna. Í "Harry Potter og leyniklefanum" kemur fram að Næstum hauslausi Nick lést 31. október 1492. Í sömu bók heldur hann upp á 500 ára dánar„afmæli“, sem reiknast frá upplýsingum frá 31. september 1992. Þó svo að Næstum hauslausi Nick segi sjálfur við Harry Potter að hann hafi verið látinn í „nærri 400 ár“ í 7. kafla "Harry Potter og viskusteinsins" eru þetta talin vera afglöp höfundar og því reiknast dagsetningar og ártöl út frá dánardegi Nicks. Mótsagnir. Það er víða ruglingur í atburðarrás Harry Potter, en J. K. Rowling hefur viðurkennt að eiga í erfiðleikum með stærðfræði svo að fullkomið samræmi er ekki að finna. Þrátt fyrir erfiðleika með tímalínuna er hún notuð meðal annars af aðdáendum og Warner Bros.. Til auðveldunar er hún einnig notuð innan Wikipediu. Tímavillur. Þegar dagsetningar eru gefnar upp stemma uppgefnir vikudagar ekki með raunveru dagatali. Dæmi um það er í "Harry Potter og fanganum frá Azkaban" þar sem Sybill Trelawney talar um 16. október 1993 sem föstudag en sá dagur var í raun laugardagur. Sama á við um drauma og endurminningar í sambandi við tímalínuna. Í "Harry Potter og blendingsprinsinum" segir Horace Slughorn í einu minninu sínu við Trevor Delgome að helkrossar „eru fordæmt efni í Hogwart, það veistu... Dumbledore er sérstaklega strangur gagnvart því“. Á þessum tíma var Dumbledore ekki skólastjóri í Hogwart og hefði ekki haft neitt að segja um slíkt efni. Skólastjóri yfir Delgome var Armando Dippet. Söguleg vandamál. Í "Harry Potter og blendingsprinsinum" notar Cornelius Fudge, galdramálaráðherra, persónufornafnið „hann“ um fyrirmann forsætisráðherra Englands. Ef rýnt er í tímalínuna kemur í ljós að bókin gerist árið 1996 en þá var John Major forsætisráðherra og fyrirmaður hans var kona - Margaret Thatcher. Hinsvegar er mögulegt að Fudge vísi til fyrri ráðherra þar sem Thatcher varð forsætisráðherra áður en Fudge varð galdramálaráðherra. Að auki er persónleiki forsætisráðherrans umtalað mun líkari persónuleika Tonys Blairs. Í bókunum er að minnsta kosti ein tímaskekkja. Í bókinni "Harry Potter og eldbikarinn" skrifar hann bréf þar sem kemur fram að frændi hann, Dudley Dursley, hafi hent PlayStation-leikjatölvunni sinni í gólfið. Þetta mun hafa gerst sumarið 1994 samkvæmt tímalínunni en PlayStation fór fyrst í sölu í Japan desember sama ár en árið eftir í Evrópu og Bretlandi. Bókin er gefin út árið 2000 svo þetta er trúlega skekkja af höfundar hálfu. Patreksfjörður. Patreksfjörður (Einnig nefnt Patró á talmáli) er þorp í Vesturbyggð við samnefndan fjörð sem er syðstur Vestfjarða. Aðalatvinnugreinar eru sjávarútvegur, fiskvinnsla og þjónusta. Fjörðurinn heitir eftir heilögum Patreki, verndardýrlingi Írlands. Landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson sem var frá Suðureyjum hét á hann og nefndi fjörðinn eftir honum. Áður var verslunarstaðurinn á Vatneyri, sem er lág eyri þar sem eitt sinn var stöðuvatn eða sjávarlón. Lónið var grafið út árið 1946 og Patrekshöfn gerð þar. Núverandi byggð er hins vegar að mestu leyti á Geirseyri og var byggðin stundum kölluð Eyrarnar í fleirtölu. Vatneyri/Geirseyri var verslunarhöfn á tímum einokunarverslunarinnar. Vísir að þorpi tók að myndast með fyrstu þurrabúðunum þar um miðja 19. öld. Roméo Dallaire. Roméo Alain Dallaire (fæddur 25. júní 1946) er kanadískur þingmaður, rithöfundur og fyrrum hershöfðingi. Hann er helst þekktur fyrir að hafa farið fyrir friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna, kallað UNAMIR, í Rúanda árin 1993 og 1994. Látrabjarg. Látrabjarg er fuglabjarg á Vestfjörðum. Það er stærsta sjávarbjarg Íslands, 14 km að lengd og 441 metra hátt. Látrabjargi er í daglegu tali skipt í fjóra hluta, sem heita Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Látrabjarg hefur verið nytjað frá landnámstíð. Það er vestasti oddi Íslands. Nafnið kemur af orðinu látur. Björgunarafrekið við Látrabjarg. Togarinn Dhoon strandaði undir Geldingsskorardal í miklu óveðri þann 12. desember 1947 og hófust þá miklar björgunaraðgerðir. Þær stóðu yfir í um þrjá daga og nær allir bændur í grendinni unnu að björguninni. Þrír skipverjar höfðu drukknað áður en björgunarmenn höfðu sigið niður bjargið en 12 sem eftir voru lifandi var öllum bjargað. Ári síðar var gerð heimildarmynd um björgunina sem Óskar Gíslason leikstýrði. Á meðan á tökum stóð strandaði togarinn Sargon og náði Óskar myndum af þeirri björgun og notaði í heimildarmyndinni. Hún var frumsýnd árið 1949. Grárefur. Grárefur (fræðiheiti: "Urocyon cinereoargenteus") er refur sem finnst í suðurhluta Kanada, stærstum hluta Bandaríkjanna og Mið-Ameríku að Venesúela. Grárefur og hinn náskyldi eyjarefur eru einu tegundirnar í ættkvíslinni "Urocyon" og taldir vera frumstæðastir núlifandi hunddýra. Grárefurinn lifir í skógum og er eina hunddýrið sem getur klifrað í trjám. Sláttumannaófriðurinn. Kort sem sýnir niðurstöðu Pýreneasamningsins 1659. Sláttumannaófriðurinn (katalónska: "Guerra dels Segadors") var uppreisn íbúa Katalóníu, einkum landbúnaðarverkamanna, gegn kastilískum herjum sem voru staðsettir þar til varnar gegn Frökkum vegna Þrjátíu ára stríðsins. Stríðið stóð frá 1640 til 1659 og lauk með Pýreneasamningnum sem hafði þau áhrif að Katalóníu var skipt í tvennt þannig að hlutinn umhverfis Perpignan (Rousillon og hluti Cerdanya) varð hluti af Frakklandi, en hlutinn kringum Barselóna var áfram hluti Spánar. Sölvi Helgason. Minnismerki um Sölva Helgason í Lónkoti í Sléttuhlíð. Sölvi Helgason (16. ágúst 1820 – 27. nóvember 1895) var flakkari, listamaður og heimspekingur á Íslandi á 19. öld. Sölvi missti foreldra sína ungur, var vistaður á mörgum bæjum og fór svo að flakka um landið. Sölvi var dæmdur nokkrum sinnum fyrir flakk, fölsun á reisupassa eða vegabréfi og smáþjófnað. Hann var oft hýddur og var í þrjú ár í fangelsi í Danmörku. Til eru yfir hundrað myndir eftir Sölva og þónokkuð af handritum. Æska. Sölvi Helgason fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð við austanverðan Skagafjörð 16. ágúst árið 1820. Daginn eftir var hann fluttur til skírnar að næsta kirkjustað, Felli. Foreldrar Sölva voru Helgi Guðmundsson og Ingiríður Gísladóttir, ungir fátækir bændur sem fluttu oft á milli bæja. Þau áttu fyrir eina dóttur, Guðrúnu. Þegar Sölvi var fjögurra ára missti hann föður sinn. Hann bjó ekki hjá móður sinni frá sex ára aldri heldur var vistaður á hinum og þessum bænum á svæðinu. Móðir hans dó svo þegar Sölvi var fjórtán ára. Munnmælasögur segja Sölva snemma hafa verið ófyrirleitinn og óþægan en sýnt nokkur merki um gáfur. Einnig eru til sögur um að hann hafi hlotið illa meðferð sem barn og nokkuð harkalegt uppeldi. Björn Þórðarson hreppstjóri á Ystahóli lét ferma Sölva 16 ára gamlan. 18 ára er hann síðan sendur að Möðruvöllum í Hörgárdal til Bjarna Thorarensen skálds og amtmanns. Þar er hann í það minnsta í eitt ár áður en hann fer austur í Þingeyjar- og Múlasýslur. Þaðan fór hann svo að flakka um landið. Flakkari. Í október árið 1843 var Sölvi tekinn fastur í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Reglur um vistarskyldu voru í gildi og því mátti ekki ferðast um nema með leyfi frá sýslumanni; reisupassa eða vegabréf. Vegabréfið sem Sölvi var með þótti nokkuð torkennilegt þar sem í því var upptalning á ótrúlegum mannkostum Sölva, auk þess sem nafn sýslumannsins, sem skrifaði undir, var vitlaust skrifað. Sölvi viðurkenndi að hafa falsað passann. Sölvi var svo dæmdur 8. mars 1845 fyrir falskan reisupassa og flakk. Refsing hans var 40 vandarhögg og að vera undir eftirliti yfirvalda í ár. Refsingin var svo milduð í hæstarétti niður í 27 vandarhögg og 8 mánaða gæslu. Í mars 1850 var Sölvi aftur tekinn fastur fyrir stuld á bókum og buxnagarmi. Hann var svo dæmdur til að hljóta 20 vandarhögg fyrir flakk og lausamennsku þar sem ekki tókst að sanna á hann stuldinn. 1854 var Sölvi enn dæmdur, nú til þriggja ára betrunarvistar í Kaupmannahöfn, fyrir að virða ekki vistarband og að hafa sennilega stolið hinu og þessu, aðallega bókum.Árið 1858 kom hann aftur til Íslands og er sendur aftur í sveit sína. Þegar hann ræddi um dvöl sína í Danmörku seinna lét hann eins og hann hefði verið þar sem frjáls maður og hlotið mikinn frama. Sölvi hélt áfram að flakka um landið. Hann eignaðist dótturina Stefaníu Kristínu með Júlíönu Sveinbjörnsdóttur, sem var niðursetningur, fötluð og talin vitskert. Afkomendur þeirra eru til, bæði hér á landi og í Ameríku. Sölvi kvaðst sjálfur vera frábær sláttumaður en eitthvað fer misjöfnum sögum af sannleiksgildi þess. Á fyrri hluta ævi sinnar vann hann fyrir sér, í það minnsta á sumrin en skrifaði eða málaði á veturna. Árið 1864 vann Sölvi ásamt fleirum við vegabætur á Vatnsskarði og árið 1867 gerði hann langan vegarkafla þar að mestu leyti einn.Árið 1870 var hann dæmdur til að þola 3x27 vandarhögg fyrir flakk og þjófnað. Sölvi dó 27. nóvember 1895 í Sléttuhlíð. Sögur. Ýmsar þjóðsögur hafa spunnist um Sölva. Einhverju sinni á hann að hafa tekið að sér að slá stífar sex dagsláttur á sex dögum. Hann átti að fá eina brennivínsflösku á dag auk hefðbundins kaups. Fyrstu tvo dagana lá hann bara og drakk en lauk verkinu þó á tilsettum tíma. Samkvæmt munnmælum fór vegagerð Sölva í Vatnsskarðinu þannig fram að Kristján kammerráð, sýslumaður Skagfirðinga vildi láta gera veg yfir Vatnsskarðið en fékk engan til þess. Á endanum réð hann Sölva sem verkstjóra með því skilyrði að hann fengi ekkert borgað ef honum tækist ekki að ljúka verkinu á tilsettum tíma. Sölvi var í fyrstu með heilmarga undirmenn við verkið en var svo harður verkstjóri að þeir gáfust allir upp. Sjálfur lagði Sölvi mjög hart að sér og endaði á því að vinna síðasta þriðjung verksins einn og tókst að klára á tilsettum tíma. Á ferðum sínum bar Sölvi einhverskonar kassa á bakinu en það var vinnuborð hans með fótum á hjörum og ýmiskonar málaradót annað. Þessi kassi er sagður hafa bjargað honum í það minnsta tvisvar á ferðum hans, bæði þegar hann lenti í kviksyndi á Skeiðarársandi og í jökulsprungu á Breiðamerkurjökli. Sölvi hafði mikla trú á sjálfum sér og taldi sig miklum hæfileikum búinn eins og reisupassi hans sýnir glögglega. Sagan segir að hann hafi komist í læri til gullsmiðs til að læra silfursmíði en það hafi ekki gengið sem best þar sem hann hafi talið sig mikið betri smið en lærifaðir hans. Sölvi bætti oft nöfnum við sitt eigið sem honum þóttu viðeigandi. Þar má nefna Sölvi Helgason Gudmundssen, Islandus, Sókrates, Plato, Sólon, Melankton, Sölvi Spekingur, Sjúlvi, Húsfriður, Sjúlvi hinn vitri, Húmboldt, Spinoza, Göthe, Hegel, Schiller, Schott, Newton, Kant, Lamertine, Skagfjörð, Norðlandínus,Beethoven og Shakespeare. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi skrifaði skáldsöguna "Sólon Íslandus" sem fjallar um ævi Sölva Helgasonar. Þá gaf rithöfundurinn Jón Óskar út ævisögu Sölva og um hann hafa verið samdir söngtextar og leikrit, auk þess sem kaffihús í Reykjavík heitir eftir einu viðurnefni hans og á Lónkoti í Skagafirði er minnisvarði um Sölva og einnig Sölvabar þar sem uppi er sýning á myndlist hans sem hann var þekktur fyrir. Maðurinn og verk hans. Sölva er lýst sem háum manni sem samsvaraði sér vel, ljóshærðum, stórskornum í andliti og nefháum. Hann var sléttur að vöngum, útlimasmár og karlmannlegur. Hann var alltaf að mála myndir og skrifa eitthvað, bæði upp úr sjálfum sér og þýðingar á verkum erlendra meistara. Þó hafði hann aldrei farið í skóla. Ljóst þykir af skrifum Sölva að hann var eitthvað veikur á geði. Hann var haldinn ofsóknaræði einkum gagnvart veraldlegum höfðingjum. Þá sem höfði komið nálægt því að fá Sölva dæmdan kallaði hann öllum illum nöfnum og málaði jafnvel af þeim skrípamyndir og líkti við djöfulinn. Í dagbók sína skrifaði hann einhverntíman bréf til Jóns Thoroddsen og ásakaði hann um að hafa stolið kvæði eftir sig. Einnig á hann að hafa skrifað skammarbréf um þá sem skiptu sér af honum með uppnefnum og fúkyrðum. Yfir hundrað myndir hafa varðveist en þær myndir eru oft skreyttir stafir, blómaskraut og sjálfsmyndir. Myndir Sölva eru oft með fagurlega dregnum línum og ótrúlega vönduðum litum miðað við hvaða aðstæður þær hafa verið teiknaðar. Skrif Sölva eru af ýmsu tagi. Má þar nefna spekimál, hugleiðingar, geðveikirugl, sagnfræði, vísindalegar upplýsingar, frásagnir af því þegar hann reyndi að kristna landið og Frakklandssaga. Hann skrifaði líka um ferðir sínar þegar hann sagðist vera að ferðast um landið til að sinna vísindarannsóknum. Boeing 737. Boeing 737 er farþegaflugvél framleidd af Boeing-verksmiðjunum í Bandaríkjunum. Þessi gerð fór fyrst í loftið árið 1967 og til dagsins í dag hafa 5000 flugvélar af þessari gerð verið smíðaðar. Linköping. Kort sem sýnir staðsetningu sveitarfélagsins innan Austur-Gautlanda Linköping er borg í sveitarfélaginu "Linköpings kommun" í Austur-Gautlandi í Svíþjóð. Sveitarfélagið hefur um 144.500 íbúa en borgin 97.500 (2005). Bærinn stendur við Stångån, rétt áður en hún rennur í stöðuvatnið Roxen. Aðalatvinnuvegur í Linköping er iðnaður, en þar eru meðal annars Saab-verksmiðjur hefur þar yfir 1000 manns í vinnu. Ekki má rugla Linköping við Lidköping. Saga. Elsti hluti dómkirkjunnar í Linköping er frá 12. öld en kaþólski skólinn í bænum var stofnaður 1266 og er því sagður elsti sinnar tegundar í Svíþjóð. Vreta-klaustrið var stofnað 1128. Fram til ársins 1928 var bærinn lítill en þegar Saab byggði flugvélasmiðjur sínar í bænum stækkaði hann ört. Í dag er borgin háskólasetur og eru alls 26.500 stúdentar við nám í Háskólanum í Linköping, "Linköpings universitet". (Ó)eðli. "(Ó)eðli" (á ensku (Un)natural) eftir Hauk M. Hrafnsson er kvikmynduð í talsverðum dogma-stíl og fjallar ungan mann í Reykjavík sem er á kafi í vímuefnum og skipuleggur og framkvæmir hefndaraðgerðir gagnvart fyrrum kærustu og vini. Við fylgjumst náið með honum í sukki og ofbeldisverkum sem ganga þó meira út á að niðurlægja en meiða. Núllvigur. Núllvigur eða núllvektor (einnig með ákveðnum greini núllvigurinn og núllvektorinn) er vigur (0, 0, …, 0) í evklíðsku rúmi með stærðina núll, en óskilgreinda stefnu. Núllvigur hefur hnitin 0,0...,0, t.d. formula_1 í formula_2 (í þrívíðu rúmi). Núllvigurinn er oftast táknaður með formula_3 eða 0 eða einfaldlega 0. Faldmengi. Faldmengið er gjarnan kallað Cartesískt margfeldi, nefnt eftir franska stærðfræðingnum René Descartes, sem bjó til analytíska rúmfræði. Dæmi væri að ef "X" er 13 staka mengið, og mengið "Y" er 4 staka mengið, þá er faldmengi þeirra 52 staka mengi venjulegra spila:. Á sama hátt er Evklíðska planið formula_2 jafngilt faldmenginu formula_3. Þrívíða rúmið formula_4 er þá sömuleiðis bara formula_5. Gram-Schmidt reikniritið. Fyrstu tvö skref Gram-Schmidt reikniritsins. Gram-Schmidt reikniritið er mikið notað reiknirit í línulegri algebru sem notað er til þess að þverstaðla mengi vigra í gefnu innfeldisrúmi, oftast Evklíðska rúmið formula_1. Reikniritið tekur endanlegt, línulega óháð mengi vigra formula_2 og skilar út þverstöðluðu mengi formula_3 sem spannar sama hlutrúmið. Reikniritið er nefnt eftir Jørgen Pedersen Gram og Erhard Schmidt, en það kom áður fram í verkum Laplace og Cauchy. Í Lie-grúpufræði er aðferðin útvíkkuð með Iwasawa þáttun. Beiting Gram-Schmidt reikniritsins á dálkvigra fylkis af fullri stétt gefur QR-þáttun þess. Reikniritið. Hann varpar vigrinum v hornrétt á vigurinn u. Mengið er þá mengi þverstæðu vigrana, og stöðluðu vigrarnir mynda þverstaðlaðan grunn fyrir hlutrúmið. Roughness and Toughness. "Roughness and Toughness" er breiðskífa gefin út 2003 af íslensku rokkhljómsveitinni Graveslime. Hún var frumraun hljómsveitarinnar ásamt því að vera seinasta plata þeirra en hljómsveitin hætti áður en plötunni var dreift í búðir. Breiðskífan var tekin upp af Tim Green í Studio Veðurstofan í Reykjavík, hljóðblönduð í hljóðveri Tim Green, Louder Studios í San Francisco en John Golden sá um masteringu. Á plötunni eru vísanir í hljómsveitir á borð við Mogwai, Primus og Nirvana, meðal annarra og inniheldur hún rokkaða útgáfu af „Chariots of Fire“. Guðlaugur Kristinn Óttarsson, (e.þ.s Godkrist) spilaði á gítar í laginu „American Sleeper“. Velletri. Velletri er sveitarfélag í sýslunni Róm á Albanihæðum í Latíum á Ítalíu. Það á landamæri að sveitarfélögunum Rocca di Papa, Lariano, Cisterna di Latina, Artena, Aprilia, Nemi, Genzano di Roma og Lanuvio. Það er hluti af svæði sem er kallað "Castelli Romani" sem telur sautján sveitarfélög í héraðinu Latíum. Íbúar Velletri eru rétt yfir fimmtíu þúsund. Í Fyrsta latínastríðinu lögðu Rómverjar bæinn undir sig og nefndu "Velitrae" eftir orðinu "Velcester" í máli Volska. Eftir að Rómverjar lögðu bæinn aftur undir sig 494 f.Kr. og 338 f.Kr. varð hann að rómversku "municipium" þar sem rómverskir patricíar reistu villur sínar. Octavíanska ættin sem Ágústus keisari var af var frá Velletri og Ágústus sjálfur ólst þar upp þótt deilt sé um hvort hann hafi fæðst þar eða í Róm. Friúlí. Friúlí (ítalska: "Regione autonoma Friuli-Venezia Giulia"; friúlíska: "Friûl-Vignesie Julie"; króatíska og slóvenska: "Furlanija - Julijska krajina"; þýska: "Friaul-Julisch Venetien") er hérað á Norðaustur-Ítalíu sem markast af Venetó í vestri og landamærum Austurríkis og Slóveníu í norðri og austri með strönd að Adríahafi í suðri. Höfuðstaður héraðsins er borgin Tríeste. Íbúafjöldi er um 1,2 milljónir. Langstærsti hluti héraðsins er hið sögulega hérað Friúlí með höfuðstað í Údíne, en það inniheldur að auki Venezia Giulia á landamærunum við Slóveníu og Austurríki með höfuðstað í Tríeste. Þessu síðastnefnda svæði var bætt við eftir Síðari heimsstyrjöldina þegar Júgóslavía hafði fengið stærstan hlutann af því sem áður taldist héraðið umhverfis Tríeste. Í héraðinu eru stórir þýskumælandi og slóvenskumælandi hópar. Vegna menningarlegrar sérstöðu hefur héraðið takmarkaða sjálfstjórn. Sýslur ("province"). Kort sem sýnir sýsluskiptingu Friúlí. 14. Árið 14 (XIV) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á mánudegi. 1. öldin f.Kr.. Aldir: 3. öldin f.Kr. - 2. öldin f.Kr. - 1. öldin f.Kr. - 1. öldin - 2. öldin 1. öldin fyrir Krists burð eða 1. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 100 f.Kr. til enda ársins 1 f.Kr. 2. öldin f.Kr.. Aldir: 4. öldin f.Kr. - 3. öldin f.Kr. - 2. öldin f.Kr. - 1. öldin f.Kr. - 1. öldin 2. öldin fyrir Krists burð eða 2. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 200 f.Kr. til enda ársins 101 f.Kr. Rómarkeisari. Rómarkeisari eða keisari Rómar er hugtak sem sagnfræðingar eru vanir að nota yfir æðsta stjórnanda Rómaveldis frá þeim tíma þegar lýðveldistímanum lýkur. Meðal hinna fornu Rómverja var enginn slíkur titill notaður og ekkert eitt embætti samsvarar því. Rómarkeisari er öllu heldur yfirheiti notað til hagræðingar yfir flókið safn titla og valda. Rómarkeisari var ekki einvaldur í nútímaskilningi og á keisaratímanum voru valdastofnanir lýðveldisins, eins og rómverska öldungaráðið og þingin, ennþá virkar. Rómarkeisari var að nafninu til fremstur meðal jafningja ("primus inter pares") innan öldungaráðsins. Sá titill Rómarkeisara sem sumir sagnfræðingar álíta skilyrði þess að um keisara sé að ræða er "princeps" sem merkir „fyrstur“ (sbr. fursti). Í þeim skilningi er Ágústus fyrsti keisari Rómar, en sumir vilja líta svo á að það vald sem Júlíus Caesar hafði safnað til sín geri hann í reynd að fyrsta keisaranum. Hundraðmannahellir. Hundraðmannahellir er hellir í basalthrauni sunnan við Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Sagt er að þar hafi hundrað manns falið sig fyrir sjóræningjum frá Alsír í Tyrkjaráninu 1627 og af því hafi hellirinn fengið nafn sitt. Hópurinn sem faldi sig þar í Tyrkjaráninu fannst vegna þess að einhver heimamanna hafði tekið hundinn sinn með og hann var að snuðra fyrir utan. Ólíklegt er samt að 100 manns geti komist fyrir í honum, frekar 20-30 manns. Hellirinn er nánast lokaður vegna sigs og jarðvegs sem safnast hefur í hellismunnann og er því ekki aðgengilegur. Keisari. Keisari er titill (karlkyns) einvalds sem er almennt séð litið svo á að sé æðri konungi. Samsvarandi titill konu er keisaraynja eða keisaradrottning, hvort sem um er að ræða ríkjandi keisaraynju eða eiginkonu ríkjandi keisara. Kjörkeisararnir voru þeir keisarar nefndir sem voru kjörsynir keisaranna á undan sér. Íslenska orðið keisari er úr þýsku, "Kaiser", sem aftur er dregið af nafni Júlíusar Caesars. Slavneski titillinn tsar er dreginn af sama orði. Keisari ræður yfirleitt yfir keisaradæmi eða heimsveldi (ríki sem inniheldur mörg áður sjálfstæð ríki eða svæði sem eru landfræðilega og menningarlega aðgreind). Dúðaætt. Dúðaætt (fræðiheiti: "Raphidae") er ætt útdauðra ófleygra dúfnfugla og inniheldur ættkvíslirnar "Pezophaps" ("Rodrigues Solitaire") og "Raphus" (dúdúfugl). Nýlegar erfðarannsóknir benda til þess að þessar ættkvíslir ættu heima í dúfnaætt ("Columbidae"). Báðar tegundirnar í þessarri ætt voru upprunnar á Maskarenaeyjum í Indlandshafi og dóu út vegna veiði og innflutnings nýrra rándýra í kjölfarið á landnámi Evrópubúa þar á 17. öld. Hænsnfuglar. Hænsnfuglar (fræðiheiti: "Galliformes") eru ættbálkur fugla sem inniheldur meðal annars kalkúna, rjúpu og fasana. Ættbálkurinn inniheldur um 256 tegundir. Stærsti fuglinn af þessum ættbálki er norður-ameríski villikalkúnninn ("Meleagris gallopavo") sem getur vegið allt að ellefu kíló. Reyking. Reyking er aðferð til að bragðbæta, sjóða eða varðveita mat með því að láta hann standa í reyk, oftast frá glóandi viði, taði eða mó, í lokuðu rými (reykhúsi). Til eru tvær aðferðir við reykingu: kaldreyking og heitreyking. Friðrik 9. Danakonungur. Friðrik 9. 1935 Ingiríður og Friðrik nýtrúlofuð árið 1935 Friðrik 9., "(Christian Frederik Franz Michael Carl Valdemar Georg)" (fæddur 11. mars 1899, dáinn 14. janúar 1972) var konungur í Danmörku frá 20. apríl 1947 til dauðadags. Hann er faðir núverandi þjóðhöfðingja Danmerkur, Margrétar 2. Friðrik var sonur Kristjáns 10., og Alexandrínu drottningar. Þann 24. maí 1935 giftist hann Ingiríði, prinsessu frá Svíþjóð (1910-2000), en hún var dóttir Gústafs Adolfs Svíakrónprins, seinna Gústaf 6. Adolf Svíakonungur. Friðrik og Ingiríður eignuðust þrjár dætur: Margréti, núverandi drottningu (f. 1940), Benediktu (f. 1944) og Önnu-Maríu (f. 1946). Skömmu eftir að Friðrik hélt sína árlegu nýársræðu 1971/72 veiktist hann og lést nokkru seinna. Þjóðhagfræði. Þjóðahagfræði er hluti af hagfræði. Öfugt við rekstrarhagfræði vinnur hún með heildarstærðir. Það þýðir að hegðun hagkerfisins í heild sinni er rannsökuð, til dæmis þegar heildartekjur, atvinnuhlutfallið, verðbólgan eða hagsveiflan breytast. Markmiðið er að finna skýringar á þessum breytingum og þær stærðir sem hafa áhrif og lýsa tengslum þar á milli. Aðalatriði í þjóðhagfræðikenningum er hlutverk ríkisins. Ákveðin hugsjón um hlutverk þess í hagkerfinu er studd með kenningu og síðan krafist ákveðinnar hagstjórnar. Ríkisstjórnir reyna að breyta þeim stærðum sem ex-post eru taldar hafa þau áhrif, sem sóst er eftir. Til greina koma breytingar á sköttum, vöxtum eða ríkisneyslu til að ná ákveðnum pólitískum markmiðum eins og stöðugu verðlagi, fullri atvinnu eða hagvexti. Það er þess vegna sem hagnýtar kennitölur eru gríðarlega mikilvægar í pólitískri umræðu og auk þess eru þær metnar sem mælikvarði á gæði stjórnarinnar í kosningabaráttu. Tíminn fram að alræðisstjórninni. Einstakir spekingar, lög- og fjármálafræðimenn og ekki síst guðfræðingar úr fornöldinni eða miðöldum miðluðu ýmsum hugmyndum um hagnýta hegðun. Það hefur þó ekki verið margt um akademíska umræðu í nútímalegum skilningi þegar um þróun hagnýtra kenninga er að ræða. Meðal frumkvöðla fornaldarhagfræðinga má telja Xenophon, Platon og Aristóteles. Frá miðöldum og tíma upplýsingarstefnunnar má nefna Thomas Morus, Thomas Hobbes, John Locke og Gottfried Wilhelm Leibniz. Milli kaupauðgisstefnu og gullalda. Á tíma alræðisstjórnarinnar þróaðist í Frakklandi, Ítalíu og Bretlandi ákveðin hugsjón um hagstjórn sem var að vísu engin kenning í heild en heldur einhvers konar samansafn. Hugmyndirnar voru nákvæmari en áður fyrr. Þjóðverjar þróuðu sérútgáfu af kaupauðgisstefnu sem nefnast kameralísmi. Gríðarleg inngrip ríkisstjórnarinnar í hagkerfinu einkenna kaupauðgisstefnu og leiddu í Frakklandi til hnignunar landbúnaðarins. Sem svar við þessari þróun krafðist François læknir Quesnay "laissez-faire-stefnu" í kenningu sinni. Hún birtist 1758 í bókinni hans "Tableau économique" þar sem hann kynnti hagkerfi sem skapað er í hringrás. Þessi hugsjón er seinna kölluð physiokratismi og er talinn fyrsti fræðilegi áfanginn í efnahagsmálum. Í Bretlandi varð þessari kenningu vel tekið og hún þróuð á félagslegt stig sem þá bar nafnið klassísk þjóðhagfræði. Adam Smith, David Ricardo og John Stuart Mill eru oft nefndir mikilvægustu fulltrúar þess skóla. Í andstæðu við physiokratana kröfðust þeir takmarkaðrar hagstjórnar frá ríkinu til að sporna við vanþróun. Milli gullaldar og Keynes. Athygli hagfræðinganna beindist að hagnaðardreifingunni meðan iðnvæðingin stóð yfir. Því á meðan henni stóð mögnuðust félagslegar andstæður í borgunum og ný fræði voru þróuð: jafnaðarstefnan og marxismi. Þessar stefnur lögðu áherslu á stjórn hagkerfisins og kröfðust sameignar framleiðsluþátta. Mikilvægustu talsmenn voru meðal annarra Robert Owen, Charles Fourier og Karl Marx. Á sama tíma kom til skjalanna historismi sem fræðimenn eins og Friedrich List og Gustav von Schmoller hafa þróað undir áhrifum nýrra gróandi þjóðlegra tilfinninga. Þeir kröfðust þess að ríkisstjórnin beitti aðferðum til að vernda hagsmuni innlendra og auk þess að tilveran yrði rannsökuð í stað þess að beita fljótfærnislegri alhæfingu. í lok 19. aldar myndaðist jaðarnytjarskólinn undir áhrifum hagfræðinga eins og William Stanley Jevons, Carl Menger og Léon Walras. Hér komu fyrst fram rekstrarhagfræðilegar stefnur sem fjölluðu um hagnýta skoðun einstaklings og framboðs- og eftirspurnarlínur. Síðan eru aðferðafræðileg vandamál jafngildur hluti hagfræðinnar og spurningar um innihald fræðigreinarinnar eða reglugerðastefnu (hér má líta á lögmál nytjahyggjunnar). Alfred Marshall þróaði undir áhrifum jaðarnytjarskólans klassíku þjóðhagfræðina til ný-klassíku þjóðhagfræðinnar. Hann tengdi einstaklingsbundin sjónarmiðið jaðarnytjarskólans við hinar hlutlægu kenningar klassíku fræðinnar. Árangurinn ber nafnið ný-klassík jafnvægisgreining. Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar skall heimskreppan á með gífurlegt atvinnuleysi. Kenningarnar sem þangað til höfðu verið þróuð gátu hvorki skýrt ástandið né gefa athafnaráð gegn þess nema hin austurríska skóla. En að snúa frá íhlutunarstefnuni sem fulltrúa þess kröfðust var ekki framkvæmdalegt á þeim tíma. Keynes til í dag. Í nýrri kenningu gaf John Maynard Keynes ríkisstjórnum rök fyrir virk hagstjórn til að leiða úr kreppunni. Í pólitískri andstöðu keynesisma stendur Chicago-skólinn sem bjó til nýfrjálshyggjuna á grundvelli frjálslyndisstefnunnar. Ordóliberalisminn er þróaður úr ný-frjálshyggju og er í sjálfum sér rótin hins félagslegu markaðskerfi. Í sjötta áratugnum stofnaði Milton Friedman peningamagnshyggju. Nýrri og lítið þekktir hugmyndaskólar eru debitismi, frjálst markaðskerfi, framþróunarhagfræði og ný stofnarhagfræði. Skammtímahorfur. Í skammtímahorf myndist markaðsjöfnun með því að framboð og eftirspurn eins afurðar er í samræmi. En mismunandi eru skoðarnir um leiðina til þess jafnvægis: Annars vegar kennir Keynesianisminn eftirspurnina um ákveðin framboð. Hins vegar telur lögmálið Says að hvert framboð skapar sín eftirspurn. Hin grundvallarhringrás milli heimila og fyrirtækja Hægt er að túlka þjóðhagkerfið sem efnahagshringrás. Í sínu einfaldasta formi eru tveir markaðsaðilar: einkaheimilin og fyrirtækin. Heimilin nýta framleiddan afurð og bjóða fyrirtækjum upp á vinnuafl. Því á móti er peningahringrás; heimilin græða vinnulaun og fyrirtækin hagnast á sölu afurða. Auk heimila og fyrirtækja koma þrír aðilar til greina: hið opinbera, peningamarkaðurinn og utanríkisviðskiptin. Þá flæða vinnulaunin heimila ekki til fyrirtækja að fullu, heldur fer hluti í þessa aukasvið. Þau teljast að vera skattur ríkisins, sparnaður á peningamarkaði og neysla innfluttrar vöru. En auk hagnaðar af sölu afurða til heimila, flæða peningar til fyrirtækja úr sömu aukasviðum. Ef ríkið veitir fjárstyrk eða eflir eftirspurn á peningamarkaðinum, eru fjárfestingar fjármagnaðar og síðan seljast afurðir til útlanda. S + T + IM = I + G + EX eða (S − I) + (T − G) + (IM − EX) = 0 Upplýsingar um raunverulegu upphæðir veita reikningar þjóðarbókhaldsins eða "þjóðhagsreikningar". Hér eru borin saman allar efnahagsfærslur í þjóðhagkerfinu (innanlandsreikningur) í ákveðin tímabil, eða erlend viðskiptin (utanlandsreikningur). Þessir ex-post-gögn eru grundvöllur fyrir greiningar og spádóm. John Hicks þróaði IS-LM-líkanið með því að bæta eftirspurn um fjármagn og peningamarkaðinn. Tengjandi breytistærðin er vöxturinn. Þetta líkan er eitt það mikilvægasta í þjóðahagfræðinni og lýsir hegðun efnahagskerfisins í skamman tíma mjög vel. Millihorfur. Í þessu viðhorf er atvinnumarkaðurinn bættur við með framboð og eftirspurn þannig að verðlagið og launin eru breytileg. Enn það er munur milli þess og annarrar markaða, því eftirspurn eftir vinnuafli er tengd framboði afurða. Launakostnaðurinn er hér breytistærð sem tengir vinnuframboð og -eftirspurn. Launin eru þar að auki líka tengd ástandinu á vinnumarkaðinum: mikið atvinnuleysi leiðir til lækkandi launa, hins vegar hækka launin við fulla atvinnu. Phillips-ferlið er líkan sem lýsir samhengi milli verðlags eða launa og atvinnuleysis. 1958 sá enski töl- og hagfræðingurinn Alban William Housego Phillips neikvætt samhengi milli þessara stærða í Bretlandi. Síðan hefur líkaninu verið nokkrum sinnum breytt og það endurbætt. Langtímahorfur. Um langt skeið hafa þjóðahagfræðimenn rannsakað hagsveiflurnar (= heildarástandið) í hagkerfinu. Hagsveiflan er breytileg og fylgir oft þessari röð: bati, góðæri, samdráttur og kreppa. Þessa breytingar verða til og aukast með margföldurum og hröðulum. Mikilvæg hugtök í þjóðhagfræði. heildarstærð -- peningamagn -- hin klassíska tvískipting -– þjóðarfjárlög -- ríkisskuldir -- launa- og verðbreyting -- verðhjöðnun -- verg landsframleiðsla -- hagstjórn -- andsveiflufjármálastefna -- atvinnumarkaðslíkan -- sjálfvirkur sveiflujafnari -- þjóðhagsveifla -- CES-framleiðslufall -- peningaeftirspurn -- Gini-stuðull -- Hollensku veikindin -- Kondratjew-sveifla -- Mundell-Fleming-líkan -- sparnaður hins opinbera -- lögmál Okuns -- möguleg þjóðarframleiðsla -- sveiflufylgjandi efnahagsráðstefna -- sparnaðarhlutfall Ex-post. Hugtakið ex post (lat.) þýðir „eftir á“ er stundum notað í fræðigreinum. Þegar ex-post-rannsóknir eru metnar eða skoðaðar þá er það gert í ljósi liðinna aðgerða og kringumstæðna með tilliti til núverandi niðurstöðu. Andstæðan við ex post er ex ante. Veira. Veira eða vírus (af latneska orðinu "vīrus" sem þýðir „eitur“) er örsmá eind sem getur smitað frumur lífvera. Veirur innihalda erfðaefni sem umlukið er hlífðarskel sem gerð er úr prótíni. Eitt af því sem einkennir veirur er að þær geta ekki fjölgað sér utan frumunnar sem þær smita. Þar sem veirur geta ekki fjölgað sér á eigin spýtur eru þær ekki taldar vera lifandi. Engu að síður eru veirur náskyldar lífverum og notast meðal annars við kjarnsýrur til að varðveita erfðaupplýsingar. Sjúkdómur. Sjúkdómur er fyrirbrigði sem veldur óeðlilegu andlegu eða líkamlegu ástandi, sem felur í sér óþægindi eða skerta afkastagetu hjá þeim einstaklingi sem þjáist af sjúkdómnum. Önnur fyrirbrigði sem geta valdið slíku ástandi eru slys, fötlun og heilkenni, en yfirleitt eru þessi hugtök aðgreind frá sjúkdómum. Í læknisfræði er sjúkdómur, sem þá er álitinn hafa tiltekna þekkta orsök, aðskilinn frá heilkenni, sem er einfaldlega samsafn einkenna sem eiga sér stað samtímis. Engu að síður hafa orsakir ýmissa heilkenna verið uppgötvaðar, en þó er yfirleitt haldið áfram að tala um heilkenni í þeim tilfellum. Eins er oft talað um sjúkdóma þótt orsakir þeirra séu ekki nákvæmlega þekktar, en oft er þá um það að ræða að hegðun þeirra sé slík að tilteknir orsakaflokkar séu líklegri en aðrir. Skilgreining á sjúkdómum er bæði erfið og breytileg. Sem dæmi má nefna að í lok 19. aldar var talið að samkynhneigð væri sjúkdómur, en er það ekki í dag. Á hinn bóginn er tiltölulega stutt síðan þunglyndi var almennt viðurkennt sem sjúkdómur. Miðborg. Miðborg eða miðbær er miðlægt svæði í þéttbýlisstað, þar er byggð yfirleitt þéttari en annars staðar í viðkomandi bæ eða borg. Miðborgir og bæir eru gjarnan miðstöð viðskipta, verslunar og menningar auk þess sem þar eru íbúðir. Í stærri borgum verður hátt lóðaverð í miðborgum gjarnan til þess að reistir eru skýjakljúfar til þess að nýta plássi sem best. Kaupfélag Steingrímsfjarðar. Kaupfélag Steingrímsfjarðar er eitt af fáum kaupfélögum á Íslandi sem enn starfar (árið 2010). Það hefur höfuðstöðvar á Hólmavík á Ströndum og rekur þar verslun og söluskála á Hólmavík. Einnig rekur Kaupfélag Steingrímsfjarðar (skammstafað KSH) verslanir á Drangsnesi við norðanverðan Steingrímsfjörð og í Norðurfirði í Árneshreppi. Kaupfélag Steingrímsfjarðar á helmingshlut í rækjuvinnslunni Hólmadrangi ehf. á Hólmavík. Kaupfélag Steingrímsfjarðar hét áður Verslunarfélag Steingrímsfjarðar og var stofnað 29. desember 1898. Broddanes. Broddanes er bær sem stendur á samnefndu nesi við sunnanverðan Kollafjörð á Ströndum. Þar er þríbýli og auk þess eru á jörðinni gamalt íbúðarhús sem nýtt er sem sumarbústaður og Broddanesskóli sem var grunnskóli og var starfræktur á árunum 1978-2004. Broddanes var þekkt hlunnindajörð fyrr á öldum og var sagt að þar væru öll hugsanleg hlunnindi fyrir utan laxveiði. Úti fyrir landinu er Broddanesey, þar er lundi. Jörðin heitir eftir Broddunum, sem eru klettar á nesinu milli Kollafjarðar og Bitrufjarðar. Rithöfundurinn Guðbjörg Jónsdóttir bjó á Broddanesi, hún er þekkt fyrir þjóðlífslýsingar frá 19. öld í bókunum "Gamlar glæður", "Minningar" og "Við sólarlag" en þá síðastnefndu las hún fyrir eftir að hún varð blind. Princeps. "Princeps" er latína og merkir „fyrstur“ (sbr. fursti, af orðinu er einnig komið prins). Í Róm til forna var orðið notað sem stytting á ýmsum titlum sem hófust á því. Mikilvægasti titillinn var "Princeps Senatus" (sá sem er fremstur meðal jafningja í rómverska öldungaráðinu) sem var fyrst eignað Ágústusi keisara 23 f.Kr. sem notaði það sem heiti yfir stöðu sína fremur en hugtök eins og "rex" (konungur) eða "dictator" (alræðismaður) sem hefðu fremur vakið andúð. "Princeps" er sá titill sem helst einkennir Rómarkeisara. Díócletíanus keisari (285 - 305) var fyrstur til að nota titilinn "dominus" (herra) í staðinn fyrir "princeps". Galatía. Kort sem sýnir rómversku nýlenduna Galatíu. Galatía hin forna var svæði á hálendinu á miðjum Anatólíuskaganum þar sem nú er Tyrkland. Í norðri átti Galatía landamæri að Biþyníu og Paflagóníu, í austri að Pontus, í suðri að Lýkaóníu og Kappadókíu og í vestri að leifunum að Frýgíu sem Gallar höfðu lagt undir sig að hluta. Galatía var svo nefnd eftir gallverskum ættflokki frá Þrakíu sem lögðu svæðið undir sig á 3. öld f.Kr.. Íbúar þar voru blanda af Göllum og Grikkjum. Galatar voru upphaflega hluti af þjóðflutningum Kelta sem réðust inn í Makedóníu undir stjórn gallverska höfðingjans Brennusar annars. Hann réðist inn í Grikkland árið 281 f.Kr. og klofningshópur úr liði hans fór gegnum Þrakíu 279 f.Kr. og kom til Litlu-Asíu 278-277 f.Kr. Galatía var gerð af rómversku skattlandi af Ágústusi keisara árið 25 f.Kr. Galatar töluðu enn keltneska málið galatísku á tímum Híerónýmusar kirkjuföður (d. 430). 3. öldin f.Kr.. Aldir: 5. öldin f.Kr. - 4. öldin f.Kr. - 3. öldin f.Kr. - 2. öldin f.Kr. - 1. öldin f.Kr. 3. öldin fyrir Krists burð eða 3. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 300 f.Kr. til enda ársins 201 f.Kr. Palatínhæð. Palatínhæð (latína: "Palatium") er ein hinna sjö hæða rómar og sú þeirra sem kemst næst því að vera í miðjunni. Hún er 70 metra há og öðru megin við hana stendur Circus Maximus en hinu megin Forum Romanum. Samkvæmt rómverskri goðafræði var það á Palatínhæð sem úlfynjan sem hélt þeim á lífi sem ungabörn fann Rómúlus og Remus. Síðar áttu þeir að hafa stofnað borgina á þessum stað. Hvað sem við kemur goðsögninni er það rétt að Rómarborg virðist eiga uppruna sinn á hæðinni. Talið er að búið hafi verið þar síðan um það bil 1000 f. Kr. Á lýðveldistímanum áttu margir heldri borgarar heimili sín á Palatínhæð og síðar áttu sumir keisaranna hallir þar. Lengi hafa farið fram fornleifauppgreftir á Palantínhæð. Á sínum tíma lét Ágústus gera þar uppgröft og fundust þar bronsaldarleifar í jörðu. Hann lýsti því yfir, sem nútíma uppgreftir hafa staðfest, að þar hefði verið hinn upprunalegi bær Rómar. Í dag er hæðin öll eitt stórt safn. 4. öldin f.Kr.. Aldir: 6. öldin f.Kr. - 5. öldin f.Kr. - 4. öldin f.Kr. - 3. öldin f.Kr. - 2. öldin f.Kr. 4. öldin fyrir Krists burð eða 4. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 400 f.Kr. til enda ársins 301 f.Kr. 5. öldin f.Kr.. Aldir: 7. öldin f.Kr. - 6. öldin f.Kr. - 5. öldin f.Kr. - 4. öldin f.Kr. - 3. öldin f.Kr. 5. öldin fyrir Krists burð eða 5. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 500 f.Kr. til enda ársins 401 f.Kr. Undanrenna. Undanrenna er mjólkurafurð. Hún er gerð með því að skilja fituna (rjómann) frá mjólkinni. Undanrenna er því í raun fitusnauð mjólk. Nafnið er þannig til komið að til forna voru rjómi og undanrenna aðskilin með því að láta mjólkina standa óhreyfða í íláti í nokkra klukkutíma. Þá settist rjóminn ofan á en undanrennan var látin renna undan honum um op á ílátinu. Parþía. Parþía (persneska: اشکانیان Ashkâniân) var menningarsamfélag sem átti upptök sín þar sem nú er norðvesturhluti Írans en sem á hátindi sínum náði yfir það svæði þar sem nú eru löndin Íran, Írak, Aserbaídsjan, Armenía, Georgía, austurhluti Tyrklands, austurhluti Sýrlands, Túrkmenistan, Afganistan, Tadsjikistan, Pakistan, Kúveit, Persaflóaströnd Sádí-Arabíu, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Stjórnendur Parþa voru Arsakídar sem sameinuðu og ríktu yfir Íranshásléttunni og tóku yfir eystri héruð Selevkídaveldisins í Litlu-Asíu. Þeir stjórnuðu Mesópótamíu með hléum frá því um 150 f.Kr. til 224 e.Kr. Parþar voru erkióvinir Rómverja í Asíu þar sem þeir stöðvuðu útbreiðslu Rómaveldis til austurs handan við Kappadókíu, aðallega vegna þess að þeir notuðust við þungvopnað riddaralið sem var nýjung í hernaði. Veldi Parþa stóð í fimm aldir, mun lengur en flest önnur heimsveldi Austurlanda nær. Upphaf þess má rekja til sjálfstæðisyfirlýsingar þeirra frá Selevkídaveldinu 238 f.Kr., þótt þeim tækist ekki að ná völdum í Íran fyrr en undir Míþrídatesi 1. Það leystist upp þegar persneskur uppreisnarkonungur, Adrasjír 1., stofnandi Sassanídaveldisins, náði Ktesifon á sitt vald árið 228 og gerði sóróisma að ríkistrú. Rómverskt skattland. Rómverskt skattland (latína: "provincia", ft. "provinciae") var stærsta stjórnsýslueining Rómaveldis utan við Appennínaskagann. Skattlöndum var venjulega stjórnað af fyrrum ræðismönnum eða pretorum sem síðar gátu vænst þess að fá sæti í öldungaráðinu. Undantekning frá þessu var gerð þegar Ágústus keisari gerði Egyptaland að rómversku skattlandi 30 f.Kr. og setti yfir það riddara. Á lýðveldistímanum var landstjóri skipaður yfir skattlandið til eins árs í senn. Venjulega var skattlöndum þar sem meiri vandræða var að vænta skipaður landstjóri með meiri reynslu. Dreifing herfylkja um skattlöndin fór líka eftir því hversu mikilla vandræða var að vænta þar. Fyrsta rómverska skattlandið var Sikiley 241 f.Kr. eftir að Rómverjar höfðu náð henni undir sig í Fyrsta púnverska stríðinu 264 - 241 f.Kr. Þegar Ágústus stofnaði "principatið" eftir borgarastyrjöldina, valdi hann sjálfur landstjóra yfir þau landamæralönd rómverska heimsveldisins sem voru hernaðarlega mikilvægust. Þannig urðu skattlönd á hernaðarlega mikilvægum stöðum (venjulega við landamæri ríkisins) að keisaralegum skattlöndum, en hin að skattlöndum öldungaráðsins. Fjöldi og stærð skattlandanna var breytilegur og háður stjórnmálavafstrinu í Róm. Á tímum keisaradæmisins var stærstu eða best vörðu skattlöndunum, eins og Pannóníu og Móesíu, skipt í nokkur minni skattlönd til að koma í veg fyrir að einn landstjóri fengi of mikil völd í hendur. Númidía. Kort sem sýnir hina sögulegu Númidíu. Númidía var fornt konungsríki Berba í Norður-Afríku í austurhluta þess sem nú er Alsír. Númidía varð rómverskt skattland á 1. öld f.Kr. með landamæri að Máretaníu í vestri, Afríku í austri, Miðjarðarhafinu í norðri og Sahara í suðri. Nafnið var fyrst notað um héruðin vestan við Karþagó af Pólýbíosi og fleiri sagnariturum á 3. öld f.Kr.. Barbaríið. Barbaríið, (e. The Barbary Coast / The Barbary) var hugtak sem Evrópubúar frá 16. - 19. öld notuðu yfir strandhéruð þess sem í dag eru löndin Marokkó, Alsír, Túnis og Líbýa fram á 19. öld. Nafnið er dregið af heiti Berba, íbúa Norður-Afríku. Enska hugtakið "Barbary" (og önnur afbrigði: Barbaria, Berbérie, o.fl.) átti við um öll Berber lönd, þar með talin héruð langt inn í landi. Þetta er greinilegt í landafræðilegum- og pólitískum kortum sem gefin voru út frá 17. – 20. öld. Nafnið er einkum notað í tengslum við þrælasölu og sjórán sem barbarískir sjóræningar og barbarískir þrælasalar stunduðu frá strönd Norður-Afríku. Þeir réðust á skip og byggð svæði við Miðjarðarhafið og Norður-Atlantshafið og tóku til fanga og seldu þræla eða vörur frá Evrópu, Ameríku og Afríku sunnan Sahara. Þrælarnir og vörurnar voru seld um allt Ottóman veldið eða til evrópubúa sjálfra. Föníka. Verslunarleiðir milli helstu borga Föníkumanna í Miðjarðarhafi. Föníka eða Fönikía var menningarsamfélag í fornöld sem átti uppruna sinn í norðurhluta Kananslands á ströndum þess sem nú er Líbanon. Föníka var sjóveldi og verslunarveldi sem stofnaði borgríki allt í kringum Miðjarðarhafið á 1. árþúsundi f.Kr. Föníkumenn kölluðu sjálfa sig líklega "kena'ani" ("kananíta") en nafnið Föníka hefur orðið almennt vegna þess að Grikkir kölluðu landið "Φοινίκη" („Foinike“) sem þeir fengu að láni úr fornegypsku "Fnkhw" („Sýrlendingar“). Gríska orðið var auk þess hljóðfræðilega líkt orðinu yfir blóðrauðan eða vínrauðan lit "φοῖνιξ" („foinix“ sbr fönix) og orðin urðu því samheiti vegna verslunar Föníkumanna með hinn eftirsótta týrosarrauða lit sem meðal annars er unninn úr kuðungum. Skip Föníkumanna sem voru undirstaða veldis þeirra voru stórar galeiður. Föníkumenn töluðu fönísku sem er semískt mál og þekkt af ristum á stein og málm. Vitað er að Föníkumenn skrifuðu bækur, en engar bækur á fönísku hafa varðveist. Föníska stafrófið notaði hljóðstafaletur og er talið forveri gríska stafrófsins, latneska stafrófsins og arabíska stafrófsins. Heimaland Föníkumanna í kringum borgirnar Byblos, Týros og Sídon á austurströnd Miðjarðarhafsins var hertekið af Assýringum, Babýlóníu og síðan Persum. Þegar hellenisminn kom upp í kjölfarið á landvinningum Alexanders mikla ruddu Grikkir Föníkumönnum úr vegi á verslunarleiðum um austurhluta Miðjarðarhafsins. Föníska borgin Karþagó í Norður-Afríku hélt þó áfram að blómstra þar til Rómverjar lögðu hana undir sig í lok Púnversku stríðanna 149 f.Kr. Þungvopnað riddaralið. Þungvopnað riddaralið á við um riddaralið búið þungum vopnum og brynjum, andstætt við léttvopnað riddaralið þar sem riddararnir bera tiltölulega létt vopn. Þungvopnað riddaralið var nær óhugsandi fyrir tíma hnakka og ístaða og er því yfirleitt talið upprunnið í Parþíu og Persíu Sassanída á 3. og 2. öld f.Kr. Í Rómversk-persnesku stríðunum frá 92 f.Kr. tóku Rómverjar mikið upp af persneskum siðum og þungvopnað rómverskt riddaralið var áfram hluti af Austrómverska hernum eftir „fall Rómaveldis“ 476. Þungvopnað og þungbrynjað riddaralið þróaðist sjálfstætt í Vestur-Evrópu á miðöldum sem staða í her sem væri við hæfi aðalsmanna (sbr. riddari). Riddaraliðinu var þá yfirleitt beitt síðast í orrustu í báðum herjum til að ryðja niður fótgönguliðum andstæðingsins, stökkva þeim á flótta og ná orrustuvellinum. Ókostir slíks liðs komu þó stundum berlega í ljós, eins og í orrustunni við Agincourt 1415 þegar þungvopnaðir franskir riddarar festust í leðjunni á orrustuvellinum og ensku bogaskytturnar áttu létt með að skjóta þá á færi eða drepa með handvopnum. Skriðdrekinn er stundum sagður vera beinn afkomandi þungvopnaðs riddaraliðs í nútímahernaði. Kappadókía. Kort sem sýnir staðsetningu Kappadókíu. Kappadókía (gríska: "Καππαδοκία"; tyrkneska: "Kapadokya" komið frá persnesku "Katpatuka" sem þýðir „land hinna fallegu hesta“) var stórt hérað inni í landi í Litlu-Asíu þar sem nú er Tyrkland. Í dag er nafnið Kappadókía aðallega notað í tenglsum við ferðamannaiðnað en það er gróflega sama svæði og Nevşehir-hérað. Kappadókía er þekkt fyrir mjög sérstakt landslag vegna sandsteins sem náttúrurof hefur verkað á og vegna neðanjarðarborga sem byggðar voru fyrir Krist. Saga. Á tímum Heródótosar bjuggu Kappadókar á öllu svæðinu frá Tárusfjöllum að Svartahafi. Nafnið kemur fyrst fyrir seint á 6. öld f.Kr. sem heiti á landi innan Persaveldis. Fyrir tíð Xenófóns (f. um 430 f.Kr. hafði Kappadókíu verið skipt upp í tvö landstjórnarumdæmi ("satrap") þar sem annað þeirra hét áfram Kappadókía en hitt fékk fyrst nafnið „Kappadókía í átt til Pontus“ sem síðan var stytt í „Pontus“. Þessi þrengri merking orðsins Kappadókía hefur síðan verið notuð. Á bronsöld var Kappadókía þekkt sem Hatti og var kjarnaland Hittíta. Þrátt fyrir fall veldis Hittíta og við útþenslu Persa og Grikkja náði landið að mestu að halda innlendum höfðingjum og var eins konar lénsveldi. Landið var að lokum gert að rómversku skattlandi á tímum Tíberíusar árið 17. Afríka (skattland). Afríka (latína: "Africa") var rómverskt skattland í Norður-Afríku og náði yfir það sem í dag heitir Túnis, auk hluta af Miðjarðarhafsströnd Líbýu. Umdæmið var enn stærra á tímum veldis Karþagóar sem stóð í því miðju. Heimsálfan Afríka heitir í höfuðið á héraðinu. Arabar nefndu síðar nokkurn vegin sama svæði Ifriqiya. Rómverska lýðveldið. Rómverska lýðveldið á tímum Júlíusar Caesars. Rómverska lýðveldið var tímabil í sögu Rómaveldis sem einkenndist af afar flóknu stjórnarfari sem skilgreint hefur verið sem lýðveldi. Ríkjandi valdastofnun innan lýðveldisins var rómverska öldungaráðið sem skipað var í af virtustu og ríkustu valdaættum Rómar. Lýðveldið hófst með falli konungdæmisins 510 f.Kr. og stóð þar til það breyttist, eftir röð af borgarastyrjöldum, í keisaradæmi á 1. öld f.Kr. Hvenær það gerðist er ekki alveg ljóst en algengt er að miða við annað hvort árið þegar Júlíus Caesar var kjörinn alræðismaður ævilangt 44 f.Kr., orrustuna við Actíum 31 f.Kr. eða árið 27 f.Kr. þegar öldungaráðið veitti Octavíanusi titilinn „Ágústus“. Saga. Rómverska lýðveldið var stofnað um 509 f.Kr., samkvæmt því sem seinni tíma höfundar á borð við Lívíus segja, eftir að Tarquinius drambláti, síðasti konungur Rómar, hafði verið hrakinn frá völdum. Rómverjar ákváðu þá að koma á kerfi þar sem valdhafarnir voru kjörnir í kosningum. Enn fremur voru ýmsar ráðgjafasamkundur og þing stofnaðar. Mikilvægustu embættismennirnir voru ræðismenn („konsúlar“), sem voru tveir og kjörnir til eins árs í senn. Þeir fóru með framkvæmdavaldið í formi "imperium" eða herstjórnar. Ræðismennirnir kepptu við öldungaráðið, sem var upphaflega ráðgjafasamkunda aðalsins, eða „patríseia“, en óx bæði að stærð og völdum er fram liðu stundir. Meðal annarra embættismanna lýðveldisins má nefna dómara ("praetor"), edíla og gjaldkera ("quaestor"). Í upphafi gátu einungis aðalsmenn gegnt embættum en seinna gat almúgafólk, eða plebeiar, einnig gegnt embættum. Rómverjar náðu hægt og bítandi völdum yfir öllum öðrum þjóðum á Ítalíu-skaganum, þar á meðal Etrúrum. Síðasta hindrunin í vegi fyrir algerum yfirráðum Rómverja á Ítalíu var gríska nýlendan Tarentum, sem leitaði aðstoðar hjá Pyrrhusi konungi frá Epírus árið 282 f.Kr., en mótstaðan var til einskis. Rómverjar tryggðu yfirráð sín með því að stofna eigin nýlendur á mikilvægum stöðum og héldu stöðugri stjórn sinni á svæðinu. Á síðari hluta 3. aldar f.Kr. kom til átaka milli Rómar og Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu af þremur. Í kjölfarið náði Róm tryggri fótfestu utan Ítalíu-skagans í fyrsta sinn, fyrst á Sikiley og Spáni en seinna víða annars staðar. Róm breyttist í stórveldi. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. urðu Rómverjar valdamesta þjóðin við Miðjarðarhafið. Yfirráð yfir fjarlægum þjóðum leiddi til deilna í Róm. Öldungaráðsmenn urðu ríkir á kostnað skattlandanna en hermenn, sem voru flestir smábændur, voru að heiman lengur og gátu ekki viðhaldið landi sínu. Enn fremur var æ meira um ódýrt vinnuafl í formi erlendra þræla sem vinnandi stéttum gekk erfiðlega að keppa við. Hagnaður af herfangi, kaupmennska í nýju skattlöndunum og skattlagning skóp ný tækifæri meðal lægri stétta en ríkir kaupmenn mynduðu nýja millistétt, riddarastétt. Riddarastéttin hafði meira fé milli handanna en var enn talin til plebeia og hafði þess vegna mjög takmörkuð pólitísk völd. Öldungaráðið kom ítrekað í veg fyrir mikilvægar umbætur í jarðamálum og neitaði að gefa riddarastéttinni eftir nein völd. Sumir öldungaráðsmenn komu sér upp sveitum ólátabelgja úr röðum atvinnulausra fátæklinga, sem þeir notuðu til að hrella pólitíska andstæðinga sína og hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Ástandið var sem verst seint á 2. öld f.Kr. á tímum Gracchusarbræðra, þeirra Gaiusar Gracchusar og Tíberíusar Gracchusar, sem reyndu að setja lög um endurskiptingu jarðnæðis í ríkiseigu handa plebeium. Báðir voru drepnir en öldungaráðið féllst um síðir á sumar af tillögum þeirra og reyndi þannig að lægja óánægjuöldur meðal lægri stéttanna. Bandamannastríðið svonefnda braust út árið 91 f.Kr. þegar bandamenn Rómverja á Ítalíuskaganum fengu ekki borgararéttindi. Það stóð til ársins 88 f.Kr.. Endurskipulagning Gaiusar Mariusar á rómverska hernum varð til þess að hermenn sýndu oft herforingja sínum meiri meiri tryggð en borginni. Valdamiklir herforingjar gátu náð kverkataki á bæði öldungaráðinu og borginni. Þetta leiddi til borgarastríðs milli Mariusar og Súllu sem endaði með einveldistíð Súllu 81-79 f.Kr. Um miðja 1. öld f.Kr. mynduðu þeir Júlíus Caesar, Pompeius og Crassus með sér leynilegt bandalag um stjórn ríkisins, hið svonefnda fyrra þremenningasamband. Þegar Caesar hafði náð Gallíu undir rómversk yfirráð leiddi árekstur milli hans og öldungaráðsins til annars borgarastríðs, þar sem Pompeius stjórnaði herjum öldungaráðsins. Caesar hafði sigur og var gerður einvaldur ("dictator") til lífstíðar. Árið 44 f.Kr. var Caesar ráðinn af dögum af hópi öldungaráðsmanna sem voru mótfallnir einveldi Caesars og vildu koma á löglegri stjórn að nýju. Það mistókst en í kjölfarið varð til síðara þremenningasambandið með samkomulagi milli Oktavíanusar, erfingja Caesars, og tveggja fyrrum stuðningsmanna Caesars, Marcusar Antoniusar og Lepidusar og skiptu þeir með sér völdunum. Þetta bandalag leystist fljótt upp og varð til þess að Oktavíanur og Marcus Antonius kepptust um völd. Þegar skarst í odda með þeim sigraði Oktavíanus Marcus Antonius og Kleópötru Egyptalandsdrottningu í orrustunni við Actíum árið 31 f.Kr. Í kjölfarið varð Oktavíanus óumdeildur valdhafi Rómar, og þótt að nafninu til hafi hann einungis gegnt ýmsum embættum rómverska lýðveldisins var hann þó í raun nokkurs konar einvaldur allt til æviloka. Hann hélt völdum í yfir fjóra áratugi og mótaði á þeim tíma vald keisarans. Venjan er að telja Oktavíanus fyrsta keisarann og miða upphaf keisaratíðar hans við árið 27 f.Kr. er samkomulag náðist milli hans og öldungaráðsins um völd hans en öldungaráðið veitti honum að því tilefni virðingarheitið Ágústus. Rómverska keisaradæmið. Rómverska keisaradæmið nefnist það tímabil í sögu Rómaveldis þegar keisarar voru þar æðstu ráðamenn. Keisaradæmið var þriðja og síðasta stjórnarfyrikomulagið sem Rómaveldi gekk í gegn um, á eftir konungdæminu og lýðveldinu. Ekki er hægt að staðfesta eitthvert eitt ártal sem upphaf keisaraveldisins en aðallega er miðað við tvö ártöl: 31 f. Kr., þegar orrustan við Actíum átti sér stað, og árið 27 f.Kr. þegar "Octavíanus" hlaut titilinn Ágústus. Á fjórðu öld, yfir nokkurt tímabil, skiptist svo keisaradæmið í tvennt, Vestrómverska keisaradæmið og Austrómverska keisaradæmið. Oftast er eru endalok Rómverska keisaradæmisins miðuð við árið 476, þegar Vestrómverska ríkið (sem var stjórnað frá Róm) leið undir lok. Þó er mikilvægt að hafa í huga að Austrómverska ríkið (sem var stjórnað frá Konstantínópel) hélt velli til ársins 1453. Nafnið „rómverska keisaradæmið“ er einnig notað yfir landsvæðið sem Rómaveldi náði yfir þegar keisaraveldið var við lýði. Þegar það var stærst, náði það frá þar sem er í dag Skotland í norðri suður yfir alla Norður-Afríku. Vestast náði það á Íberíuskaga og að Persaflóa í austri. Í Rómverska keisaradæminu aðhylltist fólk framan af rómverska goðafræði en Konstantínus mikli keisari tók kristni og gerði hana árið 313 að „leyfðri trú“ í Rómaveldi. Upp frá því breiddist kristni út um allt ríkið og varð algengasta trúin. Principatið. Árið 31 f.Kr. sigraði Octavíanus Markús Antóníus og Kleópötru í orrustunni við Actíum og batt þar með enda á borgarastyrjöld sem geisað hafði á síðustu áratugum lýðveldisins. Með sigrinum tryggði hann sér öll völd í Rómaveldi en varðveitti þó ásýnd lýðveldisins út á við. Octavíanus hlaut virðingarheitið Ágústus frá öldungaráðinu og í stað þess að titla sig konung eða einvald kaus Ágústus að nota titilinn "princeps", sem þýða má sem „fremstur meðal jafningja“. Það valdakerfi sem Ágústus bjó til hefur því verið kallað principatið. Tíberíus, stjúpsonur Ágústusar, tók við af honum og í kjölfarið komu Calígúla, Cládíus og Neró. Þeir voru allir af júlísku-cládísku ættinni, eins og Ágústus. Neró framdi sjálfsmorð árið 68 án þess að eiga erfingja og í kjölfarið hófst tímabil átaka um völdin, sem kallað hefur verið ár keisaranna fjögurra. a>, eða flavíska hringleikahúsið, var byggt á valdatíma flavísku ættarinnar Vespasíanus stóð að lokum uppi sem sigurvegari í baráttunni um keisaratignina og þar með hófst valdatími flavísku ættarinnar. Synir Vespasíanusar, Títus og Dómitíanus, urðu báðir keisarar að föður sínum látnum. Á valdatíma flavísku ættarinnar var hringleikahúsið Colosseum byggt en einnig varð eldgos í Vesúvíusi, sem lagði m.a. borgirnar Pompeii og Herculaneum í rúst. Á eftir Dómitíanusi komst Nerva til valda, fyrsti keisarinn af ætt sem stundum er kölluð nervu-antónínusar ættin. Eftirmaður Nervu var Trajanus, einn frægasti og sigursælasti keisari Rómaveldis. Á hans valdatíma náði ríkið mestri útbreiðslu. Friður ríkti að mestu á valdatíma næstu tveggja keisara; Hadríanusar og Antónínusar Píusar. Markús Árelíus tók við af Antónínusi Píusi og þurfti að verja ríkið gegn mörgum árásum germanskra þjóðflokka. Sonur Markúsar, Commodus, var óvinsæll og var myrtur. Septimius Severus komst til valda eftir mikil átök í kjölfar dauða Commodusar. Með Severusi hófst tími severísku ættarinnar. Caracalla, sonur Severusar, gaf öllum íbúum Rómaveldis fullan ríkisborgararétt, sem áður hafði aðeins verið fyrir íbúa Ítalíuskagans. Elagabalus og Alexander Severus voru tveir síðustu keisararnir af severísku ættinni og við dauða Alexanders Severusar árið 235 er oft miðað við að principatið hafi liðið undir lok, því í kjölfarið hófst mikið hnignunarskeið. 3. aldar kreppan. Á árunum 235 – 284 komust fjölmargir menn til valda, flestir fyrir tilstilli herdeilda sem lýstu þá keisara vegna óánægju með þáverandi keisara. Afleiðing þessa var sú að margir keisarar ríktu aðeins í stuttan tíma og margir keisarar voru vanhæfir. Efnahagur ríkisins fór versnandi á þessu tímabili og myntin varð stöðugt verðminni. Á valdatíma Filipusar araba var engu að síður fagnað með mikilfenglegum hátíðarhöldum í tilefni af þúsund ára afmæli goðsögulegrar stofnunar Rómarborgar. Gallienus var einn fárra keisara, á þessu tímabili, sem náði að halda völdum í langan tíma eða frá 253 til 268. Engu að síður urðu til tvö klofningsríki úr Rómaveldi á hans valdatíma; Gallíska keisaradæmið og Palmýríska keisaradæmið. Nokkrir hæfir herstjórar komust til valda í kjölfarið, sem náðu að bjarga ríkinu frá hruni. Á meðal þeirra voru Claudius 2., Aurelianus (sem sameinaði allt heimsveldið að nýju) og Probus. Þessir keisarar náðu þó ekki að halda völdum í langan tíma og því telst kreppunni ekki hafa verið lokið fyrr en árið 284 þegar Diocletianus komst til valda. Dóminatið. Þegar Diocletianus tók við keisaratigninni hóf hann að endurskipuleggja ríkið á margvíslegan máta, m.a. með því að skipa þrjá keisara til viðbótar við sig og skapa þannig stjórnkerfi sem kallað hefur verið fjórveldisstjórnin. Diocletianus kaus að láta kalla sig "dominus" (herra) í staðinn fyrir princeps. Þess vegna, og vegna hinna miklu kerfisbreytinga og umbóta sem hann stóð fyrir, er gjarnan álitið að nýtt tímabil hafi hafist með honum sem kallað hefur verið Dóminatið. Diocletianus sagði af sér keisaratigninni árið 305 og fljótlega eftir það fór stjórnskipun hans að riða til falls. Stríð á milli þeirra sem gerðu tilkall til keisaratitils urðu algeng á næstu árum en að lokum stóð Konstantínus mikli uppi sem sigurvegari, árið 324, og varð þá keisari yfir öllu Rómaveldi. Konstantínus var fyrsti kristni keisarinn og gerði hann trúnna leyfilega í heimsveldinu árið 313. Þrír synir Konstantínusar tóku við völdum að honum látnum og voru þeir einnig allir kristnir. Frændi Konstantínusar, Julianus, varð keisari árið 361 og var hann síðasti keisarinn sem aðhylltist hinum hefðbundnu rómversku trúarbrögðum. Hann reyndi að endurvekja þessi trúarbrögð sem mikilvægustu trúnna í Rómaveldi en hann féll í herleiðangri í Persíu árið 363 og eftir það var kristni ríkjandi trú. Valentinianus 1. og Valens voru bræður sem komust til valda árið 364 og voru fyrstu keisararnir af valentínsku ættinni. Valens var keisari í austurhluta Rómaveldis og átti þar í átökum við Gota. Gotarnir fengu leyfi til að setjast að innan landamæra Rómaveldis en þeir gerðu fljótlega uppreisn og Valens mætti þeim í orrustu við Adrianopel árið 378. Útkoma orrustunnar var einn versti ósigur Rómaveldis frá upphafi, þar sem mörg þúsund Rómverjar féllu, þ.á.m. Valens sjálfur. Talið er að ósigurinn hafi átt stóran þátt í hnignun ríkisins. Theodosius 1. var síðasti keisarinn til þess að ríkja yfir öllu heimsveldinu því þegar hann lést árið 395 var Rómaveldi skipt í austur og vestur og synir hans tveir urðu keisarar, hvor yfir sínum helmingi ríkisins. Vestrómverska ríkið átti ætíð í vök að verjast gegn innrásum frá germönskum þjóðflokkum. Innrásirnar urðu sífellt algengari og urðu að lokum óviðráðanlegar fyrir her ríkisins. Völd keisaranna fóru dvínandi eftir því sem leið á 5. öldina og germanir fóru að setjast að á svæðum innan landamæra ríkisins, þar sem þeir tóku svo völdin í sínar hendur. Romulus Augustus var síðasti vestrómverski keisarinn, en hann var að lokum neyddur til þess að segja af sér árið 476, af germanska hershöfðingjanum Odoacer, og teljast það vera endalok Vestrómverska ríkisins. Austrómverska ríkið, aftur á móti, stóð af sér árásir germananna og stóð þúsund árum lengur, eða til ársins 1453. Síðfornöld. Gæðingar Honoríusar keisara eftir John William Waterhouse 1883. Síðfornöld er sögulegt tímabil sem nær gróflega frá um 300 til um 600 og á við um millibilið milli klassískrar fornaldar og miðalda í Evrópu. Tímabilið miðast við annars vegar hnignun vestrómverska ríkisins á 3. öld og hins vegar landvinninga múslima á 7. öld. Tímabilið nær þannig yfir þjóðflutningatímabilið og innrásir Húna. Tímabilið ármiðaldir nær frá því um 500 til um 1000 og fellur því að hluta saman við þetta tímabil. Með notkun hugtaksins síðfornöld er lögð áhersla á samfelluna frá klassískri fornöld til miðalda. Þetta tímabil einkenndist af mikilli útbreiðslu abrahamískra trúarbragða: kristni og gyðingdóms og að lokum íslam. Makedónía (skattland). Makedónía sýnd á korti yfir rómversk skattlönd um 120. Makedónía (latína: "Macedonia") var stórt rómverskt skattland formlega sett á laggirnar árið 146 f.Kr. eftir að rómverski herforinginn Quintus Caecilius Metellus sigraði Andriskos konung Makedóníu. Skattlandið náði yfir Epírus Vetus, Þessalíu og hluta Illyríu og Þrakíu. Á 3. eða 4. öld var skattlandinu skipt í "Macedonia Prima" (suðurhlutinn) og "Macedonia Salutaris" (norðurhlutinn). Léttvopnað riddaralið. Léttvopnað riddaralið er riddaralið sem ber létt vopn og verjur, andstætt við þungvopnað riddaralið sem kom fyrst til sögunnar með hnakk og ístöðum. Léttvopnað riddaralið var lítið notað af Grikkjum og Rómverjum en var meginuppistaðan í herjum hirðingja Mið-Asíu; Húna, Tyrkja og Mongóla sem gátu t.d. beitt boga af hestbaki. Aðalkosturinn við léttvopnað riddaralið er hraði og hreyfanleiki. Þegar tími riddara rann sitt skeið á enda við lok miðalda hófst aftur notkun léttvopnaðs riddaraliðs í Evrópu. Húsarar voru upphaflega þungvopnað riddaralið sem í Vestur-Evrópu þróuðust út í léttvopnað riddaralið á 17. öld, og dragónar voru fótgönguliðar með byssur sem ferðuðust milli orrusta á hestbaki og voru einnig notaðir til njósna, rána og annarra verka þar sem hraði skipti máli. Rómverska konungdæmið. Rómverska konungdæmið er tímabil í sögu Rómaveldis þegar því var stjórnað af konungi. Það nær frá stofnun Rómar sem venjulega er tímasett 753 f.Kr. þar til síðasti konungurinn Lúcíus Tarquíníus Superbus var hrakinn á brott og rómverska lýðveldið stofnað 510 f.Kr. Læknisfræði. Læknisfræði er sú fræðigrein sem fjallar um lækningar og viðbrögð við sjúkdómum. Í víðum skilningi orðsins eru nokkrar starfsstéttir sem starfa að lækningum, svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, lyfjafræðingar og sjúkraþjálfar. Oft er orðið þó notað til að fjalla sérstaklega um þann þátt lækninga sem er á herðum lækna. Elstu heimildir um lækningar fjalla um notkun á ýmsum plöntum og líffærum dýra til að lina þjáningar og bæta líðan. Oft á tíðum voru þessi not nátengd göldrum, eins og orðið galdralæknir gefur til kynna. Smátt og smátt þróaðist læknisfræðin og aðferðir lækna þróuðust í átt að hinni vísindalegu aðferð. Það olli kaflaskilum í þróun læknisfræðinnar þegar menn uppgötvuðu að gerlar orsökuðu sjúkdóma og tóku að nota sótthreinsun í skurðaðgerðum, við barnsburð og fleiri tilefni þar sem hætta á sýkingu er mikil. Penisillín og fleiri sýklalyf gerðu síðan meðferð smitsjúkdóma miklum mun skilvirkari og björguðu mörgum mannslífum. Nýlegar framfarir í læknisfræði hafa í auknum mæli byggst á notkun erfðafræði. Ptolemajaríkið. a> eftir lát Alexanders. Ptólemajaríkið er sýnt með bláum lit. Ptolemajaríkið var hellenískt ættarveldi sem ríkti yfir Egyptalandi frá 305 f.Kr. til 30 f.Kr.. Stofnandi þess, Ptolemajos, var makedónskur herforingi í her Alexanders mikla og varð landstjóri ("satrap") í Egyptalandi eftir dauða hans. 305 f.Kr. lýsti hann sig konung Egyptalands og Egyptar tóku Ptolemajum brátt sem arftökum faraóanna. Ætt Ptolemaja ríkti yfir Egyptalandi þar til Rómverjar lögðu það undir sig 30 f.Kr. Allir karlkyns konungar tóku sér nafnið Ptolemajos. Drottningar Ptolemaja, sem stundum voru systur eiginmanna sinna, hétu yfirleitt Kleópatra, Bereníke eða Arsinóe. Frægasti Ptolemajinn var síðasta drottningin, Kleópatra (7.), sem varð þekkt fyrir afskipti sín af átökum, fyrst Caesars og Pompeiusar, og síðan Octavíanusar og Marcúsar Antoníusar. Einfaldað ættartré. Sum af ættartengslunum sem sýnd eru í þessu tré eru umdeild. Kaupfélag Eyfirðinga. Kaupfélag Eyfirðinga, best þekkt undir skammstöfuninni KEA, er íslenskt fyrirtæki sem stofnað var 1886 sem kaupfélag. Félagið var á tímabili stærsti atvinnuveitandi á Norðurlandi en má muna sinn fífil fegurri. Í dag starfar KEA sem fjárfestingarfélag sem öðrum þræði vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu. Kaupfélag Eyfirðinga var stofnað þann 19. júní 1886 á Grund í Eyjafirði. Kom þar saman hópur manna og stofnaði Pöntunarfélag Eyjafjarðar, en hálfu ári síðar var nafninu breytt í Kaupfélag Eyfirðinga. Upphaflegur tilgangur félagsins, líkt og annarra kaupfélaga, var að útvega félagsmönnum vörur á hagstæðu verði. Á árunum eftir heimsstyrjöldina fyrri byggði KEA verslunarhús, sláturhús, mjólkurvinnslustöðvar og frystihús til frystingar á kjöti til útflutnings. Á fimmtíu ára afmæli KEA, 1936, voru félagsmenn um 2400, þar af var fjórðungur frá Akureyri. Þá sneri félagið sér að sjávarútvegi og stofnaði Útgerðarfélag KEA og gerði út skip. Kaupfélag Eyfirðinga tók þátt í að stofna ESSO á Íslandi, Olíufélagið hf. árið 1946. Upphaflegt hlutafé Olíufélagsins hf. var 850.000 kr en KEA lagði til 195.000 kr því og var næst stærsti stofnhluthafi á eftir SÍS. Kaupfélagið kallast KEA í daglegu tali, sem er skammstöfun á „Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyri“ eða „Kaupfélag Eyfirðinga og Akureyrar“. KEA hefur breyst frá því að vera hefðbundið kaupfélag, yfir í að vera fjárfestingarfélag. Það er þó ennþá samvinnufélag og gengur undir nafninu Kaupfélag Eyfirðinga svf., en er enn kallað KEA. Í febrúar 2005 kom það að stofnun félagsins Norðurvegar með það að markmiði að „sem fyrst verði ráðist í nauðsynlegar undirbúningsathuganir vegna vegagerðar um Kjöl með það að markmiði að tengja Norður- og Suðurland.“ Danny Elfman. Daniel Robert Elfman (fæddur 29. maí 1953), oftar kallaður Danny Elfman, er bandarískur tónlistarmaður. Hann var í hljómsveitinni Oingo Boingo á níunda áratuginum en er í dag eitt eftirsóttasta kvikmyndatónskáldið í Hollywood. Hann hóf feril sinn í kvikmyndatónlist þegar hann samdi tónlistina við fyrstu kvikmynd Tims Burton í fullri lengd, Pee-wee's Big Adventure. Síðan þá hefur hann samið tónlistina við allar myndir Burtons nema Ed Wood. Einnig hefur hann sungið nokkur hlutverk í myndum eftir Burton, meðal annars aðalpersónuna í The Nightmare Before Christmas, Jack Skellington og Úmpalúmpana í Kalla og sælgætisgerðinni. Þar að auki er hann einkum þekktur fyrir að hafa samið upphafslög ýmissa þátta, svo sem The Simpsons og Desperate Housewives. Þó er rétt að taka fram að hann hefur samið mun meira, bæði af kvikmyndatónlist og sjónvarpsþáttalögum. Vestnorræna ráðið. Vestnorræna ráðið er samstarfsráð þinga og ríkisstjórna Færeyja, Grænlands og Ísland sem stofnað árið 1985. Ráðið skipa 6 fulltrúar frá hverju landi (18 alls) sem tilnefndir eru af viðkomandi þingum. Ráðið heldur árlega aðalfundi til skiptis í löndunum þremur sem fara með æðsta ákvörðunarvald í málum þess. Framkvæmd og skipulag samstarfsins á milli aðalfunda er í höndum þriggja manna forsætisnefndar sem skipuð er einum fulltrúa frá hverju landi, einn þeirra telst formaður ráðsins. Núverandi formaður er Jonathan Motzfeldt. Meðlimir Vestnorræna ráðsins eru einnig í Norðurlandaráðinu en samtökin eru ótengd þrátt fyrir að þau eigi nokkuð samstarf sín á milli. Ólafur Björnsson. Ólafur Björnsson (2. febrúar 1912 – 22. febrúar 1999) var prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og höfundur fjöldamargra bóka og rita um hagfræði. Ólafur hneigðist sterklega að frjálshyggju og var lítt hrifinn af ríkisafskiptum. Ævi. Ólafur fæddist í Hjarðarholti í Dölum, faðir hans var séra Björn Stefánsson og móðir hans Guðrún Ólafsdóttir. Ólafur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1931, nam lögfræði í eitt ár við Háskóla Íslands því næst en hélt síðan til Kaupmannahafnar þaðan sem hann lauk háskólanámi í hagfræði 1938. Hann kenndi við viðskipta- og lagadeild Háskóla Íslands sem dósent á árunum 1942-1948, þaðan af sem prófessor allt fram að 1982. Hann kenndi einnig stundakennslu við Verslunarskóla Íslands á árunum 1948—1967. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur árin 1950-58 og á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1956-71. Formaður BSRB 1948-1956. Formaður Íslandsdeildar norrænu menningarmálanefndarinnar frá 1953 og formaður nefndarinnar í heild 1961 auk þess sat hann á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1967. Ólafur átti sæti í fjölmörgum opinberum nefndum og ráðum í gegnum tíðina, m.a. í undirbúningsnefndum mikilvægra lagafrumvarpa og í milliþinganefndum. Eftir hann liggja ótal ritverk í fræðigrein hans, þjóðhagfræði, og á tengdum sviðum auk þess sem hann hefur þýtt kunn fræðirit erlendra höfunda. Eitt þekktasta verk hans er „Þjóðarbúskapur Íslendinga“, sem hefur birst í tveim útgáfum, og er það grundvallarrit á sínu sviði. Ólafur hreifst sérstaklega af kenningum Friedrich von Hayeks og þýddi kafla úr bók hans "Leiðin til ánauðar". Árið 1986 var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í tilefni 75 ára afmælishátíðar Háskóla Íslands. Hann giftist Guðrúnu Aradóttur og eignaðist með henni þrjá syni: Ara Helga (1946), Björn Gunnar (1949) og Örnólf Jónas (1951). Listasafn Reykjavíkur. Listasafn Reykjavíkur samanstendur af þremur útibúum í borginni; Ásmundarsafni við Sigtún, Hafnarhúsi við Tryggvagötu og Kjarvalsstöðum við Flókagötu. Listasafn Reykjavíkur varðveitir listaverkaeign Reykjavíkurborgar. Listaverkaeignin samanstendur af sérsöfnum listaverka sem eru merkt Ásmundi Sveinssyni, Erró og Jóhannesi S. Kjarval, byggingarlistarsafni og almennri listaverkaeign borgarinnar, þ.m.t. útilistaverkum.. Þar að auki eru oft settar upp í því sérstakar sýningar á öðrum verkum. Í daglegu tali er listasafnið í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu nefnt Listasafn Reykjavíkur, þar eru staðsettar aðalskrifstofur Listasafns Reykjavíkur. Það var opnað árið 2000. Bandýmannafélagið Viktor. Bandýmannafélagið Viktor var stofnað 4. apríl 2004 sem bandýfélag með heimili og varnarþing í Reykjavík. Stofnfélagar voru fimm, allt þáverandi nemendur í MR. Stjórnkerfi þess er sérstakt og fara svokallaðir bandýmenn með öll völd innan félagsins. Leiðtogi þess ber titilinn kafteinn. Bandýmannafélagið Viktor vann Íslandsmeistaratitilinn í bandý 2004, 2005 og 2009. Stofnun Rómar. Úlfynjan gefur tvíburunum Rómúlusi og Remusi sem síðar stofnuðu Róm samkvæmt einni arfsögn. Stofnun Rómar er venjulega sögð hafa átt sér stað 21. apríl árið 753 f.Kr. Þess dagsetningu má rekja til rómverska fræðimannsins Marcusar Terentiusar Varros en hún festist í sessi á valdatíma Ágústusar keisara. Einstaka rómverskir sagnaritarar notuðu síðan þennan atburð ("ab urbe condita", þ.e. "frá stofnun borgarinnar") sem viðmiðun en flestir nefndu ártalið eftir ræðismönnunum sem voru við völd hverju sinni. Goðsögulegt upphaf borgarinnar. Til eru nokkrar sagnir um stofnun Rómar, sú þekktasta er líklega sagan af tvíburunum Rómúlusi og Remusi. Samkvæmt henni ríkti konungurinn Numitor í borginni Alba Longa í Latíum. Bróðir hans, Amulius, hrakti hann frá völdum og gerði bróðurdóttur sína, Rheu Silviu, að vestumey. En guðinn Mars nauðgaði henni og hún ól tvíbura, Rómúlus og Remus. Numitor lét bera þá út og var þeim kastað í ána Tíber. Þá bar að bakka þar sem Róm reis síðar og þar fann þá úlfynja sem nærði þá. Síðar fann hjarðmaður þá hjá úlfynjunni, tók þá og ól þá upp. Þegar drengirnir voru fullvaxta sneru þeir aftur til Alba Longa til að leita hefnda. Þeir boluðu burt Amulusi frænda sínum og komu afa sínum, Numitor, aftur til valda. Þá hugðust þeir stofna eigin borg. Þeir hófust handa við að reisa borgarveggi á Palatínhæð, sem er ein af sjö hæðum Rómar. Remus hæddist að vegg Rómúlusar sem vóg þá bróður sinn. Borgin var svo nefnd eftir Rómúlusi einum. Borgina skorti konur en sagan hermir íbúarnir hafi brugðið á það ráð að bjóða nágrönnum sínum Sabínum til veislu en hafi svo stolið ungmeyjum þeirra. Þannig hafi Rómverjar og Sabínar að endingu orðið að einni þjóð. Seinna varð einnig vinsæl sú saga að Rómverjar væru afkomendur Tróverja. Þá var sagt að Rómúlus og Remus væru afkomendur Eneasar frá Tróju sem flúði brennandi borgina eftir að hún féll með föður sinn Ankíses á bakinu og soninn Askaníus sér við hlið. Askaníus nefndist einnig Júlus og var sagt að frá honum væri komin júlíska ættin sem Júlíus Caesar og Ágústus keisari tilheyrðu. Eneas á að hafa komið til Latíum og hitt þar konunginn Latínus, heillast af Laviniu dóttur hans og gengið að eiga hana eftir að hann hafði sigrað heitmann hennar, Túrnus, í stríði. Hann stofnaði þá borgina Lavinium en Askaníus mun hafa stofnað borgina Alba Longa þar sem Numitor ríkti síðar, tólfti konungurinn í röðinni. Þannig var bilið brúað milli falls Tróju og stofnunar Rómaborgar. Enn aðrar sögur gerðu Rómverja að afkomendum Rhómosar, sem á að hafa verið sonur Ódysseifs og Kirku, en sagan um Eneas varð ríkjandi á 3. öld f.Kr. og fæstar aðrar sögur náðu mikilli útbreiðslu. Um goðsögulegt upphaf Rómar má lesa hjá ýmsum fornum höfundum, m.a. hjá Lívíusi. Sagan um Eneas frá Tróju, forföður Rómúlusar og Remusar, sem kom til Latíum og stofnaði þar konungsríki er sennilega frægust úr "Eneasarkviðu" Virgils. Fornleifar. Fornleifarannsóknir á Palatínhæð gefa vísbendingar um að þar hafi verið reistur bær um miðja 8. öld f.Kr. Þó er ljóst að dreifð byggð var á svæðinu þar sem Rómaborg reis síðar allt frá því seint á bronsöld eða um 1200 – 1000 f.Kr. Um miðja 8. öld f.Kr. virðist þó hafa átt sér stað mikilvæg þróun í átt að borgarmyndun. Dreifð þorp bænda, sem töluðu indóevrópskt mál, virðast hafa vaxið saman og myndað eitt þéttbýlissvæði sem þakti einnig láglendið milli hæðanna. Um 625 f.Kr. var Róm orðinn að nokkuð stórri borg á mælikvarða síns tíma. Enda þótt sögur um kongunga Rómar á 8. og 7. öld f.Kr. séu óáreiðanlegar benda fornleifar til þess að Róm hafi verið konungsveldi á 6. öld f.Kr. áður en stofnað var lýðveldi. Meðal annars hafa fundist áhöld merkt konungi ("rex") á Palatínhæð. Í rústum etrúrskra borga frá 4. öld f.Kr. hafa einnig fundist áletranir á vegg sem eru að því er virðist óháðar rómversku hefðinni. Þær geta um Gneve Tarchu Rumach (Gnaeus Tarquinius frá Róm) en sagan segir að tveir af þremur síðustu konungum Rómar hafi heitið Lucius Tarquinius Priscus og Lucius Tarquinius Superbus. Þar er einnig að finna nafnið Caile Vipinas en sagan segir að Caelius Vibenna hafi verið vinur Serviusar Tulliusar, næstsíðasta konungs Rómar. Rómverska öldungaráðið. Rómverska öldungaráðið (latína: "Senatus") var aðal þing Rómaveldis, bæði á lýðveldistímanum (sem hófst árið 513 f. Kr.) og í keisaradæminu (sem hætti að vera til á 6. öld). Sagt var að öldungaráðið hefði verið stofnað af Rómúlusi, stofnenda Rómarborgar í goðafræðinni, sem ráðgjafarráð með 100 höfuðum fjölskyldna í borginni, svokölluðum "patres" (feðrum). Þegar lýðveldið komst á var fjöldi öldungaráðsmanna aukinn upp í 300. Skýr greinarmunur var gerður á öldungarráðsmönnum, eins og sjá má af slagorði Rómaveldis, SPQR, þar sem S-ið stendur fyrir "senetus" (öldungaráðið) en P-ið fyrir "populus" eða "populusque" (fólkið). Þó svo að öldungaráðið hafi aldrei farið með löggjafarvald hafði það mikil áhrif í Rómaveldi. Það réð í ýmsar af helstu stöðum ríkisins og fór með mikið vald innan borgarinnar sjálfrar. Þar að auki var það öldungaráðið sem gat lýst yfir stríði. Líkt og önnur þing Rómverja fóru fundir þess alltaf fram í hofum. Vanalega var það Curia Hostilia en á nýársdag var fundað í hofi Júpíters Optimusar Maximus og fundir um málefni stríðs fóru fram í hofi Bellona. Trúarathafnir voru einnig nauðsynlegar áður en þingfundur gat átt sér stað. Eftir rómverska öldungaráðinu eru efri deildir margra þinga kenndar. Þá er oftast notuð staðfærð útgáfa latneska heitisins senatus. Á íslensku er þó vaninn að þýða orðið og tala um öldungadeild. Orðið deild er þá notað þar sem um er að ræða þingdeild, ekki ráð, líkt og var í Róm. Dæmi um þetta eru efri deildir þinga Bandaríkjanna (senate), Ítalíu (senato) og Mexíkó (senado). Hugræn sálfræði. Hugræn sálfræði fjallar um sálræna þætti hegðunar, hugsun, rökhugsun, ákvarðanatöku og að einhverju leyti hvatir og tilfinningalíf. Einkum er minni, athygli, upplifanir, sköpunargáfa, birting þekkingar og verkefnalausnir skoðað. Hugrænir sálfræðingar nota vísindalegar aðferðir við rannsóknir sínar og hafna yfirleitt aðferðum eins og sjálfsskoðun. Mannþáttafræði. Mannþáttafræði er samheiti yfir nokkur svið þar sem hugað er að vinnuumhverfi fólks, en aðallega notkun fólks á tækjum, tólum og ferlum. Mannaþáttafræðingar geta haft margs konar bakgrunn, t.d. sálfræði, tölvunarfræði eða verkfræði. Líffræðileg sálfræði. Líffræðileg sálfræði fæst við rannsóknir á líffræðilegum undirstöðum hegðunar og hugarstarfs. Rannsóknir eru meðal annars gerðar með því að áreita taugakerfi mannslíkamanns á ákveðinn hátt og rannsaka viðbrögðin, en til þessarra rannsókna er notast við tækni sem mælir virkni taugakerfisins (t.d. fMRI, EEG og MEG). Einnig eru stundaðar rannsóknir á erfðum og áhrifum þeirra á líkindi þess að fá sjúkdóma. Menn stunda einnig rannsóknir á þeim sem hafa verið ættleiddir inn í aðra fjölskyldu til að finna hversu mikið erfðir annars vegar og umhverfi hins vegar hafa að segja í því að fá tiltekinn sjúkdóm. Viðfangsefni líffræðilegrar sálfræði eru mjög svipuð viðfangsefnum taugavísinda, og því er erfitt að segja til um hvort um sömu grein er að ræða eða að lífræðileg sálfræði sé undirgrein taugavísinda. Elgur. Elgur (fræðiheiti: "Alces alces") er stórt hjartardýr sem lifir í skógum um allt norðurhvelið, frá Noregi til Kanada. Elgurinn er stærsta hjartardýrið og er einkennisdýr í mörgum norðlægum héruðum í Noregi, Svíþjóð, Rússlandi, Bandaríkjunum (Alaska) og Kanada. Þeir lifa einkum á laufi birkis og víðis, smágreinum, könglum og trjáberki en geta ekki bitið gras eða mosa á jörðu niðri vegna þess hve þeir eru hálsstuttir. Hjartardýr. Hjartardýr (fræðiheiti: "Cervidae") eru ætt jórturdýra af ættbálki klaufdýra. Nokkur dýr, sem svipar til hjartardýra í útliti, en tilheyra öðrum skyldum ættum, eru stundum kölluð hirtir. Karldýrin eru almennt kölluð hjörtur eða naut, kvendýrin hind eða kýr og afkvæmin kálfar. Námssálfræði. Námssálfræði fæst við nám fólks í skólum eða öðrum sambærilegum aðstæðum, athuganir á hversu mikið breytingar á námshögum gagnast, og nám út frá sálfræðilegu sjónarhorni. Einnig eru skólar rannsakaðir út frá félagssálfræðilegu sjónarhorni. Pompeius. Gnajus Pompeius mikli (latína: CN·POMPEIVS·CN·F·SEX·N·MAGNVS, Gnaeus eða Cnaeus Pompeius Magnus) (29. september 106 f.Kr. – 29. september 48 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og herforingi, sem í bandalagi við Júlíus Caesar og Markús Crassus myndaði þrístjóraveldið fyrra. Eftir lát Crassusar stríddu Pompeius og Caesar um völdin og enduðu þau átök með sigri Caesars, sem varð einvaldur yfir Rómaveldi, en Pompeius flúði til Egyptalands, þar sem hann var síðar myrtur. Taugasálfræði. Innan taugasálfræði er rannsakað á vísindalegan hátt hvernig uppbygging og virkni mannsheilans tengjast ákveðnum ferlum í honum, t.d. ferlum tengdum minni, tungumálum og skynjun. Taugasálfræði hefur sterk tengsl við aðrar greinar, t.d. taugavísindi, heimspeki, geðlæknisfræði og tölvunarfræði. Taugasálfræði er bæði fræðileg og hagnýtt. Fræðilegar rannsóknir eru gerðar á heilbrigðu fólki en einnig á fólki sem hefur orðið fyrir heilaskaða, og stundum eru gerðar rannsóknir á dýrum. Rannsóknir eru einnig gerðar í tölvu, þar sem eru búin til einföld módel af tauganetum og reynt að herma eftir ferlum sem eiga sér stað í heilanum. Hagnýtingin á sér stað m.a. með því að nýta fræðilega þekkingu í þágu þeirra sem hafa orðið fyrir heilaskaða. Klínísk sálfræði. Í augum flestra er klínísk sálfræði hin dæmigerða sálfræði. Klínískir sálfræðingar fást við greiningu og meðferð tilfinninga- og hegðunarvandamála, svo sem geðsjúkdóma, geðraskana, unglingavandamála, missætti innan fjölskyldna og margra annarra vandamála. Klínísk sálfræði byggist á að nýta lögmál sálfræðinnar við að greina og vinna á vandamálum; margar stefnur eru í gangi innan klínísku sálfræðinnar og er mismunandi hvaða aðferðum sálfræðingar beita við að leysa vandamál fólks. Oft vinna þeir í samstarfi við geðlækna og/eða aðra sálfræðinga við að finna lausnir að vandamálunum. En þó klínískir sálfræðingar læri mikið um lyf, þá mega þeir í flestum löndum ekki skrifa uppá þau, það fellur í hlut geðlækna. Klínískir sálfræðingar vinna á mörgum vettvöngum, svo sem á geðsjúkrahúsum, í fangelsum og meðal unglinga en oft vinna þeir sjálfstætt. Beatrix Hollandsdrottning. Beatrix Wilhelmina Armgard (fædd 31. janúar 1938) var drottning Hollands og gegndi embættinu frá 30. apríl 1980, þegar móðir hennar, Júlíana drottning, eftirlét henni krúnuna, og til 30. apríl 2013, þegar elsti sonur hennar, Vilhjálmur Alexander, tók við. Þegar Beatrix var ung stúlka flúði hún land ásamt móður sinni og systur þegar Þjóðverjar tóku Holland í seinni heimsstyrjöldinni, fyrst til Bretlands árið 1940 og síðar til Ottawa í Kanada. Fjölskylda. Árið 1965 trúlofaðist Beatrix þýskum manni að nafni Claus van Amsberg (f. 6. september 1926, d. 6. október 2002). Val hennar á eiginmanni var umdeilt og olli miklum mótmælum þar sem van Amsberg hafði verið í Hitlersæskunni. Hann öðlaðist þó viðurkenningu þjóðarinnar þegar frá leið og varð einn vinsælasti meðlimur konungsfjölskyldunnar. Þau eignuðust þrjá syni: Vilhjálmur Alexander (f. 1967), Johan-Friso (f. 1968) og Constantijn (f. 1969). Gunnar Jónsson. Gunnar Jónsson (fæddur 17. júní 1985) er söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Coral. Hann var einnig í hljómsveitinni 3G's sem átti vinsæl popplög á borð við „Dagbókin mín“. Gunnar var í ræðuliði Fjölbrautaskólans í Breiðholti frá 2002 til 2005 og keppti tvisvar til úrslita í Morfís, ræðukeppni framhaldsskólanna. Gunnar var einnig í sigurliði Þrassins, sem er ræðukeppni sem haldin var sumarið 2009. Albert 2. Belgíukonungur. Albert II "(Albert Félix Humbert Théodore Chrétien Eugéne Marie)" (f. 6. júní 1934) var konungur Belgíu frá 9. ágúst 1993 til 21. júlí 2013. Hann er yngri sonur Leópolds III konungs og Ástríðar prinsessu af Svíþjóð. Hann tók við konungsveldinu af bróður sínum Baldvin sem lést árið 1993 og hélt þeirri stöðu fram að uppsögn hans 21. júlí 2013. Albert 2. og Paola drottning ásamt George og Laura Bush Teknillinen korkeakoulu. Teknillinen korkeakoulu er stærsti tækniháskóli Finnlands. Hann er staðsettur í Espoo, þar sem að hann var stofnaður árið 1849, en hann fékk ekki opinbera stöðu sem háskóli fyrr en árið 1908. Við skólann eru starfræktar 12 deildir og 9 stofnanir, og kenndar eru 19 námsleiðir. Alls eru 250 prófessorar við skólann og 15.000 nemendur á öllum námsstigum. Síðan skólinn var stofnaður hefur verið veitt 961 mastersgráða og 130 doktorsgráða (2004). Skólinn veltir um 223 milljón evrum á ári. .mw. .mw er þjóðarlén Malaví. "Malawi Sustainable Development Network Programme" sér um úthlutun léna. Regla Cramers. þar sem að formula_3 er fylkið "A", með "i"-ta dálkvigrinum skipt út fyrir vigurinn "b". Malaría. a> sem smitað er af malaríuafbrigðinu P. vivax. Malaría eða mýrakalda er smitsjúkdómur sem er útbreiddur í mörgum hitabeltislöndum. Nafnið er komið af ítölsku orðunum „"mala aria"“, sem þýðir „slæmt loft“. Sjúkdómurinn veldur á milli einnar og þriggja milljóna dauðsfalla á hverju ári, og eru það aðallega ung börn í Afríku sem látast af völdum hans. Orsök sjúkdómsins eru sníkjudýr af ættkvíslinni Plasmodium, sem berast á milli manna, einkum með stungum kvenkyns moskítófluga. Sníkjudýrin sýkja rauð blóðkorn í hýsli sínum þar sem kynlaus fjölgun á sér stað. Blóðkornin springa, snýkjudýrin losna út í blóðrásina og sýkja önnur rauð blóðkorn. Þetta veldur sótthita og blóðleysi. Í alvarlegum tilvikum getur sjúklingurinn fallið í dá og jafnvel látist í kjölfarið. Ýmis lyf eru til sem vinna gegn Malaríu en engin þeirra eru óbrigðul og sníkjudýrið myndar í mörgum tilvikum ónæmi fyrir lyfjunum. Ekki er heldur til bóluefni við veikinni, þótt talsvert fé hafi verið lagt í rannsóknir á því á síðustu árum. Til viðbótar lyfjum sem vinna á malaríusníkjudýrinu er oft reynt að koma í veg fyrir veikina með því að fækka eða útrýma moskítóflugunum sem bera hana á milli manna og með því að koma í veg fyrir moskítóbit. Æskilegt er að forðast moskítóbit með því að bera á sig þar til gert krem við dægurskipti og mikilvægt er að sofa undir flugnaneti. Rocko's Modern Life. Rocko's Modern Life eru teiknimyndaþættir á bandarísku sjónvarpsstöðinni Nickelodeon. Þættirnir voru gerðir af Joe Murray og komu fyrst út árið 1993, en hættu árið 1996. Þeir voru önnur serían á Nickelodeon sem naut einnig vinsælda fullorðinna. Sú fyrri var Ren and Stimpy. Mörgum árum eftir að þættirnir hættu hóf Joe Murray framleiðslu á þættinum Camp Lazlo á Cartoon Network. Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur. Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur (fæddur Willem Alexander Claus George Ferdinand 27. apríl 1967) er konungur Hollands. Hann er sonur Beatrix Hollandsdrottningar og Claus prins og tók við konungdæmi 30. apríl 2013, þegar móðir hans sagði af sér. Hann varð þar með fyrsti konungur Hollands frá því að Vilhjálmur 3. lést 1890 og hafði þá verið krónprins Hollands frá 1980. Jóhann Hollandsprins. Friso Hollandsprins (fæddur "Johan Friso Bernhard Christiaan David" 25. september 1968, dáinn 12. ágúst 2013), var næstelsti sonur Beatrix Hollandsdrottningar og Claus prins. Hann var áður kallaður Jóhann Friso prins en árið 2004 var tilkynnt að samkvæmt ósk hans sjálfs yrði opinber titill hans Friso prins. Hann hefur frá verið búsettur í London og starfaði þar hjá fjármálafyrirtækjum. Einu og hálfu ári fyrir dauða sinn lenti hann í snjóflóði í svissnesku Ölpunum þar sem hann var á skíðum og komst aldrei til meðvitundar eftir það. Fjölskylda. Þann 17. febrúar 2012 varð prinsinn fyrir snjóflóði þar sem hann var á skíðum í Lech í Austurríki. Hann fannst og var bjargað með lífgunartilraunum en hefur aldrei komist til meðvitundar og er talið ólíklegt að það gerist. Hann er á sjúkrahúsi í London, þar sem hann var búsettur með fjölskyldu sinni fyrir slysið. Konstantínus Hollandsprins. Konstantínus (fæddur "Constantijn Christof Frederik Aschwin" 11. október 1969) er yngsti sonur Beatrix drottningar og Claus prins. Hann á tvo bræður Willem-Alexander og Johan-Friso. Anthrax. Anthrax er bylturokkshljómsveit frá New York í Bandaríkjunum. Sveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 1984. Anthrax var meðal vinsælli sveita í undirmenningu bylturokksins á 9. áratugnum, og er þekkt fyrir að blanda rappi og fleiru við þungarokkið. Sveitin er talin ein af fjórum höfuðsveitum bylturokksins ásamt Metallica, Megadeth, og Slayer. Fyrstu árin (1981-1986). Það voru gítarleikarinn Scott Ian og bassaleikarinn Dan Lilker sem stofnuðu Anthrax árið 1981, en stuttu síðar gengu trommuleikarinn Charlie Benante, gítarleikarinn Dan Spitz og söngvarinn Neil Turbin til liðs við þá Scott og Dan, og þar með var búið að manna sveitina. Þeir félagar fengu síðan samning hjá plötufyrirtækinu Megaforce Records, og fyrsta platan kom út 1984, og hlaut nafnið Fistful of metal. Ári síðar urðu miklar mannabreytingar. Dan Lilker hætti og fór í hljómsveitina Nuclear Assault, en við hlutverki hans tók Frank Bello, frændi Charlies Benante. Sömuleiðis hætti söngvarinn Turbin, og Joey Belladonna var fenginn í hans stað. Belladonna þykir hafa haft mikil áhrif á sveitina, sér í lagi með víðara tónsviði en Turbin. Leiðin til frægðar. Snemma var eftir því tekið að Anthrax-menn höfðu meira en lítið gaman af því að gera tilraunir með ímynd sveitarinnar, og fikta við aðrar tegundir tónlistar í bland við þungarokkið. Seint á 9. áratugnum skiptu þeir til að mynda um ímynd, hurfu frá hefðbundinni þungarokksímynd og tóku sér það sem þá var kallað brimreiðarstíll (e. "surfer"). Einnig þóttu þeir duglegri en kollegar sínir í bylturokkinu að koma húmornum að í tónlist sinni. 1987 kom þriðja plata sveitarinnar út, en hún hét Among the living. Linkin Park. Linkin Park er númetal/rappmetal (sveitin blandar saman rappi, rokki og raftónlist)-hljómsveit frá Los Angeles í Bandaríkjunum. Sveitin er yfirleitt talin sigursælasta sveitin í sínum geira, aðallega fyrir sína fyrstu breiðskífu, Hybrid Theory, frá árinu 2000, en sú plata hefur selst í yfir 20 milljónum eintaka um allan heim. Til að kynna plötuna var öðru ári af Projekt Revolution hleypt af stokkunum, en upphitunaratriði fyrir sveitina voru meðal annarra Mudvayne og Xzibit. Önnur smáskífa, "Faint" kom út um það leyti sem PR lauk, og Linkin Park var stuttu síðar boðið að hita upp fyrir Metallicu á Summer Sanitarium túrnum fyrir árið 2003. Þar léku Mudvayne, Deftones, Linkin Park, Limp Bizkit og Metallica, í þessari röð á einum tónleikum hvern dagskrárdag túrsins, en þeir stóðu yfirleitt frá síðdegi og fram á kvöld. Minutes to Midnight. Hljómsveitin hélt í hljóðver árið 2006 eftir nokkurt hlé til að taka upp nýja plötu sem koma átti út síðla sama árs. Þegar fór að síga á seinni hlutann á árinu var hinsvegar tilkynnt að útgáfu plötunnar hefði verið frestað. Síðar átti eftir að koma í ljós útskýring á því, en að sögn Mikes Shinoda vildi hljómsveitin ekki stöðva þann skrið sem kominn var á lagasmíðarnar fyrir plötuna. Að lokum reyndust sexmenningarnir hafa samið um 150 grunna eða prufur fyrir plötuna, sem fæstir urðu að full- eða hálfmótuðum lögum. Að lokum stóðu 17 uppi 17 lög að lokinni 14 mánaða hugmyndavinnu, og af þeim fóru 12 á nýjustu plötuna sem hlaut nafnið Minutes to Midnight, en það nafn er vísun í dómsdagsklukku sem búin var til að sýna hversu langt eða stutt er í að mannkynið hefji kjarnorkustríð. Á plötunni kvað við nýjan tón, bókstaflega. Sveitin hafði horfið frá fyrri rappáhrifum, og hugsað hljóm sinn upp á nýtt. Nú mátti heyra rokk án rapps, og poppaðar ballöður. Einungis tvö lög innihéldu rapp, og við fyrstu sýn virtust rapparinn og plötusnúðurinn hafa horfið af yfirborðinu. Við nánari athugun reyndust þeir einungis í öðrum hlutverkum en áður. Rapparinn var orðinn að rytmagítarleikara, og plötusnúðurinn þeytti ekki lengur skífum heldur lagði til skjalanna samplaða takta og fleira. Núverandi. Brad Delson - gítar, bassi (lék einungis á bassa meðan bassaleikara vantaði) (frá 1996) Rob Bourdon - trommur, slagverk (frá 1996) Mike Shinoda - rapp, söngur, gítar, hljómborð, taktar, sömpl (frá 1996) Chester Bennington - söngur, gítar (frá 1999) Dave Farrell - bassi, selló, fiðla (1996-9 og frá 2001) Joseph Hahn - skífuþeytingar, hljóðgervill, hljómborð, taktar, sömpl, gítar (frá 1996) Útgefið efni. "Xero Demo Tape" - 1997, gefin út af sveitinni sjálfri "Hybrid Theory EP" - 1999, gefin út af sveitinni sjálfri "Hybrid Theory" - 2000, Warner Brothers "Reanimation" - 2002, Warner Brothers/Machine Shop "Meteora" - 2003, Warner Brothers/Machine Shop "Live in Texas" - 2003, Warner Brothers/Machine Shop "Collision Course" (ásamt Jay-Z) - 2004, Warner Brothers/Machine Shop/Roc-a-Fella Records "Minutes to Midnight" - 2007, Warner Brothers/Machine Shop "Road to Revolution: Live at Milton Keynes" - 2008, Warner Brothers/Machine Shop "A Thousand Suns" - 2010, Warner Brothers/Machine Shop "Living Things" - 2012, Warner Brothers/Machine Shop Heard og McDonaldseyjar. Kort af Heard og McDonaldseyjum Heard og McDonaldseyjar eru óbyggðar eyjar í Suðurhafi, um tvo þriðju af leiðinni frá Madagaskar að Suðurskautslandinu. Þær eru um 1700 kílómetra norðan við Suðurskautslandið og 4100 kílómetra suðvestur af Perth í Vestur-Ástralíu. Eyjarnar hafa tilheyrt Ástralíu síðan 1947. Á Heardeyju eru tvö virk eldfjöll, Big Ben og Anzactindur. Þetta eru einu virku eldfjöllin á áströlsku landsvæði. Big Ben er hæsta fjall Ástralíu, 2745 metra hátt og er hæsti tindur þess Mawsontindur. Á hinn bóginn eru engin fjöll á McDonaldseyjum. Eyjarnar hafa verið á heimsminjaskrá síðan 1997. Hinrik af Lúxemborg. Hinrik stórhertogi (f. 16. apríl 1955) er þjóðhöfðingi Lúxemborgar og tók við þeirri stjórn af föður sínum Jóhanni stórhertoga árið 2000. Móðir Hinriks er Jósefína Karlotta, prinsessa frá Belgíu. Hann á fjögur systkini. Karl 16. Gústaf. Karl 16. Gústaf (Carl Gustaf Folke Hubertus, fæddur 30. apríl 1946) er konungur Svíþjóðar og sjöundi sænski konungurinn af Bernadotte-ætt. Hann tók við krúnunni eftir lát afa síns, Gústafs 6. Adólfs, árið 1973, en faðir hans, Gústaf Adólf erfðaprins, fórst í flugslysi þegar Karl Gústaf var aðeins níu mánaða gamall. Hann varð svo krónprins árið 1950 við lát langafa síns, Gústafs 5. Kona Gústafs erfðaprins og móðir Karls Gústafs var Sibylla af Sachsen-Coburg-Gotha. Karl Gústaf er áhugamaður um bíla og veiðar og tekur mikinn þátt í starfi skátahreyfingarinnar í Svíþjóð. Hann er lesblindur og átti þess vegna í námserfiðleikum en lauk þó stúdentsprófi og stundaði nám við Uppsalaháskóla og Stokkhólmsháskóla. Rainier 3. fursti af Mónakó. Rainier 3. fursti af Mónakó eða fullu nafni Rainier Louis Henri Maxence Bertrand (f. 31. maí 1923, d. 6. apríl 2005), var fursti í Mónakó frá árinu 1949 til dauðadags. Hann var sonur Pierre de Polignac greifa og Charlotte prinsessu, hertogaynju af Valentinois. Hann á systur, Antoinette prinsessu, barónessu af Massy. Skjaldarmerki Ástralíu. Skjaldarmerki Ástralíu er hið opinbera merki Ástralíu. Fyrsta skjaldarmerkið veitti Játvarður VII 7. maí 1908 en núverandi útgáfa er frá 19. september 1912 og var veitt af Georgi V. Eldri útgáfan var þó notuð mun lengur að einhverju leyti, meðal annars var það á sex pensa mynt allt til ársins 1966, þegar skipt var um gjaldmiðil og Ástralíudalur tók við af áströlsku pundi. Skjaldamerkið er mun meira en skjöldurinn, en hann er þó aðalatriði merkisins. Á honum er merki hvers fylkis, í tveimur röðum. Í efri röðinni eru (frá vinstri til hægri) tákn Nýja Suður Wales, Victoriu og Queenslands og í þeirri neðri Suður-Ástralíu, Vestur-Ástralíu og Tasmaníu. Fyrir ofan skjöldinn er sjöarma samveldisstjarnan á gylltum og bláum kransi. Sex armanna tákna stofnfylkin sex en sá sjöundi svæðin og samveldið. Í heildina tákna skjöldurinn og stjarnan Samveldið Ástralíu. Skjöldurinn er studdur af rauðri kengúru og emúa en það eru óopinber þjóðardýr Ástralíu. Þá stöðu hafa tegundirnar því þær finnast báðar aðeins í Ástralíu. Í bakgrunninum er svo opinbert þjóðarblóm Ástralíu, Gyllt wattle. Fyrir neðan blómið er svo bókrulla sem á er letrað Ástralía. Rétt er þó að taka fram að hvorki blóm né orð eru á opinberri lýsingu skjaldarmerkisins. Íþróttafélagið Gerpla. Íþróttafélagið Gerpla er íþróttafélag í Kópavogi. Gerpla er með sterka fimleikadeild. Félagið varð Evrópumeistari í fimleikum 24. október 2010 sem er jafnframt í fyrsta skipti sem íslenskt félag hefur náð þeim árangri. Ástralskur dalur. Ástralskur dalur (enska: "Australian dollar") hefur verið gjaldmiðill Ástralíu frá því árið 1966. Hann gildir þar að auki á eyríkjunum Kíribatí, Nárú og Túvalú. Hann er vanalega táknaður með merkinu $. Stundum eru þó notuð A$, $A, AU$, $AU eða AUD til aðgreiningar frá öðrum gjaldmiðlum kölluðum dalir. Einn ástralskur dalur skiptist í 100 sent, táknað með c. Allar eldri ástralskar myntir og peningaseðlar, meðal annars pund, skildingar og pens (sem áður voru notuð), gilda enn sem gjaldmiðlar í Ástralíu. Ástralskur dalur notar bæði seðla og myntir. Seðlarnir eru allir úr sérstakri gerð af plasti $5, $10, $20, $50 og $100 að virði. Myntirnar gilda 1c, 2c, 5c, 10c, 20c, 50c, $1 og $2 og eru slegnar af Konunglegu áströlsku myntsláttunni. Það er Seðlabanki Ástralíu sem gefur þá út. Dalur (gjaldmiðill). Dalur, táknað með $, nefnist gjaldmiðill ýmissa landa. Nafnið er oft nokkuð misjafnt milli tungumála, þó rótin sé sú sama, til dæmis nota enskumælandi þjóðir orðið dollar. Á íslensku er orðið dalur þó oftast notað en stundum er einnig notað orðið dollari. Bandaríkjadalur er útbreiddasti gjaldmiðill heims. Geilo. Geilo er bær í sveitarfélaginu Hol í Buskerud í Noregi. Íbúar bæjarins eru um 2.300 og helsti atvinnuvegur er ferðaþjónusta, s.s. þjónusta í kringum vetraríþróttir og minni iðnaður. Þar er meðal annars NTG; Norges Toppidrettsgymnas. Strengjakvartett. Strengjakvartett er lítil kammerhljómsveit sem oftast samanstendur af tveimur fiðlum (fyrstu fiðlu og annarri fiðlu), lágfiðlu og sellói. Orðið er einnig notað um tónverk sem er skrifað fyrir slíka sveit. Strengjakvartettar hafa verið vinsælir síðan á 18. öld og eru löngu orðnir rótgróinn hluti klassískrar vestrænnar tónlistar. Andrew Rogers. Andrew Rogers er ástralskur nútímalistamaður sem býr til skúlptúra og umhverfislistaverk. Hann vinnur nú að því að setja upp stór (allt að hektari að flatarmáli) umhverfislistaverk á tólf stöðum víða um heim og hefur lokið uppsetningu þeirra í Ástralíu, Bólivíu, Chile, Ísrael og Sri Lanka. Hann vinnur nú (ágúst 2006) að uppsetningu slíkra listaverka í Eyjafirði. Á hverjum stað eru um þrjár uppsetningar, eitt verk er sameiginlegt með öllum stöðum og heitir það "Rhythm of Life" en hin verkin eru mismunandi og sækir hann hugmyndirnar fyrir þeim í menningu landsins þar sem verkin eru. Borgarastríð. Borgarastríð eða borgarastyrjöld er stríð milli hópa sem tilheyra sömu menningu, samfélagi eða ríki. Trúarbragðastríð, uppreisnir og valdarán flokkast stundum til borgarastríða. Borgarastríð voru algeng á miðöldum þar sem höfðingjar börðust innbyrðis um völd. Dæmi um slíkt borgarastríð er Sturlungaöld á Íslandi. Plebeiar. Plebeiar (latína et.: "plebeius") voru stétt almennra borgara í Rómaveldi sem var á milli aðalsstéttarinnar, patrisía, og réttlausra þræla. Plebeiar höfðu full borgaraleg réttindi og gátu orðið ríkir og valdamiklir. Á síðustu tímum lýðveldisins og keisaradæmisins gátu plebeiar orðið meðlimir í öldungaráðinu. Samkvæmt rómverskum sögnum voru plebeirarnir afkomendur þeirra þjóða sem Rómverjar höfðu lagt undir sig og innlimað í Rómaveldi en sú söguskoðun er ekki rétt. Orðið er uppruni orðsins „plebbi“ í íslensku. Illyría. Kort sem sýnir staðsetningu Illyríu í Evrópu. Illyría (forngríska: "Ἰλλυρία"; latína: "Illyricum") er fornt heiti á norðvesturhluta Balkanskagans frá strönd Albaníu að norðvesturlandamærum Slóveníu. Þetta svæði var byggt Illýrum sem meðal annars stunduðu sjórán á Adríahafi. Rómverjar lögðu hluta landsins, sem þá var Illyríska konungsríkið, undir sig 168 f.Kr. en suðurhlutinn var áfram sjálfstæður. Illyría varð rómverskt skattland á tímum Ágústusar. Í Pannónastríðunum 12 - 9 f.Kr. treystu Rómverjar völd sín á svæðinu. Eftir árið 10 var skattlandinu skipt í tvennt: Dalmatíu (norður) og Pannóníu (suður). Pontifex Maximus. "Pontifex Maximus" var æðstiprestur prestaráðsins í Rómaveldi, sem var mikilvægasta staða rómverskra trúarbragða. Titillinn er enn í dag latneskur titill páfans í Róm. Staðan var aðeins opin patrisíum til ársins 254 f.Kr. þegar plebeii fékk hana í fyrsta skipti. Smátt og smátt varð þessi titill mikilvægari í rómverskum stjórnmálum þar til henni var breytt í einn af titlum Rómarkeisara á tímum Ágústusar. Þessi skipan hélst til ársins 376 þegar titillinn varð einn af titlum Rómarbiskups. Apollonia (Illyríu). Apollonia (forngríska: "κατ' Εριδαμνον" eða "προς Εριδαμνω") var hafnarborg í Illyríu á bakka árinnar Aous nálægt þeim stað þar sem nú stendur borgin Fier í Albaníu. Borgin var stofnuð 588 f.Kr. af grískum landnemum frá Kerkýru (nú Korfú) og Kórinþu. Borgin var nefnd eftir guðinum Apollóni. Borgin hagnaðist á þrælaverslun og vegna stórrar hafnaraðstöðu. Um tíma var borgin hluti af ríki Pyrrosar frá Epírus en þegar árið 229 f.Kr. komst hún undir vald Rómverska lýðveldisins. 148 f.Kr. varð hún hluti af rómverska skattlandinu Makedóníu og síðar Epírus. Ágústus keisari lærði í Apolloniu hjá Aþenódórusi frá Tarsus árið 44 f.Kr. Spagettívestri. Spagettívestri er heiti á undirtegund vestrans sem kom fram um miðjan 7. áratug 20. aldar. Vestrar af þessari gerð voru fyrst framleiddir af ítölskum kvikmyndaverum fyrir lítið fé, og því voru þeir kenndir við það sem Ítalir voru frægastir fyrir, spagettíið. Vestrar þessir voru einnig með öðru sniði en þeir bandarísku. Þeir umbreyttu t.d. mörgum af vestraklisjum þess tíma og hefðum sem ríkt höfðu í vestrum fram að því. Spagettívestrinn tefldi fram knöppu myndmáli, einfaldri frásögn, sem byggði gjarnan á klassískum minnum, og lítt fegruðu ofbeldi. Margar þessara mynda voru teknar upp á Sardiníu og Almería í Andalúsíu á Spáni. Þekktustu spagettívestrarnir eru kvikmyndir Sergio Leones með Clint Eastwood og Charles Bronson í aðalhlutverkum. Ísbjarnarblús. "Ísbjarnarblús" er fyrsta breiðskífa Bubba Morthens en hún kom út 17. júní 1980 hjá Iðunni. Bubbi hafði sjálfur annast upptökukostnað en Iðunn tók að sér umsjón með pressun og dreifingu plötunnar. Eftir að Bubbi og Utangarðsmenn höfðu samið við útgáfufyrirtækið Steinar hf í júní 1980 eignaðist sú útgáfa rétt plötunnar. Dimmalætting. Dimmalætting er elsta og stærsta dagblað Færeyja. Það hefur komið út frá árinu 1878. Það er gefið út í Þórshöfn. Dimmalætting þýðir Afturelding. Flotbrú. Flotbrú er brú sem hvílir á flotkerjum eða prömmum ofaná vatninu. Flotbrýr eru venjulega byggðar sem bráðabirgðalausn, t.d. á stríðstímum, þótt þær séu stundum notaðar um lengri tíma á skjólgóðum stöðum sem bátar þurfa ekki að komast um. Flotholt. Flotholt eða flotker eru stór og hörð, hol ílát sem fyllt eru með lofti eða frauði. Flotholt eru nýtt til að halda einhverju á floti, t.d. flugvélum, prömmum, flotbryggjum, flotbrúm og fleiru. Flotholt eru smíðuð úr tré, áli, stáli, glertrefjum, steypu eða gúmmíi. Þau geta verið með eitt eða fleiri aðskilin lofthólf. Flotholt eru einnig notuð í brynningartæki þar sem þau skammta vatni með því að ýmist opna eða loka fyrir vatnsrennsli. Markov-keðja. Í stærðfræði er Markov-keðja strjált slembiferli með Markov eiginleikann, nefnt eftir Andrey Markov. Markov keðja lýsir stöðu kerfis á mismunandi tímum. Á mismunandi stundum kann kerfið að hafa breyst frá þeirri stöðu sem það var í stundinni áður yfir í aðra stöðu, eða verið áfram í sömu stöðu. Stöðubreytingarnar eru kallaðar "færslur". Markov eiginleikinn er sá að skilyrta líkindadreifingin á stöðunni á morgun, gefið stöðuna í dag og stöðurnar í fortíðinni, eru einungis háðar stöðunni í dag, og ekki neinum fyrri stöðum. (Hér er "dagur" notuð sem tímaeining, en hvaða tímaeiningu sem er má nota). Skilgreining. Hugsanleg gildi "X"i eru teljanlegt mengi "S", sem kallast ástandsrúm keðjunar. (Einnig eru til samfelld Markov ferli sem hafa teljanleg ástandsrúm en samfeldan vísi). Markov keðjum er oft lýst með örvaneti, þar sem að leggirnir eru merktir með líkindum færslunnar. Endanleg stöðuvél er dæmi um Markov keðju. Ef að stöðuvél er í stöðunni "y" á tíma "n", þá eru líkur þess að það fari yfir í stöðu "x" á tíma "n" + 1 eingöngu háð stöðunni "x", en er óháð tímanum "n". Eiginleikar Markov keðja. Hægt er að skrifa upp ástandsrúm Markov keðju með "n" stöður sem "n×n" ferningsfylki "P". Þá er "pij" færslan frá stöðu "i" á stöðu "j". Við ritum formula_2 til þess að tákna stakið í "i"-tu línu og "j"-ta dálk á fylkinu formula_3. Líkurnar á færslu frá stöðu "i" yfir á stöðu "j" í "n" skrefum er og í einu skrefi eru líkurnar "n"-skrefa færsla fullnægir Chapman-Kolmogorov jöfnunni, um að fyrir 0<"k"<"n" gildi Jaðardreifingin Pr("X'n" = "x") er dreifingin yfir stöður á tíma "n". Upphafsdreifingin er Pr("X"0 = "x"). Breyting keðjunnar á einu tímaskrefi er lýst sem Þættanleiki. Staða "j" er sögð aðgengileg frá stöðu "i" (ritað "i" → "j") ef, gefið að við erum í stöðu "i", eru líkurnar á að staðan verði "j" á einhverjum tímapunkti í framtíðinni meiri en núll. Það er að segja, til er "n" þannig að Staða "i" er sögð tengd við stöðu "j" (ritað "i" ↔ "j") ef að hvorttveggja gildir að "i" er aðgengilegt frá "j" og að "j" er aðgengilegt frá "i". Mengi staða er kallaður "tengdur flokkur" ef sérhvert par af stöðum í "C" er tengt. Hægt er að sýna að tengsl í þessum skilningi séu jafngildisvensl. Tengdur flokkur er lokaður ef að líkurnar á því að yfirgefa flokkinn eru núll, þ.e.a.s, ef að formula_9, þá er "j" ekki aðgengilegt frá "i". Markov keðja er sögð óþættanleg ef að ástandsrúmið er tengt; þ.e., að hægt sé að komast frá hvaða stöðu sem er að hvaða stöðu sem er. Lotubinding. Staða "i" hefur lotu "k" ef að staðan getur eingöngu verið heimsótt í margfeldi "k" skrefa. Til dæmis, ef að eingöngu er hægt að fara aftur á stöðu "i" eftir sléttan fjölda hreyfinga, þá er staðan "i" lotubundin með lotuna 2. Formlega er lota stöðu skilgreind sem Ef "k" = 1 er staðan sögð vera ólotubundin; annars (k>1), er staðan sögð lotubundin með lotuna "k". Hægt er að sýna fram á það að allar stöður í tengdum flokki verða að hafa sömu lotu. Óþættanleg Markov keðja er sögð vera ólotubundin ef að stöður hennar eru ólotubundnar. Tamíl Ílam. "Tamíl Ílam" (tamílska: தமிழ் ஈழம், "tamiḻ īḻam") er það nafn sem tamílar á Srí Lanka hafa gefið því sjálfstæða ríki sem þeir hyggjast stofna á eyjunni. Bæði orðin "Ilaṅkai" (இலங்கை) og "Īḻam" (ஈழம்) eru tamílsk heiti yfir eyjuna í heild. Tamíl Ílam er ekki viðurkennt sem ríki af neinni ríkisstjórn. Tamíltígrar stjórna um 40-50% þeirra svæða sem þeir vilja að tilheyri hinu nýja ríki. Náttúruleg landamæri. Náttúruleg landamæri eru landamæri milli ríkja sem liggja eftir náttúrulegum hindrunum eins og ám, fjallgörðum, hafi eða eyðimörkum. Náttúruleg landamæri geta verið mikilvæg í hernaðarlegu tilliti þar sem innrásarherir eiga erfitt með að komast yfir slíkar hindranir. Útþensla ríkisins þangað til náttúrulegum landamærum er náð var áberandi í utanríkisstefnu ýmissa ríkja og markmið með stríði. Sem dæmi má nefna að Rómaveldi þandist út í nokkrum skrefum að náttúrulegum landamærum eins og Alpafjöllum, Rínarfljóti, Dóná og Sahara. Yfirráð yfir landsvæðum handan þessara landamæra voru yfirleitt veikari en yfirráð yfir svæðum innan þeirra. Styrjaldirnar milli Danmerkur og Svíþjóðar á 17. öld voru að hluta afleiðing tilrauna Svía til að ná náttúrulegum landamærum við Skagerrak og Kattegat, Kjölinn (fjallgarðinn á miðjum Skandinavíuskaganum) og Eystrasalt. Einræði. Einræði er stjórnarfar þar sem einn leiðtogi, hópur eða flokkur fer með alræðisvald óháð lögum, stjórnarskrá eða öðrum stofnunum. Í klassískri fornöld vísaði einræði til þess valds sem einstökum fulltrúum var gefið á neyðartímum. Vald þeirra var þó ekki óbundið af lögum. Á 20. öld hefur hugtakið verið notað sem yfirheiti yfir flokksræðisstjórnir, herforingjastjórnir og aðrar gerræðisstjórnir. Karlstad. Karlstad er borg í Svíþjóð, við norðurenda Vänern. Íbúar Karlstað eru rúmlega 81 þúsund (2006). Tyrkneska lýðveldið á Norður-Kýpur. Tyrkneska lýðveldið á Norður-Kýpur eða Norður-Kýpur er "de facto" ríki á norðurhluta Kýpur. Stofnun þess var lýst yfir 1983, 9 árum eftir valdarán gríska hersins á eyjunni og innrás Tyrkja í norðurhluta hennar. Lýðveldið nýtur einungis viðurkenningar Tyrklands á alþjóðavettvangi en öll önnur ríki sem og Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna einungis Lýðveldið Kýpur á suðurhlutanum og líta svo á að það ráði (lögformlega) yfir allri eyjunni. Formlega séð er eyjan öll hluti Evrópusambandsins en norðurhlutinn er undanþeginn lögum sambandsins þangað til sátt næst í deilunni. Viðmótshönnun. Viðmótshönnun er grein innan tölvunarfræði sem fjallar um hönnun á notendaviðmóti tölvukerfa. Notenda miðuð hugbúnargerð. Hér á eftir veður rætt um nokkra grunn þætti sem reynast góð hjálpartæki í viðmótshönnun. Rætt verður umþætti eins og samheingisviðtöl, nytsemisverkfræði. Notenda miðuð hugbúnargerð byggir á því að fylga fastmótaðir áætlun um hugbúnaðargerðina Hugbúnaðargerðin byggir á því að nota ákveðn ferli þar sem ákveðið með hvaða hætti staðið er að verkinu og niðurbroti þess í vekþætti(ekki verður farið nánar út í mismunandi gerðir hugbúnarfela hér en elsta ferlið er Fossalíkanið) Ferlið lýsir hugbúnaðargerðinni frá upphafi til enda. Öll ferlin byggja á einhverskonar ítrun þar sem skörun eru á milli greiningar, hönnunar, forritunar, prófunar og uppsetningar. Ítrunin fellst þá í því að vinna aftur upp kerfishluta út frá þeim hnökurm sem upp hafa komið. Í ferlinu er ákviðið með hvaða hætti þessar ítranir eru og í upphafi verks er sett niður hversu margar afhendigar eiga sér stað og hvað eigi að vera í hverri þeirra, hver framkvæmir prófanir og hvernig og annað það sem skiptir máli fyrir hugbúnaðargerðina og viðskiptavininn. Viðmótshönnun tekur mið af viðfangsefninu.. Út frá því setjum við okkur kröfur um skylvirkni þeirra sem meta má í þrjá þætti: árangur, ánægju og skylvikni. Setja þarf nytsemismarkmið þar sem fram kemur hvaða árangri við ætlum að ná með forrituninni. Það getur verið 50% notanda eiga að geta farið í tenginguna gras.is. Svartíminn á að vera innan við 5 sek að meðaltali. Uppitími á að vera 94%. Samhengisviðtal er framkvæmt maður á mann, það er tekið í því umhverfi notandans og athyggli spyrjanda fer í að skoða hvað notandin gerir og hvengig. Það er verið að skoða fyrst og fremst hvernig notandinn vinnur. Notendahópar Dæmi. Notendahópurinn er fólk sem af einhverjum ástæðum vill spara sér sporin við matarinnkaupin eða kjósa nýja nálgun við að velja í matinn. Samkvæmt verkefni þessu er gert ráð fyrir að notendahópurinn sé eldara fólk, höfundar telja munu taka mið af því enda en vilja líka höfða til annara hópa sem hafa lítin tíma fyrir matarinnkaup eða eiga erfit með að nálgast mat. Dæmi um notendahóp getur verið eldra fólk, fatlaðir, nemendur, kennarar, stjórnendur Hér er svo dæmi um Persónulýsingu gott getur verið að hafa mynd sem er einkennandi fyrir karakterinn Pétur Guðmundsson. Pétur er 72 ára gamall. Hann er menntaður lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands. Eiginkona Péturs heitir Guðrún og eiga þau tvö uppkomin börn. Þau búa í vesturbæ Reykjavíkur í rúmgóðu tvíbýli sem þau keyptu sér fyrir nokkrum árum og hafa endurnýjað að innan. Heimilið er tæknilega vel búið. Pétur hefur ávallt verið mikið fyrir framúrskarandi hönnun og tækni. Til að mynda hefur hann alltaf fengið sér sjónvarps- og hljómtæki frá B&O, hann notar þráðlaust net og fartölvu auk þess sem hann á góða borðvél og vandaðan prentara. Þegar höfundur kom í heimsókn var nýbúið að setja upp nýjan fataskáp og B&O sjónvarp í hjónaherbergi sem var með samtengingu við sjónvarpstæki í stofu. Pétur var áður með eigin atvinnurekstur þar sem hann var með þó nokkra starfsmenn í vinnu. Hann setti síðar reksturinn inn í stærra fyrirtæki og leigir eignirnar. Þetta fyrirkomulag gefur þeim hjónum góðar tekjur. Hjónin eru vel stæð og hafa nægan tíma til að sinna sínum áhugamálum sem eru fjölskyldan, börn og barnabörn auk ferðalaga innanlands og utan. Pétur hefur tileinkað sér að notkun internetsins. Hann er árrisull og hefur stundum daginn á því að fá sér morgunmat og fara inn á mbl.is ef Mogginn er ekki kominn í hús. Pétur hefur oft keypt vörur og þjónustu á netinu svo sem farmiða hjá Iceland Express. Honum finnst sá vefur vel upp settur, þægilegur og gott að læra á hann. Stundum pantar Pétur hótel á vefnum. Pétur hefur keypt bækur á amazon.com og telur að sú síða sé mjög góð þó að fyrsta síðan sýni miklar upplýsingar þá leiði hún notandann áfram. JPS bókaforlagið hefur að hans sögn góða síðu og vafrar Pétur þar stundum. Pétri finnst mikill kostur að geta valið um leturstærð á vefsíðun líkt og mbl.is býður upp á. Hér áður fyrr var töluverð verkaskipting á heimili Péturs en í seinni tíð kaupir hann í matinn og eldar til jafns á við konu sína. Þar sem þau eru að jafnaði tvö í heimili hefur umfang matarinnkaupa minnkað mikið. Pétur er mjög hrifin af því að borða fisk og borðar hann oft í viku. Pétur segist oft fara í hverfisbúiðina, sérstaklega þegar um smærri innkaup eru að ræða. Pétur fer í Krónuna vegna stærri innkaupa og þá sérstaklega á vörum sem þola geymslu. Það sem vantar uppá er svo keypt í Nóatúni sem er skammt frá heimili hans. Pétur býr til innkaupalista ef innkaupin eru í einhverju magni og þá oftast rétt áður en farið er út í búð því þá fer hann yfir stöðuna. Pétur telur líklegt að hann myndi í einhverjum tilfellum notfæra sér að versla á netinu ef boðið væri upp á slíka þjóustu. Honum finnst til dæmis gott að geta gengið að kælivörum á sama stað þegar hann er að kaupa í matinn. Hann gerir ekki mikið af því að leita að uppskriftum á netinu eða elda eftir þeim en það kemur þó fyrir. Pétur notar Gsm síma en telur ekki líklegt að hann myndi nota hann til að fara inn á netsíðu eða skrá á innkaupalista. Pétur tekur tarnir hvað varðar hollt og gott mataræði og telur æskilegt að geta séð á þægilegan hátt orkuinnihald og skiptingu fæðunnar samkæmt kolvetni, próteini og fitu. Pétur þarf að passa að kaupa ekki saltaðan mat þar sem hann er með háþrýsting. Pétur telur myndræna framsetningu á vörum til bóta við val á vörum. Margrét Þorsteinsdóttir. Margrét er 59 ára bankastarfsmaður. Hún er gift og á eina uppkomna dóttur og þrjú barnabörn. Það er mikið að gera hjá Margréti, bæði í vinnu og við að aðstoða við uppeldi barnabarnanna. Margrét hefur starfað í banka í 42 ár og er farin að huga að því að hætta störfum. Margrét gerir stóran innkaupalista um hver mánaðarmót og fer yfir hvað vantar. Hún segir að það sé algjört lykilatriði að fara ekki svangur í búð. Á þessum innkaupalista eru þau matvæli sem eiga að endast út mánuðinn. Margrét fer alltaf í sömu matvörubúðina til að versla og finnst alveg óþolandi ef búðareigandinn breytir til. Einnig segist Margrét fylgjast mjög mikið með tilboðum hjá versluninni. Ef tilboðin séu spennandi þá verslar hún stundum mikið magn af vörunni og frystir. Varðandi vikuinnkaupin þá eru þau ekki fyrirfram ákveðin en hún reynir að versla allt ferskmeti sem á að duga út vikuna til dæmis kjöt og fisk. Margrét segist nota internetið einungis í vinnunni en ekki heima en hún er búin að sækja um internettengingu frá þjónustuaðila heim til sín. Margrét segir að hún og starfsfélagar hennar séu duglegir að leita að uppskriftum á netinu og að þeir eigi nokkrar möppur fullar af þeim sem þeir hafa fundið á vefsíðum hjá Sirrý og Jóa Fel. Einnig er Margrét dugleg að skoða heimasíðu hjá Bónus og Gallerý kjöt til að leita eftir tilboðum. Henni finnst óþolandi ef auglýst vara á tilboði líti öðruvísi út en myndin segir og/eða varan sé búin þegar hún kemur á staðinn. Margrét segist vera farin að nýta sér tæknina miklu meira en áður. Hún hafi pantað flugmiða og heitan mat á internetinu en sé oft svolítið hrædd um að hún fái svikna vöru. Margréti finnst það vera algert lykilatriði að það séu myndrænar framsentingar á vörunum og verðið sjáist en ekki einungis prósentuafslátturinn. Helsti veikleiki Margrétar á internetinu er að hennar mati kunnáttuleysi og er hún oft hrædd við að kaupa vörur á internetinu. Stefán Arason. Stefán er 45 ára með viðskiptafræðimenntun frá Háskóla Íslands og framhaldsmenntun frá University of Boston í buisness of sience. Hann rekur eigið fyrirtæki. Stefán er gifur Krstínu, sem er sjúkraþjáflari á Reykjalundi og eiga þau saman fjögur börn á aldirnum 5, 12, 14 og 18 ára. Stefán er mjög skipulagður og undirbýr matarinnkaup reglulega og með góðum fyrirvara. Þau hjónin hafa vanið sig á að skrá það sem vantar á innkaupalista sem er staðsettur á ísskápnum. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru farnir að notfæra sér það líka. Stefán kaupir inn einu sinni í viku og það bregst ekki að sá skammtur dugar út vikuna. Stefán fer alltaf í Nóatún að kaupa inn af því að hann veit að hann gengur að gæðunum vísum. Uppáhalds staðurinn hans í búðinni er kjötborðið og ferskmetið sem hann segir að enginn önnur búð sé samkeppnishæf í. Stefán er mikið fyrir tækni og á allt það helsta sem henni viðkemur. Hann er með þráðlaust netsamband og tölvur í öllum herbergjum. Stefán notar netið mikið í vinnu sem og fyrir einkaþarfir. Hann kaupir meðal annars flugmiða, hótelgistingu, bækur, dvd myndir o. fl. á netinu. Uppáhaldssíður Stefáns eru Shop USA og e-bay og þar er hann alltaf með 1-2 tilboð í gangi. Hann er búinn að vera að bíða eftir því að Nóatún bjóði upp á heimsendingu og er nokkrum sinnum búinn að ræða það við framkvæmdastjóra Nóatúns. Stefán segir að kostnaður skipti hann ekki megin máli við matarinnkaup. Stefán þolir ekki síður sem hafa marga liti og ólíka leturgerð svo ekki sé talað um „flash“ síður. Stefán og eiginkona hans hugsa mikið um heilsuna stunda reglulega hreyfingu og kaupa ekki skyndimat. Dæmi um prófun. Prófun á kerfinu var þannig háttað að höfundar fóru með pappírsfrumgerðina heim til viðmælendanna þar sem þeir fengu að prófa kerfið. Höfundar báðu viðmælendurna að framkvæma a.m.k.tvær aðgerðir að eigin ósk. Prófunin gekk nokkuð vel eftir að viðmælendurnir fóru að skilja út á hvað þetta gekk og voru þeir mjög jákvæðir í garð kerfisins. Höfundar fengu nokkrar góðar hugmyndir frá viðmælendunum sem notaðar voru til að endurhanna pappírsfrumgerðina. Dæmi Niðurstöður prófunarinnar með „Hugsa-upphátt“ aðferð. Hér að neðan er teknar saman niðurstöður prófanna þannig að hægt sé að bera þær saman við nytsemismarkmiðin. Notandi geti skráð sig inn í kerfið. 1 1 1 Notandi geti skoðað og keypt í uppskrift. 1/2 1 1 Notandi geti tekið vöru úr körfu. 1 1 1 Notandi geti skoðað innihaldslýsingu vöru. 0 0 1 Notandi geti greitt fyrir vöru. 1 1 1 ½ = Getur framkvæmt að hluta til Vandamál kom upp við að skoða nánar vöru hjá 2 notendum af 3 þar sem þeir áttuðu sig ekki á því að velja vöruna. Hér koma niðurstöður á skilvirkni sem bornar eru saman við markmið. Hér myndu höfundar vilja sjá að 80% eða fleiri notenda geti klárað verkefni sem lagt er fyrir þá á innan við 15 mín. Verkþáttur 1 01:45 02:03 00:43 01:30 Verkþáttur 2 00:10 00:10 00:08 00:09 Verkþáttur 3 01:02 01:21 00:30 00:58 Verkþáttur 4 00:45 00:30 00:15 00:30 Verkþáttur 5 00:15 00:06 00:03 00:08 Verkþáttur 6 01:23 01:16 00:49 01:09 Verkþáttur 7 00:15 00:15 00:08 00:13 Verkþáttur 8 00:09 00:09 00:05 00:08 Verkþáttur 9 00:13 00:12 00:09 00:11 Verkþáttur 10 00:03 00:02 00:02 00:02 Verkþáttur 11 01:22 01:31 01:07 01:20 Verkþáttur 12 00:45 00:30 00:15 00:30 Verkþáttur 13 01:04 00:45 00:30 00:46 Verkþáttur 16 00:45 00:30 00:15 00:30 Verkþáttur 17 00:37 00:28 00:22 00:29 Verkþáttur 18 00:20 00:23 00:18 00:20 Verkþáttur 19 02:14 02:21 01:48 02:08 Verkþáttur 20 00:04 00:03 00:02 00:03 Tími sem fór í lausn verkþátta 13:11 14:39 8:38 12:09 Höfundar telja skilvirknina ásættanlega með tilliti til þeirra þátta sem notendur gátu framkvæmt. Verulegur munur var á notendum þ.e. Stefán fór létt með verkefnið en Margrét og Pétur voru áþekk. Eins og sést á töflunni hér að ofan sést að markmið um skilvirkni næst fyrir alla notendur ef tekið er mið af þeim verkþáttum sem lokið var við. Samkvæmt þessu er ánægja yfir því markmiði sem höfundar settu sér en augljóslega má bæta kerfið enn frekar enda ekki búið að taka mið af þeim tillögum sem prófendur höfðu fram að færa. Chichewa. Chichewa (eða Cinyanja) er tungumál í Bantúmálafjölskyldunni og jafnframt opinbert tungumál í Malaví. Málið er einnig talað í Sambíu, Mósambík og Simbabve. Forskeytið "chi-" (einnig skrifað "ci-") merkir "tungumál" og er því oft talað um Chewa eða Nyanja. Chingoni ("Ngoni") og Chikunda ("Kunda") eru mállýskur þess. Dreifing. Chichewa er opinbert tungumál í Malaví ásamt því að það er talað í nokkrum ættbálkum í austurhluta Sambíu. Í Mósambík er málið talað í Tété og Niassa-héröðunum og í Simbabve er tungan þriðja útbreiddust í landinu, á eftir Shona og Ndebele. Bæði Biblían og Kóraninn hafa verið þýdd á Chichewa. Saga. Málið kemur frá veldi Marava, sem var uppi á 15. til 18. öld og náði yfir allt Malaví og hluta Mósambík og Sambíu. Eftir að veldið splundraðist hélt tungumálið velli og kristnir trúboðar tóku m.a. tunguna þegar þeir komu inn á svæðið. Fyrsta málfræðibókin á Chewa var skrifuð uppúr 1880 af Alexander nokkrum. Heilög þrenning. Skjöldur þrenningarinnar eða Scutum Fidei, skýringarmynd kaþólsku kirkjunnar af heilagri þrenningu. Hér er lögð áhersla á að Faðirinn ("Pater"), Sonurinn ("Filus") og Heilagur andi ("Spiritus") eru ("est") Guð ("Deus"), en að til dæmis Faðirinn er ekki ("non est") Sonurinn. Heilög þrenning, Þrenningin eða Þrenningarkenningin er ein mikilvægasta hugmyndin í hinni kristnu trú samkvæmt flestum kirkjudeildum og felur í sér Föðurinn, Soninn og heilagan anda. Kjarni þessarar kenningar er að Guð er samfélag föður og sonar og heilags anda í einum guðdómi. Kenningin óx fram sem tilraun til að samræma og útskýra frásögur Gamla og Nýja testamentanna um Guð og skapa samræmda mynd af opinberunum Hans. Þrátt fyrir mikilvægi kenningarinnar fyrir allar helstur kirkjudeildirnar hefur hún valdið miklum deilum guðfræðinga og á þátt í klofningi kirkjudeilda sérlega á fyrstu öldum kristinnar kirkju og nokkrar kirkjur afneita kenningunni. Saga. Þrenningarkenningin skapaðist undir miklum áhrifum frá nýplatonisma ekki síst hugmynda þeirra um heim frummyndanna og hinn skynjanlega heim sem fullkomlega aðskilda. Þessar deilur urðu aðalmálefni kirkjuþingsins í Níkeu 325 og Níkeujátningin frá 381 er sett fram einkum til undirstrika mikilvægi þrenningarkenningarinnar. Þrenningarkenningin í Biblíunni. Hvorki hugtakið Heilög þrenning né önnur augljós hugtök sem styðja það er að finna í Biblíunni en guðfræðingar hafa þó fundið fleiri staði sem má nota til að rökstyðja kenninguna. Í Gamla testamentinu er einkum 1. Mósebók 18 þar sem Guð sýnir sig í formi þriggja manna fyrir Abraham tekin sem vitni um kenninguna. Í Nýja testamentinu er mikilvægasta stuðninginn að finna í Matteusarguðspjallinu 28:19 en einnig í 2. Korintubréf 13:13. Guðdómurinn er einn. Trúin á þrenningarkenninguna er mikilvæg í kaþólskri trú, rétttrúnaðarkirkjunni og flestum söfnuðum mótmælenda. En samtímis er kenningin um að það sé aðeins til einn guð grundvöllur kristinnar trúar. Þessi kenning tengir kristni hinum Abrahamísku trúarbrögðunum, Gyðingdómi og Íslam, eða eins og segir í Jesaja 44:6 „enginn Guð er til nema ég“. Þrenningarkenningin veldur því hins vegar að bæði Gyðingdómur og Íslam álíta kristna vera fjölgyðistrúar eða alla vega jaðra við það. Söfnuðir sem afneita þrenningarkenningunni. Ýmsar kirkjudeildir hafa afneitað þrenningarkenningunni eða dregið hana mjög í efa. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og má nefna að hún fylgi ekki eingyðiskenningu Gamla testamentistins og Gyðingdóms, að hún sé einungis tilbúningur kirkjufeðranna og ekki síst að framsetningin á þrenningarkenningunni byggist að miklu leyti á orðaforða sem ekki er að finna í Biblíunni. Ýmsar kirkjudeildir mótmælenda afneita þrenningarkenningunni. Þekktust er kirkjudeild únitara sem leggja áherslu á einingu Guðs og andmæla guðdómi Jesú Krists og heilags anda og þar með heilagri þrenningu. Einnig má nefna vísindakirkjuna (Christian Science). Kirkjudeildirnar Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og Vottar Jehóva, sem báðar telja sig kristnar þó aðrar kirkjur (þar á meðal Þjóðkirkjan) telji svo ekki vera, afneita báðar þrenningarkenningunni þó af mismunandi ástæðum. Sámsstaðamúli. Sámsstaðamúli er fjall milli Búrfells og Skeljafells í Þjórsárdal. Vestan undir fjallinu er Þjóðveldisbærinn og í gegnum það liggja aðrennslisgöng Búrfellsvirkjunar. Um múlann hlykkjast einnig þjóðvegur 32, Þjórsárdalsvegur, og er þar mikil hækkun og beygjur eftir því. Sunnan undir Sámsstaðamúla eru rústir eyðibýlis, sem hét Sámsstaðir, og múlinn dregur nafn af. Bærinn fór í eyði vegna Heklugosa, líklega eftir gosið 1104, en þó gæti hafa verið búið þar eitthvað lengur. Rústir Sámsstaða voru grafnar upp um 1972, og er greinargerð um uppgröftinn, eftir Sveinbjörn Rafnsson, í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1976, bls. 39–120. Boethíus. Anicíus Manlíus Severinus Boethíus (480-524 eða 525) var kristinn heimspekingur á sjöttu öld. Hann var fæddur í Róm í valdamikla fjölskyldu sem innihélt meðal annars Olybrius keisara. Hann komst í háar stöður innan hirða austgotneska konungdæmisins á Appenínaskaga. Á endanum var hann þó tekinn af lífi í kjölfar þess að vera sakaður um að vinna með Býsansmönnum. Ævistarf Boethíusar var að varðveita klassíska þekkingu, einkum á sviði heimspeki. Hann ætlaði meðal annars að þýða öll verk Aristótelesar og Platons úr grísku á latínu. Þýðingarnar sem hann kláraði á ritum Aristótelesar um rökfræði voru einu rit Aristótelesar fáanleg í Evrópu fram að 12. öld. Þessar þýðingar voru, auk þýðingar hans á "Inngangi" Porfýríosar að "Kvíunum" eftir Aristóteles og hans eigin skýringarrita við rökfræðirit Aristótelesar, meginuppistaðan í rökfræðimenntun og kjarninn í allri æðri menntun á miðöldum. Þar að auki skrifaði hann sjálfur rit á sviði heimspeki, guðfræði, stærðfræði og tónfræði. Rit hans "Hugfró heimspekinnar" var eitt áhrifamesta rit miðalda og var oftar þýtt yfir á þjóðtungurnar en nokkurt annað rit að Biblíunni undanskilinni. Breiðskífa. Breiðskífa er notað um útgefna hljómplötu sem inniheldur stúdíóupptökur frá einum flytjanda. Breiðskífur eru oftast milli 25-80 mínútur og er lengd þeirra oft miðuð við 33⅓ snúninga 12 tommu vínylplötur (sem geta verið allt að 30 mín hvor hlið). Breiðskífur eru stundum tvöfaldar og eru þær þá gefnar út á tveimur geisladiskum eða tveimur vínylplötum. Hugtakið á sér enga formlega skilgreiningu og er lengd þeirra og lagafjöldi nokkuð fljótandi og hafa flytjendur nokkuð svigrúm til að ákvarða hvort þeir vilji kalla hljómplötur sínar breiðskífur eða eitthvað annað. Sjaldnast eru þó færri en 6 lög á breiðskífu (nema lögin séu þeim mun lengri). Aðrar tegundir hljómplatna eru til að mynda stuttskífur, smáskífur, safndiskar, tónleikadiskar og deiliskífur. Stuttskífa. Stuttskífa (snöggskífa eða EP-plata) er hljómplata sem er of stutt til að teljast breiðskífa og of löng til að teljast smáskífa. Þær eru oftast milli u.þ.b. 10 og 25 mínútur að lengd og hafa venjulega 4-7 lög (venjulega hafa smáskífur 3 lög eða færri og breiðskífur oft 6-8 lög eða fleiri). Stuttskífur gefnar út á vínylplötum eru algengastar 33⅓ eða 45 snúninga (á mínútu) 12 tommu plötur og 33⅓ eða 45 snúninga 7 tommu plötur en aðrar tegundir eru einnig til en sjaldséðari. Trollhättan. Trollhättan er borg í Svíþjóð. Íbúar Trollhättans eru rúmlega 44 þúsund (2005). Uddevalla. thumb Uddevalla er borg og sveitarfélag (Uddevalla kommun) í Svíþjóð. Íbúar sveitarfélagsins Uddevalla eru rúmlega 50 þúsund (2006) en íbúar borgarinnar eru rúmlega 30 þúsund (2000). 2007. Árið 2007 (MMVII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á mánudegi. Millimetri. Millimetri er 1/1000 hluti úr einum metra, hluti af metrakerfinu og mælieining í SI-kerfinu. Millimetri er oft skammstafað "mm". Yggdrasill. Yggdrasill er íslensk verslun sem selur lífrænt ræktaðar matvörur. Fyrirtækið var stofnað árið 1986 og rekur nú verslun sína á Skólavörðustíg. Maganám. Skýringarmynd sem sýnir nærlægt maganám. Maganám er skurðaðgerð sem felst í brottnámi magans, alveg eða að hluta. Slíkar aðgerðir eru framkvæmdar við magakrabbameini, alvarlegum tilfellum magasárs eða öðrum vandamálum sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti (götum í magavegg, blæðingum eða þrengingum). Grágás. Grágás er forn lagaskrá og lögskýringarrit Íslendinga, ritað einhvern tímann á þjóðveldisöld. Fleiri lög en í henni stóðu kunna að hafa verið í gildi og sum lög hennar kunna að hafa verið úrelt. Segir í henni „það skulu vera lög í landi hér sem á skrám standa“. Vígslóði nefnist sá hluti Grágásar sem fjallar um víg. Lögin eru varðveitt í tveimur aðalhandritum frá miðri 13. öld, "Staðarhólsbók" og "Konungsbók" auk nokkurra annarra fornra handritsbrota. Með tilkomu Grágásar urðu lögsögumenn óþarfir sem heimildarmenn laga og störfuðu þá sem forsetar lögréttu, löggjafarþings Alþingis. Nýlega hafa fræðimenn tekið að efast um að mark hafi verið tekið á lögunum sem rituð voru í Grágás. Staðarhólsbók. Í Staðarhólsbók eru handrit Grágásar og Járnsíðu. Um Staðarhólsbók er fátt vitað, talið er hugsanlegt að Þórarinn kaggi Egilsson prestur á Völlum í Svarfaðardal (d. 1283) hafi skrifað hana. Á miðöldum er vitað af henni hjá Páli Vigfússyni á Hlíðarenda (d. 1570) og seinna hjá Bjarna Péturssyni á Staðarhóli í Dalasýslu (1613-93), þaðan sem bókin tekur nafn sitt. Staðarhólsbók er geymd á Árnastofnun. Nafnið grágás hefur verið notað a.m.k frá því á miðri 16.öld og það er eru ýmsar getgátur um uppruna þess t.d að bókin hafi verið rituð með gæsa fjöðurpenna eða bundinn inn í gæsaskinn, einnig að hún beri nafn vegna aldursins byggt á þeirri trú að gæsir næðu hærri aldri en aðrir fuglar. München. München er höfuðborg sambandslandsins Bæjaralands (Bayern) í Þýskalandi. Íbúar eru 1,3 milljónir og er hún jafnframt þriðja stærsta borg Þýskalands (á eftir Berlín og Hamborg). Lega. München liggur við ána Isar sunnarlega í Bæjaralandi, rétt norðan Alpafjalla og nokkuð fyrir sunnan Dóná. Næstu borgir eru Ágsborg fyrir norðvestan (40 km), Ingolstadt fyrir norðan (70 km) og Innsbruck í Austurríki fyrir sunnan (80 km). Orðsifjar. München myndaðist á svæði gamallar munkabyggðar og var nefnd eftir munkunum (á þýsku: "Mönch"). Fyrsta heiti borgarinnar kemur fram á latnesku, "apud Munichen" ("hjá munkunum"). Orðið Munichen skiptist svo í tvennt. Á þýsku máli breytist það í München. En á latínu helst það sem Munich. Þannig er einnig enska heiti borgarinnar. Íslendingar hafa ætíð notað heitið München eða jafnvel "Munkaþverá hin syðri" í gamanmáli. Skjaldarmerki. Stóra skjaldarmerkiðSkjaldarmerki München er munkur sem stendur undir rauðu borgarhliði, efst er gullið ljón. Upphaf München má rekja til munkaklausturs. Rauða hliðið er borgarhlið München. Ljónið efst með kórónuna vísar til konungs, en Bayern var konungsríki 1804-1918. Litir borgarinnar eru svartur og gulllitur, sem eru litir gamla ríkisins. Í München er þó yfirleitt notað litla skjaldarmerkið, sem eingöngu sýnir munkinn. Upphaf. Lúðvík frá München varð keisari þýska ríkisins Upphaf München er munkabyggð frá 8. öld á hæðinni Petersbergl. Þar stendur Péturskirkjan í dag. Þrátt fyrir það var ákveðið að telja upphafsár München frá því ári er bærinn kom fyrst við skjöl en það var 1158. Á því ári stofnaði Hinrik XII hertogi Saxlands og Bæjaralands (kallaður Hinrik ljón) borgina formlega. Hann lét smíða brú yfir ána Isar til að heimta toll af vegfarendur. Á sama ári fékk München borgarréttindi, 14. júní. Upp frá því varð München verslunarborg og fékk myndarlega borgarmúra. Keisaraborg og höfuðborg. 1314 varð hertoginn í Bayern Lúðvík IV kjörinn konungur þýska ríkisins. Hann var krýndur keisari 1328 og sama ár ákvað hann að setjast að í München. Síðan þá hafa litir ríkisins verið litir borgarinnar, svartur og gulllitur. München var einnig aðsetur hertogadæmis og var sem slík höfuðborg Bæjaralands. Trúarerjur. Á fyrri hluta 16. aldar komu siðaskiptamenn til borgarinnar og hófu að predika. En hertoginn Vilhjálmur IV bannaði allt slíkt og lét ofsækja alla mótmælendur. Margir yfirgáfu borgina og minnkaði hún talsvert. Eftirmaður hans, Albrecht V, lét banna alfarið mótmælendatrú. Á hans tíð varð München miðstöð gagnsiðaskipta kaþólsku kirkjunnar. Árið 1559 kallaði hann Jesúíta til borgarinnar, en þeir þóttu ákaflega strangtrúaðir. Árið 1609 var kaþólska sambandið stofnað í München en það átti eftir að koma við sögu í 30 ára stríðinu. Strax í byrjun stríðsins, 1618, lét hertoginn Maximilian I mikið til sín taka. Hann safnaði her og barðist fyrir keisarann og kaþólsku kirkjuna. Hann sat um mýmargar siðaskiptaborgir í suðurhluta ríkisins. Fyrir skelegga framgöngu sína fékk hann að launum kjörfurstaembættið 1623. En stríðið var ekki bara sigurganga. Árið 1632 voru Svíar komnir nær alla leið til Alpanna. Gustav Adolf II sat um München, sem keypti sig lausa fyrir 300 þúsund ríkisdali og háttsetta gísla. En aðeins tveimur árum seinna geysar skæð pest í borginni. Þriðjungur borgarbúa lést úr henni og hundruðir yfirgefa borgina. Íbúatalan fer úr 22 þúsund niður í níu þúsund á skömmum tíma. Síðasta orrusta 30 ára stríðsins fór fram rétt norðan við borgarhlið München. Þar börðust bæjarar og Austurríkismenn gegn Svíum. Nokkrum vikum seinna voru friðarsamningarnir í Vestfalíu undirritaðir. Mesti hildarleikur sögunnar á þýskri grundu var á enda. München 1642. Mynd eftir Matthäus Merian Fleiri stríð. 1683 fór kjörfurstinn Maximilian Emanuel til Vínarborgar og barðist þar gegn ósmönum (Tyrkjum). Hann hertók (frelsaði) einnig Belgrad 1688. Í spænska erfðastríðinu kaul Maximilian Emanuel að styðja Frakka. Hann tapaði hins vegar í stórorrustunni við Höchstätt 1704 og því þrömmuðu Austurrískismenn (Habsborgarar) til München og hertóku hana. Í almennri borgarauppreisn gegn Habsborgurum voru hundruðir almennra borgara drepnir. Það er kallað Sendlinger morðnóttin ("Mordweihnacht"). Austurríkismenn yfirgáfu München ekki fyrr en 1714. Árið 1742 var kjörfurstinn Karl Albrecht frá München kjörinn til keisara þýska ríkisins. Austurríkismenn voru ekki par hrifnir af valinu og hertóku München fyrir vikið. Keisaranum tókst ekki að hrekja þá þaðan fyrr en að tveimur árum liðnum. Árið 1778 sótti Píus VI páfi München heim en hann var fyrsti páfi sögunnar til þess. Árið 1798 var franskur byltingarher við borgarhliðin og skaut á borgina. Hann náðu þó ekki að hertaka hana að sinni. Höfuðborg konungsríkis. Í upphafi 19. aldar var München orðin að stórborg. Frakkar sátu á ný um borgina 1800 og náðu að þessu sinni að hertaka hana. Napoleon sjálfur kom þangað 1805 og lagði til að stofnað yrði konungsríki í Bæjaralandi. Það gerðist ári síðar. Kjörfurstinn Maximilian Jósef varð fyrsti konungur landsins og varð München höfuðborg hans. Árið 1818 gaf hann þegnum sínum stjórnarskrá og bærískt þing ("Landtag") var kallað saman í fyrsta sinn. Árið 1825 tók Lúðvík I við sem konungur. Undir hans stjórn varð München að þekktri listaborg. Hann lét reisa leikhús, óperuhús, listasöfn, frægðarhöllina og Bavaria-styttuna. Hann stofnaði einnig háskóla. Næstu áratugi óx borgin gríðarlega. Um aldamótin bjuggu þar hálf milljón manna og var München þá orðin þriðja stærsta borg þýska ríkisins. Í heimstyrjöldinni fyrri komust nokkrar franskar flugvélar alla leið til München og vörpuðu niður nokkrum sprengjum. Skemmdir urðu litlar. Við stríðslok 1918 var konungurinn orðinn svo óvinsæll að hann var fyrsti þjóðhöfðinginn í ríkinu til að hrökklast frá. Konungsríkið Bæjaraland leið undir lok. Keisari Prússlands afþakkaði síðar á árinu. Stofnað var lýðveldi í Bæjaralandi, sem var hluti af Weimar-lýðveldinu. Nýrri tímar. Hitler og Mussolini keyra um götur München Kurt Eisner varð fyrsti forsætisráðherra Bæjaralands 1918. En ári síðar var hann myrtur og leysti það blóðug átök úr læðingi næsta árið. Í kjölfarið á því var þýski vinnuflokkurinn (DAP) stofnaður í München, en breyttist í NSDAP, nasistaflokkinn. Hitler sjálfur var í München og gerði uppreisn gegn stjórninni í Berlín 1923. Gjörningurinn var framkvæmdur í ölkeldukjallara ráðhússins. Uppreisnin mistókst og var Hitler fangelsaður. Hann var á þeim tíma enn austurrískur ríkisborgari. Í borgarstjórakosninum 1933 hlaut flokkur Hitlers 37% atkvæða. Heinrich Himmler varð lögreglustjóri borgarinnar. Fyrstu fangelsisbúðir nasista risu sama ár í Dachau, rétt norðan München. Höfuðstöðvar nasista voru áfram í borginni og var hún stundum kölluð „höfuðborg hreyfingarinnar“. Fyrstu loftárásir voru gerðar á München 1942 en þær hörðustu í janúar 1945. Helmingur borgarinnar eyðilagðist, þar af 90% miðborgarinnar. Þann 30. apríl hertóku Bandaríkjamenn borgina, sem var á hernámssvæði þeirra. 1949 varð Bæjaraland sambandsland Þýskalands með München að höfuðborg. Hún verður þekkt fyrir mikinn hátækniiðnað og listir. Árið 1972 voru Sumarólympíuleikarnir háðir í München. Upp úr stóð þó árás hryðjuverkamanna á íþróttamenn af gyðingaættum meðan leikarnir stóðu yfir. 1980 sótti Jóhannes Páll II páfi borgina heim. Árið 2006 sótti þriðji páfinn borgina heim, Benedikt XVI. (alias Joseph Ratzinger). Íþróttir. München er Ólympíuborg, en þar fóru sumarleikarnir fram 1972. Þátttakendur frá Íslandi voru alls 25, þar á meðal íslenska handboltaliðið. Hápunktur mótsins var sundkeppnin, en bandaríski sundkappinn Mark Spitz hlaut sjö gullverðlaun. Slíkt hafði enginn afrekað áður. Gera þurfti hlé á mótinu í heilan dag vegna gíslatöku hryðjuverkamanna á þátttakendur af gyðingaættum. Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru FC Bayern München og TSV 1860 München. Bayern München hefur oftar en nokkurt annað félag orðið þýskur meistari eða 21 sinni samtals (síðast 2008). Auk þess hefur félagið 14 sinnum orðið bikarmeistari og 6 sinnum deildarbikarmeistari. Á alþjóðavettvangi hefur félagið fjórum sinnum orðið Evrópumeistari (þar með talið Champions League), einu sinni Evrópumeistari bikarhafa og tvisvar sinnum heimsbikarmeistari. Meðal frægra leikmanna félagsins má nefna Franz Beckenbauer, Gerd Müller, Sepp Maier og Lothar Matthäus svo einhverjir séu nefndir. Auk þess lék Ásgeir Sigurvinsson með félaginu 1981-82. TSV 1860 München hefur einu sinni orðið þýskur meistari (1966) og tvisvar bikarmeistari (1942 og 1964). Viðburðir. Oktoberfest er fjölmennasta hátíð heims. Frægustu börn borgarinnar. Frúarkirkjan er þekktasta kennileitið í München Ráðhúsið í München er geysifögur bygging Guðfræði. Guðfræði er sú fræðigrein sem á vísindalegan hátt fæst við trúarbrögð, andleg málefni og Guð. Í dag er orðið einkum notað í kristnu samhengi og vísar það þá yfirleitt til þeirra fræða sem kristnir guðfræðingar iðka. Vissulega er orðið notað innan annarra trúarhefða, sér í lagi eingyðistrúarbragða, en alls ekki jafn oft og í kristni. Orðið sjálft, guðfræði, á uppruna sinn í hinum forna gríska menningarheimi en merking þess breyttist hægt og bítandi er kristnir höfundar fornaldar fóru að nota það í verkum sínum. Guðfræðin og akademían. Örðugt er að líta framhjá tengslum guðfræðinnar við akademíuna og upphaf háskólanna. Flestir háskólar sem stofnaðir eru fyrir Upplýsingu spruttu úr jarðvegi klausturhreyfinga og kirkjuskóla hámiðalda (t.d. Parísarháskóli og Oxford-háskóli). Þessir skólar voru stofnaðir til að þjálfa unga menn til að þjóna kirkjunni með iðkun guðfræði og lögfræði. Guðfræðin var alltaf meginviðfangsefni innan skólanna og var hún kölluð "Drottning vísindanna" því allar aðrar fræðigreinar skyldu vera notaðar til stuðnings og þjónustu við hana. Menn geta þó deilt um hversu viðeigandi sú nafngift er í dag. Staða guðfræðinnar í háskólasamfélaginu breyttist í Upplýsingunni en þá var farið að kenna fleiri fræðigreinar án þess að leggja sérstaka áherslu á tengsl þeirra við guðfræði. Guðfræðistefnur. Í gegnum tíðina hafa margar stefnur sprottið fram innan kristinnar guðfræði og hefur 20. öldin verið afskaplega frjósöm í þeim efnum. Hér að neðan má sjá helstu hreyfingar innan guðfræðinnar en athugið að listinn er ekki tæmandi. Zürich. Zürich er stærsta borg Sviss með 390 þúsund íbúa og jafnframt höfuðborg kantónunnar Zürich. Borgin er helsta viðskiptamiðstöð landsins. Hún er einnig mesta samgöngupunktur Sviss, en járnbrautarstöðin þar og flugvöllurinn eru stærstu umferðarmiðstöðvar landsins. Lega og lýsing. Áin Limmat rennur í gegnum miðborgina Zürich liggur við norðurenda Zürichvatns norðarlega í Sviss og rennur áin Limmat í gegnum borgina. Næstu borgir eru Winterthur til norðausturs (25 km), Aarau til vesturs (45 km), Schaffhausen til norðurs (50 km) og Luzern til suðvesturs (60 km). Stórborgarsvæði Zürich nær meðfram allt norðanvert Zürichvatn og búa þar rúmlega 1,1 milljón manns. Svisslendingar tala gjarnan um Zürich sem heimsborg, þrátt fyrir smæðina. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Zürich eru tvær rendur á ská. Fyrir ofan til hægri er hvítt, en fyrir neðan til vinstri er blátt. Merki þetta kom fram á 15. öld sem dómsinnsigli. Ekki hefur tekist að útskýra tilurð litanna. Í gegnum tíðina hefur ýmislegt skraut verið sett í kringum merkið, svo sem ljón og ríkisörninn. Stundum er það enn notað. Skjaldarmerki kantónunnar Zürich og borgarinnar Zürich eru nákvæmlega eins. Orðsifjar. Á 9. öld hét bærinn Turigum og er talið að heitið sé germanskt, ekki latneskt. Bærinn hét einnig þýska heitinu Ziurichi. Merking heitanna er óviss. Gæluheiti borgarinnar er Limmatstadt ("Borgin við ána Limmat") og Zwinglistadt ("Borg siðaskiptamannsins Zwinglis"). Upphaf. Felix og Regúla. Málverk eftir Hans Leu. Það voru Rómverjar sem reistu fyrstu byggðina þar sem nú er Zürich. 15 f.Kr. var reist þar lítil herstöð og seinna þorp sem kallaðist Turicum. Þar var einnig tollstöð fyrir vörur sem aðallega voru fluttar yfir Zürichvatn. Á 3. öld liðu systkinin Felix og Regúla píslarvættisdauða og voru grafin í Zürich. Þau voru tekin í tölu dýrlinga og voru tilbeðin þar fram að siðaskiptum. Felix og Regúla eru verndardýrlingar Zürich. Á 4. öld var hafist handa við að reisa virki við bæinn. En Rómverjar yfirgáfu héraðið árið 401 og fluttu þá alemannar þangað í staðinn. Þeir munu hafa haldið húsum og virkinu óbreyttu. Árið 610 er virkinu lýst í ferðasögum heilags Columbans frá Írlandi. En elsta heimildin þar sem nafnið Zürich kemur fram er að finna í klaustrinu í St. Gallen frá árinu 806/810. Þá hefur þar verið þorp. Árið 929 er Zürich lýst sem borg ("civitas") í skjölum. Árið 853 stofnaði Lúðvík hinn þýski, fyrsti keisari hins eiginlega þýska ríkis, nunnuklaustur í Zürich. Stofnskjalið er elsta varðveitta skjalið í sögusafninu í Zürich. Borgarmúra fékk Zürich ekki fyrr en í lok 12. aldar. Síðmiðaldir. Fulltrúar Zürich sverja eiðinn við inngönguna í svissneska sambandið 1351 Rudolf Stüssi, borgarstjóri Zürich, ver brúna gegn Svisslendingum 1443 en fellur að lokum í valinn Zürich hlaut borgarréttindi 1250. Eftir að konungar og keisarar þýska ríkisins voru tíðir gestir í Zürich í nokkrar aldir, veitti erlendi konungur þýska ríkisins, Ríkharður af Cornwall, borginni fríborgarstatus 1262. Þá var nýbúið að mynda borgarráð. Ráðið ákvað að gera bandalag við héruðin Uri og Schwyz 1291. Þetta passaði ekki í kramið hjá Habsborgurum, en Albrecht fógeti þeirra sat í borginni Winterthur fyrir norðan Zürich. Borgarráðið sendi því her til Winterthur til að berja á fógetanum. En leiðangurinn mistókst hrapallega. Í bardaganum þar féllu svo margir úr her Zürich að borgin stóð nærri því varnarlaus eftir. Albrecht sendi því her til Zürich skömmu síðar og sat um borgina. Þá tóku konurnar í Zürich til sinna ráða og klæddu sig karlaföt og gripu til vopna. Þannig mynduðu þær herdeild og stilltu sér upp svo Albrecht gæti séð. Albrecht varð undrandi og taldi að borgin hefði á einhvern hátt náð að sækja varnarlið annars staðar frá. Hann létti því á umsátrinu og fór heim. Albrecht náði hins vegar að hertaka Zürich ári síðar. Borgin var í því í Habsborgarhöndum næstu áratugi á eftir. Her frá Zürich neyddist til að ganga með Habsborgurum til orrustu gegn Svisslendingum við Morgarten 1315, en hinir síðarnefndu höfðu stofnað svissneska sambandið tveimur áratugum fyrr. Við Morgarten gjörsigruðu Svisslendingar hins vegar óvini sína. Sökum mikils óróa, bæði efnahagslegra og stjórnmálalegra, leitaði borgarráðið eftir samstarfi við Sviss. Og 1351 fékk borgin og landsvæðið í kring formlega inngöngu í svissneska sambandið. Það var í fyrsta sinn sem nýtt hérað fékk inngöngu eftir stofnun sambandsins. Zürich varð að fimmtu kantónunni. Albrecht II af Habsborg varð ævarreiður. Þrisvar sinnum sat hann um borgina Zürich, 1351, 52 og 54 en varð ætíð frá að hverfa. Eftir fráfall hans naut Zürich friðar í heila öld. En 1439 ásældist borgin landsvæði við Zürichvatn í eigu kantónunnar Schwyz. Þar sem hinar kantónurnar studdu allar Schwyz í þessu, leitaði Rudolf Stüssi, borgarstjóri Zürich, til Habsborgara með málið. Þetta töldu Svisslendingar vera drottinsvik og lýstu stríði á hendur Zürich. Árið 1443 dró til orrustu við borgardyr Zürich. Þar biðu borgarmenn lægri hlut fyrir sameinuðum Svisslendingum og féll Stüssi borgarstjóri sjálfur. Miklar efnahagsþrengingar tóku við hjá borginni, en íbúum hennar fækkaði við þetta úr 7.000 niður í 5.000. En borgin náði sér þó furðu fljótt aftur. Þrátt fyrir að vera í útjaðri Sviss vestanmegin, varð Zürich fljótt að mesta efnahagssvæði Sviss. Þar að auki keypti borgin nokkur landsvæði síðla á 15. öld, svo sem héraðið Winterthur. Siðaskiptin. Ulrich Zwingli árið 1531. Málverk eftir Hans Asper. 1518 var Ulrich Zwingli ráðinn sem prestur við dómkirkjuna (Grossmünster) í Zürich. Hann hóf brátt að predika nýja trú í kirkjunni. Árið 1523 var söfnuður endurskírenda stofnaður sem hafnaði kaþólskri trú. Leiðtogar þeirra voru dæmdir og teknir af lífi. En Zwingli hélt áfram sinni eigin siðbót. Hann reyndi að samræma nýju trú sína við siðbót Lúthers í Þýskalandi, en trúarmunurinn var of mikill. Þrátt fyrir það tóku borgarbúar við nýju trúnni. Zürich var þar með fyrsta kantónan þar sem siðaskiptin fóru fram. Hinar kantónurnar, sem enn voru allar kaþólskar, litu hornauga á atburðina gerast og reyndu að stöðva þá. Zürich gerði þá bandalag við aðrar siðaskiptaborgir í nágrenninu, svo sem Schaffhausen, St. Gallen og Basel (sem enn voru ekki svissneskar á þessum tíma). Þetta litu hinar kantónurnar sem samsæri við sig og blésu til stríðs. Fyrsta Kappeler-stríðið 1529 lauk með samningum án átaka. En 1531 hófst annað Kappeler-stríðið gegn kaþólskum borgum innan svissneska sambandsins. Í orrustunni við Kappeln sigruðu kaþólikkar og féll Zwingli sjálfur í valinn. Aðeins fimm árum síðar héldu siðaskiptin samt áfram er eftirmaður Zwinglis stofnaði reformeruðu kirkjuna í Sviss. Nýja trúin breiddist út í Sviss og náði með tímanum að útiloka kaþólsku kirkjuna í nær öllum kantónum. Ásamt Genf varð Zürich að miðstöð reformeruðu kirkjunnar og kalvínismans. Eftir þetta lægði trúaróróinn og við tók mikil menningarleg uppsveifla í borginni næstu tvær aldir. Kaþólsk kirkja var ekki leyfð í borginni á ný fyrr en 1807. Franski tíminn. Frakkar skjóta á Zürich 1803 Þegar franska byltingin gekk í garð 1789 varð mikill órói í nærsveitum Zürich, sem vildu meira sjálfræði gagnvart borginni. Margir heimtuðu meira að segja ákveðnar nýjungar sem byltingarmenn í Frakklandhöfðu komið á. Árið 1798 réðust Frakkar inn í Sviss og hertóku landið í einni svipan. Borgríkið Zürich var þá lagt niður og var innlimað í helvetíska lýðveldinu. Tvær orrustur áttu sér stað við borgardyr Zürich milli Frakka og Austurríkismanna. Árið 1799 sigruðu Austurríkismenn, sem við það frelsuðu borgina. En strax ári síðar birtust Frakkar aftur og sigruðu Austurríkismenn í síðari orrustunni. Í kjölfarið hertóku þeir borgina, lögðu skatt á borgarbúa og breyttu stjórnarfarinu. Árið 1802 yfirgáfu Frakkar borgina. Íhaldsstjórnin sem þá tók við var svo óvinveitt helvestíska lýðveldinu (þ.e. Sviss), að Svisslendingar sendu herlið þangað til að neyða Zürich til hlýðni. Þessum óróa lauk ekki fyrr en Frakkar hertóku borgina á nýjan leik. Árið 1804 var kantónan Zürich endurskipulögð. Borgin Zürich varð höfuðborg hennar og var fremsta borg Sviss á þeim tíma. Nýrri tímar. Credit Suisse er einn af fjölmörgum bönkum í Zürich Eftir fall Napoleons var ný stjórnarskrá samin fyrir kantónuna, en í henni var gert ráð fyrir að öll sveitarfélög yrðu jafnrétthá og borgin sjálf í kantónuþinginu. Önnur stjórnarskrá fylgdi 1831, þar sem lýðfrelsi og skattajöfnun var í hávegum haft. Stjórnarskrá þessi þótti með eindæmum frjálsleg og var höfð að fyrirmynd víða í Evrópu. Eftir að borgarmúrarnir voru rifnir niður 1830 fór borgin að þenjast út. Mikill efnahagssveifla fylgdi í kjölfarið. Árið 1833 var háskóli stofnaður. Árið 1847 var fyrsta járnbrautin í Sviss tekin í notkun, en hún gekk milli Zürich og Baden. Sama ár var fyrsti nútíma bankinn í borginni stofnaður, en borgin er í dag eitt mesta bankaveldi Evrópu. Zürich varð á 19. öld að mjög nútímalegri borg, reyndar svo mikið að öðrum borgum í Sviss leist ekki á blikuna. Íbúum fjölgaði hratt. Árið 1885 voru þeir enn aðeins 40 þúsund en voru komnir í 200 þúsund árið 1915. Zürich varð að stærstu borg Sviss, bæði hvað varðaði íbúafjölda og efnahag. Í heimstyrjöldinni síðari greip mikill ótti um sig í borginni, sérstaklega er nasistar réðust inn í Holland, enda hafði Zürich engar varnir. Borgin varð tvisvar fyrir loftárásum, í bæði skiptin af nasistum. 27. desember 1940 og aftur 4. mars 1945 gerðu létu þýskar flugvélar sprengjum rigna yfir borgina. Menn veltu fyrir sér hvort hér var um hefnd að ræða fyrir ætlaðar vopnasendingar frá borginni til bandamanna. Skömmu eftir stríð heimsóttu bandarískir hermenn borgina, en þeir ferðuðust þangað gjarnan í fríi frá bandaríska hernámssvæði Þýskalands. Winston Churchill sótti borgina heim 1946 og hélt þrumuræðu í háskólanum um sameinaða Evrópu. Á sama ári var alþjóðaflugvöllurinn í Zürich-Kloten tekinn í notkun. Í dag er Zürich enn langstærsta borgin í Sviss og að sama skapi efnahagsleg og menningarleg miðstöð landsins. Íþróttir. Aðalknappspyrnulið borgarinnar eru tvö: Grasshopper Club Zürich og FC Zürich. Grasshoppers hefur 27 sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 2003) og átta sinnum bikarmeistari. FC Zürich hefur ellefu sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 2007) og sjö sinnum bikarmeistari. Auk knattspyrnufélaganna er alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, með aðalskrifstofur í borginni. Íshokkíliðið ZSC Lions er sexfaldur svissneskur meistari. Liðið er fyrsta félagið til að sigra í meistaradeild Evrópu (Champions Hockey League) í þessari íþrótt 2009. Alþjóðaíshokkísambandið, IIHF, er með aðalaðsetur í Zürich. Í handbolta er félagið Grasshopper-Club Zürich helsta lið borgarinnar. Það hefur oftar orðið svissneskur meistari en nokkurt annað félag eða 21 sinni. Auk þess er félagið ZMC Amicitia Zürich einnig mjög árangursríkt og hefur fjórum sinnum orðið svissneskur meistari. Árlega er Maraþonhlaup þreytt í Zürich, síðan 2003. Þolkeppnin Ironman Switzerland fer einnig árlega fram í Zürich. Skákfélag borgarinnar, SG Zürich, er elsta nústarfandi skákfélag heims en það var stofnað 1809. Þekktasti meðlimur félagsins er Viktor Kortschnoi, sem flutti til Sviss 1976. Í Zürich er mesti fjöldi sundhalla í Evrópu miðað við höfðatölu eða 25 alls. Þær eru sóttar af um tveimur milljónum baðgesta árlega. Viðburðir. Böögg brenndur árið 2005 í Sechseläuten-hátíðinni Sechseläuten er mikil vorhátíð í Zürich. Hún er haldin í tilefni af vorkomunni. Bjalla í dómkirkjunni hringdi þá klukkan sex að kvöldi á vorjafndægri og þaðan kemur heitið. Hátíðin byrjar á skrúðgöngu gildanna um götur borgarinnar en þau eru 26 talsins. Allir eru í búningum og yfirleitt fylgir þeim tónlist. Klukkan 18 er risabrúða brennd. Brúðan er tákn um snjókarlinn (veturinn kvaddur) og heitir Böögg. Í höfði brúðunnar eru flugeldar og springa þeir með látum þegar eldurinn magnast. Við það tætist höfuð Böögg-brúðunnar í sundur. Því fljótar sem hún missir höfuðið, því fegurra verður sumarið. Í lok brennunnar er siður að áhorfendur noti heita öskuna til að grilla kjötmeti sem þeir koma með. Street Parade er heiti á teknógöngu í Zürich og er hún sú stærsta í heimi síðan að Loveparade í Berlín lagði upp laupana. Gangan er einnig stærsti árlegi viðburður sem fram fer í borginni. Árið 2010 tóku 650 þús manns þátt í hátíðinni. Zürifäscht er stórhátíð sem fram fer á þriggja ára fresti í miðborginni og við Zürichvatn. Hér er um langstærstu fólkshátíð í Sviss að ræða. Hátíðin stendur yfir í þrjá daga og sækja um milljón manns borgina heim þegar flugeldasýningin í lok hátíðarinnar fer fram. Á hátíðinni er boðið upp á tónlistarviðburði utandyra, mat hvaðanæva að úr heiminum, markaði, flugsýningar og margt fleira. Hún fer yfirleitt fram í byrjun júlí. Frægustu börn borgarinnar. Nokkrir þekktir einstaklingar leituðu hælis í Zürich meðan stríð geysaði í Evrópu. Má þar nefna Lenin, James Joyce (sem hvílir í borginni), Thomas Mann og Bertolt Brecht. Albert Einstein starfaði um tíma sem prófessor í háskólanum. Héraðsvötn. Héraðsvötn (oft stytt í Vötn eða Vötnin, en fyrr á öldum kölluð Jökulsá) er jökulá í Skagafirði og er eitt mannskæðasta vatnsfall á Íslandi. Héraðsvötn verða til þegar Austari- og Vestari-Jökulsá koma saman neðan við bæinn Tunguháls, auk þess sem til þeirra renna Norðurá, Húseyjarkvísl og margar smærri ár. Í miðri Blönduhlíð skiptast Héraðsvötn síðan í tvær kvíslar sem renna til sjávar sitt hvoru megin við Hegranes. Kallast kvíslarnar Vestari- og Austari-Héraðsvötn. Selbúðir. Selbúðir er hverfahluti í Gamla Vesturbænum. Hverfahlutinn telst vera allt svæðið vestan við Bræðraborgarstíg. Tjarnarbrekka. Tjarnarbrekka er hverfahluti á mörkum Vesturbæjar og Miðborgar Reykjavíkur. Hverfahlutinn telst vera Hólavallagarður (Suðurgötugarður), svæðið milli Garðastrætis og Tjarnargötu allt suður fyrir Skothúsveg, þar með talin Bjarkargatan. Kvosin. Kvosin eða Víkin er hverfahluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfahlutinn telst vera kvosin norðan Tjarnarinnar, austan Aðalstrætis og vestan Lækjargötu og Kalkofnsvegar. Arnarhóll. Arnarhóll er hóll við austurenda Reykjavíkurhafnar í Reykjavík og einnig samnefndur hverfishluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfishlutinn telst vera svæðið austan Lækjargötu/Kalkofnsvegar, norðan Laugavegs en vestan Frakkastígs. Arnarhóll lýsing. Arnarhóll er við austurenda Reykjavíkurhafnar og einnig samnefndur hverfishluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfishlutinn telst vera svæðið austan Lækjargötu/Kalkofnsvegar, norðan Laugavegs en vestan Frakkastígs. Norðan við hólinn er Seðlabanki Íslands. Austan hans við Sölvhólsgötu standa ýmis ráðuneyti og Þjóðmenningarhúsið. Arnarhóll er vinsæll staður til að renna sér á sleða þegar snjór er. Hann er einnig nýttur til skemmthalds. Sagan. Fyrsti þjóðvegurinn til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar, liggur sunnan í hólnum. Sú ályktun hefur verið dregin af þykkum mannvistarlögum, sem eru á stórum hluta hólsins, að fljótlega eftir að Ísland byggðist hafi myndast þar byggð. Elsta byggðin mun vera frá því fyrir árið 1226 því hún er eldri en gjóska sem þá féll. Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli en hann er seinasti bóndinn, sem á þá jörð. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyjarklausturs og þá hafa verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni. Þegar kaupstaður var stofnaður í Reykjavík árið 1786 og uppmæling fór fram á kaupstaðarlóðinni 1787 þá kemur fram í skjali að Arnarhólinn skuli leggjast til kaupstaðarlóðarinnar en það fórst fyrir svo að Arnarhóll lenti fyrir utan kaupstaðarlóðarinnar. Arnarhóll hefur tilheyrt Reykjavík frá 1835 en þá var bæjarlandið stækkað. Styttan af Ingólfi Arnarsyni. Efst á Arnarhóli stendur stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns í Reykjavík. Hún er eftir Einar Jónsson myndhöggvara, sem reist var af Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavik og afhjúpuð þann 24. febrúar 1924. Hugmyndir að byggingu styttunnar má rekja til miðrar átjándu aldar. Styttan er eitt merkasta kennileiti Reykjavíkur. Skuggahverfi. Skuggahverfi er hverfishluti í Miðborg Reykjavíkur. Það telst vera svæðið norðan Laugavegs og austan Frakkastígs allt að Snorrabraut. Uppruni heitisins. Um 1845 var Skuggi kominn í eyði, en ekki er vitað með vissu hvernig nafnið er til komið. Nokkur kot risu í grennd við Skugga og var það upphaf Skuggahverfis. Hverfisgata dregur nafn sitt af Skuggahverfinu. Laufás (Reykjavík). Laufás er hverfahluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfahlutinn afmarkast af Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu í vestri, Bókhlöðustíg í norðri og Laufásvegi í austri, allt suður að Njarðargötu. Spítalahlíð. Spítalahlíð er hverfahluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfahlutinn er suðurhlíð Skólavörðuholtsins og telst vera svæðið sunnan Njarðargötu og Eiríksgötu. Þingholt. Þingholt er hverfahluti í Miðborg Reykjavíkur. Mörk Þingholtanna eru um Lækjargötu í vestri, Ingólfsstræti í austri, Hellusund í suðri og Bankastræti í norðri. Á 19. öld var Ingólfsstræti stundum kallað Efri-Þingholt og hinn hluti Þingholtanna fyrir vestan, Neðri-Þingholt. Á síðari hluta 20. aldar hefur tekið að gæta þess misskilnings að Þingholtin séu víðfeðmari og nái til svæðisins austan við Lækjargötu og Laufásveg, milli Laugavegar og Njarðargötu, og markist í austri af Óðinsgötu og Urðarstíg. Þingholtin draga nafn sitt, líkt og Þingholtsstræti, af tómthúsbýlinu Þingholti sem reist var árið 1765 og stóð til 1771 u.þ.b. á þeim stað þar sem nú er Þingholtsstræti 6. Tungan. Tungan er hverfahluti í Miðborg Reykjavíkur. Hverfahlutinn telst vera svæðið sunnan Laugavegar að Snorrabraut, norðan og vestan við Skólavörðustíg og Eiríksgötu. Akureyrarkirkja. Akureyrarkirkja er kirkja á Akureyri, vígð árið 1940. Hún tilheyrir Þjóðkirkjunni og er í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins. Í kirkjunni er meðal annars gluggi kominn úr kirkju á Coventry á Englandi sem var eyðilögð í síðari heimsstyrjöldinni. Á svölum kirkjuskipsins eru lágmyndir eftir Ásmund Sveinsson. Skírnarfontur kirkjunnar er gerður eftir fyrirmynd Bertels Thorvaldsens. Nánari lýsing kirkjunnar. Akureyrarkirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins. Í kirkjunni er meðal annars gluggi kominn úr kirkju á Coventry á Englandi sem var eyðilögð í síðari heimsstyrjöldinni. Á svölum kirkjuskipsins eru lágmyndir eftir Ásmund Sveinsson. Skírnarfontur kirkjunnar er gerður eftir fyrirmynd Bertels Thorvaldsens. Gluggar Akureyrarkirkju eru frá ólíkum uppruna: Miðglugginn í kór kirkjunnar er úr gömlu dómkirkjunni í Conventry á Englandi sem eyðilagðist í seinni heimstyrjöld (1940). Aðrir gluggar eru hannaðir og gerðir hjá J. Wippel & Co. í Exeter, í Devon héraði á Englandi. Kórgluggarnir sýna atburði frá boðun Maríu til skírnar Jesús, og táknmyndir guðspjallamannanna og Krists. Gluggar í kirkjuskipinu sýna atvik úr lífi Jesú, frá freistingunni til uppstigningarinnar. Minn myndirnar eru úr íslenskri kirkjusögu en átta þeirra eru teiknaðar af Kristni G. Jóhannssyni. Altaristaflan yfir skírnarfonti er úr fyrstu kirkjunni sem reist var á Akureyri 1863. Það var Edvard Lehman danskur listamaður sem málaði hana og var hún færð kirkjunni að gjöf árið 1867. Hinn fagri skírnarfontur kirkjunnar er eftirmynd af skírnarfonti Frúarkirkjunnar í Kaupannahöfn. Hann er gerður úr hvítum marmara frá Ítalíu af Corrado Vigni. Ljósakross og predikunarstóll er skreyttur íslensku silfurbergi. Í kirkjunni eru tvær myndir málaðar af Kristínu Matthíasson sem sýna boðun Maríu og fæðingu frelsarans. Hinar fögru lágmyndir á sönglofti kirkjunnar eru gerðar af Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara og sýna atburði úr lífi Jesú: Fæðing, Jesú tólf ára í musterinu, Fjallræðan, Jesú blessar börnin, Jesú læknar sjúka, Jesú lífgar dáinn og Jesú eftir krossfestinguna. Steingrímur (jólasveinn). Steingrímur er heiti á jólasveini sem kemur fyrir í tveimur nafnaþulum sem Jón Árnason fékk frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni (f. 1835) sem alist hafði upp á Stað í Steingrímsfirði. Hugsanlega er Steingrímur jólasveinn eða tröll sem orðið hefur til út frá sögnum um landnámsmanninn Steingrím trölla sem í "Landnámu" er sagður hafa numið Steingrímsfjörð. Líklegra er þó að nafnið Steingrímur hafi strax við landnám átt við einhvers konar náttúruvætt, enda eru slíkar vættir með endinguna -grímur alþekktar í norskri þjóðtrú, t.d. Fossagrímur sem býr í fossum, spilar á hljóðfæri og reynir að seiða fólk í fossinn. Nazareth (hljómsveit). Nazareth er skosk rokkhljómsveit sem var stofnuð á 7. áratug síðustu aldar. Þekktasta útgáfa hennar er "Love Hurts" sem kom út árið 1975 en sjálf átti sveitin rokkslagara á borð við "Broken Down Angel" og "Bad, bad boy". Bonnie Tyler. Bonnie Tyler (fædd Gaynor Hopkins 8. júní 1951) er velsk söngkona. Þekktustu lög hennar eru "It's a Heartache" og "Total Eclipse of the Heart". Van Morrison. George Ivan "Van" Morrison (fæddur 31. ágúst 1945) er söngvari og lagahöfundur frá Belfast á Norður-Írlandi. Morrison var í bresku hljómsveitinni Them, en frægasta lag hennar var "Gloria" sem kom út árið 1965. Morrison flytur mest bandaríska sálartónlist og r'n'b. Þekktustu lög hans eru "Brown Eyed Girl" og "Moondance". Þá er hann einnig þekktur fyrir sérlega írskhljómandi djass. Jerry Lee Lewis. Jerry Lee Lewis árið 2006. Jerry Lee Lewis (fæddur 29. september 1935) er bandarískur rokk og ról-söngvari, lagahöfundur og píanóleikari. Þekktustu lög hans eru líklega "Great Balls of Fire" og "Whole Lotta Shakin' going on". Lewis, Jerry Lee Kaoma. Kaoma er frönsk hljómsveit sem er þekktust fyrir lag sitt, "Lambada", sem kom út árið 1989. Tónlistin er byggð á þjóðartónlist Brasilíu, Perú og Bólivíu. Los del Río. Los del Río er spænskur dúett þekktastur fyrir danslagið sitt "Macarena" sem kom út árið 1993. Percy Sledge. Percy Sledge (fæddur 25. nóvember 1941 í Leighton í Alabama) er bandarískur sálar- og R&B-söngvari. Fyrsta lag hans var "When a Man Loves a Woman" sem var tekið upp árið 1966. Lagið fór á toppinn í Bandaríkjunum og platan varð fyrsta gullplatan sem Atlantic Records gaf út. Lagið komst síðan aftur á vinsældalista á 9. áratugnum eftir að það var notað í Levi's auglýsingu. Smáskífur. Sledge, Percy The Small Faces. The Small Faces var ensk hljómsveit sem starfaði á 7. áratug 20. aldarinnar. Frægustu lög þeirra voru "Lazy Sunday Afternoon", "Itchycoo Park" og "Sha-La-La-La-Lee". Riða á Íslandi. Riðan er talin hafi komið til Íslands með enskum hrúti af Oxfordshire Down kyni sem keyptur var að Veðramóti í Skagafirði árið 1878. Veikin breiddist út í firðinum nokkuð seinna og þaðan til annarra svæða. Hægt og bítandi varð veikin landlæg á mið-Norðurlandi. Takmarkaðist riðan við það svæði þar til árið 1953 þegar hún fannst í Vestur-Barðastrandarsýslu en sýkingin barst með heyi sem flutt var úr Skagafirði. Riðuveiki er að finna á nær öllu landinu. Landinu er skipt í varnarhólf og á milli þeirra eru sóttvarnargirðingar sem byrjað var að setja upp 1937 eftir að mæðiveiki kom upp. Girðingarnar eiga að halda fé frá því að fara á milli hólfa. Þegar skorið hefur verið niður á einum stað má ekki taka fé fyrr en að tveimur árum liðnum og má þá einungis taka frá ósýktum svæðum. Toni Basil. Toni Basil (fædd Antonia Christina Basilotta 22. september 1943 í Philadelphiu) er bandarísk danshöfundur, tónlistar- og leikkona. Árið 1966 kom út smáskífa með Toni, titillagið að kvikmyndinni "Breakaway". Hún kom fram í "Saturday Night Live" á árunum 1975 til 1976. Það var ekki fyrr en 1981 sem smáskífan "Mickey" kom út, en lagið varð vinsælt um allan heim og gerði Weird Al Yankovic meðal annars grínlag byggt á því og kallaði það "Ricky". Mótmælendatrú. Mótmælendatrú er samheiti yfir nokkrar útfærslur af kristinni trú sem spruttu fram í siðbótinni í Evrópu á 16. öld. Hugtakið var fyrst notað um þá sem mótmæltu aðgerðum útsendara páfa á fundi í Speyer í Þýskalandi 1529, en þá stóðu deilur sem hæst milli páfa og munksins Marteins Lúthers. Fyrst um sinn töldust til mótmælenda þeir sem fylgdu Lúther að málum og síðar siðbótarmönnunum Ulrich Zwingli og Jóhanni Kalvín. Í dag teljast fjölmargar kirkjudeildir til mótmælenda og í raun flestar þær sem ekki teljast til rómversk-kaþólskra eða rétttrúnaðarkirkjunnar. Fjöldi mótmælenda er um 350 milljónir manna og dreifast þeir víða um heim. Íslenska þjóðkirkjan er mótmælendakirkja og telst sem lúthersk-evangelísk kirkja. Innsigli Marteins Lúthers. Innsigli Marteins Lúthers, oft nefnt Lúthersrós, var hannað af Lúther sjálfum. Lúther skýrði merkingu innsiglisins með þeim hætti að innst væri svartur kross sem minnir okkur á að Jesús Kristur vill eiga samastað í hjarta þess sem trúir fyrir trúna eina (sola fide). Krossinn skal vera svartur á litinn því Jesús frelsar þá sem á hann trúa með dauða sínum og leitast við að deyða í þeim allt sem syndugt er. Lúther sagði svartan vera hinn náttúrulega lit krossins. Hjartað skal vera rautt því trúin fyllir hjartað af gleði, trausti og friði. Hjartað er inni í hvítri rós en hvítur táknar hér lit engla og heilags anda. Blái liturinn utan um rósina táknar himininn þar sem Jesús Kristur hefur búið fylgjendum sínum sæti en gyllta gjörðin yst merkir eilífa dýrð Guðs. Eftir tíma Lúthers hefur innsiglið orðið tákn fyrir Lútherstrú. Dönsk króna. Dönsk króna (danska: "dansk krone", færeyska: "donsk króna", grænlenska: "Danskinut koruuni") er gjaldmiðill Danmerkur og sjálfstjórnarsvæða Grænlands og Færeyja. Ein dönsk króna skiptist í 100 aura ("øre"). Hún er tengd við evruna á genginu 1 EUR = 7,46038 DKK. Skírdagur. Skírdagur er síðasti fimmtudagur fyrir páska. Hann var upphafsdagur hinnar fornu páskahátíðar Gyðinga árið sem Jesús Kristur er talin hafa verið krossfestur. Þennan dag minnast kristnir þess að kristur þvoði fætur lærisveinanna fyrir hina heilögu kvöldmáltíð. Heitið Skírdagur. Lýsingarorðið "skír" merkir "hreinn, óblandaður; skær, bjartur; saklaus" og vísar nafnið þannig til þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Sögnin skíra merkir að hreinsa og hin upphaflega merking þess að barn sé skírt er þess vegna hreinsun. Skírdagur ásamt öskudeginum var öðrum fremur talinn dagur iðrunar og afturhvarfs. Upphaflega hefur dagur þessi líklega verið nefndur á Íslandi "skírþórsdagur" eins og "skjærtorsdag" á dönsku og "Share-thursday" á ensku. Þó finnst ekki nema eitt dæmi um það orð í íslenskum fornritum og er það frá 14. öld. Ástæðan er líklega vegna afnáms dagsheitana Týsdagur, Óðinsdagur og Þórsdagur á 12. öld, sem sagt er að Jón Ögmundsson biskup hafi fyrirskipað. Skírdagur og föstudagurinn langi eru gjarnan nefndir einu nafni "bænadagar" og hefur sú nafngift verið algeng um land allt til skamms tíma. En þessir tveir dagar hafa einnig borið fleiri nöfn þó að þau hafi ekki tíðkast um allt land. Í Þingeyjarsýslum var orðið "skírdagshelgar" algengt heiti á þessum helgidögum og aðalheiti þeirra í máli fólks fyrr á tíð. Siðir og venjur. Fyrr á öldum þvoðu sumir kristnir þjóðhöfðingar, eins og til dæmis Elísabet 1. Englandsdrottning og keisarar Austurríkis, fætur þjóna sinna á skírdag og er eitt heiti dagsins á latínu "dies pedilavii" sem merkir "fótþvottadagur. Í katólskum sið var klukkum hringt á skírdag, eða kvöldið áður, í síðasta sinn fram að páskum og ljós deyfð í kirkjum. Eins var altari þvegið og olía vígð og varð hann fljótt aflausnardagur syndara. Eftir siðaskiptin hefur frekar verið litið á skírdag sem lok föstu og haldið upp á hann með mat. Heimildir eru um það frá 18. og 19. öld að hnausþykkur rauðseyddur mjólkurgrautur hafi víða verið skammtaður á skírdagsmorgun áður en menn héldu til kirkju. En slíkur grautur þótti mikið lostæti hér áður fyrr á Íslandi, og er hans ósjaldan getið sem sérstaks hátíðaréttar. Grauturinn þótti þó auka mönnum svo vind, að sagt er að ekki hafi verið þefgott í kirkjunum á skírdag. Skírdagur er ásamt öðrum dögum páskanna, föstudeginum langa, páskadegi og öðrum í páskum, lögbundin frídagur á Íslandi. Föstudagurinn langi. Föstudagurinn langi er síðasti föstudagur fyrir páska. Þá minnast kristnir menn píslargöngu Jesú, krossfestingar hans og dauða á krossi, en samkvæmt guðspjöllunum gerðust þessir atburðir á síðasta föstudag fyrir páska. Þá var Jesú krossfestur ásamt tveimur ræningjum sem höfðu einnig verið dæmdir til krossfestingar. Michael Schumacher. Michael Schumacher, fæddur 3. janúar 1969, er þýskur akstursíþróttamaður. Hann hefur sjö sinnum hlotið heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1 og er það heimsmet út af fyrir sig. Jóhann Sigurjónsson. Jóhann Sigurjónsson (19. júní 1880 – 31. ágúst 1919) var íslenskt leikskáld, skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir kvæði sín og leikritin "Dr. Rung" eða Rung læknir, "Bóndinn á Hrauni", "Fjalla-Eyvind" (1911), sem Victor Sjöström gerði kvikmynd eftir 1918, "Galdra-Loft" (1915) og Mörður Valgarðsson eða Lyga-Mörður. Meðal þekktustu kvæða Jóhanns eru "Sofðu unga ástin mín", "Bikarinn" og "Sorg", sem talið er fyrsta óbundna ljóðið á íslensku. Hann bjó lengst af í Danmörku og skrifaði jöfnum höndum á íslensku og dönsku. Kontrabassi. Kontrabassi, einnig kallaður bassafiðla, er stærsta og dýpsta strokstrengjahljóðfærið sem í dag er notað í venjulegri sinfóníuhljómsveit. Hann er oft talinn bassahljóðfæri fiðlufjölskyldunnar og er notaður sem slíkur í dag en er þó réttar skilgreindur sem hluti gömbufjölskyldunnar. Kontrabassa má í raun kalla bassagömbu og er það sem kemst næst því að vera nútímaafkomandi gömbunnar (ít. "viola da gamba"). Munur á kontrabassanum og öðrum gömbum er þó sá að bassinn hefur aðeins fjóra strengi en flest hljóðfæri gömbufjölskyldunnar hafa fimm eða sex. Áður voru strengirnir aðeins þrír, en sumir kontrabassar í dag hafa allt að fimm strengi. Stilling strengjanna er þó í ferundum, líkt og í gömbufjölskyldunni en ólíkt fiðlufjölskyldunni. Strengirnir eru stilltir á nóturnar E A D og G, að neðan talið. Ef bassinn er fimm strengja er H streng bætt við fyrir neðan. Önnur leið fyrir bassaleikara til að ná dýpri nótum á kontrabassann er svokölluð framlenging, þar sem A strengurinn er framlengdur til að vera C strengur. Nokkrar fleiri stillingar eru þó notaðar að staðaldri, þar á meðal að stilla bassann í fimmundum, áttund fyrir neðan selló, (C G D og A að neðan talið) í djass og heiltóni ofar en venjuleg stilling (Fís H E og A) fyrir einleik. Tvær gerðir boga eru til fyrir kontrabassann, frönsk og þýsk. Þeirri fyrrnefndu svipar að mestu til boga fiðlufjölskyldunnar, en sú síðarnefnda er styttri og breiðari. Notkun boganna er mjög ólík en munurinn heyrist þó ekki hjá vel þjálfuðum kontrabassaleikurum. Sökum tónsviðs síns er kontrabassinn aðallega notaður í samspili. Hann gegnir mikilvægu hlutverki í bassa sinfóníuhljómsveitar og er aðalbassahljóðfæri strengjadeildarinnar. Nokkur einleiksverk og einleikskaflar í öðrum verkum hafa þó verið samin fyrir kontrabassa, meðal annars af Mozart, Richard Strauss og Saint-Saëns (sem notaði hann til að túlka fílinn í Karnivali dýranna). Kontrabassinn hefur síðar orðið mjög vinsæll í djasstónlist og hefur verið notaður af flestum gerðum hennar frá upphafi. Í djass er boginnn sjaldan notaður, heldur eru strengirnir plokkaðir. Í dag hefur hlutverk hans reyndar að ákveðnu leyti flust til rafbassans, en hann er þó enn mjög mikilvægur. Sundahöfn. Sundahöfn er flutningahöfn Reykjavíkur og nær frá Laugarnesi við Vatnagarða að botni Elliðavogs. Hún skiptist í nokkra bakka þar sem meðal annars eru athafnasvæði skipafélaganna Eimskips og Samskipa, en auk þeirra er mikil önnur starfsemi. Þar leggja líka að þau skemmtiferðaskip sem eru of stór fyrir Gömlu höfnina. 1960 var hafist handa við að byggja Sundahöfn og fyrsti áfanginn var tekinn í notkun 1968. Við þetta fluttust allir vöruflutningar smám saman úr gömlu höfninni. Til stóð að flytja flutningsaðstöðuna til Geldinganess og hófust framkvæmdir þar 2001 en var hætt þegar þær mættu mikilli andstöðu þeirra sem töldu Geldinganes henta betur til íbúðabyggðar. Síðan þá hafa komið fram hugmyndir um að efla Grundartangahöfn í Hvalfirði þannig að flutningsaðstaðan geti flust þangað. Skemmtiferðaskip. Skemmtiferðaskip er farþegaskip þar sem siglingin sjálf og þægindin um borð eru aðalmarkmið ferðarinnar. Skemmtiferðaskip eru mikilvægur þáttur í alþjóðlegri ferðaþjónustu og hefur vaxið ört frá síðustu áratugum 20. aldar. Skemmtiferðaskipin eiga sér rætur í stóru farþegaskipunum sem sigldu yfir Atlantshafið á fyrri hluta aldarinnar. Í upphafi voru það sömu skipin sem fengu nýtt hlutverk sem skemmtiferðaskip þegar farþegaflugvélar tóku endanlega við af skipum um 1960. Fyrstu sérsmíðuðu skemmtiferðaskipin voru tiltölulega lítil en nú á tímum eru skemmtiferðaskip risaskip, fljótandi hótel, með öllum þægindum, frá verslunarmiðstöðvum að sundlaugum. Öryrkjabandalag Íslands. Öryrkjabandalag Íslands (skammstafað ÖBÍ), stofnað árið 1961, eru íslensk regnhlífasamtök hagmunasamtaka öryrkja á Íslandi. Félagið veitir margvíslega þjónustu í til öryrkja og vinnur að því að efla jafnrétti í samfélaginu fyrir þann hóp fólks. Stofnfélög voru sex en aðildarfélög eru í dag 32 talsins og sitja formenn þeirra í stjórn ÖBÍ lögum félagsins samkvæmt. Formaður til 11. janúar 2008 var Sigursteinn R. Másson og Hafdís Gísladóttir var framkvæmdastjóri. Félagið er til húsa að Hátúni 10a, 105 Reykjavík. Öryrkjabandalagið er aðili að ýmsum alþjóðlegum samtökum fatlaðra, svo sem Handikaporganisasjonenes Nordiska Råd, European Disability Forum og Disabled People International. Þjónusta. Boðið er upp á aðstoð við mál sem tengjast almannatryggingum og Tryggingastofnun ríkisins. Ókeypis lögfræðiaðstoð er einnig veitt. Djáknaþjónusta er einnig veitt ásamt bænastundum og gospelkvöldum. Hússjóður ÖBÍ er sjálfseignarstofnun sem á og rekur u.þ.b. 600 íbúðir fyrir öryrkja. Tekjustofninn er leigan fyrir íbúðunum. Hringsjá - starfsþjálfun fatlaðra býður náms- og starfsendurhæfingu. Hringsjá er rekin af ÖBÍ sem hefur gert þjónustusamning við félagsmálaráðuneytið og Tryggingastofnun Ríkisins um þá þjónustu sem veitt er. Tímarit ÖBÍ kemur út tvisvar sinnum á ári í 17.000 eintökum. ÖBÍ á aðild að Íslenskri getspá og Tölvumiðstöð fatlaðra. Landsvirkjun. Landsvirkjun er sameignarfélag í eigu Íslenska ríkisins og er stærsti raforkuframleiðandi Íslands. Landsvirkjun rekur 13 vatnsaflsvirkjanir, tvær jarðvarmavirkjanir og eina gasaflsstöð. Rafmagnið er selt í heildsölu fyrir almennan markað og beint til stóriðju. Starfsemi. Landsvirkjun skilgreinir hlutverk sitt sem orkufyrirtæki sem leggur grunn að nútíma lífsgæðum. Landsvirkjun rekur alls 13 vatnsaflstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og eins varastöð sem knúin er gasafli. Fyrirtækið framleiddi um 72% allrar raforkunnar á Íslandi árið 2009. Af þessum aflstöðvum hefur Landsvirkjun sjálf byggt átta þeirra en aðrar voru lagðir inn í fyrirtækið af eigendum gegn eignarhlut í Landsvirkjun nema Kröflustöð sem keypt var af ríkinu árið 1986. Hagnaður Landsvirkjunar var tæpir 187.695 þúsundir bandaríkjadala árið 2009 samanborið við 215.521 þúsunda bandaríkjadala tap árið 2008. Saga. Landsvirkjun var stofnuð af íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg 1. júlí 1965. Þá féll í skaut Landsvirkjunar fyrirtækið Sogsvirkjun sem var helmingafélag ríkisins og Reykjavíkurborgar. Það fyrirtæki átti og rak aflstöðvarnar við Sogið: Ljósafossstöð, Steingrímsstöð og Írafossstöð. Fyrst um sinn beitti Landsvirkjun sér eingöngu á Suðvestur- og Vesturlandi. Fyrsta stórframkvæmd Landsvirkjunar var bygging Búrfellsvirkjunar sem lauk á árunum 1969-70. Þá byggði Landsvirkjun Sigölduvirkjun á árunum 1973-77. Árið 1977 hófust framkvæmdir við Hrauneyjarfossvirkjun og var hún tilbúin 1981. Árið 1983 keypti Akureyrarbær 5% eignarhlut í Landsvirkjun af Reykjavíkurborg. Við þau kaup rann fyrirtækið Laxárvirkjun inn í Landsvirkjun. Það var helmingafélag ríkisins og Akureyrarbæjar og því tilheyrðu þrjár litlar aflstöðvar í Laxá í Aðaldal og gufuaflstöð í Bjarnarflagi. Árið 1984 réðist Landsvirkjun til framkvæmda við Blönduvirkjun og var hún tekin í rekstur 1991. Árið 1997 hófust framkvæmdir við Sultartangavirkjun í Þjórsá og var hún fullbúin 2000. Árið 1999 var Vatnsfellsvirkjun byggð og lauk þeim framkvæmdum 2001. Landsvirkjun keypti Kröflustöð af RARIK árið 1986. Við gildistöku nýrra raforkulaga árið 2005 var flutningur raforkunnar aðgreindur frá framleiðslunni. Flutningssvið Landsvirkjunar var skilið frá Landsvirkjun og rann það inn í fyrirtækið Landsnet sem nú hefur umsjón með flutningkerfi raforkunnar á Íslandi. Í nóvember 2006 samþykktu borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akureyrar að selja hluti sína í Landsvirkjun. Lögum þar að lútandi var breytt í desember. Lögum þar að lútandi var breytt í desember. Við það varð Landsvirkjun sameignarfyrirtæki í eigu ríkisins. Byggingu Kárahnjúkavirkjunar norðan Vatnajökuls lauk haustið 2008 og hófst raforkuframleiðsla í aflstöð virkjunarinnar, Fljótsdalsstöð í lok mars 2007. Árið 2005 kom út bókin „Landsvirkjun 1965 - 2005, fyrirtækið og umhverfi þess“. Starfsmenn. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2012 skiluðu fastir starfsmenn 247 ársverkum. Forstjóri er Hörður Arnarson. Leikrit. Leikrit eða leikverk er verk sem sett er upp í leikhúsi og er leikið fremur en lesið. Oftast er leikritið samið sem texti af leikskáldi og síðan tekið og sett upp sem leiksýning af leikstjóra sem túlkar textann. Jóhann Hjartarson. Jóhann Hjartarson (f. 8. febrúar 1963) er íslenskur stórmeistari í skák og sá íslenskra skákmanna, sem mestum frama hefur náð í skákinni að Friðrik Ólafssyni frátöldum. Prestur. Prestur er sá aðili sem hefur öðlast vígslu eða önnur sambærileg réttindi innan trúarbragða til að annast guðsþjónustur eða helgihald fyrir trúbræður sína. Prestsembættið finnst innan margra trúarbragða þó nafngiftir geti verið ólíkar eftir trúarhefðum. Prestar eru almennt álitnir vera í góðu sambandi við almættið og leitar fólk oft til presta til að fá ráðgjöf í andlegum málefnum sem og öðrum. Í kristni liggja tvö grísk orð að baki orðinu prestur. Annars vegar "presbyteros" (πρεσβυτερος-öldungur), sem er orðsifjafræðilega skylt íslenska orðinu prestur og hins vegar "hiereus" (ιερευς) sem vísar til þeirra sem önnuðust fórnir þær meðal gyðinga sem lýst er í Gamla testamentinu. Merking orðsins (þ.e. "hiereus") breyttist nokkuð í Nýja testamentinu þar sem Jesú Kristi er lýst sem æðsta presti (Heb. 2.17), meðalgöngumanns milli Guðs og manna. Meðal mótmælenda er mikilsverðasta hlutverk prestsins í helgihaldi það að annast útdeilingu sakramentanna (skírn og kvöldmáltíðarsakramentið). Í mótmælendatrú mega bæði karlar og konur gegna prestsembætti en því er öðruvísi farið innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar. Þar mega einungis karlmenn gegna embætti prests og skulu lifa einlífi. Í báðum kirkjudeildum er hlutverk presta í helgihaldi mun veigameira en meðal mótmælenda enda eru sakramenti mun fleiri og helgihald allt umfangsmeira. Útgarður. Útgarður nefndist heimili Útgarða-Loka, fjölkunnugs jötuns í norrænni goðafræði. Var Útgarður lengst í austri. Sagt er frá því í Snorra-Eddu þegar þrumuguðinn Þór fór til Útgarðs ásamt fylgisveini sínum, Þjálfa, og hinum viðsjárverða Loka Laufeyjarsyni. Þar lét Útgarða-Loki þá þreyta hinar ýmsu þrautir sem allar reyndust þeim um megn vegna fjölkynngi gestgjafans. Skaði. Skaði er kona sjávarguðsins Njarðar í norrænni goðafræði og þar með stjúpmóðir Freys og Freyju. Skaði var af kyni jötna en faðir hennar var jötunninn Þjassi. Þrymheimur kallast heimkynni Skaði sem er staðsettur uppi í fjöllum og ferðast hún um á skíðum og veiðir þau dýr með boga og örvum sem á vegi hennar verða. Skaði hefur einnig verið kölluð Öndurguð eða Öndurdís. Samkvæmt skáldskaparmálum varð hjónaband hennar og Njarðar til þegar Skaði kom til ása og ætlaði sér að hefna dauða föður síns Þjassa eftir rán Iðunnar. Guðirnir buðu henni hinsvegar í staðinn ýmsar bætur, þar á meðal að fá einn af ásunum sem eiginmann, en þeir væru huldir og hún þyrfti að dæma þá af fótunum einum saman. Skaði leit þá á fæturna og valdi þá fallegustu og hreinustu, og hélt að þeir gætu aðeins tilheyrt Baldri. Kom þó í ljós að þeir væru fæturnir á Nirði, guði sjávar og vinds. Hjónaband þeirra varð stormasamt, þar sem hún gat ekki sofið í Nóatúnum vegna hávaðans í hafinu og mávunum. Fluttu þau þá til Þrymheims, þar sem Njörður gat ekki fest svefn vegna ýlfurs úlfanna í fjöllunum. Þau komust að samkomulagi þar sem þau ættu 9 nætur í Nóatúni og 9 nætur í Þrymheimi. Þau skildu og giftist hún síðar Óðni og var einn af sonum þeirra Sæmingur. Iðunn (norræn goðafræði). Iðunn er gyðja í norrænni goðafræði sem gegnir því hlutverki að gæta gulleplanna sem tryggja goðunum eilífa æsku. Iðunn er kona skáldskaparguðsins Braga. Gulleplunum stolið. Í upphafi Skáldskaparmála í Eddu Snorra Sturlusonar segir frá því að eitt sinn var gulleplunum stolið. Það gerðist þannig að Loki og Hænir voru saman á ferðalagi og reyndu að steikja sér kjöt en það gekk eitthvað illa. Fyrir ofan þá sat stór örn á grein, en hann var reyndar jötunninn Þjasi í dulargervi) og hann bauðst til að hjálpa þeim að steikja kjötið gegn því að fá hluta af því. Þegar kjötiið var orðið steikt flaug fuglinn hinsvegar á brott með allt kjötið. Loki varð mjög reiður og sló til fuglins með staur, staurinn festist við fætur fuglsins og Loki var þannig dreginn langa leið með fuglinum. Þjasi neitaði að láta hann lausann nema hann lofaði að gefa honum bæði Iðunni og gulleplin hennar. Þegar Loki kom aftur til Ásgarðs lokkaði hann Iðunni út í skóg með eplin og Þjasi kom þar fljúgandi í arnarlíki, greip Iðunni og flaug með hana með sér til Jötunheima. Umsvifalaust tóku goðin þá að eldast því ef þau fá ekki að bíta af eplum Iðunnar eldast þau líkt og dauðlegir menn. Þau komust að svikum Loka og sendu hann til að ná Iðunni aftur. Loki fékk lánaðan valsham Freyju og flaug til hallar Þjasa. Þar breytti hann Iðunni í hnetu og flaug af stað með hana í klónum. Þjasi jötunn tók hinsvegar eftir því og elti þau í arnarham en þegar Loki flaug inn yfir Ásgarð kveiktu æsirnir í spónahrúgu svo að vængir Þjasa sviðnuðu er hann flaug yfir eldinn og hann féll til jarðar. Æsirnir drápu hann og glöddust yfir að hin dýrmætu epli væru komin aftur til Ásgarðs og þeim var tryggð eilíf æska á ný. Sif (norræn goðafræði). Sif er gyðja kornakra í norrænni goðafræði og slegið glamapandi hár hennar gáraðist um herðar henni eins og fullþroska hveiti á akri. Á eftir Freyju var Sif fegurst allra goðanna. Í fornum kveðskap var haddur (hár) sifjar kenning fyrir gull sem skýrist af því að eitt sinn klippti Loki Laufeyjarson allt hár af Sif og hótaði Þór eiginmaður hennar honum öllu illu ef hann léti svartálfa ekki búa til nýtt hár úr gulli handa Sif. Fjölskyldutengsl og heimili. Sif er kona þrumuguðsins Þórs og býr með honum í höll hans, Bilskirni, í ríkinu Þrúðvöngum. Í Bilskirni voru 540 herbergi og var stærst allara húsa sem menn kunnu skil á. Börn Þórs og Sifjar eru Þrúður og Móði. Sif er ekki móðir Magna en Þór átti hann með jötunmeynni Járnsöxu. Sif á hinsvegar soninn Ull með fyrri eiginmanni. Ullur var bæði góður bogamaður og skíðamaður. Hann var fagur og hafði hermanns atgervi og gott var að heita á hann í einvígi. Hvernig Sif fékk gullhárið. Nótt eina var hrekkjalómurinn Loki eirðarlaus og langaði að bregða á leik. Hann laumaðist inn í svefnherbergi Sifjar, en Þór eiginmaður hennar var í burtu að berja tröll. Sif lá í fastasvefni og sítt og fagurt hár hennar flæddi niður úr rúminu. Loki gekk upp að henni og klippti hljóðlega allt hárið af Sif og flýtti sér svo í burtu með hárflétturnar með sér. Á leiðinni út um gluggann missti hann hinsvegar annan ilskóinn sinn. Þegar Sif vaknaði og uppgvötaði hvað hafði gerst, emjaði hún af skelfingu. Þór þekkti hinvsegar ilskóinn og sá að þar hafði Loki verið að verki. Hann var svo reiður að hann ætlaði að drepa hrekkjalóminn. Loki baðst miskunnar og lofaði að fara til svartálfa og fá þá til að búa til gullhadd (haddur: hár) handa Sif og aðra dýrgripi handa hinum goðunum. Loki fór þá til dverganna Ívaldasona sem bjuggu í Svartálfaheimi en þeir voru eins og allir dvergar miklir list- og handverksmenn. Á skömmum tíma bjuggu þeir til handa Sif hinn fegursta gullhadd sem Loki hafði nokkurn tímann séð. Auk þess smíðuðu þeir spjótið Gungni handa Óðni (hann hafði þann eiginleika að nema ekki staðar fyrr en hann færi í fast efni) og skipið Skíðblaðni handa Frey (það hafði alltaf byr þegar segl kom á loft en mátti vefja saman sem dúk og hafa í pungi). Upp frá því bar Sif ávallt hár gert úr gulli. Miðgarðsormur. Miðgarðsormur (eða Jörmungandur) er ófrýnilegt skrímsli og tortímingarafl í norrænni goðafræði sem liggur í hafinu sem umkringir heiminn og bítur þar í sporð sér. Miðgarðsormurinn er einn af erkifjendum ása og er eitt afkvæmum Loka sem hann gat við gýginni Angurboðu. Hitt var Hel. Nafnið Miðgarðsormur kemur hvorki fyrir í eddukvæðum né dróttkvæðum; hann er þar aðeins nefndur "Jörmungandur", "Ormur" og "Naður". Um Miðgarðsorm eru til margar sögur og spinnast þær margar hverjar um samskipti hans og þrumuguðsins Þórs en þeir eru erkifjendur. Fræg er sagan af bardaga þeirra í Ragnarökum. Þá vó Þór Miðgarðsorm en komst ekki lengra en níu skref frá hræi ófreskjunnar því henni hafði tekist að blása á hann banvænu eitri. Féll Þór þar dauður til jarðar. Túttubyssa. Túttubyssa er heimatilbúin „byssa“ sem er vinsæl í Ástralíu og á Íslandi og víðar. Þær er eru einfaldar að gerð. Venjulega er notast við einn fingur af gúmmíhanska, sem er kipptur af, og efrihlutann af gosflösku úr plasti - eða rörbút. Fingurinn af gúmmíhanskanum er smokrað upp á enda flöskunnar eða upp á rörið og fest með hosuklemmu eða límbandi. Algeng skotfæri eru ber, spörð og litlir steinar. Ilíonskviða. Akkilles og Patróklus á grískum vasa. "Ilíonskviða" er annað tveggja frásagnarkvæða (epískra kvæða) sem eignuð hafa verið blinda kvæðamanninum Hómer. Hitt kvæðið er "Ódysseifskviða" en saman eru kvæðin kölluð "Hómerskviður" og eru elsti varðveitti skáldskapur Grikkja. Til eru tvær þýðingar á íslensku á Ilíonskviðu. Sú frægasta er lausamálsþýðing Sveinbjörns Egilssonar, sem einnig þýddi Ódysseifskviðu. Sonur hans, Benedikt Gröndal, þýddi svo Ilíonskviðu með ljóðahætti. Efni Ilíonskviðu. "Ilíonskviða" gerist á síðasta ári Trójustríðsins en í því börðust Grikkir og Tróverjar. Ilíon er annað nafn yfir borgina Tróju við Hellusund. Í kviðunni kemur upp ósætti á milli Agamemnons konungs, sem fór fyrir liði Grikkja, og kappans Akkillesar. Akkilles sem fór fyrir miklu liði ákveður að berjast ekki sem veldur því að mjög hallar á Grikki í stríðinu við Tróverja. Sendiför er gerð til Akkillesar til að fá hann aftur til orrustu en hann vill alls ekki snúa aftur enda enn reiður Agamemnoni. Þrátt fyrir þetta leyfir Akkilles góðum vini sínum, Patróklosi, að snúa aftur til bardagans og fer hann til orrustu í herklæðum Akkillesar. Er Patróklos mætir til orrustunnar halda viðstaddir að þar sé Akkilles á ferð en Patróklos fer hamrammur um völlinn og snýr bardaganum aftur Grikkjum í vil. Á endanum vegur Hektor, mikil hetja og sonur Príamosar Trójukonungs, Patróklos sem fær Akkilles til að snúa aftur til bardagans gagntekinn af sorg vegna falls vinar síns. Hann berst gegn Hektori, fellir hann og smánar svo líkið marga daga í röð. Príamos konungur fer síðar háskaför til að sækja lík Hektors, sonar síns og lýkur kviðunni á útför hans. Ritun kvæðisins. Enginn veit með vissu hver orti Hómerskviður. Frá fornöld og allt fram á 18. öld voru kvæðin eignuð blinda kvæðamanninum Hómer. Ekki er vitað hvenær hann var uppi né hvar hann hélt sig en allmargar jónískar borgir hafa gert tilkall til þess að vera fæðingarstaður skáldsins. Fræðimenn skeggræða enn í dag spurningar sem upp komu er menn fóru að rannsaka kviðurnar gagnrýnið fyrir u.þ.b. 200 árum og ekki eru menn sammála um hver Hómer hafi verið eða hversu mikið af kviðunum komi frá honum. Aðrir taka enn dýpra í árinni og velta því fyrir sér hvort kvæðin séu eftir sama höfund, hvort þær hafi orðið til hvor í sínu lagi og margir efast jafnvel um tilvist Hómers sjálfs. Margt liggur þannig á huldu um tilurð Hómerskviða. Flestir fræðimenn eru þó á þeirri skoðun að Hómerskviður hafi verið ortar seint á 8. öld f.Kr. Bragarháttur. Hómerskviður eru ortar undir hexametri sem á íslensku hefur verið nefndur sexliðaháttur. Eins og nafnið ber með sér þá má þekkja bragarháttinn á því að í hverri ljóðlínu eru sex bragliðir og samanstendur hver bragliður yfirleitt af einu löngu atkvæði og tveimur stuttum. Hexametur var vinsælt meðal Grikkja en þeir ortu ljóð sín ósjaldan undir hættinum. Rómverjar tóku hexametur síðar upp og t.a.m. skrifaði Virgill "Eneasarkviðu" sína og Óvidíus "Myndbreytingar" sínar undir þessum sama hætti. Fram (skip). "Fram" er skip (þrímastra skonnorta með gufuvél), teiknað og smíðað af Colin Archer. Fridtjof Nansen notaði skipið þegar hann komst á Norðurpólinn 1895 og Roald Amundsen notaði það þegar hann kannaði Suðurskautslandið. Skipið var byggt til að þola harðan ágang ísins í kringum norður- og suðurpólinn, gert úr ítalskri eik og hafði næstum engan kjöl. Skrúfan og stýrið voru útbúin þeirri tækni að hægt var að draga þau inn í skrokk skipsins til að þau skemmdust ekki í ísnum. Ferðir. Fridtjof Nansen fyrir framan Fram á leiðinni á Norðurpólinn Að norðurpólnum. Nansen lét skipið frjósa fast í ísnum við Svalbarða þegar hann var á leið sinni á Norðurpólinn og gekk á skíðum þaðan á pólinn. Skipið færðist með hafstraumi og þegar ísa leysti sigldu skipverjar til Norður-Noregs. Þangað komu Nansen og Hjalmar Johansen sem gekk með honum. Kortagerð með Sverdrup. 1898 fór Otto Sverdrup ásamt áhöfn á Fram til eyjanna norður af Kanada til að kortleggja þær og skoða gróðurfar, dýr, jarðfræði og hafdýpi í kringum þær. Fyrir þessa ferð var skipinu breytt til að auka við plássið uppi á dekki. Leitin að suðurpólnum. Roald Amundsen ákvað að nota Fram til ferðar sinnar til suðurpólsins. Amundsen komst á suðurpólinn 14. desember 1911 eftir kapphlaup við bretann Robert Scott, sem einnig þráði að komast fyrstur á pólinn. Scott hafði einnig keppst við að komast á norðurpólinn á undan Nansen, en heppnaðist hvorki þá né við suðurskautið. Ókind. Ókind er hljómsveit sem á rætur sínar að rekja til Seltjarnarness. Hljómsveitin lenti í öðru sæti músíktilrauna árið 2002 og var Birgir Örn Árnason valinn efnilegasti bassaleikarinn. Hljómsveitin hefur gefið út tvær breiðskífur. Þá fyrri, Heimsenda 18, tóku þeir upp í hljóðverstíma sem þeir hlutu í verðlaun úr Músíktilraunum. Þá seinni, Hvar í Hvergilandi, tók Birgir Örn upp í þeirra eigin stúdíói og má þess geta að sú plata hlaut fullt hús stjarna þegar hún var gagnrýnd í Morgunblaðinu. Hljómsveitin spilaði á tónleikum á skemmtistaðnum Amsterdam í ágúst 2006. Þetta voru síðustu tónleikar sveitarinnar, en það var einungis meðlimum Ókindar kunnugt þar til tveir meðlimanna staðfestu samstarfsslitin í viðtali í Morgunblaðinu skömmu eftir fyrrnefnda tónleika. Meðlimir sveitarinnar hafa snúið sér að öðrum verkefnum, ýmist á vettvangi tónlistar eða annars, t.d. hefur Birgir lagt meiri áherslu á upptökustjórn og má þar m.a. nefna plötu Isidor, "Betty takes a ride". Steingrímur Karl er nú í hljómsveitinni Moses Hightower þar sem hann spilar á hljómborð ásamt því að syngja. Hann hefur einnig verið meðlimur í öðrum böndum s.s. Glymskrattarnir, og Llama, auk þess sem hann hefur unnið ýmis verkefni sem píanó-/hljómborðsleikari. Hljómsveitin tilkynnti um fyrirhugaða tónleika þann 4. september 2010, þá fyrstu í rúm fjögur ár. Ekki er vitað hvort hljómsveitin hyggi á frekari tónleika. Inflúensa. Inflúensa, eða flensa, er smitsjúkdómur sem leggst á fugla og spendýr. Í spendýrum koma helstu einkenni fram í efri öndunarfærum og í lungum. Sjúkdóminn má rekja til RNA veiru (af Orthomyxoviridae fjölskyldunni). Algengustu einkenni í mönnum eru sótthiti, hálsbólga og eymsli í hálsi, höfuðverkur, vöðvaverkir, hósti og þreyta. Einnig getur niðurgangur fylgt í kjölfarið á þessum einkennum ef veikindin eru orðin langvarandi. Þótt ýmsir öndunarfærasjúkdómar séu í daglegu tali nefndir flensa er raunveruleg inflúensa talsvert frábrugðin venjulegu kvefi, og mun alvarlegri. Einstaklingar sem smitast af inflúensu þjást oft af miklum sótthita í eina til tvær vikur, og ef ekki er brugðist rétt við, eða ef einstaklingurinn er veikburða fyrir, getur sjúkdómurinn leitt til dauða. Inflúensa er bráðsmitandi og berst um heiminn í árvissum flensufaröldrum. Þegar flensufaraldur geisar látast alla jafna milljónir af völdum sjúkdómsins, en í hefðbundnu árferði nemur tala látinna hundruðum þúsunda á ári. Á 20. öldinni hafa þrír flensufaraldrar geisað, í öll skiptin í kjölfar stökkbreytingar á veirunni sem dró úr getu fólks til að berjast við sjúkdóminn. Sú tegund inflúensu, sem á undanförnum árum hefur þótt líklegust til að breytast í alvarlegan alheimsfaraldur er H5N1, en þessi influensutegund er betur þekkt sem fuglaflensa. Nú (sumar 2009) óttast menn þó meira H1N1, sem er kölluð svínaflensa. Hún er talin hafa borist upphaflega úr svínum í menn í Mexíkó, en nú er hún farin að smita frá manni til manns. Maríukirkja (Reykjavík). Maríukirkja, kirkja Maríu meyjar, stjörnu hafsins er kaþólsk sóknarkirkja í Breiðholtshverfi í Reykjavík. Hún var tekin í notkun þann 25. mars 1985 (á boðunardegi Maríu) og loks vígð 24. maí 2001. Sóknarprestur er Sr. Denis O´Leary frá Írlandi. Sigurður Líndal (f. 1931). Sigurður Líndal (f. 2. júlí 1931) er forseti Hins íslenska bókmenntafélags og hefur verið það frá árinu 1967. Hann var prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands 1972-2001 og við Háskólann á Bifröst frá 1. nóvember 2007. Sigurður Líndal hefur ritað mikið um kenningar í lögfræði og ritstýrt fjölda verka um lögfræði, sögu og fleira. Á sjötugsafmæli hans var gefin út bókin "Líndæla" sem er safn greina sem ritaðar voru honum til heiðurs. María mey. María mey er móðir Jesú samkvæmt Nýja testamentinu og öðrum kristnum heimildum. Mest er talað um hana í fæðingarfrásögnum guðspjallanna (Matt. og Lúk.). María var heitkona Jósefs og varð þunguð af heilögum anda, fæddi síðar son sinn Jesú. Ekki eru til margar frásagnir af því að María hafi fylgt Jesú á ferðalögum hans. Í Jóh. 19.25 er þó sagt að hún hafi verið viðstödd krossfestinguna. Í Postulasögunni er sagt að eftir krossfestinguna hafi María verið um kyrrt í Jerúsalem og segir hefðin að gröf hennar sé þar að finna. María hefur orðið að tákni fyrir trúfesti og tryggð, sér í lagi í kenningum og helgihaldi rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Bæði innan hennar og rétttrúnaðarkirkjunnar gegnir María einnig hlutverki meðalgangara milli syndugs mannkyns og Guðs. Rómversk-kaþólska kirkjan staðfesti flekklausan getnað Maríu með trúarsetningu árið 1854, þ.e. áréttað var að María hafi verið getin án erfðasyndarinnar. Samkvæmt hefðinni steig María upp til himna og er Himnaför Maríu haldin hátíðleg þann 15. ágúst. Algyðistrú. Algyðistrú er sú trú að sami guðlegi mátturinn fylli og gegnumsýri alla tilveruna. Í raun má segja að innan algyðistrúarbragða sé Guð allt og jafngildi alheiminum og náttúrunni. Klassísk algyðistrú. Þeir sem aðhyllast klassíska algyðistrú leggja tilveruna að jöfnu við Guð án þess að skilgreina hugtökin frekar. Þetta afbrigði algyðistrúar má finna í trúarhefðum innan hindúisma, innan Kabbala gyðingdóms og í mörgum trúarbrögðum og heimspekistefnum. Náttúruleg algyðistrú. Náttúruleg algyðistrú á rætur sínar að rekja í Taóisma og síðar til heimspeki Spinoza. Þeir sem aðhyllast náttúrulega algyðistrú telja alheiminn nauðsynlegt afl til þess að ná dulrænni fullkomnun. Alheimurinn hefur þó ekki sjálfstæðan vilja, meðvitund eða tilfinningar og er því ekki hægt að líta á hann sem Guð nema í óhefðbundnum og ópersónulegum skilningi. Þessi stefna gengur líka undir nafninu ópersónuleg algyðistrú eða ópersónuleg algildishyggja. Æxlun. Æxlun eða tímgun er líffræðilegt ferli þar sem nýjar lífverur verða til. Æxlun er einn af grundvallarþáttum lífs á jörðunni; hver einasta lífvera er afurð æxlunarferlis. Þekktum æxlunaraðferðum er gróflega skipt í tvennt: kynæxlun og kynlausa æxlun. Með kynlausri æxlun getur einstaklingur fjölgað sér án aðstoðar annars einstaklings sömu tegundar. Skipting gerilfrumu í tvær dótturfrumur er dæmi um kynlausa æxlun. Kynlaus æxlun er ekki bundin við einfruma lífverur. Flestar jurtir geta til dæmis æxlast kynlaust. Kynæxlun krefst aðkomu tveggja einstaklinga, venjulega af gagnstæðu kyni. Almennt séð æxlast flóknari lífverur með kynæxlun en kynlaus æxlun er fremur á færi lífvera með einfaldari byggingu. Æxlun mannsins. Mannverur fjölgar sér með kynæxlun. Fjölgyðistrú. Fjölgyðistrú kallast trú á marga guði, goð eða goðmögn. Margur forn átrúnaður, m.a. átrúnaður Grikkja og Rómverja, flokkast undir fjölgyðistrúarbrögð. Í fjölgyðistrúarbrögðum eru guðir yfirleitt sýndir sem margbrotnar persónur með sérstaka hæfileika, þarfir, þrár. Guðirnir eru ekki alltaf almáttugir eða alvitrir. Þvert á móti koma þeir oft fram eins og mannfólkið, fallvaltir og breyskir en þó með krafta, vitneskju eða skilning umfram hina dauðlegu. Þó fjölgyðistrú sé algjörlega á öndverðum meiði við eingyðistrú þá eru þau ekki laus við hugmyndina um einn almáttugan og alvitran Guð sem yfir alla aðra er hafinn. Í fjölgyðistrúarbrögðum er þetta æðsta goðmagn yfirleitt yfirboðari eða foreldri hinna goðmagnanna. Dæmi um slíka guði eru Seifur, Júpíter eða Óðinn. Innan fjölgyðistrúarbragða raðast goðmögnin oft upp í svokölluð "guðakerfi" þar sem hver guð hefur sitt hlutverk og oftar en ekki valdsvið í heimsmyndinni. Þannig var Apollon m.a. guð tónlistar og skáldskapar í grískum átrúnaði. Neptúnus var sjávarguð hjá Rómverjum og meðal forn-Egypta var Ósíris guð undirheima og dauðra. Þessa verkskiptingu má auðvitað einnig sjá í hinum forna átrúnaði norrænna manna. Þar var Bragi t.d. guð tónlistar og skáldskapar en Njörður í Nóatúnum var sjávarguð líkt og Neptúnus. Simpsonfjölskyldan. Simpson-fjölskyldan (enska The Simpsons) eru bandarískir teiknimyndaþættir eftir Matt Groening. Þættirnir hófu feril sinn í sem stuttar teiknimyndir í Tracey Ullman-þáttunum 1987 en urðu að 22 mínútna löngum þáttum sem voru sýndir á Fox í Bandaríkjunum 1989. Þættirnir gera oft grín að bandarísku þjóðinni, sjálfum sér eða öðrum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Fjölskyldan samanstendur af bráða fjölskylduföðurnum Homer Jay Simpson, skynsömu móðurinni Marjorie (Marge) Simpson, prakkaranum Bartholomew (Bart) Jojo Simpson, hinni gáfuðu og feimnu Lisu Marie Simpson og kornabarninu Margret (Maggie) Simpson. Fjölskyldan býr að Evergreen Terrace 742 í Springfield. Á Íslandi var Simpsonfjölskyldan fyrst sýnd í sjónvarpi 7. janúar árið 1991. Fyrstu árin voru þættirnir sýndir á RÚV, en árið 1998 tók Stöð 2 þá til sýninga og hafa þeir verið sýndir þar síðan. Upphafið. Matt Groening hafði áður gert teiknimyndasögur sem hétu "Life in Hell" og vöktu þær athygli James L. Brooks sem vildi gera þær að innslögum í þætti Tracey Ullman. Groening vissi ekki hvort að þættirnir um "Life in Hell" yrðu vinsælir, þannig að á nokkrum mínútum teiknaði hann truflaða fjölskyldu og hafði ekki tíma til þess að finna upp almennileg nöfn. Þess vegna nefndi hann persónurnar eftir fjölskyldu sinni: Homer, Margret, Lisa og Maggie en ákvað að nú væri þetta of augljós nöfn svo að hann nefndi strákinn Bart (stafarugl af enska orðinu "brat" sem þýðir óþekktarormur). Fyrsti þátturinn fór í loftið 1987. Teiknimyndirnar nutu mikilla vinsælda og 1989 komu Matt Groening, James L. Brooks og Sam Simon saman og ákváðu að gera 30 mínútna langa þætti um Simpson-fjölskylduna. FOX samdi um 13 þætti og átti að sýna fyrsta þáttinn ("Some Enchanted Evening") í október. Þátturinn þótti hins vegar svo lélegur að yfirmenn FOX frestuðu frumsýningu hans og létu David Silverman, einn af teiknurunum, hreingera þáttinn. Þeir byrjuðu á "Simpsons Roasting on an Open Fire", sem var frumsýndur 17. desember 1989 og sýndu "Some Enchanted Evening" seinast í þáttaröðinni, um vorið 1990. Fleiri þáttaraðir. Eftir vinsældir fyrstu þáttaraðarinnar vildi FOX semja um fleiri þáttaraðir. Nú þurfti að ráða nýja teiknara og höfunda til að ná þeim fjölda þátta sem FOX vildi. Í þriðju þáttaröð urðu AL Jean og Mike Reiss, gamalreyndir Simpsons-höfundar, þáttastjórnendur og framkvæmdastjórar. Árið 1992 hætti Klasky-Csupo-fyrirtæknið að stjórna teiknivinnslu þáttanna svo að ráða þurfti nýtt fyrirtæki. Fyrir valinu varð Film Roman og vinnur við þættina enn þann dag í dag. AL Jean og Mike Reiss hættu eftir fjórðu þáttaröðina ásamt mörgum öðrum rithöfundum út af álaginu en AL Jean og Mike Reiss voru að byrja að vinna að nýjum teiknimyndaþætti: "The Critic". David Mirkin var ráðinn 1993 eftirmaður þeirra og þurfti að ráða nýja rithöfunda, þ.á m. David X. Cohen (einn af höfundum Futurama-þáttanna (1999 - 2004)). David Mirkin vann að fimmtu og sjöttu þáttaröðinni og eftirmenn hans voru gamlir Simpsons-höfundar, Bill Oakley og Josh Weinstein, og unnu þeir við sjöundu og áttundu þáttaröðina. Annar Simpsons-höfundur, Mike Scully, tók við Oakley og Weinstein og vann við þáttaraðir 9 til 12, en aðdáendum þáttanna var illa við stjórnartíð Mikes Scully. Á eftir honum tók Al Jean við þrettándu þáttaröð og vinnur enn við þættina. Aðalleikarar. Dan og Julie unnu við Tracey Ullman þættina og Matt var neyddur að nota þau. Síðan voru Nancy Cartwright og Yeardly Smith valdar til verksins. Harry Shearer var ekki ráðinn fyrr en í fyrstu þáttaröðinni. Hank var gestaleikari þangað til í 3. þáttaröð. Aukaleikarar. Síðan koma oft fram frægir gestaleikarar og listinn er yfir hundrað en helstu eru: Joe Montagna (Fat Tony); Albert Brooks (ýmsar persónur); Kelsey Grammer (Sideshow Bob); Phil Hartman (Lionel Hutz og Troy McClure (1990-98)) og Jon Lovitz (ýmsar persónur en oftast Artie Ziff). Teiknimyndagerð. Simpson-fjölskyldan var lengi vel teiknuð og hreyfð á gamla mátann (1989-2002) - tækni sem kallast "Cel Animation". Fyrst eru samin handrit og þau endurskrifuð oft. Síðan gerir teiknimyndaleikstjórinn myndasögu út frá handritunum. Síðan talsetja leikararnir og leikstjórinn og teiknararnir hlusta á spólu með hljóðinu og búa til "Animatic" sem grófhreyfð teiknimynd. Síðan senda þeir þennan animatic ásamt leiðbeiningum til Suður-Kóreu þar sem þættirnir eru fullkláraðir á glærur sem kallast "cel". Oftast eru 2-3 glærur fyrir einn ramma (persóna, persóna 2 og bakgrunnur). Síðan taka þeir þetta upp á upptökuvél og koma hreyfingunum saman. Síðan er þetta sent til Bandaríkjanna og þeir fínnpússa þáttinn, klára að stilla hljóðbrellurnar og raddsetninguna og koma honum í loftið. Þetta ferli tekur 9 mánuði. Árið 2002 byrjuðu þeir að lita þættina í tölvu en nú eru þeir eingöngu unnir í tölvu því að enginn kann þessa tækni lengur. Helstu leikstjórarnir eru David Silverman, Mark Kirkland, Jim Reardon, Rich Moore, Wes Archer og Nancy Kruse. Handritsskrif. Yfir 20 rithöfundar vinna við Simpsons. Hver og einn rithöfundur sendir oftast inn handrit eða hugmynd að þætti. Handritið er síðan endurritað af öllum ef þess þarf, stundum bætast við bráðfyndnir brandarar sem ekki voru í upphaflega handritinu. Stundum stingur einhver upp á sögu en er ekki við til að skrifa handritið, þannig að annar rithöfundur fær söguna. Kímnin er aðallega svört og oft eru daglegir hlutir ýktir og þeir skopstæla oft fréttir, sjónvarpsþætti, kvikmyndir eða stjórnmál. Helstu rithöfundarnir eru John Swartzwelder, Ian Maxton-Graham, Ron Hauge, George Meyer og Jon Vitti. Simpson-þáttaraðirnar. Simpson-þáttaraðirnar hefjast yfirleitt í lok september eða október um haustið og lýkur í maí. 24. serían er í vinnslu. Kalvínismi. Framhlið aðalrits Kalvíns "Institutio Christianae Religionis" frá 1559 Kalvínska kirkjan öðru nafni "endurbætta kirkjan" eða "siðbætta kirkjan" varð til við klofning í röðum mótmælenda. Nafn kirkjudeildarinnar er dregið af siðbótarmanninum Jóhanni Kalvín en hann mótaði einna mest guðfræði hennar. Kalvínistar hafa annan skilning en Lútherstrúarmenn á ýmsum atriðum trúnar, til að mynda sakramentunum, biblíutúlkun og fyrirhugun Guðs. Þær "kenningar" (sbr. lattnesku doctrína) sem í daglegu tali eru oftast nefndar „kalvinískar“ eiga sér í raun mun lengri sögu. Þannig er hægt að segja að Ágústínus af Hippó hafi fyrstu manna sett fram álíka kenningu í baráttu sinni við palagianisma sem kenndi að maðurinn gæti af sjálfum sér áunnið sér frelsi (þ.e. að hann væri ekki ekki fallinn og þyrfti ekki á náð að halda). Margir áhangendur þessara kenninga, sem líta á þær sem Biblíulegar og þar með guðlegar hafna einnig viðurnefninu „kalvinískar“ eða „kalvinistar“ ("samanber fyrra Korintubréfið III kafla 4. vers: Þegar einn segir: Ég er Páls, en annar: Ég er Apollóss, eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn?") en kjósa heldur að kalla hana kenninguna um „einvalda náð“, „almáttuga náð“, „yfirvalda náð“ eða „náð drottins“. Áhangendur þessarar kenningar vísa oft í Rómverjabréfið VIII kafla (til dæmis 30. vers: „Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört.“) en einnig má finna sterk rök fyrir henni í VI kafla Jóhannesarguðspjalls. Kenning þessi er tölvert umdeild, því ef vilji mannsins er svo bundinn í synd (sbr. M. Lúther, "Um ánauð viljans", sem kom út í íslenskri þýðingu Gottskálks Þórs og Jóns Árna árið 2003 og er til á öllum helstu bóksöfnum landsins) að hann geti ekki af sjálfum sér ákveðið að fylgja Kristi og Guð hafi (sbr. I kafla Efasusbréfsins vers 5) 'fyrirfram ákveðið' (g. "προορίσας") hverjir skildu komast til trúar á Krist, hafi Hann einnig ákveðið hverjir skildu glatast. Þeir sem trúa á einvalda náð benda á að Páll postuli hafi gefið svar við þessu í IX kafla Rómverjabréfsins sem fjallar að mestu um þessa hluti. (sem dæmi má vísa í 14.-20. vers: "Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Því hann segir við Móse: Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna. Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar. Því er í Ritningunni sagt við Faraó: Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina. Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill. Þú munt nú vilja segja við mig: Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans? Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: Hví gjörðir þú mig svona?") Söguágrip. Áhangendur kalvinismans rekja uppruna kirkju sinnar til Krists en kenning þessi var endurvakinn í Sviss, Suður- og Vestur Þýskalandi og Frakklandi snemma á sextándu öld. Jóhann Kalvín var sá sem mótaði guðfræði þeirra hvað mest en áhrifa hans fór fyrst að gæta um miðja 16. öld eftir að fyrsta guðfræðiverk hans kom út ("Stofnanir kristindómsins") árið 1536. Kalvin var franskur en var í útlegð í Genf þegar Ulrich Zwingli hóf ásamt fleirum siðbót í kjölfar siðbreytingar þeirrar er átti sér stað í Saxlandi á vegum Marteins Lúthers. Kalvín varði mestum hluta ævi sinnar sem sóknarprestur í dreifbýli en var um margt ósammála Lúther. Hve mikilsverð áhrif Kalvíns voru kom brátt í ljós og fóru siðbættir söfnuðir að spretta upp hér og þar um Evrópu. Fyrir tilstilli John Knox varð siðbætta kirkjan sú stærsta í Skotlandi (þar sem Jólahátíðin var afnuminn um skeið) og í Hollandi urðu siðbættir mjög fjölmennir. Einnig urðu áhrif þeirra mikil í Englandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Rúmeníu (einna helst Transylvaníu) og Póllandi. Evrópskir landnemar í Ameríku voru flestir siðbættir, þar með taldir hreintrúarmenn og hinir hollensku landnemar í Nýju Amsterdam (nú New York). Siðbættir Hollendingar voru fyrstir til að nema land svo heita megi í Suður-Afríku en landnemar þessir eru þekktir í sögunni undir heitinu Búar. Kalvinistar komu einnig mikið við sögu í Enska borgarastríðinu á miðri 17. öld en hreintrúarmenn, svo sem Oliver Cromwell voru þar í lykilhlutverki. Ein stærstu samfélög kalvínista urðu til á 19. og 20. öld með trúboði og má þar nefna trúfélög þeirra í Nígeríu og Kóreu. Algjör spilling. Þessi kenning var fyrst sett fram af Ágústínusi frá Hippo en samkvæmt honum spilltist hold allra afkvæma Adams svo að menn eru ekki lengur færir um að fylgja Guði, heldur eru þeir fastir í uppreisn það er að segja fangar syndarinnar. Einhlít útvalning. Guð útvelur sína einhliða. Það er ekkert í manninum, hvorki kraftur, verðugleikar né hæfni, sem verðskuldar slíka náðargjöf. Sérstök frelsun. Jesús Kristur frelsaði alla þá sem á hann trúa sérstaklega. Hann tók syndir þeirra á sig og greiddi fyrir þær á krossinum. Þetta gerði Hann í eitt skipti fyrir öld og var búið og gert er hann sagði „Það er fullkomnað“. Ómótstæðileg náð. Náð Guðs er ómótstæðileg þeim sem Hann hefur ákveðið að bjarga. Allir hinir útvöldu (þeir sem Kristur greiddi fyrir á krossinum) munu í fyllingu tímans komast til trúar á Krist. Varðveisla hinna heilögu. Guð mun varðveita þá sem komast til trúar á Hann. Ef Jesús Kristur tók á sig syndir ákveðins einstaklings mun sá hinn sami hólpinn verða. Ágreiningur Kalvíns og Lúthers. Fyrst spratt upp ágreiningur um skilning á sakramentunum og þá einkum kvöldmáltíðarsakramentið. Lúther hélt því fram að Jesús Kristur væri líkamlega nálægur í brauði og víni en siðbættir mótmæla þessu. Jóhann Kalvin hélt því þannig fram að hinn upprisni Kristur (sjá Upprisa Krists, á ensku) gæti einungis verið staðsettur á einum stað í einu þar sem líkami hans er raunverulegur. Hann hélt því hins vegar fram að Kristur væri andlega til staðar í brauðinu. Ulrich Zwingli hélt aftur á móti að sakramentið (L. það sem gert er) sem einnig má kalla tilskipunina, væri einungis táknrænt og er það viðhorf algengast meðal fagnaðarerindismanna (lesa má nánar um útbreiðslu fagnaðarerindisins) í dag. Lútherskar kirkjur telja sakramentin vera tæki til að miðla náðinni en að mati Kalvíns eru þau einungis vitnisburður um trú. Kalvinistar telja náðina vera gjöf frá Guði, menn geta hvorki unnið til hennar með verkum né miðlað henni, sbr. Rómaverjabréfið VIII og IX kafla sem og Efasus bréfið II kafli 8-9 vers: "Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því." Þannig endurspeglast grundvallar trú kristindómsins í þessari kenningu. Hið sanna líf er gjöf Guðs, menn geta einungis orðið hólpnir fyrir trú en ekki af verkum og meira að segja trúin er ekki okkar verk heldur gjöf Guðs. Einnig spratt upp ágreiningur um það hvort Guð hefði forákvarðað menn til frelsunar eða ekki. Kalvín hélt því fram að Guð hefði ákveðið fyrirfram hverjir myndu öðlast frelsi en aðrir ættu glötun vísa. Lúther var ósammála, að hans mati var forákvörðun Guðs öðruvísi því Guð vissi hverjir myndu frelsast því hann vissi hverjir myndu halda trúnni og hverjir ekki. Kalvín og Lúther voru einnig ósammála um það hvernig bæri að túlka Biblíuna. Kalvín sagði að allar bækur Biblíunnar væru jafngildar og að hana ætti að nálgast sem eina heild. Lúther hélt því hins vegar fram að hver og einn skyldi hlusta á Guð tala til sín er hann læsi ritninguna. Sumar bækur hennar flytja orð Guðs betur og hreinna en aðrar og hver með sínum hætti. Þannig gat Lúther haldið sérstaklega upp á einstakar bækur Biblíunnar og var Rómverjabréfið í miklum metum hjá honum. Játningar siðbættra. Játningar kalvínsku kirkjunnar eru fjölmargar og ber nokkuð á því að kalvínskar kirkjur víða um heim móti játningar sínar sjálfar. Áhrifamiklar eru þó Heidelbergkverið frá 1563 og Westminsterjátningin frá 1646. Þá má einnig minnast á Dordrechtjátninguna frá 1619 sem áréttar harðlega fyrirhugunarkenningu Kalvíns, en játningin er afleiðing deilna innan kirkjunnar um þá kenningu. Kalvínska kirkjan viðurkennir einnig, eins og Lútherskar kirkjur, Postullegu trúarjátninguna, Aþanasíusarjátninguna og Níkeujátninguna. Steðji. Járnsmiður hamrar heitt járn á steðja. Steðji er framleiðslutæki gert úr gegnheilu stykki úr stáli eða steini og er notaður sem undirlag þar sem hlutir eru smíðaðir með því að hamra þá eða höggva til, til dæmis þegar smíðað er úr járni eða stáli. Saga. Steðjar hafa verið notaðir frá því snemma á bronsöld við alls kyns málmsmíðar þótt tækið hafi þekkst fyrr og verið notað til að búa til hluti úr steini eða tinnu. Fyrstu vísanir í steðja eru í fornegypskum og forngrískum heimildum. Steðjinn var þróaður áfram á miðöldum þegar járnsmiðjur urðu algengar og útbreiddar. Krókódílaættbálkur. Krókódílaættbálkur (fræðiheiti: "Crocodilia") eru ættbálkur stórra skriðdýra. Krókódílar komu fram á sjónarsviðið fyrir um 220 milljón árum. Þeir eru næstu núlifandi ættingjar fugla. Til eru 22 tegundir krókódíla sem eru allar kjötætur. Krókódílar skiptast í þrjár ættir: krókódílaætt ("Crocodylidae"), alligatora ("Alligatoridae") og langtrýninga ("Gavialidae"). Bragi (norræn goðafræði). Bragi er guð skáldskapar í norrænni goðafræði og er Iðunn kona hans. Hann er sonur Óðins en samkvæmt heiðinni hefð eru æsir þessir álitnir feður skáldskaparins og skyldu skáld heita á þá, einkum Braga ef þau vildu ná langt. Þriðji hluti "Snorra Eddu" kallast "Skáldskaparmál" og leikur Bragi stórt hlutverk þar. Eins og ráða má af nafninu er mikið rætt um skáldskap og hefur Bragi sitthvað til málanna að leggja. Einnig segir Bragi söguna af því hvernig skáldskapurinn varð til. Upphaf skáldskapar. Frásögn Braga um upphaf skáldskaparins er á þessa leið. Æsir og Vanir höfðu átt í stríði um skeið en friður var kominn á. Til að innsigla þennan frið spýttu bæði Æsir og Vanir í ker og úr hrákanum gerðu þeir mann. Maður þessi kallaðist Kvasir og var hann svo miklum gáfum gæddur að hann vissi svör við öllum spurningum. Kvasir fór út um allan heim til að kenna en þegar hann kom heim til tveggja dverga, Fjalars og Galars, drápu þeir hann og blönduðu blóði hans við hunang. Sú blanda varð að skáldskaparmiði því hver sem myndi drekka af miðinum varð skáld eða fræðimaður. Skáldskaparmjöðurinn komst svo í hendur á jötni að nafni Suttungur en hann vildi engum lofa að dreypa á miðinum. Með klækjum komst Óðinn yfir mjöðinn og kom honum til ása. Höður (norræn goðafræði). Höður er goðmagn af ætt ása í norrænni goðafræði. Hann er blindur og mjög sterkur. Höður er langþekktastur fyrir það að hafa orðið Baldri, hinum hvíta ás, að bana. Fyrir tilstilli Loka Laufeyjarsonar kastaði Höður að honum mistilteini svo honum varð bani af og var það öllum ásum mikill harmur. Höður er einn af þeim sem byggir hina nýju jörð eftir Ragnarök, en eftir hina miklu orrustu koma Baldur og Höður gangandi saman upp úr Helju. Kasakska. Kasakska (Қазақ тілі/Қазақша/Qazaq tili) er tungumál Kasakstans. 11,5 milljón manns tala hana sem móðurmál. Hún er tyrkískt tungumál. Kasakska er töluð í Kasakstan og í Mið-Asíu. Önnur lönd þar sem kasakska er töluð eru Mongólía, Úsbekistan og Kirgistan, og minnihlutahópar í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Tyrklandi. Kasakska er mjög svipuð kirgísku, úsbeksku, tadjikisku, túrkmensku, asersku og tyrknesku. Greina má mörg sameiginleg orð og fólk sem kann kasöksku á auðvelt með að lesa þessi mál. Stafróf. Kasakska er skrifuð með breyttri útgáfu kýrillíska stafrófsins, en var áður rituð með arabíska stafrófinu. Аа Әә Бб Вв Гг Дд Ғғ Ее Ёё Жж Зз Ии Йй Кк Ққ Лл Мм Нн Ңң Оо Өө Пп Рр Сс Тт Уу Ұұ Үү Фф Хх Һһ Цц Чч Шш Щщ (Ъъ) Ыы (Ьь) Іі Ээ Юю Яя Hel. Hel er eitt þriggja afkvæma Loka og Angurboðu en í norrænni goðafræði ríkir hún yfir undirheimum. Þegar Hel fæddist kastaði Óðinn henni niður í Niflheim þar sem hún skyldi ríkja yfir níu undirheimum, en þangað fóru þeir sem ekki dóu í bardaga. Í heiðinni hefð er Hel einnig nafn á undirheimum þessum. Helju er lýst sem blárri í framan til hálfs en hinn helmingurinn er húðlitur. Heimkynnum hennar er lýst sem gríðarmiklum og kallast salur hennar Éljúðnir. Disk á hún sem kallast Hungur, hníf sem nefnist Sultur. Hel hefur yfir að ráða ambátt og þræl sem nefnast Ganglati og Ganglöt. Rúm hennar kallast Kör. Til er saga af því þegar Hermóður hinn hvati heimsótti Helju til að freista þess að fá Baldur lausan þaðan. Hel sagði Hermóði að hún skyldi láta Baldur lausan ef allir hlutir heims, bæði lifandi og dauðir myndu syrgja hann og gráta. Hermóður bar ásum skilaboðin og grétu allir hlutir heims Baldur að einni tröllkonu undanskilinni er Þökk hét. Segir sagan að þar hafi Loki Laufeyjarson verið í dulargervi. Véltækni hf.. Véltækni hf. er íslenskt verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í að vélsteypa kantsteina. Fyrirtækið var stofnað þann 16. febrúar árið 1958 og hefur vélsteypt kantsteina í um þrjá áratugi. Stofnandi og fyrsti forstjóri fyrirtækisins var Pétur Jónsson en sonur hans, Kristinn Pétursson (einnig nefndur Kiddi kantur), er núverandi forstjóri. Vinsælasti kantsteinninn hjá fyrirtækinu er 15 cm járnbentur kantsteinn. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru að Stórhöfða 35 í Reykjavík. Niflheimur. Samkvæmt norrænum sköpunarfrásögnum var Niflheimur í upphafi lengst í norðri. Sköpunarfrásögn Snorra Eddu segir að í upphafi hafi Ginnungagap verið milli Niflheims í norðri og Múspells í suðri. Í Niflheimi var afskaplega kalt en í Múspelli var funheitt og þegar hrím Niflheims og gneistar Múspells mættust varð jötuninn Ýmir. Úr honum gerðu Óðinn og bræður hans svo jörðina. Óðinn kastaði Hel í Niflheim þegar hún fæddist og eru þar hinir níu undirheimar sem hún ræður yfir. Ein þriggja róta Asks Yggdrasils liggur í Niflheim en hana nagar ótt og títt hinn ógurlegi dreki Níðhöggur. Undir rótinni er brunnurinn Hvergelmir og renna úr honum fjölmörg fljót. Bamakó. Bamakó er höfuðborg Malí. Hún er einnig stærsta borg landsins, með um eina og hálfa milljón íbúa. Borgin er staðsett við Nígerfljót í suðvesturhluta landsins. Bamakó séð frá nálægri hæð The Philosophical Review. The Philosophical Review er bandarískt fræðitímarit um heimspeki sem kemur út ársfjórðungslega og er ritstýrt af kennurum við Sage School of Philosophy við Cornell University og er gefið út af Duke University Press. Heimild. Philosophical Review Mind. "Mind" er virt breskt tímarit um heimspeki, sem er gefið út hjá Oxford University Press fyrir hönd Mind Association. Í tímaritinu eru birtar greinar innan rökgreiningarhefðarinnar í heimspeki. Tímaritið kom fyrst út árið 1876. Árið 1891 hófst útgáfan upp á nýtt og var kölluð „nýja röðin“ (‚New Series‘). Í upphafi var tímaritið tileinkað þeirri spurningu hvort sálarfræði gætu talist til náttúruvísinda, en eins og áður segir er athyglinni beint að rökgreiningarheimspeki í dag. Núverandi ritstjóri tímaritsins er Thomas Baldwin, prófessor við University of York. Frægar greinar. Fræg grein eftir Bertrand Russell, Um tilvísun ("On Denoting") var birt í fyrsta sinn í Mind 1905 og Alan Turing setti fyrst fram hugmyndina um Túringprófið í 1950 hefti af "Mind". Noûs. "Noûs" er þekkt tímarit um heimspeki sem er gefið út ársfjórðungslega af Blackwell Publishing. Því er ritstýrt af Jaegwon Kim og Ernest Sosa. Samkvæmt yfirlýsingu tímaritsins gefur það út „greinar sem fást við allar meginspurningar heimspekilegrar orðræðu og langar gagnrýnar umfjallanir um mikilvægar bækur.“ Loki. Loki Laufeyjarson er afar fyrirferðarmikið goðmagn í norrænni goðafræði. Hann er sonur Laufeyjar og Fárbauta jötuns og er því af jötnaætt. Hann umgengst goðin mikið og blandaði eitt sinn blóði við Óðinn sjálfan. Loki eignaðist þrjú hræðileg afkvæmi með tröllkonunni Angurboðu en kona hans var önnur. Hún hét Sigyn og eignaðist Loki tvo syni með henni. Það hafa ekki fundist nein ummerki um að hann hafi nokkurs staðar verið tilbeðinn eða dýrkaður. Loki er slægur og slunginn og er ásum oft til mikils ama. Af hrekkjum sínum og illvirkjum hefur Loki fengið mörg miður hugguleg viðurnefni til að mynda "rógberi ásanna", "frumkveði flærðanna" og "vömm allra goða og manna". Í Eddukvæðum má finna Lokasennu sem segir frá rifrildi Loka við hin goðin og einnig segir hinn færeyski "Loka Táttur" frá því þegar Loki hjálpar mannfólkinu. Mest er að finna um Loka í Eddu Snorra Sturlusonar. Loki sem bragðarefur. Í hinni norrænu goðafræði gegnir Loki því hlutverki sem í trúarbragðafræðum hefur verið kallað "bragðarefur" (á ensku "trickster"). Loki leikur á goðin, hrekkir þau, hegðar sér ósæmilega og brýtur þær reglur sem hafa áður verið settar af goðunum en slík hegðun er dæmigerð fyrir bragðarefi. Loki hefur þó þá sérstöðu að hann er oft illgjarn og sjaldan leiða hrekkir hans til nokkurra heilla, allra síst fyrir hann sjálfan, því goðin refsa honum oft harðlega fyrir það sem hann gerir. Afkvæmi Loka. Loki gat þrjú afkvæmi við tröllkonuna Angurboðu og eru þau hvert öðru hryllilegra. Miðgarðsormur, risaslangan sem lykur sig um Miðgarð, og Fenrisúlfur, risastór úlfur, eru báðir undan Loka og Angurboðu komnir og eru tvö helstu tortímingaröfl í norrænni goðafræði. Þriðja afkvæmi þeirra er Hel en hún ríkir yfir undirheimum og dauðum. Einnig á Loki tvo syni með konu sinni Sigyn, þeir heita Váli og Narfi. Eitt afkvæmi Loka er enn ótalið en það er hinn áttfætti hestur Sleipnir. Er bergrisi einn kom til ásanna og bauðst til að byggja múr í kringum Ásgarð brá Loki sér í líki hryssu svo hann gæti lokkað Svaðilfara, hest risans í burtu. Það tókst og risinn náði ekki að byggja múrinn á tíma en afleiðingarnar fyrir Loka voru þær að síðar eignaðist hann Sleipni. Ráðbani Baldurs. Loki var sá sem bar ábyrgð á dauða Baldurs, hins hvíta áss. Goðin léku sér að því að kasta hlutum að Baldri því Frigg hafði komið því svo fyrir að ekkert beit á honum. Loki komst þó að því að sá hlutur sem gat skaðað hann var mistilteinn og kom hann því svo fyrir að Höður, hinn blindi ás, fékk mistilteinsknippi í hendurnar og varpaði því, óafvitandi um hvað hann hafði undir höndum, að Baldri svo af hlaust bani. Einnig segir sagan að þegar æsir reyndu að ná Baldri aftur úr Helju með því að fá alla hluti heims til að gráta hann, þá hafi Loki dulbúið sig sem tröllkonuna Þökk en hún var sú eina sem neitaði að gráta. Baldur var því um kyrrt í Helju. Seinna fann Váli, sonur Rindar þriðju konu Óðins, að hann Höður hafði orðið Baldri að bana, þannig að Váli varð honum Höð að bana. Örlög Loka og Ragnarök. Goðin komust á snoðir um hvernig dauða Baldurs hafði verið háttað og flýði Loki á fjall eitt þar sem hann faldist oft í líki lax. Í því líki var Loki þegar Þór handsamaði hann. Eftir að Loki hafði verið handsamaður var hann bundinn með þörmum Narfa sonar síns og eitur látið renna á hann. Sigyn, kona hans, sat þó hjá honum og hélt fyrir keri svo eitrið myndi ekki renna framan í hann. Þegar Sigyn tæmdi kerið lak eitrið þó á Loka og urðu þá jarðskjálftar. Í heimsslitaorrustunni Ragnarökum barðist Loki með jötnum gegn ásum. Hann barðist hatrammlega gegn Heimdalli og varð báðum af bani. Samanburður við önnur trúarbrögð. Loki hefur verið borinn saman við bragðarefi í ýmsum þjóðartrúarbrögðum, t.a.m. sléttuúlfinn (Coyote) í trúarbrögðum indíána Norður-Ameríku. Þá hefur honum verið líkt við Hermes, sem blekkti eitt sinn Appollon, slavneska guðinn Veles og hinn kínverska apakonung. Wetzlar. Wetzlar er þýsk borg með 52.269 íbúa (30. desember 2006). Borgin er staðsett í sambandslandinu Hessen í Þýskalandi. Borgin liggur norðan við Frankfurt við ána Lahn sem tengir Rín. Howlandeyja. Howlandeyja er hringrif rétt norðan miðbaugar, 3.100 kílómetra suðvestur af Honolulu. Eyjan er hjálenda Bandaríkjanna. Málfræði. Málfræði er safn reglna sem lýsa notkun á tilteknu tungumáli og er þá talað um málfræði þess tungumáls. Stundum er lýsingin talin staðlandi og sögð lýsa „réttri“ notkun málsins. Hefðbundin tungumál sem notuð eru í samskiptum manna stjórnast öll af tiltekinni málfræði, samanber íslenska málfræði og enska málfræði, þótt hún geti verið misflókin. En málfræði er líka mikilvæg í annars konar tungumálum, svo sem forritunarmálum. American Journal of Philology. "American Journal of Philology" ("AJP") er fræðitímarit sem hóf göngu sína árið 1880 og var stofnað af fornfræðingnum Basil Lanneau Gildersleeve. Það er eitt helsta tímarit um textafræði og skyld efni í fornfræði og klassískum bókmenntum, málvísindum, sagnfræði og heimspeki og birtir oft þverfaglegar fræðigreinar. Árið 2003 voru "AJP" veitt verðlaun fyrir besta útgefna hefti af Association of American Publishers. Núverandi ritstjóri tímaritsins er Barbara K. Gold, við Hamilton College. Tímaritið kemur út ársfjórðungslega í mars, júní, september og desember. Meðallengd heftis er um 176 blaðsíður. Journal of the History of Philosophy. "Journal of the History of Philosophy" er fræðitímarit sem var stofnað árið 1957. Tímaritið birtir greinar, athugasemdir og bókagagnrýni um sögu Vestrænnar heimspeki. Tímabilið sem fjallað er um nær frá miðödum til nútímans. Aðalritstjóri tímaritsins er Tad Schmaltz, prófessor við Duke University. Stephan Blatti við Duke University er aðstoðarritstjóri. Jack Zupko, prófessor við Emory University sér um ritstjórn bókagagnrýninnar. Tímaritið kemur út ársfjórðungslega í janúar, apríl, júlí og október. Meðallengd heftis er um 140 blaðsíður. Möðrudalur á Fjöllum. Möðrudalur á Fjöllum er bær á Möðrudalsöræfum á Norðurlandi eystra. Jörðin er ein sú landmesta á Íslandi og sú sem stendur hæst (469 metra yfir sjávarmáli). Bærinn stóð við Hringveginn þar til Háreksstaðaleið var tekin í notkun. Kirkjan á Möðrudal var reist af Jóni Aðalsteini Stefánssyni bónda þar til minningar um eiginkonu sína. Hún var vígð 4. september 1949. Jón skreytti kirkjuna sjálfur að innan og málaði altaristöfluna. Á Möðrudal hefur verið rekin veðurathugunarstöð um árabil, en þar og á Grímsstöðum á Fjöllum mældist mesti kuldi sem mælst hefur á Íslandi, -38°C, þann 21. janúar 1918. Menntamálaráðherra. Menntamálaráðherra er sá ráðherra í ríkisstjórn sem fer með menntamál og í sumum tilfellum einnig menningarmál. Menntamálaráðuneyti er stjórnardeild í ríkisstjórnum margra ríkja heims. Kröflueldar. Kröflueldar voru hrina eldgosa og kvikuhlaupa sem áttu sér stað við Kröflu frá 20. desember 1975 til 18. september 1984. Á þessum tíma var einmitt verið að reisa þegar umdeilda Kröfluvirkjun. Björgvin Halldórsson. Björgvin Helgi Halldórsson (f. 16. apríl 1951) er íslenskur söngvari, frægastur fyrir að syngja popplög og ballöður sem mörg hafa náð gríðarlegum vinsældum á Íslandi. Hann var valinn „poppstjarna ársins“ þann 1. október 1969. Björgvin fæddist í Hafnarfirði og sleit þar barnsskónum. Fyrsta hljómsveit hans var Bendix. Hann var þó ekki lengi í þeirri hljómsveit heldur tók við söngnum í Flowers þegar Jónas R. Jónsson hætti. Björgvin hefur síðan meðal annars verið söngvari í Ævintýri, Brimkló og HLH-flokknum. Á ferli sínum sem tónlistarmaður hefur hann flutt og hljóðritað mörg frumsamin lög sem og tökulög. Meðal þeirra eru sígild lög á borð við dúettinn „Ég vil eiga jólin með þér“, „Gullvagninn“ og „Þó líði ár og öld“. Núna starfar Björgvin sem þulur og sitthvað fleira, auk þess að vera söngvari. Björgvin var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu í janúar 2011 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Nílarkrókódíll. Nílarkrókódíll (fræðiheiti: "Crocodylus niloticus") er stór krókódílategund sem lifir í Afríku. Hann er ein af stærstu tegundum ættarinnar og er hættulegur bæði dýrum og mönnum. Hann dregur nafn sinn af ánni Níl. Lýsing. Nílarkrókódíll er ein af stærstu krókódílategundum heims. Stærstu einstaklingarnir sem fundist hafa voru yfir sex metra langir og vógu 750 kg. Útbreiðsla. Kort sem sýnir útbreiðslu nílarkrókódíla í Afríku. Nílarkrókódílar finnast í stöðuvötnum, ám og fenjum um nær alla Afríku og á Madagaskar. Nílarkrókódílar og menningin. Nílarkrókódílar höfðu mikilvægt hlutverk í trúarbrögðum Forn-Egypta. Guðinn Sebek var með krókódílshöfuð og bærinn Krókódílópólis var vígður honum og krókódílum hans. Margir smurðir krókódílar hafa fundist í gröfum um allt Egyptaland. Nílarkrókódíllinn er auk þess það rándýr sem drepur flest fólk í Afríku árlega. Tónlistarmaður. Til eru bæði atvinnutónlistarmenn og tónlistarmenn sem leggja stund á tónlist sem tómstundagaman. Seúl. Kortið sýnir staðsetningu Seúl í Suður-Kóreu. Seúl er höfuðborg Suður-Kóreu og jafnframt stærsta borg landsins. Nafn borgarinnar er dregið af forna kóreska orðinu "Seorabeol" eða "Seobeol", sem þýðir „höfuðborg“. Borgin var áður þekkt undir nöfnunum "Wiryeseong", "Hanyang" og "Hanseong". Seúl er staðsett í norðvesturhluta landsins, við Hanfljót. Borgin nær yfir 607 ferkílómetra. Íbúar Seúl eru rúmlega tíu milljónir talsins. Sé allt höfuðborgarsvæðið talið með eru íbúarnir um tuttugu milljónir. Seúl er ein af fjölmennustu og þéttbýlustu borgum heims. Poppstjarna. Poppstjarna er popptónlistarmaður (oftast söngvari), sem nær mikilli frægð og (oft tímabundnum) vinsældum fyrir lag eða plötu, sem hann hefur sungið. Sumar poppstjörnur eiga langan feril, sem spannar jafnvel áratugi, en aðrar poppstjörnur verða frægar og hverfa svo hratt af sviðinu. Hreisturdýr. Hreisturdýr (fræðiheiti: "Squamata") eru stærsta núlifandi ætt skriðdýra og telur bæði slöngur, eðlur og ormskriðdýr. Hreisturdýr hafa sveigjanleg kjálkabein þar sem kjálkinn tengist við höfuðkúpuna sem í spendýrum er orðinn að steðjanum í eyranu. Gríðarlega sveigjanlegt gin gerir þeim kleift að gleypa stóra bráð og mjaka henni niður meltingarveginn. Eðlur. Eðlur eru hreisturdýr sem tilheyra undirættbálkinum "Lacertilia" eða "Sauria". Almennt. Þær eru venjulega ferfættar með ytri eyrnaop og hreyfanleg augnlok. Stærstu eðlurnar eru kómódódreki sem nær þremur metrum, en þær minnstu eru aðeins nokkrir sentímetrar. Þær hafa aðlagast ýmsum aðstæðum of finnast í margvíslegum búsvæðum víða um heim, í eyðimerkum, á graslendi, í skóglendi og mýrlendi og til fjalla. Margar tegundir lifa í trjám — af þeim eru kamelljónin sérhæfðust með gripfætur og griphala, langa veiðitungu og afar góða sjón. Augu kamelljóna geta hreyst sjálfstætt í allar áttir. Fæða og atferli. Flestar stórvaxnar eðlur eru jurtaætur. Sækemban er eina eðlan sem lifir í sjó; hún étur þang. Monitor-eðlurnar í Eyjaálfu og Asíu eru einu stóru eðlurnar sem eru rándýr. Þær eru óvenju virkar eðlur og geta ráðist á stór spendýr. Kómódódrekinn situr fyrir hjörðum dádýra og Beitir eitruðu biti til að sljóvga og loks drepa bráðina. Fæðuatferli eðla er fjölbreytt og nær öfgakennt í sumum tilfellum. "Leiocephalus schreibersi" situr á sömu greininni frá sólsetri til sólseturs og er alveg hreyfingarlaus 99% tímans — einu hreyfingarnar voru eldsnöggar árásir á skordýr. "Ameiva chrysolaema" er virk í aðeins 4-5 tíma á dag en er á nær stanslausri hreyfingu og það á miklum hraða. Tvær megin aðferðir við fæðuöflun: Fyrirsát og span. Ásta B. Þorsteinsdóttir. Ásta B. Þorsteinsdóttir (1. desember 1945 - 12. október 1998) var alþingismaður og hjúkrunarfræðingur. Hún var einnig varaformaður Alþýðuflokksins um tíma. Foreldrar Ástu voru Þorsteinn Þorsteinsson, sjómaður og fisksali, og Ásdís Eyjólfsdóttir, skattendurskoðandi. Eiginmaður Ástu var Ástráður B. Hreiðarsson, læknir. Börn Ástu og Ástráðs eru: Arnar Ástráðsson læknir, Ásdís Jenna Ástráðsdóttir og Þorsteinn Hreiðar Ástráðsson. Dulfrævingar. Dulfrævingar (fræðiheiti: "Magnoliophyta", samheiti "Angiospermae") er annar tveggja helstu hópa fræplantna. Þeir skera sig frá öðrum fræplöntum að því leyti að þeir hylja fræ sín aldni. Þeir bera þar að auki blóm sem inniheldur æxlunarfæri þeirra. Inni í blóminu er fræblað og inni í því er eggbúið. Af þessum ástæðum eru þeir nefndir dulfrævingar. Í hinum stærsta hóp fræplanta, berfrævingum eru hvorki eggbúið hulið fræblaði né fræin hulin aldni. Dulfrævingar skiptast í einkímblöðunga og tvíkímblöðunga. Slóvakíska. Slóvakíska (slóvakíska: "slovenčina") er indó-evrópskt tungumál af ætt vestur-slavneskra tungumála. Hún er náskyld tékknesku og pólsku. Slóvakíska er opinbert tungumál Slóvakíu en auk þess tala hana minnihlutahópar í Bandaríkjunum, Tékklandi, Ungverjalandi og fleiri löndum. Slóvakíska er nokkuð flókið tungumál og hefur flókna málfræði. Ritháttur. Slóvakíska er rituð með latneska stafrófinu, en auk þess eru nokkrir sérstakir stafir. a á ä b c č d ď dz dž e é f g h ch i í j k l ĺ ľ m n ň o ó ô p q r ŕ s š t ť u ú v w x y ý z ž. Athugið að farið er með "dz", "dž" og "ch" sem einstaka stafi. Háskólinn á Bifröst. Háskólinn á Bifröst (áður Samvinnuskólinn eða Samvinnuskólinn Bifröst) er íslenskur háskóli staðsettur í Norðurárdal í Borgarbyggð, inn af Borgarfirði. Í kringum skólann hefur myndast lítið þorp, Bifröst, þar sem búa um 700 manns. Skólinn var stofnaður árið 1918 undir nafninu Samvinnuskólinn og var þá staðsettur í Reykjavík. Skólinn var rekinn af Sambandi íslenskra samvinnufélaga og var ætlaður fyrir meðlimi samvinnuhreyfingarinnar. Fyrsti skólastjórinn var Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann var mótaður eftir fyrirmynd Ruskin College, Oxford í Englandi, þar sem Jónas hafði sjálfur numið. Skólinn flutti árið 1955 í land Hreðarvatns í Norðurárdalnum. Það var svo árið 1988 að skólinn var gerður formlega að skóla á háskólastigi. Skólinn hefur gengið í gegnum nokkrar nafnabreytingar, en hann hefur, auk fyrsta nafnsins (Samvinnuskólinn) og þess núverandi (Háskólinn á Bifröst) heitið Samvinnuháskólinn og Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Skólinn hefur verið sjálfseignarstofnun síðan árið 1990 en fyrir það var hann deild innan SÍS. Núverandi rektor er Bryndís Hlöðversdóttir og tók hún við embætti í janúar 2011 þegar Magnús Árni Magnússon lét af störfum en hann hafði gegnt embættinu frá júní 2010. Við skólann stunda rúmlega 1100 manns nám og býr um fjórðungur þeirra á stúdentagörðum í þorpinu. Skólanum er skipt upp í þrjár deildir; félagsvísindadeild, lagadeild og viðskiptadeild. Þar að auki er til staðar frumgreinadeild, sem er hugsuð sem undurbúningur undir nám í grunndeildum háskólans. Skólinn útskrifar nemendur með eftirtaldar gráður: BS, BA, MS, MA og ML. Skólastjórnar og rektorar Bifrastar frá upphafi. Jónas Jónsson frá Hriflu 1918 - 1955 Guðmundur Sveinsson 1955 - 1974 Haukur Ingibergsson 1974 - 1981 dr. Jón Sigurðsson 1981 - 1991 Vésteinn Benediktsson 1991 - 1995 Jónas Guðmundsson 1995 - 1999 Runólfur Ágústsson 1999 - 2006 Bryndís Hlöðversdóttir 2006 - 2007 dr. Ágúst Einarsson 2007 - 2010 Magnús Árni Magnússon 2010 - 2011 Bryndís Hlöðversdóttir 2011 - 2013 dr. Vilhjálmur Egilsson 2013 - Osmótískur þrýstingur. Osmótískur þrýstingur kallast það þegar vatn sækir í meiri efnisstyrk í gegnum hálfgegndræpa himnu Stórfjölskylda. Stórfjölskylda er félagsfræðileg skilgreining á þremur ættliðum. Hún samanstendur af afa, ömmu, mömmu, pabba og börnum. Algengt var til forna á Íslandi að stórfjölskyldan búi saman og það fyrirkomulag er í dag algengt í þróunarríkjum. Landeyjar. Landeyjar kallast svæðið frá ósum Hólsár að Markarfljótsósum og allt upp undir Djúpá og upp fyrir Þjóðveg 1, þó tilheyra bæir á borð við Ármót og Bakkakot til Rangárvalla. Svæðið er flatlent og mikið landbúnaðarhérað enda veðurfar og spretta ákjósanlega. Landeyjar skiptast í Austur- og Vestur-Landeyjar um Affalið og austast í þeim austari er Bakkaflugvöllur. Hið forna höfuðból Bergþórshvoll er í Landeyjum og samkomusalirnir Gunnarshólmi og Njálsbúð. Svæðið tilheyrir allt Rangárþingi eystra. Eggert Páll Ólason. Eggert Páll Ólason (fæddur 4. nóvember 1975) er íslenskur lögfræðingur. Eggert stundaði nám við Lagadeild Háskóla Íslands þar sem hann lauk prófi 2003, einnig stundaði hann nám í ensku til BA gráðu. Hann fékk réttindi sem Héraðsdómslögmaður í maí 2004 og varð löggiltur verðbréfamiðlari árið 2005. Árið 2005 stofnaði hann samtökin Vini einkabílsins sem börðust fyrir fleiri mislægum gatnamótum og akreinum á höfuðborgarsvæðinu. Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í Reykjavík 2006 bauð Eggert sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins en hlaut ekki brautargengi í efstu sæti á lista. Eggert hefur starfað aðarlega í fjármálageiranum, fyrst á á lögfræðisviði Kaupþings en árið 2007 hjá Landsbankanum. 2012 hóf hann störf hjá Íslensku Lögmannstofunni. Transactions of the American Philological Association. "Transactions of the American Philological Association" ("TAPA") er fræðitímarit sem var stofnað árið 1869 og er rit American Philological Association. Í tímaritinu eru birtar greinar sem fjalla um sögu, menningu og tungumál Grikklands hins forna og Rómaveldis. Í hverju hefti eru birt viðbrögð við greinum fyrri tölublaða. Paul Allen Miller við University of South Carolina er núverandi ritstjóri tímaritsins. Tímaritið er kemur út tvisvar á ári, í maí og nóvember. Meðallegnd heftis er um 224 blaðsíður. Marshalláætlunin. Marshalláætlunin, einnig nefnd Marshallaðstoðin, var áætlun á eftirstríðsárunum (1948-53) skipulögð af bandaríska utanríkisráðuneytinu og átti að stuðla að efnahagslegum uppgangi í löndum Evrópu og auka samvinnu þeirra á milli eftir eyðileggingu seinni heimstyrjaldarinnar. Áætlunin var einnig liður í að sporna gegn útbreiðslu kommúnismans og áhrifa Sovétríkjanna. Áætlunin var nefnd í höfuðið á þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna George Marshall en aðalhöfundar hennar voru aðrir starfsmenn ráðuneytisins, og má þá sérstaklega nefna William L. Clayton og George F. Kennan. Sextán lönd í Evrópu þáðu boð Bandaríkjamanna um að taka þátt í áætluninni þ.á m. Ísland. Íslendingar högnuðust mjög mikið á aðstoðinni, og mest miðað við höfðatölu. Aðstoðin gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu landsins eftir stríðið. Eftir seinni heimsstyrjöldina. Afleiðingar seinni heimstyrjaldarinnar voru hryllilegar; milljónir manna létu lífið á vígvellinum og í helförinni og öll Evrópa var í rúst. Eyðileggingin náði líka til innviða samfélagsins, bygginga, samgangna og opinberra stofnanna. Berlín, Dresden og fleiri þýskar borgir auk Varsjár í Póllandi voru svo gott sem jafnaðar við jörðu. Flestar stærri borgir í Þýskalandi, London og París og ótal fleiri borgir og bæir höfðu orðið fyrir miklum skemmdum. Talið er að á bilinu 50-70 milljónir manna hafi látið lífið í seinni heimsstyrjöldinni sem lauk með Yaltafundinum í febrúar 1945 og friðarviðræðunum í París 1947. Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Breta flutti á þeim fundi fræga ræðu 5. mars 1946 þar sem hann nefndi það Járntjald (e. „iron curtain“) sem skildi að lýðræðisríki Evrópu frá kommúnistaríkjum Sovétríkjanna. Við tók djúp efnahagsleg lægð í Evrópu og árið 1948 voru helstu hagtölur iðnríkja Evrópu enn vel undir þeirri framleiðslugetu sem náð hafði verið fyrir stríð. Kalda stríðið, og vopnakapphlaupið sem því fylgdi, var ekki enn hafið fyrir alvöru. George F. Kennan, deildarstjóri í bandaríska utanríkisráðuneytinu, hafði þegar spáð fyrir um það hvernig andstæðar fylkingar myndu skipa sér hvor gegn annarri sitt hvoru megin járntjaldsins. Bandarískir ráðamenn höfðu töluverðar áhyggjur af fylgi við kommúnistaflokka í löndum eins og Ítalíu, Grikklandi og Frakklandi, og því varð eitthvað að gera. Morgenthauáætlunin. a>ar þar sem sést í veggspjald sem auglýsir Marshallaðstoðina. Lagðar voru fram ýmsar tillögur um það hvernig best væri að byggja upp Evrópu á ný. Annar valkostur sem kom til greina var svonefnd Morgenthauáætlun, en hún var nefnd eftir þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna Henry Morgenthau, yngri. Sú áætlun gekk í stuttu máli út á það að afvopna Þýskaland, skipta því í tvö sjálfstæð ríki, eitt alþjóðlegt svæði og úthluta Frakklandi og Póllandi landsvæði sem að þeim lá. Jafnframt átti að eyðileggja verksmiðjur og framleiðsluaðstöðu Þjóðverja í Ruhrhéraði Norður Rín-Vestfalíu og koma þannig í veg fyrir að Þýskalandi gæti á ný orðið efnahagslegt stórveldi sem gæti ógnað öðrum. Samkvæmt áætluninni áttu Þjóðverjar einnig að greiða himinháar stríðsskaðabætur líkt og þeir voru skyldaðir til með Versalasamningnum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Áætlun Morgenthau var þó ekki valin því viðurlögin þóttu of grimmileg. Þess í stað var Þýskalandi skipt í Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland árið 1949 og hélst sú skipting allt fram að falli Berlínarmúrsins 1989. Undirbúningur. a>. Myndin sýnir hlutfallslega dreifingu heildarupphæðar Marshall-áætlunarinnar. Bandarískum ráðamönnum þótti það vandasamt að útfæra þessar hugmyndir sínar um fjárhagsstuðning við lönd Evrópu. Þeir óttuðust mótstöðu í bandaríska þinginu. Fyrst var látið í veðri vaka í ræðu sem George Marshall flutti fyrir nemendur Harvard háskóla í júní 1947 að til stæði að veita Evrópuríkjum efnhagslegan stuðning. Fyrirætlunin var að fréttir af ræðunni bærust til ráðamanna í Evrópu sem myndu síðan hafa samband með eigin hugmyndir um upphæðir og skilmála. Utanríkisráðherrar Bretlands og Frakklands hittust í Frakklandi ásamt utanríkisráðherra Sovétríkjanna. Þeir komu sér saman um að bjóða Sovétríkjunum óhagstæðan samning. Mánuði seinna var stærri fundur haldinn og flestum ríkjum Evrópu boðið að mæta. Ljóst þótti að Sovétríkin myndu ekki mæta og utanríkisráðherrar Tékkóslóvakíu og Póllands voru kallaðir til Kremlar þar sem þeir fengu tiltal hjá Jósef Stalín fyrir að sýna þessu áhuga. Sovétríkin undirbjuggu þá sambærilega áætlun sín megin járntjaldsins sem nefnt var "Ráð gagnkvæmnar efnahagslegrar aðstoðar" (COMECON). Evrópuríkin þau, 16 talsins, sem vildu þiggja aðstoðina höfðu hver fyrir sig sérstakar hugmyndir um þau skilyrði sem yrðu sett fyrir henni. Enn átti eftir að samþykkja lög þess efnis á bandaríska þinginu. Ráðamenn í Evrópu báðu upphaflega um 22 miljarða dollara, sem ríkisstjórn Trumans skar niður í 17 miljarða og var loks samþykkt að veittir yrðu 5 milljarðar upphaflega sem á endanum urðu u.þ.b. 13 miljarðar dollara. Harry Truman, bandaríkjaforseti, undirritaði lög um Stofnun efnahagslegrar samvinnu (e. "Economic Cooperation Administration") þann 3. apríl 1948. Í Evrópu var stofnuð sambærileg stofnun sem seinna varð að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Ísland. Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi alþingismaður Alþýðuflokksins, flutti fyrirlestur þann 25. apríl 1948 í Háskóla Íslands þar sem hann rakti aðdraganda áætlunarinnar og sagði það henta best ef Bandaríkjamenn gætu lánað fé sem Íslendingar mættu sjálfir ráðstafa frekar en að aðstoðin yrði í formi vara eða hráefnis. Marshallaðstoðin var samt sem áður í megindráttum í formi inneignarnótna eða úttekta á innfluttum bandarískum vörum. Mikilvægara var þó að keyptir voru togarar, dráttarbátar og landbúnaðarvélar og var jafnframt ráðist í stærri framkvæmdir s.s. byggingu Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar, áburðarverksmiðju í Gufunesi, steypuverksmiðju, hraðfrystihúsa og klæðaverksmiðju Álafoss svo fátt eitt sé nefnt. Áhrif. Evrópulönd höfðu nær engan erlendan gjaldeyri eftir seinna stríð og því var þetta mikilvæg aðstoð svo að Evrópulönd gætu hafið aftur innflutning vara landa á milli. Ýmis skilyrði voru sett fyrir því hvernig Marshallfjármagninu skyldi eytt til uppbyggingar. Marshall aðstoðinni lauk formlega 1953 en óljóst er hvaða fjárútlát Bandaríkjanna teljast til aðstoðarinnar og hvaða ekki. Þessi ár aðstoðarinnar voru ár mikillar og hraðrar enduruppbyggingar, að miklu leyti þökk sé Marshallaðstoðinni. Skiptar skoðanir eru um tilgang aðstoðarinnar og sjá sumir hana sem gott dæmi um góðvilja bandarískrar utanríkisstefnu (á þeim tíma) en aðrir sem form af efnahagslegri heimsvaldastefnu. Vinir einkabílsins. Vinir einkabílsins eru samtök óháð stjórnmálaflokkum sem stofnuð voru þann 10. október 2005 á Hótel Sögu. Markmið samtakanna er að tryggja greiðari umferð einkabíla um höfuðborgarsvæðið. Núverandi formaður samtakanna er Eggert Páll Ólason og hann hefur gegnt því starfi síðan samtökin voru stofnuð. Stingskötur. Stingskötur (fræðiheiti: "Dasyatidae") er ætt brjóskfiska af skötuættbálki og eru því skyldar hákörlum. Þær eru algengar í hitabeltishöfum meðfram ströndum, jafnvel í árósum og ferskvatni. Stofnar flestra tegunda eru heilbrigðir og ekki í útrýmingarhættu. Eins og aðrar skötur eru þær flatar með augun ofan á búknum og því vel aðlagaðar lífi við sjávarbotninn. Flestar stingskötur eru með eitraðan gadd á halanum sem þær nota í árásar– og varnarskyni. Nokkuð algengt er að menn séu stungnir en það er afar sjaldgæft að menn látist af þeim sökum, frá 1969 til 1996 voru aðeins 17 skráð stungutilfelli sem leitt höfðu til dauða. Alvarlegar stungur geta þó orðið til þess að aflima þarf sjúklinginn. Guðmundur Bergþórsson. Guðmundur Bergþórsson (1657 – 1705) var fæddur á Stöpum á Vatnsnesi. Á fjórða ári lamaðist Guðmundur í fótum og visnaði á honum hægri höndin. Fimm ára fór hann til vandalausra. Um átján ára aldur fluttist hann út á Snæfellsnes og var þar lengst af til heimilis á Arnarstapa. Guðmundur var flugnæmur og gáfaður, lærði að lesa og skrifa og skrifaði allt með vinstri hendinni. Hann fékkst talsvert við að segja til börnum. Þá var hann síyrkjandi og orti margt eftir pöntun, til dæmis mikið af erfiljóðum. Hafði hann af þessum störfum nóg fyrir sig að leggja. Skáldskapur Guðmundar er mikill að vöxtum og var hann eitt mikilvirkasta rímnaskáld allra tíma. Eru rímur hans af Olgeiri danska taldar lengstu rímur sem kveðnar hafa verið. Natascha Kampusch. Natascha Kampusch (fædd 17. febrúar 1988 í Vín) er kona sem slapp frá ræningja sínum eftir átta ára fangavist á heimili hans í ágústlok árið 2006 og neitaði síðar að hitta foreldra sína og fengu þau ekki að hitta hana nema stutta stund daginn sem hún slapp úr prísundinni. Albufeira. Albufeira er borg í suðurhluta Portúgals. Íbúar borgarinnar eru rétt rúmlega 35,000 og búa þeir á 140 km² svæði. Íbúatala borgarinnar margfaldast hins vegar á sumrin vegna mikils fjölda ferðamanna sem sækir borgina heim. Mirandês. Mirandese (á portúgölsku: Língua Mirandesa) er tungumál sem talað er á litlu svæði í norðaustur Portúgal. Árið 1998 samþykkti portúgalska þingið að gera málið - ásamt portúgölsku - að opinberu tungumáli landsins. Efnaskipti. Efnaskipti eru lífefnafræðilegt ferli þar sem efnasambönd í lífverum og frumum þeirra breytast. Efnaskipti geta þjónað margvíslegum tilgangi í starfsemi lífvera, til dæmis er ljóstillífun aðferð til að binda orku í efnasamböndum, en efnaskipti tengd bruna eru aðferð til að losa orku úr efnasamböndum til að knýja starfsemi lífverunnar. Efnaskipti lífvera eru yfirleitt drifinn áfram af ensímum, og innihalda oft nokkur þrep. Epiktetos. Epiktetos – (stundum kallaður Epiktet á íslensku) – (55 – 135 e.Kr.) var grískur þræll og stóuspekingur. Hann er talinn hafa fæðst í Hierapolis í Frýgíu í Grikklandi (nú Tyrklandi). Hann bjó um tíma í Rómarborg, eftir að hann varð leysingi, uns hann var sendur í útlegð til Níkopólis í Norðvestur-Grikklandi á árabilinu 88-93, þar sem hann svo dó. Epiktetos skrifaði engar bækur, svo að vitað sé, heldur var kennsla hans munnleg. Meðal nemenda hans var Flavius Arrianus, sem skrifaði hjá sér orð meistara síns. Talið er að hann hafi ritað átta bækur með ræðum hans, og eru fjórar þeirra varðveittar. E.t.v. einnig tólf bækur með samræðum, en þær eru allar glataðar. Loks skráði Arrianus kver, sem kallað er "Handbók Epiktets". Þýðingar. Dr. Broddi Jóhannesson þýddi á íslensku "Handbók Epiktets", og kom hún út 1955. Í bókinni er 28 bls. eftirmáli um Epiktetos og stóuspekina. Þar segir að hann hafi fæðst um 50, og dáið um eða eftir 138 e.Kr. Hugarkort. Hugarkort er kort eða tengslamynd sem sýnir tengsl orða, hugtaka, hugmynda eða verkefna miðað við einhverja miðju sem oft er orð eða hugmynd. Hugarkort eru aðferð í námstækni og ýmiss konar hugmyndavinnu og þankahríð, aðferð til að flokka og raða hugmyndum og hugtökum og til að setja hugmyndir fram á myndrænan hátt. Hugarkort nýtast sem námstækni þannig að nemandi gerir eigin hugarkort til að skilja og muna flókin hugtök. Hugarkort geta nýst í allri hugmyndavinnu svo sem til að greina vandamál og leita að lausnum og sem hjálpartæki við ákvarðanatöku. Belgrad. Belgrad ("Београд" eða "Beograd" á serbnesku) er höfuðborg Serbíu og stærsta borg landsins. Við borgina eru ármót Dónár og Sava. Borgin er ein af þeim elstu í Evrópu og á rætur sínar að rekja allt til um 6000 f.Kr. Í henni búa 1.710.000 manns, hún er stærsta borg fyrrum Júgóslavíu og fjórða stærsta borg Suð-Austur Evrópu á eftir Istanbul, Aþenu og Búkarest. Á því svæði sem Belgrad er í dag hafðist forsögulegur þjóðflokkur Vinča við. Borgin var stofnuð á tímum Kelta og Rómarveldis en á 7. öld tóku Slavar að byggja borgina. Serbía tilheyrði Austur-rómverska keisaradæminu, var undir Frönkum, Búlgörum, Ungverjum og Serbum áður en Ottómanveldið lagði Belgrad undir sig árið 1521. Belgrad var höfuðborg sjálfstæðs ríkis Serba frá árinu 1403 til 1427 en féll þá aftur til Ottómana. Serbía hlaut sjálfstæði árið 1841. Á 20. öld var Belgrad höfuðborg Konungsríkis Serba, Króata og Slóvena á árunum 1918-29, 1929-41 Konungsríkisins Júgóslavíu og loks 1945-92 Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu. Belgrad hefur töluverða sjálfsstjórn innan Serbíu og er borgarstjórnin þónokkuð valdamikil. Borginni er skipt í 17 smærri hverfiseiningar sem hvert fyrir sig hefur sérstakt hverfisráð. Borgin nær yfir 3,6% af landssvæði Serbíu og u.þ.b. 21% fólksfjöldans (að Kosovo frátöldu) býr innan borgarmarkanna. Landafræði. Belgrad er í um 117 m hæð yfir sjávarmáli við ármót tveggja stórra áa Dónár og þverár hennar Sava. Falco. Falco (fæddur 19. febrúar 1957 í Vín; dáinn 6. febrúar 1998) var austurrískur söngvari og lagahöfundur. Tálkn. Tálkn eru öndunarfæri vatnadýra sem nota þau til að skipta koltvísýringi út fyrir súrefni. Ýmis minni vatnadýr geta andað með allri húðinni en flóknari dýr, eins og til dæmis samlokur, hjóldýr, ýmis vatnaskordýr og fiskar, notast við tálkn. Misheitt blóð. Misheitt blóð einkennir dýr sem viðhalda líkamshita sínum á annan hátt en dýr með jafnheitt blóð eins og spendýr og fuglar. Misheitt blóð á við um þrjá aðskilda eiginleika varmajöfnunar líkamans; útvermið blóð þar sem dýrið stjórnar líkamshita sínum með utanaðkomandi orkugjafa eins og sólinni, misheitt blóð þar sem líkamshitinn er sá sami og umhverfishiti og að síðustu hæg efnaskipti þegar dýrið er með mjög lítil efnaskipti í hvíld (getur „slökkt á líkamanum“). Dæmi um dýr með misheitt blóð eru skriðdýr. Vistkerfi. Vistkerfi er einhver skilgreindur hluti af lífhvolfi jarðar. Vistkerfi er hugtak í vistfræði og vísar til safns af ferlum og einingum sem taka þátt í og valda hegðun einhvers skilgreinds hluta af lífhvolfinu. Hugtakið á venjulega við um allar lifandi og líflausar einingar og samspil þeirra á tilteknum stað, sem getur verið risavaxinn (t.d. Atlantshafið) eða agnarlítill (t.d. eitt fiskabúr), sbr. hugtakið visthrif. Sumir líta svo á að vistkerfi stjórnist af lögmálum kerfisfræðinnar og stýrifræðinnar líkt og öll önnur kerfi. Aðrir telja að vistkerfi stjórnist fyrst og fremst af tilviljunarkenndum atvikum, áhrifum þeirra á lífvana efni og viðbrögðum lífvera. Feitur fiskur. Feitur fiskur er fiskur þar sem stór hluti fisksins er fita. Fiskar með mikið fituinnihald eru oft uppsjávarfiskar sem halda sig venjulega við yfirborð vatna eða sjávar á allt að 1000 metra dýpi. Þessir fiskar halda sig í torfum og lifa að mestu á dýrasvifi. Fitan í þessum fiskum dreifist um allt flakið og umhverfis kviðarholið, en er ekki aðeins að finna í lifrinni eins og hjá öðrum fiskum. Beinfiskar. Beinfiskar eru yfirflokkur fiska sem inniheldur bæði geislugga ("Actinopterygii") og holdugga ("Sarcopterygii"). Þessir flokkar fiska eru af þróunarlínum sem eru samsíða þróunarlínum landdýra. Af þessari ástæðu eru ferfætlingar sums staðar settir í þennan flokk. Langflestir fiskar eru beinfiskar og langflestir beinfiskar eru geisluggar. Aðeins sjö núlifandi tegundir holdugga eru til, þar á meðal lungnafiskur og skúfuggi. Beinfiskar eru með sundmaga eða lungu og eru með hreyfanleg tálknlok sem gera þeim kleift að anda án þess að þurfa að hreyfa sig. Vankjálkar. Vankjálkar (fræðiheiti: "Agnatha") eru yfirflokkur fiska sem inniheldur um sextíu tegundir sem skiptast í tvo aðgreinda hópa, slímála og steinsugur. Það sem helst einkennir þessa fiska er að þeir eru ekki með kjálka, eru ekki með uggapör, eru ennþá með hryggstreng og sjö eða fleiri tálknop. Þeir eru auk þess með ljósnæman heilaköngul („þriðja augað“). Vankjálkar eru ekki með sérstakan maga, hafa kalt blóð og beinagrind úr brjóski. Fiskur (matargerð). Fiskur er mikilvæg fæða fólks um allan heim og aðferðir við að matreiða fisk eru í samræmi við það gríðarlega fjölbreyttar. Aðferðir við matreiðslu fisks fara oft saman við matreiðslu annarra vatnadýra, svo sem skelfisks, krabbadýra og smokka. Aðeins lítill hluti þeirra 29.000 tegunda fiska sem til eru í heiminum er étinn. Algengar tegundir matfisks eru meðal annars þorskur, lax, ansjósa, vatnakarpi, túnfiskur, silungur og makríll. Matreiðsla þessara fiska fer eftir stærð fisksins, fituinnihaldi og gerð kjötsins (hvort það er hvítt eða dökkt t.d., þétt eða laust í sér). Fiskur er almennt talinn hollur matur, einkum vegna þess að fitan í fiski inniheldur mikið af Ómega-3 fitusýrum sem taldar eru vinna gegn hjartasjúkdómum. Gagnrýni hefur þó komið fram á þessa viðteknu skoðun og meðal annars hefur verið bent á að aukin mengun gefi tilefni til að forðast fisk frá vissum svæðum. Fiskitorfa. Fiskitorfa er hópur eða sveimur fiska af sömu tegund sem synda þétt saman og virka sem ein heild. Torfumyndun hefur ýmsa kosti fyrir einstaklingana sem eru í torfunni; hún minnkar líkur á því að verða bráð rándýra, eykur líkur á mökun, gerir fæðuleit auðveldari og minnkar vatnsviðnám. Torfumyndun á sér einkum stað hjá uppsjávarfiskum. Slíðurhyrningar. Slíðurhyrningar er ætt klaufdýra sem finna má víðsvegar um heim, frá Ástralíu til Norðurheimskautsins. Slíðurhyrningar telja bæði villt dýr og húsdýr og helstu tengurndirnar eru bufflar, nautgripir, sauðfé, antilópur og geitur. Stærstu slíðurhyrningarnir eru meira en tvö tonn að þyngd og alls meira en tveir metrar á hæð en þeir minnstu ekki meira en þrjú kílógrömm og vart stærri en venjulegir heimiliskettir. Þeir hafa það sameiginlegt að vera jurtaætur og geta ekki á beinan hátt melt beðmi heldur hafa margar tegundir örvera í meltingarfærum sínum sem brjóta það niður. Svif. Svif (eða smááta) eru örsmáar lífverur sem fljóta um í höfum og vötnum. Þessar lífverur eru of smáar til að geta fært sig um set af eigin rammleik og reka því með straumum. Svif er gríðarlega mikilvægur hluti af fæðukeðju vatnadýra. Svif skiptist í jurtasvif, dýrasvif og bakteríusvif. Skelfiskur. Skelfiskur er hugtak sem notað er í matargerð yfir ýmis lindýr og krabbadýr, en ekki fisk. Lindýr sem kölluð eru skelfiskur eru til dæmis kræklingur, kúskel, ostra og hörpuskel. Krabbadýr sem talin eru með skelfiski eru til dæmis rækja, humar, krabbi og vatnakrabbi. Smokkar og sniglar eru venjulega ekki taldir með, þótt þeir séu bæði ætir og lindýr. Skelfisksofnæmi er algengt matarofnæmi. Łowicz. Łowicz er borg við fljótið Bzura í miðhluta Póllands. Íbúar bjuggu 31.500 íbúar árið 2005. Matargerð. Matargerð, matreiðsla eða eldamennska er það þegar matur er búinn til úr ýmsu hráefni. Matargerð er tækni og stundum listgrein þar sem fjölbreytilegustu aðferðum er beitt til að gera tiltekna rétti. Mataruppskriftir eru upptalning á hráefni og leiðbeiningar um það hvernig á að matbúa tiltekna rétti. Háffiskar. Háffiskar (fræðiheiti: "Selachimorpha") eru hópur fiska með stoðgrind úr brjóski og straumlínulagaðan skrokk. Þeir anda með fimm tálknopum (eða sex eða sjö eftir tegundum) sem mynda röð rétt aftan við höfuðið. Háffiskar eru með skráptennur á skinninu sem vernda þá fyrir sníklum og auka straumflæði skrokksins. Þeir hafa nokkrar raðir af endurnýjanlegum tönnum. Minnsti háffiskurinn er dvergháfur ("Euprotomicrus bispinatus"), djúpsjávarfiskur sem aðeins verður 22 sm á lengd. Stærsti háffiskurinn, og jafnframt stærsti fiskurinn, er hvalháfur ("Rhincodon typus") sem verður tólf metra langur og nærist eingöngu á svifi, líkt og stórhveli. Háffiskar eru greindar skepnur þó að þeir geti ruglast á sel og manni. Háffiskar halda sig á mismunandi stöðum og í mismunandi hópum. Nautháfur heldur sig við strendur Mexíkó en hvítháfur heldur sig frekar í heitum sjó til dæmis við strendur San Francisco. Margar strendur víða um heim eru vaktaðar fyrir háffiskum en í flestum tilfellum er varað við að stinga sér til sunds við bryggjur. Hákarlar hafa ekki bein heldur brjósk. Þeir hafa sveigjanlega brjóskgrind sem gagnast þeim þegar þeir þurfa að synda langa vegalengd. Túnfiskur. Túnfiskur er almennt heiti á nokkrum tegundum fiska af makrílaætt, aðallega innan ættkvíslarinnar "Thunnus". Túnfiskur er líka heiti á tegundinni "Thunnus tynnus". Túnfiskar eru hraðsyndir (hafa mælst á 77 klst hraða) og telja nokkrar tegundir sem eru með jafnheitt blóð. Kjöt túnfiska er rautt á litinn af því það inniheldur meira magn vöðvarauða en flestar aðrar tegundir fiska. Sumar stærri tegundirnar, eins og atlantshafstúnfiskur, geta aukið líkamshita sinn með því að hreyfa vöðvana og þannig lifað af í mun kaldari sjó. Túnfiskur er ein af verðmætustu tegundum fiska. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að ofveiði ógnar sumum túnfiskstofnum. Heinrich Himmler. Heinrich Luitpold Himmler (7. október 1900 – 23. maí 1945) var yfirmaður Gestapó og SS sveitanna í Þýskalandi og einn af valdamestu mönnum landsins á tímum Hitlers og nasismans. Hann fæddist í München í kaþólska miðstéttarfjölskyldu. Faðir hans var Joseph Gebhard Himmler kennari og skólastjóri við fínan menntaskóla en móðir Anna Maria Himmler (upprunalega Heyder). Hann átti tvo bræður, annan yngri og hinn eldri. Himmler var handtekinn í lok stríðsins þann 22. maí og voru fljótlega borin kennsl á hann. Hann framdi sjálfsmorð daginn eftir með blásýrupillu. Æviágrip. Himmler gekk í þýska Nasistaflokkinn og steig metorðastigan hratt. Himmler varð einn áhrifamesti maður innan flokksins. Á eftir Adolf Hitler var Heinrich Himmler sennilega sá maður sem hafði hve mest áhrif í heiminn úr röðum nasista á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Hann var skipaður foringi SS-sveitanna (Schutzstaffel) og lögreglusveita í Þýskalandi þar með talinni leynilögreglunni Gestapo. SS-sveitirnar undir stjórn Himmlers báru að stórum hluta ábyrgð á útrýmingu gyðinga og annarra minnihlutahópa í seinni heimstyrjöldinni. Hann var skipaður innanríkisráðherra Þýskalands árið 1943. Þegar Þýskaland beið ósigur 1945 gerði Himmler misheppnaða tilraun til að fara í felur undan Bandamönnum en það komst upp auðkenni hans fljótlega eftir uppgjöf Þýskalands. Heinrich Himmler svipti sig lífi 23. maí 1945 líkt og margir kollegar hans höfðu gert við fall Þriðja ríkisins. Æska. Heinrich Himmler var fæddur 7. október 1900 í München í Þýskalandi. Hann var alinn upp í strangtrúaðri kaþólskri fjölskyldu af millistétt. Faðir hans hét Joseph Gebhard Himmler og var skólastjóri í menntaskóla. Móðir hans hét Anna Maria Himmler. Hann átti einn yngri bróðir að nafni Ernst Hermann Himmler og annan eldri Gebhard Ludwig Himmler. Faðir Heinrich Himmler hafði verið einkakennari margra barna úr valdamiklum fjölskyldum í Þýskalandi. Þessi áhrifaríku sambönd urðu til þess að prins Heinrich af Bavaríu var guðfaðir Heinrich Himmler og hét hann í höfuðið á honum. Heinrich Himmler var full ungur til þess að ganga í her Þýskalands sem barðist í fyrri heimstyrjöldinni en lagði sitt af mörkum með því að aðstoða lögreglusveitir. Aðal áhugamál Heinrich Himmler var landbúnaður. Hann vann á bóndabýli í stuttan tíma þegar hann var búin með grunnnám en eftir það fór hann í tækniháskólann í München og lærði þar búfræði. Á þessum tíma kviknaði stjórnmálaáhugi Himmlers. Himmler gekk í Nasistaflokkinn undir stjórn Adolfs Hitler. Áhrifamikill maður innan Nasistaflokksins að nafni Gregor Strasser réð Himmler sem aðstoðamann sinn til að byrja með. Það starf fól aðalega í sér að sjá um skrifstofustarfsemi og áróðursherferðir. Skipulagshæfileikar Himmler leyndu sér ekki og stjórnaði hann fljótlega SS-sveitunum í Suður-Bavaríu. Himmler hélt áfram að klifra metorðastigann og í janúar árið 1926 útnefndi Adolf Hitler hann foringja SS-sveitanna. SS-sveitirnar. Á þeim tíma sem Heinrich Himmler tók við foringjatitli sveitanna voru þær ekki stórar í smíðum, taldi um 300 menn. SS-sveitirnar voru gerðar algjörlega óháðar SA-sveitunum í janúar 1929. Völd Ernst Röhm foringja SA-sveitanna ógnuðu valdastöðu Hitlers og fyrirskipaði hann því Himmler og SS-sveitum hans að ráða af dögum alla hæðst settu leiðtoga SA sveitanna, þar á meðal Ernst Röhm. Þessi atburður er kallaður nótt hinna löngu hnífa. Nú þegar SA sveitirnar heyrðu sögunni til hafði Heinrich Himmler tækifæri til að gera SS-sveitirnar sínar að einum af stærstu og valdamestu samtökum í Þýskalandi. Himmler vildi að SS-sveitirnar myndu samanstanda af mun hæfari mönnum en þeir sem höfðu verið í SA-sveitunum. Hann bjó til eins konar elítumynd af því hvernig það væri að vera í SS-sveitunum til þess að laða að sem hæfustu einstaklinga. Þetta gerðu hann með virðulegum svörtum búningum og sérstökum auðkennum. SS-mönnum þóttu þeir æðri en brúnklæddu SA-sveitamennirnir. Himmler lét alla meðlimi SS-sveita sverja hollustu við Adolf Hitler. Þetta var vel séð af Adolf Hitler og styrkti það valdastöðu Himmlers innan flokksins. Þegar nasistar voru komnir til valda í Þýskalandi árið 1933 var fjöldi meðlima í SS-sveitunum kominn upp í um 50 þúsund. Árið 1939 voru meðlimir orðnir 250 þúsund. Himmler hélt áfram uppbyggingu SS-sveitanna og þegar seinni heimstyrjöldin var yfirvofandi skipti hann sveitinni í tvennt. Önnur sveitin byggði á hernaði (Waffen-SS) en hin ekki (Allgemeine-SS). Sú sem byggði á hernaði (Waffen-SS) átti mikinn þátt í að setja upp og reka útrýmingarbúðir og stóð fyrir nauðungarvinnu og öðrum voðaverkum í seinni heimstyrjöldinni. Aukin völd. Eftir því sem tímanum leið öðlaðist Himmler sífellt meiri völd og í apríl 1934 var Himmler orðin einn af hæst settu mönnum í Gestapo, leyniþjónustu nasista. Í júní 1936 var Himmler skipaður yfirmaður allra lögreglusveita Þýskalands. 1943 tók Heinrich Himmler við af Wilhelm Frick sem innanríkisráðherra Þýskalands. Helförin. Árið 1941 fyrirskipaði Adolf Hitler með samráði Himmlers og annara háttsettra nasistaforingja algjöra útrýmingju gyðinga. Þetta kölluðu þeir lokalausnina. Fyrir það höfðu gyðingar verið einangraðir í sérstökum hverfum og auðkenndir með því að bera gula stjörnu. Fjöldamargir gyðingar höfðu einnig verið látnir vinna nauðungarvinnu. Alls höfðu um tólf milljónir fanga starfað hjá þýskum iðnaðarfyrirtækjum. SS-sveitirnar undir forustu Himmler ráku sex útrýmingarbúðir, 22 fangabúðir, 165 þrælkunarbúðir og fleiri minni búðir. Gyðingum var smalað saman, jafnvel látnir grafa sínar eigin grafir, pyntaðir og myrtir. Gyðingar sem létust af völdum helfararinnar voru um sex milljónir. Sígaunar, geðsjúkir, vangefnir og samkynhneigðir urðu einnig fyrir barðinu á helför nasista. Tala látinna úr þeirra hópi var að minnsta kosti 500 þúsund. Kynþáttahyggja. Himmler var einn af þeim sem voru heilteknir af þeirra hugmynd að norðlenskur kynstofn, svokallaðir aríar, væru æðri en aðrir kynstofnar. Himmler hvatti menn sína til að eiga að minnsta kosti fjögur börn, ekki endilega bara með eiginkonu sinni heldur líka hvaða konu sem er af þessum sama kynstofni. Himmler hrinti í framkvæmd útrýmingaraðferð sem fólst í að dæla gasi inn í sér til gerða klefa. Þetta gerði hann til þess að létta sálarbyrði SS-manna og þurfa ekki að skjóta fólk beint með byssum. Þessi aðferð varð til þess að mjög margir SS-manna sem voru í útrýmingarbúðunum í Auschwitz sluppu við réttarhöld og refsingu eftir stríðið. Örlög. Hitler og fleiri hátt settir nasistar frömdu sjálfsmorð í kjölfar ósigurs Þýskalands en Himmler var ekki jafn staðfastur. Hann reyndi bæði að skipta gíslum úr röðum gyðinga fyrir pening og ná friðarsamningum við Bandamenn án samþykki Adolf Hitler. Þann 5. maí 1945 hélt hann síðasta fund sinn með háttsettum mönnum í SS. Hann skipaði þeim að dulbúast sem hermenn því líklegra væri að þeir myndu sleppa við refsingu en ef þeir myndu koma fram sem meðlimir SS-sveitanna. Sjálfur sagði hann að örlagadísirnar hafi ætlað honum nýtt verkefni. Honum varð þó fljótt ljóst að Bandamenn myndu ekki semja frið við mann eins og hann. SS-sveitirnar undir forystu og leiðsögn hans höfðu myrt milljónir manna. Með því að dulbúast og sýna falska pappíra reyndi Himmler að leyna auðkenni sínu. Bretar handsömuðu og komu upp um auðkenni Heinrichs Himmlers fljótlega eftir uppgjöf Þjóðverja og 23. maí 1945 framdi hann sjálfsmorð með því að taka inn blásýruhylki. Skráptennur. Skráptennur eru broddar sem vaxa á skráp sumra brjóskfiska, þar á meðal háfiska. Þær eru svipaðar að gerð og tennur sem kunna að hafa þróast út frá skráptönnum í frumstæðum fiskum. Form skráptanna fer eftir tegund og þær eru því notaðar við greiningu. Skrápur háfiska er þakinn skráptönnum og hefur meðal annars verið notaður líkt og sandpappír til slípunar. Allar tennurnar snúa aftur. Háfiskar hafa sést nota tennurnar til að særa bráð sína. Rannsóknir hafa sýnt að skráptennurnar skapa örsmáar hringiður og auka þannig sundgetu og draga úr hljóði. Jafnheitt blóð. Jafnheitt blóð er eiginleiki dýra sem viðhalda jöfnum líkamshita, sérstaklega á innstu líffærum eins og lifrinni, miðað við yfirborðshita. Þetta felur ekki aðeins í sér hæfileikann til að framleiða hita, heldur einnig til að kæla sig niður. Dýr með jafnheitt blóð stjórna líkamshitanum með því að stjórna efnaskiptahraðanum (þ.e. með því að auka hraða efnaskiptanna þegar umhverfishiti lækkar). Jafnheitt blóð vísar til þrenns konar einkenna varmajöfnunar í líkamanum; hæfileikans til að viðhalda jöfnum líkamshita með innri aðferðum eins og til dæmis titringi vöðva, hæfileikans til að halda sama hita þrátt fyrir breytilegan umhverfishita og hröð efnaskipti í hvíld. Hrogn. Hrogn eru fullþroskuð egg fiska og annarra vatnadýra eins og ígulkerja og rækja. Sem sjávarfang eru hrogn étin bæði hrá og soðin. Kavíar er í grundvallaratriðum söltuð hrogn, fyrst og fremst styrju, en orðið er líka notað um hrogn hrognkelsa og mat unninn úr þorskhrognum. Fiskveiðar. Fiskveiðar eru veiðar á villtum fiski og krabbadýrum í vatni (stöðuvötnum, ám og sjó). Fiskveiðar og fiskeldi eru mikilvægar atvinnugreinar sem sjá fólki fyrir fiski til matar og skapa hráefni fyrir ýmsa aðra framleiðslu úr fiskafurðum. Fiskar eru veiddir með ýmsum aðferðum. Þær helstu eru veiðar með skutli, línu og neti. Hella (hljómsveit). Hella er rokkhljómsveit frá Sakramentó. Aðalmeðlimir eru gítarleikarinn Spencer Seim og trymblillinn Zach Hill. Báðir spila þó á fjölda hljóðfæra og stundum hafa fleiri tónlistarmenn spilað með þeim á tónleikum. Hljómsveitin var stofuð árið 2001 og hefa komið út allavega 10 plötur með hljómsveitinni, þar af eru tvær deiliskífur. Tónlist þeirra er oft lýst sem tilraunakenndu, kaótísku sönglausu hávaða rokki. Báðir hljóðfæraleikararnir hafa mjög framsækin og tæknilega krefjandi stíl. Árið 2005 fóru fleiri hljóðfæraleikarir að leika með hljómsveitinni á tónleikum og núna stendur á heimasíðu þeirra að hljómsveitin Hella sé núna skipuð Zach Hill, Josh Hill, Aaron Ross, Carson McWhirter og Spencer Seim. Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum er varaformaður Sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á Allsherjarþingi þeirra. Í dag er Fastafulltrúinn jafnframt sendiherra Íslands gagnvart 6 ríkjum á Karíbahafi, þ.e. Bahamaeyjum, Barbadoseyjum, Dómíníska lýðveldinu, Grenada, Jamaíku og Kúbu. Formaður Sendinefndarinnar hefur verið undanfarið Utanríkisráðherra ellegar Staðgengill Utanríkisráðherra. Steve Irwin. Irwin heldur kynningu í dýragarði sínum Stephen Robert „Steve“ Irwin (22. febrúar 1962 – 4. september 2006) var ástralskur náttúruverndarsinni, umsjónarmaður dýragarðs í Ástralíu og þekktur sjónvarpsmaður fyrir þætti sína sem "The Crocodile Hunter". Hann lést við upptökur á þætti þegar stingskata stakk hann í hjartastað. Svoldarorrusta. Svoldarbardagi var sjóorrusta háð í Eyrarsundi eða einhvers staðar í Eystrasalti í september árið 999 eða 1000. Ólafur Tryggvason, Noregskonungur, hafði verið í leiðangri til Vindlands og var á leið aftur heim til Noregs. Sveinn tjúguskegg, Danakonungur, Ólafur sænski, Svíakonungur, og Eiríkur Hákonarson, Hlaðajarl, sátu fyrir honum með ofurefli liðs. Heimskringla segir svo frá að Ólafur Tryggvason hafi aðeins haft 11 skip í bardaganum en andstæðingar hans höfðu að minnsta kosti 70. Skip hans voru hroðin eitt af öðru uns aðeins Ormurinn langi var eftir. Eftir harða atlögu unnu Eiríkur jarl og menn hans skipið og Ólafur kastaði sér í sjóinn. Talið er að Svoldur (eða Svöldur) sé eyja í Eystrasalti, innan við eyna Rügen við strönd Þýskalands. Hún er nú óþekkt örnefni. Pegasos. Pegasos (stundum nefndur Skáldfákur) var vængjaður hestur í grískri goðafræði sem varð til þegar Perseifur drap Medúsu. Hann ýmist spratt úr blóði hennar sem féll á jörðina eða stökk úr hálsinum þegar Perseifur skar höfuðið af henni. Hann er líka kallaður "hinn vængjaði skáldfákur" þar sem sagan segir að Bellerófon hafi tamið hann og gefið hann músunum á Parnassos. Skötur. Skötur (fræðiheiti: "Rajiformes") eru ættbálkur flatra brjóskfiska skyldar hákörlum. Einkenni á skötum eru breið börð sem líkjast vængjum þegar þær synda. Þvermunnar. Þvermunnar eru yfirættbálkur brjóskfiska sem telur meira en 500 tegundir í þrettán ættum. Þvermunnar eru misflattir út. Þeir eru náskyldir háfiskum og nýlegar DNA-rannsóknir hafa sýnt að blettaháfur er skyldari skötum en öðrum háfiskum. Ungir þvermunnar líkjast mjög ungum háfiskum. Egg þvermunna frjóvgast inni í líkama móðurinnar og seiðin klekjast auk þess út þar og fæðast lifandi hjá öllum þvermunnum nema eiginlegum skötum. Skötur hrygna lengjum af flötum ferköntuðum eggjum sem tengjast saman með tveimur þráðum á hvorum enda og eru kölluð pétursskip. Steinsuga. Steinsuga (eða dvalfiskur) er kjálkalaus fiskur með tenntan hringlaga munn sem virkar líkt og sogskál, en á henni eru svonefndar sogflögur. Flestar steinsugur sjúga sig fastar við aðra fiska og nærast á blóði þeirra. Þær lifa á grunnsævi á flestum stöðum í tempraða beltinu. Einnig nefndur "sæsteinsuga". Steinsuga á Íslandi. Steinsugu hefur öðru hvoru orðið vart á Íslandi en þá talin vera flökkufiskur. Um haustið 2006 bar mikið á bitnum fiski í afla veiðimanna, sérstaklega á sjóbirtingsslóðum í Vestur-Skaftafellssýslu. Nú fara fram rannsóknir á vegum Veiðimálastofnunar á því hvort Steinsuga hrygni í íslenskum ám. Fasttálknar. Fasttálknar (fræðiheiti: "Elasmobranchii") er undirflokkur brjóskfiska sem telur bæði skötur og háfiska. Hann er annar tveggja flokka brjóskfiska. Hinn er flokkur hámúsa ("Holocephali"). Únst. Únst er ein af nyrstu eyjum Hjaltlandseyja og tilheyrir Skotlandi. Hún er nyrsta byggða ból Bretlandseyja. Únst er að mestu grasi vaxin og sjávarhamrar margir. Helsta þorpið heitir Baltasund, og var áður fyrr næststærsti síldarútgerðarstaður Hjaltlandseyja, á eftir Leirvík. Þar er flugvöllur eyjarinnar. Meðal annarra byggða má nefna Eyjasund, þar sem eru forn vöruskemma Hansakaupmanna og kastali, (byggður 1598). Haraldarvík er annað þorp, þar sem er bátasafn og byggðasafn. Fólk með fasta búsetu á Únst, og nágrannaeynni Fetlar, var 806 talsins samkvæmt manntali 2001; af þeim unnu margir við ratsjárstöð breska flughersins þar til henni var lokað 2006, þannig að yfir 100 manns misstu vinnuna.. Únst gerir tilkall til margra „nyrstu“ meta Bretlandseyja. Smáþorpið Skaw er til að mynda nyrsta byggð Bretlandseyja. Vitinn á Miklu-Flugey rétt undan norðurströnd Únst var tekinn í notkun 1858 og er nyrsti viti Bretlandseyja og er ekki fjarri Útstakki, nyrsta skeri Bretlandseyja. Únst býr yfir fjölskrúðugu fuglalífi, ekki síst í Hermaness-friðlandinu. Þar þrífst einnig hjaltneskt músareyra, afbrigði sem ekki þekkist annars staðar. (Promoting Unst Renewable Energy) er verkefni sem er í gangi á Únst, og miðar að því að koma upp félagslega rekinni orkuveitu, byggðri á vetnisframleiðslu. Frá Belmont á Únst sigla ferjur til Gutcher á Yell-eyju og Oddsstaðar á Fetlar. Á eynni er strætóskýli sem þykir dæmalaust snoturt og heitir Bobby's Bus Shelter. Það hefur verið innréttað af íbúunum og skartar legubekk, sjónvarpi, tölvu og fleiri heimilislegum þægindum. Ekki er vitað hvað nafn eyjarinnar þýðir, en talið er að það gæti verið komið úr tungumáli Pikta. Football Manager. Football Manager (íslenska: "Knattspyrnustjóri") er tölvuleikur sem felst í því að sá sem spilar leikinn er knattspyrnustjóri fótboltaliðs. Í upphafi tölvuleiks er byrjað á því að velja sjálft liðið og síðan leikmennina, hvort sem þeir eru byggðir á sönnum persónum eða tilbúningur. Þegar leikurinn hefst er svo hægt að kaupa og selja leikmenn. Knattspyrnustjórinn sér einnig um að þjálfa liðið, skipuleggja æfingar og aðra þá hluti sem venjulegir knattspyrnustjórarar gera. "Football Manager" er gefinn út af Sports Interactive sem er í eigu Sega. Leikurinn var upprunalega gefinn út af Addictive Games á níunda áratugnum fyrir spectrum tölvur. Árið 2004 endurvakti Sports Interactive Football Manager nafnið eftir að slitnaði upp úr samstarfi þeirra við Eidos sem hafði ásamt þeim gefið út leikinn Championship Manager til margra ára. Laddi. Þórhallur Sigurðsson (fæddur 20. janúar 1947), best þekktur sem Laddi, er íslenskur leikari, söngvari, tónskáld og skemmtikraftur. Hann hefur gefið út plötur og leikið í kvikmyndum og gert fjöldann allan af skemmtiþáttum, t.d "Heilsubælið, Imbakassinn" og leikið í "Áramótaskaupum". Hann hefur skapað fjöldann allan af karakterum sem margir kannast við eins og "Eirík Fjalar, Saxa lækni, Skúla rafvirkja, Magnús, Ho Si Mattana" og svo mætti lengi telja. Kvikmyndir sem hann hefur verið í eru t.d "Stella í orlofi, Stella í framboði, Magnús, Regína, Íslenski draumurinn" og fleiri. Einnig hefur hann starfað mikið í leikhúsi og frægast er þegar hann lék "Fagin" í "Óliver Twist" og "Tannlækninn" í "Litlu Hryllingsbúðinni" en hann hefur leikið í fjöldamörgum öðrum líka. Laddi var í tvíeykinu Halli og Laddi en þeir hafa sungið fræg lög og sprellað. Lög Ladda, sem hann hefur gert fræg, eru "Sandalar", "Í Austurstræti", "Of feit fyrir mig" og "Búkolla" ásamt tugum fleiri laga. Hann hefur talsett heilan helling af teiknimyndum og kvikmyndum og má þar nefna "Aladdin, Lion King, Mulan, Strumpana, Brakúla" og margar fleiri. Laddi á þrjá syni: Martein, Ívar og Þórhall, sem vann keppnina "Fyndnasti maður Íslands" árið 2007. Árið 2007 setti Laddi upp sýninguna "Laddi 6-tugur" í Borgarleikhúsinu til að fagna sextugsafmælinu sínu. Í byrjum áttu þetta bara að vera 4 sýningar en vegna gríðarlegrar aðsóknar þá varð sýningin ein vinsælasta grínsýning sem sett hefur verið upp á Íslandi. Hvalháfur. Hvalháfur (fræðiheiti: "Rhincodon typus") er hægfara háfiskur sem síar fæðu úr sjónum líkt og skíðishvalir. Hann er stærsti háfiskur heims og jafnframt stærsti fiskurinn og verður yfir tólf metrar að lengd. Dark Side of the Moon. "Dark Side of the Moon" er áttunda breiðskífa bresku rokkhljómsveitarinnar Pink Floyd og kom út árið 1973. Á plötunni kanna hljómsveitarmeðlimir mannlega reynslu þar sem þemað er m.a. tíminn, græðgi, átök, ferðalög, geðsjúkdómar og dauðinn. Dark Side of the Moon er sú plata sem lengst hefur setið á bandaríska Billboard Top 200-listanum, eða í heila 741 viku. Uyeasound. Uyeasound, eða Eyjasund, er þorp á Únst, nyrstu byggðu eyju Hjaltlandseyja. Viti. Viti er háreist, turnlaga bygging, með öflugum ljósgjafa efst. Í myrkri sjá skipstjórnarmenn ljósið og vita þá hvar land er. Hver viti hefur sitt ljóseinkenni, t.d. "hvítur þríblossi með 25 sekúndna millibili". Þannig er hægt að gera sér grein fyrir hvaða vita er verið að horfa á frá sjó og staðsetja sig nánar út frá því. Siglingastofnun Íslands hefur umsjón með vitum á Íslandi. Vitar eru gjarnan á annesjum, og stundum á skerjum, en vitar eru einnig hafðir á baujum á hafi úti. Áður fyrr voru sums staðar notuð vitaskip. Radíóviti er viti sem sendir útvarpsbylgjur í stað ljóss og er notaður af flugvélum. Vitinn í Faros telst eitt af sjö undrum veraldar. Fetlar. Fetlar er eyja á Hjaltlandseyjum og heyrir undir Skotland. Hún tilheyrir þeim hluta eyjanna sem eru kallaðar Norðureyjar og er að flatarmáli sú þriðja stærsta, eða um 41 ferkílómetri. Íbúar eru um 60 talsins og búa flestir í smáþorpinu Hubie á suðurströndinni. Í Hubie er ', sem er safn um sögu eyjarinnar. Árið 2000 fékk safnið verðlaun fyrir sýningu helgaða minningu Sir William Watson Cheyne (1852-1932), læknis sem var brautryðjandi í kviðarholsaðgerðum og í sóttvörnum við uppskurði, auk þess að gera viðamiklar rannsóknir á virkni túberkúlíns, fyrstur breskra lækna. Watson var aðlaður (barónet) árið 1908, var heiðurslandstjóri („lord lieutenant“) Bretakonungs á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum frá 1919-1930 og eyddi ellinni á Fetlar. Norðurhluti eyjarinnar er fuglafriðland í umsjá Konunglega fuglaverndunarfélagsins, en þar lifa meðal annars kjóar, spóar og óðinshanar, þeir síðastnefndu helst í grennd við Funzie-vatn, sem er mikilvægasti mökunarstaður óðinshana á Bretlandseyjum, og um tíma sá eini. Frá sjöunda áratugnum og fram á þann níunda hafðist par af snæuglum við á friðlandinu, en er horfið á braut. Ferjur sigla frá Hamarsnesi á Fetlar til Gutcher á eyjunni Yell og til Belmont á eyjunni Únst. Ekki er vitað hvað nafn eyjarinnar þýðir, en talið er að það gæti verið komið úr tungumáli Pikta. Magnús Kjartansson (myndlistarmaður). Magnús Kjartansson (fæddur 4. ágúst 1949 — látinn 12. september 2006) var íslenskur myndlistarmaður. Magnús lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1969 og kláraði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1972. Einnig stundaði hann nám við Konunglegu dönsku akademíuna. Hann starfaði lengi sem kennari og prófdómari við Myndlistaskólann. Mjaðjurt. Mjaðjurt, mjaðurt eða mjaðurjurt (fræðiheiti: "Filipendula ulmaria") er blómplanta af rósaætt sem lifir einna helst í Evrópu og vestur Asíu. Plantan getur orðið eins til tveggja metra há og hefur hvít blóm. Jurtin er gjarnan notuð í ilmefni og sem bragðefni í mjöð, vín og bjór. Hún er einnig notuð sem lækningajurt við græðingu sára og sem verkjalyf. Mjaðjurt var hluti af þjófagaldri til að komast að því hver hefði stolið frá manni. Vísindaleg aðferð. a>s leiddi til þeirrar tilgátu að þungir hlutir, svo sem stjörnur, sveigi ljósgeisla. Sú tilgáta hefur verið sannreynd af óháðum vísindamönnum, sem studdi afstæðiskenninguna og leiddi til aukins skilnings á alheiminum. Vísindaleg aðferð er sú leið sem farin er til að afla vísindalegrar þekkingar. Reynslurannsóknir felast meðal annars í tilraunum, tölfræðilegri greiningu á gögnum sem til eru, og hvers kyns athugunum á heiminum sem víð búum í, á meðan fræðilegar rannsóknir byggjast á því að leiða út ákveðnar kenningar um heiminn út frá grunnreglum, á stærðfræðilegan eða rökfræðilegan hátt. Vísindaleg aðferð á við um báðar gerðir rannsókna, og er áhersla lögð á að vísindarannsóknir séu hlutlægar, að þær séu sannreynanlegar af öðrum vísindamönnum, og að þekkingar sé ekki aflað án samhengis, heldur þannig að hún leiði til aukins skilnings á fyrri rannsóknum og á heiminum sem við búum í. Til að stuðla að þessu er meðal annars ætlast til þess að vísindamenn skrái skilmerkilega bæði niðurstöður sínar og þær aðferðir sem þeir nota til að komast að niðurstöðunum. Þótt orðið gefi til kynna að um sé að ræða eina tiltekna aðferð sem vísindamenn nota við störf sín, er hin vísindalega aðferð þó mun víðtækari en svo. Í raun er um að ræða ákveðið viðhorf eða hugmyndafræði um það hvers kyns aðferðir eru líklegar til að bæta við vísindalega þekkingu. Sem dæmi má nefna að í rannsóknum sem ætlað er að sannreyna tilteknar kenningar er notuð afleiðsla, þar sem ákveðnar tilgátur (e. hypothesis) eru leiddar af kenningunum (e. theory), og tilraunir eða athuganir miðast við að athuga hvort þessar tilgátur séu í samræmi við niðurstöður athugananna. Vísindamenn þurfa einnig að smíða kenningar og er þá notuð útleiðsla til að leiða almennari kenningar af þeim niðurstöðum sem tilraunir hafa leitt í ljós. Þótt kenningasmíð og kenningaprófun séu mjög ólíkar í framkvæmd þá teljast þær báðar hluti af hinni vísindalegu aðferð, og styðja hvor við aðra. Þeir eru til sem gagnrýna vísindalega aðferð á þeim grundvelli að hún þrengi sjónarhorn rannsakenda og komi í veg fyrir að þeir uppgötvi hluti sem kenningar þeirra spá fyrir um. Er þá gjarna bent á að ýmsar mikilvægar uppgötvanir má rekja til slembilukku, svo sem þegar Wilhelm Conrad Röntgen tók eftir því að ljósmyndafilma tók lit í lokuðum kassa og uppgötvaði í kjölfarið röntgengeislana, eða þegar Louis Pasteur sprautaði kjúklinga með gerilsýnum sem höfðu skemmst fyrir slysni og uppgötvaði í kjölfarið bólusetningu. En slík slembilukka er þó það algeng í vísindarannsóknum að margir telja að ekki sé um tilviljun að ræða. Vísindaleg aðferð byggir nefnilega á því að kanna nákvæmar og nákvæmar þær kenningar sem fyrir liggja, og gjarna undir óvenjulegri og óvenjulegri kringumstæðum. Með því að reyna á þanþol kenninga hefur vísindaleg aðferð reynst einstaklega vel við að leiða í ljós þær kringumstæður þar sem þær bregðast, og þannig varpa ljósi á áður óútskýrð fyrirbrigði. Moll. Í tónfræði er moll (moll, komið úr latínu, "mollis" sem þýðir "mjúkur" eða "blíður") önnur tegund tónstiga og tóntegunda í dúr og moll kerfinu. Það eru til þrjár tegundir af moll tónstigum sem innihalda hver um sig sjö tóna flesta sameiginlega en í heildina inniheldur moll tóntegund 9 tóna. Þessar þrjár molltegundir eru "hreinn moll", "laghæfur moll" og "hljómhæfur moll". Tóntegundir í moll eru merktar með litlum bókstöfum á móti tóntegundum í dúr sem eru merktar í stórum bókstöfum. Talað er um að tónlist í moll hljómi döpur meðan tónlist í Dúr hljómi glöð. Hreinn moll. Hreinn moll er sama tóntegund og Eólíska kirkjutóntegundin. 1 2 3 4 5 6 7 (8) 1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1 - 1 Hljómhæfur moll. Hljómhæfur moll hefur hækkaðan sjöundatón sem þýðir að sjöundi tónn tónstigans eða tóntegundarinnar er hækkaður um hálftón. Þetta gerir það að verkum að það myndast eitt og hálft bil eða stækkuð tvíund milli sjötta og sjöunda tóns. 1 2 3 4 5 6 7 (8) 1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1½ - ½ 1½ merkir Heiltónsbil + Hálftónsbil eða stækkuð tvíund. Fyrir dúr og moll kerfið þegar kirkjutóntegundir voru notaðar var sjöundi tónn þeirra tóntegunda sem var heiltónsbili frá grunntóni tóntegundarinnar oft hækkaður til að mynda svokallaðan leiðsögutón tóntegundarinnar. Með því að hafa stóra sjöund hljómar eins og sjöundi tónninn leiti upp á fyrsta tón tóntegundarinnar og með því varð hann leiðsögutónn. Eólíska tóntegundin var ein af þeim tóntegundum þar sem sjöundi tóninn var oft hækkaður og þannig myndaðist hljómhæfur moll. Laghæfur moll. Í laghæfum moll eru sjötti og sjöundi tónninn hækkaðir. Það gerir það að verkum að það verða engin tónbil stærri en heiltónsbil en samt hefur hún leiðsögutón sem gerir þetta að „laghæfustu“ moll tóntegundinni. Ólíkt hinum tóntegundunum er laghæfur moll mismunandi eftir því hvort farið er upp eða niður tónstigan. Laghæfur moll er í raun hreinn moll á leiðinni niður. 1 2 3 4 5 6 7 (8) 7 6 5 4 3 2 1 1 - ½ - 1 - 1 - 1 - 1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1 Ástæðan fyrir því að tónarnir eru einungis hækkaðir á leiðinni upp er sú að leiðsögutónninn leitar upp á fyrsta tón tóntegundarinnar og eru tónarnir því bara hækkaðir ef verið er að fara upp á fyrsta tón tóntegundarinnar. Djass moll. Djass moll er eins og laghæfurmoll nema að hann breytist ekki á leiðinni niður. Hann má finna víða í djasstónlist og er mikið notaður við snarstefjun. Formerki molla. Hækkuðu tónarnir í hljómhæfum og laghæfum moll eru merktir með lausum formerkjum á meðan tóntegundin er skilgreind með föstum formerkjum. Í a-moll eru engin formerki og var a-moll upprunalega eólíska kirkjutóntegundin áður en hægt var að tónflytja þær. Sjá fimmundahringinn fyrir uppröðun fastra formerkja í moll. Lafferkúrfa. Lafferkúrfa (einnig ferill Laffers) er ferill notaður til að skýra teygni á milli skatttekna og skattprósenta, fyrst sett fram af hagfræðingum Arthur Laffer. Lafferkúrfan sýnir að við ákveðna skattprósentu næst hámark skattekna, sem þýðir að hækkun á skattprósentu mun ekki skila auknum tekjum í ríkssjóð, heldur þvert á móti munu skatttekjur minnka. Samkvæmt kenningu Laffers mun 0% skattheimta og 100% skattheimta skila því sama til ríkissjóðs eða 0 krónum. Það gefur auga leið af hverju 0% skattheimta gefur 0 kr í ríkissjóð. Ástæða þess að 100% skattheimta gæfi líka 0% er sú að slíkt myndi fæla fólk frá því að afla sér tekna, þar sem hvort eð er allar tekjur færu í skatt. Þetta er einmitt útgangspunktur Arhur Laffer, að almenningur þolir skattheimtu upp að vissu marki. Ef skattheimta verður of mikil dregur það úr vilja almennings til að afla sér tekna, þar sem of lítill hluti (að þeirra mati) rennur beint í eigið veski. Tekjuskattur. Tekjuskattur er skattur sem ríkið leggur á tekjur einstaklinga og fyrirtæki. Tekjuskattur er oftast ákveðið hlutfall frekar en fasti. Tekjuskattur á Íslandi. Nú eru Tekjuskattsþrep launþega eru þrjú: 22,9%, 25,8% og 31,8%. Launaþegar greiða því: 22,9% af tekjum undir 241.475 á mánuði að frádregnum persónuafslætti, 25,8% af tekjum frá 241.476 til 739.509 og 31,8% af tekjum yfir 739.509. Sérstakur hátekjuskattur var lagður á hátekjufólk á tímabili, en hefur nú verið afnuminn.. Saga. Tekjuskattur var fyrst lögleiddur í Bretlandi árið 1799 til þess að standa kostnað af Napoleónsstyrjöldinni. Eivør Pálsdóttir. Eivør Pálsdóttir, f. 21. júlí 1983 í Syðrugøtu í Færeyjum, er söngkona og tónskáld. Eivør er oft líkt við íslensku söngkonuna Björk og kölluð "hin færeyska Björk". Foreldrar Eivarar eru Sædis Eilifsdóttir og Páll Jacobsen. Ferill. Tólf ára að aldri fór Eivør í söngferðalag til Ítalíu sem einsöngvari með færeyskum karlakór og þrettán ára gömul kom hún fyrst fram í færeysku sjónvarpi. Sama ár vann hún færeyska söngvakeppni. Fimmtán ára gömul gekk hún til liðs við hljómsveitina Clickhaze. Ári seinna eða árið 2000 kom út hennar fyrsta tónskífa "Eivør Pálsdóttir". Árið 2001 vann hún tónlistarverðlaunin Prix Føroyar. Árið 2002 fór Eivør til Reykjavíkur í tónlistarnám. Hún varð aðalsöngvari jasshljómsveitarinnar Yggdrasils sem gaf út sína fyrstu tónskífu það ár. Eivør gaf út rokk albúm með Clickhaze sama sumar og fór í hljómleikaferð til Færeyja, Svíþjóðar, Danmerkur (Hróarskelduhátíðin), Íslands og Grænlands. Önnur sólóplata Eivarar var "Krákan" og var Eivør tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í þremur flokkum árið 2003 og hlaut verðlaun sem besti söngvari og besti flytjandi ársins. Eivør söng einnig með symfóníuhljómsveit Færeyja og söng einsöng í óperunni "Firra". þriðja plata hennar er "Eivør" sem kom út í nóvember 2004. Eivør var valin Færeyingur ársins 2004 og lék sama árs á færeysku tónlistarhátíðinni G! Festival. Árið 2005 þá fékk hún íslensku leiklistarverðlaunin Gríma fyrir tónverk og flutning í verkinu Úlfhamssaga. Platan "Mannabarn" kom út árið 2007, framleidd af Dónal Lunny. Platan kom út á Íslensku og Færeysku. Hún hlaut færeysku tónlistarverðlaunin Planet Awards 2006 og 2009 sem besta söngkona ársins. Nýjasta plata hennar kom út í maí 2010 og ber nafnið "Larva". Hér sýnir hún á sér nýjar hliðar með því að fjarlægjast folk-stíl síðustu ára og hella sér í tilraunakenndara og hrárra sánd. Áhrifin koma svo víða að; má þar nefna indítónlist, popp, trip-hop, ambient, rokk, tekknó, acid djass og klassíska tónlist. Pourquoi-Pas ? Líkan af "Pourquoi-Pas ? IV". "Pourquoi-Pas ?" (sem þýðir: „hvers vegna ekki?“ á íslensku) var heiti sem franski vísindamaðurinn Jean-Baptiste Charcot notaði á nokkur rannsóknarskip sín. Frægast þessara skipa var Pourquoi-Pas ? IV sem var smíðað fyrir hann í Saint-Malo og sem hann ætlaði sér að nota í annan leiðangur sinn til Suðurskautslandsins. Smíði skipsins hófst 1907 og því var hleypt af stokkunum 18. maí 1908. "Pourquoi-pas?" var 825 tonna þrímastra barkskip með gufuvél, 40 metrar að lengd og 4,2 metrar á breidd. Skipsskrokkurinn var allur styrktur með stál- og sinkþynnum. Á skipinu var gríðarlega hár strompur og það hýsti þrjár fullbúnar rannsóknarstofur og bókasafn. Könnunarleiðangrar um Suður- og Norðurhöf. 1908 til 1909 sigldi Charcot á skipinu til Suðurskautslandsins þar sem hann kannaði Bellinghausenshaf og Amundsenshaf, Loubetsland, Margrétarflóa og Charcotseyju sem var heitin eftir honum. 1912 varð skipið fyrsta skólaskip franska flotans. Á næstu árum, til 1925, sigldi Charcot skipinu í fjölda leiðangra um Norður-Atlantshaf, Ermarsund og Miðjarðarhaf og kom meðal annars til Færeyja. Rannsóknir hans snerust fyrst og fremst um steinafræði og jarðfræði neðansjávar. 1925 lét Charcot af stjórn skipsins vegna aldurs, en var áfram um borð sem leiðangursstjóri. 1926 kannaði skipið austurströnd Grænlands þar sem þeir söfnuðu steingervingum. 1928 hélt skipið ásamt skipinu "Strasbourg" í leiðangur til að leita að stóru "Latham 47"-sjóflugvélinni sem hafði farist ásamt, með öðrum, Roald Amundsen. Leitin varð árangurslaus. 1934 sigldi "Pourquoi-Pas ?" aftur til Austur-Grænlands með mannfræðileiðangur Paul-Émile Victor sem ætlaði að búa í Angmassalik. Árið eftir snýr skipið þangað aftur til að sækja leiðangursmenn og kortleggja í leiðinni ströndina. Skipið ferst. Kort sem sýnir staðsetningu skersins Hnokka undan Álftanesi þar sem skipið fórst. Árið 1936 sneri "Pourquoi-Pas ?" aftur til Grænlands til að fara með leiðangurstæki til leiðangurs Paul-Émile Victor sem ætlaði sér að fara yfir Grænlandsísinn á fimmtíu dögum. Á bakaleiðinni, 3. september, stoppaði skipið í Reykjavík til að láta gera við ketilinn. 15. september lagði það svo af stað til Saint-Malo. Daginn eftir lenti það í ofviðri á Faxaflóa og fórst við Álftanes á Mýrum. Fjörutíu fórust og einungis fundust lík 23 leiðangursmanna. Aðeins einn komst af. Jean-Baptiste Charcot. Jean-Baptiste Charcot (15. júlí 1867 – 16. september 1936) var frægur franskur vísindamaður og landkönnuður. Faðir hans var taugafræðingurinn Jean-Martin Charcot. Charcot leiddi tvo mikilvæga könnunarleiðangra til Suðurskautslandsins 1904-1907 á skipinu "Français" og 1908-1910 á sérútbúna rannsóknarskipinu "Pourquoi-Pas ?". Síðar sigldi hann á því sama skipi í leiðangra til Færeyja, Grænlands og Svalbarða. Á heimleið frá Grænlandi lenti skipið í stormi við Íslandsstrendur og fórst við Álftanes á Mýrum 16. september 1936. Aðeins einn skipverja, Eugène Gonidec, komst lífs af en Charcot og 39 aðrir fórust. Thora Friðriksson skrifaði bók um Jean-Baptiste Charcot sem kom út árið 1947. Charcot, Jean-Baptiste Charcot, Jean-Baptiste Charcot, Jean-Baptiste Charcot, Jean-Baptiste Úralfjöll. Úralfjöll (rússneska: "Ура́льские го́ры", Uralskije gori) eru 2500 km langur fjallgarður sem liggur nokkurn veginn í norður-suður eftir miðvesturhluta Rússlands. Þau ná frá sléttunum í Kasakstan meðfram norðurlandamærum landsins að Norður-Íshafinu í norðri. Landfræðilega skipta fjöllin evrasíska meginlandinu milli Evrópu og Asíu. Hæsta fjallið er Narodnaja (1895 m hátt). Þar hafa Rússar lengi urðað kjarnorkuúrgang sinn. Gaflkæna. Gaflkæna er seglskúta sem svipar til slúppu eða kútters en með litla messansiglu á gaflinum eða þverbitanum aftan við stýrisásinn sem ber lítið segl. Hlutverk þessa messansegls er að auka stöðugleika skútunnar fremur en að knýja hana áfram. Viðskiptaráð Íslands. Viðskiptaráð Íslands (áður Verslunarráð Íslands eða Verzlunarráð Íslands'") eru samtök hagsmunaaðila í verslun og viðskiptum á Íslandi. Allir sem stunda einhvers konar rekstur geta gerst aðilar að ráðinu. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Húsi verslunarinnar. Viðskiptaráð Íslands var stofnað 17. september 1917. Fjöldi íslenskra fyrirtækja eru aðilar að Viðskiptaráðinu og þ.m.t. mörg stærstu fyrirtæki landsins. Árið 1917 komu 156 aðilar úr íslensku viðskiptalífi, kaupmenn o. fl. að stofnun Verslunarráðs Íslands. Fyrstu kosnu fulltrúarnir voru Jes Zimsen, Jón Brynjólfsson, Ólafur Jónsson, Carl Proppé, Jensen-Bjerg og Olgeir Friðgeirsson. Í lögum ráðsins stóð að hlutverk þess væri að „vernda og efla verslun iðnað og siglingar”. Fyrsti formaður var Garðar Gíslason og gegndi hann því starfi til 1933 er hann baðst undan endurkjöri. Árið 1922 tók Viðskiptaráðið við rekstri Verslunarskóla Íslands. Í dag rekur Viðskiptaráðið einnig Háskólann í Reykjavík. Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðsins er Finnur Oddsson. Þann 5. október 2009 sagði Erlendur Hjaltason sig frá formennsku stjórnar Viðskiptaráðs vegna þess að hann hafði verið starfandi forstjóri Exista, fyrirferðamikils fjárfestingafélags, fyrir bankahrunið og vildi hann að „tortryggni á endurskipulagningarferli Exista” yrði ekki til þess að „formennska [hans] í Viðskiptaráði gæti rýrt traust ráðsins.”. Á meðal starfsemi Viðskiptaráðs eru árlegar ráðstefnur sem nefnast Viðskiptaþing auk þess sem ráðið veitir umsagnir um lagafrumvörp. Starfsemi. Sem samtök hagsmunaaðila í viðskiptum leggur Viðskiptaráðið stundum fram tillögur til ríkisins um það sem því þykir betur mega fara. Oftast eru þetta atriði sem koma fyrirtækjum vel. Í lok árs 2007 birti Viðskiptaráð þá „"skoðun"“ sína að í ljósi mikils viðskiptahalla sökum ruðningsáhrifa stóriðjuframkvæmda væri svo komið að á bilinu 6-7 þúsundir notaðra bifreiða, að andvirði 9-15 milljarða króna, stæðu óseldar á bílastæðum bílaumboða. Bent var á að greiða þarf 30% vörugjald (toll), 24,5% virðisaukaskatt, úrvinnslugjald auk flutningskostnaðar hafi nokkur hug á að flytja notaða bifreið út. Lagt er til að íslenskum lögum sé breytt þannig að útflutningsaðilar fái virðisaukaskatt og vörugjöld endurgreidd en jafnframt tekið fram að „[e]kki ætti að einskorða endurgreiðslur af þessu tagi við útflutning bifreiða heldur fella sem flestar vörutegundir hér Árið 2006 réð Viðskiptaráð þá Tryggva Þór Herbertsson og Frederic S. Mishkin til að skrifa skýrslu um ástand efnahagsmála á Íslandi sem bar titilinn Financial Stability in Iceland. Skýrslan hefur sætt þeirri gagnrýni að hafa verið skrifuð til að fela vandamál eða að réttlæta slæma stöðu. Athygli hefur vakið að Frederic S. Mishkin fékk gífurlega háa fjárhæð fyrir að skrifa þessa skýrslu, mun hærri en tíðkaðist á þeim tíma. Samvinnubanki Íslands. Samvinnubanki Íslands var banki sem stofnaður var árið 1963 upp úr Samvinnusparisjóðnum. Bankinn var í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga. Hlutverk bankans var að reka almenna bankastarfsemi og veita samvinnufélögum á Íslandi aðgang að fjármagni. Á 9. áratugnum hóf SÍS að reyna að takast á við mikla skuldsetningu sína og aðildarfélaga sinna, meðal annars með því að selja eignir. Árið 1990 var samþykkt að Samvinnubankinn skyldi seldur Landsbankanum. Næstu tvö árin voru útibú bankans lögð niður og seld og 1992 rann hann inn í Landsbankann. Nína Tryggvadóttir. Nína Tryggvadóttir (fædd 13. mars 1913, dáin 18. júní 1968), skírð Jónína, var íslensk myndlistakona og ljóðskáld. Hún vann á ýmsum miðlum en málaði aðallega abstraktverk. Ævi. Móðir Nínu hét Gunndóra Benjamínsdóttir, húsmóðir, og faðir hennar Tryggvi Guðmundsson, kennari að mennt en hann rak verslun á Seyðisfirði, þar sem Nína fæddist, fram að 1920 þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur. Nína átti tvo bræður, Ólaf fæddan 1910 og Viggó fæddan 1918 auk þess átti hún fimm hálfsystkin. Þegar til Reykjavíkur var komið hóf Nína nám við Barnaskóla Reykjavíkur og svo seinna við Kvennaskóla Reykjavíkur. Ásgrímur Jónsson, listmálari, var nágranni fjölskyldunnar og hefur hann líklegast leiðbeint Nínu um meðferð og beitingu olíulita. Um þetta leyti hefur þó lítið borið á menningu og listum. Listvinafélagið var stofnað 1919 og heldur fyrstu formlega listaverkasýninguna sama ár. Nína var ekki viss í sinni sök hvað hún ætti að gera. Foreldrar hennar hvöttu hana til þess að læra matseld en þá þegar var ljóst að hún hneigðist heldur til listrænnar tjáningar. Árið 1933 hóf Nína að læra listmálun hjá Finni Jónssyni og Jóhanni Briem listmálurum og tveimur árum seinna hélt hún til Kaupmannahafnar þar sem hún stundaði listnám á árunum 1935-39. Að námi sínu loknu og stuttri dvöl í París undir lokin sneri Nína aftur heim til Íslands. Seinni heimsstyrjöldin skall á og Nína varð því áfram hér á landi þótt hana langaði aftur út. Þá hélt hún sína fyrstu einkasýningu í atvinnuhúsnæði kunningja árið 1942, níu árum áður en Listasafn Íslands var stofnað. Á árunum 1943-46 dvaldi Nína í New York með styrk frá íslenska ríkinu. Þar stundaði hún, og annar Íslendingur, Louisa Matthíasdóttir, nám hjá þýskum listamanni, Hans Hofmann, sem flúið hafði stríðið. Á meðan á námi hennar stóð var Nínu boðið að sýna við listagallerí og sömuleiðis að vinna leikmynd við Macmillan leikhúsið við Columbia háskólann í New York sem þótti mikill heiður. Á árunum strax eftir stríð var lítil gróska í listalífinu á Íslandi. Þá tók Nína þátt í róttækri sýningu er nefndist Septembersýningin, sem hópur ungra listamanna hélt haustið 1947, og vann við að myndskreyta bækur. Henni var boðið að sýna aftur í listagalleríi í New York í október 1948 og tók hún því fegins hendi. Nokkrum mánuðum síðar giftist hún Alfred L. Copley, þýskum lækni sem flúið hafði til Bandaríkjanna árið 1935 og reyndi nú fyrir sér sem myndlistarmaður. Hún sneri svo aftur til Íslands 1949 til þess að sækja eigur sínar en var þá meinað að ferðast aftur til Bandaríkjanna. Um þetta leyti var mikið fát í Bandaríkjunum í kringum „rauðu ógnina“, sem bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy blés upp. Nína hélt þó ótrauð af stað aftur til Bandaríkjanna en var sett í einangrunarbúðir og því næst vísað úr landi. Nína og Alfred eignuðust dóttur, Unu Dóru Copley, áður en þau fluttust til Parísar haustið 1952. Þaðan fluttist fjölskyldan svo fimm árum seinna til Lúndúna þar sem Nína hélt tvær sýningar auk einnar í Þýskalandi áður en þau fluttust enn og aftur um set til New York árið 1959. Árið 1963, sama ár og hún varð fimmtug, hélt Nína yfirlitssýningu í Listamannaskálanum í boði Félags Íslenskra Myndlistamanna. Hún tók að sér að vinna mósaíkmynd á kórgafl Skálholtskirkju. Á meðal mósaíkverka hennar voru stór verk fyrir Hótel Loftleiðir og Landsbankann, en þau voru bæði sett upp að henni látinni undir handleiðslu Alfreds, eiginmanns hennar. Nína lést úr krabbameini 18. júní 1968. Nínu er stundum ruglað saman við nöfnu sína, Nínu Sæmundsson, myndhöggvara. Heilablóðfall. Sneið úr heila sjúklings sem lést úr heilablóðfalli. Heilablóðfall, einnig kallað slag, er skyndileg breyting á heilastarfsemi vegna truflunar á blóðflæði til heilans. Truflunin í blóðflæðinu getur til dæmis stafað af stíflaðri heilaslagæð af völdum blóðtappa (heiladrep) eða þá að æð brestur í heilanum og það blæðir inná heilavefinn (heilablæðing). Heilablóðfall getur valdið lömun öðrum megin í líkamanum, skertum skilningi eða talörðugleikum eða skerðingu sjónsviðs. Heilablóðfall er í öllum tilvikum neyðartilvik. Það getur valdið viðvarandi skaða á heilavef eða dauða. Áhættuþættir eru til dæmis aldur, hækkaður blóðþrýstingur, fyrri heilablóðföll, sykursýki, hátt kólesteról í blóði, reykingar og gáttatif. Meðferð byggist á endurhæfingu, svo sem talþjálfun, líkamsþjálfun og iðjuþjálfun auk lyfjameðferðar, sem ætlað er að draga úr líkum á endurteknu heilablóðfalli. Lyfjameðferðin beinist að því að draga úr storknunargetu blóðsins, lækka blóðþrýsting og koma í veg fyrir hjartsláttaróreglu eftir því sem hægt er. Lyndon B. Johnson. Lyndon Baines Johnson (27. ágúst 1908 – 22. janúar 1973) oft nefndur LBJ, var 36. forseti Bandaríkjanna 1963 - 1969. Hann varð 37. varaforseti Bandaríkjanna eftir að hafa lengi verið þingmaður og tók við sem forseti eftir að Kennedy forseti var myrtur í Dallas í Texas 22. nóvember 1963. Hann var leiðtogi demókrata og sem forseti beitti hann sér fyrir málum eins og mannréttindalöggjöf, heilsuvernd fyrir aldraða og fátæka, aðstoð til menntunar, og „stríði gegn fátækt“. Á sama tíma jók hann stríðsreksturinn í Víetnam og fjölgaði bandarískum hermönnum þar úr 16 þúsund árið 1963 í 550 þúsund snemma árs 1968 en af þeim dóu um það bil eitt þúsund í hverjum mánuði. Johnson var kjörinn með miklum meirihluta atkvæða kjörmanna árið 1964 og tók við sem kjörinn forseti í janúar 1965. Hann bauð sig fram til síðara kjörtímabils árið 1968, en hætti við framboð vegna óeiningar í eigin flokki og sneri sér að friðarumleitunum. Hans er minnst fyrir sterkan persónuleika og föst tök á valdamiklum stjórnmálamönnum. Erfitt er að meta langtímaáhrif hans þar sem Víetnamstríðið og óvinsældir þess vógu mjög upp á móti þeim árangri sem hann náði á sviði mannréttinda innanlands. Vímara Peres. Stytta af Vimara Peres í Porto Vímara Peres (um 820 — 873) var kristinn stríðsherra á vesturströnd Íberíuskagans. Hann var lénsmaður Léon konungs sem sendi hann til að endurheimta lönd frá márum á vesturströnd Galíseu á milli ánna Minho og Douro. Meðal þess landssvæðis sem hann náði var borgin Portus Cale, síðar nefnd Porto og sem landið Portúgal dregur nafn sitt af. Auk Portó náði Peres borginni Vimaranis úr höndum mára en sú borg er í dag nefnd Guimarães og álíta Portúgalar að vagga siðmenningar þeirra liggi þar. Minho. Áin Minho er lengsta á Galíseu, Spáni eða 340 kílómetra löng. Áin kallast Minho á portúgölsku en Miño á spænsku og koma bæði nöfnin frá latneska orðinu Minius. Minho er notuð til að vökva vínekrur og ræktarlönd, keyra orkuver og sem náttúruleg aðgreining milli Spánar og Portúgals á um 80 kílómetra svæði. Uppspretta árinnar er um 50 kílómetra norður af Lugo í Galíseu. Einkímblöðungar. Einkímblöðungar (fræðiheiti: "Monocotyledonae" eða "Liliopsida") eru hópur dulfrævinga sem mynda eitt kímblað við spírun og eru annar aðalhópur dulfrævinga ásamt tvíkímblöðungum. Í APG II-kerfinu eru einkímblöðungar skilgreindir sem upprunaflokkur en hafa ekki flokkunarfræðilegt gildi. Dæmi um einkímblöðunga eru t.d. bygg, gras, laukur og brönugras. Repja. Repja (fræðiheiti: "Brassica napus L. var. oleifera") er einær eða vetrareinær planta, notuð til fóðurs og olíuframleiðslu. Líffræði. Repjan hefur litla stólparót og myndar öflugan stöngul. Laufblöðin eru stór, fjaðurstrengjótt og sitja stakstæð á stönglinum. Blómin eru skærgul og mynda klasa. Eftir blómgun breytast þau í skálpa sem geyma og þroska fræin. Notkun. Repja er notuð til að framleiða lífdísil í löndum á borð við Bandaríkin, Indland, Kína, Kanada og í löndum Evrópusambandsins. Jafnframt er hún notuð til gerðar matarolíu, en einnig sem skepnufóður. Hérlendis er hún nánast eingöngu notuð sem fóður fyrir mjólkurkýr og lömb. Er plantan þá beitt í heilu lagi. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með framleiðslu lífdísils úr repjuolíu á Íslandi og verið er að gera tilraun með repjuolíu til manneldis í Nesjum í Hornafirði. Afbrigði. Mörg afbrigði repju eru ræktuð í heiminum en á Íslandi eru notuð tvö; sumar- og vetrarrepja. Sumarrepjan sprettur hratt, nær allt að 1,5 m hæð, og fer að blómstra eftir 60 til 70 vaxtardaga. Mikilvægt er að beita hana fyrir þann tíma, því fóðurgildi blómstrandi plantna fellur hratt. Vetrarrepjan, sem einnig er kölluð fóðurkál, fer ekki í kynvöxt á fyrsta sumri eftir sáningu. Hún sprettur mun hægar og þarf u.þ.b. 120 vaxtardaga til að ná þokkalegri stærð. Þetta afbrigði er einstaklega heppilegt til beitar, vegna þess að það sprettur ekki úr sér. Plantan heldur sér vel fram á haust og því mikið notuð til að bata lömb á haustin eftir að þau hafa komið af fjalli. Að sama skapi er hún vinsæl sem fóður fyrir mjólkurkýr í hárri nyt. Interahamwe. Interahamwe (merkir: "þeir sem berjast saman") voru samtök hútúa í Rúanda sem voru, ásamt hinum smærri hópi Impuzamugambi, helst ábyrg fyrir dauða þeirra yfir 800.000 manns sem voru drepnir í þjóðarmorðinu í landinu árið 1994. Forseti Interahamwe var tútsi að nafni Robert Kajuga og varaforseti samtakanna Georges Rutaganda. Eftir frelsun höfuðborgar Rúanda, Kigali, flúðu margir meðlimir Interahamwe til nærliggjandi landa, flestir til Saír (nú Lýðveldið Kongó). Þaðan gerðu þeir árásir á Rúanda og leiddu þær meðal annars til styrjalda í Kongó. Orðsifjafræði nafnisins. 'Intera' kemur af sögninni 'gutera', sem merkir 'að gera árás'. 'Hamwe' merkir 'saman' og tengist orðinu 'rimwe' sem stendur fyrir 'einn'. The Piper at the Gates of Dawn. The Piper at the Gates of Dawn er fyrsta breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Pink Floyd og sú eina sem var gerð undir forystu Syd Barretts (þrátt fyrir að hann hafi lagt nokkuð til við gerð næstu plötu "A Saucerful of Secrets"). Platan er af mörgum talin ein af áhrifamestu plötum sem nokkru sinni hafa verið gerðar, og hafði hún enda mikil áhrif á sýrurokksstefnuna sem á eftir kom. A Saucerful of Secrets. "A Saucerful of Secrets" er önnur breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Pink Floyd. Hún var hljóðrituð í hljóðveri EMI, í Abbey Road, frá ágúst 1967 til apríl 1968. Hún er eina plata hljómsveitarinnar sem allir fimm meðlimir hennar komu að. Þelamerkurskóli. Þelamerkurskóli er grunnskóli í Hörgárdal með um 90 nemendur, stofnaður árið 1963. Nemendur skólans koma úr Hörgársveit. Í skólanum heldur Tónlistarskóli Eyjafjarðar úti tónlistarkennslu sem stendur nemendum 4. bekkjar til boða án endurgjalds. Valsárskóli, Stórutjarnaskóli og Grenivíkurskóli eru sam-skólar Þelamerkurskóla. Parísarkommúnan. Götuvígi í París 18. mars 1871. Parísarkommúnan einnig verið kölluð Fjórða franska byltingin, var stjórn sem ríkti í París tímabilið 18. mars (formlega 26. mars) – 28. maí 1871. Hún ríkti áður en leiðir stjórnleysingja og Marxista skildu og er hampað af báðum hreyfingunum sem fyrstu tilrauninni til þess að koma á stjórn almennings á tíma Iðnbyltingarinnar. Ágreiningur um pólitískar áherslur og túlkun á því hvernig til tókst með stjórn Parísarkommúnunnar voru ein af ástæðum þess að leiðir þessarra tveggja hreyfinga skildu. Forsagan. Eftir stríð Frakklands, undir stjórn Napóleon III, við Prússa var mikill órói í Frakklandi. Bilið milli ríkra og fátækra hafði aukist og um leið óánægja og uppreisnarhugur þeirra fátækustu. Í anda stjórnleysisstefnu og sósíalisma setti almúgi Parísarborgar fram kröfur um að borgin stýrði sér sjálf með kommúnu, valinni af íbúunum sjálfum. Heimavarnarliðið yfirtekur borgina. Tugþúsundir Parísarbúa voru þegar vopnum búnir sem heimavarnarlið sem hafði varið borgina fyrir prússneska hernum. Eftir að Prússar fóru hélt heimavarnarliðið ennþá vopnum sínum þar á meðal þungavopnum eins og fallbyssunum. Ríkisstjórn Frakklands sendi þá herflokka til að afvopna Parísarbúa. Herinn sem sendur var á vettvang var þó hliðhollur Parísarbúum og gerði uppreisn gegn yfirboðurum sínum og gengu til liðs við heimavarnarliðið. Stjórn kommúnunnar. Í kjölfarið skipulagði kommúnan kosningar þar sem almenningur valdi fulltrúa úr sínum eigin röðum. Ýmis nýmæli voru sett í reglur um fulltrúana svo sem að embætti fulltrúa væri afturkallanlegt færu þeir að misnota stöðu sína. Innan kommúnunnar voru fulltrúar róttækra afla þess tíma, eins og stjórnleysingja, sósíalista og frjálslyndra lýðræðissinna, en þrátt fyrir ólíkar áherslur náðist samkomulag um viðhald félagslegri þjónustu fyrir þær tvær milljónir sem bjuggu í borginni. Umbætur. Stjórn kommúnunnar kom á ýmisum umbótum eins og bættum aðstæðum vinnandi fólks með minna vinnuálagi og bótum til þeirra sem áttu um sárt að binda vegna fátæktar og stríðshörmunga. Trúarbrögð voru gerð útlæg úr skólum og einu kirkjurnar sem fengu að starfa voru þær sem einnig voru opnar sem miðstöðvar fyrir íbúafundi og gegndu þær þannig mikilvægu hlutverki. Margskyns aðrar félagslegar umbætur og breytingar voru gerðar eins og til dæmis að almennir verkamenn tóku yfir verk framkvæmdastjóra og sérfræðinga sem hraktir höfðu verið á brott eða flúið borgina. Endalokin. Parísarkommúnan ríkti aðeins í nokkrar vikur en þá sendi franska ríkistjórnin her til borgarinnar og eftir um það bil mánaðar bardaga vann hann bug á heimavarnarliðinu og tók yfir stjórn borgarinnar aftur og stjórn Parísarkommúnunar leið undir lok. Finnur Magnússon. Finnur MagnússonFinnur Magnússon (einnig þekktur sem Finn Magnusen) (27. ágúst 1781 - 24. desember 1847) var íslenskur fornfræðingur og leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn og einn helsti rúnafræðingur á Norðurlöndum. Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups. Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi þangað til Hannes andaðist árið 1796. Vorið 1797 útskrifaði Geir Vídalín biskup hann og fór hann ári seinna til náms í Kaupmannahöfn. Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu. Finnur var á Íslandi þangað til sumarið 1812 en þá fór hann aftur til Kaupmannahafnar og lagði stund á fornfræði. Finnur varð prófessor að nafnbót og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna. Finnur var í miklu dálæti hjá konungi og má rekja það til þess að þegar Jörundur hundadagakonungur ríkti á Íslandi neitaði Finnur sem þá var embættismaður á Íslandi að svíkja konung og vinna fyrir Jörund. Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir. Sögulega skáldsagan "Ævitími skugganna" (da.: "Skyggers levetid") eftir danska rithöfundinn Gorm Rasmussen fjallar um Finn Magnússon. Bókin "Runamo Skriften der kom og gik" eftir Rud Kjems kom út í Danmörku 2006. Þegar Jón Sigurðsson kom til Kaupmannahafnar vann hann um tíma sem skrifari hjá Finni. Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 1. Fyrsta þáttaröðin af bandaríska teiknimyndaþættinum Simpsons hóf sýningar 17. desember 1989 og kláraðist þann 29. apríl 1990. Þættirnir voru 13 og hver þeirra um 22 mín að lengd. Simpsons Roasting on an Open Fire. Fyrsti hálfstímalangi þátturinn um Simpson-fjöskylduna. Sýndur fyrst 17. desember 1989. Þátturinn byrjar með því að Hómer og Marge horfa jólaskólaleikritið, sem að börn þeirra, Bart og Lísa, leika í. Eftir sýninguna byrjar fjölskyldan að skreyta fyrir jólin s.s. að setja útiljósin(þar sem allar nema 2 perur eru gallaðar). Marge og Hómer þurfa á jólapeningunum og jólaútborgun Hómers að halda til að kaupa gjafir. Daginn eftir þegar Hómer er að vinna upplýsir yfirmaður hans, Hr. Burns, að enginn starfsmaður fær útborgað. Á meðan fer Marge með krakkana til að kaupa jólagjafir. Bart lætur setja á sig húðflúr, en þegar Marge kemur að honum eyðir hún jólapeningunum í að fjarlægja húðflúrið. Þegar Hómer kemst að því að þau hafa líka misst jólapeningunum ákveður hann að segja fjölskyldunni ekki frá því að hann fékk ekki útborgað. Til þess að sleppa frá mágkonum sínum, Selmu og Patty, fer Hómer að kaupa jólatré en finnur ekkert nógu ódýrt, þannig að sagar niður tré í skóginum. Til þess að fá pening fer hann að ráðum vinar síns og fyllibyttunni Barneys Gumble: að leika jólasvein í stórmarkaðnum. Bart eyðileggur allt fyrir Hómer þegar að vinir hans mana hann að toga skeggið af jólasveininum. Hómer fær lítið útborgað, en Barney segir honum að hann leggur yfirleitt þann pening undir í hundaveðreiðum. Bart sannfærir Hómer að hann hafi engu að tapa, en Hómer leggur peningana undir hund sem heitir Santa's Little Helper (ísl. Littli Jólasveinn) en hann kemur síðastur í mark og Hómer tapar öllu. Á leiðinni heim taka þeir Santa's Little Helper með sér heim sem jólagjöf. Bart the Genius. Bart the Genius er annar þátturinn í 1. seríunni um Simpson fjölskylduna. Þátturinn var fyrst sýndur 14. janúar 1990. Þátturinn byrjar með því að fjölskyldan er að spila Scrabble til þess að æfa börnin fyrir greindarvísitölupróf. Auðvitað svindlar Bart og Hómer brjálast. Í skólanum daginn eftir er Bart krota á veggi skólans en ofvitinn Martinn Prince kemur upp um hann Skinner skólastjóri heimtar að Bart hitti sig eftir skóla. Seinna þegar Bart tekur prófið finnst honum það of erfitt þannig að víxlar sína prófi og prófi Martins Prince. Og í ljós kemur er Bart snillingur (þ.e.a.s Martin). Bart er settur í skóla fyrir unga snillinga en fellur ekki hópinn, en reynir að þrauka því að Hómer er svo stoltur af honum. En segir svo öllum að hann svindlaði og allt fer í samt horf og Hómer verður brjálaður út í Bart. Homer's Odyssey. Homer's Odyssey er þriðji þáttur 1. Simpson-seríunar. Hann var fyrst sýndur 21. janúar 1990. Þátturinn byrjar með því að bekkur Barts er að fara í námsferð í kjarnorkuverið þar sem að faðir Barts, Hómer, vinnur. Krakkarnir horfa á fræðslumynd um kjarnorku og fara í skoðunarferð. Hómer reynir að hitta á bekkinn en klessir á og slys gerist sem bjargast fljótt. Hómer er rekinn sem tæknifræðingur. Hómer fær hvergi vinnu og fjölskyldan verður blönk. Hómer reynir að kaupa bjór með því að stela pening úr sparigrís Barts en fattar hversu lágt hann lagt sig(eftir að uppgötva að peningarnir duga ekki til að kaupa bjór). Hómer skilur eftir sjálfsmorðsmiða og ætlar stökkva af Springfield-brúnni. Fjölskyldan hleypur eftir honum og stoppa við gatnamót við brúna. Hómer sér vörubíl í áttina að þeim og bjargar þeim. Hómer sér hvergi biðskyldumerki við gatnamótin og ætlar að lifa áfram til að koma biðskyldu merki við gatnamótin. Eftir að það tekst heldur Hómer áfram að koma upp öryggisskiltum en uppgötvar að hann verður ekki ánægður fyrr en hann hefur náð að láta loka kjarnorkuverinu. Hómer heldur mótmælendafund við kjarnorkuverið sem leiðir til þess að eigandi kjarnorkuversins, Hr. Burns, fær Hómer til sín og veitir honum nýtt starf sem öryggisfulltrúa. Höfundar: Jay Kogen og Wallace Wolodarsky There's no Disgrace Like Home. There's no Disgrace Like Home er fjórði þátturinn í 1. seríunni um Simpson-fjölskylduna. Dr. Marvin Monroe kemur fyrst fram í þessum þætti. Þátturinn var fyrst sýndur 28. janúar 1990. Þátturinn byrjar að fjölskyldan er að búa sig undir lautarferð starfsmanna kjarnorkuversins á landareign Hr. Burns. Hómer er stressaður yfir því að fjölskyldan verði honum til skammar, sem reynist rétt. Bart og Lísa eru fíflast og Marge fer á fyllerí með öðrum konum. Þegar þau fara sér Hómer að þau eru eina óeðlilega fjölskyldan í Springfield. Hómer ákveður að selja sjónvarpið til þess að fara með fjölskylduna í meðferð hjá sálfræðingnum Marvin Monroe. Venjuleg meðferð virkar ekki þannig að hann ráðleggur raflostsmeðferð. En fjölskyldan leikur sér láta hina fjölskyldumeðlimina fá raflost. Marvin Monroe gefst upp og endurgreiðir þeim tvöfalt! Höfundar: Al Jean og Mike Reiss Leikstjórar: Gregg Vanzo og Kent Butterworth Bart the General. Bart the General er fimmti þáttur 1. Simpson-seríunnar og er fyrsti Simpsons-þátturinn eftir frægasta rithöfund Simpsons: John Swartzwelder. Þátturinn var sýndur fyrst 4. febrúar 1990. Þátturinn byrjar þegar Bart og Lísa fara í skólann. Hrekkjusvínið Nelson Muntz eyðileggur formkökurnar sem Lísa bakaði. Bart reynir að verja hana en Nelson skorar hann á hólm eftir skóla. Eftir skóla lemur Nelson Bart í klessu(bókstaflega!) og hótar að gera það á hverjum degi. Bart getur ekki klagað annars verður hann barinn svo að hann þyggur ráð frá Hómer um að berjast með bellibrögðum en það mistekst. Lísa fer með Bart að hitta afa þeirra. Afi leiðir Bart til rugludalsins Hermans, sem selur forngripi úr stríðum, til að skipuleggja stríð gegn Nelson. Bart fær alla krakkana í skólanum með sér í lið og saman sigra þau Nelson og kefla hann. Síðan fær Herman strákana að skrifa undir sáttmála þar sem að Nelson fær að hrella krakkana í hverfinu en lætur Bart í friði. Síðan endar þátturinn með því að Marge gefur öllum formkökur. The Telltale Head. The Telltale Head er áttundi þáttur 1. seríu Simpsons. Nafnið á þættinum vísar í kvæðið The Tell-tale Heart eftir Edgar Allan Poe. Þátturinn var fyrst sýndur 25. febrúar 1990. Þátturinn byrjar með því að Hómer og Bart eru að ganga með höfuðið af styttu Jebidiah Springfield. Hópur fólks kemur að þeim og eltir þá. Þeir eru króaðir af við styttuna og Bart segir hvernig þetta gerðist. Sagan byrjar þegar fjölskyldan er að fara í kirkju og Marge er hneyksluð út í Hómer og Bart. Á leiðinni heim spyr Bart hvort hann megi fara á bannaða mynd en Marge bannar honum það. Seinna laumast Bart út til að fara á myndina en á leiðinni hittir hann hrottana Jimbo, Kearny og dolph sem ætla að laumast inn á myndina og Bart fer með þeim. Þeim er fljótlega hent út og fara að labba um bæinn þar til þeir koma að styttu Jebidiah Springfields. Þeir segja Bart að þeim þætti það svalt að ef einhver sagað höfuðið af styttunni. Bart langar til þess að hrottunum líki við sig að hann ákveður að saga höfuðið af og felur það heima hjá sér. Allur bærinn er skelfingu lostinn og allir leita sökudólgsins. Bart þolir ekki sektartilfinninguna svo að segir foreldrum sínum hvað hann gerði. Hómer fer með Bart til að skila höfðinu en þá mættu þeir múgnum. Eftir að hafa heyrt frásögn Barts fyrirgefa bæjarbúarnir Bart og hann skilar höfðinu. Höfundar: Al Jean, Mike Reiss, Sam Simon og Matt Groening The Crepes of Wrath. The Crepes of Wrath er 11 þáttur 1. seríunnar. Hann var fyrst sýndur 15. apríl 1990. Þátturinn byrjar með því að Hómer dettur um hjólbrettið hans Barts og meiðist í bakinu. Bart er skammaður og látinn taka til eftir sig. Skinner skólastjóri er mjög stressaður yfir komu móður sinnar og reynir að sýna að hann nær að halda aga í skólanum en hrekkur Barts, þar sem hann sturtaði hvellhettu niður í strákaklósettið sem leiddi til þess að það flæddi upp úr öllum salernunum í skólanum (og móðir Skinners var á klósettinu þegar það gerðist), leiðir til þess að ráðleggur Marge og Hómer að nýta skiptinemanámskeið til að losna við Bart til Frakklands. Hómer samþykkir hiklaust og Bart langar til þess að fara til Frakklands. En það er ekki það sem hann bjóst við: hann lendir hjá frönskum víngerðarmönnum, Cesar og Ugolin, sem nota Bart til að traðka á vínberjum, plokka vínberin og þræla hann ennþá meira. Þeir senda Bart eftir frostlög til þess að þeir geti blandað honum í vínið og Bart finnur hjálp hjá frönsku lögreglunni og verður hetja í Frakklandi. En í á meðan fær Simpson-fjölskyldan lítinn strák frá Albaníu sem reynist vera njósnari og vill gjarnan sjá kjarnorkuverið sem Hómer vinnur í til að afla upplýsinga, en Hómer kemur upp um hann (óvart). Höfundar: George Meyer, Sam Simon, John Swartzwelder og Jon Vitti Leikstjórar: Wesley Archer og Milton Gray Krusty Gets Busted. Krusty Gets Busted er 12. þátturinn. Hann var fyrst sýndur 29. apríl 1990. Krusty the Klown (ísl. Krulli Trúður) er ástkær skemmtikraftur barna í Springfield og er m.a. hetja Barts. Þegar Hómer er að Kaupa ís í Kwik-E-Mart-búðinni verður hann vitni að því þegar hann stígur á langan fót Krustys, að hann er vopnaður og rænir staðinn. Eftir að hafa lýst afbrotamanninum, handtekur lögreglan Krusty. Daginn eftir verður réttarhald yfir málinu og Krusty er dæmdur sekur. Bart trúir þessu ekki og fær Lísu með sér til þess að leysa málið og eftir að hafa skoðað Kwik-E-Mart-búðina kemur í ljós að Krusty kennt um glæpinn. Lísa og Bart ákveða að spyrja besta vin Krustys, Sideshow Bob (ísl. Aukanúmera-Bob), sem stjórnar þætti Krustys eftir handtökuna. Í þættinum biður Bob Bart að koma til sín því Bart er eitthvað fýldur. Þegar Bart talar við hann fattar hann að Bob er mjög langa fætur en Krusty er með stutta fætur. Bart fattar að Sideshow Bob rændi Kwik-E-Mart-búðina í gerfi Krustys. Þegar Bob er handtekinn segir hann að hann hafi kennt Krusty um ránið því að kom illa fram við sig og sver hefnd á Bart... Gestarödd: Kelsey Grammer sem Sideshow Bob Höfundar: Jay Kogen & Wallace Wolodarsky Víðisætt. Víðiætt (fræðiheiti: "Salicaceae") er ætt trjáa, alls 57 ættkvíslir með útbreiddum tegundum á borð við víði, aspir og önnur sumargræn lauftré og runna. Þó eru einnig sígræn tré í ættinni. Selja (tré). Selja (fræðiheiti: "Salix caprea") er smátré af víðiætt. Laufblöð hennar eru daufgræn og hærð á neðraborði. Hún getur orðið 3 til 12 metrar á hæð og kýs hún sér búsetu í vetrarsvölu meginlandsloftslagi og í -mildu strandloftslagi, jafnt í Evrópu og norð-austur Asíu. Á Íslandi hefur seljan þrifist meðal annars í Múlakoti þar sem hún er orðin 12 metra há á 50 árum og nýtur sín vel inn til landsins sunnanlands. Trén þykja falleg garðtré, sérstaklega karltrén vegna fagurgulra reklanna. Vaud. Vaud (þýska: Waadt) er frönskumælandi kantóna í Sviss og liggur að frönsku landamærunum í vestri. Lega og lýsing. Vaud er fjórða stærsta kantónan í Sviss með 3.212 km2. Hún liggur nær suðvestast í landinu, meðfram gjörvallri norðurströnd Genfarvatns. Fyrir norðan er kantónan Neuchatel, fyrir austan er Fribourg, fyrir suðaustan er Wallis og fyrir suðvestan er Genf. Auk þess á Vaud landamæri að Frakklandi að vestan, sem og vatnalandamæri að Frakklandi að sunnan með Genfarvatni. Norðurhluti kantónunnar nemur við Neuchatelvatn ("Lac de Neuchatel"). Vaud er eina kantónan sem liggur bæði að Alpafjöllum og Júrafjöllum. Hæsta fjallið er Les Diablerets, sem er 3.210 metra hátt. Vaud er frönskumælandi kantóna. Íbúarnir eru 672 þús að tölu, sem gerir Vaud að þriðju fjölmennustu kantónu Sviss. Aðeins Zürich og Bern eru fjölmennari. Höfuðborgin er Lausanne. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Vaud samanstendur af tveimur láréttum röndum. Fyrir ofan er hvítt, fyrir neðan grænt. Í hvíta litnum eru orðin: LIBERTÉ ET PATRIE, sem merkir "frelsi" og "föðurland". Merki þetta var tekið upp 1798 er lýðveldið Léman var stofnað til skamms tíma. Græni liturinn stendur fyrir frelsi. Orðsifjar. Upphaflega hét héraðið Waldgau, sem merkir "skógarhérað". Þaðan kemur þýska heitið Waadt og franska heitið Vaud. Söguágrip. Genfarvatn og Alparnir eru áberandi í kantónunni Vaud. Myndin er tekin við Montreux. Áður fyrr bjuggu keltar á svæðinu. Cesar hertók héraðið 58 f.Kr., en nær einu rómversku menjarnar eru í borginni Avenches nyrst í kantónunni. Sú borg var eydd af alemönnum 260 e.Kr. Við fall Rómaveldis settust búrgúndar þar að og var héraðið lengi vel í hertogadæminu Búrgúnd. 1218 varð héraðið eign Savoy. 1536 hertóku herir frá Bern héraðið, sem varð að nokkurs konar svissnesku leppríki. 1564 voru Lausanne-samningarnir undirritaðir, en í þeim sagði Savoy sig lausa frá héraðinu, sem varð endanlega eign Bernar. Nokkrum mánuðum áður en Frakkland hertók Sviss 1798 gerðu íbúar Vaud uppreisn gegn Bern og lýstu yfir sjálfstæði. Þetta var lýðveldið Léman. Frakkar leystu lýðveldið hins vegar upp á sama ári og innlimuðu héraðið helvetíska lýðveldinu. Þeir stofnuðu kantónuna Léman úr héruðunum Vaud og Genf. Við endurskipulagningu lýðveldisins 1803 var Léman splittað í tvær kantónur: Vaud og Genf. 1830 urðu almenn mótmæli íbúa til þess að ný stjórnarskrá var samin, sem tók gildi ári síðar. Nýjasta stjórnarskrá kantónunnar var samþykkt 2003. Í dag er Vaud mikið iðnaðarhérað. Ferðaþjónustan er einnig gríðarlega mikilvæg, enda er strandlengja Genfarvatns ákaflega vinsæl. Borgir. Stærstu borgir Vaud. Þær eru allar við Genfarvatn, nema Yverdon-les-Bains, sem liggur við suðurenda Neuchatelvatns. Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 6. 6. þáttaröðin um Simpson-fjölskylduna(1994-1995). Þáttstjórnandi þáttaraðarinnar var enn á ný David Mirkin. Þáttaröðin inniheldur 25 þætti. Þar á meðal vinsælasta þátt í sögu Simpsons, Hver Skaut Hr. Burns? (1. hluti). Who Shot Mr. Burns? (Part 1). Þetta er lokaþáttur sjöttu þáttaraðar Simpson-fjölskyldunar og fyrsti framhaldsþátturinn. Nafnið á þættinum vísar í Dallas-þáttinn "Who Shot JR?". Who Shot Mr. Burns? (Part 1) var frumsýndur 21. maí 1995. Þátturinn byrjar með því að Skinner kemur inn í skólann eftir frí og sér að stökkmús eins bekkjarins dó og hann biður Willie lóðarvörð að jarða hana. En er Willie grefur holu fyrir músina opnar hann fyrir olíulind í skólanum. Nú þegar skólinn er ríkur koma nemendur og starfsmenn með tillögur til að eyða peningunum. Burns langar í olíuna og eftir að Skinner neitar að selja honum hana lætur Burns byggja sinn eigin olíuturn til þess að taka olíuna frá skólanum. Það heppnast og skólinn verða reka nokkra starfsmenn, m.a. Willie, til þess fjármagna niðurrið olíuturnsins þeirra. Út af greftrinum fyrir turninn verður jarðgrunnið undir elliheimilinu veikt og fellur saman. Moe þarf og loka barnum sínum út af gufum frá olíunni(olíuturn Burns er við hliðina á barnum hans Moes). Þegar olíuturninn leysir úr olíu, lendir gusan á trékofa Barts, en hann var að leika þar við hundinn sinn, og hundurinn slasast. Hómer verður æfur út í Burns því að hann man aldrei nafnið sitt. En Burns er ekki búinn enn, heldur ætlast hann til þess að kjarnorkuverið sjái fyrir bænum rafmagni og hita allan daginn. En til þess að gera það þarf hann að skyggja á sólina. Smithers neitar taka þátt í þessu og verður rekinn. Bæjarbúar óttast sólskyggingaráætlun Burns koma saman fundi við ráðhúsið þar sem hver og einn lýsir máli sínu. Burns kemur á fundinn til þess að sýna þeim sólskyggitækið og gangsetur það: nú er niðamyrkur kl. 15:00! Eftir að fundinum er slitið hverfa Hómer, Smithers, Skinner, afinn, Bart og Lísa. Marge leitar að fjölskyldu sinni og skilur Maggí eina eftir í bílnum. Skothvellur heyrist og Burns kemur fram skotinn í brjóstið og fellur niður á sólúr ráðhúsins. Nú verður erfitt að finna sökudólginn því allir í bænum liggja undir grun... Höfundar: Bill Oakley og Josh Weinstein Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 2. Eftir vinsældir fyrstu Simpson-þáttaraðarinnar samdi FOX um að gera aðra, en þeir gerðu þau mistök að halda að þeir gætu slegið út Cosby-þættina með Simpsons og færðu útsendingartíma Simpsons frá sunnudagskvöldum yfir á fimmtudagskvöld á sama tíma Cosby var sýndur. Við þetta fækkaði töluvert áhorf Simpson-þáttanna. Þáttaröðin inniheldur 22 þætti og var sýnd á árunum 1990-1991. Treehouse of Horror. Treehouse of Horror er þriðji þáttur annarrar þáttaraðar og fyrsti hrekkjavökuþáttur Simpsons. Þátturinn er þrískiptur og var fyrst sýndur 24. október 1990. Opnun. Þátturinn opnar með því Marge að aðvarar áhorfendur um innihald þáttarins. Síðan fylgjumst við með hrekkjavökunni hjá Simpson-fjölskyldunni. Bart og Lísa segja hvort öðru þrjár draugasögur. Bad Dream House. Simpson-fjölskyldan flytur í gamalt hús. Marge er ekki viss um að húsið sé góður staður til að búa. Sérstaklega þegar húsið virðist vera lifandi og sannfærir Hómer, Bart, Lísu og Maggí um að drepa hvert annað. Marge stöðvar þau og rökræðir við húsið um að það þurfi að vera kurteist ef þau eigi að búa í sátt og samlyndi. Húsið eyðir sjálfu sér frekar en að búa með Simpson-fjölskyldunni! Hungry are the Damned. Þegar fjölskyldan er að grilla verða þau numinn burt af geimverum. Geimverurnar gefa þeim veislumat og veita þeim sjónvarp sem nær öllum stöðvunum nema HBO því það er of dýrt. Lísu finnst þetta allt saman undarlegt þar til hún finnur matreiðslubók, "How to Cook Humans", en í ljós kemur að það stendur bara "How to Cook for Humans". Geimverurnar hneykslast og skila fjölskyldunni sem er reið út í Lísu. The Raven. Nú heyrum Simpson-útgáfuna af kvæði Edgars Allan Poe "Hrafninn". Hómer er sögupersónann sem þarfa að kljást við óþekktar hrafn. Þulurinn er James Earl Jones. Höfundar: John Swartzwelder (Bad Dream House), Jay Kogen og Wallace Wolodarsky (Hungry are the Damned) og Sam Simon og Edgar Allan Poe (The Raven) Leikstjórar: Wes Archer (Bad Dream House), Rich Moore (Hungry are the Damned) og David Silverman (The Raven) Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 3. Þriðja þáttaröðin af Simpson-fjölskyldunni er að mati rithöfundanna besta þáttaröðin og í þessari þáttaröð var yfirbragð Simpson-þáttanna að mótast og margir gestaleikarar komu fram m.a. níu hafnaboltamenn. Þáttstjórnendur þáttaraðarinnar voru Al Jean og Mike Reiss og þáttaröðin inniheldur 24 þætti og var sýnd á árunum 1991-1992 Stark Raving Dad. Fyrsti þáttur þáttaraðarinnar, fyrst sýndur 9. september 1991. Þátturinn er með mikið af tilvísunum í kvikmyndina "One Flew Over the Cuckoo's Nest". Þátturinn byrjar með því að Lísa á afmæli og hefur áhyggjur yfir því hvort Bart muni gefa henni afmælisgjöf. En allar hvítu skyrtur Hómers verða bleikar eftir að Bart setti rauðu húfuna sína í þvottakörfuna. Þegar allir nema Hómer er í hvítum skyrtum heldur Burns að hann sé sjálfstætt hugsandi stjórnleysingi og lætur hann taka sálfræðipróf heim með sér. Hómer lætur Bart svara spurningunum sem leiðir til þess að Hómer er sendur á geðveikrahæli. Þar hittir Hómer stórann hvítann mann sem telur sig vera Michael Jackson en Hómer veit ekkert hver Michael Jackson er. Eftir að Marge talar við geðlækninn skilja þeir að Hómer er ekki geðveikur og hleypir Hómer út. Hómer biður Michael að koma með sér og segir Bart frá því. Bart heldur að þetta sé poppsöngvarinn og segir öllum bænum frá honum. Þegar í ljós kemur að þetta er bara stór geðsjúklingur verður allur bærinn æfur út í Bart, en Lísa verður vonsvikin því að Bart gleymdi afmælinu hennar. Meðan Michael labbar um í húsi Simpson-fjölskyldunnar sér hann hvað Lísa er leið og hjálpar Bart að semja lag sem afmælisgjöf. Lagið besta afmælisgjöfin sem Lísa fékk. En eftir sönginn kemur í ljós að Micheal er bara verkamaður frá New Jersey sem heitir Leon Kompowsky og talaði einn daginn eins og Michael Jackson því að hann var svo reiður út í heiminn. Leon heldur heim og Simpson-fjölskyldan kveður hann. Bart the Murderer. Bart the Murderer er fjórði þáttur þriðju seríu Simpson. Hann var frumsýndur 10. október 1991. Þátturinn byrjar á því að Bart vaknar glaður yfir því að hafa lært heima og að þau fara í námsferð í súkkulaðiverksmiðjuna. En hundurinn étur heimadæmin hans og Bart missir af skólabílnum og verður 40 mínútum of seinn og hann gleymdi leyfinu um að fara í námsferðina svo hann verður að vera eftir. Skinner lætur hann hjálpa sér að sleikja umslög. Bart fær að fara einni mínútu fyrr en á leiðinni heim lendir hann inn í greni mafíósa. Foringinn Fat Tony leyfir Bart að velja hest úr veðreiðunum og Bart velur rétt. Þeir láta Bart blanda drykki og borga honum fyrir. Marge treystir mönnunum ekki, og lætur Hómer tala við þá en eftir að hafa "unnið" þá í póker líkar Hómer við þá. Þegar Skinner lætur Bart sitja eftir út af því að hann reyndi að múta honum kemur Bart seint og Fat Tony lætur annan manna sinna blanda drykk handa völdugum Don en hann bragðast hræðilega og þeir sverja hefnd á Fat Tony. Bart segir þeim að Skinner hafi látið sig sitja eftir og þeir fara og tala við hann. Daginn eftir er Skinner týndur og allir leita hans en halda hann dáinn. Löggan kennir Fat Tony um en þeir kenna Bart um. Í réttarhöldunum segja þeir að Bart sé doninn í mafíunni þeirra og að hann hafa heimtað að þeir dræpu Skinner. Í miðjum réttarhöldunum kemur Skinner inn og segir hann hafa verið taka til í geymslunni sinni og blaðabunki féll ofan hann en á endanum losnaði hann. Bart hættir í gengi Fat Tonys. Þátturinn endar með því að fjölskyldan er að horfa á myndina "Blood on the Blackboard: The Bart Simpson Story" þar sem að Neil Patrick Harris leikur Bart og Joe Mantegna leikur Fat Tony. Treehouse of Horror II. Þetta er seinni árlegi þrískipti hrekkjavökuþáttur Simpson-fjölskyldunnar. Þátturinn var sýndur 31. október 1991. Opnun. Enn á ný aðvarar Marge áhorfendurna við efni þáttarins. Svo fylgjumst við með því þegar Simpson-fjölskyldan kemur heim með sælgæti og Bart, Lísa og Hómer háma það í sig. Marge segir þeim að þau geta fengið martraðir ef þau borða of mikið. Og viti menn, þau dreymir öll sitthverja martröðina. Martröð Lísu. Simpson-fjölskyldan er í fríi í Marokkó og Hómer kaupir aflimaða apahönd sem á að geta veitt manni fjórar óskir, en það fylgir þeim mikil ógæfa en Hómer hunsar það. Heima reyna þau finna hver ekki óska sér fyrst og Maggí óskar eftir nýju snuði. Bart óskar svo næst og hann óskar þess að þau verði rík og fræg en það fer ekki eins og ætlaðist því allur bærinn fyrirlítur þau út af því að þau eru rík. Lísa óskar næst um heimsfrið og allir ákveða brenna vopnin sín og dansa svo glaðir. En svo ráðast geimverur á jörðina og varnarlaus geta mennirnir ekki gert neitt. Hómer óskar sér síðast eftir kalkúnasamloku en kalkúnninn er þurr. Við það ætlar hann að henda höndinni en gefur Flanders hana í von að allt mistakist hjá honum. en svo fer ekki og allir dýrka hann. Martröð Barts. Underlegir atburðir eiga sér stað í Springfield. Þar verða allir að hugsa glaðar hugsanir annars mun ófreskja sem les hugsanir breyta þeim í eitthvað kvikt. Og ófreskjan er hinn 10 ára gamli Bart Simpson! Þegar Hómer ætlar að horfa á ruðninginn og neitar Bart um að horfa á Krusty breytir Bart honum í kassatrúð. Marge fer með Bart til Marvins Monroe sem vill að Hómer og Bart skemmti sér saman. Eftir það breytir Bart Hómer aftur og Hómer kyssir Bart á ennið og Bart vaknar öskrandi. Martröð Hómers. Í vinnunni er Hómer sofandi og Burns rekur hann fyrir það. Hómer getur ekki fundið almennilega vinnu og tekur starf sem grafari í kirkjugarði. Á meðan ætlar Burns að búa til æðsta starfsmannsvélmennið en þarf manns heila. Burns og Smithers fara í kirkjugarðinn og finna Hómer sofandi. Þeir taka úr honum heilann og setja í vélmennið en það verður jafnlatt og Hómer. Burns lætur taka heilan úr vélmenninu og setja aftur Hómer en vélmennið fellur ofan á Burns. Endir. Þegar Hómer vaknar er höfuð Burns fast við öxlina á honum og hann þarf reyna að lifa við það, sem er ekki auðvelt. Black Widower. Black Widower er 21. þáttur þriðju Simpson-seríunnar. Þetta er annar þátturinn með Sideshow Bob. Samkvæmt útskýringunum DVD-setti þriðju seríu vildu þeir gera dulúðarþátt til þess að vinna Edgar-verðlaunin. Þátturinn var fyrst sýndur 9. apríl 1992. Þátturinn byrjar með því að systir Marge Selma tilkynnir að hún sé byrjuð með Sideshow Bob. Bob er boðið í mat og segir frá lífi sínu í fangelsinu. Selma skrifaði honum vegna þess að tók þátt í pennavinaáætluninni. Þau urðu ástfangin og Sideshow Bob var sleppt fyrr út af góðri hegðun. Bob biður Selmu að giftast sér og hún svarar játandi. Bart er sá eini sem treystir ekki Bob. Þegar er verið skrifa niður mat fyrir brúðkaupið ráðleggur bara Hómer kokteilpylsur en Selmu er alveg sama því hún finnur hvorki bragð né lykt. Bob verður efins um að þau hafi efni á brúðkaupinu en Selma segir að hún eigi helling af peningi. Stuttu fyrir brúðkaupið eru Bob og Selma úti en þegar hún fattar að MacGyver-þættinum, sem hún og systir sín dýrka, verður stórmál því Bob hatar þáttinn. Það munar litlu að þau hætti við brúðkaupið en Hómer og Marge ráðleggja þeim að þegar Selma horfir á MacGyver þá fari Bob í göngutúr. Í brúðkaupinu samþykkir Selma að reykja ekki nema eftir máltíðir og MAcGyver. Hómer og Marge fá senda spólu af brúðkaupsnótt Selmu og Bobs þar sem Bob er m.a. æfur út að hafa ekki fengið arinn. Eftir það horfir fjölskyldan á MacGyver þar til Bart uppgötvar allt í allt. Á hótelinu þar sem Bob og Selma gista er Selma að horfa á og Bob fer á bar fyrir utan hótelið og bíður glaður þar til MacGyver er búinn og svo springur herbergið þeirra í loft upp. Bob stekkur glaður inn á hótelið og skoðar herbergið en finnur Bart og Selmu sem heimtar skilnað. Bart segir að hann hafi fatað áætlun Bobs þegar Selma lofaði að reykja ekk nema eftir MacGyver. Bob fyllti herbergið af gasi frá arninum sem Selma vissi ekki af því hún fann enga lykt. Bart náði að bjarga Selmu og eftir allir voru komnir út úr herberginu kveiktu löggurnar í vindlum og hent eldspýtunni í herbergið sem sprakk. Bob ætlaði að drepa Selmu fyrir peningana en er settur í fangelsi fyrir morðtilraun. Saga: Thomas Chastain og Sam Simon Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 4. Fjórða þáttaröðin af bandaríska teiknimyndaþættinum Simpson-fjölskyldan hóf sýningar 24. september 1992 og kláraðist þann 13. maí 1993. Þættirnir voru 22 og hver þeirra um 22 mín að lengd. Þáttaröðin er talin sú besta af aðdáendum þáttana. Í þessari þáttaröð hætti framleiðslufyrirtækið Klasky-Csupo við gerð þáttana og Film Roman tók við. Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 5. Fimmta þáttaröðin af Simpson inniheldur marga góða þættir. En nú tók við nýr þáttstjórnandi: David Mirkin. Hann þurfti að ráða fullt af nýjum rithöfundum, m.a. David X. Cohen. Og einn rithöfundur Simpsons, Conan O'Brian, hætti við byrjun þáttaraðarinnar til þess að gera spjallþáttinn sinn. Þáttaröðin (1993-1994) inniheldur 22 þætti. Al Jean og Mike Reiss, þáttastjórnendur þriðju og fjórðu þáttaraðar, átta eftir tvo þætti úr fjórðu seríu sem fóru yfir í þá fimmtu. Homer's Barbershop Quartet. Homer's Barbershop Quartet er fyrsti þáttur 5. þáttaraðar og er einn af tveimur þáttum sem Al Jean og Mike Reiss framleiddu fyrir fjórðu þáttaröð. Frægðarsögu kvartetsins má líkja við frægðarsögu Bítlanna. Þátturinn var sýndur 30. september, 1993. Þegar Simpson-fjölskyldan er á flóamarkaði, finna Bart og Lísa gamla plötu með Hómer, Skinner, Apu og Barney og voru eitt sinn rakarakvartetsöngvarar og kölluðu sig "The Be Sharps". Á leiðinni heim frá flóamarkaðnum bilar bílinn svo Hómer segir krökkunum frá sögunni. Þeir hófu ferill sinn með því að syngja á krá Moes og voru meðlimirnir þá Hómer, Skinner, Apu og Wiggum lögreglustjóri. Eftir að þeir ná frægð, hefur umboðsmaður samband við þá og fær þá til að skipta út Wiggum (hann minnir hann alltof mikið á Village People). Þeir fá Barney í staðinn sem getur sungið guðdómlega. Wiggum reynir að mótmæla Barney en þegar hann syngur, elska hann allir. Þeir ferðast út um allt, hitta fullt af frægu fólki m.a. Bítilinn George Harrison, og fá Grammy-verðlaun afhent af David Crosby. En Hómer finnst frægðarlífið innantómt og saknar fjölskyldu sinnar. Og kvartetnum líkur þegar að Skinner, Hómer og Apu rífast um lögin og Barney er byrjaður með konu sem líkist Yoko Ono. Eftir að hafa skoðað gamlar plötur, fær Hómer Skinner, Apu og Barney að hittast á kráarþaki Moes og syngja þar frægasta smellinn sinn "Baby Onboard". Gestaleikarar: George Harrison, David Crosby og söngur af The Dapper Dans Cape Feare. Cape Feare er annar þáttur 5. seríu Simpson-fjölskyldunnar. Þátturinn er annar af tveimur þáttunum sem Al Jean og Mike Reiss framleiddu fyrir 4. seríu. Nafnið er tilvísun í myndina Cape Fear og söguþráður þáttarins er líka lauslega byggður á myndinni. Þátturinn var fyrst sýndur 7. október, 1993. Þátturinn byrjar með því að Bart fær morðhótunarbréf frá ónefndum aðila og eitt frá Hómer(Bart setti húðflúr á rass Hómers sem á stóð "Wideload"). Í ljós kemur að þetta er enginn annar en Sideshow Bob sem vill drepa Bart fyrir að koma honum í fangelsi. Bob er sleppt úr fangelsi og byrjar að ónáða Simpson-fjölskylduna. Eftir að ráðagerðir Wiggums lögreglustjóra mistakast, leitar fjölskyldan til hjálpar Alríkislögreglunnar. Simpson-fjölskyldan tekur þátt í vitnaverndarverkefni alríkislögreglunnar og taka upp eftir nafnið Thompson og flytja til Hryllingsvatns (Terror Lake). En Bob eltir þau þangað (hann festir sig undir bílinn þeirra) og laumast inn í húsbát fjölskyldunnar og keflar Marge, Hómer, Lísu, Maggie, hundinn og köttinn. Síðan ætlar hann að drepa Bart með sveðju. Þegar Bob spyr Bart um hinstu ósk hans, biður Bart hann að syngja öll lögin úr "H.M.S. Pinafore". Hann verður við ósk hans, en á meðan Bob syngur siglir báturinn aftur til Springfield og Bob er handsamaður af lögreglunni. Alþingiskosningar 2007. Alþingiskosningarnar 2007 voru haldnar laugardaginn 12. maí 2007. Á kjörskrá voru 221.368 og kjörsókn var 83,6%. Stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hélt eins sætis þingmeirihluta en hafði áður þriggja sæta meirihluta. Framsóknarflokkur fékk lægsta fylgið í sögu flokksins en Samfylkingin tapaði einnig fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig þremur mönnum en Vinstri græn unnu stærsta sigurinn og bættu við sig fjórum mönnum. Frjálslyndi flokkurinn fékk ríflega 7% fylgi og hélt fjórum þingmönnum. Tvö ný flokksframboð voru tilkynnt fyrir kosningarnar. Annars vegar Baráttusamtaka eldri borgara og öryrkja, sem unnu að hagsmunum eldri borgara og öryrkja. Tíu dögum fyrir kosningarnar tilkynntu Baráttusamtökin um að þau hefðu hætt við framboð, en framboðslistar þeirra höfðu ekki borist í tíma nema í Norðausturkjördæmi. Hitt nýja framboðið var Íslandshreyfingin, flokkur með Margréti Sverrisdóttur og Ómar Ragnarsson í fararbroddi með áherslu á umhverfismál. Hún hlaut 3,3% atkvæða á landsvísu en náði ekki inn manni. Ríkisstjórnin hélt því ekki velli nema fram í janúar 2009, í tæp tvö ár. Þá var fyrsta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur myndið fram að því að alþingiskosningar 2009 yrðu haldnar þann 25. apríl sama ár. Úrslit. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hélt meirihluta sínum á þingi en aðeins með 32 þingmenn eða eins manns meirihluta og einungis rúm 48% kjósenda á bak við sig. 17. maí tilkynntu því formenn stjórnarflokkanna að ekki væri grundvöllur fyrir frekara samstarfi. Viðræður milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um myndun ríkisstjórnar hófust formlega sama dag og daginn eftir baðst Geir Haarde forsætisráðherra lausnar fyrir ráðuneyti sitt af forseta Íslands. Við sama tækifæri fékk hann umboð til stjórnarmyndunar. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum 24. maí. Sama dag sagði Jón Sigurðsson af sér formennsku í Framsóknarflokknum og Guðni Ágústsson tók við. Útstrikanir. Tveir af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Árni Johnsen, fluttust niður um sæti vegna útstrikana í sínum kjördæmum. 2.514 manns, eða 18,6% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður strikuðu Björn út og féll hann því niður um eitt sæti, frá því að vera 3. þingmaður í að vera 6. þingmaður, en Illugi Gunnarsson varð 3. þingmaður í hans stað. 1.953, eða 21,4% kjósenda flokksins í Suðurkjördæmi, strikuðu yfir nafn Árna Johnsen sem gerir hann að 6. þingmanni kjördæmisins en Kjartan Ólafsson tekur sæti hans sem 4. þingmaður. Fyrir kosningarnar hafði Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss, birt heilsíðuauglýsingu í blöðum þar sem hann hvatti kjósendur Sjálfstæðisflokksins til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar vegna Baugsmálsins. Kjósendur á kjörskrá. Á kjörskrá voru 221.368 kjósendur, ívið fleiri konur en karlar, 570 eða 0,5%. Fjölgun kjósenda frá því í alþingiskosningunum 2003 var 10.079 manns eða 4.8%. Kjósendur með lögheimili í útlöndum voru 8.793 eða 4,0% og hafði þeim fjölgað um 65 eða 0,7% frá síðustu kosningum. Ungt fólk, sem náð hafði kosningarétti síðan kosningar voru haldnar 2003, var 17.132 eða 7,7%. Kjördæmaskipan. Kjördæmamörkum Reykjavíkurkjördæmanna tveggja var að auki breytt til að taka tillit til þess að mun fleiri bjuggu í norðurkjördæminu en suðurkjördæminu miðað við kosningarnar 2003 þegar íbúafjöldinn var nokkurn veginn jafn. Þá var skiptingin um Miklubraut, Hringbraut, Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg en sá hluti Grafarvogshverfis sem stóð austan Vesturlandsvegar var hluti af norðurkjördæminu. Sá hluti verður nú hluti af suðurkjördæminu og skiptist Grafarvogshverfið þá um Kristnibraut, Gvendargeisla og Biskupsgötu. Framboðsmál. Töluverðar sviptingar höfðu orðið innan flokkanna fyrir þessar kosningar. Jón Sigurðsson hafði tekið við formennsku af Halldóri Ásgrímssyni í Framsóknarflokknum eftir nokkur innanflokksátök, Geir Haarde hafði tekið við formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Davíð Oddssyni og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði tekið við af Össuri Skarphéðinssyni í Samfylkingunni. Í Frjálslynda flokknum leiddu innanflokksátök til úrsagna Sverris Hermannssonar, stofnanda flokksins, og Margrétar Sverrisdóttur, auk þess sem borgarstjórnarflokkur flokksins skildi sig frá honum í heilu lagi. Sá eini af þeim flokkum sem höfðu boðið fram áður sem fór í framboð með nokkuð óbreytta forystu var því Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Framsóknarflokkurinn. Eftirfarandi þingmenn Framsóknarflokksins hættu á kjörtímabilinu eða tilkynntu um að þeir stefndu ekki á framboð í næstu kosningum: Árni Magnússon, Dagný Jónsdóttir, Halldór Ásgrímsson, Hjálmar Árnason og Jón Kristjánsson. Í byrjun febrúar tilkynnti Kristinn H. Gunnarsson að hann hygðist ekki taka því sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi sem féll honum í skaut í prófkjöri. 8. febrúar gekk hann til liðs við Frjálslynda flokkinn. Frjálslyndi flokkurinn. Á kjörtímabilinu gekk Gunnar Örlygsson sem kjörinn var þingmaður Frjálslynda flokksins til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og bauð sig fram þar 2007. Á síðari hluta ársins 2006 og í ársbyrjun 2007 varð mikið fjölmiðlafár í kringum Frjálslynda flokkinn. Þar bar hæst skoðanaskipti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Margrétar Sverrisdóttur, sem enduðu með úrsögn Margrétar og Sverris föður hennar úr flokknum. Borgarstjórnarflokkur Frjálslyndra var því næst gerður að óháðu afli innan borgarinnar. Íslandshreyfingin - lifandi land. Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson tilkynntu framboð Íslandshreyfingarinnar. Tilkynnt var að flokkurinn „leggi áherslu á umhverfi, nýsköpun og velferð og haldi sig hægra megin við miðju”. Framboðið bauð fram á landsvísu og varð Ómar formaður Íslandshreyfingarinnar en Margrét varaformaður. Jakob Frímann Magnússon, sem hafði sagt sig úr Samfylkingunni, og Ósk Vilhjálmsdóttur, sem unnið hafði innan samtakanna Framtíðarlandið, komu einnig að flokknum. Samfylkingin. Eftirfarandi þingmenn Samfylkingarinnar hættu á kjörtímabilinu eða tilkynntu um að þeir stefndu ekki á framboð í kosningum 2007: Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhann Ársælsson, Margrét Frímannsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir. Valdimar Leó Friðriksson gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn eftir að hafa sagt sig úr Samfylkingunni í nóvember 2006. Sjálfstæðisflokkurinn. Eftirfarandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins hættu á kjörtímabilinu eða tilkynntu um að þeir stefndu ekki á framboð í næstu kosningum: Árni Ragnar Árnason (lést á kjörtímabilinu), Davíð Oddsson, Guðmundur Hallvarðsson, Gunnar I. Birgisson, Halldór Blöndal, Sigríður Anna Þórðardóttir, Sólveig Pétursdóttir og Tómas Ingi Olrich. Framboðslistar voru ákveðnir með prófkjörum í öllum kjördæmum nema norðvestur þar sem kjördæmisráð stillti upp listanum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Kjördæmisráð stillti upp framboðslistunum til Norðvestur-, Norðaustur- og Suður-kjördæmi eftir að leiðbeinandi forval hafði verið haldið. Haldið var prófkjör fyrir höfuðborgarsvæðið í byrjun desember 2006. Á kjörskrá voru 1796, greidd voru 1093 atkvæði og kjörsókn því 61%, 35 atkvæði voru auð eða ógild. Önnur framboð. Nýtt afl sem bauð fram á landsvísu 2003 bauð ekki fram í kosningunum. Forystumenn samtakanna hafa hvöttu stuðningsmenn þeirra til að kjósa Frjálslynda flokkinn. Áform voru uppi um sérstakan flokk um málefni innflytjenda undir forystu Pauls F. Nikolov en ætlunin var þó að bjóða ekki fram fyrr en í kosningunum 2011. 11. október 2006 var svo tilkynnt að flokkurinn hefði sameinast Vinstri-grænum en Paul F. Nikolov var boðið að taka þátt í forvali þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Haukur Nikulásson hefur tilkynnt framboð Flokksins. Félagasamtökin Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands héldu fund 8. febrúar þar sem tillaga um að félagið stæði að framboði til kosninga var fellt. Alls voru 2708 kjörskrá, 189 atkvæði voru greidd, 92 studdu tillögu um framboð, 96 greiddu atkvæði gegn henni og einn seðill var auður. Aukinn meirihluta, eða 2/3 hluta, þurfti til þess að samþykkja tillöguna. Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja voru stofnuð 4. mars 2007 á stofnfundi sem haldinn var á Grand Hótel í Reykjavík. Fylgi við framboðið mældist í skoðanakönnunum um og undir 1%. Flokkurinn lagði fram framboðslista fyrir fjögur kjördæmi: Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmin tvö, en vegna þess að síðustu þrír listarnir bárust of seint til yfirkjörstjórnar var þeim hafnað. Allt útlit var þá fyrir að samtökin myndu aðeins bjóða fram í Norðausturkjördæmi en 2. maí tilkynntu þau að hætt hefði verið við framboð. Framboðslistar eftir kjördæmum. "Aðeins efstu sex frambjóðendur sýndir fyrir hvern flokk. Breiðletraðir eru þeir sem náðu kjöri ásamt númeri sem sýnir hvar í röð þingmanna kjördæmisins þeir lentu." Reykjavíkurkjördæmi suður. "* Þar sem yfir 18% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu strikuðu yfir nafn Björns Bjarnasonar skiptu þeir Illugi Gunnarsson um sæti á lista flokksins við úthlutun kjörstjórnar." Suðurkjördæmi. "* Þar sem yfir 21% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu strikuðu yfir nafn Árna Johnsen skiptu þeir Kjartan Ólafsson um sæti á lista flokksins við úthlutun kjörstjórnar." Kaffibandalagið. Hugsanlegt samstarf stjórnarandstöðunnar á seinni hluta kjörtímabilsins 2003-2007 var af sumum kallað "Kaffibandalagið". Þá var átt við að þeir þrír flokkar sem sátu í stjórnarandstöðu, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn, hefðu innbyrðis samráð um myndun ríkisstjórnar fengju þeir nægilegan fjölda atkvæða til þess. Er dró að kosningum 2007 komu þó brestir í samstarfsáformin þegar frjálslyndir viðruðu stefnu í innflytjendamálum, sem hinum flokkunum þótti ekki boðleg. Nafn Kaffibandalagsins var dregið af þvi að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, bauð formönnum fyrrnefndra flokka í kaffisamsæti á heimili sínu til þess að ræða mögulegt samstarf haustið 2006. Rætt var um Kaffibandalagið allt fram á kosninganótt 2007, en þá mátti litlu muna um hríð að það felldi stjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann hékk þó á einum manni þegar upp var staðið og var Kaffibandalagið þá í reynd úr sögunni þar sem það hefði þurft stuðning annars hvors stjórnarflokksins til að mynda meirihluta. Kannanir. Niðurstöður skoðanakannana í aðdraganda kosninganna. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna annarsvegar og kaffibandalagsins hinsvegar skv. sömu könnunum. Grasagarður Reykjavíkur. Sköpun eftir Helga Gíslason Séð yfir tjarnir í grasagarðinum. Grasagarður Reykjavíkur, oftast kallaður Grasagarðurinn, er lifandi safn íslenskra og erlendra plantna. Garðurinn er 2,5 ha að stærð og er staðsettur í Laugardal við hliðina á Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Í grasagarðinum eru sex safndeildir: Flóra Íslands, fjölærar jurtir, trjásafn, garðskálaplöntur, steinhæð og nytjajurtagarður. Forstöðumaður Grasagarðins er Eva G. Þorvaldsdóttir. Saga grasagarðsins. Grasagarður Reykjavíkur var stofnaður 18. ágúst 1961 en upphaf garðsins má rekja til þess að Reykjavíkurborg var gefið safn 200 íslenskra jurta. Í garðskála garðsins eru seldar veitingar á sumrin. Listaverk í grasagarðinum. Í Grasagarðinum eru tvö listaverk, styttan Sköpun eftir Helga Gíslason og vatnslistaverkið Fyssa eftir Rúrí. Tyrkjaránið. Tyrkjaránið var atburður í sögu Íslands sem átti sér stað á fyrri helmingi 17. aldar þegar sjóræningjar rændu fólki í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og seldu í þrældóm í Barbaríinu. Nokkuð af fólkinu var síðar leyst út og tókst að snúa heim aftur og segja sögu sína. Þekktust þeirra eru Guðríður Símonardóttir (Tyrkja-Gudda), sem síðar giftist Hallgrími Péturssyni og Halldór Jónsson hertekni, sem síðar varð lögréttumaður og bjó á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Ræningjarnir. Jan Janszoon van Haarlem var hollenskur sjóræningi sem gengið hafði í þjónustu Ottómanaveldisins og kallaðist þar oftast Murat Reis aðmíráll. Hann varð fyrsti landstjóri og stóraðmíráll borgríkisins Salè á strönd Marokkó, en höfnin þar var miðstöð sjóræningja sem herjuðu á nærliggjandi hafsvæði. Árið 1627 skipaði Janszoon dönskum þræl úr áhöfn sinni sem hafði komið til Íslands, að stýra skipi sínu þangað sem engum hafði áður dottið í hug að fremja sjórán. Annað skip, sem var frá Algeirsborg, lagði einnig af stað í ránsferð til Íslands en kom þangað mun síðar og er ekki ljóst hvort skipin höfðu eitthvert samflot í upphafi eða samráð um Íslandsferðina. Grindavík. Ræningjarnir frá Salé undir forystu Janszoons komu til Grindavíkur 20. júní 1627. Danski kaupmaðurinn í Grindavík, Lauritz Bentson, sendi átta menn á báti til að athuga hvaða skip væri þarna á ferðinni og fóru þeir um borð en ræningjarnir tóku þá og fengu þá til að upplýsa að fátt væri um varnir í landi. Þeir náðu líka á sitt vald dönsku kaupskipi sem lá á höfninni. Murat Reis fór svo með þrjátíu menn í land og rændu þeir kaupmannsbúðina en kaupmanninum tókst að flýja ásamt öðrum dönskum mönnum nema þeim þremur sem verið höfðu um borð í danska skipinu. Síðan rændu þeir bæina í víkinni, hirtu það sem þeim þótti fémætt en tóku 15 manns höndum og særðu tvo illa. Margir gátu þó flúið og falið sig í hrauninu. Ræningjarnir sigldu svo frá Grindavík en á útsiglingunni urðu þeir varir við danskt kaupskip sem var á leið til Vestfjarða. Þeim tókst að blekkja skipverja með því að draga upp falskt flagg og ná skipinu á sitt vald og höfðu þeir nú þrjú skip. Ræningjarnir munu sjálfir hafa haft í huga að fara til Vestfjarða og ræna þar en hættu við það og ætluðu að ráðast að konungsmönnum á Bessastöðum en þar voru menn viðbúnir þeim og höfðu safnað liði og mannað fallbyssur. Eftir að eitt skipanna steytti á skeri utan við Bessastaði gáfust ræningjarnir upp á fyrirætlunum sínum og sigldu 24. júní frá landinu og héldu heim á leið með fólkið, sem var svo selt var í ánauð í Salé. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Járngerðarstöðum og Halldór bróðir hennar losnuðu fljótt úr haldi og komu aftur til Ísland 1628 og Helgi sonur Guðrúnar var keyptur laus 1636 og kom heim. Hinir níu Grindvíkingarnir sneru ekki heim aftur. Austfirðir. Seinni ræningjahópurinn, um 300 menn að talið er, var frá Algeirsborg. Ræningjarnir komu á tveimur skipum að Hvalnesi 4. júlí og tóku þar land. Enginn var heima á Hvalnesbænum en ræningjarnir létu greipar sópa og sigldu síðan inn á Berufjörð og vörpuðu akkerum við Berunes. Þar réru þeir á árabátum yfir að verslunarhöfninni á Djúpavogi en þar lá danskt kaupskip. Náðu ræningjarnir því þegar og umkringdu svo kaupmannshúsin og ruddust þar inn. Þar og á skipinu tóku þeir fjórtán Dani og einn Íslending. Ræningjarnir héldu svo áfram inn með firðinum, komu fólki víða að óvörum á bæjum, tóku að og fluttu út í skip. Einn piltur slapp þó undan þeim og tókst að vara fólk við á sumum bæjum og sagt er að Austfjarðaþokan hafi bjargað sumum og auðveldað þeim undankomu. Þeir rændu um Berufjörð, Breiðdal og Hamarsfjörð og hertóku alls um 110 manns en drápu nokkra. Sagt er að þeir hafi ætlað að halda áfram norður með Austfjörðum en fengið harðan mótvind. Þá sneru þeir við og héldu vestur með suðurströndinni en þar var hvergi hægt að lenda fyrr en kom að Vestmannaeyjum. Á leiðinni hittu þeir fyrir enskt fiskiskip sem þeir náðu á sitt vald. Vestmannaeyjar. Mánudaginn 16. júlí 1627 réðust ræningjarnir á Vestmannaeyjar. Snemma morguns þann dag sáust í landsuður af Eyjum þrjú skip er stefndu að eyjunum. Mikill ótti greip fólk í Vestmannaeyjum, þegar sást til skipanna, enda höfðu Vestmannaeyingar frétt af ránum í Grindavík og víðar um landið. Höfðu þeir því komið sér upp vörnum við höfnina. Sjóræningjarnir sigldu hins vegar fram hjá höfninni, suður með eynni og gengu þeir á land á Ræningjatanga og komu þannig Eyjamönnum í opna skjöldu. Ólafur Egilsson segir í Reisubók sinni að Íslendingur sem var í áhöfn enska skipsins sem þeir hertóku hafi sagt þeim hvar þeir gætu tekið land. Af ræningjunum er það að segja, að þeir fóru í þrem hópum í kaupstaðinn. Hvar sem ræningjarnir fundu fólk á vegi sínum, tóku þeir það, bundu og ráku á undan sér niður í þorpið. Sama gilti jafnvel líka um búpening, sem á vegi þeirra varð. Þeir, sem komust ekki nógu hratt, voru höggnir niður og drepnir. Á efstu bæjunum hefur fólkið orðið verst úti, þar sem ræningjana bar svo fljótt að og óvænt. Fólkið á neðri bæjunum komst fremur undan og leitaði skjóls í hellum og gjótum. Danski kaupmaðurinn komst undan ásamt áhöfninni á dönsku kaupskipi sem lá á höfninni og reru þeir lífróður til lands. Sjóræningjarnir dvöldu í þrjá daga í Vestmannaeyjum, með aðsetur á Ræningjaflöt í Lyngfellisdal. Þeir handteknu voru bundnir á fótum og höndum og geymdir í dönsku verslunarhúsunum. Þeir sem veittu mótspyrnu eða þóttu ekki söluvænir voru drepnir. Flóttafólk sem reyndi að komast undan til fjalla var elt uppi, en margir björguðu lífi sínu með því að klifra upp í klettana. Vestmannaeyingar földu sig á ýmsum stöðum, meðal annars í Hundraðmannahelli og Fiskhellum. Er talið að um 200 manns hafi komist undan með því móti. Landakirkju brenndu ræningjarnir eftir að hafa rænt skrúða hennar og öðru fémætu. Þjóðsögur segja að kirkjuklukkunum hafi verið komið undan í fylgsni í fjallaskúta, og er önnur enn í fullri notkun í Landakirkju. Tveir prestar voru í Vestmannaeyjum, og var annar þeirra, séra Jón Þorsteinsson, einn af þeim 34 sem talið er að hafi verið drepnir í ráninu en hinn, séra Ólafur Egilsson, var handsamaður og fluttur út í skip ásamt konu sinni, sem komin var að barnsburði, og tveimur börnum þeirra. Ránsfengurinn. Siglingin til Barbarísins hefur án efa reynst föngunum erfið og sumir dóu á leiðinni. Ekki virðist þó hafa verið farið mjög illa með fólkið og Ólafur Egilsson tekur sérstaklega fram í Reisubókinni að þegar Ásta kona hans lagðist á sæng og ól barn út á rúmsjó hafi Tyrkirnir sýnt barninu mikla umhyggju. Þegar til Algeirsborgar kom valdi borgarhöfðinginn („kóngurinn“, segir Ólafur), þá sem hann vildi fá í sinn hlut en hinir voru seldir á uppboði og hlutu misjafna vist. Um þrjátíu dóu fyrsta mánuðinn eftir að út kom. Sumir köstuðu brátt trúnni, einkum börn og ungmenni, og gerðust múslimar, en árið 1635 voru enn í Algeirsborg um 70 fullorðnir Íslendingar sem héldu fast við kristna trú. Safnað var fé á Íslandi og í Danmörku til að reyna að kaupa fangana lausa og árið 1636 var greitt lausnargjald fyrir 34 þræla í Algeirsborg og þeir lögðu af stað heim. Sex dóu á leiðinni, einn varð eftir en 27 komu til Íslands, þar á meðal Guðríður Símonardóttir úr Vestmannaeyjum, oft nefnd Tyrkja-Gudda. Hún giftist síðar Hallgrími Péturssyni, sem fenginn hafði verið til þess þegar hinir herleiddu komu til Kaupmannahafnar að rifja upp með þeim kunnáttu þeirra í kristnum fræðum. Nokkrir Íslendingar komu heim áður eða seinna og hafði einhverjum þeirra tekist að safna sér fé og kaupa sig sjálfir lausa. Þó munu einhverjir hafa kosið að vera um kyrrt í Barbaríinu þótt þeir væru ekki lengur ánauðugir. Alls munu um 50 manns hafa lagt af stað heim úr ánauðinni þótt ekki kæmust allir á áfangastað. Skrásetning atburða. Ýmsar samtímaheimildir eru til um Tyrkjaránið. Ólafur Egilsson, prestur í Ofanleiti í Vestmannaeyjum var einn þeirra sem var tekinn höndum og fluttur til Algeirsborgar. Hann var hins vegar fljótlega sendur á fund Danakonungs til að reyna að fá Íslendingana leysta úr ánauðinni. Sú ferð bar lítinn árangur og hann kom aftur til Íslands 6. júlí árið 1628. Þá hóf hann fljótlega að skrásetja þessa reynslu sína í bók sem hann kallaði Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Kláus Eyjólfsson lögsögumaður skráði strax eftir ránið frásögn eftir sjónarvottum og kom líka út í Eyjar skömmu eftir að ræningjarnir fóru þaðan. Einnig eru til nokkur bréf sem rituð voru af Íslendingum í Barbaríinu. Steinunn Jóhannesdóttir skrifaði sögulega skáldsögu um Tyrkjaránið sem kom út árið 2001. Hún heitir Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Búnaðarfélagshúsið. Búnaðarfélagshúsið eða Lækjargata 14b er timburhús við hliðina á Iðnó við Tjörnina í Reykjavík. Húsið er sambyggt við gamla Iðnskólahúsið. Búnaðarfélag Íslands lét reisa húsið árið 1906 og var með skrifstofur sínar og starfsemi í suðurenda hússins. Í daglegu tali var húsið oftast nefnt Búnaðarfélagshúsið. Í norðurendanum þar sem núna er Lækjargata 14a í Iðnskólanum gamla var Iðnskólinn til húsa í mörg ár. Einar Pálsson trésmíðameistari sá um byggingu á Búnaðarfélagshúsinu. Hann sá einnig um byggingu á Iðnskólahúsinu og Iðnó en þessi hús eru öll byggð í nýklassískum stíl. Um miðbik aldarinnar var ákveðið að húsið skyldi rifið en seinna var fallið frá þeirri ákvörðun og árið 1978 var húsið friðað. Eftir að Búnaðarfélagið flutti með starfsemi sína í Bændahöllina árið 1964 eignaðist Reykjavíkurborg húsið. Síðan þá hefur húsið meðal annars hýst Fóstruskóla Íslands, Leiklistarskóla Íslands og í dag er grunnskólinn Tjarnarskóli með starfsemi sína þar. Bjarnarhöfn. Bjarnarhöfn er bær og kirkjustaður í Hraunsvík, vestan Stykkishólms á Snæfellsnesi. Hún var landnámsstaður Bjarnar austræna. Margir merkismenn hafa búið á Bjarnarhöfn í gegnum tíðina. Hjörleifur Gilsson bjó á Bjarnarhöfn um árið 1200. Hann var faðir Arons Hjörleifssonar, sem getið er um í Sturlunga sögu. Þar bjó einnig maður að nafni Marteinn Narfason. Hallgrímur Bachman læknir bjó þar frá 1773 til æviloka 1811. Hann varð fjórðungslæknir árið 1776. Hann hafði numið læknisfræði af Bjarna Pálssyni landlækni og einnig erlendis. Páll Melsted (1791-1861) var sýslumaður Snæfellinga 1849-1854 og bjó lengst af þeim tíma á Bjarnarhöfn. Á eftir honum bjó þar Þorleifur Þorleifsson. (1801-1877). Hann var læknir á Snæfellsnesi á öldinni sem leið. Þorleifur var smáskammtalæknir og varð héraðslæknir. Hann var gæddur miklum hæfileikum; hann þótti mjög heppinnn læknir, aflasæll formaður, mikil skytta og dugandi bóndi. En það allra merkilegasta í fari hans var þó fjarsýnisgáfan. Margar sögur fara af því hvernig hann gat nýtt sér þennan hæfileika sinn til lækninga, sagt var að hann gæti séð það á fólki hverjir áttu von og hverjir ekki. Þórir Bergsson (1885-1970) rithöfundur, sem réttu nafni hét Þorsteinn Jónsson, átti heima á Bjarnarhöfn ásamt foreldrum sínum 1905-1907. Thor Jensen (1863-1947) var verslunarstjóri í Borgarnesi frá 1889-1894 og á Akranesi til 1899. Flutti síðar til Reykjavíkur 1901 gerðist umsvifamikill útgerðar og kaupmaður og stóð m.a. að stofnun útgerðafélaga. Hann keypti Bjarnarhöfn og allt helsta nágrenni árið 1914. Thor rak þar mikið sauðfjárbú og lét reisa þar vönduð fjárhús fyrir 600 fjár, sem enn standa. Árið 1921 seldi hann svo Sveini Jóni Einarssyni jörðina og keypti sjálfur jörðina að Korpúlfsstöðum og kom þar upp stæsta kúabúi á Íslandi. Árið 1932 keypti Bæring Elísson Bjarnarhöfnina og bjó þar myndarbúi ásamt Árþóru Friðriksdóttur konu sinni til ársins 1951 er hann seldi jörðina. Grásteinn. Grásteinn er steinn á Álftanesi. Á Grandanum þegar ekið er frá Garðabæ til Álftaness eru vegamót. Bessastaðir eru til hægri, Suðurnesvegur til vinstri og Norðurnesvegur beint áfram. Fyrir sunnan þessi vegamót er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Á steininum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa hann úr stað eða brjóta hann niður. En sagan segir að þegar eitt sinn hafi verið reynt að færa hann úr stað sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Grásteini fylgir einnig sú trú þeim vegfarendurm sem fara varlega framhjá honum muni vel farnast. Álfasteinar eru nokkrir steinar fyrir sunnan Grástein. Í þeim áttu að búa álfar. Árbæjarsafn. Gamli bærinn Árbær er hluti af Árbæjarsafni Þingholtsstræti 9. Mörg hús voru flutt á Árbæjarsafn á sínum tíma Árbæjarsafn er safn um sögu Reykjavíkur sem safnar, varðveitir og rannsakar menningarminjar í Reykjavík. Safnið miðlar þekkingu um sögu og líf íbúa Reykjavíkur frá upphafi byggðar til dagsins í dag. Markmið safnsins er að vekja áhuga, virðingu og skilning fólks fyrir sögu Reykjavíkur. Árbæjarsafn er hluti af Minjasafni Reykjavíkur. Áhugi vaknaði um miðja síðustu öld á því að varðveita sögu elstu byggðar Reykjavíkur. Nýtt húsnæði Þjóðminjasafns Íslands var tekið í notkun 1950 og í kjölfarið á því hafið átak til þess að safna merkum forngripum. Fjórum árum síðar var Skjala- og minjasafn Reykjavíkur stofnað til þess að halda utan um þá muni sem söfnuðust. Um þetta leyti var Árbæjarhverfi ekki byggt heldur var þar gamalt bóndabýli sem komið var í eyði. Árið 1957 samþykktu bæjaryfirvöld að Árbæ skyldi enduruppbyggja og nýta sem safn og að þangað skyldu gömul merk hús vera færð. Árið 1968 voru Árbæjarsafn og Minjasafn Reykjavíkur sameinuð. Æðsti yfirmaður safnsins er borgarminjavörður, Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Árbæjarsafn hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2006. Almennar upplýsingar. Safnið er opið frá 10 - 17 á sumrin og er svo með vetraropnunartíma frá september til maí. Árbæjarsafn býður upp á fasta leiðsagnartíma um safnið: mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl. 13 - 14. Einnig er hægt að panta leiðsagnartíma fyrir utan auglýsta tíma. Það kostar 1000 kr. inn fyrir fullorðna og frítt fyrir börn til 18 ára aldurs og eldri borgara. Pétur Blöndal. Pétur Haraldsson Blöndal (fæddur 24. júní 1944) er doktor í stærðfræði og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og hefur setið í nefndum Efnahags- og viðskiptanefndar sem formaður, Félagsmálanefndar, Heilbrigðis- og trygginganefndar og Íslandsdeildar ÖSE sem formaður. Ævi. Pétur fæddist þann 24. júní í Reykjavík árið 1944. Foreldrar hans voru Haraldur H. J. Blöndal sem var sjómaður og verkamaður, og Sigríður G. Blöndal skrifstofukona. Nám. Hann lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965 og síðar Diplom-próf í eðlisfræði, stærðfræði, tölvunarfræði og alþýðutryggingum við Kölnarháskóla 1971. Að því loknu tók hann doktorspróf í líkindafræði við sama háskóla 1973. Doktorsritgerðin hans hét "Explizite Abschätzung des Fehlers im mehrdimensionalen zentralen Grenzwertsatz". Starfsferill. Árið 1973 hóf hann störf við raunvísindastofnun Háskóla Íslands og hélt hann þeirri stöðu í tvö ár. Eftir það varð hann stundakennari við Háskóla Íslands frá árunum 1973 til 1977. Hann gengdi stöðu forstjóra við lífeyrissjóð verslunarmanna árin 1977 til 1984 og hóf einnig árið 1977 að veita tryggingarfræðilega ráðgjöf og útreikninga fyrir ýmsa lífeyrissjóði og einstaklinga, og hélt hann því áfram í 17 ár. Hann var varð framkvæmdarstjóri Kaupþings árið 1984 og var það til ársins 1991. Hann kenndi við Verslunarskóla Íslands frá árunum 1991 til ársins 1994, og hóf störf sem stjórnarformaður Tölvusamskipta árið 1994 og starfaði þar í eitt ár. Var formaður framkvæmdanefndar Landssambands lífeyrissjóða árin 1980 til 1984 og formaður hjá Landssambandi lífeyrissjóða árin 1984 til 1990. Hann starfaði í endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins árin 1984 til 1986. Hann var í stjórn Verðbréfaþings Íslands árin 1985 til1990. Hann var í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda (1981-1988), Kaupþings (1982-1986) og svo var hann formaður nokkurra dótturfyrirtækja árin 1987-1991. Hann varð formaður skattamálanefndar Sjálfstæðisflokksins árin 1981-1982, og í stjórn Húseigandafélagsins árin 1982 til 1992 þar sem hann gengi stöðu formanns lengst af. Hann er og hefur verið stjórnarformaður Silfurþings ehf. síðan ársins 1988. Hann sat í nefnd um reglugerð sem fjallaði um húsbréfakerfið (1988) og í stjórn Tölvusamskipta hf. (lengst af formaður) síðan árið 1990. Í stjórn SH-verktaka hf. (1991-1992) og stjórnarformaður Veðs hf. og Veðafls hf. (1992-1993). Hann sat í stjórn Sæplasts hf. (1991-1996) og var varaformaður Marstars hf. (1994-1997). Árið 1994 var hann kosinn í bankaráði Íslandsbanka hf. og sat til ársins 1995 og árin 2003 og út 2004 var hann í sjórn SPRON. Hann sat í nefnd um endurskoðun stærðfræðikennslu (1994-1998) og af og til var hann einnig í stjórn Félags íslenskra tryggingarfræðinga. Alþingisferill. Hann var Alþingismaður Reykjavíkur frá árunum 1995 til 2003, svo var hann alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suðurs frá árunum 2003 til 2007 og varð svo alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norðurs árið 2007. Hann var í Iðnaðarnefnd frá árunum 1995 til 2003, félagsmálanefnd frá árunum 1995 til 2007, í Efnahags- og viðskiptanefnd árin 1995 til 2000 og frá árunum 2003 til 2007 sem formaður. Hann var í sérnefnd um fjárreiður ríkisins frá árunum 1996 til 1997, heilbrigðis- og trygginganefnd frá árunum 2003 til 2007. Hann varð formaður efnahags- og skattanefnd árið 2007 og heldur enn þeirri stöðu. Árið 2007 hóf hann störf hjá félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðisnefnd. Hann hóf störf við Íslandsdeild Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu árið 1995 og lauk þar störfum árið 2000 (þar sem hann gætti stöðu formanns frá árunum 1996 til 2003) og hóf aftur störf þar árið 2003 sem formaður og er það enn til þessa tíma. Einkalíf. Pétur var giftur Moniku Blöndal og eignaðist 4 börn og þar af 3 kjörbörn; Davíð (1972), Dagnýju (1972), Stefán Patrik (1976), og Stellu Maríu (1980). Pétur hóf svo sambúð með Guðrúnu Birnu Guðmundsdóttur og áttu þau saman Baldur Blöndal (1989) og Eydísi Blöndal (1994). Gunnlaugur ormstunga. Gunnlaugur trúlofaðist Helgu hinni fögru sem var af ætt Egils Skallagrímssonar. Hann hélt síðan í þriggja ára utanlandsferð eins og hefðbundið var og fyrst til Noregs. Þar gekk hann á fund Eiríks jarls Hákonarsonar og átti við hann orðaskipti. Gunnlaugur móðgaði síðan jarlinn með því að rifja upp snautlegan dauðdaga föður hans, Hákonar, og varð að hverfa frá Noregi. Þá hélt hann á fund Aðalráðs Englandskonungs og síðan Ólafs sænska. Þar hitti hann Hrafn Önundarson skáld sem varð hans helsti keppinautur. Þeir ortu báðir kvæði um Ólaf og bað konungur hvorn að meta kvæði hins. Gunnlaugur ílengdist í útlöndum þar sem hann flutti ýmsum höfðingjum lofkvæði. Á meðan hélt Hrafn til Íslands og bað Helgu hinnar fögru. Þar sem Gunnlaugur hafði ekki snúið heim á tilsettum tíma var trúlofun hans við Helgu slitið og Hrafn fékk hennar. Sama ár og brúðkaup þeirra var gert kom Gunnlaugur aftur til Íslands og skoraði Hrafn á hólm. Þeir háðu einvígi á Alþingi en hvorugur hafði sigur og í framhaldinu voru hólmgöngur bannaðar á Íslandi. Gunnlaugur og Hrafn gengu þó aftur á hólm erlendis nokkrum árum síðar og féllu báðir. Birgir Ármannsson. Birgir Ármannsson (fæddur 12. júní 1968) er lögfræðingur útskrifaður frá Háskóla Íslands og alþingismaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður frá og með 2003, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Birgir er sonur Ármanns Sveinssonar (f. 1946, d. 1968) laganema og Helgu Kjaran (f. 1947) grunnskólakennara. Stjúpfaðir hans er Ólafur Sigurðsson verkfræðingur (f. 1946). Birgir heitir í höfuðið á móðurafa sínum Birgi Kjaran alþingismanni, sem einnig sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Konan Birgis er Ragnhildur Hjördís Lövdahl (f. 1. maí 1971) og eiga þau dæturnar Ernu (f. 29. mars 2003) og Helgu Kjaran (f. 24. ágúst 2005). Birgir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1988 og lauk embættisprófi í lögfræði í HÍ árið 1996. Árið 1999 fékk hann leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi, en stundaði síðan framhaldsnám við King's College í Lundúnum 1999-2000. Á árunum 1988 til 1994 var hann blaðamaður á Morgunblaðinu í námshléum og samhliða námi, en hóf störf hjá Verslunarráði Íslands (síðar nefnt Viðskiptaráð Íslands) haustið 1995. Hann var lögfræðingur ráðsins 1996-1998, skrifstofustjóri 1998-1999 og aðstoðarframkvæmdastjóri 2000-2003. Vorið 2003 var hann í nokkra mánuði starfandi framkvæmdastjóri ráðsins. Birgir tók frá unga aldri þátt í félagsstarfi og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstöðum. Í Menntaskólanum í Reykjavík var hann t.d. formaður beggja nemendafélaganna - forseti Framtíðarinnar 1985-1986 og inspector scholae 1987-1988. Hann var auk þess í sigurliði MR í Spurningakeppni framhaldsskólanna árið 1988. Eftir stúdentspróf hafa félagsmálastörf hans fyrst og fremst tengst stjórnmálum á hægri vængnum. Hann var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1989-1991 og í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1991-1993 og 1995-1997. Á háskólaárunum sat hann í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta og sat auk þess í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1989-1991. Hann var stjórnarmaður í Varðbergi, félagi ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, 1993-1998, og gegndi síðan formennsku í félaginu 1998-2000. Birgir sat um nokkurra ára skeið í umhverfismálaráði Reykjavíkur og var fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefndum Menntaskólans í Reykjavík og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Þá var hann í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík tvívegis um tveggja ára skeið auk þess sem hann var kjörinn af landsfundi í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í tíu ár, frá 1993 til 2003. Hann hefur verið í stjórn ICEPRO, nefndar um rafræn viðskipti, fyrst 1998-1999 og aftur frá 2002, í stjórn EAN á Íslandi 2003-2004 og í stjórn Fjárfestingarstofu 2003-2005. Vorið 2003 var Birgir kjörinn á Alþingi. Hann var 6. varaforseti þingsins 2003-2005 en 3. varaforseti frá 2005. Hann hefur setið í allsherjarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd frá 2003 og í kjörbréfanefnd og sérnefnd um stjórnarskrármál frá 2005. Hann var formaður allsherjarnefndar 2007-2009, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins 2003-2005 og formaður Vestnorræna ráðsins 2004–2005 og var formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins 2005-2009. Fáni Malaví. Fáni Malaví var tekinn til notkunar 6. júlí 1964, eða þegar landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi. Hin rísandi sól táknar von og trú sem einkenndi Afríska-fólkið á þessum tíma, löndin hlutu sjálfstæði eitt af öðru. Svarti liturinn táknar fólkið í heimsálfunni, rauði liturinn táknar píslarvotta afrísks frelsis og græni liturinn náttúru landsins. Betty takes a ride. "Betty takes a ride" er fyrsta breiðskífa íslensku rokkhljómsveitarinnar Isidor. Hún var tekin upp í Eyðimörkinni í apríl og maí 2004 og masteruð af Bjarna Braga í Írak. Kötlugos. Kötlugos er gos í megineldstöðinni Kötlu sem staðsett er í suðaustanverðum Mýrdalsjökli. Kötlugos hafa að meðaltali orðið tvisvar á öld, Kötlugos frá landnámi eru um það bil 20 talsins. Síðasta Kötlugos var árið 1918. Miklar líkur (yfir 20%) eru taldar á Kötlugosi innan tíu ára. Gostegundir í Kötlu. Flest gos Kötlu á sögulegum tíma hafa verið á vatnasvæði Kötlujökuls og valdið hlaupi niður á Mýrdalssand. Síðasta gos (1918) varð þar og mestar líkur eru á að næsta gos verði þar einnig. Gos Eyjafjallajökuls og Kötlugos hafa komið á svipuðum tíma og virðist eldvirkni í þessum eldfjöllum vera tengd. Fyrirboðar um væntanlegt gos. Frá árinu 1999 hefur verið hægt en stöðugt landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti í Kötluöskjunni. Þetta eru taldar vísbendingar og langtímafyrirboðar um að að bergkvika sé að safnast fyrir undir Kötlu og Kötlugos sé í vændum. Þegar kvika fer að brjóta sér leið upp til yfirborðs og eldgos að hefjast, þá er líklegur fyrirboði þess að skammt sé í að gos hefjist áköf jarðskjálftahrina og stundum landsig. Talið er að fyrirvari frá því að jarðskjálftar hefjast og þar til gos hefst geti verið frá einni klukkustund til eins sólarhrings. Fyrri Kötlugos. Ritaðar lýsingar á Kötlugosum eru til allt frá árinu 1625. Vart hefur orðið við jarðskjálfta í sveitunum 2 til 9 klukkustundum áður en hlaup kemur fram á Mýrdalssand. Klaustur á Íslandi. Samanlagt voru ellefu klaustur stofnuð á Íslandi í kaþólskum sið. Tvö þeirra, í Flatey og Hítardal, voru einungis starfrækt í fáein ár. Klaustrin á Íslandi voru ýmist af Benedikts- eða Ágústínusarreglu, en ekkert bendir til að klaustrin hafi haft formleg tengsl við klaustur erlendis. Klaustrin urðu sjálfseignarstofnanir og þau voru miðstöðvar menntunar og menningarlífs ásamt skólunum á biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum. Við Siðaskiptin 1550 voru níu klaustur starfrækt á Íslandi. Tvö þeirra voru nunnuklaustur, Kirkjubæjarklaustur í Skaftafellssýslu, stofnað 1186 og Reynistaðarklaustur í Skagafirði, stofnað 1295. Bæði nunnuklaustrin voru af Benediktsreglu. Fyrsta munkaklaustrið var Þingeyraklaustur í Húnafirði og var það stofnað 1133. Það var af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur í Eyjafirði sem var stofnað 1155. Í Hítardal á Mýrum var klaustur af reglu Benedikts á árunum 1166 - 1201. Öll hin munkaklaustrin voru af Ágústínusarreglu, það elsta var Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri, stofnað 1168. Árið 1172 var stofnað klaustur í Flatey á Breiðafirði en það var flutt til Helgafells 1184. Viðeyjarklaustur var stofnað 1226, Möðruvallaklaustur í Eyjafirði 1296 og Skriðuklaustur á Héraði 1493. Munkaklaustur virðist einnig hafa verið í Saurbæ í Eyjafirði í nokkur ár snemma á 13. öld en heimildir um það eru mjög óljósar. Við siðaskiptin voru klaustrin lögð af og eignir þeirra gerðar upptækar. Upphaflega átti að stofna skóla í klaustrunum og nota klaustureignirnar til að kosta skólahaldið en sú ákvörðun var afturkölluð, Kristján 3. Danakonungur tók allar klaustureignir undir sig og leigði þær til umboðsmanna (klausturhaldara). Munkar og nunnur sem voru í klaustrunum við siðaskipti fengu yfirleitt að dvelja þar áfram til æviloka. Flateyjarklaustur. Kirkjan og bókasafnið í Flatey Flateyjarklaustur var stofnað í Flatey á Breiðafirði 1172, samkvæmt Konungsannál, og var þá Klængur Þorsteinsson Skálholtsbiskup. Var það klaustur í Ágústínusarreglu. Maður að nafni Ögmundur Kálfsson gekkst fyrir stofnun klaustursins og gaf því eigur sínar en varð sjálfur ábóti. Ættir hans eru ekki þekktar en hann er sagður hafa verið mikill skörungur og var meðal annars í biskupskjöri 1174 með Páli Sölvasyni presti í Reykholti og Þorláki Þórhallssyni ábóta í Þykkvabæ, sem kjörinn var biskup. Klaustrið var flutt að Helgafelli 1184. Engar heimildir eru um ástæðu þess að það var flutt en Ögmundur Kálfsson var áfram ábóti á Helgafelli svo að ekki tengdust flutningarnir ábótaskiptum. Enn má finna merki um klaustrið á Flatey þar sem heitir Klausturshólar. Hvanneyri. Hvanneyri er þéttbýlis- skóla- og kirkjustaður í Andakíl í Borgarbyggð. Á staðnum var lengi stórbýli og taldist jörðin 60 hundruð.og þar hefur Bændaskólinn á Hvanneyri verið starfræktur frá 1889, þegar stofnaður var búnaðarskóli fyrir suðuramtið. Hvanneyrarhverfið samanstóð af höfuðbólinu Hvanneyri og þegar búnaðarskólinn var stofnaður voru jarðir og hjáleigur lagðar undir skólann. Voru þetta Svíri, Ásgarður, Tungutún, Bárustaðir, Staðarhóll, Kista og Hamrakot. Árið 1907 urðu breytingar á starfi skólans, námið varð fjölþættara og bóknám aukið og hét hann eftir það Bændaskólinn á Hvanneyri. Framhaldsnám í búvísindum hófst þar svo 1947 og myndaðist þar þéttbýli í kjölfarið. Bútæknideild Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins hefur haft þar aðsetur og aðstöðu síðan 1965 og í dag er á staðnum Landbúnaðarháskóli Íslands og er aðal lífæð staðarins. Á Hvanneyri áttu 303 lögheimili þann 1. desember 2007. Saga. Hvanneyri er talin vera landnámsjörð Egils Skallagrímssonar en hann nam land milli Borgarhrauns og Hafnarfjalls. Hann gaf síðar Grími hinum háleyska land milli Grímsár og Andakílsár og bjó hann á Hvanneyri. Kirkja var fyrst sett á Hvanneyri á 12. öld en hún er í dag bændakirkja og því í eigu Landbúnaðarháskólans. Kirkjan stóð á Kirkjuhól en árið 1903 fauk hún og lenti norðan við kirkjugarðinn. Því var ákveðið að færa kirkjuna og var hún sett á þann stað sem sú gamla lenti. Núverandi kirkja var vígð árið 1905. Árið 1943 var Landsmót ungmennafélaganna haldið á Ásgarðsfit. Náttúrufar. Meðfram Hvítá liggja Hvanneyrarengjar sem fengu næringu úr ánni með áveitum. Þaðan kom lengi vel allur heyafli Hvanneyrarbúsins, eða þangað til farið var að rækta tún suður í mýrunum upp úr 1940. Meðfram engjunum liggur ás nokkur og snýr Kinnin, brekka, í átt að ánni. Ás þessi markar syðri hluta Borgarfjarðarsamhverfunnar en það eru hallandi jarðlög. Sunnan Hvítár halla jarðlögin til suðausturs en norðan ár til norðvesturs. Klapparholt þetta hindrar afrennsli af mýrunum fyrir sunnan. Fuglalíf. Blesgæs setur svip sinn á Hvanneyri bæði vor og haust Byggðin. Íbúðarhús staðarins eru dreifð um svæðið sem og nemendagarðar, heimavist og skólahús sem tilheyra Landbúnaðarháskólanum. Hús Hvanna er vestarlega og hýsir það ýmis fyrirtæki, s.s. Búnaðarsamband Vesturlands, Vesturlandsskóga, Landssamband kúabænda og önnur landbúnaðartengd fyrirtæki. Að auki er þar að finna Andakílsskóla og leikskólann Andabæ. Við skólann er að finna stóran knattspyrnuvöll og sparkvöll. Netvarp. Tákn sem notað er á vefsíðum til að gefa til kynna að vefstraumur sé til staðar á vefsíðu. Netvarp er aðferð til að dreifa á Interneti margmiðlunarskrám svo sem hljóði og kvikmyndum með því að senda út straum sem viðtakendur geta spilað á einkatölvum og ýmis konar spilurum/tónhlöðum. Vinsældir netvarps er tengdar útbreiðslu iPod tónhlöðu. Netvarp getur bæði merkt innihald og miðlunarmáta. Á netvarpsvefsíðum er oft einnig streymimiðlun þannig að auk netvarps einnig hægt að hlusta beint á margmiðlunarstraum. Netvarp einkennist hins vegar af því að mögulegt er að hlaða niður efni á sjálfvirkan hátt með því að nota hugbúnað sem les margmiðlunarstraum eins og RSS eða Atom. Streymimiðlun. Streymimiðlun er miðlunartækni á Interneti þannig að notendur geta hlaðið niður eða sótt bæði hljóðefni og myndefni og spilað það í tölvu sinni jafnóðum og það berst að. Margmiðlunarskrár byrja þá strax að spilast en ekki þarf að bíða þangað til öll skráin hefur hlaðist niður. Klaustur. Klaustur er félagsskapur munka eða nunna sem lifa að miklu leyti aflokuð frá samfélaginu og helga sig leit að eigin fullkomnun og eða þjónustu við Guð og lifa eftir sameiginlegum reglum. Að nokkrum búddistaklaustrum undanteknum einkennist allt klausturlíf af afneitun kynlífs. Oftast eru klaustur karla og kvenna aðskilin þó undantekningar séu til. Hugtakið klaustur er einnig notað yfir húsakynni klausturreglnanna. Klaustur eru snar þáttur í búddisma og stórum hluta kristni, sérlega kaþólsku og rétttrúnaðarkirknanna. Hins vegar er klausturlíf óþekkt í íslam og gyðingdómi. Orðsifjar. Orðið klaustur er komið úr latneska orðinu "claustrum" sem þýðir "lás", "lokað rými", "læst herbergi". Claustrum kemur af "claudo", "loka", "læsa", "inniloka". Kristin klaustur. Uppruna klausturstarfs í kristni er að finna í hefð einsetumanna í gyðingdómi. Er Jóhannes skírari oft nefndur sem fyrirmynd kristinna einsetumanna. Í upphafi kristni leituðu margir heittrúaðir eftir einangrun til að geta helgað sig Guði og einnig til að leita undan ofsóknum. Upp úr aldamótunum 300 tóku kristnir einsetumenn í Egyptalandi að safnast saman og hefst þar með klausturhefðin. Það var Egyptinn Pakhomios sem um árið 320 skapaði hugmyndina um sameiginlegt trúarlíf þar sem einstaklingarnir lifðu saman og játuðust undir sameiginlegar reglr undir stjórn ábóta í munkaklaustrum og abbadísa í nunnuklaustrum. Klausturreglur Pakhomios voru þrjár og eru enn undirstaða alls kristins klausturlífs: "Fátækt, hlýðni og skírlífi." Basilius hinn mikli skrifaði um 370 í "Regulae" nýjar reglur fyrir klausturlíf. Höfuðþættir eru áhersla á jafnvægi líkamlegs starfs og bænar, undirgefni einstaklingsins undir heildina, og möguleika starfs út á við eins og rekstur sjúkrahúsa og gistihúsa. Vegna reglna Basiliusar er hann talinn vera faðir klausturlífs rétttrúnaðarkirkjunnar og eru þær enn grundvöllur þess. Í vesturkirkjunni urðu klaustrin þekkt ekki síst í gegnum verk Ágústínusar (354 til 430)sem skapaði fyrstu vestrænu klausturregluna, Ágústínusarregluna. Það var þó Benedikt frá Núrsíu (480 - 547) sem hafði mest áhrif á þróun klausturlífs í Vestur-Evrópu með Benediktsreglunni. Starf klausturbúa var tvíþætt samkvæmt Benedikt, að biðja og iðja ("ora et labora"). Þriðja megin klausturhreyfingin, sem kennd er við Cistercium, varð til um 1090. Meginþættir í starfi reglunnar er jafnvægi milli "Opus Dei" ("Verk Guðs", það er guðþjónustur og bænir), "Lectio Divina" ("Heilagur lestur", það er Biblíulestur og lestur annarra trúarrita) og "Labor manuum" ("Störf handanna", það er líkamleg vinna). Í kaþólskum sið störfuðu mörg klaustur á Íslandi. Munkur. Munkur (orðið kemur frá grísku "monakhos" ("μοναχός") sá sem stendur einn) er karlmaður sem hefur helgað líf sitt trú samkvæmt ákveðnum reglum. Reglurnar eru margvíslegar allt eftir trú og munkareglu en alls staðar gildir að þeir lifa ekki fjölskyldulífi og stunda ekki kynlíf. Munkar eru til í ýmsum trúarbrögðum en þó sérlega í kristni og búddisma. Margir munkar búa í klaustrum en upphaflega var gríska orðið "monakhos" notað um einsetumenn sem höfðu helgað sig Guði. Nunna. Nunna (orðið kemur frá latínu "nonna", kvenkyn af "nonnus", "kennari" eða "munkur") er kona sem hefur helgað líf sitt trú samkvæmt ákveðnum reglum. Reglurnar eru margvíslegar allt eftir trú og nunnureglu en alls staðar gildir að þær lifa ekki fjölskyldulífi og stunda ekki kynlíf. Nunnur eru til í ýmsum trúarbrögðum en þó sérlega í kristni og búddisma. Margar nunnur búa í klaustrum en langt í frá allar. Perlan. Perlan er bygging sem er staðsett efst á Öskjuhlíðinni í Reykjavík. Hún var vígð 21. júní árið 1991. Perlan hvílir ofan á sex hitaveitugeymum sem rúma samtals 24 milljónir lítra af heitu vatni. Starfsemi í Perlunni. Á fyrstu hæð Perlunnar er Vetrargarðurinn sem er mikið notaður fyrir markaði, vörusýningar, listasýningar og tónleika. Á fjórðu hæðinni er kaffitería, sælkeraverslun, minjagripasala, jólaland og útsýnispallur. Í sælkeraversluninni er hægt að kaupa ostrur, humar o.fl. góðgæti. Minjagripaverslunin er fyrir innan kaffiteríuna og þar er hægt að kaupa ýmsa minjagripi eins og t.d. lopavörur, íslensk málverk og margt fleira. Inn af sælkeraversluninni er jólalandið. Í jólalandinu er hægt að kaupa ýmislegt fyrir jólin eins og skraut á jólatréið, handunna listmuni og margt fleira. Á útsýnispallinum er hægt að njóta útsýnis yfir Reykjavík og nágrenni. Á fimmtu hæðinni er veitingastaður Perlunnar sem er með útsýni yfir Reykjavík og Faxaflóann. Veitingastaðurinn snýst einn hring á tveggja klukkustunda fresti og gestirnir njóta útsýnisins til allra átta. Þar er oft ýmislegt um að vera á veitingastaðnum eins og nýársfögnuður, þar sem nýju ári er fagnað með veislu og flugeldasýningu. Þorrinn er einnig haldinn hátíðlegur með þorragöngu, rommkakói og þorrablóti. Ýmislegt annað er í boði á veitingastað Perlunnar. Perlan hefur verið valin í hóp fimm bestu útsýnisveitingahúsa heims. Sergey Brin. Sergey Mikhailovich Brin (Rússneska: Сергей Михайлович Брин) (fæddur 21. ágúst 1973) er einn af stofnendum Google Inc. Fæddur í Sovétríkjunum, Brin lærði tölvunarfræði og stærðfræði áður en hann stofnaði Google Inc. ásamt Larry Page. Brin er núna forseti tæknisviðs Google Inc. og 26. ríkasti maður heims, 12. ríkasti maðurinn í Bandaríkjunum, og eru eignir hans nú metnar á 14,1 milljara dollara. Fibonacci-runa. Eignuð stærðfræðingnum Leonardo Pisano. Runan svarar því hve mörg kanínupör eru til staðar á hverjum tíma, ef í upphafi er eitt par, sem í hverjum mánuði eignast eitt kanínupar, sem eftir mánuð eignast nýtt kanínupar og svo framvegis án þess að nokkru sinni deyi kanína. Leonardo leggur fram dæmið í bók sinni, "Liber abaci" („Bókin um talnagrindina“ eða „Reikningslistin“), sem kom út árið 1202. Formleg skilgreining. formula_5 Fibonacci-tölur í náttúrunni. Fibonacci-tölur koma víða fyrir í náttúrunni. Kanínudæmið er oft nefnt í sambandi við Fibonacci-tölur. Gefum okkur að við höfum kanínupar, sem sé 1 mánuð að verða kynþroska en eftir það eignast það annað kanínupar í hverjum mánuði. Ef við byrjum með 1 par þá erum við enn þá með 5 par eftir fyrsta tímabilið. Eftir næsta tímabil eignast það annað par (sem eignast ekki afkvæmi fyrr en eftir tvö tímabil) og þá erum við komin með 3 pör. Eftir þriðja tímabilið bætist við eitt nýtt par og við höfum þá 4 pör. Eftir eitt ár í viðbót eignast þau 1 pör sem voru til fyrir tveimur mánuðum (tímabilum) hvort sitt parið og þá höfum við 5 pör. Þetta gengur þannig fyrir sig að á hverju ári eykst fjöldi kanínupara um þann fjölda sem var til staðar fyrir 2ur mánuðum. Fjöldi blaða á blómum er til dæmis oft fibonacci-tala. Tengsl við gullinsnið. Ef mynduð er runa úr hlutföllum hverra tveggja samliggjandi Fibonacci-talna, þá hefur sú runa markgildið 1,618.. sem kallast gullinsnið. Fyrstu tölurnar í þeirri runu eru 1; 2; 1.5; 1,667; 1,600; 1,625 o.s.frv. Efnaverkfræði. Efnaverkfræði er ein af undirgreinum verkfræðinnar og má segja að hún sé hagnýta hliðin á efnafræðinni. Efnaverkfræði fæst m.a. við rannsóknir og þróun á smíði og framleiðslu nýrra efna og efnasambanda. Efnaverkfræði snýst að stærstu leyti um aðferðir á framleiðslu kemískra efna fyrir notkun í stórum mæli í iðnaði og gera það á sem hagstæðastan máta. Í því felast ýmsir tæknilegir ferlar eins og skiljun efna, efnahvörf og varma- og massaflutningar. Ísafjarðarsýsla. Ísafjarðarsýsla var eitt kjördæmi frá endurreisn Alþingis fram til 1901. Á Ráðgjafarþingum. Jón Sigurðsson var kjörinn af Ísfirðingum til setu á Alþingi á öllum 14 ráðgjafarþingunum. Á Löggjafarþingum. Í júní 1903 var kosið til Alþingis annarsvegar í V-Ísafjarðarsýslu og N-Ísafjarðarsýslu hinsvegar. Borgarfjarðarsýsla. Borgarfjarðarsýsla var kjördæmi sem kaus einn þingmann. Sá íslenski þingmaður sem lengst hefur setið var Pétur Ottesen þingmaður Borgafjarðarsýslu, sem sat 52 þing. Norður-Ísafjarðarsýsla. Þingmenn. Eftir að Ísafjarðarsýslu var skipt upp, 1903, var Norður Ísafjarðarsýsla stakt kjördæmi með einn þingmann uns Vestfjarðakjördæmi var myndað árið 1959. Vestur-Ísafjarðarsýsla. Eftir að Ísafjarðarsýslu var skipt upp, 1903, var Vestur Ísafjarðarsýsla stakt kjördæmi með einn þingmann uns Vestfjarðakjördæmi var myndað árið 1959. Reykjavík Grapevine. "Reykjavík Grapevine" er íslenskt tímarit á ensku, ætlað ferðamönnum. Blaðið var stofnað í maí 2003, og fyrsta tölublaðið kom út föstudaginn 13. júní. Stefna blaðsins er að vera tæmandi upplýsingaheimild um menningu og viðburði í Reykjavík. Stíll og sjónarmið blaðamanna sem ritstjóra eru háðsk og gagnrýnin, enda er blaðið fyrst og fremst ætlað til afþreyingar. Efni hvers tölublaðs er einnig aðgengilegt á stafrænu formi af heimasíðu blaðsins. Ritstjóri er Haukur S. Magnússon. Stofnendur "Reykjavík Grapevine" voru þeir Hilmar Steinn Grétarsson, Jón Trausti Sigurðarson og Oddur Óskar Kjartansson. Tímaritið er núna gefið út í 30.000 eintökum og dreift um land allt. Blaðið kemur út aðra hverja viku að sumri til (apríl-september) og mánaðarlega að vetri til (október-mars), alls 18 sinnum á ári. Ríkið (hljómsveit). Ríkið var íslensk rokkhljómsveit. Hljómsveitina skipuðu Valur Snær Gunnarsson, Jón Trausti Sigurðarson, Ólafur Þór Ólafsson og Árni Jóhannsson. Hljómsveitin gaf út eina breiðskífu, Seljum allt, og lagði svo upp laupana 11. ágúst 2004, eftir að hafa starfað í rúmt ár. Jón Trausti Sigurðarson. Jón Trausti Sigurðarson er einn af stofnendum og eigendum tímaritsins Reykjavík Grapevine og fyrrverandi ritstjóri sama rits. Hann er fyrrverandi bassaleikari hljómsveitarinnar Ríkið. Prófkvíði. Prófkvíði er ákveðin tegund kvíða sem er talinn byggjast á tveimur þáttum, tilfinningasemi og áhyggjum (Helga Kristinsdóttir og Stefanía Ægisdóttir. 1990:33). Inngangur. Mikið álag fylgir oft prófum og virðist það hafa mismunandi áhrif á nemendur. Sumir nemendur eiga í miklum vanda þegar að prófum kemur, þrátt fyrir góðan undirbúning. Mörg dæmi eru þess, að prófkvíðnum einstaklingum finnist þeir ekki uppskera eins og til var sáð. Í prófi verður hugsunin óskýr, nemandinn á erfitt með að einbeita sér og finnst hann ekki geta komið þekkingu sinni nægjanlega vel á framfæri. Því má telja að prófkvíði geti haft áhrif á áframhaldandi námsárangur þessara nemenda. Um rannsóknir tengdar prófkvíða. Við rannsókn á þeim sem haldnir eru prófkvíða kemur í ljós að ólíkar forsendur liggja kvíðanum að baki. Sumir eru eingöngu haldnir hreinum prófkvíða meðan aðrir eiga auk hans við ýmiss konar sértæk vandamál að stríða, svo sem lesblindu, ofvirkni og tourette, sem oft kemur niður á frammistöðu þeirra í prófum. Gera má því ráð fyrir að stærsti hluti þess hóps sem haldinn er prófkvíða komi úr röðum þeirra, sem eiga við slík vandamál að stríða. Í bókinni Náðargáfan lesblinda kemur fram að í skriflegum prófum séu einkunnir lesblindra barna oft lágar og jafnvel í þeim fögum sem barnið hefur ánægju af. Þar sem menntun er álitin mikilvæg heldur barnið svo áfram í skóla eins lengi og það þolir. Barnið hættir e.t.v. í menntaskóla og fær sér vinnu við vélar þar sem færni þess fær notið sín (Davis, Ronald D. og Eldon M. Braun. 2003:124). Rannsóknir sem styðjast m.a. við prófkvíðakvarða Spilbergs hafa leitt í ljós að þeir sem haldnir eru prófkvíða sýna ekki hámarksgetu í prófum. Þeir upplifa aðstæðurnar sem ógnandi og svara þeim með mjög sterkum tilfinningalegum viðbrögðum. Einnig hafa rannsóknir margoft leitt í ljós neikvætt samband prófkvíða og námshæfni. Það er áhyggjuþáttur prófkvíðans sem hefur mest truflandi áhrif á frammistöðu prófkvíðinna einstaklinga. (Helga Kristinsdóttir og Stefanía Ægisdóttir. 1990:32). Í prófum vex kvíðinn og hinir prófkvíðnu eiga oft erfitt með að muna einföldustu atriði sem mikið kapp hefur verið lagt á að læra. Það getur liðið þó nokkur tími áður en nemandinn nær tökum á kvíðanum og kemst hann þá oft í tímaþröng, sem hefur síðan magnandi áhrif á kvíðann (Auður R. Gunnarsdóttir. 2004). Í könnun sem gerð var á sérkennslu í grunnskólum Reykjavíkur á tímabilinu 1998 –1999 kemur fram að um 19,5% nemenda í grunnskólum voru í sérkennslu og/eða fengu sérúrræði. Þar af fengu 95 – 99% þessa hóps sérkennslu í íslensku, þ.e. lestri og stafsetningu og stærðfræði (Anna Ingeberg Pétursdóttir o.fl. 2000:77-19). Það eru einmitt þessir námsþættir sem lesblindir einstaklingar eiga hvað erfiðast með. Lesörðugleikar og áhyggjur af stafsetningu gera það að verkum að þeir eiga oft erfitt með að einbeita sér. Í bókinni Náðargáfan lesblinda segir að sumir lesblindir komist að því að þeir geti hreinlega ekki lesið. Sem fullorðnir einstaklingar eiga þeir enn í vanda og þegar þeir eru prófaðir í að þekkja orð fá þeir oftast einkunnir undir getu barna í þriðja bekk grunnskóla, jafnvel þótt þeir hafi fengið aðstoð í lestri (Davis, Ronald D. og Eldon M. Braun. 2003:8). Þetta leiðir hugann að því hvaða áhrif þetta hefur á sjálfsmat nemenda því niðurstöður sýna t.d. að áhyggjuþáttur prófkvíða vísar til hugsana um neikvætt sjálfsmat, sem aftur getur haft neikvæð áhrif á námsárangur og líðan. Áhyggjuþáttur prófkvíðans er talinn vísa til neikvæðs sjálfsmats á eigin hæfni í samanburði við aðra (Helga Kristinsdóttir og Stefanía Ægisdóttir. 1990:32). Í rannsókn sem gerð var á námsgengi og afstöðu árgangsins, sem fæddur er 1975, til náms kemur fram að sjálfsálit tengist einkunn nemenda á samræmdu prófi í íslensku í 10. bekk. Næstum helmingur þeirra sem fékk undir fimm í einkunn tilheyrir hópnum sem minnst sjálfsálit hefur samanborið við tæplega þriðjung þeirra sem fékk fimm eða hærra (Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal. 2002:68). Prófkvíði getur líka leitt til þess að nemendum fer að finnist námið vera álag og erfiði og ánægjan af náminu hverfur og þeir læra oftast til að forðast mistök (Auður R. Gunnarsdóttir 2004). Þó svo rannsóknir hafi sýnt að hægt sé að minnka prófkvíða með flestum þeim aðferðum, sem mest hafa verið notaðar, þá er samt spurning hvort verið sé að gera ákveðnum einstaklingum óþarflega erfitt fyrir með því álagi sem fylgir prófum. Daniel Golemann hefur fært fyrir því margvísleg rök að „tilfinningavísitala“ skiptir jafnvel meiri máli fyrir velgengni okkar í námi en hefðbundin greindarvísitala. Hann segir að greindarvísitala byggi á mælingum á tiltölulega þröngu sviði málskilnings og talskilnings (Rúnar Sigþórsson o.fl. 1999:130). Ljóst er því að margt bendir til þess að próf eða það álag sem fylgir prófum hafi bein eða óbein áhrif á sjálfsálit og námsárangur nemenda. Ýmislegt bendir til þess að próf mæli aðeins kunnáttu og getu einstaklinga undir álagi en segi lítið til um raunverulega kunnáttu þeirra við aðrar kringumstæður. Velta má því fyrir sér hvort ekki megi í ríkari mæli beita öðrum matsaðferðum þegar meta eigi námsárangur heldur en nú er gert. Niðurlag. Önnur grein grunnskólalaganna segir til um að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins (Lög um grunnskóla nr. 66/1995). Í dag er málum þannig háttað að niðurstöður úr samræmdum prófum í 10. bekk hafa mikið um það að segja hvort nemandi teljist hæfur til að hefja nám í framhaldsskóla. Spurningin er því hvort samræmd próf séu í samræmi við þarfir þess hóps sem þjáist af prófkvíða og hvort ekki væri eðlilegra að nemendur hefðu meira val um hvernig þeir yrðu metnir í lok grunnskólans. Einstaklingar eru mjög ólíkir og því ætti að meta þá á ólíkan hátt og ekki hvað síst í lok grunnskólans þegar framtíðin blasir við þeim. Skólanum er ætlað að stuðla að þroska og menntun hvers og eins og er því útilokað að meta alla eftir einum mælikvarða sem kallast samræmd próf. Það hlýtur að flokkast undir ósanngirni gagnvert stórum hluta nemenda ekki hvað síst þeim sem haldnir eru prófkvíða hvað þá þeim sem eru haldnir prófkvíða og öðrum sértækum vandamálum. Rýgresi. Rýgresi (fræðiheiti: "Lolium") er ættkvísl af grasaætt og eru 9 tegundir í ættkvíslinni. Rýgresi lifir í Evrópu, Asíu og Norður-Afríku en er í ræktun á fleiri stöðum, s.s. í Ameríku. Notkun. Rýgresi er jafnt notað til beitar og heyöflunar sem gras á knattspyrnuvelli og aðrar grasflatir - vegna þess hve vel grasið bindur svörðinn. Rýgresið þolir traðk og beit vel. Rýgresi er sumstaðar notað til landgræðslu og er algengur hvati heymæði. Garden State (kvikmynd). Garden State er bandarísk kvikmynd sem var frumsýnd 28. júlí 2004. Í megindráttum fjallar myndin um Andrew Largeman sem heimsækir heimabæ sinn í fyrsta skipti í níu ár. Kínverska. Kínverska (á frummálinu 汉语/漢語 (Pinyin: "Hànyǔ"); 中文 ("Zhōngwén"); 华语/華語 ("Huáyǔ"); eða 华文/華文 ("Huáwén")) er tungumál sem er hluti af sínó-tíbetska málaflokknum. Kínverska er það tungumál sem flestir eiga að móðurmáli ef tekið er tillit til þess að allar mállýskurnar eru flokkaðar undir einn hatt. Rúmlega einn af hverjum fimm jarðarbúum talar einhvers konar kínversku sem sitt móðurmál. Í kínversku er gjarnan talað um yu (语) og wen (文) þegar talað er um tungumál. Yu vísar almennt til talmáls en wen til ritmáls. Talmál. Í kínversku eru margar ólíkar mállýskur og mismunur þeirra getur verið svo mikill að þær skiljast ekki innbyrðis. Hið opinbera talmál í Kína heitir Putonghua eða 普通话 (Pinyin: Pǔtōnghuà) eða „staðlaða málið“ og er afbrigði af mandarín mállýsku, sem er útbreiddasta mállýskan. Putonghua byggist fyrst og fremst á Peking mállýsku (afbrigði af mandarín) og er töluð við kennslu í skólum og í útsendingum ljósvakamiðla. Aðrar algengar mállýskur eru kantónska (Guangdonghua) sem er t.d. töluð í Kanton-héraðinu og Hong Kong, Sichuan-mállýska (Sichuanhua) sem er töluð í Sichuan-héraði og Shanghai-mállýskan (Shanghaihua) sem er aðallega bundin við borgina Sjanghæ. Mállýskur. Tala má um kínversku mállýskurnar sem mállýskur eins tungumáls eða sem sjálfstæð tungumál innan "kínverska málastofnsins". Mállýskurnar skiptast sjálfar í minni mállýskur og stöðluð talmál. Ritmál. Kínverskt ritmál er að hluta til bæði myndmál og hljóðmál og byggist á kínverskum táknum (漢字/汉字 Pinyin: hànzì). Til eru tvær útgáfur af kínversku táknkerfi: einfölduð kínverska og hefðbundin kínverska. Byrjað var að nota einfölduðu útgáfuna kringum 1950 eftir að kínverskir kommnúnistar komust til valda en hefðbundna útgáfan er enn við lýði og er m.a. annars notuð í Taívan, Hong Kong og af vissum kínverskum fjölmiðlum erlendis. Táknkerfið byggist á því að hvert tákn hefur sína eigin merkingu og borið fram með einu atkvæði. Táknin eru annað hvort grunntákn eða samansett úr fleiri grunntáknum. Táknhlutarnir gefa þá ýmist til kynna um merkingu orðsins eða framburður þess. Grunntáknin má rekja til upphaf myndmálsins allt að fyrir 8000 árum en heildstætt táknkerfi þróaðist fyrir um 3500 árum sem gerir kínverska ritmálið að einu elsta ritmálið í heiminum. Kínverska er sérstæð að því leyti að hana má lesa bæði skrifa (og lesa) lárétt og lóðrétt, sökum eðlis táknanna. Þegar kínverskur texti ritaður á láréttan hátt, þá er það ritað frá vinstri til hægri og svo niður á við, líkt og í íslensku. Aftur á móti þegar táknin er skrifuð lóðrétt, þá er það venja að skrifa niður á við og svo til vinstri. Ólík tákn geta haft eins framburð (skv. Pinyin m.t.t. tónunar í Putonghua) þó svo að merkingar þeir séu gjörólíkar. Til dæmis er 新 og 心 gjörólík tákn og eru nákvæmlega eins borin fram en hið fyrra þýðir „nýr“ en seinna „hjarta“. Rómönskun. Þegar kínversk tákn eru umrituð yfir á latneska (rómverska) bókstafi kallast það rómönskun. Algengasta aðferðin kallast pinyin eða 拼音 (pinyin: Pīnyīn] sem þýðir „samsett hljóð“. Kerfið byggist aðallega á því að sérhljóðarnir eru merktir á fjóra mismunandi vegu fyrir ofan stafina, t.d. ā á ǎ à, og gefa merkingarnar til kynna tónun stafsins eða táknsins. Þetta er t.d. ein af aðferðunum við að slá inn kínversk tákn inn á tölvu. Þá eru skrifaðir tölustafi í stað merkinganna eftir hverja umritun á tákni. Einfalt dæmi: Ísland er skrifað Bīngdǎo á pinyin. Í tölvu er slegið inn: „bing1dao3“ og út kemur „冰岛“ á skjánum. Oft má sleppa tölustöfunum þar sem tölvan þekkir til orðsins og í þessu tilviki er nóg að skrifa „bingdao“. Einelti. Einelti er samfélagslegt hegðunarmynstur sem einkennist af grófri niðurlægingu og stríðni, andlegri og líkamlegri, sem beinist að ákveðnum einstaklingi af hálfu annars einstaklings eða hóps. Fyrirbrigðið er þekkt vandamál í skólum og á vinnustöðum. Sums staðar er einelti bannað með lögum, t.d. í Skotlandi. Hópar, sem stunda einelti í ákveðnu samfélagi (t.d. vinnustað eða skóla), einkennast oft af geranda, sem á við persónuleg vandamál að stríða, t.d. í æsku, eða hefur áður verið lagður í einelti sjálfur; hóp einstaklinga sem styðja eineltið af svipaðri ástæðu og stærri hóp fólks sem styðja eineltið ekki beint heldur eru félagar þeirra sem stunda eineltið, fylgjast með því og aðhafast ekki. Fórnarlömb eineltis eru oft sjálfstæðir persónuleikar sem hafa litla þörf fyrir að fylgja umhverfinu þegar kemur að t.d. tísku eða háttalagi en eru hins vegar ekki síður hæfir þegar kemur að almennum hæfileikum, svo sem greind. Í mörgum samfélögum, ekki síst vestrænum, er einelti litið alvarlegum augum og víða hafa félagslegar stofnanir það verkefni að koma í veg fyrir einelti í samfélaginu. Vandamálið er líklega helst í skólastofnunum, en einnig á vinnustöðum. Staphylococcus aureus. Staphylococcus aureus (ýmist stytt "staph. aureus" eða "s. aureus".) er gerill af ættkvísl stafýlókokka sem lifir einkum á húð og í nefholi manna. Hann er tækifærissýkill og getur valdið vægum sýkingum í húð sem svipar til unglingabóla en einnig lífshættulegum sjúkdómum á borð við lungnabólgu, júgurbólgu, heilahimnubólgu og hjartaþelsbólgu. Staphylococcus aureus er algeng matareitrunarbakteria. Hún kemur oft upp í matvælum sem hafa verið meðhöndluð af fólki og getur komið upp þar sem hreinlæti er ábótavant. Hún kemur helst fram í unnum kjötvörum og hún getur fjölgað sér hratt, auk þess getur hún myndað eiturefni sem er mjög hitaþolið og þolir suðu allt að hálfa klukkustund. Bakterían finnst fyrst og fremst í nösum, hálsi og á húð hjá fólki og dýrum. Hún finnst einnig í þörmum hjá mönnum og dýrum, jarðvegi og ryki. Hún kemur einnig fyrir í ígerðum og sárum. Algengustu matvælin sem hún finnst í eru kjötafurðir, mjólkurafurðir, búðingar, sósur og salöt og saltaðar matvörur. Staphylococcus aureus getur vaxið við 8º-45 °C en hún drepst við um það vil 70º-75 °C. Bakterían er mjög saltþolin og getur vaxið í mat með saltinnihald allt að 15%. Hún getur líka lifað þurrkun af og vex best í tilvist súrefnis en getur einnig lifað við loftfirrtar aðstæður. Hún þolir breytt sýrustigsbil eða allt frá 4 og upp í 9. Eiturefnið sem bakterían getur myndað getur verið mjög virkt og þarf lítið af því til þess að fólk veikist. Fyrstu einkenni sem koma fram eina til sex klukkustundir eftir neyslu eru ógleði, uppköst og oft höfuðverkur. Langoftast er sjúkdómurinn skammvinnur og fólk nær sér eftir einn til þrjá daga án meðferðar hjá lækni. Safn Ásgríms Jónssonar. Safn Ásgríms Jónssonar er listasafn í Reykjavík þar sem áður var vinnustofa og heimili listamannsins. Vinnustofa og heimili Ásgríms Jónssonar var að Bergstaðastræti 74, 101 Reykjavík. Þegar Ásgrímur féll frá árið 1958 ánafnaði hann íslensku þjóðinni öllum listaverkum sínum ásamt húsinu sínu. Safnið var opnað 1960, skömmu eftir lát Ásgríms. Árið 1988 var safnið að hluta sameinað Listasafni Íslands samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá Ásgríms og er nú sér deild innan þess. Heimili Ásgríms og vinnustofu er enn hægt að skoða í Ásgrímssafni að Bergstaðastræti 74 og þó svo að flest verk hans séu nú á Listasafninu er enn yfir 2000 verk að finna á Ásgrímssafni auk þess sem safnið er ómetanleg heimild um líf hans og starf. Heimild. Upplýsingar fengnar af vef Listasafns Íslands Hálslón. Hálslón er miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar og er myndað með stíflun á rennsli Jökulsár á Dal, Kringilsá og Sauðá. Stíflurnar sem mynda lónið eru Kárahnjúkastífla (193 m há og 700 m löng, meðal þeirra stærstu í heimi af sinni gerð), Desjarárstífla (60 m há) og Sauðárdalsstífla (25 m há). Lokað var fyrir botnrás Kárahnjúkastíflu þann 28. september 2006 og þar með var byrjað að safna vatni í lónið. Það náði svo fullri stærð í lok árs 2007. Þegar lónið er í fullri stærð er vatnsborð þess 625 metra yfir sjávarmáli. Þá er vatni veitt um yfirfall Kárahnjúkastíflu í 90 metra háum fossi ofan í Hafrahvammagljúfur. Lónið er 57formula_1 þegar það er í fullri stærð, 25 km langt og 2 km breitt og sveiflast vatnsyfirborð þess um allt að 75 m þó svo sveiflan í meðalári sé mun minni. Nýtanlegt vatnsmagn fyrir rekstur virkjunarinnar er 2100 gígalítrar og renna úr því 107formula_2/s niður í stöðvarhús virkjunarinnar í Teigsbjargi þaðan sem vatninu er beint í Jökulsá á Fljótsdal sem aftur rennur í Lagarfljót. Ásgrímur Jónsson. Ásgrímur Jónsson (fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa 4. mars 1876 — dáinn 5. apríl 1958) er íslenskur listmálari og fyrstur íslenskra málara til að gera myndlistina að aðalstarfi. Hann nam við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn á árunum 1900-1903 og ferðaðist víða að námi loknu. Hann er frægastur fyrir landslagsmyndir sínar þó svo að á löngum ferli hafi stefnur og áherslur hjá honum breyst. Óvirknun. Óvirk tæring í t.d. ryðfríu stáli, er þegar krómoxíðhúðin (Cr2O3) á yfirborði efnisins er órofin, sem þýðir að efnið undir krómoxíðhúðinni er ekki að tærast, krómoxíðhúðinn heldur súrefninu frá stálinu. Norræna húsið. Séð vestur yfir Reykjavík úr turni Hallgímskirkju, Norræna húsið fyrir miðri mynd Norræna húsið er stofnun hýst í samnefndu húsi í Vatnsmýrinni í Reykjavík, sem á að stuðla að samvinnu og efla tengsl Íslands og hinna Norðurlandanna. Byggingin var hönnuð af finnska arkitektinum Alvar Aalto, fullbyggð 1968 og opnuð almenningi þann 24. ágúst sama ár. Þar má finna bókasafn, veitingastaðinn "Dill" og sali, sem leigðir eru til sýninga-, ráðstefnu- og fundahalda - auk ýmissa annara viðburða allan ársins hring. Húsið er opið alla daga vikunnar og almennt enginn aðgangseyrir að neinum viðburðum sem Norræna húsið sjálft stendur fyrir. Rekstur hússins er greiddur sameiginlega af Norrænu ráðherranefndinni. Norrænir sendikennarar við Háskóla Íslands hafa skrifstofur í Norræna húsinu. Á fyrstu árum Norræna hússins voru oft kennslustundir í húsinu hjá nemendum við Háskóla Íslands sem voru að læra dönsku, sænsku, norsku eða finnsku. Fram að þessu hefur Norræna húsið skipulagt og haft frumkvæði af margvíslegum menningarviðburðum og sýningum. Norræna húsið er bæði bakhjarl og þátttakandi í helstu menningarviðburðum Íslands s.s Kvikmyndahátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Listahátíð Reykjavíkur og Norræna tískutvíæringnum en Norræna húsið átti frumkvæðið að þeim viðburði. Í Norræna húsinu er einnig að finna einstakt bóksafn, sem lánar út bókmenntir eingöngu á norrænum tungumálum, verslun með norræna hönnun og matvöru, sýningarsali og tónleika/kvikmyndasal. Auk þess er í húsinu veitingastaðurinn Dill sem framreiðir mat eingöngu úr norrænu hráefni. Veitingarstaðurinn Dill er hugarfóstur Gunnars Karls Gíslasonar og Ólafs Arnar Ólafssonar. Á bókasafni Norræna hússins er að finna bækur og blöð frá Norðurlöndunum. Þar er einnig hægt að fá lánaðar hljóðbækur og DVD myndir og hlaða niður rafbókum í gegnum heimasíðu safnsins. Í safninu er einnig Artótek með grafíkmyndum eftir norræna listamenn, sem hægt er að fá að láni. Barnahellir í bókasafninu er sérsniðinn að þörfum yngri kynslóðarinnar og fjölskyldum þeirra. Forstjóri Norræna hússins síðan 1. janúar 2007 er Max Dager fæddur 12. júní 1956 í Svíþjóð. Max er kvæntur Guðrúnu Garðarsdóttur, skrifstofustjóra í Þjóðmenningarhúsinu og saman eiga þau eina dóttir, Ingibjörgu Írisi. Max er menningarfræðingur að mennt frá Stokkhólmsháskóla og Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Bakgrunnur Max liggur mest í menningu og listum og þá einna helst í sviðslist. Hann hefur stýrt fjölda uppsetninga út um allan heim. Hann er einn af stofnendum fjöllistaleikhússins Cirkus Cirkör í Stokkhólmi sem í dag er orðið að alþjóðlegu fyrirtæki með starfsemi víða um heim. Hann hefur veitt forstöðu menningarverkefninu Garðarshólma á Húsavík og situr nú í stjórn félagsins. Í kjölfar Alþingiskosninga vorið 2009 fóru viðræður um myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fram í Norræna húsinu. Putonghua. Putonghua eða 普通话 (Pingyin: Pǔtōnghuà) er opinbera talmálið í Kína sem er m.a. notað í sjónvarpi og útvarpi sem og við kennslu í skólum á öllum skólastigum. Flestir Kínverjar á meginlandinu nota Putonghua til tjáskipta ef þeir eru frá ólíkum landsvæðum. Framburður í Putonghua byggist á Beijing-mállýsku sem er hluti af mandarín-mállýskunni. Framburður á Putonghua er merkt með Pingyin. Einfaldað kínverskt tákn. Einfaldað kínverskt tákn (简体字) eða Einfölduð kínverska (简体中文) eru kínversk tákn sem eru einfaldari en hefðbundna gerðin að því með þeim markmiðum að einfalda kínverska ritmálið. Kerfið var almennt tekið í gildi eftir að kínverskir kommúnistar komust til valda um 1950. Til aðgreiningar frá hefðbundnum táknum þá er hægt að skrifa einfölduðu táknin með færri strokum heldur en þau hefðbundnu. Ekki eru öll einfölduðu táknin frábrugðin þeim hefðbundnu því flest þeirra eru lík. Hefðbundið kínverskt tákn. Hefðbundin kínversk tákn (繁体字,pingyin: fantizi) eða hefðbundin kínverska (繁体中文, pingyin: fantizhongwen) eru kínversk tákn sem eru eldri að gerð en einfaldaða gerðin. Táknin eru mest notuð í Taívan og Hong Kong ásamt vissum kínverskum fjölmiðlum erlendis. Hefðbundnu táknin voru lögð niður í meginlandinu og einfölduðu táknin tekin í gildi eftir að kínverskir kommúnistar komust til valda um 1950. Til aðgreiningar frá einfölduðum táknum þá þarf að skrifa hefðbundnu táknin með fleiri strokum heldur en þau hefðbundnu. Ekki eru öll hefðbundnu táknin frábrugðin þeim einfölduðu því flest þeirra eru lík. Fáni Ítalíu. Fáni Ítalíu (stundum kallaður "Il tricolore" á ítölsku) er þrílitur fáni með þremur jafnbreiðum lóðréttum borðum; grænum, hvítum og rauðum, talið frá stöng. Fáninn var fyrst notaður sem fáni "Repubblica Cispadana" sem var eitt af mörgum lýðveldum sem spruttu upp á Norður-Ítalíu í kjölfar herfarar Napóleons 1796. Mörg þessara lýðvelda tóku upp fána sem minnti á franska fánann. Fáninn varð síðan eitt af táknum þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem fylgdi í kjölfar endurreisnar gömlu lénsveldanna og við upphaf baráttunnar fyrir sameiningu Ítalíu tók Karl Albert af Savoja fánann upp með skjaldarmerki Savojaættarinnar í miðju á bláum grunni. Þessi merki voru í fánanum fram að lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar og stofnun lýðveldis 1946. 17. janúar 2003 voru litirnir staðlaðir miðað við Pantone-litagildi fyrir klæðalitun sem bjartur grasgrænn (18-5642TC), mjólkurhvítur (11-4201TC) og tómatrauður (18-1660TC). Táknrænt gildi litanna. Litirnir í fánanum hafa líklega byggst á litunum í einkennisbúningi Langbarðafylkingarinnar sem bar hvítan og rauðan lit í fána borgarinnar Mílanó á grænum búningi. Táknin hafa síðar verið túlkuð sem grænn litur grassléttanna, hvítur jöklanna í Alpafjöllunum og rauður blóðsins sem spillt hefur verið fyrir Ítalíu. Einnig er til önnur algeng túlkun sem ekki er eins rómantísk þar sem græni liturinn er litur basilíkunnar, hvítur litur mozzarella-ostsins og rauður litur tómatsins. Lifandi steingervingar. Lifandi steingervingar eru lífverur sem lifa enn í dag og voru áður taldar útdauðar og bara til sem steingervingar. Guðmundur góði Arason. Stytta af Guðmundi Arasyni á Hólum Guðmundur Arason hinn góði fæddist á Grjótá í Hörgárdal 1161 en lést á Hólum í Hjaltadal 16. mars 1237. Hann var biskup á Hólum (1203 - 1237). Hann fékk fljótt orð á sig fyrir góðmennsku og þótti hafa til að bera mikla mildi og mýkt. Hann hlaut því viðurnefnið „góði“ sem merkir helgur maður og töldu sumir að í nálægð hans gætu gerst kraftaverk. Hann varð fljótt umdeildur biskup og átti alla sína biskupstíð í deilum við volduga höfðingja. Prestur. Guðmundur Arason fæddist í Hörgárdal 1161 og var óskilgetinn því að móðir hans, Úlfhildur Gunnarsdóttir, hafði verið nauðug gift öðrum manni áður en hún varð þunguð með föður hans, Ara Þorgeirssyni. Þegar hann var ungur féll faðir hans úti í Noregi þegar hann bjargaði Erlingi skakka jarli undan óvinum. Föðurbróðir Guðmundar, Ingimundur prestur, ól hann upp á hálfgerðum flækingi, barði hann til bókar og var harður við hann. Um 1180 ætluðu þeir til útlanda en skipið fórst við Hornstrandir. Guðmundur bjargaðist en slasaðist illa á fæti, átti lengi í þeim meiðslum og varð þá trúmaður og meinlætamaður. Hann var vígður til prests 1185. Hann var svo prestur á nokkrum stöðum í Skagafirði og síðan á Völlum í Svarfaðardal og fór mikið orð af trúhneigð hans, meinlætalifnaði, örlæti og líknsemi við þá er minna máttu sín. Fljótlega fór það orð af honum að hann gæti gert ýmis kraftaverk, læknað sjúka og rekið út illa anda. Varð þetta til þess að höfðingjar sóttust eftir að fá hann til sín. Hann ferðaðist líka mikið um, vígði brunna og gerði áheit. Gvendarbrunna má enn finna víða um land og til er þekkt þjóðsaga um það þegar Guðmundur blessaði Drangey á Skagafirði. Biskupskjör. Guðmundur var skyldur Gyðríði konu Kolbeins Tumasonar, höfðingja Ásbirninga í Skagafirði, og fékk Kolbeinn hann til að gerast heimilisprestur sinn á Víðimýri. Skömmu síðar dó Brandur biskup á Hólum og kom Kolbeinn því til leiðar að Guðmundur var kjörinn biskup í hans stað. Færðist Guðmundur fyrst undan en á endanum tók hann við kjöri og bjóst Kolbeinn við að hann yrði sér leiðitamur, svo að hann gæti stýrt bæði leikmönnum og kennimönnum á Norðurlandi. Guðmundur fór þá til Hóla að undirbúa vígsluferð sína en Kolbeinn fór með og tók undir sig staðarforráð og líkaði Guðmundi það ekki en á endanum varð að ráði að Kolbeinn setti Sigurð Ormsson Svínfelling, stjúpföður sinn, til búsforráða á Hólum. Hrafn Sveinbjarnarson fylgdi Guðmundi út til vígslu 1202 og var hann vígður af Eiríki erkibiskupi í Niðarósdómkirkju 13. apríl 1203. Guðmundur kom svo heim um sumarið og tók við embætti biskups á Hólum en vorið eftir sendi hann Sigurð til Munkaþverár og setti hann síðan niður á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem biskupsstóllinn hafði þá eignast. Þetta líkaði Kolbeini ekki því að hann treysti biskupi engann veginn fyrir fjármálum biskupsstólsins, og brátt urðu ágreiningsefnin fleiri. Víðinesbardagi. Kolbeinn taldi sig eiga fé hjá presti einum í Skagafirði og stefndi honum en biskup sagði að prestar ættu ekki að vera undir landslögum, heldur kirkjulögum. Þetta jók enn á ósættið og fór svo að biskup bannfærði Kolbein 1206. Hörðnuðu deilurnar stöðugt og vildi biskup ekki gefa sig, heldur bauð að skjóta málinu til erkibiskups í Noregi. Um leið átti Guðmundur í deilum við Sigurð Ormsson og Hall Kleppjárnsson, goðorðsmann á Hrafnagili. Deilum Guðmundar og Kolbeins lauk með Víðinesbardaga þar sem Kolbeinn lést eftir að hafa fengið stein í höfuðið. Talið er að Kolbeinn hafi skömmu fyrir dauða sinn samið sálminn Heyr, himna smiður, en þar biður skáldið Guð fyrirgefningar. Eftir það lagði biskup mikil fégjöld og þungar skriftir á fylgismenn Kolbeins. Þá og oftar þóttu menn hans ganga hart fram, enda var sagt að biskup hefði litla stjórn á þeim og var honum kennt um ofbeldisverk þeirra og uppivöðslusemi. Missti biskup því mikið af þeim stuðningi sem hann hafði haft hjá bændum en fátæklingar og betlarar söfnuðust að honum. Flökkubiskup. Deilunum var engan veginn lokið. Guðmundur og lið hans áttu næstu ár í erjum við Arnór bróður Kolbeins og menn hans, og raunar við flesta íslenska höfðingja nema Oddaverja og Hrafn Sveinbjarnarson á meðan hans naut við, þótt biskup ætti stundum skjól hjá Snorra Sturlusyni. Þar var hann eftir að Arnór hrakti hann frá Hólum 1209 og drap nokkra manna hans. Næstu ár flakkaði hann um landið og var mest á Vestfjörðum en 1214 fór hann út á fund erkibiskups, tókst að fá hann á sitt band og fór aftur til Íslands 1218 og settist að á Hólum. Brátt kom þó Arnór Tumason, leysti upp skóla sem biskup hafði komið á fót en tók hann og hafði hann í haldi um veturinn. Um sumarið flutti hann Guðmund suður á Hvítárvelli en þangað kom Eyjólfur Kársson og bjargaði honum. Næstu ár var biskup á hrakningi um landið með lið sitt við litlar vinsældir og lenti þá meðal annars í Helgastaðabardaga í ágústlok 1220, en afdrifaríkastur fyrir biskup var þó Grímseyjarbardagi vorið 1222. Þá laut hann í lægra haldi fyrir Sighvati Sturlusyni og Sturlu syni hans en þeir voru að hefna vígs Tuma Sighvatssonar sem menn Guðmundar líflétu á Hólum veturinn áður. Elliár. Biskup var sjálfur rekinn til Noregs um sumarið og var þar í fjögur ár. Erkibiskup skaut málinu til páfa en úr svarbréfi páfa eru nú aðeins þekkt orðin "Si vult cedare, cedat" - „Vilji hann víkja, þá víki hann.“ - sem hefur verið túlkað þannig að páfi hafi viljað að Guðmundur segði af sér embætti en ekki viljað þvinga hann til þess. Árið 1226 fór Guðmundur aftur heim en Magnúsi Skálholtsbiskupi, sem var í hópi andstæðinga hans, var stefnt utan nokkru síðar. Þegar hann kom heim eftir fjögur ár hafði hann meðferðis bréf þar sem embættið var tekið af Guðmundi en ekki var því þó framfylgt. Guðmundur var hins vegar orðinn gamall og hefur kannski ekki þótt jafnmikill ógnvaldur við veldi höfðingjanna og áður. Hann hafði heldur ekki stóran flokk fylgismanna með sér eins og verið hafði. Guðmundur var orðinn hálfblindur og gamall maður þegar hann hætti loks að flakka um landið og fékk frið heima á Hólum tvö síðustu æviárin. Hann lést árið 1237. Fornar heimildir um Guðmund góða. Fljótlega eftir andlát hans var hafist handa við að skrifa sögu hans en söguritarinn virðist hafa fallið frá í miðjum klíðum því ritið endar fyrirvaralaust þar sem Guðmundur er á leið til biskupsvígslu í Noregi. Þetta er hin svokallaða Prestssaga Guðmundar Arasonar, sem er engu að síður mikilvæg sagnfræðiheimild, og er bæði notuð í Sturlungu og í sögum Guðmundar biskups góða. Guðmundur góði kemur enn fremur fyrir í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar, Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, Arons þætti og víðar. Um og upp úr 1320 voru síðan ritaðar sérstakar ævisögur biskups sem prentaðar eru í Biskupasögum. Þær eru að miklu leyti byggðar á fyrrgreindum heimildum en mörgum kraftaverkasögum bætt við. Laugarneskirkja. Laugarneskirkja er í Laugarnesprestakalli í Reykjavíkurprófastdæmi. Hún var vígð 18. desember 1949. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni. Söfnuðurinn. Laugarnessöfnuður var stofnaður árið 1940. Scissor Sisters. Scissor Sisters er bandarísk hljómsveit sem var stofnuð árið 2001. Sveitin hlaut miklar vinsældir á Bretlandseyjum og á Írlandi. Helstu áhrifavaldar sveitarinnar eru rokk- og popphljómsvetir frá New York-borg auk menningar samkynhneigðra þar í borg. Fullt heiti hljómsveitarinnar er "Dead Lesbian and the Fibrillating Scissor Sisters" og er nafnið dregið af dregið af lesbískri kynlífsstellingu. Hljómsveitin verður til. Kjarni hljómsveitarinn var til árið 2000 þegar Shears og Babydaddy kynntust í háskóla í Kentucky og hófu þeir að leika tónlist saman. Shears vann seinna sem fatafella í New York og á þeim tíma kynntust þeir Babydaddy Ana Matronic á Hrekkjavökuballi. Þríeykið spilaði saman og bættist Del Marquis í hópinn. Sveitin skrifaði undir plötusamning við "A Touch of Glas" og gaf út smáskífuna "Electrobix" árið 2002. Á bakhlið hennar var Pink Floyd-lagið "Comfortably Numb" sem síðar kom út á breiðskífunni "Scissor Sisters". Hljómsveitina vantaði tónleikatrommara og auglýsti því í smáauglýsingum - þannig kom Paddy Boom inn í félagsskapinn. Á toppinn (2003 - 2005). "Comfortably Numb" var mikið spilað af plötusnúðum á Bretlandi og sveitin spilaði í fyrsta sinn þar í landi á "The Cock venue" í London. Lagið vakti athygli Polydor útgáfufyrirtækisins og hljómsveitin skrifaði undir samning við það. Fyrsta smáskífan, gefin út af Polydor, var "Laura" sem kom út árið 2003 og komst hæst í 54. sæti breska vinsældalistans auk þess sem hún hlaut mikla spilun í Ástralíu. Undir lok ársins fór lagið "It can't come quickly enough" að hljóma og kom meðal annars fram í kvikmyndinni Party Monster. "Comfortably Numb" var endur-útgefið 2004 og komst þá á blað; komst hæst í 10. sæti breska vinsældalistans. Jafnframt komst "Take Your Mama" í 17. sæti listans, endur-útgáfa "Laura" í það fimmtánda, ballaðan "Mary" í 14. sæti og "Filthy/Gorgeous" í 5. sætið. Öll lögin komu út á breiðskífunni samnefndri hljómsveitinni og sú breiðskífa var sú mest selda í Bretlandi þetta ár. "Hopes and Fears" með hljómsveitinni Keane var einungis 582 eintökum á eftir. Breiðskífan er, árið 2006, 10. mest selda plata 21. aldarinnar og 51. mest selda plata í sögu Bretlands. Í heimalandinu hefur sveitin ekki verið eins vinsæl en hafa þó "Take Your Mama" og "Filthy/Gorgeous" notið vinsælda þar, það síðarnefnda sérstaklega á hommabörum. Platan var tekin úr sölu í Wal Mart-verslunarkeðjunni vegna „grófyrða“. "Ta-Dah" (2005 -). Upptökur á annarri breiðskífunni, "Ta-Dah", hófust á vormánuðum 2005 og byrjaði sveitin að forspila lögin á Live 8-tónleikunum í júlí sama ár. Platan var tekin upp í hljóðveri sveitarinnar og kom Elton John meðal annars að upptökunum, lék hann á píanó við lagið "I Don't Feel Like Dancin'". Elton samdi lagið með Shears. Lagið komst í 1. sæti breska vinsældalistans þann 10. september 2006. John er meðal annars titlaður sem einn framleiðenda plötunnar, sem kom út í Bretlandi 18. september en 26. september í Bandaríkjunum. Platan lak þó á netið fimm dögum áður en hún kom út á Bretlandi. Reese Witherspoon. Laura Jeanne Reese Witherspoon (f. 22. mars 1976) er bandarísk Óskarsverðlaunaleikkona þekktust fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum "Pleasantville", "Election", "Legally Blonde", og "Walk the Line". Yngri ár. Reese Witherspoon fæddist í New Orleans. Móðir hennar er hjúkrunarkona og heitir Betty Reese. Faðir hennar er skurðlæknir og heitir John Witherspoon. Hann var í bandaríska hernum og vann í Wiesbaden í Þýskalandi, og bjó hún þar í fjögur ár þegar hún var lítil. Þegar hún flutti aftur til Bandaríkjanna eyddi hún miklum tíma sem barn og unglingur í Nashville, Tennessee. Hún á eldri bróður sem heitir John í höfuðið á pabba þeirra, hann vinnur sem fasteignasali. Eftir útskrift í stúlknaskólanum Harpeth Hall í Nashville, sótti hún Stanford-háskólann með bókmenntir í aðalgrein. Hún kláraði fyrsta árið í námi, en hætti eftir það til að vinna að leikferli sínum. Leikferill. Reese hóf feril sinn með því að leika í auglýsingum. Fyrsta hlutverk sitt fékk hún árið 1991 í sjónvarpsmyndinni "Wildflower" sem Diane Keaton leikstýrði en með aðalhlutverk fara Beau Bridges, William McNamara og Patricia Arquette. Þetta sama ár, 14 ára að aldri, fór hún í áheyrnarpróf fyrir myndina "Man on the Moon" sem aukaleikari en í staðinn var hún ráðin í aðalhlutverk. Síðan þá hefur hún byggt upp feril sinn, og leikið bæði í gamanmyndum og dramamyndum. Á meðal hlutverka eru Vanessa í "Freeway" og Tracy Flick í "Election". Hún var rödd Gretu Wolfecastle í "The Simpsons", í þættinum „The Bart Wants What it Wants“. Hún varð fræg og fékk Golden Globe-tilnefningu sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á lögfræðinemanum Elle í "Legally Blond", sem var orðin lögfræðingur í "Legally Blond 2". Fyrir leik sinn í þessum myndum fékk hún 15 milljónir dollara, sem gerði hana að einni af hæst launuðu leikkonum í Hollywood. Hún fékk jákvæða gagngrýni og verðlaun fyrir leik sinn sem June Carter Cash í "Walk the Line". June, sem dó 2003, samþykkti persónulega að Reese myndi leika hana. Reese vann Golden Globe-verðlaunin fyrir bestu leikkonu, NYFCC, FFCC, SFFCC-verðlaunin sem besta leikkona fyrir þessa mynd. Hún hlaut BAFTA-verðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki, „uppáhalds leikkona í aðalhlutverki“ á 23. árlegu People's Choice Awards, og Óskarsverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki. Reese stjórar framleiðslufyrirtæki, Type A Productions. Fyrirtækið er nefnt eftir gælunafninu hennar sem barn, Little Miss Type A. Einkalíf. Reese kynntist leikaranum Ryan Phillippe í 21 árs afmæli hennar í mars árið 1997, þar sem hún sagði við hann „þú hlýtur að vera afmælisgjöfin mín.“ Þau trúlofuðust í desember árið 1998. Skömmu eftir það léku þau saman í myndinni "Cruel Intentions". Þau giftu sig í Charleston í Suður-Karólínu 5. júní árið 1999. Þau eiga tvö börn saman, dótturina Ava Elizabeth, fædd 9. september 1999 og soninn Deacon, fæddur 23. október 2003. Ava er skírð í höfuðið á Ömmu Phillippe og Deacon í höfuðið á fjarskyldum frænda sínum. Reese og Phillippe hafa gert samkomulag um að annað þeirra verði alltaf heima hjá börnunum, en þau hafa ekki notið aðstoðar barnfóstru. Þau slitu samvistum 2005. Frá því í mars 2007 hefur Reese átt í ástarsambandi við Jake Gyllenhaal, leikara. Ljósmyndaraatvik. Í september 2005 voru Reese og börn hennar að halda upp á afmæli dóttur hennar í Disneylandi í Kaliforníu þegar ljósmyndarinn Todd Wallace nálgaðist þau. Eftir að Reese neitaði að sitja fyrir á mynd fyrir hann, segir lögreglan að Todd hafi orðið æstur og ýtt barni og slegið annað með myndavélinni sinni til að ná mynd af Reese. Hann hrinti tveimur starfsmönnum garðsins þegar þeir voru að reyna að stöðva hann og blótaði Reese, sem varð til þess að nokkur börn brustu í grát. Hann var ákærður, en áður en málið fór fyrir dóm, fannst Todd látinn í íbúð sinni í Brentwood. Lögreglan rannsakar dánarorsök. Sturlureykir. Sturlureykir er sveitabær í Reykholtsdal í Borgarfirði. Þar er til húsa ferðaþjónusta með hestaferðir og sumarbústaðabyggð með lóðir til kaups. Þar var í fyrsta skipti í Evrópu tekið upp á því að leiða gufu inn í mannahíbýli með rörum. Gufan var leidd upp úr hvernum á bænum og henni dælt með lítilli rafmagnsdælu inn í húsið. Elínborg Halldórsdóttir. Elínborg „Ellý“ Halldórsdóttir (f. 1962) var forsprakki hljómsveitarinnar Q4U en starfar einnig sem myndlistarkona og hefur starfað við Hvíta húsið á Akranesi á vegum Rauða krossins og einnig sem stundakennari við FVA. Veturinn 2006 var hún einn dómara í sjónvarpsþáttunum X-Factor á Stöð 2. Loðvík 14.. Loðvík 14. (5. september 1638 – 1. september 1715) var konungur Frakklands og Navarra frá 14. maí 1643 þar til hann lést, eða frá fjögurra ára aldri þar til hann var nærri sjötíu og sjö ára gamall. Hann ríkti því í sjötíu og tvö ár, lengur en nokkur annar franskur konungur eða nokkur annar af helstu einvöldum í Evrópu. Hann tók þó ekki persónulega við valdataumunum þar til eftir lát forsætisráðherra síns ("premier ministre"), Mazarins kardinála árið 1661. Hann var þekktur sem „sólkonungurinn“ ("Le Roi Soleil") (sagt var að sólin snerist um hann), „Loðvík hinn mikli“ ("Louis le Grand") eða sem „hinn mikli einvaldur“ ("Le Grand Monarque"). Hann er einnig þekktur fyrir að eiga að hafa sagt „Ríkið, það er ég“ („L'État, c'est moi“) en þó er það ekki staðfest með heimildum heldur frekar til merkis um alræði stjórnunarhátta hans og ríkulegt sjálfsálit. Aldinborgarar. Aldinborgarar eru konungsætt Danmerkur frá því Kristján 1. komst þar til valda 1448. Ætt Lukkuborgara, sem komst til valda með Kristjáni 9. árið 1863, er hliðargrein út frá ætt Aldinborgara. Ættin er kennd við borgina og fyrrum hertogadæmið Aldinborg ("Oldenburg") í Norður-Þýskalandi. Játmundur járnsíða. Játmundur járnsíða, Játmundur sterki eða Játmundur 2. (fornenska Eadmund II Isen-Healf'") (989 – 30. nóvember 1016) var konungur Englands frá 23. apríl 1016 þar til hann lést 30. nóvember sama ár. Játmundur var næstelsti sonur Aðalráðs ráðlausa og Aelfgifu konu hans og varð ríkiserfingi þegar Aðalsteinn bróðir hans dó 1014. Hann gerði uppreisn gegn föður sínum en þegar víkingaher Knúts ríka réðist á England 1015 og Játmundur komst að því að Knútur naut meiri stuðnings hluta enska aðalsins en hann sjálfur gekk hann til liðs við föður sinn. Aðalráður var þó veikur og lést 23. apríl 1016. Játmundur varð þá konungur. Eftir að hafa tekist að verja London fyrir umsátri Knúts laut hann í lægra haldi 18. október í orrustu við Ashingdon ("Assatún") í Essex. Konungarnir gerðu þá með sér samkomulag þar sem Játmundur hélt Wessex en Knútur fékk öll lönd norðan við ána Thames og jafnframt var samið um að ríki þess sem fyrr félli frá gengi sjálfkrafa í arf til hins. Rúmlega mánuði síðar lést Játmundur í Oxford eða London og lönd hans gengu til Knúts. Dánarorsök hans er óviss og sumir hafa haldið því fram að hann hafi verið ráðinn af dögum. Kona Játmundar var Ealdgyth (Edit; nafn hennar er þó óvíst). Þau áttu tvo syni, Játvarð útlaga og Játmund. Skjávarp. Skjávarp er stafræn upptaka af því sem gerist á tölvuskjá, gjarnan með tali, þar sem fyrirlesari/kennari lýsir því sem gerist. Á meðan skjámynd (e. screenshot) er mynd af skjá tölvunotanda þá er skjávarp kvikmynd af því sem tölvunotandi sér á skjánum. Enska orðið (e. screencast) er frá árinu 2004 en hugbúnaður til stafrænnar upptöku af tölvuskjám hefur þó verið framleiddur allt frá 1993, t.d. Lotus ScreenCam. Í byrjun var slíkur búnaður þannig að erfitt var lagfæra upptöku eftir á og upptakan var í afar stórum skrám. Notkun. Skjávarp er oft notað til sýnikennslu í hvernig ýmiss konar tölvuhugbúnaður virkar og til að kenna námsefni í fjarnámi og við aðstæður, þar sem nemandinn er hvorki á sama stað né sama tíma og kennarinn/fyrirlesarinn. Notkun á Íslandi. Skjávarp hefur verið notað frá árinu 2004 í ákveðnum námskeiðum í upplýsingatækni við Kennaraháskóla Íslands og nemendur í upplýsingatækni læra að búa til skjávarp. Í Háskólanum í Reykjavík tíðkast að taka upp fyrirlestra með skjávarpshugbúnaði (Camtasia) og geta nemendur sem skráðir eru í námskeið hlýtt á netupptökur af fyrirlestri eftir að hann hefur verið haldinn. Herakleitos. Herakleitos frá Efosos (gríska: Ἡράκλειτος; 535 f.Kr.?-475 f.Kr.) var heimspekingur og einn af forverum Sókratesar. Lítið er vitað um Herakleitos. Heimspeki hans hafði áhrif á Aristóteles, Platon og stóuspekina og síðar á heimspekinga 19. aldar. Hugmyndir Herakleitosar eru helst tvær og hafa haft töluverð áhrif. Annarsvegar kenning hans um einingu andstæðna ("vegurinn upp og vegurinn niður er einn og hinn sami", brot 60) og að átök milli andstæðna orsaki sífelldar breytingar. Hinsvegar kenningin um að allt sé hverfullt. Síðari hugmyndin er merkileg að því leytinu til að menn höfðu verið gjarnir á að trúa á eitthvað sem væri eilíft fram til þessa. Honum er einnig gjarnan tileinkuð hugmyndin um "logos". Líkbrúðurin. Corpse Bride, eða Líkbrúðurin, er kvikmynd eftir Tim Burton. Lækningaigla. Lækningaigla (fræðiheiti: "Hirudo medicinalis") eru tegund igla sem notaðar voru til að taka blóð úr sjúklingum. Iglurnar sprautuðu efni í blóðið sem olli því að það storknaði síður. Davíð Stefánsson. Davíð Stefánsson (21. janúar 1895 – 1. mars 1964) var íslenskur rithöfundur og skáld, sem kenndur var við Fagraskóg á Galmaströnd í Eyjafirði. Hann er einna þekktastur fyrir ljóðabók sína "Svartar fjaðrir" og leikrit sitt "Gullna hliðið." Æviágrip. Davíð fæddist í Fagraskógi þann 21. janúar árið 1895. Foreldrar hans voru Stefán Baldvin Stefánsson bóndi og síðar alþingismaður og Ragnheiður Davíðsdóttir frá Hofi í Hörgárdal. Davíð lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1911. Á árunum 1915 – 1916 dvaldist hann í Kaupmannahöfn og hófst skáldferill hans þar. Síðar hóf hann nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1919 en það ár kom fyrsta ljóðabók hans út, hún ber heitið Svartar fjaðrir. Davíð dvaldist öðru hvoru erlendis, meðal annars í nokkra mánuði á Ítalíu árið 1920 og svo í Noregi 1923. Árið 1925 tók Davíð við föstu starfi sem bókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri. Hann lét formlega af störfum sem bókavörður árið 1951. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi lést á Akureyri þann 1. mars árið 1964. Hann er jarðaður á Möðruvöllum í Hörgárdal en þar hvíla einnig foreldrar hans og önnur ættmenni. Rithöfundarverðlaun. Félag íslenskra rithöfunda veitti á 10. áratug 20. aldar árlega rithöfundaverðlaunin "Davíðspennann" til minningar um Davíð sem var einn af stofnendum félagsins 1945. Basshunter. Basshunter er listamannsnafn sænska tónlistarmannsins og plötusnúðsins Jonas Erik Altberg. Hann fæddist 1984 í bænum Halmstad í Suður-Svíþjóð. Basshunter kallar tónlistina sína "evródans" eða "melódískt trans", en aðrir vilja flokka þetta sem "hard dance" eða "euro-popp". Hann byrjaði að semja tónlist árið 1999 með forritinu „Fruityloops (Útgáfu 6)“ og árið 2004 gaf hann út fyrstu plötuna, "The Bassmaschine" á internetinu. Boten Anna. Í apríl 2006 gerði hann útgáfusamning við "Warner Music" í Svíþjóð sem gaf út smáskífuna "Boten Anna" og lagið hans "Boten Anna" varð strax orðið að smelli í Skandínavíu í maí sama ár. Lagið dreifðist hratt um internetið og hefur verið þýtt á mörg tungumál. Basshunter taldi upphaflega að Anna í laginu væri „botti“ á IRC-rás en í raun reyndist Anna bara vera venjuleg stúlka og lagið fjallar um þennan skemmtilega misskilning. Maríuhellar. Maríuhellar eru hraunrásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Hellarnir eru þrír: Vífilsstaðahellir, Urriðakotshellir og Draugahellir. Sumir vilja bæta fjórða hellinum í hópinn sem er þar skammt frá og hefur á seinni árum verið nefndur Jósepshellir. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar). Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar.“ Talið er að nafnið Maríuhellar sé dregið af því að fyrrum voru hellarnir í eigu Viðeyjarklausturs, en klaustrið og kirkjan þar voru helguð Maríu guðsmóður. Herskip. Herskip er skip sem er fyrst og fremst hannað til þátttöku í stríði. Herskip eru þannig yfirleitt gerólík öðrum skipum, eins og kaupskipum eða fiskiskipum. Herskip bera vopn og eru sérstaklega byggð til að þola árásir. Yfirleitt er herskipum aðeins ætlað að bera vopn, skotfæri og vistir fyrir eigin áhöfn. Herskip eru yfirleitt hluti af flota einhvers ríkis, þótt stundum séu þau gerð út af einstaklingum eða félögum. Á stríðstímum getur munurinn á herskipum og öðrum skipum orðið óskýrari þegar kaupskip eru notuð sem varaskip í hernaði. Allt fram til loka 17. aldar var algengt að yfir helmingur skipa í herflota væru kaupskip og fiskiskip sem höfðu verið tekin til notkunar í hernaði. Sjómíla. Sjómíla er fjarlægðaeining, sem ekki tilheyrir alþjóðlega einingakerfinu, táknuð með sml. Algengast er að nota sjómílur í siglingum og flugi, en þær eru einnig oft notaðar í alþjóðalögum og -samningum til að afmarka landhelgi. Ein sjómíla er u.þ.b. sú vegalengd sem svarar til einnar bogamínútu á yfirborði jarðar, en þar sem jörðin er ekki alveg kúlulaga er vegalengdin breytileg eftir hnattstöðu (1849 til 1855 metrar). Til að foraðst misskilning er notast við fast, alþjóðlegt gildi á sjómílu, sem er 1852 metrar. Hraðaeiningin hnútur er skilgreind sem hraðinn ein sjómíla á klukkustund. Þar sem djöflaeyjan rís. "Þar sem Djöflaeyjan rís" er skáldsaga eftir Einar Kárason sem kom fyrst út 1983 og fjallar um líf fjölskyldu sem býr í braggahverfi á Íslandi á umrótstímum fyrstu áranna eftir Síðari heimsstyrjöldina. Bókin er fyrsti hlutinn af þríleik sem stundum hefur verið kallaður "Eyjabækurnar". Sjálfstætt framhald hennar kom út í bókunum "Gulleyjan" (1985) og "Fyrirheitna landið" (1989). Friðrik Þór Friðriksson gerði samnefnda kvikmynd eftir sögunni árið 1996. Frumbyggjar. Frumbyggjar eru þeir sem taldir eru fyrstu íbúar í tilteknu landi eða ríki. Þegar talað er um frumbyggja er yfirleitt átt við samfélög sem hafa tiltekna menningu og eru yfirleitt valdalítill einangraður hópur sem misst hefur völd og áhrif í kjölfar landtöku eða nýlendustefnu. Alþjóðastofnanir sem vinna að málefnum frumbyggja hafa ekki komið sér saman um eina ákveðna skilgreiningu á frumbyggjum, en engu að síður eru þrír meginþættir sem aðgreina frumbyggja. Sameinuðu þjóðirnar áætla að frumbyggjar í heiminum séu rúmlega 370 milljónir talsins og að þeir búi í rúmum 70 þjóðríkjum. Flestir frumbyggjar búa í Asíu og Suður-Ameríku. Í langflestum tilvikum eru frumbyggjar valdalitlir og einangraðir minnihlutahópar, sem býa við meiri fátækt, lakara heilsufar og verri aðgang að menntun en aðrir sambærilegir hópar. Þá eru fordómar gagnvart frumbyggjum afar algengir. Frumbyggjar hafa á síðustu áratugum 20. aldarinnar og í upphafi 21. aldar stundað mikla réttindabaráttu á alþjóðavettvangi sem hefur borið umtalsverðan árangur. Helst ber að nefna stofnun Frumbyggjaráðs Sameinuðu þjóðanna og „Réttindayfirlýsingu frumbyggja“ sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tók til umfjöllunar haustið 2006. Sál. Engill og djöfull berjast um sál hins látna meðan guð fylgist með. Sál er samkvæmt mörgum trúarbrögðum og heimspekistefnum álitin vera sjálfsmeðvitaður en óefnislegur hluti af lifandi veru. Oft er sálin talin vera nokkurs konar kjarni eða veigamesti hluti lífverunnar, og undirstaða skynjunar og skilnings. Engu að síður er sál yfirleitt talin vera aðskiljanleg frá efnislegum hluta lífverunnar, í þeim skilningi að tilvera sálarinnar þarf ekki að enda þótt líf og tilvera lífverunnar endi. Hugmyndin um sál er náskyld hugmyndum um líf eftir dauðann, en mismunandi trúarbrögðum ber þó ekki saman um eðli sálarinnar eða hvað verður um sálina eftir dauða líkamans. Í mörgum trúarbrögðum, t.d. kristni er sálin eilíf. Þrátt fyrir heiti fræðigreinarinnar, fæst sálfræði ekki við sálina. Jóhann Hjörleifsson. Jóhann Hjörleifsson (fæddur 11. maí 1973) er íslenskur trommuleikari. Jóhann nam trommu- og slagverksleik við tónlistarskóla FÍH á árunum 1983 til 1991. Hann hefur auk þess sótt einkatíma og námskeið bæði hér heima og erlendis. Jóhann hefur verið starfandi tónlistarmaður frá árinu 1989 og hefur deilt tíma sínum jafnt á milli þess að vinna við hljóðfæraleik á hljómplötum og að starfa við lifandi tónlistarflutning á öllum sviðum tónlistar. Jóhann hefur meðal annars spilað með hljómsveitum á borð við Sálina hans Jóns míns, Stórsveit Reykjavíkur Jóhanna Sigurðardóttir. Jóhanna Sigurðardóttir (f. í Reykjavík 4. október 1942) er fyrrum forsætisráðherra Íslands og formaður Samfylkingarinnar. Hún er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra á Íslandi og fyrsti opinberlega samkynhneigði einstaklingurinn sem gegnir starfi forsætisráðherra. Foreldrar hennar voru Sigurður Egill Ingimundarson alþingismaður og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og Karítas Guðmundsdóttir húsmóðir. Fyrri maki hennar var Þorvaldur Steinar Jóhannesson og saman áttu þau tvo syni en árið 2010 giftist hún Jónínu Leósdóttur í kjölfar nýsamþykktrar breytingar á hjúskaparlögum. Jóhanna starfaði sem flugfreyja hjá Loftleiðum og skrifstofumaður í Kassagerð Reykjavíkur 1971-1978. Hún sat á Alþingi á árunum 1978-2013, fyrir Alþýðuflokkinn 1978-1994, Þjóðvaka 1995-1999 og síðast Samfylkinguna frá 1999. Jóhanna var félagsmálaráðherra 1987-1994, og svo aftur 2007-2009. Hún var varaformaður Alþýðuflokksins 1984-1993 og formaður Þjóðvaka 1995 allt til þess er sá flokkur hætti að starfa. Jóhanna tók við embætti forsætisráðherra af Geir H. Haarde þann 1. febrúar 2009 og varð þar með fyrsta konan á forsætisráðherrastóli á Íslandi. Jóhanna var kjörin formaður Samfylkingarinnar á landsfundi 28. mars 2009. Jóhanna tilkynnti 27. september 2012 að hún ætlaði að hætta sem formaður Samfylkingarinnar og jafnframt að láta af þátttöku í stjórnmálum að kjörtímabilinu loknu. Jóhanna gegndi embætti forsætisráðherra 2009-2013 og formennsku í Samfylkingunni 2009-2013. Jóhanna var starfsaldursforseti Alþingis 2006-2013, er hún lét af þingmennsku eftir að hafa átt sæti á Alþingi í 35 ár. Þekktustu ummæli Jóhönnu eru orð sem hún lét falla eftir að hún hafði tapað í formannskjöri fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni á flokksþingi Alþýðuflokksins í júní 1994. Þá sagði hún í þrumuræðu sinni: „Minn tími mun koma!“ Tcl. Tcl (skammstöfun á „Tool Commanding Language“) er lítið skriftunar- og forritunarmál. Lerki. Lerki eða barrfellir er sumargrænt barrtré sem vex einkum á norðurhveli jarðar eða til fjalla á suðlægari slóðum. Lerki er mjög ráðandi í barrskógum Kanada og Rússlands. Síberíulerki ("Larix siberica") hefur frá því snemma á 20. öld verið notað til skógræktar á Íslandi. Rússalerki ("Larix sukaczewii"), náskyld tegund, hefur mestmegnis tekið við af því frá um 1980 en síberíulerkið er viðkvæmara fyrir íslensku loftslagi og sjúkdómum Tegundir. Um 10 til 14 tegundir eru í ættkvíslinni, en þær sem merktar eru með „*“ eru ekki allar viðurkenndar. Þjóðviljinn. Þjóðviljinn er heiti á þremur blöðum sem komið hafa út á Íslandi. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eða BSRB eru samtök launafólks í opinbera geiranum (ríkis og sveitarfélaga, auk fyrirtækja í almannaþjónustu) á Íslandi. Að BSRB standa 28 aðildarfélög og er samanlagður fjöldi félaga um 19 þúsund. Um 70% félaga eru konur. Formaður BSRB er Elín Björg Jónsdóttir. Saga BSRB. Samtökin voru stofnuð 14. febrúar árið 1942 og voru þá félagar 1550 talsins. Aðildarfélögin við stofnunina voru 14 talsins, og fór stofnfundurinn fram á kennarastofu Austurbæjarskólans. Fyrsti formaðurinn var Sigurður Thorlacius. Ári eftir stofnunina voru fyrstu lögin um lífeyrissjóði sett og þótt það góður árangur svo ungra samtaka. Af öðrum áföngum í baráttunni fyrir kjararéttindum má nefna setningu laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna 1954, samið var um verkfallsrétt 1976 og var hann nýttur til allsherjarverkfalla 1977 og 1984. Núverandi formaður BSRB er Elín Björg Jónsdóttir. Skömmtun. Skömmtun er miðstýrð dreifing á vörum og þjónustu sem takmarkar það hversu mikið fólk má kaupa. Skömmtun stjórnar stærð "skammtsins" sem fyrirtæki, einstaklingi eða fjölskyldu er ætlað að fá á tilteknum tíma. Skömmtun er yfirleitt tekin upp vegna þess að upp hefur komið vöruskortur á tilteknum nauðsynjavörum (t.d. vegna stríðs) eða gjaldeyrisskortur þar sem greitt er fyrir vöruna í erlendum gjaldeyri sem skortur er á. Skömmtun getur einnig verið form neyslustýringar til að takmarka neyslu áfengra drykkja og tóbaks til dæmis. Skömmtun fer stundum þannig fram að miðstjórnarvaldið (t.d. ríkið) gefur út "skömmtunarmiða" eða "skömmtunarbækur" sem tilgreina þann fjölda skammta sem hver og einn má taka út af tilteknum vörum. Prestaskólinn. Prestaskólinn var skóli í Reykjavík sem ætlað var að mennta presta til starfa á Íslandi. Hann var stofnaður í kjölfar þess að Bessastaðaskóli var lagður niður og Lærði skólinn í Reykjavík stofnaður 1846. Prestaskólinn var stofnaður ári síðar, eða 1847. Til 1851 var Prestaskólinn starfræktur í húsi Lærða skólans í Þingholtunum. Námið var tvö ár, einkum ætlað þeim sem ekki áttu þess kost að sækja guðfræðimenntun til Kaupmannahafnarháskóla. Fyrsti forstöðumaður skólans var Pétur Pétursson, síðar biskup Íslands. Við stofnun Háskóla Íslands 1911 var Prestaskólinn, ásamt Læknaskólanum og Lagaskólanum sameinaður honum og varð að guðfræðideild Háskóla Íslands. Verkfall. Verkfall er skipulögð vinnustöðvun launafólks í fyrirtæki, starfsgrein(um) eða iðnaði til að ná fram úrbótum eins og til dæmis launahækkun eða bættum vinnuskilyrðum. Verkföll urðu fyrst mikilvæg í réttindabaráttu launafólks í Iðnbyltingunni þegar þörf skapaðist fyrir mikinn fjölda vinnuafls í verksmiðjum. Sortulyng. Sortulyng (eða mulningur) (fræðiheiti: "Arctostaphylos uva-ursi") er berjategund. Það er smávaxinn runni 15-30 sem hár. Blöð sortulyngs eru þykk, gljáandi og sígræn. Þau innihalda mikla sútunarsýru (tannín) sem beitarvörn. Aldinin eru nefnd lúsamulningar. Þau eru algeng fæða og vetrarforði hagamúsa. Sortulyng vex í lyngmóum og skóglendi en er viðkvæmt fyrir vetrarbeit. Hæsti skráði fundarstaður sortulyngs á Íslandi er 650 m sunnan í Skessuhrygg í Höfðahverfi. Sortulyng til forna. Sortulyng (eða mulningur) var hér á landi stundum notað til að drýgja tóbak. Það var einnig þekkt meðal Sioux indíána Norður-Ameríku. En frægast er sortulyngið sem uppistaða í bleki fornaldar. Það var einnig notað sem litarefni. Í galdrabók frá 15. öld er það sagt gott til að fæla burt drauga. Nafnið "lúsamulningar" er einnig þekkt, en það stafar af því að menn töldu sig verða lúsuga af því að borða sortulyng. Krækilyng. Krækilyng (fræðiheiti: "Empetrum") er ættkvísl dvergvaxinna sígrænna runna með ætum berjum (krækiberjum). Krækilyng er algeng jurt á norðurhveli jarðar. Blágresi. Blágresi, litunargras eða storkablágresi (fræðiheiti: "Geranium sylvaticum") er algeng blómplanta í Evrópu. Blágresi blómgast upp úr miðjum júní þegar sól er hæst á lofti enda kalla Svíar það „midsommarblomster“ eða miðsumarsblóm. Blágresi er hávaxin jurt og með stórum fimmdeildum fjólubláum blómum. Það er algengt á Íslandi og vex sérstaklega vel í grónum brekkum og hvömmum sem snúa á móti suðri sem og í kjarrlendi og skógarbotnum. Blágresi sem lækningajurt. Lauf blágresis innihalda mikið af tanníni. Tannín er efni sem er barkandi en það herpir saman líkamsvefi og stöðvar blóðrás eða annað vessastreymi. Frumbyggjar Norður-Ameríku notuðu blágresi við særindum í hálsi, sýkingu í tannholdi og munnangri. Evrópumenn notuðu blágresi á svipaðan hátt en einnig við niðurgangi, langvinnum ristilkvillum, iðrakveisu, innri blæðingum, kóleru í börnum, kynsjúkdómum og gyllinæð. Blágresi hefur einnig verið notað til að vinna gegn miklum tíðablæðingum og útferð úr leggöngum. Vegna barkandi eiginleika sinna þá þykir seyði af blágresi vera mjög gott munnskol. Áður fyrr var blágresi eitt besta ráð sem menn höfðu við magasári og bólgum í slímhúð. Njóli. Njóli (heimula, heimulunjóli eða fardagagras) (fræðiheiti: "Rumex longifolius") er stórvaxin fjölær jurt af súruætt. Hann hefur flust til Íslands af mannavöldum og vex í dag einkum í kauptúnum og við sveitabæi. Njóla fjölgar mikið þar sem áburðarríkt ræktarland hefur verið yfirgefið. Blóm njóla eru græn. Plantan var notuð sem lækningajurt og fersk njólablöð eru talin holl. Njóli var notaður sem litunarjurt á Íslandi. Úr blöðum hans fæst grænn og sterkgulur litur. Blöðin á njóla (heimilisnjólablöðkur) kallast fardagakál og voru fyrr á tímum elduð sem kálgrautur og þótti gott að hafa túnsúrur saman við. Hvarf (Grænland). Hvarf (fyrir miðri mynd) og suðurströnd Egger-eyju. Eins og sjá má hér er hafið út af Hvarfi oftast fullt af hafís. Hvarf (sem á dönsku heitir Kap Farvel og á grænlensku Uummannarsuaq) á suðurströnd Egger-eyju er syðsti oddi Grænlands. Egger og nálægar eyjar eru kallaðar Egger-skerjagarðurinn og tilheyra sveitarfélaginu Nanortalik. Iceland Airwaves. Iceland Airwaves er nafn á tónlistarhátíð sem að jafnaði er haldin er í Reykjavík þriðju helgina í október ár hvert. Hátíðin var fyrst haldin árið 1999 og hefur síðan vaxið árlega. Í upphafi var hátíðin hugsuð sem kynningarhátíð á innlendri tónlist, en er í dag talin ein af helstu alþjóðlegu kynningarhátíðum heims á sviði tónlistar (e. „showcase festival“). Mikill fjöldi blaðamanna og starfsmanna tónlistarbransans mætir jafnan á Airwaves hátíðina. Dagskrá hennar nýtur oftar en ekki mikillar hylli innlendra sem erlendra blaðamanna, David Fricke einn af ristjórum Rolling Stone kallaði hana „svölustu tónlistarhátíð heims“ Fjölmargar hljómsveitir, innlendar sem erlendar, hafa vakið alþjóðlega athygli eftir að hafa leikið á Iceland Airwaves. Má þar nefna The Rapture, Hot Chip, The Bravery, Sigur Rós og Jakobínarína. Nýmóðins auglýsingar fyrir hátíðina hafa löngum vakið athygli. Hönnuður Iceland Airwaves-hátíðarinnar er Sveinbjörn Pálsson. Ólafur Jóhannesson (f. 1913). Ólafur Jóhannesson (fæddur 1. mars 1913 í Stórholti í Fljótum, dáinn 20. maí 1984) var íslenskur stjórnmálamaður sem gegndi tvisvar embætti forsætisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn en hann var formaður flokksins 1968-1979. Náms- og starfsferill. Ólafur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1935 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1939 (Hdl. 1942). Hann stundaði framhaldsnám í Svíþjóð og Danmörku 1945-46. Ólafur starfaði sem lögfræðingur og endurskoðandi SÍS 1939-43. Hann rak samhliða eigin málflutninsskrifstofu með Ragnari Ólafssyni hrl. Ólafur kenndi sem stundakennari við Samvinnuskólann 1937-43 og Kvennaskólann 1942-44. Hann var framkvæmdastjóri félagsmáladeildar SÍS og lögfræðilegur ráðunautur þess 1944. Ólafur var prófessor við lagadeild HÍ 1947-78 (kenndi ekki frá 1971). Hann gegndi oft varadómarastörfum við Hæstarétt 1949-71. Hann var forsætis-, dóms- og kirkjumálaráðherra 1971-74 og 1978-79, dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra 1974-78 og utanríkisráðherra 1980-83. Hann var þingmaður Skagafjarðarsýslu 1959, Norðurlands vestra 1959-79 og Reykjavíkur 1979-84. Vilmundur Gylfason, sakaði Ólaf, sem þá var dómsmálaráðherra, um að hafa haft óeðlileg afskipti af Geirfinnsmálinu. Fjölskylda. Ólafur kvæntist 1941 Dóru Guðbjartsdóttur (f. 1915). Þau eignuðust þrjú börn. Kerið. Kerið er gíghóll í Grímsnesi. Það er 270 m langt og um 170 m breitt. Gígurinn er 55 m djúpur og niðri í honum er tjörn. Dýpt tjarnarinnar fer eftir grunnvatnsstöðu, hún er 7 til 14 m djúp. Kerið var áður talið sprengigígur en núna er talið að það sé niðurfall eftir hrun gjallgígs. Talið er að þessi gjallgígur hafi verið einn af mörgum gjallgígum sem gusu þarna fyrir 5000 til 6000 árum og mynduðu Grímsneshraun. Gosið sem myndaði Kerið hefur tekið nokkurn tíma. Rauði liturinn á gjallinu stafar af oxun járnsins í kvikunni (hematít). Kerið er eign Kerfélagsins, sem tekur aðeins gjald af þeim ferðamönnum sem koma með rútum að skoða það. Vamm. VAMM var íslenskt tímarit, sem kom út mánaðarlega frá því í júní 2004 þar til í maí 2005 en þá lagði það upp laupana. Tímaritið fjallaði um tónlist, lífsstíl og menningu ungs fólks á Íslandi. Vamm var dreift á heimilisföng ungs fólks á aldrinum 16 – 25 ára og í götudreifingu. Ritstjórn blaðsins skipuðu meðal annarra: Halldóra Þorsteinsdottir, Sveinbjörn Pálsson og Björn Þór Björnsson. Stofnandi þess var Baldur Ingi Baldursson sem áður hafði unnið sem auglýsingastjóri hjá Undirtónum. Blaðið náði aldrei almennilegri fótfestu á auglýsingamarkaði. Náðarhöggið í rekstri blaðsins var veitt þegar dægurmálaútvarp Rásar 2 tók fyrir forsíðuviðtal blaðsins við Andra Frey, útvarpsmann á X-inu, og hvatti í framhaldi af því auglýsendur til að endurskoða birtingar sínar í tímaritinu. Brattahlíð. Endurbyggð Þjóðhildarkirkja, Eiríksfjörður í baksýn. (Ljósmyndari Hamish Laird) Brattahlíð var bær Eiríks rauða í Eystribyggð á Grænlandi. Samkvæmt Grænlendinga sögu og Landnámubók byggði Eiríkur Bröttuhlíð um 985. Þar er nú bærinn Qassiarsuk og er um 5 km frá flugvellinum í Narsarsuaq handan Eiríksfjarðar og um 40 km norðaustan við aðalþorpið Narsaq. Bæjarstæðið er í góðu skjóli vestan við Eiríksfjörð um það bil 96 km frá hafi. Afkomendur Eiríks bjuggu á Bröttuhlíð fram yfir miðja 15 öld. Fyrsta kirkja Grænlands (og þar með vesturheims) var Þjóðhildarkirkja stóð hér. Fornleifafræðingar hafa stundað umfangsmiklar rannsóknir við Bröttuhlíð. Auk Þjóðhildarkirkju hefur meðal annars verið grafið upp fjós sem var 53 metra langt og 14 metra breitt með 1,5 metra þykkum hlöðnum steinveggjum og þar fyrir utan torfhleðsla til einangrunar. Flórinn var lagður með stórum steinhellum og skilveggir milli bása gerðir úr stórum flötum steinum fyrir utan einn þar sem herðablað úr hval var notað. Land Bröttuhlíðar er enn eitt besta landbúnaðarsvæði Grænlands með mikla gróðursæld. Þar og á nágrannabæjum er nú stunduð mikil sauðfjárrækt eins og á dögum Grænlendinga hinna fornu. Þing Grænlendinga var haldið á Bröttuhlíð en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var haldið. Qassiarsuk. Byggðakjarninn Qassiarsuk er í botni Tunuliarfik-fjarðar (sem á dönsku er nefndur "Skovfjorden" en Grænlendingar hinir fornu nefndu "Eiríksfjörð") þar sem Eiríkur rauði settist að um 985. Þá nefndist bærinn Brattahlíð og lá í miðri Eystribyggð. Fjölmargar rústir og bæjarstæði eru enn að sjá í Qassiarsuk og nágrenni frá tíma norrænna manna á Grænlandi. Sauðfjárrækt er aðal atvinnurekstur í þorpinu. Á seinni árum hafa ferðamenn lagt leið sína í auknum mæli til Qassiarsuk, enda hentar svæðið vel til gönguferða. Qassiarsuk er um 3 km frá Narsarsuaq. Garðar (Grænlandi). Garðar var aðalkirkjustaður og biskupssetur Grænlendinga hinna fornu. Þar er nú byggðakjarninn Igaliku sem þýðir „yfirgefna eldstæðið”. Garðar eru innst í Einarsfirði sem er næsti fjörður austan við Eiríksfjörð í miðri Eystribyggð. Miklar rústir frá tímum norrænna manna er að finna á Görðum. Þar á meðal rústir krosskirkju sem byggð var úr sandsteini á 12. öld og mælist 27x16 metrar. Einnig rústir veislusalar sem var um 130 m² á stærð og fjós fyrir 60 kýr. Í Grænlendinga þætti er sagt frá því að Sokki Þórisson, höfðingi á Brattahlíð, hafi lagt fram tillögu í byrjun 12. aldar að stofnað yrði biskupsdæmi á Grænlandi. Tillagan þessi fékk mikinn stuðning landsmanna og var lögð fyrir Sigurð Jórsalafara Noregskonung. Hann samþykkti þessa hugmynd og útnefndi munkinn Arnald í embættið. Hann var vígður biskup yfir Grænlandi í dómkirkjunni í Lundi 1124. Hann komst til Grænlands eftir mikla svaðilför 1126. Bygging dómkirkju hófst um 1126 og var hún helguð heilögum Nikulási, verndara sæfara. Í norðurkapellu dómkirkjunnar er biskup grafinn. Á hægri hringfingri var biskupshringurinn og höndin hvíldi á biskupsstafnum, 143 cm langur stafur úr aski og með útskorið höfuð í rostungstönn. Mögulega er þar grafinn Jón biskup sem lést 1209. Biskupar á Görðum. Ýmis skjöl eru til um biskupa Grænlendinga hinna fornu sem safnað hefur verið í Grønlands Historiske Mindesmærker. Í upphafi kristni voru kirkjurnar á Grænlandi eins og aðrar kirkjur á Norðurlöndum undir erkibiskupnum í Hamborg-Bremen en frá 1103 voru þær lagðar undir erkibiskupinn í Lundi. En frá 1152 voru kirkjurnar i Noregi, Mön, Orkneyjum, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi undir erkibiskupinn í Niðarósi (núverandi Þrándheimi). Arnaldur biskup þjónaði á Görðum fram til 1150 þegar hann snéri aftur til Noregs. Hann var þar vígður biskup á Hamar 1152. Jón Knútur tók við sem biskup og þjónaði á Görðum 1150 til 1186. Þriðji biskupinn á Görðum var Jón Árnason sem hafði viðnafnið Smyrill. Hann tók við embætti 1189. Á árunum 1202-1203 fór hann í ferð alla leið til Rómarborgar til að hitta páfa. Hann þjónustaði sem biskup á Görðum alt fram á dauðadag 1209 og var grafinn þar. Sennilega er það hann sem er grafinn í norðurkapellu dómkirkjunnar. Eftirmaður Jóns Smyrils var Þór Helgi, hann kom þó ekki til Grænlands frá Noregi fyrr en 1212. Hann var biskup fram að dauðadegi 1230. Nikulás, eftirmaður hans var vígður 1234. Nikulás kom þó ekki til Grænlands fyrr en 1239 og hann lést 3 árum síðar. Ólafur biskup var vígður 1242 en tók ekki við embætti fyrr en 1247. Hann var á ferðum erlendis 1264-1280. Næst biskup var Þór Bokki sem kom til Garða 1289 og snéri aftur til Noregs 1309. Árni biskup þjónustaði á Görðum frá 1315 fram til 1347. Fréttir bárust ekki greiðlega milli Grænlands og Noregs og varð það meðal annars til þess að Jón Skalli var vígður nýr biskup að Görðum 1343 en frétti síðar að Árni biskup var enn á lífi og gegndi sínu starfi. Jón Skalli fór því aldrei til Grænlands. Eftir að Árni biskup dó var ekki vígður nýr Grænlandsbiskup fyrr en 1368 þegar Álfur biskup fékk embættið. Hann var biskup á Görðum fram til 1378 og var hann síðast biskupinn sem þjónaði þar. Heimildir:. Grønlands Forhistorie, Gyldendal København, 2005. ISBN 87-02-01724-5 Igaliku. Igaliku er byggðakjarni á suður Grænlandi í sveitarfélaginu Narsaq með um það bil 50 íbúum. Er það um 34 km norðaustur af Narsaq-þorpinu. Igaluku stendur á sama stað og höfuðból og biskupssetur Grænlendinga hinna fornu sem nefnt var Garðar. Þar er enn að finna miklar rústir frá tímum norrænna manna. Í lok 15. aldar hurfu norrænir íbúar Grænlands og Garðar fóru í eyði. Igaliku byggðist að nýju 1782 þegar Norðmaðurinn Anders Olsen ákvað að setjast þar að og hefja kúa- og sauðfjárbúskap. Anders átti Grænlenska konu, Tuparna að nafni. Afkomendur þeirra hafa búið í Igaliku óslitið síðan. Stunda þeir landbúnað og eru sauðfjárbændur. Allt fé er af íslenskum stofni og einnig þeir hestar sem bændur hafa, aðallega til smölunar. Engar kýr eru á Grænlandi. Kolli (landnámsmaður á Ströndum). Kolli er sagður hafa verið landnámsmaður í Kollafirði á Ströndum. Hann nam Kollafjörð og jörðina Skriðinsenni í Bitru og bjó á Felli í Kollafirði. Þjóðsagan segir að Kolli sé grafinn í Mókollsdal, í Mókollshaugi. Þegar hann fann að aldurinn var að færast yfir hann, valdi hann staðinn til hinstu hvílu með því að henda hamri aftur fyrir sig af hlaðinu á Felli og yfir bæinn og fjallið Klakk og niður í Mókollsdal. Þar sem hamarinn loksins lenti var hann dysjaður. Löngu síðar, seint á 20. öld var líka stofnað Ungmennafélagið Kolli í Kollafirði. Mókollur sem oftast var kallaður bjórkollur og var lukkudýr HM í handbolta á Íslandi 1995 var hins vegar ekkert skyldur landnámsmanninum Kolla. Mýraeldar. Mikið magn ösku og mengandi lofttegunda losnaði út í andrúmsloftið í Mýraeldum. Eldarnir kröfðust gríðarlegs slökkvistarfs af hálfu fjölmargra aðila með Slökkviliðið í Borgarnesi í fararbroddi. Mýraeldar voru miklir sinueldar í Hraunhreppi í Borgarbyggð sem loguðu í þrjá daga vorið 2006. Að morgni 30. mars blossaði upp eldur í sinu sem fór um 75 km² landsvæði á Mýrum, en alls brunnu um 67 km² lands. Þetta voru nefndir „mestu sinueldabrunar Íslandssögunnar”. Líklegt er talið að kviknað hafi í út frá vindlingi við þjóðveg 54 á móts við Bretavatn. Sinueldurinn barst mjög hratt, um 18 kílómetra á fyrstu sex klukkustundunum. Brennda svæðið var allt á milli þjóðvega 54, 540 og 537, að undanskilinni einni tungu sem náði suður fyrir veg 537. Þegar mest var var eldveggurinn allt að tveggja metra hár og fór með tuga metra hraða á mínútu. Sinueldarnir voru slökktir með gríðarlegu slökkvistarfi af hálfu íbúa svæðisins, brunavarna Borgarbyggðar, aðstoðarslökkviliðs frá nærliggjandi byggðarlögum og þyrlu frá Þyrluþjónustunni. Engar skemmdir urðu á mannvirkjum, að girðingum undanskildum en margir bæir voru mjög nálægt því að verða eldinum að bráð. Bærinn Hamrar var einungis örfáa metra frá eldinum á tímabili. Eldarnir höfðu gífurleg áhrif á lífríki svæðisins, en svæðið sem brann var eitt stærsta samfellda mýrlendi á landinu og er í raun nær lagi að tala um náttúruhamfarir en venjulegan sinubruna. Engin meiðsl urðu þó á fólki. Sinubruninn. Svæðið sem varð eldi að bráð í Mýraeldum. Nánast allur Hraunhreppur brann. Sinubrunar höfðu þegar átt sér stað í Reykholtsdal og Skorradal, auk minni bruna í Grafarvogi. Samkvæmt heimildum blossaði sinueldurinn upp að morgni 30. mars eftir að vegfarandi hafði stöðvað bíl sinn við veg 54, andspænis Bretavatni og nálægt gatnamótum vegar 539 og í ógætni kastað sígarettustubbi eða vindli í grassvörðinn sunnan vegar. Þá var NNA-átt, 13 m/s. Veðurfar á landinu hafði verið afar þurrt og kalt. Köld norðanátt var einkennandi fyrir síðustu 10 daga marsmánaðar og fyrstu dagana í apríl og var vindur allhvass lengst af. Þá var mjög þurrt um sunnanvert landið, en snjókoma norðan- og austanlands. Vegna þurrka var gróðurinn á Mýrum eldfimur, eldurinn átti því auðvelt með að festa sig í sinu sem myndast við slíkar aðstæður. Klófífa, bláberjalyng og fjalldrapi eru útbreidd á Mýrum og stór flæmi af þessu gróðurlendi brunnu í Mýraeldum. Útbreiðsla. Eldurinn barst mjög hratt og líklegt er að hann hafi borist framhjá Fíflholti (þó ekki að bænum) á um einni klukkustund. Eldveggurinn var um tveggja metra hár um þetta leyti og fór yfir með margra metra hraða á sekúndu. Hann barst til sjávar, um 18 km. leið, á sex klukkustundum, enda var þá nánast engin fyrirstaða. Að kvöldi hins 30. mars var sinubruninn kominn yfir stórt svæði á milli vega 540 og 537, en mannvirkjum stóð ekki veruleg ógn af, öðrum en Skíðsholtum, sem tókst að bjarga. Um það leyti var sinubruninn farinn að hægja á yfirferð sinni og bæir norðan hins brunna svæðis, Fíflholt, Einholt, Stóri-Kálfalækur og Akrar, voru komnir úr mestu hættunni. Bæir niður við sjó voru ekki í verulegri hættu og máttu þakka það góðum aðstæðum. Hins vegar var ljóst að bæir suðaustan svæðisins voru í verulegri hættu. Aðfaranótt 31. mars hafði eldurinn breiðst lítillega út til vesturs, hann var þó hvergi farinn að nálgast þjóðveginn. Það má þakka góðu veðurfari, en vindur var lítill um nóttina. Um klukkan 10 að morgni jókst vindur aftur og snerist í norðanátt. Þá slapp eldurinn yfir Sauraveg nr. 537 á um eins kílómetra vegspotta, norður af bænum Hömrum. Þar með var um 30 km² landsvæði komið í bráða hættu og baráttan tók að snúast um að bjarga Hömrum. Bæirnir Laxárholt og Ánastaðir voru sömuleiðis í mikilli hættu. Lok brunans. Sú ákvörðun var tekin að reyna að hefta útbreiðslu eldsins við bæinn Ánastaði, enda var ljóst miðað við reynsluna sem fékkst við Hamra, að enga áhættu mætti taka og að minnka yrði eldinn áður en hann kæmi að veginum. Við Saura, nálægt upptökum eldsins, gekk slökkvistarf vel og tókst að koma í veg fyrir að eldurinn næði að skapa hættu þar. Að kvöldi 31. mars hafði tekist að slökkva eldinn að mestu leyti. Þó logaði enn, mest við Ánastaði. Daginn eftir hélt slökkvistarf áfram en þá voru bæir úr mestu hættunni og starf slökkviliðs miðaði frekar að því að slökkva eldinn en að bjarga húsum. Um klukkan 23:30 að kvöldi 1. apríl var ljóst af hálfu lögreglunnar í Borgarnesi að eldarnir höfðu verið slökktir. Gæsla var þó höfð áfram. Þá höfðu 67 km² lands brunnið. Aðilar. Mýraeldar hefðu án efa orðið mun stærri hefði ekki komið til umfangsmikilla björgunar- og slökkviaðgerða af hálfu ýmissa aðila undir stjórn lögreglunnar í Borgarnesi. Aldrei hefur komið til svo víðtækra aðgerða vegna sinubruna hér á landi. Þegar mest var tóku um hundrað manns þátt í aðgerðunum. Lögreglan í Borgarnesi. Um klukkan hálf níu þann 30. mars barst lögreglunni í Borgarnesi tilkynning um að sinubruni væri á svæðinu frá Fíflholti og að afleggjara upp í Hítardal. Lögreglan stjórnaði aðgerðum og tryggði öryggi vegfarenda og íbúa á svæðinu. Slökkviliðsstörf. Slökkviliðið í Borgarnesi var fyrsti viðbragðsaðilinn til að bregðast við eldunum. Síðdegis þann 30. mars, þegar slökkviaðgerðir voru að hefjast af fullri alvöru, voru 12 slökkviliðsmenn, tveir tankbílar og tveir dælubílar að störfum á svæðinu. Fyrst um sinn snerist starf slökkviliðsins að mestu leyti um að tryggja öryggi mannvirkja á brunasvæðinu, en þá var baráttan við eldinn mjög erfið vegna umfangs hans og skorts á aðstoð. Slökkviliðið vann nánast stanslaust við slökkvi- og björgunaraðgerðir frá 30. mars til 1. apríl, en það hafði yfir að ráða hálfum öðrum tug manna. Slökkvilið frá nágrannasveitafélögum, milli Akraness og Búðardals, aðstoðaði slökkvilið Borgarness við aðgerðirnar frá 31. mars. Slökkvilið Borgarfjarðarsveitar, slökkviliðið á Akranesi og slökkviliðið í Búðardal tóku þátt í björgunaraðgerðunum. Dælubíl slökkviliðsins í Reykjavík, frá Reykjavíkurflugvelli auk annars búnaðar þaðan og tankbíla frá ýmsum fyrirtækjum í Borgarnesi voru fengnir að láni svo hægt væri að berjast við eldinn. Undir lokin leystu björgunarsveitir slökkviliðin af og vöktuðu svæðið síðustu dagana. Íbúar. Íbúar svæðisins aðstoðuðu við aðgerðirnar strax frá byrjun og haugsugur bænda alls staðar að úr Borgarfirði og Mýrum voru afar öflug tæki í baráttunni við eldinn. Þær skáru gróðurinn í burtu og bjuggu til svæði sem eldurinn náði þar með ekki yfir. Bændur bleyttu einnig í vegum með kúamykju og sandfor, sem tryggði í flestum tilfellum að eldurinn næði ekki yfir þá. Bændur voru stærsti hluti þeirra sem unnu að slökkvistarfi og komu hvaðanæva að úr Borgarfirði og af Mýrum til að aðstoða við aðgerðir. Vegna fjölda þeirra tókst ennfremur að tryggja öryggi á öllu svæðinu. Þyrla Þyrluþjónustunnar. Þyrla frá Þyrluþjónustunni var fengin til að aðstoða við aðgerðirnar um hádegi þann 31. mars. Þetta var í fyrsta sinn sem þyrla hefur verið fengin til slökkviaðgerða hér á landi. Talið er að þyrlan hafi gert mikið gagn í baráttunni við sinueldinn. Reykurinn frá sinueldunum úr geimnum þann 30. mars 2006. Reykjarstrókurinn nær um 60 km. til vestsuðvesturs. Framvinda aðgerða. Um klukkan níu morguninn 30. mars barst lögreglunni í Borgarnesi tilkynning um sinubruna. Það markaði upphaf aðgerða. Á næstu viku tóku um 200 manns í heildina þátt í björgunar- og slökkvistarfi um allt brunasvæðið. Aðgerðum lauk að mestu leyti 2. apríl og var að fullu lokið þann 5. apríl. Upphaf aðgerða. Þegar tilkynningin barst fóru slökkviliðsbílar þegar af stað frá Borgarnesi að Fíflholti, þar sem tilkynnt var að eldurinn væri. Fljótt var ljóst að ekki væri mögulegt að ráða við svo víðáttumikinn eld, og slökkvistarf snerist um að bjarga húseignum. Fljótlega komu bændur á nálægum bæjum einnig til aðstoðar. Með hjálp þeirra tókst að koma í veg fyrir að eldurinn næði að bæjunum Skíðsholtum og Vogi.. Baráttan við eldinn. Að kvöldi 30. mars var slökkvistarf komið í fullan gang og um það leyti unnu um 70 manns að björgunaraðgerðum. Skipulag slökkvistarfsins var gott, haugsugur voru notaðar þar sem eldurinn var hvað mestur og auk þess að slökkva eldana var slökkvilið í ráðleggingarhlutverki að því leyti. Slökkvilið var aðallega statt við Skíðsholt og reyndi að verja íbúðarhúsnæði, en þá var ekki talin hætta á að eldurinn bærist í nein önnur hús. Aðfaranótt 31. mars breiddist eldurinn lítið út og voru vegir þá vættir með mykju og sandfor. Morguninn 31. mars höfðu tólf jarðir brunnið. Slökkviliðið hafði þá fengið aðstoð frá fyrirtækjum í Borgarnesi sem útveguðu tankbíla til slökkvistarfanna. Um tíuleytið skapaðist mikil hætta þegar eldur slapp yfir Sauraveg, en ástæða þess er talin vera sú að vatn sem dælt hafði verið á veginn hafði frosið. Nú ógnaði eldurinn ennfremur um 30 km² landsvæði, og á því svæði eru fjórir bæir. Lögreglan vissi ekki af þessari ógn fyrr en nokkru síðar, þar sem Sauravegur var seinfær. Ötullega var unnið að slökkvistarfi á öllu svæðinu um morguninn og allan eftirmiðdaginn. Slökkvilið Akraness kom með liðsauka um klukkan eitt, en þá voru fyrir slökkvilið Borgarness og Borgarfjarðarsveitar og bændur með haugsugur sínar. Um sextíu manns lögðu mikla vinnu í það að reyna nú að slökkva eldinn í stað þess að verjast honum og var stefnan sett á það að stöðva för eldsins við Ánastaði og reyna í framhaldinu að slökkva hann. Þá var þyrla Þyrluþjónustunnar einnig komin til starfa og gerði hún mikið gagn. Eldurinn slökktur. Veðuraðstæður versnuðu og nú var orðið mjög hvasst á svæðinu. Seint um kvöldið 31. mars var loks farið að draga úr eldinum og var slökkvistarf þá miðað við Ánastaði, þar sem enn var mikið bál. Þrátt fyrir að bjartsýni hafði aukist var ennþá talið að slökkvistarfi yrði haldið áfram næstu viku eða svo. Slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli kom um kvöldið með dælubíl sem nota skyldi við að slökkva eldinn endanlega. Þann 1. apríl bötnuðu veðursskilyrðin. Fjöldi björgunarsveitamanna var kallaður út til að leysa slökkviliðið af enda var slökkvistarfi þá að miklu leyti að ljúka. Vonir voru til þess að eldurinn yrði slökktur um kvöldið. Síðla kvölds þann 1. apríl tókst að slökkva eldana. Gæsla var þó enn höfð á svæðinu enda var ætlunin að tryggja að eldarnir kæmu ekki upp aftur. Á þessum tíma var talið að allt að 150 km² hefðu brunnið, en síðar kom í ljós að sú tala var ýkt. 2. apríl skipaði lögreglan í vakthópa til að slökkva glóðir sem víða leyndust í mosa, enda var ætlunin þá að koma endanlega í veg fyrir að eldarnir blossuðu upp aftur. Nú var beðið eftir að byrjaði að snjóa, enda var talið að þá myndi baráttunni vera endanlega lokið. Það gerðist að lokum þann 3. apríl. Gæsla var á svæðinu í tvo daga til viðbótar, en gæslumenn þurftu lítið sem ekkert að aðhafast. Svæðið við upptök eldsins þann 7. maí 2006. Áhrif. Mýraeldar höfðu gífurleg áhrif og vöktu strax mikla athygli fyrir umfang sitt, sem var áður óþekkt á Íslandi. Þeir höfðu mikil áhrif á náttúrufar og búskap á öllum Mýrum og leiddu auk þess til mikillar umræðu í þjóðfélaginu, um réttlætingu sinubruna og öryggisviðbúnað þegar svo gríðarlegs slökkvistarfs var krafist. Áhrif á náttúru. Árið 1996 og 1997 kortlagði Náttúrufræðistofnun Íslands gróður á svæðinu sem brann og samkvæmt því var stærstur hluti svæðisins blautur flói og mýrlendi með tjörnum og vötnum á milli grjótholta. Það gróðursamfélag sem var algengast var klófífuflói með fjalldrapa og bláberjalyngi. Þessa tegund gróðurlendis er einkum að finna á Mýrum og Snæfellsnesi sunnanverðu, en sjaldgæft annars staðar á landinu, og því er ljóst að svæðið hefur mikið náttúrulegt gildi. Svo virtist sem hinn víðáttumikli og mjög svo þýfði fífuflói hafi farið verst út í brunanum, og fjalldrapinn mun líklega ekki ná sér fyrr en eftir mörg ár. Sinan á þessu svæði var eins mikil og raun bar vitni vegna lítillar beitar á svæðinu, en fjalldrapinn var það sviðinn að það sem eftir stóð var að mestu leyti dautt. Lyngtegundir virtust líka hafa farið illa út úr brunanum, en tegundir sem vaxa í mjög miklu votlendi sluppu betur, svo sem starir og glófífa. Ástæðan fyrir því er talin sú að vatnsstaðan var há og einungis efstu stráin brunnu. Smárunnar og birki sluppu einnig vel. „Í stuttu máli brennur sinan og þau efni sem breytast í lofttegundir fara upp í loftið, s.s. köfnunarefni og kolefni. Steinefnin verða hins vegar eftir, yfirborðið verður svart og hitnar þar af leiðandi meira í sólskini um vorið,“ sagði Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur. Hann sagði einnig að þróunin í framtíðinni myndi líklega verða sú að meira yrði um grös, sem geta nýtt sér áburð mjög vel, en minna um smárunna og kjarr. Mýraeldar höfðu einnig áhrif á dýralíf. Varp fugla hófst ekki fyrr en mánuði eftir eldana, svo að áhrifin á fugla voru takmörkuð, en hefðu eldarnir orðið þá hefðu áhrifin án efa orðið afdrifaríkari. Fuglar fundu sér nýja varpstaði þetta vor en þau áhrif eru ekki talin varanleg. Hagamýs urðu einnig fyrir miklum áhrifum sem og lífríki vatna og tjarna á svæðinu. Mikil mengun varð vegna eldanna. Milljónir rúmmetra af koltvísýringi og öðrum lofttegundum losnuðu út í andrúmsloftið og svartur reykurinn var sjáanlegur víðast hvar á Vesturlandi sem og utan úr geimnum. Þá barst mikið af ösku og öðrum efnum í grunnvatn svæðisins og er sá þáttur talinn mjög alvarlegur. Sigríður Anna Þórðardóttir, þáverandi umhverfisráðherra, fól Náttúrufræðistofnun Íslands að rannsaka áhrif eldanna á náttúru svæðisins. Í kjölfarið útbjó Náttúrufræðistofnun rannsóknaráætlun í samvinnu við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs, rannsóknir hófust sumarið 2006 og lýkur árið 2010. Fyrstu niðurstöður voru kynntar í mars 2007, ári eftir eldana. Fyrstu viðbrögð. Í tilkynningu frá Borgarbyggð þann 3. apríl var sagt að sinueldarnir á Mýrum væru „með mestu hamförum sinnar tegundar á landinu í áratugi”. Með öflugri framgöngu og góðu samstarfi slökkviliða, lögreglu, ýmissa aðila sem buðu fram aðstoð sína og ekki síst íbúa í héraðinu hafi tekist að ráða niðurlögum eldsins. Tíminn leiði í ljós hvaða áhrif sinubruninn hafi á lífríki á svæðinu en mikilvægt sé að hefja rannsóknir í þeim efnum sem fyrst. Hins vegar sé mikið lán að enginn hlaut skaða í átökunum við eldana tekist hafi að halda eignatjóni í lágmarki. Landsmenn séu dýrkeyptri reynslu ríkari og skynji væntanlega betur en áður mögulegar afleiðingar þess að sinueldur verði laus við hliðstæðar aðstæður og þarna sköpuðust. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, skoðaði svæðið í Hraunhreppi. „Þarna hafa átt sér stað hrikalegar náttúruhamfarir. Landið er illa brunnið og illa farið. Það sem maður dáist mest að er að bændur, slökkvilið og þeir sem börðust við eldinn björguðu þrátt fyrir allt miklu", sagði hann í viðtali við "Morgunblaðið" þann 4. apríl. Álit viðbragðsaðila var að þrátt fyrir að mestu leyti hafi tekist að koma í veg fyrir tjón af völdum eldsins þá væru sinubrunar eins og Mýraeldar mjög hættulegir og að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að takmarka áhættu þegar að sina væri brennd. Áhrif á viðbragðsaðila. Eftir að hafa skoðað málið í kjölinn komust margir, m.a. bændur á svæðinu, að þeirri niðurstöðu að skipulag slökkvistarfs hafi ekki verið nógu gott og viðbrögðum almennt ábótavant. Brunamálastofnun hefur auk slökkviliðs og lögreglu víða um land ákveðið eftir þessa sinubruna að gera viðbragðsáætlun byggða á þeirri reynslu sem fékkst af atburðunum. Talið er afar mikilvægt að geta tekist á við elda eins og Mýraelda í sumarbústaðalöndum eða öðrum stöðum þar sem sinubruni gæti ógnað þéttbýli. Kolaportið. Kolaportið er vinsæll flóamarkaður í miðbæ Reykjavíkur sem er opinn um helgar. Kolaportið opnaði fyrst í bílastæðakjallara Seðlabankans við Arnarhól árið 1989. Fimm árum seinna flutti Kolaportið um set og er nú til húsa á fyrstu hæð Tollhússins við Tryggvagötu. Í húsinu er Kaffi Port, kaffihús. Fyrirkomulagið er þannig að stóru gólfplássi Tollhússins er skipt niður í 6m² bása sem eru leigðir út. Það er ódýrst að leigja bás til að selja notaðar vörur. Þorlákshöfn. Þorlákshöfn er bær í Sveitarfélaginu Ölfusi í Árnessýslu. Þar búa 1522 manns (2012). Í apríl 1937 keypti Kaupfélag Árnesinga með aðstoð Egils Thorarensens jörðina sem seinna var nefnd Þorlákshöfn af efnamönnum í Reykjavík. Þaðan voru síðan gerðir út nokkrir bátar til fiskveiða, áhugi komst með tíð og tíma á fyrir því að koma upp hafnaraðstöðu á þessu svæði. Til þess að það mætti gerast þurfti að selja land Þorlákshafnar til hins opinbera. Með rekstur á landinu fór Þorlákshafnarnefnd og komst það fljótlega á dagskrá hjá henni að stofna til útgerðarfélags. Hagur Þorlákshafnar vænkaðist töluvert eftir að ákveðið var á fundi í Selfossbíói, þann 10. júní 1949 að stofna hlutafélagið Meitillinn h.f. með hlutafé frá sveitungum. Hafist var handa við útgerð á fimm vélbátum snemma næsta ár eftir að gengið hafði verið frá kaupum á þeim og 1951 voru 14 manns með skráða búsetu í Þorlákshöfn. Kollafjarðarneskirkja. Kollafjarðarneskirkja stendur utarlega við norðanverðan Kollafjörð á Ströndum. Eftir að gömlu timburkirkjurnar á Felli í Kollafirði og Tröllatungu í Kirkjubólshreppi voru lagðar niður og sóknirnar sameinaðar, var ný kirkja reist þar árið 1909 og stendur hún enn. Kirkjan var reist á einu sumri og vígð þann 5. september. Kollafjarðarneskirkja er friðuð og er elsta steinsteypta hús í Strandasýslu. Wish You Were Here. "Wish You Were Here" er plata eftir Pink Floyd. Hún var tekin upp í Abbey Road hljóðverinu á tímabilinu janúar til júlí árið 1975 og var gefin út þann 15. september 1975. Yfirlit. Platan er að mestu leyti samin um fyrrverandi meðlim Pink Floyd, Syd Barrett, en hann hrökklaðist frá bandinu eftir ofneyslu ofskynjunarlyfja. Barrett kom fram á tveimur plötum Pink Floyd, "The Piper at the Gates of Dawn" og "A Saucerful of Secrets". Fyrst áttu bara að vera þrjú lög á plötunni, en síðan eftir nokkrar breytingar var tveimur lögum sleppt og sett á plötu sem kom seinna út, "Animals". Fjórum lögum var bætt við, en "Shine on You Crazy Diamond" var fyrsta lagið til að vera samið fyrir plötuna. Wish You Were Here er fyrsta plata Pink Floyd sem var gefin út af Columbia Records. Heimsókn Syd Barrett í stúdíó. Þann 5. júní 1975, sama dag og David Gilmour gifti sig, og á meðan tökur á Wish You Were Here stóðu sem hæst, kom Syd Barrett í heimsókn í stúdíóið. Hann var gjörbreyttur, hafði bætt á sig kílóum, rakað af sér allt hár og augabrýr. Gömlu félagar hans spiluðu fyrir hann Shine On You Crazy Diamond og "Wish You Were Here" til að fá álit hans á lögunum og fannst Barret þau frekar gamaldags. Reyniviður. Reyniviðir eða reynir er ættkvísl jurta af rósaætt sem finnst um allt norðurhvel jarðar. Einir. Einir (einitré eða einirunni) (fræðiheiti: "Juniperus communis") er runni af einisætt. Einir er útbreiddastur allra trjáplantna heims og finnst um allt norðurhvel jarðar, í Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu á kaldtempruðum norðlægum breiddargráðum. Einirinn er með nálarlaga blöð, u.þ.b. 10 mm langar. Hér á landi vex einirinn í hrauni, kjarri og mólendi. Einirunnar eru oftast jarðlægir, en sumir runnar reisa upp greinarnar og geta þá orðið allt að 120 cm háir. Fyrst þegar einiberið myndast er það grænt, en verður dökkblátt þegar það er orðið fullþroskað. Úr einiberjum er víða unnið "Genever" (="Sjenever" eða "gin"). Notkun á Íslandi. Forn trú á Íslandi var að til að afstýra húsbruna væri ráð að hafa eini í húsinu. Einirinn var hér áður fyrr einnig notaður til að búa til jólatré (en einnig til að skreyta það), til að búa til te, bragðbæta brennivín og til að reykja lax. Í bók sinni "Grasnytjum" segir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samtímamenn sína (á 18. öld) hafa mikla trú á heilsubætandi áhrifum einiberja og telji þau gagnast við fjölda kvilla, allt frá niðurgangi til holdsveiki. Hrútaberjalyng. Hrútaberjalyng, klungur eða hrútaberjaklungur (fræðiheiti: "Rubus saxatilis") er lyng af rósaætt, náskylt brómberi og hindberi. Hrútaberjalyng á Íslandi. Á Íslandi vex lyngið á láglendi um allt land. Berin eru nokkuð notuð í sultugerð. Hrútaber vaxa ýmis í greniskógum og öðru skóglendi. Víða eru þau á Snæfellsnesi. Berin eru fallega rauðleit og góð á bragðið. Heilög Birgitta frá Svíþjóð. Heilög Birgitta frá Svíþjóð (1303 – 23. júlí 1373) er einn helgasti dýrlingur Svíþjóðar og stofnandi Birgittureglunnar. Orrustan við Lepanto. Orrustan við Lepanto eftir óþekktan listamann. Austurríki-Ungverjaland. Kort sem sýnir staðsetningu Austurríkis-Ungverjalands. Austurríki-Ungverjaland eða Austurrísk-ungverska keisaradæmið (formlegt heiti á þýsku: "Die im Reichsrat vertretenen Königreiche und Länder und die Länder der heiligen ungarischen Stephanskrone") var konungssambandsríki í Mið-Evrópu frá 1867 til 1918, myndað af Austurríska keisaradæminu og Ungverska konungdæminu. Það leystist upp í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og skiptist eftir það milli ríkjanna Austurríkis, Ungverjalands, Tékkóslóvakíu, Ríkis Slóvena, Króata og Serba (sem síðar varð hluti Júgóslavíu) og Póllands. Kóngssveppur. Kóngssveppur (eða ætilubbi) (fræðiheiti: "Boletus edulis") er mjög eftirsóttur ætisveppur. Hann vex í skógi og kjarri um alla Evrópu (meðal annars á Íslandi, en er ekki sérstaklega algengur) og Norður-Ameríku. Kóngssveppur er pípusveppur sem verður allt að 20 sm í þvermál, er brúnn á litinn með hvítt hold og gildan staf sem breikkar aðeins niður. Lyktin af honum minnir á hefað deig. Pípulagið er fyrst hvítt en gulnar með aldrinum og verður þá seigt þannig að best er að skera það af fyrir matreiðslu. Kúalubbi. Kúalubbi (fræðiheiti: "Leccinum scabrum") er ætisveppur sem lifir samlífi (myndar svepparót) með birki. Hann verður allt að 18 sm í þvermál, grábrúnn á litinn með hvítt hold. Stafurinn er með svörtum þráðum og breikkar niður. Kúalubbi er algengur í Evrópu og finnst frá júní til október. Lerkisveppur. Lerkisveppur (fræðiheiti: "Suillus grevillei") er ætisveppur sem lifir í samlífi með lerki. Hann verður allt að 12 sm í þvermál með gullinbrúnan hatt. Holdið er gult. Pípulagið er gult og verður brúnt með aldrinum. Á ungum sveppum hvolfist hatturinn undir sig og himna er á milli stafs og hattbrúnarinnar sem hylur pípulagið. Síðar myndar himnan kraga á stafnum. Furusveppur. Furusveppur (fræðiheiti: "Suillus luteus") er ætisveppur sem lifir oftast í samlífi (myndar svepparót) með furu. Hann finnst um allt norðurhvel jarðar. Hann verður 12 sm í þvermál með appelsínugulan eða brúnan hatt sem getur orðið mjög slímugur í raka. Hatturinn er hvolflaga á ungum sveppum og himna þekur pípulagið milli hatts og stafs en síðan verður hatturinn flatur og himnan myndar kraga á stafnum. Pípulagið er gult en verður gulbrúnt með aldrinum. Holdið er gult og af því er áberandi sítrónulykt. Stafurinn er stuttur og breiður. Við matreiðslu er húðin oft dregin af hattinum þar sem slímið á henni getur valdið meltingartruflunum. Ullserkur. Ullserkur eða ullblekill (fræðiheiti: "Coprinus comatus") er eftirsóttur ætisveppur sem algengt er að sjá á túnum og í görðum. Hann er hvítur eða gulhvítur, hár og mjór með langan, mjóan og egglaga hatt. Hann verður allt að 15 sm hár og um 5 sm breiður. Stafurinn er holur að innan. Fanirnar eru hvítar í fyrstu, en þegar hann eldist dökkna þær þannig að sveppurinn sortnar frá hattbrúninni sem sveigist upp þar til hann verður alveg bleksvartur og linur. Eftir tínslu verður hann svartur á nokkrum klukkutímum. Aðeins ungir sveppir eru borðaðir og varast ber að tína sveppi þar sem er mikil umferð vegna mengunar. Ekki er mælt með því að borða sveppina með áfengi af því að slöttblekill, sem er svipaður, inniheldur coprine, efni sem hefur slæmar hliðarverkanir (híti og roði í húð, hausverkur, velgja, uppköst, o.fl) þegar neytt er með áfengi. Gorkúla. Gorkúla (fræðiheiti: "Bovista nigrescens") er ætisveppur sem algengt er að finna á túnum og í görðum. Meðan kúlan er ung er hún hvít í gegn, kúlulaga og stinn viðkomu og nefnist þá merarostur og er ágætur matsveppur. Eftir því sem hún eldist verður hún græn og grautarkennd að innan og heitir þá gorkúla þar til hún verður að lokum dökkbrún og þurr og að innan eins og hún væri full af ryki en rykkornin eru gró sveppsins. Á því stigi nefnist hún kerlingareldur. Gorkúla og kerlingareldur eru óæt. Birki. Birki er ættkvísl jurta af birkiætt sem vaxa víða um norðurhvel jarðar. Birki er skylt elri (kallast einnig "ölur") og hesli sem teljast einnig til birkiættar. Birkið er auðþekkt á smágerðu tenntu laufi og ljósum pappírskenndum berki. Birki á Íslandi. Á Íslandi eru tvær birkitegundir innlendar og jafnframt mjög einkennandi fyrir íslenska náttúru: ilmbjörk ("birki" í daglegu tali) og fjalldrapi. Ilmbjörkin er eina innlenda tré landsins sem myndar skóga. Við landnám er talið að allt að þriðjungur Íslands hafi verið þakinn birkiskógi. Baula. Baula er keilumyndað fjall úr líparíti eða ljósgrýti, u.þ.b.50 norður af Borgarnesi og vestan eða ofan Norðurárdals í Borgarfirði. Baula er 934 metra há og myndaðist í troðgosi fyrir rúmlega 3 milljónum ára, þegar súr bergkvika á uppleið tróðst inn í jarðlagastafla skammt undir yfirborðinu. Þegar að bergkvikan svo storknaði myndaðist innskot í staflann, harðara og fastara fyrir en hraunlögin í kring. Jöklar hafa svo unnið á ytra bergi í aldanna rás og eftir stendur Baula. Fjallið var fyrst klifið svo vitað sé árið 1851 og þótti afrek, en þrátt fyrir að Baula sé bratt fjall og skriðurunnið er uppgangan auðveld að suðvestan eða suðaustan. Vestan og norðan Baulu eru Litla-Baula og Skildingafell og þar á milli Sátudalur. Úr Sátudal rennur Dýrastaðaá í gljúfrum með fjölda fossa og sameinast Norðurá hjá Hóli og Hafþórsstöðum. Fjallið er bratt og skríðurunnin og torfærulaust en seinfarið, en mögulegt að ganga á fjallið að suðaustan eða suðvestan frá Bjarnardal. Hálflaust stórgrýti á leiðinni. Sögur og sagnir. Sagan segir að upp á Baulutindi sé tjörn og í henni óskasteinn. Á sá sem að nær í steininn að fá óskir sínar upp fylltar, en stein þennan flýtur ekki upp nema eina nótt á ári, Jónsmessunótt. Askja (fjall). Askja, Öskjuvatn og Dyngjufjöll í kring. Askja er eldstöð norðan Vatnajökuls, í Ódáðahrauni á hálendi Íslands. Umhverfis Öskju eru Dyngjufjöll, en skarð er í gegnum fjöllin til austurs, sem kallast Öskjuop. Askja var nánast óþekkt eldstöð þangað til gífurlegt eldgos hófst þar 29. mars 1875. Gos þetta nefnist Öskjugosið 1875, eða "Dyngjufjallagos". Öskufall frá gosinu hafði mikil áhrif á Austurlandi og átti sinn þátt í því að stór hópur fólks flutti þaðan til Vesturheims. Eftir að gosinu lauk varð mikið landsig í Öskju, og myndaðist þá Öskjuvatn. Á austurbakka Öskjuvatns er gígurinn Víti, og er talið að askan í gosinu 1875 hafi komið þar upp. Í tengslum við Öskjugosið 1875 varð einnig hraungos í Sveinagjá á Mývatnsöræfum, og rann þá Nýjahraun. Askja gaus síðast árið 1961. Goð. Goð er yfirnáttúruleg, guðleg vera, sem oft er talin búa yfir umtalsverðum kröftum, og er dýrkuð og virt af hópum manna. Þeir hópar sem dýrka tiltekin goð trúa því yfirleitt að þau séu til, en aðrir trúa því yfirleitt ekki. Í íslensku getur goð átt sérstaklega við um æsi, en einnig er orðið notað almennt um yfirskilvitlegar verur sem fylgismenn ýmissa fjölgyðistrúarbragða trúa á. Goð geta tekið á sig ýmsar myndir, en oft líkjast þau annað hvort mönnum eða dýrum. Í sumum trúarbrögðum telst það guðlast að gera myndir af goðum, eða jafnvel að ætla goðunum tiltekna ásýnd. Yfirleitt eru goð talin ódauðleg. Þau eru einnig oft talin búa yfir tilteknum persónueinkennum, svo sem meðvitund, greind, löngunum og tilfinningum, ekki ósvipað mönnum. Oft eru goðin talin bera ábyrð á ýmsum náttúrufyrirbrigðum, svo sem eldingum, flóðum og jarðskjálftum, og þau eru stundum talin geta gert kraftaverk. Kraftar goðanna eru þó ærið misjafnir, sum goð eru talin ráða tíma og rúmi, og hafa jafnvel skapað heiminn, á meðan önnur eru talin hafa litla krafta umfram menn. Sertã. Sertã er borg og kirkjusókn í Portúgal. Hún er 180 kílómetra fyrir norðaustan Lissabon, heildarflatarmál sóknarinnar er 453,13 km² og íbúafjöldi árið 2001 var 16.720. Skógarfura. Skógarfura (fræðiheiti: "Pinus sylvestris") er barrtré af þallarætt. Tegundin er útbreidd um stóran hluta Norður-Evrópu og Síberíu austur til Mongólíu. Skógarfura er eina upprunalega barrtré Norður-Evrópu og myndaði mikla skóga í álfunni á öldum áður. Tegundin er hins vegar útdauð mjög víða vegna skógeyðingar af manna völdum. Skógarfuran er einkennistré Skotlands vegna þess hve ráðandi hún var í hinu upprunalega skoska skóglendi sem síðar eyddist að mestu og þekur í dag aðeins 1% landsins. Skógarfura á Íslandi. Skógarfuran náði nokkurri útbreiðslu á Íslandi vegna skógræktar. Hins vegar minnkaði notkun hennar í skógrækt hérlendis upp úr 1960 vegna lúsafaraldrar sem herjaði einkum á hana. Jarðkeppur. Jarðkeppur eða truffla er heiti á flokki ætisveppa af ættkvíslinni "Tuber". Jarðkeppur myndar harðan kúlulaga svepp neðanjarðar um 5 til 40 sm undir yfirborðinu. Þeir lifa samlífi með rótum trjáa, einkum eikartrjáa. Jarðkeppir eru mjög bragðmiklir og hafa einkennandi bragð sem gerir þá mjög eftirsótta í matargerð. Langmest af heimsframleiðslu á jarðkeppum kemur frá Evrópu, einkum Frakklandi, Spáni og Ítalíu. Svartkeppur (eða kúlusveppur'") ("Tuber melanosporum") er trufflutegund sem er oft tengd Périgord-héraðinu í Frakklandi og er að finna víða þar sem vex eik. Ætisveppir. Ætisveppir eru sveppir sem algengt er að nota í matargerð. Hugtakið á þannig hvorki við um skaðlega eitursveppi né skaðlausa en bragðvonda sveppi. Sumir sveppir eru eitraðir ef ekki er farið rétt að við meðferð þeirra og matreiðslu. Í flestum tilvikum er það diskhirslan sem étin er af sveppnum. Hinn eiginlegi sveppur lifir neðanjarðar og getur verið mörg hundruð metrar í þvermál. Rauðgreni. Rauðgreni (fræðiheiti: "Picea abies") er sígrænt barrtré af þallarætt. Fullvaxið tré nær 35-55 m hæð og 1-1,5 m þvermál stofns. Barrið er nálarlaga, ferkantað með frekar vandséðum varaopslínum á öllum köntum. Rauðgreni hefur mikið útbreiðslusvæði eða allt frá nyrðri heimskautsbaugi í Noregi suður til norð-austurhluta Póllands og austur til Úralfjalla, einnig vex hún hátt til fjalla í Mið-Evrópu. Eins og aðrar tegundir grenis er rauðgrenið langlíft og getur náð um 1000 ára aldri. Nytjar. Rauðgreni er mikið notað í skógrækt og í framleiðslu timburs og pappírs. Það er einnig notað sem jólatré. Kólfsveppir. Kólfsveppir eða basíðusveppir (fræðiheiti: "Basidiomycota") eru stór skipting sveppa sem eru með kólflaga gróstilk. Kólfsveppir telja um 22.300 tegundir eða 37% af þekktum sveppategundum. Skiptingin er nú talin skiptast í þrjár meginhópa: beðsveppi ("Hymenomycotina"), "Ustilaginomycotina" (m.a. sótsveppir) og "Teliomycotina" (m.a. ryðsveppir). Tvíkímblöðungar. Tvíkímblöðungar (fræðiheiti: "Dicotyledonae" eða "Magnoliopsida") eru flokkur dulfrævinga sem einkennist af því að fræ þeirra innihalda tvö kímblöð. Flokkurinn telur 199.350 tegundir. Aðrir dulfrævingar eru magnólítar og einkímblöðungar, en erfðafræðirannsóknir hafa þó sýnt fram á að einkímblöðungar hafa þróast út frá tvíkímblöðungum. Hin hefðbundna skipting milli einkímblöðunga og tvíkímblöðunga hefur því verið á undanhaldi. Stefán Björnsson reiknimeistari. Stefán Björnsson var íslenskur stærðfræðingur. Helsta ritverk hans er bókin "Introductio in tetragonometriam" () frá 1780 sem er fyrsta bók eftir íslenskan höfund um æðri stærðfræði. Hann fæddist 15. janúar 1721 (eða 1720) á Ystugrund í Skagafirði og lést 15. október 1798 í Kaupmannahöfn. Foreldrar hans voru Björn Skúlason prestur í Flugumýrarþingum og Halldóra Stefánsdóttir lögréttumanns Rafnssonar. Stefán stundaði nám í Hólaskóla og Hafnarskóla og lauk cand. theol.-prófi árið 1747. Hann tók við starfi rektors á Hólum 1753 en fór þaðan þegar missætti kom upp milli hans og Jóns Magnússonar stiftprófasts, bróður Skúla fógeta. Stefán fluttist þá til Kaupmannahafnar og settist þar aftur á skólabekk. Sefán lauk prófi (baccalaureus philosophiæ) árið 1757 og varð nokkrum árum síðar reiknimeistari (Kalkulator) hjá landmælingadeild danska Vísindafélagsins og starfaði þar í rúma tvo áratugi. Eftir að hann lét af störfum hjá Vísindafélaginu vann hann fyrir sér við þýðingar á íslenskum fornritum á latínu. Hann var einnig um skeið styrkþegi sjóðs Árna Magnússonar. Stefán Björnsson var ókvæntur og barnlaus. Ritstörf. Stefán er höfundur fjögurra prentaðra háskólafyrirlestra á latínu um heimspeki og stjörnufræði (frá árunum 1757-­60) og prentaðrar bókar Introductio in tetragonometriam á latínu um stærðfræðilega eiginleika ferhyrninga. Hann sá einnig um fyrstu fræðilegu útgáfuna á Rímbeglu, hinni fornu ritgerð um tímatal og stjarnvísi og ritaði formála og ítarlegar skýringar. Einnig þýddi hann Hervararsögu og Heiðreks á latínu og kom hún út árið 1785. Á árunum 1782-­90 skrifaði hann sex greinar í rit Lærdómslistafélagsins um aflfræði og hagnýtingu hennar. Hann skrifaði einnig um alþýðlegar veðurspár og frumatriði landmælinga. Árið 1793 hlaut Stefán gullverðlaun Hafnarháskóla í stærðfræði og varð fyrstur Íslendinga til að hljóta þau verðlaun. Aðeins þrír aðrir Íslendingar hafa fengið þau verðlaun en það eru stærðfræðingarnir Björn Gunnlaugsson (1818 og 1820), Ólafur Dan Daníelsson (1901) og Sigurður Helgason(1951). Stefán flutti fjóra fyrirlestra skömmu eftir að hann lauk stærðfræðinámi og voru þeir gefnir út. Tveir eru um heimspekilegt efni, "De essentia consecutiva" ("Um afleitt eðli"), sem út kom 1757, og "Dissertatio spectans ad physicam coelestem" ("Um eðli himintungla") frá árinu 1760 en þar færir Stefán meðal annars rök fyrir vitsmunalífi á öðrum hnöttum og styðst þar mjög við hugmyndir heimspekingsins Leibniz um hinn besta og fullkomnasta heim allra hugsanlegra heima. Hinir fyrirlestrarnir tveir fjalla um efni úr stjörnufræði. Í "De effectu cometarum" ("Um verkan halastjarna") frá 1758 er fjallað um þyngdaráhrif halastjarna á sólina og aðra hnetti sólkerfisins, sjávarfallahrif af völdum halastjarna og önnur skyld efni. Í "De usu astronomiae in medicina" ("Um gagnsemi stjörnufræði í læknislist") frá 1759 fjallar um hvernig sólarljós fellur á jörðina og aðra hnetti sólkerfisins og varmaáhrif sólarinnar á jörðina og hugsanleg segulhrif í sólkerfinu. Í bók Stefáns frá 1780, "Introductio in tetragonometriam" ("Inngangi að ferhyrningafræði") er stærðfræðileg umfjöllun um rúmfræðilega og hornafræðilega eiginleika ferhyrninga. Heimild. Grein í menningarblaði Morgunblaðsins 17. október 1998 Æri Tobbi. Æri Tobbi er skáld frá 17. öld, fæddur árið 1600. Hann hét réttu nafni Þorbjörn Þórðarson. Um ævi hans og búsetu er fátt vitað, en hann virðist hafa dvalist mest sunnanlands og vestan og starfað að járnsmíðum. Talsvert hefur varðveist af undarlegum vísum og kviðlingum eftir hann. Hér er eitt dæmi. Surtarbrandur. Surtarbrandur (öðru nafni mókol eða brúnkol) eru samanpressaðar plöntuleifar og er svartleitur eða dökkbrúnn. Elsti hluti berggrunnsins á Íslandi er byggður upp af hraunlögum frá tertíertímabilinu og á mörkum þeirra finnast sums staðar surtarbrandslög. Útflattir trábolir í surtarbrandslögum kallast viðarbrandur. Surtarbrandur er fremur lélegt eldsneyti miðað við erlend brúnkol og er það vegna þess að í honum er mikið af eldfjallaösku. Munur á steinkolum og brúnkolum felst í hlutfalli kolefnis. Viður er 50% kolefni. Fyrsta stig steinkolamyndunar er mór, með um 60% kolefni. Þegar mórinn grefst undir fargi jarðlaga verða efnahvörf þar sem mikill hluti vatns, súrefnis, köfnunarefnis og annarra efna hverfa brott og mórinn ummyndast í brúnkol sem hafa 70% hlutfall kolefnis. Í steinkolum er 80% hlutfall kolefnis. Surtarbrandur er oftast flokkaður í þrjár gerðir: 1) viðarbrand sem myndaður er úr trjástofnum og greinum og þar sem viðargerð hefur varðveist þó stofnar hafi flatist vegna jarðlagafargs, 2) steinbrand sem er úr smágerðum jurtaleifum, oftast lagskiptur, þéttur og stökkur og 3) leirbrand sem er dökkur eða svartur leir sem hefur tekið í sig kolakennd efni. Í fyrri heimsstyrjöldinni var surtarbrandur var unninn á nokkrum stöðum á Íslandi til dæmis í Bolungarvík, Botni í Súgandafirði, Tungubökkum á Tjörnesi og Jökulbotnum í Reyðarfirði. Ruslakeppur. Ruslakeppur eða ruslabaggi er matur sem gerður var á Íslandi fyrr á tímum. Hann er búinn til úr ýmsu smálegu innan úr sauðkindum sem ekki var notað í aðra matargerð og er löngu hætt að hirða, eins og til dæmis brisinu, kirtlum, lakanum, görnum, milta og fleiru. Þetta var sett innan í þind og hún saumuð saman. Ruslakeppur var yfirleitt ætlaður hundum, en fólk brá stundum á það ráð að borða ruslabagga ef sultur svarf að. Sviðlingur. Sviðlingur er nafn á mat sem etinn var á Íslandi fyrr á tímum og er hann gott dæmi um nýtni fólks og matargerð á fyrri öldum. Þegar vanfær urta veiddist (en reynt var að forðast að veiða slíkan sel) var ófæddi kópurinn tekinn innan úr henni og síðan sviðinn í heilu lagi. Var síðan tekið innan úr honum og hann soðinn og súrsaður og síðan etinn. Mór. Mór (sumstaðar nefndur svörður) er samanpressaðar plöntuleifar. Mór verður til í vatnsósa jarðvegi þar sem súrefni ekki til staðar og rotnun því hæg. Í mómýrum hleðst upp kolefnisríkur mór. Kolefnisinnihald mós er 60%. Mómýrar eru algengastar í köldu og röku loftslagi og þekja stór svæði á Norðurslóðum. Í mómýrum er meirihluti kolefnis í jarðvegi heimsins og meira en samanlagt kolefni í gróðri og þurrlendisjarðvegi. Mór er mjúkt efni og auðvelt er að pressa vatn úr mó. Þurrkaðan mó má nota sem eldsneyti og til eldunar og var það algengt á skóglausum svæðum svo sem í Írlandi, Íslandi og Skotlandi. Einnig tíðkast að plægja mó saman við jarðveg til að auka magn næringarefna. Mikil eldhætta getur stafað af mó því mór brennur alveg þangað til allt súrefni er þorrið. Mór var notaður til eldsneytis. Venjan á Íslandi var sú að taka mó úr sérstökum mógröfum sem höfðu ákveðna stærð sem greiðslan til landeigenda var miðuð við. Voru mógrafir oftast 6x6 fet eða 6x12 fet og var það kölluð heilgröf. Stungnir voru upp hnausar sem hlaðið var upp í hrauk þar sem vatnið seig úr honum. Síðan var hann fluttur á þurrkvöll þar sem hann var klofinn í skánir og þurrkaður. Síðan var mórinn aftur settur í hlaða og tyrft yfir. Hann var svo sóttur að vetrarlagi, einn og einn poki eða á sleða. Bakkarnir á mógröfunum voru venjulega brotnir niður að lokum til að ekki safnaðist vatn í mógrafirnar og skepnur og fólk gæti farið sér þar að voða. Hætt var að taka upp mó á Íslandi víðast hvar í kringum miðja 20. öldina. Verkfæri sem notað var til að leita að heppilegum stað til að taka mó var svokallaður mónafar, bor sem tók jarðvegssýni. Mómýrar virðast hafa tengst trúarathöfnum á bronsöld og steinöld og fundist hafa afar vel varðveittar líkamsleifar manna sem fórnað hefur verið í mómýrum t.d. Tollund maðurinn í Danmörku. Úr mómýrum var unninn mýrarrauði sem notaður var í sverð og herklæði Víkinga. Fenjasvæði úr mó við strönd Malasíu er eins konar náttúruleg vatnsjöfnun þannig að mórinn drekkur í sig vatn og kemur þannig í veg fyrir flóð. Það virkar hins vegar aðeins ef landið er vaxið skógi því skógurinn hindrar að mórinnn brenni. Mór er mikilvægt hráefni í garðyrkju og notaður við lyfjagerð m.a. til síugerðar. Mór er einnig stundum notaður í fiskeldi. Mór litar oft vatn gult eða brúnt. Beitarhús. Beitarhús eru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum, einkum norðanlands og austan. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni var að dreifa beitarálaginu. Beitarhús stóðu víða við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit og rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna. Kaldakinn. Horft til suðausturs eftir Út-Kinn Kaldakinn kallast landssvæðið sem nær frá bænum Krossi í mynni Ljósavatnsskarðs og norður í Bjargarkrók við botn Skjálfanda. Svæðið afmarkast af Skjálfandafljóti að austanverðu og Kinnarfjöllum að vestanverðu. Norðurhluti svæðisins einkennist af mýrlendi, sem hefur að stórum hluta verið þurrkað til túnræktar, og liggur frá bökkum Skjálfandafljóts upp að hlíðum Kinnarfjalla, sem rísa allbrött upp frá flatlendinu. Flatlendið er mjög misbreitt, allt frá nokkrum kílómetrum niður í nokkra tugi metra frá árbakkanum upp að fjallshlíðinni. Þetta svæði er kallað Út-Kinn en syðri hlutinn er kallaður Suðurkinn og er að mestu í dal sem liggur á milli syðri hluta Kinnarfjalla og Kinnarfells. Svæðið tilheyrir Þingeyjarsveit en var áður hluti af Ljósavatnshreppi. Ekki virðist það vera á hreinu hvernig á að beygja nafn svæðisins, í daglegu tali er oftast talað um Köldukinn og má af því skilja að svæðið sé kaldara en gengur og gerist. Hins vegar segja sumir að svæðið heiti Kaldakinn, þá nefnd eftir kalda, sem er orð sem notað er yfir vindstyrk. Grjúpán. Grjúpán var réttur sem hafður var til matar á Íslandi fyrr á öldum. Grjúpán var búið til úr lungum úr kindum, en þau voru hökkuð og troðið ásamt mör í langann. Þetta var síðan reykt og kallað grjúpán. Hætt var að borða lungu vegna mæðiveikinnar sem herjaði á sauðféð á Íslandi á 20. öld, en áður trúðu því margir að lungu, steikt eða soðin, sem væru étin á tóman maga væru óbrigðult ráð móti áfengissýki. Grjúpán hefur þó lengi einnig verið notað sem samheiti yfir bjúga. Mæðiveiki. a> og úr þeim teknar blóðprufur á 12-16 mánaða fresti. Mæðiveiki er smitandi sjúkdómur í sauðfé. Mæðiveiki barst til Íslands með innflutningi Karakúlfjár árið 1933 og í framhaldi af því var landinu skipt niður fjárskiptahólf með varnargirðingum sem síðan hafa einnig nýst vel í baráttunni við aðra smitsjúkdóma í skepnum eins og riðuveiki. Votamæði og þurramæði var síðan útrýmt með stórfelldum niðurskurði á fé og fjárflutningum á milli svæða. Votheysveiki. Votheysveiki eða Hvanneyrarveiki er sjúkdómur sem leggst á sauðfé. Ekki er um smitsjúkdóm að ræða heldur veldur bakterían "Listeria monocytogenes" veikinni og leggst hún á fé sem fóðrað er á lélegu votheyi eða skemmdu þurrheyi. Þegar byrjað var að gefa vothey á Hvanneyri uppúr 1930 kom veikin upp þar og var því nefnd Hvanneyrarveiki. Fjárkláði. Fjárkláði er sjúkdómur af völdum fjárkláðamítils ("Psoroptes ovis") sem leggst á sauðfé. Fjárkláðar á Íslandi. Fjárkláði hefur tvisvar sinnum borist til Íslands, 1760 og 1855, í bæði skiptin með innfluttu fé. Olli fyrri kláðinn gríðarlegu tjóni, en við honum var brugðist með niðurskurði. Var honum útrýmt fyrir árið 1780 en hann kom fyrst upp á fjárræktarbúinu á Elliðavatni við Reykjavík og barst með enskum hrútum sem komu þangað til kynbóta. 60% fjár í landinu var skorið niður og skortur varð á mjólk, kjöti og ull. Heildartala fjár í landinu var því 40 þúsund. Í seinna skiptið, fjárkláðanum síðari, kom kláðinn með enskum lömbum og tók það ný 20 ár að berjast við veikina. Miklar deilur urðu á Alþingi Íslendinga í þetta skipti um hvernig bregðast skyldi við. Kláðinn var læknaður að mestu leyti með skipulagðri böðun á sauðfé en var ekki útrýmt að fullu. Fram á síðustu ár hafa komið upp fjárkláðatilfelli. Seinni kláðafaraldurinn varð til þess að settar voru upp varnarlínur á heiðum og í byggðum og varðmenn voru í skálum allt sumarið fram að göngum og ráku frá línunum, þegar mest lét vorum um 80 manns við slíkt eftirlit í einu. Því fé sem kom af sýktum svæðum yfir varnarlínuna var lógað strax og tök voru á. Varnargirðingar sem settar voru upp árið 1937 eftir að mæðiveiki barst til landsins og skiptu því í svæði gegndu sama hlutverki. Lengstar urðu þær um 2000 kílómetra langar. Sjávarfang. Sjávarfang er allt það sem kemur úr sjónum og haft er til matar, hvort sem það er þari eða sjávardýr. Algengast er þó að nota orðið yfir fisk og skelfisk. Sjávarfang er mikilvæg uppspretta fæðu í mörgum samfélögum manna. Stórþörungar. Stórþörungar (þari) eru rauð- eða brúnleitir þörungar sem eru notaðir í matvæli eða íblöndun í matvæli. Einnig eru þeir notaðir sem áburður fyrir gróður. Smásæir þörungar. Meðal smásærra þörunga eru grænþörungar og blágrænbakteríur (áður "blágrænþörungar"). Þessir þörungar eru notaðir í heilsuvörur eins og til dæmis fæðubótarefni, snyrtivörur, lyfjavirk efni og bætiefni í matvæli eða fóður. "Spirulina" eru blágrænbakteríur. Þeir eru næringarrík fæða og innihalda meira af æskilegum næringarefnum en nokkur önnur þekkt planta, korn eða jurt. "Spirulina" hjálpar til við að vernda ónæmiskerfið, lækka kólesteról og hjálpar til við að taka upp steinefni. Þörungar sem þykkingarefni. Úr rauðþörungum ("Gelidium" og "Gracilaria" ættkvíslum) er unnið hleypiefnið agar fyrir sælgæti og önnur matvæli. Agar er einnig mikið notaður í rannsóknavörur eins og til dæmis örveruæti. Hreinsaða sykran agarósi er notuð til dæmis í rafdráttargel, frumuhjúpun og fleira. Þessi markaður er stöðugur þar sem framboð er nóg. Brúnþörungar ("Ascophyllum, Durvillaea, Ecklonia, Laminaria, Lessonia, Macrocystis") eru notaðir sem alginöt (algin) til að þykkja vatnslausnir þar sem þeir mynda stöðug hitaþolin gel með Ca++. Þeir eru til dæmis notaðir í textílprent (þykkja litalausnir), matvæli (sósur, drykki, krem, hlaup, kjötvörur), líftækni (immobilized cells), heilbrigðisiðnað (sáraumbúðir, lyfjahjúp), pappírsiðnað og fleira. Markaðurinn er mestur í textílprentun og þá aðallega í Asíu og Tyrklandi. Þörungar til manneldis. Það er aldagömul hefð í Japan, Kína og Kóreu að nýta þörunga til manneldis en þeir eru oft ríkir af steinefnum, snefilefnum og vítamínum. Sem dæmi um matvæli má nefna sushi, wasabi, nori, kombu. Söl og marinkjarni eru vel þekkt fæða hérlendis. Þörungar sem fæðubótarefni. "Arthrospira" eða spirulina eru notaðir sem uppbót fyrir vannærða. Einnig eru til gögn um það að þeir hafi veiruhemjandi og frumuhemjandi virkni en það er ekki enn fullrannsakað. "Clorella" sp eru grænþörungar og eru þeir ónæmisörvandi. "Dunaliella" sp eru einnig grænþörungar og innihalda litarefnið Beta-karotene sem er forveri A-vítamíns. "Haematococcus pluvialis" er líka grænþörungur en hann inniheldur litarefnið astaxanthin sem er notað í fiskafóður og er antioxidant. Nokkrar tegundir brúnþörunga hafa fjölsykrur sem gefa vísbendingar um ónæmiseflingu, veiruhemjandi og örveruhemjandi áhrif. Gerðar hafa verið tilraunir á Írlandi með þróun á drykkjum með þörungaextröktum. Þörungar í snyrtivörum. Rauðþörungurinn "Porphyridium" sp er með fjölsykrur með súlfathóp og hefur hann hemjandi áhrif á herpes veiruna eða frunsu eins og hún er kölluð. Þessi þörungur er ákjósanlegur í húðvörur þar sem hann er bólguhemjandi og hefur sólarvarnar og sefjandi áhrif. Einnig er hann olíukenndur og er því hentugur fyrir krem. Þessi rauðþörungur er ræktaður á þurru landi í Ísrael. Þörungar eru einnig notaðir í margt annað eins og t.d fóður (fiska, sæeyru, húsdýr), líf-eldsneyti (biodiesel, bio-oil), tilraunir (vatnshreinsun (nitursambönd og þungmálma), mengaðan jarðveg, þurrkað mjöl) og efnaverksmiðjur (framleiðsla verðmætra efna í stórþörungum, genaklónun úr örþörungum). Plöntusvif - Svifþörungar. Svif eru örsmáar lífverur sem fljóta um í höfum og vötnum. Þessar lífverur eru of smáar til að geta fært sig um set af eigin rammleik og reka því með straumum. Svif skiptist í plöntusvif, dýrasvif og bakteríusvif. Í plöntusvifi þá er hver planta aðeins ein fruma. Svifþörungar hafa auk blaðgrænu gul og brún litarefni og aðgreining í flokka er meðal annars byggð á mismunandi litarefnum. Kísilþörungar geta myndað setlög sem eru gerð úr skeljum þeirra (kísilgúr). Kísilgúr er nýttur í margs konar vörur, þar á meðal í síur, sem mjúkt slípiefni (t.d. í tannkrem), sem rakadrægt efni svo sem í kattasand og sem uppistöðuefni í dýnamíti þar sem hann er látinn draga í sig nítróglyserín. Á Bíldudal er verksmiðja sem nýtir kísilþörunga til framleiðslu á skepnufóðri. Mjólkin sem kýrnar framleiða er fyrir vikið fituríkari og próteinríkari en annars. Bráðafár. Bráðafár eða bráðapest er bráðdrepandi bakteríusjúkdómur. Veikin leggst einkum á lömb og veturgamalt sauðfé á haustin, sérstaklega þegar snöggkólnar í veðri. Bráðafár hefur verið þekkt á Íslandi frá 18. öld. Til er bóluefni við bráðafári. Orsök. Bakterían er af völdum Clostridium septique sem myndar eiturefni í meltingarfærum kindarinnar. Þetta veldur bráðum dauða. Einkenni. Veikin er mjög bráð og fara einkenni oft framhjá bændum. Kindin sýnir greinilega merki um vanlíðan, þembist upp og ef hún leggst getur hún drepist mjög fljótt. Skrokkuinn blæs upp og af honum leggur slæma lykt. Ef hann er krufinn sjá bólgur og blæðingar í vinstur. Bráðpest leggst fyrst og fremst á yngra féð, lömb, veturgamalt og einstaka eldri kindur, oft þær vænustu. Garnaveiki. Garnaveiki er sjúkdómur í sauðfé, geitum og nautgripum af völdum "Mycobacterium paratuberculosis", sem er náskyld bakteríum sem valda berklum og holdsveiki í fólki. Til er bóluefni við garnaveiki. Garnaveiki kallast einnig garnapest, flosnýrnasótt, garnaeitrun, túnveiki eða þarmalömun. Saga. Þjóðverjinn Heinrich A. Johne uppgötvaði veikina árið 1905. Veikin barst til Íslands árið 1933 með karakúlfé sem flutt var til landsins til kynbóta. Garnaveiki kom fyrst upp á Útnyrðingsstöðum í Suður-Múlasýslu árið 1938. Á 6. áratug 20. aldar fóru fram fjárskipti um nær allt land til að útrýma hinum svokölluðu karakúlsjúkdómum en ekki tókst að uppræta garnaveikinni því sýkillinn getur lifað lengi í jarðvegi, lengur en sá tími sem jarðir voru fjárlausar, og nautgripir geta borið veikina í sauðfé. Orsök. Baktería veldur sjúkdómnum en hún dreifist með saur sýktra kind. Sýkingarhættan er mest í þröngum högum eða húsum. Sauðfé og geitur geta sýnt einkenni sjúkdómsins frá 1 árs aldri en nautgripir frá 2ja ára aldri. Einkennin sjást 1-2 árum eða lengur eftir sýkingu. Einkenni. Sjúkdómurinn veldur ólæknandi bólgu í slímhúð garna og meðfylgjandi skituköstum. Kindin þrífst illa, verður sútarleg og horast niður þrátt fyrir ágætis átlyst. Það tekur hana nokkurn tíma að veslast upp og drepast. Kindur sem virðast heilbrigðar geta verið smitberar. Hraustur einstaklingur virðist stundum geta haldið aftur af sjúkdómseinkennum en aukið álag, t.d. meðganga eða léleg fóðrun leiða sjúkdómseinkenni í ljós. Aðgerðir. Garnaveiki er ólæknandi. Varnir geng henni felast í því að bólusetja öll ásetningslömb sem fyrst eftir að þau hafa verið valin. Bóluefnið inniheldur dauða garnaveikisýkla sem vekja upp mótefnamyndun hjá lambinu. Vel heppnuð bólusetning ver lambið langoftast ævilangt gegn garnaveiki. Hafi bólusetning heppnast vel skila ásetningsgimbrarnar mótefni gegn garnaveiki til væntanlegra lamba sinni með broddi en það virðist verja þau gegn smiti fram í september. Eftir það er öruggast að bólusetja sem fyrst, því frá þessum tíma eru lömbin óvarin gegn smiti alveg þar til 3-4 vikum eftir bólusetningu. Þar sem talin er hætta á garnaveikismiti er öruggast að taka lömbin sem fyrst frá fullorðnu fé og beita þeim á land sem hefur verið friðað fyrir sauðfé a.m.k. á síðastliðnu vori og forðast um megn að beita mjög þétt. Á Íslandi bera sveitarstjórnir ábyrgð á að garnaveikibólusetningar séu framkvæmdar (þar sem það á við). Lengst af sáu sérstakir bólusetningarmenn í hverri sveit um að öll ásetningslömb væru bólusett. Á síðustu árum hafa héraðsdýralæknar á hverju svæði haft alla umsjón með garnaveikibólusetningum og yfirleitt framkvæmt þær sjálfir. Vel heppnuð bólusetning skilur eftir sig bólguhnút á bólusetningarstað (gjarnan í hárlausa blettinum aftan við bóg) sem finnst oftast ævilangt. Finnist engin merki um bólgu nokkrum vikum eftir bólusetningu er öruggast að sprauta lambið aftur. Útbreiðsla á Íslandi. Garnaveiki er nokkuð útbreidd um landið en þó hefur sumstaðar tekist að útrýma henni og annars staðar hefur hún aldrei komið upp. Þar sem lítil sem engin hætta er talin á garnaveiki, eru ásetningslömb ekki bólusett. Þau svæði þar sem ásetningslömb eru nú ekki bólusett gegn garnaveiki eru eftirtalin: Vestfjarðakjálkinn allur, Miðfjarðarhólf, Norðurland austan Skjálfandafljóts, Austurland allt að Berufirði og Suðurland frá Jökulsá á Breiðamerkursandi að Markarfljóti. Annarsstaðar eru ásetningslömb bólusett. Garnaveiki eru einna útbreiddust í Árnessýslu, Borgarfirði, einkum norðan Hvítár allt vestur í Kolbeinsstaðahrepp og í Skagafirði. Höfuðsótt. Höfuðsótt eða sullaveiki er sjúkdómur í sauðfé sem var mjög algengur fyrr á öldum. Höfuðsótt stafaði af því að kindin át egg höfuðsóttarbandormsins og lirfan úr egginu gróf sér síðan leið úr úr meltingafærum kindarinnar í heila hennar. Þar bjó hún um sig og varð að vökvafylltri blöðru sem nefnist sullur. Ormurinn lifði annars í þörmum hunda og þeir urðu að komast í sull í kind til að viðhalda hringrásinni. Á Íslandi var unninn bugur á sullaveikinni með skipulagðri hundahreinsun sem sveitarfélög stóðu fyrir allt frá því snemma á 19. öld. Ormaveiki. Ormaveiki er sýking af völdum ýmissa tegunda bandorma, flatorma eða þráðorma. Húsdýr jafnt og villtar tegundir geta verið haldnar ormaveiki, og er maðurinn engin undantekning. Á Íslandi hefur ormaveiki oft gert usla í sauðfjárræktinni. Þannig valda iðraormar skitupest sem magnast þegar fé er illa fóðrað. Ormalyf gegn þeim kom til sögunnar á fjórða áratug 20. aldar. Lungnaormar valda hins vegar vanþrifum í fé. Ormalyf eru einnig notuð gegn þeim. Sem dæmi um sýkil má nefna sullaveikibandorminn. Hamrarnir. Hamrarnir eru íþróttafélag frá Akureyri. Liðið var upphaflega stofnað 29. desember 2001 af fjölmörgum félögum í framhaldsskólunum á Akureyri. 30. október árið 2005 var félagið formlega stofnað og tók sumarið 2006 þátt í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í fyrsta skiptið. Árangur liðsins var ekki góður á fyrsta ári þess í 3. deildinni. Liðið sigraði aðeins einn leik, gerði eitt jafntefli en tapaði tíu leikjum og endaði í neðsta sæti D-riðils. Hamrarnir tóku þátt í VISA-bikarkeppninni féll félagið út í fyrstu umferð í fyrsta alvöru keppnisleik liðsins. Markahæsti leikmaður liðsins var Gunnar Þórir Björnsson með fjögur mörk. Á lokahófi félagsins var varnarmaðurinn Magnús Stefánsson valinn besti leikmaður tímabilsins. Þjálfari var Einar Sigtryggsson. Miklar breytingar urðu á liði Hamranna eftir fyrsta tímabil félagsins. Stefán Rúnar Árnason tók við stjórn Hamranna og sankaði félagið að sér nýjum leikmönnum flesta frá KA og árangur liðsins bættist til muna. Liðið sigraði sex leiki, gerði tvo jafntefli og tapaði fjórum leikjum og enduðu í 3.sæti D-riðils með 20 stig og markatöluna 37-25. Hamrarnir tóku einnig þátt í VISA-bikar keppni karla og komust í 2. umferð eftir að hafa unnið Snört í forkeppni og Hvöt í fyrstu umferð. Bjarni Pálmason var markahæsti leikmaður liðsins með sextán mörk í ellefu deildarleikjum. Á lokahófi félagsins var Bjarni síðan einnig kosinn leikmaður ársins. Stofnuð var kvennadeild innan Hamranna árið 2007 og tók kvennalið félagsins þátt í B-riðli 1. deildar. Kvennaliðið endaði í 3.sæti og voru því eins og karlaliðið einu sæti frá því að komast í úrslitakeppni um sæti í efri deild. Liðið sigraði sex leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði fimm leikjum. Þátttakan í VISA-bikarkeppni kvenna var stutt því Hamrarnir duttu út í fyrstu umferð. Markahæst var Guðrún Soffía Viðarsdóttir með níu mörk í ellefu leikjum. Fyrir tímabilið 2008 sameinaðist liðið Vinum og spilaði liðið í B-riðli 3. deildar undir nafninu Hamrarnir/Vinir. Hamrarnir/Vinir spiluðu leiki sína í Reykjavík þetta sumarið og stóðu í lok sumarsins uppi sem 3. deildarmeistarar eftir sigur í úrslitaleik á BÍ/Bolungarvík á Ísafirði. Tímabilið 2009 voru Hamrarnir/Vinir með keppnisrétt í 2.deild en vegna manneklu og aðstöðuleysis þurfti félagið að sameinast ÍH og spila undir merkjum ÍH/HV. Endaði félagið í sjötta sæti. Á þessum tímapunkti var ljóst að ekki var mannskapur til að halda úti liði í Reykjavík undir merkjum Hamranna og spilaði ÍH því tímabilið 2010 undir sínu nafni í 2.deildinni. Hamrarnir tóku þátt eins og undanfarin ár í utandeildarkeppni KDN á Akureyri þetta sumar og stóðu uppi sem utandeildarmeistarar. Hamrarnir hafa ekki tekið þátt í móti á vegum KSÍ síðan 2009. Hamrarnir tóku þátt í utandeild HSÍ veturinn 2009/2010 í fyrsta skiptið. Hafnaði félagið í 3-4. sæti eftir að hafa tapað í framlengingu í undanúrslitum gegn ÍR sem síðan stóðu uppi sem utandeildarmeistarar. Veturinn 2010/2011 tóku Hamrarnir aftur þátt í utandeildinni og í þetta skiptið stóðu þeir uppi sem utandeildarmeistarar eftir sigur á Júmboys 27-25 eftir að hafa leitt með tíu mörkum i upphafi síðari hálfleiks. Hamrarnir tóku einnig þátt í Eimskipsbikarkeppni HSÍ og féll félagið út í 16 liða úrslitum gegn úrvalsdeildarliði Selfoss eftir að hafa slegið 1.deildarlið Fjölnis út í 32 liða úrslitum. Hamrarnir urðu Íslandsmeistarar í bandý árið 2006. Goðafræði. Goðafræði á annars vegar við samsafn munnmæla, þjóðsagna og rita sem fjalla um goð og vættir í ákveðnum trúarbrögðum og hins vegar um fræðilegar rannsóknir á slíkum heimildum. Yfirleitt fjallar goðafræði um markverða atburði og einstaklinga samkvæmt þeirri heimsmynd sem er við lýði samkvæmt trúarbrögðum þeirrar goðafræði. Slíkar frásagnir þjóna oft þeim tilgangi að útskýra upphaf heimsins, náttúrulögmálin og tiltekin náttúrufyrirbrigði. Ekki er heldur óalgengt að spáð sé fyrir um endilok heimsins og að goðafræðin segi til um hvernig lífi eftir dauðann er háttað. Af tilteknum greinum goðafræði ber helst að nefna norræna goðafræði og gríska goðafræði. Mýrarrauði. Mýrarauði er efnahvarfaset, járnoxíð með breytilegu vatnsmagni sem myndast þannig að jarðvegssýrur, einkum í mýravatni, leysa upp járnsambönd úr bergi. Þau flytjast síðan með vatni og setjast til sem mýrarauði þar sem vatnið afsýrist. Jarðefnisklumpar eða agnir úr mýrarrauða líkjast járnryði að ytra útliti og eru mógulir eða móbraunir á litinn og gjallkenndir viðkomu. Mýrarrauði myndast þegar vatn tekur í sig járn úr bergi og járnblandað vatn (mýralá) verður fyrir áhrifum frá jurtagróðri. Mýrarrauða er helst að finna í mýrum neðst í fjallshlíðum, og oft má sjá rauðabrák í mýrarflóa sem gefur til kynna að þar sé hann að finna, en slík mýri nefnist rauðamýri. Járn var unnið úr mýrarrauða með rauðablæstri allt til 1500. Rauðablástur. Rauðablástur er aðferð til að bræða járn úr mýrarrauða yfir viðarkolaglóð í sérstökum ofni. Talið er að Íslendingar hafi unnið sitt járn sjálfir þar til farið var að flytja inn ásmundarjárn um miðja 15. öld. Rauðablástur á Íslandi lagðist af þegar vinnsla járngrýtis hófst á Norðurlöndum. Rauðablástur fór þannig fram að þurrkuðum mýrarauða var blandað saman við viðarkol. Kveikt var í blöndunni í ofni og við brunann afoxaðist járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlaði niður í botn ofnsins. Viðarkol. Viðarkolagerð - stafli af trjábolum áður en tyrft er yfir. Póstkort frá 1870 Viðarkol eru kol unnin úr viði þannig að viður er settur í kolagröf, kveikt í og byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Viðarkolin voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs. Viðarkol eru notuð í svart púður. Á Íslandi var áður fyrr algengast að nota birki eða rekavið en stundum fjalldrapa til kolagerðar. Skrift. Mynd af skrifara frá miðöldum. Skrift er sú athöfn að skrá niður bókstafi í þeim tilgangi að mynda orð og setningar, eða skrá niður upplýsingar á annan hátt. Einnig á hugtakið við um þá iðju að setja saman orð og setningar í huganum í þeim tilgangi að setja á blað, sbr. að „sitja við skriftir“. Rithöfundar nota skrift til að skrá niður bókmenntir. Plótínos. Plótínos (gríska: ') (204/205 – 270) var heimspekingur í fornöld og er yfirleitt talinn vera faðir nýplatonismans. Nær allt sem vitað er um ævi hans og störf er fengið úr formála Porfyríosar að útgáfu sinni á verkum Plótínosar, "Níundunum". Rit Plótínosar um frumspeki hafa haft mikil áhrif á kristna heimspeki, heimspeki gyðinga, íslamska hugsun og trúarlega dulspeki. Plótínos naut gríðarlegra vinsælda á endurreisnartímanum. Porfyríos. Porfyríos (gríska: ', fæddur Malkos, um 232 – um 304) var nýplatonskur heimspekingur og nemandi Plótínosar. Próklos. Próklos (8. febrúar 412 – 17. apríl 485), var forngrískur heimspekingur og nýplatonisti. Hann var einn síðasti áhrifamikli forngríski hugsuðurinn. Próklos setti fram eina flóknustu og þróuðustu útgáfu nýplatonskrar heimspeki. Hann hafði gríðarlega mikil áhrif á kristna hugsuði og íslamska hugmyndafræði. Jamblikkos. Jamblikkos (um 245 – um 325, gríska: Ιάμβλιχος) var nýplatonskur heimspekingur sem hafði mikil áhrif á þá stefnu sem nýplatonisminn tók eftir hans dag. Hans er einnig minnst fyrir athugasemdir sínar við pýþagóríska heimspeki. Empedókles. Empedókles (gríska: Εμπεδοκλής, um 490 – um 430 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá borginni Agrigentum, á Sikiley. Empedókles taldi að allt væri úr fjórum rótum, vatni, eldi, lofti og jörð og stjórnaðist af tveimur andstæðum öflum, ást og hatri sem væru sameinandi og sundrandi öfl. Lítið er varðveitt af ritum Empedóklesar og vitneskja okkar um heimspeki hans er að verulegu leyti komin úr ritum yngri höfunda. Rökfræðileg raunhyggja. Rökfræðileg raunhyggja var heimspekistefna á fyrri hluta 20. aldar sem sameinaði framstefnu („pósitívisma“) — sem segir að einungis vísindaleg þekking sé réttnefnd þekking — eða raunhyggju — sem segir að reynsla sé uppspretta allrar þekkingar — og apriorisma, þ.e. þá hugmynd að ákveðna þekkingu, svo sem þekkingu í stærðfræði eða rökfræði, sé hægt að öðlast óháð reynslu. Rökfræðilegir raunhyggjumenn höfnuðu allri frumspeki og ýmsum gátum heimspekinnar og héldu því fram að fullyrðingar um frumspeki, trúarbrögð og siðfræði væru merkingarlausar og væru því ekkert annað en yfirlýsingar um tilfinningar, vonir, ótta og langanir. Einungis fullyrðingar sem hægt væri að sannreyna, ásamt fullyrðingum um stærðfræði og rökfræði, hefðu merkingu. Uppruna rökfræðilegrar raunhyggju má rekja til Vínarhringsins á 3. áratug 20. aldar. Helstu heimspekingar Vínarhringsins og rökfræðilegrar raunhyggju voru Rudolf Carnap, Otto Neurath, Moritz Schlick, Carl Hempel, Herbert Feigl, Hans Reichenbach og Alfred Jules Ayer. Sortuhnuðla. Sortuhnuðla eða svartskupla (fræðiheiti: "Helvella lacunosa") er ætisveppur af skiptingu asksveppa. Sveppurinn er mjög óreglulegur eða knipplaður, dökkgrár eða svartur og holdið þunnt og fölgrátt. Hann verður allt að 8 sm langur og 5 sm breiður. Hann vex í skógarbotnum þar sem sól nær að skína. Sortuhnuðla er eitruð hrá og því þarf að sjóða hana vel fyrir neyslu og henda soðinu. Gilbert Ryle. Gilbert Ryle (19. ágúst 1900 – 6. október 1976) var breskur heimspekingur og einn af fulltrúum þeirrar kynslóðar breskra heimspekinga sem kenndir voru við hversdagsmál og voru undir áhrifum frá Ludwig Wittgenstein. Ryle er einkum þekktur fyrir gagnrýni sína á cartesíska tvíhyggju. Hann bjó til hugtakið „draugurinn í vélinni“. Hann kenndi sumar hugmyndir sínar við atferlishyggju (sem ætti ekki að rugla saman við atferlishyggju í sálfræði). Hann var fæddur í Brighton á Englandi árið 1900 og var menntaður í Brighton College, líkt og bræður hans John og George. Hann vann fyrir leyniþjónustu hersins í síðari heimsstyrjöldinni en varð Wayneflete-prófessor í frumspekilegri heimspeki við Oxford háskóla að stríðinu loknu. Meginrit hans var "The Concept of Mind" sem kom út árið 1949. Tengill. Ryle, Gilbert Ryle, Gilbert Kantarella. Kantarella (fræðiheiti: "Cantharellus cibarius") er ætisveppur af skiptingu kólfsveppa sem myndar svepparót með ýmsum tegundum trjáa og finnst bæði í lauf- og barrskógum. Hann er mjög eftirstóttur matsveppur vegna bragðsins. Vegna þess hve hann er sérkennilegur í útliti er erfitt að rugla honum saman við aðrar (eitraðar) tegundir. Gilsfjörður. Gilsfjörður er fjörður sem skilur milli Vestfjarða og Vesturlands við norðanverðan botn Breiðarfjarðar. Hann gengur til austurs inn úr Breiðafirði og nær til Akureyja milli Tjaldaness og Króksfjarðarness. Á háfjöru myndast miklar leirur í firðinum með ál í miðju. Fuglalíf er mikið. Brú var sett yfir Gilsfjörð árið 1997 og stytti hún leiðina milli sunnanverðra Vestfjarða og Vesturlands um 14 km. Vegur sem lagður var við mynni Gilsfjarðar í tengslum við brúna breytti firðinum í sjávarlón. Lónið er 33 ferkílómetrar. Við sunnanverðan Gilsfjörð gengur Ólafsdalur inn í landið til suðausturs. Þar stofnaði Torfi Bjarnason fyrsta búnaðarskólann á Íslandi, Búnaðarskóla Vesturamtsins, árið 1880 og starfaði hann til ársins 1907. Upp úr botni fjarðarins liggur vegur um Steinadalsheiði yfir í Kollafjörð á Ströndum. Hann er aðeins opinn á sumrin en var aðalleiðin til Hólmavíkur og Stranda á árabilinu 1933-1948. Líkt og margir firðir aðrir er Gilsfjörður sagður hafa fengið nafn af þeim er þar nam land en það var Gils, sem tíðum var kallaður skeiðarnef og bjó á Kleifum. Þverstæður Zenons. Þverstæður Zenons eru þverstæður sem Zenon frá Eleu samdi til stuðnings kenningu Parmenídesar kennara síns um að „allt sé eitt“ og að andstætt því sem skynreynslan kennir okkur sé trú á margbreytileika heimsins röng og að hreyfing sé ekkert annað en tálsýn. Margar af þverstæðum Zenons eru jafngildar hver annarri. Átta eru þekktar og varðveittar í ritum Aristótelesar. Þrjár frægustu þverstæðurnar nefnast "Akkilles og skjaldbakan", "tvískiptingin" og "örin". Þverstæður Zenons eru ef til vill elstu dæmin um óbeina sönnun eða niðursöllun í fáránleika ("reductio ad absurdum"). Zenon reyndi að sýna að hversdagslegar hugmyndir okkar um hreyfingu og breytingu séu fáránlegar og hljóti þess vegna að vera rangar. Þær eru einnig taldar mikilvægur forveri sókratísku aðferðarinnar. Þverstæðurnar voru teknar alvarlega sem heimspekileg vandamál í fornöld og af miðaldaheimspekingum, sem töldu að flestar lausnir sem lagðar höfðu verið til væru ófullnægjandi. Lausnir nútímamanna sem byggjast m.a. á örsmæðareikningi hafa yfirleitt þótt nægjandi að mati stærðfræðinga. Margir heimspekingar hika þó enn við að segja að fullnægjandi svar hafi fengist við öllum þverstæðunum en benda þó gjarnan á að tilraunir til þess að svara þverstæðum Zenons hafi leitt til ýmissa uppgötvana. Þverstæðurnar. right Akkilles og skjaldbakan. Í þverstæðunni um Akkilles og skjaldbökuna ímyndum við okkur að gríska hetjan Akkilles etji kapphlaup við hægfara skjaldböku. Af því að Akkilles hleypur svo hratt leyfir hann skjaldbökunni að fá dálítið forskot. Þegar hlaupið hefst hleypur Akkilles hraðar en skjaldbakan og kemst á endanum þangað sem skjaldbakan hóf hlaupið. Á þeim tíma hefur skjaldbakan náð að mjakast svolítið áfram. Akkilles þarf þá að komast þangaðtil að ná henni. En þegar hann kemst þangað hefur skjaldbakan mjakast pínulítið lengra og til þess að ná henni þarf Akkilles að hlaupa enn eina vegalengdina. Alltaf þegar Akkilles kemst þangað sem skjaldbakan var, þá hefur hún náð að mjaka sér ofurlítið lengra. Þar af leiðandi, segir Zenon, mun Akkilles aldrei ná að taka fram úr skjaldbökunni. Almenn skynsemi segir okkur að auðvitað geti sá sem hleypur hraðar tekið fram úr þeim sem hleypur hægar en samkvæmt sögunni að ofan er það ekki hægt. Tvískiptingin. Ef einhver er inni í herbergi og vill komast út þarf viðkomandi fyrst að fara hálfa leiðina að dyrunum. En áður en hann kemst þangað þarf hann að fara hálfa leiðina að miðjunni milli upphafsstaðar síns og dyranna. Og áður en viðkomandi kemst þá leið þarf hann að fara helminginn af henni. Með öðrum orðum þarf maður sem vill komast frá A til B að fara fyrst hálfa leiðina, og þar áður fjórðung hennar og þar áður einn áttunda hluta leiðarinnar og svo framvegis út í hið óendanlega. Þverstæðan sýnir, gæti Zenon sagt, að maður kemst aldrei af stað. Önnur leið til þess að setja þverstæðuna fram er á þá leið að áður en maður kemst á leiðarenda þurfi maður að fara hálfa leiðina en áður en maður kemst hinn helminginn af leiðinni þarf maður að fara helminginn honum og svo framvegis. Báðar útgáfur þverstæðunnar eru jafngildar. Þverstæðan nefnist tvískiptingin vegna þess að hún felur í sér endurtekna tvískiptingu fjarlægðar. Örin. Í örinni ímyndum við okkur ör á flugi. Á sérhverju augnabliki er örin á einhverjum tilteknum stað. En ef hún er á einhverjum tilteknum stað á því augnabliki, þá er hún kyrrstæð á því augnabliki. En það sama má segja um sérhvert augnablik í flugi örvarinnar. Hún er því kyrrstæð allan tímann. Dæmið á að sýna að hreyfing sé blekking. Fyrri þverstæðurnar tvær fela í sér skiptingu fjarlægðar en þessi þverstæða felur í sér skiptingu tímans — ekki í tímabil, heldur augnablik. Hvernig getur maður þá komist út úr herbergi? Aristóteles fjallaði um þverstæður Zenons í 6. bók "Eðlisfræðinnar". Þar neitar hann því að tíminn sé röð af ódeilanlegum „núum“ og bendir einnig á að rétt eins og skipta má fjarlægð í æ minni fjarlægðir má einnig skipta tímanum niður í æ minni tímabil og að til þess að ferðast minni fjarlægð þurfi minni tíma. Ef tími er tekinn inn í fyrri tvær þverstæðunar má sjá hvernig Akkilles getur náð skjaldbökunni og maðurinn getur komist út úr herberginu. Byrjum að skoða dæmið um manninn sem vill komast út úr herberginu. Sjá má að ef maður er á leið út úr herbergi og labbar á einhverjum ákveðnum hraða, þá má sjá að tíminn sem það tekur hann að fara hverja helminguðu vegalend verður helmingi styttri í hvert skipti sem vegalengdinni er skipt. Þó að fjöldi búta úr vegalend stefni á óendananlegt þá stefnir tíminn sem það tekur að fara hvern bút á 0. Það má því segja að það sé lítið mál að ferðast óendanlega margar vegalengdi ef tíminn sem það tekur að fara yfir hvern þeirra er núll. Þótt að tíminn sem það tekur að fara yfir vegalengd verði aldrei nákvæmlega núll þá nær maðurinn engu að síður að ferðast yfir óendanlega margar vegalengdir. Á svipaðan hátt má skipta hvaða vegalend (eða stærð) sem er í óendanlega margar smærri vegalengdir (eða stærðir). Í dæminu um Akkilles sem reynir að ná skjaldbökunni má einnig sjá að tíminn sem það tekur hann að komast á næsta punkt sem skjaldbakan hefur verið á minnkar einnig fyrir hvern punkt sem hann kemst á. Nær allar lausnir sem lagðar hafa verið til á þverstæðum Zenons hafa verið umdeildar. Heimildir og frekari fróðleikur. Sígilda umfjöllun um þverstæður Zenons er að finna í 6. "Eðlisfræðinnar" eftir Aristóteles, sem segja má að öll nútímaumfjöllun byggi á. Aðrar heimildir eru m.a. Íraksstríðið. Íraksstríðið er stríð, sem hófst þann 20. mars 2003 með innrás bandalags viljugra þjóða í Írak með Bandaríkin og Bretland í broddi fylkingar. Innan bandaríska hersins þekkist stríðið undir heitinu "Operation Iraqi Freedom" (e. „"Aðgerð Íraksfrelsi"“). Formlega stóð stríðið sjálft yfir frá 20. mars 2003 til 1. maí 2003 en þá voru allar stærri hernaðaraðgerðir sagðar yfirstaðnar. Við tók tímabil mikils óstöðugleika sjálfsmorðssprengjuárása, hermdarverka og launmorða sem margir kjósa að kalla borgarastyrjöld. Stríðinu lauk 18. desember 2011. Ástæður sem gefnar hafa verið upp til réttlætingar á stríðinu hafa verið margs konar. Kofi Annan hefur, ásamt fleiri gagnrýnendum, haldið því fram að stríðið sé ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum en ekki náðist sátt um innrásina í öryggisráði S.Þ. líkt og tilfellið hafði verið í fyrra Persaflóastríðinu. Aðdragandi. Írak var þekkt sem Mesópótamía allt fram að 1921, lengi vel var það hluti af veldi Ottóman Tyrkja sem liðaðist í sundur eftir fyrri heimstyrjöldina. Í krafti Þjóðabandalagsins var Bretum veitt umboð til þess að stjórna Írak með skilgreind landamæri sem hafa haldist. Írakar hlutu sjálfstæði og gengu inn í Þjóðabandalagið 1932. Í júlí 1958 var gerð hallarbylting í Írak og Hashimita-konungsfjölskyldunni steypt úr stóli af hernum, við tók stjórn Qassims herforingja sem átti svo í erfiðleikum með óstöðugt ástand landsins. Tíu árum síðar tók Ba’th-flokkurinn völdin og hóf Saddam Hussein þá að klífa metorðastigann allt þar til hann tók völdin 1979, sama ár og Íranska byltingin átti sér stað. Stuttu síðar hófst eitt blóðugasta og mest langvarandi stríðs 20. aldarinnar. Stríð Íraks og Írans varði í tæp 8 ár, kostaði u.þ.b. milljón manns lífið og hafði gífurlegar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir hvort ríkið. Tíundi áratugurinn. Saddam Hussein hafði ekki sagt sitt síðasta heldur réðist á Kúveit 2. ágúst 1990, hann sakaði Kúveit um að virða ekki landamæri ríkjanna og um að lækka heimsmarkaðsverð á olíu með því að auka framboð á henni og þannig viljandi minnka útflutningstekjur Íraks sem Írakar máttu ekki við að missa. Fljótlega eftir innrásina brást öryggisráð S.Þ. við með því að samþykkja efnahagsþvingarnir gegn Írak og krefjast þess að þeir drægju herlið sitt tilbaka. á eftir fylgdu ályktanir sem veittu leyfi til þess að beita öllum mögulegum ráðum til þess að framfylgja þeirri niðurstöðu. Persaflóastríðið hófst með sprengjuárásum um miðjan janúar 1991, árásir á landi fylgdu eftir 24. febrúar og lauk stríðinu með sigri aðeins þremur dögum seinna. Þá var sett á laggirnar eftirlitsteymi (UNSCOM) á vegum S.Þ. sem átti að finna og uppræta gjöreyðingarvopn (efnavopn og aðstöðu til framleiðslu kjarnorkuvopna) og efnahagsþvingunum var haldið áfram. Fimm árum seinna, 9. desember 1996, var Olía-fyrir-mat aðgerð S.Þ. hleypt af stokkunum samkvæmt ályktun öryggisráðsins. Áætlunin var ákveðin málamiðlun á þeim efnahagsþvingunum sem settar höfðu verið á allan inn- og útflutning um landamæri Íraks. Áætlunin var í gildi allt fram að innrásinni 2003, hún hleypti lífi í veikan efnahag landsins því að bágt ástand á innviðum þess (opinber þjónusta s.s. vegir, hiti, rafmagn, heilbrigðisþjónusta, o.s.frv.) setti miklar takmarkanir á getu og skipan atvinnumarkaðarins. Í janúar 1998 skrifuðu 18 meðlimir bandarísku hugveitunnar "Project for a New American Century" (PNAC) undir bréf sem þeir sendu til Clintons bandaríkjaforseta. Í bréfinu er Hussein sagður vera ógn við öryggi í heiminum og að efst á forgangslista bandarískrar utanríkisstefnu þurfi að vera það takmark að ryðja honum úr vegi. Af þeim 18 sem skrifuðu undir bréfið hafa 11 meðlimir PNAC hafa komist til valda eftir að Bush var kjörinn forseti, þeirra á meðal ber helst að nefna Richard Cheney, varaforseta, Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, Paul Wolfowitz fyrrverandi varnarmálaráðherra og núverandi bankastjóri Alþjóðabankans og John Bolton sendiherra hjá S.Þ. Undir lok ársins 1998 var komið í óefni. Vopnaeftirlitsmenn UNSCOM fengu ekki aðgang að ýmsum aðalbyggingum tengdum forsetanum og Ba'th-stjórnarflokknum og þeir kvörtuðu undan afskiptasemi Íraka og vélabrögðum ýmiss konar. Öryggisráð S.Þ. hafði samþykkt alls 13 ályktanir þar sem Írökum var gert að sýna fullkomnan samstarfsvilja. Bill Clinton fyrirskipaði loftárásir með aðgerð sem nefnd var Eyðimerkur-Refur. Næsta ár var nýtt vopnaeftirlitsteymi (UNMOVIC) sett saman sem Hans Blix var í forsvari fyrir. Írakar hleyptu þeim þó ekki inn í landið fyrr en í nóvember 2002. Eftir 11. september. Mánuði eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 réðust hersveitir NATO á Afganistan einnig undir forystu Bandaríkjanna og Bretlands í þeim tilgangi að hafa uppi á Osama bin Laden og koma talibönum frá valdi og koma þannig í veg fyrir að í landinu yrðu þjálfaðir hryðjuverkamenn. Skemmst er frá því að segja að bin Laden fannst ekki og brátt beindust sjónir manna að Írak. Eins og áður sagði hafði vopnaeftirlitsteymi S.Þ. verið hleypt aftur inn Írak í nóvember 2002, eftir að öryggisráð S.Þ. veitti Írökum "síðustu forvöð" til þess að verða við kröfum um afvopnun og fulla samvinnu. Í mars 2003 hafði ekki náðst sátt meðal stórveldanna í öryggisráðinu um næstu skref. Jacques Chirac, forseti Frakklands, lét hafa eftir sér að af Írak „stæði ekki bráð ógn sem þyrfti að svara með hervaldi” og Gerhard Schröder á sömu leið en þolinmæði Bush og Blair var þrotin. Mótmæli gegn yfirvofandi stríði náðu hápunkti helgina 15.-16. febrúar 2003 þegar áætlað var að a.m.k. 10 milljón manns hefðu mótmælt á götum stórborga eins og San Francisco, London, Barcelona, Róm og víðar. Á Íslandi var mótmæltu á bilinu 500-700 manns við Lækjartorg í Reykjavík, við Ráðhústorgið á Akureyri mættu um 500 manns til þess að mótmæla, einnig var mótmælt í Ísafirði og í Snæfellsbæ. Nokkrum dögum seinna settu mótmælendur í Reykjavík upp eins konar gjörning fyrir framan Stjórnaráðið þegar þeir lögðust þar niður, ataðir út í rauðum vökva og þóttust vera dánir. Stríðið hefst. Þann 17. mars 2003 voru Saddam Hussein gefnir tveir sólarhringar til þess að gefast upp og yfirgefa landið. George Bush tilkynnti bandalag viljugra þjóða, 49 þjóðir sem studdu innrásina, oft í orði en ekki á borði, þ.á m. Ísland. Þann 20. mars 2003 hófst stríðið með loftárásum á Bagdad. Þann 9. apríl höfðu bandarískar hersveitir náð Bagdad, Kirkuk og Mosul á sitt vald. Í Bagdad hófst mikil óöld þar sem þjófar létu greipar sópa um fyrirtæki og opinberar byggingar. Í maí var efnahagsþvingunum S.Þ. lyft eftir nær 13 ár, í júlí láta synir Saddams, Uday og Qusay lífið í Mosul. Í ágúst voru gerðar bílsprengjuárásir á Jórdanska sendiráðið og höfuðstöðvar S.Þ. í Bagdad, u.þ.b. 20 manns létust og ríflega mánuði seinna eftir aðra sprengjuárás drógu S.Þ. sig frá Írak. Þann 14. desember fannst Saddam Hussein í felum nálægt heimabæ sínum Tikrit. 2004. Fyrri hluta árs 2004 bárust fréttir af pyntingum og ómannúðlegri meðferð á föngum í Abu Ghraib fangelsinu. Ljósmyndir bárust af niðurlægjandi meðferð fanga og ollu þau hörð viðbrögð í vestrænum löndum og almenningsálit og stuðningur við stríðið snarféll. Eftir málaferli var komist að þeirri niðurstöðu að í öllum tilvikum væri að ræða um misskilninga hermanna á milli um lögmæta meðferð á föngum og „nokkur rotin epli”. 24 hermönnum var refsað þ.á m. Janis Karpinski, sem var lækkuð í tign, þáverandi fangelsisstjóri. Í mars 2004 hófst atburðarás sem átti eftir að enda með einhverjum blóðugustu átökum stríðsins. Ráðist var að fjórum starfsmönnum öryggisverktakafyrirtækis á ferð um borgina Fallujah, vestan við Bagdhad. Þeir voru myrtir og limlestir á hrottafenginn hátt og bárust myndir af aðförunum til vestrænna fjölmiðla. Þá hófst umsátur um borgina og stóð fyrri hluti þess frá 4-9. apríl, að því loknu var óbreyttum borgurum leyft að flýja. Þá var samið um vopnahlé og kom það í hlut óreyndra íraskra hersveita að tryggja öryggi í borginni. Eftir sem áður var litið á Fallujah sem vígi uppreisnarmanna og hófst önnur atlaga að borginni í nóvember. Tugir sprengjuárása flugvéla og stórskotaliðs voru framkvæmdar daglega á þeim 13 dögum sem umsátrið stóð. Í júní 2004 hlaut Írak fullveldi á ný og Iyad Allawi var skipaður forsætisráðherra bráðabirgðarstjórnar. 2005. Þann 30. janúar 2005 kom að langþráðum þingskosningum til bráðabirgða. Sjítar unnu meirihluta sæta og Kúrdar komu í annað sætið. Í apríl var kúrdinn Jalal Talabani kosinn forseti af þinginu og sjítinn Ibrahim Jaafari skipaður forsætisráðherra. Í júní var Massoud Barzani skipaður forseti Kúrdistans. Í ágúst var stjórnarskránni hafnað af súnnítum, hún var svo samþykkt mánuði seinna skv. henni átti að stofna íslamskt sambandslýðveldi. Í desember var svo kosið fyrir fullt kjörtímabil, sjítar fengu meirihluta. 2006. Í júní 2006 var meintur leiðtogi al-Qaida í Írak, Abu Musab al-Zarqawi drepinn í loftárás. Mannfall. Tölur um mannfall Íraka eru á reiki en yfir fjögur þúsund bandarískir hermenn hafa fallið (mars 2008). Flestir hafa látið lífið eftir að helstu hernaðaraðgerðum lauk í maí 2003. Óháð, sjálfstæð samtök, Iraq Body Count vinna að því að safna saman tilkynningum í fjölmiðlum um mannfall og leggja þær svo saman til þess að fá grófa og ónákvæma hugmynd um mannfall Íraka. Í október 2006 kynnti teymi frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum rannsóknir sínar í breska læknatímaritinu Lancet sem sýndu að mannfall í Írak frá því að stríðið hófst af völdum (beinum sem óbeinum) stríðsátaka væru 655.000 manns. Þátttaka Íslands. Davíð Oddson, þáverandi forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra tóku ákvörðun um stuðning við afvopnun Íraks þann 18. mars 2003. Þá ákvörðun tóku þeir án samráðs við Alþingi eða utanríkismálanefnd Alþingis. En í þingskaparlögum segir að „[u]tanríkismálanefnd [skuli] vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum”. Fyrir vikið uppskáru þeir mikla gagnrýni, skoðanakannanir sýndu að ekki var stuðningur hjá almenningi fyrir innrásinni. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sögðu þingskaparlögin brotin. Í desember 2004 urðu ummæli Halldórs Ásgrímssonar í Kastljósi um að "Íraksmálið" hefði verið rætt á Alþingi og í utanríkismálanefnd til þess að Steingrímur J. efndi til umræða og sagði það vera „afar ósvífið og einfaldlega alrangt að halda því fram að uppáskrift Íslands að innrásinni í Írak án undangenginnar áyktunar, sérstakrar ályktunar í öryggisráðinu, hafi nokkurn tímann verið rædd í utanríkismálanefnd eða á Alþingi áður en nafn Íslands birtist á hinum víðfræga lista.” Í byrjun árs 2005 hafði Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, birt lögfræðiálit sitt á ákvörðuninni og sagði um orðalagið „meiri háttar utanríkismál” að það hlyti „"að ráðast af mati hverju sinni, enda verður ekki í fljótu bragði séð að neinar fastmótaðar venjur hafi skapast í því efni. Hvað sem því líður er víst að umrætt ákvæði í þingsköpum, eins og það er úr garði gert, hróflar ekki við þeirri skipan, sem ráð er fyrir gert í stjórnarskránni og lýst er hér að framan, að utanríkisráðherra og eftir atvikum aðrir ráðherrar fari með óskorað vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, hver á sínu sviði, nema því valdi séu sett skýr takmörk í stjórnarskránni eða settum lögum,… Þar með má segja að þeirri skyldu, sem fyrir er mælt í 24. gr. laga nr. 55/1991, hafi verið fullnægt af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda er þar vísað til "meiri háttar mála", en ekki "meiri háttar ákvarðana" í einstökum málum. Ekki hefur verið venja að túlka ákvæðið svo rúmt að skylt sé að bera slíkar ákvarðanir fyrir fram undir utanríkismálanefnd, t.d. hefur komið fram opinberlega að ýmsar ákvarðanir þess efnis, að Ísland lýsi yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir gegn einstökum ríkjum, hafi ekki verið bornar áður undir nefndina,"”. Svo virðist sem að afar lítið af gögnum um ákvörðun forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þannig finnist aðeins þrjú skjöl í forsætisráðuneytinu um ákvörðunina. Fleiri skjöl eru í skjalasafni utanríkisráðuneytisins en mikill hluti af því efni er aðsent en ekki frumsamin vinnuskjöl. Í september 2006 fluttu þingmenn stjórnarandstöðu, Össur Skarphéðinsson (Samfylkingin), Ögmundur Jónasson (Vinstri grænir) og Magnús Þór Hafsteinsson (Frjálsyndi flokkurinn), þingsályktunartillögu þar sem ályktað var að „fela ríkistjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsi því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.”. Síðla árs 2008, þegar rúm fimm ár voru liðin frá innrásinni, var talað um átyllur til innrásar í frétt hjá RÚV. Selfoss (foss). Selfoss er foss í Jökulsá á Fjöllum nokkur hundruð metrum sunnan við Dettifoss. Fossinn er 10 metra hár en töluvert mikið breiðari en hann er hár. Berserkjasveppur. Berserkjasveppur (fræðiheiti: "Amanita muscaria") er sveppur af ættkvísl reifasveppa. Hann hefur mjög einkennandi útlit með rauðan hatt sem hefur hvítar doppur og hvítan beinan stilk. Berserkjasveppur verður stór; hatturinn nær allt að 30 sm í þvermál. Hvítu flekkirnir á hattinum eru leifar af hvítri himnu sem þekur allan sveppinn þegar hann er mjög ungur. Berserkjaveppur er eitraður og inniheldur nokkur geðvirk efni. Sjaldgæft er að fólk deyi af neyslu hans en jafnvel lítið magn veldur meltingartruflunum, sljóleika, skapsveiflum og ofskynjunum. Magn eiturefna í sveppnum er þó mjög mismunandi eftir stöðum og árstíma. Íslenskt nafn sitt dregur af þeirri hugmynd að víkingar hafi étið sveppinn áður en þeir fóru í bardaga til að ganga berserksgang. Þessi sögn kemur fyrst fram í grein eftir sænska prestinn Samuel Ödmann árið 1784 þar sem hann reynir að útskýra berserki og berserksgang í anda upplýsingarinnar. Engar eldri heimildir geta hins vegar um slíka notkun meðal norrænna manna og verður að teljast afar ólíklegt miðað við þekkt áhrif af neyslu hans að menn hafi verið til stórræða í orrustu eftir að hafa innbyrt berserkjasvepp. Á Íslandi. Á Íslandi er berserkjasveppur algengastur á norðurlandi í Eyjafirði, við Ásbyrgi og Mývatn. Hann finnst þó mun víðar í birkiskógum og við fjalldrapa, meðal annars í Heiðmörk við Reykjavík og á Fljótsdalshéraði á austurlandi. Íslenskt heiti sitt fékk sveppurinn fyrst í kennslubók Stefáns Stefánssonar, "Plönturnar: kennslubók í grasafræði", sem kom fyrst út 1913 og er þar sagður vera erlendur sveppur. Sveppurinn fannst raunar ekki á Íslandi að neinu ráði fyrr en undir miðja 20. öld. Sem dæmi má nefna að það þótti talsvert fréttnæmt þegar tveir slíkir fundust árið 1959, annar í Vaglaskógi en hinn við Bjarkarlund í Reykhólasveit. Vallhnúfa. Vallhnúfa (fræðiheiti: "Camarophyllus pratensis") er fremur lítill ætisveppur sem vex í graslendi. Hatturinn verður allt að 7 sm breiður. Hún er ljósbrún með ljósan, fremur stuttan, staf og fanir og engan kraga. Hún er algeng um allt Ísland. Loðglætingur. Loðglætingur eða loðmylkingur (fræðiheiti: "Lactarius torminosus") er sveppur af Hnefluætt sem vex einkum í birkiskógum. Hatturinn er allt að 12 sm í þvermál, ljós með rauðbleikum hringjum og dæld í miðjunni. Hatturinn er loðinn, einkum á ungum sveppum. Stafurinn er fremur stuttur og hvítur og holdið stökkt. Ef fanirnar eru brotnar rennur úr þeim hvítur vökvi sem er mjög beiskur og veldur uppköstum þannig að þessi sveppur er aldrei borðaður hrár. Þessi vökvi gerir það líka að verkum að skordýr halda sig frá honum. Á Íslandi er þessi sveppur algengur um allt land og finnst helst í námunda við birki. Hann er matsveppur í Finnlandi og Rússlandi þar sem hann er matreiddur á ákveðinn hátt en á flestum öðrum stöðum er hann talinn eitraður. Gráknipplingur. Gráknipplingur (fræðiheiti: "Lyophyllum connatum") er ætisveppur sem vex í stórum þéttum klösum í mold og sandi á skurðbökkum, í ýmis konar uppgröftum og við rotnandi trjáboli. Kemur upp í miklu magni. Hatturinn verður allt að 8 sm í þvermál og er gráhvítur á lit. Túnætisveppur. Túnætisveppur (fræðiheiti: "Agaricus campestris") er ætisveppur sem er algengt að finna í gömlum túnum. Hann er líka fjöldaframleiddur í svepparækt. Hann er hvítur á lit og reglulegur í lögun með stuttan, breiðan staf. Ungir sveppir eru kúlulaga en hattbarðið réttir sig smám saman upp með aldrinum og verður allt að 10 sm í þvermál. Holdið er hvítt og þétt. Túnætisveppur er matreiddur bæði soðinn, steiktur og hrár. Hattsveppir. Hattsveppir (fræðiheiti: "Agaricales") eru ættbálkur kólfsveppa sem inniheldur margar af þekktustu sveppategundunum. Þeir eru líka kallaðir fansveppir þar sem þeir eru með fanir undir hattinum. Ættbálkurinn telur um 4000 tegundir, þar á meðal hinn baneitraða hvíta reifasvepp ("Amanita virosa") og matkemping ("Agaricus bisporus") sem er mjög algengur ræktaður sveppur. Pípusveppir. Pípusveppir (fræðiheiti: "boletales") eru ættbálkur kólfsveppa sem einkennist af því að gróin eru geymd í svampkenndu lagi af lóðréttum pípum undir hattinum í stað fana eða rifja. Skurðknipplingur. Skurðknipplingur (fræðiheiti: "Lyophyllum fumosum") er ætisveppur sem vex í stórum klösum í skurðbökkum og uppgröftum. Hatturinn er reykbrúnn og stafurinn og fanirnar grágul. Hatturinn er lítið hvelfdur og hattbarðið bylgjað. Hann verður allt að 12 sm í þvermál. Móætisveppur. Móætisveppur (fræðiheiti: "Agaricus arvensis") er eftirsóttur ætisveppur sem vex í graslendi og móum. Hann er hvítur eða gulhvítur á litinn og gulnar ef þrýst er á hann. Holdið er hvítt og þétt í sér. Hatturinn er kúlulaga í fyrstu en verður á endanum flatur og getur orðið 15 sm í þvermál. Lummusveppur. Lummusveppur (fræðiheiti: "Paxillus involutus") er eitraður sveppur sem til skamms tíma var þó álitinn góður matsveppur. Rannsóknir hafa leitt í ljós að eitrið safnast fyrir í líkamanum á lengri tíma og getur leitt til dauða. Þótt hann tilheyri flokki pípusveppa er hann með fanir undir hattinum. Hatturinn er fremur stór með niðurbeygðu hattbarði og dæld í miðju, og getur orðið 12 sm í þvermál, grábrúnn á litinn og dökknar við snertingu. Stafurinn er stuttur og boginn. Holdið er gult. Rauðhetta (sveppur). Rauðhetta (fræðiheiti: "Leccinum testaceoscabrum" eða "Leccinum versipelle") er eftirsóttur matsveppur en getur þó stundum valdið ofnæmi. Hann myndar svepparót með birki og fjalldrapa. Hatturinn verður allt að 20 sm breiður og er rauður eða appelsínugulur á litinn en dofnar með aldrinum. Stafurinn er langur (allt að 15 sm) og breiður og breikkar niður, hvítur á lit með svörtum doppum. Móhnefla. Móhnefla (fræðiheiti: "Russula xerampelina") er ætisveppur af hnefluætt. Stafurinn er hvítur og breiður en hatturinn dökkur. Hatturinn getur verið mjög mismunandi á litinn, allt frá dökkrauðum yfir í gulbrúnan. Holdið er stökkt. Hatturinn verður allt að 12 sm í þvermál og stafurinn allt að 8 sm langur. Hún vex í móum og skóglendi. Svepprót. Svepprót (fræðiheiti: "Mycorrhiza") er afurð af samlífi milli svepps og jurtar. Samlífið á sér stað við ræturnar þar sem einstakir sveppþræðir úr mýsli svepps leggja rætur hýsilsins undir sig. Svepprótin hjálpar hýslinum við upptöku næringarefna úr jarðveginum með því að auka mikið við rótarkerfið. Sérstaklega á þetta við um upptöku óuppleysts fosfórs. Á móti fær sveppurinn aðgang að stöðugu framboði sykra sem eru afurð ljóstillífunar plöntunnar (sveppir ljóstillífa ekki). Talið er að svepprótin geti einnig verið mikilvæg til að flytja sykrur, plöntuhormón og vítamín milli einstaklinga af ólíkum tegundum í jurtasamfélögum eins og t.d. skógi. Einnig er talið að svepprótin verji rætur plöntunnar fyrir skaðlegum sveppum. Skjálfandi. Horft vestur yfir Skjálfanda af Tjörnesi. Kinnarfjöll sjást hinu meginn við flóann Skjálfandi er flói á norðurströnd Íslands og liggur á milli Tjörness og ónefnds skaga sem er á milli Skjálfanda og Eyjafjarðar. Í flóann renna tvö stór vatnsföll, Laxá í Aðaldal sem er víðfræg laxveiðiá og Skjálfandafljót, jökulfljót sem kemur úr Vatnajökli. Á austurströnd flóans er kaupstaðurinn Húsavík en þaðan er vinsælt að fara í hvalaskoðunarferðir út á flóann enda er hvalagengd mikil þar. Við botn flóans eru miklir sandflákar en að vestanverðu gnæfa Víknafjöll, allt að 1100 metra há. Við mynni flóans að vestanverðu liggur Flatey á Skjálfanda, en þar var umtalsverð byggð. Eyjan fór í eyði árið 1967. Arctic Monkeys. Arctic Monkeys er hljómsveit sem kemur frá Sheffield á Englandi, þeir spila aðallega svokallað Indie-rokk og var stofnuð árið 2002. Frumraun þeirra, "Whatever people say I am, that's what I'm not", hefur vakið mikla athygli og seldist hann hraðar en nokkur annar diskur í Englandi frá upphafi. Diskurinn fékk Mercury-verðlaunin 2006 og einnig verðlaun fyrir besta Breska bandið á BRIT-verðlaununum árið 2006. Önnur plata Arctic Monkeys kom út 23. Apríl 2007 og heitir "Favourite Worst Nightmare". Bandið hefur sankað að sér verðlaunum frá því að fyrsta smáskífa þeirra kom út, þeir fengu til dæmis verðlaun á BRIT-award 2008 fyrir besta Breska bandið og hafa líka verið tilnefndir til Grammy-verðlauna. Fyrsta smáskífan þeirra "I Bet You Look Good on the Dancefloor" varð á toppi vinsældarlistans UK Singles Chart. Gróprent. Gróprent af sveppnum "Volvariella volvacea". Gróprent er mikilvægt greiningartæki til að greina sveppategundir. Gróprent er gert með því að skera gróhirslu sveppsins (yfirleitt hattinn) af og leggja hana á blað sem er hálft hvítt og hálft í dökkum lit (eða bara hvítt). Oft er glas lagt yfir til að sveppurinn þorni síður. Þetta er skilið eftir yfir nótt. Þegar gróhirslan er tekin upp ættu gróin að sjást greinilega á pappírnum. Litur þeirra gefur mikilvæga vísbendingu um það af hvaða tegund sveppurinn er og einnig er hægt að flytja þau yfir á glerþynnu til rannsóknar í smásjá. Æxlihnúður. Æxlihnúður sveppa eða sveppaldin er fjölfruma vefur sem heldur uppi grósekkjum eins og kólfum og öskum. Æxlihnúðurinn er hluti af æxlunarskeiði sveppa. Aðrir hlutar lífskeiðs þeirra einkennast af vexti mýslisins. Ef gróin þroskast í kólfum er æxlihnúðurinn kallaður kólfhirsla ("basidioma"), en ef þau þroskast í grósekkjum er hann kallaður askhirsla ("ascoma"). Bob Dylan. Robert Allen Zimmerman, þekktastur sem Bob Dylan (fæddur 24. maí 1941) er bandarískur tónlistarmaður. Robert Allen Zimmerman fæddist inn í gyðingafjölskyldu sem var búsett í Duluth, Minnesota. Hann breytti síðar nafni sínu í Bob Dylan. Dylan sagði frá því seinna að það hafi verið vegna áhrifa frá velska ljóðskáldinu Dylan Thomas. Bob Dylan er söngvari, tónlistarmaður, lagahöfundur og skáld. Hann hefur haft mikil áhrif á tónlist seinustu 5 áratuga. Hann er þekktur fyrir texta sína á fyrri hluta feril síns, en þeir fjölluðu flestir um stjórnmál, þjóðfélagsádeilu, sálfræði og bækur sem hafa haft áhrif á hann. Dylan kemur fram á tónleikum með gítar, munnhörpu og hljómborð ásamt ýmsum tónlistarmönnum. Hann hefur unnið sér inn fjölda verðlauna og viðurkenninga, þar á meðal nokkur Grammy verðlaun og var tekinn inn í Rock and Roll frægðarhöllina (Hall of Fame). Hann var á lista Time Magazine yfir 100 mestu áhrifavalda 20. aldarinnar. Tengill. Dylan, Bob Gróbeður. Gróbeður (latína: "hymenium") sveppa er sá hluti æxlihnúðsins þar sem frumurnar þróast í grósekki eða grókylfur sem mynda gró. Hjá sumum tegundum þróast allar frumurnar í grósekki eða grókylfur en hjá öðrum verður til nokkuð af geldfrumum. Að auki eru stundum til staðar sérstakleg áberandi geldfrumur sem nefnast þumlur. Staðsetning gróbeðsins er venjulega fyrsta einkennið sem litið er til við flokkun og greiningu sveppa. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um þær ólíku tegundir gróbeða sem finnast hjá hinum stóru kólfsveppum og asksveppum. Hjá hattsveppum er gróbeðurinn á lóðréttum hliðum fananna. Hjá pípusveppum er hann geymdur í svampkenndu lagi af lóðréttum pípum. Hjá gorkúlum er hann innvortis. Hjá bikarsveppum er hann inni í skálinni. Rotvera. Rotvera er lífvera sem fær næringu úr dauðu lífrænu efni, venjulega rotnandi plöntu- eða dýraleifum, með því að taka upp uppleysanleg efnasambönd. Þar sem rotverur geta ekki búið sér til næringu sjálfar eru þær álitnar ein gerð af ófrumbjarga lífverum. Rotverur eru margir sveppir (aðrir en samlífisverur), gerlar og frumdýr. Sveppaeitrun. Sveppaeitrun eru eitrunareinkenni sem stafa af eitruðum efnasamböndum sem er að finna í sveppum. Eitrið er aukaafurð efnaskiptaferla sveppsins. Venjulega stafar sveppaeitrun af því að einhver ruglar eitruðum svepp saman við ætisvepp og innbyrðir hann. Vegna þess hve eitursveppir líkjast oft ætisveppum stafar ruglingurinn af rangri greiningu á sveppnum. Jafnvel reynt sveppatínslufólk verður fyrir sveppaeitrun. Einkenni. Ef meðferð við eitruninni hefst fljótt er venjulega hægt að komast hjá alvarlegri einkennum, eins og dauða, ef um mjög eitraðan svepp er að ræða. Eitursveppir. Þrír banvænustu sveppirnir sem til eru eru af ættkvísl reifasveppa ("Amanita"): grænserkur ("A. phalloides"), "Amanita virosa" og "Amanita verna"; og tveir eru af ættkvísl kögursveppa ("Cortinarius"): "Cortinarius rubellus" og "Cortinarius orellanus". Þessar tegundir valda flestum dauðsföllum. Asksveppir. Asksveppir (fræðiheiti: "Ascomycota") eru sveppir sem framleiða gróin í einkennandi gróhirslum sem eru kallaðar "askar" (úr grísku: "askos", „poki“ eða „vínbelgur“) eða grósekkir. Þessi fylking taldi um 12.000 tegundir árið 1950 sem eru um 75% af öllum þekktum sveppum. Árið 2001 voru asksveppir orðnir 32.739 talsins. Til asksveppa teljast meðal annars flestir sveppir sem mynda fléttur eða skófir með þörungum og/eða blábakteríum, ásamt gersveppum, myrklum, jarðsveppum og sveppum af ættkvíslinni "Penicillium". Brúnastaðir. Brúnastaðir er bær í Flóanum sem stendur efst í Hraungerðishreppi, nú Flóahreppi, þar sem Hvítá fellur með Hestfjalli. Við bæinn rennur Flóaáveitan inn um flóðgátt aðalskurðarins og rennur vatnið um víðfeðmi Flóans. Á Brúnastöðum er blandaður búskapur og stunduð vélaútgerð. Brúnastaðir hafa alið af sér tvo alþingismenn, Ágúst Þorvaldsson og son hans Guðna Ágústsson, sem báðir voru/eru þingmenn Framsóknarflokksins. Syðri-Völlur. Syðri-Völlur er bær í Flóahreppi. Árið 2006 greindist þar riða og var það í fyrsta sinn sem riða greinist í kindum í Flóanum. Rudolf Carnap. Rudolf Carnap (18. maí 1891 í Ronsdorf, Þýskalandi – 14. september 1970 í Santa Monica í Kaliforníu) var áhrifamikill heimspekingur sem starfaði í Evrópu um miðjan 4. áratug 20. aldar og síðar í Bandaríkjunum. Hann var meðlimur í Vínarhringnum og málsvari rökfræðilegrar raunhyggju. Hann taldi að mikið af þeim vandamálum og spurningum sem heimspekingar glíma við væru í raun og veru ekki vandamál heldur afleiðing misbeitingar tungumálsins og að við gætum leyst þau á einfaldan hátt með því að sjá að við værum ekki að beina athygli okkar að réttu hlutunum. Carnap var viss um að með helsta tól heimspekinnar væri því að greina tungumálið rökrétt. Æviágrip. Rudolf Carnap var fæddur árið 1891 í Ronsdorf í Þýskalandi en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Barmen þegar hann var sjö ára eftir dauða föður síns. Hann lærði við Jena Háskóla á árunum 1910 – 1914 þar sem hann lagði stund á nám við efnafræði, stærðfræði og heimspeki. þá hafði hann sérstaklega heimspeki Immanuels Kant og fékk mikinn áhuga á kenningu hans um rúm. Hlé varð á námi hans vegna fyrri heimstyrjaldarinnar, þar sem hann stundaði herþjónustu fram til 1917. Síðan fór hann til Berlínar og nam meira í efnafræði. Upp úr 1920 fór hann að tengjast Vínarhringnum þegar hann kynntist meðal annars Hans Reichenbach sem svo kynnti hann fyrir Moritz Schlick. Hann fluttist til Vínarborgar og gerðist aðstoðarprófessor við Vínarháskóla. Hann átti eftir að verða einn af þekktari meðlimum Vínarhringsins. Carnap flutti svo til Prag í Tékkóslóvakíu og gerðist prófessor við Þýska háskólann þar en vegna seinni heimstyrjaldarinnar fluttist hann til Bandaríkjanna. Hann varð Bandarískur ríkisborgari árið 1941. Hann átti eftir að kenna við nokkra bandaríska háskóla, Chicago-háskóla, Princeton og UCLA. Rudolf Carnap átti fjögur börn frá fyrra hjónabandi sínu sem endaði með skilnaði 1929. Seinni kona Rudolf Carnap framdi sjálfsvíg árið 1964. Rudolf Carnap lést árið 1970 í Santa Monica í Kaliforníu. Heimildir. Carnap, Rudolf Carnap, Rudolf Carnap, Rudolf Carnap, Rudolf Jeremy Bentham. Jeremy Bentham (15. febrúar 1748 – 6. júní 1832) var enskur lögfræðingur, heimspekingur umbótamaður og afkastamikill rithöfundur. Faðir hans og föðurfaðir voru lögfræðingar og lögmenn (og gott ef ekki dómarar) og hann fór þessa sömu leið í menntun sinni en starfaði þó lítið sem ekkert við það þar sem hann tók stóran arf ungur og vann nær ekkert á sinni æfi. Hann var róttækur hugsuður og frumkvöðull í réttarheimspeki í hinum enskumælandi heimi. Hann er þekktastur fyrir að vera málsvari nytjastefnu í siðfræði. Bentham var nokkuð áhrifamikill hugsuður, bæði vegna eigin skrifa og ekki síður í gegnum skrif nemenda og fylgjenda sinna víða um heim. Meðal þeirra var James Mill, en sonur hans, John Stuart Mill, er frægasti málsvari nytjastefnu í siðfræði; og Robert Owen, sem varð síðar upphafsmaður sósíalisma). Bentham studdi persónufrelsi einstaklinga og athafnafrelsi og frjálst hagkerfi. Hann var einnig hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, studdi málfrelsi, jafnrétti kynjanna, réttindi dýra, afnám þrælahalds og líkamsrefsinga (einnig í uppeldi barna), réttinn til skilnaðar, frjálsa verslun og viðurkenningu samkynhneigðar. Hann reit ennfremur grein gegn skattlagningu fjármagnstekna en hvort hans persónulega staða hafi þar haft hliðrun á dóm hans skal ósagt látið. Tengill. Bentham, Jeremy Strandfura. Strandfura eða miðjarðarhafsfura (fræðiheiti: "Pinus pinaster") er fura sem vex við Miðjarðarhaf. Mýsli. Mýsli (latína: "mycelium") er sá hluti svepps sem er net sveppþráða, yfirleitt neðanjarðar, í mold eða öðru efni. Hattur og stafur svepps eru æxlihnúður vissra tegunda sveppa og bera gróhirslur þeirra. Æxlihnúðurinn er líka myndaður úr sveppþráðum en er aðgreindur frá mýslinu. Mýslið vex stöðugt áfram ár eftir ár út frá miðju þannig að eldri hlutinn deyr og mýslið myndar hring. Æxlihnúðurinn sprettur hins vegar upp úr mýslinu á nokkrum dögum eða vikum á sumri og hausti. Þar sem æxlihnúðarnir spretta í reglulegan hring er það kallað nornabaugur. Gró. Gró eru kynfrumur í kynlausri æxlun sem geta dreifst og geymst um lengri tíma við óhagstæðar umhverfisaðstæður. Þegar aðstæður eru hagstæðar geta gróin myndað nýjan einstakling með jafnskiptingu (mítósu). Gró eru hluti af lífskeiði margra jurta, þörunga, sveppa og sumra frumdýra. Sveppahattur. Sveppahattur ("pileus") er hattur á æxlihnúði ýmissa tegunda sveppa eins og hattsveppa, pípusveppa og einnig sumra sáldsveppa, gaddasveppa (eins og gulbrodda) og asksveppa. Hjá sveppum með aðrar tegundir gróhirsla eru skilin milli hattsins og afgangsins af kólfinum ekki eins greinileg. Gróhirslur með hatt eru venjulega með einhvers konar gróbeð, eins og fanir, pípur eða brodda. Gróhirsla. Gróhirsla (latína: "sporangium") er líffæri á sveppum eða jurtum sem framleiðir og geymir gró. Gróhirslur finnast hjá dulfrævingum, berfrævingum, burknum, mosa, þörungum og sveppum. Stafur (sveppur). Stafur á svepp er heiti á stilknum sem ber uppi sveppahattinn. Líkt og allir vefir sveppsins, nema vefirnir í gróbeðnum, er stafurinn gerður úr ófrjóum sveppþráðum. Kostirnir við að bera gróbeðinn uppi með staf eru þeir að með meiri hæð geta gróin dreifst lengra. Margir sveppir eru þó ekki með staf, s.s. bikarsveppir, gorkúlur og sótsveppir. Til að geta greint alla eiginleika stafsins er mikilvægt að tína sveppinn með því að losa hann eða grafa upp, en ekki skera hann. Skýringarmyndir sem sýna helstu einkenni stafsins. Ljóðlist. Ljóðlist er listgrein þar sem megináhersla er lögð á uppsetningu og hrynjandi tungumál, heldur en efnislegt innihald textans og fegurð tungumálsins getur fengið að njóta sín. Verk sem samin eru af ljóðskáldum nefnast ljóð. Ljóðlist á sér langa sögu og eldri tilraunir til skilgreiningar (t.d. í verkum Aristótelesar) fjölluðu aðallega um framburð í leikritum, sem oft voru flutt í bundnu máli. Áhersla á hrynjandi og rím óx og var mikilvægur þáttur í skilgreiningu ljóðlistar á miðöldum. Frá miðri 20. öldinni hefur skilgreiningin verið útvíkkuð talsvert og skáldskapur í óbundnu máli getur fallið undir skilgreininguna að því gefnu að áhersla sé lögð á fagurfræði málsins. Þótt skilgreiningin á ljóðum og ljóðlist hafi verið útvíkkuð í seinni tíð eru þó enn til afbrigði ljóðlistar sem lúta mjög ströngum bragfræðilegum reglum. Dæmi um það eru íslenska ferskeytlan og japanska ljóðformið haiku. Nornabaugur. Nornabaugur eru sveppir sem spretta í nokkuð reglulegum hring. Hringirnir geta verið allt að tíu metrar í þvermál og haldist ár eftir ár eftir því sem sveppurinn vex lengra út frá miðju hringsins. Þótt sýnilegir æxlihnúðar spretti ekki í hringnum getur hann samt verið greinilegur vegna annars litar eða fellis gróðurs sem er yfir hringnum. Heimspeki 17. aldar. Heimspeki 17. aldar er almennt talin marka upphaf nútímaheimspeki og endalok miðaldaheimspekinnar og skólaspekinnar enda þótt stundum séu síðustu tvær aldir þess tíma taldar marka sérstakt tímabil í sögu heimspekinnar og nefndar heimspeki endurreisnartímans. Enn fremur eru 17. og 18. öldin stundum taldar til „upplýsingartímans“ og er þá talað um heimspeki upplýsingarinnar sem tók við af heimspeki endurreisnarinnar. Yfirlit. Í sögu vestrænnar heimspeki er nútíminn oft talinn hefjast á 17. öld — nánar tiltekið með skrifum René Descartes, sem mótaði að verulegu leyti stefnu heimspekilegrar orðræðu og heimspekilega aðferðafræði. Ein meginbreytingin var fólgin í aukinni áherslu á þekkingarfræði á kostnað frumspekinnar. Tímabilið einkennist ekki síst af tilraunum til þess að setja fram heildstæð heimspekikerfi — heimspekingar reyndu að setja fram heimspekikerfi sem í senn næðu yfir þekkingarfræði, frumspeki, rökfræði og siðfræði og jafnvel stjórnspeki og náttúruvísindi einnig. þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724 – 1804) greindi forvera sína í tvær meginfylkingar: rökhyggjumenn og raunhyggjumenn. Nútímaheimspeki, einkum á 17. og 18. öld, er oft lýst sem átökum milli þessara tveggja fylkinga. Greiningin er þó einföldun og tímaskekkja að því leyti að heimspekingarnir sem um ræðir litu ekki á sig sem annaðhvort raunhyggju- eða rökhyggjumenn. Þrátt fyrir að vera ef til vill að einhverju leyti villandi hefur greiningin þótt þægileg til að lýsa áherslumun og meginviðhorfum heimspekinga á 17. og 18. öld og er enn víða notuð. Megin rökhyggjumennirnur eru venjulega taldir vera Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Wilhelm Leibniz. Megin raunhyggjumennirnir eru taldir vera John Locke, George Berkeley og David Hume en mikilvægir forverar þeirra voru Francis Bacon og Thomas Hobbes. Athygli vekur að megin rökhyggjumennirnir voru allir af meginlandi Evrópu en raunhyggjumennirnir frá enskumælandi löndum. Sumir hafa því viljað rekja rót skiptingar 20. aldar heimspeki í meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki til þessa tíma; slík söguskýring er umdeilanleg og líklega nokkur ofureinföldun, enda þótt bresk heimspekihefð hafi verið snar þáttur í rökgreiningarheimspekinni. Stundum er sagt að deilan milli rökhyggju- og raunhyggjumanna hafi snúist um tilvist „áskapaðra hugmynda“. Rökhyggjumennirnir töldu að skynsemin ein nægði, að minnsta kosti kenningu samkvæmt ef ekki í reynd, til að afla allrar þekkingar. Raunhyggjumennirnir höfnuðu þessu og töldu að öll þekking yrði til með skynreynslu. Rökhyggjumenn litu til stærfræðinnar sem fyrirmyndar þekkingar en raunhyggjumennirnir litu frekar til náttúruvísindanna. Til grundvallar greiningar Kants liggur áherslan á þekkingarfræði. Sé litið á hina ýmsu heimspekinga þessa tíma út frá frumspeki þeirra, siðfræði eða málspeki gæti skiptingin verið allt öðruvísi. Jafnvel þótt þekkingarfræðin sé lögðtil grundvallar má deila um skiptinguna: til dæmis féllust flestir rökhyggjumannanna á að í reynd yrðum við að reiða okkur á raunvísindin til að afla þekkingar á ytri heiminum; margir þeirra fengust við slíkar vísindarannsóknir. Raunhyggjumennirnir, á hinn bóginn, féllust almennt á að "a priori" þekking væri möguleg í stæðrfræði og rökfræði og af meginmálsvörum raunhyggjunnar hafði einungis Locke formlega þjálfun í raunvísindum. Stjórnspekin blómstraði einnig á þessum tíma. Thomas Hobbes gaf út ritið "Leviathan" og Locke gaf út "Tvær ritgerðir um ríkisvald" ("Two Treatises of Government"). Aðskilnaður heimspekinnar og guðfræðinnar varð endanlegur á 17. öld. Heimspekingar ræddu enn um guð — og rökstuddu jafnvel tilvist guðdómsins — en nú var rökræðan á heimspekilegum forsendum og ekki í þjónustu guðfræðinnar. Í kjölfarið minnkaði svo áhugi heimspekinga á trúarheimspeki verulega. Grókólfur. Kólfur (latína: "basidium") er örsmátt líffæri á gróbeði svepps. Kólfur er eitt af því sem einkennir kólfsveppi og er hann fruman þar sem rýriskiptingin á sér stað. Kólfurinn ber venjulega fjögur gró, hvert á sínum tindi, þótt þau geti líka verið tvö eða jafnvel átta. Kólfurinn er venjulega ein fruma en einnig koma fyrir tveggja eða fjögurra fruma kylfur, t.d. hjá ryðsveppum. Grósekkur. Grósekkur eða askur (latína: "ascus"; úr grísku: "askos") er gróhirsla asksveppa. Hver grósekkur geymir átta askgró sem orðið hafa til við mítósu í kjölfar meiósuskiptingar. Sumir grósekkir myndast í reglulegum gróbeði á æxlihnúð sem hægt er að sjá með berum augum og heitir þá sekkhirsla. Í öðrum tilfellum, eins og hjá einfruma geri, finnast engin slík form. Grósekkir sleppa venjulega grónum með því að springa. Þegar einn sekkur springur veldur það keðjuverkun þannig að allir grósekkirnir í sekkhirslunni springa á sama tíma. Miðaldaheimspeki. Miðaldaheimspeki er það tímabil í sögu vestrænnar heimspeki nefnt sem er ýmist talið ná frá upphafi miðalda til upphafs nútímaheimspeki (á 17. öld) eða fram að heimspeki endurreisnartímans (á 15. öld). Upphaf tímabilsins miðast við fall vest-rómverska ríkisins seint á 5. öld en oft er Ágústínus frá Hippó talinn fyrsti miðaldaheimspekingurinn. Meginheimspekingar miðalda. Platon, Seneca og Aristóteles í miðaldahandriti Íbyggið viðhorf. Íbyggið viðhorf er hugarástand sem tengir persónu og staðhæfingu. Íbyggin viðhorf eru stundum talin vera einfaldasta gerð hugsunar. Dæmi um íbyggin viðhorf eru skoðun eða trú, efi, löngun, von, ótti og svo framvegis. Allt eru þetta viðhorf til inntaks einhverrar staðhæfingar. Til dæmis má hugsa sér staðhæfingu eins og „Það snjóar“. Hægt er að hafa ýmiss konar viðhorf til hennar; það er hægt að trúa því að það snjói, efast um að það snjói, vona að það snjói, óttast að það snjói og svo framvegis. Venjulega eru fullyrðingar eins og þær að hugsun sé máltengd byggðar á einhverjum rökum á þá leið að íbyggin viðhorf geri ráð fyrir getunni til að skilja staðhæfingar og geri þar með ráð fyrir hugtakalegri hugsun. Staðhæfing. Í heimspeki er staðhæfing skilin sem "inntak" eða "merking" fullyrðingar en óháð tilteknum miðli, þ.e. tungumáli. Segja má að ólíkar setningar sem merkja það sama tjái sömu staðhæfinguna, það er að segja þær staðhæfa það sama um heiminn. Til dæmis staðhæfir íslenska setningin „snjór er hvítur“ það sama og enska setningin „snow is white“, þýska setningin „Schnee ist weiss“ og franska setningin „la neige est blanc“. Engu að síður eru setningarnar ólíkar setningar á mismunandi tungumálum, sem eru í sumum tilvikum myndaðar úr alls óskyldum orðum. Þær staðhæfa samt allar nákvæmlega það sama, nefnilega að snjór sé hvítur. Því má segja að í krafti merkingar sinnar tjái þær allar sömu staðhæfinguna. Einnig getur verið að ólíkar setningar á sama tungumáli tjái sömu staðhæfinguna. Í sumum kenningum um sannleikann eru staðhæfingar teknar sem sannberar (þ.e. staðhæfingar eru taldar geta verið sannar eða ósannar) fremur en setningar eða fullyrðingar. Í hugspeki er því stundum haldið fram að hugsun sé máltengd vegna þess að íbyggin viðhorf geri ráð fyrir getunni til að skilja staðhæfingar og sé þar með hugtakaleg því getan til að mynda og nota hugtök sé nauðsynleg til þess að geta skilið ólíkar staðhæfingar. Í hversdagslegu máli er oft ekki gerður neinn greinarmunur á staðhæfingu og fullyrðingu. Karlungaveldið. Karlungaveldið er heiti á Frankaveldi þegar það var undir stjórn Karlunga. Veldið hófst í reynd með Karli hamar sem varð einvaldur í nánast allri Vestur-Evrópu norðan Pýreneafjalla. Hann tók sér þó aldrei konungstitil líkt og sonur hans, Pípinn stutti gerði 751. Með hugtakinu er þó einkum átt við veldi Karlamagnúsar frá því hann var krýndur keisari af Leó 3. páfa árið 800 þar til því var endanlega skipt upp eftir lát Karls digra árið 888. Frankaveldi. Frankaveldi eða Frankaríkið var yfirráðasvæði Franka í Vestur-Evrópu frá 5. öld til 10. aldar. Það náði mestri stærð á tímum Karlamagnúsar þegar það var kallað Karlungaveldið. Nafnið Frankaríki er frá hinum frankísku þjóðflokkum sem flúðu til Gallíu. Fyrstur til að sameina hin mörgu konungsríki Franka var Klóvis 1. af ætt Mervíkinga (481-511). Hann nýtti sér hrun Vestrómverska keisaradæmisins árið 476 til að stækka ríki sitt en síðar var því margoft skipt milli nokkurra konunga. Skiptingin með Verdun-samningnum árið 843 leiddi til stofnunar Vestur- og Austurfrankaríkisins sem síðar urðu að Frakklandi og Þýskalandi. Rita (fugl). Rita (fræðiheiti: "Rissa tridactyla") er smávaxin máfategund með gulan gogg og svarta fætur. Rita heldur sig mest út á sjó. Hún steypir sér eftir æti eins og kría. Rita er félagslyndur fugl og verpir í stórum byggðum. Rita verpir 1 til 3 eggjum. Rita er algengur farfugl á Íslandi. Stofnstærð er talin yfir 630 þúsund. Frankar. Ríki Franka og stækkun þess fram til ársins 814. Frankar nefnist germönsk þjóð sem samanstóð af nokkrum vesturgermönskum þjóðflokkum. Upprunaleg heimkynni Franka voru í norðvestur Germaníu; í núverandi Niðurlöndum og í vesturhluta Þýskalands. Seint í fornöld settust þeir einnig að í norðanverðri Gallíu, og urðu þar bandalagsþjóð Rómverja. Frankar lögðu undir sig núverandi Frakkland á 5. og 6. öld og stofnuðu þar sambandsríki. Þegar komið var fram á 9. öld náði ríki þeirra yfir meirihluta þess sem í dag eru Frakkland og Niðurlönd auk vesturhéraða Þýskalands og hluta Ítalíu og Spánar. Uppruni. Heimkynni Franka voru upphaflega norðan og austan Rínar en seint á fjórðu öldinni flutti hluti þeirra sig suður yfir Rín, inn á yfirráðasvæði Rómaveldis. Þar gerðust þeir bandamenn ("foederati") Rómverja og reyndust mikilvægir í að verja heimsveldið gagnvart árásum Alemanna. Ólíkt því sem gerðist hjá flestum germönskum þjóðflokkum áttu sér ekki stað þjóðflutningar á stórum skala hjá Frönkum, heldur stækkuðu þeir yfirráðasvæði sitt smám saman og héldu yfirráðum yfir upprunalegu heimkynnum sínum. Stytta í Reims sem sýnir skírn Klóvisar 1. Mervíkingar. Fyrsti konungur Franka sem náði að leggja öll konungsríki þeirra undir sig var salísk-frankverski konungurinn Klóvis 1., sem ríkti frá 481 til 511. Klóvis var af ætt hins goðsagnakennda konungs Merovech og því hefur ættarveldi hans verið kallað Mervíkingar (eða Meróvingar). Hann lagði mikinn metnað í það að stæka ríki sitt og árið 486 lagði hann undir sig síðustu leifar Vestrómverska ríkisins, en það var svæði í Gallíu sem rómverski hershöfðinginn Syagrius stjórnaði. Í tveimur herferðum, árin 496 og 501, innlimaði hann einnig svæði Alemanna, þar sem nú er Suðvestur-Þýskaland. Í fyrri herferðinni, árið 496, snerist Klóvis til kaþólskrar trúar (í stað aríanisma sem flestar aðrar germanskar þjóðir höfðu gengist undir) og varð þar með fyrsti germanski kóngurinn sem var trúbróðir páfans í Róm. Vestgotar, sem réðu yfir Íberíuskaganum og suðvestur-hluta Gallíu, aðhylltust aríanisma, en flestir íbúar þessara svæða, sem áður voru þegnar Rómaveldis, voru kaþólikkar. Klóvis áleit þetta vera óviðunandi ástand og sneri sér því að því að leggja undir sig svæði Vestgota í Gallíu. Hann sigraði þá árið 507 í bardaganum við Vouillé og hrakti þá út úr Gallíu, suður yfir Pýreneafjöllin. Eftir að Klóvis lést árið 511 tóku fjórir synir hans við og stækkuðu ríkið enn frekar; þeir lögðu undir sig ríki Thurungía árið 531, ríki Búrgunda árið 534 og hertóku Provence árið 536. Klóthar 1. var sá sonur Klóvisar sem lifði lengst og því ríkti hann að lokum yfir öllu ríki Franka. Þegar Klóthar lést, árið 562, var ríkinu aftur skipt í fernt, á milli sona hans. Ríkið skiptist þá í raun í fjögur konungsríki sem voru að einhverju leyti sjlfstæð frá hverju öðru. Ríkin voru Austrasía, Neustría, Bourgogne og Aquitanía Fljótlega var Aquitaníu skipt á milli hinna ríkjanna og árið 593 rann Bourgogne saman við Austrasíu. Theodórik konungur Austrasíu lést árið 613 og var Klóthar 2. af Neustríu þá fenginn til þess að ríkja yfir öllu ríkinu og sameinaði þannig Frankaríki aftur undir einum konungi. Sonur Klóthars 2., Dagobert, var síðasti mervíski konungurinn sem var virkur stjórnandi yfir öllu Frankaríki því eftir hans dag skiptist ríkið enn og aftur, nú í Austrasíu og Neustríu, og átök um völdin brutust út. Völd konunganna tóku að minnka til muna og staða hallarbryta varð sífellt mikilvægari. Pepin frá Herstal varð Hallarbryti í Austrasíu og undir hans forystu var Neustría lögð að velli í bardaganum við Tertry, árið 687. Pepin gerði Theodórik 3. að konungi yfir öllu ríkinu en það var þó engu að síður Pepin sem stjórnaði, allt til dauðadags árið 714. Karlungar. Karl Martel, sonur Pepins frá Herstal, varð valdamesti maðurinn í Frankaríki þegar faðir hans lést, þó hann væri að nafninu til aðeins hallarbryti. Valdaættin Karlungar er kennd við Karl Martel og því má segja að með honum hafi valdatími Karlunga hafist, jafnvel þó hann hafi sjálfur ekki haft konungstign. Karl Martel er einna helst þekktur fyrir að hafa stöðvað innrásarher múslima, sem réðist inn í Frankaríki frá yfirráðasvæði múslima á Íberíuskaganum. Karl sigraði þá í bardaganum við Tours árið 732 og er bardaginn almennt talinn hafa stöðvað framrás múslima inn í Evrópu. Þegar konungurinn Theuderik 4. lést, hafði Karl ekki fyrir því að skipa nýjan konung en hélt áfram að stjórna sem hallarbryti og hertogi. Sonur Karls, Pepin litli, skipaði Hildrík 3., af ætt Mervíkinga, sem konung, en sendi síðar sendinefnd til Rómar til þess að fá samþykki páfans um að víkja Hildríki frá og taka konungstignina sjálfur. Páfinn gaf samþykki sitt og eignaðist þar með bandamann, í Pepin, gegn Langbörðum sem ógnuðu valdi hans yfir Rómaborg. Þegar Langbarðar hófu umsátur um Róm árið 756 brást Pepin skjótt við og mætti með her sinn og létti umsátrinu. Þau landsvæði sem Pepin vann af Langbörðum á mið-Ítalíu lét hann páfann fá til að stjórna. Þetta var upphafið að Páfaríkinu sem stóð til 1870. Sonur Pepins, Karlamagnús, er líklega þekktasti konungur Karlunga. Hann ríkti frá 768 til 814 og undir hernaðarforystu hans stækkaði ríkið talsvert. Þar að auki var hann hæfur stjórnandi og mikill velunnari menningar og lista. Karlamagnús taldi að konungsríki Langbarða á Ítalíu væri ógn við hagsmuni Franka á Ítalíu og við öryggi páfans í Róm. Árið 773 leiddi hann her sinn yfir Alpana og hertók höfuðborg Lombarða, Paviu. Karlamagnús stjórnaði ríki Langbarða eftir þetta en lét þó krýna son sinn Pepin, sem konung Langbarða. Eftir þetta var krúnu Langbarða haldið af Karlungum. Karlamagnús einsetti sér einnig að leggja undir sig ríki Saxa, í norðanverðu Þýskalandi, og að snúa íbúum þess til kristni. Það tók hann mörg ár og margar herferðir, frá 772 til 785, að ná takmarki sínu, en árið 785 gafst leiðtogi Saxa upp og tók kristna trú., Árið 800 krýndi Leo 3. páfi Karlamagnús sem „Keisara Rómverja“, titill sem eftirmenn Karlamagnúsar erfðu sem „Heilagir rómverskir keisarar.“ Karlungar ríktu yfir stórum hluta þess sem í dag er Vestur-Evrópa norðan Pýreneafjalla til ársins 888 þegar ríkinu var endanlega skipt upp. Heimildir. Tierney, Brian, "Western Europe in the Middle Ages: 300 – 1475" (McGraw-Hill College, 1999). Sjómannaskólinn í Reykjavík. Sjómannaskólinn í Reykjavík var kennslustofnun sjómanna sem starfaði fyrst við Öldugötu í Reykjavík ("Gamli stýrimannaskólinn") og síðan við Háteigsveig í Reykjavík. Skólinn og síðar Vélskóla Íslands höfðu aðsetur við Háteigsveg, en þann 1. ágúst 2003 tók Menntafélagið ehf við rekstri skólanna og starfa þeir núna sem Tækniskólinn. Stýrimannaskólinn í Reykjavík var stofnaður með lögum hinn 22. maí 1890 en skólinn tók til starfa haustið 1891. Vélskóli íslands var stofnaður 1915. Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson húsameistari teiknuðu hús Sjómannaskólinn við Háteigsveg. Lagður var hornsteinn að byggingunni á sjómannadaginn 4. júní 1944 og var skólinn vígður árið 1945. Í blýhólki þeim sem lagður var í hornsteininn liggja uppdrættir hússins og meginatriði að byggingarsögu skólans, skráð á skinn. Veðurstofan hafði aðsetur í skólanum til ársins 1973 en hluti Veðurstofunnar flutti síðan út á Reykjavíkurflugvöll í ársbyrjun 1950. Kennaraháskóli Íslands hafði hluta hússins til afnota um tíma. Blágreni. Blágreni (fræðiheiti: "Picea engelmannii") er sígrænt barrtré af þallarætt. Fullvaxið tré nær 25-40 m hæð og 1,5 m stofnþvermáli. Blágreni er langlíft og nær allt að 900 ára aldri. Tegundin rekur uppruna sinn til vesturstrandar Norður-Ameríku og vex í fjalllendi frá Kanada suður að landamærum Mexíkó. Blágreni hefur þó verið plantað víða um heim í nytjaskógrækt, einkum í Evrópu. Blágreni er náskylt bæði hvítgreni, sem vex norðar og austar í Klettafjöllunum, og sitkagreni, sem vex nær Kyrrahafsströndinni og blandar kyni með báðum tegundum. Nytjar. Blágreni er mikið notað í nytjaskógrækt fyrir framleiðslu timburs og pappírs. Viður þess kemur að sérstökum notum við gerð strengjahljóðfæra. Það er stundum notað sem jólatré, þó sjaldnar en rauðgreni. Íþróttafélag Reykjavíkur. Yfir 50% nemenda úr grunnskólum neðra Breiðholts eru iðkendur hjá ÍR og um 40% í öllu Breiðholtinu. Saga. Snemma árs 1907 setti Andreas J. Berthelsen, ungur Norðmaður sem búsettur var í Reykjavík, auglýsingu í bæjarblöðin þar sem hann hvatti röska pilta til að mæta á stofnfund félags um fimleika- og íþróttaiðkun. Þann 11. mars sama ár var haldinn stofnfundur Íþróttafélags Reykjavíkur, sem hóf þegar stífar leikfimisæfingar. Sumarið 1910 treystu félagsmenn sér til að sýna leikni sína opinberlega. Var þá haldin fimleikasýning í porti Miðbæjarskólans að viðstöddu fjölmenni. Varð sýning þessi til að opna augu almennings fyrir íþróttum og þá fimleikum sérstaklega. Var aðaláhersla félagsins á fimleikana fyrstu árin. Samhliða fimleikaæfingum, hófu ÍR-ingar snemma æfingar í frjálsum íþróttum og komu sér upp nauðsynlegum tækjabúnaði til þess. Jón Halldórsson varð snemma mestur afreksmanna félagsins í frjálsum íþróttum, en hann keppti í hlaupum á Ólympíuleikunum 1912. Jón varð annar formaður ÍR á eftir Berthelsen. Með tímanum urðu frjálsu íþróttirnar fyrirferðarmestar í starfi ÍR og hafa margir af frægustu frjálsíþróttamönnum landsins keppt undir merkjum þess. Má þar nefna: Jón Kaldal, tvíburana Örn og Hauk Clausen, Vilhjálm Einarsson, Valbjörn Þorláksson, Einar Vilhjálmsson, Mörthu Ernstsdóttur og Völu Flosadóttur. ÍR-ingar voru alla tíð með augun opin fyrir nýjum íþróttagreinum. Þannig varð ÍR snemma stórveldi í skíðaíþróttum, átti öflugt sundlið, glímusveit og lyftingadeild. Í hópíþróttum hefut ÍR teflt fram liðum í handbolta, knattspyrnu og körfubolta. Pýreneafjöll. Pýreneafjöll eru fjallgarður í Suðvestur-Evrópu sem skilur Íberíuskagann frá meginlandinu og myndar náttúruleg landamæri milli Spánar og Frakklands en í austanverðum fjallgarðinum er örríkið Andorra sem liggur á landamærunum. Fjallgarðurinn er 430 km langur og nær frá Biskajaflóa í Atlantshafinu að Creus-höfða sem skagar í austur út í Miðjarðarhafið. Sundfélagið Ægir. Sundfélagið Ægir var stofnað þann 1. maí árið 1927. Ægir er stærsta félagið í Reykjavík og átti fulltrúa á seinustu tveimur Ólympíuleikum, átt fjöldann allan af sundmönnum í landsliði SSÍ bæði í fullorðinsflokkum og unglingaflokkum. Sitkagreni. Sitkagreni (fræðiheiti: "Picea sitchensis") er sígrænt barrtré af þallarætt. Fullvaxið tré nær allt að 50-70 m hæð og 5 m stofnþvermáli og er stórvaxnasta tegund grenitrjáa. Sitkagreni er langlíft og nær allt að 700 ára aldri. Sitkagreni er upprunnið á vesturströnd Norður-Ameríku og vex nálægt sjó frá Kodiakeyju í Alaska í norðri suður til norðanverðrar Kaliforníu. Sitkagreni hefur þó verið plantað víða um heim í nytjaskógrækt, einkum í Evrópu. Nytjar. Sitkagreni er mikið notað í nytjaskógrækt fyrir framleiðslu timburs og pappírs. Viður þess er sérlega gagnlegur við gerð strengjahljóðfæra. Tréð vex hratt og er harðgert og er þess vegna vel metið í skógrækt við erfið skilyrði. Sérstakt. Hæst og sverust tré á Íslandi eru oftast tré af tegund Sitkagrenis. Nú (feb. 2013) er hæsta tréð á Kirkjubæjarklaustri orðið 25,2 m hátt og sverasta tréið er með um 65 cm í þvermál í brjósthæð. Hvítgreni. Hvítgreni (fræðiheiti: "Picea glauca") er sígrænt barrtré af þallarætt. Fullvaxið tré nær 15-30 m hæð og 1 m stofnþvermáli. Hvítgreni er langlíft og nær allt að 700 ára aldri. Uppruni hvítgrenis er norðurhluti Norður-Ameríku þar sem það myndar samfellt skógbelti frá Alaska til Nýfundnalands. Hvítgreni er náskylt bæði blágreni, sem vex í suðurhluta Klettafjallanna, og sitkagreni, sem vex nær Kyrrahafsströndinni, og blandar kyni með báðum þessum tegundum. Nytjar. Hvítgreni er mikið notað í nytjaskógrækt fyrir framleiðslu timburs og pappírs. Það er stundum notað sem jólatré, þó sjaldnar en rauðgreni. Dygð. Dygð eða dyggð (latína "virtus"; gríska) er siðferðilegt ágæti manneskju. Dygð er skapgerðareinkenni sem er talið jákvætt. Andstæðan er nefnd löstur. Dygðir. Í fornöld voru dygðir meginkjarni allrar siðfræði. Dygðir voru taldar vera ýmist vitrænar eða siðrænar. Gulvíðir. Gulvíðir er sumargrænn runni af víðisætt. Gulvíðir á Íslandi. Gulvíðir vex um allt land upp að 550-600 m hæð. Hann verður allt að 4 m hár og er stærstur innlendra víðitegunda. Loðvíðir. Loðvíðir er sumargrænn runni af víðisætt. Hann einkennist af loðnum laufblöðum. Annað sérkenni loðvíðisins er að hann blómstrar mjög snemma á vorin, áður en hann laufgast. Blóm loðvíðis eru ljósgulir reklar sem stundum kallast "víðikettlingar". Loðvíðir gengur líka undir nafninu "grávíðir", þó að plöntubækur noti það nafn yfir fjallavíði ("Salix arctica"). Loðvíðir á Íslandi. Loðvíðir vex um allt land upp að 900 m hæð. Hann verður allt að 2 m hár eða mögulega hærri þar sem ekki er beit. Dygðasiðfræði. Dygðasiðfræði eða dygðafræði er einn þriggja helstu strauma í siðfræði. Í grófum dráttum má segja að dygðasiðfræðin leggi áherslu á siðferðilegt hlutverk dygða og skapgerðar, andstætt skyldusiðfræði, sem leggur áherslur á skyldur, og leikslokasiðfræði, þar sem áherslan er á afleiðingar athafna. Rætur dygðasiðfræðinnar má rekja til Forn-Grikkja, einkum Platons og Aristótelesar (saga dygðasiðfræðinnar í kínverskri heimspeki er óháð vestrænni heimspekihefð). Nútímadygðasiðfræði þarf ekki nauðsynlega að vera „ný-artistótelísk“ en flestar dygðasiðfræðikenningar nútímans eru það þó að verulegu leyti. Sjálft hugtakið dygð (eða ágæti) er yfirleitt skilið að mestu leyti aristótelískum skilningi og yfirleitt er áhersla á farsæld ("evdæmónía") sem endanlegt markmið. Ákveðin lýsing. Ákveðin lýsing er orðasamband á forminu „X“ eða „X'ið“ þar sem X vísar til eins tiltekins einstaklings, hlutar eða heildar sem það lýsir. Til dæmis eru „hæsti nemandinn í bekknum“, „fyrsti apinn í geimnum“, „42. forseti Bandaríkjanna“ og svo framvegis ákveðnar lýsingar. Lýsingin núverandi konungur Frakklands er sígilt dæmi um ákveðna lýsingu sem vísar ekki til neins. Breski heimspekingurinn Bertrand Russell var fyrstur til þess að benda á vandann sem slík lýsing getur skapað í formlegri rökfræði og reyndi að bregðast við vandanum. Greining Russells. Frakkland er lýðveldi og þar er því enginn konungur. Íhugum fullyrðinguna „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur.“ Er fullyrðingin sönn? Er hún ósönn? Er hún merkingarlaus? Hún virðist ekki vera sönn, því það er enginn núverandi konungur Frakklands. En ef hún er ósönn, þá mætti búast við að neitun hennar væri sönn, það er að segja „Núverandi konungur Frakklands er ekki sköllóttur“, m.ö.o. er hærður. En það virðist enn síður vera rétt en upphaflega fullyrðingin. Er fullyrðingin þá merkingarlaus? Maður gæti haldið það (og sumir heimspekingar hafa haldið því fram), því hún vísar svo sannarlega ekki til neins; en á hinn bóginn virðist hún merkja eitthvað sem við getum auðveldlega skilið. Fulyrðing 1 er augljóslega ósönn og fyrst fullyrðing okkar er sameining allra þessara þriggja fullyrðinga er fullyrðing okkar ósönn. Sömu sögu er að segja um fullyrðinguna „Núverandi konungur Frakklands er ekki sköllóttur“: Fullyrðingar 1 og 2 er þá óbreyttar en í stað 3 fáum við „Núverandi konungur Frakklands er ekki sköllóttur“ er einnig ósönn vegna þess að hún er sameingin fullyrðinganna 1, 2, og 3b og ein þeirra, nefnilega 1, er ósönn. Lögmálið um annað tveggja er því virt því þegar við neitum „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur“ og „Núverandi konungur Frakklands er ekki sköllóttur“ erum við ekki að halda því fram að til sé eitthvert x sem er hvorki sköllótt né ekki sköllótt, heldr að neita tilvist einhvers x sem er núverandi konungur Frakklands. Lögmálið um annað tveggja. Lögmálið um annað tveggja er meginregla í sígildri rökfræði sem felur í sér að annaðhvort er fullyrðing (eða staðhæfing) eða neitun hennar sönn. "Lögmálinu um annað tveggja" er oft ruglað saman við tvígildislögmálið. Útskýring á lögmálinu. Tökum fullyrðinguna „Ísland er eyja“. Samkvæmt lögmálinu um annað tveggja er annaðhvort fullyrðingin eða neitun hennar, þ.e. „Ísland er ekki eyja“, sönn. Í þessu tilfelli er það fullyrðingin sem er sönn. Á sama hátt er önnur hvor setninganna „Ísland er konungsríki“ og „Ísland er ekki konungsríki“ sönn samkvæmt lögmálinu um annað tveggja. Í þessu tilviki er það neitunin sem er sönn. Með því er ekkert sagt um sanngildi hinnar setningarinnar. Ef sanngildin eru einungis tvö, „satt“ og „ósatt“ (eins og tvígildislögmálið kveður á um) og mótsagnarlögmálið gildir einnig, þá verður sú þeirra sem ekki er sönn að vera ósönn, því þá eru ekki fleiri sanngildi en „satt“ og „ósatt“ og samkvæmt mótsagnarlögmálinu geta ekki bæði fullyrðing og neitun hennar verið samtímis sannar. Lögmálið um annað tveggja hefur ekki þessar afleiðingar ef tvígildislögmálinu er hafnað (eins og til dæmis í marggildisrökfræði) eða ef mótsagnarlögmálinu er hafnað. Langholtsskóli. Langholtsskóli er grunnskóli í Reykjavík. Framkvæmdir við Langholtsskóla hófust 1950. Hann er smíðaður eftir teikningum Einars Sveinssonar húsasmíðameistara. Kennsla í skólanum hófst 1952 og var Gísli Jónasson fyrsti skólastjóri skólanns. Fyrsta skólaárið voru 18 kennarar og 676 nemendur áaldrinum 7-12 ára. Skólinn var stækkaður í tveimur áföngum, fyrst 1962 og var sú eining tekin í notkun árið eftir en seinni einingin var ekki tekin í notkun fyrr en 1967. Með tilkomu grunnskólalaganna 1974 var ákveðið að bæta 9. bekknum við svo skólinn yrði fullgildur grunnskóli og þá var orðin þörf á að stækka húsnæðið aftur og var vesturálman tekin í notkun 1975. Skjálfandafljót. Skjálfandafljót nálægt ósum þess. Í bakgrunni má sjá Aðaldalshraun og Skjálfanda.Skjálfandafljót er jökulfljót sem á uppruna sinn í norðvestur hluta Vatnajökuls, nánar tiltekið í Vonarskarði sem er á milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og fellur til sjávar í botni Skjálfanda. Fljótið er um 180 km. á lengd og er það því fjórða lengsta vatnsfall á Íslandi. Vatnið í fljótinu er ekki eingöngu jökulvatn heldur rennur mikið af lindarvatni í það undan Ódáðahrauni. Þetta gerir það að verkum að fiskur gengur upp í fljótið og er umtalsverð silungs- og laxveiði í því. Einnig gengur fiskur upp í margar af þverám þess. Farvegur fljótsins. Eftir að hafa runnið norður eftir Sprengisandi fellur fljótið niður Bárðardal og hefur verið íbúum dalsins umtalsverður farartálmi í gegnum tíðina. Margir þekktir fossar eru í fljótinu, Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss eru innarlega í Bárðardal. Goðafoss, einn af þekktari fossum landsins er yst í Bárðardal. Þar fellur fljótið fram af brún sem er á bilinu 9-17 metra há niður í þröngt gil. Nokkrum kílómetrum neðar klofnar fljótið í tvennt og umvefur þar Þingey, hinn forna þingstað héraðsins sem Þingeyjarsýslur heita eftir. Meginkvíslin liggur vestan við eynna en báðar falla kvíslarnar í fossum niður í Skipapoll, Barnafoss að vestanverðu, Ullarfoss að austanverðu. Norður frá Skipapolli liðast fljótið eftir miklu flatlendi það sem eftir er leiðarinnar til sjávar. Sökum þess hversu flatt svæðið er norður af Skipapolli hefur fljótið átt það til að flæða yfir bakka sína í vorleysingum og hlákutíð. Síðast gerðist þetta í febrúar 2004 en þá ollu flóð í fljótinu töluverðu tjóni á vegum á svæðinu. Rauf meðal annars skarð í þjóðveg 85 og rauf vegasamband nokkurra bæja í Köldukinn við umheiminn. Ós fljótsins var lengi vel upp við Ógöngufjall sem er nyrsta fjall Kinnarfjalla. Ósinn var síðan færður fyrir nokkrum áratugum, umtalsvert austar. Við þessa framkvæmd varð til nokkuð stór lón upp við fjallið þar sem eru kjöraðstæður til silungsveiði þar sem engin straumur er í vatninu. Á þeim tíma sem liðin ef frá þessari framkvæmd hefur sandfjara sem var lengi þar sem Ógöngufjall stendur út í sjó, horfið og telja menn að það orsakist af því að framburðar Skjálfandafljóts njóti ekki lengur við. Á síðustu árum hafa hafa verið uppi hugmyndir um að færa ósinn aftur upp að fjallinu þar sem hann hefur verið að færast austur á bóginn. Sumir óttast jafnvel að hann kunni að fara það nálægt ósum Laxár í Aðaldal að það spilli laxagengd. Blanda. Blanda er jökulá í Austur-Húnavatnssýslu. Hún á uppruna sinn í Hofsjökli en einnig renna í hana fjölmargar bergvatnsár af húnvetnsku heiðunum. Áin er um 125 km að lengd og vatnasviðið um 2300 ferkílómetrar. Blanda rennur ofan af Eyvindarstaða- og Auðkúluheiði um 18 kílómetra langt gljúfur, Blöndugil, ofan í Blöndudal og síðan um Langadal og til sjávar í Húnafirði sem liggur inn af Húnaflóa. Við ós hennar er bærinn Blönduós. Blanda var virkjuð á níunda áratug 20. aldar og var Blönduvirkjun tekin í notkun 1991. Eftir það er áin orðin ein af mestu laxveiðiám landsins. Raunar var alltaf mikill lax í henni en áður en hún var virkjuð var hún mjög gruggug svo að laxinn sá sjaldnast beituna og var húkk helsta veiðiaðferðin, en það er úr sögunni eftir að jökulaurinn hvarf. Varmahlíð. Varmahlíð er lítið þorp við þjóðveg 1, sunnan og austan í Reykjarhóli í miðjum Skagafirði, þegar komið er niður af Vatnsskarði. Árið 1931 var nýbýlið Varmahlíð stofnað úr landi jarðarinnar Reykjarhóls og hófst þar rekstur gisti- og veitingaþjónustu. Um svipað leyti stóð til að byggja þarna héraðsskóla Skagfirðinga og hafði fengist fjárveiting til þess en ekkert varð þó af því. Þess í stað hófst verslun á staðnum og í framhaldi af því myndaðist svolítið þéttbýli. Mikill jarðhiti er á svæðinu og fljótlega var gerð þar sundlaug. Þar hafa einnig lengi verið nokkur gróðurhús og hitaveita fyrir þorpið og nú er heitt vatn leitt frá Varmahlíð víða um nærsveitirnar. Töluverð skógrækt er einnig á og við Reykjarhólinn og kallast það Reykjarhólsskógur. Í Varmahlíð er hótel, verslun með ferðamannaþjónustu, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, grunnskóli, Náttúrugripasafn Skagafjarðar og félagsheimilið Miðgarður. Nú búa í Varmahlíð um 150 manns. Grenjaðarstaður. Grenjaðarstaður er fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Á Grenjaðarstað er reisulegur torfbær og er elsti hluti hans byggður árið 1865 en búið var í bænum til 1949. Hann er mjög stór, um 775 fermetrar. Þar er nú byggðasafn sem opnað var 1958. Sagan. Grenjaðarstaður var landnámsjörð samkvæmt því er segir í Landnámu, og bjó þar landnámsmaðurinn Grenjaður Hrappsson. Grenjaðarstaður var höfðingjasetur til forna og þar bjó meðal annars Kolbeinn Sighvatsson, sonur Sighvats Sturlusonar. Hann féll í bardaganm á Örlygsstöðum 1238 en var jarðsettur á Grenjaðarstað. Grenjaðarstaður var eitt af bestu brauðum landsins. Var staðurinn lagður til jafns við Odda, sem þótti besta brauð í Sunnlendingafjórðungi. Átti staðurinn fjölda jarða auk hjáleigna, reka, laxveiði og önnur ítök en heimaland var mikið og gagnsamt. Á meðal presta á Grenjaðarstað má nefna Jón Pálsson Maríuskáld (d. 1471) og Sigurð Jónsson (d. 1595), son Jóns biskups Arasonar, sem gerði skrá um eignir biskupsstólsins á Hólum og eignir kirkna á Norðurlandi. Þá má nefna Gísla Magnússon (1712-1779), síðar biskup á Hólum, sem lét byggja kirkjuna þar. Árið 1931 var Grenjaðarstað skipt í 5 býli og er prestssetrið nú aðeins fimmtungur jarðarinnar. Byggðasafnið. Byggðasafnið á Grenjaðarstað á sér nokkra forsögu og hefur margt fólk, bæði menn og konur, lagt þar hönd að verki. Bændafélag Þingeyinga setti á laggirnar nefnd veturinn 1950 til þess að athuga möguleika fyrir stofnun byggðasafns í Þingeyjarsýslu. Fljótlega var byrjað að safna munum. Eftir því sem að munum fjölgaði þá varð það ljóst að annað hvort þyrfti að byggja hús með ærnum kostnaði eða finna hentugt húsnæði sem þegar væri til. Á þessum tíma var gamli bærinn á Grenjaðarstað auður því nýtt íbúðarhús hafði verið byggt á staðnum. Tímans tönn hafði nagað torfveggina og þökin á bænum og þarfnaðist hann því töluverðra endurbóta. Sumarið 1955 var, fyrir forgöngu þáverandi þjóðminjavarðar,Kristjáns Eldjárns, hafin gagnger viðgerð á bænum, þar sem reynt var að færa hann í upprunalegt horf. Kristján Eldjárn bauð bæinn fram til þess að geyma muni byggðasafnins að viðgerð lokinni. Viðgerð tók sinn tíma en 9. júlí 1958 var bærinn formlega opnaður sem byggðasafn. Hafði þá verið komið fyrir nokkuð á annað þúsund munum í flestum húsum bæjarins sem fólkið í héraðinu hafði gefið til safnsins. Litli-Árskógssandur. Litli-Árskógssandur í Dalvíkurbyggð er lítið þorp í um 30 km fjarlægð frá Akureyri. Þar búa u.þ.b. 130 manns. Þaðan eru reglulegar ferjusiglingar út í Hrísey. Þrjú fyrirtæki eru rekin á Árskógssandi: Bruggsmiðjan (sem framleiðir bjórinn Kalda) og tvær fiskvinnslustöðvar. Á Árskógsströnd er líka rekið bíla- og vélaverkstæðið BHS ehf og Katla ehf byggingarfélag. Á Árskógsströnd er grunnskólinn Árskógarskóli þar sem 52 nemendur stunda nám. Hauganes. Hauganes er lítið þorp í Eyjafirði, 22 km norðan við Akureyri og 12 km sunnan við Dalvík. Þar búa um 140 manns. Hauganes tilheyrir Árskógsströnd og er hluti af sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Birnunesborgir eru skammt frá Hauganesi en þar er heitt vatn í jörðu og borholur sem tengdar eru hitaveitu Dalvíkur. Á Hauganesi eru nokkur sjávarútvegsfyrirtæki sem og smábátaútgerð. Íbúar á Hauganesi sækja mest alla þjónustu á Akureyri en þar er þó Stærra-Árskógskirkja rétt hjá, Árskógarskóli og Leikskólinn í Árskógi, ásamt íþróttasvæði. Svalbarðseyri. Séð yfir Eyjafjörð til Svalbarðseyrar. Svalbarðseyri er lítið þorp á Svalbarðsströnd við innanverðan Eyjafjörð að austan, í landi hins forna höfuðbóls Svalbarðs. Íbúar þar voru 246 þann 1. janúar 2012. Á Svalbarðseyri er grunnskóli sme nefnist Valsárskóli, leikskóli, sundlaug, kjötvinnsla Kjarnafæðis og ýmis þjónusta. Grenivík. Grenivík er þorp sem stendur við austanverðan Eyjafjörð og er ein nyrsta byggð þeim megin fjarðar. Íbúar þar eru um 290. Þorpið er hluti af Grýtubakkahreppi. Kópasker. Kópasker er kauptún á vestanverðri Melrakkasléttu. Kópasker stendur við Öxarfjörð og er eini þéttbýlisstaðurinn í Öxarfjarðarhreppi. Íbúar þar voru 121 1. janúar 2011. Á Kópaskeri var löggildur verzlunarstaður um 1880 en kauptúnið fór að byggjast eftir 1910. Aðalatvinnuvegurinn er þjónusta við íbúa sveitanna í kring og stærsti vinnuveitandinn er sláturhúsið og kjötvinnslan Fjallalamb hf. Um nokkurt árabil var mikil rækjuvinnsla á Kópaskeri en hún lagðist af 2003 eftir hrun rækjustofnsins í Öxarfirði. Nokkur útgerð var frá Kópaskeri fyrr á árum en nú eru aðeins gerðar út þaðan nokkrar trillur. Þórshöfn (Langanesi). Þórshöfn er þorp sem stendur á Langanesi og er í sveitarfélaginu Langanesbyggð í Norður-Þingeyjarsýslu. Íbúar á Þórshöfn voru 380 talsins 1. janúar 2011 og er þorpið hið eina á Norðausturlandi þar sem íbúum hefur ekki fækkað síðustu árin. Flestir urðu íbúarnir um 500 upp úr 1970. Þórshöfn er reist í landi jarðarinnar Syðralóns við austanverðan Lónafjörð, við vík sem var gott skipalægi frá náttúrunnar hendi og var notuð sem höfn frá fornu fari. Höfnin er kennd við þrumuguðinn Þór. Seint á 16. öld var töluvert um siglingar þýskra kaupmanna til Þórshafnar og kölluðu þeir verslunarstaðinn "Dureshaue". Þessi verslun lagðist niður með einokunarversluninni 1602 og þurftu þá bændur að fara annaðhvort til Vopnafjarðar eða Húsavíkur til að versla en frá 1684 voru þeir skikkaðir til að fara til Húsavíkur, sem var mun lengri og erfiðari leið. Þetta breyttist þó aftur 1691 og máttu þeir þá versla á Vopnafirði. Einnig mun oft hafa verið töluvert um launverslun við duggara. Kaupmenn á Vopnafirði og Raufarhöfn fengu leyfi yfirvalda til að versla á Þórshöfn vorið 1839 og árið 1846 var löggiltur þar verslunarstaður. Gránufélagið fór að sigla þangað 1870 og reisti fiskverkunarhús 1884 í Heiðarhöfn, nokkru norðar á Langanesi. Pöntunarfélag var stofnað á Langanesi 1895 og hafði aðstöðu á Þórshöfn og 1897 reisti verslun Ørum & Wulff verslunarhús á staðnum. Aðalverslunarrekandinn nær alla 20. öld var þó Kaupfélag Langnesinga. Fyrst er vitað til þess að einhver hafi haft búsetu á Þórshöfn upp úr 1880 þegar hjónin Helgi Eymundsson og Hólmfríður Jónsdóttir settust þar að en þau fluttu raunar til Vesturheims 1883. Árið 1901 voru 88 íbúar þar og á sama tíma voru að vaxa upp tveir aðrir þéttbýlisstaðir á Langanesi, Skálar og Heiðarhöfn, sem báðir eru nú löngu komnir í eyði. Útgerð varð fljótt aðalatvinnuvegur íbúanna. Vélbátaútgerð hófst 1920 og árið 1937 hófust framkvæmdir við hafnargerð. Útgerð og fiskvinnsla er enn aðalatvinnuvegur þorpsbúa og er stærsti atvinnurekandinn Hraðfrystistöð Þórshafnar, sem gerir út tvö skip og rekur fiskvinnslu. Þórshafnarhreppur varð sjálfstætt sveitarfélag 1946 en hafði áður verið hluti af Sauðaneshreppi. Hrepparnir voru sameinaðir á ný 1993 og árið 2006 sameinuðust Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur í Langanesbyggð. Bakkafjörður. Bakkafjörður er lítið þorp sem stendur við samnefndan fjörð sem gengur inn úr Bakkaflóa sunnan við Langanes á Norðausturlandi. Raunar taldist Bakkafjörður áður til Austurlands en það breyttist þegar Skeggjastaðahreppur og Þórshafnarhreppur sameinuðust í Langanesbyggð árið 2006. Íbúar voru 72 1. janúar 2011 en voru 131 árið 2001. Þorpið Bakkafjörður myndaðist í landi jarðarinnar Hafnar og varð löggiltur verslunarstaður árið 1885 undir nafninu Höfn en var þó yfirleitt kallað Bakkafjörður. Aðalatvinnugrein Bakkfirðinga er smábátaútgerð og fiskvinnsla. Hafnaraðstaðan var lengi vel ekki góð en upp úr 1980 var gerð ný höfn sunnan við þorpið. Á Bakkafirði er fiskvinnslan Toppfiskur ehf, sem sérhæfir sig í skreiðar- og saltfiskvinnslu. Þar starfa um 15 manns. Toppfiskur er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík. Á Bakkafirði er grunnskóli, leikskóli, bókasafn, fótboltavöllur, tjaldstæði og fleira. Þar er gistiheimili og verslun. Vopnafjörður. Vopnafjörður er allbreiður flói á norðausturströnd Íslands, næst fyrir norðan Héraðsflóa, á milli Digraness og Kollumúla. Fyrir miðjum firði er langur og mjór tangi, Kolbeinstangi (Tangi), þar sem Vopnafjarðarbær stendur en norðan tangans eru Nýpsfjörður og inn af honum Nýpslón. Landslag í Vopnafirði mótaðist á síðustu ísöld. Þá þakti jökull alla sveitina og fjörðinn og svarf fjöllin og klettana umhverfis hann. Norðan Vopnafjarðar eru ávalar heiðar þar sem nokkur há fjöll standa þó upp úr en sunnan fjarðarins eru Krossavíkurfjöll, yfir þúsund metra há. Inn af firðinum eru þrír dalir, Hofsárdalur syðst, þá Vesturárdalur og Selárdalur nyrst. Dalirnir voru allir fjölbyggðir áður en í Selárdal er nú aðeins einn bær í byggð. Um þá renna Hofsá, Vesturá og Selá, sem allar eru þekktar laxveiðiár. Heitar uppsprettur eru í Selárdal og þar er sundlaug. Fjörðurinn er þekktur fyrir veðursæld. Upp af dölunum eru víðlendar heiðar og um miðja nítjándu öld, þegar mikill skortur var á jarðnæði, risu þar víða nýbýli. Bæirnir risu á árunum 1841-1862. Misjafnt var hvað þeir voru lengi byggðir en síðasti bærinn fór í eyði 1946. Lífsbaráttan á heiðunum var hörð og eru heiðarnar sögusvið skáldsögu Halldórs Laxness, "Sjálfstætt fólk". Á Vopnafirði hefur verið verslunarstaður frá gamalli tíð. Í sveitinni er stundaður hefðbundinn landbúnaður en í kaupstaðnum er einnig stunduð útgerð, fiskvinnsla, verslun og ýmis þjónusta. Nú búa tæplega 700 manns í sveitarfélaginu Vopnafjarðarhreppi, þar af um 550 í þorpinu. Á Bustarfelli í Vopnafirði er reisulegur torfbær sem hefur verið haldið mjög vel við og þar er minjasafn. Kirkja er í Vopnafjarðarþorpi og útkirkja á Hofi í Vopnafirði. Ysti hluti Kolbeinstanga nefnist Tangasporður. Þar er engin byggð en landslag mjög sérstakt, óvenjulegar klettamyndanir og ljósar sandfjörur. Á Tangasporði eru þrjú fell, Fagrafjall, Miðfell og Taflan. Saga. Við landnám eru taldir þrír landnámsmenn í Vopnafirði: Eyvindur vopni og Hróaldur bjóla sem voru fóstbræður og Lýtingur Arnbjarnarson. Nafn fjarðarins er sagt dregið af viðurnefni Eyvindar sem nam Hofsárdal og hluta Vesturárdals austan megin og bjó hann í Syðrivík sem þá hét heitið Krossavík innri. Hróaldur nam Selárdal, hluta Vesturárdals og norðurströnd fjarðarins. Hann bjó fyrst á Hróaldsstöðum í Selárdal en síðar á Torfastöðum í Vesturárdal. Lýtingur nam austurströnd fjarðarins og bjó í Krossavík ytri. Telja má bróðurson Eyvindar vopna, Steinbjörn kört Refsson, fjórða landnámsmanninn þar sem hann byggði sér bæ á Hofi eftir að Eyvindur frændi hans gaf honum land milli Hofsár og Vesturdalsár. Loks kom Þorsteinn hvíti Ölvisson frá Noregi og keypti hann land af Eyvindi en tók síðar Hofslönd af Steinbirni upp í skuld. Hann bjó að sögn Landnámabókar á Hofi í sextíu ár. Í Vopnfirðinga sögu segir frá því að héraðsvöld og goðavald skiptust í upphafi milli Hofverja og Krossvíkinga. Sameiginlegur þingstaður var í Sunnudal en í heiðni var blóthof á Hofi og efldi það héraðsvöld Hofverja. Brodd-Helgi sonarsonur Þorsteins hvíta giftist Höllu systur Geitis Lýtingssonar en skildi við hana og ósætti varð vegna fjárskipta þeirra. Fó svo að Geitir vó Helga á Sunnudalsþingi en sættir tókust við Víga-Bjarna son Helga. Víga-Bjarni rauf sættirnar að áeggjan stjúpu sinnar og vó Geiti en iðraðist verknaðarins. Leiddi þetta til fjandskapar milli Bjarna og Þorkels Geitissonar sem endaði með orrustu milli þeirra í Böðvarsdal. Særðist Þorkell þar og greru sár hans illa. Sendi þá Bjarni honum lækni sem læknaði sár hans og það, ásamt milligöngu Jórunnar, konu Þorkels, varð til þess að sættir tókust og flutti Þorkell á endanum til Bjarna að Hofi þar sem hann bjó til dauðadags. Þorkell átti aðeins eina dóttir sem fluttist burt og eftir að hann fluttist sjálfur að Hofi færðust öll völd til Hofverja. Vopnfirðinga saga segir um Þorkel Geitisson að hann hafi verið hreystimenni og fylginn sér en Hofverjar hafi ekki verið spakir að viti þó flest hafi vel til tekist. Forræði Hofverja náði til 1122 í beinan karllegg en þá komu til sögunar Valþjófsstaðamenn sem raunar bjuggu löngum á Hofi og tengdust Hofverjum. Voru þeir helstu höfðingjar héraðsins allt til loka þjóðveldisins en Austfirðingar gengu Noregskonungi á hönd 1264, tveimur árum síðar en aðrir landsfjórðungar. Eftir það eru heimildir stopular og stór hluti sögunar óþekktur. Þó er vitað að kaupmenn sigldu á Vopnafjörð frá fornu fari og á einokunartímanum var þar ein af þremur verslunarhöfnum fjórðungsins. Dönsku kaupmennirnir Ørum & Wulff ráku umfangsmikla verslun og aðra starfsemi á Vopnafirði á 19. öld. Kaupfélag Vopnfirðinga var stofnað árið 1918 og var einn helsti vinnuveitandi sveitarfélagsins allt þar til það varð gjaldþrota árið 2004. Vopnafjörður var helsta brottfararhöfn Vesturfara, ekki aðeins á Austurlandi, heldur á öllu landinu á síðustu áratugum 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu. Mjög margir Vestur-Íslendingar eiga ættir að rekja til Vopnafjarðar. Þar er nú "Vesturfaramiðstöð Austurlands". Borgarfjörður eystri. Vegurinn sem liggur til Borgarfjarðar. Borgarfjörður eystri eða Borgarfjörður eystra er fjörður og byggðalag á norðanverðum Austfjörðum. Þar er þorpið Bakkagerði, sem oftast er kallað Borgarfjörður eystri í daglegu tali, með um 100 íbúa. Borgarfjörður er í Borgarfjarðarhreppi, sem einnig nær yfir nálægar víkur og eyðifjörðinn Loðmundarfjörð. Inn af firðinum er vel gróinn dalur sem nær um 10 kílómetra inn í Austfjarðafjallgarðinn. Eftir honum rennur Fjarðará. Nokkrir bæir eru í byggð í sveitinni og er þar aðallega stundaður sauðfjárbúskapur. Á Bakkagerði er nokkur smábátaútgerð. Á Borgarfirði eystra er falleg fjallasjón. Helstu fjöllin eru Dyrfjöll, Staðarfjall, Geitfell og Svartfell. Fjöllin eru úr ljósu líparíti sunnan fjarðar en Borgarfjörður er á mótum líparít- og blágrýtissvæðis og fyrir botni fjarðarins og þó einkum norðan hans er blágrýti mest áberandi. Í firðinum þar má finna mikið af fallegum steinum. Steinasöfnun er þó bönnuð almenningi. Á meðal þekktra einstaklinga sem tengjast Borgarfirði eystra má nefna Jóhannes Kjarval, listmálara, sem ólst upp í Geitavík. Til minningar um hann er Kjarvalsstofa í félagsheimilinu Fjarðarborg. Hann málaði altaristöflu sem er í Bakkagerðiskirkju. Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður, sem tók þátt í raunveruleikaþættinum Rockstar: Supernova árið 2006, er frá Borgarfirði eystra. Emilíana Torrini tónlistarkona er líka ættuð þaðan. Fáskrúðsfjörður. Gamli Franski spítalinn við Fáskrúðsfjörð. Fáskrúðsfjörður er þorp á Austfjörðum og stendur við samnefndan fjörð. Íbúar þar eru 623. Árið 2005 var lokið við gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þetta hefur orðið til þess að mikið af nýjum húsum hefur verið reist í bænum og mætti helst rekja það við álversframkvæmdir Alcoa hinum megin fjalls. Stöðvarfjörður. Stöðvarfjörður er þorp á sunnanverðum Austfjörðum og stendur við samnefndan fjörð. Íbúar þar voru 203 1. janúar 2011 og hafði fækkað úr 292 árið 1998. Vetrarborgin. "Vetrarborgin" er bók sem spennusagnahöfundurinn Arnaldur Indriðason skrifaði. Hún var gefin út af forlaginu Vaka-Helgafell 2005. Bókin fjallar um þríeykið þau Erlend, Elínborgu og Sigurð Óla sem byrtst hafa í fjölda af bókum Arnalds. Að þessu sinni rannasaka þau morð á 10 ára gömlum dreng sem stungin hafði verið til bana. Í bókinni fær maður að vita meira um hvarf bróður Erlends, Bergs. Ásamt því að maður fær að fræðast um æsku Sigurðs Óla sem gekk um tíma í sama skóla og Elías, litli drengurinn sem var myrtur. Breiðdalsvík. Séð yfir víkina til Breiðdalsvíkur. Breiðdalsvík er þorp í Breiðdalshreppi og stendur það við samnefnda vík á Austfjörðum. Íbúar voru 139 1. janúar 2011 og hefur þeim fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum, voru 218 árið 1988. Víkin Breiðdalsvík er á milli Kambaness og Streitishvarfs og stendur þorpið við hana. Aðalatvinnugvegur þorpsbúa er sjávarútvegur, svo og þjónusta við sveitina og ferðamenn sem eiga leið um. Byggðin á Breiðdalsvík er ekki gömul. Gránufélagið lét reisa þar vörugeymslu um 1889 og árið 1896 reisti Brynesverslun á Seyðisfirði hús efst á Selnesi. Það brann tíu árum síðar en nýtt verslunarhús var reist í staðinn og er það elsta hús þorpsins. Í gamla Kaupfélaginu er nú jarðfræðisetur og þar er minningarstofa við Stefán Einarsson, prófessor við John Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum, sem var úr Breiðdal. Í gömlu símstöðinni er Steinasafn Breiðdals. Í þorpinu er hótel sem er opið allan ársins hring og þar er einnig skóli og sundlaug, verslun og bílaverkstæði. Breiðdalsvík er einn af fáum stöðum á Íslandi sem hefur orðið fyrir loftárás en að morgni 10. september 1942 réðist þýsk herflugvél á íbúðarhúsið Hamar og var skotið á það sprengikúlum úr vélbyssu. Níu götu komu á húsið en enginn slasaðist þótt fólk væri inni í húsinu. Djúpivogur. Djúpivogur er þorp í Djúpavogshreppi sem stendur á Búlandsnesi, milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Í Djúpavogshreppi eru íbúar 461 (1. janúar 2012). Hinn formfagri Búlandstindur er þekktasta kennileitið í Djúpavogshreppi. Safna- og menningarhúsið Langabúð, byggt árið 1790, setur einnig mikinn svip á bæjarmynd Djúpavogs. Í Löngubúð er meðal annars safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara. Verslun. Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri. Verslunin í Fýluvík var í höndum kaupmanna frá Bremen og starfaði í um 80 ár. Brimarar kölluðu staðinn Ostfiordt in Ostfiordt-süssel. Höfnin þar er nú lokuð vegna sandburðar og ekki sést lengur til verslunarhúsa. Kaupmenn í Hamborg fengu verslunarleyfi á Djúpavogi þann 20. júní árið 1589, með leyfisbréfi gefnu út af Friðriki 2. Danakonungi, og til þess tíma er rakið upphaf búsetu þar. Einokun komst á 1602 þegar Kristján 4. konungur Dana veitti borgurum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri einkarétt til verslunar á Íslandi. Austurlandi var skipt niður í þrjú verslunarumdæmi. Kaupstaðir voru á Vopnafirði, í Reyðarfirði og á Djúpavogi, en þar var jafnframt eina verslunarhöfnin á öllu suðausturhorni landsins. Einokun var aflétt 1787 og öllum dönskum þegnum varð heimilt að stunda verslun við Íslendinga. Seinna var verslun gefin frjáls hverjum sem stunda vildi. Danski kaupmaðurinn J.L. Busch rak verslun á Djúpavogi frá 1788-1818 en þá kom Verslunarfélagið Örum & Wulff til skjalanna og sá um Djúpavogsverslun í rúma öld, frá 1818 allt til 1920. Fyrirtækið hafði aðsetur í Danmörku og á þess vegum komu verslunarstjórar til Djúpavogs til að hafa umsjón með kaupskapnum. Árið 1920 var Kaupfélag Berufjarðar stofnað og keypti það eignir dönsku kaupmannanna. Þeirra á meðal voru verslunarhúsin sem enn standa við höfnina. Elst þeirra er Langabúð, bjálkahús frá öndverðri 19. öld, og er til vitnis um verslunarsögu sem hófst við landnám. Útgerð. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hefur fólk við Berufjörð vafalaust dregið fisk úr sjó á sama hátt og lýst er í Íslendingasögum, og lifað af því sem land og sjór gaf. Frá miðöldum íslenskrar byggðar eru til sagnir um erlenda fiskimenn við Berufjörð, danska, hollenska og e.t.v. frá fleiri þjóðum. Á síðari hluta 19. aldar var blómleg útgerð frá Djúpavogi. Þaðan sigldu til veiða all stór þilskip (skútur) og veiddu hákarl, þorsk o.fl. Laust fyrir aldamót 1900 lagðist þessi útgerð niður og um skeið voru fiskiveiðar mest stundaðar á árabátum á grunnmiðum. Árið 1905 er talið að fyrsti vélbáturinn hafi komið til Djúpavogs og næstu árin komu svo fleiri litlir vélbátar, mest svokallaðar trillur. Á árunum 1920-30 voru bátar frá Seyðisfirði, Norðfirði og Eskifirði gerðir út frá Djúpavogi. Upp úr 1940 eru keyptir stærri bátar til Djúpavogs, m.a. Papey o.fl. og um 1950 er keyptur 100 tonna bátur, Víðir frá Akranesi, síðar nefndur Mánatindur. Með komu hans var fiskur sóttur lengra og landað með nokkrra daga millibili, (útilegubátur). Um og upp úr 1960 bætast fleiri stór og góð skip við flotann og voru þá stundaðar togveiðar, netaveiðar og síldveiðar með hringnót. Árið 1981 er skuttogarinn Sunnutindur keyptur frá Noregi, einnig önnur togskip og nótaskip um svipað leyti. Á árunum 1970-80 var talsverð rækjuveiði í Berufirði. Handfæra- línu- og netaveiðar hafa verið stundaðar á minni bátum í áratugi og síðustu árin mest á hraðskreiðum vélbátum (hraðfiskibátum). Af öðru. Góð náttúruleg höfn er á Djúpavogi. Verulegar hafnarframkvæmdir hófust ekki fyrr en 1947 er byggð var hafskipabryggja en áður voru þar nokkrar smábryggjur í eigu einstaklinga. Allmikill landbúnaður var áður stundaður á Djúpavogi en nú hefur dregið nokkuð úr honum. Landsímastöð hefur verið á Djúpavogi frá 1915, sjálfvirk símstöð frá 1976 og póstafgreiðsla frá 1873. Sýslumaður sat á Djúpavogi um hríð. Læknir settist þar að upp úr aldamótunum 1900. Kirkja var flutt til Djúpavogs frá Hálsi í Hamarsfirði árið 1894 og prestur hefur setið þar frá 1905. Til Djúpavogsprestakalls heyra kirkjur á Djúpavogi, í Berufirði, á Berunesi og Hofi í Álftafirði. Almenn barnakennsla hófst á Djúpavogi 1888 og var fyrst kennt í Hótel Lundi. Skólahús var byggt 1912 og nýtt skólahús 1953. Þar starfar nú grunnskóli til og með 10. bekk. Félagslíf hefur verið nokkuð blómlegt á Djúpavogi. Ungmennafélagið Neisti var stofnað 1919 og hefur meðal annars staðið fyrir íþrótta- og leikstarfsemi, einkum fyrr á árum. Kvenfélagið Vaka hefur starfað alllengi. Á Djúpavogi starfa Lionsklúbbur Djúpavogs, Slysavarnafélagið Bára, Skógræktarfélag Djúpavogs og fleiri félög. Skammt innan við Djúpavog er viti, á Æðarsteini, reistur 1926. Fyrrum var talið að á Djúpavogi væru að meðaltali 212 þokudagar á ári og komst það í bækur. Þetta reyndist þó síðar á misskilningi byggt en þokusamt er þar eigi að síður. Afþreying. Á Djúpavogi er mjög gott tjaldsvæði sem er staðsett í kjarna bæjarins. Frá tjaldsvæðinu er frábært útsýni yfir höfnina og víðar. Þá er öll helsta þjónusta í bænum í innan við 500 m fjarlægð frá tjaldsvæðinu. Í sveitafélaginu er góð og fjölbreytt þjónusta bæði í gistingu, mat og afþreyingu. Miklir möguleikar eru á ýmiskonar afþreyingu í Djúpavogshreppi. Má þar m.a. nefna að á Djúpavogi er ný og glæsileg sundlaug, mjög góður 9 holu golfvöllur, skemmtilegar gönguleiðir og boðið er upp á siglingu út í Papey. Fuglalíf er fjölbreytt í nágrenni Djúpavogs. Vogar. Vogar er bær á norðanverðu Reykjanesi, íbúafjöldinn þar er um 1100. Bærinn er hluti af Sveitarfélaginu Vogum sem nær yfir Voga og Vatnsleysuströnd. Á Vatnsleysuströnd búa um 100 íbúar í dreifbýli. Hellissandur. Hellissandur er þorp á utanverðu Snæfellsnesi. Íbúar þar eru um 413. Þorpið er hluti af sveitarfélaginu Snæfellsbæ. Hellissandur er ein elsta útgerðarstöð á Íslandi. Elsti hluti þorpsins er á bökkunum við sjóinn en þar byggðist þorpið kringum afar erfiða lendingu sem kölluð var Brekknavör. Sjómenn gerðu að afla í hellisskúta, Brennuhelli sem var í fjörunni undir snarbröttum hraunbökkum. Nafn þorpsins er dregið af þessum helli. Um miðbik 20. aldar var gerð höfn í Krossavík rétt utan við þorpið en sú höfn var aflögð um 1960 þegar höfnin á Rifi varð aðalhöfn fyrir Hellissand. Á Hellissandi er sjóminjasafn. Milli Rifs og Hellissands er Ingjaldshóll en þar ólst Eggert Ólafsson upp. Rif (Snæfellsnesi). Rif er þorp á utanverðu Snæfellsnesi, á milli Hellissands og Ólafsvíkur. Þar búa 137 manns. Þorpið er hluti af sveitarfélaginu Snæfellsbæ. Í Rifi var til forna verslunarstaður, fyrstu sagnir um verslun og skipakomur þangað eru í Eyrbyggju. Þar var mikið útræði og margar verbúðir. Englendingar ráku umfangsmikla verslun þar á 15. öld. Árið 1467 urðu átök um viðskipti í Rifshöfn milli enskra kaupmanna og danska konungsvaldsins og var Björn Þorleifsson hirðstjóri umboðsmaður konungs veginn þar af Englendingum. Rif var nálægt góðum fiskimiðum og þar var ein öruggasta lendingin í verstöðvum á vestanverðu Snæfellsnesi. Rif var upphafsstaður saltfiskverkunar á Íslandi. Englendingar fluttu þangað salt og byggðu salthús á 15. öld. Fiskur var þá lagsaltaður í stór kör. Slík kör munu hafi verið til á Rifi þegar kaupstaðurinn lagðist þar af um 1700. Árið 1703 voru 1022 íbúar í Rifsumdæmi eða 177 fjölskyldur. 974 íbúanna lifðu á sjávarafla og Rif var þá og hafði verið um tveggja alda skeið stærsta sjávarþorp á Íslandi. Höfnin á Rifi tók að spillast á tímum Einokunarverslunarinnar. Áin Hólmkela rann til sjávar um Rifsós. Áin hefur breytt um farveg og sandur berst nú í fyrri farveg og lokar Rifshöfn fyrir stærri skipum. Íbúar á Rifi gerðu kröfur um hafnarbætur og gekk um það dómur árið 1686. Málinu var vísað til landfógeta en hann aðhafðist ekkert og Hólmkela eyðilagði því bestu fiskihöfn Íslands. Fólk flutti frá Rifi og kaupmennska lagðist þar af og Ólafsvík varð löggild verslunarhöfn með konungsbréfi 26. mars 1687. Reynt var að breyta farvegi Hólmkelu og Laxár árið 1884-1887 þannig að þær rynnu í sinn upprunalega farveg. Þettu voru einar fyrstu hafnarbætur á Íslandi en þær gengu brösuglega því að nóttina eftir að verkið var klárað þá rauf Hólmkela varnargarðanna og byrjaði að renna í sinn gamla farveg. Grunur leikur á að um skemmdarverk hafi verið að ræða. Króksfjarðarnes. Króksfjarðarnes er bær og verslunarstaður á sunnanverðum Vestfjörðum og stendur á nesinu milli Króksfjarðar og Gilsfjarðar. Króksfjarðarnes fékk verslunarréttindi árið 1895. Í Króksfjarðarnesi starfaði Kaupfélag Króksfjarðar og þar var starfandi sláturhús þangað til árið 2007. Einnig er þar félagsheimilið Vogaland sem byggt var 1958 og þar er útibú frá Sparisjóði Vestfirðinga. Í Landnámu kemur fram að Þórarinn krókur hafi numið land við Króksfjörð og búið að Króksfjarðarnesi, en auk þess kemur staðurinn við sögu í Gull-Þórissögu. Reykhólar. Reykhólar er þorp á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar búa 119 manns. Þorpið tilheyrir Reykhólahreppi. Á Reykhólum hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð frá árinu 2004. Bíldudalur. Bíldudalur er þorp við sunnanverðan Arnarfjörð og er í raun eina þéttbýlið við fjörðinn. Staðurinn stendur við Bíldudalsvog sem gengur inn af firðinum. Norðan megin við voginn er Bíldudalsfjall og sunnan Otradalsfjall, en það er oft nefnt Bylta af heimamönnum. Í þorpinu búa alls 168 manns (2012). Áður tilheyrði Bíldudalur sér hreppi, Bíldudalshreppi, en er nú hluti af Vesturbyggð. Bíldudalur á sér langa og merka sögu, þar var meðal annars einn af verslunarstöðum einokunarverslunarinnar. Fljótlega eftir að verslun var gefin frjáls í lok 18. aldar eignaðist Ólafur Thorlacius verslunina og rak þaðan þilskipaútgerð og flutningaskip og seldi fisk beint til Spánar. Pétur J. Thorsteinsson rak einnig mikinn atvinnurekstur á Bíldudal milli 1880 og 1910 með útgerð og verslun, og notaði til þess Péturskrónur. Á þeim tíma sem Pétur var útgerðarmaður fjölgaði íbúum og tók að myndast allstórt þorp á staðnum. Nokkru eftir að Thorsteinsson flutti burtu tóku þeir Hannes Stephensen Bjarnason og Þórður Bjarnason við verslun og útgerð á Bíldudal. Einn af þekktustu Bílddælingum er Guðmundur Thorsteinsson, sonur Péturs J. Thorsteinssonar, betur þekktur sem Muggur. Árið 1918 var Hnúksá, ofan við bæinn, virkjuð. Gísli Jónsson alþingismaður, átti um tíma miklar eignir á Bíldudal og kom hann á fót verksmiðjunni sem framleiddi "Bíldudals grænar baunir" og eftir þeirri afurð hefur fjölskylduhátíð á Bíldudal verið nefnd. Árið 1943 átti sér stað svokallað Þormóðsslys og var það mikið áfall fyrir Bíldudal og Bílddælinga því að í því fórust margir þorpsbúar. Kirkja staðarins, Bíldudalskirkja, var byggð árið 1906 en áður sóttu Bílddælingar messu í Otradalskirkju. Flateyri. Flateyri er þorp á Vestfjörðum sem stendur á samnefndri eyri við norðanverðan Önundarfjörð. Þar búa um 300 manns. Þorpið er hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Í október árið 1995 féll gríðarlegt snjóflóð á þorpið og fórust 20 manns. Eftir það voru reistir gríðarmiklir snjóflóðavarnargarðar ofan við bæinn og hafa þeir a.m.k. einu sinni bjargað byggðinni frá flóði. Fyrir ofan Flateyri er Eyrarfjall og nær brún þess í um 660 m. Í hlíðum Eyrarfjalls eru tvö gil, Innra-Bæjargil og Skollahvilft en úr þessum giljum hafa snjóflóðin sem falla í átt að Flateyri komið. Ofan byggðarinnar á Flateyri hafa verið byggðir tveir leiðigarðar til varnar snjóflóðum úr þessum giljum. Lögbýlið Eyri stóð í brekku rétt fyrir ofan og utan Flateyri. Verslun hófst á Flateyri í lok 18. aldar. Íbúar voru um 100 árið 1890 en um það leyti hóf Hans Ellefsen hvalveiðar frá Flateyri og reisti íbúðarhús á Sólbakka. Í kjölfar þess fjölgaði íbúum hratt og voru þeir um 250 um aldamótin 1900. Flestir voru íbúar Flateyrar árið 1964 en þá voru þeir 550. Í maí árið 2007 tilkynntu eigendur Kambs, stærsta atvinnufyrirtæki Flateyrar, að þeir muni hætta útgerð og fiskvinnslu á Flateyri og selja allar eignir félagsins og þar með fiskveiðikvótann. Þar hafa starfað 120 manns, 65 í landvinnslu og sjómenn á fimm bátum. Suðureyri. Suðureyri er þorp sem stendur við sunnanverðan Súgandafjörð. Þar búa 320 manns. Þorpið er hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Á móti þorpinu er fjall sem heitir Göltur, en toppurinn á því fjalli er flatur. Svo segir í Landnámu: "Hallvarður súgandi var í orrostu mót Haraldi konungi í Hafrsfirði; hann fór af þeim ófriði til Íslands ok nam Súgandafjörð ok skálavík til Stiga ok bjó þar." Hnífsdalur. Hnífsdalur er lítið þorp sem stendur við utanverðan Skutulsfjörð og er í mynni samnefnds dals. Þar búa um 250 manns. Þorpið er á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og er hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Árið 1910, Þann 18. Febrúar fórust 20 manns í Snjóflóði. Mynni dalsins er markað af tveimur hyrnum og heitir sú nyrðri Búðarhyrna eftir bæ að nafni Búð sem liggur við fjallsræturnar en sú syðri heitir Bakkahyrna eftir Bakka sem er bær við rætur þess. Eftir dalnum rennur Hnífsdalsá. Fjallið sem skilur að Hnífsdal og Ísafjörð heitir Eyrarfjall. Samtök um betri byggð. Samtök um betri byggð eru þverpólitískur þrýstihópur sem lætur sig helst málefni skipulags höfuðborgarsvæðisins varða. Helsta baráttumál samtakanna hefur verið brottflutningur Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Einnig voru samtökin atkvæðamikil í baráttu gegn flutningi Hringbrautar sem þau töldu varasama aðgerð. Megin boðskapur Samtaka um betri byggð hefur verið sá að höfuðborgarsvæðið sé of dreifð byggð til að þar þrífist mannvænlegt og hagkvæmt samfélag. Lausnin á þeim vanda felst að mati samtakanna í að landið undir Reykjavíkurflugvelli verði tekið undir þétta borgarbyggð sem vaxi í nálægð og samhljómi við miðborgina. Helsti talsmaður samtakanna er Örn Sigurðsson arkitekt. Laugarbakki. Laugarbakki er þorp sem stendur rétt við þjóðveg 1 í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar bjuggu 57 manns 1. janúar 2011 en voru 89 árið 1998. Laugarbakki skiptist í þrjá kjarna, stærsti og nyrsti kjarninn (sem liggur næst þjóðvegi 1) er m.a. með félagsheimili, sundlaug (sem hefur verið breytt í 2 heita potta) og verslun, mið-kjarninn samanstendur af nokkrum húsum, þar á meðal íbúðum fyrir aldraða, og loks er þriðji og syðsti kjarninn sem er skólahúsnæði og íbúðir kennara við skólann. Eftir sameiningu hreppa og sveitarfélaga í Húnaþing vestra var grunnskólinn á Laugarbakka sameinaður grunnskóla Hvammstanga, starfsemi skólans er því skipt niður á þorpin tvö, þar sem eldri deildir eru á Laugarbakka, en yngri deildir á Hvammstanga. Laugarbakkaskóli var áður heimavistarskóli, en nú er rekið Eddu-hótel þar á sumrin. Félagsheimilið Ásbyrgi á Laugarbakka er vettvangur fjölmargra ættarmóta yfir sumartímann. Í hlíðinni fyrir ofan Laugarbakka, í landi Reykja, er hitaveita. Hún er í eigu Hitaveitu Húnaþings vestra og sér bæði Laugarbakka og Hvammstanga fyrir heitu vatni. Kristnes. Kristnes er þéttbýli sem hefur myndast hefur á samnefndri jörð í Eyjafirði. Þar búa um 52 manns. Kristnes er landnámsjörð og var það Helgi magri sem settist þar að. Er það staðsett rétt norðan við Hrafnagil og er þar starfrækt endurhæfingarmiðstöð. Kristnes tilheyrir Eyjafjarðarsveit. Reykjahlíð. Reykjahlíð er þorp sem stendur á bökkum Mývatns. Þar búa rúmlega 200 manns. Reykjahlíð tilheyrir Skútustaðahreppi og er skrifstofa sveitarfélagsins staðsett í þorpinu. Þar er íþróttafélag sem er fyrir alla íbúa við Mývatn,það nefnist Mývetningur. Hallormsstaður. Hallormsstaður er þéttbýliskjarni og áður kirkjustaður og prestssetur í Hallormsstaðaskógi. Þar var stofnaður hússtjórnarskóli árið 1930 en áður hafði verið þar einkarekinn kvennaskóli. Með tímanum reis upp dálítið byggð í kringum hann og starfsemi Skógræktar ríkisins og er það eina skógarþorpið á Íslandi. Á Hallormsstað bjuggu 48 manns 1. janúar 2011. Hallormsstaður tilheyrir sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Hallormsstaður er á austurstönd Lagarfljóts, um 27 km frá Egilsstöðum. Hallormsstaðaskógur er stærsti skógur á Íslandi. Upphaflega var skógurinn í landi jarðarinnar friðaður 1905 en friðunarsvæðið hefur mikið stækkað síðan. Skógræktarstöð var stofnuð á Hallomrsstað 1903 og nú er þar aðsetur skógarvarðarins á Austurlandi og starfsstöð Skógræktar ríkisins. Trjásafn er í skóginum og margvísleg aðstaða fyrir ferðamenn. Eiðar. Eiðar er þéttbýliskjarni staðsettur um 10 km norðan við Egilsstaði. Þar búa um 40 manns. Eiðar tilheyra sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Á Eiðum er 100 kW langbylgjusendir Ríkisútvarpsins, sem sendir á 207 kHz. (Hinn langbylgjusendirinn er á Gufuskálum.) Hvolsvöllur. Hvolsvöllur er þorp í Rangárþingi eystra. Það byggðist út úr Stórólfshvoli eftir að Kaupfélag Hallgeirseyjar stofnaði þar útibú árið 1930. Þar bjuggu 822 manns 1. desember 2007. Saga. Tveimur árum eftir að útibú Kaupfélagsins var opnað var fyrsta íbúðarhúsið risið en það var kaupfélagsstjórahúsið Arnarhvoll. Sama ár voru byggðar brýr á Þverá, Affall og Ála. Þannig urðu allir flutningar um Rangárvallasýslu auðveldari og var ákveðið að flytja höfuðstöðvar Kaupfélagsins frá Hallgeirsey að Hvolsvelli. Lítið var byggt um sinn nema frystihús og díselrafstöð. 1957 opnaði kaupfélagið kjörbúð við Austurveg en hún var þá ein af fyrstu slíkum á landinu. Sýslumaður Rangárvallasýslu hefur haft sæti sitt á Hvolsvelli frá 1938 og var barnaskóli stofnaður í plássinu 1943. Sólheimar í Grímsnesi. Sólheimar er sjálfbært samfélag í Grímsnesi þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman. Sólheimar voru stofnaðir árið 1930 af Sesselju Hreindís Sigmundsdóttur (1902 - 1974). Byggðahverfið Sólheimar leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekin er félagsþjónusta á Sólheimum þar sem einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn er veitt tækifæri til atvinnu og starfsþjálfunar, búsetu, félags- og menningarstarfs. Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun. Verslun og listhús, kaffihús og gistiheimili. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum svo sem kertagerð, listasmiðja, keramik, vefstofa, jurtastofa og smíðastofa. Í byggðahverfinu er kirkja, höggmyndagarður, trjásafn, hljómgarður, listsýningarsalur, umhverfissetrið Sesseljuhúsi auk íþróttaleikhúss. Flúðir (þorp). Flúðir er þorp í Hrunamannahreppi. Þar búa 338 manns. Þéttbýli hóf að myndast að Flúðum í kringum gróðurhúsarækt og er það í dag ein helsta atvinna staðarins. Stærstu vinnustaðir eru Límtré og Flúðasveppir. Á Flúðum er grunnskóli og skóli fyrir 8. til 10. bekk sem þjónar einnig Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í kringum Flúðir eru mikil útirækt en einnig gróðurhúsarækt sem nýtir jarðvarmann á svæðinu. Kinnarfjöll. Nyrsti hluti Kinnarfjalla séður úr Aðaldal.Kinnarfjöll eru fjallgarður sem liggur samsíða Kaldakinn og afmarkar hana að vestanverðu. Þau sjást víða að enda er um talsvert háan fjallgarð að ræða. Þau blasa við frá Húsavík og Aðaldal og einnig sést í efstu tinda þeirra úr Mývatnssveit. Sunnan frá Krossi og rétt norður fyrir Þóroddsstað rísa fjöllin nokkuð aflíðandi uppfrá sveitinni fyrir neðan. Þegar norðar dregur verða fjöllin brattari auk þess sem hlíðar þeirra eru frekar stöllóttar sem gerir það að verkum að skriðuföll eru fremur sjaldséð. Alaskavíðir. Alaskavíðir eða tröllavíðir (fræðiheiti: "Salix alaxensis") er hraðvaxta og hávaxinn sumargrænn runni af víðiætt með ílöng lauf sem eru græn og slétt að ofan en grá og loðin að neðan. Börkurinn er grár og sléttur. Af honum eru tvö afbrigði: "alaxensis" og "longistylis". Hann er upprunninn í Alaska en hefur verið fluttur út, meðal annars til Íslands, vegna þess hve harðger hann er. Hann er notaður tímabundið í skjólgerði þar sem hann vex mjög hratt upp og verður um 6 til 8 m á hæð. Bandaríkjaþing. Þinghús Bandaríkjaþings í Washington D.C. Bandaríkjaþing ("enska: United States Congress") er löggjafarþing Bandaríkjanna. Þingið starfar í tveimur deildum, efri deildin nefnist öldungadeild en neðri fulltrúadeild. Í fulltrúadeildinni sitja 435 þingmenn (auk eins fulltrúa frá Washington D.C. sem ekki hefur atkvæðisrétt) sem kjörnir úr einmenningskjördæmum til tveggja ára í senn. Þingmenn fulltrúadeildar skiptast á milli fylkja í samræmi við íbúafjölda þeirra. Í öldungadeildinni sitja 100 þingmenn eða tveir frá hverju fylki, þeir eru kjörnir til 6 ára í senn en kosið er á tveggja ára fresti um þriðjung sæta í deildinni. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna hvílir allt löggjafarvald á alríkisstiginu hjá þinginu, það hefur þó aðeins forræði yfir þeim málaflokkum sem sérstaklega eru taldir upp í stjórnarskránni en allir aðrir málaflokkar eru á forræði fylkjanna. Á meðal málaflokka sem eru á forræði þingsins eru viðskipti milli fylkja og við erlend ríki, leggja á skatta (á alríkisstigi, fylki og sveitarfélög innheimta einnig skatta), alríkisdómstólar, varnarmál og stríðsyfirlýsingar. Jeff Who? Jeff Who? er íslensk rokkhljómsveit sem syngur á ensku. Hljómsveitin hefur gefið út 2 plötur, "Death Before Disco" (2005) og "Jeff Who?" (2008). Þekktasta lag hljómsveitarinnar er "Barfly". Saga. Forsögu hljómsveitarinnar má rekja til þess að Þorri ákvað að leigja sér æfingahúsnæði til að æfa sig á trommur. Fljótlega slógust Baddi og Ásgeir í hópinn og byrjuðu þeir að æfa saman. Elli, sem var í sama skóla og sama bekk og þeir, langaði að prófa nýja mixerinn sinn og mætti eitt kvöldið vopnaður mini-disk, mixernum, tölvu, hljóðnema og helling af sjálfstrausti. Eftir stuttan tíma sem framleiðandi, stjórnandi og umsjónarmaður þeirra slóst Elli í hópinn og leikur nú á bassa. Þorri, Ásgeir, Baddi og Elli spiluðu saman í einhvern tíma, aðallega samt til að nota æfingahúsnæðið sem samkomustað til að drekka bjór áður en þeir fóru út á lífið. Í partýi hitti Baddi Tobba sem var búinn að vera spila með nokkrum innanbæjar hljómsveitum og var þekktur fyrir mikla píanóhæfileika. Tobbi var búinn að vera í sama skóla og hinir fjórir og bjó í sama hverfi og Baddi, svo hinir vissu að Tobbi væri ágætis viðbót við hljómsveitina. Baddi bauð Tobba að koma og æfa með þeim og árið 2004 var hljómsveitin Jeff Who? stofnuð. Vorið 2005 byrjuðu þeir að taka upp fyrstu plötu sína, "Death Before Disco", og í september sama ár kom platan út í samstarfi við Smekkleysu. Útgefið efni. Jeff Who? gaf út sína fyrstu hljómplötu í september árið 2005 í samstarfi við Smekkleysu. Platan bar nafnið "Death Before Disco". Önnur breiðskífa sveitarinnar kom út í nóvember 2008. Ferit Orhan Pamuk. Ferit Orhan Pamuk (fæddur 7. júní 1952 í Istanbúl) er tyrkneskur rithöfundur og handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels. Árið 2005 ákærðu tyrknesk stjórnvöld Pamuk fyrir móðgun gegn ríkinu í kjölfar þess að hann kallaði aðgerð tyrknesku stjórnarinnar á fyrri hluta 20. aldar gegn Armenum þjóðarmorð. Málinu var síðar vísað frá og telja sumir það vegna þrýstings frá Evrópusambandinu en tyrknesk stjórnvöld hafa sótt um aðild að því. Ohran Pamuk hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels þann 12. október 2006, fyrstur tyrkneskra rithöfunda. Pamuk, Ferit Orhan Pamuk, Ferit Orhan Gao Xingjian. Gao Xingjian (fæddur 4. janúar 1940) er kínverskur rithöfundur, leikritahöfundur, þýðandi, leikstjóri, málari og gagnrýnandi. Xingjian fæddist í Ganzhou, Kína en er í dag franskur ríkisborgari. Árið 2000 hlaut Xingjian bókmenntaverðlaun Nóbels. Þrátt fyrir að kínversk stjórnvöld hafi ekki gefið neitt út varðandi verðlaunaveitinguna kallaði kínverskt blað sem rekið er af stjórnvöldum útnefningu hans ‚fáránlega‘ árið 2001. Öll verk hans eru bönnuð í Kína. Frægasta verk Xingjian er "Sálarfjallið" (e. Soul Mountain). Octavio Paz. Octavio Paz Lozano (31. mars, 1914 – 19. apríl, 1998) var mexíkóskur rithöfundur, ljóðskáld og ríkiserindreki. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1990. Imre Kertész. Imre Kertész (fæddur 9. nóvember, 1929) er ungverskur rithöfundur og gyðingur og handhafi Bókmenntaverðlauna Nóbels árið 2002. Hann sat í fangabúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni og í umsögn sænsku akademíunnar segir meðal annars um veitinguna: fyrir að um hina brothættu reynslu einstaklingsins gagnvart barbarískum geðþótta sögunnar. Í þekktasta verki Kertész, Trúlaus (Sorstalanság), segir af reynslu fimmtán ára gamals drengs í Auschwitz, Buchenwald og Zeitz fangabúðunum í síðari heimsstyrjöldinni. Sumir telja bókina hálf-sjálfsævisögulega en höfundurinn hefur sjálfur vísað því á bug. Þar sem Kertész fann lítinn hljómgrunn meðal Ungverja fyrir skrifum sínum flutti hann til Þýskalands. Hann heldur þó áfram að skrifa á ungversku hjá ungverskum útgefanda. Hamar. Hamar er áhald sem notað er til að reka nagla í tré eða önnur efni til að festa saman fleiri en einn hlut. Einnig eru hamrar notaðir til ýmissa annarra hluta, svo sem að draga út nagla, brjóta hluti, ná hlutum í sundur eða festa þá saman. Hamrar eru með algengustu og fjölhæfustu verkfærum. Vefritið. Vefritið er rit á vefnum (internetinu), sem hóf göngu sína föstudaginn 13. október 2006 undir vefslóðinni. Það er ritað af hópi ungs fólks, sem telur sig frjálslynt félagshyggjufólk. Stofnendur vefritsins telja að þörf sé fyrir umræðu á grundvelli jafnaðarstefnu en að nóg framboð sé af hægrisinnuðum vefritum. Tilgangur Vefritsins er að vera vettvangur ferskrar umræðu um málefni líðandi stundar. Okkarína. Okkarína er blásturshljóðfæri sem er oftast úr leir. Sigmar Guðmundsson. Sigmar Guðmundsson er sjónvarpsmaður og fyrrverandi útvarpsmaður. Hann starfar sem stendur á RÚV í Kastljósinu, og sem spyrill í Gettu betur og Útsvari. Sigmar Guðmundsson hefur tvisvar sinnum afrekað það að verða ræðumaður Íslands í Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi (Morfís). Fort Minor. Fort Minor bandarísk hljómsveit — hliðarverkefni Mikes Shinoda, rappara úr Linkin Park. Fort Minor er fyrst og fremst rappverkefni, en einnig má greina áhrif frá rokki, sem og raftónlist (aðallega turntablisma). Verkefnið er sólóverkefni, en í mörgum lögum, sem og á tónleikum, eru meðlimir rappsveitarinnar Styles of beyond Shinoda innan handar. Á einu plötu Fort Minor hingað til hjálpuðu margir aðrir til, frægastir þeir Common, Black thought, Lupe Fiasco og John Legend. Víðfrægasta lag Fort minors er "„Where'd you go“", sem Shinoda flytur ásamt þeim Holly Brook og Jonah Matranga. Tónlistin. Haft hefur verið eftir Shinoda að markmiðið með Fort Minor sé að búa til tónlist og skemmta sér með vinum sínum. „Ég kalla þetta Fort Minor í stað þess að nota nafnið mitt, vegna þess að margir eru viðriðnir verkefnið. En mig langaði einungis að vinna með fjölskyldu og vinum [...]“ Fyrsta platan hlaut nafnið "The Rising Tied" og kom út í nóvember 2005. Textarnir á plötunni fjalla um mismunandi efni, verðandi smáskífan "Remember the name" fjallar um rapp og rappara, "Kenji" fjallar um raunir fjölskyldu Shinodas í seinni heimsstyrjöldinni þegar hún var send í fangabúðir í Bandaríkjunum (þau voru japanskir innflytjendur), og "Where'd you go" fjallar um aðskilnað tónlistarmanna við maka sína þegar þeir eru á ferðalögum, en það lag hlaut einmitt verðlaun fyrir besta hringitóninn á myndbandaverðlaunum MTV árið 2006. Breiðskífur. _ Epli. Epli er ávöxtur eplatrésins, Malus domestica, sem er af rósaætt. Epli er sá ávöxtur sem er hvað mest ræktaður í heiminum. Þau eru ýmist með gult, grænt eða rautt hýði eða þá að litur þeirra er blanda af þessum litum. Epli koma við sögu í ævintýrum, meðal annars sögunni af Mjallhvíti þar sem vonda stjúpan gaf Mjallhvíti eitrað epli. Einnig er barkakýlið sem skagar út úr hálsi karla stundum kallað "adamsepli" og á það rætur í þjóðsagnakenndri síðari tíma skýringu á fyrstu Mósebók og brottrekstri Adams og Evu úr aldingarðinum Eden. Oft er sagt að skilningstréð hafi verið eplatré og eplið hafi staðið í Adam þegar hann beit í það í óþökk guðs. Í hebreskri útgáfu Biblíunnar kemur ekki fram hvers konar ávöxt var um að ræða en misskilninginn má rekja til þýðingar á latneska orðinu "malum" sem merkir bæði illsku og epli. Orðið er þó ekki notað í latneskri þýðingu Biblíunnar því þar er notað orðið "fructus", sem merkir „ávöxtur“. Í grískri goðafræði koma epli meðal annars við sögu í frásögninni af þrætueplinu og gullnu eplum Vesturdísanna. Banani. Banani (mjög sjaldan nefnt bjúgaldin) er ávöxtur bananaplöntunnar. Helstu ræktunarsvæði þeirra eru nálægt miðbaug jarðar. Bananaplantan er fjölær og ein stærsta planta í heimi sem ekki er tré. Bananaplantan blómstrar og hvert blóm verður að banana. Þau vaxa í röðum og inniheldur hver röð um 15 til 30 banana. Á hverjum stilk plöntunar eru 7 til 10 raðir. Þegar plantan er um 9 mánaða eru bananarnir hirtir og plantan skorin niður. Hún vex síðan aftur úr sömu rótinni, líkt og rabarbari. Hýði banananna er grænt þegar þeir eru óþroskaðir og nýtíndir, en þeir gulna eftir því sem þroskinn er meiri. Bananahýði er mjög sleipt að innanverðu og í fjölmörgum myndasögum og bröndurum má sjá menn renna til og detta eftir að hafa stigið á slíkt. Egyptaland hið forna. Egyptaland hið forna vísar til hinnar fornu siðmenningar sem þróaðist á bökkum Nílarfljóts í Norðaustur-Afríku og náði hvað mestri útbreiðslu á 2. árþúsundinu f.Kr. á tímabili sem er kallað Nýja ríkið. Ríkið náði frá Nílarósum í norðri allt suður að Jebel Barkal við fjórðu flúðirnar í Níl. Á vissum tímum náði veldi Egypta yfir suðurhluta þess sem kallað hefur verið Austurlönd nær, strönd Rauðahafs, Sínaískaga og Vestureyðimörkina (sem nú skiptist milli Egyptalands og Líbýu, aðallega kringum vinjarnar). Menning Forn-Egypta stóð í um þrjú og hálft árþúsund. Hún hófst með sameiningu ríkjanna í Nílardal um 3150 f.Kr. og er venjulega talin hafa liðið undir lok þegar Rómaveldi lagði ríkið undir sig árið 31 f.Kr. sem varð upphafið að gagngerum breytingum í stjórnkerfi og trúarbrögðum landsins. Nílarósar. Nílarósar eru gríðarmiklir árósar þar sem Níl rennur út í Miðjarðarhafið. Þeir eru með stærstu árósum heims og ná frá Alexandríu í vestri að Port Saíd í austri og mynda 240 km af strandlengju Miðjarðarhafsins. Frá norðri til suðurs eru ósarnir um 160 km að lengd. Þeir hefjast rétt norðan við Kaíró. Barkalfjall. Barkalfjall (arabíska: ‏جبل بركل‎ "Djebel Barkal" „helgafell“; fornegypska: "ḏw wˁb" - „hið hreina fjall“) er lítið fjall sem stendur við stóra sveigju í ánni Níl um 400 km norðan við Kartúm í Súdan á svæði sem áður nefndist Núbía. Um 1450 f.Kr. lagði egypski faraóinn Tútmósis 3. undir sig svæði suður að fjallinu. Þar stofnaði hann borgina Napata sem um þremur öldum síðar varð höfuðborg konungsríkisins Kús. Nýja ríkið. Nýja ríkið er tímabil í sögu Egyptalands hins forna sem nær yfir átjándu, nítjándu og tuttugustu konungsættirnar, eða frá 16. öld til 11. aldar f.Kr. Nýja ríkið kom upp í kjölfarið á öðru millitímabilinu og þegar því lauk tók þriðja millitímabilið við. Kort sem sýnir mestu landfræðilegu útbreiðslu Egyptalands hins forna á 15. öld fyrir Krist. Á tímum Nýja ríkisins náði Egyptaland sinni mestu landfræðilegu útbreiðslu til Austurlanda nær og allt suður til Núbíu. Her Egypta barðist við Hittíta um yfirráð yfir Sýrlandi. Á þessum tíma voru uppi margir af þekktustu konungum Egypta, svo sem Akenaten, Tútankamon og Ramses 2. 16. öldin f.Kr.. Aldir: 18. öldin f.Kr. - 17. öldin f.Kr. - 16. öldin f.Kr. - 15. öldin f.Kr. - 14. öldin f.Kr. 16. öldin fyrir Krists burð eða 16. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 1600 f.Kr. til enda ársins 1501 f.Kr. Maneþon. Maneþon (úr grísku: "Μανεθων", "Manethōn") var egypskur sagnaritari og prestur frá Sebennytos (fornegypska: "Tjebnutjer") sem var uppi á tímum Ptólemajaríkisins á 3. öld f.Kr. og skrifaði rit um sögu Egyptalands hins forna á koine grísku. Maneþon byggði sögu sína meðal annars á listum yfir konunga Egyptalands sem hann hafði aðgang að í Neðra Egyptalandi. Konungalisti hans og umritanir hans á nöfnum konunga á grísku hafa mikið verið notaðir af egyptalandsfræðingum og eru enn hafðir til viðmiðunar. Konungalistinn varð grundvöllurinn að þeim rannsóknum á sögu Egyptalands hins forna sem hófust við ráðningu helgirúna Forn-Egypta á 18. öld. Maneþon hefur þekkt til verka Heródótosar og sumir hafa stungið upp á að hann hafi ætlað sér að bæta við verk gríska sagnaritarans og jafnvel reynt að samræma sögu sína frásögnum hans. Neðra Egyptaland. Kort yfir umdæmi í Neðra Egyptalandi. Neðra Egyptaland var annað af tveimur konungsríkjum sem Egyptaland hið forna skiptist í. Hitt var Efra Egyptaland. Neðra Egyptaland er norðurhlutinn og náði frá því rétt fyrir upphaf Nílarósa að Miðjarðarhafinu. Helstu borgir í Neðra Egyptalandi voru Memfis, Alexandría, Saís, Tanis og Helíópólis. Fyrsta konungsættin. Fyrsta konungsættin er listi yfir fyrstu konungana sem ríktu yfir sameinuðu Egyptalandi á 31. öld f.Kr. Höfuðborg ríkisins var í Tinis sem ekki er vitað hvar stóð. Upplýsingar um þessa konungsætt er að finna á nokkrum minnismerkjum og hlutum þar sem nöfn konunga eru rituð. Þekktastur þessara hluta er Narmerspjaldið. Engar nákvæmar heimildir eru til um fyrstu tvær konungsættirnar nema listar sem eru á Palermósteininum frá tímum fimmtu konungsættarinnar. Grafir konunga og aðalsmanna frá þessum tíma er að finna í Abýdos, Nakada og Sakkara. Þær eru að mestu byggðar úr tré og leirhleðslum. 01 Öxi. Öxi (eða exi) er handverkfæri sem notað er við smíðar til að kljúfa timbur og breyta lögun þess. Einnig eru axir stundum notaðar sem vopn í bardaga. Í Íslendingasögum er t.d. stundum talað um silfurreknar og gullreknar axir og í Hringadróttinssögu bar dvergurinn Gimli exi sem vopn. Axarhausinn er yfirleitt úr hörðum málmi (t.d. járni eða stáli) og skalli öðru megin eins og á hamri, en þunn egg á hinum endanum til að höggva með, t.d. í timbur. Til eru ýmsar gerðir af öxum, t.d. ísöxi og klifuröxi sem notaðar eru við fjalla- og jöklaferðir og skaröxi en blaðið á henni snýr þversum miðað við skaftið. Hún er heppileg til að höggva sæti í timbur. Eins má nefna bolöxi, viðaröxi, tálguöxi, bjúgöxi, saxbílu og blegðu. Á venjulegri exi snýr blaðið í sömu stefnu og skaftið, sem oftast er úr tré og misjafnlega langt eftir því hvað öxin er notuð við. Axir voru mikið notaðar við húsbyggingar á fyrri öldum og ómissandi við skógarhögg og vinnslu á rekaviði. Axir hafa lengi verið notaðar við aftökur og í frönsku byltingunni kom fallöxin fram sem skjótvirkara aftökutæki. Axir til forna. Axirnar norrænu voru taldar einkunnarvopn Norðurlandaþjóða, og voru mjög misjafnar að stærð og lögun. Léttar axir skammskeftar, er nefndust "handaxir", báru menn hversdagslega heima fyrir til öryggis sjálfum sér. Í bardögum voru þær einkum hafðar að kastvopnum. Hinar eiginlegu vígaxir voru stærri og þyngri. Algengasta tegund þeirra var hin svonefnda "breiðöx". Nafnið miðar einkum til þess að greina hana frá "bolöxum" (þ.e. viðaröxum). Breiðöxin hafði hátt blað og mjótt, nær því meitillaga. Breiðaxarblaðið var aftur á móti fremur lágt á skafti, allþunnt, lítið eitt bogadregið fyrir munninn, úthyrnt, en að sér dregið upp undir augað og þykknaði þar mjög; skallinn (hamarinn) var flatur, sjaldnar hnúðmyndaður. Eggin var 3-12 þumlunga á lengd. Nærri lætur, að meðallengd breiðaxa hafi verið um 5 þumlungar. Væri hyrnunar slegnar mjög fram og svírabugðurnar krappar - einkum kverkin - nefndist öxin: "Snarhyrnd öx". Til breiðaxa töldust ennfremur "skeggaxir"; þær voru snaghyrndar aftur en ekki fram, þ.e. höfðu skegg undir kverkinni. Aftur á móti virðist "bryntröllið" hafa verið frábrugðið snaghyrnum einkum að því leyti, sem skalllinn var sleginn fram í alldigran brodd, hvassan og strendan, er vel var til þess fallinn að rjúfa hjálma og brynjur, eða þá í lítið axarblað, tiltölulega þykkara og sterkara en aðalblaðið. Ekki má rugla bryntröllinu við "brynþvarann", er var höggspjót svipað atgeir, og er lýst sem spjóti með breiðu og löngu blaði og þverslá á falnum. Almannatengsl. Almannatengsl eru víðtækt hugtak og fellur ýmiss konar markaðsstarfsemi undir það. Til dæmis má nefna auglýsingar, skrif fréttatilkynninga og uppákomur sem eru skipulagðar með það í huga að fanga athygli fjölmiðla og neytenda og tryggja þannig að ímynd og ásjóna þess er nýtir sér almannatengslin sé viðkomandi í hag. Eitt helsta markmið almannatengsla er að tryggja fyrirtækjum umfjöllun í fjölmiðlum án þess að greiða fjölmiðlinum sérstaklega fyrir það. Það væri þó mikil einföldun að segja að almannatengsl snerust eingöngu um að fá ókeypis umfjöllun. Almannatengsl á Íslandi. Sem dæmi um íslensk almannatengslafyrirtæki má nefna AP almannatengsl, Athygli, Bæjarútgerðina, Cohn & Wolfe / GCI Grey Group Iceland (a WPP Company), Íslensk almannatengsl, KOM og Góð samskipti. Almannatengslafélag Íslands er samstarfsvettvangur þeirra sem starfa við almannatengsl á Íslandi. Auglýsing. Strætisvagn í Kópavogi með augýsingu frá Landsbankanum Auglýsing er samskiptaform þar sem reynt er að sannfæra hugsanlega kaupendur um að kaupa eða nota ákveðna vöru eða þjónustu. Margar auglýsingaherferðir ganga út á að selja ákveðin vörumerki sem eru tengd við ákveðna ímynd eða lífsstíl. Allir helstu miðlar eru notaðir af auglýsendum: sjónvarp, útvarp, bíó, tímarit, dagblöð, tölvuleikir, veraldarvefurinn og auglýsingarskilti. Auglýsingar eru gjarnan hannaðar af auglýsingastofum sem eru ráðnar af fyritækjum sem framleiða vöruna eða veita þjónustuna. Sauðlauksdalur. Sauðlauksdalur er fyrrum kirkjustaður og stórbýli við sunnanverðan Patreksfjörð. Jörðin er komin í eyði. Séra Björn Halldórsson var prestur í Sauðlauksdal um miðja 18. öld og ræktaði þar kartöflur fyrstur Íslendinga 1760, en Hastfer barón ræktaði kartöflur á Bessastöðum fyrstur manna á Íslandi tveimur árum áður. Baugur Group. Baugur Group var íslenskt fyrirtæki, fjárfestingarfélag, sem á og rak matvælaverslanir og stundaði verðbréfaviðskipti með hlutabréf í öðrum fyrirtækjum innanlands og erlendis. Það átti í yfir 3700 verslunum víðsvegar í heiminum og störfuðu hjá því alls ríflega 70 þúsund manns. Í byrjun mars 2007 birti Morgunblaðið fréttir af því að Baugur væri kjölfestufjárfestir í ríflega 30 fyrirtækjum að andvirði 1300 milljónir króna. Baugur er nú gjaldþrota. Saga. Sögu Baugs má rekja til stofnunar fyrstu Bónus verslunarinnar af feðgunum Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 1989. Fyrirtækið óx fljótt og dafnaði og þremur árum seinna voru verslanir Bónus orðnar þrjár talsins, allar á höfuðborgarsvæðinu. Sama ár keyptu eigendur Hagkaupa helmingshlut í Bónus verslununum. Ári seinna var stofnað nýtt fyrirtæki, Baugur, til þess að samhæfa innkaupin fyrir verslanirnar. Árið 1994 hófst útrás Baugs þegar fyrirtækið opnaði verslun í Færeyjum. Vöxtur fyrirtækisins hélt áfram og á næstu árum yfirtók Baugur rekstur verslana Hagkaupa, Bónuss, Nýkaupa, Hraðkaupa, Vöruveltunnar, 10-11 og Útilífs, auk innkaupa- og dreifingarfélagsins Aðfanga. Jón Ásgeir Jóhannesson varð strax forstjóri hins sameinaða félags. Á nýrri öld var nafninu breytt í Baugur Group. Eignarhaldsfélagið Mundur, sem er m.a. í eigu eigenda Baugs Group, gerði yfirtökutilboð í Baug Group. Á erlendri grundu eignaðist Baugur group leikfangaverslanakeðjuna Hamleys og einnig meirihluta í tískukeðjunni Oasis Stores og heilsuvörukeðjunni Julian Graves. Árið 2003 eignaðist Baugur Group hluti í Frétt ehf., sem gefur út Fréttablaðið og DV, og fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós sem á og rekur fjölmarga ljósvakamiðla. Næsta ár sameinuðust þessi fyrirtæki og átti Baugur Group þá 30% hlutafjár í því. Í kjölfarið spratt upp mikil umræða um eignarhald á fjölmiðlum (sjá fjölmiðlafrumvarpið). Árið 2004 eignaðist Baugur Group hluta í Magasin Du Nord, stórverslunarkeðju í Danmörku með langa sögu. Baugur Group reyndi áfram fyrir sér erlendis með kaupum á Big Food Group, Goldsmiths og MK One. Baugur kom einnig að kaupum Oasis á Karen Millen. Til þess að halda utan um fjárfestingar erlendis var stofnaður hlutabréfasjóðurin Ice Capital sem Baugur Group á meirihluta í. Árið 2005 keypti Baugur Group raftækjaverslanakeðjuna Merlin, smásöluverslunarkeðjuna Mappin & Webb og te- og kaffifélaginu Whittard of Chelsea. Auk þess eignaðist Baugur Group þriðjungshlut í danska fasteignafélaginu Keops og hluta í tískuvöruverslunarkeðjunni Jane Norman, fasteignafélaginu Nordicom A/S, FL Group og matvælafyrirtækinu Woodward Foodservice. Hrun. í aðdraganda bankakreppunnar fékk fjárfestingarfélagið Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, þrjátíu milljarða króna lán frá Kaupþingi til að kaupa 95 prósenta hlut í Högum af Baugi Group í gegnum félagið 1998 ehf. Í kjölfar Bankakreppunnar á Íslandi í október 2008 rýrnuðu eignir Baugs Group og kippt var undan félaginu lánalínum. Baugur var lýst gjaldþrota í mars 2009. Gjaldþrot Baugs reyndist stærsta gjaldþrot einkafyrirtækis hér á landi. Kröfur í þrotabúið nema á þriðja hundrað milljörðum íslenskra króna. Landsbankinn er stærsti kröfuhafinn. Jón Sigurðsson (f. 1946). Jón Sigurðsson (fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi, 23. ágúst 1946) var formaður Framsóknarflokks og iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Íslands utan þings. Hann var kjörinn formaður flokksins í kjölfar afsagnar Halldórs Ásgrímssonar sumarið 2006, en sagði svo sjálfur af sér 23. maí 2007 í kjölfar slæmrar útkomu flokksins í Alþingiskosningunum 12. maí 2007 þar sem hann náði ekki kjöri. Ævi. Jón útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands og sem sagnfræðingur og íslenskufræðingur með BA frá Háskóla Íslands 1969. MA (1988) og PhD (1990) í menntunarfræði frá CPU-háskólanum ("Columbia Pacific University") í Kaliforníu í Bandaríkjunum, og MBA í rekstrarhagfræði (1993) frá National University í San Diego í Kaliforníu. Jón hefur unnið ýmis störf, m.a. kennt við menntaskóla og háskóla, var rektor Samvinnuskólans á Bifröst, hefur setið í stjórnum fyrirtækja, fjölmörgum nefndum og skrifað bækur. Hann sat sem bankastjóri í Seðlabanka Íslands 2003-2006. Lucky Strike. Lucky Strike (Lucky Strikes eða Luckies) eru sígarettur framleiddar af British American Tobacco. Þær eru elsta gerð sígarettna í Bandaríkjunum og voru fyrst settar á markað árið 1871. Þær eru enn seldar í Bandaríkjunum og víða um heim. Ólíkt öðrum sígarettum er tóbakið í Lucky Strike steikt, en ekki þurrkað. Sígaretturnar voru markaðsettar með slagorðinu, "L.S./M.F.T.", sem er skammstöfun fyrir "Lucky Strike Means Fine Tobacco" eða "Lucky Strike þýðir fínt tóbak" á íslensku. Hús. Hús eru vistarverur sem byggðar eru af mönnum. Yfirleitt samanstanda þau af veggjum og þaki, sem vernda þá sem inni eru fyrir veðri, vindum og óboðnum gestum. Oft búa menn í húsum, en einnig geta önnur dýr búið þar, annað hvort vegna þess að húsin voru ætluð þeim (t.d. í dýragörðum) eða þá að þau flytja inn óboðin (t.d. mýs og flugur). Oft eru hús notuð sem varanlegar vistarverur, eða heimili fyrir fjölskyldu eða annan hóp fólks. Einnig eru hús notuð til vinnu, og eru þá kölluð skrifstofur, verksmiðjur, skólar eða annað, allt eftir því hvers kyns vinna fer fram innan veggja þess húss. Á hverju húsi eru yfirleitt að minnsta kosti einar dyr til að komast inn og út, auk þess sem gluggar eru oft notaðir til að auka ljósmagn og loftflæði innandyra og gera fólki kleift að sjá út á meðan það dvelst í húsinu. Stundum er garður umhverfis húsið. Bygging. a> - dæmi um rammíslenska byggingu. Bygging er mannvirki ætlað til íveru, búsetu eða skjóls, hvort sem er til langs tíma eða ekki. Mannvirki. a> yfir Hvítá hjá Iðu - dæmi um mannvirki Mannvirki er manngert fyrirbæri sem stendur úti við og er í flestum tilfellum ætlað að standa til langs tíma. Til eru margskonar mannvirki með mismunandi hlutverk; Brýr eru byggðar til að komast yfir ár, gil eða vegi og hús eru ætluð t.d. til íveru eða geymslu á einhverju. Mismunandi byggingarefni eru notuð í mannvirki. Steinsteypa, timbur og stál eru gjarnan notuð, en steypa er algengasta byggingarefnið í þróuðum löndum. Viður. Viður er efni sem tré og runnar eru gerð úr. Hann er heppilegur til ýmissa nota, svo sem til húsbygginga. Ef viður hefur verið unninn með ákveðnum hætti kallast hann krossviður og ef hann hefur rekið á land kallast hann rekaviður. Byggingarlist. a>i, er dæmi um klassískan arkitektúr. Byggingarlist eða arkitektúr (úr grísku: ἀρχιτέκτων "arkitekton"; „yfirsmiður“) felst í hönnun bygginga og ýmissa annarra mannvirkja. Smærri byggingar eru yfirleitt hannaðar alfarið af arkitektum, en stærri byggingar eru unnar í samvinnu arkitekta, sem einbeita sér að fagurfræði og almennu notagildi og byggingaverkfræðinga og byggingartæknifræðinga sem reikna burðarþol og sinna tæknilegum þáttum. Byggingarlist felst í því að skipuleggja, hanna og smíða form, rými og landslag með hliðsjón af hugmyndum um notagildi, tækni, samfélag, umhverfi og fagurfræði. Í byggingarlist eru byggingarefni, tækni, ljós og skuggar meðhöndluð og skipað niður á skapandi hátt. Byggingarlist tekur líka til þátta sem varða byggingarframkvæmdina sjálfa, eins og áætlanagerðar, kostnaðarmats og stjórnunar framkvæmda. Arkitektar skila vinnu sinni í formi teikninga og líkana, grunnmynda, afstöðumynda og áætlana sem skilgreina formgerð og virkni mannvirkis. Arkitekt. Arkitekt (húsameistari eða hússkáld) er einstaklingur sem hlotið hefur menntun í byggingarlist (arkitektúr). Camel. Camel eru alþjóðlegar sígarettur, framleiddar í Bandaríkjunum. Þær voru fyrst settar á markað árið 1913 í Bandaríkjunum af bandaríska sígarettufyrirtækinu RJ Reynolds Tobacco. Markmið fyrirtækisins var að búa til sígarettur sem létt væri að reykja, ólíkt öðrum tegundum á markaðnum. Aðrar sígarettur, eins og Lucky Strike, voru mjög sterkar fyrir fólk. Af þeim sökum urðu Camel sígaretturnar fljótt vinsælar. Tóbakið í Camel sígarettum er blanda af tyrknesku og bandarísku tóbaki. Auglýsingar Camel sígaretta vöktu mikinn ágreining þar sem í þeim var notast við teiknimyndir af Joe Camel og markhópurinn var augljóslega ungt fólk. Ágreiningsmálið var að mörg ung börn gátu samsamað sig betur með Joe Camel en Mikka mús eða annarru teiknimyndapersónu. Camel sígarettur eru enn þann dag í dag á markaðnum og hægt er að kaupa þær með eða án filters. Baskneska. Basque Country in Spain and France Baskneska (baskneska: Euskara) er tungumál sem er talað í Baskalandi. Baskaland er svæði á Norður-Spáni og Suðvestur-Frakklandi. Baskar eru að reyna að verða sjálfstætt ríki en þeir hafa ekki hlotið sjálfstæði frá Spáni og Frakklandi. Menning Baska er frábrugðin menningu Frakka og Spánverja. Til dæmis er baskneska tungumálið einangrað, sem þýðir að baskneska er ekki eins og spænska, franska eða önnur rómönsk tungumál. Baskneska tungumálið tilheyrir ekki neinni tungumálaætt og er því hvorki rómanskt né indóevrópskt eins og flest tungumál sem töluð eru nálægt Baskalandi. Elstu textar frá 1500. Mállískur 8, mörg lánorð úr nálægum málum, spænsku, frönsku, latínu. Dýnamó Höfn. Dýnamó Höfn er knattspyrnulið frá Höfn í Hornafirði sem hefur keppt í utandeild Austurlands, Malarvinnslubikarnum. Saga. Liðið var stofnað um mitt sumar 2004, en þá stóð til að keppa í litlu móti á Borgarfirði eystri sem kallast Álfasteinsspark. Heimavöllur Dýnamó, eins og það er oftast kallað, er Mánagarður í Nesjum. Eysteinn Sindri Elvarsson hefur þjálfað liðið frá upphafi með aðstoð Andra Indriðasonar. Dýnamó hefur tekið þátt í Malarvinnslubikarnum síðan sumarið 2005 en þá lenti liðið í miklum hrakningum og náði ekki í stig fyrr en í næstsíðustu umferðinni, þegar liðið gerði markalaust jafntefli við U.M.F. Þórshöfn. Sumarið 2006 gekk mun betur hjá liðinu. Þremur sigrum var landað og þremur jafnteflum. Endaði liðið þá með 12 stig. Sumarið 2007 var svipað og árið áður, nokkur félagsmet voru sett, þar má nefna tvo 10 marka sigra og stærsta útisigurinn frá upphafi. Liðið endaði þá í 5. sæti deildarinnar og fékk 13 stig, sem er bæting frá síðasta sumri. Sumarið 2008 má segja að hafi verið algjört klúður frá upphafi til enda. Liðinu tókst þó í fyrsta sinn að leggja BN'96 að velli, 3-2, en gleðin varð þó skammvinn því þegar þrír dagar voru eftir af mótinu, átti Dýnamó ennþá eftir að leika fimm leiki og brá stjórnin á það ráð að segja sig úr keppninni. Dýnamó taldist þar af leiðandi hafa tapað öllum sínum leikjum með markatölunni 0-3. Eftir tímabilið 2008 virðist framtíð félagsins vera í uppnámi, en hver veit nema einhver taki sig til og hefji félagið aftur upp til vegs og virðingar. Bronsöld. Bronsöld er það tímabil í þróun siðmenningarinnar þegar æðsta stig málmvinnslu var tækni til að bræða kopar og tin úr náttúrulegum úrfellingum í málmgrýti og blanda þessum tveimur málmum síðan saman til að mynda brons. Bronsöld er eitt af þremur forsögulegum tímabilum og kemur á eftir nýsteinöld og er á undan járnöld. Þessi tímabil vísa til tækniþróunar, einkum getunnar til að búa til verkfæri, og ná því yfir mismunandi tímabil á mismunandi stöðum. Elstu dæmi um bronsvinnslu er að finna í Austurlöndum nær um 3500 f.Kr. Í Kína er almennt talið að bronsöld hefjist um 2100 f.Kr., í Mið-Evrópu um 1800 f.Kr. og á Norðurlöndunum um 1500 f.Kr. Í Suður-Ameríku hófst bronsöld um 900 f.Kr. Sums staðar í Afríku sunnan Sahara tók járnöld strax við af steinöld. Narsaq. Kirkjan í Narsaq Narsaq þorpið árið 1900 Narsaq er á Suður-Grænlandi í sveitarfélaginu Kujalleq og hafði 2033 íbúa 1. janúar 2004. Af þeim búa 1705 í sjálfum Narsaq þéttbýliskjarnanum og hinir í hinum þremur byggðakjörnum í nágrenni hans, Qassiarsuk (42), Igaliku (41) og Narsarsuaq (162). Í Narsarsuaq er aðalflugvöllur suðurhluta Grænlands. Þar var áður bandarísk herstöð og var flugvöllurinn byggður til millilendinga í seinni heimsstyrjöldinni. Frá 1959 hefur flugvöllurinn verið notaður til almenningsflugs. Air Greenland flýgur daglega áætlanaflug til og frá Kaupmannahöfn og Narsarsuaq og einnig innanlands á Grænlandi. Þar að auki flýgur Flugfélag Íslands á sumrin til Narsarsuaq frá Reykjavík. Bærinn Narsaq er á tanga sem aðskilur Tunulliarfik fjörð (á dönsku: Skovfjorden, en var nefndur Eiríksfjörður af Grænlendingum til forna) og Nordre Sermilik fjörð (á dönsku: Bredefjord) á um það bil á 61°N. Orðið Narsaq má þýða úr grænlensku sem "sléttan" og er það sannefni þar sem bærinn liggur á stóru flötu svæði undir bröttum fjallsveggjum. Bærinn er tiltölulega ungur, fékk kaupstaðarréttindi 1959 en var upphaflega verslunarstaður stofnaður 1830. Aðalatvinnurekstur í bænum er fiskvinnsla, sérlega rækjur og krabbar. Tiltölulega gjöful náttúra er grundvöllur annars aðalatvinnurekstrar í sveitarfélaginu, sauðfjárrækt. Þar eru 31 af 53 beitarsvæðum á Grænlandi. Ferðamennska er vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu, kemur þar til flugvöllurinn, gott gönguland og fiskimöguleikar. Narsarsuaq. Flugvél frá Air Greenland á flugvellinum í Narsarsuaq. Narsarsuaq (sem hefur verið stafað á ýmsan hátt, t.d. Narssarssuaq) er bær í Suður-Grænlandi. Orðið er grænlenska og þýðir „stóra sléttan“. Hér var ein helsta þungamiðja byggðar í Eystribyggð Grænlendinga hinna fornu, enda Brattahlíð rétt hjá, hinum megin fjarðarins. Árið 1941 byggði Bandaríkjaher flugstöð sem kölluð var Bluie West One, og var hún mikilvægur hlekkur í flutningum frá Ameríku til Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Samkomulag varð milli Danmerkur og Bandaríkjanna 1951 um sameiginlegan rekstur. Það var haldið áfram að stækka flugstöðina þangað til Thule-flugstöðin var byggð á Norður-Grænlandi en hún var mun stærri og fullkomnari. Flugstöðin í Narsarsuaq var lögð niður 1958 en opnuð að nýju 1959 en þá einungis sem almenningsflugvöllur. Air Greenland flýgur daglega áætlunarflug á milli Kaupmannahafnar og Narsarsuaq og einnig innanlands á Grænlandi. Þar að auki flýgur Flugfélag Íslands á sumrin til Narsarsuaq frá Reykjavík. Hellisheiðarvirkjun. Hellisheiðarvirkjun á forsíðu vísindatímaritsins Science, sept. 2009. Hellisheiðarvirkjun er jarðvarmavirkjun á sunnanverðu Hengilssvæðinu. Virkjað er með því að bora um 30 borholur, að jafnaði 2000 metra djúpar. Úr holunum streymir jarðhitavökvi, sem er blanda af gufu og vatni. Þessum vökva er safnað í skiljustöð. Þaðan fara svo gufa og vatn eftir tveimur aðskildum aðveituæðum í stöðvarhús virkjunarinnar. Það er tvískipt, annars vegar rafstöð og hins vegar varmastöð. Gufan knýr túrbínur til raforkuframleiðslu og fer rafmagnið inn á dreifikerfi Landsnets. Upphaflega var farið í virkjunina í tengslum við samning við álver Norðuráls á Grundartanga um kaup á raforku hennar. Framleiðsla rafmagns í Hellisheiðarvirkjun hófst 1. október 2006. Virkjunin var stækkuð í 213 MW uppsett afl í nóvember 2008, en áætlað er að afl hennar verði 300 MW í rafmagni. Heita vatnið verður leitt í varmastöð þar sem það verður notað til að hita upp kalt ferskvatn. Upphitaða vatnið verður leitt í leiðslum neðanjarðar til höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að varmastöðin taki til starfa árið 2009, og að hún verði 400 MW þegar hún hefur náð fullum afköstum. Orkuveita Reykjavíkur er eigandi og ábyrgðaraðili Heillisheiðarvirkjunar. Ammassalik. Ammassalik er þéttbýlissvæði á austurströnd Grænlands í sveitarfélaginu Sermersooq. Árið 2005 voru samanlagt 3018 íbúar í Ammassalik, 1852 í aðalbyggðinni Tasiilaq og 1166 í byggðunum fimm, Kuummiit, Kulusuk, Tineteqilaaq, Sermiligaaq og Isortoq. Air Greenland flýgur oft í viku til Kulusuk frá Kangerlussuaq (Søndre Strømfjord) og Nerlerit Inaat (Konstabel Pynt). Flugfélag Íslands flýgur einnig frá Reykjavík til Kulusuk. Í Tasiilaq er Ammassalik-safnið til húsa í gömlu kirkjubyggingunni. Það var opnað 1990 og geymir minjar um mannlíf á Austur-Grænlandi. Tasiilaq. Tasiilaq er grænlenska og þýðir „þorpið sem er við fjörðinn sem er eins og vatn“. Íbúafjöldi var árið 2005 um 1852. Tasiilaq er aðal þéttbýliskjarni í sveitarfélaginu Ammassalik og annað af tveimur þorpum á 3000 km langri austurströnd Grænlands. Þorpið var áður nefnt Ammassalik en það nafn er nú einungis notað um sveitarfélagið. Þorpið er mjög einangrað, yfir veturinn er einungis hægt að komast þangað með þyrlu, hundasleða eða snjósleða. Frá júlí fram í nóvember kemur farskip um það bil fjórum sinnum með nauðsynjar. Í Tasiilaq ber enn merki upphaflegrar menningar og lífskjara. Íbúar lifa einkum af veiðum og þjónustu. Það er ekki meir en hundrað ár frá því fyrstu Evrópumennirnir komu á svæðið, byggðu hús og stofnuðu þorpið. Þorpið er á 65.36N; 37.33V, og er um 7.277 km fyrir norðan miðbaug. Flugfélag Íslands flýgur frá Reykjavík til Kulusuk yfir sumartímann. Frá Kulusuk er um það bil 15 mínútna þyrluflug til Tasiilaq. Ittoqqortoormiit. Þorpið Ittoqqortoormiit séð frá sjó Ittoqqortoormiit (á grænlensku og Scoresbysund á dönsku) er þorp á Austur-Grænlandi í sveitarfélaginu Sermersooq með 469 íbúa. Þorpið er norðan við mynni fjarðarins "Kangertittivaq" sem á dönsku nefnist "Scoresby sund". Ittoqqortoormiit er mjög einangrað og er einungis hægt að komast þangað frá öðrum stöðum á Grænlandi með skipum yfir hásumartímann en annars einungis með þyrlu. Ittoqqortoormiit liggur að Þjóðgarði Grænlands sem er stærsti þjóðgarður heims og nær yfir 972.000 km². Sögubrot. Rústir og aðrar minjar vitna um að nálægt Ittoqqortoormiit hefur fólk haft búsetu um langan tíma þó hún hafi ekki verið órofin. Scoresbysund er nefnt eftir skoska hvalveiðimanninum William Scoresby sem fyrstur manna rannsakaði svæðið og gerði uppdrátt af því 1822. Grænlenska nafnið, Ittoqqortoormiit, þýðir „Stóra húsið“. Þorpið Ittoqqortoormiit var stofnað 1925 að undirlagi dönsku ríkisstjórnarinnar. Voru þá 70 manns fluttir, sumir viljugir og aðrir óviljugir, frá Tasiilaq (Ammassalik) þangað sem þorpið var stofnað. Ástæðan var sú að norska ríkið undir forystu Quislings var farið að sýna Norðaustur-Grænlandi mikinn áhuga og hélt því fram að danska ríkið hefði einungis rétt til þeirra svæða á Grænlandi sem væru í byggð. Hinum nýju íbúum Ittoqqortoormiit líkaði þó fljótlega vistin vel því hér voru góð veiðisvæði, mikið af sel, rostungum, náhvölum, ísbjörnum og refum. Önnur konungsættin. Önnur konungsættin er listi yfir þá konunga sem ríktu yfir sameinuðu Egyptalandi frá því um 2890 f.Kr. til um það bil 2630 f.Kr. Fyrsta og önnur konungsættin eru venjulega taldar saman sem Elstu konungsættirnar. Höfuðborg ríkisins var í Tinis, samkvæmt sagnaritaranum Maneþon, en grafir fyrstu konunganna hafa fundist í Sakkara sem kann að benda til þess að stjórnsýslumiðstöðin hafi verið flutt til Memfis. Lítið er vitað um þessa konungsætt og konungalistar eru brotakenndir. Palermósteinninn nefnir aðeins stutt tímabil undir stjórn Raneb og Nynetjer. 02 Elstu konungsættirnar. Elstu konungsættirnar eru fyrstu konungarnir sem ríktu yfir sameinuðu Egyptalandi. Tímabilið nær yfir fyrstu tvær konungsættirnar sem ríktu um það bil frá 31. öld f.Kr. til 27. aldar f.Kr. þar til Gamla ríkið hófst. Tímabilið einkennist af styrkingu og þróun miðstjórnarvalds. Samkvæmt Forn-Egyptum sjálfum komu þeir upprunalega frá landi sem hét Púnt og egyptalandsfræðingar vilja staðsetja þar sem nú er Erítrea eða Súdan. Þeir kölluðu sig þjóð landanna tveggja með tilvísun til Efra Egyptalands og Neðra Egyptalands. Samkvæmt sagnaritaranum Maneþon var fyrsti konungurinn Menes, en elsti konungur fyrstu komungsættarinnar sem heimildir greina frá er Hor-Aha. Einnig er til steinspjald sem ber nafn Narmers (síðasta fornkonungsins fyrir sameiningu landanna) sem virðist segja frá því þegar hann sameinar löndin tvö, og því vilja sumir gera hann að fyrsta konungi fyrstu konungsættarinnar. Á tímum elstu konungsættanna fóru konungar að reisa sér íburðarmikil grafhýsi, mastöbur, úr óbrenndum leirhleðslum, sem voru undanfarar þrepapýramídanna. Stjórnsýslumiðstöðvar miðstjórnarvaldsins og héraðsstjóra hafa verið opnir hofgarðar úr viði eða sandsteini. Astana. Astana er höfuðborg Kasakstan. Íbúafjöldi borgarinnar var árið 2004 áætlaður 600 þúsund manns. Asúnsjón. Asúnsjón er höfuðborg Paragvæ. Íbúafjöldi borgarinnar er áætlaður yfir 1,5 milljón manns. Bandar Seri Begawan. Bandar Seri Begawan er höfuðborg Brúnei. Íbúafjöldinn er 46.229 samkvæmt tölum frá árinu 1991. Bangví. Bangví er höfuðborg Mið-Afríkulýðveldisins. Íbúafjöldi borgarinnar er rúmlega 530.000. Dóúala. Dóúala er önnur stærsta borg Kamerún með yfir 2 milljónir íbúa. Tíjúana. Tíjúana er stærsta borgin í mexíkóska fylkinu Baja, með rúmlega 1,4 milljónir íbúa. Tomrefjord. Tomrefjord er fjörður sem liggur við vesturströnd miðnoregs í fylkinu Møre og Romsdal. Bærinn í firðinum heitir Tomra en er gengur venjulega undir sama nafni og fjörðurinn sem hann liggur í. Stærsta fyrirtæki bæjarins er skipasmíðastöðin Aker Yards AS Langstein þar sem um 600 manns vinna en einnig er bærinn heimabær Bjørn Rune Gjelsten sem er einn af ríkustu mönnum landsins. Sunnan við Tomrefjord liggur Ålesund og norðan við hann er bær rósanna: Molde Kulusuk. Aðflug að Kulusuk-flugvelli ljósmyndað í 3000 feta hæð í júlí 1996 Kulusuk (á dönsku: Kap Dan) er byggðakjarni á samnefndri eyju í Ammassalik sveitarfélaginu á Austur-Grænlandi. Íbúafjöldi er um 350. Á Kulusuk-eyju er einnig Kulusuk flugvöllurinn sem er eini alþjóðlegi flugvöllurinn á Austur-Grænlandi. Yfir sumartímann flýgur Flugfélag Íslands frá Reykjavík. Reglulegt áætlunarflug Air Greenlands er allt árið um kring frá Nuuk og Kangerlussuaq. Frá flugvellinum er um 10 mínútna flug með þyrlu til Tasiilaq. Frá 1959 til 1991 var rekin bandarísk ratsjárstöð á Kulusuk. Grænlenska nafnið "Kulusuk" þýðir 'brjóst teistunnar'. Jökulsá á Breiðamerkursandi. Jökulsá á Breiðamerkursandi og brúin yfir hana. Jökulsá á Breiðamerkursandi er jökulá í Austur-Skaftafellssýslu, vatnsmikil (meðalrennsli 250-300 m³/s) en mjög stutt, aðeins um 500 metra löng. Hún rennur úr lóni, Jökulsárlóni, við jaðar Vatnajökuls. Áin er á miðjum Breiðamerkursandi, á milli Öræfasveitar og Suðursveitar. Jökulsá rann áður beint undan jöklinum, 1-1,5 km til sjávar, en um 1935 fór lónið að myndast við jökulröndina og upp úr 1950 fór það að stækka ört samfara því sem jökullinn hopaði vegna bráðnunar. Um leið hefur áin styst vegna brimrofs við ströndina og ef sú þróun heldur áfram má búast við að áin hverfi innan tíðar og lónið fyllist af sjó, en raunar gætir þegar sjávarfalla í því. Mun þá myndast þar fjörður inn að jökulröndinni. Reynt hefur verið að vinna gegn þessu með því að leitast við að hindra landbrot og hækka vatnsstöðu lónsins. Áin var brúuð á árunum 1966-1967 og er brúin 108 metrar á lengd. Ferja var á ánni frá 1932 en áður var hún mjög erfið yfirferðar, bæði vegna straumhörku og jakaburðar, og oft ófær með öllu og drukknuðu margir þegar þeir reyndu að komast yfir hana. Ef ekki var hægt að ríða yfir ána, til dæmis þegar hún féll í einum straumhörðum ál fram í sjó en ekki í mörgum kvíslum, var oft gripið til þess að fara yfir jökulinn fyrir ofan upptök hennar en það var hættuspil þar sem hann var oft mjög sprunginn. Farið var að merkja leið yfir jökulinn um 1870. Alþýðusamband Íslands. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) er heildarsamtök íslenskra stéttarfélaga, stofnað 12. mars 1916. Í dag eru meðlimir þess u.þ.b. 108.000 u.þ.b. helmingur starfandi vinnuafls. Félagsmenn eru hvort tveggja starfandi á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Á heimasíðu ASÍ segir að „verkalýðshreyfingin hafi að verulegu leyti byggt upp það velferðarkerfi sem við njótum góðs af í dag, samstaðan og fjöldinn gerir henni kleift að hafa pólitísk áhrif og móta þjóðfélagið að þörfum fólksins. ASÍ gerir kröfu um úrbætur, völd og áhrif fyrir hönd félaga sinna, en úrslitavaldið þegar mest á reynir, til dæmis við gerð kjarasamninga eða verkfallsboðun, er ætíð í höndum fólksins í stéttarfélögunum.“ Saga. Upp úr aldamótunum 1900, eftir því sem fleira fólk flutti á mölina og Reykjavík þandist út og stækkaði tóku menn eftir því að hyggilegt væri að stofna félög til þess að gæta hagsmuna vinnandi fólks. Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á kom lægð í íslenskt efnahagslíf og þótti þá nauðsynlegt að tengja starfsemi nokkurra verkalýðsfélaga í einu heildarsambandi. Þann 12. mars 1916 var Alþýðusamband Íslands stofnað af sjö félögum á fundi í Báruhúsinu, þau félög voru; Stofnmeðlimir voru um 1500 manns, um fjórðungur voru konur en þær höfðu aðeins ári fyrr hlotið kosningarétt, sem var þó takmarkaður. Samhliða stofnun ASÍ var Alþýðuflokkurinn, sem var stjórnmálaarmur þess, einnig stofnaður. Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kosinn forseti sambandsins, varaforseti varð Ólafur Friðriksson og Jón Baldvinsson ritari. Gegndu þeir þessum embættum þar til haldið var fyrsta reglulega þing ASÍ síðar sama ár. Þá tók Jón Baldvinsson við sem forseti og Jónas Jónsson frá Hriflu tók við embætti ritara. Árið 1940 var Alþýðuflokkurinn aðskilinn frá ASÍ svo að verkalýðsfélagið gæti höfðað til allra vinnandi stétta óháð stjórnmálaskoðunum þess. Þó sneri ASÍ aftur á braut stjórnmálanna 1955 þegar ákveðið var á stjórnarfundi að stofna á ný stjórnmálaflokk, Alþýðubandalagið. Listasafn ASÍ var stofnað 1961 í kjölfar þess að Ragnar í Smára, bókaútgefandi, gaf ASÍ listaverkasafn sitt. Í kjölfar "hlerunarmálsins" svokallaða, sem komst upp haustið 2006, að tilteknir símar hefðu verið hleraðir af lögregluyfirvöldum á meðan á kalda stríðinu stóð, kom í ljós að sími skrifstofu ASÍ var hleraður að beiðni dómsmálaráðuneytisins í febrúar 1961. Aðildarfélög. Aðildarfélög telja 64 talsins og er skipt niður í fimm landsambönd að sjö landsfélögum undanskildum. Starfsemi. Miðstjórn ASÍ sér um daglegan rekstur, hún er kosin ár hvert á ársfundi ASÍ til tveggja ára í henni sitja 13 fulltrúar auk forseta og varaforseta. Annað hvert ár er forseti kosinn sérstaklega og sex meðstjórnendur, en hitt árið varaforseti og sjö meðstjórnendur. Auk þess eru kosnir ellefu varamenn. Sex það árið sem forseti er kjörinn og fimm það árið sem varaforseti er kjörinn. Seturétt á ársfundi eiga samtals 290 ársfundarfulltrúar og er þeim sætum skipt milli landsambanda og landsfélaga í hlutfalli við fjölda félagsmanna þeirra. Þó er hverju aðildarfélagi tryggður a.m.k. einn fulltrúi. Fjallagrös. Fjallagrös (fræðiheiti: "Cetraria islandica") er þrátt fyrir nafnið flétta (þörungar og sveppur í samlífi) en ekki gras. Þau eru algeng í fjalllendi og hásléttum á norðlægum slóðum. Fjallagrös eru sérstaklega algeng á Íslandi en finnast einnig á fjöllum í norðurhluta Wales, Skotlandi og suð-vestur Írlandi. Blöð fjallagrasa eru mismunandi, þau eru oft brúnleit eða nær svört, mjó og rennulaga, eða þau geta verið blaðkennd og frekar breið, ljósbrún eða grænleit á lit. Blaðjaðrarnir eru alsettir mjóum randhárum. Nytjar. Fjallagrös geta verið bæði mismunandi á litin og lögun Fjallagrös hafa verið nytjuð á Íslandi í margar aldir, þau voru notuð soðin í blóðmör, seyði af þeim drukkið, notuð sem litunargras, möluð í mat, þau soðin (hleypt) í grasagraut (grasalím) og haft sem eftirát. Það tíðkaðist að fara í grasaferðir til að safna fjallagrösum síðsumars. Fjallagrös eru næringarrík og hafa verið notuð í staðinn fyrir sterkju í sumum kakóuppskriftum. Þau hafa einnig verið notuð til lækninga. Í fjallagrösum er beiskjuefni sem örvar rennsli munnvatns og magasafa og verkar styrkjandi á maga og örvar matarlyst. Rannsóknir benda til að efni í fjallagrösum örvi ónæmiskerfið og geti jafnvel verkað hamlandi á alnæmisveiruna. Fyrirtækið Íslensk fjallagrös, sem stofnað var árið 1993, framleiðir heilsuvörur úr íslenskum fjallagrösum. Sigurður málari. Sigurður Guðmundsson (oftast nefndur Sigurður málari) (9. mars 1833 - 7. september 1874) var íslenskur listmálari sem starfaði mikið að leikhúsmálun, hannaði búninga og gerði sviðsmyndir. Hann átti drjúgan þátt í stofnun Fornminjasafnsns og vann ósleitilega að fegrun hins íslenska kvenbúnings. Sigurður fæddist á Hellulandi í Hegranesi, Skagafirði. Hann fór til til náms í Kaupmannahöfn árið 1848 og stundaði nám við Konunglegu dönsku fagurlistaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1850-1858. Hann kom heim til Íslands árið 1858 og starfaði eftir það við teiknikennslu og gerði mannamyndir og málaði altaristöflur. Hann skrifaði einnig um skipulagsmál í Reykjavík og setti fram hugmynd um útivistarsvæði í Laugardalnum. Sigurður var forystumaður um stofnun Forngripasafnsins árið 1863. Forngripasafnið varð síðar að Þjóðminjasafni Íslands. Í hugvekju í Þjóðólfi 24. apríl 1862 skrifaði hann um mikilvægi slíks safns til að skilja þjóðerni Íslendinga og sögu landsins. Hann starfaði einnig mikið að leikhúsmálum, hannaði leikbúninga, málaði leikara og gerði sviðsmyndir. Sigurður skrifaði greinina "Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju" árið 1857 í Ný félagsrit. Hann skapaði nýjan íslenskan kvenbúning skautbúning eða hátíðarbúning úr gamla faldbúningnum og teiknaði einnig léttari faldbúning sem nefnist kyrtill sem hafa mátti til dansleikja, sem brúðarbúning og fermingarbúning. Sigurður Guðmundsson lést 7. september 1874 og fylgdi honum til grafar fjöldi kvenna í skautbúningi með svartar blæjur yfir faldinum. Eiffelturninn. Eiffelturninn er járnturn á Champ de Mars París á vinstri bakka árinnar Signu. Er hæsta bygging í París og eitt af þekktustu kennileitum í heiminum. Turninn er nefndur eftir hönnuðinum, Gustave Eiffel og er frægur ferðamannastaður. Eiffelturninn var byggður árið 1889 og er 324 metrar að hæð og vegur 7300 tonn. Mögulegt er að ganga hluta leiðarinnar upp í turninn eða 1660 þrep en taka verður lyftur til þess að komast á toppinn. Nanortalik. Nanortalik er tíunda stærsta þorp á Grænlandi, á eyju sem einnig er nefnd Nanortalik, um 100 kílómetrum norðvestan við Hvarf, syðsta odda Grænlands. Nafnið "Nanortalik" þýðir "ísbjarnarstaður". Nanortalik er hluti af sveitarfélaginu Kujalleq á suðurhorni Grænlands. Íbúar bæjarins voru 1.564 í janúar 2005 en ásamt öðrum byggðum í grendinni voru íbúarnir 2.389. Flestir þeirra búa í Narsarmijit, Alluitsup Paa, Tasiusaq, Aappilattoq og Ammassivik. Aðalatvinnugreinar eru smábátaútgerð, sela- og svartfuglaveiði og ferðamannaumsjón. Gullnáma var opnuð fyrir fáeinum árum um 30 km norðan við aðalþorpið. Um nokkra áratuga skeið var einnig rekinn grafítnáma í nágrenni þorpsins en hún er nú lokuð. Saga. Innan Nanortalik svæðisins var stór hluti Eystribyggðar Grænlendinga hinna fornu. Hér var meðal annars bærinn Herjólfsnes og stór hluti Vatnahverfis. Núverandi byggðakjarni fór að myndast um 1770. Árið 1797 var hér settur upp verslunarstaður, útibú frá Julianehåb. Gróðurfar og dýralíf. Þó Grænland sé nánast skógarlaust er í Qinngua-dalnum um 40 km norðan við Nanortalik-þorpið eina svæðið sem kalla mætti skóg. Hér vex rjúpuvíðir (Salix glauca) og birki (Betula pubescens) upp í margra metra hæð. Mikil gróðursæld er í dalnum og hafa fundist um 300 plöntutegundir. Þrátt fyrri nafnið eru ísbirnir sjaldgæfir, þá rekur einstaka sinnum á ísjökum frá Austur-Grænlandi á tímabilinu frá janúar til júní. Mikið er um svartfugl til sjávar og rjúpur inn til lands auk arna, fálka og snæuglu. Selir eru algengir með ströndum og langt inn með fjörðum. Aappilattoq. Aappilattoq er heiti tveggja þorpa á Grænlandi. Annað þeirra er á Suður-Grænlandi, á 60°08′ N 44°18′ V, um 50 km frá Hvarfi og búa þar um 160 manns. Hitt þorpið er á Vestur-Grænlandi á 72°53'N 55°35'V. Hvalveiðar. Hvalveiðibátar liggja við festar í höfninni í Reykjavík Hvalveiðar eru veiðar á hvölum. Slíkar veiðar hafa verið stundaðar frá örófi alda en náðu hámarki á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar vegna mikillar eftirspurnar eftir lýsi sem unnið var úr hvalspiki, þá gengu veiðarnar mjög nærri mörgum hvalategundum. Í seinni tíð hafa hvalveiðar þó aðallega verið stundaðar vegna kjötsins. Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 til að hafa stjórn á hvalveiðum á heimsvísu. Árið 1986 bannaði ráðið svo allar hvalveiðar í atvinnuskyni en harðar deilur hafa staðið um bannið allar götur síðan. Undanþága frá því var þó veitt vegna svokallaðra vísindaveiða og einnig vegna veiða frumbyggja. Hvalveiðar á Íslandi. Hvalveiðar í atvinnuskyni á Íslandi hófust aftur, að einhverju leyti haustið 2006. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra gaf leyfi til að veiða 39 langreyðar, en fáir markaðir eru fyrir hvalaafurðir svo að ekki er ljóst hvort framhald verður á veiðunum. Skoðun. Skoðun er í heimspeki venjulega skilgreind sem sannfæring án sannreynslu eða staðfestingar, þ.e. þegar maður heldur að eitthvað sé satt án þess að vita það. Skoðun, í þessum skilningi, er þess vegna íbyggið viðhorf, þar sem hún er fólgin í því viðhorfi til tiltekinnar staðhæfingar að staðhæfingin sé sönn. Skoðun í þekkingarfræði. Af því að skoðun er venjulega sögð vera það að halda að eitthvað sé satt "án þess að vita það", er stundum litið svo á að þegar maður veit eitthvað, þá sé það ekki skoðun manns. Þetta kann hins vegar að vera villandi því þetta gefur til kynna að skoðun og þekking séu ósamrýmanlegar. Til að komast hjá þessu mætti segja að þegar maður veit eitthvað, þá sé það ekki "einungis" skoðun manns. Skoðun er því ekki frábrugðin þekkingu hvað viðfang eða inntak varðar heldur er munurinn fólginn í réttlætingu og óhagganleika. Skoðun getur verið vel eða illa rökstudd og getur verið sönn eða ósönn en réttnefnd þekking getur ekki verið ósönn, heldur er hún sönn skoðun sem maður hefur fullnægjandi ástæður fyrir; á hinn bóginn er það sem maður veit einnig skoðun manns samkvæmt hinni hefðbundnu skilgreiningu þekkingar. Til að varpa ljósi á þetta má hugsa sér tvo menn sem báðir telja að það sé rigning úti. Segja má að báðir hafi þá "skoðun" að það sé rigning úti. En annar þeirra telur að það sé rigning úti vegna þess að fyrr um daginn var þungskýjað og leit út fyrir að það myndi ef til vill rigna; hann hefur aftur á móti ekki athugað málið. Hinn telur að það sé rigning úti af því að hann sá það út um gluggann. Í þessu tilviki hafa báðir þá skoðun að það sé rigning úti (af því að báðir telja að það sé rigning úti) og það er í báðum tilvikum satt. En sá síðarnefndi hefur fengið staðfestingu á að það rigni, því hann sá það út um gluggann; sá fyrrnefndi hefur hins vegar ekki sannreynt að það sé rigning úti og "veit" því ekki að það sé rigning úti þótt hann haldi það og það sé satt. Það sem annar maðurinn heldur að sé satt, það veit hinn. Viðfang þekkingar hins síðarnefnda og skoðunar hins fyrrnefnda - nefnilega staðhæfingin að það sé rigning úti - er það sama; og inntakið - að staðhæfingin sé sönn - er einnig það sama. Munurinn er fólginn í réttlætingunni. Skoðun í hversdagsmáli. Í hversdagsmáli er orðið „skoðun“ stundum skilið öðrum, víðari skilningi þar sem skoðun er ekki síður talin vera persónulegt mat eða viðhorf sem er hvorki satt eða ósatt. Landstjóri. Landstjóri er embættismaður (venjulega hluti framkvæmdavaldsins) í stjórn nýlendu eða yfirráðasvæðis sem ekki nýtur fulls sjálfstæðis. Landstjóri heyrir venjulega undir þjóðhöfðingja ríkisins og er fulltrúi hans. Hérað. Hérað er landfræðilegt svæði innan lands sem bæði getur verið formlega og óformlega skilgreint. Formlega getur hérað verið stjórnsýslueining sem þá er yfirleitt næsta stjórnsýslustig fyrir ofan sýslu. Jötunn. Jötunn og þurs eru í norrænni goðafræði heiti á fjandsamlegum risum sem búa í Jötunheimi á mörkum jarðar. Þeir eru afkomendur risans Ýmis sem fæddist í Ginnungagapi. Þeir urðu til í sömu mund og alheimur skapaðist og áður en jörðin varð til. Þegar kýrin Auðhumla sleikti saltsteina í upphafi alda urðu til jötnar sem goðin síðan settu í Niflheima. Orðsifjar. Orðið "jötunn" klofnaði með u-klofningu út frá orðinu "etunar", mögulega tökuorð úr finnsku orðunum "etana", "etona" (sem þýðir „snigill“, „ormur“ eða „illmenni“), úr prótó-germanska orðinu *etuna- („mannæta“, „átvagl“) með sömu rót og enska orðið "eat" („borða“ eða „éta“) og íslensku orðin "át", "éta", "jata", "jötna" og "æti". Samstofna færeyska orðinu "jøtun", nýnorska orðinu "jutul", "jøtul", "jotun", "jotne"; nýsænska orðinu "jätte", fornsænska orðinu "iætun", nýdanska orðinu "jætte", forndanska orðið "iætæn", fornenska orðið "eoten" sem hefur sömu merkingu; gamla lágþýska orðinu "eteninne" („galdranorn“). Myndlist. Myndlist er samheiti yfir þær fjölmörgu og fjölbreyttu listgreinar sem byggjast fyrst og fremst á sjónrænni framsetningu. Hefðbundnar greinar myndlistar eru málaralist, teikning, prentlist og höggmyndalist. Nýjar listgreinar eins og klippimyndir, innsetningar, gjörningalist, tölvulist og vídeólist teljast til myndlistar og graff er stundum talið til myndlistar. Myndlist telst til sjónlista, ásamt kvikmyndagerð, ljósmyndun, byggingarlist og nytjalist á borð við iðnhönnun, grafíska hönnun, fatahönnun, innanhússarkitektúr og skreytilist. Myndlist er aðgreind frá sviðslistum, orðlistum, tónlist og matargerðarlist, þótt skilin séu langt frá því að vera skýr. Skipting (flokkunarfræði). Skipting er flokkur í vísindalegri flokkun jurta sem jafngildir fylkingu hjá dýrum. Þessi flokkur er líka notaður yfir sveppi. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er staðsettur á Höfn í Hornafirði. Hann var stofnaður árið 1987 af ríkinu og sveitarfélögum í Austur-Skaftafellssýslu. Fyrstu 15 árin fékk FAS, eins og hann er yfirleitt kallaður, inni í húsi Nesjaskóla í Nesjahreppi en fluttist síðan í Nýheima á Höfn í Hornafirði haustið 2002, eftir að Nesjahreppur sameinaðist Höfn. Dagskólanemendur eru um 100 og hefur sú tala hækkað jafnt og þétt síðustu ár. Skólinn er í samstarfi við aðra framhaldsskóla á Austurlandi samkvæmt sérstökum samstarfssamningi. Markmið þessa samnings er að bæta aðgengi nemenda að eins fjölbreyttu námsframboði og kostur er ásamt fleiru. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er aðili að Fræðsluneti Austurlands sem hefur það markmið að bæta aðgengi íbúa fjórðungsins að háskólanámi og símenntun. Teheran. Teheran er höfuðborg Írans. Íbúafjöldi borgarinnar er 7,1 milljón. Praia. Praia (portúgalska fyrir strönd) er höfuðborg Grænhöfðaeyja. Íbúafjöldi er 113.000. Herjólfsnes. Herjólfsnes'", einn af þekktustu kirkjustöðum og bóndabæjum Grænlendinga hinna fornu, stóð þar sem nú heitir Ikigaat skammt frá Hvarfi ("Kap Farvel") á Suður-Grænlandi. Norrænir menn bjuggu þar frá því um ár 1000 og langt fram á 15. öld. Fornleifarannsóknir og C-14 aldursgreiningar sýna einnig að inúítar hafa búið á þessu svæði frá byrjun 15. aldar og allt fram til 1909. Þá lagðist byggðin af um tíma. Þar var að nýju hafin sauðfjárrækt 1959 en byggðin fór á nýtt í eyði 1972 og býr þar nú enginn. Þetta er eina svæðið á Grænlandi þar sem öruggt er að inúítar og norrænir menn voru nágrannar. Herjólfsnes er lengst úti á skaga sem gengur beint út í Atlantshafið um 55 km norðaustur af Hvarfi. Rústir norrænu byggðarinnar liggja á háum bakka rétt ofan við fjöruna og er einungis varið fyrir stormum af hafi af nokkrum smá eyjum og skerjum. Andstætt við meginbyggðina í Eystribyggð einkennist landslagið í kringum Hvarf og Herjólfsnes af háum og snarbröttum fjöllum. Kringum bæjarstæðið er takmarkað undirlendi og fjallgarðurinn á bak við rís í 1200 metra hæð. Sjórinn étur sig stöðugt inn í landið framan við bæjarstæðið. Einungis á árunum 1840 til 1921 gróf sjórinn sig inn um 12 metra í átt að kirkjurústunum. Ritaðar heimildir. Herjólfsnes á Grænlandi kemur fyrir á mörgum stöðum í elstu ritum Íslendinga. Í Sturlubók Landnámu er Herjólfur Bárðarson, frændi Ingólfs landnámamanns, sagður nema Herjólfsfjörð og hafa búið á Herjólfsnesi þegar Eiríkur rauði byggði landið. Herjólfur kom frá Noregi og gerðist fyrst landnámsmaður á Íslandi áður en hann hélt til Grænlands. Í Grænlendinga sögu er sagt frá því að Herjólfur og kona hans Þorgerður, hafi áður en þau fluttust til Grænlands, eignast efnilegan son sem nefndur var Bjarni. Bjarna fýsti utan þegar á unga aldri eins og þar segir og dvaldi í Noregi þegar foreldrar hans fluttu til Grænlands. Þegar hann kom til Íslands og frétti að þau væru flutt ákvað hann að fylgja þeim eftir og sigldi vestur á bóginn. Hann villtist þó í hafi og kom að landi sem var „ófjöllótt og skógi vaxið“. Bjarna leist þó ekki á það og tókst að lokum að finna Grænland og settist að á Herjólfsnesi hjá foreldrum sínum. Í Eiríks sögu rauða er annar ábúandi Herjólfsness tilnefndur. Þar segir að Þorbjörn Vífilsson hafi tekið sig upp með þremur tugum manna og sigldi í átt til Grænlands og hugðust setjast þar að. Sóttist ferðin illa "og fengu þeir vos mikið og vesöld á marga vegu" en komust loks í land á Herjólfsnesi. Samkvæmt Eiríks sögu rauða bjó þá þar maður Þorkell að nafni. Ívar Bárðarson byrjar lýsingu sýna á Eystribyggð á Herjólfsnesi. Hann nefnir hins vegar hvorki kirkju né bæ á Herjólfsnesi en í listanum yfir grænlenskar kirkjur í Flateyjarbók er kirkjan í Herjólfsfirði sögð austast í Eystribyggð. Í sama handriti og geymir frásögu Ívars er lýsing á siglingaleiðum frá Noregi og Íslandi til Grænlands og er þar Sandhöfn á Herjólfsnesi nefnd sem höfn Norðmanna og annarra kaupmanna. Þegar Evrópumenn hófu á 18. öld að leita að norrænum byggðum var gengið að því sem vísu að svæðið við Hvarf væri þar sem Herjólfsnes hafi verið. Það var ekki fyrr en legsteinn fannst í inúíta-húsi í Ikigaat 1829, sem athyglin beindist að þeim stað sem nú er almennt álitið hafa verið Herjólfsnes. Hvar Sandhöfn hefur verið er enn umdeilt. Hafa líkur verið leiddar að því að hún hafi verið í vík þeirri sem nefnd er Makkarneq skammt vestan við Ikigaat. Þar hafa fundist rústir af nokkrum bæjum og einnig þrjú hlaðin steinhús. Þrátt fyrir nokkra leiðangra fornleifafræðinga hefur ekkert fundist þar sem bendir til að þar hafi verið verslunarstaður og stórhöfn. Rústir. Herjólfsnes er einn af þeim bæjum Grænlendinga hinna fornu sem hefur verið hvað mest rannsakaður. Það sem fyrst beindi athygli að þessum stað sem hinum forna bæ var fundur legsteins í bæjarstæði inúíta á staðnum. Það voru trúboðar herrnhúttera frá Fredriksdal sem fundu legstein sem var 1,14 metra langur og um 48 cm breiður. Í hann var höggvinn kross og áletrunin: HER HUILER: HRO KOLGRIMS:S ("Hér hvílir Hróar Kolgrímsson") með latnesku letri. Skömmu seinna fannst kirkjugarðurinn sem eyddist mjög af sjávargangi. Það var þó ekki fyrr en 1921 sem danskir fornleifafræðingar gerðu gagngera rannsókn á kirkjugarðinum en í millitíðinni höfðu ýmsir misfærir verið að róta í legunum. Samtímis rannsóknunum á kirkjugarðinum gerðu fornleifafræðingarnir úttekt á rústum á svæðinu. Hinir látnu höfðu verið grafnir í timburkistum sem greinilega höfðu verið í mörgum tilfellum endurnotaðar en þeir voru einnig klæddir og umbúnir ýmsum klæðum. Þau voru einstaklega vel varðveitt og voru 23 alklæðnaðir karla og kvenna auk þriggja barna fluttir á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn. Þar að auki 16 hettur, fjórir hattar og nokkrir sokkar. C-14 aldursgreiningar sýna að yngstu grafirnar eru frá fyrri hluta 15. aldar. Öll þessi klæði voru unnin á Grænlandi en snið þeirra sýnir að Grænlendingar fylgdust vel með tískubreytingum í Evrópu. Auk þessara plagga var mikið af beinum flutt til Danmerkur. Samtíma rannsóknir þóttu sýna að heilsufari norrænna manna hafi mjög farið aftur undir lok dvalar þeirra á Grænlandi. Seinni tíma rannsóknir sýna hins vegar að enginn fótur er fyrir því, beinin fóru einfaldlega svo illa í flutningi frá Grænlandi til Danmerkur og gáfu þess vegna rangar niðurstöður. Ítarlegar rannsóknir og uppgröftur fóru fram á árunum 2001 - 2002 og gaf það talsvert aðra mynd en eldri rannsóknir. Kirkjan var ein af stærri kirkjum á Grænlandi, að innanmáli 14,5 metrar á lengd og 6,5 metra breið. Í kirkjunni sjálfri hafa fundist tvær grafir, hefur önnur þeirra vakið undrun meðal fornleifafræðinga. Undir höfðalagi hins látna fannst lítill kistill gerður úr hvalbeini og með botn úr furu, allar líkur eru á að kistillinn hafi verið fylltur af mat. Að senda skrínukost með hinum látna er ekki annars kristinn siður. Þessi fundur og fundur rostunga- og náhvalahöfuðkúpna í kirkjugarðinum á Görðum benda til að Grænlendingar hafi verið farnir að móta sína eigin útfararsiði. Auk bæjarhúsa og skemmu hefur fundist stórt hús sem að öllum líkindum hefur verið veislusalur og er hann um 60 m² stór og þar með einn af þeim stærri sem fundist hafa á Grænlandi. Ekkert fjós hefur fundist svo öruggt sé og er það mjög óvenjulegt á grænlenskum bæjum því oft voru mjög margar kýr á stórbýlunum. Sennilega hefur Herjólfsnes verið harðbýlt, íslenskir búfræðingar hafa reiknað út að jörðin geti nú borið um 50 kindur og kannski eitthvað fleiri á veðursælasta tíma norrænnar byggðar. Sagnfræðingar giska þess vegna á að aðalhlutverk Herjólfsness hafi verið að taka á móti sæförum og vera síðasti áfangastaður áður en lagt var upp í siglingu til Íslands eða meginlands Evrópu. Einnig hafa Herjólfsnes og Sandhöfn legið vel við að vera útstöð fyrir veiðiferðir norður eftir austurströndinni. Ríkiserindrekstur. Ríkiserindrekstur er sá starfi að fara með alþjóðasamskipti eins og samningaviðræður milli ríkja. Venjulega fer ríkiserindrekstur fram þannig að sérstakir alþjóðafulltrúar koma saman á alþjóðavettvangi og eiga viðræður um stríð og frið, menningarsamskipti og milliríkjaviðskipti. Ríkiserindrekstur er venjulega lykilatriði þegar gerðir eru alþjóðasamningar. Baun. Baun eða erta á ýmist við um jurtir af ertublómaætt eða ávexti þessara jurta sem eru þurr fræ sem þroskast inni í belgjum. Þessar jurtir eru þekktar fyrir að binda nitur úr andrúmsloftinu sem kemur til af samlífi með bakteríum sem finnast í rótarhnúðum þeirra. Vegna þessa hafa baunir hátt próteininnihald sem gerir þær að eftirsóttum matjurtum. Hneta. Hneta er þurr ávöxtur ("þurraldin") með eitt fræ (sjaldnar tvö) þar sem veggir fræhylkisins verða harðir þegar það nær fullum þroska og fræið er laust frá fræhylkinu. Hnetur flokkast sem "þurraldin" vegna þess að þær hafa þurrt fræleg. Þær innihalda mikið af olíu og eru því eftirsóttur matur og orkugjafi. Hnetuofnæmi er fremur algengt og oft mjög alvarlegt vandamál vegna þess hve hnetuafurðir eru víða notaðar. Kínverska tímatalið. Kínverska tímatalið er sólbundið tungltímatal (sem tekur mið af gangi bæði sólar og tungls). Í dag er notast við gregoríska tímatalið í Kína en kínverska tímatalið er enn notað til að staðsetja hátíðir eins og tunglhátíðina og áramót. Það er einnig notað til að staðsetja daga sem þykja heppilegir til að gifta sig t.d. eða opna nýja byggingu. Af því að mánuður í kínverska tímatalinu fylgir gangi tunglsins segir það nokkuð um tunglkvartil. Í kínverska tímatalinu hafa líka árin dýraheiti sem ganga í tólf ára hring; Árin eru þannig (í þeirri röð) ár rottunnar, nautsins, tígursins, kanínunnar, drekans, slöngunnar, hestsins, kindarinnar (eða geitarinnar), apans, hanans, hundsins og svínsins. 29. janúar 2006 hófst þannig ár hundsins og á kínversku áramótunum 2007 hófst ár svínsins. Octave Mirbeau. Octave Mirbeau (16. febrúar 1848 í Trévières – 16. febrúar 1917 í París) var franskur höfundur. Octave Mirbeau var mikill menntamaður og maður margra skoðana um stjórnmál, (stjórnleysisinni) sem barðist alla ævi fyrir réttlæti, sérstaklega varðandi “Dreyfusmálið”. Listagagnrýnandi, med næman smekk, lofsaung hann listamenn eins og Claude Monet, Auguste Rodin, Camille Pissarro, Vincent van Gogh, Paul Cézanne, etc. og stuðlaði meira en aðrir að viðurkenningu þeirra. Sem skáldsagnahöfundur, sló hann í gegn med "Le Jardin des Supplices" (1899) og "Le Journal d’une Femme de Chambre" (1900). Á leikhússviðinu vard hann heimsfrægur med "Les affaires sont les affaires" (1903). Tenglar. Mirbeau, Octave Tegund í útrýmingarhættu. Tegund í útrýmingarhættu er hópur lífvera, venjulega flokkunarfræðileg tegund, sem vegna lítils fjölda eða breytinga á búsvæðum á á hættu að vera útdauða, þ.e. hverfa af yfirborði jarðar. Í mörgum löndum heims eru sérstök lög sem kveða á um sérstaka vernd fyrir slíkar tegundir eða búsvæði þeirra; til dæmis lög sem banna veiðar, takmarka landnýtingu eða afmarka verndarsvæði. Einungis nokkrar af þessum tegundum komast á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu en flestar þeirra deyja einfaldlega út án þess að nokkur taki eftir því. Tegundir hafa reglulega þróast og dáið út frá upphafi lífs. Helsta áhyggjuefnið nú er aukin tíðni útdauða á síðustu 150 árum eða svo, þ.e. eftir iðnbyltinguna og fólksfjölgun samfara henni, sem á sér enga hliðstæðu í þróunarsögunni. Ef líffræðilegur fjölbreytileiki heldur áfram að minnka með slíkum hraða (eða auknum hraða, eins og virðist vera raunin) gætu milljónir tegunda dáið út á næsta áratug. Þótt jafnan veki mesta athygli þegar stór spendýr eða fuglar eru í útrýmingarhættu, þá stafar mesta hættan af röskun á stöðugleika heilla vistkerfa þegar lykiltegundir hverfa á einhverjum stigum fæðukeðjunnar. Dæmi um dýr sem finnast við Ísland og eru í útrýmingarhættu eru sandreyður, steypireyður, langreyður, íslandssléttbakur, lúða, gítarfiskur og vínlandskarfi. Ástand stofns. Ástand stofns gefur vísbendingu um líkurnar á því að tegund haldi áfram tilveru sinni. Mörg atriði eru tekin með í reikninginn þegar reynt er að meta ástand stofna; ekki aðeins fjöldi einstaklinga á tilteknum tíma, heldur einnig breytingar á stofnstærð í tíma, æxlunartíðni, þekktar ógnir og svo framvegis. 189 lönd (þar á meðal Ísland) hafa undirritað samning um líffræðilegan fjölbreytileika sem felur í sér að hvert land búi til aðgerðaáætlun um líffræðilegan fjölbreytileika til að vernda og byggja upp stofna í útrýmingarhættu. Þekktasti listinn yfir ástand stofna frá verndarsjónarmiði er rauði listi IUCN. IUCN heldur utanum gagnagrunn yfir mat á stofnstærð yfir 60 þúsund tegunda, en af þeim er um þriðjungur talinn vera í útrýmingarhættu. Þjóðminjasafn Íslands. Þjóðminjasafn Íslands er miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Á vegum safnsins eru sýning í safnhúsinu við Suðurgötu á menningarsögu Íslendinga frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins. Þjóðminjasafnið var stofnað með með stofnun Forngripasafnsins árið 1863 en þá var stiftsyfirvöldum í umboði íslensku þjóðarinnar fært nokkurt safn forngripa að gjöf með því skilyrði að stofnað yrði íslenskt forngripasafn.Margir fornmunir höfðu þá verið fluttir frá Íslandi og voru í erlendum söfnum eða í eigu einstaklinga. Sigurður Guðmundsson málari var einn aðalhvatamaður að stofnun safnsins. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir, fornleifafræðingur. Húsnæði safnsins. Fyrstu árin var Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar, síðan var það í tukthúsinu við Skólavörðustíg, svo í Landsbankahúsinu við Austurstræti og síðan í Alþingishúsinu. Árið 1908 var safnið flutt í sérbyggt safnahús á efstu hæð Safnahússins við Hverfisgötu og var þar til 1950 en þá var Þjóðminjasafnið opnað í eigin húsakynnum við Suðurgötu. Mímir. Mímir var guð djúprar visku. Á árdaga bjó hann ásamt ásum í Ásgarði í frið og farsæld. Veraldaraskurinn var stundum einnig nefndur Mímameiður sem sýnir hve Mímir hefur verið mikilsverður og voldugur meðal goðanna. Hann er líka stundum nefndur Hoddmímir (hodd: gull, fjársjóður) til marks um að hann var áður fyrr ekki einungis vitur, heldur einnig frægur smiður sem skóp goðunum mikla fjársjóði. Afhöggið höfuð hans varð síðarmeir uppspretta gervallar þekkingar allra tíma, fortíðar, nútíðar og framtíðar. Höfuð Mímis. Í Gylfaginningu er sagt frá stríði milli ása og vana. Er þeir sömdu um frið skiptust þeir á gíslum til tryggingar um góða hegðun. Við það settist vaninn Njörður að í Ásgarði ásamt börnum sínum, Frey og Freyju, en tveir æsir þeir Mímir og Hænir fóru til Vanaheims. Mímir var guð djúprar visku. Hinsvegar grunaði vani að Hænir væri ekki eins vel gefinn þar sem hann kom sér alltaf hjá því að taka ákvarðanir um erfið vandamál. Vanir töldu því að æsir hefðu prettað þá þegar skipst var á gíslum og í bræði sinni hjuggu þeir höfuðið af Mími og sendu það ásum. Þegar Óðinn fékk höfuðið smurði hann það strax með töfrajurtum og þuldi yfir því galdraþulur til að halda því lifandi. Þannig varð vísdómur Mímis ævinlega tiltækur þegar vanda bar að höndum og á hættustundum ráðgaðist Óðinn við Mími. Mímisbrunnur. Ein af rótum Yggdrasils teygir sig til hrímþursa og undir henni er Mímisbrunnur en vatnið í honum á að veita mikla visku um fortíð, nútíð og framtíð. Höfuð Mímis liggur við brunninn og hann drekkur daglega úr brunninum af horninu Gjallarhorni. Þegar Óðinn fór niður að Mímisbrunni í fyrsta skipti vildi hann fá að drekka af vatninu og fá þannig hlutdeild í vísdóm Mímis. Hann fékk leyfi til þess en til þess þurfti hann að fórna öðru auga sínu. Í Gylfaginningu segir að þegar Ragnarök (heimsendir) hefjist stökkvi Óðinn á bak Sleipni og þeysi eins og stormur til Mímisbrunns til að ráðfæra sig við Mími. En í þetta sinn veitir höfuðið engin svör. Heimildir. Brian Branston. Goð og garpar úr norrænum sögnum. 1979. Bókaforlagið Saga, Reykjavík Papiamento. Papiamento er rómanskt tungumál. Það er opinbert tungumál í Hollensku Antillaeyjum og er móðurmál 350.000 manns. Papiamento kemur frá portúgölsku, spænsku, og smá hollensku. Það eru þrjár mállýskur papiamentos, sem eru mállýskurnar sem talaðar eru í Arúbu, Curaçao og Bonnaire, sem eru þrjár eyjar Hollensku Antillaeyja. Manchester United. Manchester United er enskt knattspyrnufélag frá Trafford í Manchester, og er eitt þekktasta og sigursælasta félagslið heims. Liðið var stofnað sem Newton Heath LYR árið 1878. Félagið lék undir því nafni allt til ársins 1902, þegar nafni þess var breytt. Félagið hefur unnið Enska meistaratitillinn oftast allra liða, eða 20 sinnum. Þá hefur félagið einnig unnið Enska Bikarinn oftast allra liða, eða 11 sinnum. Þá hefur félagið unnið Enska deildarbikarinn 4 sinnum, Meistaradeild Evrópu/Evrópubikarinn 3 sinnum og hina aflögðu Evrópukeppni félagsiða einu sinni. Félagið hefur hinsvegar aldrei unnið Evrópukeppni félagsliða. Þá hefur félagið unnið fjölmarga minni bikara bæði heima og erlendis. Núverandi fyrirliði er Nemanja Vidic sem tók við af Gary Neville ágúst 2010. Vara fyrirliði er Patrice Evra. Flest mörk. "Seinast uppfært 13. maí 2008." Bydgoszcz. Bydgoszcz er er sjöunda stærsta borg Póllands og höfuðborg Kujawsko-pomorskie sýslu. John Dewey. John Dewey (20. október 1859 – 1. júní 1952) var bandarískur heimspekingur, sálfræðingur og uppeldisfrömuður. Ásamt Charles Sanders Peirce og William James lagði hann grunninn að heimspekikenningu um gagnhyggju (pragmatisma). Hann var í fararbroddi í umbótahreyfingu sem kennd var við framstefnu (progressivism). Hann ritstýrði alfræðiriti um vísindi. Dewey stundaði nám við Johns Hopkins-háskólann og lauk doktorsprófi árið 1884. Árið 1904 varð hann prófessor í heimspeki við Columbia háskólann. Dewey stofnaði The New School for Social Research ásamt hagfræðingunum Thorstein Veblen og James Harvey Robinson og Charles Beard. Dewey var formaður rannsóknarnefndar, sem sýknaði Trotsky árið 1937 af ákærum sem á hann voru bornar af Stalín. Dewey reyndi í kenningum sínum að samþætta, gagnrýna og byggja ofan á lýðræðiskenningar Rousseaus og námskenningar Platóns. Hann taldi Rousseau leggja ofuráherslu á einstaklinginn og Platón leggja ofuráherslu á samfélagið sem einstaklingurinn byggi í. Tenglar. Dewey, John Dewey, John Dewey, John Dewey, John Ríkið (Platon). "Ríkið" (gríska) er áhrifamikið heimspeki- og stjórnspekirit í tíu bókum eftir gríska heimspekinginn Platon, samið um 380 f.Kr. Verkið er í formi samræðu milli Sókratesar, kennara Platons, og Glákons og Adeimantosar, bræðra hans, meðal annarra. Sögusvið og persónur. Sögusviðið er heimili Kefalosar í Píraíos, hafnarborg Aþenu. Efni. Samræðan fjallar um réttlætið og hefst út frá leit að skilgreininu á réttlætinu. Meðal annars sem rætt er um er fyrirmyndarríkið og frummyndakenningin. Uppbygging. Eftirfarandi eru þrjár greiningar á uppbyggingu samræðunnar. Bertrand Russell. Í riti sínu "History of Western Philosophy" (1945) greinir Bertrand Russell samræðuna í þrjá hluta Skipting Cornfords, Hildebrandts og Voegelins. V.1—V.16. 449a—471c. Lífhyggja um borgríkið og Grikki C-14 aldursgreining. C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu. Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt. Coldplay. Coldplay er bresk rokkhljómsveit, stofnuð árið 1997. Hún hefur gefið út 4 breiðskífur sem hafa allar átt góðu gengi að fagna auk þess sem ýmsar smáskífur þeirra hafa notið vinsælda, með lögum á borð við „Yellow“, „Speed of Sound“ og „Clocks“ sem vann meðal annars til Grammy verðlauna árið 2004. Ýr (hljómsveit). Ýr var íslensk hljómsveit frá Ísafirði sem starfaði á árunum frá 1974 til 1979. Hún gaf út eina breiðskífu sem hét einfaldlega "Ýr", árið 1975 hjá ÁÁ Records en var fyrst og fremst danshljómsveit. Hún átti smellinn „Kanínan“ sem Sálin hans Jóns míns tók á 9. áratug 20. aldar. Síðar stofnuðu nokkrir meðlimir Ýr hljómsveitina Grafík. Meðlimir hljómsveitarinnar voru: Rafn Jónsson trommur, Reynir Guðmundsson söngur, Hálfdán Hauksson bassi og Sigurður Rósi Sigurðsson sólógítar. Rafn starfaði með mörgum hljómsveitum hérlendis, tók upp tónlist og var útgefandi með meiru. Rafn er látinn. Reynir hefur starfað við tónlist sem hliðargrein alla tíð og er nú söngvari hljómsveitarinnar Saga Class. Hálfdán er búsettur í Noregi og Sigurður Rósi er bóndi á Nýja Sjálandi. Hann hefur einnig haldið úti hljómsveit þar í landi. Jonee Jonee. Jonee Jonee var íslensk síðpönkhljómsveit sem var upprunnin í Garðabæ. Hljómsveitin hafði töluverða sérstöðu í tónlistarflóru þess tíma vegna hljóðfæraskipanar þar sem aðeins var leikið á bassa og trommur. Fyrstu árin. Stofnendur Jonee Jonee voru þeir Þorvar Hafsteinsson, Einar Kr. Pálsson og Bergsteinn Björgúlfsson. Hljómsveitin starfaði á árunum frá 1980 til 1982. Einar Kr. Pálsson sagði snemma skilið við hljómsveitina en Heimir Barðason kom í hans stað. Hljómsveitin var mjög virk á þessu tímabili og gaf út eina breiðskífu, "Svonatorrek", sem Grammið gaf út árið 1982. Rokk í Reykjavík. Jonee Jonee kom fram í kvikmyndinni "Rokk í Reykjavík" og lék þar lögin „Af því að pabbi vildi það“ og „Hver er svo sekur?“.Breiðskífa sveitarinnar,Svonatorrek hafði að geyma 19 lög 1984 kom síðan út smáskífan "Blár Azzurro". Árið 1991 var tekið upp nýtt efni með Jonee Jonee ásamt elstu lögunum, en var aldrei gefin út. Þessar upptökur eru enn óútgefnar. Tenglar. http://www.youtube.com/results?search_query=Jonee-Jonee&search_type= Íkaros. Íkaros var sonur meistarasmiðsins Dædalosar í grískri goðafræði sem einkum er frægur fyrir að hafa flogið of nálægt sólinni á vængjum sem faðir hans smíðaði með þeim afleiðingum að vaxið sem hélt fjöðrunum saman bráðnaði og hann hrapaði til bana. Íkarus (hljómsveit). Íkarus var íslensk hljómsveit sem spilaði rokk og var skipuð Tolla Morthens, Megasi, Kormáki Geirharðssyni og Bergþóri Morthens. Hljómsveitin gaf út tvær breiðskífur hjá Gramminu; "The Boys from Chicago" árið 1983 með smellinum „Krókódílamaðurinn“ þar sem önnur hlið plötunnar var helguð lögum Tolla, og síðan aðra, "Rás 5-20", árið 1984 sem meðal annars innihélt smellinn „Svo skal böl bæta“. Orghestar. Orghestar voru íslensk rokkhljómsveit sem spratt upp úr annarri hljómsveit, Kamarorghestum, og var skipuð þeim Benóný Ægissyni, Gesti Guðnasyni, Brynjólfi Stefánssyni og Sigurði Hannessyni og um tíma starfaði Karl Sighvatsson með henni. Hljómsveitin starfaði á árunum 1980 til 1982 og lék á fjölda tónleika og setti m.a. upp rokkóperuna "Eggjun Jófríðar Signýjar" árið 1981. 1982 gáfu þeir út stuttskífuna "Konungar spaghettifrumskógarins". Utangarðsmenn. Utangarðsmenn voru íslensk pönkhljómsveit sem starfaði árin 1980 til 1981 utan eina stutta endurkomu árið 2000. Hljómsveitin var skipuð Bubba Morthens, Mick Pollock, Danny Pollock, Magnúsi Stefánssyni og Rúnari Erlingssyni. Þeir gáfu út tvær breiðskífur; "Geislavirkir" (1980) og safnplötuna "Í upphafi skyldi endinn skoða" (1981) auk einnar stuttskífu; "45RPM" (1981). Hljómsveitin var, ásamt Fræbbblunum, ein vinsælasta pönkhljómsveit landsins um 1980. Árið 2001 kom síðan út safnplatan "Utangarðsmenn" á vegum Smekkleysu. Ívar Bárðarson. Ívar Bárðarson var norskur prestur sem þekktastur er fyrir að hafa skilið eftir einu eiginlegu samtíðarlýsingu á byggðum norrænna manna á Grænlandi. Frásögn Ívars er helsta heimild sagnfræðinga sem rannsakað hafa sögu Grænlendinga hinna fornu. Saga handritsins. Hákon biskup í Björgvin sendi Ívar sem fulltrúa sinn að biskupssetrinu á Görðum 1341 og kom hann þangað 1347. Ívar dvaldist á Grænlandi sem "officialis", umboðsmaður eða staðgengill biskups, enda var enginn biskup yfir Grænlandi á þessum árum. Ívar virðist síðan hafa snúið aftur til Noregs um 1360. Upphafleg lýsing hans, sem skrifuð var á norrænu eða miðnorsku, er týnd, en til er dönsk þýðing frá 17. öld í allmörgum afritum. Best varðveitt er handrit það í "Den Arnamagnæanske Samling" (Árnasafni) sem nefnt er AM 777 a 4to. Ritið nefnist „"Enn kortt Beschriffuellse om Grønnland, Om Segladsenn did henn saa och om Landtzens Beschriffuelse"“ („Stutt lýsing á Grænlandi og á siglingarleiðinni þangað, svo og staðarlýsing“). Er lýsingin oftast nefnd "Det gamle Grønlands beskrivelse", eða "Grænlandslýsing Ívars Bárðarsonar". Lýsingin fest á blað. Ívar festi ekki sjálfur frásögn sína á blað heldur hefur einhver annar gert það, sennilega einhver handgenginn biskupi eða kóngi. Eða eins og segir í handritinu: „Jtem dette alt som forsagt er, sagde oss Jffuer Baardtsen Grønlænder, som war forstander paa biskobs garden, i Gardum paa grønnland udi mange aar, att hand haffde alt dette seett“. („Einnig allt það sem hér segir frá var okkur sagt af Ívari Bárðarsyni Grænlendingi, sem var forstöðumaður á biskupssetrinu á Görðum í mörg ár, að hann hafði allt þetta séð.“). Ekki er vitað hvenær frásögn Ívars var skrifuð og þá ekki heldur hversu langur tími leið frá heimkomu hans þar til hún var læst í skrift. Það gæti því eitt og annað hafa skolast til í minningunni og einnig gæti skrásetjari sem og þýðendur og endurritarar hafa bætt inn í eða brenglað frásögnina. Af þessum sökum taka sagnfræðingar "Det gamle Grønlands beskrivelse" með vissum fyrirvara. En ótvíræðar heimildir benda til að biskupinn í Björgvin sótti 1341 um leyfi til að senda Ívar til Grænlands og jafnframt að hann var orðinn kanúki við Kirkju postulana tólf í Björgvin árið 1364. Lýsingar Ívars. Í "Det gamle Grønlands beskrivelse" lýsir Ívar Eystribyggð nokkuð nákvæmlega, telur upp firði og örnefni ásamt helstu bæjarnöfn Eystribyggðar og telur sérstaklega upp kirkjur og gerir sóknarlýsingar. Ívar dvelst á Grænlandi um það bil 100 árum áður en byggð norrænna manna fór í eyði - en af lýsingu hans að dæma er ekki annað að sjá en að Eystribyggð hafi verið blómleg byggð og að mannlíf hafi verið ágætt. Hins vegar er Vestribyggð þá farin í eyði og er ekki lýst í riti hans, en þó sagt frá för Ívars þangað með þessum orðum: „"hand war en aff dennem som war wdneffender aff Lagmanden at fare till westerbijgden emod de skrelinge att wddriffue de skrellinge, wdaff westerbijgd, och da de komme didt da funde de ingen mand, endten Christenn eller heden wden noget willdt fæ och faaer, och bespissede sig aff det willtt fæ, och toge saa meget som skiuene kunde berre och zeijlede saa der med hiemb och for(schreffne) Jffer war der med".“ („Hann var einn þeirra sem lögmaður lét senda í Vestribyggð á móti skrælingjum til að reka þá þaðan burt. En er þeir komu þangað fannst þar enginn maður, hvorki kristinn né heiðinn, heldur einungis nokkuð af villtum nautgripum og kindum. Nokkrum nautgripum slátruðu þeir og tóku svo mikið með sér sem skipin gátu borið og sigldu síðan heim. Í þessari ferð var áðurnefndur Ívar með.“) Aftan við sjálfa lýsingu Ívars er í "Det gamle Grønlands beskrivelse" lýsing á hvernig sigla skuli frá Björgvin til Grænlands. Er álitið að sú frásögn sé eftir einhvern annan en Ívar. Tvær útgáfur af Grænlandslýsingu Ívars, og íslensk þýðing. Grönlands historiske Mindesmærker, gefin út af Det kongelige nordiske Oldskrift-Selskab, ritstjórar Finnur Magnússon og C. C. Rafn, København, 1838–1845, III, blaðsíðurnar 248–264. Det gamle Grønlands beskrivelse af Ívar Bárðarson, ritstjóri Finnur Jónsson, Levin & Munksgaards Forlag, København, 1930. Íslensk þýðing er í bók Ólafs Halldórssonar handritafræðings: Grænland í miðaldaritum, Rvík 1978, bls. 133–137. Greinargerð Ólafs er á bls. 407–408. Raunhyggja. Raunhyggja eða reynsluhyggja er viðhorf í þekkingarfræði og vísindaheimspeki sem leggur áherslu á hlutverk reynslu í tilurð þekkingar. Upprunalega voru raunhyggjumenn hópur forngrískra lækna en frægastur þeirra er efahyggjumaðurinn Sextos Empeirikos. Á 17. öld var breski heimspekingurinn John Locke helsti upphafsmaður nútíma raunhyggju. Locke hélt því fram að hugurinn væri "tabula rasa" (latína: bókstaflega „skafin tafla“; „óskrifað blað“) sem reynslan fyllti út. Slík raunhyggja hafnar því að fólk hafi „meðfæddar hugmyndir“ eða að eitthvað sé þekkjanlegt án tilvísunar til reynslu. Raunhyggju er oft stillt upp andspænis rökhyggju, sem kveður í grófum dráttum á um að þekking á grundvelli skynseminnar einnar og óháð allri reynslu sé möguleg. Ágreiningur raunhyggju- og rökhyggjumanna var þó flóknari en slík einföldun gefur til kynna enda voru allir helstu málsvarar rökhyggjunnar (René Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz) einnig málsvarar raunhyggju sem vísindalegrar aðferðar á sínum tíma. Enn fremur taldi Locke, fyrir sitt leyti, að suma þekkingu (til dæmis á tilvist guðs) væri hægt að öðlast gegnum innsæi og skynsemina eina. Meðal heimspekinga, sem venjulega eru taldir til raunhyggjumanna, eru Epikúros, stóumenn, Francis Bacon, Thomas Hobbes, John Locke, George Berkeley, David Hume, John Stuart Mill og Bertrand Russell. Heimspeki 19. aldar. Heimspeki 19. aldar er ýmist talin síðasti hluti þess tímabils í sögu vestrænnar heimspeki, sem kallast nýaldarheimspeki, eða sérstakt tímabil í sögu heimspekinnar, sem tekur við af nýaldarheimspeki en fer á undan heimspeki 20. aldar. Stutt sögulegt yfirlit. Á árunum 1789 – 1815 breyttu byltingar, stríð og átök evrópskri menningu. Þegar margar af félagslegum og menningarlegum hefðum liðinnar aldar höfðu liðið undir lok var búið að varða veginn fyrir róttækar efnahagslegar og stjórnmálalegar breytingar. Evrópsk heimspeki tók þátt í og knúði áfram margar þessara breytinga. Áhrif frá tíma upplýsingarinnar. Á 18. öld höfðu heimspekingar upplýsingartímans gríðarleg áhrif og verk heimspekinga á borð við David Hume, Immanuel Kant og Jean-Jacques Rousseau höfðu mikil áhrif á nýja kynslóð hugsuða. Seint á 18. öld reyndi hreyfing sem kennd er við rómantík að sameina skynsemisviðhorf fortíðarinnar og lífrænni og tilfinningalegri sýn á veruleikann. Helstu hugmyndirnar sem kveiktu þennan neista voru hugmyndir um þróun, sem Johann Wolfgang von Goethe og Charles Darwin héldu fram, og hugmyndir um það sem kalla mætti undirliggjandi reglu, til dæmis frjáls markaður Adams Smith. Aukinn þrýstingur fyrir jafnrétti og örari breytingum náði hámarki með byltingum og óreiðu sem höfðu einnig áhrif á heimspekina. Á síðasta þriðjungi 18. aldar komu fram fjölmargar hugmyndir sem bæði kerfisbundu fyrri heimspeki og ögruðu sjálfum grundvellinum að kerfisbindingu heimspekinnar. Immanuel Kant var áhrifamesti heimspekingur þessa tíma. Annar áhrifamikill heimspekingur tímabilsins var Jean-Jacques Rousseau. Báðir voru þeir afurð 18. aldarinnar en áttu báðir mikinn þátt í að umbreyta hugarfari 18. aldarinnar. Rousseau, í tilraun til þess að útskýra eðli ríkisvaldsins ögraði sjálfri undirstöðu ríkisvaldsins með yfirlýsingu sinni um að „maðurinn er frjáls borinn en hvarvetna í hlekkjum“. Kant, í tilraun til að sameina raunhyggju og rökhyggju og finna mannlegri þekkingu öruggan grundvöll, neyddist til að halda því fram að við sæjum ekki hlutina í sjálfum sér, heldur aðeins hlutina eins og þeir birtast okkur. Þýska hughyggjan. Heimspeki Kants, sem er nefnd forskilvitleg hughyggja, varð seinna sértækari og almennari, í höndunum á þýsku hughyggjumönnunum. Þýsk hughyggja náði vinsældum í kjölfarið á útgáfu G.W.F. Hegels á "Fyrirbærafræði andans" ("Phänomenologie des Geistes") árið 1807. Í ritinu heldur Hegel því fram að markmið heimspekinnar sé að koma auga á mótsagnirnar sem blasa við í mannlegri reynslu (sem verða til, meðal annars, vegna þess að menn viðurkenna bæði að sjálfið sé virkt, huglægt vitni og óvirkur hlutur í heiminum) og að losa okkur við þessar mótsagnir með því að samræma þær. Hegel sagði að sérhver staða (thesis) skapaði eigin andstöðu (antithesis) og að úr þeim tveimur yrði til niðurstaða (synthesis), ferli sem er þekkt sem „hegelsk þrátt“. Meðal heimspekinga í hegelsku hefðinni eru Ludwig Andreas Feuerbach og Karl Marx. Gagnrýni tilvistarspekinnar. Um miðbik 19. aldar kom fram mikil gagnrýni á hegelska heimspeki frá danska heimspekingnum Søren Kierkegaard (1813 – 1855), sem einnig gagnrýndi dönsku kirkjuna fyrir innantóm formlegheit. Kierkegaard er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar sem varð vinsæl heimspekistefna á 20. öld. Heimspeki Kierkegaards er stundum lýst sem „kristilegri tilvistarspeki“ eða „tilvistarspekilegri sálarfræði“. Annar mikilvægur hugsuður á síðari hluta aldarinnar var Friedrich Nietzsche (1844 – 1900). Nietzsche var einnig gagnrýninn á þýska hughyggjumenn sem og á viðteknar siðferðishugmyndir og á trúarbrögðin. Frægasta hugmynd Nietzsches er hugmynd hans um „ofurmennið“, sem hefur sig upp yfir „þrælasiðferðið“ og skilgreinir forsendur eigin tilvistar. Raunhyggja, frjálslyndi og leikslokasiðfræði. Breski heimspekingurinn John Stuart Mill (1806-1873) hélt áfram raunhyggjuhefðinni þar í landi en árið 1843 kom út eftir hann ritið "Rökkerfi" ("A System of Logic") þar sem hann setti fram fimm lögmál um aðleiðslu, sem áttu að varpa ljósi á orsakavensl. Lögmálin eru nefnd aðferð Mills. Í siðfræði setti Mill fram nytjastefnuna sem er leikslokasiðfræði í anda Jeremys Bentham en hugmyndin hafði upphaflega komið fram hjá David Hume. Nytjastefnan varð gríðarlega vinsæl siðfræði í hinum enskumælandi heimi og var ríkjandi kenning fram á síðari hluta 20. aldar. Mill varði frjálshyggju í ritinu "Frelsið" ("On Liberty"), sem kom út árið 1859, og mælti fyrir kvenréttindum í ritinu "Kúgun kvenna" ("The Subjection of Women"), sem kom út árið 1869 og markaði upphaf femínískrar frjálshyggju. Ameríska gagnhyggjan. Seint á 19. öld varð til ný heimspeki í nýja heiminum. Charles Sanders Peirce (1839 – 1914) og William James (1842 – 1910) eru taldir frumkvöðlar þeirrar stefnu sem nefnist gagnhyggja (e. pragmatism), sem kynnti til sögunnar það sem síðar nefndist verkhyggja, það er sú hugmynd að það sem sé mikilvægt fyrir góða (vísindalega) kenningu sé gagnsemi hennar en ekki hversu vel hún endurspeglar raunveruleikann. Meðal hugsuða innan þessarar hefðar eru John Dewey, George Santayana og C.I. Lewis. Heimspekingarnir Henri Bergson og G.E. Moore voru um margt sama sinnis og gagnhyggjumennirnir enda þótt þeir séu venjulega ekki sjálfir taldir til gagnhyggjumanna. Á 20. öld hefur gagnhyggjan átt málsvara á borð við Richard Rorty og Hilary Putnam sem hafa farið með hana á nýjar brautir. Aðferðafræðileg náttúruhyggja. Aðferðafræðileg náttúruhyggja er heimspekilegt viðhorf, sem á oft rætur að rekja til efnishyggju og gagnhyggju, sem hafnar greinarmuninum á því náttúrulega og yfirnáttúrulega. Náttúruhyggja þarf ekki nauðsynlega að halda því fram að svokölluð yfirnáttúruleg fyrirbæri séu ekki til (þótt flestir náttúruhyggjumenn hafi verið þeirrar skoðunar) en heldur því fram að öll fyrirbæri sé hægt að rannsaka með sömu aðferðum og þar af leiðandi sé ekkert réttilega nefnt yfirnáttúrulegt eða í eðli sínu ólíkt náttúrulegum fyrirbærum. Segja má að sérhver aðferðafræði eða rannsókn sem takmarkar sig við hið náttúrulega, efnislegar skýringar sé í anda "aðferðafræðilegrar náttúruhyggju". Margir nútíma vísindaheimspekingar nota hugtakið "aðferðafræðileg náttúruhyggja" eða "vísindaleg náttúruhyggja" til að vísa til hinnar löngu hefðar vísindalegrar aðferðar í vísindum, sem gengur út frá því að atburði í náttúrunni sé einungis hægt að útskýra með tilvísun til náttúrunnar, án þess að gera ráð fyrir tilvist einhvers yfirnáttúrulegs, og líta því gjarnan svo á að yfirnáttúrulegar skýringar á slíkum atburðum séu utan sviðs vísindanna. Þeir gera greinarmun á þessu viðhorfi og "verufræðilegri náttúruhyggju" eða "frumspekilegri náttúruhyggju", sem er það frumspekilega viðhorf að heimur náttúrunnar, hinn efnislegi heimur, sé allt sem til er og því sé ekkert yfirnáttúrulegt til. Aðferðafræðileg náttúruhyggja og frumspekileg náttúruhyggja. Frumspekileg náttúruhyggja, sem er stundum nefnd „heimspekileg náttúruhyggja“ eða „verufræðileg náttúruhyggja“, tekur verufræðilega afstöðu gagnvart náttúruhyggjunni. Verufræði er spurning um hvort og í hvaða skilningi eitthvað er til. Frumspekileg náttúruhyggja er því það viðhorf að hið yfirnáttúrulega sé ekki til og felur því í sér guðleysi eða sterkt trúleysi. Aftur á móti er aðferðafræðileg náttúruhyggja fólgin í því að „gera ráð fyrir frumspekilegri náttúruhyggju sem hluta vísindalegrar aðferðar óháð því hvort fallist er á frumspekilega náttúruhyggju sem slíka [...] vísindi eru ekki frumspekileg og árangur þeirra veltur ekki endanlega á neinni frumspeki (þótt vísindin hafi frumspekilegar afleiðingar), en taka verður upp frumspekilega náttúruhyggju sem aðferð eða vinnutilgátu ef vísindin eiga að ná einhverjum árangri. Við getum þess vegna frestað dómi um hvort [frumspekilega] náttúruhyggjan sé á endanum sönn en verðum engu að síður að beita henni og rannsaka náttúruna líkt og ekkert annað sé til en heimur náttúrunnar.“ Líklega eru allir málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju hallir undir aðferðafræðilega náttúruhyggju (þótt vissulega sé mögulegt að telja - mótsagnarlaust - að ekkert yfirnáttúrulegt sé til en fallast samt á að gera ekki ráð fyrir náttúruhyggju sem vísindalegri aðferð). Hins vegar er ekki eins víst að allir málsvarar aðferðafræðilegrar náttúruhyggju séu einnig málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju. Náttúruhyggja sem þekkingarfræði. W.V.O. Quine lýsir náttúruhyggju sem þeirri afstöðu að það sé enginn æðri dómari fyrir sannleikann en náttúruvísindin sjálf. Það er engin betri aðferð en hin vísindalega aðferð til þess að skera úr um hvort fullyrðingar vísindanna séu sannar eða ekki, og það er ekki heldur nein þörf á „fyrstu heimspeki“, á borð við frumspeki eða þekkingarfræði, til að standa að baki vísindunum og réttlæta þau eða hina vísindalegu aðferð. Heimspekin ætti þess vegna að gera sér gagn úr niðurstöðum vísindamanna í viðleitni sinni en um leið leyfa sér að gagnrýna þegar fullyrðingar þeirra eru undirstöðulausar, byggðar á ruglingi eða mótsagnakenndar. Þannig verður heimspekin „hluti af“ vísindunum. Náttúruhyggja er ekki sú kreddukennda trú nútímavísindi séu aðöllu leyti rétt. Hún heldur því aftur ámóti fram að útskýringar á atburðum í heiminum verði að vera vísindalegar. Náttúruhyggja og hugspeki. Deilt er um það hvort náttúruhyggja hafni í eðli sínu algerlega ákveðnum sviðum heimspekinnar eins og til dæmis merkingarfræði, siðfræði og fagurfræði, eða hafni notkun orða sem vísi til hins hugræna („trúir“, „hugsar“) í hugspeki. Quine forðaðist flest þessi efni en sumir heimspekingar hafa að undanförnu fært rök fyrir því að jafnvel þótt samkvæmt þeim sé ekki hægt að þýða hugrænar lýsingar og gildisdóma kerfisbundið yfir á efnislegar lýsingar, þá sé ekki þar með sagt að gera verði ráð fyrir tilvist neins annars en efnislegra fyrirbæra. Donald Davidson hefur til dæmis fært rök fyrir því að tiltekið hugarástand geti verið (og raunar verði að vera) það sama og tiltekið heilaástand, jafnvel þótt ekki sé hægt að segja kerfisbundið að tiltekið hugarástand sé ákveðin tegund heilaástands (ákeðið mynstur taugavirkni): hið fyrra er aukageta hins síðara. Afleiðing þessa er sú að náttúruhyggja getur látið „óefnislegan“ orðaforða í friði þegar notkun hans er hægt að útskýra í anda náttúruhyggjunnar. Frumspekileg náttúruhyggja. Frumspekileg náttúruhyggja er það heimspekilega viðhorf að náttúran sé allt sem til er og ekkert yfirnáttúrulegt sé til. Í heimspeki er þetta viðhorf stundum nefnt verufræðileg náttúruhyggja eða einfaldlega náttúruhyggja, en stundum heimspekileg náttúruhyggja til aðgreiningar frá aðferðafræðilegri náttúruhyggju. Skilgreining. Frumspekileg náttúruhyggja er oftast greind að frá "aðferðafræðilegri náttúruhyggju" sem vísar til hinnar löngu hefðar vísindalegrar aðferðar í vísindum, sem gengur út frá því að atburði í náttúrunni sé einungis hægt að útskýra með tilvísun til náttúrunnar, án þess að gera ráð fyrir tilvist einhvers yfirnáttúrulegs, og líta því gjarnan svo á að yfirnáttúrulegar skýringar á slíkum atburðum séu utan sviðs vísindanna. Frumspeki er sú grein heimspekinnar sem fæst við spurningar um hvort og í hvaða skilningi eitthvað er til. Frumspekileg náttúruhyggja er því viðhorf um hvað sé til, það er að segja heimur náttúrunnar; hún er það viðhorf að hið yfirnáttúrulega sé ekki til og felur því í sér guðleysi eða sterkt trúleysi. Aðferðafræði er á hinn bóginn einungis tæki til þess að gera eitthvað, í þessu tilviki - það er að segja, í vísindum - til að afla þekkingar. Frumspekileg náttúruhyggja er því það viðhorf að náttúran sé það eina sem til er en aðferðafræðileg náttúruhyggja felur í sér þá skoðun að af einhverjum sökum einungis sé hægt að rannsaka heim náttúrunnar, hvort sem svokallaðir yfirnáttúrulegir hlutir séu til eða ekki. Líklega eru allir málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju hallir undir aðferðafræðilega náttúruhyggju (þótt vissulega sé mögulegt að telja - mótsagnarlaust - að ekkert yfirnáttúrulegt sé til en fallast samt á að gera ekki ráð fyrir náttúruhyggju sem vísindalegri aðferð). Hins vegar er ekki eins víst að allir málsvarar aðferðafræðilegrar náttúruhyggju séu einnig málsvarar frumspekilegrar náttúruhyggju. Afbrigði af frumspekilegri náttúruhyggju. Til eru mörg afbrigði af frumspekilegri náttúruhyggju en öll afbrigðin fela í sér að ef frumspekileg náttúruhyggja er sönn, þá eigi hvaðeina sem er hugrænt sér náttúrulegar orsakir. Lúðrasveit Hornafjarðar. Lúðrasveit Hornafjarðar er íslensk lúðrasveit starfrækt á Höfn í Hornafirði. Hún var stofnuð 1975 af Gunnlaugi Þresti Höskuldssyni tónlistarkennara á Hornafirði, var hann og fyrsti stjórnandi Lúðrasveitarinnar. Jóhann Morávek tók við af Gunnlaugi Þresti og stjórnar hann sveitinni enn í dag, auk þess er hann stjórnandi Karlakórsins Jökuls, skólastjóri og kennari við Tónskóla Austur Skaftafellssýslu. Lúðrasveitin er fremur virk og kemur fram við ýmis tækifæri á Hornafirði, má þar nefna hátíðarhöld á 17. júní, hátíðarhöld á 1. maí, Jólatónleika Karlakórsins Jökuls, auk tónleika sveitarinnar. Lúðrasveitin hefur undanfarin ár haldið Sumar-Humartónleika í maí, og hefur þeim tónleikum fyrir löngu vaxið fiskur um hrygg og eru þeir nú þekktir viða um land. En þá koma gestir saman gæða sér á humarsúpu og njóta fjölbreytts flutnings sveitarinnar, auk þess sem Skólahljómsveit Tónskólans kemur fram. Efnisval sveitarinnar er afar fjölbreytt. Allt frá kvikmyndatónlist til klassískra verka. Jóhann hefur verið duglegur við að útsetja fyrir sveitina auk þess sem flutt hafa verið verk eftir hann sjálfan, má þar nefna Hornafjarðarmars sem flestar lúðrasveitir á landinu þekkja og hafa spilað. Gramm (útgáfa). right Gramm (stytting á orðaleiknum „Gramm á fóninn“) eða Grammið í daglegu tali, var íslensk tónlistarútgáfa í Reykjavík sem einnig rak samnefnda tónlistarverslun í bakhúsi, fyrst við Vesturgötuna og síðan við Laugaveg. Grammið var stofnað árið 1981 af Ásmundi Jónssyni og Einari Erni Benediktssyni og fyrsta hljómplatan sem þeir gáfu út var stuttskífan "Tilf", með Purrki Pillnikk. Grammið gaf út margar af íslensku pönkhljómsveitunum á 9. áratug 20. aldar. Dæmi um hljómsveitir og tónlistarfólk sem Grammið gaf út eru Tappi Tíkarrass, Vonbrigði, Q4U, Jonee Jonee, Þeyr, KUKL, Íkarus, Psychic TV, Svarthvítur draumur, Megas og Bubbi Morthens. 1987 varð Grammið gjaldþrota. Ásmundur og Einar og nokkrir af þeim sem höfðu tekið þátt í KUKLinu stofnuðu þá tónlistarútgáfuna Smekkleysu sem meðal annars gaf út Sykurmolana. Bandalag háskólamanna. Bandalag háskólamanna eða BHM er íslenskt stéttarfélag, stofnað 23. október 1958, sem að eiga aðild ýmis fagfélög þar sem háskólamenntun veitir tiltekin starfsréttindi. Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga eða SÍBS eru samtök sem upphaflega voru stofnuð sem Samband íslenskra berklasjúklinga af berklasjúklingum á Vífilsstöðum 24. október 1938 til að aðstoða berklasjúklinga við að aðlagast aftur eðlilegu lífi eftir langlegu á sjúkrahúsum og heilsuhælum. Með fækkun berklasjúklinga var ákveðið að opna félagið fyrir fólki með aðra brjóstholssjúkdóma og 1974 var nafninu breytt til samræmis. Félagið rekur endurhæfingu, vinnustofur og dagvist fyrir aldraða og minnissjúka á Reykjalundi, Múlalundi og fleiri stöðum. Frá upphafi hefur SÍBS veri fjármagnað með frjálsum framlögum, merkjasölu og happdrætti SÍBS. Andorra la Vella. Andorra la Vella (áætlaður fólksfjöldi 2004 22.035) er höfuðborg Andorra, staðsett í austurhluta Pýreneafjallanna milli Frakklands og Spánar. Jerevan. Jerevan (Á armensku: Երեւան eða Երևան) er höfuðborg og stærsta borg Armeníu. Fólksfjöldi árið 2004 var áætlaður 1.088.300. Keflavíkurflugvöllur. Keflavíkurflugvöllur (IATA: KEF, ICAO: BIKF) er stærsti flugvöllur Íslands. Hann stendur á Miðnesheiði á Reykjanesskaga. Saga vallarins. Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í seinni heimsstyrjöldinni og opnaður 23. mars 1943. Bandaríkjamenn nefndu hann "Meeks Field" í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurfugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin sem við hann stóð afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans í Keflavík. Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. Pattersonflugvöllur hefur stundum verið nefndur Njarðvíkurflugvöllur í daglegu tali en hann var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951 er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantshafsbandalagsins NATO. Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll sem í daglegu tali er nefnd Keflavíkurstöðin. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag er herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú. Fyrstu áratugina stóð flugstöðin fyrir flugvöllinn inni á varnarsvæði herstöðvarinnar en árið 1987 opnaði ný flugstöð, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, norðan við flugvöllinn og þjónar hún allri farþegaumferð um völlinn. Á flugvellinum hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð Veðurstofunnar síðan 1952. Admiral Graf Spee. Admiral Graf Spee var þýskt "panzerschiff" eða þungvopnað beitiskip sem Þjóðverjar notuðu í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar. Graf Spee var búið afar stórum byssum miðað við stærð (28 sentímetra byssum). Ástæðan fyrir lítilli stærð þess voru þær takmarkanir sem settar voru á hergagnaframleiðslu Þjóðverja í Versalasamningnum, en samkvæmt þeim máttu þýsk herskip hvorki fara yfir 10.000 tonn né vera búin stærri byssum en 280 millímetra. Af þessum sökum kölluðu Bretar skipið, ásamt tveimur systurskipum þess, Deutschland (síðar endurnefnt Lützow) og Admiral Scheer, "pocket battleships". Graf Spee er eitt frægasta orrustuskip Þjóðverja, ásamt Bismarck. Skipinu var hleypt af stokkunum árið 1934 og nefnt eftir aðmírálnum Graf Maximilian von Spee sem lést ásamt tveimur sonum sínum í fyrstu orrustunni um Falklandseyjar þann 8. desember 1914. Það var jafnframt annað þýska skipið til að vera nefnt eftir honum, það fyrsta SMS Graf Spee sem var smíðað í Fyrri heimsstyrjöldinni en aldrei notað. Bartholomeu Dias. Bartolomeu Dias (f. 1450, d. 29. maí 1500) var portúgalskur landkönnuður og fyrstur Evrópumanna til að sigla fyrir Góðrarvonarhöfða í maí árið 1488. Dias var falið að finna sjóleiðina til Asíu af konungi Portúgals í þeim tilgangi að koma á nýjum verslunarleiðum til Asíu. Siglingaleiðin gerði Portúgölum það kleift að skipta beint við Indland og Asíu án þess að þurfa að fara landleiðina yfir Mið-Austurlönd og sluppu þeir því við milliliði. Afleiðing fundarins var hnignun Mið-Austurlanda og Miðjarðarhafslanda sem verslunarvelda. Árið 1497 fylgdi Bartolomeu Dias Vasco da Gama á leið hans til Indlands. Einnig fylgdi hann Pedro Álvares Cabral þegar sá síðarnefndi fann Brasilíu árið 1500. Bartolomeu Dias lést í stormi utan við Góðrarvonarhöfða. Reykjalundur. Reykjalundur er endurhæfingarmiðstöð sem rekin er af SÍBS í Mosfellssveit. Sambandið hóf að leita eftir því að fá aðstöðu þar sem félagsmenn gætu aðlagast fullri þátttöku á vinnumarkaði eftir langlegu á sjúkrahúsum og heilsuhælum. Árið 1944 keypti sambandið jörðina Syðri-Reyki þar sem voru bæði braggar eftir hernámsliðið og jarðhiti. Fyrst fór starfsemi félagsins fram í bröggunum, en 1949 var tekin í notkun ný aðalbygging. Þegar berklasjúklingum tók að fækka var starfseminni breytt í alhliða endurhæfingarmiðstöð. Keflavíkurstöðin. Flugskýli Keflavíkurstöðvarinnar. Í bakgrunn sést til Keflavíkur. (Mynd tekin árið 1982) Keflavíkurstöðin (enska: Naval Air Station Keflavik'", í daglegu tali kölluð „"Keflavíkurflugvöllur"“ eða „"Völlurinn"“) var herstöð Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Miðnesheiði, við Keflavíkurflugvöll. Herstöðin var tekin í notkun eftir að Íslendingar og Bandaríkjamenn gerðu tvíhliða varnarsamning árið 1951. Eftir lok Kalda stríðsins fækkaði hermönnum á stöðinni jafnt og þétt þar til að Bandaríkjamenn yfirgáfu formlega stöðina í lok september 2006. Þá hafði stöðin verið rekin í 55 ár. Í dag nefnist svæðið Ásbrú og þar starfar Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Saga. Herstöðin var reist 1951 af Bandaríkjaher, rekin af Bandaríkjaflota, sem flugbækistöð frá árinu 1961. Þegar mest var töldu hermenn, starfslið hersins og hinna ýmsu stofnana á stöðinni og fjölskyldur þeirra um 5.700 manns. Að auki dvöldust þar oft hópar hermanna tímabundið til æfinga eða vegna flutninga. Á herstöðinni voru, auk íbúðarhúsa og hernaðarmannvirkja, verslanir, skólar, sjúkrahús, kvikmyndahús, íþróttahús, skemmtistaðir og allt það sem þurfti til að þjónusta íbúana. Mikil andstaða var jafnan við herstöðina og þá starfsemi sem þar fór fram. Samtök hernámsandstæðinga og síðar Samtök herstöðvaandstæðinga og fleiri friðarhreyfingar stóðu fyrir tíðum mótmælaaðgerðum gegn veru bandaríska hersins á Íslandi. Kunnustu aðgerðirnar voru hinar svokölluðu Keflavíkurgöngur. Stuðningsmenn varnarsamningsins við Bandaríkin höfðu einnig með sér öflug samtök, Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg, og héldu þau uppi kynningarstarfsemi, aðallega með fundum og fræðsluferðum til aðalstöðva Atlantshafsbandalagsins í Brüssel, ráðuneyta utanríkis- og varnarmála í Washington-borg og herstöðvarinnar í Norfolk í Virginíu. Eftir lok Kalda stríðsins var ljóst að hernaðarlegt mikilvægi stöðvarinnar var snöggtum minna en áður og fljótlega eftir 1990 hófust umræður um að stöðinni yrði lokað eða dregið verulega úr starfsemi hennar. Í miðju Íraksstríðinu þar sem mjög reyndi á styrk Bandaríkjahers var síðan tekin ákvörðun um að loka herstöðinni endanlega. 30. september 2006 var íslenskum stjórnvöldum formlega afhent stöðin af síðasta yfirmanni hennar, Mark S. Laughton kafteini í Bandaríkjaflota. Ný not af svæðinu. Í framhaldinu var rætt um "varnarsvæðið", og er þar átt við stöðina og nærliggjandi svæði með byggingum og þeirri aðstöðu sem þar býðst, og hvernig best sé að nýta það. Í október 2006 var Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar stofnað. Formaður félagsins er Páll Sigurjónsson en aðrir í stjórn eru Reynir Ólafsson og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Varamenn eru Hildur Árnadóttir, Sveindís Valdimarsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði. Félaginu er gert að skipuleggja varnarsvæðið þannig að hægt sé að selja og leigja húsnæðið á svæðinu. Í byrjun árs 2007 bárust fregnir af því að 106 íbúðir hefðu orðið fyrir skemmdum vegna vatnsleka. Þetta hafði skeð í nóvember, á þeim tíma sem rekstur húsnæðisins var í höndum utanríkisráðuneytisins. Þjónustusamningur um að fjármálaráðuneytið myndi taka við rekstrinum var undirritaður í byrjun desember. Í apríl 2009 var svæðinu, ásamt mannvirkjum hersins, gefið nafnið Ásbrú. Flugbraut. Flugbraut er afmörkuð slétt braut þar sem flugvélar taka á loft og lenda. Flugbrautir geta haft sérútbúið yfirborð (t.d. malbikað eða steypt) eða verið frá náttúrunnar hendi. Þar sem öruggast er að taka á loft og lenda í beinum mótvindi eru flugbrautir gjarnan lagðar eftir þeirri vindátt sem er ríkjandi á svæðinu. Bjarni Thorsteinsson. Bjarni Thorsteinsson (f. 31. mars 1781, d. 3. nóvember 1876) var amtmaður í Vesturamti á árunum 1821-1849. Bjarni var fæddur á Sauðhúsnesi í Álftaveri, sonur Þorsteins Steingrímssonar bónda, síðast í Kerlingardal, og fyrri konu hans Guðríðar Bjarnadóttur. Hann lauk stúdentsprófi úr Hólavallarskóla árið 1800 og sigldi síðan til Kaupmannahafnar og lauk lögfræðiprófi við Hafnarháskóla árið 1807. Hann starfaði svo í ýmsum stjórnarskrifstofum í Kaupmannahöfn en árið 1821 var hann skipaður amtmaður í vesturamtinu og settist að á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Þar sat hann til 1849, þegar hann fékk lausn frá störfum og flutti til Reykjavíkur. Hann var jafnframt settur stiftamtmaður og amtmaður í Suðuramti 1823-1824 og 1825-1826. Hann hafnaði þeirri hugmynd að Ísland skyldi fá innlent stéttaþing þegar sú hugmynd kom fyrst fram um 1831. Hann varð síðar í embættismannanefnd sem undirbjó endurreisn Alþingis og var fyrsti forseti þingsins þegar það var endurreist 1844. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1845-1846. Bjarni stofnaði einnig Hið íslenska bókmenntafélag ásamt öðrum og var forseti Kaupmannahafnardeildar þess 1816-1819 og 1820-1821. Hann stundaði ýmis ritstörf og skrifaði meðal annars ævisögu sína, sem birtist í Tímariti Bókmenntafélagsins 1903. Kona Bjarna (g. 22. júlí 1821) var Þórunn Hannesdóttir, dóttir Hannesar Finnssonar biskups og seinni konu hans, Valgerðar Jónsdóttur. Synir þeirra voru Finnur, Árni Thorsteinsson landfógeti og Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor. Ultravox. Ultravox var einn af aðalboðberum breskrar rafpopptónlistarstefnu í byrjun 9. áratugarins, sterklega undir áhrifum nýrómantískrar stefnu, en fékk þó einnig innblástur í pönki, glysrokki,,pöbbarokki" og síðar meir að meginleyti hljóðgervlatónlist. Hljómsveitin var stofnuð af John Foxx (söngur, lagahöfundur og hljómborðsleikari). Gekk hún fyrst undir nafninu Tiger Lily, og samanstóð af John Foxx áðurnefndum, Chris Cross (bassi, gítar), Billy Currie (hljómborð, fiðlur), Stevie Shears (gítar) og Warren Cann (slagverk). Sendi hljómsveitin frá sér eina smáskífu árið 1973, áður en þeir breyttu nafninu sínu í Ultavox! Þeir gerðu samning við Island Records árið 1976, og gáfu út sína fyrstu plötu, Ultravox!, í febrúar 1977. Platan seldist illa og náði ekki inn á breska vinsældarlistann. Helstu áhrif Ultravox á fyrstu árum þess voru breskar pönk og nýbylgjustefnur. Hún fékk innblástur af listaskóla-glysrokki frá hljómsveitum eins og Roxy Music, The New York Dolls, og eins frá fyrstu plötum Da vid Bowie og Brian Eno. Síðar á árinu 1977 sendu Ultravox! frá sér pönkaðri plötu, sem bar hið stórfurðulega heiti Ha!-Ha!-Ha!. Þrátt fyrir að viðlag aðalsmellsins ROckwrok (þetta er EKKI stafsetningarvilla að minni hálfu) hafi fengið spilun á BBC Radio 1, þá hafði Ultravox! greinilega ekki náð hylli breskra aðdáenda og náði Ha!-Ha!-Ha! ekki inn á vinsældarlistann heldur í þetta skipti. Eftir útgáfu plötunnar yfirgaf Stevie Shears bandið og stofnaði sitt eigið band, Faith Global. Þrátt fyrir að gítarar og rafmagnsfiðla (sem var notuð í Astradyne) hafi ráðið ferðinni á Ha!-Ha!-Ha!, þá var algjör kúvending á síðasta lagi plötunnar, Hiroshima Mon Amour, en hér var um að ræða lag leikið með hljóðgervlum. Þetta lag olli þáttarskilum í sögu hljómsveitarinnar, og er uppáhaldslag margra áhangenda hinnar upphaflegu Ultravox!. Árið 1978 datt upphrópunarmerkið aftan af nafni hljómsveitarinnar og varð hér eftir rituð einfaldlega Ultravox. Final line-up of Ultravox's first incarnation that ended in 1979, from left: John Foxx, Warren Cann, Billy Currie, Chris Cross, Robin Simon. Skipan Ultravox árin 1978-79, talið frá vinstri: John Foxx, Warren Cann, Billy Currie, Chris Cross og Robin Simon (sá síðasti leysti Stevie Shears af hólmi árið 1970. Nýr gítarleikari kom í stað Stevie Shears, en sá hér Robin Simon. 1978 gáfu Ultravox út 3. plötuna, Systems of Romance. Þessi klikkaði líka og þar með riftu Island Records plötusamningnum við Ultravox. John Foxx stökk frá borði til að byrja sólóferil og Robin Simon gekk til liðs við Magazine. Tónlistarlega var platan nokkurs konar framhald af fyrri verkum hljómsveitarinnar, sem gerðu hljóðgervlum hærra undir höfði. 1979 gáfu Island Records plötu með bestu lögum Ultravox hingað til, Three Into One, sem var nokkurs konar sambræðingur úr þeim 3 plötum sem komið höfðu út. Þekktasta uppröðun Ultravox fyrr og síðar, frá 1979 til 1984, talið frá vinstri: Warren Cann, Midge Ure (leysti af John Foxx og Robin Simon), Billy Currie og Chris Cross. Þekktur tónlistarmaður, Midge Ure (nú Sir Midge Ure), var fenginn til liðs við Ultravox í apríl 1979. Hann hann hafði náð smá vinsældum með glysrokkbandinu Slik og pönkbandinu The Rich Kids. Árið 1979 lék hann tímabundið með þungarokksbandinu Thin Lizzy (fjölhæfur tónlistarmaður á ferð). Midge Ure og Billy Currie (sem var þegar í Ultravox) höfðu átt samstarf með hljómsveitinni Visage (sem sennilega er þekktust fyrir toppsmellinn Fade to grey. Midge tók þar með sæti John Foxx og Robin Simon fyrir upptökur á næsta albúmi Ultravox, sem átti eftir að verða vinsælasta plata Ultravox frá upphafi. Platan, sem bar nafnið Vienna, kom út árið 1980, og var platan gefin út af Chrysalis Records, sem komst á kortið með þessu albúmi. Vienna náði miklum vinsældum með samnefndu lagi, sem fylgt var eftir með áberandi myndbandi. Það náði að komast upp í 2. sæti á Topp 40 listanum í Bretlandi árið 1981. Platan náði 3. sæti á vinsældarlistanum, og var því fylgt eftir með albúminu Rage in Eden árið 1981, sem varð þó erfið í fæðingu. Sá sem hljóðsetti Systems of Romance, Vienna og Rage in Eden hét Conny Plank, sem var austurrískur hljóðupptökumaður, sem er upphafsmaður Krautrock tónlistarstefnunnar sem hljómsveit hans, Neu!, hafði mótað. Þess má geta að upphrópunarmerkið sem fyrst var notað við upphaflega ritun Ultravox hafði verið fengin frá Neu!. Ultravox fékk nú annan útsetjara, George Martin að nafni, til að sjá um útsetninguna á næstu plötu Ultravox, Quartet, sem kom út árið 1982, sem varð vinsælasta plata Ultravox í Bandaríkjunum. Árið 1984 var Midge Ure meðhöfundur og hjálpaði til við útsetningu á smáskífu Band Aid, Do they know it's Christmas?. Um það verkefni þarf ekki að orðlengja hér, enda orðið heimsfrægt, og var fylgt eftir með smá,uppfærslu" árið 2004. Einnig kom Band Aid grúppan saman á Live Aid árið eftir, sem Ultravox. Eftir að upptökum lauk á albúminu Lament (þekktast við toppsmellinn Dancing with tears in my eyes, uppáhaldslag margra), bað Warren Cann um að fá að yfirgefa Ultravox. Við tók Mark Brzezicki (Big Country). Gáfu Ultravox út plötuna U-Vox árið 1986, en eftir það fór hver og einn sína leið. Midge Ure hafði átt sólóferil samhliða veru sinn i hjá Ultravox (náði hann lagi á 1. sæti Topp 40 listans breska, If I was, sem kom út 1985). Ekki þurfti hann að hafa miklar áhyggjur af verkefnum eftir þetta, enda gat hann einnig af sér gott orð sem útsetjari. Fyrrum meðlimir Ultravox, Billy Currie og Robin Simon stofnuðu árið 1989 hina stuttlífu hljómsveit Humania, sem aðeins spilaði á tónleikum, en gaf aldrei út plötu fyrr en árið 2006. Tilraun til endurreisnar á Ultravox var reynd ár ið 1991, þegar Billy endurreisti hana með hjálp Tony Fenelle til að gefa út plötuna Revelation (1993), og síðar með hjálp Sam Blue til að gefa út plötuna Ingenuity árið 1996. Verður þessi útgáfa Ultravox seint talin standast samanburð gullára bandsins. Texti þessi er nokkurs konar þýðing á grein um Ultravox á ensku á wikipedia, http://en.wikipedia.org/wiki/Ultravox. Héðinn Valdimarsson. Héðinn Valdimarsson (26. maí 1892 – 12. september 1948) var íslenskur stjórnmálamaður og verkalýðsforingi. Héðinn var sonur Valdimars Ásmundssonar, ritstjóra, og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindafrömuðar og bæjarfulltrúa. Systir hans var Laufey Valdimarsdóttir. Héðinn gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk svo hagfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla 1917. Eftir að Héðinn sneri heim vann hann hjá Landsverslun í níu ár. Héðinn stofnaði og rak Tóbaksverslun Íslands hf. (1926-29) og Olíuverzlun Íslands hf. (1927). Hann var formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í fjögur skipti, þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn frá 1926 en átti síðan þátt í stofnun Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins 1938 ásamt Kommúnistaflokknum. Stuttnefja. Stuttnefja (fræðiheiti: "Uria lomvia") er strandfugl af svartfuglaætt og nokkuð lík langvíu. Hún er svört á höfði og baki en hvít að neðanverðu. Á veturnar fær hún hvíta vanga. Goggurinn er svartur, oddhvass og með hvítri rönd á jaðri efra skolts. Fætur eru svartir og augun svört. Stuttnefjan verpir á líkum stöðum og langvían, en ólíkt henni (sem verpir á berar syllur og bríkur) er dálítil jarðvegur eða leir og sandur í eggstæðinu hjá stuttnefjunni. Þær eru líka yfirleitt fáar saman. Mesti þéttleiki stuttnefju í varpi hefur þó mælst 37 fuglar á fermetra. Stuttnefjuna má helst finna í stórum hópum í Látrabjargi, Hælavík og Hornabjargi. Lítið er vitað um ferðir hennar á veturnar en flestar langvíur eru hér frá byrjun apríl og fram til byrjun ágúst. Stuttnefjan átti sér ólík heiti eftir landshlutum. Í Látrabjargi var hún kölluð "nefskeri" og í Papey "stuttvíi", í Skrúð "drunnnefja" og á Langanesi "klumba". Langvía. Langvía (fræðiheiti: "Uria aalge") er strandfugl af svartfuglaætt. Hún er svartbrún á hausnum og bakinu. Á sumrin eru hún hvít að neðan en á veturnar er hún með hvíta vanga. Til eru tvö litaafbrigði. Annað er með hvítan hring um augun og hvíta línu úr hringnum („hringvía“) en hjá hinu afbrigðinu er ekki hringur um augun. Goggurinn er mjór, svartur og oddhvass og augun svört. Langvía eru mjög lík stuttnefju og erfitt getur verið að greina á milli þeirra. Flestar langvíur eru hér í mars og fram í ágúst. Langvían verpir á berum syllum og bríkum. Varp hennar getur verið mjög þétt, eða allt að 70 fuglar á fermetra. Merkilegt við langvíuna er að ungarnir eru aðeins þriggja vikna þegar þeim er kastað úr hreiðrinu af foreldrunum og fyrst um sinn hjálpar karlfuglinn unganum að læra að veiða. Álka. Álka (fræðiheiti: "Alca torda") er strandfugl af svartfuglaætt. Hún er svört á bakinu og höfðinu en hvít á maganum. Á nefinu hefur hún hvíta mjóa rönd. Í sumarbúningi er framháls og vangi hvítur og augntaumurinn hverfur. Goggurinn er hár og flatur til hliðanna. Hún er hér á landi frá því í enda febrúar og fram í byrjun ágúst, þó partur af stofninum haldi sér hér allt árið. Álkan gerir sér hreiður í urðum, glufum og skútum. Langstærsta álkubyggðin hérlendis er undir Látrabjargi og meirihluti allra álka í heiminum er hér á landi. Álkan er skyld geirfuglinum sem dó út 1844 í Eldey. Fýll. Fýll (eða múkki) (fræðiheiti: "Fulmarus glacialis") er pípunefur af fýlingaætt og er ein algengasta fuglategund Íslands. Hann er hvítur á höfði, hálsi og að neðanverðu, grár á síðu, stéli og ofan á vængjum og hefur dökkgráa vængbrodda. Augun eru svört og fætur grábleikir. Goggurinn er gulgrár með pípunasir ofaná og ef honum er ógnað spýtir hann illa lyktandi gumsi úr lýsi og hálfmeltum mat á andstæðinginn. Fýlinn er að finna í klettum og björgum allt í kringum landið bæði við sjó og inn á landi, jafnvel marga tugi kílómetra frá sjó á varptímum. Hann er hér á landi mest frá janúar og allt fram í byrjun september en fer eitthvað á flakk á haustin. Fýllinn er stór sjófugl sem minnir á máf, þéttvaxinn og hálsdigur með langa og mjóa vængi. Hann er hvítleitur á höfði, hálsi og að neðan. Grár að ofan og á yfirvængnum með dökka vængbrodda. Síður gumpur og stél eru grá, undirvængir gráir með dökkum jöðrum. Goggurinn er stuttur og gildur, gráleitur að ofan en gulleitur að neðan með nasirnar í pípum ofan á goggmæni. Þetta einkenni gefur ættbálki fýlsins nafn, fæturnir eru grábleikir. Fýllinn hefur stór áberandi dökk augu. Hann er 45-50 cm að lengd, hann er um 800 gr að þyngd og vænghafið er 102-112 cm. Íslenskir fýlar hafa verið merktir í allmiklum mæli, einkum í Vestmannaeyjum og Breiðafjarðareyjum og því nokkuð vitað um farhætti þeirra. Þeir eru sjófuglar sem sjást við landið allt árið um kring en halda sig á rúmsjó og sækja mikið að skipum í von um æti. Geta þeir skipt þúsundum við fiskiskip þegar verið er að hífa veiðarfæri eða gera að afla. Fýlar nálgast land á hvaða árstíma sem er en mikill dagamunur er á fjölda þeirra á veturnar. Þá setjast þeir við og við upp á varpstöðvum, en þó aðallega í hálku og við landið sunnanvert. Fýlar baða sig oft í ferskvatni og á sumrin sjást þeir á flugi yfir ám og vötnum langt inni í landi, jafnvel uppi á hálendi. Fýlar eru afar algengir varpfuglar með ströndum, hömrum og nálægt sjó og eyjum allt í kringum landið. Þá er einnig víða að finna í smáklettum og sjávarbökkum og í hömrum og giljum inn til landsins. Varplönd þeirra eru lengst um 50 km frá sjó (miðað við fluglínu eftir ám), við Þingvallavatn og í Emstrum vestan Mýrdalsjökuls. Hreiðrið er oftast grunn skál án hreiðurefna en stundum steinvölur og skeljum safnað í skálina. Eggið er aðeins eitt og því er orpið frá seinni hluta maí og fram eftir júni. Auðgreindur frá máfum á einkenndu fluglagi, tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Hann er léttur á sundi en á oft erfitt með að hefja sig á loft, sérstaklega í logni. Hann er þungur til gangs. Fýllinn leita sér ætis bæði á flugi og syndandi, gjarnan kringum fiskiskip í höfnum og við fiskvinnslustöðvar. Aðal fæða hans er fiskur, krabbadýr og úrgangur frá fiskiskipum. Fýllinn hefur sérstaka aðferð til að verja sig þannig að ef þeir eru áreittir spúa þeir lýsi og hálfmeltum matarleifum sem af er megn stækja, svonefnd fýlaspýja. Lýsið kemur úr maganum en ekki úr nefinu eins og margir halda. Fýlar gefa frá sér frekjulegt rámt gagg og rámt “nefmælt” garg. Talið er að fjöldi varppara sé 1-2 milljónir og að á bilinu 1-5 milljónir fugla séu á íslensku hafsvæði yfir veturinn. Fýlar eru með algengustu fuglum landsins og hefur stofninn stækkað jafnt og þétt síðustu tvær aldir eða svo. Fyrrum var töluvert um veiðar á fýlum og sérstaklega sterk hefð var fyrir fýlatekju í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Upp úr 1930 kom upp veiki í mönnum í Færeyjum sem rakin var til fýla, sjúkdóms sem kallast fýlasótt sem vart var í Vestmannaeyjum árið 1939. Varp og ungatímabilið er frá byrjun maí og þangað til um miðjan september. Dvalartími á Íslandi frá miðjum janúar og þangað til um miðjan september. Verkamannabústaðir. Verkamannabústaðir eru félagslegt húsnæði sem venjulega eru reistir af stjórnvöldum (ríki eða sveitarfélögum) eða stéttarfélögum með styrk frá stjórnvöldum. Tilgangur þess er að gefa tekjulægri stéttum tækifæri til að komast í húsnæði með lágum greiðslum. Fyrstu verkamannabústaðirnir sem reistir voru á Íslandi voru 70 íbúðir við Hringbraut í Reykjavík, sem voru reistir af Byggingafélagi alþýðu eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar 1931. Sómi (fyrirtæki). Sómi er fyrirtæki, sem framleiðir alls konar samlokur, hamborgara, langlokur, pasta, salöt, pizzur og fleiri tilbúna rétti. Einnig býður Sómi upp á nokkrar gerðir veislubakka. Hjá fyrirtækinu starfa um 80 starfsmenn. Vörur Sóma eru fáanlegar um allt land í öllum helstu bensínstöðvum og matvöruverslunum. Sagan. Sómi var stofnað árið 1978 af Bjarna Sveinssyni. Fyrst um sinn var fyrirtækið til húsa í Kópavogi en síðar flutti fyrirtækið í Garðabæinn þar sem það er til húsa núna. Árið 1993 keyptu tveir aðrir hlut í fyrirtækinu, Arnþór Pálsson og Alfreð Hjaltalín. Árið 2003 seldi Bjarni Sveinsson sinn hluta í fyrirtækinu og hinir hluthafanir keyptu hans hlut. Vorið 2006 keypti Sómi næststærsta samlokufyrirtæki landsins Júmbó. Fyrirtækið samanstendur nú af tveimur einingum, Sómasamlokum og Júmbósamlokum, sem báðar framleiða undir merkjum Sóma og Júmbó matvæli fyrir heimamarkað. Nintendo. Nintendo er fyrirtæki sem hannar og gefur út tölvuleiki og leikjatölvur. Nintendo Entertainment System (NES). "Nintendo Entertainment System", eða NES, er 8-bita leikjatölva gefin út af Nintendo í Norður-Ameríku, Brasilíu, Evrópu, Asíu og Ástralíu. Japanska útgáfan er kölluð Famicom. Nes er vinsælasta leikjatölva síns tíma í Asíu og Norður-Ameríku. Nintendo segjast hafa selt 60 milljón NES eintaka um allan heim. Super Nintendo Entertainment System (SNES). "Super Nintendo Entertainment System", einnig þekkt sem Super Nintendo, Super NES eða SNES, er 16-bita leikjatölva gefin út af Nintendo í Norður-Ameríku, Brasilíu, Evrópu og Ástralíu. Í Japan er hún þekkt sem Super Famicom. Í Suður-Kóreu er hún þekkt sem Super Comboy. SNES var önnur leikjatölva Nintendo á eftir Nintendo Entertainment System. SNES hefur verið seld í yfir 49 milljón eintökum um allan heim. Nintendo 64. "Nintendo 64", oftast kölluð N64, er þriðja leikjatölva Nintendo fyrir alþjóðlegan markað. Hún var gefin út með þrem leikjum í Japan (Super Mario 64, Pilotwings 64 og Saikyō Habu Shōgi) en aðeins tveim leikjum í Norður-Ameríku og PAL löndunum (Super Mario 64 og Pilotwings 64). Aðrir leikir eru meðal annars tveir Legend of Zelda leikir, GoldenEye 007 og Star Fox 64 (einnig þekktur sem Lylat Wars). Nintendo 64 hefur selst í yfir 32.93 milljónum eintökum þann 31. mars 2005. GameCube (NGC). "GameCube" var fjórða leikjatölva Nintendo, í sjöttu kynslóð leikjatölva sem sagt sömu kynslóð og Dreamcast frá Sega, PlayStation 2 frá Sony og Xbox, frá Microsoft. GameCube var ódýrust af þeirri kynslóð. Hún var fyrsta leikjatölva Nintendo til að nota diska. Nintendo GameCube hefur selst í yfir 21.20 milljón eintökum 30. september 2006. Wii. "Wii" er leikjatölva frá Nintendo. Hún tilheyrir sjöundu kynslóð leikjatölva. Opinbera leyninafnið var "Revolution" sem þýðir bylting. Aðalmöguleiki Wii er þráðlausi stýripinninn, eða Wii fjarstýringin sem skynjar hreyfingu í þrívíðu umhverfi. Stýripinninn kemur með Nunchuk sem er viðbót við hann sem skynjar einnig hreyfingu. Stýripinninn er einnig með hátalara,hallaskynjara og hristing og hægt er að slökkva á tölvunni með stýripinnanum. Leikjatölvan er einnig með WiiConnect24 sem er alltaf kveikt á þó það sé slökkt á vélinn og tekur lítið rafmagn. Þó er hægt að taka það af og á hvernær sem maður vill. Með leikjatölvunni fylgir Wii Sports. Í Japan fylgir leikurinn ekki með en hægt er að kaupa hann sér. Wii hefur selt yfir 3 milljón eintök 10. janúar 2007. Game Boy línan. "Game Boy línan" er handleikjatölva með batteríi og er gefinn út af Nintendo. Það er ein af mest seldu leikjatölvu línu, með meira en 188 milljón eintök seld um allann heim. Upprunalega Game Boy (leikjatölva) hefur selst í 70 milljón eintökum, meðan Game Boy Color hefur selst í 50 milljón eintökum. Game Boy Advance hefur náð að seljast í yfir 76.79 milljón eintökum 30. september 2006. Einnig eru til Game Boy SP og Game Boy Micro. Nintendo DS/DS Lite. "Nintendo DS" (oft skammstafað DS eða NDS), er leikjatölva frá Nintendo í lófastærð sem hefur tvo skjái. Hún var gefin út árið 2004. Nafnið "DS" stendur fyrir enska heitið "Dual-Screen" ("tveggja-skjáa") eða "Developers' System" ("þróunar kerfi"). Hönnunin á DS líkist skel en hún getur opnast of lokast lárétt (sbr. Game Boy Advanced SP og Game & Watch). Árið 2006 var DS endurhönnuð, og gefin út undir nafninu DS Lite. Pípunefir. Pípunefir (fræðiheiti: "Procellariidae") eru ættbálkur sjófugla sem eiga það sameiginlegt að nasir þeirra eru geymdar inni í einni eða tveimur pípum á goggnum sem er samsettur úr mörgum plötum. Flestir fuglar af þessum ættbálki eru hvítir og gráir eða svartir að lit með sundfit á fótum og nær enga afturkló og granna og langa vængi. Flestir halda sig mestan tíma á opnu hafi. Der Spiegel. Der Spiegel er þýskt vikulegt fréttarit. Ritsjórn blaðsins situr í Hamborg. Spiegel er gefið út af Spiegel Verlag, sem er í eigu afkomenda stofnanda þess, starfsmanna og eins dótturfyrirtækis Bertelsmannsamsteypunnar. Upplag ritsins er um 1,1 milljón eintök á viku. Ritið sjálft fullyrðir, að það sé áhrifaríkasta fréttarit Þýskalands. Tundurspillir. Tundurspillir er hraðskreitt og lipurt óbrynvarið herskip sem yfirleitt er ætlað að fylgja stærri skipum í skipaflota og er ætlað að verja þau fyrir árásum minni skipa (upphaflega gegn tundurskeytabátum en síðar einnig kafbátum og flugvélum). Tundurspillirinn er vel vopnum búinn; særými tundurspilla er venjulega um 2000-8000 tonn, lengd 100-150 m. Ganghraði þeirra er um 30 sjómílur á klukkustund. Tundurspillir er minni en beitiskip og stærri en freigáta. Þeir eru einkum notaðir í gagnkafbátahernaði og þá sem fylgdarskip stórra herskipa eða skipalesta. Hringbraut. Hringbraut er ein af aðalumferðargötum Reykjavíkur. Hún nær frá hringtorginu fyrir framan JL-húsið á Granda að mislægum gatnamótum við Snorrabraut, en þar eftir heitir hún Miklabraut. Hún skiptir þannig Vesturbænum í tvennt allt að hringtorginu á Melunum og skilur þar eftir Miðborgina frá Vatnsmýrinni. Við Hringbraut standa bæði Þjóðminjasafn Íslands, Félagsmiðstöð stúdenta, Landspítalinn og Umferðarmiðstöð Reykjavíkur. Þegar Hringbraut var fyrst lögð var núverandi Snorrabraut hluti af henni og náði hún því nokkurn veginn í hálfhring utan um meginbyggð Reykjavíkur, og dregur nafn sitt af því. Ævisaga. Ævisaga er bókmenntaform þar sem sagt er frá lífshlaupi einstaklings eða einstaklinga. Yfirleitt á hugtakið ekki við um skáldsögur, þótt búið hafi verið til hugtakið skáldævisaga um ævisögur sem eru á mörkum skáldskapar og æviminninga eins og í bókum Þórbergs Þórðarsonar. Ólíkt ferilskrá er ævisaga yfirleitt dýpri greining á persónueinkennum og byggist oft upp á reynslusögum og ólíkt dagbókum fjalla ævisögur yfirleitt um tíma sem er löngu liðinn. Þegar höfundur er sjálfur aðalpersóna ævisögunnar er talað um sjálfsævisögur eða æviminningar. Hvalir. Hvalir (fræðiheiti: "Cetacea") eru ættbálkur spendýra sem samanstendur af stórhvelum, höfrungum og hnísum. Hvalir er sá ættbálkur spendýra sem best er aðlöguð til sjávarlífs. Skrokkur þeirra er snældu- eða spólulaga. Framlimirnir hafa mótast í bægsli. Afturlimirnir eru líffæraleifar sem ekki tengjast hryggnum og eru faldir innan skrokksins. Afturendinn hefur láréttar ögður. Ættbálkur hvala telur yfir áttatíu tegundir sem skiptast í tvo undirættbálka: skíðishvali og tannhvali, en til tannhvala teljast bæði höfrungar og hnísur. Hvalveiðar eru mjög umdeildar og nú orðið er lítil eftirspurn eftir hvalafurðum. Því hafa flestar hvalveiðiþjóðir dregið mjög úr hvalveiðum eða hætt þeim alveg. Hvalveiðar í atvinnuskyni voru bannaðar á Íslandi árið 1986, en þær hófust aftur að einhverju leyti haustið 2006. Belmar. Belmar er lítill bær í New Jersey í Bandaríkjunum. Belmar liggur á ströndinni og er mjög alþjóðlegur á sumrin þegar margt fólk frá New York kemur þangað með járnbrautarlestum og gistir í sumarhúsum þar. Mannfjöldi í Belmar er 6.045 á veturna en á sumrin búa yfir 80.000 manns í bænum. Rétt utan Belmar er járnbrautarstöð og apótek er í miðbænum. Á Main Street, Leið 71, eru margar verslanir. Margt fólk ferðast á milli Belmar og New York með járnbrautarlestum. Margir búa á milli strandarinnar og Main Street, en það er vegur sem er rétt hjá strandgötunni, sem heitir Ocean Avenue. Þar eru dýrar fasteignir. Þar eru líka veitingahús með japönskum, ítölskum og írskum mat og þar er selt Dunkin Donuts og ís. Belmar er góður sumardvalarstaður en það er svolítið kalt og stormasamt þar á veturna. Myspace. MySpace er netsamfélag þar sem skráðir notendur mynda tengslanet gegnum vinahópa, persónulýsingar, blogg, myndir, tónlist og myndbönd. Hægt er að leita innan Myspace og hægt er að senda tölvupóst milli notenda. Myspace er samkvæmt mælingum hjá Alexa.com fjórða vinsælasta vefsetur í heimi, á eftir Yahoo!, MSN og Google. Meira en 100 milljón notendur voru skráðir á Myspace í ágúst 2006. Myspace hefur verið í eigu fjölmiðlasamsteypunnar News Corporation frá júlí 2005. Myspace.com var skráð lén árið 1998 en netsamfélag eins og nú er rekið var stofnað í júlí 2003 af Tom Anderson, Chris DeWolfe og hópi forritara. Persónulýsingar. Persónulýsingar (profiles) á Myspace eru upplýsingar um notandann og áhugamál hans og hverja hann vill hitta. Notandi getur hlaðið inn myndum og valið eina þeirra sem einkennismynd fyrir sig. Notendur geta einnig hlaðið inn stuttum myndskeiðum sem hægt er að spila í Flash spilara. Notendur geta ráðið útliti á síðum sínum með því að nota HTML/XHTML kóða og CSS stílskjöl. Algengt er að notendur velji sér tilbúið snið og lími á síðurnar forritsbúta sem spila tónlist og/eða myndskeið. Einfalt er að bæta við persónulýsingar tónlist úr tónlistarkerfi Myspace. Vinalistar. Hægt er að sjá hve margir vinir eru skráðir og skoða yfirlit yfir alla vini. Vinir geta skráð inn skilaboð/athugasemdir sem allir geta lesið. Hægt er að senda út fréttabréf (bulletin) til allra á vinalista. Þessi fréttabréf eru eyðilögð eftir tíu daga. Notendur geta stofnað hópa sem hafa sameiginlega vefsíðu og skilaboðakerfi. Dæmi um slíkan hóp er http://groups.myspace.com/Iceland Öryggi. Dæmi eru um að með efni á Myspace hafi verið dreift njósnabúnaði(spyware). Upplýsingum sem notendur gefa á Myspace er iðulega safnað af aðilum sem reyna að selja notendum vörur eða þjónustu. Talið er að stærstur hluti notenda Myspace sé ungt fólk. Myspace er ætlað notendum frá 14 ára aldri og upplýsingar um aldur koma frá notendunum sjálfum. Algengt er að skólastofnanir í Bandaríkjunum leyfi ekki aðgang að Myspace og sérstök lög sem skylda skólastofnanir og bókasöfn sem njóta opinberra styrkja til að koma í veg fyrir að börn taki án eftirlits þátt í netsamfélögum eins og Myspace (DOPA - Deleting Online Predators Act of 2006) eru nú fyrir bandaríska þinginu. Tónlist. Tónlistarmenn og hljómsveitir sem höfða til ungs fólks nota í sívaxandi mæli Myspace til að ná til áheyrenda. Myspace lokaði um tíma fyrir aðgang að Youtube myndböndum. Zyklon B. Zyklon B var vöruheiti á skordýraeitri sem innihélt vetniscyaníð (HCN). Þekktast er Zyklon B fyrir að hafa verið notað í gasklefum í útrýmingarbúðum nasista í Póllandi og víðar. Framleiðendur eitursins voru efnafyrirtækin Dessauer Werken für Zucker-Raffinerie í Dessau í Þýskalandi og Kaliwerke í Kolin í Tékklandi. Zyklon B var notað í stórum stíl til að aflúsa fatnað og annað í fangabúðum Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni en líka í gasklefum í búðunum til að taka fólk af lífi. Auschwitz. Auschwitz (þýska: "Konzentrationslager Auschwitz-Birkenau", "KZ Auschwitz") voru stærstu fanga- og útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni, staðsettar í Póllandi nasista-þýskalands. Búðirnar samanstóðu af þremur aðalbúðum og rúmlega 40 undirbúðum. Í búðunum voru um 1,3 milljónir líflátnar, um 85% þeirra gyðingar. Auschwitz var þýska nafnið á bænum Oświęcim sem er staðsettur um 60 kílómetra vestur af Kraká í Suður-Póllandi. Rudolf Franz Ferdinand Höss. Rudolf Franz Ferdinand Höss var yfirmaður í Auschwitz á árunum 1940-1943. Hann hafði ætlað sér að verða prestur áður en hann var kvaddur í herinn til að berjast í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið gekk hann í Freikops, einkaher sem var skipulagður af liðsforingjum úr þýska hernum úr stríðinu. Árið 1922 gekk Höss í þýska nasistaflokkinn og síðar í Artamenen sem var félag öfgafullra þjóðernissinna sem fyrirlitu borgarlífið og vildi hverfa aftur til einfaldari tíma bænda, eftir ódæðisverk þar lenti hann í fimm ára fangelsvist árið 1923. Í júnímánuði árið 1934 bauð Heinrich Himmler honum vinnu hjá öryggissveitum nasista, betur þekkt sem SS sveitirnar, og eftir eilítið hik þáði hann það. Seinna sama árs fór hann til Dachau sem voru fyrstu þrælabúðir þriðja ríkisins. Árið 1938 þáði hann stöðu sem búðastjóri í Sachsenhausen sem voru þrælabúðir 34 km norður af Berlín. Þar stjórnaði hann einni aftökusveit þeirra búða. 30. apríl árið 1940 var honum boðið yfirmannastarf í Auschwitz. Bygging Auschwitz. Þegar Höss tók við stöðu yfirmanns Auschwitz var ekki enn búið að byggja þær, heldur átti hann einnig að stýra byggingu þeirra. Fyrstu fangarnir komu svo í júní 1940 en það voru 30 þýskir glæpamenn fluttir frá Sachsenhausenbúðunum. Þeir voru fyrstu kapóarnir, fangar sem voru yfir öðrum föngum og átti að sjá um að þeir ynnu vel, annars yrði þeim refsað en ekki hinum föngunum, en þegar hins vegar kapói var leystur af störfum var honum yfirleitt refsað af föngunum sem hann sá áður um. Þessir þrjátíu fangar áttu að sjá um að fyrstu pólsku fangarnir byggðu búðirnar. Þeir fengu frumstæð verkfæri og ekki nóg nóg hráefni svo þeir urðu að stela af húsum Pólverja. Þessi þjófnaðarhefð var undirstaða í byggingu búðanna. Vinnuflokkar stálu frá öðrum vinnuflokkum og Höss sjálfur segir frá því að hann þurfti að stela ökutækjum, keyra um og hnupla nauðsynlegum hráefnum og jafnvel heimilisáhöldum. Höss sagði líka frá því þegar hann var í fangelsi og minnist þessa að það eina sem hélt honum gangandi væri að hafa eitthvað fyrir stafni. Því setti hann á skilti fyrir ofan innganginn frasann: „Vinnan gerir þig frjálsan“, vitandi að þetta voru væntanlegar þrælabúðir. Auschwitz I. Til að byrja með var aðal dauðaorsök í búðunum of mikil líkamleg vinna, næringarskortur eða líkamlegt ofbeldi. Þeir sem ekki dóu vegna líkamlegs niðurbots gerðu það í skála 11. Hann var skáli sem notaður var til að refsa og pynta fanganna. Jerzy Bielecki er einn þeirra örfáu sem hafa komið inn í hann og út aftur á lífi. Hann var sendur þangað fyrir að gera upp vinnu. Hann var svo veikur að hann gati ekki sinnt sínum venjulega hjólböruakstri svo hann þóttist vera að hreinsa til hér og þar, var svo gripinn og sendur í skála 11 sem refsingu. Þar var hann látinn standa upp á stól, hendur bundnar fyrir aftan bak og upp í loftið, stólnum kippt undan honum og hann látinn hanga við gífurlegann sársauka. Á milli klefa 10 og 11 var lítill aflokaður garður, þar fóru aftökur fram fyrir tíma gasklefanna. Mönnum var stillt upp við vegginn og skotnir í höfuðið með langhlaupa skammbyssum til að skapa sem minnstan hávaða. Auschwitz II (Birkenau). Sumarið 1941 komst Karl Fritzsch að því að kristölluð blásýra, almennt þekkt sem Zyklon B, kæmi sér vel til að aflífa fanga. Í september sama ár var ákveðið að byggja aðrar búðir, Auschwitz-Birkenau, oft þekktar sem Auschwitz II, þá hannaðar sem útrýmingabúðir fyrir sovéska stríðsfanga. 10.000 fangar voru sendir til að byggja þær og 9.000 dóu á fyrstu sex mánuðunum. Þegar lokið var svo við þær voru aðeins nokkur hundruð eftir lifandi. Í júlí 1942 var byrjað á „flokkun gyðinga“, aðferð sem nasistarnir voru frægir fyrir. Þá voru gyðingar flokkaðir eftir því hvort þeir gátu unnið eða ekki. Börn, gamalt fólk og veikir voru aflífaðir sem fyrst meðan aðrir þræluðu fyrir herinn. Snemma árið 1943 var ákveðið að stækka gas-rúmtak í Auschwitz II. Í júní það ár voru fjórir gasklefar tilbúnir sem voru hannaðir til að drepa og losna við líkin með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Læknarannsóknir. Læknar innan nasista gerðu ýmsar tilraunir á gyðingum í Auschwitz. Til að mynda prófuðu þeir áhrif röntgengeisla sem vönunartæki á kvenkyns föngum. Doktor prófessor Carl Clauberg gerði tilraunir til að líma saman leggöngin á konum með því að sprauta ýmsum efnum inn í þau. Þýska lyfjafyrirtækið Bayer, þá dótturfyrirtæki lyfjafyrirtækisins IG Farben, keypti fanga til að nota sem tilraunadýr til að prófa ný lyf. Frægasti læknirinn innan veggja Auschwitz var Josef Mengele, einnig kallaður „engill dauðans“. Hann hafði miklar mætur á tvíburum og dvergum. Prófaði hann þá að sprauta þá með drepi til að athuga hvernig líkaminn brygðist við. Einnig sprautaði hann annan tvíburann með sjúkdóm, drap svo hinn eftir að sá fyrri dó og gerði svo samanburðarkrufningu. Flóttatilraunir og afleiðingar. Ef flóttamaður náðist var hann oftast látinn svelta til bana. Ef honum tókst að flýja var fjölskylda hans tekin í staðin. Ef hún náðist ekki heldur voru tíu handahófskenndir fangar teknir og látnir svelta til bana. Eftir stríðið. Í dag er Auschwitz safn til minningar um þá hræðilegu atburði sem hafa gerst þar. Lappað var upp á staðinn og gasklefinn í Auschwitz I gerður aftur að gasklefa eftir að SS gerði hann að varnarskýli. Flestar byggingar Auschwitz II voru brenndar þegar Rússar komu nálægt og grjótið rutt í burtu þegar Pólverjar komu aftur. Oświęcim. Oświęcim (á þýsku: Auschwitz) er bær í Suður-Póllandi með 43.000 íbúða (tölur frá 2001). Bærinn er staðsettur um 50 kílómetra vestur af Kraká. Þýskt nafn bæjarins, Auschwitz, er ennþá notað þegar vísað er til fangabúða nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Brokey. Brokey er stærsta eyjan í Breiðafirði og er í mynni Hvammsfjarðar; hún er sunnan Öxneyjar og norðan Ólafseyjar. Stærð hennar er 3,7 km² og hæsti punktur 34 m yfir sjávarmáli. Brokey er um 1 km á breidd og 3,5 - 4,0 km á lengd. Eyjan minnir frekar á fast land, sökum nálægðar við aðrar eyjar. Í Brokey og eyjunum í kring er mikill munur á flóði og fjöru, og getur t.d. verið ófært á bát milli eyjanna vegna þessa. Brokey tengist 5-6 öðrum eyjum á háfjöru þ.á m. Öxney. Stór mýrarflói er á eyjunni og þar er mikið fuglalíf. Í Brokey hefur lengi verið byggð. Meðal frægra íbúa mætti nefna Jón Pétursson fálkafangara (1584-1667), en hann hóf að nýta og hreinsa æðardún og var frumkvöðull á því sviði. Nýungar hans fólust í því sem nefnt hefur verið bökun dúns og hrælun á dúngrindum. Í Brokey var allmerkileg sjávarfallamylla sem Vigfús Hjaltalín reisti. Myllan var staðsett við brú sem tengir Brokey við Norðurey, en núna stendur þó aðeins hús myllunar eftir. Búið var í eyjunni til 1980 en þá lagðist heilsársbúskapur af. Brokey og hinar fjölmörgu eyjar sem henni fylgja eru nýttar af eigendum til æðardún- og Svartbakseggjatöku og þar er fé haft til beitar. Lokalausnin. Lokalausnin við gyðingavandamálinu (á þýsku: "Endlösung der Judenfrage") vísar til áætlunar nasista um að útrýma gyðingum í Evrópu meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð. Hugtakið var smíðað af Adolf Eichmann, háttsettum nasista sem sá um framkvæmd þjóðarmorðsins auk Hitlers. Eftir seinni heimsstyrjöldina var hann handtekinn, dreginn fyrir dóm og tekinn af lífi í Ísrael árið 1962. Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey. Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey er félag áhugafólks um siglingar í Reykjavík. Félagið stendur fyrir vikulegum siglingakeppnum á Kollafirði á hverjum þriðjudegi yfir sumartímann. Að auki heldur félagið námskeið í kjölbáta- og kænusiglingum fyrir börn og fullorðna á hverju ári. Ólympískir kappróðrar hafa líka verið stundaðir innan félagsins. Saga. Félagið var stofnað 7. febrúar 1971 af nokkrum áhugamönnum um siglingar. Félagið átti að vera vettvangur fyrir kænusiglingar þeirra sem vaxnir væru upp úr Siglunesi, sem er siglingaklúbbur innan ÍTR stofnaður árið 1962. Sama ár og Brokey var stofnuð, var Siglingafélagið Ýmir stofnað í Kópavogi hinum megin við Fossvoginn. Brokey kom sér fljótlega upp aðstöðu fyrir kænu- og seglbrettasiglingar í gamla flugvallarhótelinu „Hotel Ritz“ (áður Transit Camp) í Nauthólsvík. 1977 eignaðist félagið fyrsta félagsbátinn, Wayfarer-kænu, með stuðningi Íþróttabandalags Reykjavíkur. 1987 voru settar upp sérdeildir fyrir kjölbátasiglingar, kænusiglingar og seglbrettasiglingar og upp úr 1990 var kappróðradeild stofnuð innan Brokeyjar. Lengi vantaði hentuga aðstöðu fyrir stærri kjölbáta en 1989 var sett upp flotbryggja við Ingólfsgarð í Reykjavíkurhöfn og 1994 var tekin í notkun félagsaðstaða í skemmum við Austurbugt. 2006 var skemman síðan rifin vegna framkvæmda við Tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík. Síðan þá hefur félagið haft félagsaðstöðu í bráðabirgðahúsnæði á Ingólfsgarði auk aðstöðunnar í Nauthólsvík. Mótahald. Siglingafélögin á Íslandi skipta með sér flestum siglingamótum sumarsins en Brokey hefur oftast haft með höndum a.m.k. „Sjómannadagsmót“ á Hátíð hafsins, „Þjóðhátíðarmót“ 17. júní í Reykjavík, „Faxaflóamót“ frá Reykjavík til Akraness og (síðasta ár) „Ljósanæturkeppni“ frá Reykjavík til Keflavíkur auk annarra móta. Félagið heldur líka Reykjavíkurmótið, röð æfingakeppna á hverjum þriðjudegi allt sumarið. Íslandsmeistarar í kjölbátasiglingum. 1982 ("Assa") · 1984 ("Assa") · 2001 ("Besta") · 2005 ("Besta") · 2006 ("Besta") · 2007 ("Besta") · 2008 ("Dögun") · 2009 ("Dögun") · 2010 ("Dögun") · 2011 ("Dögun") · 2012 ("Dögun") Tenglar. Siglingafélög Adolf Eichmann. Adolf Otto Eichmann (þekktur sem Adolf Eichmann; 19. mars 1906 – 31. maí 1962) var háttsettur foringi í þýska hernum (SS Obersturmbannführer eða ofursti) og Nasistaflokki Þýskalands í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var einn af helstu skipuleggjendum Helfararinnar. Vegna skipulagshæfileika sinna fól Reinhard Heydrich honum að sjá um nauðungarflutninga gyðinga í gettó og síðar í útrýmingarbúðir Austur-Evrópu. Hann var numinn brott af leyniþjónustu Ísraela, Mossad, í Argentínu og fluttur til Ísraels. Þar var hann ákærður fyrir glæpi gegn mannkyninu, sakfelldur og hengdur. Harður diskur. Harður diskur sem hlífðarskelin hefur verið tekin af. Harður diskur er geymslumiðill sem er mikið notaður í tölvum og öðrum stafrænum búnaði. Hann samanstendur af einni eða fleiri hörðum gler eða álskífum sem húðaðar hafa verið með efni sem inniheldur járnoxíð eða aðrar málmagnir sem eru næmar fyrir breytingum á segulsviði. Gögn eru skrifuð á harða diskinn með því að mynda segulsvið við yfirborð skífunnar, og síðan lesin aftur af honum með því að mæla segulmögnun skífunnar. Til að vernda viðkvæmt yfirborð skífunnar er hún sett í harðar umbúðir, yfirleitt úr málmi. Disklingar eru svipaðir hörðum diskum, en skífan er gerð úr mýkra efni og hlífðarskelin mun viðaminni. Harðir diskar hafa einnig verið kallaðir fastir diskar og fastaminni. Harðir diskar eru stundum tengdir við tölvur með nettengingum eins og FDDI eða Ethernet, algengara er þó að notaðar séu tengibrautir sérstaklega hannaðar til að tengja diska eins og ST506, IBM IDE, ESDI, ATA eða SCSI. Þykkvibær. Þykkvibær er í Rangárþingi ytra, á milli Þjórsár og Hólsár, um það bil 1,6 kílómetra frá sjó. Fyrst er getið um Þykkvabæ í kirkjubók Oddakirkju árið 1270, en ekki er vitað hvenær byggð hófst þar. Bærinn stendur í austanverðu landnámi Þorkels Bjálfa í Háfi. Þykkvibær. Þykkvibær er elsta sveitaþorp á Íslandi og var eina sveitaþorpið á landinu í 900-1000 ár. Áður en að Þykkvibær, Rangárvallarhreppur og Holta- og Landsveitarhreppur voru sameinaðir þann 9. júní 2002 kölluðu Þykkbæingar sinn landshluta Djúpárhrepp, en Djúpárhreppur varð til árið 1936 við skiptingu Ásahrepps. Þykkvibær er nú þekktur fyrir kartöflurækt. Sjósókn var í aldaraðir mikilvægur þáttur í sögu Þykkvabæjar og má rekja þéttbýlismyndunina til sjósóknar. Elstu heimildir herma að á landnámsöld hafi skip siglt til og frá Rangárós. Það var svo eftir 17. öld að ósinn stíflaðist og lögðust róðrar af næstu 60-70 árin. Síðar var aftur farið að róa frá Þykkvabæ, en erfiðleikar og áhætta voru meiri en áður. Árið 1896 eyðilagðist allur skipafloti Þykkbæinga og lagðist þá útgerðin af til 1916 en þá gekk eitt skip frá Þykkvabæjarsandi. Skipunum fjölgaði svo eftir það, en árið 1923 lá sjósókn niðri vegna þess að allir sem vetlingi gátu valdið voru að hlaða stíflu við Djúpós. Seint í mars árið 1955 var mannaður áttæringur til sjóferðar með ellefu skipverjum. Þegar að báturinn var að komast úr ósnum hvolfdi honum með öllum skipverjunum en komust þeir þó allir lífs af. Merkilegt þykir að af þessum atburði náðist mynd í þann mund sem bátnum hvolfdi. Laskaðist báturinn eitthvað og eftir þetta slys lagðist sjósókn af. Djúpósstíflan. 26. maí 1923 er merkur dagur í sögu Þykkvabæjar en þá hófu heimamenn miklar framkvæmdir við Djúpós. 90-100 menn tóku þátt í þessu mannvirki og var þetta talið með mestu mannvirkjum á þessum tíma. Á ýmsu gekk meðan á þessum framkvæmdum stóð. Þann 4. júlí var stíflan fullgerð og var mikið mannvirki, 340 metra löng og 15 metra breið. Nú stendur minnisvarði við Djúpós til heiðurs þeirra sem tóku þátt í stílfugerðinni og til minningar um þetta merka mannvirki. Strand í Þykkvabæjarfjöru. Albert Ólafsson 20 ára háseti fæddur í Vestmannaeyjum 12. mars 1960. Hann stundaði ýmsa verkamannavinnu og starfaði lengst hjá Vestmannaeyjabæ, en þetta var hans fyrsta úthald til sjós. Hann lætur eftir sig unnustu. Guðni Torberg Guðmundsson 20 ára háseti fæddur á Selfossi 15. maí 1960. Hann hafði búið í Vestmannaeyjum í tíu ár. Guðni Torberg var verkamaður í Vinnslu-stöðinni HF í Vm. áður en hann réð sig á Heimaey VE en hann var að byrja sína sjómennsku er hann réð sig á skipið. Hann var einhleypur. http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=319228 http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2875842 Í mars árið 1997 strandaði 8000 tonna flutningaskip í Þykkvabæjarfjöru en þetta skip var frá Þýskalandi og hét Vikartindur. Varðskip kom og reyndi að bjarga Vikartindi frá strandi og settu skipverjar sig í mikla hættu. Einn skipverji fórst. Þyrla landhelgisgæslunnar bjargaði áhöfninni úr Vikartindi. Kartöfluræktun. Það sem Þykkvabærinn er þekktastur fyrir í dag er kartöfluræktunin. Það var árið 1934 sem að land var fyrst unnið í Þykkvabæ með það að leiðarljósi að selja uppskeruna. Þrátt fyrir að jarðvegurinn í Þykkvabæ hafi ekki verið hentugur til grasræktunar þá hentaði hann mjög vel til kartöfluræktunar. Ræktunin á þessum árum var ekki mjög stór miðað við það sem er að gerast í dag enda voru verkfærin hestar, skóflur og kvíslar á meðan að í dag er notast við stórvirkar vinnuvélar. Mikil breyting varð 1939 en þá var fyrst notuð vél sem dregin var af hestum. Sú vél skar kartöflugrasið og dreifði kartöflunum og jarðveginum út frá sér, þótti þessi nýjung mjög merkileg og hraðvirk. Árið 1945 kom fyrsta heimilisdráttarvélin í Þykkvabæ og fjórum árum seinna eða 1949 höfðu allir bændur í hreppnum eignast sína eigin vél. Dráttarvélarnar, sem voru af gerðinni Ferguson, voru þær fyrstu til að koma með vökvaknúið lyftiafl og hentaði það vel í búskapinn. Á svipuðum tíma fóru bændur að nota tilbúin áburð vegna þess að húsdýraáburður var ekki nægur. Hefur kartöfluræktun þróast mjög hratt eftir þetta. Reinhard Heydrich. Reinhard Tristan Eugen Heydrich (7. mars 1904 – 2. júní 1942) var SS-Obergruppenführer, yfirmaður öryggisþjónustu þriðja ríkisins (sem m.a. innihélt Gestapo, SD og Kripo-nasískar lögregludeildir). Adolf Hitler taldi hann mögulegan eftirmann sinn. Hann var uppnefndur „slátrarinn frá Prag“ og „böðullinn“ (þýska: "Der Henker"). Heydrich var einn af höfundum helfararinnar og gestgjafi Wannsee-ráðstefnunnar 1942, þar sem tekin var ákvörðun um útrýmingu allra gyðinga í Evrópu. Tékkóslóvenskir andspyrnumenn köstuðu sprengju á hann úr bíl og skutu hann í fótinn. Heydrich komst undan, en lést stuttu síðar jafnvel þó að Himmler hafi sent honum sinn besta lækni til að gera að sárum hans. Wannsee-ráðstefnan. Wannsee-ráðstefnan (haldin þann 20. janúar 1942) var fundur háttsetra leiðtoga nasistaflokksins og SS-foringja undir forsæti Reinhard Heydrich. Markmið ráðstefnunnar var að koma saman öllum þýskum leiðtogum sem þurfti til í áætlun nasista um útrýmingu evrópskra gyðinga (helförinni). Niðurstaða fundarins varð síðar þekkt sem lokalausnin. Ráðstefnan var haldin á setri með útsýni yfir Wannsee stöðuvatnið í Suðvestur-Berlín. Árið 2001 var gerð breska sjónvarpsmyndin "Conspiracy" um ráðstefnuna í Wannsee sem skartaði m.a. leikurunum Kenneth Branagh og Stanley Tucci sem þótti nokkkuð raunsæ. SS-sveitirnar. SS-sveitirnar (oft skammstafað SS) (þýska: sem þýðir „öryggissveit“) voru stórar öryggis- og hersveitir þýska Nasistaflokksins. SS var stofnað á 3. áratugnum sem einkavörður fyrir nasistaleiðtogann Adolf Hitler. Undir forystu Heinrich Himmler milli 1929 og 1945 uxu sveitirnar upp í það að vera ein stærstu og valdamestu samtök í Þýskalandi nasismanns. Nasistar töldu SS vera úrvalssveitir, eða lífvarðasveitir í líkingu við þær sem voru í Róm til forna. SS-sveitirnar skiptust í hinar svartklæddu Allgemeine-SS, sem var pólitískur armur sveitanna, og Waffen-SS sem var hernaðararmur þeirra og sem þróaðist út í annan her Þýskalands með Wehrmacht. Waffen-SS voru frægar fyrir grimmd sína gagnvart óbreyttum borgurum og stríðsföngum. Mein Kampf. "Mein Kampf" (ísl. "Barátta mín") er ritverk eftir Adolf Hitler þar sem hann tvinnar saman sjálfsævisögulegum staðreyndum við hugmyndafræði sína um nasismann. Hitler skrifaði bókina meðan hann sat í fangelsi í Landsberg í Bæjaralandi, en þangað var hann sendur vegna þátttöku sinnar í bjórkallarauppreisninni. Fyrsta bindið ("Eine Abrechnung") kom fyrst út þann 18. júlí árið 1925 og það síðara árið 1926 ("Die Nationalsozialistische Bewegung"). Upphaflega valdi Hitler nafnið "Fjögur og hálft ár [af baráttu] gegn lygum, heimsku og hugleysi" (þýska Viereinhalb Jahre [des Kampfes] gegen Lüge, Dummheit und Feigheit) en útgefandi hans, Max Amann, stytti það niður í "Mein kampf", eða "Barátta mín". Bókin seldist vel. Um 287.000 eintök höfðu selst þegar ríkisstjórn þjóðernisjafnaðarmanna tók við völdum í Þýskalandi 1933. Bókin rauk út eftir það og á árinu 1933 voru yfir milljón eintök prentuð. 1943 höfðu yfir 10 milljón eintök verið prentuð af bókinni. Valdir kaflar úr bókinni hafa verið þýddir á íslensku og gefnir út á bók. Nürnberg-réttarhöldin. Nürnberg-réttarhöldin voru nokkur réttarhöld sem helst eru þekkt fyrir ákærur á hendur fyrrum valdamönnum í Þýskalandi nasismanns. Réttarhöldin voru haldin í borginni Nürnberg, Þýskalandi, frá 1945 til 1949, þrátt fyrir kröfu Sovétmanna um að þau yrðu haldin í Berlín. Þekktust þessara réttarhalda eru réttarhöldin yfir stríðsglæpamönnum þar sem 24 af helstu leiðtogum nasista voru sakfelldir. Þau réttarhöld fóru fram frá 20. nóvember 1945 til 1. október 1946. Meðal þeirra sem voru ákærðir í réttarhöldunum voru Rudolf Hess, Hermann Göring, Albert Speer og Joachim von Ribbentrop. Qaqortoq. Stærsti bær Suður-Grænlands heitir á grænlensku Qaqortoq () og á dönsku "Julianehåb". Bærinn er aðalbyggð í sveitarfélaginu Kujalleq. Af um það bil 3500 íbúum árið 2005 búa 300 utan aðalbyggðarinnar, flestir á 2 hreindýrabúum og 13 sauðfjárbúum. Nafnið Qaqortoq þýðir "hið hvíta". Bærinn var stofnaður árið 1775 sem danskur verslunarstaður. Þar er nú menntasetur Suður-Grænlands með menntaskóla, verslunarskóla og háskóla. Þar er einnig eina sútunarverksmiðja Grænlands, Great Greenland, sem verkar skinn af selum og ísbjörnum. Hér var þéttbyggt og eitt aðalsvæði í Eystribyggð hinna fornu Grænlendinga. Enn má víða sjá rústir eftir bæi þeirra, meðal annars kirkjuna á Hvalsey sem er skammt frá byggðakjarnanum í Qaqortoq. Ufsagrýla. Ufsagrýla (eða vatnskarl) er stytta sem skagar fram af veggbrúnum bygginga, teygir sig út undan þakskeggi eða brjóstriði turna, og er algengt skreyti í gotneskri byggingarlist. Ekki er óalgengt að ufsagrýlur séu þannig útbúnar að þær hleypi rigningarvatni út um munn sér eða nasir. Þær eru ósjaldan aðeins höfuðmyndir, en geta þó einnig verið styttur í heilu lagi. Útlit þeirra er mjög fjölbreytt, en algengt útlit ufsagrýlu er ævintýralegt sambland manns og skrímslis. Klakkur. Klakkur er fjall sem stendur í botni Kollafjarðar á Ströndum. Sunnan megin við fjallið er Þrúðardalur en norðan við það er lítill dalur, Húsadalur þar sem stendur bærinn Fell. Zomba. Bygging Háskólans í Malaví í Zomba Zomba er sveitarfélag í suðurhluta Malaví. Sveitarfélagið liggur í Shire-hálendinu og fólksfjöldi er 100 þúsund (2005). Í Zomba er stjórnsýsla Zomba héraðsins og var höfuðborg Nyasalands fram til sjálfstæðis Malaví árið 1964. Í bænum er einnig hluti af Háskólanum í Malaví (University of Malawi) og er þar meðal annars kennd mannfræði, vísindi, lögfræði, félagsfræði og kennslufræði. Þar er einnig rekinn grunnskóli á vegum ÞSSÍ. Munnur. Munnurinn er fremsti hluti meltingarfæra dýra. Lífverur nærast um munn en hann auðveldar einnig raddbeitingu. Í munninum eru gjarnan tennur sem mylja og elta fæðuna. Munnvatnskirtlar sjá um að bleyta fæðuna og auðvelda för hennar niður meltingarfærin. Í henni eru meltingarensím. Tungan sér um að grípa um fæðuna og beina henni undir tannfletina. Aftast skilur úfurinn kokið frá munni. Munnur ólíkra dýrategunda er töluvert frábrugðinn öðrum. Hvalfjörður. Horft inn í Botnsdal í botni Hvalfjarðar. Horft frá Botnsdal út Hvalfjörð Hvalfjörður er mjór og djúpur fjörður inn af Faxaflóa á Vesturlandi, norðan við Kollafjörð og sunnan við Borgarfjörð. Norðan megin við fjörðinn er Akranes og sunnan megin er Kjalarnes. Hann er um það bil 30 km að lengd. Um miðjan fjörðinn að norðanverðu er Grundartangi þar sem rekin er járnblendiverksmiðja og álver. Þar er nú ein stærsta höfn landsins. Gegnt Grundartanga er Maríuhöfn á Hálsnesi sem var ein aðalhöfn landsins á síðmiðöldum. Botnsdalur, í botni Hvalfjarðar, er vinsælt útivistarsvæði og þar er hæsti foss landsins, Glymur. Innarlega í firðinum eru víða leirur og þar er fjölbreytt fuglalíf og mikið um krækling. Á árunum 1996-1998 voru gerð göng, Hvalfjarðargöngin, undir utanverðan Hvalfjörð og styttu þau hringveginn um eina 55 km þar sem ekki var lengur þörf á að fara fyrir fjörðinn, 62 km leið. Enn er þó hægt að aka fyrir Hvalfjörð eftir þjóðveg 47. Hernaðarhlutverk Hvalfjarðar. Í síðari heimsstyrjöld gegndi Hvalfjörður mjög mikilvægu hlutverki. Flotastöð bandamanna var innst í Hvalfirði þar sem Hvalstöðin er. Þar var skipalægi og viðkomustaður skipalesta á leið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og oft voru mörg skip á firðinum. Bækistöðvar voru reistar í landi Litlasands og Miðsands og þar má enn sjá minjar frá stríðsárunum, meðal annars bragga sem hafa verið gerðir upp. Hvalveiðar og -vinnsla. Við Þyril var byggð hvalverkunarstöð árið 1948, sú eina á landinu, sem síðar hefur verið í rekstri með hléum. Sögur og sagnir. Hvalfjörður er sögustaður Harðar sögu og Hólmverja. Innarlega á firðinum er lítil eyja sem heitir Geirshólmi en er oft ranglega kölluð Harðarhólmi. Þar á útlaginn Hörður Grímkelsson að hafa hafst við með fjölmennan flokk en þegar hann og menn hans höfðu verið felldir í landi er sagt að Helga kona Harðar hafi synt í land með syni þeirra tvo. Á Sturlungaöld var aftur flokkur manna í Geirshólma um tíma, þegar Svarthöfði Dufgusson hafðist þar við með flokk manna Sturlu Sighvatssonar og fór ránshendi um sveitirnar. Listi yfir bæi í Malaví. Þetta er listi yfir bæi í Malaví. Faxaflói. Faxaflói er flói undan Vesturlandi á milli Snæfellsness í norðri og Suðurnesja í suðri. Helstu firðir sem ganga út úr flóanum eru Borgarfjörður, Hvalfjörður, Kollafjörður og Hafnarfjörður. Við Faxaflóa standa nokkur af stærstu byggðarlögum landsins og höfuðborgarsvæðið er á suðausturströnd flóans. Í Faxaflóa eru mikilvæg fiskimið. Faxaflói gekk áður fyrr undir nafninu Faxaós. Mzuzu. Mzuzu er höfuðborg Norðursvæðis Malaví og jafnframt þriðja stærsta borg landsins. Í borginni bjuggu um 120 þúsund árið 2003, í miðju landabúnaðarhéraði þar sem ræktað er te og kaffi. Nýr háskóli er í borginni og er ferðaþjónusta einn af aðalatvinnuvegum hennar. Þar koma flestir þeir ferðamenn sem ferðast um norðurhluta landsins. Viphya-skógurinn, sem oft er nefndur stærsti manngerði skógur í heimi, er sunnan við borgina. Borgarfjörður. Borgarfjörður er fjörður sem gengur inn úr Faxaflóa sunnan við Mýrar og norðan við Hvalfjörð. Við fjörðinn stendur bærinn Borgarnes. Fjörðurinn dregur nafn sitt af bæ Skalla-Gríms Kveld-Úlfssonar, Borg. Yfir fjörðinn liggur hringvegurinn um Borgarfjarðarbrúna sem var tekin í notkun 1980. Í fjörðinn rennur Hvítá en í henni verka áhrif flóðs og fjöru. Út í fjörðinn að sunnanverðu gengur Kistuhöfði í landi Hvanneyrar. Jarðfræði. Hafnarfjall er gömul megineldstöð, um fjögurra milljón ára. Eitt stærsta djúpbergsinnskot Íslands úr gabbrói er í Hafnarfjalli. Einnig hefur fundist dálítið af granófýr sem er kornótt djúpberg, mjög líkt graníti og með sömu samsetningu. Margar sjaldgæfar steindir hafa fundist við Borgarfjörð, eins og sítrín (gult litaafbrigði af bergkristal) og háhitasteindir. Hestfjall er gamalt og mjög veðrað fjall ekki langt frá Hafnarfjalli og eru tveir stórir berggangar í norðurhlíð fjallsins, um 20 metrar að þykkt. Mikið er um jaspis í Hestfjalli og hafa fundist 50-100 kílóa kristallar úr jaspis í fjallinu. Mikið er um holufyllingar á svæðinu umhverfis Borgarfjörð eins og annars staðar á landinu hjá gömlum eldstöðvum og megineldstöðvum. Bærinn Borgarnes stendur á gömlum berggrunni, líklega úr hraunum úr Hafnarfjalli og að mestu með holufyllingum úr zeólítum og kvarssteinum. Mýrar. Kort sem sýnir Borgarfjörð og Mýrar. Mýrar eru láglent hérað í Borgarbyggð (og Mýrasýslu) norðvestan við Borgarfjörð sem einkenninst af vötnum, mýrum og grýttum hólum. Strandlengjan frá Hítarnesi að mynni Borgarfjarðar er vogskorin með mörgum eyjum og skerjum úti fyrir. Stærsta eyjan er Hjörsey, en gengt er út í hana á háfjöru. 1936 fórst franska rannsóknarskipið "Pourquoi-Pas ?" við Álftanes á Mýrum í mynni Borgarfjarðar. 2006 komu upp miklir sinueldar, Mýraeldar, sem brenndu um 67 km² lands í Hraunhreppi á Mýrum. Narsarmijit. Narsarmijit (stundum stafað "Narsarmiit", og einnig þekkt sem Narsaq Kujalleq og heitir á dönsku Frederiksdal), er syðsta byggð á Grænlandi, um 50 km frá Hvarfi. Hér settu kristniboðar herrnhúta upp trúboðsstöð 1824 og nefndu hana eftir Friðriki 6. Danakonungi og kölluðu "Frederiksdal". Herrnhútar höfðu á þessum tíma margar trúboðsstöðvar á Grænlandi. Í Narsamijit sem liggur í Nanortalik sveitarfélaginu, bjuggu 125 íbúa árið 2005. Mýrin (kvikmynd). "Mýrin" er íslensk kvikmynd, gerð eftir samnefndri sögu Arnalds Indriðasonar. Tökur hófust á myndinni í mars árið 2006, og er myndin í leikstjórn Baltasars Kormáks. Hún var frumsýnd í október sama ár. Söguþráður. Mýrin hefst á því að rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur er kallaður til í Norðurmýrina. Þar hefur roskinn maður fundist myrtur og í skúffu er mynd af leiði fjögurra ára stúlku. En morðið tengist miklum fjölskylduharmleik. Ivittuut. Ivittuut, (eldri stafsettning Ivigtût) hefur var sjálfstætt sveitarfélag á Suðvestur-Grænlandi frá 1951 til 2009 og er nú hluti af Sermersooq. Ivittuut nær yfir 600 km² og liggur á milli Arsukfjarðar í norður og Qoornoqfjarðar í suður. Einungis um 50 km² af landsvæðinu er hulið jökli. Ivittuut er einnig nafn á þorpi í sveitarfélaginu sem nú er í eyði. Á því svæði sem nú er sveitarfélagið Ivittuut var áður eitt af búsetusvæðum norrænna manna á miðöldum. Afar lítið er vitað um þessa byggð, engar ritaðar heimildir eru til um hana og þó að mikið sé um rústir frá þessari búsetu hafa þær lítið verið rannsakaðar. Álitið er byggðin hafi verið hluti af Eystribyggð, en sagnfræðingar og fornleifafræðingar nefna hana Miðbyggð í ritum sínum. Þorpið Ivittuut var stofnað sem og var alla tíð námubær. Árið 1806 fannst krýolít á svæðinu og var námuvinnsla hafin 1865. Þessi málmur hefur einungis fundist á fáeinum öðrum stöðum í heiminum. Efnafræðileg formúla krýolíts er Na3AlF6 og kallast það "natriumhexafluoroaluminat". Það er nú verksmiðjuframleitt. Krýolít er mikilvægt hráefni í gerð áls og var náman í Ivittuut þess vegna mjög mikilvæg ekki síst í seinni heimstyrjöldinni þegar mikið magn var flutt til Bandaríkjanna til að nota í framleiðslu herflugvéla. En námurnar tæmdust og var lokað 1987 og við það lagðist byggðin þar í eyði. Eina byggðin í Ivittuut er nú herstöðin í Kangilinnguit (sem á dönsku nefnist Grønnedal). Áætlanir eru um að sameina sveitarfélagið við Narsaq í náinni framtíð. Það var her Bandaríkjanna sem hóf byggingu herstöðvarinnar í Kangilinnguit 1941 og var hún tilbúin 1943. Hlutverk hennar var þá að vernda krýolítnámurnar. Danir tóku við stöðinni árið 1951 og er hún nú aðalbækistöð sjóhers þeirra á Grænlandi. Nefna má að í bókinni "Lesið í snjóinn" eftir danska rithöfundinn Peter Høeg hefur krýolít og námugröftur á Grænlandi afgerandi hlutverk. Kollafjörður (Faxaflóa). Örnefni í Reykjavík og nágrenni. Kollafjörður er fjörður sem gengur inn úr Faxaflóa suðaustanverðum. Hann nær frá Kjalarnesi, við mynni Hvalfjarðar að Seltjarnarnesi, en þar fyrir sunnan er Skerjafjörður. Í Kollafirði eru nokkrar stórar eyjar sem flestar hafa verið byggðar á einhverjum tíma. Eyjarnar eru Akurey, Engey, Viðey, Þerney og Lundey. Norðan megin við fjörðinn er Kjalarnesið og fjallið Esjan, austan megin eru Mosfell og Reykjafell og Mosfellssveit og Leirvogur og sunnan megin við fjörðinn eru Elliðavogur, Reykjavík og Seltjarnarnes. Þrjú sveitarfélög eiga land að Kollafirði: Reykjavík, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Verkakvennafélagið Framsókn. Verkakvennafélagið Framsókn var stéttarfélag verkakvenna í Reykjavík, stofnað 25. október árið 1914 vegna þess að Verkamannafélagið Dagsbrún ákvað að hleypa konum ekki inn í félagið af ótta við samkeppni um vinnu og í launum. Félögin störfuðu mestalla 20. öldina þar til þau voru sameinuð í eitt 1997 og urðu að Eflingu árið 1998 með sameiningu við fleiri stéttarfélög. Fyrsti formaður Framsóknar var Jónína Jónatansdóttir. Hljóðfræði. Hljóðfræði er vísindagrein sem fæst við rannsóknir á eiginleikum hljóðs og mannsraddarinnar, þar á meðal málhljóða, andstætt hljóðkerfisfræði sem fæst við rannsóknir á hljóðkerfum og huglægum einingum eins og hljóðönum og aðgreinandi þáttum. Hljóðfræði fæst við hljóðin sjálf, fremur en það hvernig þau virka innan tungumálsins. Dave Grohl. Dave Grohl á tónleikum í London árið 2006. David Eric Grohl (fæddur 14. janúar 1969) er bandarískur tónlistarmaður, fæddur og uppalinn í Virginíu í Bandaríkjunum. Dave Grohl hefur verið í allnokkrum hljómsveitum t.d. "Scream", "Dain bramage" og Nirvana. Hann spilaði á trommur með Nirvana á árunum 1990-1994, en eftir andlát Kurts Cobain stofnaði Dave Grohl hljómsveitina Foo Fighters og er þar aðalsöngvari og gítarleikari. Hann hefur tekið þátt í upptökum og gerð hljómplatna fyrir marga tónlistamenn. Þar má nefna bandarísku Stoner-Rock hljómsveitina Queens of the stone age en Dave var trymbill hennar við upptökur á plötu þeirra Songs for the deaf. Einnig má nefna Jack Black og hljómsveit hans Tenacious D, en trommuleikur þeirra sveitar er alfarið í höndum Dave. Einnig kom hann við sögu á nýjustu plötu The Prodigy, Invaders Must Die, þar sem hann lék á trommur í laginu Run With The Wolves. Grohl, Dave Patrick Süskind. Patrick Süskind (f. 26. mars 1949) er þýskur rithöfundur og leikskáld frá Starnberger See nærri München. Hann vann í fyrstu við kvikmyndir sem handritshöfundur og gaf út leikritið "Kontrabassann" ("Der Kontrabass"). Hann gaf svo út sína fyrstu skáldsögu 1985, en það var ' ("Das Parfum") sem varð alþjóðleg metsölubók. Þremur árum seinna kom út skáldsagan "Dúfan" ("Die Taube") 1988 og síðan 1991 "Sagan af herra Sommer" ("Die Geschichte von Herrn Sommer"). Süskind, Patrick Mario. Mario (japanska: マリオ) er tölvuleikjapersóna sem var sköpuð af Shigeru Miyamoto fyrir Nintendo tölvuleikjafyrirtækið. Hann birtist fyrst í Donkey Kong tölvuleik, en þá nefndist hann Hoppmaður eða Jumpman á frummálinu. Hann var fyrst aðeins í tvívídd, en í síðari leikjum birtist hann sem þrívíddar "módel". Sumir töluðu oft um Mario og Luigi sem "Mario bræðurna" og það varð til þess að upp komu getgátur um að hann nefndist Mario Mario fullu nafni. Nintendo í Bandaríkjunum gaf hinsvegar frá sér yfirlýsingu á níunda áratugnum að hvorki Mario né Luigi hefðu eftirnafn. Mario er lítill, þybbinn Ítalskur pípari sem býr í Sveppalandi, og þar er hann álitinn hetja af mörgum. Hann er þekktastur fyrir að takast stöðugt að stöðva hinar illu áætlanir Bowsers sem ætlar sér að ræna Peach prinsessu og að ráða yfir Sveppalandi. Mario er hugrakkur, fullur eldmóðs og krafti og berst við óvini sína auglit til auglitis. Hann býr yfir miklum líkamlegum styrk og snerpu sem kemur á óvart, sérstaklega sé horft til vaxtalagsins. Hann er einnig þekktur fyrir samstarf sitt við bróður sinn Luigi og náið samband sitt við Peach prinsessu, sem hann hefur enn og aftur bjargað úr hættu. Mario á sér illgjarna andstæðu í persónunni Wario. Menntaskóli. Menntaskóli er menntastofnun á framhaldsskólastigi þar sem námi lýkur með stúdentsprófi. Nafnið getur líka átt við aðra skóla á framhaldsskólastigi þar sem námi lýkur með stúdentsprófi, þó að skólarnir hafa ekki orðið í nafni sínu. Kornsnákur. Kornsnákur (fræðiheiti: "Pantherophis guttatus") er bandarísk tegund snáka af fjölskyldu rottusnáka. Einstaklingar geta orðið allt frá 76 cm upp í 1,5 m, þó flestir verði ekki stærri en 1,2 m. Kornsnákar eru mjög harðgerðir og verða einstaklingar iðulega um 6 til 8 ára en í haldi geta orðið allt að 23 ára. Kornsnákurinn er kyrkislanga og vefur sig því utan um bráð sína og kyrkir hana. Fæða þeirra er helst lítil nagdýr og veiða þeir aðallega á kornökrum (og draga nafn sitt af því), í suður hluta bandaríkjanna eru þeir víða heimilisdýr hjá kornbændum en þeir nota þá til að halda nagdýrum frá korninu. Þeir eru helst virkir á næturnar og veiða þá. Þeir eru skapgóðir, rólegir og tregir við að bíta sér til varnar, þess vegna eru þeir mjög vinsæl gæludýr víðsvegar um heimi, og hægt er að fá þá í alls konar litum. Óheimilt er þó að halda þá sem gæludýr á Íslandi sem og aðrar slöngur og skriðdýr sökum möguleika á smithættu og eru þeir aflífaðir ef þeir finnast. Búsvæði. Villtir kornsnákar halda sig helst í grónu landi, skógar rjóðrum, í trjám og í yfirgefnum eða lítið notuðum byggingum. Þeir finnast frá sjávarmáli upp í u.m.þ.b. 1800m hæð. Þessir snákar halda sig að miklu leyti á jörðinni en eru þó færir í að klifra og geta klifrað upp í tré og upp kletta. Náttúruleg heimkynni snákanna eru í suðaustanverðum bandaríkjunum, þeir finnast frá New Jersey í norðri, suður til Flórída og vestur til Texas. Á kaldari svæðum leggjast snákar í dvala yfir veturinn, en þó tekst þeim að halda sér gangandi á tempraðari svæðunum við ströndina og leita þar skjóls í sprungum á milli steina og í trjábolum. Sunnarlega á útbreiðslusvæði snákanna helst hitinn nægur yfir veturinn til að þeir þurfi ekki að leggjast í dvala. Mökun. Kornsnákar makast stuttu eftir að þeir koma úr dvala eða eftir að byrjar að hitna á ný ef þeir lögðust ekki í dvala. Tegundin verpir eggjum og geta þau verið allt frá 12 upp í 30. Eggin eru um 60-80 daga að klekjast, kvendýrið verpir eggjunum á hlýjan, rakan og falinn stað, að þessu loknu yfirgefur móðirin eggin. Eggin sjálf eru aflöng með leðurkenndri mjúkri skurn. Um 10 vikum eftir varp nota ungarnir sérstaka hreisturplötu sem kallast eggtönn en hún er fremst á nefinu á þeim til að gera gat á eggið og skríða þaðan út um 15cm langir, tönnina missa þeir eftir fyrstu hamskipti. Snákarnir verða kynþroska um 18 mánaða til 3 ára. Rottusnákar. Rottusnákar er stór fjölskylda snáka. Sem hópur eru þeir ekki einstofna heldur af samsíða þróunarlínum Það er einhver munur milli tegunda en flestir þeirra eru miðlungs til stórir og borða nagdýr. Áður voru þeir flestir flokkaðir í eina ættkvísl "Elaphe" en margir hafa síðan fengið ný nöfn. Rottusnákum hefur venjulega verið skipt í tvo hópa, nýjaheims- og gamlaheimstegundir. Kangilinnguit. Loftmynd af herstöðinni í Grønnedal Kangilinnguit, á dönsku: Grønnedal, (eldri grænlensk stafsetning "Kangilínguit") liggur við Arsukfjörð í sveitarfélaginu Ivittuut á Suðvestur-Grænlandi. Íbúar eru um 200 og af þeim um 150 danskir hermenn. Hér er aðalbækistöð danska sjóhersins við Grænland ("Grønlands Kommando") og landhelgisgæslunnar. Stöðin var upphaflega byggð af bandaríska sjóhernum 1943 til að vernda krýolítnámurnar í Ivittuut. Danir yfirtóku stöðina 1951. Frá Kangilinnguit er 6 km vegarspotti til Ivittuut en námunum þar var lokað 1987. Fyrir náttúruunnendur er margt að sjá í umhverfi Kangilinnguit. Danska nafnið er sannefni á sumrin enda liggur stöðin í skjóli frá köldu hafi langt inn í landi og þó langt frá jöklum af Grænlandi að vera. Við Arsukfjörð er meðal annars mjög mikið af haförnum og sauðnautum. Um 90 mismunandi tegundir málma og steinda hafa fundist á svæðinu. Áætlunarflug með þyrlu til og frá Narsarsuaq er einu sinni í viku og sömuleiðis með strandferðarskipi til og frá Paamiut. Paamiut. Bærinn Paamiut (eldri stafsetning Pâmiut, sem á dönsku heitir Frederikshåb, liggur á vesturströnd Grænlands. Bærinn sem hefur um 2100 íbúa og er hluti af sveitarfélaginu Sermersooq. Paamiut er yst í Kuannersooq-firði og hefur nafn af því en grænlenska heitið þýðir "þeir sem búa við fjarðarmunnann". Paamiut var stofnað 1742 sem verslunarstaður og voru þar mikil viðskipti í skinnvöru og hvalaafurðum. Upp úr 1950 byggðist upp mikil þorskútgerð og verkun en það tímabil tók skyndilegan enda 1989 þegar þorskstofninn hrundi. Motörhead. Motörhead er hljómsveit sem spilar svokallaðan breskan nýbylgju metal eða bara metal. Hún var stofnuð árið 1975 af Lemmy Kilmister. Náttúruvísindi. Náttúruvísindi eða náttúrufræði eru fræði um náttúruna, sem beita vísindalegum aðferðum, þ.á.m. rannsóknum og mælingum, til að skýra náttúrufyrirbæri og skilja þau og setja fram kenningar um þau. Þeir sem stunda rannsóknir á náttúrunni kallast náttúrufræðingar. Upphaf náttúruvísinda má rekja aftur til fornaldar, einkum Aristótelesar, sem gerði athuganir á náttúrunni og dró ályktanir, þó aðferðir hans hafi verið fjarri því sem nú kallast vísindaleg aðferð. Vegna rita hans um getnað, göngulag og hreyfingu dýra og aðrar rannsóknir á dýrum mætti kalla Aristóteles föður dýrafræðinnar. Áhrif hans voru gríðarleg og þeirra gætti fram á miðaldir, ef ekki lengur, ekki síst vegna Kaþólsku kirkjunnar, sem taldi kenningarnar samræmast biblíunni. Margt af kenningum Aristotelesar hefur þó ekki staðist tímans tönn. Miklar framfarir urðu í náttúruvísindum á síðmiðöldun með vísindabyltingunni, ekki síst vegna framfara í stærðfræði og stjörnufræði. Á upplýsingaöld var lagður grunnur að nútíma náttúruvísindum með þróun á vísindalegum aðferðum. Helstu greinar náttúrufræðinnar. Umdeilt er hvort stærðfræði, læknisfræði og tölvunarfræði teljist náttúruvísindi. Bild-Zeitung. thumb "Bild" er þýskt dagblað. Það er mest selda dagblað Evrópu, með upplag upp á um 3,5 milljónir eintaka. Bild telst til götublaða og er mjög umdeilt. Blaðið er gefið út af Axel Springer AG sem er í meirihlutaeigu afkomenda stofnanda blaðsins, Axels Springers. Útvarpsþáttur. Útvarpsþáttur er afurð dagskrárgerðar fyrir útvarp. Útvarpsþættir urðu til í Bandaríkjunum í upphafi 3. áratugar 20. aldar þegar hugmyndin um reglulegar útsendingar fyrir hóp hlustenda varð til með þessum miðli sem fram að því hafði fyrst og fremst verið notaður til einkasamskipta. Með tilkomu sjónvarpsins á 5. áratugnum dró nokkuð úr vinsældum leikins útvarpsefnis og útvarpið fór að snúast öðru fremur um fréttir og tónlist. Á Íslandi hóf Útvarp Reykjavík útsendingar 18. mars 1926 en viðtækin voru dýr til að byrja með og því fáir sem höfðu efni á þeim. Útvarpsstöðin hætti svo vegna fjárskorts tveimur árum síðar og lítið er nú vitað um dagskrána. Útvarp Akureyri hóf útsendingar 1927. Ríkisútvarpið var síðan stofnað 1930, fékk einkaleyfi til útvarpsrekstrar og hóf útsendingar 21. desember sama ár. Gagnfræðaskóli. Gagnfræðaskóli eða miðskóli er skólastig í ýmsum löndum sem er á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Mismunandi er eftir löndum hvaða aldurshópar sækja gagnfræðaskóla. Mörgæsir. Mörgæsir (fræðiheiti: "Sphenisciformes") er ættbálkur ófleygra fugla. Til eru sautján tegundir af mörgæsum. Mörgæsir eru ófleygar og lifa flestar í svalari hluta Suður-Íshafsins. Skrokkurinn er svartur á baki og hvítur að framan og þær hafa stutta en sterka fætur aftarlega á skrokknum. Talið er að mörgæsir eyði allt að þremur fjórðu hlutum ævi sinnar í sjó enda eru þær miklir sundgarpar. Mörgæsir eru kjötætur og fæða þeirra er aðalega lítil sjávardýr. Stærsta mörgæsin er keisaramörgæs en þær geta orðið allt að 21-40 kg og um 120 cm. á hæð. En sú minnsta er dvergmörgæs, þær vega aðeins 1-1,8 kg og eru minni en sumar endur. Af hverju geta mörgæsir ekki flogið. Mörgæsir eru komnar af fleygum fuglum en geta þrátt fyrir það ekki flogið. Tvennt er sem veldur því að þær geta ekki flogið en það er að þær eru of þunga og vængirnir eru of stuttir miðað við líkamsstærð. Vængirnir minna frekar á hreifa en vængi, enda hafa þeir aðlagast sundi og mörgæsir eru afbragðs sunddýr og komast mjög hratt yfir. Það finnast fleiri fuglar en mörgæsir sem geta ekki flogið, má þar nefna strút, móa og emúa. En þær eins og mörgæsin hafa aðlagast landlífinu. Altari. Altari er borð eða stallur sem er miðpunktur helgiathafna í mörgum trúarbrögðum. Íslenska heitið kemur úr latínu, "altus", sem merkir „hár“. Upphaflega hefur altarið verið notað til að halda uppi fórnum. Í kristnum kirkjum stendur altarið í kór kirkjunnar. Reykjanesbraut. Kort af Reykjanesbraut (rauð) og sá hluti Sæbrautar sem tilheyrir henni (Appelsínugul). Reykjanesbraut eða þjóðvegur 41 (áður kölluð Keflavíkurvegur en það heiti á nú við veg 424 sem liggur frá Reykjanesbrautinni gegnum Ytri-Njarðvík og Keflavík) er þjóðvegur sem liggur frá gatnamótum Miklubrautar, Sæbrautar og Vesturlandsvegar að Leifsstöð á Miðnesi. Vegurinn var fullgerður árið 1912 og lokið var við bundið slitlag árið 1965. Árið 2003 hófust framkvæmdir við tvöföldun vegarins (fjórar akreinar). Miklar tafir urðu á verkinu sem lauk ekki fyrr en í október 2008. Þjóðvegur. Þjóðvegur er akvegur fyrir almenna umferð sem liggur milli staða utan þéttbýlis. Egill Skúli Ingibergsson. Egill Skúli Ingibergsson (fæddur 1926) var borgarstjóri Reykjavíkur 1978-1982. David Bowie. David Bowie á tónleikunum Rock am Ring árið 1987. David Bowie (skírður David Robert Jones, fæddur 8. janúar 1947) er breskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann hefur starfað við tónlist í hartnær fjóra áratugi. Fyrsta breiðskífan hans "David Bowie" kom út árið 1967 og sú síðasta "Reality" 2004. Bowie giftist fyrirsætunni Iman árið 1992. Margir vilja meina að Bowie sé ef til vill einn þeirra tónlistarmanna sem að mest áhrif hafa haft á þróun rokk og popptónlistar. Hann hefur haft víðtæk áhrif á aðrar kynslóðir tónlistarmanna. David Bowie hefur ekki viljað binda sig við eina stefnu tónlistar og hefur m.a. gefið út skífur undir áhrifum framúrstefnu (psychedelic), glamrokks, raftónlistar, dansvænnar popptónlistar og fleiri tónlistarstefna. Hann hafði víðtæk áhrif á þróun glamrokks með útgáfu "The Rise And Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars" og þróun raftónlistar í samstarfi sínu við Brian Eno með Berlínar-þríleiknum svokallaða sem samanstóð af "Low", "Heroes" og "The Lodger". Aðrar frægar breiðskífur eftir hann eru m.a. "Hunky Dory", "Scary Monsters (and Super Creeps)" sem inniheldur hið vinsæla lag Ashes to Ashes, "Young Americans" og "Let's Dance". Fyrstu skrefin í átt að frægð. David Bowie vakti fyrst athygli á sér haustið 1969 þegar hann gaf út smáskífuna "Space Oddity", epískt rokklag sem fjallar um ævintýri Toms majors í geimnum. Hann gaf svo út skífurnar "The Man Who Sold The World" 1970 sem var undir áhrifum metalrokks og popp/rokk skífuna "Hunky Dory" 1971. Þó að Hunky Dory hafi ekki vakið víðtæka athygli er hún oft talin með bestu skífum Bowie en á henni eru m.a. hin vinsælu lög Changes og Life on Mars. Árið 1972 gaf hann út "The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars", sem hann tók upp ásamt hljómsveit sinni "The Spiders From Mars". Sú plata vakti mikla athygli í Bretlandi. Auk þess vakti sviðsframkoma hans, klæðaburður og andlitsmálning líka mikla athygli. Bötunarstöð. Bötunarstöð er miðstöð til bötunar sláturgripa, s.s. nautgripa og sauðfjár. Bötunastöðvar, sem falla undir skilgreininguna „verksmiðjubúskapur“, eru algengar í Bandaríkjunum og eru teknir gripir um 300 kíló inn á stöðvarnar og þeir bataðir undir slátrun. Fóðrað er á heilfóðri (öllu blandað saman) og gefið á fóðurstíg. Stöðin skiptist í mörg hólf þar sem gripir af sama þyngdarflokki ganga saman og eru sendir á sama tíma til slátrunar en þá er notuð svokölluð „allt inn-allt út“-aðferð. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (enska: "International Union for Conservation of Nature and Natural Resources") eða IUCN eru alþjóðastofnun sem helgar sig verndun náttúruauðlinda. Samtökin reka svokallaðan rauðan lista, gagnagrunn yfir ástand stofna ýmissa lífvera sem vá er talin steðja að. Samtökin voru stofnuð árið 1948 af svissneska náttúruverndarráðinu, frönsku ríkisstjórninni og UNESCO. Meginmarkmið IUCN er að hafa áhrif á þjóðfélög heimsins og bæði hvetja þau og styrkja til að vernda óraskaða og fjölbreytta náttúru og tryggja nýtingu allra náttúruauðlinda sé sanngjörn og vistfræðilega sjálfbær. Aðildarríki eru nú 86 þjóðríki. ISO 639. ISO 639 er alþjóðlegur staðall fyrir skammstafanir á heitum tungumála. Staðallinn er í nokkrum hlutum þar sem fyrstu tveir hlutarnir hafa verið samþykktir og sá síðasti er í samþykktarferli. Morrinn. Morrinn úr teiknimynd um Múmínálfana. Morrinn (s. "Mårran" f. "Mörkö") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Í íslensku þýðingu bókanna og síðar teiknimyndanna hafa þýðendur gert Morrann karlkyns, en á frummálinu (sænsku) er Morrinn kvenkyns. Hann kemur fyrst fram í bókinni Pípuhattur galdrakarlsins sem gefin var út árið 1948. Morrinn er helkaldur og allt sem hann snertir frýs. Hann birtist sem draugalegur líkami sem líkist helst smá hæð með köld starandi augu og breiða röð af hvítum skínandi tönnum. Í einni sögu er minnst á það að Morrinn sé með skott en það hefur aldrei sést á teikningu. Morrinn gengur ekki heldur líður um og jörðin frýs í kjölfar hans og allur gróður deyr. Allt sem Morrinn snertir frýs og í Vetrarundur í Múmíndal settist Morrinn á bálköst sem umsvifalaust slokknaði. En í rauninni er Morrinn að leita vináttu og hlýju, en allir hafna honum svo hann leitar í einveruna upp í Einmana fjöllum. Þó gerir Morrinn eitt sinn gagn þegar hann slekkur skógareld með kulda sínum. Stefán frá Hvítadal. Stefán Sigurðsson (11. október 1887 – 7. mars 1933) var íslenskt ljóðskáld sem er einna þekktastur undir listamannsnafninu Stefán frá Hvítadal en hann kenndi sig við Hvítadal í Dalasýslu. Stefán var fæddur á Hólmavík árið 1887 og er talinn fyrsti einstaklingurinn sem fæddist þar sem þorpið Hólmavík stendur núna. Foreldrar hans voru "Sigurður Sigurðsson", snikkari og kirkjusmiður, og "Guðrún Jónsdóttir" sem lengst bjuggu á Felli í Kollafirði. Fyrstu æviárin dvaldi Stefán að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum en flutti síðan að Hvítadal í Dalasýslu. Hann fór síðan ungur til Reykjavíkur, vann sem prentari, en átti við veikindi að stríða og missti annan fótinn. Hann kvæntist þar Sigríði Elísdóttur. Með henni átti hann nokkur börn þar á meðal Erlu. Í Reykjavík samdi hann ljóðið um elstu dóttur sína Erlu, "Erla góða Erla ég á að vagga þér" þá bjó hann að Laufásvegi 9. Hann fluttist síðar aftur í Dalina og bjó þar til æviloka. Stefán lést árið 1933. Ljóðabækur Stefáns. Seinna birtust kvæði eftir hann í blöðum og tímaritum, þar á meðal ljóðaflokkurinn "Anno Domini 1930" í Perlum það ár. Ivar Orgland skrifaði ævisögu Stefáns. Kom hún út í tveimur bindum, "Stefán frá Hvítadal. Maðurinn og skáldið" og '. Fyrra bindið kom út í íslenskri þýðingu Baldurs Jónssonar og Jóhönnu Jóhannsdóttur árið 1962. Seinna bindið þýddi Steindór Steindórsson frá Hlöðum og kom það út á íslensku árið 1990. Fjalla-Eyvindur. Fjalla-Eyvindur Jónsson (f. 1714, d. fyrir 1783) er einn þekktasti útilegumaður Íslandssögunnar og var raunveruleg persóna sem uppi var á 18. öld. Hann var fæddur árið 1714 í Hlíð í Hrunamannahreppi í Árnessýslu og foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi og Ragnheiður Eyvindsdóttir húsfreyja þar á bæ. Kona Fjalla-Eyvindar sem lá úti með honum var Halla Jónsdóttir frá Hrafnsfjarðareyri í Jökulfjörðum við Djúp. Þau höfðu bústaði víða um land, m.a. á Hveravöllum og í Drangavík á Ströndum. Dómsskjöl sýna að þau hafa átt börn í útlegðinni sem dóu ung. Leiði Fjalla-Eyvindar er merkt á Hrafnsfjarðareyri. Um Fjalla-Eyvind og Höllu er til mikið af þjóðsagnaefni og einnig töluverðar sögulegar heimildir. Þau eru aðalpersónur í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, ', sem sænski leikstjórinn Victor Sjöström gerði kvikmynd eftir 1918. Hattífatti. Hattífattarnir (sænska: "Hattifnattar"; finnska: "Hattivatti") eru lifandi verur í barnabókunum um Múmínálfana, eftir Finnann Tove Jansson. Þeir eru hvítir og líta út eins og vofur. Þeir tala ekki, en laðast að rafmagni og segulmögnun enda eru þeir rafmagnaðir og geta gefið raflost ef komið er við þá. Tove Jansson. Tove Jenssen með Múmín brúður, 1956 Tove Marika Jansson (9. ágúst 1914 – 27. júní 2001) var finnlandssænskur rithöfundur, listmálari og teiknari, fædd í Helsinki. Hún var komin af listafólki en móðir hennar var sænska listakonan, Signe Hammarsten-Jansson og faðir hennar finnski myndhöggvarinn Viktor Jansson. Hún er þekktust fyrir bækur sínar um Múmínálfana, þó skrifaði hún einnig aðrar bækur ásamt því að myndskreyta bækur eftir aðra. Til dæmis myndskreytti hún bæði "Hobbitann" eftir J.R.R. Tolkien og "Lísu í Undralandi" eftir Lewis Carroll. Tuulikki Pietilä, Tove Jansson og Signe Hammarsten-Jansson, árið 1958. Starfsævi hennar náði yfir meira en 70 ár. Í bókum hennar má finna mikið af vísunum í líf hennar og sögupersónur hennar eru sumar byggðar á raunverulegum persónum í lífi hennar. Tove bjó í áratugi með konu en samkynhneigð var bönnuð með lögum í heimalandi hennar þar til árið 1971. Sambýliskona hennar var Tuulikki Pietilä, teiknari og prófessor, en í Tikku-tú í Múmínálfunum þykjast menn sjá hennar stað. Tenglar. Jansson, Tove Jansson, Tove Yfirráðasvæði. Yfirráðasvæði er afmarkað svæði sem heyrir undir eða er varið af tilteknu dýri, aðila, samtökum eða ríki. Ástand stofns. Ástand stofns lífveru gefur vísbendingu um það hversu líklegt er að tegundin eigi eftir að lifa af í náinni framtíð á tilteknu svæði eða í heiminum öllum. Mörg atriði eru tekin til greina þegar ástand stofns er metið; ekki aðeins hversu margir einstaklingar eru til, heldur líka aukning eða minnkun stofnsins á tilteknu tímabili, æxlunartíðni, þekktar ógnir, o.s.frv. Þekktasti listinn yfir ástand stofna lífvera er Rauði listi IUCN, en til eru margir sérhæfðari listar, eins og CITES sem takmarkar milliríkjaverslun með tilteknar lífverur. Sjávarmál. Sjávarmál er meðalhæð sjávar miðað við hentugt yfirborðsviðmið. Sjávarmál er notað sem viðmið fyrir hæð landfræðilegra hluta á landi, t.d. hæð fjalla sem gefin er upp í metrum yfir sjávarmáli. Nákvæm mæling sjávarmáls er þó flókin og erfið. Viðmiðunarmörkin geta auk þess breyst í tíma, ýmist vegna breytinga á sjávarhæð eða landriss eða -sigs. List. a> er með þekktustu listaverkum heims. List er það þegar sköpunargáfunni er gefinn laus taumurinn og myndir, tónverk, styttur eða aðrir hlutir eru búnir til, í þeim megintilgangi að varpa ljósi á fegurð og mikilfengleika heimsins, að tjá tilfinningar eða skilning listamannsins, eða að aðrir fái notið verksins. Orðið list getur einnig átt við um afrakstur slíkrar sköpunar. Erfitt er að skilgreina list á altækan hátt, þótt margir hafi sterkar skoðanir á því hvað er list og hvað ekki. Ótal mælikvarðar eru til um það hvaða skilyrði hlutur eða verknaður þarf að uppfylla til að teljast list. Sumir telja að list sé það sem eykur skilning okkar á umheiminum umfram einfaldan hlutlægum skilning. Oft er talað um að verknaður sé list ef afraksturinn er fagurfræðilegur (Hatcher, 1999). Samkvæmt þessari skilgreiningu hefur list fylgt mannkyninu frá því örófi alda, eins og hellamálverk sýna. En þótt hægt sé að skilgreina list á mjög víðtækan máta eru margir sem vilja undanskilja ýmsa iðju sem þó miðar að fagurfræðilegum afrakstri, svo sem handverk og iðnhönnun. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem er nýrri af nálinni, er orðið list lítið meira en stytting á hugtakinu "sköpunarlist" eða "hámenningarleg list". Með öðrum orðum er mest áhersla lögð á nýnæmi listarinnar og að listamaðurinn ögri áhorfandanum, svo upplifun listarinnar verður virkur atburður, frekar en að listin sé í bakgrunni og geri umhverfið fallegra. Til dæmis geta handprjónuð föt sem unnin eru samkvæmt uppskrift aldrei orðið list í þessum skilningi orðsins, sama hversu vel þau eru unnin. Til viðbótar við nýnæmið er stundum gerð krafa um að list sé unnin í göfugum tilgangi. Dæmi um það er þegar tónverk eða kvikmyndir sem framleiddar eru í þeim megintilgangi að afla tekna fyrir framleiðandann eru undanskilin frá skilgreiningunni á list, og kölluð iðnaður (sbr. kvikmyndaiðnaður og tónlistariðnaður). Þegar list er skilgreind á þröngan máta, líkt og rætt er um hér að ofan, er sjaldgæft að menn séu sammála um hvað er list og hvað ekki. Því hafa ýmsir haldið því fram að slíkar skilgreiningar hafi meira að gera með smekk heldur en hlutlæga aðgreiningu. Alþjóðatengsl Íslands. Alþjóðatengsl Íslands eru þau stjórnmálasambönd, ræðissambönd og viðskiptatengsl sem Ísland hefur við erlend ríki. Ísland hefur slík tengsl við nánast öll ríki heims, eða 169 talsis. Ísland hefur sérlega sterk tengsl við nágrannaríkin Danmörku, Noreg og Svíþjóð en einnig Þýskaland, Bretland og Bandaríkin. Ísland var stofnaaðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945. Íslendingar eru virkir þátttakendur í alþjóðasamtökum eins og Norðurlandaráði, hernaðarbandalaginu NATO og fríverslunarsamningi Evrópu EFTA. Ísland hefur þannig langmest stjórnmálatengsl við ríki eins og Norðurlöndin, Bandaríkin og Evrópusambandið. Íslendingar hafa sent fólk til borgaralegra starfa á vegum NATO í Bosníu og til Afghanistan, þeir voru einnig á lista viljugra þjóða sem studdi innrásina í Írak 2003. Ísland gerðist fyrst virkur aðili í eigin alþjóðatengslum þegar það lýsti yfir sjálfstæði árið 1944 en fram að því höfðu Danir farið með utanríkismál (að nafninu til frá 1940). Þekktustu átök Íslendinga við aðrar þjóðir á alþjóðavettvangi eru Þorskastríðin þar sem tekist var á við Breta um fiskveiðilögsögu Íslands. Eftir seinni heimsstyrjöldina gerðu Íslendingar varnarsamning við Bandaríkin sem komu upp Keflavíkurstöðinni, herstöð við eina alþjóðaflugvöllinn á Íslandi. Samstarf Íslendinga og Bandaríkjanna á sviði varnamála var náið allt fram að haustinu 2006 þegar bandarísk yfirvöld tilkynntu einhliða þá ákvörðun að draga herlið sitt burt með öllu. Íslendingar voru fyrsti þjóða til þess að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna: Eistlands, Lettlands og Litháens frá Sovétríkjunum sálugu og einnig Svartfjallalands frá Serbíu. Íslensk sendiráð. Ísland rekur sendiráð og aðalræðismannsskrifstofur í Austurríki (Vínarborg og Strassborg), Bandaríkjunum (Washington og New York), Belgíu (Brussel), Bretlandi (London), Danmörku (Kaupmannahöfn), Finnlandi (Helsinki), Frakklandi (París), Indlandi (Nýju-Delí), Ítalíu (Róm), Japan (Tókýó), Kanada (Ottawa og Winnipeg), Kína (Peking), Malaví (Lílongve), Mósambík (Mapútó), Namibíu (Windhoek), Níkaragva (Managua), Noregi (Osló), Rússlandi (Moskvu), Suður-Afríku (Pretoríu), Srí Lanka (Colombo), Sviss (Genf), Svíþjóð (Stokkhólmi), Úganda (Kampala) og Þýskalandi (Berlín). Upptökustjóri. Upptökustjóri er í tónlistarútgáfu sá sem hefur yfirumsjón með upptöku, hljóðblöndun og frumritun tónlistar fyrir framleiðslu hljómplötu. Yfirleitt er upptökustjórinn í mörgum hlutverkum, stjórnar upptökusessjónum og samræmir vinnu flytjenda. Upptökustjórar eru oft tengdir við vissan hljóm eða tónlistarstefnu og hafa mikil áhrif á það hvernig endanlega útgefin tónlist hljómar. Dæmi um fræga upptökustjóra eru Phil Spector, Alan Parsons, Nigel Godrich og Dr. Dre. Tímarit. Tímarit er blað sem kemur reglulega út og inniheldur greinar um ýmis efni og stundum myndir. Tímarit sem koma út vikulega eða mánaðarlega eru venjulega fjármögnuð með auglýsingum og með lausasölu eða áskrift en fræðileg tímarit oftast aðens með síðarnefndu kostunum. Tímarit með glansandi kápu, sem innihalda greinar um dægurmál og tísku, nefnast oft einu nafni glanstímarit. Ólíkt dagblöðum, sem koma út á hverjum degi eða flesta daga vikunnar, eru tímarit gefin út vikulega, hálfsmánaðarlega, mánaðarlega, ársfjórðungslega, árlega eða jafnvel sjaldnar. Ian Rankin. Ian Rankin (fæddur 28. apríl, 1960, í Fife, Skotlandi) er einn vinsælasti og virtasti glæpasagnahöfundur heimsins, og helst þekktur fyrir glæpasögur sínar um lögregluforingjann John Rebus. Hann býr í Edinborg ásamt konu sinni og tveimur börnum. Rithöfundarferill. Rankin hóf rithöfundaferil skömmu eftir útskrift úr Edinborgarháskóla. Á árunum 1986 til 1990 sendi hann frá sér fjórar skáldsögur, sem hlutu mismikla athygli. Í þeim var lögð áhersla á spennandi og æsilega atburðarás, frekar en að um hefðbundnar morðgátur eða leynilögreglusögur væri að ræða. Ein þessara bóka, "Knots and Crosses" frá 1987, gerðist í Edinborg og fjallaði um lögreglumann að nafni John Rebus, sem starfað hafði í sérsveitum breska hersins á Norður-Írlandi og orðið fyrir sálfræðilegu áfalli þar. Bókin fól í sér margvíslegar vísanir í söguna um doktor Jekyll og herra Hyde eftir Robert Louis Stevenson, einn kunnasta rithöfund Edinborgar. Rankin varð sjálfur undrandi á gagnrýnendur og lesendur litu á bókina sem glæpasögu, þar sem hann taldi sjálfan sig ekki glæpasagnahöfund né áhugamann um þá tegund bóka. Árið 1991 sendi Rankin frá sér aðra bók um Rebus, "Hide and Seek". Í henni gerði höfundurinn aðra tilraun til að endurskapa söguna um Jekyll og Hyde í Edinborg nútímans. Með þessari sögu komst Rankin að þeirri niðurstöðu að Rebus væri sögupersóna sem vert væri að nýta í fleiri bókum. Þriðja Rebus-bókin kom út árið 1992 og upp frá því ein eða tvær bækur á ári til 2007, þegar sautjánda og síðasta Rebus-bókin, "Exit Music", kom í verslanir. Í henni fer lögregluforinginn Rebus á eftirlaun, enda hafði persónan elst í rauntíma milli bóka. Í síðustu bókunum fór samstarfskona Rebusar, Siobahn Clarke, að fá sífellt stærra hlutverk. Hefur það ýtt undir vangaveltur um hvort Rankin hyggist halda áfram bókaflokknum með hana sem aðalpersónu. Frá 2008 hefur Ian Rankin sent frá sér nokkrar glæpasögur sem einnig gerast í Edinborg. Rankin, Ian Henning Mankell. Henning Mankell (fæddur 3. febrúar 1948) er heimsþekktur sænskur sakamálahöfundur og leikskáld. Hann er helst þekktur fyrir bækur sínar um lögregluforingjann Kurt Wallander. Makell fæddist í Stokkhólmi og ólst upp í bæjunum Sveg og Borås. Hann er giftur Evu Bergman, dóttur sænska leikstjórans Ingmar Bergman. Mankell, Henning Dreggjar dagsins. "Dreggjar dagsins" (e. "Remains of the Day") er skáldsaga eftir enska rithöfundinn Kazuo Ishiguro, en fyrir hana hlaut hann Booker-verðlaunin árið 1989. Sagan var þýdd á íslensku af Sigurði A. Magnússyni. Kazuo Ishiguro. Kazuo Ishiguro (カズオ・イシグロ Kazuo Ishiguro, upphaflega 石黒一雄 Ishiguro Kazuo, fæddur 8. nóvember 1954) er breskur rithöfundur af japönskum ættum. Hann fæddist í Nagasaki í Japan en fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Englands á 7. áratug 20. aldar. Ishiguro útskrifaðist frá Háskólanum í Kent árið 1978 með B.A. gráðu og hlaut mastersgráðu tveimur árum síðar. Hann býr nú í London ásamt konu sinni og dóttur. Ishiguro hlaut Whitbread-verðlaunin árið 1986 fyrir aðra skáldsögu sína, "An Artist of the Floating World", og Booker-verðlaunin árið 1989 fyrir þriðju skáldsögu sína, "Dreggjar dagsins" (e. "Remains of the Day"). Nýjasta bók hans heitir "Slepptu mér aldrei" (e. "Never Let Me Go") og náði hún inn á stutta listann til Booker-verðlaunanna. Verk. Ishiguro, Kazuo Slepptu mér aldrei. "Slepptu mér aldrei" (e. "Never Let Me Go") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Kazuo Ishiguro sem kom út árið 2005. Bókin var tilnefnd til Booker-verðlaunanna árið 2006 og kom út í íslenskri þýðingu Elisu Bjargar Þorsteinsdóttur sama ár, gefin út hjá Bjarti. Pólýetýlenterefþalat. Pólýetýlenterefþalat (vanalega skammstafað PET, en einnig PETE og áður PETP og PET-P) er þermóplastsresín af flokki pólýestera sem notað er í ílát undir mat, drykki og ýmsa aðra vökva, og er einnig eitt mikilvægasta hráefnið sem notað er í gerviefni í fatnað (t.d. flís). Það er til bæði myndlaust (glært) og kristallað að hluta (hvítt, ógegnsætt), en það fer eftir vinnsluaðferðum. Efnið myndast við transestrunarhvarf milli etýlenglýkóls og dímetýlterefþalats. Það er framleitt undir vörumerkjunum Arnite, Impet og Rynite; Ertalyte, Hostaphan, Melinex og Mylar (filmur); og Dacron, Terylene og Trevira (þræðir). Endurvinnslumerki PET með auðkennið 1 Meginkosturinn við PET er að hægt er að endurvinna það fullkomlega. Ólíkt öðrum plastefnum er hægt að endurnýta fjölliður þess. PET hefur resínauðkennið 1, en það er notað til að flokka efnið til endurvinnslu. Heimildir. Texti hefur verið þýddur úr ensku greininni. Panic! At The Disco. Panic! At The Disco er hljómsveit frá Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum. Byrjunin. Panic! At The Disco var stofnuð af skólabræðrunum Ryan Ross á gítar og Spencer Smith á trommum, í úthverfum Summerlin, Las Vegas. Frá 13 ára aldri, spiluðu þessir tveir lög með Blink-182, samkvæmt Walker og Ross. Ross og Smith stofnuðu svo aðra hljómsveit sem bar nafnið "Summer League" ásamt tveim öðrum vinum, og var Brent Wilson einn af þeim, og gítarleikar sem seinna meir myndi hætta í hljómsveitinni. Wilson hitti Brendon Urie í Palo Verde framhaldsskólanum. Wilson bað Urie um að reyna fyrir sér sem gítarleikari hjá hljómsveitinni þar sem þeir væru að leita að staðgengli. Upphaflega var Urie ekki aðalsöngvari hljómsveitarinnar. Sú staða var fyrir gítarleikarann og textahöfund, Ryan Ross. En þegar hljómsveitarmeðlimirnir heyrðu hann syngja bakraddir á æfingum, voru þeir svo hrifnir af bakraddahæfileikum og var það einróm ákvörðun að gera hann að söngvara hljómsveitarinnar. Panic at the disco / Sat back and took it so slow / Are you nervous? Are you shaking? / Save compliments to praise compilation / We don't need to feel we fit in / We can move back / We can leave them. Þó svo að hljómsveitin segi oft að nafnið komi frá laginu "Panic" eftir The Smiths, þá kom annað í ljós þegar lagið frá Name Taken hafi verið innblástur fyrir The Smiths og að lagið með The Smiths er auðveldara þegar kemur í ljós á að útskýra fyrir þá sem vita ekki endilega um Name Taken.[citation needed] Brendon Urie hafði samband við bassista Fall Out Boy, Pete Wentz í gegnum LiveJournal og sendi honum slóðina á PureVolume síðuna þeirra. Wentz fór því niður til Las Vegas eftir að hafa orðið svona hrifinn af einstakleika hljómsveitarinnar og vildi fá að hitta þá. Eftir að hafa séð þá á æfingunni, spurði hann þá hvort þeir væru til í að skrifa undir samning hjá fyrirtækinu hans, Fueled by Ramen imprint label Decaydance. Skref í átt að frægð. Panic! At The Disco komu fram í þáttinum TRL, sem sýndur er á MTV, 17. janúar 2006. Þar frumsýndu þeir myndbandið við lagið "I Write Sins Not Tragedies". Söngvarinn Brendon Urie segir að þeim finnst lagið og myndbandið vera ofspilað. "'I Write Sins Not Tragedies' er ekki eina lagið sem við höfum gert". Myndbandið fyrir "I Write Sins Not Tragedies", hefur hrollvekjandi sirkus brúðkaups þema, í því koma fram Lucent Dossier Vaudeville Cirque. Það byrjaði nr. 10 á TRL niðurtalningunni, sem ýtti plötunni þeirra A Fever You Can´t Sweat Out á toppinn á óháða Billabord listanum og nr. 13 á Billabord 200 listanum í júli 2006. "I Write Sins Not Tragedies" myndbandið er meðal mest spiluðu myndböndunum á YouTube, sem þýðir að horft hefur verið á það meira en 5 milljón sinnum. Það er líka mest beðið um það á New York borgar útvarpinu Z100, og bæði "I Write Sins Not Tragedies" og "The Only Difference Between Martyrdom and Suicide Is Press Coverage" hafa verið á The Interactive Nine at Nine with Romeo á sama tíma. Seinna myndbandið sem þeir gerðu var fyrir lagið "But It's Better If You Do,". Söguþráður myndbandsins felur í sér hljómsveitina að spila á "speakeasy" í Bandaríkjunum árið 1930. "Nýja mynbandið okkar á að sýna aðdáenum okkar myrkan og afskekktan stíl okkar." segir Brendon Urie. Smáskífan var gefin út 1. mái í Bretlandi og lenti strax í 23 sæti. Sama mánuð luku þeir við fyrsta tónleikaferðalagið þeirra um Evrópu. Allir tónleikarnir voru uppseldir, og sumir seldust upp meira að segja á nokkrum klukkutímum. Eftir þetta hófu þeir tveggja mánaða tónleikaferðalag um Norður-Ameríku með The Hush Sound, Ok Go, The Dresden Dolls og Lucent Dossier Vaudeville Cirque hópnum sem opnunaratriði. Í júlí gáfu þeir út þriðja myndbandið við "Lying Is the Most Fun a Girl Can Have Without Taking Her Clothes Off". Myndbandið inniheldur fólk með fiskabúr á höfðinu að ganga á götu sem lítur út eins og backlot á stúdíói. Myndbandið sýnir hljómsveitina aðeins einu sinni, sagt er að það hafi verið útaf því að þeim hafi fundist útlit þeirra draga athyglina frá tónlistinni þeirra. Remixuð útgáfa af laginu þeirra "The Only Difference Between Martyrdom and Suicide Is Press Coverage" getur verið fundin á opinbera geisladisknum frá myndinni Snakes on a Plane. Lagið, sem náði 5 sæti á Billaboard Modern Rock listanum, er áætlað sem næsta smáskífa þeirra fyrir Pop útvarpsstöðvar. Hljómsveitin hefur komið fram ásamt Fall Out Boy, Marilyn Manson og öðrum hljómsveitum á sérstakri útgáfu Tim Burton's The Nightmare Before Christmas geisladisknum. Myndin verður endurútgefin í 3D 20 október 2006. Snemma í ágúst fór A Fever You Can't Sweat Out platinum, sem þýðir að það hafi selst yfir eina milljón. Brottför Brent Wilson. Hljómsveitin tilkynnti opinberlega brottför bassaleikara þeirra, Brent Wilson, með skilaboðum á heimasíðu hljómsveitarinn 17. maí 2006. Engin opinber ástæða var gefin fyrir frávikinu, síðar fullyrti Brent að honum hafði verið hent úr hljómsveitinni. Í sömu tilkynningu stóða að vinur þeirra Jon Walker myndi fylla í skarðið fyrir hann á sumar tónleikaferðalaginu þeirra, meðan þeir leituðu að öðrum bassaleikara. 3. júlí sama árs, var myspace síðu þeirra breytt og þar bætt Jon Walker inn á síðuna sem bassaleikari og stuðningssöngvari, og núna er hann talinn meðlimur P!ATD. Athyglisverðar uppákomur. Þegar P!ATD var að spila opnunarlagið á tónleikum 25. ágúst, henti óþekktur áhorfandi glerflösku á sviðið sem hitti á höfuðið á Brendon Urie söngvara P!ATD. Hann féll á sviðið og hljómsveitin hætti að spila. Eftir nokkrar mínútur stóð hann aftur upp og hrópaði til áhorfendanna: "You can’t take me out! Let's see how well you guys do with my left side," og héldu áfram með sama lagið á sama stað. Á MTV Video Music Awards 2006 vann myndbandið við "I Write Sins Not Tragedies" myndband ársins og unnu þar með tónlistarmenn eins og Christinu Aguleru, Shakiru, Madonnu og Red Hot Chili Peppers. Þegar þeir voru að ganga að sviðinu til að taka við verðlaununum, voru þeir truflaðir af manni sem hét Six, sem auglýsti sig í um fimm sekúntur áður hann var dreginn af sviðinu af öryggisgæslunni. Myndavélin súmmaði svo aftur á hljómsveitina. Jon Walker bassaleikarinn grínaðist með þetta og sagði: "þetta var allt planað!" og hljómsveitin tók svo á móti verðlaununum. Panic! At The Disco spilaði líka lagið sitt "I Write Sins Not Tragedies" á verðlaunaafhendingunni. Fall Out Boy. Fall Out Boy er bandarísk hljómsveit frá Chicago í Illinois í Bandaríkjunum. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Patrick Stump (söngvari, gítarleikari), Pete Wentz (bassaleikari, textahöfundur), Andy Hurley (trommuleikari) og Joe Trohman (gítarleikari). Saga hljómsveitarinnar. Hljómsveitin Fall Out Boy var stofnuð árið 2001 af Joe Trohman og Pete Wentz. Pete Wentz. Peter Lewis Kingston Wentz III (fæddur 5. júní 1979 í Wilmette í Illinois í Bandaríkjunum) er bassaleikari, aukasöngvari og textahöfundur hljómsveitarinnar Fall Out Boy. Saga. Pete Wentz ólst upp í Wilmette, Illinois, úthverfi Chicago, Illinois. Hann gekk í New Trier Township High School og North Shore Country Day School þar sem hann var all-state fótbolta spilari. Eftir að hafa útskifast úr menntaskóla í 1997 gekk hann í DePaul háskólann og hætti til að einbeita sér að tónlistinni. Hann hafði verið í mörgum hljómsveitum meðal annars xfirstbornx, Arma Angelus (með Tim McIlrath, söngvara Rise Against), 7 Angels of the Apocalypse / Culture of Violence, xBirthrightx, Extinction, Forever Ended Today, Yellow Road Priest, og Project Rocket. 2001 stofnaði hann Pop-Punk/Emo hljómsveitina Fall Out Boy með Joe Trohman og Patrick Stump en Andy Hurley kom í hljómsveitina seinna. Fyrirtæki o.fl.. Pete Wentz hefur skrifað bók sem ber nafnið „The Boy With the Thorn In His Side“ sem er byggð á martröðum sem hann fékk þegar hann var barn. Það er önnur bók eftir hann á leiðinni sem heitir „Rainy Day Kids“ það var áætlað að hún kæmi út 14. febrúar 2006 en henni var frestað. Þar að auki er hann að semja aðra bók með William Beckett sem er söngvari The Academy Is... Hann á fyrirtæki sem heitir Clandestine Industries, sem gefur út bækur en mest föt, meðal annarra hluta. Hann á líka undirútgáfu(imprint) Fueled By Ramen, Decaydance Records, sem hefur þó nokkrar hljómsveitir á samning, þar á meðal: Panic! At The Disco, October Fall, Gym Class Heroes, The Hush Sound, Cobra Starship og Lifetime. Heimild. Wentz, Pete Frjálslyndisstefna. Frjálslyndisstefna er heiti á ýmsum stjórnmálakenningum og hugmyndum um stjórnarfar sem líta á frelsi einstaklingsins sem mikilvægt markmið út frá hugmyndum um réttindi einstaklinga. Í gegnum söguna hafa stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem kenna sig við frjálslyndisstefnuna lagt áherslu á athafnafrelsi (þar með talið frelsi frá afskiptum ríkisvalds), tjáningarfrelsi, trúfrelsi og afnám klerkaveldis, afnám sérréttinda yfirstéttarinnar og hugmyndina um réttarríki þar sem allir eru jafnir fyrir lögum. Þó er mjög mismunandi hver þessara atriða hafa verið sett á oddinn eftir því hvaða land, tímabil eða stjórnmálahreyfingar eru skoðaðar. Frjálslyndisstefnan var afar víðfeðmt hugmyndakerfi. Helsti hugmyndafræðingur hennar var John Locke með kenningu sína um náttúruleg réttindi einstaklingsins og það sjónarmið að uppspretta valdsins lægi hjá þegnunum. Hann taldi einnig að í gildi væri samfélagssáttmáli milli þegna og þjóðhöfðingja, sem tryggði kjörnum fulltrúum þjóðarinnar rétt til áhrifa á landsjórnina. Ólíkt íhaldsmönnum höfðu frjálslyndir skýra stefnu í efnahags- og atvinnumálum. Helsti hugmyndafræðingur þeirra í þeim efnum var Adam Smith (1729-1790). Dans. Samkvæmisdansar eru algengir í vestrænum löndum. Dans er samsetning líkamshreyfinga sem er oft ætluð til tjáningar, hvort sem er í tengslum við almenna afþreyingu í félagslegum aðstæðum, í trúarlegum tilgangi, sem sýningaratburður eða við aðrar aðstæður. Oft er tónlist notuð í tengslum við dans og er þá algengt að danshreyfingarnar séu lagaðar að hrynjandi tónlistarinnar. Orðið getur einnig átt við um það þegar dýr eiga samskipti með líkamlegum hreyfingum, líkt og býflugur gera, og þá er orðið notað með tilvísun í dans manna. Það sama gildir um það þegar orðið er notað um dauða hluti, til dæmis þegar logar og norðurljós eru sagðir dansa. Dans á tímum Bítlaæðisins. Árið 1964 er Eggert Kristinsson í Hljómum spurður í Lesbók Morgunblaðsins hverjir eru vinsælustu dansarnir. Hann svarar þá: „"Shake" er auðvitað efst á blaði. Einnig má nefna "Slotzen", "Monkey", "Dog" og "T-bird"“. The Hush Sound. The Hush Sound er hljómsveit frá DuPage County í Illinois í Bandaríkjunum. Meðlimir eru Bob Morris (gítarleikari, söngvari), Greta Salpeter (píanóleikari, söngkona), Darren Wilson (trommuleikari) og Chris Faller (bassaleikari). Alois Hitler. Alois Hitler (7. júní 1837 – 3. janúar 1903) var faðir Adolfs Hitler, en sonur hans var einræðisherra Þýskalands á 4. og 5. áratug 20. aldar. Hann var tollheimtumaður í Braunau am Inn í Austurríki. Alois Hitler fæddist í sveitarhéraði norðan Vínarborgar í Austurríki. Móðir hans hét Maria Anna Schicklgruber. Hún var þá ógift. Johannes Georg Hiedler var stjúpfaðir Alois og er af mörgum talinn hafa verið líffræðilegur faðir hans. Árið 1876, þá 39 ára gamall, tók Alois upp ættarnafn stjúpföður síns, sem þá hafði verið látinn í um tvo áratugi. Nafn hans var þá stafað ‚Hitler‘ en ekki ‚Hiedler‘. Óvíst er hvers vegna stafsetningu nafnsins var breytt en þýsk stafsetning var nokkuð á reiki á þessum tíma. Marc Vermeeren, "De jeugd van Adolf Hitler 1889-1907 en zijn familie en voorouders". Soesterberg, 2007, 420 blz. Uitgeverij Aspekt. ISBN = 978-90-5911-606-1 Leiklist. Leiklist er sú listgrein sem felur í sér að „leika sögur“ eða merkingarleysur, herma eftir látbragði annarra persóna (hluta eða dýra) fyrir framan áhorfendur. Oftast er sagan merkingarbær og skrifuð fyrirfram. Handrit að slíkum gangi verks - með sviðslýsingum, texta persóna o.s.frv. - nefnist leikrit. Yfirleitt fer leiksýning fram í leikhúsi, og er oftast notast við ýmsar samsetningar tals, látbragðs, svipbrigða, tónlistar, dans og annarra hluta til að gera söguna ljóslifandi fyrir augum áhorfenda. Til viðbótar við hefðbundna leiklist, þar sem sagan er sögð í óbundnu máli og reynt er eftir fremsta megni að líkja eftir raunveruleika sögunnar, eru til ýmis stílfærð afbrigði leiklistar, svo sem ópera, ballett, og fleiri sýningarform. Leikhús. Hefðbundið vestrænt leikhús með sviði og áhorfendasal. Leikhús er bygging þar sem stunduð er leiklist. Í hefðbundnum vestrænum leikhúsum er yfirleitt skýr skipting á milli sviðsins, þar sem leikarar flytja leiksýninguna, og áhorfendasvæðisins, þar sem áhorfendar sitja og fylgjast með sýningunni. Einnig eru til önnur afbrigði, til dæmis hringleikahús þar sem áhorfendur sitja í kringum sviðið. Ryan Ross. Ryan Ross (fæddur 30. ágúst 1986) er gítarleikari og textahöfundur hljómsveitarinnar Panic! At The Disco. Saga. George Ryan Ross III er fæddur og uppalinn í Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum þar sem hann gekk í kaþólskan skóla. Þegar Ryan var tólf ára bað hann foreldra sína um gítar í jólagjöf, og þannig byrjaði samvinna hans með Spencer sem fékk trommusett. Á fyrstu árunum, voru Ryan og Spencer að spila Blink-182 lög með Ryan sem söngvara. Hljómsveitin þeitta var kölluð Pet Salamander á þeim tíma. Seinna safnaði Spencer liði með skólavini sínum Brent Wilson á bassa, og þeir spiluðu saman í hljómsveit sem hét "The Summer League". Svo kom Brendon Urie í hljómsveitina, hinir heyrðu hann syngja og einróma ákváðu að hann myndi verða söngvarinn. Tvö lög á A Fever You Can't Sweat Out frumraun Panic! At The Disco voru samin um föður hans sem var alkahólisti. Faðir hans dó svo 28. júlí 2006. Hnútafræði. Hnútafræði er grein innan grannfræði sem, eins og nafnið gefur til kynna, felst í skoðun á hnútum. Þó það hjálpi til snýst fræðigreinin ekki eingöngu um það að leika sér með spotta. Hnútafræði skoðar hnúta fræðilega, sem í raun eru hringir í þrívíðu rúmi sem búið er að flækja. Jonas Alströmer. Jonas Alströmer (7. janúar 1685 – 2. júní 1761) var sænskur athafnamaður sem hagnaðist í Englandi og varð frumkvöðull á sviði kartöfluræktar til manneldis í Svíþjóð og einnig á sviði sauðfjárræktar þar sem hann sýndi fram á að erfðir fremur en umhverfisaðstæður hefðu mest að segja um gæði ullarinnar. Hann flutti inn vefstóla og vélar frá Englandi. Hann var einn af stofnendum Konunglegu sænsku vísindaakademíunnar 1739. Hann flutti Merinofé til Svíþjóðar frá Spáni og notaði til kynbóta til að bæta gæði ullarinnar á sauðfjárbúi hans í Alingsås í Svíþjóð. Hann menntaði líka fjárhirða til að sjá til þess að erfðaeiginleikar Merinofésins héldust í nýjum kynslóðum. Einn af þessum fjárhirðum var Jonas Botsach sem síðar fór með Friedrich Wilhelm Hastfer til Íslands og átti þar þátt í upphafi kartöfluræktar og kynbótatilraun með sauðfé á búi Skúla Magnússonar í Elliðaárdal. Friedrich Wilhelm Hastfer. Friedrich Wilhelm Hastfer (1722 – 1768) var sænskur barón af þýskum ættum. Hann var einnig þekktur undir nafninu Hastfer barón eða hrútabarón á Íslandi. Árið 1752 gaf hann út ritgerðina „Utförlig och omständelig underrättelse om fullgoda fårs ans och skötsel“ sem hann tileinkaði sænskum frumkvöðli á sviði kynbóta í sauðfé, Jonas Alströmer. Danakonungur Friðrik V sendi Hastfer til Íslands 1756 og með honum í för var fjárhirðirinn Jonas Botsach sem verið hafði fjárhirðir hjá Alströmer. Verkefni þeirra var að gera kynbótatilraun með sauðfé á búi Skúla Magnússonar í Elliðaárdal, en til þeirra tilrauna má rekja upphaf fjárkláðans fyrri. Líklegt er að kynbótahrútar sem þeir fluttu inn frá Englandi hafi verið Merinofé líkt og Alströmer hafði notað með miklum árangri til kynbóta í Svíþjóð. Hastfer stóð einnig fyrir tilraun til kartöfluræktar á Íslandi á Bessastöðum 1758, fyrstur manna að því að talið er. Hastfer barón mældi einnig upp hús á Íslandi, kirkju, bæi og útihús og skildi eftir sig merkar teikningar (sjá myndir í bókum Harðar Ágústssonar, Íslenskri byggingararfleifð I og Laufási við Eyjafjörð I). Tenglar. Hastfer, Friedrich Wilhelm Hastfer, Friedrich Wilhelm Kjördæmahagræðing. Kjördæmahagræðing nefnist það ferli þegar kjördæmamörk eru flutt til þannig að úrslit verði á annan veg en ef þau hefðu haldist óbreytt. Einkum á þetta við í einmenningskjördæmum. Þetta ferli er mjög algengt í Bandaríkjunum þar sem það tryggir oft það að sitjandi þingmenn ná endurkjöri. Tómamengi. Tómamengi eða tómt mengi er mengi, sem inniheldur engin stök. Í frumsendulegri mengjafræði er það til samkvæmt frumsendunni um tómamengi og eru öll endanleg mengi búin til út frá því. Ýmsir eiginleikar í mengjafræði eru augljóslega sannir um tómamengið. Táknmál. Tómamengið er oft táknað með "formula_1" eða "formula_2" sem dregið er af stafnum Ø í Danska og Norska stafrófinu, innleit af Bourbaki hópnum (nánar tiltekið af André Weil) árið 1939. Einnig oft táknað með ". Eiginleikar. Stærðfræðingar tala um "tómamengið" frekar en "tómt mengi". Í mengjafræði er tvö mengi jöfn ef þau innihalda sömu stök, þar af leiðandi getur einungis eitt mengi innihaldið engin stök. Sem hlutmengi í rauntalnalínunni (eða almennar, grannrúmi) er tómamengið bæði opið- og lokað mengi. Allir jaðarpunktar þess (sem eru engir) eru í tómamenginu og það er því lokað, en um alla punkta í því (sem eru jú engir) gildir að til er opin grennd sem er innihaldin í tómamenginu og það er því opið. Lokunin er því tómamengið sjálft. Einnig er tómamengið þjappað þar sem öll endanleg mengi (á rauntalnalínunni) eru þjöppuð. Algeng vandamál. Tómamengið er ekki það sama og "ekkert", það er mengið sem "inniheldur" ekkert en mengið sjálft er "eitthvað". Þetta veldur oft misskilningi hjá þeim sem eru að kynnast tómamenginu í fyrsta skiptið. Stundum hjálpar að hugsa um mengi sem poka sem inniheldur þau stök sem eru í menginu, þá er tómamengið einfaldlega tómur poki, sem er svo sannarlega eitthvað. Summumyndun. Röð í stærðfræði er summa af öllum liðum runu (sem eru óendanlega margir). Sjöundá. Sjöundá er afskekkt eyðibýli, innst á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Þar gerðust morðin á Sjöundá árið 1802, en þá var tvíbýli á staðnum. Sjöundá fór í eyði 1921. Um Sjöundármálin ritaði Gunnar Gunnarsson skáldsöguna "Svartfugl", (frumútgáfa á dönsku 1929, íslensk þýðing 1938). Morðin á Sjöundá. Morðin á Sjöundá voru framin vorið 1802 þegar karl og kona voru myrt á bænum Sjöundá á Rauðasandi. Bjarni Bjarnason og "Guðrún Egilsdóttir" bjuggu þá á hálfri jörðinni en á móti þeim "Jón Þorgrímsson" og Steinunn Sveinsdóttir og höfðu þau flust þangað vorið 1801. Á bænum voru einnig þrjú börn Bjarna og Guðrúnar og fimm börn Jóns og Steinunnar. Morðin. Fljótlega eftir komu Jóns og Steinunnar byrjaði samdráttur hennar og Bjarna og mun samkomulag á heimilinu hafa verið afar slæmt um veturinn. 1. apríl hvarf Jón og var talið að hann hefði hrapað fyrir björg í Skorarhlíðum, en þegar Guðrún andaðist snögglega 5. júní komst kvittur á kreik um að dauðsföllin hefðu vart verið eðlileg, enda vissi öll sveitin af samdrætti Bjarna og Steinunnar. Þegar komið var með lík Guðrúnar til greftrunar lét presturinn opna kistuna og skoða líkið en ekki sáust á því áverkar sem taldir voru gefa tilefni til rannsóknar. Þann 25. september um haustið fannst svo lík Jóns rekið á Rauðasandi og var það mikið skaddað en á því sáust þó áverkar sem skoðunarmenn töldu af mannavöldum, auk þess sem það vakti athygli þeirra að engin beinbrot fundust á líkinu, sem þótti varla geta staðist ef Jón hefði hrapað úr Skorarhlíðum eins og Bjarni hafði haldið fram. Var Bjarni þá handtekinn og hafður í haldi í Haga en 7. nóvember var hann fluttur á þingstað í Sauðlauksdal og þangað var Steinunn einnig flutt til yfirheyrslu, þótt hún hefði enn ekki verið handtekin. Hún var þá þunguð. Við réttarhöldin játuðu Steinunn og Bjarni að hafa myrt maka sína. Voru málsatvik þau að Bjarni drap Jón með staf og vissi Steinunn af því, en Guðrúnu fyrirkomu þau í sameiningu, reyndu fyrst að gefa henni eitur en þegar það dugði ekki til kæfði Bjarni hana en Steinunn hélt höndum hennar á meðan. Afdrif sakborninga. Glæpahjúin voru dæmd til lífláts, auk þess sem klípa átti Bjarna þrisvar með glóandi töngum á leið frá þeim stað þar sem afbrotin voru framin og til aftökustaðarins, auk þess sem höggva átti af honum hægri hönd. Sumarið 1803, eftir að Steinunn hafði alið barn sitt og Bjarni hafði sloppið úr haldi í Haga en náðst aftur, voru þau svo flutt til Reykjavíkur og höfð í gæslu í tukthúsinu á Arnarhóli á meðan málið fór fyrir Landsyfirrétt og síðan konung eins og aðrir dauðadómar. Í nóvember 1803 staðfesti konungur dauðadómana en sleppti Bjarna þó við pyntingarnar. Þar með lauk þessari sögu þó ekki, því að ekkert gekk að finna böðul til verksins á Íslandi og haustið 1804 tókst Bjarna að strjúka úr fangelsinu. Hann hafði verið í járnum fram í ágúst það ár en þá sleppt úr þeim vegna fótameina. Ætlun hans var að komast til baka vestur í Barðastrandarsýslu og vonaðist hann til að einhver þar myndi rétta honum hjálparhönd. Bjarni var handsamaður í Borgarfirði tveimur vikum eftir að hann strauk og færður aftur í tugthúsið. Yfirvöld höfðu þá leitað til Danmerkur vegna böðulsvandræðanna og farið fram á að þau hjúin yrðu náðuð en að öðrum kosti yrði böðull sendur til landsins. Þess í stað bárust fyrirmæli um að senda þau til Noregs til aftöku en áður en til þess kæmi lést Steinunn í fangahúsinu 31. ágúst 1805 og er óljóst um dánarorsök hennar. Hún var dysjuð á Skólavörðuholti þar sem ummerki um Steinkudys sáust allt fram á 20. öld. Þá voru bein hennar tekin upp og grafin í vígðri mold. Bjarni var aftur á móti færður utan til aftöku haustið 1805 og var farið með hann til Kristianssand í Noregi, þar sem hann var handarhöggvinn og að því búnu hálshöggvinn þann 4. október og líkami hans settur á hjól og steglu en höfuð og hönd á stjaka, áður en hann var huslaður á aftökustaðnum. Bókmenntir. Rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsögu um þessa atburði 1938 sem ber nafnið "Svartfugl". Leikgerð verksins var sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 1971. Leikhópurinn Aldrei óstelandi setti upp leikverkið Sjöundá, sem byggt er að hluta á skáldsögunni Svartfugl, í Norðurpólnum í febrúar 2012. Steinkudys. Steinkudys var staður á Skólavörðuholti í Reykjavík, þar sem morðinginn Steinunn Sveinsdóttir var dysjuð eftir að hún lést í fangelsi á Arnarhóli 31. ágúst 1805. Hún var ásamt Bjarna Bjarnasyni sek um morðin á Sjöundá. Ummerki um Steinkudys sáust allt fram á 20. öld. Þegar grjótnám hófst á holtinu vegna framkvæmda við Reykjavíkurhöfn fannst trékista með illa fúnum beinum. Þau voru tekin upp og grafin í vígðri mold í Hólavallagarði en grjótið úr dysinni væntanlega flutt í hafnargarðana. Steinunn Sveinsdóttir. Steinunn Sveinsdóttir frá Sjöundá (1767 - 31. ágúst 1805) myrti ásamt Bjarna Bjarnasyni konuna hans og manninn hennar og var það upphafið að frægu morðmáli sem kallað er morðin á Sjöundá. Hún lést í tukthúsinu á Arnarhóli þegar hún beið þess að vera ásamt Bjarna flutt til Noregs til aftöku þar sem enginn böðull fékkst til verksins á Íslandi. Hún var dysjuð á Skólavörðuholti þar sem ummerki um Steinkudys sáust allt fram á 20. öld. Bein hennar voru þá grafin upp og flutt í Hólavallakirkjugarð. Bjarni Bjarnason. Bjarni Bjarnason á Sjöundá (11. janúar 1761 - 4. október 1805) er einn af þekktustu morðingjum í sögu Íslands en hann og Steinunn Sveinsdóttir myrtu í sameiningu maka sína. Var það upphafið að morðmáli sem kallað er morðin á Sjöundá. Þau voru bæði dæmd til dauða en enginn böðull fékkst til að höggva þau. Steinunn lést í fangelsinu, en Bjarni var fluttur til Noregs og tekinn af lífi í Kristianssand 4. október 1805 eftir misheppnaða flóttatilraun úr tukthúsinu á Arnarhóli í Reykjavík árinu áður. Ólafur Jóhann Sigurðsson. Ólafur Jóhann Sigurðsson (26. september 1918 - 30. júlí 1988) var íslenskur rithöfundur sem skrifaði og gaf út bækur stöðugt frá árinu 1934. Útgefin verk efir hann eru fimm smásögur, sex skáldsögur, tvær smáskáldsögur, fjórar barnabækur og fjögur ljóðasöfn. Ritverk hans hafa verið þýdd á átján tungumál. Hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabækurnar "Að laufferjum" og "Að brunnum" 1976. Sonur hans er Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur. Flæmska. Flæmska (flæmska: "Vlaams") er opinbert tungumál í Flæmingjalandi í Belgíu. Hún er ekki eiginlegt tungumál heldur mállýska af hollensku. Orð í flæmsku eru eins og í hollensku þó með tilbrigðum í bæði rituðu og töluðu máli. Orðið "vlaams" kemur frá Belgum til forna. Til eru nokkrar mállýskur af flæmsku, þar á meðal austflæmska, vestflæmska og limburgs. Allar teljast flæmska nema að limburgs er stundum talið sér tungumál. Lækjartorg. Austurstræti og Lækjartorg (hægra megin) séð frá Bankastræti. Lækjartorg er torg í Miðborg Reykjavíkur í Kvosinni sunnan við Reykjavíkurhöfn. Torgið er við gatnamót Bankastrætis, Lækjargötu og Austurstrætis. Við torgið stendur meðal annars Héraðsdómur Reykjavíkur í gamla Landsbankahúsinu. Eitt og annað. Samkvæmt Thor Vilhjálmssyni stakk Kristján Albertsson upp á því í hálfkæringi að setja búr á Lækjartorg til að geyma þá sem hann kallaði fyllisvín. Óendanleiki. Óendanleiki er hugtak, sem vísar til einhvers sem er ótakmarkað, þ.e. stærra en allt það, sem hugsanlegt er. Óendanleiki kemur fyrir í heimspeki, stærðfræði, eðlisfræði, heimsfræði og trúarbrögðum. Endanleiki er andheiti óendanleika og á við allt hitt, sem er takmarkað. Óendanleiki, sem heimspekilegt hugtak. E.t.v. er óendanleikinn fyrst og fremst heimspekilegt viðfangsefni, þ.e. spurningin um umfang og aldur alheims og þar sem gera má ráð fyrir að aldur og umfang hans er ótakmarkað. Óendanleiki í stærðfræði. Hugtakið óendanlegt gegnir mikilvægu hlutverki í stærðfræði og á við "stærðfræðileg fyrirbæri", sem ekki eru endanlegt í stærðfræðilegum skilningi, táknuð með: formula_1. Allar tölur eru endanlegar, en vöxtur t.d. runu, summu, heildis eða falls getur orðið óendanlegur þegar vísir eða háð breyta vex ótakmarkað, en þá er sagt að runan, o.s.frv. "stefni á óendanlegt", táknað með formula_2. Örsmæðareikningur grundvallast á markgildishugtaki, sem notast við stærðir, sem geta orðið ótakmarkaðar. Óendanleiki, sem hluti af útvíkkuðu talnalínunni. Til að mögulegt sé að meðhöndla stærðir, sem geta vaxið ótakmarkað þarf að víkka út talnalínuna (útvíkkaða talnalínan) með því að bæta við tveimur nýjum stökum, sem reyndar eru ekki tölur, þ.e. stakið "plús óendanlegt" (formula_3), sem er stærra en allar aðrar (útvíkkaðar) rauntölur, og "mínus óendanleg"t (formula_4) sem er minna en allar aðrar (útvíkkaðar) rauntölur. Einnig þarf að auka við reiknireglur á talnalínunni, eftir að þessi tvö nýju stök bætast við. Óendanleg mengi. Mengjafræðin fæst gjarnan við mengi, sem innihalda ótakmarkað fjölda staka. Til þess að fást við þau hafa verið innleiddar s.k. fjöldatölur, sem þó eru ekki tölur, heldur mælikvarði á fjölda staka mengis. Slíkar fjöldatölur, geta þó haft eiginleika sem minna á tölur, þ.e. verið "misstórar" í einhverjum skilningi þ.a. framkvæma megi einfaldar reikniaðgerðir með þeim skv. algebru fjöldatalna. Óendanleiki í eðlisfræði. Eðlisfræðin fæst gjarnan við langdræga krafta (eða kraftsvið), þ.e. krafta sem verka milli hluta um allt rúmið, en verða að lokum núll, þegar fjarlægðin milli hlutanna er óendanleg. Einnig er fjallað um tímaháð kerfi og þau könnuð þegar tíminn verður óendanlega langur. Óendanlegir heimar heimsfræðinnar. Heimsfræðin fjallað um heima, sem eru ýmist opnir eða lokaðir og takmarkaðir að umfangi eða ótakmarkaðir, þ.e. óendanlegir. Einnig er fjallað um aldur alheims, sem getur verið óendanlegur. Óendanleiki í trúarbrögðum. Í trúarbröðum er gjarnan fjallað um guði, sem eru eilífir og ótakmarkaðaðan alheim. Mólúkkaeyjar. Mólúkkaeyjar eða Malukueyjar eru eyjaklasi í Indónesíu, hluti Malasíska eyjaklasans mitt á milli Indlandshafs og Kyrrahafs á Ástralíuflekanum austan við Selebeseyjar, vestan við Nýju Gíneu og norðan við Tímor. Eyjarnar voru áður þekktar sem Kryddeyjar en það heiti hefur líka verið notað um eyjarnar undan strönd Tansaníu. Tomás Luis de Victoria. Tomás Luis de Victoria (1548 – 20. ágúst 1611) var spænskt tónskáld á síðari hluta endurreisnarinnar. Hann var frægasta tónskáld Spánar á 17. öld og er af mörgum talinn mestur á eftir Palestrina af tónskáldum þessa tíma. Victoria fæddist í Avila á Spáni í kringum 1548. Hann var sjöunda barn Francisca Suarex de la Concha og Francisco Luis de Victoria sem voru af virtum ættum. Þau áttu þá eftir að eignast fjögur börn áður en að Francisco Luis de Victoria dó þegar Tomás Victoria var aðeins níu ára gamall. Victoria söng í kór við biskupskirkjuna í Avila þegar hann var ungur og lærði þar undirstöðuatriði tónlistar, hann gekk líka í Rómversk-kaþólskan tónlistarskóla þar sem formlegt tónlistarnám hans hófst. Á þessum tíma lærði hann hjá helstu tónskáldum Spánar svo sem Jeronimo de Espinar, Bernardino de Ribera, Juan Navarrro og Hernando de Isasi. Einnig hefur verið talið að hann hafi hitt Antonio de Cabezon á þessum tíma. Þegar Victoria komst á unglingsár var hann sendur til Rómar í skólann Collegium Germanicum þar sem hann var skráður sem söngvari. Í Róm hitti hann Palestrina og lærði hugsanlega hjá honum. 1569 fór Victoria frá Collegium Germanicum og gerðist organisti og söngvari við spænsku kapelluna Santa Maria de Monserrat. 1571 var honum svo boðið að gerast kennari við Collegium Germanicum og sama ár tók hann við af Palestrina sem stjórnandi við rómverska prestaskólann. 1572 kom út fyrsta mótettubók Victoria. Hann var þá 24 ára gamall. Bókin var tileinkuð Otto von Truchsess von Waldburg sem var erkibiskup af Ágsborg og mikill aðdáandi og stuðningsmaður Victoria. 1575 var Collegium Germanicum flutt af páfanum og var Victoria þá gerður að yfirstjórnanda skólans. Hann var yfir tónlistarmenntun kórdrengjanna, kenndi völdum nemendum kontrapunkt og tónsmíðar og hafði yfirumsjón með allri tónlist í kirkjunum tengdum Collegium Germanicum. Hann þurfti því að segja skilið við kirkjuna Santa Maria de Monserrat. Þetta sama ár nam hann til prests og var vígður sem slíkur 28. ágúst. 1578 sagði Victoria upp störfum hjá Collegium Germanicum og settist að sem kapelluprestur við San Girolamo della Carità. Í sjö ár bjó hann með San Felipe Neri og var í djúpum trúarlegum hugleiðingum. Á þessum tíma bjó Victoria einnig með tveim merkum tónskáldum, spænska tónskáldinu Francisco Soto de Langa og ítalska tónskáldinu Giovanni Animuccia. Victoria sat ekki auðum höndum á þessum árum og frá honum komu margar messur og mótettur sem breiddu hróður hans um heiminn. 1587 sneri Victoria aftur heim til Spánar og varð prestur og kórstjóri við kapelluna Real Convento de las Clarisas Descalzas í Madrid. Hann gegndi því starfi til 1603. Á þessum tíma fór hann þó til Rómar 1592 til að hafa umsjón með flutningi á verki sínu "Missae liber secundus" og tveim árum síðar mætti hann í jarðarför Palestrina. Eftir að María Spánardrottning sem hafði ráðið Victoria til starfa dó 1603 varð Victoria að orgelleikara og dó 1611. Þorsteinn Guðmundsson (f. 1967). Þorsteinn Guðmundsson (fæddur 4. febrúar 1967) er íslenskur grínisti sem er þekktur m.a. fyrir leik sinn í námsmannalínu auglýsingum KB-Banka og í Fóstbræðraþáttunum. Þorsteinn heldur úti vefsíðu þar sem hægt er að nálgast mikið af grínefni með honum m.a. myndasöguna "Ömmu Fífí" og hljóðklippurnar "g.x.fni.is". David Gilmour. David Jon Gilmour (fæddur 6. mars 1946) er fyrrum gítarleikari hljómsveitarinnar Pink Floyd. Hann er af mörgum talinn vera einn af bestu gítarleikurum allra tíma. Gilmour er þekktur fyrir að nota mikið af gítareffektum og er hann frumkvöðull á því sviði. Gilmour samdi m.a. gítarsólóið í "Comfortably Numb", Money, Time og fleiri lögum. Hann spilar yfirleitt á Fender Stratocaster, en gítarsafn hans telur nú yfir 100 gítara. Gilmour fæddist og ólst upp í Grantchester Meadows í Cambridge. Faðir hans var fyrirlesari í dýrafræði við háskólann í Cambridge og móðir hans var kennari. Áður en Gilmour byrjaði í Pink Floyd var hann í hljómsveitinni Joker's Wild. Hann var fenginn til að taka við sem aðalgítarleikari Pink Floyd eftir að Syd Barret fór yfir um á neyslu LSD ofskynjunarlyfsins. Upphaflega átti Gilmour bara að vera sviðsgítarleikari sem átti að hlaupa í skarðið ef Syd forfallaðist. Hinir meðlimir Pink Floyd vildu halda í Syd sem var aðallagahöfundur sveitarinnar og hafði m.a. samið 10 af 11 lögum á fyrstu plötu Pink Floyd, The Piper at the Gates of Dawn. Fljótlega gerðu meðlimir Pink Floyd sér ljóst að ekki þýddi lengur að halda í Syd því hann var oftast óvinnufær vegna neyslu ofskynjunarlyfja. David og Roger Waters áttu í talsverðum deilum á áttunda og fyrri hluta níunda áratugarins sem átti vissan þátt í því að Pink Floyd hætti árið 1985. Það var síðan Gilmour sem endurvakti sveitina tveimur árum síðar (1986) og tók við forystuhlutverkinu af Roger Waters sem vildi ekki ganga í sveitina aftur. Með David Gilmour í forystuhlutverki gaf Pink Floyd síðan út 2 plötur (A Momentary Lapse of Reason og The Division Bell) og tvo tónleika, Pulse og A Delicate Sound of Thunder sem voru gefnir út á spólu. Thalía. Thalía er leikfélag Skólafélags Menntaskólans við Sund sem stofnað var árið 1973. Mörg Setja inn myndmargbreytileg leikrit hafa verið sýnd, auk þess hafa mörg leikrit verið samin sérstaklega fyrir hópinn. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur því fyrsta leikritið sem frumsýnt var, var leikritið "Afmælisveislan" eftir Harold Pinter í þýðingu Sverris Hólmarssonar þáverandi enskukennara skólans, en meðal leikenda var Rúnar Guðbrandsson,síðar leikari og leikstjóri en framkvæmdastjóri sýningarinnar var formaður Thalíu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Eftir þetta leikrit hafa verið sýnd mörg önnur sígild leikrit þar á meðal "Lýsistrata" eftir Aristófanes og "Mutter Courage" eftir Berthold Brecht og Kirsubergjagarðurinn eftir Tjeckov. Á dagskrá leiklistasviðisins hafa oftast verið leikrit af erlendum uppruna, en þó hafa nokkur íslensk verk verið sett upp af leikfélagi MS, s.s. Galdra–Loftur eftir Jóhann Sigurjónsson. Af kennurum skólans hafði Sverrir Hólmarson, sem starfaði við skólann um árabil, mest afskipti af þessum þætti skólalífsins og að auki hafa margir leiðbeinendur og leikstjórar komið til við sögu leiklistasviðs MS. Veturinn 1977-1978 er skv. leikskrá 2. leikár Thalíu, leiklistarsviðs MS. Nafnið Thalía kemur þá væntanlega fyrst fyrir þegar nafni skólans er breytt úr MT í MS haustið 1976. Á fyrsta og öðru leikári Thalíu var Gísli Rúnar Jónsson fenginn til að leikstýra hópnum. Fyrra árið (1976-77) var sett upp leikritið Sandkassinn eftir sænskan höfund, Kent Anderson. Ári síðar var settur upp skopleikur eftir þá Arnold og Bach sem heitir "Stundum bannað og stundum ekki". Á þriðja ári voru "Eðlisfræðingarnir" eftir Dürrenmatt settir á svið í leikstjórn Þóris Steingrímssonar.Árið 1980-81 var starfsemin óvenju öflug en þá kom fyrrum nemandi og stofnfélagi Thalíu Rúnar Guðbrandsson leikstjóri ferskur til starfa eftir leiklistarnám erlendis og setti upp tvö verk Erpinghambúðirnar eftir Joe Orton sem hann og bekkjarfélagar hans höfðu þýtt undir handleiðslu Sverris Hólmarssonar á sínum tíma í M.T. og sína eigin þýðingu á Gum og Goo eftir Howard Brenton. Hann leikstýrði einnig gjörning Thalíu á Kjarvalsstöðum sem stóð í heilan dag. Rúnar leikstýrði síðar Woyzek eftir Georg Büchner hjá Thalíu (1992). Leikritið árið 2007 heitir "Rómeó og Júlíus" og er eftir þá Arnþór Gíslason, Karl Sigurðsson og Eyþór Snorrason ásamt Sigurjóni Kjartanssyni sem jafnframt leikstýrir verkinu. Formaður Thalíu 2006-2007 er Karl Sigurðsson. Síðasta leikrit sem Thalía setti upp var "Hairspray" eftir Broadway söngleiknum Hairspray, í þýðingu Karls Sigurðssonar og Inga Björns Grétarssonar. Almannagjá. Almannagjá er á gjá á Þingvöllum sem markar plötuskil Evrópuflekans og Ameríkuflekans að vestanverðu. Almannagjá er eitt þekktasta kennileiti Þingvalla og steypist Öxará niður í hana sem Öxarárfoss. Áður lá bílvegurinn frá Reykjavík til Þingvalla um Almannagjá en 1. nóvember 1967 var hún friðuð fyrir bílaumferð. Hugsmíðahyggja. Hugsmíðahyggja er námskenning sem gengur út frá því að þekking sé afurð þess hvernig einstaklingar skapa merkingu úr reynslu sinni. Lögð er áhersla á að námsumhverfið sé opið og sem líkast raunverulegum aðstæðum og nemandinn sé virkur í að byggja upp eigin þekkingu. El Grillo. El Grillo var 10 þúsund lesta olíubirgðaskip Bandamanna sem þrjár þýskar flugvélar gerðu sprengjuárás á í síðari heimsstyrjöldinni á Seyðisfirði þann 10.febrúar 1944. Flugvélarnar vörpuðu sprengjum á skipið og hæfði ein þeirra skutinn svo það sökk að hálfu leyti. Áhöfnin sem í voru 48 menn slapp, en skipverjar á skipinu skutu á móti við árásina. Eftir árásina var skipið svo laskað að Bretar ákváðu að sökkva því, þó mikið magn olíu væri enn um borð. Skipið var vel vopnað, með tvær fallbyssur, fjórar loftvarnabyssur og fjórar rakettubyssur. Eins voru djúpsprengjur um borð. Olíumengunar frá flakinu hefur orðið vart öðru hverju á Seyðisfirði allt frá því að skipið sökk. Árið 1952 dældu Olíufélagið og Hamar 4500 lítrum af olíu úr El Grillo þar sem það liggur á 30-40 metra dýpi á botni Seyðisfjarðar. Árið 2001 var svo ráðist í viðamiklar hreinsunaraðgerðir af hálfu íslenska ríkisins til að ná afganginum af olíunni úr skipsflakinu. Árið 1983 vann Landhelgisgæslan í samstarfi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli við könnun á djúpsprengjum í flakinu. Þá voru teknar upp 3 djúpsprengjur sem fluttar voru yfir í Loðmundarfjörð þar sem þær voru sprengdar á 7 metra dýpi til að kanna virkni sprenigefnis þeirra. Árið 1985 tóku síðan sömu aðilar úr flakinu alls 25 djúpsprengjur auk mikils magns af 20 mm loftvarnarskotum ásamt stærri fallbyssuskotum sem var eytt í Seyðisfirði, en á tímabilinu frá 1972-2006 hafa yfir 500 sprengjur verið fjarlægðar úr því. Einni fallbyssunni hefur einnig verið lyft upp og er hún nú minnisvarði á Seyðisfirði. Vinsælt er að kafa niður að skipinu, en það er ekki nema fyrir lærða kafara vegna dýpisins. Peter Carey. Peter Philip Carey (fæddur 7. maí, 1943) er ástralskur rithöfundur. Hann fæddist í Bacchus Marsh, Viktoríu og fluttist síðar til Melbourne, London og Sydney. Hann er nú búsettur í New York. Í upphafi rithöfundarferils síns skrifaði Carey auglýsingatexta, auk þess að taka þátt í að skrifa kvikmyndahandrit. Hann hefur tvisvar sinnum unnið hin eftirsóttu Booker-verðlaun, í fyrra skiptið fyrir skáldsögu sína Oscar and Lucinda og í það síðara fyrir bókina True History of the Kelly Gang. Carey, Peter Alan Hollinghurst. Alan Hollinghurst (fæddur 26. maí, 1954 í Stroud, Gloucestershire) er breskur rithöfundur og höfundur fjögurra bóka. Hann vann Booker-verðlaunin árið 2004 fyrir bókina The Line of Beauty. Hollinghurst, Alan John Banville. John Banville (fæddur 8. desember 1945) er írskur rithöfundur og blaðamaður. Áttunda bók hans, "The Sea", vann Booker-verðlaunin árið 2005. Banville, John D.B.C. Pierre. DBC Pierre (fæddur 1961) er ástralskur rithöfundur. Pierre var skírður Peter Warren Finlay og hlaut viðurnefnið Pierre þegar hann var ungur, í höfuðið á teiknimyndapersónu. DBC hluti nafns hans (vanalega skrifað þannig) stendur fyrir "Dirty But Clean". Pierre hlaut Booker-verðlaunin árið 2003 fyrir bókina Vernon G. Little (e. Vernon God Little), þriðji ástralinn til að hljóta þau (þrátt fyrir að hann hafi tilkynnt að hann líti fremur á sig sem mexíkana). Pierre, D.B.C. Margaret Atwood. Margaret Eleanor Atwood (fædd 18. nóvember, 1939) er kanadískur rithöfundur, ljóðskáld, gagnrýnandi og femínisti sem hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir skrif sín, þ.m.t. Booker-verðlaunin. Atwood, Margaret J. M. Coetzee. John Maxwell Coetzee (fæddur 9. febrúar, 1940) er suðurafrískur rithöfundur og bókmenntafræðingur. Hann er ástralskur ríkisborgari og býr í Adelaide í Suður-Ástralíu. Coetzee hefur hlotið margvísleg verðlaun á rithöfundarferli sínum, þ.á m. Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2003 og bresku Booker-verðlaunin en hann var fyrsti rithöfundurinn til að hljóta Booker-verðlaunin tvisvar. Flói. Flói er breið vík eða fjörður. Mál (stærðfræði). Mál í stærðfræði er vörpun frá mengi hlutmengja í gefnu mengi yfir í rauntölurnar. Mál á mengi getur verið túlkað sem stærð, rúmmál eða líkindi þess. Hugtakið mál hefur þróast útfrá vilja til þess að geta heildað föll yfir almenn mengi í staðin fyrir bil eins og venjulega er gert, og er mjög mikilvægt í stærðfræðigreiningu og líkindafræði. Málfræði. Málfræði er grein innan raunfallagreiningar sem fæst við það að rannsaka sigma algebrur, mál, mælanleg föll og heildi. Málfræði er mikilvæg í líkindafræði og tölfræði. Formleg Skilgreining. Þrenndin ("X",Σ,"μ") er þá kölluð málrúm, og stökin í Σ eru mælanleg mengi. Flóinn. Flóinn í Árnessýslu kallast flatlendasvæðið milli Þjórsár og Hvítár (Ölfusár). Flóinn einkennist af mýrum og þess á milli hólum, sérstaklega að austanverðunni. Flóinn er mikið landbúnaðarhérað og er grasspretta þar mikil sem jókst til muna þegar Flóaáveitan var byggð 1922 – 1927 og var þá vatni úr Hvítá veitt á mýrarnar til að auka uppskeruna. Sveitarstjóri. Sveitarstjóri er titill framkvæmdastjóra sveitarfélags á Íslandi. Í sveitarfélögum þar sem er kaupstaður (miðast við að íbúar séu eða hafi verið yfir 1000) kallast þeir bæjarstjórar, en borgarstjóri í Reykjavík. Sveitarstjóri getur verið einn af kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn, en þarf ekki að vera það. Hann skal sitja fundi sveitarstjórnar þar sem hann hefur málfrelsi og tillögurétt en hefur ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn. Hlutverk sveitarstjóra er að hafa umsjón með daglegum rekstri sveitarfélagsins og framfylgja þeim ákvörðunum sem sveitarstjórn tekur. Hann telst vera æðsti yfirmaður starfsmanna sveitarfélagsins, hefur prókúruumboð sveitarsjóðs og skrifar undir skjöl sem skuldbinda sveitarfélagið (t.d. við kaup og sölu fasteigna, lántökur, ábyrgðir o.s.frv.) í umboði sveitarstjórnar. Hægt er að mæla frekar fyrir um valdsvið sveitarstjórans í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Sveitarfélög þurfa ekki að ráða sveitarstjóra og sumir fámennustu hreppar á Íslandi gera það ekki. Þá er yfirleitt í verkahring oddvita hreppsnefndarinnar að sinna þessum störfum. Dalasýsla. Kort sem sýnir staðsetningu Dalasýslu Dalasýsla er sýsla á Íslandi fyrir botni Breiðafjarðar og deilir mörkum með Strandasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu, Snæfellsnessýslu og Mýrasýslu. Kjördæmið. Dalasýsla var kjördæmi í Alþingiskosningum fram til 1959 er Vesturlandskjördæmi var myndað. George Baker Selection. George Baker Selection var hollensk hljómsveit stofnuð árið 1967 en hét þá Soul Invetions. Ári seinna skipti hún um nafn. Fyrsta fræga lag hljómsveitarinnar var "Little Green Bag" (1969) og árið eftir kom lagið "Dear Ann" sem komst upp í eitt af 10. efstu sæti hollenska vinsældalistans. "Paloma Blanka" (1975) varð svo fyrsta lag sveitarinnar sem hlaut heimsfrægð. George Baker Selection á sér sess í hollenskri tónlistarmenningu og er eina hljómsveitin, utan Bítlanna sem hafa haft þrjár smáskífur í röð í toppsæti vinsældalistans hollenska. Brandajól. Brandajól er það kallað þegar jóladag ber upp á mánudag þannig að margir helgidagar komi í röð. Það er "sunnudagur", "jóladagur", "annar í jólum" og áður fyrr "þriðji í jólum", sem var helgidagur uns með konungsskipun hann var afhelgaður árið 1770 og þar með ekki lengur almennur frídagur, ásamt "þrettándanum" og "þriðja í Hvítasunnu" sem dæmi. Fyrir árið 1770 var "þríheilagt" á jólum þar sem þriðji í jólum var helgidagur. Þegar jóladag bar upp á mánudag, urðu því fjórir helgidagar í röð, að meðtöldum sunnudeginum sem var helgidagur, og þá kallað "fjórheilagt". Við það að jóladag beri upp á mánudag lagðist nýársdagur einnig upp að sunnudegi svo úr urðu tveir helgir samliggjandi dagar. Eins lendir þrettándinn á laugardegi en þar sem laugardagur var áður fyrr almennur vinnudagur en þrettándann helgur dagur fyrir 1770 þá urðu einnig úr því tveir samliggjandi helgirdagar. Heimildir um stóru og litlu brandajól. Stundum er talað um "stóru eða meiri brandajól" og "litlu eða minni brandajól" en mönnum hefur greint á um hvernig þau eigi að skilgreinast. Elsta heimild um brandajól mun vera minnisblað sem Árni Magnússon ritaði, líklega í byrjun 18. aldar. Þar segir hann að brandajól kallist það þegar jóladag ber upp á mánudag. Stuttu seinna ritaði Jón Ólafsson frá Grunnavík í orðabók sem hann ritaði á latínu að brandajól heiti það þegar fjórir helgidagar fari saman. Hann gerir aftur á móti greinarmun á því sem hann kallar "brandajól meiri" (sem sennilega er það sama og stóru brandajól), ef fyrsti jóladagur leggst upp að sunnudegi en "brandajól minni" ef sunnudagurinn fari á eftir þriðja degi jóla. Þetta ritaði hann líklega um miðja 18. öld. En skýringin er sennilega sú að ef jóladagur er á fimmtudegi verður "fjórheilagt" á jólum, en nýjársdagur lendir jafnframt á fimmtudegi og því ekki samliggjandi öðrum helgum degi og það sama gilti um þrettándann. Telja má þetta sennilega og eðlilega skýringu og túlkun á þessum tvem hugtökum, meiri og minni brandajólum. Séra Björn Halldórsson í Suðlauksdal samdi á árunum 1770-1785 íslensk-latnesk-danska orðabók og þar segir hann að brandajól séu þegar dagurinn fyrir fyrsta jóladag eða dagurinn eftir þriðja í jólum sé sunnudagur. Er hann þar samhljóma Grunnavíkur-Jóni, nema hvað Björn minnist hvorki á stóru né litlu brandajól sennilega vegna þess að hann skrifar bókina eftir að þriðji í jólum hafði verið feldur niður sem hátíðisdagur. Eiríkur Jónsson vitnar í þessa heimild í orðabók sinni, "Oldnordisk Ordbog" árið 1863. Hann bætir við að frekar séu það brandajól ef jóladagur sé föstudagur eða mánudagur og þar virðist hann vera að taka tillit til þess að þriðji í jólum er ekki lengur helgidagur og breytir skilgreiningunni út frá því. Jón Sigurðsson skrifaði grein um "almanak, árstíðir og merkidaga" í Almanak Þjóðvinafélagsins árið 1878 og hefur þar eftir Árna Magnússyni að menn hafi kallað það brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag. Hann nefnir einnig að sérstök helgi hafi áður fyrr verið á "áttadegi jóla" (nýjársdag) og "þrettándanum" og hafi þær helgar báðar lengst um einn dag á brandajólum. Á áðurnefndu minnisblaði Árna Magnússonar minnist hann einnig, með óbeinum hætti þó, á þessa lengingu þessarra tveggja helga til viðbótar við jólahelgina. Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili skrifaði einnig um brandajól snemma á 20. öld og notast við skýringuna um að fyrir 1770 hafi það heitið brandajól þegar fjórheilagt varð, hvort sem það bar þannig til að jóladagur féll á mánudag eða fimmtudag. Jónas vísar hvergi í heimildir en í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals, útgefinni 1924, gefur Sigfús sömu skýringu og hefur það eftir orðabók Björns í Sauðlauksdal. Þessar heimildir sína að ekki hafa allir lagt sömu merkinguna í orðið brandajól, einkum þó hvað væru stóru brandajól eða litlu brandajól. Samkvæmt ofanrituðum heimildum virðast brandajól upphaflega einungis merkt það þegar jóladag bar upp á mánudag. Seinna hafi verið farið að kalla það litlu eða minni brandajól þegar sunnudagur fylgdi á eftir jólahelginni því þau lengdu ekki helgarnar um nýár eða þrettánda eftir að hætt var að halda þrettándann og þriðja í jólum heilagan árið 1770. Virðast menn því frekar hafa horft til þess hvað gæfi lengsta jólahelgi og þar með frídaga. Það sem ruglar fólk einna helst við það að meta hvað séu stór eða lítil brandajól er breytingin sem átti sér stað árið 1770 þegar þriðji í jólum og þrettándinn voru afhelgaðir af danakonungi. Þar með varð í sumum skýringum endaskipti á því hvort væri hvað og það sem upphaflega voru kölluð stóru eða meiri brandajól voru nú orðin hin minni eða litlu brandajól og öfugt. Stóru brandajól í dag. Eins og vinnu-og hátíðarlöggjöf er háttað á Íslandi í dag er ekki bara mjög takmörkuð helgi á sunnudögum og eins er á aðfangadag almennur vinnudagur til hádegis og takmörkuð helgi fram til klukkan sex en þá tekur við helgi sem varir þó aðeins samfelt út jóladag en um annan í jólum gilda lög líkt og um sunnudaga. Sama á við um gamlársdag og aðfangadag að hann er almennur vinnudagur til hádegis og takmörkuð helgi á honum til klukkan sex og aðeins helgi til klukkan tólf á miðnætti. Heldur meiri er helgin yfir nýjársdag en almennan sunnudag. Því væri eðlilegast ef bara er horft til þess hversu mikið frí fólk fær út úr jólunum að kalla stóru brandajól það þegar jóladag ber upp á sunnudag. Þá væri almennur frídagur á aðfangadag og því frí fyrir hádegi á laugardag og eins á gamlársdag sem lenti á sunnudegi. Úr þessu fengi fólk almennt þrjá heila og samfellda frídaga á jólum og einn auka frídag um áramót, það er nýjársdag sem lendir þá á mánudegi. Því mætti kalla samkvæmt þessu það sóru brandajól þegar þannig hagar til að jóladagur lendir á sunnudag. Þó verður að taka það með í reikninginn bæði hversu margir vinna vaktavinnu, eins að margir eiga frí alla laugar-og sunnudaga og hversu almennt það er orðið að gefa frí fyrir hádegi á aðfanga-og gamlársdag. Því verður fyrir þá sem eiga almennt frí um helgar plús að vinna ekki fyrir hádegi á aðfanga-og gamlársdag, það flestir frídagar þegar jóladagur lendir á þriðjudegi. Það er fimm frídagar um jól og fjórir um áramót. Önnur heiti á jólum. Dæmi um önnur heiti á jólum sem þó eru frekar ný til komin og mest notuð í daglegu tali manna á milli eru til dæmis "atvinnurekendajól". En það er þegar jóladag ber upp á föstudag og fyrir þá sem vinna til hádegis á aðfangadag en eiga frí um helgar verða slík jól bara hálfur auka frídagur. Forseti Bandaríkjanna. Forseti Bandaríkjanna (enska: "President of the United States of America") er hvort tveggja þjóðhöfðingi og æðsti maður ríkisstjórnar í Bandaríkjunum. Embættið var stofnað við fullgildingu stjórnarskrár Bandaríkjanna árið 1789. Þrískipting ríkisvaldsins er í hávegum höfð í bandarískri stjórnskipun og er forsetinn yfir framkvæmdavaldinu. Löggjafarvaldið liggur hjá þinginu og dómsvaldið hjá Hæstarétti. Völd forsetans eru skilgreind í 2. grein stjórnarskrárinnar en þau eru helst að hann er æðsti yfirmaður heraflans, getur synjað lögum staðfestingar, hann skipar ráðherra í ríkisstjórn, náðar menn og skipar með samþykki Öldungadeildarinnar í stöður æðstu embættismanna, sendiherra og dómara á alríkisstigi. Kjörtímabil forsetans er 4 ár og honum er ekki heimilt að sitja fleiri en tvö tímabil. Embætti varaforseta er einnig til staðar en varaforsetinn tekur við embætti forseta ef sá síðarnefndi fellur frá eða segir af sér. Bandaríkin voru fyrsta þjóðin til þess að búa til embætti forseta til þess að gegna störfum þjóðhöfðingja í nútíma lýðveldi. Stjórnarfar af þessari gerð nefnist forsetaræði og tíðkast nú í mörgum löndum víða um heim en þó sérstaklega í Ameríku og Afríku. Þingræði er hin megintegund stjórnarfars í lýðræðisríkjum og byggir á breskri fyrirmynd, það er hið ráðandi kerfi í Evrópu og fyrrum nýlendum Breta. Frá upphafi hafa verið 44 forsetar. Sá fyrsti var George Washington en núverandi forseti er Barack Obama. Frá því að Bandaríkin urðu risaveldi á fyrri hluta 20. aldar hafa þeir sem gegnt hafa embættinu verið á meðal þekktustu manna í heiminum á hverjum tíma enda er embættið gjarnan talið vera það valdamesta í heimi. Listi yfir forseta Bandaríkjanna. Eftirfarandi er listi yfir alla forseta Bandaríkjanna frá upphafi til nútímans. Á listanum eru einungis þeir sem hafa verið svarnir í embætti eftir að stjórnarskrá Bandaríkjanna var samþykkt árið 1789. Á listanum er enginn sem hefur einungis gegnt embættisverkum forseta Bandaríkjanna í fjarveru kjörins forseta samkvæmt 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna. Tölurnar gefa til kynna hvar í röð kjörinna forseta viðkomandi er. Til dæmis gegndi George Washington embættinu tvö kjörtímabil í röð og er talinn fyrsti forseti Bandaríkjanna (en ekki fyrsti og annar). Gerald Ford tók við embætti eftir að Richard Nixon sagði af sér og gegndi embættinu út annað kjörtímabil Nixons. Sú staðreynd að Ford var ekki kosinn í embættið hefur ekki áhrif á talninguna, sem gerir hann að 38. forseta Bandaríkjanna. Grover Cleveland gegndi embættinu tvisvar en ekki tvö kjörtímabil í röð og er því talinn bæði 22. og 24. forseti Bandaríkjanna. Af þessum sökum eru 44 forsetar á listanum en eru í raun einungis 43 einstaklingar allt í allt. Litirnir gefa til kynna stjórnmálaflokk viðkomandi forseta. Bandaríkjaforsetar Commentarii de Bello Civili. "Commentarii de Bello Civili", stundum nefnt "De Bello Civili", "Bellum Civile" og á íslensku "Borgarastríðið" er rit sem Júlíus Caesar samdi um átök sín og Gnaiusar Pompeiusar og öldungaráðs Rómar. Ritið er í þremur bókum og er styttra en fyrra rit Caesars um "Gallastríðin". Það fjallar um atburði áránna 49-48 f.Kr., eða skömmu áður en Caesar hélt yfir Rúbíkon fljót með hersveitir sínar og þar til Pompeius flúði til Egyptalands eftir að hann var sigraður í orrustunni við Farsalos og Caesar veitti honum eftirför. Ritinu lýkur þegar Pompeius hefur verið ráðinn af dögum og Caesar reynir að stilla til friðar í erjum stjórnhafa í Egyptalandi. Fræðimenn eru sammála um að ritið sé ósvikið. Framhald þess í "De Bello Alexandrino", "De Bello Africo" og "De Bello Hispaniensis" eru aftur á móti ekki talin vera eftir Caesar. Sagnaritarinn Suetonius stakk upp á Aulusi Hirtiusi og Gaiusi Oppiusi sem mögulegum höfundum þeirra. Jógvan á Lakjuni. Jógvan á Lakjuni (13. nóvember 1952 í Fuglafirði), Þjóðarflokknum, er færeyskur landsstjórnarmaður í menntamálum. Heimildir. Lakjuni, Jógvan á Ljósavatn. Ljósavatn er stöðuvatn í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit. Það er 3,2 ferkílómetrar að stærð. Veiði er einkum silungur, jafnt bleikja sem urriði, og er selt veiðileyfi á þremur bæjum í kring um vatnið. Ein eyja er í vatninu og er hún einfaldlega kölluð "Hólminn". Þar verpir álftapar á hverju vori. Tveir himbrimar hafa sest að við vatnið og eru alláberandi ef keyrt er framhjá vatninu að sumri til. Stutt austan við Ljósavatn standa samnefndur bær og kirkja. Þar bjó Þorgeir Ljósvetningagoði sem fékk það hlutverk fyrir rúmlega þúsund árum að ákveða hvaða trú yrði tekin upp á Íslandi. Hann valdi kristna trú og henti goðalíkneskjum sínum úr Ásatrú í foss sem upp frá því var nefndur Goðafoss. Ein á rennur úr vatninu og heitir hún Djúpá. Veiði þykir ágæt í ánni, en hún þykir nokkuð merkileg að því leytinu til að hún rennur í átt frá sjó að stórum hluta til. Þjóðsaga ein segir að eitt sinn hafi tveir menn róið út á vatnið með 60m langa línu og slakað henni allri úr í vatnið en ekki náð til botns. Nýlegar dýptarmælingar hafa hins vegar leitt í ljós að vatnið er 35m djúpt þar sem það er dýpst og meðaldýpið er 10,5m. Önnur saga segir að póstberi einn hafi drukknað í vatninu og rak líkið upp á land við tanga einn er nefndur hefur verið Dauðatangi. Við hliðina á honum er vík sem póstberinn var grafinn í og hefur hún verið nefnd Grafarvík. Mikið sumarbústaðaland er nú að rísa í kring um vatnið, einkum við það vestanvert. William Styron. William Clark Styron, Jr. (11. júní, 1925 - 1. nóvember, 2006) var bandarískur rithöfundur. Styron er best þekktur fyrir bók sína "Val Soffíu" (Sophie's choice), sem gerð var að kvikmynd með Meryl Streep. Hann hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1968 fyrir bók sína "The Confessions of Nat Turner". Bók hans Sýnilegt Myrkur (Darkness Visible) kom út í íslenskri þýðingu Ugga Jónssonar sem lærdómsrit hjá Hinu Íslenska bókmentafélagi árið 2010. Fjallar hún um baráttu Styrons við þunglyndi. Styron, William Stálhellar. Stálhellar er bók eftir Bandaríska rithöfundinn Isaac Asimov, gefin út á íslensku af Máli og Menningu árið 1990 í þýðingu Geirs Svanssonar. Músabelgur. Músabelgir voru verslunarvara fyrr á öldum, m.a. á Íslandi. Þeir sem seldu músabelgi veiddu mýs í fjalakött eða hálfa tunnu. Síðan var gerður skurður á nefið og mýsnar blásnar úr belgnum með fjöðurstaf. Einn skildingur fékkst fyrir hvern belg um miðja 19. öld, en um það leyti hætti verslun með belgina. Meryl Streep. Mary Louise Streep (fædd 22. júní 1949) er bandarísk leikkona og tvöfaldur óskarsverðlaunahafi sem hefur leikið í kvikmyndum, fyrir sjónvarp og í leikhúsi. Hún er sá leikari sem flestar tilnefningar hefur hlotið til óskarsverðlauna, 13 alls, og af mörgum talin hæfileikaríkasta leikkonan af sinni kynslóð. Streep kom fyrst fram á sviði árið 1971 í The Playboy of Seville og hún lék fyrst fyrir sjónvarp árið 1977, í kvikmyndinni The Deadliest Season. Helstu kvikmyndir hennar eru The Deer Hunter og Kramer vs. Kramer. Sú fyrri færði henni fyrstu óskarsverðlaunatilnefninguna og sú síðari fyrstu óskarsverðlaun hennar. Kvikmyndir. Streep, Meryl Iris Murdoch. Jean Iris Murdoch (15. júlí 1919 – 8. febrúar 1999) var breskur rithöfundur og heimspekingur, fædd á Írlandi. Murdoch er best þekkt fyrir skáldsögur sínar, þar sem hún sameinar góða persónusköpun og vel uppbyggðan söguþráð og þar sem umfjöllunarefnið er oftar en ekki siðferðis- eða kynferðismál. Fyrsta útgefna skáldsaga hennar, "Under the Net", var árið 2001 valin ein af 100 bestu skáldsögum sem hafa verið skrifaðar á ensku af American Modern Library. Murdoch, Iris William Golding. Sir William Gerald Golding (19. september 1911 – 19. júní 1993) var breskur rithöfundur og ljóðskáld. Golding hlaut mýmörg verðlaun á rithöfundarferli sínum, þar á meðal Nóbelsverðlaunin í bókmenntum og Booker-verðlaunin. Hann er best þekktur fyrir skáldsögu sína "Höfuðpaurinn" (e. Lord of The Flies). Golding, William Golding, William Bill Clinton. William Jefferson Clinton, best þekktur sem Bill Clinton, (skírður William Jefferson Blythe; f. 19. ágúst 1946) er bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður, sem gegndi embætti 42. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1993 til 20. janúar 2001. Hann tók við embættinu þegar hann var 46 ára og er því þriðji yngsti forseti Bandaríkjanna. Áður en hann varð forseti hafði hann setið í nær tólf ár sem fylkisstjóri Arkansas. Hann er giftur Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmanni fyrir New York, sem bauð sig fram til forsetaembættis BNA í kosningum 2008. Síðustu embættisár hans einkenndust af stjórnmálahneyksli þar sem hann var sakaður um að hafa borið ljúgvitni og reynt að hamla réttvísinni í málum sem vörðuðu samband hans við Monicu Lewinsky og áreitni við fyrrum starfsmann Arkansas-fylkis, Paulu Jones, sem ákærði hann. Forsetaferill. Bill Clinton hefur verið lýst sem nýdemókrata. Nokkur af stefnumálum hans, til dæmis fríverslunarsamningur Norður-Ameríku og, hafa verið tengd við “ en það er stefna sem gengur að stórum hluta út á að samtvinna hægristefnu og vinstristefnu innan markaðsmála og samfélagsmála. Annars hafa flest stefnumál hans verið vinstra megin.Í valdatíð Clintons var lengsta vaxtatímabil á friðartímum innan hagkerfis Bandríkjanna frá upphafi.Clinton var fyrsti forsetinn síðan Franklin D. Roosevelt var og hét til að verða endurkjörinn forseti og þar með þjóna tvö heil kjörtímabil sem forseti Bandaríkjanna. Eftir forsetaembætti. Þegar Clinton hætti sem forseti sýndu kannanir að fleiri voru ánægðari með störf hans en nokkurs annars forseta síðan í Seinni heimsstyrjöldinni. Hann hefur verið virkur í mannúðarmálum sem og ræðumennsku. Hann stofnaði líknarsjóðinn William J. Clinton Foundation til að vekja athygli á alþjóðamálum eins og meðferð og úrræði við HIV/AIDS og hnattrænni hlýnun. Árið 2004 gaf hann út sjálfsævisöguna „“ og tók auk þess þátt í forsetaframboði konu sinnar, Hillary Clinton, árið 2008. Síðar tók hann þátt í forsetaframboði Barack Obama árið 2009. Sama ár var Bill Clinton kjörinn sérstakur sendifulltrúi til Haítí og árið 2010 stofnaði hann, ásamt George W. Bush, líknarsjóðinn Clinton Bush Haiti Fund. Monica-Lewinsky hneykslið. Bill Clinton átti í kynferðislegu sambandi við 22 ára gamla stúlku, Monica Lewinsky, árið 1995. Hún var lærlingur innan Hvíta hússins. Rannsókn á málinu varð á endanum til þess að Bill Clinton var dreginn fyrir landsdóm árið 1998 sökum þess að hann laug til um málið þegar hann var eiðsvarinn. Hann var síðar sýknaður eftir 21 daga réttarhöld þingsins árið 1999. Whitewater ádeilan. Whitewater hneykslið vísar til þess þegar Bill og Hillary Clinton áttu í fasteignaviðskiptum með viðskiptafélögum sínum, Jim McDougal og konu hans, Susan McDougal, varðandi fyrirtæki þeirra, Whitewater Development Corporation. Þetta viðskiptatækifæri mistókst og rannsókn á málinu árið 1993 leiddi í ljós að Bill Clinton, sem ríkisstjóri Arkansas, hafði þrýst á David Hale til að lána McDougal hjónunum $300.000. Clinton hjónin hafa ekki verið ákærð fyrir þátttöku sína í þessu máli og halda fram sakleysi sínu. Heimildir. Clinton, Bill Thomas Keneally. Thomas Michael Keneally (fæddur 7. október 1935), einnig þekktur sem Tom Keneally, er ástralskur rithöfundur. Hann tók upp nafnið "Mick" fram til ársins 1964 í þeirri von að fjölskylda hans myndi síður þekkja bækur hans, en byrjaði svo að nota fullt nafn sitt. Hann er helst þekktur fyrir skáldsögu sína "Schindler's Ark" (1982), sem vann Booker-verðlaunin og Steven Spielberg gerði síðar að frægri kvikmynd, Listi Schindlers (e. Schindler's List). Margar bóka hans byggjast á endurgerð sagnfræðilegra hluta þrátt fyrir að þær séu nýmóðins að stíl. Keneally, Thomas Paul Scott. Paul Mark Scott (25. mars 1920 – 1. mars 1978) var breskur rithöfundur, leikskáld og ljóðskáld, best þekktur fyrir fjórleik sinn "The Raj Quartet". Hann vann Booker-verðalunin árið 1977 fyrir skáldsögu sína "Staying On". Scott, Paul David Lodge. David Lodge (fæddur 28. janúar 1935 í London á Englandi) er breskur rithöfundur. Bækur hans eru gjarnan gamansögur með akademískum undirtóni. Ein skáldsaga hans hefur verið þýdd á íslensku undir nafninu "Lítill heimur". Skáldsögur. Lodge, David Lítill heimur. "Lítill heimur" (e. "Small World") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn David Lodge. Bókin var gefin út á íslensku árið 1994 og þýðandi var Sverrir Hólmarsson. Ruth Prawer Jhabvala. Ruth Prawer Jhabvala (fædd 7. maí 1927; latinn 3. april 2013) var þýskur rithöfundur af gyðingaættum, sem bæði hefur hlotið Booker-verðlaunin og Óskarsverðlaunin tvisvar. Jhabvala, Ruth Prawer George H. W. Bush. George Herbert Walker Bush (f. 12. júní 1924) var 41. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1989 til 20. janúar 1993 fyrir repúblikana og þar áður varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Ronalds Reagan. Hann er faðir George W. Bush, sem varð 43. forseti Bandaríkjanna. Eitt af stærstu verkefnum ríkisstjórnar hans var Persaflóastríðið 1990 til 1991 í kjölfar innrásar Íraks í Kúveit, en sú tilfinning almennings í Bandaríkjunum fyrir því að hann hefði ekki lokið því með sæmd átti þátt í því að hann náði ekki endurkjöri 1992. Kingsley Amis. Sir Kingsley William Amis (16. apríl 1922 – 22. október 1995) var enskur rithöfundur, ljóðskáld, gagnrýnandi og kennari. Eftir hann liggja yfir tuttugu skáldsögur, þrjú ljóðasöfn, smásögur og auk ýmissrar gagnrýni. Hann er faðir breska rithöfundarins Martin Amis. Amis, Kingsley Martin Amis. Martin Amis (fæddur 25. ágúst 1949) er enskur rithöfundur. Hann er best þekktur fyrir bækurnar "Money" (1984), "London Fields" (1989), "Time's Arrow" (1991) og "The Information" (1995). Önnur verk. Amis, Martin Gerald Ford. Gerald Ford (fæddur 14. júlí 1913, látinn 26. desember 2006) var 38. forseti Bandaríkjanna frá 9. ágúst 1974 til 20. janúar 1977 fyrir repúblikana. Hann fæddist í Omaha í Nebraska og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Yale. Gegndi herþjónustu í sjóhernum 1942 til 1946. Að auki var hann þingmaður fyrir Michigan í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings 1949 til 1973 og leiðtogi flokks síns í deildinni 1965 - 1973 en demókratar höfðu þá meirihluta þar. Hann var varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Nixons og tók við þegar Nixon sagði af sér í kjölfar Watergate-hneykslisins. Hann tapaði síðan kosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter. Stjórn hans var mjög umdeild, meðal annars vegna sakaruppgjafar sem hann veitti Nixon og vegna þess að í tíð hans hörfaði Bandaríkjaher endanlega frá Víetnam. Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hvorki var kosinn varaforseti né forseti í almennum kosningum. Ford, Gerald Ford, Gerald Slangur. Slangur er orðfæri sem notað er í ákveðnum hópum eða við ákveðnar aðstæður. Það víkur frá viðurkenndu málsniði tungumálsins og einkennist af óvenjulegri orðmyndun, leik að orðum og myndmáli. Orðið slangur er dregið af enska orðinu Slang. Richard Nixon. Richard Milhous Nixon (9. janúar 1913 – 22. apríl 1994) var 37. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1969 til 9. ágúst 1974 fyrir repúblikana. Hann fæddist í Yorba Linda í Kaliforníu sonur trúaðra kvekara. Nixon hlaut fullan styrk til laganáms við Duke-háskóla þaðan sem hann útkrifaðist með þriðju hæstu einkunn í sínum árgangi og starfaði sem lögmaður eftir að námi lauk. Nixon varð fulltrúi Kaliforníu í kosningum til fulltrúadeildar árið 1946 fyrir repúblikanaflokkinn og árið 1950 varð hann öldungadeildarþingmaður. Árið 1952 var hann útnefndur sem varaforsetaefni við framboð Dwight D. Eisenhower sem sigraði og varð Nixon einn yngsti varaforseti í sögu Bandaríkjanna. Hann tapaði naumlega fyrir John F. Kennedy í forsetakosningunum árið 1960 og eftir tap í kosningum til ríkisstjóra Kaliforníu árið 1962 tilkynnti hann brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Nixon snéri þó aftur og árið 1968 bauð hann sig fram í forsetakosningum og náði kjöri. Forsetatíð. Brýnustu verkefni sem Nixon þurfti að kljást við á valdatíma sínum var að sameina bandarísku þjóðina eftir umbrotatíma sjöunda áratugarins þar sem svartra var áberandi auk þess sem ungt fólk reis upp gegn gömlum gildum samfélgsins. Einnig olli Víetnamstríðið sem hann hlaut í arf frá forverum sínum mikilli ólgu í heiminum öllum en hann hóf það ferli að láta Bandaríkjaher hörfa frá Víetnam. Nixon neyddist til að segja af sér embætti þann 9. Ágúst árið 1974 vegna yfirvofandi ákæru þingsins í kjölfar Watergate-hneykslisins en hann varð uppvís að því að reyna að þagga málið niður og afvegaleiða rannsóknina. Á klukkustundar löngum blaðamannafundi með 400 ritstjórum þann 18. nóvember 1973 reyndi Nixon að verja þátt sinn í málinu og lét þar meðal annars falla hin frægu orð; „I am not a crook“. John F. Kennedy. John Fitzgerald Kennedy (29. maí 1917 – 22. nóvember 1963) var 35. forseti Bandaríkjanna en hann gegndi því embætti frá 20. janúar 1961 þar til hann var myrtur í Dallas í Texas 22. nóvember 1963. Æviágrip. John Fitzgerald Kennedy fæddist í Brookline í Massachusetts ríki þann 29. maí árið 1917. Hann var kaþólskur af írskum ættum og útskrifaðist með próf í stjórnmálafræði frá Harvard-háskóla árið 1940. Hann gengdi herþjónustu í seinni heimstyrjöldinni sem yfirmaður á tundurskeytabát í Kyrrahafinu og sat á Bandaríkjaþingi frá árinu 1947 til ársins 1960 er hann var kjörinn forseti. Kennedy kvæntist Jacqueline Bouvier þann 12. september árið 1953 og eignuðust þau tvö börn: Caroline Bouvier Kennedy, sem fæddist árið 1957, og John F. Kennedy yngri, sem fæddist árið 1960. Þingmaður. Eftir að hafa lokið herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni sneri hann sér að stjórnmálum. Fyrir tilstilli og stuðning föður síns, Josephs P. Kennedy eldri sem var mjög valdamikill og er talinn hafa beitt sér óeðlilega fyrir son sinn, náði hann kjöri fyrir demókrata til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1947. Hann sat þar til ársins 1953 þegar hann var kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts. Hann gengdi þeirri stöðu uns hann var kjörinn forseti árið 1960 þegar hann sigraði frambjóðanda repúblíkana, Richard M. Nixon með litlum mun. Forsetatíð. Kennedy var næst yngstur til að gegna embætti forseta, á eftir Theodore Roosevelt og yngstur til að vera kjörinn, 43 ára. Af málum sem settu mark sitt á valdatíð hans má nefna Svínaflóainnrásina, Kúbudeiluna svokölluðu, þegar Sovétmenn hófu flutning kjarnorkuflauga til Kúbu, bygging Berlínarmúrsins, geimkapphlaupið við Sovétríkin, mannréttindabaráttu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna og upphaf Víetnamstríðsins. Kennedy þótti hófsamur í skoðunum og viljugur til friðsamlegra lausna á vandamálum sem meðal annars sýndi sig í Kúbudeilunni. Einnig hafa ýmsir haldið því fram átökin í Víetnam hefðu ekki þróast út í það mikla stríð sem varð ef Kennedy hefði náð að sitja út kjörtímabil sitt til ársins 1964. Fræg eru orð sem hann mælti í innsetningarræðu sinni: „Spurðu ekki hvað land þitt getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir land þitt“. Morðið á Kennedy. Kennedy var ráðinn af dögum þann 22. nóvember 1963 í Dallas í Texasríki í Bandaríkjunum. Lee Harvey Oswald sem ákærður var fyrir morðið var myrtur tveimur dögum síðar af Jack Ruby, áður en réttað var yfir honum. Í kjölfarið fór fram mikil rannsókn á vegum FBI og Warren-nefndarinnar og úrskurðaði hún að Oswald hefði verið einn að verki. Miklar getgátur hafa þó ávalt verið um að svo hafi ekki verið og árið 1976 var sett á fót sérstök rannsóknarnefnd (e. HSCA) á vegum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem rannsaka átti meðal annars morðið á Kennedy. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði verið að verki en líklega sem hluti af samsæri, án þess að getið væri sérstaklega um hverjir hefðu átt þar hlut að máli. Tenglar. Kennedy, John F. Dwight D. Eisenhower. Dwight David Eisenhower (14. október 1890 – 28. mars 1969) var 34. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1953 til 20. janúar 1961 fyrir repúblikana. Í Síðari heimsstyrjöldinni var hann yfirmaður alls herafla Bandamanna í Evrópu og stjórnaði meðal annars innrásum í Frakkland og Þýskaland 1944 til 1945. 1949 varð hann fyrsti yfirhershöfðingi herja NATO. Í forsetatíð hans lauk Kóreustríðinu 1953, auknu fé var veitt til þróunar kjarnavopna og kapphlaupið um geiminn hófst. Tenglar. Eisenhower, Dwight D. Repúblikanaflokkurinn. Repúblikanaflokkurinn (e. Republican Party, gengur oft undir skammstöfuninni GOP fyrir Grand Old Party) er stjórnmálaflokkur í Bandaríkjunum og annar tveggja stórra flokka þar í landi, hinn mun vera Demókrataflokkurinn. Af þeim tveimur er Repúblikanaflokkurinn talinn íhaldssamari en það má rekja til þess að í gegnum tíðina hefur flokkurinn stutt afskiptalausa auðvaldsstefnu, lága skatta og íhaldssöm gildi. Opinbert kennimerki flokksins er fíll og rekja má uppruna þess til ársins 1874 þegar Thomas Nast birti skopmynd af samskiptum tveimur stærstu flokkanna en fíll lék þar hlutverk repúblikana. Saga. Flokkurinn var stofnaður árið 1854 í Ripon í Wisconsin til þess að berjast gegn útbreiðslu þrælahalds og stuðla að nútímavæðingu Bandaríkjanna. Flokkurinn samanstóð aðallega af fyrrum Viggum (e. Whig party) en sá flokkur hafði leyst upp vegna deilna innan flokksins. Hann var ótengdur nafna sínum Demókratíska Repúblikanaflokkinum sem Demókrataflokkurinn á rætur sínar að rekja til. Í byrjun var flokkurinn aðallega bundinn við miðvesturríkin og barðist hann gegn því að þrælahald breiddist út til vesturríkjanna. Áhrif flokksins jukust í miðvesturríkjunum og breiddust út til norðurs og árið 1856 völdu þeir sinn fyrsta forsetaframbjóðanda, það var John C. Fremont landkönnuður. Abraham Lincoln varð hins vegar fyrsti frambjóðandi flokksins sem var kjörinn forseti Bandaríkjanna, það var árið 1861. Hingað til hafa repúblikanar átt 18 forseta, á meðal þeirra þekktustu, fyrir utan Lincoln, eru James Garfield, Theodore Roosevelt, Dwight D. Eisenhower, Richard M. Nixon, Ronald Reagan og George W. Bush. Frá stofnun og fram yfir miðja 20. öld var flokkurinn sterkastur í norðausturríkjunum, miðvesturríkjunum og á vesturströndinni á meðan demókratar voru ósigrandi í suðrinu. Á síðustu áratugum hefur þetta algjörlega snúist við, repúblikanar sækja langmest fylgi sitt til suðurs á meðan demókratar sækja sitt aðallega til miðvestur- og norðurríkjanna. Stefnumál. Upphaflegu stofnendur flokksins vildu ekki viðurkenna rétt ríkja til að stunda þrælahald en í dag styður flokkurinn helstu baráttumál ríkja gegn ríkisstjórninni og er á móti því að ríkisstjórnin ráði málum sem hafa í gegnum tíðina verið hlutverk ríkjanna sjálfra að ráða, svo sem menntamál. Repúblikanar vilja hafa skatta lága til að örva efnahaginn og eru almennt á móti því að ríkisstjórnin komi reglu á efnahaginn. Flestir meðlimir flokksins eru þó fylgjandi því að ríkisstjórnin setji reglur þegar kemur að einkalífi fólks í málum sem koma efnahagslegu frelsi ekki við, líkt og fóstureyðingum. Þó er flokkurinn almennt ekki fylgjandi því að setja reglur þegar kemur að byssueign. Repúblikanar eru líklegri til að styðja skipulagðar bænastundir í skólahaldi og vera á móti lögleiðingu jafnra réttinda samkynhneigðra. Utanríkisstefna repúblikana hefur í gegnum tíðina verið sú að hafa vernda land og þjóð og óvægni þegar kemur að hagsmunum þjóðaröryggis þrátt fyrir mótstöðu alþjóðasamfélagsins. Forsetar Bandaríkjanna úr Repúblikanaflokknum. Átján af forsetum bandaríkjanna hafa komið úr röðum repúblíkana. Guðlaugur Þór Þórðarson. Guðlaugur Þór Þórðarson (fæddur 19. desember 1967) er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Hann hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík frá árinu 2003 og var heilbrigðisráðherra 2007 – 2009. Í aðdraganda þingkosninganna 2009 varð Guðlaugur að miðpunkti styrkjahneykslis sem skók Sjálfstæðisflokkinn. Í ljós kom að Guðlaugur hafði haft milligöngu um samtals 55 milljóna króna styrk frá FL Group og Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins nokkrum vikum áður en lög gengu í gildi sem bönnuðu slíkar styrkveitingar. Þá hafði hann þegið mun hærri upphæðir í styrki frá fyrirtækjum en aðrir frambjóðendur vegna þingkosninganna 2007. Æviágrip. Guðlaugur gekk í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan árið 1987. Guðlaugur starfaði sem umboðsmaður hjá Brunabótafélagi Íslands í eitt ár frá 1988 – 1989. Svo hjá Vátryggingafélagi Íslands 1989 – 1993. Í eitt ár, frá 1996 – 1997, var hann kynningarstjóri hjá Fjárvangi, framkvæmdastjóri Fíns miðils, útvarpsfyrirtækis, næsta árið, 1997 – 1998, forstöðumaður hjá Fjárvangi/Frjálsa fjárfestingarbankanum á árunum 1998 – 2001 og loks forstöðumaður hjá tryggingadeild Búnaðarbanka Íslands 2001 – 2003. Hann var í stjórn SUS á árunum 1987 – 1997, þar af formaður frá 1993. Hann lauk B.A.-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1996. Var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur 1998 – 2006. Guðlaugur leiddi framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í þingkosningunum árið 2007 og í Reykjavíkurkjördæmi suður í þingkosningunum 2009 en var felldur úr því sæti af kjósendum flokksins vegna útstrikana á kjördegi. Guðlaugur atti kappi við Illuga Gunnarsson um 1. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna sem haldið var 14. og 15. mars 2009 og tapaði þeim slag og hlaut annað sætið, sama sætið og hann vann í prófkjörsslag við Björn Bjarnason árið 2006, sem var leiðtogasæti í Reykjavíkurkjördæmi suður. Styrkveitingar til Guðlaugs. Styrkveitingar til Guðlaugs voru til umræðu í fjölmiðlum á árunum 2009 og 2010. Hinn 4. júní 2010 upplýsti Guðlaugur um nöfn flestra styrktaraðilanna fyrir prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík 2006. Fyrir það prófkjör þáði Guðlaugur samtals 24,8 milljónir króna í styrki, þar af styrktu Baugur, FL Group og Fons Guðlaugur um 2 milljónir hvert fyrirtæki. Voru styrkveitingarnar mun hærri en aðrir frambjóðendur til Alþingis höfðu þegið, en sá sem kom næst á eftir Guðlaugi, Sjálfstæðismaðurinn Illugi Gunnarsson, hafði þegið 14,5 milljónir. Umsjón Guðlaugs með styrkveitingum til Sjálfstæðisflokksins. Orðstír Guðlaugs beið einnig mikinn hnekki vegna aðkomu Guðlaugs að styrkjamálsinu svokallaða, sem upp kom um páskana 2009, hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar. Í ljós kom að Guðlaugur Þór hafði í lok árs 2006 haft milligöngu um 30 milljón króna styrk frá FL Group og 25 milljón króna styrk frá Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins. Þótti málið koma Sjálfstæðisflokknum sérstaklega illa, því skömmu eftir styrktargreiðslurnar kom hann mjög við sögu í REI-málinu, en það hefði getað verið styrktaraðilunum verulega ábátasamt. Guðlaugur Þór vék ekki sæti þrátt fyrir harðvítug átök innan Sjálfstæðisflokksins vegna styrkjamálsins. Hann féll um sæti vegna útstrikana á kjördegi 25. apríl 2009 og fór niður í annað sætið, á eftir Ólöfu Nordal. Herbert Hoover. Herbert Clark Hoover (10. ágúst 1874 – 20. október 1964) var 31. forseti Bandaríkjanna frá 4. mars 1929 til 4. mars 1933 fyrir repúblikana. Hann átti upptökin að nokkrum mikilvægum umbótum en er fyrst og fremst minnst fyrir heimskreppuna 1929 og þau vandræði sem fylgdu í kjölfarið. Hoover-stíflan er nefnd í höfuðið á honum. Hoover, Herbert Clark Calvin Coolidge. John Calvin Coolidge (4. júlí 1872 – 5. janúar 1933) var 30. forseti Bandaríkjanna frá 2. ágúst 1923 til 4. mars 1929 fyrir repúblikana. Hann var varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Warrens G. Harding og tók við af honum þegar hann lést í embætti. Hann vann síðan forsetakosningarnar 1924 auðveldlega. Meðal þekktustu embættisverka Coolidges var að veita frumbyggjum Bandaríkjanna fullan ríkisborgararétt. Coolidge, John Calvin Coolidge, John Calvin Abasínska. Abasínska (abasínska: Абаза) er kákaus-tungumál sem er talað í Karachay-Cherkess lýðveldinu í Rússlandi. 45.000 manns tala hana. Pastú. Pastú eða pashto (پښتو) er tungumál sem er talað í Suður-Asíu og er opinbert tungumál í Afganistan. 40-50 milljónir manns tala pashto sem móðurmál. Pastú er indó-íranskt tungumál, eins og persneska. Það eru tvær mállýskur í pastú, norður-mállýska og suður-mállýska. Pastú var gert að opinberu tungumáli í Afganistan 1936, þó stjórnvöld í Afganistan tali dara. Aserbaídsjanska. Aserbaídsjanska (aserbaídsjanska: Azərbaycan dili, Азәрбајҹан дили, آذربايجان ديلی) er opinbert tungumál í Aserbaídsjan og er talað í Mið-Asíu af meira en 30 milljónum manna. Aserbaídsjanska var skrifuð með latnesku stafrófi, arabísku stafrófi og jafnvel kýrillísku stafrófi. "(sjá Aserbaídsjanska stafrófið). Aserbaídsjanska er tyrkískt tungumál, sem þýðir að hún er svipuð kasaksku, tyrknesku, kírgísku, og úsbekísku. Pixies. Pixies er bandarísk rokkhljómsveit sem stofnuð var 1986 í Boston, Massachusetts. Hún hætti árið 1993 en kom þó saman aftur árið 2004. Black Francis, Joey Santiago, Kim Deal, og Dave Lovering hafa verið meðlimir sveitarinnar allan hennar starfsaldur. Pixies nutu meðal vinsælda í heimalandinu en meiri á Bretlandseyjum og öðrum Evrópulöndum. Warren G. Harding. Warren Gamaliel Harding (2. nóvember 1865 – 2. ágúst 1923) var bandarískur stjórnmálamaður og 29. forseti Bandaríkjanna fyrir repúblikana frá 4. mars 1921 þar til hann lést tveimur árum síðar 57 ára að aldri. Forsetatíð hans einkenndist af íhaldssemi og "laissez-faire" í bæði efnahags- og félagsmálum. Harding, Warren G. Woodrow Wilson. Thomas Woodrow Wilson (28. desember 1856 – 3. febrúar 1924) var 28. forseti Bandaríkjanna frá 4. mars 1913 til 4. mars 1921. Áður var hann skólastjóri Princeton háskólans og ríkisstjóri New Jersey. Í forsetatíð hans var bandaríski seðlabankinn stofnaður. 1917 kom hann á herskyldu þegar Bandaríkjamenn hófu þátttöku í Fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir styrjöldina átti hann mikinn þátt í stofnun Þjóðabandalagsins og skilyrðum Versalasamningsins en samningurinn var ekki samþykktur af öldungdeildinni né heldur gengu Bandaríkjamenn í Þjóðabandalagið. Wilson er almennt talinn með betri forsetum Bandaríkjanna frá upphafi en kynþáttahyggja hans hefur óumdeilanlega skyggt á ímynd hans í seinni tíð. Wilson, Woodrow Brent Shaw. Brent D. Shaw er fornfræðingur og sagnfræðingur sem kennir fornaldarsögu við Princeton háskóla í New Jersey í Bandaríkjunum. Shaw lauk B.A. í fornfræði og mannfræði við University of Alberta árið 1968 og M.A. gráðu í fornfræði og fornaldarsögu við sama skóla 1971. Hann lauk doktorsgráðu frá Cambridge University árið 1978. Shaw er sérfræðingur um Rómaveldi, Rómarsögu, einkum keisaratímann, rómversk trúarbrögð og rómverskar fornleifar. Tengill. Shaw, Brent Slys. Slys er þegar eitthvað fer óvænt og óviljandi úrskeiðis þannig að skaði hljótist af. Alvarlegustu slysin eru banaslys þar sem einhver lætur lífið. Slys geta falið í sér skaðabótaskyldu þegar einhver er valdur að slysi með gáleysi, með því að hlíta ekki öryggisreglum eða með því að gera ekki eðlilegar öryggisráðstafanir þar sem hætta er á slysum, t.d. við akstur bifreiðar eða á sjó. Tónskáld. Tónskáld er einhver sem semur tónlist. Heitið á einkum við þá sem skrifa niður tónlist með einhvers konar nótnaskrift þannig að aðrir geti flutt hana. Tímaflakk (útvarpsleikrit). Tímaflakk var íslenskt útvarpsleikrit, eða „útvarpssápuópera“ eins og þátturinn kallaði sig sjálfur, sem sendur var út á Rás 2. Að baki þessum þáttum stóðu þeir Bjarni Baldvinsson, Eyvindur Karlsson og Þórhallur Þórhallsson. Þátturinn fjallaði um þá sjálfa eftir 14 þúsund ár þegar fundin hefðu verið lyf gegn elli og dauða. 7. öldin f.Kr.. Aldir: 9. öldin f.Kr. - 8. öldin f.Kr. - 7. öldin f.Kr. - 6. öldin f.Kr. - 5. öldin f.Kr. 7. öldin fyrir Krists burð eða 7. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 700 f.Kr. til enda ársins 601 f.Kr. Hipparkos (Platon). "Hipparkos" er samræða sem var eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Fræðimenn eru flestir á einu máli um að verkið hafi verið ranglega eignað Platoni. Fyrsti maí. Mynd úr Harper's Weekly frá 1886 af Blóðbaðinu á Haymarket í Chicago. Fyrsti maí, einnig kallaður hátíðisdagur verkamanna er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. 1889 hittust fulltrúar (annarra) alþjóðasamtaka kommúnista á ráðstefnu í París, í tilefni af því að hundrað ár væru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna. Þar var ákveðið að gera fyrsta maí að baráttudegi hreyfingarinnar. Þessi tiltekni dagur var valinn meðal annars til að minnast blóðbaðsins á Haymarket í Chicago í Bandaríkjunum þremur árum áður. Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á fyrsta maí gengin 1923 og hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966. Í Bandaríkjunum og Kanada er haldið upp á verkalýðsdag (Labor Day) fyrsta sunnudag í september. Hugmyndin um að heiðra verkamenn á þennan hátt var sett fram í Bandaríkjunum árið 1882 og fyrstu lagaákvæðin voru sett þar árið 1887. Í Ástralíu og Nýja-Sjálandi er haldið upp á verkalýðsdag í október. Tenglar. Þorsteinn Sæmundsson, á vef Almanaks Háskóla Íslands, síðast breytt 24. 9. 2010 William Howard Taft. William Howard Taft (15. september 1857 – 8. mars 1930) var 27. forseti Bandaríkjanna fyrir repúblikana frá 4. mars 1909 til 4. mars 1913. Hann var stríðsmálaráðherra í ríkisstjórn Theodore Roosevelt. Taft hafði þau völd að hann varð í reynd forseti í fjarveru Roosevelts. Roosevelt studdi síðan framboð Tafts til forseta. Síðar varð ósætti milli þeirra sem klauf flokkinn fyrir forsetakosningarnar 1912. Það varð til þess að demókratinn Woodrow Wilson vann kosningarnar. Taft, William Howard Daníelsslippur. Daníelsslippur er slippur í Vesturhöfn Reykjavíkurhafnar. Slippurinn var stofnaður árið 1936 af Daníel Þorsteinssyni sem hann er kenndur við. Vegna nýs skipulags fyrir Mýrargötusvæðið 2003 var ákveðið að slippurinn færi þaðan. Síðasta skipið var afgreitt úr slippnum 30. október 2006. Reykjavíkurhöfn. a> í Austurhöfninni fyrir miðri mynd. Reykjavíkurhöfn er höfn sem liggur út frá Kvosinni í Miðborg Reykjavíkur í Reykjavíkinni utanverðri. Elsti hluti hennar, Ingólfsgarður, var reistur frá 1913 til 1915 og lokið var við gerð Örfiriseyjargarðs 1917. Síðan þá hefur höfnin þróast mikið. Höfnin skiptist í tvennt við Ægisgarð, Vesturhöfn (Grandagarður og Daníelsslippur) og Austurhöfn (smábátahöfnin, verbúðaruppfyllingin og Faxagarður). Mest atvinnustarfsemi er orðið í Vesturhöfninni þar sem landað er á Grandagarði en í Austurhöfninni eru aðallega smábátar, skútur og skemmtiferðaskip auk þess sem Landhelgisgæsla Íslands og Hafrannsóknarstofnun Íslands hafa verið með aðstöðu á Faxagarði. Uppskipun úr flutningaskipum sem áður var í Austurhöfninni fluttist öll í Sundahöfn eftir árið 1968. Nú standa yfir miklar framkvæmdir við Faxagarð og Ingólfsgarð í Austurhöfninni þar sem verið er að leggja lokahönd á tónlistar- og ráðstefnumiðstöðina Harpan. Í nóvember 2006 komu síðan fram hugmyndir um að reisa hafnargarð og móttöku fyrir skemmtiferðaskip gegnt Sjávarútvegshúsinu utan við Ingólfsgarð í tengslum við framkvæmdirnar. Saga Reykjavíkurhafnar. Áður en höfnin var gerð var náttúruleg höfn og skipalægi austan við Örfirisey, en verslunarhús höfðu staðið á Hólminum vestan Örfiriseyjar. Skipalægið þótti ekki gott, sérstaklega þegar minni skútur tóku að landa fiski þar á 19. öld, vegna strauma og vegna þess hve opið það var fyrir norðlægum vindáttum. Kaupmenn í Reykjavík höfðu þá reist nokkrar trébryggjur í fjörunni, sem hófst norðan megin við Hafnarstræti, en engin þeirra hæfði fyrir skip vegna grynninga og selflytja varð aflann í land með smábátum. Hafist var handa við hafnargerðina fyrst árið 1913 vegna ótta verslunareigenda í Kvosinni við áform um hafnir annað hvort í Nauthólsvík í landi Skildinganess (í lögsagnarumdæmi Seltjarnarness) eða í Viðey. Að auki hafði hin náttúrulega höfn austan Örfiriseyjar versnað við að grandinn sem lá út í eynna rofnaði 1902 svo að sjór gekk látlaust yfir. Ofsaveður 1910 þar sem mörg skip slitnuðu upp og skemmdust í hafnarlegunni átti einnig þátt í að þrýsta á um framkvæmdir. Fyrstu framkvæmdirnar miðuðu að því að reisa Grandagarð og gera síðan brimgarð (Örfiriseyjargarður) til austurs frá Örfirisey. Frá austri (frá Batteríinu) var síðan reistur annar garður, Ingólfsgarður, sem kom til móts við hinn og afmarkaði þannig hafnarsvæðið. Lögð var járnbraut frá Öskjuhlíð að höfninni til að flytja efni til hafnargerðarinnar. Fyrsti hluti hafnarinnar sem lokið var við var Ingólfsgarður og þar var gerð fyrsta bryggjan í Reykjavík sem úthafsskip gat lagst við. Bryggjan var kölluð Kolabryggja. Uppskipun úr flutningaskipum var mest í Austurhöfninni þar sem voru kranar og önnur aðstaða til flutninga. Fljótlega eftir Síðari heimsstyrjöldina varð ljóst að sú aðstaða var of lítil. 1960 hófust framkvæmdir við Sundahöfn sem opnaði fyrsta áfanga árið 1968. Eftir það fluttist öll flutningastarfsemi þangað og Austurhöfnin varð viðleguhöfn, meðal annars fyrir Landhelgisgæsluna. System of a Down. System of a Down (oft nefnd SOAD eða System) er bandarísk rokkhljómsveit stofnuð í Los Angeles árið 1995. Allir meðlimirnir fjórir, Serj Tankian, Daron Malakian, Shavo Odadjian og John Dolmayan, eru af armenskum uppruna og eru þekktir fyrir það að láta í ljós stjórnmálaskoðanir sínar með lagasmíðum. Þekktustu lög fjórmenningana eru „Chop Suey“, „Toxicity“, „Aerials“, „B.Y.O.B. (Bring Your Own Bombs)“, „Question!“, „Lonely Day“, „Sugar“ og „Hypnotize“. Upphafið (1995-1998). Þegar "Soil", hljómsveit Tankian og Malakian flosnaði upp, tóku þeir sig saman og bjuggu til nýja hljómsveit. Þeir báðu Odadjian, sem þá var í annarri hljómsveit, um að vera með hljómsveitinni og hann vann fyrst í stað sem umboðsmaður hljómsveitarinnar. Hann fékk þó fljótlega hlutverk bassaleikara í nýju hljómsveitinni, System of a Down. Ein af fyrstu útgáfum sveitarinnar var lagið „Sugar“ sem er spilað á hverjum tónleikum sveitarinnar. Andy Khachaturian kom inn í hljómsveitina sem trommuleikari og með honum hljóðritaði sveitin nokkrar prufuplötur. Fyrsta platan (1998). Eftir útgáfu þriðju prufuplötunnar hætti Khachaturian í hljómsveitinni og John Dolmayan var fenginn í stað hans. Sveitin skrifaði undir samning við plötufyrirtæki Rick Rubin og sumarið 1998 kom fyrsta platan út - var hún samnefnd hljómsveitinni. Platan hlaut engar geysivinsældir en þó varð "Sugar" vinsælt í útvarpi. Á eftir komu smáskífurnar "Spiders" og "War?". System of a Down fór í tónleikaferðalag og hituðu upp meðal annars fyrir Slayer. Á Ozzfest-tónlistarhátíðina komust fjórmenningarnir og spiluðu þar á næst stærsta sviðinu. Upp frá því fóru þeir í tónleikaferðalag með Fear Factory og Incubus. Árið 2000 hljóðrituðu þeir ábreiðu (e.: "cover") af Black Sabbath-laginu „Snowblind“ og komst hún á plötuna Nativity in Black 2. Farsælt gengi: "Toxicity/Steal this album!" (2001). Hljómsveitin sló í gegn þegar önnur breiðskífa hennar, "Toxicity", komst í fyrsta sæti bæði bandaríska og kanadíska listans og hlaut hún margfalda platínusölu, með alls 6 milljónir seldra eintaka um heim allan. Platan var enn í efsta sæti bandaríska listans þegar hryðjuverkaárásinar 11. september voru framdar. Þar sem lögin á plötunni voru uppfull af stjórnmálaskoðunum voru sum þeirra talin „óviðeigandi“ útvarpi, m.a. hið geysivinsæla lag "Chop Suey!" en í textanum segir meðal annars „trust in my self-righteous suicide“. Myndbandið var mikið spilað á MTV og líka næsta smáskífan, "Toxicity". Þrátt fyrir mótbyr hlaut "Chop Suey!" Grammy-tilnefningu og hljómsveitin hlaut mikla spilun á bandarískum útvarpsstöðvum á árunum 2001 og 2002 með "Toxicity" og "Aerials" í aðalhlutverkum. Í maí 2006 setti VH1 Toxicity í 14. sæti á lista sínum yfir 40 bestu þungarokkslög allra tíma. Undir lok árs 2001 láku nokkur óútgefin lög hljómsveitarinnar út á Netið. Hljómsveitin gaf frá sér yfirlýsing að lögin væru óklárað efni og í nóvember 2002 gáfu þeir þau út á B-hliðarbreiðskífunni "Steal This Album!". Útlitið líktist skrifanlegum diski sem hafði verið krabbað á með tússpenna. 50.000 ólík eintök voru gefin út, hver með sínu útliti, og voru þau hönnuð af meðlimum sveitarinnar. Nafn disksins var svar við bók Abbie Hoffman sem nefndist "Steal This Book" og skilaboð til þeirra sem dreifðu lögunum um Netið og stunduðu dreifingu ólöglegs efnis. Dolmayan sagði í viðtali „I don’t care if fans download our songs from the internet but I don’t like it when fans get our songs before the release date“ ("Mér er sama þó aðdáendur okkar hali niður tónlistinni okkar af Netinu en mér finnst verra að þeir séu að fá lögin áður en þau eru gefin út"). Smáskífurnar "Innervision" og "I-E-A-I-A-I-O" voru einungis gefnar út í því skyni að kynna útvarpsstöðvum þær en fengu aftur á móti mikla spilun. Myndband við "Boom!" var leikstýrt af Michael Moore og var þar sýnd andstaða við stríðið í Írak. Mezmerize/Hypnotize (2005). Á árunum 2004 og 2005 fóru fram upptökur á nýrri tvöfaldri breiðskífu, Mezmerize/Hypnotize, og kom hvor hluti út með 6 mánaða millibili. Fyrri platan, Mezmerize, kom út í maí 2005 og hlaut lof gagnrýnenda - fyrst vikuna seldust 800 þúsund eintök. Hún komst í efsta sæti vinsældalistanna í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og víðar. Mezmerize var því önnur plata hljómsveitarinnar sem komst í efsta sætið. Smáskífan "B.Y.O.B", sem hlaut Grammy-verðlaun, komst á "Billboard Modern Rock" og "Mainstream Rock" vinsældalistana en hún fjallar um stríð og er andmæli við stríðinu í Írak. Eftir að Mezmerize kom út fóru fjórmenningarnir í tónleikaferðalag um Bandaríkin og Kanada með The Mars Volta og Bad Acid Trip sem stuðningshljómsveitir. Fyrsta smáskífan af "Hypnotize", samnefnd, kom út í nóvember 2005. Líkt og Mezmerize komst hún í 1. sæti bandaríska listans, sem gerði System of a Down þriðju hljómsveitina til að koma tveimur hljóðversplötum í toppsæti þess lista á sama ári - komust þeir þá í hóp Bítlanna og DMX. Í febrúar 2006 hlaut hljómsveitin svo Grammy-verðlaun fyrir „bestu þungarokksframkomuna“ fyrir B.Y.O.B og skildu þannig þekkta tónlistamenn á borð við Nine Inch Nails og Robert Plant eftir með sárt enni. Önnur smáskífan af Hypnotize var "Lonely Day" sem kom út í Bandaríkjunum í mars 2006. Hljómsveitin var jafnframt eitt stærsta númerið á Ozzfest og spiluðu á þeim stöðum þar sem Ozzy Osbourne kom ekki fram. Pása og framtíð hljómsveitarinnar. Í maí 2006 tilkynnti hljómsveitin að hún hygðist í pásu. Malakian staðfesti þetta við MTV og sagði að pásan myndi trúlega verða einhver ár - en tók það fram að System of a Down sé ekki hætt að fullu. Hann sagðist jafnframt þurfa pásu til að „geta lifað lífinu enn frekar“. Hann hyggist vera í hljómsveitinni "Scars on Broadway" og hugsanlega tekur Odadjian þátt í því verkefni. Tankian ætlar að hefja sólóferil en Dolmayan ætlar að opna teiknimyndasölu á Netinu. Síðustu tónleikar sveitarinnar voru 13. ágúst 2006 í West Palm Beach á Flórída. Tónlistarstefna. Tónlist System of a Down fellur undir rokktónlist en það hefur verið deilt um í hvaða undirflokk tónlistin fellur. Margir telja hana „nü metal“ vegna þess að hljómsveitin gaf út fyrstu plötuna þegar nü metal var hvað vinsælast – en System of a Down var farin að semja tónlist löngu fyrr. Einnig hafa þeir verið orðaðir við „thrash metal“ sem er mun hraðara. Fjórmenningar hafa einnig verið bendlaðir við svokallað „progressive rock“ (ísl: "framúrstefnurokk") en við því sagði Malakian „að fólk ætti eftir að bendla þá við þá tónlistarstefnu sem væri í tísku hverju sinni“. Það er því erfitt að setja tónlist System of a Down í einhvern sérstakan flokk, en tónlistin einkennist helst af hröðum hljóðfæraleik og taktbreytingum. Síbreytileg rödd Tankian er einnig einkennandi og hvernig raddir hans og Malakians mynda andstæður hvor við aðra. Áhrif. Helstu áhrifavaldar System of a Down koma af sviði rokktónlistar, þungarokks, djass, úr armenskri tónlistarhefð sem og líbanskri tónlist. Hljómsveitin hefur nafngreint Bítlana og KISS sem áhrifavalda. Hljóðfæri sem hljómsveitin notar eru ekki öll hin hefðbundnum þungarokkshljóðfæri heldur nota þeir t.d. sítar og mandólín. Norges Toppidrettsgymnas. Norges Toppidrettsgymnas ("Íþróttamenntaskóli Noregs") er norskur einkaskóli á menntaskólastigi sem leggur áherslu á íþróttir og þjálfar þannig afreksmenn í íþróttum meðfram námi. NTG er staðsettur í Bærum, Geilo, Kongsvinger og Lillehammer. Ronald Syme. Sir Ronald Syme (11. mars 1903 – 4. september 1989) var nýsjálenskur sagnfræðingur og fornfræðingur. Æviágrip. Syme var fæddur og uppalinn á Nýja sjálandi. Hann nam franskar bókmenntir og fornfræði við háskólann í Auckland. Árin 1925-1927 nam hann fornfræði við Oxford háskóla á Bretlandi og brautskráðist þaðan með gráðu í fornaldarsögu og heimspeki. Árið 1949 hlaut hann stöðu Camden-prófessors í fornaldarsögu við Brasenose College í Oxford og gegndi hann þeirri stöðu til starfsloka. Syme var einnig félagi á Wolfson College í Oxford frá 1970, þar sem árlegur fyrirlestur er haldinn í minningu hans. Hann var aðlaður árið 1959. Syme hélt áfram skrifum sínum um fornfræði þar til hann lést 86 ára gamall. Ritverk. Helsta rit Symes var "The Roman Revolution" (1939), sem var greining á rómverskum stjórnmálum í kjölfar morðsins á Júlíusi Caesar. Syme samdi einnig ævisögu Tacitusar í tveimur bindum (1958) og rit um rómverska sagnaritarann Sallústíus (1964). Syme, Ronald Syme, Ronald Ísajos. Ísajos (uppi á 4. öld f.Kr.) var einn af attísku ræðumönnunum tíu samkvæmt alexandrísku hefðinni. Hann var nemandi Ísókratesar í Aþenu en kenndi síðar Demosþenesi auk þess að vinna fyrir sér sem ræðuhöfundur fyrir aðra. Einungis ellefu ræður eru varðveittar eftir Ísajos auk brota úr þeirri tólftu. Þær fjalla að mestu leyti um erfðamál en ein þeirra fjallar um borgaraleg réttindi. Díonýsíos frá Halikarnassos líkti stíl hans við stíl Lýsíasar en Ísajos virðist hafa verið hrifnari af hvers kyns rökbrellum. Andókídes. Andókídes (forngríska Ανδοκίδης, 440 – 390 f.Kr.) var einn af attísku ræðumönunum tíu samkvæmt alexandrísku hefðinni. Attísku ræðumennirnir. Ræður þeirra voru ein meginfyrirmynd attisista síðar meir. Hippías minni (Platon). "Hippías minni" (eða "Um lygi") er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Samræðan er í hópi elstu samræðanna, samin á yngri árum Platons en ekki er vitað nákvæmt ártal hennar. Samræðan er nefnd eftir fræðaranum Hippíasi frá Elís sem er viðmælandi Sókratesar í samræðunni. Hippías meiri (Platon). "Hippías meiri" (eða "Um fegurðina") er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Hún er meðal elstu samræðanna, samin á yngri árum höfundar. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær samræðan var samin en fræðimenn giska á að hún hafi verið samin um 390 f.Kr. Samræðan er nefnd eftir fræðaranum Hippíasi frá Elís sem er viðmælandi Sókratesar í samræðunni. Efni samræðunnar. Í "Hippíasi meiri" freista þeir Hippías og Sókrates þess að skilgreina fegurðina en hafa ekki erindi sem erfiði því þeir geta ekki fundið skilgreiningu sem nær yfir hugtakið allt. Hippías hittir Sókrates. Hippías, sem hefur verið lengi í burtu frá Aþenu, kemur til borgarinnar til að halda fyrirlestra í skóla Feidostratosar. Hann hittir Sókrates sem spyr hann hvers vegna svo vitur og mætur maður sem Hippías hafi ekki leyft Aþeningum að njóta nærveru sinnar svo lengi. Fræðarinn útskýrir að heimaborg hans, Elís, hafi þurft á honum að halda og að honum hafi verið fldar ýmsar opinberar sendiferðir til annarra borga, m.a. Spörtu. Hann nýtti ferðina til að uppfræða ungt fólk víða um Grikkland og hafi þénað vel. Talið berst að fegurð og Sókrates segist hafa sætt ámælum frá kunningja nokkru áður fyrir að kunna ekki að skilgreina fegurð. Hann er því feginn að svo mætur maður sem Hippías geti nú hjálpað honum að komast til botns í málinu. Skilgreiningar Hippíasar. Hippías hefur gefið dæmi um fegurð í stað þess að skilgreina hana. „Skilgreiningunni“ er hafnað af því að það er til heilmargt fagurt auk fallegra stúlkna. Gull, segir Hippías, gerir allt fallegra. En Sókrates bendir á að þá sé erfitt að sjá hvað sé fallegt við styttu Feidíasar af Aþenu sem stendur í Meyjarhofinu, því hún er að mestu úr fílabeini. Hippías bætir við að fegurðin sé einnig að vera við góða heilsu og ná háum aldri, að jarða foreldra sína með vegsemd og vera jarðaður á sama hátt af afkomendum sínum. En hvað, spyr Sókrates, um Akkilles og Herakles? Var engin fegurð í þeirra lífi af því að þeir lifðu ekki foreldra sína og voru ekki jarðaðir af afkomendum sínum? Skilgreiningarnar eru allar ræddar en niðurstaðan er sú að þær séu allar rangar. Tilraunir Sókratesar. Hippías er ánægður með þessa tilraun. En við nánari skoðun komast þeir að því að það sem er viðeigandi getur bæði verið fagurt og veitt einungis ásýnd fegurðar, líkt og þegar ljótur maður er settur í fín föt og klæddur upp. Nú leggur Sókrates til að fegurðin sé nytsamleg eða gagnleg. En hlutir geta gagnast til góðra verka og slæmra og fegurð er bersýnilega ekki það sem gagnast til slæmra verka. Að lokum leggur Sókrates til að fegurðin sé það sem gleður okkur þegar við sjáum það. En gallinn sem Sókrates sér við uppástunguna er sá að skilgreiningin tekur ekki tillit til fegurðarinnar sem veitir æðri ánægju, eins og t.d. laganám eða annað nám. Niðurstaða. Þeir Sókrates og Hippías þreytast þegar niðurstaðan er enn á sömu leið: Engin skilgreininganna er rétt eða fullnægjandi. Þeir gefast því upp en Sókrates segist nú skilja betur gríska málsháttinn að „fagrir hlutir séu erfiðir“. Listi yfir lög sem Clear Channel mat óviðeigandi eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. __NOTOC__ Þetta er listi yfir lög sem Clear Channel mat óviðeigandi eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Dagana eftir árásirnar breyttu margar útvarps- og sjónvarpsstöðvar dagskrá sinni og fyrirtækið Clear Channel Communications dró fram lista yfir lög sem höfðu „óviðeigandi“ texta í ljósi nýliðinna atburða. Forstjóri Clear Channel benti þó á, mánuði eftir hryðjuverkin, að listinn væri einungis tillaga og ekki lög á nokkurn hátt. Njósnafyrirtækið Snopes rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að listinn væri til sem tillaga en væri ekki regla sem útvarpsstöðvar þyrftu að fylgja. Listinn inniheldur 165 lög, auk „allra“ laga Rage Against the Machine. Clear Channel dreifði listanum að neðan og er hann í stafrófsröð eftir flytjendum. Bryggja. Bryggja er fastur pallur við vatn eða sjó þar sem skip eða bátar leggja að og eru fermd og affermd. Ólíkt hafnargarði rennur vatnið frjálst undir bryggju og hún skapar þannig minni hættu á brimi og uppsöfnun sands eða leðju á botninum. Sérstök tegund af bryggju er flotbryggja. Grandahólmi. Grandahólmi er hólmi sem nú er orðinn hluti af uppfyllingu á Örfirisey. Þar telja sumir að upphaflega hafi staðið verslunarhús danskra kaupmanna í Reykjavík (Hólmskaupstaður) frá því verslun hófst í Reykjavík um 1520 en aðrir hafa bent á að ólíklegt sé að nothæft skipalægi hafi verið vestan við Örfirisey og því líklegra að kaupstaðurinn hafi verið við víkina. 1715 voru síðan verslunarhús reist í Örfirisey. Fyrir utan Grandahólma eru Hólmasker í Hólmasundi milli Örfiriseyjar og Akureyjar. Þar hefur hugsanlega fyrr á tímum verið gengt yfir á fjöru. Átjánda konungsættin. Átjánda konungsættin í Egyptalandi hinu forna er hugsanlega frægasta konungsættin í sögu Forn-Egypta. Hún telur nokkra af valdamestu faraóum Egyptalands og Tútankamon sem varð einhver frægasti fornleifafundur sögunnar þegar gröf hans fannst óhreyfð í Dal konunganna. Stofnandi konungsættarinnar var Amósis 1., bróðir Kamósiss, síðasta konungs sautjándu konungsættarinnar. Amósis tókst að losa Egyptaland endanlega við hina hötuðu Hyksos sem ríktu yfir Egyptalandi á öðru millitímabilinu (um 1648-1540 f.Kr.). Með átjándu konungsættinni hefst því Nýja ríkið í Egyptalandi. Meðal þekktustu valdhafa þessa tímabils má nefna Hatsepsut drottningu (sem ríkti fyrir ungan stjúpson sinn), Amenhótep 3. sem fyrstur skrifaðist reglulega á við valdhafa í öðrum löndum, og Akenaten sem bjó til ný trúarbrögð. Tímaás yfir átjándu konungsættina. "En sjá Tímasetningar í sögu Egyptalands hins forna" 18 Nítjánda konungsættin. Nítjánda konungsættin var önnur konungsætt Nýja ríkisins. Hún var stofnuð af embættismanninum Ramses 1. sem Hóremheb kaus sér að eftirmanni. Þessi konungsætt er þekktust fyrir landvinninga í Ísrael, Líbanon og Sýrlandi. Egypska ríkið náði sinni mestu útbreiðslu í valdatíð Setis 1. og Ramsesar 2. sem áttu í langvinnum átökum við Líbýumenn og Hittíta. Lokaár konungsættarinnar einkenndust af innbyrðis valdabaráttu milli erfingja Merneptas. Síðasti valdhafinn var Tvosret, ekkjudrottning Setis 2. sem líklega hefur verið steypt af stóli af Setnakte, stofnanda tuttugustu konungsættarinnar. Tuttugasta konungsættin. Tuttugasta konungsættin í Egyptalandi hinu forna var þriðja og síðasta konungsætt Nýja ríkisins. Hún var sett á stofn af Setnakte en helsti valdhafi tímabilsins var Ramses 3. sem tók sér Ramses 2. til fyrirmyndar. Á tíma tuttugustu konungsættarinnar hófust skipuleg grafarrán í Dal konunganna og þurrkar og lágt vatnsborð Nílar ollu því að síðustu konungar ættarinnar voru nánast valdalausir. Í tíð Ramsesar 11. voru það í reynd prestar Amons í Þebu sem ríktu yfir Efra Egyptalandi og Smendes, stofnandi tuttugustu og fyrstu konungsættarinnar, yfir Neðra Egyptalandi. Þriðja millitímabilið. Þriðja millitímabilið í sögu Egyptalands hins forna nær frá dauða síðasta konungs tuttugustu konungsættarinnar, Ramsesar 11., þar til síðasta konungi tuttugustu og fimmtu konungsættarinnar frá Núbíu var steypt af stóli og tuttugasta og sjötta konungsættin tók við. Einkenni á þessu tímabili er veikt konungsvald. Þegar í valdatíð Ramsesar 11. voru æðstuprestar Amons í Þebu orðnir í reynd valdhafar í Efra Egyptalandi og Smendes 1. ríkti yfir Neðra Egyptalandi. Landið var aftur sameinað af Sosenk 1., stofnanda tuttugustu og annarrar konungsættarinnar ("Sísak" í Biblíunni) en eftir valdatíð Osorkons 2. klofnaði landið aftur í tvennt. Borgarastyrjöld og innbyrðis átök klufu síðan þessi ríki enn frekar. Óstöðugleikinn varð til þess að konungar Núbíu gátu aukið vald sitt til norðurs og Píje af tuttugustu og fimmtu konungsættinni tókst að sameina landið undir sinni stjórn. Erfingjar hans Taharka og Tanútamon áttu í átökum við Assýringa og tuttugasta og sjötta konungsættin var mynduð af leppkonungum þeirra. Veldi Egyptalands hafði þá hnignað mikið og Egyptar áttu sér ekki viðreisnar von gagnvart öflugum nýjum heimsveldum Persa og síðar Grikkja og Rómverja. Tuttugasta og fimmta konungsættin. Tuttugasta og fimmta konungsættin í Egyptalandi hinu forna kom frá borgríkinu Napata í Kús þaðan sem Píje lagði allt Egyptaland undir sig. Maneþon minnist hvorki á fyrsta konunginn, Píje, né þann síðasta, Tanútamon, en nægilegar heimildir eru fyrir tilveru þeirra beggja. Tuttugasta og fimmta konungsættin er síðasta konungsætt þriðja millitímabilsins. Frá valdatíma Taharkas voru konungar þessarar ættar reknir æ lengra suður til Núbíu, fyrst af Assýringum og síðan af konungum tuttugustu og sjöttu konungsættarinnar. Afkomendur þeirra settust að í Núbíu þar sem þeir stofnuðu konungsríki í Napata (656 f.Kr. - 590 f.Kr.) og síðar í Meróe (590 f.Kr. - 4. aldar). 25 Hollywood. Hollywood eða Hollívúdd er hverfi í Los Angeles í Bandaríkjunum norðvestan við miðborgina. Vegna sögu hverfisins sem miðpunktar bandarísks kvikmyndaiðnaðar er nafn þess gjarnan notað sem samheiti fyrir gjörvallan sjónvarps- og kvikmyndaiðnað Bandaríkjanna. Nú á dögum hafa þó flest stóru kvikmyndaverin flutt starfssemi sína á aðra staði innan Los Angeles-svæðisins en mörg sérhæfð fyrirtæki sem starfa við kvikmyndir (til dæmis við klippingu, eftirvinnslu, tæknibrellur, lýsingu og leikmuni) eru ennþá staðsett þar. Saga Hollywood. Hollywood var upprunnalega smábær í eyðimörk Kaliforníu. Fyrsta húsið sem var byggt í Hollywood var lítið músteina hús árið 1853. H.J. Whitley er sagðist „Faðir Hollywood“ en var það hann sem umbreytti bænum í ríkt og eftirsótt íbúðahverfi. Um aldarmót 20. aldarinnar var það Whitlney sem stóð á baki þess að rafmangs-, gas- og símalínur voru settar upp í nýja úthverfinu. Þrátt fyrir þetta kusu bæjarbúar Hollywood um það að láta sameina bæinn þeirra við Los Angeles en var það vegna vatnsskorts sem ríkti í Hollywood á þessum tíma. Árið 1911 var fyrsta kvikmyndaverið var opnað á Sunset Boulevard og áður en langt var um liðið voru 20 fyrirtæki byrjuð að framleiða myndir í bænum. Staðsetning, umhverfi og veðurfar Hollywood gerði það að verkum að það ver mjög eftirsóttur staður til þess að taka upp og framleiða myndir. Staðurinn hefur mjög fjölbreytt landslag og var veðrið yfirleitt sólríkt og heitt. Árið 1915 var Hollywood orðin miðpunktur bandaríska kvikmyndaiðnaðarins. En eftir seinni heimstyrjöldinni fór þetta að breytast og fóru menn frekar að taka upp í við alvöru landlag frekar en inni í kvikmyndaveri. Þetta gerði það að verkum að sjónvarps framleiðendur opnuðu upptökuver í gömlu kvikmyndaverunum. Sjónvarpsþáttaiðnaðurinn fór stigvaxandi og á sjötta áratug síðustu aldar og varð Hollywood staðurinn þar sem allir í sjónvarpsþáttaiðnaðinum vildu vera. Hollywoodskiltið. Skiltið var fyrst byggt 1923 og á því stóð „Hollywoodland“ til þess að auglýsa ný hús sem voru í byggingu á svæðinu. Á fjórða áratugnum var skiltið gert upp og var „land“ hlutinn tekinn af. Skiltið sem við þekkjum í dag var reist árið 1978. Amsterdam (bók). "Amsterdam" (1998) er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Ian McEwan, en fyrir hana hlaut hann Booker-verðlaunin árið 1998. Friðþæging. "Friðþæging" (2001) (e. "Atonement") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Ian McEwan og oft talin til hans bestu verka. Bókin komst inn á stutta lista Booker-verðlaunanna árið 2001, en McEwan hafði þegar unnið þau verðlaun einu sinni fyrir skáldsöguna Amsterdam. Bókin var þýdd á íslensku af Rúnari Helga Vignissyni. Steinsteypugarðurinn. "Steinsteypugarðurinn" (e. "The Cement Garden") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Ian McEwan, gefin út árið 1978. Sagan var kvikmynduð árið 1993, undir sama heiti, og léku Charlotte Gainsbourg og Andrew Robertson aðalhlutverkin. Tilvitnun úr bókinni má finna í upphafi lags söngkonunnar Madonnu „What It Feels Like for a Girl“. Bókin var þýdd af rithöfundinum Einari Má Guðmundssyni. Eilíf ást. "Eilíf ást" (e. "Enduring Love") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Ian McEwan. Þýðandi bókarinnar á íslensku er Geir Svansson og hún var gefin út hjá bókaforlaginu Bjarti. Vinarþel ókunnugra. "Vinarþel ókunnugra" (e. "The Comfort of Strangers") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Ian McEwan. Hún var þýdd á íslensku af Einari Má Guðmundssyni. Vernon G. Little. "Vernon G. Little" er skáldsaga eftir ástralska rithöfundinn D.B.C. Pierre, en fyrir hana hlaut hann Booker-verðlaunin árið 2003. Bókin kom út á íslensku hjá bókaforlaginu Bjarti. Kiran Desai. Kiran Desai (fædd 3. september 1971) er indverskur rithöfundur. Skáldsaga hennar "The Inheritance of Loss" vann Booker-verðlaunin árið 2006 og National Book Critics Circle í flokki skáldsagna sama ár. Hún er dóttir rithöfundarins Anita Desai. Desai, Kiran Sagan af Pí. "Sagan af Pí" er skáldsaga eftir kanadíska rithöfundinn Yann Martel, en fyrir hana hlaut hann Booker-verðalaunin árið 2002. Bókin kom út á íslensku hjá bókaforlaginu Bjarti í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar árið 2003. Naustið. Naustið er veitingastaður við Vesturgötu í Reykjavík sem var stofnaður árið 1954. Staðurinn er meðal annars frægur fyrir að hafa átt upptökin að þeim Þorrablótsmatseðli sem almennt er að nota í dag. Staðurinn auglýsti fyrst Þorrablót með þessu sniði árið 1958. Katrín Júlíusdóttir. Katrín Júlíusdóttir (fædd 23. nóvember 1974) er alþingismaður og fyrrum iðnaðar- og fjármálaráðherra. Katrín hefur þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2003 og varaformaður Samfylkingarinnar frá 2013. Paradise City Hardcore. Paradise City Hardcore (paradísar-borgar harðkjarni) (skammstafað PCHC) er frasi sem er notaður af þeim sem stunda pönk og á við harðkjarnapönk-tónlist og hljómsveitir frá Reykjavík. Uppruni orðasambandsins er rekinn til lags með pönk rokk hljómsveitinni The Deathmetal Supersquad sem heitir "„Paradise City“". Thrashcore. Thrashcore (eða þreskjukjarni samkvæmt fréttaritara Morgunblaðsins) er undirflokkur harðkjarnapönktónlistar sem varð til á níunda áratugnum. Thrashcore er harðkjarnapönk sem leggur áherslu á hraða og snerpu. Oftar en ekki eru dæmigerð thrashcorelög stutt, koma sér beint að efninu og eyða litlum tíma í gítarsóló og tónlistarleg ævintýri af því tagi. Thrashcore tengist mörgum öðrum tegundum tónlistar eins og crossover, brettapönki, thrashmetal, mulningsrokki og power violence. Liverpool (knattspyrnufélag). Liverpool Football Club er enskt knattspyrnufélag frá Liverpool. Veitingahús. Veitingahús eða veitingastaður er staður sem selur tilbúinn mat og drykk til neyslu á staðnum. Hugtakið á við um alls kyns staði og ólíkar gerðir matar, allt frá litlum kaffihúsum, börum og skyndibitastöðum að stórum heimsfrægum veitingahúsum þar sem litið er á matargerð og framreiðslu sem hámenningu. Glassúr. Glassúr eða "sykurbráð" er sæt þekja sem sett er á ýmsar kökur til bragðbætis og sem skreyting og jafnframt stundum til að koma í veg fyrir að yfirborð kökunnar þorni og harðni. Orðið er komið inn í íslensku úr dönsku en er upphaflega úr frönsku, "glacé" (ís). Aðalefnið í glassúr er flórsykur, blandaður vatni, ávaxtasafa eða öðrum vökva og oft einnig litarefnum og bragðefnum, svo sem kakódufti, vanillu eða öðru, og hann er mun þynnri en smjörkrem og annað kökukrem. Ef glassúrinn á að vera harður, til dæmis ef honum er sprautað á kransaköku, er hann hrærður með eggjahvítum í stað vatns og oft blandaður örlitlu ediki. Glassúr er settur á ýmsar kökur og smákökur, vínarbrauð, snúða, kleinuhringi og fleira. Hann er líka notaður til að skreyta piparkökur og þá gjarnan litaður með matarlit í nokkrum mismunandi litum. Þar sem aðalefnið í glassúr er sykur er hann mjög hitaeiningaríkur. Vopn. Vopn er verkfæri notuð til að særa eða drepa með í hernaði eða til veiða. Sérstök vopn eru einnig notuð eingöngu til skemmtunar og við íþróttaiðkun án þess að markmiðið sé að meiða nokkurn með þeim. Handvopn eru smæstu vopnin og þeim getur fullorðinn maður haldið á og beitt án stuðnings. Elstu gerðir vopna eru höggvopn, og frumstæð lagvopn, en síðar komu eggvopn, þ.e. hnífar og sverð, sem notuð eru til að skera með eða til að stinga. Skotvopn skjóta byssukúlum úr málmum (oft blýi) á miklum hraða að skotmarki. Í skylmingum eru notuð keppnissverð, en í skotfimi eru notaðir markrifflar eða -skammbyssur. Í hernaði er vopnum beitt til árása eða varnar og tilað ógna, fæla eða lítilsvirða óvin og valda tjóni á eða eyðileggja mannvirki hans. Tæknilega séð getur hvað tól sem er, jafn vel sálfræðilegar aðferðir, orðið að vopni og vopn geta verði einföld að gerð eins og kylfa eða flókin eins og flugmóðurskip. Efna- og sýklavopn eru öflug sé þeim beitt í hernaði, en hafa lítið verið notuð á seinni árum vegna siðferðilegra vandamála við notkun þeirra. Öflugustu vopnin eru kjarnorkuvopn, ekki síst vegna mikils fælingarmáttar. Byssupúður. Byssupúður, hvort sem það er svart púður eða reyklaust púður, er efni sem brennur mjög hratt og gefur frá sér lofttegundir sem virka sem drifefni á skot í skotvopnum. Byssupúður er fyrsta sprengiefnið sem fundið var upp, en elstu heimildir geta þess í kringum 850 í Kína og þaðan breiddist þekkingin á gerð þess út eftir Silkiveginum. Arabar lærðu að nota það á 13. öld og þaðan hefur það borist til Evrópu. Samsetning. Byssupúður er búið til úr saltpétri, viðarkolum og brennisteini sem yfirleitt er blandað í hlutföllunum 15:3:2. A Clockwork Orange (bók). A Clockwork Orange er skáldsaga eftir Anthony Burgess sem kom út árið 1962. Við ritun bókarinnar útbjó Burgess heilt slangurmál frá grunni sem hann nefnir Nadsat, og er að mestu byggt á rússnesku. Bókin var mjög umdeild þegar hún kom út. Árið 1971 gerði Stanley Kubrick samnefnda kvikmynd sem var byggð á bókinni. Söguþráður. A Clockwork Orange (eða "Klukkuverk appelsína") er framtíðarsaga sem gerist (líklega) á Bretlandi. Hún er sögð í fyrstu persónu og nefnist sögumaðurinn Alex. Hann er fimmtán ára, hneigður til ofbeldis og mjög uppreisnagjarn. Hann og félagar hans ("Pete", "Dim" og "Georgie") mynda klíku og eru allir sem einn ólöghlýðnir fantar. Þeir hanga venjulega á Mjólkurbarnum ("Duke of New York") og fremja þess á milli hrylliega ofbeldisglæpi, stunda innbrot, árásir og nauðganir. Loks nær hinn langa hönd laganna til Alex og hann er settur í fangelsi. Til að losna fyrr út tekur hann þátt í undarlegri tilraun ("Ludovico’s Technique") sem á að gera hann að löghlýðnum borgara. Tilraunin er að öllu leyti óhefðbundin, en hún felst í því að hann er sprautaður með lyfi og látinn horfa á hryllilegustu glæpi með augun glennt upp á gátt og höfuðið skorðað þannig að hann geti ekki litið undan. Og meðan er spiluð klassísk tónlist, en Alex hafði unun af slíkri tónlist og tengir hana við ofbeldi, enda hafði hann ósjaldan hlustað á hana meðan hann vann illvirki sín. Tilraunin hefur það sterk áhrif á hann fær viðbjóð á ofbeldi og klassískri tónlist. Þegar hann svo losnar úr fangelsinu og kemur heim til foreldra sinna hafa þeir leigt út herbergið hans og henda honum út. Hann ráfar um göturnar og rekst fyrr en varir á vin sinn "Dim", sem er orðinn lögregluþjónn. Dim og vinur hans, sem einnig er lögregluþjónn, taka Alex og fara með hann út í sveit og berja hann. Alex rís upp og ráfar um sveitirnar og lendir fyrir tilviljun í höndum eiginmanns konunnar sem hann nauðgaði nokkrum árum fyrr. Hann og vinir hans ákveða að nota Alex sem vopn gegn politískum andstæðingum sínum. Þau loka hann inni og vonast til að hann fremji sjálfsmorð, sem Alex reynir líka með því að hoppa út um glugga. Hann lifir það þó af. Í þessum síðasta þætti bókarinnar er tilrauninni snúið við, og Alex verður aftur ofbeldishneigður og stofnar klíku. Hann stundar ofbeldi, en eftir að hann hittir "Pete", gamlan klíkuvin sinn, sem er vaxinn upp úr brotaferli sínum, hugsar hann til þess möguleika að til sé annarskonar líf. Bókin endar svo á því að Alex lætur sig dreyma um maka og að eignast afkvæmi. Jafnvel þó hann geri sér grein fyrir að næsta kynslóð verði einnig ofbeldishneigð. Margt er þó tvíbent í sögunni og erfitt að átta sig á hverjar raunverulegar hneigðir sögumanns eru í lokin. The Elephant Man. "The Elephant Man" er kvikmynd byggð á ævisögu Joseph Carey Merrick. Joseph er líka kallaður „the elephant man“ eða „fílamaðurinn“ vegna þess hver afmyndaður hann er. Hann var með mjög alvarlegan sjúkdóm sem var orsök þess að hann varð svona afmyndaður. Vegna þessar afmyndunar er hann settur í sirkus sem sirkusfyrirbæri. Á eina af sýningunum hans kemur læknir að nafni Sir Frederic Treves en hann tekur hann frá sirkusnum til að skoða hann vísindalega séð. En hann vingast mjög fljótlega við Fílamannin og gefur honum húsnæði í spítalanum sínum til að forða honum frá því að lenda aftur í sirkusnum og láta fólk líta niður á hann. Það kemur í ljós að Joseph er ekki einhver afmyndaður vitleysingur heldur greindur og heillandi maður í afmynduðum líkama. Elephant Man, The Sprengiefni. Sprengiefni er óstöðugt efni sem brennur mjög snögglega og þenst þá það mikið út að sprenging verður við vissar kringumstæður. Skotvopn. Skotvopn er vopn sem skýtur einu eða fleiri skotum sem knúin eru áfram af gasi sem verður til við sprengingu drifefnis í skothylki, sem skorðar byssukúluna þar til hleypt er af. Í gamla daga var drifefnið yfirleitt svart púður en nú til dags er yfirleitt notast við reyklaust byssupúður, kordít o.fl. Loftbyssa notar samþjappað loft sem drifefni. Handskotvopn er ekki þyngra en svo að einn fullorðinn maður getur haldið á því og hleypt af án stuðnings og þeim var fyrst beitt með markvissum hætti í hernaði á Endurreisnartímanum. Hlaupvíð skotvopn. Fallbyssa er mjög hlaupvíð og langdræg og tilheyrir stórskotaliði, en fallbyssur voru einnig á orrustuskipum. Eru oftast á hjólum og hlaupið er með dempara til að draga úr bakslagi. Sumar fallbyssur eru á skriðbeltum með eigin drifbúnaði, líkt og skriðdreki. Skotið er undir tiltölulega háu horni þ.a. skeytin fara í boga og falla fyrir eigin þunga á skotmark. Sprengjuvarpa er mun hlaupminni og skammdrægari, en notuð með sama hætti og fallbyssa, þ.e. skeytin eru látin falla á skotmarkið. Eru yfirleitt ekki þyngri en svo að einn maður getur haldið á þeim. Önnur vopn, sem skjóta má með. Bogi og örvar, lásbogi, kastspjót, munnbyssa, baunabyssa og teygjubyssa teljast almennt ekki til skotvopna, þó færa megi rök fyrir því að flokka þau sem slík. Vélbyssa. Vélbyssa er alsjálfvirkt skotvopn sem ýmist er laust eða situr á festingu. Vélbyssa er venjulega hönnuð til að skjóta riffilskotum, venjulega með tíðni á bilinu 500-1200 skotum á mínútu, þó að slík skothríð geti sjaldnast varað samfleytt í eina mínútu án þessa að byssan ofhitni. Eldri gerðir. Ekki löngu eftir að algengt varð að útbúa fótgönguliða með byssum komu fram hugmyndir af byssum sem gátu skotið mörgum skotum á stuttum tíma. Fyrstu byssurnar voru yfirleitt með mörgum hlaupum sem hvert um sig skaut álíka stóru skoti og fótgönguliðsbyssa. Þegar hleypt var af skutu byssurnar ýmist öllum skotunum í einum vettvangi eða í einni runu svo að erfitt var að stjórna skothríðinni og eftir að hleypt hafði verið af tók gríðarlangan tíma að hlaða upp á nýtt og auk þess voru vopnin álíka fyrirferðarmikil og léttar fallbyssur. Þegar komið var fram á 19. öld fór að koma fram meiri áhugi á vopnum sem gátu, í stað þess að senda eina skothrinu, skotið og hlaðið sig jafnóðum svo að hægt var að skjóta jafnri skothrinu í nokkurn tíma. Nokkrar gerðir af slkíkum vopnum voru reyndar, og voru flestar handknúnar og óáreiðanlegar. Einna best reyndusk svokallaðar gatlingbyssur sem höfðu nokkur hlaup á sívalningi sem var snúið með handsveif og skaut og hlóð sig jafnóðum í snúningnum. Meðan enn var notast við svart púður safnuðust fljótt upp óhreinindi í byssunum svo þær brugðust oft þegar þau söfnuðust upp. Þegar nýar gerðir púðurs sem skildu eftir mun minni óhreinindi komu fram seint á 19.öld var hægt að bæta áreiðanleika þessara vopna en þá komu líka fljótlega fram Maximvélbyssur sem voru fyrsta útbreidda tegund vélbyssa sem notaði bakslag af síðasta skoti til að hlaða nýju í. Þær voru vatnskældar og fyrirferðarmiklar, en gátu haldið áfram að skjóta áreiðanlega í langan tíma og reyndust eitt af skæðustu vopnum fyrri heimsstyrjaldar. Við upphaf 20. aldar komu einnig fram léttari loftkældar vélbyssur og á millistríðsárunum komu fram nýjar loftkældar vélbyssur sem voru mjög svipaðar nútíma vélbyssum, vógu oft 9-16kg, skutu riffilskotum á bilinu 7,5-8mm hlaupvídd og var auðvelt að flytja með fótgönguliði og fljótlegt að setja upp. Þar ber heldt að nefna bresku BREN vélbyssuna(sem var byggð á tékkneskri hönnun), hina þýsku og sérlega nútímalegu MG-34 (sem þróaðist í hina afar þekktu MG42 sem er enn í notkun lítð breytt), bandarísku Browning M1919 og rússnesku DP. Þessi vopn voru reynd til þrautar og útfrá þeirri reynslu voru línurnar lagðar fyrir nútíma vélbyssur. Hlutverk. Nú á tímum er vélbyssum beitt á nokkuð svipaðan hátt og í síðari heimsstyrjöldinni. Skriðdrekar og aðrir stríðsvagnar hafa oft vélbyssu sér til varnar auk þess að hver eining fótgönguliðs hefur yfirleitt með sér eitthvað af vélbyssum til að halda aftur af hreyfingum óvina, ýmist með því að fella þá eða hræða frá aðgerðum með getunni til að drepa. Nú á tímum nota fótgönguliðar sífellt léttari vélbyssur vegna þess að þyngri vélbyssur eru oft til staðar á ökutækjum sem fylgja þeim og vegna þess hve borgarhernaður verður sífellt mikilvægari. Tæknileg atriði. Nú nota vélbyssur oft gasþrýsting frá fyrra skota þó að nokkur önnur kerfi séu algeng til að hlaða sig. Léttari gerðir hafa oft lítil magasín svipuð þeim sem herrifflar nota en oft eru notaðir stærri sívalningar eða skotfærabelti, sem eru geymd í áföstum kassa. Þegar vélbyssur skjóta löngum skothrinum hitnar hlaupið þartil því marki er náð að það dregur úr nákvæmni og getur eyðilagt vélbyssuna. Þá er nauðsynlegt að skipta um hlaup til að halda áfram að hlaupa. Flestar nútíma vélbeyssur eru þannig gerðar að það sé fljótlegt og auðvelt og dæmi eru um að í síðari heimsstyrjöldinni hafi verið skotið nánast stöðugt af MG42 vélbyssum og skipt um hlaup með reglulegu millibili til að hámarka skothríðina, en það var sérlega auðvelt að skipta um hlaup á þeim. Auk þess eru hlaup í vélbyssum höfð heldur efnismeiri en í herrifflum til að þau geti tekið við meiri varma. Flestar vélbyssur nota skotfæri sem einnig eru algeng í herrifflum, en þær hafa oft tilhneigingu til að nota eldri og þyngri gerðir, eins og til dæmis 7,62 mm NATO eftir að herrifflar fóru að nota léttari skot eins og 5,56 mm NATO eða 5,45 mm soviet því að mörgum þykir þörf á öflugum skotfærum í vélbyssum þó að margar gerðir noti nú léttari skotin. Hanyu Pinyin. Hanyu Pinyin (汉语拼音 Pinyin: Hànyǔ Pīnyīn), eða einfaldlega Pinyin, er aðferð við að umrita kínversku með latnesku letri. Kerfið byggist aðallega á því að sérhljóðarnir eru merktir á fjóra mismunandi vegu fyrir ofan stafina, t.d. ā, á, ǎ, eða à, og gefa merkingarnar til kynna tónun stafsins eða táknsins. Auk þessara hópa er einnig til áherslulaus tónun þar sem sérhljóðin eru „hattlaus“. Pinyin umritun er kennd í kínverskum grunnskólum og börn læra þetta kerfi um leið og þau læra að lesa þar sem táknin eru gjarnan merkt með Pingyin í kennslubókum yngstu bekkja til að auðvelda þeim lestur. Breiðafjörður. Breiðafjörður er stór og grunnur fjörður við vesturströnd Íslands, um 50 km breiður og 125 km langur. Breiðafjörður er á milli Vestfjarðakjálkans og Snæfellsness og er umkringdur fjöllum á þrjá vegu og ganga margir firðir inn úr honum, stærstur þeirra Hvammsfjörður í austurátt. Nokkur þéttbýlissvæði eru að sunnanverðu við fjörðinn en engin norðanmegin. Náttúra. Fjaran í Skáleyjum á Breiðafirði Náttúra Breiðafjarðar er mjög sérstök og einkennist af fjölda eyja. Talið er að þar séu um 3000 eyjar, hólmar og sker. Eyjarnar á Breiðafirði eru eitt af því sem löngum hefur verið talið óteljandi á Íslandi. Sjávarföll eru mjög mikil á firðinum og er munur á flóði og fjöru allt að 6 metrum á meðal stórstreymi. Landslagið tekur því miklum breytingum eftir stöðu sjávar og er þar um fjórðungur af öllum fjörum á Íslandi. Berggrunur Breiðarfjarðar tilheyrir elsta hluta berggrunns Íslands og er um 6 til 12 miljón ára gamall, hluti af tertíer berggrunninum. Hann er að mestu leyti byggður upp af misþykkum basalthraunlögum. Á Hrappsey má finna bergtegundina anortosít og er það eini fundarstaðurinn á Íslandi. Antortosít er stundum nefnd tunglberg því að það er önnur aðalbergtegund tunglsins. Stór skriðjökull lá yfir Breiðafirði á síðustu ísöld og hefur hann að mestu mótað núverandi landslag í firðinum. Lífríki fjarðarins og eyjanna er óvenjumikið og fjölskrúðugt. Þar eru meðal annars mikilvæg hrygningar- og uppeldissvæði fyrir margar tegundir t.d. þorsk, rækju, hörpuskel og hrognkelsi. Um 20 % af íslenska landselsstofninum og um helmingur útselsstofninum halda sig við Breiðafjörð. Hvalir eru tíðir á Breiðafirði og smáhveli eins og hnísa og hnýðingur eru algengustu tegundirnar en háhyrningar og hrefnur eru algengar á utanverðum firðinum. Þar er einnig eitt mikilvægasta svæði landsins fyrir fuglalíf. Sjófuglar einkenna svæðið og er fjöldi einstaklinga mestur hjá lunda en æðarfuglar eru næstflestir. Fýll, dílaskarfur, toppskarfur, rita, hvítmáfur, svartbakur, kría og teista eru einnig mjög áberandi tegundir en grágæs, þúfutittlingur, maríuerla og snjótittlingur eru einnig algengar tegundir. Um 70 % af íslenska hafarnarstofninum lifir við Breiðafjörð. Toppskarfur verpir á Íslandi nánast eingöngu við fjörðin og um 90 % dílaskarfa verpa þar. Minkar eru nú í öllum eyjum á firðinum en refir hafa ekki verið með greni þar svo vitað sé til þó þeir sjáist stundum á eyjum næst landi. Búseta og landnýting. Eyjar á Breiðafirði hafa verið í byggð allt frá því að Þrándur mjóbein nam land í Flatey. Þar þóttu landkostir miklir þó að eyjarnar væru smáar, hlunnindabúskpur eyjabænda bætti það ríflega upp. Nýttu menn jöfnum höndum fisk, sel og fugl. Helstu verstöðvar voru í Oddbjarnarskeri, Bjarneyjum og Höskuldsey. Dvöldu um 200 manns vor og haust á vertíð í Oddbjarnaskeri fram á seinni hluta 19. aldar. Einkum voru það flatfiskar, hrongkelsi, þorskur, ýsa og skata sem veidd voru. Selurinn gaf af sér kjöt, spik til fæðu og ljósmetis og skinn í klæði og skó. Auk fuglatekju til matar var eggja- og dúntekja mikilvæg hlunnindi. Nú er einungis búið allt árið í Flatey. Þar er einna best varðveitti byggðakjarni landsins frá seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Í Flatey var klaustur frá 1172 og þar var Flateyjarbók, sem er merk heimild um Noregskonunga, varðveitt um tíma. Ólafur Indriði Stefánsson. Ólafur Indriði Stefánsson (fæddur 3. júlí 1973 í Reykjavík) er íslenskur handknattleiksmaður og fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik. Hann er uppalinn í Val og spilar stöðu hægri skyttu fyrir AG København í dönsku fyrstu deildinni í handknattleik Ferill. Ólafur Stefánsson 20. febrúar 2008 Í Val byrjaði Ólafur sem hornamaður en færði sig síðar yfir í stöðu hægri skyttu. Ólafur varð mjög sigursæll með liði Vals í upphafi tíunda áratugarins sem byrjaði í raun leiktímabilið 1992-'93 er meistaraflokkur Vals varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari auk þess sem Ólafur var kosinn efnilegasti leikmaður mótsins. Valur fylgdi eftir góðu gengi sínu árið eftir með því að verja Íslandsmeistaratitilinn sem og leiktímabilið 1994- '95. Í kjölfar góðrar frammistöðu Ólafs og viðurkenninga, m.a. kjöri sem besti sóknarmaður Íslandsmótsins 1993-'94 var Ólafur valinn til að leika með íslenska landsliðinu á HM ´95 sem var þá haldið á Íslandi. Á HM '97 í Japan var Ólafur aftur valinn í landsliðið ásamt leikmönnum eins og Geir Sveinssyni, Júlíusi Jónassyni og Valdimari Grímssyni þar sem það spilaði undir stjórn Þorbjörns Jenssonar, fyrrum þjálfara Ólafs hjá Val, og Boris Bjarna Akbachev. Ólafur fór frá Val í atvinnumennskuna til HC Wuppertal í þýsku úrvalsdeildinni þaðan sem leiðin lá til SC Magdeburg. Ólafur tók þátt í að kveðja fyrrum íþróttahús Valsmanna, Hlíðarenda, er hann spilaði með úrvalsliði Þorbjörns Jenssonar sem var saman sett af fyrrum leikmönnum Vals gegn núverandi liði Vals. Í ágúst 2008 lék Ólafur með íslenska landsliðinu á handknattleiksmóti karla á Ólympíuleikunum í Peking í Kína og vann til silfurverðlauna. Ólafur vann síðan sín önnur verðlaun með íslenska landsliðinu á stórmóti þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Hann hætti með íslenska landsliðinu 18. október 2012. Sverð. Sverð eða brandur er langt og oddmjótt handvopn sem hægt er að beita sem högg- eða lagvopn og hefur verið notað í flestum menningarsamfélögum frá alda öðli. Meginhlutar sverðs eru blað með bakka og egg, ýmist báðum megin (tvíeggjað sverð) eða öðrum megin (eineggjað sverð). Efri og neðri hjöltu eru þvereiningar sverðsins, að ofan og neðanverðu við meðalkaflann. Tækni við að beita sverði er breytileg eftir menningarsvæðum og lögun sverðsins. Sverð eru talin hafa þróast út frá hnífum á bronsöld frá því á 2. árþúsundi f.Kr. þegar varð tæknilega mögulegt að móta lengri blöð. Í ólympískum skylmingum er notast við þrenns konar sverð: höggsverð, stungusverð og lagsverð, en mismunandi keppnisreglur gilda fyrir hvert vopn. Sverð til forna. Sverð í Norður Evrópu á fornöld voru stærri og veigameiri en þau sem tíðkuðust um sömu mundir við Miðjarðarhafið. "Brandurinn" var beinn, breiður og tvíeggjaður, og gekk eftir honum að endilöngu hryggur, er kallaður var "véttrim", fram undir "blóðrefilinn", en svo nefndist oddur sverðsins. Fletirnir beggja vegna við véttrimina voru kallaðir "valbastir". Rammgjör þverstöng ("fremra hjalt", "höggró", "gaddhjalt") var til hlífðar framan við handfangið ("meðalkaflinn"), en til viðnáms fyrir höndina að aftan var knappur mikill eða hnúður, ýmislega lagaður ("efra hjalt"). Eftir lok bronsaldar lögðu Germanskar og Keltneskar þjóðir meira upp úr höggetu sverða sinna, en notuðu þau síður til að stinga andstæðinga sína. Miðjarðarhafsþjóðir smíðuðu helst styttri sverð sem sérstaklega voru ætluð til að stinga. Söx. Hin svonefndu "söx" eða "saxsverð" voru nokkru minni en hin vanalegu sverð og ekki tvíeggjuð. Meðallengd sverða frá fremra hjalti til blóðrefils mun hafa verið hálft annnað fet; að minnsta kosti er svo að sjá sem það hafi verið lögboðin lengd hólmgöngusverða í heiðni. Bandaríska borgarastríðið. Málverkið sýnir her Norðurríkjanna gera árás á virki Suðurríkjasambandsins Fort Wagner Bandaríska borgarastríðið eða Þrælastríðið, var borgarastyrjöld í Bandaríkjunum á árunum frá 1861 til 1865 á milli sambandsstjórnarinnar eða „Sambandsins“ og ellefu suðurríkja sem lýstu yfir aðskilnaði frá Bandaríkjunum. Ríkin mynduðu Bandalagsríki Ameríku eða Suðurríkjasambandið með Jefferson Davis sem forseta. Sambandið, með Abraham Lincoln sem forseta, vildi leggja niður þrælahald og hafnaði rétti fylkjanna til aðskilnaðar. Átökin hófust 12. apríl 1861 þegar her Bandalagsríkisins réðist á Sumter-virki í Suður-Karólínu. Bandaríska borgarastríðið leiddi til mikilla breytinga í landinu. Þessi styrjöld hefur oftast verið kölluð þrælastríðið þó önnur ágreiningsmál hafi líka komið við sögu. Tilgangur stríðsins af hálfu norðanmanna var að halda ríkjum Bandaríkjanna sameinuðum. Í stríðinu birtust margar nýjungar sem ekki höfðu litið dagsins ljós í stríði fyrr og varð mikið mannfall. En eftir að stríðinu lauk var þrælahald í landinu afnumið. Mikilvægt deiluefni. Á árunum 1840 til 1860 var mikill munur á þjóðfélagsgerð í ríkjum norðurhluta Bandaríkjanna og í ríkjum suðurhlutans. Í Suðurríkjunum var nánast hreint búnaðarsamfélag og borgir því frekar smáar og tiltölulega fáar. En í Norðurríkjunum voru iðnaðarborgir að vaxa og dafna og iðnvæðingin að komast á skrið. Borgarastéttin var að styrkjast og verkalýðstéttin einnig. Norðurríkin vildu að ein alríkisstjórn væri í öllu landinu og hafa verndartolla til að vernda vaxandi iðnað ríkjanna. Suðurríkjamenn vildu frekar að hvert ríki væri sjálfstætt enda seldu þeir mestan hluta baðmullarframleiðslu sinnar til Bretlands og gátu þannig keypt iðnvarning tollfrjálst. Á þessum tíma ríkti pólitískt jafnræði sem byggði á því, að ríki sem leyfðu þrælahald væru jafnmörg þeim sem leyfðu það ekki. Þrælahald var leyft í Suðurríkjunum en ekki í Norðurríkjunum. Þegar farið var að byggja landið í vesturátt, meðal annars með lagningu járnbrautar, jókst óánægja þrælaríkjanna þar sem þetta nýja byggðasvæði þótti ekki hentugt til þrælahalds. Þar með var jafnvæginu ógnað. Í Bandaríkjunum var þrælahald mikið deiluefni á milli stórbænda úr suðurhluta landsins og miðstéttarfólks og þéttbýlisbúa frá norðurhluta landsins. Ríki í suðurhluta landsins gátu ekki verið án þræla vegna þess að þeir unnu á plantekrunum sem héldu uppi efnahag Suðurríkjanna. Frá lokum 18. aldar hafði ekki verið þrælahald í neinum ríkjum fyrir norðan Maryland þar sem þrælahald hafði verið afnumið. Árið 1845 hófu Bandaríkin stríð við Mexíkó og unnu þar nokkurt landsvæði. Því stríði lauk með sigri Bandaríkjamanna árið 1848 og fengu þeir ný landsvæði sem nefnast í dag Kalifornía, Nýja Mexíkó og Texas. Með þessu hitnaði aftur upp í þrælahaldsdeilunni og vildu Norðurríkin banna þrælahald í þessum nýju ríkjum. En Suðurríkin vildu frekar að hvert ríki tæki sjálfstæða ákvöðun um hvort þau myndu taka upp þrælahald eða ekki. Klofnun Bandaríkjanna. Demókratar höfðu lengi stjórnað landinu og var partur flokksins fylgjandi þrælahaldi. Einn þeirra sem studdi þrælahald var John Breckenridge sem bauð sig fram til embættis Bandaríkjaforseta árið 1860 gegn Abraham Lincoln. Breckenridge fékk þá flest öll atkvæðin frá Suðurríkjunum. Abraham Lincoln var í framboði fyrir Repúblikanaflokkinn sem hafði þá nýlega verið stofnaður eða árið 1854. Flokkurinn var stofnaður af andstæðingum þrælahalds og var fysta viðfangsefni flokksins að fella úr gildi Kansas–Nebraska lögin. Þessi lög leyfðu þrælahald í vesturhluta Bandaríkjanna. Demókratar sem aðhyltust afnám þrælahalds gengu inn í flokkinn ásamt Vigga-flokknum. Þann 6. nóvember árið 1860 var Abraham Lincoln kjörinn 16. forseti Bandaríkjanna, sá fyrsti fyrir Repúblikanaflokkinn. Hann var mikill andstæðingur þrælahalds en taldi sig ekki geta beitt sér gegn því þar sem í stjórnarskrá kom fram að sú ákvörðum lægi hjá hverju ríki fyrir sig. Þegar hann var kjörinn höfðu Suðurríkjarmenn fengið nóg og sagði Suður-Karólína sig formlega úr Bandaríkjum Norður-Ameríku þann 20. desember árið 1860. Á sama tíma lýsti Suður-Karólína því yfir að Bandaríkin væru að leysast upp en Lincoln reyndi að stöðva þá með því að segja að ríkin gætu ekki aðskilið sig hvort frá öðru. Íbúar Norðurríkjanna töldu íbúana í suðri vera afturhaldssinna en Suðurríkjarmenn gátu þá ekki lengur treyst Norðurríkjarmönnum og töldu þá vísa um svik. Þetta leiddi til þess að tíu ríki til viðbótar sögðu sig úr Bandaríkjunum og voru það þau Mississippi, Flórída, Texas, Alabama, Georgía, Louisiana, Arkansas, Tennessee, Norður-Karólína og Virginía. Þessi ellefu fylki sameinuðust svo og mynduðu Suðurríkjarsambandið í febrúar árið 1861 en sambandið hafði sína eigin stjórnarskrá og var Jefferson Davis skipaður forseti sambandsins. Borgarastríðið. Þann 12. apríl 1861 hefja Suðurríkjasambandið fallbyssuskothríð á virki Norðurríkjamanna, Fort Sumters. Hernaðaráætlun Suðurríkjanna virtist afar einföld og hugðust þeir verða að sjálfstæðu ríki. Þá lögðu Bandaríkin á það ráð að leggja hafnarbann á þá og hertaka Richmond, sem var höfuðborg þeirra í Virginiu. Suðurríkjamönnum gekk þó mun betur fyrri hluta stríðsins þar sem þeir sigruðu orrustur við Bull Run í Virginíu árið 1861 og við Washington árið 1862. Árið 1862 varð herkvaðning í Suðurríkjunum þar sem erfiðlega gekk að fá sjálfboðaliða í herinn. Árið 1863 gerðist það sama í Norðurríkjunum og þá breytti þingið einnig lögum um að blökkumenn eða strokuþrælar mættu ganga í herinn. Um 200.000 af 500.000 blökkumanna gengu í herinn, en áður fyrr höfðu aðeins verið hvítir í báðum herjunum. Robert E. Lee, hershöfðingi Suðuríkjanna, reyndi að ráðast inn í Norðurríkin árið 1863 en tapaði orrustu sem varð við Gettysburg í Pennsylvaníu. Árið 1863 náði Norðurríkjaher að einangra Arkansas, Tennessee og Texas frá hinum Suðurríkjunum undir stjórn Ulysses S. Grant þegar hann tók Vicksburg í Missisippi. Þá varð hann gerður að yfirhershöfðinga árið 1864 og vann hann sigur á Lee og herliði hans í Virginíu. Hermönnum Suðurríkjana fækkaði þá um 60.000 menn. Þann 3. apríl 1865 gafst Lee upp fyrir Grant eftir að höfuðborg Suðurríkjasambandsins hafði fallið í hendur Norðurríkjamanna og lauk þar stríðinu með sigri Norðurríkjanna. Félagslegar breytingar og tækninýjungar. Stríðið var þó aldrei háð til að frelsa þrælana en svo skrifar Lincoln árið 1862. Meginástæða stríðsins var sú að hindra það að Bandaríkin myndu leysast upp og þannig halda ríkisheildinni saman. Árið 1862 skrifaði Abraham Lincoln þó tilskipun um að frelsa þrælana í ríkjum Suðurríkjanna. Þessu fylgdi breyting á stjórnarskránni sem var gerð árið 1865 og var þá þrælahald afnumið í öllum Bandaríkjunum. Nokkrum árum seinna fengu blökkumenn kosningarrétt og gátu gerst fullþegnar með nýrri stjórnarskrárbreytingu en sú breyting stóð um öll Bandaríkin til 1877. Nokkrar nýjar framfarir í hernaði gerðust á þessum tíma. Upplýsingar bárust þá hratt á milli staða, þar sem skilaboð voru símsend í fyrsta sinn. Einnig voru herskipin í fyrsta sinn varin með járni og járnbrautir fluttu fólk og vistir hratt á milli vígstöðva. Blöð fluttu einnig daglega tíðindi af framþróun stríðsins. Mannfall í þessu stríði var gífurlegt og féllu um 635.000 manns og særðust um 375.000 manns. Auk þess var efnahagur Suðurríkjanna lagður í rúst þar sem undirstaðan, sem voru ódýrt vinnuafl eða þrælar, var ekki lengur til staðar. Grasaætt. Grasaætt (fræðiheiti: "Poaceae", áður "Gramineae") er ætt einkímblöðunga. Um 600 ættkvíslir eru innan grasaættarinnar og á milli 9 og 10 þúsund tegundir grasa. Grasaættin er ein mikilvægasta fjölskylda plantna í heiminu, enda gefur hún fóður dýra og næringu manna auk bambusreyrsins sem notaður er til bygginga í Asíu. Áætlað er að 20% af yfirborði jarðar séu þakin tegundum úr grasaættinni. Tegundir af grasaætt hafa aðlagað sig hinu fjölbreytilegum aðstæðum er ríkja á mismunandi stöðum í heiminum og finnast frá köldustu svæðum jarðar til regnskóga hitabeltisins og eyðimarka. Geldvöxtur. Blöð grasa skiptast í blaðslíður og blöðku. Á mótum finnst slíðurhimna. Grös hefja lífsferil sinn með geldvexti. Hlutverk grasplöntu í geldvexti er aðallega að mynda rætur og blöð. Sjálfur stöngullinn (einnig kallaður vaxtarbroddur) er aðeins örfáa millimetrar á lengd og sést ekki með berum augum. Hann er liðskiptur og vex ávallt rót eða blað út úr hverjum lið. Rætur myndast eðlilega út frá neðstu liðum stönguls en blöð út frá efri liðum. Fyrsta blaðið vex út frá neðsta lið sem ekki myndar rót. Blaðið myndar hólk utan um stöngulinn og vex uppávið. Blað grasa skiptist í tvennt: blaðslíður og blöðku. Blaðslíðrið myndar hólk en blaðkan er efri hluti blaðsins og breiðir úr sér. Næsta blaðið myndast út frá næstneðsta lið stöngulsins og hefur vöxt sinn innan við eldra blaðið. Eftir því sem blaðið stækkar vex það upp úr blaðslíðri elsta blaðsins og hækkar upp fyrir það. Svona heldur vöxtur blaða áfram koll af kolli, þar sem yngsta blaðið kemur ávallt innan úr næstyngsta blaðinu. Mörg blaðslíður myndan þá hólk sem kallast gervistrá, þar sem ekki er um raunverulegt strá er að ræða. Stöngullinn sjálfur er enn örfáa millimetrar á lengd og leynist neðst við jörðina innan í blaðslíðrunum. Á mótum blaðslíðurs og blöðkunnar finnst oftast lítil himna, slíðurhimna'". Hún er gott greiningareinkenni grasa. Kynvöxtur. Flestar plöntur fara í kynvöxt þegar réttar aðstæður ríkja. Ýmsar breytingar verða á vaxtarhætti grassprota við það. Stöngullinn hættir að mynda nýja blaðvísa en myndar þess í stað blómvísa á enda þess. Stöngulliðirnir fara nú að lengjast í þeim tilgangi að ýta blóminu upp úr yngsta blaðslíðrinu. Við það hækkar plantan umtalsvert. Stöngulliðirnir bólgna upp og mynda svokölluð hné. Til þess að halda uppi blómskipuninni sem verður sífellt þyngri eftir því sem hún stækkar, myndar stöngullinn tormelt efni, svo sem lignín og tréni. Bygging blóma og dóttursprotar. a> ("Avena sativa"). Smáöxin mynda gisinn punt. Tvö til þrjú blóm finnast í hverju smáaxi. Skriðlíngresi ("Agrostis stolonifera"). Móðursproti með tveimur dóttursprotum. Blóm grasa raða sér saman í smáöx. Grösum er skipt í þrjá flokka eftir blómskipun þeirra, það er á hvaða hátt smáöxin raða sér á stöngulinn; axgrös, axpuntgrös og puntgrös. Grös hafa þann hæfileika að mynda dóttursprota. Þeir myndast inn á milli blaða og stönguls á móðursprotanum og getur einn dóttursproti myndast við hvert blað á móðursprotanum. Fjöldi dóttursprota er því háður fjölda blaða á móðursprotanum. Það eru þó ekki allir dóttursprotar sem ná að dafna og stækka. Það er háð næringarástandi móðursprotans, hversu há gróðurinn er (skuggamyndun) eða hversu snöggklipptur hann er eftir beit eða slátt. Eftir að móðursprotinn er farinn í kynvöxt hefur hann forgang og dóttursprotar þurfa að bíða afgangs. Þeir sem hafa náð að mynda sjálfir rætur hafa hugsanlega tök á að dafna og stækka, aðrir bíða betri tíma. Ef stöngulendi sprota hefur verið fjarlægður með beit og/eða slátt eru það dóttursprotarnir sem taka við og viðhalda grassverðinum. Dóttursprotum er skipt í tvo flokka, eftir því hvort þeir vaxa innanslíðurs eða utanslíðurs. Plöntur er mynda innanslíðurs dótturspota eru oftast með þúfukenndan vöxt, eins og til dæmi snarrótarpuntur. Hjá plöntum með utanslíðurs dóttursprotum lengjast neðstu stöngulliðir dóttursprotans mikið og brjóta sér leið í gegnum blaðslíðrin móðursprotans. Er þá talað um renglur og geta þær ýmist vaxið ofanjarðar eða neðanjarðar. Sem dæmi má nefna vallarsveifgras sem myndar öflugar neðanjarðarrenglur og skriðlíngresi sem myndar ofanjarðarrenglur. Helstu tegundir. Helstu tegundir grasaættar flokkaðar eftir nýtingu. Vinglar. Vinglar (fræðiheiti: "Festuca") er ættkvísl af grasaætt. Ættkvíslin hefur um 300 tegundir og lifa flestar í tempruðu loftslagi. Ættkvíslin er nokkuð skyld Rýgresi og eru stundum æxlaðar saman. Vinglar eru bæði stórir og smáir, frá 10 cm hæð með flöt en mjó blöð að stærri tegundum sem ná 60 cm hæð og hafa 1 cm breið blöð. Vinglar eru algeng túngrös og eru einnig notuð á velli enda þola þau alla jafna traðk og beit vel. Vinglar hafa verið notaðir við landgræðslu en þó helst í bland með öðrum tegundum. Lév Vígotskíj. Lév Semjenovitsj Vígotskíj ("Лев Семенович Выготский"; 17. nóvember 1896 til 11. júní 1934) var rússneskur sálfræðingur og kennari. Hann lagði áherslu á félagslegt samspil einstaklings, umhverfis og menningar. Vígotskíj fæddist árið 1896 í Orsha í Hvíta-Rússlandi inn í fjölskyldu efnafólks af Gyðingaættum og ólst upp í Homel í suðurhluta Hvíta-Rússlands. Hann nam lögfræði við háskólann í Moskvu, útskrifaðist árið 1918 og hélt aftur til Homel þar sem hann starfaði sem kennari. Árið 1924 flutti hann til Moskvu. Hann dó úr berklum árið 1934. Ritverk Vígotskíjs eru á sviði þróunarsálfræði, þroskasálfræði og menntunar. Vígotskíj rannsakaði hlutverk menningar og samskipta og lausnaleitar í vitsmunaþroska. Hann skoðaði nám sem félagslegt ferli, hvernig samskipti barns við fullorðna, sérstaklega foreldra, höfðu áhrif á vitsmunaþroska, hvernig barn nemur menningu svo sem tungumál, ritmál og annars konar táknróf sem hefur áhrif á hvernig barnið byggir upp þekkingu sína. Vígotskíj telur að einstaklingurinn þroskist og byggi upp þekkingu í gegnum félagsleg samskipti og þekking verði til í samskiptum við fólk og gegnum menningu, þekking sé fólgin í athöfnum og atvinnu, leik, tækni, bókmenntum, listum og tungumáli. Þannig sé tungumálið verkfæri hugsunar og geri einstaklingnum kleift að túlka heiminn en tungumálið er líka ferli hugsunar. Þetta er kallað félagsleg hugsmíðahyggja. Vígotskíj fjallaði um bilið milli þess sem einstaklingurinn getur gert einn og þess sem hann getur gert með aðstoð fullorðins eða félaga sem leiðir hann áfram. Þetta bil hefur verið kallað ZPD þroskasvæði eða svæði hins mögulega þroska. Áhrifa frá hugmyndum Vígotskíjs gætir í sálfræði- og námskenningum svo sem athafnakenningu, kenningu um dreifða vitsmuni og lærlinga í hugsun, tungumálakennslu o.fl. Svæði hins mögulega þroska. Svæði hins mögulega þroska eða ZPD þroskasvæði er samkvæmt Lev Vygotsky bilið milli þess sem barnið getur numið sjálfstætt og þess þroska sem það gæti náð undir leiðsögn fullorðinna eða í samvinnu við lengra komna. Lance Armstrong. Lance Armstrong í prólog í Tour de France 2004 Lance Armstrong (fæddur Lance Edward Gunderson þann 18. september 1971 í Plano, Texas) er hættur störfum sem bandarískur atvinnugötuhjólari. Hann hefur unnið Tour De France sem er virtasta götuhjólamót í heimi, með metið 7 samfelldir sigrar frá 1999 til 2005. Með því að gera það sló hann út fyrverandi met, sem kappinn Miguel Indurain setti með því að vinna fimm samfellda sigra. Þetta vann hann eftir að hann hafði læknast af krabbamein sem hafði byrjað sem eistnakrabbamein og náð upp í heila. Árið 1996 þurfti hann að gangast undir efnameðferð vegna sjúkdómsins. Ferill. Armstrong hóf feril sinn í þríþraut, hann var keppandi í eldri flokkum frá því hann var 15 ára, Það kom svo með tímanum að hann hefði mestu hæfileikanna á reiðhjólinu. Hann keppti mikið í áhugamannahjólreiðum og vann U.S. amateur götuhjólreiðakeppnina, árið eftir hafnaði hann í 14 sæti í götuhjólakeppnini á Ólympíuleikunnum 1992. Seinna sama ár hóf hann ferilinn sem atvinnumaður. Hann varð heimsmeistari 1993 og fékk því að gangast regnbogatreyjunni Hann fékk inngöngu hjá liðinu Motorola til 1996 þegar krabbameinið hafði sagt sitt og þurfti því að hætta hjólreiðum og talið var þá að hann myndi aldrei ná sér aftur til að halda áfram sem keppnishjólari. Eftir að hann lýsti yfir að hann hyggðist hefja aftur að hjóla fékk hann samning hjá franska hjólaliðinu Cofidis, ekki gekk að ná sigrum hjá hjólreiðakappanum. Eftir að ferillinn hans hóf niðurfall lýsti hann yfir að hann hyggðist hætta hjólreiðum fyrir fullt og allt. Chris Carmichael einkaþjálfari Lance Armstrong hafði ekki lagt árar í bát og hvatti hann að gefa hjólreiðum aðra tilraun. Og sagan segir frá að þeir Lance og Chris hefðu eytt vikum saman uppí fjöllum Kaliforníu, og þar hefði Lance fengið sjálfstraustið aftur eftir stífar æfingar og var þaðan ekki aftur snúið. Árið 1998 fékk Lance Armstrong inngöngu hjá US postal-liðinu (breyttist yfir í Team Discovery, árið 2005) og fékk styrk frá Nike, hann setti markmiðið á Tour De France og árið 1999 var Armstorg valinn sem kafteinn hjá liðinu sínu US postal og var því markmið liðsfélaga hans að tryggja að hann haldi gulu treyjunni (gula treyjan er gefin á stórmótum til að gefa til kynna hver er með besta samanlagðan tíma). Marlon Brando. Marlon Brando yngri (3. apríl 1924 – 1. júlí 2004) var bandarískur leikari, margfaldur Óskarsverðlaunahafi og einn af þekktustu kvikmyndaleikurum 20. aldar. Hann gerði Stanislavskíjaðferðina og kerfisleiklist þekktar í kvikmyndum eins og "Sporvagninn Girnd" (1951) og "On the Waterfront" (1954). Hann neitaði þó að taka við óskarsverðlaununum sem besti leikarinn árið 1973. Var þar með annar leikarinn sem gerði slíkt. Ástæðan var sú að Brando var að mótmæla meðferð Hollywood á indjánum í myndunum þeirra. Tenglar. Brando, Marlon John Wayne. John Wayne (26. maí 1907 – 11. júní 1979), einnig þekktur undir auknefninu „hertoginn“ ("the Duke") var bandarískur kvikmyndaleikari sem hóf feril sinn í þöglu myndunum á 3. áratug 20. aldar. Hann er aðallega þekktur fyrir leik sinn í vestrum og stórmyndum sem fjalla um síðari heimsstyrjöldina. John lék þó einnig í annars konar myndum, t.d.: ævisögulegum myndum, rómantískum gamanmyndum og lögreglumyndum. Wayne, John Frank Lloyd Wright. Frank Lloyd Wright árið 1954. Frank Lloyd Wright (8. júní 1867 – 9. apríl 1959) var bandarískur arkitekt sem hefur verið gríðarlega áhrifamikill á 20. öldinni. Meðal þekktustu verka hans eru Fallvatnsbyggingin í Pennsylvaníu (1935) og Solomon R. Guggenheim-safnið á Manhattan í New York. Tengill. Wright, Frank Lloyd Frances Marion. Frances Marion (18. nóvember 1888 – 12. maí 1973) var bandarísk blaðakona, rithöfundur og handritshöfundur. Hún er oft nefnd sem frægasti kvenkyns handritshöfundur 20. aldar. Eftir að hafa unnið sem stríðsfréttaritari í Fyrri heimsstyrjöldinni fór hún að vinna hjá kvikmyndafyrirtæki leikstjórans Lois Weber þar sem hún skrifaði mörg handrit fyrir leikkonuna Mary Pickford. Hún fékk Óskarsverðlaunin fyrir bestu leikgerð 1930 fyrir "Big House" og sömuleiðis fyrir besta söguþráð árið 1932 fyrir "The Champ". Hún skrifaði yfir 300 handrit og 130 framleiddar kvikmyndir. Hún leikstýrði og lék stundum sjálf í sumum af fyrstu myndum Mary Pickford. Marion, Frances Marion, Frances Marion, Frances Rachel Carson. Rachel Carson (27. maí 1907 – 14. apríl 1964) var bandarískur dýrafræðingur og sjávarlíffræðingur. Frægasta rit hennar, "Raddir vorsins þagna" (1962), markar upphafið á umhverfishreyfingunni. Bókin hafði gríðarleg áhrif í Bandaríkjunum þar sem hún leiddi til stefnubreytingar varðandi notkun skordýraeiturs, einkum DDT. 2009. Árið 2009 (MMIX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. 2010. Árið 2010 (MMX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á föstudegi. 2011. Árið 2011 (MMXI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á laugardegi, sunnudagsbókstafur er B. Eleanor Roosevelt. Eleanor Roosevelt (11. október 1884 – 7. nóvember 1962) var bandarískur stjórnmálaleiðtogi sem nýtti sér óspart stöðu sína sem forsetafrú Bandaríkjanna til að berjast fyrir hugsjónum eiginmanns síns Franklin D. Roosevelt, auknum borgararéttindum og mannréttindum. Hún átti þátt í því að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir Síðari heimsstyrjöldina og var formaður nefndarinnar sem lagði fram drög að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna 1948. Emma Goldman. Emma Goldman (27. júní 1869 – 14. maí 1940), kölluð „rauða Emma“, var stjórnleysingi frá Kaunas í Litháen, sem var þekkt fyrir skrif sín, ræður og ævintýralegt lífshlaup. Hún flutti til New York í Bandaríkjunum sautján ára gömul og gerðist fylgismaður Johann Most og hugmyndarinnar um áróðursgildi hinnar drýgðu dáðar. Í New York kynntist hún stjórnleysingjanum Alexander Berkman og þau gerðust elskendur og samstarfsmenn. 1906 hófu þau útgáfu tímaritsins "Mother Earth" sem var skrifað í anda stjórnlausrar jafnréttishyggju. Þrisvar sinnum lenti hún í fangelsi vegna skoðana sinna og aðildar að aðgerðum stjórnleysingja. Þeim Berkman var síðar báðum vísað brott (ásamt mörgum fleiri róttækum innflytjendum) til Rússlands 1919. Þar varð hún vitni að Rússnesku byltingunni og varð fyrir miklum vonbrigðum með framferði bolsévika, einkum í beitingu hervalds gegn sjóliðunum í Kronstadt 1921. Tveimur árum síðar fluttu þau Berkman bæði til Suður-Frakklands. 1936 tók hún þátt í spænsku borgarastyrjöldinni og lést að lokum í Torontó í Kanada. Goldman, Emma Goldman, Emma Goldman, Emma Goldman, Emma Þórhallur Þórhallsson. Þórhallur Þórhallsson (fæddur 24. mars 1983) er íslenskur grínisti. Hann var með útvarpsþátt á X-FM áður en sú stöð lagði upp laupana sem hét Örninn og Eggið. Hann var einnig með grínþátt á Rás 2 sem hét Tímaflakk. Hann hefur komið margoft fram með uppistand sem hefur annars verið sýnt á Skjá einum, til dæmis Alvöru Uppistand og Uppistand 2006. Hann er sonur hins landsfræga skemmtikrafts Ladda. Uppistand með honum er til á DVD diskinum „Uppistand 2006“. Þórhallur vann keppnina „Fyndnasti maður Íslands 2007“. Þórhallur hitaði upp fyrir hinn heimsfræga grínista Pablo Francisco í Háskólabíó þann 28. október 2007. Hann var með í sýningu föður síns „Laddi 6-tugur“ sem var sýnd við miklar vinsældir. Árið 2009 lék hann löggu í gamanmyndinni "Jóhannes" en faðir hans lék einmitt aðalhlutverkið í þeirri mynd. Árið 2008 setti hann upp sýninguna „Fyndinn í fyrra“ sem var haldin á NASA. Sama ár byrjaði hann með sjónvarpsþáttinn Vitleysan sem var sýndur á sjónvarpsstöðinn ÍNN. Hann stóð einnig að baki ásamt fleirum vefsíðunni www.vitleysa.is. Þann 12. maí árið 2011 hitaði Þórhallur upp fyrir Jon Lajoie sem er vel þekktur grínisti sem hefur samið fjölmörg lög sem hafa fengið mörg milljón áhorf á YouTube. Árið 2012 varð hann einn af stjórnendum Morgunþáttarins Magasín á FM957. Helen Keller. Helen Adams Keller (27. júní 1880 – 1. júní 1968) var bandarískur rithöfundur, baráttukona og fyrirlesari þrátt fyrir að vera bæði heyrnarlaus og blind. Hún hlaut menntun í blindraskóla og útskrifaðist 1904 úr Radcliffe College. Brátt varð hún eftirsóttur fyrirlesari og rithöfundur. Hún talaði fyrir réttindum fatlaðra og barðist einnig fyrir málefnum eins og rétti kvenna til fóstureyðingar og kosningarétti kvenna. Hún gerðist meðlimur í Sósíalistaflokki Bandaríkjanna sem olli því að margir sem áður höfðu hafið hana upp til skýjanna fannst nú trúverðugleiki hennar minni vegna fötlunar hennar. Leonardo Bruni. Leonardo Bruni (1370-1444) var leiðandi húmanisti, sagnfræðingur og kanslari Flórens. Hann fæddist í Arezzo, í Toskana á Ítalíu. Hann var fremstur nemanda Coluccio Salutatis og varð kanslari 1410. Leonardo Bruni er þekktastur fyrir verk sitt "Historiarium Florentinarum" ("Saga íbúa Flórens") í tólf bindum. Bruni var fyrstur allra sagnfræðinga til að skrifa um þrjú tímaskeið sögunnar: fornöld, miðaldir og nútímann. Hugtakið miðaldir var fyrst notað af samtímamanni hans Flavio Biondo en hugmyndin kom frá Francesco Petrarca sem hafði ritað um „myrkar aldir“ frá falli Rómaveldis til hans eigin tíma. Tímabilið var allt annað heldur en að nútímasagnfræðingar nota í dag, en hann vann grunnvinnu þessarar þrískiptingar í sögunni. Þess vegna er hann kallaður fyrsti nútímasagnfræðingurinn. Bruni átti einnig þátt í þýðingu verka eftir Platon og Aristóteles. Abanjommál. Abanjom er tungumál talað í fylkinu Cross-River í Nígeríu. Abanjom er tónað tungumál, sem þýðir að þegar maður segir orð á að nota raddblæ, eins og í kínversku og tælensku. Það er líka bantú-mál, svo maður getur séð líkindi milli þess og annarra tungumála þar um kring í Suður-Nígeríu. Abanjom er nú aðeins talað af 12.000 manns. Það er ekki opinbert tungumál í fylkinu heldur aðeins notað af ættbálkasamfélagi. Abkasíska. Abkasíska (abkasíska: Аҧсуа) er opinbert tungumál Abkasíu í Mið-Asíu. Abkasía er lítið hérað í Norðvestur-Georgíu sem að hefur lýst yfir sjálfstæði, sem hefur enn ekki verið viðurkennt af öðrum löndum. Það er því enn ekki opinbert lýðveldi, og opinbert tungumál yfirvalda er abkasíska. Það eru þrjár mállýskur í abkasísku; abzhywa (Абжьыуа), sem er talað á svæðinu Abzhywa, bzyb, sem er talað á svæðinu Bzyb, og sadz sem er abkasíska töluð í Tyrklandi. Francis Bacon (heimspekingur). Francis Bacon (22. janúar 1561 – 9. apríl 1626) var enskur heimspekingur, lögfræðingur, rithöfundur og stjórnmálamaður. Hann gagnrýndi ríkjandi heimspeki háskólanna. Í staðinn fylgdi hann raunhyggju, enda stundum nefndur faðir raunhyggjunnar. Bacon taldi að maðurinn ætti að treysta því sem skilningarvitin segðu honum. Hann sagði að þekking væri lykillinn að því að geta stjórnað náttúrunni og þar með bætt líf manna. Frá honum er komin hin fræga setning „mennt er máttur“. Hann skrifaði bæði um hin nýju vísindi, sem áttu að veita mönnum vald yfir náttúrunni, og um hið nýja samfélag, sem væri fyrirmyndarsamfélag fyrir tilstilli hinna nýju vísinda. Bacon átti sér draum um að mennirnir gætu búið yfir tæknilegu valdi yfir náttúrunni. Hann var mikill unnandi náttúruvísinda. Hann taldi manninn geta fundið lausnir á stjórnmálafræðilegum vandamálum með aðferðafræðum náttúruvísindanna. Fyrir Bacon eru vísindi ætluð sem verkfæri mannsins til þess að ná valdi á náttúrinni og jafnframt bæta samfélagið. Ævi. Francis Bacon var yngsti sonur Sir Nicholas Bacon. Móðir hans, Ann Cooke Bacon, seinni kona Sir Nicholas og frænka Sir Anthony Cooke, talaði fimm tungumál og var talin meðal víðmenntuðustu kvenna sinnar tíðar. Enda þótt það sé ekki vitað fyrir víst er talið að Bacon hafi fengið menntun heima hjá sér í bernsku og að hann hafi verið vanheill heilsu á sínum fyrstu árum sem og æ síðan. Árið 1573, þá þrettán ára gamall, innritaðist hann í Trinity College í Cambridge þar sem hann stundaði nám allt til ársins 1576, í félagsskap við eldri bróður sinn, Anthony. Í Cambridge lagði Bacon stund á hin aðskiljanlegustu vísindi og komst á þá skoðun að aðferðirnar sem notaðar voru og niðurstöðurnar sem af þeim fengust væru gallaðar. Virðing hans fyrir Aristótelesi, sem hann þó virðist ekki hafa kunnað of góð skil á, var í öfugu hlutfalli við viðhorf hans gagnvart heimspeki hans. Að mati Bacons skorti heimspekina sannkölluð takmörk og nýjar aðferðir við að ná þeim. Bacon hætti í háskóla við fyrsta tækifæri sem honum gafst. Þann 27 júní árið 1576 héldu þeir bræður til Frakklands þar sem þeir störfuðu í þágu sendiherrans Sir Amyas Paulet. Stjórnmálaástandið í Frakklandi á tímum Hinriks þriðja veitti hinum unga Francis Bacon mikilvæga reynslu, enda neyddist hann til að inna af hendi ýmis viðkvæm verkefni fyrir sendiherrann. Hann bjó í Poitiers en heimsótti París og aðrar helstu borgir Frakklands og viðaði að sér efni í skýrslur um stjórnmálaástand Evrópu. Árið 1579 sneri Francis aftur til Englands vegna dauða föður síns. Arfurinn reyndist af skornum skammti og þurfti Francis því að sjá sér farborða með öðrum leiðum. Francis Bacon lagði stund á nám í lögfræði, bókmenntum og ríkiserindisrekstri og vildi með námi sínu ná virðingarstöðu í stjórnmálum. Það tókst honum þegar Jakob fyrsti Englandsonungur komst til valda árið 1603, en Bacon varð ríkislögmaður við hirð hans árið 1613. Árið 1618 varð hann utanríkisráðherra. Bacon lenti í ýmsum vafasömum málum í stjórnmálavafstri sínu, var ásakaður um að ófrægja konung, um spillingu og óheilindi við undirmenn sína. Eigi að síður tókst Bacon að koma út úr stjórnmálaferlinum með reisn, hann hafði safnað sér sjóði sem starfsmaður ríkisins og settist í helgan stein og helgaði sig heimspeki og vísindum, sem og dulhyggju af ýmsu tagi. Hann dó í London árið 1626 úr lungnabólgu. Verk. Bacon einsetti sér að endurskilgreina vísindalega aðferð. Afleiðslur nutu sín um of á kostnað aðleiðslna að mati Bacon sem vildi eyða öllum forskilningi á heiminum, með því móti mætti rannsaka manninn og umhverfi hans með nákvæmum og yfirveguðum hætti og draga almennar ályktanir. Vísindamaðurinn á umfram allt að vera gagnrýninn að mati Bacon og aldrei að samþykkja skýringar sem ekki eru sannreynanlegar með athugunum og byggja á skynreynslu. Skrif Bacon falla í þrjá flokka: Heimspeki, bókmenntir og stjórnmál. Heimildir. Bacon, Francis Bacon, Francis Bacon, Francis Björn Lind. Björn Lind (f. 22. mars 1978) er sænskur skíðagöngugarpur. Hans helsti kostur eru endasprettir og stjaktækni. Björn Lind er þekktur fyrir að finna upp á nýjungum sem reynast vel í skíðagöngunni. Á Ólympíuleikunum 2002 í Salt Lake City varð hann fyrst þekktur þegar hann komst í A-úrslit í sprettgöngu og notaði þá svokallaða hjálptækni en það lýsir sér þannig að hann heldur í staf þess sem er á undan honum niður brekkuna ef sá sem er fyrir aftan rennur hraðar, þetta kemur í veg fyrir árekstur. Á Ólympíuleikunum 2006 kom Björn Lind, sá og sigraði. Hann fékk gullverðlaun í liðasprettgöngu og sprettgöngu og notaði þar stjaktæknina sem lýsir sér þannig að hann hoppar fram með stafina og tekur styttri en jafnframt hraðari hreyfingar. Þessi tækni er nú notuð af öllum þekktustu skíðagöngumönnum heims eftir Björn Lind. Ármann Kr. Ólafsson. Ármann Kr. Ólafsson er bæjarstjóri í Kópavogi og oddviti Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Kona hans er Hulda Guðrún Pálsdóttir klæðskerameistari sem jafnframt hefur lokið kennaranámi frá KHÍ. Ármann er fæddur á Akureyri, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og tók virkan þátt í félagslífi skólans, var m.a. ritstjóri skólablaðs M.A. Áður en Ármann hóf nám í M.A. lauk hann námi í grunndeild rafiðna við Iðnskólann á Akureyri. Ármann er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands, en hluti af háskólanáminu var markaðsfræði sem hann nam við University of West Florida. Samhliða háskólanáminu lauk Ármann einkaflugmannsprófi en áður hafði hann fengið réttindi til að fljúga svifflugu. Að loknu námi stofnaði Ármann auglýsingastofuna ENNEMM ehf. og var framkvæmdastjóri hennar. Frá árinu 1995 hefur hann gegnt starfi aðstoðarmanns ráðherra í þremur ráðuneytum. Fyrst í samgönguráðuneytinu árið 1995 þá í sjávarútvegsráðuneytinu árið 1999 og loks í fjármálaráðuneytinu frá síðari hluta síðasta árs. Samhliða þessum störfum hefur hann setið í fjölmörgum nefndum tengdum lands- og sveitastjórnarmálum. Ármann sat í stjórn og framkvæmdastjórn SUS á sínum yngri árum. Hann hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi frá árinu 1998, átt setu í bæjarráði, verið formaður skipulagsnefndar og skólanefndar Kópavogs. Ármann gegndi stjórnarformennsku í Strætó 2006-2008 og var forseti bæjarstjórnar Kópavogs. Ármann var kjörinn bæjarstjóri í Kópavogi 14. febrúar 2012 er nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-listi Kópavogsbúa tók við völdum. Harðkjarnapönk. Harðkjarnapönk eða hardcore pönk er tónlistarstefna sem byrjaði að þróast snemma á níunda áratugnum út frá pönktónlist. Eins og nafnið gefur til kynna er harðkjarnapönk pönk tekið út í öfgar. Margir segja þessa þróun rökrétt framhald af pönki, þar sem að pönk hafði misst mikið af fyrrum ferskleika og hneykslunargildi, og hafi því verið brýn nauðsyn á því að taka það á næsta stig. Dæmi um harðkjarnapönksveitir eru: Bad Brains, Circle Jerks, Minor Threat, Negative Approach, Dead Kennedys o.fl. Einkenni harðkjarnapönks. Það sem einkenndi fyrstu harðkjarnapönk hljómsveitirnar var oftar en ekki hraði, ofsi, örvænting og reiði. Áhersla var lögð á keyrslu, og virðist oft á hljóðupptökum frá þessum tíma sem hljóðfærin skori stöðugt hvert á annað að spila hraðar og hraðar. Textarnir eru ögrandi og vægðarlausir, og snerta furðu mörg málefni; flest félagsleg eðlis, og oftar en ekki frá sjónarhorni ráðvillts unglings. DIY (Do It Yourself eða „gerðu það sjálfur“) gildi voru mikilvægur þáttur í mótun hljómsveitanna, en þar sem þær voru seint auðhlustanlegar vildu útgáfufyrirtæki ekki koma nálægt, og neyddust því meðlimirnir til þess að gefa út plötur sínar sjálfir eða hjá einkareknum útgáfufyrirtækjum. Uppruni og bakgrunnur. Uppruni harðkjarnapönks er að mestu leyti rakinn til norðurhluta Bandaríkjanna og Kanada, en erfitt er að segja hvar eða hvenær það byrjaði nákvæmlega. Mikið er deilt um bæði upptök harðkjarnapönk tónlistar og fyrstu notkun orðsins „Hardcore“ í sambandi við pönk tónlist. Sagt er að smáplatan „Out of vogue“ (1978) með hljómsveitinni Middle Class hafi verið fyrst sinnar tegundar, en eins og oft er, þá vilja plötu-grúskarar sjaldnast sættast á eitt, og eru því ýmsar aðrar skífur teknar til greina (s.s. Train of Doomsday (1968) smáskífan með hollensku hljómsveitinni Sounds of Imker). Fyrsta opinbera notkun orðsins „Hardcore“ er talin vera í tónlistarumfjöllun tímaritsins Newsbeat um hljómsveitina The Mob árið 1981, en mjög líklegt er að orðið hafi verið notað í talmáli löngu fyrr. Harðkjarnapönk er sterkt enn í dag, en áherslur hafa breyst þónokkuð með tíðaranda. Margir undirflokkar hafa orðið til undir harðkjarnapönki, meðal annars melódískt hardcore, metalcore, síð-harðkjarni, thrashcore og fjölmargt fleira. Harðkjarnapönk er spilað í ótrúlegustu heimshornum, en nú til dags er það til dæmis mjög vinsælt í Japan, Kína, Brasilíu og Póllandi. Bad Brains. Bad Brains frá Washington, DC eru af mörgum taldir vera brautryðjendur harðkjarnapönks í þeim skilningi að þeir voru fyrstir til að öðlast nógu stóran fylgendahóp til að smita út frá sér. Ekki leið á löngu þar til upp var sprottinn fjöldinn allur af Bad Brains eftirhermu grúppum, og varla er til harðkjarnapönk hljómsveit frá þessum tíma sem ekki hefur orðið fyrir áhrifum frá Bad Brains. Það sem einkenndi þá var einstakur hljómur, en plötur þeirra voru oftar en ekki blanda af harðkjarnapönk lögum við vönduð reggea lög. Bad Brains gáfu út þrjár stúdíó plötur innan pönk geirans, og eru þær taldnar hápunktur ferils þeirra. Síðar gáfu þeir út þónokkrar plötur hjá stórútgáfufyrirtækjum líkt og Caroline Records, Maverick Records og Epic Records, en þær leggja meiri áherslu á fönk, reggea og þungarokk. Meðlimir Bad Brains voru allir heittrúaðir Rastafari-ar. Minor Threat. Minor Threat, einnig frá Washington, DC, er ein af mikilvægari sveitum hardcore pönks, og hefur haft langvarandi og marktæk áhrif á tónlistarheiminn yfir höfuð. Plötur þeirra (Þrjár smáskífur og ein breiðskífa) eru allar taldar hornsteinar í sögu harðkjarnapönks, bæði fyrir hugmyndaríkar og góðar lagasmíðar, og furðu vandaða texta. Eftir að hljómsveitin leystist upp árið 1983, héldu flestir meðlimir hennar áfram í önnur tónlistarverkefni sem síðar mótuðu harðkjarnapönk, emo og indie tónlist á stórbrotinn hátt. Minor Threat voru fánaberar hinnar svokölluðu Straight Edge hreyfingar, en hún snýst um að bera virðingu fyrir líkama sínum og að deyfa hann ekki með áfengi, fíkniefnum eða lauslæti/ólífi. Black Flag. Hljómsveitin var stofnuð árið 1976. Þrátt fyrir að hætta spila harðkjarnapönk eftir Damaged, þá eru þeir oft taldir besta hardcore pönk sveit allra tíma. Allar plötur eftir Damaged hafa haft stór áhrif á grunge hreyfinguna (My War, Slip it In, Family Man, Loose Nut, In my Head). Listi þekktra hardcore pönk hljómsveita. Listi af Íslenskum Hardcore Punk Dreifingum Heimildir. "American Hardcore: A Tribal History" (Steven Blush, Feral House útgáfan, 2001) Bambus. Bambus (fræðiheiti: "Bambuseae") er ættflokkur stórvaxinna hitabeltisjurta af grasaætt með holum stönglum. Agat. Agat eða glerhallur er röndótt steintegund. Lýsing. Afbrigði af kalsedóni með mislitar rákir er fylgja útlínum holuveggjanna og þannig verða til sammiðja mynstur. Hvítt, grátt eða fölblátt. Útbreiðsla. Kemur fyrir sem holufylling í þóleiítbasalti. Finnst oft með kalsedóni og kvarsi. Algengt er að matarprjónar séu gerðir úr agati. Postulín. Postulín er hart og gljáandi efni sem er að mestu unnið úr postulínsleir, og er það oft notað í borðbúnað, skrautmuni o. fl. Kaólín. Kaólín eða postulínsleir tilheyrir hópi leirsteinda. Lýsing. Kristaleinkenni sjást ekki þar sem kristalar eru örsmáir og blaðlaga. Myndar hvítleit lög og hreiður þar sem hveravatn og gufa hafa ummyndast í feldspatrík berg. Leirinn er þéttur í sér, þjáll og límkenndur þegar hann er rakur og auðvelta er að móta hluti úr honum. Útbreiðsla. Finnst við gufuhveri á háhitasvæðum og er hreinast við súra hveri í líparítshraunum. Hefur fundist á Íslandi við Hrafntinnusker og í Mókollsdal í Strandasýslu. Plast. Plast„blóm“ í öllum regnbogans litum. Plast er gerviefni sem framleitt er til margvíslegra nota. Margir nútímahlutir eru gerðir út plasti út að endanleika og hve ódýrt það er. Plast er framleitt úr olíu. Rúgur. Rúgur (fræðiheiti: "Secale cereale") er korntegund af grasaætt. Rúgur hefur breið, löng blöð með stutta slíðurhimnu. Axið er tvíraða og hvert smáax hefur tvö blóm sem hvert er með stórar títur. Lítil hefð er fyrir ræktun rúgs á Íslandi. Helst hefur verið notast við vetrareinær yrki sem er sáð seinni part sumars til þess að fá beit snemma vorið eftir. Ekki hefur tekist að rækta rúg til kornþroska hérlendis. Erlendis er rúgur ræktaður til framleiðslu á rúgmjöl. Kyn (málfræði). Kyn í íslenskri málfræði eru þrjú: kvenkyn, karlkyn og hvorugkyn. Sum tungumál eins og danska hafa aðeins samkyn og hvorugkyn, þar sem samkynið er staðgengill fyrir karl- og kvennkyn. Hvorugkyn. Þannig að ekki er hægt að „álykta“ kyn einhvers orðs. Samsett orð. Karl (kk.) + kyn (hk.) = Karlkyn (hk.) Tölva (kvk.) + leikur (kk.) = Tölvuleikur (kk.) Kvenkyn. Fyrsta fallbeygingin í latínu (sem endar á -a) inniheldur aðallega kvenkyns orð (eins og "puella" (stelpa), "femina" (kona) og "domina" (frú)) en þó eru nokkur orð sem eru í karlkyni ("nauta" (sjómaður), "agricola" (bóndi)). Þessi orð fallbeygjast oftast með -ae eða -æ, svo dæmi séu tekin; „puellae“ (stelpur), „feminae“ (konur), „dominae“ (frúr), „nautae“ (sjómenn) og „agricolae“ (bændur). Karlkyn. Önnur fallbeygingin í latínu (sem endar á -us og -um) hefur bæði karlkyns- og hvorugkynsorð. Orðin sem enda á -us eru oftast karlkyns eins og "dominus" (herra), "agellus" (lítið landsvæði) og "cunarius" (karlkyns barnfóstra) (og enda þau á -i í fleirtölu; "Domini", "agelli" og "cunarii"). Nokkur karlkyns orð í annarri fallbeygingu enda hinsvegar ekki á -us í nefnifalli eintölu en beygjast samt eins og karlkyns orð í annarri fallbeygingu, eins og "puer" (strákur) sem er "pueri" í fleirtölu nefnifalli. Nokkur orð í annarri beygingu sem enda á -us er kvenkyns, einkum heiti borga og landa, trjáa og svo orðið "humus" (jörð). Orðin "vulgus" (almenningur), "virus" (eitur) og "pelagus" (haf) eru hvorugkyns. Abujmaria. Abujmaria (abujmaria: Madi) er tungumál talað á Indlandi. Abujmaria er gondimál, sem eru dravidísk mál. Mörg nöfn eru til yfir abujmaria eftir svæðum og mállýskum. Önnur nöfn fyrir abujmaria eru madi, madiya, hill maria, modi, modh, og madia. Um 135.000 manns tala abujmariu. Um 100.000 manns í Hill Maria tala abujmaria. Að auki eru um 47.000 í Narayanpur sem tala abujmariu og 31.000 í Gadchiroli. Læsi er ekki útbreidd á abujmariu. Aðeins 5% karlmanna geta lesið og skrifað málið og 0% kvenna. Bara embættismenn í Hill Mariu geta lesið og skrifað abujmariu. Brjóst. Brjóst er í eintölu haft um bringu (barm), og svo í eintölu og fleirtölu um aðsetur mjólkurkirtla kvenna sem verða virkir við barneignir en þá seytlar úr þeim mjólk. Annað kann þó að valda mjólkurframleiðslu kvenna. Karlar hafa geirvörtur, en oftast nær ekki brjóst. Brjóst karla koma aðallega til af offitu eða vegna þess að þeir hafa kvenlitning (x-litning). Stærð, útlit og samanburður. Brjóst kvenna eru mjög ólík að stærð og lögun. Algengast að að brjóst kvenna séu ójöfn í stærð, sérstaklega á meðan á vexti þeirra stendur. Það er hlutfallslega algengara að vinstra brjóstið sé stærra.. Vöxtur. Vöxtur brjósta kvenna verður aðalega fyrir tilstilli hormónsins estrógen og gerist það um kynþroskaaldur. Adelska. Adelska (enska: Adele, adelska: Gidire) er tungumál, sem talað er á landmærunum milli Togo og Gana í Afríku. Einungis um 27.300 manns tala málið. Adelska er nígerkongó tungumál og er bantu tungumál líka. Þjóðarbrot er kallað Lolo, sem er á einangruðu svæði. Sagt er að það sé mjög erfitt að komast á svæði Lolofólks þar sem adelska er töluð. Önnur nöfn á adelsku eru bidire, bedere og gadre, en þjóðarbrotið Lolo kallar tungumálið gidire. Í adelsku eru engar veigamiklar Mállýska, en mismunur er á ítónun og hljómfalli milli fólks sem talar adelsku frá Gana og frá Togo. Læsi er mjög lítið. Fólk sem hefur adelsku að móðurmáli getur hvorki lesið né skrifað hana. Læsi er einungis 1% hjá bæði körlum og konum. En fólk sem getur talað adelsku sem annað tungumál getur lesið og skrifað betur en fólk með adelsku sem móðurmál. Læsi hjá þeim er yfir 15% hjá bæði körlum og konum. Fólk sem er með adelsku sem annað tungumál getur talið tví sem móðurmál. Kristni er átrúnaður sem tengist adelsku. Adomoróbe-táknmál. Adomoróbe-táknmál (enska: "Adamorobe Sign Language") er táknmál sem notað er í Gana. Um 1.400 manns kunna málið. Adygeyska. Adygeyska (adygeyska: Aдыгэбзэ) er opinbert tungumál í lýðveldinu Adygeu í Rússlandi. Adygeyska er mjög svipuð abkasísku og öðrum kákasusmálum. Adygeyskt ritmál notast við kyrillíska stafrófið. Í skólum í lýðveldinu Adygeu er allt kennt á adygeysku en ekki á rússnesku, þó rússneska sé annað tungumál í lýðveldinu og opinbert tungumál á Rússlandi. Afríkanska. Afríkanska (afríkanska: Afrikaans) er germanskt mál og indóevrópskt tungumál sem er talað í Suður-Afríku og Namibíu. Hún er opinbert tungumál í Suður-Afríku og er töluð af yfir 16 milljónum manna. Afríkanska hefur þróast úr hollensku. Orðið "Afrikaans" þýðir "hollenska sem er töluð í Afríku" eða bara "afríkanska". Fólk sem talar afríkönsku skilur hollensku. Á afríkönsku er "IJ" úr hollensku breytt í "Y". (dæmi: "hol: IJslands, afr: Yslands"). Munurinn á afríkönsku og hollensku felst í ýmsum atriðum í málfræði og stafsetningu. Afríkanska hefur dreifða landfræðilega notkun sem opinbert tungumál, auk þess að vera töluð víða sem annað eða þriðja tungumál. Það eru þrjár mállýskur í afríkönsku. Höfðaborg er sú borg í Suður-Afríku þar sem flest fólk hefur afríkönsku að móðurmáli og er afríkanska algengasta tungumálið þar. Þrátt fyrir að hollenska og afríkanska séu gagnkvæmt skiljanlegar og því ef til vill réttlætanlegt að nefna hana hollenska mállýsku er nokkur málfræðimunur. Þannig hefur til dæmis málfræðileg afkynjun nafnorða átt sér stað í afríkönsku en hollenska hefur hvorugkyn og samkyn. Jarðsvín. Jarðsvín (fræðiheiti: "Orycteropus afar") er riðvaxið spendýr sem lifir í Afríku. Jarðsvín lifa að mestu á maurum og termítum, en þrátt fyrir útlit og lifnaðarhætti er jarðsvínið ekki skylt öðrum mauraætum á borð við beltisdýrið. Jarðsvínið er skyldast hófdýrum. Jarðsvínið ferðast að næturþeli en hefst við í neðanjarðarbæli á daginn. Jarðsvín eru einlífisverur og deila ekki bæli sínu með öðrum jarðsvínum nema um sé að ræða móðir og grísling. Jarðsvínið er búið miklum klóm og kraftmiklum hrömmum sem eru vel til þess fallnir að grafa holur í termítahrauka eða mauraþúfur. Litla lirfan ljóta. "Litla lirfan ljóta" er stuttmynd frá árinu 2002 framleidd af þrívíddarhönnunarfyrirtækinu CAOZ. Litla lirfan ljóta er tölvuteiknuð mynd frá árinu 2002 í kvikmyndastjórn Gunnars Karlssonar. Handrit myndarinnar sömdu þeir Friðrik Erlingsson og Gunnar Karlsson. Myndin hefur hlotið lof bæði innanlands sem utan og hlaut myndin Edduna í flokki stuttmynda árið 2002. Gunnar Karlsson (kvikmyndagerðarmaður). Gunnar Karlsson er þekktur fyrir kvikmyndastjórn sína á "Litlu lirfunni ljótu" frá árinu 2002 en myndin hlaut Edduna sem stuttmynd ársins 2002. Einnig hlaut Gunnar Edduna 2002 fyrir listræna stjórnun við gerð sömu myndar. Kristján Frímann Kristjánsson. Collage - Klippimynd - Kristján Kristjánsson Kristján Frímann Kristjánsson (fæddur 5. febrúar 1950) er íslenskur myndlistarmaður og safnari. Hann nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1969 – 1973 og síðar við Listaháskólann í Stokkhólmi 1977 – 1980. Hann er Vestfirðingur að ætt og uppruna en foreldrar hans voru bæði fædd og uppalin í Arnarfirði. Hann hefur haldið einar tíu einkasýningar á verkum sínum, þá fyrstu á Neskaupsstað en flestar hinna í Reykjavík. Kristján Kristjánsson vinnur einkum í form sem nefnist collage en það er dregið af franska orðinu "coller" sem þýðir "að líma" og sem nær yfir allar tegundir listrænna hluta sem skeyttir eru saman í eina heild. Kristján hefur í gegnum tíðina unnið ýmsar myndskreytingar á útgefið efni svo sem blöð og tímarit, hljómplötuumslög (Megas og Mannakorn), kort og auglýsingar. Kristján Frímann fæst einnig við draumarannsóknir og textagerð. Á síðasta áratug tuttugustu aldar fjallaði hann mikið um drauma í blöðum, tímaritum og útvarpi. Hann skrifaði vikulega um drauma í Morgunblaðið og hélt úti vikulegum tveggja tíma löngum útvarpsþætti um efnið á Aðalstöðinni. Þá hefur hann skrifað bók um drauma. Hann er meðlimur í "hljómplötuklúbbi" dundar sig við hljómplötusöfnun. Vegna áhuga Kristjáns á tónlist og vinylplötum varð áhugamálið smám saman að söfnun þar sem ákveðnir flokkar urðu fyrirferðarmeiri en aðrir svo sem rokk, Beethoven, jólaplötur, söngleikir og SG-hljómplötur. Umferðarmerki. Umferðarmerki á Indlandi sem bannar framúrakstur. Umferðarmerki er skilti sem stendur við vegkant til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri við ökumenn. Merkin notast yfirleitt við alþjóðlega stöðluð myndtákn til að reyna að tryggja að ökumenn geti skilið merkin óháð því hvaða tungumál þeir kunna. Töluverður munur getur samt verið á útfærslu umferðarmerkja milli menningarsvæða, þótt táknin sjálf séu svipuð útlits. Atom Heart Mother. "Atom Heart Mother" er fimmta breiðskífa bresku rokkhljómsveitarinnar Pink Floyd sem kom út árið 1970. Platan inniheldur fimm lög og spannar það fyrsta, Atom Heart Mother, alla A-hlið vínyl plötunar. Á B-hliðini eru svo þrjú lög sem Roger Waters, Rick Wright og David Gilmour gerðu sitt hver og síðasta lagið gerðu þeir allir með Nick Mason eins og fyrsta lagið. Kafbátur. Kafbátur er bátur sem er byggður þannig að hann getur farið í kaf og siglt í kafi í lengri tíma. Kafbátar eru notaðir af öllum helstu flotum heims og við rannsóknir neðansjávar. Kjarnorkuknúnir kafbátar geta dvalið lengi neðansjávar. Ómannaðir rannsóknarkafbátar geta kafað á meira dýpi en mannaðir. Sumar tegundir kafbáta geta verið í kafi í allt að hálft ár í einu. Sjónpípan, sem hægt er að skjóta upp þegar kafbátur marar í kafi, og er til að sjá upp fyrir yfirborð sjávar (til óvina) er nefnd "hringsjá" (eða "kringsjá"). Gavia er ómannaður smákafbátur til neðansjávarrannsókna hannaður af Hafmynd ehf. Járnbrautarlest. Járnbrautarlest er farartæki, sem ekur eftir teinum. Samanstendur oftast af eimreið með mismarga járnbrautarvagna í eftirdragi. Flestar járnbrautarlestar eru knúnar áfram með díselvél eða rafmagni, sem kemur úr raflínum við teinana. Fyrstu járnbrautarlestirnar notuðu gufuknúnar eimreiðar og sú tækni var í notkun fram yfir miðja 20. öld. Öskjuhlíð. Öskjuhlíð er hæð í Reykjavík, austan við Reykjavíkurflugvöll og vestan við Fossvogskirkjugarð, rétt norðan við Fossvoginn og Nauthólsvík. Hún nær 61 m yfir sjávarmál. Hæðin er útivistarsvæði og í vesturhlíðinni hefur verið mikil skógrækt frá 1950. Efst uppi á Öskjuhlíð eru sex hitaveitutankar. Einn þeirra gegnir ekki lengur því hlutverki að geyma heitt vatn, heldur hefur þar verið komið fyrir sögusýningu þar sem Íslandssagan er rakin. Ofaná tönkunum er áberandi hvolfþak úr gleri sem er kallað Perlan. Er þar rekin veitingastaður og eru útsýnissvalir allt í kringum hana. Í Öskjuhlíð er hægt að sjá mikið af bæði jarðsögulegum og menningarsögulegum minjum. Jökulsorfið berg frá síðustu ísöld er til dæmis að finna nálægt Nauthólsvík. Skógur virðist hafa verið í hlíðinni frá upphafi og líklega hefur verið þar seljabúskapur. Þar er einnig að finna merki þess að sjávarhæð hafi verið hærri. Þegar gerð Reykjavíkurhafnar hófst 1913 var lögð járnbraut úr hlíðinni niður að höfninni til að flytja efni til hafnargerðarinnar. Í síðari heimsstyrjöldinni reistu Bandamenn ýmis mannvirki í hlíðinni og héldu áfram grjótnámi þar nálægt þar sem Keiluhöllin stendur. Fyrsti heitavatnstankurinn var reistur 1940. Upprunalegu tankarnir voru síðan rifnir og endurbyggðir 1986 til 1987 og Perlan byggð ofan á þá. Farþegaskip. Farþegaskip er skip sem hefur það meginhlutverk að flytja farþega og farangur þeirra, ólíkt flutningaskipum sem geta haft visst farþegarými en eru fyrst og fremst hönnuð til að flytja farm. Eftir miðja 20. öldina tóku farþegaflugvélar nær alfarið við af farþegaskipum sem ferðamáti. Nú til dags eru stærstu farþegaskipin skemmtiferðaskip þar sem sjóferðin sjálf er markmið ferðarinnar. Garðskagi. Garðskagi er ysti tanginn á Miðnesi á Reykjanesskaga í sveitarfélaginu Garði. Tveir vitar standa á Garðskaga. Sá eldri (og minni) var reistur árið 1897. Sá nýrri og hærri var reistur árið 1944. Eyrarrósin. Eyrarrósin eru viðurkenning og verðlaun sem veitt eru fyrir menningarstarfsemi á landsbyggðinni sem þykir með einhverjum hætti skara framúr. Verðlaunin eru samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Verndari Eyrarrósarinnar er Dorrit Moussaieff, forsetafrú. Íslensku bókmenntaverðlaunin. Íslensku bókmenntaverðlaunin eru verðlaun sem veitt eru þremur bókum ár hvert. Árið 2013 bættist þriðji flokkurinn við, flokkur íslenskra barnabóka. Áður höfðu verðlaunin verið veitt í tveim flokkum, flokki fagurbókmennta og í flokki fræðirita og rita almenns efnis. Verðlaunin voru sett á stofn af Félagi íslenskra bókaútgefenda í tilefni af hundrað ára afmæli félagsins árið 1989. Fimm bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og eru tilnefningarnar kynntar í byrjun desember en verðlaunin sjálf eru ekki veitt fyrr en í janúar. Vegna þess að tilnefningarnar koma í miðju jólabókaflóðinu eru þær mikið notaðar við markaðssetningu þeirra bóka sem þær hljóta. Val bóka sem tilnefndar eru fer þannig fram að Félag íslenskra bókaútgefenda skipar dómnefndir í hvorum flokki sem velja úr þeim bókum sem lagðar eru fram til tilnefningar af bókaútgefendum. Lokadómnefnd er skipuð af formönnum dómnefnda og einum sem forseti Íslands tilnefnir og er sá jafnframt formaður dómnefndar. Steinunn Finnsdóttir. Steinunn Finnsdóttir (f. 1640 eða 1641, d. eftir 1710) var íslenskt skáld. Hún er fyrsta nafngreinda íslenska konan sem rímnaflokkar eru til eftir; "Hyndlu rímur" og "Snækóngs rímur". Einnig eru varðveitt eftir hana vikivakakvæði, lausavísur og kvæði um íslenska fornkappa. Efniviðurinn bæði í "Hyndlu rímum" og "Snækóngs rímum" er fenginn úr þjóðsögum. Í báðum tilfellum eru varðveitt sagnakvæði undir ljúflingslagi um sama efni og talið er að Steinunn hafi þekkt þau og ort út af þeim. Báðir rímnaflokkarnir fjalla um konur sem eru hnepptar í álög; önnur verður að hundi en hin að karlmanni. Í formála að útgáfu rímnanna 1950 taldi Bjarni Vilhjálmsson að þær væru "sviplítill og tilþrifalaus skáldskapur, stórlýtalítill eða smáhnyttilegur, þegar bezt lætur, en á köflum lítt smekklegur leirburður." Sumir seinni fræðimenn hafa metið Steinunni meira og telur Bergljót Kristjánsdóttir að verk hennar marki þáttaskil í íslenskum rímnakveðskap - sérstaklega séu mansöngvar hennar frumlegir og gæti þar samfélagsgagnrýni. Ænesidemos. Ænesidemos (1. öld f.Kr.) var forngrískur heimspekingur, fæddur í Knossos á Krít. Hann kenndi í Alexandríu. Ænesidemos hóf feril sinn sem akademískur heimspekingur en Akademían var þá efahyggjuskóli. Ænesidemos fékk sig fullsaddan af þeirri kredduspeki sem hann taldi einkenna Akademíuna, sagði skilið við hana og setti fram róttækari efahyggju sem hann kenndi við Pyrrhon frá Elís. Þessi stefna er nefnd pyrrhonismi eða pyrrhonsk efahyggja til aðgreiningar frá akademískri efahyggju. Eigi að síður er ljóst að efahyggja Ænesidemosar á rætur að rekja til elsta skeiðs akademískrar efahyggju ekki síður en til heimspeki Pyrrhons sjálfs, sem gæti vart talist efahyggjumaður samkvæmt pyrrhonskri skilgreiningu á efahyggju. Ænesidemos mun hafa tekið saman hina tíu hætti efahyggjunnar en það voru tegundir raka sem efahyggjumenn beittu til að finna jafnvæg rök gegn hvaða annarri röksemdafærslu sem er og ná þannig fram ástandi úrræðaleysis sem leiddi til þess að þeir frestuðu dómi. Rit Ænesidemosar hafa ekki varðveist en til er útdráttur úr verkum hans í ritum býzanska fræðimannsins Fótíosar. Agrippa (heimspekingur). Agrippa (1. öld) var forngrískur heimspekingur og efahyggjumaður. Hann er talinn hafa tekið saman hina fimm hætti efahyggjunnar en það voru tegundir raka sem efahyggjumenn beittu til að finna jafnvæg rök gegn hvaða annarri röksemdafærslu sem er og ná þannig fram ástandi úrræðaleysis sem leiddi til þess að þeir frestuðu dómi. Pyrrhonismi. Pyrrhonismi er forngrísk efahyggja sem er nefnd í höfuðið á Pyrrhoni frá Elís en á ekki síður rætur að rekja til akademískrar efahyggju, einkum heimspeki Arkesilásar. Upphafsmaður pyrrhonismans var Ænesidemos (uppi á 1. öld f.Kr.) sem hóf feril sinn innan Akademíunnar en fékk sig fullsaddan af þeirri kredduspeki sem hann taldi einkenna akademíska heimspeki á sínum tíma og setti fram róttækari efahyggju sem hann kenndi við Pyrrhon. Rit Ænesidemosar eru ekki varðveitt en varðveittur er útdráttur úr ritum hans. Meginheimildin fyrir þessari heimspeki er hins vegar rit Sextosar Empeirikosar (uppi seint á 2. öld e.Kr.). Saga. Heimspekileg efahyggja varð til í Grikklandi hinu forna en áður en efahyggjan kom fyrst fram sem slík höfðu ýmsir grískir hugsuðir dregið í efa möguleikann á þekkingu. Xenofanes frá Kólofon hélt því fram að ekkert væri hægt að vita um raunveruleikann og Demókrítos hafði velt upp spurningum um mannlega þekkingu almennt og hvort skynfærin væru áreiðanleg til að afla þekkingar. Forngrísk efahyggja átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru "akademískir heimspekingar", þ.e. þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.Kr. Á 3. öld f.Kr. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram. Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís (um 360-275 f.Kr.) sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur í eðli sínu. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur "neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu". Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.Kr., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri "raunverulegur" efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir "pyrrhonismi" í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þetta er sú heimspeki sem kallast pyrrhonismi. Ænesidemos tók saman hina tíu hætti efahyggjunnar, sem voru tegundir raka sem efahyggjumenn beittu til að finna jafnvæg rök gegn hvaða annarri röksemdafærslu sem er og ná þannig fram ástandi úrræðaleysis sem leiddi til þess að þeir frestuðu dómi. Í kjölfar Ænesidemosar kom Agrippa, sem enn minna er vitað um en Ænesidemos. Hann mun hafa tekið saman fimm hætti efahyggjunnar. Aðrar samantektir eru varðveittar (svo sem hættirnir átta og hættirnir tveir) en ekki er vitað um uppruna þeirra. Sextos Empeirikos er meginheimildin fyrir pyrrhonskri efahyggju. Hann var læknir sem var uppi seint á 2. öld e.Kr.. Rit hans eru að mestu leyti varðveitt og vitað er að hann studdist að þónokkru leyti við rit Ænesidemosar og að öllum líkindum rit Agrippu. Pyrrhonismi hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, m.a. á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes. Heimspeki. Pyrrhonistar voru efahyggjumenn. Þeir töldu "ekki" að það væri ekki hægt að vita neitt; hvernig væri hægt að vita það? Þetta viðhorf skilgreindu þeir sem "neikvæða kenningu" um þekkingu. En efahyggjumaður getur ekki leyft sér að halda fram "neinni" kenningu. Þess í stað frestuðu pyrrhonistar dómi um hvort hægt væri að vita eitthvað. Efahyggjumaðurinn neitar því ekki að hægt sé að upplifa eitthvað en frestaði dómi um hvort hægt væri að fjalla um það sem maður upplifir á hlutlægan hátt. Sextos getur t.d. fallist á að hunang "virðist" vera sætt á bragðið en haldið því fram að það sé vafamál hvort það "sé í eðli sínu" sætt eða sé sætt "í raun". Fullyrðingin „hunang "er" sætt“ virðist fela í sér meira en einungis frásögn af upplifun manns, nefnilega dóm um hvernig hunang er í raun og veru; þann dóm getur efahyggjumaður ekki fellt. Þess vegna segir Sextos að alltaf þegar pyrrhonistinn segir „x er F“ eigi hann við „x virðist vera F“ enda streitist efahyggjumaðurinn ekki á móti því hvernig hlutirnir virðist vera, sýndinni. Samkvæmt pyrrhonskri efahyggju þarf maður sem vill öðlast sálarró ("ataraxia") fyrst að losa sig við skoðanir manns og „fresta dómi“, það er að segja finna jafnvægi milli sérhverrar staðhæfingar og neitunar hennar og trúa svo hvorugri í kjölfar þess að maður getur ekki skorið úr um hvor sé sönn eða rétt. Það er mikilvægt að átta sig á að frestun dóms er ekki niðurstaðan í röksemdafærslu, heldur sálfræðileg afleiðing þess að geta ekki skorið úr um hvor kenningin eða staðhæfingin er sönn. Fræðimenn deila um hvort og að hve miklu leyti pyrrhonisti geti leyft sér að hafa skoðanir yfirhöfuð. Sumir telja að Sextos eigi við allar skoðanir og að pyrrhonistinn megi ekki hafa neinar skoðanir. Aðrir telja að þau séu ekki skilaboðin og að pyrrhonistinn geti haft fjölmargar skoðanir en það skipti máli hvernig maður myndar sér skoðanir sínar. Meðal fræðimanna sem hafa haldið fram hinu fyrrnefnda eru Myles Burnyeat og Jonathan Barnes. Burnyeat telur að pyrrhonistinn megi ekki hafa skoðun á neinu sem getur verið satt eða ósatt. Hann má einungis hafa skoðanir á upplifunum sínum, en samkvæmt Burnyeat var það viðtekið og óumdeilt viðhorf í forngrískri heimspeki að einungis staðhæfingar um "ytri" veruleika gætu verið sannar eða ósannar. Barnes telur að efahyggjumaðurinn megi ekki hafa neinar skoðanir, einkum og sér í lagi „heimspekivísindalegar skoðanir - kenningar eða kreddur“ (e. „philosophico-scientific opinions - doctrines, principles, tenets“) um neitt sem er óljóst. Hann getur hins vegar tjáð upplifanir sínar með venjulegu máli, t.d. sagt „hunangið er sætt“ þegar honum virðist hunangið vera sætt. Samkvæmt túlkun Barnes er óljóst hvort efahyggjumaðurinn getur haft venjulega skoðun eins og „það er kvöld“. Michael Frede hefur haldið fram síðarnefndu túlkuninni.. Samkvæmt henni útilokar Sextos ekki allar skoðanir, heldur getur efahyggjumaður haft skoðanir á hverju sem er svo lengi sem þær eru ekki niðurstöður röksemdafærslu, leiðir ekki af slíkum niðurstöðum eða eru afleiðingar heimspekilegra eða vísindalegra pælinga. Skoðanir efahyggjumannsins mega til að mynda vera viðteknar hugmyndir í samfélagi hans og afleiðingar uppeldis hans. En hverjar skoðanirnar eru skiptir engu máli. Inntak þeirra skiptir ekki máli, samkvæmt þessari túlkun, ólíkt túlkun Barnes og Burnyeat. Samkvæmt þessari kenningu getur efahyggjumaður því jafnvel trúað á tilvist guðs eða að guð sé ekki til eða að dygð sé góð. Hann getur aftur á móti ekki verið þeirrar skoðunar að dygðin sé "í eðli sínu" góð. Gagnrýni. Ein helsta gagnrýnin á efahyggju til forna var á þá leið að ef efahyggjumenn hefðu engar skoðanir, þá gætu þeir ekkert gert, ekkert aðhafst, ekkert sagt. Hvernig getur efahyggjumaður til dæmis gengið út um dyr ef hann ekki einungis veit ekki að dyrnar eru fyrir framan hann, heldur hefur enga skoðun á málinu? Sextos tekur skýrt fram að þegar efahyggjumaðurinn segir „x er F“ eigi hann við „x virðist vera F“. Ekkert kemur í veg fyrir að efahyggjumaðurinn segi frá því hvernig honum virðist hlutirnir vera. Ef túlkun Michaels Frede er rétt, þá hæfir gagnrýnin um aðgerðaleysi efahyggjumannsins ekki í mark heldur, því efahyggjumaðurinn getur haft hvers kyns skoðanir, svo fremi sem hann réttlætir ekki skoðanir sínar með rökum eða leiðir þær af kenningum. Sé túlkun Barnes rétt, þá er möguleiki á því að efahyggjumaðurinn hafi hversdagslegar skoðanir eins og „þarna eru dyrnar“ þótt hann hafi ekki heimspekivísindalegar skoðanir. Ef túlkun Burnyeats er rétt, þá hefur efahyggjumaðurinn engar skoðanir en eftir sem áður er ljóst af því sem Sextos segir að efahyggjumaðurinn streitist ekki á móti sýndinni og því ætti hann að geta stuðst við sýndina til að rata á dyrnar þótt hann fallist ekki á að hafa neina skoðun um hvar dyrnar séu. Suðurnesjaannáll. Suðurnesjaannáll er annáll eftir sr. Sigurð Brynjólfsson Sívertsen (1808 - 1887) sem var prestur á Útskálum í meira en 50 ár. Annállinn er m.a. prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri (III). Selsvör. Selsvör var vör og uppsátur fyrir báta í landi Sels við Ánanaust austan við Bráðræðisholt sem nú er hluti Vesturbæjar Reykjavíkur. Þar er núna endurvinnslustöð Sorpu. Jörðin Sel var í Seltjarnarneshreppi til 1835 þegar hún var flutt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Í Selsvör var á árunum frá 1900 til 1940 urðunarstaður þar sem sorpi var sturtað fram af sjávarkambinum niður í fjöruna. 1940 var farið að nota annan urðunarstað vestar þar sem nú er Eiðisgrandi. Við Selsvör byggði Pétur Hoffmann Salómonsson kofa þar sem hann bjó frá 1948 til 1960 og lifði af hrognkelsaveiðum og því sem hann fann þar á haugunum. Hann varð frægur fyrir Selsvararorrustuna 1943 þar sem hann sagðist hafa barist við bandaríska hermenn og haft betur, eins og fram kemur í vinsælum dægurlagatexta eftir Jónas Árnason „Hoffmannshnefar“. Ódysseifskviða. "Ódysseifskviða" (forngríska:, "Odysseia") er annað tveggja sögukvæða sem eignað er forngríska skáldinu Hómer. Kvæðið er talið vera frá síðari hluta 8. aldar f.Kr. Það fjallar um heimför grísku hetjunnar Ódysseifs frá Tróju að Trójustríðinu loknu til heimabyggðar sinnar á eynni Íþöku. "Ódysseifskviða" er um 12 þúsund ljóðlínur og því styttri en "Ilíonskviða" sem er tæplega 15.700 línur. Venjulega er "Ódysseifskviða" talin vera yngra verk en "Ilíonskviða". Ritun kvæðisins. Enginn veit með vissu hver orti Hómerskviður. Frá fornöld og allt fram á 18. öld voru kvæðin eignuð blinda kvæðamanninum Hómer. Ekki er vitað hvenær hann var uppi né hvar hann hélt sig en allmargar jónískar borgir hafa gert tilkall til þess að vera fæðingarstaður skáldsins. Fræðimenn skeggræða enn í dag spurningar sem upp komu er menn fóru að rannsaka kviðurnar gagnrýnið fyrir u.þ.b. 200 árum og ekki eru menn sammála um hver Hómer hafi verið eða hversu mikið af kviðunum komi frá honum. Aðrir taka enn dýpra í árinni og velta því fyrir sér hvort kvæðin séu eftir sama höfund, hvort þær hafi orðið til hvor í sínu lagi og margir efast jafnvel um tilvist Hómers sjálfs. Margt liggur þannig á huldu um tilurð Hómerskviða. Flestir fræðimenn eru þó á þeirri skoðun að Hómerskviður hafi verið ortar seint á 8. öld f.Kr. Bragur. Hómerskviður eru ortar undir hexametri sem á íslensku hefur verið nefndur sexliðaháttur. Eins og nafnið ber með sér þá má þekkja bragarháttinn á því að í hverri ljóðlínu eru sex bragliðir og samanstendur hver bragliður yfirleitt af einu löngu atkvæði og tveimur stuttum. Hexametur var vinsælt meðal Grikkja en þeir ortu ljóð sín ósjaldan undir hættinum. Rómverjar tóku hexametur síðar upp og t.a.m. skrifaði Virgill "Eneasarkviðu" sína og Óvidíus "Myndbreytingar" sínar undir þessum sama hætti. Pétur Hoffmann Salómonsson. Pétur Hoffmann Salómonsson (25. febrúar 1897 – 18. október 1980) var íslenskur sjómaður og kunn persóna í bæjarlífinu í Reykjavík. Hann reisti sér kofa í Selsvör þar sem hann bjó frá 1948 til 1960 og lifði á hrognkelsaveiðum. Hann safnaði ýmsu dóti sem hann fann á öskuhaugum borgarinnar í Selsvörinni og við Eiðisgranda og hélt sýningar á því. Hann hugðist bjóða sig fram til forseta þegar fyrsta kjörtímabili Ásgeirs Ásgeirssonar lauk 1956 en ekkert varð úr framboðinu, aðallega vegna þess að hann veiktist af flensu. Ævisaga hans, "Þér að segja: veraldarsaga Péturs Hoffmanns Salómonssonar", var skrifuð af Stefáni Jónssyni fréttamanni og kom út 1963. Þar sagði Pétur m.a. frá því þegar hann slóst við hóp bandarískra hermanna í Selsvörinni 1943 og hafði betur. Þetta var kallað Selsvararorrustan og gert ódauðlegt í vinsælum dægurlaga texta eftir Jónas Árnason, „Hoffmannshnefar“. Pétur gaf nokkuð út af smáritum, meðal annars endurminningar, leiðbeiningar um álaveiðar og vangaveltur um atgeir Gunnars á Hlíðarenda. Pyrrhon. Pyrrhon (um 360 – 270 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá Elís. Hann er oft sagður hafa verið fyrsti efahyggjumaðurinn enda þótt fræðimenn séu nú flestir á einu máli um að Pyrrhon hafi ekki verið efahyggjumaður. pyrrhonsk efahyggja er nefnd í höfuðið á honum. Æviágrip. Pyrrhon var sonur Pleistarkosar. Díogenes Laertíos, sem ritaði ævisögu Pyrrhons, vitnar í Apollodóros og segir að Pyrrhon hafi fyrst verið málari og að málverk eftir hann væru varðveitt í Elís. Síðar tók hann að stunda heimspeki eftir að hann kynntist verkum Demókrítosar og rökfræði Megörumanna hjá Brýsoni, nemanda Stilpons. Pyrrhon og Anaxarkos ferðuðust til austurs með Alexander mikla og kynntust „nöktu spekingunum“ ("gymnosofistai") á Indlandi og spekingum í Persíu. Pyrrhon virðist einkum hafa tekið upp einsetulíf frá austrænu spekingunum. Þegar hann sneri aftur til Elís bjó hann við kröpp kjör en var í miklum metum meðal borgarbúa og einnig hjá Aþeningum, sem veittu honum borgararéttindi í Aþenu. Sögur hermdu að Pyrrhon væri svo skeytingarlaus um eigin hag vegna þess að hann tryði ekki að það sem hann skynjaði væri raunverulegt að fylgjendur hans ættu í fullu fangi með að hafa auga með honum, gæta þess að hann yrði ekki undir hestvögnum og gengi ekki fram af björgum. Pyrrhon skrifaði engar bækur en kenningar hans eru þekktar úr ritum nemanda hans, Tímons frá Flíos, sem eru varðveitt í brotum og tilvitnunum, og úr ævisögu hans sem Díogenes Laertíos ritaði. Meðal annarra nemenda Pyrrhons má nefna Násifanes frá Teos og Hekatajos frá Abderu Heimspeki. Pyrrhon segir að vitringur verði að byrja á að spyrja sig þriggja spurninga. Í fyrsta lagi hvað sé til og hvernig það er í eðli sínu. Í öðru lagi, hvernig við tengjumst þessum hlutum. Og í þriðja lagi, hvaða viðhorf ættum við að hafa til hlutanna. Við getum ekkert vitað um hvað sé til. Við getum einungis vitað hvernig okkur virðast hlutirnir vera. Pyrrhon hélt því fram að heimurinn væri í eðli sínu óræður og ómælanlegur og af þeim sökum segðu skynfærin okkur hvorki satt né ósatt. Þess vegna væri ekki hægt að vita neitt. Og þess vegna, sagði Pyrrhon, verðum við að fresta dómi um hvort hlutirnir séu svona eða hinsegin og segja hvorki að þeir séu meira svona en hinsegin, eða bæði svona og hinsegin, eða hvorki svona né hinsegin. Með því að losa okkur við allar skoðanir okkar getum við lifað áhyggjulaus og öðlast sálarró ("ataraxía"). Speki Pyrrhons byggir á kenningu um hvernig raunveruleikinn sé í eðli sínu, nefnilega óræður og ómælanlegur og ekki meira ("ou mallon") svona en hinsegin. Kenningu af þessu tagi getur efahyggjumaður ekki leyft sér að hafa og samkvæmt skilgreiningu síðari tíma pyrrhonista væri hver sú kenning sem segði að þekking væri ómöguleg ekki efahyggja, heldur neikvæð kenning um þekkingu. Stilpon. Stilpon var forngrískur heimspekingur sem tilheyrði Megöruskólanum í heimspeki. Hann var samtímamaður Þeófrastosar og Kratesar. Stilpon fylgdi hundingjum að málum í siðfræði. Hann hélt fram sjálfstjórn sem höfuðdygðinni. Cicero ("De fato", 5) lýsir honum sem mikilmetnum manni. Honum eru eignaðar um tuttugu samræður en ekkert er varðveitt af þeim. Meðal fylgjenda hans voru Menedemos og Asklepíades, meginmálsvarar Eretríuskólans í heimspeki. Seneca ("Bréf" 9) ber vitni um náin tengls Stilpons og stóumanna. Anaxarkos. Anaxarkos (uppi um 340 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur af skóla Demókrítosar. Hann var fæddur í Abderu í Þrakíu. Anaxarkos var vinur Alexanders mikla og fór með honum austur. Díogenes Laertíos (IX.10.2) segir að Anaxarkos hafi svarað Alexander, er sá síðarnefndi kvaðst vera sonur Seifs-Ammons, bent á blæðandi sár Alexanders og sagt „Sjá, blóð dauðlegs manns, ekki ikkor, sem rennur í æðum ódauðlegra guðanna.“ Leikfélag Reykjavíkur. Leikfélag Reykjavíkur er leikfélag sem stofnað var 11. janúar 1897 í þeim tilgangi að standa fyrir leiksýningum í Reykjavík. Félagið rekur Borgarleikhúsið í Reykjavík en til 1989 starfaði það í Iðnó við Tjörnina. Jökull Jakobsson. Jökull Jakobsson (14. september 1933 – 25. apríl 1978) var íslenskt leikskáld sem skrifaði mikinn fjölda leikverka frá upphafi 7. áratugar 20. aldar þar til hann lést. Leikritið "Hart í bak" sem var frumsýnt í Iðnó árið 1962 og náði miklum vinsældum, er talið marka upphaf íslenskrar nútímaleikritunar. Auk sviðsverka skrifaði hann mikið af útvarpsleikritum og nokkur sjónvarpsleikrit. Ævi. Jökull fæddist á Neskaupsstað á Norðfirði, þar sem faðir hans, séra Jakob Jónsson, var sóknarprestur. Móðir hans var Þóra Einarsdóttir. Systkini Jökuls voru Guðrún Sigríður persneskufræðingur, Svava rithöfundur og alþingismaður, Jón Einar lögfræðingur og Þór Edward veðurfræðingur. Jökull lauk námi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og lagði síðan um hríð stund á nám í leikhúsfræðum í Vínarborg. Hann hafði gefið út sína fyrstu skáldsögu, "Tæmdan bikar", þegar hann var enn aðeins sautján ára gamall. Er hann sneri heim tók hann að fást við blaðamennsku og vann um tíma á dagblaðinu Tímanum en síðan einkum á ýmsum tímaritum, svo sem Vikunni og Fálkanum. Með leikritinu "Hart í bak" varð hann á skammri stundu vinsælasti leikritahöfundur Íslands og markaði djúp spor í leiklistarsögu landsins. Velgengni verksins átti sinn þátt í að Leikfélag Reykjavíkur varð atvinnuleikhús að fullu. Fyrir utan grínleikinn "Pókók" voru allra fyrstu Jökuls ljóðrænir hvunndagsharmleikir en með sterku gamansömu ívafi. Frá og með "Sumrinu ´37" varð harmurinn sterkari og verkin urðu háðsk, fremur en gamansöm. Áhrif Antons Tsjekhovs höfðu verið nokkuð áberandi í verkum hans og í "Sumrinu" lýsir ein aðal persónan mannlegum samskiptum þannig að fólk sé alltaf að "segja það án þess að segja það". Með "Dómínó" urðu áhrif Harolds Pinters sterkari og sú heimssýn sem verkin birtu varð brotakenndari og illskilgreinanlegri. Undantekningin er "Kertalog" sem er grátbrosleg en þó fyrst og fremst harmræn lýsing á hlutskipti fólks sem á við geðræn vandamál að stríða. Eftir nokkurra ára hlé frá leikritun sneri Jökull aftur með verkið "Son skóarans og dóttur bakarans" þar sem samfélagsgreining og -gagnrýni var meira áberandi en áður. Jökull lést rétt fyrir frumsýningu á verkinu vorið 1978. Auk þess að fást við blaðamennsku og ritstörf var Jökull mjög vinsæll útvarpsmaður, og einkum voru rómaðir þættir hans "Gatan mín" sem fluttir voru um 1970. Þar gekk hann um tilteknar götur í Reykjavík og víðar og spjallaði við gamla íbúa um fólk og örlög í húsunum við götuna. Þá gerði hann nokkra sjónvarpsþætti, m.a. um ýmis dulræn efni, um séra Hallgrím Pétursson o.fl. Fjölskylduhagir. Jökull eignaðist 1955 dótturina Unni Þóru með Áslaugu Sigurgrímsdóttur. Hann gekk síðan 1957 að eiga Jóhönnu Kristjónsdóttur blaðamann, rithöfund og ferðafrömuð. Þau eignuðust börnin Elísabetu Kristínu (1958), Illuga (1960) og Hrafn (1965). Jökull og Jóhanna skildu 1968 og tveim árum seinna gekk hann að eiga Ásu Beck. Þau eignuðust soninn Magnús Hauk 1971 en slitu síðar samvistir. Verk og dagar. "Verk og dagar" (á forngrísku / Erga kaì Hêmerai) er forngrískt kvæði í um 800 línum eftir forngríska skáldið Hesíódos, samið um 700 f.Kr. Efni kvæðisins er tvíþætt og fjallar um það að vinnan sé hlutskipti mannsins en vinnan göfgar manninn og þeim vinnusama reiðir vel af. Fræðimenn hafa löngum litið verkið í samhengi landbúnaðarkreppu á meginlandi Grikklands, sem leiddi til nýlendutímans. Í "Verki og dögum" lýsir Hesíódos fimm skeiðum mannlegrar tilvistar, vieitir ýmis ráð og mælir með heiðarlegu og vinnusömu líferni en ræðst á leti og ranglæti. Í kvæðinu er ódauðlegum guðum lýst, sem reika um jörðina og gæta þess að réttlæti ríki í heiminum Goðakyn. "Goðakyn" (grísku: Θεογονία) er kvæði eftir forngríska skáldið Hesíódos, sem lýsir tilurð heimsins og uppruna guðanna. Kvæðið er um 1000 línur að lengd og er samið undir sexliðahætti eða hexametri, líkt og "Verk og dagar" og kviður Hómers. Prótagóras. Prótagóras (forngríska: Πρωταγόρας) (490 – 420 f.Kr.) frá Abderu var forngrískur fræðari og heimspekingur. Í samræðunni "Prótagóras" eignar Platon honum að hafa fyrsti atvinnufræðarinn og dygðarkennari. Prótagóras virðist hafa verið afstæðishyggjumaður en frægastur er hann fyrir að hafa haldið því fram að „maðurinn [sé] mælikvarði allra hluta, þeirra sem eru að þeir séu og þeirra sem eru ekki að þeir séu ekki“. Prótagóras var einnig efasemdamaður. Í ritgerð sinni "Um guðina", sem er ekki varðveitt, skrifaði hann: „Varðandi guðina hef ég enga leið til þess að vita hvort þeir eru til eða ekki eða hvernig þeir eru, vegna þess hve óljóst málið er og hve lífið er stutt.“ Gunnar Kvaran. Gunnar Kvaran (fæddur 18. janúar 1944) er einn af fremstu sellóleikurum íslensku þjóðarinnar. Gunnar hóf ungur að leika á hin ýmsu hljóðfæri undir handleiðslu Dr. Heinz Edelstein við Barnamúsikskólann í Reykjavík. Tólf ára gamall hóf hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Einari Vigfússyni, sellóleikara. Árið 1964 lauk hann svo brottfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Eftir það hélt hann til náms við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn hjá hinum heimsþekkta dansk-íslenska sellóleikara Erling Blöndal Bengtsson. Þar ytra féllu honum ýmis verðlaun í skaut, þar á meðal tónlistarverðlaun kennd við Jacob Gade og hlaut hann námsstyrk tónlistarháskólans. Á árunum 1968-1974 starfaði hann sem kennari við sama skóla. Framhaldsnám stundaði Gunnar í Basel og París undir handleiðslu René Flachot og sótti meistaranámskeið hjá André Navarra og Gregor Piatigorsky í Danmörku og á Ítalíu. Gunnar Kvaran hefur haldið einleikstónleika og kammertónleika á Norðurlöndum, í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi (m.a. Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York og í Beethoven Haus í Bonn). Hann er meðlimur í hinu kunna Tríói Reykjavíkur ásamt eiginkonu sinni, Guðnýju Guðmundsdóttur, fiðluleikara og Peter Máté, píanóleikara. Gunnari hefur oft verið boðið að taka þátt í virtum tónlistarhátiðum vestan hafs jafnt sem austan þess, svo sem Killington Music Festival og Manchester Music Festival, bæði sem flytjandi og kennari. Hann hefur margoft leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Sjálands og Fílharmóníusveit Jótlands í Árósum. Honum hefur sömuleiðis verið boðið að halda tónleika í hátíðarsal Oslóarháskóla og hljómleikasal Síbelíusarakademíunnar í Helsinki. Sumrin 1999 og 2000 var honum einnig boðið að kenna og leika á tónlistarhátíð í Grikklandi. Í desember 2001 var honum boðið að koma fram ásamt Hauki Guðlaugssyni organista á sérstökum hátíðartónleikun í Vendrell á Spáni, fæðingarbæ Pau Casals. Þann dag voru 125 ár liðin frá fæðingu meistarans. Gunnar er nú prófessor í sellóleik og kammermúsík við Listaháskóla Íslands en hann hefur einnig kennt sellóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík í nærri aldarfjórðung og var um tíma yfirmaður strengjadeildar sama skóla. Hann hlaut verðlaun úr sjóði Dr. Gunnars Thoroddsens árið 1990 fyrir tónlistarstörf og var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1996. Gunnar var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 2006 fyrir störf sín í þágu menningar- og mannúðarmála. Afstæðishyggja. Afstæðishyggja er hver sú kenning og sérhvert viðhorf sem kveður á um að eitthvað sé afstætt við eitthvað annað eða velti á einhverju öðru. Til dæmis telja sumir afstæðishyggjumenn að siðferðið sé afstætt við samfélag og tíma, þannig að það sem er siðferðilega rétt eða rangt velti á því hvaða samfélag er miðað við og hvaða tímabil er miðað við. Stundum vísar afstæðishyggja til "afstæðishyggju um sannleikann", þ.e. til þess viðhorfs að sannleikurinn sé afstæður við einhvern tilvísunarramma, t.d. tungumál, menningu eða einstaklinginn. Gjaldþrot. Gjaldþrot er þegar einstaklingur eða fyrirtæki lýsir sig vanhæfan til að greiða skuldir sínar með lögbundnum hætti. Lánadrottnar geta krafist gjaldþrotaskipta til að reyna að fá upp í hluta skulda þegar ljóst þykir að skuldari muni ekki standa við skuldbindingar sínar. Í meirihluta tilvika er það þó skuldarinn sem óskar eftir gjaldþrotaskiptum. Í þeim tilvikum sem ríki verða gjaldþrota í heild sinni er talað um þjóðargjaldþrot. Alois Alzheimer. Alois Alzheimer sem Alzheimerssjúkdómurinn er kenndur við Alois Alzheimer var fæddur í Markbreit í Suður-Þýskalandi árið 1864. Hann var strax áhugasamur um vísindi í skóla, setti fljótt stefnu á læknisnám og útskrifaðist frá læknaskóla í Berlín árið 1887. Vísindamaðurinn varð fljótt lækninum þungur í taumi og næstu ár varði Alzheimer við rannsóknir fyrir sex binda ritverk sem hann nefndi "Vefjafræðilegar rannsóknir á heilaberkinum". Í leit að stöðu sem gæti sameinað rannsóknir og læknisþjónustu varð Alzheimer árið 1903 umsjónarmaður með rannsóknastofu fyrir Emil Kraepelin við læknaskólann í München. Þar koma Alzheimer á fót nýrri heilarannsóknastofu. Eftir að hafa sent frá sér fjölda rita og greina um heilann og sjúkdóma sem herjuðu á hann, flutti Alzheimer fyrirlestur í nóvember 1906 sem gerði hann frægan. Í fyrirlestrinum skilgreindi Alzheimer óvenjulegan sjúkdóm í heilaberki sem herjaði á konu á fimmtugsaldri, Auguste D., og hafði valdið henni minnisleysi, misáttun, skynvillu og að lokum dregið hana til bana aðeins 55 ára. Alzheimer kynntist Auguste D. sem sjúklingi strax eftir að hann kom til Munchen og hafði nú einnig rannsakað heila hennar eftir lát hennar. Krufning sýndi margskonar óeðlilegar breytingar á heilanum. Heilabörkurinn var þynnri en eðlilegt var, hrörnun ef þeim tagi sem aðeins sést hjá miklu eldra fólki var mikil, elliskellur og "Neurofibrillary Tangle“ (óreiða sýnileg í smásjá í einstökum taugafrumunum) voru í heilanum sem aldrei fyrr höfðu verið rannsakaðar. Alzheimerssjúkdómurinn var seinna við hann kenndur. Alzheimer lést aðeins 51 ára árið 1915 af hjartaþelsbólgu í kjölfar sýkingar sem honum tókst ekki að jafna sig af. Enn þann daginn í dag byggja greiningaraðferðir Alzheimerssjúkdómsins á sömu grundvallaratriðum og Alzheimer kynnti í fyrirlestri sínum í nóvember 1906. Stúdentspróf. Með stúdentsprófi lýkur því námi á framhaldsskólstigi sem ætlað er að veita undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Venjan á Íslandi er að námið standi í fjögur ár eftir lok grunnskóla, en til eru þó undantekningar frá þessu, s.s. í skólum með áfangakerfi þar sem nemendur geta stjórnað námshraða og menntaskólinn Hraðbraut þar sem námið er skipulagt þannig að því ljúki á tveimur árum. Á hinum Norðurlöndunum er stúdentsprófið yfirleitt tekið eftir þriggja ára nám eftir skyldunám. Stúdentspróf eru haldin í þremur námsgreinum, ensku, íslensku og stærðfræði. Til þess að öðlast stúdentspróf þarf einstaklingur að ljúka tveimur af þremur samræmdum prófum. Stúdentspróf veitir rétt til inngöngu í háskóla. Það rekur uppruna sinn til inntökuprófs, "Examen artium", sem tekið var við viðkomandi háskóla til 1850 þegar prófin færðust til menntaskólanna. Samfélag. Samfélag vísar venjulega til hóps fólks sem á með sér innbyrðis samskipti sem hópur, en orðið getur líka átt við um ýmsa hópa lífvera, jurta eða dýra, sem deila sama umhverfi. Samfélag fólks nær yfir allt frá minnstu hópum, eins og fjölskyldu, að stærstu einingum eins og alheimssamfélaginu. Þjóðfélag er ein tegund samfélags sem byggir á tilteknum stofnunum eins og sameiginlegu stjórnkerfi eða sameiginlegu tungumáli. Einstaklingar eru venjulega þátttakendur í mörgum ólíkum samfélögum á hverju skeiði lífsins þar sem þeir gegna ólíkum hlutverkum. Að mynda tengsl við ólík samfélög er mikilvægur hluti af félagsmótun einstaklinga sem á sér stað alla ævi. Hebreska. Hebreska (hebreska: "עברית") er vestur-semískt mál, náskylt arameísku og arabísku. Klassísk hebreska er málið sem er á hebresku biblíunni. Nútímahebreska, "ivrit", er opinbert tungumál í Ísrael, auk arabísku. Hebreska er rituð frá hægri til vinstri með hebreska stafrófinu. Hebresku má skipta í tvö tímaskeið. Eldra hebreska stafrófið hafði 22 bókstafi eins og í nútímahebreska og líkt og í egypsku atkvæðaskriftinni eru eingöngu samhljóðar ritaðir. Að útliti er eldra hebreska starfrófið líkara letri Fönikíumanna, enda afkomandi þess, en yngra hebreska stafrófinu. Elstu heimildir um hebresku er að finna í Deboraljóðinu í Dómarabókinni frá ca. 1250-1000 f.Kr. Klassíska málið stóð með blóma frá 1000-538 f.Kr. en hebreska mun hafa verið upphaflegt tungumál Gyðinga enda er Gamla testamentið skrifað á því máli. Gyðingar munu þó almennt hafa talað annað semítískt tungumál við Krists burð, arameísku, en þeir héldu hebresku sem helgimáli, líklega svipað og latína hefur löngum verið notuð í kaþólsku kirkjunni. Þannig hélst hebreska sem ritmál fræðimanna og fram á okkar tímatal er verið að skrifa rit í Júdeu á hebresku og arameísku, samanber Mishnah, Talmud og Qumran-handritin. Ísraelsmenn hafa unnið markvisst að því að koma hebresku á sem móðurmáli í Ísrael en áður en Ísraelsríki var stofnað réðu Bretar Palestínu og voru þá þrjú opinber tungumál í landinu: arabíska, hebreska og enska. Um og eftir stofnun Ísraelsríkis 1948 flúðu margir arabar landið og fjöldi Gyðinga streymdi þangað. Gyðingarnir komu víða að með hin ýmsu móðurmál, eins og þýsku, rússnesku, pólsku og jiddísku. Nútíma hebreska byggist á hinu forna helgimáli og er móðurmál flestra Ísraelsmanna í dag (um 7 milljónir manna eða 77% þjóðarinnar) en talið er að alls tali um 15 milljónir manna hebresku í heiminum í dag í ýmsum löndum. Á Hólum í Hjaltadal er eintak af Biblíunni á hebresku og eru skrifaðar inn í hana athugasemdir meðal annars með hendi Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups (um 1541–1527). Guðbrandur var stórvirkur á sviði þýðinga og bókaútgáfu en mesta þrekvirki hans var útgáfa Biblíunnar árið 1584. Hugsanlegt er að Guðbrandur hafi notast við hebreska frumtexta Gamla testamentisins er hann bjó biblíuna í íslenskan búning. Ritháttur og letur. Nútíma hebreska er rituð frá hægri til vinstri með hebresku letri. Nútímastafrófið er byggt á ferkantaðri leturgerð, sem er þekkt sem "ashurit" (assyríska) og hefur þróast úr arameíska stafrófinu. Skrifstafir hebreska stafrófsins eru meira hringlaga og eru sumir allfrábrugðnir samsvarandi prentstöfunum. Miðaldagerð skrifstafana þróaðist í aðra leturgerð, "rashi" letur, sem samsvarar skáletri og er notað fyrir undirmálstexta og skýringaglósur í trúartextum. Sérhljóðar. Upprunalegir biblíutextar á hebresku innhéldu eingöngu samhljóða on stafabil og er sá ritháttur enn notaður í Torah-ritunum sem notuð eru í sýnagógum. Til er ritháttur sem inniheldur sérhljóða sem kallast "niqqud" (þýð. punktar) og þróaðist á fimmtu öld. Sérhljóðarithátturinn er einkum notaður í dag í prentuðum Biblíum og trúarritum en einnig í ljóðlist, barnabókum og byrjendatextum handa nemum í hebresku. Mest af hebreskum nútímatexta er ritaður með eingöngu samhljóðum, stafabilum og vestrænni punktasetningu og til að auðvelda lestur án sérhljóða eru svokallaðir matres lectionis (sjá neðar) notaðir í orðum sem annars væru rituð án þeirra með niqqud rithætti. Niqqud rithátturinn er stundum notaður þegar nauðsynlegt er að draga úr tvíræðri merkingu orða, (svo sem þegar ekki er hægt að skilja eins stafsett orð út frá samhengi í texta) og til að rita erlend nöfn í þýðingum. Samhljóðar. Hebreskir samhljóðar eru allir táknaðir með einum staf (með fáeinum undantekningum í nútíma hebresku). Sumir samhljóðar eru táknaðir með sama bókstaf, t.d bókstafurinn “bet” fyrir samhljóðana /b/ og /v/ - en þá er greinarmunur gerður á “hörðum” samhljóða og “mjúkum” og ræðst framburðurinn þá oft af samhengi textans. Með punktarithætti, niqqud, eru harðir samhljóðar táknaðir með punkti, sem kallast dagesh, í miðju. Það eru tuttugu og tveir bókstafir í hebreska stafrófinu, sem kallast „aleph bet“ eftir fyrstu tveimur stöfunum. Bókstafir stafrófsins eru eftirfarandi: Aleph, Bet/Vet, Gimel, Dalet, He, Vav, Zayin, Chet, Tet, Yod (borið fram Yud af Ísraelum), Kaf/Chaf, Lamed, Mem, Nun, Samekh, Ayin, Pe/Fe, Tzadi, Qof (borið fram Koof af Ísraelum), Resh, Shin/Sin, Tav. Mater lectionis. Bókstafirnir "he, vav" og "yod" geta táknað samhljóðana /h/, /v/ og /j/ eða komið í stað sérhljóða og nefnast þeir þá „emot q´ria“ (matres lectionis á latínu eða „mæður lestrar“ á íslensku). Stafurinn he í enda orðs táknar venjulega sérhljóðann /a/ sem venjulega þýðir að orðið er kvenkyns eða sérhljóðan /e/ sem þýðir yfirleitt að orðið er karlkyns. Í fáum tilfellum getur það táknað /o/ til dæmis í שְׁלֹמֹה (Shlomo, Solomon). He getur líka verið eignarfalls viðskeyti fyrir 3. persónu eintölu kvenkyni og er þá ekki matris lectionis heldur samhljóðinn /h/ en í hebresku talmáli er þessi greinarmunur sjaldan gerður. Vav getur táknað /o/ eða /u/, og yod getur táknað /i/ eða /e/. Stundum er tvöfalt yod notað fyrir /ej/ eða /aj/ (þessi ritvenja þróaðist úr jiddísku). Í sumum ísraelskum nútímatextum er stafurinn alef notaður til að tákna langt /a/ í erlendum nöfnum, einkum af arabískum uppruna. Áherslutákn. Það er ekki til neitt eitt staðlað tákn til að tákna áherslu í hebreskum texta. Venjulega er ekkert tákn fyrir áherslu. Stundum er áhersla merkt í bænatextum þannig að þegar áherslan er ekki á síðata atkvæði orðs er lítið strik sett undir fyrsta samhljóðann í fyrsta áhersluatkvæðinu. Seinna áhersluatkvæði í orði er hægt að tákna með lóréttu striki sem kallast meteg (מתג), og er vintra megin við sérhljóðann. Þessi tákn eru eingöngu notuð í niqqud texta. Dvergar (norræn goðafræði). Dvergar samkvæmt sköpunarsögu norrænnar goðafræði eins og hún birtist í Snorra-Eddu eru sagðir hafa kviknað í holdi jötunsins Ýmir líkt og maðkar, uns goðin hafi gefið þeim vitund. Í Völuspá Eddukvæða aftur á móti er sköpun þeirra lýst þannig að þeir hafi verið skapaðir af blóði "Brimis" og beinum "Bláins". Þeir koma fyrir bæði í Snorra-Eddu og Eddukvæðum og fornaldarsögum Norðurlanda en leika þó sjaldnast stór hlutverk í sögunum, þó er undantekning frá því sem eru "Norðri", "Suðri", "Austri" og "Vestri" sem halda uppi sjálfri himinhvelfingunni. Ekki eru það þó margir dvergar sem nefndir eru til sögunnar en þá einna helst sem smiðir hinna ýmsu gersema og vopna svo sem hamars Þórs, Mjölnirs, sem dæmi. Þeim er yfirleitt lýst sem litlum dökkleitum eða svörtum verum sem lifa í steinum eða neðanjarðar og eru þekktastir fyrir að vera afburða völundarsmiðir. Margir fræðimenn hafa staðsett þá mitt á milli goða og jötna, með sköpunarhæfileika líkt og goðin en dvelja í myrkraveröld líkt og jötnar. Til marks um það er að hægt er að lesa út úr Völuspá að fyrstu mannverurnar, Askur og Embla, hafi verið sköpuð af dvergum en goðin þrjú sem fundu þau hafi blásið þeim lífsandann. Ekki eru þó allir fræðimenn sammála þessarri túlkun. Eins hefur verið bent á að "Svartálfar", líkt og dvergar, eru sagðir búa í "Svartálfaheimi" og hafi því mögulega verið sömu verur og dvergar. Þekktir dvergar í Norrænni goðafræði. Meðal þeirra þekktustu eru "Norðri", "Suðri", "Austri" og "Vestri" sem halda uppi himinhvelfingunni eins og að ofan er getið, "Brokkur" og "Sindri" sem smíðuðu þrjár gjafir til ása, hringinn Draupni, svínið Gullinbursta og hamarinn Mjölni og svo "Dvalinn" og "Durinn" sem smíðuðu sverðið "Tyrfingur" í Hervarar sögu. Efni. Efni í efnafræði á við um hvaðeina, sem er hluti af "efnisheiminum" og hefur tiltekna "efnislega eiginleika". Í þrengri merkingu á orðið við um eitthvað, sem hefur tiltekna, skilgreinda efnafræðilega samsetningu. Efni er samsett úr s.n. "efniseindum", sem er heiti sameinda og frumeinda, sem myndaðar eru úr kjarneindum auk rafeinda. Andefni er andstaða efnis og er samsett úr s.n. andeindum, en finnst ekki náttúrulega á jörðinni. Orðið "hráefni" á við er efni, sem notað er við framleiðslu og getur sjálft verið afurð tiltekins framleiðsluferils. Skurður. Skurður eða síki er manngerður farvegur sem oft tengist við vötn, ár eða höf. Til eru þrjár megingerðir skurða; framræsluskurðir til að veita vatni frá tilteknum svæðum, áveituskurðir til að veita vatni að tilteknum svæðum og skipaskurðir fyrir farþega- eða flutningaskip. Skipaskurðir eru oft ár sem eru breikkaðar eða aðrar hindranir fjarlægðar til að gera þær siglingahæfar; á þeim er oft margra þrepa skipastigar. Minni skurðir af þessu tagi geta borið smábáta og pramma, en stærri skipaskurðir bera stór flutningaskip. Vestur-Nýja-Gínea. Vestur-Nýja-Gínea er vestari helmingur Nýju-Gíneu sem heyrir undir Indónesíu. Hann skiptist í tvö héruð, Papúu og Irian Jaya Barat. Áður hefur svæðið heitið ýmsum nöfnum, þar á meðal Hollenska Nýja-Gínea (til 1962), Vestur-Irian (1962 til 1973) og Irian Jaya (1973 til 2000). Svæðið var innlimað af Indónesíu árið 1969 í mjög umdeildri aðgerð. Sýslumaður. Sýslumaður er embættismaður sem er stjórnvald í sýslu. Á Norðurlöndunum voru sýslur búnar til sem lögsagnarumdæmi á 12. öld og konungur skipaði sýslumenn yfir þær yfirleitt sem eins konar lén þar sem hann fékk hlut af innheimtu gjalda í sýslunni (sekta, tolla og skatta). Sýslumenn sáu um löggæslu og sátu í dómi og voru þannig fulltrúar bæði framkvæmdavalds og dómsvalds í héraði. Með lagabreytingum á 9. áratug 20. aldar var hlutverk sýslumanna endurskilgreint og nær nú einkum yfir löggæslu, innheimtu og útgáfu leyfa á landsbyggðinni. Á Íslandi var komið á sýsluskipan eftir að Gamli sáttmáli var gerður við Noregskonung árið 1264. Sýslur og sýslumenn eru ennþá til á Íslandi og í Færeyjum, en á hinum Norðurlöndunum urðu sýslurnar fljótlega formlega að lénum. Embættið er að mörgu leyti skylt embætti skerfara (e. "sheriff") eða embætti umdæmislögreglustjóra (e. "county commissioner") sem eru þekkt í enskumælandi löndum. Stífla. a> er bogastífla úr járnbentri steinsteypu. Stífla eða stíflugarður er hindrum í farvegi rennandi vatns sem lokar fyrir vatnsstreymi eða beinir því annað. Fyrir ofan stíflu myndast uppistöðulón, sem líkist oft stöðuvatni og nota má til vatnsmiðlunar (þ.e. miðlunarlón). Flestar stíflur eru með yfirfall sem hleypir vatni í gegn stöðugt eða á vissum tímum. Fyrstu stíflurnar voru reistar í Mesópótamíu fyrir um 7000 árum til að stjórna vatnsmagni í ám sem var mjög breytilegt eftir veðri. Í Egyptalandi voru stíflur hluti af áveitukerfi sem miðlaði reglulegum flóðum í Níl út á ræktarlöndin. Krakkar til forna bjuggu oft til stíflur úr sandi. Hvolfþak. Hvolfþak er algengt form í byggingarlist sem líkist holu efra hvolfi hnattar. Hvolfþök eru ekki alltaf fullkominn hálfhringur heldur geta verið öskjulaga í þversniði. Egglaga hvolfþak var nýjung sem einkenndi barokktímabilið. Heinz Edelstein. Heinz Edelstein (1902-1959) var þýskur sellóleikari sem starfaði í Freiburg í Þýskalandi uns hann settist að á Íslandi 1936 og gerðist sellóleikari í Hljómsveit Reykjavíkur. Hann kenndi sellóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1937-1951 og stofnaði Barnamúsikskólann (síðar Tónmenntaskóli Reykjavíkur) og var skólastjóri hans fram til ársins 1956. Heinz var starfandi við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun hennar árið 1950 og fram til 1956. Árið 1957 sneri hann aftur til Vestur-Þýskalands og andaðist þar tveimur árum síðar. Einar Vigfússon. Einar Vigfússon (1927-1973) var íslenskur sellóleikari sem stundaði nám, m.a. í London. Hann lék með sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun hennar árið 1950 og var kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 1951. Einar Vigfússon kom bæði fram sem einleikari og kammermúsikant hér heima og erlendis. Þórhallur Árnason. Þórhallur Árnason (f. 1. janúar 1891 –, d. 18. júní 1976) fæddist að Narfakoti í Njarðvíkum, Gullbringusýslu. Hann stundaði nám í sellóleik við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn undir handleiðslu prófessor Anton Rüdinger og síðar framhaldsnám í Hamborg hjá Emil Leichsenring. Fyrri hluta ævinnar vann hann fyrir sér með sellóleik á ýmsum hótelum og í leikhúsum. Þórhallur starfaði um tíma sem sellóleikari hafskipsins Würtemberg. Hann átti heima í Hamborg á árunum milli 1921-1931 en þá fluttist hann heim og hóf störf hjá RÚV. Þórhallur samdi fáein tónverk sem eru óprentuð en hafa verið flutt í útvarp. Naddoður. Naddoður (eða Naddoddur) fann Ísland fyrstur norrænna manna, samkvæmt Landnámubók. Naddoður, sem var Ásvaldsson, fæddist í Noregi en var meðal þeirra fyrstu sem settust að í Færeyjum. Eitt sinn, er hann var á leið frá Noregi til Færeyja, ásamt föruneyti, rak hann af leið og kom þá til Íslands. Naddoður og menn hans gengu upp á fjall eitt hátt á Austfjörðum og lituðust víða um eftir reyk eða öðrum merkjum þess að landið væri byggt en sáu ekkert. Þegar þeir sigldu frá landinu snjóaði í fjöll og nefndi Naddoður landið því Snæland. Hann lofaði ennfremur landið mjög, ólíkt því sem Flóki gerði síðar. Einn af niðjum Naddoðs deildi nokkuð við Einar Sigmundsson, sonarson Ketils þistils sem nam Þistilfjörð. Garðar Svavarsson. Garðar Svavarsson var, samkvæmt Landnámubók, annar maðurinn til að koma til Íslands. Garðar var sænskur maður og hafði frétt af landinu af frásögn Naddoðs víkings. Líkt og Naddoður kom hann að landi að Austan. Hann hafði vetursetu á Húsavík við Skjálfandaflóa. Garðar sigldi umhverfis landið og gerði sér grein fyrir því að Ísland er eyja. Eftir að Garðar kom til Noregs og sagði frá því, sem hann hafði séð, var Ísland kallað "Garðarshólmur" (sjá Heiti yfir Ísland). Handrit Landnámu gefa ólíkar skýringar á komu hans til Íslands. Samkvæmt einu handritinu fór hann að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar en samkvæmt öðru handriti tók hann arf í Skotlandi og kom til Íslands fyrir tilviljun. Hróar, sonarsonur Garðars, átti systur Gunnars á Hlíðarenda í Fljótshlíð sem Arngunnur hét. Enn fremur hafa menn metið það svo að ‚Hólmi‘ hefði vart verið notað yfir eyju nema á austnorrænum mállýskum, enda var Garðar sænskur maður. Pýramídi. Pýramídi (eða upptyppingur) er heiti á strýtulaga mannvirkjum, sem hlaðin eru úr steini. Grunnflöturinn er oftast ferhyrningur eða þríhyrningur. Frægustu pýramdarnir eru taldir vera grafhýsi faraóanna í Egyptalandi. Þeir þróuðust út frá þrepapýramídum sem aftur þróuðust út frá stórum mastöbum úr leirhleðslum. Frægustu þrepapýramídana er að finna í Suður-Ameríku. Pýramída af öllum stærðum og gerðum er að finna í byggingarlist um allan heim frá ýmsum tímum. Orðið pýramídi er oft notað um fjórflötung, sem er með þríhyrningslaga jafnhliða grunnflöt og hliðarnar eru líka jafnhliða þríhyrningar. Víetnamstríðið. Víetnamstríðið er oftast notað yfir þau hernaðarátök sem áttu sér staðar í Víetnam frá 1959 til 1975. Hernaðarsvæðið var þó engan veginn bundið við Víetnam heldur náði einnig yfir Laos og Kambódíu. Þessi átakatími hefur einnig verið nefndur "Seinni Indókínastyrjöldin" og er hugtakið Fyrri Indókínastyrjöldin notað um baráttuna gegn Frakklandi 1945 til 1954. Í þessari seinni styrjöld tókust á annars vegar her Norður-Víetnam, Þjóðarfylkingin fyrir frelsun Suður-Víetnam, einnig þekkt sem Viet-Cong, og bandamenn þeirra og hins vegar her Suður-Víetnam og bandamenn hans, einkum Bandaríkjamenn. Þegar átökunum lauk 1975 höfðu um 3 til 4 miljónir Víetnama látið lífið, 1,5 til 2 miljóna íbúa Laos og Kambódíu, og þar að auki um 60.000 bandarískir hermenn. Endaði þar með yfir hundrað ára vopnuð barátta Víetnama gegn erlendum hersveitum. Meginorsök stríðsins var tvískipting landsins eftir Fyrri Indókínastyrjöldina 1946 til 1954 þar sem sjálfstæðissinnum, Viet-Minh, tókst ekki að ná völdum í suðurhluta landsins í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði landsins frá Frakklandi. Að sumu leyti var Víetnamstríðið eins konar umboðsstríð þar sem risaveldin í Kalda stríðinu tókust á óbeint gegnum bandamenn sína í Víetnam. Aðalbandamenn Norður-Víetnam og skæruliða Þjóðfylkingarinnar voru annars Sovétríkin og Kínverska alþýðulýðveldið, en aðalbandamenn stjórnarinnar í Suður-Víetnam voru Bandaríkin, Ástralía, Taíland, Filippseyjar og Nýja-Sjáland. Aðallega voru það þó Bandaríkin sem sendu stóra herflokka til að taka þátt í átökunum í Víetnam frá 1965. Víetnamstríðinu lauk 30. apríl 1975 með falli Saígon í hendur hers Norður-Víetnama. Yfirlit. Víetnamstríðinu er oft skipt í tvö aðskilin tímabil. Fyrra stríðið var stríð Frakka til að endurheimta eða halda nýlendu sinni Víetnam í Indókína og hindra að þjóðernissinnaðir kommúnistar næðu henni á vald sitt. Stríðið hófst við lok seinni heimsstyrjaldarinnar þegar Japanir yfirgáfu Víetnam og afhentu Ho Chi Minh og hans mönnum yfirráðin í landinu. Frakkar reyndu að semja við þá í fyrstu en slitnaði uppúr samningaviðræðunum í nóvember 1946 og bardagar hófust. Stríðinu lauk með miklum ósigri Frakka í orrustunni við Dien Bien Phu 1954. Í Genfarsamningnum var síðan ákveðið að skipta landinu til bráðarbyrgðar í Norður- og Suður-Víetnam og átti síðar að sameina landið í kosningum 1957. Þá ríkti kommúnistastjórn Ho Chi Minh í Norður-Víetnam, en Keisarastjórn og síðar andkommúnískt lýðveldi hliðhollt Bandaríkjamönnum í Suður-Víetnam. Ho Chi Minh stjórnin vildi fylgja Genfarsamningnum en Suður-Víetnamska stjórnin neitaði að gera það með stuðning frá Bandaríkjunum. Með þeim deilum hófst síðara Víetnam stríðið (sem er stríðið sem oftast er verið að tala um þegar minnst er á Víetnam stríðið) árið 1960. Norður-Víetnamar beittu skæruhernaði sem á endanum bar sigur af hólmi gegn herfylkingum og loftárásum Bandaríkjamanna og er þetta eini hernaðarósigur sem Bandaríkin hafa orðið fyrir. Eftir stríðið höfðu þjóðernissinnaðir kommúnistar öll völd í landinu frá árinu 1975 en landið var illa farið og lamað eftir nánast þrjátíu ára samfellt stríð. Stríðið í Frönsku Indókína. Á 19. öld töldu nýlenduveldin að löndin í Suðaustur-Asíu væru arðvænlegasti heimshlutinn. Víetnam ásamt Laos og Kambódíu, var hluti af frönsku nýlendunni Indókína. Japanir hertóku landið í seinni heimsstyrjöldinni en þá var við völd í Frakklandi Vichystjórnin sem var leppstjórn Þjóðverja. Þjóðverjar höfðu þá auðvitað verið búnir að ná undir sig meirihluta Frakklands. Frönsku embættismennirnir í Indókína hlýddu þeirri stjórn sem sagði þeim að hlíða fyrirmælum Japana. Japanir komu síðan illa fram við landsmenn og það ýtti undir andspyrnuhreyfingar undir forystu Ho Chi Minh. Við lok heimsstyrjaldarinnar seinni misstu Japanir svo völd sín í landinu. Þegar Frakkar sneru svo aftur til Indókína eftir seinni heimsstyrjöldina var allt breytt. Ho Chi Minh, foringi kommúnistaflokks Indókína, hafði lýst yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Víetnams hinn 2. september 1945. Ho Chi Minh sem nýtti sér skæruliðahernað átti í borgarastyrjöld gegn andkommúnistum. Kommúnistum tókst þó að afla mikils fylgis í kosningum í febrúar 1946 og Ho Chi Minh hélt áfram að reyna að yfirbuga andstæðinga sína. Á meðan þessu stóð sat franska stjórnin og Ho Chi Minh við samningaborðið, því Frakkar vildu ekki viðurkenna stjórn hans. Að lokum viðurkenndu Frakkar Víetnam sem frjálst ríki innan franska ríkjasambandsins í mars árið 1946. Samningar stóðu þó lengur yfir um stærð ríkisins og afstöðu þess til Frakklands. Ekki tókst að ná sáttum og slitnaði uppúr samningaviðræðum í nóvember sama ár þegar bardagar hófust. Stríðinu lauk ekki fyrr en árið 1954. Þá höfðu Frakkar verið sigurstranglegri í varnarstríði, með hernaðaraðstoð frá Bandaríkjamönnum. Frakkar sáu fram á að Víetnamar gætu tekið við stríðinu sjálfir og frönsku hersveitirnar gætu haldið heim á leið. Þá átti að mynda stjórn í landinu undir forustu Baos Dais keisara. Fyrst þurfti þó að gjörsigra skæruliðanna í átökum. Þá var valinn vígvöllur í þröngum dal í norðvesturhluta landsins nálægt borginni Den Bien Phu þar sem átti að neyða skæruliðanna til orrustu. Foringi skæruliðanna beit á agnið en Frakkar höfðu greinilega vanmetið styrk þeirra því þeim beið mikil ósigur þar. Borgin Den Bien Phu féll svo í maí 1954. Þá hófust friðarviðræður því Frakkar höfðu fengið nóg af stríðinu og á Genfarráðstefnunni var ákveðið að skipta landinu til bráðarbyrgðar í Norður og Suður-Víetnam við 17. breiddargráðu. Bandarísk afskipti. Ho Chi Minh Stígurinn sem lá um Laos og Kambódíu alla leið til Suður-Víetnam, 1967 Frakkar yfirgáfu þá landið en Bandaríkjamenn tóku við forráðum. Ho Chi Minh tók við völdum í Norður-Víetnam með sinni kommúnistastjórn og Baos Dias í Suður-Víetnam. Ekki var keisarinn lengi við völd því forsætisráðherra hans, sem starfaði náið með Bandaríkjamönnum, breytti landinu fyrst í lýðveldi með sig sjálfan sem forseta. Í Genfarsáttmálanum var ákvæði um að árið 1957 yrði landið sameinað með frjálsum kosningum undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Norður-Víetnam vildi fylgja því en Suður-Víetnamar neituðu því með stuðningi frá Bandaríkjastjórn. Ho Chi Minh hafði styrkt stöðu sína töluvert í norðurhlutanum og mikil iðnvæðing hófst. Stjórn hans var traust og hún beitti sér mikið til þess að sameina Víetnam. Fjöldi hermanna Norðurhlutans hafði orðið eftir í suðurhlutanum eftir friðarsáttmálann 1954 og mynduðu þeir nýja og öfluga skæruliðahreyfingu sem Suður-Víetnamar kölluðu Víetkong þ.e. víetnamskir kommúnistar. Ekki er vitað með vissu um tengsl milli Norður-Víetnama og Víetkong hreyfingarinnar, en þeir fyrrnefndu yfirtóku forustu hennar eftir 1965. Á meðan stjórnaði Ngo Dinh Diem suðurhlutanum í andkommúnískum anda, studdur af Bandaríkjamönnum sem höfðu miklar áhyggjur af útbreiðslu kommúnismans. Hann hafði ekki í huga að sameina Víetnam eins og Genfarsáttmálinn kvað um og smám saman hófst uppreisn gegn stjórn hans. Stjórn hans var spillt og ótraust og á endanum var honum steypt af stóli í nóvember 1963 með byltingu hersins. Fram að þessu hafði stuðningur Bandaríkjamanna aðallega verið efnahagslegur en Kennedy stjórnin ákvað að auka fjölda „tækniráðgjafa“ í landinu upp í 15.000 talsins. Talið er að Bandaríkjamenn hafi staðið að baki byltingarinnar og látið myrða Diem. Þeir vonuðust þá eftir virkari stjórn í kjölfarið en það rættist ekki. Mikil straumhvörf urðu í stríðinu í ágúst árið 1964, þegar Bandaríkjamenn ásökuðu Norður-Víetnama um að hafa ráðist á skip úr bandaríska flotanum. Þetta taldi bandaríska þingið næga ástæðu til þess að gefa forsetanum heimild til að reiða fram beinni aðstoð við Suður-Víetnama með hersveitum og flugvélum. Þetta atvik er þó umdeilt og talið er að það hafi verið skipulagt af Bandaríkjamönnum. Bandarískar herþotur að varpa sprengjum í Norður-Víetnam Í upphafi síðara stríðsins réðu skæruliðar Vietkong hreyfingarinnar mestu í sveitum landsins en stjórn Suður-Víetnama og Bandaríkjanna réðu borgunum. Stríðið var aðallega háð í suðurhluta landsins en Bandaríkjamenn gerðu þó miklar loftárásir á norðurhluta landsins í þeim tilgangi að hindra birgðaflutninga til skæruliðanna. Þegar líða tók á stríðið fóru þjálfaðar hersveitir frá Norður-Víetnam að streyma á vígvellina skæruliðahreyfingunni til aðstoðar. En um leið fjölgaði mjög í bandarískum hersveitum og árið 1967 var herlið þeirra orðin hálf milljón manna. Þeir dreifðu eiturefnum og napalm sprengjum úr lofti yfir stór skóglendi og þorp í því skyni að eyðileggja þá staði sem skæruliðar gætu leynst á. Skæruliðarnir höfðu líka eitt herbragð sem fólst í því að grafa gríðarlega flókin neðanjarðargöng. Í því kerfi voru um 16.000 hermenn sem gátu komið andstæðingum sínum sífellt óvart með árásum sínum. Minnismerki um víetnamstríðið í Texas í Bandaríkjunum. Á miðjum 7. áratugnum fór að bera mikið á mótmælum gegn stríðinu, þá aðallega í Bandaríkjunum. Árið 1968 fóru Bandaríkjamenn að hallast að því að gefast upp. Ári síðar fóru þeir að kalla hersveitir sínar til baka og árið 1973 var undirritaður vopnahléssamningur. Stríðinu lauk þó ekki endanlega fyrr en árið 1975 þegar Norður-Víetnamar höfðu unnið algjöran sigur á Suður-Víetnömum. Stríðið í Víetnam voru fyrstu hernaðarátökin sem voru sýnd í sjónvarpinu um allan heim. Þegar tölur látinna og særðra hermanna jukust fór fólkið að streyma út á götur og mótmæla. Þessi miklu mótmæli gegn stríðinu var meginástæða þess að Nixon þáverandi forseti Bandaríkjanna ákvað að hætta stríðsrekstrinum. Blái hnötturinn. "Blái hnötturinn" eða "Sagan af bláa hnettinum" er barnabók eftir íslenska rithöfundinn Andra Snæ Magnason. Bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999, fyrst allra barnabóka. Auk þess hlaut hún Janusz Korczak heiðursverðlaunin árið 2000 og Vestnorrænu Barnabókaverðlaunin árið 2001. Vinsælt leikrit var gert eftir bókinni og það sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2001. Bókin hefur verið þýdd á dönsku, sænsku, eistnesku, júgóslavnesku, taílensku, grænlensku, frönsku, spænsku, ítölsku, færeysku og kóresku. Röyksopp. Röyksopp á tónleikum í Japan 2005 Röyksopp er raftónlistar-hljómsveit frá Tromsø í Noregi. Í hljómsveitinni eru Torbjørn Brundtland og Svein Berge. Hljómsveitin var stofnuð árið 1998 í Bergen og gaf út fyrstu plötu sína "Melody A.M." árið 2001. Röyksopp er tegund af svepp sem kallast á íslensku gorkúla. Jón Kalman Stefánsson. Jón Kalman Stefánsson. Mynd tekin nóvember 2007) Jón Kalman Stefánsson (f. 17. desember 1963) er íslenskur rithöfundur sem m.a. hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005 fyrir skáldsögu sína "Sumarljós og svo kemur nóttin". Landnám Ameríku. Landnám Ameríku er hugtak sem nær fyrst og fremst yfir skipulegt landnám Evrópubúa í Ameríku eftir ferð Kólumbusar þangað 1492. Hins vegar er ljóst að fyrstu landnemarnir í Ameríku voru Indíánar sem komu þangað, líklega yfir landbrú þar sem nú er Beringssund, fyrir um 16.000 árum, breiddust út um álfuna og þróuðu innbyrðis ólíka menningu og tungumál. Ferðir Kólumbusar voru auk þess ekki fyrstu ferðir Evrópubúa til Nýja heimsins. Elstu skjalfestu ferðir þangað eru ferðir norrænna manna þangað um árið 1000 frá Grænlandi og tilraun þeirra til landnáms sem mistókst. Svæðið sem þeir reyndu landnám á kölluðu þeir Vínland. Skipulegt landnám Evrópubúa í stórum stíl hófst þó ekki fyrr en með ferðum Kólumbusar og fyrstu nýlenduveldin sem eignuðu sér hluta álfunnar voru Spánverjar og Portúgalir sem lögðu hratt undir sig stærsta hluta Suður- og Mið-Ameríku. Siglingaþjóðir eins og Englendingar, Frakkar og Hollendingar fylgdu í kjölfarið og lögðu undir sig eyjar í Karíbahafi sem kallaðar voru Vestur-Indíur, og síðar hluta Norður-Ameríku: Nýja England, Louisiana og Nýja Holland. Fyrstu tilraunir til landnáms voru skipulagðir leiðangrar landkönnuða sem viðkomandi ríki gerðu út af örkinni og takmörkuðust yfirleitt við að ná valdi á tilteknu svæði, t.d. með því að reisa þar virki, en síðar hófust fólksflutningar til nýlendnanna frá Evrópu sem stöfuðu að mestu af skorti á jarðnæði, fátækt og trúarofsóknum heima fyrir. Þessir fólksflutningar stóðu langt fram á 20. öld. Basic Channel. Basic Channel er „minimalísk“ raftónlistarhljómsveit. Meðlimir hennar eru Moritz Von Oswald og Mark Ernestus. Hljómsveitin var stofnuð í Berlín í Þýskalandi árið 1993. Tvíeykið hefur sent frá sér fjöldann allan af vínylplötum undir ýmsum dulnefnum, svo sem Phylyps, q1.1, Quadrant, Octagon og Radiance. Þeir hafa einnig tekið upp plötur saman undir nöfnunum Rhythm & Sound, Maurizio, Round One, Round Two, Round Three, Round Four og Round Five. Von Oswald hefur átt sér enn fleiri listamannsnöfn. Ólafur Gunnarsson. Ólafur Gunnarsson (f. 18. júlí 1948) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hann hefur verið tilnefndur til margvíslegra verðlauna og hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003. Auður Jónsdóttir. Auður Jónsdóttir (f. 30. mars 1973) er íslenskur rithöfundur og sjálfstætt starfandi blaðamaður. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2004 fyrir skáldsögu sína "Fólkið í kjallaranum". Auður hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir "Ósjálfrátt" árið 2013. Ingibjörg Haraldsdóttir. Ingibjörg Haraldsdóttir (f. 21. október 1942) er íslenskur þýðandi, ljóðskáld, leikstjóri, blaðamaður og gagnrýnandi. Ingibjörg hefur þýtt mikið úr rússnesku og er heiðursfélagi í Bandalagi íslenskra þýðenda. Ingibjörg hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2002 fyrir ljóðabókina "Hvar sem ég verð" en bókin var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nám. Eftir stúdentspróf stundaði Ingibjörgnám við Kvikmyndaskóla ríkisins í Moskvu og lauk Mag. art prófi í kvikmyndastjórn þaðan 1969. Hún starfaði sem aðstoðarleikstjóri við leikhúsið Teatro Estudio í Havana á Kúbu frá 1970 – 1975. Hún skrifaði og þýddi blaðagreinar, aðallega fyrir Þjóðviljann, meðan hún dvaldi í Sovétríkjunum og á Kúbu. Ritstörf. Ingibjörg snéri heim til Íslands í árslok 1975 vann þá sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Þjóðviljanum um árabil. Frá 1981 hefur húnverið ljóðskáld og þýðandi að aðalstarfi, en fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974. Ingibjörg hefur gefið út sex ljóðabækur, þar af eina safnbók, og hafa ljóð hennar verið þýdd á ungversku, þýsku, lettnesku, litháísku, búlgörsku, rússnesku, slóvakísku, ensku og Norðurlandamál. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV fyrir þýðingu sína á Fávitanum eftir Dostojevskí og Íslensku þýðingarverðlaunin 2004 fyrir Fjárhættuspilarann eftir sama höfund. Þá hefur hún tvisvar verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 1993 og 2004. Ingibjörg hefur verið afkastamikill þýðandi, aðallega úr spænsku og rússnesku. Hún hefur meðal annars þýtt skáldsögur eftir Dostojevskí og Búlgakov, fjölda leikrita eftir ýmsa höfunda og þýðingar hennar á ljóðum og smásögum spænsku- og rússneskumælandi höfunda hafa birst í tímaritum og verið fluttar í útvarpi. Félagsstörf. Ingibjörg sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1992 – 1998 og var formaður sambandsins frá 1994 – 1998. Hún var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar frá 1977 og var aðstoðarritstjóri tímaritsins frá 1993 - 2000. Hún á nú sæti í ritnefnd tímarits þýðenda, Jón á Bægisá. Faze Action. Faze Action er ensk hljómsveit. Hljómsveitin samanstendur af bræðrunum Simon og Robin Lee. Faze Action hefur í gegnum árin blandað saman raftónlist annars vegar og klassískri tónlist, afrískri tónlist og suður-amerískri tónlist. Tónlist þeirra er einnig undir miklum áhrifum frá fönki, disco og jazz tónlist. Þeir bræður gáfu út fyrstu plötu sína, "Original Disco motion EP" árið 1995. Thor Vilhjálmsson. Thor Vilhjálmsson (fæddur í Edinborg, 12. ágúst 1925 – 2. mars 2011) var íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Thor var, ásamt Guðbergi Bergssyni og Svövu Jakobsdóttur, talinn einn af höfundum nýju skáldsögunnar í módernískum anda sem kom fram um 1965 á Íslandi. Thor hefur hlotið fjölda viðurkenninga, þ.á m. hlaut hann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1988 fyrir bók sína "Grámosinn glóir". Auk þess hefur hann tvisvar verið tilnefndur af íslands hálfu til sömu verðlauna. Árið 1992 hlaut hann Norrænu bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir ritstörf sín, en verðlaun þessi eru stundum nefnd "Litlu nóbelsverðlaunin". Thor hlaut einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1998 fyrir skáldsöguna "Morgunþula í stráum". Verk Thors hafa verið þýdd á fjölmörg erlend tungumál. Fjölskylda. Faðir Thors var Guðmundur Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri, sem fæddist á Undirvegg í Kelduhverfi. Móðir hans var Kristín Thors, systir Ólafs Thors forsætisráðherra. Eiginkona Thors er Margrét Indriðadóttir fyrrverandi fréttastjóri og saman eiga þau tvo syni: rithöfundinn Guðmund Andra Thorsson og Örnólf Thorsson forsetaritara. Störf og viðurkenningar. Thor lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944, stundaði nám við norrænudeild Háskóla íslands 1944-1946, við Háskólann í Nottingham í Englandi 1946-1947 og við Sorbonne-háskóla í París 1947-1952. Thor var bókavörður við Landsbókasafnið 1953-55 og starfsmaður Þjóðleikhússins frá 1956-1959. Hann var einnig leiðsögumaður og fararstjóri íslendinga erlendis. Fyrsta bók Thors, "Maðurinn er alltaf einn", kom út árið 1950. Síðan hefur hann skrifað fjólda bóka, skáldsögur, ljóð, leikrit og greinasöfn. Auk þess hafa komið út eftir hann þýðingar úr ýmsum málum, m.a. frönsku, spænsku, portugölsku og ítölsku. Hann hefur einnig fengist við myndlist, haldið málverkasýningar og skrifað um íslenska myndlistarmenn, þar á meðal bækur um Jóhannes Kjarval og Svavar Guðnason. Thor var einn af stofnendum menningartímaritsins Birtings 1955 og í ritstjórn þess til 1968. Árið 1992 sendi Thor frá sér fyrsta bindi endurminninga sinna, "Raddir í garðinum" og hélt áfram á sömu braut með bókinni "Fley og fagrar árar", sem út kom 1996. Hann hefur tvisvar hlotið bókmenntaverðlaun DV. Árið 1992 hlaut Thor bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir ritstörf (sem oft eru nefnd "Litlu nóbelsverðlaunin"). Hann hefur fengið fleiri erlendar viðurkenningar, m.a. er hann heiðursborgari í franska bænum Rocamadour, hefur hlotið frönsku orðuna "Chévalier de l'art et des lettres" og ítalska orðu, "Cavaliere dell'Ordine dello Merito". Stílbrögð Thors. Ritstíl Thors er þó ekki hægt að slíta í sundur frá sýn hans á efnið, en sýn hans sjálfs er síkvik og margbrotin, svona eins og margra þeirra meginlandsbúa Evrópu sem fengust við nýskáldsöguna um miðja síðustu öld. Stíll Thors er þó meira í ætt við eldfjall en stórborg, en honum ferst þó jafnvel að lýsa ítölsku smátorgi rétt eins og stórbrotnu íslensku landslagi. Böðvar Guðmundsson. Böðvar Guðmundsson (f. 9. janúar 1939) er íslenskur rithöfundur, ljóðskáld, söngtextahöfundur, lagasmiður, gítarleikari, þýðandi, leikskáld og kennari. Böðvar hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1996 fyrir skáldsöguna "Lífsins tré", sjálfstætt framhald "Híbýla vindanna". Þessar bækur eru oft saman kallaðar vesturfarasögurnar. Steinunn Sigurðardóttir (rithöfundur). Steinunn Sigurðardóttir (26. ágúst 1950) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hún hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsögu sína "Hjartastaður". Foreldrar hennar eru Sigurður Pálsson og Anna Margrét Kolbeinsdóttir. Steinunn útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og lauk heimspeki- og sálfræðinámi við University College í Dyflinni 1972. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók aðeins 19 ára gömul. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Frönsk kvikmynd byggð á sögu hennar "Tímaþjófnum" kom út árið 1999. Steinunn er nú búsett á Selfossi og í Berlín. Verðlaun. Verðlaun er það sem veitt er einstaklingi eða hópi einstaklinga til að viðurkenna afrek á tilteknu sviði. Verðlaun fela oft í sér verðlaunagripi eða titla og oft fylgja fjárupphæðir. Frægustu verðlaun heims eru án efa Nóbelsverðlaunin sem veitt eru ár hvert. Party Zone. Party Zone (stundum nefndur Dansþáttur þjóðarinnar) er íslenskur útvarpsþáttur sem hóf göngu sína árið 1990 á útvarpsstöðinni Útrás 97,7. Þeir Helgi Már Bjarnason og Kristján Helgi Stefánsson hafa frá upphafi séð um þáttinn, sem hefur verið sendur út á Rás 2 frá árinu 2000. Þátturinn sérhæfir sig í því sem er efst á baugi í danstónlist hverju sinni og fær helstu plötusnúða landsins í heimsókn til að spila tónlist. Þátturinn var lengst af sendur út á laugardagskvöldum en í janúar 2010 flutti hann sig yfir á fimmtudagskvöld. Saga. Party Zone hóf göngu sína haustið 1990 á útvarpsstöðinni Útrás 97,7 og var sendur út þar í um tvö ár. Árin 1993-1998 var þátturinn sendur út á útvarpsstöðinni X-inu. Árið 1999 var tekin ákvörðun um að flytja þáttinn á útvarpsstöðina Mónó en frá árinu 2000 hefur hann verið sendur út á Rás 2. Í janúar árið 2010 ákvað útvarpsstjórn Ríkisútvarpsins að þátturinn fengi ekki lengur að senda út á laugardagskvöldum og var um tím aútlit fyrir að þátturinn yrði að flytja sig á aðra útvarpsstöð. Stjórnendur þáttarins ákváðu þó að taka boði útvarpsstjórnar um nýjan útsendingartíma á fimmtudagskvöldum. Tónlist. Party Zone spilar flestar stefnur rafrrænnar danstónlistar. Mest áberandi í gegnum tíðina hafa þó verið ýmis afbrigði hústónlistar og techno-tónlistar. Party Zone listinn. Party Zone listinn er ekki vinsældalisti heldur er hann ákveðinn af umsjónarmönnum þáttarins með hjálp frá plötusnúðum. Í upphafi var um 30 laga lista að ræða en þegar þátturinn var á Útrás var hann sex tíma langur. Síðan þá hefur útsendingartíminn styst og listinn einnig en lengst af var hann 20 laga listi. Árslisti Party Zone. Í janúar ár hvert sendir þátturinn út svokallaðan árslista, sem á að endurspegla þá tónlist sem þáttarstjórnendum, plötusnúðum og hlustendum fannst best á árinu sem leið. Listinn var upphaflega valinn af þáttastjórnendum og plötusnúðum þáttarins en síðar fengu hlustendur einnig atkvæði. Þá hefur þrisvar (nóvember 2003, nóvember 2004 og nóvember 2005) verið tekinn saman svokallaður „all-time“ listi, sem var valinn á sama hátt og átti að endurspegla bestu danstónlist allra tíma. Egg (matvæli). Bakki með eggjum úr lausagönguhænum. Egg er eggfruma ásamt næringarforða handa nýjum einstaklingi, innilukt í hýði eða skurn, og skiptist í eggjarauðu, sem er aðalnæring fósturvísisins, og eggjahvítu, sem hefur aðallega það hlutverk að verja rauðuna og fósturvísinn en inniheldur einnig næringu, einkum prótein. Kvendýr ýmissa tegunda, bæði fugla, skriðdýra og froskdýra, verpa eggjum til þess að fjölga sér. Þau egg sem höfð eru til manneldis koma oftast frá alidýrum en þó er einnig nokkuð um að egg villtra dýra séu tínd og hpfð til matar. Flest ætileg egg, meðal annars fugla- og skjaldbökuegg eru samsett úr harðri ytri eggjaskurn, eggjahvítu, eggjarauðu og þunnum himnum sem skilja á milli hluta eggsins. Allir hlutar eggsinns eru ætilegir, þótt eggjaskurnin sé sjaldan höfð til matar. Hún er kalkauðug og fyrir kemur að hún er mulin í duft og höfð í mat. Egg fugla eru algengur matur og koma egg, sem höfðu eru til manneldis, aðallega úr hænum, öndum og gæsum, en egg margra annarra fugla, bæði villtra og taminna, eru einnig borðuð. Strútsegg eru til dæmis höfð til matar í Afríku. Þau eru um 1,5 kg hvert og eru stærst allra eggja. Á Íslandi eru svartfuglsegg oft höfð til matar og seld í verslunum og einnig egg ýmissa annarra villtra fugla. Nú á tímum koma langflest hænuegg af stórum búum þar sem varphænurnar eru hafðar í þröngum búrum en einnig er hægt að fá egg úr lausagönguhænum, sem eru þá ekki í búrum, heldur ganga lausar en þó inni í húsi, svo og úr hænum sem fá að ganga frjálsar og fara út. Langflest hænuegg sem seld eru í verslunum eru ófrjóvguð, enda er yfirleitt ekki hafður hani með hænunum á eggjabúum. Ef eggin eru frjóvguð getur ungi farið að myndast í þeim en það gerist þó ekki ef eggin eru geymd í kæli þar sem kælingin kemur í veg fyrir slíkt. Egg eru matreidd á ýmsan hátt, linsoðin, harðsoðin, steikt, bökuð, og einnig notuð í ýmiss konar eggjarétti, kökur, eftirrétti, sósur og margt fleira. Einnig má borða þau hrá en þó er viss hætta á salmonellusýkingu fyrir hendi. Egg eru fremur næringarrík; í rauðu úr meðalstóru hænueggi eru um 60 hitaeiningar en 15 í hvítunni. Eggjarauður innihalda A-, D- og E-vítamín en eru kólesterólauðugar og því er yfirleitt ekki mælt með því að borða mjög mikið af eggjum. Eggjahvítur eru aftur á móti nær fitulausar. Egg eru borðuð allt árið en hafa frá fornu fari tengst páskum sérstaklega. Í mörgum löndum er aldalöng hefð fyrir því að mála og skreyta páskaegg á ýmsan hátt og sumstaðar eru eggin falin og börn látin leita að þeim. Í íslensku er til gáta um egg: „Hvað er fullt hús matar sem engar dyr eru á?“. Sams konar gáta um „fullt hús drykkjar“ á við ber. Eggjakast. Þó svo að egg séu vanalega nýtt til matar er þeim stundum hent í hús, bíla og fólk. Slíkt athæfi flokkast sem veigalítið skemmdarverk. Eggjakast getur einnig skaðað eignir (eggjahvíta getur eyðilaggt sumar tegundir bílamálningar) og valdið meiðslum ef eggin lenda í augum manna. Á hrekkjavöku er hefð í sumum löndum fyrir því að börn fari á milli húsa og biðji um nammi, og þar sem þau fá ekkert er algengt að eggjum sé fleygt í hús. Í mótmælum vörubílstjóra árið 2008 hentu mótmælendur eggjum í íslenska lögreglumenn. Émile Durkheim. Émile Durkheim (15. apríl 1858 – 15. nóvember 1917) var franskur félagsfræðingur og mannfræðingur sem átti stóran þátt í því að gera félagsfræði að viðurkenndri fræðigrein. Hann rannsakaði samfélög manna m.a. út frá glæpum, sjálfsmorðum, trúarbrögðum og menntun. Hann gerði fyrstur manna skýran greinarmun á annars vegar einstaklingshegðun og hinsvegar hóphegðun. Durkheim er stundum nefndur faðir félagsfræðinnar. Ævi og ferill. Émile fæddist í Épinal, litlum bæ í norð-austurhluta Frakklands. Hann var af gyðingsættum og voru bæði faðir hans og afi rabbínar. Sjálfur var hann, í það minnsta eftir að hann komst til ára, trúleysingi. Émile sýndi námi sínu lítinn áhuga og útskrifaðist í heimspeki með lága einkunn. Á meðan að á náminu stóð las hann verk Auguste Comtes og Herbert Spencers. Á þessum tíma var félagsfræði ekki til sem sjálfstæð fræðigrein. Þar sem hann taldi sig ekki geta fengið kennarastöðu í París fluttist Émile til Bordeaux 1887 þar sem hann kenndi við kennaraháskóla. Þá birti hann sína fyrstu bók um verkaskiptingu í samfélaginu og áhrif hennar 1893. Tveimur árum síðar kom út eftir hann bók um félagsfræði, "Reglur um félagsfræðilega aðferð", þar sem hann mæltist m.a. til þess að notaðar séu vísindalegar aðferðir við úrvinnslu félagsfræði. Þá stofnaði hann fyrstu félagsfræðideild í evrópskum háskóla í háskólanum í Bourdeaux. Stuttu síðar stofnaði hann, "L'Année Sociologique", fyrsta tímarit tileinkað félagsfræði. Árið 1897 birti hann bók um ítarlegar rannsóknir sínar á sjálfsmorðum (sjá neðar). Hann missti son sinn í fyrri heimsstyrjöldinni og lést af völdum hjartaáfalls 1917. Rannsóknir. Ásamt Herberti Spencer innleiddi hann svokallaða virknihyggju. Afstaða þeirra var sú að samfélagið samanstæði af hlutum sem þjónuðu hver sínum tilgangi og mynduðu heild. Jafnframt taldi hann fullvíst að virkni hvers þessara hluta ákvarðaðist af undirliggjandi regluverki heildarinnar. Meðal þeirra verkfæra sem varpað gátu ljósi á eðli samfélagsins voru það sem Durkheim nefndi "félagslegar staðreyndir". Í rannsóknum sínum á tíðni sjálfsmorða dró Émile þá skynsömu ályktun að hún væri ekki bundin við sálfræði einstaklinga heldur ákveðin félagsfræðileg skilyrði. Þetta höfðu aðrir sýnt fram á og mátt sjá á þeirri staðreynd tíðni sjálfsmorða hélst ekki í hendur við hlutfall geðsjúkra og tók ekki miklum sveiflum vegna staðbundinna aðstæðna. Með framúrstefnulegri beitingu tölfræði gat Émile sýnt fram á að helsti áhættuhópurinn væri sá sem væri hvað minnst félagsleg virkni einhleypir, (hvítir) mótmælendatrúar karlmenn. Minni sjálfsmorðstíðni væri hjá giftum mönnum og minni hjá kaþólikkum og enn minni hjá gyðingum. Þ.a.l. taldi hann að fólk fremdi sjálfsmorð ef það einangraðist frá samfélaginu og nefndi hann slíkt ferli siðrof. Émile leit svo á að það væri hlutverk hans að reyna að ráða bót á meinum samfélagsins. Hann hafði sér í lagi áhuga á hvers kyns reglum sem samfélagið setti um leyfilega hegðun þegna þess. Til þess rannsakaði hann þróun hegningarlaga annars vegar í hinum nýju borgarsamfélögum - sem skapast höfðu með þéttbýlismynduninni sem fygldi iðnvæðinguninni - og hins vegar í smærri og frumstæðari samfélögum sveitanna. Hann komst m.a. að þeirri niðurstöðu að borgarsamfélögum mætti lýsa sem "lífrænum" andstætt "vélrænum" samfélögum strjálbýlis. Með því átti hann við að í frumstæðari samfélögum var samfélagið samleitnara. Við alvarlegri brotum var gjarnan grimmilegum, líkamlegum refsingum beitt. Hver einstaklingur var álitinn fastur hluti af samfélaginu og ekki álitið æskilegt að vikið yrði frá venjum innan þess. Þéttbýlissamfélögum nútímans taldi hann einkennast af verkaskiptingu eða sérhæfingu, þar með væri ekki jafn traust bönd sem tengdu einstaklinga. Í slíku samfélagi er fólk umburðarlyndara hvort gagnvart öðru. Tenglar. Durkheim, Émile Agamemnon. a>. Óvíst er að helgríman sé raunverulega helgríma Agamenons. Agamemnon (forngríska:) er ein þekktasta persónan í grískri goðafræði. Hann var sonur Atreifs konungs í Mýkenu og Ærópu drottningar og var eldri bróðir Menelásar, konungs í Spörtu. Agamemnon fór fyrir því herliði Grikkja sem hélt til Tróju í Trójustríðinu. Helleníski tíminn. Helleníski tíminn er það tímabil fornaldar nefnt, einkum í fornaldarsögu Grikklands, sem nær frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.Kr. til orrustunnar við Actíum árið 31 f.Kr. Stundum er miðað við upphaf keisaratímans í Róm árið 27 f.Kr. Í fornaldarheimspeki er gjarnan miðað við dauða Aristótelesar árið 322 f.Kr. en seinni mörkin eru oft óljós, enda var sú heimspeki sem var stunduð eftir 1. öld f.Kr. og fram á 2. og 3. öld e.Kr. í meginatriðum heimspeki helleníska tímans. Á hellenískum tíma blómstruðu borgir eins og Alexandría, Antíokkía og Pergamon auk Aþenu. Alþjóðleg viðskipti jukust mjög fyrir botni Miðjarðarhafs og forngríska breiddist út um allt veldi Alexanders mikla og hélst "lingua franca" fram á rómverskan tíma. Þemistókles. Þemistókles (forngríska:; 524–459 f.Kr.) var leiðtogi aþenskra lýðræðissinna á tímum Persastríðanna. Hann barðist fyrir stækkun flotans til að verjast Persunum og sannfærði Aþeninga um að verja afgangi ríkissjóðsins í byggingu nýrra skipa. Aþenski flotinn óx úr 70 skipum í 200 skip. Afleiðing þessa var m.a. alger yfirráð Aþenu á sjó allt til loka Pelópsskagastríðsins. Atreifur. Í grískri goðafræði var Atreifur (forngríska: Ατρεύς, Atreús) konungur í Mýkenu. Hann var sonur Pelops og Hippodamíu og faðir Agamemnons og Menelásar. Niðjar hans eru gjarnan nefndir Atreifssynir. Pelops gerði Atreif og tvíburabróður hans Þýestes útlæga fyrir að hafa myrt stjúpbróður sinn Krýsippos í von um að ná völdum í Ólympíu. Þeir leituðu hælis í Mýkenu, þar sem þeir náðu völdum í fjarveru Evrýsþeifs konungs, sem átti íátökum við niðja Heraklesar. Evrýsþeifur ætlaði þeim einungis tímabundin yfirráð yfir borginni en þeir náðu völdum til frambúðar þegar Evrýsþeifur lést. 610-601 f.Kr.. 610-601 f.Kr. var 10. áratugur 7. aldar f.Kr. Períkles. Períkles (forngríska:, 495 – 429 f.Kr.) var gríðarlega áhrifamikill stjórnmálamaður, ræðumaður herforingi í Aþenu á klassíska tímanum, einkum á tímabilinu milli Persastríðanna og Pelópsskagastríðsins. Períkles hafði svo mikil áhrif á aþenskt samfélag að sagnfræðingurinn Þúkýdídes, sem var samtímamaður hans, kallaði hann „fyrsta borgara Aþenu“. Períkles gerði Deleyska sjóbandalagið að aþensku veldi og var leiðtogi Aþeninga á fyrstu tveimur árum Pelópsskagastríðsins. Tíminn sem hann var við völd í Aþenu, frá 461 f.Kr. til 429 f.Kr., er stundum kallaður „Períklesaröldin“. Períkles var listaunnandi og studdi mjög við bakið á listamönnum, skáldum og heimspekingum. Stuðningur hans við listamenn var ein meginorsök þess að Aþena blómstraði sem menningarborg. Hann lét byggja ýmis hof á Akrópólishæð, þ.á m. Meyjarhofið (Parþenon). Hoplíti. Hoplíti, skjaldliði eða stórskjöldungur var þungvopnaður fótgönguliði í Grikklandi hinu forna. Orðið „hoplíti“ (forngríska, hoplitēs) er myndað af orðinu „hoplon“ (, í fleirtölu, „hopla“) sem merkir vopn. Hoplítar voru kjarninn í her Forn-Grikkja. Þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið seint á 8. öld f.Kr. Hoplítar voru vopnaðir spjóti og skildi. 6. öldin f.Kr.. Aldir: 8. öldin f.Kr. - 7. öldin f.Kr. - 6. öldin f.Kr. - 5. öldin f.Kr. - 4. öldin f.Kr. 6. öldin fyrir Krists burð eða 6. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 600 f.Kr. til enda ársins 501 f.Kr. 8. öldin f.Kr.. Aldir: 10. öldin f.Kr. - 9. öldin f.Kr. - 8. öldin f.Kr. - 7. öldin f.Kr. - 6. öldin f.Kr. 8. öldin fyrir Krists burð eða 8. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 800 f.Kr. til enda ársins 701 f.Kr. 9. öldin f.Kr.. Aldir: 11. öldin f.Kr. - 10. öldin f.Kr. - 9. öldin f.Kr. - 8. öldin f.Kr. - 7. öldin f.Kr. 9. öldin fyrir Krists burð eða 9. öldin fyrir okkar tímatal er tímabilið frá byrjun ársins 900 f.Kr. til enda ársins 801 f.Kr. 550-541 f.Kr.. 550-541 f.Kr. var 5. áratugur 6. aldar fyrir Krist. 22. öldin. Aldir: 20. öldin - 21. öldin - 22. öldin - 23. öldin 22. öldin er tímabilið frá byrjun ársins 2101 til enda ársins 2200. Roger Scruton. Roger Vernon Scruton (f. 27. febrúar 1944) er breskur heimspekingur. Hann er einnig útvarpsmaður, blaðamaður og tónskáld. Í skrifum sínum reynir hann að útskýra og verja vestræna menningu og miðlun hennar til komandi kynslóða. Í stjórnmálaheimspeki sinni er hann íhaldsmaður og er af mörgum talinn mikilvægasti breski íhaldsheimspekingurinn á lífi. Sérsvið hans er aftur á móti fagurfræði. Þar gagnrýnir hann módernisma í byggingarlist og hefur fjallað þónokkuð um hvað það er að skilja tónlist. Tengill. Scruton, Roger Scruton, Roger Scruton, Roger Sarah Broadie. Sarah Broadie (áður Sarah Waterlow'") er prófessor í siðfræði og Bishop Wardlaw prófessor við St Andrews-háskóla á Skotlandi. Hún kenndi áður við háskólann í Edinburgh, Texas háskóla í Austin, Yale, Rutgers og Princeton-háskóla áður en hún tók við núverandi stöðu sinni í St Andrews árið 2001. Broadie er sérfræðingur um fornaldarheimspeki. Hún fæst einkum við siðfræði og frumspeki. Suður-Þingeyjarsýsla. Kort sem sýnir mörk Suður-Þingeyjarsýslu. Suður-Þingeyjarsýsla er sýsla á Íslandi, staðsett milli Eyjafjarðarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu. Suður-Þingeyjarsýsla nær yfir Eyjafjörð austanverðan að Jökulsá á Fjöllum, nema Kelduhverfi sem tilheyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Flutningaskip. "Colombo Express" er eitt af stærstu gámaskipum veraldar. Flutningaskip, fraktskip eða kaupskip er skip sem flytur farm, vörur og efni milli hafna. Mikill meirihluti alþjóðlegra flutninga fer fram með flutningaskipum sem sigla þúsundum saman um heimshöfin. Flutningaskip eru venjulega sérhönnuð til að gegna hlutverki sínu, með krana og annan útbúnað sem þarf til að flytja farminn til og ferma/afferma skipið við bryggju. Til eru sérhæfðar tegundir flutningaskipa, eins og lausaflutningaskip (tankskip og risatankskip) og gámaskip. Dæmi um sögulegar skipsgerðir sérhæfðar til að flytja farm eru knörr (9. öld), kuggur (12. öld) og flauta (16. öld). Austur-Skaftafellssýsla. Kort sem sýnir staðsetningu Austur-Skaftafellsýslu Austur-Skaftafellssýsla er sýsla á Íslandi, milli Vestur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu, sýslumörkin á Skeiðarársandi og á Lónsheiði. Sveitir. Frá fornu fari skiptist þetta hérað í fimm sveitir, talið frá austri: Lón, Nes, Mýrar, Suðursveit og Öræfi. Síðar reis kauptún á Höfn, sem byggðist úr jörðinni Hafnarnesi í Nesjum. Sóknir. Sóknir í sýslunni voru lengst nefndar, talið frá austri: Stafafellssókn, Bjarnanessókn, Hoffellssókn, Einholtssókn, Kálfafellsstaðarsókn, Hofssókn og Sandfellssókn. Hoffellssókn og síðar Sandfellssókn lögðust niður. Kirkjan í Einholti var flutt, og síðan var yfirleitt talað um Brunnhólssókn (finnst þó í heimildum kennd við bæinn Slindurholt). Ný sókn myndaðist í kauptúninu: Hafnarsókn. Flugvöllur. Flugvöllur eða flughöfn er mannvirki og nágrenni þess þar sem flugvélar og önnur loftför geta tekið á loft og lent. Á flugvelli er yfirleitt minnst ein flugbraut (eða lendingarpallur fyrir þyrlur), en önnur algeng aðstaða eru t.d. flugturn, flugskýli og flugstöðvarbyggingar. Á flugvöllum getur farið fram ýmis þjónusta eins og flugvallarþjónusta, flugumferðarstjórn og ýmis þjónusta við farþega. Vestur-Skaftafellssýsla. Kort sem sýnir staðsetningu Vestur-Skaftafellssýslu Vestur-Skaftafellsýsla er sýsla á Íslandi, milli Austur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Kringlan. Kringlan er verslunarmiðstöð sem liggur við götuna Kringluna og var hún ein af fyrstu verslunarmiðstöðvunum sem byggðar voru í Reykjavík, í Reykjavík höfðu áður risið verslunarkjarnarnir, Austurver, Suðurver, Glæsibær og Grímsbær auk Skeifunnar. Áður hafði t.d. Kjörgarður við Laugaveg verið hannaður út frá innra sameiginlegu svæði, en Kringlan var samt sem áður fyrsta eiginlega verslunarmiðstöðin með innri göngugötu á tveimur hæðum og tugi verslana samankomna á einum stað. Kringlan opnaði 13. ágúst 1987. Árið 1991 var Borgarkringlan opnuð, nokkurs konar „lítil Kringla“, minni verslunarmiðstöð milli Kringlunnar og Borgarleikhússins sem hýsti meðal annars Kringlukrána og margar gjafavöruverslanir. Árið 1997 voru síðan Kringlan og Borgarkringlan tengdar saman í eina byggingu með um 4000 m² millibyggingu. Kringlan er stærsta verslunarmiðstöð Reykjavíkur og sú næst stærsta á Íslandi og eru þar starfræktar yfir 170 búðir, veitinga- og þjónustustaðir. Þar er allt frá bókasafni, fasteignasölu, kvikmynda- og leikhúsi, til vín- og fataverslana. Miðstöðin hefur vaxið mikið á síðari árum og hefur hún verið talin ógnun við Laugaveginn og aðra verslunarkjarna. Helsti keppinautur Kringlunnar er Smáralindin sem er í Smáranum í Kópavogi. Verkfall grunnskólakennara 2004. Verkfall grunnskólakennara 2004 var verkfall kennara í grunnskólum Íslands sem hófst 20. september 2004 og stóð þar til það var bannað með bráðabirgðalögum 13. nóvember sama ár. Verkfallið stóð í 39 daga og var eitt það lengsta í sögu íslenskra skóla en þó nokkrum dögum styttra en verkfall grunnskólakennara 1995. Mataráhöld. Mataráhöld eru tæki sem notuð eru til að framreiða og borða mat í þeim menningarsamfélögum þar sem ekki er látið nægja að matast með fingrunum. Til eru ógrynni tegunda af mataráhöldum sem þjóna ýmsum tilgangi. Algengust á Vesturlöndum eru hnífur og gaffall, og skeiðar eru þekktar nánast um allan heim. Matarprjónar eru notaðir sem mataráhöld í Austurlöndum fjær. Ýmis ólík tæki teljast til mataráhalda, s.s. sogrör, tertuspaði, molatöng, fondúprjónn og hnetubrjótur. Kórall. Kórall eru sjávardýr af flokki kóraldýra (fræðiheiti: "Anthozoa") sem einnig inniheldur sæfjöður og aðrar tegundir holdýra. Kórallar mynda gjarnan stór sambýli og hópurinn inniheldur meðal annars steinkóralla sem byggja stærstu kóralrifin. Holdýr. Holdýr (fræðiheiti: "Cnidaria") eru fylking tiltölulega einfaldra dýra sem finnast aðallega í sjó. Fylkingin telur um 11.000 tegundir, þar á meðal sæfífla, marglyttur og kóralla. Holdýr eru algeng sjón í lögum af steingervingum og komu fyrst fram á sjónarsviðið á forkambríumtíma. Holdýr eru geislótt samhverf í laginu. Þau skiptast í holsepa (með opið upp) og hveljur (með opið niður). Holsepar eru sívalir og er annar endi þeirra botnfastur en armar og munnhol snúa upp. Mesoglea er þunnt lag í holsepum. Hveljur fljóta um sjóinn og snýr munnur þeirra niður og armar hanga niður. Þær minna á regnhlífar. Mesoglea hjá hverjum er mjög þykk hjá hveljum. Sum holdýr fara í gegnum bæði byggingarstig á lífsferli sínum en sum eru eingöngu hveljur eða holsepar allan lífsferilinn. Sambýli hefur þróast hjá sumum holsepum. Æxlun holdýra er tvenns konar, kynæxlun og hins vegar kynlaus æxlun, knappskot þar sem nýr einstaklingur vex út úr þeim eldri. Aímagíska. Aímagíska eða barbaríska (aímagíska: Aimaq, barbaríska: Berbari) er persnesk mállýska sem er töluð í Íran, Afganistan, Tadsjikistan, Mashad, Vestur-Hasara. Świnoujście. Świnoujście (Þýska: "Swinemünde") er 100. stærsta borg Póllands. Hún liggur við Eystrasalt á eyjunum Uznam, Wolin og Karsibór. Sjómannafélagið Báran. Sjómannafélagið Báran var fyrsta hreinræktaða verkalýðsfélagið sem stofnað var á Íslandi í Reykjavík 14. nóvember 1894. 1899 fengu þeir leyfi til að byggja Bárubúð við norðurenda Tjarnarinnar. Tundurdufl. Tundurdufl er sprengja sem komið er fyrir í hafi og er ætlað að granda kafbátum eða skipum. Tundurdufl eru með hvellhettur sem springa fyrir áhrif höggs, hljóðs, segulsviðs eða þrýstings, til dæmis frá skipi eða kafbáti. Tundurduflum er komið fyrir við yfirborð sjávar eða nær botninum með festum. Oft kemur þó fyrir að þau slitna upp í vondum veðrum og rekur þá stjórnlaust um höfin og upp í fjörur. Stór tundurduflasvæði eru notuð til að verja hafnir fyrir árásum óvinaskipa. Dæmi um slíkt var t.d. mjög umfangsmikið svæði utan við Austfirði sem ætlað var að verja höfnina á Seyðisfirði gegn Þjóðverjum í Síðari heimsstyrjöldinni. Sú vörn varnaði þó einnig fiskiflotanum frá að geta stundað fiskveiðar frá flestum austfjörðunum. Flestum þessara tundurdufla var síðan eytt eftir lok styrjaldarinnar, m.a. með tundurduflaslæðurum og með því að skjóta á þau með sérstökum rifflum. En jafnvel enn í dag kemur fyrir að slík dufl rekur á land á Austurlandi eða lenda í netum fiskiskipa og þannig er því einnig varið annars staðar þar sem tundurdufl hafa verið notuð. Straumnes (Hornströndum). Straumnes er nes norðan við Aðalvík vestan megin á Hornströndum. Á Straumnesi stendur Straumnesfjall þar sem stóð um 100 manna ratsjárstöð Bandaríkjahers frá 1953 til 1960. Þann 30. nóvember 1916 strandaði gufuskip Eimskipafélagsins, Goðafoss, á Straumnesi. Farþegar og áhöfn björguðust eftir meira en tveggja sólarhringa vist í skipinu í ofsaveðri en skipið brotnaði í fjörunni. Skipið strandaði klukkan 3 um nótt og var hópur skipverja sendur í birtingu til Aðalvíkur eftir aðstoð. Voru þá 60 manns í skipinu. Þegar veður lægði komu vélbátar frá Aðalvík og björguðu fólkinu. Jökull Jakobsson samdi leikritið Hart í bak um það skipsstrand. Kristín Helga Gunnarsdóttir. Kristín Helga Gunnarsdóttir, kölluð "Dinna", (fædd í Reykjavík 24. nóvember 1963) er íslenskur rithöfundur, sem hefur skrifað fjölda barna- og fjölskyldubóka. Kristín Helga hefur BA próf í spænsku og fjölmiðlafræði og starfaði lengi sem fréttamaður á stöð 2. Ritverk. Fyrsta bók Kristínar Helgu kom út árið 1997, "Elsku besta Binna mín". Ári seinna kom út framhald af þeirri bók "Bíttu á jaxlinn Binna mín". Verðlaun og viðurkenningar. Kristín Helga hefur hlotið Bókaverðlaun barnanna fjórum sinnum, 2002, 2004, 2006 og 2007. Árið 2004 hlaut hún viðurkenningu Ibby á Íslandi fyrir bókina Strandanornirnar. Árið 2001 hlaut hún Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bókina Mói hrekkjusvín. Kristín Helga hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir "Draugaslóð" árið 2008. Þeseifur. Þeseifur og Æþra, eftir Laurent de la La Hyre Þeseifur (forngríska ") var goðsagnakenndur konungur Aþenu, sonur Æþru og Egeifs eða Póseidons, sem Æþra sængaði hjá einu sinni. Þeseifur var stofn-hetja, líkt og Perseifur, Kadmos og Herakles, sem börðust allir við og sigruðu andstæðinga sem tengdust á einhvern hátt fornri trú og samfélagsgerð. Herakles var dóríska hetjan, en Þeseifur jóníska stofn-hetjan, sem Aþeningar álitu landsföður. Nafn hans er rótskylt orðinu ("þesmos"), gríska orðinu fyrir stofnun. Þeseifur bar ábyrgð á "synoikismos" („sambúðinni“) — stjórnmálalegri sameiningu Attíkuskagans. Þeseifur, fyrsti konungur sameinaðs Attíkuskaga samkvæmt hefðinni, byggði sér höll á Akrópólishæð. Landfræðingurinn Pásanías segir að eftir sameininguna hafi Þeseifur stofnað helgidóm Afródítu Pandemos („Afródítu alls fólksins“) og Peiþó á suðurhlíð Akrópólishæðar. Ef til vill er frægasta sagan af Þeseifi í nútímanum sú sem segir frá því hvernig honum tókst að drepa Mínótárosinn á Krít. Díómedes. a> að veita Díómedesi ráð áður en hann gengur til orrustu - (Schlossbrücke, Berlín) Díómedes (forngríska:Διομήδης) er hetja í grískri goðafræði og er einkum þekktur fyrir þátttöku sína í Trójustríðinu. Hann var sonur Týdeifs og Deipýlu og varð síðar konungur í Argos, á eftir afa sínum, Adrastosi. Í "Ilíonskviðu" Hómers er Díómedes ásamt Ajasi Telamonssyni álitinn næstbesta stríðshetja Akkea. Hann er ásamt vini sínum Ódysseifi í uppáhaldi hjá Aþenu. Í "Eneasarkviðu" Virgils er Díómedes meðal þeirra sem földu sig í Trójuhestinum. Perseifur. Perseifur, Perseos eða Perseas (forngríska Περσεύς, Περσέως, Περσέας) var goðsagnakenndur stofnandi Mýkenu og veldis Perseifsniðja þar. Hann var sonur Danáu, dóttur Akrisíosar konungs í Argos. Hann giftist prinsessunni Andrómedu. Perseifur var hetjan sem drap Medúsu en úr blóði Medúsu varð til vængjaði hesturinn Pegasos. Ronnie Coleman. Ronnie Coleman (13. maí 1964 í Monroe, Louisiana) er bandarískur vaxtaræktarkappi sem hefur unnnið titilinn Mr. Olympia átta sinnum. Ronnie er menntaður endurskoðandi frá Gramblin State University, útskrifaðist 1986 og er nú búsettur í Arlington, Texas. Mikilvægur fasti í vaxtaræktinni er kenndur við hann sem kallast „fasti Colemans“. Hann er táknaður með „Co“ og skilgreindur svo: Co = 1.8517 Vöðvamassi = Co * (kíló í bekkpressu) Príamos. Príamos (forngríska Πρίαμος, Priamos) var konungur í Tróju í Trójustríðinu og yngsti sonur Laomedons. Príamos var marggiftur en frægasta kona hans var Hekúba. Hann átti 50 syni og allnokkrar dætur. Elsti sonur hans var Æsakos, en móðir hans var Arisba; Æsakos lést áður en Trójustríðið hófst. Frægustu synir Príamosar voru Hektor og París. Neoptolemos, sonur Akkillesar drap Príamos þegar Trója var lögð í eyði. Uppreist æru. Uppreist æru getur forseti veitt þeim sem ekki hefur óflekkað mannorð og nýtur hann þá sömu réttinda og þeir sem hafa óflekkað mannorð. Þeir sem hlotið hafa í fyrsta sinn refsidóm þar sem refsingin fer ekki fram úr 1 árs fangelsi, hljóta fimm árum eftir að refsingin er að fullu úttekin sjálfkrafa réttindi á við þá sem hafa óflekkað mannorð að því gefnu að þeir hafi á þeim tíma ekki verið ákærðir fyrir brot sem þyngri refsing en sektir liggur við. Bogi Ágústsson. Bogi Ágústsson (fæddur 6. apríl 1952) er fréttamaður Ríkisútvarpsins. Hann er sonur Jónínu Guðnýjar Guðjónsdóttur húsmóður og Ágústar Jónssonar skipstjóra. Eiginkona Boga er Jónína María Kristjánsdóttir kennari. Bogi útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk námi í sagnfræði við Háskóla Íslands 1977. Hann hóf störf sem fréttamaður erlendra frétta á Fréttastofu Sjónvarpsins í ársbyrjun 1977. Hann flutti til Kaupmannahafnar 1984 og starfaði sem fréttamaður þar og flutti fréttir frá Norðurlöndunum til 1986. Ári síðar varð hann aðstoðarframkvæmdarstjóri Útvarpsins. 1988 varð hann blaðafulltrúi og forstöðumaður upplýsingadeildar félagsins. Sama ár varð hann fréttastjóri Sjónvarps og gegndi því hlutverki til 2003. Bogi varð þá forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins, en lét af því starfi við skipulagsbreytingar 2007. Síðan hefur hann starfað sem almennur frétta- og dagskrárgerðarmaður. Bogi hefur verið umsjónarmaður þáttana „Viðtalið“ og „Fréttaaukans“. Bogi hefur verið fréttalesari frá því 1979. Auk þess hefur Bogi verið formaður starfsmannafélags Sjónvarpsins 1982-1984, varaformaður fréttanefndar EBU og formaður ritsjórnarnefndar EBU. Hann er formaður stjórnar stofnunar dr. Sigurbjörns Björnssonar. Þeirri stofnun er ætlað að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði í þeim tilgangi að auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa, vinna gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi. Bogi er einnig formaður Norræna félagsins í Reykjavík. Bogi er mikill stuðningsmaður og hefur starfað í KR-útvarpinu frá því það hóf útsendingar 1999. Á laugardegi verslunarmannahelgarinnar 2009 hóf Bogi kvöldfréttatímann með orðunum "Gott kvöld. Nú hefjast fréttir laugardaginn 1. ágúst, samt ekki allar þær fréttir sem við ætluðum að segja ykkur, því að í kvöld ætluðum við að greina frekar frá risavöxnum lánafyrirgreiðslum Kaupþings til fyrirtækja í eigendahópi bankans. Við getum það því miður ekki. Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti nú rétt fyrir fréttir beiðni Kaupþings um lögbann við birtingu og umfjöllun um trúnaðargögn frá stjórnarfundi bankans í september í fyrra. Þar var fjallað um lánveitingar til stærstu viðskiptavina bankans."." Skólahljómsveit Kópavogs. Skólahljómsveit Kópavogs er íslensk skólalúðrasveit, stofnuð af Birni Guðjónssyni trompetleikara árið 1966. Um 150 hljóðfæraleikarar eru að jafnaði í hljómsveitinni, en henni er skipt niður í þrjár sveitir, A-sveit, B-sveit og C-sveit, með tilliti til aldurs og getu. Frá stofnun var aðalstjórnandi og skólastjóri sveitarinnar Björn Guðjónsson, en árið 1993 tók Össur Geirsson, básúnuleikari og útsetjari, við starfinu, og gegnir því enn í dag. Fyrstu árin hélt hljómsveitin æfingar í tónmenntastofu Kársnesskóla en lengst hafði hljómsveitin aðstöðu í kjallara íþróttahúss Kársnesskóla, eða til ársins 1996, þegar hún fluttist í Ástún 6 í Kópavogi. Árið 1999 fluttist hljómsveitin í nýuppgert æfinga- og kennsluhúsnæði í íþróttahúsi Digraness við Skálaheiði í Kópavogi, þar sem hún er til húsa í dag. Hrafna-Flóki Vilgerðarson. Flóki Vilgerðarson var norskur víkingur, sonur Vilgerðar Hörða-Káradóttur, sem hélt vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann sigldi frá Flókavörðu á mörkum Rogalands og Hörðalands og hafði meðferðis fjölskyldu sína og frændlið, svo og búfénað, því ætlunin var að setjast að í hinu nýja landi. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur og Þórólfur (Þorsteinsson Grímssonar kamban) og Faxi sem Faxaflói er sagður heita eftir. Kona Flóka er sögð hafa verið Gró, systir Höfða-Þórðar landnámsmanns í Skagafirði. Flóki sigldi þó ekki beint til Íslands, heldur kom fyrst við við á Hjaltlandi. Þar drukknaði Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Flóki kom einnig við í Færeyjum og gifti þar aðra dóttur sína. Þrándur í Götu var afkomandi hennar. Hann hafði með sér þrjá hrafna, sem hann hafði að því er segir í Hauksbók blótað í Noregi, og lét þá vísa sér leið til Íslands; sleppti fyrst einum og sá flaug aftur í átt til Færeyja, sá næsti flaug beint upp í loft og sneri aftur en sá þriðji flaug fram um stafn og þá vissi Flóki að hann var að nálgast land. Hrafna-Flóki kom að Horni eystra og sigldi svo suður og vestur fyrir land og nam land í Vatnsfirði á Barðaströnd um árið 865. Rétt utan við bryggjuna á Brjánslæk, niðri við sjó, eru Flókatóftir. Þar eru friðlýstar rústir og segja munnmæli að Hrafna-Flóki hafi fyrstur haft þar vetursetu á Íslandi með mönnum sínum. Í Landnámu segir að þá hafi Vatnsfjörður verið fullur af fiski og nýbúarnir stundað veiðarnar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenska veturinn. Leiddi þetta til þess að allt kvikféð drapst um veturinn og yfirgaf fólkið þá landið aftur. Þegar voraði gekk Hrafna-Flóki á fjöll upp af Vatnsfirði og sá fjörð fullan af ís. Í Landnámabók segir svo: „Vár var heldr kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum, því kölluðu þeir landit Ísland, sem það hefur síðan heitit.“ Hefur landið upp frá því verið kallað Ísland. Langt var liðið á sumar þegar Flóki og förunautar hans héldu úr Vatnsfirði og „beit þeim eigi“ fyrir Reykjanes, það er að segja að þeir fengu ekki nægan byr í seglin. Urðu Flóki og Herjólfur viðskila og hafði Flóki vetursetu í Borgarfirði. Tafðist því brottferð þeirra um einn vetur. Hrafna-Flóki sneri aftur til Íslands síðar og nam þá land við austanverðan Skagafjörð, frá Stafá austur að Flókadalsá, það er að segja byggðina á Bökkum og Flókadal vestan ár, og er það skammt frá landnámi Þórðar mágs hans. Landnámsjörð hans var Mór í Flókadal, sem seinna skiptist í Ysta-Mó, Mið-Mó og Syðsta-Mó. Oddleifur (stafur) hét sonur hans sem bjó á Stafhóli og deildi við Hjaltasonu. Enn átti hann dótturina Þjóðgerði. Hentai. Hentai (japanska: 変態 eða へんたい) er japanskt orð sem þýðir „undarleg ásjón“ eða „undarlegheit“. Hinsvegar í talmáli er getur það þýtt „perri“ og er notað í mörgum tungumálum sem heiti yfir erótíska tölvuleiki og manga og anime sem sýna gróft kynferðislegt efni. Í japönsku er þetta orð hinsvegar aldrei notað til að lýsa erótísku efni, heldur eru hugtökin „jū hachi kin“ (18禁; bannað sölu ungmenna þ.e.a.s. yngri en 18), „ecchi/H anime“ (kynferðislegt/klámfengið anime) „eroanime“ (エロアニメ; blanda af orðunum "erotic" og "anime"), eða „seinen“ (成年; fullorðins, sem ekki ætti að rugla saman við "青年, seinen sem þýðir „unglingar“"). Hugtakið „hentai“ er oft notað (utan Japans) til að lýsa klámfengnum teiknimyndum, sem er ekki endilega anime eða manga. Bakgrunnur. a>", er "hentai" viðarútskurður frá 19. öld. Í japönsku er orðið "hentai" kanji sem samanstendur af 変 ("hen" sem þýðir „undarlegt“ eða „óhefbundið“) og 態 ("tai" sem þýðir „útlit“), sem mætti gróflega þýða sem „öfuguggi“ eða „pervert“. Það er aldrei notað til að lýsa klámfengnu efni, heldur aðeins til að lýsa persónu. Össur Geirsson. Össur Geirsson (fæddur 1961) er íslenskur básúnuleikari, útsetjari og tónlistarkennari. Hann lauk burtfararprófi í útsetningum frá Tónlistarskóla FÍH árið 1987 og blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1988. Hann hefur verið málmblásarakennari við Skólahljómsveit Kópavogs frá árinu 1987, og aðalstjórnandi og skólastjóri hennar frá 1993. Össur hefur komið fram með ýmsum tónlistarhópum sem stjórnandi, útsetjari eða hljóðfæraleikari, t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Stórsveit Reykjavíkur, Hljómsveit Íslensku Óperunnar og hjá Þjóðleikhúsinu. Össur hefur einnig leikið inná fjölmargar hljómplötur, m.a. hjá Bubba Morthens, Stuðmönnum og Todmobile. Hellsing (OVA). er japönsk OVA þáttaröð sem gefin er út á DVD, og er hún byggð á hinni vinsælu mangaseríu; Hellsing eftir Kouta Hirano. Ekki hefur verið gert opinbert hve margir þættir verði framleiddir, en þar sem hver DVD diskur nær yfir örlítið minna en eina bók (og vegna þess að verður einnig gefið út) má álykta að gefnir verði út um 10 DVD diskar. Áður höfðu komið út anime þættir sem byggðir voru á Hellsing bókunum, en þeir náðu aðeins yfir fyrstu tvær bækurnar og slepptu því stórum hlutum úr sögunni, breyttu persónum og höfðu annan endi sem ekki tengdist upprunalegu bókinni- því var ákveðið að framleiða Hellsing OVA, sem átti að fylgja bókunum mun betur. Hellsing OVAið fylgir sögu Hellsing bókanna ekki bara betur, heldur fylgir það líka teiknistíl bókanna nánar. Þáttaröðin notast einnig við meiri þrívídd en fyrri anime-þáttaröðin, og margar persónur endurheimta persónuleika sinn úr bókunum, eins og Integral og Seras, en þær eru talsvert dýpri persónur en í upprunalegu þáttunum. Hver DVD diskur inniheldur einn Hellsing OVA þáttur og eru þættirnir tölusettir með rómverskum tölustöfum. Hver diskur kemur út í tveimur útgáfum; "venjulegri" og "takmarkaðri" útgáfu. "Venjulega útgáfan" inniheldur þáttinn og bækling, á meðan "takmarkaða útgáfan" hefur öðruvísi hulstursmynd, oft aukaefni t.d. tónlistarmyndbönd, viðtöl, bæklinga með myndum og aukahluti eins og brjóstmynd af Alucardi og Alexander Andersyni sem og grunnskissur af persónunum. Í Bandaríkjunum er Hellsing OVA er einnig þekkt undir nafninu Hellsing Ultimate. Um Hellsing OVA. Hellsing OVA er ekki framhald af Hellsing þáttunum sem voru byggðir á fyrstu tveimur Hellsing bókunum, heldur mun OVAið vera byggt á öllum Hellsing bókunum. Hellsing mangað var fyrst búið til, og svo komu þættirnir, vandamálið var hins vegar að þættirnir notuðu söguþráðinn hraðar en Kouta Hirano gat búið hann til. Þess vegna náðu þættirnir ekki yfir allar Hellsing bækurnar. Fyrsti OVA þátturinn mun í grófum dráttum fjalla um það sama og fyrsti Hellsing þátturinn, og annar OVA þátturinn mun gróflega fjalla um það sama og Hellsing þættir númer 5 og 6, á meðan að þriðji OVA þátturinn mun innihalda efni sem ekki var í Hellsing þáttunum. Einnig hafa höfundar og aðstandendur OVAsins sagt að OVA þættirnir munu taka upprunalegu Hellsing bækurnar sér meira til fyrirmyndar þegar þeir vinna að OVAinu, en flest atriði eru eins í Hellsing OVA og bókunum, mörg samtöl mjög lík og teiknistílinum er fylgt betur. Ákvörðunin. Kouta Hirano fékk hugmyndina af því að gera annað anime eftir Hellsing frá Yasuyuki Ueda. Til eru gróttusögur um það að Ueda og Hirano hafi verið að drekka og Ueda hafi veðjað við Kouta að hann gæti skrifað Hellsing handrit. Sagan. Sir Integral Fairbrook Wingates Hellsing, stjórnandi og leiðtogi Hellsings. Sagan fjallar um vampíruna Alucard og Seras Victoriu sem starfa innan Hellsings og baráttu þeirra við vampírur og önnur næturbörn. Megin hlutverk Hellsings, sem er samsteypa sem vinnur fyrir bresku krúnuna, er að vernda borgarana gegn vampírum. Hellsing ræður ekki einungis yfir her og málaliðum, heldur býr stofnunin líka yfir leynivopni. Alucardi, sem er öflug vampíra sem lútir stjórn og vilja Hellsings, en þó aðallega vilja herra lafði Integru Hellsings, leiðtoga samsteypunnar. Þáttur eitt. Í fyrsta þættinum er Seras Victoria kynnt til sögunnar og er hún gerð að vampíru af Alucardi. Hún er flutt í Hellsing setrið þar sem hún er gerð að meðlimi Hellsings. Seras er send í sitt fyrsta verkefni, og Alucard berst við Alexander Anderson. Þáttur tvö. Valentínusar bræðurnir ráðast inn í Hellsing setrið, þar sem þeir ætla að drepa Integru og Alucard. Walter og Seras ná að drepa Jan Valentine á meðan Alucard drepur Luke Valentine. Þáttur þrjú. Þriðji þátturinn hefst þar sem öðrum þætti líkur. Hann inniheldur fund Iscariots og Hellsings. Málaliðarnir Villigæsirnar ("the Wild Geese") koma fram, Alucard og Walter ræða um Millennium, einnig verður fjallað um ferðina til "Hotel Rio", slátrunina sem þar fer fram og einvígið á milli Alucards og Alhamras. Mismunandi útgáfur. Venjulega útgáfa annars OVA þáttarins. Hver Hellsing OVA DVD dikur er gefinn út í tveimur mismunandi útgáfum; "venjulegri útgáfu" og "takmarkaðri útgáfu". Takmarkaða útgáfan er oftast dýrari, en með henni fylgir meira aukaefni. Venjuleg útgáfa. Venjulega útgáfan er útgáfa sem kostar minna en takmarkaða útgáfan en inniheldur aðeins DVD diskinn og hulstur með öðruvísi hulstur en takmarkaða útgáfan. Takmörkuð útgáfa. Takmörkuð útgáfa þriðja OVA þáttarins. Takmarkaða útgáfan inniheldur öðruvísi hulstursmynd en hulstur hinnar venjulegu útgáfu, og einnig stundum brjóstmyndir eða upphleyptar myndir. Stundum eru líka opnanleg hulstur og fleiri bæklingar. Móttaka. a> sem þráir ekkert heitar en endalaust stríð. Talið var að höfundur Hellsings, Kouta Hirano hafi ekki fallið söguþráður fyrstu þáttanna (13-þátta Hellsing sjónvarpsseríunnar) í geð og mótmæltu margir Hellsing aðdáendur sjónvarpsþáttunum vegna þess hve lítillega þeir fylgdu manga söguþræðinum en þar má nú helst geta óvinar sem ekki kom fram í manganu, Incognito. OVA útgáfunni var ætlað að fylgja söguþræði teiknimyndasagnanna betur og var kynnt sem slík. Ástæða þess er sú að aðeins höfðu verið gefnar út tvær Hellsing bækur þegar fyrstu þættirnir voru í framleiðslu, þannig að höfundar þeirra urðu að botna söguna sjálfir. Upplýsingar um útgáfu. Heildarfjöldi þátta er ekki þekktur; en takmarkið er hins vegar að breyta öllu Hellsing manganu í þætti (þar með talið). Fyrsti þátturinn var upprunalega sýndur á japönsku sjónvarpsstöðinni TV Kanagawa í 35-mínútu bút sem kallaðist „Hellsing: Digest for Freaks“ þann 22. janúar árið 2006. Hver diskur inniheldur einn þátt, sem er minnst 40 mínútur að lengd. Lengd þeirra er hins vegar breytileg; til dæmis var fyrsti þátturinn lengdur úr 35 mínútum upp í 50 mínútur og annar þátturinn er um 43 mínútur. Útgáfa í Japan. Fyrsti þátturinn var gefinn út þann 10. febrúar árið 2006 í Japan, annar þátturinn var gefinn út þann 25. ágúst árið 2006 í Japan, og sá þriðji mun verða gefinn út þann 9. febrúar árið 2007 í Japan. Útgáfa í Bandaríkjunum. Ganeon kallaði saman hina upprunalegu talsetjendur sem unnu við fyrsta animeið til þess að talsetja ensku útgáfu Hellsing OVAsins, eins og Crispin Freeman (Alucard), K.T. Gray (Seras), Ralph Lister (Walter), Victoria Harwood (Integral), og Steven Brand (Anderson) fyrir bandaríska útgáfu. Leikstjórinn Taliesin Jaffe talsetur líka Huger, vampíruna sem er drepin af Alucardi í fyrsta OVAinu. Fyrsti þátturinn var gefinn út í Bandaríkjunum þann 5. desember og söluverð hans var um 24,98 bandaríkjadalir, en sérstök útgáfa var gefin út af fyrsta þættinum sem mun kosta um 44,98 dollara. Búist er við að annar þátturinn komi út 12. júní 2007. Seinkanir. Enginn af fyrstu þremur Hellsing OVA þáttunum hefur komið út á áætluðum tíma, en OVA Ⅲ átti að koma út þann 9. febrúar 2007 en hefur hins vegar verið frestað til 4. apríls vegna þess að framleiðslu á Alexander Andersyni smástyttunni sem fylgja átti með diskinum seinkaði. Tónlistarskóli FÍH. Tónlistarskóli FÍH er íslenskur tónlistarskóli sem stofnaður var árið 1980 og er starfræktur af FÍH. Skólinn er til húsa við Rauðagerði 27 í Reykjavík og er honum skipt í tvær megindeildir, grunndeild og framhaldsdeild. Innan framhaldsdeildar standa síðan til boða tvær námsbrautir, sígild braut og djass- og rokkbraut. Skólastjóri skólans er Björn Th. Árnason, yfirkennari djass- og rokkbrautar er Sigurður Flosason og yfirkennari grunndeildar og sígildrar brautar er Sigurður Örn Snorrason. Félag íslenskra hljómlistarmanna. Félag íslenskra hljómlistarmanna (skammst. FÍH) eru samtök atvinnuhljómlistarmanna og tónlistarkennara á Íslandi, sem stofnuð voru árið 1932. Félagið hefur starfrækt tónlistarskóla, Tónlistarskóla FÍH, frá árinu 1980. Akkilles. Akkilles einnig ritað Akkiles (forngríska) var hetja í Trójustríðinu og aðalpersónan og bestur Akkea í "Ilíonskviðu" Hómers, þar sem meginþemað er ekki Trójustríðið í heild sinni, heldur reiði Akkillesar og afleiðingar hennar í kjölfar ósættis hans og Agamemnons konungs Mýkenu á tíunda ári stríðsins. Akkilles var sagður myndarlegastur þeirra sem héldu til Tróju og hraustastur. Ódysseifur. Höfuð Ódysseifs á grískri marmarastyttu frá 2. öld f.Kr. Ódysseifur er aðalpersónan í "Ódysseifskviðu" Hómers og er einnig mikilvæg persóna í "Ilíonskviðu". Ódysseifur var konungur á Íþöku. Hann var þekktur fyrir að vera úrræðagóður og snjall og jafnvel slægur og undirförull. "Ódysseifskviða" segir frá heimför hans og hrakningum frá Tróju að Trójustríðinu loknu en það tók Ódysseif tíu ár að komast heim að loknu tíu ára löngu stríði. Ódysseifur var sonur Laertesar og Antikleu. Kona hans hét Penelópa en sonur hans hét Telemaakkos. Í harmleiknum "Ifigenía í Ális" eftir Evripídes er Sísýfos sagður faðir Ódysseifs. Marseille. Marseille er næst stærsta borg Frakklands með rúmlega 1,5 milljón íbúa (1999). Marseille er í Provence-héraði, liggur að Miðjarðarhafinu og er stærsta hafnarborg Frakklands. Aðalgata Marseille er breiðgatan "La Canebiere", í borginni finnast fiskimarkaðir og gömul virki. Marseille er gömul borg, hún var stofnuð um 600 f.Kr. af Grikkjum frá Fókaju (í Tyrklandi) og var þá nefnd "Massalía" á latínu. Massalía náði fljótt íbúafjölda 1000 manna. Á 4. öld f.Kr. gerði Pýþeas út bát sinn frá Massalíu og sigldi vítt og breitt um úthöfin. Sagan segir m.a. að hann hafi fundið land í norðri er hann nefndi Thule og gæti hafa verið Ísland. Massalíubúar gengu í bandalag, sem sjálfstætt borgríki, við Rómverja til að verjast ágengni Etrúa, Fönikíumanna og Kelta. Eftir að Júlíus Caesar komst til valda gengu Massalíubúar til liðs við Pompeius herhöfðingja og eftir að hafa barist í sjóorrustu og í umsátri um borgina töpuðu menn Pompeiusar borgarastríðinu í Róm 49 f.Kr. og Massalía missti sjálfstæði sitt. Undir Rómverjum varð Marseille iðandi verslunarborg allt fram að því þegar fór að halla undir fæti Rómarveldis. Marseille varð ekki velmegandi verslunarborg á ný fyrr á upp úr 10. öld. Plágan mikla barst til borgarinnar 1347 og varð mannfall mikið, 50-90 þúsund. Enn varð borgin fyrir miklum skakkaföllum þegar Aragonar réðust á hana og rændu 1423. Upp úr miðri 15. öld bætti René I af Napólí, hertogi í Provence, úr varnarvirkjum borgarinnar. Stuttu síðar varð Marseille formlega hluti af ríki Frakka. Marseille sendi 500 borgarbúa til þess að taka þátt í frönsku byltingunni 1792. Eftir franska heimsveldið breiddi úr sér og iðnvæðingin jók framleiðslu á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar jókst flæði umferðar og varnings um borgina. Marseille varð mikilvægur hlekkur til Alsír, Marokkó, Túnis og fleiri nýlendna á þeim tíma. George Washington. George Washington (22. febrúar 1732 – 14. desember 1799) var hershöfðingi í Meginlandshernum sem sigraði Breta í bandaríska frelsisstríðinu og var síðar kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna. Hann sat tvö fjögurra ára kjörtímabil. Sem forseti var hann eindreginn lýðveldissinni og fylgjandi hlutleysi Bandaríkjanna í alþjóðastjórnmálum. Washington er einn „landsfeðra“ Bandaríkjanna. Æska. George Washington fæddist 22. febrúar árið 1732 í Popes Creek Plantation sem er við Potomac ána, núna betur þekkt sem Colonial ströndin í Virginíu. Afmælisdagur hans er frídagur í Bandaríkjunum. Washington er ættaður frá Sulgrave á Englandi en afi hans John Washington flutti til Virginíu árið 1657. Faðir hans var Augustine „Gus“ Washington, plantekrueigandi og var með þræla en reyndi síðar að hefja járnnámugröft. Móðir George var Mary Ball Washington. Þegar að George var ellefu ára lést faðir hans. Eftir það varð eldri bróðir George, Lawrence Washington, hans fyrirmynd og var í hálfgerðu föðurhlutverki fyrir hann. Tengdafaðir bróður hans hafði einnig áhrif á hann. George hlaut ekki mikla menntun, mesta lagi sjö til átta ár og þá í formi einkakennslu frá föður sínum og bróðir og vinnu við landmælingar. Sautján ára varð hann opinber landmælingarmaður en það starf fékk hann í gegnum tengsl við mann að nafni Fairfax. Þetta starf var vel borgað svo hann gat farið að fjárfesta í landareignum, en hann átti land sem hann hafði erft eftir föður sinn. Um 1750 þjáðist Lawrence Washington af berklum og drógu þeir hann til dauða. Hann var þá aðstoðarhershöfðingi og eftir dauða hans skiptist sú staða uppí fjórar stöður og tók George við einni af þeim stöðum, sem var staða majórs í her Virginíu. Hann fékk stöðuna vegna tengsla bróður hans í Ohio fyrirtækinu. Á þessum tíma gekk George í Frímúrararegluna í Fredericksburg. Stríðið gegn Frökkum og Indíánum. Þegar Frakkar fóru að færa sig inn á landsvæði sem Bretar gerðu tilkall til og byggja þar virki og annað var Washington, þá 22 ára gamall, sendur til þess að krefjast þess að þeir drægju sig til baka. Þegar Frakkarnir neituðu var Washington gerður að aðstoðarofursta og hann sendur ásamt her til að hrekja Frakkana burt. Á leið sinni í virkið réðust menn Washingtons ásamt nokkrum indíánum á franska njósnasveit. Sveitin hafði átt að vara virkið við ef Washington væri kominn inná franskt yfirráðasvæði. En Washington og menn hans drápu þá svo þeir gátu ekki varað Jumonville, foringja virkisins við. Snemma einn morguninn gerði hann ásamt 40 manna hersveit árás á virkið, án nokkurrar viðvörunnar. Flestir menn virkisins voru enn sofandi eða að undirbúa morgunmat. Nokkrir reyndu að ná til vopna sinna en voru snögglega yfirbugaðir. Eftir það byggði Washington og hans menn virkið Necessity. Það átti eftir að reynast gagnlaust síðar því þeir þurftu að gefast upp gegn stórum sveitum Frakka og indíána. Frakkarnir vildu að Washington myndi skrifa undir skjal sem sagði að hann hafi ráðið Jumonville af dögum. Þeir sögðu að hann hafi verið þarna af diplómatískum ástæðum (frekar en hernaðarlegum). Washington var síðan sleppt og honum bannað að snúa aftur til Ohio. Þegar hann kom heim til Virginíu sagði hann sig úr hernum, í stað þess að vera lækkaður niður í kaftein. Árið 1755 gekk Washington þó til liðs við breska hershöfðingjann Edward Braddock þegar sá síðarnefndi gerði tilraun til þess að vinna Ohio aftur af Frökkum. Í orrustunni beið breski herinn mikinn ósigur og Braddock lést en Washington barðist af miklu hugrekki og stjórnaði undanhaldi hersins. Eftir stríðið þegar hann kom heim varð hann að hálfgerðri hetju meðal fólksins. Stund milli stríða. Árið 1759, nánar tiltekið 6. janúar, giftist Washington Martha Dandridge Custis, ríkri ekkju frá Virginíu. Hún átti tvö börn úr fyrri hjónabandi, þau John Parke Custis, þekktur sem Jacky og Martha Parke Custis, þekkt sem Patsy. Washington ól þau upp sem sín eigin, enda átti hann engin börn og eignuðust þau Martha aldrei nein saman. Ástæða þess er ókunn en talið er að Washington hafi orðið ófrjór eftir að hann smitaðist bólusótt. En þrátt fyrir það gekk hjónaband þeirra vel. Við það að giftast eiginkonu sinni eignaðist Washington þriðjung af 18.000 ekra landareign, eða eins og hann orðaði það í dagbók sinni: „Ég held að um 7000 skeppa af hveiti og 10000 skeppa af indíána korni er meira en nauðsyn á býlinu“. Hann var þó iðinn við að kaupa viðbótar ekrur í sínu eigin nafni og árið 1775 átti hann um 6.500 ekrur með yfir 100 þrælum. Sem stríðshetja og stór landeigandi var hann kosinn á landsbyggðar löggjafarþing. Washington var valinn einn af foringjum mótspyrnumanna, enda talinn mikil stríðshetja eftir 7 ára stríðið. Mótspyrnumenn vildu meðal annars fá viðskiptabann á Englendinga sem fluttu inn vörur þar til að Townshend tollurinn yrði afnuminn. Hann var svo valinn sem þingmaður á Meginlandsþingið. Frelsisstríðið. Washington tók þátt í fyrsta og öðru Meginlandsþingunum á árunum 1774 – 1775. Í fyrstu var hann hlynntur því að semja friðsamlega við Breta um ágreiningsmál varðandi stefnu þeirra í nýlendunum, en komst svo að þeirri niðurstöðu að slíkt væri ógjörningur. Í apríl 1775 kom Washington fyrir Meginlandsþingið í herbúningi og lýsti því yfir að hann væri tilbúinn í stríð. John Adams frá Massachusetts mælti með því að þingið skipaði Washington sem yfirmann hins nýstofnaða Meginlandshers, vegna fyrri hernaðarreynslu hans, og var það samþykkt einróma. Hann byrjaði á því að gera árás á Boston. Hann náði að hrekja Bretana til New Jersey þar sem þeir söfnuðust saman. Washington fór með menn sína til New York en Bretar gerðu þá árás á borgina. Washington beið ósigur í bardaganum og náði hann rétt svo að sleppa ásamt nokkrum manna sinna. Mikil óvissa ríkti um framtíð Meginlandshersins en sú óvissa hvarf þegar að Washington gerði gagnárás á Trenton, New Jersey og fylgdi þeirri árás eftir með óvæntri árás á Princeton. Þessir óvæntu sigrar urðu til þess að Bretar hröktust frá New Jersey til New York. Næst réðust Bandaríkjamenn á Germantown í Philadelphiu og Hudson River. Árið 1776 leiddi Washington annan herinn í átt að Germantown en skipði undirforingja sínum að gera árás á Hudson River með hinum hernum. Árás Washingtons misheppnaðist en árásin á Hudson River heppnaðist svo að Bretar misstu einn af tveim herjum sínum. Þetta leiddi til þess að Frakkar, Spánverjar og Hollendingar drógust inní stríðið. Eftir að Washington missti Philadelphiu í hendur Breta árið 1777 fóru ýmsir þingmenn að þrýsta á um að Washington yrði sviptur stjórn hersins en herinn stóð á bakvið hann svo ekkert varð af því. Eftir að Frakkar komu inní stríðið fóru Bretar að ókyrrast svo þeir yfirgáfu Philadelphiu og héldu með alla heri sína í Bandaríkjunum til New York árið 1778. Á leiðinni þangað gerði Washington margar árásir á þá. Þegar þangað var komið umkringdi hann Bretana inni í New York og sat um þá. Árið 1781 gerði Washington ásamt Frökkum árás á borgina sem endaði með uppgjöf breska hersins 17. október sama ár. Eftir stríðið sagði Washington af sér sem yfirhershöfðingi. Hann var þó ekki sestur í helgan stein því árið 1787 fór hann á stjórnarskipulagsþingið og var þar kosinn fyrsti forseti Bandaríkjanna. Forsetaembætti. Eftir að hafa verið kosinn fyrsti forseti Bandaríkjanna, og sá eini sem kosinn hefur verið einróma, var Washington settur inn í embætti forseta, þann 30. apríl árið 1789. Fyrsta löggjafaþing Bandaríkjanna skipaði fyrir að hann fengi greidd 25.000 dali á ári, en það þótti mjög mikið á þeim tíma. Þá þegar mjög auðugur samþykkti Washington þessi laun, enda hefði annað þótt óviðeigandi og hneykslanlegt. Hann gætti þess að mæta á allar viðhafnir og athafnir til að undirstrika lýðræðið og láta ekki bendla titilinn við Evrópskt konungsdæmi. Hann tilheyrði ekki neinum stjórnmálaflokki en undirmenn hans skiptust þó í tvo flokka. Sem forseti skipaði Washington fyrstu ríkisstjórnina og fyrsta hæstaréttinn í Bandaríkjunum. Varaforseti hans bæði kjörtímabilin var John Adams, sem varð svo annar forseti Bandaríkjanna. Á meðal ráðherra í ríkstjórn hans var Thomas Jefferson sem gegndi stöðu utanríkisráðherra, en hann varð einnig forseti síðar. Washington tilnefndi ráðherra í ríkisstjórn sína og hlutu þeir allir samþykki þingsins, ekki síst vegna þeirrar virðingar sem Washington naut á meðal þingmanna. Með þessu var sett mikilvægt fordæmi því sú hefð hefur haldist síðan að tilnefningar forseta í ráðherrastöður eru vanalega samþykktar af þinginu án mikillar mótstöðu. Washington var líka einn af tveimur forsetum Bandaríkjanna sem sá sjálfur um stjórn hersins, hinn var James Madison árið 1812. Í alþjóðamálum var Washington óhlutdrægur gagnvart stríðandi Evrópuþjóðum. Árið 1793, þegar stríð geisaði á milli Frakklands annars vegar og Bretlands, Austurríkis, Prússlands, Sardiníu og Hollands hins vegar, lýsti hann yfir hlutleysi Bandaríkjanna. Washington sat tvö kjörtímabil, en neitaði að sitja það þriðja því honum fannst tími til að fá nýtt blóð inn. Washington þótti mjög góður stjórnandi á forsetatímabili sínu, höndlaði öll mál vel og þótti réttlátur í ákvörðunum. Starfs- og ævilok. Eftir að hafa setið 2 kjörtímabil sem forseti settist Washington í helgan stein á býlinu sínu Mount Vernon. Þar fór hann að rækta landið sitt og brugga viskí en einnig eru til sögusagnir um að hann hafi ræktað hamp. Árið 1798 var hann svo skipaður allsherjarhershöfðingi, hæstu stöðu innan hersins, en tilgangurinn með því var að senda viðvörun til Frakka sem íhuguðu stríð gegn þeim. Ári síðar, 1799 fékk Washington slæmt kvef sem að dró hann til dauða. Hann lést 14. desember 1799. Hans síðustu orð voru: „Tis Well“. Minnismerki. Til eru mörg minnismerki og minnisvarðar um George Washington. Þeirra frægust eru höggmyndin af honum á Rushmore fjalli og andlit hans sem prýðir eins dalar seðilinn. Afmælisdagur hans er allsherjar frídagur í Bandaríkjunum og er höfuðborg landsins nefnd í höfuðið á honum. Heimildir. DeGregorio, William A., "The Complete Book of U.S. Presidents" (New York: Gramercy Books, 2002). Washington, George Ídómeneifur. Ídómeneifur var krítversk hetja sem barðist í Trójustríðinu. Afi hans var Mínos konungur á Krít. Ídómeneifur fór fyrir Krítverjum í Trójustríðinu og var einnig meðal biðla Helenu fögru. Í "Ilíonskviðu" er Ídómeneifur meðal helstu herforingja Akkea. Hann var meðal trustustu vina og ráðgjafa Agamemnons. Ídómeneifur var meðal þeirra sem földu sig í Trójuhestinum. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur það að markmiði að stuðla að aukinni orku, starfshæfni og velferð fólks með fötlun, einkum barna. í dag sinnir félagið hlutverki sínu meðal annars með þvi að starfrækja Æfingastöð SLF að Háaleitisbraut 11-13, Iðjuþjálfun SLF í Hafnarfirði og sumardvalarheimilið Reykjadal í Mosfellsdal. Þeir sem njóta þjálfunar hjá SLF eru flestir fatlaðir frá fæðingu. Á hverju ári koma um 1200 einstaklingar til þjálfunar í Æfingastöð SLF að Háaleitisbraut og 25 í Hafnarfjörð. Um 200 börn koma til dvalar í Reykjadal á hverju ári. Félagið var stofnað 1952. Fjórum árum seinna hóf það rekstur endurhæfingarstöðvar en árið 1968 var stöðinni breytt í Æfingastöð SLF. Árið 1959 hóf SLF rekstur sumarbúða fyrir fötluð börn. Sumarbúðirnar voru fyrst í Reykjaskóla í Hrútafirði en fluttust svo árið 1963 í Reykjadal í Mosfellsdal. Árið 1972 hóf félagið rekstur leikskóla sem nú heitir Múlaborg og hefur reksturinn færst yfir til Reykjavíkurborgar. Ídómeneifur frá Lampsakos. Ídómeneifur (forngríska Iδoμενευς, 310 – 270 f.Kr.) frá Lampsakos var vinur og nemandi Epikúrosar. Lítið er vitað um ævi hans annað en að hann giftist Batis, systur Sandesar, sem var einnig frá Lampsakos. Einnig ritaði Ídómeneifur bók um aþenska stjórnmálamenn en hún er ekki varðveitt og titill hennar er óþekktur. Rosalind Franklin. Rosalind Elsie Franklin (f. 25. júlí 1920 - d. 16. apríl 1958) var breskur eðlisefnafræðingur og kristallafræðingur. Rannsóknir hennar gegndu lykilhlutverki í skilningi manna á uppbyggingu DNA, vírusa, kols og grafíts. Franklin er best þekkt fyrir þátt sinn í uppgötvun á uppbyggingu DNA sameindarinnar árið 1953. Hún lést árið 1958 úr krabbameini. Franklin, Rosalid Olíukreppan 1973. Graf sem sýnir verðið á olíu á krepputímanum Olíukreppan 1973 var orkukreppa á Vesturlöndum sem stóð frá 16. október 1973 og stóð til 17. mars 1974. Kreppan hafði varanleg áhrif á verð hráolíu um allan heim og hafði víðtækar afleiðingar. Ástæða kreppunnar var viðskiptabann með olíu sem arabísku olíuframleiðsluríkin, auk Egyptalands og Sýrlands, settu á Bandaríkin og vestur-evrópska bandamenn þeirra vegna stuðnings þessara ríkja við Ísrael í Jom kippúr-stríðinu sem stóð yfir í október 1973. Um svipað leyti höfðu ríkin í Samtökum olíuframleiðenda (OPEC) komið sér saman um verðsamráð til þess að stórhækka olíuverð eftir að samningaviðræður við „Systurnar sjö“ fóru út um þúfur fyrr í sama mánuði. Þetta leiddi samstundis til verðhækkana og verðbólgu um leið og framleiðsla minnkaði hjá þeim ríkjum sem urðu fyrir kreppunni. Þau ríki sem illa urðu úti brugðust við með gagnaðgerðum til að draga úr eftirspurn sinni eftir olíu frá þessum löndum. Til lengri tíma kom því olíukreppan verst niðri á olíuframleiðslulöndunum sjálfum og leiddi til hnignunar Samtaka olíuframleiðenda. Venn-mynd. a> sýnir Venn-mynd, til heiðurs John Venn. Venn-mynd eða Vennmynd er myndræn framsetning mengja og innbyrðis rökfræðilegra tengsla þeirra, dregið af nafni rökfræðingsins John Venn. Þjóðabandalagið. Fundur Þjóðabandalagsins í Genf árið 1923. Þjóðabandalagið voru alþjóðasamtök sem voru stofnuð á Friðarráðstefnunni í París 1919 í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Markmið samtakanna voru afvopnun og að koma í veg fyrir styrjaldir með samtryggingu, að leysa úr milliríkjadeilum með samningaviðræðum og að bæta velferð í heiminum. Sú stefna í alþjóðastjórnmálum sem lá á bak við bandalagið var gerólík þeirri sem ríkt hafði fram að því. Þjóðabandalagið bjó ekki yfir eigin her og treysti því á stórveldin til að tryggja framkvæmd ákvarðana bandalagsins. Síðari heimsstyrjöldin sýndi greinilega fram á að bandalaginu hefði mistekist að ná einu helsta markmiði sínu: að koma í veg fyrir stríð. Eftir heimsstyrjöldina tóku Sameinuðu þjóðirnar við af bandalaginu. Hugmyndin um bandalag þjóða til að koma í veg fyrir stríð var tekin upp af Woodrow Wilson, Bandaríkjaforseta, sem átti stóran þátt í stofnun þess. Kveðið var á um stofnun bandalagsins í 1. hluta Versalasamningsins. Stofnskrá bandalagsins var upphaflega undirrituð af 44 ríkjum en 22 ríki gengu síðar í það. Vegna þeirrar einangrunarstefnu sem þá ríkti í öldungadeildinni tóku Bandaríkin ekki þátt. Litla Ilíonskviða. "Litla Ilíonskviða" eða "Ilíonskviða hin skemmri" (forngríska:, "Ilias mikra"; latína: "Ilias parva") er glatað forngrískt söguljóð. Hún var eitt ljóðanna um Trójustríðið en einungis "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða" eru varðveittar. "Litla Ilíonskviða" hefst þar sem "Eþíópíukviða" skilur við og er eins konar framhald hennar en framhald "Litlu Ilíonskviðu" er að finna í kvæðinu "Iliou persis" („Fall Tróju“). Í fornöld var "Litla Ilíonskviða" ýmist eignuð Leskesi frá Pyrrhu, Kinæþoni frá Spörtu, Díodórosi rá Eryþræ eða Hómer. Kvæðið var í fjórum bókum undir sexliðahætti. Aldur. "Litla Ilíonskviða" var að líkindum samin á seinni hluta 7. aldar f.Kr. en um það ríkir mikil óvissa. Efni. Þótt kvæðið sé glatað eru um þrjátíu línur varðviettar úr kvæðinu sjálfu en auk þess er varðveittur útdráttur úr efni hennar frá því í síðfornöld. Kvæðið hófst á útbýtingu vopna Akkillesar, sem mesta hetjan meðal Grikkja átti að fá: um vopnin keppa Ajas Telamonsson og Ódysseifur, sem hlaut vopnin að lokum. Ajas gengur af göflunum og fremur að endingu sjálfsmorð. Ódysseifur situr fyrir Helenosi og handsamar hann en Helenos spáir fyrir um hvernig Grikkir fái tekið Tróju. Ódysseifur og Díómedes halda til Lemnos til að sækja Fíloktetes, sem drepur París í bardaga. Helena giftist þá Deífóbosi. Ódysseifur sækir son Akkillesar, Neoptólemos og kemur með hann til Tróju, fær honum hervopn föður síns og vofa Akkillesar birtist honum. Neoptólemos vegur tróversku hetjuna Evrýpylos. Ódysseifur fer inn í Tróju, dulbúinn sem betlari. Helena ber kennsl á hann en þegir. Gyðjan Aþena lætur Epeios smíða viðarhest og Grikkir koma bestu köppum sínum fyrir inni í hestinum, brenna búðir sínar og draga sig í hlé til eyjunnar Tenedos sem var skammt frá. Tróverjar halda að Grikkir séu á brott fyrir fullt og allt, rjúfa hluta borgarmúrsins og draga hestinn inn í borgina og fagna. Ekki virðist fjallað um eyðileggingu Tróju í "Litlu Ilíonskviðu" en það er meginefni "Iliou persis". Eigi að síður lýsir brot sem talið er vera út "Litlu Ilíonskviðu" hvernig Neoptolemos handsamar Andrómökku, ekkju Hektors, og drepur barnungan son þeirra, Astýanax, með því að henda honum fram af borgarveggnum. Steinar Bragi. Steinar Bragi Guðmundsson (f. 15. ágúst 1975) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fimm ljóðabækur með óbundnum ljóðum og prósaljóðum frá árinu 1998 og verk eftir hann hafa birst m.a. í tímaritinu Andblæ (1998), í "Af stríði" sem Nýhil gaf út, í "Skírni" og í "Stínu" árið 2007. Fyrsta skáldsaga hans, "Turninn", kom út hjá Bjarti árið 2000 og síðan hafa komið út hjá sömu útgáfu "Áhyggjudúkkur" (2002), "Sólskinsfólkið" (2004) og "Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins" (2006). Hjá Nýhil kom út skáldsagan "Konur" árið 2008. Steinar hefur skrifað pistla á vef hins róttæka dagblaðs Nei og var áberandi í mótmælum á Austurvelli í janúar 2009. Í sama mánuði var "Konur" endurprentuð í kilju, og kom þá út hjá Máli og menningu. Steinar Bragi hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Guðrún Eva Mínervudóttir. Guðrún Eva Mínervudóttir (f. 17. mars 1976) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hún vakti almenna athygli fyrir smásagnasafnið "Á meðan hann horfir á þig ertu María mey" árið 1998. Árið 1999 kom út "Ljúlí ljúlí" og 2000 "Fyrirlestur um hamingjuna" sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna það ár. Síðan þá hafa komið út "Albúm", "Sagan af sjóreknu píanóunum" (báðar 2002), ' sem hlaut Menningarverðlaun DV árið 2005, "Skaparinn" 2008 og "Allt með kossi vekur" (2011). Hún hefur gefið út eina ljóðabók (2000) ' sem er tvöföld bók; hin hliðin geymir ljóðabókina ' eftir Hrafn Jökulsson. Guðrún Eva hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012 fyrir skáldsögu sína "Allt með kossi vekur". Sölvi Björn Sigurðsson. Sölvi Björn Sigurðsson (f. 7. október 1978) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld sem hefur líka fengist við þýðingar á verkum skálda eins og John Keats (í tímaritinu Andblæ 1999) W. H. Auden, Arthur Rimbaud og W. B. Yeats. Ljóð eftir hann komu út í safnritinu "Líf í ljóðum: 22 íslensk samtímaskáld" 2001 og 2002 kom út "Vökunætur glatunshundsins" sem innihélt að hálfu leyti frumort ljóð og að hálfu leyti ljóðaþýðingar. 2003 kom út fyrsta skáldsaga hans hjá Máli og menningu, "Radíó Selfoss", sem er uppvaxtarsaga frá Selfossi. 2005 kom út "Gleðileikurinn djöfullegi", söguljóð með tilvísun í "Hinn guðdómlega gleðileik" Dantes, ort undir þríliðahætti þar sem drukkið ungskáld reikar frá Hlemmi að Lækjartorgi af einum bar á annan í leit að sinni heittelskuðu Klöru í fylgd Dantes sjálfs. Árið 2006 kom síðan út önnur skáldsaga hans, "Fljótandi heimur", "Síðustu dagar móður minnar" 2009 og sögulega skáldsagan "Gestakomur í Sauðlauksdal" 2011. Kristín Eiríksdóttir. Kristín Eiríksdóttir (f. 1981) er íslenskt ljóðskáld sem vakti nokkra athygli fyrir ljóðabókina "Kjötbærinn" sem Bókaútgáfan Bjartur gaf út 2004. Síðan þá hefur hún gefið út eina ljóðabók, "Húðlit auðnin", hjá Nýhil 2006, en ljóð eftir hana birtust einnig í safnritinu "Ást æða varps" sem Nýhil gaf út 2005. Strikið. Mynd tekin á Strikinu í apríl 2005 Strikið er rétt rúmlega 1 km löng göngu- og verslunargata í miðborg Kaupmannahafnar sem liggur frá Ráðhústorgi að Kongens Nytorv. Óraníuættin. Óraníuættin er aðalsætt sem er grein af Nassáættinni. Núverandi drottning Hollands er af Óraníuætt. Nafn sitt dregur ættin af furstadæminu og borginni Óraníu í Vaucluse í Frakklandi. Á fyrri hluta 16. aldar féll furstadæmið í hendur Nassáættarinnar frá Pfalz í Þýskalandi. 1544 tók Vilhjálmur þögli, ríkisstjóri Hollands, við sem Óraníufursti og afkomendur hans mynda Óraníuættina. Óraníureglan. Óraníureglan er regla mótmælenda sem starfar víða í engilsaxneskum löndum en þó fyrst og fremst á Norður-Írlandi og í Skotlandi. Saga. Reglan var stofnuð á Írlandi 1795 af mótmælendum sem vildu bindast samtökum gegn kaþólikkum og þeim sem kröfðust sjálfstæðis Írlands. Göngutíð Óraníumanna. Á ári hverju minnast meðlimir reglunnar orrustunnar við Boyne 1690 með því að halda göngur. Göngur Óraníumanna á Norður-Írlandi eru þarlendum kaþólikkum þyrnir í augum og á göngutíð brýst oft út mikið ofbeldi milli motmælenda og kaþólikka. Annars staðar en á Norður-Írlandi eru göngur Óraníumanna ekki umdeildar og fara friðsamlega fram. Harriet Tubman. Harriet Tubman (um 1822 – 10. mars 1913) einnig þekkt sem „Móses“ var bandarísk blökkukona sem barðist fyrir afnámi þrælahalds. Hún var sjálf strokuþræll. Hún aðstoðaði við flótta margra þræla frá heimaslóðum hennar í Maryland um neðanjarðarlestarkerfið ("The Underground Railroad"). Í bandaríska borgarastríðinu starfaði hún sem njósnari fyrir Norðurríkin. Tubman, Harriet Samúel J. Samúelsson. Samúel J. Samúelsson (fæddur 1974) er íslenskur básúnuleikari og útsetjari sem er best þekktur fyrir að spila og syngja með fönkhljómsveitinni Jagúar. Hann lauk burtfararprófi í básúnuleik frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2000, og hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum, bæði sem basúnuleikari og útsetjari. Fyrsta sólóplata hans, Legoland, var upptaka af burtfarartónleikum hans og innihélt frumsamda stórsveitartónlist. Edduverðlaunin 2004. Edduverðlaunin 2004 voru afhending Edduverðlauna Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar á Hotel Nordica, 14. nóvember 2004. Aðalkynnar kvöldsins voru Kristján Kristjánsson og Helga Braga Jónsdóttir. Veitt voru verðlaun í fjórtán flokkum, sem var einum færri en árið áður. Flokkarnir leikari og leikkona ársins annars vegar og leikari og leikkona í aukahlutverki hins vegar var skellt saman og fimm tilnefndir í hvorum flokknum í stað þriggja áður. Þá var aftur bætt við flokknum „Leikið sjónvarpsefni“ sem hafði verið felldur út árið áður. Flokkurinn „Fréttamaður ársins“ var einnig felldur út en í staðinn kom „Skemmtiþáttur ársins í sjónvarpi“. Af kvikmyndum í fullri lengd bar mest á "Kaldaljósi" Hilmars Oddssonar með Ingvar E. Sigurðsson í aðalhlutverki sem hlaut fimm edduverðlaun. Tvær heimildamyndir sem báðar fjölluðu um Málverkafölsunarmálið fengu tilnefningu: "Án titils" eftir Þorstein J. Vilhjálmsson, og "Faux - Í þessu máli" eftir Sólveigu Anspach. Tilnefningar og handhafar Edduverðlauna 2004. "Handhafar Edduverðlaunanna í hverjum flokki eru feitletraðir." Edduverðlaunin 2005. Edduverðlaunin 2005 voru afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Hotel Nordica, 13. nóvember 2005. Aðalkynnir kvöldsins var Þorsteinn Guðmundsson. Veitt voru verðlaun í fimmtán flokkum, en flokknum „Klipping og myndataka“ var bætt við frá árinu áður. Kvikmyndin "Voksne mennesker" eftir Dag Kára fékk fimm tilnefningar og fjögur verðlaun. "Latibær" fékk líka fimm tilnefningar en aðeins ein verðlaun, fyrir leikbrúður í flokknum „Útlit myndar“. Silvía Nótt var áberandi á hátíðinni, hlaut verðlaunin fyrir skemmtiþátt ársins og var kosin vinsælasti sjónvarpsmaðurinn í netkosningu. Þetta var í fyrsta skipti sem framlag Íslands til forvals Óskarsins var ekki sú kvikmynd sem valin var besta kvikmyndin. Tilnefningar og handhafar Edduverðlauna 2005. "Handhafar Edduverðlaunanna í hverjum flokki eru feitletraðir og gulllitaðir." Edduverðlaunin 2006. Edduverðlaunin 2006 eru afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Hótel Nordica, sunnudaginn 19. nóvember 2006. Þær breytingar urðu á verðlaunaflokkum að flokkurinn „klipping og myndataka“ sem tekinn var upp árið áður var lagður niður aftur og sömuleiðis „tónlistarmyndband ársins“ sem hafði verið með frá 2002 þar sem ákveðið var að verðlaun fyrir besta myndbandið yrðu veitt á Íslensku tónlistarverðlaununum 2006 sem verða haldin í janúar 2007. Aðalkynnar kvöldins voru Pétur Jóhann Sigfússon og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir. Kvikmyndin "Mýrin" eftir Baltasar Kormák eftir sögu Arnaldar Indriðasonar var aðsópsmest á hátíðinni með fimm verðlaun. Tilnefningar og handhafar Edduverðlauna 2006. "Handhafar Edduverðlaunanna í hverjum flokki eru feitletraðir og gulllitaðir." Grýla. Grýla er upphaflega tröllkona, en er síðan með tíð og tíma talin til íslenskra jólavætta. Í þulum Snorra-Eddu er hún sögð tröllkona, en er síðan ekki bendluð sérstaklega við jólin fyrr en í kvæði frá 17. öld. Grýla er í íslenskum sögnum talin móðir jólasveinanna. Theo Jörgensmann. Theo Jörgensmann (29. september 1948) Bottrop er klarinettist og þýskt tónskáld Geithellnadalur. Geithellnadalur er austasti dalurinn sem gengur inn úr Álftafirði. Um hann rennur Geithellnaá. Dalurinn er vel gróinn og er þar töluvert kjarrlendi austan til í honum. Laugalækjarskóli. Laugalækjarskóli er einsetinn skóli í Reykjavík sem starfar eingöngu á unglingastigi. Nemendur eru um það bil 280 og starfsmenn um 45. Skólastjóri er Björn Magnús Björgvinsson. Hlutverk grunnskólans er í samvinnu við heimilin að,búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun". (Lög um grunnskóla frá 1995, 2.gr) Jafnframt segir í 2. gr. laganna að skólanum beri að temja nemendum umburðarlyndi og lýðræðislegt samstarf, víðsýni og skilning á samferðamönnum og umhverfi, að skólinn skuli haga störfum sínum í samræmi við eðli og þarfir nemenda og þjálfa þá í samstarfi við aðra. Laugalækjarskóli hefur eins og aðrir grunnskólar Reykjavíkur leitast við að sveigja starfsþætti sína enn frekar í átt til einstaklingsmiðaðra náms og aukinnar samvinnu nemenda. Í því verkefni skiptir nýting tölvutækninnar miklu máli. Þróa þarf aðferðir og tæki til að hafa yfirlit yfir framfarir nemenda og stöðu þeirra í náminu. Efling sjálfmyndar nemenda og félagsfærni hefur einnig verið í brennidepli. Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli mynda saman grunnskóla Laugarneshverfis, annar starfar á barnastigi og hinn á unglingastigi. Skagafjarðarsýsla. Skagafjarðarsýsla er sýsla á Íslandi og nær yfir allan Skagafjörð. Vestan við sýsluna er Austur-Húnavatnssýsla og Eyjafjarðarsýsla austan við. Skagafjarðarsýsla einkennist af firðinum sjálfum og landið upp af honum er mikið landbúnaðarhérað. Kjördæmið. Skagafjarðarsýsla var kjördæmi í Alþingiskosningum uns Norðurlandskjördæmi vestra var myndað 1959. Ferenc Puskás. Ferenc Puskás (fæddur 2. apríl 1927 í Kispest, dó 17. nóvember 2006 í Búdapest) var ungverskur knattspyrnumaður og einhver þekktasti knattspyrnumaður heims fyrir afrek sín með ungverska landsliðinu og Real Madrid. Mýri. Mýri er landssvæði þar sem grunnvatnsstaða er há og jafnvel í yfirborði jarðvegsins. Gróður í mýrum er oft grófari og harðgerðari en í þurru landi, þar vaxa einkum starir og mosi. Allt að helmingur gróins lands á Íslandi er mýrlendi. Flokkun. Mýrar skiptast í þrjá flokka; hallamýrar, flóa og flæðimýrar. Hallamýrar. Hallamýrar myndast í halla við fjallshlíðar eða brekkurætur þar sem berggrunnurinn er þéttur. Hallamýrar geta verið í nokkuð miklum halla og er því mun auðveldara að ræsa þær fram heldur en flóa og flæðimýrar. Grunnvatnsstaða í hallamýrum getur verið breytileg enda er mikið flæði á vatninu í slíkum mýrum. Þær hafa fjölbreytt gróðurfar og geta gefið mikla uppskeru. Flói. Flóar eru algengir á milli berghafta þar sem frárennsli er tregt. Landið er hallalítið og dæmi um flóa eru Mýrasýsla og Flóinn í Árnessýslu. Dýpt jarðvegsins getur verið breytileg og allt að 10 metrar. Flóar eru ekki eins frjósamir og hallamýrar vegna þess að vatnið ber næringarefni ekki eins ört til gróðursins. Gosefni og önnur efni í flóum geta virkað sem dren en fínna set s.s. kísilset hefur litla vatnsleiðni og minnkar því framræslu. Flæðimýrar. Flæðimýrar eða flæðiengjar eru meðfram ám og stöðuvötnum með ójafna vatnshæð. Flæðimýrar eru rakar og auðugar af steinefnum en erfitt getur reynst að ræsa þær fram. Þær gefa gott beitiland. Dæmi um slíkar flæðimýrar eru engjarnar á Hvanneyri meðfram Hvítá. Jarðvegsgerð. Í mýrum, sérstaklega óframræstum, er mikil holurýmd í jarðveginum og geymir sú holurýmd mikið af því vatni sem í mýrinni er. Vegna þess hve illa jarðvegurinn er brotinn niður getur hann verið nokkuð súr (súrefni kemst ekki að til að flýta fyrir rotnun). Þannig heldur mýrin í sér næringarefnum sem hægt er að losa með framræslu. Við það kemst einnig súrefni að svo lífræn efni grotna hraðar niður. Sveppir og gerlar éta upp súrefni úr plöntuleifum í mýrum og þannig þjappast jarðvegurinn saman. Við þetta eykst kolefnisinnihald hans. Við slíkar aðstæður myndast mór sem hefur verið notaður til brennslis. Þegar jarðvegssnið eru tekin sjást greinileg merki um mýrar. Jarðvegurinn er að jafnaði þykkari og oft sjást mýrarauðablettir. Mýrar hlýna seinna á vorin og kólna seinna á haustin en þurrara land á sama svæði. Þetta leiðir til þess að gróður í mýrum er lengur að taka við sér á vorin en helst á móti lengur fram eftir hausti. Blóðfræði. Blóðfræði er undirgrein líffræðinnar (líffærafræðinnar) sem fjallar um blóð, blóðframleiðandi líffæri og blóðsjúkdóma. Þeir sem stunda greinina kallast blóðfræðingar. Hagnýtt sálfræði. Hagnýtt sálfræði snýst um að nota sálfræðilegar aðferðir og kenningar til að leysa vandamál í öðrum greinum, eins og t.d. í starfsmannastjórnun, vöruhönnun, lækningum og menntun. Áhlaðandi. Skýringarmynd sem sýnir áhlaðanda undir fellibyl. Áhlaðandi er breyting á stöðu sjávar á lágþrýstingssvæði vegna þess að sterkir vindar þrýsta á yfirborð vatnsins og öldurnar hrannast því upp fyrir venjulega sjávarhæð. Í grunnu vatni við ströndina, t.d. á háflóði, getur mikill áhlaðandi valdið sjávarflóðum með tilheyrandi skemmdum. Stórflóð af völdum áhlaðanda verða oftast undir fellibyljum en minni stormar geta einnig valdið flóðum. Hæsti áhlaðandi sem mælst hefur var árið 1899 þegar fellibylurinn Mahina olli þrettán metra hækkun sjávarborðs í Bathurstflóa í Ástralíu. Stefán Ólafsson (prófessor). Stefán Ólafsson (f. 29. janúar 1951) er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og forstöðumaður Þjóðmálastofnunar við Háskóla Íslands. Stefán lauk MA-prófi í félagsfræði við Edinborgarháskóla og doktorsgráðu við Háskólann í Oxford (Nuffield College). Stefán hefur kennt við Háskóla Íslands síðan 1980, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ 1985 – 1999 og varð prófessor við félagsvísindadeild 1991. Frá 2000 til 2005 var hann forstöðumaður Borgarfræðaseturs, sem var 5 ára samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Verk. Stefán hefur haldið því fram, m.a. í skýrslunni "Örorka og velferð á Íslandi" sem hann vann fyrir Öryrkjabandalag Íslands, að skattbyrði hafi aukist á Íslandi á síðasta áratug eða svo. Hann segir ástæðu þess vera þá að skattleysismörk hafi verið aftengd þróun launa og þess í stað látin fylgja þróun verðlags. Skattleysismörk ættu því að vera hærri en þau eru en fyrir vikið þarf lágtekjufólk að greiða meira í skatt en ella. Á sama tíma heldur Stefán því fram að hátekjufólki sé sérstaklega umbunað t.d. með afnámi hátekjuskatts. Saman veldur þetta því að ójöfnuður í samfélaginu eykst. Mörður Árnason. Mörður Árnason (f. 30. október 1953) var þingmaður Samfylkingarinnar frá árinu 2003 til ársins 2007, og hóf aftur störf á alþingi vorið 2010. Mörður gekk í Menntaskólann í Reykjavík og varð stúdent þaðan 1973. Hann gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árin 1972-1973. Hann útskrifaðist með BA-gráðu í íslensku og málvísindum eftir nám við Háskóla Íslands og Háskólann í Osló. Á níunda áratugnum var hann starfsmaður Orðabókar Háskólans, blaðamaður hjá Þjóðviljanum og ritstjóri árin 1988–1989. Hann var upplýsingafulltrúi fjármálaráðherra 1989–1991 og ritstjóri við Bókaútgáfu Máls og menningar og Eddu útgáfu hf. 1991–2003. Versalasamningurinn. Versalasamningurinn var gerður við lok fyrri heimstyrjaldarinnar í Versölum utan við París, árið 1919. Hann var gerður milli Bandamanna og Þjóðverja og kvað á um að Þjóðverjar bæru ábyrgð á styrjöldinni. Þeim var gert að greiða háar stríðsskaðabætur til Bandamanna, láta lönd af hendi til Frakklands, Póllands, Tékkóslóvakíu, Danmerkur og Belgíu auk þess sem sum héröð voru sett undir stjórn þjóðabandalagsins. Ennfremur var öllum nýlendum þjóðverja skipt upp milli annarra nýlenduvelda og þeir mátti einungis hafa 100.000 manna herlið. Þeim var einnig bannað að hafa flugher og skipaflotinn var tekin af þeim. Samningurinn var einkar óvinsæll í Þýskalandi og var ein ástæðan fyrir því að nasistar náðu völdum í Þýskalandi 1933. James Caan. James Langston Edmund Caan (fæddur 26. mars 1940 í Bronx í New York) er bandarískur leikari. Hann hefur hlotið óskarsverðlaunatilnefningu, emmy-tilnefningu og golden globe tilnefningu fyrir bestu bandarísku myndina, sviðs- og sjónvarpsleikari. Í dag er hann best þekktur sem Big Ed Deline í þáttunum Las Vegas. Leikferill. Hann byrjaði á að leika í sjónvarpi í þáttaröðum eins og The Untouchables, The Alfred Hitchcock Hour, Kraf Suspense Theatre, Combat!, Ben Casey, Dr. Kildare, The Wide Country, Alcoa Premiere, Route 66 og Naked City. Fyrsta „alvöru“ hlutverk hans var vondi kallinn í Lady In A Cage sem kom út árið 1964. Hann kom fram í El Dorado með John Wayne. Hann lék heilaskemmdan fótboltaleikmann í The Rain People sem kom út árið 1969 og fékk hann mikið hrós fyrir leik sinn. Árið 1971 lék hann deyjandi fótboltaleikmann í sjónvarps myndinni Brain's Song og fékk en meira hrós fyrir leik sinn í þeirri mynd. Ári seinna lék hann Sonny Corleone í The Godfather, sem hjálpaði ferli Al Pacino líka. Fyrir þetta hlutverk var hann tilnefndur til óskarsverðlaunanna. Frá 1973 til 1982 lék hann í mörgum kvikmyndum. Hann lék margar fjölbreyttar persónur en neitaði að leika þjófa. Cinderella Liberty, Rollerball, Harry And Walter Go To New York, A Bridge Too Far, Comes A Horseman og Chapter Two eru nokkrar af þeim myndum. 1980 leikstýrði hann Hide In Plain Sight, þrátt fyrir jákvæða umfjöllun var myndin ekki vinsæl. 1981 kom hann fram í Thief. Þessi mynd er í dag álitin klassísk glæpa- og dramamynd. Hann hefur sagt að þetta hlutverk sé það hlutverk sem að hann sé stoltastur af ásamt hlutverkinu í The Godfather. Frá 1982 til 1987 lék hann ekki í neinum myndum. Hann þjáðist af þunglyndi eftir dauða systur sinnar, vaxandi vandamál með kókaín-neyslu og því sem hann lýsti sem „Hollywood burnout“. Hann sneri aftur 1987 þegar hann var ráðinn í myndina Gardens of Stone. 1988 og 1990 lék hann í Alien Nation, Dick Tracy og Misery. 1992 lék hann í Honeymoon in Vegas. 1996 kom hann fram í Bottle Rocket og Eraser. 1998 lék hann í This is my Father. Nokkrar af hans nýjustu myndum eru The Yards (2000), City of Ghosts (2002), Dogville (2003) og Elf (2003). 2003 fór hann í áheyrnaprufur og fékk hlutverk Big Ed Deline í Las Vegas. Fyrsta þáttaröðin fór á toppinn en vinsældirnar minnkuðu með árunum og voru á mörkum þess að hætt yrði að taka þættina upp, en þökk sé ákvörðum NBC var þættinum haldið áfram og er komin fram í 4. þáttaröð. Einkalíf. Hann hefur verið giftur fjórum sinnum. Árið 1960 giftist hann Dee Jay Mathis, þau skildu árið 1966 og áttu eitt barn. Annað hjónabandið með Sheilu Ryan árið 1976 lifði ekki lengi og skildu þau ári seinna. Sonur hans Scott fæddist árið 1976. Frá september 1990 til mars 1995 var hann giftur Ingrid Hajek. Þau áttu eitt barn. Í október 1995 giftist hann Lindu Stokes, en þau skildu í apríl árið 2005. Þau eiga tvö börn. Caan hefur verið nefndur í Family Guy (He's too sexy for hit fat). Kom fram í The Simpsons (All's fair in oven war). Hann var gestaleikari í Newsradio, þætti 308 (Movie Star). Hann var fastagestur á Turnberry Island. Hann var mikið með marijúana-smyglurunum Joey Ippolito og Ben Kramer. Árið 1994 bauð hann heimili sitt sem hluti af 2 milljóna lausnargjaldi og bar vitni gegn „kærum vini“ sínum Joey Ippolito, sem var fyrir ákærður fyrir kókaín-dreifingu. Eftir hlutverk hans sem Sonny Corleone í The Godfather hefur fólk oft haldið að hann sé af ítölskum-amerískum ættum en hann er í raun af þýskum-gyðinga ættum. Caan, James Blaðamannafélag Íslands. Blaðamannafélag Íslands er stéttarfélag íslenskra blaðamanna. Það var stofnað 18. nóvember 1897. Félagar eru rúmlega 600 talsins. Í lögum félagsins segir að hlutverk þess sé að gæta stéttarlegra hagsmuna félagsmanna í hvívetna. Aðild hljóta þeir sem sækja um og starfa við fjölmiðla. Málsgagn félagsins nefnist Blaðamaðurinn, það kom síðast úr í september 2004. Blaðamannafélag Íslands er aðili að Alþjóða blaðamannasambandinu sem og Norræna blaðamannasambandinu. Stjórn er kosin hvert vor á aðalfundi félagsins. Siðanefnd. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands starfar eftir siðareglum félagsins. Siðanefndin samastendur af fimm mönnum. Aðalfundur kýs formann, varaformann og meðnefndarmann og varamenn þeirra. Útgefendur tilnefna einn í nefndina og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands einn. Kærumálum er beint til siðanefndar, kjósi hún að taka kæru til umfjöllunar ber henni að dæma og birta í fjölmiðlum úrskurð sem getur verið af þrennun toga a) ámælisvert, b) alvarlegt og c) mjög alvarlegt. Sé mál talið enn alvarlegra fer það fyrir stjórn Blaðamannafélagsins sem ákveður hvað skuli til bragðs taka. Kunnir formenn. Ýmsir kunnir einstaklingar hafa gegnt formennsku í Blaðamannafélaginu, má þar nefna Eið Svanberg Guðnason, Róbert Marshall og Lúðvík Geirsson. Marlene Dietrich. Marlene Dietrich (27. desember 1901 – 6. maí 1992) var þýsk leikkona, söngkona og skemmtikraftur. Hún hóf kvikmyndaleik árið 1923 og 1929 lék hún hlutverkið „Lola-Lola“ í "Blái engillinn" sem var ein af fyrstu talmyndunum sem gerð var í Evrópu. Eftir það flutti hún til Hollywood þar sem hún lék gjarnan háskakvendi í fjölmörgum kvikmyndum. Sigurhæðir. Sigurhæðir er tvílyft timburhús Matthíasar Jochumssonar á Eyrarlandsvegi 3 á Akureyri. Matthías byggði húsið 1903 og bjó þar til dánardags. Þar er núna rekið safn um Matthías og tvær skrifstofur eru þar lánaðar til rithöfunda og fræðimanna. Salvador Dalí. Salvador Felipe Jacinto Dalí Domènech (11. maí 1904 – 23. janúar 1989) var spænskur listamaður sem aðallega er þekktur fyrir fíngerð súrrealísk málverk en fékkst einnig mikið við höggmyndalist, ljósmyndun og fleira. Hann hafði lag á að draga að sér athygli vegna sérviskulegrar hegðunar og stíls. Tengill. Dalí, Salvador Albrecht Dürer. Albrecht Dürer (21. maí 1471 – 6. apríl 1528) var þýskur listmálari, stærðfræðingur og gríðarlega afkastamikill myndskeri. Hann fæddist og dó í Nürnberg. Prentmyndir hans koma oft fyrir sem myndraðir. Hann lærði gullsmíði af föður sínum en reyndist svo drátthagur að hann var tekinn í læri hjá málaranum og prentmyndasmiðnum Michael Wolgemut fimmtán ára gamall. Eftir að námssamningi hans lauk gerðist hann förusveinn í eitt ár, líkt og tíðkaðist hjá þýskum iðnnemum, og ferðaðist um Þýskaland og til Sviss og Hollands. 1494 hélt hann í stutta ferð til Feneyja á Ítalíu þar sem verk meistara Endurreisnarinnar höfðu mikil áhrif á hann. Hann opnaði eigið verkstæði þegar hann sneri aftur til Nürnberg. Dürer, Albrecht Dürer, Albrecht Francisco Goya. Francisco José de Goya y Lucientes (30. mars 1746 – 16. apríl 1828) var spænskur listamaður og myndskeri frá Aragon. Hann var hirðmálari í stjórnartíð Karls 3. og Karls 4. Hann hefur oft verið kallaður síðasti gamli meistarinn og fyrsti meistari nútímans. Hann hafði mikil áhrif á expressjónistana eins og Édouard Manet og Pablo Picasso. Elsta verk hans er Engið í San Isidro. Goya, Francesco William Hogarth. William Hogarth (10. nóvember 1697 – 26. október 1764) var enskur listamaður, myndskeri og skopmyndateiknari sem oft er talinn einn af frumkvöðlum vestrænnar myndasögulistar. Mörg verka hans drógu dár að stjórnmálum og siðvenjum samtíma hans og drógu upp mynd af skuggahliðum tilverunnar. Hogarth, William Hogarth, William Frida Kahlo. Frida Kahlo (6. júlí 1907 – 13. júlí 1954) var mexíkósk listakona sem þróaði sérstakan stíl þar sem hún blandaði saman táknsæi, raunsæi og súrrealisma. Hún giftist ung mexíkóska kúbistanum Diego Riviera. Meðal þekktustu mynda hennar eru sjálfsmyndir málaðar á ýmsum tímum sem meðal annars sýna áberandi andlitshár (samvaxnar augabrúnir og skegghýjung) sem einkenndu hana og hún ýkti upp í myndunum. Kahlo, Frida Édouard Manet. Édouard Manet (23. janúar 1832 – 30. apríl 1883) var franskur listamaður sem hafði mikil áhrif á fyrstu impressjónistana með umdeildum verkum eins og "Hádegisverður á grasinu" og "Ólympía" frá 1863. Hann forðaðist samt síðar að taka þátt í sýningum þeirra og vildi ekki láta kenna sig við þann hóp. Faðir og móðir Manet hétu Eugénie-Desirée Fournier og Charles Fournier. Manet átti yngri bróðir og hét hann Eugene og var hann lyfjalæknir. Eugene giftist Berthe Morisot og eignuðust þau dóttir sem hét Julie Monet Manet, Édouard 1134. Stytta Alfons konungs af Aragon. Henri Matisse. Henri Matisse (31. desember 1869 – 3. nóvember 1954) var franskur myndlistarmaður sem er þekktur fyrir málverk í sterkum litum og mjúk, flæðandi form. Hann telst til póstimpressjónistanna. Hann var leiðtogi hóps málara sem fékkst við fauvisma og taldi einnig Georges Braque, André Derain, Raoul Dufy og Maurice Vlaminck. Matisse, Henri Hítardalur (bær). Hítardalur í Mýrasýslu er fornt höfuðból og prestssetur í samnefndum dal, samkvæmt þjóðsögum kennt við tröllkonuna Hít sem varð að steini þar rétt neðan við bæinn ásamt Bárði Snæfellsás og standa þeir drangar enn. Bærinn hét reyndar upphaflega Húsafell og fellið hjá honum einnig en það er nú oftast kallað Bæjarfell. Hítardalur er landnámsjörð og byggði Þórhaddur Steinsson þar manna fyrstur að sögn Landnámabókar. Bærinn Hítardalur er meðal annars þekktur fyrir að þar varð mannskæðasti eldsvoði Íslandssögunnar þann 30. september 1148. Meira en 70 manns sem voru þar við veislu fórust í brunanum, þar á meðal var biskupinn í Skálholti, Magnús Einarsson. Í Hítardal starfaði munkaklaustur af reglu Benedikts að því að talið er frá 1166 eða 1168 til 1201, en lítið er vitað um sögu þess. Á 13. öld bjó Ketill Þorláksson lögsögumaður í Hítardal og síðan Loftur biskupssonur. Síðar varð Hítardalur prestssetur og þótti eitt besta brauð landsins. Þar sátu margir merkisprestar og sumir þeirra voru þekktir fræðimenn. Þar má nefna séra Þórð Jónsson, sem þar var á 17. öld og skrifaði meðal annars ættartölurit sem voru gefin út árið 2008. Einn af þekktustu prestum í Hítardal var séra Jón Halldórsson, mikilvirkur sagnaritari sem var þar prestur frá 1691-1736. Hann skrifaði meðal annars biskupasögur, sögur skólameistara, hirðstjóra og fleiri og skráði "Hítardalsannál". Synir hans voru Finnur Jónsson biskup og Vigfús Jónsson prestur og fræðimaður í Hítardal, sem skrifaði þar fyrstu íslensku barnabókina. Ludwig Mies van der Rohe. Ludwig Mies van der Rohe (27. mars 1886 – 17. ágúst 1969) var þýskur arkitekt sem er almennt talinn vera einn af frumkvöðlum nútímabygginarlistar ásamt Walter Gropius og Le Corbusier. Verk hans einkennast af einföldum formum úr stáli og gleri. Hann kallaði list sína „skinn og bein“-arkitektúr og var þekktur fyrir notkun orðtakanna „minna er meira“ og „guð er að finna í smáatriðunum“. Rohe, Ludwig Mies van der Johannes Vermeer. Johannes Vermeer eða Jan Vermeer (skírður 31. október 1632 — 15. desember 1675) var hollenskur listmálari sem fékkst einkum við myndir af borgaralegu lífi innan veggja heimilisins. Hann bjó alla ævi í borginni Delft og gekk nokkuð vel í sinni grein en varð aldrei sérlega frægur. 1866 gaf listfræðingurinn Thoré Burger út ritgerð þar sem hann eignaði Vermeer 60 verk (34 eru örugglega eignuð honum í dag) og frá þeim tíma hefur frægð Vermeers vaxið gríðarlega og hann er nú talinn einn af bestu málurunum á gullöld Hollands. Vermeer, Johannes Christopher Wren. Sir Christopher James Wren (20. október 1632 — 25. febrúar 1723) var enskur hönnuður, stjörnufræðingur, rúmfræðingur og mesti enski arkitekt sinnar tíðar. Hann teiknaði 53 byggingar í London, þar á meðal Pálskirkjuna. Hann var einn af stofnendum Konunglega enska náttúrufræðifélagsins og verk hans á sviði vísinda voru hátt skrifuð af Isaac Newton og Blaise Pascal. Wren, Christopher Róbert Ragnarsson. Róbert Ragnarsson (fæddur 24. mars 1976) er bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. Hann hefur áður starfað sem bæjarstjóri í Vogum verkefnastjóri hjá félagsmálaráðuneytinu og sem stundakennari í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Róbert er kvæntur Valgerði Ágústsdóttur stjórnmálafræðingi og eiga þau þrjú börn. Terrassa. Terrassa er borg í Katalóníu á Spáni. Borgin hefur rúmlega 200 þúsund íbúa (2006) og er staðsett 30 km frá Barselónu. Listi yfir bæi í Vestur-Kongó. Þetta er listi yfir bæi í Vestur-Kongó. Thomas Mann. Paul Thomas Mann (6. júní 1875 — 12. ágúst 1955) var þýskur rithöfundur sem einkum er þekktur fyrir langar skáldsögur sem innihalda greiningu og háðsádeilu á þýskt samfélag. Mann flýði land eftir valdatöku nasista í Þýskalandi og var einn af helstu gagnrýnendum Þriðja ríkisins. Hann fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1929 fyrir "Buddenbrooks" sem var fyrsta skáldsaga hans. Æviágrip. Thomas Mann fæddist í Lübeck í eina af betri fjölskyldum borgarinnar. Eftir dauða föður síns hætti Thomas námi og flutti ásamt móður sinni og systkinum til München þar sem hann bjó fram til 1933. Hann vann fyrst á skrifstofu tryggingafélags en frá 21 árs aldri fékkst hann nær eingöngu við ritstörf. Hann skrifaði smásögur og greinar í tímarit en öðlaðist fyrst frægð með skáldsögunni "Buddenbrooks" (1901). Bókin byggist að miklu leyti á sögu Mann-fjölskyldunnar og barnæsku höfundarins. Mann giftist Katia Pringsheim árið 1905 og átti með henni sex börn. Dagbækur hans benda til þess að hann hafi verið samkynhneigður en hann átti aldrei í sambandi með öðrum karlmanni. Mann lifði rólegu fjölskyldulífi næstu árin þrátt fyrir umrót í Þýskalandi, heimsstyrjöld og stofnun Weimar-lýðveldisins sem Mann studdi opinberlega. Hann skrifaði "Töfrafjallið" ("Der Zauberberg") á árunum 1913-1924. Þegar nasistum óx ásmegin í Þýskalandi hélt Mann ýmsar ræður gegn stefnu þeirra sem hann taldi villimannslega og ósamrýmanlega menningarþjóð eins og þeirri þýsku. Frægust er líklega "Appell an die Vernunft" sem hann hélt í október 1930. Eftir valdatöku þeirra flýði hann land ásamt fjölskyldu sinni. Hann bjó á ýmsum stöðum í Evrópu, einkum þó í Sviss, og flutti síðan til Bandaríkjanna árið 1938. Þar kenndi hann við Princeton-háskóla. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar vann hann í ýmsum nefndum sem aðstoðuðu evrópska flóttamenn. Hann tók einnig upp stuttar tölur sem beindust gegn Hitler og Þriðja ríkinu og var útvarpað af BBC, meðal annars í Þýskalandi í óþökk þarlendra stjórnvalda. Mann vann í fjórleiknum "Joseph und seine Brüder" á þessum árum og skrifaði enn fremur skáldsöguna "Lotte in Weimar" (1939) sem fjallar um Johann Wolfgang von Goethe. Mann varð fyrir vonbrigðum með þá stefnu sem bandarískt samfélag tók eftir seinni heimsstyrjöldina (sjá McCarthyismi). Árið 1952 flutti hann aftur til Sviss eftir að hafa verið sakaður um fylgispekt við Stalín í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann bjó í þorpinu Kilchberg til dauðadags. Síðustu verk hans voru "Doktor Fástus" (1947) og "Der Erwählte" (1951). Thomas Mann lést vegna æðakölkunar í ágúst 1955. Tenglar. Mann, Thomas Vitrúvíus. Marcus Vitruvius Pollio (um 80/90 f.Kr. – um 25 f.Kr.) var rómverskur arkitekt og verkfræðingur sem var uppi á 1. öld f.Kr. Talið er að hann hafi verið í rómverska hernum undir stjórn Júlíusar Caesars á Spáni og í Gallíu. Hann er þekktur fyrir verk sitt "De architechtura" og hefur vegna þess stundum verið kallaður „fyrsti arkitektinn“. Bókin var enduruppgötvuð árið 1414 af húmanistanum Poggio Bracciolini og Leon Battista Alberti vakti síðan athygli á verkinu sem var þýtt á flest Evrópumál í framhaldinu. Félagsnámskenning. Félagsnámskenning er sú kenning í námssálfræði að börn læri m.a. með því að líkja eftir öðrum, hlusta og horfa á hvernig aðrir gera og læra þannig, hvernig þau eigi að fara að. Ágætis byrjun. "Ágætis byrjun" er breiðskífa sem hljómsveitin Sigur Rós gaf út árið 1999 og er önnur plata þeirra. Hún var upprunalega gefin út á Íslandi en var svo gefin út í Bretlandi árið 2000. Árið 2009 var platan valin í 1. sæti á lista yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum vefjarins Tónlist.is. Robert Louis Stevenson. Robert Louis (Balfour) Stevenson (13. nóvember 1850 – 3. desember 1894) var skoskur rithöfundur. ljóðskáld og ferðasagnahöfundur. Hann var einn af nýrómantísku ensku höfundunum. Frægustu verk hans eru skáldsögurnar "Gulleyjan" (1883) og "Hið undarlega mál Jekylls og Hydes" (1886). Hann var með lungnasjúkdóm (hugsanlega berkla) sem gerði það að verkum að hann ferðaðist um allan heim í leit að loftslagi sem hentaði heilsu hans. Hann lést 44 ára gamall úr heilablæðingu á landareign sinni á eyjunni Upolu á Samóa í Kyrrahafinu. Verk Stevensons hafa verið gríðarlega vinsæl og hann er í 25. sæti yfir mest þýddu höfunda heims. Fjöldi kvikmynda hefur verið gerður eftir sögum hans. Vegna vinsælda hans og þeirrar tegundar afþreyingarbókmennta sem hann fékkst við var hann seint tekinn alvarlega af fræðimönnum og það er ekki fyrr en á síðustu áratugum sem hann hefur verið metinn til jafns við höfunda eins og Joseph Conrad og Henry James. Stevenson, Robert Louis Stevenson, Robert Louis Sergei Eisenstein. Sergei Mikhaílóvitsj Eisenstein (23. janúar 1898 — 11. febrúar 1948) var sovéskur kvikmyndaleikstjóri og kenningasmiður þekktastur fyrir þöglu myndirnar "Verkfall", "Orrustuskipið Potjemkín" og "Október". Kenningar hans í kvikmyndagerð snerust um að nota klippingu til að skapa merkingu með því að leysa úr andstæðum í anda þráttarhyggju Hegels. Með því að setja saman ótengd skot mátti stuða áhorfandann og gera kvikmyndina þannig að byltingartæki. Rit hans eru enn notuð við kennslu í kvikmyndaskólum um allan heim. Eisenstein, Sergei Eisenstein, Sergei Fritz Lang. Friedrich Anton Christian Lang (5. desember 1890 — 2. ágúst 1976) var austurrískur kvikmyndaleikstjóri og einn þekktasti kvikmyndagerðarmaður þýska expressjónismans. Þekktustu verk hans eru "Metropolis" (1927) og "M" (1931) sem hann gerði í Þýskalandi áður en hann fluttist til Bandaríkjanna 1934. Lang, Fritz Þjórsárver. Þjórsárver er samheiti yfir ver og gróðursvæði milli Hofsjökuls og Sprengisands. Þjórsárver eru einstök í íslenskri náttúru að því leyti að gróðurþekjan er í yfir 600 metra hæð og þar á einn þriðji hluti allra heiðagæsa í heiminum varpstöðvar sínar. Afréttir Gnúpverja (Gnúpverjaafréttur) og Ásamanna liggja meðal annars í Þjórsárverum. Náttúrufar. Þjórsárver eru gróðursæl ver með tjörnum og rústum. Vestan Þjórsár einkennast verin einnig af þeim mörgu jökulkvíslum sem koma undan Hofsjökli. Svæðið er flatlent og hallalítið. Innst í Þjórsárverum eru tvö Arnarfell, hið mikla og hið litla. Heiðagæsir. Í Þjórsárverum verpa þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum. Sumarið 1951 rannsakaði Peter Scott stofninn og skrifaði um það bók. Friðun. Frá árinu 1981 hafa Þjórsárver verið friðuð samkvæmt Umhverfisstofnun og Ramsar-samþykktin nær utan um votlendið og fuglalífið. Virkjanamál. Landsvirkjun hefur lengi haft á teikniborðinu að reisa í Þjórsárverum stíflu og mynda þar miðlunarlón til að safna vatni yfir vetrartímann. Því ætti síðan að dæla yfir í Þórisvatn til að nýta það í öllum virkjunum á Þjórsár-Tungnár-svæðinu. Við þetta myndi stórt gróðursvæði fara undir vatn og fossar í Þjórsá týnast vegna þess hve lítið vatn yrði í þeim. Talað var um „9 til 5 fossa“ – hægt væri að hleypa vatni á þá á milli klukkan 9 og 5 yfir daginn svo ferðamenn gætu notið þeirra. Leni Riefenstahl. Helene Bertha Amalie „Leni“ Riefenstahl (22. ágúst 1902 — 8. september 2003) var þýskur dansari, leikkona, kvikmyndaleikstjóri og ljósmyndari sem einkum er þekkt fyrir áróðursmyndir sem hún vann fyrir þýska nasistaflokkinn á 4. áratugnum, eins og "Sigur viljans" og "Ólympíu". Hún er einkum þekkt fyrir þá fagurfræði sem hún þróaði í myndum sínum og nýjungar í kvikmyndagerð eins og að festa tökuvél á teina sem hún notaði fyrst við upptökur á "Ólympíu" um Ólympíuleikana í Berlín 1936. Eftir Síðari heimsstyrjöldina var hún gagnrýnd fyrir tengsl sín við nasista og fékk þá ekki að vinna við kvikmyndagerð. Hún hóf þá feril sem ljósmyndari og fékkst síðar við neðansjávarmyndatökur. Tenglar. Riefenstahl, Leni Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er íslenskt stéttarfélag hjúkrunarfræðinga. Félagið var stofnað haustið 1919 og hét þá Félag íslenskra hjúkrunarkvenna. Markmið félagsins var að koma á fót námi í hjúkrun á Íslandi. 1960 tók félagið upp heitið Hjúkrunarfélag Íslands þar sem fyrstu karlmennirnir höfðu þá lært hjúkrun hér á landi. 1978 stofnuðu hjúkrunarfræðingar með próf frá Háskóla Íslands sérstakt félag fyrir háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga en 15. janúar 1994 sameinuðurst félögin tvö sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Frans frá Assisí. Heilagur Frans frá Assisí (5. júlí 1182 – 3. október 1226) var predikari frá Assisí í Úmbríu á Ítalíu sem boðaði meinlætalíf og höfnun veraldlegra gæða. Hann stofnaði reglu heilags Frans með leyfi Innósentíusar 3. páfa árið 1209. Munkar af þessari reglu voru nefndir „smábræður“ eða „betlimunkar“. 1211 stofnaði hann reglu Klörusystra ásamt heilagri Klöru frá Assisí sem var meðal fylgismanna hans. 1223 fékk hann sína fyrstu stigmötu (sem er fyrsta skráða tilvik um það fyrirbæri). María Skotadrottning. María 1. Skotadrottning eða María Stúart (8. desember 1542 — 8. febrúar 1587) var drottning Skotlands frá 14. desember 1542 til 24. júlí 1567 þegar hún var neydd til að afsala völdum sínum í hendur eins árs gamals sonar síns, Jakobs. Hún var jafnframt drottning Frakklands 1559-1560. Foreldrar hennar voru Jakob V Skotakonungur og Mary of Guise, kona hans, sem var frönsk. Móðir Jakobs V var Margaret Tudor, sem var systir Hinriks VIII og var María því næst á eftir Elísabetu 1. í erfðaröðinni að ensku krúnunni og auk þess kaþólsk þannig að mótmælendur í Skotlandi og Englandi litu á hana sem ógnun. Hún ólst upp við frönsku hirðina og giftist árið 1558 Frans 2. Frakkakonungi. Þegar hann lést 1560 sneri hún aftur til Skotlands. Árið 1565 giftist hún hinum enska Darnley lávarði og átti með honum soninn, Jakob, en Darnley efndi til samsæris gegn henni og var myrtur 1567. Gifting hennar og James Hepburn af Bothwell gerði það að verkum að skoski aðallinn snerist gegn henni og hún var neydd til að segja af sér. Þegar hún flúði til Englands lét Elísabet handtaka hana og halda henni í fangelsi næstu árin. Þegar vísbendingar komu fram um aðild hennar að samsæri gegn Elísabetu lét hún draga hana fyrir rétt þar sem hún var dæmd fyrir svik og tekin af lífi. Sjónvarpsþáttur. Sjónvarpsþáttur er þáttur sem er sýndur í sjónvarpi. Sjónvarpsþættir eru oft framhaldsþættir þar sem einn þáttur tekur við þar sem fyrri þátturinn skyldi eftir, og er þá oft hluti af þáttaröð. Animeþættir eru nær alltaf framhaldsþættir; oft byggðir á mangasögum. Grbavica (kvikmynd). Grbavica er kvikmynd á serbókróatísku sem var leikstýrð af Jasmila Žbanić. Armed Forces Radio and Television Service Keflavik. Armed Forces Radio and Television Service Keflavik eða AFRTS Keflavik (áður Radio TFK) eða Kanaútvarpið/Kanasjónvarpið eða Keflavíkursjónvarpið, eins og það var almennt nefnt af Íslendingum, var útvarpsstöð Varnarliðsins á Keflavíkurstöðinni á Suðurnesjum sem starfaði frá 1951 til 2006 þegar herstöðinni var lokað. Skilgreint hlutverk stöðvarinnar var að senda út skemmtiefni til upplyftingar hermönnum og starfsfólki hersins á starfsstöðvum hersins á Íslandi. Dagskrá stöðvarinnar byggðist fyrst og fremst upp af vinsælu bandarísku útvarps- og sjónvarpsefni, en hluti dagskrárinnar voru sérstakir upplýsingaþættir framleiddir af Pentagon sem af þótti nokkur áróðurskeimur. Einnig framleiddi stöðin sitt eigið efni, aðallega fréttir og veðurfréttir. Stöðin var hluti af útvarpsnetinu Armed Forces Network sem starfar á herstöðvum Bandaríkjamanna um allan heim. Rekstraraðili stöðvarinnar var "Navy Media Center (NMC) Broadcasting Detachment" í Keflavík en megnið af efninu var fengið frá AFRTS sem sá um innkaup og framleiðslu á efni. Þegar stöðinni var lokað í september 2006 störfuðu þar 25 manns, þar af þrír íslenskir tæknimenn. Útvarpsútsendingar. Stöðin hóf útsendingar á miðbylgju með 25 watta styrk í nóvember 1951 og fékk síðan leyfi íslenskra stjórnvalda til reksturs útvarpsstöðvar allan sólarhringinn í maí 1952. Um leið var krafturinn aukinn í 250 wött og var stöðin alla tíð ein sú öflugasta á stóru svæði kringum Ísland. Áður hafði Bandaríkjaher rekið útvarpsstöð við Keflavíkurflugvöll í Síðari heimsstyrjöldinni. Útvarpsstöðin sendi út samfellt frá 1952 til 2006. Sjónvarpsútsendingar. 1954 sótti stöðin um og fékk leyfi til sjónvarpsútsendinga 4. mars 1955. Sent var út á tíðninni 108-186 Hz í 345° geisla. Þetta voru fyrstu sjónvarpsútsendingar frá Íslandi, ellefu árum áður en Ríkissjónvarpið hóf útsendingar. Leyfið var háð þeim skilyrðum að styrkur útsendingarinnar væri bundinn við 50 wött og reynt að beina geislanum að stöðinni sjálfri. Vegna þess að málið var ekki talið snerta íslenska hagsmuni bar Kristinn Guðmundsson utanríkisráðherra málið ekki undir Alþingi. Brátt kom í ljós að sjónvarpsmerkið frá stöðinni náðist á Suðurnesjum, Hafnarfirði og Reykjavík og ýmsir urðu sér út um sjónvarpsviðtæki og sjónvarpsloftnet til að geta fylgst með dagskrá stöðvarinnar. Viðtækin voru dýr og því fá heimili sem leyfðu sér slíkan munað, en áhorfið hefur líklega verið meira en fjöldi tækja gaf til kynna vegna hópáhorfs á vinsæla dagskrárliði. Deilan um Keflavíkursjónvarpið. 1959 lögðu tveir þingmenn Alþýðubandalagsins fram tillögu um lokun sjónvarpsstöðvarinnar en hún var ekki samþykkt. 1961 sótti stöðin um að útsendingarstyrkur yrði aukinn úr 50w í 250w og var það leyfi veitt 17. apríl. Þegar stöðin jók útsendingastyrk sinn árið eftir kom málið aftur upp á Alþingi. Þingmaður Framsóknarflokksins gagnrýndi þá að utanríkisráðherra hefði veitt erlendri sjónvarpsstöð í reynd einokunarstöðu í sjónvarpsútsendingum á Íslandi. Málið var enn sárara þar sem ekki hafði enn tekist að koma á fót íslensku sjónvarpi þrátt fyrir umræður um nauðsyn þess í tæpan áratug. Danska ríkisútvarpið hafði hafið sjónvarpsútsendingar árið 1951. Deilan vatt upp á sig eftir þetta og 13. mars árið 1964 birtu sextíu þekktir Íslendingar grein þar sem skorað var á íslensk stjórnvöld að takmarka útsendingar stöðvarinnar, til þess „að það mál [stofnun íslensks sjónvarps] fái þróazt í samræmi við vilja og getu þjóðarinnar, án þess að knúið sé fram með óeðlilegum hætti“. Andstæðingar stöðvarinnar höfðu meðal annars áhyggjur af því að íslensk ungmenni myndu verða fyrir "óæskilegum" menningaráhrifum og jafnvel glata íslenskunni. Ýmsir urðu þó til að koma Keflavíkursjónvarpinu til varnar og yfir 14.000 manns skrifuðu undir undirskriftalista þar sem þess var óskað að stöðin fengi áfram að senda út á Íslandi. Takmörkun sjónvarpsútsendinga. Þegar Ríkissjónvarpið hóf útsendingar árið 1966 kom fram sú skoðun framleiðenda sjónvarpsefnis í Bandaríkjunum að sjónvarpsstöð varnarliðsins ætti að greiða sambærileg gjöld fyrir útsendingu á aðkeyptu efni þar sem áhorfendahópurinn á Íslandi væri stærri en sem næmi varnarstöðinni sjálfri. Í framhaldi af því óskaði flotaforinginn eftir því við íslensk stjórnvöld að dregið yrði verulega úr útsendingarstyrk stöðvarinnar þannig að hann takmarkaðist við stöðina og næsta nágrenni hennar enda hefði rekstrarkostnaður stöðvarinnar ella margfaldast. 15. september 1967 voru svo sjónvarpsútsendingar takmarkaðar þannig að þær næðust aðeins á Suðurnesjum og sunnanverðum Hafnarfirði. Dagskrá stöðvarinnar var t.d. birt í héraðsblöðum á Suðurnesjum til 1972. Samkvæmt könnunum náðist dagskrá stöðvarinnar á köflum víða í Reykjavík. Þannig héldu útsendingar áfram til 1974 þegar allar sjónvarpsútsendingar stöðvarinnar voru færðar í kapalkerfi. 16. nóvember 1969 réðust 22 meðlimir í Æskulýðsfylkingunni inn í upptökusal sjónvarpsstöðvarinnar, máluðu „Che Guevara“ og „Viva Cuba“ á veggi og á tökuvélar og hrópuðu slagorð gegn stríðinu í Víetnam. Í hópnum voru meðal annarra Birna Þórðardóttir og Róska. Á árunum 1972 til 1974 birtust reglulega greinar í íslenskum dagblöðum um að Keflavíkursjónvarpið væri að brjóta íslensk útvarpslög með útsendingum sínum þar sem þau lög kváðu á um einkarétt Ríkisútvarpsins til sjónvarpsútsendinga. Á móti kvörtuðu margir undan takmörkunum á móttöku sjónvarpsins. Í nóvember 1974 urðu miklar deilur á þingi um þingsályktunartillögu Alberts Guðmundssonar sem fjallaði meðal annars um að opna bæri fyrir útsendingar Keflavíkursjónvarpsins. Tillagan var felld með 40 atkvæðum gegn 5 og þannig ljóst að þverpólitísk samstaða var um lokun þess. Litasjónvarp og gervihnattasjónvarp. Árið 1976 voru teknar upp útsendingar í lit. Á 9. áratugnum var farið að endurvarpa sjónvarpsefni frá gervihnöttum í kapalkerfinu sem á endanum taldi 40 sjónvarpsrásir og 11 útvarpsrásir. Örorka. Örorka nefnist það þegar einstaklingur hefur takmarkaða starfsgetu sökum lömunar, fötlunar eða sjúkdóms. Þetta verður þá einnig til þess að viðkomandi getur ekki lifað „venjulegu” lífi. Örorka getur þannig verið sökum meðfædds eiginleika eða slyss eða veikinda sem eiga sér stað seinna á lífsleiðinni. Örorka á Íslandi. Á Íslandi vinna félagasamtökin Öryrkjabandalag Íslands að því að verja hagsmuni öryrkja og vinna að framförum á aðstæðum þeirra. Íslenska velferðarkerfið tryggir öryrkjum bætur í formi örorkulífeyrisbóta. Við þær bætur geta bæst aukalegar greiðslur, svo sem ellilífeyrir eða aldurstengdar örorkubætur, allt eftir aðstæðum. Árið 2007 var áætlað að u.þ.b. 13.000 einstaklingar fengju örorkulífeyrisbætur á Íslandi. Tryggingastofnun ríkisins. Tryggingastofnun ríkisins er opinber stofnun íslenska ríkisins sem heyrir undir. Hlutverk hennar að annast framkvæmd almannatrygginga. Tryggingastofnun starfar samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Forstjóri annast stjórn stofnunarinnar en einstök svið sjá um afgreiðslu og þjónustu. Verkefni stofnunarinnar felast meðal annar í því að sjá um Lífeyrismál eldri borgara og öryrkja, endurhæfingarmál og félagslega aðstoð. Samkvæmt almannatryggingalögum skipar ráðherra fimm manna stjórn Tryggingastofnunar ríkisins og skal einn skipaður formaður og annar varaformaður. Forstjóri Tryggingastofnunar er skipaður af velferðarráðherra og ber ábyrgð gagnvart honum og stjórn stofnunarinnar í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Framkvæmdastjórn stýrir daglegri starfsemi Tryggingastofnunar, mótar stefnu hennar og markmið. Framkvæmdastjórn vinnur auk þess að stefnumarkandi áætlanagerð, samræmdri stjórnun og framkvæmd stefnumála með framtíðarsýn stofnunarinnar að leiðarljósi. Núverandi forstjóri Tryggingastofnunar er Sigríður Lillý Baldursdóttir. Skipurit stofnunarinnar má finna á vefsíðu stofnunarinnar eða Tryggingastofnunin var upphaflega stofnuð 1936 þegar fyrstu lög um almannatryggingar (Alþýðutryggingalögin) voru sett. Frekari upplýsingar um Tryggingastofnun ríkisins má finna á Ilulissat. Ilulissat, sem á dönsku heitir Jakobshavn er þriðja stærsta byggðarlagið á Grænlandi með um 4,500 íbúum. Það er hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup og er þar er aðsetur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnanna. Bærinn er á miðri vesturströndin landsins og um 200 kílómetrum norðan við norðurheimskautsbaug. Grænlenska nafn bæjarins Ilulissat þýðir Ísfjallið. Grænlensk-danski heimskautafarinn Knud Rasmussen fæddist og ólst upp í Ilulissat og er þar nú safn um hann og rannsóknir hans. Í Ilulissat eru tvö fiskverkunarhús og eru það einkum rækjur og grálúða sem eru verkuð þar. Í hafinu fyrir utan er einnig mikið af sel, hvölum og þar eru mestu rostungagöngur við Grænland. Enda hefur þetta svæði verið kjörið veiðisvæði í þúsundir ára. Hér eru hundasleðar en notaðir enda eru um 6000 hundar í bænum. Fyrir utan fiskveiðar er ferðaþjónusta stöðugt vaxandi atvinnugrein. Á vetrum er hitastig allt niður í -30°C (en hins vegar er mjög þurrt loftslag sem gerir að kuldinn verður bærilegur). Að sumri til er hitinn oft um 20-25°C. Saga. Fornleifafræðingar hafa fundið vegsummerki um að búið hafi verið á þessu svæði í um það bil 4400 ár. Þó hefur hér verið mannlaust í aldaraðir á þessum tíma. Hér hafa fundist leifar eftir byggð Saqqit- og Dorset-fólk og frá Thule-inúítum (forfeðrum núverandi Grænlendinga) sem settust hér að um 1200. Þó engin vegsummerki hafi enn fundist er enginn efi á að hinir norrænu Grænlendingar á miðöldum komu hér við á veiðiferðum sínum enda er þetta á miðju þess svæðis sem þeir nefndu Norðursetu. Bæjarfélagið Ilulissat byggðist 2 km fyrir norðan þorpið Sermermiut. Það var langtum stærsta byggð inúíta á Grænlandi á þeim tíma. Árið 1727 komu danskir kaupmenn þangað fyrst og 1741 stofnaði danski kaupmaðurinn Jacob Severin verslunarstöðina Jacobshavn og samtímis stofnaði Poul Egede trúboðsstöð þar. Ilulissat ísfjörðurinn. Loftmynd af Diskó-eyju og hluta af Diskó-flóa. Fyrir ofan miðju má sjá Iluissat ísfjörðinn fullan af ísjökum. Bæjarfélagið er rétt norðan við fjörðinn. Ilulissat ísfjörðurinn (Ilulissat Kangerlua) er 40 kílómetra langur, um 7 km breiður og 1200 m djúpur fjörður sem byrjar við Grænlandsjökul og liggur út í Diskó flóa. Fjörðurinn er mjög sérkennilegt náttúrufyrirbæri enda fullur af ísjökum allt árið. Skriðjökullinn, sem á dönsku er nefndur Jakobshavn Isbræ og Sermeq Kujalleq á grænlensku rennur niður í austurenda fjarðarins. Þessi skriðjökull skilar af sér mesta jökulruðningi á norðurhveli jarðar. Hann rennur fram 20-35 metra á dag og skilar af sér um 20 miljónum tonna af ís út í fjörðinn á hverju ári. Ísjakarnir eru allt að 1000 metra háir og standa um 150 metra upp úr hafinu. Þrýstingur frá skriðjöklinum og sjávarföll gera að ísjakarnir fljóta smám saman út fjörðinn, í minni fjarðarins er hins vegar svo mikll jökulaur að dýpið er einungis um 300 metrar. Stóru ísjakarnir stranda því þarna en bráðna og brotna smám saman og fljóta áfram út í Diskó-flóa. Berast ísjakarnir þá fyrst norður Baffinsflóa med Vesturgrænlandsstraumi og síðan suður með kanadísku eyjunum og berast að lokum af Labradorstraumi út í Atlantshafið. Stærstu ísjakarnir hverfa ekki fyrr en þeir ná um það bil 40-45 gráðu norður, sem er sunnan við Bretland og á svipaðri breiddargráðu og New York. Ilulissat ísfjörðurinn var tilnefndur á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2004. Heimildir. Ilulissat Isfjord, 2004. GEUS, København, Danmark. ISBN 87-7871-134-7 Bananalýðveldi. Bananalýðveldi er níðyrði haft um lýðveldi sem hafa tíð ríkisstjórnarskipti eða þar sem ráðamenn eru spilltir. Nafnið er komið til vegna áhrifa bandarískra stórfyrirtækja í stjórnmálum í Hondúras. "United Fruit" og "Standard Fruit" stjórnuðu bananaútflutningi landsins en bananar voru helsta útflutningsvaran og því höfðu fyrirtækin mikil áhrif á stjórnmál þar í landi. Síðar borgaði "Cuyamel Fruit" ótíndum glæpamönnum fyrir að ræna völdum og koma á fót ríkistjórn sem var hliðholl fyrirtækinu. Orðið var síðar notað yfir lönd í Mið-Ameríku og Karabíahafi þar sem samskonar ástand ríkti. Í dag er hugtakið notað frjálslega um lönd þar sem stjórnmál eru í reiðuleysi. Benedikt frá Núrsíu. Heilagur Benedikt frá Núrsíu (um 480 – 543) er stofnandi vestræns klausturlífs. Við hann er kennd regla heilags Benedikts sem var stofnuð þegar hann setti á fót klaustur á Monte Cassino á Ítalíu árið 529. Hann var tekinn í dýrlinga tölu árið 1220. Það eina sem vitað er um ævi hans er haft eftir "Samræðum" Gregoríusar mikla. Rosa Luxemburg. Rosa Luxemburg (pólska: Róża Luksemburg; 5. mars 1871 – 15. janúar 1919) var pólskur byltingarsinni og róttækur kenningasmiður. Hún var hugmyndafræðingur félagslegs lýðræðisflokks pólska konungdæmisins en varð síðar virk í þýska sósíaldemókrataflokknum og síðar í Sjálfstæða sósíaldemókrataflokknum. Hún varð þýskur ríkisborgari 1898 þegar hún giftist Gustav Lübeck. Eftir að þýskir sósíaldemókratar studdu þátttöku Þýskalands í Fyrri heimsstyrjöldinni stofnaði hún Spartakusarsamtökin ("Spartakusbund") ásamt Karli Liebknecht sem síðar varð kommúnistaflokkur Þýskalands. Samtökin tóku þátt í misheppnaðri byltingartilraun í Berlín árið 1919 sem var barin niður af vopnuðum herflokkum uppgjafarhermanna. Rosa var handtekin ásamt hundruðum annarra, pyntuð og drepin. Frá þeim tíma hefur verið litið á hana sem einn af píslarvottum kommúnismans. Tómas af Aquino. Heilagur Tómas af Aquino eða Tómas frá Akvínó (um 1225 – 7. mars 1274) var ítalskur guðfræðingur og skólaspekingur. Hann er fremstur hinna eldri stuðningsmanna náttúruguðfræði með tilvísun til Aristótelesar og upphafsmaður tómíska skólans í heimspeki sem lengi var helsta heimspekilega nálgun kaþólsku kirkjunnar. Hann er í rómversku kirkjunni einn kirkjufræðaranna þrjátíu og þriggja. Nagarjuna. Nagarjuna (telúgú: నాగార్జున; kínverska: 龍樹) (um 150 – 250) var indverskur heimspekingur, stofnandi "Madhyamaka" („miðleiðarinnar“) í Mahayana búddisma og að mörgu leyti áhrifamesti búddíski hugsuðurinn að Gátama Búdda sjálfum undanskildum. Michel Foucault. Michel Foucault, fæddur Paul-Michel Foucault, (15. október 1926 í Poitiers í Frakklandi – 25. júní 1984 í París í Frakklandi) var franskur heimspekingur og kenningasmiður um hugmyndasögu og félagsfræði. Hann kenndi við Collège de France það sem hann kallaði „sögu hugsunarkerfa“ (fr. "Histoire des systèmes de pensée") og síðar við háskólann í Buffalo og Kaliforníuháskóla í Berkeley. Foucault er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á samfélagslegum stofnunum, einkum í tengslum við geðsjúkdómafræði, læknisfræði, hugvísindi og fangelsi, sem og sögu kynferðisins. Kenningar hans um tengsl þekkingar og valds, hafa haft gríðarleg áhrif á hugvísindi og félagsvísindi og á ýmsum sviðum starfsmenntunar. Í verkum sínum tekur Foucault til endurskoðunar menningarsögu nýaldar, oft út frá samfélagslegri útilokun tiltekinna hópa, svo sem holdsveikra, fanga og geðsjúklinga. Hann rannsakar svonefnda sifjafræði þekkingar og svokölluð "hugsunarkerfi" og söguleg skeið slíkra kerfa sem hann kennir við "epistémè". Verk hans eru gjarnan tengd við póststrúktúralisma eða póstmódernisma en hann hafnaði þeim merkimiðum sjálfur, enda fjarlægðist hann póststrúktúralisma eftir sjöunda áratuginn. Foucault skilgreindi hugmyndir sínar sem gagnrýna rannsókn á sögulegum rótum nútímans og kvaðst vera undir sterkum áhrifum frá Kant og Nietzsche. Tenglar. Foucault, Michel Foucault, Michel Germaine Greer. Ljósmynd af Germaine Greer frá 2006 Germaine Greer (f. 29. janúar 1939) er ástralskur bókmenntafræðingur, rithöfundur, róttæklingur og einn af kenningasmiðum femínismans á síðari hluta 20. aldar. Hún varð heimsfræg þegar bók hennar, "Kvengeldingurinn" ("The Female Eunuch"), kom út árið 1970. Greer, Germaine Greer, Germaine Móðuharðindin. Móðuharðindin voru hörmungar eða áhrif náttúruhamfara sem urðu á Íslandi í Skaftáreldum 1783 – 1785. Móða eða eiturgufa lagðist á jörðina, gras sviðnaði og búfénaður féll. Talið er að um 75% búfjár hafi þá fallið og fimmti hver maður eða um 10.000 Íslendingar hafi dáið. Móðuharðindin hófust með eldgosi 8. júní 1783 í Lakagígum en þeir urðu til í einhverju mesta hraungosi á jörðunni á sögulegum tímum. Samtímalýsing eldsumbrotanna og áhrifa þeirra í nærliggjandi sveitum eru í Eldriti séra Jóns Steingrímssonar, síðar nefndur "eldklerkur", sem hann lauk við að skrifa árið 1788. Veðurfar breyttist á meðan á hörmungunum stóð, gosið var svo kröftugt að brennisteinsoxíð náði upp í heiðhvolf og hiti lækkaði. Áhrifa gossins gætti víða um heim. Robert Altman. Robert Altman (fæddur 20. febrúar 1925 í Kansas City, lést 20. nóvember 2006 í Los Angeles) var bandarískur kvikmyndaleikstjóri, þekktur fyrir að fara eigin leiðir. Hann hlaut heiðursverðlaun Óskarsverðlaunanna árið 2006. Altman, Robert Víkin (Reykjavík). Víkin eða Reykjavík er heiti á vík í suðurhluta Kollafjarðar í Faxaflóa. Víkin nær frá Laugarnesi í austri að Örfirisey í vestri. Víkin (Noregi). Víkin er sögulegt heiti á svæðinu umhverfis Oslóarfjörð í Noregi. Á miðöldum var talað um Víkina sem sérstakt landsvæði, aðskilið frá Fjörðunum og Þrándheimi enda eru náttúrulegar hindranir á samgöngum milli þessara svæða; fjöll í vestri og skógi vaxnir Dalirnir í norðri. Þegar Haraldur hárfagri sameinaði Noreg var hann í raun að stækka konungsríki sitt í Víkinni, meðal annars með því að fara með her í gegnum Dalina, sem ekki hafði áður verið reynt. Eftir hans tíð kom oft fyrir að ólíkir konungar ríktu annars vegar í Víkinni og hins vegar yfir Fjörðunum og Þrándheimi. Danakonungar töldu sig eiga mikilla hagsmuna að gæta í Víkinni og reyndu þannig að ná yfirráðum yfir því svæði þótt norskir konungar eða jarlar ríktu yfir afgangnum af Noregi. Víkin telur héruðin Vestfold, Austfold, Ránríki, Vingulmörk og Bohuslän. Vetur. Vetur er ein af árstíðunum fjórum. Hinar eru vor, sumar og haust. Á norðurhveli jarðar eru eftirtaldi mánuðir taldit til vetrarmánaða: desember, janúar, febrúar og mars, en þetta eru þeir fjórir mánuðir ársins, sem að jafnaði hafa lægstan meðalhita. Þessu er öfugt farið á suðurhveli, en þar eru fyrrnefndir mánuðir sumarmánuðir. Sími. Sími á við raftæki, sem notað samtímis af tveimur eða fleiri mönnum til að tala saman. Orðið "sími" getur einnig átt við þjónustuaðilann sem veitir símþjónustu. "Símtal" í "talsíma" fer um símstöð, þegar sá sem hringt var í svarar símhringingu hins. "Innanhússími" er tæki notað til að tala við annan mann í sömu byggingu, en "dyrasími" er tæki í fjöleignahúsi, sem notað er til að tala við þann sem hringir dyrabjöllu. Nútímasímar eru stafrænir. Eldri símar voru „analóg”. Málþráður er gamalt orð yfir síma. Þegar hugmyndir um símalagningu til landsins voru fyrst orðaðar, var orðið málþráður meðal þeirra orða sem notaðar voru. Ekki má rugla því saman við orðið "fréttaþráður" sem var áður fyrr haft um ritsíma. Einkaskóli. Einkaskóli er skóli í einkaeign, en ekki í eigu hins opinbera, þ.e. hvorki sveitarfélaga né ríkisins. Einkaskólar eru reknir á öllum skólastigum á Íslandi í dag, frá leikskólum til háskóla. Einkaskóla á grunnskólastigi er gert að lúta þeim kröfum sem gerðar eru til opinberra skóla á því skólastigi og einkaskólar sem útskrifa stúdenta sömuleiðis. Á leikskóla- og háskólastigi eru efnistök skólanna og áherslur í kennslu frjálsari. Einkaskólar fá framlög frá hinu opinbera til jafns við opinbera skóla. Einkaskólar á Íslandi. Einkaskólar á Íslandi eru meðal annars Háskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn Hraðbraut og Verzlunarskóli Íslands. Og á grunnskólastigi Tjarnarskóli, Suðurhlíðarskóli, Landakotsskóli og Waldorfskólinn Sólstafir. Ólafur Haukur Johnson. Ólafur Haukur Johnson (fæddur 20. desember 1951) er fyrsti og núverandi skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar. Skólastjóri. Skólastjóri er forstöðumaður skóla. Orðið skólastýra er stundum notað yfir kvenkyns skólastjóra. Skólastýra. Skólastýra er oft notað yfir kvenkyns skólastjóra, en skólastjóri getur einnig átt við konur án þess að það teljist dónalegt. Rektor. Rektor er annað orð yfir skólastjóra sem er notað vegna hefðar við tiltekna menntastofnun, en orðið er þó oft talið virðingarverðara. Skólameistari. Annað orð yfir skólastjóra sem er notað í stað „skólastjóra“ vegna hefða, en eins og rektor er þetta orð oft talið fínna. Jóhanna Magnúsdóttir. Jóhanna Magnúsdóttir er aðstoðarskólastjóri við Menntaskólann Hraðbraut. Hún hefur lokið 5 ára embættisnámi í guðfræði. Hún á þrjú börn. Kennari. Kennari er maður, karl eða kona, sem starfar að menntun, kennslu og uppfræðslu nemanda, oft við skóla. Framhaldsskóli. Framhaldsskóli er skóli sem tekur við að loknu skyldunámi, eins og menntaskólar, fjölbrautaskólar og iðnskólar. Próf. Próf er hvers kyns raun sem einhver eða eitthvað er látin reyna til að kanna getu eða hæfni. Gott dæmi eru próf í skólum til að athuga eða kanna á kunnáttu og hæfni nemanda. Oft er talað um að nemendur "taki", "þreyti" eða "gangi(st) undir" próf. Alveg eins geta bílar farið í áreksturspróf til þess athuga hversu öruggir þeir eru. Þá getur próf einnig merkt að einhver hafi fengið staðfestingu þess að hann hafi staðist próf, þ.e.a.s. hefur prófgráðu eða prófskírteini (sbr. „ég er með próf í vélstjórn og má sjá um viðhald skipsvéla“). Málsháttur. Málsháttur er fullgerð setning sem oftast felur í sér gamla lífsspeki, almenn sannindi, meginreglu eða lífsviðhorf. Íslenskir málshættir eru auk þess oft með stuðla. Málshættir eru oft notaðir í upphafi ræðna eða til að krydda mál sitt almennt. Þeir hafa einnig verið prentaðir á litla miða og fylgja oft páskaeggjum á Íslandi. Hinn spænski rithöfundur Miguel de Cervantes, höfundur bókarinnar um "Don Kíkóta", lýsti málshættinum þannig: „Málsháttur er stutt setning byggð á langri reynslu“. Hér áður fyrr merkti íslenska orðið málsháttur einnig stíll, eða hvernig ræða var flutt. Málshættir, orðatiltæki og spakmæli. Ekki má rugla málsháttum saman við orðatiltæki, en skil milli orðatiltækja og málshátta eru tiltölulega skörp, þar sem málshættir eru oftar en ekki heil fullmótuð setning, sbr.: „Barnið vex en brókin ekki“, meðan orðatiltæki hafa óvissa breytu: „Að berja e-n til bókar“. Það má heldur ekki rugla saman málshætti við spakmæli. Helsti munurinn á málshætti og spakmæli er sá að spakmæli standa sjaldnast í hljóðstaf og geta verið lengri en málshættir. Spakmæli getur þó líka verið erlend hugsun, eitthvað úr þjóðarbókmenntum heimsins sem þýtt er á tiltekið tungumál eða jafnvel erlendur málsháttur, sem ef til vill ber með sér speki, en á sér ekki hefð í tungumálinu sem þýtt er á. Eins og t.d. „Nóttin flytur oss ráð“, sem er franskur málsháttur: „La nuit porte conseil“. Árni Johnsen. Árni Johnsen (fæddur í Vestmannaeyjum 1. mars 1944) er blaðamaður, rithöfundur og sjötti þingmaður Suðurkjördæmis fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Árni er þjóðþekktur fyrir að leiða brekkusöng um Verslunarmannahelgar á Vestmannaeyjum. Sumarið 2001 var Árni viðriðinn hneykslismál þegar í ljós kom að hann hafði notað reikninga á vegum ríkisins til þess að greiða fyrir varning sem hann notaði persónulega og var hann í kjölfarið dæmdur í tveggja ára fangelsi af Hæstarétti. Sumarið 2006 hlaut Árni Johnsen uppreist æru og var þannig gert kleift að bjóða sig fram í Alþingiskosningunum 2007. Náði hann aftur inn á þing, þó hann félli niður sæti á framboðslistanum vegna fjölda útstrikana. Fjölskylda, menntun og störf. Foreldrar Árna voru þau Ingibjörg Á. Johnsen og Poul C. Kanélas, bandarískur hermaður af grískum ættum. Árni kvæntist árið 1966 Margréti Oddsdóttur, kennara, en þau skildu síðar. Þau eiga saman dæturnar Helgu Brá og Þórunni Dögg. Árni kvæntist árið 1970 Halldóru Fillippusdóttur, flugfreyju, og eiga þau saman soninn Breka. Árni lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1966 og starfaði sem kennari í Vestmannaeyjum frá 1964-65 og í Reykjavík 1966-67. Hann var starfsmaður Surtseyjarfélagsins sumrin og haustin 1966 og 1967. Hann hefur verið blaðamaður við Morgunblaðið frá 1967 og dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið og sjónvarpið frá stofnun þess. Árni var alþingismaður suðurlandskjördæmis árin 1983 til 1987 og árin 1991 til 2001 fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Hann var varaþingmaður hluta úr árum 1988 til 1991 og sat í fjárlaganefnd 1991 til 2001, samgöngunefnd 1991 til 2001 og menntamálanefnd frá 1991 til 2001. Meðfram þingstörfum hefur Árni gegnt ýmsum öðrum störfum, aðallega nefndastörfum, t.d. sem formaður nefndar um lagfæringar á Þjóðleikhúsinu og endurbyggingu Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð á Grænlandi. Spilling. Þegar árið 1995 kom upp hneykslismál vegna Árna. Fluttu fjölmiðlar fréttir af því að Árni, sem þá var orðinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefði hlotið hálfrar milljóna króna styrk frá sjóði á vegum Húsnæðismálastjórnar til að reisa sér bjálkahús í Vestmannaeyjum. Var gagnrýnt að styrkveitingin væri einsdæmi og vísindalegt gildi verkefnisins væri ekkert. Upp komst um misnotkun Árna á opinberu fé sumarið 2001. Fyrst var fjallað um þessi málefni í DV laugardaginn 13. júlí. Þar kom fram að Árni hefði pantað vörur hjá BYKO á nafni Þjóðleikhússins fyrir á aðra milljón króna en Árni hafði verið nefndarmaður í byggingarnefnd Þjóðleikhússins frá því að hún var stofnuð árið 1989. Árni var varaformaður nefndarinnar fyrsta starfsár hennar en svo formaður frá 1990. Hann hafði áður gegnt formennsku í tveimur nefndum sem komu að undibúningi viðhaldsvinnu við Þjóðleikhúsið. Í viðtali við Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, eftir að upp komst um Árna, kom fram að meginverkefnum nefndarinnar hefði verið lokið fyrir rúmum tveimur árum síðan. Inntur eftir útskýringu á þessu kvað Árni að um mistök væri að ræða og að verið væri að reyna að gera „"tortryggilegt að ég breytti nafninu á pöntuninni en annað var ekki hægt, því ég var að drífa þessa pöntun í flutning út í Vestmannaeyjar"“. Þá kom fram að þessi mistök hefðu verið leiðrétt og gjaldfærð á reikning í eigu Árna. Engu að síður varð þetta til þess að Gísli S. Einarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, fór fram á opinbera rannsókn á starfi Árna þar sem hann sæti bæði í fjárlaganefnd Alþingis og bygginganefnd Þjóðleikhússins. Hluti af þessari pöntun hjá BYKO voru þakrennur sem voru pantaðar hjá erlendum birgi í gegnum fyrirtækið Vírnet hf. Sú pöntun var ekki afpöntuð fyrr en 16. júlí og fullyrti Árni að hann hefði hvergi komið nærri því. Óðalssteinarnir. Í kjölfarið beindist athygli manna að viðskiptum sem Árni hafði átt við BM-Vallá í maí sama ár. Þá kom á daginn, þann 15. júlí, að Árni hafði keypt svokallaða óðalssteina af BM-Vallá fyrir hönd byggingarnefndar Þjóðleikhússins, sem enginn vissi hvar væru niðurkomnir og hann sagði vera í geymslu. Að morgni 16. júlí bárust fréttir af því að Árni hefði sagt af sér embætti sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og viðurkenndi að hafa logið um það hvar hleðslusteinarnir væru. Þeim væri nú búið að hlaða við heimili hans í Vestmannaeyjum. Árni undirstrikaði að um mistök hefði verið að ræða sem hann hafi ætlað að leiðrétta en ekki enn gert. Hann þvertók fyrir það að hafa misnotað almannafé af ásettu ráði. Í yfirlýsingu frá BM-Vallá kom fram að Árni hefði sjálfur sótt umrædda steina að fjárhæð 160.978 kr. m/vsk og jafnframt að hann hafi fengið endurgreitt skilagjald á þeim sekkjum sem steinarnir voru geymdir í að upphæð 12 þúsund kr. Árni gaf sömuleiðis ótvírætt til kynna að um einangrað dæmi væri að ræða og honum fyndist ekki ástæða til þess að láta af þingmennsku sökum þessa. Í öðru viðtali sagðist hann hafa tekið steinana „til geymslu heima hjá mér. Þá stóðst ég ekki mátið og fór að hlaða úr þeim sem stóð alls ekki til“. En þá kom líka fram að forstjóri BYKO rengdi útgáfu Árna á viðskiptum hans við fyrirtækið. Það voru viðskipti upp á um 400 þúsund sem einnig höfðu átt sér stað í maí. Tengsl við Ístak. Á forsíðu Fréttablaðsins þann 16. júlí mátti lesa viðtal við undirverktaka Ístaks, eins stærsta byggingarverktakafyrirtækis landsins, sem sagðist hafa unnið verk við einbýlishús í eigu Árna í Breiðholtinu en fengið þau fyrirmæli frá yfirmanni hjá Ístaki að hann ætti að skrá verkið á annað verknúmer í ljósi þess að Árni „"væri fyrir löngu búinn að greiða þetta með gullmolum sem hann hefði rétt Ístaki."“ Árni neitaði þessum sökum. Af þeim 76,2 milljónum króna fjárútlátum byggingarnefndarinnar á árunum 1999-2001 námu greiðslur til Ístaks hf. 43 milljónum eða 56% af heildarfjárhæðinni. Dúkurinn. Þegar komið var fram á 17. júlí hófu fjölmiðlar umfjöllun um þéttidúk sem Árni keypti fyrr í sama mánuði, að andvirði 173 þúsundum kr., í Garðheimum. Árni sagði dúkinn hafa verið keyptan til framkvæmda við Þjóðleikhúsið sem hefðu tafist en að dúkinn mætti finna í Þjóðleikhúsinu eða í geymslu í húsi úti í bæ. Rafn Gestsson, húsvörður Þjóðleikhússins, staðfesti þetta einnig við Morgunblaðið. Sú frétt birtist kl: 05:55 aðfaranótt miðvikudagsins 18. júlí. Að morgni 18. júlí sagði Stefán Baldursson Þjóðleikhússtjóri þetta vera rangt, hann hefði engar upplýsingar um þennan dúk. En kl: 14:11 var staðfest að dúkinn væri að finna í geymslu á vegum Þjóðleikhússkjallarans uppi í Gufunesi. Þá hafði Árni bent fjölmiðlum á geymslu í Gufunesi á vegum Þjóðleikhúskjallarans (fyrirtæki með rekstur aðskilinn Þjóðleikhúsinu), þar sem dúkurinn væri geymdur. Daníel Helgason, starfsmaður Þjóðleikhússkjallarans, tók á móti fréttamönnum við geymsluna þangað sem Árni hafði bent þeim á að fara. Þar sagði hann fréttamönnunum að dúkurinn hefði verið í þessari geymslu í 7-10 daga. Daginn eftir birtist svo frétt af því að umræddur þéttidúkur hefði verið sendur til Vestmannaeyja vikuna á undan og svo aftur til Reykjavíkur þann 17. júlí. Þá hafi bíll frá prentsmiðju í Kópavogi sótt dúkinn og skutlast með hann og fleiri vörur til Gufuness, eftir fyrirmælum Árna, þar sem tekið var á móti þeim. Því var ljóst, að sögn Morgunblaðsins, að bæði Rafn Gestsson, húsvörður við Þjóðleikhúsið sem og Daníel Helgason, starfsmaður Þjóðleikhússkjallarans hefðu hylmt yfir með Árna og logið að fjölmiðlum. Afsögn. Árni tilkynnti Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, afsögn sína að morgni 19. júlí sem gaf út yfirlýsingu um að hann styddi þá ákvörðun Árna að segja af sér þingmennsku en hann væri „um margt ágætismaður þótt honum hafi orðið þetta á sem er óverjanlegt“. Daginn eftir sendi Davíð bréf til Ríkisendurskoðunar þar sem hann sagði nauðsyn á að rannsaka öll opinber umsvif Árna. Í kjölfar þessa voru önnur opinber störf Árna rannsökuð, þar á meðal starf hans á vegum Vest-Norræna þingmannaráðsins að sjá um framkvæmdir við Þjóðhildarkirkju á Grænlandi. Dómsmál. Í kjölfar afsagnar Árna og umræðu um brot hans í fjölmiðlum hóf efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsókn á málinu. Henni lauk með útgáfu ákæru í 28 liðum 6. maí 2002. 27 ákæruliðir beindust að Árna og vörðuðu fjárdrátt, umboðssvik, rangar skýrslur til yfirvalda og mútuþægni í opinberu starfi, fjórir einstaklingar til viðbótar voru einnig ákærðir fyrir hlutdeild í umboðssvikum Árna og fyrir að bera mútur á opinberan embættismann. Árni var sakfelldur 3. júlí 2002 í héraði vegna 18 ákæruatriða, þar af játaði hann sök í 12, en hann var sýknaður vegna 9 ákæruatriða og hlaut 15 mánaða fangelsisdóm. Meðákærðu voru allir sýknaðir af þeim sökum sem þeir voru bornir. Í dómi hæstaréttar frá 6. febrúar 2003 var Árni sakfelldur vegna 4 ákæruliða til viðbótar (eða 22 liða alls) en sýknaður af 5 ákæruliðum, refsing hans var þyngd í 2 ára fangelsi. Að auki var Gísli Hafliði Guðmundsson sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum og fyrir að bera mútur á opinberan starfsmann, hann hlaut 3 mánaða fangelsisrefsingu. Árni afplánaði dóm sinn í fangelsinu á Kvíabryggju á Snæfellsnesi og notaði tímann til þess að búa til fjöldann allan af listaverkum úr fjörugrjóti og málmi, sem hann hélt sýningu á í Duushúsum í Keflavík, Reykjanesbæ, eftir að hann var látinn laus. Uppreist æru og endurkoma á Alþingi. Í Alþingiskosningunum 2007 var Árni kosinn í 2. sætið en vegna útstrikana allt að 30% kjósenda sem kusu Sjálfstæðisflokkinn færðist hann niður um eitt sæti, í 3. sætið. Eftir endurkomu Árna á Alþingi vakti hann m.a. athygli þegar hann tók óvænt lagið í ræðustól á Alþingi í apríl 2009 sem og þegar hann var í ágúst 2010 sakaður um að hafa tekið sex stórar móbergshellur af barðinu ofan við Klaufina í Vestmannaeyjum, en hellurnar fundust við heimili Árna að bjálkahúsinu Höfðabóli. Hellunum skilaði hann eftir að fjölmiðlar vöktu athygli á málinu. Skoðanir Árna á samkynhneigðum. Frægt er þegar Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, ásakaði Árna Johnsen um að hafa á Þjóðhátíð komið að sér við að kyssa ástmann sinn. Á Árni að hafa stíað hinu samkynhneigða pari í sundur og hent ástmanni Páls Óskars frá sér þannig að hann lenti utan í vegg. Aðspurður sagði Árni það gert til að "vernda" börn og unglinga frá því að sjá hið "ósiðlega athæfi". Árni var greiddi ekki atkvæði um setningu einna hjúskaparlaga í júni 2010. Með þeim var hjónaband samkynhneigðra leyft. Uppákoma á þjóðhátíð 2005. Undir lok þjóðhátíðar í Eyjum árið 2005 gerðist atvik á sviðinu við Herjólfsdal. Að brekkusöngnum loknum, er þjóðsöngurinn er sunginn og kveikt er á blysum, kastaðist í kekki milli Árna og Hreims Arnar Heimissonar söngvara. Árni lýsti atburðarrásinni á þann veg, að slökkviliðsbíll hefði keyrt upp að sviðinu og hann hefði talið hættu skapast ef fólk hefði hópast saman þar og því hefði hann í snarhasti gripið til hljóðnemans og stuggað við Hreimi í leiðinni. Árni gaf út fréttatilkynningu þar sem hann baðst afsökunar á þessu slysi. Hreimur sagðist ekki vera sammála þessari lýsingu Árna á atburðarásinni. Stuttu síðar var Árni hátíðarhaldari tónleika í Kerinu en þar var Hreimi boðið að syngja. Árni sá sér þá leik á borði og færði honum boxhanska á sviðinu og uppskar hlátur áhorfenda. Vatnajökulsþjóðgarður. Mynd af Vatnajökli tekin úr flugvél. Vatnajökulsþjóðgarður er þjóðgarður á Íslandi sem stofnaður var 7. júní 2008. Þjóðgarðurinn var við stofnun yfir 12.000 km² að stærð eða sem samsvarar 12% af yfirborði Íslands og er stærsti þjóðgarður í Evrópu. Vatnajökulsþjóðgarður mun í fyrstu ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þess eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í eigu ríkisins. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sér um rekstur nokkurra friðlýstra svæða í nágrenni þjóðgarðsins, svæða sem í framtíðinni er reiknað með að verði hluti þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður muni stækka frekar á næstu misserum og árum og innan hans verði m.a. Langisjór. Saga þjóðgarðsins. Ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 10. nóvember 2006 að leggja fram stjórnarfrumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð. Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi og samþykkt þar 28. mars 2007 og gekk í gildi 1. maí 2007. Rekstur þjóðgarðsins. Herðubreiðarlindir, Drekagil við Öskju, Kverkfjöll, Hvannalindir, við Snæfell, á Lónsöræfumi, í Laka, í Hrauneyjum og við Nýjadal/Vonarskarði. Í framtíðinni er einnig fyrirhugað að koma á landvörslustöð á Heinabergssvæðinu. Þráðlaust net. Þráðlaust net er nettenging fyrir síma og/eða tölvur sem notar útvarpsbylgjur sem gagnaflutningslag. Cogito, ergo sum. "Cogito, ergo sum", á íslensku „ég hugsa, þess vegna er ég“ er heimspekileg fullyrðing sem René Descartes setti fram. Descartes ritaði fullyrðinguna í bók sinni "Orðræðu um aðferð" (franska "Discours de la méthode pour bien conduire sa raison, et chercher la verité dans les sciences") sem kom fyrst út á frönsku árið 1637. Upphaflega var því fullyrðingin „"je pense, donc je suis"“, en Descartes var óánægður með útgáfuna og þýddi verkið síðar yfir á latínu en latneska þýðingin kom út árið 1656. Hugmyndin sem orðin "cogito ergo sum" fela í sér er venjulega eignuð Descartes, en margir forverar hans höfðu komið orðum að svipaðri hugmynd — einkum Ágústínus kirkjufaðir í ritinu "Um borg guðs" (lat. "De Civitate Dei") (XI, 26: "Ac proinde haec cognitio, ego cogito, ergo sum, est omnium prima et certissima..."). Grænfóður. Grænfóður er samheiti yfir jurtir af krossblómaætt og grasaætt sem notaðar eru sem fóður eða beit fyrir búfénað. Það er gjarnan nýtt sama ár og því er sáð. Grænfóðurrækt hófst á síðustu öld og jókst eftir seinni heimsstyrjöld. Grænfóður hentar vel til nytaukningar hjá kúm og til haustbötunar lamba. Grænfóðurrækt er einnig æskilegur liður í endurræktun túna. Grænfóður er að einhverju leyti slegið en mest notað til beitar. Við slátt er það oftast verkað í rúllur eða gefið strax, t.d. á haustin þegar kýrnar hafa verið bundnar inn. Þá er það einnig notað við núllbeit. Jarðvinnsla. Við ræktun grænfóðurs verður að huga að góðri jarðvinnslu. Æskilegast er að plægja jarðveginn og herfa. Í stykkjum sem lengi hafa verið notaðar til ræktunar grænfóðurs eru birgar af illgresisfræjum og er því mikilvægt að plægja þau niður til að draga úr sprettu illgresisins. Búfjáráburði er hentugt að dreifa í grænfóðurflög og er hann líka plægður niður. Passa verður að fínvinna jarðveginn ekki um of, því hentar á fæstum stöðum að tæta jarðveginn nema þar sem áður var tún (til að losna við mestu torfurnar). Næst er sáð, ýmist með sáðvél eða kastdreifara. Tilbúnum áburði er dreift um leið eða stuttu síðar. Að lokum er valtað yfir til að fræin og moldi rjúki síður í burtu og til að halda jarðvegsrakanum að fræjunum. Lucrezia Borgia. a> sem gæti verið af Lucreziu Borgia. Lucrezia Borgia (18. apríl 1480 – 24. júní 1519) var óskilgetin dóttir Rodrigo Borgia sem síðar varð Alexander 6. páfi og Vanozza dei Cattanei sem var kráarrekandi í Róm. Bróðir hennar var hinn illræmdi Cesare Borgia sem varð táknmynd machiavellískra stjórnarhátta og þeirrar spillingar sem einkenndi páfadóm endurreisnartímans. Lucrezia var efni sögusagna um glæpi föður hennar og bróður, en of lítið er vitað um líf hennar í raun til að slá nokkru föstu um þátttöku hennar í þeim. Hún giftist þremur valdamiklum mönnum sem allir voru liður í að auka völd Borgia-ættarinnar; Giovanni Sforza, Alfonso af Aragon og Alphonso d'Este fursta í Ferrara. Sem hertogaynja í Ferrara naut hún mikillar virðingar og lifði af fall ættarinnar eftir lát föður síns. Hún lést úr barnsförum. Borgia, Lucrezia Christian Michelsen. Peter Christian Hersleb Kjerschow Michelsen (15. mars 1857 – 29. júní 1925) var norskur skipajöfur og stjórnmálamaður sem er þekktur fyrir hlutverk sitt í aðskilnaði Noregs og Svíþjóðar 1905. Hann var forsætisráðherra Noregs frá 1905 til 1907. Michelsen, Christian Eva Perón. María Eva Duarte de Perón (7. maí 1919 – 26. júlí 1952) var argentínsk leikkona, söngkona og forsetafrú sem seinni kona Juan Domingo Perón forseta frá 1946 til dauðadags. Hún var gjarnan kölluð Evita. Hún var mjög ástsæl meðal margra Argentínubúa og átti stóran þátt í stjórnmálasigrum eiginmanns síns. Fræðimönnum ber saman um að hún hafi haft meiri áhrif á ríkisstjórn Argentínu en Juan á seinna kjörtímabili hans frá 1952 og verið í reynd valdamesti stjórnmálamaður Argentínu á þeim tíma. 26. júlí 1952 lést Eva úr krabbameini. Perón, Eva Jóhanna af Örk. a>. Engar samtímamyndir af henni hafa varðveist. Jóhanna af Örk (franska: "Jeanne d'Arc"; um 1412 – 30. maí 1431), kölluð mærin frá Orléans, var frönsk frelsishetja og dýrlingur. Hún hélt því fram að hún hefði fengið sýnir frá guði sem skipuðu henni að vinna Frakkland undan enskum yfirráðum seint í Hundrað ára stríðinu. Hinn ókrýndi Karl 7. sendi hana til umsátursins um Orléans þar sem hún varð fræg fyrir að aflétta umsátrinu á aðeins níu dögum. Nokkrir fleiri sigrar leiddu til þess að Karl var krýndur í Reims og Frakkar fengu endurnýjað sjálfstraust. Hún var tekin höndum af Englendingum nærri Compiègne og var dæmd fyrir villutrú af dómi undir enska landstjóranum Jóhanni hertoga af Bedford sem lét brenna hana í Rúðuborg. Tuttugu og fjórum árum síðar veitti Kallixtus 3. páfi henni uppreist æru. Hún var tekin í dýrlinga tölu af Benedikt 15. 16. maí 1920. John Lennon. John Ono Lennon, (9. október 1940 – 8. desember, 1980), (fæddur John Winston Lennon'") var enskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann var helst þekktur sem stofnandi og meðlimur Bítlanna. 9. október 2007 var Friðarsúla Yoko Ono tendruð í fyrsta sinn í Viðey og mun hún verða tendruð á hverju kvöldi frá 9. október (fæðingardag Lennon) til 8. desember (dánardagur Lennon) ásamt öðrum völdum dögum. Æska. John Lennon var fæddur í Liverpool á Englandi. Móðir hans var Julia Stanley Lennon og faðir hans var Alfred Lennon (kallaður Freddie). Þegar Lennon var ungur drengur yfirgaf faðir hans fjölskylduna og í kjölfarið fól móðir hans systur sinni, Mary Smith (kölluð Mimi), að ala hann upp. Hjá Mimi frænku sinni og hennar manni var Lennon það sem eftir var barnæsku sinnar og á unglingsárum, en hitti þó móður sína reglulega. Þegar Lennon var ungur greindist hann með ADHD (athyglisbrest). Neituðu kennarar oft að hafa hann sem nemenda því þeim fannst hann trufla oft í tíma og kölluðu kennaranir hann því tossa. Árið 1957 varð til fyrsta mynd hljómsveitarinnar sem síðar varð þekkt sem Bítlarnir. Hún hét í fyrstu The Quarry Men og var Lennon leiðtogi hennar. Skömmu eftir stofnun sveitarinnar hitti Lennon Paul McCartney í fyrsta skipti og varð hann fljótlega meðlimur. Þeir fóru fljótlega að semja lög saman og gerðu þeir með sér samkomulag um að þeir yrðu skráðir sameiginlega sem höfundar fyrir öllum lögum sem annar hvor eða þeir báðir semdu. Þetta samkomulag hélst allt þar til Bítlarnir hættu sem hljómsveit og því eru öll lög sem Lennon samdi fyrir Bítlana (einn eða með McCartney) skráð með höfundarréttinn Lennon-McCartney. Árið 1958, þegar Lennon var 17 ára, dó Julia Lennon í bílslysi. Þessi atburður hafði mikil áhrif á Lennon og síðar skírði hann son sinn, Julian, í höfuðið á henni. Einnig samdi hann lagið „Julia“ til hennar. Julia hafði sjálf haft tónlistarhæfileika og kenndi John að spila á banjó. Bítlarnir. George Harrison gekk til liðs við The Quarry Men árið 1958 og Ringo Starr árið 1962, eftir að nafni hljómsveitarinnar hafði verið breytt í The Beatles. Lennon er almennt talinn hafa verið leiðtogi sveitarinnar á upphafsárum hennar. Árið 1962 giftist Lennon Cynthiu Powell, sem hann hafði verið í sambandi við í nokkur ár og árið 1963 eignuðust þau soninn Julian. Þegar vinsældir Bítlanna fóru að aukast, á árinu 1963, ráðlagði umboðsmaður þeirra, Brian Epstein, Lennon að halda hjónabandinu leyndu frá almenningi. Cynthia Lennon var því aldrei í sviðsljósinu þrátt fyrir hinar gífurlegu vinsældir Bítlanna. Þau skildu árið 1968 eftir að Cynthia komst að því að Lennon hafði haldið framhjá sér með japönsku listakonunni Yoko Ono. Árið 1966 sagði Lennon, í viðtali við "London Evening Standard", að Bítlarnir væru orðnir vinsælli en Jesús. Nokkrum mánuðum seinna var hluti af viðtalinu birtur í bandarísku blaði og olli þessi staðhæfing þá miklu fjaðrafoki þar í landi (aðallega í suðurríkjunum). Margar útvarpsstöðvar bönnuðu tónlist Bítlanna og haldnar voru samkomur þar sem plötur þeirra voru brenndar. Til að bregðast við þessu héldu bítlarnir blaðamannafund, þar sem Lennon baðst afsökunar. Sumir voru tilbúnir til þess að samþykkja afsökunarbeiðnina, aðrir ekki, en á endanum fjaraði málið út. Eftir að Lennon og Ono tóku saman, urðu þau óaðskiljanleg og voru saman nánast öllum stundum. Ono fylgdi Lennon iðulega í stúdíóið þar sem Bítlarnir sömdu og tóku upp lög. Margir hafa talið þetta eina aðal ástæðu þess að hljómsveitin liðaðist í sundur, þar sem þetta á að hafa valdið togstreitu innan sveitarinnar. Lennon og Ono giftust árið 1969. Árið 1969 tilkynnti Lennon hinum bítlunum að hann væri hættur í hljómsveitinni. Forstjóri Apple útgáfufyrirtækisins bað hann þó um að halda því leyndu að hann væri hættur. Í apríl 1970 tilkynnti Paul McCartney það opinberlega að Bítlarnir væru hættir saman, án þess að ráðfæra sig við hina Bítlana. Sóló ferill. Lennon tók fyrstu skrefin í átt að einleiks ferli á meðan Bítlarnir voru ennþá starfandi. Á árunum 1968 og 1969 gáfu hann og Ono út þrjár plötur sem innihéldu aðallega mjög tilraunakennda, ómelódíska tónlist. Þetta voru plöturnar ' (1968), ' (1969) og "Wedding Album" (1969). Lennon hóf einleiks feril strax eftir að Bítlarnir hættu saman og gaf út plötuna "Plastic Ono Band" árið 1970. Árið 1971 kom svo út platan "Imagine", þar sem er m.a. að finna lagið „Imagine“, eitt frægasta lag Lennons. Árið 1971 fluttust Lennon og Ono til New York og átti Lennon aldrei eftir að koma aftur til Englands eftir það. Á meðan þau bjuggu ennþá á Englandi höfðu þau reynt að nota frægð sína til þess að breiða út boðskap friðar í heiminum og m.a. talað gegn Víetnamstríðinu. Þegar þau komu til Bandaríkjanna héldu þau þessu áfram og urðu áberandi í baráttunni gegn stríðinu. Í kjölfarið reyndu stjórnvöld í Bandaríkjunum að vísa Lennon úr landi á grundvelli þess að kannabisefni höfðu fundist í fórum hans í London árið 1968. Baráttan við innflytjendayfirvöld stóð allt til ársins 1975, en þá fékk Lennon loksins græna kortið. 1972 kom út platan "Some Time in New York City" og 1973 kom út platan "Mind Games". Plöturnar "Walls and Bridges" (1974) og "Rock 'n' Roll" (1975) komu út á tímabili í lífi Lennons sem vanalega er kallað „The Lost Weekend“. Á þessum tíma voru hann og Ono aðskilin og bjó hann í Los Angeles en hún í New York. Þetta tímabil einkenndist af miklu sukki af hálfu Lennons. Árið 1974 spilaði Lennon í síðasta skipti opinberlega þegar hann mætti á svið með Elton John í Madison Square Garden í New York. Elton sem var góð vinur Lennons hafði veðjað við hann að ef lagið Whatever gets u thu the night sem þeir gerðu saman kæmist á topp vinsældarlistanna yrði Lennon að mæta á tónleika hjá sér og taka nokkur lög, sem Lennon gerði. Árið 1975 fór hann aftur til New York og tók saman við Yoko. Þau eignuðust soninn Sean sama ár. Næstu árin voru róleg í lífi Lennons og sneri hann sér alfarið frá tónlist og einbeitti sér að því að vera heimilisfaðir. Árið 1980 fór hann að taka upp tónlist á nýjan leik og það gerði Ono einnig. Afraksturinn varð platan "Double Fantasy" þar sem hvort um sig samdi og söng helminginn af lögunum. Áður en Lennon lést voru hann og Ono byrjuð að vinna að annarri sameiginlegri plötu. Nokkur ár liðu áður en Ono gat fengið sjálfa sig til þess að klára plötuna, en hún kom að lokum út sem "Milk and Honey" árið 1984. Dauði. 8. desember 1980 lést John Lennon með sviplegum hætti þegar Mark David Chapman, geðsjúkur „aðdáandi“, skaut Lennon fjórum skotum í bakið fyrir utan Dakota bygginguna í New York, þar sem Lennon og Ono áttu heima. Lennon hafði gefið Chapman eiginhandaráritun sama kvöld og hann lést. Mark Chapman hafði planað að drepa Lennon í þrjá mánuði. Chapman var síðan dæmdur í 20 ára til lífstíðarfangelsi. Samsæriskenningar. Helsta kenningin um dauða Lennons er að Mark Chapman hafi verið að vinna fyrir CIA og hafi verið fenginn til að drepa Lennon. John Lennon hafði sterkar pólitískar skoðanir og hann var mikið á móti stríðum. Það voru margir sem hlustuðu á hann og þess vegna átti CIA að hafa viljað drepa hann. Það er sagt að Chapman hafi ferðast mikið um heiminn en það er mjög skrítið því hann var ekki ríkur. Því er sagt að CIA hafi borgað ferðirnar fyrir hann og hafi verið að þjálfa hann í ýmsum herbúðum. Önnur kenning fjallar um það að CIA hafi á þessum tíma verið að heilaþvo fólk og láta það gera ýmsa hluti sem voru ólöglegir. Það er talið að Chapman hafi verið hluti af þessu verkefni og hafi verið sendur til að drepa Lennon án þess að hann hafi viljað það. Mjög ólíkleg kenning segir að Richard Nixon, Ronald Regan og Stephen King hafi myrt Lennon. Stephen King átti að hafa skotið Lennon og Chapman var borgað fyrir að þykjast vera morðinginn. Aðal rökin fyrir þessu eru að Stephen King líktist Chapman. Líklegar ástæður fyrir því að þeir hafi viljað drepa Lennon er útaf pólitísku skoðunum hans. Liam Gallagher. Liam Gallagher (fullt nafn: William John Paul Gallagher) er söngvari bresku rokkhljómsveitarinnar Oasis. Hann er fæddur þann 21. september 1972 í Manchester. Það má segja að hann sé búinn að vera holdgervingur rokksins í Bretlandi síðan árið 1994 þegar Oasis kom fyrst fram á sjónarsviðið. Hann er frægur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og láta menn fá það óþvegið. Þá hefur hann oft lent í rifrildi við bróðir sinn Noel Gallagher, sem er gítarleikari Oasis, sem hefur endað með því að Noel hefur viljað hætta í hljómsveitinni en þó hefur hann alltaf snúið aftur. Þeir bræður er báðir forfallnir aðdáendur knattspyrnuliðsins Manchester City. Liam hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á John Lennon og hefur sagt að Bítlalagið „Across the universe“ sé helsta ástæðan fyrir því að hann gerðist söngvari. Fyrst um sinn var Liam eingöngu söngvari sveitarinnar en á seinni árum hefur hann samið nokkur af lögum Oasis. Fyrsta lagið eftir Liam sem komst á plötu sveitarinnar er „Little James“ sem er að finna á Standing on the shoulder of Giants sem kom út árið 2000. Síðustu tvær plötur sveitarinnar innihalda báðar þrjú lög eftir Liam. Á „Heathen Chemistry“, sem kom út árið 2002, eru það lögin „Songbird“, sem er samið til Nicole Appleton unnustu Liam, „Better Man“ og „Born on a different cloud“. Á síðustu plötu, „Don't Believe the truth“, eru það lögin „Love like a bomb“, „Guess god thinks I'm Abel“ og „The meaning of soul“ sem eru samin af Liam. Árið 1997 giftist Liam bresku leikkonunni Patsy Kensit, líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í Lethal Weapon 2, en þau skildu árið 2000. Með henni á Liam einn son sem heitir Lennon, eftir helsta átrúnaðargoði Liam. Nú um stundir er Liam í sambandi með Nicole Appleton sem er í stúlknasveitinni All Saints. Þau hafa verið saman frá árinu 2000 og eiga saman einn son, Gene. Noel Gallagher. Noel Gallagher (fullt nafn: Noel Thomas David Gallagher) var gítarleikari og helsti lagasmiður bresku rokkhljómsveitarinnar Oasis. Hann er fæddur þann 29. maí árið 1967 í Manchester. Noel, sem hafði verið rótari hjá The Inspiral Carpets, gekk til liðs við Oasis árið 1991, en fyrir í bandinu var litli bróðir hans Liam Gallagher. Noel tók stjórnina og krafðist þess að semja lög sveitarinnar. Stormasamt samband þeirra bræðra hefur oft orðið til þess að Noel hefur alvarlega íhugað að hætta í bandinu. Á tónleikaferð um Bandaríkin árið 1994 lét Noel sig hverfa sporlaust er hann ætlaði að yfirgefa bandið eftir rifrildi við Liam. Þar hitti hann stúlku sem taldi hann af þeim áformum og til varð lagið „Talk Tonight“ sem er að finna á B-hliðarsafnplötunni The Masterplan. Árið 1996 flaug hann heim úr tónleikaferðalagi Oasis um Bandaríkin og ætlaði að hætta í hljómsveitinni. Honum snérist þó hugur og ákvað að halda áfram. Í Barcelona árið 2000 ætlaði Noel enn og aftur að hætta eftir rifrildi við Liam og sagðist vera hættur að spila með Oasis utan Bretlands. Oasis kláraði tónleikaferðalagið um Evrópu án Noel og hann spilaði síðan með þeim á þeim tónleikum sem voru á Bretlandseyjum. Bræðurnir enduðu á að sættast og Noel ákvað að láta af þessum áformum sínum. Gallagher er mjög afkastamikill lagasmiður og hefur hann samið flest lög Oasis. Lagið sem hann er stoltastur af er „Live Forever“ sem er að finna á breiðskífunni Definitely Maybe. Helstu áhrifavaldar hans í tónlistinni eru Bítlarnir, Rolling Stones, The Stone Roses, The Smiths og The Jam. Gallagher giftist Meg Matthews árið 1997, þau skildu árið 2000 skömmu eftir að dóttir þeirra, Anais, fæddist. Hann er nú í sambandi með Sara MacDonald. Noel hætti í Oasis eftir rifrildi við Liam sumarið 2009, fyrir tónleika í París. Í kjölfarið stofnaði Liam hljómsveitina Beady eye og Noel hóf sólóferil. Árið 2011 gaf hann út plötuna Noel Gallaghers highflying birds. Definitely Maybe. "Definitely Maybe" er fyrsta breiðskífa bresku rokkhljómsveitarinnar Oasis. Hún var gefin út árið 1994. Platan var á sínum tíma hraðast seljandi frumburður allra tíma í Bretlandi en fyrsta plata Arctic monkeys, „Whatever People Say That's What I'm Not“, á nú það met. Lagalisti. Öll lög samin af Noel Gallagher. Miðgildi. Miðgildi er ein aðferð til að finna út miðsækni í þýði. Aðferðin gengur út á það að öllum tölunum er raðað á talnabil eftir vægi gildisins. Talan sem er nákvæmlega í miðjunni á talnabilinu er síðan miðgildið. Séu tvær tölur í miðjunni er miðgildið meðaltal þeirra beggja. Miðgildi er eingöngu áreiðanlegt sé talnabilið í normalkúrfu. Einnig er notuð sú aðferð að reikna út tíðasta gildið í þýði. (What's The Story) Morning Glory? "(What's The Story) Morning Glory?" er önnur breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Oasis. Þetta er mest selda plata Oasis, en hún seldist í yfir 20 milljónum eintaka. Á plötunni er að finna helstu smelli sveitarinnar „Wonderwall“, „Don't Look Back In Anger“ og „Champagne Supernova“. Tíðasta gildi. Tíðasta gildi, algengasta gildi, líklegasta gildi eða kryppugildi er tölfræðileg aðferð til að finna út miðsækni í þýði. Tíðasta gildið er það gildi í þýði sem er algengast á talnabili. Séu tvö eða fleiri gildi sem eru jafn tíð á talnabili eru þau öll tilgreind sem tíðastu gildin. Dæmi. Í úrtakinu [1, 3, 6, 6, 6, 6, 7, 7, 12, 12, 17] kemur gildið 6 fjórum sinnum fyrir og er því tíðasta gildið. Hvalsey. Bærinn og kirkjan í Hvalseyjarfirði (í seinni tíma heimildum er kirkjustaðurinn nefndur "Hvalsey" eftir styttingu í lýsingu af brúðkaupinu 1408) er einn af þekktari stöðum frá tímum norrænna manna á Grænlandi. Bæði er að þar eru mestu rústir uppistandandi frá þessum tímum og að síðustu rituðu heimildir frá norrænu Grænlendingunum fjalla um þennan stað. Í Landnámabók er Þorkell farserkur nefndur sem landnámsmaður þar, einnig er sagt að hann hafi verið heygður í túninu og gengið aftur til að fylgjast með afkomendum sínum. Hvalseyjarfjörður var í miðri Eystribyggð ekki langt frá Bröttuhlíð og biskupssetrinu á Görðum. í kirkjulýsingu Ívars Bárðarsonar er bærinn sagður norsk konungsjörð og heiti Þjóðhildarstaðir en kirkjan Hvalseyjarfjarðarkirkja. Hvalseyjarfjörður er í næsta nágrenni við Qaqortoq, höfuðbyggð Suður-Grænlands, og nefnist nú Qaqortukulooq, fjörðurinn sjálfur Qaqortup Imaa og eyjan Hvalsey heitir Arpatsivik. Rústir og bæjarstæði. Rúst af kirkjunni í Hvalseyjarfirði Miðaldabærinn í Hvalseyjarfirði stóð undir því fjalli sem nú heitir Qaqortoq sem er um 1000 m hátt, hvað hinir fornu Grænlendingar kölluðu fjallið er óþekkt. Undirlendi er fremur lítið mest löng og mjó landræma milli fjalls og fjöru. Góð höfn var í firðinum og hefur það verið mikill kostur. Fjölda rústa er að finna í Hvalseyjarfirði og hafa 14 hús verið á heimabænum. Er kirkjan í sérflokki enda eftir atvikum mjög vel varðveitt, hlaðin úr sérvöldu grjóti og standa veggirnir enn. Að ytra máli er kirkjubyggingin um 16 x 8 m og veggirnir um 1,5 á þykkt. Gaflarnir eru enn á milli 5 og 6 m á hæð og hafa sennilega verið um tveimur metrum hærri meðan þeir voru óskemmdir. Langveggirnir eru um 4 m á hæð og hafa verið eitthvað hærri frá upphafi. Sennilegast hefur kirkjan verið timburklædd að innan og með tyrfðu timburþaki, en engar leifar hafa fundist af því né aðrir hlutir í kirkjunni. Af byggingarlagi álykta fræðimenn að byggingin hafi verið reist í upphafi 14. aldar. Knut Poulsen, bæjarverkfræðingur Qaqortoq fann brot úr bronsklukkum í fjörunni í Hvalsey, gegnt kirkjustæðinu um 1990. Rústir af tveimur veisluskálum hafa fundist. Svo nefndur gamli skáli er fyrir miðju í bæjarstæðinu. Hann hefur verið 14 metra langur og þrír til fjórir og hálfur metrar á breidd en er mjög illa farinn af malaskriðum úr fjallshlíðinni, sem hafa runnið yfir hann. Svo kallaður nýi veisluskáli er sennilega með yngstu byggingum í Hvalseyjarfirði, um 8 metra langur og 5 metra breiður. Hann er vel varðveittur enda hlaðinn á saman hátt og kirkjan. Mögulega hefur hér verið aðalbygging konungsjarðarinnar. Fyrir utan bústað, fjós (reyndar tvö með básum fyrir 16 kýr samanlagt) og önnur gripahús og smiðju hefur fundist rúst af skemmu. Var það algengt við stærri bæi í Eystribyggð og var þar sennilega safnað rostungstönnum og feldum og öðru sem selt var til kaupmanna. “Næst Einarsfirði liggr Hvalseyjarfjörðr. Þar er kirkja, sem heitir Hvalseyjarfjarðarkirkja. Hún á allan fjörðinn ok svá allan Kambstaðafjörð, sem er næstr. Í þessum firði stendur bær mikill, sem konungi tilheyrir og heitir Þjóðhildarstaðir." Eðlilegt er að ætla að þar með heiti höfuðból Hvalseyjarfjarðar Þjóðhildarstaðir, þar sem ekkert höfuðból er í næsta firði, sem er svo til óbyggilegur. Kirkjan er því væntanlega byggð af Noregskonungi. Hún er auk þess staðsett mitt á milli biskupssetursins að Görðum og Brattahlíðar, þar sem höfuðætt Grænlendinga bjó. Konungur skipti auk þess með sér og kirkjunni öðrum helstu jörðum Eystribyggðar, nema gamla ættarsetrinu í Brattahlíð. Þetta skýrir m.a. hversvegna svo stór kirkja stendur mitt á milli tveggja höfuðbóla Grænlands, hver byggði hana og hversvegna bær sem ekki stóð á eynni Hvalsey er í nýrri heimildum kallaður Hvalsey. Auk þess má minna á að Ívar Bárðarson skrifaði ekki Grænlandslýsingu sína, heldur er hún höfð eftir honum, sem og að upphaflega handritið er glatað. Elsta handritið er dönsk 16. aldar þýðing sem segir ekki skírt að kirkjan stendur á bænum, heldur einfaldlega í firðinum. Þarna er bara eitt höfuðból, og ein kirkja. Brúðkaupið 1408. „Þúsund og fjögurhundruð átta árum eftir fæðingu Herra vors Jesú Krists vorum við viðstaddir, sáum og hlýddum á á Hvalsey á Grænlandi, að Sigríður Björnsdóttir giftist Þorsteini Ólafssyni.“ Þetta gerðist á fyrsta sunnudegi eftir Krossmessu (Exaltatio Sancte Crucis). Krossmessa (á hausti sem álitið er að hér sé um að ræða) ber alltaf upp á 14. september og sunnudagurinn næst þar á eftir árið 1408 var 16. september. Um þetta brúðkaup vitnuðu þeir Brandur Halldórsson, Þórður Jörundarson, Þórbjörn Bárðarson og Jón Jónsson á Ökrum í Blönduhlíð á Íslandi árið 1414. Tíu árum síðar, 1424, vitna þeir Sæmundur Oddsson og Þorgrímur Sölvason einnig um það sama á sama stað. Í bréfi sem dagsett er 19. apríl 1409 og skrifað á biskupssetrinu í Görðum á Grænlandi vitna þeir prestarnir Eindriði Andreasson og Páll Hallvarðsson um að þeir hafi lýst rétt með þeim hjónum og að margmenni hafi verið við brúðkaupið. Þau Þorsteinn og Sigríður voru bæði stórættuð af Norðurlandi eins og öll ofannefnd vitni og settust að á Ökrum þegar þau sneru aftur frá Grænlandi. Sennilega hafa erfðadeilur gert að þau hjón þurftu á þessum staðfestingum að halda um brúðkaup sem átt hafði sér stað árum áður. Allir þessir Íslendingar höfðu verið á skipi sem var á leið frá Noregi til Íslands 1406 en rak af leið og náði loks í land á Grænlandi. Í Íslenskum annálum er sagt frá því að þau hafi komið aftur til Noregs 1410 en líklega ekki til Íslands fyrr en 1413. Þetta eru síðustu ritaðar heimildir um hina norrænu Grænlendinga en fornleifarannsóknir sýna að þeir héldu áfram búsetu þar að minnsta kosti í 50 ár í viðbót. Steingrímsfjarðarheiði. Steingrímsfjarðarheiði liggur á milli Steingrímsfjarðar á Ströndum og Ísafjarðardjúps. Akvegur var opnaður um heiðina árið 1984 og liggur hæst í 439 metra hæð yfir sjávarmáli. Liggur heilsársvegurinn frá norðanverðum Vestfjörðum um heiðina sem tilheyrir öll sveitarfélaginu Strandabyggð. Áður var fjölfarin gönguleið yfir heiðina, en vegur lá upp úr Staðardal við Steingrímsfjörð um Flókatungu. Segja munnmælin að tröllkonan Kleppa hafi rutt þann veg með hesti sínum Flóka. Fjölmargar sögur eru um að menn hafi lent í hrakningum á heiðinni og jafnvel orðið þar úti. Gamalt hlaðið sæluhús er á svonefndri Sótavörðuhæð, þar sem leiðin um Steingrímsfjarðarheiði liggur hæst og stutt frá er neyðarskýli á vegum slysavarnafélaganna. Gamla sæluhúsið var endurbyggt haustið 1989, eftir að það var aftur komið í alfaraleið. Bretapopp. Bretapopp (e. "britpop") er undirflokkur öðruvísi rokksins og kemur eins og nafnið gefur til kynna frá Bretlandi, nánar tiltekið Bresku indie senunni sem á rætur sínar að rekja til fyrstu ára tíunda áratugs seinustu aldar. Bretapoppið er tónlistarstefna sem er einskorðuð við Breskar hljómsveitir.Bretapoppið var undir hvað mestum áhrifum tónlistar sjöunda og áttunda áratugarins. Þeir bjuggu til mikil „catchy“ lög sem einkenndust af melódískum gítarriffum gamla tímans. bretapoppararnir einnig glamúr lífum á borð við tónlistarstjörnur fyrri tíma og leið þeim eins og þeir væru ný og fersk tónlist síns tíma nokkurskonar soundtrack sinnar kynslóðar það er bresks ungdóms og var einnig nokkurskonar andsvar gegn helstu stefnum tímans sérstaklega í bandaríkjunum og þá allra helst grungeinu. Bretapoppið öðlaðist gífurlega vinsældir á árunum 1994 til 1996 en var að mestu leiti dautt árið 1998. Það lifði afar stutt og hefur oft verið gagnrýnt fyrir skort á nýsköpun og að beina tónlist sinni til of lítils markhóps en stefnan einskorðaðist að miklu leiti bara við Bretland en þrátt fyrir það að vera sjálft ekki langlíf stefna þá hafði bretapoppið afar góð áhrif á aðrar stefnur og færði mikið af bresku alt rokki meira fram í sjónarsviðið og ýtti undir þróun Cool Britannia stefnunnar. Stílbrigði. Bretapopp böndin voru undir miklum áhrifum frá tónlistinni sem ríkti á sjöunda og áttunda áratugnum. Þetta voru melódísk gítardrifinn popp lög og sóttu þau mest frá tónlistarmönnum á borð við the Rolling Stones, Bítlana og the Kinks sem voru hljómsveitir sem voru afar vinsælar á tímum Bresku innrásarinnar þær voru helstu áhrifavaldar og nokkurskonar hornsteinar stefnunnar en þaðan drógu þeir sín helstu einkenni þegar kom að stílbrögðum og tækni, en þeir þóttu einnig vera undir áhrifum frá öðrum gítardrifnum tónlistarstefnum fyrri tíma eins og pönkinu eða soft rockinu. Týpísk uppbygging bretapopp bands var gítar, bassi, trommur og söngvari en textar þeirra snerust einnig oft um Bretland og voru einmitt að reyna að ná til breskra ungmenna þetta var tónlistin sem þau áttu að tengja við og sáu þeir sig einmitt sem nokkurs konar soundtrack sinnar kynslóðar af nýjum ungmennum og þá sérstaklega auðvitað þeim bresku en þeir skrifuðu oft texta sem tengdust lífi breskra ungmenna of höfðuðu afar mikið til þeirra. Bretapopp böndin þoldu ekki grunge og áttu að vera nokkurskonar andsvar gegn þeirri stefnu, grungeið var óþarft sögðu þeir og þótti þeim það ekki hafa neina sérstaka merkingu en sáu sig sem mun listrænni, betri, þýðingarmeiri og andstæða stefnu þrátt fyrir skammlífi sitt. Upphaf. Nafnið „Britpop“ hefur reyndar verið notað alveg frá árinu 1987 þegar blaðamaðurinn og sjónvarpsmaðurinn John Robb notaði það í grein fyrir tímaritið Sounds Magazine um hljómsveitirnar the LA´s, the Stone Roses og Inspiral Carpets en þá var ekki verið að tala um sömu stefnu og nú heldur var það þá bara orð sem tengdist stefnunni „Britart“ sem voru verk nútímalistamanna á borð við Damien Hirst á níunda áratugnum en nafnið Britpop breytti síðan um merkingu árið 1994 þegar að hljómsveitir eins og Blur og Oasis hófu að geta sér nafn í tónlistarheiminum sem bretapopparar. bretapoppið kom fram snemma á tíunda áratugnum sem nokkurskonar svar við nýbylgjunni, pönk revival og Grungeinu sem voru leiðandi stefnur rokkbanda samtímans. Bretapopppararnir voru undir stærstum áhrifum frá böndum sjöunda og áttunda áratugarins og þá sérstaklega þeirra sem tilheyrðu bresku innrásinni, böndum á borð við t.d. Bítlana, Rolling Stones, Pink Floyd og Led Zeppelin en klassísk bönd á borð við the Who, Kinks, og Small Faces hafa einnig verið talin til áhrifavalda. önnur uppspretta bretapopparanna voru glam rokkarar áttunda áratugarins á borð við David Bowie eða Roxy music og pönk bönd eins og the Sex Pistols og the Clash. mikið hefur verið deilt um hver nákvæmlega var fyrsta bretapopp platan en flestir vilja meina að það sé ein af þremur, það eru plöturnar Definetaly Maybe með Oasis, Parklife með Blur eða Suede með Suede. En þessar plötur komu fram við upphaf stefnunnar og skilgreina hana fyrir það sem hún er. Bretapopp stefnan öðlaðist strax gífurlegar vinsældir í bretlandi og vestur evrópu og einhverjar vinsældir sem nokkurskonar költ stefna í Bandaríkjunum. Faðir bretapoppsins. Paul Weller er afar þekktur innan raða Bretapopparanna en hann er oft talinn meðal stofnanda og helstu áhrifavalda bretapopps stefnunnar og eru plötur hans á borð við „Paul Weller“ (1991) og „the Wild Wood“ (1993) taldar afar mikilvægar fyrir þróun þessarar stefnu. Ást hans á stefnunni ásamt nútímatónlistarinnar áttunda áratugarins gaf honum nafnið „the Modfather“ og hann hafði einnig gífurleg áhrif á upprisu bretapoppsins en bönd á borð við t.d. Blur, Oasis, the Ocean Colour Scene hafa minnst á weller sem gífurlegan áhrifavald og hefur hann meira að segja spilað með einhverjum þeirra og má þar helst nefna lagið „Champagne Supernova“ en á því spilaði hann einmitt á gítar og söng bakraddir með hljómsveitinni Oasis. Madchester. Madchester er heiti sem var gefinn tónlistarsenu sem á rætur sínar að rekja til Manchester við lok níunda áratugarins og byrjun tíunda áratugarins og átti hún einnig stóran part í þróun bretapoppsins Maddchester senan var ein áhrifamesta Indie stefna tímans og hafði hún einnig talsverð áhrif á þróun bretapoppsins þessari stefnu tilheyrðu bönd á borð við the Stone Roses og the Happy Mondays og vann t.d. Noel Gallagher (seinna söngvari Oasis) sem rótari fyrir margvísleg bönd á Maddchester tímabilinu og urðu Oasis fyrir þó nokkrum áhrifum þaðan. Meiri vinsældir (1994–96): bretapopp og Cool Britannia. Árið 1995 var hápunktur bretapoppsins hinn frægi þáttur „Battle of the Bands“ setti fram Blur og Oasis sem helstu keppendur um titilinn konungar bretapoppsins. Oasis fyrir norður England með Gallagher bræðurnar í fyrirrúmi en Blur fyrir suðurhluta Englands. Hápunktur keppninnar kom þegar að Blur og Oasis gáfu báðir út lag í sömu vikunni, Blur gaf út lagið „Country House“ og Oasis gaf út „Roll With It“ þetta fangaði athygli almennings og fékk gífurlega umfjöllun í fréttamiðlum landsins og kom janfvel fram í fréttatíma BBC. Í lokin stóðu Blur upp sem sigurvegarar með 274000 eintök seld en Oasis aðeins með 216000 og stóðu lögin í öðru og fyrsta sæti vinsældarlista þarna úti. Á endanum samt seldist samt plata Oasis „What‘s the Story“ margfalt betur en „The Great Escape“ plata Blur þrátt fyrir að hún hafi fengið jákvæðari viðtökur í fyrstu. What‘s the Story seldist í átján milljón eintökum fjórfalt meira en the Great Escape plata Blur og er What‘s the Story nú talin helsta plata bretapoppsins en hún fangaði kjarna, viðhorf og einkenni bretapoppsins og Cool Britannia stefnunnar. Bretapopp veikist (1996–98). Árið 1996 var stefnan töluvert farin að veikjast. Þrátt fyrir háar væntingar þá var hreyfingin og vinsældir tónlistarinnar byrjuð að hjaðna. Það voru ennþá gefnar út plötur undir nafni stefnunnar af böndum jafnvel sem áður voru ekki beint tengdar henni eins og t.d. Radiohead og the Verve en plötur þeirra „OK Computer“ og „Urban Hymns“ öðluðust báðar afar miklar vinsældir en smám saman var stefnan að tapa sínum fyrri vinsældum. Hljómsveitirnar Suede, Pulp og Supergrass gáfu allar út plötur en þær voru ekki eins vinsælli og fyrri plötur stefnan var að veikjast og jafnvel helstu hljómsveitir stefnunnar voru taldar vera farnar að veikjast þegar Oasis og Blur gáfu báðir út plötur sem þrátt fyrir að seljast ágætlega hjá afar dyggum aðdáendahópum þóttu ekki eins góðar og fyrri klassísku plötur þeirra. Lok stefnunnar (1998–99). Bretapoppið var frekar skammlíf stefna sem spannaði ekki nema langan tíma og var að mestu leiti dauð eftir fimm ár og við lok tíunda áratugarins var hún að mestu leiti horfin af sjónarsviðinu. Blur færðist smám saman frá stefnunni á næstu plötum sínum og losuðu sig við menn á borð við framleiðanda sinn Stephen Street og gítaristann Graham Coxon. Oasis héldu áfram dyggum hópi aðdáanda og voru nokkuð vinsælir þrátt fyrir að plöturnar þeirra næðu aldrei alveg fyrri vinsældum, Suede barðist áfram og gaf út tvær plötur í viðbót áður en þeir gáfust upp árið 2003, Pulp tók sér langt hlé og the Verve gáfust einnig upp en söngvari þeirra Richard Ashcroft kom sér upp fremur vel heppnuðum sólóferli og Radiohead sem var aldrei mest tengt stefnunni breyttu þrátt fyrir það tónlist sinni afar róttæklega með nýrri plötu sinni Kid A og öðluðust gífurlegar vinsældir í seinni tíð þrátt fyrir það án nokkurrar tengingu við Bretapoppið. Í dag. Þrátt fyrir að bretapoppið sé sagt vera dautt þá hafa undandanfarin ár komið fram nokkrar hljómsveitir eins og Muse, Travis og Coldplay sem hafa talað um að hafa orðið fyrir þónokkrum áhrifum frá hljómsveitum bretapoppsins með útgáfum fyrri platna sinna og nú er einnig verið að tala um að hljómsveitir eins og Franz Ferdinand, Kasabian og the Libertines sýni þónokkur einkenni bretapoppsins með einkenni sem minna á t.d. Oasis og Radiohead og séu þar með mögulega eitthvað framhald stefnunnar að öðlast aftur þó nokkrar vinsældir núna í síðari árum. Be Here Now. "Be Here Now" er þriðja breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Oasis. Hún kom út 21. ágúst árið 1997. Beðið var með mikilli eftirvæntingu eftir þessari plötu enda höfðu tvær fyrstu plötur hljómsveitarinnar hlotið frábærar viðtökur. Platan seldist í bílförmum en olli þó miklum vonbrigðum. Lögin „Stand By Me“, „D'You Know What I Mean?“ og „All Around The World“ náðu þó töluverðum vinsældum. Lagalisti. Öll lög á plötunni eru eftir Noel Gallagher. The Masterplan. "The Masterplan" er safnplata með B-hliðum bresku hljómsveitarinnar Oasis. Hún var gefin út árið 1998 og náði 2. sæti breska plötulistans. Á plötunni er m.a. að finna Bítlalagið „I'm The Walrus“ í flutningi Oasis. Fjögur lög plötunnar komust á plötuna „Stop The Clocks“ sem er safnplata með bestu lögum Oasis. Það eru lögin „Acquiesce“, „Talk Tonight“, „Half The World Away“ og titillagið „The Masterplan“. Lagalisti. Öll lög á plötunni eru eftir Noel Gallagher, nema „I am the walrus“. Árni Bergmann. Árni Bergmann (22. ágúst 1935 í Keflavík) er íslenskur blaðamaður, þýðandi og rithöfundur. Hann er með M.A. gráðu í rússnesku frá Moskvuháskóla og hefur þýtt mörg rússnesk verk. Landnámshænsn. Landnámshænsn er afbrigða nytjahænsna, en flokkast sem deilitegund frá "Gallus gallus" í "Gallus gallus domesticus" og þaðan í fjölmörg ræktunarafbrigði, en hefur ekkert sérstakt fræðilegt flokkunarheiti. Landnámshænsn komu til Íslands með landnámsmönnum á tíundu öld og rannsóknir á vefjaflokkagerð hennar sýnir skyldleika með gömlum norskum hænsnum. Landnámshænan er litskrúðug, fremur stór og harðger og hefur sterka hvöt til að unga sjálf út og liggja á eggjunum, en hænan verpir um einu eggi á dag um varptímann. Stofninn telur nokkur hundruð fugla, sem m.a. má finna á Hvanneyri og í Húsdýragarðinum í Laugardal. Nytjahænsni. Nytjahænsni (fræðiheiti: "Gallus gallus domesticus") nútímans eru komin af bankívahænsnum (Gallus gallus) sem er ein fjögurra tegunda innan ættkvíslar kambhænsna (Gallus). Nytjahænsnin eru deilitegund frá "Gallus gallus" sem kallast "Gallus gallus domesticus" en af henni eru fjölmörg ræktunarafbrigði. Eitt þeirra er íslenska landnámshænan. Standing on the Shoulder of Giants. "Standing On The Shoulder Of Giants" er fjórða breiðskífa breskur hljómsveitarinnar Oasis. Hún kom út árið 2000, en við upptökur á henni hættu tveir meðlimir, Paul „Bonehead“ Arthurs og Paul „Guigsy“ McGuigan, í hljómsveitinni. Platan fór á topp breska vinsældalistans eins og hinar hljóðversplötur sveitarinnr. Lagalisti. Öll lög samin af Noel Gallagher, nema annað sé tekið fram. Familiar To Millions. "Familiar To Millions" er tvöföld plata sem var tekin upp á tónleikum Oasis á Wembley í júlí árið 2000. Lagalisti. Öll lög samin af Noel Gallagher nema annað sé tekið fram. Heathen Chemistry. "Heathen Chemistry" er fimmta breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Oasis. Hún var gefin út sumarið 2002. Þetta var fyrsta platan sem þeir Gem Archer og Andy Bell tóku þátt í að gera með hljómsveitin en þeir gengu til liðs við sveitina eftir upptökur á "Standing On The Shoulder Of Giants". Á plötunni eiga Gallagher-bræður hvor sitt ástarlagið, „Songbird“ er sungið til Nicole Appleton, kærustu Liam Gallagher og „She Is Love“ er samið til Söru MacDonald, kærustu Noel Gallagher. Don't Believe The Truth. "Don't Believe The Truth" er sjötta breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Oasis. Platan var valin besta plata ársins 2005 af tónlistarblaðinu "Q". Zak Starkey, sonur Ringo Starr, lék á trommur á plötunni og leysti þar með af hólmi Alan White sem hafði verið trymbill sveitarinnar árin 1995-2004. Stop The Clocks. "Stop The Clocks" er safnplata bresku hljómsveitarinnar Oasis sem inniheldur brot af því besta sem bandið hefur sent frá sér. Platan kom út í nóvember árið 2006. Flest lögin á plötunni er frá gullaldarárum sveitarinnar 1994-1996. Lagalisti. Noel Gallagher samdi öll lög nema „Songbird“, en höfundur þess var Liam Gallagher. Fashanaætt. Fashanaætt (fræðiheiti: "Phasianidae") er fjölbreytt ætt hænsnfugla sem telur meðal annars fashana, kornhænur og nytjahænsn. Samband amerískra fuglafræðinga flokkar orraætt, perluhænsn og kalkúnaætt sem undirættir í fashanaætt. Einkenni á tegundum þessarar ættar eru að þær fljúga lítið, eru breytilegar að stærð en gjarnan holdugar, með breiða, stutta vængi. Margar tegundir eru með spora aftan á leggnum. Karlfuglar hinna stærri tegunda eru oft mjög litskrúðugir. Dæmigerð fæða eru fræ, ásamt nokkrum skordýrum og berjum. Þessi stóra ætt inniheldur nokkra flokka sem sumir samsvara sérstakri ættkvísl en aðrir eru lausleg flokkun tengdra ættkvísla. Sigurörn. Sigurörn í búri sínu í Húsdýragarðinum. Sigurörn er nafn á haferni sem Sigurborg Sandra Pétursdóttir (fædd 1994) frá Grundarfirði kom til hjálpar í júní 2006. Fann hún fuglinn grútarblautan og ófleygan þegar hún var í útreiðartúr á Snæfellsnesi. Örninn reyndist ekki hafa stélfjaðrir svo honum var komið fyrir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík. Þar var hann þrifinn og að honum hlúð þar til fjaðrirnar uxu aftur. Var hann farinn að fljúga aftur innan þriggja mánaða sem þótti ótrúlega stuttur tími. Björgun fuglsins var tilefni nokkurrar fjölmiðlaumfjöllunnar og var ekki síður umfjöllun í aðdraganda þess að honum var sleppt aftur út í náttúruna 26. nóvember 2006. Var það gert á sama stað og hann fannst. Til greina kom að lóga fuglinum þegar upp kom grunur um að þrjár landnámshænur í húsdýragarðinum hefðu í sér mótefni fuglaflensu en í ljós kom að sá ótti var ástæðulaus. Öllum öðrum fuglum garðsins að undanskildum fálka var þó fargað, en sýni sem tekin voru og rannsökuð eftir það sýndu engin merki um flensu í öðrum fuglum. Kambhænsn. Kambhænsn (fræðiheiti: "Gallus") eru ættkvísl hænsnfugla af fashanaætt sem er upprunnin á Indlandi, Srí Lanka og Suðaustur-Asíu. Kambhænsn eru fremur stórir fuglar og karlfuglinn með skrautlegan fjaðraham. Þetta eru felugjarnir fuglar sem halda sig á jörðinni í þykkum hávöxnum gróðri. Kvenfuglinn fellur betur inn í umhverfið enda sér hún alfarið um að unga út eggjunum og koma ungum á legg. Kambhænsn borða fyrst og fremst fræ en yngri fuglar leggja sér stundum skordýr til munns. Ein tegund af þessari ættkvísl, bankívahænsn ("Gallus gallus"), er talin næsti forfaðir nytjahænsna sem ræktuð eru um allan heim. Tívolí (Ítalíu). Tívolí (ítalska: "Tivoli", latína: "Tibur") er bær norðaustan við Róm í um 31 km fjarlægð frá miðborginni. Tívolí var vinsæll sumardvalastaður hjá Rómverjum. Rómverskir aðalsmenn fóru þangað til að hvíla sig frá sumarhitunum í Róm. Meðal þeirra sem áttu sumardvalarstaði í Tívolí voru skáldin Catúllus og Hóratíus. Sömuleiðis áttu stjórnmálamennirnir Brútus og Cassíus hús þar og síðar keisararnir Trajanus og Hadríanus. Stefán Máni. Stefán Máni Sigþórsson (f. 3. júní 1970) er íslenskur rithöfundur. Hann hefur gefið út ellefu skáldsögur frá árinu 1996. Sögurnar eru á jaðri raunsæis, oft sagðar út frá sjónarhorni verkamanns og fjalla um skuggahliðar mannlegrar tilveru. Fyrsta skáldsaga hans, "Dyrnar á Svörtufjöllum", kom út árið 1996 á eigin kostnað höfundar og vakti þó nokkra athygli. Glæpasagan "Svartur á leik" var tilnefnd til Glerlykilsins árið 2005. Stefán Máni hefur í tvígang hlotið íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, árið 2007 fyrir "Skipið" og 2013 fyrir "Húsið". Báðar bækurnar voru jafnframt var valdar sem framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins. Ófeigur Sigurðsson. Ófeigur Sigurðsson (fæddur 2. nóvember 1975) er íslenskt ljóðskáld og rithöfundur. Fyrsta ljóðabók hans, "Skál fyrir skammdeginu", kom út árið 2001 hjá sjálfsútgáfuforlaginu Nykri. "Handlöngun", kom út undir merkjum Nýhil árið 2003, en hann átti einnig ljóð í safnritinu "Ást æða varps" sem Nýhil gaf út 2005. Sama ár kom út fyrsta skáldsaga hans, "Áferð", hjá forlaginu Traktori á Vestfjörðum. Árið 2006 kom síðan út ljóðabókin "Roði" í bókaflokknum "Norrænar bókmenntir", einnig hjá Nýhil. Bókin "Provence í endursýningu", sem kom út árið 2008 hjá Apaflösu, var gefin út í handunnu bandi og ætluð sem virðingarvottur við Sigfús Daðason skáld. Kom hún út í 50 númeruðum eintökum. Seinna sama ár kom "Tvítólaveizlan", fimmta ljóðabók Ófeigs, út hjá Nýhil útgáfunni. Árið 2009 gaf Ófeigur út bókverkið "Biscayne Blvd" hjá Apaflösu ásamt listamanninum Magnúsi Árnasyni. Bókin var búin til úr silikoni og því vatnsheld. Hún var gefin út í minningu Geirlaugs Magnússonar, skálds, sem sjálfan hafði dreymt um að „búa til vatnshelda buslu-Heimskringlu handa Snorra í lauginni.“ "Biscayne Blvd" var gefin út í aðeins 30 eintökum og vó hvert eintak um 2 kíló. Eiríkur Örn Norðdahl. Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1. júlí 1978) er íslenskur rithöfundur, smásagnahöfundur, þýðandi og ljóðskáld. Síðastliðin ár hefur hann unnið úr evrópskum og norður-amerískum framúrstefnuhefðum, við sundurtætingu tungumálsins í myndrænar, hljóðrænar, félagslegar og málfræðilegar einingar sínar. Árið 2007 hlaut Eiríkur aukaverðlaun í Ljóðstafi Jóns úr Vör, og sama ár fékk hann Rauðu fjöðrina, stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma. Árið 2008 fékk Eiríkur svo Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á "Móðurlaus Brooklyn" eftir "Jonathan Lethem". Eiríkur heldur úti umfangsmikilli heimasíðu þar sem finna má tugi upplestrarmyndbanda og annarra myndverka, hljóðaljóð, greinar og umfjöllun um íslenska og erlenda ljóðlist, auk bloggs. Eiríkur kemur reglulega fram á ljóðahátíðum í Evrópu og N-Ameríku. Fyrsta ljóðabók hans, "Heilagt stríð: runnið undan rifjum drykkjumanna", kom út árið 2001 og árið eftir kom út "Heimsendapestir" undir merkjum Nýhil. 2003 kom út "Nihil obstat". Árið 2004 var fyrsta skáldsaga hans, "Hugsjónadruslan", gefin út af Máli og menningu og 2005 ljóðabókin "Blandarabrandarar: (die Mixerwitze)" hjá Nýhil. 2006 kom síðan út önnur skáldsaga, "Eitur fyrir byrjendur". Þann 1. maí 2007 kom út bókin "Handsprengja í morgunsárið" sem Eiríkur skrifaði ásamt "Ingólfi Gíslasyni", en í henni var að finna þýðingar á ljóðum erlendra þjóðarleiðtoga og hryðjuverkamanna, auk svonefndra „róttækra þýðinga“ eða „ljóðgerða“ á ræðum og ummælum íslenskra stjórnmálamanna og álitsgjafa. Síðar sama ár kom bókin "Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum!", sem innihélt meðal annars endurvinnslu á kvæði Steins Steinarr Tíminn og vatnið. Um svipað leyti kom ljóðaþýðingasafnið "131.839 slög með bilum" hjá finnska forlaginu Ntamo, en það innihélt 90 ljóð eftir 61 skáld, sem að mestu voru erlend samtímaskáld. Árið 2008 kom út ljóðabókin "Ú á fasismann - og fleiri ljóð", en hún innihélt 20 myndljóð og geisladisk með 20 hljóðaljóðum. Eiríkur býr á Ísafirði og í Västerås í Svíþjóð. Læknir. Læknir er maður, sem er menntaður í öllu sem viðkemur mannslíkamanum og sjúkdómum sem hrjá hann. Læknir hefur hlotið þjálfun í meðferð og beitingu lyfja og sérstakra aðgerða með það að markmiði að bæta líðan og/eða lengja líf sjúklinga.Sjúklingar geta verið mis sjúkir en... Fræðigrein læknis nefnist læknisfræði og felur hún í sér ýmsa hagnýtingu fjölmargra raungreina, svo sem líffræði, lífeðlisfræði, efnafræði, eðlisfræði og fleiri. Þyngdarafl. Mynd sem lýsir hröðun bolta í frjálsu falli. Þyngdarafl, aðdráttarafl eða aðdráttarkraftur er náttúrumyndun sem lýsir því þegar massaeiningar dragast hver að annarri. Jóhannes Kepler gaf fyrstur óbeina, stærðfræðilega lýsingu á þyngdarafli, en Newton setti fram eðlisfræðilega kenningu um það, þyngdarlögmálið. Einstein sýndi með afstæðiskenningunni tengsl þyngdarafls og tímarúms. Þyngdarafl heldur reikistjörnum á sporbaugum kringum sólina og tunglin í kringum reikistjörnurnar. Þyngdarafl tunglsins veldur sjávarföllum á jörðu. Þyngdarafl jarðar. Þyngdarhröðun jarðar er táknuð með "g" en hún gefur hraðaaukningu (hröðun) hlutar í frjálsu falli vegna þyngdarafls jarðar og er um 10 m/s á hverri sekúndu. Þyngdarhröðunin er breytileg eftir hnattstöðu, yfirleitt á bilinu 9,79 til 9,82 m/s² og að meðaltali 9,80665 m/s². Á Íslandi er þyngdarhröðunin nálægt 9,82 m/s². Klakki. Klakki (áður Exista) er íslenskt fjármálaþjónustufyrirtæki stofnað í júní 2001. Það var eitt stærsta íslenska fyrirtækið mælt í eigin fé. Fyrirtækið var skráð á íslenskan hlutabréfamarkað í september 2006. Klakki var þekkt sem Exista þangað til að ákveðið var á hluthafafundi að breyta um nafn í september 2011. Meðal eigna Exista eru Vátryggingafélag Íslands, Lífís og Lýsing, sem Exista á að öllu leyti. Exista á um fjórðungshlut í Kaupþingi Banka, 39,6% í Bakkavör Group og er stærsti hluthafinn í Símanum með 43.6% hlut. Saga. Exista var skráð á markað í Bretlandi í júní 2006. Í febrúar 2007 tilkynnti fyrirtækið methagnað upp á ríflega 37 miljarða króna. Jafnframt voru tilkynnt kaup á hlutum í finnska tryggingafélaginu Sampo Oyj að andvirði um 170 milljarða króna, samanlagður hlutur Exista er því 15,48% í fyrirtækinu. Í ágúst 2007 lauk Exista lántöku upp á 43 milljarða króna (~€500 milljónir). Mikil eftirspurn var hjá bankastofnunum eftir þáttöku og var því ákveðið að hækka lánsfjárhæðina um 300 milljónr króna. Alls tóku 27 bankar frá 12 löndum þátt í sambankaláninu. Umsjónarbankar eru Bayerische Landesbank, Fortis Bank, HSH Nordbank og Raiffeisen Zentralbank Österreich. Í byrjun árs 2008 féll úrvalsvísitalan, sem er vísitala byggð á gengi hlutabréfa 15 verðmætustu íslensku fyrirtækjanna, nokkuð hratt. Verðmæti Exista féll sömuleiðis. Sérfræðingur sænska blaðsins Dagens Industri skrifaði grein um fyrirtækið og sagði það vera mjög skuldsett og eiga í erfiðleikum. Fimm mínútna tilgátan. Fimm mínútna tilgátan er efahyggju-tilgáta sem breski heimspekingurinn Bertrand Russell setti fram. Tilgátan er á þá leið að alheimurinn hafi orðið til úr engu fyrir fimm mínútum síðan, með minningum fólks og öllum öðrum vísbendingum um lengri sögu. Oft er vísað til tilgátunnar sem dæmis um róttæka efahyggju um minni. Hún var fyrst sett fram árið 1921 í bókinni "Analysis of Mind" en Russell, sem aðhylltist ekki tilgátuna sjálfur, notaði hana sem dæmi um ógagnlega beitingu efahyggjunnar. Grallarinn. "Grallarinn" eða "Graduale, Ein Almenneleg messusaungs Bok, Innehalldande þann Saung og Cerimoniur sem i Kyrkkiunne eiga ad syngiast og halldast hier i Landi, epter goodre og Christelegre Sidveniu, sem og vors Allra Naaduagasta Arfa-Kons og Herra, Kyrkiu Ritual" er sálmabók sem gefin var út af Guðbrandi Þorlákssyni á Hólum árið 1589. Hún var notuð í kirkjum á Íslandi í um tvö hundruð ár eftir það og hafði mikil áhrif á messusiði. Grallarinn var sniðinn eftir "Graduale" eftir Niels Jesperssøn sem var prentuð árið 1573. Vísir (dagblað). Vísir var íslenskt dagblað, stofnað 1910 af Einari Gunnarssyni. Það var gefið út til 1981 þegar það sameinaðist Dagblaðinu og kom út eftir það sem DV (Dagblaðið Vísir). Vísir var alla tíð fyrst og fremst Reykjavíkurblað. Styrmir Gunnarsson. Styrmir Gunnarsson (fæddur 27. mars 1938) var ritstjóri "Morgunblaðsins" og var talinn mjög áhrifamikill í krafti þeirrar stöðu. Hann hefur alla tíð verið dyggur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Foreldrar Styrmis voru Salmanía Jóhanna Jóhannesdóttir og Gunnar Árnason framkvæmdastjóri. Styrmir las sjálfur "Morgunblaðið" frá unga aldri. Hann hefur sagt frá því að Jón Kjartansson fyrrverandi ritstjóri "Morgunblaðsins" hafi verið fjölskylduvinur. Á skólaárum sínum kynntist Styrmir mörgum mikilsmetandi mönnum sem áttu eftir að verða áberandi í þjóðlífinu seinna meir. Þeirra á meðal voru Ragnar Arnalds, Halldór Blöndal, Jón Baldvin Hannibalsson og Sveinn Eyjólfsson. Styrmir lauk laganámi við Háskóla Íslands og hóf svo störf við Morgunblaðið 2. júní 1965 og varð ritstjóri blaðsins árið 1972. Það var hans fyrsta verkefni hjá Morgunblaðinu að taka viðtal við Bjarna Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra og áður ritstjóra Morgunblaðsins. Styrmir lét af ritstjórastarfi þann 2. júní 2008. Þá hafði hann unnið hjá Morgunblaðinu í 43 ár, þar af 36 sem ritstjóri. Árið 2009 gaf hann út bókina Umsátrið - fall Íslands og endurreisn, sem fjallaði um bankahrunið á Íslandi haustið 2008 og afleiðingar þess. Mennta- og menningar­mála­ráðuneyti Íslands. Mennta- og menningar­mála­ráðuneyti Íslands er ráðuneyti sem lýtur að menntun og fræðslu á Íslandi, og var stofnað formlega 1. júní 1947 þegar ákveðið var að forsætis- og menntamálaráðuneytið skyldu framvegis starfa undir sama ráðuneytisstjóra. Þetta hélst óbreytt til 1. janúar 1970, en á þeim tíma var þeim skipt í tvö ráðuneyti. Starfssemi. Ráðherra menntamálaráðuneytisins, Katrín Jakobsdóttir, fer með yfirstjórn ráðuneytisins og einnig ber hún ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum þess. Allar embættisfærslur starfsmanna eru gerðar í umboði ráðherra. Ráðuneytisstjóri, Halldór Árnason, stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra samkvæmt erindisbréfi. Ráðuneytið starfar sem ein heild og skiptist í þrjár skrifstofur og fjögur svið. Skrifstofurnar eru skrifstofa menningarmála, skrifstofa menntamála og skrifstofa vísinda. Hin fjögur svið eru fjármálasvið, lögfræðisvið, mats- og greiningarsvið og upplýsinga- og þjónustusvið. Ráðuneytisstjóri annast samræmingu á starfsemi skrifstofa og sviða. Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjórar sjá um miðlun upplýsinga til ráðherra. Bolafjall. Bolafjall er 638 metra hátt fjall fyrir ofan Bolungarvík. Á Bolafjalli var ein af fjórum ratsjárstöðum sem Ratsjárstofnun rak fyrir hönd varnarliðsins. Ratsjárstöðin á Bolafjalli hóf rekstur 18. janúar 1992 en hefur nú verið lokað. Það liggur brattur akvegur upp á Bolafjall. Vegurinn hefur verið opinn bílum í júlí og ágúst. Ofan á Bolafjalli er rennislétt hrjóstrug háslétta og er þar útsýni til allra átta. Samtök hernaðarandstæðinga. Herstöðvaandstæðingar fagna brottför bandaríska setuluðsins frá Íslandi með heimsókn í herstöðina á Miðnesheiði 1. október 2006. Samtök hernaðarandstæðinga (áður "Samtök herstöðvaandstæðinga") eru íslensk félagasamtök sem eru þekkt fyrir áralanga baráttu fyrir brotthvarfi bandaríska hersins frá Íslandi. Samtökin berjast gegn hervaldi og ofbeldi sem leið til að leysa deilumál þjóða. Þau krefjast þess einnig að Ísland segi sig úr NATO. Hernaðarandstæðingar eru friðarsinnar og hafa barist gegn stuðningi íslenskra stjórnvalda við stríðsrekstur út um heim svo sem við stríðin í Írak, Afganistan og Líbíu. Sagan. Forverar "Samtaka herstöðvaandstæðinga" voru Þjóðvarnarflokkurinn og Andspyrnuhreyfing gegn her í landi, bæði stofnuð 1953 og Friðlýst land samtök rithöfunda og menntamanna formlega stofnuð í marz 1958, stóðu að fyrstu keflavíkurgöngunni 19/6/1960, sem er upphaf "Samtaka hernámsandstæðinga", stofnuð 10. september 1960. Lengra aftur má rekja mótstöðu við inngöngu Íslands í NATO 1949 og varnarsamninginn sem gerður var við Bandaríkjamenn 1951. "Samtök herstöðvaandstæðinga" voru formlega stofnuð 1975 en höfðu í raun starfað síðan 1972. Þann 16. maí það ár var kosin „miðnefnd herstöðvaandstæðinga“ á fundi í Glæsibæ til minningar um Jóhannes úr Kötlum sem lést í apríl. Ástæða stofnunarinnar var meðal annars óánægja með vanefndir Vinstristjórnarinnar á því atriði stjórnarsáttmálans að endurskoða skyldi veru hersins á Íslandi. Mótmælagöngur sem farnar voru á árunum 1960-91 og nefndust "Keflavíkurgöngur" voru frægar um land allt. Meðal þjóðþekktra herstöðvaandstæðinga má nefna Einar Braga skáld, Jónas og Jón Múla Árnasyni, Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra, Böðvar Guðmundsson rithöfund, Jakobínu Sigurðardóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur skáld og Vigdísi Finnbogadóttur frv. forseta. Mótmæli, slagorð og söngvar. Samtökin standa fyrir mótmælum eftir því sem þurfa þykir, m.a. gegn Íraksstríðinu og stríðsrekstri NATO í Afganistan. Samtökin taka einnig þátt í hinni árlegu kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn og víðar og Þorláksmessugöngu. Frægasta slagorð herstöðvaandstæðinga er "Ísland úr NATO, herinn burt" en ótal önnur slagorð og mótmælaköll hafa hljómað í aðgerðum. Mörg sönglög eru einnig helguð baráttunni s.s. "Þú veist í hjarta þér" (Þorsteinn Valdimarsson), "Lofsöngur" (Böðvar Guðmundsson), "Segulstöðvarblús" (Þórarinn Eldjárn/Bubbi), "Sóleyjarkvæði" (Jóhannes úr Kötlum/Pétur Pálsson). Samtökin hafa gefið út hljómplötur og diska með baráttusöngvum herstöðvaandstæðinga. Baráttusöngvar herstöðvaandstæðinga. Forsíða bæklings með geisladiski sem SHA gáfu út 2001 Dagfari. er tímarit og fréttabréf samtakanna. Útgáfa tímaritsins hefur verið óregluleg, en miðað er við að það komi út árlega. Þar birtast vandaðar greinar og umfjöllun um friðarmál og baráttu gegn hernaðaröflum, íslenskum sem erlendum. Fréttabréfið kemur að jafnaði út þrisvar til fjórum sinnum á ári í litlu broti, þar sem birtar eru fréttir og tilkynningar úr félagsstarfinu. Sögu Dagfara má rekja allt til ársins 1961, en þá hófu Samtök hernámsandstæðinga útgáfu blaðs með þessu heiti. Nútíðin. Núverandi formaður samtakanna er Stefán Pálsson. Samtök hernaðarandstæðinga hafa aðsetur í "Friðarhúsinu", Njálsgötu 87, 101 Reykjavík. Eftir brottför bandaríska herliðsins frá Íslandi þann 1. nóvember 2006 breyttu samtökin nafni sínu úr Samtök herstöðvaandstæðinga í Samtök hernaðarandstæðinga (26. nóvember 2006). Keflavíkurgöngur o.fl. stóraðgerðir hernáms- og herstöðvaandstæðinga 1960-1991. Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, flytur ávarp fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík 18. ágúst 2007 Bifreið. Bifreið eða bíll er vélknúið farartæki sem er notað til þess að flytja farþega, sem einnig ber egin vél eða mótor. Upphaf nútímabílsins kom með framleiðslu Benz Patent-Motorwagen 1886. Vélknúnir vagnar tóku við af hestvögnunum og þá sérstaklega þegar verð bíla varð viðráðanlegt með komu Ford Model T árið 1908. Áætlað var 2010 að fjöldi bíla í heiminum væru fleiri en einn milljarður, en þeir voru 500 milljónir 1986. Mikil aukning er í fjölda bíla og þá sérstaklega í Kína og Indlandi. Orðsifjafræði. Orðið bíll er stytting á franska orðinu "automobile", sem er samsett úr forngríska orðinu "αὐτός" ("autós", „sjálf/sjálfur“) og því franska "mobile" („hreyfa“ sem kemur úr latínu "mobilis" („hreyfanlegt“)). Orðið bifreið kom nokkuð snemma inn í íslensku, eða rétt eftir að bílar fóru að sjást á Íslandi. En ekki voru allir samþykkir þeirri nafngift í upphafi. Þrír alþingismenn, þeir Jón Ólafsson, Bjarni Jónsson frá Vogi og Matthías Ólafsson, lögðu fram tillögu sem fól í sér að hafna orðinu bifreið en taka þess í stað upp orðið "sjálfrenningur". Tillagan var samþykkt. Ýmsar fleiri hugmyndir komu fram, til dæmis lagði Vigfús Guðmundsson til í Ísafold 9. júlí 1913 að kalla bifreiðar "þeysivagna" eða "þeysa"; í samsettum orðum "vöruþeysir", "fólksþeysir" o.s.frv. Önnur nöfn sem fram komu á þessum árum voru til dæmis "sjálfhreyfivél", "sjálfrennireið" (sem enn er stundum höfð um bíl í gamansömum tón), "skellireið" og "rennireið". Saga. Fyrsti gufuknúni bílinn var byggður af Ferdinand Verbiest, flæmingja árið 1672. Bílinn var 65 sentimetra langt líkan fyrir kínverska keisarann. Ekki er vitað hvort að líkanið hafi einhverntímann verið byggt í fullri stærð. Nocolas-Joseph Cugnot er oftast nefndur sem sá sem bjó til fyrsta farartækið í fullri stærð. 1769 bjó hann til gufuknúið þríhjól. Hann bjó einnig til tvo gufuknúna traktora fyrir franska herinn. Öðrum þeirra er viðhaldið á franska safninu French National Conservatory of Arts and Crafts. Uppfinningar hans héldu þó gufuþrýstingi illa og erfitt var að fá nægt vatn fyrir farartækin. 1807 þróuðu Nicéphore Niépce og bróðir hans Claude fyrsta sprengihreyfilinn. Þeir ákváðu að nota vélina í bát á ánni Saône í Frakklandi. Í nóvember 1881, sýndi franski frumkvöðulinn Gustave Trouvé farartæki á þremur hjólum sem var knúið af rafmagni á sýningunni International Exposition of Electricity, Paris. Rekstrarhagfræði. Rekstrarhagfræði er sú grein hagfræðinnar sem fjallar um rekstur fyrirtækja og samskipti þeirra við neytendur og stjórnvöld. Grunnskóli. Grunnskóli er skóli sem telst til skyldunáms og er almennt undirstöðunám sem undirbýr nemendur fyrir framhaldsnám. Aldur grunnskólanema er breytilegur eftir löndum en oftast hefja börn nám 5 eða 6 ára og ljúka á bilinu 14 til 16 ára. Siðferði. Siðferði er grundvallarreglur og -gildi sem varða þær athafnir og þá breytni sem hefur áhrif á aðra. Siðferði getur verið lýst með öðrum orðum: „Siðferði felur í sér þá lágmarkskröfu að menn leitist við að haga breytni sinni í samræmi við skynsemi — það er að segja að gera það sem hin bestu rök styðja að gert sé — um leið og jafnt tillit er tekið til hagsmuna sérhvers einstaklings sem athafnir manns snerta.“ Menningarmannfræði er sú fræðigrein sem rannsakar viðtekið siðferði í hinum ýmsu samfélögum en siðfræði er undirgrein heimspekinnar sem leitar réttlætingar fyrir siðferði yfirleitt og reynir að skýra í hverju siðferðið er fólgið óháð því hvernig það er upplifað í ólíkum samfélögum og menningarheimum. Katanes. Katanes er lítið nes og samnefnd jörð í utanverðum Hvalfirði, norðan megin við fjörðinn og austan við Grundartanga. Jörðin nær yfir votlendið frá Akrafjalli að Kalastaðakoti og frá Miðfelli niður að sjó. Tanginn, þar sem bærinn stendur, stendur hærra en mestur hluti hennar. Við Katanes er Katanestjörn þar sem Katanesdýrið sást 1874 til 1876. Á jörðinni er einnig að finna minjar úr seinni heimstyrjöldinni, heillega búta úr kafbátagirðingu Bandamanna. Í lok nóvember 2006 keyptu Faxaflóahafnir sf. jörðina, en fyrirtækið hafði áður eignast fleiri jarðir nálægt Grundartanga þar sem í bígerð er að auka við hafnaraðstöðuna. Lagkaka. Lagkaka með sultu milli botna Lagkaka er kaka sem gerð er úr fleiri lögum af köku sem lögð eru saman með fyllingu, eins og þeyttum rjóma, sultu eða kremi. Dæmi um lagköku er hefðbundin terta sem gerð er úr tveimur eða fleiri tertubotnum, en venjulega er heitið lagkaka fyrst og fremst notað yfir Vínartertur eða Randalínar þar sem nokkur lög (oft fjögur) eru sett saman með sultu eða kremi á milli og kakan sjálf er ýmist hvít eða brún. Ferðafélag Íslands. Ferðafélag Íslands er íslensk félagasamtök áhugafólks um útivist á Íslandi. Félagsmenn eru um sjö þúsund talsins... Félagsmenn fá á hverju árbók og fá afslátt af gistingu í skálum sem félagið rekur og á ferðagjaldi í skipulagðar ferðir. Að stofnun félagsins komu Sveinn Björnsson þáverandi sendiherra í Kaupmannahöfn, Björn Ólafsson verslunarmaður og Jón Þorláksson verkfræðingur, síðar forsætisráðherra. Stofnfélagar voru 63. Flokksræði. Ríki þar sem flokksræði er bundið í stjórnarskrá eru lituð brún, en mörg önnur ríki búa við flokksræði í reynd. Flokksræði er tegund lýðræðis þar sem flokkakerfið er með þeim hætti að einn stjórnmálaflokkur myndar jafnan ríkisstjórn og engir aðrir flokkar koma fulltrúum sínum í valdastöður, ef þeir eru þá leyfðir. Í flestum tilvikum eru aðrir flokkar einfaldlega bannaðir. Í slíkum ríkjum verður þingið í reynd valdalaus stofnun og hin raunverulegu stjórnmálaátök fara fram innan flokksins, hjá miðstjórn hans eða á flokksþingum. Afríkusambandið. Afríkusambandið er alþjóðasamtök 53 ríkja í Afríku. Það var stofnað árið 2001 sem arftaki Afríska efnahagsbandalagsins og Afríska einingarbandalagsins. Afríkusambandið stefnir að því að sameiginlegri mynt og sameiginlegum her auk annarra ríkisstofnana. Tilgangur sambandsins er að stuðla að auknu lýðræði, mannréttindum og sjálfbærum efnahag Afríkuríkja, sérstaklega með því að reyna að binda endi á átök innan Afríku og búa til virkan innri markað. Öll Afríkuríkin eru í sambandinu, utan Máritanía sem var rekin úr því í kjölfar valdaráns árið 2005, og Marokkó sem sagði sig úr forvera sambandsins árið 1984. Interpol. Interpol (stendur fyrir "Inter"national Criminal "Pol"ice Organization) eða Alþjóðalögreglan er alþjóðastofnun sem var stofnuð árið 1923 til að auðvelda alþjóðlegt samstarf á sviði löggæslu og rannsókna sakamála. Stofnunin er þriðja stærsta alþjóðastofnun heims á eftir Sameinuðu þjóðunum og Alþjóða knattspyrnusambandinu með 186 aðildarríki. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Lyon í Frakklandi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (stundum nefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunin; enska: "World Health Organization", "WHO") er sérhæfð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem samræmir aðgerðir á sviði alþjóðlegra heilbrigðismála. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Genf í Sviss. Sögulega tók stofnunin við af Heilbrigðisstofnuninni sem var stofnun innan Þjóðabandalagsins. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin var stofnuð af SÞ 7. apríl 1948. Samtök olíuframleiðsluríkja. Kort sem sýnir núverandi (grænn litur) og fyrrverandi (blár litur) aðildarríki OPEC Samtök olíuútflutningsríkja (enska: "Organisation of the Petroleum Exporting Countries" eða "OPEC") eru alþjóðleg samtök sem í eru olíuframleiðsluríkin Alsír, Angóla, Ekvador, Íran, Írak, Katar, Kúveit, Líbýa, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela. Frá 1965 hafa höfuðstöðvar samtakanna verið í Vínarborg í Austurríki. Þau voru stofnuð árið 1960. Ýmsir líta á samtökin sem verðsamtök. Höfuðmarkmið samtakanna er að samræma aðgerðir til að vernda hagsmuni aðildarríkjanna á sviði olíuframleiðslu og koma í veg fyrir skaðlegar verðsveiflur á olíumörkuðum með því meðal annars að tryggja jafna og næga olíuframleiðslu. Samtökin höfðu mikil áhrif á olíuverð á 7. og 8. áratugnum með því að stjórna framboði á olíu en tilraun þeirra til að nota olíu sem tæki til að beita Bandaríkin og Vestur-Evrópu þrýstingi í jom kippúr-stríðinu, sem leiddi til Olíukreppunnar 1973, hafði þau áhrif að þessi ríki hófu markvisst að draga úr eftirspurn sinni eftir olíu frá OPEC-ríkjunum og dró þannig úr áhrifum þeirra. Þróun olíuvinnslu á öðrum stöðum, eins og Mexíkóflóa og Norðursjó hefur síðan þá aukið mikið framboð olíu frá ríkjum utan OPEC. Samtök Ameríkuríkja. Samtök Ameríkuríkja (enska: "Organization of American States"; spænska: "Organización de los Estados Americanos"; franska: "Organisation des États Américains"; portúgalska: "Organização dos Estados Americanos"; skammstafað: OAS eða OEA) eru alþjóðasamtök 35 Ameríkuríkja með höfuðstöðvar í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Samtökin voru stofnuð árið 1948 upp úr tveimur eldri samtökum. Markmið samtakanna er að efla samvinnu og samstöðu meðal Ameríkuríkja og standa vörð um sjálfstæði þeirra og landamæri gagnvart utanaðkomandi ógn. Öll þau 35 Ameríkuríki sem eru sjálfstæð eru aðilar að samtökunum. Þó hefur Kúba ekki haft rétt til virkrar þátttöku í samtökunum síðan 1962 eftir að samtökin ályktuðu að frumkvæði Bandaríkjanna að marx-lenínismi samræmdist ekki markmiðum samtakanna og að aðildarríki með ríkisstjórn sem aðhyllist þá hugmyndafræði mættu ekki taka þátt í starfi samtakanna. Viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Kúbu. Viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Kúbu er viðskiptabann sem Bandaríkin settu á viðskipti við Kúbu 1962 og er enn í gildi. Eftir að uppreisnarmenn á Kúbu undir stjórn Fidels Castro steyptu ríkisstjórn Fulgencio Batista af völdum, sem var hlynnt Bandaríkjunum, versnaði samband Bandaríkjanna og Kúbu. Eftir valdatöku Castros fyrirskipaði Kennedy Bandaríkjaforseti bann við viðskiptum Bandaríkjamanna við Kúbu og var sú ákvörðun mikilvægur hluti af forleiknum að kúbudeilunni. Bandaríkjamenn útvíkkuðu bannið á tíunda áratug 20. aldar með því að banna fyrirtækjum, sem ekki eru bandarísk, en stunda viðskipti við Kúbu að eiga viðskipti í Bandaríkjunum. Sú nýja stefna var víðast hvar um heiminn gagnrýnd og Bandaríkjamenn hafa ekki fylgt henni hart. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur margsinnis ályktað gegn viðskiptabanninu og hefur mælst til þess að Bandaríkjamenn láti af því. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem mótmæla viðskiptabanninu. Á samkomu árið 2008 var hvatt til þess að viðskiptabanninu væri aflétt og var það samþykkt 17. árið í röð. 185 ríki greiddu með ályktuninni; Palau, Bandaríkin, Ísrael voru andvíg henni og Marshalleyjar sátu hjá Efnahags- og framfarastofnunin. Kort sem sýnir aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunar. Efnahags- og framfarastofnunin (enska: "Organization for Economic Co-operation and Development"; skammstafað OECD, franska: "Organisation de coopération et de développement économiques".) er alþjóðastofnun 33 þróaðra ríkja sem aðhyllast fulltrúalýðræði og markaðshagkerfi. Hún var stofnuð árið 1948 sem Stofnun um efnahagssamstarf Evrópuríkja (OEEC) til að aðstoða við framkvæmd Marshalláætlunarinnar í Evrópu eftir Síðari heimsstyrjöldina. Síðar var ríkjum utan Evrópu boðin aðild og árið 1961 tók stofnunin upp núverandi nafn. Tilgangur samtakanna er að bera saman stefnumótun stjórnvalda í aðildarríkjunum, greina sameiginleg vandamál og benda á bestu aðferðir við stefnumótun í innanríkismálum og alþjóðasamstarfi. Stofnunin er hugsuð sem samræðugrundvöllur þar sem umræða og gagnrýni getur leitt til stefnubreytingar aðildarríkja með því að skapa þrýsting frá þegnum ríkjanna, fremur en sem vettvangur fyrir bindandi samninga eða lagasetningu. Höfuðstöðvar OECD eru í París í Frakklandi. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Einkennismerki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, skammstafað ÖSE (á ensku "Organization for Security and Co-operation in Europe" einnig skammstafað "OSCE"), er alþjóðastofnun sem var stofnuð árið 1973 sem CSCE (Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu skammastafað RÖSE'") en nafninu var breytt árið 1990 og verkefnin endurskilgreind í kjölfar hruns kommúnismans. 56 ríki frá Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku eiga aðild að stofnuninni. Tilgangur stofnunarinnar er að koma í veg fyrir vopnuð átök, stjórnun neyðarástands og enduruppbygging á átakasvæðum. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Vínarborg í Austurríki. Anna Politkovskaja. Anna Politkovskaja (rússneska: Анна Степановна Политковская, 30. ágúst 1958 — 7. október 2006) var úkraínskur blaðamaður, sem var þekktust fyrir harða gagnrýni sína á stríðið í Téténíu og á stjórnarhætti Pútíns, forseta Rússlands. Politkovskaja var fædd í New York en foreldrar hennar unnu fyrir Sameinuðu Þjóðirnar. Hún útskrifaðist frá MGU árið 1980 með gráðu í fjölmiðlafræði og fékk að námi loknu starf hjá dagblaðinu Izvestija. Frá 1999 var hún blaðamaður hjá Novaja Gazeta. Hún kom oft að sáttasamningum og vann meðal annars við að frelsa gísla sem téténskir hryðjuverkamenn héldu í Dubrovka-leikhúsinu í Moskvu árið 2002. Anna Politkovskaja fannst skotin til bana í lyftu fjölbýlishúss sem hún bjó í þann 7. október 2006. Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna eða UNESCO er sérhæfð stofnun hjá Sameinuðu þjóðunum sem hefur þann yfirlýsta tilgang að vinna að friði og öryggi með því að efla alþjóðlegt samstarf á sviði menntamála, vísindastarfsemi og menningarstarfsemi til að stuðla að aukinni virðingu fyrir réttlæti, réttarríkinu og mannréttindum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, skammstafað AGS (e.: "International Monetary Fund"; skammstafað IMF) er alþjóðastofnun, sem hefur það hlutverk að auka samvinnu milli ríkja og tryggja stöðugleika alþjóðlega fjármálakerfisins með því að fylgjast með gengi gjaldmiðla og greiðslujöfnuði milli ríkja heims. Stofnunin hefur það einnig að markmiði að minnka atvinnuleysi og auka hagvöxt. Stofnunin veitir aðildaríkjum sínum ráðgjöf og lán til niðurgreiðslu skulda. Stjórnarformaður sjóðsins er Bandaríkjamaðurinn John Lipsky. Alls eru 187 lönd aðilar að sjóðnum, næstum því jafn mörg og í Sameinuðu þjóðunum. Höfuðstöðvar hans eru í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Hefð er fyrir því að stjórnarformaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé evrópskur og bankastjóri Alþjóðabankans, systurstofnunar IMF, bandarískur. Skipulag. Hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að stunda hafa eftirlit með ríkisfjármálum, gengismálum og peningastefnu aðildarríkja. Aðildarríkjum ber að hlíta reglum sem sjóðurinn setur um alþjóðaviðskipti. Annað hlutverk sjóðsins er að veita lán til ríkja sem geta ekki greitt erlendar skuldir sínar. Starfsfé sjóðsins er aðallega byggt á framlögum aðildarríkja í hlutfalli við þjóðartekjur, utanríkisviðskiptum og nokkrum öðrum þáttum. Heildarfjármagn, mælt í SDR, fer vaxandi, sem endurspeglar aukið umfang hnattrænnar efnahagsstarfsemi. Sjóðurinn býr einnig að gulleign sem metin er á 27 milljarða Bandaríkjadala sem gerir sjóðinn að einum af stærsta gulleiganda heimsins. Sjóðurinn fjármagnar sig ekki með lánum hjá almennum fjármálamarkaði heldur með samningum við aðildarríki, t.d. NAB-samninginn milli 25 landa að andvirði 44 milljarða dala. Saga. Tilurð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má rekja til reynslu manna af Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn voru stofnuð 27. desember árið 1945. Stofnaðilar voru 29 lönd, undir forystu Harry Dexter White hjá bandaríska fjármálaráðuneytinu og breska hagfræðingsins John Maynard Keynes, sem hittust við Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum og úr varð Bretton Woods-kerfið. Í stofnskrá sjóðsins kom fram að tilgangur hans var að greiða fyrir alþjóðaviðskiptum og, eins og formlegt enska nafn bankans gefur til kynna, að stuðla að enduruppbyggingu eftir seinni heimsstyrjöld. Önnur stór aðgerð sem Bandaríkjamenn áttu frumkvæðið að, og átti að auka hagvöxt nefnist Marshallaðstoðin. Í stofnskránni var ákvæði um að gengi bandaríska dalsins yrði bundið fast við verðmæti gulls. Sömuleiðis að gjaldmiðlar aðildaríkja yrðu bundnir annað hvort dalnum eða gulli. Stofnskránni var fyrst breytt árið 1968 þegar komið var á sérstökum dráttarréttindum (e. special drawing rights (SDR)), eins konar blandaðri gjaldmiðlakörfu stærstu gjaldmiðlanna, sem er eingöngu notað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hinn 15. ágúst 1971 ákvað ríkisstjórn Bandaríkjanna að afnema tengingu dollarans við gengi gulls. Stofnskránni var aftur breytt árið 1978 þegar flotgengisstefnan var tekin upp og gullfóturinn var afnuminn. Stofnskránni var breytt árið 1990 í þriðja skiptið þegar sjóðurinn gat ákveðið að svipta aðildarríki atkvæðisrétti tímabundið. Árið 1998 var 21,4 milljarðar SDR úthlutað til aðildarríkjanna, tvöföldun á þeirri fjárhæð sem þegar hafði verið úthlutað. Í ágúst 1982 skall á skuldakreppa í Mexíkó þegar þarlend stjórnvöld lokuðu gjaldeyrismarkaði sínum og tilkynntu að þau myndu ekki geta staðið við greiðslur af erlendum lánum. Þá fór starfsemi sjóðsins í meiri mæli að snúast um að fjármagna skuldir þróunarlanda. Með falli Sovétríkjanna undir lok níunda áratugar síðustu aldar og svo kreppunni í Asíu 1997 hefur reynt á skipulag alþjóðakerfisins og hætt verið við hnattrænni heimskreppu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur leikið lykilhlutverk í viðspyrnuaðgerðum og mótað enduruppbyggingu fyrrverandi Sovétríkja. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland. Ísland var í hópi þeirra 29 ríkja sem tóku þátt í stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 27. desember 1945. Frá stofnun hefur Ísland fjórum sinnum tekið lán. Fyrsta lán Íslendinga hjá sjóðnum var tekið árið 1960 á tímum Viðreisnarstjórnarinnar. Annað 1967-68 vegna brests í útflutningstekjum, 1974-76 vegna hækkunar á olíuverði og loks 1982 vegna útflutningsbrests. Afborgunum af þeim lánum var lokið 1987. Seint um kvöld 19. nóvember 2008 samþykkti stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins beiðni sem íslenska ríkið hafði gert um lán upp á 2,1 milljarða Bandaríkjadala (sem voru um „294 milljarðar króna“ á þeim tíma). Gagnrýni. Bretton Woods-stofnanirnar þykja vera táknrænar fyrir efnahagslega heimsvaldastefnu í augum margra og iðulega er þeim mótmælt við ýmis tækifæri s.s. við G-8 leiðtogafundina. Ýmsir fræðimenn hafa sömuleiðis gagnrýnt starfshætti þeirra og má þeirra á meðal nefna Noam Chomsky, málvísindamann, og Joseph Stiglitz fyrrverandi aðstoðarbankastjóra Alþjóðabankans. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn. Kort sem sýnir aðildarríki Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn var stofnaður árið 2002 sem varanlegur dómstóll til að meðhöndla sakamál eins og þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyninu, stríðsglæpi og árásarglæpi. Dómstólnum er ætlað að vera viðbót við dómskerfi einstakra ríkja þegar þeir dómstólar eru óhæfir eða óviljugir til að rannsaka slíka glæpi. Dómstóllinn lætur þannig einstökum ríkjum eftir lögsögu yfir meintum glæpamönnum. 104 ríki eiga aðild að dómstólnum sem er með höfuðstöðvar í Hag í Hollandi. Alþjóðabankinn. Meginstarfsemi bankans er í þróunarlöndunum á sviðum mannauðsþróunar (t.d. menntun og heilsa), þróun í landbúnaði, umhverfisvernd og grunnvirki (vegir, rafkerfi o.s.frv.) auk stjórnkerfisþróunar. Það veitir aðildarríkjum lán á hagstæðum vöxtum og styrkir auk þess verkefni í fátækum ríkjum. Þessi lán og styrkir eru gjarnan skilyrt af kröfu um stefnubreytingu í efnahagslífi eða stjórnkerfi viðkomandi lánþega. Þetta hefur leitt til gagnrýni á það að Alþjóðabankinn sé tæki vestrænna ríkja til að þrýsta á þróunarlönd að taka upp efnahagskerfi (markaðshagkerfi) sem henti þróuðu ríkjunum betur. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) var stofnuð 11. desember 1946 til að veita mannúðaraðstoð til barna og foreldra í þróunarlöndunum. Stofnunin er með höfuðstöðvar í New York-borg í Bandaríkjunum. Barnahjálpin reiðir sig á frjáls framlög frá ríkisstjórnum og einkaaðilum. Íslandsdeild Barnahjálpar Sameinuðu þjóðana var stofnuð þann 12. mars 2004 og er sjálfseignarstofnun sem miðar að því að kynna UNICEF og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins á Íslandi og styrkja hin margþættu verkefni UNICEF með fjáröflun. Íslandsdeildin er staðsett á Laugavegi 176, 105 Reykjavík. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (skammstafað IAEA úr enska orðinu "International Atomic Energy Agency") er alþjóðastofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem var stofnuð 29. júlí 1957 til að stuðla að friðsamlegri notkun kjarnorku og koma í veg fyrir notkun hennar í hernaðarlegum tilgangi. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Vínarborg í Austurríki. 1491-1500. Tímabilið 1491–1500 var tíundi áratugur 15. aldar. 1441-1450. Tímabilið 1441-1450 var fimmti áratugur 15. aldar. 1431-1440. Tímabilið 1431–1440 var fjórði áratugur 15. aldar. 1421-1430. Tímabilið 1421–1430 var þriðji áratugur 15. aldar. Bátur. Bátur er farartæki til ferða á vatni. Bátar eru svipaðir og skip en minni. Bátar eru knúnir áfram með vél, árum, seglum, stjökum, spaðahjólum eða vatnsþrýstidælum. Fjörður. Fjörður er lítið hafsvæði eða innsævi við strönd meginlands þar sem ströndin er á þrjár hliðar. Ef ströndin er aðeins á tvær hliðar heitir það vík eða vogur/bugt eða sund. Þar sem norræna orðið hefur verið tekið upp í erlendum málum merkir það aðeins langan, mjóan og djúpan fjörð umlukinn bröttum fjallshlíðum sem jökull hefur sorfið niður. Scoresbysund (fjörður). Scoresbysund (eða Öllumlengri) er lengsti fjörður í heimi, nær 350 km inn í austurströnd Grænlands. Við fjörðinn er bærinn Ittoqqortoormiit (öðru nafni Scoresbysund). Margar eyjar eru á firðinum og er sú stærsta Milne Land. Endakarl. Endakarl (einnig í talmáli: boss) er óvinur í tölvuleik sem er sterkari en venjulegir óvinir. Endakarl er síðasta hindrun sem þarf að yfirstíga til þess að sigra viðkomandi leik. Bowser. Bowser (クッパ, Kuppa, Koopa) er stundum kallaður "Bowser Konungur" (King Bowser)Eða "King Koopa", en heitir fullu nafni Bowser Koopa. Hann ræður yfir verum sem líkjast skjaldbökum og heita Koopa. Hann hefur komið fram í mörgum Mario-leikjum, þar sem hann er vanalega endakarl. Arsenal F.C.. Arsenal er knattspyrnulið í norðvestur hluta Lundúna. Það var stofnað árið 1886 og hét þá "Dial Square" en nafnið breyttist fljótt í "Royal Arsenal" og svo "Woolwich Arsenal". Í upphafi var það aðeins skipað starfsmönnum úr hinni konunglegu hergagnasmiðju sem staðsett var á svæðinu. Fyrsti leikurinn var leikinn við lið sem hét Eastern Wanderers og vann Arsenal þann leik 6-0. Fyrstu skrefin. Þannig hófst í raun saga þessa félags sem er eitt það stærsta í Englandi og var heillengi á árunum fyrir seinna stríð, stærsti klúbbur í heimi. Næsta skref var að skipta um nafn. Liðið hét nú Royal Arsenal. Aðstöðuleysi hindraði þessa stórhuga menn ekki í að halda áfram að spila knattspyrnu. Árið 1891 hafði félagið unnið allar bikarkeppnirnar í London og þar með skotist fram úr eldri liðum á borð við Tottenham og Milwall. En eitthvað vantaði uppá. Stóru liðin að norðan voru enn of sterk fyrir „litla“ Arsenal og það var ekki fyrr en atvinnumennsku var komið á hjá Arsenal að hjólin tóku að snúast af alvöru. Fljótlega voru umsvifin orðin það mikil að liðið varð að eignast leikvang. Fyrsti völlurinn sem Arsenal eignaðist var "Manor Field" við Manor veg og gátu þeir þar byggt stúku sem þeir gátu verið stoltir af En bakslag kom í þetta ferli þegar hin liðin í Norður Englandi sem hingað til höfðu viljað spila við Arsenal tóku nú uppá því að neita að spila við þá. Á þeim tíma var Arsenal eina liðið í suður-Englandi sem hafði tekið upp atvinnumennsku og það fór illa í hin liðin. Enska knattspyrnusambandið snéri líka baki við þeim svo nú urðu þeir að róa á önnur mið. Reynt var að fá stóru liðin fyrir sunnan til þess að stofna deild en þeir vildu það ekki. Nú voru góð ráð dýr. Arsenal sá nú fram á dökka tíma. Þeir þurftu að leggja á sig löng og erfið ferðalög til að fá leiki og aðsókn á Manor Ground sem hingað til hafði verið mjög góð, eða um 12 þúsund manns á leik, fór ört dvínandi. Allt virtist vera á niðurleið þegar Henry Norris kom til bjargar. Sá var formaður Fulham og vildi hann yfirtaka Arsenal og flytja það til Craven Cottage sem var heimavöllur Fulham. Stjórn deildakeppninnar var mótfallinn þessari sameiningu svo nú hófst tími uppbyggingar hjá Norris og félögum. Norris byrjaði á því að kaupa Alf Common sem var fyrsti leikmaðurinn til þess að kosta meira en 100.000 pund en hann breytti litlu og liðið hélt áfram að tapa. Sala á leikmönnum var óumflýjanleg því skuldir félagsins voru háar. Ekki hefur það verið til þess að styrkja liðið og árið 1912 gerðist svo hið umflýjanlega, Arsenal féll í aðra deild eftir að lenda í neðsta sæti 1. deildar. Norris brást skjótt við og leitaði nú um allt að stað fyrir nýjan leikvang fyrir félagið. Norris hafði augastað á svæði í norðurhluta London þar sem Highbury reis svo síðar. Deildarstjórnin tók líka skýrt fram að norður-London væri nægilega stórt svæði fyrir tvö lið, Tottenham og Arsenal. Fyrsti leikurinn á Highbury var spilaður í apríl 1913. Leicester Fosse voru lagðir að velli 2-1. Þá hafði Norris breytt nafninu og nú hét liðið Arsenal. Segja má að Norrris hafi tekið fyrstu skrefin í þá átt að gera Arsenal að því stórveldi sem það var á árunum eftir stríð. Árið 1919 spilaði hann svo loks út stærsta trompinu. Stjórn deildarinnar hafði ákveðið að fjölga um tvö lið í efstu deild. Norris sá að ef Arsenal ætti að lifa af þá yrðu þeir að fá þennan séns. Norris sem nú var kominn með aðalstign og átti sæti á þinginu notaði öll sín áhrif til þess að koma Arsenal á framfæri. Hann benti mönnum á að Arsenal hafði lengi spilað í efstu deild og fannst því að þeir ættu sætið skilið. Það kom svo á daginn að Derby og Preston, tvö efstu lið 2.deildar fengu sitt sæti ásamt Chelsea og þá var komið að því. Hvort yrði það Arsenal eða Tottenham sem hlyti aukasætið? Norris hafði áunnið sér stuðning forseta deildarkeppninnar og hann flutti snjalla ræðu sem varð til þess að Arsenal hreppti hnossið. En lífið brosti ekki við Arsenal. Norris reyndi allt sem hann gat en bág fjárhagsstaða og slakur árangur gerðu illt verra. Takmark Norris um að gera Arsenal að stærsta liði Englands hafði ekki tekist og hann ákvað að segja af sér. Hann auglýsti eftir nýjum framkvæmdarstjóra og sagði svo af sér. En hugsjónir hans höfðu orðið stjórnarmönnum í Arsenal hvatning til að gera betur og næstu ár skyldu verða ár uppbyggingar. Íþróttafélagið Magni. Íþróttafélagið 'Magni' á Grenivík var stofnað árið 1915. Það hefur lengst af leikið í neðri deildum Íslandsmótsins í |knattspyrnu] en vann sér rétt til þátttöku í 2. deild sumarið 2007.Magni lék einnig eitt tímabil, í " næst efstu deild Íslandsmótsins" það var árið 1980, og er það tímabil, það besta í sögu Magna frá Grenivík. Öflugt yngri flokka starf er rekið hjá Magna, og sendir félagið mörg lið til keppni á hverju sumri. Magni Xbox. Xbox er sjöttu kynslóðar leikjatölva sem kom út árið 2001 og er framleidd af hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft. Var hún fyrsta leikjatölvan sem framleidd var eingöngu af Microsoft. Árið 2006 gaf Microsoft út sjöundu kynslóðar leikjatölvu sem nefnist Xbox 360 og var ætlað að vera arftaki Xbox. Margæs. Austræn margæs verpir við strendur á heimskautasvæðum í mið- og vestur-Síberíu og hefur vetursetu í vestur-Evrópu. Margæsin sem er ljós á kvið verpir á Franz Josef Land, Svalbarða, Grænlandi og norðaustur-Kanada og hefur vetursetu í Danmörku, norðaustur-Englandi, Írlandi og Atlantshafsströnd Bandaríkjanna frá Maine til Georgíu. Vestræn margæs verpir í Norðvestur-Kanada, Alaska og Austur-Síberíu og hefur vetursetu aðallega á vesturströnd Norður Ameríku frá suður Alaska til Kaliforníu en einnig í austur Asíu, aðallega í Japan. Búsvæði. Að vetrarlagi voru margæsir til skamms tíma einvörðungu strandfuglar og héldu til við sjó þar sem þær lifðu á marhálmi og þangi en átu einnig þörunga og smádýr. Kjörsvæði margæsa eru grunnir og skjólgóðir firðir og vogar þar sem eru lífríkar leirufjörur. Síðustu áratugi hafa margæsir einnig sótt í nýræktuð tún og ræktarland skammt frá sjó þar sem þær lifa á grasi og vetrarsánu korni. Þetta er hugsanlega hegðun sem margæsir hafa lært af öðrum gæsategundum. Farleið margæsa við Ísland. Margæsir eru alfriðaðar á Íslandi. Þær eru fargestir á Íslandi og hafa hér viðkomu á leið til og frá varpstöðvum sínum í heimsskautahéruðum NA-Kanada. Fyrstu fuglarnir koma frá Írlandi í byrjun apríl og þeim fjölgar jafnt og þétt til 10. maí en þá er hámarki náð. Gæsirnar eru við strendur Faxaflóa og við sunnanverðan Breiðafjörð þangað til þær fljúga á brott síðustu daga maímánaðar. Þær fara héðan um 3000 km leið á varpstöðvar og er algengt að þær fljúgi þá leið í einni lotu á þremur sólarhringum. Leið þeirra liggur yfir Grænlandsjökul í allt að 2400 metra hæð yfir sjó. Þetta flug er mjög erfitt fyrir margæsirnar, þær eru spikfeitar, þær hafa safnað orkuforða og eiga því í erfiðleikum með að ná nógu mikilli flughæð til að komast yfir jökulinn. Margæsir flytja með sér orkuforða af farstöð sinni á Íslandi til varpstöðva. Sú orka nýtist þeim við varp skömmu eftir komu á varpstöðvar. Staðsetning Íslands og milt loftslag gerir skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug mjög hagstæð og ráða miklu um viðgang stofnsins. Grænlandsjökull. Útlínukort af Grænlandi sem sýnir þykkt jökulsins. Grænlandsjökull er íshella sem þekur um 80% af yfirborði Grænlands. Jökullinn er um 2,400 km að lengd frá norðri til suðurs og er breiðastur 1,100 km á breiddargráðu 77° N. Lesa má sögu loftslags hundruð þúsunda ára með kjarnaborunum í Grænlandsjökli. Firring. Firring er hugtak í marxískri hagfræði sem lýsir því ástandi í kapítalísku þjóðfélagi þegar fólk er þvingað til að selja vinnu sína, sem verður þá ekki lengur skapandi starf heldur eingöngu brauðstrit. Búrfell (Þjórsárdal). Búrfell er 669 metra hár móbergstapi í Þjórsárdal. Fjallið hefur myndast undir jökli ísaldar og er annar útvörður Þjórsárdals. Þjórsár rennur austan með fjallinu og við suðurenda þess eru fossarnir Tröllkonuhlaup og Þjófafoss í ánni. Nú hefur Þjórsá verið virkjuð við Búrfell og er svokallað Bjarnalón norðaustan við fjallið. Fallorkan nýtist í Búrfellsvirkjun. Búrfell er bratt á alla kanta, þó síst að norðan en þar liggur vegur upp á topp fjallsins. Þar er endurvarpsstöð fyrir farsíma. Við suðurenda fjallsins er öxl nokkur skógi vaxin og kallast þessi birkiskógur "Búrfellsskógur". Gnúpverja hafa í gegnum aldirnar haft skógarítök í Búrfellsskógi. Kristinn Jónsson, frá Úlfsá í Eyjafirði, sem gekk villu vegar suður Sprengisand árið 1889 fannst í Búrfellsskógi af Skriðufellsbændum sem voru við skógarhögg. Austan í Búrfellshásli er gil eða gróf sem kallast Stórkonugróf og hefur þar fundist leifar fornrar smiðju. Alexander Litvinenko. Alexander Litvinenko (rússneska: Александр Вальтерович Литвиненко, fæddur 30. agust 1962 — látinn 23. nóvember 2006) var undirofursti í rússnesku öryggisþjónustunni FSB. Árið 2000 flutti hann til Bretlands og gerðist breskur ríkisborgari og rithöfundur. Hann gagnrýndi harkalega þáv. forseta Rússlands, Vladímír Pútín. Eitrun. 1. nóvember 2006 veiktist Litvinenko og var lagður inn á spítala í Lundúnum. Þann 19. nóvember 2006 sagði breska dagblaðið "Sunday Times" frá því að það hefði verið eitrað fyrir Litvinenko og að hann lægi þungt haldinn á sjúkrahúsi í London. Þá var sagt frá því að eiturefnið hefði verið þallíum en reyndist síðar verið hið sjaldgæfa geislavirka efni Pólon-210. Eitrunin er sögð hafa átt sér stað á fundi sem Litvinenko átti í sambandi við morðið á Önnu Politkovskaju. Fyrir andlát sitt skrifaði Litvinenko bréf þar sem hann lýsir því að Pútín hafa skipað fyrir eitruninni á honum. Liðagrös. Liðagrös (fræðiheiti: "Alopecurus") er ættkvísl af grasaætt sem hefur 25 tegundir. Liðagrös eru ýmist fjölær eða vetrareinær og mynda þúfur. Þau hafa flöt blöð og slíðurhimnu. Hvassaleitisskóli. Hvassaleitisskóli (á óformlegu talmáli Hvassó) er grunnskóli í hverfinu Hvassaleiti í Reykjavík. Saga. Sumarið 1965 var samþykkt í fræðsluráði Reykjavíkur að hefja skólastarf í Hvassaleitisskóla. Um haustið varð nokkur bið eftir skólahúsnæði og því nutu þær 6 bekkjardeildir sem byrjuðu í skólanum kennslu í Breiðagerðisskóla og Hlíðaskóla. Fyrsti kennsludagur Hvassaleitisskóla hófst þann 12. nóvember 1965 og nemendur voru 164. Á þeim tíma var efri hæð syðra skólahússins aðeins nothæft til kennslu og frágangur var allur til bráðabirgða. Skólinn tók til starfa í 1. áfanga skólans sem er tveggja hæða hús með 8 stofum. Fyrsti foreldradagur í skólanum var 17. febrúar 1966 og taldist þá 1. byggingaráfanga lokið. Haustið 1969 gerðist Finnbogi Jóhannsson yfirkennari við skólann og gegndi því starfi þar til hann varð skólastjóri Fellaskóla sumarið 1973. Pétur Orri Þórðarson var ráðinn yfirkennari í Hvassaleitisskóla, en hann hafði verið kennari í Álftamýrarskóla. Barnapróf var fyrst tekið við skólann árið 1970, en þá lauk 81 nemandi barnaprófi og 476 nemendur voru í skólanum. Annar áfangi skólans var tekinn í notkun haustið 1969 þann 1. október. Þá voru 5 ófullgerðar kennslustofur og kennaraherbergi tekið í notkun. Leikvöllur skólans var malbikaður 29. október 1969. Vorið 1972 var svo fyrst tekið unglingapróf við skólann, en þá voru samtals 584 nemendur í skólanum og af þeim luku 87 nemendur unglingaprófi. Í janúarlok 1994 lét Kristján Sigtryggsson af störfum og Pétur Orri Þórðarson var ráðinn skólastjóri frá 1. febrúar 1994. Ásta Valdimarsdóttir, kennari við skólann, var sett í stöðu aðstoðarskólastjóra frá 1. febrúar 1994 til 31. júlí sama ár. Þórunn Kristinsdóttir var ráðin aðstoðarskólastjóri frá 1. september 1994. Mikael Torfason. Mikael Torfason (f. 8. ágúst 1974) er íslenskur rithöfundur og blaðamaður. Hann vakti fyrst athygli með skáldsögunni "Falskur fugl" sem kom út árið 1997 og var hrá lýsing á unglingum í Grafarvogi í Reykjavík. Eftir það hafa komið út eftir hann þrjár skáldsögur, "Saga af stúlku" (1998), "Heimsins heimskasti pabbi" (2000) og "Samúel" (2002). Árið 2002 leikstýrði hann kvikmyndinni "Gemsar" eftir eigin handriti. Nýjasta skáldsaga hans heitir "Vormenn Íslands" (2009). Kenning. Kenning (e. theory) er safn tengdra fullyrðinga til að skýra eða skilja. Einnig er hægt að skilja hugtakið sem „staðfesta hugmynd okkar um veruleikann og um tengsl milli fyrirbæra“ Kenning er vel rökstudd hugmynd um hvernig eitthvað er (til dæmis líffræðikenning eða sagnfræðikenning) eða hvernig eitthvað eigi að vera (til dæmis siðfræðikenning). Kenning er venjulega talin vera betur rökstudd og traustari en tilgáta, sem segja má að sé upplýst ágiskun. Í raunvísindum er "kenning" tækniheiti yfir tilgátu sem ítrekað hefur staðist raunprófanir og þykir þá lýsa viðfangi sínu vel. Vísindalegar kenningar verða að vera hrekjanlegar, þ.e. skilyrðin sem uppfylla þarf til þess að hrekja kenninguna þurfa að vera tilgreind. Kenning í kveðskap. Kenning í skáldfræðilegum skilningi er þegar eitt er kennt við annað til þess að fá út nýja merkingu. Þá er notast við kennilið (í nefnifalli) og myndlið (í eignarfalli). Dæmi: Skip eyðimerkurinnar. Skip er í nefnifalli og verður þess vegna kenniliðurinn. Eyðimerkurinnar er í eignarfalli og verður þar af leiðandi myndliðurinn. Skip merkir farartæki á sjó en þegar „eyðimerkurinnar“ er bætt aftan við fáum við út nýja merkingu (hér er átt við úlfalda). Fleiri dæmi geta verið: Glyt Gnitaheiðar (Gull) geira gnýr (orrusta) eða nemandans lifibrauð (námsbækur) Hellsing (manga). Hellsing er manga og anime sem er samið og að mestum hluta teiknað af Kouta Hirano. Serían hóf göngu sína árið 1997 og er enn gefin út í blaðinu Young King Ours í Japan. 13 þátta sjónvarpssería sem Studio GONZO gerði árið 2001, og ný OVA sería er í vinnslu og á hún að vera samkvæmari myndasögunni en fyrsta sjónvarpsserían. Fyrsta serían var sýnd á Fuji sjónvarpsstöðinni í Japan frá 10. október 2001 til 16. janúar 2002 og sýnd á stöðinni Starz! Encore Action í Bandaríkjunum frá 4. október 2003 til 27. desember 2003. OVA serían er framleidd af Genon Entertainment og hreyfimyndastúdíóinu Satelight. Enska útgáfan af manganu er gefin út af Dark Horse, franska útgáfan er gefin út af Edition Tonkam, þýska útgáfan er gefin út af Planet Manga, spánska útgáfan er gefin út af Norma og pólska útgáfan er gefin út af J.P. Fantastica. Nöfn persónanna. Alucard og Andersson há einvígi. Nafnið Hellsing er komið frá persónu sem hét svipuðu nafni í sögunni "Dracula" eftir Bram Stoker, Abraham Van Helsing. Leiðtogi Hellsing stofnunarinnar, Sir Integra Fairbrook Wingates Hellsing er barnabarn Abrahams. Aðal karlkyns söguhetjan gengur undir nafninu Alucard, og er hann vampíra sem notast við tvær byssur, Jackal og Hyde. Það er oft gefið í skyn í gegnum söguna að hann sé Dracula og kemur það endanlega fram í öðrum kafla í 8. bók. Alucard nefnir í 9. kafla að nafnið hans sé stafarugl, sem er satt: það er einfaldlega Dracula skrifað afturábak. Það er nokkuð ósætti meðal aðdáenda hvernig nafn hans skuli ritað. Nafnið hans er skrifað アーカード í upphaflegu japönsku efni og er það lesið sem "ākādo", en vegna þess að japanir nota vanalega langt 'a' til að tákna 'r' (sjá "dokutā" sem er lesið "dok'uter" og er tekið úr enska orðinu "doctor") þá myndi "ākādo" vísa til enska orðsins "Arcard". Einnig er hægt að réttlæta það að "Alucard" sé notað útaf stafaruglinu á "Dracula", en "Alucard" væri vanalega lesið sem "arukādo" á japönsku. Stafsetningin „Arucard“ er líklega byggð á órétta nafninu "arukādo". Vegna þess að mismunandi hópar fólks gáfu út Hellsing "fansub" (þar sem aðdáendur þýða bækur eða myndir) áður en rétturinn til að gefa Hellsing út rann til einhvers utan Japans, hafa allar þrjár ritanirnar verið notaðar af aðdáendum. Eitt af aðal vandamálunum er það að japanskt tungumál gerir ekki greinarmun á 'r' og 'l' (sjá "london" og "rondon") og veldur þetta breytingum í þessu og öðrum nöfnum. 'Alucard' hinsvegar var notað sem viðurkennd stafsetning í þýðingu Hellsings (manga), á meðan viðurkennda stafsetningin í þýðingu Hellsing (anime) var 'Arucard'. Rétt stafsetning væri "Alucard" ef stafaruglið á að virka. Alucard. Aðal söguhetjan er vampíra. Alucard er öflugasta vopn og hermaður Hellsing stofnunarinnar og er notaður sem tromp hennar. Hann er ekki bara vampíra heldur er hann einnig ævaforn, og nær 'líf' hans aftur til miðalda, eða til um 1400. Hann býr yfir ofurmannlegum kröftum og er góð skytta. Ofurmannlegir kraftar hans leyfa honum að notast við byssur sem engar mannverur gætu ráðið við. Það hefur oft verið gefið til kynna að hann sé Drakúla og í 8. bók kom það loks fram að það er satt. Integral Hellsing. Yfirmaður Alucards og æðsta vald Hellsing stofnunarinnar. Hún hefur tengst Alucard alveg frá dauða föður síns þegar hún var 13 að aldri, þegar hún vakti hann frá svefni sínum í kjallara Hellsing setursins. Hún er ein af fáum manneskjum sem geta staðið upp á móti Alucard. Original Animation Video. Original Video Animation (japanska: オリジナル・ビデオ・アニメーション, orijinaru bideo animēshon- íslenska: upprunlegt hreyfimyndband), oft stytt yfir í OVA (オーブイエー, Ōbuiē) er hugtak notað í Japan yfir anime sem er gefið út beint til sölu, án þess að vera fyrst sýnt í sjónvarpi eða í bíói. Upphaflega voru OVA titlar gefnir út á VHS, en nú til dags eru þeir gefnir út á mynddiskum. Upphaflega var OAV (sem stendur fyrir "Original Animation Video") var notað í stað OVA og þýðir það sama, en OAV er of líkt hugtakinu AV ("Adult Video" eða dónamyndband), sem olli misskilningi meðal kaupenda, sem varð til að þessu var skipt yfir í OVA. Hellsing (þættir). "Hellsing" eru japanskir anime-þættir byggðir á japanska manga titlinum Hellsing eftir Kouta Hirano. Margir töldu að sjónvarpsþáttaröðin fylgdi söguþræði Hellsings ekki nægilega vel, þannig að gerð var Hellsing OVA sería. Alucard (Hellsing). Alucard (japanska: アーカード, Ākādo) er persóna úr japönsku anime og manga teiknimyndaseríunni "Hellsing". Hann var skapaður af Kouta Hirano. Alucard er aðalsöguhetja japönsku Manga seríunar "Hellsing" og líka einn af máttugustu stríðsmönnum Hellsings. Það kemur fram seint í seríunni að Alucard er greifinn Dracula. Storkuberg. Storkuberg (basalt), ljósu rákirnar sýna rennslisátt Storkuberg er bergtegund, sem myndast þegar bergkvika, sem á upptök í möttli jarðar, storknar. Storkuberg skiptist í gosberg, gangberg og djúpberg. Storkuberg er algengasta bergtegundin í jarðskorpunni, einkum á hafsbotninum þar sem stöðugt flæðir upp kvika á flekaskilum. Ástæða þessa kvikuuppsstreymis er klofnun geislavirkra efna djúpt niðri í möttli sem veldur varmamyndun. Þennan varma þarf jörðin að losa sig við og gerir það m.a. með því að senda heitt, bráðið berg upp á yfirborð þar sem það kólnar og varminn hverfur út í andrúmsloftið. Basalt. Basalt er basískt storkuberg (gosberg) samansett af plagíóklasi, ólivíni, pýroxeni og seguljárnsteins-steindum. Gjarnan er í því einnig basaltgler. Basalt er með kísilsýru innan við 52%. Grunnmassi. Helstu steindirnar eru plagíóklas-feldspat, 40-50% bergsins; pýroxen, 40-50% og málmsteindir einsog oxíð af járni og títani. Fyrir utan þessar steindir þá er gríðarlegt magn af ólivíni. Dílar. Dílar af plagíóklas-feldspati, ólivíni og pýroxen eru algengir í basalti. Það sem einkennir díla er að þeir sökkva niður í basaltbráð, bæði í hraunum sem bólstrum. Á þetta aðallega við dökku dílana en líka feldspatdíla sem oftast eru kalsíumríkir og eðlisþyngri en móðurkvikan. Uppruni og Útbreiðsla. Berggrunnur Íslands er að meirihluta til úr basalti og um 70% af heildaryfirborði jarðar er talið vera basalt enda myndar það víðast hvar botn úthafanna. Basalt myndast í eldgosum bæði ofansjávar og neðan og sem innskotsberg í jarðskorpunni. Jón Magnússon þumlungur. Jón Magnússon (1610 – 1696) var prestssonur frá Auðkúlu í Svínadal. Hann missti móður sína ungur og var þá tekinn í fóstur af Oddi Einarssyni biskupi í Skálholti. Hann hefur því vafalítið hlotið betri menntun en almennt gerðist. Jón tók prestvígslu að loknu námi og þjónaði lengst af Eyri við Skutulsfjörð (þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður). Þar veiktist hann af ókennilegum sjúkdómi árið 1655 og þjáðist mjög á sál og líkama. Árið áður höfðu þrír menn verið brenndir fyrir galdra í Trékyllisvík á Ströndum og þar með komst skriður á galdramál hér á landi. Jón taldi að sjúkdómur sinn stafaði af göldrum og fékk feðga sem bjuggu á Kirkjubóli, Jón Jónsson eldri og Jón Jónsson yngri, brennda á báli fyrir galdra árið 1656. Játuðu þeir að hafa fengist við kukl. Sjúkdómurinn stilltist þó lítt og reyndi Jón þá að fá Þuríði dóttur Jóns eldra á Kirkjubóli dæmda fyrir galdur, en hún var sýknuð. "Píslarsaga séra Jóns Magnússonar" er varnarrit sem hann skrifaði vegna þess að Þuríður Jónsdóttir kærði hann fyrir að hafa borið sig röngum sökum og ofsóknir. Jón samdi Píslarsöguna árin 1658-1659. 1481-1490. 1481-1490 er níundi áratugur 15. aldar. 1471-1480. 1471-1480 er áttundi áratugur 15. aldar. 1461-1470. 1461-1470 er sjötti áratugur 15. aldar. Mormónsbók. "Mormónsbók" er trúarrit meðal mormóna. Bókin var gefin út 1830 af Joseph Smith, stofnanda mormónatrúar. Hægt að nálgast bókina á íslensku á www.kirkjajesukrists.is. Tilkoma bókarinnar. Í mormónstrú er því trúað að eftir að engill hafi birst Smith og sagt honum frá því hvar gulltöflur nokkrar væru faldar í jörðu hafi Smith náð í töflurnar og lesið þær með hjálp sérstakra gleraugna og þýtt texta þeirra yfir á ensku. Eftir að Smith hafi lokið þýðingunni birtist honum engillinn á ný og engillinn tók gulltöflurnar með sér. Textann gaf Smith út í "Mormónsbók". Vandalar. Vandalar voru germönsk þjóðflutningaþjóð sem stofnaði ríki í Norður-Afríku og eyjum Miðjarðarhafs. Ríki þeirra stóð frá 429 til 534. Löngu eftir þeirra dag voru skemmdarvargar í frönsku stjórnarbyltingunni kallaðir vandalar (franska: "vandales") eftir þeim og hefur orðið síðan fengið merkinguna skemmdarvargur í mörgum tungumálum. Héraðið (V)Andalúsía á Spáni er af sumum einnig talin heita í höfuðið á þeim en þar áttu þeir konungsríki um nokkurt skeið. Tungumál þeirra er venjulega talið austurgermanst eins og mál Gota og Roga. Þessi mál höfðu venjulega ekki ákveðinn greini. Aðventa. Aðventukrans með kveikt á tveimur kertum fyrir annan sunnudag í aðventu. Aðventa (úr latínu: "Adventus" - „koman“ eða „sá sem kemur“) er í Kristni fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag. Ef jóladag ber upp á sunnudegi verður hann fjórði sunnudagurinn í aðventu. Latneska orðið "adventus" er þýðing á gríska orðinu "parousia", sem almennt vísar til "Endurkomu Krists". Fyrir kristna, skiptist aðventu því í annarsvegar eftivæntingu eftir fæðingarhátíð Krists, Jólunum, og hinsvegar endurkomu Krists. Hefðir og venjur. Fyrsti sunnudagur í aðventu er jafnframt fyrsti dagur nýs kirkjuárs í Vesturkirkjunni sem getur verið frá 27. nóvember til 3. desember (í Austurkirkjunni hefst kirkjuárið 1. september). Í mörgum löndum er haldið upp á aðventuna með aðventukrönsum sem bera fjögur kerti, eitt fyrir hvern sunnudag aðventunnar. Á síðari árum hefur líka orðið algengt að kveikja á aðventustjökum frá fyrsta sunnudegi í aðventu. Aðventan fellur að hluta til saman við jólaföstu sem í Austurkirkjunni hefst 15. nóvember (sem jafngildir 28. nóvember í gregoríska tímatalinu) en annars staðar á þeim sunnudegi sem næstur er Andrésarmessu 30. nóvember og stendur til jóla. Vesturkirkjan. Vesturkirkjan er kristin kirkja á Vesturlöndum sem rekur uppruna sinn til klofningsins mikla árið 1054 sem skildi milli hennar og Austurkirkjunnar. Meðal kirkjudeilda í Vesturkirkjunni eru kaþólska kirkjan, biskupakirkjan og mótmælendakirkjurnar. Vestrænar kirkjur sjást á efri hluta þessarar teikningar Vesturland. Kort af Íslandi sem sýnir Vesturland litað rautt. Vesturland er landshluti á Íslandi sem venjulega er sagður ná frá Gilsfirði og Holtavörðuheiði í norðri og norðaustri að Hvalfirði í suðri. Vesturland nær þannig yfir Dalina, Snæfellsnes, Mýrar og Borgarfjörð auk Hvalfjarðar að Botnsdal. Úti fyrir Vesturlandi eru tveir stórir flóar; Breiðafjörður og Faxaflói og liggur Snæfellsnes á milli þeirra. Norðan við Gilsfjörð eru Vestfirðir og norðaustan við Holtavörðuheiði tekur Norðurland vestra við. Sunnan Hvalfjarðar taka við Höfuðborgarsvæðið og Suðvesturland. Mörk Vesturlands miðast að hluta við mörk hins gamla Vestfirðingafjórðungs sem lágu um Hrútafjarðará í norðaustri, þar sem Norðlendingafjórðungur tók við, og Borgarfjörð fyrst (fram á 13. öld) og Hvalfjörð síðan í suðri þar sem Sunnlendingafjórðungur tók við. Frá 1959 og til 2003 var Vesturland Vesturlandskjördæmi en síðan 2003 er það hluti af Norðvesturkjördæmi. Marc Ravalomanana. Marc Ravalomanana (fæddur 12. desember 1949) var forseti Madagaskar (2002 – 2009). Hann stofnaði Tiko, sem nú er stærsta mjólkurfyrirtæki landsins. Árið 1999 varð hann borgarstjóri höfuðborgarinnar Antananarívó og bauð sig fram til forseta í kosningunum 2001. Ravalomanana, Marc Hryðjuverkin 11. september 2001. World Trade Center turnarnir í ljósum logum þann 11. september 2001 eftir að farþegaþotum hafði verið flogið á þá. Stór dökkgrár reykjarmökkur liggur frá toppi turnanna. Hryðjuverkin 11. september 2001 voru umfangsmiklar hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum þriðjudaginn 11. september 2001, sem skipulögð voru og framkvæmd af Osama Bin Laden. Þennan dag var fjórum farþegaþotum rænt á flugi yfir austurstönd Bandaríkjanna, tveimur þeirra flogið á World Trade Center tvíburaturnana í New York, einni flogið á Pentagon-bygginguna í Arlington-sýslu í Virginíu og ein hrapaði í Somerset-sýslu í Pennsylvaníu eftir átök um borð milli farþega og flugliða við hryðjuverkamennina. Báðir turnar World Trade Center hrundu til grunna og miklar skemmdir urðu bæði á nærliggjandi byggingum og á Pentagon. Auk hryðjuverkamannanna 19 létu 2973 lífið í árásunum. Árásirnar höfðu mikil áhrif á alþjóðasamfélagið. Eftir þær hófu Bandaríkjamenn "stríðið gegn hryðjuverkum", réðust inn í Afganistan og steyptu þar talíbanastjórninni úr stóli og tveimur árum seinna í Írak. Kouta Hirano. Kouta Hirano, á Anime Expo 2005. Kouta Hirano (平野耕太, Hirano Kōta) fæddur 14. júlí árið 1973 er mangaka sem fæddur er í Adachi-ku, Tokyo, Japan, sem er frægastur fyrir mangað sitt "Hellsing". Nafn. Nafn Hiranos er vanalega umritað sem "Kouta Hirano". Hinsvegar er það öðru hverju umritað sem Kohta Hirano (t.d. á kápunni á útgáfu Dark Horse á Hellsing). Leppalúði. Leppalúði er þriðji eiginmaður Grýlu og saman eiga þau hina alræmdu jólasveina sem koma til byggða um jólin. Leppalúði er óskaplegt letiblóð og fara ekki sögur af honum öðruvísi en bíðandi eftir að Grýla færi honum mat í helli þeirra í fjöllunum. Hōryū-ji. „Gullskálinn“, "Kondo", í Hōryū-ji er eitt elsta timburhús heims. Hōryū-ji (法隆寺, bókst. "Hof blómstrandi lögmáls") er búddískt hof í Ikaruga, Naraumdæmi í Japan. Fullt nafn hofsins er "Hōryū Gakumonji" (法隆学問寺) eða "Lærdómshof blómstrandi lögmáls" þar sem staðurinn gegnir hlutverki málstofu auk þess að vera klaustur. Hofið er þekkt fyrir að geyma elstu timburbyggingar heims. Þótt til séu eldri hof er Hōryū-ji það frægasta í Japan. Árið 1993 var staðurinn settur á heimsminjaskrá UNESCO og hefur verið skilgreindur sem þjóðargersemi af japönskum stjórnvöldum. Aðfangadagur. Aðfangadagur eða Aðfangadagur jóla (sem á sér gömul samheiti eins og affangadagur eða tilfangadagur) er hátíðardagur í kristinni trú. Orðið aðfangadagur mun að líkindum vera þýðing á gríska orðinu parasceve (undirbúningur) sem notað var um daginn fyrir páskahelgina, þ. e. föstudaginn langa. En er núorðið eiginlega aðeins haft um 24. desember en það er dagurinn fyrir jóladag og því nefndur svo. Aðfangadagur páska og aðfangadagur hvítasunnu voru einnig áður fyrr nöfn á laugardögunum fyrir þessa helgidaga. Samkvæmt hátíðadagatali Íslensku þjóðkirkjunnar er Aðfangadagur jóla ekki sérstakur hátíðisdagur. Hann markar lok aðventu eða jólaföstu og kl. 18.00 hefst jóladagur. Ástæðan fyrir þessu er, að í stað þess að miða upphaf dags við sólarlag, eins og Gyðingar, fastsettu kristnir menn upphaf daga við miðjan aftan og lifir það í hátíðadagatalinu. Íslendingar fylgja þessu enn hvað jólin snertir. Aðfangadagur á Íslandi. Íslendingar fagna aðfangadegi með sínum hætti og eru siðirnir æði mismunandi eftir fjölskyldum. Hjá flestum er þó mikið lagt upp úr góðum kvöldverði, gjafir opnaðar eftir klukkan sex og síðan fara margir til miðnæturmessu. Árið 2010 framkvæmdi könnun sem sýndi helstu venjur og siði og hve margir tækju þátt í þeim. Þar kom meðal annars fram að 98% landsmanna gefa jólagjafir. Menn gefa ekki bara sínum nánustu gjafir því 70% af fullorðnum íslendingum styrkja góð málefni fyrir eða um jólin. Þar kemur líka í ljós að þeir eldri eru gjafmildari en þeir yngri. Mikill áhugi er á jólaljósum og jólaskrauti en yfir 90% heimila eru skreytt með slíku. Og varðandi jólatrén, þá eru 40% heimila með lifandi jólatré, en 12% heimila með ekkert tré. Um þriðjungur Íslendinga sækir guðsþjónustu um jólin, eldra fólk oftar en það yngra. Eins sækja fleiri íbúar landsbyggðarinnar messur, eða 41% en 30% íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Það var alkunnur siður á Íslandi áður fyrr að húsfreyjan gekk í kringum bæinn á aðfangadagskvöld og mælti þessi orð: „Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu“. Jóladagur. Jóladagur er hátíðisdagur á jólunum, þann 25. desember. Að kristnum sið er haldið upp á fæðingu Jesú, sem sagður er hafa verið uppi á 1. öld og kristnir menn trúa hafa verið sonur og holdgervingur guðsins Jahve. Í flestum vestrænum löndum skiptist fólk á gjöfum og sumir fara í messu. Brandajól. Á Íslandi er það kallað "Brandajól" þegar jóladag ber upp á mánudag þannig að fjórir helgidagar komi í röð, það er "aðfangadagur" á "sunnudegi" (en samkvæmt hinni kirkjulegu helgi hefst hún ekki fyrr en á miðjum aftni (kl. 18) á aðfangadag) "jóladagur", "annar í jólum" og áður fyrr "þriðji í jólum" sem var helgur dagur uns með konungsskipun frá danakonungi hann var afhelgaður og þar með lagður niður sem almennur frídagur ásamt "þrettándanum" og "þriðja í Hvítasunnu" sem dæmi, árið 1770. Stundum er talað um stóru brandajól og litlu brandajól en menn greinir mjög á um hvernig þau séu skilgreind. Serj Tankian. Serj Tankian á sviði með hljómsveitinni System of a Down Serj Tankian (fæddur 21. ágúst 1967) er bandarískur tónlistarmaður af armenskum uppruna og jafnframt söngvari hljómsveitarinnar System of a Down. Ævisaga. Tankian er fæddur í Beirút 21. ágúst 1967, en við 5 ára aldur fluttist hann með foreldrum sínum til Los Angeles í Bandaríkjunum. Þar lagði hann stund á söng- og gítarnám. Eftir að hafa lokið framhaldsskóla lærði hann markaðsfræði. Árið 1993 stofnaði hann hljómsveitina "Soil" ásamt Daron Malakian félaga sínum. Tveimur árum síðar liðaðist Soil í sundur, þannig að þeir fengu Shavo Odadjian og Andy Khachaturian til liðs við sig og úr varð System of a Down. Serj Tankian á eigið útgáfufyrirtæki sem hann kallar Serjical Strike og gefur út tónlist þeirra hljómsveita sem ekki falla undir "mainstream" skilgreininguna. Serjical Strike var stofnað í apríl 2001. Hljómsveitir sem hafa verið gefnar út af fyrirtækinu eru meðal annars "Bad Acid Trip", "Kittens for Christian", "Slow Motion Reign" og "Fair to Midland", en fyrsta verkið sem var gefið út var samstarfsverkefni Tankian og vinar hans, Arto Tunçboyaçiyan, og nefnist "Serart". Tankian er afar pólistískur en þeir Tom Morello, gítarleikari Audioslave, stofnuðu saman stjórnmálaaflið "Axis of Justice" (ísl: "Öxull réttlætis"). Lítið er vitað um einkalíf Tankians en þó er ljóst að hann er grænmetisæta og hefur yndi af ljóðlist. Hann hefur sjálfur gefið út bókina "Cool Gardens" sem inniheldur ljóðlist hans og hlaut hún mikið lof gagnrýnenda. Young King OURs. "Young King OURs" (ヤングキングアワーズ) er mánaðarlegt manga tímarit- gefið út í Japan af Shonen Gahosha, sem er aðalega miðað til karlkyns lesandahóps, og þó aðalega eldri unglingum. Millennium (Hellsing). Millennium (enska. árþúsund) er uppdiktuð stofnun úr manga seríunni "Hellsing", sem er skrifuð af Kouta Hirano. Millennium-stofnunin er Nasistastofnun, en heiti hennar "Millennium" vísar til "þúsundáraríkisins" sem Adolf Hitler vildi stofna. Eftir að stríðinu lauk dró þessi dularfulli hópur saman auð sinn og fluttist með aðstoð Vatíkansins til Brasilíu og fór þar í felur. Eftir víðtækar rannsóknir fann Millennium-stofnunin upp aðferð til að breyta fólki í vampírur með áður óþekktum hætti (þó gefið sé í skyn að til þess þurfi viðkomandi að gangast undir skurðaðgerð), og fylgist síðan náið með þeim í gegnum tölvukubba. Saga. Millennium var stofnað fyrir enda Seinni heimsstyrjaldarinnar, skv. sérstakri beiðni Hitlers númer 666, til að rannsaka og nota ofurnáttúruleg fyrirbæri hernaðarlega. Árið 1944 var verkefni þeirra að skapa vampíruher eyðilagt af hinum 14 ára Walter C. Dornez og samstarfsmanni hans Alucards (sem hafði tekið á sér form ungrar stúlku). Í núverandi söguþræðinum (sem gerist árið 1999) hafa allir sem að verkefninu stóðu verið drepnir og ummerki um tilraunirnar eyðilagðar. Eftir framgöngu Dornez hóf Millennium að huga að flótta. Fyrir lok árs 1944 höfðu flestir meðlimir flúið til Suður Ameríku, og tekið með sér liðsdeild 1.000 Waffen SS sjálfboðaliða. Hún var þekkt undir nafninu "Letztes Bataillon" sem mætti þýða sem hin "hinsta liðsdeild" eða "loka liðsdeildin". E3. E³ eða Electronic Entertainment Expo er tölvuleikjaráðstefna þar sem leikjahönnuðir kynna tölvuleikina sína. Það er aðeins opið fyrir fréttamenn, leikjasérfræðinga og boðsgestum eins og fræga fólkið. Árið 2007 mun aðeins vera opið fyrir þá sem er boðið, sem þýðir að í staðinn fyrir um 60,000 manns koma aðeins 5,000. E³ var áður haldið í þriðju viku maí á hverju ári í Los Angeles Convention Center (LACC) í Los Angeles. Árið 2007 mun sýningin verða haldin í Santa Monica í Kalíforníu frá 11. júlí til 13. júlí. Sýningin var haldin í Atlanta í tvö ár um árið 1990. ESA sögðu að yfir 70,000 hefðu komið á sýninguna árið 2005. Margir leikjahönnuðir sýna leikina sína og leikja tengdann varning. Game Critics Awards verðlaunin hafa verið gefin til besta leiksins á E³ síðan 1998. Hómer Simpson. Homer Simpson er persóna úr Simpsonfjölskyldunni. Kona hans heitir Marge, sonur hans Bart og hann á dæturnar Lisu og Maggie. Homer býr í bænum Springfield og vinnur í kjarnorkuveri bæjarins, þó hann taki raunar oft að sér ýmis önnur störf í skemmri tíma. D'oh! D'oh! (borið fram "dó!") er einkennisorð Hómers. Hómer lætur þessa upphrópun út úr sér ef honum mistekst eitthvað eða áttar sig á því að honum hefur orðið á. Upphaflega í Tracy Ulmann-skrítlunum skrifaði Matt Groening, höfundur Simpson-þáttanna, „Annoyed Grunt“ og þegar Dan Castellaneta, sá sem er raddgjafi Hómers, spurði Matt hvernig það ætti að bera það fram, svaraði Matt að það mætti vera hvað sem honum þætti best. Dan vildi nota „dooh“ (borið fram „dúúh“) sem Jimmy Finlayson sagði oft í Laurel og Hardy-myndunum en Matt bað hann að stytta þetta þar eð þetta væri teiknimynd, þannig að útkoman varð sú að hann sagði „D'oh“! Margar persónur þáttanna, aðrar en Hómer, hafa sagt „D'oh“ s.s. Bart, afinn, Krusty, Lísa, Marge og meira að segja persóna sem líktist Michael Caine. Það gerðist í þættinum Burns' Heir þegar Burns réð leikara til að plata Bart til að hann „sæi“ að fjölskylda hans saknaði hans ekki. „D'oh“ kemur fram sem uppflettiorð í "Webster's Millennium Dictionary of English" og "Oxford English Dictionary". Á þýsku segir Hómer „Nein!“ sem þýðir nei. Tim Burton. Tim William Burton (fæddur 25. ágúst 1958 í Burbank í Kaliforníu) er bandarískur leikstjóri sem gerir oft myndir í gothneskum stíl. Vísitala atvinnufrelsis. Vísitala atvinnufrelsis (e. Index of Economic Freedom) er vísitala, sem nokkrir hagfræðingar undir forystu Miltons Friedmans og James Gwartneys hafa smíðað til að mæla atvinnufrelsi í ólíkum löndum. Að verkinu stendur fjöldi rannsóknastofnana um heim allan undir forystu Fraser Institute í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada. Smám saman hafa höfundar vísitölunnar endurbætt mælinguna og fært hana út. Vísitalan var síðast gefin út 2006 og þá unnið úr tölum frá 2004. Á Íslandi sér Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, um söfnun upplýsinga og kynningu á vísitölunni. Samsetning. Vísitala atvinnufrelsis er sett saman úr mælingum á fimm sviðum: 1) umfangi ríkisins, 2) réttaröryggi og friðhelgi eignarréttar, 3) aðgangi að traustum peningum, 4) frelsi til alþjóðlegra viðskipta, 5) reglum um lánamarkað, vinnumarkað og rekstur fyrirtækja. Gefin eru stig frá 0 upp í 10. Helstu niðurstöður. Atvinnulíf er ófrjálsast í Simbabve, Myanmar (Búrma), Vestur-Kongó, Austur-Kongó, Venesúela, Gíneu-Bissá, Alsír, Búrúndí, Rúanda og Miðafríkulýðveldinu. Tölur eru þó ekki tiltækar um nokkur önnur lönd, sem sennilega búa við mjög mikið ófrelsi í atvinnumálum, svo sem Norður-Kóreu og Kúbu. Atvinnufrelsi á Íslandi. Sennilega hefur atvinnufrelsi aukist enn meir síðan, m. a. vegna skattalækkana og einkavæðingar ríkisfyrirtækja á 10. áratug 20. aldar. Samband atvinnufrelsis og lífskjara. Sterkt samband kemur við þessa mælingu í ljós milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara almennings. Sigurður Pétursson (1759-1827). Sigurður Pétursson (26. apríl 1759 – 6. apríl 1827) var sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, bæjarfógeti í Reykjavík, skáld og leikskáld. Hans er einna helst minnst fyrir leikritin "Narfa" eða "Hinn narraktuga biðil" (frumflutt 28. janúar 1789) og "Hrólf" eða "Slaður og trúgirni" (frumflutt 5. desember 1796), sem hann samdi bæði fyrir Herranótt skólapilta í Hólavallarskóla. Bæði leikritin eru undir áhrifum frá leikritum Holbergs sem Sigurður hafði kynnst á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Stundum er talað um að Sigurður sé höfundur fyrstu íslensku leikritanna, en fyrsta leikritið sem leikið var hér á landi hefur líklega verið "Bjarglaunin" eða "Brandur" eftir Geir Vídalín biskup. Leikrit Sigurðar voru þó fyrstu leikritin sem náðu vinsældum og voru oft sett upp á 18. og 19. öld þannig að venja er að kalla Sigurð „föður íslenskrar leikritunar“. Árið 1803 sagði hann sig frá sýslumanns- og bæjarfógetaembættinu vegna heilsubrests. 1399. a> (Jadwiga) af Anjou bar titilinn konungur Póllands en ekki drottning. 1390. Róbert 3. Skotakonungur og Annabella drottning. 1386. a> bar eftir að hann fór að gera kröfu til ríkis í Kastilíu og Leon (kastalar og ljón). Digimon. Digimon (jap. デジモン dejimon) er japönsk sería sem inniheldur anime þáttaraðir, tölvuleiki, leikföng, TCG spil, manga bækur og fleira. Ekkert þeirra birtist á íslensku. Digimonar eru skepnur sem lifa í heimi sem hefur þróast í gagnaflutningakerfum jarðarinnar. Þegar þessi stafræni heimur er í hættu þurfu kosnu börnin (chosen children) að bjarga honum. Digimon er að stórum hluta byggt á goðsögnum og slíku. Meðal annars er tekið úr austurlenskum trúarbrögðum, kristinni trú og smávegis úr norrænu goðafræðinni. Stafrænt gæludýr. Upprunalega var Digimon einungis stafrænt gæludýr. Það var framleitt af Bandai, þeir sömu og gerðu Tamagotchi. Anime myndir. Margar myndir um Digimon komu út í Japan, en birtust nokkrar þeirra ekki í vestræna heiminum. Einnig birtist í Bandaríkjunum mynd, sem er samansett af fyrstu þremur japönskum myndunum. Anime seríur. Sex seríur (Digimon Adventure, Digimon Adventure 02, Digimon Tamers, Digimon Frontier, Digimon Savers og Digimon Xros Wars) komu út milli 1999 og 2010. TCG. Fyrir hvern digimona, sem birtist í þáttunum, myndunum, leikjunum og myndasögunum, er til að minnsta kosti eitt spil. Langflestir eru þó með mörg spil. Margir digimonar birtast sem spil, sem hafa ekki birst annars staðar. Til eru fleiri reglur en ein, þó eru þær dæmigerðar TCG reglur. Tilgangurinn er að láta hinn/hina leikmanninn/leikmennina fá ákveðinn fjölda af mínus stigum. Hver leikmaður byrjar með ákveðinn fjölda af spilum, sem hann dregur af stokknum sínum. Spilin, sem til eru, eru digimona spil, sem notaðar eru til að ráðast á andstæðingana og framkvæmdarspil, sem geta til dæmis gert árás digimonanna sterkari eða látið þá þróast. Á borðinu eru tvær raðir. Sú nærri hjá leikmanninum er til að láta digimonana þróast og hin til að láta digimonana berjast. Hver umferð hefur fleiri lotur, ein til að senda út digimona og ein til að ráðast á og svo framvegis. Ef allir andstæðingar hafa fengið ákveðið magn af mínus stigum er leiknum lokið. Goðsagnir. Höfundar Digimon notast mikið við táknfræði og goðsagnir til að byggja upp sögurnar. Tákn eins og litir, frumefni eða eiginleikar eru notuð í öllum seríunum og myndum. Til dæmis er aðal digimoninn í fyrstu þáttaröðinni gulur, í annarri blár og í þriðju þáttaröðinni rauður, sem eru grunnlitirnir. Einnig eru skjaldamerkin í fyrstu seríunni upprunalega sjö, eins mörg og skjaldamerki áranna sjö. Goðsagnir margra trúarbragða eru notuð í Digimon. Til dæmis úr kaþólsku trúnni eru teknar dauðasyndirnar sjö og er hver tengd við illan digimona. Heilagar skepnur úr kínversku stjörnufræðinni eru notaðar sem vættir stafræna heimsins. Þjónar þeirra digimona kallast Deva. Þeir eru byggðir á guðum í hindúisma og jaínisma og eru þeir líka til í búddisma, þó að þar séu þeir ekki guðir. Þeir eru góðir fyrir nokkra, en illir fyrir aðra. Í norrænum sögnum er Yggdrasil kjarni jarðar og lífsins tré. Í Digimon ber aðaltölvan sama nafnið því að hún var kjarni stafræna heimsins og gaf digimonunum líf. Einnig hefur Blitzmon árás, sem heitir "Mjölnir Thunder". (henni var þýtt á þýsku sem "hamar Þórs") Doujin. Það birtist mikið af Digimon "fanart", "fanfiction", "fancomics" og fleira undanfarin ár. Sérstaklega á netinu er hægt að finna mikið efni tengd Digimon. Stórhluti efnisins er á japönsku, en þó er líka hægt að finna eitthvað á ensku, þýsku, frönsku, hollensku, spænsku og fleiri málum. Sýru-basa hvarf. formula_1, þar sem formula_2 er misstór efnahópur. Sýra-basa hvörf samkvæmt skilgreiningu Brönsteds. Brønsted skilgreinir "sýru" þannig að hún gefur frá sér jákvætt hlaðnar vetnisjónir, H+, en "basar" taka við jákvætt hlöðnum vetnisjónum. Í þessu dæmi hefur ammoníakið (NH3) tekið við einni jákvætt hlaðinni vetnisjón af vetnisklóríðinu (HCl) og er því í hlutverki basans og vetnisklóríðið hefur gefið frá sér eina jákvætt hlaðna vetnisjón og er því í hlutverki sýrunnar. Daron Malakian. Daron Vartan Malakian (fæddur 18. júlí 1975) er bandarískur tónlistarmaður af armenskum uppruna. Hann er gítarleikari þungarokkssveitarinnar System of a Down. Malakian hefur samið og útsett bróðurpart tónlistar sveitarinnar og í seinni tíð einnig tekið þátt í textasmíðum. Ævisaga. Malakian er einbirni hjónanna Vartan og Zepur Malakian, en þau fluttu frá Írak til Hollywood árið sem Daron fæddist. Hann lét sig dreyma um að spila á trommur í hljómsveit og ungur að árum kynntist hann hljómsveitum á borð við Van Halen, Iron Maiden, Judas Priest og Motörhead. 12 ára fór hann að fikta við gítarleik. Í skóla kynntist hann síðan Serj Tankian og saman stofnuðu þeir hljómsveitina "Soil" sem síðan breyttist í System of a Down. Þegar System of a Down tók sér hlé frá spilamennsku árið 2006 sneri Malakian sér að verkefninu "Scars on Broadway" með Shavo Odadijan. Með því ætla þeir sér að bræða saman þungarokk og raftónlist og tvinna auk þess saman við hana armenskri tónlist. Fríverslunarsamtök Evrópu. Löndin sem eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) er alþjóðasamtök fjögurra ríkja. Meðlimir eru Ísland, Liechtenstein, Sviss og Noregur. Samtökin voru stofnuð þann 4. janúar árið 1960 þegar "Stokkhólmssamningurinn" svonefndi var undirritaður í Stokkhólmi. Tilgangur samtakanna var og er að stuðla að frjálsri verslun milli landanna en auk þess að vera ákveðið mótvægi við hið nýlega stofnaða Evrópubandalag. Öll ríkin eiga aðild að EES nema Sviss en þar í landi var inngöngu hafnað með þjóðaratkvæðagreiðslu. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Genf í Sviss. Sjö ríki komu að stofnun samtakanna árið 1960. Finnland gekk í EFTA árið 1961 og Ísland árið 1970. Danmörk og Stóra-Bretland sögðu sig úr EFTA til þess að ganga í Evrópubandalagið árið 1973. Portúgal fylgdi í humátt árið 1986. Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu í Evrópusambandið árið 1995 og sögðu sig því úr EFTA. Ísland og EFTA. Ísland gekk í EFTA þann 5. mars 1970. Fyrsti fastafulltrúi fyrir hönd landsins var Einar Benediktsson. Hjáþáttur. Hjáþáttur eða fylgiþáttur (e. cofactor) fylkis A er í línulegri algebru skilgreindur sem "C'ij" = (−1)"i" + "j"det("A'ij"), þar sem det("A'ij") er ákveða fylkis "A'ij" úr "A" sem fengið er með því að fjarlægja línu "i" og dálk "j". Dæmi. Ef við höfum til dæmis fylkið Því er "C"12 formula_4. Shavo Odadjian. Shavo Odadjian (fæddur Shavarsh S. Odadjian 22. apríl 1974 í Yerevan, Armeníu) er bassaleikari bandarísku hljómsveitarinnar System of a Down. Odadjian er þekktur fyrir skeggvöxt sinn sem hefur verið eins alla þá tíð sem System of a Down hefur starfað. Ævisaga. Odadjian fæddist í Yerevan í þáverandi Sovétríkinu Armeníu og bjó þar þangað til fjölskyldan flutti til Los Angeles með viðkomu á Ítalíu. Á unglingsárum renndi hann sér á hjólabretti og hlustaði á pönk og þungarokk - hljómsveitir á borð við Dead Kennedys, KISS og Black Sabbath voru í uppáhaldi. Hann gekk í skóla með þeim Serj Tankian og Daron Malakian en kynntist þeim ekki fyrr en hann hitti þá að tilviljun í hljóðveri þar í bæ. Tvímenningarnir buðu Odadjian að taka þá í hljómsveitinni "Soil" sem umboðsmaður en þegar hljómsveitin breyttist í System of a Down tók hann við bassaleiknum. Shavo er þekktur plötusnúður og spilar undir nafninu "DJ Tactic". Ásamt Serj Tankian og Arto Tunçboyacıyan er hann í hljómsveitinni SerArt. Auk hæfileika innan tónlistar býr hann yfir leikstjórnarhæfileikum og hefur leikstýrt myndböndum við lögin „Aerials“, „Toxicity“, „Question!“ og „Hypnotize“. Að auki kom hann fram í myndbandi við DC-lagið „Big Gun“ (1993) og í kvikmyndinni "Zoolander" (2001). Eftir System of a Down. Nú þegar System of a Down hefur tekið sér frí hyggst Shavo ásamt RZA úr Wu Tang Clan vera í hljómsveitinni ACHOZEN og voru fyrstu tónleikar þeirra 1. desember 2006. Rafrás. Einföld rafrás, eða svokölluð RCL rás. Rafrás er samtenging rásaeininga eða íhluta eins og rafviðnáma, spanspóla, þétta og rofa. Rafrás hefur lokaða hringrás sem rafstraumur gengur um. Lögmál rásafræðinnar. Allar rafrásir lúta eðlisfræðilegum lögmálum. Nokkur þeirra eru Rafþéttir. 400px Rafþéttir (yfirleitt aðeins "þéttir") er íhlutur (rásaeining) sem geymir raforku í rafsviði, sem myndast milli tveggja planleiðara. Þegar rafspenna er sett á þétti safnast rafhleðsla fyrir á leiðarana, jafnmikil en af gagnstæðu formerki á hvorri plötu. Þéttar eru notaðir sem orkugeymandi rásaeiningar í rafrásum, en þeir hafa einnig tíðniháða eigninleika og eru mikið notaðir í hliðrænar síur fyrir há- eða lágtíðnimerki. Þéttir myndar launviðnám í rafrás. Rafrýmd þéttis er mælikvarði á hversu mikla raforku hann getur geymt og er mæld með SI-mælieiningunni farad, táknuð með "F". Abstraktlist. Abstrakt eða óhlutbundin list er vanalega lýst þannig að hún sýni hluti ekki eins og þeir birtast í hinum náttúrulega heimi, heldur noti frekar liti og form án þess að binda sig við raunveruleikann. Snemma á 20. öld, var hugtakið oftar notað til að lýsa list eins og kúbisma og framtíðarlist, sem sýnir raunverulega hluti og form á einfaldaðan hátt. Borgarskjalasafn Reykjavíkur. a> þar sem Borgarskjalasafn er til húsa. Borgarskjalasafn Reykjavíkur er héraðsskjalasafn Reykjavíkur og var stofnað 1954. Það er til húsa að Tryggvagötu 15 þar sem einnig er að finna Borgarbókasafn Reykjavíkur og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Safnið varðveitir hátt í tíu þúsund hillumetra af skjölum, einkum frá stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar en einnig frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum. Borgarskjalasafn varðveitir einnig einkaskjalasöfn, til að mynda einkaskjalasöfn Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar. Mælt er fyrir um hlutverk borgarskjalasafns í samþykkt borgarinnar frá árinu 2006. Áður en Borgarskjalasafnið var stofnað 1954 voru skjöl borgarinnar geymd á Þjóðskjalasafni Íslands. Lög um héraðsskjalasöfn voru sett 1947 og reglugerð þar um 1951. Fram að árinu 1967 sá safnið bæði um varðveislu skjala og minja en það ár var minjasafnið fært í Árbæinn. Áður en núverandi bygging sem hýsir safnið við Tryggvagötu var byggð var talsverður hluti skjala borgarinnar geymdur á Korpúlfsstöðum í gamla fjósinu. Thomas Dolby. Thomas Dolby (fæddur Thomas Morgan Robertson 14. október 1958 í London) er enskur tónlistarmaður þekktastur fyrir lagið „She Blinded Me with Science“ (ísl: "Hún villti mér sýn með vísindum") sem kom út árið 1982. Dolby er einnig upphafsmaðurinn að svokallaðri pólýtóna-tækni sem yfir 100 milljónir farsíma nota í dag til að framkalla hringitóna. Dolby, Thomas Cauet. Sébastien Cauet, eða Cauet, (fæddur 28. apríl 1972) er franskur sjónvarps- og tónlistarmaður þekktastur fyrir lagið "Zidane y va marquer" sem kom út árið 2006. Lagið, sem er á frönsku, fjallar um atvik á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu 2006 þegar Zinedine Zidane skallaði ítalann Marco Materazzi í bringuna í úrslitaleiknum. Skrælingjar. Skrælingja nefndu norrænir menn á miðöldum þá þjóðflokka sem þeir hittu fyrir á þeim landsvæðum sem þeir nefndu Helluland, Markland og Vínland og síðarmeir einnig á Grænlandi. Orðið skrælingi hefur öðlast sjálfstæðan sess í íslensku sem fúkyrði eða niðurlægandi hugtak. Skrælingjar á Hellulandi, Marklandi og Vínlandi. Fólksfluttningar á árunum 900 til 1500. Græni liturinn sýnir Dorset-fólk, blái Thule-inuíta, rauði norræna menn, guli Innu-indjána og appelsínugule Beothuk-indjána Elstu ummæli um skrælingja eru úr Íslendingabók Ara fróða. Þar segir eftir að lýst hefur verið landnámi Eiríks rauða (orðrétt eftir elsta varðveitta handriti "Íslendingabókar - AM 113 a fol." samkvæmt útgáfu Finns Jónssonar 1930): „Þeir fundo þar manna vister bæþi austr oc vestr á landi. oc kæipla brot oc steinsmiþi þat es af þvi má scilia at þar hafþi þess conar þióþ farit es Vinland hefir bygt oc Grœnlenndingar calla Scræliŋa. “ (Sjá einnig ) Af þessu má skilja að Ari hefur gert ráð fyrir að lesendur hafi heyrt talað um skrælingja svo óþarfi sé að lýsa þeim nánar og einnig að norrænir menn hafi ekki fyrirhitt þá á Grænlandi. Fer það heim og saman við fundi fornleifafræðinga. „Þeir váru svartir menn ok illiligir ok höfðu illt hár á höfði. Þeir váru mjök eygðir ok breiðir í kinnum. “ Þeir koma einnig við sögu í Grænlendinga sögu og Grænlendingaþætti. Í þessum sögum er sagt bæði frá verslunarviðskiptum og blóðugum skærum norrænna manna og skrælingja. Margir, bæði fræðimenn og leikmenn, hafa reynt að lesa úr lýsingum þessum hvaða þjóðflokka hafi hér verið um að ræða og sýnist þar sitt hverjum. Þrátt fyrir að fáar ritaðar heimildir séu til um samskipti yfir Davíðssund bendir fjöldi fornleifafunda til að þau hafi átt sér stað um langan tíma og kanski verið umfangsmikil. Við uppgröft á Bænum undir sandi hafa meðal annars fundist hár af feldi brúnbjarnar (Ursus arctos) og vísunda (Bison bison) sem hafa sennilega borist þangað í verslunarviðskiptum við skrælingja. Dorset-menning. Dorset-fólk sem er forn heimskautamenning sem var forveri Thule-menningarinnar og nútíma Ínuíta. Dorset-fólk lifði á því svæði sem nú er austurhluti kanadíska heimskautasvæðisins og á norður Grænlandi á fyrstu öldum norræna landnámsins á Grænlandi, frá um það bil 1000 fram til 1200. Þetta fólk hafði ekki hunda og þar af leiðandi ekki hundasleða, þeir notuðu heldur ekki boga og örvar og voru þess vegna ósennilega skæðir norrænum könnuðum og veiðimönnum. Þeir lifðu í fámennum fjölskylduhópum og veiddu seli, ísbirni og rostunga (en ekki hvali) auk fisks, fugla, hreindýra og sauðnauta. Fundist hefur mikið af útskornum myndum af mönnum og dýrum frá þessu fólki. Ýmsir hlutir af norrænum uppruna, til dæmis trjábútar og járn af evrópskum uppruna og bútar af ofnu efni úr sauðarull, héra-, vísunda og geitarhári hafa fundist á bæjarstæðum Dorset-fólks við Hudson-flóa, á Baffins-eyju og á norðvestur Grænlandi. Að auki hafa fundist útskorin trélíki á Skrælingjaeyju sem hafa evrópskt andlitslag og klæðnað og ein með krossmark framan á sér. Thule-menning. Upp úr aldamótunum 1200 fer nýtt menningarsvæði inuíta sem kennt er við Thule að breiðast út vestan frá Alaska og leggur undir sig norðuhluta núverandi Kanada og Grænland á skömmum tíma. Thule-inuítar voru mun betur búnir til bæði veiða og ferðalaga en Dorset-fólkið hafði verið. Þeir veiddu stórhveli og rostunga og notuðu hunda og hundasleða og bjuggu þar að auki oft í stærri samfélögum. Bogar þeirra hafa eflaust verið hættulegir í skærum við norræna keppinauta. Mikið af hlutum af norrænum uppruna hafa fundist hér og þar um allann austurhluta kanadíska heimskautasvæðisins og á norður Grænlandi á búsetusvæðum Thule-inuíta. Mætti því álíta að það sýni að miklu meiri samskipti hafa verið milli norrænna manna og Thule-inuíta en við Dorset-fólk. En sagnfræðingum og fornleifafræðingum ber ekki saman um hverning beri að túlka þessa fundi. Sumir halda því fram að þetta sýni óefað að mikil samskipti hafi átt sér stað en aðrir halda því fram að megnið af þessum hlutum gætu komið frá einu eða fleiri skipum norrænna manna sem hafi brotist sundur í ís. Innu-indjánar. Ef Markland hefur verið það sem nú heitir Labrador hafa hinir norrænu Grænlendingar að öllum líkindum hitt fyrir Innu-indjána sem þar bjuggu. Engir hlutir af norrænum uppruna hafa fundist í fornum bústöðum þeirra. Hins vegar fannst örvaroddur úr steini við uppgröft á Sandnesi í Vestribyggð sem að öllum líkindum kom frá Labrador og var af þeirri gerð sem Innu-indjánar notuðu. Hvernig þessi örvaroddur barst til Grænlands er algjörlega óvíst. Innu-indjánar bjuggu í skinntjöldum og lifðu aðallega á hreindýraveiðum og öðrum hjartardýrum. Beothuk-indjánar. Þeir bjuggu í fámennum fjölskylduhópum á eyju þeirri sem nú heitir Nýfundnaland. Þeir lifðu aðallega á sel- og hreindýraveiðum. Beothuk-indjánar máluðu sig gjarnan með rauðum lit og er hugtakið rauðskinni dregið af því. Mikmaq-indjánar. Á þessum tima bjuggu þeir þar sem nú er Nova Scotia og New Brunswick í Kanada og í hluta af Quebec, og einnig þar sem nú er Maine í Bandaríkjunum. Þeir veiddu elgi, dádýr, hreindýr og birni auk þess að vera miklir fiskimenn. Aðallega var það lax, þorskur og skelfiskur sem þeir veiddu. Í fornum bústað Mikmaq-indjána í Penobscot Bay í Maine fannst silfurmynt slegin í Noregi á valdatíma Ólafs kyrra á síðari hluta 11. aldar. Með öllu er óvíst hvernig þessi peningur hefur borist þangað en flestir fræðimenn hallast að því að hann hafi komið í skiptiverslun við Dorset-fólk. Skrælingjar á Grænlandi. Eins og að ofan er nefnt var engin byggð á sunnanverðu Grænlandi þegar norrænir menn hófu landnám sitt þar. Það er einungis við Smith sund, nyrst á Grænlandi, sem Dorset-fólk hafði búsetu á þessum tíma. Það er með öllu óvíst hvenær norrænu Grænlendingarnir hittu fyrir aðra íbúa í landinu. Skælingjar á Grænlandi eru nefndir á ýmsum stöðum í bréfum og öðrum miðaldaheimildum. En enginn efi er á að samskipt voru mjög stopul fyrstu aldirnar. Í ritinu "Historia Norvegiae" sem sennilega var skráð í upphafi 12. aldar segir: „"Trans Viridenses ad aquilonem quidam homunciones á venatoribus reperiuntur, quos Scrælinga appellant"“, það er að segja „"Norðan við Grænlendingana hafa veiðimenn fundið nokkrar litlar mannverur, sem þeir kalla Skrælingja". Að öllum líkindum hafa þetta verið Dorset-menn og sennilegast hefur fundum borið saman mjög norðanlega á vesturströndinni og þetta er elsta heimildin um samskipti norrænna manna og skrælingja á Grænlandi. Í Hauks bók, sem skráð var í upphafi 14. aldar, er sagt frá því að sumarið 1266 hafi menn komið frá Norðursetu sem hafi farið lengra norður en áður hafi verið farið en ekki fundið nein merki um skrælingja þar sem þeir hafi áður verið við Króksfjarðarheiði. Sendu þá prestar skip norður til að kanna það svæði sem lá norðan við hefðbundnar veiðislóðir í Norðsursetu. Fundu leitarmenn spor eftir skrælingja en enga menn. Ber þetta vel saman við fornleifafundi sem sýna að á 13. öld hurfu Dorset-menn frá Grænlandi, fyrst frá Diskó-flóa og síðan frá svæðinu í kringum Smith sund. Samkvæmt fundum námu Thule-inuítar land við Smith sund á seinni hluta 13. aldar og fluttust á næstu öldum suður vesturströndina og einnig norðaustur yfir. Hafa þeir fljótlega farið að hitta á norræna menn í Norðursetu. Óvíst er hvers eðlis þau kynni voru, engar frásagnir eru um verslunarviðskipti þó svo að þau hafi getað átt sér stað en all nokkrar frásagnir um skærur. Samkvæmt frásögu Ívars Bárðarsonar eru skrælingjar sestir að í Vestribyggð um miðja 14. öld. Þegar norrænir menn yfirgefa Grænland á seinnihluta 15. aldar eru skrælingjar búsettir meðfram allri strandlengjunni og einir íbúar í landinu. Skrælingjar í nútímaíslensku. Á nútímaíslensku hefur orðið skrælingi einungis niðurlægjandi merkingu sem samheiti við barbari, ósiðmenntaður maður eða villimaður. Sennilega hefur orðið fljótlega fengið merkinguna "maður af ósiðmenntaðri þjóð eða þjóðflokki". Eru til um það heimildir allt frá miðja 18. öld. Orðsifjar. Orðið skrælingi er hvergi þekkt úr miðaldaritum nema í samband við Grænland og ferðir Grænlendinga hinna fornu. Því má áætla að þeir hafi skapað þetta orð og er það sennilega það eina sem hefur varðveist af þeirri grænlensku mállýsku eða máli sem þeir hljóta að hafa skapað á þeim nærri 500 árum sem þeir bjuggu í landinu. Sennilegast á orðið uppruna í skrá, sem í fornnorrænu (og íslensku) þýddi þurrt skorpið skinn og sögnin að "skrá" í merkingunni að rita er einnig tengd þessu orði. Orðið "skræða" sem haft er um um bók er skylt nafnorðinu "skrá" sem og hákarla"skrápur". Grænlendingar hinir fornu gengu aðallega í vaðmálsklæðum (samanber fatafundi á Herjólfsnesi) en skrælingjaþjóðir þær sem að ofan eru nefndar gengu allar eingöngu í skinnklæðum yst sem innst. Ekki er ólíklegt að norrænum mönnum hafi þótt það dæmi um mestu villimennsku. Tilgátur hafa verið um að orði skrælingi sé dregið af orðinu "skral" sem til er í dönsku, norsku og sænsku og þýðir aumingjalegur eða við slæma heilsu. Nútíma málvísindamenn hafa sýnt fram á að það getur ekki verið vegna þessa að það orð berst inn í dönsku (og þaðan í norsku) og sænsku á 17. öld úr lágþýsku og virðist vera óþekkt í miðaldamálum norrænum. Bæta má við að grænlenska orðið "Kalaalleq", sem nútíma Grænlendingar kalla sjálfa sig á sínu máli, er sennilega dregið af orðinu skrælingi (eða klæði). Það er alla vega ekki af inuítauppruna og hefur enga þýðingu í sjálfu sér. West Palm Beach. West Palm Beach er borg í Flórída. Árið 2005 bjuggu þar rúmlega 97 þúsund manns. Formúla 1. Formúla 1 er ein þekktasta tegund kappaksturs í heiminum í dag. Mótaröðin fer fram á sumrin, hefst í mars og er tímabilið yfirleitt búið í október. Formúla 1 er heimsmeistarakeppni og er sitjandi heimsmeistari Sebastian Vettel. Kostnaður við að keppa í Formúlu 1 er gríðarlegur og er Formúlu 1 bíl oft líkt við flugvél nema hún virki öfugt, þ.e. bílnum er þrýst niður en ekki upp. Formúla 1 árið 2006. Árið 2006 varð Fernando Alonso heimsmeistari í annað skiptið með keppnisliði sínu,Renault. Á árum áður. Mótorsport er nærri því eins gamalt og mótorknúnir bílar. Karl Benz og Gottlieb Daimler eru lofaðir víða um heim fyrir uppfinningu sína, bílinn. Árið 1885 settu þeir fyrstu olíuknúnu vélina í gang og áður en langt um leið voru fyrstu bílarnir ræstir í kappakstur. Þó að bíllinn hafi verið fundinn upp í Þýskalandi þá fór fyrsti kappakstur sögunar fram í Frakklandi. Í þá daga var ekki ekið hring eftir hring heldur frá stað til staðar einsog tíðkast í ralli nú til dags. Kappaksturinn var háður á þjóðvegum frá Parísar til Bordeaux og til baka, vegalengdin voru einir 1190 kílómetra. Tuttugu og sjö bílar tóku þátt í gleðinni þann 11. júní 1895 og voru þeir ræstir hver í sínu lagi. Emile Levassor sigraði mótið, komi í mark fimm klukkustundum á undan næsta manni. Áhrifin sem keppnin hafði á tækniþróunina var gífurleg og um 1901 voru bílarnir farnir að aka á 120 km/klst. Fyrsta keppnin sem fram fór á braut var árið 1902, það var brautin Circuid des Ardennes í Belgíu. FyrstiGrand Prix kappaksturinn fór fram í Le Mans í Frakklandi árið 1906. Keppnina vann ungverjinn Ferenc Szisz á Renault bíl, en hann hafði verið viðgerðamaður Louis Renault í þjóðvegakeppnunum. Eknir voru margir kappakstar með „Grand Prix“ forminu, en „Grand Prix“ var ekki notað á alþjóðavettvangi fyrr en löngu seinna. Tæknisprenging milli stríða. Mikil tækniþróun varð í fyrri heimstryrjöldinni og á þeim tuttugu árum sem liðu fram að næstu styrjöld. Stærsta sprengingin varð þegar Fiat kynnti til sögunnar átta sílentra mótor sem varð svo síðar undirstaða í vélaþróunn framtíðarinnar. Mörg stór skref voru tekin og var þetta aðeins af þeim. Grand Prix kappakstrar urðu einnig tíðari og Ítalska brautin Monza, sem staðsett er nálægt Milano, var tekin í notkun. Enn er verið að aka á Monza í Formúlu eitt og fleiri mótaröðum. Monza var fyrsta sérsmíðaða brautin í heiminum. Nokkru síðar fleiri brautir voru byggðar, Montlhéry í útjaðri Parísar og Sitges nokkru sunnar en Barcelona á Spáni. Adolf Hitler studdi þýska bílaframleiðendur og þýska ökumenn í kappakstri eftir að hann komst til valda árið 1933. Eftir það voru þjóðverjar mjög sterkir í kappakstri um allan heim og einokuðu sportið eftir að Mercedes-Benz og Auto Union kynntu til sögunar nýja kynslóð af keppnisökutækjum árið 1934. Einokun þeirra stóð þangað til Bretar lýstu Þjóðverjum stríð á hendur 1. september árið 1939, eða þegar Grand Prix kappökstrunum var slegið á frest. Fæðing Formúlu eitt. Eftir Seinni heimstryrjöldina voru Þjóðverjar ekki neinu ástandi til að taka þátt í alþjóðlegum kappakstri. Alfa Romeo, Maserati og ERA voru á toppnum svona rétt eftir hörmungarnar. Nokkur ríki tóku sig til og hnipruðu saman dagatali sem átti að vera einskonar æðsta stigið í Grand Prix kappakstri, þetta var árið 1947. Ári seinna var tilkynnt að mótaröðin fengi nafnið Formúla eitt. Þar yrðu gerðar nokkrar breytingar á reglum og vélareglur voru settar, vélar með forþjöppu máttu aðeins vera 1.5 lítrar en Formúla eitt bauð einnig upp á að vélar sem ekki höfðu forþjöppu mættu vera allt að 4.5 lítrar. Á meðan ítölsku og þýsku verksmiðjurnar voru ónýtar gátu önnur lönd, einsog Bandaríkin og Bretland komið sér að. Sá blómatími enskumælandi manna var ekki lengi því árið 1949 hafði ítalski markaðurinn vaxið aftur og Ferrari kom til sögunnar eftir að Enzo Ferrari hætti sem keppnisstjóri hjá Alfa Romeo liðinu. Ferrari skutust strax upp á toppinn eftir að hafa unnið sína fyrstu Grand Prix kappakstra. Árið 1950 varð Formúla eitt að Heimsmeistarakeppninni sem keppt er í í dag. Alfa Romeo sá sér þá tækifæri til að komast aftur á toppinn þar sem þeir höfðu verið. Í keppninni átti að finna “Heimsins besta ökumann”. Stig voru gefin fyrir sex útvaldar Grand Prix keppnir. Fyrsta keppnin sem fór fram undir merkjum Formúlu eitt heimsmeistarakeppninnar var haldin á Silverstone. Reyndar voru allar keppnirnar haldnar í Evrópu, fyrir utan Amerísku Indianapolis 500 keppninni sem var í fyrstu á dagatalinu. Þetta fyrirkomulag hélst mestallan áratuginn eða þangað til fleiri brautir frá öðrum heimsálfum birtust á dagatölunum. Alfa Romeo vann hvern einasta kappakstur árið 1950. Og urðu ökumenn liðsins, þeir Giuseppe Farina og Juan Manuel Fangio, sem börðust um titilinn það árið. Farina hafði hins vegar betur og var valinn heimsins besti ökumaður árið 1950. Fangio aftur á móti vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil árið 1951 fyrir Alfa Romeo. Alfa Romeo bíllinn hafði forþjöppu en Ferrari bíllinn, sem veitti Fangio og félögum hans mikla og harða samkeppni var án þjöppunar. Árið eftir var yfirburða ár Ferrari. Alfa Romeo færði sig niður um stig og tók þátt í Formúlu tvö það árið. Formúla eitt hafði þá vandræði í aðsígi því enginn virtist standst Ferrari snúning, líkt og nú. Maserati voru að gera plön fyrir framtíðina og hinri goðsagnakenndu BRM, sem voru fyrir stríð hetjur breta í kappakstri, höfðu víst svakalegt afl í V16 vélinni en enginn vissi hvort það var rétt því vélin endist ekki nógu lengi til að menn fengu að vita það. Ferrari hins vegar telfdu út Alberto Ascari, sem var skærasta stjarna ítala í kappakstri þessi ár. Ascari vann heimsmeistaratitilinn 1951 og 1952 fyrir Ferrari. Hann sigraði öll mótin árið 1951 og sex af sjö árið 1952. Árið 1953 var hans tíð á enda. Fangio var kominn aftur, nú á Maserati. Ascari tapaði miklum slag í síðasta kappakstri ársins. Fangio og Ascari deildu með sér fremst rásstað í ræsingunni. Liðsfélagar kappana voru heldur ekki langt undan og skiptust fjórmenningarnir á að leiða kappaksturinn. Marimon, liðsfélagi Fangio þurfti að hætta í toppslagnum þegar hálf keppnin var búinn. Þegar Farina, liðsfélagi Ascari hjá Ferrari, gerði atlögu að fyrsta sætinu skullu þeir félagar saman og allt rann út í sandinn. Fangio vann sinn fyrsta sigur eftir að hafa hálsbrotnað á sömu braut ári áður. Fangio. Fangio var talinn vera besti ökumaður sem uppi hefur verið. Hann hóf ferill sinn í Argentínu, þar sem hann fæddist og vann sinn fyrsta kappakstur sem var þjóðvegakappakstur. Hann var svo sendur til Evrópu og komst í tæri við Formúlu eitt á stofndögum mótaraðarinnar. Hann varð fimm sinnum heimsmeistari árin 1951, 1953, 1954, 1955, 1956 og 1957. Árið 1952 hálsbrotnaði hann og var frá allt það tímabil. Það vakti því athygli að hann vann heimsmeistaratitilinn árið 1953. Fangio gerði mikið á sínum ferli, en hann gerði mikið sem maður hugsar ekki um dags daglega. Ég get nefnt dæmi; hann var fyrsti ökumaðurinn til að taka skipulagt viðgerðahlé, og í þá keppni vann hann. Fangio lést árið 1995. Vélarnar færðar aftur. Cooper liðið fór nýjar leiðir í uppbyggingu bíla sinna og skilaði það sér í sigri í Argentínu árið 1958 þegar Stirling Moss ók bílnum til sigurs. Cooper varð einnig heimsmestari bílasmiða árin 1959 og 1960, Jack Brabham, sem ók fyrir liðið, vann einnig heimsmeistaratitla ökumanna þessi ár. Það sem var öðruvísi í Cooper-bílnum var að vélin var fyrir aftan ökumanninn en ekki fyrir framan einsog flest hin liðin höfðu hannað bíla sína. Þeir hönnuðu bílinn með hugmyndum frá ýmsu aðilum. Gírkassinn var smíðaður eftir gírkassa úr Citroën fólksbíl, undirstaðan í fjöðrunarkerfinu var úr Volkswagen Bjöllu og stýris hlutir úr Triumph. Vélin var fengin frá Coventry Climax. Bíllinn þótti svo framúrskaranlegur að önnur lið hermdu eftir og fóru að smíða bíla sína með vélina fyrir aftan ökumanninn. Lotus voru þeir einu sem eitthvað höfðu í Cooper. Þeir notuðu sömu vélar og Cooper og voru fjótir að grípa nýja stefnu í þróun bílanna. Lotus smíðu fyrsta bíl sinn með vélina fyrir aftan ökumanninn fyrir tímabilið 1960. Colin Chapman, liðsstjóri Lotus, hafði skapað sér gott orð sem mikill hugsuður og yfirleitt voru hugsanir hans langt á undan samtíð sinni. En það var meðal annars stollt hans sem kom í veg fyrir að hann hermdi eftir Cooper fyrr en raun bar vitni; Lotus hafði verið í vandræðum árin 1958 og 1959 með vélina fyrir framan. Lotus uppskar svo sinn fyrsta sigur í Mónakó 1960 þegar Stirling Moss vann, en aðeins tveim kappökstrum síðar braut hann bakið á sér við æfingar fyrir Belgíska kappaksturinn. Það gerði útaf við vonir Lotus mann að ná Cooper en keppinauturinn silgdi í mark einn og óáreittur. Það ár hafði Ferrari verið afskrifað sem keppinautar um titlana tvo sem í boði voru vegna undirbúnings þeirra undir næsta tímabil. Árið 1961 átti að breyta vélarstærðunum bílana sem ekki notuðu forþjöppu úr 2.5 lítrum niður í 1.5 lítra. Jim Clark - tíminn. Árið 1963 rann upp sá dagur, loksins, sem Lotus urðu heimsmeistarar eftir langa bið. Jim Clark hafði gengið til liðs við Champman og félaga árið áður en það ár hafði Clark verið í hörku slag við Graham Hill á BRM sem tók svo titilinn á áræðanleika bílsins. Árið 1963 hins vegar hafði Lotus verið með yfirburði. Þeir unnu sjö af tíu keppnum í meistarakeppninni, í Hollenska kappakstrinum hafði Clark hringað alla keppinautana, í Frakklandi leiddi hann keppnina frá ræsingu þar til að flaggið féll og ef hann vann ekki var það vegna bilunnar í bílnum eða einhverra annarra tæknilegra vandamála. Árið 1964 komust svo aftur einhverjar bilunarpöddur uppí bílnum og titillinn varð John Surtees. John hafði hafið feril sinn í mótorhjólum en hafið feril sinn í Formúlu eitt hjá Lotus, en var nú hjá Ferrari. Hann hjálpaði til við að skerpa nýju V8 vélin, og vann titilinn eftir að olíuleiðsla hjá Clark hafði gefið sig. Surtees er enn sá eini sem hefur unnið titla bæði á fjórum og tveim hjólum. Clark og Lotus, endurskipulögðu sig fyrir árið 1965 sem skilaði sér því heimsmeistaratitlar bílasmiða og ökumans var í höfn í árslok. Þeir höfðu unnið sex af níu keppnum, en misstu af einni keppni til að geta keppt í Indianapolis 500 kappakstrinum, sem þeir og unnu. Formúlu eitt bílunum var gefið aflið aftur árið 1966 þegar leyfð var 3 lítra vélastærðir. Reglurnar um 1.5 lítra vélar voru taldar úreltar og talin var þörf á breytingum. Með þessum breytingum var gert ráð fyrir því að amerískir bílaframleiðendur gætu tekið meiri þátt í Formúlu eitt en þeir gerðu. Japanski bílaframleiðandinn Honda hafði unnið síðasta kappaksturinn árið áður, í Mexíkó 1965. Stjórnendur formúlunnar héldu að það væri forboði þess að bílaframleiðendur færu að taka virkari þátt einsog áður tíðkaðist. Það varð ekki. Honda smíðaði mjög sterkar og kraftmiklar vélar en hönnun bílsins sjálfs var langt á eftir þeim sem gætu hugsanlega talist keppnautar. Undir lok sjöunda áratugarins þegar bílarnir fóru að þróast ennþá lengra, varð til svo djúp gjá á milli fólksbíla og kappaksturs bíla að ekki var lengur búist við því að fólksbílaframleiðendur, einsog Honda skildi koma, sjá og sigra í einni bendu. Öryggið á oddinn. Um miðjan sjötta áratuginn hófst mikil barátta, bæði ökumanna og annarra til að koma upp órjúfanlegu öryggisneti í kappakstri um allan heim. Öryggið er ekki fullkomnað ennþá en mikið hefur gerst síðan þá. Fyrsta skrefið var örugglega tekið eftir að Jackie Stewart, sem á stóran þátt í öryggiskröfum í Formúlu eitt nú dags, lenti í hræðilegu slysi sem hefið getað kostað hann lífð einn ringningardag í Hollandi 1966. Spa brautin getur boðið uppá skemmtilega kappakstra fyrir áhorfendur en fyrir ökumenn getur brautin verið algjör martröð. Ringt getur á einum stað en sólin skinið á hinum staðnum. Þetta geriðst árið 1966. Ræst var í þurru en þegar menn óku lengra eftir brautinni lentu þeir í bleitu. Átta ökumenn snérust á brautinni, meðal annarra Jackie Stewart. Bíllinn hafði olltið og þar með festist Stewart í bílnum. Hann tók eftir því að eldsneyti lak á hann og hann hugsaði með sér að ef heitt pústið kæmist í snertingu við vökvann væri allt búið. Engir brautarsarfsmenn voru á staðnum en tveir ökumenn, Graham Hill og Bob Bonduant, sem þurfti að fá verkfæri hjá áhorfenda til að losa stýrið, björguðu honum. Það tók svo yfir 20 mínotur fyrir sjúkrabíl að komast á staðinn. Þetta var skólabókadæmi um hvernig hugsað var fyrir öryggi á brautinni. Hjálmar höfðu verið gerðir að skyldu árið 1952 og síðan þá hafði ósköp lítið gerst á sviði öryggis. Öryggisbelti höfðu ekki verið tekin í notkun þar sem ökumenn óttuðust að vera fastir í þeim ef kveiknaði í bílnum. Eldfastir búningar höfðu svo verið teknir í notkun árið 1960. Árið 1969 voru svo settar reglur um að slökkvitæki yrðu að vera um borð í hverjum bíl og innsiglaður gúmmí poki yrði að vera inni í eldsneytistanknum. Það voru fyrstu reglurnar sem settar voru eftir að veltigrind var sett í alla bíla árið 1961. Erfiðast var að sannfæra brautareigendur. Það var ekki fyrr en Samband Grand Prix Ökumanna krafðist þess að gerðar yrðu úrbætur á brautarstæðum. Tré voru felld, vegrið voru sett um alla brautina, brautarsarfsmenn fengu meiri kunnáttu og læknaaðstaðan stórelfd. Margar brautir einsog Spa, voru dæmdar of hættulegar og voru teknar af dagatalinu. Á árunum 1960 til 1970 dóu 12 ökumenn og 16 áhorfendur í Formúlu eitt. Einnig dóu nokkrir ökumenn úr Formúlu eitt í öðrum keppnum. Jim Clark var einn þeirra, heimsins besti ökumaður gat orðið fórnarlamb. Peningar – lykilinn að velgengni. Þegar fyrstu auglýsingarnar sáust á Formúlu eitt bílunum var ljóst að peningar væru farnir að spila stóran part í velgengni liðana. Það var Lotus sem rauf múrinn og auglýsti Gold Leaf tóbaksfyrirtækið á hliðum bíla sinna. Áður höfðu liðin aðeins sett límmiða bílahluta-fyrirtækja á bíla sína í skiptum fyrir hluti einsog dekk, olíu, eldsneyti og annað slíkt. Samningurinn sem Lotus gerði við Gold Leaf breytti miklu fyrir Formúlu eitt. Colin Chapman, liðsstjóri Lotus liðsins hafði þrýst á yfirvöld innan Formúlu eitt heimsins að slaka á bönnum við auglýsingum og styrkjum til liðana, ef svo yrði gert yrði þróunnar- og hönnunnarfjármagn liðanna meira. Fleiri lið fylgdu svo í spor Lotus og gerðu samninga við önnur fyrirtæki um fjárstyrki. Nokkrum árum síðar voru nánast allir bílar þaktir auglýsingum fyrir ólík fyrirtæki. Fyrstu vængirnir. Í kjölfar aukins fjármagns hjá liðunum gátu þau farið að þróa bíla sína hraðar og mikil breyting varð, nánast í allri uppbyggingu Formúlu eitt bílsins. Það sem var eftirtektaverðast, og kannski mesta framförin voru vængirnir. Í Mónakó-kappakstrinum árið 1968 mætti Lotustliðið til leiks með vængi sem ætlaðir voru til þess að ýta bílnum niður á jörðina, þannig skapaðist meira grip, meiri hraði í beygjum og mikið betri hringtími. Við sjáum það enn í dag að menn bæta vængjum við bíla sína fyrir Mónakó kappaksturinn, á ólíklegustu staði. Í næstu keppni sem fram fór á Spa voru bæði Ferrari og Brabham bílarnir skreyttir þessari nýjung. Þeir voru þó ekki eins og við eigum að venjast í dag því í grófum dráttum voru þetta plankar sem festir voru við tvær málmstangir sem stóðu metra eða svo uppí loftið. Stangir þessar voru svo festar við grind bílsins. Árið 1969 fóru þó vængirnir að líkjast þeim sem þekkist í dag. Einnig höfðu önnur lið en þau þrjú sem nefnd voru hér að framan tileinkað sér þessa tækniþróun. Vængirnir gátu þó orðið mönnum og bílum til óbóta. Ef ekki var nógu vel gengið frá þeim var hætt við að þeir virkuðu öfugt við það sem þeir áttu að gera. Graham Hill fékk að kynnast þessu í spánska kappakstrinum árið 1969 þegar Lotusinn hans endaði á vegriðinu eftir að afturvængur hafði gefið sig. Það sama kom fyrir liðsfélaga Hills, Jochen Rindt en ekki fór eins vel fyrir honum og Graham því hann nefbrotnaði þegar bíll hans flaug utan brautar. Vængir á stultunum voru því bannaðir. Breytingar voru gerðar og vængirnir færðir niður og festir við bílana, vængirnir voru þar með orðnir hluti af yfirbyggingu hans. Upprisa Ferrari. Eftir nokkur ár með Jackie Stewart á toppnum var kominn tími til að Ferrari kæmi og gerði eitthvað að viti aftur. Undir lok ársins 1973 höfðu þeir þurft að aka í gengnum tímabil þar sem þeir komust ekki einu sinni nálægt sigri. Þeir höfðu ekki orðið heimsmeistarar síðan John Surtees vann titilinn fyrir þá árið 1964. Það varð því að endurskipuleggja Ferrari liðið. Ungur lögmaður að nafni Luca di Montezemolo var fenginn til að taka við stjórn Ferrari verksmiðjanna. Mauro Forghieri var fenginn til að sjá um Formúlu eitt sviðið innan fyrirtækisins. Niki Lauda var ráðinn til að aka nýja Ferrari bílnum. Saman gerðu þeir nýja bílinn að hraðasta bílnum það árið. Þótt bíllinn hafi verið góður var það Emerson Fittipaldi sem tók titilinn eftir nokkur mistök hjá Niki. Árið 1975 var hins vegar annað upp á teningnum og unnu þeir félagar titilinn eftirsótta. Eftir 11 ár í vandræðum var Ferrari komið aftur á toppinn. Lauda Slysið. Árið 1976 hafði Niki Lauda titilinn í hendi sér. Komið var að þýska kappakstrinum í Nürburgring. Niki Lauda lenti þar í einu hrikalegasta og frægasta slysi sögunar en sem betur fer komst hann lífs af. Hann sýndi það og sannaði að þótt dauðinn hafi gert tilkall til hans var hann enn sprelllifandi. Eftir að hafa verið frá í þrjá mánuði kom hann aftur til keppni í Japan á Fuji brautinni. James Hunt hafði þá saxað verulega á forskot austurríkismannsins og ljóst var að titilbaráttan ætti að fara fram á þessari braut. Það ringdi og ringdi í Japan þennan dag og eftir svo stórt slys fannst Niki Lauda ekki við hæfi að halda áfram að aka á nánast óökufærri braut. Það verða víst að teljast ein mestu mistök ökumanns hingað til því nokkrum hringjum seinna stytti upp og brautin fór að þorna. James Hunt silgdi því McLaren-fleygi sínu í mark og vann titilinn það árið. Í kjölfar slyssins hefur aldrei verið keppt á Nürburgring brautinni sem var ein sú hættulegasta, lengsta og efiðasta sem ekið hefur verið á í Formúlu eitt. Enn löng leið til fullkomnunar öryggis. Eftir að svíinn Ronnie Peterson lét lífið í ítalska kappakstrinum árið 1978 var ljóst að enn var löng leið til fullkomunar öryggis, yfir tíu ár voru frá því að Jackie Stewart hóf öryggisherferð sína. Sid Watkins, sem er taugaskurðlæknir hafði verið fengin af Bernie Ecclestone til að bæta aðstöðu lækna í kringum brautirnar. Hann var viðstaddur þennan dag á Monza en gat ekkert gert. Árið 1981 var hann svo gerður að vettvangslækni í Formúlu eitt og starfaði við það allt fram í janúar þessa árs. Meistarar á móti meisturum. Eftir að Alain Prost tapaði meistarabaráttunni fyrir Nelson Piquet árið 1983 fékk Prost að fjúka frá Renault. McLaren hafði um það leyti verið að leita sér að nýjum ökumönnum. Alain gerði því væntanlega sinn stærsta samning þegar hann skrifaði undir hjá McLaren fyrir árið 1984. Prost fékk þann heiður að aka við hlið Niki Lauda og ljóst var að það stefndi í mikla baráttu á toppnum það árið. Prost var í mikilli titilbaráttu árið 1984, Niki Lauda virtist ekki ætla að gefa neitt eftir þótt Prost væri yngri og hungraðari. “Árið hefði verið ömurlegt ef ekki væri fyrir McLaren mennina” sögðu sumir vegna yfirburða McLaren, og þrátt fyrir yfirburðina var árið ekki ömurlegt. Niki Lauda hafði hætt í Formúlu eitt árið 1979, sagðist vera orðinn leiður á að aka í endalausa hringi, en Ron Dennis náði að lokka hann aftur og ók Lauda fyrir McLaren fyrst árið 1982. Þegar komið var í Estoril árið 1984 var Lauda 3.5 stigum á undan Prost. Hann lennti í ellefta sæti í tímatökunum og var lengi vel fastur í tíunda í kappakstrinum. Prost var fyrstur og var farinn að ná miklu forskoti. Um miðbik kappakstursins var Lauda orðinn sjöundi vegna þess að þrír ökumenn höfðu þurft að hætta. Hann þurfti að ná öðru sæti ef hann ætlaði að ná titlinum, hann þurfti að taka fram úr Mansell, Johanson, Alboreto og nýju störnunni hjá Lotus; Ayrton Senna. Ótrúlegt en satt þá tókst þetta hjá Lauda. Eftir tímabilið hætti hann aftur, en í þetta skiptið fyrir alvöru. Endaði einn glæsilegasta feril í sögu Formúlu eitt. McLaren höfðu enn yfirburði árið 1985 og Prost vann titilinn aftur fyrir þá. En Williamsliðar virtust vera að bæta sig og árið 1986 veitti Nigel Mansell, á Williams, McLaren mönnum mikla keppni. Nelson Piquet var liðsfélagi Mansells hjá Williams og höfðu þeir félagar unnið sér inn trú áhorfenda um að titillinn yrði þeirra það árið. Undir lok tímabilsins gátu þeir allir unnið titilinn. En sá sem vildi vinna þurfti að vinna síðasta kappaksturinn sem fram fór á Adelaide brautinni í Ástralíu. Fyrir mér er þetta einn merkasti heimsmeistarasigur sögunnar en það var Prost sem vann á hreint ótrúlegan hátt. Mansell sprengdi dekk, Piquet þurfti líka að hætta og Prost var orðinn mjög tæpur á því að geta klárað vegna eldsneytisskorts. Hann kláraði þó en stoppaði nokkrum metrum fyrir fyrstu beygju þar sem vélin hafði drepið á sér. Williams sýndi svo styrk sinn árið 1987 með því að vinna titilin með Nelson Piquet undir stýri. Árið 1988 gerði Ayrton Senna svo samning við McLaren og hófst þá mesti liðsfélagaslagur sem sögur fara af. Senna gaf ekkert eftir og var mjög efnilegur og sýndi Prost það að hann væri alveg verðugur andstæðingur. Þetta var einnig síðasta ár “Túrbó” vélanna svokölluðu. Senna stal titlinum af Prost eftir harða baráttu, baráttu baráttu þar sem of oft var teflt á tæpasta vað. Árið 1989 var svo komið að titilbaráttan fór fram í Japan. Ekki geta tveir verið á sama stað, einsog gefur að skilja og einhver varð að víkja, hvorugur vildi samt víkja og enduðu þeir báðir í malargryfjunni á frægan hátt. Prost hafði samt forskotið og vann hann það árið. Hann hafði hins vegar fengið nóg og flutti sig yfir til Ferrari fyrir árið 1990. Titilbaráttan hélt samt áfram á milli þessara tveggja en í þetta skiptið varð það Senna sem tók titilinn eftir að hafa sent Prost og sjálfan sig í malargrifjuna. Snilligáfur. Ljóst var að ekki voru það bara ökumennirnir sem gátu haft áhrif á stöðu mála heldur voru það liðsstjórar og hönnuðir sem höfðu enn meiri völd. Adrian Newey var hönnuður Williams og sýndi það og sannaði árið 1992 þegar Nigel Mansell hreppti langþráðan heimsmeistaratitil að hann er einn af þeim færustu í bransanum. Árið 1992 hannaði Newey nýrstárlegan bíl sem var búinn nýju stjórnkerfi í vélarbúnaði bílsins. Árið 1993 var Williams bíll Neweys búinn nýju kerfi sem kallast grip stýring en yfirburðir liðsins voru enn meiri það árið. Dauði á Imola. Þann 1. maí árið 1994 var sorgardagur. Ayrton Senna lét lífið á Imola brautinni á Ítalíu. Senna hafði farið yfir til Williams fyrir þetta tímabil en hafði ekki náð að klára þær tvær keppnir sem höfðu verið á undan. Árið hafði byrjað á því að menn bönnuðu allan hjálparbúnað fyrir ökumenn. Grip stýring, ræsibúnaður, ABS bremsur, stillanleg fjöðrun og pit-í-bíl kerfið var bannað með öllu. Ástæðan fyrir þessu var sögð vera að stóru liðin væru farin að nota tæknibúnaðinn of mikið, þetta væri ekki menn að keppa heldur tölvur. Daginn áður hafði ungur austurríkismaður látið lífið við æfingar á þessari sömu braut. Hann var í sinni fyrstu keppni í Formúlu eitt. Roland Ratzenberger hét hann. Þennan sama morgun hafði Rubens Barrichello vellt bíl sínum illa og rotast, hann tók þó þátt í keppninni. Hill gerir atlögu. Damon Hill, sonur Grahams Hill tók sæti Senna hjá Williams og var í titilbaráttu árin 1994 og 1995 við Michael Schumacher. Bæði árin komst Schumacher undan með “bellibrögðum” en eitt umdæmdasta atvik Formúlunnar hingað til átti sér stað árið 1994 þegar Schumacher ekur inn í hlið Hill og ekur þá báða út úr keppni. Hill og Schumacher hafði hins vegar lent nokkrum sinnum saman það árið og þar á undan en þetta virtist slá öll met. Schumacher til Ferrari. Schumacer fer svo til Ferrari árið 1996. Hann gerir samning um að fyrir aldamót muni Ferrari verða meistarar. Í nærri tuttugu ár höfðu Ferrari menn ekki unnið titil en síðast gerðist það árið 1979 þegar Jody Scheckter vann. Árið var hins vegar handónýtt fyrir Michael sem ók á meingölluðum bíl. Hann náði þó að krafsa nokkra sigra en þeirra frægastur er þegar hann hringar alla aðrar ökumenn í rigningunni á Spáni. Árið 1997 snéri Schumi blaðinu við og tók að berjast fyrir titli aftur. Það gekk samt brösulega og sá hann þörf til þess að aka andstæðningnum, sem þá var Jacques Villeneuve út úr braut í Jerez í Evrópu kappakstrinum. Hann féll þó á sínu eigin bragði og endaði í malargryfjunni. Villeneuve varð meistari en FIA þótti eðlilegt að dæma öll stigin af Schumcher fyrir atvikið. McLaren sigrar. Bíll McLaren árið 1998 var hreint út sagt frábær. Adrian Newey hafði flutt sig um set og hannaði nú fyrir McLaren. Nýji bíllinn skilaði Mika Häkkinen sínum fyrsta heimsmestaratitli, en ekki þurfti hann að hafa lítið fyrir honum því Schumacher virtist enn hafa eitthvað í sigurvegarana. Michael var hinvegar óheppinn því í síðasta mótinu drap hann á vélinni í ræsingunni og ræsti því aftastur. Mika er svo aftur á ferðinni árið 1999 en Ferrari tóku heimsmeistaratitil bílasmiða það árið, þrátt fyrir fótbrot Schumachers um mitt tímabilið. Ferrari; Rauða sprengjan. Ný öld er rauð, rauð, rauð, rauð, rauð og aftur rauð? Ferrari hefur haft yfirburði það sem af er þessari öld og hefur Michael Schumacher farið þar fremstur í flokki. Liðið hefur bætt öll met sem hægt er að bæta og hefur Schumacher hjálpað mikið til við það. Svo er bara spurning hvort við sjáum aðra liti í framtíðinni, hver veit. Úran. Úran (eða úraníum) er silfurhvítt frumefni sem flokkast sem aktiníð og situr 92. sæti lotukerfisins og hefur þar af leiðandi 92 róteindir og 92 rafeindir. Því var gefið efnatáknið U. Massatala úrans er 238, atómmassi þess er 238,0389 og þar það er í 92. sæti lotukerfisins þýðir það að úran hafi 146 nifteindir. Úran-238 er megin innihald sneydds úrans og er langalgengasta samsæta úrans, en um 99,284% úrans í náttúrunni er úran-238 sem hefur helmingunartíma sem spannar meira en 4 miljarða ára. Úran-235 er hins vegar næst algengasta samsæta úrans sem er aðalinnihald auðgaðs úrans. Úran er einkum notað sem kjarnorkueldsneyti. Einnig notað sem geislahlíf gegn hágeislavirkum efnum og í fleyga skriðdrekaskota. Í fyrstu kjarnorkusprengjunni "Little Boy" („Smádrenginum“ eða „litla drenginum“) var úran notað sem sprengiefni. Alberto Jori. Alberto Jori (f. 1965 í Mantova á Ítalíu) er ítalskur nýaristótelískur heimspekingur. Hann nam í Padua, Cambridge og Heidelberg. Árið 2003 hlaut hann verðlaun Alþjóðlegu sagnfræði- og vísindaakademíunnar (Académie Internationale d'Histoire des Sciences, París, Sorbonne). Jori er málsvari „hagnýttrar heimspeki“. Rit. Jori, Alberto Integra Hellsing. Miss honorable Madam Sir Lady Integral Integra Fairbrook Wingates Wingacy van Hellsing (japanska: インテグラル・ファルブルケ・ウィンゲーツ・ヘルシング, Integuraru Faruburuke Wingētsu Herushingu) er persóna úr japönsku Hellsing anime og manga sögunum. Í bæði sjónvarpsþáttunum og OVA sögunum talar Yoshiko Sakakibara fyrir hana, en í enskri talsetningu talar Victoria Harwood fyrir bæði. Integra Hellsing er formaður Hellsings reglunnar. Integra Hellsing er kvenkyns aðalpersónan í manga bókunum (en Seras Victoria er kvenkyns aðalpersónan í þáttunum). Sagan snýst í kringum hana og Alucard. Hún er köld (þó meira í þáttunum en í OVA sögunum) og leyfir tilfinningum sínum ekki að hlaupa með sig í gönur. Hellsing fjölskyldan er að framfylgja "verkefni frá Guði" og hún metur skyldur sínar meira en allt annað, nema kannski heiður sinn. Hún stjórnar Hellsing með járnaga (þó með undartekningunum Walter og öðru hvoru Seras) og er sú eina sem getur staðið upp í hárinu á Alucardi. Greifi. Greifi er háttsettur konunglegur embættismaður á miðöldum, en getur verið titill aðalsmanns. Einn þekktasti skáldsagnakendi greifi í heimi er Drakúla greifi. Jafntefli. Jafntefli er hlutlaus niðurstaða í íþrótt eða leik þannig að þegar tveir mótherjar, eða tvö lið, keppa tapar hvorugur. Skilyrðin fyrir jafntefli eru t.d. þau að mótherjar hafi jafnmörg stig þegar leiknum lýkur. Mismunandi er eftir íþróttagreinum og -mótum hvort jafntefli eftir venjulegan leiktíma er endanleg niðurstaða leiksins. Í þeim tilfellum sem jafntefli kemur ekki til greina getur verið að framlenging fari fram, vítakeppni eða að liðin mætist aftur til að skera úr um úrslit leiksins. Slayer. Slayer er bandarísk thrash metal/speed metal/death metal hljómsveit sem er „One Of The Big Four“ þ.e.a.s. „ein af stóru fjórum“ en þær eru Anthrax, Metallica, Megadeth og Slayer. Upphafið. Kerry King stofnaði hljómsveitina í Huntington Park, Kaliforníu. King var í hljómsveit með Tom Araya og hafði hann í huga við að stofna nýja hljómsveit. King heyrði einhvern tímann í Jeff Hanneman spila á gítar og Jeff vildi vera með. Síðar var Dave Lombardo að keyra út flatböku og heyrði hann í þeim spila. Buðu þeir honum að verða trommuleikari í hljómsveitinni og þáði hann það. Síðan talaði hann við Tom og hljómsveitin var stofnuð. Þegar að þeir fóru að huga að nafni á hljómsveitina datt þeim fyrst í hug „DragonSlayer“ en ákváðu að hafa það bara „Slayer“ vegna þess að „Dragon“ þótti úrelt. Slayer byrjaði á því að spila ábreiðulög en síðan fóru þeir að semja sjálfir lög. Eitt af fyrstu lögunum voru „Ice Titan“ sem síðar varð að „Altar Of Sacrifice“. Þeir byrjuðu að spila á tónleikum á klúbbi sem hét „Woodstock“ og eitt skiptið þegar að þeir voru að spila það þá tók Brian Slagel eftir þeim og bauð þeim að spila inn á safnplötu sem hét „Metal Massacre III“. Fyrsta stúdíóplatan. Slayer samdi við Brian Slagel að taka upp fyrstu stúdíóplötu sína og hét hún "Show No Mercy" og kom hún út árið1983. Platan var undir áhrifum frá Judas Priest og Iron Maiden og bresku þungarokki en var samt með smá nýstárslegum keim af hardcore punki. Árið 2013 lést stofnmeðlimur sveitarinnar, Jeff Hanneman, úr lifrarbilun. Bílar & Sport. "Bílar & Sport" var íslenskt tímarit sem kom út mánaðarlega og fjallaði um bíla og mótorsport. Það kom fyrst út í janúar 2005. Blaðið fjallaði um allt sem viðkemur bílum. Meðal fastra liða í blaðinu var reynsluakstur, formúla 1, íslenskt mótorsport, fréttir úr bílaiðnaðinum, bílar í kvikmyndum eða tölvuleikjum og margt fleira. Tímaritið stóð fyrir bílasýningu árin 2006 og 2008. Sýningin 2006 var haldin í Laugardalshöll 8.-10. júní á 5.000 fermetra sýningarsvæði og um 15.000 manns sóttu hana. Sýningin 2008 var haldin í Fífunni, Kópavogi á helmingi stærra sýningarsvæði. Drakúla. Kápa fyrstu útgáfu bókarinnar frá 1897. "Drakúla" (enska: "Dracula") er skáldsaga eftir írska rithöfundinn Bram Stoker sem kom út árið 1897. Aðalillmenni bókarinnar er vampíran, eða blóðsugan, Drakúla greifi sem er byggður á ýmsum þjóðsögum um vampírur. Nafn greifans er fengið frá Vlad Ţepeş sem var kallaður "Drăculea" („litli dreki“) og var fursti í Vallakíu á 15. öld, en ólíklegt er talið að Stoker hafi nokkuð þekkt til hans annað en nafnið. Drakúla var þýdd á íslensku og gefin út 1901 undir heitinu "Makt myrkranna". Þýðandi hennar var Valdimar Ásmundsson. Halldór Laxness talar um þýðingu þessa í einni minningarbók sinna, og sumir segja að hún hafi haft mikil áhrif á bók hans Kristnihald undir Jökli. Endursögn. Sagan, sem er skrifuð sem safn af dagbókarbrotum, minnisblöðum og fréttaúrklippum, hefst árið 1893. Hún segir frá ungum lögfræðingi, Jonathan Harker að nafni, sem þarf að ferðast frá London til Transylvaníu til þess að afhenda greifa að nafni Drakúla, afsal fyrir húseign í London. Greifinn tekur á móti lögfræðingnum unga í kastala sínum en Jonathan er þegar sleginn yfir undarlegu útliti hans. Drakúla er hávaxinn, grannur og ákaflega fölur. Hann hefur blóðrauðar varir og rauð augu auk langra oddmjórra eyrna. Neglurnar eru langar og hvassar, úr lófum hans vex hár og undan efri vör hans glittir í hvítar vígtennur. Svo fer að greifinn býður Jonathan að dveljast hjá sér í mánuð. Jonathan fer fljótlega að taka eftir undarlegum háttum greifans sem virðist aldrei vera á ferli nema á nóttinni, hræðast róðukross sem Jonathan hefur um hálsinn og aldrei sést hann nærast. Að lokum sannfærist Jonathan um að eitthvað sé bogið við greifann þegar hann verður vitni að því að Drakúla skríður niður vegg. En þá er allt orðið um seinan, Jonathan er orðinn fangi í kastalanum þar sem hann verður vitni að hræðilegum atburðum. Greifinn, sem orðinn er hugfanginn af unnustu Jonathans, Minu Murray, ákveður að ferðast til London. Þar kemur hann sér fyrir í næsta nágrenni við stúlkuna. Mina fær heimsókn frá vinkonu sinni, Lucy Westenra, sem í kjölfarið verður fórnarlamb blóðþorsta greifans. Lucy fer að haga sér undarlega og er í kjölfarið komið fyrir á hæli þar sem hún er undir umsjá Dr. John Seward. Dr. Seward kann ekki skil á einkennum stúlkunnar og kallar sér til ráðgjafar Dr. Abraham Van Helsing sem ekki er aðeins læknir heldur einnig heimspekingur sem stundar rannsóknir á yfirskilvitlegum hlutum. Upp hefst barátta á milli Drakúla, sem nýtur aðstoðar vistmanns á hælinu og Van Helsing, sem grunar blóðsugu þó hann viti ekki hver hún er. Baráttan endar að lokum með dauða Lucy. Á meðan hefur Jonathan tekist að sleppa úr kastalanum og dvelst á heilsuhæli eftir taugaáfall. Hann hefur talið sér trú um að atburðirnir í kastalanum séu hugarspuni hans en Jonathan og Mina eru núna gift. Van Helsing og Mina hittast og í gegnum bréfaskriftir á milli Minu og Lucy auk dagbóka Jonathans átta þau sig á að það er Drakúla greifi sem er valdur að dauða Lucy. Drakúla ræðst á Minu og lætur hana drekka af blóði sínu og þar með ganga í lið með sér gegn vilja hennar. Van Helsing og félagar elta greifann uppi um alla London en hann kemst undan og heldur aftur heim til Tranylvaniu. Van Helsing og félagar halda humátt á eftir honum og taka Minu með sér. Eftir mikið blóðbað tekst að lokum að ráða niðurlögum greifans og þar með frelsa Minu undan álögum hans. Í kvikmyndum. Sagan af Drakúla greifa hefur verið kvikmynduð tugum sinnum í gegnum tíðina. Sú fyrsta var þögla myndin "Nosferatu" eftir F. W. Murnau frá 1922 en til að komast framhjá höfundarétti var nöfnum breytt frá bókinni. Ekkjan Stokers, Florence Stoker, fór samt í mál við framleiðandann og vann. Best þekkta opinbera kvikmyndaútgáfa sögunnar er þó líklega "Dracula" frá árinu 1931 en hún skaut Bela Lugosi uppá stjörnuhimininn sem síðan eyddi ævinni í að leika blóðsugur. Af nýrri kvikmyndum sem byggja á sögunni má nefna Bram Stoker's Dracula í leikstjórn Francis Ford Coppola frá árinu 1992. Hún skartar leikurum á borð við Gary Oldman, Wynona Ryder, Anthony Hopkins og Keanu Reeves. Myndin hlaut þrjú Óskarsverðlaun auk þess sem hún var tilnefnd í einum flokki til viðbótar. Hnattvæðing. Hnattvæðing eða alþjóðavæðing er hugtak yfir margbrotið og flókið ferli sem hefur áhrif á flest öll svið mannlífs. Þessar breytingar eru bæði huglægar og hlutlægar og, eins og nafnið gefur til kynna, eru þær ekki bundnar við ákveðin svæði heldur teygja sig um allan heim. Í stuttu máli verður hnattvæðingin til þess að flæði upplýsinga, vara, fjármagns, fólks og hugmynda um landamæri eykst og fyrir vikið breytist skynjun fólks á tíma og rúmi. Heimurinn „minnkar“ og tengsl eflast. Rétt er að taka fram að hnattvæðingin er ekki endilega jákvæð þróun og hefur misjafnlega mikil áhrif á fólk eftir því hvar það er statt í heiminum. Fólk í þróunarlöndum verður vart við áhrif hnattvæðingarinnar á allt annan hátt en íbúar vestrænna heimsborga. Í því samhengi er talað um bilið milli norðursins og suðursins. Hnattsaga. Sögu hnattvæðingar hafa ekki verið gerð ítarleg skil af sagnfræðingum enda hugtakið sjálft nýtt af nálinni. Sú undirgrein sagnfræðinnar sem fæst við orsakir hnattvæðingar nefnist "hnattsaga". Í víðum skilningi er hægt að líta á sem svo að hægt sé að rekja „upphaf“ hnattvæðingar aldir aftur í tíman og miða sumir við landnám Kristófers Kólumbusar í Ameríku árið 1492. Aðrir nota ártalið 1830, er Frakkar innlimuðu Alsír sem nýlendu, og enn aðrir miða við eftirstríðsárin. Örasta þróun hennar hefur hins vegar orðið á síðasta aldarfjórðungi 20. aldarinnar. Þetta ferli er hægt að bera saman við aðra byltingarkennda þróun í nútímanum s.s. iðnbyltinguna og prentvæðinguna. Flestir eru á því að hnattvæðingin sé einstaklega hröð, þótt ekki séu allir sammála um að hún feli í sér eðlisbreytingu á lifnaðarháttum. Tækni, stjórnmál og menning. Miklar breytingarnar hafa orðið á sviði upplýsingatækninnar með útbreiðslu stafrænnar tækni. Þannig hefur tilkoma internetsins, öflugri tölvna og farsíma orðið til að bæta og auka samskipti fólks. Í dag getur almenningur átt í samskiptum heimshorna á milli í rauntíma með tiltölulega ódýrum hætti. Einnig hafa orðið framfarir á sviði samgangna sem auðvelda langferðalög. Fjarlægð felur því í sér minni takmarkanir á getu fólks til þess að ferðast, og eiga í samskiptum. Það færist í aukana að ferðamenn ferðist milli landa sér til skemmtunar. Innan vestrænna landa er einnig töluvert um að fólk flytji búferlum landa á milli, t.a.m. geta íbúar Evrópusambandsins ferðast innan þess án takmarkanna. Meira er orðið um ásókn fólks frá fátækari löndum í störf í ríkari löndum og veldur þetta víða þjóðfélagsátökum, sér í lagi þar sem mikið ber á ólöglegum innflytjendum. Efnahagslegar breytingar hafa einnig orðið miklar, flæði varnings milli landa hefur aukist mikið. Erlendar fjárfestingar eru töluverðar og aukast. Alþjóðleg stórfyrirtæki (t.d. Coca Cola, Nike, Microsoft o.fl.) hafa gífurleg völd vegna þess hversu stór þau eru orðin. Efnahagslíf landa eru því víxlháð og getur áhrifa þess gætt víða þegar breyting verður á í einu landi. Þessi þróun er að hluta til komin vegna ríkjandi hugmyndafræði frjálshyggju sem boðar m.a. sem minnstar hömlur á flæði fjármagns, vinnuafls og varnings milli landa. Alþjóðabankinn, Alþjóðaviðskiptastofnunin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráða hér miklu um. Í stjórnmálum hefur borið á auknum völdum alþjóðasamtaka á borð við Sameinuðu þjóðirnar og ESB. Vilja sumir meina að þau grafi undan fullveldi ríkjanna sem eru meðlimir með því að skylda þau til þess að hlíta lögum og reglugerðum sem þau úthluta. Hægt er að færa rök fyrir því að ábyrgð lýðræðislega kosinna þingmanna gagnvart kjósendum rofni þegar alþjóðleg samtök og stofnanir taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf fólks. Að sama skapi hafa alþjóðleg félagasamtök eins og Amnesty, Greenpeace og Rauði krossinn aukin áhrif í krafti þrýstings sem þau beita stjórnvöld til þess að móta stefnu þeirra. Í vestrænum löndum ber meira á einstaklingshyggju sem ríkjandi hugmyndafræði og er í því sambandi talað um vestræna neyslumenningu. Fólk skilgreinir sig í auknum mæli út frá lifnaðarháttum sínum eða lífsstíl. Hnattvæðing hefur sumsstaðar orðið til þess að menning í ólíkum löndum verður einsleitari. T.a.m. þegar sjónvarpsefni er framleitt í einu landi og flutt út til annara landa og lagað að aðstæðum þar, t.d. Idol. Minnsti samnefnari. Minnsti samnefnarinn (Skammstafað sem MSN) er í stærðfræði sú tala sem er minnsta sameiginlega margfeldi nefnara í einhverju mengi almennra brota. Minnsta sameiginlega margfeldi er einnig kallað minnsta samfeldi, sem er stytting nafnsins. Sem dæmi, ef við höfum almennu brotin formula_1 þá sjáum við að minnsti samnefnari þeirra er 4, þar sem 4 er minnsta sameiginlega margfeldi 2 og 4. Sömuleiðis fáum við að minnsti samnefnari fyrir formula_2 Uummannaq. Fjallið Uummannaq í bakgrunni Uummannaq, er bær á norðvesturströnd Grænlands með um 1500 íbúum. Bærinn liggur á samnefndri eyju, um það bil 12 km² að flatarmáli. Hann er 590 km fyrir norðan heimskautsbaug. Staðsetning: 70° 40'N og 58° 08' V. Uummannaq er hluti af sveitarfélaginum Qaasuitsup. Uummannaq ber nafn af samnefndu fjalli rétt við bæinn, fjallið nær 1170 m hæð. Það er hjartalaga enda þýðir nafnið Uummannaq „hjartalaga“. Aðalatvinnuvegir eru fiskiveiðar og selveiði auk ferðamennsku. Múmíur. Í nágrenni við bæinn er forn vetrarbyggð sem kallast Qilakitsoq. Þar fannst 1972 einhver merkasti fornleifafundur á Grænlandi. Það voru sérlega vel varðveittar múmíur af sex fullorðnum og tveimur börnum. Með C-14 aldursgreiningu er hægt að sjá að þau létust um 1475. Múmíurnar eru nú á Þjóðminjasafninu í Nuuk. Veðurfar. Á Uummannaq-svæðinu ræður þurrt heimskautaloftslag með um það bil 2000 sólartímum og um það bil 100 mm úrkomu árlega. Á köldustu mánuðunum í febrúar og mars getur kuldinn orðið mínus 35 eða enn kaldara en hins vegar getur hitinn orðið 15 til 18° C á sumrin. Í Uummannaq er vetrarmyrkur frá 7. nóvember til 4. febrúar. En í staðinn skín miðnætursólin frá 16. maí fram til 28. júlí. Terramare. Terramare er fornmenning sem er bundin við vatnasvæði á Norður-Ítalíu, einkum í héraðinu Emilíu í Pódalnum og við suðurenda vatnanna Como, Maggiore og Garda. Terramare er bronsaldarmenning sem er skilgreind með tilvísun í einkennandi byggingastíl: umhverfis byggðina eru stór stauravirki sem bera trapisulaga virkisvegg og síki sem í rennur vatn er utan við virkið. Grafreitir finnast utan við virkið. Terramare-menningin stóð frá 16. til 12. aldar f.Kr. og var fyrst uppgötvuð seint á 19. öld vegna jarðrasks sem fylgdi endurbótum í landbúnaði. Búsvæði Terramare-menningarinnar virðast hafa verið yfirgefin á tiltölulega skömmum tíma þegar járnöld gekk í garð með Villanova-menningunni um 1100 f.Kr. Maniitsoq. Maniitsoq (á dönsku: "Sukkertoppen", eldri stafsetning "Manîtsoq") er bær á vestur Grænlandi. Í bænum búa um 3000 íbúar og er hann hluti af sveitarfélaginu Qeqqata. Bærinn liggur á samnefndri eyju, á meginlandinu eru fjöll sem rísa í upp undir 2000 metra hæð. Þar eru demanta-, rúbína-, og lapis lazuli (asúrsteins)-námur. Á meginlandinu er talsvert af hreindýrum og sauðnautum. Þau voru flutt þangað frá norðaustur Grænlandi upp úr 1960. Kangaatsiaq. Kangaatsiaq (eldri stafsetning "Kangâtsiaq", nafnið þýðir Litliskagi) er bær á vesturströnd Grænlands og hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup. Í bænum búa um 700 íbúar en ásamt öðrum byggðum í grend um 1400. Fisk- og selveiðar eru aðalatvinnugreinar. Eitt fiskverkunarhús er í bænum og er aðallega verkaður þorskur og rækjur. Í hafinu við Kangaatsiaq lifa allflest hafsspendýr sem fyrirfinnast við Grænlandsstrendur. Á vetrum eru hundasleðar og snjósleðar einu farartækin. Ari fróði Þorgilsson. Ari fróði Þorgilsson (f. 1067 - d. 9. nóvember 1148) var íslenskur rithöfundur og fræðimaður. Hann er talinn aðalhöfundur Íslendingabókar og Landnámu, tveggja helstu heimildanna um landnám og byggð Íslands. Ari á var sonur Þorgils Gellissonar á Helgafelli en afi hans var Gellir Þorkelsson goðorðsmaður á sama stað og voru þeir komnir í beinan karllegg frá Þorsteini rauð, syni Auðar djúpúðgu. Þorgils drukknaði í Breiðafirði þegar Ari var barn en Gellir dó í Hróarskeldu á heimleið úr Rómarferð 1073. Þegar Ari var sjö ára var honum því komið í fóstur hjá Halli Þórarinssyni hinum milda (eða spaka) í Haukadal og var hjá honum næstu 14 árin. Ari kallar Hall ágætastan ólærðra manna og segir að hann hafi verið bæði minnugur og ólyginn. Hallur var svo gamall að hann mundi til þess að hafa verið skírður af Þangbrandi þriggja ára gamall, og var það vetri fyrir kristnitöku. Teitur Ísleifsson, sonur Ísleifs Gissurarsonar biskups, var einnig fóstraður í Haukadal. Hann var mun eldri en Ari, sennilega orðinn harðfullorðinn þegar Ari kom í Haukadal og hafði tekið prestvígslu, og kallar Ari hann fóstra sinn. Hann kom á fót skóla í Haukadal og kenndi sveinum þar til prests. Ari var nemandi hans, hlaut "klassíska menntun" og lærði latínu en nam einnig ýmsan annan fróðleik. Að námi loknu var hann vígður af Gissuri biskupi Ísleifssyni og gerðist prestur á Stað á Ölduhrygg, sem nú heitir Staðarstaður, en lítið er vitað um ævi hans eftir það. Hann virðist þó hafa verið talinn til höfðingja og kann að hafa átt goðorð eða hluta af goðorði, enda átti Ari Þorgilsson sterki sonarsonur hans hálft Þórsnesingagoðorð. Íslendingabók segist Ari hafa skrifað fyrir biskupana Þorlák Runólfsson (1118-1133) og Ketil Þorsteinsson (1122-1145) og er því frumgerð hennar skrifuð einhvern tíma á árabilinu 1122-1132 en síðan segist Ari hafa umskrifað hana eftir yfirlestur biskupanna og Sæmundar fróða, líklega á árunum 1134-1138, og er það sú gerð sem varðveist hefur. Hann mun einnig hafa skrifað eða átt þátt í frumgerð Landnámu; Haukur Erlendsson segir í eftirmála Hauksbókar að Ari og Kolskeggur vitri hafi fyrstir skrifað um landnámið. Viðurnefnið "fróði" hlaut Ari vegna orðspors um að hafa gott minni. Í Heimskringlu segir Snorri Sturluson hann hafa vera stórvitran og minnugan. Orkuveita Reykjavíkur. Orkuveita Reykjavíkur er íslenskt sameignarfyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar. Orkuveitan starfar á grundvelli laga nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið rekur rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu, gagnaflutningskerfi og fráveitu. Skipulag. OR er sameignarfélag í eigu þriggja sveitarfélaga; Reykjavíkurborgar (94%), Akraneskaupstaðar (5%) og Borgarbyggðar (1%). Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna - borgarstjórinn í Reykjavík, bæjarstjórinn á Akranesi og sveitarstjóri Borgarbyggðar - fara með atkvæði þeirra á aðalfundi. Haraldur Flosi Tryggvason er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Aðrir stjórnarmenn eru Helga Jónsdóttir, Aðalsteinn Leifsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir og Hrönn Ríkharðsdóttir. Áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar er Björn Bjarki Þorsteinsson. Forstjóri Orkuveitunnar er Bjarni Bjarnason, en framkvæmdastjórar eru þrír, Páll Erland, framkvæmdastjóri Veitna, Ingi J. Erlingsson, framkvæmdastjóri Fjármála og Jakob Sigurður Friðriksson, framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu. Saga. Orkuveita Reykjavíkur var stofnuð 1. janúar 1999, með sameiningu Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Rafmagnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1921, en Hitaveita Reykjavíkur varð að sjálfstæðu fyrirtæki árið 1946. Árið 2000 sameinaðist Vatnsveita Reykjavíkur Orkuveitunni, en vatnsveitan tók til starfa 16. júní 1909. Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi vatnsveitustjóri, var ráðinn fyrsti forstjóri Orkuveitunnar. Þann 1. maí 2000 tók Orkuveitan við rekstri Hitaveitu Þorlákshafnar. Um áramótin 2001-2002 sameinuðust veiturnar á Akranesi og hitaveiturnar í Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit Orkuveitu Reykjavíkur. Þá bættist hitaveitan á Bifröst við fyrirtækið. Jafnframt var Orkuveitunni breytt úr borgarfyrirtæki í sameignarfyrirtæki og voru eigendurnir Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Hafnarfjörður, Garðabær, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit. Garðabær seldi sinn hlut í fyrirtækinu í árslok 2002. Á árinu 2004 sameinuðust Austurveita, Hitaveita Hveragerðis og Ölfusveita Orkuveitunni. Í byrjun ársins 2006 sameinuðust fráveitur Reykjavíkur, Akraness, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar Orkuveitu Reykjavíkur. Deilur í október 2007. Í október 2007 spunnust miklar deilur um fyrirhugaða sölu á eignarhlut Orkuveitunnar í Reykjavik Energy Invest, og lyktaði þeim með því að borgarstjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins féll. Höfuðstöðvar. Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur voru á Suðurlandsbraut 34 til að byrja með, en nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins voru reistar að Bæjarhálsi 1. Samkeppni var haldin um hönnun nýju höfuðstöðvanna og hlutu Hornsteinar og Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar fyrstu verðlaun í samkeppninni. Nýjar höfuðstöðvar voru vígðar þann 23. apríl 2003. Kostnaður við byggingu höfuðstöðvanna fór talsvert fram úr áætlun og nam heildarkostnaður um 5.800 milljónum króna samkvæmt Morgunblaðinu, en 1.800 milljónir fengust fyrir sölu fyrri höfuðstöðva fyrirtækjanna sem voru sameinuð í Orkuveitunni. Jón Páll Sigmarsson. Jón Páll Sigmarsson (fæddur 28. apríl 1960, látinn 16. janúar 1993) var íslenskur kraftlyftingamaður. Ævisaga. Jón Páll var fæddur á Sólvangi í Hafnarfirði. Þegar hann var 2 ára fluttist hann með fjölskyldunni í Stykkishólm. Hann var yfir sumarið í Skáleyjum þar sem hann tók þátt í búnaðarstörfum. Hann hóf íþróttaiðkun sína fimm ára gamall í glímu. Við 9 ára aldur flutti hann á ný, nú í Árbæjarhverfi í Reykjavík en þar bjó hann öll unglingsárin. Þar æfði hann knattspyrnu, handbolta og hálfmaraþon. Keppnisferill. 1975 tekur hann þátt í lyftinganámskeiði sænska frystihússins. Hann hóf keppnisferill sinn 1979 og keppti bæði í vaxtarækt og kraftlyftingum. Fyrsta árið keppti hann í 110 kg flokki. Hann lyfti samanlagt 311,9 kg á Jakabólsmótinu 1979, bætti þá tölu um sex kíló á Meistaramóti KR og var lyfti samanlagt 406,7kg á Norðurlanda meistaramótinu og fékk silfurverðlaun. Næstu árin keppti hann í 125 kg flokki. 1981 varð hann fyrsti Íslendingurinn að lyfta yfir 900kg samanlagt á Íslandsmeistaramóti. Sama ár hlaut hann verðlaunin Íþróttamaður ársins og keppti í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu "Sterkasti maður heims", þar sem hann lenti í 3. sæti og lyfti 912,5 kg samanlagt. 1984 var haldið mót á milli Íslands og Skotlands í borginni Paisley. Jón Páll lyfti samanlagt 955kg á mótinu en Skotar unnu. Sama ár varð hann í fyrsta skipti heimsmeistari í kraftlyftingum á mótinu Sterkasti maður heims þar sem hann lyfti 525,7 kg samanlagt. Hann vann keppnina Sterkasti maður heims samtals fjórum sinnum; árin 1984, 1986, 1988 og 1990. 16. janúar 1993 lést hann vegna ættgengrar hjartabilunar í íþróttasal sínum að Suðurlandsbraut 6, en þrír ættingjar hans höfðu þegar látist vegna sambærilegra hjartabilana. Mýri (Bárðardal). Mýri er íslenskur bær og jafnframt innsti bær í Bárðardal vestan Skjálfandafljóts. Við Mýri byrjar vegurinn yfir Sprengisand og var þar áningar- og gististaður fyrir þá sem ferðuðust yfir sandinn. Er stutt að Aldeyjarfossi frá bænum. Á Mýri hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 2001. Radíus (útvarpsþáttur). Radíus var útvarpsþáttur þeirra Radíussbræðra Davíðs Þórs Jónssonar og Steins Ármanns Magnússonar á Aðalstöðinni. Þeir voru m.a. þekktir fyrir Radíusflugur og að spila einungis tónlist með Elvis Presley. Melissa McCarthy. Melissa McCarthy (fædd 26. ágúst 1969 í Plainfield í Illinois) er bandarísk leikkona, þekktust fyrir leik sinn í þáttaröðinni um "Mæðgurnar" ("Gilmore Girls") þar sem hún leikur gistiheimiliseigandann og kokkinn Sookie St. James. Auk þess hefur hún leikið aukahlutverk í kvikmyndum á borð við "Charlie's Angels" og "The Kid". Má bjóða þér lán? "Má bjóða þér lán?" er fyrsta breiðskífa íslensku harðkjarnasveitarinnar The Best Hardcore Band in the World. Hún er gefin út af Banana Thrash, útgáfu sem sérhæfir sig í útbreiðslu íslenskra jaðarhljómsveita. John Dolmayan. John Dolmayan (fæddur 15. júlí 1973 í Líbanon) er trommuleikari bandarísku hljómsveitarinnar System of a Down. Dolmayan bjó í Líbanon til 5 ára aldurs þegar fjölskyldan ákvað að flytja vegna borgarastríðsins þar í landi. Ævisaga. Nótt eina lá Dolmayan andvaka og hræddur í rúmi sínu í Líbanon svo hann ákvað að krjúpa upp í rúm til foreldra sinna. Stuttu seinna var byssukúlu skotið inn í herbergi hans og hæfði hún rúmið hans þar sem hann hafði legið. Þá um nóttina fengu foreldrar hans nóg og ákváðu að flytja og settust að í Toronto í Kanada. Faðir Johns er saxófónleikari en byrjaði feril sinn sem trommuleikari. John sjálfur hefur enga kennslu í trommuleik hlotið heldur spilaði hann með tónlist sem hann lék af geisladiskum og plötum. Dolmayan tók við trommuleik í System of a Down þegar Andy Khachaturian hætti. Nú þegar meðlimir System of a Down ætla að halda hver sína leið í bili mun John selja teiknimyndasögur á netinu undir nafninu Torpedocomics. Tenglar. Dolmayan, John Tuttugasta og fyrsta konungsættin. Tuttugasta og fyrsta konungsættin í sögu Egyptalands hins forna var fyrsta konungsættin sem getið er á þriðja millitímabilinu. Þetta tímabil einkenndist af hægfara hnignun miðstjórnarvalds. Faraóarnir ríktu yfir Neðra Egyptalandi í Tanis en Efra Egyptaland var undir stjórn æðstupresta Amons í Þebu. 21 Gullaldarlatína. Gullaldarlatína (á latínu "Latinitas aurea") eða snemmklassísk latína er það skeið í latneskri málsögu og bókmenntasögu nefnt sem nær frá 80 f.Kr. til 14 e.Kr., þ.e. frá endalokum lýðveldistímans eftir að valdatíma Súllu lauk til upphafs keisaratímans allt til loka valdatíma Ágústusar. Margir fornfræðingar telja að á þessu tímabili hafi latneskar bókmenntir náð mestum þroska. Bókmenntir þessa tímabils hafa ætíð verið viðmið „réttrar“ og „góðrar“ latínu. Tímabilið eftir gullöldina er nefnt silfuraldarlatína en saman eru þessi tvö tímabil nefnd klassísk latína. Klassísk latína er frábrugðin fornri latínu m.a. í því að "-om" og "-os" endingar fornlatínunnar hafa orðið að "-um" og "-us" endingum. Einhver breyting átti sér einnig stað í orðanotkun, t.d. með því að merking ýmissa orða víkkaði. Bundið mál. Elsta skáldið sem telst til gullaldarinnar er epikúríska skáldið Lucretius, sem samdi langt kvæði um epikúriska heimspeki, nefnt "Um eðli hlutanna" (lat. "De rerum natura"). Catullus (87 – 47 f.Kr.) er þekktastur hinna svokölluðu nýju skálda ("poetae novi" á latínu eða "neoteroi" á grísku). Meðal annarra „nýrra skálda“ mætti nefna Valerius Cato, Furius Bibaculus, Varro Atacinus, Cinna og Calvus. Catullus átti mikinn þátt í að laga bragarhætti grísks lýrísks kveðskapar að latínunni. Ljóð Catullusar voru persónuleg, stundum erótísk, oft fjörug en ekki síður bitur persónuleg ádeila. Öll kvæði hans eru undir grískum bragarháttum. Áhrif grísks kveðskapar á latínu þessa tímabils náði ef til vill hámarki í kvæðum Virgils, Hóratíusar og Ovidiusar. "Eneasarkviða" Virgils var söguljóð eftir fyrirmynd Hómers. Kvæði Hóratíusar voru að grískri fyrirmynd og undir grískum bragarháttum og Ovidius samdi m.a. löng kvæði um gríska goðafræði, svo sem "Myndbreytingar". Tibullus og Propertius sömdu einnig ljóð eftir grískum fordæmum, undir elegískum hætti. Ovidius var síðasta skáld gullaldartímans. Óbundið mál. Meginhöfundar gullaldartímans á óbundnu máli voru Julius Caesar og Marcus Tullius Cicero. Rit Caesars um "Gallastríðin" (lat. "Commentarii de Bello Gallico") og "Borgarastríðið" ("Commentarii de Bello Civili") eru hnitmiðuð og kjarnyrt, líkt og stíll flestra rómverskra sagnaritara. Cicero var lögfræðingur, stjórnmálamaður og heimspekingur. Rit hans, einkum varðveittar ræður en einnig rit hans um heimspeki og mælskufræði, hafa öldum saman verið fyrirmynd óbundins máls á latínu. Cicero skrifaði auk þess fjöldan allan af einkabréfum en rúmlega 900 þeirra eru varðveitt. Stíll Ciceros er „fyllri“ en Caesars, nákvæmur og skýr en ekki eins kjarnyrtur. Sagnaritun var mikilvæg bókmenntagrein í klassískri latínu. Meðal helstu sagnaritara gullaldartímans má nefna Sallustius, sem samdi m.a. ritin "Samsæri Catilinu" og "Stríðið gegn Jugurthu". Stíll Sallustiusar er um sumt líkur stíl Caesars, kjarnyrtur, en Sallustius tók sér einnig forngríska sagnaritarann Þúkýdídes til fyrirmyndar. Stílnum er oft lýst með orðinu "brevitas" (stuttleiki). Titus Livius var annar merkur sagnaritari gullaldartímans. Rit hans "Frá stofnun borgarinnar" ("Ab Urbe Condita") var saga Rómar frá stofnun hennar árið 753 f.Kr. fram til samtíma höfundar í 145 bókum en þar af eru 35 varðveittar. Liviusar er eini rómverski sagnaritarinn sem ritaði ekki hinn kjarnyrta stíl sem Sallustius hafði kosið og Tacitus kaus síðar. Stíl Liviusar hefur verið lýst sem "lactea ubertas" („mjólkurfylling“). Livius var síðasti merki höfundur gullaldartímans á óbundnu máli. Bootlegs. Bootlegs er íslensk metal-hljómsveit. Hún var stofnuð árið 1986 og hætti árið 1991. Hljómsveitin kom aftur saman árið 2005. Þorvaldur Ósvífursson. Þorvaldur Ósvífursson var fyrsti eiginmaður Hallgerðar langbrókar Höskuldsdóttur. Hún var gefin honum án þess að talað væri við hana áður. Við það var hún ekki sátt og nýtti tækifærið þegar hann sló hana kinnhest og lét Þjóstólf, fóstra sinn drepa hann. Augusto Pinochet. Augusto Pinochet (fæddur 25. nóvember 1915, látinn 10. desember 2006) var einræðisherra í Chile frá 1973 til 1990 eftir að hafa steypt af stóli forseta landsins, Salvador Allende. Augusto Pinochet hét fullu nafni Augusto José Ramón Pinochet Ugarte. Hann kom fram á sjónarsviðið 1973 þegar hann stjórnaði byltingu í Chile en þá steypti hann sósíalistanum Salvador Allende úr stóli og við tók einræðisstjórn Pinochets. Stjórnartíð Pinochets varði til 1990 og var hún blóði drifin. 1200 – 3200 manns týndu lífi og um 30 þúsund manns máttu þola pyntingar af versta toga. Ljóst er að byltingin var studd af Bandaríkjamönnum, með aðild CIA, en bandarísk stjórnvöld hafa reyndar ekki viðurkennt að hafa stutt byltinguna. Það má segja um breytingarnar að þær hafi breytt miklu í efnahagslífi Chile. Gjaldmiðillinn styrktist (gengið tengdist Bandaríkjadollar), tollar voru felldir niður, markaðir opnuðust og ríkisfyrirtæki voru einkavædd. Þessi umbreyting hefur verið kölluð „Kraftaverk Chile“ en gagnrýnendur segja ríkisstefnuna hafi aukið efnahagslegan ójöfnuð í þjóðfélaginu. Árið 1990 boðaði Pinochet til lýðræðislegra kosninga og lagði niður einræðisstjórn sína eftir að kosningar árið 1988 þar sem þjóðin kaus að fá lýðræði. Hann hélt áfram stöðu sinni sem æðsti yfirmaður hersins þangað til í mars 1998 en þannig naut hann áfram friðhelgi og ekki var hægt að lögsækja hann fyrir glæpi sína. Þessi friðhelgi féll niður þegar hann var handtekinn í Bretlandi og settur í stofufangelsi. Hann var látinn laus vegna veikinda og sneri aftur til Chile árið 2000, þar sem honum var fagnað sem þjóðhetju og þingið samþykkti friðhelgi fyrir Pinochet sem var fyrrum forseti. Í júlí 2002 felldi hæstiréttur Chile friðhelgina niður og 2004 voru birtar ákærur á hendur honum fyrir morðið á Carlos Prats, varaforseta Chile í tíð Allende, sem var drepinn í bílasprengingu í Argentínu árið 1974. Einnig var Pinochet ákærður fyrir Colombo aðgerðina þar sem 119 manns létu lífið í aðgerðum lögreglunnar í Chile árið 1975. Hann fékk hjartaáfall í desember 2004 og tafði það málaferli. Í nóvember 2006 var Pinochet aftur settur í stofufangelsi, þá 91 árs gamall og ákærður fyrir morð á tveimur af lífvörðum Allende. Pinochet lést þann 10. desember 2006 án þess að dómur hafi fallið vegna þeirra atriða sem hann var ákærður fyrir. Glúmur Óleifsson. Glúmur Óleifsson var annar eiginmaður Hallgerðar langbrókar Höskuldsdóttur. Þau bjuggu á Varmalæk í Borgarfirði. Bræður Glúms hétu Ragi og Þórarinn sem var kallaður Ragabróðir og var lögsögumaður á 10. öld. Hallgerður og Glúmur unnust mjög og á meðan þau bjuggu saman var hún vinsæl og vel liðin. En Glúmur gerði þau mistök að slá hana kinnhest og drap Þjóstólfur, fóstri Hallgerðar, hann. Hallgerður var ekki sátt með það og sendi þá Þjóstólf til Hrúts frænda síns sem drap hann. Kirkjubær (Rangárvöllum). Kirkjubær á Rangárvöllum er stórbýli á miðjum Rangárvöllum alllangt ofan þjóðvegarins á vinstri hönd þegar ekið er frá Hellu til Hvolsvallar. Bærinn er fornfrægur og kemur mjög við sögu í Njálu, en á sögutíma hennar bjó þar Otkell sá sem Hallgerður langbrók lét þrælinn Melkólf ræna frá. Otkell vildi ekki taka neinum sáttaboðum Gunnars á Hlíðarenda og lét Skammkel á Hofi ráða öllu fyrir sig, en Skammkell gerði málin óleysanleg og kostaði það Gunnar lífið. Í Kirkjubæ var kirkja, ekki er vitað um upphaf hennar né heldur um upphaf nafnsins, en þó er ljóst að bærinn hét Kirkjubær allöngu fyrir kristnitöku. Í Kirkjubæ hefur lengi verið tvíbýli og heita býlin Eystri- og Vestri-Kirkjubær. Í Eystri-Kirkjubæ var grafið fyrir húsi um 1930 og komu þá upp mannabein og gæti þar hafa verið kirkjugarður. Meðfram túnjaðri Kirkjubæjar rennur Kirkjubæjarsíki, sem seinna skiptir um nafn og heitir þá Strandarsíki. Það rennur svo út í Eystri-Rangá skammt neðan við Djúpadal. Þekkt hrossaræktarbú er í Kirkjubæ og eru þaðan frægir hestar á borð við Rauðhettu, Öngul og Þátt auk annarra. Stóðið í Kirkjubæ er nær allt rautt og flest hrossin auk þess glófext og blesótt eða stjörnótt. Bjarni Tryggvason. Bjarni Tryggvason (fæddur 21. september 1945) er kanadískur geimfari af íslenskum ættum. Hann fæddist í Reykjavík, á Íslandi en býr í Vancouver, í Kanada. Kennsl. Aristóteles skipti kennslum í nokkra flokka eftir því hvernig þau koma til. Ólistrænust taldi hann vera þau sem koma til af ytri merkjum, til dæmis þannig að maður þekkist af spjóti sínu, hálsfesti eða sári. Kennsl geta einnig komið til af frásögn, minningu eða rökvillu en best er þegar þau eru „afleiðing af sjálfri atburðarásinni“. Þekkt dæmi um kennsl kemur fyrir í "Oídípúsi konungi" eftir Sófókles. Oídípús rannsakar morðmál og kemst á endanum að því að hann er sjálfur sá seki; hefur óafvitandi drepið föður sinn og gifst móður sinni. Þessi uppgötvun markar einnig "hvörf" í harmleiknum en algengt er að kennsl og hvörf fari saman. Í seinni tíma leikritum eru kennsl ekki jafn-snar þáttur og í leikhúsi Forn-Grikkja en þó koma þau víða fyrir, til dæmis í verkum Shakespeares. Rómversk heimspeki. Rómversk heimspeki er tvírætt hugtak. Það vísar annars vegar til þeirrar heimspeki sem var stundum af Rómverjum en segja má að saga rómverskrar heimspeki hefjist um miðja 2. öld f.Kr. Í þessum skilningi er oft miðað við þá höfunda sem skrifuðu á latínu. Hins vegar er stundum talað um rómverska heimspeki sem það tímabil í sögu fornaldarheimspeki sem tekur við af hellenískri heimspeki. Tímabili hellenískrar heimspeki er yfirleitt talið ljúka árið 31 f.Kr. eða 27 f.Kr., þ.e. allnokkru eftir að Rómverjar höfðu kynnst heimspeki. Þegar litið er á rómverska heimspeki sem tímabil er það gjarnan látið ná út 2. öld en þá er sagt að heimspeki síðfornaldar hefjist. Rómversk heimspeki var alla tíð undir miklum áhrifum frá grískri heimspeki, ekki síst hellenískri heimspeki; svo mjög að segja má að rómversk heimspeki hafi verið flutt inn frá Grikklandi og hafi ávallt verið grísk heimspeki í rómverskum búningi. Bláa lónið. Bláa lónið er lón á Reykjanesskaganum sem affallsvatn frá Hitaveitu Suðurnesja myndar. Árið 1976 myndaðist lón í kjölfar starfsemi Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og árið 1981 fór fólk að baða sig í lóninu þegar í ljós kom að böðun hefur jákvæð áhrif á húðsjúkdóminn psorisasis. Sex árum seinna eða árið 1987 opnað baðaðstaða fyrir almenning og 1992 var Bláa Lónið hf. stofnað. Árið 1994 tók Bláa Lónið hf. yfir rekstur baðstaðarins og í kjölfar opnaði göngudeild fyrir psoriasis og exem sjúklinga og fljótlega koma fyrstu Blue Lagoon húðvörurnar á markað. Meginmarkmið félagsins er að vera í forystu um uppbyggilega heilsu- og ferðaþjónustu á Íslandi. Einstakleiki og eiginleikar Blue Lagoon jarðsjávarins eru aðalsmerki félagsins en jarðsjórinn inniheldur steinefni, kísil og þörunga sem þekktur er fyrir lækningarmátt sinn. Bláa Lónið hefur unnið til margskonar verðlauna, m.a. fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Bláa lónið er nú einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Starfsemi félagsins er á þremur sviðum, rekstur Bláa Lónsins, þróun og markaðssetning á Blue Lagoon húðvörunum en nú er að finna breytt úrvarl húðvara fyrir andlit og líkama, og rekstur heilsulindar þar sem veitt er meðferð við húðsjúkdómnum psoriasis. Bláa Lónið hefur opnað nokkrar verslanir með Blue Lagoon vörum sínum og sú nýjasta er Blue Lagoon spa í Hreyfingu heilsulind. Hjá fyrirtækinu starfa um 90 manns. Blue Lagoon psoriasis meðferðin hefur hlotið viðurkenningu íslenskra heilbrigðisyfirvalda en fyrirtækið hefur boðið upp á meðferðir gegn sjúkdómnum frá árinu 1993. Meðferðin byggir fyrst og fremst á böðun í jarðsjónum en hann er eins og áður sagði þekktur fyrir lækningamátt sinn. Bláa Lónið ræktar blágræna þörunga sem einangraðir hafa verið úr jarðsjó Bláa Lónsins. Þetta eru sjaldgæfir þörungar sem einungis hafa fundist í jarðsjó Bláa lónsins. Þörungarnir og virk efni úr þeim eru notaðir í húðvörur Bláa Lónsins - vörumerki húðvaranna er Blue Lagoon Iceland. Rannsóknir hafa leitt í ljós áhugaverða lífvirkni þörunganna á húðina, einkum gegn öldrun hennar, auk þess að vera framleiðendur að ýmsum áhugaverðum lífvirkum efnum svo sem omega3 fitusýrum, fjölsykrum, náttúrulega litarefninu phycocyanin. Vistkerfi Bláa Lónsins er eitt sinnar tegundar í heiminum. Kaldur sjór og grunnvatn kemst í snertingu við heitt innskotsberg á miklu dýpi þar sem Ameríku og Evrópu-Asíu flekarnir tengjast. Vökvinn snögghitnar og stígur upp á yfirborð jarðar. Hitaveita Suðurnesja borar eftir slíkum holum og jarðhitavökvinn er nýttur til að veita 17.000 íbúum heitt vatn og 45.000 manns rafmagn. Eignarhald. Árið 2007 var stærsti hluthafinn í Bláa lóninu Hitaveita Suðurnesja sem átti rúmlega þriðjungshlut og Sparisjóðurinn í Keflavík með um 7 % hlut. Eignarhaldsfélög tengd Grími Sæmundsen framkvæmdastjóra fóru með um helmingshlut (Fréttablaðið 25. apríl. 2007 Bláa lónið metið á fjóra milljarða) Pelópsskagastríðið. Pelópsskagastríðið (431 f.Kr. – 404 f.Kr.) var stríð í Grikklandi hinu forna milli Aþenu og bandamanna hennar annars vegar og Spörtu og bandamanna hennar hins vegar. Elsta og frægasta heimildin um Pelópsskagastríðið er "Saga Pelópsskagastríðsins" eftir forngríska sagnfræðinginn Þúkýdídes. Sagnfræðingar hafa venjulega skipt stríðinu í þrjú skeið. Á fyrsta skeiðinu, arkídamíska stríðinu, gerði Sparta ítrekaðar innrásir á Attískuskaga en Aþena nýtti sér yfirburði sína á sjó til að gera strandhögg á Pelópsskaga og reyndi að halda niðri ólgu meðal bandamanna sinna. Þessu skeiði stríðsins lauk árið 421 f.Kr. með friði Níkíasar. En áður en langt um leið brutust átök út að nýju á Pelópsskaganum. Árið 415 f.Kr. sendi Aþena her til Sikileyjar í von um að hertaka Syrakúsu. Árásin misheppnaðist illa og Aþeningar töpuðu öllu herliðinu sem þeir sendu árið 413 f.Kr. Við þessi tímamót hófst síðasta skeið stríðsins, sem er venjulega nefnt jóníska stríðið. Sparta, sem naut nú stuðnings Persaveldis, studdi byltingu í bandalagsríkjum Aþenu á Eyjahafi og í Jóníu og gróf þannig undan veldi Aþenu og yfirráðum hennar á sjó. Eyðilegging aþenska flotans í orrustunni við Ægospotami réð úrslitum í stríðinu og Aþena gafst upp ári síðar. Pelópsskagastríðið breytti ásjón Grikklands. Aþena hafði verið sterkasta borgríkið fyrir stríðið en var nú máttvana. Á hinn bóginn varð Sparta leiðandi afl í grískum stjórnmálum. Stríðsreksturinn hafði efnahagsleg áhrif á allt Grikkland og fátækt varð almenn á Pelópsskaga. Aþena var í sárum og náði aldrei aftur fyrri stöðu sinni. Stríðið olli einnig smærri breytingum á grísku samfélagi. Átökin milli aþenska lýðræðisins og spartversku fámennisstjórnarinnar, sem hvor um sig studdi stjórnmálafylkingar í öðrum ríkjum, gerðu borgarastríð algeng í Grikklandi. Grískur hernaður, sem hafði upphaflega verið takmarkaður og formlegur, umbreyttist í ótakmarkað stríð, með tilheyrandi hamförum sem höfðu ekki áður sést að slíku marki. Heilu sveitirnar lögðust í eyði, borgríki voru lögð í rúst og viðhorfsbreyting varð í trúarlegum og siðferðilegum málum. Pelópsskagastríðið markaði endann á 5. öld f.Kr., gullöld Grikklands. Trójustríðið. Trójustríðið var goðsagnakennt stríð sem sagan segir að Akkear (Grikkir) hafi háð gegn Tróju í Litlu Asíu (í dag í Tyrklandi) eftir að París prins í Tróju stal Helenu fögru frá eiginmanni hennar, Menelási, konungi í Spörtu. Trójustríðið var einn mikilvægasti atburðurinn í grískri goðafræði og var umfjöllunarefni margra bókmenntaverka. Frægustu bókmenntirnar um Trójustríðið eru Hómerskviður, "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða" Hómers. "Ilíonskviða" greinir frá atburðum á tíunda og síðasta ári umsátursins um Tróju en "Ódysseifskviða" lýsir heimferð Ódysseifs, einnar aðalhetju gríska hersins. Aðrir hlutar sögunnar voru umfjöllunarefni annarra söguljóða (t.d. "Litlu Ilíonskviðu" og "Fall Tróju"), sem eru einingis varðveitt í brotum og endursögnum annarra höfunda. Harmleikjaskáldin gerðu sér mat úr efni kvæðanna og rómversk skáld eins og Virgill og Óvidíus gerðu það einnig. Stríðið hófst í kjölfar deilna gyðjanna Aþenu, Heru og Afródítu um hver þeirra væri fegurst eftir að gyðjan Eris („Þrátt“) gaf þeim gyllt epli sem á var letrað „handa þeirri fegurstu“ (þekkt sem þrætuepli). Gyðjurnar báðu París um að dæma hver þeirra væri fegurst en hann dæmdi Afródítu sigur. Að launum lét Afródíta Helenu, sem var fegurst allra kvenna, verða ástfangna af Parísi, sem hafði hana á brott með sér til Tróju. Agamemnon, konungur í Mýkenu og bróðir Menelásar, eiginmanns Helenu, fór fyrir her Akkea til Tróju þar sem þeir sátu um borgina í tíu ár. Borgin féll að lokum. Akkear brenndu borgina og vanhelguðu hof og unnu sér þannig óvild guðanna. Fáir Akkea náðu heim aftur. Rómverjar röktu uppruna sinn aftur til Eneasar, Tróverja sem var sagður hafa flúið borgina í rústum og haldið til Ítalíu þar sem hann stofnaði nýja borg. Forngríkkir töldu að Trójustríðið hefði raunverulega átt sér stað. Þeir töldu að stríðið hefði verið háð á 13. eða 12. öld f.Kr. og að Trója hefði staðið nálægt Hellusundi, nú í norðvesturhluta Tyrklands. Árið 1870 gróf þýski fornleifafræðingurinn Heinrich Schliemann upp borgarstæði á þessum stað sem nú er talin hafa verið Trója. Borgarstæðin voru raunar mörg og frá ólíkum tímum en borgarstæðið Trója VIIa er talin hafa verið sú Trója sem Hómer kvað um. Enda þótt fræðimenn séu flestir á einu máli um að atburðir þeir sem Hómer lýsir hafi ekki átt sér stað telja þó margir að í kviðum Hómers sé sannleikskorn. Trója VIIa fórst í eldi og stríði og svo virðist sem Grikkir hafi setið um borg á þessu svæði á bronsöld. Þeir sem telja að sögurnar um Trójustríðið megi rekja til tiltekins atburðar telja gjarnan að stríðið hafi átt sér stað um 1200 f.Kr. (Hefðbundna ártalið sem Eratosþenes reiknaði út er 1194 f.Kr.–1184 f.Kr.) Tilvistarstefna. a> (1813-1855) er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar. Tilvistarstefna er heimspekistefna, sem á rætur að rekja til 19. aldar í verkum Sørens Kierkegaard og Friedrichs Nietzsche, en var einkum mótuð af af þýskum og frönskum heimspekingum upp úr 1920 og fram yfir miðja 20. öldina. Kunnastir munu Martin Heidegger, Karl Jaspers, Gabriel Marcel, Albert Camus, Simone de Beauvoir og Jean-Paul Sartre. Verk rithöfundanna Fjodor Dostojevskíj og Franz Kafka eru talin bera vott um tilvistarstefnu og hafa haft áhrif á hugsuði sem á eftir komu. Hún hefur, einkum í meðförum þess síðast nefnda, haft töluverð áhrif innan bókmennta, bæði vegna þess að viðfang hennar — tilvistarvanda einstaklingsis — varðar þær mjög og sökum þess að franskir tilvistarspekingar settu skoðanir sínar oft fram í bókmenntaverkum. Kierkegaard, sem var danskur heimspekingur og er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar, hélt því fram að sannleikur væri huglægur, í þeim skilningi að það sem er mikilvægast lifandi veru eru spurningar er varða innri tengsl hennar við tilvistina. Hlutlægur sannleikur (t.d. í stærðfræði) er mikilvægur en ótengd hugsun eða athugun getur aldrei fyllilega hent reiður á mannlegri tilvist. Nietzsche hélt því fram að mannleg tilvist væri „viljinn til valda“, þrá eftir fullkomnun eða mikilleika. Framúrskarandi einstaklingar finna upp eigin gildi og skapa þær kringumstæður þar sem þeir skara fram úr. Hugmyndir Kierkegaards um riddara trúarinnar og Nietzsches um ofurmennið eru dæmi um þá sem skilgreina eðli eigin tilvistar. Á grundvelli þessara hugmynda hafnar tilvistarspekin hugmyndinni um mannlegt eðli en reynir þess í stað að laða fram getu hvers og eins til að lifa raunverulega, eða með öðrum orðum er hver manneskja fær um að skilgreina og ákvarða eigið líf. Margrét Lóa Jónsdóttir. Margrét Lóa JónsdóttirMargrét Lóa Jónsdóttir (fædd 29. mars 1967) er íslenskt skáld og rithöfundur. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og fór síðan í Háskóla Íslands þar sem hún lagði stund á íslensku og heimspeki. Hún fór í viðbótarnám í heimspeki í háskólanum í San Sebastian á Spáni og lauk B.A. prófi 1996. Margrét Lóa hefur aðallega skrifað ljóð en fyrsta verk hennar, ljóðabókin "Glerúlfar", kom út árið 1985. Hún hefur sjálf gefið út margar af bókum sínum og myndskreytt þær. Auk ljóðabókanna hefur Margrét Lóa samið hljóðlistaverk sem flutt var í Gallerí Hlust og bóklistaverk sem sýnt var í Gallerí Barmi. Hún hefur ennfremur haldið námskeið í skapandi skrifum í samvinnu við Borgarbókasafn Reykjavíkur og haldið svipuð námskeið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Margrét Lóa ritstýrði og gaf út listatímaritið Andblæ um tveggja ára skeið. Margrét Lóa býr í Reykjavík. Hún hefur starfað mikið við kennslu undanfarin ár og einnig unnið töluvert hjá Listasafni Reykjavíkur. Hún hefur meðal annars kennt kvikmyndarýni og spænsku á barna- og fjölskyldunámskeiðum í samvinnu við Íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkur. Um þessar mundir vinnur hún við ritstörf og leggur stund á fjarnám til kennsluréttinda í Kennaraháskóla íslands. Hún hefur mikinn áhuga á skapandi skólastarfi og námi sem byggir á hlustun og leik. Margrét Lóa hefur unnið sem leiðsögukona um listsýningar á Kjarvalsstöðum, ennfremur starfaði hún í Norræna húsinu sem safnvörður og kynningarfulltrúi. Hún hefur líka lesið inn á hljóðbækur í Blindrabókasafni Kópavogs. Einnig hefur Margrét Lóa starfað við þáttagerð hjá RÚV, þar sem hún fjallar meðal annars um femínisma og stöðu kynjanna. Árið 2003 kom út geisladiskurinn Hljómorð með ljóðum hennar og tónlistarmannsins Gímaldins, Gísla Magnússonar. Haustið 2001 var þeim boðið, sem fulltrúum Norræna hússins í Reykjavík, á bókamessuna í Gautaborg til að kynna diskinn. Árið 2004 gaf Margrét Lóa út sína fyrstu skáldsögu, "Laufskálafuglinn", hjá Bókaútgáfunni Sölku. Ári síðar kom ljóðabókin "Tímasetningar" út, einnig hjá Sölku. Innréttingarnar. Innréttingarnar var framtak nokkurra Íslendinga, þeirra á meðal Skúla Magnússonar, til að koma á laggirnar verksmiðjuframleiðslu á Íslandi. Stofnun "Hins íslenska hlutafélags". Innréttingarnar gengu undir ýmsum nöfnum þegar í upphafi. Það var stofnað af íslensku hlutafélagi sem á íslensku hét "„Hið íslenska hlutafélag”" og var fyrsta sinnar tegundar sem stofnað var á landinu. Félagið var stofnað af íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 17. júlí 1751 til að vinna að viðreisn íslensks efnahags. Hálfu ári eftir að félagið var stofnað, í janúar 1752, fékk það stórfelldan fjárstuðning og sérleyfi konungs til framkvæmda. Þá var heiti þess snarað úr íslensku á dönsku, og nefnt: "„Det Privilegerte Islandske Interessentskab”." Skammstöfunin var PII, og átti að geta staðið fyrir nafni félagsins bæði á dönsku og latínu. Starfsemi. Við þessi þáttaskil efldist félagið mjög að fjármunum og verkefnum. Starfsemin varð fjölþætt, tók til jarðræktartilrauna, brennisteinsvinnslu, ullarvefsmiðja, litunar, kaðlagerðar, skinnaverkunar, skipasmíða og útgerðar svo það helsta sé nefnt. Starfsemin fór fram víða um land, en miðstöð framkvæmdanna var í Reykjavík og nágrenni. Þessar framkvæmdir voru á danskri tungu kallaðar "„De Nye Indretninger”," eða „hinar nýju framkvæmdir”. Þaðan kom því heitið "„Innréttingarnar”" sem fór að festast við athafnir og verkstæði „Hins íslenska hlutafélags“. Fyrsta áratuginn var flest það sem að ofan er nefnt í fullri starfsemi, en eftir 1760 tengdist Innréttingaheitið fyrst og fremst ullarvefsmiðjunum í Aðalstræti, en þær störfuðu til ársins 1803. Brennisteinsvinnslan hélt einnig velli fram yfir aldamótin 1800, fyrst í Krýsuvík en síðan á Húsavík. Á Íslandi hefur oft verið talað um starfsemi Hins íslenska hlutafélags sem „Innréttingar Skúla Magnússonar landfógeta”, en í dönskum skjölum eru þær fremur nefndar „Hans Majestæt Høystsalig Kong Friderich den 5. stiftede Indretninger.” Vörtubaugur. Vörtubaugur (eða brystilsvæði) (enska: "areola") er litað svæði sem umkringir geirvörtuna. Ástæðan fyrir því að vörtubaugurinn er öðruvísi á litinn en brjóstið er sú að undir honum eru kirtlar. Sé eitthvað staðsett undir vörtubauginum nefnist það "undir vörtureit". Böðvar Egilsson. Böðvar Egilsson (d. um 957) var sonur Egils Skallagrímssonar og Ásgerðar konu hans. Böðvari er í Egils sögu lýst sem hinum efnilegasta manni, fríðum sýnum, miklum og sterkum. Hann drukknaði í Borgarfirði ungur að árum. Þegar Egill frétti lát Böðvars sótti hann lík hans og reið með það til haugs föður síns sem hann lét opna og lagði Böðvar í hauginn. Lát Böðvars fékk mikið á Egil; hann lagðist í þunglyndi og tók ekki að hressast á ný fyrr en eftir að hann gat sagt frá tilfinningum sínum í kvæðinu "Sonatorrek". Nauðhyggja. Nauðhyggja eða löghyggja er sú heimspekilega kenning að allt sem gerist, þar með taldar mannlegar athafnir, ráðist af undanfarandi orsökum. Samkvæmt kenningunni eru engar tilviljanir. Kenningin vekur upp spurningar um frelsi viljans. Samkvæmt svokallaðri „harðri nauðhyggju“ er frelsi viljans tálsýn en þeir sem aðhyllast svokallaða „mjúka nauðhyggju“ telja að frjáls vilji sé samrýmanlegur nauðhyggju. Sjálfsveruhyggja. Sjálfsveruhyggja er sú hugmynd að maður sjálfur sé það eina sem er hægt að þekkja eða sé til. Sálfræðileg sérhyggja. Sálfræðileg sérhyggja er sú kenning allar mannlegar athafnir ráðist af eiginhagsmunum, jafnvel þegar menn virðast gera góðverk. Sálfræðilegri sérhyggju má ekki rugla saman við siðfræðilega sérhyggju, sem kveður á um að mannlegar athafnir "ættu" að ráðast af eiginhagsmunum, né skynsemissérhyggju, sem er sú kenning að í öllum aðstæðum sé "skynsamlegast" að breyta með hliðsjón af eiginhagsmunum. Algengasta útgáfan af sálfræðilegri sérhyggju er sálfræðileg nautnahyggja, þ.e. sú kenning að á endanum ráðist allar mannlegar athafnir af því að menn sækist eftir ánægju og forðist sársauka. Siðfræðileg sérhyggja. Siðfræðileg sérhyggja er sú kenning að mannlegar athafnir "ættu" að ráðast af eiginhagsmunum. Gera má ýmiss konar greinarmun á hagsmunum, m.a. raunverulegum hagsmunum til aðgreiningar frá því sem fólk telur vera hagsmuni sína eða langtíma hagsmunum til aðgreininingar frá skammtíma hagsmunum. Þannig eru nokkrar útgáfur af siðfræðilegri sérhyggju mögulegar, eftir því hvaða hagsmunir eru taldir eiga að ráða. Siðfræðilegri sérhyggju ætti ekki að rugla saman við (a) sálfræðilega sérhyggju, sem er sú kenning að mannlegar athafnir ráðist "í raun" af eiginhagsmunum fólks hvort sem þær ættu að gera það eða ekki; (b) skynsemissérhyggju, sem er sú kenning að í öllum aðstæðum sé "skynsamlegast" að breyta með hliðsjón af eiginhagsmunum. Skynsemissérhyggja. Skynsemissérhyggja er sú kenning að það sé ávallt "skynsamlegast" að breyta með hliðsjón af eigin hagsmunum. Skynsemissérhyggju ætti ekki að rugla saman við (a) sálfræðilega sérhyggju, sem er sú kenning að athafnir fólks ráðist alltaf af eiginhagsmunum, eða (b) siðfræðilegra sérhyggju, sem er sú kenning að mannlegar athafnir "ættu" alltaf að ráðast af eiginhagsmunum fólks. Skynsemissérhyggjan segir einungis að það sé "skynsamlegast" að athafnir fólks ráðist af eiginhagsmunum þess, en ekki að þar með "ættu" þær ávallt að gera það eða að þar með geri þær það "í raun". Salvador Allende. Salvador Allende (fæddur 26. júní 1908, látinn 11. september 1973) var forseti Chile frá nóvember 1970 þar til honum var steypt af stóli og talið er að hann hafi framið sjálfsmorð 11. september 1973. Augusto Pinochet var falið einræðisvald yfir landinu eftir að Allende lést í byltingunni. Laktasi. Laktasi er ensím sem getur brotið laktósa (mjólkursykur) niður til að auðvelda meltingu á mjólk og mjólkurvörum. Skortur á því getur valdið mjólkuróþoli. Hvörf. Aristóteles taldi að hvörf væru nauðsynleg í góðum harmleik og að best væri að þau færu saman við "kennsl", eins og þegar Ödipus uppgötvar eigið ætterni. Í harmleikjum seinni tíma er oft en ekki alltaf að finna hvörf. Til dæmis eru þau greinileg í "Makbeð" eftir William Shakespeare en ekki eru allir sammála um að þau séu til staðar í "Óþelló" eftir sama höfund. Laktósi. Laktósi er mjólkursykur, samsettur úr glúkósa og galaktósa. Hann finnst aðeins í mjólk spendýra og framleiðslu-vörum úr mjólk nema hörðum ostum. Mjólkuróþol eða mjólkursykuróþol stafar af því að líkaminn framleiðir ekki nógu mikið magn af ensíminu laktasa. Hellsing OVA I. Hellsing I er fyrsti OVA þátturinn sem er byggður á Hellsing. DVD diskurinn var fyrst gefinn út í Japan þann 10. febrúar 2006. Integra verður meistari Alucards. a> (nýjum meistara sínum), eftir að hafa drepið Richard Hellsing og lífverði hans. Fyrsti OVA-þátturinn fylgir fyrstu Hellsing mangabókinni. Hann byrjar á því að faðir Integru Hellsings deyr þegar hún er aðeins þrettán ára gömul. Hún erfir Hellsing samtökin, en frændi hennar Richard Hellsing sem hafði ætlað sér að erfa Hellsing reynir að koma henni fyrir kattarnef. Hún kemst að ráðabruggi Richards og fylgir ráðum föðurs síns og skríður í gegnum loftræstigöngin að kjallara Hellsings. En Richard finnur hana og eltir hana niður í kjallarann með tveimur vörðum. Hann skýtur Integru í öxlina en Alucard vaknar við að blóð Integru lendir á jörðinni og byrjar að sleikja það upp. Eftir það drepur Alucard Richard Hellsing og undirmenn hans. Atvikið í Cheddar. a> að fara að skjóta prestinn. Mörgum árum seinna skýtur vampíra upp kollinum í litlum smábæ sem heitir "Cheddar". Lögreglan er send á svæðið en allt lögregluliðið er étið af þrælum vampírunnar (uppvakningum) með einni undantekningu: Ung lögreglustúlka að nafni Seras Victoria komst lífs af og reyndi að flýja. Á flóttanum nær vampíran, sem hafði dulbúið sig sem prestur, henni og ætlar að drekka blóð hennar til að gera hana að þræli sínum. Þegar foringi Hellsing samtakanna, Sir. Integra Hellsing, gerir sér fyrir að lögreglan ráði ekki við þetta mál og liðsaukinn sem sendur var á svæðið verði bara að mat uppvakninganna ákveður hún að senda leynivopn Hellsings: Alucard. Þegar „presturinn“ er að fara að bíta Seras mætir Alucard og skýtur alla þræla hans. Presturinn reynir að semja við Alucard um að leyfa þessu máli bara að vera og að þeir haldi báðir sína leið en Alucard fellst ekki á það. Þá ber presturinn Seras fyrir sig og notar hana sem gísl þannig að ef Alucard ætli sér að skjóta prestinn verði hann að skjóta Seras líka. Vegna þess að það er verkefni Alucards að bjarga öllum mannverum á svæðinu heldur presturinn að hann sé öruggur. Alucard spyr Seras hvort hún sé hrein mey, en aðeins skírlíft fólk getur orðið að vampírum. Hún svarar játandi og þá skýtur Alucard prestinn beint í hjartastað en hæfir Seras í lungað. Alucard krýpur við Seras þar sem hún liggur dauðvona og spyr hana hvort hún vilji lifa. Hún svarar því játandi og hann bítur hana á háls og sýgur blóð hennar. Seras er núna orðin vampíra og gengur í lið með Hellsing. Anderson Vs. Alucard. Fyrsta verkefni hennar með Alucard er að eyða tveimur ungum vampírum sem drepa sér til skemmtunar. Annað verkefnið er að berjast við uppvakninga, en í miðju verkefninu birtist séra Alexander Anderson, útsendari Vatíkansins, og reynir að drepa Alucard. Integra fréttir að Vatíkanið hafi rofið friðarsáttmálann sem ríkti þeim á milli og þýtur af stað til að stöðva Anderson en á meðan berjast Andersson og Alucard í bardaga sem endar með því að Alucard er hálshöggvinn. a> í bardaga sínum við Anderson. Þegar Anderson þykist vera búinn að drepa hinn mikla Alucard snýr hann sér að því að drepa Seras en Integra stöðvar hann. Þá lífgar Alucard sig við og særir Anderson illa. Anderson gerir sér grein fyrir að hann muni ekki sigra í þetta skiptiðflýr af hólmi en bendir samt á að næsta skipti sem þeir hittist verði blóðbað. Integra ræðir stutt við Alucard, sem endar með því að hún kallar hann „greifa“. Það er ein margra tilvísana í að Alucard sé Dracula. Fyrsti OVA þátturinn fylgir fyrstu Hallsing mangabókinni sem fjallar um það þegar Seras er breytt í vampíru, þegar persónurnar eru kynntar til leiks og fyrsta bardagann við föður Alexander Anderson. Munir á bókinni og þáttunum. En OVA-ið víkur ekki eins langt frá upprunalegu sögunni og Hellsing sjónvarpsserían og notast líka meira við brandara og skopskyn ólíkt þáttunum. Hellsing OVA II. Hellsing II er annar OVA þátturinn sem byggður er á Hellsing seríunni. DVD diskurinn var fyrst gefinn út í Japan þann 25. ágúst 2006. Draumur Alucards. Annar OVA þátturinn fylgir annarri Hallsing mangabókinni og fjallar um árás Valentín bræðranna Luke Valentine og Jan Valentine á höfuðstöðvar Hellsings. Hann hefst með atriði þar sem Abraham van Helsing er að tala við Alucard í kringum 19. öld. Þetta atriði er lokaatriðið í bókinni Dracula eftir Bram Stoker. Búið er að reka stiku í gegnum hjarta Alucards og Abraham segir Alucard að "Wilhelmina Harker" verði aldrei hans, að menn hans og kastali hafa fallið, að hann hafi tapað og eigi ekkert eftir. Þá ber hann í stikuna og rekur hana dýpra í hjarta Alucards. Alucard öskrar af sársauka og Abraham grípur í frakka hans og hristir hann til og endurtekur það að hann eigi „ekkert eftir, aumkunarverði No-Life-King“. Fundur hringborðsins. Við þetta vaknar Alucard grátandi blóði og sér að hann hafi verið að dreyma. Á meðan fundar Integra Hellsing með riddurum hringborðsins um starfsemi uppvakninganna, hvernig þeim hafi verið stjórnað með sendi sem hafi verið settur í líkama þeirra, og komast þeir að þeirri niðurstöðu að hver sem hafi ígrætt sendana í líkama uppvakninganna þekki þá jafn vel og Hellsing. Á meðan ræðir Seras við Walter um það af hverju hann hafi fjarlægt rúmið sitt og sett líkkistu í staðinn. Hann bendir henni líka á það að hún þurfi að byrja að drekka blóð og sofa í líkkistu með mold úr heimalandi sínu, annars verði hún veikbyggðari með hverjum deginum. Alucard kemur inn og Walter lætur Alucard fá nýja byssu; Jackal. Hann færir Seras líka nýja byssu, Harkonnen'". Um tveggja metra sprengjuvörpu sem getur eytt öllum skotmörkum, bæði á landi og á lofti. Luke og Jan. Valentine bræðurnir; (frá hægri til vinstri) Luke og Juan Valentine. Jan Valentine og Luke Valentine ("valentine" bræðurnir) sjást gangandi upp að Hellsing setrinu þar sem tveir verðir gæta hliðsins. Vörður stoppar þá og segir að þeim að þetta sé einkalóð en er skotinn. Hinum verðinum bregður en áður en hann getur gert neitt í málinu og er hann skotinn líka. Sýnt er að þeir sem skutu verðina voru uppvakningar með vélbyssur sem biðu í ferðamannarútu. Jan gefur þeim merki um að koma út úr rútunni og saman með her af vopnuðum uppvakningum ráðast þeir Valentine bræður að Hellsing setrinu. Þegar þeir eru komnir inn í setrið skiljast leiðir þeirra þar sem Jan Valentine fer í átt að Integru og hringborðinu en Luke Valentine gengur í átt að Alucardi. Integra fréttir af árásinni en hún er innikróuð í herberginu á meðan Walter og Seras komast að herberginu í gegnum loftræstikerfið. Á meðan er Luke Valentine að drepa nokkra Hellsing hermenn þegar Jan hringir í hann. Jan hefur þá líka verið að slátra hermönnum og er að nálgast þriðju hæðina þar sem Integra er. Á meðan finnur Luke kjallarann þar sem Alucard heldur sig og fer inn. Seras og Walter ná inn í fundarherbergið til að verja meðlimi Hringborðsins. Luke hittir Alucard, hneigir sig fyrir honum og kynnir sig. Á meðan hafa uppvakningarnir og Jan náð upp á þriðju hæð, þar sem Walter stöðvar þá og með hjálp Serasar ná þau að yfirbuga Jan Valentine. Luke Valentine að fara að skjóta Alucard. Alucard að leysa "Cromwell" samþykkið. Á meðan berjast Alucard og Luke Valentine niðri í kjallaranum. Það lítur út eins og Luke hafi algjörlega yfirhöndina þar sem hann hefur skotið Alucard marg oft. Þá er skipt yfir til Jans sem nær að sleppa frá Walter og Seras og ætlar sér að ráðast inn í fundarherbergið. Walter reynir að stöðva hann með því að henda vírum í kringum hönd hans en Jan heldur áfram að hlaupa og hönd hans rifnar af. Þegar hann kemst inn í fundarherbergið bíða allir meðlimir hringborðsins eftir honum vopnaðir og Integra heilsar honum með því að segja „Velkominn, í Hellsing“ og svo er hann skotinn aftur og aftur, þótt hann deyi ekki. Enn er skipt yfir í bardaga Alucards og Lukes þar sem luke hefur enn yfirhöndina. Alucard lýsir því yfir að Luke er „A-flokks“ vampíra. Hann spyr hann hvað hann heitir og leysir út krafta sína sem höfðu verið læstir inni. Hann kallar þetta „Stöðu-A“ og segir að „Cromwell samþykkið sé virkt“ og segist ætla að sýna Luke hvernig alvöru vampírur berjast. Kunnugar Alucards. Einn af kunnugum Alucards bíta fótinn af Luke. a> kunnuga sem éta Luke Valentine. Hann fellur í sundur og kunnugar hans (hundar, margfætlur og augu) koma út úr honum, og verður hann að blóðklessu á jörðinni. Luke öskrar af hræðslu og hleypur burt en Alucard skýtur hann í fótinn. Hann reynir að hoppa burt einfættur en Alucard skýtur hinn fótinn líka af. Alucard segir honum að standa upp og endurlífga fæturna aftur. Luke getur það ekki, þannig að Alucard kallar fram hunda kunnuginn sinn, sem étur Luke. Á meðan yfirheyrir Walter Jan Valentine en hann sýnir ekki samstarfsvilja þannig að Integra tekur við og skipar honum að svara sér. Jan hlær að henni og segir henni að það sé verið að hlusta á samtal þeirra í gegnum sendinn sem er grafinn í líkama hans rétt áður en hann byrjar að brenna. Hann hlær að þeim og segir þeim eitt að lokum áður en hann deyr; orðið Millennium. Walter og Integra kanna orðið „Millennium“ og hvað það gæti staðið fyrir og Integra kemst að því að það á við Þriðja ríki Adolfs Hitler sem átti að endast í árþúsund. Hellsing OVA III. Hellsing III er þriðji OVA þátturinn sem byggður er á Hellsing seríunni. DVD diskurinn var gefinn út í Japan 9. febrúar 2007. Söguþráður. Þriðji þátturinn mun fylgja þriðju Hallsing mangabókinni og mun fjalla um fund Iscariots og Hellsings, málaliðarnir Villigæsirnar ("the Wild Geese") koma fram, Alucard og Walter ræða um Millenium, Seras og Pip rífast, einnig verður fjallað um ferðina til "Hotel Rio", þá slátrun sem þar fer fram og einvígið á milli Alucards og Alhamras. Seras Victoria. Seras Victoria (Japanska: セラス・ヴィクトリア, Serasu Vikutoria) er persóna úr anime og manga seríunni "Hellsing. Fumiko Orikasa talsetur hana bæði í þáttunum og í OVA seríunni, K.T. Gray sér um enska talið. Alexander Anderson (Hellsing). Alexander Anderson (Japanska: アレクサンド・アンデルセン, Arekusando Anderusen) persóna úr anime og manga seríunni Hellsing. Í japönsku þáttunum talsetti Nachi Nozawa hann, en í ensku útgáfunni talsetti Steven Brand hann. Í nýju japönsku OVA seríunni er hann talsettur af Norio Wakamoto, og Steven Brands talsetur hann aftur fyrir enska OVA-ið. Walter C. Dornez. Walter C. Dornez (Japanska: ウォルター・C(クム)・ドルネーズ, Worutā C. (kumu) Dorunēzu) er persóna úr anime og manga seríunni "Hellsing. Motomu Kiyokawa talsetur hann í bæði þáttunum og OVA seríunni, en Ralph Lister sér um enska talið. Hellsing OVA IV. Hellsing IV er fjórði OVA þátturinn sem byggður er á Hellsing seríunni. Ekki er vitað hvenær hann kemur út. Meðskilningur. Meðskilningur er náskyldur "nafnskiptum" og telja sumir að ekki sé ástæða til að greina þar á milli. Nafnskipti. Nafnskipti eru náskyld "meðskilningi" og telja sumir að ekki sé ástæða til að greina þar á milli. Einnig er skyldleiki með nafnskiptum og myndhverfingu en munurinn er sá að í myndhverfingu þar sem A er táknað með B er eitthvað "líkt" með A og B en í nafnskiptum þar sem A er táknað með B eru A og B "tengd" á einhvern hátt án þess að vera lík. Roman Jakobson. Roman Jakobson (11. október 1896 - 18. júlí 1982) var rússneskur málfræðingur, einn af forvígismönnum formgerðarstefnunnar. Hann var undir áhrifum frá Ferdinand de Saussure og vildi nálgast rannsóknir á tungumáli út frá því grundvallarhlutverki þess að koma upplýsingum milli mælenda. Einna þekktastur er Jakobson fyrir "boðmiðlunarlíkan" sitt. Til þess að "sendandi" (mælandi) geti komið "boðum" (til dæmis setningu) til "viðtakanda" (viðmælanda) þarf að vera fyrir hendi "samhengi", "boðrás" og "kóði". Hverjum þætti boðmiðlunarinnar tengist eitt "gildi". Gildin sex eru misveigamikil í mismunandi orðræðum en yfirleitt hefur tilvísunargildið mest vægi. Félagsfræði. Félagsfræði er fræðigrein innan félagsvísinda sem rannsakar samfélagið og samskipti milli hópa. Uppruna félagsfræðinnar má rekja til skrifa Saint-Simons og Comtes á 19. öld. Félagsfræði er mjög "breið" fræðigrein og samanstendur af mörgum undirgreinum, það er að segja innan hennar eru nær ótakmarkaðir möguleikar á sérhæfingu. Nordisk familjebok. Nordisk familjebok er sænsk alfræðiorðabók. Nafn hennar merkir 'norræn fjölskyldubók'. Fyrsta útgáfan kom út 1876-1899. Önnur útgáfan, hin svokallaða Ugluútgáfa, kom út 1904-1926 í 38 bindum og er enn í dag talin vera umfangsmesta alfræðiorðabók sem gefin hefur verið út á sænska tungu. Þriðja útgáfan var gefin út 1923-1937 og fjórða útgáfan 1951-1957. Nordisk familjebok á netinu. Fyrsta og önnur útgáfa af Nordisk familjebok eru ekki lengur höfundarréttarvarðar og hafa verið skannaðar inn og gerðar aðgengilegar á internetinu af Projekt Runeberg. Nordisk familjebok var vel úr garði gerð á sínum tíma þó að vitanlega sé margt í hundrað ára gömlu riti sem ekki lengur getur talist rétt. Vegna þess hve vandað var til útgáfunnar á sínum tíma hefur á sænsku wikipedia mjög verið stuðst við Nordisk familjebok í greinum sem fjalla um efni þar sem hún er enn viðeigandi. Stílbragð. Stílbragð er hvers konar frávik frá einfaldri málnotkun, sérstaklega óeiginleg notkun orða eða óvenjuleg setningauppbygging. Markmið stílbragða er að leggja áherslu á tiltekin atriði, hafa ákveðin áhrif á lesendur eða að ljá texta ákveðinn blæ. Í klassískri mælskufræði er stílbrögðum skipt í tvo flokka sem á latínu nefnast "tropi" (eintala "tropus") og "figurae" (eintala "figura"). "Tropus" er stílbragð þar sem einstöku orði er beitt í óeiginlegri merkingu en "figura" felur í sér að fleiri en eitt orð komi við sögu. Þessir tveir meginflokkar eiga sér síðan sæg undirflokka og skulu nokkrir nefndir. Hæð manna. Hæð manna er lengdin frá iljum að hvirfli standandi manns. Meðalhæð um allan heim. Meðalhæð fyrir hvort kyn er mjög mismunandi, þar sem karlmenn eru að meðaltali hærri en konur. Konur ná fyrr sinni hæstu hæð en karlar, því kynþroski þeirra gerist fyrr. Menn hætta að stækka á langveginn þegar að löngu beinin hætta að lengjast sem gerist þegar vaxtarlína beinana lokast. Þessar vaxtalínur eru uppspreta vaxtar og lokunin á sér stað í lok kynþroskaskeiðsins. Stærsti lifandi maður heims er Tyrkinn Sultan Kösen sem mælist 2,51 metrar að hæð. Stærsti lifandi maður nútímans var Robert Persing Wadlow frá Illinois, Bandaríkjunum sem mældist 2,72 metrar. Stærsta kona heims er Yao Defen frá Kína sem mælist 2,33 metrar að hæð. Stærsta lifandi kona nútímans var Zeng Jinlian frá Hunan, Kína sem mældist 2,48 metrar að hæð. Katalónía. Katalónía (Katalónska: "Comunitat Autònoma de Catalunya") er sjálfstjórnarhérað á Spáni. Árið 2005 bað Katalóníuþing um sjálfstæði. Höfuðborgin er Barselóna. Íbúafjöldi Katalóníu er 7.512.381. Santos. Santos er stórborg í Brasilíu með yfir 420 þúsund íbúa (2006). 1303. Bónifasíus VIII. Mynd í San Giovanni in Laterano í Róm. 1369. a> höggvinn. Mynd úr frönsku fjórtándu aldar handriti. 1373. Heilög Birgitta. Útskorið líkneski frá fyrri hluta 15. aldar, í klausturkirkjunni í Vadstena. 1316. a>. Dauðinn situr á baki ljóns sem dýfir halanum í Víti. Þar er Hungursneyðin og bendir upp í sig. Medeú. Medeú (kasakska: Медеу) er Ólympíuskautasvæði sem er í Tian Shan fjöllum, sunnan Almaty í Kasakstan. Medeú er stærsta skautasvæðið í Mið-asíu og er eitt af þeim frægustu í heimi. Söngvakeppnin "Voice of Asia" er haldin í Medeú árlega. Medeú er í 1691 metra hæð. Eftir að Sovétríkin féllu hefur verið mjög dýrt fyrir Kasakstan að halda Medeú uppi. Medeú er einnig nálægt Sjimbúlak (Шымбұлақ) skíðasvæðinu. Rip van Winkle (Hellsing). Liðsforinginn/SS-Obersturmführer Rip van Winkle (リップヴァーン・ウィンクル中尉, Liðsforinginn Rippuvān Winkuru) er persóna í manganu Hellsing og meðlimur Millennium liðsdeildarinnar. Hún notar lang-hleyptan framhlaðning með byssulás úr tinnu sem skýtur galdraskotum sem „refsa án mismununar“, og elta skotmörkin af eigin vilja, og virðast geta farið í gegnum skildi (þau geta hæglega eytt þyrlum, bardagaþotum og eldflaugum) og geta meira að segja breytt ferli sínum á ferð- þannig hægt er að láta rigna yfir skotmark höggi með sömu byssunni. Hún virðist hins vegar ekki hafa neina sérstaka hæfileika fyrir utan þetta. Hún nýtur þess að syngja óperur, sérstaklega Galdraskyttuna (þýska: "Der Freischütz"), og hún líkir sér sjálfri oft við persónuna Kaspar úr áðurnefndri óperu. Jafnvel Majorinn bendir oft á það að hún sé líka Kaspar og Alucard sé líkur Samiel, sem er andstæðingurinn í óperunni. Rip van Winkle, haldandi á framhlaðninginum sínum. Alucard hræðir hana tiltölulega mikið þegar hann nálgast, og á endanum, drepur hana. Alucard rekur stiku í gegnum bringu hennar, vinstra megin við hjarta hennar með hennar eigin byssu og drekkur blóðið hennar í hápunkti Hellsing mangabókar 5, áður en hann notar skugga til að nærast á líkama hennar og breytir henni í "kunnugann". Það er kaldhæðnislegt að Majorinn vildi ekki leyfa það að Rip yrði brennd, og af sérstöku „göfuglindi“, bað hann aðra meðlimi Millenniums að gefa henni nasistakveðju, og segja „auf wiedersehen“. Takmark hennar var að festa Alucard á skipi sem hét "Örninn", vegna þess að hann getur ekki ferðast yfir vatn án skips og kistu sinnar. Með því að nota "Örninn" sem tálbeytu, náði Millennium að einangra Alucard í miðju hafinu á meðan afgangur Millenniums lyki við undirbúning hernaðaraðgerðarinar. Þetta heppnaðist ekki eins og hugðist, því Alucard getur stýrt draugaskipi og komst aftur til Londons. Rip sést síðar sem "kunnugur", er Integra Hellsing leysir síðustu hömlur Alucards. Í Döguninni. Í nýlegustu köflum Dögunarinnar, kemur Rip fram sem ungur, fjarsýnn hermaður, og hittir hún Alucard eftir að hann var sigraður af Kapteininum. Hún er í herbúningi, með hárið í tveimur fléttuðum tíkarspenum, og er í stöðu "Untersturmührer"s. Gleraugun hennar valda því að hún sér illa, og Alucard eyðir nokkrum tíma í það að útskýra fyrir henni hver hann er og af hverju hann er í höfuðstöðvum Millenniums. Eftir nokkurn tíma þegar hún hefur áttað sig á því að Alucard sé í raun óvinur reynir hún að skjóta hann en er rotuð af likkistunni hans Alucards. Veðurstofa Íslands. Veðurstofa Íslands eða Veðurstofan (ensku: "Icelandic Meteorological Office") er opinber stofnun stofnsett þann 1. janúar 1920 sem annast meðal annars veðurþjónustu fyrir Ísland. Jafnframt eru þar unnar rannsóknir á sviði veðurfræði og annarra fræðigreina er tengjast starfssviði hennar. Veðurstofan gegnir einnig viðvörunarþjónustu vegna veðurs, snjóflóða, jarðskjálfta, vatnafars og hafíss. Starfsemi hennar skiptist í fjögur svið: eftirlit og spásvið, úrvinnslu og rannsóknasvið, athugana og tæknisvið og rekstrarsvið. Veðurstofan var upphaflega deild í Löggildingarstofunni en varð sjálfstæð stofnun 1925 þegar Löggildingarstofan var lögð niður. Stofnunin heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Starfsemi Veðurstofu Íslands hinnar eldri var sameinuð Vatnamælingum í nýrri stofnun sem tók til starfa 1. janúar 2009. Í tilefni af 80 ára afmæli Veðurstofunnar var bókin "Saga Veðurstofu Íslands", skrásett af Hilmari Garðarssyni, gefin út af Máli og mynd haustið 2000. Mbl.is. mbl.is er íslenskur vefmiðill sem var opnaður 2. febrúar 1998 og er í eigu Árvakurs hf. Um 200 fréttir birtast á honum daglega. Vefurinn hefur um árabil verið vinsælasti fréttavefur landsins. Guðmundur Sv. Hermannsson hefur um langt árabil stýrt fréttadeild mbl.is. Geislavarnir ríkisins. Geislavarnir ríkisins eru alhliða þjónustu- og rannsóknastofnun á sviði geislavarna. Með fræðslu, rannsóknum og markvissu eftirliti takmarkar stofnunin skaðleg áhrif geislunar á Íslandi. Starfsmenn stofnunarinnar eru 11 talsins. Forstjóri hennar er Siguður M. Magnússon, eðlisfræðingur. 1324. a> úr katalónskum atlas frá 1375. Myndhverfing. Myndhverfing eða myndhvörf (forngríska:, "metafora") er stílbragð sem felst í að orð er notað í óeiginlegri merkingu til að tákna eitthvert fyrirbæri sem hefur líkindi með bókstaflegri merkingu orðsins. Bókstaflega merkingin verður þá "mynd" sem brugðið er upp en afleidda merkingin verður "merkingarmið" hennar. Setningin „Öll veröldin er leiksvið“ er dæmi um myndhverfingu, leiksviðið er myndin en veröldin merkingarmiðið. Þegar sagt er: "Maðurinn er svín", þá er það myndhverfing, en sé sagt: "Maðurinn er eins og svín", þá er það viðlíking. Myndhvörf eru náskyld "viðlíkingu" en munurinn felst í að í viðlíkingu er myndin og merkingarmiðið borin saman berum orðum, til dæmis væri „Öll veröldin er eins og leiksvið“ viðlíking. Myndhvörf eru frábrugðin "nafnskiptum" á þann hátt að í myndhverfingu er ævinlega eitthvað "líkt" með mynd og merkingarmiði en í nafnskiptum eru "tengsl" án líkinda milli fyrirbæranna. Persónugerving er stundum talin tegund af myndhverfingu. Myndhvörf eru algeng í ljóðlist en koma einnig víða fyrir í öðrum textum og töluðu máli. Sandreyður. Sandreyður (fræðiheiti: "Balaenoptera borealis") er tegund skíðishvala. Hún tilheyrir reyðarhvelaætt ("Balaenopteridae") ásamt fimm öðrum tegundum í Norður-Atlantshafi og eru það hnúfubakur, steypireyður, langreyður, sandreyður og hrefna. Lýsing. Sandreyður er grannvaxinn og rennilegur, hausinn er um 20-25% af heildarlengd. Hornið er aftursveigt og er aftarlega á bakinu. Bægslin eru fremur lítil, um 9% af heildarlengd. Sandreyðurin er oftast dökkgrá á baki en ljósari á kviði, sum dýr eru þó nánast jafngrá um allan skrokkinn. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir ein og er um flesta skíðishvali, 14 til 19 metra á lengd og upp undir 26 tonn á þyngd. Tarfarnir 13 til 18 metra en svipaðir á þyngd og kýrnar. Útbreiðsla og hegðun. Sandreyði má finna a öllum heimshöfum og er dæmigerður farhvalur. Tegundin heldur sig að mestu á heittempruðum svæðum í í hitabeltinu að vetrarlagi en fer á fæðuríkari kaldsjávarsvæði á sumrin. Fæðuvalið er fjölbreytt og mismunandi eftir svæðum. Einkum eru það sviflæg krabbadýr en einnig í minna mæli smokkfiskar, loðna, sandsíli og hrognkelsi. Fæðuöflun er að mestu bundin við sumartímann og líffræðingar hafa fundið að sandreyður á Íslandsmiðum étur um 835 lítra (samsvarandi 776 kg) af átu á dag. Sandreyður er mjög hraðsynd og geta náð allt að 40 kílómetrum á klukkustund á styttri sprettum. Að sumarlagi heldur sandreyðin sig oftast út af fyrir sig eða í litlum hópum. Veiðar og fjöldi. Veiðar á sandreyði hófust seint og ekki fyrr en farið var að nota gufuskip og sprengiskutla til hvalveiða. Það var 1885 sem Norðmenn hófu veiðar á Norður-Atlantshafi, það var þó ekki fyrr en öðrum stærri tegundum (steypireyið og langreyði) hafði fækkað mög sem veiðar á sandreyði færðust í aukana. Óvíst er um heildarfjölda enda hafa skipulagðar talningar á sandreyði ekki farið fram í áratugi. Gent. Gent er borg í Belgíu og jafnframt höfuðborg héraðsins Austur-Flæmingjalands. Með 247 þús íbúa er hún ennfremur næststærsta borgin í Belgíu á eftir Antwerpen. Gent er fæðingarborg Karls V keisara og var á sínum tíma stórborg í Evrópu. Lega og lýsing. Gent (franska: Gand) stendur við samflæði ánna Schelde og Leie vestarlega í Belgíu. Næstu stærri borgir eru Kortrijk til suðvesturs (45 km), Brussel til suðausturs (50 km), Brugge til norðvesturs (50 km) og Antwerpen til norðausturs (50 km). Hollensku landamærin eru aðeins 20 km til norðurs, en Norðursjór 60 km til vesturs. Í Gent er mikil höfn sem er tengd skipaskurðinum Gent-Terneuzen. Á honum komast stór hafskip norður til Oosterschelde í Sjálandi og þaðan til sjávar. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Gent sýnir hvítt ljón (gulllitað áður), með gular klær og rauðri tungu. Á höfðinu er kóróna og um hálsinn gul ól með krossi. Ljónið er merki greifanna af Flæmingjalandi fyrr á öldum og á uppruna sinn líklega á 13. öld. Krossinn táknar líklega postulann Jóhannes sem er verndardýrðlingur borgarinnar. Skjaldarmerkið sýnir sama ljón, nema hvað það er dökkt. Skjöldurinn var áður með skjaldarbera og önnur merki, sem nú hafa horfið. Ungfrúin, grindverkið, síðara ljónið og fáninn bættust við 1990. Seint á 14. öld átti Gent í alvarlegum erjum við borgina Brugge. Í söngi sem saminn var eftirá birtist ungfrúin og ljón í garði sem hetjur Gent. Síðan þá hefur þetta merki komið fram víða í borginni og nú síðast í skjaldarmerkinu. Orðsifjar. Heitið Gent er dregið af keltneska orðinu "Gond", sem merkir "rennandi vatn". Þegar germanir settust að á svæðinu tóku þeir nafnið hljóðfræðilega upp og kölluðu bæinn Ganda. Úr því varð svo Gent með tímanum. Borgin heitir enn Gand á frönsku, en Ghent á ensku. Gent er gjarnan kölluð Blómaborgin vegna þess að hún liggur á svæði þar sem mikil blómarækt er stunduð. Gælunafn borgarbúa er Stroppendragers (snöruberar) eftir að Karl V keisari braut á bak aftur uppreisn þeirra um miðja 16. öld og lét borgarbúa ganga um götur borgarinnar með snörur um hálsinn. Stórborgin Gent. Fundist hafa rómverskar menjar víða í Gent, þannig að Rómverjar munu hafa verið á svæðinu á fyrstu öldum tímatalsins. Í kringum 400 fluttust frankar á svæðið og settust þar að. Á 7. öld voru tvö klaustur stofnuð í Gent, sem þá var orðin álitlega stór. Tvisvar á 9. öld sigldu víkingar upp Schelde og eyddu byggðunum þar, fyrst 851. Víkingar sátu í mörg ár við bakka Schelde og eyddu byggðinni aftur 879. Það var Baldvin hinn sköllótti sem reisti sér virki seint á 9. öld á stað sem í dag er Gent. Við það þéttist byggðin í kring og Gent myndaðist sem bær. Gent óx hratt. Aðalatvinnuvegur borgarinnar var vefnaðariðnaður og var ull í miklum mæli innflutt frá Englandi og Skotlandi. Eftir tvo mikla borgarbruna á 12. öld (1120 og 1128) myndaðist mikið pláss fyrir betra byggingarskipulag. Auk þess hlaut borgin stóra og mikla borgarmúra. Á 13. öld voru íbúar orðnir allt að 60 þús og fjölgaði enn. Á þeim tíma var Gent orðin að næststærstu borg Evrópu norðan Alpa (á eftir París). Síðmiðaldir. Gent var aðalaðsetur greifanna af Flæmingjalandi (Vlaanderen). Borgarbúum var þó meinilla við yfirvald greifanna og gerðu nokkrum sinnum uppreisn gegn þeim með góðum árangri. Gent varð því að nokkurs konar borgríki innan Flæmingjalands. Þegar Búrgund erfði Niðurlönd öll á 15. öld neituðu borgarbúar að viðurkenna hertogann af Búrgund sem yfirvald sitt. Í orrustunni við Gavere 1453 sigraði hertoginn af Búrgund, Filippus III hinn góði, borgarherinn. Allt að 16 þús hermenn frá Gent létu lífið. Þetta þýddi talsverða röskun á efnahag og stjórn borgarinnar. Vægi Niðurlanda færðist yfir til Brabant og fóru nokkrar borgir framúr Gent hvað íbúatölu og efnahag skiptir (t.d. Antwerpen). Þegar Habsborg erfði Niðurlönd gerði Gent árið 1485 aðra tilraun til uppreisnar gegn Maximilian keisara, en án árangurs. Habsborg. Karl V keisari refsaði borgarbúum harðlega 1536. Málverk eftir Tiziano. Karl V keisari fæddist í Gent árið 1500. Þrátt fyrir það neituðu borgarbúar að styðja hann í stríði gegn Frans I Frakklandskonungi um yfirráð á Norður-Ítalíu árið 1536. Neitunin fór samfara almennri uppreisn gegn sköttum og öðrum yfirráðum. Karl gekk þegar í stað milli bols og höfuðs uppreisnarmönnum í heimaborg sinni. Nokkrir helstu leiðtogar uppreisnarmanna voru teknir af lífi. Aðrir voru látnir ganga um götur borgarinnar í iðrunarklæðum og snöru um hálsinn, biðjandi um náð og fyrirgefningu. Auk þess varð borgin að greiða háar sektir og hlýta strangari lögum. Eitt klaustranna var rifið og reist nýtt virki sem spænskur her fékk afnota af. Herinn átti að gæta aga borgarbúa og sjá til þess að engar frekari uppreisnir ættu sér stað. Þótt Gent væri ekki lengur efnaðasta borg Niðurlanda, var hún þó enn stórborg síns tíma. Á þessum tíma átti Karl keisari að hafa sagt: ‚Je mettrai Paris dans mon Gant/-d.‘ (‚Ég gæti sett París í hanskann minn / Gent mína‘ (Gant er hanski á frönsku, en Gand er franska heiti borgarinnar). Sjálfstæðisstríð Niðurlanda. 1556 erfði Filippus II Spán og Niðurlönd eftir Karl V keisara, föður sinn. Við þessar fréttir urðu siðaskiptamenn á Niðurlöndum órólegir, enda var Filippus rammkaþólskur. Þeir hófu almenna uppreisn gegn yfirvaldinu. Í Gent kom til átaka milli Kalvínista og kaþólikka, og höfðu hinir síðarnefndu betur til að byrja með. Í kjölfarið stjórnuðu kaþólikkar borginni með harðri hendi, ekki síst er uppreisn Niðurlendinga varð að algeru sjálfstæðisstríði 1568. Í því tókst Vilhjálmi af Óraníu að ná yfirráðum yfir Gent. 1576 hittust fulltrúar héraðanna Sjálands, Hollands og Flæmingjalands í Gent og gerðu með sér samning (Pacificatie van Gent), þar sem þeir hétu því að styðja hver annan í því að hrekja Spánverja úr löndum sínum. Meðan samningamenn sátu enn í Gent, lögðu Spánverjar nágrannaborgina Antwerpen í rúst. Aðeins ári síðar neyddist Jóhann af Austurríki, landstjóri Spánverja á Niðurlöndum og yngri bróðir Filippusar konungs, að samþykkja þennan samning. Á því ári, 1577, varð Gent að kalvínísku borgríki og stóð það til 1584. Á þeim tíma var háskóli borgarinnar stofnaður. 17. ágúst 1584 náði hertoginn af Parma, Alessandro Farnese, að hertaka Gent fyrir Spán. Allir Kalvínistar flúðu borgina og fóru þeir flestir til Hollands. Gent var í framhaldi af því í föstum höndum Spánverja, sem komu kaþólskri trú aftur á, og varð borgin ekki hluti af nýstofnuðu ríki Hollendinga. Frakkar. Bretar og Bandaríkjamenn undirrita friðarsamninga í Gent 1814 Afleiðingin af spænskri hertöku Gent var efnahagsleg kreppa. Allur iðnaður gekk tilbaka og fólkfjöldinn fór úr 50 þús niður í 30 þús fram á 18. öld. Það reyndist auðvelt fyrir franskan her að hertaka Gent 1745 í austurríska erfðastríðinu, en franski herinn samanstóð aðeins af 5 þús hermönnum. Borginni var þó skilað í stríðlok 1748. Þá lokaðist aðgengi borgarinnar að Westerschelde vegna framburðar og grynninga í ánni Leie. Þetta breyttist ekki fyrr en að skipaskurður var grafin til borgarinnar Brugge, en þaðan var hægt að sigla til Norðursjávar. 1794 hertóku Frakkar Gent á nýjan leik. Íbúar voru þá aftur orðnir rúmlega 50 þús. Sökum hafnbanns Breta á franskar hafnir á Napoleontímanum varð mikil uppsveifla í atvinnuvegum borgarinnar og reyndist aðgengið að Norðursjó í gegnum Brugge nú dýrmætt. Þúsundir manna fluttu til Gentar, þar á meðal margir gyðingar. Eftir brotthvarf Frakka 1814 hittust fulltrúar Bretlands og Bandaríkjanna í Gent og undirrituðu friðarsáttmálann sem kenndur er við Gent. Löndin höfðu háð verslunarstríð frá 1812, en við friðarsamningnum var ástand ríkjanna óbreytt. Eftir að Napoleon slapp frá eyjunni Elbu flúði Loðvík XVIII til Gentar og dvaldi þar, þar til Napoleon beið lægri hlut í orrustunni við Waterloo. 1815 varð Gent hluti af nýstofnuðu konungsríki Niðurlanda. Iðnbylting. Strax 1827 lét Gent setja upp gasljós til að lýsa upp götur borgarinnar og var hún þarmeð fyrsta borgin í núverandi Belgíu sem það gerði. Sett voru upp 700 luktir. Gent tók ekki þátt í belgísku uppreisninni 1830, en lenti engu að síður í Belgíu þegar landið splittaði sig frá Hollandi. Á 19. öld varð Gent einnig fyrsta borgin á meginlandi Evrópu þar sem iðnbyltingin skaut rótum. Aðaliðnaðurinn var vefnaður með nýjum spunavélum, en fyrsta vélin var smygluð inn frá Englandi. Borgin varð á tímabili stærsta borg núverandi Belgíu, áður en Antwerpen fór fram úr aftur. Til að skapa betra aðgengi að sjó var skipaskurðurinn Gent-Terneuzen grafinn, þannig að aftur var hægt að sigla til Westerschelde. Skipaskurðurinn er enn í notkun í dag. Í Gent mynduðust einnig fyrstu nútíma verkalýðsfélög Belgíu. Upp úr 1860 voru borgarmúrarnir rifnir niður til að skapa meira pláss fyrir íbúðarsvæði og iðnað. Borgin var vel í stakk búin til að halda heimssýninguna 1913. Nýrri tímar. Þjóðverjar hertóku Gent í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Borgin slapp þó við loftárásir, þannig að nánast allar gamlar byggingar sluppu við skemmdir á styrjaldarárunum. 1977 sameinuðust nær öll nágrannasveitarfélög Gent, þannig að íbúatalan nánast tvöfaldaðist. Í einu vettfangi varð Gent því næststærsta borg Belgíu (á eftir Antwerpen). Viðburðir. Iðrunarganga borgarbúa. Snörurnar eru á sínum stað um háls göngumanna. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er KAA Gent sem þrisvar hefur orðið belgískur bikarmeistari (1964, 1984 og 2010). Sex daga keppnin er alþjóðleg hjólreiðakeppni sem árlega fer fram í Gent. Þetta er liðakeppni, þar sem tveir hjólreiðakappar mynda eitt lið. Hjólað er innanhúss á hringlaga braut og er, eins og nafnið gefur til kynna, sex daga langt. Byggingar og kennileiti. Graslei er gamli miðborgarkjarninn í Gent Baggalútur. Baggalútur, hreðjasteinn eða blóðstemmusteinn er lítill kúlulaga steinn (oft samvaxnir nokkrir í klasa). Lýsing. Eru á bilinu 0,5 til 2 sm í þvermál og oft samvaxnir saman. Við brotsár með sjá sammiðja lög sem eru oft mislit og holrými finnast á milli laganna. Uppruni og útbreiðsla. Baggalútar verða til þegar gasbóla myndar holrúm í hrauni og kvars grær út í rýmið. Vegna þess að kúlan er harðari en hraunið umhverfis verður hún eftir þegar það veðrast. Helstu funstarstaðir á Íslandi eru Hvaleyri í Hvalfirði og Álftavík í Borgarfirði eystra. Framhlaðningur. Framhlaðningur eða músketta er framhlaðið handskotvopn (þ.e.a.s. hlaðið er í framanvert hlaupið) og er með breytilega (mjúka) hlaupvídd. Framhlaðningur kom fyrst fram á 16. öld og var einkum notaður af fótgönguliði þess tíma og er forveri riffilsins. Galdraskyttan. Mynd frá árinu 1822 úr "Der Freischütz". Líkast til upphafsatriðið með Max og Kilian. "Galdraskyttan" eða "Töfraskyttan" (þýska: "Der Freischütz"; hugtakið kemur úr torráðinni þýskri þjóðsögu, og ekki er hægt að þýða það fyllilega) er ópera í þremur þáttum eftir Carl Maria von Weber við söngbók eftir Friedrich Kind. Óperan er ein fyrsta þýska rómantíska óperan og hafði mikil áhrif á Richard Wagner. Hinir konunglegu mótmælandatrúuðu riddarar. Hellsing er uppdiktuð samtök og koma fyrir í manga seríunni "Hellsing" eftir Kouta Hirano. Nafnið Hellsing kemur frá aðalpersónu bókarinnar Drakúla eftir Bram Stoker, sem hét Abraham van Helsing. Leiðtogi Hellsing samtakanna, Sir Integral Fairbrook Wingates Hellsing er lang-afabarn Abrahams. Í Hellsing alheiminum eru samtökin mikilvægur hluti í hinni raunverulegu valdabyggingu Bretlands, sem er í raun enn stjórnað af leyndri stétt aðalsmanna og konungsríkis. Hlutverk samtakanna er að verja landið gegn öllum yfirnáttúrulegum hættum. Í manganu vekur það oft upp deilur, hve óhefðbundnar leiðir Hellsing notar til að ljúka verkefnum sínum, eins og að nota óguðlega mætti og verur. Í þáttunum líkjast einkennisbúningar, aðferðir og útbúnaður frekar and-hryðjuverka hóp, á meðan að í manga og OVA sögunum líkjast þeir meira Men in Black stofnun en lögregluhópi. Saga. Það bendir margt á það að Hellsing stofnunin var stofnuð af Abraham van Helsing skömmu eftir atburði bókar Bram Stokers (Drakúla) sem svörun við þeirri hættu sem vampírur virtust vera, eftir að hann hafði hitt Drakúla. Tilgangur Hellsings er að eyða öllum ó-mannlegum verum. Þetta fellur vanalega í hendur afkomenda Abrahams, vegna þess að þeir eru þeir einu sem geta stjórnað Alucardi (sem ert oft kallaður „ávöxtur erfiðis Hellsing fjölskyldunar“, en hún framkvæmdi margar tilraunir á Alucardi, og gerðu hann að einni bestu vampírunni, aðeins til að berjast við aðrar vampírur. Árið 1944 sendi Arthur Hellsing (þáverandi stjórnandi Hellsings) Alucard og 14 ára gamlan strák að nafni Walter C. Dornez til að stöðva tilraunir Millenniums til að skapa gervi vampíru her til myndi hjálpa Nasistum að sigra seinni heimsstyrjöldina. Alucard og Walter tókst þetta, þótt þeim mistókst að drepa lykilmenn Millenniums. Eftir seinni heimsstyrjöldina var ákveðið að Alucard væri of kraftmikill, og þar með hugsanlega hætturlegt að nota hann sem vopn, og var læstur í kjallara Hellsing setursinns. Þegar Arthur lést, varð Integra Fairbrook Wingates Hellsing ráðamaður Hellsings. Frændi hennar Richard Hellsing reyndi að drepa hana til að verða stjórnandi Hellsings, en var drepinn af Alucard, sem Integra hafði vakið úr 20 ára kyrrsetningu. 10 ár eru liðin frá því að Integra tók við stjórn Hellsings. Glerlykillinn. Glerlykillinn eru bókmenntaverðlaun sem árlega eru veitt glæpasögu frá Norðurlöndunum. Verðlaunin eru nefnd eftir skáldsögu Dashiell Hammett, "The Glass Key", frá 1931. Muzik fm 88,5. Muzik.is var nýstárleg útvarpsstöð sem bauð hlustendum sínum að stýra tónlistarvalinu í gegnum vef útvarpsstöðvarinnar. Einnig var hægt að hlusta á útsendingar stöðvarinnar á netinu jafnt og með fm útvarpstækjum. Muzik.is spilaði dansvæna tónlist úr öllum áttum. Íslenska sjónvarpsfélagið rak stöðina fyrst um sinn en síðan var hún seld til Pýrits sem lokaði á netþjónustuna og rak stöðina um sinn sem rokkstöð. Veðurspá. Veðurspá er spá fyrir veðri, sett fram á textaformi, í töluðu máli eða myndrænt. Getur verið skammdræg (fáeinar klukkustundir eða dagar fram í tímann), meðaldræg (fáeinar vikur fram í tímann) eða langdræg (mánuðir eða jafnvel ár fram í tímann). Tölvuforrit eru notuð til að reikna tölvuspá, sem veðurfræðingur styðst við þegar hann semur veðurspá. Veðurstofa Íslands gefur út veðurspá fyrir Ísland og umhverfi þess. Viðlíking. Viðlíking (líking eða samlíking) er stílbragð sem felst í að ljósi er varpað á fyrirbæri með því að bera það saman við annað fyrirbæri sem á eitthvað sameiginlegt með því. Viðlíking er náskyld "myndhverfingu" en munurinn felst í að í viðlíkingu er samanburðurinn bókstaflegur en í myndhverfingu er hann gefinn í skyn. Viðlíkingar eru algengar í ljóðlist en koma einnig víða fyrir í öðrum textum og töluðu máli. Í kviðum Hómers eru viðlíkingar algengar og oft býsna ítarlegar. Eftirfarandi dæmi er úr "Ilíonskviðu" og lýsir herliði Grikkja. Viðlíkingar eru einnig algengar í Eddukvæðum, sem dæmi má nefna orð Sigrúnar Högnadóttur um Helga Hundingsbana í "Helgakviðu Hundingsbana II". Mörg dæmi um viðlíkingar má finna í daglegu máli, til dæmis má segja að einhver sé "frjáls eins og fuglinn" eða "vinni eins og skepna". Ópera. Ópera er tónlistarform sem byggist á því að leikrit er flutt með söng og hljómsveitarundirleik og má því segja að leikritið sé sungið. Vestrænar óperur urðu til á Ítalíu um árið 1600, en kínversk ópera er mun eldri. Vlad Drakúla. Vlad Ţepeş eða Vlad Dracula (1431 – 1476) var fursti í Vallakíu (sem nú er eitt af þremur héruðum Rúmeníu). Hann léði nafn sitt aðal illmenninu í bók Bram Stoker, "Drakúla", en ólíklegt þykir að Stoker hafi mikið þekkt til sögu hans annað en nafnið. Árið 1431 í nóvember eða desember fæddist í transylvanísku borginni Sighisoara. Á þeim tíma var faðir hans, Vlad Drakúl, í útleigð frá heimalandi þeirra Valakíu. Nefna má að húsið sem að hann fæddist í stendur ennþá og er til sýnis. Lítið er vitað um æsku Vlads. Hann átti tvo bræður: eldri bróður Mircea og yngri bróður Radu hinn myndarlega(sem er viðurnefni sem hann fékk frá Óttómönnum á seinni tímum). Vlad var alinn upp og menntaður af móðurætt sinni sem var transylvanísk aðalsfjölskylda. Menntun hans sem kristins aðalsmanns byrjaði árið 1436 þegar faðir hans náði völdum aftur í Valakíu eftir að hafa rutt í burtu keppinauta sína, Danesti ættina. Vlad lærði allar bardaga og stjórnaraðferðir sem að sæmir kristnum aðalsmanni. Fyrsti kennari hans var gamall aðalsmaður sem að hafði barist á móti Tyrkjum í bardaganum við Níkólópolis. Árið 1444 þegar Vlad var 13 ára, sendi faðir hans Radu og Vlad til sóldánsins í Tyrklandi sem gísla til að tryggja frið á milli þjóðanna. Vlad var þar til ársins 1448 þegar honum var sleppt af tyrkjum. Bróðir hans Radu kusu að vera eftir í Tyrklandi, og hafði stuðning Tyrkja til að verða næsti konungur Valakíu á móti bróður sínum Vlad. Faðir Vlads og eldri bróðir hans Mircea voru sviknir af aðalsmönnum í Valakíu í hendurnar á tyrkjum árið 1447. Faðirinn Vlad var stjaksettur og eldri bróðirinn Mircea var grafinn lifandi. Þetta þurfti Vlad Drakúla að horfast við, og á þeim tíma svór hann að ná hefndum, beint eða óbeint. Þetta sást á grimmdarverkum hans á seinni tímum. Upphafleg stjórnartíð Vlads III var mjög stutt eða tveir mánuðir, vegna óvinskap hans til Ottómanna og frá Ottómanna til hans. Það var ekki fyrr en árið 1456 sem að komst til valda fyrir alvöru, með stuðningi Hyandi konungs Ungverjalands. þá útnefndi hann Tirgoviste sem höfuðborg Valakíu og byggði svo kastala sinn nálægt Arges ánni. Flest frægðarverk Vlads gerðust á þessum tíma. Vlad Drakúla III þekktastur fyrir ómennsk grimmdarverk. Stjaksetning var uppáhalds pyntingarleið hans. Stjaksetning var og er ennþá ein hræðilegasta leið sem til er, til að deyja, þar sem að þetta er hægur dauðadagi og frekar sársaukamikill. Vlad notaði stjaksetningu ekki bara leið til að pynta og drepa óvini sína heldur líka til að hræða þá í burtu. T.d. er til ein saga um það þegar Tyrkir ætluðu að gera innrás inní Valakíu. Mohammed II sigurvegari Konstantínopel sem var þekktur fyrir grimmd sína og miskunnarleysi flúði af ógeði þegar að hann sá tugi þúsunda af stjaksettra líka tyrkneskra fanga. Vlad var ekki beinlínis besti vinur Ottómanna, og átti þess vegna í deilum við þá. Árið 1476 eftir langa og harða baráttu við Ottómanna safnaði heyrði Vlad að þeir ætluðu að gera útaf við hann eitt skipti fyrir öll. Eftir að hafa heyrt þetta þá safnaði Vlad öllum sínum mönnum saman og fékk hjálp frá bandamönnum sínum í Ungverjalandi. Þessi orrusta átti greinilega að vera su síðasta sem að fór á milli Valakíu og Ottómanna. Orustan endaði þannig að Ottómannar unnu. Það er ekki vitað hvernig að Vlad var drepinn í orustunni, sumir halda að hann hafi verið drepinn af óvininum, sumir halda að hann hafi verið drepinn af Ungverskum bandamönnum sínum, og sumir halda að hann hafi óvart verið drepinn af sínum eiginn mönnum. Þó að það sé ekki vitað hvernig að Vlad dó er vitað að hann var drepinn í þessum bardaga með restinni af hernum hans. Valakíumenn börðust til hins síðasta manns, það voru engir fangar teknir. Death Note. Death Note (japanska デスノート, Desu Nōto) er japönsk manga sería skrifuð af Tsugumi Ohba og myndskreytt af Takeshi Obata. Serían fjallar aðallega um háskólanema einn sem ákveður að eyða öllu illu fólki í heiminum með hjálp yfirnáttúrulegrar stílabókar sem er þeim kröftum gædd að ef nafn einhvers er ritað í bókina, deyr viðkomandi. Ryk. Ryk er heiti yfir smásæjar, fastar agnir, með þvermál minna en 500 míkrómetrar, sem berast auðveldlega með loftstraumum. Uppspretta ryks í lofthjúpi jarðar er einkum laus steinefni á yfirborði, eldfjallaaska, gróður og mengun af mannavöldum. Geimryk eru agnir í geimnum sem eru minni í 0,1 mm. Ryk í heimahúsum og á vinnustöðum samanstendur einkum af húðflögum, hárum og efnistrefjum. Ýkjur. Ýkjur (forngríska:, "hyperbolē") eru stílbragð sem felst í að notað er öfgafullt orðalag sem ekki stenst í bókstaflegri merkingu. Ýkjur koma víða fyrir í bókmenntum allra tíma, ýmist í háði eða til áhersluauka. Eftirfarandi dæmi er úr "Makbeð" eftir William Shakespeare. Mörg dæmi um ýkjur má finna í daglegu máli, til dæmis að einhver sé "hvítur eins og snjór". Ojradar. Ojradar (mongólska: Ойрадын "ojradin") er þjóðflokkur frá Vestur-Mongólíu. Frumtónn. Frumtónn (e. "tonic") er fyrsti tónn tónstigans. Fortónn. Fortónn (e. "dominant") er fimmund ofan við frumtón og er fimmti tónn tónstigans. Wilson Muuga. Wilson Muuga er rússneskt flutningaskip skráð á Kýpur. Skipið er alls 5700 lestir og var áður gert út af Nesskipum og hét þá Selnes. Skipið strandaði á Hvalsnesi þann 19. desember 2006 þegar það var á leið frá Grundartanga til Murmansk í Rússlandi. Strand. Um klukkan hálf fimm aðfaranótt 19. desember strandaði Wilson Muuga á Hvalsnesi í Sandgerðisbæ og kallaði á aðstoð. Veður var slæmt og var skipið komið inn fyrir skerjafláka undan landi. Danska varðskipið Triton fór til aðstoðar og sendi út tvo léttabáta sem báðum hvolfdi og enduðu skipverjarnir 8 í sjónum. Einn þeirra, Jan Nordskov Larsen, lést en allir hinir komust á land heilu og höldnu. Þann 19. desember var því lögð áhersla á að ná skipverjum úr flutningaskipinu og leita að dönskum skipverjum af Triton. 20. desember. Þann 20. desember var tilkynnt um lítilsháttar leka að flutningaskipinu og að lítill olíufláki hefði myndast. Veður var slæmt þessa daga svo ekki var hægt að dæla olíu úr tönkum skipsins. 21. desember. Þann 21. desember tókst að koma dælu og börkum um borð í skipið með þyrlu en slæmt veður var eins og fyrr. 22. desember. 22. desember voru menn frá Olíudreifingu fluttir út í skipið með þyrlu og undirbjuggu þeir dælingu olíu úr botntönkum skipsins í hliðartanka. Ljóst var að komið var gat á einn botntank skipsins og lak svartolía úr honum - þó var eittthvað lítið magn þar. 23. desember. 23. desember virtist það ljóst að skipið komist ekki af strandstað sínum nema í bútum. Sjópróf á áhöfninni leiddu það í ljós að bæði sjálfstýribúnaður og áttaviti biluðu og sýndu að skipið sigldi í hásuður þegar það stefndi á land og sigldi í raun í austur. Jafnframt var það á 13 hnúta ferð þegar það strandaði og er það ástæðan fyrir því hversu langt upp í landsteinana það fór. Þegar skipstjórinn uppgötvaði villu vegar var of seint að stýra frá og því fór sem fór. 26. desember. Þann 26. desember var búið að koma leiðslum um borð og gera allt klárt fyrir olíudælingu úr skipinu og í land. Lítil olíubrák var frá skipinu og hvergi varð þess vart að fugl hefði lent í olíu. Menn töldu að sjávarrótið hefði dugað til þess að brjóta niður þá olíu sem frá skipinu hefði borist. Mjög mikil umferð var suður á Hvalsnes allan daginn á meðan birtu naut. 27. desember. Um klukkan 4 aðfaranótt 27. desember var farið að dæla olíu úr skipinu og um klukkan 19 sama dag var búið að dæla 50 þúsund lítrum af olíu úr skipinu. 28. desember. Þann 28. desember var lokið við dælingu úr skipinu en þá var alls búið að dæla 95 tonnum úr því. 19. janúar 2007. Þann 19. janúar 2007 sótti Nesskip, umboðsaðili eigandans á Íslandi, um mánaðarfrest til að ákveða hvað gera ætti við flakið. Ljóst þótti að brytja þyrfti skipið niður, hvort sem það yrði gert í fjörunni eða þar sem skipið stóð. Daginn áður fóru menn um borð í skipið og tóku ýmis verðmæti úr því. Björgunarsveitir munu fá þessi verðmæti sem þökk fyrir björgunaraðgerðir. 17. apríl 2007. Þann 17. apríl var skipinu komið á flot. Hafði þá verið unnið í margar vikur að því að þétta botninn svo að það flyti. Skipið var dregið út af dráttarbát og voru hafðar stýritaugar frá skipinu í land og einnig út í sker sitt hvoru megin skipsins til þess að halda því réttu þegar stríkkaði á dráttartauginni og það færi að hreyfast. Aðgerðin tókst mjög vel og tók ekki nema um hálftíma að ná skipinu á flot út úr skerjagarðinum. Eftir það var það dregið til Hafnarfjarðar og á eftir að koma í ljós hvað gert verður við það. 23.apríl 2007. Skipið Wilson Muuga hefur verið selt og verður það dregið frá Hafnarfirði alla leið suður til Líbanon og annað hvort gert upp þar eða rifið en það er undir nýjum eigendum þess komið. Sakar. Sakar (persneska: سكا) er fólk frá Íran sem bjó í Kasakstan og Mið-Asíu. Írónía. Írónía eða háð (einnig nefnt tvísýni, háðhvörf, launhæðni, uppgerð eða látalæti) er stílbragð sem felst í misræmi annars vegar milli þeirrar merkingar sem mælandi leggur í orð sín og hins vegar þeirrar merkingar sem áheyrendur leggja í orðin eða í því hvernig þau rætast á annað máta en búist var við. Írónía getur einnig verið þegar beinlínis er átt við annað en það sem sagt er, gjarnan hið gagnstæða. Abraham Van Helsing. Prófessor Abraham Van Helsing er skáldsagnakennd persóna í bók Bram Stokers Drakúla frá árinu 1897. Van Helsing er Hollenskur læknir sem hefur mörg áhugamál og afrek sem hægt er að sjá á nafnbótum hans: "M.D. (doktor í læknisfræði), D.Ph. (doktor í heimspeki), D.Litt. (doktor í bókmenntum), o.s.f.v., o.s.f.v." Hann er best þekktur sem vampíru veiðari. Dracula. Í skáldsögunni kallar fyrrum nemandi Van Helsings eftir honum, eða Dr. Seward, til að hjálpa honum við dularfullt mein Lucy Westenru. Þeir komast að því að það var vampíran Drakúla sem beit hana, og síðar í sögunni tekst honum ásamt Johnathan Harker, Arthur Holmwood, Dr. Seward og Minu Harker að drepa Drakúla. Afkomendur Abrahams Van Hellsings. Í manganu og animeinu, "Hellsing" leiðir nútíma afkomandi hans Integra Hellsing árásarsveit bresku ríkistjórnarinnar (og líka vampíruna Alucard en seinna kemur fram að hann sé Drakúla greifi) gegn herjum Millenniums. Í teiknimyndasögum/manga. Abraham Van Helsing kemur fram í manganu Hellsing. Hann kemur fram í draumi Alucards, þar sem hann minnist oft á Drakúla, en í enda draumsins virðist Alucard gráta blóði. Í Hellsing OVA þáttunum gerist þetta í öðrum Hellsing þættinum. Þyngdarsvið. Þyngdarsvið er svið sem myndast í rúmi vegna áhrifa frá massa. Þyngd hluta er mælikvarði á þyngdarsvið, en þyngdarhröðun jarðar er táknuð með g. Geislun. Geislun er hugtak í eðlisfræði, en þá er oftast átt við rafsegulgeislun, en á einnig við agnageislun og þyngdargeislun. Orðið geislun er oft notað yfir jónandi geislun. Listi yfir Hellsing OVA þætti. Listi yfir japönsku OVA þættina Hellsing OVA, sem byggðir eru á Hellsing manganu sem er skrifað og teiknað af Kouta Hirano. Þættirnir fjalla um Hellsing samtökin sem berjast við hina upprisnu með hjálp Alucards. "Hellsing OVA þættirnir" eru gefnir út með óreglulegum millibilum á DVD diska en áætlað er að þeir verði um 10-12 talsins, þ.e.a.s. örlítið meira en einn þáttur á hverja mangabók. Ekki er nein ákveðin lengt fyrir þættina, en þeir eru oftast um 40-50 mínútur. Tengt efni. Hellsing OVA Álft. Álft eða svanur (fræðiheiti: "Cygnus cygnus") er stór fugl af andaætt og stærsti fugl Íslands. Hún er sundönd og er alfriðuð enda stofninn ekki stór, þó fer Álftum fjölgandi hér á landi. Útbreiðsla. Íslenskar álftir dvelja flestar á Bretlandseyjum yfir vetrarmánuðina en kringum tíundi hluti hefur vetursetu á Íslandi aðallega á Suður-og Suðvesturlandi og Mývatni. Á Reykjavíkurtjörn eru einnig venjulega nokkrir tugir fugla. Álftin er með fyrstu farfuglum, þær fyrstu sjást yfirleitt á Suðausturlandi í byrjun mars. Talning álfta fer fram á Bretlandseyjum og stofnmat árið 2005 sýndi að stofninn hafði stækkað úr um 12.000 fuglar árið 1980 í um 25.000 fugla 2005. Mest eru þetta geldfuglar en talið er að um 2.000 pör, eða 4.000 fuglar verpi hér á landi á hverju ári. Einkenni. Álftir eru mjög áberandi fuglar enda alhvítar með svarta fætur og dökk augu. Kynin eru eins í útliti en karlfuglinn er þó stærri og þyngri. Goggurinn er svartur með gulri rót, langan, beinan háls, flatan búk og afturhallandi stél á sundi. Flugið er kröftugt með hægum og sterklegum vængjatökum. Hún teygir hálsinn beint fram á flugi en heldur honum lóðréttum á sundi. Til að hefja sig til flugs hleypur hún á vatninu enda mikill og þungur fugl. Ungarnir eru ljósgrábrúnir og nef ljósrautt með dökkum oddi. Á sumrin geta fuglarnir verið meira eða minna gráir eða ryðrauðir af mýrarrauða úr vatninu. Röddin er líkust hljómmiklum lúðrablæstri. Síðsumars fella fuglarnir fjaðrirnar og eru þá ófleygir. Geldfuglar, far-og fellihópar safnast saman á ýmsum stöðum á landinu en sá stærstur þeirra er í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu en þar safnast oft meira en þriðjung alls íslenska stofnsins og er það mikilvægasti álftasamkomustaður í heimi. Fæða. Álftir eru jurtaætur sem nærast mest á vatna- og mýrargróðri ásamt því sem þær sækja í tún og eru taldar miklir skaðvaldar af landeigendum. Þær eru hálfkafar og þá oft með afturendann upp í loft þegar þær leita ætis neðan vatnsyfirborðs. Varp. Álftin er mjög félagslynd og er venjulega í hópum og þá auðfundnar, nema á varptíma, þá verja hjónin óðal sitt. Álftin verpir um land allt bæði á láglendi og á hálendi og heldur sig við vötn, tjarnir, í mýrum og flóum. Þær gera sér háa dyngju með djúpri skál til að verpa í. Dyngjan er úr ýmsum gróðri sem þær finna í nágrenni við hreiðrið. Eggin eru oftast fjögur til sex. Varp hefst missnemma og fer það eftir því hvort álftirnar eru á láglendi eða hálendi. Toppönd. Toppönd (fræðiheiti: "Mergus serrator") er önd sem er bæði staðfugl og farfugl á Íslandi. Toppendur eru önnur tveggja tegunda af ættkvíslinni "Mergus" hér á landi, en það þýðir að hún er fiskandartegund; hin kallast gulönd. Fiskiendur eru kafendur sem éta nær eingöngu seiði og smáfisk. Hún er víðast hvar mjög styggur fugl. Toppendur eru algengar um allt land nema á hálendinu. Stofnstærðin er talin 2.000–4.000 varppör. Heimilt er að veiða toppendur og mun eitthvað gert af því. Einkenni. Hálslöng og rennileg, grannvaxin, vaxtarlagið minnir á skarfa og brúsa. Hún er með langan mjóan gogg og áberandi stríðan tvítopp í hnakka. Rauðleitur goggurinn er langur og mjór með þyrnitönnum sem auðveldar fuglinum að ná taki á hálum fiski. Fætur eru rauðir með dekkri fitjum og augu eru rauð. Flýgur venjulega lágt og hratt. Tilhugalífið er oft afar fjörlegt og mikil læti. Lætur helst heyra í sér í tilhugalífinu með rámu gargi. Fæða. Kafendur – fiskiendur, sem éta nær eingöngu seiði og smáfisk eins og nafnið gefur til kynna. Oftast eru hornsíli aðalfæða toppandarinnar. Varp. Varpsvæði eru lyngmóar eða kjarrlendi. Hreiðrin eru fóðruð með eigin dúni og eru falin vel og verpa því gjarnan í holur og glufur (t.d. í hrauni). Varptíminn er í júní og fram í ágúst. Eggin eru sjö til tólf talsins. Veiðar. Leyfðar eru veiðar á toppöndini frá 1. september til 15. mars ár hvert. Meðalveiði sl. fimm ára hafa verið 625 fuglar á ári. Dreifing. Finnst við stöðuvötn, ár og stendur, aðallega á láglendi en er sjaldgæf á hálendinu. Hreiðrið er vel falið í gróðri eða holum og sprungum, fóðrað með sinu og dúni. Á veturna leitar hún út á sjó og steggir fella fjaðrirnar aðallega á sjó. Hluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum verpur á breiðu belti allt umhverfis Norðurheimskautið. Stokkönd. Stokkönd (fræðiheiti: "Anas platyrhynchos") er fugl af andaætt. Hún er að mestu leyti staðfugl á Íslandi. Stokkendur eru algengasta og jafnframt þekktasta andartegundin hér á landi fyrir utan æðarfugl. Stokkendur eru buslendur. Áætlað er að varpstofninn sé 10.000-15.000 pör og einhvers staðar á milli 20.000 til 40.000 fuglar dvelji hér yfir veturinn. Stokkendur eru talsvert veiddar til matar. Sennilega útbreiddasta öndin á láglendi en er sjaldgæf á hálendinu. Hefur mikla aðlögunarhæfni og er oft í nánu sambýli við manninn. Stokkandarsteggurinn er nefndur grænhöfði, og stokköndin við Mývatn er stundum kölluð stóra gráönd. Einkenni. Stundum er stokkönd kölluð grænhöfðaönd því blikinn er með grænan haus og mjög skrautlegur. Hann er í felubúningi júní – ágúst. Goggur karlfugls er gulgrænn með svartri nögl, goggur kvenfugls daufgulrauður oft með flekkjum. Fætur beggja kynja eru rauðgulir og augu dökk. Kollan er hávær, garg hennar er rámt “bra-bra” steggurinn er hljóðlátur, flautar í biðilsleikjum. Fæða. Ýmiss vatna- og landgróður en einnig smádýr svo sem lirfur, skeldýr og kuðungar. Varp. Eru einkennandi fyrir andapolla víða um land t.d. Tjörnina í Reykjavík. Þær halda sig við vötn og votlendi, helst kjósa þær tjarnir með sef- og starargróðri. Á veturna eru þær helst við sjóinn og einnig inn til lands þar sem ferskvatn leggur ekki. Stokkendur verpa 8-10 eggjum fyrstar anda, eða síðast í apríl og í maí. Kollan liggur ein á eggjunum sem klekjast út á 4 vikum. Dreifing. Sést víða um land á veturna. Sumir hafa vetursetu á Bretlandseyjum. Algeng um allt norðanvert norðurhvelið. Georg Hólm. Georg Hólm (fæddur 6. apríl 1976) er bassaleikari í hljómsveitinni Sigur Rós. Jónandi geislun. Jónandi geislun er annaðhvort rafsegulgeislun eða agnageislun, sem er nægjanlega orkumikil til að jóna frumeind eða sameind. Jónandi geislun myndast við kjarnahrörnun og kjarnasundrun eða í geislatækjum, s.s.röntgentækjum og eindahröðlum og getur verið hættuleg lífverum. Dæmi um geislun, sem ekki er jónandi er útfjólublá geislun, útvarpsgeislun og örbylgjugeislun. Með geislavörnum er reynt að minnka geislaálag vegna jónandi geislunar. Agnageislun. Agnageislun er geislun sem stafar af hraðfara ögnum, þ.e. öreindum, frumeindum eða sameindum. Alfageislun er vegna geislunar helínkjarna, betageislun vegna geislunar rafeinda, jáeinda og fiseinda og nifteindageislun vegna geislunar nifteinda. Eindahraðlar mynda mjög öfluga agnageislun sem er notuð m.a. við geislameðferð og til rannsókna í öreindafræði. Geimgeislun er öflug agnageislun sem á upptök utan jarðar. Agnageislun, einkum alfageislun frá geislavirkum efnum, sem borist hafa inn í líkamann, getur verið mjög skaðleg eða jafnvel banvæn (sbr. dauða Alexander Litvinenkos). Uppvakningur. Uppvakningur er samkvæmt þjóðtrú holdleg vera (oftast í formi mannveru, en getur tekið sér mynd dýra eða yfirnáttúrulegrar veru), sem á óútskýrðan hátt hefur vaknað til lífsins eftir dauðann og gengur meðal lifenda. Íslenska orðið "uppvakningur" átti við sérstaka gerð drauga úr norrænum goðsögnum, en goðsagnir úr öðrum menningarheimum hafa aukið við merkingu orðsins "uppvakningur" í dag. Norðurlönd. Samkvæmt norrænum goðsögnum og þjóðsögum eru uppvakningar draugar, sem risið hafa upp úr grafhaugum látinna víkinga. Einnig gátu galdramenn, og fjölkunnugt fólk, vakið upp lík vinna ýmis illvirki. Menn sem voru drepnir af skuggaverum líkt og tröllum urðu oft að Uppvakningum. Draugurinn Glámur í Grettissögu er einn þekktasti uppvakningur Íslands. Afríka. Nútímamerking orðsins á oftast við þýðingu enska orðsins "zombie" sem er nár sem hefur verið vakinn upp (oftast með göldrum), og gengur á meðal lifenda og er „skinlifandi“ (sbr.: skindauður). Hið afrískættaða orð "Zumbi" merkir sálarlaus líkami manns sem starfar sem þræll í þjónustu vúdúprests. Kongóbúar nota orðið "nzambi" yfir fyrirbærið sem þýðir „sál dauðrar manneskju“. Sögur af uppvakningum eiga uppruna sinn að rekja til margra afrískra ættbálka og trúarbragða þeirra sem kallast Vúdú, þar segir frá því að dauðir eru vaktir til lífs sem vinnumenn fyrir öfluga seiðmenn. Samkvæmt boðorðum Vúdú þá getur dáinn manneskja verið lífguð við af "bokor" eða Vúdú seiðmanni. Uppvakningarnir haldast þá undir stjórn Vúdú seiðmannsins þar sem þeir hafa engan sjálfstæðan vilja. „Zombi“ er einnig nafn fyrir Vúdú snákaguðinn Damballah Wedo,sem er af Níger-Kongó uppsprettu; það er skyld orðinu nzambi á máli Kongóbúa sem þýðir „guð“. Einnig innan um Vúdú siðinn er sagt að „zombi“ sé mennsk sál sem hefur verið gripinn greipum af „bokor“ og notuð til þess að efla kraft seiðmannsins. Árið 1937 var Zora Neale Hurston að rannsaka þjóðsiði Haítí, þegar hún datt á mál Felicia Felix-Mentor sem hafði dáið og verið grafin árið 1907 aðeins 29 ára gömul. Uppvakningar í kvikmyndum. Sögur nútímans af uppvagningum, á prenti, hvíta tjaldinu eða tölvuleikjum, eiga flestar uppruna sinn að rekja til sagna af afrísk karabískum göldrum, vúdú og svartagaldurs. Í þeim er sjálfur nár hins látna vakinn til lífsins og honum fengið hlutverk í holdinu á meðal lifanda. Þeir eru sjaldnast skarpir en þó nógu gáfaðir til að fjölga fjölda nára til muna. Uppvakningarnir eru verk galdra, afleiðingar vísindarannsókna (Frankenstein), líffræðilegra stökkbreytinga og vírusa sbr.: kvikmyndir eins og Resident Evil og 28 days later. Geislavarnir. Geislavarnir eru vísindalegar aðferðir við hönnun mannvirkja og geislatækja, meðhöndlun og notkun geislavirka efna og geislatækja, sem miða að því að minnka geislaálag á starfsmenn og almenning. Geislavarnir ríkisins er opinber stofnun á sviði geislavarna. Askar Capital. Askar Capital er fjárfestingabanki sem leggur áherslu á sérhæfðar fjárfestingar ("alternative investments") á nýmörkuðum. Bankinn veitir fagfjárfestum fjármálaþjónustu á sviði eignastýringar, fasteignafjárfestingarráðgjafar og áhættu- og fjármögnunarráðgjafar. Askur Capital hóf starfsemi sína í byrjun árs 2007. Hjá Askar Capital starfa 80 manns um allan heim með víðtæka starfsreynslu og menntun. Höfuðstöðvar bankans eru í Reykjavík en aðrar skrifstofur bankans og dótturfélaga hans eru á Indlandi, Lúxemborg, Rúmeníu og Bandaríkjunum. Forstjóri bankans til ársins 2008 var dr. Tryggvi Þór Herbertsson prófessor áður forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Meðal kjölfjárfesta í bankanum er fyrirtækið Milestone í eigu Karls Wernerssonar og Steingríms Wernerssonar. Auk forstjóra eru lykilstjórnendur; Benedikt Árnason, aðstoðarforstjóri, Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri, Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Avant, dr. Sverrir Sverrisson, framkvæmdastjóri Eignastýringar, Þórður Jónasson, framkvæmdastjóri Áhættu og Fjármögnunarráðgjafar, Tómas Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fasteignafjárfestingarráðgjafar og Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Áhættustýringar. Yfirsýn forstjóra Askar Capital. Sama mánuð kom fram að Askar Capital þyrfti að afskrifa 800 hundruð miljónir króna vegna bandarískra skuldabréfavafninga og annað eins gæti bæst við. Í febrúar sama ár í pallborði á Viðskiptaþingi þar sem rætt var um hvort krónan væri byrði eða blórabögull, sagði Tryggvi að vandinn við fjármálakerið og hið opinbera væri að hvorirtveggja hefðu verið á fylleríi. Geislavirkni. Geislavirkni er samheiti yfir ferli sem tengjast kjarnabreytingum, sem verða þegar óstöðugir frumeindarkjarnar gefa frá sér jónandi geislun. Náttúruleg geislavirkni stafar af geislavirkum efnum sem finnast í náttúrunni. SI-mælieining geislavirkni er bekerel, táknuð með Bq, sem nefnd er eftir Henri Becquerel, sem fyrstur uppgötvaði hana. (Eldri mælieining fyrir geislavirkni, kúrí, táknuð með Ci, er nefnd í höfuðið á hjónunum Marie og Pierre Curie.) Til eru 3 tegundir af geyslavirkni: Alpa, Beta og Gamma. Öll eiga mismunandi orsök að baki. Alfa geislun verður þegar kjarni efnissins er óstöðugur vegan of ójafns hlutfalls nifteinda og róteinda og losar þá kjarninn af sér tvær róteindir og tvær nifteindir. Við þetta umbreytist efnið í annað efni og gefur frá sér He+2 kjarna. Alfa geislun er almennt ekki talin hætuleg mönnum eða umhverfi þar sem drægi þessarar geislunar er stutt og kemst til dæmis ekki í gegnum skinn manna. Annað mál er aftur á móti ef geislunin kemur innan frá þar sem líffærin okkar eru ekki varin. Beta geislun verður þegar kjarninn hefur ójafnar nifteindir og róteindir. Undir vissum kringumstæðum getur nifteind breist í róteind og öfugt, við þessa umbreytingu losnar plús eða mínushlaðin rafeind úr kjarnanum á mikilli ferð eftir því hvort róteind hafi umbreyst eða nifteind. Ef nifteind umbreytist í róteind gefur kjarninn frá sé minus hlaðna rafeind en plus hlaðna rafeind ef róteind umbreytist í nifteind. Við þetta ferli breytist fjöldi róteinda í kjarnanum sem þýðir að úr verður nýtt efni, þ.e. róteindafjöldi annaðhvort hækkar eða lækkar í kjarnanum. Við þetta ferli losnar sömuleiðis um orku í formi ljóseindar eða gamma (γ) geislun. Beta geislun getur verið hættuleg mönnum þar sem rafeindir ferðast á nánast ljóshraða og getur farið í gegnum húð manna og dýra en sökum lítils massa fer hún ekki djúpt. Þessi geislun getur þó valdið brunasárum í mikklu mæli og getur skaðað augu og valdið krabbameinum ef um mikkla geislun er að ræða. Sama gildir þó með intöku geislavirks efnis sem gefur frá sér beta geislun eins og með alfa geislun, innvortis getur hún valdið miklum skaða. (_6^14)C→(_7^14)N +_(-1) e Gamma geislun verður til þegar kjarni með mismun á milli róteinda og nifteinda er mjög orkumikill. Við þessar aðstæður reynir kjarninn að losa sig við umfram orku og við það losnar um ljóseind á mjög miklum hraða og hárri tíðni. Þetta getur einnig gerst samhliða beta geislun þar sem kjarninn er í raun að losa sig við umfram orku. Ljóseindin hefur engar nifteindir, róteindir eða rafeindir og hefur því engann massa. Þess vegan tapar kjarninn engöngu orku en breytist ekki að öðru leyti. Gamma geislun er mjög hættuleg þar sem ljóseindin fer í gegnum allt lífrænt efni með alvarlegum afleiðingum fyrir þann eða það sem fyrir henni verður. Geislaálag. Geislaálag, einnig nefnt líffræðilegt geislaálag, er mælikvaði á líffræðileg áhrif jónandi geislunar á menn, þegar tekið er tillit til tegundar geislunarinnar. Geislaálag lýsir betur líffræðilegum áhrifum geislunar heldur en geislaskammtur, t.d. eru líffræðileg áhrif alfageislunar 20-föld miðað við beta-, röntgen-, eða gammageislun. SI-mælieining geislaálags er sívert, táknuð með Sv. (Eldri mælieining er rem, þar sem 1 Sv = 100 rem.) Geislabyrði er heildargeislaálag af völdum geislunar yfir tiltekið tímabil frá efnum, sem borist hafa inn í líkamann, einnig mælt í einingunni sívert. Á Íslandi fylgjast Geislavarnir ríkisins með og mæla geislaálag og geislabyrði. Geislaskammtur. Geislaskammtur er mælikvarði á þá orku sem gleypist í tilteknum massa vegna jónandi geislunar. SI-mælieining er grei, táknuð með Gy. (Eldri mælieining er rad, þar sem 1 rad = 0,01 Gy.) Raffræðilegur geislaskammtur, mældur í einingunni "röntgen" og táknuð með R, er sá geislaskammtur af röntgen- eða gammageislum sem myndar einingarskammt af já- og neikvæðum jónum í hverju kílógrammi af lofti. (1 R = 2,58. 10-4 C/kg.) Mælieininingin "röntgen" er ekki SI-eining. Við geislameðferð er oftast gefinn ákveðinn, lágur geislaskammtur á kjörmeðferðarsvæði í 4 til 6 vikur. Öfugt við geislaskammt tekur geislaálag tillit til líffræðilegra áhrifa geislunar. Freddy Adu. Freddy Adu (fæddur Fredua Koranteng Adu 2. júní 1989 í Tema í Gana) er ganaískur knattspyrnumaður sem leikur með AS Monaco leiktíðina 2008-2009. Hann er þó samningsbundinn SL Benfica í Portúgal. Áður lék hann með DC United í Major League Soccer-deildinni í Bandaríkjunum. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Bandaríkin gegn Gana árið 2006, þar sem að aðdáendur bandaríska landsliðsins voru orðnir óþolinmóðir á því að bíða eftir fyrsta landsleik Adu. Hann var þó ekki valinn í tuttugu og þriggja manna hóp landsliðsins sem lék á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 2006. Geislameðferð. Geislameðferð er meðferð í geislalækningum með orkumikilli jónandi geislun á kjörmeðferðarsvæði í því skyni að eyða krabbameinsæxlum eða meinvörpum. Línhraðall, sem er ein tegund eindahraðals, er notaðaður til að gefa ytri geislameðferð. Við innri geislameðferð eru notaðar geislavirkar samsætur. (Áður fyrr voru geislavirku samsæturnar radín-226 og kóbalt-60 oftast notaðar til geislameðferðar.) Yfirleitt er gefinn geislaskammturinn 2 Gy á kjörmeðferðarsvæði hvern virkan dag upp að 40 til 60 Gy heildargeislaskammti. Geislameðferð er gefin af geislafræðingum á Geislaeðlisfræðideild Landspítala. Leifur Eiríksson (flugvél). Leifur Eiríksson var DC-8 flugvél Flugleiða sem hrapaði í nágrenni Kólombó-flugvallarins á Sri Lanka þann 15. nóvember 1978. Um borð voru alls 262 manns, þrettán íslendingar og 249 indónesískir pílagrímar. 183 létust, þar af átta íslendingar. Hnútur (mælieining). Hnútur er mælieining fyrir hraða, skammstöfuð með kn eða kt, einkum notuð í sjómennsku og flugi. Hnútur er ekki SI-mælieining. Einn hnútur er skilgreindur sem hraðinn ein sjómíla á klukkustund, sem er um 0,514 m/s. Þrýstingur. Þrýstingur í eðlisfræði er kraftur á flatareiningu. SI-mælieining þrýstings er paskal, táknuð með Pa. Loftþrýstingur, sem fyrr nefndist loftvægi, er mældur með loftvog. Í veðurfræði er loftþrýstingur gefinn í hektópaskölum (hPa) sem er jafngilt einingunni millibari (mb). Hæð (veðurfræði). Hæð eða háþrýstisvæði í veðurfræði er veðurkerfi þar sem hár loftþrýstingur er yfir tilteknu svæði á jörðinni. Á norðurhveli blása vindar réttsælis umhverfis hæðir, en öfugt á suðurhveli. Hæðum fylgja gjarnan hægir vindar og bjartviðri. Hæð er því gagnstæða lægðar. Himinhnöttur. Himinhnöttur eða himintungl er því sem næst hnöttótt og tiltölulega stórt himinfyrirbæri, með langan líftíma, t.d. sólin, tunglið og reikistjörnurnar að jörðinni frátalinni. Smástirni og halastjörnur teljast almennt ekki til himinhnatta. (Athuga ber að skilgreining er umdeild.) Einkaleyfi. Einkaleyfi er leyfi sem er veitt einum aðila á tæknilegum uppfinningum sem leysa tiltekið vandamál. Uppfinningin þarf að vera alveg ný og óþekkt þegar sótt er um, þ.e. ekki má vera búið að kynna hana almenningi í ræðu eða riti, en ekki er hægt að fá einkaleyfi á óhlutbundnum uppfinningum eins og viðskiptaaðferðum og óútfærðum hugmyndum. Með einkaleyfinu er hægt að hindra aðra í að nýta uppfinninguna í atvinnuskyni í ákveðinn tíma, að hámarki 20 ár. Sérstakar reglur gilda um lyf og plöntuvarnarefni sem unnt er að vernda að hámarki 25 ár. Einkaleyfastofan veitir einkaleyfi á Íslandi. Halldór Baldursson. Halldór Baldursson er íslenskur skopmyndateiknari fæddur árið 1965. Hann hefur verið einn af forvígismönnum teiknimyndasögublaðsins GISP og kennt myndskreytingu við Listaháskóla Íslands. Hann hefur og myndskreytt fjölda bóka og auglýsinga. Skopmyndir hans um íslenskt þjóðlíf hafa birst í Viðskiptablaðinu um árabil og frá 2005 einnig í Blaðinu, sem síðar var endurnefnt 24 stundir. Eftir að 24 stundir voru lagðar niður í kjölfar bankahrunsins 2008 flutti Halldór sig um set yfir á Morgunblaðið, en hann var svo ráðinn til Fréttablaðsins í mars 2010. Árið 2006 kom út bókin Í grófum dráttum með skopteikningum Halldórs. Einkaleyfastofan. Einkaleyfastofan er opinber stofnun sett á laggirnar 1. júlí 1991 og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins. Skipulag og starfssvið markast af auglýsingu nr. 187/1991 og reglugerð nr. 188/1991 og hún heyrir undir iðnaðarráðuneyti. Einkaleyfastofan fer með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Þá skal hún einnig veita einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. Einkaleyfastofan er einnig opinber faggildingaraðili. Forstjóri er Ásta Valdimarsdóttir, lögfræðingur. Faggilding. Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því hvort aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni samkvæmt "samræmismati", sem er mat á því hvort aðili uppfylli slíkar kröfur. Einnig eru metnar vörur, ferli og kerfi. Einkaleyfastofan er hinn opinberi faggildingaraðili á Íslandi og hefur með höndum allar tegundir faggildinga bæði þar sem er lagaleg krafa um faggildingu og á sviðum þar sem mönnum er í sjálfsvald sett að faggilda starfsemi sína. Byggðarmerki. Byggðarmerki eru auðkenni sveitarfélaga og þurfa að uppfylla nokkuð nákvæmar reglur um útlit sem byggðar eru á meginreglum skjaldarmerkjafræðanna. Byggðarmerki er ekki unnt að skrá ef merkið hefur að geyma án heimildar þjóðfána, ríkistákn, opinber alþjóðamerki, skjaldarmerki, opinber skoðunar- eða gæðamerki, opinbera stimpla, skráð vörumerki, skráð félaga- eða gæðamerki, heiti á atvinnustarfsemi, merki sem sótt hefur verið um skráningu á eða annað sem til þess er fallið að villst verði á því og framangreindum merkjum. Skráning byggðarmerkja á sér stoð í 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og um þau gildir reglugerð nr. 112/1999. Einkaleyfastofan fer með málefni varðandi byggðarmerki. Vörumerki. Vörumerki er merki eða tákn sem gerir neytendum kleift að aðgreina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum eða þjónustu annars aðila. Vörumerki þjóna mikilvægu hlutverki við markaðssetningu og eru oft ein verðmætasta eign fyrirtækja. Vörumerkjavernd fæst með skráningu eða notkun vörumerkis, en vörumerkjaskráning gildir í 10 ár í senn og er hægt að endurnýja hana eins oft og eigandi merkisins óskar. Vörumerkjaréttur er landsbundinn, en hægt er að sækja um alþjóðlega skráningu vörumerkja á grundvelli íslenskrar vörumerkjaumsóknar eða skráningar (sbr. Bókunar við Madridsamninginn, eða svonefnds Madrid-skráningarkerfis). Vörumerki á Íslandi þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði vörumerkjalaga nr. 45/1997, til að fást skráð. Þau geta ekki verið almenns eðlis eða lýsandi fyrir þá vöru eða þjónustu sem þau eiga að auðkenna. Þá má ekki skrá vörumerki sem eru eins eða lík vörumerkjum sem þegar eru skráð fyrir svipaða vöru eða þjónustu. Einkaleyfastofan skráir vörumerki á Íslandi. Hönnunarvernd. Hönnunarvernd verndar útlit vöru, en tekur ekki til tæknilegrar virkni vörunnar eða eiginleika hennar. Hönnunarskráning felur í sér að eigandi skráningarinnar getur bannað öðrum að hagnýta hönnun sína án samþykkis. Hönnunarvernd getur gilt í 5-25 ár, en má þó aðeins endurnýja til eins eða fleiri 5 ára tímabila í senn þar til 25 ára verndartíma er náð. Einkaleyfastofan fer með hönnunarvernd á Íslandi. Gufuhvolf. Gufuhvolf kallast andrúmsloft jarðar, sem samanstendur einkum af þurru lofti auk eftirfarandi efna í mun minna magni: vatnsgufu (0 til 4%), vatnsdropa, ískristalla og ryks. Meðalloftþrýstingur við yfirborð jarðar er ein loftþyngd, samsvarandi 1013,25 hPa. Gufuhvolfið skiptist í veðrahvolf (þar sem veðrið verður), heiðhvolf, miðhvolf og hitahvolf. Endimörk lofthjúpsins eru ekki skýr, en oftast er miðað við Kármánlínuna, sem er í um 100 km hæð yfir sjávarmál. Suðurhvel. Suðurhvel er sá helmingur yfirborðs reikistjörnu, sem er sunnan miðbaugs. Suðurheimskautið er sá punktur suðurhvels sem liggur fjærst miðbaug og er syðsti punktur á hnattarins. Suður- og norðurhvel til samans þekja allt yfirborð reikistjörnunnar. Norðurhvel. Norðurhvel er sá helmingur yfirborðs reikistjörnu, sem er norðan miðbaugs. Norðurheimsskautið er sá punktur norðurhvels sem er liggur fjærst miðbaug og er nyrsti punktur hnattarins. Norður- og suðurhvel til samans þekja allt yfirborð reikistjörnunnar. Halldór Pétursson. Halldór Pétursson (26. september 1916 – 16. mars 1977) var íslenskur myndlistarmaður og skopmyndateiknari. Halldór fæddist í Reykjavík og voru foreldrar hans Pétur Halldórsson, borgarstjóri og alþingismaður, og Ólöf Björnsdóttir. Halldór byrjaði ungur að teikna og varð snemma þekktur fyrir teikningar sínar. Hann sótti einkatíma hjá málurunum Guðmundi Thorsteinsson (Mugg) og Júlíönu Sveinsdóttur. Halldór hlaut stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935 og hélt þaðan til náms við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi í auglýsingateiknun árið 1938. Hann starfaði upp frá því við ýmiss konar teiknivinnu og auglýsingagerð. Árin 1942 – 1945 hélt Halldór til frekara náms við Minneapolis School of Art og Art Students League í New York. Að framhaldsnámi sínu loknu fékkst hann aðallega við myndskreytingar og skopteikningar og var mikill frumkvöðull á því sviði. Árið 1976 kom út bókin "Helgi skoðar heiminn". Tilurð bókarinnar var sú að Halldór teiknaði myndirnar en Njörður P. Njarðvík skrifaði sögu við þær. Það er fyrst eftir útkomu þessa verks að hægt er að segja að útgáfa íslenskra myndabóka, það sem jöfn áhersla er lögð á myndir og texta, hefjist fyrir alvöru. Halldór myndskreytti fjölda bóka og rita um ævina. Meðal annars myndskreytti hann "Spegilinn" frá árinu 1947 og teiknaði forsíður á Vikuna. Halldór hafði mikinn áhuga á hestum og voru hestamyndir eitt af „vörumerkjum“ hans. Meðal frægustu teikninga hans eru myndaröð heimsmeistaraeinvígisins í skák þegar Boris Spassky og Bobby Fischer háðu í Reykjavík 1972 og þorskastríðsmyndir sem voru birtar í blöðum og tímaritum út um allan heim. Halldór Pétursson teiknaði marga jólasveina á ferli sínum og einnig teiknaði hann nokkrar myndir af Grýlu en frægust þeirra er Grýlan í Vísnabókinni. Halldór var einn af stofnendum Félag íslenskra teiknara. Sýningar. Tekin var saman bók árið 1980 þar sem mörgum myndum listamannsins var safnað saman. Tryggvi Magnússon. Tryggvi Magnússon (6. júní 1900 - 7. september 1960) teiknari fæddist að Bæ í Steingrímsfirði á Ströndum. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1919 og stundaði því næst nám í Kaupmannahöfn í tvö ár og fór svo til New York í League of Art og var þar 1921–1922 við nám í andlitsmyndagerð. Hann stundaði svo nám í málaralist í Dresden á árunum 1922–1923 og fluttist að námi loknu til Reykjavíkur. Tryggvi var einn af stofnendum Félags íslenskra teiknara. Stundum er sagt að Tryggvi Magnússon hafi verið fyrsti teiknarinn sem hafði atvinnu af listgrein sinni. Tryggvi myndskreytti m.a. jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum, teiknaði íslensku fornmannaspilin, drög að öllum sýslumerkjunum fyrir Alþingishátíðina 1930 og skjaldarmerkið íslenska. Hann var um árabil aðalteiknarinn í skopritið Spegilinn og var einna þekktastur fyrir skopmyndir sínar. Myndlistarkonan Þórdís Tryggvadóttir er dóttir Tryggva Magnússonar. Benni McCarthy. Benedict „Benni“ McCarthy (fæddur 12. nóvember 1977) er suðurafrískur knattspyrnumaður sem leikur með Blackburn Rovers á Englandi og með landsliði Suður-Afríku. Ævi og störf. McCarthy lék með suðurafríska liðinu Seven Stars fram til 18 ára aldurs og skoraði 27 mörk í 29 leikum í deildinni 1995-6. Árið eftir skoraði hann 12 mörk í 20 leikjum og komst þá á samning hjá hollenska liðinu Ajax. Árið 1997 fór hann til liðsins og varð deildarmeistari fyrsta árið sitt þar - skoraði þá alls 9 mörk. Eftir ágætis vertíð árin 1998 til '99 var hann seldur til spænska liðsins Celta Vigo. Hjá Celta Vigo átti Benni erfitt uppdráttar og fór í láni til FC Porto vertíðina 2001-02 og gekk þar vel. José Morinho var þá knattspyrnustjóri Porto en hjá liðinu var McCarthy einn af máttarstólpunum. Hann hjálpaði liðinu til að komast í 3. sæti i deildinni sem veitti þeim sjálfvirkt sæti í Meistaradeild Evrópu. Þetta ár spilaði hann 10 leiki og skoraði heil 12 mörk. Árið eftir fór hann aftur til Celta Vigo. 2003-04 var McCarthy seldur til Porto fyrir 3,5 milljónir evra og hjá liðinu fann hann á ný liðsandann. Hann hlaut Gulltakkaskóinn fyrir 20 mörk í 23 leikjum. Þann 28. júlí 2006 var McCarthy seldur til Blackburn Rovers fyrir 2.5 milljónir punda. Tryvannstårnet. Tryvannstårnet er 118 metra hátt útvarpsmastur í Ósló, en þar sem það stendur, við vatnið Tryvann, er land í 529 metra hæð yfir sjó. Mastrið, eða turninn, var byggt árið 1962 til að senda útvarps- og sjónvarpsbylgjur til annarra dreifistöðva í Noregi. Í 60 metra hæð er útsýnispallur en þaðan sést á björtum dögum alla leið til Svíþjóðar. Útsýnispallinum var lokað árið 2005 vegna þess hve erfitt var að uppfylla skilyrði um undankomuleiðir í bruna. Fjarlægð. Fjarlægð, oft kölluð lengd í eðlisfræði er skilgreind sem venjulega firðin í stærðfræði. SI-mælieining fjarlægðar er metri, táknuð með m. Lengd. a>blöndu sem notaðar voru sem frummyndir metraeiningarinnar frá 1889 til 1960. Lengd er mesta fjarlægð milli tveggja punkta á sama hlut, en getur einnig átt við stærð vigurs. Vegalengd á við fjarlæg milli tveggja staða á yfirborði jarðar. Lengd getur einnig átt við tíma, sbr. „tónverkið var mjög langt“. Alþjóðaveðurfræðistofnunin. Alþjóðaveðurfræðistofnunin (enska: "World Meteorological Organization, WMO", franska: "Organisation météorologique mondiale, OMM") er sérhæfð alþjóðastofnun innan Sameinuðu þjóðanna á sviði veðurfræði, vatnafræði og skyldra geina. Höfuðstöðvar eru í Genf í Sviss. Komið á fót 23. mars 1950 og tók þá við af "International Meteorologcal Organization", sem hafði starfað frá 1873. Stofnunin hefur reynt að vekja athygli á sérstökum þáttum í samspili veðurs og manns með því að halda upp á stofndaginn og titlað hann alþjóðlega veðurdaginn. Aðildarríki eru 187 og Ísland á meðal þeirra. Norður-Múlasýsla. Kort sem sýnir staðsetningu Norður-Múlasýslu Norður-Múlasýsla er sýsla á Íslandi sem nær frá Gunnólfsvíkurfjalli við Bakkaflóa að Dalatanga. Loftvog. Einföld mynd sem sýnir loftvog, neðst er skál með kvikasilfri Loftvog (loftmælir, loftþungamælir eða barómeter) er tæki sem er notað við veðurathuganir til að mæla loftþrýsting; loftvogin "visar á veður" eða er "notuð til veðursagna". Elsta gerð loftvogar er "kvikasilfursloftvog", sem er í meginatriðum glerpípa, opin í annan endann, fyllt með kvikasilfri, sem komið er fyrir á hvolfi í skál með kvikasilfri. "Síritandi loftvogir" veðurstofa rita loftþrýstinginn í sífellu á sívalning, sem venjulega snýst fyrir sigurverki eina umferð á viku. Á kvikasilfursloftvog sjást breytingar í loftþrýstingi sem hæðarbreytingar á kvikasilfurssúlunni og eru mældar í millimetrum kvikasilfurs, táknaðar með "mmHg", en sú eining hefur hlotið nafni "torr". Loftþrýstingur, sem heldur kvikasilfurssúlu í 760 mm hæð frá yfirborðinu í skálinni, samsvarar einni loftþyngd. Mælingar með loftvog eru mjög háðar hæð athugunarstaðar yfir sjávarmáli og hita. Til að samræma veðurathuganir er því loftþrýstingur reiknaður eins og loftvogin stæði við sjávarmál og gefinn þannig í veðurskeytum. Algengasta mælieining loftþrýstings er hektópaskal. Í "dósarloftvog" er notast við þenslubreytingar málmdósar til að mæla loftþrýsing, en í "rafeindaloftvog" er notaður þenslunemi til að mæla loftþrýsting. Loftvog með húslagi, og sem venjulega er með myndum eða mannslíkönum sem koma út í dyrnar til skiptis eftir mismunandi loftþyngd, nefnist "veðurhús". Veðurathugun. Veðurathugun er kerfisbundin mæling á ýmsum veðurþáttum á fyrirfram ákveðnum veðurathugunartímum, oftast framkvæmd á veðurathugunarstöð. Mannaðar veðurathuganir eru gerðar á þriggja klukkustunda fresti og veðurathugunarmaður mælir loftþrýsting, vindhraða, skyggni, þurran og votan hita, skráir skýjafar og veður og sjávarstöðu á þeim stöðvum sem liggja nærri sjó. Hámarks- og lágmarkshiti er mældur tvisvar á sólarhring. Einnig er úrkomumagn (og snjóhula ef snjór er á jörðu) mæld einu sinni til tvisvar á sólarhring. Sjálfvirkar veðurathuganir eru gerðar á sérhverri klukkustund, en skýjafar og veður er ekki skráð sjálfvirkt og ekki heldur úrkomumagn, snjóhula né sjávarstaða. Veðurstofa Íslands framkvæmir veðurathuganir á veðurathugunarstöðvum víða um land. Þilfar. Þilfarið á skipinu "Falls of the Clyde" er úr járni með gólf úr timbri og nokkur þilfarshús. Þilfar eða dekk er á stærri skipum lárétt plata eða gólf sem liggur yfir skipsskrokknum öllum eða að hluta, ver áhöfn og farm fyrir veðri og vindum og er aðalvinnusvæði skipsins. Á stærri skipum geta verið mörg þilför hvert upp af öðru líkt og hæðir í húsi. Sum þilför bera sérstök nöfn eftir því hvert hlutverk þeirra er. Tilkoma þilskipa með samfellt, vatnsþétt þilfar stafna á milli markaði ákveðið skref í þróun útgerðar. Slík skip var fyrst farið að nota að marki á Íslandi á 19. öld. Landbúnaðarháskóli Íslands. Landbúnaðarháskóli Íslands er íslenskur framhalds- og háskóli staðsettur á Hvanneyri, Reykjum í Ölfusi og á Keldnaholti í Reykjavík. Hann tók til starfa 1. janúar 2005 eftir samruna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Garðyrkjuskólans á Reykjum og RALA. Þannig rekur skólinn einnig rannsóknarsetur á Keldnaholti, Hesti í Borgarfirði, á Möðruvöllum í Hörgárdal og Stóra-Ármóti í Flóa. Rektor er Ágúst Sigurðsson frá Kirkjubæ á Rangárvöllum. Nám. Skólinn býður upp á nám við þrjár ólíkar deildir: Auðlindadeild, umhverfisdeild og starfs- og endurmenntunardeild þar sem hin síðastnefnda byggir á grunni Búnaðarskóla Suðuramtsins sem var stofnaður á Hvanneyri 1889. Við allar háskólabrautir er boðið upp á framhalds- og meistaranám. Auðlindadeild. Undir auðlindadeild skólans fellur háskólanám í búvísindum til B.S-gráðu. Búvísindadeildin var stofnuð árið 1947 en áður hafði einungis verið búfræðinám við skólann. Búvísindin eru kennd á Hvanneyri; að mestu í Nýja-Skóla (Ásgarði) en einnig í öðrum húsum svo sem Nýja-Fjósi, Bútæknihúsi og Rannsóknarhúsi. Starfs- og endurmenntunardeild. Allar brautirnar halda til á Reykjum nema bændadeildin sem er á Hvanneyri og nýtir sér aðstöðuna við kennslubúið og Bútæknihúsið sem tilheyrði áður RALA. Félagslíf. Þar sem skólinn er nokkuð klofinn, en mestöll starfsemi fer fram á Hvanneyri, geta allir nemendur og starfsmenn ekki haft sama félagslífið. Félagslífið á Hvanneyri er öflugt undir stjórn Stúdentaráðs. Starfræktir eru meðal annars Lista- og menningarklúbbur, Útivistarklúbbur og Hestamannafélagið Grani en einnig minni klúbbar. Helstu viðburðir á skólaárinu eru Sprelldagur í september til að bjóða nýja nemendur velkomna, Árshátíð, Survivor Hvanneyri, þorrablót og minni uppákomur á vegum klúbbanna. Viskukýrin. Keppnin er lífleg og spurningarnar úr öllum áttum. Spyrill hefur öll árin verið Logi Bergmann Eiðsson. Hvanneyri og nágrenni. Á Hvanneyri falla öll hús kennslubúsins undir starfsemi skólans sem og öll skólahús, þar með talinn hluti skólastjórahússins sem hýsir hluta af bókasafni skólans. Eru þetta helst Ásgarður (Nýi-Skóli) sem einnig er aðalbygging skólans og heimavist, Rannsóknarhús, Gamli-Skóli sem hýsir bændadeild og skrifstofur meistaranema, Gamla-fjós (Halldórsfjós) með kennslustofu fyrir verklega kennslu í vélmjöltum, Bútæknihús (oftast kallað Bút) þar sem fer fram verkleg kennsla sem og bókleg, og Nýja-fjós sem tekið var í notkun í ágúst 2004. Er þar kennslustofa og nýtísku kennslufjós með mjaltaþjóni frá DeLaval. Á Hesti í mynni Lundareykjadals er rannsóknarbú fyrir sauðfé og er það eitt fremsta sauðfjárbú í landinu í dag. Þar fer fram verkleg kennsla í sauðfjárrækt. Á Mið-Fossum í Andakíl fer fram kennsla í hrossarækt og reiðmennsku. Þar er nýbyggð reiðhöll, reiðvöllur og ný hesthús fyrir nemendur skólans, sem og aðra Borgfirðinga. Var reiðhöllin blessuð 1. desember 2006 af Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskup Íslands. Við sama tilefni var gerður samningur milli Landbúnaðarháskólans, Landbúnaðarráðuneytis og Ármanns Ármannssonar, eiganda Mið-Fossa, um afnot skólans á aðstöðunni til 12 ára. Hestamannafélagið Faxi í Borgarfirði fær aðstöðuna einnig til afnota. Eindahraðall. Eindahraðall er tæki sem beitir rafsvið til að hraða rafhlöðnum eindum og notar segulsvið til að beina orkumiklum og grönnum agnageisla á skotspón. Er annars vegar hringhraðall eða línuhraðall, en þeir síðarnefndu eru m.a. notaðir til geislalækninga. Heimspeki hversdagsmáls. Heimspeki hversdagsmáls, mannamálsheimspeki eða málgreiningarheimspeki, stundum kennd við Oxford háskóla og nefnd Oxford-heimspekin var skóli innan rökgreiningarheimspekinnar um og eftir miðja 20. öld sem kenndi heimspekilegar ráðgátur yrðu til þegar heimspekingar eða vísindamenn notuðu orð annarlega og gleymdu því hvað orðin merkja raunverulega í hversdagslegum skilningi sínum (eða á mannamáli til aðgreiningar frá fræðastagli). Heimspekingar sem kusu þessa nálgun höfðu minni áhuga á heimspekikenningum en rannsökuðu þess í stað ítarlega venjulega hversdagslega málnotkun, „mannamál“. Mannamálsheimspekingarnir voru undir miklum áhrifum frá yngri verkum Ludwigs Wittgenstein, einkum "Rannsóknum í heimspeki". Helstir þeirra voru Gilbert Ryle, J.L. Austin, P.F. Strawson og Norman Malcolm. Heimspeki hverdagsmáls átti mestu fylgi að fagna á árunum frá 1930 til 1970 en áhrifa hennar gætir enn víða í heimspeki. Byrgið. Byrgið var íslenskt, kristilegt meðferðarheimili fyrir heimilislausa vímuefnafíkla, spilafíkla og fólk með ýmsar aðrar persónuleikaraskanir. Markmið meðferðarinnar var að hjálpa einstaklingum að öðlast betra líf. Í mörgum tilvikum var um mjög veika einstaklinga að ræða og því var brugðið á það ráð að einangra þá til þess að auðvelda endurhæfingu þeirra. Byrgið stóð einnig fyrir forvarnarstarfsemi, og ráðgjöf til handa aðstandendum fíkla. Forstöðumaður Byrgisins var þar til í desember 2006 Guðmundur Jónsson en þá vék hann sem forstöðumaður tímabundið. Jón Arnarr Einarsson tók þá við sem forstöðumaður þangað til að Byrginu var lokað þann 15. janúar 2007 og skömmu síðar var starfsemin endanlega lögð niður. Fyrrum vistmönnum var tímabundið boðið upp á meðferð á Geðsviði Landspítala - Háskólasjúkrahús en ekki er vitað hversu margir þáðu það. Stofnun og starfsemi. Áður en Byrgið var stofnað hafði Guðmundur Jónsson tekið inn á heimili sitt fólk sem var í óreglu og hafði hann reynt að hjálpa því. En fljótlega kom í ljós að meira þurfti til. Hann ásamt nokkrum einstaklingum stofnuðu Byrgið 1. desember 1996. Stofnendurnir höfðu sjálfir verið fíklar en losnað frá fíkn. Byrgið var rekið sem sjálfseignarstofnun - af samnefndu sjálfseignarfélagi, Byrginu ses.. Byrgið var fyrst með aðstöðu að Hvaleyrarbraut 23 í Hafnarfirði, en þar var aðstaða fyrir 12 manns. Annað hús opnaði árið 1997 að Vesturgötu 18, einnig í Hafnarfirði, og þar var húsnæði fyrir 16 til 18 manns. Í Hlíðardalsskóla í Ölfusi var árið 1997 opnað húsnæði og var þar aðstaða fyrir 80 til 90 manns. Starfsemi lagðist niður um tíma á Vesturgötunni árið 2000. Starfsemi var alveg hætt á Vesturgötunni í janúar 2001 og starfsemi á Hvaleyrarbrautinni alveg hætt í maí 2001. Árið 1999 opnaði Byrgið aðstöðu að Rockville á Miðnesheiði. Starfsemi var hætt árið 2003 að Rockville og fluttist þá að Efri-Brú í Grímsnesi. Um tíma stóð til að opna starfsstöð á Vífilsstöðum, en af því varð ekki. Starfsemin naut góðs af starfi sjálfboðaliða og var fjármögnuð með styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og ríki. Ríkið styrkti Byrgið um að minnsta kosti 226 milljónir króna frá árinu 1999 til og með ársins 2007. Vistmenn greiddu einnig fyrir vistina. Stjórn Byrgisins skipuðu undir lok desember 2006: Guðmundur Jónsson, Jón Arnarr Einarsson, og varamenn eru Helga Haraldsdóttir og Elma Ósk Hrafnsdóttir, en Helga er eiginkona Guðmundar og Elma eiginkona Jóns. Árið 2004 voru að meðaltali um 30 manns á mánuði vistmenn í Byrginu, 35 árin 2005 og 2006. Meðferð. Í skýrslu frá 2002 er talað um að þeir sem komu í meðferð á Byrgið voru gjarnan einstaklingar sem höfðu lengi neytt vímuefna og höfðu gert árangurslausar tilraunir til að hætta þeirri neyslu. Þeir höfðu af þessum sökum verið illa haldnir andlega og líkamlega og félagslega einagraðir. Einnig er nefnt að þeir hafi yfirleitt verið heimilislausir. Í skýrslunni er talað um að styrkur meðferðar hafi verið að mati skýrsluhöfundar einkum fólginn í fimm atriðum: Í trú á Guð — slík trú gefur vistmönnum von, í hvatningu, í lengd meðferðarinnar en miðað var við að meðferð stæði yfir í sex mánuði eða lengur, í samfélagslegri ábyrgð en þeir sem í Byrginu dvöldu höfðu margir hverjir ekki upplifað slíka ábyrgð í lengri tíma, og í sameiginlegum markmiðum vistmanna. Af skýrslunni má einnig ráða að ekki hafi verið um sérstök meðferðarúrræði að ræða eins og geðræna meðferð, heldur má frekar segja að um hafi verið að ræða eins konar „félagssálfræðilega meðferð“ þar sem meðferðin byggist á samneyti við aðra vistmenn, trú, sameiginlegum stuðningi, jöfnuði, hvatningu og að fólk fengji þann tíma sem það þurfti á að halda til að jafna sig. Í skýrslunni segir jafnframt að ekki hafi menntað fólk stjórnað meðferð eða greiningu geðraskana, né að þeir hefðu þjálfun eða sótt námskeið í slíku. Öll meðferð tók mið af þessu. Rétt er þó að hafa í huga að skýrslan var skrifuð árið 2002 og vera kann að meðferðin hafi breyst, á því tímabili frá því skýrslan var skrifuð þar til Byrginu var lokað. Meðferðin byggðist á 12-spora kerfi AA-samtakanna. Meðferðin var í formi dagskrár sem hófst snemma morguns og stóð langt fram á kvöld. Nokkuð strangar húsreglur giltu í Byrginu, sem dæmi má nefna að mikil áhersla var á þrifnað, ætlast var til að vistmenn ynnu einhver störf á meðan á dvöl þeirra stóð og heimsóknir voru leyfilegar aðeins einu sinni í viku. Í meðferðinni var lögð áhersla á heilbrigt daglegt líferni, þar sem agi var í fyrirúmi. Lögð var áhersla á uppbyggingu einstaklingsins og hann hvattur áfram. Markmiðið var að einstaklingurinn gæti verið ábyrgur í samfélaginu og gæti axlað ábyrgð á eigin lífi. Einhverjir vistmenn höfðu menntað sig á meðan á vist þeirra stóð í Byrginu, að sögn með ágætum árangri. Að sögn þáverandi starfsmanna Byrgisins eru mjög margir þeirra sem hafa verið í meðferð í Byrginu komnir út í lífið á ný, stunda atvinnu og hafa náð að fóta sig á ný. Sumir hafa eignast fjölskyldu og heimili. Í skýrslunni frá árinu 2002, sem nefnd hér að ofan, er einnig rætt um að Byrgið hafi hjálpað mörgum. Fjármál. Fjármál Byrgisins hafa verið athuguð að minnsta kosti tvisvar. Fyrri athugunin var árin 2001 og 2002 þegar úttekt var gerð á starfsemi Byrgisins, en sú úttekt birtist í skýrslu þeirri sem nefnd var hér að ofan. Í þeirri úttekt var bókhald og fjármálastjórn Byrgisins skoðað og kom í ljós að bókhaldinu var áfátt og að fjármálastjórn var mjög aðfinnsluverð. Seinni athugunin fór fram seint á árinu 2006 og fram til ársins 2007, eftir að fyrirskipuð var athugun á vegum Ríkisendurskoðunar. Farið var fram á þá athugun um miðjan nóvember. Fjallað er um þá skoðun á fjármálunum hér að neðan. Að auki hafa ársreikningar Byrgisins ekki skilað sér sem skyldi. Ríkisskattstjóri upplýsti í loks árs 2006 að einum ársreikningi fyrir Byrgið hafði þá verið skilað síðan árið 2003 og var sá ársreikningur ófullnægjandi. Kompás-þáttur og ásakanir. Þann 17. desember 2006 var sendur út fréttaskýringaþátturinn Kompás, en í þeim þætti var sagt frá rannsókn á málefnum Byrgisins sem aðstandendur þáttarins höfðu staðið að í um þrjá mánuði. Rannsóknin byrjaði eftir að bréf barst til þingmanna og ráðherra í október 2006, en í bréfinu eru ásakanir á hendur Guðmundi Jónssyni, þáverandi forstöðumanni Byrgisins, tíundaðar. Um var að ræða ásakanir varðandi fjármálamisferli og kynferðislegt samneyti við vistmenn Byrgisins. Í þættinum kom fram að 10 til 20 manns væru heimildarmenn þáttarins, en þeir væru starfsmenn, vistmenn fyrrverandi og núverandi, auk foreldra vistmanna. Fram kom í þættinum, að fjórar stúlkur sögðust í viðtölum við fréttamenn Kompáss hafa átt í kynferðislegu sambandi við Guðmund á meðan meðferð stóð. Fréttamenn Kompáss sögðust hafa undir höndum gögn sem styðja áskanir um kynferðislegt samband Guðmundar við vistmenn. En auk þess var sýndur hluti af spurningalista sem Guðmundur á að hafa notað í viðtölum við vistmenn, en þar er meðal annars spurt um kynhegðun. Einn heimildamanna sem kom fram í viðtali, sagði að Guðmundur hafi gefið stúlkum sem hann átti í sambandi við dýr föt og bíla. Guðmundur neitaði öllum ásökunum sem á hann voru bornar, sagði þær vera lygar og að gögn Kompáss væru þjófstolin gögn frá honum. Hann neitaði að hafa átt í kynferðislegum samböndum við skjólstæðinga sína. Rétt er að nefna, að enginn heimildamanna kom fram undir nafni, andlit voru skyggð og röddum breytt. Guðmundur lét af störfum sem forstöðumaður tímabundið daginn eftir sýningu Kompáss-þáttarins. Guðmundur sagðist ætla í meiðyrðamál við Stöð 2 út af umfjöllun Kompáss. Guðmundur sagði einnig í útvarpsviðtali að ritstjóri Kompáss hefði gefið heimildarmönnum sínum eiturlyf í skiptum fyrir upplýsingar, en fréttastjóri Stöðvar 2 neitaði þessum ásökunum. Guðmundur kærði Kompáss til lögreglu daginn eftir sýningu Kompás þáttarins. Guðmundur var einnig sakaður um að hafa nýtt fé Byrgisins til að kaupa lóðir í nágrenni Byrgisins, en hann neitaði því. Skýrsla, fangar fluttir og frekari áskanir. Í umfjöllun Kompáss er greint frá því að skýrsla hafi verið samin um starfsemi Byrgisins árið 2002, en það er skýrslan sem nefnd var að ofan. Aðstandendur Kompáss hafi ekki getað fengið þá skýrslu frá opinberum yfirvöldum, en hafi loks fengið aðgang að henni í gegnum aðrar leiðir. Daginn eftir að þátturinn var sýndur, var skýrslan send fjölmiðlum, en þá hafði leynd verið létt af skýrslunni. Skýrslan var samin eftir að vinnuhópur þriggja ráðuneyta ákvað að ástæða væri til að skoða starfsemi Byrgisins sérstaklega. Skýrslan hafði ekki komið fyrir fjárlaganefnd Alþingis, en var rædd í ríkisstjórn á sínum tíma. 20. desember 2006 ákvað Fangelsismálastofnun að flytja frá Byrginu tvo fanga, sem höfðu fengið að afplána hluta refsingar sinnar þar, til baka á Litla-Hraun. Ákveðið var vegna umfjöllunar um málefni Byrgisins að flytja fangana brott frá Byrginu, en ósk um þetta kom frá Byrginu. Samningur var gerður árið 2002 milli Byrgisins og Fangelsismálastofnunar, sem felur í sér að hluta afplánunartímans geta fangar verið í Byrginu. Samtals hafa 15 fangar dvalist í Byrginu á þessum forsendum. Samingurinn var enn í gildi árið 2006. 21. desember 2006 kom fram í viðtali á Stöð 2 ung kona sem hugðist kæra Guðmund Jónsson daginn eftir. Konan sagðist í viðtalinu hafa verið í ástarsambandi við Guðmund í um tvö ár og að því hefði lokið um þremur til fjórum vikum fyrir viðtalið. Konan kom fram undir eigin nafni og sagði Guðmund hafa tælt sig. Hún játaði að hafa verið ein af þeim sem rætt var um í Kompáss þættinum, sem nefndur var að ofan, en hún var þó ekki ein af þeim sem kom fram í Kompáss-þættinum. Hún sagðist hafa sambærilega reynslu af Guðmundi og lýst var í þættinum og hafa undir höndum gögn sem færðu sönnur á að hún og Guðmundur hefðu átt í þessu sambandi. Hún sakaði Guðmund um trúnaðarbrest því að hann hefði sagt öðrum skjólstæðingum Byrgisins frá persónulegum samtölum hennar og Guðmundar. Hún sagðist einnig hafa fengið spurningalistann sem lýst var í Kompáss þættinum. Einnig sakaði hún Guðmund um að svíkja af henni um fjórar milljónir króna sem hún fékk greiddar frá tryggingafyrirtæki. Konan kærði Guðmund þann 22. desember 2006. 27. desember 2006 kom fram í fréttum að læknir á höfuðborgarsvæðinu hafði sent landlækni bréf árið 2002 þess efnis að honum hafi verið sagt að þrír vistmenn Byrgisins hafi orðið þungaðir af starfsmönnum þess. Landlæknisembættið hefur, að sögn starfsmanns embættisins, ekki lögsögu yfir Byrginu, því að það er ekki heilbrigðisstofnun. Það varðar þó við lög ef starfsmenn hafa samræði við vistmenn á meðferðarstofnunum, en þrátt fyrir það virðist sem enginn hafi athugað málið frekar. Seinna kom í ljós að það var Pétur Hauksson geðlæknir sem skrifaði bréfið til landlæknis (sjá neðar). 29. desember 2006 kom fram kona á miðjum aldri sem sagðist hafa gerst ábyrgðarmaður, með veði í íbúð sinni, fyrir láni sem tekið var fyrir Byrgið. Lánið var tekið árið 1999 og ætlað til uppbyggingar starfseminnar að sögn konunnar. Að sögn konunnar greiddi Guðmundur af láninu og var greitt í nokkra mánuði. Greiðslur stöðvuðust eftir það og þurfti konan að greiða lánið upp sjálf, og vegna þess þurfti hún að selja húsnæði sitt og flytja í ódýrara húsnæði í öðru bæjarfélagi. Konan sagðist ætla að kæra Guðmund fyrir vanefndir. Greiðslum hætt og afeitrun. 30. desember 2006 var upplýst að greiðslum ríkisins til Byrgisins hafi verið hætt að beiðni ríkisendurskoðanda, en á þeim tíma stóð yfir rannsókn á fjármálum Byrgisins. Nánar er fjallað um rannsóknina hér að neðan. Líklegt er að í Byrginu hafi verið stunduð afeitrun á einhverjum tíma, en landlæknisembættið sendi heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar árið 1999 ábendingu um að Byrgið hefði ekki lagalega heimild til þess að stunda slíka starfsemi. Í skýrslu sem Heilbrigðisráðuneytið gaf út árið 2005 er Byrgið þó inni á lista yfir stofnanir og félagasamtök sem bjóða upp á afeitrun, því hefur ráðuneytið vitað af því að afeitrun fór fram í Byrginu. Einnig er rætt um afeitrun í grein sem birtist á vef Morgunblaðsins eða þá í Morgunblaðinu sjálfu þann 12. júní 2003. Læknir sem hefur starfað í Byrginu kannast þó ekki við að afeitrun hafi átt sér stað þar. Hann sagði að þó hafi ein undantekning verið gerð, en þá voru hjón í afeitrun. Stjórn Byrgisins segir einnig að afeitrun hafi ekki átt sér stað í Byrginu, en segir að aðhlynningardeild hafi verið rekin, þar sem fólk dvelst áður en það hefur meðferð. Afeitrun á að vera lokið áður en fólk kemur til dvalar, segir læknirinn. 3. janúar 2007 var sagt frá því í fréttum að tuttugu vistmenn í Byrginu hafi yfirgefið það, að sögn Jóns Arnarrs Einarssonar, forstöðumanns, í kjölfar umræðu um Byrgið í fjölmiðlum. Jón Arnarr sagði að flestir þeirra sem hafi yfirgefið Byrgið væru heimilislausir og komnir í neyslu á ný. Sagði hann, að átta vistmenn væru eftir, og átta starfsmenn, og stefndu starfsmenn og vistmenn að því að halda áfram starfseminni. Að hans sögu yrðu áhrif þess að ríkið greiddi Byrginu ekki lengur styrki óveruleg. Úttekt ríkisendurskoðunar. 15. janúar 2007 birti Ríkisendurskoðun niðurstöður úttektar sinnar skv. beiðni félagsmálaráðuneytisins frá því í nóvember 2006. Úttektin náði til bókhalds áranna 2005 og 2006, en ársreikningar fyrir þau ár höfðu ekki verið endurskoðaðir þegar úttektin var gerð. Úttektin leiddi í ljós að bókhaldi Byrgisins væri „verulega ábótavant“, og vegna þessara „alvarlegu vankanta“ bæri ríkissaksóknara að taka málið til umfjöllunar. Í úttektinni kemur fram að ekki hefur verið gert nægjanlega grein fyrir fjölmörgum útgjöldum á vegum Byrgisins. Þá sé einnig ljóst að fjármunir þess hafi verið notaðir af starfsmönnum til einkaútgjalda. Sama dag og skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt, ákvað stjórn Byrgisins að loka Byrginu og var lokað samdægurs. Máli Byrgisins hefur verið vísað til Ríkislögreglustjóraembættisins til meðferðar. Kærur á hendur Guðmundi Jónssyni. Sama dag og skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út, 15. janúar 2007, kærði önnur kona Guðmund fyrir kynferðislega misbeitingu á meðan hún var vistmaður Byrgisins. Myndband með Guðmundi Jónssyni og fyrrverandi vistmanni Byrgisins, var sett á Netið um miðjan janúar (að því er virðist) og sýnir Guðmund og vistmanninn í kynlífsleikjum, að sögn fjölmiðla. Guðmundur hafði áður neitað því að hafa stundað slíka leiki. Guðmundur hugðist kæra stúlkuna, vistmanninn sem birtist í myndbandinu, fyrir nauðgun, en hún hafði sjálf kært hann fyrir nauðgun. Þann 26. janúar 2007 barst sýslumanninum á Selfossi þriðja kæran á hendur Guðmundi frá konu vegna kynferðislegrar misnotkunar og misbeitingu á trúnaðarsambandi. Konan sem er á þrítugsaldri er fyrrum vistmaður á Byrginu. Guðmundi voru kynntar kærur fjögurra kvenna 1. febrúar vegna brots á lögum um kynferðissamband starfsmanns stofnunar við vistmann og misnotkun á trúnaðarsambandi. Þann 12. febrúar bárust sýslumanninum á Selfossi kærur frá tveimur konum til viðbótar á hendur Guðmundi. Kærurnar eru því orðnar sex talsins. Fjölmiðlaumfjöllun og önnur úrræði. Pétur Hauksson geðlæknir kom fram í fjölmiðlum þar sem greindi frá því að hann hefði skrifað landlækni bréf árið 2002 og greint frá kynferðislegri misnotkun starfsmanna á hendur vistmönnum í Byrginu. Þá sagðist Pétur hafa heimildir fyrir því að fæðingar sem orðið hefðu í kjölfar sambanda milli starfsmanna og vistmanna væru tíu talsins. Pétur skrifaði landlækni annað bréf þar sem segir sumum vistmönnum eða fyrrverandi sjúklingum hafi verið falið ábyrgðarhlutverk og stöðuna meðferðaraðili. Hann hvatti ríkið til þess að axla ábyrgð og fjalla um málið sem um sjúklinga innan heilbrigðisgeirans væri að ræða. Daginn áður en tvær kærur á hendur Guðmundi bárust sýslumanninum í Selfossi til viðbótar var Geir H. Haarde, forsætisráðherra í viðtalsþættinum Silfri Egils þar sem hann komst svo að orði um þær konur sem sagt var að höfðu orðið óléttar á meðan meðferð þeirra í Byrginu stóð að það væri „ekki hægt að fullyrða að þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er“. Næsta dag voru utandagskrárumræður á Alþingi um málefni Byrgisins, þar sem Geir umorðaði yfirlýsingu sína frá því daginn áður. Þá lýsti Geir H. Haarde því yfir að á geðsviði Landspítalans hefði verið settur á laggirnar hópur sérfræðinga sem myndi hafa það verkefni að taka fyrrum vistmenn Byrgisins til meðferðar. Þingbundin konungsstjórn. a> á meðan konungar hafa einhver raunveruleg völd (þó með lagalegum takmörkunum) í þeim fjólubláu. Þingbundin konungsstjórn er það stjórnarfar kallað þar sem konungur er til staðar en völd hans takmarkast af völdum þjóðkjörins þings. Það er ólíkt einveldi þar sem engar slíkar takmarkanir eru til staðar, í það minnsta ekki lagalegar. Einnig er það ólíkt lýðveldi þar sem ekkert konungsdæmi er. Á flestum öðrum tungumálum tíðkast að kalla þessa tegund stjórnarfars stjórnarskrárbundna konungsstjórn (d. "konstitutionelt monarki", e. "constitutional monarchy") sem þýðir að völd konungsins takmarkast af einhverskonar stjórnarskrá. Það þarf þó ekki endilega að þýða að stjórnarfarið sé lýðræðislegt eins og ætla má af íslenska hugtakinu þar sem þing þarf að vera til staðar. Forþjappa. Forþjappa (oft ranglega nefnd "túrbína") kallast sá hluti eldsneytis-knúinnar vélar sem þjappar inntakslofti inn í sprengirými vélarinnar. Er þetta gert til að auka afl og nýtni vélarinnar, án mikillar þungaaukningar. Sumar forþjöppur hafa millikæli ("Intercooler") sem kælir loftið áður en það fer inn í sprengirými. Við þetta eykst eðlisþyngd loftsins og það þjappast betur sem leiðir til aflaukningar. Forþjappan er knúin áfram af útblæstri vélarinnar. Fjórgengisvél. Fjórgengisvél er tegund brunahreyfils, sem hefur fjóra takta í hverjum bruna í sprengirými vélarinnar. Einn taktur kallast það þegar stimpill fer úr efri dástöðu í þá neðri eða öfugt. Þannig fer sveifarás vélarinnar tvo heila hringi til að stimpillinn hreyfist 4 takta. Eldsneytisnýtni slíkra véla er 25 til 30% fyrir bensínvélar og 37 til 44% fyrir díselvélum. Fjórgengisvélar eru algengustu vélar í ökutæjum, s.s. bílum, vörubílum og dráttarvélum. Tvígengisvél hefur aðeins tvo takta og er algengust í léttum bifhjólum. Efri dástaða, áður en taktar hefjast Upphafsstaða (efri dástaða), sogslag og þjappslag. Nafn. Nafn er í fyrsta lagi heiti, eiginnafn, það sem eitthvað er kallað eða nefnt. Í öðru lagi getur nafn þýtt titill, tignarheiti eða nafnbót, sbr. "að bera konungsnafn". Blizzard Entertainment. Blizzard Entertainment er bandarískt tölvuleikjafyrirtæki sem framleiðir leiki fyrir einkatölvur. Síðan fyrirtækið gaf út leikinn "Warcraft" árið 1994 hefur það einn af fremstu leikjaframleiðendum í heiminum. Þeir eru þekktir vandaða gerð og góða endingu leikja sinna, enda eru margir eldri leikir þeirra, s.s. "Warcraft II", "StarCraft" og jafnvel hinn upprunalegi "Warcraft" enn víða spilaðir. Einnig eru þeir þekktir í seinni tíð fyrir að gefa út samtímis og saman í pakka Windows- og Mac OS-útgáfur leikja sinna. Greinilegur púls. "Greinilegur púls" er tónleikplata frá Megasi með upptökum úr Púlsinum í febrúar 1991. Meðal flytjenda er Björk Guðmundsdóttir og Jón Ólafsson. Passíusálmar í Skálholti. Passíusálmar í Skálholti er tónleikaplata frá Megasi með upptökum frá Skálholtskirkju þann 13. apríl 2001. Á plötunni flytur hann, ásamt öðrum, Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Gaupa. Gaupa (fræðiheiti: "Lynx") er ættkvísl miðlungsstórra katta sem lifa víða á norðurhveli jarðar. Fjórar tegundir kattardýra teljast til ættkvíslarinnar. Einkenni á gaupum er að þær eru háfættar, með stutta rófu og greinilegan brúsk á eyrunum. Þær vega frá 5 að 30 kílóum. Verufræði. Verufræði er undirgrein frumspekinnar sem fjallar um veru "sem" veru, um það að vera eða vera til sem slíkt. Hún reynir að varpa ljósi á það í hvaða skilningi eitthvað er eða getur verið eitthvað og hverjar séu helstu tegundir verunda sem til eru. Ef til vill mætti segja að verufræði rannsaki „veruleikann“. Nokkrar grundvallarspurningar. Grundvallarspurning verufræðinnar er „Hvað er til?“ eða „Af hvaða tagi er það sem er til?“ Heimspekingar hafa svarað spurningunni á ýmsa og ólíka vegu. Slöngur. Slöngur, snákar eða ormar (fræðiheiti: "Serpentes") eru fótalaus skriðdýr með misheitt blóð. Þær eru náskyldar eðlum og til eru nokkrar tegundir fótalausra eðla sem á yfirborðinu líkjast slöngum. Milestone ehf.. Milestone ehf. er íslenskt fjárfestingarfélag í eigu systkinanna Karls Wernerssonar, Ingunnar Wernersdóttur og Steingríms Wernerssonar. Stofnun. Fyrirtækið var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Árman. Fyrirtækið er að hluta til í eigu Leifturs ltd., sem er skráð í Bresku Jómfrúreyjunum, og er einnig í eigu Wernerssystkinanna. Fjárfestingar. Árið 2004 eignaðist fyritækið Apótek Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapótek ehf. og Ísrann ehf. Nafninu var breytt í Milestone. Í apríl 2005 keypti Milestone 66.7% eignarhluta í Sjóvá-Almennum tryggingum hf.. Fyritækið átti hlut í Glitni banka hf. sem urðu nánast að engu í kjölfar bankahrunsins. Einnig átti það meirihluta hlutabréfa í Actavis Group hf. ásamt Lyf og heilsu hf. og hluta í Dagsbrún. Í lok árs 2005 námu eignir samstæðunnar um 80 milljörðum króna. Í desember 2006 var tilkynnt um stofnun nýs fjárfestingarbanka, Askar Capital, sem Milestone væri kjölfestufjárfestir í. Gjaldþrot. Í kjölfar bankahrunsins 2008 hefur Milestone verið tæknilega gjaldþrota. 24. júní 2009 veitti héraðsdómur Reykjavíkur Milestone heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína, og verða þá líklega 85 af 90 milljörðum skulda félagsins afskrifaðir. Í júlí 2009 gerði embætti sérstaks saksóknara húsleit í höfuðstöðvum Milestone ásamt dótturfélagi þess Sjóvá. Rannsóknin snýr að meintu stórfelldu fjármálamisferli sem tengist starfsemi Milestone og fjárfestingarstarfsemi Sjóvár, meðal annars að meintri misnotkun á bótasjóði tryggingarfélagsins. Geislalækningar. Geislalækningar eru aðferð í læknisfræðum til að meðhöndla sjúklinga með jónandi geislun. Geislavirk efni og eindahraðlar eru notaðir við geislameðferð á krabbameinum. Algengustu tegundir geislalækninga eru ljóseinda-, rafeinda- og róteindageislun. Þær eru nýttar við mismunandi aðstæður til geislalækninga krabbameins. Geislun er ýmist straumur efniseinda (rafeinda,róteinda o.s.frv.) sem ferðast með hreyfiorku og hafa massa eða straumur ljóseinda sem hafa ekki massa. Röntgengeislun er jónandi geislun sem er notuð til lækninga og til að greina sjúkdóma. Heilkjörnungar. Heilkjörnungar (fræðiheiti: "Eukaryota") eru lífverur með frumur þar sem frumukjarninn (eða -kjarnarnir) er hulinn frumuhimnu. Heilkjörnungar telja bæði dýr, jurtir og sveppi (sem eru flest fjölfruma) auk ýmissa annarra hópa sem stundum eru flokkaðir sem frumverur og eru margir einfruma. Hinn meginhópur lífvera er dreifkjörnungar sem ekki eru með aðgreindan kjarna eða önnur frumulíffæri og telja gerla og fornbakteríur. Heilkjörnungar eiga sér sameiginlegan uppruna og eru stundum skilgreindir sem veldi eða lén. Brúarhlöð. Brúarhlöð kallast gljúfur í Hvítá í Árnessýslu sem nær frá brúarstæði vegar 30 yfir ánna og niður að Haukholtum í Hrunamannanhreppi. Þar hefur Hvítá grafið farveg sinn í þursaberg og í því eru ýmsar klettamyndanir og skessukatlar. Í ánni eru meðal annar tveir háir drangar sem kallast Karl og Kerling. Gljúfrið er allt kjarri vaxið. Brúin yfir Brúarhlöð var fyrst byggð árið 1906 en hana tók af í vetrarflóðum árið [1929] og aftur árið eftir. Brúin sem stendur þar í dag var síðust löguð 1959 og var þá hækkuð. Fyrir ofan Brúarhlöð eru bakkarnir lægri og þar hefur verið stundað að hefja flúðasiglingar niður gljúfrin. Frumverur. Frumverur (fræðiheiti: "Protista" eða "Protoctista") eru fjölbreyttur hópur lífvera sem inniheldur þá heilkjörnunga sem ekki eru dýr, jurtir eða sveppir. Frumverur eru af samsíða þróunarlínum en ekki einstofna (ekki náttúrulegur flokkur) og eiga ekki mikið sameiginlegt utan að vera einfaldar að byggingu (einfruma eða fjölfruma án sérhæfðra vefja). Frumveruríkið telur þannig lífverur sem ekki er hægt að setja í aðra flokka. Fjórðungssandur. Fjórðungssandur er landflæmi á Gnúpverjaafrétti, milli ánna Kisu og Hnífár. Fjórðungssandur er gróðurlaus að mestu nema í Eyvafeni og Hnífárveri en við það síðarnefnda hefst óslitið gróðurbelti inn að Arnarfelli hinu mikla — er því hægt að segja að Þjórsárver hefjist hér. Fjórðungssandur dregur nafn sitt af því að þegar Sprengisandsleið var farin milli landsfjórðunga þurfti að ríða yfir sandinn og tók það að jafnaði 3 tíma. Nafnkunnugasta kennileyti á sandinum er Norðlingaalda en síðan um 1970 hefur verið talað um að stífla Þjórsá á þessum stað. Gljúfurleit. Gljúfurleit kallast dalverpi inn með Þjórsá frá Gljúfrá að Kóngshöfða við Dalsá. Gljúfurleit er öll vel gróin og stöllóttur eftir rofmátt Þjórsár. Efsta hlíðin kallast Langahlíð og teygir hún sig allt frá Geldingaá að Kóngsási á meðan aðrir stallar fljóta sums staðar saman. Um Gljúfurleit falla þrjár ár; Gljúfurá, Geldingaá og Hölkná. Eru þær allar frekar vatnslitlar en víða eru þær óreiðar vegna þess hve þær hafa grafið sig. Í Geldingaá er hár foss þar sem hún fellur í Þjórsá en einnig í Hölkná. Hölknárfoss eða Slæðufoss er á móti Ófærutanga þar sem fjallmenn Gnúpverja þurfa að príla fram af þremur stöllum til að hefja leitir sínar neðst við Þjórsá. Í Þjórsá eru tveir fossar innan þess svæðis sem nefnist Gljúfurleit og eru það Dynkur (kallast Búðarhálsfoss að austan) og Gljúfurleitarfoss sem er 28 metra hár. Í Gljúfurleit eru þrír fjallkofar; Gljúfurleitarkofinn, gamli kofinn í Gljúfurleit sem er einum stalli neðar og Trantur, sem er gamall kofi á ysta tranti við Þjórsá. Bara nýi Gljúfurleitarkofinn er notaður í dag. Kálfá. Kálfá er dragá sem kemur af Flóamannaafrétti og rennur um Gnúpverjahrepp og í Þjórsá við Bólstað. Um skeið rennur áin í gljúfri sem nefnist Minni-Mástungugljúfur. Þar eru víða skriður, Mástungnamegin sem og Steinsholtsmegin. Fyrir framan Stóru-Mástungu kemur minni dragá, Tungná, í ánna. Áin hefur lengi verið farartálmi en í dag eru þrjár brýr á ánni, allar einbreiðar, ein á Þjórsárdalsvegi milli Eystra-Geldingaholts og hreppsins, önnur stuttu ofar milli sömu aðila og ein (ræsi) milli Minni-Mástungu og Skáldabúða, en þá rennur áin til vestur og beygir undir Steinsholtsfjalli til suðvestur. YouTube. YouTube er myndbandavefsíða sem var opnuð 15. febrúar 2005. Þar geta notendur hlaðið inn, horft á og deilt myndböndum. YouTube var stofnað af þeim Chad Hurley, Steve Chen og Jawed Karim sem áður störfuðu fyrir PayPal. YouTube notar Adobe Flash-tækni til þess að dreifa myndböndum til áhorfenda. Hugmyndin á bakvið vefsíðuna er sú að hver sem er geti komið sínu eigin efni á netið án þess að greiða fyrir það. Á YouTube má finna fjölmargar gerðir myndbanda, til að mynda brot úr sjónvarpsþáttum, tónlistarmyndbönd auk efnis frá hinum almenna notanda svo sem kennslumyndbönd ýmiskonar og Myndblogg. Vefurinn gerir hverjum sem er kleift að horfa á þessi myndskeið sér að kostnaðarlausu. Tímaritið "Time" útnefndi YouTube nýjung ársins 2006. Í nóvember það ár keypti Google YouTube fyrir hlutabréfaeign í Google að verðmæti 1,65 milljarða Bandaríkjadollara. Höfundarréttur. Þar sem daglega er sendur gífurlegur fjöldi myndbanda á YouTube er ógerlegt fyrir starfsmenn síðunnar að fylgjast með þeim öllum. Mörg dæmi eru um að efni sem á hvílir höfundarréttur sé sent inn á vefinn. Við þessu er reynt að sporna með því að fleygja út því efni sem finnst, en eftir situr gífurlegur fjöldi myndbanda sem óæskilegt er að séu á vefnum. Mörg fyrirtæki og einstaklingar hafa fett fingur út í þetta og sumir hverjir hafa kært YouTube. YouTube dró úr fjölda þessara tilfella með því að gera samning við stór útgáfufyrirtæki um að birta tónlistarmyndbönd þeirra á vefnum sér til kynningarauka. Wii Sports. Wii Sports er leikur frá Nintendo sem fylgir með Wii alls staðar, nema í Japan. "Wii Sports" er samansafn af 5 íþróttaleikjum, hafnarbolti, tennis, keila, hnefaleikar og golf. Leikmenn nota Wii fjarstýringuna til að sveifla spaða, kylfa eða kýla andstæðinginn. Reglurnar í hverjum leik eru einfaldaðar fyrir spilara svo auðveldara verði að stjórna leiknum. Tennis. Tennis (allt að því fjórir leikmenn geta tekið þátt)- fyrst velur hver leikmaður þá stöðu (eða þær stöður; því hægt er að gegna mörgum stöðum á vellinum, sem vinur sem og andstæðingur. Einnig er hægt að gegna öllum stöðunum á vellinum.) sem hann vill gegna en hægt er að velja úr 4 stöðum alls. Svo sveiflar leikmaður Wii-fjarstýringunni og slær þannig tennisboltann. Til að gera leikinn auðveldari fyrir byrjendur, er ekki hægt að hreyfa persónuna sjálfa heldur aðeins stýra hvert hún slær. Þetta er gert til að einfalda leikinn og auðvelda hann byrjendum. Hafnarbolti. Hafnarbolti (allt því að tveir leikmenn geta tekið þátt)- einn leikmaður er kastari (kastar boltanum með því að sveifla Wii-fjarstýringunni) og hinn er kylfingur (slær kylfunni með því að sveifla Wii-fjarstýringunni). Keila. Keila (allt að því fjórir leikmenn geta tekið þátt)- keilukúlunni er kastar með því að halda inni B takkanum á Wii-fjarstýringunni og sveifla henni svo (eins og keilukúlu er kastað). Hægt að er að færa sig í move ham með því að ýta til hægri og vinstri á '+ takkanum' og snúa sér í turn ham með því að ýta til hægri og vinstri á áðurnefndum takka. Einnig er hægt að þylja inn og út með því að ýta upp og niður á '+ takkanum', og framkalla snúning á kúluna með því að snúa upp á Wii-fjarstýringuna annaðhvort til hægri eða vinstri áður en maður kastar. Golf. Golf (allt að því fjórir leikmenn geta tekið þátt)- í golfi miðar maður hvert skjóta skal með hægri og vinstri á + takkanum. Slegið er með því að sveifla Wii-fjarstýringunni, á meðan A takkanum er haldið inni. Hnefaleikar. Hnefaleikar (allt því að tveir leikmenn geta tekið þátt)- í þessum leik tekur leikmaður sér Wii-fjarstýringuna og Nunchuck-ið í hendur og slær þeim áfram til að slá, heldur þeim að sér til að verja, hallar sér til hliðar til að forðast undan höggum og snýr upp á þær til að gera hægri- eða vinstrikrók. Berlínarfílharmónían. Fílharmóníusveit Berlínar (einnig þekkt undir nafninu BPO á þýsku Berliner Philharmoniker) er sinfóníuhljómsveit með aðsetur í Berlín og er þekkt sem ein besta hljómsveit veraldar. Núverandi aðalstjórnandi hljómsveitarinnar er Sir Simon Rattle. Hljómsveitin myndar einnig hina ýmsu kammerhópa. Saga. Hljómsveitin var stofnuð árið 1882 í Berlín af 54 hljóðfæraleikurum og bar nafnið Frühere Bilsesche Kapelle en leystist upp þegar að þáverandi aðalhljómsveitarstjóri Benjamin Bilse hugðist senda hljómsveitina á fjórða farrými lestar til Varsjár. Hljómsveitinni var þá gefið núverandi nafn og var fyrsti hljómsveitarstjóri hennar Ludwig von Brenner en stöðu hans hlaut Hans von Bülow árið 1887 og jókst þá orðstír hljómsveitarinnar til muna. Heimsfrægir hljómsveitarstjórar voru fengnir til að stjórna henni og má þar nefna Richard Strauss, Gustav Mahler, Johannes Brahms og Edward Grieg. Árið 1923 var Wilhelm Furtwängler gerður að aðalhljómsveitarstjóra og hélt því starfi fram til ársins 1945 þegar hann flúði til Sviss. Þá tók Leo Borchard við hljómsveitinni en var skotinn til bana af bandarískum hermönnum fyrir slysni sama ár. Árið 1952 var Furtwängler aftur gerður að aðalhljómsveitarstjóra og hélt því starfi þar til hann lést árið 1954. Við af honum tók einn frægasti hljómsveitarstjóri sögunnar, Herbert von Karajan og hélt því starfi fram til ársins 1989 en þá tók Claudio Abbado við stöðu hans. Árið 2001 var Sir Simon Rattle ráðinn aðalhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar og gegnir því starfi enn. Tónleikahús hljómsveitarinnar eyðilagðist árið 1944 er herir bandamanna gerðu loftárás á Berlín. Það tónlistarhús sem nú er notast við, Berliner Philharmonie var teiknað og byggt árið 1963 af arkitektinum Hans Scharoun. Sindarin. Sindarin er tilbúið tungumál álfanna eftir J. R. R. Tolkien. Góði dátinn Svejk. "Góði dátinn Svejk" er ókláruð háðsádeiluskáldsaga skrifuð af Jaroslav Hašek. Bókin kom fyrst út á tékknesku árið 1923. Upprunalega átti bókin að vera í sex bindum en Jaroslav tókst aðeins að klára fjögur þeirra áður en hann féll frá. Bindin fjögur hafa yfirleitt verið gefin út saman sem ein bók. Sagan segir frá Josef Svejk ungum manni sem býr í Prag og gengur í her Austurríska-ungverska keisaradæmisins í byrjun sögunnar. Ævintýri hans á meðan á herþjónustunni stendur í fyrri heimsstyrjöldinni eru æði mörg enda er Josef seinheppinn með eindæmum. Svejk hefir farið í Bjarmalandsför eins og kafli einn í bókinni gefur til kynna. Hann hefir einnig farið til réttarlækna og á geðspítala. Aðrar persónur sögunnar eru Lukas höfuðsmaður, herpresturinn, frú Müller sú er ekur honum um í hjólastól og knæpueigandinn á Bikarnum sem fær á sig fangelsisdóm af því að flugurnar á knæpunni skitu á myndina af keisaranum. Leikarinn geðþekki Gísli Halldórsson las söguna einu sinni í útvarpið og þótti mörgum gaman að. Hann ljáði hverjum og einum sérstaka rödd. Lestur hans hefur verið gefinn út á geisladiskum. Ættarnöfn á Íslandi. Á Íslandi eru ættarnöfn fátíð og í raun aðeins leyfð með undantekningum í mannanafnalögum. Erlendis er hins vegar algengt að ættarnöfn séu við lýði og notuð í almennum samskiptum, ólíkt Íslandi þar sem eiginnöfn eru notuð í almennum samskiptum. Um 8.900 ættarnöfn eru í notkun á Íslandi, og um 27.000 manns bera ættarnafn. Algengustu ættarnöfnin á Íslandi eru: (tölurnar fyrir aftan nöfnin eru fjöldi þeirra sem báru nafnið árið 2002) Wii Play. Wii Play (はじめてのWii, Hajimete no Wii, má beinþýða sem "þitt fyrsta Wii" en er almennt þýtt sem "þín fyrstu skref í Wii") er tölvuleikur fyrir leikjatölvuna Wii. Leikurinn er í hópi "Wii Sports" og "Wii Music". Í þessum leik eru margir "mini-leikir" sem virka sem nokkurn vegin kennsluleikir til að kenna leikjaspilara hvernig á að nota Wii-fjarstýringuna, og notast þeir við Mii persónur sem leikmaðurinn hefur búið til. Þessi leikur var seldur með Wii fjarstýringu (án nunchucksins) í Japan, Ástralíu, Evrópu og Norður Ameríku. Finndu mig eða Finndu Mii ("Find Mii"). Hópur af Mii köllum safnast saman á skjáinn (standandi, syndandi, labbandi og gera aðra hluti) og leikmanninum eru gefnar nokkrar vísbendingar til að leita að Mii-inum sem hann á að finna. Leikmaðurinn verður að velja réttu Mii kallana sem passa við lýsinguna. Markmiðin eru frá því að velja tvo eða þrjá alveg eins Mii kalla, til þess að velja fljótasta Mii kallinn, eða taka kalla burt (sem eru að gera hluti sem aðrir Mii eru ekki að gera). Stilltu Mii upp eða Stilltu mér upp (Pose Mii). Þessi leikur getur verið verulega erfiður. Leikmaðurinn verður að færa Mii-inn sinn á fallandi sápukúlur með því að nota Wii fjarstýringuna(Wii remote). Leikmaðurinn verður einnig að snúa Mii-inum sínum rétt með því að snúa Wii remote. Til viðbótar, þegar lengra er komið í leiknum, breytist stellingarnar í kúlunum, og leikmaðurinn verður að velja rétta stellingu (af 3 samtals) með því að renna í gegnum þær með A og B tökkunum. Þegar Mii-inn er í réttri stellingu í kúlunni, springur hún. Ef að kúla springur ekki og á endanum dettur hún á gólfið, lýkur leiknum. Ef þeir leikmenn spila saman, hver leikmaður hefur sinn lit af kúlum, en það má sprengja hvors annars kúlur fyrir aukastig. Veiðileikur (Fishing). Leikmenn nota Wii remote sem veiðistöng, til að veiða sérstakann papírsfisk og síðan tosa hana upp til að ná þeim. Wii remote er notuð til að hreyfa til stöngina, upp og niður hreyfingar sökkva/láta upp veiðistöngina í og úr vatninu. Mismunandi stig eru bætt við og tekin frá með mismunandi fiskum. Efst á skjánum sýnir hvaða fiskur gefur bónus ef hann næst, og það breytist á 30 sekúnda fresti eða svo. Stríðsleikur (Tanks). Þessi leikur notar Wii remote D-pad(eða nunchuk viðbótina) til að hreyfa skriðdreka til á skjánum. Wii remote miðar á skotmark og B takkinn skýtur skelum. Skeljar geta endurkastast af veggjum einu sinni. Það eru einnig jarðsprengjur sem geta verið lagðar sem eyðileggja alla skriðdreka í ákveðni fjarlægð. Tilgangur leiksins er að eyðileggja skriðdreka óvinarins meðan að þú forðast að vera eyðilagður sjálfur Kúa-kapphlaup (Cow riding). Leikmaðurinn er á kú með því að halda á Wii remote á hlið og halla henni til hliðana, og klessa á fuglahræður til þess að fá stig. Wii remote er einnig hallað fram til að auka hraða, og afturábak til að hægja á. Leikmaðurinn verður einnig að hoppa yfir hindranir með því að lyfta Wii remote upp, eins og maður sé að hoppa. Borðtennis (Table tennis). Þessi leikur er einfaldlega eins og borðtennis, skjóta kúluna með því að hreyfa Wii remote. Mii kallarnir eru studdir, og eru hvattir af áhorfendum. Þegar þú kemst lengra í leiknum, stækkar áhorfendahópurinn. Leikmaðurinn stjórnar hvar spaðanum með Wii remote, ekkert högg er notað, bara staðsetning spaðans. Fyrir hvert skot eignast maður stig, þannig lokastigin er lengd leiksins. Þythokkí (Laser Hockey). Spilað eins og þythokkí, þetta er tveggja spilara leikur þar sem leikmenn hreyfa Wii remote til að verja skot og reyna að skjóta í mark andstæðingsins. Þegar þú miðar með Wii remote hreyfist spaðinn um völlinn og ef þú snýrð Wii remote geturu hallað spaðanum til að beina pökkinum í hvaða átt sem er. Skotleikur (Shooting). Leikmenn fara í gegnum mismunandi umferðir af því að skjóta blöðrur, skotmörk, geimdiska, endur, dósir og loksins geimskip. Þegar þú keppir á móti öðrum geturu minnkað stig annarra leikmanna með því að skjóta þeirra skotmörk en geyma þín. Billjard (Pool). Leikmenn spila 9 Ball billjard eins og venjulega billjard leiki. Leikmenn stilla upp skotunum sínum bæði í tvívídd séð frá lofti og bakvið boltan þrívídd. Það er hægt að miða hvar maður skýtur á boltann og gera snúning eða láta boltann skoppa. Maður dregur Wii remote til baka, síðan skýtur maður henni fram til þess að skjóta. Víðistaðaskóli. Víðistaðaskóli er einn grunnskóla Hafnarfjarðar. Skólastjóri er Sigurður Björgvinsson. Sigtið. Sigtið er íslenskur gamanþáttur sem sýndur var á SkjáEinum árið 2006. Fyrri þáttaröðin var sýnd á vormánuðum en seinni þáttaröðin á haustmánuðum. Að Sigtinu standa Friðrik Friðriksson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason og Ragnar Hansson sem leikstýrir þáttunum. Þeir þrír fyrrnefndu fara með nánast öll hlutverk í fyrri þáttaröðinni en í seinni þáttaröðinni fá þeir til liðs við sig fleiri aukaleikara. Aðalpersóna Sigtisins er Frímann Gunnarsson, leikinn af Gunnari Hanssyni, misheppnaður sjónvarpsmaður sem er fullviss um sitt eigið ágæti. Höfundar tónlistarinnar í Sigtinu eru Birgir Ísleifur Gunnarsson og Árni Rúnar Hlöðversson. Með Frímanni Gunnarssyni. Í fyrri þáttaröðinni sér Frímann Gunnarsson um þáttinn Sigtið. Þar tekur hann fyrir ýmis málefni t.a.m. dauðann, glæp og refsingu, fordóma og listamenn. Upprunalega átti Sigtið að vera þrískiptur fréttaskýringaþáttur þar sem Frímann væri aðeins einn þriðji þáttarins ásamt þeim Grétari Boga Halldórssyni og Páli Bjarna Friðrikssyni. Frá því var horfið en þeir Grétar og Páll koma þó reglulega fyrir, sér í lagi í seinni þáttaröðinni. Með Frímanni Gunnarssyni kom út á DVD fyrir jólin 2006. Án Frímanns Gunnarssonar. Frímann (til vinstri) ásamt Val vitaverði sem hann heimsækir í annarri þáttaröð. Í annarri þáttaröð fær Frímann þá flugu í höfuðið að skrifa bók, til þess að fá ró fer hann í vita úti á landi til frænda Grétars Boga, Vals vitavarðar. Þetta verður til þess að Frímann glatar Sigtinu í hendurnar á Páli Bjarna. Í kjölfari af því lendir Frímann í ýmsum ævintýrum, bæði til þess að reyna að fá bókina sína útgefna og til að komast aftur að með sjónvarpsþátt. Auk þess fer Frímann að kenna við Háskóla Íslands, setur upp leikrit og passar börn svo eitthvað sé nefnt. Án Frímanns Gunnarssonar kom út á DVD í nóvember 2007. Glitnir. Frímann Gunnarsson kom fram í auglýsingum fyrir Reykjavíkurmaraþon Glitnis sumarið 2007. Auglýsingarnar snerust um undirbúning Frímanns fyrir maraþonið, undirbúningurinn snerist um flest annað en að hlaupa eins og Frímanns er von og vísa. Þáttaröð 1. Gunnar Hansson: Frímann Gunnarsson – þáttarstjórnandi, Olf Dortemeier – þýskur listamaður, Einar Stefán Ölvisson – áráttusjúklingur, Halldór Karlsson – læknir, Jón Trausti Þórsson – goti og kennari Halldór Gylfason: Grétar Bogi Halldórsson – fréttamaður, Kári Brandsson – tónlistarmaður, Már – listamaður, Brandur Árnason – geðlæknir, faðir Kára Brands og Steins Finns, Gunnar Alfreðsson – þráhyggjusúklingur, Tanja Líf – skálduð persóna, Karl,Kralli” Þórhallsson – trúður og leigubílstjóri, Hjalti Karlsson – sálfræðingur, Jens Parmes – sjúklingur (dauðvona), Davíð Baldursson – kaþólikki, Ólafur – bakari, Böðvar Bjarni Þorkelsson – framleiðandi, Baldur Traustason – nemi og tilsjónarmaður, Finnur Örn Antonsson – stílisti, Ómar Bragason – framleiðandi Friðrik Friðriksson: Páll Bjarni Friðriksson - fréttamaður, Jon Jon Jonsson – listfræðingur, Steinn Finnur Brandsson – listamaður, Hans Kristiansen – danskur listamaður, Natan Jónsson – þráhyggjusjúklingur, Zóphonías Bennet – tilsjónarmaður Gunnars, Sigurður Karlsson – sálfræðingur, Úlfur Dagsson – þunglyndissjúklingur, útvarpsmaður, Magnús Pétursson – sjúklingur Hjalta, Teitur Berg – miðill, Kristján Harðarson – kjötkúlnagerðarmaður, Viðar Olgeirsson – fyrrum handrukkari, núverandi eðalvagnaekill, Jón Brynjar Stephenssen – rannsóknarlögreglumaður, Sigurður Ragnarsson – hreyfihamlaður, Seli Magg – þáttarstjórnandi, Carlos Carillas – spánverji, Sigurjón Linnet – stílisti, Albert Egilsson – vínsérfræðingur, Neil – breti, fyrrum skólafélagi Frímanns Þáttaröð 2. Gunnar Hansson: Frímann Gunnarsson - altmuligtmaður, Rúni Sökker – flippskúnkur Halldór Gylfason: Grétar Bogi Halldórsson - blaðamaður og hjálparhella Frímanns, Þorsteinn – sjómaður, hittir Frímann í söluturni, Oddvar "Dj. Ákni" Óskarsson – plötusnúður, Trausti Örn – kennari við H.Í., Tumi – nemandi í fjölmiðlaáfanga Frímanns í H.Í., Leikhússtjórinn, Ómar Bragason – sjónvarpsstjóri Fréttastöðvarinnar, Gussi Dreifari - flippskúnkur Friðrik Friðriksson: Valur – vitavörður, frændi Grétars Boga, Benni – afgreiðslumaður í söluturni, Jón Alansson – deildarstjóri félagsvísindadeildar H.Í., Atli – nemandi í fjölmiðlaáfanga Frímanns í H.Í., Elmar Róbertsson – myndatökumaður hjá Sigtinu, Úlfur Dax - flippskúnkur (Úlfur Dagsson undir nýju nafni), Símon Ólafsson – læknir sem annast Frímann, Stefnir – leikstjóri, Daði Hafliðason – tískumógúll, Gestur – gestur í karlapartýi Frímanns Dóra Jóhannsdóttir: Gígja – ritari á skrifstofu rithöfundasambandsins, Karólína – umsjónarkona spurningakeppni grunnskóla Reykjavíkur, Steinunn – kennari við H.Í., Katrín – nemandi við H.Í., Hjördís – eiginkona Elmars Róbertssonar, starfsmaður í sæðisbanka Yfirlit yfir þætti Sigtisins. Frímann hittir fyrir breskan tvífara sinn og fyrrum skólabróður Neil. Stafholtsey. Stafholtsey er bær í Stafholtstungum, milli Hvítár og Grímsár. Á þeim tíma sem Hvítá rann sunnan við Stafholtsey voru Þverárþing háð þar, frá um 1150 fram undir lok Þjóðveldisaldar. Mönnuð veðurathugunarstöð hefur verið í Stafholtsey frá árinu 1988. Ásgarður (Dölum). Ásgarður er bær og fyrrum kirkjustaður í Hvammssveit, innst í Hvammsfirði í Dölum. Kirkjan var lögð niður árið 1882 og var þjónað frá Hvammi en einungis tveir bæir áttu kirkjusókn í Ásgarði. Í dag er stórt sauðfjárbú í Ásgarði sem og þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1992. Bjargtangar. Bjargtangar er vestasti tangi Íslands og ysti oddi Látrabjargs. Á Bjargtöngum er viti; hann var reistur árið 1948 en fyrsti vitinn var reistur þar árið 1913. Þar er sjálfvirk veðurathugunarstöð frá Siglingastofnun og er akfær vegur þangað. Á Íslandi er oft talað um Bjargtanga sem vestasta odda Evrópu, en það er rangt, því að Flores á Asóreyjum er töluvert vestar. Út af Bjargtöngum er Látraröst, ein mesta og illræmdasta sjávarröst við Ísland, enda hættuleg í miklum veðrum. Fiskigengd er þar mikil og eftirsótt mið. Smáskilaboð. Smáskilaboð (í talmáli er SMS oft notað yfir það og er þá borið fram [Ess-Emm-Ess], en SMS er stytting á enska heitinu "Short Message Service" eða "smáskilaboðaþjónusta") eru skilaboð sem hægt er að senda úr flestum farsímum (og öðrum tækjum eins og fartölvum). Hector Berlioz. Hector Berlioz (fæddur 11. desember 1803, dáinn 8. mars 1869) var franskt tónskáld. Hann er eitt mikilvægasta tónskáld hinnar frönsku rómantíkur og einn af fumkvöðull á sviði prógramtónlistar. Þekktasta verk hans er "Symphonie Fantastique" frá 1831. Blæbrigðarík og hljómfögur verk hans skóku evrópskt tónlistarlíf 19. aldar þó svo að hann hafi með verkum sínum mótað þá hljómsveitarrtækni sem notast er við nú í dag. Berlioz reit einnig 3 óperur: "Benventuo Cellini", "Trjójumennirnir" og "Beatrice og Benedict." 4 sinfóníur: "Symphonie Phantastique op.14", "Harald á Ítalíu", "Rómeó og Júlíu" og "Symphonie funèbre et triomphale." 6 forleiki og sálumessuna "Grande Messe des Morts". Hann var ekki vinsælt tónskáld í lifanda lífi og lifði á tónlistargagnrýni allt sitt líf auk þess sem hann starfaði sem bókavörður við bókasafn Parísarkonservatorísins í hjáverkum. Berlioz, Hector Hvít blóðkorn. Hvít blóðkorn (hvítfrumur) eru sérhæfðar frumur í blóði sem sjá um að eyða sýklum, aðskotaefnum úr líkamanum eða líkamspörtum, svo sem æxlum. Auk þess stuðla sum þeirra að því að sár grói. Þau eru stærri en rauð blóðkorn og geta ólíkt þeim farið út úr æðakerfinu í aðra líkamsvefi þar sem þeirra er þurfi. Þær skiptast aðallega í þrjá flokka: kornfrumur (kyrningar), einkjörnunga(einkirninga) og eitilfrumur. Hvítu blóðkornin myndast ekki endilega í beinmerg eins og rauðu blóðkornin. Þau geta myndast víðvegar um líkamann og eru síðan geymd til dæmis í eitlum. Líftími hvítra blóðkorna er stuttur enda er hlutverk þeirra að stöðva sýkingar. Í sýkingartilfellum eykst fjöldi þeirra mikið. Augljóst dæmi um slíkt er frumutala í mjólk sem hækkar við júgurbólgu. Samsteypustjórn. Samsteypustjórn er þegar tveir eða fleiri stjórnmálaflokkar þurfa að taka sig saman um að mynda ríkisstjórn. Til þess að mynda samsteypustjórn þurfa flokkarnir að koma sér saman um helstu málefni og oftar en ekki að beita miklum málamiðlunum. Á Íslandi gerist það nánast alltaf að ríkisstjórn sé mynduð milli tveggja flokka. Michel de Montaigne. Michel Eyquem de Montaigne (28. febrúar 1533 – 13. september 1592) var franskur heimspekingur og einn af áhrifamestu höfundum Frakklands á 16. öld. Montaigne er brautryðjandi í formi ritgerðarinnar — hann varð þekktur fyrir að tvinna áreynslulaust saman alvörugefinni fræðilegri umfjöllun og óformlegri frásögn með sjálfsævissögulegu ívafi — og í hans merkasta ritgerðasafn (oft nefnt "Tilraunir") inniheldur fjölmargar ritgerðir sem höfðu mikil áhrif á aðra höfunda. Montaigne hafði bein áhrif á höfunda allt frá Shakespeare til Emersons, frá Nietzsche til Rousseaus, og síðast en ekki síst á René Descartes. Á sínum tíma naut Montaigne fyrst og fremst virðingar sem stjórnmálamaður. Tilhneiging hans til þess að segja sögur og persónulegar endurminningar var álitin löstur fremur en nýbreytni og kjörorð hans „Ég er sjálfur umfjöllunarefni bókar minnar“ höfðu samtímamenn hans til marks um sjálfumgleði. Þegar fram liðu stundir öðlaðist Montaigne þó viðurkenningu sem helsti málsvari síns tíma fyrir efasemdir aldarinnar. Önnur kjörorð hans voru „Hvað veit ég?“ („Que sais je?“) Tengill. Montaigne, Michel de Heimspeki endurreisnartímans. Heimspeki endurreisnartímans er tímabili í sögu evrópskrar heimspeki sem tekur við af miðaldaheimspeki og lýkur við upphaf nýaldarheimspeki. Til þess teljast 15. og 16. öld. Sumir fræðimenn telja einnig ýmist síðari hluta 14. aldar eða fyrri hluta 17. aldar með. Það sem einkennir einkum tímabilið er endurreisn eða öllu heldur endurfæðing klassískrar fornaldarmenningar, ekki síst forngrískrar menningar og klassískra mennta. Að einhverju leyti var horfið aftur til kennivalds Platons framyfir kennivald Aristótelesar, sem vofði yfir miðaldaheimspeki og skólaspekinni; og meðal sumra hugsðuða gætti jafnvel áhuga á dulspeki. Á endurreisnartímanum bárust grísk handrit í auknum mæli úr austri vestur til Ítalíu. Handritunum fjölgaði með falli Konstantínópel og Býsansríkisins árið 1453. Í kjölfarið jókst þekking á grískri heimspeki til muna í Vestur-Evrópu. Mikilvægustu höfundarnir voru Platon, Aristóteles og Plótínos og ýmsar heimildir um stóuspeki og epikúrisma en ekki síst rit Sextosar Empeirikosar. Grísk efahyggja hafði þónokkur áhrif á ýmsa hugsuði, meðal annars Michel de Montaigne (1533 – 1592) og Francisco Sanches (1551 – 1623). Miðaldaheimspeki hafði einkum snúist um rök frá kennivaldi og greiningu á fornum textum með aðstoð aristótelískrar rökfræði. Á endurreisnartímanum komu fram fjölmargar nýjar hugmyndir sem dróu í efa kennivaldið. Roger Bacon (1214 – 1294) var meðal fyrstu höfundanna sem hvöttu til þess að kennivaldið yrði reynt með tilraunum og á grundvelli skynseminnar. Niccolò Machiavelli (1469 – 1527) ögraði hefðbundnum hugmyndum um siðferði og Francis Bacon (1561 – 1626) skrifaði til stuðnings vísindalegum aðferðum í heimspekilegum athugunum. Sögulegt yfirlit. Segja má að endurreisnin hafi einkum falist í því að sækja fyrirmyndir til klassískrar fornaldar. Náttúruhyggja einkenndi list tímabilsins og stærðfræðin var á ný álitin nátengd heimspekinni. Orsakirnar voru einkum undanhald og fall Býsansríkisins árið 1453, aukin samskipti austurs og vesturs, kynni Vestur-Evrópubúa af grískum handritum, prentun bóka, og verslun við Kína og Indland. Ein mikilvægasta heimspeki tímabilsins var mannhyggjan eða „húmanisminn“ sem fólst í aukinni áherslu á mannlífið í stað þess að álíta heiminn fyrst og fremst áfanga á leið til handanlífs kristninnar. Pico della Mirandola (1463-1494) samdi ritið "Oratio de Hominis Dignitate" eða "Ræðu um mannlega virðingu" árið 1486 en það er oft sagt vera „yfirlýsing endurreisnarinnar“. Mirandola höfðar til Platons og Aristótelesar til að færa rök fyrir gildi mannsins þar sem lögð er áhersla á getu mannsins til að öðlast þekkingu. Eggert Stefánsson. Eggert Stefánsson (1. desember 1890 – 29. desember 1962) var íslenskur einsöngvari (tenór) sem náði nokkrum frama utan Íslands, en hann bjó á Ítalíu lengst af eftir söngnám þar á 3. áratug 20. aldar og átti ítalska eiginkonu. Hann var bróðir tónskáldsins Sigvalda Kaldalóns og söng lög hans inn á hljómplötu árið 1919. Eðlisfræðin. "Eðlisfræðin" (gjarnan þekt undir latneska titlinum "Physica") er mikilvægt rit í átta bókum eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Líkt og önnur varðveitt rit Aristótelesar er "Eðlisfræðin" handrit að fyrirlestrum eða ritgerð sem var ekki ætluð til útgáfu. Það er einskonar forspjall að ritum Aristótelesar um náttúruheimspeki og náttúruvísindi. "Eðlisfræðin" fjallar einkum um aðferðafræðileg og heimspekileg atriði, fremur en eiginlega eðlisfræði eða náttúruspekilegar rannsóknir. Í ritinu leggur Aristóteles grunn að rannsóknum náttúruvísindamanna á efnisheiminum sem er undirorpinn hreyfingu og breytingu ("kinesis"). 1. bók. 1. bók fjallar um grunnlögmál náttúrunnar og fjölda. Þá eru athugasemdir um aðferðafræði í náttúruheimspeki og kenningar forvera Aristótelesar. 2. bók. 2. bók fjallar um iðkun náttúruheimspeki og um náttúruhugtakið (gr. "physis") sem Aristóteles segir að sé „innri upptök hreyfingar“ (og breytingar, gr. "kinesis"). Þær verundir sem geta hafið eigin hreyfingu eru því „náttúrugripir“. Á hinn bóginn eru „smiðisgripir“ og dauðir hlutir svo sem grjót ófærir um að hefja eigin hreyfingu eða breytingu; auk þess fæðast þeir ekki, deyja ekki, vaxa ekki, nærast ekki og fjölga sér ekki. Aristóteles beitir einnig kenningu sinni um fjórar tegundir orsaka en leggur áherslu á "tilgangsorsök". 3. bók. 3. bók fjallar nánar um breytingar en breyting er skilgreind með hutökunum "megund" og "raungervingu" eða "möguleika" og "veruleika". Seinni huti bókarinnar fjallar um óendanleikahugtakið. 4. bók. 4. bók fjallar enn um hreyfingu með umfjöllun um rúm (gr. "topos") og tóm og tíma (gr. "khronos"), sem Aristóteles telur að eigi sér ekki sjálfstæða tilvist óháð hlutum sem gangast undir breytingar. 5. bók. 5. bók fjallar um breytingar almennt og fjallar um ólíkar tegundir breytingar, m.a. magnbreytingar, eiginleikabreytingar og breytingar á staðsetningu (þ.e. hreyfingu). Einnig er umfjöllun um tilurð go eyðingu verunda, sem nánar er fjallað um í ritinu "Um tilurð og eyðingu". 6. bók. 6. bók fjallar um samfellur og hvernig verund getur breyst ef hún þarf að fara í gegnum óendanlega mörg stig breytingar. Í 6. bók fjallar Aristóteles einnig um þverstæður Zenons frá Eleu. 7. bók. 7. bók fjallar um tengsl þess sem hreyfist við þann sem hreyfir það. 8. bók. 8. bók er um fjórðungur alls verksins en hugsanlega var hún upphaflega sjálfstæð ritgerð. Hún fjallar tvö meginefni: endimörk alheimsins og tilvist frumhreyfils, eilífrar og óbreytanlegrar orsakar allra breytinga. Aristóteles fjallar um spurningar eins og: Er alhemurinn eilífur? Átti alheimurinn sér upphaf? Mun heimurinn einhvern tímann enda? Um frumhreyfilinn er einnig fjallað í 12. bók "Frumspekinnar". Borðspil. Borðspil er leikur þar sem þátttakendur nota ýmsa smáhluti, eins og peð, spil og teninga, til að framfylgja ákveðnum reglum á sérstöku spilaborði. Í flestum borðspilum vinna þátttakendur leiksins, "spilararnir", að því að vinna aðra spilara og sigur er þá mældur í fjölda stiga, staðsetningar á borði, spilapeningum eða álíka. Í nokkrum borðspilum vinna spilarar saman gegn sjálfu spilinu og reyna að ná sameiginlegu markmiði áður en slembni í spilinu kemur í veg fyrir það. Borðspil geta verið byggð á slembni, kænsku, samningum eða blöndu af öllum leikþáttum. Borðspil koma í mörgum mismunandi tegundum. Sum borðspil hafa ríkt þema og sögu eins og Catan landnemarnir þar sem spilarar nema land á eyjunni Catan og byggja upp borgi og bæi. Önnur spil hafa ekkert þema eins og hornskák þar sem spilarar færa dökka og ljósa (oftast svarta og hvíta) leikmenn á taflborði með 64 ferköntuðum reitum. Borðspil geta verið spiluð af mismörgum spilurum, allt frá einum spilara til stórs hóps með tugum spilara og eru misflókin. Borðspil eins og mylla, þar sem leikmenn setja táknin "X" og "O" á borð sem skipt er upp í níu hólf og reyna að ná þremur táknum í röð, teljast einföld miðað við spil eins og stríðsspilið World in Flames. Enn önnur borðspil, eins og Gó hafa einfaldar reglur sem bjóða upp á mjög flóknar aðstæður. Saga borðspila. Fyrsta borðspilið er almennt talið vera Senet sem fannst meðal annars í gröfum fyrstu konungsættarinnar í Egyptalandi. Út frá aldri grafanna er það vitað að Senet var spilað í kringum 3100 fyrir Krist. Fyrsta borðspilið í fullri mynd er talið vera Konunglegi leikurinn af Ur sem var búinn til í kringum 2500 fyrir Krist. Bæði Senet og Konunglegi leikurinn af úr teljast vera kapphlaupsleikir og forverar Kotru en elsta útgáfan af Kotru (ólík þeirri sem spiluð er í dag) er talin vera frá árinu 3000 fyrir Krist. Vegna Senet og Konunglega leiksins af Ur er því talið að borðspilið hafi verið fundið upp í Mið-Austurlöndunum. Í kringum 500-400 fyrir Krist fer að bera á leikjum í Asíu. Um 500 fyrir Krist er talið að Pachisi, sem líkist Lúdó, hafi verið fundið upp í Indlandi og árið 400 fyrir Krist er taflið Gó fyrst nefnt en það var í kínverska ritinu Zuo Zhuan. Á Norðurlöndunum ryður tafl sér rúms í kringum 400 eftir Krist. Árið 1930 tekur spilið Monopoly á sig endanlega mynd en borðspilið var upphaflega fundið upp af Elizabeth J. Magie Phillips árið 1903 (undir nafninu The Landlord's Game) til að sýna hættur einokunar. Fyrstu nútímastríðsspilin koma fram undir lok 6. áratugar 20. aldar með spilunum Risk sem var gefið út 1957 og Diplomacy sem kom fyrst út árið 1959. Upp úr árinu 1980 mótaðist þróunarstefna í borðspilum sem kennd er við Þýskaland eða Evrópu þar sem áhersla er lögð á einfaldar reglur, ríkt þema, stuttan eða miðlungslangan spilatíma, óbeint samspil spilara og þátttöku allra spilara á meðan borðspilinu stendur (enginn dettur út). Árið 1995 komu Catan landnemarnir út fyrst sem markaði upphaf innrásar þýsku borðspilana í Bandaríkjunum og um allan heim. Catan landnemarnir, sem hannað var af Klaus Teubner, markaði einnig upphafið að svokölluðum hönnuðaleikjum. Hönnuðaleikur telst vera leikur þar sem hönnuður leiksins er tekin fram á borðspilaumbúðunum sjálfum. Í dag fylgjast borðspilaáhugamenn vel með útgáfu borðspila eftir eftirlætishönnuðina sína og margir hönnuðir, svo sem Allan R. Moon, Reiner Knizia og Uwe Rosenberg, njóta mikillar virðingar meðal margra spilara. Borðspilamenning á Íslandi. Á Íslandi eru starfræktar tvær borðspilaverslanir, Spilavinir og Nexus. Auk þeirra selja allar helstu verslanir á Íslandi úrval valinna og þekktra borðspila með íslenskum reglum. Á Íslandi starfa einnig nokkur óformleg og formleg borðspilafélög sem halda reglulega borðspilakvöld og borðspilamót fyrir meðlimi og gesti. Pierre Gassendi. Pierre Gassendi (22. janúar 1592 – 24. október 1655) var franskur heimspekingur, stærðfræðingur og vísindamaður, sem er einkum þekktur fyrir tilraun sína til að sætta epikúríska eindahyggju og kristni og fyrir að birta fyrstu athuganirnar á myrkvun Merkúrs á sólu árið 1631. Gassendi-gígurinn á tunglinu er nefndur eftir honum. Tengill. Gassendi, Pierre Gassendi, Pierre Gassendi, Pierre Gassendi, Pierre Bandalag jafnaðarmanna. Bandalag jafnaðarmanna var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður árið 1983 að frumkvæði Vilmundar Gylfasonar. Flokkurinn fékk fjóra þingmenn kosna á þing sama ár, flokkurinn var skammlífur og árið 1986 gengu þrír þingmenn flokksins í Alþýðuflokkinn og sá fjórði í Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn bauð aftur fram til Alþingis árið 1987 en fékk engan mann kjörinn. Bandalag jafnaðarmanna var fyrsti flokkurinn til þess að setja réttindi samkynhneigðra á stefnuskrá sína. Guðni Baldursson, þáverandi formaður Samtakanna '78 var á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. Montesquieu. Charles-Louis de Secondat, Baron de La Brède et de Montesquieu (f. 18. janúar 1689 í Bordeaux – 10. febrúar 1755), þekktari sem Montesquieu, var franskur félagslegur hugsuður, stjórnspekingur og réttarheimspekingur sem var uppi á tíma upplýsingarinnar. Hann er frægastur fyrir kenningu sína um aðgreiningu ríkisvaldsins, sem gengið er út frá í nútíma stjórnmálaheimspeki og stjórnmálafræði og er víða um heim tryggð í stjórnarskrám ríkja. Til hans má rekja vinsældir hugtakanna „lénsveldi“ og „Býsansríkið“. Tenglar. Montesquieu Montesquieu Forngerlar. Forngerlar, fyrnur eða fornbakteríur (fræðiheiti: "Archaea" eða "Archaebacteria") er einn af meginflokkum lífvera og yfirleitt hafður sem sérstakt ríki eða lén í þriggja léna kerfinu (hin lénin eru gerlar og heilkjörnungar). Forngerlar eru einfruma lífverur án frumukjarna og teljast þannig vera dreifkjörnungar. Í hinu hefðbundna sex ríkja flokkunarkerfi voru þeir flokkaðir með gerlum í ríkið "Monera". Upphaflega var þeim lýst í jaðarvistkerfum, eins og á háhitasvæðum, en síðar hafa þeir fundist á ýmsum gerðum búsvæða. Nicolas Malebranche. Nicolas Malebranche (6. ágúst 1638 – 13. október 1715) var franskur heimspekingur og rökhyggjumaður. Í ritum sínum reyndi hann að sætta heimspeki Ágústínusar kirkjuföður og Renés Descartes með það að markmiði að sýna fram á hlutverk guðs í öllu gangverki heimsins. Malebranche þekktastur fyrir kenningar sínar um sýn guðs og guðlega orsakahyggju. Tenglar. Malebranche, Nicolas Malebranche, Nicolas Malebranche, Nicolas Malebranche, Nicolas Áhrif mín á mannkynssöguna. "Áhrif mín á mannkynssöguna" er skáldsaga eftir Guðmund Steingrímsson. Sagan segir frá Jóni sem starfar sem ljósmyndari á dagblaði í London. Hann fer í langþráð frí til Íslands yfir jólahátíðina, en eftir að til Íslands kemur hefst röð mjög undarlegra atburða sem ekki virðist vera haldbær skýring fyrir. Smám saman kemur í ljós að rætur þessara atburða eiga allir upptök sín í svartri eyðu í minni Jóns. Áhrif mín á mannkynnssöguna er fyrsta skáldverk Guðmundar, bókin kom út árið 2003. Wilfrid Sellars. Wilfrid Stalker Sellars (20. maí 1912 – 2. júlí 1989) var bandarískur heimspekingur. Faðir hans var kanadíski-bandaríski heimspekingurinn Roy Wood Sellars. Wilfrid Sellars hlaut menntun sína í Michigan, við University of Buffalo, og síðar við háskólann í Oxford, þar sem hann var Rhodes-fræðimaður og brautskráðist með MA-gráðu árið 1940. Í seinni heimsstyrjöldinni gegndi hann herþjónustu í leyniþjónustu bandaríska hersins. Síðar kenndi hann við University of Iowa, University of Minnesota, Yale University og frá árinu 1963 til æviloka við University of Pittsburgh, þar sem hann átti snaran þátt í að koma heimspekideild skólans á heimsmælikvarða. Sellars er einkum þekktur fyrir gagnrýni sína á bjarghyggju í þekkingarfræði, en heimspeki hans miðaði þó almennt að því að sætta heimsmynd heilbrigðrar skynsemi og heimspekinnar annars vegar og strangvísindalega náttúruhyggju um raunveruleikann hins vegar. Hann er víða í miklum metum bæði vegna fágaðra raka sinna og víðfeðsm lærdóms síns. Sellars var ef til vill fyrsti heimspekingurinn sem sameinaði á árangursríkan hátt bandarísku gagnhyggjuna og rökgreiningarheimspekina og austurríska og þýska rökfræðilega raunhyggju. Hann vann að margvíslegum viðfangsefnum bæði í heimspeki og heimspekisögu. Rit hans eru af mörgum talin býsna torlesin. Robert Brandom kvað Sellars og Willard van Orman Quine vera merkustu heimspekinga sinnar kynslóðar. Heimspeki Sellars er grunnur og fyrirmynd þess sem stundum er nefnt „Pittsburghar-skólinn“, en meðal heimspekinga sem teljast til hans má nefna Brandom, John McDowell og John Haugeland. Meðal annarra heimspekinga sem urðu fyrir miklum áhrifum frá Sellars má nefna nýgagnhyggjumenn á borð við Richard Rorty og útrýmingarefnishyggjumenn á borð við Paul Churchland. Tenglar. Sellars, Wilfrid Sellars, Wilfrid Antoine Arnauld. Antoine Arnauld, (6. febrúar 1612 – 6. ágúst 1694) — "le grand" eða „hinn mikli“ eins og samtímamenn hans nefndu hann gjarnann til að aðgreina hann frá föður sínum — var franskur guðfræðingur, heimspekingur og stærðfræðingur. Honum var lýst sem „Evklíð sinnar aldar“. Arnauld, Antoine Arnauld, Antoine Arnauld, Antoine Arnauld, Antoine Saddam Hussein. Saddam Hussein í júlí 2004 Saddam Hussein (arabíska: صدام حسين عبدالمجيد التكريتي) (fæddur 28. apríl 1937, látinn 30. desember 2006) var forseti Íraks frá 1979 fram að árás Bandaríkjamanna inn í landið 2003. Hann var handtekinn af herliði Bandamanna 13. desember 2003 og dæmdur til dauða 5. nóvember 2006. Hann var hengdur þann 30. desember 2006 samkvæmd dómsúrskurði. Augustus De Morgan. Augustus De Morgan (27. júní 1806 – 18. mars 1871) var breskur stærðfræðingur og rökfræðingur, fæddur á Indlandi. Hann setti fram De Morgan regluna og var fyrstur til að kynna hugtakið „stærðfræðileg tilleiðsla“ til sögunnar og beita því. De Morgan-gígurinn á tunglinu er nefndur eftir honum. Heimild. De Morgan, Augustus De Morgan, Augustus De Morgan, Augustus Wii Music. Wii Music, einnig þekktur sem Wii Orchestra, er Wii leikur sem maður spilar á hljóðfæri með Wii remote. Hann inniheldur sinfóníu og trommu leik, staðfest af Nintendo Power. Þetta er hluti af Wii seríunni með Wii Sports og Wii Play. "Wii Music" var upphaflega ætlað að vera gefin út með Wii, en engar nýjar upplýsingar hafa verið gefnar út síðan E3 2006. Leikmenn geta búið til sín eigin hljóð og prófað að spila tilbúin lög, í stíl við DrumMania. Henri Bergson. Henri-Louis Bergson (18. október 1859 – 4. janúar 1941) var franskur prófessor og heimspekingur, á síðari hluta 19. aldar og við upphaf þeirrar 20. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1927. Tenglar. Bergson, Henri Bergson, Henri Bergson, Henri Hilary Putnam. Hilary Whitehall Putnam (f. 31. júlí 1926) er bandarískur heimspekingur sem hefur verið áhrifamikill heimspeki enskumælandi landa síðan á 7. áratug 20.aldar, einkum í hugspeki, málspeki og vísindaheimspeki. Hann var lengst af prófessor í heimspeki við Harvard háskóla en er nú á eftirlaunum. Putnam er þekktur fyrir að vera jafn gagnrýninn á eigin kenningar og annarra og rýna í sérhverja kenningu þar til gallar hennar eru komnir í ljós. Í kjölfarið þykir hann skipta oft um skoðun. Í hugspeki er Putnam þekktur fyrir að vera málsvari verkhyggju um hugann. Í málspeki hefur Putnam ásamt Saul Kripke og fleirum þróað orsakahyggju um tilvísun, en auk þess hefur hann sett fram eigin kenningu um merkingarfræðilega úthyggju á grundvelli frægrar hugsunartilraunar um Jörð og Storð. Í heimspeki stærðfræðinnar setti Putnam ásamt starfsbróður sínum og kennara W.V.O. Quine fram „Quine-Putnam tilgátuna um nauðsynleika stærðfræðifyrirbæra“ sem kveður á um að stærðfræðileg fyrirbæri séu raunverulega til. Síðar lét Putnam í ljós þá skoðun sína að stærðfræði sé ekki einungis rökfræðileg í eðli sínu, heldur að einhverju leyti raunvísindalegs eðlis. Í þekkingarfræði er Putnam þekktur fyrir að hafa sett fram hugsunartilraunina um heila í krukku til höfuðs efahyggju. Í frumspeki varði Putnam upphaflega frumspekilega hluthyggju en snerist hugur og aðhylltist fyrst „innri hluthyggju“ og síðar beina hluthyggju í anda gagnhyggjunnar. Putnam hafnar hugmyndum um hugræna táknum, skynreyndir og annað af því tagi. Putnam hefur einnig lagt sitthvað af mörkum í stærðfræði og tölvunarfræði. Tenglar. Putnam, Hilary Putnam, Hilary Auguste Comte. Auguste Comte (fullt nafn: Isidore Marie Auguste François Xavier Comte; 17. janúar 1798 – 5. september 1857) var franskur heimspekingur sem lagði grunn að félagsfræði sem vísindalegri fræðigrein á fyrri hluta 19. aldar. Hann var fyrstur til að beita nútímavísindalegri aðferð í rannsóknum á mannlegu samfélagi. Comte þróaði hugtakið "sociologie" þegar hann var að reyna að ráða bót á þeim félagslega bresti sem Franska byltingin skyldi eftir sig. Comte reyndi að kynna samloðandi „trú mannkyns“ sem hafði, þrátt fyrir að njóta mjög lítillar velgengni, áhrif í þróun mismunandi veraldlegra húmanistasamtaka á 19. öldinni. Hann bjó einnig til og skilgreindi hugtakið ósérplægni. Lögin um stigin þrjú. Comte kom fyrst fram með þekkingarfræðilega sýn á pósitívisma í bók sinni í enskri þýðingu „"The Course in Positivist Philosophy"“, röð texta sem gefnir voru út á árunum 1830 til 1842. Fyrstu þrjú bindin lögðu mesta áherslu á þau raunvísindi sem þegar voru til staðar, til dæmis stærðfræði, stjarnfræði, eðlisfræði, efnafræði og líffræði á meðan seinni tvö bindin lögðu áherslu á óumflýjanlega komu félagsvísindanna. Með því að rannsaka hringlaga áráttu kenninga og rannsókna í vísindum og skilgreina vísindi á þennan hátt getur Comte verið talinn vera fyrsti vísindaheimspekingurinn í nútímalegum skilningi orðsins. Comte fannst að raunvísindin hlytu að hafa þurft að koma fyrst, áður en mannkynið gat beitt kröftum sínum nógu vel að þeim mest krefjandi og flóknu „drottningarvísindum“ sem mannlega samfélagsins sjálft er. Bók hans, „"A General View of Positivism"“ í enskri þýðingu, hafði því þann tilgang að skilgreina, í meiri smáatriðum, raunreynslumarkmið félagsfræðilegra aðferða. Comte leggur fram þróunar-sögumódel sem leggur það til að samfélagið fari undir þrjú þrep í leit sinni að sannleikanum, samkvæmt almennum lögum um þrjú stig. Þetta eru Það fyrsta var á undan Upplýsingunni, þar sem staða mannsins í samfélaginu og hömlur samfélagsins á manninn var með skírskotun í guð. Maðurinn trúði í blindni sinni á allt það sem honum var kennt af forfeðrum sínum og hann trúði á yfirnáttúrulega krafta. Hugmyndin á bakvið annað stigið átti rætur sínar að rekja til vandamála í frönsku samfélagi eftir byltinguna 1789. Þetta stig innihélt þá skilgreiningu að almenn réttindi væru eitthvað sem vald mannlegs yfirvalds gæti aldrei ógilt. Þetta stig er þekkt sem stig rannsókna því fólk fór að efast um allt þótt engin traust sönnunargögn væru lögð fram. Þetta stig var byrjun þess heims sem efaðist um yfirvald og trú. Á raunhyggju- eða vísindastiginu, sem kom til eftir mistök byltingarinnar og Napóleons, gat fólk fundið lausnir við félagslegum vandamálum og komið þeim í notkun þrátt fyrir yfirlýsingar um mannréttindi, spádóma eða vilja guðs. Vísindin fóru að svara spurningum endanlega. Lög Comtes um þessi þrjú stig var ein fyrsta kenningin í félagslegri þróunarhyggju. Rökfræðileg ritgerð um heimspeki. "Rökfræðileg ritgerð um heimspeki" (á frummálinu " Logisch-Philosophische Abhandlung" en best þekkt undir titlinum "Tractatus Logico-Philosophicus eða bara "Tractatus") er eina bókin sem austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein gaf út á ævi sinni. Hún var skrifuð meðan Wittgenstein var í leyfi frá austurríska hernum árið 1918 meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Bókin kom fyrst út á þýsku árið 1921 sem "Logisch-Philosophische Abhandlung" og er nú almennt talið eitt af mikilvægustu heimspekiritum 20. aldar. G.E. Moore lagði fyrst til latneska titilinn, sem vísar til "Tractatus Theologico-Politicus" eftir hollenska heimspekinginn Benedictus Spinoza. Alræmdur ritstíll Wittgensteins var undir áhrifum frá þýska rökfræðingnum og heimspekingnum Gottlob Frege, en Wittgenstein dáðist mjög að verkum hans. Þessi stutta bók (tæplega áttatíu síður) er í formi stuttra hnitmiðaðra setninga sem er skipað saman í númerað kerfi: 1, 1.1, 1.11, 1.12, o.s.frv., til 7, þannig að 1.1 er athugasemd við 1, 1.11 og 1.12 eru athugasemdir við 1.1, og þannig áfram, til að sýna fram á innbyrðis tengsl þeirra. Markmið bókarinnar er að finna tengslin milli máls og veruleika og skilgreina takmörk heimspekinnar með því að setja fram „…skilyrði röklega fullkomins tungumáls“. (Russell, bls. 8 í inngangi að þýðingu C.K. Ogden) Markmiðið var að ljúka við að smíða heimspekikerfi rökeindahyggjunnar, sem Bertrand Russell hafði hafið vinnu við. Endir bókarinnar kemur nokkuð á óvart og setur fram þýðingarmiklar afleiðingar fyrir heimspekina. Þar er lagt til að öll umræða um frumspeki liggi utan við mörk málsins. "Rökfræðileg ritgerð um heimspeki" var gríðarlega áhrifamikið rit, einkum meðal rökfræðilegra raunhyggjumanna, en einnig margra annarra. De Morgan-reglan. Í rökfræði og stærðfræði er De Morgan reglan í raun tvær reglur um dreifingu neitunar á breytur. Mengjafræðileg framsetning. Þ.e.a.s. fyllimengi sniðmengis A og B er jafnt sammengi fyllimengja A og B. Þ.e.a.s. fyllimengi sammengis A og B er jafnt sniðmengi fyllimengja A og B. Maurice Merleau-Ponty. Maurice Merleau-Ponty (14. mars 1908 – 4. maí 1961) var franskur heimspekingur og fyrirbærafræðingur sem var undir miklum áhrifum frá Edmund Husserl. Færa má rök fyrir því að Merleau-Ponty hafi verið tilvistarspekingur vegna tengsla sinna við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir og heideggeríska hugmynd sína um veruna. Tenglar. Merleau-Ponty, Maurice Vestribyggð. Kortið sýnir Vestribyggð í núverandi Nuuk-héraði, rauðu punktarnir sýna helstu bæjarrústir Vestribyggð nefndu Grænlendingar hinir fornu þá byggð sem var í innfjörðum þess sem nú er nefnt Nuuk-hérað. Milli Vestribyggðar og meginbyggðar norrænna manna á Grænlandi, Eystribyggðar, var 600 - 700 km fjarlægð og samkvæmt miðaldaheimildum var talinn sex daga róður byggðanna á milli. Mun minna er vitað um Vestribyggð en Eystribyggð, engar samtímalýsingar eru til og kemur hún lítt fyrir í Íslendingasögum þeim sem fjalla um Grænlendinga. Einu öruggu nafngiftir sem hægt er að staðsetja eru "Lýsufjörður" sem nú heitir Ameralik-fjörður en þar var þéttust byggð, kirkjustaðurinn "Sandnes" innst í Lýsufirði og kirkjustaðurinn "Ánavík" þar sem nú heitir Ujarassuit innst í núverandi Nuuk-firði. Fundist hafa rústir af 95 norrænum bæjarstæðum í Vestribyggð, þó sumar hafi kannski fremur verið sel eða önnur útihús. Áætlað er að um 500 íbúar hafi búið í byggðinni þegar sem fjölmennast var. Fornleifafræðingar hafa gert miklar rannsóknir í Vestribyggð, þekktast er hinn svo kallaði Bærinn undir sandinum (sem í alþjóðaritum er oftast nefndur "Gården under sandet - GUS"). Þessi bær hefur verið kallaður "Pompei" Grænlands, enda afar vel varðveittur og þaðan koma helstu heimildir um líf og störf hinna norrænu Grænlendinga. Meðal annars fannst stór vefstofa með mörgum vefstólum þar sem hægt var að vefa klæði upp í 140 cm breidd. Landnám hefur samkvæmt C-14 aldursgreiningum staðið yfir frá 1000 til 1050 og er það samtímis og landnám í Eystribyggð. Vestribyggð fór þó í eyði fyrr en Eystribyggð, yngstu fornleifafundir eru frá seinni hluta 14. aldar. Loftslag í Vestribyggð er nánast meginlandsloftslag og ólíkt Eystribyggð, mun kaldara að vetrarlagi og þurr sumur. Lifnaðarhættir hafa verið svipaðir í báðum byggðunum, landbúnaður með sauðfé, geitum, svínum og kúm og svo veiðiskapur. Þó eru fjós mun minni í Vestribyggð, einungis fyrir eina eða tvær kýr (en á stórbæjum í Eystribyggð gátu þau hýst allt að 60 til 100 gripi), sennilega hefur heyskapur verið rýrari og innistöðutími lengri. Einnig er áberandi að íbúar í Vestribyggð veiddu og átu miklu minni sel og meiri hreindýr en sunnar í landinu. Hreindýr ("Rangifer tarandus groenlandicus") voru veidd í nágrenninu, enda mjög algeng enn við innfirði Nuuk-héraðs. Mögulegt er að reynt hafi verið að temja hreindýr, við uppgröft á Bænum undir sandi fannst trépinni sem á var ristuð mynd af dýri sem bundin hafði verið upp í taumur. Dýrið á myndinni er óefað hreindýr. Selir hafa sennilega verið veiddir við vorgöngur frá Labrador og Nýfundnalandi og ekki á ís eins og inuítar gerðu. Í Vestribyggð voru einkum veiddir vöðuselir ("Pagophilus groenlandicus") og landselir ("Phoca vitalina") en einnig kampselir ("Ergnathus barbatus"). En fyrir utan heimaslóðirnar voru mikilvæg veiðisvæði norður þar sem nú heitir Diskóflói en Grænlendingar hinir fornu nefndu Norðursetu. Listi yfir Wii-leiki. Þetta er listi með leikjum sem er búið að staðfesta að sé í vinnslu fyrir Nintendo Wii. Listinn inniheldur ekki leiki úr Virtual Console eða WiiWare þjónstunni. Framlög Íslands til forvals Óskarsins. Framlög Íslands til Óskarsins hafa verið valin af íslenska kvikmyndaiðnaðinum þau ár sem kvikmynd var framleidd sem uppfyllti skilyrði Bandarísku kvikmyndaakademíunnar. Frá stofnun Eddunnar árið 1999 hefur Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían séð um val á mynd ár hvert. Þrjú árin (1999, 2000 og 2001) voru kvikmyndir tilnefndar til framlagsins líkt og í öðrum verðlaunaflokkum á Edduhátíðinni. Árið 1947 byrjaði Bandaríska kvikmyndaakademían að veita Óskarsverðlaun fyrir bestu erlendu kvikmyndina. Aðferðin sem notuð er við valið er einföld: Hverju landi er boðið að senda inn eina kvikmynd sem framleidd hefur verið á tilteknu tólf mánaða tímabili. Innsendar kvikmyndir fá sérstaka sýningu þar sem nefndin gefur einkunn fyrir þær myndir sem hún sér. Þær fimm myndir sem fá hæstu einkunn eru tilnefndar til Óskarverðlauna í flokknum „besta erlenda kvikmyndin“, en það er ekki fyrr en á sjálfri Óskarsverðlaunahátíðinni sem tilkynnt er um sigurvegara. Sú mynd sem hlýtur verðlaunin þarf ekki endilega að vera sú sem fékk hæstu stigin við valið á tilnefningum. Ísland sendi sína fyrstu kvikmynd árið 1981 og var það kvikmyndin Land og synir sem var frumsýnd árið áður. Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna frá upphafi; ein kvikmynd í fullri lengd og ein stuttmynd. "Börn náttúrunnar" eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum „besta erlenda kvikmyndin“. Árið 2006 var síðan "Síðasti bærinn" eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum „besta leikna stuttmyndin“. Þorleifur Halldórsson. Þorleifur Halldórsson (1683 - 15. nóvember 1713) var íslenskur rithöfundur og skólameistari í Hólaskóla. Hann fæddist að Dysjum á Álftanesi um 1683. Faðir hans var Halldór Stefánsson en nafn móður hans er óþekkt. Foreldrar Þorleifs voru fátæk og gátu ekki kostað hann til mennta en hann var frábærlega vel gefinn og Jón Þorkelsson Vídalín, sem þá var sóknaprestur í Garðasókn, kom auga á námshæfileika hans og ákvað að kenna honum án borgunar en ella hefði Þorleifur enga menntun hlotið. Þegar Jón hafði verið vígður biskup í Skálholti 1698 hóf Þorleifur nám við Skálholtsskóla og lauk stúdentsprófi árið 1700. Að náminu loknu starfaði hann við kennslu og vinnumennsku en árið 1703 hélt hann utan til náms í Kaupmannahafnarháskóla. Skipið rak af leið og endaði við strendur Noregs. Þorleifur stytti sér stundir á leiðinni með því að skrifa fræga ritgerð sína "Mendacii encomium" á latínu eftir fyrirmynd Erasmusar frá Rotterdam. Hann íslenskaði ritgerðina sjálfur árið 1711 og heitir ritið í hans þýðingu "Lof lyginnar" en fyrirmyndin var rit Earsmusar, "Lof heimskunnar". Þorleifur stundaði nám og störf í Kaupmannahöfn næstu árin við góðan orðstír og hlaut meistaranafnbót fyrir. Þegar Steinn Jónsson Hólabiskup kom til Kaupmannahafnar til að fá biskupsvígslu fékk hann Þorleif til að koma með sér heim og verða skólameistari á Hólum. Var það haustið 1711. Því starfi gegndi Þorleifur þó aðeins í tvo vetur því hann lést úr berklum þann 15. nóvember 1713, aðeins þrítugur að aldri. Hann var ókvæntur. Miðbyggðin á Grænlandi. Kortið sýnir þann hluta Eystribyggðar sem sagnfræðingar hafa nefnt Miðbyggð, rauðu punktarnir sýna helstu bæjarrústirÁ milli Sermiligarssuk-fjarðar í sveitarfélaginu Paamiut og Qoornoq-fjarðar í sveitarfélaginu Ivittuut á suðvestur Grænlandi, var allfjölmenn byggð á tímum norrænna Grænlendinga sem engar ritaðar heimildir eru til um. Fornleifa- og sagnfræðingar telja að hún hafi verið hluti af Eystribyggð en nefna hana til aðgreiningar Miðbyggðina. Milli vestasta bæjar í aðalbyggðinni við Sermilik-fjörð og austasta bæjar í Miðbyggðinni við Qoornoq-fjörð er um 70 km óbyggð. Þar sem engar ritaðar heimildir eru um byggðina hafa engin örnefni varðveist. Í Miðbyggðinni hafa fundist um 40 rústir. Engin kirkja hefur fundist en þó einn legsteinn sem notaður hafði verið í hleðslu í inuítahúsi, í hann var höggvið krossmark og Össr Asbiarnarson með rúnaletri. Miðbyggðin hefur verið minnst rannsökuð af byggðum norrænna manna á Grænlandi. Red Steel. Red Steel er leikur frá Ubisoft fyrir Nintendo Wii leikjatölvuna. Hann var hannaður af Ubisoft Paris og var afhjúpaður í maí 2006 af Game Informer. "Red Steel" var fyrsti leikurinn sem sýndi myndir frá leiknum úr Wii, til að gefa almenningi hugmynd um hvað vélin gæti gert. Hann var gefinn út 16. nóvember 2006, þrem dögum áður en Nintendo Wii kom út. Útgáfu af leiknum var hægt að spila á meðan E3 stóð yfir. Rayman Raving Rabbids. Rayman Raving Rabbids er fjórði leikurinn í vinsælu Rayman seríunum frá Ubisoft og kom út á sama dag og Nintendo Wii. Hönnuðir leiksins voru stjórnaðir af Michel Ancel, sem er upprunalegi höfundur Rayman, hjá Ubisoft Montpellier. Leikurinn inniheldur meira en 70 litla leiki (mini-leiki) sem reynir að sína notkunamöguleika Wii fjarstýringunar (Wii remote). Það eru tveir möguleikar á að spila leikinn: "Story mode" sem opnar mini-leikina og "Score Mode" sem opnar verkefni og bónus hluti. Mini-leikirnir geta verið spilaðir aftur í Score Mode til að bæta árangurinn eða keppa gegn öðrum leikmönnum. Útgáfu og forritunar saga. Leikurinn er til fyrir Wii, Xbox 360, PC, PlayStation, Game Boy Advance og DS Það var byrjað að búa til leikinn í Ubisoft Montpellier Studio, meðan þeir kláruðu King Kong, þegar forritarnir voru að leita eftir að búa til frábæran óvin fyrir næst Rayman leik. Aðalmaður stúdíósins, Michel Ancel skissaði mynd af kanínu, og þá kom hugmyndin að hafa óvinin kanínur. Liðið byrjaði á að búa til venjulegan ævintýraleik eins og Rayman er vanalega. Síðan fengu þeir upplýsingar frá Nintendo um vélina og byrjuðu að einbeita sér að búa til leik sem notaðist við margs konar leikjaspilun. Þegar það kom í ljós að leikurinn passaði ekki sem venjulegur Rayman leikur, varð Rayman Raving Rabbids samansafn af litlum leikjum. Spilunarmöguleikar. Þegar Rayman klárar mini-leikina fær hann drullusokka. Þegar hann eignast nóg af þeim, býr hann til stiga uppúr fangelsinu og sleppur. Þegar maður klárar mini-leikina fær Rayman einnig mismunandi tónlist og búninga. Í ‘’score mode’’, getur leikmaður endurtekið mini-leikina og reynt að bæta árangurinn sinn eða spilað með öðrum. Persónur/Kanínur. Kanínurnar eru aðalóvinurinn í þessum leik. Vopnin þeirra eru frá kanínugeimskipum með leiserum til klósettdrullusokka og klósettbursta. Persónurnar hafa tala ekki eins og í Rayman 3. Í staðinn segja þeir nokkur orð eins og “Hey” eða “Wow”. Eina þekkta persónan frá fyrri leikjum er barnið Globoxes. Aðrir en hann og Rayman, hefur engin önnur persóna hefur sést áður í öðrum leikjum. Aðrir en kanínurnar, eru líka skrítin dýr sem líkjast fílum með horn, og önnur dýr (Kindur, kýr og svín). Eystribyggð. Kortið sýnir meginhluta Eystribyggðar. Rauðu punktarnir sýna þá staði og örnefni sem með nokkurri vissu er hægt að staðsetja. Nöfnin eru rituð samkvæmt nútímarithætti. Eystribyggð var aðalbyggðarlag norrænna manna á Grænlandi. Aðalbyggðin náði yfir það sem nú eru sveitarfélögin Nanortalik, Qaqortoq og Narsaq syðst á landinu. Norðvestan við lá svo nefnd Miðbyggð. Önnur meginbyggð norrænna manna á Grænlandi var Vestribyggð, og var um 600 - 700 km fjarlægð mill byggðasvæðanna og samkvæmt miðaldaheimildum var talinn sex daga róður þar á milli. Rústir eftir um 500 bæi hafa fundist í Eistribyggð, bæði út við strönd og inn til dala. Flest stærri býlin hafa verið innarlega í fjörðunum. Eitthvað af rústunum hafa sennilega verið sel og jafnvel önnur útihús. Ógerlegt er að vita hversu margir íbúar voru, hafa ágiskanir oft á bilinu 3000 til 6000 manns. Fornleifafræðingar gera þó nú ráð fyrir að íbúar hafi aldrei verið fleiri en um 2000 ef gengið er út frá fjölda kirkjugarða og grafa í þeim. Megnið af þeim rituðu heimildum sem til eru um búsetu Grænlendinga hinna fornu fjalla um Eystribyggð og mannlífið þar. Gerir það meðal annars að fjöldi staðanafna og örnefna hafa varðveist til seinni tíma. Það eru þó einungis tveir staðir sem með fullri vissu er hægt að staðsetja. Er það annars vegar biskupssetrið að Görðum en þar hefur fundist gröf biskups með biskupskræklu og er það þar sem nú heitir Igaliku. Hins vegar er Hrafnsfjörður (sem í frásögu Ívars Bárðarsonar er skrifað sem "Rampnessfiord"), í firðinum var sögð eyja þar sem heitt vatn kom úr jörðu. Á eyju í þeim firði sem nú er nefndur Uunartoq er eina heita uppsprettan á Grænlandi. Útfrá þessum stöðum hefur verið hægt að staðsetja með allnokkru öryggi fjölda annarra staða meðal annars Bröttuhlíð, Hvalsey, Herjólfsnes og klaustrin tvö. Var annað nunnuklaustur í reglu Benediktínusar í Hrafnsfirði og hitt munkaklaustur í reglu Bendediktínusar sem helgað var Ólafi helga og heilögum Ágústínusi í Ketilsfirði. Samkvæmt C-14 aldursgreiningum hafa fornleifafræðingar getað séð að landnám gerðist í tveimur áföngum, sá fyrri á áratugunum fyrir ár 1000 í kringum Eiríksfjörð og Einarsfjörð og sá seinni frá 1000 fram til 1050 á svæðinu fyrir sunnan og norðan þessa firði. Landslagið var þá að nokkru frábrugðið því sem seinna var, uppgröftur sýnir að strandlengjan með innfjörðum og dalir voru vaxnir birkitrjám sem náðu milli 4 og 6 metra hæð og upp til heiða óx víðikjarr og gras. Því má segja að nafngiftin "Grænland" hafi verið réttnefni. En landnám norrænna manna hafði samskonar áhrif á gróðurfar og á Íslandi, birkiskógurinn höggvinn og kjarrið notað í brennsli og við vetrarbeit. Grænlendingar í Eystribyggð stunduðu jöfnum höndum landbúnað og veiðar. Þeir höfðu með sér sauðfé, geitur, svín, kýr, hesta, hunda og ketti (og þar að auki húsamýs) frá Íslandi. Sauðfé og geitur virðast hafa að mestu gengið úti á vetrum. Komið hefur á óvart hversu mikilvægar kýr voru í búskap Grænlendinga. Á minni bæjum voru 2 - 4 kýr en á stórbæjum mun fleiri til dæmis á Hvalsey um 16 kýr og á Görðum þar sem hægt var að hýsa um hundrað nautgripi. Veiðiskapur skipti miklu, bæði fiskveiði og sel- og hreindýraveiði. Hægt hefur verið að lesa úr beinamælingum að hlutfall sjávarafurða og landdýra í mataræði Grænlendinga snerist algjörlega við á þeim nærri 500 árum sem þeir bjuggu á Grænlandi. Mælingar í elstu gröfum við Þjóðhildarkirkju sýna þeir sem þar voru grafnir fljótlega eftir ár 1000 höfðu lifað á um 40% sjáfarafurða, bein þeirra sem grafnir voru um miðja 15. öld höfðu hins vegar lifað á 60-80% sjáfarafurða. Selir og hreindýr ("Rangifer tarandus groenlandicus") voru veidd í nágrenninu, selir sennilega við vorgöngur frá Labrador og Nýfundnalandi. Í Eystribyggð voru einkum veiddir vöðuselir ("Pagophilus groenlandicus") og blöðruselir ("Cystophora cristata"). Önnur veiðidýr voru snæhérar ("Lepus arcticus"), heimskautarefir ("Alopex lagopus") og úlfar ("Canis lupus"). Fuglaveiðar voru einnig stundaðar, meðal annars voru lifandi fálkar ("Falco rusticolus") fluttir út. En fyrir utan heimaslóðirnar voru mikilvæg veiðisvæði bæði á austurströndinni og sérlega norður þar sem nú heitir Diskóflói en Grænlendingar hinir fornu nefndu Norðursetu. Lítið er vitað um veiðistöðvarnar á austurströndinni nema nöfnin Finnsbúð og Krosseyjar en engin vitneskja um hvar þær voru. Voru menn sendir á verðtíð í þessar veiðistöðvar, austur og norður fyrir. Þar var helst verið að sækjast eftir rostungum ("Odobenus rosmarus"), náhvölum ("Monodon monoceros") og hvítabjörnum ("Ursus maritimus"). Helstu útflutningsvörur Grænlendinga voru rostungstennur, náhvalstennur og hvítabjarnaskinn. Eystribyggð fór í eyði um miðja 15. öld eða seinnihluta þeirrar aldrar. Ýmsar tilgátur eru um hvers vegna Grænlendingar hurfu af sjónarsviðinu en á engan hátt er hægt að sanna neinar af þeim. Gagnstrokka hreyfill. Gagnstrokka hreyfill er tegund brunahreyfils þar sem stimplarnir liggja láréttir og „boxa“ frá hver öðrum. Því eru gagnstrokka hreyflar gjarnan kallaðir boxervélar. Þessi tegund er mikið notuð í einkaflugvélum en lítið í bílum vegna þess hve breiður hann er. Boxervélum má ekki rugla við tvívirkan stimpilmótor þar sem stimplarnir slá að hver öðrum. Gagnstrokka hreyfill eru mun samþjappaðari en hefðbundnir línumótorar og hafa jafnframt mun lægri þyngdarpunkt. Þetta leiðir til þess að bílar og mótorhljól með slíka mótortegund liggja mun betur á undirlaginu; eru stöðugari í akstri. Að auki eru gagnstrokka hreyflar breiðari og dýrari í byggingu en línumótorar og eru því síður í bílum, vegna þess hve þeir þvinga hjólhreyfingar að framan. VW Bjalla notaðist við loftkældan fjögurra strokka gagnstrokka hreyfil, en hann var staðsettur „í skottinu“ og hefur því ekki áhrif á beygjuradíus. Sömu sögu er að segja um Porsche 356 og 912. Í eldri og nýrri útgáfum Porsche 911 er notaður 6 strokka gagnstrokka hreyfil, í þeim eldri var hann loftkældur en í nýrri er vatnskæling. Gagnstrokka hreyfill er einnig í öllum bílum af tegundinni Subaru. Flestar einkaflugvélar hafa ýmist fjögurra- eða sex-strokka gagnstrokka hreyfla til að trufla ekki útsýn. Meðferðarheimili. Meðferðarheimili eru stofnanir sem hafa það hlutverk að taka til sín einstaklinga sem eiga við einhverskonar vandamál að stríða, hlúa að þeim, byggja þá upp og koma aftur út í samfélagið. Tilgangurinn er ekki alltaf að einstaklingarnir séu heilbrigðir þegar þeir koma út í samfélagið - þó að það sé auðvitað alltaf markmið, en markmiðið er að einstaklingarnir geti séð um sjálfa sig og geti byggt sjálfa sig upp til að lifa betra lífi. Imperium (skáldsaga). Imperium er söguleg skáldsaga um Cíceró eftir Robert Harris sem var gefin út árið 2006. Sagan er fyrstu persónu frásögn Tíró, ritara Cíceró, sem segir frá ævi hans. Sögunni var útvarpað frá 4. til 15. september 2006 í þættinum "Book at Bedtime" á BBC Radio 4 og var lesin af breska leikaranum Douglas Hodge. Stytt hljóðútgáfa er fáanleg á geisladiskum, Oliver Ford Davies les upp. Óstytt útgáfa er einnig fáanleg á geisladiskum en hún er lesin upp af Simon Jones. Lýsing. Cíceró fær Tíró lánaðan með sér í ferðalag sem ritara og einkaþjón. Eftir að hafa lært í Grikklandi ræðulist og heimspeki ferðast þeir aftur til Ítalíu þar sem Cíceró hefur einsett sér að gerast þingmaður. Til þess giftist hann til fjár og tekur síðan að sér erfitt mál gegn Verres, sem stjórnar Sikiley með harðri hendi, og þaðan af hefst sagan af hans miklu sigurgöngu og afrekum sem stjórnmálamaður. AA-samtökin. AA-samtökin, (e. "Alcoholics Anonymous") oft einfaldlega kölluð "AA", eru óformleg samtök um tveggja milljóna einstaklinga víða um heim sem eru virkir eða óvirkir alkóhólistar. Allir meðlimir samtakana eiga það sameiginlegt að vilja hætta að nota áfengi eða önnur vímuefni. Þessir einstaklingar hittast í hópum í sínu samfélagi og geta hóparnir verið mjög misstórir, allt frá undir tíu einstaklingum til hundraða. Yfirlýst markmið AA-félaga er að halda sér óvirkum og hjálpa öðrum alkóhólistum til að gera það sama. Einnig er mælst til þess að sækja fundi samtakana og fylgja kerfi þess. AA var fyrsta 12-spora kerfið og er fyrirmynd annarra kerfa. Í AA-bókinni er gerður greinarmunur á alkóhólista og drykkjumanni. Drykkjumaðurinn drekkur eins og alkóhólisti, og gæti jafnvel dáið nokkrum árum fyrir sinn tíma (það er flýtt dauða sínum af völdum áfengis). Eini munurinn er að drykkjumaðurinn getur hætt að drekka af sjálfsdáðum, þó hann þiggi hjálp á afvötnunar- eða sjúkrastofnun til að ná heilsu. Alkóhólistinn getur einfaldlega ekki hætt af sjálfsdáðum eða með hjálp frá fagaðilum. Hann mun alltaf drekka aftur. Jan Valentine. Jan Valentine er einn af Valentínusar bræðrunum úr Hellsing seríunni- þeir eru vampírur sem skapaðar voru af Millennium til að ráðast á Hellsing setrið. Verkefni Jan Valentines var að drepa Integru Hellsing. Persónuleiki. Hann er uppreisnargjörn vampíra, með andlitið útgatað og með húfu sem nær að augum. Hann er í afar hversdagslegum fötum, hefur ljótt málfar og það mætti segja að hann sé andstæða Lukes Valentines. Í manganu og OVAinu. Vegna þess hve vel OVAið fylgir manganu er persónuleiki og atriði Jans Valentines mjög lík í þeim. Henn kemur fyrst fram í annarri Hellsing mangabókinni og öðrum Hellsing OVA þættinum ásamt bróður sínum Luke Valentine er þeir ganga að Hellsing setrinu. Þeir leiða her uppvakninga, sem vopnaðir eru rifflum og líkamsskjöldum. Uppvakningarnir skjóta tvo hermenn sem gæta Hellsings og Luke og Jan Valentine ganga einfaldlega inn í setrið. Jan fer upp á þriðju hæð þar sem Integra Hellsing og Riddarar Hringborðsins halda sig, og drepur alla sem á vegi sínum þangað. En þar á þriðju hæðinni hindra Walter C. Dornez og Seras Victoria hann, og drepa flesta uppvakningana. Hann nær hinsvegar að flýja og hleypur að herberginu þar sem Integra er, en þar bíða meðlimir hringborðsins og skjóta hann, en drepa samt ekki. Hann er yfirheyrður af Walteri, en er svo brenndur lifandi af Millennium til að hann kjafti ekki leyndarmálum þeirra. Í þáttunum. Í Hellsing þáttunum, var hann "FREAK", sem eru mannverur sem breytt var í vampírur með hjálpar tölvukubbs, og hafði mikil áhrif í undirheiminum. Vopn. Jan Valentine með P90 byssurnar sínar. Guðmundur Jónsson (forstöðumaður). Guðmundur Jónsson einnig þekktur sem Guðmundur í Byrginu (fæddur 19. nóvember 1958) var forstöðumaður Byrgisins um árabil. Um Guðmund. Guðmundur lauk gagnfræðaprófi frá Víghólaskóla, og prófum í múrverki og kjötiðnaði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað við múrverk og kjötiðnað, en einnig sem kokkur. Hann var dæmdur í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands þann 9. maí árið 2008. Í byrjun desember mildaði Hæstiréttur Íslands dóminn í 2 og hálft ár og voru bæturnar sem konum þeim sem hann hafði brotið gegn lækkaðar. Ferdinand Tönnies. Ferdinand Tönnies (26. júlí 1855 – 9. apríl 1936) var þýskur hagfræðingur og félagsvísindamaður. Ferdinand var brautryðjandi á sviði félagsvísinda. Hann var einn af stofnendum Þýska félagsfræðifélagsins og var forseti þess á árunum 1909-33. Tengill. Tönnies, Ferdinand Tönnies, Ferdinand Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían. Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían (skammstafað ÍKSA) er fyrirtæki í eigu Félags kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélagsins SÍK og Samtaka kvikmyndaleikstjóra, stofnað árið 1999 sem vettvangur hagsmunasamtaka kvikmyndagerðarfólks og sjónvarpsfólks á Íslandi. Fyrirtækið veitir árlega Edduverðlaunin fyrir kvikmyndagerð og dagskrárgerð í sjónvarpi. Fyrirtækið hefur einnig staðið fyrir Stuttmyndahátíð ÍKSA og heldur úti vefritinu og tímaritinu. Íslensku tónlistarverðlaunin. Íslensku tónlistarverðlaunin eru tónlistarverðlaun sem veitt eru árlega af samtökum Samtónn sem eru samtök rétthafa tónlistar á Íslandi stofnuð árið 2002. Fyrst voru verðlaunin veitt fyrir árið 1993 á vegum rokkdeildar FÍH. Verðlaunin eru yfirleitt veitt fljótlega eftir áramót fyrir nýliðið ár. Kúlomb. Kúlomb (franska "Coulomb") er SI-eining rafhleðslu, táknuð með C. Nefnd eftir franska eðlisfræðingnum Charles-Augustin de Coulomb (1736-1806). Er sú rafhleðsla, sem rafstraumurinn eitt amper flytur á einni sekúndu. (1 C = 1 A s.) Amper. Amper (franska "Ampère") er SI grunneining rafstraums, táknuð með A. Einingin er nefnd eftir franska eðlisfræðingnum André-Marie Ampère (1775-1836). Eitt amper er sá rafstraumur sem jafngildir flutningi á rafhleðslunni einu kúlombi á hverri sekúndu, þ.e. 1 A = 1 C/s. Amper er skilgreint sem "sá rafstraumur sem þarf í tveimur löngum og grönnum, samsíða leiðurum til að mynda kraftinn 2x10-7 njúton á milli leiðaranna á hvern lengdarmetra þeirra". Íslensku tónlistarverðlaunin 1993. Íslensku tónlistarverðlaunin 1993 voru fyrsta afhending Íslensku tónlistarverðlaunanna sem stofnað var til af rokkdeild FÍH. Verðlaunin voru veitt á Hótel Sögu í apríl árið 1994. Tilnefningar og handhafar verðlauna. Handhafar verðlauna í hverjum flokki eru feitletraðir. Ohm. Ohm eða óm er SI-eining rafmótstöðu (rafviðnáms), táknuð með Ω, nefnd eftir þýska eðlisfræðingnum George Ohm (1789-1854). Er sú rafmótstaða sem veldur spennufallinu einu volti þegar rafstraumurinn er eitt amper. (1 Ω = 1 V/A.) Amperstund. Amperstund er mælieining fyrir rafhleðslu, táknuð með Ah, einkum notuð sem mælikvarði á endingu rafhlaða og rafgeyma. T.d. ætti raflaða, sem gefin væri upp sem "1 mAh" að geta gefið rafstrauminn 1 mA í eina klukkustund. Uppgefinn fjöldi amperstunda rafhlöðu er þó ekki fullkomið mat á endingu rafhlöðu vegna innra viðnáms rafhlaða, sem fer hækkandi eftir því sem hleðsla hennar minnkar. En meðan álagsviðnám sem tengt er við rafhlöðuna er töluvert stærra en innraviðnám hennar (sem er oftast tilfellið miðað við venjuleg not) gefur fjöldi amperstunda rafhlöðu ansi nákvæma hugmynd um endingu hennar. Amperstund jafngildir 3600 kúlombum, þ.e. 1 Ah = 3600 C (En kúlomb jafngildir einmitt einni Ampersekúndu (1 As)). Amperstund er ekki SI-mælieining. Algengt er að fjöldi amperstunda hleðslurafhlaða sé gefinn upp en sjaldgæft fyrir einnota rafhlöður. Menningarverðlaun DV. Menningarverðlaun DV eru íslensk menningarverðlaun sem veitt eru í nokkrum flokkum árlega. Verðlaunin voru fyrst veitt af Dagblaðinu árið 1979 og hétu þá Menningarverðlaun Dagblaðsins en eftir sameiningu Dagblaðsins og Vísis árið 1981 "Menningarverðlaun DV". Grei. Grei (enska "Gray") er SI-mælieining fyrir geislaskammt, táknuð með Gy. Nefnd eftir breskum eðlisfræðingi, Louis Harold Gray (1905-1965). Jafngildir einingunni júl á kílógramm, þ.e. 1 Gy = 1 J/kg. Sívert. Sívert (sænska "Sievert") er SI-mælieining fyrir geislaálag, táknuð með Sv. Nefnd eftir sænskum eðlisfræðingi Rolf Maximilian Sievert (1896-1986). Jafngildir einingunni júl á kílógramm (J/kg), sem nefnist grei þegar mældur er geislaskammtur. Bekerel. Bekerel (franska "Becquerel") er SI-mælieining fyrir geislavirkni, táknuð með Bq. Nefnd eftir frönskum eðlisfræðingi og nóbelsverðlaunahafa Henri Becquerel. Eitt bekerel er sú geislavirkni sem samsvarar einni kjarnabreytingu á hverri sekúndu og því gildir að 1 Bq = 1 s-1. Norðurseta. Norðurseta hefur sennilega verið á því svæði sem kortið sýnir Norðurseta (sem einnig hefur verið stafað Norðursetur) var mikilvægasta veiðisvæði Grænlendinga hinna fornu. Það er óljóst hvar nákvæmlega þetta svæði var en sennilegast hefur það verið frá núverandi Sisimiut norður yfir Diskóflóa allt að Upernavik á vesturströnd Grænlands. Frá Eystribyggð voru um 1000 km til Norðursetu og um 600 km frá Vestribyggð. Á og við Diskóflóa hafa í þúsundir ára verið bestu veiðistaðir á vesturströnd Grænlands, þar er enn helsta aðsetur rostunga og einnig ísbjarna. Heimildir. Fjölmargar heimildir nefna þetta veiðisvæði, meðal annars er sagt í Grænlandsannál í Hauks bók að: „Allir stórbændur á Grænlandi höfðu skip stór ok skútur bygðar til að senda í Norðursetu til að afla veiðiskap.“ Veiðimenn voru sennilega sendir norður í veiðar seinnipart sumars og fram á haust. Hinir svo nefndu Norðursetumenn höfðu viðlegu víða á svæðinu, meðal annars í Greipum þar sem nú er Sisimiut og Króksfjarðarheiði þar sem nú er Vaigat. Eina örugga örnefnið er skaginn og fjallgarðurinn Eysunes (einnig skrifað Eisunes) (eisa: að spúa eldi) sem er það sem nú heitir Nuussuaq. Þar er svo mikil olía í berginu að það kviknar iðulega í við skriðuföll. Veiði. Selir voru veiddir í Norðursetu en sérlega sóttust veiðimenn þar eftir eftir rostungum ("Odobenus rosmarus"), náhvölum ("Monodon monoceros") og ísbjörnum ("Ursus maritimus"). Rostungstennur voru mikil verðmæti, þær voru seldar til erlendra kaupmanna í heilu lagi og heimamenn gerðu úr þeim margvíslega gripi. Rostungshúðin var skorin í langar lengjur og úr þeim gerð gífurlega sterk svarðreipi sem einnig voru flutt út. Náhvalstennur þóttu miklar gersemar enda héldu Evrópumenn að þær kæmu úr einhyrningum og hefðu mikla dulkynngi. Ísbjarnarfeldir voru einnig mjög eftirsóttir og þóttu verðug konungsgjöf. Á nokkrum stöðum er minnst á að lifandi ísbirnir hafi verið fluttir frá Grænlandi en það hljóta að hafa verið húnar og þeir sennilega ekki veiddir í Norðursetu. Fornminjar. Fáar fornminjar hafa fundist um viðurveru norrænna manna í Norðursetu og hafa þeir sennilegast hafst við í tjöldum og flutt sig eftir veiðihorfum. En nyrst á Nuussuaq-skaga, um 150 km norðan við Ilulissat, er að finna nyrsta mannvirki sem með vissu má tengja við Norðursetumenn en það er mikið steinhús. Ekki er vitað með vissu til hvers þetta hús var notað en ein sennileg skýring er að þar hafi Norðursetumenn safnað húðum og tönnum meðan á vertíð stóð. Inuítar kölluðu þessar rústir „Bjarnargildruna“ og er hún þekkt í alþjóðaritum undir danska nafninu „Bjørnefælden“. Enn norðar, þar sem nú heitir Kingittorsuaq norðvestur af Upernavik, fannst 1823 lítill rúnasteinn með áletruninni: „Erlingr Sighvats sonr ok Bjarni Þórðar sonr ok Eindriði Odds sonr laugardagin fyrir gagndag hlóðu varða þe[ssa] ok......“. Þar hafa verið Norðursetumenn langt norðan við venjulegar veiðislóðir, samkvæmt rúnasérfræðingum sennilega í lok 13. aldar. Norðursetumenn og skrælingjar. Allt bendir til þess að norrænir menn hafi hafið veiðiferðir til Norðursetu fljótlega eftir landnám. Þá var samkvæmt því sem fornleifafræðingar helst vita allt þetta svæði óbyggt enda eru skrælingjar hvergi nefndir í samband við Grænland í elstu heimildum. Hins vegar bjuggu þá enn svo nefndir Dorset-menn í kring um Smith-sund nyrst á Grænlandi. Þar sem sagt er frá í elstu heimildum um skrælingja á Grænlandi, í ritinu "Historia Norvegiae" (sem sennilega var skráð í upphafi 12. aldar), er sennilegast átt við Dorset-menn. Þeir hverfa hins vegar af sjónarsviðinu fljótlega en í upphafi 13. aldar hefja Thule-inuítar landnám á Grænlandi. Þeir hafa sennilega verið farnir að venja komur sínar til Norðursetu um miðja öldina og hafa þá hitt fyrir Norðursetumenn á sumarvertíðum. Með öllu er óvíst hvernig þau samskipt voru. Hugsanlegt er að fljótlega hafi komist á skiptiverslun en engar heimildir eru til um það. Íslensku leiklistarverðlaunin. Íslensku leiklistarverðlaunin eða Gríman eru íslensk leiklistarverðlaun sem veitt eru árlega af Leiklistarsambandi Íslands. Verðlaunin voru fyrst veitt sumarið 2003. Silfurlampinn. Silfurlampinn voru íslensk leiklistarverðlaun sem veitt voru árlega af félagi leikdómara á dagblöðunum í Reykjavík frá 1954 til 1973. Kingittorsuaq steinninn. Kinggittorsuaq steinninn er rúnasteinn sem fannst árið 1823 á eyjunni Kingittorsuaq norðvestur af Upernavik (nákvæm staðsetning er 72°51′N 55°29′V). Rúnasteinninn lá í vörðu og er lítill leirsteinn um 11,2 cm á lengd. ok enriþi * os son: laukardak*in: fyrir * gakndag hloþu * ua=rda te * ok rydu: ?????? Ljósmynd af Kingittorsuaq rúnasteininum "Erlingr Sighvats sonr ok Bjarni Þórðar sonr ok Eindriði Odds sonr laugardagin fyrir gagndag hlóðu varða þe[ssa] ok......" Síðan fylgja nokkrar rúnir sem ekki er hægt að þýða og gætu verið töfrarúnir. "Erlingur Sighvatsson og Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson hlóðu vörðu þessa laugardaginn fyrir gangdag" Ekki er auðvelt að tímasetja þennan rúnastein en samkvæmt rúnasérfræðingum hefur hann sennilega verið gerður í lok 13. aldar. Gangdagur. Gangdagur var í kaþólskum sið upphaflega haldinn heilagur 25. apríl. Hið latneska heiti dagsins var og er: "Rogate" (Biðjið). En frá 9. öld var hann bundinn við fimmta sunnudag eftir páska. Nafn sunnudagsins Rogate tengist hinum gamla sið að ganga bænagöngu um akrana eða umhverfis þá og biðja fyrir góðri uppskeru. Gangan hófst sunnudaginn og hélt áfram næstu þrjá daga. Í þýðingum var tekið mið af göngunni en ekki bæninni og er því kallaðir gangdagar í íslenskum textum, en "dies rogationes" ("dagar fyrirspurna" eða "bænadagur") á latínu. Þegar gangdagar enda kemur uppstigningardagur. Annað hvort hafa þeir Erlingur, Bjarni og Indriði verið snemma á ferð í Norðursetu eða þá að þeir hafa haft þar vetursetu. Ef þeir hafa komið frá Eystribyggð hafa þeir ferðast um 1600 km, eða um það bil jafn langt og siglingaleiðin frá Reykjavík til Stavangurs í Noregi og landleiðin frá Kaupmannahöfn til Napólí á Ítalíu. Íslensku tónlistarverðlaunin 2006. Íslensku tónlistarverðlaunin 2006 voru afhending íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2006. Þau voru veitt í Borgarleikhúsinu 31. janúar 2007 og sýnd í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu. Tilnefningar til verðlaunanna voru tilkynntar 7. desember 2006. Aðalkynnir kvöldins var Felix Bergsson. Aðsópsmest á hátíðinni var söngkonan Lay Low með fimm tilnefningar og þrenn verðlaun, þar á meðal sem „söngkona ársins“ og „vinsælasti flytjandi ársins“ sem kosinn var með netkosningu á vísir.is. Ghostigital hlutu verðlaun fyrir „lag ársins“ og fengu auk þess „útrásarverðlan Reykjavíkur Loftbrúar“. Tilnefningar og sigurvegarar. Sigurvegarar eru feitletraðir í hverjum flokki. Dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra er staða innan ríkisstjórnar í nokkrum löndum sem hefur málefni dómstóla og lögreglu með höndum. Í sumum löndum ber dómsmálaráðherra einnig ábyrgð á framkvæmd kosninga. Helgi Tómasson. Dr. Helgi Tómasson (25. september 1896 – 2. ágúst 1958) var yfirlæknir á Kleppsspítala frá 1929 þegar nýtt hús spítalans var tekið í notkun. Hann er faðir Ragnhildar Helgadóttur fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Mikið fjölmiðlamál varð úr deilum hans við Jónas Jónsson frá Hriflu árið 1930 sem fékk nafnið „Stóra bomba“. Helgi fæddist á Vatnseyri við Patreksfjörð. Hann varð stúdent við Menntaskólann í Reykjavík árið 1915. Útskrifaðist síðari sem Cand.med frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1927 sem sérfræðingur í tauga- og geðsjúkdómum. Helgi varð yfirlæknir Keppsspítala í Reykjavík frá 1929 og starfaði þar til æviloka. Hann var auk þess kennari við Háskóla Íslands í geðsjúkdómafræðum frá árinu 1930. Hann var formaður Geðverndarfélags Íslands frá 1949 til æviloka. Og skátahöfðingi Íslands frá 1938 þar til hann lést. KFUM og KFUK. KFUM og KFUK (Kristileg félög ungra manna og kvenna einnig stytt KFUM og K) eru kristin æskulýðssamtök, stofnuð árið 1844 í London af George Williams. Samtökin eru ein þau elstu og útbreiddustu af slíku tagi í heiminum með félög í yfir hundrað löndum. Ísland. KFUM á Íslandi var stofnað í Reykjavík 2. janúar árið 1899 af séra Friðriki Friðrikssyni sem hafði kynnst samtökunum í Kaupmannahöfn. 29. apríl sama ár var KFUK stofnað. Félagið rekur sumarbúðir fyrir börn í Vatnaskógi, Vindáshlíð, Kaldárseli, Ölveri og við Hólavatn. Táragas. Táragas er almennt heiti á ýmsum tegundum eiturgass sem yfirleitt eru ekki lífshættulegar. Ef slíkt gas berst í augu veldur það sviða og táraflóði. Táragas er flokkað sem taugagas og telst þar af leiðandi til efnavopna. Það er oft notað af óeirðalögreglu til að dreifa hópum fólks. Óeirðirnar á Austurvelli 1949. Óeirðirnar á Austurvelli eða Slagurinn á Austurvelli voru óeirðir, sem urðu á Austurvelli miðvikudaginn 30. mars 1949, þegar samþykkt var þingsályktunartillaga um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið - NATÓ. Andstæðingar, stuðningsmenn og almennir borgarar flykktust á Austurvöll til að láta óánægju sína í ljós, en sumir andstæðinganna létu grjóti, eggjum og mold rigna yfir Alþingishúsið. Lögregla ákvað að dreifa mannfjöldanum með því að varpa táragasi á hann. Siglufjörður, 26. júlí, 1959. Táragasi var beitt á Siglufirði þann 26. júlí árið 1959. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins var kallað til lögreglunnar vegna rúðu sem brotin hafði verið á Hótel Borg. Lögreglan var fámenn og réði ekki við mannfjöldan utan við hótelið. Því brá hún á það ráð að notast við táragas. Táragasið barst inn í danssal hússins og greip um sig ofsahræðsla og reiði. Austurvöllur, 22. janúar, 2009. Um klukkan 00:30, aðfaranótt 22. janúar, 2009, skaut lögregla táragasi að mótmælendum við Alþingishúsið. Þá höfðu mótmælendur lagt eld að dyrum Alþingishússins. Prentarafélagið. Prentarafélagið var stéttarfélag prentara á Íslandi sem var stofnað 2. janúar 1887. Félagið var fyrsta stéttarfélagið sem stofnað var á Íslandi. Það lognaðist út af árið 1890. Hið íslenska prentarafélag var síðan stofnað árið 1897 og átti þátt í stofnun Alþýðusambands Íslands árið 1916. Stéttarfélag. Stéttarfélag eða verkalýðsfélag er félagasamtök launþega úr tilteknum starfsstéttum stofnað í þeim tilgangi að halda fram sameiginlegum hagsmunum sem tengjast starfi þeirra. Starf stéttarfélaga snýst þannig að jafnaði um starfstengd málefni eins og laun, starfsöryggi, frítíma, en líka um hluti eins og menntun og starfsheiti þar sem slíkt á við. Stéttarfélög semja um kaup og kjör við atvinnurekendur í kjarasamningum sem þau gera fyrir hönd sinna félaga. Um verkalýðsfélög, hlutverk þeirra starfsemi og stöðu gilda l. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Í 1. gr. þeirra segir: „Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt“. Hvað nákvæmlega felst í þessu ákvæði er ekki útskýrt en í greinargerð með lögunum segir, að um sé að ræða rétt til þess að „… gæta hagsmuna þeirra manna, sem hafa lífsviðurværi sitt af því að selja vinnu sína gegn ákveðnu kaupgjaldi.“ Luna 1. Luna 1 var lítið ómannað geimfar sem var hluti af Luna-geimferðaáætluninni. Það var smíðað í Sovétríkjunum og skotið upp 2. janúar 1959. Það var fyrsta geimfarið sem komst í námunda við Tunglið. Tveimur dögum eftir að því var skotið á loft lenti það á braut um Sólu á milli sporbauga Jarðar og Mars. Friðrik Friðriksson (prestur). Séra Friðrik Friðriksson (25. maí 1868 – 9. mars 1961) var íslenskur prestur sem einkum er minnst fyrir aðild hans að stofnun ýmissa félagasamtaka sem höfðu mikil áhrif á þjóðlífið á Íslandi á 20. öld. Hann kom að stofnun KFUM og KFUK 1899, Knattspyrnufélagsins Vals 1911, Karlakórs KFUM sem síðar varð Karlakórinn Fóstbræður 1911, skátafélagsins Væringja 1913 og Knattspyrnufélagsins Hauka 1931. Stytta af honum eftir Sigurjón Ólafsson stendur við Lækjargötu í Reykjavík. Kastljós (dægurmálaþáttur). Kastljós er íslenskur fréttaskýringaþáttur með menningarlegu ívafi sem er framleiddur af Sjónvarpinu. Fjallað er um stjórnmál og menningu og tekin eru viðtöl við fólk. Umsjónarmenn eru þau Brynja Þorgeirssdóttir, Helgi Seljan, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Margrét Erla Maack og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir. Ritstjóri þáttarins er Sigmar Guðmundsson. Dagskrárgerð annast Egill Eðvarðsson, Sigurður Jakobsson, Steingrímur Dúi Másson og Gaukur Úlfarsson. Aðstoð við dagskrárgerð annast Salóme Þorkelsdóttir, Helga Ólafsdóttir og Valdís Þorkelsdóttir. Þátturinn er á dagskrá fimm kvöld vikunnar, strax á eftir fréttum. Frá mánudegi til fimmtudags eru þættirnir því sem næst 40 mínútna langir en um hálftími á föstudagskvöldum. Virku dagana er Kastljós endursýnt í lok dagskrár en föstudagsþátturinn er endursýndur klukkan 10.25 á laugardagsmorgnum. Lögsókn vegna umfjöllunar. Í apríl og maí 2007 fjallaði Kastljós um umsóknarferli erlendar konu, Luciu Celeste Molina Sierra frá Mið-Ameríku, fyrir íslenskum ríkisborgararétti. Í þættinum kom fram að hún hefði komið til landsins sem námsmaður og hefði dvalið á landinu í 15 mánuði þegar hún sótti um. Undir venjulegum kringumstæðum þarf að vera sjö ár á landinu til þess að vera gjaldgengur til umsóknar um ríkisborgararétt. Þá var tekið fram að hún væri unnusta Birnis Orra Péturssonar, sonar Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra. Ýjað var að því að tengsl þeirra á milli hefði orðið til þess að Lucia fékk samþykkta umsókn um ríkisborgararétt. Í kjölfarið lögsóttu Lucia og Birnir starfsmenn Kastljóss en þeir voru sýknaðir af Héraðsdómi Reykjavíkur. 1. þáttaröð. Þetta er þáttaröðin þar sem Kastljós sendi frá sér yfirlýsingu varðandi fullyrðingu sína að Lucia gæti hafa notið sérréttinda vegna tengsla sinna við Jónínu Bjartmarz. Þáttaröðin er oftast nær með einstök mál í hverjum þætti, auk þess að í flestum tilfellum kemur tónlistarfólk til þess að flytja lag í lok þáttarins. Nýr þáttaliður byrjaði í Kastljósinu þann 7. júlí. Í þáttaliðnum fékk Kastljós til sín aðkomandi, oftast fjölmiðlamenn, til þess að tjá sig um hverjar séu helstu fréttir vikunnar. Sérstakir þættir voru gerðir nærri lok þáttarinnar, Borgarafundir og Leiðtogaumræður. Borgarafundirnir voru haldnir með áhorfendum og þessum sömu áhorfendum bauðst að spyrja stjórnmálaflokkana spurninga. Leiðtogaumræðurnar voru á milli allra flokka sem buðu sig fram í kosningunum 2007. Forsíða/Prufa. __NOEDITSECTION__ Crymogæa. "Crymogæa" er fræðirit eftir Arngrím Jónsson lærða sem gefið var út á latínu í Hamborg 1609 en ritað á tímabilinu 1593–1603. Heiti ritsins merkir „Ísland“ á grísku en einnig er það stundum kallað „Hrímland“. Ritinu var ætlað að leiðrétta hugmyndir útlendinga um Ísland og segir sögu Íslands frá landfundum til síðari hluta 16. aldar. Arngrímur yfirfærði þar hugmyndir úr fornmenntastefnu um forn tungumál á borð við latínu og grísku yfir á íslensku og boðaði málverndarstefnu. Hlutheildun. Hlutheildun eða hluttegrun er stærðfræðileg aðferð við umritun og lausn á heildum, en hún byggir á deildun margfeldis tveggja falla. Umrituninn er svona: formula_1 Til að sanna að þessi regla gildir nægir að deilda hægri hlið jöfnunar. f(x)g(x) deildað er f'(x)g(x) + f(x)g'(x) og þar sem heildun er andhverf aðgerð deildunar fæst: f'(x)g(x) + f(x)g'(x) - f'(x)g(x) = f(x)g'(x) sem er jafnt vinstri hlið jöfnunar þegar hún hefur einnig verið deilduð. Þannig er reglan um hlutheildun sönnuð. Áramótaskaup. Áramótaskaupið einnig þekkt sem Skaupið er árlegur 50 mínútna sjónvarpsþáttur sýndur á Ríkissjónvarpinu, sem fylgdi á eftir áramótaþætti Ríkisútvarpsins þegar Ríkissjónvarpið var stofnað árið 1966. Þátturinn er mikilvægur þáttur í áramótahátíð fyrir flesta Íslendinga þar sem þau setjast niður fyrir framan sjónvarpið klukkan hálf ellefu. Í þættinum er horft á liðið ár með kaldhæðinum og skopsamlegum hætti, sérstaklega stjórnmálamönnum, listamönnum, viðskiptafólki og öðru menningarefni. Áhorf þáttarins er eitt það mesta sem gerist í íslensku sjónvarpi og því mikil pressa á leikstjóra og leikara sem taka þátt í Áramótaskaupinu hvert ár. Auglýsingartími í kring um Áramótaskaupið er dýrasti tími ársins, en um 30 sekúndna auglýsing kostar um 350.000 kr með vsk.. Þættinum lýkur stuttu fyrir miðnætti þannig að þeir Íslendingar sem skjóta upp flugeldum gera það oftast þegar skaupinu er lokið. Arete frá Kýrenu. Arete frá Kýrenu (4. öld f.o.t.) var dóttir Aristipposar frá Kýrenu, lærisveins Sókratesar. Nafn hennar þýðir „dygð“ eða „ágæti“. Hún er stundum talin hafa tekið við af föður sínum sem höfuð skóla Kýreninga en í raun er ekki vitað hvort Aristippos faðir hennar eða dóttursonur hans — sem einnig hét Aristippos frá Kýrenu — stofnaði skólann. Engu að síður kann að vera ástæðulaust að hafna því að Arete hafi sjálf verið heimspekingur. Sonur hennar var kallaður „hinn móðurmenntaði“ (forngríska: μητροδίδακτος), að því er virðist af því að helsti kennari hans í heimspeki hafi verið móðir hans, Arete. Hipparkía. Hipparkía hundingi var forngrískur heimspekingur sem var sögð hafa fæðst 340 f.Kr. Um Hipparkíu er lítið vitað. Einkum eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi tilheyrði hún hreyfingu hundingja sem var fremur óvinsæll skóli í forngrískri heimspeki og í öðru lagi var hún kona en forngrískt samfélag var karlmiðað. Talið er að vegna þessa hafi rit hennar ekki varðveist. Vitneskja okar um Hipparkíu er fengin úr ritum annarra heimspekinga. Hipparkía var gift öðrum heimspekingi, hundingjannum Kratesi og lifði lífinu líkt og aðrir hundingjar. Hundingjar stunduðu meinlætalifnað og kærðu sig lítt um ríkjandi hefðir og venjur. Flestir hundingjar kærðu sig því lítið um hjónaband yfirleitt vegna þess að þeir höfnuðu gildum eigin samfélags til þess að geta orðið borgarar alls heimsins. En hjónaband Hipparkíu og Kratesar er hægt að sjá sem uppreisn gegn félagslegum venjum hundingjanna sjálfra. Hipparkía var einnig hispurslaus líkt og aðrir hundingjar. Samkvæmt Ágústínusi kirkjuföður voru þau Hipparkía og Krates sögð hafa verið svo ósiðvönd að þau fullkomnuðu hjónaband sitt með því að hafa mök á almannafæri. Áramótaskaup 2006. "Áramótaskaupið 2006" var frumsýnt 31. desember 2006 klukkan 22:30 á Ríkissjónvarpinu. Á undan Áramótaskaupinu birtist líka í fyrsta skipti ein af hinum þremur frægu auglýsingum Kaupþings með John Cleese í aðalhlutverki. Tafir á heimasíðunni. Vegna gríðarlegrar ásóknar Íslendinga, sem staðsettir eru erlendis, í að horfa á áramótaskaupið í beinni útsendingu á www.ruv.is var Áramótaskaupið gert aðgengilegt á vefnum í þrjá sólarhringa eftir sýningu þess. Kvikmynda og sjónvarpsumfjöllunarefni. Planet of the Apes, South Park, Strákarnir, Rockstar, Spaugstofan, He-Man and the Masters of the Universe, Litla hafmeyjan, Spiderman, Splash TV, Star Wars, James Bond, Tekinn, Kastljós. Annað umfjöllunarefni. Fuglaflensan, Kárahnjúkastífla, Bubbi, Keflavíkurherinn, Herra Ísland, Pólskir innflytjendur, Bobby Fischer, Vísitala neysluverðs, Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, Sigur Rós, Ómar Ragnarsson, Magni, Brynja Björk, Nylon, Icelandair, Britney Spears, Hannes Smárason, Hannes Snorrason, Baugsmálið, Jón Sigurðsson, Geir H. Haarde, Árni Johnsen, Íslendingar, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Eyþór Arnalds, Gísli á Uppsölum, Andri Snær Magnason, áhorfendur Áramótaskaupsins. Lögmál Newtons. 1. lögmál - "Tregða" Allir hlutir hafa tregðu og halda því óbreyttum hraða og stefnu nema á þá verki ytri kraftar sem samanlagt eyða ekki hver öðrum. 2. lögmál - "Kraftur og hröðun" Kraftur er jafn tímabreytingu skriðþunga sem jafngildir margfeldi massa og hröðunar, þ.e. "F" = "ma". 3. lögmál - "Átak og gagntak" Kraftar koma alltaf fyrir í pörum. Ef hlutur A verkar á hlut B með krafti (átaki) verkar hlutur B einnig með krafti á hlut A (gagntaki). Átak og gagntak hafa sömu stærð en öfuga stefnu. Þessi lögmál gilda almennt fyrir stórsæja hluti en afstæðiskenningin sýndi að aðlögunar er þörf fyrir smásæja hluti á hraða sem nálgast ljóshraða. Herbert von Karajan. Herbert von Karajan (fæddur 5. apríl 1908 í Salzburg, dáinn 16. júlí 1989 í Anif, rétt utan við Salzburg) var austurrískur hljómsveitarstjóri og óperustjórnandi af grískum ættum (rétt nafn hans var Karajannis). Karajan var ein áhrifamesta persóna í lærðri tónlist vesturlanda á 20. öld og er án efa einhver frægasti hljómsveitarstjóri sögunnar. Hann var meðal annars aðalhljómsveitarstjóri Berlínarfílharmóníunnar í marga áratugi. Karajan, Herbert von Claudio Abbado. Claudio Abbado (fæddur 26. júní 1933 í Mílanó) er ítalskur hljómsveitarstjóri. Á ferli sínum hefur hann verið listrænn stjórnandi Scala-Óperunnar í Mílanó og Wiener Staatsoper. Árið 1989 varð hann aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitar Berlínar en lét af störfum þar 2002 af heilsufarsástæðum. Simon Rattle. Sir Simon Denis Rattle (fæddur 19. janúar 1955) er enskur hljómsveitarstjóri. Hann hófst til metorða sem aðalhljómsveitarstjóri sinfóníuhljómsveitarinnar í Birmingham en er nú aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitar Berlínar. Rattle, Simon Röð (stærðfræði). Við segjum að röð formula_15 sé alsamleitin ef að formula_16 er samleitin. Veldaraðir er mikilvægar raðir, sem eru samleitinar innan "samleitnigeisla" raðanna, en þær eru m.a. er notaðar til að skilgreina fáguð föll eins og hornaföllin. Wii fjarstýring. Wii fjarstýringin (oftast kölluð Wii Remote eða Wiimote) er aðal fjarstýring leikjatölvunnar Wii. Það sem er sérstakt við Wii fjarstýringuna er hreyfiskynjunin, sem leyfir leikmanninum að hreyfa sig og miða á skjáinn og gerir leikjaframleiðendum kleift að búa til leiki sem þeir hefðu annars ekki getað gert. Wii fjarstýringin var kynnt árið 2005 á Tokyo Game Show þann 17. september og hefur síðan fengið mikla athygli útaf hreyfiskynjunninni og mismuninn miðað við venjulegu fjarstýringarnar. Maður getur keypt fjarstýringuna sér eða borgað aðeins meira og keypt hana í pakka með Wii Play- sem er leikur sem á að hjálpa leikmönnum að kynnast Wii fjarstýringunni. Virtual Console (Wii). Virtual Console, skammstafað "VC", er tölvuleikjanetþjónusta frá Nintendo fyrir Wii leikjatölvuna. Satoru Iwata lýsir þessu sem tölvuleikjaútgáfu af iTunes Store frá Apple, þjónustan býður uppá leiki frá gömlum Nintendo leikjatölvum (NES, SNES og N64) og leikjatölvum gefnar út á sama tíma af öðrum fyrirtækjum, Genesis og TurboGrafx-16 Útgildi. Útgildi er hugtak í stærðfræði sem á við "stærsta stak" (hágildi) eða "minnsta stak" (lággildi) mengis. Útgildi eru einnig notuð í fallafræði við rannsóknir á ferlum. Leit að útgildum er mikið hagnýtt í hagfræði, viðskiptum og iðnaði, þar sem menn leitast við að hámarka nýtni hráefnis, lágmarka kostnað og hámarka hagkvæmni með einhverjum hætti og nefnist þá bestun. Útggildi í fallafræði. Við leit að útgildum deildanlegra falla er notast við þá reglu að ef fyrsta afleiða fallsins, "f'(x0)", verður núll í tilteknum punkti x0, þ.e. "f'(x0)=0", þá hefur fallið staðbundið útgildi í punktinum, að því gefnu að önnur afleiða fallsins breyti ekki um formerki í punktinum. Sem dæmi þá er topppunktur fleygboga jafnframt útgildi fallsins, sem lýsir fleygboganum. Grettis saga. Grettir er tilbúinn að berjast Grettis saga fjallar um Gretti Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði, sem kallaður var Grettir sterki. Sagan er ein af þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunum. Í sögunni er greint frá æsku og uppvexti Grettis, brekum hans og óláni, sem olli því að hann varð útlagi og þvældist um allt Ísland. Margir ofsóttu hann en einnig urðu margir til þess að hjálpa honum. Endalok Grettis urðu í Drangey í Skagafirði, en þar var hann loks drepinn. Grettir er kynntur til sögunnar í 14. kafla en áður segir sagan frá forfeðrum hans, einkum þó Önundi tréfæti Ófeigssyni, langafa Grettis, sem var einn þeirra sem börðust við Harald hárfagra í Hafursfjarðarorrustu og missti þar annan fót sinn en fór síðar til Suðureyja og þaðan til Íslands. Hans er getið í Landnámabók sem landnámsmanns við Kaldbaksvík á Ströndum. Í síðasta hluta Grettis sögu segir frá Þorsteini drómundi, eldri hálfbróður Grettis, veru hans í Miklagarði, þar sem hann var í liði Væringja og hefndi Grettis með því að drepa Þorbjörn öngul, og síðan frá ástum hans og hefðarkonu sem Spes hét. Kallast sá hluti sögunnar Spesar þáttur. Grettisfærsla. Grettisfærsla er horfið kvæði í Grettis sögu. Eftir að rakin hefur verið viðræða ísfirskra kotkarla um það hver eigi að taka við Gretti, farast sögumanni orð á þessa lund: „Og eftir þessu viðtali þeirra hafa kátir menn sett fræði það er Grettisfærsla hét og aukið þar í kátlegum orðum til gamans mönnum“. Því miður er ekki hægt að gera sér fulla grein fyrir Grettisfærslu, enda var hún skafin af bókfellinu. Þó má sjá að þar hefur verið klám og harla lítill tepruskapur, eins og ráða má af því sem Ólafur Halldórsson hefur skrifað um færsluna, en hann hefur rýnt í skaddað handritið. Wii stöðvar. Wii stöðvarnar eru aðalvalmynd leikjatölvunnar Wii frá Nintendo. Þær eru notaðar til að velja hvað þú ætlir að gera, t.d. spila leik, fara netið, kíkja á veðrið og fleira. Notandinn getur hreyft stöðvarnar til milli plássana 48. Aðalstöðvarnar. Aðalstöðvarnar eru þær sem er í vélinni þegar maður kaupir hana. Disc Channel. Disc Channel leyfir notendum að spila Wii og GameCube leiki. Ef það er Wii leikur í drifinu birtir Disc Channel nafnið á leiknum sem er í tölvunni. Ef það er GameCube leikur sýnir tölvan GameCube merkið og spilar hljóðið úr GameCube þegar hún kveikjir á sér. Aftur á móti getur hún ekki sýnt merkið á leiknum eða aðrar upplýsingar, ólíkt Wii leikjunum. Ef DVD, CD er látinn í tölvuna eða Wii eða GameCube leikur frá öðru landi, sýnir hún þessi skilaboð: "Unable to read the disc. Check the Wii operations Manual for help troubleshooting." Ef enginn diskur er látinn í tölvuna, sýnir hún skilaboðin: "Please insert a disk." Þegar diskur er látinn í, sést mynd með tveim diskum snúast þangað til hún les diskinn, þá hverfur annar diskurinn. Þetta er eina stöðin sem ekki er hægt að færa. Hún er alltaf sýnd efst til vinstri. Mii Channel. Í Mii (borið fram eins og enska persónufornafnið "me") Channel getur maður búið til sýnar eigin Mii persónur og notað í ýmsum leikjum. Maður getir ráðið hvernig höfuðið er í laginu, lit, stærð, gerð og staðsetningu augna, ráðið hárgreiðslu og ýmsu fleira. Það er pláss fyrir alls 100 Mii persónur á eina leikjatölvu. Photo Channel. Ef notandi setur SD kubb í Wii, eða sendir myndir eða myndbönd með tölvupósti, getur maður skoðað það í Photo Channel. Maður getur breytt myndunum og búið til púsl úr þeim. Eftir breytingar getur notandi vistað myndirnar í tölvuna (en ekki á SD kubbinn) og sent myndirnar til einhvers annars Wii eiganda. 100 Bullets (tölvuleikur). 100 Bullets er hasarleikur byggður á DC Comics 100 Bullets teiknimyndasögunni, skrifuð af Brian Azzarelo og teiknuð af Eduardo Risso. Leikurinn verður gefinn út af D3 Publisher og kemur út á Wii, Game Boy Advance, Nintendo DS, Xbox 360, PSP, PC og PlayStation 3. Það er ekki mikið vitað um leikinn því hann er ekki kominn út. Alien Syndrome. Alien Syndrom er skotleikur hannaður af Sega árið 1987. Ný útgáfa leiksins er á dagskrá og verður gefin út á Wii og PSP. Alive (tölvuleikur). Alive er tölvuleikur sem er ekki kominn út og er frá Ubisoft. Eina vísbendingin um sögu leiksins er að hann gerist eftir jarðskjálfta og leikmaðurinn getur ekki lagað hlutinn bara með því að skjóta. Ekki er vitað á hvaða tölvur hann muni koma út á en búist er við því að hann komi á nýjustu leikjatölvurnar (Wii,Xbox 360 og PlayStation 3) The Ant Bully (tölvuleikur). The Ant Bully er tölvuleikur byggður á samnefndri teiknimynd. Það var á dagskrá að gefa hann út árið 2006 af Midway. Leikurinn verður gefinn út á GameCube, PlayStation 2, Game Boy Advance, PC og Wii sem verður líklega verður með öðruvísi stjórnunarmöguleika. Mitsubishi Starion. Mitsubishi Starion er sportbíll sem er í laginu eins og flestar eldri gerðir sportbíla, svo sem Toyota Supra Turbo, Porsche 924 Turbo eða Nissan 200SX. Hann var framleiddur fyrst árið 1982 í Japan þar sem vinsældir Grand Tourer (GT) sportbíla voru að aukast. Mitsubishi brást við með því að búa til þennan sportbíl. Yfirlit. Starion var alltaf talinn venjulegur afturhjóladrifinn bíll með vélina að framan. Margir komu með læst drif og ABS bremsum frá framleiðanda. Sérstakt var við þennan bíl að skottið var aðeins gluggi en margir héldu að það myndi bronta auðveldlega. Svo var ekki. Tvær vélarstærir voru í boði, 2,0 lítra 4G63 og 2,6 lítra G53B. Tveggja lítra vélin var forþjöppuvædd 4ra strokka vél, oftast með millikæli („intercooler“) en það fór eftir týpunúmerum. Sami vélargrunnur og Mitsubishi Lancer Evolution notar. 4G63 vélin var frá 150 hestöflum að 197 hestöflum. 2,6 lítra vélin var einnig forþjöppuvædd 4ra strokka vél sem hafði stundum millikæli líka, en hún var aðeins framleidd fyrir amerískan markað. En þótt vélin hafi verið stærri náði hún aldrei meira en 170-180 hestöflum. Aftur á móti var sterkari kjallari og meira hægt að „tjúna“ 2,6 lítra vélina án mikilla breytinga að innanverðu. Rokk í Reykjavík. "Rokk í Reykjavík" er íslensk kvikmynd frá árinu 1982. Leikstjóri myndarinnar var Friðrik Þór Friðriksson. Beygjuskil. Ferill fallsins "f(x) = x3" hefur beygjuskil í punktinum (0,0). Beygjuskil (einnig hverfipunktur, sjá samheiti innan stærðfræðinnar') nefnist sá punktur á ferli falls þar sem sveigja ferils breytist. Nánar tiltekið þá er talað um að ferill tvídeildanlegs falls hafi beygjuskil í tilteknum punkti þegar önnur afleiða fallsins er núll og hún breytir jafnframt um formerki í punktinum. Ef fyrsta afleiða fallsins er einnig núll í þessum punkti þá er hann nefndur láréttur beygjuskilapunktur eða stallur. Fyrsta afleiða falls lýsir halla ferlisins, en önnur afleiða sveigju. Ef fyrsta afleiðan er vaxandi á tilteknu bili, þá er önnur afleiðan jákvæð og ferillinn sveigir upp á við. Hins vegar ef fyrsta afleiðan er minnkandi, þá er önnur afleiðan neikvæð og ferillinn sveigir niður á við. Beygjuskil falls eru þar sem "f"(x0) = 0" svo fremi sem fallið er tvídeildanlegt í grennd um "x0". Því hefur fallið "f(x) = x3" (sýnt á mynd) beygjuskil í punktinum "(0,0)" því "f"(x) = 6x" er núll þegar "x" jafnt og núll. Til þess að kanna hvar hann sveigir upp eða niður athugum við formerki annarrar afleiðu á bilunum]-∞,0] og [0,∞[eða hvort fyrsta afleiðan er vaxandi eða minnkandi á áðurnefndum bilum. Formerki annarrar afleiðu er augljóslega neikvætt á bilinu]-∞,0] og því sveigir ferillinn niður á því bili. Þessu er svo öfugt farið á bilinu [0,∞[. Við sjáum einnig að "f'(0)=0" þannig að "(0,0)" er stallur fyrir fallið "f(x)=x3". Upplýsingin á Íslandi. Upplýsingaöld á Íslandi er tímabil upplýsingarinnar á Íslandi, sem hófst á miðri 18. öld þegar miklum breytingum var hrundið af stað í íslenskum stjórnmálum að frumkvæði Dana auk þess sem framfarir urðu í landbúnaði og garðrækt. Ýmislegt var gert í trú- og fræðslumálum og rannsóknarferðir til landsins voru tíðar. Mörg fræðifélög voru stofnuð og tímarit gefin út, þar á meðal Skírnir, sem Hið íslenska bókmenntafélag sem gaf út. Félagið er enn starfandi og Skírnir er elsta starfandi tímarit á Norðurlöndunum. Klemus Bjarnason. Klemus Bjarnason (um 1645 – 1692) er síðasti Íslendingurinn sem dæmdur var til dauða fyrir galdra. Það var árið 1690, en aftakan fór aldrei fram því Danakonungur sem fáum árum áður hafði gefið út tilskipun um að hann fengi alla dauðadóma til skoðunar breytti dómnum í útlegð frá Íslandi. Galdramál Klemusar hófst á Bassastöðum við Steingrímsfjörð á Ströndum í ágúst 1688 með því að Kolbeinn Jónsson, annar ábúenda á bænum Hrófbergi, lagði fram kæru á hendur honum fyrir að hafa með fjölkynngi og fordæðuskap valdið "stórkostlegri veiki og kvalræðis krankleika“ sem hafði dregið konu hans til dauða. Sýslumaðurinn Rögnvaldur Sigmundsson í Innri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu tók málið fyrir á þriggja hreppa þingi að Hrófbergi í september. Þá hafði bæst við önnur kæra frá hinum ábúendanum á Hrófbergi, Jóni Bjarnasyni, um að Klemus hafi verið valdur að veikindum konu hans Ólafar Bjarnadóttur sem meðal annars áttu að hafa valdið því að hún lagðist í flakk á milli bæja. Klemus hafði áður verið orðaður við galdra og haft á sér illt orð allt frá barnæsku. Aftur var þingað í málinu vorið 1690 og málinu síðan vísað til alþingis. Niðurstaðan á Öxarárþingi varð sú að Klemus „skuli á lífinu straffast og í eldi brennast.“ Sýslumanni var falið að geyma fangann áfram. Hann leitaði álits amtmanns varðandi aftökuna og var skipað að geyma Klemus í ár á meðan amtmaður leitaði álits í Kaupmannahöfn. Þaðan barst svo kóngsbréf árið eftir og var dóminum breytt í ævilanga útlegð. Klemus lést svo úr sótt í Kaupmannahöfn veturinn eftir. Ráðuneyti Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Ráðuneyti Stefáns Jóhanns Stefánssonar var samsteypustjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 4. febrúar 1947 - 6. desember 1949. Stjórnin var einatt kölluð „Stefanía“, eftir forsætisráðherranum Stefáni Jóhanni Stefánssyni, formanni Alþýðuflokksins. Eftir gríðarlegar fjárfestingar og uppbyggingu í lok síðari heimsstyrjaldarinnar varð nánast gjaldeyrisþurrð á Íslandi. Ríkisstjórnin greip því til gríðarlegra innflutningshafta og rak hér um þriggja ára skeið einn róttækasta hafta- og áætlunarbúskap sem sést hefur á Íslandi. Ríkisstjórnin rak eina alræmdastu hagstjórn sem hefur ríkt í landinu. Innganga Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið var samþykkt í stjórnartíð ríkisstjórnarinnar þann 30. mars 1949. Sama dag og innganga Íslands í varnarbandalagið var samþykkt á Alþingi urðu einar mestu óeirðir sem sést hafa á Íslandi. Andstæðingar, stuðningsmenn og almennir borgarar flykktust á Austurvöll til að láta skoðanir sínar í ljósi og létu andstæðingar samningsins grjóti, eggjum og mold rigna yfir Alþingishúsið. Lögregla varpaði í kjölfarið táragasi inn í mannfjöldann. Apocalypse Now. Apocalypse Now er kvikmynd frá árinu 1979 í leikstjórn Francis Ford Coppola. Myndin, sem var lauslega byggð á skáldsögu Josephs Conrad, "Heart of Darkness", gerist í Víetnamstríðinu og segir frá leiðangri Benjamin L. Willard höfuðsmanns í bandaríska hernum í leit að Walter E. Kurtz ofursta. Til að komast að Kurtz þarf Willard að ferðast upp með ánni Nung inn í frumskóga Kambódíu. Þar hefur Kurtz tekið sér stöðu leiðtoga meðal íbúa og hegðar sér, samkvæmt lýsingum sem Willard fær á fundi áður en haldið er af stað, á ómannúðlegan hátt. Hlutverk Willards var leikið af Martin Sheen og Marlon Brando lék Kurtz ofursta. Meðal annarra leikara í myndinni má nefna Robert Duvall, Dennis Hopper og Laurence Fishburne. Francis Ford Coppola hóf vinnu á myndinni þegar hann hafði lokið við að leikstýra hluta 2 af myndunum um Guðföðurinn. Upptaka fór fram á Filipseyjum og átti fyrst um sinn að taka 6 vikur. Framleiðslan dróst hins vegar mjög á langinn og urðu þessar 6 vikur að lokum að 16 mánuðum. Átti Coppola þá, sem fjármagnaði myndina að öllu leyti með eigin fé, á hættu að verða gjaldþrota gengi myndin ekki vel í kvikmyndahúsum. Gerð myndarinnar tók mikið á Coppola, jafnt andlega sem líkamlega. Hann missti um 50 kíló og hótaði hann nokkrum sinnum að fyrirfara sér. Árið 1991 kom út heimildarmynd um gerð Apocalypse Now sem kallaðist Hearts of Darkness: A Filmmaker's Apocalypse. Apocalypse Now var tilnefnd til átta Óskarsverðlauna, meðal annars fyrir bestu mynd og besta leikstjóra, og hlaut tvenn, fyrir bestu kvikmyndatöku og besta hljóð. Pabianice. Pabianice (Þýska: "Pabianitz") er borg í miðhluta Póllands, í Województwo Łódzkie, við fljótið Dobrzynka. Íbúar voru 71 313 árið 2004, flatarmál 32,98 km². Visla. Visla (pólska "Wisła", Latína "Vistula") er fljót í Póllandi. Það rennur 1047 km langa leið. Við fljótið standa margar stórar borgir, svo sem Kraká, Varsjá, Bydgoszcz og Gdańsk. Kynlíf. Kynlíf (eða ástalíf) er sá samlífsþáttur kynjanna sem snýr að æxlunaratferli manna og tengist kynörvun og kynhvötinni. Kynlíf er það þegar tvær manneskjur (kona og karlmaður eða karlmaður og karlmaður eða kona og kona) hafa samfarir eða veita hvort öðru fullnægingu eða kynferðislega örvun með öðrum hætti, svo sem með því að örva kynfæri hvors annars. Þetta er hægt að gera með ýmsum hætti, eins og til dæmis með munnmökum, snertingu og svo framvegis. Einnig geta fleiri en tvær manneskjur tekið þátt í kynlífi og kallast það þá hópkynlíf. „Kynlíf“ með sjálfum sér nefnist sjálfsfróun. Kynlíf tveggja persóna er hægt að stunda í ýmsum stellingum og er það bæði gert til þess að auka nautnina og til þess að fá ekki leið á sömu stellingunni. Frægasta stellingin er trúboðastellingin, en einnig mætti nefna 69, hunda- og skeiðastellinguna. Sumir nota kynlífsleikföng til að krydda og auka ánægju sína af kynlífi. Viss áhætta fylgir því að stunda kynlíf, til dæmis er alltaf möguleiki að smitast af kynsjúkdómi við samfarir. Sumir þeirra eru ólæknandi. Einnig er hætta á getnaði ef ekki eru notaðar getnaðavarnir eins og til dæmis getnaðarvarnarpilla, hetta, lykkja, smokkur og svo framvegis. Smokkurinn dregur verulega úr líkum á hvoru tveggja getnaði og kynsjúkdómum, en aðrar getnaðarvarnir verja fólk ekki gegn smitsjúkdómum. Talið er að smokkar geti varið gegn kynsjúkdómum í 98% tilvika. Smokkur. Mynd af smokki sem fjarlægður hefur verið úr umbúðunum. smokk fullu vals á typpið Smokkur er getnaðarvörn úr gúmmí sem er notuð er á getnaðarliminn við samfarir til varnar óléttu og kynsjúkdómum og veitir u.þ.b. 99% vörn gegn smiti og getnaði. Margar gerðir smokka eru til, t.d. smokkar með ertinöbbum, ertirifflum og/eða bragðtegundum. Hvati. Efnahvatar eru efni sem hjálpa til við efnahvörf með því að lækka orkuþröskuldinn sem þarf til þess að efnahvörf geti átt sér stað. Efnahvörf geta átt sér stað bæði þegar meiri orka kemur inn í kerfi eða þegar orka losnar úr kerfi. Markgildi. Markgildi er grundvallarhugtak í stærðfræðigreiningu. Hugtakið kemur gjarnan fyrst við sögu í menntaskóla þegar innleiða á deildun raungildra falla af einni breytistærð. Þá er sá skilningur lagður í orðið að fall hafi markgildi "M" í ákveðnum punkti "a" ef hægt er að hugsa sér að þegar breytistærðin "x" nálgast punktinn "a" þá nálgist fallgildið "M". Hugmyndin um markgildi er svo notuð til þess að skilgreina samfelldni og afleiður. Markgildi kemur fyrir í ýmsu samhengi innan stærðfræðinnar, svo sem geta vigurgild föll af mörgum breytistærðum, runur og raðir öll haft markgildi. Almennasta skilgreining hugtaksins kemur úr grannfræði. Skilgreining markgildis. Þegar fjarlægð x er minni en δ frá c er fjarlægð "f"(x) frá L minni en ε. Skilgreining á markgildi raungildra falla af einni breytistærð. ef fyrir sérhvert ε>0 er til δ>0 svoleiðis að |"f"(x) - L|<ε fyrir öll x þannig að 0<|x-c|<δ. Vert er að taka fram að "f"(c) þarf ekki að vera skilgreint. Þessi skilgreining nefnist epsilon-delta skilgreining á markgildi og er sú formlega skilgreining sem Karl Weierstrass setti fram á 19. öld. Skilgreining á markgildi runa. Runa an er sögð hafa markgildi L, táknað an→L ef fyrir sérhvert ε>0 er til N svoleiðis að fyrir öll n>N gildir að |an - L|<ε. Runa sem hefur markgildi er sögð vera samleitin en annars ósamleitin. Með sambærilegum hætti má skilgreina markgildi runu í firðrúmi: Runa an er sögð hafa markgildi L, táknað an→L ef fyrir sérhvert ε>0 er til N svoleiðis að fyrir öll n>N gildir að ρ(an,L)firð í gefnum firðrúmi. Þetta mætti orða sem svo að gera megi fjarlægðina á milli an og L svo litla sem vera skal með því að velja nægilega stórt N. Einföld dæmi um markgildi raungildra falla. Táknmálið þýðir að þegar "x" nálgast töluna "2" þá stefnir fallgildið "f"("x") = 2"x" á töluna "4". Markgildið er því 4 í þessu tilfelli. Hins vegar hefur sama fall ekki markgildi þegar x stefnir á "1". Schengen-samstarfið. Schengen samstarfið er samstarf Evrópuríkja á sviði landamæraeftirlits og löggæslu sem byggir á Schengensamningnum. Markmið samstarfsins er að auðvelda ferðir fólks innan Schengensvæðisins með því að afnema persónueftirlit (vegabréfaskoðun) á innri landamærum þess en styrkja jafnframt eftirlitið á sameiginlegum ytri landamærum svæðisins. Schengenríkin hafa einnig samræmt þær reglur sem gilda um vegabréfsáritanir þannig að áritun gefin út í einu aðildarríki gildir í þeim öllum. Hinn meginþáttur samstarfsins felst í aukinni lögreglusamvinnu ríkjanna til þess að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Til þess var Schengen upplýsingakerfið sett á fót en lögregla í öllum aðildarríkjum hefur aðgang að því og geymir það upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga, framsalsbeiðnir o.s.frv. Alls hafa 28 Evrópuríki skrifað undir Schengensamninginn, það eru öll aðildarríki Evrópusambandsins, fyrir utan Bretland og Írland, og Noregur, Ísland og Sviss að auki. Hinsvegar hefur samningurinn ekki tekið gildi ennþá nema í 15 ríkjum, hann hefur ekki tekið gildi í nýju ESB ríkjunum sem gengu í sambandið 2004 og 2007 og Sviss. Norðurlöndin fimm hafa átt með sér álíka samstarf, Norræna vegabréfasambandið, um afnám vegabréfsskoðunar vegna ferða milli þeirra síðan 1954. Það var ekki síst til þess að varðveita það sem Noregur og Ísland afréðu að taka þátt í Schengen með hinum Norðurlöndunum þrátt fyrir að vera ekki í ESB. Upphaflegi Schengensamningurinn var undirritaður af fimm ríkjum (Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Lúxemborg og Þýskalandi) 14. júní 1985 um borð í skipi á ánni Mósel rétt hjá þorpinu Schengen í Lúxemborg. Samstarfið var upphaflega óháð Evrópusambandinu og fór þá sérstök framkvæmdanefnd með völdin innan þess en árið 1999 var Schengensamstarfið fellt undir stofnanir ESB og tók þá ráðherraráðið við þeim völdum sem framkvæmdanefndin hafði áður. Þetta þýðir að þau Schengenríki sem ekki eru í ESB (Noregur, Ísland og Sviss) hafa engin formleg völd þegar ákvarðanir eru teknar sem varða samstarfið og hafa í raun aðeins kost á því að taka upp þær reglubreytingar sem því fylgja eða segja sig úr því ella. Rafgreining. Rafgreining (einnig kallað rafsundrun og sjaldnar rafleysing ) er það ferli þegar notað er rafmagn til að skilja að efni. Star Wars. Star Wars er almennt heiti yfir sex myndir eftir George Lucas. Fyrsta myndin, "Star Wars", kom út 15. maí 1977, og fékk síðar nafnið "Star Wars: A New Hope" (ísl. "Ný von") og naut hún mikilla vinsælda. Á eftir henni komu tvær framhaldsmyndir, "The Empire Strikes Back" (1980) og "Return of the Jedi" (1983). Sextán árum síðar var gerð forsaga í þremur myndum, ' (1999), ' (2002) og ' (2005). Mikið af bókum, myndasögum, tölvuleikjum og hreyfimyndum hefur verið gert, sem flokkast allt undir svokallað Star Wars Expanded Universe. "Star Wars" heimurinn. "Star Wars" myndirnar gerast á vetrarbraut; allar "Star Wars" myndir (og langflestur annar "Star Wars" skáldskapur) byrjar á setningunni "A long time ago in a galaxy far far away". Margar plánetur í þessari vetrarbraut eru í eign Galactic Repbulic (ísk. "Vetrarbrautarlýðveldi"), sem varð síðar "Galactic Empire". Þeir öflugustu í "Star Wars" eru Jedi og Sith. Þeir hafa mesta valdið yfir mættinum, og nota yfirleitt geislasverð. Máttur þessi gefur handhafa sínum vald til þess að m.a. ýta og toga hlutum án snertingar við þá; "Jedi" nota hann yfirleitt á góðan hátt og til að verja sig, en "Sith" nota hann hinsvegar á verri hátt, t.d. til að kyrkja og gefa frá sér eldingar. "Jedi" og "Sith" eru frá sama mannlega kynþætti*, en aðrir kynþættir eru m.a. Wookiee (ísk. "Vákar"), Ewok, Duros, Hutt (t.d. hinn alræmdi Jabba the Hutt), Mandalorian, Rodian, og Twi'lek. Upprunalegu myndirnar. Upprunalegu "Star Wars" myndirnar eru sex talsins. Sú fyrsta, "Star Wars", kom út árið 1977. Árið 1981 var myndin endurútgefin sem "Star Wars Episode IV: A New Hope", sem passar betur inn í nafnakerfi seinni myndanna. Önnur myndin, The Empire Strikes Back, kom út árið 1980. Árið 1983 kom þriðja myndin, Return of the Jedi, út. Aðalpersónan í þessum þremur myndum var Luke Skywalker, leikinn af Mark Hammill. Aðrar persónur voru m.a. Han Solo, leikinn af Harrison Ford, Princess Leia, leikin af Carrie Fisher og Svarthöfði (Darth Vader) Árið 1997 kom út sérstök safnaraútgáfa á VHS með fyrstu þremur myndunum (IV, V og VI). Þar var búið að bæta myndgæðin með tölvutækni, t.d. voru dýrin þrívíddarmódel í staðinnn fyrir leikbrúður. Einnig voru ný atriði, og auk þess aukaefni með viðtölum og stuttmyndum um tæknileg atriði, eins og að yfirborð "Death Star" hafi verið búið til úr borðtennisborðum og handahófsvöldu dóti. Svo kom myndin út árið 2008. Árin 1999-2005 komu þrjár "Star Wars" myndir út. Þær mynduðu saman forsögu hinna myndanna þriggja. Þessar myndir eru "Star Wars I: The Phantom Menace" (1999), "Star Wars II: Attack of the Clones" (2002) og "Star Wars III: Revenge of the Sith" (2005). Árið 2012 keypti Disney LucasArts, af George Lucas, höfundi "Star Wars". Áætlað er að mynd númer sjö komi út árið 2015. Tónlistin í myndunum er mjög fræg, en hún er eftir John Williams. Söguþráður. "Star Wars" myndir I, II og III fjalla um Anakin Skywalker sem Qui-Gonn Jinn finnur sem ungan strák á plánetunni Tatooine; Qui-Gonn trúir að Anakin muni veita mættinum jafnvegi og hjálpar honum að flýja þrældóm. Jedi ráðið ("Jedi Council") spáir því að endalok lífs Anakins verði eyðilögð af ótta og hatri, en leyfir þó Obi-Wan Kenobi, lærlingi Qui-Gonn, að vernda og þjálfa Anakin, eftir að Darth Maul drepur Qui-Gonn í enda "Episode I: Phantom of Menace". Á sama tíma er plánetan Naboo, stjórnað af drottningunni Padmé Amidala, undir árás, og Jedi eru beðnir að hjálpa við ástandið. Árás þessi var í raun leyniáætlun Darth Sidious, til að Palpatine þingmaðurinn (sem var hann sjálfur) gæti yfirtekið Kanslara "Galatic Republic". Myndir II og III fjalla um Anakin sem fellur smám saman að illu hlið máttarins. Í mynd II berst hann í Klónastríðunum, sem eins og fyrr voru hluti af áætlun Palpatine, til að laða Anakin að hinni illu hlið máttarins. Anakin verður ástfanginn af Padmé, og þau giftast í leyni. Í mynd III dreymir Anakin draum þar sem hann sér Padmé deyja í barnsnauð. Hann leitar hjálpar og finnur Darth Sidious (Palpatine) í geislasverðsbardaga við Mace Windu, þar sem hann drepur Windu og verður vinur Sidious. Anakin breytir svo nafni sínu í Darth Vader (ísl. "Svarthöfði"), Sidious sannfærir hann um að hann geti bjargað Padmé. En í enda myndar III sker Obi-Wan Kenobi Anakin með geislasverði í bardaga; á sama tíma deyr Padmé við að fæða Luke Skywalker og Leia Skywalker. Mynd IV, A New Hope, byrjar 19 árum seinna þar sem Darth Vader er langt kominn í byggingu "Death Star", geimskip sem getur eyðilagt plánetu með einu öflugu geislaskoti. Þetta geimskip myndi svo útrýma "Rebel Alliance", sem var skapað í andstöðu við "Galatic Empire". Darth Vader hefur rænt Leia Skywalker, sem hefur stolið leyniáætlum árásarinnar keisara Palpatine. "Clone Wars". Árið 2008 kom út teiknimyndin "Star Wars: The Clone Wars". Einnig eru til samnefndir þættir. Aðrar myndir. Nokkrar aðrar "Star Wars" myndir myndir hafa komið út. Þar má nefna "The Star Wars Holiday Special", tveggja tíma jólamynd sem var aðeins sýnd einu sinni í sjónvarpi og aldrei gefin út. Myndin fékk afar slæma dóma hjá gagnrýnendum og öðrum aðdáendum "Star Wars". Einnig hafa komið út myndirnar "Caravan of Courage: An Ewok Adventure" (1984), "Ewoks: The Battle for Endor" (1985), "The Great Heep" (1986) og "Lego Star Wars: The Quest for R2-D2" (2009). Tölvuleikir. Fjöldamargir "Star Wars" tölvuleikir hafa verið gefnir út í gegnum tíðina. Sá fyrsti, "The Empire Strikes Back", kom út árið 1982 fyrir Atari 2600 leikjatölvuna, og síðan þá hafa rúmlega 100 "Star Wars" tölvuleikir verið gefnir út. Má þar nefna "The Old Republic" seríuna, "Jedi Knight" seríuna og "The Force Unleashed" seríuna. Þjóðviljinn (1936-1992). Þjóðviljinn var dagblað sem kom út fyrst sem málgagn Kommúnistaflokksins, síðan Sósíalistaflokksins og loks Alþýðubandalagsins frá 1936 til 1992. Dreifibréfsmálið. Vorið 1941 lét stjórn breska hernámsliðsins á Íslandi stöðva útgáfu Þjóðviljans og voru forsprakkar blaðsins fluttir í fangelsi til Bretlands. Sakargiftir þeirra voru áróður gegn Bretum. Meðan á útgáfubanni Þjóðviljans stóð var gefið út blaðið "Nýtt dagblað" í hans stað. Listi yfir grunnskóla á Íslandi. Heimild. Grunnskólar * Kwidzyn. Kwidzyn (Þýska: "Marienwerder") er borg í Póllandi í Województwo Pomorskie, við fljótið Liwa. Flatarmál Kwidzyns er 21,82 km2; Íbúar voru 40 008 árið 2004. Iður (mengjafræði). Iður eða innmengi er mengi allra staka tiltekins mengis "S" sem ekki tilheyra jaðri mengisins, táknað með Int("S"), int("S") eða "S"o. Er skv. skilgreiningu opið mengi. Sammengi iðurs og jaðars mengis nefnist lokun mengis. Atorka Group. Atorka Group er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í alþjóðlegum fjárfestingum í öðrum fyrirtækjum. Æðey. Horft af Snæfjallaströnd til Æðeyjar. Æðey er stærsta eyja Ísafjarðardjúps, skammt undan Snæfjallaströnd. Hún dregur nafn sitt af góðu æðarvarpi sem þar er að finna. Eyjan er láglend, hæsti punktur í 34 metra hæð, en nokkuð hólótt. Eyjan er algróin og er þar mikið fuglalíf. Í Æðey var eitt sinn kirkja og síðar bænhús. Hún tilheyrir í dag Unaðsdalssókn en tilheyrði áður Snæfjallasókn og var þjónað þaðan. Í eynni er góð lending og var þar viðkomustaður djúpbátsins. Þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1946. Aðrar eyjur í Ísafjarðardjúpi eru Vigur og Borgarey og er Borgarey minnst og innst. Málgreining. Málgreining er svið innan tölvunarfræði og málfræði sem snýst um samskipti tölvu og manns með (eðlilegu) tungumáli. Upphaflega var málgreining grein innan gervigreindarfræði. Leitin að Rajeev. "Leitin að Rajeev" er heimildarmynd eftir Birtu Fróðadóttur og Rúnar Rúnarsson þar sem þau fara til Indlands í leit að æskuvin Birtu, Rajeev Unnithan. Gotar. Vestgotneskur helgigripur frá 7. öld. Gotar voru austgermanskur þjóðflokkur sem voru partur af öldu þjóðflutninga seint í fornöld, sem stuðluðu að falli Rómaveldis. Gotar urðu að tveimur mismunandi þjóðum, Austgotum og Vestgotum, sem stofnuðu tvö mismunandi konungsríki eftir fall Rómaveldis, Austgotar á Ítalíuskaganum og Vestgotar á Íberíuskaganum. Uppruni. Talið er Gotar að hafi upprunalega verið frá Svíþjóð (sbr. Gotland). Á seinni hluta 2. aldar fluttust þeir suður yfir Eystrasaltið og urðu að lokum tvær þjóðir; Austgotar sem settust að í vesturhluta Úkraínu og Vestgotar sem settust að þar sem Rúmenía er nú. Á fjórðu öldinni áttu Gotar í samskiptum við Rómverja og snerust í kjölfarið til kristinnar trúar, aðallega fyrir tilstuðlan rómverskra trúboða. Seint á 4. öldinni hófust árásir Húna, sem komu frá steppum Mið-Asíu, á aðra germanska þjóðflokka sem höfðu í för með sér að öldu þjóðflutninga. Vestgotar fluttust suður fyrir Dóná inn á rómverskt landsvæði og fengu leyfi Valens rómarkeisara, árið 375, til þess að setjast þar að. Fljótlega skarst þó í odda milli Gotanna og Rómverja og þeir börðust í orrustunni við Adríanópel, árið 378, þar sem Vestgotar unnu stórsigur og Valens féll. Næsta rómarkeisara, Theodosiusi 1., tókst þó að ná tökum á ástandinu um tíma og gerði Vestgotana að bandamönnum ("foederati"). Alaric 1., konungur Vestgota, leiddi þá engu að síður í uppreisn gegn Rómverjum sem leiddi til þess að þeir réðust á Róm, og hertóku og rændu borgina, árið 410. Austgotarnir fylgdu á eftir Vestgotunum og fluttust suður yfir Dóná árið 453. Þegar vera þeirra þar ógnaði yfirráðum Austrómverska ríkisins á Balkanskaga, gerði keisarinn Zenon, Theodoric, konung Austgotanna, að bandamanni sínum og sendi hann, ásamt þjóð sinni, til Ítalíu. Konungsríki Austgota. Theodoric réðist inn á Ítalíuskagann árið 488 og barðist þar við germanska herforingjann Odoacer, sem hafði náð völdum þegar hann neyddi Romulus Augustus, síðasta vestrómverska keisarann, til að segja af sér. Árið 493 samdi Theodoric við Odoacer um að þeir myndu sameiginlega stjórna Ítalíu, en í veislu sem haldin var til að fagna samkomulaginu, myrti Theodoric Odoacer. Theodoric gerði Ravenna að höfuðborg ríkis síns og ríkti sem konungur á Ítalíu til dauðadags árið 526. Valdatíð hans var að mestu farsæl og hann ríkti í sátt við keisara Austrómverska ríkisins, sem og aðra germanska konunga í Vestur-Evrópu. Eftir dag Theodorics tók valdakerfi hans þó að veikjast og út brutust átök um völdin. Justinianus, keisari Austrómverska ríkisins á árunum 527 til 565, var mjög herskár gagnvart Germönum í Vestur-Evrópu og stefndi að því að leggja undir sig öll landsvæði sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Árið 535 hertók Belisarius, helsti herforingi Austrómverja, Sikiley og réðist svo árið eftir inn á meginland Ítalíu. Stærstur hluti konungsríkis Austgotanna hafði fallið í hendur Austrómverja árið 540 en undir konungunum Witigis og Totila tókst þeim þó að veita andspyrnu allt til ársins 552 þegar Austrómverjar unnu loks fullnaðarsigur. Eftir þessa ósigra má segja að Austgotneska þjóðin hafi horfið af sjónarsviðinu, margir voru hnepptir í þrældóm af Austrómverjum en aðrir samlöguðust þeim íbúum Ítalíu sem fyrir höfðu verið. Konungsríki Vestgota. Eftirmaður Alarics 1., Ataulph, giftist systur rómarkeisarans Honoriusar, sem hét Galla Placidia, og gerðist bandamaður hans, að nafninu til. Eftir það settust Vestgotar að í suðvestanverðri Gallíu, innan Rómaveldis, en urðu sjálfstætt konungsríki eftir fall Rómaveldis árið 476. Konungsríkið stækkaði svo til muna eftir að þeir réðust gegn Vandölum, sem bjuggu á Íberíuskaganum, og hröktu þá til Norður-Afríku. Ríki Vestgota náði þá frá Gíbraltarsundi í suðri til Loire árinnar í norðri, með höfuðborg í Toulouse. Árið 507 minnkaði yfirráðasvæði þeirra þó talsvert því Frankar, undir forystu Klovis 1., hröktu þá út úr Gallíu, eftir að hafa sigrað þá í bardaganum við Vouillé. Eftir þetta var ríki þeirra nánast einskorðað við Íberíuskagann. Árið 554 réðust hersveitir Justinianusar á Vestgota á sunnanverðum Spáni. Vestgotanna biðu þó ekki sömu örlög og Austgota því Austrómverjar náðu aðeins tiltölulega litlum svæðum á sitt vald. Undir stjórn konungsins Leovigild unnu Vestgotar svo þessi svæði aftur af Austrómverjum. Leovigild, sem ríkti frá 568 til 586, gerði einnig Toledo að framtíðar-höfuðborg ríkisins. Árið 711 geisuðu átök um völdin í ríkinu sem veiktu innviði þess og það nýttu herir múslima sér, sem réðust inn frá Norður-Afríku. Afleiðingin var sú að konungríki Vestgota hrundi á nokkrum árum og múslimar stofnuðu ríki á Íberíuskaganum, með höfuðborg í Córdoba. Aðeins lítil landræma nyrst á skaganum var áfram í höndum kristinna manna. Þar var stofnað nýtt ríki, Konungsríkið Astúría. Heimildir. Tierney, Brian, "Western Europe in the Middle Ages: 300 – 1475" (McGraw-Hill College, 1999). Njálgur. Njálgur (fræðiheiti: "Enterobius vermicularis") er lítill ormur sem er algengasta sníkjudýr í meltingarvegi manna. Hann er algengastur hjá börnum og er mjög smitandi. Smit. Egg ormsins berast frá endaþarmi út í umhverfið. Þau geta lifað upp undir þrjár vikur við stofuhita. Algengt er að anda þeim að sér með einhverju ryki og kyngja þeim síðan, eða að þau berist í munn með fingrum, en þau hafa límkennt yfirborð. Þegar þau eru komin í þarmana líður ekki á löngu þar til þau klekjast út. Þegar karlnjálgur (um 4 mm að lengd) hefur frjóvgað kvennjálg (um 10 mm að lengd) fer kvennjálgurinn að endaþarmsopi hýsils síns og kemur eggjunum þar fyrir, til þess að þau berist út. Að því loknu drepst kvennjálgurinn. Útbreiðsla. Njálgur er algengastur sníkjudýra í löndum með temprað loftslag. Hann er sjaldgæfur í bleyjubörnum, en u.þ.b. 7% fimm ára barna eru talin vera sýkt af njálgi að jafnaði, og u.þ.b. 15% barna á aldrinum sex til átta ára. Þekkt eru dæmi þar sem svo mikið sem 40% barna í sama bekknum hafa verið sýkt af njálgi. Hann er mun sjaldgæfari hjá fullorðnum. Einkenni. Sumir verða ekki varir við nein einkenni, en margir verða varir við mikinn kláða umhverfis endaþarmsop. Klóri hýsillinn sér í endaþarmsopi geta eggin hæglega fest sig við fingur hans og þannig borist aftur upp í munn. Kláðanum fylgir oftar en ekki roði og eymsl. Það er vel þekkt að eggin klekist út við endaþarmsopið, ormarnir skríði aftur inn í endaþarminn og viðhaldi þannig ástandinu. Einnig er þekkt að þeir komist upp í leggöng kvenna og valdi þar óþægindum. Ormarnir sjást með berum augum, bæði við endaþarmsop og í saur. Eggin eru ógreinanleg með berum augum, en sjást vel í smásjá. Njálgur er sjaldnast hættulegur, en þykir bæði óþægilegur og ógeðfelldur. Meðferð. Sá sem fær njálg þarf að gæta þess vel að bera ekki smit í aðra eða aftur í sjálfan sig. Hann þarf því að standast þá freistingu að klóra sér eða að vera mikið berrassaður. Að öðru leyti er mikið hreinlæti mikilvægast, bæði viðvíkjandi líkamanum og umhverfi manns. Þar eru gæludýr meðtalin, þau fá ekki njálg en geta borið egg í feldinum. Njálgur er yfirleitt drepinn með þar til gerðum lyfjum. Á Íslandi eru skráð tvö lyf sem drepa njálg, Vanquin og Vermox. Vermox er lyfseðilsskylt, en Vanquin ekki. Bæði geta valdið aukaverkunum, en þær eru vægar. Vermox ætti ekki að gefa börnum yngri en tveggja ára eða þunguðum konum. Ráðlegast þykir að allir fjölskyldumeðlimir fari samtímis á kúr með þessum lyfjum, til að smit lifi örugglega ekki í neinum þeirra. Bandýfélag Kópavogs. Bandýfélag Kópavogs er eitt stærsta bandýfélag Íslands, með um 20 skráða meðlimi. Félagið hefur verið til frá haustinu 2003, en var formlega stofnað í mars 2006. Félagið hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari í bandý, árin 2008 og 2010. Bandýfélag Kópavogs er eina liðið á Íslandi sem hefur tekið þátt í opinberri keppni erlendis, en það tók þátt í undankeppni Evrópumóts félagsliða í Danmörku í ágúst 2008. Drift. Drift er hliðarhreyfing báts undan vindi. Drift hefur, líkt og rek sem stafar af straumum, þau áhrif að breyta stefnu skips og þarf því að reikna með henni þegar stefna er tekin og bæta hana reglulega upp. Sveifarás. Sveifarás (rauður) knúinn af stimplum (gráir) og snýr kasthjóli (svart) Sveifarás er ás í brunahreyfli, knúinn af aflslagi stimpla, sem sér um að koma afli frá stimplum til kasthjóls (svinghjóls). Hann sér einnig um að snúa kambási, vatnsdælu, rafal og stundum viftu, loftkælingu og forþjöppu. Sveifarás er gegnumboraður (holur að innan) og liggur í legum úr hvítmálmi sem þurfa stöðuga smurningu. Smurolía kemst að þeim í gegnum göt á sveifarási. Excite Truck. Excite Truck er tölvuleikur fyrir nýju leikjatölvuna frá Nintendo, Wii. Leikurinn er einnig gefinn út af Nintendo og er jeppaleikur sem kom út 16. febrúar. Í leiknum getur maður sett inn manns eigins tónlist og spilað í leiknum. Tony Hawk's Downhill Jam. Tony Hawk's Downhill Jam er tölvuleikur sem var hannaður fyrir Nintendo Wii. GT Pro Series. GT Pro Series er bílaleikur. Með þessum leik fylgir Wii stýrið og því er hallað til að stýra Tónlistarstefna. Tónlistarstefna er orð sem haft er um margbreytilegar afurðir tónlistarmanna. Oft er flókið að flokka tónlist því að ósjaldan er mörgum stílum blandað saman. Það er algengur misskilningur að „popp“ sé sérstök tónlistarstefna en það er dregið af enska orðinu „popular“, og má þannig segja að allar þær tónlistarstefnur sem eru vinsælar á hverjum tíma á sínu svæði séu „popp“. Kjósarannáll. Kjósarannáll er íslenskur annáll sem nær yfir tímabilið frá 1471 til 1685. Framsókn (tímarit). Framsókn var íslenskt tímarit helgað kvenréttindamálum sem kom út frá 8. janúar 1895 til desember 1901. Útgefendur og ritstjórar voru Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaftadóttir og kom blaðið út mánaðarlega á Seyðisfirði til 1899 þegar þær seldu það til Jarþrúðar Ólafsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur sem gáfu það út í Reykjavík til 1901. Birgir Ísleifur Gunnarsson (seðlabankastjóri). Birgir Ísleifur Gunnarsson (fæddur í Reykjavík 19. júlí 1936) er íslenskur lögfræðingur og fyrrum seðlabankastjóri. Foreldrar hans eru Gunnar Espólín Benediktsson (f. 30. júní 1891, d. 13. febrúar 1955) hæstaréttarlögmaður og Jórunn Ísleifsdóttir (f. 2. október 1910) húsmóðir. Birgir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1961. Hann starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 1961 – 1963 og rak eigin lögmannsstofu í Reykjavík árin 1963 – 1972. Hann gegndi embætti borgarstjóra Reykjavíkur frá desember 1972 til maí 1978 og hefur auk þess unnið ýmis störf í stjórnmálum frá maí 1978 til desember 1979. Þann 8. júlí 1987 var hann skipaður menntamálaráðherra en hætti störfum 28. september 1988. Birgir var bankastjóri Seðlabanka Íslands árin 1991 til 2005. Magnús Magnússon. Magnús Magnússon (f. í Reykjavík 12. október 1929 - 7. janúar 2007) var frægur sjónvarpsmaður í Bretlandi sem þekktastur varð fyrir að gegna hlutverki spyrils í þættinum Mastermind á BBC í 25 ár. Magnús fluttist 9 mánaða gamall með foreldrum sínum, Sigursteini Magnússyni og Ingibjörgu Sigurðardóttur, til Edinborgar í Skotlandi þar sem faðir hans gegndi starfi yfirmanns SÍS í Evrópu auk þess að vera ræðismaður Íslands í Edinborg. Magnús bjó í Skotlandi nær alla ævina en var þó ávallt íslenskur ríkisborgari. Heimspeki samtímans. Samtímaheimspeki eða heimspeki samtímans er hugtak sem er notað til þess að vísa til þeirrar orðræðu í heimspeki sem er efst á baugi í samtímanum, til lifandi heimspekinga og þeirra sem hafa látist á undanförnum þremur áratugum. Heimspeki samtímans er stundum skipt í rökgreiningarheimspeki annars vegar og meginlandsheimspeki hins vegar (eða rökgreiningar- og meginlandshefðirnar). Skrækskaði. Skrækskaði (fræðiheiti: "Garrulus glandarius") er smávaxinn hröfnungur. Blágrýti. Blágrýti er tegund basalts, grátt með bláan blæ. Það er dulkornótt svo kristallar sjást ekki greinilega. Það er algengasta gosberg jarðarinnar. Hadda Padda. Hadda Padda er kvikmynd frá 1924 byggð á samnefndu leikriti Guðmundar Kamban. Kvikmyndin segir frá Hrafnhildi (leikin af Clöru Pontoppidan) sem er kölluð Hadda Padda. Leikstjórar voru Gunnar Robert Hansen og Guðmundur Kamban. Ísmáfur. Ísmáfur eða ísmávur (fræðiheiti: "Pagophila eburnea") er máfur sem verpir á íshafi Norður-Ameríku, Asíu og á Grænlandi. Á Íslandi er ísmáfurinn hins vegar flækingur sem sést hér nær árlega. Rúðuborg. Rúðuborg (eða Rúða) (franska Rouen) er söguleg höfuðborg Normandíhéraðs í Frakklandi og svæðishöfuðborg í Haute-Normadíhéraðinu. Borgin var voldug á miðöldum og þar var Jóhanna af Örk brennd á báli af Englendingum árið 1431. Rúðujarlar eru kenndir við borgina. Í borginni bjuggu rúmlega 500 þúsund manns árið 1999. Jean-Pierre Blanchard. Jean-Pierre Blanchard (fæddur 7. júlí 1753, látinn 7. mars 1809) var franskur uppfinningamaður og frumkvöðull í flugi. Hann flaug fyrst í loftbelg árið 1784 og árið eftir flaug hann yfir Ermarsund, frá Dover á Englandi til Calais í Frakklandi. Alls flaug hann 66 sinnum og 1793 flaug hann yfir Bandaríkin, fyrstur manna. Hann lést í loftbelgsslysi. Ekkja Blanchard, Sophie Blanchard, flaug einnig í loftbelg og lést þegar kviknaði í loftbelg hennar og hann hrapaði til jarðar, árið 1819. Innkirtlakerfi. Kirtlar í körlum og konum. Innkirtlakerfið er líffærakerfi í vefdýrum sem sjá um myndun hormóna sem dreifast um allan líkama og hafa áhrif á starfsemi hans. Innkirtlar eru á víð og dreif um líkaman og gegna þeir mismunandi hlutverkum. Þau stjórna til dæmis þvagmyndun, blóðsykurmagni og líkamsvexti svo eitthvað sé nefnt. Heiladingull. Heiladingull eða dingull er innkirtill sem gengur niður úr undirstúku heilans. Hann er á stærð við baun og um hálft gramm að þyngd. Hann er í raun samsettur úr tveimur kirtlum, taugadinglinum og kirtildinglinum sem heita svo því annar þeirra er úr taugavef en hinn úr kirtilvef. Í taugadinglinum verður til vasópressín (ADH) sem er þvagtemprandi hormón og oxítósín sem er sem örvar fæðingarhríðir. Í kirtildinglinum verða til barkstýrihormón, stýrihormón skjaldkirtils, prólaktín, eggbússtýrihormón, gulbússtýrihormón og vaxtarhormón. Hormón. Hormón, "Vaki" eða" Kirtlavaki" er boðefni sem flytur boð til frumna frá öðrum frumum eða vefjum. Allar fjölfruma lífverur framleiða hormón. Innkirtlakerfið í hryggdýrum framleiðir þau hormón sem líklegast eru hvað þekktust; svo sem estrógen, testósterón og adrenalín. Innkirtlar eru líffæri sem hafa það að aðalstarfi að mynda hormón en í raun framleiða flestar frumur í dýrum hormón af einhverju tagi. Helstu efnagerðir hormóna eru amín, sterar, peptíð og sterólar. ADH - eykur þvagmyndun, minnkar vatnslosun í nýrum. Melatónín - á þátt í stjórnun dægurrythma. Kalsítónín - minnkar kalkmagn í blóði. Kalkhormón - eykur magn kalks í blóði. Insúlín - dregur úr blóðsykursstyrk (sykursýki I er hægt að halda í skefjum með insúlínsprautum). Aldósterón - eykur natríumuppsog í nýrum. Skjaldkirtill. Skjaldkirtill er líffæri sem er hluti af innkirtlakerfinu. Það er H-laga, um 20 grömm að þyngd og staðsett framan á barkanum neðan við barkakýlið. Í skjaldkirtlinum myndast þýróxín úr týrósíni og joði. Þetta hormón örvar efnaskipti, bruna, hjartslátt og öndun. Auk þess stuðlar það að eðlilegum líkamsþroska og á þátt í líkamsvexti, þroskun taugakerfisins og frjósemi. Kalsítónín er annað hormón sem þar myndast og stuðlar að kalkjafnvægi með því að binda kalk í beinum. Glúkagon. Glúkagon er hormón sem er aðalega framleitt í briskirtlinum, slímhúð maga og skeifugarnar. Það eykur magn glúkósa í blóði og ásamt öðrum hormónum, þá aðallega insúlíni, stjórnar það jafnvægi blóðsykursins. Glúkagon losar oftast um næringu til brennslu með því að losa glúkósa úr glýkógenbirgðum lifrinar. Insúlín. Insúlín eða eyjavaki er hormón sem myndast í langerhanseyjum briskirtilsins. Aðalhlutverk þess er að halda blóðsykurmagni í skefjum. Einnig örvar það myndun prótína í lifur og vöðvum, auðveldar upptöku glúkósa og amínósýra í frumum og margt fleira. Sykursýki stafar vegna vöntunar á insúlíni (sykursýki I) eða vandamáli með nýtingu þess (sykurskýki II). Vöðlavík. Vöðlavík eða Vaðlavík er vík norðan Reyðarfjarðar, milli Múla og Gerpis. Í Landnámu segir að Þórir hinn hávi hafi búið í víkinni, en hún hét Krossavík fram á 17. öld. Í Vopnfirðinga og Kristni sögur geta þess að Þorleifur Ásbjarnarson hinn kristni hafi búið í víkinni. Til Vöðlavíkur var ruddur vegur fyrir 1940 sem síðar var lengdur til Viðfjarðar og nýttist áður en Oddsskarðsvegur var byggður. 10. janúar 1994 strandaði skipið Goði í víkinni og bjargaði þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skipverjum. Einn fórst við strandið. Úr víkinni og heiðinni, Vöðlavíkurheiði, eru tveir fjallstindar einna mest áberandi: Snæfugl og Hestshaus. Harvard-háskóli. Harvard-háskóli (enska: "Harvard University") er einkarekinn háskóli í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1636 og er elsti háskólinn þar í landi. Skólinn var nefndur "Harvard College" 13. mars 1639 í höfuðið á John Harvard sem arfleiddi skólann að helmingi eigna sinna og um 400 bókum en þær voru fyrsti vísirinn að bókasafni skólans. Á árunum 1869-1909 umbreytti forseti skólans Charles William Eliot skólanum og gerði hann að nútímalegum rannsóknarháskóla. Eliot innleiddi m.a. valnámskeið, smærri málstofur og inntökupróf. Harvard er ríkasti skóli Bandaríkjanna en sjóðir skólans nema um 29,2 milljörðum Bandaríkjadollara árið 2006. Hundur. Hundur ("canis lupus familiaris") er spendýr í ættbálki rándýra af hundaætt ("canidae") og ættkvísl hunda ("canis"). Hugtakið er notað jafnt um vilt og tamin afbrigði en venjulega ekki um úlfa (sem þó teljast undirtegund sömu dýrategundar). Hundar eru til í fjölda afbrigða og getur verið mikill útlits- og jafnvel skapgerðarmunur frá einu afbrigði til annars. Þeir eru haldnir jafnt sem gæludýr og vinnudýr. Uppruni. Hundar eru afkomendur úlfa sem voru tamdir fyrir um 15.000-100.000 árum síðan. Rannsóknir benda til þess að hundar hafi fyrst verið tamdir í Austur-Asíu, hugsanlega í Kína, fyrir um 100.000 árum síðan og að fyrstu mennirnir sem fóru til Norður-Ameríku hafi haft með sér hunda frá Asíu. Hundar eru því sennilega fyrsta dýrategundin sem mönnum tókst að temja. Rannsóknir benda einnig til þess að síðan hundar voru fyrst tamdir hafi þeir verið tamdir aftur á mismunandi tímum á ólíkum stöðum í heiminum. Þá hafi hundar breiðst út um jörðina með manninum. Þegar menn fóru að stunda akuryrkju og landbúnað fjölgaði hundum mjög auk þess sem eftirspurn varð til eftir hundum með sérhæfðari hæfileika. Þar með hófst ræktun hunda í þeim tilgangi að ná fram þeim eiginleikum sem sóst var eftir. Genarannsóknir benda til þess að hundar séu komnir af einu eða fleiri afbrigðum viltra úlfa ("canis lupus"). Hundar og úlfar ("canis lupus lupus") eiga sameiginlegan forföður og geta eignast saman frjó afkvæmi. Enn fremur er vitað til þess að hundar og úlfar hafi eignast afkvæmi saman án afskipta manna, einkum þar sem viltir úlfar eru á undanhaldi. Rannsóknir hafa enn ekki getað skorið úr um hvort allir hundar eru komnir af sama hópi úlfa eða hvort ólíkir hópar úlfa hafi verið tamdir á ólíkum stöðum í heiminum og á ólíkum tímum. Elstu leifar hunda sem fundist hafa eru tvær höfuðkúpur frá Rússlandi og kjálkabein frá Þýskalandi frá því um 13.000-17.000 árum síðan. Líklegur forfaðir þeirra er stórvaxið afbrigði úlfa sem einkum viðhefst á norðlægum slóðum. Talið er að rekja megi leifar smærri hunda sem fundist hafa í hellum frá miðsteinöld í miðausturlöndum og eru taldar vera um 12.000 ára gamlar til smáxanari úlfa í Suðvestur-Asíu, "Canis lupus Arabs". Myndskreytingar í hellum og bein sem fundist hafa benda til þess að fyrir um 14.000 árum hafi hundar verið haldnir allt frá Norður-Afríku, þvert yfir Evrasíu og til Norður-Ameríku. Hundagrafreitur frá miðsteinöld í Svaerdborg í Danmörku gefur til kynna að í Evrópu hafi hundar verið mikils metnir. Niðurstöður genarannsókna hafa hingað til verið misvísandi. Vilà, Savolainen o.fl. (1997) komust að þeirri niðurstöðu að forfeður hunda hafi aðgreinst frá úlfum fyrir um 75.000 – 135.000 árum síðan. Aftur á móti leiddi rannsókn Savolainen o.fl. (2002) til þeirrar niðurstöðu að „hundar ættu sér allir sameiginlegan uppruna í einu og sama genamenginu“ fyrir um 40.000-15.000 árum síðan í Austur-Asíu. Þróun afbrigða. Ræktun hunda hefur leitt til mikillar fjölbreytni í stærð, útliti og eðlisfari þeirra. Afbrigði hunda eru fjölmörg og yfir 800 eru viðurkennd af hundaræktarfélögum víða um heim. Fjölmargir hundar tilheyra engu viðurkenndu ræktunarafbrigði. Smám saman hafa orðið til nokkrir flokkar afbrigða. Skilgreiningin á hundaafbrigði er nokkuð á reiki. Sum hundaræktarfélög skilgreina afbrigði þannig að til þess að tilheyra afbrigðinu þarf hundurinn að vera afkomandi hunda sem eru 75% af því afbrigði. Skilgreiningar sem þessar skipta máli jafnt fyrir hunda sem haldnir eru sem gæludýr og sýningahunda í hundasýningum. Lítil genamengi geta verið til vandræða í ræktun nýrra afbrigða en hundaræktendur eru æ meðvitaðri um nauðsyn þess að rækta afbrigði hunda upp úr nægilega stóru genamengi en heilsupróf og DNA-rannsóknir geta komið að notum til þess að komast megi hjá óæskilegum afleiðingum ræktunar. Jafnvel hreinræktaðir verðlaunahundar geta átt við heilsufarsvandamál að stríða sem rekja má til innræktunar. Útlit og hegðun hunda af tilteknu afbrigði er að einhverju leyti fyrirsjáanleg en eiginleikar blendinga geta verið ófyrirsjáanlegri. Blendingar eru hundar sem tilheyra ekki einhverju tilteknu afbrigði hunda. En blendingar eru engu síður en hreinræktaðir hundar ákjósanlegir sem gæludýr eða félagar eða vinnuhundar. Vinsældir ólíkra hundaafbrigða. a> er þekktur fyrir stutt trýni mikla húð á andliti. Vinsældir einstakra hundafbrigða eru breytilegar eftir löndum og tímabilum. Labrador sækir hefur til að mynda notið mikilla vinsælda Í Norður-Ameríku og Evrópu. Vinsældir eru einnig breytilegar eftir hlutverki hundsins. Þannig eru rottweiler og dobermann-hundar, bullmastiff og þýskir fjárhundar til dæmis vinsæl og algeng afbrigði varðhunda en aftur á móti eru þýskir fjárhundar eru á hinn bóginn mun algengari blindrahundar en rottweiler, dobermann og bullmastiff-hundar. Labrador sækir og gullinsækir eru einnig vinsælir blindrahundar, þótt upphaflega hafi þeir verið ræktaðir sem veiðihundar, sérhæfðir til þess að sækja bráð. Líkamsgerð. Afbrigði hunda eru fjölbreyttari að stærð, ásýnd og í hegðun en öll önnur tamin dýr. Hundar eru rándýr og hræætur, með beittar tennur og sterka kjálkavöðva sem gerir þeim kleift að halda, rífa og brytja fæðu sína. Enda þótt ræktun hunda hafi breytt mörgum eiginleikum þeirra hafa allir hundar fengið sömu grundvallareinkennin í arf frá forfeðrum sínum, úlfunum. Líkt og mörg önnur rándýr eru hundar vöðvastæltir og hafa hjarta- og æðakerfi sem gerir þeim kleift að bæði ná miklum hraða á spretti og gefur þeim mikið þol. Munur á hundum og úlfum. 200px Tamdir hundar (efri mynd) hafa hlutfallslega smærri höfuðkúpu en viltir úlfar (neðri mynd). Loppur þeirra eru sömuleiðis minni. Höfuðkúpur hunda eru að jafnaði um 20% minni og heilar þeirra um 10% minni en í úlfum af sömu stærð. Tennur hunda eru einnig hlutfallslega minni en í úlfum. Hundar þurfa færri hitaeiningar en viltir ættingjar þeirra. Matarleifar sem þeir hafa fengið frá mönnum allt frá því að þeir voru fyrst tamdir hafa gert að verkum að hundar hafa haft minni þörf fyrir stóra heila og sterka kjálkavöðva. Sumir fræðimenn telja að lafandi eyru sumra hundaafbrigða séu afleiðingar af minnkandi kjálkavöðvum í tömdum hundum. Ólíkt úlfum en líkt og sléttuúlfar hafa hundar svitakirtla á þófum sínum. Loppur þeirra eru minni en loppur úlfa og rófur þeirra hafa tilhneigingu til þess að hringast ólíkt rófum úlfa. Hundar eiga venjulega erfiðara með að læra en viltir úlfar og þurfa meiri leiðbeinslu. Meðal hunda má greina svipaða félagsgerð og hjá úlfum en ekki eins mótaða. Ólíkt úlfum og flestum öðrum hunddýrum selja hundar ekki upp fæðu fyrir ungviðið. Stærð. Stærð hunda er gríðarlega fjölbreytileg eftir afbrigðum. Chihuahua-hundar eru minnsta afbrigðið en þeir verða yfirleitt ekki nema um 15-23 cm á herðakamb og vega um 1-6 kg. Pomeranian-hundar eru annað smávaxið afbrigði en þeir verða um 18-30 cm á herðakamb og um 1-3 kg að þyngd. Aftur á móti verður stóri dani yfir 90 cm á herðakamb og getur vegið allt að 80 kg. St. Bernharðshundur getur orðið allt að 85-90 cm á herðakamb en öllu þyngri en stóri dani eða allt að 135 kg. Sjón. Líkt og flest önnur spendýr hafa hundar tvílitasjón þar sem grunnlitir í sjón þeirra eru tveir. Þetta jafngildir nokkurn veginn litblindu í mönnum sem sjá ekki mun á rauðum og grænum lit. Hundar sem hafa löng trýni hafa víðara sjónsvið en hundar með styttri trýni, en sjón þeirra er líkari sjón manna. Sum afbrigði hunda hafa allt að 270° sjónsvið (sjónsvið manna er 180°). Sjón þeirra er um helmingi næmari en sjón katta. Hundar sjá betur í myrkri en menn. Heyrn. Hundar greina hljóðbylgjur allt niður í 16-20 Hz sem er öllu lægri tíðni en hjá mönnum (eða 20-70 Hz). Hundar geta einnig greint hljóðbylgjur yfir 45 kHz sem er töluvert hærri tíðni en menn geta heyrt (13-20 kHz). Enn fremur eru eyru hunda hreyfanleg sem gerir þeim kleift að greina hvaðan hljóð berast. Átján vöðvar geta snúið og lyft eyra hundsins. AAukinheldur geta hundar greint hljóð í fjórum sinnum meiri fjarlægð en menn. Hundar með sperrt eyru heyra yfirleitt betur en hundar með lafandi eyru. Lyktarskyn. a> eru þekktir fyrir næmt lyktarskyn sitt. Hundar hafa um 220 milljónir lyktnæmar frumur á yfirborðssvæði á stærð við vasaklút (menn hafa 5 milljónir lyktnæmra fruma á svæði á stærð við frímerki). Sum afbrigði hunda hafa verið ræktuð sérstaklega í þeim tilgangi að ná fram auknu lyktarskyni. Þjálfarar leitarhunda halda því fram að ómögulegt sé að kenna hundi að rekja slóð betur en hann gerir af eðlishvöt sinni. Í staðinn er reynt að veta hundinum uppbyggilega hvatningu og fá hann til að einbeita sér að einni lykt og hundsa aðrar sem annars kynnu að vekja áhuga hans. Leitarhundar hafa verið nýttir til þess að leita að týndu fólki, jafnt í snjóflóðum, rústum og annars staðar, sem og að tilteknum hlutum á borð við fíkniefni og sprengiefni. Greind. Hægt er að þjálfa hunda til að leysa ýmis verkefni. Hundar eru færir um að læra að leysa af hendi ýmis verkefni sem menn setja fyrir þá. Þjónusta þeirra er nýtt í björgunarstarfi, löggæslu, við veiðar og þannig mætti lengi telja. Got. Hundar verða yfirleitt kynþroska um 6-12 mánaða gamlir, þótt hundar af sumum stórgerðari afbrigðum verði stundum ekki kynþroska fyrr en um tveggja ára aldur. Tíkur hafa yfirleitt tíðir frá 6-12 mánaða aldri. „Unglingsárin“ eru um 12-15 mánaða aldurinn en eftir það er hundurinn fullorðinn. Ræktun hunda hefur gert þá frjórri en vilta ættingja sína. Þeir fjölga sér oftar og fyrr en viltir úlfar. Hundar halda áfram að fjölga sér fram á háan aldur. Meðgöngutími hunda er yfirleitt um 56-72 dagar. Að jafnaði fæðast sex hvolpar í hverju goti en fjöldi hvolpa getur verið breytilegur eftir afbrigði hundsins. Smærri hundar eiga oft ekki nema einn til fjóra hvolpa í hverju goti en stærri afbrigði allt að tólf hvolpa í goti. Ævilengd. Hundar verða misgamlir eftir afbrigðum en smávaxnari afbrigði hunda hafa tilhneigingu til þess að ná hærri aldri en þau sem eru stórvaxnari. Pomeranian-hundar geta til að mynda náð allt að 15 ára aldri og chihuahua-hundar geta jafnvel orðið eldri. St. Bernharðshundur verður aftur á móti um 9-12 ára og stóri dani sjaldnast eldri en 10 ára og oft ekki nema 8-9 ára. Flestir hundar geta náð um 11-13 ára aldri. Frægir hundar. Frægasti hundur sem nefndur er í Íslendingasögunum er hundur Gunnars á Hlíðarenda, Sámur. Sumir hafa haldið því fram að hann hafi verið írskur úlfhundur.. Annar frægur hundur er Blondi, hundur Adolfs Hitler, sem var einræðisherra í Þýskalandi. Kolmónoxíð. Kolmónoxíð (kolsýrlingur, kolsýringur, koleinoxíð eða koleinildi) er lyktar- og litlaus en eitruð lofttegund, þar sem sameindin er samsett úr einu atómi kolefnis og súrefnis með efnatákn CO. Myndast við bruna í súrefnissnauðu lofti. Eitrunaráhrif kolmónoxíðs stafa af því að það bindst blóðrauða og hindrar þannig eðlilega öndun. Kolmónoxíðeitrun. Kolmónoxíðeitrun eru eitrunaráhrif kolmónoxíðs í blóði. Kolmónoxíð (CO) er litarlaust, bragðlaust og lyktarlaust gas og það veldur engu áreiti og því hóstar maður ekki við innöndun þess eða áttar sig á því. Venjulega binst CO öðru O atómi og er því mest um CO þar sem er takmarkað súrefni. Hægt er að greina kolmónoxíð í andrúmslofti með sérstökum mælitækjum. Svo lítið sem 0,04 % (400 ppm) geta valdið dauða manna. Eitrunaráhrifin stafa af því að kolmónoxíð binst hemóglóbíni í blóði en það losnar margfalt hægar en súrefni eða koltvíoxíð. Það er að segja hemóglóbínið sem venjulega flytur súrefni er fullt af kolmónoxíð, því flyst minna súrefni til vefja líkamans og byrja þeir að skemmast. Mikið magn í blóði getur valdið heilaskemmdun eða leitt til dauða. Kolmónoxíð myndast til dæmis við lausagang bifreiða. Kolmónoxíð er í þeim reyk sem reykingamenn anda að sér en það er venjulega ekki nóg til að valda eitrun. Stundum hafa starfsmenn slökkviliðs látist úr þessari eitrun við störf sín. Fólk hefur framið sjálfsmorð með þessum hætti og enn fremur hafa þau slys orðið að gat hefur komið á þessar pípulagnir í venjulegum bílum og fólk hefur dáið en það er þó afar sjaldgæft. Í mörgum löndum er kolmónoxíðeitrun algengust banvænna eitrana. Það er að segja af þeim sem deya úr eitrunum er þetta sú algengasta. Lifur. Lifur er kirtill sem þjónar margþættum tilgangi meðal dýra sem hana hafa. Í spendýrum er þetta stærsti kirtillinn. Hún vegur um 1,5 kg í mönnum og er staðsett rétt neðan við þind hægra megin í kviðarholi. Aðalstarf hennar er að halda blóðsykurjafnvægi en glýkógenbirgðir líkamans er þar að finna. Hún ýmist myndar glýkógen til geymslu úr einsykrum eða losar einsykrur úr glýkógenbirgðunum. Lifrin sér einnig um að mynda fitu og að brenna hana. Hún myndar einnig gall sem er nauðsynlegt fyrir meltingu fitu. Lifrin myndar margar gerðir prótína og er forðabúr fituleysinna vítamína. Lifrin gegnir einnig lykilhlutverki í losun úrgangsefna með því að gera þau óvirk með einhverjum hætti. Vegna þess hve mikin þátt hún á í hreinsun blóðs, geymslu næringarefna og úrvinnslu er hún afar blóðrík. Inn í hana liggur tvöföld blóðrás, annars vegar lifrarslagæð, sem flytur til hennar blóð frá hjartanu, og hins vegar lifrarportæð, sem flytur blóð frá görnunum. Þessar æðar sameinast í sérstæðum háræðum sem nefnast stokkháræðar og veita blóði inn í lifrina.Lifrin býr til gall sem sem eyðir skaðlegum efnum t.d. lyfjum og vínanda (alkóhól). Nýra. Nýra er baunalaga þveitilíffæri sem sér um losun úrgangsefna á borð við ammóníak. Þar myndast þvag sem skilar sér Oxytósín. Oxytósín (hríðarhormón eða mjaltavaki) er hormón sem myndast í taugadingli spendýra. Það örvar fæðingahríðir og seyti mjólkur þegar geirvörtur eða spenar eru örvuð. Oxytósín losnar einnig við fullnægingu. (Og þegar þú tekur e-pillur) Prólaktín. Prólaktín er hormón sem myndast í kirtildinglinum. Það örvar þroskun brjósta í konum og framleiðslu mjólkur í spendýrum. Það er úr 198 amínósýrum og viðheldur gulbúi í nagdýrum (LH sér um það í öðrum spendýrum). TRH örvar losun prólaktíns en estrógen og dópamín bæla virkni þess. Mangar. Mangar eða mongús (fræðiheiti: "Herpestidae") eru ætt lítilla rándýra sem lifa á flestum stöðum í Afríku, Asíu og við Karabíska hafið. Ættin telur um þrjátíu tegundir sem verða frá 30 að 120 sm að lengd. Mangar lifa aðallega á skordýrum, ánamöðkum, eðlum, slöngum og nagdýrum en þeir leggjast líka á egg og hræ. Sumar tegundir eru þekktar fyrir hæfileika sinn til að drepa eitraðar slöngur eins og gleraugnaslöngu. Á 19. öld voru mangar fluttir til Vestur-Indía og Hawaii til að hafa stjórn á meindýrum eins og rottum og snákum en reyndust brátt gera meiri skaða á dýra- og fuglalífi en meindýrin höfðu áður gert. Flutningur manga til landa eins og Bandaríkjanna og Ástralíu er stranglega bannaður af þessum sökum, en þeir eru sums staðar vinsæl gæludýr og hægt að temja þá upp að vissu marki. Í Dýrheimum ("The Jungle Book") eftir Rudyard Kipling, sem Gísli Guðmundsson þýddi á íslensku, kemur fyrir mangi að nafni Rikki-tikki-tavi. Gísli nefnir í þýðingu sinni tegundina húsmörð (nf. húsmörður). Ávík. Ávík er samheiti notað yfir tvo bæi í Trékyllisvík, Stóru-Ávík og Litlu-Ávík. Á Litlu-Ávík hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1995. Ofan Stóru-Ávík er stór steinn, jarðfastur, úr graníti sem kallast Grásteinn eða Silfursteinn. Er hann talinn hafa borist með hafís frá Grænlandi þegar sjávarstaða var hærri. Annan slíkan stein er að finna á Tjörnesi. Enska öldin. Með Ensku öldinni er átt við þann hluta sögu Íslands sem á oft við alla 15. öldina en nær strangt til tekið frá 1415 til 1475 þegar Englendingar öðrum fremur sigldu til Íslands til að veiða og kaupa skreið og aðra vöru (t.d. vaðmál og brennistein) í skiptum fyrir ensk klæðaefni, mjöl, bjór, vín og fleira. Upphaf. Enska öldin hófst skömmu eftir að Svarti dauði herjaði á landið (1402 til 1404) og siglingar frá Noregi lögðust að mestu leyti af í kjölfarið. Um miðja öldina tóku síðan sléttbyrtir, fjölmastra karkarar við af súðbyrtum, einmastra kuggum. Þetta voru stærri skip og gerðu lengra úthald mögulegt. Englendingar höfðu lengi áður siglt til landsins, einkum til Vestmannaeyja og lagt þar verslunina undir sig svo Skálholtsstaður (sem þá átti eyjarnar) gat lítið að gert. Snemma á öldinni voru eyjarnar því lýstar einkaeign konungs. Einkum var það sókn eftir skreið sem olli því að siglingar Englendinga til Íslands jukust mikið á 15. öld og talið er að um hundrað skip frá mörgum höfnum Englands hafi árlega siglt þangað til veiða. Verslun. Jafnframt veiðunum versluðu Englendingar mikið við Íslendinga og var hlutur Íslandsverslunarinnar um 1% af heildarutanríkisviðskiptum Englands en í Bristol var Íslandsverslunin 3% og í Hull 10% heildarverslunar. Á Íslandi er talið hugsanlegt að verslun hafi lagst af á gömlum verslunarstöðum eins og Gásum í Hörgárdal og Maríuhöfn á Hálsnesi vegna breyttra verslunarhátta á Ensku öldinni. Í stað þeirra komu fiskútflutningshafnir eins og Hafnarfjörður (Straumsvík) og Rif. Samkvæmt ítarlegum tollskýrslum sem varðveist hafa í Englandi kemur fram að það sem skipin fluttu helst til Íslands voru matvæli eins og korn, hunang og smjör, skeifur og ýmsar aðrar járnvörur, svo og ýmiss konar munaðarvörur eins og skartgripir og handtöskur. Auk þess var flutt inn talsvert af bjór og eitthvað af líni og fatnaði en þó hlutfallslega mun minna en til Noregs. Skipin fluttu svo skreið aftur frá Íslandi, svo og brennistein og eitthvað af vaðmáli. Íslendingar í Englandi. Í skrám um útlendinga í Englandi sem varðveist hafa má finna nokkrar upplýsingar um fjölda Íslendinga í Englandi; í skrám frá 1440 eru skráðir 16000 útlendingar í landinu öllu (sú tala er þó talin of há), þar af sex Íslendingar, og fræðimaðurinn dr. Wendy Childs, sem hefur rannsakað þessar skrár, telur að á næstu áratugum hafi gjarna verið 40-50 Íslendingar í Englandi, flestir í Bristol, Hull og London. Árið 1483 voru þó skráðir 48 Íslendingar í Bristol, þar af 46 sveinar (þjónar eða vinnumenn). Skrár frá árunum á undan og eftir hafa ekki varðveist og því er óljóst hvort þessi fjöldi var algjör undantekning. Vitað er að einhverjir Íslendingar voru á skipum sem sigldu frá Bristol til Portúgals og víðar og einn þeirra, Vilhjálmur Yslond eða Willemus Islonde Indigenus, var orðinn kaupmaður og borgari í Bristol 1492 og flutti vefnað til Lissabon. Skreið var mikilvægasta verslunarvara Ensku aldarinnar. Átök við Englendinga. Árið 1427 lagði Danakonungur, Eiríkur af Pommern, Eyrarsundstoll á öll skip sem fóru um Eyrarsund. Þegar skip Hansasambandsins rændu síðan Björgvin í Noregi árið eftir og lögðu staðinn undir sig voru nánast öll tengsl Íslendinga við gamla norska konungdæmið úr sögunni. Eiríkur var mágur Hinriks 5. og reyndi að fá hann til að banna siglingar enskra sjómanna til Íslands, en með litlum árangri. Margvísleg átök milli enskra sjómanna og samherja þeirra á Íslandi (svo sem Jóns Vilhjálmssonar Craxtons, Hólabiskups) og danskra og íslenskra valdsmanna áttu sér stað og í maí 1433 fór hópur Íslendinga og drekkti Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskup í Brúará að undirlagi Englendinga. Eftir þetta fékk Jón Craxton biskupsdæmi í Skálholti og Jón Bloxwich Hóla. Við komu hollenska biskupsins Gozewijns Comhaer til landsins 1435 voru þeir svo hraktir brott. Það var síðan með valdatöku Kristjáns 1. að tókst að koma einhverjum ráðum gegn siglingum Englendinga. 17. júní 1449 gerðu ríkin með sér samning sem gerði Englendingum áfram kleift að sigla til Íslands að fengnu sérstöku leyfi en fólu jafnframt í sér viðurkenningu á yfirráðum dansk-norska ríkisins yfir Norður-Atlantshafi. Enskir sjómenn hlíttu þessu þó ekki og til átaka kom sem meðal annars leiddu til vígs Björns Þorleifssonar hirðstjóra 1467 í Rifi á Snæfellsnesi. Kristján 1. brást við með því að loka Eyrarsundi fyrir enskum skipum (notaði „Eyrarsundslásinn“) og hvatti jafnframt þýska farmenn til að sigla til Íslands. Árið 1473 voru gerðir friðarsamningar milli Englendinga og Dana til tveggja ára. Píningsdómur. Diðrik Píning var gerður að hirðstjóra á Íslandi árið 1478 og var honum var falið að berjast gegn Englendingum, sem seildust æ meira til yfirráða á Íslandi. Hann varð svo aftur hirðstjóri 1490 eða fyrr. Það ár samdi Hans Danakonungur frið við Englendinga snemma árs 1490 og viðurkenndi rétt þeirra til að veiða fisk við Ísland og stunda þar verslun, ef þeir greiddu af þvi gjöld og fengju leyfi hjá konungi. Þessa friðargerð lagði Diðrik Píning fyrir Alþingi um sumarið við litla hrifningu innlendra höfðingja, sem sáu í henni samkeppni um vinnuafl. Þann 1. júlí 1490 var gerð samþykkt sem síðan nefndust Píningsdómur og var í raun ógilding á samkomulagi konungs og Englendinga. Kom þar meðal annars fram að útlendingum væri bönnuð veturseta eins og verið hafði og að landsmenn væru skyldir að vera í vist hjá bændum ef þeir hefðu ekki efni á að reisa sjálfir bú. Þýska öldin. Þegar Hansakaupmönnum tók að fjölga fóru átökin á Íslandi að snúast um einstakar hafnir og áhrif Þjóðverja, einkum frá Hamborg, sem nutu stuðnings konungs, jukust jafnt og þétt á kostnað Englendinga. Þetta leiddi til þess að 16. öldin er stundum kölluð þýska öldin í Íslandssögunni. Siglingar Englendinga til Íslands lögðust þó ekki af og héldust áfram miklar fram á miðja 17. öld. Reykir (Hrútafirði). Reykir í Hrútafirði er skólasetur á Reykjatanga. Þar var stofnaður héraðsskóli, Reykjaskóli, fyrir Vestur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu árið 1930. Þar eru nú skólabúðir og grunnskóli. Á Reykjum hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1997. Eyrarsundslásinn. Eyrarsundslásinn eða Eyrarsundskenningin er kenning sem íslenski sagnfræðingurinn Björn Þorsteinsson setti fram til að útskýra aukinn mátt dansk-norska ríkisins í átökum við Englendinga um yfirráð yfir Norður-Atlantshafi um miðja 15. öld. Samkvæmt kenningunni gátu Danir lokað fyrir aðgang Englendinga að Eystrasalti með því að loka Eyrarsundi („skellt í lás“) og þannig þrýst á um að fá kröfum sínum framgengt um siglingar í Norðurhöfum, einkum til Íslands og Færeyja, en einnig til Norður-Noregs. Fyrsta skipti sem konungur tók það til bragðs að leggja hald á ensk skip í Eyrarsundi fyrir framferði Englendinga á Íslandi var árið 1447. Aldurstakmark (kvikmyndir). Aldurstakmark eru viðmið eða lög um kvikmyndir ætluð til þess að gera áhorfendum ljóst hvers kyns efni á er að líta eða hvaða aldurshóp kvikmyndin hentar ekki. Aldurstakmörk eru gjarnan sett til þess að vernda blygðunarkennd barna eða vara við efni sem talist gæti ógeðfelt, svo sem ef kvikmynd inniheldur ofbeldi og blót. Aldurstakmörk á Íslandi. Kvikmyndahús og vídeóleigur á Íslandi er skylt að fara eftir þeim aldurstakmörkunum sem gefin eru. Saga eftirlits kvikmynda á Íslandi. Árið 1920 hóf Nýja bíó að banna börnum innan sextán ára inngöngu að almennum sýningum og hafa í staðin tvisvar í viku sérstakar barnasýningar með efni sem hæfir þeim betur. Kvikmyndaeftirlit ríkisins var stofnað árið 1932 og starfaði til 1997. Það ár tók Kvikmyndaskoðun við starfseminni og sá um skoðun kvikmynda til ársins 2006. Þá tók SmáÍs við þessari starfssemi. Klipping kvikmynda. Kvikmyndaeftirlit Ríkisins hafði í undantekningum bannað kvikmyndir, og gaf framleiðendum kost á að leggja fram klippta útgáfu af myndinni, og var þá gefin út með hæsta aldurstakmark. Þegar Kvikmyndaskoðun tók við störfum var þessu alfarið hætt og engar myndir hafa verið klipptar eða bannaðar. Skýringar á núgildandi aldurstakmörkum. Skýringar fyrir aldurstakmörkunum gætu verið allt að sex. Þær eru Aldurstakmörk í Bandaríkjunum. Það eru engin lög í Bandaríkjunum um að kvikmyndir þurfi að vera skoðaðar fyrir sýningu. Hins vegar hefur kvikmyndaeftirlit MPAA orðið svo vinsælt að kvikmyndir eiga erfitt með að hljóta vinsældir án skoðunar þess eftirlits. Norska öldin. Norska öldin er heiti sem stundum er notað yfir 14. öldina í sögu Íslands. Heitið var fyrst notað af Birni Þorsteinssyni, sagnfræðingi. Nafngiftin kemur til af því að á öldinni voru tengsl Íslands við Noreg meiri en síðar varð. Útflutningur á skreið til Björgvinjar sem fékk einkaleyfi á henni um miðja öldina, varð til þess að útgerð jókst gríðarlega um allt Ísland og sjávarþorp byggðust upp við helstu hafnir. Skreið tók við af vaðmáli sem helsta útflutningsvara landsins. Að hluta til stafaði þetta af aukinni eftispurn eftir skreið í Noregi, þar sem Hansakaupmenn höfðu lagt undir sig fiskverslunina um allan Norðursjó, frá Englandi til Björgvinjar og austur til Eystrasaltslandanna. Að hluta til stafaði þetta líka af hallærum á Íslandi beggja megin við aldamótin 1300 sem ollu mannfelli í sveitum. Á þessum tíma voru margir norskir valdsmenn áberandi á Íslandi svo sem Auðunn rauði á Hólum og Jón Halldórsson í Skálholti. 8. júlí 1362 drápu Íslendingar norskan hirðstjóra, Smið Andrésson í Grundarbardaga. 1349 barst Svarti dauði til Noregs sem varð til þess að siglingar þaðan til Íslands lögðust af um langt skeið. Veikin barst ekki til Íslands vegna þess að veikar áhafnir náðu ekki að sigla svo langt yfir hafið. Árið 1363 gekk Hákon 5. Noregskonungur að eiga Margréti, dóttur Valdimars atterdag, Danakonungs sem síðar leiddi til stofnunar Kalmarsambandsins, en við það fluttist þungamiðja konungsvalds í Noregi til Danmerkur og tengsl Íslendinga við Noreg minnkuðu mikið. Þegar Hansakaupmenn brenndu Björgvin 1428 eftir að Eiríkur af Pommern hafði bannað þeim verslun þar árið áður, rofnuðu svo þessi tengsl endanlega. Landshöfðingjatímabilið. Landshöfðingjatímabilið er í sögu Íslands tímabilið frá gildistöku Stöðulaganna 1871 til upphafs heimastjórnar 1904. Samkvæmt Stöðulögunum skyldi Íslandi skipaður sérstakur landshöfðingi sem átti að stjórna landinu í umboði danska dómsmálaráðuneytisins. Fyrsti landshöfðinginn var Hilmar Finsen sem var skipaður 1. apríl 1873 og er stundum miðað við það ártal sem upphaf tímabilsins. Sumir höfundar miða svo við það þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá 1874. Landshöfðingjahneykslið. Íslendingar voru ekki allir ánægðir með hinn nýja landshöfðinga og einhverjir skólapiltar tóku sig til 1. apríl 1873 og drógu upp að hún landshöfðingjans dauðan hrafn og festu víða um bæinn upp plaköt sem á stóð „"Niðr með landshöfðingjann!"“. Hilmar Finsen kærði Jón Ólafsson sem ritað hafði um atburðinn í blaði sínu Göngu-Hrólfi og var hann sakfelldur sem varð til þess að Jón þurfti að flýja land seinna um sumarið. Júl. Júl (enska "Joule") er SI-mælieining orku og vinnu, táknuð með J. Nefnd eftir breska eðlisfræðingnum James Prescott Joule (1818-1889). Jafngildir einingunni njútonmetra (Nm), þ.e. 1 J = 1 Nm = 1 kg m2/s2. Kílóvattstund. Kílóvattstund er mælieining fyrir orku, táknuð með kW h, einkum notuð fyrir raforku til heimila og fyrirtækja. Jafngildir 3600 kílójúlum eða 3,6 megajúlum, þ.e. 1 kW h = 3600 kJ = 3,6 MJ. Kílóvattstund er ekki SI-mælieining. Heimastjórnartímabilið. Heimastjórnartímabilið er tímabil í sögu Íslands frá því Íslendingar fengu heimastjórn 1904 með skipan ráðherra Íslands með aðsetur á Íslandi þar til Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með sambandslögunum 1918 þegar Konungsríkið Ísland varð til. Frá 1904 var ríkisstjórn Íslands einungis skipuð einum ráðherra en embætti forsætisráðherra Íslands, auk embætta fjármálaráðherra og atvinnumálaráðherra, varð til með ríkisstjórn Jóns Magnússonar sem tók við völdum 4. janúar 1917 og var fyrsta samsteypustjórnin sem mynduð var á Íslandi. Úrkoma. Úrkoma er í veðurfræði þegar vatn á fljótandi eða föstu form sem fellur til jarðar úr skýjum og telst til veðurs. Föst úrkoma nefnist "snjókoma" eða "ofankoma", en snjór þegar hún hefur náð jörðu. Skúrir eða él falla úr éljaskýjum, súld eða frostúði úr þokuskýjum, en önnur úrkoma ýmist úr grábliku eða regnþykkni. (Flákaský gefa yfirleitt ekki úrkomu, þó stundum megi finna fyrir dropum undir þeim.) Tegund úrkomu er skráð og "úrkomumagn" mælt á mönnuðum veðurathugunarstöðvum, sem Veðurstofa Íslands rekur. Fiskveiðaöld. Fiskveiðaöld er tímabil í sögu Íslands sem nær frá 1300 til 1550. Þorkell Jóhannesson, sagnfræðingur, stakk upp á þessu heiti til aðgreiningar frá því sem hann kallaði landbúnaðaröld og náði frá 930 til 1300. Þetta tímabil, sem Björn Þorsteinsson skipti í norsku öldina, ensku öldina og þýsku öldina eftir helstu viðskiptaþjóðum Íslendinga, einkennist af auknu vægi verslunar og útflutnings sjávarafurða vegna aukinnar eftirspurnar í Norður-Evrópu og samfara því stóraukinni útgerð Íslendinga og vexti verstöðva. Helstu útflutningsvörur á þessu tímabili voru skreið og lýsi, en líka vaðmál, brennisteinn og fálkar. Bússa. Bússa eða síldarbússa var breitt og kubbslegt seglskip sem var notað til netaveiða. Skipið var fjölmastra en með lágum möstrum og aðeins eitt rásegl á hverju til að einfalda seglbúnað. Þannig var hægt að eiga við netin nánast alls staðar við borðstokkinn. Bússur voru venjulega með einu samfelldu þilfari og vistarverur áhafnarinnar neðan þilja. Slík skip voru einkum notuð til síldveiða í Norðursjó á 16. og 17. öld en nafnið er líka stundum notað almennt um breið og stór skip. Húkkorta. Húkkorta (úr ensku: "Hooker" eða hollensku: "Hoeker") var lítið seglskip yfirleitt með tveimur möstrum: stórsiglu með rásegl og messansiglu með latínusegl eða gaffalsegl, en seglbúnaðurinn var mjög mismunandi eftir stöðum. Þær áttu það sameiginlegt að vera með rúnnað stefni og skut og stýri sem náði upp fyrir skutinn og var beitt með stýrissveif. Húkkortur voru notaðar sem lítil vöruflutningaskip við strendur Norður-Evrópu á 18. og 19. öld. Skip Kólumbusar, "Santa Maria", er oft notað sem dæmi um húkkortu fimmtándu og sextándu aldar, enda þótt það skip væri langt frá því að geta talist til bestu skipanna af þeirri gerð og væri heldur lélegur siglari. Hún var þrímastra og aftasta mastrið var með þríhyrnu. Hún var níutíu feta löng, tuttugu feta breið og áhöfnin var 52 menn. Jakt. Norsk jakt full af skreið. Jakt er heiti á ýmsum gerðum af litlum seglskipum sem voru notuð í Norður-Evrópu frá miðöldum og fram á 19. öld. Nafnið er fengið úr hollensku, "jachtschip" og var heiti á litlum herskipum sem eltu uppi sjóræningja í grunnum víkum og flóum. Í Eystrasalti var þetta heiti notað yfir léttar skútur með gaffalsegl og gaffaltopp og bugspjót. Í Noregi var jakt eða jekt heiti á heimasmíðuðum súðbyrtum bátum með laust þilfar og rásegl sem notaðir voru til að flytja skreið alls staðar að úr Noregi á fiskmarkaðinn í Björgvin. Fyrsta þilskipið sem keypt var til Reykjavíkur (árið 1866) var lítil einmastra jakt sem hét "Fanny". Nú til dags er sama orð í ýmsum málum notað yfir það sem á íslensku heitir lystisnekkja. Porsche. Dr. Ing. h.c. F. Porsche AG stundum nefndur Porsche AG eða bara Porsche er þýskur bílaframleiðandi sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu sportbíla. Fyrirtækið var stofnað 1931 af Ferdinand Porsche, verkfræðingnum sem hannaði fyrstu Volkswagen-bifreiðina. Verksmiðja fyrirtækisins er í Zuffenhausen, skammt frá Stuttgart. Helstu módel. "Ath.: feitletruð módel eru þau sem nú eru framleidd." Ole Gunnar Solskjær. Ole Gunnar Solskjaer í Þrándheimi 2011. Ole Gunnar Solskjær (fæddur í 26. febrúar 1973 í Noregi) er þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde. Hann er betur þekktur sem fyrrverandi knattspyrnumaður hjá Manchester United. Áður en hann kom til Englands spilaði hann með 3. deildar liðinu Norwegian Clausenengen F.K. 1994 þaðan fór hann til Molde F.K, sem lék í efstu deild Noregs. Tveimur árum seinna var Alex Ferguson í leit að framherja og ætlaði að næla sér í Alan Shearer þáverandi framherja Blackburn, sem hafnaði boðinu og gekk til liðs við Newcastle, jafnvel þótt Man. Utd hafði boðið honum mun betri samning. Í staðinn ákvað Sir Alex að kaupa Ole Gunnar í staðinn og fékk hann númerið 20. Hann er einnig giftur og á tvö börn. Hann er 179 cm á hæð og er gjarnan kallaður Babyface og Subersub ásamt fleiru. Ole skoraði 31 mark í 42 leikjum fyrir Molde sem sýnir af hverju Ferguson keypti hann á sínum tíma. Hann var ekki lengi að sýna stjóranum og áhorfendum af hverju hann var keyptur þegar hann kom inn á sem varamaður í leik gegn Blackburn leiktíðina 1996/97 því hann var búinn að skora eftir sex mínútur. Þetta tímabil vann United ensku deildina með hjálp Ole sem skoraði 18 mörk á þeirri leiktíð. Eftirminnilegustu atvik á ferlinum hans eru líklega þegar hann skoraði 4 mörk á móti Nottingham Forrest, leikurinn endaði 8-1. Og markið í úrslitum meistaradeildarinnar þegar hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Árið 2001 var Ruud van Nistelrooy keyptur og eftir það fékk Ole ekki mikið að spila en hann hélt áfram sínu gælunafni (super-sub). Árið 2002-03 seldi Ferguson Cole og York og keypti þess í stað D. Forlan. Ferguson skipti um leikplan með því að spila Van Nistelrooy einum upp á topp sem hentaði Man. Utd. vel því liðið vann deildina þetta ár. Sama ár varð „áfall“ í herbúðum Manchester United þegar David Beckham meiddist og þá færði hann Ole út á kannt. Stuttu seinna var David Beckham seldur til Real Madrid og Cristiano Ronaldo keyptur í staðin sem er að gera frábæra hluti upp á síðkastið. Leiktíðina 2003-04 meiddist hann illa á hné og gat ekki spilað nánast alla leiktíðina og þar þá komu inn Alan Smith, David Bellion, og Louis Saha ásamt Wayne Rooney sem var einnig keyptur. 5. desember lék hann leik með varaliðinu gegn Liverpool og svo var honum skipt inná í leik Birminghan-Man.Utd 28. desember Núna fyrir stuttu hefur hann verið heitur fyrir rauðu djöflana. Hann hefur skorað sjö mörk og þar fimm í deildinni. Í mars 2006 samdi hann um tveggja ára samnig sem sýnir virðingu Man. Utd á Ole. Flestir leikmenn sem eru komnir yfir þrítugt fá vanalega bara eins árs samning. 2. september skoraði hann sitt fyrsta alvöru mark fyrir Noreg eftir meiðsli gegn Ungverjum í undankeppni EM 2008 en hann hafði einnig skorað gegn Brasilíu nokkrum vikum síðar. 27. september (2007) lagði hann skóna á hilluna eftir að hafa átt við erfið hnémeiðsli að stríða í nokkur ár. Hann tók við þjálfun norska félagsins Molde í nóvember 2010 og gerði þá að meisturum á fyrsta ári sem þjálfari liðsins. Kirkjugoðaveldi. Kirkjugoðaveldi er tímabil í sögu Íslands sem nær frá stofnun tíundar 1097, sem jók mjög auðæfi og völd biskupsstólanna og kirkna sem heyrðu undir gömlu höfðingjaættirnar, til 1179 þegar Þorlákur helgi Þórhallsson hóf að krefjast sjálfsforræðis fyrir kirkjurnar. Fram að staðamálum fyrri gátu þeir höfðingjar sem áttu kirkjur á jörðum sínum hagnast á tíundinni en með staðamálum áttu þeir á hættu að missa þessa tekjulind. Þorlákur náði þó ekki nema forræði yfir nokkrum kirkjustöðum meðan hann lifði. Við það að eiga ekki lengur óskoruð yfirráð yfir kirkjum urðu yfirráð helstu höfðingjaætta yfir biskupsstólunum enn mikilvægari en áður og átök um þá hluti af átökum Sturlungaaldar. Hveravellir. Hveravellir er jarðhitasvæði í um það bil 650 metra hæð á hálendi Íslands og jafnframt algengur áningarstaður þegar ferðast er um Kjöl. Elstu lýsingar af staðnum eru frá 1752 þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson rituðu um hann í ferðabók sinni. Þeir lýsa hverum og sérstaka athygli þeirra vakti hver sem Eggert kallaði Öskurhól vegna druna og blísturshljóða sem úr honum komu. Mikil og litfögur hverahrúður eru á Hveravöllum. Um 12 tíma reið er frá Mælifelli í Skagafirði á Hveravelli og álíka langt neðan úr byggð á Suðurlandi. Á Hveravöllum bjó Fjalla-Eyvindur og Halla kona hans þegar þau voru í útlegð. Sjást þar ýmsar minjar eftir búsetu þeirra, svo sem rúst af Eyvindarkofa og í hver einu sjást mannvirki sem virðast hafa verið notuð til suðu matvæla. Sæluhús var byggt á Hveravöllum árið 1922 á fornum sæluhúsrústum. Það er úr torfi og grjóti og var endurhlaðið 1994. Ferðafélag Íslands reisti sæluhús á Hveravöllum árið 1938 og er það eitt af fáum sæluhúsum á landinu sem hituð eru með hveravatni. Nýtt hús var reist árið 1980 og nýtast bæði húsin ferðamönnum. Veðurstofa Íslands hóf að reka mannaða veðurathugunarstöð á Hveravöllum árið 1965 og bjó þar fólk allt fram á 21. öld þegar mannaða stöðin var lögð niður og tekin upp sjálfvirkni í staðinn. Sturlungaöld. Sturlungaöld er tímabil í sögu Íslands sem er venjulega talið ná frá 1220 þegar Snorri Sturluson kom út til Íslands frá Noregi og hóf mikla eignasöfnun, til 1262 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála. Tímabilið er kennt við Sturlunga, þá ætt sem var mest áberandi framan af. Það einkenndist af miklum átökum milli helstu höfðingjaætta Íslands um eignir og völd svo sumir höfundar hafa jafnvel gengið svo langt að tala um borgarastyrjöld í því samhengi. Bakgrunnur. Þegar leið á 12. öld fór stöðugleiki og grunnur íslenska samfélagsins, sem byggðist á jafnvægi milli höfðingja, að raskast. Goðorð erfðust og gengu kaupum og sölum og völdin söfnuðust á færri hendur en áður. Þessi þróun hófst í Skagafirði og Árnesþingi og er hugsanlegt að stofnun biskupsstóla í þessum héröðum hafi haft einhver áhrif á það. Segja má að Ísland hafi smátt og smátt orðið samsafn laustengdra borgríkja, þó án skýrra landfræðilegra marka. Bændur og búalið neyddust til að beygja sig undir vald stórbænda, sem seildust eftir æ meiri völdum. Um leið lenti höfðingjum æ oftar saman og átökin urðu víðtækari. Í erjum og orrustum sögualdar höfðu bardagamenn hverju sinni yfirleitt ekki verið nema nokkrir tugir en á Sturlungaöld voru háðar stórorrustur á íslenskan mælikvarða, þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir manna börðust. Ýmiss konar bandalög urðu til og griðrof og svik urðu algeng. Aðdragandi. Sturlungaöld er kennd við Sturlu og afkomendur hans, Sturlunga, sem framan af áttu heimkynni á Vesturlandi, en aðrar helstu ættir Sturlungaaldar voru Haukdælir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Svínfellingar á Austurlandi og Ásbirningar í Skagafirði, auk þess sem Vatnsfirðingar og Seldælir á Vestfjörðum eru oft nefndir til. Guðmundur biskup Arason kom mjög við sögu á fyrri hluta Sturlungaaldar. Hin eiginlega Sturlungaöld er raunar ekki talin hefjast fyrr en um 1220 en ræturnar liggja þó lengra aftur og segja má að fyrsta vísbendingin um rósturnar sem í vændum voru megi sjá í deilum Hvamm-Sturlu Þórðarsonar við Pál Sölvason um 1180. Sturla var höfðingi á uppleið sem ætlaði sér stóra hluti og lét ekki hlut sinn fyrir neinum. Hann þótti sýna mikla óbilgirni í deilum sínum við Pál en þeim lauk með því að Jón Loftsson í Odda, leiðtogi Oddaverja og mikill sáttasemjari, úrskurðaði í málum þeirra og bauðst um leið til að fóstra Snorra, yngsta son Sturlu. Rétt eftir aldamótin 1200 lét svo Ásbirningahöfðinginn Kolbeinn Tumason kjósa Guðmund Arason til biskups á Hólum og taldi að hann yrði sér leiðitamur en það var öðru nær. Með þeim varð brátt fullur fjandskapur sem lauk með falli Kolbeins í Víðinesbardaga 1208. Ættmenn hans héldu þó áfram fjandskap við biskup og var hann á stöðugum hrakningi um landið og til útlanda næstu áratugi. Einnig má nefna víg Hrafns Sveinbjarnarsonar (1213), sem dró langan hefndarhala á eftir sér. Snorri og Sturlungar. Hvamm-Sturla átti þrjá syni; Þórð, Sighvat og Snorra, sem allir urðu valdamiklir goðorðsmenn, Þórður á Snæfellsnesi, Snorri í Borgarfirði og Sighvatur fyrst í Dölum og síðar í Eyjafirði. Þeir voru mjög áberandi í átökum Sturlungaaldar, einkum Snorri og Sighvatur, ásamt Sturlu og Þórði kakala, sonum Sighvats og Kolbeini unga, leiðtoga Ásbirninga og Gissuri Þorvaldssyni, foringja Haukdæla. Kolbeinn og Gissur voru báðir tengdasynir Snorra um tíma. Snorri var í Noregi á árunum 1218-1220, gerðist þar handgenginn Skúla jarli Bárðarsyni og tókst á hendur það hlutverk að gera Ísland að skattlandi Noregs. Upphaf Sturlungaaldar er gjarna miðað við heimkomu Snorra til Íslands 1220 en hann aðhafðist þó fátt til að sinna hlutverki sínu næstu árin, heldur stundaði ritstörf og er talið að hann hafi skrifað sín helstu stórvirki á þeim árum. Sighvatur og Sturla. Nóg var þó um átök: Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans fóru í Grímseyjarför 1222 til að hefna fyrir víg Tuma Sighvatssonar, sem fylgismenn Guðmundar Arasonar biskups höfðu drepið en biskup hafði svo flúið til Grímseyjar. Björn bróðir Gissurar Þorvaldssonar var drepinn á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1221 af Oddaverjum. Maríukirkjan í Róm, Santa Maria Maggiore, ein af fjórum höfuðkirkjum borgarinnar. Synir Hrafns Sveinbjarnarsonar brenndu Þorvald Vatnsfirðing, tengdasonar Snorra Sturlusonar, inni árið 1228 til að hefna fyrir föður sinn og synir Þorvaldar reyndu svo að hefna hans í Sauðafellsför 1229 en voru sjálfir felldir nokkrum árum síðar. Eftir lát þeirra settist Órækja sonur Snorra að á Vestfjörðum og var yfirgangssamur mjög. Sturla Sighvatsson fór í suðurgöngu til Rómar árið 1233 til að gera yfirbót fyrir sig og föður sinn vegna illrar meðferðar á Guðmundi Arasyni biskupi í Grímseyjarför og var þar leiddur fáklæddur á milli höfuðkirkja borgarinnar og hýddur fyrir framan þær. Á heimleið kom hann við í Noregi og var þá falið af Hákoni konungi að taka að sér það verk sem Snorri hafði ekki sinnt, sem sé að koma Íslandi undir konung. Sturla lét þegar til sín taka þegar heim kom, hóf þegar að auka við veldi sitt og tókst meðal annars að hrekja Snorra föðurbróður sinn og Þorleif Þórðarson frænda sinn úr landi eftir Bæjarbardaga 1237. Órækju hafði hann áður reynt að blinda og gelda og síðan rekið hann úr landi. Örlygsstaðabardagi og dauði Snorra. Snorri Sturluson. Teikning eftir Christian Krogh. Sturla lagði svo til atlögu við Gissur Þorvaldsson 1238 og tókst að ná honum á sitt vald í Apavatnsför og lét hann sverja sér hollustueið en sleppti honum svo. Gissur taldi sig ekki bundinn af nauðungareiðum. Þeir Kolbeinn ungi tóku höndum saman og í Örlygsstaðabardaga í Skagafirði, fjölmennasta bardaga sem háður hefur verið á Íslandi, féllu feðgarnir Sighvatur og Sturla, svo og fjórir aðrir synir Sighvats. Síðan tóku Gissur og Kolbeinn á sitt vald Eyjafjörð, Þingeyjarsýslu og Vesturland, þar sem Sturlungar hðfðu áður ráðið öllu. Voru þeir valdamestu menn landsins næstu árin en Svínfellingar réðu Austur- og Suðausturlandi og Seldælir hluta af Vestfjörðum. Snorri var í Noregi og var handgenginn Skúla jarli en þar höfðu orðið umskipti því Skúli jarl og Hákon konungur voru orðnir ósáttir. Eftir að fréttir bárust til Noregs af óförum Sturlunga í Örlygsstaðabardaga og dauða Sighvatar og sona hans vildi Snorri snúa heim en konungur bannaði það. „Út vil ek,“ sagði Snorri og fór heim sumarið 1239 þrátt fyrir bann konungs. Var sagt að Skúli hefði sæmt hann jarlsnafnbót en engar heimildir eru til sem sanna það. Stuttu síðar, í nóvember 1239 gerði Skúli jarl misheppnaða uppreisn gegn Hákoni konungi, sem lauk með því að Skúli var veginn vorið eftir. Konungur taldi Snorra landráðamann við sig vegna vináttunnar við Skúla og sendi Gissuri Þorvaldssyni boð um að flytja hann til Noregs eða drepa hann ella. Gissur fór að Snorra í Reykholti og lét drepa hann þar haustið 1241. Var það Árni beiskur, liðsmaður Gissurar, sem greiddi honum banahöggið. Flóabardagi, Haugsnesbardagi og Flugumýrarbrenna. Þórður kakali, sonur Sighvats Sturlusonar, hafði verið í Noregi en sneri heim 1242 og á næstu árum tókst honum með skæruhernaði gegn Kolbeini unga, sem hafði lagt undir sig allt veldi föður hans og bræðra, að efla styrk sinn. Hápunktur þeirra átaka var Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar, árið 1244. Kolbeinn lést ári síðar og gaf í banalegunni Þórði eftir veldi föður hans í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Þórður felldi svo frænda Kolbeins og arftaka, Brand Kolbeinsson, í Haugsnesbardaga árið 1246. Hann réði eftir það öllu Norðurlandi og frá 1247-1250 var hann valdamesti maður landsins því konungur hafði kyrrsett Gissur Þorvaldsson í Noregi. En árið 1250 kallaði konungur Þórð til Noregs og kyrrsetti hann en Gissur kom heim 1252. Gissur vildi sættast við Sturlunga og samið var um giftingu Halls sonar hans og Ingibjargar dóttur Sturlu Þórðarsonar og var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri haustið 1253, en óvinir Gissurar undir forystu Eyjólfs ofsa, sem var giftur dóttur Sturlu Sighvatssonar, reyndu að brenna Gissur inni í Flugumýrarbrennu en tókst ekki, þótt kona hans og synir létust í brennunni. Áframhaldandi átök. Næstu árin gekk á með skærum og bardögum, vígum og níðingsverkum. Gissur fór til Noregs og setti hinn unga höfðingja Odd Þórarinsson af ætt Svínfellinga yfir ríki sitt á meðan en Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson, sem giftur var annarri dóttur Gissurar, fóru að honum í Geldingaholti í Skagafirði í janúar 1255 og drápu hann. Um sumarið börðust svo Þorvarður Þórarinsson, bróðir Odds, og Þorgils skarði, sonarsonur Þórðar Sturlusonar, við Eyjólf ofsa í Þverárbardaga og felldu hann. Landsmenn voru orðnir mjög þreyttir á átökum höfðingja og sögðu jafnvel að þeir vildu helst engan höfðingja hafa yfir sér. Þórður kakali lést í Noregi 1256. Gissur kom heim með jarlsnafnbót sem konungur hafði veitt honum en hún dugði honum lítið. Þorgils skarði var drepinn 1258, síðastur af hinum herskáu leiðtogum Sturlunga, en föðurbróðir hans, Sturla Þórðarson sagnaritari, lifði eftir og skráði sögu Sturlungaaldar. Gamli sáttmáli. Loks kom þar 1262 að Íslendingar samþykktu að ganga Noregskonungi á hönd og þar með lauk þjóðveldistímanum. Um leið sættust þeir Gissur og Hrafn Oddsson, sem þá var helstur andstæðinga hans. Austfirðingar samþykktu raunar ekki að verða þegnar Noregskonungs fyrr en 1264 en þó er alltaf miðað við 1262. Samningurinn sem þá var gerður hefur gengið undir nafninu Gamli sáttmáli og eru elstu varðveittu handrit hans frá 15. öld. Á síðustu árum hefur komið fram sú kenning að Gamli sáttmáli, að minnsta kosti í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, sé alls ekki frá 13. öld, heldur hafi hann verið saminn á 15. öld til að styrkja málstað íslenskra höfðingja vegna ágreinings um verslun við Noregskonung. Kálfshamarsvík. Kálfshamarsvík er lítil vík norðarlega á vestanverðum Skaga. Þar var áður lítið þorp og nokkur útgerð en víkin er nú í eyði. Fyrsta húsið í Kálfshamarsvík var reist rétt eftir aldamótin 1900. Á fyrstu áratugum 20. aldar og fram undir 1940 var mikil útgerð í Kálfshamarsvík og um 1930 var 151 maður heimilsfastur þar. Í þorpinu var samkomuhús og skóli og einhverjar smáverslanir. Fiskleysi og þjóðfélagsbreytingar á stríðsárunum urðu til þess að fólki fækkaði og síðustu íbúarnir fluttu burt veturinn 1947-1948. Fluttist útgerðin og fólkið aðallega til Skagastrandar. Á Kálfshamarsnesi er viti sem upphaflega var reistur 1913 en endurbyggður 1939. Stuðlaberg setur svip sinn á umhverfið í Kálfshamarsvík. Rétt norðan við Kálfshamarsvík er eyðibýlið Saurar, sem var mikið í fréttum snemma árs 1964 vegna draugagangs sem þar átti að vera en síðar þótti allt benda til þess að Sauraundrin ættu sér aðrar orsakir. Staðamálin. Staðamálin voru átök biskupa og höfðingja á Íslandi um forræði yfir kirkjum sem höfðingjar höfðu látið reisa á jörðum sínum og farið með sem sína eign, meðal annars þegið hluta af tíund sem var þeim nokkur tekjulind. Staðamál fóru fram í tveimur hrinum, fyrst þegar Þorlákur helgi Þórhallsson varð Skálholtsbiskup 1178 og hóf árið eftir að krefjast forræðis yfir kirkjustöðum í samræmi við umbætur Eysteins Erlendssonar erkibiskups í Niðarósi. Staðamálum fyrri lyktaði með því að Þorlákur náði forræði nokkurra kirkjujarða en varð annars lítið ágengt annað en gera höfðingjum ljóst að yfirráð þeirra teldust ekki lögleg fyrir kirkjunni. Staðamál síðari hófust þegar Árni Þorláksson („Staða-Árni“) Skálholtsbiskup setti nýja kirkjuskipan, Kristnirétt Árna, árið 1275. Þeim lauk með sérstakri sáttagerð milli Árna biskups og íslenskra höfðingja í Ögvaldsnesi í Noregi 1297 að undirlagi Jörundar Þorsteinssonar og Eiríks Magnússonar konungs. Í henni var kveðið á um að þeir staðir sem leikmenn ættu hálft eða meira í skyldu þeir halda áfram en aðrir staðir falla undir biskup. Með þessu móti fékk kirkjan sjálfstætt vald í málefnum kirkna og presta og kirkjuréttar- og siðferðismálum. Í kjölfarið óx vald kirkjunnar á kostnað veraldlegra höfðingja og með tímanum urðu æ fleiri kirkjustaðir eign biskupsstólanna. Lærdómsöld. Lærdómsöld er tímabil í sögu Íslands sem er einkum vísað til í tengslum við menningarsögu. Hún nær frá siðaskiptum til upplýsingaraldar, eða frá 1550 til 1770. Nafnið vísar til þess að fornmenntastefnan ruddi sér til rúms með endurnýjuðum áhuga á gömlum íslenskum bókmenntum. Prentverk var rekið á vegum biskupsstólanna en lok tímabilsins miðast við stofnun Hrappseyjarprents. Parmenídes. Parmenídes frá Eleu (forngríska:, f. um 515 f.Kr., d. eftir 450 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur. Hann var frá borginni Eleu á Suður-Ítalíu. Fylgjendur Parmenídesar voru Zenon frá Eleu og Melissos frá Samos. Parmenídes færði rök fyrir því að heimurinn sem menn skynja sé blekking. Raunveruleikinn er samkvæmt Parmenídesi heimur Verunnar, óforgengileg, óbreytanleg heild. Flestir grískir heimspekingar eftir daga Parmenídesar reyndu með einhverjum hætti að bregðast við eða koma til móts við rök Parmenídesar og afleiðingar þeirra, þ.á m. Empedókles, Anaxgóras og Demókrítos. Um náttúruna. Um það bil 150 línur eru varðveittar, þar af eru 107 línur úr Vegi sannleikans, sem virðist virðist vera varðveittur nánast í heilu lagi. Talið er að Vegur sýndarinnar hafi verið jafnlangur Vegi sannleikans. Í kvæðinu fær skáldið opinberun frá gyðju (sem er venjulega talin vera Persefóna) um eðli raunveruleikans. Hin helgu vé. "Hin helgu vé" (á ensku: "The Sacred Mound") fjallar um sjö ára gamlan dreng, sem heitir Gestur. Hann er sendur í sveit og verður ástfanginn af tuttugu ára heimasætu. Myndin er leikstýrð af Hrafni Gunlaugssyni en hún er einnig mikið byggð á æskuminningum hans. Hún var send til forvals Óskarsins árið 1994. Austur-Pakistan. Austur-Pakistan var áður hérað í Pakistan milli 1955 og 1971. Það var áður héraðið Austur-Bengal sem varð til við skiptingu breska Indlands árið 1947. Austur-Pakistan náði yfir það svæði sem nú er sjálfstæða ríkið Bangladess. Kvikmyndastjóri. Leikstjóri hefur sjórn á öllum helstu skapandi hliðum við gerð sjónvarpsþátta og kvikmynda. Hann talar við leikarana um það hvernig hann vilji að hann/hún leiki hlutverkið. Starfssvið leikstjórans gæti líka verið handrit, klipping, leikaraval, tökustaðsval. Þó að leikstjórinn ætti að hafa fulla stjórn á sköpun listrænlegra hluta kvikmyndarinnar er hann stundum bundinn við samning við framleiðanda eða kvikmyndaverið. Höfðaborg. Höfðaborg (enska: "Cape Town"; afríkanska: "Kaapstad" /ˈkɑːpstɑt/; xhosa: "iKapa") er þriðja stærsta borgin í Suður-Afríku með tæplega þrjár milljónir íbúa. Hún stendur norðan við Góðravonarhöfða og dregur nafn sitt af honum. Frymisgrind. a> er blálitaður, örpíplur grænar og aktínþræðir rauðir Frymisgrind eða frumugrind er styrktargrind í heilkjörnungum sem hjálpar frumunni að halda lögun sinni og staðsetja himnubundin prótein í frumuhimnunni. Frymisgrindin er gerð úr holum strengjum, örpíplum. Birgitta Jónsdóttir. Birgitta Jónsdóttir (fædd 17. apríl 1967) var alþingismaður Borgarahreyfingarinnar, síðar Hreyfingarinnar 2009-2013 og frá 2013 er hún þingmaður Pírata. Birgitta tók þátt í að stofna Borgarahreyfinguna og sat í stjórn hennar í aðdraganda kosninga 2009, hún var jafnframt einn af stofnendum Samstöðu, bandalags grasrótarhópa sem var undanfari Borgarahreyfingarinnar. Birgitta hefur m.a. starfað sem ljóðskáld, rithöfundur, ritstjóri, netskáld og myndlistarkona. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, "Frostdingla" sem hún jafnframt myndskreytti, árið 1989 hjá Almenna bókafélaginu. Hún skipulagði fyrstu beinu myndútsendingu á netinu frá Íslandi árið 1996 sem var jafnframt fyrsta margmiðlunarhátíð landsins. Hátíðin hét Drápa en var þekkt erlendis sem „Craters on the Moon“. Vefur, sem var niðurtalning að hátíðinni, var mest sótti vefur landsins á þessum tíma samkvæmt fréttum RÚV og hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga (sjá forsíðu vefsins). Birgitta skipulagði einnig „List gegn stríði“ þar sem fjöldi íslenskra listamanna og skálda komu fram til að mótmæla stríðinu í Írak. Birgitta setti upp fyrsta listagalleríið á netinu 1996 í samstarfi við Apple-umboðið undir yfirskriftinni „Listasmiðja Apple umboðsins“. Verk Birgittu hafa verið sýnileg á internetinu síðan 1995 en þá opnaði hún vefsíðu sína „Womb of Creation“ sem lengi vel var aðeins á ensku en nú má finna svæði inni á vefnum á íslensku. Vefurinn var valinn besta heimasíða einstaklings árið 1996 af "Tölvuheimi", BT tölvum og Margmiðlun. Birgitta hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra verkefna sem tengjast ritstörfum, má þar nefna; „Poets against the War“, „Dialogue among nations through poetry“ og „Poets for Human Rights“. Hún ritstýrði einnig tveimur alþjóðlegum bókum sem heita, "The World Healing Book" og "The Book of Hope". Þar má meðal annarra finna ritsmíðar eftir Lawrence Ferlinghetti, Rita Dove, Dalai Lama, Rabbi Micheal Lerner, John Kinsella og Sigur Rós. Birgitta er einn stofnenda útgáfunnar „Beyond Borders“. Saga í stjórnmálum. Birgitta Jónsdóttir hefur verið virk í grasrótarstarfi um langa hríð áður en hún tók þátt í að stofna Borgarahreyfinguna. Má þar nefna Saving Iceland, Náttúruvaktin, Vinir Tíbets, Herstöðvarandstæðingar, Snarrót, Flóttamannahjálpin og Skáld gegn stríði. Hún skipulagði mótmæli gegn Íraksstríðinu í aðdraganda þess, þ.m.t. List gegn stríði. Hún tók þátt í að skipuleggja alþjóðlegar mótmælabúðir við Kárahnjúka 2005 og var talsmaður Saving Iceland á þeim tíma. Þá stóð hún fyrir mótmælum fyrir utan kínverska sendiráðið í hverri viku í 9 mánuði til að vekja athygli á ástandinu í Tíbet árið 2008. Hún stofnaði ásamt fjölda annarra Vini Tíbets og var kjörin formaður félagsins. Árið 1999 bauð Birgitta sig fram í annað sæti í Reykjavík fyrir Húmanistaflokkinn – helsta stefnumál flokksins var afnám fátæktar á Íslandi. Árið 2006 sótti hún um vefumsjónarstarf hjá VG í aðdraganda kosninga og fékk starfið. Hún var beðin um að taka sæti aftarlega á lista sem hún gerði en beitti sér ekki í flokknum – leit á sig fyrst og fremst sem starfsmann. Hún fann samhljóm við grænar áherslur VG. Birgitta varð mjög virk víða í grasrótarfélögum sem spruttu upp í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008. Í framhaldi af því var Borgarahreyfingin stofnuð, sem var í upphafi nokkurns konar regnhlífarsamtök grasrótarhópa. Borgarahreyfingin bauð fram á landsvísu í alþingiskosningunum 2009 og Birgitta var oddviti í Reykjavík suður. Borgarahreyfingin hlaut 7,2% atkvæða og 4 þingmenn, Birgitta var ein þeirra. Hinir voru Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Þráinn Bertelsson. Eftir kosningarnar jókst fylgi Borgarahreyfingarinnar stöðugt og var í skoðanakönnunum rúmlega 10-11%. Fljótlega fór að harðna á dalnum og deilur voru á milli þinghópsins og stjórnar flokksins. Borgarahreyfingin hafði fyrir kosningar gefið út að hún teldi hentugast að sótt væri um aðild að Evrópusambandinu og í framhaldinu yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. 11. júlí tilkynnti Birgitta að hún vildi að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um umsóknina. Fljótlega snérust Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir á sveif með Birgittu. Í atkvæðagreiðslunni á Alþingi um umsóknina 16. júlí greiddi Þráinn Bertelsson einn þingmanna Borgarahreyfingarinnar atkvæði með umsókninni. Eftir þetta spunnust upp miklar innanflokksdeilur. Þráinn Bertelsson gekk úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar í ágúst eftir persónulegar deilur við Margréti, sem hélt að hann væri veikur á geði. Borgarahreyfingin missti mikið af styrk sínum og fylgið hrapaði. Landsfundur Borgarahreyfingarinnar í september 2009 samþykkti ný lög fyrir flokkinn í andstöðu við þinghópinn og fráfarandi formann flokksins, Baldvin Jónsson. Þá sauð endanlega upp úr og þríeykið; Birgitta, Þór og Margrét ásamt fleiri fyrrum stuðningsmönnum Borgarahreyfingarinnar stofnuðu nýtt stjórnmálaafl; Hreyfinguna og varð Birgitta þingflokksformaður.. Í kosningunum 2013 bauð hún sig fram fyrir Pírata, nýtt stjórnmálaafl hér á landi, og náði kjöri ásamt tveimur öðrum úr þeim flokki. Greifastríðið. Kristján 3. var gerður að konungi Danmerkur af danska ríkisráðinu 1534. Greifastríðið var borgarastyrjöld í Danmörku sem stóð frá 1534 til 1536. Stríðið stóð milli stuðningsmanna Kristjáns 2. sem hafði verið settur af árið 1523 og Kristjáns 3. sonar Friðriks 1. sem danski aðallinn hafði komið til valda eftir það og lést 1533. Greifastríðið dregur nafn sitt af Kristófer greifa af Aldinborg sem studdi Kristján 2. til valda ásamt nokkrum hluta danska aðalsins frá Sjálandi og Skáni auk borganna Kaupmannahafnar, Málmeyjar og þýsku borganna Lýbiku og Mecklenburg. Her þessara aðila undir stjórn dansks fríbýttara, Klemens skipstjóra, hélt til Jótlands gegn danska háaðlinum sem réði í danska ríkisráðinu. Flestir voru bændur og borgarar. Margir herragarðar voru brenndir í Norður- og Vestur-Jótlandi. Kristjáni 3. tókst að ná friðarsamningum við Lýbiku og gat þannig losað nokkurn herstyrk til að halda gegn uppreisnarmönnum. Undir stjórn Johans Rantzau elti konungsherinn her Klemens til Álaborgar þar sem hann bjóst til varnar. 18. desember réðist her Rantzaus á bæinn og náði honum á sitt vald. Klemens var tekinn og tekinn af lífi 1536. Í janúar 1535 réðist Gústaf Vasa 1. inn í Skán til stuðnings Kristjáni 3. og herjaði þar á stuðningsmenn hans. 11. júní 1535 var afgangurinn af her Kristófers greifa sigraður í orrustunni við Øksnebjerg. Kaupmannahöfn og Málmey héldu þó áfram mótstöðu til 1536 þegar þær gáfust upp eftir margra mánaða umsátur. Mánárbakki. Mánárbakki er nyrsti bær á Tjörnesi og hefur þar verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1963 þegar stöðin var flutt þangað frá bænum Máná, næsta bæ en þar tók hún til starfa árið 1956. Sama fjölskylda hefur haft veðurathugunina með höndum frá upphafi. 5 sjómílur frá landi eru tvær eyjar, Mánáreyjar, og kallast þær Háey og Lágey. Í þeim er mikið fuglalíf og er Lágey grösug og var lengi nýtt úr landi. Háey er minni að flatarmáli en hærri, gerð úr gjalli og móbergi. Lágey er hins vegar úr grágrýti. Frostaveturinn mikli. Veturinn 1917-1918 er á Íslandi kallaður "Frostaveturinn mikli", en þá gerði mikla kuldatíð. Í janúar 1918 fór frost víða á landinu niður fyrir -30°C. Hafís varð víða landfastur og rak hann talsvert suður fyrir land og lokaði siglingaleiðum fram í febrúar. Vilhjálmur Stefánsson. Vilhjálmur Stefánsson (3. nóvember 1879 - 26. ágúst 1962) var landkönnuður og mannfræðingur af íslenskum ættum. Hann fæddist í Gimli í Manitobafylki í Kanada og var við nám í N-Dakóta og Iowa og lauk námi í mannfræði frá Harvard-háskóla og kenndi þar einnig um tíma. Áhugi Vilhjálms á Norðurheimskautssvæðinu var mjög mikill og var hann fyrsti Evrópumaðurinn til að rannsaka menningu og líf Inúíta að nokkru ráði. Fyrir þær sakir var hann einn best þekkti landkönnuður síns tíma. Eftir hann liggja margar bækur og rit og eru skrif hans enn í dag uppspretta fróðleiks um líf á norðurslóðum. Hann ferðaðist í mörg ár um norðursvæði Kanada og stóð meðal annars fyrir leiðangri á skipinu Karluk norður gegnum Beringssund inn í hinn frosnu hafsvæði norðurpólsins. Sú ferð endaði illa og var tilefni nokkurrar gagnrýni á Vilhjálm. Karluk. Ljósmynd af Karluk föstu í ís í ágúst árið 1913. Karluk var 39 m langt seglskip sem sökk í N-Íshafinu þann 11. janúar 1914. Skipið er helst af öllu þekkt fyrir sinn síðasta leiðangur sem lá gegnum Beringssund inn á N-Íshafið þar sem það fraus fast og rak með ísnum í 4 mánuði áður en það brotnaði upp og sökk. Þeir 25 menn sem voru í leiðangrinum héldu eftir ísnum fótgangandi og á hundasleðum og komu loks að Wrangel eyju. Hluti hópsins hélt áfram til Síberíu yfir 1100km leið undir stjórn Robert Bartletts og gerðu á endanum út björgunarleiðangur frá Alaska. Í september 1914, þrettán mánuðum eftir að skipið hafði frosið fast, var mönnunum bjargað, en þá höfðu a.m.k. 11 manns látist úr vosbúð, næringaskorti ofl. Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður stjórnaði leiðangrinum sem skipið var í en tilgangur hans var að kanna Norðurheimskautssvæðið. Þegar skipið festist í ísnum yfirgaf Vilhjálmur það og hélt til austurs að Inuítabyggðum í N-Kanada þar sem hann var við rannsóknir næstu fimm árin. Sem upphaflegur stjórnandi leiðangursins var hann harðlega gagnrýndur í mörg ár á eftir fyrir að hafa yfirgefið skipið á raunastundu. Hraun (Skaga). Hraun er bær á Skagatá á Skaga, nyrstur bæja þar. Bærinn stendur við svokallaða Hraunsvík og upp af honum, í Skagaheiði, er Hraunsvatn og önnur vötn, öll góð veiðivötn. Landið er grýtt og hrjóstrugt og ræktarland fremur lítið en jörðinni fylgja ágæt hlunnindi, bæði veiði, æðarvarp og reki. Í júní 2008 kom hvítabjörn sem nefndur hefur verið Hraunsbirnan á land á Hrauni og settist að í æðarvarpinu en var felld þar. Næsti bær við Hraun, Skagafjarðarmegin, hét Þangskáli og fór í eyði árið 1978. Á Hrauni hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1942. Þar er einnig viti, Skagatáarviti. Hey. Múgi og rúllur í Noregi Hey (eða taða) kallast þurrkuð grös og nytjajurtir sem nýtt eru til fóðrunar gripa, á Íslandi einkum nautgripa, sauðfjár og hesta. Hey nýtist einnig sem undirburður og til landgræðslu. Heyleifar kallast moð. Algengar tegundir sem nýttar eru í hey eru innan grasaættarinnar en einnig belgjurtir og jurtir af krossblómaætt. Vinna við heyannir kallast heyskapur og þegar honum er lokið eru haldin töðugjöld. Framleiðsla. Menn moka lausu heyi á vörubíl árið 1936 Þurrhey. Þurrhey hefur þurrefnainnihald milli 60 til 85% og er gjarnan bundið í bagga eða keyrt laust inn í hlöðu. Í hlöðunni er notuð súgþurrkun til að þurrka það enn meira. Er heyið er hirt laust er notaður blásari til að blása heyinu inn í hlöðuna. Slíkur blásari hefur gjarnan dreifikerfi svo ekki þarf að moka heyinu til með handafli. Baggafæriband er notað við baggana og er þeim raðað með handafli. Blásarinn nýtist bæði til að blása inn lausu heyi og til að þurrka heyið eftir að það kemur í stabbann. Ef ekki á að nýta súgþurrkun verður heyið að vera 83-85% þurrt áður en það kemur í hlöðuna til að það verði ekki fyrir skemmdum af völdum myglusveppa og hitamyndunar örvera. Á hlöðugólfinu er ýmist grindur eða stokkar sem heyið liggur á og er loftinu blásið undir þá. Það stígur síðan upp í gegnum heyið og þurrkar það á leið sinni upp og út. Súgþurrkunarstokkar, sem leiða loftið frá blásara í heystabba, eru ýmist niðurgrafnir undir miðju hlöðunnar endilangri eða meðfram langvegg. Ólíkar útfærslur eru á kerfunum en þau virka á svipaðan hátt. Loftið sleppur loks út up stromp á þaki hlöðunnar. Vothey. Vothey (eða súrhey) er ýmist verkað í súrheysturn, rúllur eða (flat)gryfjur. Við votheysverkun fæst heildarverkun á allt hey - sem dregur úr fóðurbreytingum. Þetta á þó ekki við verkun í rúllur, því hver rúlla verkast ólíkt. Algengt þurrefnisinnihald votheys er 25 til 50% en rúllur með grænfóðri geta verið enn blautari. Heyi er ýmist blásið í turnana eða er sett upp með færibandi. Á hverjum turni eru svo göt þar sem er hægt að koma heyinu út um. Í rúllurnar er allt hey bundið með bindivél og lang oftast pakkað í plast. Í gryfjur flytur maður heyið með sjálfhleðsluvagni og er grasið þá ýmist slegið með sláttutætara, sem kastar því strax upp á vagn, eða á „hefðbundinn hátt“ þar sem heyið er slegið í sér ferð og síðan tekið upp með vagni. Þurrkun. Forþurrkun á velli er algengasta tegund heyþurrkun en hún byggir á varmafræðilegri þurrkun þar sem vatni er breytt í gufu með sólarorku. Vindur sér síðan um að flytja raka á brott frá flekknum. Önnur aðferð er sú aflfræðilega aðferð sem er minna notuð en þar er vatni pressað úr heyinu. Hún dugar aðeins skammt. Forþurrkun á velli. Forþurrkun á velli er lang algengasta aðferðin við þurrkun heysins um allan heim. Hún byggir á því að breiða heyið til þerris og er sólarorkan notuð til að flytja vatnið brott úr plöntufrumunum. Vindur sér um að flytja raka loftið á brott og bera að nýtt, þurrt loft sem getur tekið til sín raka. Þurrkvöllurinn skiptir miklu máli í þessari aðferð en grasstubbarnir, sem ekki voru slegnir, þjóna þeim tilgangi að lofta undir heyið við þurrkun. Þegar heyið hefur náð tilteknum þurrefnainnihaldi er það annað hvort bundið eða flutt til frekari þurrkunar; gjarnan súgþurrkunar. Forþurrkun er einnig notuð við votheysgerð en þá er framhaldandi þurrkun ekki notuð. Súgþurrkun. Súgþurrkun byggir á því að heyinu er keyrt í hlöðu og það þurrkað með blásara eða viftu. Undir hlöðugólfinu er sérstakt stokka- eða grindakerfi, þar sem lofti er blásið undir og leitar það upp í gegnum heystabbann og þurrkar það. Þetta er mjög mikilvægt til að taka allan raka úr heyinu og ef til vill einhverja hitamyndun sem myndast við örverustarfsemi. Sérstakt þurrkbelti myndast í stabbanum og leitar hann ofar eftir því sem heyið þornar. Við súgþurrkunina eru ýmist notaðar viftur eða miðflóttaaflsblásarara. Eiginleikar þeirra eru ólíkir eins og sést í töflunni. Hesjur. Í Noregi er siður að þurrka hey á svokölluðum hesjum, griðingalengjum sem slegið er upp á sláttuteigunum í miðri ljánni. Hesjurnar eru oftast lóðréttir staurar (með vír eða láréttum stöngum á milli) og eru einkum til að þurrka hey en líka korn. Þar er heyið geymt fram eftir sumri og síðar flutt beint í búpening eða í hlöðu til geymslu. Hirðing. Algengustu aðferðirnar við hirðingu er að keyra heim í hlöðu, flatgryfju, turn eða binda í rúllubagga. Laust þurrhey. Lausu þurrheyi er keyrt heim á heyhleðsluvagni eða vörubílspalli og það flutt inn í hlöðu ýmist með færibandi eða heyblásara og dreifikerfi. Það er þurrkað með súgþurrkun og skornir passlegir teningar í hvert skipti sem gefið er. Heyinu er jafnað um hlöðuna með heydreifikerfi. Smábaggar í hlöðu. Smábaggar (gjarnan 80*45*30) eru bundnir með garni og þeir þurrkaðir með súgþurrkun á sama hátt og laushey. Baggarnir eru fluttir inn í hlöðu á færibandi og þeir lagðir á hliðina. Að auki eru lögin krosslögð til að fá sem besta nýtingu á súgþurrkunarkerfið. Þurrkbeltið í heyinu verður flóknara því ásamt því að eitt stór myndast í stabbanum myndast í hverjum og einum bagga sér þurrkbelti. Þannig geta baggar verið skraufaþurrir að utan en myglaðir eða ornaðir að innan. Hey í turnum og gryfjum. Á 20. öldinni var vothey verkað í steinsteypta turna og gryfjur um allan heim og er víða enn stundað. Einnig eru til stálturnar þar sem heyið er gjarnan 50-60% þurrt og saxað - slíkt hey kallast heymeti (e. "haylage" af "hay" (þurrhey) og "silage" (vothey)) og turnarnir heymetisturnar. Þeir hafa gjarnan losunarbúnað í botninn. Vothey er hirt með sjálfhleðsluvagni og því keyrt heim að turni eða gryfju. Þar er því blásið upp í turninn eða notað færiband til að ferja það upp. Gjarnan er notaður svokallaður saxblásari sem saxar heyið um leið og hann blæs því upp. Þegar allt hey sumarsins er komið í turninn er mikilvægt að fergja það, gjarna með votheyssteinum sem voru steinsteyptar einingar sem pössuðu ofan í turninn, og loks útiloka aðstreymi súrefnis sem annars myndi spilla heygæðum. Á sama hátt er fyllt í flatgryfjur nema þá þarf ekki blásara eða færibandi. Traktor er notaður til að þjappa í gryfjuna til að útiloka súrefni úr fóðrinu. Ofan á gryfjunar er svo lagður plastdúkur og ýmislegt lauslegt notað sem farg s.s. dekk eða steinar. Við verkun í turna og gryfjur þarf að passa að afrennsli fóðursins fari ekki út í viðkvæm vatnsból eða læki og ofauðgi (mengi) lífríkið þar. Rúlluhey. Verkun í rúllur breiddist út á 9. og 10. áratug 20. aldar vegna þess hve hagkvæmt það var að geta geymt heyið úti við. Rúlluhey er ýmist mikið eða lítið forþurrkað eftir því hvernig nýtingin er ætluð. Rúllurnar eru bundnar með garni eða neti og hjúpaðar plasti sem myndar lofttæmi. Þannig getur heyið geymst í að minnsta kosti 2 ár án þess að eyðileggjast. Gallinn við rúllurnar er að flatarmál geymslunnar er mun meira en t.d. í turni eða gryfju og á súrefni því „fleiri“ leiðir inn að heyinu. Ferbaggar. Sérstakar ferbaggavélar þróuðust eftir að rúlluvélarnar komu á markaðinn og eru litlu baggabindivélarnar fyrirmynd þeirra. Bagginn myndast í baggahólfinu og sér stimpill um að þjappa í baggana. Þeir eru bundnir með garni og pakkað, stundum tveimur saman, í plast. Hey í plastpylsum. Til er sú aðferð að verka hey í svokallaðar plastpylsur. Þá er sérstakar mötunar- og þjöppunarvélar notaðar til að þrýsta fersku eða forþurrkuðu heyi í plastpylsur. Slíkar pylsur er hægt að geyma úti eins og rúllur og stórbagga. Pylsurnar geta verið 45-60 metra langar og þurfa helst að hvíla á sléttu undirlagi, fjarri jarðvatni. Spákonufell. Spákonufell er fjall fyrir ofan Skagaströnd. Katlafjall er norðanmegin við það en sunnanmegin rennur áin Hrafná um Hrafnárdal. Fjallið setur svip sinn á Skagaströnd. Björn Þórðarson. Björn Þórðarson (fæddur 6. febrúar 1879 dáinn 25. október 1963) var forsætisráðherra Íslands í utanþingsstjórninni svo nefndu. Hann og ráðuneyti hans var skipað af Sveini Björnssyni, þá ríkisstjóra Íslands, 16. desember 1942. Björn lagði stund á laganám við Kaupmannahafnarháskóla á sama tíma og Einar Arnórsson og Sveinn Björnsson. Björn var að sögn "hógvær vinstri maður, trúr guði sínum, konungi og þjóð". Björn bauð sig fram fyrir Framsóknarflokkinn í Borgarfjarðarsýslu 1927 en féll fyrir Pétri Ottesen. Björn var lögskilnaðarmaður, þ.e. hann vildi slíta konungssambandinu við Danmörku með samningum. Afl. Afl eða afköst eru í eðlisfræði mælikvarði á aflfræðilega eða varamfræðilega vinnu á tímaeiningu. SI-mælieining er vatt, táknuð með W. Eldri mælieining, hestafl (ha) er oft notuð til að gefa afl bílvéla, en 1 ha = 746 W, þ.a. 100 ha eru um 75 kW. Aflhlutfall er oft mælt með einingarlausu stærðinni desíbel, t.d. í hljóðfræði, ljósfræði, rafeindatækni og stjörnufræði. Bjarni Pálsson. Minnismerki um Bjarna Pálsson við Nesstofu. Bjarni Pálsson, fæddur 17. maí 1719 að Upsum á Upsaströnd (Dalvík), dáinn 8. september 1779 að Nesi á Seltjarnarnesi, var íslenskur læknir og náttúrufræðingur. Hann var fyrsti landlæknir Íslands. Ferill. Foreldrar Bjarna voru hjónin séra Páll Bjarnason prestur á Upsum og Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni missti föður sinn tólf ára að aldri og fluttist þá með móður sinni að Stað í Hrútafirði. Hann hóf nám í Hólaskóla 1734 en hætti vorið 1736 til að gerast fyrirvinna móður sinnar. Hann hóf þó nám að nýju síðar og lauk stúdentsprófi frá Hólaskóla 1745, þá 26 ára að aldri. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 1746 og lagði þar stund á læknisfræði og náttúruvísindi. Bjarni lauk læknanámi í september 1759 fyrstur Íslendinga og var þá orðinn fertugur. Hann var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 18. mars 1760 og bjó eftir það á Bessastöðum og síðan á Nesi þar sem nú er Nesstofa á Seltjarnarnesi. Hann kenndi nokkrum mönnum læknisfræði og veitti sumum þeirra lækningaleyfi eftir að hafa prófað þá en aðrir sigldu til Kaupmannahafnar og luku þar læknanámi. Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir (1742-1803), dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Sveinn Pálsson læknir skrifaði ævisögu Bjarna og var hún gefin út í Leirárgörðum árið 1800. Ferðir Eggerts og Bjarna. Bjarni var einn af boðberum upplýsingarinnar á Íslandi. Á námsárum sínum 1750 og 1752-1757 ferðaðist hann um Ísland ásamt Eggerti Ólafssyni á sérstökum styrk frá danska ríkinu. Þá gengu þeir félagar m.a. á Heklu fyrstir manna svo vitað sé. Það var aðfararnótt 20. júní 1750 sem þeir stóðu á Heklutindi. Afrakstur ferðalaganna um landið var Íslandslýsing, sem kölluð er "Ferðabók Eggerts og Bjarna" og kom út árið 1772 en hefur oft verið gefin út síðan. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki er einkennismerki sem sett er saman á ákveðinn hátt (samkvæmt reglum skjaldarmerkjafræðinnar) og er í evrópskri hefð einkum tengt við aðalstitla. Uppruna skjaldarmerkja má rekja til riddara á miðöldum sem gerðu skjöld sinn og herklæði auðþekkjanleg á vígvellinum svo þeir þekktust hvort sem væri af vinum og óvinum. Í Englandi og Skotlandi er notkun skjaldarmerkja bundin við einstaklinga og erfist líkt og hver önnur eign, venjulega til elsta barns. Í sumum öðrum löndum er notkun skjaldarmerkja bundin við fjölskyldur. Grunnur allra skjaldarmerkja er skjöldurinn sem getur verið af nokkrum gerðum. Skjaldarmerkjalitirnir raðast niður á grunnflötinn (feldinn) eftir ákveðnum reglum eftir því mynstri sem er á skildinum. Sjálft merkið (ef notað er merki) er síðan teiknað á skjöldinn. Talað er um höfuð, fót og skjaldarrönd þegar skjaldarmerkinu er lýst. Í sumum skjaldarmerkjum eru hlutir utan við sjálft skjaldarmerkið hlutar þess, svo sem skjaldberar (líkt og landvættirnir í skjaldarmerki Íslands), hjálmur með hjálmskrauti og kjörorð á borða fyrir neðan. Yfirlæknir. Yfirlæknir er læknir sem gegnir stöðu forstöðumanns eða forstjóra heilbrigðisstofnunar eða deildar innan heilbrigðisstofnunar. Aftaka. Fílar voru notaðir sem aftökutæki á Indlandi. Aftaka (eða líflát) er það þegar hópur manna, með lögum eða dómleysisrétti, ákveða að taka einhvern af lífi. Einnig er til "múgæðisaftaka" (enska: "lynching"), en það er þegar múgur manna, oft æstur hópur, ræðst á mann eða menn og tekur af lífi án dóms og laga. Oftast þegar einhver er tekinn af lífi er (einhverskonar) lagabókstafur hafður til grundvallar dómsuppkvaðningu. Er þá viðkomandi að uppkveðnum líflátsdómi oft færður fyrir "aftökusveit" og skotinn eða upp á "aftökupall" eða "höggstað", þar sem viðkomandi er hengdur eða hálshöggvinn. Einnig eru menn sumstaðar sprautaðir með bráðdrepandi lyfjablöndu, settir í rafmagnsstólinn eða teknir af lífi með einum eða öðrum hætti. Orðið "aftaka" á íslensku getur einnig verið herðandi forskeyti eins og t.d. í orðunum "aftakaveður" eða "aftakabrim". Ófært veður er einnig oft nefnt "aftökur". Afhöfðun. Afhöfðun er aftökuaðferð þar sem höfuð sakamannsins er skilið frá líkamanum með höggvopni eins og sverði eða öxi, eða þar til gerðu tæki eins og fallöxi. Það að höggva höfuð af manni kallast að "hálshöggva" eða að "afhöfða". Frá alda öðli virðist afhöfðun víða hafa verið talin sú líflátsaðferð sem gerði mönnum kleift að „deyja með sæmd“ og var því oftar en ekki beitt þegar sá sem lífláta átti var af háum stigum eða hermaður. Aðrir voru fremur hengdir eða brenndir. Nefna má að Páll postuli var hálshöggvinn þar sem hann var rómverskur borgari en almúgamenn og gyðingar voru krossfestir eða þeim varpað fyrir ljónin. Afhöfðun hefur verið talin skjótari og sársaukaminni aftökuaðferð en flestar aðrar, það er að segja ef sverðið eða öxin er beitt og böðullinn vandanum vaxinn, svo að hinn dauðadæmdi lætur lífið við fyrsta högg. Á því gat þó verið misbrestur og stundum þurfti mörg högg til að afhöfða fólk. Það var ein af ástæðunum til þess að fallöxin var fundin upp, hún átti að svara kalli um skjóta og sársaukalausa aftöku sem ekki krafðist mikillar færni böðulsins. Yfirleitt er hún talin hafa verið fundin upp af Joseph Guillotin lækni skömmu fyrir frönsku byltinguna en svipað tæki hafði þó verið í notkun í Halifax í Yorkshire frá því seint á 13. öld til 1650. Á Íslandi var afhöfðun ein helsta líflátsaðferðin á fyrri tímum. Það gilti þegar menn voru líflátnir án dóms og laga af óvinum sínum og má finna mörg dæmi um það í Íslendingasögum, Sturlungu og víðar, svo sem þegar fimm menn voru höggnir á Miklabæ eftir Örlygsstaðabardaga. Allt fram á 19. öld voru menn líka dæmdir til að missa höfðuðið fyrir ýmsa glæpi, svo sem morð eða sifjaspell (það gilti þó aðallega um karla, konum var oftast drekkt). Þjófar voru aftur á móti oftast hengdir og galdramenn brenndir. Síðasta aftaka á Íslandi fór fram í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830. Stundum var höfuðið af þeim sem hálshöggvinn var sett á stjaka og látið vera þar uns það rotnaði. Einnig kom fyrir að höfuð var höggvið af mönnum eftir dauðann og „gengið milli bols og höfuðs“ og lík jafnvel grafin upp til að höggva af þeim höfuðið. Var það gert til að koma í veg fyrir að hinn látni gengi aftur og var höfuðið þá oft sett við rassinn áður en líkið var grafið að nýju. Kärnten. Kärnten er sambandsland í Austurríki, það syðsta í landinu. Það er að mestu leyti í Ölpunum og er þekkt fyrir fjöll sín og vötn. Íbúar eru tæplega 560 þúsund talsins. Höfuðborgin heitir Klagenfurt. Lega og lýsing. Kärnten er syðst í Austurríki og liggur að landamærum Ítalíu og Slóveníu. Auk þess eru sambandslöndin Tirol í vestri, Salzburg í norðri og Steiermark í norðaustri. Kärnten er að öllu leyti innan Alpafjalla og eru þar nokkur af hæstu fjöllum landsins (s.s. Grossglockner). Rúmlega helmingur sambandslandsins er þakinn skógi. Aðalfljót svæðisins er Drau. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Kärntens er tvískiptur. Til vinstri eru þrjú svört ljón á gulum grunni, en þau voru tákn hertogans Ulrich III af Spanheimer-ættinni. Til hægri er austurríski fáninn í skjaldarlíki. Fáni Kärntens samanstendur af þremur láréttum röndum: Gult, rautt og hvítt. Rauði og hvíti liturinn eru tákn Austurríkis, en guli liturinn er til aðgreiningar frá öðrum sambandslöndum. Kärnten er eina sambandslandið með þrjá liti í fánanum. Orðsifjar. Upphaflega hét héraðið Karantanía. Talið er að það sé upprunnið úr keltnesku. Til eru tvær tilgátur um uppruna heitisins. Í fyrsta lagi merkir það "vinur" og er hugsanlega vísað til ættbálks sem þar bjó fyrrum. Í öðru lagi merkir heitið "steinn" eða "grjót", og má ætla að síðari tilgátan sé líklegri. Úr heitinu Karantaníu eru Karawanken-fjöll í héraðinu nefnd. Heitið Karantanía breyttist með tímanum í Kärnten. Söguágrip. Kärnten er að mestu leyti í Alpafjöllum. Þar er Grossglockner, hæsta fjall Austurríkis Héraðið Karantanía var fyrrum hluti af keltneska ríkinu Noricum. Ríkið átti vinsamleg sambönd við Rómverja, sem innlimuðu það árið 15 f.Kr. Á tímum Kládíusar keisara varð Kärnten að skattlandi. Við fall Rómaveldis fluttu germanir inn í svæðið, en náðu lítið að festa rætur. Íbúar blönduðust hins vegar talsvert slövum. Í kringum árið 600 var slavaríkið Karantanía stofnað, sem takmarkaðist í vestri við Bæjaraland og í suðri við Langbarðaland. Á 8. öld komust Bæjarar til áhrifa í Karantaníu og í kjölfarið var farið að kristna héraðið. Eftir uppreisn heiðinna manna réðist Tassilo III hertogi Bæjara inn í landið. Karlamagnús innlimaði stóran hluta Karantaníu í frankaríki sitt fyrir aldamótin 800. Þannig komst allt héraðið Kärnten undir yfirráð franka. Á 10. öld varð Kärnten eigið hertogadæmi. Ýmsar ættir ríktu þar á næstu öldum, s.s. Spanheimer-ættin. Habsborgarar erfðu Kärnten snemma á 14. öld og varð við það loks hluti Austurríkis. Á tímabilinu 1473-83 réðust Tyrkir (osmanir) fimm sinnum inn í Kärnten, þar sem þeir þeir rændu og myrtu. Þeir voru loks stöðvaðir í orrustunni við Vín. Siðaskiptin gengu í garð í upphafi 16. aldar. Sumar borgir voru mjög sterkt vígi lúterstrúarmanna, s.s. Villach. En við gagnsiðaskipti kaþólsku kirkjunnar í upphafi 17. aldar var nær allt héraðið kaþólskt á ný. Afleiðingin var mannflótti og fátækt. Allt fram á 18. öld voru lúterstrúarmenn ofsóttir í Kärnten. Napoleon réðist inn í Kärnten 1797 og tók héraðið allt nær bardagalaust. Frakkar fóru þó aftur á sama ári eftir friðarsamningana við Campo Formio, en sneru aftur 1805. Héraðið var nánast gjaldþrota og örmagna í kjölfarið. Eftir ósigur Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 varð svæðið í kringum Villach austurrískt á ný, en meginhluti Kärnten varð að hluta Illyríu með Ljubljana að höfuðborg. Kärnten sameinaðist ekki á ný undir austurrískri stjórn fyrr en 1849. 1861 varð Kärnten að sambandslandi með eigið þing í Klagenfurt. Mikill uppgangur í járn- og námugreftri varð í Kärnten með iðnbyltingunni. Atvinnuvegir þessir runnu þó sitt skeið við aldamótin 1900. Eftir heimstyrjöldina fyrri var klipið af Kärnten. Stórir hlutar fóru til Ítalíu og til Júgóslavíu, sem þá var nýstofnað ríki. Alls missti Kärnten 8% svæðis síns og 6% íbúanna. Þrátt fyrir það bjuggu enn þúsundir Slóvenar syðst í héraðinu og er slóvenska þar viðurkennt tungumál í Austurríki. Frá og með 1930 hófst mikill straumur ferðamanna til Kärnten og svo er enn. 1938 var Austurríki sameinað Þýskalandi. Í Kärnten ráku nasistar þúsundir Slóvena úr landi, meðan aðrir voru handteknir. Í stríðslok 1945 hertóku Bretar og júgóslavneskar hersveitir Kärnten. Miklar skærur voru milli Breta og Júgóslava, en hinir síðarnefndu yfirgáfu héraðið að tilskipan Sovétmanna. Kärnten var breskt hernámssvæði til 1955. Á eftirstríðsárunum fékk slóvenski minnihlutahópurinn aukin réttindi. 1977 var talið að hluti þeirra væri 25% í héraðinu, en alls óvíst er í dag um fjölda þeirra. Grímsstaðir. Grímsstaðir (á Fjöllum) er bær á Hólsfjöllum og fyrsti bær sem komið er að þegar farið er austur yfir Jökulsá á Fjöllum. Brú yfir ána á þessum stað var byggð árið 1947 en þar var áður lögferja. Bærinn stendur í dag nokkrum kílómetrum norðar en áður en hann var færður vegna sandfoks. Á Grímsstöðum var eitt sinn bænhús en þar er nú örlítil ferðaþjónusta. Þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1907, en 21. janúar 1918 mældist þar, ásamt á Möðrudal, lægsti hiti á Íslandi, -38°C. Anaxagóras. Anaxagóras (forngríska: Αναξαγόρας, 500 – 428 f.Kr.) frá Klazómenæ í Litlu Asíu var forngrískur heimspekingur. Hann var einn af hinum svonefndu jónísku náttúruspekingum. Anaxagóras bjó og starfaði í Aþenu í um þrjátíu ár og var einkavinur stjórnmálamannsins Períklesar en meðal annarra vina Anaxagórasar má nefna skáldið Evripídes. Anaxagóras fékkst meðal annars við stjörnufræði. Hann hélt því meðal annars fram að líf væri á öðrum reikistjörnunm og að sólin væri ekki guðleg vera, heldur glóandi eldhnöttur sem væri stærri en Pelópsskagi. Pólitískir andstæðingar Períklesar handtóku Anaxagóras og kærðu hann fyrir guðlast. Persíkles fékk hann lausan úr haldi en Anaxagóras varð að yfirgefa Aþenu og hélt þá til Lampsakosar í Jóníu þar sem hann lést fimm árum síðar. Borgarar í Lampsakos reistu altari til heiðurs Huga og Sannleika í minningu hans. Heimspeki. Anaxagóras ritaði bók um heimspeki en einungis brot eru varðveitt. Í samræðunni "Fædoni" (98b) eftir Platon kemur fram að Sókrates hafi lesið bókina og orðið fyrir vonbrigðum með kenningu Anaxagórasar, einkum vegna þess að hjá Anaxagórasi hafði hugurinn takmarkað skýringargildi. Anaxagóras hélt því fram að til væri óendanlegur fjöldi frumefna sem hann nefndi „samkynja efni“ en eitthvað af öllu væri í öllu; nema hugur (νους), sem þó væri að finna í sumum hlutum. Fontur. Fontur eða Langanesfontur er ysti oddi á Langanesi. Þar eru 50 til 70 metra há sjávarbjörg. Vitinn á Fonti var fyrst byggður 1910 en endurbættur árið 1914 og 1950. Þar hefur einnig verið sjálfvirk veðurathugunarstöð frá árinu 1994. Dalatangi. Dalatangi er ysta nes á fjallgarðinum Flatafjalli milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Þar rétt hjá eru sýslumörk Norður- og Suður-Múlasýslu. Á Dalatanga var fyrst reistur viti árið 1899 og hefur þar verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1938. Seley. Seley er lág klettaeyja um 2,5 sjómílur frá mynni Reyðarfjarðar og heyrir til Hólma á Hólmanesi milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þar var mikið æðavarp. Þaðan var meðal annars farið til hákarla-, lúðu- og skötuveiða. Rústir af slíkum verbúðum eru í eynni en aldrei var þar föst búseta. Nú er þar viti reistur árið 1956 og sjálfvirk veðurathugunarstöð frá árinu 1996 í eigu Siglingastofnunar. Kollaleira. Kollaleira er bær í Reyðarfirði. Þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1976. Hrossarækt er að Kollaleiru og eitt þekktasta hross þaðan er stóðhesturinn Laufi frá Kollaleiru sem unnið hefur margar töltkeppnir með knapanum Hans Kjerulf. Sumarið 2006, þegar mótmælendur virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka voru reknir burt af svæðinu í Lindum, fengu þeir leyfi bóndans á Kollaleiru til að hafa tjaldbúðir í landi hans. Kaþólska kirkjan á Íslandi stofnaði 28. júlí 2007 "heilags Þorlákssókn", sem nær yfir Austur-Skaftafellssýslu og báðar Múlasýslur, með sóknarkirkju á Kollaleiru. Þar var jafnframt sett munkaklaustur af reglunni "Ordo Fratrum Minorum Capuccinorum". Kambanes. Kambanes kallast ysta nesið milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur á Austfjörðum. Upp af nesinu eru fjallstindarnir Súlur og segir þjóðsagan að þar búi tröllkona. Út og suður af Kambanesi liggur skerjaröð sem nefnast einu nafni Refsker. Á Kambanesi hefur verið viti frá árinu 1922 og mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1961 til 1992 og sjálfvirk stöð síðan. Þar er einnig bærinn Heyklif. Fagurhólsmýri. Fagurhólsmýri er bær í Öræfum. Þar er flugvöllur og leið út í Ingólfshöfða. Þar hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð frá árinu 1903. Pródíkos. Pródíkos frá Keos (forngríska: Πρόδικος, fæddur 465 eða 450 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og fræðari, þekktur sem „undanfari Sókratesar“. Hann var enn á lífi árið 399 f.Kr. Pródíkos kom til Aþenu í sendinefnd frá Keos og varð þekktur sem mælskumaður og kennari. Líkt og Prótagóras hélt hann því fram að hann undirbyggi nemendur sína fyrir þátttöku í opinberu lífi og kenndi þeim að vera dygðugir. Prótagóras lagði þó einkum áherslu á mælskufræði en Pródíkos á siðfræði og málfræði. Pródíkos taldi mikilvægt að vera nákvæmur í orðavali og gerir Platon góðlátlegt grín að Pródíkosi af þeim sökum, m.a. í samræðunni "Prótagórasi" Pródíkos hafði kenningu um uppruna trúarbragða. Hann hélt að fyrst dýrkuðu menn náttúruöfl, einkum þau sem gögnuðust fólki, og persónugerðu þau. Þá hafi menn tekið að dýrka aðra menn sem gerðu samfélagi sínu gott. Rit Pródíkosar eru ekki varðveitt en titlar nokkurra verka eru kunnir, m.a. "Um náttúruna" og "Um manneðlið", "Um einkenni tungumálsins". Þeramenes, Evripídes og Ísókrates eru sagðir hafa verið nemendur Pródíkosar. Gorgías (Platon). "Gorgías" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon, nefnd eftir mælskufræðingnum Gorgíasi, sem er einn þriggja viðmælenda Sókratesar. Umræðuefnið er eðli mælskufræðinnar en snýst fljótlega yfir í réttlæti og siðferði. Listi yfir hundategundir. Eftirfarandi er listi yfir hundategundir (eða öllu heldur hundaafbrigði, þar sem allir hundar eru sömu tegundar) í stafrófsröð. a> bera vitni um margbreytileika hundategunda. Einnig má flokka hundategundir eftir skyldleika í flokka á borð við spaniel-hunda, spísshunda o.s.frv. Kandela. Kandela (enska "Candle") er SI grunneining fyrir ljósstyrk, táknuð með cd. Er skilgreind þanning: "Ljósstyrkur, í ákveðna átt, frá einlitum ljósgjafa með tíðnina 540 THz og með geislunarstyrk 1/683 vött á rúmhorn (W/sr) í gefna átt". Kúariða. Riðusjúkar kýr eiga oft erfitt með að standa Kúariða (fræðiheiti: "Bovine spongiform encephalopathy", BSE) er sjúkdómur í nautgripum sem var fyrst greindur í Bretlandi árið 1986. Meðgöngutími sjúkdómsins er að meðaltali um fimm ár. Einkennin minna á riðu; breytingar á hegðun og skapi og erfiðleikar við hreyfingar. Kúariða er flokkuð með svampheilameinum. Talið er að breyting í framleiðslu á kjöt- og beinamjöli sem varð í kringum 1980 í Bretlandi hafi gert það mögulegt að smitefni úr sláturúrgangi og hræjum barst í fóður og þannig hafi getað komið upp sýking í nautgripum. Veðurathugunarstöð. Tæknimaður skoðar vindhraðamæli á veðurathugunarstöð. Veðurathugunarstöð, einnig kölluð veðurstöð er staður á landi þar sem framkvæmdar eru reglulegar og kerfisbundnar veðurathuganir. Veðurathugunarmaður framkvæmir veðurathugun á "mannaðri veðurathugunarstöð", en þær eru gerðar sjálfvirkt á "sjálfvirkri veðurathugunarstöð". Veðurskeyti eru send frá veðurskeytastöð á veðurathugunartímum. Veðurstofa Íslands rekur fjölda veðurathugunarstöðva, þar af um 35 mannaðar. Ljósafl. Ljósafl (enska "Luminosity") er sú geislunarorka, sem stafar frá geislagjafa á hverri sekúndu, mælt í vöttum (W). Er óháð fjarlægð frá geislagjafa öfugt við ljósaflsþéttleika. Ljósaflsþéttleiki. Ljósaflsþéttleiki (enska "Irradiance") er það ljósafl á flatareiningu sem stafar frá ljósgjafa. Mælt í vöttum á fermetra (W/m2). Er háður fjarlægð frá ljósgjafa. Ljósflæði. Ljósflæði (enska "Luminous flux") er mælikvarði á styrk ljóss, að teknu tilliti til mismunandi næmis mannsaugans eftir bylgjulengdum. SI-mælieining er lúmen, táknuð með lm. Lúmen. Lúmen (latína "Lumen"- sem þýðir "ljós", "lampi" eða "mannsauga") er SI-mælieining fyrir ljósflæði, táknuð með lm. Jafngildir einingunni kandela í rúmhorn, þ.e. 1 lm = 1 cd sr. Lúx. Lúx (latína: "Lux", sem þýðir ljós) er SI-mælieining fyrir lýsingu, táknuð með lx. Jafngildir einingunni lúmen á fermetra, þ.e. 1 lx = 1 lm/m2 = 1 cd sr/m2. Lýsing. Lýsing (enska: "Illuminance") er í ljósfræði ljósflæði á fermetra. SI-mælieining er lúx, táknuð með lx. Er háð fjarlægð ljósgjafa. Afleiðsla. Gallinn á afleiðslunni er þó sá að hún gefur okkur engar nýjar upplýsingar, til að hún virki þarf maður að vita bæði það almenna og það einstaka. Þýskur fjárhundur. Þýskur fjárhundur eða séfer er afbrigði af hundi. Þýskir fjárhundar eru greindir og fjölhæfir hundar og ákjósanlegir vinnuhundar. Þeir eru oft nýttir sem lögregluhundar, varðhundar, leitarhundar, og blindrahundar. Þýskir fjárhundar eru einnig vinsæl gæludýr og félagar. Stærð. Þýski fjárhundurinn er stór hundur. Rakkar verða venjulega um 60-65 cm á hæð á herðakamb en tíkur um 55-60 cm. Rakkarnir vega yfirleitt um 30-40 kg en tíkurnar um 22-32 kg. Emilia Fox. Emilia Rose Elizabeth Fox (fædd 31. júlí 1974) er bresk leikkona sem best er þekkt fyrir hlutverk sitt sem Jeannie Hurst í Randall and Hopkirk (deceased). Hún er dóttir Edward Foxs og Joanna Davidar. Emilia á yngri bróður sem heitir Freddie. Tenglar. Fox, Emilia Fox, Emilia Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Fundarsalur öryggisráðsins í höfuðstöðvum S.þ. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og hefur það hlutverk að viðhalda friði og öryggi á meðal þjóða. Stofnunin er sú eina innan S.þ. sem hefur völd til þess að taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir aðildarríki S.þ. samkvæmt sáttmála þeirra, ákvarðanir þess nefnast ályktanir. Meðlimir ráðsins eru 15, þar af eru 5 með fast sæti en 10 sem kosnir eru af allsherjarþinginu til tveggja ára í senn. Föstu meðlimirnir eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Föstu meðlimirnir fara einnig með neitunarvald gagnvart öllum efnislegum ályktunum ráðsins (en ekki fundarsköpum). Forsæti í ráðinu færist á milli meðlima í hverjum mánuði. Deildartunguhver. Deildartunguhver er norðan Reykjadalsár, í Reykholtsdal, um 37 km frá Borgarnesi. Deildartunguhver er vatnsmesti hver Evrópu (og þ.a.l. Íslands líka), en hann er einnig líkt og Kleppjárnsreykjahver samheiti á nokkrum hverum sem í heildina ná yfir um 50 m svæði. Úr hverunum koma 180 l af u.þ.b. 100° heitu vatni á sekúndu og er mesta uppstreymið undan 5 m háum leirbakka sem nefndur er ýmist Hverahóll eða Laugarhóll. Hverinn er nálægt bænum Deildartungu og dregur nafn af honum. Hann er friðaður. Vatni úr hvernum er dælt til Borgarness og Akraness, þar sem það er notað til upphitunar húsa; og í Borgarnesi er vatninu veitt í eimbað Sundlaugarinnar í Borgarnesi úr Deildartunguhver. Þá er hann einnig notaður til að hita upp gróðurhús til ylræktar í landi Deildartungu. Gróðurfar. Sjaldgæf tegund skollakambs vex nálægt hvernum. Er hún af sumum náttúrufræðingum jafnvel talin vera skyld burkna og hafi orðið til sem stakt afbrigði fyrir sakir sérstakra aðstæðna og vaxtarskilyrða við hverinn og er jurtin friðuð. Húsafell. Húsafell er bær, kirkjustaður og áður prestssetur í Borgarfjarðarsýslu og er innsta byggt ból í sýslunni. Þar er nú sumarbústaðasvæði, ferðamannaþjónusta og tjaldsvæði. Þar er boðið upp á gistingu og þar er einnig verslun, sundlaug, og golfvöllur. Húsafellsland nær inn til jökla, að Eiríksjökli og Langjökli, og er jörðin mjög landmikil, um 100 ferkílómetrar. Bærinn er í miðju Hallmundarhrauni, í Húsafellsskógi, lágvöxnum birkiskógi. Mjög veðursælt er í Húsafelli og skjólgott í hrauninu. Í Húsafellsskógi voru fjölmennustu útihátíðir landsins um verslunarmannahelgi haldnar á árunum kringum 1970 og á hátíðinni 1969 voru um tuttugu þúsund manns. Í grenndinni eru Barnafoss og Hraunfossar og hellarnir Víðgelmir og Surtshellir. Margar góðar gönguleiðir eru í Húsafellslandi og þaðan er einnig farið í ferðalög um nágrennið, til dæmis að Eiríksjökli eða Langjökli, upp á Arnarvatnsheiði eða suður Kaldadal. Í Laxdælasögu sem er skrifuð um 1170 er þess getið að Brandur Þórarinsson hafi búið þar. Húsafell var lengi prestssetur og þekktasti presturinn sem þar sat er án efa Snorri Björnsson, sem var Húsafellsprestur 1756-1803. Um hann eru margar sögur, bæði þjóðsögur og staðfestar heimildir, og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Hann var annálaður kraftajötunn og var einnig talinn fjölkunnugur. Þegar aðalleiðin milli Norðurlands og Suðurlands lá um Arnarvatnsheiði fyrr á öldum var Húsafell í alfaraleið og þar var mjög gestkvæmt. Á síðari árum hafa komið fram tillögur um að leggja veg frá Húsafelli yfir Stórasand og til Norðurlands. Síberískur husky. Síberískur husky eða Síberíu-husky er afbrigði af hundi, sem á uppruna sinn að rekja til Síberíu. Síberískur husky er stór og úthaldsmikill hundur og er þekktur fyrir að þola vel kulda. Þeir geta unnið í allt að -60 °C. Upprunalega voru þeir ræktaðir sem smalahundar til að smala hreindýrum, sem sleðahundar og til að halda börnum heitum. Síberískur husky er léttari en margir aðrir sleðahundar, svo sem Alaska malamute og grænlenskur sleðahundur og þykja því hentugri til að draga léttari farm á meiri hraða. Enskur bolabítur. Enskur bolabítur, oft kallaður bolabítur, er afbrigði af meðalstórum hundi sem á uppruna sinn að rekja til Englands. Bolabíturinn er lágfættur en sterkbyggður hundur, með stutt trýni og húðfellingar á andliti. Bolabítur er prýðilegur varðhundur en þykir jafnframt ljúfur hundur og barngóður og hentar vel sem fjölskylduhundur. Þeir voru ræktaðir í nautaat þar sem hundi og nauti var att saman. Stærð. Fullorðinn hundur er venjulega um 30-36 cm á hæð á herðakamb. Rakkar geta orðið um 32 kg en tíkur sjaldnast þyngri en 28 kg. Samoyed. Samoyed eða samójed er afbrigði meðalstórra hunda sem á uppruna sinn að rekja til Síberíu. Samoyed-hundar voru upphaflega sleðahundar og smalahundar, ræktaðir til að smala hreindýrum. Þeir hafa þykkan mjúkan feld og þola vel kulda. Stærð. Fullorðnir rakkar verða um 57 cm að hæð á herðakamb og geta vegið 20-33 kg en tíkur verða um 53 cm á hæð og geta vegið 17-25 kg. Bullmastiff. Bullmastiff eða bolameistari afbrigði af stórra og öflugra hunda. Tegundin hlaut viðurkenningu árið 1924 en sagt er að þeir hafi orðið til með blöndun Mastiff-hunds og bolabíts. Bullmastiff voru ræktaðir sem varðhundar en hafa einnig orðið vinsælir fjölskylduhundar. Einnig er talið að það hafi verið bloodhound í ræktuninni, af því að þeir eru með svo gott lyktarskyn. Stærð. Bullmastiff eru stórir hundar. Rakkar geta orðið 63-68 cm háir á herðarkamb og geta vegið 50-60 kg en tíkur verða sjaldnast hærri en 66 cm og vega yfirleitt 40-50 kg. Skapgerð. Bullmastiff hundar eru hugrakkir, húsbóndahollir og rólegir hundar en hafa sterkt varðeðli. Þeir verja hiklaust heimilið fyrir ókunnugum en ráðast þó sjaldnast á fólk. Þeir eiga beita fremur stærð sinni með því að taka sér stöðu og hleypa engum fram hjá sér. Leonberger. Leonberger eða ljónbergur er afrigði stórra hunda. Leonberger-hundar eru nefndir eftir borginni Leonberg í Suðvestur-Þýskalandi. Leonberger-hundar eru sjaldséðir í borgum vegna stærðar sinnar og þörf sinni fyrir mikla þjálfun og útiveru. Stærð. Rakkar geta orðið 72-80 cm á hæð á herðakamb og geta vegið allt að 80 kg. Tíkur verða um 65-75 cm háar og vega venjulega ekki meira en 60-65 kg. Iðnskólinn í Hafnarfirði. Iðnskólinn í Hafnarfirði var stofnaður 11. nóvember 1928. Við skólann stunda að jafnaði 5-600 manns nám og þar starfa tæplega 70 manns. Aðalbygging skólans er staðsett við Flatahraun 12 í Hafnarfirði. Skólameistari er Ársæll Guðmundsson. Námsframboð. Almennt nám er annars vegar ætlað nemendum sem ekki hafa lokið grunnskólaprófi með fullnægjandi árangri og hins vegar nemendum sem eru óákveðnir. Áhersla er lögð á að bæta undirstöðu nemenda í kjarnagreinum. Að námi loknu eiga nemendur að vera færir um að hefja nám á einhverri af brautum skólans. Bygginga- og mannvirkjagreinar hefst með einnar annar sameiginlegu grunnnámi en að því loknu velja nemendur fagnám í húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum eða veggfóðrun. Hársnyrtiiðn snýst um umhirðu hárs og leiðsögn við meðferð þess, ásamt litun og hönnun hárgreiðslu með hliðsjón af óskum viðskiptavina. Listnám í Iðnskólanum er með áherslu á almenna hönnun sem er skilgreind sem þrívíddarhönnun, undirstaða fjöldaframleiðslu og hönnunar rýmis. Nemendur eru þjálfaðir í að tjá hugmyndir sýnar á myndrænan hátt og vinna með hönnunarverkefni frá hugmynd til lokaútfærslu. Málmiðnir skiptast í grunn- og framhaldsnám. Í framhaldsnám er val um þrjár faggreinar sem eru stálsmíði, rennismíði og vélvirkjun. Rafiðnir hefst með sameiginlegu grunnnámi en að því loknu velja nemendur fagnám í rafeindavirkjun, rafvirkjun, rafvélavirkjun eða rafveituvirkjun. Starfsbraut er fyrir nemendur sem ekki geta nýtt sér aðrar brautir skólans og hafa fengið sérúrræði í grunnskóla. Nemendur leggja grunn að þekkingu í bóklegum og verklegum greinum. Tækniteiknun leggur áherslu á almenna tölvunotkun og tölvuteikningu.Námið er ætlað til þess að mennta tækniteiknara til starfa á teiknistofum fyrirtækja, ráðgefandi verkfræðinga, arkitekta, ríkisstofnana, bæjarfélaga o.fl. Þar að auki er námið góður undirbúningur til frekara náms á ýmsum sviðum tengdum tækni og hönnun. Félagslíf. Í skólanum er rekið öflugt nemendafélag sem kappkostar að sinna öllum þeim fjölbreytta hóp sem stundar nám við skólann. Saga skólans. Iðnskólinn í Hafnarfirði var stofnaður 11. nóvember 1928 á fyrsta fundi Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar og var skólinn rekinn sem kvöldskóli til ársins 1955. Fyrsti skólastjóri Iðnskólans var Emil Jónsson bæjarverkfræðingur, síðar forsætisráðherra. Hann gegndi stöðunni til ársins 1944. Árið 1956 urðu þau tímamót í sögu skólans að ríki og bæjarfélagið tóku við rekstri hans og var hann þá gerður að dagskóla. Þegar stofnuð var grunndeild málmiðna árið 1974 var tekin upp verkleg kennsla við skólann. Grunndeild tréiðna og verklegt nám fyrir háriðnir hófst árið 1977 og á sama tíma hófst kennsla í tækniteiknun. Síðasta grunndeildin var stofnuð 1983 með verklegri kennslu í rafiðnum. Verkdeildirnar hafa verið, og eru ennþá, kjölfesta skólastarfsins. Árið 1990 var komið á fót hönnunarbraut en henni var síðan breytt í listnámsbraut árið 1999. Almenn námsbraut tók til starfa haustið 2000. Skólinn flutti í nýtt húsnæði í janúar árið 2000 við Flatahraun 12. Í því fólst veruleg stækkun og bylting á allri aðstöðu nemenda og kennara. Áður hafði Iðnskólinn verið á tveimur stöðum þar sem bóknám fór fram í húsnæðinu við Reykjavíkurveg og verknámið var til húsa við Flatahraun. Til að byrja með var öll aðstaða undir sama þaki en vegna mikillar aðsóknar og fjölgunar í skólanum hefur skólinn notast við fleiri hús í nágrenni aðalbyggingarinnar á meðan beðið er úrbóta. Varðhundur. Varðhundur er hundur sem hefur það hlutverk að gæta svæðis og verja það gegn óvelkomnum dýrum eða fólki. Varðhundar gelta til að gera eigendum sínum viðvart þegar óboðnir gestir birtist. Í sumum tilfellum getur hundurinn einnig hrætt burt óboðna gesti með því einu að gelta. Sumir varðhundar eru einn fremur þjálfaðir til þess að halda óboðnum gesti í skefjum eða ráðast jafnvel á hann. Til dæmis eru búhundar oft nægilega stórir til þess að ráðast á og hrekja burt rándýr eins og refi og úlfa. Þegar líklegra er að óboðni gesturinn sé maður eru varðhundar stundum þjálfaðir til þess að halda honum föstum með leiðsögn eigandans. Einnig kemur fyrir að slíkir varðhundar séu beinlínis þjálfaðir til þess að ráðast á óboðna gestinn en slíkt er víða ólöglegt. Hundar eru misgóðir varðhundar og sum afbrigði geta verið prýðilega til þess fallin að gera eigendum viðvart en ekki til þess að ráðast a óboðna gesti, t.d. vegna þess að hundarnir gelta hátt en hafa lítið bardagaeðli. Dobermann. Dobermann pinscher eða dobermann (stundum skrifað doberman), einnig nefndur dofri á íslensku, er afbrigði af hundi. Dobermann-hundar eru háfættir og vöðvastæltir hundar og eru algengir varðhundar og lögregluhundar. Stærð. Dobermann rakki getur orðið 68-72 cm hár á herðakamb og vegið 40-45 kg. Tíkur verða aðeins minni eða 63-68 cm og um 32-35 kg. Saga. Það var Þjóðverjinn Friedrich Louis Dobermann sem á heiðurinn á þessum glæsilega hundi. Hann var eins konar hundaeftirlistmaður og hafði því aðgang að mörgum ólíkum tegundum. Hann dreymdi um hinn fullkomna varðhund, meðalstóran eða stóran hund sem átti að vera snögghærður, hugrakkur og þolgóður. Fyrst paraði hann saman þýskum pinscher og rottweiler. Einnig kom við sögu Machester terrier og bendir (pointer). Um 1880 varð svo dobermann-hundakynið til og árið 1900 var hann fyrst skráður í Breska hundaræktunarfélagið, 1912 var Dobermann klúbbur stofnaður í Bandaríkjunum og árið 2005 var loks stofnaður Dobermann klúbbur á Íslandi. Dobermann varð strax mjög vinsæll um allan heim sem varðhundur og lögregluhundur auk þess sem hann gegndi stóru hlutverki í seinni heimsstyrjöldinni í björgun mannslífa. Hann er stór, sterkur, þolinn og er í hópi gáfuðustu hundategunda í heiminum. Eiginleikar. Dobermann hefur mikla vinnugleði og þarfnast krefjandi verkefna, hann á samt sem áður auðvelt með að una sér í ró og næði fyrir framan sjónvarpið við hlið húsbónda sins. Flestir sem heyra minnst á orðið dobermann sjá jafnan fyrir sér froðufellandi óargadýr, sem er ef til vill ekki skrýtið, vegna þess orðspors sem af honum fer og hlutverks sem hann hefur gegnt í gegnum tíðina. Þetta eru að mestu leyti ýkjur, þó vissulega sé hægt að gera úr honum ákafan varðhund. Að eðlisfari er dobermann barnagæla, blíður, ástríkur í meira lagi og traustur hundur, sem hefur þó sterkt varðeðli og mun hann gæta húsbónda síns, fjölskyldu hans, bílinn, húsið og hin gæludýrin en það er ekki sjálfgefið að hann ráðist á og slasi alla óvelkomna eða ókunnuga, heldur hefur hann bara í hótunum nema að honum sé kennt annað. Dobermann hefur gjarnan verið notaður til lögreglustarfa, hann er góður leitar-, blindra- og björgunarhundur, einnig finnast dæmi sem þeir hafa verið þjálfaðir í veiði og jafnvel sem fjárhundar. Dobermann hefur einnig orðið mjög vinsæll sýningarhundur. Síðast en ekki síst þá er dobermann góður heimilishundur og traustur vinur. Að eiga dobermann er þó mikil skuldbinding og ekki beinlínis ráðlagt að fá sér hann sem fyrsta hund, hann þarf mikinn aga og skýrar reglur. Dobermann elskar að vinna fyrir eiganda sinn og þarf að fá vinnu sem bæði reynir á líkamlegt og andlegt atgerfi. Því er sniðugt að fara með hann á hlýðni- og sporanámskeið þar sem hann fær útrás fyir vinnugleði sína með húsbónda sínum. Mytilus. "Mytilus" er heiti á ættkvísl sæskelja sem inniheldur fjórar tegundir þar á meðal annars hinn hefðbundna krækling ("Mytilus edulis"). Allar tegundirnar eru ætar en vegna þess að þær eru síarar geta þær tekið upp eitur úr umhverfinu (frá svifþörungum og úr mengun) og orðið hættulegar. Veðurathugunartími. Veðurathugunartími er ákveðinn tími sólarhrings, þegar framkvæmdar eru veðurathuganir og "veðurskeyti" eru send frá veðurskeytastöð. Miðað er við samræmdan alþjóðlegan tíma (UTC) og fyrir mannaðar veðurstöðvar eru eftirfarandi tímar notaðir: kl. 3, 6, 9, 12, 15, 18, 21 og 24 UTC. (Á Íslandi er veðurathugun stundum sleppt kl. 3 og kl. 6.) Sjálfvirkar veðurstöðvar senda út veðurskeyti á klukkustunda fresti og er þá miðað við heila tímann kl. 1, 2, 3 UTC o.s.frv. Veðurathugunarmaður skal hefja veðurathugun í fyrsta lagi 10 mínútur fyrir veðurathugunartíma. Borrar. Borrar (fræðiheiti: "Perciformes", en líka "Percomorphi" og "Acanthopteri") eru stærsti ættbálkur hryggdýra og telja um 40% allra fiska og 7000 tegundir. Ættin dregur nafn sitt af aborra ("Perca flavescens"). Borrar komu fyrst fram seint á krítartímabilinu. Einkenni á borrum er að bakuggar og raufaruggar skiptast í tvennt þar sem fremri hlutinn er með harða geisla og sá aftari með mjúka geisla. Þeir eru venjulega með kviðugga með einum hörðum geisla og allt að fimm mjúkum, ýmist undir hálsinum eða á maganum. The Pussycat Dolls. The Pussycat Dolls er bandarísk stúlknahljómsveit sem stofnuð var í Los Angeles árið 1995. Broddmjólk. Broddmjólk eða broddur (latína: "colostrum") er sú mjólk sem framleidd er í mjólkurkirtlum spendýra seint á meðgöngu og nokkrum dögum fyrir fæðingu. Broddmjólkin inniheldur mörg lífsnauðsynleg efni sem hjálpa afkvæminu að þroskast og verjast sjúkdómum. Úr broddmjólk kúa eru búnir til ábrystir. Flatfiskar. Flatfiskar (fræðiheiti: "Pleuronectiformes") eru ættbálkur geislugga sem stundum eru flokkaðir sem undirættbálkur borra. Margar tegundir eru með bæði augun öðrum megin á höfðinu þar sem annað augað eða bæði flyst til þegar fiskurinn þroskast. Sumar tegundir snúa upp vinstri hliðinni en aðrar þeirri hægri. Annað einkenni eru augu sem geta staðið út úr höfðinu og bakuggi sem nær alla leið fram á höfuðið. Þessi einkenni flatfiska eru aðlögun að lífi á sjávarbotni þar sem þeir liggja flatir á annarri hliðinni til að felast fyrir rándýrum. Margir mikilvægir matfiskar tilheyra þessum ættbálki, þar á meðal lúða, koli og sandhverfa. Bad Religion. Bad Religion er bandarísk pönkrokkhljómsveit sem stofnuð var 1979 í Los Angeles. Upphaflegir meðlimir voru Greg Graffin (söngur), Brett Gurewitz (gítar), Jay Bentley (bassi) og Jay Ziskrout (trommur). Graffin er eini meðlimurinn sem hefur verið í sveitinni allan tímann en Gurewitz og Bentley hafa starfað með sveitinni með hléum. Hljómsveitin er þekkt fyrir textasmíði sína og þá pólitísku og samfélagslegu ádeilu sem þeir byggjast gjarnan á. Síldfiskar. Síldfiskar (fræðiheiti: "Clupeiformes") eru eini ættbálkur geislugga innan yfirættbálksins clupeomorpha. Hann telur um 300 tegundir; þar á meðal síld og ansjósu. Steinsholtsjökull. Steinsholtsjökull er brattur skriðjökull sem skríður til norðurs út úr Eyjafjallajökli. Lítið jökullón er við jökulsporðinn. Rúmmetri. Rúmmetri eða teningsmetri er rúmmálseining SI-kerfisins, táknuð með m³. Jafngildir rúmmáli tenings, sem er einn metri á lengd, breidd og á hæð. Einn rúmmetri jafngildir 1000 lítrum. Djúpalónssandur. Aflraunasteinarnir Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði Djúpalónssandur er bogamynduð. grunn vík, með sandi í botni og klettakví þar upp af. Vík þessi er með ströndinni milli Einarslóns og Dritvíkur, fyrir neðan Beruvíkurhraun og fyrir vestan Purkhóla á vesturströnd Snæfellsness. Hraunið gengur í sjó fram og djúpar gjár ganga inn í það þar sem brimið étur sig inn í hraunið. Við sandinn er sérkennilegur klettur sem kallast Gatklettur og við hann er tjörnin Svörtulón. Djúpalónssandur var verstoð og þar þótti reimt og heitir hellir einn þar Draugahellir. Djúpalónssandur er um 10 km frá Hellnum. Þarna er einnig Tröllakirkja, sérkennileg hellisglufa inn í hamravegginn. Vinsæl og auðveld gönguleið liggur á milli Djúpalónssands og Dritvíkur. Hún er tæplega 1 km. Á Djúpalónssandi eru steintök sem vermenn reyndu afl sitt á, en til þess að fá pláss á báti þurfti viðkomandi að geta lyft þeim öllum. Fjórir aflraunasteinar liggja undir Gatkletti þegar komið er niður á sandströndina. Þeir eru Fullsterkur 155 kg, Hálfsterkur 140 kg, Hálfdrættingur 49 kg og Amlóði 23 kg. Frá aflraunasteinum þessum er stutt yfir í sjálfa víkina og þar fyrir ofan malarkambinn eru ferskvatnslón þau tvö og djúp sem víkin dregur nafn sitt af. Breski togarinn Epine GY 7 frá Grimsby fórst fyrir utan Djúpalónssand í mars 1948 og liggur járn úr skipinu á við og dreif um sandinn. Fimm skipsverjar lifðu slysið af en 14 fórust. Geislagjafi. Geislagjafi er hlutur eða áhald, sem gefur frá sér jónandi geislun og inniheldur geislavirkt efni. Geislatæki gefa sum öfluga jónandi geislun, sem ekki stafar frá geislavikrum efnum. Veðurathugunarmaður. Veðurathugunarmaður er maður sem framkvæmir veðurathugun á mannaðri veðurathugunarstöð. Veðurathugunarmaður skráir veðurathugun í veðurbók og sendir hana til veðurstofu í upphafi hvers árs. Á veðurskeytastöð eru send veðurskeyti á veðurathugunartímum. Veðurstofa Íslands þjálfar veðurathugunarmenn og geymir veðurbækur og önnur veðurgögn. Fiskistofn. Fiskistofn er stofn af tiltekinni tegund fiska þar sem innri þættir (vöxtur, nýliðun og afföll) eru einu þættirnir sem skipta máli í stofnstærðarbreytingum en ytri þættir (aðflutningur og brottflutningur) eru taldir skipta litlu máli. Mlungu dalitsani Malaŵi. Mlungu dalitsani Malaŵi ("Guð blessi Malaví") er þjóðsöngur Malaví. Michael-Fredrick Paul Sauka (f. 1934) setti bæði saman tónverkið og textann og var það tekið upp árið 1964. Sic. "Sic" er latneskt orð (borið fram "sikk") sem þýðir „þannig“, „svona“, „á þennan hátt“ eða „á slíkan hátt“. Stundum er rituð heil setning: "sic erat scriptum" („þannig var það skrifað“). Í rituðu máli á ýmsum tungumálum er orðinu er skotið inn í tilvitnanir til að benda á að rangt málfar eða óvenjuleg stafsetning eru tekin óbreytt upp úr heimild en eru ekki misritanir í uppskrift. Í samræmi við stílhefðir varðandi tilvitnanir er sic haft í hornklofa. Á íslensku er stundum notað orðið í stað. Börn náttúrunnar. "Börn náttúrunnar" er íslensk kvikmynd frá 1991. Myndin segir frá Þorgeiri (Gísli Halldórsson) sem flytur í elliheimili í Reykjavík eftir að hafa búið í sveit allt sitt líf. Hann hittir aftur gamla vinkonu sína Stellu (Sigríður Hagalín), og saman strjúka þau af elliheimilinu. Leikstjóri kvikmyndarinnar er Friðrik Þór Friðriksson. "Börn náttúrunnar" er eina íslenska kvikmyndin í fullri lengd sem hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna en hún var tilnefnd í flokknum Besta erlenda kvikmyndin árið 1992. Englar alheimsins (kvikmynd). Englar alheimsins er kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson frá árinu 2000 gerð eftir samnefndri skáldsögu Einars Más Guðmundssonar. Hún var send til forvals óskarsins, en var ekki tilnefnd. Útlaginn. "Útlaginn" er íslensk kvikmynd eftir Ágúst Guðmundsson frá 1981. Hún er byggð á Gísla sögu Súrssonar. Tónlistin er eftir Áskel Másson. Siðaskiptin á Íslandi. Siðaskiptin á Íslandi urðu um miðja 16. öld og eru gjarna miðuð við aftöku Jóns Arasonar biskups á Hólum haustið 1550, en hann var tekinn af lífi ásamt sonum sínum í Skálholt. Siðbreytingin hófst þó töluvert fyrir líflát Jóns, en aftakan markaði þáttaskil vegna þess að biskupinn hafði verið helsti andstæðingur hennar á Íslandi og þegar hann var úr sögunni varð miklu auðveldara að koma breytingum í kring. Við siðaskiptin fluttust eignir kirkjunar í hendur Danakonungs sem tók við stöðu æðsta manns innan hennar í stað páfa, ítök Dana á Íslandi jukust og lögggjöf varð strangari, ekki síst í siðferðismálum. Lútherskan berst til landsins. Kristján konungur 3. innleiddi mótmælendatrú í Danmörku 30. október 1536 og kom einnig á siðbreytingu í Noregi og Færeyjum, en ekki verður séð að hann hafi gert neitt til að afla lútherskunni brautargengis á Íslandi næstu árin. Áhrif Lúthers voru þó þegar farin að berast til landsins og Þjóðverjar,sem stunduðu veiðar og verslun hér við land, eru sagðir hafa reist lútherska kirkju í Hafnarfirði þegar árið 1533. Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti, sem var orðinn aldraður, hafði í þjónustu sinni nokkra unga menn sem menntaðir voru erlendis og höfðu kynnst mótmælendahreyfingunni þar og hrifist af henni þótt þeir flíkuðu ekki skoðunum sínum þegar biskup var nærstaddur. Einn þessara ungu manna var Oddur Gottskálksson, sonur Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups. Hann kom heim frá námi í Þýslandi 1535, þá um tvítugt, og hófst fljótt handa við að þýða Nýja testamentið á íslensku og segir sagan að hann hafi oft verið við iðju sína úti í fjósi í Skálholti. Nýja testamenti Odds var prentað í Hróarskeldu 1540 og er það elsta varðveitta prentaða verkið á íslensku. Annar ungur menntamaður sem hafði kynnst lútherskunni í Þýskalandi var Gissur Einarsson. Árið 1539 valdi Ögmundur hann sem eftirmann sinn og var hann vígður biskup að Ögmundi lifandi. Gamli biskupinn sá brátt eftir vali sínu, þegar skoðanir Gissurar komu berlega í ljós, en hann var orðinn hrumur og gat lítið að gert, þótt hann væri enn biskup að nafninu til með Gissuri. Vorið 1541 komu svo danskir hermenn undir stjórn Christoffer Huitfeldt til landsins, handtóku Ögmund og fluttu hann með sér út til Danmerkur en hann dó á leiðinni. Gissur hafði þá frjálsar hendur við að koma hinum nýja sið á en varð þó minna ágengt en hann hefði viljað því ekki voru allir sáttir við siðbreytinguna og Hólabiskupsdæmi var enn rammkaþólskt. Jón Arason og fjörbrot kaþólskunnar. Minnisvarði um Jón Arason í Skálholti. Danakonungur og fulltrúar hans aðhöfðust ekkert gegn Jóni Arasyni og var Ísland því skipt milli mótmælenda og kaþólskra næstu árin. Það var ekki fyrr en eftir dauða Gissurar 1548, þegar Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum, fór á stúfana og reyndi að leggja Ísland allt undir sig og koma á kaþólsku að nýju sem skarst í odda. Jón reið til Skálholts til að hertaka biskupssetrið og láta kjósa nýjan biskup. En heimamenn voru við öllu búnir og eftir fimm daga umsátur gafst Jón upp á þófinu og hélt burt. Jón lét svo kjósa Sigvarð Halldórsson ábóta í Þykkvabæ sem biskupsefni og sendi hann út til að fá vígslu, sem hann fékk vitaskuld ekki; Sigvarður lést ytra 1550 og er sagt að hann hafi þá verið búinn að taka lútherstrú. Marteinn Einarsson, biskupsefni mótmælenda var aftur á móti vígður sem eftirmaður Gissurar. Marteinn kom heim 1549 en þá sendi Jón syni sína, Ara og Björn, að handtaka hann og færðu þeir hann til Hóla þar sem hann var í varðhaldi næsta árið. Vorið 1550 fór Jón í Skálholt, lét grafa lík Gissurar biskups upp og dysja hann utangarðs sem villutrúarmann. Um sumarið reið Jón til alþingis og fékk þar samþykkt að Íslendingar skyldu taka upp kaþólsku að nýju. Hann og synir hans fóru líka um, handtóku marga helstu forystumenn lútherskra, þvinguðu þá til að taka aftur upp kaþólskan sið eða hröktu þá úr landi. Jón sagði þá að hann hefði nú undir sér allt Ísland nema hálfan annan kotungsson - og átti þá við Gleraugna-Pétur Einarsson, bróður Marteins biskups, og Daða Guðmundsson í Snóksdal, mág Marteins. Um haustið riðu þeir feðgar vestur í Dali og hugðust ná Daða í Snóksdal á sitt vald, annaðhvort með vopnavaldi eða samningum. Þeir settust upp á Sauðafelli og biðu átekta í nokkra daga en á meðan safnaði Daði liði og yfirbugaði þá eftir stutt átök. Þeir voru fluttir í Skálholt og hálshöggnir þar 7. nóvember 1550. Eru siðaskiptin oftast miðuð við þann dag þótt þau hafi orðið í Skálholtsbiskupsdæmi átta árum fyrr. Þjóðfélagsbreytingar. Við siðbreytingu fluttust allar eigur kirkjunnar í hendur Danakonungs og ítök og áhrif Dana jukust til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, og lauk þeirri þróun með tilkomu einokunarverslunarinnar 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin. Löggjöf varð strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur Stóridómur, sem var ströng löggjöf í siðferðismálum. Hundategund. a> bera vitni um margbreytileika hundategunda. Hundategund, hundakyn eða hundaafbrigði er hópur hunda sem á flestöll útlitseinkenni og skapgerðareinkenni sameiginleg, einkum vegna þess að hann er kominn af hópi sameiginlegra forfeðra sem hafði sömu einkenni. Þess ber að geta að orðið „hundategund“ getur verið villandi, því allir hundar eru sömu tegundar í líffræðilegum skilningi. Eftir sem áður er orðanotkunin útbreidd. Yfirlit. Hundar hafa verið ræktaðir í þeim tilgangi að ná fram tilteknum einkennum í þúsundir ára. Upphaflega mun ræktunin hafa miðað að því að auðvelda tamningu hundsins og að ná fram nytsamlegri hegðun, svo sem veiðieðli. Síðar voru hundar einnig ræktaðir útlitsins vegna og afleiðingin er meðal annars margbreytileiki meðal hundategunda. Margar hefðbundnar hundategundir sem eru viðurkenndar af hundaræktarfélögum eru sagðar vera „hreinræktaðar“. Einungis þeir hundar sem eru komnir af tveimur hreinræktuðum hundum eru taldir hreinræktaðir. Hugtakið er umdeilt bæði vegna þess hve erfitt er að framfylgja settum reglum og vegna mögulegra erfðafræðilegra afleiðinga ræktunar af of litlum stofni. Erfðafræðirannsóknir hafa verið gerðar undanfarið á ólíkum hundategundum og hafa afleiðingarnar í sumum tilvikum komið á óvart til dæmis hvað aldur og skyldleika hundategunda varðar. Almennt gildir að áður en afbrigði hunds er viðurkennt sem réttnefnd hundategund eða hundakyn verður að sýna fram á að afkvæmi tveggja einstaklinga af því afbrigði séu ávallt hundar með sömu einkenni og foreldrarnir, bæði í útliti og skapgerð. Til dæmis verður slétthærður sækir að vera svartur; þó fæðast gulir hvolpar af og til. Hundaræktarfélög viðurkenna ekki gulu hundana sem einstaklinga þessarar hundategundar og sumir ræktendur drepa hvolpana frekar en að leyfa þeim að vaxa úr grasi og geta af sér fleiri „óæskilega“ gula hvolpa og viðhalda þannig geninu; stundum eru slíkir hundar vanaðir og seldir sem gæludýr. Annað dæmi má taka af belgískum fjárhundum en tveir hundar af groenendael-afbrigði belgískra fjárhunda geta stundum af sér hvolpa af tervueren-afbrigði (brúna). Hundaræktarfélagið American Kennel Club telur afbrigðin vera ólíkar hundategundir og þar af leiðandi eru brúnu hvolparnir ekki samþykktir og taldir óæskilegir; aftur á móti telja önnur hundaræktarfélög, svo sem Canadian Kennel Club, að hundarnir séu einfaldlega ólík litaafbrigði af sömu hundategund. Í skóm drekans. "Í skóm drekans" er heimildarmynd um Hrönn Sveinsdóttur, hún ákveður að taka þátt í Ungfrú Ísland, og með hjálp vina og vandamanna tekur hún það allt upp. Margir af keppinautum hennar voru grunlausir um að hún væri að taka upp heimildarmynd, og héldu að hún væri að taka upp persónulegar upptökur. Af þessari ástæðu spruttu upp kærur vegna sýninga myndarinnar í kvikmyndahúsum, sem endaði með því að myndin varð að vera klippt. Í Áramótaskaupinu 2002 var gert mikið grín að myndinni og atburðunum sem komu í kjölfar hennar. María (kvikmynd). "María" segir frá samnefndri persónu, leikin af Barbara Auer, sem kemur frá Þýskalandi til Íslands eftir síðari heimsstyrjöld í leit að betra lífi við að vinna á sveitarheimilum. Kvikmyndin er leikstýrð af Einari Heimissyni. Gullinsækir. Gullinsækir eða golden retriever er vinsælt afbrigði af hundi, sem var upphaflega ræktað til þess að sækja bráð skotveiðimanna. Gullinsækir er algengur fjölskylduhundur. Hann er auðveldur í þjálfun, mjög umburðarlindur og þarfnast ekki mikils frá eigendum sínum annað en matar, reglulegrar hreyfingar og skoðunar hjá dýralækni. Gullinsækir geltir ef honum verður bylt við en er almennt geðgóður hundur og ekki ákjósanlegur sem varðhundur. Gullinsækir er vinsæll blindrahundur. Stærð. Gullinsækir er fullvaxinn um eins árs gamall en nær fullri þyngd um tveggja ára gamall. Algengt er að rakkar verði um 56-61 cm á hæð á herðakamb en tíkur um 51-56 cm. Rakkar verða um 29-34 kg þegar þeir hafa náð fullri þyngd en tíkur yfirleitt um 27-32 kg. Labrador sækir. Labrador sækir, labrador retriever eða bara labrador (stundum kallaður „labbi“) er afrigði af hundi. Labrador er vinsælasta hundakynið bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi (miðað við fjölda skráðra eigenda) en nýtur einnig mikilla vinsælda víða annars staðar. Labrador hundar eru vingjarnlegir, greindir, leiknir og geðgóðir. Þeir eru bæði prýðilegir fjölskylduhundar og vinnuhundar. Labrador hundar eru meðal þeirra hunda sem eru hvað fljótastir að læra. Þeir eru einnig þekktir fyrir að vera sundelskir, enda upphaflega ræktaðir til þess að sækja bráð skotveiðimanna í vatn og til brúks á andaveiðum. Þeir voru fyrst ræktaðir á 19. öld Stærð. Labrador hundar eru stórir hundar. Rakkar vega yfirleitt um 27-36 kg en tíkur um 23-32 kg. Pappírspési (kvikmynd). "Pappírspési" er barnakvikmynd byggð á skáldsögu Herdísar Egilsdóttur og leikstýrð af Ara Kristinssyni. Myndin var send í forval Óskarsins árið 1991. Blóðhundur. Blóðhundur, einnig þekktur sem St. Hubertshundur, er afbrigði stórra hunda sem hafa verið ræktaðir sérstaklega sem sporhundar. Yfirvöld nota víða blóðhunda til þess að þefa uppi strokufanga, týnd börn og fórnarlömb náttúruhamfara, svo sem jarðskjálfta og snjóflóða. Blóðhundar eru þekktir fyrir að geta fundið lykt sem er margra daga gömul og fylgt henni eftir langar leiðir. Þeir hafa næmasta lyktarskyn allra hunda. Blóðhundar eru gæfir og geðgóðir hundar. Stærð. Fullvaxnir rakkar vega um 36-50 kg og eru um 58-69 cm háir á herðakamb. Þeir eru stórbeinóttir og megnið af líkamsþyngd þeirra er fólgin í beinagrindinni. Herts. Herts (þýska "Hertz"), er SI-mælieining tíðni, táknuð með Hz. Nefnd eftir þýska eðlisfræðingnum Heinrich Rudolf Hertz (1857-1894). Eitt herts jafngildir sveiflutíðninni einni sveiflu á sekúndu, samsvarandi því að ákveðinn atburður gerist einu sinni á hverri sekúndu (kallast einnig rið), þ.e. 1 Hz = 1 s-1 = 1 rið. Ungfrúin góða og húsið (kvikmynd). "Ungfrúin góða og húsið" er kvikmynd eftir Guðnýju Halldórsdóttur frá 1999 byggð á samnefndri skáldsögu eftir Halldórs Laxness. Atómstöðin (kvikmynd). "Atómstöðin" er íslensk kvikmynd byggð á samnefndri skáldsögu Halldórs Laxness. Dís (kvikmynd). "Dís" er íslensk kvikmynd byggð á samnefndri skáldsögu eftir Silju Hauksdóttur, Birnu Önnu Björnsdóttur og Oddnýju Sturludóttur. Silja leikstýrði einnig myndinni. Var Menningarnótt endursköpuð þann 12. október 2003 í Reykjavík þar sem Skólavörðustígur mætir Laugavegi og Bankastræti til að geta tekið upp atriði fyrir myndina. Ari Kristinsson. Ari Kristinsson (f. 16. apríl 1951) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður sem aðallega hefur fengist við kvikmyndatöku, en hefur líka leikstýrt barnamyndunum "Stikkfrí" (1997) og "Pappírspésa" (1990). Ari hefur í gegnum árin tekið upp mikið af kvikmyndum eftir Friðrik Þór Friðriksson, meðal annars kvikmyndum á borð við Börn náttúrunnar, Bíódagar, Djöflaeyjan, Mamma Gógó og Á Köldum klaka. Englar alheimsins (bók). 'Englar alheimsins er skáldsaga eftir Einar Má Guðmundsson sem kom út hjá Máli og menningu árið 1993. Hún fjallar um ungan mann með geðklofa. Bókin hlaut Menningarverðlaun DV í flokki bókmennta árið 1994. Árið eftir hlaut hún svo Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Árið 2000 var gerð samnefnd kvikmynd eftir bókinni. Leikstjóri var Friðrik Þór Friðriksson. Úngfrúin góða og Húsið. "Úngfrúin góða og Húsið" er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom upphaflega út í bókinni ' árið 1933. Samnefnd kvikmynd, gerð eftir bókinni, leikstýrt af Guðnýju Halldórsdóttur (dóttur Halldórs), var frumsýnd árið 1999. Sagan. Bókin fjallar sem sagt um prófastsfjölskyldu, systurnar þær Þuríði og Rannveigu og foreldra þeirra, sem býr í Eyvík og er mjög svo annt um mannorð sitt og grípur til margra örþrifaráða til að það falli ekki blettur á heiður þeirra. Skýjahöllin. Skýjahöllin er barnakvikmynd gerð eftir skáldsögu Guðmundar Ólafssonar, Emil og Skundi. Hún er leikstýrð af Þorsteini Jónssyni. Punktur punktur komma strik (kvikmynd). "Punktur punktur komma strik" er íslensk kvikmynd eftir Þorstein Jónsson frá 1981, gerð eftir samnefndri skáldssögu Péturs Gunnarssonar. Hestburður. Hestburður er forn íslenskt mælieining úr landbúnaði, þar sem átt var við magn af þurru heyi, sem einn hestur gat borið með góðu móti. Áætlað er að einn hestburður samsvari 100 kílógrömmum. Á hvern hest í heybandi voru reiddir tveir baggar, u.þ.b. 50 kílógrömm hver. Þannig færðu hestarnir heyið heim að hlöðu eða stæði, eða að þeir reiddu það heim á þurrkvöll. Var útheyið, af engjum og flóum, þá bundið í svokallað votaband og reitt heim á þurrari stað til þurrkunar. Það var karlmannsverk að hengja baggana á klakk á klyfberanum og þegar strákar gátu komið bagga á klakk voru þeir kallaðir baggafærir. 101 Reykjavík (kvikmynd). 101 Reykjavík er kvikmynd eftir Baltasar Kormák, byggð á samnefndri skáldsögu eftir Hallgrím Helgason. 79 af stöðinni. "79 af stöðinni" er kvikmynd frá 1962 og er byggð á sögu Indriða G. Þorsteinssonar. Í myndinni er flutt lag Sigfúsar Halldórssonar, Vegir liggja til allra átta, sungið af Ellý Vilhjálms. Lagið hefur notið vinsælda alla tíð síðan myndin kom út. Myndin fjallar meðal annars um Keflavíkurflugvöllinn, og vegna þess hvernig bandaríski herinn er sýndur í myndinni voru þrír bandarískir hermenn, sem léku í myndinni, yfirheyrðir. Tveir þeirra voru síðar leystir frá störfum. Líma. Líma er höfuðborg Perú og jafnframt stærsta borgin með um 8,4 milljónir íbúa. Borgin var stofnsett af Francisco Pizarro 18. janúar 1535 og varð fljótt miðpunktur spænska heimsveldisins. Árið 1746 var mikill jarðskjálfti í borginni. Þorsteinn Jónsson (leikstjóri). Þorsteinn Jónsson (6. desember 1946) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður sem hefur gert nokkurn fjölda heimildamynda og leiknu kvikmyndirnar "Punktur punktur komma strik" (1980), "Atómstöðin" (1984) og "Skýjahöllin" (1994). Hann lærði í hinum þekkta kvikmyndaskóla FAMU í Prag og lauk þaðan námi 1971. Skroppið til himna. "Skroppið til himna", (en: "A Little Trip to Heaven"), er kvikmynd, sem tekin er upp á Íslandi og framleidd af Íslendingum, en gerist í Bandaríkjunum. Í kvikmyndinni eru eingöngu bandarískir aðalleikarar. Í stuttu máli fjallar hún um ungt par sem reynir að afla sér peninga með tryggingasvikum og rannsóknarmann, sem reynir að komast að hinu sanna í málinu. Veggspjöld og hulstur. Brot úr "Skroppið til himna" Eins og svo oft á Íslandi er veggspjald myndarinar næstum alveg eins og DVD hulstrið. Hins vegar er alveg nýtt plakat notað í Bandaríkjunum. Á hjara veraldar. "Á hjara veraldar" er kvikmynd eftir Kristínu Jóhannesdóttur frá 1983. Hvar er hægt að finna hana. Það hefur verið mjög erfitt að finna "Á hjara veraldar" til leigu eða til sölu undanfarið. Kvikmyndasafn Íslands varðveitir eintak af henni, en sýnir hana mjög sjaldan. Ein af þeim fáu myndbandaleigum sem eiga eintak af henni er Sesar Video. Eins og skepnan deyr. "Eins og skepnan deyr" er kvikmynd eftir Hilmar Oddsson um ungan rithöfund sem fer á æskuslóðir til að veiða sitt fyrsta hreindýr. Stórsveit Nix Noltes. Stórsveit Nix Noltes er íslensk hljómsveit stofnuð sem spilar tónlist í ætt við búlgarska og gríska þjóðlagatónlist. Hún var stofnuð árið 2004 og lék sem upphitunarhljómsveit fyrir bandarísku hljómsveitina Animal Collective á tónleikaferð árið eftir. Hljómsveitin gaf út diskinn "Orkideur Hawaii" hjá Bubblecore árið 2006. Hús í svefni. "Hús í svefni" (danska: "Det Sovende Hus", eða ‚hið sofandi hús‘) er byltingakennd íslensk kvikmynd eftir Guðmund Kamban, en hann skrifaði líka frumsamið handrit. Á þeim tíma sem kvikmyndin kom út var venjan að gera kvikmyndir eftir skáldsögum eða leikritum. Myndin var tekin í Danmörku, en framleiðslan fór bæði fram á Íslandi og Danmörku. Handrit þetta var einnig gefið út í bókarformi hér á landi undir nafninu "Meðan húsið svaf". Segir sagan frá ungum hjónum, þeirra lífi, ástum og örlögum. Staðardagskrá 21. Staðardagskrá 21 er áætlun um verkefni innan sveitarfélaga eða stjórnsýslueininga til að komast í sjálfbæra þróun. Staðardagskráin er hugsuð sem mótvægi við Dagskrá 21, sem fjallar um lönd. Staðardagskrá 21 fjallar um efni innan umhverfisfræði og vísar talan "21" í 21. öldina. Perlur og svín. "Perlur og svín" er önnur kvikmynd Óskars Jónassonar frá 1998. Hún fjallar um hjón sem eru ný flutt á höfuðborgarsvæðið og hugsa sér að verða rík fljótt í velferðinni í Reykjavík. Þau kaupa sér gamalt bakarí og byrja rekstur. Samkeppnin er þó hörð og hlutirnir fara fljótt að snúast. Kvikmyndin er samstarfverkefni leikstjórans og leikarana þar sem þau sömdu handritið að mestu leyti saman. Leikararnir vörpuðu fram hugmyndum að persónum og leikstjórinn skrifaði handritið út frá þeim. Fljótlega voru þau farin að heimsækja bakarí víðs vegar um höfðurborgarsvæðið. Bæði prufuðu þau að afgreiða og að baka. Kvikmyndin fékk ágætar viðtökur en athygli vakti að hún var leyfð öllum aldurshópum af Kvikmyndaskoðun. Þótti sum atriðin alls ekki við hæfi barna og á endanum fékk myndin aldurstakmarkið LH (ekki við hæfi mjög ungra barna) þegar hún var gefin út á myndbandsspólu. Mannleg náttúra. "Mannleg náttúra" (enska: "Human Nature") er fyrsta kvikmynd leikstjórans Michel Gondry frá árinu 2001. Snorrastofa. Snorrastofa er menningarsetur og rannsóknarstofa í miðaldafræðum á hinu forna höfuðbóli Snorra Sturlusonar í Reykholti. Hlutverk stofnunarinnar er að stuðla að rannsóknum og miðlun á miðaldafræðum og sögu Borgarfjarðar. Kristján 2.. Kristján 2. (2. júlí 1481 – 25. janúar 1559) var konungur Danmerkur og Noregs frá 1513 til 1523 og konungur Svíþjóðar frá 1520 til 1521 innan Kalmarsambandsins. Hann var sonur Hans konungs og Kristínar af Saxlandi. Í Svíþjóð var hann þekktur sem "Kristján harðstjóri" vegna þess hvernig hann lagði landið undir sig og hlutdeild sína í Stokkhólmsvígunum. Eftir þau missti hann stjórn á Svíþjóð með þeim afleiðingum að Kalmarsambandið leystist endanlega upp og Svíþjóð varð sjálfstæð undir stjórn Gústafs Vasa 1. Stríðsreksturinn í Svíþjóð og gegn Hansasambandinu var byrði á aðlinum í Noregi og Danmörku og á endanum gerði aðallinn á Jótlandi uppreisn og bauð frænda hans Friðriki greifa af Holsetalandi konungdóminn. Kristján flúði til Hollands og dvaldi þar í útlegð. Hann gerði tilraun til að endurheimta krúnuna í árið 1531 sem endaði með uppgjöf árið eftir og fangelsun í Sønderborg-kastala og síðan Kalundborg til dauðadags. Greifastríðið (1534 til 1536) var háð til að reyna að koma honum aftur til valda, gegn syni Friðriks, Kristjáni 3. Kristján 2. átti hollenska ástkonu sem hét Dyveke og var dóttir Sigbritar Villomsdóttir. Kristján hitti hana í Björgvin í Noregi 1507 (eða 1509) og varð hún frilla hans sömu nótt. Hún dó 1517 eftir að hafa borðað eitruð kirsuber, að talið er. Úr því varð mikil rekistefna. Kristján ákærði höfuðsmann Torben Oxe fyrir að hafa eitrað fyrir henni, og var hann dæmdur og hálshöggvinn. Henry Morgan. Henry Morgan á 18. aldar koparstungu Henry Morgan ("Hari Morgan" á velsku) (um 1635 – 25. ágúst 1688) var velskur fríbýttari sem varð frægur sem sjóræningjaforingi í Karíbahafinu. Hann rændi spænskar borgir og skip á árunum frá 1667 til 1671 og nýtti sér átök milli Englands og Spánar á þeim tíma en frægustu herfarir hans voru gegn Panama þessi sömu ár. Með síðustu ránsferð sinni braut hann gegn friðarsamkomulagi Englands og Spánar en tókst að sýna fram á að hann hefði ekki haft vitneskju um það. Hann var þá aðlaður og gerður að landstjóra á Jamaíku. 1683 missti hann stöðu sína í landstjórninni og heilsu hans var þá tekið að hraka, hugsanlega vegna berkla. Hann var einnig alræmdur fyrir drykkjuskap sem hefur flýtt fyrir heilsutapi. Vinsæl rommtegund, "Captain Morgan", heitir í höfuðið á honum. Hótel Borg. Hótel Borg er hótel staðsett á Pósthússtræti 11, við Austurvöll í miðborg Reykjavíkur. Hótelið var reist af Jóhannesi Jósefssyni og opnaði vorið 1930, rétt fyrir Alþingishátíðina. Áður en það opnaði formlega voru veitingasalir þess teknir í notkun á nýársfagnaði 18. janúar 1930. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Jóhannes Jósefsson. Jóhannes Jósepsson (eða Jóhannes á Borg) (28. júlí 1883 – 5. október 1968) var íslenskur glímukappi, fæddur á Oddeyri (Akureyri), sem ferðaðist um alla Evrópu og Bandaríkin og sýndi glímu eftir aldamótin 1900. Hann tók þátt í Sumarólympíuleikunum 1908 þar sem hann keppti í grísk-rómverskri glímu fyrir hönd Danmerkur. Árið 1930 lagði hann allt sitt fé í að reisa Hótel Borg í Reykjavík og rak það næstu þrjátíu árin, eða þar til hann settist í helgan stein árið 1960. Eftir að hann reisti hótelið var hann jafnan nefndur Jóhannes á Borg. Friðrik 1. Prússakonungur. Friðrik 1. Prússakonungur (11. júlí 1657 – 25. febrúar 1713) af Hohenzollern-ættinni, tók við af föður sínum Friðriki Vilhjálmi sem kjörfursti í Brandenborg, Prússlandi, árið 1688 sem Friðrik 3. og krýndi sjálfan sig konung Prússlands árið 1701 með leyfi keisarans, Leópolds 1. Korpúlfsstaðir. Korpúlfsstaðir eru jörð í Reykjavík kenndir við Korpúlf bónda sem getið er í Kjalnesinga sögu. Jörðin varð eign Viðeyjarklausturs á miðöldum og varð síðan konungseign. Thor Jensen eignaðist jörðina árið 1922 og reisti þar núverandi hús og fullkomið mjólkurbú sem lagðist af vegna mjólkursölulaganna 1934. Reykjavíkurborg keypti eignina af Thor árið 1942. Húsnæðið var notað sem geymsla, meðal annars fyrir málverk í eigu borgarinnar. Mikið skemmdist þar í bruna 18. janúar 1969. Korpuskóli var á Korpúlfsstöðum frá 1999 - 2005. Í þeim hluta sem skólinn var starfræktur eru nú vinnustofur listamanna ásamt aðsöðu til myndlistarkennslu. Þar er nú aðsetur fyrir listamenn. Um landið rennur Úlfarsá, eða "Korpa", sem er góð laxveiðiá. Gullsandur. "Gullsandur" er kvikmynd eftir Ágúst Guðmundsson með Eddu Björgvinsdóttur og Pálma Gestsson í aðalhlutverkum. Birkir Jón Jónsson. Birkir Jón Jónsson (f. á Siglufirði 24. júlí 1979) er varaformaður og þingmaður Framsóknarflokksins. Birkir er leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og 2. þingmaður kjördæmisins. Birkir útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Sauðárkróki 1999 og hefur stundað nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Birkir Jón hefur setið í stjórn Félags ungra framsóknarmanna á Siglufirði síðan 1999. Hann var einnig í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna 1999-2001 og gengdi embætti varaformanns þess 2002-2003. Á kjördæmisþingi sem haldið var á Egilsstöðum þann 15. mars 2009 var Birkir Jón kjörinn til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 25. apríl 2009. Landhelgisgæsla Íslands. Landhelgisgæsla Íslands er opinber stofnun íslenska ríkisins sem sinnir eftirliti og löggæslu í 12 sjómílna landhelgi Íslands og 200 sjómílna efnahagslögsögu. Landhelgisgæslan er ábyrgðaraðili vegna leitar og björgunar að skipum og flugvélum á mun stærra hafsvæði sem teygir sig langleiðina til Grænlands, norður fyrir Jan Mayen og austur fyrir Færeyjar. Landhelgisgæslan heldur því úti björgunarmiðstöð sjófarenda og loftfara sem kallast á ensku Joint Rescue Coordination Center (JRCC Iceland). Innan verksviðs landhelgisgæslunnar er einnig sprengjueyðing, en í kringum Keflavíkurstöðina finnast oft sprengjur og sprengjuefni. Einnig kemur fyrir að tundurdufl skoli á land eða festist í veiðarfærum veiðiskipa. Þá sér Landhelgisgæslan einnig um sjómælingar við Ísland og útgáfu sjókorta. Frá byrjun árs 2011 hefur loftrýmiseftirlit og rekstur ratsjárstöðva verið í höndum Landhelgisgæslunnar auk umsjár öryggissvæða á Keflavíkurflugvelli. Hjá Landhelgisgæslunni starfa um 250 manns. Samkvæmt lögum er varðskipunum ætlað að veita afskekktum stöðum þjónustu, en einnig heilum byggðarlögum þegar samgöngur bregðast vegna náttúruhamfara. Dæmi um hið síðastnefnda eru Vestmannaeyjagosið 1973 og snjóflóðin á Vestfjörðum árið 1995. Forstjóri er Georg Kr. Lárusson. Saga Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan var upphaflega stofnuð 1. júlí 1926. Tveimur vikum fyrr hafði gufuskipið "Óðinn", fyrsta sérsmíðaða íslenska varðskipið, vopnað tveimur 57 mm fallbyssum komið til landsins. Fyrir það hafði íslenskri landhelgisgæslu verið sinnt misjafnlega með leiguskipum eða af Dönum. Um margar aldir höfðu útlendingar veitt við strendur Íslands og stundum með botnvörpur án þess að sýna Íslendingum tillitsemi þannig að veiðarfæri þeirra löskuðust. Stundum urðu átök vegna þessa og frægt er dæmi þess á árinu 1899 þegar Hannes Hafstein vildi taka breskan togara í landhelgi ásamt nokkrum mönnum en þrír þeirra drukknuðu. Eftir að Íslendingar fengu heimastjórn 1904 gerðu danir út eftirlitsskipið "Islands Falk" og 1913 var Landhelgissjóður Íslands stofnaður. Í sjóðinn áttu að safnast fésektir fyrir ólöglegar veiðar sem síðan yrðu nýttar til þess að fjármagna landhelgisgæsluna. Með sambandslögunum árið 1918 og fullveldinu sem þeim fylgdi var ákveðið að Danir myndu áfram sinna landhelgisgæslu við Ísland sem kæmi til endurskoðunar eftir 25 ár. Á næstu árum voru tekin skip á leigu eftir setningu laga um landhelgisvörn 1919. Árið 1920 keypti Björgunarfélag Vestmannaeyja danska togarann "Thor" sem var nefndur "Þór" og nýttur til eftirlits með fiskveiðibátum Eyjamanna. Fjórum árum síðar var 47 mm fallbyssu komið fyrir á Þór og síðar keypti ríkið Þór að fullu. Þann 14. júlí 1929 var skipið Ægir keypt. Árið 1930 var landhelgisgæslan færð undir Skipaútgerð ríkisins. Á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð var lítið um erlend veiðiskip eins og gefur að skilja. Landhelgisgæslan hafði þó í ýmsu að snúast m.a. mikil björgunarstörf, eyðing tundurdufla og margs konar flutningar á fólki og vörum, vegna almenns skipaskorts. Eftir stríð, árið 1948, samþykkti Alþingi nokkuð sérstök lög um verndun og nýtingu landgrunnsins. Landhelgisgæslan varð sjálfstæð stofnun árið 1952 og sérstakur forstjóri ráðinn. Þá var landhelgin færð út um eina sjómílu í fjórar sjómílur og við það ríflega tvöfaldaðist fiskveiðilandhelgin úr 25 þúsund km² í 43 þúsund km². Bretar tóku þessu afar illa og meinuðu íslenskum skipum að landa í höfnum sínum. Árið 1958 var fiskveiðilandhelgin færð út í 12 sjómílur og við það stækkaði hún úr 43 þúsund km² í 70 þúsund km². Þá hófust þorskastríðin svonefndu þegar Bretar sendu herskip til fylgdar við veiðiskip sín. Bretar hótuðu að skjóta á íslensk skip en ekkert varð úr því og viðurkenndu þeir lögsöguna gegn því að fá að veiða takmarkað þar. Árið 1972 færðu Íslendingar fiskveiðilögsögu sína enn út og nú í 50 sjómílur og aftur 1975 í 200 sjómílur. Við það stækkaði lögsagan úr 75 þúsund km² í 216 þúsund km² árið 1972 og í 758 þúsund km² árið 1975. Í það skiptið sendu Bretar flota herskipa og aðstoðarskipa til fylgdar við veiðiskip sín. Þeir beittu dráttarbátum til þess að sigla á íslensku varðskipin og eyðileggja. Íslendingar notuðu sérstakar togvíraklippur til þess að skera á veiðarfæri bresku togaranna. Varðskipin sigldu þá þvert fyrir aftan bresku togarana og drógu klippurnar á eftir sér. Reyndu þá bæði togarar og verndarskip þeirra, herskip og dráttarbátar, að sigla varðskipin niður. Floti Landhelgisgæslunnar. Flugdeild Landhelgisgæslunnar samanstendur af tveimur þyrlum og einni flugvél. Flugvélin er af gerðinni Bombardier DHC-8-Q314, TF-SIF(4), og kom hún til landsins sumarið 2009. Landhelgisgæslan gerir út tvær þyrlur af gerðinni Aerospatiale AS-332L1 Super Puma. TF-LÍF kom til landsins árið 1995 og er í eigu Gæslunnar. TF-GNÁ kom til landsins árið 2007 og er leiguþyrla. Báðar þyrlurnar eru mjög vel búnar leitar leitar- og björgunarstarfa. Floti Landhelgisgæslunnar samanstendur af þremur varðskipum og einu eftirlits- og mælingaskipi. V/s Þór er stærsta og nýjasta skip flotans, jafnframt flaggskip Landhelgisgæslunnar. Það var smíðað af Asmar skipasmíðastöðinni í Chile. Í flotanum eru systurskipin V/s Týr og V/s Ægir, smíðuð af skipasmíðastöðinni Ålborg Værft a/s í Danmörku. Skipin eru með 18 manna áhöfn og eru vopnuð 40 mm Bofors L60 MK 3 fallbyssu. Ýmis handvopn er einnig að finna um borð. Skipin eru aða sjálfsögðu búin fullkomnum siglinga- og fjarskiptatækjum. Þá eru um borð öflugir léttbátar til að flytja mannskap milli skipa auk annarra verkfna. Á Ægi og Tý er þyrlupallur en Super Puma þyrlur Gæslunnar eru of stórar til að geta lent þar. Um borð í skipunum er búnaður til að dæla eldsneyti á þyrlurnar en þær verða að hangfljúga yfir skipunum meðan á því stendur. M/b Baldur var smíðaður af Vélsmiðju Seyðisfjarðar 1991 er notaður til eftirlits á grunnslóð, sjómælinga auk ýmissa annarra verkefna. Hann er ekki búinn vopnum. Quarashi. Quarashi var íslensk rapp/hip hop hljómsveit frá Reykjavík. Hún er þekkt í Bandaríkjunum, Íslandi og Japan. Hljómsveitin hefur auk þessara landa farið í tónleikaferðalag til Ástralíu og Kanada. Meðlimir sveitarinnar samanstanda af þremur röppurum, þeim Höskuldi Ólafssyni, talsmanns sveitarinnar, Omar Swarez (Ómar Örn Hauksson) og Steina (Steinar Orri Fjeldsted) ásamt Sölva Blöndal sem útsetningarstjóri, hljómborðsleikari, slagverksleikari og trommari. Í beinum útsendingum slógust í hópinn gítarleikari (Smári „Tarfur“ Jósepsson, kom seinna í staðinn fyrir Viðar Hákon Gíslason), Gaukur Úlfarsson bassaleikari, og plötusnúðurinn (DJ Dice, sem var síðar skipt út fyrir DJ Magic). Quarashi hefur gefið út fimm breiðskífur og heita þær Quarashi (sem kom út 1997), Xeneizes (kom út árið 1999), Jinx (kom út árið 2002), Kristnihald undir jökli (kom út árið 2001) og Guerilla disco (kom út árið 2004). Árið 2009 var Platan "Demos & B-Sides" gefin út á síðunni quarashimusic.blogspot.com sem inniheldur "Mess It Up", "Orð Morð" og fleiri lög sem ekki hafa komið út á breiðskífum sveitarinnar. Demos & B-Sides inniheldur einnig tónleika upptökur af nokkrum lögum. Saga. Sölvi og Ómar hittust þegar að þeir voru krakkar í mótmælum gegn herstöð Bandaríkjanna í Keflavík, á Íslandi. Sölvi hitti Steina á vettvangi hjólabrettana og Höskuld í Háskóla Íslands. Steini var á þessum tíma þekktur fyrir hjólabrettaiðkun og hafði unnið nokkrar keppnir. Steini var kallaður "Quarashi" sem hjólabrettakappi og nafn hljómsveitarinnar kemur þaðan. Quarashi þýðir jafnframt ofurnáttúrulegur á arabísku. Upphaflega átti Höskuldur að vera söngvari, en eftir að Sölvi heyrði Höskuld rappa var planinu breytt og hljómsveitin var með þrjá rappara. Stuttu eftir stofnun hljómsveitarinnar, 29. Nóvember 1996 gaf hljómsveitin út sína fyrstu smáskífu, Switchstance undir plötufyrirtæki Sölva, Lax Records. Ári síðar gaf sveitin út sýna fyrstu breiðskífu, samnefnda hljómsveitinni, 13. október 1997. Richard Oddur Hauksson var með hljómsveitinni við tökur plötunnar sem plötusnúður. Lög Quarashi frá smáskífunni "Switchstance" er að finna á breiðskífunni Quarashi, mikið breytt. Tónlistarstefna plötunnar og Quarashi er nútímarapp. Textasmíði hljómsveitarmannana Steina og Höskuldar eru mismunandi. Hössi er sögumaður, en Steini spáir í yfirnáttúrulegum hlutum og félögum sínum. Sölvi semur síðan lög hljómsveitarinnar. Hljómsveitin er jafnframt með plötunni fyrsta íslenska hljómsveitin sem rappar undir rapptónlist. Vinsældir plötunnar Quarashi voru miklar á Íslandi, hún seldist í 6.000 eintökum og er svokölluð gullplata. Quarashi fór í tónleikarferð yfir allt Ísland og var opnunarband The Fungees og The Prodigy. Á næstu árum fór Sölvi í ferðalag til Suður Ameríku. Sú ferð hafði mikil áhrif á næstu plötu sveitarinnar, "Xeneizes". Nafn plötunnar kemur frá áhorfendafélagi Argentínska fótboltafélagsins Boca Juniors. Platan var gefin út 25. október 1999. Platan varð önnur gullplata Quarashi og fékk mikla athygli frá Bandaríkjunum og Bretlandi, þrátt fyrir að hljómsveitin hafði aldrei leitað til erlendra útgáfufyrirtækja. Nokkur Bresk útgáfufyrirtæki sýndu plötunni áhuga, en Quarashi hafnaði þeim öllum. Frægð í Bandaríkjunum. Hljómsveitin var með samning við Bandaríska útgáfufyrirtækið Time Bomb Recordings. Quarashi voru aldrei jafn vinsælir í Bandaríkjunum eins og í Japan eða Íslandi. Þeir tóku þó þátt í herferð MTV2 og tímaritið Spin nefndi Quarashi sem áhugaverða hljómsveit, árið 2002. Lagið "Stick ´Em up" hljómaði í kvikmyndunum 2 Fast 2 Furious, Orange County og þáttunum Alias og Smallville. Quarashi tók jafnframt þátt í Warped túrnum árið 2002. Hljómplatan "Jinx" seldist í rúmlega 100.000 eintökum í Bandaríkjunum. Frægð í Japan. Quarashi voru með samning við Sony í Japan. Þeir fóru í tónleikaferðalag árið 2002. Í tónleikaferðalaginu fóru þeir til Japan árið 2002, til höfuðborgarinnar Tókýó og Osaka á hátíðinni Summer Sonic. Í kjölfarið fóru þeir í samstarf við Japönsku sveitina "YKZ" um tíma. Ómar Swarez, meðlimur Quarashi sagði á þeim tíma, að þeir sem væru nógu klikkaðir og kjánalegir kæmust áfram og yrðu frægir í Japan. Quarashi náði 7 sæti japanska HMV listans með plötunni "Guerilla disco". 27 þúsund eintök voru prentuð fyrirfram af plötunni til Japans og allar fyrri plötur hljómsveitarinnar höfðu selst í um 100.000 eintökum í landinu. Seltzer. Seltzer var svaladrykkur framleiddur á Íslandi á tíunda áratug 20. aldar. Hann var framleiddur af fyrirtækinu Íslenskt Bergvatn hf. Það var samstarfsverkefni Sólar hf. og kanadískra aðila. Í Seltzer (sem var glær) voru engin litarefni, rotvarnarefni eða hvítur sykur. Útflutningur til Bretlands hófst snemma á tíunda áratugnum. Framkvæmdastjóri Íslensks Bergvatns var Jón Scheving Thorsteinsson. Uppruni orðsins "Seltzer" er þýskur og má rekja til náttúrulegra hvera nálægt bænum Nieder-Selters. Landsbanki Íslands. Landsbanki Íslands hf. er í slitameðferð í samræmi við íslensk lög. Slitameðferð bankans er stýrt af slitastjórn sem skipuð var af Héraðsdómi Reykjavíkur. Landsbanki Íslands hf. var einkarekinn íslenskur banki sem fór í þrot í október 2008. Hann var upprunalega stofnaður 18. september 1885 en hóf starfsemi sína 1. júlí 1886. Bankinn var því elsti banki Íslands. Á árunum 1927 til 1961 starfaði bankinn sem seðlabanki landsins en Seðlabankinn var stofnaður 1961. Þann 1. janúar 1998 var bankanum breytt í almenningshlutafélag og þaðan í frá var hann einkavæddur í skrefum, því ferli lauk 2003. Bankinn rak 13 útibú á höfuðborgarsvæðinu og 27 á landsbyggðinni. Bankinn stundaði sömuleiðis ýmis konar starfsemi erlendis í gegnum dótturfyrirtæki sín. Aðaleigandi bankans þegar hann fór í þrot var Samson eignarhaldsfélag ehf. með ríflega 40% hlutdeild, eigendur þess voru í fyrstu Björgólfur Thor Björgólfsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Guðmundsson en Magnús seldi síðar sinn hlut. Saga bankans. Bankinn var fyrst staðsettur í Bankastræti í Reykjavík og voru þá þrír starfsmenn í hlutastarfi skipaðir af landshöfðingja. Þann 19. apríl 1887 var Landsbankinn sameinaður Sparisjóði Reykjavíkur. Á fyrstu fimm árum starfseminnar lánaði bankinn ríflega eina milljón króna. Árið 1893 sagði Lárus E. Sveinbjarnason, yfirdómari, starfi sínu lausu, en hann var fyrsti bankastjóri Landsbankans. Sex sóttu um starfið en þeir voru séra Arnljótur Ólafsson, Kristján Ziemsen kaupmaður, Sighvatur Bjarnason bankabókari, Sigurður Briem cand. polit og Tryggvi Gunnarsson kaupstjóri sem var ráðinn. Árið 1896 keypti Landsbankinn töluvert landsvæði í miðbænum til undirbúnings fyrir byggingu stórhýsis á þess tíma mælikvarða. Ári seinna var kvartað yfir Tryggva Gunnarssyni bankastjóra á Alþingi. Hann var gagnrýndur fyrir að vera bankastjóri, þingmaður og standa í útgerð þilskipa allt í senn. Landshöfðingi vísaði gagnrýninni á bug enda hafði hagur bankans vænkað síðan Tryggvi hóf þar störf. Í ágúst 1899 var byggingu nýs Landsbankahús lokið og flutti bankinn aðsetur sitt í hið nýja hús á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Innflutt danskt vinnuafl sá um smíði hússins og umsjón með verkinu hafði Valdemar Baldt, sonur F. Baldt sem sá um byggingu Alþingishússins. Árið 1901 var deilt um tillögu á Alþingi um stofnun nýs einkabanka. Valtýingar vildu bankann en heimastjórnarmenn ekki og hjá því var komist að Landsbankinn yrði lagður niður. Árið 1902 opnaði Landsbankinn fyrsta útibú sitt á Akureyri. Í samvinnu við Oddfellowregluna gaf Landsbankinn út sérmerkta sparibauka gerða úr kopar sem kallaðir eru "Oddfellowbaukar". Næsta ár opnaði bankinn útibú á Ísafirði en nú var líka komin samkeppni annars banka því Íslandsbanki hafði verið stofnaður og kom hann strax á fót útibúum á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Á árunum 1907-9 kvörtuðu Íslendingar mikinn yfir háum vöxtum. Á sama tíma sérhæfði Íslandsbanki sig í útlánum til sjávarútvegs en báðir bankarnir komu að fjármögnun kaupanna á Jóni forseta, fyrsta íslenska togaranum. Á Alþingi skipaði Björn Jónsson ráðherra nefnd til þess að rannsaka störf Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Björn sagði Tryggva því næst upp störfum og skipaði Björn Kristjánsson þingmann nýjan bankastjóra. Niðurstöður nefndarinnar voru þó ekki að Tryggvi hefði gerst brotlegur í starfi en þetta þótti mjög umdeilt mál og tóku sumir viðskiptavinir bankans út innistæður sínar í mótmælaskyni. Landsbankinn. Landsbankinn hf. er stærsta fjármálafyrirtæki landsins með víðtækasta útibúanetið. Landsbankinn veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum trausta og alhliða fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasamböndum. Landsbankinn í núverandi mynd tók til starfa þann 9. október 2008. Rætur bankans ná þó allt aftur til ársins 1886 þegar Landsbanki Íslands var stofnaður. Póstþjónusta. Póstþjónusta felur í sér sendingu á bréfum og bögglum gegn greiðslu bæði innanlands og utan. Alþjóða póstsambandið heldur um þær reglur og reglugerðir sem koma að póstþjónustu á alþjóðavísu. Almennur bréfapóstur. Almennur bréfapóstur er þannig gerður hann er undir 2 kg. Á Íslandi er miðað við að slíkar sendingar komist inn um bréfalúgur. Almennur bréfapóstur er oftast nær borinn út af bréfbera og er yfirleitt stungið inn um bréfalúgur eða settur í þar til gerða póstkassa á áfangastað þar sem hann bíður viðtakanda. Einnig er hægt að leigja pósthólf á pósthúsum þar sem bréfasendingar eru geymdar þar til viðtakandi sækir þær. Almennur bréfapóstur undir ákveðinni stærð og þyngd er oft undir ríkiseinokun. Ábyrgðarpóstur. Ábyrgðarpóstur er rétt eins og almennur bréfapóstur undir 2 kílógrömmum og er aðeins afhentur gegn undirskrift. Hver sending er skráð með sérstöku raðnúmeri og þannig er ábyrgðarpóstur rekjanlegur. Pakkar. Pakkar eru skilgreindir sem sendingar yfir 2 kg og fá rétt eins og ábyrgðarpóstur sérstakt raðnúmer sem gerir þá rekjanlega. Þeir eru afhentir viðtakanda á áfangastað eða sóttir á viðkomandi pósthús. Flugpóstur og sjópóstur. Flugpóstur (par avion) er fluttur með flugi á milli landa á meðan sjópóstur (par bateau) er fluttur með skipi sömu leið. Burðargjald er hærra með flugpósti en aftur á móti eru sendingar fljótari á leiðinni en með sjópósti. Móttökukvittun. Móttökukvittun er hægt að láta fylgja með skráðum sendingum (ábyrgðarpósti og pökkum) en hún er skrifleg staðfesting á að viðtakandi hafi fengið sendinguna. Sendandi fyllir út upplýsingar um sitt heimilisfang og fleira og viðtakandi skrifar undir viðeigandi reit við móttöku. Kvittunin er svo send aftur til viðtakanda. Brothætt (cotis fragile). Brothættar pakkasendingar eru sérstaklega merktar með mynd af vínglasi og fá sérstaka meðferð til að koma í veg fyrir að innihaldið brotni. Póstkrafa (remboursment). Innanlands og á milli sumra landa er hægt að bjóða upp á póstkröfusendingar. Þegar viðtakandi tekur við sendingunni greiðir hann fyrir hana og upphæðin er lögð inn á bankareikning sendanda innan þriggja daga. Greiðsla. Hægt er að staðgreiða eða skuldfæra sendingarkostað þegar sendingar eru póstlagðar en algengt er að notuð séu frímerki sem eru límd á póstsendingar til að greiða fyrir póstþjónustu. Þau er bæði hægt að kaupa fyrirfram og um leið og sending er póstlögð. Frímerkin eru svo stimpluð af viðkomandi póstþjónustu til að ógilda þau. Mörg fyrirtæki og stofnanir sem senda mikið magn af pósti í einu nota einnig þar til gerðar frímerkingavélar til að vigta og stimpla sínar póstsendingar og þá telst burðargjaldið vera greitt. Önnur þjónusta. Í mörgum ríkjum t.d. Lúxemborg er póst og símaþjónustu sinnt af sömu stofnuninni auk þess sem boðið er upp á bankaþjónustu hjá sumum póstþjónustum. Ábrystir. Ábrystir með kanilsykri og bláberjasósu. Ábrystir eru spónamatur sem búinn er til úr broddmjólk úr kúm en áður var sauðamjólk einnig notuð. Broddmjólkin er misþykk, þykkust fyrsta sólarhringinn eftir burð og þá er hún yfirleitt blönduð með nýmjólk til helminga eða meira, þynnri á öðrum degi og þá er hún minna blönduð og yfirleitt þarf ekki að blanda brodd sem mjólkaður er á þriðja degi eftir burð. Þegar broddurinn er hitaður, þá ystir hann og verður stífur. Vegna þess að ekki er hægt að hræra í honum, þá þarf að setja broddinn í skál eða kastarholu, sem aftur fer ofan í stærri pott með vatni í, sem svo er settur á hellu (eða hlóðir). Þannig brenna ábrystirnar ekki við (nú á tímum er einfaldast að sleppa vatnsbaðinu og sjóða ábrystirnar í örbylgjuofni). Þær eru látnar sjóða við vægan hita þar til þær eru orðnar stífar; það getur tekið um 20 mínútur en tíminn fer þó eftir þykkt broddmjólkurinnar. Ef ábrystirnar eru soðnar of mikið springa þær gjarna (bresta) og af því er nafnið ef til vill dregið. Ábrystir eru ýmist borðaðar heitar, volgar eða kaldar. Vinsælt er að setja kanilsykur út á, en annað útákast þekkist einnig. Stundum er líka höfð saft eða sæt sósa með ábrystunum. Íslendingar eru ekki einir um að nota brodd í matargerð; færeyskur ketilostur er til dæmis mjög áþekkur og svipaðir réttir eru gerðir um öll Norðurlönd, í Skotlandi og reyndar mun víðar. Sunnar á Bretlandseyjum þekkjast ýmsir hefðbundnir réttir úr broddmjólk, sem þar kallast "beestings". Spónamatur. Spónamatur er samheiti yfir graut, skyr, ábrysti, súpu og fleira sem hefð er fyrir að étið sé með skeið. Nafnið er dregið af því að áður en eiginlegar skeiðar bárust til Íslands, þá voru notaðir spænir í staðinn, eins konar skeiðar sem voru skornar út, gjarnan úr dýrahorni. Spónamatur var yfirleitt étinn úr öskum fyrr á tíð, en nú orðið hafa skálar tekið við. Þegar spónamatur er etinn rólega í litlum spónfyllum kallast það að "sutla" eða "supla" og ögn af spónamat kallast "slembra". Ysta. Sagt er að eggjahvítuefni ysti þegar það verður stíft (vanalega vegna þess að það er hitað upp, látið súrna, eða ákveðnum gerlum bætt út í það). Sögnin er ópersónuleg og tekur frumlag í þolfalli ("eggjahvítuna ystir"), og er dregið af orðinu "ostur". Matur er gjarnan látinn ysta, til dæmis má nefna kotasælu, og að þegar egg eru spæld og hvítan verður stíf og hvít, þá ystir hana. Sömuleiðis er broddur látinn ysta þegar ábrystir eru matreiddar. Þegar eggjahvítuefni, einkum úr mjólk, hefur yst, þá er stundum talað um að þá sé orðinn til ystingur. Skaftpottur. Skaftpottur (stundum kallaður kastarhola) er lítill pottur með löngu handfangi, gjarnan notaður til að bræða smjör eða hita sósu. Kastar(h)ola. Samheitið "kastaróla" er hljóðlíking á danska orðinu "kasserolle" og sást fyrst í "Einföldu matreiðsluvasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur", sem kom út árið 1800. Síðan var farið að nefna þetta "kastarholur", og var nokkurskonar þjóðskýring. Talað er um "kastarholubúskap" ef um er að ræða frumstæða eða lélega matreiðslu eða búsýslu. "Kastarholuklipping" nefnist það þegar hár er klippt þvert fyrir allan hringinn, eins og ef skaftpotti hefði verið skellt á höfuðið og klippt eftir honum. Kanilsykur. Kanilsykur er það sem verður til þegar kanil og sykri er blandað saman. Hann er vinsæll sem útálát á grauta (eins og t.d. hafragraut) eða ábrysti, og einnig út á steikt slátur. Útákast. Útákast er safnheiti yfir það sem fólk setur saman við mjólk eða vatn til að búa til graut eða súpu. Það er oftast grjón eða mjöl (t.d. rúgur eða bygg). Sýra (drykkur). Sýra eða sýrublanda var vinsæll drykkur fyrr á öldum. Hún var búin til með því að blanda saman vatni og gerjaðri mysu og segja sumir að enginn drykkur slökkvi þorsta eins vel og köld sýrublanda. Sýra var gerð þannig að mysa var sett á tunnur og látin gerjast og síðan geymd á köldum stað í nokkra mánuði eða lengur. Sagt er að sumum hafi þótt tveggja ára sýra best og mátti þá blanda hana með vatni í hlutföllunum 1:11 (tólftarblanda). Sýran var stundum bragðbætt á ýmsan hátt, t.d. með blóðbergi. Sýru er getið í fornum bókum, og hefur bjargað lífi að minnsta kosti tveggja mektarmanna. Þorbjörn súr, faðir Gísla Súrssonar, var sagður hafa fengið viðurnefni sitt af því að hafa slökkt eld með sýru þegar fjendur brenndu bæinn hans. Gissur Þorvaldsson er sagður hafa komist lífs af úr Flugumýrarbrennu með því að fela sig ofan í sýrukeri meðan bærinn brann. Jimi Hendrix. Gröf Jimi Hendrix í Washingtonfylki. Jimi Hendrix (f. 27. nóvember 1942 í Seattle, d. 18. september 1970 í London) var bandarískur tónlistarmaður. Hann var skírður Johnny Allen Hendrix en var síðan nefndur James Marshall Hendrix. Hann var söngvari, lagasmiður og gítarleikari. Hann var þekktur sem einn áhrifamesti gítarleikari rokktónlistarinnar. Hann varð heimsfrægur árið 1967 þegar hann spilaði á Monterey Popphátíðinni. Hann var fyrst gítarleikari hjá hljómsveitum eins og Isley Brother, Little Richard, King Kurtis og fleirum. Seinna byrjaði hann að spila með bandi sem sérhæfði sig í blús, það hét John Hammonds Jr's Band. Það var bassaleikarinn í Animals Chas Chandler sem uppgvötvaði Hendrix og bauð honum að flytja til London og hefja sólóferil. Hann lést eftir að hafa tekið inn svefnlyf með sterku áfengi árið 1970, 27 ára gamall. Andlát Hendrix. Þann 17 september 1970 komu Hendrix og kærasta hans Monika Dannemann að Samarkan hótelinu um hálf níu fyrir miðnætti og fengu sér að borða og spjölluðu svo saman til um 1:40 eftir miðnætti. Eftir það fór Hendrix út til að hitta vini sína. Hann kom aftur um 3 um nóttu og þau tvö fengu sér aftur að borða og voru vakandi til 7 um morguninn. Þá tók Dannemann svefntöflu til að sofna en Jimi var enn þá vakandi. Á meðan Dannemann var sofandi tók Hendrix átta eða níu svefntöflur, sem voru mjög sterkar þýskar svefntöflur sem Dannemann fékk frá lækni. Ráðlagður skammtur var aðeins ein tafla í einu. Þegar Dannemann vaknaði um 10:20 um morguninn sá hún Hendrix liggjandi í ælu sinni. Ælan var úti um allt, í munninum og í nefinu hans og hún reyndi að vekja hann en það gekk ekkert. Dannemann segist hafa hringt í sjúkrabíl um 11:30 sem kom og tók Jimi og hana upp á sjúkrahús en samkvæmt Dannemann kafnaði Hendrix á sinni eigin ælu í sjúkrabílnum á leiðinni á sjúkrahúsið. En sjúkraliðarnir sögðu annað. Þeir sögðu að það hafi enginn verið staddur í herberginu með Hendrix og að hann hafi verið dáinn þegar þeir komu að honum í herberginu sínu og hann var búinn að vera dáinn í smá tíma. Hendrix var úrskurðaður dáinn þegar þeir komu með hann á sjúkrahúsið. Það var sagt í skýrslunni að mikið magn af Seconal hafi fundist í blóðinu hans en það eru svefntöflurnar sem hann tók. Einnig var sagt í skýrslunni að hann hafi kafnað í sinni eigin ælu eftir eitrun frá svefntöflunum. Margir segja að dauðinn hans hafi verið fyrirhugað samsæri þar sem hann var drepinn af framkvæmdastjóra sínum og þeir öfgmeiri segja að „illuminati“ hafi verið þar á bakvið. Lögreglan segir að dauðaorsök hans var útaf níu svefntöflum í kerfinu hans sem að leiddi til þess að hann kafnaði í ælunni sinni. Samsæriskenningin neitar því að svefntöflurnar séu tengdar dauða hans af því að Hendrix var mjög oft svefnlaus og vanur því að taka sverntöflur. Hún útilokar því einnig að hann hafi framið sjálfsmorð af því að staðreyndirnar segja aðra sögu. Ef hann var sjálfur að reyna að drepa sig, af hverju ætti hann bara að taka níu af 50 pillum í boxinu sem hann hafði á sér? Staðhæfingar samsæriskenningarinnar eru einungis byggðar á grunsemdum eða holum í sögunni. Ráðgátan er sú hvort hann hafi dáið af slysi, með vilja eða drepinn og þá af hverjum. Það voru engin merki eða ástæða fyrir því að Hendrix myndi fremja sjálfsmorð og margir telja það mjög ólíklegt en samsæriskenningin er á þá leið að hann hafi verið drepinn. Í þessu máli eru mjög margar mótsagnir og margar mismunandi kenningar um hvernig Hendrix dó. Öfgamesta kenningin segir að ameríska ríkið, the system eða illuminati vildi hann dauðann vegna þess að hann ógnaði yfirburðum hvítra manna á tónlistarsviðinu. Þeir vildu drepa hann út af tengslum hans við Black Panthers og af því að hann hafði mikil áhrif á unga fólkið og hvatti fólk með textum sínum að óttast ekki uppreisn gegn kerfinu. Hendrix vissi að hann væri í hættu og ítrekaði oft að hann myndi ekki lifa mikið lengur. Hann átti að hafa sagt „I doubt I'll live to be 28“ og margt svipað stutt fyrir dauðann sinn. „I won't be here. What do you mean? I won't be in my body, I'll be dead.“ „I doubt I'll live to be 28.“ „Next time I go to Seattle I'll be in a pine box“ er hann sagður hafa sagt stutt fyrir dauða hans. Hendrix var fundinn dauður af konu hans, Moniku Danneman, í íbúðinni hennar í London. Samkvæmt vitnisburði hennar hringdi hún á sjúkrabíl stuttu eftir að hann átti erfitt með að anda og hún segir líka að hún var úti að kaupa sígarettur þegar hann dó. Hennar vitnisburður er er ekki í samræmi við vitnisburð sjúkraliða en hún kvaðst hafa farið samferða þeim upp á spítalann en þeir sögðu að enginn annar en Hendrix var í íbúðinni þegar þeir komu. Sumir halda að hún hafi tekið þátt í morði með því að hleypa ráðnum mönnum inn í íbúðina og þar með hafi hún þurft að ljúga miklu af sögu sinni. Fjölmiðlar um heiminn tilkynntu að hann hafi dáið út af heróíni en hann hafði aldrei tekið heróin og þetta kvöld tók hann bara níu svefntöflur. Út af þessu er málið líkt dauða annarra stjarna, þar sem fjölmiðlarnir reyna að segja að dauði þeirra hafi verið út af dópi þegar svo var ekki, eins og Michael Jackson, sem átti líka að hafa trúað því að einhver hafi viljað sér mein. Krufningarskýrslan sagði að Hendrix drukknaði í ælu sinni en nokkru seinna kom læknirinn sem að sá um líkið fram og sagði: „Ekki bara að hárið og fötin hans voru mettuð í því, heldur voru lungun og maginn á honum alveg stút full af víni, það fossaði úr honum vín á spítalanum.“ Það mældist bara 20 mlgr af áfengi í blóðinu hans, sem er ekki nóg til þess að valda einhvers konar áfengiseitrun. Áfengið hafði þá ekki nógan tíma til þess að komast í blóðið sem að bendir til þess að hann hafi drukknað og það líklega þvingandi. Hann var líka fundinn í öllum fötunum sem að gefur í skyn að hann dó ekki óvart í svefni. Samsæriskenningin heldur því fram að það hentaði vel fyrir ríkið, mafínu og sérstaklega Mikel Jefferey að Hendrix yrði drepinn. Mikel Jefferey átti að hafa töluverða ástæðu til þess að framkvæma drápið á Hendrix, hann var tengdur við FBI og mafíuna og trúði því að Hendrix vildi reka sig, auk þess var hann móttakandi af 2 milljónum dala fyrir líftrygginguna á Hendrix sem hann stofnaði rétt fyrir dauða hans. Mikel sagði við vin sinn að Hendrix var honum meira virði dauður en á lífi og annar vinur þeirra segist hafa heyrt Mikel viðurkenna og útskýra drápið á honum. Þegar Monika Dannemann var kærð varðandi dauða Hendrix framdi hún sjálfsmorð rétt fyrir yfirheyrsluna. Þar er talið að illuminati hafi verið að sjá um lausa enda og sjálfsmorði hennar er þá líkt við önnur svipuð samsæri eins og dauða Evan Chandler, föður MJ. Hendrix, Jimi Vilhjálmur Einarsson. Vilhjálmur Einarsson (f. 5. júní 1934) er íslenskur íþróttamaður og skólastjóri frá Egilsstöðum. Hann fæddist 5. júní 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð. Foreldrar hans voru Sigríður Vilhjálmsdóttir og Einar Stefánsson. Árið 1942 fluttu þau að Eiðum þar sem var vaxandi íþróttalíf. Margir frændur Vilhjálms voru íþróttakappar á Austfjörðum þegar hann var drengur og leit hann mikið upp til þeirra. Hann byrjaði ungur að stunda alhliða íþróttir og fór að einbeita sér að þrístökki á menntaskólaárunum. Árið 1952 vann hann fyrsta mótið sitt í þrístökki en það var landsmót sem haldið var á Eiðum, þar kom hann öllum á óvart. Hann setti Norðurlandamet í þrístökki rétt áður en það átti að velja keppendur frá Íslandi á Ólympíuleikana í Melbourne í Ástralíu árið 1956 sem tryggði honum þátttöku. Hann setti Ólympíumet á mótinu og átti það í tvo klukkutíma en endaði í öðru sæti, hann er enn eini Íslendingurinn sem hefur sett Ólympíumet. Vilhjálmur lenti í þriðja sæti á Evrópumeistaramóti í Stokkhólmi árið 1958, það var þá næst besti árangur Norðurlandabúa. Hann keppti aftur á Ólympíuleikunum árið 1960 og lenti þá í 5. sæti. Hann lenti í sjötta sæti á Evrópumeistarmóti í Belgrad árið 1962 og lauk þar ferli sínum með glæsibrag. Hann var valinn fyrsti íþróttamaður ársins á Íslandi 20. janúar 1956 en hann var valinn 4 sinnum í viðbót, 1957, 1958, 1960 og 1961. Vilhjálmur giftist Gerði Unnarsdóttur og eignuðust þau saman sex syni. Uppvaxtarár. Vilhjálmur Einarsson fæddist þann 5. júní 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð. Foreldrar hans voru Sigríður Vilhjálmsdóttir frá Hánefsstöðum á Seyðisfirði og Einar Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal. Foreldrar hans æfðu ekki skipulagðar íþróttir enda lítið um það á Austfjörðum þegar þau voru á barna- og unglingsárum en faðir hans var talinn góður knattspyrnumaður og móðir hans var létt á fæti og dreymdi um að æfa ballett sem varð þó ekki raunin. Á uppvaxtarárum Vilhjálms jókst áhugi á frjálsum íþróttum mikið þrátt fyrir lélegar aðstæður en fólk ferðaðist þá á bátum og hestum og kannski nokkrum bílum á milli fjarða og keppti í íþróttum. Tækni og aðbúnaður var ekkert í líkingu við það hvernig hann er í dag en fólk lét það ekki á sig fá. Árið 1942 fluttist fjölskyldan að Eiðum þar sem Einar faðir Vilhjálms vann við að byggja íþróttasal og sundlaug. Á þessum árum voru haldin nokkur íþróttamót U.Í.A. á Eiðum og þar fylgdist Vilhjálmur með frændum sínum Tómasi og Þorvarði Árnarsonum sem hann leit mikið upp til og voru miklar fyrirmyndir hans. Vilhjálmur skaraði fram úr í sundi þegar hann var drengur. Sundlaugin á Eiðum var sú eina á Austfjörðum á þessum tíma og var hann mikið í henni. „Eg er í vandræðum með strákinn. Eg má ekki gefa honum 10 svona ungum en hann syndir alveg nákvæmlega eins og eg vil láta synda“ sagði sundkennarinn hans við foreldra hans þannig að hann sýndi þarna fram á hæfileika sína í íþróttum aðeins átta ára gamall. Vilhjálmur vann sveitastörfin heima hjá sér þegar hann var ungur. Hann sótti kýrnar og tók þátt í heyskap og kunni vel að meta sveitina. Árið 1945 flutti hann til Egilsstaða en þá var að myndast þéttbýli þar og vann hann í byggingavinnu á sumrin. Hann byrjaði fyrstu árin að leika sér með kúlu, spjót og kringlu en hann var nokkuð þéttur sem barn og því voru möguleikarnir taldir mestir í kastgreinum. Ekki gekk það eins vel og hann vildi þannig að hann tók upp á því að grafa stökkgryfju því hann langaði í langstökk og þrístökk, hún var 1x4 metrar og eina skóflustungu á dýpt. Sumarið 1943 var Vilhjálmur á Seyðisfirði með fjölskyldu sinni. Þar var hann einn af stofnendum íþróttafélagsins Svanurinn sem lagði aðallega stund á frjálsar íþróttir. Þarna keppti Vilhjálmur fyrst í frjálsum íþróttum. Hann var síðan aftur á Seyðisfirði árin 1947-48 í skóla þar hjá Hjálmari Vilhjámssyni frænda sínum og Sigrúnu Helgadóttur konu hans. Þar lærði hann fimleika og frjálsar og voru það fyrstu skipulögðu íþróttirnar sem hann iðkaði. Vilhjálmur fór í Menntaskólann á Akureyri veturinn 1950-51. Þar var mikið íþróttalíf og tók hann þátt í því af kappi. Hann spilaði fótbolta, blak, stundaði skíði, frjálsar íþróttir og fleira. Í 6. bekk var hann formaður íþróttafélagsins í skólanum. Í lok skólagöngunnar var hann farinn að hallast meira að stökkíþróttunum og frjálsum en hinum íþróttunum. Árið 1952 tók Vilhjálmur þátt á Landsmóti á Eiðum, fyrst var haldin undankeppni fyrir mótið og komst hann áfram í hástökki, langstökki og þrístökki. Hann keppti reyndar bara í þrístökki og setti íslandsmet í drengjaflokki. Hann hafði alltaf stokkið á hægri fæti en hitti þarna á vinstri fótinn og setti þetta met. Þarna fann hann sína íþrótt sem hann stundaði eftir þetta en tók samt alltaf þátt í íþróttalífi skólans. Vilhjálmur fékk styrk til að fara í skóla til Bandaríkjanna 1954-1956, þar stundaði hann margar íþróttir en reyndar ekki þrístökk vegna þess að það var ekki í boði. Hann var í skólaliðinu í langstökki, hástökki og kúluvarpi. Hann keppti í þrístökki á móti í Darthmouth og lenti þar í þriðja sæti og stökk 14,93 metra en metið hans þá var 15,19 metrar. Vilhjálmur stóð sig vel í náminu og dúxaði á lokaprófunum. Hann útskrifaðist með BA-próf í listum og byggingarlist. Þótt að hann hafi ekki æft þrístökk í þessi ár þá æfði hann hinar greinarnar við mjög góðar aðstæður sem hann hafði ekki kynnst áður og kynntist betur skipulögðu og metnaðarfullu íþróttastarfi. Ólympíuleikar og Evrópumeistaramót. Vilhjálmur setti Norðurlandamet í þrístökki rétt áður en það átti að velja íslenska keppendur á Ólympíuleikana. Hann stökk 15,83 metra og kom fólki á Norðurlöndunum á óvart þar sem fáir könnuðust við hann. Þetta tryggði honum keppni á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Vilhjálmur fór á Ólympíuleikana ásamt Hilmari Þorbjarnarsyni keppanda í 100 metra hlaupi og Ólafi Sveinssyni fararstjóra. Það var þann 27. nóvember sem þrístökkskeppnin var. Fyrsta stökk Vilhjálms var ógilt en hann bætti vel fyrir það í næsta stökki þar sem hann setti Ólympíumet, stökk 16,25 metra (seinna breytt í 16,26 metra). Metið átti hann í tvo klukkutíma en þá bætti Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva það með stökki sínu upp á 16,35 metra í fjórðu tilraun. Hann endaði í öðru sæti og var fyrsti Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Þetta var frábær frammistaða hjá íslenska kappanum og Íslendingar fylltust stolti. Enginn hafði búist við því að sjá Íslending á verðlaunapalli og hvað þá að setja Ólympíumet. Da Silva var heimsþekktur og Vilhjálmur varð það þarna með því að komast fram úr honum. Vilhjálmur er eini íslenski einstaklingurinn sem hefur náð öðru sæti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum. Vilhjálmur varð í þriðja sæti á Evrópumeistaramóti í Stokkhólmi árið 1958 og var það næst besti árangur Norðurlandabúa frá upphafi þannig að það voru fleiri en Íslendingar sem fögnuðu þessarri frammistöðu. Á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960 keppti Vilhjálmur bæði í langstökki og þrístökki. Hann keppti samt bara í langstökki til að prófa brautina, stökk aðeins tvö stökk og voru þau mæld 6,64 m og 6,76 m. Í þrístökkinu stökk hann lengst 16,37 og lenti í 5. sæti, frábær árangur. Vilhjálmur varð í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu í Belgrad í Júgóslavíu árið 1962 og hætti að keppa eftir það. Vilhjálmur keppti á fjölda annarra móta en þessi fjögur stórmót standa upp úr.. Fjölskyldan. Vilhjálmur hefur aðallega starfað við kennslu- og uppeldismál og einnig verið skólastjóri eftir að hann lauk íþróttaferli sínum. Hann giftist Gerði Unndórsdóttur og eignuðust þau saman synina Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar. Einar Vilhjálmsson var afreksmaður í íþróttum eins og faðir hans. Hann lenti í sjötta sæti í spjótkasti á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984, hann varð í 13. sæti árið 1988 og var þá mjög óheppinn að komast ekki í úrslit. Árið 1992 varð hann í 14. sæti á Ólympíuleikunum í Barcelona og var aftur mjög nálægt því að komast í úrslit.. Skemmtikrafturinn Simmi er yngsti sonur hans. Skíðaskálinn í Hveradölum. Skíðaskálinn í Hveradölum er skíðaskáli sem stendur í Hveradölum suðvestan við Reykjafell við rætur Hellisheiðar. Skíðafélag Reykjavíkur reisti skálann 1934 og átti hann til 1971 þegar Reykjavíkurborg keypti hann. Frá 1985 var skálinn í eigu Carls Johansen veitingamanns og fjölskyldu hans. Að kvöldi sunnudagsins 20. janúar 1991 brann hann til kaldra kola en nýr skáli í svipuðum stíl var síðan reistur á sama stað og tekinn í notkun 4. apríl árið eftir. Þar er nú rekið veitingahús. Forseti palestínsku heimastjórnarinnar. Forseti palestínsku heimastjórnarinnar er æðsta embætti innan palestínsku heimastjórnarinnar. Forsetinn deilir völdum með palestínska þinginu. Hann skipar forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar. Þriggja konunga fundurinn í Malmö 1914. Þriggja konunga fundurinn var haldinn í Malmö í Svíþjóð 18.-19. desember 1914. Á honum sammæltust Kristján X Danakonungur, Hákon VII Noregskonungur og Gústaf V Svíakonungur um að Norðurlöndin skyldu halda hlutleysi í fyrri heimsstyrjöldinni. Opel. Opel Rekord C, 1.7 L, 1968 Adam Opel GmbH er þýskur bílaframleiðandi sem í dag er dótturfyrirtæki General Motors. Fyrirtækið var stofnað af Adam Opel í Rüsselsheim 21. janúar 1862 og framleiddi upphaflega saumavélar og síðar reiðhjól. Það hóf framleiðslu á bílum 1899. Kristján 10.. Kristján 10. "(Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm" af Glücksborg) var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947. Eftir að Ísland varð fullvalda þann 1. desember 1918 bar hann einnig titilinn "konungur Íslands" þangað til Íslendingar stofnuðu lýðveldi 1944. Hann var bróðir Karls Danaprins, sem varð Hákon 7. Noregskonungur 1905. Kristján var hávaxinn og þótti mynduglegur, alvörugefinn og skyldurækinn. Hann lauk stúdentsprófi 1889 og var fyrstur Danakonunga til að hafa slíkt próf. Því næst þjónaði hann í hernum, í ýmsum herdeildum. Hann varð krónprins 1906 þegar faðir hans, Friðrik 8., varð konungur, og var sjálfur krýndur konungur að föður sínum látnum, árið 1912. Kristján þótti nokkuð stjórnlyndur og upptekinn af virðingu konungdæmisins, og var því kannski ólíklegur til vinsælda á tímum lýðræðisvakningar í Evrópu. Hins vegar ávann hann sér djúpa virðingu þegna sinna og annarra, með táknrænni forystu í báðum heimsstyrjöldunum, og hafa fáir Danakonungar verið jafn vinsælir. Fyrri heimsstyrjöld. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914, átti Kristján fund með Hákoni Noregskonungi (bróður sínum) og Gústaf V Svíakonungi (náfrænda móður þeirra) og ákváðu þeir að halda Norðurlöndunum utan við ófriðinn. 1915 var stjórnarskrá Danmerkur breytt, og konum (og vinnuhjúum) veittur kosningaréttur. Við það tækifæri gengu um 20.000 manns, að miklu leyti konur, á fund hans til að votta honum þakklæti sitt. Varð honum þá að orði: „Á einum stað eru konurnar ómissandi, og það er á heimilunum. Þar kemur ekkert í staðinn fyrir áhrif konunnar, því í gegn um ást barnsins til heimilisins vaknar ástin til vors sameiginlega heimilis, Danmerkur.“ 1. desember 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Kristján var áfram konungur þess, og frá 1918 til 1944 bar hann titilinn „Konungur Íslands og Danmerkur“ á Íslandi, en konungur Danmerkur og Íslands í Danmörku. Eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk með ósigri Þjóðverja og bandamanna þeirra, voru landamæri í Evrópu víða dregin upp á nýtt. Prússar og Austurríkismenn höfðu hertekið Slésvík, Holtsetaland og Suður-Jótland í Öðru Jótlandsstríðinu árið 1864, og þau lönd síðan tilheyrt Prússum, og svo Þýska keisaraveldinu eftir sameiningu Þýskalands. Í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 14. mars 1920 samþykktu Suður-Jótar og Norður-Slésvíkingar að lönd þeirra skyldu heyra undir Danmörku, og þann 10. júlí sama ár reið Kristján yfir landamærin á hvítum hesti, og var hylltur þar sem konungur. Kristján kom nokkrum sinnum til Íslands, meðal annars á Alþingishátíðina 1930. Síðari heimsstyrjöld. Þann 9. apríl 1940 varð Kristján konungur enn á ný miðpunktur athyglinnar, er Þjóðverjar hertóku Danmörku. Hann skoraði á þegna sína að sýna þolgæði og æðruleysi gagnvart Þjóðverjunum, en sjálfur reið hann hesti sínum daglega um götur Kaupmannahafnar, og jók þannig kjark þegna sinna með því að sýna þeim að hann væri óbugaður og væri meðal þeirra, öfugt við ýmsa konunga sem flúðu hernumin lönd sín. Það vakti athygli að hann reið einn, án lífvarða. Sagt er að eitt sinn hafi þýskur hermaður sagt dönskum smástrák að honum fyndist það skrítið. Strákurinn hafi svarað: „Öll Danmörk er lífvörður hans.“ Árið 1942 átti Kristján 72 ára afmæli, og fékk heillaóskaskeyti frá Adolf Hitler. Hann lét sér fátt um finnast, og sendi stuttaralegt svarskeyti: „Bestu þakkir. Kristján konungur“. Hitler varð bálreiður, og Þjóðverjar neyddu Dani til að setja nýja og þýsk-vænni ríkisstjórn. Sama ár féll Kristján af hestbaki og slasaðist. Hann náði sér aldrei almennilega eftir það, og Friðrik sonur hans og ríkisarfi tók meira og minna við stjórnartaumunum. Árið 1944 stofnuðu Íslendingar lýðveldi. Þar sem Danmörk var hernumin, og lýðveldisstofnunin var ekki í samræmi við sambandslögin frá 1918, var það umdeilt meðal Íslendinga að lýðveldisstofnuninni skyldi flýtt, og mæltist það auk þess misjafnlega fyrir meðal annarra ríkja. Kristjáni konungi sárnaði að ekki skyldi farið eftir samningum, en þann 17. júní, á Þingvallafundinum þar sem lýðveldið var stofnað, var lesið upp skeyti frá konungi, þar sem hann óskaði Lýðveldinu Íslandi gæfu og velfarnaðar. Kristján X andaðist þann 20. apríl 1947 í Amalienborgarhöll. Hann var lagður til hinstu hvílu í kapellu Glücksborgarættarinnar í Hróarskeldudómkirkju. Sonur hans Friðrik tók við krúnunni sem Friðrik IX. Friðrik 8.. Friðrik 8. af Glücksborg var konungur Danmerkur frá 1906 – 1912. Hann var elstur barna Kristjáns konungs 9. og Lovísu af Hessen-Kassel. Hann kvæntist Lovísu prinsessu af Svíþjóð-Noregi árið 1869. Fljótlega eftir brúðkaupið settust hjónin að í Charlottenlund-höll, þar sem mörg af börnunum þeirra átta fæddust. Frá unga aldri sýndi Friðrik vísindum, listum og menningu mikinn áhuga. Hann ferðaðist mikið, meðal annars til London, Parísar, Berlínar, Stokkhólms, Færeyja og Íslands. Þar sem hann var krónprins í 43 ár fékk hann nægan tíma til að búa sig undir að verða konungur en hann ríkti aðeins í sex ár. Friðrik var frjálslyndur og var hlynntur því er þingræði var innleitt í Danmörku árið 1901. Friðrik þótti vænt um Ísland og Íslendingum um hann, meira en vant var um Danakonunga. Á efri árum fékk konungur hjartasjúkdóm, sem dró hann til dauða þann 14. maí 1912, þar sem hann var einn á ferð í Hamborg. Starfsfólk líkhússins bar ekki kennsl á konung Danmerkur fyrr en daginn eftir. Friðrik hlaut hinsta legstað í Hróarskeldudómkirkju og eftirmaður hans var sonurinn Kristján 10. Lengi gengu sögusagnir um að konungurinn hefði látist á gleðihúsi. Á móti hefur verið bent á að það sé ótrúlegt, þar sem hann hafi látist aðeins um korteri eftir að hann yfirgaf hótel sitt. Ystingur. Ystingur (eða ostefni) er mjög prótínríkt efni í mjólkurvörum sem verður til við það mjólk er yst (eða "hleypt") með ensímum eða vægri sýru (t.d. matarediki eða sítrónusýru) þannig að prótínin kekkjast og skilja sig frá mysunni í mjólkinni. Ystingur er t.d. notaður í kotasælu, osta og fleira. Stundum er hann notaður beint til matargerðar. Hið ljúffenga, ungverska sælgæti Túró Rudi er með fyllingu úr bragðbættum ystingi. Hrafninn flýgur. "Hrafninn flýgur" er íslensk-sænsk víkingamynd frá 1984 og þriðja kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar í fullri lengd. Kvikmyndin gerist á Íslandi stuttu eftir landnám og fjallar um írskan mann, Gest (Jakob Þór Einarsson), sem fer til Íslands til að hefna sín á víkingum sem drepið höfðu foreldra hans og rænt systur hans þegar hann var á barnsaldri. Þegar kvikmyndin var frumsýnd var hún stundum kölluð eina ekta víkingamyndin. Hún náði nokkrum vinsældum á Norðurlöndunum og setningar úr myndinni, eins og „Þungur hnífur?“, urðu allþekktar. Myndinni var gjarnan lýst sem spagettívestra í víkingabúningi, meðal annars vegna tónlistar (panflauta er notuð til að skapa spennu í mörgum atriðum) og hliðstæðna við söguþráðinn í "A Fistful of Dollars" eftir Sergio Leone frá 1964 sem sjálf var eins konar endurgerð japönsku kvikmyndarinnar "Yojimbo" eftir Akira Kurosawa. Allar þessar myndir nýta algengt þjóðsagnaminni sem t.d. kemur fram í sögunni „Skraddarinn hugprúði“ í Grimmsævintýrum (gerð 1640 í þjóðsagnaflokkun Aarne-Thompson). Í einu af lokaatriðunum í "Hrafninn flýgur" segir Þórður (Helgi Skúlason) syni sínum útgáfu af þessari sögu til að róa hann, þar sem hann læst ætla að fórna honum til að lokka Gest út úr fylgsni sínu. Viðtökur. "Hrafninn flýgur" vakti töluverða athygli strax meðan á framleiðslu stóð. Mikið var lagt í hönnun búninga þar sem að hluta var notast við gamaldags aðferðir í málmsmíði t.d. og leikmyndin þótti strax nýstárleg. Leikmunum var stillt upp í anddyri Háskólabíós meðan á sýningum stóð. Hluta af leikmyndinni má enn sjá í Drangshlíð undir Eyjafjöllum. Myndin vakti einnig athygli fyrir það að vera klippt á stafrænu formi (VHS). Aðsókn á myndina var mjög góð í kvikmyndahúsum á Íslandi og áætlaði DV (4. mars 2000) að um 70.000 manns hefðu séð hana, sem gerði hana að tíundu best sóttu íslensku kvikmyndinni fram að þeim tíma. Hún kom út á myndbandi fljótlega eftir að kvikmyndasýningum lauk og á mynddiski 2005. Hún hefur verið notuð í kennslu á Norðurlöndunum sem hefur verið gagnrýnt þar sem hún þykir ekki gefa nógu raunsæja mynd af tímabilinu. Lukkuborg. Lukkuborg (eða Glúkksborg) (þýska: Glücksburg, danska: Lyksborg) er lítill bær í Schleswig-Holstein í norður-hluta Þýskalands. Bærinn var upphaflega heimili Lukkuborgarættarinnar. Lukkuborgarætt. Lukkuborgarætt hefur verið ríkjandi konungsætt Danmerkur frá 1863, er Kristján IX tók við ríki. Hún er kennd við Glücksburg, bæ í Slésvík, og heitir reyndar fullu nafni "Slesvig-Holsten-Sønderborg-Lyksborg" á dönsku, en "Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg" á þýsku. Lukkuborgarætt er kvísl af Aldinborgarætt, sem hefur verið við völd í Danmörku síðan Kristján I varð konungur árið 1448. Nói albinói. "Nói albinói" er fyrsta kvikmynd Dags Kára Péturssonar í fullri lengd. Hún fjallar um ungan dreng að nafni Nói, sem býr í afskekktum bæ á Íslandi. Nói á í erfiðleikum í skóla og fær litla virðingu heima hjá sér. Hann kynnist ungri stelpu frá Reykjavík og ákveður að strjúka í burtu með henni. En hún er ekki á sama máli. Kvikmyndin hlaut sex Edduverðlaun 2003 og var send í forval til Óskarsins 2004. Nýtt líf. "Nýtt líf" er fyrsta kvikmynd þríleiksins um Danna og Þór eftir Þráin Bertelsson. Í þessari mynd reyna þeir fyrir sér í fiskiðnaðinum. Söguþráður. Matsveinninn Daniel, leikinn af Karli Ágústi Úlfssyni og veitingaþjónninn Þór, leikinn af Eggerti Þorleifssyni eru reknir af Hótel Sögu vegna ruddalegrar framkomu við matargest. Þeir ákveða því að söðla um og byrja „nýtt líf“ - í Vestmannaeyjum. Þeir sigla undir fölsku flaggi og ráða sig í vinnu hjá stærsta fiskvinnslufyrirtækinu í Eyjum, þar sem þeir kynnast m.a. Víglundi verkstjóra, („Þú ert kallaður Lundi, er það ekki?“), bónusvíkingnum Axel, Ungfrú Snæfells- og Hnappadalssýslu, Maríu Lundadóttur og skipstjóranum hjátrúarfulla, sem og fjölmörgum öðrum ógleymanlegum persónum. Annað. Tónlistin í myndinni er meðal annars leikin af hljómsveitinni Tappa Tíkarass, með söngkonuna Björk Guðmundsdóttur í fararbroddi. Dalalíf. "Dalalíf" er önnur kvikmyndin í þríleik Þráins Bertelssonar um Þór og Danna. Í þessari mynd fara þeir í sveit og stofna nýja og undarlega tegund af ferðaþjónustu. Söguþráður. Þór og Danni eru komnir aftur frá Vestmannaeyjum, slyppir og snauðir. Kaupmaðurinn á horninu er hættur að skrifa hjá þeim og hungurvofan á næsta leiti. Af óbilandi bjartsýni taka þeir því að sér að reka stórbú í Kjósinni meðan bóndinn bregður sér í bændaferð til Noregs. Þeir félagar þreytast þó fljótt á venjulegum bústörfum og auglýsa þess í stað "Dalalífsvikur" fyrir borgarbúa - og þar fer af stað einhver sú alfyndnasta atburðarrás sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Veggspjöld og hulstur. Sama hönnun var notuð á DVD hulstrinu og upprunalega veggspjaldi. Þráinn Bertelsson var ekki nógu sáttur með það, og fór með það í blöðin að hann ætti höfundarrétt á veggspjaldinu og að Sena hafi notað það án hans leyfis. Löggulíf. "Löggulíf" er þriðja og síðasta kvikmyndin í þríleik Þráins Bertelssonar um félagana Þór og Daníel. Í þetta sinn fá þeir óvænt vinnu í lögreglunni. Íslenski draumurinn. "Íslenski draumurinn" er kvikmynd eftir Róbert I. Douglas. Hún var tilnefnd til fjögurra Edduverðlauna, m.a sem besta myndin, en hlaut engin. Hún var frumsýnd árið 2000. Myndin fjallar um Tóta, dæmigerðan Íslending með fótboltadellu. Hann hyggst byrja innflutning á Ópal sígarettum frá Búlgaríu, en allt gengur á afturfótunum. Kotasæla. Kotasæla er mjólkurafurð og er meginuppistaða hennar ystingur sem er búið er að pressa mestu mysuna úr. Hann er ekki látinn eldast eða þroskast eins og gert er þegar hefðbundnir ostar eru búnir til, kotasæla er því bragðlítil og mjólkurlituð. Fituinnihald hennar fer eftir magni fitu í þeirri mjólk er ystingurinn er unnin úr og er hún oft seld bragðbætt t.d. með ananas eða hvítlauk. Kotasælan er að jafnaði með mjög lágt fitu- og kolvetnisinnihald, en hátt hlutfall prótíns. Orka 452 kJ / 107 kcal Ludwig Scotty. Ludwig Scotty (fæddur 20. júní 1948 í Anabar-héraði) var forseti Nárú frá 29. maí 2003 til 8. ágúst 2003 og aftur frá 22. júní 2004 til 19. desember 2007. Hafið (kvikmynd). Hafið er kvikmynd eftir Baltasar Kormák. Handritið er eftir Baltasar Kormák og Ólaf Hauk Símonarson byggt á samnefndu leikriti Ólafs. Kvikmyndin var send í forval Óskarsins árið 2003. Derog Gioura. Derog Gioura (fæddur 1931 í Ubenide-héraði, dáinn 25. september 2008) var stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti Nárú. Þegar fyrirmaður hans, Bernard Dowiyogo, lést í starfi 10. mars 2003, var hann var hann valinn af þingheimi sem starfandi forseti. Í þingkosningunum 3. maí sama ár bauð hann sig fram til forseta á móti Ludwig Scotty og Kinza Clodumar. 29. maí fékk hann hjartaáfall og var sendur til Melbourne á sjúkrahús og sama dag var Ludwig Scotty valinn forseti. Þegar Gioura var orðinn heill heilsu fór hann aftur til Nárú og tók við starfi Kvenna- og fjölskylduráðherra. Þann 22. júní 2004 missti hann síðan starfið en hélt áfram sæti sínu sem þingmaður. Í október sama ár missti hann síðan þingsæti sitt og hefur ekki setið á þingi síðan. Land og synir (kvikmynd). "Land og synir" er kvikmynd eftir Ágúst Guðmundsson byggð á skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar. Hún fjallar um fólksfækkun á landsbyggðinni. "Land og synir" var með fyrstu kvikmyndunum sem gerðar voru með styrk úr kvikmyndasjóði sem úthlutaði fyrstu styrkjum til kvikmyndagerðar í apríl árið 1979. Meðal annarra sem hlutu styrk þetta ár voru kvikmyndirnar "Veiðiferðin" og "Óðal feðranna" en "Land og synir" hlaut hæsta styrkinn og er sú mynd sem jafnan er talin marka upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi. René Harris. René Reynaldo Harris (fæddur 11. nóvember 1948 í Aiwo-héraði) er stjórnmálamaður frá Nárú og fyrrverandi forseti landsins. Hann hefur verið þingmaður fyrir Aiwo frá árinu 1977. Hann er einnig meðvirkur í stærstu fyrirtækjum landsins; Nauru Phosphate Corporation (NPC) og Nauru Pacific Line (NPL). Ríkisstjórn hans státar af afrekum á borð við að gera Nárú að meðlim í SÞ, fullgildum meðlim í Breska samveldinu og að hafa tekið við áströlskum hælisleytendum. Hann hefur verið gagnrýndur af nárúska andstöðuflokkinum (Naoero Amo) og alþjóðasamtökum fyrir mannréttindabrot. Harris var fyrst forseti Nárú 27. apríl 1999 til 20. apríl 2000 þegar Bernard Dowiyogo tók við embættinu fram til 29. mars 2001. Í janúar 2003 voru þeir Dowiyogo forsetar í tvígang hver. Dowiyogo vann að lokum en andlát hans í mars 2003 leiddi þjóðina inn í mikinn óvissutíma. Ludwig Scotty tók við embætti forseta 22. júní 2004. Harris fer mánaðarlega til Melbourne í sykursýki-meðferð. Harris, René Fullorðið fólk. "Fullorðið fólk", (da: "Voksne mennesker") er kvikmynd eftir Dag Kára. Kinza Clodumar. Kinza Godfrey Clodumar (fæddur 8. febrúar 1945 í Boe-héraði) er nárúskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti landsins. Hann var þingmaður til margra ára, fjármálaráðherra frá 2003 fram í október 2004 og loks forseti landsins frá 12. febrúar 1997 til 18. júní 1998 þegar honum var steypt af stóli. Clodumar er innfæddur Nárúi og hefur mikinn áhuga á umhverfismálum. Hann hefur fengið stuðning frá mörgum nárúskum stjórnmálamönnum, þar á meðal Bernard Dowiyogo, René Harris og Ludwig Scotty. Hann hefur einnig sýnt þeim stuðning. Árið 2003 reyndi hann tvívegis að verða aftur forseti. Hann missti þingsæti sitt í október 2004. Clodumar, Kinza Ruben Kun. Ruben James Kun er fyrrverandi fjármálaráðherra og forseti Nárú. Hann var forseti frá 19. desember 1996 til 13. febrúar 1997. Kun, Ruben Næsland. "Næsland" ("Niceland") er kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson. Hún er tekin upp á Íslandi og Þýskalandi en athygli vekur að aðeins enska er töluð í henni. Hún segir frá þroskaheftu ungu fólki sem vinnur í verksmiðju. Krónprins. Krónprins er aðalsborinn karl sem stendur næstur til ríkiserfða í konungs- eða furstadæmi. Samkvæmt vestrænum hefðum er hann oftast elsti sonur ríkjandi konungs eða drottningar. Næsti bróðir í aldursröð erfir krúnuna ef konungurinn er barnlaus, og svo ganga erfðirnar koll af kolli samkvæmt sérstökum reglum. Í arabískri hefð gengur krúnan frá eldri bróður til yngri bróður, en ekki frá föður til sonar. Í mörgum vestrænum konungsríkjum, til dæmis Englandi, Hollandi og Danmörku hefur konum verið gert kleift að erfa krúnuna til jafns við karla. Þá getur ríkisarfinn verið hvort sem er, krónprins eða krónprinsessa. Herbert Paul Grice. Herbert Paul Grice (1913 – 1988) var breskur heimspekingur sem fékkst einkum við málspeki. Tenglar. Grice, Paul Grice, Paul Edmund Gettier. Edmund L. Gettier III (fæddur 1927 í Baltimore í Maryland) er bandarískur heimspekingur og prófessor "emeritus" við University of Massachusetts at Amherst. Hann er víðfrægur fyrir eina þriggja síðna langa grein sem birtist fyrst árið 1963 í tímaritinu "Analysis" og nefnist „Er sönn rökstudd skoðun þekking?“ („Is Justified True Belief Knowledge?“). Tenglar. Gettier, Edmund Gettier, Edmund Scott Soames. Scott Soames (f. 1946) er prófessor í heimspeki við University of Southern California. Hann fæst einkum við málspeki og sögu rökgreiningarheimspekinnar. Soames er þekktur fyrir að verja og útfæra frekar kenningar Saul Kripke, fyrrum starfsbróður síns við Princeton-háskóla, og fyrir að vera einn helsti málsvari tvígildiskenninga um merkingu. Æviágrip. Scott Soames fæddist árið 1946. Hann stundaði nám í heimspeki við Stanford University en hélt til Massachusetts í framhaldsnám þar sem hann nam heimspeki og málvísindi við Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hann lauk doktorsgráðu í heimspeki ári 1976. Soames kenndi við Yale University (1976-1980) og Princeton University (1980-2004). Soames kennir nú við heimspekideild University of Southern California. Helstu rit. Soames, Scott Soames, Scott Soames, Scott Öxarfjörður. Öxarfjörður er einn af fjörðum Íslands og liggur á milli Tjörness og Melrakkasléttu á norðausturhorni Íslands. Fjörðurinn er stuttur og breiður og mætti allt eins kallast flói, við hann liggur Kópasker. Landnámsmenn í Öxarfirði voru þeir Einar Þorgeirsson, sem hét eftir afa sínum hálfbróður Göngu-Hrólfs, og bræðurnir Vestmaður og Vémundur. Þeir komu frá Orkneyjum, sigldu norður um land og byggðu fyrstir fjörðinn og gáfu honum nafn. Friðrik 7. Danakonungur. Friðrik 7. (6. október 1808 – 15. nóvember 1863) var konungur Danmerkur frá 1848 til dauðadags. Hann var af ætt Aldinborgara. Hann lét af einveldi árið 1848. Ævi. Friðrik var sonur Kristjáns Friðriks Danaprins, seinna Kristjáns konungs 8. og Karlottu Friðriku af Mecklenburg-Schwerin. Skömmu eftir fæðingu hans skildu foreldrarnir, þar sem móðirin hafði haldið við annan mann. Henni var aldrei aftur leyft að sjá son sinn. Friðrik gekk að eiga Vilhelmínu Maríu Danaprinsessu þegar hann var tvítugur. Þau voru tvímenningar, hún yngsta dóttir ríkjandi konungs, Friðriks konungs 6. Sambúð þeirra var stirð, og sagt var að Friðrik prins hafi verið konu sinni bæði ótrúr og tillitslaus. Konungnum, tengdaföðurnum, var á endanum nóg boðið, og vorið 1834 sendi hann tengdason sinn í ferðalag til Íslands (og varð Friðrik því fyrsti konungur landsins sem þangað hafði komið) og rak hann síðan, þegar hann kom aftur, í útlegð til Fredericiu á Jótlandi og krafðist skilnaðar fyrir hönd dóttur sinnar. Í útlegðinni komst Friðrik prins í kynni við dansmærina Louise Rasmussen, sem seinna varð konan hans. 1839 varð faðir Friðriks konungur, sem Kristján 8., og Friðrik varð þar með krónprins, útlegðinni var aflétt og hann tók við fyrra starfi föður síns sem landstjóri á Fjóni. Árið 1841 kvæntist hann Marianne af Mecklenburg-Strelitz en þau skildu árið 1846 og voru barnlaus. Þann 20. janúar 1848 andaðist Kristján 8.. Friðrik sonur hans var 39 ára og hafði litla reynslu af stjórnmálum, svo að ýmsum leist ekki vel á að hann yrði konungur. En sem konungur afsalaði hann sér einveldi og gaf Dönum stjórnarskrá. Það, ásamt öðru, varð til þess að vinsældir hans urðu miklar. Í byltingaröldunni sem skók Evrópu 1848 kröfðust íbúar hertogadæmanna Slésvíkur og Holtsetalands þess að verða hluti af Þýska sambandinu, og að þau fengju sjálfstjórn. Frjálslyndir þjóðernissinnar kröfðust stjórnarskipta í hertogadæmunum og ákvað Friðrik að verða við þeirri kröfu og skipaði nýtt ráðuneyti með þátttöku beggja fylkinga, frjálslyndra og íhaldsmanna. Hann gaf nýja ráðuneytinu það til kynna, að þaðan í frá liti hann svo á að einveldi væri afnumið í Danmörku, og að krúnan væri eftirleiðis bundin af stjórnarskrá. „Konungurinn mætir ekki á ríkisráðsfundi nema honum sé boðið,“ sagði hann. Nokkrum dögum seinna lét hann fræg ummæli falla: „Loksins get ég sofið út.“ 1850 kvæntist Friðrik þriðja sinni, og var brúðurin Louise Rasmussen, sem hann hafði kynnst í Fredericiu nokkrum árum áður. Hún var af lágum stigum, svo að börn þeirra hefðu verið útilokuð frá ríkiserfðum — en reyndar varð honum ekki barna auðið með henni frekar en öðrum konum. Betri borgurum og aðalsfólki fannst þessi ráðahagur ekki sæmandi, og svo fór að hjónunum fannst sér varla vera vært í Kaupmannahöfn. Þau keyptu því höllina Jægerspris og settust að þar. Friðrik 7. var síðasti konungur Danmerkur sem var af hinni eiginlegu Aldinborgarætt. Þegar hann dó, þann 15. nóvember 1863, aðeins 55 ára að aldri, hlaut hann legstað í Hróarskeldudómkirkju. Eftirmaður hans var Kristján, prins af Lukkuborg, þar sem konan hans, Louise af Hessen-Kassel, stóð næst til ríkiserfða, en hún var systurdóttir Kristjáns 8. Julia Annas. Julia Annas er prófessor í heimspeki við University of Arizona en var áður Regents Professor í heimspeki við St. Hugh's College, í Oxford. Hún sérhæfir sig í fornaldarheimspeki, einkum siðfræði, hugspeki, sálfræði og þekkingarfræði í forngrískri heimspeki. Annas var stofnandi og um skeið ritstjóri tímaritsins "Oxford Studies in Ancient Philosophy". Sea Shepherd Conservation Society. Sea Shepherd Conservation Society eru umverfisverndarsamtök sem einkum berjast gegn veiðum á sjávardýrum. Samtökin eru þekktust fyrir baráttu gegn hvalveiðum en hafa einnig fengist við baráttu gegn veiðum á öðrum sjávardýrum eins og selum og sæskjaldbökum. Samtökin voru stofnuð af Paul Watson og fleirum úr umhverfissamtökunum Greenpeace þar sem þeim þóttu aðferðir Greenpeace ekki nógu róttækar. Aðferð Greenpeace er að safna gögnum um t.d. ólöglegar veiðar og nota þau í herferðum sem ganga út á það að móta almenningsálit í þeim löndum þar sem þeir starfa, en Watson vildi taka upp beinar aðgerðir gegn veiðimönnum. Samtökin hafa sökkt tíu hvalveiðiskipum frá 1979. Þeirra á meðal eru íslensku hvalveiðiskipin "Hvalur 6" og "Hvalur 7" sem samtökin reyndu að sökkva í Reykjavíkurhöfn árið 1986. Vegna þessa var Paul Watson fangelsaður í stuttan tíma þegar hann kom til Íslands árið 1988 og í kjölfarið vísað úr landi. Núverandi höfuðstöðvar samtakanna eru í Friday Harbour í Washingtonfylki í Bandaríkjunum. Peter Geach. Peter Thomas Geach (f. 29. mars 1916) er breskur heimspekingur. Hann fæst einkum við heimspekisögu, rökfræði, hugspeki og trúarheimspeki. Hann var kvæntur heimspekingnum Elizabeth Anscombe og áttu þau sjö börn. Geach er kaþólskur og er kaþólsk trú að mörgu leyti samtvinnuð heimspeki hans. Heimspeki hans er í anda rökgreiningarheimspekinnar en undir miklum áhrifum frá Tómasi af Akvínó. Geach hefur t.a.m. varið þá kenningu að manneskjan sé í eðli sínu skynsemisvera og að hver og einn einstaklingur hafi verið skapaður af guði. Hann vísar á bug tilraunum í anda Darwins til að líta svo á að skynsemin sé ekki eðlislæg manninum heldur hending þróunarinnar sem „sófisma, hlægilegum eða brjóstumkennanlegum“. Hann hafnar kenningum um málgetu dýra. Geach hafnar bæði þekkingarfræðilegum skilningi sannleikshugtaksins og gagnhyggju um sannleikann, en heldur þess í stað samsvörunarkenningu um sannleikann á lofti í anda Tómasar af Akvínó. Hann heldur því fram að veruleikinn sé einn og óskiptur, grundvallaður í guði sjálfum, sem er endanlegur sanngjöri; guð "er" sannleikur. Helstu rit. Geach, Peter Geach, Peter Plútarkos. Plútarkos eða Mestrius Plutarchus (forngríska: Πλούταρχος; 46 – 127) var forngrískur sagnaritari, ævisöguritari, rithöfundur og platonskur heimspekingur. Plútarkos fæddist í Kæroneu í Böótíu í Grikklandi, um 31 km austur af Delfí. Varró. Marcus Terentius Varro, víðast þekktur undir nafninu Varró, (116 f.Kr. – 27 f.Kr.) var rómverskur fræðimaður og rithöfundur, sem Rómverjar kölluðu „lærðasta mann Rómaveldis“. Enskur mastiff. Enskur mastiff er afbrigði stórra hunda sem tilheyrir mastiff-fjölskyldunni. Stærð. Mastiff eru stórir hundar. Venjulega verða þeir um 70 – 80 cm á hæð á herðakamb og um 80 – 90 kg. Rottweiler. Rottweiler er afbrigði stórra hunda frá Þýskalandi. Stærð. Rottweiler-hundar eru stórir hundar. Rakkar verða um 61-68 cm á hæð á herðakamb en tíkur um 56-63 cm. Rakkar vega yfirleitt um 55 kg en tíkur um 48 kg. Rottweiler hundar hafa blíðan karakter en eru oft misskildir sem grimmir. Þeir hafa ríka tilhneigingu til að verja sitt yfirráðarsvæði og henta vel sem varðhundar en geta einnig verið prýðilegir fjölskylduhundar. Þeir þurfa þó ríkan aga snemma í uppeldinu. Franskur bolabítur. Franskur bolabítur er afbrigði af hundi sem kom fyrst fram í Frakklandi um eða eftir miðja 19. öld. Stærð. Franskir bolabítar eru smávaxnir. Þeir vega sjaldnast meira en 13 kg, oft mun minna en rakkar eru yfirleitt þyngri en tíkur. Franskir bolabítar verða venjulega um 20-35 cm á hæð á herðakamb. Írskur setter. Írskur setter er afbrigði af hundi sem hefur verið ræktað sem veiðihundur en írskur setter er einnig vinsæll fjölskylduhundur. Stærð. Írskur setter er hávaxinn er mjósleginn hundur sem verður venjulega 54-70 cm á hæð á herðakamb en um 20-25 kg. Rakkar verða venjulega um 2-5 cm hærri og um 2-5 kg þyngri en tíkur. Border collie. Border collie eða merkjakoli er afbrigði af hundi sem hefur verið ræktað sem fjárhundur og á uppruna sinn að rekja til Englands og Skotlands. Þeir eru af mörgum taldir meðal greindustu og duglegustu hunda. Aldur og uppruni. Tegundin rekur ættir sínar til Stóra-Bretlands en aldur hans er ekki þekktur að vissu. Bændur í Chevíót- og Galloway ræktuðu hann til að kalla fram bestu smalahæfileika og greind sem völ var á á þeim tíma. Hann komst ekki á skrá hjá Breska hundaræktarsambandinu fyrr en 1976. Mikil eftirspurn var eftir góðum, hreinræktuðum merkjakolum í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en þar er mikil sauðfjárrækt stunduð og þurftu bændur góða smalahunda. Þetta átti einnig við Ísland en kolinn vildi blandast íslenskum heimilishundum og misstu einstaklingarnir þannig sérstöðu sína hvað smalagreind varðaði. Útlit og bygging. Rakkar verða um 53 cm en tíkurnar minni. Þeir eru meðalstórir og léttbyggðir, búkurinn langur og spengilegur. Höfuðið er langdregið og eyrun standa að hluta. Algengasti litur Border Collie er svartur og hvítur, en þeir geta verið margskonar á litinn, svosem brúnir og hvítir, bláir og hvítir og yrjóttir (Merle). Þeir eru gjarnan blesóttir með hvítan kraga, sokka og síðóttir. Sum ræktunarfélög gera engin skilyrði til litar og útlits heldur bara geðslags, smalaeiginleika og heilbrigði. Þannig á merkjakoli að vera heilbrigður og vakandi fram undir 10 ára aldur, jafnvel lengur. Notkun. Merkjakoli er mest notaður til að smala sauðfé og nýtist vel til þess arna vegna hraða og snerpu í hreyfingum. Hann sækist eftir því að halda fé í hóp og rekur það gjarnan í átt að húsbónda sínu. Hann hefur einnig sannað sig sem fíkniefnahundur, snjóflóðahundur, rekja spor (tracking) og aðstoðarhundur fyrir til dæmis fatlaða eða hreyfihamlaða. Merkjakoli nýtist til ýmissa leikja, svo sem flyball, hlýðni og hindrunarkeppni (e. "agility"). Quintilianus. Marcus Fabius Quintilianus (um 35 – 95) var rómverskur mælskufræðingur og kennari. Í riti hans "Um menntun ræðumannsins" ("Institutio oratoria") er að finna umfjöllun um helstu rithöfunda og skáld Forngrikkja og Rómverja og helstu bókmenntagreinar. Quintilianus var mikið lesinn á miðöldum og á endurreisnartímanum og hafði mikil mótunaráhrif á smekk nútímamanna á bókmenntum fornaldar. Plinius eldri. Gaius Plinius Secundus eða Pliníus eldri (23 – 24. ágúst 79) var rómverskur fræðimaður og rithöfundur og sjóliðsforingi í rómverska flotanum. Hann samdi ritið "Naturalis Historia", sem var nokkurn konar alfræðirit um náttúruvísindi og talinn forfaðir alfræðiorðabóka síðari tíma. Hann er nefndur „eldri“ til aðgreiningar frá frænda sínum, Pliníusi yngri en báðir urðu vitni að eldgosinu í Vesúvíusi þann 23. ágúst árið 79 e.Kr. sem varð Pliníusi eldri að aldurtila. Pólýgnótos. Pólýgnótos var forngrískur málari sem var uppi um miðja 5. öld f.Kr. Hann var sonur Aglaofons og kom frá Þasos en fluttist til Aþenu og og fékk aþenskan ríkisborgararétt. Hann málaði m.a. málverk af eyðileggingu Tróju á vegginn í súlnagöngunum "Stoa poikile" í Aþenu. Daniel Dennett. Daniel Clement Dennett (f. 28. mars 1942 í Boston í Massachusetts) er bandarískur heimspekingur og kunnur trúleysingi. Dennett fæst einkum við hugspeki, vísindaheimspeki og heimspeki líffræðinnar, einkum spurningar er varða þróunarkenninguna og vitvísindi. Hann er prófessor í heimspeki við Tufts University. Tenglar. Dennett, Daniel Dennett, Daniel Dennett, Daniel Catullus. Gaius Valerius Catullus, þekktastur sem Catullus (um 84 f.Kr. — um 54 f.Kr.) var eitt af áhrifamestu skáldum Rómaveldis á 1. öld f.Kr. Catullus var meðal hinna svonefndu ungskálda eða "neoteroi". Helstu fyrirmyndir þeirra voru grísk skáld, einkum skáld frá helleníska tímanum á borð við Kallímakkos, og lýrísk skáld á borð við Saffó. Sumarskólinn. Sumarskólinn er skóli sem tekur fyrir meira námsefni en aðrir skólar á styttri tíma yfir sumarið. Villiljós. "Villiljós" er kvikmynd í fimm sjálfstæðum hlutum sem er byggð á handriti Huldars Breiðfjörð. Þessir fimm hlutar skiptast svo niður á fimm leikstjóra, þannig að hver og einn þeirra stýrir sínum hluta. Maður eins og ég. "Maður eins og ég" er íslensk kvikmynd í leikstjórn Róberts I. Douglas. Myndin var frumsýnd árið 2002. Aðalhlutverkið leikur Jón Gnarr. Djöflaeyjan. "Djöflaeyjan" er kvikmynd byggð á sögu Einars Kárasonar, "Þar sem djöflaeyjan rís". Hvíti víkingurinn. Hvíti víkingurinn er kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson tekin upp á Íslandi en framleidd í Noregi. Kvikmyndin endurklippt. Hrafn Gunnlaugsson var fráleitt sáttur við útkomuna á "Hvíta víkingnum", en framleiðendurnir tóku af honum völdin þegar komið var að því að klippa myndina, og varð til þess að Hrafn mætti ekki einu sinni á frumsýningu myndarinnar. Hrafn hefur nú endurklippt myndina, skírt hana upp á nýtt og heitir myndin núna Embla og verður frumsýnd í október 2007. Gistilíf. Gistilíf er það þegar ein lífvera lifir á annarri og hagnast af því en skiptir hina lífveruna ekki máli. Svo á jörðu sem á himni. "Svo á jörðu sem á himni" er önnur kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur. Myndin gerist árið 1936 og fjallar um unga stelpu að nafni Hrefna sem byrjar að blanda saman fortíð og framtíð í ímyndunarafli sínu. Hún var frumsýnd í Háskólabíó 1992. Titill myndarinnar kemur úr faðirvorinu. Í skugga hrafnsins. "Í skugga hrafnsins" er kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson. Hún er sjálfstætt framhald af Hrafninn flýgur. Opinberun Hannesar. "Opinberun Hannesar" er kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson byggð á smásögu Davíðs Oddssonar, "Glæpur skekur húsnæðisstofnun." Kvikmyndin vakti mikla athygli og varð fyrir mikilli gagnrýni. Hún er jafnvel talin hafa komið óbeint við sögu við einkavæðingu Landsbankans. Opinberun Hannesar og styrkirnir. Mikill fyrirgangur var við fjármögnun myndarinnar frá upphafi. Kvikmyndasjóður var á þessum árum undir stjórn Þorfinns Ómarssonar og undir stjórn hans hafnaði Kvikmyndasjóður fjárstuðningi við myndina þegar sótt var um 60 milljón króna styrk. Stuttu síðar rak þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, Þorfinn úr starfi, en hann var síðan ráðinn á ný eftir að sérskipuð nefnd hafði fjallað um málið. Þorfinnur veitti þó styrk til gerðar Opinberunar Hannesar rétt fyrir afsögn sína og var sá styrkur 22 milljónir. Sú styrkveiting fór fyrir Ríkisendurskoðanda. Seinna sama ár var Kvikmyndasjóður lagður niður og stofnuð var Kvikmyndamiðstöð Íslands og auglýst eftir nýjum forstöðumanni en Laufey Guðjónsdóttir var ráðin í starfið haustið 2003. Um líkt leyti komu Björgólfur Guðmundsson og sonur hans, Björgólfur Thor til sögunnar og styrktu myndina um 10 milljónir króna til viðbótar. Þetta var á sama tíma og Davíð Oddsson, höfundur sögunnar sem myndin er unnin eftir, var að velja sér kaupanda að Landsbankanum. Fór lítið fyrir þessari staðreynd í aðdraganda einkavæðingarinnar. Styrkurinn var sagður fjárfesting á dreifingarrétti myndarinnar í Þýskalandi. Auk alls þessa keypti Ríkissjónvarpið sýningarréttinn á 10 milljónir. Þegar hinir ýmsu álitsgjafar fóru í saumana á myndinni, eftir að hún var frumsýnd, þótti flestum þeirra sem myndin hefði kostað öllu minna en framleiðendur höfðu fengið til gerðar hennar. Þverbanda hjólbarði. Mynd sem sýnir hvernig strigalögin liggja í þverbanda hjólbarðanum Þverbanda hjólbarði eða radíaldekk er tegund af hjólbarða þar sem strigalög og vírar liggja þvert á akstursstefnuna. Með þessu fæst slitsterkari snertiflötur (bani) og sveigjanlegar hliðar. Þverbanda hjólbarðar „dala“ því meira en skábanda hjólbarða (diagonal dekk) og dreifa þannig álagi og þyngd betur á undirlagið. Aftur á móti eru hliðarnar viðkvæmar gagnvart oddhvössum hlutum. Hjólbarðarnir eru notaðir bæði á bíla og dráttarvélar en síður á vagna vegna þess hve miklu dýrari þeir eru en skábanda hjólbarðar. Þverbanda hjólbarðar voru fundnir upp af Michelin fyrirtækinu og komu fyrst á markað árið 1946. Álverið í Straumsvík. Álverið í Straumsvík er hluti af Rio Tinto Alcan sem er álsvið Rio Tinto. Álverið er í útjaðri Hafnarfjarðar. Búrfellsvirkjun sér álverinu fyrir orku. Álframleiðsla hófst 1969 en álverið var formlega opnað 3. maí 1970. Hjá álverinu starfa um 450 starfsmenn og er framleiðslugeta þess um 190.000 tonn á ári. (2010) Haustið 2006 og vorið 2007 voru umræður í gangi um stækkun álversins, sem miðaði að því að auka afköstin. Þann 31. mars kusu íbúar Hafnarfjarðar í atkvæðagreiðslu um hvort samþykkja ætti deiliskipulagið sem heimilaði stækkun álversins. Kjörsókn var nokkuð há 76,6 %, 12.747 af 16.647 Hafnfirðinga á kjörskrá kusu. Niðurstöðurnar urðu þær að 6.382 sögðu Nei (50,3%), Já sögðu 6.294 (49,3%) og auðir seðlar og ógildir voru 71. Aðeins munaði 88 atkvæðum að deiliskipulagið hefði verið samþykkt. Árið 2010 sömdu Rio Tinto Alcan og Landsvirkjun um endurnýjun á orkusamningi til ársins 2036. Skábanda hjólbarði. Skábanda hjólbarði eða diagonaldekk er tegund hjólbarða þar sem strigalög og vírar liggja á ská út frá miðju slitflatar (banans). Hliðar skábanda hjólbarða eru mun stífari en hliðar þverbanda hjólbarða þannig að þau „dala“ ekki eins vel - dreifa þannig ekki þyngdinni eins vel. Bílar og dráttavélar voru útbúnar diagonaldekkjum fram yfir 1970 en þá fóru radialdekk að ryðja sér rúms á mörkuðum. Í dag eru þau lítið notuð undir ökutæki. Kenos Aroi. Kenos Aroi (eða "Kenas Aroi") er nárúskur stjórnmálamaður og ríkti sem forseti landsins frá 17. ágúst til 12. desember 1989. Aroi var þingmaður og fjármálaráðherra i forsetatíð Kennan Adeang. Hann sat í stjórn NPC áður en hann varð forseti og með stuðningi Adeang var Aroi valinn forseti 17. ágúst 1989. Adeang tók þá við fjármálaráðuneytinu. Hjartaveila varð til þess að Aroi þurfti að hætta sem forseti landsins þann 12. desember. Bernard Dowiyogo varð því eftirmaður hans. Samkvæmt áströlskum heimildum er Aroi líffræðilegur sonur Hammer DeRoburt, fyrsta forseta Nárú, en þetta hefur ekki verið staðfest. Dóttir Aroi, Millicent Aroi, er sendiherra Nárú á Fiji og tónskáld. Aroi, Kenos Kennan Adeang. Kennan Ranibok Adeang er nárúskur stjórnmálamaður og var forseti landsins frá 17. september til 1. október 1986, nokkra daga í desember sama ár og líka frá 26. november til 19. desember 1996. Hann er faðir David Adeang. Adeang er háskólagenginn við "Australian School of Pacific Administration" (ASOPA) í Sydney og útskrifaðist 1963. Hann var valinn forseti Nárú 17. september 1986 eftir valdarán af Hammer DeRoburt en missti stólinn aftur hálfum mánuði seinna, eftir valdarán. DeRoburt varð þá aftur forseti. Þetta endurtók sig í desember. Adeang stofnaði Demókrataflokk Nárú og flokkurinn hlaut meirihluta í ríkisstjórn 17. ágúst 1989 eftir valdarán. Kenos Aroi varð þá nýr forseti og Adeang setti í stól fjármálaráðherra. Báðir hættu nokkrum mánuðum seinna. David Adeang, sonur Kennan Adeang, stofnaði nýtt stjórnmálaafl ásamt fleirum sem nefnist Naoero Amo ("Nárú fyrst"). Adeang, Kennan Lagumot Harris. Lagumot Harris (fæddur 28. desember 1938; látinn 8. september 1999) var nárúskur stjórnmálamaður og forseti landsins í mánuð, frá 15. apríl til 15. maí 1978. Han var aftur kosinn forseti og var þá frá 22. nóvember 1995 til 11. nóvember 1996. Hann lést í Melbourne 8. september 1999. Harris, Lagumot Bernard Dowiyogo. Bernard Annen Auwen Dowiyogo (fæddur 14. febrúar 1946, látinn 9. mars 2003) var nárúskur stjórnmálamaður. Hann var fyrst þingmaður árið 1973 og fyrst forseti landsins 1976–1978 eftir kosningabaráttu við Hammer DeRoburt. Næstu 25 árin var Dowiyogo oft forseti, lengst 6 ár (1989-1995) en styst 15 daga. Milli 1980 og 1990 mótmælti hann því kröftuglega að frakkar og bandaríkjamenn væru við kjarnorkutilruanir í Kyrrahafi Dowiyogo lést á George Washington-háskólasjúkrahúsinu í Washington D.C. eftir hjartaaðgerð vegna sykursýkinnar sem hann þjáðist af. Dowiyogo, Bernard Hammer DeRoburt. Hammer DeRoburt (fæddur 25. september 1922, látinn 15. júlí 1992) var fyrsti forseti Nárú og var við völd fyrstu 20 sjálfstæðu ár landsins. Hann lifði það af þegar nárúarnir voru sendir til Chuuk (1942–1946) og var valinn í ríkisstjórn landsins á 6. áratug 20. aldar. Hann var valinn höfðingi árið 1955 og aðalviðskiptamaður til að fá hluta af nýtingarleyfi Ástralíu á fosfat-námunum í landinu. DeRoburt leiddi þjóðina til sjálfstæðis 31. janúar 1968 og var forseti nær alla tíð fram til 17. ágúst 1989. Í desember 1976 fengu yngri stjórnmálamenn völdin og settu Bernard Dowiyogo í forsetastól en DeRoburt fékk völdin aftur í maí 1978. Hann var einnig settur úr embætti í september og desember 1986. Hann fékk orðu af Elísabetu 2. bretadrottningu árið 1982 og lést í Melbourne 1992. DeRoburt, Hammer Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sinfóníuhljómsveit Íslands er íslensk sinfóníuhljómsveit sem er sjálfstæð opinber stofnun sem heyrir undir Menntamálaráðuneytið. Aðalhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar er Rumon Gamba. Árið 2011 flutti hljómsveitin úr Háskólabíói í Hörpu, nýtt tónlistar og ráðstefnuhús við Reykjavíkurhöfn. Þar eru allar skrifstofur, æfingarsalir og tónleikasalir sem hljómsveitin notar. Sinfóníuhljómsveit Íslands er stundum kölluð Melabandið eða Sísí frænka í hálfkæringi. Saga. Áður en Sinfóníuhljómsveit Íslands tók til starfa höfðu ýmsar tilraunir verið gerðar til stofnunar sinfóníuhljómsveitar og má þar nefna "Útvarpshljómsveitina" sem starfrækt var í nokkur ár. Einn aðalhvatamaður að stofnun hennar var Jón Þórarinsson. Sínfóníuhljómsveitin var stofnuð fimmtudagskvöldið 9. mars 1950 þegar 39 manna sveit, þar af 5 erlendir tré- og málmblásturshljóðfæraleikarar hélt fyrstu tónleikana í Austurbæjarbíói. Aðgangseyrið var 20 kr. og á tónleikunum var m.a. leikinn Egmont-forleikurinn eftir Beethoven og Ófullgerða sinfónían eftir Schubert. „Hefur aldrei áður heyrst svo stór og fullkomin íslenzk hljómsveit hér,“ mátti lesa í blöðunum og var mikið rætt um fagnaðarlætin sem brutust út í lokin. Það var nokkrum vandkvæðum bundið að tryggja hljómsveitinni rekstrargrundvöll, þannig var hljómsveitin rekin af Ríkisútvarpinu fram að 1983 þegar lög voru samþykkt sem tryggðu sjálfstæði hljómsveitarinnar. Fjármál. Samkvæmt lögum (1982 nr. 36 7. maí) standa að rekstri hennar: Ríkissjóður (56%), Ríkisútvarp (25%), Borgarsjóður Reykjavíkur (18%), Bæjarsjóður Seltjarnarness (1%). Fjöldi starfsmanna samkvæmt upptalningu af vefsíðu er um 90 en einhverjir gegna öðrum störfum að auki, t.d. sem kennarar í skólum. Gert er ráð fyrir að framlög opinberra aðila nemi því um 846,7 milljónir króna árið 2009. Aðalstyrktaraðilar hennar 2009/2010 eru Morgunblaðið og Borgun. United Kennel Club. United Kennel Club (UKC) er hundaræktarfélag sem var stofnað árið 1898 í Bandaríkjunum en er ekki meðlimur í FCI. Félagið hefur eigið kerfi og eigin hópa sem það viðurkennir. Árið 2005 voru meira en 300 hundategundir viðurkenndar í félaginu og um 250 þúsund skráningar á ári. Að auki gefur félagið út þrjú ólík tímarit. Fjárhirðir. Fjárhirðir, hirðir eða smali er sá sem annast umhirðu sauðfjár (eða geita), svo sem gæslu, smölun og fóðrun. Fjárhirðar hafa verið til allt frá því að sauðfé var fyrst tamið, líklega í Mið-Austurlöndum fyrir um 10.000 árum, og má því segja að starf fjárhirðisins sé ein elsta starfsgrein mannkynsins. Fjárhirðar eru margoft nefndir í Biblíunni (Davíð konungur er til dæmis sagður hafa verið fjárhirðir upphaflega) og oft notaðir í líkingum þar, s.s. Góði hirðirinn. Eitt meginhlutverk fjárhirða í mörgum löndum hefur löngum verið að gæta hjarðarinnar fyrir rándýrum og ræningjum. Íslenskir fjárhirðar eða smalar fyrri alda þurfti fremur að gæta sauða sinna fyrir náttúruöflum, smala þeim saman og reka í skjól í vondum veðrum. Eftir fráfærur sátu smalar - oftast börn eða unglingar - yfir kvíaánum, stundum dag og nótt en stundum aðeins á daginn, til að þær tvístruðust ekki og færu að leita að lömbum sínum. Þegar fé var beitt úti á vetrum stóðu fjármenn eða sauðamenn oft yfir því allan daginn og ráku það svo í hús að kvöldi. Það gat verið mjög erfitt starf, því reynt var að beita fénu hvernig sem viðraði og stundum þurfti sauðamaðurinn jafnvel að moka snjó ofan af grasinu fyrir það. Voru fjárhirðarnir því oft mikil hraustmenni. Eftir að féð var komið á hús þurfti sá sem hirti það líka að vitja þess daglega, gefa á garðann og brynna. Agnes (kvikmynd). "Agnes" er kvikmynd eftir Egil Eðvarðsson. Húsið (kvikmynd). "Húsið" er fyrsta kvikmynd leikstjórans Egils Eðvarðssonar. Hún er fysta og eina kvikmyndin í fullri lengd sem talað er íslenskt táknmál. Kaldaljós. "Kaldaljós" er kvikmynd byggð á sögu Vigdísar Grímsdóttur. Fálkar (kvikmynd). "Fálkar" er kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson. Upphaflega átti bara að taka hana upp á íslandi, en vegna samninga við fjáröflunarfyrirtæki urðu hlutar af myndinn að vera teknir í þýskalandi Norðureyjar. Norðureyjar eru eyjaklasi sem samanstendur af Orkneyjum, Hjaltlandseyjum og Friðarey, sem allar liggja norður af Skotlandi. Straumey er stundum talin með. Athugið að rugla Norðureyjum ekki saman við þær Norðureyjar sem eru hluti af Hjaltlandseyjum. Norðureyjar, Hjaltlandseyjum. Norðureyjar eru norðurhluti Hjaltlandseyja. Helstu eyjarnar sem teljast til Norðureyja eru Yell, Únst og Fetlar. Norðureyjum á Hjaltlandseyjum, sem hér eru til umfjöllunar, ætti ekki að rugla saman við Norðureyjar þær sem eru samheiti yfir Orkneyjar, Hjaltlandseyjar og Friðarey. Skúli Thoroddsen. Skúli Thoroddsen (f. í Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859 - d. í Reykjavík 21. maí 1916) var íslenskur stjórnmálamaður og ritstjóri, lögfræðingur, sýslumaður, blaðaútgefandi og kaupmaður. Ævi. Skúli var sonur Jóns Thoroddsen sýslumanns og skálds og konu hans Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, dóttur Þorvaldar Sívertsen alþingismanns. Bræður hans voru þeir Þorvaldur Thoroddsen land- og jarðfræðingur, Þórður Thoroddsen héraðslæknir, alþingismaður, bæjarfulltrúi og féhirðir í Íslandsbanka, og Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur og yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík. Menntun og störf. Skúli lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1879 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1884. Eftir að hann sneri heim frá Danmörku var hann skipaður málaflutningsmaður við landsyfirdóminn 1. ágúst 1884. Því næst gerðist hann sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði í átta ár, eða frá 1885 til 1892. Honum var vikið úr starfi 1892 eftir svokölluð Skúlamál. Hann var sýknaður í Hæstarétti árið 1895 og á ný boðið sýslumannsembætti sem hann hafnaði. Sama ár var honum því veitt lausn með eftirlaunum. Skúli sat á Alþingi fyrir Eyfirðinga á árunum 1890-1892, fyrir Ísfirðinga 1892-1902 og Norður-Ísfirðinga 1903-1915. Þá var hann forseti sameinaðs þings á árunum 1909 til 1911. Á þingi beitti hann sér meðal annars fyrir rýmkun kosningaréttar og afnámi vistarbands. Þá var hann skipaður í milliþinganefndina 1907 og barðist gegn uppkastinu. Hann var einnig yfirskoðunarmaður landsreikninga 1908-1913. Skúli stjórnaði kaupfélagi á Ísafirði 1888—1901, það annaðist meðal annars saltfisksölu til Miðjarðarhafslanda. Hann rak einnig verslun á Ísafirði 1895—1915. Hann stóð að útgáfu "Þjóðviljans" á árunum 1886 til 1915, frá 1892 sem eigandi og ritstjóri. Skúli keypti Bessastaði á Álftanesi árið 1899 og var bóndi þar á árunum 1901-1908. Þar rak hann prentsmiðju, auk þess sem hann stýrði blaði sínu og versluninni á Ísafirði. Árið 1908 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, að Vonarstræti 12, og átti þar heima síðan. Eftir lát Skúla bjó Theódóra ekkja hans þar áfram til 1930. Fjölskylduhagir. Kona Skúla var Theódóra Thoroddsen skáldkona (1. júlí 1863 – 23. febr. 1954) og gengu þau í hjónaband 11. október 1884. Skúli og Theódóra eignuðust alls 12 börn. Skúli og Theódóra voru þekkt fyrir að ala börn sín upp á mun frjálslegri hátt en tíðkaðist á þeim tíma og var jafnan mikið um að vera og mikill gestagangur á heimilinu. Einn afkomandi þeirra hjóna, Ármann Jakobsson, sendi árið 2008 frá sér skáldsöguna "Vonarstræti", sem er byggð á tímabili úr ævi þeirra. Ævisaga Skúla, skrifuð af Jóni Guðnasyni, kom út í tveimur bindum á árunum 1968 og 1974. Austurlandskjördæmi. Austurlandskjördæmi samanstóð af Austur-Skaftafellssýslu, Suður-Múlasýslu og Norður-Múlasýslu frá 1959 til 2003. Enn starfar samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, sem eru landshlutasamtök sveitarfélaga á Austurlandi. Einungis í Alþingiskosningunum 1978 fékk Alþýðubandalagið fleiri atkvæði á Austurlandi en Framsóknarflokkurinn, sem jafnan hafði 1. þingmann kjördæmisins, og endurheimti sætið í þingkosningunum 1979. Í Alþingiskosningunum 1991 hreppti Alþýðuflokkurinn sitt fyrsta og eina þingsæti í kjördæminu, 5. þingmann Austurlands. Við breytingar á kjördæmaskipan 1999 voru Norðurlandskjördæmi eystra, auk Siglufjarðar, og Austurlandskjördæmi sameinuð í eitt Norðausturkjördæmi, utan Austur-Skaftafellssýsla, sem varð hluti af Suðurkjördæmi Ráðherrar af Austurlandi. Lúðvík Jósepsson, Vilhjálmur Hjálmarsson, Hjörleifur Guttormsson, Halldór Ásgrímsson, Sverrir Hermannsson og Jón Kristjánsson voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þeir sátu á þingi fyrir kjördæmið. Geisladiskadrif. Geisladiskadrif er tölvuíhlutur sem les gögn af geisladiskum. Þannig er hægt að dreifa tölvugögnum, forritum og öðrum með einföldum hætti. Sum geisladiskadrif eru samsteypa af geislaskrifara (drif sem skrifar gögn á geisladisk) og DVD-drifi (og -skrifara). Galeiða. Galeiða var grunnskreitt ein-, tví eða þrímastrað kaup- eða herskip. Þau voru knúin latínuseglum og flóknu árakerfi með allt að 70 árum á hvort borð. Ræðarar voru oft refsifangar. Galeiður voru með sérstaka vígtrjónu til að brjóta árabúnað og skipsboli óvinaskipa. Galeiður voru algengar við Miðjarðarhafið frá 3. árþúsundi f.Kr. og allt fram á 18. öld. Það voru Grikkir og Föníkumenn sem smíðuðu fyrstu þekktu skipin. Vestfjarðakjördæmi. Vestfjarðakjördæmi var myndað árið 1959 úr fjórum sýslum Vestfjarða: Barðastrandasýslu, Strandasýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu frá 1959 til 2003. Í þrennum þingkosningum, 1963, 1967 og 1971 hlaut Framsóknarflokkurinn flest atkvæði á Vestfjörðum, og þar af leiðandi fyrsta þingmann Vestfjarða. Í öll önnur skipti státaði Sjálfstæðisflokkurinn sig af fyrsta þingmanni Vestfjarða. Við breytingu á kjördæmaskipan árið 1999 varð Vestfjarðakjördæmi hluti af Norðvesturkjördæmi ásamt Vesturlandskjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra utan Siglufjörður sem varð hluti af Norðausturkjördæmi Ráðherrar af Vestfjörðum. Hannibal Valdimarsson, Matthías Bjarnason, Steingrímur Hermannsson og Sighvatur Björgvinsson voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þeir sátu á þingi fyrir kjördæmið. Þingmenn Vestfjarðakjördæmis. (*) Í Alþingiskosningunum 1991 endaði "Flakkarinn" á Vestfjörðum Indriði G. Þorsteinsson. Indriði Guðmundur Þorsteinsson (18. apríl 1926 í Skagafirði – 3. september 2000 í Hveragerði) var íslenskur rithöfundur sem er þekktastur fyrir skáldsögur í raunsæjum stíl sem fjalla um flutning fólks úr sveit í borg. Þekktastar eru "79 af stöðinni" frá 1950 (samnefnd kvikmynd var gerð 1962), "Land og synir" frá 1963 (samnefnd kvikmynd var gerð 1980), "Þjófur í paradís" frá 1967 og "Norðan við stríð" frá 1971. Indriði er faðir rithöfundarins Arnaldar Indriðasonar. Stefán Hörður Grímsson. Stefán Hörður Grímsson (31. mars 1919 í Hafnarfirði – 18. september 2002 í Reykjavík) var íslenskt skáld sem vakti fyrst athygli með ljóðabókinni "Svartálfadans" (1951) sem var ort í módernískum anda. Ljóðabók hans "Tengsl" var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1989 og ljóðabókin "Yfir heiðan morgun" sem kom út 1990 varð sú fyrsta sem fékk íslensku bókmenntaverðlaunin. Sólskinshestur. "Sólskinshestur" er skáldsaga eftir Steinunni Sigurðardóttur, gefin út 2005 af Máli og menningu. Hún segir frá ævi og ástum Lillu Haraldardóttur. Bókin hefur nú verið gefin út sem hljóðbók á netinu og er það í fyrsta skipti í sögu íslenskra bókmennta sem það er gert. Tími og umhverfi. Sagan sveiflast milli ýmissa skeiða í ævi aðalpersónunnar, Lillu. Út frá ýmsum sögulegum fyrirbærum sem nefnd eru, s.s. Kanasjónvarpsins, Karnabæ og Kaffi Mokka, má gera ráð fyrir að hún fæddist á 6. áratug 20. aldar. Innri tími bókarinnar er annars vegar 2-3 dagar í nútímanum, og hins vegar misjafnlega löng tímabil úr fortíð Lillu. Sögusviðið er Miðbær, Vesturbær og Austurbær Reykjavíkur, Fljótshlíð, Kaupmannahöfn og Hafnarfjörður. Persónur. Lilla Haraldsdóttir (Lí): Aðalpersóna sögunnar. Lilla var dóttir Haraldar og Ragnhildar og eldri systir Mumma. Hún fæddist og ólst upp í húsi fjölskyldunnar á Sjafnargötu í Reykjavík. Á unglingsárum átti hún í sambandi við Signora Lukasson, sem átti eftir að hafa áhrif á hana allt hennar líf. Hún gerðist líknarhjúkrunarkona. Hún giftist og eignaðist tvær dætur, Unni og Ásu, með manni sínum, og fluttist um tíma til Kaupmannahafnar. Lilla lýsti sjálfri sér sem litlausri meðalmanneskju. Signora Lukasson: Kærasti Lillu frá unglingsárum. Signora (Signora er ítalskt orð sem þýðir „frú“ og Lilla notaði yfir Lukasson. Raunverulegt nafn hans kom aldrei fram.) var athafnamaður og bjó lengi vel á Ítalíu. Hann átti sumarbústað í Fljótshlíð, sem gaf til kynna höfðingsskap hans. Aðeins með Signora fannst Lillu hún öðlast lit, t.d. valdi hann á hana einu flíkina sem hún átti í lit á unglingsárunum. Ragnhildur: Eiginkona Haraldar og móðir Lillu og Mumma. Hún var fær barnalæknir og gaf vinnu sinni mest allan sinn tíma og hugsun. Hún þjáðist af miklum áhyggjum að þjáningum barna og heimsmálum. Hún var meðlimur í Sjálfstæðisflokknum, en barðist engu að síður gegn veru erlends herliðs á Íslandi. Hún átti unnusta sem var skáld en dó ungur, og virtist alltaf hafa elskað hann fremur en Harald. Haraldur: Eiginmaður Ragnhildur, og faðir Lillu og Mumma. Hann var svæfingarlæknir og var oftast við vinnu. Hann veitti eigin börnum aldrei nægan tíma, en sýndi dætrum Lillu þó mikla umhyggju. Hann átti unnustu sem dó ung, og virtist alltaf hafa elskað hana fremur en Ragnhildi. Hann lést af völdum óbeinna reykinga frá Ragnhildi. Mummi Haraldsson: Sonur Haraldar og Ragnhildar og yngri bróðir Lillu. Mummi ólst upp á Sjafnargötu með fjölskyldu sinni. Hann reyndist samkynhneigður og átti ýmsa kærasta, meðal annars hinn karlmannlega Stanko frá Svartfjallalandi. Hann sýndi dætrum Lillu mikla umhyggju. Magda: Magda var þýsk dagmóðir og vinnukona sem gekk Lillu og Mumma að miklu leyti í móðurhlutverk. Hún fór þó meðan börnin voru enn ung. Nellí Rósa: Nellí var alkóhólisti og mikil ógæfukona. Börnin í hverfinu stríddu henni mikið, en Lilla vorkenndi henni, heimsótti hana og tengdist henni tilfinningalegum böndum. Lilla kom að líki Nellíar eftir að Nellí hafði framið sjálfsvíg. Hún átti eina dóttur, Dóru, sem tekin var frá henni. Dór(a): Dóttir Nellíar og kennslukona í hannyrðum. Dóra var tekin burt vegna drykkjarvandamála móður sinnar og alin upp annars staðar. Á fullorðinsárum heimsótti Lilla hana og lýsti því fyrir henni að Dóra hefði í huga sínum verið eina vinkona sín, þrátt fyrir að hafa aldrei áður borið hana augum. Halla: Búðarkona sem Lilla leitaði stundum til í æsku. Lísa: Hrekkjusvín úr grunnskóla Lillu sem stríddi meðal annars Lillu og Nellí. Stanko: Vöðvastæltur kærasti Mumma frá Svartfjallalandi. Geðlæknirinn góði: Ónefndur geðlæknir sem veitti Ragnhildi meðferð. Guðmann rakari: Rakari sem vakti reiði Lillu þegar hann klippti burt fléttur hennar. Samskipti persóna. Samband og samskipti Lillu við Ragnhildi og Harald: Ragnhildur og Haraldur eyddu mestöllum tíma sínum í vinnu á spítalanum og höfðu því lítinn tíma aflögu fyrir Lillu. Vegna lítillar umhyggju foreldra sinna upplifði Lilla þau aldrei sem mömmu og pabba. Hún kallaði þau til dæmis aldrei annað en Harald og Ragnhildi alla sína barnæsku. Haraldur gaf sér þó einstaka sinnum tíma fyrir Ragnhildi en það var ekki fyrr en á dánarbeði sínu, þegar hann kallaði Lillu barnið sitt, sem Lilla upplifði Harald sem pabba sinn. Álíka atvik átti sér líka stað með Ragnhildi. Þótt samband þeirra hefði verið stirt, þá voru þó nokkur samskipti milli Lillu og foreldra sinna á fullorðinsárum hennar. Samband Ragnhildar og Haraldar: Lítil ástríða ríkti milli þeirra, ef til vill vegna þess að hjarta þeirra var ætlað öðrum en hvoru öðru. Ragnhildur hafði verið ástfangin af skáldi sem hafði dáið ungt og Haraldur af brosmildri hnátu sem hann missti. Samband Ragnhildar og Haraldar virtist einkennast af gagnkvæmri virðingu við hvort annað sem læknar. Þar sem þau áttu erfitt með að leika hjón var það skiljanlegt að þeim gekk ekki betur með hlutverk sitt sem foreldrar. Það voru óbeinar reykingar frá Ragnhildi sem urðu Haraldi að bana. Samband systkinanna: Systkinin urðu strax í æsku mjög náin hvort öðru, líklega vegna þess hve litla athygli þau fengu frá foreldrum sínum og sú staðreynd að hvorugt þeirra átti aðra (raunverulega) vini. Samband þeirra hélst ávallt sterkt, og Lilla velti því fyrir sér hvort hún hefði eignast börn frekar fyrir samkynhneigðan bróður sinn, sem var ólíklegur til að eignast eigin börn, en fyrir sjálfa sig. Samband Lillu við Nellí og Dór(u): Lilla virtist líta á Nellí sem umhyggjusömu móðurina sem hún átti aldrei og leitaði til hennar til að fá umhyggju, og ef til vill einnig til að veita henni félagsskap þar sem dóttir Nellíar, Dóra, var tekin frá henni. Lilla gerði Dóru að ímyndaðri vinkonu sinni en kallaði hana ávallt Dór vegna ókláraðs handverks sem hún hafði séð hjá Nellí og bar þessa stafi. Lilla skrifaði Dór(u) bréf sem hún lokaði í skrifborði sínu og fékk þannig vissa sálarró við að tjá sig við einhvern, þó það hafi verið ímynduð vinkona. Lilla leitaði loks Dór(u) uppi þegar hún var orðin fullorðin til þess að sjá hvernig líf hennar hefði orðið. Lilla sá þá að Dór(a) bjó í draumahverfinu hennar og átti eiginmann frá draumalandinu hennar, Tékklandi. Samband Lillu við kærastann: Lilla talaði um kærastann sem hinn tillitsama verndara. Allt sem hann gerði virtist í hennar augum vera gert af tilliti til hennar. Það var með honum sem Lilla áttaði sig á hversu góð hún var í hlutverki barns, en það hlutverk hafði hún ekki fengið að leika áður. Hún sagði hann einan hafa gefið sér lit í lífinu, en samt sem áður sagði hún honum upp. Þegar þau hittust aftur löngu síðar var ljóst að þau þráðu enn hvort annað, og hann bauð henni til sín í sumarbústað sinn í Fljótshlíðinni. Lilla elskaði aldrei annan mann eins og hún elskaði hann, jafnvel ekki eiginmann sinn. Samband Lillu við eiginmann (meðan hjónaband varði) og dætur: Samband Lillu og eiginmanns hennar byrjaði ágætlega, en samskipti þeirra voru yfirborðsleg, þar sem þau töluðu um lítið annað en dæturnar og heimilishald. Þau virtust bæði hafa verið búin að fá nóg hvort af öðru, því um leið og dæturnar uxu úr grasi skildu þau og virtust bæði sátt með það. Samband Lillu og dætra hennar var mjög náið þegar þær voru litlar, og virtist Lilla hafa ætlað að gefa þeim það sem hún sjálf fékk aldrei frá eigin foreldrum. Mál og Stíll. „Ég kalla Ragnhildi hommatótemið (ekki upphátt) þegar vinirnir setjast við fótskör hennar í bókstaflegri merkingu, snyrta táneglur og útrýma líkþornum. Þeir líta á hana sem hetju og kunna sögur af því hvernig hún bjargaði litlum systrum og bræðrum með yfirskilvitlegri díagnósu og hárnákvæmri meðferð. Svo hefur hetjan guðdómlegar skoðanir og hægt er að tala um allt við hana, eins og þeir segja andaktugir.“ () Það kemur ekki mál við mig Það kemur ekki mál við mig. Ekki... ... ég ann þér fyrir...“ () Umfjöllunarefni sögunnar. Ýmsar fjölbreyttar tilfinningar koma við í sögunni, en sérstaklega er fjallað um ástina og sorgina, hamingjuna fólgna í að elska og sorgina við ástarmissi, hvort sem þar er verið að tala um ást milli elskuhuga eða innan fjölskyldu. Í raun hafa allar aðalpersónur sögunnar orðið fyrir einhvers konar ástarharmi: Samband Lillu og Signora endaði sorglega og þeim tókst ekki að ná saman aftur í lok bókar, bæði Ragnhildur og Haraldur elskuðu í raun frekar fyrri elskhuga en hvort annað, Mummi átti erfitt með að finna sig í ástarmálum, heittelskað barn Nellíar var tekið frá henni, o.s.frv. Titill bókarinnar, „Sólskinshestur“, merkir hestur sem ekki fer út nema í sólskini og er því jafnan í vernduðu umhverfi, laus við áföll og áhyggjur. Lilla upplifði sig ekki sem sólskinshest, enda átti hún að mörgu leyti erfitt líf. Boðskapur. Boðskapur sögunnar er ef til vill sá að maður eigi að lifa lífinu til fulls, að njóta hverrar stundar. Tíminn líður hraðar en maður heldur og áður en maður veit af getur öllu verið af lokið. Þýðingar á erlendum tungumálum. Þýðingar standa yfir á sænsku, þýsku og dönsku. Grafkerjamenningin. Grafkerjamenningin eða brunaöld er tímabil í forsögu Mið- og Norður-Evrópu seint á bronsöld þegar farið var að brenna lík og setja öskuna í grafker sem síðan voru grafin í sérstökum görðum eða lögð í grafhauga. Grafkerjamenningin tók smám saman við af grafhaugamenningunni um 1300 f.Kr. og stóð til um 750 f.Kr. þegar Hallstattmenningin tók við. Steingrímur Steinþórsson. Steingrímur Steinþórsson (f. 12. febrúar 1893 í Álftagerði við Mývatn d. 14. nóvember 1966) var forsætisráðherra Íslands fyrir Framsóknarflokkinn, þó hann væri aldrei formaður flokksins. Hann starfaði með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og var forseti Alþingis frá 1949 til 1950. Sigurður Eggerz. Sigurður Eggerz (fæddur 1. mars 1875 á Borðeyri, dáinn 16. nóvember 1945) var forsætisráðherra Íslands 21. júlí 1914 til 4. maí 1915, og frá 7. mars 1922 til 22. mars 1924. Hann var alþingismaður 1911-1915, 1916-1926 og 1927-1931, fjármálaráðherra 1917-1920 og var einn af stofnendum Sjálfstæðisflokksins árið 1929. Hann útskrifaðist úr lagadeild Háskólans í Kaupmannarhöfn 1903. Sigurður sóttist eftir borgarstjóraembættinu í Reykjavík árið 1920, en tapaði í almennum kosningum fyrir Knud Zimsen. Er það í eina skiptið sem kosið hefur verið í embætti borgarstjóra með þeim hætti. Einar Arnórsson. Einar Arnórsson (f. á Minna-Mosfelli í Grímsnesi 24. febrúar 1880, d. 29. mars 1955) var íslenskur hæstaréttarlögmaður og síðasti ráðherra Íslands 4. maí 1915 til 4. janúar 1917. Einar lauk stúdentsprófi við Lærða skólann árið 1901 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar 1899 – 1900. Hann útskrifaðist með próf í lögum frá Kaupmannahafnarháskóla 1906, hlaut heiðursdoktorsnafnbót í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1936 og varð hæstaréttarlögmaður 1945. Hann ritstýrði "Fjallkonunni" (1907), "Ísafold" (1919 – 1920), "Morgunblaðinu" (1919 – 1920), "Skírni" (1930), "Blöndu" (1936 – 1939), Sögu (1950 – 1954) og Tímariti lögfræðinga (1951 – 1953). Eftir hann liggja einnig nokkrar bækur um lögfræði og sögu Íslands. Tár úr steini. "Tár úr steini" er kvikmynd eftir Hilmar Oddsson sem fjallar um ævi íslenska tónskáldsins Jóns Leifs á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Benedikt Gröndal (f. 1924). Benedikt Gröndal (7. júlí 1924 – 20. júlí 2010) var forsætisráðherra Íslands (fyrir Alþýðuflokkinn) 15. október 1979 til 8. febrúar 1980. Hann var utanríkisráðherra 1978-1980 og alþingismaður 1956-1982. Benedikt var sonur Sigurðar Gröndal yfirkennara í Reykjavík og konu hans Mikkelínu Maríu Sveinsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1943, BA-prófi í sagnfræði frá Harvard-háskóla 1946. Með námi og að því loknu var hann blaðamaður á Alþýðublaðinu, síðan ritstjóri Samvinnunnar 1951-1958 og ritstjóri Alþýðublaðsins 1959-1969. Benedikt varð landskjörinn þingmaður Borgfirðinga fyrir Alþýðuflokkinn 1956-1959. Hann var síðan þingmaður Vesturlands 1959-1978 og þingmaður Reykvíkinga 1978-1982. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1974-1980. Þegar hann lét af þingmennsku 1982 var hann skipaður sendiherra í Svíþjóð og starfaði hjá utanríkisþjónustunni til 1991. Hann sendi frá sér nokkrar bækur um stjórnmál, utanríkismál og sagnfræði. Norðurlandskjördæmi eystra. Norðurlandskjördæmi eystra, náði frá Ólafsfirði í vestri til Langaness í austri. Í kjördæminu voru Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla og Norður-Þingeyjarsýsla. Frá 1987 til 1995 voru sjö þingmenn í kjördæminu en annars sex. Í 40 ár, frá 1959 til 1999 hafði Framsóknarflokkurinn 1. þingmann kjördæmisins. Lengi vel hafði Sjálfstæðisflokkurinn 2. þingmann kjördæmisins, að árunum 1979-1983 og 1999-2003 slepptum þegar Framsóknarflokkurinn hlaut 2. þingmann kjördæmisins, í fyrra skiptið hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 3. þingmanninn og í seinna skiptið þann fyrsta. 1987 buðu Samtök um jafnrétti og félagshyggju, einungis fram í Norðurlandskjördæmi eystra og fengu einn mann kjörinn á þing. Við breytingu á kjördæmaskipan árið 1999 voru Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi sameinuð í eitt Norðausturkjördæmi, utan hvað Siglufjörður varð hluti Norðausturkjördæmis, en hafði áður verið í Norðurlandskjördæmi vestra, og Austur-Skaftafellssýsla, sem verið hafði hluti af Austurlandskjördæmi, varð hluti af Suðurkjördæmi. Ráðherrar af Norðurlandi eystra. Magnús Jónsson, Björn Jónsson, Bragi Sigurjónsson, Ingvar Gíslason, Guðmundur Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Blöndal, Valgerður Sverrisdóttir og Tómas Ingi Olrich voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þau sátu á þingi fyrir kjördæmið. Norðurlandskjördæmi vestra. Norðurlandskjördæmi vestra, náði frá Hrútafirði í vestri til Siglufjarðar í austri. Í kjördæminu voru Skagafjarðarsýsla, Austur-Húnavatnssýsla og Vestur-Húnavatnssýsla. Í kjördæminu voru fimm þingmenn. Við breytingu á kjördæmaskipan árið 1999 varð Norðurlandskjördæmi vestra hluti af Norðvesturkjördæmi, ásamt Vestfjarðakjördæmi og Vesturlandskjördæmi. Ráðherrar af norðurlandi vestra. Ólafur Jóhannesson, Pálmi Jónsson, Ragnar Arnalds og Páll Pétursson voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þeir sátu á þingi fyrir kjördæmið. Suðurlandskjördæmi. Suðurlandskjördæmi náði frá Skeiðarársandi í austri að Reykjanesi í vestri. Vestmannaeyjar, Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla tilheyrðu kjördæminu. Í kjördæminu voru sex þingmenn. Við breytingar á kjördæmaskipan 1999 voru Reykjaneskjördæmi (utan Hafnarfjörður) og Suðurlandskjördæmi, ásamt Austur-Skaftafellssýslu, sameinuð í eitt Suðurkjördæmi. Ráðherrar af Suðurlandi. Ingólfur Jónsson, Magnús H. Magnússon,Jón Helgason, Þorsteinn Pálsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Guðni Ágústsson voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þeir sátu á þingi fyrir kjördæmið. Náhvalur. Náhvalur (fræðiheiti: "Monodon monoceros") er tegund tannhvala og er önnur af tveimur tegundum í ætt hvíthvala ("Monodontidae"). Hin er mjaldur ("Delphinapterus leucas"). Latneska fræðiheitið þýðir: "hvalurinn með eina tönn og eitt horn". Lýsing. Sérkenni náhvalsins er skögultönn sem vex fram úr höfðinu á fullvöxnum törfum. Tönnin verður allt að 2,7 metrar á lengd, hún vex vinstra megin fram úr efri gómi og snýst í spíral til vinstri. Það er með öllu óljóst hvaða hlutverki tönnin gegnir en sennilegt virðist að hún tengist samkeppni milli tarfa. Náhvalurinn er fremur lítill hvalur, 4,2 til 4,7 metrar á lengd og um 1000 kg. Við fæðingu eru kálfarnir gráir eða dökkbrúnir en við tveggja ára aldur myndast ljósir flekkir á skrokknum, þeir aukast eftir því sem dýrið eldist þannig að fullorðin dýr eru dröfnótt, dökk á baki og að mestu ljós á kviði. Nafn hvalsins á íslensku og öðrum norrænum málum er talið vera dregið af líkindum dröfnóttrar húðarinnar við sjórekið lík. Náhvalurinn hefur ekkert trýni og ennið nær aðeins fram fyrir munninn. Hvalurinn hefur ekkert horn á baki, bægslin eru fremur stutt og á fullorðnum dýrum sveigjast þau upp við endana. Sporðurinn er sérkennilegur í laginu, fremri brún sporðblökunnar er bein en aftari jaðar hvors sporðhelmings sveigist frá miðju að hliðarjaðri. Útbreiðsla og hegðun. Útbreiðslusvæði náhvals, dökki liturinn sýnir aðalútbreiðslusvæðið en strikaði þar sem hvalurinn er sjaldgæfur Útbreiðsla náhvals er að mestu bundin við Atlantshafshluta Norður-Íshafsins. Suðurmörkin eru við Hudsonsund í Kanada, norður Diskóflóa, meðfram austurströnd Grænlands og austur fyrir Svalbarða. Náhvalurinn heldur sig að mestu langt norðan við Ísland en hans hefur oft orðið vart við land, sérlega sem hvalreka. Tegundin hefur hins vegar aldrei fundist í talningarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Náhvalur heldur sig við strendur þegar íslaust er orðið í ágúst og fram eftir hausti. Þegar ís fer að leggja færir hvalurinn sig utar og heldur sig í rekís yfir veturinn. Þegar vorar færa þeir sig aftur nær landi. Hvalurinn getur haldið til í mjög þéttum rekís ef einhverjar vakir er að finna. Hann getur brotið þunnan ís með skögultönninni eða snjáldrinu. Vitað er að náhvalur getur kafað niður á 1000 metra dýpi en er þó ekki lengur í kafi en 25 mínútur. Fæðuvalið er mjög fjölbreytt, smokkfiskar, rækjur og fiskar, til dæmis ískóða, ísþorskur, grálúða og karfi. Náhvalir eru oftast í litlum hópum, 5 til 10 dýr. Þess eru þó dæmi að hópar tengist í eina stóra en dreifða hjörð með hundruðum eða þúsundum dýra. Sé náhvalur einn á ferð er það nánast undantekningarlaust tarfur. Veiðar og fjöldi. Inuítar á Grænlandi og í Kanada hafa stundað veiðar á náhval í margar aldir. Sérlega þykir húðin, sem er mjög þykk og sterk, vera lostæti meðal inuíta og er nefnd "mattak". Einnig hefur skögultönnin verið eftirsótt. Veiðar Norðmanna og Rússa og annarra hvalveiðiþjóða á náhval hafa aldrei verið umfangsmiklar og eru nú algjörlega lagðar af. Áætlað er að heildarstofninn geti verið um 50 þúsund dýr. Goðsögn og saga. Skögultennur náhvals hafa gengið kaupum og sölum um aldir og voru tengdar goðsögninni um einhyrninga. Vitað er að náhvalstennur voru ein verðmætasta útflutingsvara hinna norrænu Grænlendinga til forna og þóttu miklar gersemar. Bárust meðal annars náhvalstennur til Miklagarðskeisara á 12. öld og 1621 færði Guðbrandur biskup Þorláksson Kristjáni IV Danakonungi náhvalstönn. Benjamin Franklin. Benjamin Franklin (17. janúar 1706 – 17. apríl 1790) var stjórnmálamaður, hugsuður og uppfinningamaður sem fæddist í Boston í Nýja Englandi og varð síðar einn af leiðtogum uppreisnarmanna í bandaríska frelsisstríðinu og einn af "landsfeðrum" Bandaríkjanna. Benjamin var einn af boðberum upplýsingarinnar. Boris Jeltsín. Boris Nikolajevitsj Jeltsín (rússneska: "Борис Николаевич Ельцин") (f. 1. febrúar 1931 - d. 23. apríl 2007) var fyrsti forseti Rússlands frá 1991 til 1999. Hann átti þátt í að leiða mótmæli gegn valdaránstilraun harðlínumanna gegn Mikhaíl Gorbatsjev 18. ágúst 1991 sem leiddi til falls Sovétríkjanna. Í forsetatíð hans var reynt að koma á nauðsynlegum efnahagsumbótum og innleitt markaðshagkerfi sem leiddi til óðaverðbólgu. Jeltsín og nánir samstarfsmenn hans voru auk þess ásakaðir fyrir víðtæka spillingu. Á þeim tíma náðu ólígarkarnir öllum völdum í viðskiptalífi landsins. 1999 gerði hann Vladimír Pútín að forsætisráðherra og lýsti því yfir að hann vildi að Pútín yrði eftirmaður sinn. 31. desember sagði hann svo af sér og Pútín tók við embættinu fram að forsetakosningum 26. mars 2000 þar sem hann sigraði í fyrstu umferð. Hann lést þann 23. apríl 2007, 76 ára að aldri. XHTML. Extensible HyperText Markup Language (XHTML) er ívafsmál fyrir vefsíður sem er mjög líkt HTML, en með ritunarreglur sem samræmast XML-staðlinum ólíkt HTML sem leyfir til dæmis opin tög. HTML byggir á SGML sem mjög sveigjanlegur staðall fyrir ívafsmál. XHTML byggir hins vegar á XML sem mun strangari undirgerð af SGML. Hægt er að þátta rétt mynduð XHTML-skjöl með venjulegum XML-þáttara, ólíkt HTML sem þarf flókinn, lauslegan þáttara sem að oft þarf að túlka kóðann og geta sér til um merkinguna. XHTML er myndað úr HTML og XML þar sem það er endurgerð af HTML í XML. XHTML 1,0 varð W3C-tilmæli 26. janúar, 2000. XHTML 1,1 varð W3C-tilmæli 31. maí, 2001 og þróun þess heldur enn áfram. Skallaörn. Skallaörn eða hvíthöfðaörn (fræðiheiti: "Haliaeetus leucocephalus") er stór ránfugl sem lifir í Norður-Ameríku og er þjóðarfugl Bandaríkjanna. Nafn hans er dregið af einkennandi hvítu höfðinu á fullorðnum fuglum. Marflær. Marflær (fræðiheiti: "Amphipoda") eru ættbálkur lítilla krabbadýra sem lifa aðallega í sjó. Marflær eru oftast brúnleitar að lit, misstórar. Jónsbók. Jónsbók er lögbók sem tók við sem meginundirstaða íslensks réttar af Járnsíðu árið 1281 í kjölfar þeirra breytinga sem urðu við það að Íslendingar gengu á hönd Noregskonungi með Gamla sáttmála 1262-64. Við lögfestingu bókarinnar varð talsverð breyting á réttarskipan þjóðarinnar og var hún undirstaða íslensk réttar næstu fjórar aldirnar, eða allt þar til einveldi komst á árið 1662. Talið hefur verið að engin bók hafi haft jafnríkan þátt í að móta réttarvitund þjóðarinar og varðveita íslenska tungu og Jónsbók. Þannig má því segja að hún hafi orðið ein áhrifamesta bók í réttar- og menningarsögu Íslendinga. Móttökur. Járnsíða hafði mætt mikilli andstöðu en í stað þess að endurskoða hana var samin ný lögbók 1280 og send til Íslands. Hún var kennd við lögmanninn Jón Einarsson gelgju sem talinn er hafa verið aðalhöfundur hennar og hafði kynnt hana fyrir Íslendingum veturinn 1281, en Jónsbók var gagnrýnd í ýmsu, ekki síður en Járnsíða. Á Alþingi árið 1281 skipaði þingheimur sér í flokka eftir lögstéttum og gerðu menn grein fyrir athugasemdum sínum. Þrjár stéttir þjóðfélagsins; klerkar, handgengnir menn og bændur höfðu skráð athugasemdir sínar hver í sínu lagi en í sögu Árna biskups Þorlákssonar greinir frá athugasemdum tveggja, klerka og bænda. Umboðsmaður konungs, Loðinn leppur, brást hart við og skírskotaði til heimildar konungs til að setja lög en hér gætti vaxandi áhrifa konungsvaldsins, sem m.a. hafði að bakhjarli hugmyndir um að réttur konungs væri sóttur til Rómarréttar. Þingheimur gaf sig þó hvergi og oddvitar hans skírskotuðu til hefðbundinna hugmynda um stöðu konungs sem gætti hinna fornu laga og bætti þau með ráði og fulltingi bestu manna. Málamiðlun náðist og konungur kom til móts við Íslendinga með ítarlegum réttarbótum sem sendar voru árin 1294, 1305 og 1314. Þær líkamlegu refsingar, er heimilaðar voru eftir Jónsbók, voru dauðarefsing, hýðing, brennimark, limalát og einnig er þar gert ráð fyrir vissum minniháttar endurgjaldsrefsingum (sektum). Gildi Jónsbókar í dag. Nokkur ákvæði Jónsbókar gilda enn í dag og eru þau elstu lög sem í gildi eru á Íslandi, að undanskildum "Kristnirétti Árna biskups Þorlákssonar" frá 1275. Þau ákvæði sem enn gilda eru jafn víðtæk og þau eru mörg en þau fjalla um allt frá dýravernd til viðurlaga við líkamsárásum. Í Jónsbók er kafli sem nefndur er "þjófabálkur" og fjallar um auðgunarbrot og þær refsingar sem liggja við þeim. Talað er um þjófabálkinn enn þann dag í dag þegar menn segja: "eitthvað taki út yfir allan þjófabálk". Það merkir að eitthvað er óheyrilegt eða hefur keyrt um þverbak. Georg 6. Bretlandskonungur. Georg 6. ("Albert Frederick Arthur George Windsor") (14. desember 1895 - 6. febrúar 1952) varð konungur breska heimsveldisins og keisari Indlands þann 11. desember 1936 og ríkti til dauðadags. Hann tók við völdum er eldri bróðir hans, Játvarður 8. afsalaði sér konungdómi til þess að geta gifst unnustu sinni, en hún var fráskilin. Georg var síðasti keisari Indlands (til 1947) og síðasti konungur Írlands til 1948, er Írland yfirgaf heimsveldið. Hann var þriðji breski konungurinn sem notaði nafnið "Windsor", en faðir hans, Georg 5., tók það upp. Georg VI fæddist í York Cottage í Norfolk. Foreldrar hans voru Georg prins, hertogi af York (síðar Georg V konungur) og kona hans María hertogaynja af York (síðar María Bretadrottning). Föðurforeldrar hans voru Játvarður prins af Wales, síðar konungur, og kona hans Alexandra prinsessa af Danmörku og síðar drottning. Móðurforeldrar Georgs voru Francis prins og hertogi af Teck og María Adelaide prinsessa af Cambridge. Hann giftist 26. apríl 1923 og var kona hans Lafði Elísabet Bowes-Lyon. Hún taldist til almennings samkvæmt reglum hirðarinnar, þó svo að hún væri afkomandi bæði Róberts I Skotakonungs og Hinriks VII Englandskonungs, en við giftingu þeirra hlaut hún titilinn "Her Royal Highness The Duchess of York". Þau eignuðust tvær dætur: Elísabetu prinsessu (f. 21. apríl 1926), síðar drottningu, og Margréti prinsessu (f. 21. ágúst 1930, d. 9. febrúar 2002). Georg VI fékk krabbamein í lungu og var annað lunga hans fjarlægt í september 1951. Jólaræða hans það ár var hljóðrituð í mörgum hlutum sem voru svo sameinaðir í eina heild og útvarpað. Hann andaðist sex vikum síðar. Bust-a-Move Bash! Bust-a-Move Bash! (áður þekktur sem Bust-A-Move Revolution) er tölvuleikur gefinn út af Majesco fyrir Nintendo Wii leikjatölvuna. Hann var gefinn út 2. febrúar 2007. Lögrétta. Lögrétta var á þjóðveldisöld æðsta stofnun Alþingis og sinnti ýmsum hlutverkum. Hún setti lög, skar úr lagadeilum og gegndi ýmsum öðrum hlutverkum. Lögréttu var komið á fót um leið og Alþingi var stofnað 930. Í henni sátu 39 goðar og 9 uppbótargoðar á miðpalli en hver goði hafði tvo ráðgjafa með sér og sat annar fyrir framan hann og hinn fyrir aftan. Þegar biskupsstólarnir voru stofnaðir fengu Hóla- og Skálholtsbiskupar einnig sæti í lögréttu. Lögsögumaður stýrði fundum lögréttunnar. Hún kom saman báða sunnudagana sem þingið stóð yfir, svo og síðasta daginn, og oftar ef þurfa þótti. Lögrétta var háð undir beru lofti og hefur verið hlaðin í hring eða ferhyrning. Allir máttu fylgjast með störfum hennar en ekki fara inn fyrir vébönd sem voru umhverfis hana. Ekki er vitað með vissu hvar lögrétta var en af heimildum frá 13. öld má draga þá ályktun að hún hafi þá verið á völlunum fyrir neðan Lögberg. Þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd breyttist hlutverk lögréttunnar, hún hafði áfram takmarkað löggjafarvald en var þó fyrst og fremst dómstóll. Goðarnir hurfu úr sögunni en í þeirra stað komu lögréttumenn. Í lögréttu sátu hverju sinni 36 menn, þrír úr hverju þingi, og voru þeir valdir úr hópi 84 nefndarmanna, bænda sem sýslumenn tilnefndu til þingreiðar. Í stað lögsögumannsins komu tveir lögmenn. Lögmenn nefndu svo 6, 12 eða 24 úr hópi lögréttumanna til að dæma um einstök mál. Í 4. kap. þingfararbálks Jónsbókar segir, að þeir menn sem í lögréttu séu nefndir skuli „dæma lög um þau mál öll, er þangað eru skotin og þar eru löglega fram borin“. Lögréttan var æðsti dómstóll hérlendis, uns yfirréttur var stofnaður árið 1593. Árið 1594 var reist lítið hús fyrir starfsemi lögréttunar fyrir vestan Öxará og þar var hún fram til 1798 en þá var húsið svo illa farið að ekki var hægt að notast við það og var þinghaldið þá flutt og þingið síðan lagt niður árið 1800. Bíódagar. "Bíódagar" er kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson. Hún var send í forval Óskarsins fyrir bestu erlendu kvikmyndina en var ekki tilnefnd. Á köldum klaka. "Á köldum klaka" ("Cold fever") er kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson og Jim Stark sem fjallar um Japana sem kemur til Íslands vegna dauða foreldra hans. Sporlaust. "Sporlaust" er kvikmynd leikstýrð af Hilmari Oddssyni. Lögsögumaður. Lögsögumaður var á þjóðveldisöld æðsti starfsmaður Alþingis og eini launaði veraldlegi embættismaður þess og raunar þjóðarinnar allrar. Hann hafði það hlutverk að stjórna fundum lögréttunnar og segja fram þriðjung laga í heyranda hljóði á hverju ári. Lögrétta kaus sér lögsögumann og var kjörtímabilið þrjú ár en endurkjósa mátti sama manninn mörgum sinnum. Fyrsti lögsögumaðurinn var kosinn árið 930 og var það Úlfljótur, sá sem sendur hafði verið til Noregs að kynna sér lög þar. Lögin voru ekki til skrifuð en lögsögumanninum bar að fara með þriðjung laganna fyrir þingheim á ári hverju þannig að þeir sem höfðu minni og námsgáfur til áttu að geta lært þau öll á þremur árum. Goðar og aðrir sem höfðu heyrt lögréttumenn fara með lögin margsinnis hafa vafalaust margir hverjir fest þau vel í minni og getað áminnt lögréttumenn ef þeir fóru ekki rétt með. Þannig geymdust lögin í minni manna í nærri tvær aldir, allt þar til veturinn 1117-1118, þegar skráning þeirra hófst á Breiðabólstað í Vesturhópi. Ekki er vitað til þess að sambærilegt embætti hafi verið til á norskum þingum. Lögsögumannsembættið var við lýði til 1271 og eru nöfn allra lögsögumanna þekkt. „Svo er enn mælt að sá maður skal vera nokkur ávallt á landi voru er skyldur sé til þess að segja lög mönnum og heitir sá lögsögumaður... Það er og mælt að lögsögumaður er skyldur til þess að segja upp lögþáttu alla á þremur sumrum hverjum en þingsköp hvert sumar. Lögsögumaður á upp að segja sýknuleyfi öll að lögbergi svo að meiri hlutur manna sé þar ef því um náir og misseristal og svo það ef menn skulu koma fyrr til alþingis en 10 vikur eru af sumri og tína imbrudagahald og föstuíganga og skal hann þetta allt mæla að þinglausnum. Það er og að lögsögumaður skal svo gerla þáttu alla upp segja að engi viti einna miklu gjörr. En ef honum vinnst eigi fróðleikur til þess þá skal hann eiga stefnu við 5 lögmenn hin næstu dægur áður eða fleiri þá er hann má helst geta af áður hann segi hvern þátt upp og verður hver maður útlægur 3 mörkum er ólofað gengur á mál þeirra og á lögsögumaður sök þá...“ (Grágás I a, 208-09) Digimon Adventure. Digimon Adventure er teiknimyndasería um Digimon. Stutt áður en fyrsti þátturinn var sýndur, 7. mars 1999, var teiknimynd með sama nafni sýnd í bíóhúsum. Myndin. Áður en fyrsta serían kom út í Japan var þessi tuttugu mínutna mynd sýnd í bíó. Hún gerist nokkur ár fyrir fyrstu seríunni. Söguþráður. Tvö börn, Taichi "(ekki sá sami og í V-Tamer)" og systir hans, Hikari, finna digiegg. Stuttu síðar skríður Botamon úr egginu og vingast við systkynin. En smám saman fer það í hærra og hærra þróunarstig og verður til vandræða í borginni. Þá byrtist annar digimoni, Parrotmon og þau tvö berjast. Til að vernda börnin þróast digimoni þeirra í risa stórt Greymon. Þegar bardaganum lýkur eru báðir digimonarnir horfnir. Serían. Digimon Adventure er nafn fyrstu seríunnar sem gerð var um Digimon. Hún var gerð af Toei Animation og inniheldur hún 54 þætti, var sá fyrsti þá sýndur 7. Mars 1999 á Fuji TV. Serían átti erfitt í byrjun, en varð hún þó mjög vinsæl eftir nokkurn tíma. Myndir. Tvær myndir tengjast seríunni. Digimon Adventure og Our War Game!. Framhald. Framhald af fyrstu seríunni og seinni myndinni er serían Adventure Zero Two. Söguþráður. Sjö krakkar, Taichi, Yamato, Takeru, Sora, Mimi, Koushiro og Jou eru í útilegu. En veðrið hagar sér underlega á öllum hnettinum og eru fjöllin, þar sem þau eru, engin undantekning. Mikill snjóstormur skellur á og norðurljósið sést á himninum. Það er ómögulegt atbæri fyrir svo sunnanlegt land og Japan, því undrast krakkarnir yfir þessu. Allt í einu birtast digitækin og fær hver eitt. Þá verða þau dregin á eyju í stafræna heiminum. Þar hitta þau hver sinn digimon félaga. Fyrsta raunin lætur ekki lengi bíða eftir sér. Stór pöddu digimoni, Kuwagamon, ræðst á krakkana og félaga þeirra. Til að vernda krakkana þróast digimonarnir á næsta stigið. Þó er það gagnslaust, því að Kuwagamon er of öflugt. Krakkarnir og digimonar þeirra hrapa í ána. Óviss um hvað þau ættu að gera ákveða þau að fylgja ánni. Loks koma þau að sjónum og hvíla sig þar. Þá ræðst næsti digimoni á þau, Shellmon. Agumon, félagi Taichis, þróast í Greymon og nær að senda skelja digimonan út á sjó. Þá þróast Greymon aftur í Agumon, því að honum skortir orkuna að vera alltaf á svo háu þróunarstigi. Þegar það tekur að dimma ætla krakkarnir að sofa í götulest, sem þau fundu hjá tjörn einni. Bara Taichi, Agumon og Yamato eru vakandi þegar næsta ógnin ræðst á þreyttu krakkana. Í þetta sinn þróast Gabumon í Garurumon þegar sæskrímslið, Seadramon, nær Yamato, félaga Gabumons, og kreistir hann nánast meðvitundalausan. Garurumon tekst þó að sigra skrímslið og bjarga félaga sinn. Einn dag kemur hópurinn að Pyokomon þorpi. Meramon, verndar digimoni fjallsinns nálægt þorpinu, tryllist og ræðst á það. Piyomon, félagi hennar Soru, Þróast þá í Birdramon og sigrar hann. Svart tannhjól kemur út úr honum og leysist upp. Seinna kemur hópurinn auga á verksmiðju. Þau fara inn til að kanna hana og finna út að allt sem er sett saman þar er tekið í sundur aftur. Einnig komast þau að því að orkan sem verksmiðjan notar er búin til með forriti sem er skrifað á vegg. Þá ræðst Andromon, vélmenna digimoni á þau. Með hjálp forritsins tekst Tentomon, félaga Koushiros, að þróast í Kabuterimon. Hann ræðst á veikan blett Andromons, lærið hanns. Þar kemur annað svart tannhjól í ljós og leysist upp. Andromon verður að góðum digimona aftur, eins og það var með Meramon. Krakkarnir hitta á ferðum sínum fleirum og fleirum "tannhjóla digimonum". Þannig þarf Palmon, félagi Mimiar, að þróast í Togemon til að sigrast á Monzaemon og Gomamon, félagi Jous, í Ikkakumon til að sigra Unimon. Hópurinn hefur klifrað upp á "bjarg eilífðarinnar" í von um að finna leið til baka á jörðina. En þar ráðast Leomon, sem er tannhjóla digimoni og Ogremon á þau. Krakkarnir sleppa ósködduð og komast að húsi, þar sem matur og bað eru tilbúin þó að enginn er heima. Þegar þau fara að hátta birtist illi digimoninn, Devimon og einnig Leomon og Ogremon til að drepa þau í svefni. En Taichi og Agumon voru vakandi og með ljós digiviceins síns tekst honum að leysa Leomon úr álögunum í skamma stund. Devimon, sem er áttaviltur lætur krakkana dreyfast á eyjunni sem splundrast í marga hluti. Hver hluti eyjunnar stýrir út á sjóinn, fylltur af svörtum tannhjólum, ætluð digimonunum við hinn enda sjósins. Krakkarnir eru nú einir með félögum sínum og reyna að finna hvorn annan aftur. Taichi og Agumon hitta Yamato og Gabumon. Jou og Gomamon hitta Soru og Piyomon. Og Mimi og Palmon hitta Koushiro og Tentomon. Takeru og Patamon eru einir og skelfdir. Þau ferðast um hluta eyjunnar, þar sem þau lentu og koma að "bæ byrjunarinnar", staður, þar sem allir digimonar, er létu lífið, endurfæðast sem digiegg. Elecmon er vættir bæjarins og leyfir þeim ekki að koma nálægt digimona börnunum. En að lokum verða þau vinir og ætla að finna leið til að setja eyjunna saman aftur. Þá birtast Leomon, sem er sýrður af Devimon aftur og Ogremon og ætla að drepa þau. Nú loks koma hinir krakkarnir þeim til hjálpar og leysa Leomon úr álögum á ný. Hann segir þeim frá "sögninni" um hin kosnu börn og útskírir þeim að eina leiðin til að komast heim er að sigra myrkuröflin, sem herja á stafræna heiminn. Krakkarnir snúa nú aftur til "bjarg eilífðarinnar". Þar hefur Devimon byrjað að safna saman myrkuröflunum og stækkað gríðarlega mikið. Digimonar krakkanna takast á við hann, en allt virðist gagnslaust. Þá ræðst Devimon á Takeru, en Patamon reynir að bjarga honum og þróast í heilaga digimonann, Angemon. Hann safnar saman heilögum öflunum úr "digivieceunum" og eyðir Devimon og sjálfum sér um leið. Takeru brýst út í grát, en Angemon breytist aftur í digiegg. Til að bjara restinum af stafræna heiminum búa krakkarnir sér bát til og ferðast til álfunnar, Server. Þar þurfa þau að takast á við annan illa digimona, Etemon. Hann er á of háu þróunarstigi og þurfa krakkarnir því að finna skjaldamerkin sín til að láta félaga sína þróast á jafn hátt stig. Taichi, sem fann skjaldamerki hugrekkis, reynir að þvinga Agumon til að þróast, með hörmulegum afleðingum. Hann þróaðast í Skull Greymon, risa beinagrindaskepnu, sem hlíðir ekki á félaga sinn. Að lokum breytist hann aftur í Koromon, sem er lægra stig en Agumon. Krakkarnir eru nú mjög vonsviknir og undrast þess hvort að þau hafa verið að ala digimonanna á vitlausan hátt. Þegar krakkarnir reyna að bjarga Nanomon, sem er í haldi í píramída, ræðst Etemon á þau. Í ljós kemur að Nanomon er illur og hann rænir Soru og Piyomon. Í leyniklefa, í píramídanum, býr hann til kópíu af sóru til að láta félaga hennar berjast fyrir sig. En Taichi, sem þurfti á miklu hugrekki að halda til að komast í gegnum rafmagns hlaðinn vegg, kemur henni til björgunnar. Etemon blandast einnig í bardagann og reynir þá Nanomon að eyða öllum með því að henda þeim í hyldýpi myrkursins og þegar hann blandar tölvuvírus með dýpinu fer allt úr höndum og Etemon sameinast myrkrinu. Í þessu ástandi getur hann eytt stafræna heiminum. En félagi Taichis tekst loks að þróast í Metal Greymon. Þegar þau eyða Etemon hverfa Taichi og Metal Greymon. Taichi og Koromon eru komnir aftur á jörðina. Þar komast þau að því að á jörðinni er enn sá sami dagur og þegar þau komust í stafræna heiminn. Tíminn á jörðunni og í stafræna heiminum virðast ekki líða eins. Þeir fara heim til Taichis og hitta þar systir hanns, Hikari. Í ljós kemur að hún man eftir Koromon, en Taichi hafði gleymt öllu. Þegar Ogremon ræðst á borgina reyna Taichi og Koromon að stöðva hann og lenda svo aftur í stafræna heiminum. Taichi og Agumon, sem eru komnir aftur í stafræna heiminn, leita að hinum krökkunum og komast að því að þau hafa dreifst um álfuna. Smám saman safna þeir saman hópnum aftur frá skrítnustu stöðunum, þar til aðeins Soru vantaði. Þegar þau hitta Soru kemur í ljós að hún hafði heyrt samtal milli Pico Devimon og meistara hans, Vamdemon. Hún komst þannig að því hvað skjaldamerki hvers og eins þýða. Taichi ber skjaldamerki hugrekkis, Yamato skjaldamerki vináttunar, Takeru skjaldamerki vonarinnar, Koushiro skjaldamerki þekkingarinnar, Mimi skjaldamerki hreinskilinarinnar, Jou skjaldamerki áreiðanleikans og Sora skjaldamerki ástarinnar. En hún Sora telur sig ekki þekkja ást og heldur að skjaldamerkið eigi ekki við sig. Hún er því niðurdregin og vildi ekki hitta hina. En þegar Pico Devimon og Vamdemon ráðast á hópinn og Piyomon slasast kemur í ljós að Sora elskar Piyomon. Það gefur skjaldamerkinu næringu og Piyomon þróast í Garudamon og hjálpar hópnum að sleppa. Seinna komast krakkarnir að því að það er til eitt "kosið barn" í viðbót og að Vamdemon er á leiðinni til jarðarinnar til að drepa það. Því að aðeins ef öll kosnu börn eru sameinuð getur myrkrið verið sigrað. Hópurinn kemst inn í vígi Vamdemons til að stöðva hann, en þau eru of sein. Þau fylgja honum eftir í gegnum hliðið og komast á jörðina. Á jörðinni, í Tókýó, leita sveitir Vamdemons, leiddir af Pico Devimon og Tailmon, að áttunda barninu. Einnig krakkarnir sjö leita að því og lenda alltaf í bardögum við óvinana. Leitin virðist vera gagnslaus því að borgin er allt of stór. En Tailmon og Wizarmon, sem eru í liði Vamdemons, finna áttunda barnið. Í ljós kemur að það er Hikari, systir Taichis og félagi hennar er Tailmon. Þá svíkja Tailmon og Wizarmon Vamdemon og reyna að fá skjaldamerkið Hikaris, merki ljóssins, sem Vamdemon er með. Það mistekst þó og Wizarmon er kastað í ána og Tailmon er tekin sem fanga. Þá breytast áætlanir Vamdemons og hann tekur öll börnin í hverfinu fanga og leyðir þau fyrir Tailmon, því hún þekkir andlit áttunda barnsins. Ekki líður langur tími þar til hún var fundin, en henni varð bjargað af Soru og Mimi og félögum þeirra. Þá lætur Vamdemon allt fólkið sofna og bardagi brýst út meðal hans og krakkanna. Wizarmon lætur lífið þegar hann bjargar Hikari og Tailmon frá árás Vamdemons og þróast Tailmon þá í Angewomon. Saman með Angemon og hinum digimona félögunum sigra þau Vamdemon. Vamdemon virðist vera sigraður, en fólkið er enn sofandi. Andi Vamdemons byrtist of gleypir hersveitir sínar og einnig Pico Devimon og þróast þannig í Venom Vamdemon. Angewomon og Angemon lána Agumon og Gabumon heilaga krafta sína og tekst þeim þannig að þróast á enn hærra stig í War Greymon og Metal Garurumon. Þau sigra Venom Vamdemon en andi hanns sleppur enn á ný. Þá byrtist stafræni heimurinn á himninum og virðist hann vera breyttur. Með digiviceunum opna krakkarnir hlið í stafræna heiminn og snúa þangað aftur. Þegar krakkarnir eru komnir aftur í stafræna heiminn verður ljóst að einhver hefur gjörbreytt honum. Teknir voru skógarnir, borgirnar, vötnin og myrkursvæðin og gjört úr þeim spíralturn. Á toppi þessa turns bjóu myrkradrottnanrir fjögur, sem hafa valdið þessum breytingum. Krakkarnir reyna að komast upp á turninn og byrja í vatnssvæðinu. Þar ræðst Metal Seadramon að þeim og krakkarnir flýja með hjálp Whamons. Sveitir Metal Seadramons, ásamt honum sjálfum, fylgja þeim eftir. Bardagi milli honum og krakkanna brýst út þegar þau komast að eyju. War Greymon tekst loks að sigra Metal Seadramon, en ekki fyrr en að Whamon banaðist. Með dauða Metal Seadramons leysast vatnasvæðin upp og krakkarnir flýja í skógasvæðin. Meistari skógasvæðanna er Pinocchimon, sem reynir að veiða börnin í gildru. Hann dreyfir börnin og digimonanna þannig að þau geta ekki þróast og tekur Takeru heim til sín. Þar ætlar hann að leika hættulega leiki með honum. En Takeru leikar á hann, eyðir gildrunum hans og kemst undan. Hópurinn, sem er saman kominn aftur, hittir á hann og eru þeir stoltir af honum, hvað hann er orðinn sjálfstæður. Hann og Hikari eru víst þau yngstu í hópnum. En bróðir Takerus, Yamato, hverfur, ásamt félaga hans, úr hópnum, því að hann hefur alltaf þurft að passa bróður sinn, en nú var hann orðinn gagnslaus. Þannig niðurdreginn er einfallt fyrir Jureimon, sem er í liði Pinocchimons, að heilaþvo hann. Yamato og Metal Garurumon ráðast á Taichi og War Greymon. Þó að Taichi vill ekki berjast við vin sinn hefur hann engra kosta val. Bardaganum er stöðvað af veru, sem hefur yfirtekið huga Hikaris. Veran skírir frá því hvernig börnin voru kosin. Það gerðist þegar Parrotmon byrtist á jörðinni. Henni tekst að blíða Yamato, en samt sem áður vill hann ekki sameinast hópnum aftur. Þegar veran yfirgefur huga Hikaris yfirgefur Yamato svæðið. Á seinasta bardaganum við Pinocchimon byrtist Yamato aftur til að eyða honum, en hverfur síðan á brott aftur. Þegar skógasvæðin leysast upp brest hópurinn í sundur aftur. Jou og Mimi fara í aðra átt en hinir. Taichi, Hikari, Takeru, Koushiro og Sora eru komin í borgasvæðin, þar sem Mugendramon drottnar. Hikari veikist og finna krakkarnir lyf með hjálp fartölfu hans Koushiros. En Mugendramon ræðst á þau og hrapa þau í neðanjarðargöng borgarinnar. Taichi og Koushiro eru saman og leyta að hinum en hitta í staðinn á Andromon, sem þau hittu fyrst í verksmiðjunni. Hann skýrir þeim frá því að hann er í flokki uppreisnarmanna móti Mugendramon. Á meðan leita Sora, Takeru og Hikari að hinum og koma að stóru svæði, þar sem Numemon þurfa að þræla. Hikari bjargar þeim úr keðjunum, en yfirstjórinn, Waru Monzaemon, er ekki ánægður og ræðst á krakkana. Þau sleppa með hjálp Numemonanna. Hóparnir tveir sameinast þegar Mugendramon ræðst á þau. War Greymon tekst, eftir hörðum bardaga, að eyða óvininum. Þegar borgasvæðin leysast upp eru bara myrkursvæðin eftir. Sá síðasti og samstundis öflugasti "myrkradrottnari" er Piemon, höfðingi myrkursvæðanna. Taichi, Koushiro, Sora og Takeru hafa klifrað upp á topp spíral turnsins, þar sem hann dvelur. Í stað þess að láta alla ráðast saman á Piemon ákveður Taichi að senda Soru og Takeru af stað til að finna restinn af hópnum og bara War Greymon ræðst á ovuröfluga digimonann. Yamato er á þessari stundu kominn í helli þunglyndisins. Hann situr hreyfingarlaus í horninu og sekkur niður í eigin þungum hugsunum. En Gabumon, félaga hans, tekst að ná til hans og hann lætur hughreistast. Þá hverfur og hellirinn og þeir hitta á Jou og Gomamon, sem hafa verið að leita að þeim. Hópurinn kemur smám saman saman aftur þegar þau hitta á Takeru. En Sora virðist hafa dottið í helli þunglyndisins. Krakkarnir klifra niður hellinn og finna hana. Hún er niðursokkin, alveg eins og Yamato áður. Yamato og Jou tekst að ná til hennar, eins og Gabumon áður. Hellirinn hverfur aftur og hópurinn leggur af stað til að veita Taichi liðsauka. War Greymon hefur verið sigraður af Piemon, en þegar Metal Garurumon birtist fyllist hann lífsanda aftur. Saman berjast þau við Piemon, en hann er með meira í erminum en virðist. Hann breytir flest öllum digimonunum og krökkunum í lykklakippur. Einungis Hikari, Takeru og Patamon komast undan. Piemon sker reipið, sem þau klifra upp og þau detta í hyldýpið. Þá tekst Patamon loks að þróast í Holy Angemon. Með heilaga krafta sína getur hann breytt hinum krökkunum og digimonunum til baka. Þá kemur Mimi með fullt af digimonum, sem hún hefur verið að safna saman í stafræna heiminum. Mikill bardagi brýst út milli Piemon og Evilmon sveita hans og krökkunum og félögum þeirra. Að lokum nær Holy Angemon að innsigla Piemon bakvið heilaga hliðinu. Þannig var seinasti drottnari sigraður. Myrkursvæðin leysast upp og er þar með ekkert eftir af stafræna heiminum. Í ljós kemur að einhver önnur vera hafði verið að stýra öllum illum digimonunum. Það var Apocalymon, sem er í raun þúsundir hvaldar sálir frá fortíðinni. Hann eyðir skjaldamerkjum krakkana. Það þýðir að digimonar þeirra geta ekki lengur þróast á hátt stig lengur. En börnin komast að því að þau þurfa skjaldamerkin ekki, því að sama aflið er í hjörtum þeirra. Hugrekki, vinátta, von, þekking, hreinskilinleiki, áreiðanleiki, ást og ljós eru eiginleikar krakkanna. Félagar þeirra þróast og berjast við illvættinn og sigra hann. En með síðustu orku sinni ætlar hann að eyða þeim með stóru sprengingu. Ljós digiviceanna innsiglar sprenginguna og bjargar krakkana. Nýr stafrænn heimur varð til og digimonarnir, er létu lífið, komu aftur sem digiegg. En krakkarnir verða að snúa aftur til jarðarinnar og mun hliðið að stafræna heiminum verða lokað eftir þeim. Þau þurfa að hveðja félaga sína með aðeins smáagna von um að sjá þau aftur. En hliðið mun opnast aftur fyrir þeim. Yagami Taichi. Taichi (en. Tai Kamiya) er leiðtogi kosnu barnanna. Hann er afar hugrekkur og fljótur til aðgerða. Félagi hans er Agumon, hann er 11 ára í fyrstu seríunni og skjaldamerkið hans er hugrekki. Taichi birtist fyrst í myndinni Digimon Adventure ásamt systir hans Hikari. Ishida Yamato. Yamato (en. Matt) er strákur sem heldur sér utan hópsins ef kostur er á. Hann horfir á Taichi sem andstæðing sinn og lítur á sjálfan sig sem verndari Takerus, bróður síns. Félagi hans er Gabumon, hann er 11 ára í fyrstu seríunni og skjaldamerkið hans er vinátta. Takenouchi Sora. Sora sýnist vera sterk og glöð stúlka. Hún spilar fótbolta og er alltaf til staðar þegar þörf er. En hún hefur ekki gott samband við móðir hennar og henni finnst hún ekki þekkja ást. Félagi hennar er Piyomon, hún er 11 ára í fyrstu seríunni og skjaldamerkið hennar er ást. Kido Jou. Jou (en. Joe) er elstur í hópnum. Þó er hann sífellt hræddur og honum líður yfir þegar hann sér blóð. En hann er mjög klár og duglegur. Félagi hans er Gomamon, hann er 12 í fyrstu seríunni og skjaldamerkið hans er áreiðanleiki. Izumi Koushiro. Koushiro (en. Izzy) er tölvunörd. Hann er alltaf með fartölvu og GSM síma á sig. Hann hefur verið ættleiddur og er það mikill skuggi í huga hans. Félagi hans er Temtomon, í fyrstu seríunni er hann 10 og skjaldamerkið hans er þekking. Tachikawa Mimi. Mimi er prýð stúlka með undarlegan fatnasmekk. Í byrjun er hún gelgja, en hún breytist með tímanum. Félagi hennar er Palmon, hún er 10 í byrjun fyrstu seríunnar og skjaldamerkið hennar er hreinskilni. Takaishi Takeru. Takeru (en. TK) er í upphafi sá yngsti í hópnum og er litli bróðir hans Yamatos. Hann vingast fljótt með öllum í hópnum, sérstaklega Taichi, sem gerir Yamato afbrýðissaman. Félagi Takerus er Patamon, hann er 8 ára gamall í fyrstu seríunni og skjaldamerkið hans er von. Yagami Hikari. Hikari (en. Kari) er litla systir Taichis og bætist hún seint í hópinn. Hún er mjög hlýðin og hefur sérstakt ljós í sér. Félagi hennar er Tailmon, hún er 8 ára í fyrstu seríunni og skjaldamerkið hennar er ljós. Þegar hún var yngri fann hún digiegg Botamons og vingast við digimonann. En hann hvarf skömmu síðar eftir bardaga við Parrotmon. Digital Monster X-evolution. Digital Monster X-evolution er áttunda Digimon myndin og er byggð á söguþræði Digimon Chronicle, en þó eru engin menn í henni. Hún er fyrsta Digimon myndin, sem var gerð eingöngu í tölvunni. Hún var frumsýnd 3. janúar 2005 á stöðinni Fuji TV. Söguþráður. Stafræni heimurinn er að nálgast endalokin. 98 prósent allra digimona hefur verið eytt og eru ekki margir eftir. Sumir digimonar hafa þróast og fengið svokallað X-antibody sem Þýðir að þau geta ekki verið eytt af Yggdrasil. Þessir digimonar eru hataðir og hundeltir. Sumir reyna að drepa þau til að hlaða X-antibody þeirra. Yggdrasil hefur sent út konunglega riddarana til að eyða þessum sérstökum X digimonum, svo að hann geti uppfyllt áætlun sína. DORUmon hefur fæðst með slíkan antibody í þennan heim. Hann er aleinn og hataður. Þangað til hann hittir War Greymon X, er felur honum digimona barnið Tokomon, sem hann á að passa þar til þeir hittast aftur. Einn dag vitna þau DORUmon og Tokumon hvernig Omegamon, einn af konunglegu riddurunum, eyðir heilan her uppreisnarmanna með einu skoti. Hann verður var við litlu digimonana tvö og kemur að þeim. Til að verja Tokomon ræðst DORUmon á Omegamon og Tokomon ræðst einnig á hann. Þau hafa enga möguleika á að vinna en þó koma þau aftur og aftur að honum, honum til furða. Þegar hann ætlar að höggva að þeim koma Metal Garurumon X og War Greymon X þeim til björgunar og takast á við Omegamon. Mikill bardagi hefst milli þeirra þrjú ofuröfluga digimona. Þegar Omegamon gerir öfluga árás kastar Metal Garurumon X sig yfir DORUmon og Tokomon til að bjarga þeim og deyr þar, eftir að hann gefur X-antibody sinn Tokomon, er verður að Tokomon X. DORUmon öskrar hátt upp út af þessum hörmungi og þróast í DORUgamon og ræðst jafn óðum á andstæðinginn. Áður en Omegamon kemst að þeim stöðvar Dukemon, annar konunglegur riddari, bardagan og tilkynnir að hann mun svíkja Yggdrasil. Omegamon, sem er góður vinur Dukemons, er særður í hjartastað og yfirgefur svæðið. Skömmu síðar standa þeir tveir sem andstæðingar móti hvert öðru og Dukemon banast, en hverfur eitthvert. Furðu lostinn og með sundurtætt hjarta snýr Omegamon aftur til Yggdrasils. Seinna kemur fram enn annar konunglegur ridddari, Magnamon, sem handtekur DORUgamon og færir hann Yggdrasil. Í ljós kemur að DORUmon er í raun ekki alvöru digimoni heldur var hann skapaður af Yggdrasil og settur inn í þann heim. Nú tekur Yggdrasil gögn DORUgamons til að búa til fleiri digimona og er hann þá settur laus í heiminn á ný. Hann er fundinn meðvitundarlaus af uppreisnarmönnum og færður í leynibúðir þeirra, sem eru í löngum hellisgöngum. Yggdrasil sendir nú þúsunda þeirra nýju skepna, er hann bjó til, út til að útrýma öllum digimonum. Skepnurnar eru svart rauð hvítir drekar og líta þær allar eins út. Skömmu eftir ráðast þær á einn innganginn leynibúðanna og brýst út mikill bardagi er uppreisnarmennirnir reyna að komast út úr öðrum endanum. Þá byrtist Metal Garurumon X, sem hefur öðlast nýtt líf á einhvern hátt og ræðst á skepnurnar til að gefa hinum digimonunum tíma til að flýja. En þegar þau fyrstu komast að hinum endanum sjá þau að þar er einnig allt fullt af þessum skepnum og virðist allt útgangslaust. En loks kemst War Greymon X á staðinn og hefst nú einnig mikill bardagi á þeim enda af hellinum. Nú komust allir í gegnum hellinn, einnig Wizarmon, sem hefur borið meðvitundalausan DORUgamon allan tíman og Metal Garurumon X. Loks vaknar DORUgamon þegar þau, Tokomon X, hittast aftur. Nú hryggist hann yfir bardagann í kringum sig og þróast í DORUgremon. Til furða allra er horfðu á og honum sjálfum til mikillar skelfingar lítur DORUgremon næstum alveg eins út og skepnurnar. Enda hefur Yggdrasil notað gögnin hans til að búa þau til. Hann ræðst þó á skepnurnar og vekur það enn meiri furða hjá uppreisnarmönnunum. Á þeirri stundu koma fleiri þúsundir skepna til að bætast í slagið. Þá birtist Dukemon, sem hlotið hefur X-antibody í "gagnageiminum" og er nú Dukemon X, til að stöðva þau. Meðan hann berst við skepnurnar leiða War Greymon X og Metal Garurumon X hina digimonana burt. Dukemon X opnar hlið fyrir DORUgremon til Yggdrasils. Áður en DORUgremon kemst til Yggdrasils verður hann að sigra Omegamon. En hann vill ekki berjast þó að Omegamon heldur áfram árásum sínum. DORUgremon þróast nú í Alphamon, sem er foringi konunglega riddaranna. Omegamon gengur til liðs við hann, þrátt fyrir aðvörunarorð Magnamons. Þegar Alphamon og Omegamon setja fót í veröld Yggdrasils byrjar sá að leysa upp stafræna heiminn. Í þessari veröld hitta þau á Death-X DORUghoramon, er ræðst á konunglegu riddarana. Þegar Alphamon skýtur hann virðist hann vera eyddur en breytist þó í Death-X-mon þegar þeir eru farnir á næsta stigið. Alphamon, sem hefur farið í "Ultimate War Blade King Dragon Sword" útfærslu og Omegamon eru komnir að kjarna Yggdrasils og átala hann. En hann kýs að svara ei. Þegar þau ráðast á Yggdrasil birtist Death-X-mon til að verja hann. Alphamon hefur komist að því að Death-X-mon og hann sjálfur eru eitt. Tvær hliðir sama hluts. Þá notar hann sverð sitt til að vígja sjálfan sig, Death-X-mon og kjarna Yggdrasils í sama höggi. Alphamon og Death-X-mon renna saman og verða aftur að DORUmon. Omegamon höggvar Yggdrasil endanlega. Úr stafræna heiminum, sem eytt hefur verið, myndast nýr heimur þar sem digimonarnir geta lifað. Að myndinni loknu eru DORUmon og Tokomon X sameinaðir á ný. Ajas Telamonsson. Ajas Telamonsson, stundum nefndur Ajant eða Ajax (forngríska:) var hetja í forngrískri goðafræði og konungur á eynni Salamis. Hann var í herliði Grikkja í "Ilíonskviðu" Hómers og öðrum fornum söguljóðum um Trójustríðið. Ajas var risavaxinn og fríður maður og sagður sterkastur Grikkja á eftir Akkillesi. Þegar Akkilles lést ákvað Þetis, móðir Akkillesar, að sá í herliði Grikkja sem hefði valdið mestum ótta meðal Trójumanna skyldi fá hervopn hans. Fangar frá Tróju voru spurðir álits en þeir nefndu Ódysseif. Þegar Ódysseifur hafði betur sturlaðist Ajas og fyrirfór sér. Hálfbróðir Ajasar var Tevkros. Játvarður 8. Bretlandskonungur. Játvarður 8. ("Edward Albert Christian George Andrew Patrick David Windsor"), f. 23. júní 1894, d. 28. maí 1972 var konungur breska samveldisins, konungur Írlands og keisari Indlands. Hann tók við er faðir hans, Georg 5., lést þann 20. janúar 1936 og afsalaði sér konungdómi í hendur yngri bróður síns, Georgs 6., þann 11. desember 1936. Hann var annar í röð konunga af ættinni Windsor, en faðir hans hafði breytt nafni þeirra úr Saxe-Coburg-Gotha árið 1917. Áður en hann varð konungur var hann prins af York, prins af York og Cornwall, hertogi af Cornwall, hertogi af Rothesey og prins af Wales. Eftir afsögn sína varð hann aftur Játvarður prins en var gerður að hertoga af Windsor 8. mars 1937. Í síðari heimsstyrjöldinni var hann ríkisstjóri og yfirhershöfðingi Bahamaeyja. Játvarður 8. er eini breski þjóðhöfðinginn, sem hefur sagt af sér. Hann undirritaði afsagnarskjölin þann 10. desember 1936 og breska þingið samþykkti afsögnina daginn eftir. Aðeins tveir konungar í breskri sögu hafa setið skemur en hann en það voru lafði Jane Gray (9 eða 13 daga) og Játvarður V (um 2 mánuði), en ekkert þeirra var krýnt. Ástæða afsagnarinnar var samband Játvarðar við Wallis Simpson, sem var fráskilin bandarísk kona og það féll breskum yfirvöldum illa í geð. Þau giftust eftir að hann sagði af sér. Revival of the Ancient Digimon. Kodai Dejimon Fukkatsu er kvikmynd í fjórðu þáttaröð Digimon. Hún var frumsýnd 20. júlí 2002. Söguþráður. Krakkarnir lenda í bardaga milli mannalíkum digimonum og skepnulíkum digimonum og tína hvert öðru. Takuya, Junpei, Tomoki, Bokomon og Neemon lenda hjá mannalíkum digimonunum, en Kouji og Izumi lenda í þorpi skepnulíka digimonanna. Bæði þorpin eru í stríði við hvert öðru og ýta leiðtogar þeirra, d'Arcmon og Hippo Gryphomon, stríðið mjög hart áfram. Meðan krakkarnir eru þar er ráðist á bæði þorpin og þurfa þau verða vitni um hörmung þessara bardaga. Takuya og hópur hans hitta Kotemon og leiðir hann þau til Kouji og Izumi sem hittu Bearmon. Í ljós kemur að Kotemon og Bearmon eru vinir þó að eldri digimonarnir banna það. Þeir leiða börnin að gömlu hellisbyggingu, þar sem mynd af stórum fugli, Ornismon, sést. Einnig eru áletranir á veggjunum sem Bokomon reynir að lesa. En veggurinn er gamall og hefur stór hluti þess hrunið til jarðar. Þegar hópurinn er kominn úr hellinum ráðast þar nokkrir digimonar á hvort annan. Takuya breytist í Agnimon, sem er mannalíkur og Kouji í Garmmon, sem er skepnulíkur til að stöðva þau. Þau hætta að berjast og mannalíkir digimonarnir taka Kotemon og skepnulíkir digimonarnir taka Bearmon með sér og banna þeim að hittast aftur. Um nóttu til hefst annar bardagi og er Takuya í mannalíkum hernum en Kouji í skepnulíkum hernum. Orrustan reynist mjög hörð og hryggjast strákarnir tveir af grimmd hennar. Takuya breytist í Vritramon, sem er skepnulíkur digimoni og Kouji í Wolfmon sem er mannalíkur, til mikillar furða báða herja og reyna að stöðva átökin. Á meðan á þessu stendur eru Kotemon, Bearmon, Izumi, Junpei og Tomoki í hellinum og reyna að púsla vegginn saman. Þannig komast þau að því að Ornismon er ekki guð heldur frekar ári, er var sigraður af fornum digimonunum Ancient Greymon og Ancient Garurumon. Þó vantar einn hluti af veggnum og leggja Izumi og Junpei af stað að finna hann. Nálægt orrustuvellinum vitna þau hvernig d'Arcmon breytist í Hippo Gryphomon, sem þýðir að leiðtogar báða liða er sama persónan. Izumi breytist í Fairymon og Junpei í Blitzmon til að skíra digimonunum frá því, er þau höfðu séð. Nú, þegar allir vita sannleikann, skírir d'Arcmon frá áætlun sinni: Að nota digiegg látna digimonanna til að safna nógu miklu afli til að geta endurreist ára digimonann, Ornismon. Áður en hægt væri að stöðva hann hefur hann þegar vakið upp þann fugl, breyttist sjálfur í Murmuxmon og gerðist kappi þessa ógurlegu skepnu. Tomoki breytist í Chakkumon og reyna krakkarnir fimm að stöðva ára parið án árangurs. En þegar Ornismon banar Kotemon lifga harmakvein Bearmons Ancient Greymon og Ancient Garurumon við. Með hjálp digimonanna úr báðum liðum tekst krökkunum að sigra Murmuxmon. Og Ancient Greymon og Ancient Garurumon tortíma fuglinum enn á ný. Þegar bardaganum er lokið ríkur friður milli mannalíka og skepnulíka digimonanna. Kjalar invest. Kjalar invest bv. er íslenskt fjárfestingafélag skráð í Hollandi. Kjalar er annar stærsti hluthafi í Kaupþing banka með 9% hlut og stærsti hluthafi í Alfesca með 36% hlut. Það á 50% í Mastur hf., á móti Samvinnulífeyrissjóðnum, sem á 11% í Samskip hf. Hjörleifur Jakobsson er forstjóri Kjalars og Ólafur Ólafsson er stjórnarformaður. Ólafur Jóhann Ólafsson. Ólafur Jóhann Ólafsson (fæddur 26. september 1962) er íslenskur viðskiptamaður og rithöfundur. Hann lauk prófi sem eðlisfræðingur frá Brandeis University í Massachusetts í Bandaríkjunum 1985. Hann er aðstoðarforstjóri Time Warner fjölmiðlasamsteypunni sem á stærstan hluta í AOL, Time inc. og ýmis önnur fyrirtæki í skemmtanaiðnaðinum að hluta eða öllu leyti. Hann byrjaði feril sinn hjá Sony og varð síðar aðstoðarforstjóri fyrirtækisins. Hann tók við Time Warner upp úr aldamótunum. Digimon Frontier. Digimon Frontier er fjórða Digimon serían og er hún algerlega óháð hinum seríunum. Serían hefur fimmtíu þætti og var sá fyrsti sýndur 7. apríl 2002 á Fuji TV. Nokkrir krakkar komast í stafræna heiminn og finna digisálir hinna tíu forna stríðsmannana, sem leyfa þeim að breytast í digimona. Kanbara Takuya. Takuya er hugrakkur strákur, 10 ára að aldri. Hann er leiðtogi krakkana en er sífelt að rífast við Kouji. Efnið hans er eldur og breytist hann í Agnimon og Vritramon. Minamoto Kouji. Kouji er í upphafi svokallaður félagsskítur. Hann er oft að rífast við Takuya. Kouji er 10 ára og efnið hans er ljós. Hann breytist í Wolfmon og Garmmon. Orimoto Izumi. Izumi (en. Zoe) er eina stelpan í hópnum. Hún er 11 ára gömul og efnið hennar er vindur. Hún getur breyst í Fairymon og Shutumon. Shibayama Junpei. Junpei (en. JP) er lífsglaður strákur með aðeins ofþyngd. Hann er skotinn í Izumi, en hún ekki í hann. Með 12 árum er hann elstur í hópnum og efnið hans er elding. Junpei breytist í Blitzmon og Bolgmon. Himi Tomoki. Tomoki (en. Tommy) er sá yngsti í hópnum og er sífelt að skræla. Hann er einungis 9 ára gamall og breytist í Chakkumon og Blizzarmon. Efnið hans er ís. Bokomon og Neemon. Tveir digimonar, sem fylgja krökkunum sífelt og útskíra þeim hvernig hlutirnir virka í stafræna heiminum. Kimura Kouichi. Kouichi er mjög einmana. Hann elskar móður sína heitt og er reiður á bróðir sínum og föður að skilja þau eftir. Hann ásakar þau fyrir það að móðir hans er óhamingjusöm. Kouichi er 10 ára að aldri og breytist í Löwemon og Kaiser Leomon með efninu myrkur. Þó í upphafi er hann Duskmon. Grottomon. Grottomon er illur digimoni með efninu mold. Hann breytist í Gigasmon. Arbormon. Arbormon er illur digimoni með efninu timbur. Hann breytist í Petaldramon. Ranamon. Ranamon er illur digimoni með efninu vatn. Hún breytist í Calmaramon. Mercuremon. Mercuremon er illur digimoni með efninu málm. Hann breytist í Sefirotmon. Duskmon. Duskmon er illur digimoni með efninu myrkur. Hann breytist í Velgmon, en verður seinna Löwemon. Söguþráður. Nokkrir krakkar komast í stafræna heiminn og finna digisálir hinna tíu forna stríðsmannana, sem leyfa þeim að breytast í digimona. Takuya fær undursamlegt SMS skeyti, sem segir honum að fara til Shibuya, þar sem nokkrar neðanjarðarlestir bíða. Hann kemst á staðinn akkurat þegar þær fara af stað og tekst honum að komast á eina á síðustu sekúndu. Inni hittir hann á fleiri krakka, stelpu, sem heitir Izumi og tvo stráka, Junpei og Tomoki litli. Eftir nokkurn tíma kemur lestin, ásamt krakkana, í stafræna heiminn og breytast þar símar krakkana í D-scanna, tegund digitækja. Lestin, sem er digimoninn Trailmon Worm, hendir þau út þar og segir þeim að finna sálirnar til að komast heim aftur. Tomoki, sem er sá yngsti í hópnum, fer að grenja og hleypir af stað, eltandi teinanna, sem Trailmon hafði komið á. Takuya eltir hann til að róa hann niður. Þá hviknar grænur eldur ekki langt frá þeim og tveir digimonar, Bokomon og Neemon, hlaupa skelfingu lostnir að þeim og fela sig fyrir aftan Takuya. Cerberumon, sem elti þau, ákallar þá um að gefa honum sálina og spýr aftur eld. Þau hlaupa á teinarnar þegar jörðin, er þau stóðu á hverfur með eldinum. Takuya, Tomoki og digimonarnir tveir detta í gilið. Þar byrjar D-scaninn hans Takuya að lýsa og byrtist digisál fyrir framan þeim. Cerberumon, sem sá það stekkur að sálinni til að eignast hana, en verður brenndur af bláum eldi og hendir sér með sára og reiðiöskur til jarðar. Takuya hins vegar kemst að sálinni án þess að brennast og með hjálp sálarinnar breytist hann í Agnimon. Cerberumon, sem er orðinn æfareiður ræðst á Agnimon. Þeir berjast í nokkra stund og sigrar Agnimon andstæðinginn, skannar gögnin hans og breytir hann þar með í digiegg. Örmagna eftir bardaganum breytist Agnimon aftur í Takuya. Myndir. Gerð var ein mynd, sem tengist seríunni. Revival of the Ancient Digimon var frumsýnd 20. júlí 2002. Týdeifur. Týdeifur var í forngrískri goðafræði faðir Díomedesar og maður Deipýlu. Hann var sonur Öynefs og Períböyu, dóttur Hippónúss. Hann var í herliði hinna sjö gegn Þebu en Melenippos drap hann í orrustunni um borgina. Útlegð. Agríos frændi Týdeifs gerði hann útlægan frá Kalydon vegna þess að hann hafði vegið mann. Hann hélt til Argos, þar sem hann kvæntist Deipýlu, dóttur Adrastosar konungs. Konungur féllst á að veita Týdeifu liðveislu svo að hann gæti náð aftur völdum í Kalydon en ákvað að aðstoða fyrst Pólýneikesi að ná aftur völdum í Þebu. Sjö gegn Þebu. Í "Ilíonskviðu", Hómers er nokkrum sinnum vísað til hlutverks Týdeifs í umsátrinu um Þebu. Áður en átökin hófust var Týdeifur sendur til borgarinnar með skilaboð til Kadmea. Hann kom að þeim við veisluhöld í húsi Eteoklesar og skoraði á þá að etja kappi við sig í ýmsum þrautum. Keppnirnar vann hann allar með hjálp Aþenu. Kadmear tóku tapinu sárt og sendu fimmtíu menn á eftir Týdeifi er hann var á leiðinni aftur til hersins. Fyrir þeim fóru Majon og Polýfontes Átofonsson. Týdeifur drap þá alla að Majoni undanskildum því Aþena vildi að honum yrði þyrmt. Í orrustunni um Þebu börðust Týdeifur og Melanippos. Melenippos stakk Týdeif í magann og særði hann til ólífis en Týdeifur drap þó Melenippos og át úr honum heilann. Að svo búnu hætti Aþena við að gera Týdeif ódauðlegan. Majon sá um útför Týdeifs, þakklátur honum fyrir að hafa þyrmt lífi sínu. Diomedes Grammaticus. Diomedes Grammaticus eða Diomedes málfræðingur var rómverskur málfræðingur sem var á dögum á seinni hluta 4. aldar. Málfræðingurinn Priscianus vísar oft til Diomedesar og því hlýtur Diomedes að hafa verið uppi fyrir árið 500. Diomedes samdi rit um málfræði í þremur bindum, sem bar titilinn "Ars grammatica" ("Málfræði", einnig nefnd "De Oratione et Partibus Orationis et Vario Genere Metrorum libri III"), og var hún tileinkuð Aþanasíosi. Þriðja bindið, sem fjallar um skáldskap, er sérstaklega mikilvægt, því þar er m.a. að finna útdrætti úr riti Suetoniusar "De poetica" ("Um skáldskap"). Í bókinni er einn lengsti varðveitti listi yfir tegundir hetjulagskveðskapar í fornöld. Rit Diomedesar er varðveitt í heild (en kann að vera stytt útgáfa). Traktor ársins. Traktor ársins (eða dráttarvél ársins) (enska: "Tractor of the Year") eru evrópsk verðlaun sem veitt eru árlega þeim traktor sem þykir skara fram úr hverju sinni. Gerðin hlýtur nafnbótina „traktor ársins“ til eins árs og eru það 20 evrópskir landbúnaðar-blaðamenn sem velja. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1998. Traktorar ársins. New Holland TM 135 (TM 190 var traktor ársins 2003, T7000 árið 2008 og T7070 AutoCommand 2010) Stjörnuhreyfill. Stjörnuhreyfill er tegund brunahreyfils þar sem stimplarnir ganga hver frá öðrum og strokkarnir mynda stjörnu með sveifarás í miðið. Stjörnuhreyflar voru algengir í flugvélum áður en strókhreyflar (e. "turbojet") tóku við. Fjórgengis stjörnuhreyflar eru algengastir. Andrómeda (grísk goðafræði). Andrómeda (Ἀνδρομέδη, "Andromédē") var stúlka í forngrískri goðafræði. Andrómeda var dóttir Kefeifs, konungs í Eþíópíu, og Kassíepeiu, drottningar. Kassíópeia hafði gortað sig af því að vera fegurri en sædísirnar, dætur Nereifs og uppskar fyrir vikið reiði Póseidons, sem endi ógnvekjandi sæskrímsli að ströndum Eþíópíu. Kefeifur konungur gat einungis sefað reiði guðsins með því að fórna dóttur sinni. Andrómeda var því fjötruð við klett þar sem hún beið þess að verða étin af sæskrímsli en var bjargað af Perseifi, sem kvæntist henni. Andrómakka. Andrómakka (forngríska: Ανδρομαχη) var í grískri goðafræði kona Hektors, dóttir Eetíons og systir Pódesar. Hún ólst upp í borginni Þebu í Kilikíu þar sem faðir hennar var við völd. Nafn hennar merkir „orrusta mans“, frá ανδρος ("andros", „maður“ í eignarfalli) og μαχη ("machē", „orrusta“). Í Trójustríðinu drap Akkilles Hektor. Neoptólemos, sonur Akkillesar, drap barnungan son Andrómökku og Hektors, Astýanax og tók sér Andrómökku sem rekkjunaut og Helenos, bróður Hektors, sem þræl. Andrómakka ól Neoptólemosi soninn Molossos. Þegar Neóptólemos lést giftist Andrómakka Helenosi, bróður Hektors og varð drottning í Epíros. Andrómakka í bókmenntum. Andrómakka er einnig aðalsöguhetjan í harmleiknum "Andromaque" eftir franska leikskáldið Jean Racine (1639–1699). Laertes. Laertes (forngríska: Λαερτιάδης eða Λαέρτης) var í grískri goðafræði sonur Arkeisíosar og Kalkomedúsu. Hann var faðir Ódysseifs og Ktímenu en móðir þeirra var Antíkleia, dóttir Átolýkoss. Laertes var meðal Argóarfaranna og tók þátt í að veiða kalydóníska göltinn. Laertes er sagður konungur Kefallenumanna. Konungdæmið náði yfir Íþöku og nærliggjandi eyjar og ef til vill nærliggjandi sveitir á meginlandinu. Vesturlandskjördæmi. Vesturlandskjördæmi var kjördæmi sem búið var til árið 1959 og náði frá botni Hvalfjarðar í suðri til Gilsfjarðar í norðri. Í kjördæminu voru Mýrasýsla, Borgarfjarðarsýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla og Dalasýsla og fimm þingsæti. Við breytingar á kjördæmaskipan 1999 varð Vesturlandskjördæmi hluti af Norðvesturkjördæmi ásamt Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra utan Siglufjörður sem varð hluti af Norðausturkjördæmi. Ráðherrar af Vesturlandi. Halldór E. Sigurðsson, Friðjón Þórðarson, Alexander Stefánsson, Eiður Guðnason, Ingibjörg Pálmadóttir og Sturla Böðvarsson voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þau sátu á þingi fyrir kjördæmið. Þingmenn Vesturlandskjördæmis. (*)Ingi Björn Albertsson gekk úr Brogaraflokknum á 111. löggjafarþingi og myndaði Frjálslynda hægrimenn, á 112. löggjafarþingi gengu Frjálslyndir hægrimenn í Sjálfstæðisflokkinn. Samdrykkjan (Platon). "Samdrykkjan" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon, en hún var sennilega samin eftir 385 f.Kr.. Umfjöllunarefni samræðunnar er ástin. Parmenídes (Platon). "Parmenídes" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon, sem er nefnd eftir forngríska heimspekingnum Parmenídesi frá Eleu, sem er einn þátttakenda samræðunnar. Samræðan hefur löngum verið talin ein mikilvægasta samræða Platons og er ein þeirra samræðna sem hafði hvað mest áhrif á nýplatonismann. Í samræðunni ræðast við eleíski heimspekingurinn Parmenídes, lærisveinn hans Zenon og Sókrates sem er ungur að árum þegar samræðan á að eiga sér stað. Af því má ráða að samræðan á að eiga sér stað rétt fyrir miðja 5. öld f.Kr. Álenska. Álenska (sænska "Åländska") er sænsk mállýska sem er töluð á Álandseyjum. Lakkes (Platon). "Lakkes" er sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon, sem fjallar um eðli hugrekkis. Í samræðunni leita Lýsimakkos Aristídesarson og Melesías Þúkýdídesarson ráða hjá herforingjunum Lakkesi og Níkíasi um menntun sona sinna. Eftir stutta stund leita þeir ráða hjá Sókratesi. Sókrates kemur sér undan því að svara en spyr þess í stað hvaða tilgangi menntunin eigi að þjóna. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að menntunin eigi að gera drengina dygðuga, ekki síst hugrakka. Sókrates spyr þá Lakkes og Níkías hvað hugrekki sé en megnið af samræðunni er fólgin í leit að skilgreiningu á hugrekki. Á endanum er öllum tillögunum hafnað en gefið er í skyn að tilraunirnar hafi fyrst og fremst mistekist vegna þess að þeir hafi ekki áttað sig á því að hugrekki er aðeins ein birtingarmynd dygðarinnar sem er enn óskilgreind. Kríton (Platon). "Kríton" er stutt en mikilvæg sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Viðfangsefni samræðunnar er siðfræði, stjórnspeki og réttarheimspeki. Í henni ræðast við Sókrates og vinur hans, auðmaðurinn Kríton, um réttlæti, ranglæti og löghlýðni. Samræðan á sér stað árið 399 f.Kr. eftir að Sókrates hafði verið dæmdur sekur fyrir að spilla æskulýð Aþenuborgar og dæmdur til dauða og situr í fangelsi og býður eftir aftökunni. Sókrates telur að það sé ekki ásættanlegt að bregðast við ranglæti með ranglæti og hafnar boði Krítons um að aðstoða hann við að flýja úr haldi. Í samræðunni kemur hugmyndin um samfélagssáttmálann í fyrsta sinn fyrir í vestrænni heimspeki. Jón (Platon). "Jón" er sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Í samræðunni ræðir Sókrates við Jón um hvort kvæðaþulur byggi á hæfni og þekkingu eða guðlegum innblæstri. Ef samræðan "Kleitofon" er ekki eftir Platon, líkt og sumir telja, er "Jón" að öllum líkindum stysta samræða Platons. Þeages (Platon). "Þeages" er sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Í samræðunni ræða þeir Demódókos, Þeages og Sókrates saman. Flestir fræðimenn drega í efa að samræðan sé ósvikin en hún er varðveitt með öðrum samræðum Platons frá fornöld og var þá talin ósvikin. Margir fræðimenn telja að samræðan kunni að hafa verið samin af einhverejum innan Akademíu Platons um miðja 4. öld f.Kr. Reykjaneskjördæmi. Í Reykjaneskjöræmi voru Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Kjördæmið varð til við sameiningu Hafnarfjarðar og Gullbringu- og Kjósarsýslu í eitt kjördæmi 1959. Í kjördæminu voru í upphafi fimm þingmenn, en frá 110. löggjafarþingi voru þingmenn Reykjaness ellefu talsins. 1. þingmaður Reykjaneskjördæmis kom alla tíð úr röðum Sjálfstæðismanna. Við breytingu á kjördæmaskipan árið 1999 var ákveðið að Reykjaneskjördæmi yrði hluti af Suðurkjördæmi, utan Hafnarfjörður sem varð hluti af Suðvesturkjördæmi. Ráðherrar af Reykjanesi. Ólafur Thors, Matthías Á. Mathiesen, Árni M. Mathiesen, Ólafur G. Einarsson, Emil Jónsson, Kjartan Jóhannesson, Steingrímur Hermannsson, Jón Sigurðsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Júlíus Sólnes og Siv Friðleifsdóttir voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þau sátu á þingi fyrir kjördæmið. Þingmenn Reykjanesskjördæmis. (*)Hreggviður Jónsson gekk úr Brogaraflokknum á 111. löggjafarþingi og myndaði Frjálslynda hægrimenn, á 112. löggjafarþingi gengu Frjálslyndir hægrimenn í Sjálfstæðisflokkinn. Fílebos (Platon). "Fílebos" er sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Hún er talin vera með síðustu verkum Platons, samin um 350 f.Kr. Meginumfjöllunarefnið er ánægja og gildi hennar. Evþýdemos (Platon). "Evtþýdemos" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon, samin um 380 f.Kr. Samræðan er háðsádeila á rökbrellur fræðaranna. Tímajos (Platon). "Tímajos" eða "Tímaíos" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon, samin um 360 f.Kr. Megnið af samræðunni er löng ræða sem Tímajos frá Lókrí flytur en meginumfjöllunarefnið er eðli efnisheimsins. Í "Tímajosi" kemur sagan um Atlantis fyrir í fyrsta sinn. Samræðan "Krítías" er framhald af "Tímajosi". Menon (Platon). "Menon" eða "Menón" er sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Meginumfjöllunarefnið er eðli dygðarinnar en markmið samræðunnar er að finna skilgreiningu á dygð sem slíkri. Í samræðunni setur Platon fram upprifjunarkenninguna svonefndu, sem kveður á um að allt nám sé upprifjun þekkingar sem sálin býr yfir. Samræðan er venjulega talin hafa verið samin undan "Fædoni", "Ríkinu" og "Samdrykkjunni". Prótagóras (Platon). "Prótagóras" er mikilvæg sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Megnumfjöllunarefnið er hvort hægt sé að kenna mönnum að vera dygðugir. Samræðan á sér stað heima hjá Kallíasi í Aþenu og þangað eru saman komnir allir helstu fræðararnir. Krítías (Platon). "Krítías" er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Hún er framhald af samræðunni "Tímajosi" og fjallar um söguna um Atlantis og tilraun Atlantisbúa til þess að leggja undir sig Aþenu. Tilraunin fór út um þúfur vegna dygðar Aþeninga og spillingar Atlantisbúa. "Krítías" er önnur í röð þriggja samræðna, á eftir "Tímajosi" og á undan "Hermókratesi", sem var áætluð en aldrei skrifuð. "Krítías" er sjálf ókláruð. Kleitofon (Platon). "Kleitofon" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni en fræðimenn eru ekki á einu máli um hvort samræðan er ósvikin eða ekki. Samræðan er afar stutt og kann að vera ókláruð. Vallarrýgresi. Vallarrýgresi eða enskt rýgresi (fræðiheiti: "Lolium perenne") er fjölær tegund af ættkvísl rýgresis. Upprunalega fannst hún í Evrópu, Asíu og Norður-Afríku. Þaðan hefur tegundin borist víðar, enda afar vinsæl fóðurjurt í N- og S-Ameríku, í Evrópu, á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu. Greiningareinkenni. Vallarrýgresi nær allt að 90 sm hæð, hefur öflugt rótarkerfi og afar löng, dökkgræn blöð. Þau eru flöt og glansandi á neðra borði. Slíðurhimnan er 0,5-2,0 mm á lengd. Blómskipun rýgresis nefnist ax og það getur náð allt að 30 sm lengd. Hvert smáax er oftast með 3-10 blómum. Notkun. Vallarrýgresi er frekar ný tegund í túnrækt á Íslandi. Sökum lítils vetrarþols kelur stór hluti þess yfir veturinn. Öflugt kynbótastarf hefur þó skilað harðgerðari yrkjum er henta betur til ræktunar hérlendis. Það hefur gott beitarþol, getur gefið mikla uppskeru sem er um leið auðmelt og næringarrík. Meltanleiki er meiri en hjá öðrum grösum og hentar grasið því vel kúm í hárri nyt, sem og öðrum skepnum í hröðum vexti. Vallarsveifgras. Vallarsveifgras (fræðiheiti: "Poa pratensis") er ein af mörgum tegundum sveifgrasa ("Poa") sem finna má í heiminum. Á Íslandi vex tegundin villt en er einnig notuð til túnræktar, í íþróttavelli og í grasflatir. Greiningareinkenni. Vallarsveifgras er fremur lágvaxin tegund, hún er oftast 30-50 sm á hæð. Tegundin tilheyrir puntgrösum og er puntur vallarsveifgrass keilulaga, þar sem neðstu greinar puntsins eru lengstar. Hvert smáax hefur 3-5 blóm. Axagnirnar eru oftast fjólubláar. Blöð plöntunnar eru fremur breið (3-5 mm), flöt og enda í totu, líkt og bátsstefni. Það er gott greiningareinkenni sveifgrasa. Vallarsveifgras myndar öflugar neðanjarðarrenglur og fjölgar sér gjarnan þannig. Notkun. Vallarsveifgras hefur í ríkum mæli verið notað til túnræktar, þó notkun þess hefur eilítið minnkað síðustu árin. Það gefur þokkalega uppskeru og gefur góðan endurvöxt. Fóðrið er lystugt, næringar- og steinefnaríkt. Því er gjarnan sáð í blöndu með vallarfoxgrasi. Það er einnig töluvert notað í íþróttavelli og grasflatir vegna þess hvað það þolir traðk vel. Túnvingull. Túnvingull (fræðiheiti: "Festuca rubra" eða "Festuca richardsonii") er grastegund sem finnst villt á Íslandi, sem og beggja vegna Atlantshafs. Greiningareinkenni. Túnvingull er puntgras sem nær 40-80 sm hæð. Punturinn hefur yfirleitt fáar greinar sem bera stór smáöx (5-8 blóm). Þau eru gjarnan loðin og raða sér oftast upp öðru megin við stöngulinn, þannig að punturinn er afar grannur. Hann er ýmist gráleitur eða brúnn á litinn. Blöð túnvinguls eru mjó (0,5-1 mm) og er hann duglegur að mynda þéttvaxna hliðarsprota. Notkun. Túnvingli var sáð í tún fyrr á árum, en því er nú hætt að mestu, sökum þess að hann er frekar léleg fóðurplanta. Í dag er tegundin aðallega notuð til landgræðslu, enda afar þurrkþolin og hentar þar af leiðandi vel í sandjarðvegi. Latneskt heiti. Latneskt heiti túnvinguls er "Festuca rubra" sé það ræktað upp af fræi, en sé það villt, t.d. í íslenskri náttúru, heitir það "Festuca richardsonii". Blindsker (heimildarmynd). "Blindsker" er heimildarmynd um líf söngvarans Bubba Morthens. Dansinn. "Dansinn" er kvikmynd eftir Ágúst Guðmundsson byggð á smásögunni Her skal danses eftir William Heinesen. Draumadísir. "Draumadísir" er kvikmynd leikstýrð og skrifuð af Ásdísi Thoroddsen. Einkalíf. Einkalíf er kvikmynd eftir Þráin Bertelsson. Fíaskó. "Fíaskó" var fyrsta kvikmynd Ragnars Bragasonar. Hún skiptist í þrjá kafla og fjallar um þrjár kynslóðir í sömu fjölskyldu sem búa undir sama þaki í miðbæ Reykjavíkur. Fyrsti hlutinn fjallar um ellilífeyrisþegan Karl Barðdal Róbert Arnfinnsson sem gerir hosur sínar grænar fyrir heldri frú Kristbjörg Kjeld sem þjáist af Alzheimers. Miðkaflinn fjallar um Júlíu Barðdal Silja Hauksdóttir, unga konu sem lifir í óvissu um hver barnsfaðir sinn sé. Þriðji og síðasti hlutinn fjallar um Steingerði Barðdal og samband hennar við predikara Eggert Þorleifsson sem er í alvarlegum ógöngum. Kvikmyndin hlaut verðlaun dómnefndar á Kvikmyndahátíðinni í Kairó árið 2001. Foxtrot (kvikmynd). "Foxtrot" er kvikmynd eftir Karl Óskarsson og Jón Tryggvason um færslu hárra peningafjárhæða yfir Ísland og vandræðin sem verða í kjölfarið af því. Entertainment Software Association. Entertainment Software Association (ESA) eru tölvuleikjasamtök í Bandaríkjunum. Þau voru stofnuð í apríl 1994 sem Interactive Digital Software Association (IDSA) og voru endurskírð í ESA 16. júlí 2003. Neytendasamtökin. Neytendasamtökin eru íslensk frjáls félagasamtök neytenda. Hlutverk þeirra er að vernda hagsmuni íslenskra neytenda með því að framkvæma verð- og þjónustukannanir og birta niðurstöður sínar í fjölmiðlum. Félagsmenn teljast um 10.600 talsins. Samtökin halda úti skrifstofu í Reykjavík og á Akureyri. Neytendasamtökin voru stofnuð árið 1953 og eru þar með þriðju elstu samtök sinnar tegundar í heiminum. Á vegum samtakanna koma út fjögur tölublöð Neytendablaðsins á ári. Þau gefa sömuleiðis út útgáfurit um ýmiss málefni sem neytendur varða. Félagsmenn fá einnig aðgang að læstri heimasíðu samtakanna þar sem ýmsar upplýsingar standa til boða og þeim er boðin lögfræðiþjónusta. Skipulag. Formaður stjórnar er Jóhannes Gunnarsson og varaformaður er Þóra Guðmundsdóttir Saga. Neytendasamtökin voru stofnuð að frumkvæði Sveins Gunnars Ásgeirssonar lögfræðings 26. janúar 1953. Eitt fyrsta málið sem laut að samtökunum var "Hvile-Vask málið" sem snerist um auglýsingu á dönsku „undra“ þvottaefni. Efnafræðingar á vegum samtakanna efnagreindu þvottaefnið og komust að þeirri niðurstöðu að það væri á engann hátt frábrugðið öðrum að því undanskildu að magn bleikiefnis var meira en í öðrum þvottaefnum. Samtökin sendu því frá sér fréttatilkynningu þar að lútandi og var í kjölfarið stefnt af innflytjanda þvottaefnisins. Neytendasamtökin töpuðu málinu fyrir sjó- og verslunardómi vorið 1957 en áfrýjuðu til hæstarétts og unnu málið 1959. Gemsar. "Gemsar" er kvikmynd um unglingavinahóp í Reykjavík. Leikstjóri og höfundur handrits var Mikael Torfason. Hvítir mávar. Hvítir mávar er kvikmynd frá árinu 1985. Ingaló. left "Ingaló" er kvikmynd eftir Ásdísi Thoroddsen frá 1992. Evþýfron (Platon). "Evþýfron" eða "Evþýfrón" er sókratísk samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Hún er almennt talin hafa verið samin snemma á ferli Platons. Samræðan, sem er nefnd eftir viðmælanda Sókratesar Evþýfroni, á sér stað á götu úti í Aþenu skömmu fyrir réttarhöldin yfir Sókratesi árið 399 f.Kr. Hún fjallar um guðrækni, sem Sókrates biður Evþýfron að skilgreina fyrir sig en samræðunni lýkur án þess að niðurstaða hafi fengist. Fræðarinn (Platon). "Fræðarinn" eða "Sófistinn" (forngríska: Σοφιστής) er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Samræðan er almennt talin hafa verið samin seint á ferli Platons, seinna en "Parmenídes" og "Þeætetos" en um svipað leyti og "Stjórnvitringurinn", að öllum líkindum eftir 360 f.Kr. Þeætetos (Platon). "Þeætetos" (stundum skrifað "Þeaítetos", forngríska: Θεαιτητος) er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Hún er almennt talin hafa verið samin eftir miðjan feril Platons (þ.e. eftir samræður á borð við "Fædon", "Fædros", "Samdrykkjuna" og "Ríkið") en á svipuðum tíma og "Parmenídes". Í samræðunni, sem fjallar um þekkingarfræði, er leitað að skilgreiningu á þekkingu. Samræðunni lýkur án þess að endanleg niðurstaða hafi fengist. Fædon (Platon). "Fædon" (stundum skrifað "Faídon") er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Samræðan er talin vera samin á miðjum ferli Platons, á eftir samræðum á borð við "Evþýfroni", "Gorgíasi" og "Menoni" en á undan samræðum eins og "Ríkinu" og "Samdrykkjunni". Samræðan gerist í fangelsi í Aþenu árið 399 f.Kr. þar sem Sókrates bíður þess að vera tekinn af lífi. Samræðan lýsir síðustu stundum í lífi Sókratesar. Megnið af samræðunni lýsir samræðum hans við félaga sína um ódauðleika sálarinnar. Í samræðunni koma fyrir ýmis pýþagórísk stef. Þá lýsir samræðan aftökunni og dauða Sókratesar. Málsvörn Sókratesar (Platon). "Málsvörn Sókratesar" eða "Varnarræða Sókratesar" er ritverk eftir forngríska heimspekinginn Platon. "Málsvörnin" er skálduð varnarræða Sókratesar fyrir réttinum árið 399 f.Kr. Hún er stundum talin vera fyrsta rit Platons af þeim sem varðveitt eru en nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé samin snemma á ferli Platons, innan fárra ára eftir réttarhöldin. Verkið kom út á íslensku árið 1973 í þýðingu Sigurðar Nordals í bókinni "Síðustu dagar Sókratesar" en hafði áður komið út í þýðingu Jón Gíslasonar og hét þá "Varnarræða Sókratesar". Xenofon, sem einnig ritaði Málsvörn Sókratesar, bendir á að fjöldi höfunda hafi skrifað verk Sókratesi til varnar. Málsvörn Sókratesar eftir Platon er almennt álitin besta heimildin um Sókrates en deilt er um hversu mikinn hluta Sókrates á í henni. Bent er á að ritið skeri sig um margt frá öðrum ritum Platons en á móti kemur að ekki hefur hún verið skrifuð upp orðrétt eftir minni, enda þótt textinn sé nánast allur í fyrstu persónu og settur fram eins og um ræðu Sókratesar við réttarhöldin sé að ræða og Sókrates nefnir í tvígang að Platon sé viðstaddur (34a og 38b). Ákærurnar á hendur Sókratesi tengdust miklum breytingum sem urðu á samfélagi Aþeninga sem varð mun herskárra en áður hafði verið, en hann var dæmdur til dauða fyrir að spilla æskulýðnum og trúa ekki á guðina en boða villutrú. Inngangur. Sókrates hefur mál sitt á því að lýsa yfir að honum sé ekki kunnugt hvort Aþeningar hafi þegar látið ákærendur sannfæra sig um sekt hans. Þau orð eru mikilvæg og segja fyrir um hvert þema ræðunnar verður, enda er algengt í verkum Platons að í upphafi sé sett fram meginhugmynd verksins. Þessi játning á þekkingarleysi gefur til kynna að heimspekin sem sett er fram í textanum feli í sér að játa fáfræði sína, enda sprettur öll þekking hans af því að vita ekkert: „Ég veit aðeins að ég veit ekki neitt“. Sókrates biður kviðdóminn að dæma sig ekki eftir mælskusnilld sinni heldur af sannleikanum sem hún leiðir fram. Ræðan sem lesandinn les dugði ekki til að sannfæra dóminn, Sókrates var dæmdur til dauða en hann hefur verið dáður fyrir æðruleysi sitt andspænis dauðanum. Kratýlos (Platon). "Kratýlos" (forngríska: Κρατυλος) er samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Í samræðunni ræða þeir Sókrates, Kratýlos og Hermógenes um eðli tungumálsins. Meginspurningin er sú hvort nöfn vísi til þess sem þau standa fyrir einungis í krafti samkomulags um orðanotkun eða hvort þau hafi einhver náttúruleg tengsl við það sem þau standa fyrir. "Kratýlos" er ein fyrsta tilraunin í vestrnni heimspeki til þess að fjalla um málspeki, málvísindi og orðsifjafræði. Alkibíades I (Platon). "Alkibíades fyrri" eða "Alkibíades I" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Í samræðunni ræðir Sókrates við Alkibíades um gagnsemi heimspekinnar. Í fornöld ar "Alkibíades fyrri" vinsæl samræða og talin besti inngangurinn að platonskri heimspeki. Yfirlit. Mynd af papýrus-broti sem sýnir "Alkibíades I", 131C-E. Í "Alkibíadesi fyrri" lýsir Sókrates ást sinni á Alkibíadesi í stuttum formála en ræðir svo allar helstu ástæður þess að Alkibíades þarfnast hans. Tilraunir Sókratesar til þess að lokka Alkibíades frá stjórnmálum yfir í heimspeki takast ekki en heilla þó Alkibíades. Ósvikin samræða? Í fornöld var aldrei dregið í efa að "Alkibíades fyrri" væri réttilega eignuð Platoni. Árið 1836 lýsti þýski fræðimaðurinn Friedrich Schleiermacher því yfir að samræðan væri ranglega eignuð Platoni. Í kjölfarið dvínuðu vinsældir hennar. Stílfræðilegar rannsóknir benda hins vegar til þess að samræðan sé ósvikin, og sumir fræðimenn hafa haldið því fram að Platon hafi raunverulega samið hana. Ritunartími. "Alkibíades fyrri" er venjulega talin hafa verið rituð snemma á ferli Platons. Sumir fræðimenn hafa þó haldið því fram að samræðan hafi verið samin mun seinna, ef til vill á 5. áratug 4. aldar f.Kr. Alkibíades II (Platon). "Alkibíades síðari" eða "Alkibíades II" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Fræðimenn eru flestir sammála um að samræðan sé ekki ósvikin, þótt hún hafi varðveist með ritum Platons frá fornöld og hafi þá verið talin ósvikin. Í samræðunni ræða saman Sókrates og Alkibíades. Lögin (Platon). "Lögin" eru samræða eftir forngríska heimspekinginn Platon. Samræðan er bæði sú lengsta og sú síðasta sem Platon samdi. Hún er frábrugðin öðrum samræðum Platons að því leyti að í henni kemur Sókrates alls ekki fyrir. Mínos (Platon). "Mínos" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Margir fræðimenn telja að samræðan sé ekki ósvikin en sé eftir sama höfund og samræðan "Hipparkos". Samræðan fjallar um réttarheimspeki og hefst á spurningunni „Hvað eru lög?“. Þá hefst heimspekileg rannsókn á eðli laga. Epinomis. "Epinomis" (orðrétt „eftir lögin“) er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Flestir fræðimenn telja að samræðan sé ekki ósvikin. Titill samræðunnar er dreginn af því að í fornöld var hún álitin eins konar viðauki við "Lögin". Í samræðunni ræða saman aþenskur aðkomumaður, Kleinías frá Krít og Megillos frá Lakedæmoníu. Umræðunum frá "Lögunum" er haldið áfram en nú er meginviðfangsefnið viskan. Í samræðunni eru útúrdúrar er varða stjörnufræði og stærðfræði. Elskendurnir (Platon). "Elskendurnir" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Hún er almennt ekki talin vera ósvikin. Demodókos (samræða). "Demodókos" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Halkýon (samræða). "Halkýon" er stutt samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Í samræðunni segir Sókrates Kærefóni vini sínum söguna um Halkýon, konu sem breyttist í fugl. Eryxías (samræða). "Eryxías" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Samræðan fjallar um það hvort raunverulegt ríkidæmi felst í veraldlegum eignum eða viskunni. Í samræðunni vakna einnig spurningar um eðli heimspekilegrar samræðu. Axíokkos. "Axíokkos" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Í samræðunni veitir Sókrates Axíokkosi huggun er hann liggur fyrir dauðanum. Sísýfos (samræða). "Sísýfos" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Samræðan fjallar um muninn á hugleiðingu og rannsókn. Um réttlæti (samræða). "Um réttlæti" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Um dygðina (samræða). "Um dygðina" er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Þegar í fornöld var dregið í efa að hún væri ósvikin og nær allir fræðimenn eru sammála um að hún sé ekki eftir Platon. Samræðan fjallar um hvernig menn geta orðið dygðugir. Nokkrir kaflar eru afritaðir úr samræðunni "Menoni". Skilgreiningar (Platon). "Skilgreiningar" er eins konar heimspekileg orðabók sem er varðveitt með verkum forngríska heimspekingsins Platons. Flestir fræðimenn eru sammála um að "Skilgreiningarnar" séu ekki eftir Platon en þær gætu hafa verið teknar saman af einhverjum innan Akademíunnar. Eftirmæli (Platon). Eftirmæli eru 18 stutt kvæði (undir elegískum hætti) sem eru eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Einhver þeirra gætu verið eftir Platon en fornar heimildir greina frá því að hann hafi samið harmleiki áður en hann hóf að rita um heimspeki. Þegar Platon kynntist Sókratesi á hann aftur á móti að hafa brennt alla harmleiki sína. Brotin eru varðveitt hjá mörgum fornum höfundum sem eigna þau Platoni, þ.á m. hjá Díogenesi Laertíosi sem varðveitir fyrstu tíu brotin. Bréf (Platon). Þrettán bréf voru eignuð forngríska heimspekingnum Platoni í fornöld. Fræðimenn deila um hver bréfanna eru ósvikin ef einhver, en flest bréfin hafa átt sér einhverja stuðningsmenn. 7. bréfið, sem er lengsta og mikilvægasta bréfið, inniheldur stutta sjálfsævisögu Platons (ef það er ósvikið). Yfirlit. Bréfin eru tölusett samkvæmt röð þeirra í handritunum. Fjögur þeirra eru skrifuð til Díonýsíosar II (fyrsta, annað, þriðja og þrettánda bréfið), fjögur eru skrifuð til frænda Díonýsíosar, Díons og félaga hans (fjórða, sjöunda, áttunda og tíunda bréfið) og fimm þeirra eru skrifuð til ýmissa annarra manna. fyrsta bréfið. "Fyrsta bréfið" er skrifað Díonýsíosi í Sýrakúsu og er líklega forn fölsun. Í bréfinu kvartar Platon yfir dónalegri framkomu Díonýsíosar í sinn garð og spáir honum illu gengi. Bréfið er athyglisvert vegna fjölda tilvitnana í ýmis harmleikjaskáld. Annað bréfið. "Annað bréfið" er skrifað Díonýsíosi í Sýrakúsu og er svar við kvörtun hans við Platon og félaga hans um að þeir hefðu rægt Díonýsíos. Í bréfinu er ásökuninni vísað á bug og því er haldið fram að enginn breiði út róg um Díonýsíos. Þá er Díonýsíosi ráðlagt að bæta orðspor sitt með því að sættast við Platon enda séu samskipti stjórnmálamanna og vitringa síglt umfjöllunarefni sagna. Þá er skipt um umræðuefni og Platon varar Díonýsíos við því að skrifa niður kenningar sínar og biður hann enn fremur um að brenna bréfið þegar hann hefur lesið það og lagt efni þess á minnið. Í bréfinu er að finna fræga tilvitnun um að „engin rit Platons séu til né muni nokkurn tímann verða til, en þau sem honum eru nú eignuð tilheyri Sókratesi ungum og fögrum á ný (καλός καί νέος).“ Sumir fræðimenn telja að "Annað bréfið" sé forn fölsun, aðallega vegna ósamkvæmni milli þess og "Sjöunda bréfsins". Þriðja bréfið. "Þriðja bréfið" skrifað Díonýsíosi í Sýrakúsu. Í bréfinu kvartar Platon yfir því að Díonýsíos rægi sig og segi að Platon beri ábyrgð á klúðri í stjórn Sýrakúsu. Í bréfinu er greinargerð fyrir athöfnum Platons í Sýrakúsu. Fjórða bréfið. "Fjórða bréfið" er skrifað Díoni harðstjóra, frænda Díonýsíosar II. Í bréfinu hvetur Platon Díon til dáða en minnir hann á að gleyma ekki dygðinni. Fimmta bréfið. "Fimmta bréfið" er skrifað Perdikkasi III frá Makedóníu og réðleggur honum að hlýða á ráð Evfræosar. Þá ver Platon ákvörðun sína um að halda sig frá stjórnmálum. Flestir fræðimenn telja að bréfið sé forn fölsun. Sjötta bréfið. "Sjötta bréfið" er skrifað Hermíasi, harðstjóra í Atarnevs og Erastosi og Koriskosi, tveimur nemendum Platons sem bjuggu í Skepsis (bæ skammt frá Atarnevs). Platon ráðleggur þeim að vingast. Í bréfinu kemur fram að Platon hafi aldrei heitt Hermías, andstætt því sem fram kemur í ævisögu Hermíasar eftir Strabon. Bréfinu svipar um sumt til "Annars bréfsins" til dæmis um gildi þess að sameina völd og visku. Sjöunda bréfið. "Sjöunda bréfið" er skrifað samstarfsmönnum og kunningjum Díons, líklega eftir að hann var ráðinn af dögum árið 353 f.Kr. Það er lengst allra bréfanna og er almennt talið mikilvægast þeirra. Í bréfinu ver Platon stjórnmálaathafnir sínar í Sýrakúsu en í bréfinu er langur útúrdúr um eðli heimspekinnar, frummyndakenninguna og ýmis vandamál sem koma upp í kennslu. Áttunda bréfið. "Áttunda bréfið" er skrifað samstarfsmönnum og kunningjum Díons, að öllum líkindum nokkrum mánuðum eftir að "Sjöunda bréfið" var skrifað. Í bréfinu hvetur Platon fylkingar Díons annars vegar og Díonýsíosar II hins vegar að ná sáttum. Hin fyrrnefnda barðist fyrir lýðræði en sú síðarnefnda fyrir einræði. Málamiðlunin sem mælt er með er stjórnarskrárbundin konungsstjórn. Níunda bréfið. "Níunda bréfið" er skrifað Arkýtasi. Flestir fræðimenn telja að það sé ekki ósikið, þótt Cicero vitni um að Platon hafi verið höfundur bréfsins. Tíunda bréfið. "Tíunda bréfið" er skrifað Aristódórosi, sem ekki er vitað hver var. Honum er hrósað fyrir hollustu sína við Díon, líklega meðan sá síðarnefndi var í útlegð. Siðfræðin sem fram kemur í bréfinu þykir um flest ólík þeirri siðfræði sem er að finna í ritum Platons og flestir fræðimenn telja að það sé forn fölsun. Ellefta bréfið. "Ellefta bréfið" er skrifað Laódamasi, sem virðist hafa beið Platon um aðstoð við að semja lög fyrir nýstofnaða nýlendu. Í bréfinu er vísað til Sókraesar, sem þó getur ekki hafa verið aþenski heimspekingurinn Sókrates sem lést 399 f.Kr. Tólfta bréfið. "Tólfta bréfið" er skrifað Arkýtasi. Það er mjög stutt (aðeins lengra en "Tíunda bréfið") og er almennt talið vera forn fölsun. Platon þakkar Arkýtasi fyrir að senda sér ritgerðir sem eru síðan lofaðar hástert. Díogenes Laertíos varðveitir bréfið í ævisögu Platons og einnig bréfið frá Arkýtasi sem á að hafa farið á undan. Þréttánda bréfið. "Þrettánda bréfið" er skrifað Díonýsíosi II í Sýrakúsu. Sumir fræðimenn telja að bréfið sé forn fölsun. Rokk. Rokk er tegund af vinsælli tónlist sem er oftast spiluð á rafmagnsgítara, bassa og trommur. Í mörgum tegundum rokktónlistar er oft notað píanó og hljómborð. Þjóðleikhúsið. Þjóðleikhúsið er leikhús í Reykjavík sem var vígt árið 1950. Leikhúsið hefur því starfað í meira en hálfa öld og hafa um fjórar milljónir áhorfenda farið á sýningar þess frá upphafi. Leikhúsið er rekið að einum fjórða hluta með sjálfsaflafé en þrem fjórðu hlutum með framlagi af fjárlögum. Aðdragandi. Árið 1873, þegar þjóðerniskennd Íslendinga fór sífellt vaxandi, varpaði Indriði Einarsson fyrst fram hugmyndum um byggingu Þjóðleikhúss í símskeyti til Sigurðar Guðmundssonar málara. Indriði greindi svo formlega frá hugmyndum sínum í tímaritinu Skírni árið 1905. Árið 1922 komu fram hugmyndir um að skemmtanaskattur skyldi renna til byggingar þjóðleikhúss. Þær hugmyndir voru lögfestar ári síðar. 1925 skilaði byggingarnefnd af sér fyrstu teikningum. Guðjón Samúelsson hannaði bygginguna. Húsið reist. Árið 1929 var grunnur hússins tekinn og næstu tvö ár risu útveggir þessa nýja leikhúss. 1932 hættu stjórnvöld að láta skemmtanaskatt renna til leikhússins og stöðvuðust framkvæmdir því til ársins 1941. Eftir það stóðu framkvæmdir svo ekki lengi því sama ár var leikhúsið hernumið af breska hernum sem notaði húsið sem hergagnageymslu. Íslensk stjórnvöld brugðu síðan á sama ráð og voru nokkur ráðuneyti með skjalageymslur þar sem í dag eru rafmagnstöflur fyrir stóra sviðið. Eftir að Bretar yfirgáfu húsið var unnið hörðum höndum að því að breyta því í leikhús og var Þjóðleikhúsið formlega vígt þann 20. apríl árið 1950. Breytingar á húsnæði. Í upphafi var aðeins eitt leiksvið, stóra sviðið, sem er útbúið snúningssviði sem enn er notað í dag í nánast óbreyttri mynd. Grunnur hringsviðsins er smíðaður úr járni úr gömlu Ölfusárbrúnni sem hrundi 1944. Í stóra salnum voru tvennar svalir auk hliðarstúka. Árið 1968 var byggt við húsið til austurs og það húsnæði nýtt sem smíðaverkstæði. Á sjöunda áratugnum var opnað minna svið, fyrst í húsnæði við Lindargötu 9, síðan var það flutt yfir í Leikhúskjallarann og loks yfir í húsnæði leikhússins í kjallara Lindargötu 7 Íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar. Árið 1990 voru aðrar svalirnar fjarlægðar og halli aukinn í salnum. Þessum framkvæmdum lauk ári síðar. Um svipað leyti var smíðaverkstæðinu breytt í leikhús. Á árunum 2006 til 2007 var ráðist í viðgerðir á þaki og ytra byrði hússins. Árið 2006 var opnað nýtt svið, Kassinn, á efri hæð hússins við Lindargötu 7 og skömmu síðar var hætt að nota smíðaverkstæðið sem leikhús. Í dag eru starfrækt þrjú leiksvið í Þjóðleikhúsinu, stóra sviðið sem tekur 445 til 499 manns í sæti, Kassinn með um 140 sæti, og Kúlan sem tekur um 100 manns í sæti. Draugagangur. Í turninum, upphækkuninni yfir Stóra sviðinu, eru göngubrýr til að auðvelda starfsmönnum að athafna sig við ljósavinnu o.fl. Í brúnum er sagt að breskur hermaður hafi slasast á hernámsárunum og að hann gangi aftur og geri blásaklausum ríkisstarfsmönnum lífið leitt. En í húsinu eru líka margir ranghalar og dimm herbergi þar sem furðulegir hlutir geta átt sér stað og telja starfsmenn lítinn vafa á því að allmargir leikhúsdraugar hafi aðsetur í Þjóðleikhúsinu. Franzl Lang. Franzl Lang var (fæddur "Franz Lang" þann 28. desember, 1930, í München, Þýskalandi), var þekktur í Þýskalandi sem „Jodlerkönig“ (jóðlkonungurinn). Hann er frægur jóðlari frá Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands. Franz syngur og spilar einnig á gítar og harmonikku. Hann hefur gefið út allnokkrar bækur um listina að jóðla. Lang er álitinn besti Alpajóðlari í heiminum; hann er allavega sá söluhæsti. Tónlistarstefna Langs er þýsk þjóðdansatónlist; Hann syngur oftast á bæversku. Hann notar jóðl á einhverjum tíma í hverju lagi. Hann er nú hættur störfum sem flytjandi, en tekur einstöku sinnum upp. Hann ólst upp í München, og lærði til verkfærasmiðs. Hann byrjaði að spila á harmonikkuna á níunda aldursári. Fyrsti stóri smellurinn hans var lagið „Kufsteinlied“ árið 1968. Á 8. áratugnum kom hann stundum fram í tónlistarþáttum í sjónvarpinu í Vestur-Þýskalandi, sérstaklega þættinum Lustige Musikanten á ZDF. Lang hefur selt meira en 10 milljónir platna. Hann hefur fengið 20 gullplötur og eina platínuplötu í Þýskalandi. Margrét Sverrisdóttir. Margrét Kristjana Sverrisdóttir (fædd í Reykjavík 8. september 1958) er meðlimur í Samfylkingunni. Ætt. Faðir Margrétar er Sverrir Hermannsson, fyrrum ráðherra og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, og síðar Frjálslynda flokksins, sem hann stofnaði. Móðir hennar er Gréta Lind Kristjánsdóttir. Margrét er gift Pétri S. Hilmarssyni og eiga þau tvö börn, Kristján Sævald (f. 1987) og Eddu (f. 1989). Menntun. Margrét er stúdent frá MR 1979 og lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1983, auk B.A. prófs í íslensku frá Háskóla Íslands. Starfsferill og félagsstörf. Margrét starfaði lengi við uppeldis- og umönnunarmál, meðal annars sem starfsmaður og síðar forstöðumaður félagsmiðstöðvanna Fellahellis og Vitans, og sat í stjórn Samtaka félagsmiðstöðva 1988-1993. Frá 1982 -1992 vann hún sem sjálfboðaliði að málefnum þroskaheftra og 1993-1998 var hún verkefnisstjóri menningarverkefnisins Ungt fólk í Evrópu. Margrét tók sæti í framkvæmdastjórn Kvenréttindafélags Íslands árið 2000, varð varaformaður félagsins árið 2003 og tók við formennsku í apríl 2008. Frá 2003 hefur hún verið formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins. Stjórnmálastarf. Árið 1998 varð Margrét framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins og varaþingmaður Reykjavíkur. Auk þess varð hún varaborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík í kosningum 2002 og aftur 2006. Hún hefur setið í borgarstjórn í forföllum Ólafs F. Magnússonar frá ársbyrjun 2007 og var kjörin forseti borgarstjórnar í Reykjavík 16. október 2007 er nýr meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar, VG og F-listans tók við völdum. Frá 1999-2002 sat hún í "Ráðherraskipaðri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum" og hefur verið fulltrúi í stjórnarnefnd Landspítala-Háskólasjúkrahúss síðan 2003. Átökin um Frjálslynda flokkinn. Í aðdraganda landsfundar Frjálslynda flokksins 2007 fór Margrét í launað leyfi frá störfum sem framkvæmdastjóri þingflokksins þann 18. desember 2006. Þingflokkurinn sagði að það væri til þess að hún gæti einbeitt sér að mögulegu framboði sínu á landsfundinum, en Margrét áleit að verið væri að halda henni í skefjum, fyrir áhrif félaga úr Nýju afli, sem nýlega voru gengnir í flokkinn. Bauð hún sig fram til varaformanns, gegn sitjandi varaformanni Magnúsi Þ. Hafsteinssyni, en tapaði kosningunni eftir harða baráttu og mikla kosningasmölun af beggja hálfu, laugardaginn 27. janúar. Á mánudegi, 29. janúar gaf hún út yfirlýsingu þess efnis að í „ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru... á landsþingi flokksins [væri] ljóst [að hún teldi sér] ekki fært að starfa lengur innan vébanda hans.“ () Margrét gekk að því búnu úr flokknum ásamt hópi stuðningsmanna. Íslandshreyfingin. Margrét og stuðningsmenn hennar réðu ráðum sínum og tilkynntu loks að þau hygðust stofna nýtt framboð, umhverfisverndarsinnað en hægra megin við miðju, fyrir kosningarnar 12. maí. Margrét er varaformaður, en meðal annarra forystumanna þess voru Ómar Ragnarsson (formaður), Ósk Vilhjálmsdóttir og Jakob Frímann Magnússon. Sverrir faðir Margrétar tók heiðurssæti á einum listanum. Þann 23. mars 2007 var haldinn blaðamannafundur þar sem framboðið var kynnt. Í næstu skoðanakönnun leit út fyrir að framboðið næði að fá kjörna þingmenn, en í næstu skoðanakönnunum eftir það fór fylgið að dala. Þann 1. maí var framboðið með minna en lágmarksfylgi, þegar innan við tvær vikur voru til kosninga. Úr minnihluta í meirihluta. Margrét sat í borgarstjórn sem óháður varamaður Ólafs F. Magnússonar frá febrúar 2007. Eftir heitar deilur um Orkuveitu Reykjavíkur í október 2007, tók hún þátt í því, ásamt öðrum sem myndað höfðu minnihluta, að efna til nýs meirihlutasamstarfs, þann 11. október, með Framsóknarflokknum, Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Varð af, að hún yrði forseti borgarstjórnar Reykjavíkur í nokkrar vikur árið 2007. Í ársbyrjun 2008 rauf Ólafur, aðalmaður F-listans, meirihlutann og myndaði nýjan með Sjálfstæðisflokki. Margrét og fleiri sögðust ekki styðja hann í þeirri ákvörðun, en nýi meirihlutinn hélt þó velli með tæpan meirihluta uns Sjálfstæðismenn rufu hann í ágúst 2008 og mynduðu nýjan með Framsóknarflokki. Puntgrös. Puntgrös eru einn þriggja flokka grasa en hinir eru axgrös og axpuntgrös. Hjá puntgrösum sitja smáöxin á greinilegum leggjum sem standa í gisnum klasa. Dæmi um algeng íslensk puntgrös eru snarrótarpuntur, vallarsveifgras, língresi, túnvingull og varpasveifgras. Puntur á vallarsveifgrasiPuntur á höfrum Axgrös. Axgrös eru einn þriggja flokka grasa en hinir eru axpuntgrös og puntgrös. Smáöx axgrasa sitja beint á stráinu. Mismunandi er hversu þétt smáöxin sitja. Til dæmis eru húsapuntur og rýgresi með tvær gagnstæðar raðir, en sexraða bygg með sex raðir. Axpuntgrös. Axpuntugrös eru einn þriggja flokka grasa en hinir eru axgrös og puntgrös. Hjá axpuntgrösum sitja smáöxin á stuttum leggjum út frá stráinu. Þau raða sér þétt upp umhverfis stöngulinn og mynda svokallaðan kólf. Dæmi um íslensk axpuntgrös eru vallarfoxgras, háliðagras og knjáliðagras. Smáax. Blóm grasa raða sér saman í svokölluð smáöx'". Afar mismunandi er milli tegunda hversu mörg blóm finnast í hverju smáaxi. Hjá língresi er t.a.m. aðeins eitt blóm í hverju smáaxi, en hjá rýgresi finnast oft sex til átta blóm í einu smáaxi. Smáöxin raða sér svo mismunandi þétt á stráið, annað hvort á leggjum eða legglaus. Röðun smáaxa er gott greiningareinkenni grasa og er þeim skipt upp í þrjá flokka eftir því: axgrös, axpuntgrös eða puntgrös. Axagnir ("glumes") liggja utan um hvert smáax en utan um hvert blóm liggja svokallaðar blómagnir ("palea" og "lemma"). Hveitiax með mörgum smáöxum (spikelet=smáax)Smáax með nokkrum blómumÞrjú smáöx á sauðvingli Windows Vista. Windows Vista er útgáfa stýrikerfisins Microsoft Windows. Áður en það var kynnt þann 22. júlí 2005, var það þekkt sem "Longhorn". Þann 8. nóvember 2006 var stýrikerfið tilbúið og gefið út til fyrirtækja. 30. janúar var það gefið út til almennings. Útgáfan kom fimm árum eftir þá seinustu sem gerir það lengsta bil milli tveggja útgáfna af Windows. í Windows Vista er endurskrifaður NT-kjarni. Það er notendavænt stýrikerfi og búið er að bæta öryggi þess mikið miðað við hinar útgáfurnar af Windows. Þetta stýrikerfi er mjög stórt og tekur 15 gígabæt af hörðum disk og þess vegna er gott að vera með tölvu með 40 gígabæta stóran harðan disk eða meira, 512 megabæta vinnsluminni eða meira, minnsta kosti 1 Ghz örgjörva og meira en 62 megabæta skjákort. Vista inniheldur fjöldann allan af nýjum möguleikum, sumir bættu verulega notandaviðmótið, bætt leit, ný forrit eins og Windows DVD Maker og fleira. Vista eykur einnig samskipti véla í heimiliskerfinu og notar peer-to-peer tæknina sem gerir það auðveldara að deila skjölum og stafrænum hlutum milli tölva. Vista er einnig með útgáfu 3.0 af .NET Framework sem gerir forriturum auðveldara fyrir að skrifa forrit sem ekki byggja á Windows API. Útgáfur. Windows Vista fæst í sex útgáfum, Windows Vista Basic, Windows Vista Home Basic, Windows Vista Home Premium, Windows Vista Business, Windows Vista Enterprise og Windows Vista Ultimate. Allar útgáfur nema Windows Vista Basic styðja bæði 32-bit (x86) og 64-bit (x64). Arftaki stýrikerfisins, Windows 7, kom á markað seinni hluta ársins 2009. Þjónustupakkar. Microsoft gefur út reglulega þjónustupakka fyrir stýrikerfi sín til að kynna nýja eiginleika og bæta þeim. Þjónustupakki 1. Fyrsti þjónustupakkinn var gefinn út af Microsoft þann 4. febrúar 2008, fyrir Windows Vista og Windows Server 2008 á sama tíma. Hann var í prufutíma í fimm mánuði. Í skýrslu frá Microsoft sem gefin var út í lok ágúst 2007 var talað um þrjú bætingarsvið. Þau eru: "traustleiki og geta", "stjórnandareynsla" og "stuðningur fyrir nýja staðla og vélbúnaði". Fátækt. Fátækt eða örbirgð er efnahagslegt ástand skorts. Mikill stigsmunur getur verið á meiningu orðanna eftir samhengi. Þannig er það bæði notað kæruleysislega í dags daglegu tali en einnig til þess að lýsa ójöfnuði milli þjóðfélagsstétta eða mismunandi þjóða. Fátækt er mjög umdeilt hugtak sem erfitt er að gera góð skil. Gerður er greinarmunur á algildri fátækt og afstæðri fátækt. Algild fátækt nefnist það þegar viðkomandi líður fyrir skort á lífsnauðsynjum svo sem mat, vatni eða húsakynnum. Afstæð fátækt, eðli sínu samkvæmt, er til staðar hvar sem efnahagsstaða hópa er borin saman. Í þeim tilvikum getur vöntun á heilbrigðisþjónustu, menntun, fötum eða jafnvel farartækjum verið dæmi um það sem greinir á milli ríkra og fátækra. Mælikvarðar á fátækt. Eins og fram hefur komið hefur hugtakið fátækt mismunandi vægi eftir því hvernig þeir hópar fólks sem verið er að bera saman eru skilgreindir. Til einföldunar eru fátækar þjóðir eða ríki nefnd þróunarlönd sem vísar til þess að þau séu styttra á veg komin á leið sinni til að skapa samfélaginu auð. Rannsóknir á fátækt eru tiltölulega nýlegar, fyrstu rannsóknirnar voru framkvæmdar af bretanum Seebohm Rowntree árið 1899. Dæmi um mælikvarða sem notaður er við ákvörðun algildrar fátæktar er að einstaklingur fái mat sem inniheldur a.m.k. 2000-2500 hitaeiningar á dag. Alþjóðabankinn skilgreinir það sem "sára fátækt" ef einstaklingur notar minna en 1 $ á dag miðað við kaupmáttarjöfnuð. Jafnframt skilgreinir hann það sem "meðal fátækt" sé neyslan innan við 2 $. Árið 2001 var áætlað að 1,1 milljarður manna byggi við sára fátækt og 2,7 milljarður meðal fátækt. Samanlagt tæplega helmingu mannkyns. Þó eru ljósir punktar því að sár fátækt hefur fallið úr 28% árið 1990 og í 21% árið 2001. Mestar framfarir hafa orðið í Austur- og Suður-Asíu. Í Afríku sunnan Sahara hefur VLF/mann dregist saman um 14% og fátækt aukist úr 41% og í 46% árið 2001. Að öðru leyti hefur heldur lítil breyting orðið á stöðu fátæktar í heiminum. Í fyrrum Austantjaldslöndin jókst fátækt á fyrstu árunum eftir fall Berlínarmúrsins er þessi ríki skiptu úr miðstýrðum efnahag yfir í markaðsskipulag. Af öðrum vísbendingum má nefna að meðal lífslíkur í þróunarlöndum hafa aukist síðan lok seinni heimsstyrjöldarinnar. Í Afríku sunnan Sahara eru meðal lífslíkur sem stendur u.þ.b. 47 ár sem er ríflega tvöföldun frá því hálfri öld fyrr. Barnadauði hefur minnkað um allan heim. Hlutfall þeirra sem hafa aðgang að innan við 2.200 hiteiningar af mat á dag hefur minnkað úr 56% á sjötta áratugnum niður í innan við 10% á tíunda áratugnum. Læsi í heiminum jókst úr 52% árið 1950 og í 80% 1999. Hlutfallslega hefur læsi kvenna miðað við karla aukist úr 59% árið 1970 í 80% árið 2000. Hlutfall barna í vinnu hefur einnig lækkað úr 24% árið 1960 og niður í innan við 10% árið 2000. Fátækt á Íslandi. Fátækt á Íslandi hefur verið mismunandi eftir stað og stund. Á Íslandi hafa rannsóknir á fátækt ekki verið gerðar reglulega. Í rannsókn sem gerð var af Stefáni Ólafssyni prófessor í félagsfræði í HÍ og Karli Sigurðssyni árið 1987 kom fram að tæplega 8% íslensku þjóðarinnar bjuggu við fátækt. Sérstaklega vakti athygli að 12,4% eldri borgara mældust fátækir. Tíu árum síðar var þessi könnun endurtekin og fengust þær niðurstöður að 6,8% töldust búa við fátækt og 4,3% eldri borgara. Niðurstöður rannsókna sem Harpa Njálsdóttir, félagsfræðingur hefur unnið voru birtar í bókinni "Fátækt á Íslandi við upphaf nýrrar aldar" sem kom út 2003. Í henni segir hún að 7-10% þjóðarinnar hafi búið við fátækt. Samkvæmt sameiginlegri rannsókn á vegum ESB sem Hagstofa Íslands gaf út byrjun 2007 eru tæplega 10% landsmanna á einkaheimilum fyrir neðan lágtekjumörk. Jafnframt kemur fram að ungt fólk sé fátækara en eldra og sömuleiðis þeir sem áttu ekki íbúð heldur leigðu. Kjörbarn. Kjörbarn er barn sem er í forsjá annarra en náttúrulegra foreldra þess. Það hefur víðast hvar sömu stöðu sem væri það náttúrulegt barn fósturforeldra sinna. Misjafnt er hversu gömul börn eru þegar þau eru tekin í fóstur, eða hverjar ástæður þess eru að þau alast ekki upp hjá báðum blóðforeldrum sínum. Meðal annarra ástæðna fyrir því að barn er sett í fóstur má nefna fátækt, óreglu og geðveiki eða ef þau verða munaðarlaus. Börn hafa verið tekin í fóstur frá örófi alda. Þegar manneskja sem á barn/börn af fyrra sambandi tekur saman við nýja makann, ættleiðir nýi makinn það/þau stundum, en séu bæði kjörforeldri, er talað um frumættleiðingu. Ættleiðingar á Íslandi. Á Íslandi er það vel þekkt að börn séu tekin í fóstur, en þó nokkru fátíðara en í mörgum öðrum löndum. Fyrir breytingar á lögum um ættleiðingar sem gengu í gildi á árinu 2006 gat einhleypt fólk ekki tekið barn í fóstur, og það gátu samkynhneigð pör ekki heldur (nema annar aðilinn getur gengið barni hins í foreldris stað), en lagabreytingarnar árið 2006 breyttu ýmsum forsendum ættleiðingar. Ef fólk vill ættleiða barn á Íslandi er miðað við að væntanlegir fósturforeldrar séu 25-45 ára, séu heilbrigðir andlega og líkamlega, hafi hreina sakaskrá og geti framfleytt fjölskyldu. Fólk sem er í óvígðri sambúð þarf að hafa búið saman í fimm ár, en gift fólk í þrjú ár. Wacken. Wacken er þorp í Þýskalandi, nánar tiltekið í Steinburg-héraði í Schenefeld-amti í Holtsetalandi. Þar búa um 1850 manns (31. desember 2007). Bæjarstjórinn heitir Axel Kunkel. Póstnúmerið er 25596 og svæðisnúmerið er 04827. Í grennd við þorpið er bærinn Itzehoe. Wacken er fyrst getið í heimildum árið 1148, en þar hafa fundist mun eldri mannvistarleifar. Árið 1989 var þungarokkshátíðin Wacken Open Air haldin í fyrsta skipti og hefur verið haldin á hverju ári síðan. Hún er haldin fyrstu helgina í ágúst og nú orðin stærsta þungarokkshátíð heims, með yfir 80.000 gestir á ári. Síðan árið 2000 hafa stöðugt fleiri Íslendingar farið árlega á hana. De Officiis. "De Officiis" eða "Um skyldur" er rit í þremur bókum eftir rómverska stjórnmálamanninn og heimspekinginn Marcus Tullius Cicero. Ritið fjallar um siðfræði og byggir á glötuðu riti eftir stóíska heimspekinginn Panætíos. Ritun. "Um skyldur" var samið í nóvember eða desember árið 44 f.Kr., á síðasta æviári Cícerós en þá var hann 62 ára gamall. Á þessum tíma fékkst Cíceró enn við stjórnmál að einhverju leyti og reyndi að koma í veg fyrir að róttæk öfl kæmust til valda í rómverska lýðveldinu. Það tókst honum ekki og Cíceró var drepinn af pólitískum andstæðingum sínum ári síðar. Ritið kom út að honum látnum. Ritið var samið í formi bréfs til sonar hans, sem nam heimspeki í Aþenu, en átti eigi að síður að gefa út fyrir almenning. "Um skyldur" hefur verið lýst sem riti sem var ætlað að gera venjulegt fólk að góðum borgurum. Í ritinu er sett fram gagnrýni á einvaldinn Júlíus Caesar, sem þá hafði nýlega verið ráðinn af dögum, og á einveldi og harðstjórn almennt. Efni. Cíceró var undir miklum áhrifum frá grískri heimspeki, ekki síst stóuspeki. Í "Um skyldur" ræðir hann m.a. hvað heiður sé og hvað sé gagnlegt og hvað ber að gera þegar það stangast á. Cíceró taldi að í raun yrði aldrei árekstur þar á milli, heldur virtist það einungis vera þannig. Cíceró færir rök fyrir því að skortur á pólitískum réttindum spilli siðgæði manna. Hann ræðir einnig náttúrurétt sem er sagður eiga jafnt við um menn og guði. Í ritinu hvetur Cíceró Marcus, son sinn, til að fylgja náttúrunni og viskunni auk þess að leita frama í stjórnmálum, en varar hann við ánægju og letilífi. Í ritinu styðst Cíceró mjög við dæmisögur, mun meira en í öðrum ritum sínum. "Um skyldur" er ekki skrifað í jafn formlegum stíl og önnur rit hans, ef til vill vegna þess að aðstæður kröfðust þess að hann ritaði það í flýti. Arfleifð. Arfleifð verksins er mikil. Enda þótt "Um skyldur" væri samið af heiðnum manni lýsti heilagur Ambrosius því yfir árið 390 að kristinni kirkju væri fyllilega heimilt að styðjast við ritið og öll önnur rit Cícerós og raunar Senecu líka. Í kjölfarið varð "Um skyldur" eitt meginrit allrar siðfræði á miðöldum; vitað er að Ágústínus kirkjufaðir, heilagur Hýerónýmus og Tómas frá Akvínó lásu það. Um 700 miðaldahandrit eru enn til af verkinu. (Einungis rit málfræðingsins Priscianusar eru varðveitt í fleiri handritum eða um 900 talsins.) Þegar prentlistin kom til sögunnar var "Um skyldur" annað ritið sem var prentað, á eftir Gutenberg-biblíunni. Fyrsta enska þýðingin kom út 1534. Á 16. öld útbjó Erasmus frá Rotterdam vasaútgáfu af ritinu, því hann taldi ritið svo mikilvægt að helst ætti maður að hafa það með sér öllum stundum. T.W. Baldwin sagði að „á tímum Shakespeares hafi "Um skyldur" verið meginrit allrar siðfræði“. Í vinsælu riti sínu "Governour" (1531) taldi Sir Thomas Elyot upp þrjú ritverk, sem hann taldi nauðsynleg í uppeldi ungra herramanna: ritverk Platons, "Siðfræði Níkomakkosar" eftir Aristóteles, og "Um skyldur". Á 18. öld sagði Voltaire um "Um skyldur": „Enginn mun nokkurn tímann skrifa neitt viturlegra“. Og Friðrik mikli hafði svo mikið álit á ritinu að hann bað fræðimanninn Christian Garve að gefa út nýja þýðingu á því, jafnvel þótt árið 1756 hefðu þegar verið gefnar út tvær þýskar þýðingar. Garve hóf vinnu við þýðinguna eigi að síður og og bætti við 880 blaðsína skýringarriti. "Um skyldur" er enn vinsælt rit, bæði vegna stíls og upplýsingagildis. Útgáfur. Winterbottom, M. (ritstj.), "M. Tulli Ciceronis De Officiis" (Oxford: Oxford University Press, 1994). Næpa. Næpa (hvítrófa, fóðurnæpa eða næpukál) (fræðiheiti: "Brassica rapa L. var. rapifera") er vetrareinær planta af krossblómaætt sem safnar forða fyrir veturinn. Forðinn safnast í efra hlut rótar og neðra hlut stönguls, sem bólgna upp og mynda svokallaða "næpu". Næpan er þess vegna talin rótargrænmeti. Líffræði. Næpan er oftast hvít á litinn, getur þó einnig tekið fjólubláan lit á rótarhálsinum (mismunandi milli afbrigða). Lögun hennar er einnig allbreytileg eftir afbrigðum. Sum afbrigði mynda hnöttóttar næpur, á meðan önnur mynda ílangar. Út frá næpunni vaxa blöðin í hvirfingu. Þau eru stór og fjaðurskipt. Blóm næpunnarÁ seinna ári notar næpan forðann sinn og fer í kynvöxt í þeim tilgangi að mynda blóm og setja fræ. Næpan minnkar eftir því sem forðinn er nýttur og stöngullinn hækkar og styrkist. Blóm næpunnar eru gul. Á Íslandi lifir plantan þó ekki yfir veturinn og er aðeins ræktuð til grænfóðurs og þá nýtt um haustið. Notkun. Á Íslandi hefur næpa verið ræktuð til manneldis, en einnig lítillega verið notuð sem fóður fyrir mjólkurkýr og lömb. Hún hefur langan vaxtartíma, eða minnst 100-130 daga. Hún er því aðallega verið nýtt til beitar á haustin. SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu. SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu er stéttarfélag sem nær yfir allt Ísland. Yfirlýst hlutverk þess er að vaka yfir velferð félagsmanna og stuðla að auknum lífsgæðum þeirra. Helstu verkefni félagsins eru á sviði kjara- og réttindamála, auk orlofs- og fræðslumála. SFR var stofnað 17. nóvember 1939 og var fullt nafn þess "Starfsmannafélag ríkisstofnana" til ársins 2004. Félagar eru um 7000 og er félagið fjölmennasta aðildarfélag Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Árni Stefán Jónsson er formaður félagsins og Védís Guðjónsdóttir er varaformaður. Skrifstofa SFR er til húsa á Grettisgötu 89. Skipulag. Skipulagslega er aðild tvenns konar, og skiptist félagið að því leyti í tvo hluta, almennan og opinberan. Í almennum hluta félagsins er starfsfólk fyrirtækja, sem áður voru ríkisstofnanir eða sjálfseignarstofnanir sem störfuðu í þágu almennings samkvæmt lögum. Aðalfundur. Aðalfundur er haldinn árlega, fyrir lok marsmánaðar, og kýs stjórnir orlofssjóðs, vinnudeilusjóðs, starfsmenntunarsjóðs og styrktar- og sjúkrasjóðs. Formaður félagsins og stjórn er kosinn til tveggja ára og ekki á aðalfundi heldur í allsherjaratkvæðagreiðslu. Trúnaðarmenn. Á hverjum vinnustað þar sem fimm eða fleiri félagar í SFR starfa, kjósa þeir sér trúnaðarmann. SFR hefur um 250 trúnaðarmenn á sínum vegum. Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum. Það er í hans verkahring að gæta þess að kjarasamningar séu haldnir og að réttur starfsmanna sé virtur. Ef upp koma deilur um eitthvað sem snertir kjarasamninga, þá geta starfsmenn eða vinnuveitendur óskað eftir því að trúnaðarmaður aðstoði við lausn málsins. Trúnaðarmannakerfi félagsins hefur verið burðarás í starfsemi þess frá upphafi. Skipuleg trúnaðarmannafræðsla hófst á vegum SFR 1971. Árið 1998 tóku SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar upp samstarf um menntun trúnaðarmanna. Auk þess sækja trúnaðarmenn námskeið á vegum BSRB og Félagsmálaskóla alþýðu um sitthvað sem þykir skipta máli að trúnaðarmenn hafi á valdi sínu. Trúnaðarmannaráð. Frá fundi launamálaráðs SFR sumarið 2004. Allir trúnaðarmenn félagsins, auk stjórnar, mynda saman trúnaðarmannaráð. Það styður stjórn félagsins og leysir úr málum sem ekki þarf að leggja fyrir félagsfund. Trúnaðarmannaráð kemur mánaðarlega saman yfir vetrarmánuðina. Trúnaðarmannaráð kýs 15 menn í félagsráð, sem auk þeirra er skipað stjórn félagsins og formönnum fagfélaga. Auk þess kýs trúnaðarmannaráð samninganefndir fyrir gerð kjarasamninga. Saga. Í kreppunni og síðari heimsstyrjöldinni var stéttabaráttan hörð og mörg stéttarfélög voru stofnuð á þeim árum. Vorið 1939 var gengi krónunnar fellt og kjör almennings urðu krappari. Um haustið hófst stríðið, og því fylgdi mikill skortur á öllum innfluttum vörum. Stór hópur ríkisstarfsmanna afréð að þeim væri best að stofna með sér samtök til að gæta hagsmuna sinna. Stofnun. Stofnfundur SFR var í Alþýðuhúsinu þann 17. nóvember 1939 og voru stofnfélagar 142 talsins. Allt frá stofnun skilgreindi félagið starfssvæði sitt sem landið allt. Þó voru flestir félagarnir karlar á höfuðborgarsvæðinu, sem einkum unnu skrifstofustörf á rúmlega 20 ríkisstofnunum. Guðjón B. Baldvinsson, starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins, var kjörinn fyrsti formaður félagsins og gegndi því starfi til 1959. Þann 14. febrúar 1942 var SFR eitt af stofnfélögum BSRB. Árið 1943 var Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stofnaður. Þótti það mikill sigur fyrir ríkisstarfsmenn, en þetta var um aldarfjórðungi áður en almennir lífeyrissjóðir komu til sögunnar. Annar mikilsverður sigur var þegar "Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna" voru sett árið 1954. Ör vöxtur á 7. áratugnum. Fram yfir 1960 bjuggu langflestir félaganna í Reykjavík og nágrenni og voru langflestir karlkyns. Félagið var fámennt, en er fram á sjöunda áratuginn kom óx það hratt, og 1965 varð það fjölmennasta aðildarfélag BSRB. Um svipað leyti hækkaði hlutfall kvenna í því. Það sem mest munaði um var mikill vöxtur samfélagsþjónustu á vegum hins opinbera á þessum árum, og að ríkið viðurkenndi, árið 1962, að félög ríkisstarfsmanna hefðu samningsrétt eins og önnur samtök vinnandi fólks, en fram að því höfðu kjör ríkisstarfsmanna verið ákveðin með lögum. Ríkisstarfsmönnum fjölgaði ört á þessum árum, og þar með félögum í BSRB. Félögum í SFR fjölgaði úr um 650 árið 1960 í um 1100 árið 1966, og voru orðnir um 1450 árið 1969. Sem fyrr bjuggu langflestir félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu. BSRB hélt sitt fyrsta trúnaðarmannanámskeið 1967, í Borgarnesi. Frekari vöxtur. Árið 1973 voru sett ný lög um kjarasamninga, sem bættu stöðu stéttarfélaganna til muna. Einnig varð sú breyting á, að allir sem fengu borguð laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaganna urðu skyldugir til þess að greiða þeim félagsgjöld. Þar með kusu margir að ganga í þau, sem ekki höfðu verið fullgildir félagar áður, og jókst þá fjöldinn enn. Árið 1972 voru félagar orðnir um 1700, en 1976 hafði þeim fjölgað í um 3200. Konur voru yfirgnæfandi meirihluti hinna nýju félaga, og komust í meirihluta innan félagsins. Árið 1976 fékk BSRB verkfallsrétt um gerð aðalkjarasamnings og stofnaði vinnudeilusjóð 1979. Í ársbyrjun 1987 gengu svo lög í gildi, sem veittu aðildarfélögunum verkfallsrétt og samningsrétt, og þann 4. apríl sama ár gerði SFR sinn fyrsta heildarkjarasamning. 1992 var vinnudeilusjóður SFR svo stofnaður. Kynjahlutföll. Á 8. og 9. áratugnum fjölgaði ríkisstarfsmönnum ört. Fjölgunin varð mikil í störfum þar sem konur voru margar, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Frá 1965 til 1990 fjölgaði ríkisstarfsmönnum úr um 11% í um 20% af vinnandi fólki í landinu, og á sama tíma jókst atvinnuþátttaka kvenna úr nálægt 20% og hátt upp undir 70%. Þetta tvennt hafði í för með sér mikla fjölgun kvenna í SFR. Þær voru um fjórðungur félaga árið 1959 en hlutfallið var komið upp í 70% árið 1989 og er enn í kring um það. Kjarasamningar. Þess var áður getið, að trúnaðarmenn fylgjast með því að kjarasamningar séu haldnir á vinnustöðum. Fyrir utan dagleg störf þeirra, starfa samstarfsnefndir SFR og vinnustaða, skipaðar allt að þrem fulltrúum frá hvorum tveggju, að öllu jöfnu með viðkomandi trúnaðarmanni þar á meðal. Nefndir þessar fást meðal annars við forsendur starfaflokkunar, röðun einstakra starfa í launaflokka, og koma á sáttum í ágreiningsmálum sem tengjast samningnunum. Orlofshús. Fyrsta orlofshús SFR var tekið í notkun í Munaðarnesi árið 1971. Félagið á nú um 40 orlofshús víðsvegar um landið, sem félagsmönnum standa til boða: Í Munaðarnesi, Stóruskógum og Húsafelli í Borgarfirði, í Vaðnesi í Grímsnesi, Eiðum á Héraði, Arnarstapa og í Kjarnabyggð. Auk þess á félagið íbúðir í Reykjavík og á Akureyri. Fræðslu- og útgáfumál. SFR fór að bjóða félagsmönnum upp á ýmis tómstundanámskeið á áttunda áratugnum. Áherslan hefur heldur færst til, og er nú að miklu leyti á símenntun félagsmanna, gagnkvæmt hagsmunamál launafólks og atvinnurekenda. Starfsmenntunarsjóður BSRB tók til starfa 1982 og SFR stofnaði sinn eigin starfsmenntunarsjóð árið 1994. Félagsmenn geta sótt um styrki í báða þessa sjóði á sínum eigin forsendum. Auk þess var Þróunar- og símenntunarsjóður stofnaður 1997, og hann styrkir námskeiðahald á vegum vinnustaða og SFR. Árið 2001 var Vefskóli SFR stofnaður, og einnig fræðslusetrið Starfsmennt. SFR heldur úti og gefur út Blað stéttarfélaganna í samstarfi við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Fagfélög. Innan SFR starfa nokkur fagfélög. Það eru: Fangavarðafélag Íslands, Félag áfengisráðgjafa, Félag íslenskra félagsliða, Félag íslenskra læknaritara, Félag heilbrigðisritara og Félag ráðgjafa og stuðningsfulltrúa. Lífeyrismál. SFR á aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem aðili að BSRB. Innan félagsins starfar deild lífeyrisþega, sem stofnuð var árið 1976. Meðlimir hennar eru um það bil einn sjöundi félagsmanna, eða um 800 (árið 2004). Formaður lífeyrisþegadeildar er Kristrún B. Jónsdóttir, og með henni sitja í stjórn þau Bjarndís R. Júlíusdóttir ritari, Emil L. Guðmundsson, Guðrún María Hjálmsdóttir, Haukur Ársælsson, Jan Agnar Ingimarsson og María B. Gunnarsdóttir. Styrktar- og sjúkrasjóður. SFR hefur rekið styrktar- og sjúkrasjóð síðan 1999. Atvinnurekendur hafa greitt fast framlag í hann síðan árið 2000. Úr honum geta félagsmenn fengið úthlutað styrkjum ef þeir verða fyrir heilsutjóni. DYS. DYS var íslensk hardcore pönk hljómsveit. Hún er nú í hléi. Ragnhildur, persóna í Sólskinshesti. "Ragnhildur" er persóna í skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur frá 2005, Sólskinshesti. Ragnhildur bjó á þeim tíma sem Sólskinshestur gerist á Sjafnargötu í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum, Haraldi, og tveimur börnum, Lillu og Mumma. Hún var barnalæknir og þótti afbragsgóð í díagnósu. Hún var mjög tileinkuð starfi sínu og hafði lítinn tíma aflögu til að sinna fjölskyldu sinni. Hún var afar meðvituð um ástand heimsmála, sérstaklega af vandamálum barna víða um heim. Ung að aldri átti Ragnhildur skáld að unnusta sem lést ungur. Hún giftist síðar Haraldi, en virtist alltaf fremur ástfanginn af fyrri elskhuga sínum. Eftir missinn einbeitti hún sér að námi og starfi. Brúðkaup hennar og Haraldar, sem einnig var læknir, virtist fremur vera af hagnýtum ástæðum til komið, en af raunverulegri ást. Þau eignuðust svo tvö börn, en sinntu þeim frekar lítið. Persóna Ragnhildar einkenndist að mörgu leyti af andstæðum. Hún var skráður meðlimur í Sjálfstæðisflokknum, en var jafnframt harður andstæðingur veru erlends herliðs á Íslandi. Vandamál barna voru hennar helsta hugarefni, en samt sinnti hún eigin börnum illa. Henni þótti vænt um og virti eiginmann sinn, en elskaði þó ávallt annan. Hún var hörð í mörgum viðhorfum sínum, en kippti sér þó lítið við það að uppgötva samkynhneigð eigin sonar. Og hún var köld og ófélagslynd í framkomu, en laðaði engu að síður að sér fólk. Í seinni hluta sögunnar mýktist persóna Ranghildar. Hún dró úr vinnu og fór að sinna fjölskyldu sinni meira. Síðustu orð hennar til dóttur sinnar, Lillu, voru „góða ferð besta barn“, og fengu Lillu loks til að finnast hún vera móðir sín. Gagnkynhneigð. Gagnkynhneigð kallast það þegar einstaklingur laðast að einstaklingi, eða einstaklingum, af hinu kyninu. Luciano Floridi. Luciano Floridi (fæddur 1964) er ítalskur heimspekingur. Hann er félagi á St Cross College, University of Oxford og prófessor í heimspeki við Universita' degli Studi di Bari. Tenglar. Floridi, Luciano Síðkrítartímabilið. Síðkrítartímabilið er jarðsögulegt tímabil sem nær yfir síðari helming krítartímabilsins eða frá því fyrir um 99,6 milljónum ára (± 0,9 m.á.) til fyrir um 65,5 milljónum ára (± 0,3 m.á.). Á þessum tíma greindust margar nýjar tegundir risaeðla og fuglar urðu fjölbreyttari og útbreiddari. Nútíma háfiskar komu fyrst fram á sjónarsviðið. Jón Oddur & Jón Bjarni. Jón Oddur & Jón Bjarni er kvikmynd eftir Þráin Bertelsson gerð eftir samnefndri sögu Guðrúnar Helgadóttur. Myndin var fyrsta kvikmynd Þráins í fullri lengd og þótti metnaðarfull barnamynd. Karlakórinn Hekla. "Karlakórinn Hekla" er kvikmynd eftir Guðný Halldórsdóttur sem fjallar um karlakór sem fer til Þýskalands til að verða að síðustu ósk eins meðlimar kórsins áður en hann dó. Börn. "Börn" er kvikmynd eftir Ragnar Bragason frumsýnd árið 2006 sem er sköpuð í samvinnu við leikara úr leikhópnum Vesturport. Vinnuaðferðin við gerð myndarinnar var óhefðbundin á þann hátt að ekki var notast við hefðbundið kvikmyndahandrit, heldur spunnu leikarar leiktexta sinn fyrir framan myndavélina. Börn er fyrri hluti tvíleiks, seinni hlutinn Foreldrar var frumsýnd árið 2007 De Oratore. "De Oratore" eða "Um ræðumanninn" er rit eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn sem fjallar um mælskulist. Ritið var samið árið 55 f.Kr. Í ritinu kemur leiðaraðferðin, sem er minnistækni, í fyrsta sinn fyrir í varðveittum heimildum. Brútus (Cicero). "Brútus" er rit eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn sem fjallar um sögu mælskulistarinnar í Rómaveldi. Ritið var samið árið 46 f.Kr. Pro Milone. "Pro Tito Annio Milone ad iudicem oratio", þekktust sem "Pro Milone" eða "Til varnar Milo" á íslensku, er ræða sem rómverski stjórnmálamaðurinn, heimspekingurinn og rithöfundurinn Marcus Tullius Cicero samdi árið 52 f.Kr. til varnar vini sínum Titusi Anniusi Milo, sem var gefið að sök að hafa myrt pólitískan andstæðing sinn Publius Clodius Pulcher á Via Appia. Etatsráð. Etatsráð var dönsk tignarnafnbót sem sumir báru fyrr á öldum. Tignin gekk ekki í arf. Um 1930 var hætt að notast við þessa nafnbót. Konungur sæmdi menn tigninni, en hún taldist vera af „þriðja flokki“ (da. "tredje rangklasse"), þ.e.a.s. þeim mönnum leyfðist að líta á sig sem nokkurs konar aðalsmenn, sem hana báru. Einnig fylgdi sá réttur tigninni, að mönnum leyfðist að koma dætrum sínum að í Vemmetofte-klaustri. Etatsráðstign fylgdi hvorki embætti né aðrar skyldur, og var hún aðeins virðingartitill, í það minnsta frá því um 1700. Til dæmis var H.C. Andersen etatsráð. Meðal þekktra Íslendinga sem þessi nafnbót var veitt voru Finnur Magnússon og Magnús Stephensen. Embættisaðall. Embættisaðall kom til sögunnar um svipaðar mundir og einveldið. Þá hættu konungar að úthluta erfðatitlum, en í staðinn voru konunglegir æðri embættismenn sæmdir aðalstign sem ekki erfðist. Skyldleiki við konung eða eldri aðalsættir, og embætti eða nafnbætur, réðu því hversu langt menn komust í virðingarstiganum, hvort menn öðluðust nafnbætur á borð við etatsráð eða konferensráð. Íslendingar voru engin undantekning að þessu leyti á einveldistímanum. Finnur Magnússon var etatsráð og Magnús Stephensen líka þangað til hann varð konferensráð. Sama átti við um amtmenn, stiftamtmenn og, lengi vel, biskupa. Um 1930 var hætt að úthluta embættisaðalsnafnbótum. Rentukammer. Hannibal Sehested, fyrsti ríkisskattstjóri Danmerkur og Noregs. Rentukammer var stjórnardeild í danska einveldinu, sem lét sig efnahagsmál varða: Bókhald, launamál hins opinbera, toll- og skattheimtu, og hafði umsjón með eignum ríkisins, svo sem skógum, vegum og byggingum. Þegar einveldi var aflagt 1848 tók fjármálaráðuneyti við stærstum hluta af umsjónarefnum rentukammersins. Danska Rentukammerið var í upphafi skrifstofa í Kansellíinu og undir stjórn konunglegs rentumeistara, en við einveldistökuna 1660 var nafninu breytt og nefndist það þá "Skattkammerkollegíið" og varð skipulagslega sjálfstæðara undir stjórn ríkisskattstjóra. Fyrsti ríkisskattstjóri Danmerkur var Hannibal Sehested. Árið 1680 var nafninu aftur breytt í Rentukammer. Í áranna rás jukust umsvif Rentukammersins og tóku breytingum. Nokkrar skrifstofur voru klofnar út úr því, til dæmis "Þýska sekretaríatið" (1699), "Verslunarkollegíið" (1735), "Yfirtollkammerið" (1760), "Yfirskattstjórnin" (1762) og "Yfirlandbúnaðarkollegíið" (1768). Skjalasafn Rentukammers. Árið 1928 afhenti Ríkisskjalasafn Danmerkur Þjóðskjalasafni Íslands mikinn hluta þeirra skjala Rentukammersins, sem snerta íslensk málefni. Eru þau varðveitt þar sem sérstök deild: "Skjalasafn Rentukammers" eða "Rentukammerskjöl". Meðal merkra heimilda í skjalasafni Rentukammers er Manntalið 1703, sem Hagstofa Íslands gaf út á árunum 1924–1947. Handritið að manntalinu var lánað hingað til lands 1921, til að undirbúa útgáfu þess, en varð eign Íslendinga með samningunum 1927, sem voru undanfari skjalaskiptanna 1928. Orðræða um aðferð. "Orðræða um aðferð" er ritgerð um heimspeki eftir franska heimspekinginn René Descartes sem kom út árið 1637. Fullur titill verksins er "Orðræða um aðferð til að beita skynseminni rétt og leita sannleikans í vísindum" (á frönsku: "Discours de la méthode pour bien conduire sa raison, et chercher la verité dans les sciences"). Ritgerðin kom fyrst út á frönsku. Hún var gefin út árið 1637 í Leiden í Hollandi og var inngangur að ritum hans um náttúruvísindi („Dioptrique, Météores e Géométrie“). Hún var síðar þýdd yfir á latínu og kom latneska þýðingin út í Amsterdam árið 1656. "Orðræða um aðferð" er frægust fyrir margfræga tilvitnun „"cogito ergo sum";“ „Ég hugsa, þess vegna er ég.“ Að auki er fyrsta framsetning Descartes kartesísku hnitakerfi að finna í þessari ritgerð. Ritgerðin er ein sú áhrifamesta í sögunni. Tilgangur hennar var að leggja grunninn sem nútímavísindi áttu að rísa á. Í ritgerðinni tekst Descartes einnig á við efahyggju, en forn efahyggja — sem menn höfðu kynnst m.a. í ritum Sextosar Empeirikosar, Ciceros og Díogenesar Laertíosar — hafði haft þó nokkur áhrif á heimspekinga í um hundrað ár þegar ritgerðin var samin, t.d. Michel de Montaigne. Descartes reyndi að hrekja efahyggjuna í eitt skipti fyrir öll með því að finna sannindi sem ekki yrði efast um. Þau sannindi taldi hann sig finna í fullyrðingunni „Ég hugsa, þess vegna er ég til“ (sem er fengin að láni frá Ágústínusi) "Orðræða um aðferð" er ásamt "Hugleiðingum um frumspeki" og "Lögmálum heimspekinnar" kjarninn í þeirri þekkingarfræði og frumspeki sem kallast cartesismi. Lögmál heimspekinnar. "Lögmál heimspekinnar" (á latínu "Principia philosophiae") er rit um heimspeki eftir franska heimspekinginn René Descartes. Ritið var samið á latínu og kom fyrst út árið 1644. Því var ætlað að koma í stað rita Aristótelesar um heimspeki og rita hefðbundinnar skólaspeki sem þá voru lesin í háskólum. Árið 1647 birtist frönsk þýðing eftir Claude Picot undir titlinum "Principes de philosophie". Þýðingin var unnin í samraði við Descartes. Í formálanum var bréf frá Descartes til Kristínar Svíadrottningar. Lunga. Lunga kallast svampkennt öndunarfæri í brjóstholi spendýra sem hjálpar til við loftskipti blóðs. Lungun eru tvö og á milli þeirra liggur hjartað. Til lungnanna liggur barkinn sem hleypir lofti inn um öndunarfærin. Vélinda. Vélinda er rör eða pípa sem flytur fæðuna frá munninum niður í maga. Í fullvöxnum manni er vélindað yfirleitt 25-30 cm að lengd. Vöðvarnir í vélindanu sjá til þess að flytja fæðuna úr kokinu niður að magaopinu. Að innan er vélindað þakið slímhúð sem auðveldar fæðunni að renna niður og ver vélindaveggina fyrir áreiti. Neðst í vélindanu, þar sem það opnast inn í magann, er sterkur hringvöðvi sem lokar yfirleitt fyrir flæði úr maganum upp í vélindað en opnast þegar hleypa þarf fæðu eða vökva úr vélindanu niður í magann. Ef þessi vöðvi starfar ekki sem skyldi geta magasýrur flætt upp í vélindað og ef það gerist oft og iðulega (vélindabakflæði) geta magasýrurnar skemmt slímhúðina, ert vélindavöðvana og valdið bólgum og óþægindum. Í spendýrum er vélindað svipað og í mönnum en í flestum fiskum er það mjög stutt. Þó eru líka til fiskar sem hafa engan eiginlegan maga og tengist þá vélindað beint við smáþarmana. Í mörgum fuglum gegnir vélindað einnig hlutverki forðabúrs, þar sem úr því er útvöxtur eða poki sem kallast sarpur og getur fuglinn geymt ómelta fæðu í honum og látið hana ganga síðar niður í fóarnið eða ælt henni upp til að fæða unga sína. Global Positioning System. Global Positioning System, þekktast undir skammstöfuninni GPS, er tækni sem gerir fólki kleift að finna staðsetningu sína á jörðinni með skekkju innan við tuttugu metra. Uppsetning. GPS er byggt á að minnsta kosti 24 gervihnöttum, sem senda stanslaust staðsetningur til móttakaranna á jörðinni. Hver gervihnöttur ferðast tvisvar á sólarhring í kringum jörðina. Þeir eru staðsettir þannig að það eru ávallt að minnsta kosti 4 gervihnettir sjáanlegir á hverjum bletti jarðarinnar. 5 jarðstöðvar, fjórar venjulegar og ein aðalstöð, fylgjast með hnöttunum og senda leiðréttingarmerki til gervihnattana til að leiðrétta klukkur eða staðsetningar þeirra. Stöðvarnar fimm eru í Hawaii, Ascension, Diego Garcia, Kwajalein og Colorado Springs. GPS móttakararnir taka við merkjum af hnöttunum og reikna með hjálp fjarlægðar frá hverjum hnetti staðsetninguna á jörðinni. Virkni. Til að fá staðsetningu þarf móttakarinn 4 tungl þeas. 3 tungl sem ákvarða x,y,z og 1 sem ákvarðar tíma. Hann fær merki frá hnetti nr.1 og veit hvað er langt síðan að merkið var sent. Þannig veit hann hvað hann er langt frá hnettinum. Sama með hnetti nr. 2 og 3. Það gefur okkur tvær mögulegar staðsetningur. Ein á jörðinni og ein í geimnum. Tækið útilokar punktinum í geimnum og er þá aðeins ein staðsetning eftir sem tækið sýnir á skjánum. En það þýðir að GPS tæknin virkar ekki í geimnum. DGPS. GPS tæki geta sýnt nákvæmni upp á 4-20 metra. En ný tækni, DGPS, eykur nákvæmnina upp á 1-2 metra. Merkið, sem kemur frá hnöttunum, þarf að komast í gegnum andrúmsloft jarðarinnar. Þarmeð villist merkið aðeins af leið og skilar sér of seint, sem breytir staðsetninguna á móttakaranum. DGPS notar jarðstöðva, sem senda út leiðréttingarmerki til móttakaranna. Því að stöðvarnar vita hvar þær sjálfar eru og ef þær fá vitlausa staðsetningu þá senda þær út leiðréttingu. GPS sem áttaviti. Móttakarinn þekkir staðsetningu gervihnattana. Þegar hann fær merki frá einum hnetti frá einni átt og annað frá hinni veit hann nákvæmlega hvar norður er. Alveg eins og sæfararnir í gamla daga, sem notuðu stjörnurnar til að finna áttina og einnig staðsetninguna þeirra. Önnur gervihnatta staðsetningakerfi. Þróun á kerfinu hófst 1973 í Bandaríkjunum, en önnur lönd hafa einnig verið að rannsaka í þessa átt og koma upp eigin kerfum. Evrópubandalagið ætlar sér að setja Galileo kerfið í gang í lok 2010 með 30 hnöttum. GLONASS kerfið rússa kom í gang 1996 með 24 hnöttum. Língresi. Língresi (eða hvingras) (fræðiheiti: "Agrostis") er ættkvísl af grasaætt. Allar tegundir língresis eru puntgrös. Skriðlíngresi og hálíngresi eru algengar tegundir í gömlum túnum á Íslandi. Rauðbrúni punturinn gerir það að verkum að slík tún eru oft brún yfir að líta. Sveifgrös. Sveifgrös (fræðiheiti: "Poa") er ættkvísl af grasaætt. Allar tegundir sveifgrasa eru puntgrös. Tún. Sauðfé á beit á túni thumb Tún er ræktað land til sláttar eða beitar handa grasbítum. Í túnum má aðallega finna grös, en einnig ýmsa tvíkímblöðunga. Tún þarf reglulega að endurrækta til að fá fram á ný æskilegar tegundir, er hafa hopað undan ágengari tegundum eftir því sem túnin eldast. Uppskera túna fer að mestu fram með slætti og er uppskeran að stærstum hluta hirt í heyrúllur. Blossi/810551. Blossi/810551 er kvikmynd leikstýrð af Júlíusi Kemp og skrifuð af Lars Emil Árnasyni. Veggspjöld og hulstur. Myndbands hulstrið breyttist mjög lítið frá veggspjaldinu, eins og tíðkast mjög á Íslandi. Kristnihald undir Jökli (kvikmynd). "Kristnihald undir jökli" er fyrsta kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur gerð eftir samnefndri skáldsögu Halldórs Laxness. Hún fjallar um „Umba“, umboðsmann biskups (Sigurður Sigurjónsson), sem er sendur til að heimsækja séra Jón Prímus á Snæfellsnesi (Baldvin Halldórsson) vegna kvartana sem borist hafa vegna hans. Kvikmyndafélagið Umbi dregur nafn sitt af aðalpersónu myndarinnar þar sem þetta er fyrsta kvikmyndin sem fyrirtækið framleiddi. Gylfi Pálsson. Gylfi Pálsson er kennari, aukaleikari og atvinnurödd. Hann lék lítið hlutverk í kvikmyndinni Kristnihald undir Jökli sem guðfræðingur. Hann er þó líklega frægastur fyrir að vera röddin í viðvörunar-kvikmynd Kvikmyndaeftirliti ríkisins. Í henni les hann upp aldurstakmark kvikmyndarinnar og lýkur viðvöruninni með því að segja: „Góða skemmtun“. Litlulaugaskóli. Litlulaugaskóli er grunnskóli á Laugum í Reykjadal en hann sækja nemendur búsettir í Reykjadal. Skólaárið 2006-2007 stunduðu 47 nemendur nám við skólann. Skólinn er rekinn af sveitarfélaginu Þingeyjarsveit en skólastjóri er Baldur Daníelsson. Þingeyjarsveit rekur einnig tónlistarskóla og leikskóla í eins hæðar byggingu við hlið skólans. Aðstaða. Í skólabyggingunni eru 5 kennslustofur en einnig er þar Bókasafn Reykdæla. Skólinn er útbúinn 8 fartölvum ásamt 5 borðtölvum. Íþróttakennsla fer fram í íþróttahúsinu á Laugum sem er í eigu Framhaldsskólans á Laugum. Nei er ekkert svar. "Nei er ekkert svar" er kvikmynd eftir Jón Tryggvason. The Hollies. The Hollies var bresk hljómsveit. Allan Clarke var aðalsöngvarinn og Graham Nash sem spilaði á gítar höfðu verið bestu vinir síðan í barnæsku í Manchester. Þeir stofnuðu svo hljómsveitina Hollies ásamt Eric Haydock sem var á bassa. Gifhorn. Gifhorn er borg með 42.945 íbúa (31. desember 2005). Borgin er staðsett í sambandslandinu Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Borgin liggur norðan við Harz-fjöllin við ána Ise sem tengir Norðursjóinn við árnar Aller og Weser. Magnús (kvikmynd). "Magnús" er kvikmynd eftir Þráin Bertelsson með Egil Ólafsson í aðalhlutverki sem Magnús. Mávahlátur. "Mávahlátur" er kvikmynd eftir Ágúst Guðmundsson eftir samnefndri skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur. Okkar á milli. "Okkar á milli" er kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson. Morðsaga. "Morðsaga" er kvikmynd sem Reynir Oddsson skrifaði, leikstýrði, klippti og framleiddi 1977. Framleiðslan þótti mjög djörf á sínum tíma enda var íslensk kvikmyndagerð ekki komin almennilega á lappirnar þá. Bretónska. Bretaníuskagi, rauður á myndBretónskar mállýskurBretónska er keltneskt tungumál sem enn er talað á Bretaníuskaga, vestasta hluta Frakklands. Bretónska er náskyld velsku og kornísku. Bretónska var töluð á öllum Bretaníuskaganum þegar Júlíus Sesar bar að garði, og hún var mál menntamanna og yfirstétta langt fram á miðaldir. Um aldamótin 1900 voru um milljón manns sem aðeins töluðu bretónsku, en nú eru aðeins um 300 þúsund mælendur sem nota málið daglega, en þeir eru allir tvítyngdir. Nú um stundir þykir mönnum sem framið hafi verið eins konar þjóðarmorð á Bretónum á 19. og 20. öld, þar sem tungan var bönnuð. Fyrir fáeinum árum breyttu Frakkar stjórnarskránni á þá lund, að tungumál lýðveldisins er aðeins eitt. Hins vegar hefur orðið mikil vakning á undanförnum árum, hún hófst í raun um 1970 með Alan Stivell hörpuleikara sem söng á málinu og varð heimsfrægur. Nú er mikið ritað og rokkað á máli þessara frumbyggja Evrópu, enda svíður mönnum sárt framkoma franskra stjórnvalda í garð þessa minnihluta. Með framtaki félagasamtaka og duglegra manna á Bretaníu hefur nú verið unnt að tryggja að kennt er á bretónsku frá forskólastigi til doktorsstigs, en það er í raun gert í trássi við frönsk landslög. Reiknað er með að mælendum fækki (vegna aldurs) til ársins 2010 en upp úr því fari þeim fjölgandi á ný. Málið er náskylt velsku og telst ekki erfitt - það er til dæmis mun auðlærðara en gelíska! Óðal feðranna. "Óðal feðranna" er fyrsta kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar í fullri lengd. Hún fjallar meðal annars um fólksfækkun í dreifbýli á Íslandi. Tónlistin er eftir Magnús Eiríksson og Gunnar Þórðarson. Óskabörn þjóðarinnar. "Óskabörn þjóðarinnar" er önnur kvikmynd Jóhans Sigmarssonar en hún kom út árið 2000. Veggspjöld og hulstur. Gerðar voru talsverðar breytingar á veggspjaldi myndarinnar þegar það var notað á myndbandshulstrið, miðað við aðrar íslenskar kvikmyndir. Notuð var sama ljósmynd og á veggspjaldinu, en í öðrum hlutföllum. Against Me! Against Me! er bandarísk pönkhljómsveit frá bænum Gainesville í Flórída-fylki Bandaríkjanna. Saga sveitarinnar. Upphaf hljómsveitarinnar má rekja til ársins 1997 þegar að ungur Bandaríkjamaður að nafni Tom Gabel byrjaði að semja og spila tónlist. Hann spilaði þá einn og spilaði órafmagnað þjóðlagablendið pönk. Stöku sinnum fékk hann bassaleikara og trommara til að spila með sér þegar hann kom fram á tónleikum. Þá voru það þeir kumpánar hans Dustin Fridkin er lék á bassa og Kevin Mahon sem sló á trommur, einnig léku þeir á fyrstu alvöru útgáfu hans. Það var stuttskífan Crime As Forgiven By... sem kom út árið 2001 undir merkjum Plan-It-X Records. Sama ár kom einnig út önnur stuttskífa sem var alveg órafmögnuð. Platan kom út nafnlaus, en hefur verið gefið heitið The Acoustic EP. Eftir þetta slitu þeir Dustin Fridkin og Kevin Mahon samstarfi við Tom Gabel og við af þeim tóku þeir Warren Oakes trommari og Andrew Seward bassaleikari. Einnig bættist við í hópinn gítarleikarinn James Bowman. Árið 2002 bar miklar breytingar í skauti sér fyrir hljómsveitina Against Me!, fyrsta stóra útgáfa hljómsveitarinnar, Reinventing Axl Rose kom út og markaði nýja stefnu í tónlist hljómsveitarinnar, í einu laginu mátti jafnvel heyra móta fyrir írskum þjóðlagastíl. Platan kom út hjá plötuútgáfunni No Idea Records og hún fékk mun meiri athygli en fyrri útgáfur. Sama ár gáfu þeir út þriggja laga smáskífuna The Disco Before The Breakdown, einnig á No Idea Records. Í byrjun árs 2003 skiptu þeir um plötuútgáfu og fóru yfir á Fat Wreck Chords, sem er í eigu bassaleikara hljómsveitarinnar NoFX. Þá kom út platan As the Eternal Cowboy.. undir merkjum Fat Wreck Chords. Margir fyrrum aðdáendur hljómsveitarinnar reiddust útaf þessari ákvörðun, vegna fyrrum andkapitalísku og DIY stefnu hljómsveitarinnar. Platan þótti mjög frábrugðin fyrri útgáfum, það markaði meira fyrir rokkáhrifum í stað þjóðlagaáhrifa. Mörgum þótti miður að hljómsveitin hefði flutt sig um útgáfu og varð það efni að heimildamyndinni We're Never Going Home. Á þeirri mynd, sem kom beint út á DVD disk er fjallað um hvernig Against Me! hafna hverju stóra útgáfufyrirtækinu af öðru. Í september 2005 kom út nýjasta útgáfa hljómsveitarinnar, Searching for a Former Clarity. Lagið Don't Lose Touch komst á 114. sæti Billboard listans og var myndbandið við það meðal annars sýnt á MTV. Í desember 2005 skrifaði hljómsveitin undir Plötusamning við Sire Records, sem hefur gefið út hljómsveitir á borð við HIM, The Distillers og Echo and the bunnymen. Ritgerð um lögmál mannlegrar þekkingar. "Treatise Concerning the Principles of Human Knowledge" "A Treatise Concerning the Principles of Human Knowledge" eða "Ritgerð um lögmál mannlegrar þekkingar" er rit um þekkingarfræði eftir írska heimspekinginn og raunhyggjumanninn George Berkeley sem kom út árið 1710. Ritinu var í hnotskurn ætlað að hrekja fullyrðingar eldri samtímamanns Berkeleys Johns Locke um eðli mannlegrar skynjunar, sem voru settar fram í ritinu "Ritgerð um mannlegan skilning". Locke og Berkeley voru, líkt og allir raunhyggjumenn, sammála um tilvist ytri heims og að hinn ytri heimur væri valdur að hugmyndum okkar. Berkeley reyndi hins vegar að sanna að hinn ytri heimur samanstæði einungis af hugmyndum. Berkeley hélt því fram að „hugmyndir geti einungis líkst hugmyndum“ - hugmyndir okkar gætu einungis líkst öðrum hugmyndum (en ekki efnislegum hlutum) og því samanstæði hinn ytri heimur ekki af efnislegum hlutum, heldur hugmyndum. Berkeley reyndi að sýna fram á að það væri guð sem kæmi reglu á þennan heim. Þrjár samræður Viðars og Huga. "Three Dialogues between Hylas and Philonous" eða "Þrjár samræður Viðars og Huga" er rit um heimspeki eftir írska heimspekinginn og raunhyggjumanninn George Berkeley sem kom út árið 1713. Hylas er málsvari heimspeki Johns Locke, helsta heimspekilega andstæðings Berkeleys. Nafnið er úr forngrísku og þýðir „viður“ eða „efni“. Hylas/Viðar færir einmitt rök fyrir tilvist efnisheimsins í samræðunum. Nafn Philonouss er einnig úr forngrísku og þýðir „sá sem elskar hugann“. Philonouss/Hugi er einmitt málpípa Berkeleys sjálfs og færir rök gegn tilvist efnisheimsins í samræðunum. Bank of China Tower. Bank of China Tower í Hong Kong. Bank of China Tower er eitt af auðþekkjanlegustu kennileitum í miðbæ Hong Kong. Í byggingunni má finna bankann sjálfan, Bank of China Limited. Bank of China Tower er 315 metrar að hæð og er með tvö möstur sem ná upp í 369 metra hvort. Byggingin, sem er 70 hæðir, var byggð árið 1989. Þetta var hæsta byggingin í Hong Kong og Asíu frá 1989 til ársins 1992 og hæsta bygging í heimi utan Bandaríkjanna. Núna er hún þriðja hæsta byggingin í Hong Kong á eftir Two International Finance Center og Central Plaza. Tjáning byggingarinnar var hugsuð sem vaxandi bambus sem táknar lifibrauð og velgengni. Öll byggingin hvílir á 5 járnsúlum sem eru í hornum hennar. Hefur djarft útlit hennar valdið stuðningsaðilum Feng Shui miklum vonbrigðum. Þeir hafa gagnrýnt þessa byggingu mjög en af öðrum er hún kölluð meistaraverk. Meistaraverk þetta hefur unnið til margra verðlauna, bæði á heimsvísu og heima fyrir. Sem dæmi má nefna verðlaun sem voru veitt árið 2002 fyrir yfirburða hönnun (excellence award), af Hong Kong Building Environmental Assessment Method. Árið 1999 fékk byggingin verðlaun fyrir að vera eitt af tíu bestu arkitektúrum í Hong Kong, HKIA, árið 1992 fékk hún Marmaraarkitekúr verðlaunin, árið 1991 AIA Reynolds Memorial verðlaunin, árið 1989 verðlaun fyrir frábæra verkfræði, ACEC og sama ár fékk hún viðurkenningu fyrir frábæra verkfræði, NYACE o.s. frv. Bank of America Tower (Miami). Bank of America Tower (áður CenTrust Tower) er 47 hæða skrifstofubygging í Miami í Flórídafylki. Byggingin var byggð fyrir CenTrust Savings and Loans árið 1987 og er þriðja hæsta byggingin í Miami og reyndar Flórída einnig. Húsið er um 190 metra hátt og er þekkt fyrir vandaða kvöldlýsingu og tilþrifamikið þriggja glera lag. Byggingin var hönnuð af I.M. Pei og er fyrirtækið Pei Cobb Freed & Partners skráð fyrir arkitekúrnum. Turninn samanstendur af tveimur mannvirkjum. Fyrst má nefna 10 hæða bílskúr sem borgin sjálf á og síðan 37 hæða skrifstofuhús sem er byggt ofan á bílskúrinn. Teikningarnar af turninum voru gerðar í febrúar 1980 og byrjað var á byggingu bílskúrsins í nóvember sama ár. Byggingarframkvæmdum við bílskúrinn lauk í febrúar 1983 en ekki var þó byrjað á byggingu turnsins fyrr en ári seinna. Í ágúst 1984, meðan turninn var enn í byggingu, kviknaði eldur á 9. hæð sem gerði það að verkum að byggingu hússins seinkaði um nokkrar vikur. Í febrúar 1987, var framkvæmdum lokið við bygginguna. Hún innihélt þá meðal annars einu upphækkuðu neðanjarðar–lestastöðina í heiminum sem byggð er inni í skýjakljúf. En byggingin er ekki einungis augnakonfekt utan frá séð. Hún er vel skreytt að innan og greinilegt að innanhúsarkitektinn hefur ekki verið að spara sig. Á fyrstu hæð hússins má sjá grænan marmara og ellefta hæðin er t.d. skreytt með marmara og gulli og risastórum svölum. Í byggingunni er einnig að finna fyrsta flokks líkamsræktar–aðstöðu þar sem skáparnir eru úr mahónitr. Turninn er tengdur við James L. Knight miðstöðina með gangbraut. Til gamans má geta þess að þak hússins var notað sem tökustaður í myndbandi sem hin fræga söngkona, Gloria Estefan, tók upp árið 1994 fyrir lagið Turn the Beat around. Einnig hefur sést móta fyrir byggingunni í sviðsmynd hjá The Tonight Show sem Jay Leno stjórnar með prýði. John Hancock Tower. John Hancock Tower í Boston. Þrjár byggingar í Boston í Massachusetts, eru þekktar undir nafninu John Hancock Building. Þessar byggingar voru byggðar fyrir tryggingarfélagið John Hancock. Í dag stendur jafnvel til að fara að byggja þá fjórðu. Ein af þessum byggingum, þekkt sem John Hancock Tower, er í daglegu tali kölluð Nýja John Hancock byggingin en er opinberlega nefnd Hancock Place eða Hancock staðurinn. Byggingin er 241 metri á hæð og falleg, með 60 hæðum. Hún er hönnuð af I.M. Pei og Henry N. Cobb en þeir reka saman vinnustofu sem heitir Pei, Cobb og Freed. Lokið var við bygginguna árið 1976, 5 árum eftir áætlaðan tíma. Árið 1977 fékk Cobb National Honor Award frá AIA fyrir vinnu sína við John Hancock Tower. Árið 2005 var John Hancock Tower hæsta byggingin í Nýja Englandi, 45. hæsta bygging í Bandaríkjunum og 131. hæsta bygging í heiminum. Þegar arkitektarnir byrjuðu að hugsa um hönnun byggingarinnar höfðu þeir einfaldleika, fegurð og tærleika að leiðarljósi. Þeir vildu hafa hana granna og háa. Gluggana langa og stóra. Flest gekk að óskum nema hvað það urðu nokkur óhöpp með bygginguna. Meðan á framkvæmdum stóð brotnaði það úr mörgum gluggum og féll til jarðar. Vegfarendur lýstu því svo að það hefði verið sem glerinu hefði rignt af himnum ofan. Gluggarnir í byggingunni voru samtals 10.344 og byrjuðu að gefa sig nánast strax í upphafi. Mestur varð vandinn þegar vetur harðnaði nóttina 20. janúar 1973. Þá var ennþá verið að vinna við byggingu turnsins. Stórir hlutar úr gluggunum, um 250 kíló hver, duttu niður. Á leiðinni niður brutu þeir aðra glugga. Allt í allt duttu 65 gluggar úr festingum. Næstu mánuði brotnuðu fleiri gluggar. Í apríl var meira af gluggum komið til jarðar heldur en voru eftir á byggingunni sjálfri. Það hafði enginn hugmynd um hvað var í gangi og þar af leiðandi byrjuðu fljótt að kvisast út sögur. Ein var þannig að gluggarnir væru að detta út af því að byggingin væri bogin. Önnur var sú að einhver undarlegur kraftur í vindinum væri að sjúga gluggana út. Og þannig héldu sögurnar áfram að berast á milli manna. Meginástæðuna fyrir öllum sögunum segja þó margir vera fáfræði fólksins. Fólk fékk annaðhvort ekki að vita neitt meira eða vildi ekki vita meira. Þetta tilheyrir allt fortíðinni, því nú er þessi bygging augsýnilega ein af flottari byggingum Boston og var nýlega valin þriðji besti arkitektúr Boston fyrr og síðar. En þó er mikilvægt að fólk þekki söguna áður en þeir segja hana. Hinn 6. mars 1975 kom maður frá Sviss með lausnina á vandamálinu! Til að koma í veg fyrir að hún myndi bókstaflega hrynja var byggt niður á við. Byggt niður í kjallara til að koma niður járnsúlum sem myndu hjálpa að viðhaldabyggingunni beinni og sterkri. Hann kom fljúgandi frá Zurich til að segja eigendum Hancock að hætta væri á að byggingin myndi detta. Rétt eins og tré úti í skógi. Turninn var þó alveg rétt byggður og í fullu samræmi við byggingarreglur. Ekki er auðvelt að sjá að neinum hafi hér verið um að kenna. Svona gerist einfaldlega. En öll vandamál hafa lausn og við þessu vandamáli hafði maðurinn frá Zurich lausnina. Og vegna gluggavandamálsins varð Hancock turninn ein mest skoðaða bygging sögunnar. Niki Lauda. Andreas Nikolaus „Niki“ Lauda (f. 22. febrúar 1949) er austurrískur viðskiptamaður og fyrrverandi kappakstursökumaður. Hann keppti í Formúlu eitt á sjöunda og sjötta áratugnum fyrir March, BRM, Brabham, Ferrari og McLaren liðin. Hann varð þrisvar sinnum heimsmeistari - einu sinni með McLaren og tvisvar með Ferrari. Niki Lauda stofnaði flugfélag; Lauda Air á síðustu öld og rekur það ennþá en er enn viðriðinn mótorsport. Hann var liðsstjóri Jaguar liðsins árið 2001 til 2002. Sonur Niki Lauda er farinn að gera það gott í mótorsporti og er hann á stöðugri uppleið. Niki Lauda lenti í slysi árið 1976 þar sem hann brenndist mjög á andliti. Hann var frá í tvö mót en kom svo aftur til að berjast um titilinn við James Hunt. Fangelsismálastofnun. Fangelsismálastofnun ríkisins er opinber stofnun íslenska ríkisins. Hlutverk stofnunarinnar er að sjá um fullnustu refsingar með því að reka fangelsi. Stofnunin annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar. Forstjóri fangelsismálastofnunar, nefndur fangelsismálastjóri, er Páll Winkel. Hann er skipaður til fimm ára í senn af dómsmálaráðherra. Fangelsismálastofnun ber að reka fangelsi með þeim hætti að öryggi fanganna og almennings sé tryggt. Einnig er það í þágu samfélagsins að fanginn hljóti endurhæfingu þannig að hann sé betur í stakk búinn til þess að fóta sig í samfélaginu að afplánun lokinni. Hegningarhúsið í miðbæ Reykjavíkur er lang elst, það var tekið í notkun 1874 en húsnæðið hefur einnig verið nýtt í öðrum tilgangi. Þar starfaði Hæstiréttur á tímabili. Í dag er þar aðstaða fyrir 16 fanga þar af tvö einangrunarpláss. Fangelsið uppfyllir þó ekki ströngustu skilyrði um aðstöðu fyrir fanga enda stendur til að leggja það niður. Fangelsið í Kópavogi var tekið í notkun 1989 og getur vistað 12 fanga. Það er fyrrverandi unglingaheimili ríkisins. Þar eru allir kvenfangar landsins hafðir en einnig karlar þar sem að jafnaði afplána aðeins 4-5 konur dóma á hverjum tíma. Í fangelsinu vinna fangarnir greidda verktakavinnu samkvæmt samningum sem verkstjóri fangelsins gerir við fyrirtæki á einkamarkaði. Menntaskólinn í Kópavogi býður upp á námskeið í fangelsinu. Fangelsið á Litla-Hrauni var stofnað 8. mars 1929. Það er stærsta fangelsi landsins og tekur 33 fanga. Fangelsinu er skipt í mismunandi byggingar sem nefnast Hús 1, 2, 3 og 4. Við fangelsið starfa 43 fangaverðir, fjórir deildarstjórar og einn fulltrúi. Í fangelsinu fá fangarnir greidd laun fyrir vinnu við vörubrettasmíði, hellusteypu, þrif, þvottahús, skrúfbútaframleiðslu, skjalaöskjuframleiðslu, bílnúmera- og skiltagerð, samsetningar í járn- og trésmíði og bón og þvott bíla. Fjölbrautaskóli Suðurlands býður föngum upp á nám á meðan á afplánun stendur. Fangelsið á Kvíabryggju var upphaflega notað 1954 til þess að vista feður sem ekki greiddu meðlag eða barnalífeyri. Fangelsið var tekið í almenna notkun 1963. Þar er pláss fyrir 14 fanga. Þar eru ekki rimlar fyrir gluggum og svæðið er ekki afgirt. Á Akureyri er fangelsisdeild í húsnæði lögreglunnar sem tekur 9 fanga. Þar er ekki aðstaða til vinnu eða náms. Fangar eru ekki vistaðir þar lengur en í nokkra mánuði. Africa United. "Africa United" er heimildarmynd um fótboltalið í þriðju deild eftir Ólaf Jóhannesson. Fornloftslagsfræði. Fornloftslagsfræði er vísindagrein sem fæst við loftslagsbreytingar sem hafa átt sér stað í jarðsögunni. Fornloftslagsfræðingar beita margvíslegum aðferðum við rannsóknir sínar, til að prófa tilgátur og niðurstöður. Upplýsingar úr jöklum eru mikið notaðar í fornloftslagsfræði. Ísinn í jöklunum hefur þést og harðnað í ákveðið mynstur sem lesa má úr, þar sem hvert ár skilur eftir sig ákveðið lag í ísnum. Áætlað er að í ísnum við póla jarðarinnar megi telja um 100.000 slík lög eða meira. Í nýlegum borunarverkefnum eftir ískjörnum á Grænlandsísnum og Suðurskautslandinu, hafa safnast gögn sem veita upplýsingar um loftslag nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann. Árhringjafræði er vísindagrein sem fæst við aldursgreiningar á viði og viðarleifum með árhringjum sem myndast við vöxt trjáa. Áhringir lifandi trjáa sem náð hafa háum aldri, veita upplýsingar um liðnar aldir nokurra árþúsunda. Eldri ósnertur viður sem ekki hefur eyðst, getur bætt við þennan tíma og er það gert með því að bera saman árhringjamynstrið við þekkt mynstur lifandi trjáa. Steinrunninn viður veitir loftslagsfræðingum upplýsingar um mun lengri tímabil. Steingervingurinn sjálfur er aldursgreindur með geislamælingum innan ákveðinna skekkjumarka. Hringirnir sjálfir veita upplýsingar um úrkomu og hitastig þess tíma. Setlög hafa verið rannsökuð. Sérstaklega hefur sjónum verið beint að setlögum á hafsbotni og í botni stöðuvatna. Einkenni gróðurs sem hefur varðveist, dýra, frjókorna og hlutfall samsætna eru þættir sem veita mikilvægar upplýsingar. Frjókornagreining veitir t.d. upplýsingar um útbreiðslu mismunandi plöntutegunda og er góður mælikvarði á loftslag. Setberg gefur samanþjappaðra yfirlit yfir loftslagsbreytingar þar sem lögin í setbergi ná yfir hundruð þúsunda eða milljónir ára. Vísindamenn geta fengið yfirsýn yfir lengri tímabil loftslagsbreytinga með því að rannsaka setberg sem nær aftur um milljarða ára. Skipting jarðsögunnar í aðgreind tímabil er að mestu leyti byggð á breytingum á setbergslögum sem marka meiriháttar breytingar af einhverju tagi. Oft eru þessar breytingar einmitt loftslagsbreyingar. Þrymskviða (kvikmynd). Þrymskviða er teiknimynd eftir Sigurð Örn Brynjólfsson frá 1980. Hún er 15 mínútur að lengd og er líklega fyrsta íslenska teiknimyndin. Hún var meðal fyrstu kvikmynda sem fékk úthlutun úr kvikmyndasjóði, en hún fékk 1.000.000 ISC. Giuseppe Rossi. Giuseppe Rossi (fæddur 2. febrúar 1987) er ítalskur knattsyrnumaður. Rossi fæddist í Teaneck í New Jersey í Bandaríkjunum en fluttist svo til Ítalíu með foreldrum sínum þegar hann var barnungur og bjó þar þangað til hann var 16 ára. Hann æfði lengi vel með Parma á Ítalíu og töldu þjálfarar þar á bæ hann vera mjög efnilegan leikmann. Giuseppe Rossi var keyptur af enska úrvalsdeildar liðinu Manchester United þann 7. júlí árið 2004 frá ítalska liðinu Parma. Þá var Rossi aðeins 16 ára gamall. Kaupverð þessa leikmannsins var 200 þúsund sterlingspund. Hjá Parma var Rossi einungis með unglingasamning enda var hann of ungur til að geta fengið atvinnumannasamning. Rossi er örfættur leikmaður. Eins og margir aðrir unglingar hjá Manchester United lék Rossi sinn fyrsta leik í ensku deildarkeppninni en þá var hann 17 ára gamall. Hann kom inn á í 2-0 sigri liðsins á Crystal Palace en Rossi náði ekki að skora í sínu fyrsta tækifæri með liðinu. Rossi fékk treyju merkta nafninu sínu og með númerinu 42 aftan á en hann ber enn þetta númer á baki sér í dag. Í æfinguleikjum liðsins fyrir leiktímabilið 2005-06 kom Rossi mikið á óvart og sýndi stjóra sínum, Alex Ferguson, að hann væri mikið efni í leikmann í Úrvalsdeildina á Englandi. Rossi ávann sér einnig stuðning aðdáenda Manchester United en þeir gáfu Rossi gælunafnið „Joe Red“. Það er í rauninnni þýðing á nafninu hans á ítölsku og svo passaði þetta líka fullkomnlega fyrir leikmann Manchester United. Um það bil ári seinna eftir leikinn sem Rossi kom inn á gegn Crystal Palace spilaði hann í fyrsta sinn leik þar sem hann var í byrjunarliðinu. Rossi gerði sér lítið fyrir og skoraði í leiðinni sitt fyrsta úrvalsdeildarmark í 3-1 sigri liðsins á Sunderland þann 15. október 2005 og stuttu seinna eftir þann leik spilaði Rossi í 4-1 sigri á Barnet í enska deildarbikarnum og skoraði einmitt mark í þeim leik líka. 18. janúar 2006 var Rossi í liði Manchester United þegar liðið sigraði Burton Albion í enska bikarnum. Rossi skoraði tvö mörk og lagði þar að auki upp tvö önnur mörk. Hann var valinn maður leiksins. Á leiktímabilinu 2005-06 spilaði Rossi aðallega fyrir varaliðið en samt sem áður stóð hann sig vel þar og skoraði 26 mörk í jafmörgum leikjum. Þar á meðal eru nokkrar þrennur. Lystisnekkja. Lystisnekkja er venjulega ríkulega búinn vélbátur eða seglskúta sem er fyrst og fremst ætluð til afþreyingar, oft sem eins konar „annað heimili“ og er því búin öllum helstu þægindum en getur annars verið hvers konar bátur með húsi á. Hugtakið á fyrst og fremst við um dýra skemmtibáta ríks fólks og þann lífstíl sem þeim tengist en ekki um keppnisskútur eða fiskibáta. Risasnekkjur (yfir 200 fet) á borð við "Pelorus" Romans Abramovitsj, eru sjaldgæfar risaútgáfur af þessari hugmynd og eru nánast lítið smækkuð útgáfa skemmtiferðaskipa með áhöfn. Enska orðið yfir lystisnekkju, "yacht", er dregið af hollenska orðinu "jacht", en upprunaleg merking þess orðs er nær merkingu íslenska orðsins jakt sem á við um litlar alhliða skútur sem voru notaðar í hernaði, til fiskveiða, vöruflutninga eða sem farkostur í strandsiglingum frá 17. öld til 19. aldar. C++. C++ (enska: „C Plus Plus“, ˌsiːˌplʌsˈplʌs, en á íslensku „C plús plús“ sagt „sé plús plús“) er forritunarmál búið til af Bjarne Stroustrup. Frá 1990 hefur C++ verið eitt af vinsælustu forritunarmálum í heimi. Hera (gyðja). Hera var kona þrumuguðsins Seifs og gyðja og verndari hjónabands og giftra kvenna í grískri goðafræði. Hera var ein af Ólympsguðunum tólf. Meðal barna hennar voru Ares, Eileiþýa, Heba og Hefæstos. Kvikmyndagerð á Íslandi. Kvikmyndagerð á Íslandi einkenndist lengi vel (og jafnvel enn) af frumkvöðlastarfsemi og gerð ódýrra kvikmynda. Vísir að sjálfstæðum kvikmyndaiðnaði fór ekki að myndast fyrr en undir lok 20. aldar en fram að því var kvikmyndagerð nátengd annarri starfsemi, svo sem ljósmyndun, íslensku leikhúsunum og Ríkissjónvarpinu eftir að það tók til starfa árið 1966. Aðsókn að kvikmyndahúsum hefur verið tiltölulega mikil en fjöldi áhorfenda takmarkaður miðað við þann kostnað sem felst í kvikmyndagerð. Gjarnan er talað um að stofnun Kvikmyndasjóðs 1978 marki upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi og er þannig talað um fyrstu kvikmyndina sem kom út og gerð var með styrk úr sjóðnum, "Land og syni", sem fyrstu „alvöru“ íslensku kvikmyndina. Ekki má þó gleyma því að á 5. og 6. áratugnum stóð kvikmyndagerð með nokkrum blóma á Íslandi og stórmyndir á borð við "79 af stöðinni" sem gerðar voru á 7. áratugnum voru að hluta til framleiddar af Íslendingum og með íslenskum leikurum í aðalhlutverkum. Síðustu ár hefur aftur færst í vöxt að íslensk kvikmyndafyrirtæki taki að sér að vera innlendur samstarfsaðili fyrir erlenda framleiðendur sem hafa hug á að taka kvikmyndir á Íslandi. Nýlegt dæmi um slíkt samstarf er kvikmynd Clints Eastwood, "Flags of Our Fathers", sem tekin var að hluta nálægt Krýsuvík í samstarfi við íslenska fyrirtækið Truenorth Productions. Kvikmyndamiðstöð Íslands var stofnuð árið 2001 og hefur umsjón með styrkjum til kvikmyndagerðar og gerðar leikins sjónvarpsefnis auk sjö manna kvikmyndaráðs sem menntamálaráðherra skipar samkvæmt tilnefningum frá fagsamtökum kvikmyndagerðarfólks. Kvikmyndasjóður veitti árið 2006 um 300 milljónir króna í styrki. Edduverðlaunin eru verðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefni. Þau hafa verið veitt árlega frá 1999. Akademían sér einnig um val á framlagi Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna. Fyrstu kvikmyndirnar. "Hadda Padda" var tekin á Íslandi 1923. Kvikmyndagerð á Íslandi má segja að hafi hafist þegar danskt tökulið ferðaðist til Íslands árið 1919 til þess að kvikmynda "Sögu Borgarættarinnar" eftir sögu Gunnars Gunnarssonar á vegum Nordisk Film. Sett var upp „kvikmyndaver“ í Reykjavík og nokkrir íslenskir leikarar léku aukahlutverk auk Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) sem lék eitt af aðalhlutverkunum. Kvikmyndin tengist frumkvöðlum í íslenskri kvikmyndagerð beint vegna þess að þar kynntist Óskar Gíslason, sem síðar varð afkastamikill kvikmyndagerðarmaður, filmuvinnu í fyrsta skipti. 1923 kom aftur tökulið til Íslands frá Danmörku til að taka upp "Höddu Pöddu" eftir handriti Guðmundar Kamban þar sem titilhlutverkið var leikið af dönsku stórstjörnunni Clöru Pontoppidan, en það sama ár var líka frumsýnd fyrsta kvikmyndin sem var leikstýrð og framleidd af Íslendingi, gamanmynd Lofts Guðmundssonar, "Ævintýri Jóns og Gvendar", sem var stutt og sýnd sem aukamynd í Nýja Bíói. Myndin hlaut misjafnar viðtökur en Loftur hélt áfram og sendi frá sér "Ísland í lifandi myndum" 1925 sem var löng Íslandslýsing sem Loftur hafði tekið víða á Íslandi sumarið áður. Loftur hélt áfram að taka kvikmyndir, yfirleitt stuttar heimildarmyndir en 1949 sendi hann frá sér "Milli fjalls og fjöru", fyrstu leiknu íslensku kvikmyndina í fullri lengd sem jafnframt var fyrsta íslenska talmyndin. Á síðari hluta 5. áratugarins kom út töluverður fjöldi af heimildarmyndum og ber þar líklega hæst "Björgunarafrekið við Látrabjarg" sem Óskar Gíslason gerði 1949. Fyrsta íslenska „kvikmyndavorið“. "79 af stöðinni" var leikstýrt af einum þekktasta kvikmyndaleikstjóra Dana, Erik Balling. Kvikmynd Lofts Guðmundssonar, "Milli fjalls og fjöru", er fyrsta leikna íslenska kvikmyndin í fullri lengd. Hún var frumsýnd 1949. Tveimur árum síðar fylgdi hann henni eftir með "Niðursetningnum" en hann var þá orðinn veikur og lést árið eftir, eða 1952. 1950 kom út önnur leikna íslenska kvikmyndin, barnamyndin "Síðasti bærinn í dalnum", eftir Óskar Gíslason með vísunum í íslenska þjóðsagnahefð. Árið eftir gerði Óskar svo gamanmyndina "Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra". Hann var gríðarlega afkastamikill allan 6. áratuginn með kvikmyndum eins og "Ágirnd" 1952, sem hann framleiddi og kvikmyndaði, en var í leikstjórn Svölu Hannesdóttur sem varð fyrsta konan til að leikstýra íslenskri kvikmynd. Myndin var gerð eftir leikþætti sem hún hafði samið. Á þessum tíma gerði Óskar "Nýtt hlutverk" 1954. Árið áður kom út stuttmyndin "Tunglið, tunglið, taktu mig" eftir Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson. Þeir gerðu síðan "Gilitrutt" sem var frumsýnd árið 1957. Það sama ár stofnaði Óskar Gíslason kvikmyndaverið Íslenzkar kvikmyndir h.f. sem varð fljótlega gjaldþrota. Eftir það liðu heil tuttugu ár þar til næsta leikna íslenska kvikmyndin, sem alfarið var framleidd á Íslandi, leit dagsins ljós, "Morðsaga" Reynis Oddssonar 1977. Erlent samstarf. 19. ágúst 1949, sama ár og fyrsta leikna íslenska kvikmyndin í fullri lengd var frumsýnd, var fyrirtækið Edda-Film stofnað í Reykjavík í þeim tilgangi að vera samstarfsaðili fransks framleiðenda sem ætlaði sér að kvikmynda "Fjalla-Eyvind" Jóhanns Sigurjónssonar á Íslandi. Ekkert varð úr þeirri framleiðslu en fyrirtækið hélt áfram og tók þátt árið 1954 í framleiðslu "Sölku Völku" í leikstjórn sænska leikstjórans Arne Mattsson. Næsta verkefni sem fyrirtækið réðst í var gerð "79 af stöðinni" (1962) sem var framleidd í samstarfi við Nordisk Film og í leikstjórn danska leikstjórans Erik Balling, en fjármögnuð af Íslendingum (meðal annars styrk frá menntamálaráði) og með íslenskum leikurum. Forsvarsmenn fyrirtækisins beittu sér fyrir ríkisstyrkjum til kvikmyndagerðar en þær hugmyndir fengu lítinn hljómgrunn framan af og fyrirtækið réðist ekki beint í framleiðslu annarra kvikmynda þótt það tæki þátt í gerð myndar Gabriels Axels, "Rauðu skikkjunnar", 1967. Fyrirtækið lognaðist út af undir lok 8. áratugarins. Sjónvarpið og kvikmyndaskólakynslóðin. "Morðsaga" frá 1977 var fyrsta alíslenska leikna kvikmyndin í fullri lengd frá því "Gilitrutt" kom út 1957. Tveir atburðir árið 1966 mörkuðu tímamót í íslenskri kvikmyndagerð. Það ár var Félag kvikmyndagerðarmanna stofnað og 30. september hóf Sjónvarpið útsendingar. Stofnun ríkissjónvarps varð til þess að skapa vettvang fyrir gerð sjónvarpsmynda og sjónvarpsleikrita. Þar hlaut margt tæknifólk í kvikmyndagerð sína menntun og fyrstu menntuðu kvikmyndaleikstjórarnir á borð við Hrafn Gunnlaugsson, Þorstein Jónsson og Þráinn Bertelsson fengu þar starf þegar þeir sneru heim úr námi. Jökull Jakobsson skrifaði mörg sjónvarpsleikrit, eins og fyrsta eiginlega sjónvarpsleikritið "Romm handa Rósalind" (1968), "Keramik" (1976) og "Vandarhögg" sem Hrafn Gunnlaugsson gerði að sjónvarpsmynd árið 1980. Nína Björk Árnadóttir og Svava Jakobsdóttir skrifuðu líka verk fyrir sjónvarpið. Fyrsta stóra sjónvarpsmyndin sem ráðist var í var "Brekkukotsannáll" í samstarfi við hinar norrænu ríkisstöðvarnar og NDR í Þýskalandi 1973 eftir sögu Halldórs Laxnes og á eftir fylgdu t.d. heimildarmyndin "Fiskur undir steini" eftir Þorstein Jónsson og Ólaf Hauk Símonarson (1975) og "Blóðrautt sólarlag" eftir Hrafn Gunnlaugsson (1976). Fremur lítið fór fyrir annarri kvikmyndagerð frá 1966 þar til kvikmyndasjóður var stofnaður. Ásgeir Long hélt áfram gerð heimildamynda og Þorgeir Þorgeirson gerði "Maður og verksmiðja" í anda evrópsku framúrstefnunnar 1968. Þó nokkuð kvað að Reyni Oddssyni sem hafði kynnst kvikmyndagerð í leiklistarnámi í Bandaríkjunum. Hann gerði meðal annars stuttu heimildarmyndina "Umbarum-bamba" með Hljómum 1965 og sendi frá sér tvær heimildarmyndir í fullri lengd um hernámsárin 1967 og 1969. 1977 gerði hann svo fyrstu alíslensku leiknu kvikmyndina eftir "Gilitrutt" 1957, "Morðsögu", með Guðrúnu Ásmundsdóttur og Steindór Hjörleifssyni í aðalhlutverkum. Framleiðsla myndarinnar einkenndist af fjárskorti sem gerði það að verkum að ekki var hægt að kvikmynda hluta handritsins og hljóðvinnsla var nánast engin. Árið eftir var Kvikmyndasjóður Íslands loks stofnaður og aðstæður í íslenskri kvikmyndagerð breyttust verulega. Kvikmyndasjóður og „kvikmyndavorið“ 1980. "Punktur punktur komma strik" eftir Þorstein Jónsson var frumsýnd árið 1980 Sumarið 1978 var haldin fyrsta kvikmyndahátíðin á Íslandi, Kvikmyndahátíð í Reykjavík, í tengslum við Listahátíð í Reykjavík það ár. Hátíðin stóð í tíu daga og veitt voru verðlaun fyrir bestu kvikmyndina. Mikill áhugi reyndist vera fyrir hendi hjá almenningi, Þorsteinn Jónsson hlaut verðlaun fyrir heimildarmyndina "Bóndi" og Hrafn Gunnlaugsson önnur verðlaun fyrir stuttmyndina "Lilju", eftir smásögu Halldórs Laxness. Ágúst Guðmundsson fékk við sama tækifæri styrk úr Menningarsjóði fyrir handrit að stuttmyndinni "Lítil þúfa". Þá lá þegar fyrir að af stofnun Kvikmyndasjóðs yrði það ár. Fyrsta úthlutun sjóðsins fór fram 29. mars 1979 þegar 30 milljónir (gamlar) krónur voru veittar í styrk til níu verkefna. Þrjú verkefnanna voru leiknar kvikmyndir sem sýndar voru 1980 og 1981; "Land og synir" eftir Ágúst Guðmundsson, "Veiðiferðin" eftir Andrés Indriðason og "Óðal feðranna" eftir Hrafn Gunnlaugsson. Fjórar heimildarmyndir fengu styrk, þar á meðal "Sjómaður" eftir Þorstein Jónsson, "Mörg eru dags augu" eftir Óla Örn Andreassen og Guðmund Pál Ólafsson og teiknimyndin "Þrymskviða" eftir Sigurð Örn Brynjólfsson. Árið 1980 bar sú nýlunda við að þrjár leiknar íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar á Íslandi, "Land og synir" Ágústar Guðmundssonar, "Punktur punktur komma strik" Þorsteins Jónssonar, og "Veiðiferðin" eftir Andrés Indriðason. Árið 1980 markar upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi því eftir það hefur ekki liðið ár án þess að frumsýnd hafi verið leikin íslensk kvikmynd. Með tilkomu kvikmyndasjóðs opnaðist sá möguleiki að leikstjórar gætu fjármagnað gerð kvikmynda í fullri lengd þótt íslenskar kvikmyndir bæru þess áfram glögg merki að vera gerðar fyrir mjög lítið fé. Níundi áratugurinn. Framanaf níunda áratugnum komu út að jafnaði 3-5 íslenskar kvikmyndir í fullri lengd sem frumsýndar voru í kvikmyndahúsum. Aðsókn á margar þessara mynda var fádæma góð svo lá við að „allir“ hefðu séð sumar þeirra í bíó. Á þessum árum komu sem dæmi út gamanmyndir Þráins Bertelsonar um Þór og Danna, tvær víkingamyndir eftir Hrafn Gunnlaugsson og "Með allt á hreinu" eftir Ágúst Guðmundsson og Stuðmenn sem lengi var talin vinsælasta íslenska kvikmynd allra tíma. Hrafn, Ágúst, Þorsteinn og Þráinn voru mjög virkir á þessum árum og nýir leikstjórar eins og Kristín Jóhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson, Hilmar Oddsson og Guðný Halldórsdóttir bættust við. Upp úr miðjum áratugnum tók þó nokkuð að draga úr aðsókn af ýmsum ástæðum. Myndbandstækið var komið á nánast hvert heimili og Stöð 2 hóf útsendingar árið 1986. Þótt úthlutunarfé Kvikmyndasjóðs ykist töluvert þá dugði það alls ekki eitt og sér og því tók að gæta fjárhagsörðugleika og trúin á framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar fór minnkandi. Kröfur bæði áhorfenda og kvikmyndagerðarfólks til tæknilegrar úrvinnslu og forms höfðu líka aukist og frumkvöðlabragurinn þótti ekki eins viðeigandi og áður. Frá 1985 til 1992 fækkaði þeim myndum sem frumsýndar voru og voru leiknar kvikmyndir í fullri lengd að jafnaði aðeins tvær á ári. Íslenska kvikmyndasamsteypan var stofnuð um miðjan áratuginn af Friðriki Þór og var áberandi í framleiðslu íslenskra kvikmynda næstu árin, eða þar til hún varð gjaldþrota árið 2004. Þriðja „kvikmyndavorið“ 1992. "Börn náttúrunnar" er eina íslenska kvikmyndin í fullri lengd sem hefur verið tilnefnd til Óskarsins. Árið 1992 fjölgaði skyndilega frumsýndum leiknum íslenskum kvikmyndum til mikilla muna. Tvær myndir komu út 1991; "Börn náttúrunnar" eftir Friðrik Þór og "Hvíti víkingurinn" eftir Hrafn, en 1992 voru þær skyndilega sex, þar af þrjár eftir lítt þekkta leikstjóra; "Ingaló" eftir Ásdísi Thoroddsen, "Sódóma Reykjavík" eftir Óskar Jónasson og "Veggfóður" eftir Júlíus Kemp. Sama ár voru Stuttmyndadagar í Reykjavík haldnir í fyrsta skipti. Ýmsum fannst því ástæða til að tala um nýtt „kvikmyndavor“ í upphafi tíunda áratugarins. Ýmsar ástæður voru fyrir þessari aukningu. Nýir leikstjórar voru að koma fram og aðgengileg stafræn tækni gerði myndatöku og úrvinnslu margfalt ódýrari og einfaldari en áður. Velgengni "Barna náttúrunnar" sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna jók einnig tiltrú fólks á íslenskri kvikmyndagerð almennt. Á heildina litið var þó fjöldi frumsýninga á 10. áratugnum lítið meiri en áratuginn á undan og hin raunverulega sprenging í íslenskri kvikmyndagerð varð ekki fyrr en árið 2000. 1999 voru fyrstu Edduverðlaunin veitt fyrir kvikmyndagerð og sjónvarpsefni. Framanaf voru verðlaunin meðal annars gagnrýnd fyrir það að vera óáhugaverð, þar sem nánast engin samkeppni væri vegna þess hve lítið er framleitt á einu ári og var jafnvel stungið upp á því að halda þau aðeins annað hvert ár. Minna hefur farið fyrir þessari gagnrýni síðan þá, enda hefur framleiðslan í íslenskri kvikmyndagerð margfaldast frá aldamótunum. Frá aldamótunum. Frá 2000 til 2005 komu út fleiri leiknar íslenskar kvikmyndir en allan áratuginn á undan. Margfalt fleiri kvikmyndir eru framleiddar árlega á Íslandi og af íslensku kvikmyndagerðarfólki nú en á 9. og 10. áratugnum. Framleiðsla með dreifingu erlendis sem markmið er nú nánast regla fremur en undantekning og fjárhagslegt gengi kvikmyndanna því ekki eins háð aðsókn í kvikmyndahúsum á Íslandi. Markaðssetning og dreifing íslenskra kvikmynda á DVD er orðin snar þáttur í sölunni og átak hefur verið gert í endurútgáfu eldri íslenskra kvikmynda fyrir myndbandamarkaðinn. Samtíminn. Mikil gróska hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð síðustu ár. Haustið 2006 samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar að hefja kynningarátak til þess að vekja athygli erlendra kvikmyndagerðarmanna á því að koma til Íslands og stunda iðju sína. Skipuð var nefnd með fulltrúum Reykjavíkurborgar, innlendra kvikmyndafyrirtækja, Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík innanborðs og ber henni að skila tillögum sínum um leiðir í þá áttina ekki seinna en í júlí 2007. Um miðjan nóvember 2006 skrifaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, undir samkomulag milli ríkisins og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð. Áætlun þessi setur íslenskri kvikmyndagerð það markmið að fjórar íslenskar kvikmyndir séu gerðar á ári hverju. Styrkir Kvikmyndasjóðs munu hækka úr 40% í 50% og samanlagt munu framlög ríkisins hækka úr 372 milljónum árið 2006 í 700 milljónir árið 2010. Flåklypa Grand Prix. "Flåklypa Grand Prix" (eða "Álfhóll: Kappaksturinn Mikli") er norsk brúðumynd frá 1975 byggð á teiknimyndapersónum Kjell Aukrust í leikstjórn Ivo Caprino. Hún er talin sú norska kvikmynd sem flestir hafa séð með 5,5 milljónir seldra miða í Noregi. Erik Balling. Erik Balling (29. nóvember 1924 – 19. nóvember 2005) var danskur kvikmyndaleikstjóri. Ferill hans hófst þegar hann hóf störf fyrir Nordisk Film árið 1946. Hann er þekktastur fyrir kvikmyndirnar um "Olsen-gengið" og sjónvarpsþættina "Húsið á Kristjánshöfn" og "Matador". Hann leikstýrði íslensku kvikmyndinni "79 af stöðinni" sem var frumsýnd árið 1962. Balling, Erik Gabriel Axel. Gabriel Axel (f. 18. apríl 1918) er danskur kvikmyndaleikstjóri sem er þekktastur fyrir kvikmyndina "Gestaboð Babettu" sem vann til Óskarsverðlauna árið 1988. Hann leikstýrði kvikmyndinni "Rauða skikkjan" frá 1967 sem tekin var og að hluta til framleidd á Íslandi. Axel, Gabriel Loftur Jóhannesson. Loftur Jóhannesson (f. 23. desember 1930) er íslenskur fv. flugmaður, flugvélasali, kaupsýslumaður og milljarðamæringur. Hann er búsettur í Maryland í Bandaríkjunum. Loftur auðgaðist m.a. á vopnasölu. Sagt er að hann hafi selt Saddam Hussein skriðdreka á níunda áratugnum. Árið 2001 var Loftur einn 52 Íslendinga sem áttu meira en milljarð króna í eignir umfram skuldir, skv. bókinni "Íslenskir milljarðamæringar" eftir Pálma Jónasson, (AB 2001). Fyrir forval repúblíkana fyrir forsetakosninga 2004 gaf hann 600 dali í kosningasjóð George W. Bush og Dick Cheney. Árið 2006 gaf hann 685 dali í styrk til Landsnefndar repúblíkana ("Republican National Committee"). Funchal. Funchal er höfuðborg eyjunnar Madeira, sem er í Atlantshafi um 840 km suðvestur af Portúgal og um 640 km vestur af Marokkó í Afríku. Eyjan tilheyrir Portúgal. Kristnitakan á Íslandi. Kristnitakan á Íslandi er tímabil í sögu Íslands, þegar næstum allir Íslendingar tóku kristna trú í stað ásatrúar, sem flestir höfðu aðhyllst fram að því. Miðað við tímatal þess tíma var kristnitakan árið 1000, og vanalega er miðað við það, en miðað við núgildandi tímatal var hún sumarið 999. Stuttu fyrir árið 1000 kom hingað saxneskur biskup, sem hét Friðrekur á vegum Haraldar blátannar Danakonungs. Honum varð lítið ágengt í kristniboði sínu en vígði þó kirkju við Ás í Hjaltadal. Sumar heimildir segja Ólaf Tryggvason konung Noregs hafa fyrst sent hingað Stefni Þorgilsson af Kjalarnesi til að boða kristni. Í Íslendingabók segir Ari fróði að Ólafur konungur hafi sent hingað prestinn Þangbrand. Þar segir að Þangbrandur hafi verið á Íslandi í rúmt ár, skírt meðal annarra þá Hjalta Skeggjason úr Þjórsárdal og Gissur hvíta Teitsson frá Mosfelli og vegið tvo eða þrjá menn sem níddu hann. Segir sagan að Þangbrandur hafi snúið aftur til Ólafs og sagt honum að hann hefði litla trú á því að Íslendingar myndu taka kristni. Á Ólafur þá að hafa reiðst gífurlega. a> eftir að kristni var lögtekin og fossinn fékk nafn sitt af því. Á Íslandi var engu að síður hópur manna sem tekið hafði kristna trú. Söfnuðust þeir nú saman þegar Alþingi var haldið og var Hjalti Skeggjason gerður landrækur fyrir goðgá eða guðlast. Sumarið 1000 sneri hann aftur ásamt Gissuri hvíta frá Noregi þar sem Ólafur hélt nokkrum höfðingjasonum í gíslingu og beið frétta. Sagan segir að hraun hafi runnið á Hellisheiði, er Alþingi var haldið, skammt frá Þingvöllum og stefnt í átt að bæ eins kristna höfðingjans. Töldu heiðnir menn að þetta væri merki um að guðirnir reiddust. Á þá Snorri Þorgrímsson á Helgafelli að hafa mælt „"Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?"“ og þótti sýna mikla skynsemi. Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður var í málsvari fyrir heiðingja og tilnefndu kristnir Hall Þorsteinsson á Þvottá (Síðu-Hall). Hallur samdi við Þorgeir um að hann skyldi segja upp lög sem allir gætu fellt sig við. "En síðan er menn komu í búðir þá lagðist hann niður, Þorgeir, og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð". Um morguninn daginn eftir settist Þorgeir upp og bauð mönnum að ganga til Lögbergs og þar hóf hann upp raust sína og kvað; „"En nú þykir mér það ráð, að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn."“ Þorgeir kvað það lög að menn skyldu taka kristni en áfram yrði leyft að blóta leynilega, bera út börn og éta hrossakjöt. Sumir telja að kristnitakan hafi orðið fyrr. Doktor Ólafía Einarsdóttir leiðir líkur að því í doktorsritgerð sinni, "Studier i kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning", sem hún varði í Lundi í Svíþjóð, 21. maí 1964, að kristnitakan hafi farið fram um sumarið 999. Hirðingjar. Hirðingjar eru samfélög fólks sem ferðast með kvikfé milli bithaga án fastrar búsetu. Hirðingjar eru þannig aðgreindir frá öðrum flökkuþjóðum sem einnig flytja sig stöðugt um stað en þá milli veiðilenda, sem farandsalar, farandverkafólk eða flakkarar. Dæmi um hefðbundin hirðingjasamfélög eru berbar, túaregar, bedúínar, samar og sígaunar. Hjá öllum þessum þjóðum hefur hirðingjalíferni verið á undanhaldi í nútímanum, meðal annars vegna landamæra ríkja og reglna um heimilisfesti sem gera það að verkum að fólk sem tilheyrir þessum samfélögum lendir á jaðri stærri samfélaga og fær ekki að njóta sömu borgararéttinda og aðrir nema það taki upp fasta búsetu. Verslunarleið. Verslunarleið er ferðaleið, yfirleitt milli nokkurra áningarstaða, sem verslunarfarmur er fluttur um. Verslunarleiðir geta legið bæði um land eða haf. Dæmi um sögulegar verslunarleiðir eru Silkivegurinn frá Kína til Mið-Austurlanda um Mið-Asíu, Kryddvegurinn frá Indlandi og Arabíu til Kína um Indlandshaf, Saharaverslunin milli Sahelsvæðisins og Magrebsvæðisins í Afríku um Saharaeyðimörkina og Þríhyrningsverslunin milli Evrópu og Norður-Ameríku, Afríku og Vestur-Indía um Atlantshafið. Úlfaldalest. Koparstunga frá 19. öld sem sýnir úlfaldalest í Sahara. Úlfaldalest er hópur úlfalda sem bera farm eða farþega milli staða. Fyrir tilkomu lestarkerfis og þjóðvega voru úlfaldalestir notaðar á frægum verslunarleiðum eins og Silkiveginum í Mið-Asíu (kameldýr) og í Saharaversluninni (drómedarar). Ibn Battuta. Abu Abdullah Muhammad Ibn Battuta (arabíska: أبو عبد الله محمد ابن بطوطة h) (24. febrúar 1304 – 1368/1377) var marokkóskur berbi, súnní-íslamsfræðingur og lögfræðingur sem er best þekktur fyrir ferðir sínar um nánast allan hinn íslamska heim á hans tíð. Hann ferðaðist meðal annars til núverandi Pakistans, Indlands, Maldíveyja, Srí Lanka, Suðaustur-Asíu og allt til Kína. Castel Sant'Angelo. Castel Sant'Angelo eða Englaborg, áður þekkt sem grafhýsi Hadríanusar, er hringlaga kastali í miðborg Rómar. Byggingin var reist frá 135 til 139 samkvæmt beðni Hadríanusar og átti að vera grafhýsi fyrir hann og fjölskyldu hans. Eftir dauða hans var ösku hans komið þar fyrir og eftir það voru aðrir keisarar grafnir þar. Sá síðasti var Caracalla 217. Hadríanus lét líka reisa brúna, Ponte Sant'Angelo, yfir Tíber sem liggur beint að grafhýsinu. 401 var byggingunni breytt í virki og síðan kastala í eigu páfa á 14. öld. Þar byrgði Klemens 7. sig inni þegar hermenn Karls 5. réðust á Róm 1527. Eðvarð Sigurðsson. Eðvarð Sigurðsson (18. júlí 1910 – 9. júlí 1983) var íslenskur verkalýðsforingi, formaður VSÍ 1964 til 1975 og alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið frá 1959 til 1979. Síberíutígur. Síberíutígur (fræðiheiti: "Panthera tigris altaica") er undirtegund tígrisdýrs og stærsta kattardýrið. Síberíutígur er í alvarlegri útrýmingarhættu en nokkur hundruð dýr finnast í norðausturhluta Mongólíu, suðausturhluta Rússlands, norðausturhluta Kína og á Kóreuskaganum. Álaborg. Álaborg (danska: "Aalborg") er fjórða stærsta borgin í Danmörku (á eftir Kaupmannahöfn, Árósum og Óðinsvéum) með rúmlega 197.000 íbúa. Hún stendur við Limafjörð á Norður-Jótlandi og var mikilvæg hafnarborg á miðöldum og síðar iðnaðarborg. Elsta landnám nær aftur til ársins 700. Staðsetning borgarinnar við Limafjörðinn gerði hana afar mikilvæga hafnarborg á miðöldum og iðnaðarborg þar á eftir. Í dag er borgin í miklum umbreytingum í að fara frá iðnaðarborg yfir í þekkingarborg. Einn af aðal drifkröftum þessarra breytinga er Álaborgarháskóli, sem var stofnaður árið 1974 og hefur notið vaxandi vinsælda ár frá ári. Saga. Álaborg á rætur sínar að rekja aftur um 1000 ár. Borgin var upprunalega nýtt sem verslunarstaður, vegna staðsetningar hennar við Limafjörðinn. Á miðöldunum blómstraði Álaborg og varð ein af stærstu borgum danmerkur. Velmegunin jókst enn fremur árið 1516, þegar Álaborg var veitt einkasala á síld. Síldarveiðarnar tengdu Álaborg við Austur strönd Englands, í gegnum Norðursjó, í menningarskiptum og samkeppni í verslun. Álaborg hlaut bæjarréttindi árið 1342 og nær biskupsdæmið aftur til ársins 1554. Álaborgar háskóli var stofnaður árið 1974. Iðnaður. Í dag er Álaborg enn þá þekkt fyrir mikin iðnað og viðskipti. Álaborg er þekkt fyrir sements framleiðslu sína sem fer fram í verksmiðjum Aalborg Portland. Framleiðsla á áfenginu Álaborgar ákavíti fer fram í Álaborg en áfengi drykkurinn telur 17 mismunandi tegundir. Karneval. Hið árlega karneval í Álaborg fer venjulega fram síðustu helgina í maí. Karnevalinu er skipt upp í þrjá hluta, barna karneval, hljómsveitar karneval og svo karnevalið sjálft. Um það bil 100,000 manns heimsækja Álaborg meðan á karnevalinu stendur. Barna karnevalið er tileinkað börnum með skemmtunum og fleira tilheyrandi. Á föstudeginum keppast hljómsveitir á sviði um það hvaða hljómsveit mun verða aðal hljómsveit karnevalsins yfir helgina. Á laugardeginum fer karnevalið sjálft fram og á þeim degi iðar miðbærinn af mannfólki. Venjulega er ákveðið þema á hverju ári og mæta gestir á karnevalið í búningum samkvæmt völdu þema. Árið 2007 voru grímubúningar þema hátíðarinnar en árið áður var erótískt þema. Karnevalinu lýkur á laugardagskvöldi með tilheyrandi flugeldasýningu. Tivoli Karolinelund. Karolinelund er skemmtigarður nálægt miðbæ Álaborgar. Skemmtigarðurinn er staðsettur á svæði sem áður var æfingarsvæði hermanna. Frá 1946 hefur Karolinelund verið í eigu Lind fjölskyldunnar. Fyrst bræðrunum Volmer og Carl Lind, sem stofnuðu skemmtigarðinn og síðar Franck Bo Lind, sem seldi skemmtigarðinn til Torben Pedersen, en hann á fleiri skemmtigarði norðan við kaupmannahöfn. Garðurinn var seldur fljótlega til bæjarfélag Álaborgar og í dag er skemmtigarðurinn auglýstur sem tómstundagarður fyrir borgara og ferðamenn, ásamt að bjóða upp á matsölustaði, afþreyingu og skemmtitæki. Í árabil bar skemmtigarðurinn nafnið Tivoliland og var markaðssett sem yndislegasta svæði í danmörku. Þó hefur nafnið Karolinelund fest sig við svæðið og þegar Torben Pedersen keypti garðinn árið 2005, breytti hann nafninu í Tivoli Karolinelund. Í dag heitir svæðið þó einungis Karolinelund. Upphaflega stafaðist Karolinelund með C. Carolinelund er nefnt eftir prinsessu Caroline (1793 - 1881), dóttir Friðriks 6. og Marie frá Hessen. Caroline prinsessa giftist Ferdinand krónprins árið 1829. Hún var mjög vinsæl og mikil virðing var borin fyrir henni innan dönsku herdeildarinnar. Árið 1824 færði bæjarstjórn Álaborgar yfirmönnum hersins svæðið að gjöf, sem útivistarsvæði fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Með árunum þróaðist þó útivistarsvæðið í vinsælan áfangastað fyrir alla bæjarbúa og frá árinu 1946 hefur garðurinn verið skemmtigarður. Jomfru Ane Gade. Jomfru Ane Gade, einnig oft kölluð "Gaden", er ein þekktasta og vinsælasta gata Álaborgar. Gatan er 150 metra löng og er í miðbæ Álaborgar. Við hana standa skemmti- og veitingastaðir sem liggja hlið við hlið út alla götuna. Um helgar iðar gatan af lífi og er vinsæll áfangastaður fólks sem er úti á lífinu. Skemmtistaðirnir í götunni eru þekktir fyrir að spila mismunandi tónlist innandyra, allt frá tónlist sjötta áratugarins til nútíma danstónlist. Mikil gæsla er við götuna og hefur verið aukið verulega við eftirlit eftir að 21 árs gamall maður var stunginn til bana í klíku-uppgjöri milli innflytjenda um páskana 2007. Sama kvöld hlutu 5 aðrir stungusár Á daginn er Jomfru Ane Gade veitingastaða- og kaffihúsagata, en á kvöldin opna klúbbar og barir sem draga til sín mikið af fólki. Gatan hefur verið kölluð Jomfru Ane Gade frá öndverðri 15. öld og er talið að gatan heiti eftir "Jomfru Ane", sem var búsett í Skavegade árið 1568. Dýragarðurinn í Álaborg. Inngangurinn í dýragarðinn í Álaborg. Dýragarðurinn í Álaborg (danska: "Aalborg Zoo") var vígður í apríl 1935 og er í dag einn af mest sóttu ferðamannastöðum í landsbyggðinni, með um 375.000 gesti árlega. Dýragarðurinn liggur nálægt miðbæ borgarinnar og hefur síðustu áratugi lagt mikla áherslu á náttúruvernd og spilar mikilvægt hlutverk í alþjóðlegum verkefnum um dýraverndun, undaneldi, þekkingarmiðlun, rannsóknir og leggur mikla áherslu á Fair Trade vörur. Dýragarðurinn hefur að geyma yfir 1200 dýr og á ársgrundvelli starfa um 55 manns við dýragarðinn. Meðal dýra sem fyrirfinnast í dýragarðinum eru ísbirnir, gíraffar, pelíkanar, fílar, mörgæsir, ljón ásamt mörgum öðrum tegundum. Dýragarðurinn tekur þátt í alþjóðlegum undaneldis samstarfi með verndun á dýrum í útrýmingarhættu. Síðustu ár hefur dýragarðurinn tekið þátt á ýmsum sviðum í náttúru og umhverfisverndar verkefnum. Sem dæmi má nefna að dýragarðurinn styður Payamino-Indjánana í þeirra baráttu að vernda 60.000 hektara regnskógarsvæði í Ekvador. Dýragarðurinn er með opið allan ársins hring og stýrir einnig skemmtigarðinum Karolinelund í Álaborg. Álaborgar Turninn. Álaborgar Turninn (danska: "Ålborg Tårnet") var byggður árið 1933 og er staðsettur í vestur hluta Álaborgar. Turninn er 55 metrar að hæð. Turninn er staðsettur í brekku sem er 50 metra há og þar af leiðandi er útsýni frá turninum um 105 metrar yfir Limafjörðinn. Álaborgar Turninn er opinn frá apríl til september ár hvert og í toppi turnsins er veitingastaður með sæti fyrir 50 manns. Vinaleið. Vinaleið er sálgæsluverkefni Þjóðkirkjunnar í samstarfi við grunnskóla, sem stendur yfir í tilraunaskyni, til að byrja með í Mosfellsbæ, en frá árinu 2006 einnig í skólum í Garðabæ og á Álftanesi. Fyrirtækið Sund ehf. veitti Vinaleið byrjunarstyrk í Garðabæ, en ekki er útséð um hvernig fjármögnun verður háttað í framtíðinni, ef Vinaleið heldur áfram. Álftanesbær samþykkti að borga tilraunina sjálfur. Haustið 2006 hófust deilur um verkefnið, sem ekki sér fyrir endann á. Beinahóll. Beinahóll er lágvaxinn hóll á Kili þar sem Reynistaðarbræður urðu úti ásamt þremur öðrum haustið 1780. Voru þeir á leiðinni norður í Skagafjörð með fjölda fjár og hesta sem þeir höfðu keypt fyrir sunnan vegna fjárskipta. Hóllinn dregur nafn sitt af miklum fjölda kinda- og hrossabeina sem liggja þar enn en þeim hefur þó fækkað mikið síðustu ár. Þar var reistur minnisvarði árið 1971 og gaf Guðlaugur Guðmundsson út bókina "Reynisstaðabræður" árið 1968 - fjallar hún í grófum dráttum um ferð félaganna. Veggfóður (kvikmynd). "Veggfóður" er kvikmynd eftir JK og JSS frá árinu 1992. Brjóstmynd. Brjóstmynd er stytta af manneskju sem myndar höfuð, brjóst og axlir hennar- og er vanalega haldið uppi af standi. Vélamál. Vélamál eða vélarmál (stundum kallað maskínumál) er sú framsetning af tölvuforriti sem tölva skilur og getur unnið beint með. Hægt er að forrita tölvur beint á vélamáli en það er sjaldan gert ef um aðra kosti er að velja. Vélamálsforrit samanstandur af röð skipana úr skipanasetti örgjörvans og þeim þolum sem þær taka. Uppbygging skipana og kóða geta verið mjög mismunandi. Dæmi um tölvuforrit sem tekur sækir tölu úr minni og leggur hana við aðra tölu (töluna 2 í þessu tilviki) og skrifar hana svo aftur í sama minnishólf gæti til að mynda litið svona út vélamál | Hex | samsvarandi smalamál 01010110 00010101 | 55 15 | load $15 01100010 00000010 | 62 02 | add #2 01001110 00010101 | 4e 15 | store $15 skipun þoli | s þ | skipun þoli Vélamál og smalamál eiga það sameiginlegt að vera mismunandi fyrir hvert einasta skipanasett. Kóðinn hér að ofan gæti t.a.m. bara keyrt á örgjörvanum sem hann var skrifaður fyrir (hann er reyndar ekki skrifaður fyrir neinn ákveðin örgjörva heldur bara dæmi). Sama á við um smalamálskóðan. Þó eru smalamálskóðar mun líkari milli mismunandi örgjörva heldur en vélamál og mun auðveldara að læra smalamál fyrir nýjan örgjörva heldur en að læra nýtt vélamál. Til að læra smalamál fyrir nýjan örgjörva þarf maður bara að læra hvaða skipanir örgjövinn notar, hvaða „address modes“, hvaða og hvernig gisti hann hefur og hvernig þau eru notuð og hvernig hann notar minnið (þetta er oftast gert með að skoða gagnablöð (e. data sheets) fyrir nýja örgjörvan). Til að forrita nýjan örgjörva á vélamáli þarf einnig að læra skipanakóðana (bitarunu) fyrir allar skipanirnar (eða fletta þeim upp). Í dag er vélamál hér um bil ekkert notað en Altair 8800, ein fyrsta tölva sem almenningur gat eignast var t.d. forrituð með því að tákna orð (skipanakóða, þola eða gögn) með á/af rofum og síðan var takki til að skrifa orðið í minnið. Þannig var hægt að forrita tölvuna með að breyta rofunum, bita fyrir bita, og skrifa forrit í minnið orð fyrir orð. Ef unnið er með vélamál í dag er það oftast gert með hex framsetningu. Hún hefur þann kost að þar eru hverjir fjörir bitar táknaðir með einum tölustaf eða bókstaf sem er þægilegra að vinna með og muna en bitarunur. Auðvelt er að breyta hex kóða í binary kóða og það er hægt að framkvæma með nánast hvaða tölvu sem er (þó er ansi líklegt að forritari sem er á annaðborð að forrita í vélamálskóða sé litlu lengur að breyta hex yfir í binary heldur en að skrifa binary kóðan ef hann þarf þess). Forrit. Forrit er safn skipana sem lýsa verkefni eða verkefnum sem tölva á að vinna. Með orðinu „forrit“ er átt við frumkóða sem ritaður er á forritunarmáli eða keyrslukóða sem gerður hefur verið eftir því. Tölvuforrit eru oftast nefnd hugbúnaður eða keyrsluforrit eða bara einfaldlega „forrit“. Frumkóði flestra tölvuforrita er röð skipana sem eiga að framkvæma skrefin í reikniritum á beinan hátt. Í öðrum forritum er því sem framkvæma á lýst þannig að viðkomandi verkvangur (enska: „platform“) geti séð um það. Forrit eru oft rituð af forriturum, en einnig geta önnur forrit búið þau til. Orðasafn. Forrit sem látin eru notendum í té eru nefnd notendahugbúnaður þar sem virkni þeirra beinist að því sem á að nota tölvuna í, umfram það sem stýrikerfi hennar (til dæmis Windows) sér um. Í raun og veru kallast bæði notendahugbúnaður og stýrikefið „hugbúnaður“, rétt eins og safn ýmssa forritaþátta sem er innbyggt í vélbúnaðinn. Þau forrit sem gefa vélbúnaðinum beinar skipanir eru á formi sem örgjörvinn skilur og bregst við með því að virkja aðrar skipanir eða framkvæma einfaldar reikniaðgerðir eins og til dæmis samlagningu. En tölvur framkvæma milljónir slíkra skipana á sekúndu og það er þannig heild sem forritið lætur verða til - skipanir sem hver á fætur annarri gera eitthvað gagnlegt í sameiningu og sem oftast má endurtaka og treysta að verki á sama hátt. Keyrsla forrits. Forriti er hlaðið í minni tölvunnar (venjulega af stýrikerfinu) og það síðan „keyrt“ með því að láta tölvuna framkvæma skipanir þess þangað til þær eru ekki fleiri eða keyrslan stöðvuð eða villa kemur upp, annað hvort í hugbúnaði eða vélbúnaði. Áður en tölva getur keyrt forrit, hverrar gerðar sem það er (þar með talið stýrikerfið, sem einnig er forrit), verður að ræsa vélbúnaðinn. Þetta er gert á venjulegum PC-tövlum með því að hleypa straum á kísilflögu sem oftast er á móðurborði tölvunnar og setja þannig af stað einfalt forrit sem hleður stýrikerfinu inn í vinnsluminnið af harða diskinum. Þessi kísilflaga er nefnd BIOS eða BIOS-kubburinn. Eftir það getur tölvan tekið við flóknari skipunum. Forrit eða gögn. Keyranlegt form forrits (oft kallað innanlegt form, þar sem skipanirnar eru viðfangskóði) er stundum greint að frá þeim gögnum sem forritið vinnur með. Í sumum tilvikum hverfur þessi aðgreining þegar forritið sjálft býr til eða breytir gögnum sem verða svo hluti af sama forritinu (þetta gerist til að mynda oft í Lisp-forritunarmállýskum). Forritun. Sköpun forrits kallast "forritun". Í forriti er líklegast nokkur fjöldi gagnaskipana svo og reiknirita sem vinnur úr þeim. Gerð forrits er síendurtekið ferli nýskráningar frumkóða og breytinga á honum með prófunum, greiningum og endurbótum. Sá sem fæst við þetta kallast forritari eða er sagður starfa að hugbúnaðargerð. Hið síðarnefnda verður æ algengara eftir því sem starfinn þroskast og verður líkari verkfræðigrein. Nú er algengast að forritað sé í teymi þar sem allir leggja sitt af mörkum. Hópstjórinn tekur af skarið ef menn greinir á. 10 manna teymi eru algeng, erfiðara er að stjórna stærri hóp. Annar möguleiki er að tveir og tveir vinni saman (enska: pair programming). Smælki. Stysta forritið sem gerði eitthvað gagn er talið hafa verið skipunin ‘cont/rerun’ sem tilheyrði stýrikerfinu CP/M. Hún var tvö bæti (JMP 100) og var stökk á byrjunarstað forritsins sem ræsti hana. Hún gat því látið það byrja aftur án þess að það þyrfti að sækja það á ný frá hinum hægfara diskageymslum níunda áratugar síðustu aldar. Í alþjóðlegri forritunarkeppni reyndist tóm skrá hlutskörpust sem minnsta „forrit“ í heimi. Hún var núll bæta löng, skilaði núll bætum á skjáinn og var þannig minnsta forritið sem gat endurgert sjálft sig. Vegna orðalags í keppnisreglum varð að taka þetta „forrit“ gilt, en reglunum var síðan breytt og þess krafist að forritin yrðu að vera meira en núll bæta löng. Ada Lovelace greindi frá því í smæstu smáatriðum í ritgerð hvernig reikna mætti út svokallaðar Bernoulli tölur með hliðrænni reiknivél sem Charles Babbage hafði hugsað upp. Þetta er talið fyrsta tölvuforrit í heiminum og hún sjálf fyrsti forritarinn. Eyrnaselir. Eyrnaselir (fræðiheiti: "Otariidae") eru ætt hreifadýra sem telur tvær undirættir: sæljón og loðseli. Eyrnaselir eru heldur minna aðlagaðir lífi í vatni en eiginlegir selir en eiga aftur á móti auðveldara með að hreyfa sig á landi þar sem afturlimir þeirra koma lengra undir skrokkinn og geta lyft honum upp að aftan. Eyrnaselir veiða og ferðast um í vatni en hvílast og makast á landi. Þeir eru með eyru utaná höfðinu. Textarýni. Textarýni er undirgrein textafræðinnar sem snýst um tilraunir til að finna upphaflegan texta fornra höfunda með rannsóknum og samanburði á handritum og með rannsóknum á uppruna textans. Rannsóknir á höfundi textans, ritunartíma hans, og útbreiðslu textanna eru ómissandi fyrir textarýninn en byggja um leið á niðurstöðum textarýninnar. Stundum eru þessar spurningar óaðskiljanlegar túlkun textans. Þess vegna eru mörkin á milli textafræði og textarýni annars vegar og bókmenntasögu og bókmenntatúlkun hins vegar oft óljós. Af þessum ástæðum getur verið erfitt að komast að óhlutdrægri niðurstöðu því niðurstöður textarýninnar velta oft að jafnmiklu leyti á þeirri heildarmynd sem við höfum eins og heildarmyndin veltur á niðurstöðum textarýninnar. Afurð textarýninnar er ritstýrður texti sem ritstjórinn telur vera eins samkvæmur upphaflegum texta eins og mögulegt er, ásamt handritafræðilegum- og textafræðilegum skýringum, þar sem annarra leshátta er getið. Ívafsmál. Ívafsmál er safn merkinga sem er ofið saman við texta og fela í sér upplýsingar um textann, t.d. umbrotsupplýsingar eða upplýsingar um formgerð textans. Þekktasta ívafsmálið er líklega HTML sem notað er til að lýsa stiklutexta á veraldarvefnum. Dæmi um sérhæft ívafsmál fyrir umbrotsupplýsingar er TeX. Leiksvið. Leiksvið er oftast upphækkaður pallur þar sem leikarar framfæra það leikrit sem er til sýningar. Leiksvið getur þó einnig verið neðsti punktur leikhúsins, eins og t.d. hringleikjahúsum Grikkja og Rómverja. Sviðið er miðpunktur sýningarinnar sem sæti áhorfanda snúa að, og er þannig fyrirkomið að allir eiga samskonar möguleika að njóta leiksins. Bacardi. Bacardi er sögufrægur vínframleiðandi sem var stofnaður á Kúbu 4. febrúar 1862. Það hefur aðallega orðið frægt fyrir framleiðslu á rommi. Á 10. áratug 20. aldar eignaðist fyrirtækið mörg vörumerki eins og Martini & Rossi, Dewar's Scotch og Bombay gin. Bacardi-samsteypan er núna stærsti framleiðandi og dreifingaraðili sterkra vína í heiminum. Fyrirtækið flutti öll vörumerki sín til Bahamaeyja skömmu fyrir byltinguna á Kúbu og eigendur fyrirtækisins fluttu burt þegar ljóst var að Fidel Castro ætlaði sér að gera alvöru úr þjóðnýtingaráformum sínum. Bacardi er nú framleitt á Púertó Ríkó. Santiago de Cuba. Kirkja í Santiago de Cuba Santiago de Cuba er borg með um hálfa milljón íbúa á suðausturenda Kúbu. Borgin er önnur stærsta borg Kúbu á eftir Havana. Hún var stofnuð af spænska landvinningamanninum Diego Velázquez de Cuéllar 28. júní 1514. Hún er höfuðstaður samnefndrar sýslu. Varðskip. Varðskip (eða strandvarnarskip) eru skip sem venjulega eru minni en korvetta og eru notuð af strandgæslu til eftirlits með efnahagslögsögu ríkis á hafi úti. Minni strandgæsluskip eru stundum kölluð varðskip. Clara Pontoppidan. Clara Pontoppidan (23. apríl 1883 – 22. janúar 1975) var dönsk leikkona sem hlaut nokkra frægð fyrir leik sinn á tímum þöglu myndanna. Hún hefur stundum verið nefnd sem fyrsta kvikmyndastjarnan í norrænni kvikmyndagerð. Hún lék meðal annars í "Höddu Pöddu" sem tekin var upp á Íslandi 1923. Pontoppidan, Clara Kvikmyndasjóður Íslands. Kvikmyndasjóður Íslands (ensku: Icelandic Film Fund) er opinber sjóður sem styrkir íslenska kvikmyndagerð. Sjóðurinn var stofnaður með lögum 26. apríl árið 1978 en frumvarp um stofnun slíks sjóðs var fyrst lagt fram af Ragnari Arnalds árið 1975. Það frumvarp var endurskrifað í menntamálaráðherratíð Vilhjálms Hjálmarssonar. Sjóðurinn var stofnaður sama ár og Kvikmyndasafn Íslands. Fyrsta kvikmyndahátíðin var sömuleiðis haldin í Reykjavík í tengslum við Listahátíð sama ár. Frá 1984 til 1998 var sjóðurinn að hluta fjármagnaður með skemmtanaskatti sem lagður var á bíómiða. Árið 2001 var Kvikmyndamiðstöð Íslands stofnuð með nýjum kvikmyndalögum og hefur hún umsjón með kvikmyndasjóði. Fyrsta árið var veitt úr sjóðnum styrkjum að upphæð 30 milljónir gamlar krónur. Árið 2006 voru styrkir veittir að upphæð um 300 milljónir króna. Fyrstu styrkirnir voru greiddir út árið 1979 og meðal fyrstu kvikmyndanna sem hlutu styrk það ár voru "Land og synir", "Veiðiferðin", "Óðal feðranna", heimildamyndin Í Vestureyjum og teiknimyndin "Þrymskviða". Kvikmyndahús. a> á hliðarvegg og glasahaldara á sætum. Kvikmyndahús er bygging þar sem fram fer sýning kvikmynda sem varpað er á sýningartjald í sýningarsal. Kvikmyndahús á Íslandi. Fyrsta kvikmyndasýning sem fór fram á Íslandi var í Góðtemplarahúsinu á Akureyri 27. júní 1903 en fyrsta eiginlega kvikmyndahúsið sem sýndi reglulega kvikmyndir um lengri tíma var Fjalakötturinn í Aðalstræti þar sem "Reykjavíkur Biograftheater" (síðar Gamla bíó) hóf sýningar 2. nóvember 1906 og sýndi þar til ársins 1927 þegar það flutti í nýtt húsnæði við Ingólfsstræti þar sem Íslenska óperan er núna til húsa. Nýja bíó var stofnað 1912 og sýndi í sal hjá Hótel Íslandi til 1920 þegar það flutti í nýtt húsnæði við Austurstræti. Fyrsta fjölsala kvikmyndahúsið á Íslandi var Regnboginn sem opnaði 1980. Epikúrismi. a> frá Samos. Brjótsmynd á Pergamonsafninu í Berlín. Epikúrismi er heiti á heimspekistefnu sem nefnd er eftir forngríska heimspekingnum Epikúrosi frá Samos (341 – 270 f.Kr.). Epikúrismi varð til á helleníska tímanum en varð langlíf heimspekistefna og naut einnig vinsælda í Rómaveldi. Heimildir um epikúrisma. Meginheimildirnar um epikúrismann eru Díogenes Laertíos en tíunda bók verks hans um ævisögur forngrískra heimspekinga fjallar um heimspeki Epikúrosar. Díogenes endursegir þrjú bréf Epikúrosar þar sem Epikúros greinir frá meginatriðum í siðfræði sinni, frumspeki og þekkingarfræði og náttúruheimspeki. Önnur meginheimild um epikúrisma er kvæði rómverska skáldsins Títusar Lúcretíusar, "De Rerum Natura" ("Um eðli hlutanna"), sem fjallar öðru fremur um frumspeki, þekkingarfræði og náttúruheimspeki epikúrismans. Lúcretíus er talinn fylgja náið eftir riti Epikúrosar "Um náttúruna" sem nú er að mestu glatað. Enn fremur eru rit rómverska stjórnmálamannsins, heimspekingsins og rithöfundarins Marcusar Tulliusar Ciceros ómetanleg heimild um epikúrisma. Uppruni epikúrismans. Heimspeki Epikúrosar byggði að mörgu leyti á heimspeki Demókrítosar en Epikúros var einnig undir áhrifum frá Pyrrhoni og öðrum heimspekingum. Frumspeki. Frumspeki epikúrismans var efnishyggja og eindahyggja. Samkvæmt henni er heimurinn á endanum gerður úr örsmáum efnislegum eindum sem voru nefnd ódeili („atóm“) og sem svifu um í tómarúmi. Allt sem gerist er afleiðing af árekstrum ódeilanna, sameiningu þeirra þegar þær loða hver við aðra án tilgangs eða markmiðs með hreyfingu þeirra. Eindirnar hafa frumlega eiginleika t.d. stærð, lögun og massa. Aðrir eiginleikar, eins og litur og bragð, eru afleiðingar af flóknu samspili eindanna í líkömum okkar og í hlutunum sem við skynjum. Raunverulegir eiginleikar eindanna ákvarða skynjanlega eiginleika hluta. Til dæmis er það sem er biturt eða súrt á bragðið myndað úr hvössum eindum, en það sem er sætt á bragðið er myndað úr sléttari eindum. Samspil þessara einda og eindanna í tungum okkar valda því hvernig við upplifum bragð hluta. Sumir hlutir eru sérstaklega harðir og þéttir vegna þess að eindirnar eru fleiri og þéttari og haldast saman vegna lögunar sinnar (t.d. vegna króka á þeim). Aðrir hlutir eru úr sérlega sléttum og sleipum eindum sem haldast illa saman. Hugspeki. Epikúringar voru einnig efnishyggjumenn um hugann eða sálina. Þeir héldu því fram að ef sálin ætti að geta haft áhrif á líkamann eða líkaminn á sálina yrði hún einnig að vera líkamleg. Epikúros taldi að eindir sálarinnar væru óvenjufíngerð. Hugurinn sjálfur, þ.e. hugsanir manns, hvílir í brjósti manns en andi úr álíka fíngerðum atómum er dreifður um líkamann allan og þannig getur hugurinn átt samskipti við aðra hluta líkamans. Þekkingarfræði. Þekkingarfræði epikúrismans er raunhyggja. Hún lagði áherslu á skynjun og skynreynslu en samkvæmt henni er skynreynsla á endanum uppruni allrar þekkingar. Að baki þekkingarfræði epikúrismans var frumspekileg kenning um mannlega skynjun, byggð á eindahyggjunni, sem lýsir skynreynslu sem samspili eindanna í skynfærum okkar og einda sem losna frá hlutunum sem eru skynjaðir. Í epikúrískri þekkingarfræði eru þrír mælikvarðar á sannleika, þ.e. hvort tiltekin fullyrðing sé sönn eða ekki. Þeir eru: Skynjun ("aesþēsis"), hugtök ("prolepsis") og tilfinningar ("paþē"). Samkvæmt epikúrískri þekkingarfræði eru allar skynjanir réttar sem slíkar enda felst enginn dómur í þeim um hvort heimurinn er eins og hann virðist vera af þeim að dæma. Mönnum getur hins vegar skjátlast þegar þeir fella slíka dóma. Dæmi um hugtak er "maður" en allir þekkja hugtakið "maður" og vita hvað maður er. Uppruni hugtakaþekkingar manna er á endanum í skynreynslu. Ákveðin grundvallarhugtök liggja til grundvallar allri reynslu okkar og réttmæti þeirra þarf ekki að sanna. Tlfinningar eru meginmælikvarðinn á það eftir hverju ber að sækjast og hvað skal forðast. Stjórnmál. Andsætt stóumönnum sýndu epikúringar stjórnmálaþáttöku engan áhuga, enda töldu þeir slíkt einungis leiða til áhyggja og óróleika. „Lifðu lífinu í einangrun!“ var ráð Epikúrosar. Líkja má garði hans við kommúnur nútímans. Margir hafa leitað hælis frá skarkala samfélagsins með því að einangra sig frá samfélaginu. Epikúros var einn af fyrstu heimspekingunum sem sett hafa fram kenningu um samfélagssáttmála. Hann hélt því fram samfélag yrði réttlátt með því að þegnarnir kæmu sér saman um að gera ekki á hlut hver annars og að lög giltu sem væru í þágu allra þegnanna og auðvelduðu þeim leitina að hamingjunni. Lög sem væru ekki lengur gagnleg með þessum hætti taldi hann að væru ranglát. Epikúros taldi að lög hefðu í eðli sínu fælingarmátt og í samfélagi sem byggði á lögum væri því betra að brjóta ekki af sér, því afbrotið myndi einungis leiða til angistar vegna óvissunnar um það hvort upp um mann kæmist, ef ekki beinlínis til refsingar. Siðfræði. Siðfræði epikúrismans byggir á þeirri kenningu að öll gæði og allt böl séu afleiðingar skynreynslu. Ánægjulegar skynjanir eru samkvæmt epikúrismanum góðar en sársaukafullar eða óþægilegar skynjanir eru að sama skapi slæmar. Epikúrisminn var og er oft misskilinn sem hóflaus nautnahyggja byggð á eftirsókn eftir líkamlegri ánægju. Samkvæmt epikúrískri siðfræði eru hin æðstu gæði aftur á móti fólgin í sálarró sem fylgir því að losna undan hugarangri. En epikúrísk siðfræði er eftir sem áður nautnahyggja, siðfræðileg nautnahyggja (en ekki sálfræðileg nautnahyggja), sem kveður á um að maður eigi að leitast við að vera ánægður en forðast sársauka. Í epikúrískri siðfræði er gerður tvennur greinarmunur á ánægju og sársauka eða vellíðan og vanlíðan. Í fyrsta lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði líkamleg og andleg. Í öðru lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði í breytingu („kinetísk“ vellíðan/vanlíðan) eða ástand („statísk“ vellíðan/vanlíðan). Þegar vellíðan er fólgin í breytingu er hún fólgin í því að fjarlægja sársauka eða óþægindi eða vanlíðan (til dæmis að seðja hungur, svala þorsta eða losna við ótta), en þegar hún er ástand er hún einfaldlega skortur á vanlíðan og óþægindum (til dæmis að vera saddur). Samkvæmt epikúrískri siðfræði er andleg vellíðan æðri líkamlegri ánægju og vellíðan sem er fólgin í breytingu er æðri en stöðug vellíðan sem ástand. Epikúrismi var því ekki nautnahyggja í nútímaskilningi. Epikúringar vöruðu við því að eltast óhóflega við ánægju vegna þess að slíkt leiðir oft til sársauka. Til dæmis varaði Epikúros við því að eltast of ákaflega við ástina þar eð slíkt leiðir oft til óróleika og sársauka. Rökin mætti ef til vill nefna „timburmannarökin“. Að eiga sér góða vini sem maður getur reitt sig á er hins vegar eitt mikilvægasta atriðið í ánægjulegu lífi. Dauðinn. Epikúringar trúðu því einnig (andstætt Aristótelesi) að dauðinn væri ekki slæmur, hann kæmi okkur einfaldlega ekkert við, því þegar við erum lifandi er dauðinn víðsfjarri en þegar dauðinn er nærri erum við ekki lengur til. Samkvæmt epikúrískri siðfræði eru gæði og böl (í formi ánægju og sársauka) afleiðingar af skynjunum okkar. Án skynjunar er ekkert böl. Þegar maður er á lífi finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er ekki dauður. Þegar maður deyr finnur hann ekki til sársauka af völdum dauðans vegna þess að hann er dauður og þar sem dauði er tortíming getur hann ekki skynjað neitt lengur. Þar af leiðandi segir Epikúros að „dauðinn er okkur ekkert“. Trúarbrögð. Epikúrismi er efnishyggja og samkvæmt kenningunni er allt sem til er efnislegt. Guðirnir eru einnig, samkvæmt epikúrisma, efnislegir og forgengilegir, alveg eins og dauðlegir menn. Enn fremur lýsir epikúrismi guðunum svo að þeir séu afskiptalausir um mál manna. Þeir sköpuðu ekki heiminn og hvorki refsa mönnum né umbuna þeim. Guðfræði epikúrismans hefur verið túlkuð sem dulbúið trúleysi. Arfleifð epikúrismans. Ýmis atriði epikúrískri úr heimspeki hafa gengið aftur eða dúkkað upp hjá ýmsum hugsuðum og heimspekistefnum í sögu Vesturlanda. Bölsvandinn (sem er stundum nefndur þverstæða Epikúrosar er fræg rök gegn tilvist guðs. Epikúros var einn af fyrstu heimspekingunum sem útskýrði réttlætishugtakið á grundvelli samfélagssáttmála. Í epikúrískri heimspeki er réttlæti skilgreint sem samkomulag um að „valda ekki skaða og verða ekki fyrir skaða“. Tilgangurinn með því að búa í samfélagi með öðrum þar sem lög gilda og refsing er við lagabrotum er sá að vernda borgarana frá skapa svo að maður sé frjáls til þess að leita hamingjunnar. Af þessum sökum eru lög, sem leggja mönnum ekki lið til þess að leita hamingjunnar, ranglát. Lýðræðislegir hugsuðir frönsku byltingarinnar tóku síðar upp þessa hugmynd epikúrismans og einnig aðrir, líkt og John Locke, sem skrifaði að fólk ætti rétt á „lífi, frelsi, og eignum“. Locke taldi að líkami manns væri eign manns og því myndi eignarréttur manns tryggja öryggi manns sjálfs jafnt sem eigna manns. Þessi hugsun lifði áfram í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna af stofnfeðrum Bandaríkjanna svo sem Thomas Jefferson sem skrifaði að menn ættu rétt á „lífi, frelsi og að leita hamingjunnar“. Heimspeki 18. aldar. Heimspeki 18. aldar, einnig nefnd heimspeki upplýsingarinnar eða heimspeki upplýsingartímans, er tímabil í sögu vestrænnar nýaldarheimspeki, einkum evrópskrar heimspeki. Stundum er 17. öldin einnig talin heyra til heimspeki upplýsingarinnar. Á 18. öld ríkti mikil bjartsýni meðal heimspekinga og vísindamanna um getu vísindanna til þess að útskýra þau lögmál sem giltu um heiminn og um almennar framfarir. Þessi framfaratrú var einn þáttur í þeirri hugmyndafræði sem gat af sér frelsisstríð Bandaríkjanna og frönsku byltinguna og síðar sjálfstæðisbaráttu suður-amerískra ríkja. Hún gat einnig af sér klassíska frjálshyggju, lýðræði og auðvaldshyggju. Yfirlit yfir heimspeki 18. aldar. Trú og guðrækni voru hjá ýmsum höfundum nátengd iðkun heimspekinnar. Írski heimspekingurinn George Berkeley reyndi að sýna fram á tilvist guðs með heimspekilegum rökum. En ýmsir höfundar, eins og Thomas Paine, Voltaire, Jean-Jacques Rousseau og David Hume, dróu í efa og réðust jafnvel gegn kennivaldi kirkjunnar. Raunhyggja naut aukinna vinsælda á 18. öld og hafði áhrif á stjórnspekihugmyndir, stjórnsýslu og vísindi, eins og eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Viðskiptafræði. Viðskiptafræði er fræðigrein sem fæst við rekstur fyrirtækja. Greinin skiptist í nokkrar megingreinar; stjórnun, reikningshald og markaðsfræði. Til þess að verða viðskiptafræðingur þarf maður að fara í háskóla. Það tekur u.þ.b. 3-5 ár. Brian Greene. Brian Greene (fæddur 3. febrúar 1963) er eðlisfræðingur og einn þekktasti strengjafræðingur heims. Hann hefur verið prófessor við Columbia-háskóla síðan árið 1996. Greene, sem fæddur er í New York var undrabarn í stærðfræði. Hæfileikar hans voru slíkir, að 12 ára gamall hlaut hann einkakennslu hjá stærðfræðiprófessor við Columbia-háskóla þar sem hann hafði þegar farið langt fram úr allri framhaldsskólastærðfræði. Árið 1980 innritaðist Greene í Harvard-háskóla til að leggja stund á eðlisfræði og síðar nam hann við háskólann í Oxford á Englandi. Bók hans "The Elegant Universe: Superstrings, Hidden Dimensions, and the Quest for the Ultimate Theory" var til þess fallinn að vekja áhuga á strengjakenningunni og M-kenningunni. Hún var útnefnd til Pulitzer verðlauna í flokki bóka sem ekki teljast til skáldsagna. Bókin varð síðar viðfangsefni sjónvarpsþátta á PBS sjónvarpstöðinni þar sem Greene var sögumaður. Seinni bók hans "The Fabric of the Cosmos" fjallar um tímarúm og eðli alheimsins. Brian Greene hefur einnig komið að leiklist, t.a.m. var hann leikaranum John Lithgow til aðstoðar vísindalegan texta í sjónvarpsþáttaröðinni "3rd Rock from the Sun" og kom einnig fram sem aukaleikari í myndinni "Frequency". Nýverið var hann einnig til ráðgjafar við kvikmyndina "Deja Vu" sem fjallar um tímaflakk og inniheldur hugtök úr fræðilegri eðlisfræði. Greene, Brian Skytturnar. "Skytturnar" er kvikmynd eftir Friðrik Þór Friðriksson um tvo hvalveiðimenn sem lenda í óreiðu í Reykjavík eftir að bann var lagt á hvalveiði. Þriðja nafnið. "Þriðja Nafnið" er kvikmynd eftir Einar Þór um mann sem rænir skipi og heimtar að fá að tala við kærustuna sína, en hún hefur aldrei heyrt hans getið. Sealand. Sealand (Furstadæmið Sealand) er sjálfútnefnd smáþjóð á gömlum olíuborpalli undan ströndu Englands. Landið er í eigu Paddy Roy Bates en fjölskylda hans og samstarfsaðilar halda því fram að landið sé eigin þjóð. Enginn af meðlimum SÞ hafa viðurkennt sjálfstæði Sealand og réttarfarslega fellur það undir Stóra-Bretland. Flatarmál Sealands er 550 m² og íbúafjöldinn fer sjaldan yfir 5. Borpallurinn er 10 kílómetra frá ströndu Englands og var byggður í síðari heimsstyrjöldinni. Þann 23. júní 2006 brann stór hluti hans eftir sprengingu í rafal. Breiðavík. Breiðavík er vík á Vestfjörðum á Íslandi og er ein af svonefndum Útvíkum og liggur milli Látravíkur og Kollsvíkur. Nokkru sunnar er Látrabjarg og þorpið Patreksfjörður er í um 50 km fjarlægð. Í Breiðavík er nú búskapur og ferðaþjónusta, á sumrin er rekið þar gistiheimili. Allmikill útvegur var stundaður fyrrum frá Breiðuvík. Frá 1824 hefur verið kirkjustaður í Breiðuvík, en áður var þar bænhús. Kirkjan sem nú stendur í Breiðavík var vígð árið 1964. Uppeldisheimili fyrir drengi var rekið á vegum ríkisins í Breiðuvík á árunum 1953 – 1979. Upphaflega var heimilið stofnað fyrir drengi á aldrinum 14-18 ára en þar voru aðallega drengir á aldrinum 10 – 14 ára. Margar ástæður gátu verið fyrir því að þeir voru sendir þangað allt frá afbrotum yfir í alvarleg heimilisvandamál. Í Kastljósþætti 6. febrúar 2007 upplýsti fyrrverandi vistmaður uppeldisheimilisins í Breiðuvík að hann hefði orðið fyrir ofbeldi og kynferðislegri misnotkun á meðan dvöl hans þar stóð, en svipaðar upplýsingar höfðu komið fram skömmu áður í DV og einnig löngu fyrr í minningum Sævars Ciesielski frá 1980. Margir aðrir fyrrum vistmenn í Breiðuvík fylgdu í kjölfarið á Kastljósþættinum og höfðu sömu sögu að segja um slæman aðbúnað og andlegt og líkamlegt ofbeldi. Í Kastljósþættinum kom einnig í ljós að Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur vann skýrslu árið 1975 þar sem hann gagnrýndi aðbúnaðinn í Breiðuvík. Niðurstöður Gísla voru meðal annars þær að 83% þeirra drengjanna sem dvöldu á Breiðavík komust í kast við lögin og 63% fyrir alvarlega glæpi. Klassísk heimspeki. Klassísk heimspeki er hugtak sem er stundum notað um það tímabil í fornaldarheimspeki sem nær frá miðri 5. öld f.Kr. til 322 f.Kr. eða frá því að tímabili forvera Sókratesar lýkur og þar til tími hellenískrar heimspeki hefst. Meginheimspekingar þessa tímabils voru Sókrates, Platon og Aristóteles. Einnig mætti telja fræðarana til klassískrar heimspeki en oft eru þeir taldir til forvera Sókratesar. Þeir Sókrates, Platon og Aristóteles voru allir meðal áhrifamestu heimspekinga Grikklands hins forna og einnig meðal áhrifamestu heimspekinga fyrr og síðar í vestrænni heimspeki. Sókrates. Sókrates fæddist árið 469 f.Kr. í Aþenu meðan á gullöld Aþenu stóð. Hann skildi ekki eftir sig nein rit en stundaði heimspeki í samtölum við menn á götum úti. Sókrates beindi sjónum sínum einkum að siðfræðilegum spurningum og raunar er oft sagt að hann hafi verið fyrstur til að stunda eiginlega siðfræði. Margir helstu hugsuða Aþenu urðu lærisveinar hans (þó svo að hann hafi sjálfur sagt að hann hefði enga lærisveina). Meðal þeirra voru Xenofon, Platon, Æskínes og Alkibíades. Sókrates var tekinn af lífið árið 399 f.Kr. eftir að hafa verið dæmdur sekur um guðlast og að spilla æskulýðnum. Heimildir um Sókrates. Af því að Sókrates skildi ekki eftir sig nein rit er nauðsynlegt að styðjast við endursögn annarra á heimspeki hans. Meginheimildirnar eru rit Platons og Xenofons en brot eru varðveitt úr ritum Æskínesar og ævisaga Sókratesar er varðveitt hjá Díogenesi Laertíosi, rituð á ofanverðri 2. öld e.Kr. Sókrates kemur einnig fyrir í leikritinu "Skýjunum" eftir Aristófanes. Platon, sem er mikilvægasta heimildin, notar Sókrates sem persónu í samræðum sínum þar sem hann setur fram sínar eigin kenningar. Að greina á milli skoðana Sókratesar og Platons getur því verið vandasamt. Þetta er stundum nefnd „sókratíski vandinn“. Almennt er þó talið að eldri samræður Platons endurspegli frekar heimspeki Sókratesar en yngri samræður. Sökum þessa er samanburður á ritum Platons og Xenofons mikilvægur en skilningur Xenofons virðist mun grynnri. Aðferð og heimspeki Sókratesar. Af elstu samræðum Platons að dæma virðist sem Sókrates hafi haft sérkennilega aðferð við að stunda heimspeki. "Hin sókratíska aðferð", sem svo hefur verið kölluð eftir aðferð Sókratesar í leit að svörum við spurningum sínum, felst í því að spyrja viðmælanda sinn spurninga og leiða í ljós mótsagnir í skoðunum hans. Með þessari aðferð fékk Sókrates fólk til að átta sig á hvað er rangt við sannfæringu þeirra (eða rétt) og hversu lítið (eða mikið) það raunverulega veit. Með þessu sagðist hann fæða visku hjá fólki og kallaði sig því „ljósmóður viskunar“. Sjálfur þóttist Sókrates ekkert vita um þau mál sem rædd voru, þótt óneitanlega virðist hann hafa mun betri skilning á umfjöllunarefninu en viðmælendur hans. Þessi ólíkindalæti eru nefnd „sókratísk írónía“. Vegna sókratíska vandans fara margir fræðimenn varlega í að eigna Sókratesi heimspekilegar kenningar. Flestum ber þó sama um að Sókrates hafi haldið tvennu fram: annars vegar að dygð væri þekking og hins vegar að enginn væri vísvitandi illur. Það sem átt er við með að dygð sé þekking er einfaldlega að það að vera dygðugur sé fólgið í því að búa yfir ákveðinni þekkingu; sá sem býr yfir visku er, samkvæmt þessari kenningu, dygðugur. Hjá Platoni gengur þessi kenning aftur sem kenning um einingu dygðanna. Með því að segja að enginn sé vísvitandi illur hafnaði Sókrates hugmyndum um breyskleika, þ.e. hann hafnaði þeirri hugmynd að maður gæti vitað hvað er gott en samt valið það sem er illt; sá sem velur það sem er illt gerir það af því að hann veit ekki betur og telur sig vera að velja það sem er gott. Platon. a> (427-347 f.Kr.), brjóstmynd í Vatíkansafninu. Platon fæddist í Aþenu árið 427 f.Kr. Hann varð gríðarlega áhrifamikill heimspekingur þegar í lifanda lífi. Platon var nemandi Sókratesar. Hann var ungur maður þegar Pelópsskagastríðinu lauk og hann varð vitni að miklum sviptingum í aþenskum stjórnmálum. Hann sá harðstjórn komast til valda að stríðinu loknu og loks lýðræðislega stjórn taka við af harðstjórninni. Það var lýðræðisstjórnin sem lét taka Sókrates af lífi. Aftaka han fékk mjög á Platon. Hann yfirgaf Aþenu og ferðaðist um Grikkland og víðar. Þegar hann sneri aftur stofnaði hann skóla í útjaðri Aþenu, Akademíuna. Hann var mikilvirkur rithöfundur og um 30 rit hafa varðveist eftir hann. Platon varð aldraður maður en hann lést árið 347 f.Kr. áttræður. Heimspeki Platons. Platon var ekki einungis undir áhrifum frá Sókratesi, heldur einnig öðrum grískum heimspekingum, þar á meðal Herakleitosi, Parmenídesi og pýþagóringum. Frægasta kenning Platons er frummyndakenningin. Platon taldi efnisheiminn vera lélega eftirlíkingu af óbreytanlegum óhlutbundnum frummyndum sem eru utan tíma og rúms og verða ekki skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Frummyndirnar gegna fjórþættu hlutverki: frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, merkingarfræðilegu og siðfræðilegu. Þær eru raunverulegar og stöðugar verundir, ólíkt efnisheiminum sem er sífellt "verðandi" og "er" aldrei neitt. Af því að þær "eru" í orðsins fylltsu merkingu eru þær viðföng þekkingar en efnisheimurinn er einungis viðfang brigðulla skoðana. Frummyndirnar eru einnig merkingarmið hugtaka og gegna þannig merkingarfræðilegu hlutverki í heimspeki Platons. Að lokum gegna þær siðfræðilegu hlutverki en meðal frummyndanna ríkir stigskipting og efst trónir frummynd hins góða. sem alllir góðir hlutir líkjast eða eiga hlutdeild í. Frummyndakenningin kemur fyrir í nokkrum samræðum, meðal annars "Fædoni", "Ríkinu", "Samdrykkjunni", "Parmenídesi" og "Tímajosi" Platon taldi að sálin væri ódauðleg og endurfæddist í nýjan líkama að lífinu loknu. Líkamanum er lýst sem fangelsi sálarinnar. Platon hafði einnig kenningu um þrískiptingu sálarinnar, sem hann notaði m.a. til að útskýra breyskleika. Þessir þrír hlutar sálarinnar voru skynsemi, löngun og skap. Það er eðli skynseminnar að sækjast eftir sannleika og þekkingu og henni er líka eðlislægt að stjórna. Skapið leitar eftir viðurkenningu en löngunin leitar eftir ánægju í formi matar, drykkjar og kynlífs. Platon setti fram eina fyrstu útgáfu af samfélagssáttmálakenningu í vestrænni heimspeki í ritinu "Krítoni". Samfélagssáttmálakenningar um undirstöður ríkisvalds urðu áhrifamiklar í nýaldarheimspeki hjá höfundum eins og Thomasi Hobbes, John Locke og Jean-Jacques Rousseau. En þekktasta stjórnspekikenning Platons er hugsjón hans um fyrirmyndarríkið sem sett er fram í "Ríkinu". Platon hafði litla trú á lýðræði. Hann taldi að rétt eins sérfræðingar ættu að ráða í þeim málum sem þeir hafa sérfræðiþekkingu á rétt eins og skynsemin ætti að ríkja yfir skapi og löngunum ættu heimspekingar að ráða yfir ríkinu. Meðal heimspekinganna eru bæði konur og karlar sem eiga að baki langt nám í heimspeki og öðrum greinum, sem eru eignalaus og hafa enga eiginhagsmuni. Seinna snerist Platoni hugur og í "Stjórnvitringnum" og "Lögunum" kemur fram önnur sýn á stjórnmál. Þar virðist Platon hafa öðlast aðeins meiri trú á lýðræði og virðist telja hana illskásta kostinn, ekki síst vegna þess að þótt góður og upplýstur einvaldur væri betri stjórnandi væri allt of mikil hætta á að sitja uppi með slæman einvald. Aristóteles. a>i í Palazza Altaemps í Róm. Aristóteles fæddist árið 384 f.Kr. í borginni Stageiru. Hann fór sautján ára gamal til Aþenu og hóf nám í Akademíu Platons en varð seinna kennari þar. Eftir að Platon lést yfirgaf Aristóteles Aþenu. Hann var um tíma einkakennari Alexanders mikla. Síðar sneri hann aftur til Aþenu og stofnaði skólann Lýkeion. Eftir dauða Alexanders árið 323 f.Kr. taldi hans sér ekki lengur vært í Aþenu. Hann yfirgaf borgina öðru sinni en lést ári síðar úr veikindum. Aristóteles er, ásamt Platoni, af mörgum talinn áhrifamesti hugsuður í vestrænni heimspeki. Hann var einnig mikilvirkur vísindamaður og fékkst við flestar greinar vísinda síns tíma. Hann skrifaði fjölmargar bækur meðal annarsum rökfræði (fræðigrein sem hann fann upp), verufræði og frumspeki, eðlisfræði, sálfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði, veðurfræði, mælskufræði, skáldskaparfræði, siðfræði, stjórnmálafræði, hagfræði og sögu heimspekinnar fram að sínum tíma. Heimspeki Aristótelesar. Fræðimenn eru ekki allir á einu máli um hvernig heimspeki Aristótelesar þróaðist. Sumir telja að hann hafði í upphafi verið undir meiri áhrifum frá Platoni en hafi síðar orðið ósammála læriföður sínum um flest. Aðrir telja að Aristóteles hafi í upphafi verið um flest á öndverðum meiði við Platon en hafi með tímanum orðið æ meira sammála honum. Aristóteles aðhylltist ekki frummyndakenninguna en hann gagnrýnir hana harkalega víða í ritum sínum. Frumspeki hans byggðist hugmyndinni um verund og eiginleika. Í "Umsögnum" segir Aristóteles að verund sé það sem er ekki sagt um neitt annað. Eiginleikar eru hins vegar umsagnir verunda. Auk greinarmunarins á verundum og eiginleikum liggur greinarmunurinn á formi og efni til grundvallar allri frumspeki Aristótelesar. Ítarlegasta rannsókn Aristótelesar á verundum er í 7. bók "Frumspekinnar". Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að verund sé eining forms og efnis. Efnið er "megund" verundarinnar en formið er "raungerving" hennar. Siðfræði Aristótelesar var kerfisbundin dygðasiðfræði. Í mikilvægasta riti sínu um siðfræði "Siðfræði Níkomakkosar" gerir Aristóteles ítarlega grein fyrir eðli dygðarinnar og ræðir samband dygðar og hamingju eða farsældar. Aristóteles færði rök fyrir því að dygð væri meðalhóf tveggja lasta; til dæmis væri hugrekki meðalvegur hugleysis og fífldirfsku. Hann taldi að dygðin væri nauðsynleg forsenda farsældar en þó ekki nægjanleg. Í siðfræði Aristótelesar liggur áherslan ekki á athöfnum manna heldur skapgerð þeirra, ekki á því hvað þeir gera í tilteknum aðstæðum, heldur hvernig menn þeir eru. Dygðafræði Aristótelesar hvílir á sálarfræði hans og greiningu hans á sálarlífi manna, ttil dæmis löngunum og skapi, hvötum og breyskleika, skynjun, skynsemi og tilfinningum. Aðrir heimspekingar í klassískri heimspeki. Sókrates, Platon og Aristóteles voru ekki einu heimspekingar þessa tíma. Auk þeirra voru að störfum aðrir heimspekingar innan Akademíunnar og annarra skóla, svo sem pýþagóringar, hundingjar, kýreningar og megaringar. Pýþagóringar. Pýþagóringar voru fylgjendur heimspekingsins og stærðfræðingsins Pýþagórasar sem var uppi á 6. öld f.Kr. Skóli þeirra var hálfgerð leyniregla með trúarlegu ívafi. Á tíma klassískrar heimspeki var heimspekingurinn Fílolás meginheimspekingur skólans. Í samræðunni "Fædoni" eftir Platon er gefið í skyn að tveir viðmælendur Sókratesar, Simmías og Kebes, hafi verið nemendur hans. Meðal annarra pýþagóringa þessa tíma má nefna Arkýtas frá Tarentum, Híketas og ef til vill Tímajos frá Lókrí. Hundingjar. Upphafsmaður hundingjastefnunnar var heimspekingurinn Antisþenes (444 – 365 f.Kr.) sem verið hafði vinur og nemandi Sókratesar. Stefnan fól í sér meinlætalíf róttæka höfnun á félagslegum gildum. Hundingjar gerðu oft sitt ítrasta til að hneyksla fólk og stunduðu meðal annars sjálfsfróun á almannafæri. Þeir hvöttu fólk til að láta laust hið dýrslega í sér. Frægastur hundingjanna er sennilega Díogenes hundingi sem bjó í tunnu. Meðal annarra hundingja voru Krates, Demetríos og Demonax. Hundingjar höfðu mikil áhrif á Zenon frá Kítíon, upphafsmanns stóuspekinnar og aðra stóumenn, svo sem Epiktetos. Kýreningar. Kýreningar voru róttækir nautnahyggjumenn. Stefnan er nefnd eftir fæðingarstað Aristipposar (435 – 366 f.Kr.), upphafsmanns hennar, en hann fæddist í borginni Kýrenu í Norður-Afríku (þar sem Lýbía er nú). Aristippos hafði einnig verið fylgismaður Sókratesar en heimspeki hans var afar frábrugðin heimspeki Sókratesar og annarra nemenda hans. Kýreningar töldu að ánægja væri æðst gæða og lögðu áherslu á líkamlega ánægju umfram andlega ánægju sem hlýst til dæmis af ástundum lista eða ræktun vináttu. Þeir höfnuðu einnig að skynsamlegt væri að fresta eða takmarka eftirsókn eftir líkamlegri ánægju á líðandi stundu vegna langtímasjónarmiða. Kýreningar töldu að mannlegri þekkingu væru þröngar skorður settar. Þeir töldu að einungis væri hægt að þekkja eigin upplifanir hverju sinni, til dæmis að á ákveðnu augnabliki fyndi maður sætt bragð, en að ekkert væri hægt að vita um orsakir þess sem maður skynjar, til dæmis að hunang sé sætt á bragðið. Megaringar. Skóli Megaringa var stofnaður af heimspekingnum Evklíð frá Megöru, sem var sagður hafa verið nemandi Sókratesar. Hann var einnig undir áhrifum frá Parmenídesi frá Eleu. Megaringar voru þekktir fyrir rökfræði sína en fengust lítið við siðfræði. Helsti heimspekingur megaringa eftir að Evkllíð féll frá var Evbúlídes frá Míletos sem tók þá við stjórn skólans. Hann mun fyrstur hafa sett fram þverstæðu lygarans Akademískir heimspekingar. Merkustu heimspekingar Akademíunnar, auk Platons og Aristótelesar, voru Spevsippos, Xenokrates, Evdoxos og Herakleides frá Pontos. Flestir heimspekingar Akademíunnar voru einhvers konar platonistar en einnig undir áhrifum frá pýþagórískri heimspeki og megaringum. Spevsippos var frændi Platons og eftirmaður hans sem stjórnandi Akademíunnar. Hann er sagður hafa hafnað frummyndakenningu Platons. Xenokrates tók við stjórn Akademíunnar eftir Spevsippos. Hann hafði áður verið nemandi Æskínesar. Xenokrates fylgdi kenningum Platons mun meira en Spevsippos. Sagt er að Xenokrates hafi fyrstur skipt heimspekinni í þrjú svið: rökfræði, frumspeki og siðfræði. Evdoxos tók við stjórn Akademíunnar eftir Xenokrates. Hann var framúrskarandi stærðfræðingur en fékkst einnig við heimspeki og stjörnufræði. Hann nam stærðfræði hjá Arkýtasi en lagði sjálfur grunninn að stærðfræði síðari tíma stærðfræðinga, til dæmis Þeódósíosar og Evklíðs. Herakleidesi frá Pontos gæti hafa verið fyrstur til að setja fram sólmiðjukenningu. Hann fékkst einnig við stærðfræði, heimspeki, mælskufræði, málfræði, sagnfræði og tónlist. Grunnskóli Borgarfjarðar. Grunnskóli Borgarfjarðar er grunnskóli í Borgarfirði sem varð til við sameiningu Andakílsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla haustið 2005. Hann starfar á Hvanneyri og Kleppjárnsreykjum. Andakílsskóli. Andakílsskóli er fyrrverandi grunnskóli á Hvanneyri en heyrir nú undir Grunnskóla Borgarfjarðar. Skólinn var útibú frá Kleppjárnsreykjaskóla en árið 1975 varð hann að sjálfstæðum skóla. Vorið 2005 voru skólarnir sameinaðir í einn skóla sem nefndur var Grunnskóli Borgarfjarðarsveitar. Nú hefur skólinn verið nefndur að nýju, og heitir Grunnskóli Borgarfjarðar. Kleppjárnsreykjaskóli. Kleppjárnsreykjaskóli var íslenskur grunnskóli sem hefur verið sameinaður Andakílsskóla og heitir í dag Grunnskóli Borgarfjarðar. Skólinn var byggður á Kleppjárnsreykjum 13. nóvember árið 1961. Seinna var byggt útibú frá skólanum á Hvanneyri sem árið 1975 var gert að sér skóla og hlaut nafnið Andakílsskóli. Vorið 2005 voru skólarnir sameinaðir í einn skóla sem nefndur var "Grunnskóli Borgarfjarðarsveitar". Blender. Blender er frjálst forrit sem er notað til að búa til myndir og hreyfingu í þrívídd. Blender er hægt að fá fyrir flest algeng stýrikerfi, meðal annars Microsoft Windows, Mac OS X, GNU/Linux, IRIX, Solaris, FreeBSD, SkyOS, MorphOS og Pocket PC. Blender er með svipað gott þrívíddar forrit eins og Softimage XSI, Cinema 4D, 3D Studio Max og Maya. Blender með innbyggðan Python-túlk til að forrita bæði þrívíddarhluti og viðmótshluta. Skólaspeki. Skólaspeki (úr latínu "scholasticus", sem þýðir „það sem tilheyrir skóla“) var hefð í miðaldaheimspeki sem skaut rótum í háskólum miðalda um 1100 – 1500. Skólaspekin reyndi upphaflega að sætta heimspeki fornaldar og kristna guðfræði. Hún var öðrum þræði aðferðafræði sem byggði á rökfræðiritum Aristótelesar, sem Boethius hafði þýtt yfir á latínu. Aðferðum skólaspekinnar var oftast beitt til þess að finna svar við spurningum eða komast hjá mótsögnum, bæði í guðfræði og heimspeki. Heimspeki síðfornaldar. Heimspeki síðfornaldar er það tímabil nefnt í fornaldarheimspeki sem nær frá lokum hellenískrar heimspeki til loka fornaldar. Bæði viðmiðunarmörkin eru á reiki. Í þrengri skilningi lýkur hellenískri heimspeki þegar helleníska tímanum lýkur en seinni mörk hans miðast oftast við árið 31 f.Kr. eða árið 27 f.Kr. Þá er ýmist sagt að heimspeki síðfornaldar hefjist en stundum er einnig sagt að þá taki við tími rómverskrar heimspeki. Aftur á móti er hellenísk heimspeki stundum talin ná einnig yfir rómverska heimspeki og vara út 2. öld e.Kr. Þá er upphaf heimspeki síðfornaldar talið vera um árið 200 e.Kr. Hér verður notast við þau viðmið. Efri mörk heimspeki síðfornaldar miðast við upphaf miðaldaheimspeki. Oftast er sagt að miðaldir hefjist árið 476 e.Kr. við táknrænt fall Vestrómverska ríkisins. Aftur á móti er stundum sagt að miðaldir hefjist mun fyrr eða árið 312 e.Kr. þegar Konstantín mikli keisari í Rómaveldi tók kristni. Heimspekingar eins og Ágústínus kirkjufaður og Boethius teljast ýmist fyrstu miðaldaheimspekingarnir (einkum vegna kennivalds þeirra og mikilvægis á miðöldum) en oftast síðustu heimspekingar fornaldar. Því má segja að heimspeki síðfornaldar (og þar með heimspeki fornaldar ljúki um árið 500 e.Kr. Allt frá því snemma á hellenískum tíma til loka 2. aldar hafði stóuspeki verið vinsælasta og ein mikilvægasta heimspekistefnan. Stóuspeki naut áfram vinsælda í síðfornöld en eigi að síður tók svonefndur nýplatonismi við af henni sem leiðandi stefna í heimspeki. Aristótelísk heimspeki, pýþagórismi, epikúrismi og efahyggja voru enn til sem heimspekistefnur en flestir mikilvægustu heimspekingar síðfornaldar voru þó nýplatonistar. Aristótelismi hafði að vísu meiri áhrif á nýplatonismann en hann hafði áður haft á platonisma. Skólinn í Aþenu. Skólinn í Aþenu er eitt af frægustu málverkum ítalska endurreisnarlistamannsins Rafaels ("Raffaello Sanzio" eða "Raffaello da Urbino"). Það var málað árin 1509 til 1510 og er 5,77 m hátt og 8,14 m breitt. Rafael var falið að skreyta með veggmálverkum fjögur herbergi í Vatíkanhöllinni í Vatíkaninu sem eru nú þekktir sem "Stanze di Raffaello" (herbergi Rafaels). "Stanza della Segnatura" (þar sem "Skólinn í Aþenu" er) var fyrsta herbergið sem hann skreytti og "Skólinn í Aþenu" var annað málverkið sem hann kláraði, á eftir "La disputa". Málverkið. Málverkið prýddi vegginn yfir heimspekihluta bókasafns Júlíusar II páfa og því ákvað Rafael að verkið skyldi sýna alla merkustu heimspekinga sögunnar, auk vísindamanna og stærðfræðinga klassískrar fornaldar. Grísku heimspekingarnir Platon og Aristóteles, sem voru taldir mikilvægustu heimspekingarnir á endurreisnartímanum, standa í miðju verksins fyrir ofan tröppurnar. Platon, sem er í líki Leonardos da Vinci, heldur á riti sínu "Tímajosi". Aristóteles heldur á riti sínu "Siðfræði Níkomakkosar". Hendur þeirra gefa til kynna heimspekilegan áhuga þeirra — Platon bendir upp til himins en Aristóteles heldur úti flatri hönd til að gefa til kynna jarðbundnara viðhorf hans. Díogenes frá Sínópu liggur áhyggjulaus fyrir framan þá neðar í tröppunum til að sýna heimspekilegt viðhorf hans: hann fyrirleit hefðbundinn lífsstíl og allt sem honum fylgdi. Til vinstri er steinhella mikil sem er stundum talin eiga að tákna Jesús. Maðurinn sem hallar sér upp við steininn er Herakleitos, í líki Michelangelos. Honum var bætt inn eftir á. Árið 1510 laumaðist Rafael inn í Sixtusarkapelluna að nóttu til að skoða málverk Michelangelos. Hann bætti Michelangelo inn á málverkið í virðingarskyni við hann. Sjálfsmynd Rafaels er lengst til hægri rétt fyrir neðan miðju. Þar er hann ungur maður, jarphærður, sem horfir beint á áhorfanda málverksins. Til vinstri á málverkinu er ungleg hvítklædd stúlka sem horfir einnig út til áhorfandans. Sagan segir að hún sé Margherita, ástkona Rafaels. Samkvæmt annarri túlkun er hún Hýpatía frá Alexandríu. Fljúgandi furðuhlutur. Fljúgandi furðuhlutur (skammst. FFH) eða fljúgandi diskur er óútskýranlegt fyrirbæri, sem sést á sveimi á himninum eða á ratsjá. Fljúgandi furðuhlutir, oft disklaga, koma fyrir í vísindaskáldskap og eru þá yfirleitt farartæki vitsmunavera frá öðrum hnöttum. Verkfræði. Verkfræði er fræði- og starfsgrein, sem beitir vísindalegum aðferðum, sem byggjast einkum á stærðfræðigreiningu og eðlisfræði, við hönnun, rannsóknir, verkstjórnun, eftirlit o.fl. Starfsheitið "verkfræðingur" er lögverndað skv. lögum nr. 8 frá 11. mars 1996. Þeir einir geta kallað sig verkfræðinga, sem lokið hafa námi í verkfræði á meistarastigi (eða sambærilegu) í (tækni)háskóla. Þýðing. Við þýðingu á texta þarf að hafa í huga að enska orðið "engineer" er mun víðtækara en íslenska orðið "verkfræðingur". "Engineer" getur átt við starfsheitin tæknimaður, vélfræðingur, vélstjóri, tæknifræðingur o.s.frv eða "verkfræðing", sem getur valdið ruglingi við þýðingu. T.d. væri nær lagi að tala um tæknisveit hers í stað verkfræðisveitar. Á ensku á starfsheitið "Civil engineer" einkum við "byggingaverkfræðing", en í Skandinavíu á sambærilegt heiti, þ.e. "civilingenjör" (sænska), "sivilingeniør" (norska) og "civilingeniør" (danska) við prófgráðu í verkfræði sem er sambærileg við meistara gráðu, og er notað um verkfræðinga almennt. Jimmy Wales. Jimmy Donal Wales, einnig kunnur sem Jimbo Wales (fæddur 7. ágúst 1966) er bandarískur Internet-frumkvöðull, helst þekktur af starfi sínu að margvíslegum verkefnum tengdum wiki-hugmyndinni. Þar á meðal eru Wikipedia, Wikimedia Foundation og fyrirtækið Wikia Inc.. Menntun. Wales lærði viðskiptafræði og hefur mastersgráðu í þeim fræðum. Hann hóf nám að doktorsgráðu í sömu efnum en hefur ekki lokið þeim enn. Starfsferill. Wales auðgaðist af áhættuviðskiptum tengdum gengissveiflum og segist hafa átt hugmyndauppkast að margtyngdu vefbundnu alfræðiriti á árinu 1999, sem var þó of hægvirkt til að koma að gagni. Árið eftir setti hann á stofn alfræðiritið Nupedia sem varð forveri Wikipedia. Hann réð Larry Sanger sem aðalritstjóra Nupedia og alls urðu til 24 greinar af hennar hálfu. Wikipedia og Wikimedia stofnunin. Eftir að Larry Sanger setti fram hugmynd um að nota Wiki til að búa til alfræðirit fékk Jimmy Wales hann til að hefjast handa undir sinni stjórn. Í kjölfarið var Wikipedia verkefninu ýtt úr vör. Miðnesheiði (kvikmynd). "Miðnesheiði" er heimildarmynd eftir Sigurð Snæberg Jónsson. Hún fjallar um herstöð hersins á Íslandi, Keflavíkurstöðina, í tengslum við varnir í Norður-Atlantshafi og hvernig Ísland yrði varið ef til stríðsátaka kæmi. Myndin fjallar auk þess um áhrifin sem vera hersins hefur haft á íslenskt samfélag, sérstaklega nágrannabyggðir herstöðvarinnar á Suðurnesjum. Kvikmyndamiðstöð Íslands. Kvikmyndamiðstöð Íslands (KMÍ) (ensku: Icelandic Film Centre) er opinber stofnun sem var stofnuð með lögum sem sett voru 2001. Kvikmyndamiðstöð veitir styrki úr Kvikmyndasjóði og aðstoðar við kynningu á íslenskum kvikmyndum erlendis. Starfsfólk Kvikmyndamiðstöðvarinnar vinnur þannig að því að íslenskar myndir séu sýndar á kvikmyndahátíðum erlendis. Forstöðumaður er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára í senn. Núverandi forstöðumaður er. Listi yfir íslensk kvikmyndafyrirtæki. Listi yfir íslensk kvikmyndafyrirtæki sem framleitt hafa eina eða fleiri kvikmyndir í fullri lengd (45 mín). Kvikmyndaskóli Íslands. right Kvikmyndaskóli Íslands er íslenskur skóli þar sem hreyfimyndagerð fyrir ýmsa miðla er kennd. Skólinn er einkaskóli og var stofnaður 1992. Fram að 2000 voru þó einvörðungu haldin námskeið í nafni skólans en hann starfaði ekki sem slíkur. Skólinn er í eigu Böðvars Bjarka Péturssonar og fjölskyldu hans. Rektor er Hilmar Oddsson. Árið 2002 flutti skólinn í fyrrverandi húsnæði Sjónvarpsins við Laugaveg. Þar er myndver og betri aðstaða til kennslu og náms en skólinn hafði áður haft. Skólinn fékk viðurkenningu frá menntamálaráðuneytinu 2003 til að starfa á framhaldsskólastigi. Þá var hægt að bjóða upp á tveggja ára heildstætt nám og útskrifuðust fyrstu nemendurnir í febrúar 2005. Skólinn tekur inn 12 nemendur á hverja braut á önn. Inntökuskilyrði er stúdentspróf eða sambærileg menntun. Skólinn er staðsettur að Ofanleiti 2. Skólinn býður upp á nám á fjórum sérsviðum SMÁÍS. SMÁÍS ("Samtök myndrétthafa á Íslandi") voru stofnuð 1992 til að gæta hagsmuna rétthafa myndefnis á Íslandi. Félagsmenn samtakanna hafa rétt til dreifingar á meirihluta kvikmynda- og sjónvarpsefnis og tölvuleikja á íslenskum markaði. Félagsmenn eru kvikmyndahús, helstu útgefendur kvikmynda- og sjónvarpsefnis, sjónvarpsstöðvar og helstu dreifingaraðilar tölvuleikja. SMÁÍS er samstarfsaðili Motion Picture Association hér á landi. Lögsóknir. Smáís hefur séð fyrir einni lögsókn gegn Torrent.is Kleppjárnsreykir. Kleppjárnsreykir er byggðahverfi, læknis- og skólasetur í Reykholtsdal í Borgarfirði, eða Borgarbyggð, skammt frá Reykholti. Þar er mikill jarðhiti og margir stórir og vatnsmiklir hverir og er samanlagt náttúrulegt rennsli úr hverum og laugum í Reykholtsdal á fjórða hundrað sekúndulítrar. Þar af koma um þrír fjórðu hlutar úr hverum og laugum við Deildartungu og á Kleppjárnsreykjum, þar sem er annar vatnsmesti hverinn í dalnum. Nafnið Kleppjárn er karlmannsnafn sem kemur fram í Landnámabók og í Heiðarvíga sögu er maður nefndur sem hét Kleppjárn og bjó á Reykjum. Reykir vísar einfaldlega til jarðhitans á svæðinu. Kleppjárn, sem nefndur er í Landnámabók, hlaut viðurnefnið hinn gamli úr Flókadal og var son Þórólfs ‚viligisl‘. Ekki er tekið skýrt fram að Arnleif hafi verið móðir Kleppjárns en að minnsta kosti átti hana Þórólfur þessi en Arnleif var aftur systir Svartkels landnámsmanns sem til Íslands kom frá Englandi og bjó að Kiðafelli í Kjós. Harold F. Cherniss. Harold Fredrik Cherniss (1904 – 18. júní 1987) var bandarískur fornfræðingur og heimspekingur og sérfræðingur um forngríska heimspeki. Hann samdi nokkrar bækur um sín fræði en ritstýrði og þýddi auk þess verk Plútarkosar. Æviágrip. Cherniss fæddist í St. Joseph í Missouri. Hann lauk doktorsgráðu frá University of California, Berkeley árið 1930. Að námi sínu loknu kenndi hann forngrísku við Cornell University og síðar við Johns Hopkins University og University of California. Í seinni heimsstyrjöldinni vann Cherniss í greiningardeild bandaríska hersins. Eftir stríðið varð hann fastráðinn fræðimaður við Institute for Advanced Study í Princeton í New Jersey. Þar starfaði hann frá 1948 til æviloka. Tengill. Cherniss, Harold F Cherniss, Harold F Martin West. Martin Litchfield West (fæddur 23. september 1937, í London á Englandi) er enskur fornfræðingur, og textafræðingur. Árið 2002 hlaut hann Kenyon-orðuna fyrir störf í þágu fornfræðinnar frá bresku akademíunni og var þá sagður „mestur og mikilvægastur fornfræðinga sinnar kynslóðar“. Hann er "emeritus" félagi á All Souls College við Oxford-háskóla. West hefur skrifað mikið um forngríska tónlist, tengsl Grikklands við Miðausturlönd í fornöld og tengsl shamanisma og snemmgrískra trúarbragða, þar á meðal orfeifsku hefðina. Skrifin byggja á heimildum á akkadísku, fönikísku, hebresku, hittitísku og úgaritísku auk forngrísku og latínu. West hefur nýlega gefið frá sér fræðilega útgáfu á texta "Ilíonskviðu" Hómers í Teubner-ritröðinni, auk fræðirits um varðveislu og miðlun textans, "Studies in the Text and Transmission of the Iliad". Verðlaun. West er félagi í bresku akademíunni, meðlimur í Akademie der Wissenschaften í Göttingen og meðlimur í Academia Europaea, í London. Helstu greinar. Meðal rita Wests eru yfir 200 fræðigreinar og færslur í alfræðiritum frá 1960. Tenglar. West, Martin L. West, Martin L. West, Martin L. Hríðskotabyssa. Hríðskotabyssa er al- eða hálfsjálfvirkt handskotvopn, sem skýtur skammbyssuskotum, oftast 9 mm. Hríðskotabyssa er mun léttari og meðfærilegri en vélbyssa, en mun skammdrægari. Er einnig léttari og skammdrægari en hríðskotariffill. Dæmi um þekktar hríðskotabyssur eru MP40 (þýsk), Uzi (ísraelsk) og MP5 (þýsk). Hríðskotariffill. Hríðskotariffill eða árásarriffill er al- eða hálfsjálfvirkt handskotvopn, sem skýtur 5,5 mm til 8 mm riffilskotum. Er léttari og meðfærilegri en vélbyssa, en ekki eins langdrægur, en er þyngri og langdrægari en hríðskotabyssa. Þekktir hríðskotarifflar eru M16 (bandarískur) og AK-47 (rússneskur). Fyrsti hríðskotariffillinn sem gerður var, hét Cei-Rigotti, hannaður af Ítalanum Amerigo Cei-Rigotti sem var hermaður í Ítalska hernum, árið 1890. Hríðskotariffillinn var fullgerður um árið 1900 og hægt var að stilla hann á sjálfvirkni og hálfsjálfvirkni Rafmagns- og tölvuverkfræði. Rafmagns- og tölvuverkfræði er námsbraut sem er kennd í háskólum víða um heim. Eins og nafnið gefur til kynna samanstendur hún af bæði rafmagnsverkfræði og tölvuverkfræði. Meðal þess sem er kennt í grunnnámi til í rafmagns- og tölvuverkfræði er nokkurt magn af stærðfræði, grunnur í eðlisfræði og tölvunarfræði, tölvutækni, rafrásafræði, rafeindatækni, hliðræn og stafræn merkjafræði, fjarskiptaverkfræði og rafsegulfræði. Í framhaldsnámi er síðan oftast meiri sérhæfing. Þótt náminu sé ekki alls staðar skipt í grunnám og framhaldsnám er námið oftast mjög svipað í uppbyggingu. Zik Zak. Zik Zak kvikmyndir (e. Zik Zak filmworks) er íslenskt kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Fyrirtækið hlaut fyrst athygli fyrir framleiðslu á myndinni Fíaskó 1999. Síðan þá hefur fyrirtækið framleitt stuttmyndina Síðasti bærinn í dalnum sem keppti um Óskarsverðlaun 2005. Fyrirtækið hefur keypt kvikmyndaréttinn að skáldsögum Stefáns Mána Skipið og Svartur á leik. Búfjárrækt. Búfjárrækt eða búfjárhald kallast það að rækta og ala búfé. Það er eitt af meginmarkmiðum bænda og landbúnaðar. Velferð dýra og búfjárrækt haldast hönd í hönd og er lítill tilgangur með búfjárrækt ef velferð dýranna er ekki fullnægt. Búfjárrækt eða búfræði er kennd í ýmsum stofnunum; háskólum og framhaldsskólum. Helstu fög sem tilheyra eru næringarfræði (fóðurfræði), erfðafræði, saga og líffæra- og lífeðlisfræði. Saga. Búfjárrækt hefur fylgt landbúnaði frá því að tamningar á nautgripum og hrossum fóru fram í Mesópótamíu. Þannig komu nautgripur og hestar til þjónustu bændanna og nýttust til jarðræktar og matframleiðslu. Siðferðiskennd. Margar kenningar eru á lofti um búfjárrækt, hvort maðurinn eigi að grípa inn í náttúruna og nýta sér afurðir dýra til eigin hagnaðar. Dýraverndarsinnar berjast fyrir frelsun „villtra“ dýra í dýragörðum á meðan bændur líta á villtar hjarðir og sjá hagnað eða slæmt ástand dýranna í hjörðinni. Þannig eru einnig geldingar, halastífingar og verksmiðjubúskapur eitt af hitamálum er varða búfjárræktina. Darth Vader. Darth Vader eða Svarthöfði á íslensku er persóna úr Stjörnustríðsheiminum. Lífshlaup. Svarthöfði hét í upphafi Anakin Skywalker og var góðmenni mikið. Qui Gon Jin tók hann að sér til að þjálfa hann en Qui Gon var síðar veginn af Darth Maul. Obi wan, sem var lærlingur Qui Gons, tók þá að sér að þjálfa hann. Hann varð ástfangin af Padmé Amidölu sem var drottning pláneturnar Naboo en seinna þingmaður. Hann var blekktur af drottni sithana Darth Sidious sem kvaðst geta hjálpað honum að koma í veg fyrir dauða Padmé, því að Anakin dreymdi að hún myndi deyja í barnsnauð. Svo hann gerist lærlingur Darth Sidious og verður heltekinn af grægðgi. Obi wan reynir að stöðva hann og heggur af honum báða fætur og aðra hendina og skilur hann eftir í blóði sínu. Seinna kom Darth Sidious og bjargar honum og setur á hann vélhendi og -fætur og klæðir hann í svartan búning. Á sama tíma ól Padmé honum tvö börn og deyr síðan. Mörg ár líða og Svarthöfði kemst að því að hann eigi son sem heitir Luke Skywalker. Hann mætir honum og reynir að fá hann yfir á myrku hliðina en Logi Geimgengill eins og hann heitir á íslensku nær að flýja. Í seinna skiptið sem þeir mætast, nær Logi að snúa föður sínum á band hins góða og Svarthöfði drepur Darth Sidious. Stuttu síðar deyr hann af sárum sínum. Eðlisverkfræði. Eðlisverkfræði er undirgrein verkfræðinnar, þar sem lögð er áhersla á góða þekkingu í flestum greinum eðlisfræðinnar og hvernig beita megi þeim við lausn verkfræðilegra vandamála. Eðlisverkfræði er oft aðeins kennd í grunnnámi, t.d. B.Sc. í verkfræði. Deiliskífa. Deiliskífa er geisladiskur eða vínylplata sem er með tveimur (stundum fleiri) hljómsveitum. Deiliskífa er þó ekki sama og safnplata þar sem oftast eru eitt lag frá hverri hljómsveit. Deiliskífa hefur venjulega mörg lög frá sama flytjanda. Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun er opinber stofnun íslenska ríkisins sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd skipulagslaga, veita ráðgjöf og fylgjast með stöðu skipulagsmála hjá sveitarfélögunum. Stofnunin veitir umsagnir um ágreiningsmál á sviði skipulags- og byggingarmála, og metur umhverfisáhrif fyrirætlaðara mannvirkja. Stofnun hefur það einnig á sinni könnu að fylgjast með og veita upplýsingar um ferlimál fatlaðra. Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála. Skipulagsstjóri ríkisins er forstjóri Skipulagsstofnunar, hann er skipaður af umhverfisráðherra til 5 ára í senn. Skipulagsstjóri er Stefán Thors. Skipulagsstofnun skiptist í þrjú svið: skipulags- og byggingarsvið, umhverfissvið og þjónustusvið. Hjá stofnuninni starfa 18 manns. Í stefnu stofnunarinnar segir m.a. að „Skipulagsstofnun [vilji] stuðla að umhverfisvernd og vinna markvisst að markmiðum sjálfbærrar þróunar varðandi ákvarðanir um landnotkun, mannvirkjagerð og byggðaþróun.“ Í ágúst 2001 synjaði Skipulagsstofnun leyfi til byggingar á Kárahnjúkavirkjun vegna umhverfisskaða. Þáverandi umhverfisráðherra, Sif Friðleifsdóttir, ákvað að hundsa úrskurðinn. Madonna. Madonna Louise Veronica Ciccone (fædd í Bay City í Michigan 16. ágúst 1958), þekktust undir listamannsnafninu Madonna, er bandarísk popp-söngkona, lagahöfundur, dansari og leikkona. Hún er oft sögð drottning popptónlistarinnar. Evrópukeppni B-þjóða í badminton. Helvetia Cup eða Evrópukeppni B þjóða í badminton er blönduð landsliðskeppni Evrópuþjóða, haldin annað hvert ár. Fyrsta mótið var haldið í Zurich, Sviss 1962. Spilaðir eru einliðaleikur kvenna, einliðaleikur karla, tvíliðaleikur kvenna, tvíliðaleikur karla og tvenndarleikur, einn af hverjum. Ísland hefur unnið mótið tvisvar, 1999 í Norður-Írlandi og 2007 í Laugardalshöll. Seljaskóli. Seljaskóli er grunnskóli í Reykjavík. Skólinn er staðsettur að Kleifarseli 28, 109 Reykjavík. Skólinn. Seljaskóli tók til starfa haustið 1979 og er starfsvið hans efri hluti Seljahverfis í Breiðholti. Seljaskóli er heildstæður einsetinn skóli og eru nemendur um 700 talsins. Við skólann starfa alls 87 manns og þar af 53 kennarar. Námsráðgjafi í fullu starfi og hjúkrunarfræðingur í hálfu starfi sinna nemendum í skólanum. Íþróttir eru kenndar í Íþróttahúsi Seljaskóla en sundkennsla fer fram í sundlaug Ölduselsskóla. Skólastjórn. Skólastjóri er Þórður Kristjánsson. Jóhanna Gestsdóttir og Guðrún Guðmundsdóttir gegna stöðu aðstoðarskólastjóra. Ásta Ásdís Sæmundsdóttir og Hendrik Jafetsson eru deildarstjórar skólans. Tölvumús. Nútíma tölvumús með algengustu eiginleikunum; tveimur tökkum og skrunhjóli. Tölvumús eða mús er miðunartæki í tölvu sem er hannað til að nema tvívíðar hreyfingar hennar á yfirborðinu fyrir neðan. Músin samanstendur af litlu hulstri, sem er haldið af annarri hendi notandans, og einum eða fleiri tökkum. Stundum hafa þær einnig aðrar viðbætur, svo sem „skrunhjól“, sem gerir notandanum kleift að framkvæma kerfis-tengdar aðgerðir, eða auka tökkum eða öðrum eiginleikum sem gefa notandanum meiri stjórn á aðgerðum. Hreyfing músarinnar útfærist að jafnaði í hreyfingu músarbendils á skjá notandans. Nafnið. Nafnið „mús“, sem var mótað hjá Stanford Research Institute, er leitt af útliti forvera nútímamúsarinnar (þar sem snúran var tengd inn í aftari hluta hulstrins og minnti á skott) og tengingu hennar við útlitsbróður sinn, nagdýrið mús. Upphafið. Fyrsta músin sem fylgdi með tölvu til einkanota var með Xerox Star. ISC. ISC er ISO kóði fyrir gömlu krónuna sem datt út við myntbreytingu árið 1980. En þá voru tvö núll tekin af Íslensku krónunni. Nýja krónan er með ISO kóðann ISK. Geneon. (áður þekkt undir nafninu Pioneer Entertainment, eða Pioneer LDC, fyrrum dótturfyrirtæki Pioneer Corporation) er japanskt anime og afþreyingar dreifingarfyrirtæki. Fyrrum fyrirtækið, Pioneer LDC, var endurskýrt Geneon eftir að hafa verið keypt af Dentsu í Júlí 2003. Vísitala um þróun lífsgæða. Vísitala um þróun lífsgæða (enska: "Human Development Index", skammstafað: "HDI") er vísitala sem mælir lífslíkur, læsi, menntun og lífsgæði. Þessi mælikvarði gefur lauslega til kynna hvort land teljist til þróaðra landa eða þróunarlanda. Mælikvarðinn var hannaður af pakistanska hagfræðingnum Mahbub ul Haq árið 1990 og hefur verið notaður í árlegum skýrslum Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1993. Á hverju ári er reynt að meta öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þessari aðferð. Vægi vísitölunnar byggist á þremur þáttum. Einnig er til vísitala fátæktar. Auckland. a> er eitt af kennileitum borgarinnar. Auckland er stærsta borg Nýja-Sjálands með um eina milljón íbúa. Borgin er á norðurströnd Norðureyjarinnar. Maórar. Maórar eru frumbyggjar Nýja-Sjálands. Þeir komu þangað frá austanverðri Pólýnesíu einhverntíma fyrir árið 1300, settust að í landinu og sköpuðu eigin menningu. Tungumál þeirra er mjög áþekkt þeim málum sem töluð eru á Cookeyjum og Tahiti. Koma Evrópubúa til Nýja-Sjálands seint á 18. öld umbylti þjóðfélagi Maóra og margir þeirra féllu í valinn fyrir sjúkdómum sem áður voru óþekktir á meðal þeirra. Þeir misstu mikinn hluta lands síns og þjóðfélagi þeirra hnignaði. Maórum fór þó aftur að fjölga seint á 19. öld og upp úr 1960 hófst endurreisn maórískrar menningar, sem hefur haldið áfram til þessa dags. Berbar. Berbar (amazigh eða imazighen) eru nokkur þjóðarbrot sem búa í norðvesturhluta Afríku og tala ýmis berbamál. Nafnið „berbar“ er hugsanlega samstofna orðinu „barbarar“ og komið úr grísku gegnum arabísku. Stærstu hópar berba búa í Marokkó og Alsír. Sumar berbaþjóðir (eins og túaregar) lifðu fyrrum fyrst og fremst sem hirðingjar en flestir berbar hafa þó lifað af hefðbundnum landbúnaði í gegnum tíðina. Berbar eru um 70-80 milljónir talsins. Flestir Berbar lifa í Norður-Afríkulöndunum Al-Maghrib sem eru Alsír, Marokkó, Túnis og Lýbía. Berbar fengu sína eigin sjónvarpstöð snemma árið 2010 þar sem er sýnt menningarlegt efni úr sögu berba, meðal annars dans og tónlist og sögur. Menning og trú. Menning berba er innblásin af menningu araba að miklu leyti. Berbar eru flestir múslimar en minnihluti berba er kristinn. Jarðsaga. Jarðsaga er saga þeirra atburða sem hafa mótað jarðfræði jarðarinnar í gegnum tíðina. Jarðsaga byggir á niðurstöðum jarðlagafræði, bergfræði og jarðsmíðafræði. Limassol. Limassol (gríska: "Λεμεσός", tyrkneska: "Limasol") er önnur stærsta borgin á Kýpur með yfir 160.000 íbúa. Borgin er við Akrotiriflóa á suðuströnd eyjarinnar. Brekkukotsannáll. "Brekkukotsannáll" er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom fyrst út árið 1957. Samnefnd sjónvarpsmynd var gerð eftir sögunni og var frumsýnd í Ríkissjónvarpinu árið 1973. Fyrirmyndin að Brekkukoti. Fyrirmynd Halldórs Laxness að Brekkukoti var bær sem nefndist Melkot, en þar bjuggu hjónin "Guðrún Klængsdóttir" og "Magnús Einarsson". Guðrún þessi var ömmusystir Halldórs, og ólu þau hjónin upp Sigríði, móður skáldsins. Guðjón Helgason, faðir Halldórs, var vinnumaður í Melkoti, og þar kynntust þau. Melkot var einbýlishús frá Melhúsum. Bærinn Melhús stóð þar sem nú er norðurendi gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu. Þar var dálítil bæjarþyrping á 19. öld og hét einn bærinn í Melshúsum Hringjarabærinn. Hann kemur við sögu í Brekkukotsannál. Melkot stóð nokkurn veginn beint ofan þar sem nú er ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu. Hringjarabærinn stendur enn á horni Kirkjugarðsstígs og Garðastrætis, tvílyft timburhús, nú Garðastræti 49. Hringjarabærinn í Brekkukotsannál hét Melshús. Þar bjó Bjarni gamli hringjari í Dómkirkjunni. Loftbyssa. Hefðbundinn, einskota loftriffill, þar sem hlaupið er beygt niður til að þjappa lofti fyrir næsta skot Loftbyssa er handskotvopn, sem notar samþjappað loft til að skjóta byssukúlum, yfirleitt 4,5 eða 5,5 mm. Oft er notast við handafl til þjappa loftinu þannig að skjóta má einu skoti í senn, en sumar loftbyssur nota kolsýruhylki og má þá skjóta hálfsjálfvirkt mörgun skotum í röð. Loftriffill eru öflugasta gerð af loftbyssu, en með honum er unnt að skjóta byssukúlu yfir hljóðhraða (um 340 m/s). Loftbyssur voru þekktar á 16. öld og notaðar í hernaði allt fram á seinni hluta 18. aldar og voru að flestu leyti betri vopn en framhlaðingar þess tíma. Riffillinn varð smám saman fullkomnari og kom í stað framhlaðninga og loftbyssa á miðri 19. öld sem aðal fótgönguliðsvopnið. Algengustu loftbyssur nú til dags eru tiltölulega kraftlitlar og eru einkum notuð til að æfa skotfimi. Sérstakar loftbyssur eru notaðar í litbolta. Helstu kostir loftbyssa umfram önnur skotvopn eru að þær eru mun hættuminni (geta þó valdið varanlegu tjóni á augum og heyrn), hljóðlátari og nota mun ódýrari og meðfærilegri skotfæri. 395. Dáin. 17. janúar - Theodosius I, Rómarkeisari. 1338. Konunglegt innsigli Albrechts af Mecklenburg. Lómatjörn. Lómatjörn er bær í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Ábúendur eru Valgerður Sverrisdóttir og Arvid Kro. Bændur ásamt þeim eru Guðný Sverrisdóttir og Jóhann Ingólfsson, og Sigríður Sverrisdóttir og Heimir Ingólfsson. Þau reka bæinn sameiginlega sem félagsbú. Lómatjarnarætt er kennd við Lómatjörn, en hún er komin af hjónunum Guðmundi Sæmundssyni (1861-1949) og Valgerði Jóhannesdóttur (1875-1965), sem þar settust að árið 1903. Hótel Holt. Hótel Holt er hótel á Bergstaðastræti í miðborg Reykjavíkur. Það var byggt af athafnamanninum Þorvaldi Guðmundssyni sem var kenndur við fyrirtækið Síld og fisk. Það opnaði 12. febrúar 1965. Upphaflega var hótelið með 36 herbergi en 1973 var fjöldinn aukinn í 53 herbergi. Um 1993 voru nokkur herbergi stækkuð í svítur og herbergjafjöldanum fækkaði þá niður í 40. Hótelið hýsir stærsta listasafn Íslands í einkaeigu. Lómatjarnarætt. Lómatjarnarætt er kennd við bæinn Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Ættina mynda niðjar hjónanna Guðmundar Sæmundssonar, bónda þar, og Valgerðar Jóhannesdóttur húsfreyju. Guðmundur Sæmundsson var fæddur í Gröf í Öngulstaðarhreppi, í Eyjafirði þann 9. júní 1861. Foreldrar hans voru Sæmundur Jónasson (1801 – 1873) og Ingileif Guðrún Jónsdóttir (1831-1887). Valgerður Jóhannesdóttir var fædd á Þönglabakka í Þorgeirsfirði í Fjörðum þann 15. október 1875. Foreldrar hennar voru Jóhannes Jónsson Reykjalín (1840-1915) og Guðrún Sigríður Hallgrímsdóttir (1849 – 1924). Kussungsstaðaætt eru afkomendur Jóhannesar og Guðrúnar, og er Lómatjarnarætt því kvísl af henni, og þar með líka af Reykjalínsætt. Guðmundur og Valgerður bjuggu á Hlöðum á Grenivík og stundaði Guðmundur sjósókn þaðan frá 1895 – 1903. Árið 1903 fluttust þau að Lómatjörn, og bjuggu þar æ síðan. Guðmundur lést 31. október 1949 og Valgerður þann 7. desember 1965. Afkomendur Guðmundar og Valgerðar. Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi alþingismaður er dóttir hjónanna Sverris og Jórlaugar. 68. Atburðir. 8. júní – Galba verður keisari í Rómaveldi. Dáin. 9. júní - Neró, rómverskur keisari. Kúrí. Kúrí (franska "Curie") er gömul mælieining fyrir geislavirkni, táknuð með Ci. Er nefnd í höfuðið á Marie og Pierre Curie. Eitt kúri samsvarar u.þ.b. geislavirkni eins gramms af radíni-226, en nákvæm skilgreining er 3,7x1010 bekerel, þ.e. 1 Ci = 37 GBq. Kúrí er ekki SI-mælieining. 1204. Á Íslandi. a>. Málverk eftir Palma le Jeune. Anna Komnene. Anna Komnene eða Komnena (gríska: Άννα Κομνηνή, Anna Komnēnē; 1. desember 1083 – 1153) var býsönsk prinsessa og fræðikona, dóttir keisarans Alexiosar I Komnenos og Irene Doukaina. Anna var heimspekingur og sagnfræðingur en hún er einn fyrsti þekkti sagnfræðingurinn sem var kona. Anna ritaði verkið "Alexiosarsögu", sem er mikilvæg heimild um býsanska stjórnmálasögu undir lok 11. aldar og í byrjun 12. aldar. Hún mun einnig hafa verið lærð í málfræði, bókmenntum, guðfræði, stjörnufræði og læknisfræði. Fyrirmyndir Önnu sem sagnaritara voru forngrísku sagnaritararnir Þúkýdídes, Pólýbíos og Xenofon. Komnene, Anna Komnene, Anna Listi yfir rómverska keisara. Eftirfarandi er listi yfir keisara Rómaveldis raðað eftir valdatíma þeirra. Athuga ber að Júlíus Caesar er ekki á þessum lista. Staða hans sem "dictator" er almennt talin tilheyra rómverska lýðveldinu. "Skáletruð nöfn:" viðkomandi gerði tilkall til stöðunnar en komst aldrei til valda eða náði einungis völdum í hluta Rómaveldis Feitletruð nöfn: nafn sem viðkomandi er almennt þekktur undir Feitletruð og skáletruð nöfn'": gælunafn sem viðkomandi er almennt þekktur undir (nema viðkomandi hafi einungis gert tilkall til stöðunnar en aldri náð völdum) Heimildir. * Prentplata. Prentplata, rásaspjald eða "prentrásir", er hitaþolin og eldtefjandi plata, sem rafmagnsíhlutir eru festir á. Á plötunni er rásir úr leiðandi efni (oftast kopar) sem mynda tengingar milli íhlutanna. Finna má prentplötur af mismunandi stærðum í öllum rafeindatækjum. Gall. Gall er vökvi framleiddur í lifrinni og er tímabundið geymdur í gallblöðru. Gallrásir flyta gall til skeifugarnar. Gall er nauðsynlegt til meltingar fitu. Skeifugörn. Skýringarmynd yfir meltingarveg í mönnum. Skeifugörn er hluti meltingarkerfis mannsins. Hún myndar hormón sem segja gallblöðrunni hvenær hún eigi að losa gall inn í meltingarkerfið. Ár keisaranna fjögurra. Ár keisaranna fjögurra var ár í sögu Rómavedis, 69 e.Kr., en þá ríktu hvorki meira né minna en fjórir keisarar, einn á fætur öðrum. Þessi fjórir keisarar voru Galba, Otho, Vitellius og Vespasíanus. Í kjölfar sjálfsmorðs Nerós keisara árið 68 e.Kr. fylgdi stuttur óvissu- og átakatími í Róm, fyrsta borgarastríðið frá dauða Marcusar Antoniusar árið 30 f.Kr. Frá júní árið 68 til desember árið 69 urðu Rómverjar vitni að valdatöku og falli Galba, Othos og Vitelliusar og að lokum valdatöku Vespasíanusar, fyrsta keisarans af flavísku ættinni. Stjórnleysið sem þetta átakaár olli hafði langvarandi og alvarleg áhrif á stjórnmál í Rómaveldi. Hagstofa Íslands. Hagstofa Íslands eða Hagstofan er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, en Gylfi Magnússon er ráðherra hennar. Hlutverk Hagstofunnar er að halda utan um tölulegar upplýsingar sem varða hagi Íslands og hún skiptist í þrjú svið: efnahagssvið, félagsmálasvið og þjónustu- og þróunarsvið. Starfsemi þjóðskrár, sem annast almannaskráningu, var flutt frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis 1. júlí 2006. Hagstofustjóri er Ólafur Hjálmarsson. Hagstofan var stofnuð með lögum frá Alþingi árið 1913 og tók til starfa árið 1914. Hún er því ein elsta stofnun landsins. Þann 1. janúar 2008 var Hagstofan lögð niður sem ráðuneyti en varð þess í stað sjálfstæð stofnun. Hagstofa Íslands er miðstöð hagskýrslugerðar á Íslandi og gefur hún út hagtölur um flest svið samfélagsins. Hagstofan reiknar m.a. vísitölu neysluverðs en tólf mánaða breyting á vísitölu neysluverðs er það sem nefnt er verðbólga. Þá reiknar stofnunin hagvöxt, mannfjölda og lífslíkur svo eitthvað sé nefnt. Hagstofan á í víðtæku alþjóðlegu samstarfi við fjölmargar alþjóðastofnanir en opinber hagskýrslugerð er í eðli sínu alþjóðleg starfsemi, enda er samstarf milli ríkja forsenda þess að hægt sé að bera saman ólík lönd með samræmdum hætti. Helstu samstarfsaðilar Hagstofunnar erlendis eru; Hagstofan er til húsa í Borgartúni 21a í Reykjavík. Góðu keisararnir fimm. Góðu keisararnir fimm stundum nefndir kjörkeisararnir (því þeir voru kjörsynir keisaranna á undan sér) voru fimm keisarar Rómaveldis sem voru við völd frá árinu 96 til 180. Þeir voru Nerva, Trajanus, Hadríanus, Antoninus Pius og Markús Árelíus. Þeir voru þekktir fyrir hófstillta stjórn sína, ólíkt sumum forverum sínum sem sýndu á stundum tilburði til harðstjórnar og kúgunar. Valdatími þeirra var hápunktur velmegunar Rómaveldis. Þessi tími í sögu Rómverska keisaradæmisins er ekki síst eftirtektarverður vegna átakalausra valdaskipta. Hver og einn keisaranna fimm valdi sér kjörson og útnefndi hann eftirmann sinn. Markús Árelíus útnefndi son sinn, Commodus, en sumir sagnfræðingar telja að hnignum Rómaveldis hafi hafist á valdatíma hans. Nintendo Entertainment System. Nintendo Entertainment System (oft kölluð NES eða einfaldlega Nintendo) er 8-bita leikjatölva frá Nintendo sem var gefinn út í Norður-Ameríku, Brasilíu, Evrópu og Ástralíu árið 1985. Í Japan hét hún Nintendo Family Computer eða Famicom og var send til nágrannalanda Japans eins og Filippseyja, Taívan, Víetnam og Singapúr. Í Kóreu var hún kölluð Hyundai Comboy til að fara fram hjá lögunum um bannaðar rafmagnsvörur frá Japan. Hún var vinsælasta leikjatölva síns tíma í Asíu og Norður-Ameríku (Samkvæmt Ninendo hefur vélin selst í yfir 60 milljónum eintaka um allan heim). Eftirlíkingar af vélinni urðu einnig algengar og t.a.m. varð leikjatölva sem nefndist Денди (Dendy) mest selda leikjatölva Sovétríkjana og sumra nágrannalanda þeirra en NES var aldrei dreift þar. Radíóbúðin seldi eftirlíkingar af NES sem kölluðust NASA á Íslandi. Saga. Masayuki Uemura hannaði tölvuna sem var gefin út í Japan þann 15. júlí 1983. Hún kostaði 14.800 jen með þrem leikjum frá Nintendo, Donkey Kong, Donkey Kong Jr. og Popeye. Nintendo Family Computer (Famicom) var smá saman að ná vinsældum: á fyrsta árinu settu margir út á að tölvan og væri ekki áræðanleg, hafði forritunagalla og hún fraus títt. Nintendo endurbættu Famicom og með nýju móðurborði jukust vinsældir hennar og hún varð mest selda leikjatölvuan í Japan í lok árs 1984. Eftir vinsældirnar í Japan, byrjaði Nintendo að einbeita sér að Norður-Ameríska markaðinum. Nintendo gekk illa að finna dreifingaraðila til að sjá um dreifingu leikjatölvurnar í N-Ameríku en vestanhafs höfðu menn takmarkaða trú á tölvuleikjamarkaðnum eftir að hann hann hrundi árið 1983 og voru ekki tilbúnir að taka miklar áhættur. Á endandum stofnuðu Nintendo eigið fyrirtæki í Ameríku sem sá um dreifinguna. Plön voru uppi um að gefa Famicom í Norður-Ameríku með lyklaborði, kassettutæki, þráðlausum stýripinna undir nafninu „Nintendo Advanced Video System“ en það gerðist aldrei. Tölvan hélt vinsældum sínum og var átti stæstan markaðshluta af tölvuleikja markaðnum í mörg ár. Vinsældirnar mátti rekja til þess að sífellt komu út nýir og flottir leikir fyrir tölvuna. Má t.d. nefna Super Mario Bros seríuna (SMB3 kom út 1988 í Japan, 1990 í NA og 1991 í Evrópu) og Mega Man seríuna (Mega Man 5 kom út 1992 í Japan og NA og 1993 í Evrópu) sem nutu gríðarlegra vinsælda. Vinsældir NES fóru að dvína eftir að SEGA gaf úr Sega Mega Drive (sem hét Sega Genesis í NA) og Nintendo gáfu út nýja leikjatölvu, Super Nintendo Entertainment System, en þó héldu leikir áfram að koma út fyrir NES í nokkurn tíma eftir það. Stýripinninn. Stýripinninn sem var notaður bæði fyrir NES og Famicom var með fjórum einföldum tökkum: tveir hringlóttir takkar sem voru „A“ og „B“, Start takki og „Select“ takki. Upprunalega módel Famicom var með tvo stýripinna, báðir með þráð fyrir aftan leikjatölvuna. Seinni stýripinnian vantaði „Start“ og „Select“ takkana en voru með lítinn míkrafón. Fáir leikir notuðu þann möguleika. Fyrstu eintökin af Famicom voru með ferhyrndan „A“ og „B“ takka. Því var breytt því að takkarnir festust niðri þegar ýtt var á þá og galla að leikirnir frusu. Trajanus. Marcus Ulpius Traianus (18. september 53 – 9. ágúst 117) var rómverskur keisari frá árinu 98 til 117. Hann var annar í röð hinna svonefndu fimm góðu keisara Rómaveldis. Á valdatíma Trajanusar náði Rómaveldi mestri útbreiðslu. Leiðin til valda. Trajanus var fæddur í borginni Italicu í Hispaniu (núverandi Spáni) árið 53. Faðir Trajanusar var öldungaráðsmaður og hersöfðingi af Ulpia ættinni. Trajanus varð ungur hershöfðingi í rómverska hernum og varð snemma vinsæll og virtur á meðal hermannanna. Trajanus tók þátt í stríði Dómitíanusar gegn Germönum við Rín og var eftir það skipaður ræðismaður ("consul") af Dómitíanusi, árið 91. Í kjölfarið sinnti hann embætti landsstjóra, fyrst í Moesiu inferior og síðan í Germaniu superior. Trajanus giftist Pompeiu Plotinu á einhverjum tímapunkti áður en hann varð keisari. Plotina var fædd í kringum árið 70 og var frá Gallíu. Árið 97 var Trajanus ættleiddur af Nerva, þáverandi keisara, og útnefndur eftirmaður hans. Trajanus var þá staddur í Moguntiacum (Mainz) í Germaniu og sagan segir að Hadríanus hafi fært honum fréttirnar af ættleiðingunni. Nerva var almennt ekki vinsæll á meðal hermanna og til að vinna stuðning þeirra kaus hann að ættleiða hinn vinsæla Trajanus. Nerva stóð á þessum tíma andspænis uppreisn lífvarða sinna í Róm og þurfti því á hjálp Trajanusar að halda. Trajanus sendi leiðtogum uppreisnarinnar boð um að koma til sín til Germaniu svo hann gæti gefið þeim sérstakt verkefni. Þegar þeir komu til hans lét hann hins vegar taka þá af lífi. Nerva lést svo árið 98 og tók Trajanus þá við sem keisari Rómaveldis, átakalaust. Fyrstu árin. Trajanus flýtti sér ekki til Rómar eftir að hann tók við völdum, heldur ferðaðist hann um norður-landamæri ríkisins. Hann skoðaði meðal annars ástandið meðfram Dóná (þar sem um þriðjungur alls herafla Rómaveldis var staðsettur) og þá aðallega við landamærin að Daciu. Dacia var konungsríki norðan Dónár (þar sem nú er Rúmenía), og höfðu Rómverjar fyrst barist við Decebalus konung í Daciu á valdatíma Domitíanusar en samið um frið eftir misheppnaða herferð. Þegar Trajanus kom til Rómar árið 99 var honum ákaft fagnað af íbúum borgarinnar. Hann vann sér frekari hylli íbúanna með hógværð og aðgengileika. Einnig voru samskipti hans við öldungaráðið ávalt vinsamleg, ólíkt því sem hafði verið hjá mörgum öðrum keisurum. Almenningur fór að kalla hann "Optimus", sem þýðir í raun „bestur“, og síðar staðfesti öldungaráðið titilinn. Stríð í Daciu. Trajanus er einna helst þekktur fyrir hernaðarsigra sína, fyrst gegn Daciu og síðar gegn Parþíu. Trajanusi fannst Decebalus Daciukonungur ekki hafa staðið við skilmála sem hann hafði samþykkt eftir stríðið gegn Dómitíanusi. Trajanus undirbjó sig því fyrir innrás í Daciu með því að búa til tvær nýjar herdeildir ("legionis") auk þess sem fleiri herdeildir voru færðar að landamærununum að Daciu. Trajanus réðst inn í Daciu árið 101 og sigraði her Decebalusar í hörðum bardaga. Eftir frekari átök árið 102 gafst Decebalus upp fyrir Trajanusi og sór honum hollustu sína. Decebalus hélt þó titli sínum sem konungur Daciu enda var svæðið ekki formlega innlimað inn í Rómaveldi. Trajanus seri aftur til Rómar til að fagna sigrinum og var veittur titillin "Dacicus" af öldungaráðinu. Árið 105 gerði Decebalus svo innrás inn í rómversk landsvæði og reyndi að fá íbúa svæðanna til að gera uppreisn gegn Rómverjum. Trajanus svaraði með því að ráðast að nýju inn í Daciu. Árið 106 hertók hann höfuðborgina Sarmizegethusa og lagði hana í rúst. Í kjölfarið framdi Decebalus sjálfsmorð og Trajanus innlimaði Daciu og gerði að rómversku skattlandi. Til að fagna sigrinum lét Trajanus reisa Trajanusarsúluna í Róm. Stjórnunarstefna. Trajanus viðhélt þeirri hefð að halda ásýnd lýðveldisins út á við með því að hafa samráð við öldungaráðið og aðrar stofnanir lýðveldisins, þó svo að völdin lægju í raun hjá honum. Hinn óvinsæli Dómitíanus hafði ekki fylgt þessari stefnu og vinsældir Trajanusar lágu að nokkru leiti í endurnýjun hennar. Einnig útdeildi hann ræðismannastöðum til manna sem hann treysti, í meiri mæli en aðrir keisarar. Keisarar flavísku ættarinnar höfðu til dæmis nánast einokað ræðismannastöðurnar á þeirra valdatíma en Trajanus, á þeim rúmu nítján árum sem hann var við völd, var ræðismaður einungis sex sinnum. Trajanus stofnaði embætti fulltrúa sem voru kallaðir "curatores", og áttu þeir að sjá um fjármálastjórnun í skattlöndunum. Þekktastur af þessum embættismönnum er líklega Plinius yngri. Ránsfengur frá stríðunum í Daciu gerði Trajanusi kleift að ráðast í ýmsar umfangsmiklar byggingaframkvæmdir víðs vegar um heimsveldið. Í Rómaborg lét hann byggja Baðhús Trajanusar, Markað Trajanusar ("Mercatus Traiani") og Torg Trajanusar ("Forum Traiani"), þar sem Trajanusarsúlan stóð. Einnig stofnaði Trajanus opinberan sjóð sem kallaður var "alimenta" og var notaður til að aðstoða fátæk börn um allt Rómaveldi. Þessi sjóður var starfandi næstu 200 árin. Stríð í Parþíu. Árið 113 hélt Trajanus í herferð gegn Pörþum í Persíu. Ástæðan var sú að Parþar höfðu sett konung hliðhollan sér á valdastól í Armeníu. Trajanus byrjaði á því að ráðast inn í Armeníu, sem hann hertók og gerði að skattlandi. Því næst réðst hann inn í Parþíu og hertók nokkrar borgir, þar á meðal höfuðborgina Ctesiphon árið 116. Trajanus innlimaði þessi svæði inn í Rómaveldi og gerði að skattlandinu Mesópótamíu. Eftir þetta hélt hann enn lengra austur og hertók borgina Susa (í núverandi Íran). Eftir þessa hernaðarsigra náði Rómaveldi sinni mestu útbreiðslu en Trajanus þurfti þá að snúa til baka vegna uppreisnar gyðinga í Mesópótamíu og Judeu. Seint á árinu 116 veiktist Trajanus og ákvað þá að halda til Rómar en lést áður en þangað var komið, sumarið 117. Eftirmaður Trajanusar, Hadríanus, lét herinn yfirgefa stór svæði sem Trajanus hafði innlimað, þ.á.m. Armeníu og Mesópótamíu, þar sem hann taldi að ómögulegt væri að verja þau gegn árásum óvinaherja. Trajanus á að hafa ættleitt Hadríanus á dánarbeði sínu og útnefnt hann sem eftirmann sinn, en orðrómur fór þó flótlega af stað um að kona Trajanusar, Plotina, hafi haldið dauða hans leyndum í nokkra daga og á þeim tíma gengið frá því að öldungaráðið staðfesti Hadríanus sem eftirmann Trajanusar. Antonínus Píus. Titus Aurelius Fulvus Boionius Arrius Antoninus (19. september 86 – 7. mars 161), best þekktur sem Antonínus Píus, var rómverskur keisari frá 138 til 161. Hann var fjórði hinna svonefndu fimm góðu keisara. Hann hlaut viðurnefnið „Pius“ eftir valdatöku, sennilega af því að hann þvingaði öldungaráðið til þess að lýsa yfir guðdómleika Hadríanusar að honum látnum. Óvenju litlar heimildir eru til um valdatíð Antonínusar Píusar en hún virðist hafa verið að mestu leyti friðsæl og raunar tíðindalítil. Þar að auki réðist hann ekki í næstum því jafn umfangsmiklar framkvæmdir og forverar hans, Trajanus og Hadríanus, og hann stjórnaði ríkinu af meiri varfærni en flestir aðrir keisarar. Donkey Kong. Donkey Kong, stundum sagt einfaldlega "DK", er tölvuleikjapersóna frá Nintendo sem hefur komið fram í mörgum leikjum síðan 1981. Donkey Kong var búinn til af Shigeru Miyamoto. Síðan 1994 hefur hann verið með bindi, einu fötin sem hann er með. Hann er andstæðingur Marios. Tengt efni. Donkey Kong leikirnir Popeye. Popeye (Stjáni blái) er leikur frá 1982. Hann var gefin út af Nintendo byggður á Popeye teiknimynda persónunum frá King Features Syndicate. Hann var gefin út á Atari 800, Commodore C64, Atari XEGS, G7000 Videopac, ColecoVision, Atari 2600, Intellivision, Atari 5200 og NES. Tveir leikmenn geta spilað eða einn getur spilað aleinn. Fimm hæstu stigin eru geymd með fyrstu þrem stöðum leikmanna. Jónas Árnason. Jónas Árnason (28. maí 1923 á Vopnafirði – 5. apríl 1998) var alþingismaður og rithöfundur. Hann tók stúdentspróf frá MR 1942. Nam við Háskóla Íslands 1942 – 1943, nám í blaðamennsku 1943 – 1944 við American University í Washington og University of Minnesota í Minneapolis í USA. Ævi og störf. Jónas starfaði við blaðamennsku og sjómennsku á yngri árum. Hann starfaði við kennslu á árunum 1954 – 1980. Jónas sat á Alþingi fyrir Sósíalistaflokkinn frá 1949 til 1953 og fyrir Alþýðubandalagið frá 1967 til 1979. Jafnframt var hann virkur í Samtökum hernáms- og herstöðvaandstæðinga. Meðfram störfum sínum samdi Jónas leikrit í samvinnu við bróður sinn Jón Múla. Mörg leikritanna eru með tónlist og hafa orðið vinsæl svo sem Deleríum Búbónis. Hann skrifaði fjölmargt annað svo sem greinar, sagnfræði og minningar. Ritverk. "Við hljóðnemann 1950", ásamt Birni Th. Björnssyni. Reykjavík [Hólum], Útgefendur Björn Th. Björnsson & Jónas Árnason, 1950. "Fólk, þættir og sögur", Útgefandi: Reykjavík, Heimskringla, 1954 "Sjór og menn", Útgefandi: Reykjavík, Heimskringla, 1956 "Deleríum búbónis: gamanleikur með söngvum í þremur þáttum". Útgefandi: Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1961 "Sprengjan og pyngjan: greinar og ræður", Útgefandi: Reykjavík, Heimskringla, 1962 "Undir Fönn: frásagnir Ragnhildar Jónasdóttur um dýr og menn með lítilsháttar ívafi frá öðrum", Útgefandi: Reykjavík, Ægisútgáfan, 1963 "Aflamenn", ásamt Ása í Bæ og fleirum. Útgefandi: Reykjavík, Heimskringla, 1963 "Fleira fólk", Teikningar eftir Kjartan Guðjónsson, Útgefandi: Reykjavík, Reykjaforlagið, 1984 "Furður og feluleikir: limrur og ljóð í sama dúr", Útgefandi: Akranes, Hörpuútgáfan, 1995 Rúnar Ármann Arthúrsson: "Jónas Árnason: viðtalsbók". Útgefandi: Reykjavík, Svart á hvítu, 1985. Egill Helgason. Egill Helgason er íslenskur blaðamaður, spjallþáttastjórnandi og umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Silfurs Egils og Kiljunnar á RÚV. Egill hóf fjölmiðlaferill sinn með skrifum í Alþýðublaðinu. Þáttur hans, Silfur Egils, hóf göngu sína á Skjá Einum 1999 fyrir kosningarnar það ár. Egill keypti höfundaréttinn að vörumerkinu „Silfur Egils“ í maí 2005 og færði þáttinn yfir til Stöð 2. Egill starfar nú hjá RÚV. Össur Skarphéðinsson. Össur Skarphéðinsson (f. í Reykjavík 19. júní 1953) er alþingismaður og fyrrum utanríkisráðherra. Össur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Össur lauk stúdentsprófi frá MR 1973, BS-próf í líffræði HÍ 1979 og doktorsprófi í lífeðlisfræði með fiskeldi sem sérgrein frá Háskólanum í East Anglia, Englandi, 1983. Össur starfaði sem ritstjóri Þjóðviljans 1984-87 og í eitt ár sem lektor við Háskóla Íslands á milli 1987-88. Því næst var hann aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar 1989-91. Össur hefur setið á Alþingi frá árinu 1991, fyrir Alþýðuflokkinn 1991-1999 og Samfylkinguna frá árinu 1999. Össur var þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1991-1993 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2006-2007. Össur var umhverfisráðherra á árunum 1993-1995, iðnaðarráðherra 2007-2009 og utanríkisráðherra 2009-2013. Siv Friðleifsdóttir. Siv Friðleifsdóttir (f. í Ósló 10. ágúst 1962), skírð Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir, er leiðtogi Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Siv er hálf-norsk. Siv hefur setið á Alþingi frá árinu 1995; fyrst fyrir Reykjaneskjördæmi 1995-2003 og fyrir Suðvesturkjördæmi frá 2003. Hún var umhverfisráðherra 1999-2004 og heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra 2006-2007. Siv var þingflokksformaður Framsóknarflokksins 2007-2009. Hún gekk í MR og lærði þvínæst sjúkraþjálfun í HÍ. Siv starfaði hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. Siv var bæjarfulltrúi Neslistans á Seltjarnarnesi á árunum 1990-1998 og varð fyrst kvenna formaður Sambands ungra framsóknarmanna árið 1990 og gegndi formennsku í tvö ár, til 1992. Zenódótos. Zenódótos () var forngrískur málfræðingur, bókmenntarýnir og textafræðingur frá Efesos. Hann var fyrsti bókasafnsstjórinn bókasafninu í Alexandríu um 285 - 270 f.Kr. Zenódótos var nemandi Fíletasar frá Kos. Zenódótos ritstýrði útgáfu af kviðum Hómers og ber sennilega ábyrgð á skiptingu kviðanna í 24 bækur hvorri um sig. Fundið hefur verið að þekkingu Zenódótosar en í aðferðafræði sinni lagði hann grunninn að textarýni eftirmanna sinna. Efesos. Efesos (forngríska: ', tyrkneska: "Efes}") var grísk borg í Jóníu í Litlu Asíu við strönd Eyjahafs (í dag í Tyrklandi). Hún var stofnuð sem aþensk nýlenda. Í dag eru rústir Efesos vinsæll ferðamannastaður. Í Efesos var ein af kirkjunum sjö í Asíu sem getið er um í "Opinberunarbók Jóhannesar". 500. Árið 500 (D) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á laugardegi. Bókasafnið í Alexandríu. Bókasafnið í Alexandríu í Alexandríu í Egyptalandi var eitt sinn stærsta bókasafn heims.Það er almennt talið hafa verið stofnað snemma á 3. öld f.Kr., í valdatíð Ptolemajosar I (323–283 f.Kr.) eða sonar hans Ptolemajosar II (283–246 f.Kr.). Sennilega var það stofnað eftir að fyrsti hluti safnsins í Alexandríu, Múseion (forngríska: "Μουσείον"), var reistur. Hlutar bókasafnsins skemmdust í eldsvoðum. Plútarkos (46 - 120 e.Kr.) skrifaði að Júlíus Sesar hefði brennt bókasafnið fyrir slysni árið 48. f.Kr. Árið 2002 var Bibliotheca Alexandria opnað í Alexandríu til minningar um safnið. Árið 2004 tilkynntu pólskir og egypskir vísindamenn að þeir hefðu uppgötvað fornleifar bókasafnsins. Talið er að gríska skáldið og fræðimaðurinn Kallímakkos (310/305 – 240 f.Kr.) hafi samið fyrstu bókaskránna sem nefnd er "Pinakes". Á hún að hafa innihaldið breiða efnisflokka á bilinu 5-12 talsins. Aulus Gellius. Aulus Gellius (um 125 - eftir 180) var latneskur rithöfundur og málfræðingur, hugsanlega af afrískum uppruna en líklega fæddur og uppalinn í Róm. Hann nam málfræði og mælskulist í Róm og heimspeki í Aþenu. Að námi sínu loknu í Aþenu sneri hann aftur til Rómar. Eina ritverk hans, "Attíkunætur" ("Noctes Atticae") dregur nafn sitt af því að hann hóf vinnu við það langar vetrarnætur á Attíkuskaganum á Grikklandi. Hann hélt áfram að vinna í verkinu eftir að hann sneri aftur til Rómar. Í verkinu ægir saman fróðleik um margvísleg efni, svo sem málfræði, rúmfræði, heimspeki, sagnfræði og flestum öðrum þekkingargreinum hans tíma. Ritið er í tuttugu bókum. Þær eru allar varðveittar nema áttunda bók en úr henni er einungis varðveitt efnisyfirlit. Díonýsíos Þrax. Díonýsíos Þrax eða Díonýsíos Þrakverji () (170-90 f.Kr.) var forngrískur málfræðingur sem bjó og starfaði í Alexandríu í Egyptalandi og síðar á Ródos. Fyrsta varðveitta ritið um gríska málfræði "Málfræðin" ("Tékhnē grammatiké") er eignað honum. Ritið fjallar einkum um beygingarfræði en skortir umfjöllun um setningafræði. Díonýsíos skilgreinir málfræði í upphafi bókar sinnar sem „hagnýta þekkingu á almennri málnotkun skálda og rithöfunda“. Ritið var þýtt yfir á armenísku og sýrlensku á 1. og 2. öld. Vestrómverska keisaradæmið. Vestrómverska keisaradæmið eða Vestrómverska ríkið náði yfir vesturhluta Rómaveldis og varð sérstakt ríki eftir skiptingu Rómaveldis í austur og vestur. Skipting ríkisins átti sér ekki stað í einum hvelli. Diocletianus keisari lagði grunninn að skiptingunni árið 286. Theodosius 1. var síðasti keisarinn sem ríkti yfir öllu Rómaveldi. Hann lést árið 395 og eftir það var skiptingin óafturkræf. Vestrómverska ríkið leið formlega undir lok 4. september árið 476 þegar germanski herforinginn Odoacer neyddi Romulus Augustus, síðasta keisara Vestrómverska ríkisins, til að láta af völdum. Óformlega hefur verið miðað við að fall ríkisins hafi verið árið 480 þegar Julius Nepos lést, en hann hélt völdum á litlu svæði í Dalmatíu og var viðurkenndur sem vestrómverskur keisari af keisara Austrómverska ríkisins. Austrómverska ríkið var mun langlífara en það vestrómverska, og stóð allt til ársins 1453. Ýmsir germanskir þjóðflokkar tóku við völdum á þeim svæðum sem tilheyrt höfðu Vestrómverska ríkinu; Austgotar stofnuðu ríki á Ítalíuskaganum, Vestgotar á Íberíuskaganum, Vandalar í Norður-Afríku og Frankar í Gallíu. Venjan er að miða upphaf miðalda við endalok Vestrómverska ríkisins. New Super Mario Bros.. New Super Mario Bros. er tölvuleikur sem er búinn til af Nintendo fyrir Nintendo DS leikjatölvuna og gefin út 2006. Sjónarhornið er á hlið og er þetta fyrsti Mario leikurinn sem er þannig síðan kom út á Game Boy árið 1992. Sagan er þannig að Bowser Jr. rænir Princess Peach og Mario reynir að bjarga henni. Nintendo 64. Mynd af N64 og stýripinnanum Nintendo 64 (oft kölluð N64) er þriðja leikjatölva Nintendo á alþjóðlegan markað. Nafnið fær hún út af 64 bita örgjörvanum, hún var gefin út 23. júní 1996 í Japan, 29. september 1996 í Norður-Ameríku og Brasilíu, 1. mars 1997 í Evrópu og Ástralíu og 1. september 1997 í Frakklandi. Hún var gefin út með þrem leikjum í upphafi í Japan (Super Mario 64, Pilotwings 64 og Saikyō Habu Shōgi) og tveim í Norður-Ameríku og PAL löndunum (Super Mario 64 og Pilotwings 64). N64 kostaði um 199 dollara þegar hún kom út. Demosþenes. Demosþenes (384 – 322 f.Kr., forngríska: Δημοσθένης, Dēmosthénēs) var forngrískur stjórnmálamaður og mælskumaður frá Aþenu. Ræður hans eru mikilvæg heimild um stjórnmál og menningu Grikklands á 4. öld f.Kr. Demosþenes lærði mælskulist með því að rannsaka ræður eldri mælskumanna. Hann flutti fyrstu réttarræður sínar um tvítugur að aldri. Í þeim færði hann rök fyrir því að fjárráðamenn hans ættu að láta hann fá það sem eftir var af arfi hans og hafði erindi sem erfiði. Um tíma vann hann fyrir sér með því að semja ræður fyrir aðra og sem málafærslumaður. Áhugi Demosþenesar á stjórnmálum jókst og árið 354 f.Kr. flutti hann fyrstu stjórnmálaræðu sína. Hann gerðist andvígur útþenslu Makedóníu. Demosþenesi var annt um frelsi og sjálfstæði borgar sinnar. Hann varpaði borg sína, Aþenu, dýrðarljóma og reyndi hvað hann gat til að hvetja samborga sína til að standa gegn Filipposi II. Að Filipposi látnum fór Demosþenes með lykilhlutverk í uppreisn Aþenuborgar gegn nýjum kóngi Makedóníu, Alexander mikla. En uppreisnin var barin niður. Antipater, eftirmaður Alexanders, lét elta Demosþenes uppi til að koma í veg fyrir samskonar viðbrögð þegar Alexander lést. Demosþenes framdi sjálfsmorð til að koma í veg fyrir að hann yrði handsamaður af Arkíasi, flugumanni Antipaters. Alexandrísku fræðimennirnir Aristófanes frá Býzantíon og Aristarkos frá Samóþrake töldu Demosþenes einn af 10 bestu attísku ræðumönnunum og ræðuhöfundunum. Cíceró taldi hann „hinn fullkomna ræðumann“ sem ekkert skorti og Quintilianus sagði hann vera "lex orandi" („mælikvarða mælskunnar“) og sagði að „hann einn skaraði fram úr öllum hinum“ ("inter omnes unus excellat"). Lýsías. Lýsías (um 440 f.Kr. – um 380 f.Kr.) var attískur ræðumaður og ræðuhöfundur. Ísókrates. Ísókrates (436 – 338 f.Kr.) var forngrískur mælskufræðingur og einn af attísku ræðumönnunum tíu. Hann rak skóla í Aþenu. Á sínum tíma var hann ef til vill einn áhrifamesti mælskufræðingur Grikklands. Pindaros. Pindaros (á grísku: Πίνδαρος; um 518 f.Kr. – um 446 f.Kr.) var forngrískt lýrískt skáld. Díonýsíos frá Halikarnassos. Díonýsíos frá Halikarnassos (um 60 f.Kr. – eftir 7 f.Kr.) var forngrískur sagnfræðingur, bókmenntarýnir og mælskulistarkennari. Aelius Donatus. Aelius Donatus (uppi seint á 4. öld) var rómverskur málfræðingur og mælskulistarkennari. Hann var kennari heilags Hýerónýmusar biblíuþýðanda. Hann var höfundur nokkurra fræðirita. Sum þeirra eru varðveitt. Meðal annars óklárað skýringarrit við leikrit Terentíusar, ævisaga Virgils, sem er talin vera byggð á glataðri ævisögu Virgils eftir Súetóníus, og bók um málfræði, "Ars grammatica", sem naut mikilla vinsælda á miðöldum. Afríska þjóðarráðið. Afríska þjóðarráðið er sósíaldemókratískur stjórnmálaflokkur sem hefur verið ráðandi flokkur í Suður-Afríku frá því meirihlutastjórn var mynduð þar fyrst 1994. Flokkurinn var stofnaður 8. janúar 1912 í Bloemfontein til að berjast fyrir auknum réttindum blökkufólks í landinu. Handritafræði. Handritafræði er fræðigrein sem fjallar um handrit og forna skrift, óháð tungumáli. Handritafræði er á vissan hátt undanfari textafræðinnar. Á Stofnun Árna Magnússonar eru stundaðar rannsóknir í handritafræði. Nýöld. Nýöld kallast það tímabil í mannkynssögunni sem tekur við af miðöldum eða endurreisnartímanum, sé hann talinn sérstakt tímabil. Yfirleitt er nýöld talin hefjast árið 1492, er Kristófer Kólumbus kom til nýja heimsins, en stundum er hún talin hefjast fyrr eða um 1420 með upphafi endurreisnarinnar. Biskup Íslands. Biskup Íslands er æðsti titill vígðs manns innan þjóðkirkjunnar og fylgir titlinum nafnbótin „herra“. Biskup er ríkisstarfsmaður og þiggur laun úr ríkissjóði. Biskup er sjálfkrafa handhafi Hinnar íslensku fálkaorðu og fær diplómatavegabréf eins og æðstu embættismenn ríkisins. Biskupar Íslands voru lengst af tveir, annar með aðsetur í Skálholti (frá 11. öld) og hinn á Hólum í Hjaltadal (frá 12. öld). Aðsetur biskups er kallað biskupsstóll. Þegar Skálholtsstaður eyddist að mestu í Suðurlandsskjálftanum um aldamótin 1800, var sá stóll lagður niður og Hólastóll líka og var embættisbústaður sameinaðs biskupsembættis fluttur til Reykjavíkur, árið 1801, með nýbyggða Dómkirkjuna sem embættiskirkju. Fyrr á öldum, á meðan kirkjan réði miklum landareignum, hlunnindum og öðrum landkostum sem henni höfðu áskotnast með ýmsu móti, var embætti biskups mjög valdamikið. Í seinni tíð eru áþreifanleg völd biskups lítil. Alla tuttugustu öld voru biskupar þó áhrifamiklar raddir í samfélaginu. Deilur og hneyksli innan kirkjunnar hafa grafið undan þessum áhrifum á seinustu árum, samhliða því að hneigð þjóðarinnar til kristni og annarrar trúar hefur farið minnkandi. Hjörtur Logi Valgarðsson. Hjörtur Logi Valgarðsson (f. 27. september 1988) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann hóf feril sinn í yngri flokkum FH í stöðu vinstri bakvarðar og lék þar þangað til hann gekk til liðs við IFK Göteborg. Hjörtur Logi hefur leikið 7 U-19 ára landsleiki, 10 U-21 landsleiki og einn A landsleik fyrir Íslands hönd. Afrek. Meira um Loga er hægt að nálgast á: http://www.melarsport.is/en/register.php Úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Pepsideildin eða Úrvalsdeild karla í knattspyrnu er efsta deild karla í knattspyrnu á Íslandi. Hún er rekin af Íslenska knattspyrnusambandinu. Lista yfir þjálfara deildarinnar og sigursælustu þjálfara deildarinnar sjá hér: Þjálfarar í íslenskri knattspyrnu Lista yfir markahæstu menn deildarinnar frá 1983, má sjá hér: Gullskór Meistarasaga. Aðeins hafa 10 lið á 101 tímabili orðið Íslandsmeistarar í knattspyrnu og 4 lið (Fram, ÍA, KR og Valur) skipta með sér 81 titli. KR hefur unnið titilinn oftast eða 25 sinnum samtals. Lokastaða í gegnum tíðina. Eftirfarandi tafla sýnir hversu oft liðin hafa lent í efstu þremur sætunum í deildinni. KR-ingar standa þar best að vígi, og hafa 64 sinnum endað meðal þriggja efstu liða. Skagamenn eru þó efstir ef tekið er tillit til hlutfalls. Stjörnur. Sex lið í deildinni, KR, Valur, Fram, ÍA, Víkingur og FH, bera stjörnur á búningi sínum, fyrir ofan félagsmerkið, en sérhver stjarna táknar fimm meistaratitla. Tími milli titla. Alls hefur 7 liðum í sögu Íslandsmótsins tekist að verja titil sinn, samtals 36 sinnum. Lengst hafa liðið 56 leiktímabil milli titla hjá félagi, en það vafasama met eiga Víkingar, sem unnu titilinn 1924 og ekki aftur fyrr en 1981. Einungis 5 liðum hefur tekist að vinna Íslandsmótið oftar en tvisvar í röð. Framarar eiga þar metið, en þeir unnu Íslandsbikarinn 6 ár í röð frá 1913 til 1918. Valur (1933 - 1945) og Fram (1913 - 1925) hafa svo bæði afrekað það að vinna Íslandsbikarinn 10 sinnum á 12 árum. Þátttaka liða. Eftirfarandi tafla sýnir þáttöku liða sem hlutfall af 103 tímabilum. KR-ingar hafa spilað flest tímabil í efstu deild, eða 100 af 103. Þeir tóku ekki þátt 1913, 1914 og 1978. Liðin sem eru feitletruð eru í Pepsideildinni núna. Í töflunni er tímabilið 2014 tekið með. Föll. Á töflunni sést hvaða lið hafa fallið oftast, og hversu mörg tímabil þau hafa spilað til enda í efstu deild. Alls 26 félög. Hvert einasta lið sem hefur spilað í efstu deild, hefur einhverntíman fallið. Gengi frá 1979. Stjörnumerkt lið vann Bikarkeppni KSÍ það árið Bæir. Titlarnir hafa skipts svona á milli bæja á Íslandi. Meistaratitillinn var í Reykjavík fyrstu 39 ár Íslandsmótsins, en þá fór hann á Akranes. Meistaratitillinn hefur aldrei farið í Garðabæ. 86 af 100 titlum hafa farið til Reykjavíkur og Akraness og hafa 74 af 100 endað innan höfuðborgarsvæðisins. Dagfinn Høybråten. Dagfinn Høybråten (fæddur 2. desember 1957) er norskur stjórnmálamaður og meðlimur í Kristilega þjóðarflokknum. Høybråten var heilbrigðisráðherra Noregs 1997-2000 og 2001-2004. Hann var atvinnu- og félagsmálaráðherra 2004-2006. Árið 2004 var hann kosinn formaður Kristilega þjóðarflokksins. 1. janúar 2007 tók hann við sem forseti Norðurlandaráðs. Dagfinn Høybråten tók við embætti framkvæmdastóra Norrænu ráðherranefndarinnar 2013. Sem ráðherra varð Høybråten einkum þekktur fyrir baráttu sína gegn tóbaksreykingum. Hún endaði með því árið 2004 að sett voru ný lög um reykingar sem á þeim tíma voru þau ströngustu á Norðurlöndum. Tenglar. Høybråten, Dagfinn Plógur. Plógur er landbúnaðarverkfæri sem notað er til jarðvinnslu og umturnar efstu jarðvegslögunum. Plæging er framkvæmd við sáningu eða þegar brjóta á nýtt land til nytja. Plógar eru einnig notaðir til að plægja niður jarðstrengi, og sæstrengi, þegar leggja á lagnir í jörðu. Saga. Bóndi plægir með tveimur hestum Plógurinn er þróun skóflu og haka sem notuð voru við jarðvinnslu; fyrst á bökkum Nílar og í Mesópótamíu. Fyrstu plógana drógu menn en síðar nýttu þeir sér krafta nautgripa og stýrðu þá ferð þeirra. Við þetta jukust afköstin. Fyrstu plógarnir voru einfaldir; höfðu ramma með áfastri spýtu sem dróst í gegnum efstu jarðvegslögin. Talið er að slíkir plógar hafi fyrst verið notaðir 600 árum fyrir Krist. Síðar þróuðust plógarnir og breyttust svo þeir fóru að rista dýpra og snúa jarðveginum við. Þannig lenda illgresi og aðrar óæskilegar jurtir undir og drepast þannig að nytjajurtirnar fá að vaxa í friði. Fram á 18. öld urðu litlar breytingar á plógnum en árið 1730 hóf Joseph Foljambe í Rotherham á Englandi að fjöldaframleiða plóga; Rotherham-plóginn. Hann varði moldverpið með járni og var plógurinn allur léttari en eldri gerðir. Þannig varð hann mjög vinsæll. Uppúr 1830 hannaði bandaríski járnsmiðurinn John Deere steypumót að plógi og þannig gat hann fjöldaframleitt plóga fyrir bændur. Fyrstu stálplógarnir voru til þess að ganga eftir en seinna komu einnig plógar með sæti fyrir plógmanninn. Enn seinna komu plógar sem höfðu fleiri en einn skera. Harry Ferguson hannaði dráttarvél sem nýtti sér þrítengisfestingar fyrir plóginn og markaðssetti við lok seinni heimsstyrjaldar. Dráttarvélin, eða járnhesturinn, leysti hesta og nautgripi af sem dráttardýr og afköstin jukust. Tegundir. Margar tegundir plóga eru í notkun; með ólíkum fjölda skera og útfærslum. Algengustu tegundirnar eru „venjulegur“ plógur sem plægir alltaf í sömu átt (leggur strenginn alltaf til hægri eða vinstri) og vendirplógur sem hægt er að snúa við og leggja strenginn þannig í „hina áttina“. Er þetta gert með vökvaafli. Gufuaflsplógar. Þegar landbúnaðarbyltingi greip heiminn fóru menn að nýta sér gufuaflið við plægingar og landbrot. Þannig drógu gufuvélar allt að 14-skera plóga í Bandaríkjunum. Með þessu tókst að brjóta mörg hundruð hektara á dag, ef nýttar voru fleiri gufuvélar. Síðar þegar brunahreyflar komu fram á sjónarsviðið voru þær vélar mun aflminni og gátu því ekki dregið sömu plógana. Plógar með öryggi. Í landbúnaðarbyltingunni var farið að brjóta land sem áður hafði verið skógi vaxið og þurfti þá að búa til plóga sem hægt væri að kippa upp úr jarðveginum þegar þeir steyttu á grjóti eða rótum. Þannig komu fram plógar með öryggi þar sem skerinn lyftist upp þegar átakið varð of mikið (þegar skeratáin rakst í eitthvað). Átaksmælirinn var í yfirtengi dráttarvélarinnar (t.d. Massey Ferguson 185) eða lyftuörmum hennar (nýlegar, stærri vélar). Vendiplógar. Vendiplógur er plógur sem hefur tvöfalt sett af skerum þar sem helmingur snýr upp hverju sinni. Vendiplógurinn er tengdur við þrítengi dráttarvélarinnar og snúið við með vökvaafli. Þannig er hægt að keyra fram og aftur um akurinn eða stykkið í stað þess að plægja alltaf sömu átt. Plæging með vendiplóg kemur einnig í veg fyrir að myndist hryggur í miðju stykki. Kílplógar. Kílplógar eru notaðir til að lofta um jarðveg (búa til holurými), drena (búa til kílræsi) eða plægja niður jarðstrengi og rör. Við jarðvinnslu verður að hafa í hug að blanda ekki saman lífvana, súrum jarðvegi við yfirborðið svo dragi úr sprettu og frjósemi þess jarðvegs sem plöntum er ætlað að lifa í. Jarðvegseyðing. Ein af afleiðingum plægingar er jarðvegseyðing þar sem roföfl taka með sér jarðefni burt frá akrinum. Þetta gerist einna helst í bröttu landi með vatnsrofi eða þar sem mikill vindur er. Stjórnskipunarréttur. Stjórnskipunarréttur er svið innan lögfræðinnar sem fjallar um stjórnskipulagið, þrískipting ríkisvaldsins einstakar greinar þess og um forseta íslands. Sifjaréttur. Orðið sifjar eru fornt og táknar skyldleika og tengsl. Sifjarétturinn er kallaður fjölskylduréttur víða en hlaut þetta nafn á íslensku. Sifjaréttinum er skipt í tvær megin greinar. Önnur greinin fjallar um hjúskap og skráða sambúð og hinn um réttarstöðu barna, tengsl þeirra við foreldra og um afskipti allsherjarvalds að fjölskyldum barna. Er fyrri greinin nefnd hjúskaparréttur en hin síðari barnaréttur. Á hvoru réttarsviði er heildstæð löggjöf hér á landi. Vísitala. Vísitala er tala sem er fengin með því að vega saman nokkrar stærðir. Vísitölur eru notaðar til að meta breytingar yfir tíma eða milli staða. Dæmi um vísitölur eru verðlagsvísitölur eins og vísitala neysluverðs. Vetrarólympíuleikarnir 1952. Vetrarólympíuleikarnir 1952 voru 6. vetrarólympíuleikarnir. Þeir voru settir í Ósló í Noregi 14. febrúar 1952. Þrjátíu lönd sendu fulltrúa á leikana, þar á meðal Ísland sem komst þó ekki á verðlaunapall. Vetrarólympíuleikarnir 1980. Vetrarólympíuleikarnir 1980 voru 13. vetrarólympíuleikarnir. Þeir voru settir 14. febrúar 1980 í Lake Placid í New York-fylki í Bandaríkjunum. 37 þjóðir sendu fulltrúa á leikana. Sovétríkin voru sigursælust með tíu gullverðlaun, sex silfur og sex brons. Ísland sendi sex skíðamenn á leikana: þrjá keppendur í svigi og þrjá í skíðagöngu. Kvikmyndasafn Íslands. Kvikmyndasafn Íslands er íslensk ríkisstofnun. Hlutverk hennar er að safna, skrá og varðveita kvikmyndir og prentað efni sem tengist kvikmyndum með einum eða öðrum hætti. Kvikmyndasafn safnar og varðveitir efni bæði frá atvinnukvikmyndagerðarfólki og áhugafólki. Forstöðumaður (2007) er Þórarinn Guðnason. Kvikmyndasjóður Íslands var stofnaður samhliða kvikmyndasafninu árið 1978. Kvikmyndasafnið hefur meðal annars unnið að því að gera upp Bæjarbíó í Hafnarfirði þar sem það stendur fyrir reglulegum kvikmyndasýningum. Miðilsgáfa. Miðilsgáfa er umdeildur hæfileiki sem á að gera fólki mögulegt að hafa samband við framliðna. Fólk, sem segist hafa miðilsgáfu, starfar stundum sem miðlar og tekur að sér milligöngu um samband við látna ástvini og aðra. Misjafnt er eftir miðlum hvort þeir taka greiðslu fyrir þjónustu sína eða ekki. Íslenskir miðlar. Nokkrir tugir miðla starfa á Íslandi við að veita öðrum þjónustu sína fyrir greiðslu, en sumir gera það ókeypis. Þekktastur íslenskra miðla er Þórhallur Guðmundsson, en meðal annarra þekktra má nefna Garðar Jónsson, Hermund Rósinkranz Sigurðsson, Maríu Sigurðardóttur, Skúla Viðar Lórenzson, og Þórunni Maggý Guðmundsdóttir. Íslenskir miðlar starfa sumir sjálfstætt, en sumir í félögum á borð við Sálarrannsóknafélag Íslands og Sálarrannsóknafélag Akureyrar Jón Sveinsson. Stytta af Nonna eftir Nínu Sæmundsson, styttan er hjá Nonnahúsi Akureyri Jón Stefán Sveinsson (16. nóvember 1857 - 16. október 1944), betur þekktur sem barnabókarithöfundurinn Nonni var íslenskur rithöfundur. Æviágrip. Nonni fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 16. nóvember 1857. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir (1826-1910) frá Reykjahlíð við Mývatn og Sveinn Þórarinsson (1821-1869), skrifari hjá Pétri amtmanni Hafstein. Sigríður og Sveinn eignuðust átta börn en þrjú þeirra létust haustið 1860 af völdum barnaveiki. Þau börn sem upp komust voru Björg (Bogga) (1854-1882), Jón (Nonni) (1857-1944), Sigríður Guðlaug (1858-1916), Friðrik (1864-1943) og Ármann (Manni) (1861-1885). Fyrir hjónaband hafði Sigríður eignast dóttur sem hét Kristín (1852-1949). Árið 1865 fluttist Nonni með fjölskyldu sinni til Akureyrar þar sem fjölskyldan settist að í svokölluðu Pálshúsi. Sveinn lést 1869 úr sullaveiki. Stóð þá ekkjan ein uppi með börn sín því búið var tekið til gjaldþrotaskipta eftir lát Sveins. Fór svo að hún varð að láta öll börnin sín frá sér nema Ármann (Manna). Sigríður flutti síðar til Kanada og giftist þar aftur. Árið 1870 bauðst franskur aðalsmaður til að kosta tvo íslenska drengi til náms. Annar þessara drengja var Nonni. Í lok ágústmánaðar 1870 hélt Nonni af landi brott. Vegna styrjaldar sem þá geisaði í Evrópu komst hann ekki strax til Frakklands heldur dvaldi hann í eitt ár í Danmörku og þar tók hann kaþólska trú. Kominn til Frakklands settist Nonni í latínuskólann í Amiens. Nokkrum árum síðar kom Manni bróðir hans einnig til Frakklands og nam við sama skóla. Manni lést árið 1885, aðeins 23 ára, úr berklum. Hann var þá við nám í Belgíu. Nonni lauk námi við latínuskólann 1878 og gekk þá í jesúítaregluna. Hann var við háskólanám í Frakklandi, Belgíu og Hollandi. Þær greinar sem hann lagði stund á voru bókmenntir, heimspeki og guðfræði. Eftir nám gerðist Nonni kennari við kaþólskan menntaskóla í Ordrup í Danmörku. Árin 1888-1892 dvaldi hann í Englandi við guðfræðinám og þar tók hann prestvígslu. Eftir Englandsárin sneri Nonni aftur til Danmerkur og kenndi þar við sama skóla og áður. Árið 1912 hætti Nonni kennslu og fluttist frá Danmörku. Næstu árin bjó hann meðal annars í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi og helgaði líf sitt uppfrá þessu ritstörfum. Fyrsta Nonnabókin, Nonni, kom út 1913 en alls urðu Nonnabækurnar 12 talsins. Bækur sínar skrifaði Nonni á þýsku. Þær hafa verið þýddar á 30-40 tungumál og gefnar út í milljónum eintaka. Þar að auki skrifaði hann að minnsta kosti eina landkynningarbók um Ísland á þýsku. Nonni ferðaðist víða og hélt fyrirlestra. Oftast fjallaði hann um Ísland og þá sérstaklega Eyjafjörðinn. Árið 1936 hélt Nonni í heimsreisu og dvaldi meðal annars í Japan í eitt og hálft ár. Árið 1939 settist hann að í Valkenburg í Hollandi en vegna stríðsátaka hraktist hann til Þýskalands 1942. Nonni lést 16. október 1944 í loftvarnarbyrgi undir St. Franziskus-spítalanum í Köln. Hann var grafinn í Melatenkirkjugarðinum í Köln. Nonni kom aðeins tvisvar sinnum til Íslands eftir brottförina 1870. Fyrra skiptið var 1894 en seinna skiptið var 1930 þegar ríkisstjórn Íslands bauð honum að koma á Alþingishátíðina. Í þeirri ferð var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar. Á aldarafmæli Nonna þann 16. nóvember 1957 opnaði Zontaklúbbur Akureyrar safn til minningar um hann. Safnið er til húsa í gamla Pálshúsinu þar sem Nonni bjó hluta úr æsku sinni og nefnist húsið nú Nonnahús. Kevin Mitnick. Kevin David Mitnick (f. 6. ágúst 1963) er frægur tölvuþrjótur sem var handtekinn árið 1995 og dæmdur í margra ára fangelsisvist fyrir að brjótast inn í tölvukerfi tæknifyrirtækja eins og Fujitsu, Motorola, Nokia og Sun Microsystems. Hann losnaði úr fangelsi á skilorði árið 2000 en eitt af skilyrðunum var að hann kæmi ekki nálægt tölvu. Skilorðinu lauk í janúar 2003. Handtaka Mitnicks og sá þungi dómur sem hann hlaut vakti mikla athygli á sínum tíma og voru mjög skiptar skoðanir um réttmæti refsingarinnar. Fjölda vísana í mál Mitnicks er að finna í skáldsögum, kvikmyndum og tölvuleikjum. Árið 1995 kom út bókin "Takedown" um Mitnick eftir John Markoff og Tsutomu Shimomura og samnefnd kvikmynd kom út árið 2000. Kristín Ólafsdóttir. Kristín Ólafsdóttir (21. nóvember 1889 – 20. ágúst 1971) var íslenskur læknir og fyrsta konan sem lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands (15. febrúar 1917). 1916 giftist hún Vilmundi Jónssyni. Hún starfaði í Svíþjóð og Danmörku 1918 og 1919 en eftir það á Ísafirði til 1931 þegar Vilmundur varð landlæknir en þá hóf hún störf sem læknir í Reykjavík. Kristín var dóttir sr. Ólafs Ólafssonar, prófasts í Hjarðarholti. Fokker F50. Fokker F50 er skrúfuþota frá hollenska flugvélaframleiðandanum Fokker. Hún er knúin tveimur 1864 kílóvatta Pratt & Whitney Canada skrúfuhverfihreyflum. Flugvélin var hönnuð sem arftaki hinnar vinsælu Fokker F27 Friendship. Framleiðsla hófst 1987 og lauk 1996 þegar fyrirtækið var gert upp. Flugleiðir tóku þessa gerð vélar í notkun árið 1992. Fáni Kanada. a> var formlega þjóðfáni Kanada til 1965 Fáni Kanada er rauður með hvítum ferningi í miðju þar sem er rautt hlynblað með ellefu oddum. Í Kanada er fáninn kallaður "Maple Leaf Flag" á ensku og "l'Unifolié" á frönsku. Hinn þekkti Union Jack var um langt skeið formlegur fáni Kanada en á 20. öld voru lengi deilur um hvort ætti að skipta um fána og þá hvernig sá fáni ætti að vera. Nokkrar samkeppnir voru haldnar um nýjan fána en það var ekki fyrr en 22. október 1964 sem kanadíska þingið ákvað að velja núverandi fána sem var hugmynd George Standley. Elísabet 2. Englandsdrottning tók fánann formlega upp 15. febrúar 1965. Frá 1921 hafa rauður og hvítur verið „opinberir litir“ Kanada eftir að Georg 5. konungur lýsti því yfir að rauði liturinn kæmi úr Andrésarkrossinum á enska fánanum og hvítur úr skjaldarmerki Frakkakonungs frá tímum Karls 7. Hlynurinn hefur lengi verið eitt af þjóðartáknum Kanada. Trypsín. Trypsín er meltingarensím sem meltir prótín. Tryggvi Emilsson. Tryggvi Emilsson (20. október 1902 – 6. mars 1993) var íslenskur rithöfundur. Helsta verk hans er sjálfsævisaga sem kom út í þremur bindum á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar. Hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Tvíundatré. Tvíundatré (stundum ritað tvíundartré) eða tvíundahrísla er sértilvik af gagnagrindinni "tré", þar sem hver hnútur getur einungis haft 0, 1 eða tvö börn. Almennt er talað um börn hnútsins sem vinstra-barn og hægra-barn eftir því hvorumegin það er ritað við foreldri sitt. Ef sérhver hnútur í tvíundatré hefur annað hvort 0 eða 2 börn þá er talað um það sem fullt tvíundatré. Efsti hnúturinn í tvíundatrénu, þ.e. sá hnútur sem hefur ekkert foreldri er nefndur "rót". Hnútur í tvíundatré sem hefur engin börn er kallað "lauf". Útfærsla. Hægt er að útfæra tvíundatré sem safn hnúta þar sem hver hnútur er gagnagrind sem innifelur bendil á vinstra barn og hægra barn. Tvíundarleit. Ef tvíundatré er skilgreint þannig að hver hnútur hafi gildi, gildi vinstra barns er ætíð minna eða jafnt og gildi foreldris, og gildi hægra barns er ætíð stærra eða jafnt og gildi foreldris, þá er talað um tréð sem tvíundarleitartré. Í slíku tré er hægt að framkvæma tvíundarleit sem finnur stak í O(log n) aðgerðum. Tré (tölvunarfræði). Tré eða hrísla (einnig hrísluskipan) er gagnagrind sem kemur víða fyrir í tölvunarfræðum og samanstendur af einum eða fleiri hnútum sem hver um sig getur haft 0 eða fleiri "börn". Hvert barn er hnútur sem getur aftur haft 0 eða fleiri börn og svo koll af kolli. Það er þó sá hængur á að barn getur ekki verið hnútur ofar í trénu, þar eð þá myndi skapast lykkja í gagnagrindinni, og þá væri ekki lengur um "tré" að ræða, heldur "net". Ef þau skilyrði eru sett á tréð að hver hnútur megi hafa að hámarki tvö afkvæmi þá er tréð nefnt tvíundartré. Að ferðast um tréð. Ef þurfa þykir að skoða hvern hnút í tré þá er slíkt yfirleitt gert með því að "ferðast eftir dýptinni" eða "ferðast eftir breiddinni". Þegar ferðast er eftir breiddinni þá skoðum við öll systkini hnúts áður en við skoðum börn hnútsins, en þegar við ferðumst eftir dýptinni þá skoðum við fyrst öll börn tiltekins hnúts áður en við skoðum systkinahnúta hans. Super Nintendo Entertainment System. Super Nintendo Entertainment System, einnig þekkt sem Super Nintendo, Super NES eða SNES (borið fram annaðhvort sem orð eða skammstöfun), er 16-bita leikjatölva gefin út af Nintendo í Norður-Ameríku, Brasilíu, Evrópu og Ástralíu. Í Japan og Suð-Austur Asíu er hún þekkt sem Super Family Computer eða Super Famicom. Í Suður Kóreu er hún þekkt sem Super Comboy og var dreifð af Hyundai Electronics. SNES var önnur leikjatölva Nintendo, á eftir Nintendo Entertainment System (NES). Þar sem fyrri útgáfan hafði rembst við að ná vinsældum í PAL löndunum og stórum hlutum í Asíu, SNES náði vinsældum alls staðar, þó það náði ekki jafn miklum vinsældum í Suð-austur Asíu og Norður-Ameríku útaf andstæðingnum, Sega Mega Drive leikjatölvunni (gefin út í Norður-Ameríku sem Genesis). Þrátt fyrir að byrja seint náði SNES að verða mest selda leikjatölvan á 16-bita tímabilinu. Undirtré. Sérhver hnútur í tré, ásamt öllum afkomendum þess, sem á sér foreldri telst undirtré. Þórhallur Guðmundsson. Þórhallur Guðmundsson (f. 1961) er íslenskur karlmaður sem fæst við miðilsstörf og er sagður hafa miðilsgáfu. Hann er einn frægasti núlifandi starfandi miðill Íslands. Þórhallur hefur starfað í útvarpi og sjónvarpi í á annan áratug. Þáttur hans „Lífsaugað“ hefur verið á dagskrá Bylgjunnar og Stöðvar tvö, Lífsaugað fluttist yfir á norðlensku útvarpsstöðina VOICE í ágúst árið 2006 en hætti í loftinu í maí árið 2008. Hann hefur einnig starfað bæði með Sálarrannsóknafélagi Reykjavíkur og Sálarrannsóknafélagi Akureyrar, en hann býr nú á Akureyri. Jón Ásgeir Jóhannesson. Jón Ásgeir Jóhannesson (fæddur 27. janúar 1968 í Reykjavík) er íslenskur kaupsýslumaður og fyrrverandi forstjóri Baugs Group. Hann er einn af fyrirferðamestu viðskiptamönnum á Íslandi. Eftir bankahrunið hefur Jón komist í kastljós fjölmiðla á ný vegna stjórnarsetu hans í FL Group sem átti um þriðjungshlut í Glitni banka, nú Íslandsbanki hf.. Áður hafði Baugsmálið verið umfangsmikið sakamál sem snerist um meint lögbrot Jóns og fleiri stjórnenda Baugs. Því lauk með að Jón fékk skilorðsbundinn dóm. Hann hefur oft látið hafa eftir sér að Davíð Oddsson vilji honum illt. Honum hefur verið stefnt af skilanefnd Glitnis, ásamt sjö öðrum og endurskoðunarfyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers fyrir auðgunarbrot. Ævi. Hann útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands, (þó lauk hann ekki stúdentsprófi þaðan) 1989 og stofnaði sama ár fyrstu Bónus-verslunina með föður sínum Jóhannesi Jónssyni. Jón Ásgeir gerðist forstjóri Baugs Group árið 1998 og jók umsvif fyrirtækisins til muna. Hann hætti sem forstjóri í maí 2002 og gerðist stjórnarformaður fyrirtækisins í staðinn, en tók aftur við forstjórastólnum í nóvember sama ár. Í árslok 2003 hafði fyrirtækið vaxið svo undir forystu Jóns Ásgeirs, að ekkert annað íslenskt fyrirtæki hafði jafnmikil umsvif erlendis, auk þess sem það var orðið stærsta fyrirtæki á Íslandi. Þann 17. ágúst 2005 voru Jón Ásgeir og fleiri ákærðir fyrir 40 brot á lögum um bókhald og fleira. Flest brotin varða millifærslur milli hans sjálfs og fyrirtækisins. Hæstiréttur vísaði málinu aftur til Héraðsdóms Reykjavíkur haustið 2005 vegna formgalla. Í lok september 2008 var bankinn Glitnir kominn í svo krappa stöðu að Seðlabankinn og ríkisstjórnin ákváðu að yfirtaka hann með því að kaupa 75% hlut fyrir 84 milljarða króna. Eitt af fyrirtækjunum sem Jón Ásgeir á stóran hlut í, Stoðir, átti stóran hlut í Glitni og tapaði tugmilljörðum á yfirtökunni. Jón Ásgeir var ekki ánægður með yfirtökuna og sagði bankann ekki hafa staðið eins illa og Seðlabanki áleit. Jón og aðrir þátttakendur í „útrásinni“ svokölluðu fengu mikla gagnrýni og ekki alla vinsamlega og var kennt um að hafa komið íslenska ríkinu og þjóðinni í skuldir og önnur vandræði. Málsókn Glitnis banka. Þann 11. maí 2010 var málsókn Glitnis banka á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur þingfest fyrir rétti í New York-fylki, þar sem þau eru ákærð fyrir það að „...hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemur meira en tveimur milljörðum dala...“. Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers er einnig ákært fyrir að „...greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau sviksamlegu viðskipti sem Jón Ásgeir og félagar komu í kring og sem að endingu leiddu til falls bankans í október 2008.“ Kvennaguðfræði. Kvennaguðfræði er grein innan guðfræði sem leitast við að breyta kynjaímynd guðhugtaksins, þ.e. að guð sé jafn mikil kven- sem karlvera. Kvennaguðfræði er sprottin úr femínisma. Kvennakirkjan, stofnuð 1993, er sjálfstæður hópur innan þjóðkirkjunnar, sem byggir starf sitt á kvennaguðfræði. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir er fyrsti kvennaguðfræðingur á Íslandi. Howard Carter. Howard Carter (9. maí 1874 – 2. mars 1939) var enskur fornleifafræðingur þekktastur fyrir að hafa uppgötvað gröf Tútankamons í Konungadalnum við Lúxor í Egyptalandi árið 1922. Hann lærði hjá William Flinders Petrie. Leit hans að gröfinni hófst fljótlega eftir aldamótin 1900. Eftir að hann lauk rannsókn á innihaldi grafhýsisins hætti hann að starfa sem fornleifafræðingur og gerðist forngripasafnari. Pétur postuli. Pétur, einnig þekktur sem Pétur postuli, Símon Pétur og Kefas var einn af 12 lærisveinum Jesú. Um hann er fjallað í guðspjöllunum og í Postulasögunni í Nýja testamenti Biblíunnar. Pétur var fiskimaður í Galíleu og veiddi í Galíleuvatni áður en hann fór að fylgja Jesú. Hann er talinn hafa verið fyrsti páfi kaþólsku kirkjunnar. Hann var krossfestur í ofsóknum Nerós keisara rómverska ríkisins á hendur kristnum mönnum í Róm 64 eða 67 e.Kr. og var höfuð hans látið snúa niður. Því hefur verið haldið fram að aftökustaðurinn hafi verið þar sem Péturskirkjan stendur nú. Eskimói. „Eskimói“ er orð sem er stundum notað um Inuíta. Orðsifjar orðsins eskimói. Á mörgum indíánamálum af Algonquian tungumálaætt eru Eskimóar eða Inuítar nefndir nöfnum sem þýða „þeir sem éta hrátt kjöt“ eða hljóma svipað og orðið eskimói. Ojibwe-indíánar til dæmis nota orðið "êškipot" („sá sem borðar hrátt“ af "ašk-", „hrátt“, og "-po-", „að borða“) um Eskimóa. Mjög sennilegt er að Ojibwe hafi tekið að láni úr frönsku orðið eskimói og að franska orðið "esquimaux" (frb. eskímó) hafi einungis hljóðlíkingu með Ojibwe orðum sem þýða „þeir sem éta hrátt kjöt“. En á þeim tíma sem Frakkar fóru að nota þetta orð voru Ojibwe-indíánar ekki í neinu sambandi við Eskimóa. Á máli Innu-indíána hins vegar, sem voru nágrannar Eskimóa á þeim tíma sem Frakkar fóru að notað orðið "esquimaux", eru engin orð sem samsvara þessari þýðingu. Þar að auki borðuðu Innu-indíánar hrátt kjöt á sama hátt og Eskimóar og þess vegna er ekki sérlega líklegt að þeir hafi kennt þá við slíkt matarræði. Ýmsum tilgátum að orðsifjum hefur verið varpað fram gegnum árin en nú hallast flestir tungumálfræðingar að því að orðið eigi uppruna í orði sem þýðir „sá sem gerir snjóþrúgur“. Innu-indíánar nefna Mi'kmaq granna sína með orði sem hljómar eins og "eskimo" og hefur þessa þýðingu. Frönsku trúboðarnir og veiðimennirnir sem hófu að kalla Eskimóa "esquimaux" hafa sennilega misskilið við hverja var átt. Aasiaat. Séð úr höfninni í Aasiaat Aasiaat (eldri stafsetning: Ausiait), á dönsku: Egedesminde er fjórði stærsti bærinn á Grænlandi og hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup. Aasiaat er á eyju við suðurströnd Diskó-flóa. Grænlenska nafnið Aasiaat þýðir "Köngulóaborgin". Meðalhiti mældist 2003 -11,8 °C í febrúar og 9,3 °C í júlí. Asiaat er annað af tveimur sveitarfélögum á Grænlandi sem ekki eru að neinu leyti á meginlandinu. Hitt sveitarfélagið er Qeqertarsuaq. Við manntal 2005, voru íbúar 3 310. Aasiaat er stundum nefnt "Borg hvalanna", enda má oft sjá hvali í kring um eyjarnar. Sögubrot. Fornleifafræðingar álykta að elstu leifar mannlegs lífs á Diskóflóasvæðinu séu frá 4 þúsundum árum f. Kr. Forfeður núverandi íbúa virðast hafa hafið dvöl í Aasiaat og svæðinu þar um kring á 13. öld. Þetta voru veiðimenn sem ekki höfðu fasta búsetu heldur fluttu allt eftir því sem best veið gafst. Þorpið sem nú heitir Aasiaat var stofnað 1759 af Niels Egede sem var sonur Hans Egede, trúboða Grænlands. Egedesminde sem nefnt var í höfuðið á honum var stofnuð til að hindra skiptiverslun inuíta við Evrópska hvalveiðimenn, sem flestir komu frá Hollandi. Atvinnulíf. Rækju- og krabbaveiði er aðalatvinnugrein í Aasiaat auk skipasmíða og ferðamannamóttöku. Eskimó-aleutísk tungumál. Eskimó-Aleutíska er tungumálaætt sem töluð er af íbúum á Grænlandi, heimskautahéruðum Kanada, Alaska og austurhluta Síberíu. Það eru tvö tungumál sem tilheyra þessari málafjölskyldu, annars vegar svo nefnd eskimóatungumál (sem eru kölluð "inuíta-tungumál" á norðurströnd Alaska, Kanada, og á Grænland; sem "Yup'ik" á vesturströnd Alaska; og sem "yuit" í Síberíu), og hins vegar aleutíska. Þó aleutíska og inúítamál séu náskyld er enginn efi á að þar er um aðskilin tungumál sem þróuðust í sitt hvora átt fyrir um 3000 árum. Hins vegar eru tungumálafræðingar (og talendur sjálfir) ekki á einu máli hvort tala eigi um mállýskur eða sjálfstæð mál innan inuítatungu. Þrátt fyrir að mikill munur sé á milli kjarnamálsvæða er hvergi um skörp skil milli svæða. Óvíst er hvernig eskimó-aleutísk mál eru skyld öðrum málaættum, þau eru allavega óskyld öðrum málum frumbyggja Ameríku. GameCube. GameCube var fjórða leikjatölva Nintendo, í sjöttu kynslóð leikjatölva sem sagt sömu kynslóð og Dreamcast frá Sega, PlayStation 2 frá Sony og Xbox, frá Microsoft. GameCube var ódýrust af þeirri kynslóð. Hún var fyrsta leikjatölva Nintendo til að nota diska. Hún var gefin út 14. september 2001 í Japan, 18. nóvember 2001 í Norður-Ameríku, 3. maí 2002 í Evrópu og 17. maí 2002 í Ástralíu. Seint á árinu 2006 kom út arftaki hennar, Wii, sem spilar GameCube leiki og getur notað minniskubba, stýripinna og suma aðra hluti. Nintendo GameCube hefur selst í yfir 21.20 milljón eintökum 30. september 2006. Listi yfir stærstu borgir Evrópusambandsins eftir fólksfjölda innan borgarmarka. Eftirfarandi er listi yfir 100 stærstu borgir innan Evrópusambandsins. Einungis er miðað við fólksfjölda innan borgarmarka en ekki stórborgarsvæði. Á listanum eru einungis borgir í ríkjum innan ESB en engar aðrar evrópskar borgir (t.d. Moskva, Osló, Reykjavík, Bern og Zürich). Aðrar markverðar borgir. Evrópusambandi Game Boy línan. Game Boy línan er handleikjatölva með rafhlöðu og er gefinn út af Nintendo. Það er ein af mest seldu leikjatölvu línu, með meira en 188 milljón eintök seld um allan heim. Upprunalega Game Boy hefur selst í 70 milljón eintökum, meðan Game Boy Color hefur selst í 50 milljón eintökum. Game Boy Advance hefur náð að seljast í yfir 76.79 milljón eintökum 30. september 2006. Einnig eru til Game Boy SP og Game Boy Micro. Austur-Barðastrandarsýsla. Austur-Barðastrandarsýsla er sýsla á Vestfjörðum og er þar eitt sveitarfélag, Reykhólahreppur. Landamörk sýslunnar að norðan eru vatnaskil á hálendinu um suðurjaðar Glámu og norðurenda Reiphólsfjalla, norður um miðja Þoskafjarðarheiði. Hún nær frá botni Gilsfjarðar og vestur í Kjálkafjörð. Flatarmál Austur-Barðastrandarsýslu er 1.090 km². Miðstöð sýslunnar er að Reykhólum. Þar er starfrækt þörungaverksmiðja, auk þess sem þar er m.a. starfræktur grunnskóli, brunavarnir, dvalarheimili aldraðra, skrifstofa sveitarfélagsins og útibú frá sýslumanninum á Patreksfirði. Annað minna þéttbýli er að Króksfjarðarnesi, en þar eru verslun, sláturhús og banki. Aðalatvinnuvegur í dreifbýli er landbúnaður auk ferðaþjónustu. Aríus. Aríus frá Alexandríu (fæddur einhvern tímann á árunum 250-256, dáinn 336) var kristinn guðfræðingur á þriðju og fjórðu öld. Hann setti fram kenningar sem höfnuðu þrenningarkenningunni (sem var tilraun til að sætta guðlegt eðli Jesú við grunnsetningu eingyðistrúar). Voru þær kallaðar Aríusartrú eða, af eindregnari andstæðingum sínum, Aríusarvilla. Kenningar hans urðu undir eftir miklar deilur á kirkjuþinginu í Níkeu 325 þegar reynt var að ná sátt innan kirkjunnar um grundvallarkenningar hennar. Aríusartrú var sú trú sem gotneski trúboðinn Wulfila tók og boðaði meðal Austgota. Mörg fyrstu germönsku konungdæmin tóku upp aríska trú þegar þau snerust til Kristni og tóku ekki upp Níkeujátninguna fyrr en á 7. og 8. öld. Ævi Aríusar. Ýmislegt er á huldu um Aríus og kenningar hans. Eftir að andstæðingar hans höfðu betur í deilum þeirra, var gengið milli bols og höfuðs á hreyfingu Aríusarsinna, og öllum frumheimildum sem í náðist var eytt. Helstu heimildir um Aríus koma því úr skrifum andstæðinga hans, sem úthrópuðu hann fyrir villutrú og geta því vart talist hlutlægir. Einu skrifin sem eru eignuð honum og hafa varðveist, eru fáein bréf, auk brotakenndra leifa af ritinu "Thalia", alþýðlegu verki sem samanstóð bæði af bundnu máli og óbundnu. Að sama skapi er ekki mikið vitað með vissu um manninn Aríus. Talið er að hann gæti hafa verið af lýbísku og berbísku bergi brotinn, og faðir hans er sagður hafa heitið Ammóníus. Aríus nam í Antíokkíu hjá Lúsíanusi, sem þar var skólameistari og var síðar tekinn í tölu heilagra. Hann tók við söfnuði í Alexandríu árið 313. Þrátt fyrir miklar árásir andstæðinga sinna, virðist Aríus hafa verið siðvandur og trúr sannfæringu sinni, og komið vel fyrir. Aríus gerði mislukkaða tilraun til að verða skipaður patríarki í Alexandríu. Helstu kenningar. Aríus kenndi að sem sonur guðs væri Jesús ekki eilífur, þar sem hann ætti sér upphaf í tíma, og væri Guð faðirinn yfir hann settur. Þessi kenning naut talsverðrar hylli lengi vel eftir að hún var sett fram. Hann hélt fram annarri kenningu um þrenninguna en viðtekin var hjá kirkjunni. Hún fólst í grundvallaratriðum í því að þar sem guð (faðirinn) hefði getið guð (soninn), þá ætti hinn getni sér upphaf í tíma. Aríus er talinn hafa verið undir áhrifum frá Lúsíanusi frá Antíokkíu, eða því hélt Alexander af Alexandríu fram í bréfi til Alexanders biskups af Konstantínópel. Píslarvotturinn Lúsíanus var samt ekki sakaður um villutrú sjálfur, en þó var sagt að hugmyndir hans hefðu stundum verið á skjön við kenningu kirkjunnar. Alexander patríarki af Alexandríu var gagnrýndur harðlega fyrir hæg viðbrögð við Aríusi. Sú gagnrýni þykir þó ekki fyllilega réttmæt, þar sem sama hugmynd hafði komið fram áður og ekki verið rædd til lykta. Að svo miklu leyti sem niðurstaða fékkst í fyrri umræðum, var hún frekar og öðrum andstæðingum homoousion-kenningarinnar (gríska, "samsemd" eða "sameðli"), það er að segja þeim sem voru á sama máli og Aríus seinna. Alexander lét málið því eiga sig þangað til honum þótti friði innan kirkjunnar stefnt í voða. Þá afréð hann, að höfðu samráði við fleiri biskupa, að svipta Aríus trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna, og bannfæra hann. Auk samsemdar-hugmyndarinnar má skilja af heimildum að Aríus hafi hneigst til eins konar únitarisma síns tíma, að guð hafi verið einn og óskiptur. Því er talið að hann hafi ekki aðhyllst hugmyndir um heilaga þrenningu. Menn þykjast greina áhrif ný-platónisma og gnostisisma í hugmyndum Aríusar um sköpunina, en Aríus mun hafa haldið því fram að Jesús einn hefði verið beinlínis skapaður af guði, og allt annað hefði síðan verið skapað í gegn um Orðið. Níkeuþingið. Á kirkjuþinginu í Níkeu árið 325 var kenning Aríusar dæmd villutrú, og var Níkeujátningin („symbolum nicaenum“ á latínu) samin, af því tilefni til að skýra, betur en áður var, hvað „rétt trú“ fæli í sér, varðandi eðli guðdómsins. Í Níkeujátningunni kemur fram að eðli þeirra sé hið sama. Níkeujátningin í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag, var fullfrágengin í Konstantínópel árið 381. Á Níkeuþinginu reyndust flestir vera andvígir Aríusi, þótt skoðanir væru skiptar. Tveim árum síðar, árið 327, lést Alexander af Alexandríu, og Aþanasíus var skipaður biskup í hans stað. Í hans biskupstíð var Aríusi hleypt heim úr útlegð í Palestínu, gegn því að hann endurorðaði kenningar sínar um eðli Jesú. Andstæðingar Aþanasíusar komust í náðina hjá keisaranum, og hann skipaði Aþanasíusi að taka bannfæringuna á Aríusi til baka. Þegar Aþanasíus neitaði að gera það, var hann settur af og sendur í útlegð fyrir landráð. Það kom svo í hlut Alexanders af Konstantínópel að aflétta bannfæringunni, og þorði hann ekki annað. Bað hann fylgismenn sína að biðja til guðs, að Aríus mundi láta lífið áður en hann næði að ganga til altaris. Það var reyndar það sem gerðist: Daginn áður en aflétta átti bannfæringunni, þá andaðist Aríus. Andstæðingar Aríusar trúðu því, margir hverjir, að dauða hans hefði borið að höndum fyrir kraftaverk. Aðrir álitu líklegra að eitrað hefði verið fyrir honum. Deilurnar hjöðnuðu nokkuð við fráfall Aríusar, en áttu þó eftir að halda lengi áfram. Híerónýmusarklaustrið (Lissabon). Híerónýmusarklaustrið í Lissabon (portúgalska: "Mosteiro dos Jerónimos") er staðsett í Betlehemshverfinu í Lissabon, Portúgal. Klaustrið var, árið 1983, sett á Heimsminjaskrá UNESCO ásamt Betlehemsturninum. Bygging klaustursins hófst árið 1450, við upphaf landafundatímans í sögu Portúgals. Gil Eanes. Gil Eanes var portúgalskur landkönnuður sem sigldi meðfram ströndum Afríku og náði árið 1433 að Kanaríeyjum. Eanes, Gil Sá Carneiro-flugvöllur. Sá Carneiro-flugvöllur (port. Aeorporto Internacional Dr. Francisco Sá Carneiro) er alþjóðaflugvöllur borgarinnar Porto í Portúgal. Flugvöllurinn er staðsettur um það bil 11 kílómetra frá miðbænum og er þriðji stærsti flugvöllur landsins með tilliti til flugfarþega. Flugvöllurinn er nefndur í höfuðið á fyrrum forsætisráherra landsins, Francisco Sá Carneiro, sem, eins kaldhæðnislegt og það hljómar, lést í flugslysi á leið til flugvallarins sem síðar hlaut nafn hans. Vigdís Grímsdóttir. Vigdís Grímsdóttir (15. ágúst 1953) er íslenskur rithöfundur sem hefur sent frá sér ljóðabækur, smásagnasafn og skáldsögur. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín, þeirra á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1994 fyrir skáldsöguna "Grandavegur 7", sem síðar var sett upp sem leikrit í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur einnig verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs Ævi. Árið 1973 lauk hún kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands, 1978 lauk hún BA prófi í íslensku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands. Árið 1982 lauk hún prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands. Ferill. Fyrsta bók Vigdísar kom út árið 1983, það var smásagnasafnið "Tíu myndir" sem fjallar um þykjustuleiki og alvörudrauma. Frá árinu 1984 til 1985 stundaði Vigdís kandidatnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Vigdís tileinkaði sér svo skrifum sínum eftir að hafa starfað í fimm ár sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði. Vigdís hefur sent frá sér fjöldann allan af ljóðabókum og skáldsögum. Vigdís skrifaði bók um ævi alþýðukonunnar Bíbíar Ólafsdóttur og var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2007. Ein íslensk kvikmynd hefur verið gerð eftir sögu hennar en það er "Kaldaljós". Nýjasta bók Vigdísar er skáldsagan "Trúir þú á töfra?". Rafeindarvolt. Rafeindarvolt er mælieining orku, táknuð með eV. Jafngildir þeirri hreyfiorku sem óbundin rafeind í lofttæmi fær í eins volta rafsviði. Er einkum notað í öreindafræði og kjarneðlisfræði, en 1 eV ≈ 1,602 176 53x10-19 J. Er einnig notað sem mælieining massa, þ.e. 1 eV/c2 = 1,783x10-36 kg, þar sem "c" er ljóshraði. T.d. hafa raf- og jáeind hvíldarmassann 0,511 MeV/c2. Er ekki SI-mælieining. Etanól. Etanól, etýlalkóhól eða vínandi er eldfimt, litarlaust og eitrað lífrænt efnasamband, nánar tiltekið alkóhól, táknað með efnajöfnunni C2H5OH. Etanól er einkum notað í áfenga drykki, sem eldsneyti á bíla og sprengihreyfla. Úr etanóli er einnig unnið edik, etýlamín og önnur efni. Listi yfir stærstu borgir Bandaríkjanna. Eftirfarandi er listi yfir stærstu borgir Bandaríkjanna. Á listanum er einnig byggðalög sem United States Census Bureau skilgreinir sem bæjarfélög (e. town), kaupstaði (e. village) og þorp (e. borough). Á listanum eru einungis borgir og önnur byggðarlög sem eru sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Á listanum er einungis miðað við fólksfjölda innan borgarmarka en ekki fólksjölda á stórborgarsvæði. Í sumum tilfellum eru tvær eða fleiri borgir á sama stórborgarsvæðinu (svo sem San Francisco, San Jose og Oakland) en aðrar borgir eru ef til vill umkringdar úthverfum sem komast ekki á listann (svo sem St. Louis og Boston). Fjölmennustu borgir. Á listanum eru 125 borgir í Bandaríkjunum með yfir 100.000 íbúa samkvæmt áætlun United States Census Bureau 1. júlí 2006. Tenglar. Bandaríkin Þormóðsslysið. Þormóðsslysið var sjóslys sem átti sér stað 17. febrúar 1943. Daginn áður hafði vélskipið "Þormóður" frá Bíldudal lagt upp frá Patreksfirði með sjö manna áhöfn og 24 farþega og stefndi til Reykjavíkur. Aðfaranótt 17. febrúar lenti skipið á svonefndri Garðskagaflös, löngu skeri sem liggur út af Garðskaga og fórst ásamt öllum um borð. Frumspekin. "Frumspekin" (gr., "ta meta ta fysika", lat. "Metaphysica") er eitt af meginritum forngríska heimspekingsins Aristótelesar. Verkið er fremur sundurlaust safn ritgerða í 14 bókum, sem var fyrst safnað saman og steypt í eina heild á 1. öld f.Kr. af Andróníkosi frá Ródos, sem ritstýrði útgáfu á verkum Aristótelesar. Ritgerðirnar fjalla allar um frumspeki (sem Aristóteles nefndi hina fyrstu heimspeki (gr. "he prote filosofia") eða guðfræði (gr. "þeologia")) en titill verksins er kominn til vegna þess að í útgáfu Andróníkosar voru bækurnar um frumspekina á eftir bókunum um eðlisfræðina (gr. "ta fysika"). Meginviðfangsefni "Frumspekinnar" er „vera sem vera“ eða „vera sem slík“. Hún er rannsókn á því hvað það er að vera, hvað það er sem er og hvað er hægt að segja um það sem er í ljósi þess að það er, en ekki í ljósi einhvers annars. Í "Frumspekinni" fjallar Aristóteles einnig um ólíkar tegundir orsaka, form og efni og guð eða frumhreyfilinn. Zenon frá Eleu. Zenon frá Eleu (forngríska: Ζήνων ὁ Ἐλεάτης) (um 490 f.Kr. – um 430 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá Suður-Ítalíu og nemandi Parmenídesar. Zenon er þekktastur fyrir þverstæður sínar. Ævi. Lítið er vitað um ævi Zenons. Ein meginheimildin um ævi hans er samræðan "Parmenídes" eftir Platon, sem þó er skáldað verk og samin um það bil einni öld eftir andlát Zenons. Í samræðunni lýsir Platon heimsókn Parmenídesar og Zenons til Aþenu þegar Parmenídes á að hafa verið um 65 ára og Zenon um fertugt. Sókrates á að hafa verið ungur maður. Sókrates fæddist um 470 f.Kr. svo ef hann hefur verið um tvítugt hefur Zenon fæðst um 490 f.Kr. Platon lýsir Zenoni sem hávöxnum og myndarlegum manni. Díogenes Laertíos, sem var uppi á fyrri hluta 3. aldar skrifaði ævisögu Zenons. Þar kemur fram að Zenon var sonur Televtagórasar en var ættleiddur af Parmenídesi og að hann hafi getað fært rök bæði með og á móti hvaða fullyrðingu sem er. Verk. Engin rita Zenons eru varðveitt en fornir höfundar vísa til ýmissa rita Zenons. Platon segir að rit Zenons hafi fyrst borist til Aþenu þegar Parmenídes og Zenon heimsóttu borgina. Platon lætur Zenon einnig segja að ritum hans hafi verið ætlað að verja kenningar Parmenídesar, að þau hafi hann samið ungur að árum en þeim hafi verið stolið og þau gefin út í óþökk hans. Rök Zenons eru ef til vill elstu dæmin um niðursöllun í fáránleika ("reductio ad absurdum"), sem er einnig kölluð óbein sönnun. Swift-Tuttle. Halastjarnan 109P/Swift-Tuttle var uppgötvuð af stjörnufræðingnum Lewis Swift 16. júlí 1862 og svo öðrum stjörnufræðingi, Horace Parnell Tuttle, þremur dögum seinna. Swift-Tuttle er hluti af Perseid loftsteinaþyrpingunni. Sporbaugur hennar skarast á við jörðina eða tunglið og talið er að einhverntíman í fjarlægri framtíð muni verða árekstur. Xenofanes. Xenofanes frá Kolofon (forngríska; 570 – 480 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og skáld. Einungis brot eru varðveitt úr ritum hans, í tilvitnunum hjá seinni tíma höfundum. Xenofanes gagnrýndi trúarbrögð síns tíma og manngervingu guðanna. Heimspeki. Xenofanes hafnaði manngervingu guðanna og benti á að Eþíópíumenn segðu að guðirnir væru dökkir á hörund en Þrakíumenn segðu þá vera bláeygða. Hann hélt því enn fremur fram að ef uxar gætu lýst guðunum myndu þeir lýsa þeim sem uxum og að ef hestar og ljón gætu teiknað myndu þau tekna guðina sem hesta og ljón en ekki sem menn. Í þekkingarfræði hélt Xenofanes því fram að sannleikur væri til um raunveruleikann en að dauðlegir menn væru ekki færir um að þekkja hann. Rosalind Hursthouse. Rosalind Hursthouse (fædd 1943) er siðfræðingur og einkum þekkt fyrir kenningar sínar um dygðasiðfræði í anda Aristótelesar. Hursthouse er prófessor í heimspeki við háskólann í Auckland á Nýja Sjálandi. Hún kenndi áður við Open University í Bretlandi, University of California at Los Angeles í Bandaríkjunum og víðar. Hursthouse hlaut M.A. gráðu frá háskólanum í Auckland og doktorsgráðu frá Oxford University, þar sem hún nam hjá G.E.M. Anscombe og Philippu Foot. Bók Hursthouse "Um dygðasiðfræði" ("On Virtue Ethics") er ein áhrifamesta málsvörn fyrir dygðasiðfræði í nútímanum. Hursthouse hefur einnig skrifað um siðfræði dýra í ritinu "Ethics, Humans and Other Animals". Hursthouse, Rosalind Hursthouse, Rosalind Alasdair MacIntyre. Alasdair Chalmers MacIntyre (12. janúar 1929 í Glasgow á Skotlandi) er heimspekingur sem er einkum þekktur fyrir framlag sitt í siðfræði og stjórnspeki en einnig í heimspekisögu og guðfræði. MacIntyre hefur kennt heimspeki víða, m.a. við University of Leeds, University of Essex University of Oxford, Brandeis University, Boston University, Wellesley College, Vanderbilt University, University of Notre Dame og Duke University. Helstu rit. MacIntyre, Alasdair MacIntyre, Alasdair Gareth Evans. Gareth Evans (12. maí 1946 – 10. ágúst 1980) var breskur heimspekingur og prófessor í heimspekivið Oxford University á 8. áratug 20. aldar. Ævi. Evans nam heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði við University College í Oxford (1964–1967). Kennari hans í heimspeki var Peter Strawson. Hann varð fræðimaður við Christ Church, Oxford (1967–1968) og Kennedy Scholar við Harvard University og University of California, Berkeley (1968–1969). Hann lést af völdum lungnakrabbameins árið 1980, þá 34 ára gamall. Ritgerðasafn hans, "The Varieties of Reference", kom út að honum látnum. Störf. Á stuttum ferli sínum lagði Evans að mörkum í rökfræði, frumspeki, málspeki og hugspeki. Auk Strawsons voru Michael Dummett og John McDowell mikilvægir áhrifavaldar í hugsun hans. Líkt og margir breskir heimspekingar vann Evans að því að þróa merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál, undir áhrifum frá bandaríska heimspekingnum Donald Davidson. Tugir ritgerða voru skrifaðar sem andsvar við einnar blaðsíðu langri grein hans „Can There Be Vague Objects?“ sem birtist í tímaritinu "Analysis". Hún er nú talin vera undirstöðuverk í frumspeki. Tenglar. Evans, Gareth Evans, Gareth Johannes Brahms. Johannes Brahms (7. maí 1833 - 3. apríl 1897) var þýskt tónskáld á rómantíska tímabilinu. Hann var fæddur í Hamborg en bjó lengst af í Vín og er oftast talinn til tónskálda þeirrar borgar. Tónlist Brahms er oft talin mjög dæmigerð fyrir rómatíska tónlist og mörg af verkum hans eru mjög þekkt. Þeirra á meðal eru til dæmis fiðlukonsert hans, Ein deutsches Requiem og lítið vöggulag (Op. 49 no. 4) sem hann samdi 1868. Brahms var undir miklum áhrifum frá tónlist Beethovens, en líka eldri tónlskálda svosem Mozart og Haydn, og jafnvel Bach. Hann hafði mikinn áhuga á enn eldri tónlist, frá því fyrir barokk tímabilið, löngu áður en flest önnur tónskáld voru farin að veita þeirri tónlist nokkra athygli. Hann vann einnig mikið úr þjóðlögum og eru Ungversku dansar hans mjög þekktir. Meðal vina Brahms voru tónskáldin Johann Strauss yngri, Clara Wieck og Robert Schumann Eiríkur Hauksson. Eiríkur Hauksson flytur lagið "Valentine lost" í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2007 Eiríkur Hauksson (f. 4. júlí 1959) er íslenskur tónlistarmaður búsettur í Noregi frá 1988. Hann hefur m.a. verið meðlimur í hljómsveitunum Start, Drýsill og Artch en starfar nú sjálfstætt. Árið 1985 urðu tvö lög sem Eiríkur söng, "Gaggó Vest" og "Gull", eftir Gunnar Þórðarson mjög vinsæl og er hann helst þekktur á Íslandi fyrir þau lög ásamt þáttöku sinni í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986 þar sem hann söng lagið "Gleðibankinn". Eiríkur tók aftur þátt í Söngvakeppninni 1991 fyrir hönd Noregs með lagið "Mrs. Thompson" en þar söng hann með hljómsveitinni "Just4Fun". Þann 17. febrúar 2007 var hann valinn til að flytja lagið "Valentine lost" ("Ég les í lófa þínum" á íslensku) fyrir hönd Íslands í söngvakeppninni 2007 sem var haldin 12. maí í Helsinki í Finnlandi, en komst ekki upp úr undankeppninni. Kristín Á. Guðmundsdóttir. Kristín Á. Guðmundsdóttir er formaður Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ) og hefur verið það í nokkur ár. Eftir harðar deilur innan félagsins um svokallað brúarmál, veturinn 2006-2007, var hún endurkjörin á fulltrúaráðsfundi félagsins í maí 2007. Þar sem SLFÍ er aðildarfélag að BSRB, þá situr Kristín einnig í stjórn BSRB. Árni Stefán Jónsson. Árni Stefán Jónsson (f. 19. desember 1951) er formaður SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu og hefur gegnt því embætti frá aðalfundi félagsins á vordögum 2006. Áður var hann framkvæmdastjóri félagsins. Hann er jafnframt fyrsti varaformaður BSRB. Í sveitarstjórnarkosningum 2006 var Árni á lista Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Hafnarfirði, og skipaði þar 6. sæti. Kanínur. Kanínur eru spendýr af héraætt. Ekki má þó rugla kanínum við héra. Kanínur eru jurtaætur með fjórar framtennur, ólíkt öðrum nagdýrum sem eru aðeins með tvær. Tennur nagdýra vaxa um leið og þær eyðast vegna þess að þær eru rótopnar. Meðalaldur þeirra er fimm til þrettán ár og kallast kvendýrið "kæna" og karldýrið "kani". Kanínur verða kynþroska fjögurra til sex mánaða og er meðganga þeirra um það bil þrjátíu dagar. Ungafjöldinn getur verið mismunandi eða tveir til tólf ungar og geta kanínur æxlast strax eftir got og getur stofn þeirra því margfaldast við góð skilyrði. Kanínur eru víða ræktaðar sem húsdýr. Kanínur á Íslandi. Kanínur eru orðnar hluti af dýralífi Íslands en þær finnast villtar víða á landinu. Þar má helst nefna Öskjuhlíð, Elliðaárdal, Heiðmörk, Vestmannaeyjar og hraunin i Hafnarfirði og Garðabæ. Ekki eru allir sáttir við villtar kanínur í náttúrunni. Ástæðan er helst sú að þær eiga það til að éta blóm og annan gróður, hafa slæm áhrif á fuglalíf en margar fuglategundir eru mjög viðkvæmar fyrir minnsta raski. Aukagetuhyggja. Aukagetuhyggja er kenning í hugspeki sem kveður á um að sum eða öll sálarlífsfyrirbæri séu "aukageta" eða "aukaverkun" efnislegra ferla. Aukagetuhyggja neitar því þar af leiðandi að hugur geti haft orsakaráhrif á líkamann eða nokkuð annað efnislegt: hugarferi orsakast af efnislegum undirstöðum en hafa ekki gagnkvæm áhrif á efnislegar undirstöður sínar. Sumar útgáfur aukagetuhyggju halda því fram að "öll" hugarferli séu áhrifalaus en aðrar útgáfur kveða á um að einungis "sum" hugarferli séu áhrifalaus. Síðarnefndu útgáfurnar halda því oft fram að sumar "tegundir" sálarlífsfyrirbæra séu aukageta, svo sem huglægar upplifanir á borð við sársauka. Kolbrún Halldórsdóttir. Kolbrún Halldórsdóttir (fædd 31. júlí 1955) er fyrrverandi umhverfisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og var þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á árunum 1999-2009. Kolbrún náði ekki endurkjöri í kosningunum 2009 (en var varaþingmaður okt.-nóv. 2010) og hlaut fjölmargar útstrikanir meðal kjósenda vinstri grænna, tæplega 2000 talsins. Hún er menntuð leikkona og vann um árabil að ýmsu sem tengdist íslenskri leiklist. Kolbrún er þekkt fyrir að vera mikill umhverfisverndarsinni. Kolbrún fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hún gekk í Melaskóla og Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með verslunarpróf 1973. Því næst nam hún leiklist við Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist 1978. Hún vann hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1978-1979 og í Alþýðuleikhúsinu 1979-1983. Hún kom að stofnun leikfélagsins Svart og sykurlaust árið 1983 og starfaði innan Leikfélags Akureyrar um margra ára skeið. Árið 1988 hóf hún störf sem framkvæmdarstjóri Bandalags íslenskra leikfélaga þar sem hún starfaði í fimm ár og samhliða þvi var hún ritstjóri "Leiklistarblaðsins". Melaskóli. Melaskóli er íslenskur grunnskóli á Melunum í Reykjavík. Nú eru nemendur tæplega 600 og starfsmenn 70. Einar Sveinsson arkitekt teiknaði byggingu skólans og listamennirnir Barbara Árnason og Ásmundur Sveinsson komu að hönnun listaverka sem enn prýða skólann. Þegar kennsla hófst í Melaskóla 5. október 1946 tók hann við nemendum úr Skildinganesskóla sem hafði starfað á árunum 1926 til 1946 og sinnt börnum frá Skerjafirði og Grímsstaðaholti. Fyrsta árið sem kennt var í Melaskóla voru nemendur um 850 og kennarar 26. Árið 1999 var ný skólabygging tekin í notkun og þá varð skólinn jafnframt einsetinn. Thomas Nagel. Thomas Nagel (fæddur 4. júlí 1937) er bandarískur heimspekingur og prófessor í heimspeki og lögfræði við New York University. Hann fæst einkum við hugspeki, stjórnspeki og siðfræði. Nagel er þekktur fyrir gagnrýni sína á smættarefnishyggju í greininni „What Is it Like to Be a Bat?“ (1974). Hann er einnig þekktur fyrir framlag sitt í siðfræði og stjórnspeki. Í ritinu "The Possibility of Altruism" (1970) færði Nagel til að mynda rök fyrir því að fólk geti haft góða ástæðu til þess að gera góðverk án þess að eiga von á að hagnast sjálft og án þess að vera hrært af samúð. Ævi. Thomas Nagel var fæddur 4. júlí 1937 í Belgrad í Júgóslavíu (nú í Serbíu). Fjölskylda hans var gyðingtrúar. Hann hlaut B.A.-gráðu sína frá Cornell-háskóla árið 1958, B.Phil. gráðu frá Oxford-háskóla árið 1960 og doktorsgráðu frá Harvard-háskóla árið 1963 undir leiðsögn Johns Rawls. Nagel kenndi um hríð við Kaliforníuháskóla í Berkeley (1963-1966) og Princeton-háskóla (1966-1980). Heimspeki. Nagel hefur fengist mikið við togsteituna milli hin hlutlæga og hins huglæga sjónarhorns: um ástæður til athafna, um athafnir, um reynslu og veruleikann sem slíkan. Í hugspeki er hann þekktur málsvari þeirrar kenningar að meðvitund og upplifanir sé ekki hægt að smætta í heilaferli. Hann hefur, ásamt Bernard Williams, lagt mikið af mörkum til umræðunnar um siðferðilega heppni. Hugspeki. Ein frægasta grein Nagels er „What is it Like to Be a Bat?“. Greinin birtist upphaflega í "The Philosophical Review" árið 1974. Í greininni færir Nagel rök fyrir því að meðvitund hafi í eðli sínu "huglæg sérkenni" (e. „subjective character“), eins konar "hvernig það er" horf. Tenglar. Nagel, Thomas Nagel, Thomas Nagel, Thomas Staðreynd. Staðreynd er það sem er raunin. Hún er sú staða mála sem sönn staðhæfing (eða fullyrðing) lýsir. Eðli sambandsins milli sannra staðhæfinga og staðreynda er umfjöllunarefni málspeki og merkingarfræði. Staða mála. Staða mála er tæknilegt hugtak í heimspeki, einkum í málspeki, auk þess að vera hversdagslegt orðasamband í íslensku. Staða mála er eins og staðreynd nema hvað staðreynd verður að vera raunin en staða mála þarf ekki að vera raunin. Til dæmis er engin staðreynd sem fullyrðingin „fljúgandi hestar hneggja í kór“ en segja má að fullyrðingin vísi til stöðu mála sem er ekki fyrir hendi. Málgjörð. Málgjörð er tækniheiti í heimspeki og málvísindum. Málgjörð er það sem menn gera "með því að" segja eitthvað. Hugtakið á rætur að rekja til breska heimspekingsins Johns L. Austin en hjá heimspekingunum Peter F. Strawson og John Searle merkir það meira og minna það sem Austin nefndi talfólgna athöfn. Talfólgin athöfn er ein tegund málgjörðar. Önnur tegund málgjörðar er talvaldandi athöfn. Talfólgin athöfn. Dæmi um talfólgna athöfn er þegar einhver segir „Ég lofa að mæta á réttum tíma“. Munurinn á þessari setningu og setningunni „Ég er að sjóða kartöflur“ er sá að seinni setningin er lýsing á því sem viðkomandi er að gera og sú lýsing er annaðhvort rétt eða röng eftir því hvort viðkomandi er raunverulega að sjóða kartöflur eða ekki. Aftur á móti er setningin „Ég lofa að mæta á réttum tíma“ ekki einungis "lýsing" á "einhverri annarri athöfn" sem viðkomandi er að framkvæma, heldur er athöfnin sjálf framkvæmd með því að segja setninguna; maður gefur loforð "með því að segjast lofa". Talvaldandi athöfn. Talvaldandi athöfn er ekki innifalin í þeirri athöfn að segja setningu, líkt og talfólgin athöfn. Öllu heldur eru talvaldandi athafnir fólgnar í "áhrifunum" sem tal okkar hefur, til dæmis þegar einhver hræðir annan með tali sínu: maður hræðir venjulega ekki aðra með því að segja „Ég hræði þig!“, almennt hefur maður ekki áhrif á áheyrendur sína með því að segjast hafa áhrif á þá. Aftur á móti hefur fólk áhrif hvort á annað með tali sínu og áhrifin kallast talvaldandi athafnir. Enskur cocker spaniel. Enskur cocker spaniel er hundategund ættuð frá Spáni en þar var hann fyrst ræktaður á 14. öld. Hann hlaut viðurkenningu The English Kennel Klub árið 1892. Á 4. áratug 20. aldar var hann vinsælasta hundategund Bretlands. Einkenni. "Solid" (einlitur) er ríkjandi litur, og sá svarti er mest ríkjandi. Feldurinn þarfnast kembingar nokkrum sinnum í viku og klippingar 4-6 sinnum á ári. Huga þarf vel að eyrum og augum. Fiskifélag Íslands. Fiskifélag Íslands er íslenskt félag stofnað 20. febrúar 1911 til að efla sjávarútveg og verslun með sjávarafurðir á Íslandi. Félagið starfaði í Reykjavík til 2004 þegar það flutti til Akureyrar. Í dag er félagið fyrst og fremst sameiginlegur starfsvettvangur nokkurra aðildarfélaga. Fyrsti forseti Fiskifélagsins og heiðursfélagi þess var Hannes Hafliðason. Robert Hanssen. Robert Hanssen (f. 18. apríl 1944) er fyrrum alríkislögreglumaður frá Bandaríkjunum sem árið 2001 var dæmdur sekur um að hafa njósnað fyrir Sovétríkin og síðar Rússland. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á náðun. Bandaríska alríkislögreglan. Bandaríska alríkislögreglan (enska: "Federal Bureau of Investigation" - FBI) er alríkislögregla, leyniþjónusta og aðalrannsóknarlögregla bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Alríkislögreglan sér um rannsóknir á glæpum sem ná yfir fleiri fylki. Alríkislögreglan var stofnuð árið 1908 en núverandi nafn og hlutverk stofnunarinnar var mótað undir stjórn J. Edgar Hoover 1923 til 1972. Qasigiannguit. Qasigiannguit (á dönsku "Christianshåb") er byggðarlag á vestur Grænlandi við suðvesturströnd Diskó-flóa með um 1500 íbúum og er hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup. Til eru dæmi um að Qasigiannguit hafi verið nefnt "Kristjánsvon" á íslensku. Sögubrot. Grænlenska nafnið þýðir "litli flekkótti rostungurinn". Það var 1734 sem danski kaupmaðurinn Jacob Severin stofnaði verslunarstöð skammt sunnan við núverandi bæjarstæði og nefndi hana í höfuðið á Kristjáni VI Danakonungi. Severin hafði einkarétt á verslun við Grænlendinga fram til 1749. Árið 1739 kom til bardaga milli danskra og hollenskra kaupmanna við Qasigiannguit um verslunaryfirráð. Frá 1736 til 1740 starfaði trúboðinn Poul Egede í Christianhåb. Verslunarstaðurinn var fluttur á núverandi stað 1763 og má enn sjá rústir eftir upphaflegu verslunarstöðina. Atvinnulíf. Bæjarbúar vinna aðallega við fiskveiðar og fiskvinnslu. Það er einkum lúða og krabbar sem verkaðir eru. Fyrir utan fiskinn er talsverð og vaxandi ferðamennska mikilvæg atvinnugrein. Ranger 8. Ranger 8 var geimfar sem sent var til Tunglsins 17. febrúar 1965 og var ætlað að taka ljósmyndir í hárri upplausn af yfirborði Tunglsins rétt áður en það myndi brotlenda. Geimfarið náði Tunglinu 20. febrúar og brotlenti eins og gert hafði verið ráð fyrir. Síðustu 23 mínútur ferðarinnar sendi það 7.137 ljósmyndir til Jarðar. Krýsuvíkurbjarg. Krýsuvíkurbjarg er bjarg sem rís úr sjó í Krýsuvíkurhrauni á sunnanverðum Reykjanesskaga. Bjargið er langstærsta fuglabjarg skagans. Þar verpa um 60.000 fuglapör, mest rita en líka langvía, álka, stuttnefja og fýll, og eitthvað af lunda, toppskarf, silfurmáf og teistu. Áður fyrr var algengt að menn sigu í bjargið eftir eggjum og 1724 fórust þar þrír menn sem urðu fyrir grjóthruni. Efst á bjarginu er viti sem var reistur árið 1965. Við bjargið hafa orðið nokkrir skipsskaðar, eins og þegar "Steindór" GK strandaði þar 1991 og "Þorsteinn" GK 1998. Í báðum þessum tilvikum varð mannbjörg. Qeqertarsuaq. Bærinn Qeqertarsuaq Qeqertarsuaq eða Godhavn eins og bærinn heitir á dönsku (og var því nefndur Góðhöfn á íslensku) er um 1000 manna þorp á suðurströnd Bjarneyjar (eða Diskó-eyju) sem á grænlensku heitir sömuleiðis Qeqertarsuaq, og er á vestur Grænlandi. Grænlenska nafnið þýðir "Stór eyja". Bjarney er einnig stærsta eyja á Grænlandi, um 9700 km2. Qeqertarsuaq er hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup. Diskó-flói hefur verið ein aðalveiðistöð á Grænlandi frá því að menn fóru að flytjast þangað. Elstu fornminjar Diskó-eyju eru um 5000 ára gamlar og þar hefur fundist mikið af minjum frá hinum ýmsu tímum búsetu Inuíta og forvera þeirra. Grænlendingar hinir fornu höfðu eflaust oft viðkomu á Diskó-eyju enda í miðri Norðursetu. Líklegt er að "Bjarney" í fornum heimildum hafi einmitt verið Diskó-eyja. Þorpið Qeqertarsuaq var stofnað 1773 af hvalveiðimanninum Svend Sandgreen og kallaði hann staðinn Godhavn enda er hér mjög góð náttúruhöfn. Höfðu Evrópskir hvalveiðimenn aðstöðu hér fram á 19. öld. Hvalveiðar eru nú lítið stundaðar enda lítið eftir af þeim, þorpsbúar lifa aðallega á fiskveiði og fiskverkun auk selaveiða. Bæjaraland. Bæjaraland (eða Býjaraland) (þýska: "Freistaat Bayern", enska og latneska: "Bavaria") er syðsta sambandsland Þýskalands. Það er næstfjölmennasta sambandslandið með 12,4 milljón (á eftir Norðurrín-Vestfalíu). Höfuðborgin er München. Bæjaraland liggur að sambandslöndunum Baden-Württemberg í vestri, Hessen í norðvestri, Þýringalandi ("Thüringen") og Saxlandi ("Sachsen") í norðri. Auk þess á Bæjaraland landamæri að Tékklandi í norðaustri og Austurríki í suðri. Allra syðst eru Alpafjöll. Aðrar náttúru- og menningarperlur má nefna kastalann Neuschwanstein, skíðabæinn Garmisch-Partenkirchen, meginhluti Dónár innan Þýskalands, Zugspitze (hæsta fjall Þýskalands), miðaldabæinn Rothenburg ob der Tauber, o.m.fl. Orðsifjar. Orðið "Bayern" er upprunnið af hinum gallneska þjóðflokk bojara ("Bajuwaren") sem fluttust inn í héraðið frá Bæheimi eftir fall Rómaveldis. Brátt var héraðið kallað Baiern, en Lúðvík I konungur Bæjara lét breyta rithættinum í "Bayern" um 1833 er hann innleiddi bókstafinn y úr gríska stafrófinu (sonur hans var þá konungur Grikklands). Fánar og skjaldarmerki. Bæjaraland á sér tvö flögg. Blá-hvítu tíglarnir og blá-hvítu rendurnar. Það var Lúðvík I konungur Bæjaralands sem innleiddi þau bæði á 19. öld. Næstelsti sonur hans varð konungur Grikklands 1833 og þar eru þjóðarlitirnir blár og hvítur. Því ákvað hann að þetta skyldu einnig vera litir Bæjaralands. Skjaldarmerkið samanstendur af 6 táknum. Gullna ljónið sem er tákn fyrir Wittelsbach-ættina. Tindarnir þrír standa fyrir héröðin í Frankalandi. Bláa dýrið stendur fyrir kjarnasvæðið, Altbayern. Svörtu ljónin þrjú standa fyrir Sváfaland ("Schwaben"). Blá-hvítu tíglarnir standa fyrir Bæjaraland sem sambandsland. Loks er kórónan efst, en hún stendur fyrir frelsi fólksins eftir að konungdómurinn lagðist niður í Bæjaralandi 1918. Saga Bæjaralands. Suðurhluti landsins var hluti Rómaveldis til forna. Eftir fall Rómverja fluttust germanskir bajuvarar inn í héraðið og blönduðust leifum Rómverja og öðrum germönum. Héraðið var nefnt Bayern (Bæjaraland) eftir þeim. Bæjaraland var hluti af stórríki Karlamagnúsar og lenti í austasta ríkinu ("Austrien") er því var skipt og varð Bæjaraland hertogadæmi. Upp úr því myndaðist víðáttumikið landnám til austurs, inn í núverandi Austurríki, sem nefnt var Ostmark ("Ostarichi") og síðar Austurríki. Bayern er hertogadæmi til 1806 er Napoleon breytti því í konungsríki. Lúðvík I konungur gerði München að lista- og háskólaborg. Konungdómurinn lagðist niður 1918 eftir tapið í heimstyrjöldinni fyrri og breyttist í fríríki innan Weimar-lýðveldisins. Eftir seinni heimstyrjöldina hertóku Bandaríkjamenn landið og héldu því til 1949, er Bæjaraland varð hluti af nýstofnuðu sambandslýðveldi Þýskalands. Anna Nicole Smith. Vickie Lynn Hogan betur þekkt sem Anna Nicole Smith (28. nóvember 1967 – 8. febrúar 2007) var bandarísk fyrirsæta, raunveruleika stjarna í sjónvarpi, leikkona og kyntákn. Hún hlaut sínar fyrstu vinsældir þegar að hún sat fyrir nakin hjá Playboy, sem leiddi til þess að hún var valin leikfélagi ársins 1993. Hún varð þekkt sem fyrirsæta eftir að hún sat fyrir hjá vinsælum fatnaðar vörumerkjum þar á meðal Guess, Lane Bryant og H&M. Hún lék einnig í nokkrum kvikmyndum og var með sinn eiginn raunveruleikaþátt The Anna Nicole Show. Smith var fædd í Texas, þar sem að hún var alin upp af einstæðri móður sinni. Hún hætti í gagnfræðiskóla og stakk af frá móður sinni til þess að gifta sig aðeins 17 ára gömul. Annað hjónaband hennar við milljarðamæringinn J. Howard Marshall fékk mikla athygli fjölmiðla en hann var 63 árum eldri en hún og bundinn í hjólastól sem leiddi í vangaveltur um hvort að hún hefði gifst honum fyrir peningana sína. Eftir dauða hans, fór hún í gegnum langar deilur við fjölskyldu hans um hver ætti að erfa hann. Hún lést 39 ára gömul, eftir ofskammt af lyfseðliskyldum lyfjum. Í marga mánuði eftir andlát hennar stóðu deilur um hvar ætti að grafa hana og hver væri raunverulegur faðir nýfæddrar dóttur hennar, Dannielynn. Æska. Vickie Lynn Hogan fæddist þann 28. nóvember árið 1967 í Harris County í Texas fylki. Hún var einkabarn hjónanna Donald Eugene Hogan (fæddur 12. júlí 1947) og Virgie Mae Tabers (fædd 12. júlí 1951). Hún átti samt einn eldri hálfbróður David Luther Tucker, Jr. Foreldrar hennar giftu sig í febrúar 1967 en hjónabandið entist ekki lengi og þau skildu þann 4. nóvember 1969 þegar hún var aðeins tveggja ára gömul. Faðir hennar yfirgaf hana og giftist aftur seinna. Um leið og hún kláraði níunda bekk sendi móðir hennar hana til Mexia í Texas þar sem að frænka sín átti heima. Hún var glöð að vera laus frá móður sinni sem að flengdi hana oft. Hún hóf nám við Mexia High School en þegar hún var komin hálfleiðina í gegnum fyrsta árið sitt hætti hún og gerðist þjónustustúlka á veitingastað. Móðir hennar var óánægð með hana, en það skipti Vickie ekki máli. Á meðan hún vann á veitingastaðnum Jim's Krispy Fried Chicken hitti hún Billy Wayne Smith, 16 ára gamlan kokk. Þann 4. apríl 1985 giftust þau og ári seinna eignuðust þau soninn Daniel Wayne Smith. Árið 1987 slitu þau vinskap og hún fór með eins árs son sinn til Houston. Þau voru samt ekki löglega skilin fyrr en í Febrúar, 1993. Hún vann sem þjónustustúlka á nokkrum veitingastöðum áður en hún hóf ferill sinn sem strippari. Í október 1991 sá hún auglýsingu frá Playboy þar sem verið var að leita að ungum stúlkum til að sitja fyrir í blaðinu. Playboy-ferill. Árið 1992 hófst ferill hennar. Hugh Hefner sjálfur valdi hana til að vera á forsíðu mars útgáfu Playboy. Hún var kölluð Vickie Smith í blaðinu en valdi seinna sviðsnafnið Anna Nicole Smith. Í blaðinu sagði hún að henni dreymdi um að verða næsta Marilyn Monroe. Fyrr en varir var hún orðin ein af vinsælustu fyrirsætum Playboy þar sem að barmur hennar var mun stærri en aðra Playboy-fyrisætna. Árið 1993 var hún valin leikfélagi ársins af Playboy. Eftir að Anna var fyrst sýnd í Playboy slógust fataframleiðendur um að láta taka myndir af henni í fötunum þeirra. Anna skrifaði undir samning við Guess gallabuxna framleiðandann og tók við af Claudiu Schiffer sem fyrirsæta fyrirtækisins. Rétt fyrir jól árið 1993 voru líka teknar myndir af henni fyrir sænska fataframleiðandann H&M þar sem að hún auglýsti nærföt. Hún birtist á stórum auglýsingaskiltum í Svíþjóð og Noregi. Bandaríska tímaritið New York birti mynd af henni á forsíðu blaðsins 22. ágúst 1994 þar sem að fyrirsögnin var „White Trash Nation“. Á myndini var hún klædd í stutt kúrekaföt og borðaði flögur. Tveimur mánuðum seinna, í október 1994, kærði hún blaðið og heimtaði $5.000.000 (um 600 milljón íslenskar krónur) í skaðabætur. Lögmaður Smith sagði að henni hafði verið sagt að hún ætti að vera ímynd bandaríska kvenna. Seinna sagði hann að þessi mynd hefði verið tekin bara til gamans eftir að myndatakan var búin. Anna og J. Howard Marshall. Á meðan hún var ennþá bara strippari árið 1991 kynntist hún gömlum milljónamæring, J. Howard Marshall. Þau hófu samband eftir það. Marshall var þegar giftur og átti hjákonu þegar að hann kynntist Önnu. Eftir að kona hans og hjákona dóu báðar þá leitaði hann oftar til Önnu. Þau urðu mjög góðir vinir og hann bað hennar oft en hún hafnaði honum alltaf. Árið 1993 skildi hún löglega við fyrrverandi eiginmann sinn og aðeins ári seinna var hún gift hinum 89 ára gamla J. Howard Marshall. Fjölmiðlarnir rifu hana í tætlur í blöðunum og kjaftasögur um að hún hafi bara gifst honum fyrir peningana fóru um. Anna bjó samt aldrei með Marshall en hún sagði að hún elskaði eiginmann sinn. Þrettán mánuðum eftir giftinguna lést Marshall. Arfurinn. Aðeins nokkrum vikum eftir að Marshall dó fóru Anna og fóstursonur hennar(sem var 28 árum eldri en hún) að deila um hver skyldi fá arfinn. Hinn sonur Marshalls J.Howard Marshall III krafðist líka hluta af arfinum en nafn hans hafði ekki verið á erfðarskránni. Smith sagði að Marshall hafi lofað henni helming af húsinu sínu ef að hún giftist honum. Deilur um arf eiginmanns hennar héldu áfram þangað til að hún dó. Kvikmynda- og sjónvarpsferill. Anna Nicole átti erfitt með að gleðja gagnrýnendurna með leik sínum. Hún hreppti Razzie-verðlaunin árið 1995 sem versta nýja kvikmyndastjarna ársins. Sama ár lék hún aðalhlutverkið í myndinni To the limit þar sem að hún leikur spæjara sem að reynir að hefna fyrir morð eiginmanns síns. Árið 1997 framleiddi hún og lék aðalhlutverkið í myndinni Skyscraper. Myndin fjallaði um þyrluflugmann sem að neyðist til að lenda á skýjakljúfri og finnur síðan út að byggingin er hertekin af erlendum hryðjuverkamönnum. Leikur hennar í báðum myndum var harðlega dæmdur og spjallþáttarstjórnendur rifu hana í tætlur í þáttum sínum. Á sama tíma var Anna enn þá að rífast við fjölskyldu fyrrverandi eiginmanns síns um húsið hans. Árið 2002 fékk hún sinn eigin raunveruleikaþátt þar sem að áhorfendur E! stöðvarinnar fengu að fylgjast með lífi hennar. 26 þættir voru framleiddir. Árið 2003 lék Anna sig sjálfa í myndinni Wasabi Tuna sem fjallaði um nokkra unglinga sem ræna hundinum hennar, Sugar-Pie, á hrekkjavöku. Anna kom líka fram í myndinni Be Cool með John Travolta og Uma Thurman. Síðasta mynd Önnu var Illegal Aliens sem fjallaði um geimverur sem umbreyta sér í kynbombur til þess að bjarga jörðinni. Anna skrifaði bæði handritið og lék aðalhlutverkið en myndinn fór aldrei í bíó. Dannielynn. Þann 1. júní,2006 lét Anna Nicole Smith heiminn vita að hún væri ólétt með sitt annað barn. Í myndbandi á vefsvæði sínu sagði hún að hún vildi binda enda á alla orðrómana um hvort hún væri ólétt eða ekki. Fjórum mánuðum seinna, þann 7. september, 2006, fæddist dóttirin Dannielynn Hope Marshall Stern á Bahamaeyjum. Á fæðingarvottorði hennar var Howard K. Stern skráður faðir en eftir dauða Önnu hófst rifrildi á milli hans og Larry Birkhead. Ekki fyrr en rétt eftir fæðingu dótturinnar kom það í ljós hver faðirinn var. Lögfræðingur Önnu, Howard K. Stern, sagði að hann og hún hefðu átt í leynilegu sambandi í langan tíma. Faðernispróf var gert til þess að greiða úr ágreiningnum og niðurstaðan úr prófinu var að Larry Birkhead væri réttmætur faðir barnsins. Anna deyr. Þann 8. febrúar 2007 fannst Anna meðvitundarlaus í hótelherbergi nr. 607 á hóteli í Flórída. Hún var flutt inn á spítala og lést um nóttina þá 39 ára gömul. Margar lífgunartilraunir voru gerðar en þær báru engan árangur. Síðasti maður sem sá Önnu lifandi var lífvörður hennar Big Moe. Hann var yfirheyrður af lögreglu og sagði að Anna hafi verið mjög ringluð en hún var á sýklalyfjum og öðrum lyfjum því að hún var slöpp. „Hún tók bara lyfin sem Howard lét hana fá“ sagði hann. Marga grunar að Howard beri ábyrgð á dauða Önnu. Síðar var það staðfest að Anna hefði dáið úr of stórum lyfjaskammti. Vegna ljóskuímyndar hennar og lífernis var dauða hennar líkt við andlát Marilyn Monroe. Gröfin. Miklar deilur urðu um hvar ætti að grafa Önnu. Móðir Önnu sem hafði ekki séð dóttur sína í tólf ár vildi grafa hana í Houston heimabæ hennar en kærasti Önnu Howard K. Stern vildi grafa hana í Bahamaeyjum við hlið Daniels. Anna hafði keypt svæði við hliðina á gröf sonar síns. Það mátti sjá blika tár á hvarmi dómara þegar hann ákvað að Anna yrði jörðuð á Bahama eyjum. Móðir Önnu sagði að Howard væri að reyna að græða á þessu. Anna var jörðuð 2. mars 2007 tuttugu og tveim dögum eftir að hún lést. Orsök dauða voru sögð mörg. Anna hafði auglýst megrunarduft og hafði misst 30 kíló á stuttum tíma. Mikið af ferðamönnum fóru að heimsækja gröf Önnu og því voru ráðnir öryggisverðir til að gæta gröf hennar. Kvikmyndir. Þær myndir sem Anna lék í og nöfn persónanna. Sjónvarpsþættir. Þeir þættir sem Anna kom fram í, lék aukahlutverk og nöfn persónanna.(- er nafn þáttarins) Tenglar. Smith, Anna Nicole Smith, Anna Nicole Lindsay Lohan. Lindsay Dee Lohan (f. 2. júlí 1986 í New York) er bandarísk leikkona. Hún hefur notið mikilla vinsælda bæði í Bandaríkjunum og út um allan heim. Hún er líka söngkona og hefur gefið út tvær plötur. Ævi. Lindsay Dee Lohan fæddist 2. júlí 1986. Hún á þrjú systkyni sem heita Aliana, Dakota og Michael. Foreldrar hennar eru Dina og Michael Lohan en faðir hennar var í fangelsi en slapp snemma á árinu 2007. Lindsay söng dramatískt lag til föður síns sem bar nafnið Confessions of a broken heart. Hún bjó í New York þangað til að hún byrjaði að leika og flutti þá til Hollywood. Hún hóf ferilin snemma og hefur verið í bransanum frá þriggja ára aldri. Ferill. Lindsay var ráðinn til Ford Models þegar hún var aðeins þriggja ára gömul, þar sem hún kom meðal annars fram í auglýsingum fyrir Calvin Klein Kids. Níu ára lék hún í sápuóperunni "Another World" og lék í þeim þáttum til ársins 1996. Sápan hafði verið í gangi frá árinu 1964 og endaði árið 1999 þegar Lohan hætti. Hún fór í áheyrnapróf fyrir Disneymyndina "The Parent Trap" árið 1998 og fékk tvö hlutverk. Hún átti að leika aðalhlutverkin sem voru tvíbursysturnar Hallie og Annie. Þá aðeins 12 ára gömul. Árið 2000 lék hún aðalhlutverk í myndinni "Life-Size" ásamt fyrirsætunni Tyru Banks og byrjaði að leika í þáttum sem hétu "Bette" sem fjölluðu um ævi Bette Midler. Það voru aðeins gerðir 18 þættir. Árið 2002 lék hún Lexy Gold í myndinni "Get a Clue". Hún hefur haldið áfram og áfram að leika í kvikmyndum og árið 2003 lék hún á móti stórstjörnunni Jamie Lee Curtis í myndinni Freaky Friday. Frá árinu 2004 til ársins 2006 hefur hún leikið í myndum til dæmis "Mean Girls", "Just my luck", "A Prairie Home Companion" og "Herbie Fully Loaded" sem fengu misgóða dóma hjá gagngrýnendum. Verst af myndunum sem hún lék í á þessum árum hlýtur að hafa verið "Confessions of a Teenage Drama Queen" árið 2004. Sú mynd var á topp tíu lista yfir verstu myndir ársins 2004. Lindsay hefur verið í uppáhaldi hjá kvikmyndafyrirtækinu Walt Disney og sex af tólf kvikmyndum sem hún hefur leikið í hafa verið gerðar af þeim. Árið 2006 hætti hún að leika í barna- og unglingamyndum og byrjaði að leika í glæpa-, spennu- og dramamyndum. Piaseczno. Piaseczno er borg við fljótið Jeziorka í miðhluta Póllands. Íbúar voru 35.665 árið 2004. American Idol. "American Idol" ("Bandaríska Stjörnuleitin") er sjónvarpskeppni þar sem leitað er að nýrri söngstjörnu. Þátturinn var búinn til af Simon Fuller sem afbrigði af breska þættinum "Pop Idol" sem var sýnt 2001-2003. Þann 11. júní 2002 fór "American Idol: The Search For a Superstar" í loftið á FOX-sjónvarpstöðinni og er hann orðinn einn vinsælasti þátturinn í sögu bandarísks sjónvarps. Hann er með hæstu áhorfendatölurnar og er eini þátturinn sem hefur náð þeim árangri sex ár í röð. Þátturinn leitar að besta söngvara landsins í gegnum raðir áheyrnaprufa sem eru haldnar um allt land og síðan velur almenningur sigurvegarann. Í gegnum SMS skilaboð og símhringingar hafa áhorfendur valið fyrrum sigurvegara Kelly Clarkson, Ruben Studdard, Fantasiu Barrino, Carrie Underwood, Taylor Hicks, Jordin Sparks, David Cook, Kris Allen og Lee DeWyze. Sá hópur sem má taka þátt er á aldrinum 16-28 ára. Aldurstakmarkið var 24 ár í fyrstu þremur þáttaröðunum. Í þáttunum starfar dómnefnd sem gagnrýnir frammistöður keppendanna: Grammy-verðlaunahafinn, plötuframleiðandinn og umboðsmaður í tónlistarbransanum Randy Jackson og verðlaunahafinn tónlistarframleiðandi og umboðsmaðurinn Simon Cowell hafa verið dómarar öll árin. Grammy- og Emmy-verðlaunahafinn, poppsöngkonan og danshöfundurinn Paula Abdul var dómari í þáttunum fyrstu átta árin. Í upphafi voru aðeins þrír dómarar en söngkonan, lagahöfundurinn og plötuframleiðandinn Kara DioGuardi var bætt við sem fjórða dómaranum í áttundu þáttaröðinni. Þann 9. september 2009 var staðfest að Emmy-verðlaunahafinn og þáttastjórnandinn Ellen DeGeneres myndi taka stað Paulu Abdul í dómnefndinni í 9. þáttaröðinni. Samningar hafa verið endurnýjaðir við þáttinn næstu þrjú árin. 11. janúar 2010 tilkynnti Simon Cowell að hann myndi yfirgefa þættina til að láta reyna á bandarísku útgáfu X Factor þáttanna árið 2011. Ryan Seacrest hefur verið kynnir þáttanna frá upphafi. Fyrsta árið var grínistinn Brian Dunkleman einnig kynnir. Rickey Minor stýrir "American Idol" hljómsveitinni. Entertainment Weekly setti þáttinn á "í-lok-áratugarins" listann sinn og sagði "Hann hefur gefið okkur Kelly, Carrie, Daughtry og J. Hud. Idol er besti raunveruleikaþátturinn vegna þess að hann er sigurvegari áhorfendakannana FOX og honum er haldið uppi af frábærleika. Og Taylor Hicks? Hann er undantekningin sem sannar regluna." Lee DeWyze vann 9. þáttaröðina (þá nýjustu). Hann vann í málningavörubúð í Chicago. Crystal Bowersox, einstæð móðir, hafnaði í öðru sætinu. Fyrir-prufur. Áður en keppendurnir fá að sjá dómara þáttarins, þarf að fara í gegnum tvo niðurskurði. Sá fyrsti er áheyrnarprufa með þremur öðrum keppendum fyrir framan einn eða tvo framleiðendur þáttanna. Keppendurnir eru annaðhvort sendir áfram í næstu prufu með framleiðendum eða beðnir að yfirgefa staðinn. Mörg þúsund manns fara í áheyrnarprufur, en aðeins 100-200 fá að fara áfram í næstu umferð. Þeir keppendur sem komast í gegnum báðar umferðirnar koma fram fyrir dómarana fjóra sem ákveða hvort að keppandinn fari til Hollywood eða ekki. Hollywood. Þegar komið er til Hollywood koma keppendurnir fram á mismunandi dögum, sem innihalda niðurskurð með dómurunum á hverjum degi. Í fyrstu 6 þáttaröðunum áttu keppendur að velja lag af lista til að syngja í fyrstu umferðinni. Í næstu umferð er keppendunum skipt í litla hópa og eiga þeir að syngja lag saman. Í síðustu umferðinni eiga keppendur að syngja lag að eigin vali án undirleiks. Í sjöundu þáttaröðini var áheyrnarprufunum í Hollywood breytt og var anarri umferðinni breytt. Í staðinn sungu keppendur einir fyrsta daginn. Ef dómurunum fannst keppandinn vera framúrskarandi fór hann beint í lokaumferðina; annars hafði keppandinn eitt tækifæri í viðbót til þess að heilla dómarana áður en síðasta umferðin fór fram. Í fyrsta skipti höfðu keppendur þann möguleika að spila undir þegar þeir voru að syngja. Þáttaraðir 1-3. Í fyrstu þremur þáttaröðunum voru keppendunum sem komust í gegnum Hollywood skipt af handahófi niður í hópa. Hver keppandi átti að syngja á því kvöldi sem hópurinn hans keppti. Í þáttaröð 1 voru hóparnir þríf og efstu þrír keppendurnir í hverjum hóp komust í úrslitin. Í þáttaröðum 2 og 3 voru fjórir hópar og efstu tveir keppendurnir fóru í úrslitin. Fyrstu þrjár þáttaraðirnar innihéldu aukaþátt (e."wildcard show"). Keppendum sem tókst ekki að komast í úrslitin í sínum hóp var boðið að koma og syngja aftur og reyna að komast í úrslitin. Í þáttaröð 1 voru keppendurnir í aukaþáttinn valdir af dómurum. En í þáttaröðum 2 og 3, valdi hver dómari einn keppenda og almenningur valdi þann fjórða. Í annarri þáttaröðinni voru nokkrir útvaldir sem komust ekki í gegnum undanúrslitin voru valdir af dómurunum og fengu að keppa aftur. Í þriðju þáttaröðinni útilokuðu dómararnir fjóra keppendur í aukaþættinum áður en þeir fengu að syngja. Þáttaraðir 4-7. Í þessum þáttaröðum var skorið niður í 24 keppendur sem var kynjaskipt til þess að hlutfall milli kynjanna væri jafnt í úrslitunum. Karlarnir og konurnar sungu sitthvort kvöldið og tveir neðstu keppendurnir voru sendir úr leik, þangað til aðeins sex voru eftir í hvorum hóp. Þáttaröð 8. Í seríu átta, voru keppendurnir í undanúrslitum 36. Á þremur þriðjudagskvöldum (mánudagar á Íslandi) komu fram 12 keppendur á hverju kvöldi. Þrír hæstu keppendurnir - einn karl, ein kona og sá næsthæsti komust áfram. Aukaþátturinn var enn á sínum stað og dómararnir völdu 3 keppendur sem höfðu ekki komist áfram í úrslitin. En þau völdu fjóra aukakeppendur þetta árið í staðinn fyrir þrjá og urðu úrslitakeppendurnir 13 en ekki 12. Úrslit. Úrslitin eru send beint út á CBS stöðinni í Los Angeles fyrir framan áhorfendur. Úrslitin stóðu í átta vikur í fyrstu þáttaröðinni og ellefu vikur í þáttaröðunum eftir það. Hver keppandi flytur lag eða lög í samræmi við þema vikunnar. Í fyrstu vikunum syngur hver keppandi aðeins eitt lag. Efstu fjórir og fimm keppendurnir syngja tvö lög. Efstu 3 syngja svo 3 lög hver. Þemun eru byggð á tónlistarstefnum - lög ákveðinna flytjenda, efstu lög Billboard listans. Þemun hafa verið á borð við Motown, Disco og Big-Band, en einnig hafa verið lög eftir Michael Jackson, Bítlana, Gloriu Estefan, Elton John, Andrew Lloyd Webber, Dolly Parton og Elvis Presley. Keppendur fá oftast frægan leiðbeinanda sem tengist þema hverrar viku. Eftir hvern söngþátt er úrslitaþáttur þar sem kemur fram kosning þjóðarinnar. Vinsælustu keppendurnir eru ekki nefndir, þó það hafi stundum gerst. Þrír neðstu (tveir þegar líður á keppnina) keppendurnir (sem fengu fæst atkvæði) eru kallaðir fram á sviðið. Úr þremur neðstu er einn sendur aftur til baka svo að tveir keppendur standa eftir og að lokum er sá sem fékk fæstu atkvæðin sendur heim. Í áttundu seríunni höfðu dómararnir þann möguleika að geta bjargað einum keppenda frá því að fara heim, ef þeim fannst að þjóðin hefði gert mistök. Ef þau komust að einhljóma niðustöðu var hægt að bjarga keppendanum, en vikuna eftir þurfti þá að senda tvo keppendur heim. Þegar fimm keppendur eru eftir er ekki hægt að bjarga þeim lengur. Þegar keppandi er sendur heim, er sýnt stutt myndband sem sýnir reynslu og sögu hans í keppninni og eftir það syngur hann í síðasta sinn. Í lokaþættinum, koma tveir síðustu keppendurnir fram og er einn krýndur sigurvegari. Sigurvegarinn er krýndur í úrslitaþættinum. Sigurvegarinn fær eina milljón dollara og plötusamning í verðlaun. Í sumum tilfellum hefur keppandinn einnig fengið samning hjá umboðsskrifstofu og fengið plötusamninga við stór fyrirtæki. Yfirlit. FOX, ásamt öðrum stöðvum höfðu áður neitað American Idol. En Rupert Murdoch, yfirmaður FOX var fenginn til þess að kaupa þáttinn vegna þess að dóttur hans, Elisabeth, fannst breska útgáfan svo skemmtileg. Fúli og harðskeytti dómarinn Simon Cowell hefur gert þáttinn einstakann. Þátturinn hóf nýlega göngu sína í níunda skiptið. Fyrsta þáttaröð. Fyrsta þáttaröðin af American Idol var sumarþáttur í júní 2002 á FOX. Kynnar þáttarins voru "Ryan Seacrest" og "Brian Dunkleman". Þátturinn stóð í 13 vikur frá júní fram í september. Það var reiknað út að um 50 milljónir manns horfðu á úrslitaþáttinn í september 2002. Sigurvegarinn, Kelly Clarkson, skrifaði undir samning við RCA plötuútgáfuna. Stuttu seinna gaf Clarkson út tvær smásífur, önnur með keppnislaginu "A Moment Like This". Síðan hefur Clarkson gefið út 4 plötur - Thankful, Breakaway, My December og All I Ever Wanted og hafa þær allar notið mikilla vinsælda. Clarkson er fyrsti keppandinn sem vinnur Grammy-verðlaun og hefur unnið fjölmörg önnur verðlaun og selt yfir 20 milljónir platna. Justin Guarini sem lenti í öðru sæti skrifaði einnig undir samning við RCA plötuútgáfuna og gaf út plötu árið 2003 eftir lok þáttaraðar 2. RCA rifti samningum við hann eftir útgáfu plötunnar. Aðrir keppendur þáttaraðarinnar hafa ekki orðið frægir fyrir söng. Önnur þáttaröð. Eftir miklar vinsældir fyrstu þáttarðar var sýningum 2. þáttaraðar flýtt og fór hún af stað í janúar 2003. Þættirnir voru fleiri og fékk þátturinn meira fjármagn og fleiri auglýsingahlé. Dunkleman yfirgaf þáttinn og varð Seacrest eini kynnirinn. Kristin Holt átti að verða meðkynnir Seacrest en það gekk til baka og hún fékk annað hlutverk í þáttunum. Í þetta skiptið stóð Ruben Studdard uppi sem sigurvegari og varð Clay Aiken í öðru sætinu. Úr 24 milljónum atkvæða var Studdard 130.000 atkvæðum hærri en Aiken. Það var umræða uppi í samksiptabransanum að símakerfið hafi farið yfir um og að meira en 150 milljón atkvæði höfðu ekki verið tekin gild og gerði það atkvæðagreiðsluna grunsamlega. Síðan þá hefur atkvæðagreiðslunni verið breytt til þess að forðast þetta vandamál. Í viðtali fyrir 5. þáttaröðina, sagði aðalframleiðandinn Nigel Lythgoe að Aiken hefði verið efstur á lista aðdáenda síðan í wildcard þættinum (aukaþáttur) alveg fram að úrslitunum. Aiken varð fyrsti keppandinn sem hafði ekki unnið sem átti smáskífu í efsta sæti á Billboard listanum og það smáskífan "This Is the Night". Til viðbótar við Studdard og Aiken hafa Kimberley Locke (3. sæti), Josh Gracin (4. sæti) og Carmen Rasmusen (6. sæti) skrifað undir plötusamninga hjá mismunandi útgáfufyrirtækjum. Þátturinn varð umdeildur þegar keppandinn Frenchie Davis var felld úr keppni vegna þess að nektarmyndir af henni höfðu gengið manna á milli á netinu. Stuttu eftir það fékk hún hlutverk á Broadway í söngleiknum "Rent" og hefur unnið á Broadway síðan. Árið 2005 gaf keppandinn Corey Clark (sem var rekinn úr keppni fyrir að hafa ekki skilað lögregluskýrslu) til kynna að hann og dómarinn Paula Abdul hefðu átt í sambandi á meðan hann keppti í þáttunum. Clark sagði einnig að Abdul hafi gefið honum sérstaka meðferð í þáttunum vegna sambands þeirra. Rannsókn á málinu fór í gang og tilkynnti FOX sjónvarpsstöðin að ekki væru til sannanir fyrir því að samband á milli þeirra hafi nokkurn tímann átt sér stað. Þriðja þáttaröð. Þriðja þáttaröðin fór í loftið 19. janúar 2004. Við lok þáttaraðarinnar hafði stöðin hagnast um meira en 260 milljónir dollara. Sigurvegarinn var Fantasia Barrino, seinna þekkt sem Fantasia, og var Diana DeGarmo í öðru sæti. Þriðja þáttaröðin var einnig sýnd í Ástralíu á stöð 10 um það bil hálfri viku eftir að þættirnir voru sýndir í Bandaríkjunum. Í maí 2005 var tilkynnt um að þriðja þáttaröðin hafði alls tekið á móti 360 milljón atkvæðum. Í fyrrihluta seríunnar var í keppninni maður að nafni William Hung, nemandi í Kaliforníuháskóla í Berkeley og fékk hann mikla athygli út á sína útgáfu af laginu „She Bangs“ með Ricky Martin. Frammistaða hans og jákvætt viðhorf hans á dóma frá Simon Cowell gaf honum plötusamning og þénaði hann yfir 500.000 dali í plötusölu. Á meðan þáttaröðinni stóð varð gildi keppninnar umdeild þegar rokkarinn Jon Peter Lewis og John Stevens héldu áfram í keppninni á meðan keppendur eins og Jennifer Hudson duttu út. Þrátt fyrir neikvæða dóma frá Simon, náði Jasmine Trias þriðja sætinu af LaToyu London sem hafnaði í fjórða sæti. Yfir 65 milljón atkvæði voru greidd á úrslitakvöldina, fleiri en í fyrstu tveimur seríunum samanlagt. Fantasia var krýnd sigurvegari og gaf hún út fyrstu smáskífuna sín í júní 2004. Skífan náði fyrsta sæti á Billboard listanum og hélt hún því sæti í eina viku. Smáskífa Fanatsiu, "I Believe" hefur náð þrefaldri platínusölu og fengið þrenn Billboard tónlistarverðlaun. DeGarmo fékk einnig plötusamning. En eftir að platan hennar kom út seldist hún illa og var samningnum rift. Síðan þá, hefur Diana leikið ýmis hlutverk á Broadway. Til viðbótar við Fantasiu og Diönu DeGarmo, hafa Jasmine Trias, LaToya London, George Huff, Jennifer Hudson og Camile Velasco gefið út plötur. Hudson fékk mikla athygli eftir að hún lék í kvikmyndinni Dreamgirls (sem hún vann Óskarsverðlaun fyrir), hún hefur einnig leikið í "Sex and the City: The Movie" og "The Secret Life of Bees". Fjórða þáttaröð. Fjórða þáttaröðin for í loftið 18. janúar 2005. Hámarksaldurinn var hækkaður í 28 ára til þess að auka fjölbreytni keppenda. Meðal þeirra sem högnuðust á þessari nýju reglu voru Constantine Maroulis og Bo Bice, sem eru talin hafa verið elstu og reyndustu keppendur þáttaraðarinnar. Ryan Seacrest var líka duglegur að nefna þau og kallaði þau oft í fjölmiðlum "rokkarana tvo", þar sem síða hárið og val á rokklögum varð til þess að þau stóðu út úr. Þetta varð til þess að hvetja rokkara til að taka þátt í keppninni og hélt það áfram með Chris Daughtry í fimmtu þáttaröðinni sem var innblásinn af Bo Bice. Í maí 2005 tilkynnti Telescope að fjórða þáttaröðin hefði alls fengið 500 milljónir atkvæða. Í þáttaröðinni voru kynntar til leiks nýjar reglur fyrir lokahluta keppninnar. Í staðinn fyrir að keppa í undanúrslitum þar sem tveir stigahæstu söngvararnir færu í úrslitin, voru valdir 24 keppendur; 12 karlar og 12 konur, sem kepptu ekki saman, þar sem tveir af hverju kyni voru sendur heim í hverri viku, þar til 12 lokakeppendur voru eftir. Þetta var til að koma í veg fyrir að aðstæður eins og í 3 þáttaröð myndu skapast en þá voru átta konur og aðeins fjórir karlar í úrslitakeppninni. Sigurvegarinn var Carrie Underwood, kántrísöngkona. Fyrsta smáskífan hennar, "Inside Your Heaven" náði fyrsta sæti Billboard-listans þann 14. júní 2005 og seldist í 170.000 eintökum í fyrstu vikunni. Einni viku seinna, sendi Bo Bice, sem lenti í öðru sæti, frá sér sýna útgáfu af laginu, sem lenti í öðru sæti. 15. nóvember 2005 gaf Carrie út sína fyrstu sólóplötu, "Some Hearts", sem náði mjög miklum vinsældum. Platan varð sjöföld platínumplata og varð söluhæsta American Idol platan. 11. febrúar 2007 varð Carrie annar American Idol sigurvegarinn til þess að hirða þrjú stærstu tónlistarverðlaunin (American Music, Billboard og Grammy Verðlaunin) í einni runu (2006-2007) en Kelly Clarkson var sú fyrsta (2005-2006). Hún er orðin ein af tekjuhæstu keppendum þáttarins og hefur selt yfir 10,5 milljónir platna í Bandaríkjunum. Fimmta þáttaröð. Fimmta þáttaröð American Idol byrjaði 17. janúar 2006 og var þetta fyrsta þáttaröðin sem var send út í háum gæðum. Þetta er vinsælasta þáttaröðin hingað til. Áheyrnaprufur voru haldnar í Austin, Boston, Chicago, Denver og San Francisco og svo bættust við Greensboro, Norður-Karólína og Las Vegas við eftir að hætt var við prufuna í Memphis eftir fellibylinn "Katrínu". Sömu reglur voru og í þáttaröð 4. Taylor Hicks var krýndur sigurvegari 24. maí 2006; og var hann fjórði keppandinn sem aldrei var meðal þriggja neðstu. Fyrsta smáskífan hans, "Do I Make You Proud", náði miklum vinsældum og varð gullskífa. Platan hans, "Taylor Hicks" hefur selst í 703.000 eintökum. Önnur sólóplatan hans, "The Distance" kom út 10. mars 2009 hjá hans eigin útgáfufyrirtæki, Moden Whomp Records. 30. maí 2006 tilkynnti Telescope að alls hafði verið kosið 63,5 milljón sinnum í lokaþættinum. Í allri þáttaröðinni höfðu safnast 580 atkvæði. Taylor Hicks er annar sigurvegari þáttanna frá borginni Birmingham í Alabama (sá fyrsti var Ruben Studdard) og fjórði úrslitakeppandinn sem sterk tengsl til borgarinnar. Vinsælasti keppandinn Chris Daughtry sem lenti í fjóra sæti og er núna söngvari hljómsveitarinnar Daughtry. Fyrsta platan hans seldist í yfir 5 milljónum eintaka og tók hann þá fram úr bæði Ruben Studdard og Fantasiu sem höfðu átt tvær plötur og tíu smáskífur. Platan var í tvær vikur í efsta sæti á bandaríska listanum. Sjötta þáttaröð. Í janúar 2007 hóf þátturinn göngu sína í sjötta skiptið. Alls horfðu 37,7 milljónir manna á fyrsta þáttinn og horfðu 41 milljón manna á síðasta hálftíma þáttarins. Jordin Sparks var krýnd sigurvegari keppninnar þann 23. maí 2007 og voru alls 74 milljónir atkvæða og lenti Blake Lewis í öðru sæti. Unglingurinn Sanjaya Malakar var mest umtalaðasti keppandi þáttaraðarinnar og hélt hann áfram að komast í gegnum hinn vikulega niðurskurð. Netbloggið "Kjósum þann versta" hvatti menn til að kjósa Sanjaya. Hann datt svo út 18. apríl eftir yfir 38 milljónir atkvæða. Söngvararnir í efstu sex sætunum sungu hjartnæma tónlist þegar "Idol Gives Back" fór í gang í fyrsta skipti og safnaði átakið meira en 60 milljónum dala. Þegar Ryan Seacrest var að fara að reka Jordin Sparks úr þættinum sagði hann að það væri góðgerðarvika og enginn keppandi dytti út og voru atkvæðin frá þeirri viku og næstu lögð saman og duttu tveir söngvarar út. Sjöunda þáttaröð. American Idol sneri aftur í sjöundu þáttaröðinni þann 15. janúar 2008 í tveggja daga, fjögurra tíma þætti. David Cook var krýndur sigurvegari þáttaraðarinnar 21. maí 2008 og átti 56% af 97,5 milljónum atkvæða. Hann er þekktur fyrir sínar rokk útgáfur af lögum en hann útsetti flest þeirra sjálfur og var David fyrsti "rokkarinn" til að vinna keppnina. Áður en þáttaröðin fór í loftið, viðurkenndi framleiðandinn Nigel Lythgoe að þáttaröð 6 hafði einbeitt sér meira að gestakennurunum en keppendunum. Breytingar á því væru áætlaðar í þessari seríu og átti athyglin að færast aftur yfir á keppendurna og upplýsa meira um bakgrunn þeirra og fjölskyldur. Til viðbótar við að byrja með Hollywood-umferðina, máttu keppendur spila á hljóðfæri. Þetta árið gengur David Archuleta og David Cook til liðs við Kelly Clarkson, Clay Aiken, Carrie Underwood, Taylor Hicks og Jordin Sparks þegar þeir voru úrslitakeppendurnir sem hafa aldrei lent í þremur eða tveimur neðstu. Þetta var í fyrsta skipti sem hvorugur keppandinn hafði aldrei verið einn af þremur neðstu. Áttunda þáttaröð. Áttunda þáttaröð American Idol byrjaði 13. janúar 2009. Áheyrnaprufur byrjuðu 17. júlí árið áður. Í þessari þáttaröð voru færri þættir sem tengdust áheyrnaprufunum. Þá var kynntur til leiks fjórði dómarinn: plötuframleiðandinn, söngkonan og lagasmiðurinn Kara DioGuardi. Einnig var þetta síðasta ár Paulu Abdul sem dómari í þættinum. Eftir að FOX og framleiðendur þáttarins höfðu lofað breytingum hætti Nigel Lythgoe sem aðalframleiðandi þáttarins til að einbeita sér frekar að So You Think You Can Dance. Það var einnig tilkynnt um það að "Idol Gives Back" myndi ekki snúa aftur vegna efnahagskreppunnar. Til viðbótar við það var Hollywood-lotan færð í Kodak leikhúsið og var lengd í tvær vikur. Núna voru í fyrsta skiptið 36 undanúrslitakeppendur þar sem 12 kepptu í hvert skipti. Karlinn og konan auk þess keppanda sem var næstur í röðinni með flest atkvæðin fengu að halda áfram í topp 13. Í þessari þáttaröð var einnig "Wild Card" umferð sem síðast var notuð í 3. þáttaröð. Dómararnir völdu átta útslegna keppendur. Planið var að velja þrjá af þeim til að halda áfram í úrslitin. En þegar kom að því að velja völdu dómararnir fjóra keppendur í stað þriggja. Önnur breyting var neitunarvald dómnefndarinnar, þar sem hún getur neitað að senda einn keppenda heim þar til kemur í fimm manna úrslitin. Þetta var kallað "björgun dómnefndar". Sigurvegarinn var Kris Allen frá Arkansas. Til viðbótar við Allen fengu Adam Lambert, Danny Gokey, Allison Iraheta, Lil' Rounds og Michael Sarver öll plötusamninga. Níunda þáttaröð. Níunda þáttaröð American Idol fór af stað þann 12. janúar 2010. Áheyrnaprufur byrjuðu 14. júní árið áður, minna en mánuði eftir að áttunda þáttaröðin kláraðist. Ellen DeGeneres gekk til liðs við dómnefndina, en hún kom í stað Paulu Abdul og settist í sæti hennar í byrjun Hollywood vikunnar, sem var sýnd þann 9. febrúar 2010. Í þetta skiptið var snúið aftur til 24 undanúrslitakeppenda. Til viðbótar voru gesta leiðbeinendur m.a. Miley Cyrus, Alicia Keys, Shania Twain (sem einnig var gestadómari í áheyrnaprufunum í Chicago), Jamie Foxx (sem hafði áður verið), Harry Connick Jr. og Adam Lambert (fyrsti Idol keppandin til að verða leiðbeinandi). "Idol Gives Back" sneri einnig aftur þann 21. apríl 2010. Þetta var önnur þáttaröðin í röð þar sem báðir úrslitakeppendurnir höfðu aldrei verið á meðal tveggja eða þriggja neðstu. Crystal Bowersox og Lee DeWyze gengu til liðs við Kelly Clarkson, Clay Aiken, Carrie Underwood, Taylor Hicks, Jordin Sparks, David Cook og David Archuleta sem meðlimir í úrslitum sem höfðu aldrei verið meðal tveggja eða þriggja neðstu. Paula Abdul kom fram í lokaþættinum til að tala um Simon Cowell. Lee DeWyze var krýndur sigurvegari 26. maí en Crystal Bowersox lenti í öðru sæti. Hilary Duff. Hilary Erhard Duff (fædd 28. september 1987) er bandarísk leik- og söngkona en hún er einnig þekkt sem höfundur og lagasmiður. Hún er fædd og uppalin í Houston, Texas og lék hún í bæjarleikhúsi og sjónvarpsauglýsingum áður en hún fór með titilhutverk í þáttum Disney-stöðvarinnar um "Lizzie McGuire" og í þættinum "Gossip Girl" sem kvikmyndastjarnan Olivia. Hilary varð þekkt fyrirmynd unglinga og hélt hún því við með þáttunum "Lizzie McGuire" og kvikmyndaleik, en hún lék í kvikmyndum á borð við "Agent Cody Banks", "Cheaper by the Dozen" og "A Cinderella Story". Nýlega hefur hún leikið ýmsum sjónvarpsþáttum og óháðum kvikmyndum. Hilary hefur markað innkomu sína í popptónlist, með þremur RIAA platínu-plötum; "Metamorphosis" (2002), sem er fyrsta sólóplatan hennar og fór í platínumsölu; "Hilary Duff" (2004); og "Most Wanted" (2005), en báðar plöturnar fór í platínumsölu. Nýjasta plata Hilary, "Dignity" (2007) fór í gullsölu og náði lagið "With Love" hátt á bandaríska listanum. Næsta plata, "Best of Hilary Duff" (2008), safnplata sem innihélt öll bestu lög Duff, hefur Duff alls selt 13 milljónir platna um allan heim. Duffhefur einnig komið sér inn í tískuiðnaðinn og hefur hún sent frá sér sína eigin fatalínu, "Stuff by Hilary Duff" og "Femme" fyrir DKNY Jeans til viðbótar við að vera á samningi hjá IMG Models og hafa sent frá sér tvö ilmvötn í samstarfi við Elizabeth Arden. Hún hefur einnig skrifað bækur fyrir ungt fólk, þ.á m. "Elixir" (2010) og "Devoted" (2011), en hún var líka aðalframleiðandi myndarinnar "According to Greta" og framleiðandi myndanna "Material Girls" og Beauty and the Briefcase". Æska. Hilary Duff á MuchMusic verðlaununum árið 2007 Hilary Erhard Duff 28. september 1987 í Houston,Texas. Foreldrar hennar eru Susan Colleen (áður Cobb), húsmóðir, og Robert Erhard Duff, verslunareigandi. Duff á eldri systur, Haylie, sem er einnig leik- og söngkona. Móðir hennar hvatti hana til þess að skrá sig í leiklistartíma ásamt Haylie. Báðar stelpurnar fengu hlutverk í hinum ýmsu leikritum á svæðinu. Þegar systurnar voru sex og átta ára tóku þær þátt í uppfærslu BalletMet Columbus af Hnetubrjótnum í San Antonio. Systurnar urðu áhugasamari um að reyna fyrir sér í leiklistinni og að lokum flutti móðir þeirra með þeim til Kaliforníu en faðir þeirra varð eftir í Houston til þess að sjá um fyrirtækið. Eftir nokkur ár af áheyrnaprufum og fundum með umboðsmönnum fengu Duff systurnar hlutverk í nokkrum sjónvarpsauglýsingum. Vegna leiklistarferilsins var Duff kennt heima. 1997-2002: Upphaf ferils og "Lizzie McGuire". Fyrstu árin ferilsins lék Duff aðallega lítil hlutverk. Árið 1997 lék hún lítil hlutverk í Hallmark-þáttaröðinni "True Women". Árið eftir lék hún mjög lítil hlutverk í "Playing by Heart". Fyrsta stóra hlutverkið hennar var unga nornin, Wendy, í "Casper Meets Wendy". Kvikmyndin fékk hins vegar mjög slaka dóma. Árið 1999 lék hún aukahlutverk í sjónvarpsmyndinni "The Soul Collector" sem var byggð á skáldsögu eftir Kathleen Keen. Frammistaða hennar færði henni Young Artist-verðlaun fyrir bestu frammistöðu í sjónvarpsmynd/fyrsta sjónvarpsþætti (ung leikkona í aukahlutverki). „Eftir að hafa unnið með henni fyrsta daginn, man ég eftir því að hafa sagt við konuna mína: „Þessi unga stelpa á eftir að verða stjarna“. Hún var fullkomlega róleg og ánægð með sjálfa sig.“ En áður en þættirnir voru sýndir var ákveðið að Duff yrði ekki með í leikaraliðinu og varð Duff efins um hvort hún vildi halda leiklistarferlinum áfram. Umboðsmanninum hennar og móður hennar tókst þó að sannfæra hana um að halda áfram og viku seinna fór hún fékk hún hlutverk í nýjum þáttum á Disney-stöðinni, "Lizzie McGuire". Þátturinn fylgdist með aðalpersónunni, "Lizzie McGuire", þegar hún var að þroskast í ungling. "Lizzie McGuire" var fyrst sýndur á Disney-stöðinni þann 12. janúar 2001 og fékk mikið áhorf, en um 2,3 milljónir Bandríkjamanna horfðu á hvern þátt. Þáttaka hennar í þáttunum gerðu hana fræga á meðal barna á aldrinum 7-14 ára. Þetta sama ár byrjaði hún með söngvaranum Aaron Carter. Eftir að Duff hafði uppfyllt 65 þátta skuldbindingu sína við "Lizzie McGuire", íhugaði Disney að gera þættina að kvikmynd eða stærri sjónvarpsþáttaröð. Þessar áætlanir gengur hins vegar ekki eftir og sögðu Dalsmenn Duff að hún hefði ekki fengið nægilega mikið borgað fyrir þessar áætlanir. Fyrsta hlutverk Duff í kvikmynd sem sýnd var í bíóhúsum var í "Human Nature" árið 2002. Kvikmyndin var fyrst sýnd á kvikmyndahátíðunum í Cannes og Sundance. Í myndinni lék Duff yngri útgáfu af kvenkyns náttúrufræðingi sem leikin var af Patriciu Arquette. Duff lék einnig í Disney-stöðvar myndinni "Cadet Kelly" (2002) og fékk hún mesta áhorf sem stöðin hafði fengið í 19 ára sögu sinni. Í kvikmyndinni lék hún frjálslega stelpu sem á erfitt með að aðlagast ströngum aga í herskóla. 2003-06: Stærri hlutverk. Hilary í kanadískum spjallþætti árið 2007 Árið 2003 fékk Hilary fyrsta stóra hlutverkið sitt í kvikmynd þegar hún var ráðin ásamt Frankie Muniz í kvikmyndina "Agent Cody Banks". Myndin fékk jákvæða dóma gagnrýnenda og gekk nógu vel til þess að gefa af sér aðra mynd sem Hilary lék þó ekki í. Þetta sama ár endurtók Duff hlutverk sitt sem Lizzie McGuire í samnefndri kvikmynd og fékk myndin blendna dóma. Seinna um árið lék Hilary eitt af 12 börnum Steve Martin og Bonnie Hunt í fjölskyldumyndinni "Cheaper by the Dozen" sem er tekjuhæsta mynd hennar til þessa. Hún endurtók þetta hlutverk í seinni myndinni, Cheaper by the Dozen 2 sem náði litlum vinsældum. Snemma árs 2002 lenti hún í stóru rifrildi við Lindsay Lohan þar sem hún var einnig í sambandi með Aaron Carter eins og hún, en hann hætti með Lohan til að geta byrjað aftur með Duff. Seinna sama ár enduðu þau samband sitt eftir að hann hélt ítrekað framhjá henni. Hún endurtók hlutverk sitt í framhaldsmyndinni "Cheaper by the Dozen 2" (2005) sem naut mun minni velgengni en fyrri myndin. Duff hefur einnig leikið gestahlutverk í sjónvarpsþáttum, það fyrsta var veikt barn í læknadramanu "Chicago Hope" í mars árið 2000. Árið 2003 lék hún í þætti af George Lopez sem farðasölukona; hún lék aftur í þættinum árið 2005 sem Kenzie, femínista-skáld sem var vinkona Carmen (Masiela Lusha). Sama ár lék hún á móti systur sinni, Haylie, í "Americna Dreams" og árið 2005 lék hún bekkjarfélaga titilpersónu þáttanna "Joan of Arcadia". Árið 2004 lék Duff í rómantísku gamanmyndinni "A Cinderella Story" ásamt Chad Michael Murray. Þrátt fyrir að myndin fengi slæma dóma varð hún mjög vinsæl og voru sumir gagnrýnendur ánægðir með frammistöðu Duff. Seinna sama ár lék Hilary í kvikmyndinni "Raise Your Voice", en þetta var fyrsta hlutverk hennar í dramatískri kvikmynd. Á meðan sumir gagnrýnendur lofuðu Duff fyrir að leika alvarlegri og fullorðinslegri hlutverk en í fyrri myndum sínum, fékk myndin ekki góða dóma og gekk ekki vel í miðasölu. Nokkrir gagnrýnendur voru óánægðir með leik Duff og rödd hennar og sögðu að hún væri löguð til í tölvu. Sama ár fékk Duff fyrstu Razzie-tilnefninguna sína sem versta leikkona fyrir hlutverk sín í "Raise Your Voice" og "A Cinderella Story". Árið 2005 lék Duff í "The Perfect Man" þar sem hún lék elstu dóttur fráskildrar konu (Heather Locklear). Sama ár var Duff aftur tilnefnd til Razzie-verðlauna, fyrir "The Perfect Man" og "Cheaper By the Dozen 2". Seinna sama ár töluðu Duff systurnar inn á teiknimyndina "Foodfight!" en myndin kom aldrei út. Duff lék í gamanmyndinni "Material Girls" árið 2006 ásamt systur sinni Haylie Duff. Systurnar fengu tvær tilnefningar til Razzie-verðlaunanna fyrir hlutverk sín í myndinni. 2007 -: Óháðar myndir og sjónvarpsþættir. Heimildarmynd í tveimur hlutum um Duff, "Hilary Duff: This Is Now" var framleidd í tilefni af endurkomu Duff inn í tónlistarheiminn. Myndin var tekin upp á tveimur vikum í Los Angeles, Evrópu og á Spáni. Myndin var sýnd á MTV 3. og 9. apríl 2007. Þann 7. september 2007 staðfesti Duff að hún myndi taka upp tvær óháðar kvikmyndir, "According to Greta" og "What Goes Up". Duff lék á móti John Cusack í "War, Inc." sem kom í kvikmyndahús í Los Angeles og á Manhattan, New York þann 23. maí 2008. Í júní 2008 gekk Duff til liðs við leikaralið gamanmyndarinnar "Stay Cool". Hún lék þar á móti Winonu Ryder, Mark Polish, Sean Astin, Chevy Chase og John Cryer. Í kvikmyndinni lék hún persónuna Shasta O'Neil og var lýst sem kynþokkafullum menntaskólanema. Myndin kom út árið 2010. Snemma árið 2008 var Duff boðið aðalhlutverk Anni Mills í endurgerð þáttanna "Beverly Hills, 90210", en hún hafnaði tilboðinu þar sem hún var að leita að verkefnum utan unglingamyndageirans. Í júlí 2009 fékk hún gestahlutverk í "Gossip Girl". Hún lék persónuna Oliviu Burke, kvikmyndastjörnu sem skráir sig í NYU-háskólann í leit að hefðbundinni háskólareynslu. Árið eftir vann hún áhorfendaverðlaun unglinga fyrir "Besta leikkonan sem stal senunni" fyrir hlutverk sitt sem Olivia Burke. Duff lék í "Beatuy and the Briefcase", rómantískri gamanmynd sem byggð var á bókinni "Diary of a Working Girl" eftir Daniellu Brodsky og var myndinni leikstýrt af Gil Junger. Myndin var frumsýnd á ABC Family stöðinni þann 18. apríl 2010. Í myndinni leikur Duff blaðamann á tískutímariti sem skrifar um stefnumótavandamál sín í borginni. Í maí 2011 lék Duff í "Bloodworth", kvikmynd sem byggð er á skáldsögunni Provinces of Night eftir William Gay, þar sem Duff leikur Raven Halfacre, unglingsdóttur lauslátrar, drykkjufelldrar móður. Í ágúst 2011 var tilkynnt um að Duff myndi leika í óháðu myndinni "She Wants Me" sem leikstýrt er af Rob Margolies þar sem hún leikur unga Hollywood-leikkonu að nafnið Kim Powers. 2002-03: "Santa Claus Lane" og "Metamorphosis". Árið 2002 tók Duff upp lag Brooke McClymont, "I Can't Wait", fyrir Lizzie McGuire og lagið "The Tiki Tiki Tiki Room" fyrir fyrstu DisneyMania plötuna. Hún gaf einnig frá sér sína fyrstu plötu, "Santa Claus Lane", sem var samansafn jólalaga sem innihélt nokkra dúetta með systur hennar, Haylie, Lil' Romeo, og Christinu Milian. Á eftir fylgdi Disney-stöðvar smáskífan "Tell Me a Story (About the Night Before)". Platan náði 154. sæti á bandaríska listanum og fór í gullsölu. Fyrsta sólóplata Duff, "Metamorphosis" (2003) náði fyrsta sæti á bandaríska og kanadíska listanum og seldi yfir 3,9 milljónir platna í Bandaríkjunum fyrir janúar 2007. Aðal smáskífan "So Yesterday" náði inn á topp 10 lista í nokkrum löndum; önnur smáskífan var þemalag þátanna "Laguna Beach", "Come Clean". Þriðja smáskífan, "Little Voice", kom ekki út í Bandaríkjunum en náði nokkrum vinsældum í Ástralíu. Seinni hluta árs 2003 fór Duff í fyrsta tónleikaferðalagið og fljótlega fylgdi annað tónleikaferðalagið í kjölfarið. Uppselt var á flesta tónleikana. 2004-08: "Hilary Duff" og "Dignity". Önnur sólóplata Duff var platan "Hilary Duff" og samdi hún nokkur af lögunum. Platan kom út á sautján ára afmælisdag hennar (í september 2004) og náði 2. sæti á bandaríska listanum og efsta sæti á þeim kanadíska. Platan seldist í 1,8 milljónum eintaka í Bandaríkjunum. "Most Wanted", fyrsta safnplata hennar, kom út í ágúst 2005. "Most Wanted" innihélt lög af fyrstu tveimur plötum hennar, endurblandanir á lögum og þrjú ný lög, þ.á m. "Wake Up" sem samið var af Joel Madden og bróur hans, Benji sem báðir eru meðlimir hljómsveitarinnar Good Charlotte. Platan náði eftsta sæti á bandaríska listanum og því þriðja á kanadíska listanum. Hún seldist í yfir 200.000 eintökum fyrstu vikuna og fór í platínumsölu mánuði eftir að hún kom út. Duff tók upp lag Madonnu, "Material Girl", með eldri systur sinni fyrir kvikmynd þeirra, "Material Girls". Duff samdi eitthvað af efninu fyrir þriðju plötuna, "Dignity", ásamt Köru DioGuardi sem var einnig meðframleiðandi plötunnar. Hún sagði að samanborið við fyrri tónlist hennar, væri platan mun "dansvænni" og notaði alvöru hljóðfæri meira. Hún sagði: „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra það sem við erum að gera, en það er skemmtilegt, „funky“ og öðruvísi, eitthvað sem er nýtt fyrir mér. Það er mjög flott“. Í nóvember 2008 kom út fyrsta safnplatan með bestu lögum Hilary, "Best of Hilary Duff" og fyrsta smáskífa plötunnar, "Reach Out" kom út mánuði áður. 2012 -: Fimmta platan. Duff sagði skilið við Hollywood Records plötufyrirtækið eftir sex ára samvinnu og tilkynnti á MTV að hún myndi byrjaði að vinna að nýrri plötu í desember 2008. Í október 2011 nefndi Duff áætlanir um mögulega nýja plötu við E! Online. Í janúar 2012 staðfesti hún að hún hefði byrjað að taka upp plötu, í gegnum opinbera heimasíðu sína og á twitter. Einkalíf og ímynd. Duff átti í ástarsambandi við Aron Carter með hléum á árunum 2001-2003. Í júlí 2004 byrjaði hin 16 ára Duff með söngvara Good Charlotte, Joel Madden. Eftir miklar getgátur slúðurblaðanna, staðfesti móðir Duff, Susan, að þau ættu í ástarsambandi í viðtali við tímaritið Seventeen í júlí 2005. Í nóvember 2006 slitu Duff og Madden sambandinu. Sama ár skildu foreldrar Duff eftir 22 ára hjónaband. Hún skrifaði um sársaukann vegna skilnaðarins í lögunum "Stranger" og "Gypsy Woman". Í júní 2006 í viðtali við tímaritið Elle sagði Duff: „... (meydómur) er í rauninni eitthvað sem mér líkar við sjálfa mig, Það þýðir ekki að ég hafi ekki hugsað um kynlíf, því allir sem ég þekki hafa stundað það og maður vill passa inn í“. Duff sagði seinna við MuchMusic að hún hafi ekki sagt þessi orð sem voru eignuð henni í greininni og að efnið væri „klárlega ekki eitthvað sem ég myndi vilja tala um...“. Hún neitaði tilvitnuninni aftur árið 2008 í viðtali við tímaritið Maxim. Árið 2007 byrjaði Duff með NHL-leikmanninum Mike Comrie. 19. febrúar 2010 tilkynntu Duff og Comrie um trúlofun sína. Parið gekk í hjónaband þann 14. ágúst 2010 á Santa Barbara í Kaliforníu. Duff fæddi fyrsta barn þeirra, son að nafni Luca Cruz Comrie, þann 20. mars 2012. Legionowo. Legionowo er bær í miðhluta Póllands. Íbúar voru 50.600 árið 2004. Konstancin-Jeziorna. Konstancin-Jeziorna er bær við fljótið Jeziorka í miðhluta Póllands. Íbúar voru 23.694 árið 2004. Mordy. Mordy er bær við í miðhluta Póllands. Íbúar voru 1.831 árið 2004. Haylie Duff. Haylie Katherine Duff (fædd 19. febrúar 1985) er bandarísk leikkona, söngkona, lagahöfundur og matarbloggari. Hún er eldri systir leik- og söngkonunnar Hilary Duff. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Sandy Jameson í sjónvarpsþáttaröðinni "7th Heaven" og sem Annie Nelson í sjónvarpsmyndunum "Love Takes Wing" og framhaldsmyndinni "Love Finds a Home". Æska. Duff fæddist í Houston, Texas. Hún er tveimur og hálfu ári eldri en systir hennar, Hilary. Móðir Duff, Susan Colleen (áður Cobb), er húsmóðir og kvikmyndaframleiðandi (meðframleiðandi A Cinderella Story (2004), The Perfect Man (2005) og Material Girls (2006) og einnig umboðsmaður Hilary). Faðir hennar, Robert Erhard "Bob" Duff, er verslunaregiandi ásamt föður sínum John B. Duff. Hún byrjaði leiklistarferilinn sem aukagrein með dansi. Hún ólst upp í Texas og byrjaði í ballet þegar hún var ung. 10 ára landaði hún hlutverki í uppfærslu Metropolitan Dance Company af "Hnetubrjótnum". Leiklist. Ferill Duff byrjaði með gestahlutverkum í sjónvarpskvikmyndum eins og "Hope" og "True Women" auk þess að leika í sjónvarpsþáttum eins og "The Amanda Show". Til viðbótar lék hún gestahlutverk í þáttunum "Chicago Hope", "Boston Public" og "Third Watch" og varð hún þekkt andlit árið 2002 sem Amy Saunders/Sanders í barnaþáttaröðinni Lizzie McGuire þar sem Hilary systir hennar fór með aðalhlutverkið. Árið 2004 lék Duff gestahlutverk í "That's So Raven" sem Katina Jones. Eftir að hafa leikið gestahlutverk í sjónvarpi, fékk Duff fyrsta hlutverk sitt í kvikmynd þegar hún var ráðin í hlutverk Summer Wheatley í "Napoleon Dynamite". Hún fékk áhorfendaverðlaun unglinga fyrir hlutverkið. Hún lék síðan gestahlutverk í þáttum eins og "Joan of Arcadia" og "American Dreams". Hún talaði og söng inn á teiknimyndina "In Search of Santa" ásamt systur sinni, Hilary. Árið 2005 var Duff ráðin í leikaralið þáttarins "7th Heaven" þar sem hún lék Sandy Jameson, bestu vinkonu kærustu Simons, þar sem hún varð ólétt eftir Martin Brewer (Tyler Hoechlin). Sumarið 2006 gekk Duff til liðs við Broadway-leikaralið Hairspray, þar sem hún lék vondu stelpuna, Amber Von Tussle, og lék hún hlutverkið frá byrjun októbers 2006. Duff lék einnig í kvikmyndinni "Material Girls" ásamt systur sinni, þar sem hún var einnig meðframleiðandi ásamt systur sinni og móður. Eftir "Material Girls" hefur Duff leikið í nokkrum sjónvarpskvikmyndum og kvikmyndum sem fara beint á DVD, þ.á m. "Nightmare", "My Sexiest Year", "Legacy", "Backwoods", "Love Takes Wing", "Love Finds a Home" og "Nanny's Secret". Á árunum 2009 og 2010 lék hún í "Fear Island", "Tug" og "Slightly Single in L.A.". Hún ljáði rödd sína í teiknimyndinni "Foodfight!" ásamt Charlie Sheen, Hilary Duff og Evu Longoria en vegna mikilla vandræða hefur myndin enn ekki komið út. Hún hefur einnig unnið að óháðu myndinni "Video Girl" þar sem hún mun leika ásamt Meagan Good og Ruby Dee. Duff var kynnir raunveruleikaþáttarins "Legally Blonde The Musical: The Search for Elle Woods", þar sem leitað var að næstu leikkonu til að taka við aðalhlutverki söngleikjarins "Legally Blonde" þar sem hún hafði verið í kórnum. Hún er einnig framleiðandi sýningarinnar. Árið 2011 kláraði Duff að vinna að kvikmyndinni "A Holiday Engagement" þar sem hún leikur á móti Bonnie Somerville og Jordan Bridges. Hún hefur einnig unnið að "Pennhurst", "Home Invasion" og nú nýlega, samkvæmt færslum hennar á twitter, hefur hún klárað að taka upp fyrsta þátt nýrrar hrollvekjuþáttaraðar, "Blackout". Söngferill. Duff hefur tekið upp margar smáskífur með systur sinni, og hafa flestar þeirra verið á Disneymania plötum. Hún hefur tekið upp lög fyrir kvikmyndirnar "In Search of Santa", "The Lizzie Mcguire Movie", "A Cinderella Story" og "Material Girls". Hún söng með rapparanum "Kool G" á plötunni "Half a Klip" og var í bakröddum í laginu "On the Rise Again". Duff söng einnig "A Whatever Life" fyrir "Stuck In The Suburbs" og "Sweetest Pain" fyrir "Raising Helen". Til viðbótar við söng hefur Duff einnig samið nokkur lög fyrir plötur systur sinnar, "Metamorphosis" og "Hilary Duff". Duff samdi lagið "Holiday" með systur sinni fyrir plötu með bestu lögum Hilary. Opinber ímynd og einkalíf. Duff birtist á forsíðu tímaritins Maxim í janúar 2006. Duff systurnar eru í öðru sæti á lista E! sjónvarpsstöðvarinnar yfir Uppáhalds frægu systurnar. Duff er kristin, "Ég er kristin, en ég sé mig ekki sem mjög trúaða manneskju. Ég er frekar innblásin. Það eru hlutir sem ég er ekki sammála í kristninni. Ég fer ekki reglulega í kirku, en ég held að það að ég hafi mína eigin trú sem ég er mjög ánægð með." Eimskipafélag Íslands. Eimskipafélag Íslands er íslenskt skipafélag sem rekur flota flutningaskipa. Félagið var stofnað 17. janúar árið 1914 og keyptu mjög margir Íslendingar stofnhluta í félaginu í upphafi, svo það var kallað „óskabarn þjóðarinnar“. Félagið hóf reglulegar siglingar árið 1915 með skipinu "Gullfossi", sem kom til landsins 16. apríl 1915. Eimskipafélagið hefur verið kallað "Óskabarn þjóðarinnar" allt frá stofnun þess. Undirbúningur að stofnun félagsins hófst árið 1912 og mynduð var bráðabirgðastjórn undir forystu Thors Jensens sem hóf undirbúning að hlutabréfasöfnun og kaupum á skipi. Um 15% landsmanna, um 14.000 manns, gerðust stofnfélagar í félaginu auk Vestur-Íslendinga og landsjóðs. Fyrsti formaður stjórnar var Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands. Tvö ný skip voru keypt fyrir félagið; "Gullfoss" og "Goðafoss", bæði smíðuð í Kaupmannahöfn. Árið 1950 var tekið í notkun nýtt farþegaskip, sem einnig hlaut nafnið "Gullfoss". Hlutur Vestur-Íslendinga var árið 1964 lagður í sérstakan sjóð, Háskólasjóð, og því komið þannig fyrir að arður af hlutabréfunum rynni til Háskóla Íslands en stjórn Eimskipafélagsins færi með þau atkvæði sem hlutabréfin fólu í sér. Með þessum hætti, og með þeirri reglu að einungis skyldi kosið um helming stjórnar á hverjum aðalfundi, tókst hópi hluthafa sem áttu minnihluta í Eimskipafélaginu að halda í stjórn þess um áratuga skeið. Um leið var félagið mjög umsvifamikið á íslenskum fyrirtækjamarkaði og tengdist öðrum stórum fyrirtækjum eignaböndum. Eimskipafélagið varð þannig ein af stoðum kolkrabbans svokallaða. Í júlí 2007 tilkynnti Eimskip að það hefði tekið lán að andvirði 20 milljarða íslenskra króna til 5 ára hjá hollenska bankanum ABN Amro. Þetta er stærsta lán Eimskipa í sögu félagsins til og átti að vera nýtt til frekari fjárfestinga. Pruszków. Pruszków er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 55.244 árið 2005. Francis Crick. Francis Harry Compton Crick (8. júní 1916 – 28. júlí 2004) var enskur sameindalíffræðingur sem er frægastur fyrir að hafa uppgötvað byggingu DNA-sameindarinnar ásamt James D. Watson og Maurice Wilkins árið 1953. Þeir þrír fengu saman Nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir uppgötvun sína árið 1962. Uppgötvun þeirra byggði að stórum hluta á athugunum Rosalind Franklin sem bentu til þess að sameindin væri gormlaga. Wołomin. Wołomin er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 36.721 árið 2005. Jeanne Calment. Ljósmynd af Calment frá 1895. Jeanne Louise Calment (21. febrúar 1875 – 4. ágúst 1997) er sú manneskja sem lengst hefur lifað svo vitað sé með vissu en hún lifði í 122 ár og 164 daga. Símaskrá. Símaskrá er skrá yfir áskrifendur símaþjónustu tiltekins þjónustuaðila eða á tilteknu svæði. Fyrsta símaskráin í heiminum mun hafa verið gefin út 21. febrúar árið 1878 í New Haven í Connecticut og innihélt nöfn 50 símnotenda. New Haven. New Haven er borg sem stendur á norðurströnd Long Island-sunds í norðvesturhluta Bandaríkjanna. Hún er önnur stærsta borgin í Connecticut á eftir Bridgeport með um 125 þúsund íbúa. Hér var gefin út fyrsta símaskráin Sisimiut. Sisimiut, á dönsku Holsteinsborg er næst stærsti bær á Grænlandi með tæplega 5500 íbúa. Bærinn er á vesturströndinni um 100 km norðan við heimskautsbaug. Sisimiut er aðalbyggð í sveitarfélaginu Qeqqata. Bæjarstæðið er á allmiklum tanga, eins og flestir bæir á Grænlandi, þvert yfir tangann rís fjallið Nasaasaaq í 784 m hæð. Sisimiut er nyrsta höfn á Grænlandi sem er siglingarfær á vetrum vegna íslagna. Elstu fundir um mannlíf í Sisimiut eru frá 2500 f. Kr. og koma frá svo nefndu Saqqaq-fólki. Fundist hafa minjar um flest öll menningartímabil á Grænlandi á svæðinu, Saqqaq, Dorset I og II og einnig Thule-inuíta. Þar að auki má gera ráð fyrir að norrænir menn á miðöldum hafi stundað veiðiskap þar þó svo að engar minjar hafi fundist um það. Í hafinu á Sisimiut hefur alltaf verið mikið af hval, sel og rostungum og þess vegna tilvalið veiðisvæði. Þar eru einnig hreindýr, þó þau hafi aldrei verið jafn algeng og sunnar í landinu. Sauðnaut voru hins vegar flutt inn upp úr 1980 frá Kanada og hafa dafnað vel. Jökulbreiðurnar milli Qaanaaq og Upernavik hindruðu að sauðnautin gætu numið land á vesturströnd landsins án hjálpar. Hvalveiðimenn, aðallega frá Skotlandi og Hollandi, hófu veiðar á hval á Sisimiut-svæðinu í lok 15. aldar. Evrópumenn stunduðu einnig talverða skiptiverslun við Inuíta, í skiptum á perlum, nálum, þræði og ofnum voðum fengu þeir skinn og spik. Árið 1724 gerði Hans Egede tilraun til að setja upp verslunar- og trúboðsstöð í Sisimiut en Hollenskir hvalveiðimenn brenndu staðinn í tvígang þar sem þeir álitu sig hafa einir rétt á hvalveiðum og verslun á svæðinu. Það var ekki fyrr en 1764 sem Dönum tókst að koma sér upp bækistöð sem þeir nefndu Holsteinsborg. Bærinn var miðstöð hvalveiða fram í lok 19. aldar. Uppfrá því tók fiskveiði og fiskverkun við sem aðalatvinnugreinar. Togarar og minni bátar landa rækju, þorsk, lúðu og rauðsprettu. Sisimiut er syðsti bær á Grænlandi þar sem hundasleðar eru notaðir. Gelt hundanna setur svip á bæinn og þá má sjá um allt. Hundasleðarnir eru notaðir bæði í atvinnuskyni og til skemmtunar. Engin vegtenging er við aðra staði. Upernavik. Fyrsti skóladagurinn 2007Upernavik, er bær á norðvesturströnd Grænlandi með tæplega 1200 íbúa. Bærinn er hluti af sveitarfélagiu Qaasuitsup. Fyrir utan aðalbæinn eru 10 minni byggðarlög í nágrenni. Norðurhluti svæðisins er einungis jöklar sem ganga í haf fram en syðst eru nokkur gróðurvæn svæði. Helsta atvinna er við fiskiveiði og fiskvinnslu en hefðbundin selaveiði er einnig stunduð. Ísbirnir eru algengir, sérlega að vetrarlagi. Á svæðinu lýsir miðnætursól frá 12. maí fram til 1. ágúst og vetrarmyrkur ríkir frá 4. nóvember fram til 5. febrúar. Grænlenska nafnið Upernavik þýðir „vorstaðurinn“ enda söfnuðust inuítafjölskyldurnar þar þegar ísa leysti á vorin. Rétt norðaustur af Upernavik-bæ, þar sem nú heitir Kingittorsuaq, fannst 1823 lítill rúnasteinn í vörðu með áletruninni: „Erlingr Sighvats sonr ok Bjarni Þórðar sonr ok Eindriði Odds sonr laugardagin fyrir gagndag hlóðu varða þe[ssa] ok......“. Samkvæmt rúnasérfræðingum er áletrunin sennilega frá lok 13. aldar og er þetta nyrsta heimild sem Grænlendingar hinir fornu skildu eftir sig. Þorpið Upernavík í miðnætursól Valgarður Egilsson. Valgarður Egilsson (f. 20. mars 1940) er íslenskur læknir, frumulíffræðingur, rithöfundur og leiðsögumaður. Hann er kvæntur Katrínu Fjeldsted lækni og stjórnmálamanni og eiga þau fjögur börn saman: Jórunni Viðar (f. 1969), Einar Véstein (f. 1973, d. 1979), Véstein (f. 1980) og Einar Stein (f. 1984). Þar að auki á hann dóttur af fyrra sambandi: Arnhildi (f. 1966). Valgarður er sonur hjónanna Egils Áskelssonar (f. 28. febrúar 1907, d. 25. janúar 1975), bónda og kennara, frá Austari-Krókum á Flateyjardalsheiði og Sigurbjargar Guðmundsdóttur (f. 22. ágúst 1905, d. 10. desember 1973), húsfreyju og símstöðvarstjóra, frá Lómatjörn í Höfðahverfi. Hann er fæddur á Grenivík og uppalinn á Hléskógum í Höfðahverfi, fimmti í röð átta systkina. Valgarður er stúdent frá MA. Hann lauk prófi í læknisfræði við Háskóla Íslands árið 1968 og varði doktorsritgerð sína, "Effects of chemical carcinogens and other compounds on mitochondria with special reference to the yeast cell" við University College í London árið 1978. Valgarður var formaður Listahátíðar í Reykjavík 1990 og 1994 og varaformaður 1992. Hann hefur fengist við leiðsögu í mörg ár, einkum í Fjörðum og víðar við utanverðan Eyjafjörð, og var varaforseti Ferðafélags Íslands. Eftir Valgarð liggja nokkrar bækur og fjöldi greina, bæði um vísindi og ýmislegt annað. Friedrich Engels. Friedrich Engels (28. nóvember 1820 – 5. ágúst 1895) var þýskur stjórnmálaheimspekingur sem átti þátt í þróun kommúnismans ásamt Karli Marx. Engels samdi "Kommúnistaávarpið" ásamt Marx og ritstýrði og gaf út síðari tvö bindi "Auðmagnsins" eftir lát Marx. Engels var sonur vel stæðs klæðaframleiðanda. Hann varð ungur fyrir áhrifum frá heimspeki Hegels. Engels, Friedrich Engels, Friedrich Engels, Friedrich Sagafilm. Sagafilm er íslenskt kvikmyndafyrirtæki. Saga er eitt af stærstu ef ekki stærsta framleiðslufyrirtækið á Íslandi. Fyrirtækið framleiðir auglýsingar, sjónvarpsefni og kvikmyndir í fullri lengd. Trúfélag. Trúfélag er félag manna sem játast og ástunda sömu trúarbrögð. Þjóðkirkjan er stærsta trúfélag á Íslandi. Heimilt er að stofna trúfélög utan þjóðkirkjunnar, að uppylltum ákveðnum skilyrðum. Mononoke prinsessa. er japönsk teiknimynd í fullri lengd (134 mínútur) eftir Hayao Miyazaki. Myndin var gefin út árið 1997 og vann til 11 verðlauna á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum í Asíu sem og annars staðar í heiminum. Söguþráður. Prins smitast af andsettu goði af ólæknanlegum sjúkdómi. Hann er við dauðans dyr ef hann finnur ekki lækningu við þessari hræðilegu bölvun. Hann kemst að því að hann þarf að ferðast austur í leit að von. Þegar hann kemur á áfangastað leitar hann að skógarandanum sem á að geta hjálpað honum, en þess í stað lendir hann í miðjum átökum milli dýra skógarins og námubæjar sem er við það að menga og eyðileggja skóginn. Sú sem leiðir dýrin í baráttunni er Mononoke prinsessa, stúlka sem var alin upp af úlfum. Bein þýðing á japanska orðinu „"mononoke"“ er hatursfullur andi eða andi í hefndarhug. Spirited Away. er anime-kvikmynd frá árinu 2001 gerð af japanska anime myndverinu Studio Ghibli, skrifað og myndstýrt af hinum fræga teiknara Hayao Miyazaki. Hinn upprunalega japanska titil má þýða sem "Sen og öndun Chihiro" eða "Öndun Sen og Chihiro". Myndin var fyrsta fyrsta Anime teiknimyndin til að hljóta Óskarsverðlaun og var það í flokki teiknimynda af fullri lengd. Hún var flokkuð sem PG í Bandaríkjunum. Jennifer Aniston. Jennifer Joanna Aniston (f. 11. febrúar 1969) er bandarísk leikkona, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hún varð heimsfræg á 10. áratugnum þegar hún lék Rachel Green í vinsæla gamanþættinum "Vinir" (e. "Friends"), hlutverk sem færði henni Emmy-, Golden Globe- og Screen Actors Guild-verðlaun. Aniston hefur átt farsælan kvikmyndaferil. Hún fékk mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína í óháðu kvikmyndunum "She's the One" (1996), "Office Space" (1999), "The Good Girl" (2002) og "Friends with Money" (2006). Vinsælustu kvikmyndirnar hennar eru gamanmyndirnar "Bruce Almighty" (2003), "The Break-Up" (2006), "Marley & Me" (2008), "Just Go with It" (2011) og "Horrible Bosses" (2011). Aniston fékk frægðarstjörnu á Hollywood-götunni árið 2012. Æska. Jennifer Aniston fæddist í Sherman Oaks, Los Angeles og eru foreldrar hennar leikararnir John Aniston og Nancy Dow. Faðir hennar er grískur og hét upprunalega John Anastassakis, en móðir hennar fæddist í New York borg. Annar föðurafi Aniston var ítalskur innflytjandi og er móðir hennar einnig af skoskum, írskum og grískum ættum. Aniston á tvo hálfbræður, John Melick (eldri) og Alex Aniston (yngri). Guðfaðir Aniston var leikarinn Telly Savalas, einn af bestu vinum föður hennar. Sem barn bjó Aniston í eitt ár í Grikklandi með fjölskyldu sinni. Þau fluttu síðar til New York borgar. Aniston gekk í Rudolf Steiner skólann í New York, og útskrifaðist frá Fiorello H. LaGuardia menntaskólanum fyrir tónlist og listir á Manhattan. Hún lék í leiksýningum eins og "For Dear Life" og "Dancing on Checker's Grave" og sá fyrir sér með hlutastörfum, meðal annars sem símasölukona, gengilbeina og hjólasendill. Árið 1989 flutti Aniston til Los Angeles. Sjónvarp. Aniston flutti til Hollywood, Los Angeles og fékk fyrsta sjónvarpshlutverkið árið 1990, þar sem hún lék aukahlutverk í skammlífri sjónvarpsþáttaröð, "Molloy", og í sjónvarpskvikmyndinni "Camp Cucamonga". Hún lék einnig í "Ferris Bueller", sjónvarpsþáttum sem byggðir voru á kvikmyndinni "Ferris Bueller's Day Off" frá árinu 1986. Þættirnir voru hins vegar ekki langlífir. Aniston lék síðan í tveimur misheppnuðum gamanþáttum, "The Edge" og "Muddling Through" og var gestaleikari í "Quantum Leap", "Herman's Head" og "Burke's Law". Eftir röð af skammlífum þáttum, ásamt því að leika í hryllingsmyndinni "Leprechaun", íhugaði Aniston að hætta í leiklist. Áform Aniston breyttust þó eftir að hafa farið í prufu fyrir "Friends", gamanþátt sem átti að sýna á NBC-stöðinni sjónvarpsárið 1994-1995. Framleiðendur þáttanna vildu upphaflega fá Aniston til að lesa hlutverk Monicu Geller en Courteney Cox var talin hæfari í hlutverkið. Þá var Aniston ráðin sem Rachel Green. Henni var einnig boðið að sjá um Saturday Night Live, en hún hafnaði því tilboði til að geta leikið í "Friends". Hún lék Rachel frá árinu 1994 þar til þættirnir endaðuðu árið 2004. Þættirnir voru vinsælir og Aniston, ásamt meðleikurum sínum, varð heimsfræg og fékk gott orðspor meðal sjónvarpsáhorfenda. Hún fékk eina milljón dala í laun fyrir hvern þátt, síðustu tvær þáttaraðirnar af Vinum og fimm Emmy-tilnefningar (tvær fyrir leikkonu í aukahlutverki og þrjár fyrir leikkonu í aðalhlutverki) og vann m.a. fyrir framúrskarandi leikkona í aðalhlutverki í gamanþáttaröð. Samkvæmt Heimsmetabók Guinness frá árinu 2005 urðu Aniston (ásamt meðleikkonum sínum) hæstlaunaða sjónvarpsleikkona allra tíma þegar hún fékk eina milljón dollara á þátt fyrir 10. þáttaröð Friends. Árið 2007 lék Aniston gestahlutverk í þætti Courteney Cox, "Dirt", en þar lék hún keppinaut hennar, Tinu Harrod. Aniston lék í þriðja þætti þriðju þáttaraðar af "30 Rock" en hún lék gamlan herbergisfélaga Liz Lemon sem situr um Jack Donaghy. Þann 16. júlí 2009 fékk Jennifer Emmy-tilnefningu í flokknum „Framúrskarandi leikkona í gestahlutverki í gamanþáttaröð“ fyrir hlutverk sitt í "30 Rock". Aniston lék einnig gestahlutverk í þætti í 2. þáttaröð af gamanþáttunum "Cougar Town", þar sem hún lék geðlækni. Kvikmyndaferill. Á meðan Aniston lék í Friends lék hún einnig í nokkrum kvikmyndum. Hún fékk fyrsta kvikmyndahlutverkið sitt árið 1992 í "Leprechaun" sem fékk slæma dóma gagnrýnenda en myndin varð vinsæl. Eftir fjögurra ára fjarveru frá kvikmyndum, lék hún í aukahlutverk í óháðu kvikmyndunum "Dream for an Insomniac" og "She's the One" árið 1996 ásamt Edward Burns og Cameron Diaz. Fyrsta kvikmyndin sem Aniston fór með aðalhlutverkið í var kvikmyndin "Picture Perfect" (1997) þar sem hún lék á móti Kevin Bacon og Jay Mohr. Á meðan myndin fékk misjafna dóma voru gagnrýnendur sammála um að Aniston ætti framtíðina fyrir sér í kvikmyndum. Á seinni hluta 10. áratugarins lék hún í nokkrum myndum eins og rómantísku myndinni " 'Til There Was You" (1997) með Dylan McDermott og Söruh Jessicu Parker, "The Thin Pink Line" (1998), teiknimyndinni "Iron Giant" (1999) og hinni margrómuðu gamanmynd "Office Space" (1999). Hún fékk mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína í "The Object of My Affection" (1998), gaman-drama um konu sem fellur fyrir samkynhneigðum manni (leikinn af Paul Rudd), og "The Good Girl" (2002), þar sem hún lék kassadömu í litlum bæ. Seinni myndin var sýnd í frekar fáum kvikmyndahúsum, færri en 700 og náði inn 14 milljónum dollara í tekjur. Tekjuhæsta mynd Aniston til þessa er "Bruce Almighty" frá árinu 2003 þar sem hún lék sambýliskonu Bruce sem leikinn var af Jim Carrey. Síðan lék Aniston í rómantísku gamanmyndinni "Along Came Polly" árið 2004 á móti Ben Stiller. Seinni hluta árs 2005 lék Aniston í tveimur stórum myndum, "Derailed" og "Rumor Has It...". Árið 2006 lék Aniston í myndinni "Friends with Money" sem var fyrst sýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni og var gefin út í takmörkuðu magni. Næsta mynd Aniston, "The Break-Up" sem kom út þann 2. júní sama ár náði alls 39,17 milljónum dala í kassann á opnunarhelginni, þrátt fyrir heldur slæma dóma. Árið 2006 leikstýrði Aniston stuttmynd sem gerðist á bráðavakt og kallast myndin "Room 10" og fóru Robin Wright og Kris Kristofferson með helstu hlutverk. Aniston sagði að leikkonan Gwyneth Paltrow hefði veitt henni innblástur, en hún leikstýrði líka stuttmynd þetta sama ár. Þann 25. desember 2008 kom út myndin "Marley & Me" sem Aniston lék í ásamt Owen Wilson. Myndin setti met fyrir tekjuhæstu jóladags-mynd með 14,75 milljónir bandaríkjadala í kassanum. Hún halaði inn samtals 51,7 milljónum dala á fjögurra daga helginni og var vinsælasta myndin í tvær vikur. Samtals halaði myndin inn 242,717,000 dollurum um allan heim. Næsta stóra kvikmynd Aniston var "He's Just Not That Into You". Á meðan myndin fékk misjafna dóma fengu Aniston, Ben Affleck, Ginnifer Goodwin og Jennifer Connelly lof gagnrýnenda. Í mars 2010 kom út myndin "The Bounty Hunter" þar sem Aniston lék á móti Gerard Butler. Myndin fékk hræðilega dóma gagnrýnenda, en myndin varð nokkuð vinsæl og halaði samtals inn yfir 130 milljónum dala. Næsta mynd Aniston, "The Switch", þar sem hún lék á móti Jason Bateman, varð ekki mjög vinsæl. Myndin náði aðeins inn 8,4 milljónum í kassann á opnunarhelginni og fékk myndin misjafna dóma. Þann 20. júní 2010 hafa myndir Aniston samtals halað inn meira en 1 billjón dollara í Bandaríkjunu. Myndin "Just Go with It" með Aniston og Adam Sandler í aðalhlutverkum kom í bíó Valentínusarhelgina 2011. Myndin fjallar um lýtalækni, leikinn af Sandler, sem biður skrifstofustjórann sinn, leikin af Aniston, að leika eiginkonu sína, til að sanna heiðarleika sinn fyrir mun yngri kærustu sinni, sem leikin er af Brooklyn Decker. Aniston mun leika í grínmynd ásamt Colin Farrell, Jason Bateman, Charlie Day og Jamie Foxx og heitir hún "Horrible Bosses" og leikstýrir Seth Gordon myndinni. Myndin einblínir á þrjá starfsmenn sem ætla sér að myrða yfirmenn sína. Aniston mun leika einn yfirmannanna, kynferðislega-árásagjarnan tannlækni sem ofsækir persónu Charlie Day. Aniston hefur skrifað undir samning um að leika í "Wanderlust" með Paul Rudd sem hún lék með í kvikmyndinni "The Object of My Affection" árið 1998. Handritið, sem hefur verið keypt af Universal Pictures, var skrifað af Rudd, Ken Marino og David Wain en sá síðastnefndi mun einnig leikstýra myndinni og mun Judd Apatow framleiða myndina. Kvikmyndin segir sögu af hjónum sem gana til liðs við „kommúnu“ þegar þau verða blönk og ákveða að „nútímalífið“ sé ekki fyrir þau. Önnur störf. Aniston hefur leikið í hinum ýmsu auglýsingum og tónlistarmyndböndum. Árið 1996 var hún í tónlistarmyndbandi Tom Petty and The Heartbreakers við lagið „Walls“. Árið 2001 lék hún í tónlistarmyndbandi Melissu Etheridge fyrir „I Want To Be In Love“. Hún hefur einnig verið í auglýsingu fyrir L'Oreal-hárvörur. Árið 1994 var Aniston, ásamt meðleikara sínum úr Friends, Matthew Perry, boðið að taka upp 30 mínútna kynningarmyndband fyrir nýtt stýrikerfi frá Windows, Windows 95. Ásamt Brad Pitt og Brad Grey, forstjóra Paramount Pictures, stofnaði Aniston kvikmyndaframleiðslufyrirtækið "Plan B Entertainment" árið 2002 en Grey hætti í fyritækinu árið 2005. Árið 2008 stofnaði hún annað fyrirtæki, "Echo Films", ásamt Kristin Hahn. Síðan 2007 hefur Aniston unnið með fyrirtækinu Smart Water. Aniston vann í meira en eitt ár að ilmvatni sínu og kemur það út í Bretlandi í júní 2010. Ilmvatnið er kallað "Lolavie" og þýðir það „að hlæja að lífinu“. Í fjölmiðlum. Árið 2007 setti tímaritið Forbes Aniston í 10. sæti yfri ríkustu konu í skemmtanabransanum. Hún var á eftir konum eins og Opruh Winfrey, J. K. Rowling, Madonnu og Celine Dion en á undan Britney Spears, Christinu Aguilera og Olsen-tvíburunum. Samvkæmt Forbes í október 2007 var Aniston söluhæsta stjörnuandlitið í skemmtanabransanum þar sem hún sló út Britney Spears og Angelinu Jolie. Hún var einnig arðvænlegasta leikkonan í Hollywood. Aniston hefur verið á lista Forbes, "Celebrity 100", sem byggður er á „tekjum og frægð“, alveg síðan arið 2001, en hún var í efsta sætinu árið 2003. Árið 2008 fékk Aniston 27 milljónir dala í laun. Aniston hefur verið á listum People yfir fallegasta fólkið alveg síðan 1995 og var í 1. sæti árið 2004. Árið 2006 toppaði Jennifer lista People yfir „best klædda fólkið“. Einkalíf. Jennifer átti í sambandi við meðleikara sinn úr "Ferris Bueller", Charlie Schlatter, árið 1990 og átti í sambandi við tónlistarmanninn Adam Duritz árið 1995. Frá 1995 til 1998 átti hún í sambandi við leikarann Tate Donovan og var sagt að þau væru trúlofuð. Í maí 1998 byrjaði Aniston ástarsamband við leikarann Brad Pitt. Þau giftu sig þann 29. júlí ári 2000 á Malibu. Í nokkur ár var hjónaband þeirra talið eitt það sterkasta í Hollywood. Þrátt fyrir það tilkynntu þau að þau væru skilin að borði og sæng þann 6. janúar 2005. Pitt og Aniston sáust saman á almannafæri eftir tilkynninguna, jafnvel í kvöldmatarboði sem fangaði 36 ára afmæli Aniston og vinir parsins héldu að þau hefðu gefið hjónabandinu annan séns. Aniston sótti hins vegar um skilnað í mars 2005 og var skilnaðurinn frágenginn 2. október 2005. Skilnaðurinn þykir einn sá óvæntasti í sögu Hollywood. Sögusagnir voru um að Pitt héldi framhjá Aniston með meðleikkonu sinni úr "Mr. and Mrs. Smith", Angelinu Jolie. Mánuðina eftir skilnaðinn voru fluttar fréttir af honum í fjölmiðlum. Fréttin var aðalfrétt sumra þátta eins og "Entertainment Tonight" og "Access Hollywood". Bolir með áletrunum „Lið Aniston“ og „Lið Jolie“ voru framleiddir og seldur „Lið Aniston“-bolirnir í mun meira magni en „Lið Jolie“-bolirnir en hlutfallið var 4:1. Aniston sagði að skilnaðurinn hefi hvatt hana til að tala við móður sína, Nancy, sem hún hafði átt í stirðu sambandi við í um áratug. Hún sagði einnig að hún væri eyðilögð yfir dauða sálfræðings hennar, sem hefði gert skilnaðinn við Pitt mun auðveldari. Aniston sagði að hún iðraðist ekki að hafa átt í sambandi við Pitt og sagði: „sjö mjög spennuþrungin ár saman“ og að „það hafi verið fallegt og flókið samband“. Eftir skilnaðinn átti Aniston í ástarsambandi við leikarann Vince Vaughn sem hún lék með í "The Break-Up" en þau hættu saman í desember árið 2006. Hún átti líka í sambandi við fyrirsætuna Paul Sculfor í nokkra mánuði árið 2007. Í febrúar 2008 byrjaði Aniston með söngvaranum John Mayer. Parið hætti saman í ágúst en byrjuðu aftur saman í október áður en þau hættu endanlega saman í mars 2009. Aniston hefur farið í tvær nefaðgerðir til að laga aðgerð sem mistókst, árið 1994 þá seinni í janúar 2007. Aniston er guðmóðir Coco Riley Arquette, dóttur góðra vina hennar, leikarahjónanna Courteney Cox og David Arquette. Verðlaun og Tilnefningar. Aniston hefur unnið fjöldamörg verðlaun, bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Hér er listi af þeim verðlaunum og tilnefningum sem hún hefur unnið. Austari-Krókar. Austari-Krókar eru eyðibýli syðst á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir voru í byggð til 1946. Knarrareyri. a>ð að Knarrareyri. Á myndinni sjást fjárhúsin áður en þau féllu. Knarrareyri eða Eyri er eyðibýli austast á Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Á jörðinni stendur rúst bæjarins þar sem bóndinn Árni Tómasson bjó í upphafi 20. aldar en hann hlóð fjárhús úr sjávargrjóti og tálgaði raftana með glerbroti, að því er sagt er. Landbrot á Flateyjardal hefur valdið því að fjárhúsin eru nú fallin. Knarrareyri er kannski þekktust fyrir að vera fæðingarstaður Finnboga ramma, sonar Ásbjarnar dettiáss, sem þar var bóndi á tíundu öld. Kemur bærinn talsvert við sögu í Finnboga sögu. Þönglabakki. Þönglabakki er eyðibýli við Þorgeirsfjörð, á norðanverðum skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar var prestssetur fram á tuttugustu öld. Bærinn fór í eyði 1944, sama ár og hin tvö síðustu býlin í Fjörðum. Útkirkja frá Þönglabakka var í Flatey á Skjálfanda en var færð að Brettingsstöðum á Flateyjardal árið 1897, en aftur út í Flatey 1956. Þönglabakki þótti eitt versta brauð á Íslandi, varla betri en meðaljörð til ábúðar. Þangað fóru prestar helst ekki ótilneyddir. Margir prestar í röð fóru þangað eftir að hafa lent í barneignarbrotum. Einn var skikkaður þangað fyrir guðlast. Á Þönglabakka bjuggu lengi hjónin Jóhannes Jónsson Reykjalín (1840-1915) og Guðrún Sigríður Hallgrímsdóttir (1849-1924), en af þeim er komin Kussungsstaðaætt. Þönglabakki var öldum saman einn afskekktasti kirkjustaður landsins og veigruðu biskupar sér oftar en ekki við að vísitera kirkjunar þar. Jón Arason vísiteraði þannig milli 1530 og 1540, en síðan liðu um 200 ár þangað til næst kom biskup á Þönglabakka. Er Þönglabakki fór í eyði 1944 var gamla kirkjan þar rifin. Enn sér móta fyrir grunninum af henni, og hlaðinn kirkjugarðurinn er enn þar í kring. Þar er eitt leiði merkt, með hvítum marmaralegsteini, yfir Ísak Jónssyni, sem drukknaði í Nykurtjörn nálægt aldamótum. Steinn sá er nú laskaður eftir að sjómenn nokkrir gerðu sér það að leik að skjóta í mark með riffli utan af firðinum. Á Þönglabakka er sæluhús, sem einnig þjónar sem gangnamannakofi. Brettingsstaðir (Flateyjardal). Brettingsstaðir eru eyðibýli á Flateyjardal á skaganum milli Eyjafjarðar ogSkjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir skiptast í Brettingsstaði efri og neðri. Brettingsstaðir Neðri var síðasti bærinn sem fór í eyði í Flateyjardal. Brettingsstaðir efri. Á Brettingsstöðum eftri er íbúðarhúsi haldið við og þar búa niðjar síðustu ábúenda á sumrin. Brettingsstaðir neðri. Brettingsstaðir neðri fóru í eyði 1953 en íbúðarhúsi er haldið við. Afkomendur síðustu ábúenda dvelja þar á sumrin með fjölskyldum sínum. Fjörður (Suður-Þingeyjarsýslu). Fjörður (kvk. ft.) eru eyðisveit á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, sem heitir Flateyjarskagi eða Gjögraskagi. Fjörður byggðust á landnámsöld og síðustu bæir fóru í eyði 1944. Kirkjustaður Fjörðunga var á Þönglabakka við Þorgeirsfjörð. Sveitin náði yfir Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð, eða frá Hnjáfjalli í vestri til Bjarnarfjalls í austri. Þorgeirshöfði liggur á milli fjarðanna tveggja. Meðal bæja í Fjörðum — sem allir eru í eyði núna — má nefna Þönglabakka og Hól í Þorgeirsfirði, og Kaðalstaði, Kussungsstaði, Tindriðastaði og Arnareyri í Hvalvatnsfirði. Upp af Þorgeirsfirði liggur Hóls- og Bakkadalur en upp af Hvalvatnsfirði liggur Leirdalsheiði. Fjallið Darri skilur á milli. Sé Leirdalsheiði farin í suðurátt er komið niður í Höfðahverfi. Úr Hóls- og Bakkadal eru færir fjallvegir austur á Leirdalsheiði. Yfir Hnjáfjall er leið hjá Messukletti vestur í Keflavík. Úr Hvalvatnsfirði austur er fært um Sandskarð eða yfir Bjarnarfjallsskriður austur á Flateyjardal. Messuklettur. Messuklettur er klettasnös í Hnjáfjalli, þar sem leiðin liggur milli Keflavíkur og Þorgeirsfjarðar í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar á í fyrndinni að hafa hafst við óvættur, sem um síðir var hrakin á brott með messusöng, sem kletturinn er síðan kenndur við. Frá Messukletti eru sjóbrött hengiflug þar sem auðvelt er fyrir ókunnuga að fara sér að voða. Keflavík (norður). Keflavík nyrðri er eyðibýli við litla, samnefnda vík, á Flateyjarskaga (skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa). Víkin liggur á milli fjallanna Gjögurs og Hnjáfjalls. Keflavík þótti löngum góð jörð til sauðfjárræktar. Upp úr 1860 rak Jón skipstjóri Loftsson frá Grenivík sjómannaskóla þar. Sagt er að Keflavík hafi verið næst-afskekktasti bær á Íslandi, á eftir Hvanndölum á Tröllaskaga. Einangraðist fólk þar oft á snjóþungum vetrum. Snemma á 18. öld gekk pest um Ísland, og veiktist fólk í Keflavík, sem víðar. Týndi heimilisfólk tölunni, uns feðgin voru ein eftir, bóndinn og dóttir hans er Margrét hét og var 11 ára. Þegar hann fann að dauðinn nálgaðist, leysti hann garðabönd í fjárhúsinu og minnti dóttur sína á að fara með bænirnar sínar ef hún yrði hrædd. Gekk hann að því búnu fram í bæjargöng, þar sem svalast var í bænum, og gaf upp öndina. Sex vikur liðu áður en Margrét fannst; höfðu menn frá Látrum róið til fiskjar og séð að ekki rauk úr strompi í Keflavík. Fóru þeir í land og fundu Margréti eina á lífi. Hún átti eftir að lifa fram í Móðuharðindi, en gekk ekki heil til skógar eftir þetta. Keflavík fór í eyði árið 1906, og hafði þá ýmist verið í byggð eða í eyði frá landnámsöld. Síðasti ábúandi var Geirfinnur Magnússon, sem átti hina frægu meri Keflavíkur-Jörp. 2001-2010. Tímabilið 2001–2010 er fyrsti áratugur 21. aldar. Fyrsti áratugur 21. aldar er frá 1. janúar 2001 og endar 31. desember 2010. Annar áratugur hefst 1. janúar 2011. Þvagefni. Þvagefni, úrefni eða karbamíð er efnasamband köfnunarefnis, vetnis, súrefnis og kolefnis með byggingarformúluna CON2H4 eða (NH2)2CO. Efnið var fyrst uppgötvað árið 1773 af Hilaire Rouelle og var fyrsta lífræna efnið sem unnið var úr ólífrænu efni árið 1828 af þýska vísindamanninum Friedrich Wöhler. Þvagefni er meðal annars notað í tilbúinn áburð, í sígarettur, í tannhvítnunarefni og til að brúna saltkringlur. Þvagefni er mælt í mjólk og hátt gildi þess getur bent til rangrar fóðrunar (sjá PBV). Sjimbúlak. Sjimbúlak ("kz: Шымбұлак") er Ólympíuskíðasvæði sem er nálægt Almaty, stærstu borg í Kasakstan. Sjimbúlak er í Alatáfjöllum, sem eru hluti af Tían Sjan fjöllum (á landamærum Kína, Kirgistan og Kasakstan). Medeú skautasvæðið er í 15 mínútna ökufjarlægð frá Sjimbúlak. Margt fólk frá Sovétríkjunum hefur æft hérna fyrir Ólympiuleikana. Í Sjimbúlak eru 3 skíðalyftur til að komast á toppinn. Kostar það 3000TГ Tenga (1.600kr.) að fara í skiðalyfturnar og 4000TГ Tenga (2.140kr.) að leigja skíði. Massimo D'Alema. Massimo D'Alema (f. 20. apríl 1949) er ítalskur stjórnmálamaður og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, sá fyrsti í sögu lýðveldisins sem kemur úr röðum ítalska kommúnistaflokksins. Hann er formaður vinstri-lýðræðisflokksins og varaforseti alþjóðasamtaka sósíalista. D'Alema kemur úr fjölskyldu sem var virk í kommúnistaflokknum og hann skráði sig fjórtán ára gamall í flokkinn. Hann hefur stundum verið kallaður „barn flokksins“. Á umrótsárum 8. áratugarins reyndi hann að miðla málum milli kommúnistaflokksins og fjölmennra róttækra vinstrihreyfinga sem höfðu gefist upp á honum og þótti hann of íhaldssamur og varfærinn undir stjórn Enricos Berlinguer. D'Alema varð hægri hönd Berlinguers og fór meðal annars með honum í jarðarför Júrí Andropov 1984. Þegar Berlinguer lést úr hjartaáfalli 1988 var D'Alema ritstjóri "L'Unità", málgagns kommúnistaflokksins 1991 átti hann þátt í stofnun nýs flokks, vinstrisinnaða lýðræðisflokksins, sem átti aðild að Ólífubandalaginu sem vann kosningarnar 1996. Í fyrstu ríkisstjórn Prodis var D'Alema forseti þingnefndar um stjórnsýsluumbætur og þegar ríkisstjórnin féll 1998 tók hann við sem forsætisráðherra og gegndi því embætti til 2000 þegar vinstri-miðjuflokkarnir töpuðu illa í sveitarstjórnarkosningum. Eftir afsögn hans tók Giuliano Amato við. Í annarri ríkisstjórn Prodis frá 2006 gegndi D'Alema stöðu utanríkisráðherra. D'Alema, Massimo Giovanni Leone. Giovanni Leone (3. nóvember 1908 – 9. nóvember 2001) var ítalskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Ítalíu í tveimur skammlífum „sumarstjórnum“ á 7. áratugnum og forseti Ítalíu frá 1971 til 1978. Hann var frá Napólí og faðir hans var einn af stofnendum kristilega demókrataflokksins. Hann varð forsætisráðherra 1963 og 1968 í ríkisstjórnum sem höfðu það eina hlutverk að bera fram fjárlög næsta árs. 1976 var hann kosinn forseti en neyddist til að segja af sér í kjölfar Lockheed-hneykslisins sex árum síðar þar sem líklegt þótti að hann hefði þegið mútur til að taka Lockheed fram yfir keppinautana í kaupum á herflugvélum fyrir ítalska herinn. Þessar ásakanir voru þó aldrei sannaðar. Leone, Giovanni Leone, Giovanni Giuliano Amato. Giuliano Amato (f. 13. maí 1938) er ítalskur stjórnmálamaður sem hefur tvisvar gegnt embætti forsætisráðherra Ítalíu. Hann hóf stjórnmálaferil sinn í sósíalistaflokknum. Árið 1992 varð hann forsætisráðherra í fyrsta skiptið og var við stjórn til 1993 meðan "Mani pulite" stóð sem hæst en blandaðist aldrei sjálfur í spillingarrannsóknina. Ríkisstjórn hans reyndi að koma í gegn frumvarpi um að rannsókn spillingarmála flyttist frá dómsvaldinu til lögreglunnar. Frumvarpið olli almennum uppþotum og á endanum synjaði forsetinn, Oscar Luigi Scalfaro, að staðfesta lögin á þeirri forsendu að þau brytu í bága við stjórnarskrána. Giuliano Amato varð aftur ráðherra í fyrstu ríkisstjórn D'Alema 1998 og tók við forsætisráðherraembættinu síðustu mánuði vinstri-miðjustjórnarinnar og sat að völdum fram að þingkosningunum 2001 þegar kosningabandalag hægriflokkanna undir forystu Berlusconis fór með sigur af hólmi. Amato, Giuliano Ciriaco De Mita. Ciriaco De Mita (f. 2. febrúar 1928) er ítalskur stjórnmálamaður og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu. Hann var einn af forystumönnum á vinstri væng kristilega demókrataflokksins. Hann var kosinn á þing í fyrsta skipti 1963. De Mita, Ciriaco Lamberto Dini. Lamberto Dini (fyrir miðri mynd). Lamberto Dini (f. 1. mars 1931) er ítalskur stjórnmálamaður, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu 1995 til 1996 og utanríkisráðherra frá 1996 til 2001. Hann lærði hagfræði og varð 1979 seðlabankastjóri hjá Banca d'Italia sem þá var seðlabanki Ítalíu. Hann gegndi því starfi til 1994 þegar hann hóf þátttöku í stjórnmálum í fyrstu ríkisstjórn Berlusconis, en eftir fall hennar 1995 fékk hann það verkefni að mynda tæknilega utanþingsstjórn. Sú stjórn naut aðeins stuðnings vinstri-miðjuflokka á þingi þá fjóra mánuði sem hún var við völd, en hægriflokkarnir undir forystu Berlusconis voru í stjórnarandstöðu. Í kosningunum 1996 bauð Dini sig fram með sér lista með Ólífubandalagi Prodis. Dini, Lamberto Ivanoe Bonomi. Ivanoe Bonomi (18. október 1873 – 20. apríl 1951) var ítalskur stjórnmálamaður og tvisvar sinnum forsætisráðherra Ítalíu. Hann hóf stjórnmálaferil sinn í sósíalíska verkamannaflokknum en var rekinn úr flokknum vegna stuðnings síns við Líbýustríðið sem varð til þess að hann stofnaði með öðrum sósíalíska umbótaflokkinn. Hann varð fyrst forsætisráðherra 1921 og var gagnrýndur fyrir að þægjast fasista og beita hörku gegn þeim sem börðust gegn uppgangi þeirra. Eftir að Benito Mussolini kom á flokksræði dró hann sig í hlé en tók aftur upp þráðinn 1943. 1944 tókst honum að mynda ríkisstjórn með stuðningi ýmissa fylkinga sem mynduðu Frelsunarnefnd efri Ítalíu en sú stjórn féll eftir ár vegna ósættis innan nefndarinnar. Bonomi, Ivanoe Giovanni Giolitti. Giovanni Giolitti (27. október 1842 – 17. júlí 1928) var ítalskur stjórnmálamaður sem setti mikinn svip á ítölsk stjórnmál kringum aldamótin 1900. Hann var forsætisráðherra Ítalíu fimm sinnum milli 1892 og 1921. Hann hóf stjórnmálaferil sinn í hóp hófsamra frjálslyndra stjórnmálamanna umhverfis Francesco Crispi og gerðist fjármálaráðherra í annarri ríkisstjórn Crispis 1890. Hann var af nýrri kynslóð borgaralegra stjórnmálamanna sem ekki hafði tekið þátt í baráttunni fyrir sameiningu Ítalíu. Hann varð fyrst forsætisráðherra árið 1892 en sú stjórn fór illa vegna þess hve hann var tregur til að beita valdi gegn óeirðum sem blossuðu upp (meðal annars vegna efnahagsþrenginga og hækkandi verðs á nauðsynjavörum), orðrómur um að hann hygðist taka upp þrepaskiptan tekjuskatt og að lokum Banca Romana-hneykslið gerðu það að verkum að hann neyddist til að segja af sér í desember árið 1893 og Crispi tók við völdum. Crispi var fulltrúi borgaralegu aflanna en af ýmsum ástæðum lenti sú hugmyndafræði sem hann stóð fyrir í kreppu undir aldamótin og 1903 var Giolitti aftur orðinn forsætisráðherra, að þessu sinni í hópi lýðræðissinna til vinstri í þinginu sem reyndu að sætta sjónarmið borgarastéttarinnar og verkafólks. Stjórn Giolittis stóð þannig fyrir þjóðnýtingu járnbrautanna og tryggingafélaga og vildi efla efnahagslífið með því að viðhalda stöðugleika í fjármálum og standa fyrir opinberum framkvæmdum. Aðgerðir stjórnarinnar í efnahagsmálum komu einkum stórum iðnfyrirtækjum til góða og iðnaður efldist til muna, einkum á Norður-Ítalíu, en landbúnaðarhéruðum í suðurhluta landsins hnignaði að sama skapi og skipulögð glæpastarfsemi blómstraði. Giolitti, Giovanni Ford Mustang. Ford Mustang, er sportbíll framleiddur af bandaríska bifreiðaframleiðandanum Ford. Þessi bíll kom fyrst á markað 17.apríl 1964 með 170cid 6cyl línu vél eða 260cid V8 vél. Opinberlega er miðað við 1965, en fyrstu bílarnir (frá apríl til sept. 1964) eru allir skráðir sem árgerð 1965 og voru eingöngu fáanlegir sem "Hardtop" og "Convertible", "Fastback" bíllinn kom síðar eins og GT pakkinn. Frá og með sept. 1964 voru vélarnar 6 cyl 200cid og V8 vélin 289 cid fáanleg í þremur stærðum, 200hö. 225hö og 271hö, en 302cid vélin var framleidd út frá fyrri 289cid vélinni og kom á markað 1967 aðallega til þess að koma kúpiktommu tölunni yfir 300 cid., eini munurinn er sá að hún er slaglengri en 289cid og þar af leiðandi er hún aðeins stærri. Margar útgáfur af vélinni hafa verið hannaðar frá fyrri tíð. Þar má geta 351cid vélinni sem kom fram árið 1970, en 351ci var hönnuð til að eyða minna eldsneyti, þessi breyting kom rétt fyrir olíukreppuna] sem byrjaði 1973.þar er talað um að framleiðsla og útlit bílsinns hafi farið versnadi og fóru ford að framleiða bíla með litlum vélum og jafnvel bíla með svipaðari hönnun og japanskir framleiðendur, Þar var hagnýtni og kraftur í fyrirrúmi hjá Ford. Íslenski klúbburinn var stofnaður 17. apríl árið 2000 í tilefni af 36 ára afmæli Mustangsins. Pietro Badoglio. Pietro Badoglio, 1. hertogi af Addis Abeba (28. september 1871 – 1. nóvember 1956) var ítalskur hershöfðingi og stjórnmálamaður. Hann hóf feril sinn í ítalska hernum og barðist í Erítreu og Líbýu. Hann varð herforingi eftir að hafa tekið Monte Sabotino í maí 1916. Eftir stríð var hann útnefndur öldungadeildarþingmaður en hélt áfram störfum fyrir herinn. Í fyrstu var hann á móti Benito Mussolini og 1922 var honum ýtt til hliðar og hann gerður að sendiherra í Brasilíu. Afstaða hans breyttist þó fljótt og 1924 varð hann yfirmaður í hernum og landstjóri í Líbýu 1929 til 1933. 1936 tók hann við af Emilio de Bono sem yfirmaður innrásarinnar í Eþíópíu og heimilaði meðal annars notkun eiturgass. Hann náði Addis Abeba á sitt vald 5. maí og batt þannig enda á átökin. Fyrir þetta var Badoglio gerður að varakonungi í Eþíópíu og fékk titilinn „hertogi af Addis Abeba“. 1939 gerðist Ítalía aðili að Stálbandalaginu. Badoglio var meðal þeirra sem voru andsnúnir samkomulaginu og höfðu áhyggjur af stöðu Ítalíu ef til styrjaldar kæmi. Eftir hrakfarir hersins í Grikklandi 1940 sagði hann af sér. Þegar bandamenn réðust inn á Sikiley kom miðstjórn ítalska fasistaflokksins saman og framkvæmdi stjórnarbyltingu. Viktor Emmanúel 3. setti þá Mussolini af og fékk Badoglio umboð til stjórnarmyndunar. Lýst var yfir að herlög væru í gildi, Mussolini tekinn höndum og viðræður teknar upp við fulltrúa bandamanna. Þýski herinn brást þá við, réðist inn í Ítalíu og frelsaði Mussolini en stjórnin hörfaði til Pescara og Brindisi. 3. september skrifaði Badoglio undir vopnahlé gagnvart bandamönnum og 13. október lýsti hann formlega yfir stríði á hendur Þjóðverjum sem þá höfðu náð Róm á sitt vald. 10. júlí 1944 sagði hann af sér embætti og konungur veitti Ivanoe Bonomi, fulltrúa andstæðinga fasista, umboð til stjórnarmyndunar. Badoglio dró sig þá í hlé og bjó í fæðingarbæ sínum, Grazzano, til dauðadags. Badoglio, Pietro Francesco Crispi. Francesco Crispi (4. október 1819 – 12. ágúst 1901) var ítalskur stjórnmálamaður sem átti þátt í sameiningu Ítalíu og varð tvisvar forsætisráðherra Ítalíu. Crispi fæddist á Sikiley og tók þar virkan þátt í Sikileyjarbyltingunni gegn Ferdinand 2. sem leiddi til þess að hann fór í útlegð til Fjallalands. Hann var bendlaður við Mazzini-samsærið 1853 og flýði þá til Möltu og síðan til Parísar. 1859 sneri hann aftur til Ítalíu og ferðaðist með leynd um Sikiley til að undirbúa uppreisn árið eftir. Í Genúa tók hann þátt í undirbúningi þúsundmannaleiðangursins sem lenti á Sikiley maí 1860. Crispi var þá lýstur „einvaldur Sikileyjar“. Eftir fall Palermó var Crispi útnefndur innanríkis- og fjármálaráðherra í bráðabirgðastjórn eyjarinnar en sagði brátt af sér vegna deilna milli fylgismanna Garibaldis og Cavour um innlimun eyjarinnar í ítalska ríkið. Eftir sameininguna bauð Crispi sig fram til þingsetu og náði kjöri. Hann var í hópi „vinstrimanna“, þ.e. þeim hópi sem stutt hafði stofnun lýðveldis og voru andsnúnir konungsvaldinu en 1864 skipti hann um lit og gerðist konungssinni. 1867 reyndi hann að koma í veg fyrir innrás Garíbaldína í Róm sem leiddi til ósigurs þeirra í orrustunni við Mentana. Þegar fransk-prússneska stríðið hófst 1870 var hann andstæðingur hugsanlegs bandalags við Frakka. Þegar Viktor Emmanúel 2. lést 1878 átti Crispi þátt í því sem innanríkisráðherra í þriðju ríkisstjórn Depretis að skapa konungsvaldinu traustari grundvöll, sjá til þess að konungurinn yrði grafinn í sérstöku grafhýsi í Róm, en ekki fluttur til Savoja og að eftirmaður hans tæki upp nafnið Úmbertó 1. konungur Ítalíu, en ekki Úmbertó 4. af Savoja. Hann átti einnig þátt í því, þegar Píus 9. lést, að sannfæra ráðsnefnd páfa um að halda fund sinn í Róm og samþykkja þannig í reynd lögmæti yfirtöku höfuðborgarinnar. 1887, þegar hann var orðinn forsætisráðherra fyrir vinstrimenn á þingi, stofnaði hann til persónulegra tengsla við Otto von Bismarck og mótaði utanríkisstefnu sína út frá Þríveldabandalaginu: varnarbandalagi Ítalíu, Austurríkis-Ungverjalands og Þýskalands 1882. Róttækir stuðningsmenn Crispis studdu hann nú ekki lengur en hægrimenn studdu stjórnina til 1891. Crispi beitti hörku gegn uppþotum og mótmælum og féll þannig í kramið hjá borgarastéttinni. Þegar fyrsta ríkisstjórn Giolittis virtist óhæf til að berjast gegn uppþotum var Crispi beðinn um að taka aftur við stjórninni. Í kosningunum 1895 fékk Crispi mikinn meirihluta en ósigurinn við Adúa í Austur-Afríkuherförinni ári síðar varð til þess að hann sagði af sér. Eftir þetta hélt Crispi áfram stjórnmálastarfi í þinginu. Crispi, Francesco Tommaso Tittoni. Tommaso Tittoni (16. nóvember 1855 – 7. febrúar 1931) var ítalskur stjórnmálamaður og stjórnarerindreki sem var forsætisráðherra Ítalíu í aðeins fimmtán daga, frá 12. mars til 27. mars árið 1905. Eftir Rómargöngu Mussolinis gekk Tittoni til liðs við fasista og fékk sæti í miðstjórn ítalska fasistaflokksins. Tittoni, Tommaso Antonio Starabba. Antonio Starabba, markgreifi af Rudini (6. apríl 1839 – 7. ágúst 1908) var ítalskur stjórnmálamaður og aðalsmaður og tvisvar forsætisráðherra Ítalíu. Hann var af ríkri sikileyskri landeigendafjölskyldu en tók afstöðu með Garibaldi og undirbjó innrás hans 1860. Hann var kjörinn borgarstjóri Palermó og barði niður uppreisn aðskilnaðarsinna 1866. 1868 var hann gerður að fylkisstjóra í Napólí. 1869 varð hann innanríkisráðherra í ríkisstjórn Menabrea. 1891 varð hann forsætisráðherra á eftir aðalkeppinauti sínum, Francesco Crispi, sem leiðtogi hægrimanna á þinginu. 1892 var honum velt úr sessi með atkvæðagreiðslu í þinginu og Giovanni Giolitti tók við. Ósigur Ítala í orrustunni við Adúa gerði honum kleift að mynda aftur stjórn 1896. Starabba, Antonio Sidney Sonnino. Sidney Costantino Sonnino, barón (11. mars 1847 – 24. nóvember 1922) var ítalskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Ítalíu tvö skipti. Hann var kosinn á þing 1880 sem upplýstur íhaldsmaður. 1893 varð hann fjármálaráðherra í annarri ríkisstjórn Crispis. Hann varð forsætisráðherra um stutt skeið 1906 og aftur 1909. Hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Salandras sem samdi um þátttöku Ítala í fyrri heimsstyrjöldinni við hlið bandamanna í skiptum fyrir stór landsvæði. Hann var aftur utanríkisráðherra við gerð Versalasamninganna 1919 þar sem þau loforð voru svikin. Sonnino, Sidney Venetian Snares. Venetian Snares (íslenskast sem feneyskir snerlar) er nafnið sem Kanadamaðurinn Aaron Funk gefur út tónlist sina sem. Tónlist hans flokkast nánast undartekningarlaust sem tilraunakennd raftónlist; IDM, breakcore eða glitchcore. Hann hefur gefið út hjá fjöldamörgum útgáfufyrirtækjum; History of the Future, DySLeXiC ResPonSe, Addict, Zod, Distort, Sublight, Low-Res, Planet Mu og Hymen. Tónlist Aarons þykir heldur tormelt borin saman við popptónlist en hún nýtur stöðugt meiri vinsælda um heim allan. Til merkis um það hefur John heitinn Peel hrósað honum. Plata hans Rossz csillag alatt született hefur selst í 15 þúsund eintökum. Loks hefur Anthony Kiedis, söngvari Red Hot Chili Peppers sagt hann vera uppáhalds nýja tónlistarmann sinn. Í tónlist Aarons gætir ýmissa áhrifa, þar má nefna þungarokk, dauðarokk, fönk, jass og klassísk tónlist. Aaron vinnur tónlist sína mestmegnis í tölvum í svonefndum trakkerforritum. Á YouTube má finna upptöku af því þegar eitt laga hans, af plötunni Cavalcade of Glee and Dadaist Happy Hardcore Pom Poms, spilast á slíku forriti. Camillo Benso greifi af Cavour. Camillo Benso greifi af Cavour (10. ágúst 1810 – 6. júní 1861) var ítalskur stjórnmálamaður sem lék lykilhlutverk í sameiningu Ítalíu. Hann var af aðalsfjölskyldu frá Fjallalandi og varð bæjarstjóri í Grinzane þegar hann var 22ja ára gamall. Hann var kjörinn á þing konungsríkisins Sardiníu 1848 og varð forsætisráðherra 1852 með stuðningi vinstrimanna og hófsamra hægrimanna. Þegar Krímstríðið braust út sendi hann herlið til stuðnings stórveldunum Frakklandi og Bretlandi. 1858 átti hann leynilegan fund með Napóleon 3. þar sem þeir gerðu með sér samkomulag um stuðning Frakka við innlimun norðausturhéraða Ítalíu frá Austurríki-Ungverjalandi gegn því að Frakkar fengju franska hluta Savoja og Nice. Stríðið braust út 1859 og Sardinía innlimaði Langbarðaland en Frakkar drógu sig í hlé fyrr en ætlunin var. Hann aðstoðaði Giuseppe Garibaldi við að skipuleggja Þúsundmannaleiðangurinn en notaði síðan óttann við byltingu Garibaldis til að fá stuðning Frakka við innrás í Páfaríkið (að Róm undanskilinni). Þegar herlið Sardiníu kom til Suður-Ítalíu „gaf“ hann Viktor Emmanúel 2. þennan hluta landsins sem leiddi til sameiningar hluta þess sem nú er Ítalía. 17. mars 1861 var Viktor Emmanúel hylltur sem konungur Ítalíu. Eftir þetta hóf Cavour samningaviðræður við páfa en lést úr malaríu áður en þeim lauk. Cavour, Camillo Land Rover. Land Rover Series I - fyrsta tegundin frá LandRover Land Rover er bílaframleiðandi frá bænum Solihull í Bretlandi, stofnaður 1948. Fyrstu árin var fyrirtækið deild innan Rover bílaframleiðandans (sem hefur nú hætt starfsemi) en hefur verið í eigu ýmissa aðila í gegnum árin. Nú, 2010, er Land Rover í eigu Tata Motors. Sagan. Fyrsti bíllinn með heitinu "Land Rover" var frumsýndur 30. apríl 1948 á bílasýningunni í Amsterdam. Frumeintakið hafði þá verið tilbúið frá árinu áður og er fyrsta árgerðin oft miðuð við 1947. Var bíllinn hannaður af Maurice Wilks á búgarði hans og segir sagan að hann hafi fengið innblástur frá hinum upprunalega jeppa, "Jeep", en fyrsti Land Roverinn var byggður á grind undan slíkum bíl. Þegar fram liðu stundir var nafnið Land Rover notað sem tegundaheiti á fleiri bíla sem á eftir komu. Höfuðeinkenni allra bíla frá Land Rover er að þeir eru með fjórhjóladrifi og flestar tegundir frá upphafi hafa verið með yfirbyggingu úr málmblöndu áls og magnesíum sem upphaflega réðst af skorti á stáli á árunum eftir heimsstyrjöldina og offramboði af flugvélaáli. Litavalið á fyrstu bílunum réðst einnig af því að flugvélamálning frá hernum fékkst ódýrt. Stór hluti af sögu Land Rover er tengdur framleiðslu á bílum fyrir breska herinn sem hefur alla tíð haldið tryggð við fyrirtækið. Tegundir gegnum tíðina. Af hverri tegund hafa svo verið kynntar til sögunnar ótal undirtegundir og gerðir auk annarra útgáfna sérstaklega framleiddra fyrir breska herinn Sellulósi. Sellulósi, tréni eða beðmi er efni sem veitir plöntumfrumum styrk og er eitt af næringarefnum í plöntum. Ensím þarmaörvera sjá um að melta og brjóta niður beðmi, t.d. í vömb jórturdýra. Meltingavökvar manna og flestra dýra vinna hins vegar ekki á beðmi en samt er beðmi mikilvægur hluti af næringunni. Trefjar þess örva hreyfingar meltingarfæranna og koma í veg fyrir hægðatregðu. Kindur, kýr og aðrir grasbítir melta beðmi með hjálp örvera sem þrífast í meltingarfærum dýranna. Halamið. Halamið eða Hali eru fiskimið á brún landgrunns Íslands við enda Djúpáls sem liggur út frá Ísafjarðardjúpi norðvestur af Vestfjörðum. Þessi mið urðu mikilvæg eftir að Íslendingar hófu sjósókn á togurum eftir 1920. Laugardaginn 7. febrúar 1925 gerði þar aftakaveður svo tveir togarar fórust, "Leifur heppni" og "Robertson", og með þeim 68 menn. Var þetta síðan kallað Halaveðrið. Schock-verðlaunin. Schock-verðlaunin eða Rolf Schock-verðlaunin, eru verðlaun sem heimspekingurinn og listamaðurinn Rolf Schock (1933–1986) stofnaði til. Verðlaunin voru fyrst veitt í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 1993 og hafa verið veitt annað hvert ár síðan. Hver verðlaunahafi hlýtur 400.000 sænskar krónur. Jönköping. Jönköping er borg í Svíþjóð. Íbúar Jönköping eru rúmlega 84 þúsund (2006). Sveitarfélagið hefur um 122.000 íbúa. Feneyjar. Feneyjar eru höfuðborg Venetó héraðsins á Norðaustur-Ítalíu, hvorttveggja þekkt fyrir iðnað sinn sem og ásókn ferðamanna í borgina. Borgin hefur stundum verið nefnd: Drottning Adríahafsins ("la Regina dell'Adriatico") en einnig: "la Serenissima", "la Superba" eða "la Dominante dei Mari". Feneyjum stafar vaxandi hætta af flóðum ("acqua alta"), mengun og landsigi. Fólksflótti varð frá borginni vegna bágra lífskjara og árunum 1968-1976 fluttu yfir 100.000 manns úr borginni. Íbúar Feneyja núna eru um 271.663 manns (2004). Borgin er hafnarborg og teygir sig yfir fjölda lítilla eyja í Feneyjalóninu sem er u.þ.b. 500 km² og liggur að Adríahafinu. Sunnan við Feneyjar eru óseyrar árinnar Pó og norðan eru óseyrar árinnar Piave. Iðnaðarsvæðið Mestre á meginlandi Ítalíu tengist Feneyjum með vegfyllingu og höfn er við Marghera. Feneyjar eru reistar á smáeyjum og á milli þeirra eru vatnsvegir sem nefndir eru síki á íslensku. Flestir ferðast milli borgarhluta með almenningsbátum, svonefndum vaporetto (ft. "vaporetti"), en Feneyjar eru þó hvað frægastar fyrir gondólana sem er róið um síkin og hafa löngum verið ímynd rómantíkur. Byggingar Feneyja og menning hafa einnig verið seglar á ferðamenn í áranna rás. Um 180 síki með um 400 brúm skilja að eyjarnar í Feneyjum. Helsta umferðaræðin er S-laga síki sem nefnist Canal Grande og sem heimamenn nefna Canalazzo. Á bökkum þess eru um 200 lystihallir ("palazzo"), tíu kirkjur og yfir það liggur Rialto-brúin ásamt þremur öðrum brúm: Ponte degli Scalzi, Ponte dell'Accademia og hin nýja og umdeilda Ponte della Costituzione. Í hjarta Feneyja er Markúsartorg með Markúsarkirkju og skammt frá er Hertogahöllin. Saga Feneyja. Feneyjar voru stofnaðar á 5. öld e.Kr. og urðu fljótlega mikill verslunarstaður og mikil miðstöð menningar og lista. Feneyjar urðu sjálfstætt lýðveldi á 8. öld. Borgarríkið fékk einokun á verslun við Austurlönd en misstu hana eftir fund sjóleiðarinnar til Asíu 1498. Feneyska lýðveldið var ekki sameinað Ítalíu fyrr en undir lok 18. aldar. Steinunn Kristjánsdóttir. Steinunn Jóna Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, fædd 13. október 1965 á Breiðalæk í V-Barðastrandasýslu. Stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði 1986. Nam fornleifafræði við háskólann í Gautaborg (Fil.kand 1993, Fil.mag 1994, Fil.dr 2004). Hefur m.a. stundað rannsóknir á klausturrústum á Skriðuklaustri frá árinu 2002 (forkönnun sumarið 2000). Lektor við Þjóðminjasafn Íslands og Háskóla Íslands. Kennslugreinar við sagnfræði- og fornleifafræðiskor HÍ: Inngangur að fornleifafræði, kynjafornleifafræði, vöruframleiðsla og -þróun, félagsleg fornleifafræði, siðfræði og fornleifafræði. Formaður Fornleifafræðingafélags Íslands frá 2002. Sjómannasamband Íslands. Sjómannasamband Íslands er landssamtök íslenskra sjómanna. Sambandið er aðili að Alþýðusambandi Íslands. Formaður er Sævar Gunnarsson og framkvæmdastjóri er Hólmgeir Jónsson. Hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna sjómanna og standa að gerð kjarasamninga við íslenska ríkið. Saga. Sjómannasamband Íslands var stofnað 24. febrúar árið 1957. Stjórnendur Sjómannafélags Reykjavíkur voru aðalhvatamenn að stofnun sambandsins, sérstaklega með það fyrir augum að styrkja aðstöðu sjómannastéttarinnar við samninga um kaup og kjör, svo og til aukinna áhrifa á ríkisstjórn og löggjafavald varðandi hin ýmsu mál, er hún varð að sækja eða vera á verði um á þeim vettvangi. Stofnfundurinn var haldinn dagana 23. og 24. febrúar 1957. Á fundinum síðari daginn var samþykkt að stofna sambandið, lög fyrir það samþykkt og bráðabirgðastjórn kosin til framhaldsstofnfundar, er haldinn skyldi um haustið. Í fyrstu stjórn voru kosnir Jón Sigurðsson og Hilmar Jónsson frá Sjómannafélagi Reykjavíkur og Magnús Guðmundsson frá Matsveinafélaginu, en þau tvö félög voru fyrstu stofnendurnir. Framhaldsstofnfundur var haldinn um haustið 19. og 20. október það sama ár. Þá voru gerðar smávægilegar breytingar á lögum sambandsins og kosin 5 manna stjórn, eins og lögin gerðu ráð fyrir. Þessir voru kosnir: Jón Sigurðsson, Reykjavík, formaður, og meðstjórnendur þeir: Magnús Guðmundsson, Garðahreppi, Hilmar Jónsson, Reykjavík, Ólafur Björnsson, Keflavík og Ragnar Magnússon, Grindavík. Svo litla trú hafði þáverandi forysta Alþýðusambands Íslands á tiltækinu, að hún sendi ekki færri en þrjú mótmælabréf gegn þessu til sjómannafélagana, þar sem forystumennirnir óttuðust mjög, að við þessa breytingu myndu sjómannafélögin ganga úr Alþýðusambandinu. Einn af stofnendum Sjómannasambandsins og fyrsti formaður, Jón Sigurðsson, var fyrrum fyrsti erindreki og framkvæmdastjóri ASÍ, sem allan sinn starfstíma hjá Alþýðusambandinu hafði unnið að því hörðum höndum að koma hverju nýstofnuðu verkalýðsfélagi þangað inn. Forysta ASÍ þekkti því þennan fyrrum starfsmann sinn ærið illa, ef þeir héldu, að hann myndi ekki gera gangskör að því, að Sjómannasambandið og aðildarfélög þess yrðu innan vébanda ASÍ, enda leið ekki langur tími, áður en hann sendi forystu ASÍ bréf þess efnis, að Sjómannasambandið æskti þess að vera aðili að ASÍ, þó að það fengi ekki upptöku í ASÍ fyrr en á þingi þess í nóvembermánuði 1960. Jón Sigurðsson gegndi formennsku í Sjómannasambandinu til 1976. Þá tók Óskar Vigfússon við, en Sævar tók við af honum. Aðildarfélög. Í dag eiga 23 sjómanna- og verkalýðsfélög aðild að sambandinu. Um áramótin 2007 sameinuðust Sjómannafélag Reykjavíkur og Matsveinafélag Íslands undir nafninu Sjómannafélag Íslands og sögðu sig úr Sjómannasambandinu. Geimfyrirbæri. Geimfyrirbæri eru stórsæ stjarnfræðileg fyrirbæri, sem finnast eða talið er að finnist í geiminum, þ.á m. jörðin, tunglið, sólin, reikistjörnurnar, sólstjörnur, hvítir dvergar, vetrarbrautin, stjörnuþokur, halastjörnur, smástirni, dulstirni, svarthol, hulduefni o.fl. Himinfyrirbæri eru geimfyrirbæri, sem sjást frá jörðu. Smásæ fyrirbæri, eins og frjálsar öreindir, frumeindir, sameindir og jónir teljast ekki til geimfyrirbæra. (Skilgreining getur verið umdeild.) Himinfyrirbæri. Himinfyrirbæri eru geimfyrirbæri, sem sjást frá jörðu (þó jörðin sjálf flokkist ekki sem himinfyrirbæri), t.d. himinhnettir, loftsteinar, halastjörnur og norðurljós. Endingarhyggja. Endingarhyggja er heimspekileg kenning um samsemd hluta (eða hvernig hlutir vara í gegnum tíma), sem felur í sér að á hverju augnabliki sé eining í samsemd hlutar, andstætt sneiðhyggju, sem felur í sér að eining samsemdar hluta sé fólgin í heild allra svonefndra tímasneiða hans (líkt og kvikmynd). Þannig hlutur samkvæmt endingarhyggjunni á sérhverju augnabliki sami hluturinn og hann var eða verður á öðru augnabliki. Til að skýra kenninguna með dæmi má ímynda sér að einhver sjái bók einn daginn og sjái hana svo aftur næsta dag. Bókin, sem viðkomandi sér aftur næsta dag, er "sama" bókin og hann sá daginn áður en ekki einungis "sá hluti" bókarinnar sem er til seinni daginn. Endingarhyggja fer gjarnan saman með nútíðarhyggju um tímann en gerir þó ekki ráð fyrir henni. (En nútíðarhyggjan gerir ráð fyrir eða felur í sér endingarhyggju). Greinarmunurinn á nútíðarhyggju og eilífðarhyggju (á ensku „endurantism“ og „perdurantism“) var gerður af ástralska heimspekingnum Mark Johnston en á rætur að rekja til kenninga Davids Lewis. Sneiðhyggja. Sneiðhyggja er heimspekileg kenning um samsemd hluta. Sneiðhyggja felur í sér að hlutir séu fjórvíðir og hafi svonefndar tímasneiðar. Einingin í samsemd hlutar er fólgin í heild allra tímasneiða hans. Með öðrum orðum felur kenningin í sér að hluturinn í heild sinni sé hluturinn allur á öllum augnablikum sem hann er til, eins og ormur sem teygir sig yfir tíma (engu síður en rúm). Til dæmis má ímynda sér að einhver sjái í dag hlut, til dæmis styttu. Viðkomandi sér ekki alla styttuna, heldur einungis þann hluta hennar sem fyllir eða nær yfir það tiltekna augnablik þegar viðkomandi horfir á hana. Aftur á móti er styttan í gær og ef til vill einnig styttan í dag hlutar af styttunni allri. Sneiðhyggja gerir ráð fyrir eða felur í sér eilífðarhyggju um tímann. Skip Þeseifs. Skip Þeseifs er forn þverstæða um samsemd hluta. Þverstæðan lýsir skipi Þeseifs, sem á tilteknum degi er sama skipið og það var daginn áður, þótt skipt hafi verið um eina fjöl. En þá vaknar spurningin hvort enn sé um "sama" skipið að ræða þegar skipt hefur verið um "alla" hluta þess. Enn fremur vaknar spurningin hvað gerist ef smám saman er skipt um alla hluta skipsins en að því loknu eru gömlu hlutarnir síðan settir saman aftur: Hvort skipið er "sama" skipið og Þeseifur átti í upphafi? Einar Jónsson. Einar Jónsson (11. maí 1874 – 18. október 1954) var íslenskur myndhöggvari, brautryðjandi á Íslandi. Einar vann mikið með þjóð- og goðsöguleg minni. Verk hans eru til sýnis í Listasafni Einars Jónssonar og mörg önnur eru þekkt kennileiti Reykjavíkurborgar þ.á m. styttan af Ingólfi Arnarsyni við Arnarhól. Einar fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi. Hann hélt til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði við Konunglegu listaakademíuna á árum 1896-1899 hjá Wilhelm Bissen og Theobald Stein. Þar sýndi hann höggmynd sína "Útlagar" árið 1901. Einar ferðaðist til Rómar þar sem hann dvaldi í eitt ár og þar mótuðust hugmyndir hans um hlutverk listamannsins. Einari þóttu hugmyndir sem bárust frá Þýskalandi og nefndust táknhyggja höfða til sín. Árið 1910 kynntist Einar hugmyndum sænska guðspekingsins Emanuels Swedenborg sem höfðu einnig mikil áhrif á hann. Einar sneri aftur til Íslands árið 1920 og bjó þar til dauðadags árið 1954. Flæðirit. Einfalt flæðirit sem sýnir hvernig á að eiga við lampa sem virkar ekki. Flæðirit er notað til að lýsa flæði reiknirita eða forrits. Þegar leysa á flókið vandamál og gefa yfirsýn þá er gott að stilla því upp gróflega og skoða hver séu helstu atriðin í vandamálinu. Flæðirit er gott verkfæri fyrir þetta. Það veitir góða yfirsýn og skýrir hvert er flæðið á milli helstu blokka vandamálsins. Síðan má taka hverja einstöku blokk, skoða nánar og jafnvel skrifa sér flæðirit sem lýsir innihaldi þeirrar blokkar. Hægt er að nota flæðirit til að lýsa ýmiss konar öðru flæði en forritun. Til eru ýmsar aðrar tegundir flæðirita en því sem hér er lýst, svo sem: UML, samskiptarit, stöðurit og verknaðarrit svo eitthvað sé nefnt. En öll þessi rit hafa afmörkuð hlutverk innan flæðirita. Með UML er til dæmis hægt að teikna klasarit. Forrit. Ýmisleg forrit eru á markaðinum til að skrifa flæðirit með. Helstu forrit eru: Microsoft Office Visio, OpenOffice.org Draw, iGrafx FlowCharter & Process, EDraw Flowchart Software, Inkscape, Dia, ConceptDraw og SmartDraw. Einnig má notast við hvaða teikniforrit sem er, nú eða bara blað og blýant. Það eru einnig til forrit sem geta búið til flæðirit sjálfkrafa, annaðhvort beint frá forritunarkóða eða sérstöku skriftarmáli fyrir flæðirit. Dæmi. Flæðirit sem sýnir útreikning á N hrópmerkt (N!). Þar sem N! = 1 * 2 * 3 * …. * N. Flæðiritið sýnir eina og hálfa lykkju – stöðu sem í byrjendabókum er rætt um að krefjist annað hvort að þáttur sé endurtekinn bæði innan og utan lykkjunnar eða að þátturinn sé á grein innan lykkjunnar. Byrjað er að lesa inn gildi fyrir N sem reikna á hrópmerkt fyrir. Síðan eru byrjunarbreytur sem notaðar eru við útreikninginn frumstilltar. M er lykkjuteljari og F geymir útreikning. Síðan er lykkja ræst og F margfaldað með teljaranum þar til hann er orðin jafn upphafsgildinu N en þá endar lykkjan því M er orðið jafn N og F er skrifað út. Minas Gerais. Minas Gerais er fylki í suðaustur-Brasíliu. Það er næst ríkasta fylki landsins og næst fjölmennasta; með rúmar 20 milljónir íbúa. Fylkishöfuðborgin er Beló Horizonte. Klakksvík. Klakksvík (færeyska: "Klaksvík") er næst stærsti bær Færeyja, staðsettur á Borðoy með um það bil 4700 íbúa. Mikil fiskvinnsla er stunduð í Klakksvík. Einu sinni voru 4 bóndabæir þar sem Klakksvík stendur, byggðin jókst smám saman og varð að fjórum þorpum, síðar fóru þorpin að stækka og uxu saman, og mynduðu bæinn Klakksvík. Póstnúmer bæjarins er FO 700. Belo Horizonte. Séð yfir miðborg Belo Horizonte Belo Horizonte (portúgalska: "Fallegi sjóndeildarhringurinn") er fylkishöfuðborgin í Minas Gerais-fylki Brasilíu. Borgin er fjölmennasta borg fylkisins þar búa 4 milljónir íbúa. Belo Horizonte er lands- og fylkismiðstöð varðandi viðskipti, iðnað, stjórnmál, samskipti, menntun og menningu. Austurey. Austurey (færeyska: "Eysturoy") er næststærsta og næstfjölmennasta eyja Færeyja og er 288 km² að stærð. Íbúar eyjarinnar voru 10.839 þann 1. janúar 2011 og hefur fjölgað lítið eitt á síðustu árum. Sunnan til er eyjan tiltölulega sléttlend á færeyskan mælikvarða en þar er einnig hæsta fjall Færeyja, Slættaratindur, 882 metrar á hæð, og tvö önnur fjöll, Gráfell og Svartbakstindur, eru yfir 800 m há. Austurey liggur austan við Straumey og samsíða henni. Sundið á milli þeirra, Sundini, er langt og nokkuð beint, mjög mjótt víða norðan til og var það brúað fyrir allmörgum árum svo hægt er að aka milli eyjanna. Árið 2006 voru svo opnuð göng, Norðeyjagöngin, yfir til Borðeyjar. Byggðir á Austurey. Strendur Austureyjar eru mjög vogskornar, nema suðvesturströndin andspænis Straumey, og þar eru langir og mjóir firðir, þar á meðal Skálafjörður, lengsti fjörður Færeyja. Við mynni hans eru nokkur allstór þorp eða smábæir sem liggja þétt saman eða hafa nánast runnið saman. Þar á meðal er Runavík, en þar er ferjuhöfn þar sem Norræna lendir stundum ef veðurskilyrði eru óhagstæð í Þórshöfn því höfnin í Runavík er yfirleitt kyrrari. Stærsti bærinn er hins vegar Fuglafjørður á austurströndinni, en þar eru um 1500 íbúar. Þorp og bæir með yfir 400 íbúa eru, auk Fuglafjarðar: Leirvík, Saltangará, Toftir, Strendur, Eiði, Skáli, Norðragøta, Runavík, Glyvrar og Syðrugøta. Aðrar byggðir eru: Elduvík, Funningsfjørður, Funningur, Gjógv, Gøtugjógv, Hellurnar, Innan Glyvur, Kolbanargjógv, Lambareiði, Lambi, Ljósá, Morskranes, Nes, Norðskáli, Oyndarfjørður, Oyrarbakki, Oyri, Rituvík, Saltnes, Selatrað, Skálafjørður, Skipanes, Strendur, Svínáir, Søldarfjørður, Toftir, Undir Gøtueiði og Æðuvík. Byggðirnar Syðrugøta, Gøtugjógv og Norðragøta standa þar sem fornbýlið Gata, bústaður Þrándar í Götu, sem er ein aðalpersóna Færeyinga sögu, átti heima um árið 1000. Sunnan Fuglafjarðar er volg uppspretta sem kallast Varmakelda og er eini staðurinn á Færeyjum þar sem jarðhita er að finna. Sagt er að vatnið úr uppsprettunni sé mikil heilsubót og við hana safnast fólk saman til að fagna sumarsólstöðum ár hvert. Risinn og Kellingin. Út af nyrsta odda Austureyjar standa tveir drangar, Risin (71 m) og Kellingin (68 m) upp úr sjó. Risin er mun breiðari en Kellingin mjó og gat í gegnum hana neðst og er talið að hún muni hrynja í sjó innan tíðar. Þjóðsögur segja að í fyrndinni hafi tröllin á Íslandi viljað koma höndum yfir Færeyjar og hafi sent þessi skötuhjú þangað til að sækja þær. Þau komu að Eiðiskolli, nyrst á Austurey og kerlingin klifraði upp með reipi til að binda eyjarnar saman svo að risinn gæti tekið þær á bakið, en alltaf þegar hún setti reipið utan um Eiðiskoll og herti að brotnaði úr fjallinu og reipið losnaði. Við þetta voru þau að bjástra alla nóttina án árangurs og gleymdu tímanum og þegar fyrstu sólargeislarnir skinu á þau urðu þau að steini. Þarna hafa þau staðið síðan og starað með löngunaraugum heim til Íslands. Þreytistríð. Þreytistríð eru langvinn vopnuð átök þar sem annar aðilinn, oftast sá sem á í vök að verjast, reynir að lengja átökin sem mest í þeim tilgangi að þreyta óvininn þ.a. baráttuþrek hans þverri eða að gera honum væntnlegan sigur dýrkeyptan (pyrrosarsigur). Niðurstaða þreytistríðs er yfirleitt mikið mannfall á báða bóga, gífurleg eyðileggining mannvirkja og lands, pólitísk upplausn og jafnvel efnahagshrun. „Sigur“ í þreytistríði er því dýru verði keyptur og deila má um hvað hugtakið sigur merkir í þeim skilningi. Umsátur er ein tegund þreytistríðs, en þekktast er líklega umsátur rómverja um Masadavirkið í Júdeu (nú Ísrael) árið 72, sem lauk með því að um 1000 virkisverja sviptu sig lífi. Nútímaher forðast þreytistríð því hann er illa búinn efnahagslega og politískt undir langvinn átök. Því er reynt af fremsta megni að ná skjótum hernaðarsigri á vígvelli og knýja þannig óvininn til að leggja niður vopn. Hætt er við að þegar átökum formlegra herja lýkur með uppgjöf annars hersins taki við skæruhernaður, sem getur breytt átökum í þreytistríð. Dæmi um stríð sem á ákveðnu tímabili má flokka sem þreytistríð: Fyrri heimsstyrjöldin, víetnamstríðið, stríð Íraks og Írans og hugsanlega stríðið í Írak. Vegalengd. Vegalengd er stysta fjarlægð milli tveggja staða á yfirborði jarðar. Stærðfræðileg skilgreining er að vegalengd sé boglengd þess hluta stórbaugs, með sama geisla og jörðin, sem liggur á milli staðanna. Mannfall. Mannfall er það þegar menn deyja í vopnuðum átökum, stríði eða náttúruhamförum. Á einnig við fjölda þeirra sem deyja í stíðsátökum, en stundum er eingöngu átt við fallna hermenn. Tölur um mannfall eru oft ekki nákvæmar og mannfall óvinahers er stundum ýkt í áróðursskyni. Oft er gefin ein tala "fallina og særðra" hermanna á vígvelli, en slíkar tölur eru mikilvægar herforingjum sem þurfa stöðugt að hafa vitneskjum um fjölda bardagahæfra hermanna. Sagnfræðingar deila oft um mannfall í styrjöldum, en erfitt eða ómögulegt getur verið að fá nákvæmt mat á það. Vígvöllur. Vígvöllur er svæði á jörðinni þar sem fram fara vopnuð átök. Getur verið landspilda, land (ríki) eða heimsálfa. Afmarkast oftast af landamærum. Yfirleitt tilheyrir loftrými yfir landinu og strandlengjan vígvelli, þó að orðið vígvöllur sé venjulega ekki notað um þau. Þjóðmál. Forsíða 2. tbl., 1. árgangs. 2005. Fjölmargar umtalaðar greinar hafa birst í Þjóðmálum sem spanna allt frá sagnfræði til greiningar á fjölmiðlum. Hafa margar vakið athygli og hlotið umfjöllun víða. Oft er tekið á málum á gagnrýninn hátt og telja margir að það sé einn af helstu kostum tímaritsins hvað mörg ný sjónarhorn á dægurmálin er þar að finna, sem ekki falla að þeirri mynd sem birtist okkur í hefðbundnum fjölmiðlum. Gagnrýnendur ritstjórnarstefnu Þjóðmála finna tímaritinu það helst til foráttu að upphefja ýmsa Sjálfstæðismenn og fjalla ómaklega um vinstrimenn á Íslandi bæði fyrr og síðar. Sérstaklega hefur Össur Skarphéðinsson lagt sig fram við að gera lítið úr efnistökum tímaritsins á heimasíðu sinni. Sjimkent. Sjimkent (kasakska: "Шымкент") er önnur stærsta borg Kasakstans og er staðsett í sunnanverðu landinu. Um hana fara margir pílagrímar á leið til Túrkistan, sem múslimar telja helgan stað. Íbúar Sjimkent eru flestir Kasakar og er kasakska útbreiddasta tungumálið, en eitthvað er um að töluð sé rússneska. Glæpatíðni er há og er sagt að umsvif kasöksku mafíunnar og þeirrar rússnesku séu mikil. Saga. Sjimkent var stofnuð á 12. öld og byggðist upphaflega í kringum þjónustu við kaupmenn sem þræddu Silkileiðina, og Úsbeka sem bjuggu á svæðinu. Borgin varð fyrrum oft fyrir árásum hirðingja, en það er nú löngu liðin tíð. Árið 1810 hertók Búkaríska furstadæmið borgina, og árið 1864 Rússar. Nafnið Sjimkent á rætur sínar að rekja til sjogdísku og mundi útleggjast á íslensku sem "Klömbruborg" (klambra er skorið torf). Umritun á nafni borgarinnar er umdeild. Kasakar nota kyrillískt letur líkt og rússar. Kasakar skrifa „Шымкент“, og er það hinn almenni ritháttur, en rússneskar réttritunarreglur banna að skrífað sé „ы“ á eftir „Ш“ eða „Ч“. Þess vegna skrifa Rússar „Чимкент“ (framburður: Tjimkent). Þar sem Kasakar eru í miklum meirihluta í borginni og vilja ekki láta Rússa hafa eitthvað með rithátt tungu sinnar að gera, þá er fyrrnefndi rithátturinn ríkjandi. Samgöngur. "Kazybek Bi" er verslunargata í Sjimkent og liggur áfram beint til Túrkistan. Margir ferðamenn í Sjimkent halda áfram til Túrkistan með leigubíl eða áætlunarbíl. Flugvöllurinn í Sjimkent er lítill og er í norður-Sjimkent, ca. 12km frá bænum. Air Astana flýgur hingað vikulega frá Almaty, Aktá, og Astönu. Einnig fljúga herflugvélar og flugvélar Sameinuðu þjóðanna frá Sjimkent. Járnbrautarstöðin er nálægt miðbænum og er mjög stór. Lestarferð á milli Almaty og Sjimkent tekur um 20 klukkustundir. Kengbaba-garðurinn. Í miðbænum er vinsæll garður sem nefnist "Kengbaba-garðurinn". Þar er alltaf mikið um fólk sem er að viðra sig og víða börn að leik. Í garðinum eru svæði sem eru nefnd eftir löndum, eins og t.d. "litla-Egyptaland", "litla-Túrkistan" o.s.frv. Í garðinum er lítil tjörn og kaffihús og stór leikvöllur þar sem börn stunda knattspyrnu. Fantasy World. Fantasy World er líka frægur garðurinn sem liggur rétt hjá "Hotel Shimkent". Þetta svæði er mjög frægur fyrir ungar fólk og í kvöldinu það er mikið fólk sem fara þarna. Það er skemmtastaður í Fantasy World líka. Fantasy World er frægt í öllu landinu í Kasakstan, það er í Almaty og Astönu líka. Vinabæir. 20px Stevenage, England Engrish. Engrish er málfræðilega rangt afbrigði af ensku sem fyrirfinnst aðallega í austur-asískum löndum. Hún er af því tilkomin að fólk frá þeim svæðum talar oft ensku með því að nota bara kanahljóma og skiptir "l" og "r" út fyrir smelluhljóð. Samuel Colt. Samuel Colt (19. júlí 1814 – 10. janúar 1862) var bandarískur uppfinningamaður og athafnamaður sem er fyrst og fremst þekktur fyrir að hafa hannað fyrstu nothæfu sexhleypuna með snúningsmagasíni sem hann fékk einkaleyfi fyrir 25. febrúar 1836. Tenglar. Colt, Samuel Colt, Samuel Icelandic Group. Icelandic Group (áður Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna) er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað 25. febrúar 1942 til að selja sjávarafurðir frá Íslandi á erlenda markaði. Upphaflega var fyrirtækið samvinnufélag nokkurra eigenda hraðfrystihúsa á Íslandi og seldi afurðir þeirra. 1945 opnaði fyrirtækið fyrstu söluskrifstofu sína í Bandaríkjunum undir nafninu Coldwater Seafood og hóf nokkru síðar framleiðslu á fiskstautum þar. 1955 opnaði fyrirtækið skrifstofu í Bretlandi og hóf framleiðslu í neytendapakkningar þar 1958. 1996 var rekstrarforminu breytt í hlutafélag og 2005 sameinaðist það aðalkeppinaut sínum, Iceland Seafood Corporation, sem áður var í eigu SÍS. Sama ár var nafni fyrirtækisins breytt. Konungssamband. Konungssamband eða persónusamband er þegar tvö aðskilin fullvalda ríki viðurkenna sama einstakling sem þjóðhöfðingja þeirra beggja. Slíkt samband kemur einungis upp þar sem um er að ræða konung eða keisara en ekki þar sem um er að ræða forseta þar sem forseti er yfirleitt kosinn af ríkisborgurum síns ríkis. Þekktasta dæmið um konungssamband er breska samveldið þar sem drottning Bretlands er þjóðhöfðingi margra ríkjanna og auk þess höfuð samveldisins sjálfs. Ella Fitzgerald. Ella Fitzgerald (25. apríl 1917 – 15. júní 1996) var bandarísk djasssöngkona sem hafði gríðarleg áhrif á djasssöng á 20. öld. Hún hlaut þrettán Grammy-verðlaun á ferli sínum. Ella byrjaði snemma að syngja. Þegar hún var 16 ára gömul tók hún þátt í samkeppni ungra söngvara á Apollo leikhúsinu í New York. Um þær mundir heyrði trommuleikarinn og hljómsveitarstjórinn Chick Webb hana syngja, og réð hana til að koma fram með hljómsveit sinni. Forseti Norðurlandaráðs. 270pxForseti Norðurlandaráðs er kjörinn til eins árs í senn af Norðurlandaráðsþingi. Norðurlöndin fimm, Svíþjóð, Noregur, Finnland, Danmörk og Ísland skiptast á að eiga forseta ráðsins. Háskólabíó. Háskólabíó er kvikmyndahús, ráðstefnuhús og tónleikahús sem stendur við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur. Byggingin hefur einkennandi harmonikkulag sem hefur áhrif á hljómburð og með háum suðurhluta sem átti að gera kleift að draga sýningartjöld upp fyrir sviðið. Húsið var hannað af Gunnlaugi Halldórssyni og Guðmundi Kr. Kristinssyni og byggt á árunum 1956-1961. Það var vígt 6. október það ár á hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands. Það er í eigu Sáttmálasjóðs en 17. október 1941 var ákveðið að sjóðurinn skyldi eiga og reka kvikmyndahús Háskólans sem upphaflega var opnað í Tjarnarbíói 1942. Háskólinn leigir sali hússins undir kennslustofur á daginn þegar ekki eru þar kvikmyndasýningar. Húsið hefur verið aðaltónleikahús Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá upphafi. 1985-1990 var reist viðbygging við húsið sem hýsir skrifstofur og minni sýningarsali. Árið 2002 hætti Háskóli Íslands rekstri á kvikmyndasýningum í Háskólabíói og gerði samning við SAMbíóin um leigu á sýningaraðstöðunni. Í húsinu eru fimm kvikmyndasalir; einn stór salur með 970 sætum og fjórir minni salir með samtals 817 sætum. Ragnhildur Helgadóttir. Ragnhildur Helgadóttir (f. 26. maí 1930) er íslenskur stjórnmálamaður og hæstaréttarlögmaður. Hún var kjörin á Alþingi fyrst árið 1956 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hætti þingmennsku 1991. Hún var kosin forseti Alþingis, fyrst kvenna, árið 1961. Hún var menntamálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 til 1985 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í sömu stjórn 1985 til 1987. Mikla-Flugey. Mikla-Flugey ("Muckle Flugga") er lítil og grýtt eyja norður af eynni Únst á Hjaltlandseyjum. Hún er fyrsta eyjan sem fólk sér þegar það siglir til Hjaltlandseyja frá Færeyjum. Hún er samt ekki nyrst af eyjunum, heldur er Útstakkur nyrstur. Eyjan er kölluð "Muckle Flugga" á ensku, en það er afbökun á norræna nafninu, en "Flugey" er kennd við hengiflugin sem þykja einkenna hana. Áður var hún þó kölluð "Norður-Únst" upp á ensku, en opinbera nafninu var breytt 1964. Þjóðsögur herma að Mikla-Flugey og hinn nærliggjandi Útstakkur hafi orðið til þegar tveir risar, Herma og Saxa, urðu ástfangnir af sömu hafmeynni. Þeir börðust um hana með því að kasta stórgrýti hvor í annan, og einn hnullungurinn varð Mikla-Flugey. Hafmeyjan bauðst til að leysa deiluna með því að giftast þeim þeirra sem mundi fylgja henni alla leið til Norðurpólsins, þeir eltu hana báðir en drukknuðu þar sem hvorugur var syndur. Vitinn. Í upphafi var ákveðið, árið 1851, að byggja vita á norðurenda Únstar, en menn urðu ekki á eitt sáttir um staðsetninguna fyrr en 1854. Það var svo Krímstríðið sem rak á eftir mönnum að byggja vita til verndar skipum hennar hátignar og var bráðabirgðaviti byggður á Miklu-Flugey. Þótt hann stæði í hartnær 70 metra hæð yfir sjávarmáli, þá laskaðist hann svo illa í feiknalegum sjógangi strax veturinn eftir, að ákveðið var að byggja nýjan. Eftir frekari deilur um staðsetningu voru gefin fyrirmæli um að hefjast handa sumarið 1855. Vitinn er 20 metra hár og er nyrsti viti Bretlandseyja. Ljóskeilan skín hvítu á 20 sekúndna fresti, og sést úr 35 km fjarlægð í góðu skyggni. Mikla-Flugey var nyrsta byggða ból á Bretlandseyjum þangað til vitinn var gerður al-sjálfvirkur í mars 1995. Vitinn á Miklu-Flugey var einn af fáum á Skotlandi, þar sem vitaverðirnir höfðu aðskildan íverustað þegar þeir voru ekki á vakt (sama gilti á Súluskeri með bækistöð á Straumsnesi, á Orkneyjum). Íverustaðurinn var seldur þegar vitinn var gerður sjálfvirkur, og er nú notaður til þess að taka á móti ferðamönnum. Marie Antoinette. 300 px María Antonía Jósefa Jóhanna von Habsburg-Lothringen (f. 2. nóvember 1755 – d. 16. október 1793) er betur þekkt í heimssögunni sem Marie Antoinette. Fædd sem hertogaynja Austurríkis, varð síðar drottning Frakklands og Navarre. Hún var dóttir hins heilaga rómanska keisara Francis I og Marie Therese af Austurríki. Hún var gift Loðvíki XVI, Frakklandskonungi og var móðir „týnda“ ríkisarfans Loðvíks XVII. Hún er helst þekkt fyrir að vera hin léttúðuga drottning sem eyddi miklu fé í skemmtanir og fjárhættuspil og fyrir að hafa sagt: „Gefum þeim kökur“ sem hún gerði reyndar ekki. Dauðadagi hennar er einnig vel þekktur en hún var hálshöggvin með fallöxinni í frönsku byltingunni eftir að hafa verið dæmd fyrir landráð og fleiri glæpi. Barnæska. María Antonía fæddist í Hofburg-höllinni í Vín. Hún var næstyngst af sextán börnum og ellefta dóttir foreldra sinna, Francis I keisara og Maríu Theresu keisaraynju. Hún var nefnd María til heiðurs Maríu mey, eins og allar systur hennar, Antonía til heiðurs dýrlingnum Antoni af Padúu, Jósefa til heiðurs eldri bróður sínum og Jóhanna til heiðurs dýrlingnum Jóhannesi guðspjallamanni. Við fæðingu var henni lýst sem lítilli en heilbrigðri hertogaynju. Ung hitti María Antonía tónskáldið Wolfgang Amadeus Mozart, þegar hann hélt tónleika fyrir fjölskyldu hennar. Þegar hann var spurður um hvað hann vildi að launum, á hinn ungi Mozart að hafa sagt „hönd dóttur þinnar“. María giftist krónprinsi Frakklands. Systur Maríu voru snemma giftar háttsettum mönnum í Evrópu. Maria Christina giftist Alberti, prinsinum af Saxlandi. Maria Amila var gift prinsinum af Parma og Maria Carolina var gift Ferdinand IV, konungnum af Napólí. Árið 1748 var sáttmálinn Aix-la-Chapelle undirritaður, í þeirri von að binda mætti enda á rúmlega aldarlangt stríð á milli Austurríkis og Frakklands. Til að halda friðinn var því komið í kring að Louis Auguste kvæntist einni af dætrum Mariu Theresu. Þar sem eldri systur hennar létust þegar bólusóttarfaraldur gekk yfir árið 1767 var María Antonía ein eftir sem möguleg brúður. Eftir langar samningaviðræður bað Loðvík XV um hönd Maríu til handa sonarsyni sínum, Louis Auguste, árið 1769. Þegar ljóst var að María Antonía myndi verða gift ríkisarfa Frakklands, komst móðir hennar að því að dóttir hennar var bæði léleg í þýsku og frönsku og kunni yfirleitt ekki mikið. Því voru kallaðir til kennarar til að kenna Maríu og var sérstaklega lögð áhersla á franska siði og tungu. Þann 19 apríl 1770 var María gift Louis Auguste í Ágústusarkirkju í Vín og var Ferdinand bróðir hennar staðgengill krónprinsins. Við brúðkaupið fékk María titilinn Marie Antoinette, krónprinsessa Frakklands. Tveimur dögum eftir brúðkaupið hélt María frá Vínarborg til Frakklands. Hinn 7. maí var María Antoinette afhent Frakklandi með mikilli viðhöfn og átti afhending hennar að tákna að tengsl hennar við Austurríki og fjölskyldu hennar væru að fullu slitin. Var reist sérstök timburhöll á óbyggðu sandeyjunni Kehl í Rín, á milli Frakklands og Þýskalands, fyrir þennan hátíðlega viðburð. Vissu tvö herbergi hallarinnar að Þýskalandi og þangað átti María Antoinette að ganga sem hertogadóttir, en tvö vissu að Frakklandi og þaðan átti hún að ganga sem krónprinsessa Frakkalands. Hirðsiðir kröfðust þess að hún skildi eftir allar eigur sínar og var hún því afklædd og færð í franskar flíkur. Hún þurfti að kveðja föruneyti sitt og þegar hún gekk inn í herbergið þar sem hið franska föruneyti hennar beið féll hún kjökrandi í fang hinnar nýju hirðdömu sinnar, de Noailles greifafrúar. María hélt inn í Frakkland og fékk konunglegar móttökur í Strassborg þar sem bæjarbúar voru samankomnir til að fagna komu krónprinsessunnar. Þaðan hélt föruneyti hennar til Compiegne-skógarins en 14. maí var konungsfjölskyldan þangað komin til þess að taka á móti nýjasta fjölskyldumeðlimnum. Konungurinn Louis XV tók fyrstur á móti Maríu Antoinette og kynnti hana svo fyrir tilvonandi manni hennar, Louis Auguste, sem var klunnalegur og áhugalaus og kyssti hana laust á kinnina eins og til hans var ætlast. Annað og hið raunverulega brúðkaup var haldið í Versölum 16. maí. Hjónin voru gefin saman í bænahúsi Louis XV af erkibiskupnum í Reims. Rétt fyrir brúðkaupið voru Maríu gefin heil ósköp af skarti. Í safninu var meðal annars demantshálsfesti sem hafði tilheyrt Önnu af Austurríki og hlutir sem höfðu tilheyrt Maríu, drottningu Skota, og Katrínu af Medici. María fékk einnig persónulega gjöf frá Loðvíki XV. Aðeins aðalsmönnum var leyft að vera viðstaddir athöfnina en almúganum var leyft að taka þátt í hátíðarhöldunum sem á eftir fylgdu. Mikill mannfjöldi var samankominn til að upplifa flugeldasýninguna sem átti að verða sú skrautlegasta sem hafði sést við konungshirð. Er leið á daginn fór veðrið að versna og varð svo mikið steypiregn að mannfjöldinn þurfti að frá að hverfa og leita sér skjóls. Inni hélt þó brúðkaupsveislan áfram og höfðu sex þúsund aðalsmenn náð sér í aðgangsmiða til að fá að horfa á konungsfjölskylduna snæða brúðkaupsmálsverðinn. Að málsverðinum loknum var nýgiftu hjónunum fylgt til herbergis síns þar sem hirðin fylgdi þeim til sængur og erkibiskupinn af Reims blessaði rúm þeirra og skvetti yfir það vígðu vatni. Að því búnu voru María Antoinette og Louis Auguste skilin eftir ein og meiningin var sú að þau myndu um nóttina fullkomna hjónaband sitt. Lífið sem krónprinsessa. María Antoinette nærðist á því að hafa fólk í kringum sig og átti marga vini og vinkonur. Hún hafði unun af því að dansa og leika og eyddi miklum peningum í fjárhættuspil. Hins vegar sinnti hún ekki skyldum sínum sem krónprinsessa, þar sem henni þótti það ekkert skemmtilegt og þegar hún varð drottning reyndi hún því að eyða sem mestum tíma í einkahúsi sínu, Petit Trianon, sem maður hennar hafði gefið henni. Þessi framkoma hennar gerði það að verkum að aðalsmenn og aðrir sem komu til hallarinnar urðu móðgaðir þar sem hún virti þá ekki viðlits og fóru þeir því að búa til sögur um hana. Fljótt varð hún alræmd sem svikakvendi sem gerði ekki annað en að tæla menn og konur, eyddi ríkispeningum og væri austurrískur njósnari. Þetta leiddi til mikilla óvinsælda hennar sem áttu aðeins eftir að aukast með árunum. María Antoinette verður drottning. Hinn 10. maí 1774 lést Loðvík XV. Var þá Louis Auguste krýndur Loðvík XVI, konungur Frakklands. Krýningin fór fram 11.júní og varð María Antoinette drottning Frakkalands. Þá var hjónaband þeirra enn ófullkomnað. Marie Terese hafði miklar áhyggjur og sendi Maríu Antoinette í sífellu bréf þar sem hún reyndi að ráðleggja dóttur sinni hvernig hún ætti að fá mann sinn til að elskast við sig. Öll hirðin vissi að hjónin höfðu aldrei átt holdlegt samneyti og yrði hjónaband ekki fullkomnað gat það haft þær afleiðingar að því yrði rift. Mannorð þeirra beggja beið mikinn hnekki við þetta og fannst Maríu Antoinette erfitt að lifa við smánina. Talið er að getuleysi Loðvíks XVI hafi stafað af líkamlegum galla sem hægt var að laga með smávægilegri aðgerð. Lengi var reynt að fá hann til að fara í aðgerðina, en talið er að þegar bróðir Maríu Antoinette, Joseph II, kom í heimsókn árið 1777, hafi hann náð að tala Loðvík XVI til, svo að skömmu eftir heimsókn hans var hjónabandið loks fullkomnað. Móðurhlutverkið. Ári seinna fréttist að drottningin væri loksins barnshafandi, eftir sjö ára hjónaband. Fæddist þeim hjónunum dóttir hinn 19. desember 1778 og var hún nefnd Marie Thérèse Charlotte. Drottningin eignaðist svo krónprinsinn Louis Joseph Xavier François 22. október 1781 og varð þá mikill fögnuður í Frakklandi enda erfðaprinsinn langþráði loksins fæddur. Mun konungurinn hafa sagt við Maríu Antoinette: „Frú, þér hafið uppfyllt óskir vorar og Frakklands, þér eruð móðir ríkisarfans.“ Þau eignuðust tvö börn til, Louis Charles, sem var kallaður Loðvíks XVII eftir lát föður síns, fæddist 27. mars 1785. María Antoinette varð fljótt þunguð á ný og hafði miklar áhyggjur af að það gæti haft áhrif á heilsu fyrra barnsins. Yngsta dóttir þeirra, Sophie-Béatrix, fæddist 9. júlí 1786, nokkrum vikum fyrir tímann. Hún lést skömmu fyrir fyrsta afmælisdaginn sinn. Stuttu eftir lát Sophie var Maríu Antoinette sagt að elsti sonur hennar væri með banvænan lungnasjúkdóm. Drengurinn var sífellt veikur þar til hann lést. Upphaf Frönsku byltingarinnar. Franska ríkið skuldaði verulegar upphæðir, að mestum hluta vegna stríðsins í Norður-Ameríku en einnig vegna lélegrar skattheimtu. Loðvík XVI kallaði saman aðalsmannasamkunduna til að finna lausn á fjárhagsvanda ríkisins en þar sem aðalsmennirnir treystu sér ekki til að taka þær ákvarðanir sem þurfti kröfðust þeir þess að stéttaþingið yrði kallað saman. Það hafði síðast verið kallað saman 1614. Konungurinn samþykkti þetta og stéttaþingið kom saman 5. maí 1789. Illa gekk að samræma óskir allra og þegar ríkisarfinn Louis Joseph lést hinn 4. júní, aðeins sjö ára gamall, eftir löng veikindi, drógu konungshjónin sig í hlé syrgjandi enda hafði drengurinn verið mikið yndi foreldra sinna. Hinn 14. júlí réðust Parísarbúar á Bastilluna til að verða sér úti um vopn og er sá atburður talinn vera dagurinn sem Frakkar „vöknuðu“. Bastilludagurinn varð síðar þjóðhátíðardagur Frakka. Árásin á Bastilluna er af mörgum talin hafa markað upphaf frönsku byltingarinnar, sem átti eftir að leiða til endaloka konungsveldisins eins og það þekktist þá. Hinn 5. október lögðu konur í París af stað til Versala til að mótmæla skorti á brauði, í göngu sem gjarnan er kölluð brauðgangan. Orðrómur gekk um að konungsfjölskyldan væri að hamstra korn, og því héldu reiðar og æstar konur af stað í átt til Versala. Jafnt og þétt bættist í hópinn og ekki eingöngu konur. María Antoinette er sögð hafa sagt: „Gefum þeim kökur“ er hún heyrði af brauðgöngunni. Það mun þó vera tilbúningur og ekki hafa gerst í raun og veru. Múgurinn réðst inn í höllina og krafðist þess að fá konungshjónin framseld. Það náðist að halda aftur af múginum en hann krafðist þess að konungurinn sýndi sig á svölum Versala. Þegar hann hafði gert það var þess krafist að drottningin sýndi sig og þegar hún gerði það uppskar hún mikil fagnaðarlæti. Múgurinn var þó ekki sáttur og var þess krafist að konungsfjölskyldan færi til Parísar. Þegar Loðvíki XVI og María Antoinette varð ljóst að lýðnum yrði ekki aftrað ákváðu þau að fara með fólkinu til Parísar. Á leiðinni ríkti mikil sigurgleði meðal fólksins sem söng: „Við komum með þau, bakarann, bakararakonuna og litla bakaradrenginn. Nú sveltum við ekki lengur“. Þau fluttu í Tuileries-höllina þar sem þeim leið eins og föngum, enda voru þau sífellt grunuð um að hyggja á flótta og var því ekki leyft að fara ferða sinna að vild. Eftir misheppnuða flóttatilraun til Varennes 20.-21. júní 1791 fékkst staðfesting á að konungshjónin styddu ekki byltinguna og hinn 10. ágúst réðust Parísarbúar á Tuileries-höllina. Konungsfjölskyldan náði að forða sér í þinghúsið, en við það að missa höllina var talið að konungsveldið í Frakklandi væri endanlega fallið. Í þinghúsinu þurfti fjölskyldan að sitja undir löngum fundi þar sem ákveðið var hvað skyldi gert við þau, en að lokum var ákveðið að færa þau í Temple, þar sem þau yrðu höfð í haldi. Endalokin nálgast. Á síðustu árum Maríu Antoinette breyttist hún úr léttúðugu prinsessunni, sem þráði ekkert annað en að vera ánægð og að skemmta sjálfri sér, í tignarlega konu sem sýndi mikið hugrekki á erfiðustu stundum lífs síns. Hún gekk hnarreist til móts við fallöxina og hélt reisn sinni til hinstu stundar. Í einu bréfa sinna skrifaði hún: „Í ógæfunni þekkir maður sjálfan sig“ og það lýsir vel breytingunum sem á henni urðu. Loðvík XVI var sóttur til saka fyrir landráð 11. desember og lét lífið í fallöxinni hinn 21. janúar 1793, þá kallaður Louis Capet. María Antoinette, sem fékk við dauða hans titilinn, „ekkjan Capet“, fékk ekki neinar fréttir um örlög manns síns, en inn um gluggann heyrði hún fagnaðarlætin þegar hann hafði verið líflátinn. Sonur Maríu, ríkisarfinn Louis Charles, var tekinn frá henni hinn 3. júlí 1793 og settur í fóstur hjá skósmiðnum Símoni. María Antoinette ætlaði ekki að sleppa honum en þegar verðirnir hótuðu að drepa dóttur hennar, Marie Thérèse, ákvað hún að berjast ekki á móti. Sonur hennar, sem var nefndur Loðvík XVII af konungsinnum, eftir dauða föður hans, lést í Temple árið 1795 og var grafinn í fjöldagröf en sumir héldu því fram að honum hefði verið smyglað úr landi. Seinna áttu eftir að koma fram menn sem þóttust vera Loðvík XVII. Hinn 1. ágúst 1793 var María send í Conciergerie-fangelsið en það var þekkt sem endastöðin áður en fólk var leitt á höggstokkinn. María Antoinette fékk ósanngjörn réttarhöld eins og svo margir aðrir sem voru dæmdir af byltingardómstólnum og flestar þær sakir sem hún var dæmd fyrir voru ósannar. Þar á meðal átti hún að hafa kennt syni sínum, Louis Charles, sjálfsfróun og látið hann sofa á milli sín og mágkonu sinnar, Elísabetar prinsessu. Prinsinn bar sjálfur vitni gegn móður sinni. Hún var einnig sögð hafa sent miklar fjárhæðir til bróður síns í Austurríki og skipulagt kynsvall í Versölum. María Antoinette var sek um að reyna að flýja land og hún reyndi að skipuleggja flótta þegar hún var í haldi. Af þeim sökum þótti ekki öruggt að þyrma henni. María Antoinette var send á höggstokkinn 16. október 1793 og lögð í ómerkta gröf. Lík hennar fannst þó, líklega af því að kalki var stráð yfir konungsfólk, og var hún grafin í St. Denis dómkirkjunni árið 1815. Látrar. Látrar á Látraströnd í Suður-Þingeyjarsýslu eru eyðibýli. Bærinn dró nafn sitt af sellátrum og kallaðist reyndar Sellátur til forna (í "Jarðabók" Árna Magnússonar og Páls Vídalín), og er nefndur Hvallátur í Landnámabók. Frá Látrum var mikil útgerð áður fyrr, og var bærinn ein mesta miðstöð hákarlaútgerðar á Íslandi. Þar er í dag slysavarnarskýli, og sjást miklar tóftir af bæjarhúsum og verbúðum frá fyrri tíð. Lending er þokkaleg fyrir litla báta. Tún eru í meðallagi stór, en mun stærri en á öðrum eyðijörðum Látrastrandar. Frá Látrum er fær landleið í suður yfir Látrakleifar, torfær á sumrin og mjög illfær á vetrum. Í austur er leið yfir Uxaskarð til Keflavíkur. Norður af Látrum er fjallið Gjögur. Slysavarnarskýli. Slysavarnarskýli eru kofar sem standa víðs vegar um Ísland. Þau eru vanalega máluð í skærum, appelsínugulum lit, svo að sem auðveldast sé að greina þau. Tilgangur þeirra er að hýsa fólk, einkum skipbrotsmenn eða aðra sem eru á hrakhólum, og í þeim er því að finna rúm og ábreiður, eldstó, mat, talstöð og annað sem getur orðið til þess að bjarga lífi fólks. Slysavarnarskýlin eru oft notuð af venjulegum ferðamönnum sem eru ekki í neinum nauðum, og er það allt í lagi, svo fremi að þeir éti ekki matinn og gangi að öðru leyti vel um. Flest slysavarnarskýli eru byggð af slysavarnarfélögum, og haldið við af þeim líka. Hnjáfjall. Hnjáfjall er fjall fyrir austan Keflavík í Suður-Þingeyjarsýslu. Í því er Messuklettur, en um hann liggur landleiðin frá Keflavík til Þorgeirsfjarðar. Animeklúbbur. Animeklúbbur er samansafn áhugamanna um anime og manga. Margir þeirra eru tengdir nemendafélögum og ungmennahúsum á Íslandi en þeir hafa aðallega verið virkir að vetri til og legið í dvala á sumrin. Skyggnigáfa. Skyggnigáfa (ófreskigáfa eða skyggni) er ætlaður hæfileiki þeirrra, sem segjast skynja með yfirnáttúrlegum hætti ýmislegt sem öðrum er hulið. Sumir með "skyggnigáfu" segjast „sjá“ álfa, drauga eða aðrar yfirnáttúrulegar verur. Aðrir þykjast geta séð fyrir um óorðna atburði eða skynjað fortíð hluta með því einu að handfjatla þá. Allmargir telja sig hafa "skyggnigáfu", en margir eru efins, því þrátt fyrir all-umfangsmiklar rannsóknir hefur ekki enn tekist með vísindalegum aðferðum að staðfest "skyggnigáfu". Halldór Halldórsson (stjórnmálamaður). Halldór Halldórsson (f. 25. júlí 1964 í Kálfavík við Skötufjörð) er bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Foreldrar hans eru hjónin Halldór Hafliðason (f. 22. júlí 1933 á Garðsstöðum í Ögurhreppi, N.-Ís.), bóndi í Ögri í Ögurhreppi, og María Sigríður Guðröðardóttir (f. 15. nóvember 1942). Halldór er kvæntur Guðfinnu Margréti Hreiðarsdóttur (f. 3. apríl 1966), sagnfræðingi. John Burnet. John Burnet (9. desember 1863 – 26. maí 1928) var skoskur fornfræðingur, menntaður við Edinborgarháskóla og Balliol College í Oxford, þar sem hann hlaut mastersgráðu árið 1887. Hann var félagi á Merton College í Oxford og síðar prófessor í latínu við Edinborgarháskóla. Árið 1891 varð hann prófessor í grísku við University of St. Andrews. Hann var félagi í bresku akademíunni. Burnet er þekktastur fyrir framlag sitt í Platonsfræðum, einkum fyrir að hafa haldið því fram að "allar" samræður Platons sýndu hinn sögulega Sókrates í réttu ljósi og að heimspekikenningar Platons sjálfs séu einungis að finna í yngstu samræðunum. Burnet hélt því einnig fram að Sókrates væri nátengdur snemmgrískri heimspekihefð. Hann taldi að Sókrates hefði í æsku verið nemandi Arkelásar, fylgjanda Anaxagórasar. Textafræðileg skrif Burnets um rit Platons eru enn víða lesin og útgáfur hans á ritum Platons hafa verið taldar bestu fáanlegu fræðilegu útgáfur textans í yfir 100 ár. Burnet kvæntist Mary Farmer árið 1894. Hún samdi formálann að ritgerðasafni hans, "Essays and Addresses", sem kom út að honum látnum. Tilvísanir. Burnet, John Burnet, John Hreindýr. Hreindýr (fræðiheiti: "Rangifer tarandus") eru hjartardýr sem finna má víða á norðurhveli jarðar. Þau eru einstaklega vel aðlöguð að lifa af kulda og snjóþyngsli að vetrarlagi. Andstætt öllum öðrum hjartardýrum bera bæði kynin horn. Kvenkyns hreindýr nefnist "simla" (eða "hreinkýr"), og karlkyns hreindýr nefnist "hreinn" (eða "hreintarfur"). Hreindýr má finna á Íslandi, Noregi, norðurhluta Svíþjóðar og Finnlands, á Svalbarða, á norðursvæði evrópska hluta Rússlands þar á meðal Novaya Zemlya, í Asíu hluta Rússlands allt til Kyrrahafs, í Norður-Ameríku, á Grænlandi, í Kanada og Alaska. Tamin hreindýr er aðallega að finna í norður Skandinavíu og Rússlandi (bæði í evrópska hlutanum og í Síberíu). Villt hreindýr er að finna í Norður-Ameríku og á Grænlandi. Hreindýr í Norður Ameríku og á Grænlandi eru villt en einu núlifandi villtu hreindýrin í Evrópu er að finna á nokkrum stöðum hátt til fjalla í suður Noregi. Íslensku hreindýrin eru afkomendur taminna norskra hreindýra þó svo að þau séu nú villt. Lýsing. Mikil munur er á stærð dýra allt eftir undirtegundum. Í íslenska stofninum er fallþungi kúa á milli 30 til 40 kg en tarfa á milli 80 og 100 kg. Tamin hreindýr í Skandinvíu eru iðulega stærri, fallþungi kúa á milli 40 - 100 kg og tarfa 70 - 150 kg. Kanadísk hreindýr eru mun stærri og er þar algengt að tarfarnir nái 300 kg fallþyngd. Bæði kynin hafa horn sem vaxa árlega. Þegar þau eru að vaxa eru þau mjúk og klædd dökkbrúnni, flauelskenndri og æðaríkri húð. Þegar hornin eru fullvaxin, harðna þau og falla að lokum af dýrunum. Í skandinavísku undirtegundinni fella eldri tarfar hornin í desember, ungir tarfar snemma vors og kýrnar um mitt sumar. Hreindýrin eru jórturdýr með fjóra maga. Þau eru jurtaætur og bíta fléttur, starir, grös, lyng, blómplöntur og sveppi. Á veturna krafsa þau upp snjóinn til að komast að fæðu, sem aðallega er fléttur og skófir. Hreindýrahorn í vexti, sjá má að mjúka húðin er að losna af hægra horni. Hreindýrafeldurinn er í tveimur lögum, þétt stutt undirhár og löng yfirhár. Hárin eru hol að innan, mjög þétt og einangra þess vegna vel. Feldurinn er oftast dökkbrúnn á sumrin en ljósari á veturna. Hreindýr fljóta vel í vatni og hika ekki við langa sundspretti yfir ár og vötn. Útbreiðsla. Hreindýr eru eindregin hjarðdýr en hóparnir eru misstórir eftir árstíma. Fullorðnir tarfar fara oft einförum utan fengitíma. Villt hreindýr fara oftast á milli beitarsvæða á vorin og haustin. Á sama hátt eru flest tamin hreindýr flutt milli beitarsvæða vor og haust. Tiltölulega stórir hófar dýranna auðvelda þeim yfirferðir yfir snjóbreiður og túndrur. Um tvær miljónir hreindýra lifa í Norður-Ameríku. Í Evrópu og Asíu lifa um 5 miljónir, flest þeirra tamin eða hálftamin. Síðustu viltu hreindýrin í Evrópu er að finna í suðurhluta Noregs. Þau eru af undirtegundinni "R. tarandus tarandus". Tamin hreindýr í Skandinavíu eru flest blönduð af undirtegundunum "tarandus" og "fennicus" - finnsk skógarhreindýr. Hreindýr á Íslandi. Hreindýr voru flutt til Íslands á árunum 1771 – 87 frá Finnmörku í Noregi. Þau voru sett á land í Vestmannaeyjum, á Suður- og Suðvesturlandi, á Norðausturlandi og á Austurlandi. Þrír fyrstu hóparnir sem fluttir voru til landsins, til Vestmannaeyja og Rangárvallasýslu árið 1771, Reykjaness árið 1777 og til Norðurlands árið 1784, dóu allir út. Talið er að harðir vetur, hagleysa og ofbeit í vetrarhögum hafi ráðið þar mestu um. Hins vegar dafnaði sá hópur sem fluttur var til Vopnafjarðar árið 1787 og halda þau nú til á hálendinu norðan og norðaustan við Vatnajökul og á Austfjörðum. Hreindýraveiðar. Hreindýr hafa verið veiðidýr manna allt frá steinöld, meðal annars má finna hellamálverk af hreindýrum í Lascaux-hellinum. Alls staðar þar sem hreindýr voru villt voru þau veidd, oft rekin saman til slátrunar. Enn má finna t.d. í Noregi og á Grænlandi (bæði frá tímum norrænna mann þar og inuíta) steinhleðslur sem notaðar hafa verið til að reka dýrin þangað sem auðvelt var að slátra þeim. Þar sem enn eru villt hreindýr eru þau veidd en þó alls staðar undir ströngu eftirliti. Í Norður-Ameríku hafa einungis frumbyggjarnir (indíánar, inuítar og yipik) leyfi til að veiða dýrin. Árlega eru um 1200-1300 dýr felld á Íslandi samkvæmt ströngu kvótakerfi. Hreindýrabúskapur. Hreindýr mjólkað á 19. öld, mynd frá Noregi Hreindýrabúskapur hefur um aldaraðir gegnt mikilvægu hlutverki fyrir líf og afkomu allflestra frumbyggjaþjóða á norðurheimskautasvæðinu í Evrópu og Asíu. Sérstaklega er þar um að ræða Sama, Nenet, Khant, Evenk, Jukaghir, Tjuktji og Koryak. Sennilega hafa menn byrjað að temja hreindýr þegar á bronsöld (um 1500 árum f.Kr.). Aðallega er hreindýrabúskapur stundaður vegna kjöts, felds, og horna. Áður fyrr voru hreindýr einnig notuð sem mjólkurdýr og dráttardýr. Í Síberíu voru hreindýr einnig notuð sem reiðdýr enda eru hreindýrin í Síberíu talsvert stærri en þau Skandinavísku. Hreindýrahjarðir hvers eiganda eru allt frá nokkrum hundruðum dýra til fleiri þúsunda. Hreindýr eru eiginlega hálftamin og ganga laus árið um kring þó eigendur hafi eftirlit með þeim og flytji þau milli beitisvæða allt eftir árstíma. Möluð hreindýrahorn eru seld sem lyf í Austur-Asíu. Tegundir. Hjörð af hreindýrum í Jämtland, Svíþjóð. Fyrstur fer hvítingi Á Rangifer.net er útbreiðslukort yfir hinar ýmsu undirtegundir af hreindýrum. Stampur. Stampur er nokkurs konar trékerald sem notað var til að brynna húsdýrum á árum áður. Stampar voru einnig notaðir sem geymsluílát. Stampur var oftast gerður úr lóðréttum stöfum líkum þeim sem notaðir voru í síldartunnur, og stampur er þannig líkur hálfri síldartunnu, en oftast úr þykkri stöfum - og breiðari, a.m.k. þeir stampar sem notaðir voru til að hringa niður (fiski)línu (bjóð) um leið og hún var beitt. Módular. Aðgerðin Módular finnur leif (afgang) deilingar einnar tölu með annarri. Gefnar eru tvær tölur “a” og “n” (deilir). Aðgerðin "a" mátað við "b", "a" módúlar "n" (eða formula_1) gefur leif deilingar "a" með "n". Sem dæmi mun segðin "8 mod 3" skila 2 en "9 mod 3" skilar 0. Gísli Halldórsson (leikari). Gísli Halldórsson (2. febrúar 1927 – 27. júlí 1998) var íslenskur leikari. Látur. Útselsurta með kóp á spena Látur eða sellátur er svæði nærri sjó, þar sem selir kæpa (eignast kópa). Sellátur er að finna víðast hvar þar sem selir halda sig, og eru meðal annars allvíða við strendur Íslands. Látur eru yfirleitt nærri flæðarmálinu, og selirnir liggja þar á fjöru en svamla í sjónum á flóði. Í einu látri geta verið allt frá fáeinum dýrum upp í mörg hundruð. Það hefur löngum verið talið til hlunninda, ef látur voru í námunda við bæi, enda hafa selir verið veiddir frá fornu fari, fyrst vegna kjöts og skinna, en í seinni tíð einkum vegna skinna (þá aðallega kópar) og til að halda hringormi í skefjum. Hvallátur eru einnig til, og setti Bjarni Einarsson þá tilgátu fram að þau væru kennd við rosmhvali, það er að segja rostunga. Sú tilgáta þykir mjög sennileg, en er erfitt að sannreyna þar sem rostungar eru orðnir sárasjaldgæfir við Ísland. Útbreiðsla. Sellátur fyrirfinnast víða við strandlengju Íslands. Landselir eru flestir á svæðinu frá Ströndum til Skaga við Húnaflóa Í nágrenni Reykjavíkur þykir látur við Stokkseyri og Eyrarbakka einna best til þess að skoða seli, þótt ekki haldi margir þeirra til þar. Hindisvík á Vatnsnesi er sögð vera besti staður landsins til að skoða seli, en látrið þar var friðað um 1940 fyrir atbeina Sigurðar Norland (1885-1971), sem þar bjó. Fengitími sela. Selir halda mest til í látrum frá fengitíma og þangað til kóparnir eru orðnir vel syndir. Tvær selategundir kæpa við Ísland, landselur og útselur, og er yfirleitt betra að komast að landselslátrum ef menn eru forvitnir eða í veiðihug. Landselur. Fengitími landsela er í ágúst og september og þeir kæpa á vorin, í maí og júní, í látrunum. Kóparnir liggja fyrstu vikuna en taka svo til sunds. Þegar kóparnir eru byrjaðir að braggast, þá byrja fullorðnu selirnir að fara úr hárum, seinni hluta sumars, áður en fengitíminn hefst að nýju, en þá halda selirnir sig frekar til sjós. Útselur. Útselir byrja að kæpa á haustin og stendur kæpingin yfir frá október fram í febrúar. Kópar útsels halda til á þurru landi þangað til þeir hafa skipt um feld, og þegar þeir eru byrjaðir að stálpast, á vorin, þá hefst fengitími fullorðnu selanna. Látur í örnefnum. Þar sem látur eru koma þau gjarnan fyrir í örnefnum. Þannig eru til Sellátur í Tálknafirði og Sellátranes í Rauðasandshreppi, Hvallátur og Látrabjarg í Vestur-Barðastrandarsýslu. Látrar eru til (og hafa bæði þekkst sem Sellátur og Hvallátur að fornu) og Látraströnd í Suður-Þingeyjarsýslu og Sellátur er bæði til í Breiðuvíkurhreppi í Snæfellsnessýslu og í Helgustaðahreppi í Suður-Múlasýslu. Hvallátur heitir eyjaklasi á Breiðafirði, og Hvallátradalur er í Lambadalshlíð í Dýrafirði. Guðjón Arnar Kristjánsson. Guðjón Arnar Kristjánsson (f. 5. júlí 1944) er íslenskur stjórnmálamaður og formaður Frjálslynda flokksins. Guðjón er fyrrverandi skipstjóri og fjallar mikið um sjávarútvegsmál og hagsmuni sjómanna. Vegna þessa er hann af mörgum talinn talsmaður landsbyggðarinnar. Guðjón er sonur Kristjáns Sigmundar Guðjónssonar og konu hans, Jóhönnu Jakobsdóttur. Fyrir stjórnmálaferilinn fékkst Guðjón við sjómennsku, hann lauk stýrimannanámi við Stýrimannaskólann í Reykjavík og var skipstjóri í þrjá áratugi. Guðjón var formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Bylgjunnar 1975-1984 og forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 1983-1999. Guðjón var meðlimur í Sjálfstæðisflokknum líkt og Sverrir Hermannsson en árið 1999 sögðu þeir sig frá honum og stofnuðu Frjálslynda flokkinn. Guðjón hefur þann siðinn að halda ræður einhverstaðar á landinu á Sjómannadeginum. Guðjón hefur lýst sig andsnúinn stuðningi íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak. Frjálslyndi flokkurinn hefur verið gagnrýndur fyrir umburðarlitla afstöðu sína gagnvart innflytjendum. Guðjón hefur sjálfur haldið því fram t.d. að undirboð erlends vinnuafls skaði starfsaldurtengd lífeyrisréttindi íslenskra iðnaðarmanna. Mettun. Mettun á sér stað þegar efnalausn getur ekki leyst upp meira af efninu og öll viðbót af því gerir lausnina skýjaða eða efnið fellur til botns í föstu formi. Hversu mikill styrkur efnis í lausn getur verið þegar mettun á sér stað er háð hitastigi lausnarinnar og efnaeiginleikum hennar og þess efnis sem leyst er upp. Sem dæmi á mettun loftrýmis af vatnsgufu sér stað þegar jafnmargar sameindir gufa upp úr vökvanum og streyma aftur niður í hann. Þ.e. þegar jafnvægi ríkir á milli uppgufunar og þéttingar. Heitt loft getur bundið meiri raka en kalt. Hægt er að yfirmetta lausnir með því að hita leysinn upp yfir stofuhita, metta lausnina og síðan kæla hana síðan rólega niður. Suða. Suða er ör gufumyndun vökva sem verður þegar gufuþrýstingur loftbólna í vökva verður jafn loftþrýstingnum utan vökvans, þegar suðumark vökvans er náð. Þannig þarf lægra hitastig til að ná suðumarki þegar loftþrýstingur minnkar. Suða er aðeins ein tegund gufumyndunar en aðrar tegundir eru uppgufun (gufumyndun á yfirborði vökva þar vatnssameindir yfirgefa líkama vatns; t.d. þegar blaut gangstétt þornar á björtum degi) og þurrgufun (þegar efni fer úr því að vera fast efni yfir í gas án þessa að breytast í vökva; t.d. getur ís gufað upp við mikinn kulda og lítinn raka og þurrís getur gufað upp við stofuhita). Bruni. Bruni útvermið efnahvarf súrefnis og eldsneytis, þ.e. oxun, sem gerist það hægt að ekki myndast höggbylgja. Annars er talað um sprengingu. Við bruna getur myndast glóð og reykur, en eldur aðeins ef nægjanlegt súrefni er til staðar og hiti er nógu hár. Hvatberar frumna framkvæma bruna, sem er það hægur að fruman og lífveran verður ekki fyrir tjóni af völdum hita. Elaine Fantham. Elaine Fantham (fædd "Elaine Crosthwaite") er breskur-kanadískur fornfræðingur. Hún var Giger prófessor í latínu við Princeton-háskóla frá 1986 til 1999. Hún var deildarforseti fornfræðideildar Princeton-háskóla frá 1989 til 1992. Fantham er sérfróð um latneskar bókmenntir, einkum gamanleiki, söguljóð og mælskulist, rómversk trúarbrögð og félagssögu rómverskra kvenna. Æviágrip. Fantham fæddist í Liverpool á Englandi. Fantham nam fornfræði við Oxford-háskóla en hélt þaðan til Liverpool-háskóla þaðan sem hún lauk doktorsgráðu árið 1965. Doktorsritgerð hennar fjallaði um gamanleikinn "Curculio" eftir rómverska gamanleikjahöfundinn Plautus. Starfsferill. Fantham hóf feril sinn sem menntaskólakennari á Skotlandi. Hún kenndi um skeið við Indiana-háskóla í Indiana í Bandaríkjunum og við háskólann í Toronto í Kanada frá 1968 til 1986. Þá hélt hún til Princeton þar sem hún kenndi til starfsloka árið 1999. Tenglar. Fantham, Elaine Fantham, Elaine Höfundaréttur. Höfundaréttur er lögfest safn réttinda sem höfundar efnis njóta, svo sem höfundar tónlistar, skáldskapar, myndlistar, kvikmynda og allra annarra listverka og hugverka, og kveður á um hvernig megi dreifa eða nota tiltekið efni. Höfundaréttur er samræmdur með ólíkum sáttmálum á borð við Bernar-sáttmálann. Kjarni höfundaréttar er tvískiptur, "sæmdarréttur" annars vegar og "fjárhagsleg réttindi" hins vegar. Fjárhagslegu réttindin fela í sér einkarétt til þess að gefa út og dreifa efni. Útgáfuréttur er framseljanlegur. Sæmdarréttur er réttur höfundar til þess að njóta viðurkenningar fyrir verk sín. Hann er óframseljanlegur og varanlegur réttur höfundar. Fjárhagslegu réttindin erfast til erfingja höfundarins en sæmdarréttur er hins vegar persónubundinn réttur sem aðeins höfundurinn sjálfur nýtur. Drína. Drína er fljót á Balkanskaga. Það er dragá, 346 km langt og fellur í fljótið Sövu, hægra megin og sunnan megin frá, en Sava fellur aftur í Dóná. Drína markar hefðbundin landamæri Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu. Nafnið er afbökun á fornu latnesku nafni fljótsins, "Drinus". Upptök Drínu eru talin þar sem árnar Tara og Píva, sem báðar renna úr Svartfjallalandi, sameinast Bosníumegin við landamærin, við þorp sem heitir Šćepan Polje. Fljótið rennur svo í norður og fellur í Sövu við þorpið Crna Bara. Drína er ekki fær skipum, en flúðasiglingar á kajökum eru stundaðar á henni. Fallhæð árinnar er mikil, eða um 360 metrar, og í henni eru þrjár vatnsaflsvirkjanir, en talið er að hún geti knúið nokkrar slíkar til viðbótar. Drina er einnig heitið á tveim sígarettutegundum. Önnur er ein vinsælasta tegund í Serbíu, hin er ein vinsælasta tegundin í Bosníu, en báðar draga nafn sitt af ánni. Svartidauði. Svartidauði var einn skæðasti heimsfaraldur sögunnar og náði hámarki í Evrópu um miðja 14. öld. Almennt er talið að sýkillinn hafi verið bakterían "Yersinia pestis" sem veldur plágu eða pest. Margir telja að sjúkdómurinn hafi borist frá Asíu og breiðst út með rottum. Áætlað hefur verið að um 75 milljónir manna alls hafi látist úr farsóttinni, þar af í Evrópu 25–30 milljónir, eða þriðjungur til helmingur íbúa álfunnar á þeim tíma. Pestin gekk um alla Evrópu á árunum 1348 – 1350 en barst þó ekki til Íslands þá, sennilega einfaldlega vegna þess að engin skip komu til Íslands þau tvö ár sem pestin geisaði á Norðurlöndum og í Englandi. Ýmist tókst ekki að manna skipin vegna fólksfæðar eða þá að skipverjar dóu á leiðinni og skipin komust aldrei alla leið. Töluverður vöruskortur var í landinu vegna siglingaleysis og er meðal annars sagt að leggja hafi þurft niður altarisgöngur um tíma af því að prestar höfðu ekki messuvín. Pestin kom aftur upp rétt eftir aldamótin 1400 á Ítalíu og breiddist út til ýmissa landa en varð þó líklega hvergi viðlíka faraldur og á Íslandi, þar sem hún gekk 1402-1404. Sóttin gaus aftur upp í Evrópu hvað eftir annað fram á 18. öld en varð þó aldrei eins skæð og þegar hún gekk fyrst yfir. Á síðari tímum hafa komið fram efasemdir um að plágubakterían hafi valdið svartadauða á Íslandi. Ástæðurnar eru meðal annars þær að svartidauði fór um Ísland eins og eldur í sinu þó að landið væri laust við rottur, að útbreiðsla sjúkdómsins var miklu hraðari en þekkt er þegar um "Yersinia pestis" er að ræða, og að meðgöngutími svartadauða virðist hafa verið miklu lengri en meðgöngutími plágu, eða allt að einum mánuði Uppruni og smitleiðir. Elsta dæmið um faraldur sem talinn er hafa verið af völdum Yersinia pestis er drepsótt sem gekk um Býsans á 6. öld og barst þaðan til ýmissa hafnarborga við Miðjarðarhaf en fátt er vitað um frekari útbreiðslu hennar. Hún tók sig nokkrum sinnum upp aftur á næstu öldum en eftir miðja 8. öld virðist engin meiri háttar drepsótt hafa gengið um Evrópu fyrr en Svarti dauði gekk um miðja 14. öld. Farsóttin var kölluð „plága“ en það voru einnig margir aðrir sjúkdómar kallaðir á þessum tíma. Pestin er oftast talin upprunnin í Mið-Asíu og hefur borist þaðan yfir gresjurnar með kaupmönnum. Aðrar tilgátur hafa þó komið fram um upprunann og hefur Norður-Indland verið nefnt til og Afríka einnig. Hvað sem því líður var pestin á miðöldum landlæg í nagdýrum í Mið-Asíu og barst þaðan bæði til austurs og vesturs með kaupmönnum eftir Silkiveginum. Rottuflóin, Xenopsylla cheopis var skæður smitberi. Ef hýsill flónna dó og þær höfðu engan annan hýsil til að leita í af sömu tegund þurftu þær að fara á menn til að fleyta sér áfram. Mennirnir smituðust í kjölfarið og gátu þá mannaflær farið að smita manna á milli. Dánartíðni. Svartidauði var að öllum líkindum þrískipt sótt sem gat komið fram ýmist sem lungnapest, kýlapest og nokkurs konar blóðeitrun. Létust 60-75% af þeim sem fengu kýlapestina, 90-95% þeirra sem greindust með lungnapestina en nær allir sem fengu blóðsýkinguna, en hún var sjaldgæfust. Oft er talið að um það bil þriðjungur af íbúum Evrópu hafi látist af völdum svartadauða en allar tölur eru þó mjög óvissar og fræðimenn hafa komist að ólíkum niðurstöðum um dánarhlutfall. Giskað hefur verið á að íbúar Evrópu hafi fyrir plágu verið um 80 milljónir og hafði fjöldi þeirra tvöfaldast á 300 árum. Sé sú tilgáta rétt að þriðjungur þeirra hafi látist í plágunni er heildarfjöldi látinna 27 milljónir. Útbreiðsla sjúkdómsins. Útbreiðsla Svarta dauða um Evrópu. Lungnapestin braust út í verslunarbænum Kaffa á Krímskaga árið 1347. Þar sem Kaffa var miðstöð viðskipta og verslunar var leiðin greið fyrir rottur að ferðast þaðan með skipum og bera sjúkdóminn með sér. Einnig lágu verslunarleiðir til Asíu frá tímum heimsveldis Gengis Kan og Mongóla. Þær lágu yfir slétturnar víðáttumiklu milli Rússlands og Kyrrahafsins, þar sem pestin var landlæg í nagdýrum. Því má segja að það hafi ekki verið nein tilviljun að sjúkdómurinn hafi blossað upp í Kaffa. Líklegast er að svartidauði hafi svo borist með skipum frá Kaffa vestur til Evrópu, fyrst til Konstantínópel og þaðan lengra inn á meginlandið. Vitað er að pestin kom upp á Sikiley 1347 og hafði borist þangað með kaupmönnum frá Genúa. Munkurinn Mikael Pletensis sagði um pestina: „... 12 skip frá Genóva, sem flýðu undan refsingu þeirri sem Drottinn hafði lagt á menn vegna synda þeirra, komu til hafnar í Messína. Með þeim barst sjúkdómur sem var svo smitnæmur að ef menn svo mikið sem töluðu við þá sýktust þeir af banvænum sjúkdómi...“ Þegar íbúar Messína sáu hvað sóttin var skæð gripu þeir til sinna ráða. Fólkið streymdi út úr borginni og settist að í skógum, en aðrir leituðu hælis í borginni Cataníu. Voru heimili sjúklingana skilin eftir ósnert þrátt fyrir að þau væru full að auðævum og skildu foreldrar við sig sjúk börn sín. Engin áhætta var tekin. Þeir sem náðu til Cataníu dóu stuttu síðar á sjúkrahúsum af völdum veikinnar og skildu íbúa borgarinnar eftir skelfingu lostna. Í hræðslu sinni neituðu þeir að sjúklingarnir yrðu grafnir í borginni. Fyrirskipaði þá biskupinn að líkin skyldu sett í djúpar gryfjur fyrir utan borgarmúrana. Á eyjunum við Ítalíu og Ítalíu sjálfri er talið að um það bil 75% íbúa hafi látið lífið í þessum skelfilegu hamförum. Frá Ítalíu breiddist plágan um alla Evrópu, bæði í suður- og vesturátt. Talið er að ástandið í Frakklandi hafi verið mjög svipað og á Ítalíu en þar geisaði pestin í eitt og hálft ár. Viðbrögð almennings. Enginn vissi hver orsök plágunnar var eða hvernig hún smitaðist. Þar sem almenningur hélt að svartidauði væri plága send frá Guði til að refsa fyrir syndir manna fyrirskipaði páfinn í kjölfarið að gengnar skyldu helgigöngur og sungnir helgisöngvar á tilteknum dögum. Þúsundir manna mættu í þessar göngur og margir gengu berfættir með svipur og slógu á bak sitt með svipu þar til blæddi. Voru þeir kallaðir flagellantarnir eða sjálfspískarar. Klemens VI páfi var meira að segja sjálfur viðstaddur sumar þessara ganga. Sumstaðar var reynt að finna einhverja sem gætu átt sök á faraldinum. Einhverjir menn fundust með torkennilegt duft í fórum sér. Voru þeir sakaðir um að hafa eitrað drykkjarvatnið og brenndir á báli. Einnig voru menn á því að gyðingar hefðu eitrað brunnana og voru margir þeirra ofsóttir og brenndir. Aðrir voru á þeirri skoðun að vanskapaðir og bæklaðir ættu sökina og ráku þá burt. Gyðingar brenndir á báli í Svarta dauða. Í Þýskalandi er talið að fólksfækkun hafi verið 33-50% á seinni hluta 14. aldar. Þar var mikið um Gyðingamorð og sjálfspískun á tímum Svarta dauða. Sjálfspískararnir voru oft miklir Gyðingahatarar en Gyðingamorð voru algeng viðbrögð fólks við pestinni. Voru margir Gyðingar brenndir í Solothurn, Zofingen og Stuttgart svo eitthvað sé nefnt. Samtímaheimildir herma að 16.000 Gyðingar hafi verið brenndir á þessum tíma í Strassburg einni en nútíma sagnfræðingar segja að þessi tala sé þó helmingi of há. Gyðingar reyndu þó á tíma að vera fyrri til og drápu 2000 kristna menn í Mainz. Svöruðu kristnir með því að drepa allt að 12.000 Gyðinga. Var ástandið orðið svo slæmt að Gyðingar voru farnir að brenna sig sjálfir inni til að lenda ekki í klóm þeirra kristnu. Á Englandi er sömu sögu að segja af svartadauða en þó voru Gyðingar ekki drepnir þar, enda hafði Játvarður 1. rekið alla Gyðinga úr landi árið 1290. Svartidauði lét fyrst á sér kræla í Englandi í júnímánuði 1348 og gekk um landið þar til um haustið 1349. Þótt heimildir um fólksfjölda séu betri um England en um nokkurt annað land í álfunni er óvíst hver dánartalan var en nútímasagnfræðingar hafa sett fram kenningar um að allt frá 25-60% þjóðarinnar hafi fallið í valinn. Í Noregi er talið að um 60% landsmanna hafi dáið. Eftir Svarta dauða. Plágan gekk yfir Evrópu að mestu á þremur árum en það tók mun lengri tíma fyrir hana að berast til ýmissa útkjálka. Hún gekk svo aftur hvað eftir annað næstu aldirnar þótt aldrei yrðu faraldrarnir eins skæðir og Svarti dauði. Almennt er talið að Plágan mikla sem gekk í London 1665-1666 hafi verið síðasti meiri háttar faraldurinn. Plágan er þó alls ekki útdauð og enn koma upp minni háttar faraldrar í ýmsum þróunarlöndum. Hypertext Transfer Protocol. a>, beiðnin, svarhausinn og svarbúkurinn eru litaðir Hypertext Transfer Protocol (HTTP) er aðferð til að senda eða taka við gögnum á veraldarvefnum. Upprunalegi tilgangurinn var að birta HTML síður, þótt núna sé HTTP notað til að hlaða niður myndum, hljóði, leikjum, textaskjölum og margmiðlun af allri gerð. Venjulega eru HTTP skilaboð alltaf í pörum, beiðni frá biðlara og svar frá miðlara. HTTP Skilaboð eru byggð upp af HTTP haus og síðan gögnunum sjálfum. Til að skilja á milli gagnanna og haussins eru notuð tvö auð línubil. Nýjasta útgáfa af HTTP er HTTP 1.1, þótt HTTP/1.2 sé í vinnslu. Bygging skilaboða. Athugið að línubil er notað til að skilja á milli hluta haussins, og tvö til að skilja á milli haussins og gagnanna. Heimildir. Ath. þessi heimild vísar í ensku Wikipediu sem heimild. Hafrannsóknastofnun Íslands. Hafrannsóknastofnun Íslands, oft nefnd Hafró í daglegu tali, er rannsóknastofnun íslenska ríkisins sem sér um ýmsar hafrannsóknir m.a. mælingar á stærð fiskistofna og mat á þéttleika eiturþörunga með reglubundnum hætti á nokkrum stöðum við landið. Mac OS. Mac OS, sem stendur fyrir Macintosh Operating System, er nafn á hópi af stýrikerfum frá Apple fyrir Macintosh tölvurnar. Það var fyrst kynnt árið 1984 með upprunalegu Macintosh 128K. Stýrikerfið var fór í gegnum kjarnauppfærslu þegar Mac OS X (útgáfa 10) varð til, seinna endurnefnt OS X. Oftast er talað um OS X (eða Mac OS X) sem sér stýrikerfi þ.e. samhæfni við Mac OS var ekki að fullu tryggð, en stundum er Mac OS látið ná yfir bæði kerfin. Mac OS er stundum kallað í daglegu máli „System“ eða „Kerfi“. Apple reyndi strax að hanna betri stýrikerfi en þau sem þegar voru á markaðinum, flest stýrikerfi þess tíma voru tæknilega flókin, ófullkomin og frekar einhæf. Fyrstu útgáfur Mac OS virkuðu bara með Motorola 68000-tölvum. Þegar Apple kynnti fyrstu tölvurnar með PowerPC vélbúnaði var stýrikerfi uppfært til þess að styðja þessa nýju tegund örgjörva. OS X hefur verið uppfærð til þess að styðja x86-örgjörva. Útgáfur. Fyrstu Macintosh stýrikerfin stóðu saman af tveim hlutum, „Kerfinu“ og „Finder“. Í Kerfi 7.5.1 var Mac OS merkið kynnt, breytt útgáfa af broskalli „Finder“. Classic. „Classic“ kerfið er þekkjanlegt á því að það er nær ómögulegt að komast í skipannalínu, stýrikerfið er eingöngu gluggakerfi. C Sharp. C# (borið fram C Sharp) er hlutbundið forritunarmál hannað af Microsoft sem kom út í júní árið 2000. Ætlunin var hjá Microsoft að búa til hlutbundið forritunarmál sem gæti keppt við Java forritunarmálið frá Sun. Málskipan þess svipar til C++ en hefur einnig nokkur atriði úr öðrum málum eins og Java, Delphi og Visual Basic. Helsta útgáfa Microsoft fyrir Windows stýrikerfið heitir Microsoft Visual C# og er hluti af Visual Studio þróunarumhverfinu. Hægt er að nota C# á öðrum stýrikerfum með svokallaðri Mono útgáfu, hún keyrir á Linux, FreeBSD, UNIX, Mac OS X, Solaris og Windows stýrikerfum. Málið er einnig hannað með það í huga að vera einfalt, nútímalegt, hlutbundið og með tag öryggi. Tag öryggi er þegar ekki er hægt að keyra forrit nema breyta sé að fá rétt tag inn í sig, einnig er ekki hægt að umbreyta sumum tögum yfir í annað. Málið hefur sjálfvirka minnishreinsun líkt og Java. Hún virkar þannig að hlutir sem forritið er hætt að nota eru hreinsaðir í burtu til að koma í veg fyrir keyrsluvillur. Í eldri málum þurfti forritarinn að hugsa sjálfur um að hreinsa minnið handvirkt með "delete" línum í kóðanum. Ruslahreinsunin hefur hinsvegar orð á sér að vera töluvert hægvirk. Aðalhönnuður C# heitir Anders Hejlsberg, hann hefur unnið að hönnun margra forritunarmála. Þar ber helst að nefna Turbo Pascal og Delphi sem og J++ sem var Microsoft útgáfa af java áður en C# kom til sögunnar. Halló, heimur! í C#. class Halló_Heimur C# 3.0. C# 3.0 var hleypt af stokkunum 19. nóvember 2007 og er byggt ofan á C# 2.0. Það eru kynntar nokkrar viðbætur við málið sem eru byggðar ofan á C# 2.0 til að styðja við notkun á fallaforritun, vinsæl fallforitunarmál eru MON LISP, ML og Haskel. Svo er líka nýtt í 3.0 Language Integrated Query (LINQ). LINQ er ein leið til að skilgreina eða gera fyrirspurnir á gögn. Klasabreyta. Klasabreyta er breyta sem fylgir tilteknum klasa en ekki tilviki hans. Í öllum tilfellum er einungis til eitt eintak af klasabreytu. Gildi breytunnar fylgir klasanum án tillits til hversu mörg tilvik eru til af klasanum sjálfum. Klasabreytur nota ekki tilvik til að útfæra erfðir. Af því að klasabreyta fylgir klasanum þá er hægt er að fá aðgang að henni beint í gegnum klasann, en ekki gegnum tilvik hans. Fyrst verður að skilgreina klasa í smið áður en breytan sjálf er skilgreind. Allir eiginleikar klasa, og tilvika hans, eru geymdir í klasabreytunni. Klasabreytur eru notaðar til samskipta milli hluta í sama klasa eða til að hlutir geti fylgst með upplýsingum um ástand mála. "Eftirfarandi dæmi skilgreinir tvær klasabreytur, hamark_hradi og lagmark_hradi." "Hér væri hægt að fá aðgang að kyrrlegu breytunum hamark_hradi og lagmark_hradi beint frá klasanum Bíll." Peter Brown. Peter Robert Lamont Brown (f. 1935 í Dublin á Írlandi) er írskur sagnfræðingur og prófessor við Princeton-háskóla. Hann er félagi á All Souls College í Oxford. Hann hefur kennt við Oxford-háskóla, the Lundúnaháskóla og Kaliforníuháskóla í Berkeley en kennir nú við Princeton-háskóla, þar sem hann er Philip og Beulah Rollins-prófessor í sagnfræði. Brown gegndi veigamiklu hlutverki í að endurnýja áhuga sagnfræðinga á síðfornöld og rannsóknum á dýrlingum. Brown vakti fyrst athygli með ævisögu Ágústínusar frá Hippó. Brown snerist hugur um margt á níunda áratugnum. Hann hefur sagt eldri verk sín, sem afbyggðu ýmsa trúarlega þætti, þurfi að endurmeta. Yngri verk hans bera vott um dýpri skilning á trúarlegum, einkum kristnum þáttum í viðfangsefnum hans. Heimildir. Brown, Peter IRC (siglingar). IRC er kerfi til að reikna út forgjöf í siglingakeppnum þar sem keppt er á bátum sem ekki eru allir sömu gerðar. IRC-forgjöf er reiknuð út samkvæmt reglum sem gefnar eru út ár hvert af Royal Ocean Racing Club í Bretlandi. Á hverju ári er reglunum aðeins breytt til að koma í veg fyrir að skútur séu sérstaklega hannaðar með tilliti til forgjafarinnar. Allar forgjafir renna því út við árslok og þarf að sækja um nýja til viðkomandi umboðsaðila. Við útreikning á forgjöf er miðað við eiginleika skútunnar, skrokklag, djúpristu, lengd og rýmd, seglbúnað o.fl. IRC-forgjöf er notuð til að „leiðrétta“ þann tíma sem tók skútuna að komast í mark. Fjöldi sekúndna er þá margfaldaður með forgjöfinni og niðurstaðan látin ráða sætaröð. Hjá skútu með forgjöfina 1 gildir þá raunverulegur tími. Fyrir skútu með forgjöf 1. Þannig að því minna sem gildið er, því meiri er forgjöfin. IRC er sú tegund forgjafar sem notuð er af Siglingasambandi Íslands fyrir keppnir á kjölbátum. Sveitarfélög Noregs eftir mannfjölda. Sveitarfélög Noregs eftir mannfjölda er listi yfir sveitarfélög Norges raðað eftir mannfjölda 1. janúar 2006. Tengt efni. Noregur Wyśmierzyce. Wyśmierzyce er bær við í miðhluta Póllands. Íbúar voru 884 árið 2004. Grójec. Grójec er bær við í miðhluta Póllands. Íbúar voru 14.875 árið 2004. Kantóna. Kantóna er stjórnsýslueining notuð í nokkrum löndum. Venjulega eru kantónur lítlar, ólíkar sýslum, fylkjum eða héruðum. Helstu kantónur í heimi eru þær í Sviss, sem standa saman til að mynda sambandslýðveldi. Gerður Helgadóttir. Gerður Helgadóttir (fædd 11. apríl 1928, látin 17. maí 1975) var mikilvirkur íslenskur myndhöggvari á 20. öld. Ævi og ferill. Gerður fæddist að Tröllanesi í Norðfirði; hún er dóttir Helga Pálssonar kaupfélagsstjóra og tónskálds og Sigríðar Erlendsdóttur. Gerður ólst upp að Tröllanesi til níu ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Hún er komin af listhneigðu fólki bæði í móður- og föðuætt og er náskyld Jóhannesi Kjarval. Gerður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1974 Menntun. Eftir þriggja ára nám í Gagnfræðaskóla Austurbæjar í Reykjavík innritaðist Gerður í Myndlista- og handíðaskólann 1945. Þar var hún í tvö ár; aðalkennari hennar fyrra árið var Kurt Zier og Kjartan Guðjónsson það seinna. Á þessum árum var engin myndhöggvaradeild við skólann en Gerður og annar nemandi, sem einnig hneigðist að höggmyndalist, fengu aðstöðu í lítilli skonsu sem kölluð var svínastían og var bakatil í skólanum sem þá var á Grundarstíg 2A. Sumarið 1947 fékk Gerður tilsögn um meðferð meitla og annarra áhalda hjá Sigurjóni Ólafssyni. Hún fékk skólavist í Konunglegu dönsku akademíunni þá um haustið. Gjaldeyrishöft og fjárskortur gerðu það að verkum að ekkert varð úr skólavistinni í Kaupmannahöfn. Faðir Gerðar, samstarfsmenn hans og vinir, lögðust þá á eitt til að Gerður kæmist í framhaldsnám til Ítalíu og niðurstaðan varð sú að hún fékk skólavist í Acccademia di Belle arte í Flórens þar sem hún var í tvö ár. Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hún hún stundaði nám í Académic de la Grande-Chaumiére 1949-1950. Aðalkennari hennar þar var Ossip Zadkine sem var rússneskur myndhöggvari. Veturinn 1950-1951 stundaði Gerður nám við einkaskóla Ossip Zadkine. Sýningar Gerðar á Íslandi. Fyrsta einkasýning Gerðar á Íslandi var í Listamannaskálanum 1951. Nokkur verk seldust og hlaut sýningin góðar undirtektir. Næsta sýning var sameiginleg sýning í Bogasal Þjóðminjasafnsins með André Enard árið 1956. Sýningin fékk góða dóma og nokkrar myndir seldust. Þriðju sýningu sína á Íslandi hélt hún einnig í Bogasalnum 1962 og nú sýndi hún ásamt eiginmanni sínum Jean Leduc. Listaverk Gerðar sem almenningur hefur aðgang að. Steindir gluggar eru í Hallgrímskirkju í Saurbæ, myndefni þeirra er að mestu sótt í Passíusálma sr.Hallgríms og þar með píslarsögu guðspjallanna. Steindir gluggar eru í Kópavogskirkju sem framfæra lífsgönguna frá vöggu til grafar. Steindir gluggar í Skálholtskirkju sem sýna gang hjálpræðissögunnar. Mósaíkmynd á Tollstöðvarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík sem var afhjúpuð með viðhöfn 7. september 1973. Bronsmynd í Landsbankanum við Strandgötuna í Hafnarfirði. Bronsmynd í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Myndir á húsinu að Dugguvogi 2, GG flutningar hf. en þær snúa að Sæbraut í Reykjavík. Skúlptúr á hringtorgi við Náttúrufræðistofu Kópavogs. Steindir gluggar í Ólafsvíkurkirkju. Steindir gluggar í Neskirkju við Hagatorg í Reykjavík. Suðuroy. Suðuroy (íslenska: "Suðurey") er syðsta eyja Færeyja og sú fjórða stærsta, 163 km². Vesturströnd eyjarinnar er hálend og þar eru mörg þverhnípt fuglabjörg en austurströndin er mjög vogskorin. Mörg sker og hólmar eru við strendur eyjarinnar. Hæsta fjall eyjarinnar er Gluggarnir ((610 m) en bjargið Beinisvørð vestan við þorpið Sumba er þó langþekktast. Fólksfækkun. Íbúar Suðureyjar voru 4721 þann 1. janúar 2011 en voru tæplega 6000 um 1985 og hefur fækkað jafnt og þétt síðan, meðal annars vegna þess að Suðurey er sú eyja Færeyja sem liggur lengst frá hinum og þótt hugmyndir séu uppi um að gera þangað neðansjávargöng er ólíklegt að úr því verði á næstu árum en göngin yrðu um 20 km löng. Ungu fólki fækkar langmest; heildarfækkunin er um 16% 1985-2010 en fólki á aldrinum 20-39 ára hefur á sama tíma fækkað um 24,8% og fólki undir tvítugu um 31,5%. Til Suðureyjar siglir ferja nokkrum sinnum á dag og tekur siglingin frá Þórshöfn til ferjuhafnarinnar Krambatanga á Suðurey tekur um tvo klukkutíma. Til eyjarinnar er einnig áætlunarflug með þyrlu. Byggðir. Byggðirnar á Suðurey eru, taldar frá norðri til suðurs: Sandvík, Hvalba, Froðba, Tvøroyri, Trongisvágur, Øravík, Fámjin, Hov, Porkeri, Vágur, Akrar, Lopra og Sumba. Þær eru allar á austurströndinni nema Fámjin og Sumba. Eyðibyggðirnar Víkarbyrgi og Akrabyrgi eru á sunnanverðri eynni og eru báðar sagðar hafa farið í eyði í Svarta dauða. Víkarbyrgi byggðist raunar aftur en fór í eyði skömmu fyrir síðustu aldamót. Vegir eru milli allra byggðanna og tvenn jarðgöng sem tengja nyrstu byggðirnar tvær við syðri hluta eyjarinnar eru með elstu göngum Færeyja. Tvenn önnur göng eru á eynni. Stærstu bæirnir eru Tvøroyri (809 íbúar 1. janúar 2011), sem er stjórnsýslumiðstöð Suðureyjar, og Vágur (1377 íbúar). Báðir standa þeir við firði umgirta fjöllum. Þessir tveir bæir skiptast á að halda árlega sumarhátíð eyjarskeggja, sem kallast Jóansvaka og er ekki ósvipuð Ólafsvökunni í Þórshöfn en er haldin síðustu helgi í júní. Aðalatvinnuvegir eyjarskeggja eru sjósókn og landbúnaður en fyrr á árum var námagröftur mikilvæg atvinnugrien í Hvalba. Námavinnsla var hafin þar á seinni hluta 18. aldar og árið 1954 voru unnin þar 13000 tonn af kolum, sem var 75% af kolaþörf færeyskra heimila. Náman er enn starfandi en nú vinna þar aðeins örfáir menn og öll kolin er notuð á eynni sjálfri. Saga. Sagt er að munkar frá Bretlandseyjum hafi sest að á Suðurey um miðja 7. öld og er hún samkvæmt því sú eyjanna sem fyrst byggðist. Einni til tveimur öldum síðar komu norrænir víkingar og settust að á eynni. Blómleg byggð er talin hafa verið í Suðurey á miðöldum en í Svarta dauða 1349 er sagt að þrír fjórðu eyjarskeggja hafi fallið í valinn og tvær byggðir að minnsta kosti lögðust í eyði. Á 17. öld gerðu sjóræningjar oft strandhögg á eynni, drápu menn og rændu mat, svo að hungursneyð varð þar og fjöldi manna dó úr sulti. Önnur ástæða fyrir hungursneyðinni var hinn langi og erfiði róður til Þórshafnar, þar sem einokunarverslunin var, og Suðureyingar stunduðu því mikla launverslun við erlenda sjómenn. Það ástand lagaðist ekki fyrr en 1826, þegar langþreyttir Suðureyjarbúar fengu því loks framgengt að verslunin opnaði útibú á Tvøroyri. Árið 1768 hraktist skipsflak frá Bretlandseyjum til Suðureyjar. Á því voru rottur sem dreifðust fljótt um eyna og ollu miklum skaða á fuglastofnum. Vopnuð átök. Vopnuð átök eru fjandsamleg átök milli hópa manna þar sem vopnum er beitt og oftast með mannfalli. Stríð eru meiriháttar vopnuð átök í kjölfar stríðsyfirlýsingar þar sem talsvert mannfall verður og er oft miðað við að 1000 manns eða fleiri falli. Átök tveggja herja í stríði kallast orrusta. Skærur eru minniháttar vopnuð átök þar sem mannfall er tiltölulega lítið. Jarðefnafræði. Jarðefnafræði er sú fræðigrein er fæst við efnafræðilega samsetningu jarðar og annarra reikistjarna, efnafræðilegra ferla og hvarfa sem ráða myndun bergs og jarðvegs, hringrása efna og orku sem flytja til efnasambönd jarðar í tíma og rúmi, og gagnverkun þeirra við vatnshvel og andrúmsloft. Victor Goldschmidt er af flestum talinn vera faðir nútímajarðefnafræði. Hann útfærði helstu hugmyndir fræðigreinarinnar í röð verka sem byrjuðu að koma út árið 1922 undir heitinu "Geochemische Verteilungsgesetze der Elemente." Hafskipsmálið. Hafskipsmálið var umfangsmikið gjaldþrotamál Hafskip hf., skipafélags sem veitti Eimskipafélaginu samkeppni, á miðjum níunda áratugnum. Útvegsbanki Íslands, viðskiptabanki fyrirtækisins, tapaði háum fjárhæðum og var lagður niður í kjölfarið. Mikil og neikvæð umfjöllun fjölmiðla um Hafskipsmálið var líkt við ofsóknir. Geir H. Haarde á að hafa sagt í viðtali að Hafskip hafi mögulega verið neytt í gjaldþrot. Stjórnendur Hafskips og Útvegsbankans voru kærðir. Dómsmálið vatt mikið upp á sig og lauk í júní 1991, fimm árum eftir gjaldþrotið, með því að fjórir æðstu menn fyrirtækisins voru dæmdir sekir um brot á lögum. Margir vildu meina að stjórnmálamenn hefðu haft óeðlileg áhrif á framvindu mála. Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði af sér 24. mars 1987 vegna þáttar síns í málinu og ósættis innan Sjálfstæðisflokksins í kjölfarið. Hafskip hf.. Skipafélagið Hafskip var stofnað 1958 af Verslanasambandinu, félagi kaupmanna, til þess að annast innflutning fyrir þá á hagstæðari kjörum. Hafskip hf. gekk misjafnlega vel í samkeppni sinni við önnur íslensk skipafélög. Eimskipafélag Íslands hefur frá stofnun 1914 notið hálfgerðrar einokunarstöðu. Undir lok áttunda áratugarins var Hafskip orðið skuldugt og vegna þrýstings frá Útvegsbankanum var Björgólfur Guðmundsson fenginn til þess að taka við rekstri fyrirtækisins. Björgólfur hafði mikinn metnað, hann trúði á mátt hins frjálsa markaðs og fyrst um sinn sýndi Hafskip hagnað. Árið 1984 varð fyrirtækið fyrir margs konar áföllum í rekstri og til þess að mæta aukinni samkeppni hóf Hafskip hf. Atlantshafssiglingar - áætlunarferðir milli Bandaríkjanna og Evrópu. Umfjöllun í fjölmiðlum hefst. Umfjöllun Helgarpóstsins 6. júní 1985. Þann 6. júní 1985, daginn fyrir aðalfund Hafskips, hóf Helgarpósturinn að fjalla um mál Hafskips með fyrirsögninni „Er Hafskip að sökkva?“. Í blaðinu var því haldið fram að tap Hafskips árið 1984 hefði numið 200 milljónum og að reikningskröfum frá viðskiptavinum víðsvegar að rigndi inn hjá fyrirtækinu. Heimildarmaður Helgarpóstsins var Gunnar Andersen, fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins, sem áður hafði ráðlagt kaupin á Cosmos fyrirtækinu í Bandaríkjunum. Honum hafði verði vikið úr starfi eftir að fjárfestingar hans skiluðu tapi. Hann vildi hefna sín á Björgólfi og stjórn Hafskips. Tveimur dögum eftir aðalfundinn var birt frétt í Morgunblaðinu þar sem greint var frá aðalfundinum. Markverðast þótti 95,7 milljón króna tap á árinu 1984. Aftar í blaðinu birtist tilkynning Hafskips þar sem fyrirtækið vísaði yfirlýsingum Helgarpóstsins á bug og hótaði lögsókn á hendur blaðinu fyrir meiðyrði. Tæpri viku seinna benti Halldór á óeðlileg hagsmunatengsl Alberts Guðmundssonar í greininni „Þokulúðrar Hafskips“. Þar sagði að tap Útvegsbankans yrði 160 milljónir sem skattgreiðendur kæmu til með að þurfa að greiða. Lárus Jónsson, fyrrverandi bankastjóri Útvegsbankans, segir að „"[þ]ar með [hefði verið] sleginn sá tónn í þjóðfélaginu, sem síðar varð að sinfóníu í mörgum þáttum og með ýmsum tilbrigðum og stjórnarandstæðingar á Alþingi gerðu nánast að pólitískum ofsóknum. Málflutningur þeirra beindist að því að láta Albert og Sjálfstæðisflokkinn fá rauða spjaldið, en um leið var auðvitað grafið rækilega undan trausti Útvegsbankans og trausti Hafskips."“ Lárus Jónsson og Ólafur Helgason birtu yfirlýsingu í Morgunblaðinu 16. júní þar sem tekið var fram að skuldir Hafskips væru tryggðar með eignum fyrirtækisins og hluthafa þess. Hagsmunatengsl Alberts. Um þessar mundir var til afgreiðslu á Alþingi lagafrumvarp um viðskiptabanka. Minnihluti viðskiptanefndar lagði til þá breytingu á frumvarpinu að við bættist greinin „Ráðherra er ekki heimilt að skipa alþm. í bankaráð viðskiptabanka“. Albert Guðmundsson, iðnaðarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var í rúm tvö ár - frá byrjun árs 1981 og fram í júní 1983 - formaður stjórnar Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans, helsta viðskiptabanka Hafskips. Albert hafði áður verið gagnrýndur fyrir að veita fólki fyrirgreiðslur en það einkenndi hann sem stjórnmálamann. Í viðtalsbók sem kom út 1982 sagði Albert: „.".. mín tengsl við Hafskip, sem bankaráðsformaður, eru nákvæmlega engin. Ég kem aldrei nálægt neinum málum þar sem eru einhver samskipti Hafskips og bankans. Já, ég gæti kannski haft einhver afskipti af þessum viðskiptum félagsins við bankann, en ég geri það ekki."“ Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, segir í ævisögu sinni að á fyrsta ríkisstjórnarfundi sínum, vorið 1983, hafi hann beðið alla ráðherra að segja af sér öllum öðrum launuðum störfum en Albert hafi fyrst um sinn neitað en svo látið undan. Albert og hagsmunatengsl hans við Hafskip var rauður þráður í Hafskipsmálinu. Viðræður - Eimskip og SÍS. 71,6 - 1) til þess að átta sig á núvirði. Þrátt fyrir neikvæða umræðu í fjölmiðlum var enn hugur í Hafskipsmönnum og von um að það skyldi takast að rétta úr kútnum - að Atlantshafssiglingarnar myndu skila hagnaði. Tekjuáætlanirnar stóðust framan af en kostnaðurinn var stórlega vanmetinn. Uppgjör fyrstu fjögurra mánaða ársins 1985 lá fyrir í júlí og sýndi tap upp á 90 milljónir króna í stað þess hagnaðs sem vænst var. Þann 17. júlí var Útvegsbankanum greint frá þessum niðurstöðum og ákveðið var á fundi bankans og Hafskips að reyna að selja fyrirtækið í rekstri. Haustið 1985 var fátt meira rætt en málefni Hafskips. Ásakanir komu fram um að stjórnarmenn Hafskips færu í dýrar utanlandsferðir þar sem engu væri til sparað. Helgarpósturinn birti á forsíðu sinni mynd af golfboltum með merki Hafskips undir fyrirsögninni "HÉGÓMI". Viðræður við Eimskip um sameiningu fyrirtækjanna hófust strax og tapreksturinn varð ljós en þær gengu treglega. Eimskipsmenn gerðu mjög ákveðnar kröfur um hversu mikið af viðskiptum við Hafskip þyrftu færast yfir til Eimskips við samrunann. Eimskipsmenn höfðu einvörðungu áhuga á Íslandsflutningum Hafskips sem metið var á 650 milljónir. Forsvarsmönnum Eimskips fannst það of hátt verð og vildu ekki semja. Viðræður héldu áfram í ágúst og september. Því hefur verið haldið fram að Eimskipsmenn hafi dregið það eins og þeir mögulega gátu að ganga að samningsborði í því augnamiði að auka tap Hafskips og Útvegsbankans. Laugardaginn 28. september birtist stór grein í Þjóðviljanum undir fyrirsögninni „Uppgjör hjá stórauðvaldinu“ þar sem því var haldið fram að sameining Eimskips og Hafskips væri í vændum. Um mánuði seinna, 31. október birti ritstjóri Þjóðviljans, Össur Skarphéðinsson, frétt undir fyrirsögninni „Einokun í aðsigi?“ en áður höfðu blaðamenn velt vöngum yfir þessum möguleika. Í viðtali við Morgunblaðið 2. nóvember kvað Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, það vera möguleika í stöðunni að Eimskip keypti Hafskip. Fram að þessu hafði tekist að halda viðræðunum leyndum en nú ágerðist ágengni fjölmiðla. Í lok október hófust umræður milli Hafskips og Skipadeildar SÍS, hins stóra samkeppnisaðila Hafskips, um mögulega sameiningu. Páll G. Jónsson, stjórnarmaður í Hafskipi hafði frumkvæði að því að tala við Val Arnþórsson stjórnarformann SÍS. Á skömmum tíma höfðu þeir ásamt nokkrum öðrum unnið kostnaðaráætlun sem sýndi fram á mikla hagkvæmni með sameiningu fyrirtækjanna. Það sem meira var þá yrði komið í veg fyrir nær algera markaðseinokun Eimskips eða 80% markaðshlutdeild. Helgi Magnússon, endurskoðandi Hafskips, segist hafa farið „"með þeim á einn fund sem haldinn var 7. nóvember og þótti mér eftirtektarvert hversu gott andrúmsloftið var. Það var ekkert hik á þessum mönnum. Þeir voru staðráðnir í að koma málinu í höfn og þeir voru sannfærðir um öruggan rekstrargrundvöll og bjarta framtíð hins væntanlega skipafélags. Þarna var unnið af heilindum og enginn skollaleikur í gangi."“. Atlaga frá Alþingi. Þann 14. nóvember hóf Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, utandagskrárumræður á Alþingi um málefni Útvegsbankans og Hafskips. Hann hafði fengið í hendur skýrslu frá Arnbirni Kristinssyni, fulltrúa Alþýðuflokksins í bankaráði Útvegsbankans. Í þessum umræðum komu flokkadrættir glöggt fram. Í opnunarræðu sinni vitnaði Jón Baldvin í viðtöl blaðanna við bankastjóra Útvegsbankans. Einn þeirra, Halldór Guðbjarnason, sagði í Alþýðublaðinu „"Mér þykir það mjög miður að Útvegsbankinn skuli dragast inn í pólitísk átakamál sem hafa verið búin til vegna viðskipta Hafskips hf. við bankann. Við viljum ekki vera ein skúringatuska stjórnmálamanna"”. Þessi yfirlýsing vakti furðu manna. Fyrir lá að tap Útvegsbankans yrði mikið og aðeins spurning hversu mikið en að málið væri átakamál pólitískra mótherja hafði ekki áður heyrst. Jón Baldvin spurði hvort bankaeftirlit Seðlabankans hefði sinnt skyldu sinni. Hann sagði almenning eiga á heimtingu að fá að vita sannleikann um stöðu mála í viðskiptum Útvegsbankans og Hafskips. Jafnframt því lagði hann fram fyrirspurn um stöðu bankans og vildi sérstaka sundurliðun fyrir það tímabil sem Albert Guðmundsson hefði verið samtímis í stjórn fyrirtækisins og formaður bankaráðs. Annar ræðumaður, Matthías Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og samgönguráðherra, tók strax fram að viðræður Útvegsbankans og Eimskips stæðu yfir einmitt á þessum tímapunkti. Því hefði hann beðið Jón um að fresta umræðunum áður en hann tók til máls, ellegar biðja um skriflega skýrslu. Því samningsmenn óttuðust neikvæða umfjöllun en Jón hefði neitað því. Matthías undirstrikaði að Hafskip hefði um margra ára skeið átt í erfiðum rekstri en veitti litlar aðrar upplýsingar. Þriðji ræðumaður, Kristín S. Kvaran, þingkona Bandalags jafnaðarmanna, tók undir með Jóni, þá þörf að þetta mál þyrfti að ræða fyrir opnum tjöldum. Hún vitnaði í fjölda greina úr mismunandi blöðum og gagnrýndi þær útskýringar á taprekstri Hafskips að um ytri aðstæðum væru um að kenna. Í útlöndum hefðu skipafélög gott eftirlit með verði á skipum og óskiljanlegt væri ef íslensk skipafélög hundsuðu sjálf slíka hagsmunagæslu. Fjórði ræðumaður, Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins, mælti með afnámi bankaleyndar og fullyrti „"að það [væri] ekkert nýtt að gælufyrirtæki [Sjálfstæðisflokksins] hafi u.þ.b. verið að koma Útvegsbankanum aftur og aftur á kné. Shell, Hafskip, Ólíumöl, öll þessi fyrirtæki tengjast sterkum forustumönnum í [Sjálfstæðisflokknum], hæstvirtur utanríkisráðherra, hæstvirtur iðnaðarráðherra og hæstvirtur formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins."” Hann velti sömuleiðis fram þeim möguleika að Hafskip hafi látið Útvegsbankanum í té fölsuð gögn um stöðu fyrirtækisins. Hann kvað „"[þ]jóðinni [vera] gert að borga okrið í bönkunum, okrið á okurlánastöðvunum. En þegar kemur að því að hreinsa upp draslið eftir íhaldsöflin í gælufyrirtækjunum þeirra á þjóðin að borga það líka. Þetta er siðlaust"”. Fimmti ræðumaður, Jóhanna Sigurðardóttir, þingkona Alþýðuflokksins, benti á að bókfært eigið fé Útvegsbankann næmi rúmlega 359 milljónum króna. Í framhaldi af því leiddi hún líkum að því að Útvegsbankinn hefði lánað um 700 milljónum til Hafskips. Hún sagði að væru ásakanir sem fram hefðu komið réttar þyrftu viðkomandi að sæta ábyrgð. Sjötti ræðumaður, Valdimar Indriðason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður bankaráðs Útvegsbankans, sagði m.a. „Tvennt hefur einkum komið til sem gerbreytt hefur eiginfjárstöðu fyrirtækisins til hins verra síðustu misseri, en hún var sem áður segir slæm fyrir. Annars vegar var stórfelldur taprekstur á fyrirtækinu á árinu 1984 sem að hluta til stafaði af óviðráðanlegum ástæðum. Jafnframt hefur mikill hallarekstur haldið áfram á yfirstandandi ári þvert ofan í áætlanir stjórnenda um bata. Hins vegar hafa skip fallið í verði vegna markaðsaðstæðna”. Hann sagði áætlað að flutningaskip hefðu almennt lækkað í verði um a.m.k. 15-20% á síðustu þremur árum. Valdimar undirstrikaði sömuleiðis að þetta væri viðskiptamál og að ógætileg umfjöllun gæti torveldað farsæla lausn á málinu. Sjöundi ræðumaður, Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls vegna tengsla sinna við Hafskip en hann hafði verið fundarstjóri á ársfundinum Á krossgötum. Hann sagðist hafa verið hluthafi í Hafskipi í nokkur ár. Þátttaka hans á aðalfundinum væri ekki óeðlileg þar sem fyrirtækið barðist í bökkum og þörf hefði verið á hlutaféi. Áttundi ræðumaður, Albert Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra, hóf þá raust sína og varði pólitískt kjör manna í bankaráð sem hefðu reynslu af viðskiptalífinu. „"Það þarf að kjósa menn í þannig stöður sem ekki hafa nein tengsl við atvinnulífið til að koma í veg fyrir að hugsanlega eigi þeir vini sem væri hægt að nota sem tortryggileg tengsl á milli bankaráðsmanna og [þingmanna] eða trúnaðarmanna Alþingis. Helst þyrftum við kannske að vera vinalausir og munaðarlausir líka til að hafa alla þá hæfileika og uppfylla þær kröfur sem [hæstvirtur] formaður Alþýðubandalagsins gaf í skyn að þeir menn þyrftu að standast sem koma nálægt peningamálum hins opinbera."” Albert sakaði Jón Baldvin um að nýta sér þetta mál í pólitískum tilgangi, sjálfum sér til framdráttar. Hann sagðist vera tilbúinn til þess að afsala sér þinghelgi ef þess yrði krafist og vilja gaumgæfilega rannsókn á málinu. Níundi ræðumaður, Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði Útvegsbanka Íslands vera bakhjarl fjöldamargra fyrirtækja á landsvísu. Í rekstri fyrirtækja fælist ávallt áhætta sem taka þyrfti og engar tryggingar væru fyrir því að hagnaður gæfist. Hann taldi umfjöllun fjölmiðla vanhugsuða og illa tímasetta, almennt vantaði staðreyndir meðfylgjandi gífuryrðunum. „"Í stuttu máli hefur [hæstvirtur þingmaður] Jón Baldvin Hannibalsson því miður flogið nokkuð hátt í sínum málflutningi, eins og reyndar í fleiri málum sem hann tekur oft á, þar sem tærnar snýta skýjum."”. Fyrsti ræðumaður, Jón Baldvin, tók þá aftur til máls. Honum fannst fátt nýtt hafa komið fram. Hann sagði Árna vera „"einn af glókollum [Sjálfstæðisflokksins] og væntanlega ábyrgur málssvari frjálshyggjutrúboðsins"” og málsflutning Alberts „"píslarvottsræðu"”. Samantekt hans á orðræðu Alberts var heldur hæðin: „"Auðvitað eru viðskipti áhætta. Ég sem hinn reyndi maður í viðskiptalífinu veit það, ég tek stóra áhættu í lífinu. Það er nú líkast til. … Ef það eru staðreyndirnar í málinu, sem ekki hefur fengist upplýst, að þessi ríkisábyrgði banki með sparifé landsmanna er búinn að lána hundruð milljóna króna – segjum á bilinu 7-800 miljónir – og ef það er staðreynd málsins að þessi pólitískt ríkisrekni banki með ríkisábyrgðinni hafi lánað þetta þessu eina fyrirtæki sem aldrei átti nothæf veð – löngu fyrir rýrnun – fyrir þessari lánsupphæð – síðan kemur til frekari rýrnun – og gerum nú ráð fyrir því að staðreyndirnar um eigið fé þessa ríkisrekna banka séu raunsætt metnar afar lágar, þá er niðurstaða málsins einfaldlega þessi: [Hæstvirtur ráðherra] viðurkenndi, þegar spurt var um tap sem lendir á þjóðinni en ekki á „bissnessmönnunum”, vinum litla mannsins, að þá yrði það tap mikið fyrir ríkið, ríkissjóð, skattgreiðendur, hina íslensku endurtryggingu þessa auma pilsfaldakapítalisma sem enga áhættu tekur, ef ekki er hægt að semja um að koma því yfir á aðra."” Hann tilgreindi mál sem komið hafði upp árið 1975 varðandi viðskipti Alþýðubankans við tvö fyrirtæki. Þá hafi Seðlabankinn vikið bankastjórn og bankaráði bankans frá vegna þess að lán voru veitt umfram trygginga fyrir þeim. Ástæða þess að ekki hafi verið tekið með sama hætti á þessu máli sagði hann vera pólitíska. „"Nú svarar vinur litla mannsins í píslarvættisræðunni. Ég hafði engin afskipti af málefnum Hafskips meðan ég var formaður bankaráðs Útvegsbankans. Hver á nú að trúa slíkri jólasveinasögu? Á ég að trúa því að formaður bankaráðs Útvegsbankans hafi gert sig sekan um þau afglöp að hafa engin afskipti af viðskiptamálum stærsta viðskiptafyrirtækis bankans? Ég trúi því ekki. Því miður. Sorry Stína."” Þá lagði hann til að skipuð yrði þverpólitísk þingnefnd til þess að rannsaka málið. Tillagan felld. Daginn eftir utandagskrárumræðurnar á Alþingi birtist forsíðufrétt í DV með fyrirsögninni „Hafskip og skipadeild SÍS sameinuð?” þar sem Ragnar Kjartansson og Axel Gíslason hjá SÍS sátu fyrir svörum. Þeir sögðu þetta mögulega betri kost en sölu til Eimskips. Helgi Magnússon telur að „"þetta [hafi verið] pólitísk sprengja og henni fylgdi mikill pólitískur titringur. Óhætt er að fullyrða að sterk öfl í Sjálfstæðisflokknum hafi séð rautt. … Fyrirtækið gat hæglega orðið jafnstórt og Eimskip, veitt því harða samkeppni og dregið úr valdi þess. Þetta mátti ekki gerast! Eimskip átti að fá Hafskip. Annað hvort með góðu eða illu - og þá fyrir smánarverð. Ef Hafskipsmenn gátu ekki bjargað sér í faðm Eimskips - þá máttu þeir fara veg allrar veraldar. En umfram allt: Þeir máttu ekki bjarga sér með samstarfi við SÍS-veldið. … Hér verður ekkert fullyrt um þær leiðir sem reyndar voru á bak við tjöldin. Um það verður ekkert sannað. En togað var í marga strengi og mikill undirgangur var í málum næstu vikurnar."“ En þá urðu kröftugar og neikvæðar umræður á Alþingi og í fjölmiðlum enn og aftur til þess að setja strik í reikninginn. Sunnudaginn 17. nóvember var Íslenska skipafélagið hf. stofnað af stjórnarmönnum Hafskips til þess að kaupa fjármuni og viðskiptavild Hafskips og taka yfir Íslandsreksturinn. Næsta dag var samningum upp á $15 milljónir undirritaður og farið fram á greiðslustöðvun Hafskips við Útvegsbankann. Komið hefur í ljós að degi seinna hafi Eimskipafélagið sent öllum helstu viðskiptavinum Hafskips símskeyti með fyrirsögninni „Hafskip hættir rekstri”. Í símskeytinu var undanfari gjaldþrotsins stuttlega rakinn og sérstaklega tekið fram að möguleiki væri á að Eimskip tæki við rekstrinum. Þó væri ekki útséð um hver framvindan yrði. Á stjórnarfundi hjá SÍS laugardaginn 23. nóvember féllu atkvæði þannig að einu munaði á að tillaga um samstarf við Íslenska skipafélagið hf. yrði samþykkt. Gjaldþrot. Föstudaginn 6. desember 1985 var Hafskip lýst gjaldþrota, starfsfólki rúmlega 350 talsins, var sagt upp og allar eignir seldar helsta keppinautnum, Eimskipafélagi Íslands. Samningur þess efnis sem hljóðaði upp á 318 milljónir króna var undirritaður 6. janúar 1986 milli þrotabúsins í umsjón borgarfógeta og Eimskipafélagsins. Matthías Bjarnason sagði í viðtali við Morgunblaðið að stjórnendur Hafskips hefðu átt að lýsa fyrirtækið gjaldþrota fyrir mörgum mánuðum. Næsta dag gaf Seðlabankinn út yfirlýsingu þar sem hann sagðist skyldu tryggja skuldbindingar Útvegsbankans um sinn og að tap Útvegsbankans næmi a.m.k. 350 milljónum. Á fundi þingflokks Framsóknarflokksins um morguninn 9. desember var ákveðið að styðja við að full rannsókn færi fram. Á Alþingi sama dag fóru Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrímur J. Sigfússon, fyrir hönd stjórnarandstöðu, fram á að viðskiptaráðherra gæfi skýrslur um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips. Þeim var lokið og gert grein fyrir á Alþingi vorið eftir. Þá voru þrjár þingsályktunartillögur lagðar fram, tvær í neðri deild og ein í efri deild, um rannsóknarnefnd til að rannsaka viðskiptin. Þar var lagt til að skipuð yrði rannsóknarnefnd samansett af alþingismönnum til að rannsaka viðskiptin. Viðbrögð. Þriðjudaginn 10. desember birtist opið bréf Alberts Guðmundssonar til ríkissaksóknara í Morgunblaðinu. Í bréfinu vísaði hann í umfjöllun um Hafskip undanfarið og þær ásakanir á hendur honum sem fram komu þar og fór fram á hraða, opinbera rannsókn á þætti sínum. Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var varaþingmaður Alþýðubandalagins tók til máls á Alþingi á öðrum utandagskrárumræðum 10. desember. Í ræðu sinni sakaði Ólafur forsvarsmenn Hafskips um að nýta fé Hafskips í önnur verkefni; „hliðarfyrirtækja, skúffufyrirtækja og platfyrirtækja”. Á þjóðina þyrfti því að leggja sérstakan Hafskipsskatt til þess að greiða aftur tapið. Hann nefndi þetta mál „stærsta fjármálahneyksli í sögu lýðveldisins“ og varðandi tengsl Sjálfstæðisflokksins fór hann fram á að „[þ]essi stærsti flokkur þjóðarinnar [yrði] þess vegna að vera reiðubúinn til samvinnu við þingheim allan og þjóðina til að leiða í ljós skýrt og skorinort að ekkert óeðlilegt, ekkert sem talist getur óeðlileg fyrirgreiðsla, óeðlileg hjálp, hafi átt sér stað hjá þeim forustumönnum [Sjálfstæðisflokksins] sem skipuðu stjórnendastöður innan Hafskips.“ Ummæli sem þessi eru til merkis um hversu miklar áhyggjur voru af umfangi málsins og hversu mikið óöryggi það leiddi af sér. Sumir töldu að gjaldþrot Hafskips og þar með Útvegsbankans myndi þýða keðjuverkun gjaldþrota hjá mörgum stærri fyrirtækjum. (Sjá ræðu Ólafs) Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, fór mikinn í ræðu sinni og gat tæpast dulið reiði sína. Hann hæddi Guðmund Einarsson með því að segja „"[hæstvirtur þingmaður] endaði ræðu sína með því að segja: „Verið allir eins og ég og ekki öðruvísi, ekki eins og allir hinir og alls ekki eins og þessi kjáni sem hjálpaði fátæku konunni í kaffivagni. Verið eins og ég, takið ekki á ykkur neina ábyrgð. Í guðanna bænum vinnið ekkert sjálfstætt, það getur verið stórhættulegt. Komið heldur og vinnið hjá því opinbera, t.d. hjá Háskóla Íslands eins og ég, þar sem við getum farið fram úr áætlunum í peningamálum. Ríkið borgar, það verður að koma aukafjárveiting hvernig sem við högum okkur, við þurfum ekki að vera ábyrgir fyrir neinu."” Albert staðhæfði að hann hefði engin afskipti haft af útlánum til Hafskips og það sem meira væru bein afskipti bankaráðs bönnuð með lögum. Þetta gætu bankastjórar Útvegsbankans staðfest. Hann sagðist ekki geta frætt áheyrendur um það hversu mikil skuld Útvegsbankans væri orðin, hugsanlega einn milljarður. Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri, skrifaði grein í Morgunblaðið um afskipti bankaeftirlits og Seðlabanka af Hafskipsmálinu. Hafskipsmálið var það mál sem var efst á baugi í almennri umræðu og því var það óbein krafa almennings að fá upplýsingar. Jóhannes sagði að „undanfarna mánuði á meðan unnið hefur verið að lausn þessa máls, hefur bæði ráðuneytið og Seðlabankinn fylgzt náið með framvindu þess, en forræði þess og framkvæmd hlaut að vera í höndum bankastjórnar og bankaráðs Útvegsbankans.” Þessa atburðarás - erfiðum samningaviðræðum við Eimskipafélagið og tilraun til þess að selja SÍS - hafði Matthías Bjarnason rekið á utandagskrárumræðunum á Alþingi, fjórum dögum áður. Rannsókn. Á aðfangadegi 1985 voru samþykkt lög um sérstaka nefnd til að rannsaka viðskipti Útvegsbankans og Hafskips. Samkvæmt lögunum skipaði Hæstiréttur þrjá menn í hana. Enginn var tilnefndur af Alþingi eins og stjórnarandstaðan hafði farið fram á. Þann 20. janúar 1986 var Jón Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrv. alþingismaður Alþýðuflokksins, skipaður formaður en aðrir nefndarmenn voru Brynjólfur I. Sigurðsson, dósent við viðskiptadeild Háskóla Íslands og Sigurður Tómasson, löggiltur endurskoðandi. Nefndin skilaði af sér skýrslunni í lok árs. Samkvæmt venjulegum starfsháttum höfðu borgarfógetarnir Ragnar H. Hall og Markús Sigurbjörnsson gjaldþrotið til meðferðar eins og lög um skiptarétt mæltu fyrir um. Þann 6. maí 1986 lá fyrir að sjö starfsmenn Hafskips „[kynnu] að hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi“. Þá hafði Valdimar Guðnason endurskoðandi skilað skýrslu til skiptaráðenda. Í henni kom fram að hann teldi að staðið hefði verið að tvöfaldri skýrslugerð. Að eitt bókhald hefði verið notað innan fyrirtækisins sem væri rétt en öðru fölsuðu dreift til hluthafa og almennings. Valdimar taldi ofmat á verðmæti skipa í eigu Hafskips í ársskýrslu 1984 nema 130 milljónum króna og alls hefði bókfært eigið fé átt að vera 244 milljónum krónum lægra. Handtökur. Að kvöldi hvítasunnu, 19. maí veitti Sakadómur Reykjavíkur Rannsóknarlögreglu ríkisins heimild til þess að handtaka og leita í húsum sjö einstaklinga. Að morgni þriðjudagsins 20. maí voru sex þeirra handteknir. Hinir handteknu voru þeir Björgólfur Guðmundsson framkvæmdastjóri, Ragnar Kjartansson stjórnarformaður, Páll Bragi Kristjónsson viðskiptafræðingur, Helgi Magnússon viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi Hafskips, Sigurþór Charles Guðmundsson viðskiptafræðingur, aðalbókari Hafskips, og Þórður H. Hilmarsson rekstrarhagfræðingur, forstöðumaður hagdeildar Hafskips. Árni Árnason fjármálastjóri var staddur erlendis, hann var handtekinn við komuna aftur til landsins 23. maí og látinn laus degi seinna eftir skýrslutöku. Sigurþór var látinn laus 27. maí. Hinir voru látnir sæta gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu næstu vikurnar. Þegar sexmenningarnir voru leiddir fyrir Sakadóm og úrskurður kveðinn yfir þeim biðu fjölmiðlarnir fyrir utan. Sýnt var frá þessum atburði í kvöldfréttunum. Nokkuð var í umræðunni fljótlega eftir, svo og seinna meir, um að fjölmiðlar hefðu verið grimmir og aðgangsharðir. Mannréttindabrot. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1986 voru haldnar laugardaginn 31. maí og sunnudaginn 1. júní. Beiðni lögmanns Helga Magnússonar um að umbjóðandi hans fengi að kjósa var hafnað af lögreglustjóra og staðfest af sakadómi Reykjavíkur. Þessum úrskurði var áfrýjað til Hæstaréttar sem hnekkti dómnum. Aldrei hafði áður reynt á sambærilegt mál í íslenskri dómsögu. Rökstuðningur Sakadóms var að tilgangur gæsluvarðhalds væri einangrun fangans. Mótrök lögmanns Helga var að atkvæðaréttur lögráða ríkisborgara væri tryggður í stjórnarskrá Íslands. Eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi gaf Helgi Magnússon út bók sína "Hafskip: Gjörningar og gæsluvarðhald" þar sem hann lýsti yfir hneykslun sinni á málsmeðferð yfirvalda og sagði frá dvöl sinni í Síðumúlafangelsinu. Þann 17. júní kom í ljós að Guðmundur J. Guðmundsson, þingmaður Alþýðubandalagsins og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, hefði þegið greiðslur frá Eimskipafélaginu og Hafskip, samanlagt 120 þúsund krónur. Ástæðan fyrir peningagreiðslunum var sú að Guðmundur glímdi við heilsuvandamál og vinir hans, þar á meðal Albert Guðmundsson ákváðu að styrkja hann til heilsubótarferðar til útlanda. Eftir umfjöllun fjölmiðla ákvað Guðmundur að segja af sér þingmennsku. Sérfræðinganefnd Alþingis undir forsæti Jóns Þorsteinssonar skilaði skýrslu sinni 12. nóvember 1986. Í henni voru bankastjórar Útvegsbankans gagnrýndir harðlega fyrir lánveitingar til Hafskips, þeir voru sagðir „bera meginábyrgð á þeim áföllum, sem bankinn varð fyrir við gjaldþrot Hafskips, enda þótt bankastjórarnir eigi sér líka nokkrar málsbætur”. Samkvæmt rannsókn hennar hafði Albert Guðmundsson ekki beitt sér fyrir aukinni fyrirgreiðslu á þeim tíma sem hann var bæði stjórnarformaður Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans. Dómsmál. Í mars 1987 upplýsti skattrannsóknarstjóri að Albert Guðmundsson hefði þegið tvær greiðslur frá Hafskipi á árunum 1984-85, að upphæð 117 og 130 þúsund krónur, án þess að telja þær fram til skatts. Albert sagði þessar greiðslur vera afslætti vegna viðskipta við heildsöluverslun sem sonur hans, Ingi Björn, ræki. Hann sagði svo af sér sem iðnaðarráðherra 23. mars., hann hafði þó engu að síður dyggan stuðning innan Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fljótlega eftir það í viðtali að Albert yrði ekki ráðherra Sjálfstæðisflokksins aftur. Albert brást við þessu með því að draga til baka nafn sitt af framboðslista Sjálfstæðisflokksins og stofna Borgaraflokkinn sem hlaut 10,9% atkvæða kosningarnar 1987. Ákærur og dómar. Í apríl 1987 gaf Hallvarður Einvarðsson, ríkissaksóknari, út ákærur á hendur 11 mönnum. Það voru forstjóri Hafskips, stjórnarformaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs ásamt endurskoðanda félagsins og auk þess voru ákærðir allir þrír bankastjórar Útvegsbankans, þrír fyrrverandi bankastjórar hans og einn aðstoðarbankastjóri. Björgólfur, Ragnar, Páll Bragi og Helgi voru allir ákærðir fyrir að hafa gert ranga grein fyrir afkomu fyrirtækisins fyrstu átta mánuði ársins 1984 þannig að jákvæð eiginfjárstaða væri sýnd sem rúmar 8 milljónir króna þegar rétt staða hefði verið neikvæð um tæpar 34 milljónir króna. Þetta varðaði almenn hegningarlög, lög um hlutafélög og í tilviki Helga lög um löggilta endurskoðendur. Jafnframt hafi Björgólfur, Ragnar og Helgi, byggt á fyrrgreindum villandi upplýsingum, undirbúið ársreikning fyrir árið 1984 þar sem neikvætt eigið fé var sagt vera tæpar 105 milljónir þegar það var neikvætt um 197-327 milljónir kr. eftir því hvort bókfært verð skipastólsins eða markaðsvirði var notað. Þannig hafi hlutafjáraukningin um 80 milljónir á hluthafafundi í febrúar 1985 verið ólögleg. Að auki var Björgólfi gefið að sök að hafa dregið til sín fé frá reikningum Hafskips að upphæð 5,7 milljónum kr., Ragnar 7,4 milljónir kr. og Helgi kærður fyrir yfirhylmingu með þessum brotum. Bankastjórunum sex sem gegnt höfðu störfum á tímabilinu 1982-85 ásamt Axeli Kristjánssyni, aðstoðarbankastjóra og formanns lögfræðisviðs bankans, var gefið að sök að hafa sýnt stórfellda vanrækslu í starfi. Málinu var vísað frá í Hæstarétti í júní 1987 vegna vanhæfnis Hallvarðar sem ríkissaksóknari vegna skyldleika við bankaráðsmann í Útvegsbankanum en bróðir hans, Alþingismaðurinn Jóhann Einvarðsson átti þar sæti. Mánuði seinna var Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, skipaður sérstakur ríkissaksóknari. Hann hóf rannsókn að nýju frá grunni og voru aðrir rannsóknarlögreglumenn fengnir til þess að rannsaka málið. Ári seinna, í nóvember 1988, gaf hann út ákærur gegn sex fyrrverandi starfsmönnum Hafskips og endurskoðenda, þremur bankastjórum Útvegsbankans, einum aðstoðarbankastjóra, bankaráðsmönnum og endurskoðanda bankans. Alls 16 manns, þrír fyrrverandi bankastjórar voru ekki ákærðir en þess í stað fjórir bankaráðsmenn, sex fyrrverandi starfsmenn Hafskip hf. og fjórir fyrrverandi starfsmenn Útvegsbankans. Eftir að hafa aflétt þinghelgi var þingmaðurinn Jóhann S. Einvarðsson ákærður sömuleiðis. Í september 1989, er dómsmeðferð hófst, lagði Ragnar Kjartansson fram skýrslu sem hann hafði samið og fór fram á að mega nota hana til þess að verja sig. Í heild taldi skýrslan 530 bls. Í henni færði hann rök fyrir því að illa hefði verið staðið að rannsókn hins svokallaða Hafskipsmáls og að rannsakendur hefðu verið hlutdrægir í nálgun sinni. Sagði hann einnig að Hafskip hefði verið neytt í gjaldþrot og að eignir fyrirtækisins hafið verið gefnar Eimskipafélaginu. Í júlí 1990 sýknaði sakadómur Reykjavíkur 14 af 17 ákærðu; Björgólfur fékk fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi, Páll Bragi tvo mánuði skilorðsbundið og Helgi 100 þúsund kr. sekt. Jónatan sagði af sér að þessu loknu en ákæruvaldið áfrýjaði dómunum þrem auk sýknudómsins yfir Ragnari Kjartanssyni til Hæstaréttar. Þann 5. júní 1991 þyngdi Hæstiréttur dóm Björgólfs í 12 mánuði. Ragnar fékk fimm mánaða skilorðsbundinn dóm og dómur Páls Braga var óbreyttur skilorðsbundinn í tvo mánuði. Loks var sekt Helga hækkuð í 500 þúsund krónur. Umdeildar kenningar. Af frásögn Helga Magnússonar, sem var aðal-endurskoðandi Hafskips hf., má dæma að Eimskipafélagið hafi dregið að semja um kaup á Hafskipi hf. í því augnamiði að það yrði neytt í gjaldþrotaskipti og þar með fengjust eignir þess á lægra verði. Í bók sinni Á slóð kolkrabbans hefur Örnólfur Árnason það eftir Arnóri, fyrrverandi bekkjarbróður sínum og ýmsu fólki sem tengist honum, „"að krökkt hefði verið af maðki í mysu þeirra sem neyddu Hafskip í gjaldþrot. Að hinar raunverulegu orsakir fyrir því að þetta ákveðna skipafélag var tekið svona kirfilega í bakaríið, frekar en eitthvert annað af þeim fjölmörgu stórfyrirtækjum, sem líka stóðu völtum fótum á sama tíma, hefðu verið áhrif tiltekinna afla í þjóðfélaginu, sem væru sterkari en hin lýðræðislega kjörnu stjórnvöld þjóðarinnar og hefðu valdsmenn iðulega í hendi sér."”. Hörður Sigurgestsson sagði í viðtali við Morgunblaðið 15. mars 1990, spurður að því hvort Eimskipafélagið hefði sýnt óeðlilega viðskiptahætti og brotið niður alla samkeppni, að Morgunblaðið hefði auðvitað ekki áhuga á því að samkeppnisaðilar styrktust. Öðrum þræði hefur verið talað um að Hafskipsmálið hafi verið hálfgerðar pólitískar nornaveiðar sem snerust fyrst og fremst um flokkspólitísk tengsl. Enda voru það formenn tveggja stjórnarandstöðuflokka, Jón Baldvin og Ólafur Ragnar, sem á sínum tíma gengu hvað harðast fram með ásakanir á Alþingi og í fjölmiðlum. Í ljósi þess hversu hátt hlutfall af kröfum í þrotabú Hafskips hf. fengjust greiddar (um 70%) var fyrirtækið kannski ekki svo illa statt og því ekki ástæða til þess að fara fram á gjaldþrotaskipti. Ingvi Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri hjá RÚV, skrifaði greinina „Hafskipsmálið in memoriam“ á ofanverðum tíunda áratugnum þar sem hann sagði að sér væri til efs að til væri það fyrirtæki á landinu sem myndi standa af sér aðra eins fjölmiðlaárás líkt og Hafskip hf. varð fyrir. BSD. Berkeley Software Distribution (BSD, stundum kallað Berkeley Unix) er Unix stýrikerfi dreift af háskóla Kalíforníu, Berkeley frá árunum 1977 - 1995. BSD er einn af nokkrum útgáfum af Unix stýrikerfum. Eitt er þróað frá UNIX System V, hannað af AT&T Unix System Development Labs. Þriðja samanstendur af Linux stýrikerfunum sem er mótað frá Unix System V og BSD, einnig Plan9 og fleiri „ekki-UNIX“ stýrikerfi. PlayStation. PlayStation er leikjatölva, gefin út af Sony, fyrir fimmtu kynslóðar leikjatölvur, fyrst kynnt af Sony Computer Entertainment á miðjum 10. áratugnum. Upprunalega PlayStation var fyrsta af mörgum tölvum í PlayStation línunni með leikjatölvum og handleikjatölvum sem eru meðal annars PSone (minni útgáfa af upprunalegu vélinni), Pocket Station, PlayStation 2, minni útgáfan af PS2, PlayStation Portable, PSX (aðeins fyrir Japan) og PlayStation 3. Í mars 2005 hafði PlayStation/PSone sent yfir 100.49 milljón eintök um heim allann og varð fyrsta leikjatölvan frá upphafi til að ná 100 milljóna markinu. PlayStation 2. PlayStation 2 (PS2) er önnur leikjatölva frá Sony, á eftir PlayStation. Hönnunin var kynnt í mars 1999 og hún var fyrst gefin út í Japan þann 4. mars 2000, Norður-Ameríku 26. október 2000 og 24. nóvember 2000 í Evrópu. PS2 er hluti af sjöttu kynslóð leikjatölva og varð vinsælasta leikjatölva í sögunni, með yfir 105 milljón eintaka send um allan heim 31. mars 2006. PlayStation 3. PlayStation 3 (opinberlega kölluð "PLAYSTATION 3", en oft stytt sem PS3) er þriðja leikjatölvan frá Sony, á eftir PlayStation og PlayStation 2. PS3 keppir við Xbox 360 frá Microsoft og Wii frá Nintendo í sjöundu kynslóð leikjatölva. Leikjatölvan var gefin út 11. nóvember 2006 í Japan og 17. nóvember 2006 í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Hong Kong og Taívan. Hún var gefin út 23. mars 2007 í Evrópu, Ástralíu og Singapúr. Það voru áður til 2 útgáfur, 60 gb, og 20 gb (En 20gb kom ekki útt í Evrópu), en vegna sölutalna, hættu Sony að framleiða þessa 20 gb. Í Kóreu kemur út sérstök útgáfa af tölvunni, með 40gb hörðum disk svo eftir ár kom 80gb sem náði gríðalegum vinsældum svo nokkur seina kom 120gb sem náði en meiri vinsældum og svo heldir þetta áfram 160gb 200gb 250gb og það nýasta er 360gb Klasi (forritun). Klasi er eining í hlutbundinni forritun sem gegnir hlutverki sniðmáts. Klasi ákveðins hlutar lýsir eiginleikum og aðgerðum tilviks hans. Taka má sem dæmi klasann Bíll sem hefði að geyma upplýsingar um lit og gerð bílsins sem og fjölda hurða og dekkja. Þegar klasinn er í hendi er má búa til mörg tilvik af honum með mismunandi eiginleika, tilvik af grænum bíl með 4 hurðir og 15 dekk eða rautt tilvik 2 hurðir og 4. Ástæður. Klasar brjóta forrit niður svo auðveldara sé að vinna með þau. Meginreglan er að skipta forritinu niður í einingar sem eru hannaðar á þann veg að breyting í einum klasa hafi sem minnst áhrif á aðra hluti forritsins til þess að auðvelda okkur smíði stórra kerfa. Hentugast er að reyna að gera almenna klasa sem hægt er að endurnýta þegar sömu virkni vantar í önnur verkefni. Til þess að ekki þurfi að skrifa klasa sem er þegar til, og einnig til að nýta klasa sem búið er að prófa út í gegn og vitað að virkar mjög vel. Klasaskil. Klasi getur til dæmis séð um tengingu við gagnagrunn. Þá nota aðrir klasar hann til að hafa samskipti við gagnagrunninn. Klasar geta haft samskipti sín á milli beint eða í gegnum skil. Skil eru notuð sem skilgreiningarhluti á klasa til að auðvelda samskipti milli forritunareininga innan forrits. Dæmi. Klasinn sem erfir getur framkvæmt aðgerðir og notað breytur sem eru í erfðum klasa sem eru skilgreindar sem public eða protected en ekki ef skilgreiningin private er notuð. Í dæminu að ofan ef aðgerðin VeifaHöndum() væri skilgreind svona: private void VeifaHöldum() þá hefði klasinn KarlMaður ekki aðgang að aðgerðinni og forritsstubburinn að ofan væri ólöglegur. Á sama hátt er hægt að láta skil erfa skil en skil geta ekki erft klasa og klasi getur ekki erft skil. print("Komið sæl, ég heiti og er ára.".format(sjálf.nafn, sjálf.aldur)) print("Nafn:", Anna.nafn) # Prentar „Aldur: 26“ print("Aldur:", Anna.aldur) # Prentar „Nafn: Anna“ Anna.kynning() # Prentar „Komið sæl, ég heiti Anna og er 26 ára.“ Private, protected, og public. Klasar og klasabreytur geta verið skilgreind sem "public", "private" or "protected". Þessir valmöguleikar skilgreina aðgengið í klasann. "Private" þýðir að aðeins föll sem eru í klasanum sjálfum fá aðgang. "Protected" leyfir klasanum sjálfum og öllum undirklösum að fá aðgang. "Public" þýðir að allir fá aðgang, hann er alveg opin fyrir öllum. Hugrænn klasi gengur út á það að hægt sé að skilgreina uppbyggingu klasans, segja hvaða breytur og föll hann inniheldur án þess að útfæra vinnuna sjálfa. Þeir sem að erfa hugræna klasa verða að útfæra þau föll sem að eru ekki útfærð í hugræna hlutanum. Hugrænn klasi er ekki eiginlegur klasi; Hann gerir ekki neitt og er bara notaður til að samnýta eiginleika milli klasa. Þegar skilgreindur er hlutrænn klasi þá vita þeir klasar sem að erfa hann ekki hvernig hann útfærir hlutrænu föllin. Hérna er eitt dæmi í C++, klasi sem við köllum Hello er gerður með smið sem tekur inn streng. Þegar við köllum á fallið Say() þá mun tilvik af Hello prenta Hello á skjáinn. Xbox 360. Xbox 360 er önnur leikjatölvan frá Microsoft, á eftir Xbox, hönnuð í samstarfi með IBM, ATI, Samsung og SiS. Xbox Live þjónustan býður notendum uppá að spila við aðra í gegnum netið og niðurhala leikjum og efni eins og leikja sýnishornum, sjónvarpsþáttum, tónlistarmyndbönd eða að leigja mynd. Xbox 360 keppir við PlayStation 3 frá Sony og Wii frá Nintendo í sjöundu kynslóðar leikjatölvum. Hún var opinberlega kynnt á MTV þann 12. maí 2005 og nákvæmar útgáfu og leikja upplýsingar voru kynntar seinna um mánuðinn á E3. Hún varð fyrsta leikjatölva til að bjóða uppá næstum á sama tíma útgáfu um allan heim og þráðlausan stýripinna á útgáfudag. Hún varð uppseld á útgáfudag og í lok ársins 2007 hafði Microsoft sent 13.4 milljón leikjatölvur um heim allan. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (f. 4. október 1965) er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra. Þorgerður er dóttir Gunnars H. Eyjólfssonar, leikara, og Katrínar Arason deildarstjóra hjá Flugmálastjórn. Þorgerður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1985. Þar var hún Ármaður skólafélagsins á lokaári sínu, önnur kvenna til að vera kjörin sem ármaður í MS. Hún lauk lögfræðinámi frá Háskóla Íslands 1993. Þorgerður starfaði sem lögmaður í eitt ár og sem yfirmaður samfélags- og dægurmáladeildar Ríkisútvarpsins 1997-1999. Þorgerður sat á Alþingi á árunum 1999-2013, fyrst fyrir Reykjaneskjördæmi en fyrir Suðvesturkjördæmi frá 2003. Þorgerður Katrín var menntamálaráðherra á árunum 2003-2009 og var varaformaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2005-2010. Hún er gift Kristjáni Arasyni, viðskiptafræðingi og fyrrum handboltakappa og eiga þau saman þrjú börn. Umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í 2. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslenska bankakerfisins, er fjallað um þá stjórnmálamenn og maka þeirra sem höfðu heildarlánastöðu sem var hærri en 100 milljónir króna. Nafn Þorgerðar Katrínar og eiginmanns hennar er þar ofarlega á blaði en heildarlán hennar og eiginmanns hennar námu nærri 1700 milljónum króna. Þorgerður Katrín sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tók sér tímabundið hlé frá þingstörfum þann 17. apríl 2010. Hún tók aftur sæti á Alþingi þann 13. september 2010. Sundurlæg mengi. Sundurlæg mengi eru tvö eða fleiri mengi sem hafa engin sameiginleg stök, þ.e. sniðmengi þeirra er tómt. Skilgreining: Tvö mengi "A" og "B" eru sundurlæg þegar Mengin formula_2 og formula_3 er dæmi um tvö sundurlæg mengi. Jónína Bjartmarz. Jónína Bjartmarz (f. 23. desember 1952) er fyrrverandi ráðherra og alþingismaður Framsóknarflokksins. Jónína var umhverfisráðherra frá 15. júní 2006 til 24. maí 2007 og alþingismaður Framsóknarflokksins í Reykjavík á árunum 2000-2007. Hún féll af þingi vegna lélegrar útkomu flokksins á landsvísu í Alþingiskosningunum 12. maí 2007. Jónína lauk stúdentsprófi frá KHÍ 1974, starfaði sem skrifstofustjóri Lögmannafélags Íslands 1978-1981 og lauk lögfræðiprófi frá HÍ 1981. Jónína var fulltrúi hjá bæjarfógeta Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarness og sýslumannsins í Kjósarsýslu 1981. Fulltrúi hjá yfirborgarfógeta Reykjavíkur 1982 og hjá bæjarfógeta Ísafjarðar og sýslumanni Ísafjarðarsýslu 1982-1984. Loks fulltrúi á Lögfræðiskrifstofu Páls Arnórs Pálssonar hrl. og Stefáns Pálssonar hrl. 1984-1985. Hún stofnaði Lögfræðistofuna sf. árið 1985 ásamt eiginmanni sínum Pétri Þór Sigurðssyni, hæstaréttarlögmanni, þau eiga tvo syni. Jónína sat á þingi frá afsögn Finns Ingólfssonar í árslok 1999 til ársins 2007. Jónína var formaður Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra 1996-2004 og formaður Félags kvenna í atvinnurekstri 1999-2001. Dreamcast. Dreamcast er fimmta og seinasta leikjatölva Sega, á eftir Sega Saturn. Hún var tilraun til að reyna ná aftur leikjamarkaðinum með næstu kynslóðar leikjatölvum, móti PlayStation og Nintendo 64. Hún var gefin út 16 mánuðum fyrir PlayStation 2 (PS2) og þrem árum undan Nintendo GameCube og Xbox og var ætlað að vera á undan sínum tíma og ná aftur vinsældum Sega í leikjatölvubransanum. Aftur á móti mistókt henni að ná nægilegum vinsældum áður en PlayStation 2 kom út í mars 2000 og Sega ákvað að hætta við Dreamcast sama ár og draga sig algerlega út úr leikjatölvubransanum. Sighvatur Björgvinsson. Sighvatur Kristinn Björgvinsson (f. 23. janúar 1942) er íslenskur stjórnmálamaður, fyrrum ráðherra og núverandi framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Hann var fyrst kjörinn á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn í Vestfjarðakjördæmi árið 1974 og sat síðar á þingi fyrir Samfylkinguna til 2001. Sighvatur var fjármálaráðherra í minnihlutastjórn Benedikts Gröndals 1979 til 1980, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í Viðeyjarstjórninni frá 1991, iðnaðar- og viðskiptaráðherra í sömu ríkisstjórn frá 1993 og fór með bæði ráðuneytin síðustu mánuði stjórnarinnar það ár. Árni M. Mathiesen. Árni M. Mathiesen (f. í Reykjavík 2. október 1958) er fyrrverandi fjármálaráðherra og var þingmaður Sjálfstæðisflokks á árunum 1991-2009. Árni er menntaður dýralæknir. Foreldrar Árna eru Matthías Á. Mathiesen alþingismaður og ráðherra og Sigrún Þorgilsdóttir Mathiesen. Árni lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði árið 1978, embættisprófi í dýralækningum frá háskólanum í Edinborg 1983 og prófi í fisksjúkdómafræði frá Stirling-háskóla 1985. Árni starfaði um skeið við dýralækningar víðsvegar á landinu en gerðist svo framkvæmdastjóri Faxalax hf. 1988-1989. Árni sat á Alþingi á árunum 1991-2009. Hann var skipaður sjávarútvegsráðherra 1999 og fjármálaráðherra í september 2005. Jón Sigurðsson (f. 1941). Jón Sigurðsson (f. 17. apríl 1941) er íslenskur stjórnmálamaður, fyrrum ráðherra og núverandi aðalbankastjóri Norræna fjárfestingabankans. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi árið 1987 og varð dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sama ár. Í annarri og þriðju ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og Viðeyjarstjórninni (til 1993) var hann iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Svavar Gestsson. Svavar Gestsson (f. 26. júní 1944) er íslenskur stjórnmálamaður, fyrrum alþingismaður, ráðherra og sendiherra. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1964 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, skólaárið 1962-1963. Svavar varð blaðamaður á Þjóðviljanum 1964, ritstjórnarfulltrúi 1969 og ritstjóri frá 1971 til 1978. Hann starfaði hjá Alþýðubandalaginu 1966 - 1967 og hjá Samtökum hernámsandstæðinga 1966. Formaður Útgáfufélags Þjóðviljans um árabil.Hann var fyrst kosinn á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið í Reykjavíkurkjördæmi árið 1978 og sat síðan sem þingmaður Alþýðubandalagsins til 1995, þá Alþýðubandalagsins og óháðra 1995 - 1999; var þó þingmaður Samfylkingarinnar allra síðustu daga þingsetu sinnar er þingflokkar Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins og Kvennalistans sameinuðust. 1999 var hann skipaður sendiherra og varð fyrst aðalræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada. Þar var hann jafnframt framkvæmdastjóri hátíðahalda Íslendinga vegna landafunda og landnámsafmæla í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hann varð síðan sendiherra í Stokkhólmi 2001-2005 og jafnframt sendiherra Íslands í Bangladesh, Sri Lanka, Pakistan, Serbíu, Búlgaríu og Albaníu. Hann var sendiherra í Danmörku 2005-2009 og jafnframt sendiherra í Ísrael, Slóveníu, Túnis, Tyrklandi og Rúmeníu. Hann var sérstakur fulltrúi utanríkisráðherra gagnvart Afríkusambandinu 2008. Svavar var viðskiptaráðherra í annarri ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978 til 1979, heilbrigðis- og tryggingaráðherra og félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980 til 1983 og menntamálaráðherra í annarri og þriðju ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988 til 1991. Svavar Gestsson var formaður Alþýðubandalagsins 1980-1987, formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra 1995-1999, sat í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins 1968 - 1999, var í ritstjórn tímaritsins Réttar um langt árabil. Hann hefur skrifað fjölda blaða- og tímaritsgreina. 1995 kom út eftir hann bókin Sjónarrönd, um jafnaðarstefnu. 2012 kom út bókin Hreint út sagt, sjálfsævisaga. Hann heldur úti heimasíðunni svavar.is Svavar sat í stjórn Landsvirkjunar 1995-1997, í stjórn Ríkisspítalanna 1991-1994, formaður stjórnar Norræna menningarsjóðsins 1996-1997. Hann var einn af þremur yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga 1991 - 1995. Hann sat fjögur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Var formaður ráðherranefndar EFTA 1979, var formaður vestnorræna ráðsins 1998 og í ráðinu um árabil. Var formaður embættismannanefndar sem samdi um Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi eftir bankahrunið á Íslandi. Í framhaldi af þeim voru gerðir nýjir samningar sem samþykktir voru á alþingi. Þeim samningum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 2010. Svavar situr í stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og í stjórn Ólafsdalsfélagsins. Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, er dóttir hans. Matthías Á. Mathiesen. Matthías Á. Mathiesen (f. í Hafnarfirði 6. ágúst 1931, d. í Hafnarfirði 9. nóvember 2011) er íslenskur stjórnmálamaður og fyrrum ráðherra. Matthías var fyrst kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði árið 1959. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974 til 1978, viðskiptaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 til 1985 og utanríkisráðherra í sömu ríkisstjórn 1986 til 1987. Hann var samgönguráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987 til 1988. Matthías er faðir Árna M. Mathiesen, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra og Þorgils Óttars Matthisen fyrrverandi fyrirliða íslenska landsliðsins í handbolta. Matthías Bjarnason. Matthías Bjarnason (f. á Ísafirði 15. ágúst 1921) er íslenskur stjórnmálamaður og fyrrum ráðherra. Hann var fyrst kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestfjarðakjördæmi árið 1963 og sat samfellt sem þingmaður flokksins til 1995. Hann var sjávarútvegsráðherra og heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974 til 1978 og heilbrigðis- og samgönguráðherra í fyrstu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og samgöngu- og viðskiptaráðherra í sömu stjórn til 1987. Út hefur komið bókin "Járnkarlinn", skrifuð af Örnólfi Árnasyni sem segir ævisögu Matthíasar. Sauðnaut. Sauðnaut (moskusnaut eða desuxi) (fræðiheiti: "Ovibos moschatus") eru heimskautadýr af ætt slíðurhyrninga. Þau einkennast af þykkum ullarfeldi. Sauðnaut er að finna á túndrusvæðum Grænlands, Kanada og Alaska. Þau hafa einnig verið flutt til Noregs, Svíþjóðar og til Wrangel eyju í Síberíu. Á fyrri hluta 20. aldar voru gerðar tilraunir að flytja inn sauðnaut til Íslands en mistókust allar. Lýsing. Sauðnaut tilheyra undirættinni geitfé, Caprinae, og eru þess vegna skildari geitum og sauðfé en nautgripum. Þau mynda þó eigin undirætt, "Ovibos". Bæði kynin bera löng sveigð horn. Sauðnaut eru 2,5 m á lengd og um 1,4 m á hæð yfir bóginn. Fullorðnir tarfar eru sjaldan undir 200 kg á þyngd og iðulega yfir 400 kg. Feldurinn er mjög þykkur, samansettur af svörtum, gráum og brúnum hárum með yfirhárum sem dragast næstum í jörðu. Að sumarlagi halda sauðnautin sig oftast á rökum svæðum, gjarna mýrarsvæðum í dalbotnum. Þau leita til fjalla að vetrarlagi þar sem er minni snjódýpt. Sauðnaut eru jórturdýr með fjóra maga. Þau eru jurtaætur og bíta grös, starir, lyng, birki, víði og blómplöntur. Þau krafsa í gegnum snjóinn á veturna í fæðuleit. Sauðnaut eru mjög félagslynd og lifa í hjörðum oftast með um 10 til 20 dýrum en einstaka sinnum allt upp að 400. Í vetrarhjörðunum eru bæði kynin og dýr á öllum aldri. Á fengitímanum, seinnipart sumars, berjast tarfarnir um kýrnar og sá sterkasti rekur hina á braut. Þeir mynda oft hjarðir með 3 til 10 törfum fram á haust. Á meðan á fengitímanum stendur eru tarfarnir mjög árásargjarnir. Sauðnaut að fara úr reifi Kýrnar ná kynþroska tvívetra en tarfarnir fimm. Meðganga er átta til níu mánuði. Kálfurinn er á spena í um það bil eitt ár þó svo að hann geti farið aða narta í gras viku eftir burð. Sauðnaut verjast á sérstakan hátt, ef hjörðin verður fyrir áreitni safnast fullvaxnir tarfar og kýr í hring og hafa kálfana inn í hringnum. Þetta veitir góða vörn gegn rándýrum t.d. úlfum en gerir þau að auðveldri bráð fyrir veiðimenn. Útbreiðsla. Útbreiðsla sauðnauta, rauði liturinn sýnir upprunalegt svæði, blái þar sem sauðnautum hefur verið sleppt á 20. öld Sauðnaut eru eiginleg ísaldardýr og eiga upphaf að reka til norðurhluta Asíu fyrir hátt í miljón árum síðan. Þau hurfu hins vegar frá meginlandi Asíu fyrir um það bil 4000 árum síðan, síðasta lífríki þeirra þar var á Taymyr-skaga í Síberíu. Yngstu leifar eftir sauðnaut utan Norður-Ameríku eru frá Wrangel-eyjum og eru þær um 2000 ára gamlar (nefna má að þar og frá sama tíma er einnig að finna yngstu leifar eftir mammúta í heiminum). Sauðnaut fluttust yfir Berings sund til Norður-Ameríku fyrir 90000 árum síðan (það er þó umdeilt, ágiskanir eru allt frá 500000 til 30000). Á seinni öldum hafa sauðnaut lifað villt á nyrstu svæðum Kanada, Grænlands og Alaska. Sauðnautum var útrýmt í Alaska um aldamótin 1900 en þau hafa verið flutt inn á nýtt síðan. Á síðustu öld voru sauðnautum sleppt á mörgum stöðum á norðurhvelinu og hafa hjarðirnar yfirleitt dafnað vel, má þar nefna vesturhluta Grænlands (sauðnaut lifðu upphaflega einungis á norður og norðausturhluta Grænlands), Rússlands, austur Kanada og til Noregs og Svíþjóðar. Sauðnaut voru í mikilli útrýmingarhættu á fyrrihluta 20. aldar en hafa náð sér vel á strik síðan. Á ætlað var 1999 að stofninn væri milli 65000 og 85000 dýr, um það bil tveir þriðju hlutar lifðu á Banks Island í Kanada. Sauðnaut á Íslandi. Reynt var að flytja inn sauðnaut til Íslands árið 1929 og aftur 1931. Raunar segir Ársæll Árnason í grein í "Náttúrufræðingnum" árið 1933 að norskir veiðimenn hafi áður þrívegis sett sauðnaut á land á Íslandi en aðeins um stundarsakir. En árið 1929 fór vélbáturinn "Gotta" til Grænlands, gagngert til að sækja sauðnaut en Ársæll hafði fengið styrk til þess frá Alþingi, og kom með sjö kálfa. Sex þeirra drápust fljótlega en einn lifði til vors 1931 en drapst þá úr sullaveiki. Árið 1931 voru fluttir hingað sjö kálfar í viðbót en þeir komu frá Noregi, þar sem sauðnaut höfðu þá verið um tíma. Þeir lifðu af veturinn en drápust flestir um vorið. Eitt dýrið lifði þó til hausts. Ekki er víst hvað varð flestum sauðnautunum að aldurtila en sumir töldu að einhæf fæða í Gunnarsholti, þar sem dýrin voru höfð, hefði átt þátt í dauða þeirra. Á síðari árum hafa oft komið upp hugmyndir um að flytja sauðnaut til Íslands en af því hefur þó aldrei orðið. Vestmanna. Vestmanna er bær á Straumey í Færeyjum. Íbúafjöldi bæjarins er um það bil 1250 manns. Póstnúmer bæjarins er FO 350. Jarðlagafræði. Jarðlagafræði ("e. stratigraphy") eða jarðlagaskipan er sú undirgrein jarðfræðinnar sem fæst við rannsóknir á lagskiptingu bergs. Hún er einkum notuð í rannsóknum á setbergi og á lagskiptu gosbergi. Til jarðlagafræði teljast tvær skyldar undirgreinar, eða berglagafræði ("e. lithostratigraphy") og lífjarðlagafræði ("e. biostratigraphy"). Berglagafræði. Berglagafræði ("e. lithostratigraphy") er sú grein jarðvísinda sem bundin er við rannsóknir á berglögum ("e. stratum"). Í berglagafræðirannsóknum er einkum lögð áhersla á jarðfræðilegt tímatal ("e. geochronology"), samanburðarjarðfræði ("e. comparative geology") og bergfræði ("e. petrology"). Almennt séð myndi berglag vera annaðhvort storkuberg eða setberg, allt eftir því hvernig myndun þess var háttað. Martröð. Martröð er vondur draumur. Orðið er samsett úr „mara“ (sem mun þýða meri, sbr. „nightmare“ á ensku) og „tröð“. Mara af þessu tagi var í eina tíð talin vera óvættur sem átti að leggjast á menn og sliga þá í svefni. Vera má að martröð hafi verið skyld gandreið í hugum fólks. Í dag hafa menn uppgötvað það sem nefnist drómasýki, nánar tiltekið svefnrofalömun, sem skýrir tilfinninguna um að stór skepna sitji eða liggi ofan á manni. Martröð er talin vera orsökuð af stressi, álagi, streitu, ótta og hræðslu. Mińsk Mazowiecki. Mińsk Mazowiecki er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 37.476 árið 2005. Nowy Dwór Mazowiecki. Nowy Dwór Mazowiecki er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 27.538 árið 2005. Płock. Płock er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 127.461 árið 2005. Francesco Hayez. Francesco Hayez (10. febrúar 1791 – 21. desember 1882) var ítalskur listmálari og einn af helstu málurum rómantísku stefnunnar í Mílanó um miðbik 19. aldar. Hann er einkum þekktur fyrir stór söguleg verk, pólitískar allegóríur og portrettmyndir. Alþingiskosningar 1995. Alþingiskosningar 1995 voru kosningar til Alþingis Íslendinga sem fóru fram 8. apríl 1995. Á kjörskrá voru 191.973 manns. Kosningaþátttaka var 87,4%. Í þessum kosningum bauð fram nýtt stjórnmálaafl, Þjóðvaki, klofningsframboð úr Alþýðuflokknum undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Ágústs Einarssonar, fékk fjóra þingmenn en Alþýðuflokkurinn missti þrjá. Þrír þessara Þjóðvakaþingmanna gengu síðar á kjörtímabilinu í „þingflokk jafnaðarmanna“ ásamt þingmönnum Alþýðuflokksins. Kvennalistinn fékk ekki nema þrjár þingkonur - missti tvær frá fyrra kjörtímabili. Stjórnarmyndun. Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn fengu samanlagt nægilegan fjölda þingsæta til þess að Viðeyjarstjórnin hefði haldið velli, en aðeins með eins manns mun. Eftir kosningarnar fór Davíð Oddsson með stjórnarmyndunarumboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum undir forystu Halldórs Ásgrímssonar. Nýja ríkisstjórnin hafði þannig 40 þingmanna meirihluta. Sameining á vinstri vængnum. Eftir kosningarnar fóru viðræður um sameiningu flokkanna fjögurra á vinstri vængnum í eina Samfylkingu á fullt skrið og lauk með því að þessir flokkar gerðu með sér kosningabandalag í kosningunum 1999. Í sveitarstjórnarkosningunum árið 1994 höfðu þrír þessara flokka, auk Framsóknarflokksins, gert með sér kosningabandalag í Reykjavík og haft sigur undir merkjum Reykjavíkurlistans. Forseti Alþingis var kjörinn Ólafur G. Einarsson, Sjálfstæðisflokki Alþingiskosningar 1991. Alþingiskosningar 1991 voru kosningar til Alþingis Íslendinga sem fóru fram 20. apríl 1991. Á kjörskrá voru 182.768 manns. Kosningaþátttaka var 87,6%. Vinstristjórn Steingríms Hermannssonar hélt velli og Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag vildu halda samstarfinu áfram en ekki reyndist vilji til þess meðal forystu Alþýðuflokksins. Eftir kosningarnar fór Davíð Oddsson með stjórnarmyndunarumboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og myndaði stjórn með Alþýðuflokki. Þessi fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var kölluð Viðeyjarstjórnin af því að hún var mynduð í Viðeyjarstofu en þangað bauð Davíð, sem þá var enn borgarstjóri í Reykjavík, Jóni Baldvin Hannibalssyni til stjórnarmyndunarviðræðna. Forseti Alþingis var kjörinn Salóme Þorkelsdóttir, Sjálfstæðisflokki Sega Saturn. Sega Saturn er 32-bita leikjatölva, gefin út 22. nóvember 1994 í Japan, 11. maí 1995 Norður-Ameríku og 8. júlí 1995 í Evrópu. Hún var studd í Norður-Ameríku og Evrópu þangað til seint á árinu 1998 og í Japan þangað til í lok ársins 2000. Seinasti opinberi leikurinn fyrir tölvuna, "Yukyu Gensokyoku Perpetual Collection", var gefin út af Mediaworks í desember sama ár. Sega Mega Drive. Sega Mega Drive og stýripinninn Sega Mega Drive er 16-bita leikjatölva gefin út af Sega í Japan 1988, Norður-Ameríku 1989 og PAL löndunum 1990. Hún var gefin út undir nafninu Sega Genesis í Norður-Ameríku vegna þess að Sega gat ekki fengið nafnið Mega Drive í þeim löndum. Hún keppti við Super Nintendo (Super Famicom), þó að Sega Mega Drive var gefin út tveim árum fyrr. Sveitarfélög Noregs eftir flatarmáli. Sveitarfélög Noregs eftir flatarmáli er listi yfir sveitarfélög Noregs raðað eftir flatarmáli þann 1. janúar 2006. Sjá einng. Noregur Sambíóin Álfabakka. Sambíóin Álfabakka (áður Bíóhöllin) er kvikmyndahús í Mjóddinni, Breiðholti í Reykjavík og það fyrsta af Sambíóunum sem sett var upp í Reykjavík. Húsið var opnað 2. mars 1982 og bauð þá upp á fjóra sýningarsali. Kvikmyndahúsið var það fyrsta sem Árni Samúelsson og fjölskylda hans settu upp í Reykjavík, en þau höfðu áður rekið Nýja bíó við Hafnargötuna í Keflavík. Bíóhöllin bryddaði upp á ýmsum nýjungum eins og að sýna myndir mjög stuttu eftir að þær komu út en áður leið gjarnan langur tími þar til myndir bárust til Íslands. Helst ber þar að nefna þegar Bíóhöllin heimsfrumsýndi The King of Comedy, eftir Martin Scorsese, annan í jólum 1982, en hún var ekki frumsýnd í Bandaríkjunum fyrr en rúmlega mánuði seinna. Húsið var fyrsta kvikmyndahús á norðurlöndunum sem útbúið var mynd og hljóðgæðum sem uppfylltu THX-staðalinn. 29. nóvember 1991 byrjaði kvikmyndahúsakeðja Árna Samúelssonar að nota nafnið Sambíóin. Sama dag voru opnaðir tveir nýjir salir í Álfabakkanum og gengu fyrst um sinn undir nafninu Sagabíó. Nafnið var valið úr mörghundruð þúsund tilögum í keppni um nafn á kvikmyndahúsið og fékk sigurvegarinn Toyota Hi-Lux bifreið í verðlaun. Í dag eru Sagabíó og Bíóhöllin rekin undir sameiginlega nafninu Sambíóin Álfabakka. Þar eru sex, salir sem taka samtals yfir 1000 manns í sæti, fimm almennir salir og einn VIP salur. Staðamál síðari. Staðamál síðari kallast deilur sem kirkjuvaldið undir forystu Árna Þorlákssonar biskups í Skálholti átti við leikmenn um forræði kirkjustaða í Skálholtsbiskupsdæmi 1269 til 1297. Í staðamálum fyrri hafði Þorlákur Þórhallsson Skálholtsbiskup reynt að ná stöðum, þ.e. kirkjujörðum sem höfðingjar bjuggu á og höfðu umráð yfir, undir vald kirkjunnar en lítið orðið ágengt, einkum vegna andstöðu Jóns Loftssonar. Nærri hundrað árum síðar tók Árni biskup, sem auknefndur var Staða-Árni, staðamál upp að nýju og átti í hörðum deilum við höfðingja árum saman. Helsti andstæðingur biskups framan af var Hrafn Oddsson hirðstjóri, sem var þrautreyndur úr átökum Sturlungaaldar og vel að sér í lögum og hafði í fullu tré við Árna. Eftir lát Hrafns var Þorvarður Þórarinsson helst fyrir höfðingjum og gekk honum ekki jafnvel að standa gegn biskupi. Málunum lauk loks með sættagerð á Ögvaldsnesi í Noregi 1297 og var þar kveðið upp úr um að bændur skyldu ráða þeim stöðum sem þeir áttu helming í eða meira en kirkjan stöðum sem hún átti meira en helming í. Þetta mátti í raun heita nær fullur sigur fyrir kirkjuna og stuðlaði ásamt öðru að því að gömlu höfðingjaættirnar misstu völd og hurfu á 14. öld en aðrar komu í staðinn, sem byggðu auð sinn og veldi fremur á útgerð og fiskútflutningi en umráðum yfir stórjörðum. Tumaq. Tumaq sem er frá ref Tumaq (kz. тұмақ, framburður: "túmak") er stór loðskinnshattur frá Kasakstan. Oftast er tumaq úr refaskinni, en stundum úr skinni annarra dýra. Hatturinn er með skott refsins áfast og dinglandi niður. Hirðingjar skreyttu sig með tumaq, og nú notar gammalt fólk stundum þennan klæðnað að vetrinum. Tumaqið fer líka konum vel, sem fylgja tískunni og klæðast loðskinnskápum. Hægt er að sjá tumaq á myndbandi með Akbotu Kerimbekova, sem heitir Begimbaydin Zheri. () Örnólfur Árnason. Örnólfur Árnason (f. 1941) er íslenskur rithöfundur, kvikmyndaframleiðandi og leikskáld. Örnólfur nam lögfræði og viðskiptafræði við HÍ á árunum 1960 til 1963. Hann starfaði sem blaðamaður og leiklistargagnrýnandi hjá Morgunblaðinu á árunum 1963-69. Hann hóf nám að nýju í ensku og málvísindum við HÍ 1968 til 1970. Samhliða þessu kenndi hann íslensku og ensku í framhaldsskóla á árunum 1966-1970. Hann fluttist til Spánar og lærði spænsku og spænskar bókmenntir við Háskólann í Barcelona og leiklist við Leiklistarháskólann í Barcelona á árunum 1970 til 1972. Örnólfur gerðist framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík 1979-1983 og framkvæmdastjóri Kvikmyndahátíðar 1980, 1981, 1982 og 1983. Hann var sömuleiðis framkvæmdastjóri Kvikmyndafélagsins Óðins h.f. 1980-1987 og framleiddi kvikmyndirnar Punktur punktur komma strik og Atómstöðin. Guðrún Helgadóttir. Guðrún Helgadóttir (f. í Hafnarfirði 7. september 1935) er íslenskur rithöfundur og fyrrum stjórnmálamaður. Guðrún lauk stúdentsprófi frá MR 1955. Hún giftist Hauki Jóhannssyni, verkfræðingi í júní 1957, þau eignuðust soninn Hörð það ár en skildu 1959. Hún starfaði sem ritari rektors í MR í áratug (1957-67) og giftist Sverri Hólmarssyni kennara 1964, þau eignuðust saman þrjú börn en skildu 1983. Guðrún vann sem deildarstjóri félagsmála- og upplýsingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins 1973-1980. Hún sat í stjórn BSRB 1972-1978, var borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1978-1982 og ritari þess 1977-1983. Hún var kosinn alþingismaður Alþýðubandalagsins frá 1979-1995. Hún var forseti Alþingis 1988-1991, fyrst kvenna til að gegna því embætti í sameinuðu þingi. Hún var fulltrúi í Norðurlandaráði 1983-1988. Listi yfir firði Íslands. Þetta er listi yfir firði Íslands, raðaður efir staðsetningu þeirra réttsælis á strandlengjunni umhverfis landið. Dombra. Dombra (kz. Домбыра, ru. Домбра) er kasakskt hljóðfæri sem er með tveimur strengjum. Dombra er strengjahjóðfæri úr timbri og strengir þess eru ýmist úr næloni eða málmi. Vestræn strengjahjóðfæri sem svipar til dombru eru banjó, úkulele, og lúta. Þegar leikið er á dombru, getur maður glamrað á strengina með fingrum sínum eða plokkað þá. Margt fólk frá Mið-Asíu spilar á dombru. Þetta fólk kemur frá löndun eins og Kasakstan, Kirgistan, Tadsjikistan og Úsbekistan. Það er jafnvel uigerskt fólk sem býr í Kína sem spilar á dombru líka. Þótt dombra er mjög fræg og sé táknmynd í Mið-Asíu, táknar hún aðallega þjóðerni og stolt Kasakstana. Abæ Kúnanbæuli, frægt kasakskt þjóðskáld, kemur alltaf fram með dombru. Dombra er sést ekki einungis með Abæ Kúnanbæév, heldur einnig með mörgu öðru frægu fólki í sögu Kasakstans. Dombra er alltaf tengjast með nokkrum sem er kasakskt. Í dag maður getur enn þá keypt dombru alls staðar í Kasakstan. Í Silóný Basar (grænn markaður), sem er stór markaður í Almaty, getur maður keypt dombru frá 800ТГ (430 kr.), 3.000ТГ (1.610 kr.), og allt til 40.000ТГ (21.475 kr.). Dombra sem kostar 800ТГ er vanalega bara til sýnis og ekki til að spila á. Dombra sem kostar 3.000ТГ er sæmileg til að spila á og er alveg góð. En dombra sem kostar frá 20.000ТГ til 40.000ТГ er mjög góð og er mjög fagleg. Í dag eru margar hljómsveitir í Kasakstan enn þá með dombrumönnum. Það eru hljómsveitir sem spila gamla tónlist með dombru og jafnvel móðsins tónlist með fiðlum og gítörum. Rauði krossinn á Íslandi. Rauði krossinn á Íslandi, áður Rauði kross Íslands, er hluti af alþjóðlegri Rauða krossins sem starfar í 186 löndum. Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður í Reykjavík 10. desember árið 1924. Fyrsti formaður var Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands. Rauði krossinn er elsta, virtasta og útbreiddasta með starfsemi í 186 löndum. eru sjö og eftir þeim fara 97 milljónir félagsmanna og sjálfboðaliða og 300 þúsund starfsmenn hreyfingarinnar um allan heim. í Reykjavík hefur það hlutverk að samræma verk 50 deilda hér á landi og taka þátt í starfi Alþjóða Rauða krossins fyrir Íslands hönd. Alþingiskosningar 1967. Alþingiskosningar 1967 voru kosningar til Alþingis haldnar 11. júní 1967. Niðurstöður kosninganna voru þær að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks hélt velli með 32 þingmanna meirihluta. Kosningaþátttaka var 91,4%. Niðurstöður. Forseti Alþingis var kjörinn Birgir Finnsson, Alþýðuflokki. Yahoo! Yahoo! er bandarískt fyrirtæki sem rekur samnefnda vefgátt og leitarvél á internetinu. Fyrirtækið var stofnað af Stanford-nemunum David Filo og Jerry Yang í janúar 1994 og fór á hlutabréfamarkað í mars 1995. Yahoo! er í dag ein af stærstu vefsíðum heims skv. Alexa.com Ian Smith. Ian Douglas Smith (f. 8. apríl 1919, d. 20. nóvember 2007) er fyrrum forsætisráðherra í bresku krúnunýlendunni Suður-Ródesíu og forsætisráðherra Ródesíu (nú Simbabve) sem fulltrúi hvíta minnihlutans til 1. júní 1979. Flokkur hans Ródesíuframvörðurinn vann allar kosningar í landinu þar til stjórn minnihlutans lauk. Smith lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Bretlandi 11. nóvember 1965 sem vakti hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins. 2. mars 1970 sleit landið svo öll tengsl við bresku krúnuna og lýsti yfir stofnun lýðveldis. Ári síðar hófst Kjarrstríðið, uppreisn fylkinga þeldökkra íbúa gegn stjórn Smiths. Meirihlutastjórn tók við fyrir millligöngu Breta 1980 og Robert Mugabe varð forsætisráðherra. Smith sat áfram á þingi Simbabve, en hvíti minnihlutinn var með 20 frátekin sæti á þinginu. Þegar Mugabe afnam þessi sæti dró Smith sig í hlé til búgarðs síns og gerðist hávær gagnrýnandi Mugabe-stjórnarinnar í ræðu og riti. Johnny and the Hurricanes. Johnny and the Hurricanes, upphaflega The Orbits, var bandarísk rockabilly-hljómsveit stofnuð árið 1957 í Toledo í Ohio. Hljómsveitin var samsett af skólafélögum undir stjórn Johnny Paris. Árið 1958 skrifaði hljómsveitin undir útgáfusamning við Twirl Records og ári seinna kom út smáskífan "Crossfire" sem varð vinsæll sumarsmellur um öll Bandaríkin. Næsta smáskífa frá sveitinni var "Red River Rock", sem var ósungin útgáfa "Red River Valley", með Paul Tesluk á Hammond-orgelinu. Smáskífan seldist í rauða rokinu beggja vegna Atlantshafs og komst í topp-10 á vinsældalistum. Vinsældir hljómsveitarinnar entust þó ekki lengi og þegar smáskífan "Ja-Da" kom út árið 1961 voru þeir félagar dottnir út fyrir meginstefnu tónlistarinnar á þeim tíma. Þeir fóru þó í hljómleikaferð um Evrópu og hituðu, þá óþekktir, Bítlarnir meðal annars upp fyrir þá í Hamborg. Hep Stars. Hep Stars var sænsk popphljómsveit stofnuð árið 1963 af þeim Lennart Hegland og Christer Pettersson. Þeir fengu til liðs við sig orgelleikarann Hans Östlund og gítarleikarann og söngvarann Janne Frisk. Sama ár koma hljómsveitin fram í hljómsveitarkeppni í Bromma. Árið eftir átti hljómsveitin að koma fram á tónleikum en þar sem Frisk var í tónleikaferðalagi með harmonikkuleikaranum Erik Frank þurfti Svenne Hedlund að spila fyrir hann. Úr því sagði Hedlund sig úr hljómsveitini Clifftones og gerðist meðlimur í Hep Stars. Åke Gerhard, textahöfundur og útgefandi, gerðist umboðsmaður hljómsveitarinnar og kom henni í tónleikaferðalag þetta sama sumar. Fyrsta smáskífa Hep Stars var "Kana Kapila". Hans Östlund hætti í hljómsveitini þetta örlagaríka ár og Benny Andersson (þá í Elverkets Spelmans-lag og síðar í ABBA) kom í hans stað. Þann 13. apríl 1965 kom smáskífan "Cadillac" út og fór strax í 9. sæti sænska kvöldlistans ("Kvällstoppen"). Þar tórði hún í 14 vikur og fór hæst í 1. sæti listans. Viku síðar komst önnur skífa sveitarinnar inn á listann, "A Tribute to Buddy Holly", og fór hún í 15. sætið. Þriðju vikuna í röð komst smáskífa sveitarinnar inn á listann og í þetta sinn var það lagið "Farmer John". Lagið fór beint í 10. sætið þann 27. apríl 1965. Emil Jónsson. Emil Jónsson (fæddur 27. október 1902, látinn 30. nóvember 1986) fæddist í Hafnarfirði og var forsætisráðherra fyrir Alþýðuflokkinn. Hann sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn á árunum 1934-1971 og var formaður flokksins 1958-1968. Hann var ráðherra 1944-1949 og 1958-1971. Þá var hann forseti Sameinaðs Alþingis 1956-1958. Stefán Jóhann Stefánsson. Stefán Jóhann Stefánsson (f. 20. júlí 1894 í Eyjafirði – 20. október 1980) var fyrsti utanríkisráðherra Íslands og seinna forsætisráðherra. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1938-1952. Stefán Jóhann var forsætisráðherra þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. Ævi. Stefán Jóhann fæddist á Dagverðareyri í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1918 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar árið 1917. Hann lauk lögfræðiprófi 1922. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn 1934 og sat til 1937. Aftur var Stefán Jóhann kjörinn á þing 1942 og var þingmaður til ársins 1953. Hann var félagsmálaráðherra 1939 og utanríkisráðherra 1940-1942. Á árunum 1947-1949 var hann forsætis- og félagsmálaráðherra. Þann 30. mars 1949 samþykkti Alþingi að Ísland skyldi verða stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu. Þá kom til óeirða á Austurvelli. Stefán Jóhann var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1938-52. Hann var um skeið sendiherra Íslands í Danmörku. Samkvæmt skjölum sem norski sagnfræðingurinn Dag Tangen aflaði sér í skjalasafni Harry Trumans Bandaríkjaforseta, átti Stefán í mjög nána samvinnu við bandarísku leyniþjónustuna CIA á stjórnartíma sínum, og virðist hafa verið á þeirri skoðun að hingað væri þörf bandarísks herliðs til að kveða niður hugsanlega uppreisn „kommúnista". Hilmir Jóhannesson. Hilmir Jóhannesson (fæddur 24. maí 1936) er mjólkurfræðingur og skáld og býr á Sauðárkróki. Fjölskylda. Faðir Hilmis var Jóhannes Ármannsson, múrari og smiður og móðir hans var Ása Stefánsdóttir, húsfreyja. Kona Hilmis er Hulda Jónsdóttir, dagmamma. Nám. Hilmir lauk námi í mjólkurfræði frá Lanbúnaðarskólanum Ladelund í Danmörku árið 1961. Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra. Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki sem heitir Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra er íslenskur fjölbrautaskóli staðsettur á Sauðárkróki. Skólinn var stofnsettur árið 1979. Núverandi skólameistari er Jón Friðberg Hjartarson og hefur hann gegnt embættinu frá stofnun skólans. Kennsluhúsnæði. Húsnæði skólans er Verknámshús, bóknámshús tekið í notkun árið 1994 og heimavist. Gylfaginning. Gylfaginning (lengd er um 20.000 orð) er annar hluti Snorra-Eddu (á eftir Prologus) sem skrifaður var af Snorra Sturlusyni. Í Gylfaginningu segir frá ginningnu Gylfi, "konungur þar sem nú er Svíþjóð", er hann heimsækir Ásgarð og hittir þar 3 konunga; Háan, Jafnháan og Þriðja. Hann spyr þá um allt sem hann vill vita um guðina, sköpun heimsins, Ragnarök og fleira. Gylfi konungur. Gylfi konungur er persóna í Gylfaginningu í Snorra-Eddu. Hann var konungur þar sem nú er Svíþjóð. Gyðjan Gefjun fékk af honum land sem hún dró út á haf með hjálp fjögurra uxa. Gylfi vildi fræðast meira um hagi guðanna og heimsótti Ásgarð. Skáldskaparmjöður. Á leiðinni til Ásgarðs neyddist hann til að gera þarfir sínar og skeit svokölluðum skáldfíflahlut. Þau skáld sem hann fengu urðu leirskáld. Þegar Óðinn kom heim, kastaði hann miðinum í þrjú ker, sem var hinn eiginlegi skáldskaparmjöður. Bilskirnir. Bilskirnir var heimili Þórs í Norrænni goðafræði og var staðsett á Þrúðvöngum. Er talið mögulegt að nafnið vísi til bliks eldinga en ekki er þó til nein heimild um það. Á því áttu að vera 640 dyr líkt og á Valhöll, heimili Óðins. Í Grímnismálum er haft eftir Óðni að Bilskirnir væri besti bústaður sem hann þekkti. Norðeyjagöngin. Norðeyjagöngin (færeyska: Norðoyatunnilin) eru neðansjávargöng og lengstu göng Færeyja, um 6300 metra löng og ná 150 metra undir sjávarmáli. Göngin tengja saman Klakksvík á Borðoy og Leirvík á Eysturoy. Norðeyjagöngin voru opnuð þann 29. apríl 2006. Skotthúfa. Kona í peysufötum með djúpri skotthúfu frá 19. öldinni Skotthúfa er íslenskt höfuðfat borið við upphlutsbúning og peysuföt. Það er svört húfa með skotti, upphaflega prjónuð úr smáu bandi með skúf úr þeli en seinna saumuð úr flaueli og með silkisskúf (35 - 38 cm). Skotthúfan var í fyrstu nokkuð djúp en frá um 1860 grynnri. Á mörkum skúfs og húfu er skúfhólkur úr silfri eða gulli, eða gylltum eða silfruðum vírborðum. Húfan er næld í hárið með svörtum tituprjónum en ef kona ber fléttur eru endar þeirra festir undir húfunni í hnakkanum með húfuprjónum, tveimur samstæðum prjónum tengdum saman með grannri laufakeðju. Svafa Grönfeldt. Svafa Grönfeldt (fædd 1965 í Borgarnesi) var rektor Háskólans í Reykjavík frá 1. febrúar 2007 til 23. janúar 2010. Hún tók við því starfi af Guðfinnu S. Bjarnadóttur sem hafði náð 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Svafa hafði áður verið forstjóri stjórnunarsviðs lyfjafyrirtækisins Actavis og síðar aðstoðar-forstjóri ásamt því að sitja í bankaráði Landsbankans. Við starfi Svöfu sem rektors tók við Ari Kristinn Jónsson. Hún á nú sæti í stjórn lyfjafyrirtækisins Alvogen. Svafa er fædd 29. mars 1965. Hún er dóttir Þórleifs Grönfeldt og Erlu Daníelsdóttur kaupmanna í Borgarnesi. Hún lauk stúdentsprófi 1987 frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, B.A.-prófi frá Háskóla Íslands í stjórnmála- og fjölmiðlafræði 1990, M.S.-prófi í starfsmanna- og boðskiptafræðum frá Florida Institute of Technology 1995. Doktorsprófi lauk hún árið 2000 í vinnumarkaðsfræðum frá London School of Economics. Flötur (félag). Flötur er samtök stærðfræðikennara á Íslandi stofnuð 1992. Félagið heldur úti vefsíðu og gefur út blað, sem er málgagn félagsins og heitir það "Flatarmál". Aðild að Fleti eiga allir stærðfræðikennarar á Íslandi, sem þess óska, án tillits til skólastigs. Á heimasíðunni segir svo meðal annars: „Markmið Flatar eru m.a. að veita stuðning við þróunarstarf á sviði stærðfræðimenntunar, að efla menntun stærðfræðikennara, að skapa vettvang fyrir umræður um stærðfræðikennslu og að veita kennurum stuðning við að takast á við ný og breytt viðfangsefni og vinnubrögð.“ Æla (hljómsveit). Æla er hljómsveitin sem leikur pönktónlist sem hefur verið líkt við tónlist hljómsveita á borð við The Rapture, Purk Pillnikk, Minute Men og Shellac. Árið 2006 kom út breiðskífa sem ber heitið „Sýnið tillitssemi, ég er frávik“. Platan inniheldur 15 lög sem tekin voru upp á síðasta ári í Keflavík. Ingi Þór Ingibergsson stjórnaði upptökum og sá um hljóðblöndun ásamt hljómsveitinni sjálfri. Árið 2007 spiluðu þeir á nokkrum tónleikum í Englandi 23-31 mars. Luigi. Luigi er tölvuleikjapersóna búin til af japanska leikjahönnuðinum Shigeru Miyamoto. Hann er hærri en yngri bróðir hans, Mario, og hefur birst í leikjum í Mario seríunum. Hann getur einnig hoppað hærra en Mario en samt sést hann minna en bróðir hans. Röddin er leikin af Charles Martinet, sami leikari og leikur rödd Mario og einnig fleiri persónur í seríunum. Vegna þess að hann og Mario eru vanalega kallaðir „Mario bræður“ hefur verið haldið að fullt nafn er „Luigi Mario“. Aftur á móti hefur Nintendo í Ameríku sagt um 1980 að hvorki Mario né Luigi hafa eftirnafn. Princess Peach. Princess Peach eða Princess Toadstool er tölvuleikjapersóna í Mario leikjaseríunni frá Nintendo. Peach var þekkt í vestrinu sem Princess Toadstool þangað til seint á árinu 1996. Hún er prinsessa í Mushroom Kingdom eða sveppa konungsdæminu, þar sem margir leikir gerast í. Mario og prinsessan eru í rómantísku sambandi saman. Peach kom first fram í Super Mario Bros. og hefur síðan birst í mörgum svipuðum leikjum, sem henni er vanalega rænt af Bowser. Fyrsti leikurinn sem hún var aðalpersónan var Super Princess Peach sem var gefin út um heim allan 2006. PocketStation. PocketStation er handhæg leikjatölva frá Sony. Hún var aðeins gefin út í Japan, þann 23. desember 1998 með LCD skjá, hljóði, klukku og innrauðan (infrared) tengimöguleika. Hún virkar einnig sem venjulegt PlayStation minniskort EarthBound. EarthBound, gefin út í Japan sem MOTHER 2: Gyiyg no Gyakushū, er tölvuleikur fyrir Super Nintendo Entertainment System. Hann er annar leikurinn í Mother seríunni. EarthBound er framhald af upprunalega Mother, Nintendo Entertainment System leikur, aðeins gefin út í Japan. Mother og EarthBound eru ekki tengdir beint. Amerískur fótbolti. Georgia Dome, heimavöllur Atlanta Falcons í NFL deildinni Amerískur fótbolti, þekktur innan Bandaríkjanna og Kanada sem "football" sem þýðir fótbolti á íslensku, er hópíþrótt sem er þekkt fyrir mikla hörku þrátt fyrir að vera þaulskipulögð. Markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að koma boltanum að marklínu andstæðingsins. Til þess að koma boltanum áfram má kasta honum, hlaupa með hann eða rétta hann öðrum liðsfélaga. Stig eru skoruð á marga vegu, m.a. með því að koma boltanum yfir marklínuna eða með því að sparka boltanum milli markstanganna. Sigurvegari leiksins er liðið sem skorað hefur flest stig að leik loknum. Stærsta deild í heimi sem spilar amerískan fótbolta er NFL-deildin í Bandaríkjunum. Nafnið. Mörgu fólki utan Bandaríkjanna og Kanada hefur þótt það skrýtið að íþrótt þar sem boltinn er aðallega snertur með höndunum skuli vera kölluð fótbolti. Einföld skýring er á því. Á seinni hluta 19. aldar var gerður greinarmunur á íþróttum sem spilaðar voru á hestum og þeim sem spilaðar voru á fótum. Fótbolti er spilaður á fótum, en ekki hestum, og orðið fótbolti festist við íþróttina. Leikvöllur og leikmenn. Amerískur fótbolti er spilaður á rétthyrndum velli sem er 109,7 m (360 fet) á lengd og 48,8 m (160 fet) á breidd. Hliðarlínur vallarins eru yfirleitt breiðar og á enda vallarins, hvoru megin, eru marklínur sem eru 91,4 m (100 yd) frá hvor annarri. Svæðið handan marklínunnar kallast markteigur og er hann 9,14 m (10 yd) á lengd, en handan markteigsins er endalínan. Stiku línur eru á vellinum hverja 4,6 metra (5 yd). Línurnar ganga þvert yfir völlinn og eru merktar með tölu og segir sú tala til um hversu langt er til næstu marklínu. Á hverjum 0,914 metrum (1 yd) eru tvö sett af smáum línum á miðjum vellinum. Innan þeirra lína verða leikmenn að hefja hverja sókn. Fyrir aftan markteiginn standa tvær markstangir og eru 5,6 metrar (18,5 fet) á milli þeirra. Markstangirnar eru tengdar saman með þverslá sem er í 3,05 metra (10 fet) hæð yfir jörðu. Hvort lið má hafa 11 leikmenn inn á vellinum í einu. Lið má þó skipta út eins mörgum leikmönnum og það vill ef nægur tími er fyrir hendi, t.d. eftir að leikhlé hefur verið tekið eða þegar sókn tekur enda. Þetta leiðir af sér að hver og einn leikmaður hefur frekar sérhæft hlutverk og geta rúmlega 46 mismunandi leikmenn tekið þátt í einum og sama leiknum í NFL deildinni. Hvert lið skiptir leikmönnum sínum í þrjú „lið“: Sókn, vörn og sérhæft lið. Þetta sérhæfða lið sér m.a. um vallarmörk, upphafsspark og spyrnur úr höndum leikmanns (e.: "punt"). Lengd leikja. Leikur í amerískum fótbolta samanstendur af fjórum 15 mínútna leikhlutum með hálfleik eftir 2. leikhluta og stutt leikhlé á milli annarra fjórðunga. Klukkan er stöðvuð við ýmsar aðstæður í leiknum, svo sem þegar leikmaður sem heldur á boltanum fer útaf vellinum, þegar leikhlé er tekið og ef sending liðstjórnandans fellur í jörðina áður en einhver nær að grípa hana. Það er jafnframt kölluð "ófullkomin sending". Þetta leiðir af sér lengri leik og geta leikir staðið yfir í meira en 3 klukkutíma. Ef liðin standa jöfn að stigum eftir fjóra leikhluta er leikurinn framlengdur. Í NFL-deildinni er framlengingin einn 15 mínútna leikhluti og vinnur það lið sem skorar fyrst stig, jafnvel þó að annað liðið snerti ekki boltann. Ef ekkert lið skorar í framlengingunni endar leikurinn sem jafntefli. Í deildarkeppni NFL geta leikir endað með jafntefli en þegar komið er fram í umspil þarf alltaf að úrskurða sigurvegara og eru teknar jafn margar framlengingar og nauðsyn krefur. Að færa boltann fram. Í upphafi hverrar sóknar fær sóknarliðið 4 tilraunir (e:"downs") til að koma boltanum áfram 9,14 metra (10 yd). Ef sóknarliðið nær að færa boltann fram um 9,14 metra (10 yd) fær það aftur 4 tilraunir og þegar það gerist er talað um að sóknin fái 1. tilraun. Ef að sókninni tekst ekki að koma boltanum fram 9,14 metra (10 yd) missir það boltann til andstæðingsins. Yfirleitt reyna lið ekki að koma boltanum áfram á 4. tilraun heldur spyrna þau boltanum úr höndum sér ("punt") til að koma boltanum eins langt frá markteig sínum og mögulegt er. Ef boltinn er hinsvegar nógu nálægt markstöngunum reynir liðið að skora vallarmark. Dómari flautar ávallt ef eitt af ofangreindu gerist og lætur vita að tilraun hefur lokið. Í upphafi hverrar hrinu eru upplýsingar á stigatöflu sem að segja m.a. til um á hvaða tilraun liðið er. Til dæmis eru merkingar á sjónvarpsskjá svohljóðandi: „"1st & 10"“. Með þessu er átt við að liðið er á 1. tilraun og þarf að fara með boltann áfram um 10 yd (9,14 metra) til að fá aftur 1. tilraun. Ef að lengdin er meiri eða minni en 9,14 metrar (10 yd) er yfirleitt talað um „"1st / 2nd / 3rd / 4th & long"“ eða „"1st / 2nd / 3rd / 4th & short"“ eftir því hvað á við hvoru sinni. Ef það eru minna en 9,14 metrar (10 yd) að marklínununni er talað um „"1st / 2nd / 3rd / 4th & Goal"“. Stundum er talað um „"2nd / 3rd / 4th & inches"“ en það er þegar boltinn lendir rétt fyrir framan línuna sem hefði gefið liðinu fyrstu tilraun. Að skora. Leikmenn reyna að skora vallarmark Upphafsspyrna og aukaspyrnur. Hver hálfleikur hefst á upphafssparki. Lið þurfa líka að sparka upphafsspyrnum eftir að snertimark eða vallarmark er skorað. Í upphafssparki er boltanum sparkað frá 27,4 metra (30 yd) línu liðsins. Liðin mega nota sérstakan stall til að halda fótboltanum, en það mega þau hinsvegar hvorki í vallarmörkum né spyrnum úr höndum þeirra (punt). Hitt liðið fær þá að grípa boltann og reynir að koma honum eins langt fram og það getur. Ef að boltinn fer aftur fyrir endamörk, eða ef að leikmaður grípur boltann í eigin markteig og fer á hné, er litið á það sem sjálfsmark án stiga og fær liðið að hefja leik á 18,3 metra (20 yd) línunni sinni. Eftir sjálfsmark spyrnir liðið sem að gaf frá sér 2 stig boltanum frá 18,3 metra (20 yd) línu sinni. Reglur/Brot. Dómarar ásamt sjóliðum í sjóhernum á stjörnuleiknum 2005 Þó nokkuð er af reglum í ameríska fótboltanum og getur refsing liðsins sem braut af sér orðið mis hörð. Flestar refsingar fela það í sér að færa boltann nær eða fjær marklínu annars liðsins. Hörðustu refsingar geta falið í sér að liðinu sem brotið var á sé gefið snertimark. Í flestum tilvikum þarf að endurtaka tilraun liðs ef að brot á sér stað. Engin spjöld eru, eins og í fótbolta og engum leikmanni er vikið af velli nema um öfgatilfelli er að ræða. Ef að lið brýtur á sér í miðri hrinu kastar einn eða fleiri dómarar gulum fána inná leikvöllinn nálægt staðnum sem brotið átti sér stað. Þegar að tilraunin endar kveður dómari upp dóm sinn. Dómarinn er með hljóðnema og heyrist í honum í hátalarakerfi vallarins þar sem að hann útskýrir fyrst hver braut af sér, hvað viðkomandi gerði og síðast hver refsingin er. Ef að varnarlið brýtur á sóknarliði getur sóknarliðið valið að hafna því að dæmt sé á brotið. Þetta er stundum notað ef að sóknarliðið hefur komist tugi metra fram á við. Dómarar notast einnig við myndbandsupptökur af atvikum og er sérstakur dómari sem að sér um það. Þjálfari má skora á dóm dómarans ef að mikið er í húfi með því að kasta rauðum fána inn á völlinn. Ef að dóm dómarans er ekki breytt er liðið rukkað um 1 leikhlé en ekkert ef dóminum er breytt. Cappuccino. Cappuccino eða froðukaffi er ítalskur kaffidrykkkur með freyddri mjólk og er borinn fram í 150-180 ml bolla og samanstendur af 1/3 kaffi, 1/3 heitri mjólk og 1/3 mjólkurfroðu. Mjólkin á að blandast kaffinu þannig að hún renni saman við espressó-skotið þannig að bollinn sé með hvítum mjólkurhatti, umluktur af rauðbrúnum kaffihring. Best þykir ef mjólkin (sem hefur verið freydd) minni á húsamálningu eða silki þegar henni er hellt út í kaffið og jafnvægið verður að vera fullkomið milli espressó, mjólkur og froðu. Cappuccinó drekka flestir á hvaða tíma dagsins sem er, en margir Ítalir snerta hann ekki eftir hádegisbil. Í Bandaríkjunum, og sumstaðar í Evrópu, hefur verið tekinn upp sá siður að afgreiða cappuccinó með 1, 2 eða 3 skotum af kaffi. Á Íslandi hefur þó haldist sá siður að halda honum klassískum, því gæðin bera auðvitað af magni. Orðið „cappuccino“ á uppruna sinn að rekja til munkareglu sem nefndist: Regla Capuchin-bræðra. Þeir gengu berfættir (einnig nefndir berfættisbræður á íslensku) og voru hliðarregla út frá fransiskumunkunum sem voru betlimunkar af reglu Frans frá Assisi. „Capa“ heitir kápa eða kufl á latínu, en hettan á kuflinum var nefnd: cappuchio á miðaldalatínu. Munkar þessir tóku nafn af hettunni og voru nefndir Capuchin-bræður eða Capuchin-munkar. Kaffidrykkurinn tók svo nafn af þeim því mjólkurfroðan minnir á hvítt höfuðfat sem lagt er yfir kaffið. Mormó. Mormó er gyðja í grískri goðafræði og var sögð bíta óþæg börn. Hún er talin hafa verið fylgdarkona Hekötu. Nafn hennar var einnig haft um einhverskonar kenkyns vampíru í sögum sem sagðar voru börnum til að koma í veg fyrir að þau væru óþekk. Anþeia. Anþeia var í gyðja grískri goðafræði; hún var talin gyðja blóma sem og blómakransa sem bornir voru á hátíðisdögum og veislum. Hún var oft í fylgd með Afródítu og má sjá þess stað á myndskreytingum á aþenskum vösum. Hún var einkum dýrkuð á Krít. Metallica (plata). Metallica (einnig þekkt sem The Black Album vegna stóru og svörtu kápunar) er fimmta plata Metallica. Hún er nafnlaus, aðeins nafn hljómsveitarinnar er skráð á plötuna. Platan inniheldur 12 lög og meðal annars eru þar stór smellirnir Enter Sandman, Nothing Else Matters, Unforgiven og Sad But True. Pikachu. Pikachu er eitt af 649 tegundum Pokémondýra úr Pokémon seríunum með tölvuleiki, anime, manga, bækur, spjöld og annað efni frá Satoshi Tajiri. Eins og allir Pokémonarnir berst Pikachu við aðra Pokémona í bardagahöllum í anime, manga og leikjaseríunum. Pikachu er einn þekktasti Pokémoninn vegna þess að hann er ein aðalpersónan í anime seríunum af Pokémon. Pikachu er efra stig Pichu og þróast í Raichu. Orðið Pikachu er komið af orðunum pika, sem er þrumuhljóð og chu, sem samsvarar tísti músar. Samus Aran. er tölvuleikjapersóna, búin til af Gunpei Yokoi og er aðalpersónan í Metroid seríunni frá Nintendo. Samus eltir uppi eftirlýsta flóttamenn og klæðist ofur galla með mikilli tækni á honum. Captain Falcon. (Fullt nafn: Captain Douglas Jay Falcon) er tölvuleikjapersóna í "F-Zero" seríunni frá Nintendo. Hann birtist fyrst árið 1990 í leiknum "F-Zero", sem einn af fjórum upprunalegu persónunum í leiknum. Hann var kynntur sem dularfullur framtíðar kappaksturmaður frá 26. öld. "Super Smash Bros." leikirnir eru einu leikirnir sem hann birtist í utan "F-Zero" seríunni og fyrsta skipti varð hann sjálfur spilanleg persóna. Vilhjálmur 4. Bretakonungur. Vilhjálmur IV (William Henry) (21. ágúst 1765 – 20. júní 1837) var konungur sameinaðs konungsdæmis Englands og Hannover frá 1830 til 1837. Vilhjálmur IV var þriðji elsti sonu Georgs III og eftir að bróðir hans, hertoginn af Jórvík, lét lífið 1827, varð Vilhjálmur ríkiserfingi. Vilhjálmur var lengi í herflotanum og hefur af þeim sökum verið nefndur Sjómannskonungur (Sailor King). Vilhjálmur lést af völdum hjartabilunar í Windsor-kastala þar sem hann er grafinn. 13. júlí 1818 giftist Vilhjálmur, Adelaide Louise Theresa Caroline Amelia (13. ágúst 1792 – 2. desember 1849) sem eftir gifinguna varð Adelaide drottning. Þau eignuðust tvær dætur, Charlottu og Elízabetu sem báðar létust ungar. Vilhjálmur IV átti í ástarsambandi við írska leikkonu, Dorotheu Bland, sem var betur þekkt undir sviðsnafni sínu, Dora Jordan eða frú Jordan. Vilhjálmur og frú Jordan áttu 10 lausaleikskróa sem allir hlutu ættarnafnið FritzClarence. Ástarsambandið varaði í tuttugu ár. Eitt af afprengjum þessa ástarsambands var George FitzClarence, 1 Jarl af Munster. En þó að níu af lausaleikskróum hans lifðu hann sjálfan varð eftirmaður Vilhjálms frænka hans, Viktoría drottning. Adelaide höfuðborg Suður-Ástralíu er nefnd eftir Adelaide drottningu. Tvíbytna. Tvíbytna er tegund af bátum, oftast seglbátum, bæði í nútímamerkingu og eldri. Í nútímamerkingu er orðið oft haft um þannig báta sem hafa tvo samtengda skrokka. Orðið tvíbytna hefur ýmsar aðrar merkingar. Það getur þýtt ker eða tunna, þ.e.a.s. ílát með tvo botna, en þýðir líka mjög djúpur pyttur eða stöðuvatn (sbr. tvíbytnuvatn). Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt að tvíbytnur séu vötn sem hafi samrennsli undir jörðinni. Sumir segja að Baulárvallavatn sé slík tvíbytna. Einnig er sagt að sum tvíbytnuvötn hafi samrennsli undir jörðinni við hafið og þess vegna gæti þar flóðs og fjöru. Tvíbytna er einnig haft í óeiginlegri merkingu um eitthvað sem virðist ótæmandi eins og þegar sagt er að ríkissjóður sé ekki tvíbytna og átt við að hann sé ekki óþrjótandi brunnur fjármagns. Blandings skjaldbakan. Blandings skjaldbakan (Emydoidea blandingii) er láðs- og lagar skjaldbaka sem á ensku nefnist Blanding's turtle. Það tekur hana 18-22 ár að verða kynþroska. Hún lifir aðallega í kringum Vötnin miklu í Bandaríkjunum. Játvarður 7. Bretlandskonungur. Játvarður VII (Albert Edward) (9. nóvember 1841 – 6. maí 1910). Játvarður VII var konungur sameinaðs ríkis Stóra Bretlands og Írlands, breska samveldisins og auk þess keisari Indlands. Játvarður kom til ríkis 1901 eftir móður sína Viktoríu drottningu og hafði þá verið prinsinn af Wales í 60 ár. Játvarður VII stuðlaði að viðgangi samúðarsambandsins (Entente Cordiale) við Frakka og Rússa gegn Þríveldabandalaginu. Játvarður VII giftist dóttur Kristjáns IX, danakonungs, Alexöndru 10. mars 1863. Hún bar þá titilinn Prinsessa Alexandra Karolína María Karlotta Lovísa Júlía af Slésvík-Holstein-Sonderborg og Glúkksborg. Hún varð eftir það Prinsessa af Wales, og hefur borið þann titil lengst allra. Þau eignuðust sex börn, og þar á meðal George Frederick Ernest Albert sem síðar varð Georg V. Játvarður VII lést í Buckingham Palace úr alvarlegu berkjukvefi (bronkítis). Á dánarbeði hans kom Prinsinn af Wales (síðar Georg V) og sagði honum að hestur hans „Witch of the Air“ hafði borið sigurorð á Kempton Park-veðreiðarvellinum. Við það svaraði hann: „Það gleður mig mjög“ og voru það andlátsorð hans. Játvarður VII var tengdur næstum því hverri einustu kóngafjölskyldu í Evrópu á sínum tíma, aðallega gegnum móður sína og tengdaföður, og var því oft kallaður „frændi Evrópu“. Kirby (Nintendo). Kirby hefur verið stjarnan í mörgum leikjum frá HAL Laboratory og hefur einnig verið vinsæl anime persónu undanfarin ár. Kirby hefur birst í yfir tuttugu leikjum síðan 1992 og á sína eigin teiknimyndaseríu. Kirby serían hefur selst í yfir 30 milljón eintökum um heim allan. Aðalleikir seríunnar eru platform leikir sem fylgja lauslega tímaröðinni sem er sama röð og þeir gefa leikina út. Vanalega byrja þeir á vondum her sem hótar heimilinu hans í Dream Land á plánetunni Pop Star og Kirby reynir að vinna þá. Leikari. Leikari (eða leikkona) er starfsheiti og haft um þann sem fer með hlutverk persónu á sviði, í kvikmynd eða sjónvarpi og notar til þess texta sem leikskáld (eða handritshöfundur) hefur samið. Tallinn. Höfnin og gamli bærinn í Tallinn. Tallinn (sögulegt nafn (til 1918): Reval, á forníslensku Rafali eða Refalir) er höfuðborg og aðalhöfn Eistlands. Hún er staðsett í Harju-sýslu á norðurströnd Eistlands við Finnlandsflóa, 80 km suður af Helsinki. Íbúar Tallinn eru um það bil 400.000 manns og er flatarmál borgarinnar 159,2 km². Borgarstjórinn heitir Edgar Savisaar, fyrirverandi borgarstjórinn er Jüri Ratas sem var borgarstjóri í rúm 2 ár. Stærsta vatnið í Tallinn heitir Ülemiste (9,6 km²) og er aðal drykkjarvatnsforði borgarbúa. Sögulega nafnið Reval (latína: Revalia) er sænskt og þýskt (gömul sænska: Räffle). Nafnið "Tallinn" (Tana-linn) merkir "Danavirki". Danski fáninn, Dannebrog, er sagður hafa fallið af himni ofan í orustu sem Danir háðu í Tallinn 15. júní 1219. Kristján 8.. Kristján 8. (1786 – 1848) konungur Danmerkur frá 1839; varð ríkisstjóri í Noregi 1813, undirritaði stjórnarskrána á Eiðsvelli 1814 og varð þá konungur Noregs, en neyddist til að segja af sér sama ár vegna stríðshótana Svía. Kristján 8. var sonur Friðriks erfðaprins, sem var bróðir Kristjáns 7. Hann giftist 1806 Karlottu Friðriku af Mecklenburg-Schwerin, frænku sinni, en hjónaband þeirra var óhamingjusamt. Karlotta Friðrika fæddi son 1808, sem síðar varð Friðrik 7. Þegar Kristján komst að því að Karlotta Friðrika átti í ástarsambandi við franskan söngkennara sinn og tónskáldið Edouard du Puy, batt hann enda á hjónabandið og henni var meinað að sjá son sinn. Hún vistaðist eftir það í Horsens. Þann 22. maí 1815 kvæntist Kristján 8. Karólínu Amalíu (Caroline Amalie). Þau áttu engin börn. Á valdatíma Kristjáns 8. jókst mjög andstaðan við einveldið. Hákon gamli. Hákon gamli Hákonarson eða Hákon 4. (1204 - 16. desember 1263) var konungur Noregs frá 1217 til dauðadags. Á valdatíð hans lauk loks borgarastyrjöldunum sem höfðu mótað sögu Noregs í heila öld. Ennfremur komust Ísland og Grænland undir norsk yfirráð á ríkisstjórnarárum hans. Uppruni. Hann var sonur Ingu frá Varteigi, en hún sagði hann vera óskilgetinn son Hákonar 3., sem var látinn þegar drengurinn fæddist en hafði heimsótt Varteig árið áður og þá tekið Ingu sem frillu. Eftir dauða hans mátti segja að Noregur væri í raun tvö ríki, birkibeinaríkið í Vestur-Noregi og Þrændalögum og baglaríkið við Óslófjörð og í Austur-Noregi. Hákon Hákonarson fæddist á miðju valdasvæði bagla og þegar hann var tveggja ára flúði sveit birkibeina með hann og móður hans til Þrándheims á skíðum og lenti í miklum hrakningum á leiðinni. Konungur Noregs. Birkibeinar flýja með Hákon til Þrándheims. Hákon ólst svo upp í Þrándheimi undir verndarvæng Inga Bárðarsonar birkibeinakonungs, sem viðurkenndi hann sem konungsson. Ingi lést árið 1217 og þar sem hann var barnlaus stóð valið um konungsefni þá á milli Hákonar og Skúla Bárðarsonar, hálfbróður Inga konungs. Birkibeinaherinn studdi Hákon og Inga móðir hans tókst á hendur járnburð til að sanna að hann væri sonur Hákonar Sverrissonar. Úr varð að Hákon var valinn konungur en þar sem hann var aðeins þrettán ára var Skúli, sem var tæplega þrítugur, gerður að ríkisstjóra og jarli og fékk þriðjung landsins að léni. Seinna sama ár lést baglakonungurinn Filippus Símonarson án þess að skilja eftir sig erfingja. Varð þá samkomulag um að Hákon skyldi verða konungur alls landsins. Ekki voru allir baglar þó sáttir við það og börðust áfram gegn birkibeinum. Árið 1223 var haldin ráðstefna allra helstu manna landsins, biskupa og veraldlegra höfðingja, til þess að skera úr um hver væri réttur konungur Noregs, en nokkrir gerðu tilkall til krúnunnar. Kirkjunnar menn voru eindregið á bandi Hákonar þótt hann væri óskilgetinn og varð úr að hann var úrskurðaður hinn eini rétti konungur. Þó héldu ýmsir þeirra sem tilkall höfðu gert til krúnunnar áfram andófi allt til 1227, þegar Knútur sonur Hákonar galins samdi frið við konung og giftist Ingiríði dóttur Skúla jarls skömmu síðar. Hákon var þó ekki krýndur konungur fyrr en 29. júlí 1247. Hákon og Skúli jarl. Framan af valdatíð Hákonar voru raunveruleg völd í höndum Skúla Bárðarsonar og hann réði yfir þriðjungi ríkisins, fyrstu árin svæðinu umhverfis Óslófjörðinn en frá 1223 hafði hann Þrændalög og átti aðalaðsetur í Niðarósi. Þegar Hákon þroskaðist tók hann smátt og smátt sjálfur völdin og það leiddi til árekstra við Skúla. Til að reyna að slá á deilurnar var ákveðið 1225 að Hákon skyldi giftast Margréti, dóttur Skúla, en það dugði ekki til. Skúli var gerður að hertoga árið 1237 og um leið ákvað Hákon að hann ætti ekki lengur að stýra Þrændalögum, heldur skyldi hann hafa þriðjung hverrar sýslu landsins. Þannig hafði hann ekki lengur yfirráð í einum landshluta og það veikti stöðu hans. Samkomulag þeirra tengdafeðga versnaði stöðugt og árið 1239 tók Skúli sér konungsnafn á Eyraþingi og hóf stríð gegn Hákoni. Hann reyndi að fá hinn tengdason sinn, Knút Hákonarson, til liðs við sig en hann stóð með konungi og fékk jarlsnafnbót að launum. Hákon vann sigur á Skúla í orrustu við Ósló 1240 og seinna sama ár var Skúli veginn í Niðarósi. Uppreisn Skúla er almennt talin endalok borgarastyrjaldanna í Noregi og ef til vill má segja að víg Snorra Sturlusonar í Reykholti 1241 hafi verið lokapunkturinn en hann var stuðningsmaður Skúla jarls. Útþenslusefna. Eftir 1240 ríkti friður í Noregi og konungdæmið efldist mjög. Hákoni var umhugað að efla ítök sín og bæta samband við önnur lönd og sendi í því skyni sendimenn með gjafir til ýmissa landa, jafnvel með fálka til Túnis, og gifti Kristínu dóttur sína Filippus bróður Alfons 10. Kastilíukonungs árið 1258. Hann vildi stækka og efla ríkið og það gerði hann meðal annars með því að fá Grænlendinga til að sverja sér land og þegna 1261 og síðan Íslendinga 1262. Það dugði Hákoni þó ekki og árið 1263 safnaði hann saman stórum flota og fór í herferð til Skotlands til að tryggja yfirráð sín yfir Suðureyjum en Alexander 3. Skotakonungur var þá farinn að seilast þar til valda. Hákoni tókst að ná yfirráðum á eyjunum á ný og sendi líka herlið inn í Skotland sjálft. Alexander dró samningaviðræður á langinn því að hann vissi að Hákoni mundi ganga illa að halda flotanum saman til lengri tíma. Hluti norska flotans barðist við skosk herskip við Large og héldu bæði Skotar og Norðmenn því fram að þeir hefðu haft sigur. Að lokum gafst Hákon upp í bili og hélt til Orkneyja til að hafa þar vetursetu en mestallur flotinn fór til Noregs. Hákon dó svo í Orkneyjum um miðjan desember 1263. Yngsti og eini eftirlifandi sonur hans, Magnús lagabætir, tók þá við ríkjum og samdi brátt frið við Skota. Helsta heimildin um ævi Hákonar er Hákonar saga Hákonarsonar, rituð af Sturlu Þórðarsyni sagnaritara skömmu eftir dauða hans. Fjölskylda. Hákon eignaðist fjögur börn með Margréti drottningu. Elsti sonurinn, Ólafur, dó þriggja ára. Næstur var Hákon ungi, sem varð meðkonungur föður síns 1240, þá átta ára, en dó 1257. Kristín giftist til Kastilíu en dó þar skömmu síðar. Eina barnið sem lifði föður sinn var Magnús lagabætir. Frilla Hákonar var Kanga hin unga og með henni átti hann Sigurð, sem dó 1254, og Sesselju, sem giftist fyrst Gregoríusi Andréssyni og svo Haraldi Ólafssyni konungi á Mön og Suðureyjum, undirkonungi föður hennar. Þau drukknuðu bæði þegar skip þeirra fórst við strönd Wales þegar þau sigldu heim eftir brúðkaup sitt í Noregi 1248. Ólafur Tryggvason. Ormurinn langi í Svoldarorrustu árið 1000. Ólafur Tryggvason (963 - 9. september 1000) var konungur Noregs frá 995. Ólafur tók við af Hákoni jarli. Hann vann ötullega að útbreiðslu kristni í Noregi, á Íslandi og Grænlandi. Ólafur var sonur Tryggva Ólafssonar, sem var undirkonungur í Víkinni og sonur Ólafs Geirsstaðaálfs, sem var einn af mörgum sonum Haraldar hárfagra. Haraldur gráfeldur lét drepa Tryggva og samkvæmt því sem Snorri Sturluson segir í Heimskringlu fæddist Ólafur rétt eftir að faðir hans var drepinn. Ástríður Eiríksdóttir móðir hans flúði með hann til Svíþjóðar en þegar Ólafur var þriggja ára ætlaði hún með hann til Sigurðar bróður síns í Garðaríki. Á siglingunni yfir Eystrasalt voru þau hertekin af eistneskum víkingum og hneppt í þrældóm hvort í sínu lagi. Ólafur gekk kaupum og sölum, hafnaði hjá manni sem hét Réas og var þar í sex ár og átti gott atlæti. Þá kom Sigurður móðurbróðir hans, bar kennsl á hann, keypti hann og tók með sér til Garðaríkis, þar sem hann ólst upp. Þegar hann var fullvaxinn hélt hann í víkingaferðir um Eystrasalt og varð vel ágengt. Hann fór svo til Vindlands og giftist Geiru, dóttur Búrisláfs konungs þar, settist þar að og fór í ránsferðir, meðal annars til Skánar og Gotlands. En eftir þrjú ár dó Geira og þá fór Ólafur frá Vindlandi og hélt í víking, herjaði um allar strendur Norðursjávar, frá Fríslandi suður til Flæmingjalands og þaðan norður Englandsstrendur og til Skotlands, og síðan á Írlandi og aftur suður fyrir England. Þegar hann kom í Syllingum (Scilly Islands) út af Cornwall-skaga hitti hann fyrir einsetumann sem kristnaði hann. Tók Ólafur skírn þar 988, hélt til Englands og fór nú með friði því hann vildi ekki herja á kristna menn. Þar hitti hann Gyðu, systur Ólafs kvaran konungs í Dyflinni á Írlandi, giftist henni og bjó í Englandi og á Írlandi næstu árin og gekk undir nafninu Áli. Samkvæmt því er segir í Heimskringlu fékk Hákon Sigurðarson Hlaðajarl, er þá stýrði Noregi, fregnir af því að fyrir vestan haf væri konungborinn Norðmaður og sendi mann þangað til að njósna um hann en við það kviknaði áhugi Ólafs og varð úr að hann hélt áleiðis til Noregs með fimm langskip. Þegar til Þrændalaga kom reyndist Hákon jarl hafa bakað sér þar miklar óvinsældir og sneru Þrændir baki við honum þegar fréttist af komu Ólafs. Hákon lagði á flótta en fannst og var drepinn og Ólafur var tekinn til konungs. Hann gekk strax í að kristna Norðmenn með góðu eða illu og lét oft drepa eða limlesta þá sem ekki vildu taka skírn. Hann sendi líka Þangbrand trúboða til Íslands. Þriðja kona Ólafs var Guðrún Járn-Skeggjadóttir; hún var dóttir höfðingja sem Ólafur hafði látið drepa. Hún gerði tilraun til að myrða Ólaf nóttina sem hún giftist honum; það mistókst og hún fór aftur til síns heima. Fjórða og síðasta kona Ólafs var Þyri Haraldsdóttir, systir Sveins tjúguskeggs Danakonungs, og hafði hún áður verið gift Búrisláfi Vindakonungi, sem verið hafði tengdafaðir Ólafs, en strokið frá honum. Ekki eru heimildir um nein börn Ólafs. Sumarið 1000 sigldi Ólafur til Vindlands á "Orminum langa" og fleiri skipum til að heimta eignir sem Þyri átti þar en þegar hann sigldi til baka sátu þeir fyrir honum við eyna Svoldur, Sveinn tjúguskegg, Ólafur skautkonungur Svíakonungur og Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl. Féll Ólafur konungur í Svoldarorrustu en sigurvegararnir skiptu Noregi á milli sín. Frá Ólafi er sagt í "Ólafs sögu Tryggvasonar" í "Heimskringlu". Kæna. Kæna af gerðinni "Laser Radial" á siglingu. Kæna eða julla er lítil, opin seglskúta með eitt mastur og lausan kjöl án kjölfestu. Til eru gríðarlega margar gerðir af kænum, allt frá stórum trapisubátum niður í litla toppera. Áður fyrr var algengt að nota kænur sem skipsbáta. Kænusiglingar eru vinsæl afþreying og íþrótt um allan heim. Orðið „kæna“ er haft um allavega og óskilgreinda smábáta eða smáfleytur með segli eða án. "Gaflkæna": er t.d. lítill (segl)bátur með gafli fyrir aftan skut. Kæna er einnig haft um austurtrog, sem notað er til að ausa vatni úr bátum (og jafnvel brunnum); einnig nefnt austurkæna. Í dag er algengasta merking orðsins opinn seglbátur með lausan kjöl án kjölfestu, andstætt við kjölbáta sem eru oftast seglbátar með bæði káetu og kjölfestu. Bátshlutar á kænu. Stjórnborði/bakborði, kulborði/hléborði, skutur, stefni, skrokkur (4), kjölur (5), fellikjölur, kjalarrauf, stýri, stýrisblað (6), stýrisframlenging, mastur (8), bóma (12), stórsegl (1), framsegl (2), belgsegl (3), bómustrekkjari (17), niðurhal, úthal, upphal, stórskaut (11), skaut, táband, festinál, klemma, hliðarstög (10), framstag (16), afturfaldur, framfaldur, segltoppur, sprek, fótur, kló, háls, auga, kjaftakellingar, vindvísir, veifa Jüri Ratas. Jüri Ratas (fæddur 2. júlí 1978 í Tallinn) er eistneskur stjórnmálamaður. Hann var borgarstjóri Tallinn á árunum 2005 - 2007. Hann er meðlimur í eistneska miðflokknum. Jüri Ratas er kvæntur og á þrjú börn. Ratas, Jüri Jeddah. Jeddah er borg í Sádí-Arabíu. Vænir. Vænir (sænska: "Vänern") er stærsta stöðuvatn í Suður-Svíþjóð, hvort sem litið er til flatarmáls (5648 km2) eða vatnsmagns (153 km3). Vænir er í 44 metra hæð yfir sjávarmáli og meðaldýpi þess er að meðaltali 27 metrar, en mesta dýpi mælist 106 metrar. Stærsta eyja í Væni er Þórseyja ("Torsö") og næst stærst er Kállandseyja (Kållandsö), en annars má finna þar yfir 22.000 litlar eyjar. Vænir er þriðja stærsta stöðuvatn Evrópu á eftir Ladogavatni og Onegavatni. Gautelfur. a> þegar vatni hefur verið hleypt á Gautelfur (sænska: "Göta älv") er lengsta og vatnsmesta á Svíþjóðar. Hún er afrennsli Vænis ("Vänern") í Kattegat (þ.e. Jótlandshaf) og er 91 km löng. Hún greinist í tvennt við Kungälv og er hafnarsvæði Gautaborgar við mynni syðri kvíslarinnar. Við Trollhättan eru stórir fossar í Gautelfi sem hafa verið virkjaðir. Trollhätteskurðurinn liggur framhjá fossunum og gerir Gautelfi skipgenga til Vænis. Link (The Legend of Zelda). Skjáskot úr leiknum The Legend of Zelda þar sem Link birtist fyrst Link er tölvuleikjapersóna og hetjan í The Legend of Zelda seríunni búin til af Shigeru Miyamoto. The Legend of Zelda er ein af stærstu og vinsælustu leikjasería frá Nintendo með yfir 47 milljón eintök seld árið 2006. Persónan birtist fyrst árið 1986 í The Legend of Zelda, þar sem hann var í tvívídd og í seinni tíð hefur hann verið í þrívídd. Link hefur einnig komið fram í öðrum leikjum frá Nintendo, myndasögum og meira að segja sjónvarpsþátt um The Legend of Zelda seríunna. Hippókratesareiðurinn. Hippókratesareiðurinn er samviskueiður lækna sem talið er að hinn forngríski læknir Hippókrates hafi skrifað. Flestar sögulegar heimildir benda til þess að Hippókrates hafi fært hann í letur sjálfur, en það er einnig mögulegt að einhver af stúdentum hans hafi skrifað hann með hliðsjón af viðhorfi Hippókratesar til læknavísindanna - og síðan kennt eiðinn við hann. Hippókratesareiðurinn, eða læknaeiðurinn eins og hann er einnig kallaður, er siðferðilegur leiðarvísir fyrir lækna sem snýr aðallega að því að áminna þá um að óvirða ekki sjúklinginn, að þeir bregðist ekki trúnaði hans og komi eins fram við alla, óháð kyni eða kynþætti. Í upprunnalegri mynd sinni er hann dálítið litaður af klíkustarfsemi eins og því að aðeins synir lækna og þeirra nánustu skuli læra fræðin, svona eins og til að vernda fagið með því að takmarka kennsluna aðeins við þá sem hægt er að treysta fyrir leyndardóminum. Íslenska útgáfan. Eiðurinn hefur tekið breytingum í áranna rás; sum atriði hafa horfið og önnur verið endurorðuð. Eiðurinn er því nokkuð mismunandi eftir löndum og jafnvel milli læknaskóla. Flestir læknaskólar láta þó nemendur sína skrifa undir einhverja útgáfu hans.Íslenska útgáfan af eiðnum var útfærð árið 1932 og rituð í sérstaka bók. Undir þau heitorð hafa nær allir læknar sem hafa útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands ritað nöfn sín. "Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna" Upprunaleg útgáfa Hippókratesareiðsins. Upprunalega útgáfan er lítið notuð nú á dögum; þar er meðal annars höfðað til grískra guða og gert ráð fyrir að læknisfræði tilheyri körlum en ekki konum. Einnig eru læknar hvattir til andstöðu gegn fóstureyðingum, líknardauða og dauðarefsingum, málefni sem öll eru mjög umdeild í flestum vestrænum nútímasamfélögum. Eiðurinn var skrifaður á forngrísku en er til á íslensku í þýðingu Valdemars Steffensen og yngri þýðingu Kristínar Ólafsdóttur. Prammi. Prammi eða flatbytna (einnig lekta eða fljótalekta) er flatbotna og grunnrist skip, oft langt og mjótt með flötum skut og lítinn gang. Íbúðarpramma (húsbáta) má t.d. sjá á Signu eða í síkjum Amsterdam sem og víðar. Það er einnig talað um pramma þegar átt er við vöruflutningafleka sem hafðir eru í slefi á eftir fljótabátum eða notaðir við dýpkunarstarfsemi í höfnum. Einnig eru til það sem kallaðir hafa verið herprammar, sem voru mikið notaðir á 18. öldinni, sér í lagi í Eystrasaltshafinu á meðan Napóleonsstyrjöldunum stóð. Hver prammi hafði 2-3 möstur og gat borið 10-20 fallbyssur. Rauð panda. Rauð panda (fræðiheiti: "Ailurus fulgens") er lítið spendýr, lítið stærra en köttur, sem lifir aðallega á jurtum. Rauð panda er með klær sem hægt er að draga inn að hluta og falskan þumal (líkt og risapanda) sem er aðeins framlenging á úlnliðnum. Rauð panda finnst í Himalajafjöllum í Indlandi, Nepal og Suður-Kína. Alþýðubankinn. Alþýðubankinn var íslenskur banki sem var stofnaður 5. mars 1971 upp úr Sparisjóði alþýðu sem hafði verið stofnaður 29. apríl 1967. Hlutverk bankans var að treysta atvinnuöryggi launafólks og styðja við starfsemi verkalýðsfélaga. Eigendur bankans voru Alþýðusamband Íslands og ýmis verkalýðsfélög. 3. janúar 1990 sameinaðist Alþýðubankinn Iðnaðarbankanum, Útvegsbankanum og Verzlunarbankanum sem mynduðu Íslandsbanka. Við framangreinda sameiningu sátu hinsvegar eftir talsverðir fjármunir í sjálfstæðu félagi, Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans. Framkvæmdastjóri þess 1997 til 2001 var Gylfi Arnbjörnsson. Misráðnar fjárfestingar Gylfa í Húsgagnahöllinni sem og rekstrarfélagi Nóatúns urðu þess valdandi að allt eigið fé EFA tapaðist. Bylgjan. Bylgjan er íslensk útvarpsstöð sem hóf útsendingar 28. ágúst 1986. Bylgjan er fyrsta löglega einkarekna útvarpsstöðin á Íslandi. Dagskrárgerðarfólk var blanda af reyndu fyrrum starfsfólki Ríkisútvarpsins og fólki sem var nýkomið úr námi. Björgólfur Guðmundsson. Björgólfur Guðmundsson (fæddur 2. janúar 1941) er íslenskur viðskiptamaður og fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands. Erlenda fjármálablaðið Financial Times lýsti honum sem áhrifamesta viðskiptamanni Íslands árið 2008. Þann 31. júlí 2009 var Björgólfur úrskurðaður gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur. Björgólfur er giftur (Margréti) Þóru Hallgrímsson, dóttur Hallgríms Fr. Hallgrímsson, forstjóra Skeljungs, og konu hans Margrétar Thors, og saman eiga þau Björgólf Thor Björgólfsson sem er einn af ríkustu mönnum Íslands. Í fyrri hjónaböndum átti Þóra fjögur börn, eitt með Hauki Clausen og þrjú með George Lincoln Rockwell. Börn Rockwells urðu síðar kjörbörn Björgólfs og kenndu sig við hann. Eitt þeirra var Margrét Björgólfsdóttir, sem lést af slysförum 1989, og stofnuðu Björgólfur og Þóra minningarsjóð í nafni hennar. Sjóðurinn tapaði stórum hluta eigna sinna í bankahruninu á Íslandi árið 2008. Ævi. Björgólfur gekk í Verslunarskóla Íslands. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands en hætti eftir tvö ár. Hann sat í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 1965-68, og síðar formaður sjálfstæðisfélagsins Varðar. Hann var framkvæmdastjóri Dósaverksmiðjunnar í nokkur ár en árið 1977 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Hafskips, íslensks flutningafyrirtækis sem varð gjaldþrota á níunda áratugnum. Óeðlileg viðskipti við Útvegsbankann voru gagnrýnd og Hafskipsmálið varð fyrirferðarmikið í umræðunni. Svo fór að Útvegsbankinn var lagður niður og eftir löng málaferli var Björgólfur dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi árið 1991. Þá hélt Björgólfur út til St. Pétursborgar í Rússlandi, árið 1993 og stofnaði drykkjarvöruverksmiðjuna Bravo Brewery ásamt syni sínum Björgólfi Thor og Magnúsi Þorsteinssyni. Í febrúar 2002 seldu þeir Heineken verksmiðjuna fyrir 400 milljónir dollara. Björgólfur sneri þá vellauðugur aftur til Íslands og var í forsvari svokallaðs Samson-hóps sem keypti 45,8% hlut í Landsbanka Íslands á 12,3 milljarða kr, en bankinn var einkavæddur í skrefum á árunum 1998-2003. Síðar kom þó í ljós að hluti kaupverðsins var fjármagnaður með láni frá Búnaðarbankanum. Björgúlfur sat í stjórn Landsbankans frá því í febrúar 2003 fram að bankahruninu. Hann eða þeir feðgar áttu hlut í fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum og voru mjög umsvifamiklir, meðal annars við kaup á fasteignum og lóðum í miðborg Reykjavíkur og ýmsar stórframkvæmdir, svo sem byggingu tónlistarhússins Hörpu. Árið 2005 var Björgólfur sæmdur Riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til viðskiptalífs og menningar. Árið 2006 stóð Björgólfur á bak við kaup Eggerts Magnússonar á enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham United F.C. og varð aðaleigandi þess. Í kjölfarið var Björgólfur skipaður heiðursformaður knattspyrnufélagsins. Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur Björgólfur verið gagnrýndur fyrir starfsemi bankans og tengsl sín við skattaskjól. Hefur hann látið lítið fara fyrir sér síðan þá. Helstu félög hans eru gjaldþrota eða bíða þess að verða tekin til skipta. Eignir Björgólfs voru metnar á $1.2 milljarða árið 2007, en 2008 féll hann af lista Forbes tímaritsins yfir helstu auðmenn veraldar. Þann 31. júlí 2009 var hann úrskurðaður gjaldþrota að eigin ósk. Gjaldþrot hans er hið langstærsta í Íslandssögunni. Kid Icarus. Boxið utan um Kid Icarus fyrir NES Kid Icarus er „platform“ tölvuleikur hannaður af TOSE Software Co., Ltd og gefin út af Nintendo fyrir Nintendo Entertainment System árið 1987. Hann er fyrsti af aðeins tveimur leikjum í Kid Icarus seríunni. Hann var endurútgefin fyrir Wii Virtual Console þann 23. febrúar 2007 í Evrópu. Opera (vafri). Opera er ókeypis og vinsæll vafri sem getur farið á vefsíður, sent og fengið tölvupóst, stjórnað tengiliðum, spjall á netinu og birt Widgets. Það er einnig til lítill símavafri frá Opera sem heitir Opera Mini sem er ókeypis. Kristján 7.. Kristján VII (29. janúar 1749 - 13. mars 1808) var konungur Dansk-norska ríkisins. Hann var sonur Friðriks V og Lovísu af Stóra-Bretlandi. Hann tók við völdum, tæplea 17 ára, þann 14. janúar 1766. Hann giftist barnungri frænku sinni, Karólínu Matthildi af Stóra-Bretlandi þann 8. nóvember sama ár. Hún var þá aðeins 15 ára. Tveimur árum seinna, eða 1768, eignaðist hún son sem síðar varð Friðrik VI og var hann eina barnið sem þau áttu saman. Kristján er sagður hafa sýnt góðar gáfur á barnsaldri en þegar hann eltist kom í ljós að hann gekk ekki heill til skógar. Sumir telja að hann hafi verið haldinn geðklofa og kom sjúkdómur hans sérstaklega fram þegar hann nálgaðist tvítugt og smám saman varð hann alveg óhæfur til að stýra ríkinu, en hann var mjög áhrifagjarn og auðvelt að stýra honum svo að ríkisstjórnin var að mestu í höndum ráðgjafa hans. Þess í stað stundaði konungur krárnar í Kaupmannahöfn ásamt vændiskonunni Anna Cathrine Benthagen (Stígvéla-Katrínu). Konungurinn ferðaðist til Þýskalands 1768 og í Altona kynntist hann lækninum Johann Friedrich Struensee. Fór svo vel á með þeim að Struensee fór með Kristjáni til Kaupmannahafnar og varð líflæknir hans. Þegar bólusóttarfaraldur hófst í Kaupmannahöfn haustið 1769 kom Struensee því til leiðar að fjöldi barna var bólusettur, þar á meðal Friðrik litli krónprins, og ávann sér hann þar með traust drottningarinnar og varð svo elskhugi hennar. Kristján konungur treysti æ meira á lækni sinn og Struensee stýrði landinu í raun 1770-1772 og hann og vinur hans, Enevold Brandt, einangruðu konunginn frá hirðinni. Í ársbyrjun 1772 tók hópur hirðmanna, þar á meðal Júlíana María ekkjudrottning, stjúpmóðir Kristjáns, og sonur hennar og hálfbróðir konungs, Friðrik erfðaprins, sig saman um að steypa Struensee og var hann handtekinn og tekinn af lífi ásamt Enevold Brandt en Karólína Matthildur drottning var send í útlegð og dó fáeinum árum síðar. Dóttir hennar, Lovísa Ágústa, sem næsta víst er að var dóttir Struensee þótt Kristján konungur gengist við henni, ólst aftur á móti upp við dönsku hirðina ásamt bróður sínum. Kristján var engan veginn fær um að taka við völdum að nýju og var hann í raun hafður áfram í einangrun. Fram til 1784 voru völdin í höndum ráðgjafa, einkum Ove Høegh-Guldberg, en þá gerði Friðrik krónprins hallarbyltingu og tók við völdum. Formlega var faðir hans þó áfram einvaldur og undirritaði öll lög; stundum neitaði hann að undirrita það sem sonur hans lagði fyrir hann en Friðrik beið þá átekta og lagði löginn aftur fyrir föður sinn seinna. Þá hafði Kristján gleymt öllu saman og undirskrifaði lögin. Kristján 7. var konungur í rúma fjóra áratugi þótt hann hefði í raun aldrei eiginleg völd og dó úr hjartaslagi í Rendsborg 13. mars 1808. Hann er grafinn í Hróarskeldudómkirkju. Eiríkur blóðöx. thumb Eiríkur 1. blóðöx (eða Eiríkur blóðöx Haraldsson) (d. 954) var konungur Noregs á árunum 933 til um 935. Hann var sonur Haraldar hárfagra og sá eini af fjölmörgum sonum hans sem átti tiginborna móður; hugsanlega var það ástæðan til þess að hann var gerður að nokkurs konar yfirkonungi en sumir bræður hans urðu fylkiskonungar og undir hann settir. Ekki heppnaðist það fyrirkomulag þó vel og samkvæmt því sem segir í Heimskringlu drap Eiríkur alls fimm bræður sína. Hann þótti óvæginn og var illa liðinn og einnig drottning hans Gunnhildur kóngamóðir, sem kölluð er Össurardóttir í Heimskringlu en hefur líklega verið dóttir Gorms gamla Danakonungs. Fáeinum árum eftir að Eiríkur tók við ríkjum kom hálfbróðir hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, til Noregs en hann hafði alist upp hjá Aðalsteini Englandskonungi. Eiríkur hraktist þá úr landi. Hann varð síðar konungur yfir Norðymbralandi á Englandi og sat í Jórvík (York), en Gunnhildur var mest í Danmörku með fjórum sonum þeirra, sem gerðu hvað eftir annað út herleiðangra og reyndu að ná ríkinu af Hákoni. Einn þeirra, Haraldur gráfeldur, varð Noregskonungur eftir lát Hákonar. Varberg. Varberg er hafnarborg á vesturströnd Svíþjóðar í samnefndu sveitarfélagi sem er í Hallandsfylki. Íbúar eru um 25 þúsund. Borgin er vinsæll ferðamannastaður og sérstaklega á sumrum þegar fólk sækir í baðstrendur. Varberg er líka einn af helstu heilsulindabæjum í Evrópu. Allan ársins hring er mikið af ungu fólki sem kemur til Varbergs til að stunda vindbrettasiglingar. Borgin hefur verið í byggð frá því á 11. öld og hefur um langt skeið verið miðstöð viðskipta. Þar var byggður kastali árið 1280, og um nokkurt skeið á 20. öld voru Monark- og Crescent-reiðhjól framleidd í borginni. Eiríkur Magnússon prestahatari. Eiríkur Magnússon prestahatari (4. október? 1268 – 13. júlí 1299) eða Eiríkur 2. var konungur Noregs frá 1280 til dauðadags en stjórn ríkisins var þó að mestu leyti í höndum norskra höfðingja alla tíð. Konungsstjórn Eiríks. Eiríkur kom til ríkis á tólfta ári, árið 1280, eftir föður sinn, Magnús 6. lagabæti, en móðir hans, Ingibjörg drottning, var dóttir Eiríks 4. plógpenings Danakonungs. Raunar hafði Magnús útnefnt Eirík meðkonung sinn þegar árið 1273 og um leið gert Hákon bróður hans að hertoga. Fyrstu árin var ríkinu stýrt af ekkjudrottningunni og hópi norskra höfðingja. Þau tókust á um völd við norsku kirkjuna og þess vegna hlaut Eiríkur auknefnið prestahatari þótt hann ætti raunar sjálfur ekki hlut að máli. Ingibjörg drottning hélt áfram um stjórnartaumana á meðan hún lifði, þótt Eiríkur teldist myndugur 1282, en hún dó 1287. Eiríkur varð fyrir slysi á unglingsárum þegar hann féll af hestbaki og er talið hugsanlegt að hann hafi orðið fyrir heilaskaða. Samkvæmt heimildum var hann ekki sérlega vel gefinn, jafnvel varla læs og skrifandi, og hann var veiklundaður og lítill skörungur. Þátttaka hans í stjórn ríkisins jókst lítið sem ekkert eftir lát móður hans, heldur réðu höfðingjarnir mestu. Þar voru þeir Auðunn Hugleiksson hestakorn og Bjarni Erlingsson fremstir í flokki. Eiríkur hélt verndarhendi yfir dönsku aðalsmönnunum sem dæmdir höfðu verið fyrir morðið á Eiríki klipping Danakonungi og þess hefur jafnvel verið getið til að hann — eða öllu heldur einhverjir aðalsmannanna sem stýrðu ríkinu í nafni hans — hafi átt þátt í morðinu. Hann herjaði á strendur Danmerkur frá 1289. Móðir hans hafði átt inni arf eftir föður sinn sem loks var samið um 1297 og Eiríkur fékk greiddan. Hann átti einnig í stríði við þýska Hansakaupmenn, fór halloka og þurfti að gjalda þeim stórfé. Hjónabönd og börn. Skömmu eftir að Eiríkur settist á konungsstól giftist hann Margréti, dóttur Alexanders 3. Skotakonungs og var markmiðið með því hjónabandi að bæta samskipti landanna, auk þess sem Margréti fylgdi umtalsverður heimanmundur. Hann var þá tæplega þrettán ára en hún tvítug, vel menntuð og ólík honum á allan hátt og greina heimildir frá því að hún hafi reynt að mennta mann sinn og kenna honum góða siði en orðið lítið ágengt. Hún dó af barnsförum vorið 1283 og var Eiríkur því orðinn ekkill og faðir fjórtán ára að aldri. Innsigli Eiríks konungs, framhlið og bakhlið. Dóttir þeirra Margrétar og Eiríks, Margrét, var eini eftirlifandi afkomandi Alexanders afa síns þegar hann dó 1286 og varð því Skotadrottning þriggja ára. Árið 1290 var gengið frá trúlofun hennar og prinsins af Wales (sem seinna varð Játvarður 2.) og sama ár var prinsessan send til Skotlands og átti að alast þar upp þar til hún væri reiðubúin að ganga í hjónaband. En skipið hreppti vont veður og Margrét litla, sem var ekki heilsuhraust, þoldi ekki sjóferðina og dó skömmu eftir að komið var í höfn. Eiríkur var einn af þeim fjórtán sem gerðu tilkall til skosku krúnunnar eftir lát hennar en varð ekkert ágengt. Seinni kona Eiríks var einnig skosk, Ísabella Bruce, systir Roberts Bruce, sem síðar varð konungur Skotlands. Þau áttu engan son, aðeins dótturina Ingibjörgu, sem giftist sænska hertoganum Valdimar Magnússyni. Þegar Eiríkur dó erfði Hákon háleggur bróðir hans ríkið því að bræður voru mun framar en skilgetnar dætur í erfðaröð norsku krúnunnar. Hákon var andstæða Eiríks á flestan hátt, vel menntaður og bókhneigður, dugmikill og sterkur stjórnandi. Helgarpósturinn. Helgarpósturinn var íslenskt vikublað sem kom fyrst út á árunum 1979 til 1988 og var svo endurvakinn 1994 og lifði þá til 1997. Rostungur. Rostungur öðru nafni rosmhvalur (fræðiheiti: "Odobenus rosmarus") er stórt hreifadýr sem lifir við sjó á Norðurslóðum. Af honum eru tvær undirtegundir, önnur í Norður-Atlantshafi sem nefnd er "Odobenus rosmarus rosmarus" og hin á hafssvæðunum við og á milli Alaska og austur Síberíu sem nefnd er "Odobenus rosmarus divergens". Lítill munur er á tegundunum en þó er Kyrrahafstegundin heldur stærri. Rostungar tilheyra ættbálknum rándýr (Carnivora) og ættinni hreifadýr (Pinnipedia]). Þeir eru eina tegundin í rostungaætt (Odobenidae). Orðið "Odobenus" er samansett úr "odous" (gríska og þýðir „tönn“) og "baino" (gríska og þýðir „ganga“), enda nota rostungar oft skögultennurnar til að draga sig upp á ísjaka. Einkenni. Kyrrahafsbrimlarnir eru milli 2,5 upp í 3,5 metra á lengd og vega milli 800 til 1700 kg. Kyrrahafsurturnar eru um 2,5 til 3 metrar á lengd og vega milli 400 til 1250 kg. Atlantshafsbrimlarnir eru um 3 metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg, urturnar eru um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg. Rostungar virðast vera nánast hárlausir séðir úr fjarlægð en svo er þó ekki. Þeir eru þaktir stuttu hári. Húðin er afar þykk, 4 til 5 sentimetrar. Undir henni er fimm til sex sentimetrar þykkt spiklag. Húð brimlana er sérlega þykk á hálsi og öxlum, sennilega til varnar í slagsmálum. Við fæðingu eru rostungarnir rauðbrúnir á litinn, allt eftir því sem þeir eldast lýsast þeir. Það er því hægt að aldursgreina þá eftir húðarlit. Rostungar eru með einkennandi stórar skögultennur (langar vígtennur) úr efri skolti. Bæði kynin hafa þessar löngu tennur en brimlarnir hafa þó oftast lengri og þykkari. Tennurnar eru oftast um 50 sm álengd en þó hafa mælst tennur sem hafa verið allt að 100 sm. Fullorðinstennurnar sjást hjá rostungskópunum um eins og hálfs árs aldur. Á eldri dýrum eru tennurnar oft orðnar slitnar og stundum brotnar. Skögultennurnar nota rostungarnir til að róta í hafsbotninum þegar þeir leita að æti, til að brjóta öndunarop í ísinn, til að vega sig upp á ísjaka og til varnar. Útbreiðsla. Blái liturinn sýnir útbreiðslu rostunga nú á tímum Lífshættir. Rostungar á leið upp í fjöru Rostungar fylgja ísröndinni eftir þegar að hún færist árstíðabundið, en hafast ekki við á óbrotnum lagnaðarís. Þeir kafa iðulega allt niður að 80 metrar dýpt en geta við sérstakar aðstæður kafað allt niður í 180 metra dýpi. Þeir geta verið í kafi upp undir 30 mínútur. Rostungar veiða einstaka sinnum fisk en lifa aðallega á botndýrum, aðallega botnhryggleysingjum eins og skeljar, skrápdýr, krabbadýr og þar að auki djúpsjávargróðri. Þeir róta upp botninum með skögultönnunum og leita uppi fæðuna með viðkvæmum grönunum. Einu náttúrulegu óvinir rostunga eru maðurinn, háhyrningar og hvítabirnir. Vitað er til að rostungar geti drepið hvítabirni. Rostungar geta orðið um 50 ára gamlir, brimlarnir verða kynþroska um það bil tíu ára en urturnar þegar við 4 – 7 ára aldur. Fengitími er í janúar – febrúar en kóparnir fæðast í maí. Látrin annaðhvort á ísjaka eða upp á landi. Yfirleitt fæða urturnar einungis einn kóp sem eru 100 sm við fæðingu og er um 50 kg á þyngd. Kópurinn er syntur þegar við fæðingu. Þeir lifa einungis á spenamjólkinni fyrstu sex mánuðina áður en þeir fara að éta aðra fæðu, þeir eru hins vegar ekki afvandir fyrr en við tveggja ára aldur. Veiðar. Rostungar hafa verið eftirsóknarverð veiðidýr frá örófi alda. Þeir gáfu af sér kjöt og spik, þykkar húðir og ekki síst verðmætar skögultennur. Einkum voru rostungar mikilvægur þáttur í lífi heimskautaþjóða sem Inuíta og Yupik. Vitað er að fyrir hina norrænu Grænlendinga á miðöldum voru rostungaafurðir einn mikilvægasti þátturinn í útflutningi þeirra til Evrópu. Var það annars vegar svo nefnd svarðreipi sem voru afar sterk og voru gerð þannig að rostungshúðin var skorin í langar lengjur. Hins vegar skögultennurnar sem seldar voru í Evrópu sem fílabein og notaðar voru í alls konar útskurð. Það var ekki fyrr en að Evrópumenn fara að nema land í Ameríku og síðar þegar veiðimenn vopnaðir skotvopnum fara að hefja veiðar sem að fer að ganga nær rostungastofninum. Var nánast einungis verið að að slægjast eftir skögultönnunum. Á 16. og 17. öld voru þúsundir rostunga veiddir árlega á svæðinu frá Labrador allt suður að Cape Cod. Við lok 19. aldar voru rostungarnir algjörlega horfnir sunnan við Labrador og var þá leitað norðar til veiða. Til marks um fjölda veiðidýra má nefna að við strendur Baffins-eyju í Kanada voru um 175 þúsund rostungar drepnir á árunum 1925 til 1931. Var svo komið um miðja 20. öld að Atlantshafsstofninn var nánast útdauður og var þá friðaður. Hefur hann átt erfitt að ná sér á strik aftur og er enn brot af upphaflegu fjölda. Áætlað er að í Atlantshafsstofnunum sé nú 22.500 rostungar (sex þúsund við Svalbarða og Rússlandsstrendur, tólf þúsund í Kanada og fjögurþúsund og fimmhundruð við Grænland). Hins vegar er Kyrrahafsstofninn mun stærri eða um 200 þúsund dýr. Það eru einungis frumbyggjar svo sem inuítar sem mega veiða rostunga og þá undir ströngu eftirliti. Má meðal annars nefna veiðiheimild fyrir vestur Grænland er 67 dýr fyrir árið 2007. Rostungar við Ísland. Rostungar eru nú á tímum sjaldgæfir flækingar við Íslandsstrendur. Talsverðar beinaleifar rostunga hafa þó fundist á Íslandi, einkum á Vesturlandi. Það er því sýnt að rostungar hafi verið tíðir flækingar við strendur Íslands allt fram á 19. öld en aðallega á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og sunnanverðum Faxaflóa. Engar ritaðar heimildir eru til um rostunga eða rostungaveiðar á landnámsöld. Komur rostunga hingað verða síðan aðeins til sem frásagnir af undantekningum. Hins vegar eru allnokkur örnefni sem benda til þessa að rostungar hafi ekki verið mjög sjaldgæf sjón hér við land fyrr á öldum. Rostungur var í upphafi Íslandsbyggðar nefndur rosmhvalur og eru "Romshvalanes" (eða "Rosmhvalanes") á fleiri en einum stað, þar að auki nokkur "Hvallátur" sem talið er að eigi við rostunga en ekki hvali. Rosmhvalir í fornsögum Íslendinga. Þótt rosmhvalur sé ekki nefndur sem lífvera í fornsögum Íslendinga kemur nafnið fram á nokkrum stöðum í staðarnafninu Rosmhvalanes. Núna gengur þetta nes undir nafninu Reykjanes. Haraldur blátönn. Konungsríki Haraldar blátannar (rautt) og skattlönd hans og bandalagsríki (fjólublátt). Haraldur blátönn (lést haustið 986) var konungur í Danmörku en síðar einnig konungur yfir hluta af Noregi. Hann var sonur Gorms gamla og Þyri danabótar og reisti eftir þau Jalangurssteininn stærri. Óvíst er hvenær hann fæddist en Sveinn Ástríðarson sagði Adam af Brimum seinna að hann hefði verið konungur í 50 ár. Það er þó óvíst en hann gæti hafa verið konungur með föður sínum, sem dó líklega um 958, e.t.v frá því um 940. Árið 948 sendi þýski keisarinn Ottó 1. þrjá biskupa til Danmerkur til trúboðs og hefur það verið talið benda til þess að þá hafi Haraldur ráðið þar mestu, fremur en Gormur faðir hans, sem var mjög andsnúinn kristni. Haraldur var þó enn heiðinn þegar foreldrar hans dóu því hann lét gera yfir þau hauga að heiðnum sið. Líklega hefur hann tekið kristni fáum árum síðar því að Jalangurssteinninn er talinn reistur um 965 og þar er Haraldur sagður hafa lagt undir sig Danmörku alla og Noreg og kristnað Dani. Raunar er hann sagður hafa verið þvingaður til þess af Ottó keisara að taka kristni en önnur sögn segir að hann hafi tekið kristni eftir að maður að nafni Poppo bar járn til að sanna að nýja trúin væri betri en sú gamla. Haraldur lét skírast ásamt fjölskyldu sinni, hélt trúna vel og stofnaði biskupssetur að Rípum, í Slésvík og Árósum. Eftir að Eiríkur blóðöx Noregskonungur dó landflótta í Englandi 954 leitaði Gunnhildur kona hans og synir þeirra á náðir Haraldar og var tekið vel á móti þeim. Haraldur veitti Eiríkssonum lið í baráttu þeirra við Hákon Aðalsteinsfóstra og eftir að hann féll um 961 settist Haraldur gráfeldur Eiríksson á konungsstól en var þó skattkonungur Haraldar. Um 970 sveik Haraldur blátönn svo nafna sinn, felldi hann og náði völdum í Noregi. Hann setti Hákon Sigurðarson Hlaðajarl yfir Noreg en hann sagði sig fljótt undan yfirráðum hans og greiddi engan skatt. Tilraunum Haraldar til að ná Noregi aftur lauk endanlega með orrustuna í Hjörungavogi 986. Adam frá Brimum segir að kona Haraldar hafi heitið Gunnhildur en á dönskum rúnasteini kemur fram að hann hafi verið kvæntur Tófu, dóttur Mistivojs fursta af Vindlandi. Börn hans voru Sveinn tjúguskegg Danakonungur, Hákon, Þyri, sem giftist Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi, og Gunnhildur, sem giftist til Englands. Haraldur varð gamall og síðustu árin snerist Sveinn sonur hans gegn honum og gerði uppreisn. Haraldur beið lægri hlut og var settur af. Hann særðist, flúði til Jómsborgar og dó þar skömmu síðar af sárum sínum. Lík hans var flutt til Danmmerkur og lagt til hvílu í Hróarskeldudómkirkju, sem hann hafði sjálfur látið reisa. Gottskálk grimmi Nikulásson. Gottskálk grimmi Nikulásson: (1469 - 8. desember 1520) var norskur biskup á Hólum frá 1496 til dauðadags. Hann var bróðursonur Ólafs Rögnvaldssonar, sem var næsti biskup á undan honum. Bróðir Gottskálks var Guttormur Nikulásson lögmaður í Björgvin. Gottskálk var dugmikill og stjórnsamur og bætti mjög við jarðeignasafn og dýrgripi biskupsstólsins. Hann þótti harðdrægur í viðskiptum og hefur hlotið harðan og ef til vill óréttlátan dóm í íslenskri sögu, sem meðal annars má sjá af viðurnefni því sem hann hefur hlotið. Gottskálk átti í deilum við ýmsa höfðingja, meðal annars Jón Sigmundsson lögmann vegna meintra fjórmenningsmeinbuga á hjúskap Jóns og Bjargar Þorvaldardóttur og fékk Jón dæmdan í miklar sektir og bann í báðum biskupsdæmum á vafasömum forsendum. Fylgikona Gottskálks var Guðrún, laundóttir Eiríks slógnefs Loftssonar Guttomsssonar. Þau áttu saman tvö börn, Odd Gottskálksson og Guðrúnu Gottskálksdóttur. Með Valgerði Jónsdóttur átti Gottskálk dótturina Kristínu, sem fyrst var gift Þorvarði Erlendssyni lögmanni á Strönd í Selvogi og síðar Jóni Einarssyni sýslumanni á Geitaskarði. Næsti biskup á eftir Gottskálki grimma var Jón Arason, sem var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi. Gottskálk og þjóðtrúin. Það er sagt að Rauðskinna hafi verið grafin með Gottskálki, en af þeirri bók átti að vera hægt að læra svo ramma galdra, að hægt væri að sigra kölska sjálfan og ná valdi yfir honum. Nótt eina á Gottskálk að hafa komið upp úr gröf sinni á Hólum og lesið upp úr þeirri „bók máttarins“ en blöðin undist saman og hrundu niður í gröfina eins og aska. Galdra-Loftur á að hafa reynt að vekja Gottskálk upp til að reyna að komast yfir Rauðskinnu. Gísli Konráðsson nefnir þrjá skólasveina, sem voru í vitorði með Lofti. Skýrir þjóðsagan nákvæmlega frá því hvernig Loftur vakti upp alla hina fyrri Hólabiskupa og hvernig honum heppnaðist að fá Gottskálk til að rísa upp úr gröf sinni með Rauðskinnu. En bráðlæti Lofts sjálfs varð honum að falli, því strax þegar hann sá hana, þreif hann til hennar, en það var of snemmt og af misskilningi hringdi einn af félögum Lofts klukkunum og Gottskálk komst í gröfina með Rauðskinnu með sér. .ad. .ad er þjóðarlén Andorra. Því er stjórnað og úthlutað af Servei de Telecommunicacions d'Andorra. .af. .af er þjóðarlén Afganistan. Því er stjórnað og úthlutað af AFGNIC. .al. .al er þjóðarlén Albaníu. Því er stjórnað og úthlutað af Enti Rregullator i Telekomunikacioneve. .se. .se er þjóðarlén Svíþjóðar og er stjórnað af NIC-SE. Tapísjke. Tapísjke (kz. тәпішке) er gamall kasakskur skór sem er núna notað sem inniskór. Skilaboð til Söndru. "Skilaboð til Söndru" er íslensk kvikmynd í leikstjórn Kristínar Pálsdóttur. Kvikmyndin var frumsýnd laugardaginn 17. desember 1983 kl. 17 í Háskólabíói. Myndin var gerð eftir samnefndri skáldsögu Jökuls Jakobssonar og fjallaði um gaman og alvöru í lífi Jónasar, rithöfundar á tímamótum. Fjórmenningsmeinbugir. Fjórmenningsmeinbugir voru ágallar á hjúskap hjóna, sem fólust í því að þau væru skyldari en kirkjunni þótti góðu hófi gegna. Bann var lagt við giftingu hjóna ef þau voru skyldari en fimmmenningar. Þegar svo stóð á að hjón væru fjórmenningar að skyldleika var talað um fjórmenningsmeinbugi. Slíkt var þó aldrei til vandræða ef hjónaefnin voru tilbúin að greiða kirkjunni stórfé til að fallast á hjúskapinn þrátt fyrir skyldleikann. Skammdegi. "Skammdegi" er íslensk kvikmynd. Stella í orlofi. Stella í orlofi er íslensk kvikmynd. Hún fjallar um Stellu sem fer í sumarbústað með sænskum alka sem var á leiðinni í meðferð hjá SÁÁ. Stella fer í ferðina sem að hún heldur að sé laxveiðiferð sem maðurinn hennar ætlaði í, en í raun ætlaði maðurinn að halda fram hjá henni. Það er ástæða þess að hún tekur vitlausa manneskju með sér. Hún gefur Svíanum mjög mikið áfengi og kemur honum oft á óvart enda gengur eiginlegarállt á afturfótunum hjá þeim. Það endar með því að hann vill ekki áfengið. Jón Gerreksson. Jón Gerreksson (Jöns Gerekesson eða Jeremias Jeriksen og latnesk útgáfa af nafni hans var: Johannes Gerechini) (1378? - 20. júlí 1433) var danskur biskup í Skálholti frá 1426. Jón er einna þekktastur fyrir að hafa verið settur í sekk við Brúará og bundinn við steinn og honum drekkt í ánni. Sveinar hans voru síðan drepnir hvar sem í þá náðist, og voru þeir allir dysjaðir þar sem kallað er Íragerði. Æviágrip. Jón Gerreksson var sonur Gereke Jensen Lodehat en föðurbróðir Jóns, Peter Lodehat, var biskup í Hróarskeldu og kanslari Margrétar drottningar. Jón stundaði nám við háskólana í Köln og Prag og var síðan prestur í Árósum. Hann var vinur Eiríks af Pommern sem gerði hann að kanslara sínum og fékk árið 1408 Gregoríus XII páfa til að gera hann að erkibiskupi í Uppsölum í Svíþjóð þrátt fyrir mótmæli kórbræðra. Þar er Jón sagður hafa borist mikið á og haldið góðar veislur. Hann var lýstur margfaldlega brotlegur við skírlífisreglur kirkjunnar, enda hafði hann tekið unga konu frá Stokkhólmi sem frillu sína og átti með henni tvö börn, og árið 1421 dæmdi páfi hann óhæfan til æðri klerkþjónustu, enda naut hann þá ekki lengur hylli konungs. Næst verður Jóns vart í páfagarði 1426. Hann fékk uppreisn æru hjá Marteini 5. páfa, þá var honum veitt Skálholtsbiskupsdæmi sama ár og borgaði drjúgan sjóð fyrir. Trúlega hefur Eiríkur af Pommern haft hönd í bagga og átti Jón að stemma stigu við verslun Englendinga á Íslandi og styrkja konungsvaldið. Um þessar mundir voru áhrif Englendinga mjög mikil á Íslandi og enskur biskup, Jón Vilhjálmsson Craxton, var vígður til Hóla sama ár. Vera Jóns á Íslandi. Jón Gerreksson kom ekki til Íslands fyrr en árið 1430 eftir viðkomu í Englandi. Hann kom á eigin skipi og hafði sveinalið með sér. Honum virðist hafa verið vel tekið í fyrstu en sveinar hans þóttu óeirðasamir ribbaldar og urðu fljótt mjög óvinsælir og biskup sömuleiðis. Íslendingar samþykktu á Alþingi 1431 að hann skyldi senda sveinana úr landi. Var það Ívar hólm Vigfússon á Kirkjubóli á Miðnesi sem harðast beitti sér í því máli. Biskup lét þó ógert að senda sveinana burt. Til einhverra átaka mun hafa komið milli sveinanna og Englendinga árið 1432 en annars gekk biskupi illa það ætlunarverk að hindra verslun þeirra. Engar samtímaheimildir greina frá aðdraganda þess að biskup var drepinn og er allt mjög óljóst um það en sagt er að fyrirliði biskupssveina hafði beðið Margrétar Vigfúsdóttur (1406 - 1486), systur Ívars, en verið synjað. Hann á þá að hafa reiðst, farið með flokk biskupssveina suður að Kirkjubóli, þar sem Margrét var hjá bróður sínum, og ætlaði að brenna hana inni, en eins og áður segir bar þeim fleira á milli. Ívar var skotinn til bana en Margrét komst undan og flúði norður í Eyjafjörð. Sagnir segja að hún hafi svarið að giftast þeim sem hefndi brennunnar. Helstu andstæðingar biskups eru sagðir hafa verið þeir Teitur ríki Gunnlaugsson í Bjarnanesi í Hornafirði og Þorvarður Loftsson á Möðruvöllum. Biskup lét handtaka báða og flytja í Skálholt en hvers vegna er ekki vitað. Hann hafði þá að sögn í myrkrastofu og lét þá berja fisk og vinna önnur störf sem þeim þótti lítil virðing að. Þorvarður slapp úr varðhaldinu haustið 1432 en Teitur ekki fyrr en um vorið. Liðssöfnuður andstæðinga Jóns. Þorvarður, Teitur og Árni Einarsson Dalskeggur söfnuðu liði og fóru um sumarið á Þorláksmessu (20. júlí) að biskupi og mönnum hans í Skálholti, drógu biskup út úr kirkjunni, drápu sveina hans sem í náðist, settu Jón í poka og drekktu honum í Brúará, og var það gert svo að ekki væri hægt að segja að þeir hefðu úthellt blóði biskups. Ekki er að sjá að nein refsing hafi komið fyrir verkið. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur hefur sett fram þá kenningu að morðið á Jóni hafi verið pólitísk aðgerð runnin undan rifjum Englendinga og er þá ekki ólíklegt að Jón Hólabiskup hafi tengst því á bak við tjöldin, enda hafði Loftur Guttormsson faðir Þorvarðar verið helsti stuðningsmaður hans. Svo mikið er víst að ekki virðist biskup hafa gert minnstu tilraun til að beita valdi kirkjunnar gegn þeim sem drepið höfðu starfsbróður hans og saurgað kirkjuna. Þorvarður og Margrét giftust 1436, bjuggu á Möðruvöllum og voru sögð auðugustu hjón landsins á sinni tíð. Magnús Jónsson (veðurfræðingur). Magnús Jónsson (fæddur á Sauðárkróki, 2. júlí 1948) er íslenskur veðurfræðingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1968 og 1. stigi í stærðfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands 1970. Stundaði nám í veðurfræði við háskólann í Uppsölum 1975-1977 og við háskólann í Stokkhólmi 1977-1979 (fil.kand). Framhaldsnám í veðurfarsfræði við Uppsalaháskóla 1979. Gegndi starfi veðurstofustjóra frá ársbyrjun 1994 til ársloka 2008. Stuttur Frakki. "Stuttur Frakki" (enskur titill "Behind Schedule") er fyrsta kvikmynd Gísla Snæs Erlingssonar í fullri lengd, og var gerð 1992. Hún segir í stuttu máli frá Rúnari (Hjálmar Hjálmarsson) sem ætlar að halda stórtónleika í Laugardalshöllinni með mörgum af helstu hljómsveitum Íslands. Hann hefur fengið André (Jean Philippe-Labadie), fulltrúa tónlistarútgefanda frá Frakklandi, til Íslands og í því skyni að velja bestu hljómsveitina. Hjólin fara þó að snúast þegar André villist í Reykjavík og Rúnar virðist ekki geta haft upp á honum fyrir tónleikana. Friðrik Erlingsson, handritshöfundur myndarinnar, hefur sagt að hann hafi upphaflega ætlað að gera heimildarmynd um tónlistina á Íslandi sem átti að verða einhverskonar framhald á heimildarmyndarinni Rokk í Reykjavík. Hann hafi þó fljótlega hætt við og ákveðið að gera leikna kvikmynd í staðinn. Titill myndarinnar er orðaleikur, þar sem hann getur hvortveggja þýtt að André sé stuttur maður sem kemur frá Frakklandi og hins vegar stutta yfirhöfn (þ.e.a.s. frakka). Páll Bergþórsson. Páll Bergþórsson (fæddur í Fljótstungu á Hvítársíðu 13. ágúst 1923) er íslenskur veðurfræðingur. Stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944, nám við verkfræðideild Háskóla Íslands 1944-1946, próf í veðurfræði við "Sveriges Meteorologiska och hydrologiska Institut" 1949, fil. kand í veðurfræði 1955. Veðurstofustjóri frá 1989 til ársloka 1993. Ein stór fjölskylda. "Ein stór fjölskylda" er íslensk kvikmynd. Marteinn Einarsson. Marteinn Einarsson (d. 7. október 1576) var biskup í Skálholti frá 1548-1556 og var annar lútherski biskupinn þar. Marteinn var frá Stað á Ölduhrygg, sonur Einars Ölduhryggjarskálds Snorrasonar, sem þar var prestur frá því um 1500 til dauðadags 1538, en móðir hans var Ingiríður Jónsdóttir, systir Stefáns Skálholtsbiskups. Einar Ölduhryggjarskáld átti fjölda barna með að minnsta kosti þremur konum. Alsystir Marteins var Guðrún, kona Daða Guðmundssonar í Snóksdal, en hálfbræður hans voru Gleraugna-Pétur Einarsson, sýslumaður og prestur í Hjarðarholti, og Moldar-Brandur Einarsson, sýslumaður á Snorrastöðum og í Hítarnesi. Marteinn var níu ár við nám í Englandi (ein systir hans giftist enskum manni og bjó þar), kom síðan aftur til Íslands að námi loknu, var tvö ár við kaupmennsku í Grindavík en var orðinn prestur árið 1533 og tók við Stað á Ölduhrygg eftir föður sinn stuttu síðar. Hann var síðan officialis Skálholtskirkju 1538 og var kjörinn Skálholtsbiskup 1548 er Gissur Einarsson lést. Fór hann þá til Danmerkur að fá vígslu en Jón Arason sendi Sigvarð Halldórsson ábóta í Þykkvabæ sem fulltrúa kaþólskra manna. Ekkert mark var þó tekið á því og þótt eitthvað þætti skorta á guðfræðikunnáttu Marteins biskupsefnis var bætt úr því með því að láta hann sitja á skólabekk í hálft ár. Að því búnu var Marteinn vígður 7. apríl 1549 og fór svo heim til Íslands um sumarið. Hann var handtekinn af sonum Jóns Arasonar, Birni og Ara, haustið 1549 og var um eitt ár í haldi, lengst af á Möðrufelli hjá Ara. Jón biskup orti gamanbrag um handtökuna. Þegar Daði í Snóksdal fangaði Jón og syni hans haustið 1550 voru þeir fluttir í Skálholt, þar sem Marteinn var aftur tekinn við völdum, og höggnir þar. Marteinn gegndi biskupsembættinu næstu árin og gaf meðal annars árið 1555 út fyrstu íslensku sálmabókina sem enn er til og þýddi marga sálma sjálfur. Hann sagði af sér 1557 þar sem honum þótti konungur ganga um of á eignir og réttindi stólsins. Hann settist aftur að á Stað og hélt áfram prestskap til 1569 en þá sagði hann af sér embætti og bjó eftir það í Álftanesi á Mýrum til æviloka. Marteinn þótti fær málari og fékkst við kirkjuskreytingar, er sagður hafa málað kirkjurnar bæði á Hólum og í Skálholti, en ekkert hefur varðveist af málaralist hans. Kona Marteins hét Ingibjörg en föðurnafn hennar er óþekkt. Synir þeirra voru Jón Marteinsson sýslumaður í Árnesþingi og Halldór Marteinsson bóndi í Álftanesi og á Seljalandi. Dæturnar voru Guðrún prestsfrú á Melum í Melasveit og Ingiríður, kona Ólafs Bagge Janssonar fógeta á Bessastöðum. Einnig átti Marteinn synina Þórð prest í Hruna, sem giftist Katrínu Hannesdóttur ekkju Gissurar biskups Einarssonar, og Einar prest á Stað á Ölduhrygg. Stikkfrí. "Stikkfrí" er íslensk fjölskyldumynd eftir Ara Kristinsson. Hún fjallar um tvær ungar stelpur sem ræna óvart ungu barni sem þær voru að passa. Hlynur Sigtryggsson. Hlynur Sigtryggsson (fæddur á Núpi í Dýrafirði 5. nóvember 1921, dáinn 14. júlí 2005) var íslenskur veðurfræðingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942, og stundaði nám í verkfræði við verkfræðideild Háskóla Íslands 1942-1943. Að auki lauk hann M.A. prófi frá "University of California at Los Angeles" 1946 og stundaði nám við "Meteorologiska Institutionen vid Stockholms Högskola" 1955-1957. Hann var veðurstofustjóri frá 1963 til 1989. Popp í Reykjavík. "Popp í Reykjavík" er íslensk heimildarmynd. Hún er sjálfstætt og óháð framhald af "Rokk í Reykjavík". Teresía Guðmundsson. Teresía (Anda) Guðmundsson (fædd 15. mars 1901 í Noregi, dáin 1983) var norskur veðurfræðingur. Hún nam veðurfræði og skyldar greinar (með hléum) við Oslóarháskóla 1921-1937. Cand. mag 1934 í stærðfræði, efnafræði og stjörnufræði. Hún lauk embættisprófi í veðurfræði (cand. real) 1937 og gegndi starfi veðurstofustjóra frá 1946 til 1963. Þorkell Þorkelsson. Þorkell Þorkelsson (fæddur á Frostastöðum í Skagafirði 6. nóvember 1876, dáinn 7. maí 1961) var íslenskur eðlisfræðingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1898 og "cand. phil" í forspjallsvísindum 1899. Þá lauk hann einnig "cand. mag" í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1903. Hann gegndi starfi Veðurstofustjóri frá 1920 til 1946. Myrkrahöfðinginn. "Myrkrahöfðinginn" er íslensk söguleg kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson. Hrafn byggir hana lauslega á "Píslarsögu" séra Jóns Magnússonar þumlungs sem segir frá þeim galdraofsóknum sem Jón taldi sig verða fyrir frá nágrönnum sínum (sjá Kirkjubólsmálið). Hrafn vinnur út frá þeirri hugmynd að Jón hafi ekki beinlínis verið sturlaður heldur hafi tíðarandinn verið litaður af galdraótta. Gæsapartí. "Gæsapartí" er fyrsta og eina kvikmynd Böðvars Bjarka Péturssonar. Regína (kvikmynd). "Regína" er íslensk dans- og söngvamynd eftir Maríu Sigurðardóttur eftir handriti Sjóns og Margrétar Örnólfsdóttur. Hún var frumsýnd 4. janúar 2002. Lárentíus Kálfsson. Lárentíus Kálfsson (10. ágúst 1267 – 16. apríl 1331) var biskup að Hólum 1324 – 1331, eða í 7 ár. Helsta heimildin um ævi hans og störf er Lárentíus saga, sem er almennt talin rituð af Einari Hafliðasyni. Foreldrar: Kálfur (systursonur Þórarins kagga prests á Völlum í Svarfaðardal), og Þorgríma Einarsdóttir. Þau bjuggu um tíma á Efra-Ási í Hjaltadal. Lárentíus lærði fyrst hjá Þórarni kagga ömmubróður sínum á Völlum, síðan hjá Jörundi biskupi á Hólum. Vígðist prestur 1288 og var skólameistari á Hólum næstu þrjú ár. Var prestur að Hálsi í Fnjóskadal 1292–1293. Fór síðan að Hólum, hrökklaðist þaðan vegna ágreinings við biskup og fór í Skálholt og tók Árni Þorláksson biskup við honum. Fór til Noregs 1294, var í þjónustu Jörundar erkibiskups næstu ár og tók þá þátt í deilum hans við kórsbræður. Var sendur til Íslands 1307 til eftirlits með kristnihaldi, en var illa tekið. Fór aftur til Noregs 1308, var þá handtekinn af kórsbræðrum í Niðarósi og settur í fangelsi, og sendur aftur til Íslands vorið 1309. Var hann um tíma í Þykkvabæjarklaustri, síðan á Þingeyrum og víðar við kennslu. Sættist við Auðun biskup rauða haustið 1319 og kenndi dóttursonum hans. Við fráfall Auðunar biskups 1322, varð Lárentíus eftirmaður hans sem biskup á Hólum, vígður 1324. Lárentíus var annálaður fyrir góða fjárgæslu og ölmusumildi. Hann var vel að sér í kirkjulögum og siðavandur, áminnti jafnt háa sem lága, sem létu sér það lynda. Hann stofnsetti m.a. prestaspítala á Kvíabekk í Ólafsfirði. Um hann er Lárentíus saga biskups. Sonur Lárentíusar, með norskri konu, var Árni Lárentíusson, síðar munkur á Þingeyrum. Stella í framboði. "Stella í framboði" er íslensk kvikmynd. Hjaltlandseyjar. Hjaltlandseyjar (skoska: Ȝetland/Zetland), (enska: Shetland) er eyjaklasi á milli Færeyja, Noregs og Skotlands. Hjaltlandseyjar eru 1466 km² að stærð. Stærsta eyjan í eyjaklasanum heitir "Mainland" (Meginland) og er þriðja stærsta eyja Bretlands, 374 km² að stærð. Höfuðstaður Hjaltlandseyja heitir Leirvík ("Lerwick") og þar búa um það bil 7.500 manns. Um árið 875 tók Haraldur hárfagri Hjaltlandseyjar undir sig, og voru eyjarnar lengi undir stjórn Norðmanna. Varði goes Europe. "Varði goes Europe" er íslensk heimildarmynd. Suðureyjar. Kort af Skotlandi Suðureyjar (enska: "Hebrides", gelíska: "Innse Gall") er eyjaklasi við vesturströnd Skotlands. August Immanuel Bekker. August Immanuel Bekker (21. maí 1785 – 7. júní 1871) var þýskur textafræðingur og fornfræðingur. Æviágrip. Hann hlaut menntun í fornfræði við háskólann í Halle undir leiðsögn Friedrichs Augusts Wolf, sem taldi Bekker efnilegasta nemanda sinn. Árið 1810 var hann skipaður prófessor í heimspeki við Berlínarháskóla. Á árunum 1810 til 1821 ferðaðist hann víða um Frakkland, Ítalíu, England og Þýskaland og rannsakaði forn handrit og viðaði að sér efni til að nota í ritstjórnarvinnu sinni. Eitthvað af rannsóknum hans birtist í "Anecdota Graeca", (1814-1821) en helstu afrek hans voru útgáfur hans á textum hinna ýmsu fornu höfunda. Hann fékkst við nánast alla höfunda forngrískra bókmennta að harmleikjaskáldum og lýrískum skáldum undanskildum. Hann er einkum þekktur fyrir útgáfu sína á verkum Aristótelesar (1831-1836) en fyrir útgáfur sínar á verkum Platons (1816-1823), attísku ræðumönnunum (1823-1824), Aristófanesar (1829) og býsönskum sagnariturum í 25 bindum ("Corpus Scriptorum Historiae Byzantinae"). Einu latnesku höfundarnir sem hann fékkst við voru Livius (1829-1830) og Tacitus (1831). Bekker fékkst einungis við textafræði og textarýni og hélt sig handritin sjálf. Hann lagði lítið af mörkum til allmennrar fræðilegrar umræðu. Bekker-tölur eru oft notaðar í fræðilegum útgáfum verka til þess að vísa til staða í verkunum. Heimild. Bekker, August Immanuel Bekker, August Immanuel Jasper Griffin. Jasper Griffin (fæddur 29. maí 1937) er breskur fornfræðingur og textafræðingur og var prófessor í grískum og latneskum bókmenntum við háskólann í Oxford from 1992 til 2004. Griffin las fornfræði við Balliol College, Oxford (1956-1960) og var Jackson-félagi við Harvard University (1960-61). Þegar hann sneri aftur til Oxford varð hann Dyson-rannsóknarfélagi við Balliol College (1961-63), og kenndi fornfræði (1963-2004). Jasper Griffin hefur verið kvæntur Miriam T. Griffin (fædd Dressler) í yfir fimmtíu ár, en hún er einnig markverður fornfræðingur. Ritstjórn. Griffin, Jasper Griffin, Jasper Geoffrey Kirk. Geoffrey Stephen Kirk (3. desember 1921 – 10. mars 2003) var breskur fornfræðingur og textafræðingur. Hann er þekktur fyrir rit sín um frumherja grískrar heimspeki, forngrískar bókmenntir og gríska goðafræði. Kirk hlaut menntun sína við Rossall School og Clare College, Cambridge. Kirk gerði hlé á námi sínu í Cambridge til þess að gegna herþjónustu. Hann gekk í breska sjóherinn og var lengst af á Eyjahafi. Hann sneri aftur til Cambridge árið 1946 og brautskráðist. Kirk hlaut rannsóknarstyrk við Trinity Hall, Cambridge að námi sínu loknu en varð síðar lektor. Hann varð Regius prófessor í grísku árið 1974 en settist i helgan stein árið 1982. Ritstjórn. Kirk, G.S. Kirk, G.S. John Dewar Denniston. John Dewar Denniston (1887 – 1949) var breskur fornfræðingur og textafræðingur. Hann var félagi á Hertford College, Oxford frá 1913 til æviloka. Helstu ritverk. Denniston Denniston W.K.C. Guthrie. William Keith Chambers Guthrie (1. ágúst 1906 – 1981) var skoskur fornfræðingur og heimspekisagnfræðingur. Hann er þekktastur fyrir rit sitt "History of Greek Philosophy" í sex bindum. Guthrie hlaut menntun sína við Dulwich College og Trinity College, Cambridge, þaðan sem hann brautskráðist 1928. Hann varð Laurence-prófessor í fornaldarheimspeki við University of Cambridge. Heimildir. Guthrie, William Keith Chambers Guthrie, William Keith Chambers Robin Osborne. Robin Osborne (fæddur 1957) er enskur fornfræðingur og fornaldarsagnfræðingur. Osborne sérhæfir sig í sögu Grikklands hins forna, bæði stjórnmálasögu og listasögu. Hann kennir fornfræði við King's College, Cambridge. Osborne er í ritstjórn ýmissa fræðitímarita, svo sem "Journal of Hellenic Studies", "Journal of Mediterranean Archaeology" og "American Journal of Archaeology". Ritstjórn. Osborne, Robin Osborne, Robin Adolf Kirchhoff. Johann Wilhelm Adolf Kirchhoff (6. janúar 1826 í Berlín – 26. febrúar 1908) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Árið 1865 var hann skipaður prófessor í klassískri textafræði við Humboldt-háskólann í Berlín. Verk um áletranir og handritafræði. Hann ritstýrði einnig síðari hluta 4. bindis af "Corpus Inscriptionum Graecarum" (1859) og 1. bindi af "Corpus Inscriptionum Atticarum" (1873). Heimild. Kirchhoff, Johann Wilhelm Adolf Kirchhoff, Johann Wilhelm Adolf Hermann Bonitz. Hermann Bonitz (29. júlí 1814 – 25. júlí 1888) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Bonitz nam fornfræði í Leipzig undir leisögn Johanns Gottfrieds Jakobs Hermann og í Berlín undir leiðsögn Philipps Augusts Böckh og Karls Lachmann. Hann kenndi fornfræði við Blochmann-stofnunina í Dresden (1836), Friedrich-Wilhelms-Gymnasium (1838) og Graues Kloster (1840) í Berlín. Hann varð prófessor við framhaldsskólann í Stettin (Szczecin) (1842), prófessor við háskólann í Vín (1849). Hann varð meðlimur í keisaralegu akademíunni (1854), og skólastjóri í Graues-Kloster-Gymnasium (1867). Hann settist í helgan stein 1888 og lést sama ár í Berlín. Heimild. Bonitz, Hermann Bonitz, Hermann Takk.... Takk er breiðskífa sem hljómsveitin Sigur Rós gaf út árið 2005. Kenneth Dover. Sir Kenneth James Dover (11. mars 1920 – 7. mars 2010) var breskur fornfræðingur. Hann fæddist í London og hlaut menntun sína við St Paul's School. Síðar las hann fornfræði við Balliol College í Oxford. Í seinni heimsstyrjöldinni gegndi hann herþjónustu í stórskotaliði en sneri aftur til Oxford að stríðinu loknu og varð félagi og kennari við Balliol college árið 1948. Árið 1955 var hann skipaður prófessor í grísku við St Andrews háskóla. Dover varð forseti Corpus Christi College, Oxford árið 1976 og gegndi þeirri stöðu í tíu ár. Á níunda áratug 20. aldar kenndi hann við Cornell University og Stanford University. Árið 1978 var hann kosinn forseti bresku akademíunnar en hann hefur verið meðlimur hennar síðan 1966. Hann var aðlaður árið 1976 fyrir framlag sitt til fornfræðinnar. Honum voru veittar heiðursdoktorsnafnbætur við ýmsa háskóla, meðal annarra Oxford-háskóla, háskólann í St Andrews, Birmingham-háskóla, Bristol-háskóla, Lundúnaháskóla, Durham-háskóla, Liverpool-háskóla og Oglethorpe-háskóla. Dover var þekktur fyrir áhuga sinn á fuglaskoðun. Tenglar. Dover, Kenneth Michael Ventris. Michael George Francis Ventris (12. júlí 1922 – 6. september 1956) var enskur arkitekt og sjálfmenntaður fornfræðingur, sem ásamt John Chadwick réð línuletur B á árunum 1951-1953. Ventris lést í bílslysi 34 ára að aldri. Rannsóknir Ventris og Chadwicks birtust í bókinni "Documents in Mycenaean Greek" (Cambridge: Cambridge University Press, 1956, 2. útg. 1974). Athugasemdir Ventris voru gefnar út að honum látnum í bókinni "Work notes on Minoan language research and other unedited papers" (Rome: Edizioni dell'Ateneo, 1988). Frekari fróðleikur. Ventris, Michael Ventris, Michael John Chadwick. John Chadwick (21. maí 1920 – 24. nóvember 1998) var enskur fornfræðingur, textafræðingur og málvísindamaður sem er einkum frægur fyrir að hafa ásamt Michael Ventris ráðið línuletur B á árunum 1951-1953. Hann kenndi fornfræði við Cambridge-háskóla frá 1952 og hóf það sama ár samvinnu við Ventris um að ráða línuletur B. Afrakstur rannsókna þeirra birtist í bók þeirra "Documents in Mycenean Greek" árið 1956. Chadwick samdi aðgengilega og vinsæla bók um samvinnu þeirra Ventris árið 1958, "The Decipherment of Linear B". Hann settist í helgan stein árið 1984. Helstu rit. Chadwick, John Chadwick, John Chadwick, John Chadwick, John Myles Burnyeat. Myles Fredric Burnyeat (fæddur 1939) er enskur fornfræðingur og heimspekingur. Burnyeat vvar menntaður við Bryanston School og King’s College, Cambridge. Hann var nemandi Bernards Williams við University College London. Árið 1964 varð hann aðstoðarlektor í heimspeki við UCL og lektor ár síðar. Árið 1978 varð hann lektor í fornfræði við Cambridge-háskóla og félagi á Robinson College. Frá 1984 til 1996 gegndi hann stöðu Laurence-prófessors í fornaldarheimspeki við Cambridge-háskóla. Frá 1996 til 2006 var hann rannsóknarfélagi í heimspeki við All Souls College, Oxford. Hann sneri aftur til Robinson College í Cambridge árið 2006. Ritstjórn. Burnyeat, Myles Burnyeat, Myles Ingram Bywater. Ingram Bywater (27. júní 1840 – 1914) var enskur fornfræðingur. Bywater fæddist í London 27. júní árið 1840. Hann var menntaður við University College School og King's College School, síðan við Queens College, Oxford. Hann varð félagi á Exeter College, Oxford (1863), lesari í grísku (1883) og Regius prófessor í grísku við Oxford-háskóla (1893–1908). Bywater er einkum þekktur fyrir útgáfur sínar á forngrískum heimspekiritum: "Heracliti Ephesii Reliquiae" (1877); "Prisciani Lydi quae extant" (1886); "Aristotle, Ethica Nicomachea" (1890), "De Arte Poetica" (1898); "Contributions to the Textual Criticism of the Nicomachean Ethics" (1892). Bywater, Ingram Bywater, Ingram Dmitri Mendelejev. Dmitri Mendelejev (rússneska: Дми́трий Ива́нович Менделе́ев) (fæddur 8. febrúar 1834, látinn 2. febrúar 1907) var rússneskur efnafræðingur þekktastur fyrir að vera aðalhönnuður að fyrsta uppkasti lotukerfisins. Árið 1869 birti hann kenningar sínar en á sama tíma setti Þjóðverjinn Lothar Meyer fram hugmyndir sínar um kerfi er svipaði mjög til lotukerfis Mendelejevs. Þrátt fyrir framlag Meyers hefur Mendelejev hlotið mestan heiðurinn því hann var ákafari í að koma hugmyndum sínum á framfæri. Galías. Galías var tvímastrað, breitt seglskip með hárri framsiglu og lægri aftursiglu og messansiglu (öfugt við skonnortu þar sem framsiglan er lægri en hinar). Framsegl voru þrjú, stagfokka, klýfir og jagar, en aftan á framsiglu og messansiglu voru gaffalsegl með gaffaltoppum. Galías tíðkuðst nokkuð í Íslandssiglingum á þilskipaöld. Galías var upphaflega herskip sem tíðkaðist á miðöldum, að hálfu leyti róðrarskip og að hálfu leyti seglskip, búið allt að 50 fallbyssum (sbr. galeiða). En seinna voru samskonar skip, sem einnig voru nefnd galíasar, notaðir til síldarflutninga milli Íslands og annarra landa svo dæmi sé tekið. Jón Eyþórsson. Jón Pétur Eyþórsson (fæddur á Þingeyrum í Húnavatnssýslu 27. janúar 1895, dáinn 6. mars 1968) var íslenskur veðurfræðingur. Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917. Lauk fyrrihlutaprófi í náttúrufræðum í Kaupmannahöfn 1919 og cand.mag frá Oslóarháskóla 1923. Stundaði nám í veðurfræði við "Geofysisk Institutt" í Bergen 1921-1926. Fulltrúi á Veðurstofu Íslands frá 1926 og síðar deildarstjóri á veðurstofunni á Reykjavíkurflugvelli 1953-1965. Forseti Ferðafélags Íslands (með hléum) frá 1935 til 1961. Formaður Jöklarannsóknafélags Íslands í mörg ár frá 1950. Żyrardów. Żyrardów er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 41.233 árið 2005. Nowe Miasto nad Pilicą. Nowe Miasto nad Pilicą er bær við í miðhluta Póllands. Íbúar voru 3.847 árið 2004. Robert Scott (textafræðingur). Robert Scott (26. janúar 1811 – 2. desember 1887) var breskur fornfræðingur og textafræðingur og félagi á Balliol College, Oxford. Scott er einkum þekktur sem annar tveggja ritstjóra grísk-enskrar orðabókar ("A Greek-English Lexicon") ásamt samstarfsmanni sínum Henry George Liddell. Í útgáfu orðabókarinnar frá 1925 kemur fram að David Alphonso Talboys, bóksali í London, hafi upphaflega lagt til við Scott að hann tæki að sér verkefnið. Bókin var gefin út af Oxford University Press. Scott, Robert Scott, Robert Henry Liddell. Henry George Liddell (6. febrúar 1811 – 18. janúar 1898) var breskur fornfræðingur og textafræðingur. Hann var aðstoðarkanslari Oxford-háskóla, skólastjóri Christ Church, Oxford og Westminster School (1846–55), höfundur "A History of Rome" (1857) og ritstjóri grísk-enskrar orðabókar ("A Greek-English Lexicon") ásamt samstarfsmanni sínum Robert Scott, sem er enn notuð. Dóttir Liddells, Alice var fyrirmynd Lewis Carroll í ritinu "Lísa í Undralandi". Liddell, Henry Liddell, Henry James Bradstreet Greenough. James Bradstreet Greenough (4. maí 1833 í Maine – 11. október 1901 í Massachusetts) var bandarískur fornfræðingur. Hann lauk námi frá Harvard-háskóla árið 1856, nam lög við lagaskóla Harvard í eitt ár og gerðist lögmaður í Michigan þar til 1865 er hann var skipaður kennari í latínu við Harvard. Árið 1873 varð hann lektor (e. assistant professor) og 1883 prófessor í latínu. Hann settist í helgan stein haustið 1901 en lést tæpum sex vikum síðar í Cambridge í Massachusetts. Greenough rannaskaði latneska setningafræði og árið 1870 birti hann ritgerðina „Analysis of the Latin Subjunctive“ („Greining á viðteningarhætti í latínu“). Greinin var frumleg og mikilvæg og komst að mörgu leyti að áþekkum niðurstöðum og ritgerð Bertholds Delbruck „Gebrauch des Conjunctivs und Optativs in Sanskrit und Griechischen“ („Notkun viðtengingarháttar og óskháttar í sanskrít og grísku“) frá 1871, sem hlaut þó miklu meiri athygli en grein Greenoughs. Árið 1872 gaf Greenough út bókina "A Latin Grammar for Schools and Colleges, founded on Comparative Grammar, by Joseph A. Allen and James B. Greenough" ásamt Joseph A. Allen. Árin 1872-1880 kenndi Greenough fyrstu námskeiðin um sanskrít og samanburðarmálvísindi við Harvard. Greenough, James Bradstreet William Watson Goodwin. William Watson Goodwin (9. maí 1831 í Massachusetts – 1912) var bandarískur fornfræðingur. Goodwin brautskráðist frá Harvard-háskóla árið 1851 og hélt til náms í Þýskalandi. Hann sneri aftur til Bandaríkjanna og kenndi grísku við Harvard á árunum 1856-1860. Hann varð Eliot-prófessor í grísku við Harvard árið 1860 og gegndi stöðunni til ársins 1901. Goodwin ritstrýði "Samfundarræðu" Ísókratesar (1864) og ræðu Demosþenesar "Um krúnuna" (1901). Hann aðstoðaði við útgáfu 7. útgáfu grísk-ensku orðabókar Liddells og Scotts. Hann endurskoðaði ýmsar þýðingar á verkum Plútarkosar og gaf út grískan texta á leikriti Æskýlosar "Agamemnoni" (1906) ásamt enskri þýðingu. Mikilvægasta verk hans var þó ritið "Syntax of the Moods and Tenses of the Greek Verb" ("Setningarfræði hátta og tíða grískra sagna") (1860). Verkið var að hluta til byggt á verkum Madvigs og Krügers en innihélt einnig nýtt efni, meðal annars nýja og róttæka flokkun skilyrðissetninga. Goodwin gaf einnig út gríska málfræði, "Greek Grammar", (1870). Goodwin, William Watson Skilyrðislausa skylduboðið. „Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur jafnframt viljað að verði að almennu lögmáli.“ Kant setti skilyrðislausa skylduboðið fyrst fram í ritinu "Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni" (þ. "Grundlegung zur Metafysik der Sitten"). Basil Lanneau Gildersleeve. Basil Lanneau Gildersleeve (23. október 1831 í Charleston í Suður-Karólínu – 9. janúar 1924) var bandarískur fornfræðingur. Gildersleeve brautskráðist frá Princeton-háskóla árið 1849, átján ára gamall. Þá hélt hann til Þýskalands til þess að nema hjá Johannes Franz í Berlín, Friedrich Ritschl í Bonn og Schneidewin í Göttingen, þaðan sem hann hlaut doktorsgráðu árið 1853. Frá 1856 til 1876 gegndi hann stöðu prófessors í grísku við Virginíu-háskóla og kenndi einkum latínu árin 1861 til 1866. Árið 1875 tók Gildersleeve við kennslustöðu í fornfræði við Johns Hopkins University í Baltimore. Árið 1880 var "American Journal of Philology" stofnað undir ritstjórn Gildersleeves. Hann gaf út latneska málfræðibók, "Latin Grammar", árið 1867 (sem var endurskoðuð af Gonzalez B. Lodge 1894 og aftur 1899) og ýmsar latneskar lestrarbækur fyrir framhaldsskóla. Hann ritstýrði einnig útgáfu á verkum Persiusar (1875). Gildersleeve gaf út Ólympíu- og Pýþíukvæði Pindarosar árið 1885 og bók um gríska setningafræði, "Syntax of Classic Greek", árið 1900. Ritgerðasafn hans "Essays and Studies Educational and Literary" kom út 1890. Gildersleeve var kosinn forseti American Philological Association árið 1877 og aftur 1908. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við ýmsa háskóla, m.a. College of William and Mary (1869), Harvard-háskóla (1896), Yale (1901), University of Chicago (1901) og University of Pennsylvania (1911). Gildersleeve lét af kennslu árið 1915. Hann lést árið 1924. Gildersleeve, Basil Lanneau Vaktir. Vaktir eða vaktavinna er vinnufyrirkomulag þar sem sólarhringnum er skipt upp í vel afmarkaðar vinnulotur. Bakvakt nefnist vakt þar sem starfmaður er heima, en getur með skömmum fyrirvara mætt til vinnu eftir útkall, t.d. eru menn í hjálparsveitum á bakvöktum. Algengt vaktafyrirkomulag eru þrískiptar vaktir, sem eru þá 8 klukkustunda langar og tvískiptar vaktir sem eru 12 klukkustundir. Á skipum er stundum notast við fjórskiptar vaktir, sem eru þá 6 klukkustunda langar. Sjómenn nefndu (og nefna) það "glas", þegar klukkan er á slaginu og vaktirnar eiga að skipta. Þá var oft hrópað á þá sem sváfu en áttu að hefja næstu vakt: Svona upp með þig það er glas! Þessi notkun orðsins er dregin af orðinu stundaglas og átt er við það að sandurinn hafi verið að renna niður og glasinu skuli snúið við. Aðrar starfsstéttir sem vinna gjarnan á vöktum eru: læknar, hjúkrunarfólk, lögregla, slökkvilið, veðurfræðingar o.s.frv. Barkantína. Barkantína er þrímastra seglskip þar sem fokkusiglan er rásiglt en stórsiglan og messansiglan með gaffalseglum og gaffaltoppum. Spritsegl. Spritsegl eða sprytsegl er ferhyrnt segl sem liggur langsum. Fjórða horninu er haldið uppi með "spriti" / "spryti" eða stöng sem fest er við mastrið og liggur skáhallt upp með seglinu að veðurklónni (efra horni fjær mastrinu). Hinar vinsælu optimist-jullur eru með spritsegl. Fridtjof Nansen. Fridtjof Wedel-Jarlsberg Nansen (f. 10. október 1861 - d. 13. maí 1930) var norskur landkönnuður og vísindamaður. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels 1922. Hér á landi er Fridtjof stundum nefndur "Friðþjófur Nansen". Nansen gegndi ýmsum stöðum um ævina. Var hann m.a. prófessor í dýrafræði og haffræði við Háskólann í Osló og var einn af þeim sem lögðu grunninn að nútíma taugafræði. Hann var einnig um tíma sendiherra Noregs í Bretland og var nefndur sem mögulegur forseti Noregs ef Norðmenn hefðu ekki tekið upp konungsríki þegar þeir slitu sambandi sínu við Svíþjóð 1905. Tenglar. Nanses, Fridtjof Nanses, Fridtjof Nanses, Fridtjof Otto Sverdrup. Otto Neumann Sverdrup (f. 1854 - d. 1930) var norskur landkönnuður. Sverdrup var með í ferð Fridtjof Nansen 1888 yfir Grænland og var 1893 fengin stjórn skipsins "Fram", og stýrði því 1895 þegar Nansen reyndi að ná norðurpólnum. Árið 1898 reyndi Sverdrup að sigla umhverfis Grænland gegnum baffinflóa en honum mistókst að komast gegnum Naressund og varð að eyða vetrinum á Ellismere eyju þar sem hann og áhafnarmeðlimir hans könnuðu og nefndu marga áður ókannaða firði og lönd á vesturströnd eyjarinnar sem skýrir af hverju mörg örnefni á norðurslóðum Kanada bera keim norsku. Sverdrup, Otto Sverdrup, Otto Sverdrup, Otto Kentári. Kentári (á íslensku oft nefndir mannfákur eða elgfróði) er skepna í grískri goðafræði sem er maður niður að nafla, en hestur að öllu öðru leyti. Heimkynni Kentára voru í hinu hrikalega Þessalíulandi. Var mest allt kyn Kentára ósiðlátt, munaðargjarnt og ofbeldishneigt með víni. Nágrannar þeirra voru Lapiþar, ferlegir risar. Foreldrar þeirra eru Ixíón og Nefele (gr. nefos = ský). Það atvikaðist þannig að þegar Ixíon dirfðist að sækjast eftir ástum Heru, sendi Seifur honum ský sem hann hafði gefið mynd og líki Heru í einu og öllu. Ixíón sá engan mun og gat síðan Kentárana við skýmynd þessari. Robert Falcon Scott. Robert Falcon Scott (f. 6. júní 1868 – d. 29. mars 1912) var foringi í breska konunglega sjóhernum og landkönnuður með mikinn áhuga á Suðurskautslandinu. Í kapphlaupinu um að verða fyrstur á suðurpólinn varð Scott annar á eftir Roald Amundsen. Scott og félagar hans létust allir úr kulda á leið sinni af pólnum og hefur Scott síðan verið nokkurs konar ímynd þeirra fórna sem menn urðu að færa á árdögum landkönnunar á heimskautasvæðunum. Tenglar. Scott, Robert Falcon Scott, Robert Falcon Blindrahundur. Blindrahundur er hundur, sem hefur verið sérstaklega þjálfaður til að leiða og aðstoða blindan einstakling. Labradorhundar eru oft notaðir sem blindrahundar, því þeir eru mjög fjölhæfir. Það tekur langan tíma að þjálfa þá en þeir verða góðir hjálpahundar, geta til dæmis opnað ólæstar dyr, klætt fólk úr fötunum og komið með síma. Meðal annarra vinsæla blindrahunda eru gullinsækjar og þýskir fjárhundar. Drómundur. Drómundar voru stór skip sem notuð voru til siglinga á Miðjarðarhafi á miðöldum. Ártúnsskóli. Ártúnsskóli er íslenskur skóli sem var stofnaður árið 1987. Ellert Borgar Þorvaldsson var ráðinn skólastjóri og hann stjórnaði skólanum með sóma þar til hann ákvað að hætta 20. desember 2006. Aðstoðarskólastjórinn Rannveig Andrésdóttir tók við af honum. Árgangarnir eru sjö talsins og flestir fara í Árbæjarskóla þegar þeir ljúka skólanum. Það er alltaf eitthvað lífsleikniþema í gangi og þá læra nemendur betur um það. Þemu sem hafa verið eru t.d. Frelsi, Fjölmenning og Hreysti. Í lok Hreysti þemans var sett upp íþróttabraut í íþróttasalnum. Skólinn hefur alltaf verið á móti einelti og gerir hvað sem er til að koma í veg fyrir það að einhver verði lagður í einelti. Árið 2006 fékk skólinn íslensku menntaverðlaunin eða Forsetaverðlaunin eins og þau hafa verið kölluð. Starfsmenn skólans eru 34 talsins. Það eru svokallaðir vinabekkir þar sem eldri og yngribekkir vinna saman verkefni og mynda vináttutengsl. Stofurnar hafa allar nöfn á bæjum í Árbæjarsafni sem er í nágreninnu. FUÁ. FUÁ eða Félag Ungmenna í Ártúnsskóla var stofnað 29. apríl 2005. 5, 6 og 7 bekkur eru í stjórninni en allir aðrir bekkir hafa fulltrúa í FUÁ. Í hverjum bekk er kosið hver verður fulltrúi bekkjar síns. Félag Ungmenna í Ártúnsskóla hefur verið starfandi síðan árið 2005 og máttu þá nemendur bjóða sig fram til að verða kosnir og allir nemendur höfðu kosningarétt. Sumir nemendur kvörtuðu að aðeins vinsælustu krakkarnir fengu atkvæði nemenda og þess vegna fengu þeir aldrei aðgang að félaginu. Sumir kennarar vildu að ekki væri hægt að kjósa nemendur aftur eftir að þeir höfðu starfað í félaginu en tillagan var aldrei samþykkt af skólastjóranum. Sönghópur. Í Sönghópi Ártúnsskóla eru nemendur úr 5., 6 og 7. bekk sem hafa gaman af söng. Hópurinn æfir sig í íþróttasal skólans í hádegisfrímínútum á þriðjudögum. Ellert er með þennan hóp en þegar hann hætti sem skólastjóri hélt hann áfram með sönghópinn. Sönghópurinn gleður gamalt fólk með bæði fallegum rómantískum lögum og líka skemmtilegum lögum. Alltaf endar hann á skólasöngnum. Sönghópurinn syngur inná geisladisk á hverju skólaári. Sönghópurinn hætti störfum eftir að Ellert Borgar hætti störfum við skólann en hann hætti á miðju skólaári en hélt áfram að halda fyrir sönghópinn það ár til enda skólaársins. Samverur. Samverur hafa verið hefð í skólanum frá upphafi. Hvern einasta föstudag koma bekkir saman og syngja eða horfa á leikrit sem einhver bekkur hefur samið. Bókasafnskennararnir hafa tvær þrautir hverja viku og dregið er úr réttum svörum á samverunum. Þegar bekkur hefur leikrit koma foreldra alltaf og horfa á börnin sín leika í sprenghlægilegum og fróðlegum atriðum. Fyrrverandi skólastjóri, Ellert Borgar, endaði allar samverur með því að hlusta á það sem að hann kallaði "fallegasta tónverk heimsins", þögnina. Magnús Scheving. Magnús Örn Eyjólfsson Scheving (10. nóvember 1964) er íslenskur íþróttamaður og rithöfundur, margverðlaunaður keppandi í þolfimi, aðalhöfundur og leikari í barnasjónvarpsþáttunum um Latabæ. Í þeim leikur hann hlutverk íþróttaálfsins. Magnús hóf að æfa þolfimi á níunda áratugnum og vann fyrsta Íslandsmótið í þolfimi árið 1995. Latibær. Magnús hefur löngum beitt sér fyrir eflingu heilbrigðis og lagt áherslu á hollt mataræði. Magnús setti einnig á fót leikritið "Latabæ" sem naut gífurlegra vinsælda á Íslandi. Hugmyndina um Latabæ þróaði Magnús áfram og fór því næst að framleiða Latabæ sem teiknimyndir. Í dag er Latibær (e. "Lazytown") sýndur í fjölda landa víðs vegar um heiminn og hefur fengið mikið hrós fyrir jákvæða heilbrigðishvatningu. Myndir. Magnús lék illmennið í "The Spy Next Door" Hjortspringbáturinn. Hjortspringbáturinn er fórnarbátur frá keltneskri járnöld. Hann er grafinn úr Hjortspringmýri á dönsku eynni Als 1921-22. Hann er um 19 m langur, um 2 m breiður og getur rúmað um 20 manns og hefur líklega verið knúinn árum. Ekkert járn var notað í hann en fjalir og rengur festar saman með e.k. saumi. Hjortspringbáturinn er einn elsti bátur sem fundist hefur í Norður-Evrópu. Katarar. Katarar (úr grísku: καθαροί: hinir hreinu) voru sértrúarflokkur upprunninn á 11. og 12. öld á Ítalíu og í Suður-Frakklandi (Languedoc) og var skipulögð samtök láglendisbænda. Kaþólska kirkjan dæmdi þá sem villutrúarmenn og var þeim útrýmt á 13. og 14. öld. Af nafni þeirra er dregið uppnefni villitrúarmanna í mörgum tungumálum, einsog t.d. á þýsku "Ketzer" og "kætter" á dönsku. Þekktastir Katara voru "Albigensar" og er sá angi þeirra stundum notaður sem samheiti yfir Katara. Þeir eru kenndur við borgina Albi í Suður-Frakklandi. Albigensar, líkt og Katarar, höfnuðu rómversk-kaþólsku kirkjunni og sakramentum hennar. Þeir kenndu róttæka tvíhyggju anda og efnis sem þeir álitu af hinu illa og fordæmdu styrjaldir og hjónaband. Innócentíus III predikaði krossferð gegn Albigensum sem leiddi til grimmilegrar styrjaldar (1209 - 1219) og lyktaði með útrýmingu þeirra og hefur verið nefnd Krossferðin gegn Albigensum. Leirvík. Leirvík (skoska: "Lerwick") er höfuðstaður og stærsti bær Hjaltlandseyja, staðsettur á austurströnd Mainland með um það bil 7.500 íbúa. Ferjur frá Leirvík sigla reglulega til Kirkwall í Orkneyjum, Aberdeen á Skotlandi, Fair Isle, Björgvin í Noregi, Seyðisfjarðar á Íslandi og Þórshöfn í Færeyjum og auk þess líka til Útsker og Brúsaey. Leirvík er nyrsti bær Bretlands. Saumur. Í íslenskri orðabók segir að saumur sé safnheiti fyrir nagla, t.d. eins og saumur til bátasmíða. Nafnið „Saumur“ er eflaust tilkomið vegna eðlis hans, þ.e. sauma/festa hluti saman. Biðröð (tölvunarfræði). Staki bætt í FIFO biðröð Biðröð í tölvunarfræði er hugtak yfir gagnagrindur sem líkja eftir ýmsum tegundum biðraða sem fyrirfinnast í hinum efnislega heimi. Í bankanum er fólk þjónustað í þeirri röð sem það kemur inn. Slík biðröð er kölluð FIFO (e. First In First Out), eða fyrstur inn fyrstur út. Þegar staki er bætti í FIFO biðröð er öruggt að það verði fjarlægt á undan öllum stökum sem á eftir koma. Á neyðarmóttöku eru sjúklingar afgreiddir eftir því hversu alvarlega þeir eru slasaðir. Þar er almenna reglan fyrstur inn fyrstur afgreiddur, en hægt er að gefa sjúklingum hærri forgang sem þess þurfa. Þetta er einkenni á forgangsbiðröð (e.priority queue). Þar fær hvert stak vægi sem gjarnar er heiltala. Misjafnt er hvort hærri tala gefur hærri eða lægri forgang. Heiltalan 0 getur táknað hvort sem er lægsti eða hæsti forgangur. Stafli er tegund af biðröð sem er mikið notuð. Stafli hefur svipaða eiginleika og stafli af diskum sem staflað er hvor ofan á annan. Hvert stak fer efst á staflann, og þegar stak ef fjarlægt af staflanum er það alltaf það stak sem síðast var sett á hann. Til eru aðrar útgáfur af biðröðum eins og tvíendaröð (e. double ended queue, deque). Í tvíendaröð er hægt að bæta við og fjarlægja stök á báðum endum biðraðarinnar. Tvíendaröð sameinar eiginleika FIFO biðraðar og hlaða. Fleiri tegundir af biðröðum eru til sem ekki verða nefndar hér, en allar hafa þær þá eiginleika að stökin eru skipulögð sem einföld röð og aðeins er hægt að bæta við og fjarlægja stök af endum raðarinnar. Edith Hamilton. Edith Hamilton (12. ágúst 1868 í Dresden í Þýskalandi – 31. maí 1963) var fornfræðingur og rithöfundur. Frægustu rit hennar eru "The Greek Way" (1930) og "Mythology" (1942). "Mythology" er enn til á prenti rúmum sex áratugum eftir að hún kom fyrst út og er enn notuð í kennslu. Edith Hamilton fæddist í Dresden í Þýskalandi en ólst upp hjá foreldrum sínum í í Fort Wayne í Indiana í Bandaríkjunum. Faðir hennar byrjaði að kenna henni latínu þegar hún var sjö ára gömul og bætti fljótlega við frönsku, þýsku og grísku. Hún gekk í skóla í Farmington í Connecticut og í Bryn Mawr College í Pennsylvaníu þaðan sem hún brautskráðist með MA-gráðu árið 1894. Næsta ár urðu Edith og systir hennar, Alice, fyrstu kvenkyns nemendurnir í háskólunum í Leipzig og München. Þegar Edith sneri aftur til Bandaríkjanna árið 1896 tók hún við stöðu skólastjóra Bryn Mawr School for Girls í Baltimore í Maryland og gegndi þeirri stöðu þar til hún settist í helgan stein árið 1922. Þegar hún látið starfi sínu lausu flutti hún til New York ásamt lífsförunautu sínum Doris Fielding Reid og helgaði sig skrifum um forngríska leikritun. Hún nálgaðist gríska goðafræði alfarið í gegnum forngrískar bókmenntir. "The Greek Way" kom út árið 1930. Í bókinni bar Hamilton saman lífsstíl Forn-Grikkja og nútímamanna. Bókinni fylgdi hún eftir með "The Roman Way" sem kom út árið 1932 og bar saman á svipaðan hátt líf Rómverja og nútímamanna. Hún hélt áfram að gefa út bækur um klassíska fornmenningu næstu þrjá áratugina. Árið 1957 var Hamilton gerð að heiðursborgara í Aþenu. Hún var einnig gerð að meðlim í American Academy of Arts and Letters. Bréfasafn Hamilton er varðveitt á bókasafni Princeton-háskóla. Lífsförunautur hennar Doris Fielding Reid skrifaði ævisögu hennar, "Edith Hamilton: An Intimate Biography". Tenglar. Hamilton, Edith Robert Maxwell Ogilvie. Robert Maxwell Ogilvie (5. júní 1932 – 7. nóvember 1981 í St. Andrews, Skotlandi) var skoskur fornfræðingur textafræðingur. Ogilvie sérhæfði sig einkum í latneskum bókmenntum. Ogilvie var prófessor í fornfræði við St. Andrews-háskóla. Heimildir. Ogilvie, Robert Maxwell Ogilvie, Robert Maxwell Augustus Meineke. Johann Albrecht Friedrich August Meineke Johann Albrecht Friedrich August Meineke (8. desember 1790 - 12. desember 1870) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Meineke fæddist 8. desember árið 1790 í Vestfalíu. Hann kenndi bæði í Jenkau og Danzig (nú Gdańsk í Póllandi) en varð síðar skólastjóri Joachimsthal Gymnasium í Berlín og gegndi þeirri stöðu frá 1826 til 1856. Hann lést í Berlín 12. desember 1870. Meineke fékkst einnkum við grískar bókmenntir, gamanleikjaskáld og hellenískan kveðskap. Helstu ritverk. Meineke, Augustus Meineke, Augustus Henry Stuart Jones. Sir Henry Stuart Jones (15. maí 1867 – 29. júní 1939) var breskur fornfræðingur og textafræðingur, félagi á Trinity College á Oxford-háskóla, þar sem hann gegndi stöðu Camdens-prófessors í fornaldarsögu árin 1920 til 1927. Árið 1911 hóf Jones vinnu við endurskoðun grísk-enskrar orðabókar Liddells og Scotts ásamt Roderick McKenzie. Endurskoðuð útgáfa orðabókarinnar kom fyrst út árið 1925 en endanleg útgáfa hennar kom ekki út fyrr en árið 1940 að Jones og McKenzie báðum látnum. Jones, Henry Stuart Jones, Henry Stuart Raphael Kühner. Raphael Kuhner (1802 – 1878) var þýskur fornfræðingur. Kuhner hlaut menntun sína í Göttingen. Frá 1824 til 1863 kenndi hann við framhaldsskóla í Hanover. Hann annaðist útgáfu á "Samræðum í Tusculum" eftir Cicero (1829, 5. útg. 1874). Hann gaf út ítarlegt rit um gríska málfræði í tveimur bindum (1834-35). Þriðja útgáfa þess kom út aukið og endurbætt í fjórum bindum (1890-1904). Hann samdi einnig ítarlegt rit um latneska málfræði í tveimur bindum (1877-79), sem kom síðar út aukið og endurbætt af Holzweiss og Stegman (1912-14). Málfræðirit hans voru grunnurinn að mörgum öðrum grískum og latneskum málfræðiritum á ýmsum tungumálum. Kuhner, Raphael Kuhner, Raphael Lewis Campbell. Lewis Campbell (3. september 1830 – 25. október 1908) var breskur fornfræðingur, fæddur í Edinburgh á Skotlandi. Campbell var prófessor í grísku og Gifford-lektor við St Andrews-háskóla (1863—1894). Hann var kosinn heiðursfélagi á Balliol College, Oxford árið 1894. Campbell er best þekktur fyrir umfjöllun sína um Sófókles og Platon. Helstu ritverk. Campbell, Lewis Campbell, Lewis Frederic de Forest Allen. Frederic de Forest Allen (1844 – 1897) var bandarískur fornfræðingur frá Oberlin í Ohio. Allen brautskráðist frá Oberlin College árið 1863 og hélt til Þýskalands. Hann nam við háskólann í Leipzig frá 1868 til 1870 og lauk náminu með doktorsgráðu. Doktorsritgerð hans hét "De Dialecto Locrensium" ("Um lókríska mállýsku"). Að námi sínu loknu varð hann prófessor við háskólann í Austur-Tennessee, háskólann í Cincinnati og Yale College. Hann kenndi klassíska textafræði við Harvard síðustu sautján ár ævi sinnar. Helstu ritverk. Allen, Frederic de Forest Allen, Frederic de Forest Boxer (hundur). Boxer eða böggur er hundategund sem á ættir sínar að rekja til mastiff-hunda sem voru bardagahundar til forna. Hann kom fyrst fram á hundasýningu í München árið 1895 og varð viðurkenndur í Bandaríkjunum árið 1904. Boxer er blíður hundur og oftast barngóður. Hann þarf frekar mikla hreyfingu og þjálfun. Hann er góður varðhundur en á það til að slást við aðra hunda. Rakkar eru 57-63 cm að herðakambi og eru um 30 kg en tíkur 53-59 cm að herðakambi og eru um 25 kg. Fimmliðaháttur. Fimmliðaháttur er forngrískur órímaður bragarháttur. Hann hefur einnig verið nefndur pentametur eða fimmtarbragur á íslensku. Braglína fimmliðaháttarins skiptist í tvo hluta með braghvíld á milli. Í hvorum hluta eru tveir réttir þríliðir og eitt sérstakt áhersluatkvæði (stúfur). Fimmliðaháttur myndar distíkon ásamt hexametri en er aldrei sjálfstæður bragarháttur. Þessi línugerð kemur aðeins við sögu í bragarhætti þeim sem kallast distíkon eða "elegískur háttur". Heitið distíkon (tvíhenda) stafar af því, að þar standa saman tvær ljóðlínur, sú fyrri daktílskt hexametur og hin síðari pentametur. Fimmliðahætti má lýsa sem hexameturs-ljóðlínu þar sem áhersluveiku atkvæðin hafa verið stýfð aftan af 3. og 6. bragðlið og línan síðan sögð vera tvisvar tveir og hálfur bragliður, samtals fimm bragliðir. Annar stýfði liðurinn ("Jón") kemur þá næst á undan rofinu, og hinn ("Sveinn") í línulok. Frægasta kvæði, sem ort er á íslensku undir "elegískum hætti", er án efa ljóð Jónasar Hallgrímssonar, "Ísland". Island.is. Island.is er opinber vefsíða sem veitir upplýsingar „um þá þjónustu sem í boði er á vegum ríkis og sveitarfélaga“ á Íslandi. Efni síðunnar er skipt í 12 efnisflokka. Þar er að finna safn orðskýringa og safn eyðublaða á sama stað sem fylla þarf út til umsóknar um ýmislegt hjá opinberum aðilum. Vefgáttin er hönnuð í samvinnu við forsætisráðuneytið og sveitarfélög. Idol stjörnuleit. "Idol Stjörnuleit" er íslenska útgáfan af breska raunveruleikaþættinum "Pop Idol". Þættirnir voru vinsælir á Íslandi og ganga út á söngkeppni þar sem áhorfendur velja hvaða keppendur komast áfram. Kynnar eru Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson (Simmi og Jói). Þáttaröðin hóf göngu sína fyrst árið 2003 en alls er búið að sýna fjórar þáttaraðir. Fyrstu dómarar voru Páll Óskar, Einar Bárðarson, Sigga Beinteins og Bubbi Morthens en núverandi dómarar eru Björn Jörundur Friðbjörnsson, Jón Ólafsson og Selma Björnsdóttir. Mainland. Rauði liturinn sýnir meginland Hjaltlandseyja Mainland (íslenska: "Meginland") er stærsta og fjölmennasta eyja í Hjaltlandseyjum og er þriðja stærsta eyja í Bretlandseyjum, að 374 km² að stærð. Höfuðstaður Hjaltlandseyja Leirvík er staðsettur á austurströnd Mainland og þar búa um 7.500 manns. Íbúar eyjarinnar eru um það bil 17.750 manns. Hrafnagilsskóli. Hrafnagilsskóli er grunnskóli starfrækur við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit. Í skólanum eru rúmlega 240 nemendur, sem gerir að einum stærsta skóla starfrækum í dreifbýli á Íslandi. Í kringum hann starfa 49 manns, þar af 27 kennarar. Á skólalóðinni eru íþróttahús, sundlaug, aðalstöðvar Tónlistarskóla Eyjafjarðar auk Bókasafns Eyjafjarðar. Skólastjóri er Karl Frímansson og aðstoðarskólastjóri er Anna Guðmundsdóttir. Þann 30. maí 2007 hlaut skólinn Íslensku menntaverðlaunin. Forsetakosningar á Íslandi. Forsetakosningar á Íslandi eru haldnar á fjögurra ára fresti. Kosningarétt hafa allir íslenskir ríkisborgarar yfir 18 ára aldri sem hafa átt lögheimili á Íslandi. Sitjandi forseti hefur verið sjálfkjörinn nokkrum sinnum þar sem hann hefur ekki fengið mótframboð (1972, 1976, 1984, 1992, 2000 og 2008). Forsetakosningar á Íslandi 2004. Forsetakosningar 2004 voru hinar íslensku forsetakosningar sem fóru fram árið 2004. Ólafur Ragnar Grímsson fékk flest akvæði. Á kjörskrá voru 213.553 og var kjörsókn óvenju dræm, eða 62,9%. IMac. Núverandi ál og gler iMac iMac er heimilistölva hönnuð og búin til af Apple. Hún er þekkt fyrir að hafa „allt-í-einu“ hönnun. Stór hluti seldra heimilistölva hjá Apple hafa verið iMac-vélar síðan tegundin var kynnt 1998. Þrjár meginútgáfur hafa verið af vélinni. G3 var egglaga með túbuskjá (CRT). G4 var á nokkurs konar lampastandi með flötum kristalskjá á sveigjanlegum armi. Í G5 var tölvunni sjálfri komið fyrir á bakvið skjáinn sem aðeins er hægt að hreyfa upp og niður á einföldum standi. Þegar intel-örgjörvar voru innleiddir í Macintosh hélst G5 hönnunin um sinn en í ágúst 2007 var hún uppfærð þannig að kassinn er nú úr áli og glerplata þekur framhlið tölvunnar. G3. Steve Jobs gaf Apple stórar og ruglandi línur af hlutum eftir að hann varð framkvæmdarstjóri Apple árið 1997. Í lok ársins kynnti Apple línu af Mökkum sem kallaðist G3. Fyrirtækið kynnti iMac 6. mars 1998 og byrjaði að selja þá 15. ágúst 1998. Á þeim tíma voru Apple einstakir í að bjóða „allt-í-einu“ tölvur þar sem tölvan sjálf og skjárinn voru sameinuð í eitt. Margar aðrar PC tölvur hafa reynt þetta með litlum árangri. iMac var mjög öðruvísi frá öðrum tölvum sem hafa verið gefnar út. Hún var með blágrænu plasti og var eggjalaga utan um 38 cm CRT (túbu) skjá. Það voru handföng á henni og dyr sem opnuðust hægra megin við tölvuna þar sem tengingarnar voru faldar. Tvö heyrnatólatengi voru framan á og innbyggðir hátalarar. Jonathan Ive átti hugmyndina að hönnununni. Saga iMac (Core Duo iMac er svipuð G5) Gamlar Machintosh tengingar eins og ADB, SCSI (Small Computer System Interface) og GeoPort voru ekki en í stað komu USB tengi. Disklingadrifinu var einnig hætt. Þó þetta hafi verið gömul tækni var Apple talin undan sínum tíma og var því illa tekið. Til dæmi var engin auðveld leið til að fá litlu gömlu skjölin aftur frá fyrrverandi vélum nema mögulega kaupa USB disklingadrif (disklingadrifið seldist vel fyrstu ár iMac G3). Lyklaborðið og músin voru endurhönnuð fyrir iMac með blágræna plastinu og USB lyklaborði og USB mús. Lyklaborðið var minna heldur en fyrrverandi lyklaborð Apple með hvítum stöfum á svörtum tökkum. Músin var kringlótt, hokký pökk hönnun sem var óþægileg fyrir fólk með of stórar hendur. Apple hélt þó áfram að gefa út mýsnar þangað til loksins kom út ný mús, þekkt sem Apple Pro Mouse, tók við kringlóttu músinni. 2. ágúst 2005 kom síðan ný mús sem leysti af hólmi eins takka músina með Mighty Mouse. 12. október 2005 byrjaði Apple að selja nýju Mighty Mouse með iMac og Power Mac tölvum. G4. Árið 2002 þurfti CRT (túbu) iMac uppfærslu. iMac G3 örgjörvinn og 15 tommu skjárinn voru fljótt úreltir. Í janúar 2007 var flatskjás iMac gefin út með gjörsamlega nýrri hönnun með 15 tommu LCD skjá á stillanlegum armi og fjórðu kynslóðar örgjörva. Apple auglýsti það sem að hafa sveigjanleika borðlampa, svipað og Luxo Jr. sem var í stuttmynd frá Pixar. Reyndar var hún kölluð "iLamp". Hún var þekkt sem "The New iMac" eða "nýi iMacinn" meðan hún var framleidd en eftir að henni var hætt var hún kölluð iMac G4. iMac G4 var oft uppfærð. Það voru gerður 17 tommu skjár og síðan 20 tommu breiðskjár LCD næstu tvö ár. Þá hafði Apple hætt öllum CRT skjám úr línunum sínum. Aftur á móti gáti LCD iMacarnir ekki verið á sama lága verðinu og fyrrverandi iMac G3, aðalega vegna mikils kostnaðar á LCD tækninni á þessum tíma. a>, byggð á upprunalegu iMac hönnuninni iMac G3 var þá úrelt og ódýr tölva sem var mikilvæg fyrir menntunarmarkaðinn og þess vegna var eMac settur á markað í apríl 2002. eMac er jafn kraftmikil og G4 en var svipuð og iMac með egglaga hönnun og flötum CRT skjá og "allt-í-einu" hönnun. Hún var til að byrja með aðeins ætluð til menntunar (e stendur fyrir education sem þýðir menntun) en Apple byrjaði að selja almenningi hana mánuði síða. eMac var í meginatriðum iMacinn sem viðskiptavinirnir höfðu verið að biðja um fáum árum áður. Árið 2005 hafði Apple aftur byrjað að selja skólum aðeins, aðalega vegna ódýru Mac mini var ætluð sama markaði. G5. Í ágúst 2004 var iMac hönnuninni gefið nýtt útlit aftur. Á þeim tíma var búið að gefa út PowerPC 970 kubbinn og var notaður í Power Mac G5 línunni. Nýja hönnun iMac náði að nota PowerPC 970 inn í allt-í-einu hönnunina. Nýja hönnunin notaði sömu 17 og 20 tommu breiðtjalds LCD skjána og í seinustu útgáfu. iMac G5 var síðar uppfærð með þynnri hönnun, iSight vefmyndavél fyrir ofan LCD skjáinn og með Apple Front Row. Intel. Á Macworld sýningunni 10. janúar 2006 tilkynnti Steve Jobs að nýju iMac tölvurnar myndu verða fyrstu Macintosh tölvurnar til að nota Intel örgjörva, Core Duo. Hönnunin, möguleikarnir og verðið myndu haldast frá iMac G5. Hraði örgjörvans samkvæmt prófunum Apple var sagt vera tvisvar til þrisvar sinnur hraðari. Snemma í febrúar 2006 staðfestu Apple að það væri vandamál með myndbanda möguleikan í nýju iMökkunum. Þegar var verið að spila myndband með Front Row voru sumar 20 tommu iMakkar sýndu tilviljunakenndar láréttar línur, drauga og önnur vandamál. Þau vandamál voru löguð með uppfærslu. Núverandi iMakkar eru með Mighty Mouse, lyklaborði, Bluetooth og AirPort korti, innbyggðri iSight vefmyndavél, Apple Remote fjarstýringu til að nota með Front Row og rafmagnssnúru. Bluetooth þráðlaust lyklaborð og mús eru fáanleg fyrir pening. Seint á árinu 2006 kynnti Apple nýja útgáfu af iMac sem innihélt Core 2 Duo örgjörvan og ódýrari. Ný 24 tommu stærð með 1920 x 1200 upplausn var kynnt, fyrsti iMac til að geta sýnt 1080 HD efni í fullri upplausn. Fyrir utan 17 tommu 1.83 GHz örgjörva módelið, innihélt hann líka 802.11n draft netkort. Þann 7. ágúst 2007 setti Apple á markað nýjan iMac gerðan úr áli og gleri. Sá iMac hefur 20, eða 24 þumlunga skjá. Sonnetta. Sonnetta er ítalskur bragarháttur sem var mótaður á 13. öld. Stundum hefur sonnettan verið kölluð sónháttur eða sónhenda á íslensku. En bæði á íslensku og öðrum málum er allur gangur á því. Fyrsta íslenska Petrarca-sonnettan, og um leið sú frægasta, er ljóð Jónasar Hallgrímssonar: Ég bið að heilsa. Í átthendunni víkur Jónas frá ítalska forminu með því að ríma: abba, acca; þýðum, rísa, ísa, hlíðum, blíðum, friði, miði, fríðum. Fornyrðislag. Fornyrðislag er forn bragarháttur og einn Edduhátta, elstu bragarhátta íslensks kveðskapar. Líkt hinum Edduháttunum er fornyrðislag órímað og byggist á strangri stuðlasetningu. Annar edduháttur, málaháttur er nauðalíkur fornyrðislagi og virðist sem þeim tveim sé stundum blandað saman. Af fornyrðislagi þróaðist kviðuháttur, en hann er reglulegri en edduhættirnir (sjá t.d. Sonatorrek). Fornyrðislag var endurvakið á Íslandi á 18. og 19. öld fyrir áhrif rómantísku stefnunnar. Hver braglína fornyrðislags hefur tvö ris en breytilegan fjölda áherslulausra atkvæða. Stuðlasetning tengir saman tvær og tvær línur en rím er ekkert. Línufjöldi var upphaflega breytilegur en varð síðan átta línur. Sigurd Islandsmoen. Sigurd Islandsmoen (fæddur 27. ágúst 1881, látinn 1. júlí 1964) var norskt tónskáld og organisti í Moss. Islandsmoen ólst upp í Bagn í Sør-Aurdal og fjölskylda hans vanaði mjög tónlist og söng. Hann gekk á kennaraskóla og vann sem kennari á árunum 1904–16, þar af síðustu 6 árin sem tónlistarkennari í Gjøvik. Hann lærði síðan við Norges musikkhøgskole (ísl. "Tónlistarháskóli Noregs") og síðar í Leipzig hjá Max Reger. Hann varð organisti eftir nám og starfaði við kirkjuna í Moss (1916–61) og gerði mikið fyrir tónlistarlíf bæjarins. Hann stofnaði "Moss korforening" og var í samstarfi við "Moss orkesterforening". Tónverk. Islandsmoen er þekktastur fyrir lagið „Det lysnet i skogen“ við texta Jørgen Moe. Að auki samdi hann fræga sálumessu (n.: "Rekviem"), óperuna „Gudrun Laugar“, tvær sinfóníur, óratóríur, „Israel i fangenskap“ og „Heimat frå Babel“, kóraverkið „Missa solemnis“ og önnur verk, kammertónlist sem og fjöldamörg sönglög. Bob Sinclar. Christophe LeFriant (fæddur 1967), betur þekktur sem Bob Sinclar er franskur tónlistarmaður, plötusnúður og eigandi "Yellow Productions" útgáfufyrirtækisins. Hann öðlaðist heimsfrægð árið 2005 fyrir lag sitt "Love Generation". Ferill. Ferill Bobs hófst árið 1986 þegar hann fór að þeyta skífum og kom hann fram undir nafninu Chris the French Kiss. Aðal svið hans innan tónlistarinnar var fönk og hip-hop. Fyrsta þekkta lag hans var "Gym & Tonic" sem hann vann með Thomas Bangalter úr Daft Punk. Lagið innihélt meðal annars lag sem ólöglega var tekið úr æfingamyndabandi Jane Fonda. Sinclar er einnig þekktur undir nöfnunum The Mighty Bop og Reminiscence Quartet. Hann setti einnig á laggirnar verkefnið "Africanism" þar sem þekktir plötusnúðar af afrískum uppruna spreyta sig. Haglabyssa. Haglabyssa er hlaupvítt handskotvopn, sem skýtur mörgum höglum í einu skoti. Er öflug á stuttu færi, en skammdræg. Mest notuð við veiðar á fuglum og smærri spendýrum. Haglabyssur eru einnig notaðar af lögreglum og hermönnum víða um heiminn. Í Bandaríkjunum er algengt að fólk eigi haglabyssur eða skammbyssur til að vernda sjálft sig og fjölskyldu sína, en á Íslandi má fólk ekki eiga skotvopn til sjálfsvarnar. Tvíhleypa er haglabyssa með tveimur hlaupum, sem halda sínu hvoru skotinu og skjóta má hvort eftir öðru. Eru ýmist með hlaupin samsíða eða undir og yfir hvort öðru. Haglapumpur eru haglabyssur sem hlaðnar eru nokkrum skotum sem skjóta má í röð með því að spenna byssuna eftir hvert skot, en þá kastast jafnframt notaða skothylkið út úr byssunni. Hálfsjálfvirk er haglabyssa þar sem byssan nýtir ýmist bakslag eða gasþrýsting sem myndast þegar hleypt er af, til þess að kasta út notaða skothylkinu og skipta út fyrir nýtt í hvert sinn sem tekið er í gikkinn. Vert er að hafa í huga að haglabyssa má aðeins geyma tvö aukaskot. Frábrigðissýslari. Frábrigðissýslari er notaður til að bregast við frábrigðum (e. "exceptions") frá eðlilegu flæði í forritum. Þessi frábrigði er erfitt, ef ekki ómögulegt, að sjá fyrir. Mögulegt frábrigði er t.d. þegar reynt er að tengjast gagnagrunni sem ekki er til, opna skemmda skrá eða tengjast tölvu sem slökkt er á. Stuðningur við frábrigði í forritunarmálum. Mörg forritunarmál hafa stuðning við frábrigðissýslara, t.d. C++, Delphi, Java, PHP, Python og öll.NET forritunarmálin. Fyrir utan smávægilegan blæbrigðamun nota þessi forritunarmál áþekkan rithátt. Algengest er að notaðar séu „try“, „catch“ og „finally“ skipanir. Nánari lýsing hér að neðan. Try. Try blokkin heldur einfaldlega utan um þær aðgerðir sem fylgjast þarf með hvort veki upp frábrigði eða þar sem fylgjast þarf með að ruslasöfnun eigi sér stað eftir keyrslu blokkarinnar. Catch. Á eftir „try“ blokk getur fylgt engin eða margar „catch“ blokkir sem geta sérhæft sig í að afgreiða hver sína tegund af frábrigðum. Fyrst í „catch“ blokkinni er tiltekin tegund af frábrigði og tilvik sem hægt er að nota í blokkinni til að nálgast frekari upplýsingar um frábrigðið. Þegar villu er kastað í „try“ blokkinni er leitað eftir tilheyrandi frábrigðissýslara í „catch“ blokkum. Í „catch“ blokkinni er svo tekið á vandamálinu, ef t.d. frábrigðið er „FileNotFoundException“ gætum við skrifað skipanir í blokkina sem birta notandanum skilaboð um að skráin hafi ekki fundist og boðið honum að leita sjálfur. Ekki er æskilegt að grípa allar villur, t.d. villur eins og „NullPointerException“ er best að láta flæða áfram til stýrikerfis sem stöðvar keyrslu og birtir villuboð. Finally. Þessi blokk er almennt notuð til að losa um auðlindir. T.d. loka skrá, loka tengingum við net og gagna grunna. Stundum er hámark sett á tengingar við gagnagrunna og er þess vegna nauðsynlegt að hafa ekki fleiri en nauðsyn krefur opnar í einu. Skipanir í þessari blokk er nánst undantekninga laust keyrðar áháð útkomunni í „try“ blokinni. Ef frábrigði kemur upp í „try“ blokk er leitað af tilheyrandi frábrigðissýslara ef hann finnst eru skipanir í honum keyrðar og svo skipanir í „finally“ blokinni, ef engin frábrigðissýslari finnst er farið beinnt í að keyra skipanir í „finally“ blokkinni. Hægt er að nota „try“ og „finally“ blokkir saman án „catch“ blokka, og er þá „finally“ blokkin aðallega til að hreinsa upp auðlindir. Dæmi. Hér er dæmi um rithátt og skýringar á aðgerðum í forritunarmálinu Java. Hægt er að hafa enga eða margar „catch“ blokkir og meðhöndla þá hvert frábrigði fyrir sig, með mismunandi aðgerðum. Hægt er að skrifa föll sem kasta villum sem valda frábrigðum. Þetta er t.d. hægt að nota þegar setja þarf gildi á eigindum í klösum. Dæmið er skrifað í C#. Hér er kastað villu ef reynt er að skrá mánuði sem ekki eru til. Hér er svo dæmi um notkun á fallinu að ofan, einnig skrifað í C#. Þar sem við reynum að setja númer mánaðar sem 13 mun fallið kasta villu og valda frábrigði sem „catch“ mun grípa og skirfa þá út á skjáinn eftirfarandi: „Ekki er hægt að setja númer mánaðar lægri en 1 og hærra en 12“. Ingunnarskóli. Ingunnarskóli er einstaklingsmiðaður grunnskóli í Grafarholti í Reykjavík. Skólinn notast við teymiskennslu í árgangablönduðum hópum. Skólinn er nefndur eftir Ingunni Arnórsdóttur. Bassatromma. Bassatromman er stærsta tromma í trommusetti. Bassatromman framkallar dýpsta tóninn í trommusettinu. Oft er sett gat á trommuskinnið framan á trommunni sem notað er td. í að koma fyrir inni í trommunni hlutum eins og teppum til að dempa hljóðið og gatið notast líka sem betri staður fyrir hljóðnema, en ólíkt öðrum trommum er slegið á bassatrommu með fóthamri (en: kicker). Í dægurtónlist fylgjast bassalína og sláttur bassatrommu oft að. Háttarökfræði. Háttarökfræði er undirgrein heimspekilegrar og formlegrar rökfræði, sem fjallar um rökleg tengsl staðhæfinga um nauðsyn og möguleika. Háttarökfræði var uppfinning forngríska heimspekingsins Aristótelesar, sem gerði fyrst grein fyrir reglum hennar í ritinu "Um túlkun" Í setningunum „Morð Jónasar er möguleiki“, „Jónas var mögulega myrtur“, „Mögulegt er að Jónas hafi verið myrtur“ og „Það gæti verið að Jónas hafi verið myrtur“ er innifalin hugmynd um möguleika. Í háttarökfræði er möguleikinn táknaður orðunum "það er mögulegt að" sem skeytt er framan við setninguna "Jónas var myrtur". Þannig er til dæmis "mögulegt" að Jónas hafi verð myrtur ef og aðeins ef það er "ekki nauðsynlegt" að Jónas hafi "ekki" verið myrtur. Vesturbæjarskóli. Vesturbæjarskóli er íslenskur grunnskóli í vesturbæ Reykjavíkur. Nemendur eru um 340 og starfsmenn 40. Vesturbæjarskóli var stofnaður 1958 og var til bráðabirgða í húsnæði Stýrimannaskólans og gekk þá stundum undir nafninu "Öldugötuskóli". Skólinn hefur verið einsetinn síðan 1999. Skólastjóri er Hildur Hafstað. J.L. Ackrill. John Lloyd Ackrill, þekktari sem J.L. Ackrill, (30. desember 1921 – 30. nóvember 2007) var fornfræðingur og heimspekingur sem sérhæfði sig í fornaldarheimspeki, einkum heimspeki Platons og Aristótelesar. Um Ackrill hefur verið sagt að hann hafi verið ásamt Gregory Vlastos og G.E.L. Owen einn mikilvægasti fræðimaðurinn á sviði forngrískrar heimspeki í hinum enskumælandi heimi á síðari hluta 20. aldar. Hann var lengst af prófessor í heimspekisögu við Oxford-háskóla. Danny Pollock. Danni Pollock var gítarleikar Utangarðsmanna frá upphafi. Hann hefur mikið spilað með bróður sínum Mick Pollock í gegn um tíðina en þeir bræður leika sérstaklega blús og blúsrokk saman. Hann rekur nú Tónlistarþróunarmiðstöðina við Hólmaslóð í Reykjavík. Tundurduflaslæðari. Tundurduflaslæðari er herskip sem er sérstaklega búið til að eyða tundurduflum, t.d. með því að draga slóða sem sker á festar duflanna. Duflin fljóta þá upp og eru þá sprengd með því að skjóta á þau. Beitiskip. Beitiskip er hraðskreitt, vel vopnum búið herskip. Beitiskip eru venjulega um 5000-20.000 tonn. Ganghraði þeirra er yfir 30 sjómílur á klukkustund. Það er minna en orrustuskip en stærra en tundurspillir. Oft búið flugskeytum. Skautasegl. Skautasegl er ferhyrnt segl. Það var notað á bátum við Íslandsstrendur frá upphafi byggðar og þangað til undir lok 18. aldar. "Í þessari ferð sá ég í fyrsta skipti skautasegl á árabát, en breiðfirðingar notuðu mikið þann seglbúnað á þessum tíma og höfðu gert allt frá landnámstíð." Sirius-sveitin. Gula merkið sýnir Daneborg sunnarlega á strönd þjóðgarðsins Sirius-sveitin er 14 manna hersveit danska hersins sem hefur aðalaðsetur í Daneborg (77° 29′ 0″ N, 69° 20′ 0″ V) í Þjóðgarði Grænlands. Þessi hersveit gegnir sérkennilegu hlutverki og er um flest á annan hátt en aðrar hersveitir í heiminum. Sveitin. Þátttakendur í Sirius-sveitinni eru herskyldir Danir á þrítugsaldri. Allir sem vilja innan þessa hóps geta sótt um að verða hluti af sveitinni þó fáir séu útvaldir. Þjónustan varir í rúmlega tvö ár, frá júlí til ágúst tveimur árum seinna. Á þessum tíma hafa hermennirnir engin frí heldur eru í þjónustu alla daga og eru um 8 mánuði á ári á ferðalagi. Samanlagt eru 14 manns í sveitinni samtímis, 12 með aðsetur í Daneborg og tveir í Mestersvig. Sveitin hefur um 110 sleðahunda til að ferðast um svæðið. Birgðaskip kemur í ágúst einu sinni ári. Yfir sumartímann eru fjölmargir vísindaleiðangrar á svæðinu en stærsta hluta ársins er ekkert samband við umheiminn nema fjarskiptasamband. Þó er oftast komið með jólagjafir og jólasælgæti í desember og er þá varpað niður í fallhlíf. Sveitin er hluti af sjóher Dana og er undir stjórn herstöðvarinnar í Kangilinnguit (eða Grønnedal). Forsaga. Það eru tvær meginástæður fyrir því að Sirius-sveitin var stofnuð 1950. Annars vegar voru deilur við Norðmenn um yfirráðarétt á Grænlandi og hins vegar tilraunir Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni að koma sér upp aðstöðu á norðaustur Grænlandi. Allt frá því að ríkjasamband Danmerkur og Noregs rofnaði 1814 og fram til 1933 voru miklar deilur milli landanna um veiðirétt og yfirráðarétt yfir norður og norðaustur Grænlandi. Árið 1932 hertóku norskir hermenn hluta af Austur-Grænlandi sem þeir nefndu Eirik Raudes Land. Milli 12. júlí 1932 og 5. apríl 1933 var það setið af norskum hermönnum og embættismönnum. Var það Vidkun Quisling, sem þá var norskur varnarmálaráðherra, sem hafði skipað fyrir um hersetuna. Undu Danir illa við og skutu málinu til Alþjóðadómstólsins í Haag, sem úrskurðaði að þetta landsvæði tilheyrði Danmörku og voru þá norsku hermennirnir kallaðir heim. Í dómsniðurstöðum segir einnig að Danir verði, ef þeir vilji hafa yfirráðaréttinn áfram, að hafa meiri umsvif á svæðinu. Nokkrar veðurathugunarstöðvar voru settar á laggirnar á árunum næst á eftir. Í ágúst 1942 (tveimur árum eftir hertöku Danmerkur) tókst Þjóðverjum í laumi að setja upp veðurathugunarstöð á norðaustur Grænlandi í svo kallaðri "Operation Holzauge" -áætlun. Bandamenn uppgötvuðu ekki stöðina fyrr en í mars 1943 þegar Dönsk hersveit rakst á hana. Þjóðverjum tókst að drepa foringja Dananna og handsama hina að einum undanskildum, sem tókst að komast einn síns liðs 600 km að mestu yfir jökul til næstu stöðva Bandamanna. Árás var gerð á þýsku stöðina í maí og hún lögð í rúst. Þegar fór að líða á kalda stríðið fóru dönsk og bandarísk yfirvöld að óttast að Sovétmenn mundu reyna að leika sama leik og setja upp leynistöðvar á norður eða norðaustur Grænlandi og leiddi það til stofnunar Sirius-sveitarinnar. Þjóðgarður Grænlands. Þjóðgarður Grænlands, á grænlensku Nunap Eqqissisimatitap og dönsku Grønlands Nationalpark nær yfir allt norðaustur Grænland norðan við Ittoqqortoormiit, "Scoresbysund". Garðurinn nær frá Knud Rasmussens-land í norðri til Mestersvig suðaustri. Þetta er stærsti þjóðgarður í heimi og er að flatarmáli 970000 km² og strandlengjan er um 16000 km og innan hans er fyrir utan jökulhelluna nyrstu landsvæði í heimi þar sem búið hefur verið. Nú búa engir þar að staðaldri en þar hafur heimskautafólk búið í þúsundir ára þó oft hafi verið aldir sem landið var óbyggt. Lífríki. Áætlað er að milli 5000 til 15000 sauðnaut hafist við á strandsvæðunum í þjóðgarðinum auk fjölda ísbjarna og rostunga. Önnur spendýr eru meðal annars heimskautarefir, hreysikettir, læmingjar og heimskautahérar. Hreindýr mynduðu eigin undirtegund á norðaustur Grænlandi en þeim var útrýmt um aldamótin 1900. úlfum var útrýmt um 1934, en þeir hafa á síðustu árum aftur flutt inn á svæðið. Af sævarspendýrum innan þjóðgarðsins má nefna hringanóra, kampsel, vöðusel og blöðrusel auk náhvals og mjaldrar. Fuglategundir sem verpa á svæðinu eru fjölmargar meðal annars himbrimi, helsingi, heiðagæs, æðarfugl, æðarkóngur, fálki, snæugla, sanderla, rjúpa og hrafn. Qaanaaq. Qaanaaq er þorp í sveitarfélaginu Qaasuitsup á norðvestur Grænlandi. Það er eini eiginlegi byggðakjarninn á Norður-Grænlandi (Avannaa). Upphaf hans var verslunarstöðin "Kap York Stationen Thule" sem stofnuð var af Knud Rasmussen og Peter Freuchen árið 1910. Núverandi byggðarlag varð til þegar allir íbúar gamla Thule-þorpsins voru fluttir þangað árið 1953. Þorpið. Qaanaaq-þorpið Mállýska íbúana í Qaanaaq er talvert frábrugðin þeirri grænlensku sem töluð er sunnar í landinu og miklu líkar þeirri inuítamállýsku sem töluð er í Nunavut héraðinu í Kanada. Öll byggðarlög fyrir utan aðalþorpið eiga í hættu að fara í eyði á næstu árum. Þetta er sama þróun og sjá má um allt Grænland, að útsveitir fara í eyði og íbúar flytjast í aðal þéttbyggðarsvæðið. Eitt af þessum byggðarlögum er Etah sem lá 78 km norðvestur frá Siorapaluk (á 78°19'N) og var nyrsta byggð í heimi meðan búið var þar. Um þetta svæði fóru allir þeir innflytjendahópar sem numið hafa land á Grænlandi, ef frá eru taldir norrænir menn á miðöldum. Enda er skammt á milli Grænlands og Ellesmere eyju, þar sem styst er á Kennedy sundi (Kennedy kanalen, hluti af Nares sundi) er einungis 24 km milli landanna. Hér hafa fundist fornleifar eftir alla þessa menningarheima og er menning forfeðra nútíma Inuíta kennd við þetta svæði, Thule-inuítar, enda hér sem fornleifafræðingar fyrst skilgreindu þennan menningarheim. Hér hafa einnig fundist munir sem koma frá hinum norrænu Grænlendingum og hafa verið upp getgátur um að þeir hafi sjálfir siglt hingað norður. Það er þó með öllu óvíst, þessir hlutir gætu allt eins hafa borist hingað í skiptiverslun Inuíta á milli. Það var skotinn John Ross sem árið 1818 kom hingað fyrstur nútíma Evrópumanna og nefndi íbúana pólar-eskimóa. Nýjasti innflytjendahópurinn að vestan fluttist hingað frá Baffin-eyju fyrir 150 árum síðan. Sveitarfélagið nær yfir 225,500 km², og er megnið af því svæði undir jökli. Að flatarmáli er þetta víðfeðmasta sveitarfélag í heimi enda stærra en England, Skotland og Wales samanlögð. Að sunnan liggur það að Upernavik sveitarfélaginu, austan að Þjóðgarði Grænlands, að Íshafinu til norðurs, og að Nares sundi til vesturs. Nares sund aðskilur Ellesmere eyju í Nunavut héraðinu í Kanada frá Grænlandi. Kort af Herstöðin. Bandaríkjaher byggði herstöð í næsta nágrenni við Thule-þorpið árið 1951 sem nefnt var Thule Air Base og er þar enn. Aðalhlutverk stöðvarinnar var að vera útvörður í varnakerfi Bandaríkjanna gegn Sovétríkjunum á kaldastríðs árunum. Var þar byggð mikil radarstöð og einnig höfðu sprengiflugvélar aðsetur þar. Íbúar þorpsins fóru fljótlega að mótmæla við dönsk yfirvöld yfir yfirgangi hersins og að öll veiðiaðstaða versnaði til muna. Það endaði með því að allir íbúar gamla Thule-þorpsins voru fluttir burtu árið 1953 norður þar sem þorpið Qaanaaq stendur nú um 130 km norðan við upphaflega þorpið. Fengu nokkurra daga frest til að yfirgefa híbýli og eigur. Undu þeir því afar illa enda miklu verra veiðisvæði en þar sem þeir bjuggu áður. Urðu úr þessu miklar deilur bæði á Grænlandi og í Danmörku á næstu áratugum. Þeir sem höfðu verið fluttir á brott og afkomendur þeirra stofnuðu síðan samtökin "Hingitaq ’53" og hófu málaferli gegn danska ríkinu. Það var ekki fyrr en árið 1999 sem endanlegur dómur gekk í málinu í Hæstarétti Danmerkur og var þar úrskurðað að íbúarnir hefðu verið neyddir til að flytja og var þeim dæmdar minniháttar skaðabætur fyrir. Auk skaðabótanna lagði danska ríkisstjórnin 210 miljónir danskra króna í flugvallarbyggingu í Qaanaaq. Nýi flugvöllurinn var tilbúinn 2002, fram að þeim tíma var herflugvöllurinn í Thule Air Base (Pituffik flugvöllurinn) eini flugvöllurinn á öllu norður Grænlandi. Þurftu allir, jafnt heimamenn sem aðrir, að sækja um leyfi hjá bandarískum heryfirvöldum til að komast í og úr almenningsflugi sem þar lenti. Thule herstöðin heyrir ekki undir sveitarfélagið Qaanaaq en er undir stjórn bandaríkjahers. Þann 22. janúar 1968 fórst B-52 sprengjuflugvél 11 km sunnan við herstöðina. Fjórar vetnissprengjur sem voru um borð tíndust og geislavirk málmbrot dreifðust um stórt svæði. Það var ekki fyrr en 1996 sem dönsk yfirvöld viðurkenndu að um geislavirkni hafi verið um að ræða og gengust á að greiða þeim sem unnið höfðu við hreinsun á svæðinu 50.000 danskar krónur á mann í skaðabætur fyrir heilsutap og í mörgum tilvikum dauða úr krabbameini. Smilla. Í bókinni "Lesið í snjóinn", lætur Peter Høeg höfundur bókarinnar aðalsöguhetjuna, Smillu, vera fædda og uppalda í Qaanaaq og móðir hennar innfæddur Grænlendingur. Thule-herstöðin. Thule herstöðin eða Thule Air Base (einnig Thule Air Base/Pituffik Airport, flugvallarstytting THU) er sjálfstætt svæði í sveitarfélaginu Qaasuitsup á norðvestur Grænlandi, um 1.120 km norðan við heimskautsbaug, 1.524 km sunnan við norðurheimsskautið og um 890 km austan við norðursegulpólinn. Herstöðin stendur þar sem áður var Thule-þorpið, en íbúar þess voru neyddir til að flytja þangað sem nú er Qaanaaq. Fyrstu herframkvæmdir Bandaríkjamanna hófust hér í seinni heimsstyrjöldinni en Bandaríkin tóku völdin yfir Grænlandi 1941 eftir hernám Þjóðverja á Danmörku. Árið 1951 var byggður flugvöllur sem gerði mögulegt að hafa þar heimaflugstöð fyrir sprengjuflugvélar sem ætlað var að nota gegn Sovétríkjunum ef til átaka kæmi. Árið 1961 var Ballistic Missile Early Warning System (BMEWS) radar settur upp um 20 km norðaustur af herstöðinnni. BMEWS var mikið radarkerfi sem meðal annars tengdist Íslandi og var sett upp til að geta varað bandarísk yfirvöld við flugskeytum sem skotið væri frá meginlandi Sovétríkjanna eða frá kafbátum á Norður-Atlantshafi eða Íshafinu. Á þessum tíma var herstöðin á hátindi með um 10.000 hermenn staðsetta þar. Seinni hluta 7. áratugarins fækkað mjög í herliðinu og var einungis um 3.400 manns þar árið 1968. Nú eru þar einungis um 250 hermenn. Þann 21. janúar 1968 fórst B-52 sprengjuflugvél 11 km sunnan við herstöðina. Fjórar vetnissprengjur sem voru um borð týndust og geislavirk málmbrot dreifðust um stórt svæði. Það var ekki fyrr en 1996 sem dönsk yfirvöld viðurkenndu að um geislavirkni hafi verið að ræða og gengust inn á að greiða þeim sem unnið höfðu við hreinsun á svæðinu 50.000 danskar krónur á mann í skaðabætur fyrir heilsutap og í mörgum tilvikum dauða úr krabbameini. Téténska. Téténska ("Нохчийн мотт") er opinbert tungumál í Téténíu í Kákasus. Téténía er lítið hérað í Suðaustur-Rússlandi sem sækist eftir sjálfstæði. Á svæðinu hafa verið mikil átök milli Téténa og Rússa. Nokkrar setningar. Iуьйре дика хуьлда хьан (Ur dekúl ka?) - Góðan morgun Де дика хуьлда хьан (Dei dekúl ka) - Góðan daginn Суьйре дика хуьлда хьан (Sur dekúl ka) - Gott kvöld Маршалла ду хьоьга! (Marşal dú kå) - Komið þið sæl og blessuð! Буьйса декъала хуьлда хьан (Beşdekakúl ka) - Góða nótt Iодика йойла шун! (Ódikjeil şú) - Bless Воккха стаг (Vók stǎg) - Þú (gamall maður) Йоккха стаг (Jók stǎg) - Þú (gömul kona) Могушалла муха ю хьан? (Mogşal múkú ka) - Hvað segirðu gott? Дика ду, баркалла! (Dek-dú, barkall?) - Bara fínt, takk! Pottaska. Pottaska (K2CO3) er efnasamband Kalíns og karbónats. Pottaska hefur frá fornu fari verið notuð til að búa til gler og sápu og í tilbúinn áburð. Nafnið vísar til þess að efnið var unnið úr viðarösku. Pottaskan hefur þrjú nöfn samkvæmt gömlum bókum: Alkali, lútarsalt og pottaska. "Ef mjólk ysti við suðu, var látið dálítið af hreinsaðri pottösku í mjólkina og hún soðin nokkra stund og hrært vel í pottinum, þá losnaði draflinn í sundur og mjólkin varð jafngóð aftur." National Football League. NFL (eða National Football League) er aðaldeild Ameríska fótboltans í Bandaríkjunum. Deildin samanstendur af 32 liðum, hvaðanæva úr Bandaríkjunum. Deildinni er skipt í tvær minni deildir, "Ameríkudeildina (en:American Football Conference (AFC))" og "Þjóðardeildina (en:National Football Conference (NFC))". Þessum tveim deildum er síðan aftur skipt niður í norður, suður, austur og vestur riðla og eru fjögur lið í hverjum riðli, eða samtals 32. Fyrir upphaf hvers tímabils spilar lið fjórir æfingaleiki. Þegar að tímabil byrjar spilar lið 16 deildarleiki og eftir það komast tólf lið (sex úr AFC, sex úr NFC) í umspil. Umspilið endar síðan í úrslitaleik á milli sigurvegara AFC deildarinnar og sigurvegara NFC deildarinnar, sá leikur er jafnframt kallaður Super Bowl, og er spilaður í lok janúar eða upphafi febrúars. Saga. Árið 1920 var deildin stofnuð undir nafninu "American Professional Football Association". Tveim árum seinna, árið 1922, var nafninu breytt í National Football League og stendur það nafn enn í dag. Deildin er ein af stærstu íþróttadeildum í Norður-Ameríku. Deildin er einnig í sér klassa hvað varðar áhorfendafjölda og árið 2005 voru 67 593 áhorfendur að meðaltali á hverjum leik, en það eru t.d. 25 000 fleiri manneskjur að meðaltali á leik en var í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Bundesliga. Lið í NFL. Það eru 32 lið í NFL deildinni. Hvert lið má hafa mest 53 leikmenn á meðan á hverju tímabili stendur. Þetta er eina stóra deildin í Bandaríkjunum þar sem að öll liðið eru frá Bandaríkjunum, en í öðrum tilvikum eru lið frá Kanada með í Bandarískum deildarkeppnum. Þetta má útskýra með því að kanadískur fótbolti, er meira spilaður þar. Hann er nokkuð frábrugðinn amerískum fótbolta, þó að hann minni mjög á hann. Flestar stórborgir Bandaríkjanna hafa lið í NFL deildinni. Undantekning á því eru borgirnar Los Angeles í Kaliforníu og San Antonio í Texas. San Antonio hefur þó lið í NBA deildinni og Los Angeles hefur lið í NBA, MLS og MLB deildunum. NFL Í Sjónvarpi. Á Íslandi hægt að sjá NFL í beini útsendingu, Á ESPN America sem næst í gegn um sjónvarp Skjáheims. Útsendingar Símans hófust þann 8. september. Fyrrum rétthafi NFL á Íslandi Stöð 2 Sport þótti ekki standa sig nægilega vel í því aðfæra Íslendingum NFL leiki, þar aðleiðandi fór NFL þá leið að selja ESPN America sýningarréttinn, sem gerði svo samming Við Skjáheim og því geta íslendingar séð 4-6 leiki á viku í NFL og alla úrslitakeppinna á þeirri stöð. Beinakæfa. Beinakæfa er kæfa úr stórgripabeinum. Beinin eru lögð í sýru og skafin, skafið hitað í potti og bætt í tólg. Beinakæfa var fyrrum notuð ofan á brauð á Íslandi. Selabaggi. Selabaggi er gamall íslenskur réttur úr sel. Hjarta, hryggvöðvar og spik af sel er lagt inn í selsþind og selsgörn vafið utan um. Selbaggar voru oftast soðnir og súrsaðir en einnig þekktist að reykja þá eða eta þá nýja. Bandsög. Bandsög er sög með blaði sem er grannur, tenntur málmborði með samsoðna enda. Blaðið í bandsöginni gengur líkt og reim yfir tvö hjól sem snúast. Með bandsög er auðvelt að breyta stefnu sagarfarsins meðan sagað er (saga munstur). Hún er einkum notað til að saga í málm- eða tréplötur og við kjötvinnslu. Klósög. Klósög var svonefnd flettisög. Klósögin er stór og gróftennt sög í trágrind (blað í miðju) og söguðu tveir með henni. Hér áður fyrr var t.d. plönkum flett í borð eða þynnri fjalir (skífur) með klósög. Henni má ekki rugla við borðsög. Hálfsjálfvirkt skotvopn. Hálfsjálfvirkt skotvopn er skotvopn, sem notar hluta af gasi drifenfis til að spenna byssuna og kasta út notuðu skothylki og hleðst byssan sjálfkrafa nýju skoti. Eftir að hleypt hefur verið af byssunni má skjóta næsta skoti, með því að taka í gikkinn. Með alsjálfvirkri byssu má tæma magasínið með því að taka einu sinni í gikkinn. Alsjálfvirkt skotvopn. a> og tóm skothylki allt um kring Alsjálfvirkt skotvopn er skotvopn sem notar hluta af gasi drifefnis til að spenna byssuna, kasta út notuðu skothylki og skjóta næsta skoti. Þannig má tæma skotgeymi byssunnar með því að taka einu sinni í gikkinn og halda honum inni. Hálfsjálfvirk byssa notar einnig hluta af gasi drifefnis til að spenna byssuna og kasta út notuðu skothlyki, en leyfir aðeins að skjóta einu skoti í einu, þ.a. taka þarf í gikkinn í hvert sinn sem hleypt er af. Aðgerð (forritun). Aðgerð í forritun er þær reikniaðgerðir sem hægt er að framkvæma í forritun, sem eru þá m.a. heiltöluaðgerðir, kommutöluaðgerðir og rökaðgerðir. Heiltöluaðgerðir. Heiltölur(integer) eru skilgreindar í forritunarmálum sem allar heilar tölur á ákveðnu bili, það getur verið misjafnt eftir því hvaða forritunarmál er skoðað hvað sú skilgreining er og flest forritunarmál bjóða upp á fleiri en eina skilgreiningu. Hér í töflunni fyrir neðan eru nokkrar algengar skilgreiningar á heiltölum. Helstu aðgerðir á heiltölum eru plús mínus margföldun og deiling en til eru aðrar aðgerðir eins og t.d. mod eða modular. Kommutöluaðgerðir. IEEE Staðallinn fyrir kommutölur(IEEE 754)er algengasti staðallinn í dag sem notaður er í kommutöluútreikningi. Hann tiltekur fjórar aðferðir til að skilgreina kommutölur þ.e. single-precision (32-bita), double-precision (64-bita), single-extended precision (≥ 43-bita, er ekki mikið notað) og double-extended precision (≥ 79-bita, venjulega útfært með 80 bitum). Aðeins 32-bita útfærslan er skylda að útfæra samkvæmt staðlinum, hinar aðferðirnar eru valkvæðar. Stærð 32 bita númera er +/- 3.4 * 1038 Stærð 64 bita númera er +/- 1.8 * 10308 Helstu aðgerðir á kommuölum eru plús mínus margföldun og deiling. Rökaðgerðir. Helstu rökaðgerðir í forritun eru AND, OR, NOT og XOR - Helsti tilgangur rökaðgerðanna í forritun er að fá fram breytilegt flæði í forritum með t.d. IF og WHEN skipunum. AND - og. AND er notað til að bera saman tvær segðir og ef báðar eru sannar þá er niðurstaðan sönn, annars er hún ósönn. true and true verður þá true false and true verður þá false Í forritunarmálum er ýmist notast við and(Basic) eða &&(C++) til að tákna AND skilyrði. Í C# er boðið upp á tvær mismunandi útgáfur af AND sem eru þá & og && þær virka eins nema að einu leyti þ.e. að seinni segðin er aldrei keyrð í && tilvikinu ef fyrri segðin er ósönn. Ef við erum með tvö föll sem skila okkur bool gildinu false, fyrra fallið prentar út "A tókst" og seinna fallið prentar út "B tókst" þá fáum við fram eftirfarandi niðurstöður.. FallA() && FallB() skilar okkur A tókst og false FallA() & FallB() skilar okkur A tókst, B tókst og false OR - eða. OR er notað til að bera saman tvær segðir og ef báðar eða önnur þeirra er sönn þá er niðurstaðan sönn, en ef báðar eru ósannar þá er niðurstaðan ósönn. true and true verður þá true false or true verður þá true false or true verður þá true false or false verður þá false Í forritunarmálum er ýmist notast við or(Basic) eða ||(C++) til að tákna OR skilyrði. Í C# er boðið upp á tvær mismunandi útgáfur af OR sem eru þá | og || þær virka eins nema að einu leyti þ.e. að seinni segðin er aldrei keyrð í || tilvikinu ef fyrri segðin er sönn. Ef við erum með tvö föll sem skila okkur bool gildinu true, fyrra fallið prentar út "A tókst" og seinna fallið prentar út "B tókst" þá fáum við fram eftirfarandi niðurstöður.. FallA() || FallB() skilar okkur A tókst og false FallA() | FallB() skilar okkur A tókst, B tókst og true NOT - ekki. NOT er notað til að snúa við sanngildi segðar. Í forritunarmálum er ýmist notast við not(Basic) eða !(C++) til að tákna NOT aðgerð. XOR - annaðhvort eða (en ekki hvort tveggja). XOR er notað til að bera saman tvær segðir og ef önnur þeirra er sönn þá er niðurstaðan sönn, en ef báðar eru sannar eða ósannar þá er niðurstaðan ósönn. true xor true verður þá false false xor true verður þá true false xor true verður þá true false xor false verður þá false Í forritunarmálum er ýmist notast við xor(Basic) eða ^(C++) til að tákna XOR skilyrði. Frost. Frost í veðurfræði á við lofthita, sem er neðan frostmarks vatns (0°C = 273 K = 32°F). "Frostavetur" er óvenju kaldur vetur með miklum samfelldum frosthörkum. Super Bowl. Vince Lombardi bikarinn sem lið fær afhent er það sigrar Super Bowl Super Bowl er úrslitaleikur NFL deildarinnar í amerískum fótbolta. Leikurinn er yfirleitt spilaður á sunnudegi og hefur sunnudagurinn sem að leikurinn fellur á verið kallaður "Super Bowl Sunday" eða „úrslitaleikssunnudagur“. Super Bowl leikurinn var fyrst spilaður 15. janúar árið 1967 sem hluti af samkomulagi á milli NFL og þáverandi keppninautar NFL, "American Football League" (AFL) þess hljóðandi að hvert ár yrði spilaður AFL-NFL úrslitaleikur. Eftir að deildirnar runnu saman árið 1970 varð leikurinn úrslitaleikur NFL deildarinnar. Leikurinn er nú spilaður fyrsta sunnudag febrúar. Super Bowl fær afar mikið áhorf í Bandaríkjunum og er yfirleitt það sjónvarpsefni sem fær mest áhorf á ári hverju. Þetta gerir það að verkum að mörg hundruð fyrirtæki reyna að auglýsa vöru sína á meðan á leiknum stendur og eyða fyrirtæki oft milljónum dollara í auglýsingar á meðan á leiknum stendur. Auk þessa koma oft heimsfrægir tónlistarmenn og eru með atriði í hálfleik, syngja þjóðsönginn eða eru með atriði fyrir leikinn. Meðal þeirra sem hafa komið fram eru Ray Charles, The Rolling Stones, Janet Jackson og Backstreet Boys. Í Super Bowl leiknum eru rómverskar tölur notaðar til að tákna hvern leik, frekar en árið sem að leikurinn var spilaður. Þetta er meðal annars tilkomið vegna þess að leiktímabilið í NFL spannar alltaf tvö ár. Einungis fjögur lið hafa aldrei komist í Super Bowl: Cleveland Browns, Detroit Lions, Houston Texans og Jacksonville Jaguars. Kansas City Chiefs og New York Jets hafa ekki komist í Super Bowl eftir að hafa flutt úr AFL í NFL árið 1970. Lagvopn. Lagvopn er vopn til að leggja eða stinga með, t.d. hnífur, byssustingur, rýtingur, stungu- og lagsverð, spjót eða lensa. Atgeir Gunnars á Hlíðarenda var líklega bæði lag- og höggvopn. Glóðarkúla. Glóðarkúla öðru nafni ferilkúla. Glóðarkúla er byssukúla með litlu ljós- eða reykblysi sem kviknar á þegar hleypt er af. Glóðarkúlan skilur eftir sig ljósrák eða reykjarslóð þannig að skyttan getur séð feril hennar. Hún er einkum notuð í hernaði. Höggvopn. Höggvopn er vopn sem höggvið er með, t.d. höggsverð, exi eða sax og kylfur og önnur barefli. Fornbókmenntirnar skipta vopnum í þrennt, og er það gert eftir notkun og gerð vopnanna. Það eru: höggvopn, lagvopn og skotvopn. Höggvopn var t.d. sverð, lagvopn t.d. spjót og þegar talað var um skotvopn var t.d. átt við boga. Þekkt höggvopn úr Íslandssögunni var gaddkylfa sem lögreglan notaði á árum áður og nefndist "morgunstjarna" og atgeir Gunnars á Hlíðarenda, sem líklega var bæði högg- og lagvopn. Sprengjuvarpa. Orðið sprengjuvarpa getur átt við um tvennskonar vopn. Annað þeirra, sem einnig kallast mortélsbyssa (e. "mortar") er lítil hlaupstutt og hlaupvíð fallbyssa. Hitt vopnið á við það sem heitir á ensku "grenade launcher". Í fyrrnefnda vopninu, mortélsbyssa, (e. "mortar") er skotið er undir 45°-85° horni og kúlurnar fara því í krappan boga svo að vopninu er oft beitt til að skjóta yfir nálæga hæð og ofaní stöður óvina. Sprengjuvörpur hafa þann meginkost að þær eru min léttari en annað stórkotalið sem notar álíka þung skot. Það gerir það að verkum að fáeinir hermenn geta borið alla nausynleag hluta sprengjuvörpu á bakinu svo að fótgöngulið getur haft hana með sér sem stórskotalið ef annað stendur ekki til boða. Aftur á móti skjóta sprengivörpur skotum sínum á mun minni hraða svo að nútíma sprengivörpur draga yfirleitt aðeins fáeina kílómetra og áhrif skotsins felast nánast eingöngu í sprengingu kúlunnar þar sem hreyfiorka skotsins er mun minni en hjá öðru stórskotaliði. Þó að flestart sprengjuvörpur séu litlar og léttar (oft undir 100 kg) eru mörg dæmi um mun stærri sprengjuvörpur, til dæmis þýsku digru bertu sem hafði 420mm hlaupvídd og var notuð í fyrri heimsstyrjöldinni eða jafnvel hinn 914mm Litla Davíð (e. little david) sem var hannaður í seinni heimsstyjöldinni. Litlu fótgönguliðsvörpurnar hafa yfirleitt slétt hlaup, þ.e. ekki með rifluðu hlaupi og skotin fá stöðugleika með spöðum aftan á þeim og eru framhlaðnar þannig að skoti er sleppt ofan í hlaupið og sprengivarpan hleypir af um leið og skotið lendir í botninum. Þetta gerir það að verkum að sprengjuvörpurnar þurfa að vera nokkuð uppréttar þegar þær skjóta. Stórar sprengjuvörpur eru líkari stórum fallbyssum og hafa riflað hlaup og eru hlaðnar að aftan. Hitt vopnið sem er kallað sprengivarpa á íslensku (e. "grenade launcher") er minna og sumar útgáfur er hægt að festa á venjulega hrískotariffla en einnig eru til stórar sjálfvirkar útgáfur sem eru settar á þrífót eða ökutæki. Þessi vopn hafa gjarna 30-40mm hlaupvídd og skjóta með mjög litlum hraða (oft um 70m/s) og draga í mesta lagi 2km, yfirleitt mun minna, oft nokkur hundruð metra. Linkarnir á önnur tungumál eru á þessa gerð vopna. AFC Austur. Fjöldi skipta í umspilum. 1 Þekktir sem Baltimore Colts fyrir árið 1984. Færðir í AFC Suður árið 2002. Munnbyssa. Munnbyssa (örvapípa, blásturspípa eða blástursbyssa) er pípa eða reyr sem blásið er í með miklum krafti til að skjóta örvum, baunum eða öðrum skeytum til marks, hvort sem það er til að fella veiðidýr eða hæfa skotskífu. Grindasög. Grindasög er viðarsög þar sem mjótt sagarblað er sett í sérstaka grind á móti tvöföldum streng sem undinn er saman með snarvöndli til að strekkja sagarblaðið. Stingsög. Stingsög er svonefnd gatasög. Stingsögin er oddmjó sög, notuð til að saga með göt, t.d. út frá borgati. Hrím. Hrím (einnig ritað hrími í fornu máli) er hvítir og fremur grófir ískristallar sem myndast þegar frostkaldir þokudropar setjast á eitthvað í frosti. Hrím er algengast til fjalla. Hrím myndast ekki á rúðum, það er héla. Orðsifjar. Orðið "hrím" kemur af fornnorska orðinu "hrím", sem kemur af indó-evrópsku rótinni *krei- (sem þýðir að „strjúka yfir“ eða að „snerta laust“). "Hrím" er einnig samstofna færeyska orðinu "rím", sænska orðinu "rim", sænska mállýskuorðinu "rim" („saltlag á kjöti“, „héla“); fornenska og fornsaxneska orðinu "hrīm" sem þýðir það sama (en þaðan kom enska orðið "rime"). Héla. Héla er þunnir ískristallar sem líkjast hreistri, nálum eða fjöðrum. Héla myndast beint úr raka loftsins við kælingu, einkum vegna útgeislunar, en getur einnig myndast af dögg sem hefur frosið. Héla sem sest á gluggrúður myndar oft falleg munstur og nefnist þá "frostrósir". Gluggar geta einnig verið "loðnir af hélu". Biskajaflói. Kort sem sýnir staðsetningu Biskajaflóa Biskajaflói eða Fetlafjörður á íslensku (spænska: "Golfo de Vizcaya" eða "Mar Cantábrico"; franska: "Golfe de Gascogne"; baskneska: "Bizkaiako Golkoa") er stór flói í Norður-Atlantshafi á því hafsvæði sem gengur út frá Frakklandi til vesturs og frá Spáni til norðurs, og tekur nafn sitt í flestum málum eftir spænska héraðinu Vizcaya. Íslenskun á Biskajaflóa. Í íslenskri þýðingu á skáldsögu Frederick Marryat "Víkingnum, sjóræningjasaga frá 18. öld," sem út kom árið 1946 á íslensku, er Biskjaflói nefndur: Spænski sjórinn. Maríanadjúpáll. Kort af Kyrrahafi sem sýnir staðsetningu djúpálsins Maríanadjúpáll er djúpáll í Vestur-Kyrrahafi, austur af Maríanaeyjum. Í Maríanadjúpálnum er mesta hafdýpi jarðar: 11.034 m. Gler. Gler er efni búið til úr kísli (oftast fengnum úr sandi) og fleiri efnum sem eru snöggkæld þannig að þau ná ekki að mynda kristalla. Hráefni glers eru brædd við hátt hitastig en þau eru helst sandur, kalksteinn, þvottasódi, pottaska og fleiri efni. Skilgreining. Gler kemur náttúrulega fyrir sem steind, sem getur hafa orðið til þegar eldingu sló niður í sand eða við viss skilyrði í eldgosum. Sem dæmi flokkast hrafntinna til glers. Grunnefnið í gleri er sandur sem er bráðinn og snöggkólnar án þess að mynda kristalla. Rúðugler (flotgler) er oftast ekki það sama og gler sem er notað við blástur eða það sem mótað er á einhvern hátt í skúlptúra. Rúðugler harðnar mjög fljótt og þess vegna er erfitt að móta það með blæstri. Rúðugler er orðin ein algengasta glertegundin við mótun glers á leir og ryðfríum stálmótum. Hægt er að bæta ýmsum efnum við glerið til að lengja þann tíma sem það tekur að harðna og til þess að ná fram litbrigðum í glerið. Á tímabili var blý notað í það en það er ekki gert lengur í svo stórum stíl sem áður þar sem það getur haft mengandi áhrif á umhverfið. Glerið sem er notað í heimilisglugga er nefnt flotgler, því eftir að glermassinn hefur verið bræddur og blandaður er honum fleytt út á fljótandi málmblöndu sem er eðlisþyngri en glerið. Þar flýtur glermassinn á meðan það myndar yfirborðsspennu. Vegna þess að glerið storknar á fljótandi efni er það jafn slétt og raun ber vitni. Saga. Gler hefur verið notað af mönnum síðan á steinöld. Föníkumenn voru fyrstir til að búa til gler. Sagan segir að skip hafi komið hlaðið nítrum (blanda þvottasóda og pottösku) og þar sem skort hafi á eldivið voru klumpar af efninu settir á bálköstinn á ströndinni þar sem báturinn lá. Hafi efnið bráðnað saman við sandinn á ströndinni og undan runnið glær seigur vökvi. Þannig hafi uppgvötast hvernig búa ætti til gler. Talið er að föníkumenn hafi notað efnið til að glerja leirker allt frá 3000 f.Kr, en til eru fornleifar frá 2500 f.Kr. sem sýna að gler var búið til á þeim tíma í Mesópótamíu. Glerblástur. Mótun glers er mörg þúsund ára gömul iðn en mótun með því að blása í pípur er frá fyrstu öld fyrir Krist í Sýrlandi. Líklegt er að gler hafi í fyrstu verið notað til að glerja leirmuni. Áður hafði notkun á gleri verið í skartgripi og skreytingar en nú var mögulegt að búa til nytjahluti. Fundist hafa glerílát og aðrir hlutir í rústum Pompeii. Glergerð í Murano. Feneyjar urðu miðstöð glergerðar. Í kringum árið 1200 var stofnað gildi glergerðarmanna í Feneyjum og árið 1291 voru allir glergerðarmenn neyddir til að flytja til eyjunnar Murano. Það var vegna eldhættu í Feneyjum út af öllum glerbrennsluofnunum og vegna þess að Murano var í passlegri fjarlægð frá borginni og samt svo einangruð að hægt var að fylgjast með ferðum þaðan. Mikil leynd hvíldi yfir glergerðinni og glergerðarmennirnir máttu ekki fara frá Murano til að tryggja að þekking þeirra breiddist ekki út. Ýmis konar glergerðartækni þróaðist í Murano, þar voru gerðir fyrstu speglarnir sem ekki voru úr málmi. Glergerð í Evrópu. Á 17. öld var gefin út bókin "L’Arte Vetraria" eftir Antonio Neri. Þar var í fyrsta skipti leyndardómnum við glergerð lýst, hvernig ætti að búa til gler, hvaða hráefni þyrfti, hvaða verkfæri þyrfti og hvernig ætti að blása gler. Á endurreisnartímanum óx upp glergerð víðar í Evrópu m.a. á Spáni, í Frakklandi, Þýskalandi, Niðurlöndum, á Englandi og í Svíþjóð. Glergerðin fór fram í glergerðarhúsum í skógum og þar var notað hráefni frá skógunum — viðaraska eða pottaska sem var hreinsuð og blönduð með koparoxíð þannig að glerið varð fölgrænt og gjáandi. Glergerðarhúsin í skógunum framleiddu gler aðallega fyrir drykkjarílát og glugga. Árið 1676 fann maður að nafni George Ravenscroft upp aðferð til að nota blý í ger og þá var hægt var hægt að vinna miklu lengur með glerið og auðveldara að móta það. Iðnvæðing. Í kringum aldamótin 1900 urðu miklar framfarir í glergerð í verksmiðjum. Það komu á sjónarsviðið sjálfvirkar vélar sem gátu framleitt flöskur og ljósaperur. Oddfylking. Oddfylking (svínfylking eða fleygfylking) nefnist það þegar herliði var fylkt þannig til orrustu að fylkingin var mjóst fremst, en breikkaði aftur. Að fylkja hamalt er að svínfylkja herliði þannig að skjöldur nemi við skjöld. Orðasamband þetta kemur fyrir í Reginsmálum (erindi 23): "Engur skal gumna / í gögn vega / síð skínandi / systur mána, / þeir sigur hafa / er sjá kunnu, / hjörleiks hvatir, / eða hamalt fylkja". Tyrfingur (sverð). Tyrfingur var nafntogað sverð í norrænum sögnum, en því fylgdu þau álög að sverðið varð manns bani í hvert sinn sem því var brugðið. Meðal þeirra sem áttu Tyrfing voru Angantýr berserkur, Hervör skjaldmey dóttir hans, sem sótti sverðið í haug föður síns, og sonur hennar, Heiðrekur konungur á Reiðgotalandi. Tyrfingur varð mikill örlagavaldur í ætt þeirra. Sjöfjallaland. Sjöfjallaland eða Siebengebirge er nafn á fjöllóttu landsvæði austanmegin við Rín í Þýskalandi, suðaustur af borginni Bonn. Þar eru um 40 fjöll og felladrög. Hæsta tindurinn er Oelberg, 460 m. Sjöfjalland kemur víða fyrir í þýskum sögum og ævintýrum og er vinsæll ferðamannastaður. Stór hluti af Sjöfjallalandi tilheyrir Þjóðgarðinum Sjöfjallalandi, sem er einn elsti þjóðgarður Þýskalands. Reiðgotaland. Reiðgotaland er land í sögnum, líklega er átt við Jótland í Danmörku. Innsetningarröðun. Myndræn framsetning á vinnslu innsetningarröðunar. Innsetningarröðun er einfalt röðunarreiknirit, sem ber saman óröðuð stök, og byggir raðaðan lista eitt stak í einu. Hann er mun óhagkvæmari en til dæmis snarröðun og hrúguröðun þegar raða á stórum listum, en hefur þó ýmsa kosti. Hægt er að hugsa sér virkni innsetningarröðunar þannig að við hverja ítrun sé eitt stak fjarlægt úr inntaklista, og því stungið inn á réttan stað í raðað úttakslista. Þetta er gert þar til engin stök eru eftir í inntakslistanum, en þá er úttakslistanum skilað. Ekki skiptir máli í hvaða röð stökin í inntakslistanum eru valin. en þá eru öll stök > "x" flutt til hægri þegar þau eru borin saman við "x". Einnig getur verið áhugavert að sjá útfærslu í fallaforritunarmáli eins og Standard ML let fun insert (x:real,) = [x] Gott og slæmt inntak. Í besta falli er innsetningarröðun O("n"), ef listinn sem það fær er þegar raðaður. Þá þarf aðeins að að bera hvert stak í listanum saman við stakið á undan, og sjá þannig að listinn er raðaður. Sams konar inntak væri versta mögulega inntak fyrir snarröðun, þar sem röðun á röðuðum lista er O("n"2). Þannig getur það hjálpað okkur ef við vitum að listi er að miklu leyti raðaður, að nota innsetningarröðun í stað snarröðunar. Í versta falli er reikniritið O("n"2), ef listinn er raðaður í öfuga röð. Þá þarf hver innsetning að flytja öll stök raðaða listans til hægri áður en hægt er að stinga inn nýja stakinu. Meðaltími innsetningarröðunar er einnig O("n"2), og er hann því sjaldnast hagkvæmur við röðun á stærri listum. Hann er þó eitt af hröðustu röðunarreikniritunum fyrir lista með mjög fá stök, t.d. innan við 10. Theodore Kaczynski. Theodore John Kaczynski („Ted“) (fæddur 22. maí 1942), einnig þekktur undir viðurnefninu unabomber er bandarískur stærðfræðingur sem er alræmdur fyrir öfgakennda herferð sína gegn nútíma tæknisamfélagi ásamt því að senda bréfasprengjur til fjölmargra háskóla og flugfélaga á árunum 1978 til 1995. Hann drap þrjá og særði 23. Í riti sínu „Iðnsamfélag og framtíð þess“ (einnig þekkt sem „Unabomber stefnulýsingin“) staðhæfir hann að gjörðir sínar hafi verið nauðsynlegar til þess að draga athygli fólks að þeirri sýn sinni hversu hættuleg nútíma tækniþróun er orðin manninum. Kaczynski vann að árásum sínum í von um að hvetja aðra til að berjast gegn því sem hann kallaði „stöðugt tækniokur“ og álítur vera að leggja mannkynið undir sig. Því hefur verið haldið fram að leitin að Theodore Kaczynski sé sú dýrasta í sögu bandarísku Alríkislögreglunar (FBI). Ævisaga. Kaczynski fæddist í Chicago og voru voru foreldrar hans af pólskum ættum, þau Theodore Richard Kaczynski og Wanda Theresa Dombek. Frá fyrsta til fjórða bekkjar gekk Kaczynski í Sherman Elementary skólann í Chicago. Hann kláraði svo fimmta til áttunda bekk í Evergreen Park Central. Greindarpróf sem hann tók í fimmta bekk leiddu að þeirri niðurstöðu að hann gæti sleppt sjötta bekk og farið beint í þann sjöunda. Samkvæmt nokkrum greindarprófum hafði hann töluvert háa greindarvísitölu og foreldrum hans var sagt að sonur þeirra væri snillingur. Hann segir sjálfur að greindarvísitala sín hafi mælist á milli 160 og 170. En niðurstöður greindarprófanna sem hann tók í æsku hafa ekki fengist birtar opinberlega. Kaczynski segir sjálfur að það að hafa hoppað upp um bekk hafi haft veigamikil áhrif á líf sitt. Hann man eftir sér mjög utanveltu innan um alla eldri nemendurna og segist hafa þurft að þola bæði stríðni og svívirðingar frá þeim. Móðir hans, Wanda Kaczynski, hafði svo miklar áhyggjur félagslegum þroska hans að hún hugleiddi að skrá hann í félagsfræðirannsókn á vegum Bruno Bettelheim sem gekk út á að rannsaka hegðun einhverfra barna. Hann á að hafa óttast bæði annað fólk og byggingar, og hann lék sér heldur einn en innan um önnur börn. Hann náði hinsvegar að mynda vinatengsl við greindarskertan strák, en það voru í raun einu tengsl hans við önnur börn í æsku. Kaczynski var dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á náðun seinna meir. Hann er lokaður inni í Administrative Maximum Facility supermax in Florence, Colorado. Robert Peary. Robert Edwin Peary (f. 6. maí 1856 - d. 20. febrúar 1920) var bandarískur landkönnuður sem hélt því fram að hann hefði verið fyrstur til að komast á norðurpólinn 6. apríl 1909. Leiðangrar. Peary fór í marga leiðangra um norðurslóðir, fór m.a. um Grænland á hundasleða í a.m.k. 5 ferðum milli 1886 og 1900. Ólíkt mörgum landkönnuðum kynnti Peary sér vel hagi og aðferðir Inuíta, byggði snjóhús og notaði hefðbundinn skinnfatnað þeirra. Notfærði hann sér einnig Inúíta í leiðöngrum sínum við veiðar og sleðastjórn. Peary gerði allnokkrar tilraunir til að ná norðurpólnum á árinum 1898-1905. Síðasta tilraun hans 1908 hófst í New York á skipinu Roosevelt sem Robert Bartlett stýrði. Lögðu þeir úr höfn 6. júlí og höfðu vetrarsetu á Ellismere eyju. Þaðan hélt Peary ásamt föruneyti þann 1. mars 1909 áleiðis á pólinn. Á síðasta legg ferðarinnar var Peary með 5 menn með sér og skv. dagbókum þeirra náðu þeir pólnum 7. apríl. Fyrstur á norðurpólinn? Margir hafa þó efast um að leiðangur Pearys hafi náð pólnum og eru ýmsar ástæður þar að baki. M.a. er talið að enginn í hópnum hafi haft þá færni sem til þurfti til að staðfesta raunverulega staðsetningu hópsins auk þess sem hraði og vegalengdir nefndar í dagbókum þykja ótrúðverðugar. Þetta hefur þó aldrei verið alveg til lykta leitt og er Peary almennt talinn hafa verið fyrstur á pólinn. Þó gerði Frederick Cook einnig tilkall til þess og sagðist hafa komist á pólinn 21. apríl 1908. Þeir deildu lengi um hvor hefði rétt fyrir sér og er jafnvel talið að báðir hafi verið einlægir í trú sinni á að hafa verið fyrstir en raunin hafi verið önnur. Tengill. Peary, Robert Wrangeleyja. Wrangel eyja séð úr gervihnetti Wrangel eyja er 7.300 km² eyja í Norður-Íshafi sem tilheyrir Rússlandi. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Árið 1914 komu að eyjunni skipbrotsmenn af skipinu Karluk og voru strandaglópar þar í níu mánuði. Árið 1921 sendi landkönnuðurinn Vilhjálmur Stefánsson nokkra menn til eyjarinnar til að lýsa hana kanadískt yfirráðasvæði, en 1924 fjarlægðu Rússar þá sem eftir voru og stofnuðu samfélag sem enn í dag er til staðar og það eina á eyjunni. Talið er að eyjan hafi verið síðasta búsvæði mammúta og þeir hafi haldið þar til þar til 1700 f.Kr. en hafi verið mun minni en mammútar almennt vegna skorts á fæðu. Mahmoud Ahmadinejad. (á persnesku: محمود احمدی‌نژاد)(f. 28. október 1956 í Aradan í Íran) er forseti Íslamska lýðveldisins Íran. Hann tók við embættinu 6. ágúst 2005 og er 6. forseti landsins frá stofnun íslamsks lýðveldis árið 1979. Ahmadinejad gengdi áður embætti borgarstjóra í Tehran, höfuðborg Írans. Ahmadinejad hélt uppi harðri gagnrýni á stjórn George W. Bush meðan hann var bandaríkjaforseti og vildi og vill enn styrkja samband Írans og Rússlands. Hann hefur neitað að sinna kröfum Öryggisráðs Sameinuðu þjónanna um að stöðva auðgun úrans, en Ahmadinejad segir kjarnorkuáætlun Írana þjóna friðsamlegum tilgangi. Mohammad Khatami. Mohammad Khatami fyrrum forseti Íran Mohammad Khatami (á persnensku: سید محمد خاتمی)(f. 29. september 1943 í Ardakan í Íran) var forseti Íslamska lýðveldisins Íran frá 2. ágúst 1997 til 2. ágúst 2005 er Mahmoud Ahmadinejad tók við embættinu. Khatami sat í embætti tvö kjörtímabil. Heimildir. Khatami, Mohammad Khatami, Mohammad Aradan. Aradan er þorp í Íran, nærri borginni Garmsar í miðju Íran. Þorpið er fæðingarstaður núverandi forseta Íran, Mahmoud Ahmadinejad. The Kennel Club. The Kennel Club (KC) var stofnaður árið 1873 á Englandi. Hann er ekki aðili í FCI en hefur sérstakt kerfi og eigin viðmið fyrir þær hundategundir sem það viðurkennir. Hundatengundunum er skipt í 7 flokka eftir notkun. Hundasýningar. The Kennel Club skipuleggur meðal annars Crufts Dog Show sem er ein af virtustu hundasýningum í heiminum. Nafn sitt dregur sýningin af upphafsmanninum Charles Cruft. Fyrsta sýningin var í "Royal Agricultural Hall" í Islington árið 1891. Canadian Kennel Club. Canadian Kennel Club (CKC) er kanadískt hundaræktarfélag stofnað árið 1888. Það er ekki meðlimur í FCI heldur viðurkennir um 160 hundategundir og heldur utan um 25 þúsund meðlimi og 700 tegundafélög innan Kanada. Í nafni dótturfélagsins Apex Publishing Limited gefur félagið út tímaritið "Dogs in Canada Magazine". Þráður. Þráður er, í tölvunarfræði, íslensk þýðing á orðinu "thread" á ensku sem er stytting á "thread of execution". Þræðir eru leið fyrir forrit til þess að skipta niður vinnslu sinni í mörg minni verkefni, leysa þau öll „samtímis“ og spara með því tíma og/eða örgjörvavinnslu. Flestar PC-tölvur í dag hafa reyndar bara einn örgjörva svo þráðavinnsla þykist bara keyra mörg forrit á sama tíma, vinnslutíma örgjörvans er þess í stað skipt niður í smærri einingar. Þessi skipting er útfærð með verkröðun ("scheduling") þar sem örgjörvi skiptir ("context switch") milli þráða. Þessi skipti gerast svo hratt að notanda finnst eins og öll þau forrit sem hann er að nota keyri á sama tíma. Í raun og veru skiptir örgjörvi svo ört á milli þráða að notandi tekur ekki eftir því. Einfalt java forrit sem notar þráðavinnslu. Þessi klasi býr til þráðinn „EinfaldurThradur“ þegar kallað er í hann úr keyrsluklasa hér að neðan. Þessi klasi býr til þráðinn „EinfaldurThradur“, fyrst með nafninu „Króna“ síðan með nafninu „Skjaldarmerki“. Þetta er útkoman og eins og sést þá skiptast þræðirnir „Króna“ og „Skjaldarmerki“ á að skrifast út. Hægt er að breyta forritinu og bæta við þráðum á einfaldan hátt. Hér er eins og upp sé kastað tening í stað penings en þá eru búnir til sex þræðir í stað þeirra tveggja sem fyrra dæmið bjó til. Hér er útkoman og vinnslan er alveg eins. Eini munurinn er að fleiri þræðir verða til. Formerki (stærðfræði). Formerki er tákn notað í stærðfræði, sem skeytt er framan við tölu og segir til um hvort hún sé já- eða neikvæð. Formerkið er ýmist "plús" (+), sem þýðir að tala sé "jákvæð" (oftast sleppt við útskrift tölu) og þar með stærri en núll eða "mínus" (−), sem þýðir að tala sé "neikvæð" eða minni en núll. Merkingarlaust er að skeyta formerki við töluna núll, enda telst núll hvorki já- né neikvæð. (Stundum er þó skrifað −0, sem þýðir að tala sé neikvæð, en nærri núlli.) Mengi jákvæðra og neikvæðra heiltalna eru óendanleg, en teljanleg. American Kennel Club. American Kennel Club (AKC) er bandarískt hundaræktarfélag stofnað árið 1884. Það er ekki meðlimur í FCI. Félagið hefur eigið flokkunarkerfi tegundanna og skiptast þeir í 7 hópa og 1 flokk. Að auki er ættbókarfærsla sem kallast "Foundation Stock Service"® ("FSS") fyrir margar tegundir sem ekki enn eru viðurkenndar af félaginu en hafa fengið ræktunarviðmið af AKC. Þetta gerir hundunum kleift að keppa í ýmsum keppnum á borð við lure coursing. AFC Suður. Til ársins 2002 voru Indianapolis Colts í AFC East deildinni, Houston Texans voru ekki til og Jacksonville Jaguars og Tennessee Titans voru í AFC Mið. Stafrænt myndasnið. Stafrænt myndasnið er tölvutækt geymsluform mynda. Til eru tveir flokkar myndasniða vigurmyndir sem eru byggðar upp af formum og rastamyndir sem eru byggðar upp af punktum. Litir á báðum myndasniðum byggjast út frá RGB litasniðinu, sem virkar þannig að allir litir eru ákvarðaðir út frá grunnlitunum þremur rauðum, gulum og bláum. Rastamyndir. Rastamyndir eru byggðar út frá milljónum punkta. Í hverjum einasta punkti er einn litur og saman mynda þeir heildstæða mynd. Takmörkun er á hversu mikið hægt er að stækka rastamynd án minnkunar á gæðum. Stærri myndir eru alltaf með fleiri punkta en þær minni. Við stækkun á lítilli mynd þarf myndvinnsluforritið að leita í sama punktinn til þess að búa til fleiri á sama svæði. Fyrir vikið verða stækkaðar rastamyndir mjög grófar í gæðum. Þessi tegund myndasniðs er hentug fyrir ljósmyndir þar sem hún gerir myndavélum kleift að vista upplýsingar um lit hvers svæðis fyrir sig og skipta því niður í punkta. Stærð rastamynda fer eftir fjölda lita, punkta og hvernig myndasniðið sameinar þessar upplýsingar. Rastamyndir skiptast niður í myndasnið sem tapa gæðum eða gera það ekki. Dæmi um rastasnið eru JPEG, PNG, GIF og BMP. BMP er óþjappað form. Stærð myndanna fer eingöngu eftir fjölda punkta og lita myndarinnar. Fjöldi lita getur farið allt upp í 16,7 milljón liti og stærð myndarinnar er alltaf í hærra lagi. GIF er form sem notast við Lempel Ziv Welsch þjöppun. Formið geymir aðeins 256 liti og er háð því hversu litskrúðug myndin er hvort gæði tapist eða ekki. GIF myndir hafa þann sérstaka eiginleika fram fyrir aðrar rastamyndir að þær geta geymt litlar hreyfimyndir. PNG er form sem notast við þjöppun sem tapar ekki gæðum. Formið geymir allt að 16,7 milljón liti. Það var búið til að taka við af GIF. JPEG er form sem notast við þjöppun sem tapar gæðum. JPEG þjappar skrár út frá næsta punkti og leggur þá saman ef þeir eru mjög svipaðir. Skráarstærð JPEG er lítil miðað við aðrar rastamyndir. JPEG er vinsælasta formið til að gefa út stafrænar myndir. Vigurmyndir. Vigurmyndir eru byggðar upp af formum eins og punktum línum og vigrum. Hvert form getur geymt einn lit. Þessi form eru geymd í myndasniðinu og mynda saman heilstæða mynd. Hægt er að stækka vigurmyndir ótakmarkað án minnkunnar á gæðum. Stærð vigurmynda ræðst af því hveru mörg form eru á myndinni. Vinsælt er að teikna einkennismerki sem vigurmyndir. Dæmi um vigurmyndir eru SVG og EPS. Teikniforrit eins og Illustrator, Freehand og CorelDraw eru notuð til þess að búa til vector myndir. SVG myndir eru vigurmyndir sem eru geymdar á XML sniði. Fyrir vikið er hægt að búa til SVG myndir annaðhvort með ritli eða myndvinnsluforriti. Alþjóðastofnunin W3C þróar þessa tegund myndasniðs. Lásbogi. Lásbogi (armbrysti eða armbryst) er skefti (bogaskefti) með áföstum tré- eða stálboga, sem venjulega var spenntur með vindu. Lásbogar komu til Norðurlanda á 12. öld. TCP/IP. TCP/IP er tungumál internetsins og þar með flestra tölvusamskipta almennt. __TOC__ Hvað er TCP/IP. TCP/IP er samansafn af samskiptastöðlum sem eru hvað þekktastir fyrir að þjóna internetinu. Í TCP/IP eru fjölmargir staðlar en þeir sem mest eru notaðir munu vera TCP og IP og þaðan fær þetta samskiptastaðlasafn nafn sitt. TCP/IP er lagskipt í fimm hluta og er hver staðall innan TCP/IP á einhverju þessara fimm laga. Til þess að hefja samskipti yfir TCP/IP þarf að byrja á að eiga samskipti við efsta lag staðalins sem síðan á samskipti við næsta lag fyrir neðan sig uns öll lög hafa verið notuð og hleður þarmeð upp samskiptastafla þar til pakki með þessum upplýsingum er sendur frá tölvunni. Þegar að pakki rennur í hlaðið á áfangastað þarf móttakandi tölva að afpakka upplýsingunum og lesa hvert lag fyrir sig, þangað til að efsta lagi er náð á ný. Saga TCP/IP. Flestar meiriháttar tækniframfarir í sögu mannsins hafa tengst stríði á einn eða annan hátt og sú er einnig raunin með TCP/IP. Á dögum kalda stríðsins á sjöunda áratugnum var mikil hræðsla við kjarnorkustyrjöld í Bandaríkjunum og víðar. Í ljósi þess og aukinnar tölvunotkunar í hernaði, hófu Bandaríkjamenn að gera tilraunir með gagnasendingar um tölvunet. Markmiðið var að hanna tölvunet sem gæti staðist kjarnorkustyrjöld - að netið virkaði þó einstakir hlutar þess eyðilögðust. Í upphafi voru þetta fjórar tölvumiðstöðvar, hver í sínum hluta Bandaríkjanna, sem voru tengdar saman á þennan hátt. Þarna varð til sá staðall sem er grunnurinn að Internetinu, svokallaður TCP/IP staðall. Cascada. Cascada er þýsk europop-hljómsveit stofnuð árið 2004. Sveitin er þekktust fyrir lag sitt „Everytime we touch“ sem kom út árið 2006. Sveitin notar einnig nöfnin "Siria", "Akira", "Diamond" og "Scarf!". Safnklasi. Yfirlit. ArrayList er eining af gögnum eða listi sem getur stækkað sjálfkrafa til að rýma fyrir nýjum stökum. Hann getur einnig skilað til stýrikerfisins minni sem samsvarar tómum stökum í listanum og notar því ekki meira minni en hann þarf. Vinsældir ArrayList hafa gert hann að hálfgerðum staðli sem fjöldi forritunarmála bjóða upp á. Dæmi um forritunarmál sem bjóða upp á ArrayList er C#, Java og C++ (std::vector). ArrayList og hefðbundnir listar. Einn helsti gallinn við hefðbundna lista er að stærðin á þeim er ákveðin í byrjun keyrslu forrits. Ef við fyllum hefðbundinn lista þá getur reynst kostnaðarsamt að stækka hann í hvert skiptið sem hann fyllist með því að afrita hann yfir í annann lista. Þegar ArrayListi fyllist þá tvöfaldar hann stærð sína og nær þar að auki að skila til baka plássi sem hann notar ekki. Gögn sem ArrayList geymir. Þar sem ArrayListi geymir lista af objects þá getur hann geymt tilvik af hvaða klasa sem er (streng, heiltölu, tilviki af nýjum klasa) vegna þess að allir klasar erfa klasann object. Dæmi um notkun á ArrayList í C#. // Búum til tilvik af Arraylista // Við notum "cast" til þess að varpa stökum af taginu object yfir í heiltölu. Smiður (tölvunarfræði). Í flestum forritunarmálum geta verið fleiri en einn smiður í hverjum klasa og hefur þá hver smiður mismunandi færibreytur. Sum forritunarmál taka tillit til sérstakra tegunda smiða. Afritunar smiður getur tekið eina færibreytur fyrir hverja tegund af klasa. Smiðir í Java. Smiðir taka frá minni fyrir hlutinn og frumstilla gildi á gagnaliðum. Þegar um afleiddan klasa er að ræða kallar smiður í smið frá grunnklasa. Smiðir hafa sama nafn og klasinn og skila ekki gildi. Táknar klasann sjálfan. This er hægt að nota til að kalla á annan smið í sama klasa. Það er notað þegar smiður þarf að kalla á smið í yfirklasa. Super verður að vera fyrsta aðgerð í smið og einungis er hægt að kalla einu sinni í smiðinn. Smiðir í C#. Smiðir í C# virka ekki ósvipað og í C++ og Java. Smiður í C# er fall sem heitir sama nafni og klasinn og hefur ekkert skilagildi. Ef enginn smiður er skilgriendur er sjálfgefin n færibreytulaus smiður búinn til. Hægt er að skilgreina eins marga smiði og þarf með mismunandi færibreytum. C# notar this eins og C++, þ.e. til að vísa í “current object”. Einnig er hægt að nota this til að kalla í annan smið með öðrum færibreytum. Smiðir í C/C++. Hægt er að skilgreina eins marga smiði og þörf er á, til dæmis: færibreytulausan smið, afritatökusmið (copy constructor) og smið sem tekur inn færibreytur. Smiður er frumstillingarfall: Ef við skilgreinum engan smið sér þýðandinn um að búa til default smið sem tekur engar færibreytur. Ef við skilgreingum einn eða fleiri smið er enginn sjálfgefinn smiður búinn til. Heimildir. Frá kennurum í Háskólanum í Reykjavík Pascal (forritunarmál). Pascal er stefjumál sem var þróað af Niklaus Wirth árið 1970 sem forritunarmál sem myndi henta vel í mótaða forritun. Pascal á sér ættingja Object Pascal sem er sniðið að hlutbundinni forritun. Saga. Pascal er byggt á forritunarmálinu ALGOL og er nefnt eftir og til heiðurs stærðfræðingnum og heimsspekingnum Blaise Pascal. Forritunarmálin Modula-2 og Oberon voru þróuð út frá Pascal og eru svipuð. Í upphafi var Pascal þróað sem forritunarmál ætlað til að kenna nemendum mótaða forritun. Margar kynslóðir nemenda hafa “slitið barnsskónum” í forritun með Pascal sem fyrsta mál í grunnáföngum forritunar til margra ára. Pascal er til í hinum ýmsu útfærslum í dag, til dæmis Free Pascal sem er meðal annars til bæði í 32-bita og 64-bita útgáfum. Allar gerðir Pascal henta til bæði kennslu og hugbúnaðarþróunar. Hlutar af fyrsta Macintosh stýrikerfinu voru handþýddir yfir í Motorola 68000 smalamál úr Pascal kóða sem var skrifaður fyrir Lisa stýrikerfið, forvera Macintosh (Seinni útgáfur notuðust einnig við töluvert af C++ kóða). Fyrstu ár Macintosh var Pascal aðal æðra-stigs forritunarmálið í hugbúnaðargerð fyrir Makkann. Útfærslur. Fyrsti þýðandinn fyrir Pascal var hannaður í Zurich fyrir CDC 6000 series tölvukerfin og varð nothæfur 1970. Fyrsta velheppnaða útfærslan af CDC Pascal þýðandanum fyrir önnur stórtölvukerfi var sett saman af Welsh og Quinn við Queens háskólann í Belfast árið 1972 fyrir ICL 1900 tölvuna. Fyrsti bandaríski Pascal þýðandinn var settur saman í Háskólanum í Illinois undir stjórn Donald B. Gillies fyrir PDP-11 og skilaði út hreinu vélamáli. Í Zurich var búinn til “port pakki” til þess að hraða útbreiðslu tungumálsins. Í pakkanum var þýðandi sem bjó til kóða fyrir sýndarvél auk túlks fyrir “p-kóða” kerfið. Þó svo að “p-kóðinn” hafi í upphafi verið hannaður til að vera þýddur yfir í hreint smalamál þá er í það minnsta eitt kerfi, UCSD útfærslan, sem nýtti það í að búa til stefjumálskerfið UCSD p-System. P-kerfis þýðendur eru merktir P1-P4, þar sem P1 er elsta útgáfan og P4 sú nýjasta. Watcom Pascal var þróað fyrir IBM stórtölvur í upphafi níunda áratugarins. IP Pascal var útfærsla af Pascal forritunarmálinu sem notaðist við Micropolis DOS, en var fljótlega færst yfir í CP/M sem keyrði á Z80. Í upphafi níunda áratugarins var UCSD Pascal flutt yfir á Apple II og Apple III til þess að bjóða mótvægi við BASIC túlkana sem fylgdu með vélunum. Apple bjó til sýna eigin útfærslu, Lisa Pascal fyrir Lisa námsstefnuna árið 1982 og 1985 færði Apple þennan þýðanda yfir á Macintosh og MPW. Sama ár skilgreindi Larry Tesler í samráði við Niklaus Wirth Object Pascal og voru þeim viðbótum bætt inn í Lisa Pascal og Mac Pascal þýðendurna. Á níunda áratugnum skrifaði Anders Hejlsberg Blue Label Pascal þýðandann fyrir Nascom-2. Endurútfærsla af þessum þýðanda fyrir M og IBM PC var markaðsett undir heitunum Compas pascal og PolyPascal áður en Borland eignaðist hann. Þýðandinn var endurskýrður "Turbo Pascal" og varð gríðarlega vinsæll, að hluta til vegna hagstæðs verðs og hins vegna þess að hann var einn fyrsti þýðandinn í þróunarumhverfi sem bauð upp á vinnusvæði sem náði yfir allan skjáinn. Anders Hejlsberg færði svo Turbo Pascal yfir á Macintosh 1986 og setti viðbæturnar úr Object Pascal yfir í Turbo Pascal. Þessar viðbætur skilu sér síðan inn í útgáfu 5.5 af Turbo Pascal fyrir PC. Hinn ódýri Borland þýðandi hafði mikil áhrif á Pascal samfélagið sem í lok níunda áratugarins var farið einbeita sér mestmegnis að þróun fyrir IBM PC. Margir PC áhugamenn sem leituðu af mótuðu forritunarmáli í stað BASIC hófu að nota Turbo Pascal. Á sama tíma byrjuðu margir atvinnuforritarar að skoða tungumálið. Á sama tíma var fjöldi eiginleika C forritunarmálsins bætt inn í því markmiði að leyfa Pascal forriturum að nota API skilin úr Microsoft Windows milliliða laust. Þessar viðbætur innihéldu núllstrengi, benda reikning, fallabendla, viðfang virkja og óöruggar tagbreytingar. Borland ákvað hins vegar seinna að þeir vildu hlutbundnu eiginleikana aðeins fágaðri og hófu þróunina á Delphi umhverfinu og notuðu uppkastið af Obect Pascal frá Apple sem grunn. (Drögin frá Apple eru ekki opinber staðall). Borland kallaði þetta Obect Pascal í fyrstu útgáfunum af Delphi en breyttu nafninu formlega í Delphi í seinni útgáfum. Aðal viðbæturnar frá hlutbundnu eiginleikum eldra kerfisins voru tilvísanir á hluti, sýnadrsmiðir og eyðar, og eigindi. Margir aðrir þýðendur bjóða uppa á það sama, sjá Object Pascal. Super Pascal er útgáfa sem bætti við ótölulegum merkjum, “return” skipun og segðir sem tagnöfn. Háskólarnir í Zurich, Karlsruhe og Wuppertal hafa þróað "EXtension for Scientific C'"omputing" (Pascal XSC) byggt á Oberon, sem er frí lausn til að forrita tölulega útreikninga með kvarðaðri nákvæmni. Málskipan. Pascal er í sinni upprunalegu mynd stefjumál með hefðbundnum skipunum s.s. codice_1, codice_2, codice_3 o.s.frv.. Málfræðilega greinist Pascal frá öðrum forritunarmálum í C fjölskyldunni aðallega eftir því hvernig (ensk) lykilorð eru notuð þar sem C notar sértákn. Til dæmis til þess að reikna leyfð (modulus) í Pascal notar þú lykilorðið “mod” en C notar táknið codice_4. Annar smávægilegur munur er hlutverk semikommunnar. Í Pascal aðgreina semikommur einfaldar setningar (af öllum gerðum) innan samsettrar setningar (afmarkað með) en semikomman er hluti setningunni í C. Þessi munur er ekki sýnilegur þegar þú lítur á röð segða og virkja þar sem hver lína endar á semikommu í hvoru tilfelli. Munurinn er sést helst við tvær aðstæður. Semikomma getur ekki verið beint á undan “else” í Pascal en þarf að vera í C nema að setningin sé innin hornklofa (). Síðasta setning á undan “end” ætti heldur ekki hafa semikommu í Pascal. Margir Pascal forritarar setja samt sem áður semikommu á eftir síðustu setningunni til að halda stílnum og búa í rauninni til “tóma segð” við enda setningarinnar. Margir kennarar eru ekki hrifnir af þessu því það gæti ruglað nemandann um raunverulegt hlutverk semikommunar í Pascal. Halló heimur. Öll Pascal forrit byrja á "Program" lykilorðinu, valkvæmum lista of útværum skráalýsingum og síðan forritsbút merktum með "codice_5" og "codice_6" lykilorðunum. Semikommur skipta setningum, og punktur lætur forritið hætta. Pascal lítur sömu augum á há- og lágstafi. Gagnaskipan. Í Pascal eru einföldu tögin real, integer, character og boolean auk enumeration, sem var kynnt sem nýtt tag í Pascal. e: (one, two, three, four, five); Hægt er að búa til undirsvið úr raðtögum. Hægt er að búa til tög úr öðrum tögum með tagskilgreiningu. a = array [1..10] of integer; Bendlar. pointer_to_b: a; Hér er breytan "pointer_to_b" bendir á tagið "b", færsla. Til að búa til nýja færslu og setja gildin "10" og "A" í svæðin "a" og "b" í skránni myndi forritið verða svona; new(pointer_to_b); pointer_to_b^.a:= 10; pointer_to_b^.b:= 'A'; pointer_to_b^.c:= nil; Hægt er að búa tiltengdan lista með því að nota tag með bendli (c) í skránna. Flæðisskipanir. Pascal er mótað forritunuarmál. Sem þýðir að flæði er stjórnað með stöðluðum setningum, án 'go to' skipana. while a b do writeln('Waiting'); for i:= 1 to 10 do writeln('Iteration: ', i:1); repeat a:= a + 1 until a = 10; Stefjur og föll. Pascal mótar forrit í stefjur og föll. while i <= 10 do print(i) Stefjur og föll geta komið innan hvers annars eins djúpt og maður vill og 'program' setningin er alltaf sú ysta. Hver stefja eða fall getur haft sínar eigin skilgreiningar á goto merkjum, föstum, tögum, breytum og öðrum skilgreiningum sem þurfa öll að vera í þessari röð. Krafan um þessa röð var í upphafi til þessa að geta þýtt á hagkvæman hátt með því að lesa aðeins einu sinni yfir. Flestir nútíma þýðendur hafa hins vegar fallið frá þessari ströngu kröfu um röðun. Þýðendur. Hægt er að skoða mjög ítarlegan lista á. Síðan er á frönsku en er bara listi með tenglum á þýðendur. er síða með upplýsingum um Pascal fyrir þá sem forrita fyrir Mac. Þar eru margar áhugaverðar greinar og kennsluefni sem vert er að kíkja á. Staðlar. Árið 1983 var forritunarmálið staðlað samkvæmt alþjólega staðlinum ISO/IEC 7185 ásamt nokkrum sérlenskum stöðlum, t.d. hinn ameríska ANSI/IEEE770X3.97-1983. Viðbætur voru svo settar inn í Pascal staðalinn 1990 sem ISO/IEC 10206. ISO 7185 var skilgreindur sem útskýringar á forritunarmáli Wirts frá 1974 eins og því var lýst í notkunarleiðbeiningum og skýrslu [Jensen and Wirth] en bætti við "Conformant Array Parameters" sem stig 1 í staðlinum þar sem “Pascal without Conformant” er stig 0. Niklaus Wirth leit sjálfur á útgáfuna frá 1974 sem “staðalinn” til að aðgreina hana frá útgáfum sem voru gerðar í CDC 6000 þýðandanum fyrir sértilvik. Á stærri vélum var Pascal staðlinum almennt fylgt eftir en svo var ekki á IBM-PC. Á PC voru Borland þýðendurnir Turbo Pascal og Delphi með lang flesta notendur. Það er því miklvægt að reynda að skilja hvort tiltekin útfærsla tilheyri opinbera Pascal staðlinum eða útfærslu Borland á honum. Gagnrýnisraddir. Þó að Pascal sé mjög vinsælt (reyndar vinsælla á níunda og tíunda áratugunum en nú) hafa eldri útgáfur af Pascal verið gagnrýndar fyrir að vera óhentugt fyrir “alvöru” forritun utan kennslu. Brian Kernighan frægur stuðningsaðili C forritunarmálsins setti fram sína helstu gagnrýni á Pascal 1981 í riti sínu. Hins vegar voru margir stór áfangar í hugbúnaðargerð forritaðir að miklum hluta í Pascal, eins og Apple Lisa og Macintosh (svo mikið að skilin fyrir C á Macintosh þurftu að notast við taggerðir úr Pascal). Á þeim langa tíma síðan þá hefur Pascal haldið áfram að þróast og flest gagnrýnisatriði Kernighans eiga ekki lengur við. Svo óheppilega vill til að eins og Kernighan hafði spáð fyrir voru lagfæringar á þessum vandamálum ósamhæfð milli þýðenda. Síðasta áratuginn hefur þróunin hins vegar farið á betri veg en Kernighan sá fyrir og skipst í tvo póla, eftir ISO eða Borland. Út frá reynslu sinni með Pascal (og áður ALGOL) þróaði Niklaus Wirth nokkur önnur forritunarmál: Modula, Modula-2 og Oberon. Þessi tungumál taka á mörgum gagnrýnisatriða Pascal og eru ætluð öðrum notendahóp, o.s.frv. en ekkert þeirra hefur náð jafn mikilli útbreiðslu eða vinsældum eins og Pascal. Saga forritunarmála. Þessi grein fjallar um helstu breytingar og þróun í sögu forritunarmála. Fimmti áratugurinn. Á fimmta áratugnum varð tölvan að því sem við þekkjum hana í dag. Rafknúin vél sem hafði minni og örgjörva. Sá litli hraði og það takmarkaða minni sem menn höfðu yfir að ráða neyddi forritara til þess að forrita í vélamáli. Það kom fljót í ljós að forritun í vélamáli var mjög krefjandi fyrir forritara og leiddi af sér mikið af villum. Sjötti og sjöundi áratugurinn. Á sjötta áratugnum varð bylting í hönnun forritunarmála og forritunarmál sem notuð eru í dag eiga mörg margt skylt með þessum málum og nokkur eru enn í notkun. 1967 - 1978. Á tímabili frá seinni hluta sjöunda áratugarins til seinni hluta áttunda áratugarins urðu til mörg forritunarmál sem enn eru notuð. Á þessu tímabili voru líka miklar deilur um hvort nota ætti GOTO skipanir í forritun. Mörg forritunarmál buðu ekki upp á GOTO skipanir og neyddu forritara til þess að skrifa skipulagðari kóða. Í dag er það talin góð högun að nota ekki GOTO skipanir þó svo að forritunarmálið bjóði upp á það. Níundi áratugurinn. Á níunda áratugnum var ekki mikið um nýjungar í forritunarmálum. Bandaríkjastjórn tók í notkun Ada. C++ gerði það mögulegt að skrifa C hlutbundið. Tíundi áratugurinn. Hraður vöxtur og vinsældir Internetsins um miðjan tíunda áratuginn kom af stað næstu öldu í þróun forritunarmála. Java forritunarmálið varð snemma vinsælt vegna samstarfs þeirra við Netscape vafrann. En mestar voru þó breytingarnar í minnismeðhöndlun við gerð forrita. Forritarar höfðu hingað til þurft að sjá um sjálfir að taka frá og eyða minni fyrir forritin sín en með hjálp ruslasafnarans var þetta vandamál úr sögunni. Heimildir. Sammet, Jean E., "Programming Languages: History and Fundamentals" (Prentice-Hall, 1969). Rekill. Rekill er ax- eða klasaleit blómskipun sem fellur oftast af í heilu lagi við aldinþroskun. Blómin eru einkynja og nakin en hvert þeirra er stutt af einu háblaði, rekilhlífinni. Rekill er m.a. blómskipun birki- og víðisættarinnar, þ.e. svonefndra reklatrjáa og –runna. Lesminni. Lesminni (e. "read-only memory", skammstafað og oft kallað í daglegu tali ROM) er tölvuminni sem tölva getur einungis lesið. Tölva getur ekki skrifað gögn í lesminni heldur þarf til þess sérstakan búnað (sem getur þó verið jaðartæki tölvu). Dæmi um ROM minni eru CD, DVD og ROM kubbar. Segulbönd geta líka flokkast sem ROM. ROM kubbar. ROM kubbar eru kísilflögur með ROM minni. Þeir eru "non-volatile", sem þýðir að gögnin af þeim glatast ekki ef spennan er tekin af þeim (t.d. þegar slökkt á tölvu eða tæki). ROM kubbar eru algengir á móðurborðum tölvu, í leikjahylkjum (e. cartridge) fyrir ákveðnar tegundir leikjatölva (dæmi: NES, SNES, N64, Sega Mega Drive) og geyma gjarnan fastbúnað (e. firmware) fyrir ýmis tæki með tölvustýringu (dæmi: geislaspilarar, þvottavélar, bílar, farsímar, sjónvörp, o.s.fr.). ROM kubbar er strangt tiltekið RAM (Random access memory), vegna þess að maður er alltaf jafnlegni að sækja gögn í það, óháð því hvaða vistfang maður vill sækja. Tegundir ROM kubba. ROM: Elsta tegund lesminnis er þannig að gögnin eru á kubbnum þegar hann er framleiddur. PROM (Programmable ROM): Lesminni sem eru framleidd með engum gögnum, PROM kubbar eru keyptir með engum gögnum á og hægt er að skirfa gögn á þá með sérstökum tækjum. PROM virkar mjög svipað og skrifanlegur geisladiskur, hann er keyptur með engum gögnum og það er einu sinni hægt að skrifa gögn á hann með sérstökum tækjum (geisladiskabrennara). EPROM (Erasable PROM): PROM sem hægt er að eyða gögnum af með sérstökum tækjum. Það gert með að lýsa með útfjólubláu ljósi á þá og þá eyðast öll gögnin af þeim í einu. EEPROM (Electrically EPROM): EEPORM er nýrri tækni en fyrstu EPROM, þá er í staðin fyrir að lýsa með útfjólubláuljósi hægt að eyða öllum gögnum af kubbnum með því að setja spennu á einn pinnan á þeim. Það er töluvert þægilegra að vinna með svoleiðis kubba heldur en EPROM. Taka skal fram að þegar orðið gögn er notað hér, þá getur forritskóði (þar á meðal vélamálsskipanir) flokkast sem gögn. Staðarnet. Staðarnet (LAN) er tölvur sem eru tengdar saman um skamman veg, til dæmis heimili, skrifstofur eða skrifstofubyggingar. Uppbygging netsins er oftast þannig að það er einn netþjónn sem sér um ýmsar þjónustur til dæmis skráarhýsingu, prentun og vistfangaúthlutun. Tölvan sem notandi notar biður um þjónustu frá netþjóni. Netþjóninn getur afgreitt margar beiðnir í einu og er venjan að netþjónar séu með mismunandi aðgangsstýringar sem hafa verið úthlutaðar til notenda, þar sem notandi þarf að vera með viðkomandi réttindi til að sækja þær þjónustur sem hann óskar frá netþjóninum, t.d. sækja skrá í skjalasafn. Flest staðarnet í dag eru byggð upp á IEEE 802.11 [Wi-Fi] ([Þráðlaust staðarnet]) eða IEEE 802.3 staðlinum sem keyrir á 10, 100 eða 1000 Mbit/s. Tölvu RJ45 snúrur eru í flestum tilvikum notaðar til að tengja tækin saman í þeim staðli. Staðarnet innhalda í flestum tilvikum fáeina deila (e. Network switch) sem eru gjarnan tengdir saman á einn beini (e. Router) eða módem (t.d. DSL). Þegar tvö staðarnet eru tengd saman í gegnum beini þá er tengingin þar á milli í kallað víðnet (e. WAN) Ólíkt víðneti þá eru það helstu einkenni staðarnets að þar er gagnahraði mun meiri en á víðneti. Staðarnet á heimilum. Við fjölgun tölva og tækja á nútíma heimilum þá hefur staðarnet verið notað til að tengja tækin saman. Mikið af þessum heimilum í dag eru að nota þráðlaust staðarnet með 802.11 g/b staðlinum sem sendir gögn sem langar örbylgjur á 2.4 Ghz tíðninni. IEEE 802.3 staðallinn er einnig notaður á mörgum heimilum. Saga. Staðarnet var fyrst tekið í notkun árið 1964 á Livermore rannsóknarstofunni til aðstoðar við kjarnorkuvopna rannsóknir. Í þá daga fyrir einkatölvuna, þá voru staðarnet oft bara með eina aðalvél. Þar gátu notendur fengið aðgang að henni í gegnum útstöðvar með litlum gagnahraða. Fyrsta staðarnetið var búið til á seinni hluta sjöunda áratugs síðustu aldar og var notað til þess að búa til háhraða tengingu milli tveggja tölva á einum stað. Á þessum tíma voru Íðnet ("Ethernet") og ARCNET vinsælust. Með tilkomu stýrikerfa eins og DOS þá byrjuðu staðarnetin að stækka og byrjuðu á u.þ.b. 12 tölvum á staðarneti og allt upp í hundruði. Í upphafi var staðarnetið notað til þess að deila gagnaplássi og prenturum sem á þessum tíma var dýrkeypt. Ragnar Arnalds. Ragnar Arnalds (f. 8. júlí 1938) er íslenskur rithöfundur, alþingismaður og fyrrum menntamála- og samgönguráðherra og fjármálaráðherra Íslands. Hann sat á þingi á árunum 1963-67 og svo 1971-99, samanlagt 32 ár. Hann var formaður Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, á árunum 2002-09, situr í bankaráði Seðlabanka Íslands og er virkur innan VG. Ragnar útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og vann sem kennari við Gagnfræðaskólann í Flensborg í Hafnarfirði í eitt ár. Ragnar var ritstjóri Frjálsrar þjóðar, tímarits sem barðist gegn veru hermanna á Íslandi. Hann fluttist til Svíþjóðar þar sem hann stundaði nám í bókmenntum og heimspeki á árunum 1959-61. Hann sneri svo aftur heim og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1968. Hann var formaður Alþýðubandalagsins 1968-77 og skólastjóri við barna- og unglingaskólann í Varmahlíð í Skagafirði 1970-72. Víðnet. Víðnet (WAN) er skilgreint sem tölvunet sem nær yfir stórt svæði. Víðnet getur samanstaðið af mörgum minni netum, staðarnetum (e. LAN), sem hafa samskipti sín á milli með beinum (e.routers). Víðnet eru notuð til að sameina mörg önnur net þannig að hægt sé að hafa samskipti á milli þessara annars aðskildu neta, staðarneta. Stærsta og þekktasta dæmið um víðnet er sjálft internetið. Tölvur um allan heim sem geta haft samskipti sín á milli. Víðnets tæknin vinnur allajafna á neðstu þremur lögum OSI módelsins, vélbúnaðarlag (e. physical layer, netlag (e. network layer) og gagnalag (e. data link layer). Hringaskipting á móti pakkaskiptingu (circuit switching vs packet switching). Hringaskipting er sú aðferð sem notuð er til að tengja símalínur. Hún virkar þannig að línurnar sem þarf í samskiptin eru teknar frá og notaðar og svo skilað þegar búið er að nota þær þannig að fleiri geti komist að og notað þær. Pakkaskipting virkar þannig að gögn eru brotin niður í litla pakka. Þessir pakkar innihalda svo gögnin sjálf ásamt haus (e. header) sem inniheldur meðal annars upplýsingar um hvert pakkinn er að fara og hvaðan hann kemur. Þetta eru alveg sjálfstæðir pakkar sem treysta á net prótókolla til að komast áleiðis. Þegar þeir komast á leiðarenda er þeim svo endurraðað. Það er fljótlegra og öruggara að flytja gögn með pakkaskiptingu (e. packet switching). Lítla Dímun. Lítla Dímun er minnsta eyja Færeyja, um 0,8 km² að stærð, og er á milli Suðureyjar og Stóra Dímun. Eyjan er hömrum girt, nema að sunnan og ofan við hamrana taka við brattar fjallshlíðar en toppur fjallsins, sem heitir Slættirnir og er 414 m hátt, er flatur. Aldrei hefur verið byggð í eynni og hefur hún lengst af verið eina óbyggða eyjan í Færeyjum, Á eyjunni eru aðeins sauðfé og sjófuglar og er þar talin beit fyrir 270-300 kindur. Lítla Dímun var áður konungseign en leigð Suðureyingum, einkum íbúum Hvalba. Hún var seld á uppboði árið 1850 og höfðu þá Hvalbabúar og Sandvíkingar tekið saman höndum um að bjóða í hana en faktorinn á Tvøroyri bauð á móti og seldist eyjan á nærri 5000 ríkisdali, sem var mjög hátt verð. Á eynni var sérstakt sauðfjárkyn sem nú er útdautt. Kindurnar líktust geitum, voru svartar og snögghærðar og minni en aðrar færeyskar kindur en líktust Soay-fénu á Sankti Kilda. Þær voru styggar og erfitt að smala þeim og nokkrum árum eftir að konungur seldi eyna var þeim smalað saman og slátrað en þær sem ekki náðust voru skotnar á færi. Uppstoppaður hrútur, ær og lamb af Lítla-Dímunarkyninu eru þó á Føroya Fornminnissavni. Þrír kofar eru á eynni sem er notaðir þegar verið er að sinna fénu. Árið 1918 strandaði danska skonnortan Casper við Lítla Dímun í óveðri en skipverjum, sex að tölu, tókst að komast á land. Þeir gátu klifrað upp þar til þeir fundu kofa og þar voru eldspýtur, eldstæði og eldiviður og þeim tókst að handsama tvær kindur og lemstraðan fugl. Á þessu lifðu þeir í sautján daga en þá tókst þeim að vekja athygli skipverja á færeyskri skútu á sér og var bjargað. Fuglafjörður. Fuglafjörður (færeyska: "Fuglafjørður") er bær í Færeyjum, staðsettur á austurströnd Eysturoy. Árið 2005 voru íbúar bæjarins um það bil 1550 manns. Póstnúmer bæjarins er FO 530. Knattspyrnufélag bæjarins heitir Íþróttarfelag Fuglafjarðar og er almennt þekkt sem ÍF. Skráakerfi. Skráakerfi (e. "file system") er hugtak sem notað er í tölvunarfræði um aðferð til geymslu á tölvutækum skrám með það fyrir augum að auðvelda aðgengi og leit að þeim. Skráakerfi geta notað margvíslegar aðferðir til að geyma skrárnar, hvort heldur sem er með því að vista þær á gagnageymslutæki svo sem á diskum eða segulböndum. Einnig getur skráakerfi notað net (t.d. NFS, SMB, DFS) til að geyma skrár á öðrum vélum eða þá að skráakerfið inniheldur sýndarskrár og skráasvæði (t.d. procfs í Unix/Linux og líkum kerfi). Eiginleikar skráakerfa. Skráakerfi hafa afar mismunandi eiginleika og uppbyggingu en eiga þó í öllum tilfellum það sameiginlegt að geyma skrár og einhver lýsigögn (e. metadata) um skrárnar á einhvers konar miðli hvort sem það er yfir net eða staðvært. Einföldustu skráakerfi bjóða upp á lágmarks aðgerðir svo sem að vista, lesa og eyða skrám og alltaf einhver lýsigögn svo sem nafn skrár, skráarendingu og dagsetningu sem gæti verið annað hvort hvenær skráin var stofnuð eða hvenær henni var breytt síðast. Þau skráakerfi sem er líklegast að rekast á við hefðbundna tölvunotkun notast við gagnageymslu miðla, svo sem harða diska, disklinga, geisladiska, eða segulbönd til að geyma gögnin á. Skráakerfið skiptir þá geymslumiðlinum upp í jafnstóra hluta sem kallaðir eru blokkir (e. blocks). Stærð þessara blokka ræður tveimur lykilatriðum um skráakerfið, hversu stórt það getur orðið og hve stór minnsta eining er sem skrá getur tekið. Skráakerfi geta oftast ekki skrifað nema eina skrá í hverja blokk og einnig eru takmörk á því hvað skráakerfi getur innihaldið margar blokkir. Skráakerfi eru þó ekki einungis bundin við diska heldur getur einnig verið að skráakerfið sé að hjúpa netstaðsetningar af einhverju tagi eða að um sé að ræða sýndarskráakerfi er inniheldur „skrár“ sem innihalda gögn sem geta breyst milli þess sem þau eru skoðuð og eru ekki geymd á varanlegan hátt, dæmi um þetta er procfs á Unix/Linux og líkum kerfum en „skrár“ í /proc innihalda upplýsingar sem tilheyra forritum sem eru í keyrslu á vélinni á hverjum tíma. Þannig verður til nýtt skráasvæði fyrir hvert ferli (e. process) sem ræst er á vélinni og inni í skráasvæðinu eru „skrár“ sem innihalda keyrslugögn ferlisins, þegar keyrslu ferlisins lýkur hættir skráasvæðið sem tilheyrir ferlinu að vera til og þær skrár sem það inniheldur hverfa einnig. Skráakerfi geyma einnig alls kyns lýsigögn um skrár og skráasvæði sem þau innihalda, þannig geyma öll skráakerfi upplýsingar um nafn skráa ásamt upplýsingum um stærð hennar og dagsetningu. Stærðin getur verið gefin upp sem fjöldi blokka sem skráin er vistuð í, t.d. ef við gefum okkur skráakerfi sem lýsir stærð skráa á þann hátt með blokkir af stærðinni 32KB þá gætu verið þar 2 skrár (skrá A af stærð 1KB og skrá B af stærð 40KB) þá mundi skráakerfið lýsa þeim þannig að A væri af stærð 1 og B af stærð 2 þar sem A kemst fyrir í einni blokk en það þarf 2 blokkir til að rúma B. Hafa skal í huga að í flestum tilfellum getur einungin ein skrá verið í einni blokk á hverjum tíma, þannig væru í dæminu hér á undan farin 96KB undir 41KB af gögnum og því mætti segja að 56KB færu til spillis. Skráakerfi geyma svo gjarnan dagsetningar sem tengjast skránum. Einföldustu skráakerfi geyma mögulega einungis eina dagsetningu en flest vinsæl nútíma skráakerfi geyma allt að þrjár dagsetninga, stofn dagsetningu, síðast breytt og síðast skoðað, þess ber þó að geta að Unix/Linux og lík kerfi geyma ekki þessar dagsetningar heldur síðast skoðað, síðast breytt og síðast breytt lýsigögnum. Aðrar upplýsingar eru gjarnan geymdar í skráakerfinu svo sem hver er eigandi skrárinnar, hvaða notandahópum tilheyrir hann, hvaða aðgangsréttindi eru á skránum. Einnig þarf að geyma upplýsingar um hvort skráin er skrá eða undirskráasvæði, ef um undirskráasvæði er að ræða þarf að geyma upplýsingar um hverslags skráakerfi það er því ekki er víst að það sé samskonar skráakerfi og það er geymt í, dæmi um slíkt er procfs sem er aðgengilegt gegnum /proc og er af allt öðru tagi en skráakerfið sem það er aðgengilegt frá. Ekki er gefið að skráakerfi geti innihaldið skráasvæði, einföld skráakerfi hafa oft einungis eitt skráasvæði og það skráasvæði getur einungis innihaldið skrár sem innihalda gögn en ekki skrár sem innihalda önnur skráasvæði. Mismunandi gerðir skráakerfa. Hægt er að skipta skráakerfum upp í nokkrar gerðir diskskráakerfi, netskráakerfi og sértæk skráakerfi Diskskráakerfi. Diskskráakerfi er, eins og nafnið gefur til kynna, hannað með það fyrir augum að geyma skrár á gagnageymslumiðli sem er tengdur tölvunni með beinum eða óbeinum hætti. Dæmi um slík skráakerfi eru til dæmis FAT, NTFS, ext2/ext3 og HFS/HFS+. Sum diskskráakerfi eru með dagbókarstuðning og sum með útgáfustuðning. Netskráakerfi. Netskráakerfi hjúpar í raun samskipti við skráakerfi á netþjóni sem eiga sér stað yfir fyrirfram skilgreindan netskráakerfisstaðal, dæmi um slík skráakerfi eru NFS og SMB nú CIFS Tegundir skráakerfa. Til eru mörg mismunandi skráakerfi, sem skrár og lýsigögn á afar mismunandi vegu. Hér verða talin upp nokkur algeng skráakerfi en hafa ber í huga að þetta er á engan hátt tæmandi listi. FAT 12/16/32. Hér er um að ræða 3 aðskilin skráakerfi sem þó eru það náskyld að hægt er að tala um þau saman. FAT stendur fyrir File Allocation Table og er í raun byggt upp á þann hátt að fremst á skráakerfinu er tafla þar sem hvert vistfang á skráakerfinu er táknað með einu hólfi, innihald hólfsins segir svo til um hvort vistfangið er í notkun, laust eða ónothæft af einverjum ástæðum. Talan í nafninu segir til um hve margra bita vistföngin eru og þar með hversu marga klasa hægt var að skrifa í og þar með hámarksstærð skráakerfisins. Talsvert er um breytingar milli mismunandi útgáfa af FAT til dæmis lengd á skráanöfnum og hvort skrár gátu innihaldið skráasvæði. FAT skráakerfin komu fyrst í almenna notkun með PC vélum sem keyrðu MS-DOS, en eru nú algengust á USB-minnislyklum og tónhlöðum ýmiskonar. NTFS. NTFS er það skráakerfi sem hefur fylgt Windows NT frá upphafi enda kennt við það. NTFS er mun fullkomnara skráakerfi en FAT, NTFS var hannað sem skráakerfi sem átti að gera allt fyrir alla og því inniheldur það mun meiri lýsigögn en Windows notar. Hér eru lýsigögnin geymd í MFT (Master File Table) sem inniheldur eina færslu fyrir hverja skrá í skráakerfinu. Hver færsla inniheldur öll lýsigögn skrárinnar það er tímastimpla, aðgangsstýringar fyrir Windows, aðgangsstýringar fyrir Unix\Linux lík kerfi og ýmis önnur lýsigögn, einnig er í færslunni 2KB pláss fyrir gögn þannig að skrár sem komast þar fyrir eru geymdar í data hluta færslunnar, sem nýtir pláss mun betur þar sem margar færslur geta verið í sömu blokk. Einnig er NTFS með dagbókarstuðning, það er allar aðgerðir sem framkvæmdar eru á skrám eru skráðar niður og því hægt að endurtaka þær ef vélin hrynur og það þarf að endurbyggja þá hluta skráakerfisins sem ekki var búið að færa út á disk. NTFS notar einnig b-tré gagnagrind til að geyma skrár sem er mun hraðvirkara heldur en listi eins og notaður er í FAT. Sláttutætari. Sláttutætari eða sláttukóngur er sláttuvél notuð í landbúnaði til að slá gras og því blásið í vagn, t.d. sjálfhleðslu- eða sturtuvagn. Sláttutætarar eru mikið notaðir við votverkun heys. Þjöppun mynda. Þjöppun mynda er það að nota gagnaþjöppun á stafrænar myndir. Markmiðið er að minnka endurtekningu í myndagögnunum til að geyma gögnin á sem hagkvæmasta máta. Þjöppun mynda getur verið þannig að myndin tapar gæðum (e. "lossy") eða að hún glati engum gæðum (e. "lossless"). Þjöppun án gæðataps er oftast notuð fyrir einfaldar myndir eins og tæknilegar teikningar, íkona eða teiknimyndir. Þjöppun með gæðatapi hentar best fyrir ljósmyndir (eða myndir með mörgum mismunandi litum) þar sem smávægilegt (oftast óskynjanlegt) tap á nákvæmni er ásættanlegt til að ná töluverðri minnkun á stærð gagna. Þjöppun án gæðataps er notuð fyrir BMP-myndir og einnig myndasnið sem nota LZW-algóritman (GIF, TIFF og PNG). Þjöppun með gæðatapi er notuð fyrir JPEG (JPG) myndir. Hlíðardalsskóli. HlíðardalsskóliHlíðardalsskóli er fyrrverandi grunnskóli í Þorlákshöfn í Ölfusi. Grunnskóli Þorlákshafnar hefur tekið við kennslu barna í Þorlákshöfn. Þar var meðferðarheimilið Byrgið með starfsemi frá 1997 en óljóst er hvenær henni var hætt. Graphics Interchange Format. GIF (Graphics Interchange Format) er bitmap-myndasnið sem CompuServe kynnti árið 1987 og er mikið notað á internetinu. Sniðið notar litaspjald með allt að 256 mismunandi litum. Það styður einnig hreyfingu og leyfir sérstakt litaspjald með 256 litum fyrir hvern ramma. Litatakmörkunin gerir GIF sniðið óhentugt fyrir ljósmyndir og aðrar myndir með mörgum litum - en hentugt fyrir einfaldar myndir með litum sem blandast ekki. GIF myndir eru þjappaðar með LZW-algóritma til að minnka skráarstærðina án þess að tapa gæðum myndarinnar. PNG. PNG (Portable Network Graphics) er bitmap myndasnið sem notar þjöppun án gæðataps. PNG var búið til til þess að bæta og koma í staðinn fyrir GIF sniðið. Eins og GIF sniðið þá styður PNG gagnsæi. Hvalba. Hvalba er þorp á norður Suðurey í Færeyjum með um það bil 660 íbúa. Tvenn göng tengjast við Hvalba og þau eru: Hvalbagöngin sem eru 1450 metra löng og tengja Hvalba og Trongisvágur/Tvøroyri síðan er það Sandvíkargöngin sem eru 1500 metra löng og tengja Hvalba og Sandvík. Póstnúmer bæjarins er FO 850. Vélbúnaður. Vélbúnaður tölva er sá hluti sem er áþreifanlegur, eins og t.d. tölvukassinn, skjárinn, lyklaborðið og músin. Í tölvukassanum blasir við flókinn og smágerðari vélbúnaður. Meðtaldar eru einnig stafrænar rásir sem eru aðgreindar frá hugbúnaði tölvunnar sem keyrir innann vélbúnaðarins. Heimildir. http://en.wikipedia.org/wiki/Computer_hardware IPhone. iPhone og iPhone 3G myndaðir í London. Apple iPhone er margmiðlunar/Internet studdur farsími með snertiskjá kynntur af framkvæmdarstjóra Apple, Steve Jobs á keynote sýningunni á Macworld Conference & Expo þann 9. janúar 2007. iPhone var gefinn út 29. júní 2007 í Bandaríkjunum og hann kostar US$399 fyrir 8GB. Vífilsstaðir. Vífilsstaðir (áður Vífilsstaðaspítali) var berklahæli og hjúkrunarheimili í Garðabæ sem tók formlega til starfa 5. september 1910. Starfsemi Vífilsstaða snérist um þjónustu við berklasjúklinga þar til hælinu var breytt í spítala fyrir sjúklinga með öndunarfærasjúkdóma á vegum LSH árið 1973. Árið 1976 tók til starfa meðferðarstofnun fyrir áfengissjúklinga á vegum Kleppsspítala í sérhúsnæði á Vífilsstöðum. Öll starfsemi hins opinbera lagðist af árið 2002 en þá tók Hrafnista við húsnæðinu og rak þar öldrunarheimili fyrir um 50 manns til 20. ágústs 2010. Vífilsstaðir eru í eigu ríkisins og eru í umsjá fasteignaumsýslu þess. Saga. Upprunalega byggði Vífill bæinn Vífilsstaði eftir að Ingólfur Arnarson, landnámsmaður Íslands, hafði veitt honum frelsi fyrir fund á öndvegissúlum sínum tveim sem hann hafði varpað frá borði og hugðist byggja sér bæ þar sem þær ráku á land. Vífilsfell er einnig kennt við hann. Þann 1. september 1910 var spítali fyrir berklasjúklinga byggður á Vífilsstöðum sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði. Eftir að berklasjúklingum fór fækkandi árið 1973 var byrjað að taka á móti öllum öndunarfærasjúklingum. Þar var einnig stórt kúabú, sem lagt var niður árið 1974. Sérstök meðferðardeild fyrir áfengissjúklinga sem tilheyrði Kleppsspítala var stofnuð þar árið 1976. Þeirri deild var lokað 2002. Rekstur hjúkrunarheimilis fyrir aldraða hófst í byrjun árs 2004 að endurinnréttingu á húsinu loknu. Telst aðstaðan með þvi nútímalegra sem gerist. Hrafnista annast rekstur Vífilsstaða og leigir húsið af ríkinu. Níu af hverjum tíu heimilismanna koma beint af öldrunardeildum LSH, en 10% heimilismanna eru teknir inn samkvæmt hefðbundnum inntökureglum. Þar starfar prestur sem sinnir sálgæslu og trúarlegri þjónustu við heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk. Kumlanám. Kumlanám er atferlismeðferð sem byggir á skilyrðingu. Aðferðin gengur út á að unnt sé að styrkja jákvæða hegðun með einhvers konar táknum eða „peningum“ sem safna má og skipta ef vill í eitthvað eftirsóknarvert sem viðfangið kann að meta. Strengur (tölvunarfræði). Strengur er gagnagerð í flestum forritunarmálum notað til að vinna með texta. Strengir bæði í forritunarmálum og stærðfræði eru notaðir til þess að halda utan um raðir tákna úr fyrirfram ákveðnum mengjum. Þessi mengi eru endanleg og kallast stafróf. Stafrófin geta verið mismunandi milli forritunarmála en oftast er um að ræða sammengi tölustafa, bókstafa og tákna. Strengir eru óbreytanlegir en forritunarmál bjóða gjarnan upp á leiðir til að meðhöndla strengi á ýmsa vegu. Jöklarannsóknafélag Íslands. Jöklarannsóknafélag Íslands er félag sem var stofnað í nóvember 1950 til að stuðla að rannsóknum á íslenskum jöklum. Silki. Silkiþræðir spunnir úr púpum í Tyrklandi. Silki er ofið náttúrulegt efni. Það er unnið úr þráðum silkiormsins. Silkivegurinn er söguleg verslunarleið í Mið-Asíu. Ýmis smádýr eins og kóngulær, lirfur og liðfætlur framleiða silki, en mórberjaskilkifiðrildið er sú eina þar sem silki er notuð sem afurð til mannanota. Hún framleiðir silkið úr púpu sinni. Lirfan breytir laufum mórberjatrésins í límkennda froðu sem verður að þræði þegar það kemur út munni lirfunnar. Úr þessum hárfína þræði býr lirfan til púpu. Þrjár tegundir af silki er hægt að fá af púpunum. Hespusilki eru löngu þræðirnir yst á púpunni og eru um 1000-1500m langir. Schappelsilki eru unnið úr restinni af púpunni og eru þeir þræðir aðeins 5-30cm. Hrásilki er svo unnið úr afganginum og eru þeir þræðir styttri en 5cm. Eiginleikar silkisins. Silkiþráður er eitt af sterkustu efnum heims miðað við þyngd, það er einnig sveigjanlegt og togsterkt. Silki er gott í taka og er vel einangrandi. Ef silki fær rétta umhirðu hleypur það ekki. Ómeðhöndlað silki missir glans og góða eiginleika við sólarljós. Það krumpast minna en bómull en meira en ull. Flest silkiefni þola vélþvott á stilingu fyrir viðkvæman þvott en það þolir ekki þurrkara. Silki er ekki mjög slitsterkt, það hleður upp rafmagn og er mölsækið. Efnafræðilega er þráðurinn samsettur úr löngum amínósýrusameindum, mjög svo svipuðum keratíni, en það er efni sem til dæmis er í hári, fjöðrum og nöglum ýmissa annarra dýra. Skyndiminni. Skyndiminni (flýtiminni eða biðminni) er mjög hraðvirkt tölvuminni, yfirleitt mjög takmarkað að stærð. Skyndiminni inniheldur samansafn af gögnum sem hafa verið afrituð frá einhverjum öðrum stað inn í skyndiminnið til þess að geta nálgast þau á hraðvirkan hátt. Hlutir sem nýta sér skyndiminni eru t.d. örgjörvar, harðir diskar og vafrar. Þar sem að oft þarf að nálgast sömu gögnin á stuttu tímabili þá er hentugt að lesa þau inn í skyndiminni þar sem að miklu fljótlegra er að leita að þeim þar heldur en að leita í vinnsluminni eða lesa þau af diski. Reiknirit fyrir skyndiminni. Þar sem að skyndiminni eru oftast mjög takmörkuð að stærð þá þarf stöðugt að vera henda hlutum úr skyndiminninu til að losa pláss fyrir nýja hluti. Það eru til nokkur reiknirit til að reikna út hvaða hlutum á að henda úr minninu. Þar sem að þessi reiknirit virka eftir mjög mismunandi forsendum þá henta þau að sama skapi við mismunandi aðstæður. Þar sem eitt ritið virkar vel getur annað virkað mjög illa og valdið því að röngum hlutum sé hent úr minni þannig að það þurfi að lesa inn í minnið við hverja aðgerð. LRU. LRU (Least Recently Used) reikniritið byggir á því að henda úr skyndiminninu því sem var notað fyrir sem lengstum tíma síðan. Hugmyndin á bakvið þetta reiknirit er sú að sá hlutur í minni sem er lengst síðan var notaður, er líklega úreltur eða langt þangað til þarf að nota hann aftur. MRU. MRU (Most Recently Used) reikniritið hagar sér öfugt við LRU, þar sem það hendir úr skyndiminninu því sem var notað fyrir sem skemmstum tíma. Hugmyndin við þetta reiknirit er að fyrst að nýbúið er að nota hlutinn þá væntanlega þarf ekki að nota hann strax aftur. Belady's Min. Þetta reiknirit byggir á því að henda því úr skyndiminninu sem er lengst þar til verður notað aftur. Þetta er skilvirkasta reiknirit sem til er fyrir skyndiminni, en þar sem að það er ómögulegt að segja til um hvenær nákvæmlega þarf að nota hluti aftur, þá er þetta reiknirit eingöngu notað til að mæla afköst annarra reiknirita. ARC. ARC (Adaptive Replacement Cache) reikniritið er endurbætt útgáfa af LRU þar sem að það reiknar bæði útfrá hvenær hlutir í skyndiminni voru notaðir síðast og tekur einnig tillit til þess hve oft þeir hafa verið notaðir. Skógar. Ytri-Skógar er þorp suður af Eyjafjallajökli í Rangárvallasýslu, íbúafjöldi þar var 25 1. desember 2007. Þar er Skógaskóli, byggðasafn og samgöngusafn. Skammt vestur af Skógum er Skógafoss. Skaftafell. Skaftafell í Öræfum er 4.807 km2 þjóðgarður stofnaður 15. september 1967. Þar vex gróskumikil gróður milli sands og jökla. Þjóðgarðurinn var stækkaður 1984 og svo aftur 2004 og eru nú um tveir þriðju hlutar af Vatnajökli innan þjóðgarðsins. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 8. júní 2008 varð Skaftafell hluti hans. Richard Janko. Richard Janko (30. maí 1955 í Weston Underwood á Englandi) er bandarískur fornfræðingur og textafræðingur sem fæst einkum við forngrískar bókmenntir. Hann er prófessor í fornfræði við University of Michigan í Ann Arbor. Menntun og starfsferill. Hann lauk BA-gráðu í fornfræði árið 1976 og hélt þá til Cambridge þar sem hann stundaði framhaldsnám við Trinity College. Hann lauk doktorsgráðu sinni þaðan árið 1980. Doktorsritgerð Jankos hét „Studies in the language of the Homeric Hymns and the dating of early Greek epic poetry“ en leiðbeinandi hans var John Chadwick Janko kenndi grísku við St Andrews-háskóla á Skotlandi veturinn 1978-1979. Hann varð rannsóknarfélagi á Trinity College í Cambridge 1979-1982 en hélt síðan til Bandaríkjanna þar sem hann tók við lektorsstöðu (e. assistant professor) í fornfræði við Columbia-háskóla í New York. Hann gegndi þeirri stöðu í tvö ár en árið 1987 tók hann við stöðu prófessors í fornfræði við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Hann gegndi þeirri stöðu til ársins 1994. Árið 1995 þáði Janko prófessorsstöðu við Lundúnaháskóla og kenndi þar til ársins 2002. Frá árinu 2003 hefur Janko gegnt stöðu Gerald F. Else Collegiate-prófessors í fornfræði og deildarforseta fornfræðideildar Michigan-háskóla í Ann Arbor. Árið 2002 hlaut Janko Goodwin-verðlaunin, sem American Philological Association veita fyrir framúrskarandi fræðimennsku í fornfræði. Tengill. Janko, Richard Janko, Richard Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff. Enno Friedrich Wichard Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff oftast nefndur Wilamowitz (22. desember 1848 – 25. september 1931) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Wilamowitz er einkum þekktur fyrir framlag sitt til grískrar textafræði og fyrir framlag sitt til Hómersfræða. Utan fornfræðinnar er hann þekktastur fyrir harða gagnrýni sína á rit Friedrichs Nietzsche "Fæðing harmleiks". Æviágrip. Wilamowitz fæddist 22. desember árið 1848 í Markowice, smábæ skammt frá Inowrocław í Kuyaviu í Prússlandi (í dag í Póllandi). Foreldrar hans voru Þjóðverjar af pólskum ættum. Faðir hans var Arnold Wilamowitz en móðir hans var Ulrika Wilamowitz (fædd Calbo). Wilamowitz nam við háskólann í Bonn frá 1867 til 1869 en hélst síðan til náms í Berlín. Þaðan lauk hann doktorsprófi árið 1870. Árið 1876 varð hann prófessor við háskólann í Greifswald. Hann fluttist til Göttingen árið 1883 og tók við prófessorsstöðu þar. Árið 1897 sneri hann aftur til Berlínar. Þá hafði hann skrifað flest af vinsælustu ritum sínum og var þá þegar talinn einn fremsti sérfræðingur Evrópu um fornfræði og textafræði. Hann lést í Berlín 25. september árið 1931. Helstu rit. Wilamowitz-Moellendorff, Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff, Ulrich von Felix Jacoby. Felix Jacoby (19. mars 1876 – 10. nóvember 1959) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Hann er þekktur fyrir útgáfu sína á brotum forngrískra sagnaritara, "Fragmente der griechischen Historiker". Jacoby, Felix Jacoby, Felix Jacoby, Felix Eduard Fraenkel. Eduard David Mortier Fraenkel (17. mars 1888 í Berlín í Þýskalandi – 5. febrúar 1970 í Oxford á Englandi) var þýsk-enskur fornfræðingur og Textafræðingur. Æviágrip. Eduard Fraenkel fæddist í Berlín þann 17. mars árið 1888. Foreldrar hans voru gyðingar. Faðir hans var vínsali en móðir hans var dóttir bókaútgefanda. Edurad sótti nám í Askanisches Gymnasium í Berlín frá 1897 til 1906. Þar lærði hann að lesa bæði latínu og grísku. Í háskóla nam hann lög í fyrstu en sneri sér skömmu seinna að fornfræði og nam hjá Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff. Tveimur árum síðar flutti hann sig frá Berlín til Göttingen og dvaldi þar til ársins 1912 og nam undir leiðsögn Friedrichs Leo. Árið 1933 missti Fraenkel stöðu sína vegna andsemískra laga í Þýskalandi og fluttist hann þá til Bretlands og tók við prófessorsstöðu í latínu við Corpus Christi College í Oxford árið 1934. Hann gegndi þeirri stöðu þar til hann settist í helgan stein árið 1951. Fraenkel framdi sjálfsmorð í janúar árið 1970, 81 árs gamall, skömmu eftir andlát konu sinnar. Helstu ritverk. Fraenkel, Eduard Fraenkel, Eduard Bretavatn. Bretavatn er stöðuvatn á Mýrum í um 10 km fjarlægð frá Borgarnesi. Munnmælasagnir herma að Bretar nokkrir, sem höfðu bjargast úr skipsskaða við ströndina, drukknuðu í því þegar þeir leituðu byggða. Þyrluþjónustan. Þyrluþjónustan hf er íslenskt fyrirtæki í flugrekstri sem rekur og leigir út þyrlur ásamt þyrluflugmönnum. Meðal þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir eru útsýnisflug, leiguflug, þjónustuflug, tækifærisflug, kvikmyndaflug, ljósmyndaflug og þyrlukennsla. Þyrluflotinn er breytilegur eftir verkefnum en samanstendur af Bell og Eurocopter þyrlum eftir þörfum. Þyrluþjónustan er fyrsti íslenski þyrlurekandi sem hlaut JAR OPS leyfi frá Flugmálastjórn Íslands og Joint Aviation Authority, nú EASA. Þyrluþjónustan var stofnuð árið 1989 af Halldóri Hreinssyni og föður hans og flaug Halldór fyrir fyrirtækið til ársins 2008. Eigandaskipti urðu í byrjun árs 2006 þá varð Haukur Þór Adolfsson stjórnarformaður og aðaleigandi ásamt Sigurði Pálmasyni sem er jafnframt framkvæmdastjóri. Flugrekstrarstjóri er Sindri Steingrímsson og yfirflugmaður félagsins er Reynir Freyr Pétursson. Þyrluþjónustan bauð upp á þyrlukennslu á árunum 1991-92 og síðan frá 1998 til 2004 og stefnt er að því að hefja kennslu aftur innan tíðar. Fiðlarinn á þakinu. "Fiðlarinn á þakinu" er söngleikur eftir Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein sem var fyrst frumsýndur í Broadway-leikhúsinu 22. september 1964. 1971 kom út vinsæl söngvamynd byggð á söngleiknum. Borðey. Borðey (færeyska: "Borðoy") er eyja í miðjum Norðeyjum Færeyja og er 95 km² að stærð. Hún er mjög vogskorin. Á eynni eru átta byggðir: Ánir, Árnafjørður, Depil, Norðdepil, Norðoyri, Norðtoftir, Strond og Klakksvík, sem er næststærsti bær Færeyja. Á eynni búa um 4900 manns og þar af rúmlega 4500 í Klakksvík, eða um 80% af samanlögðum íbúum Norðeyja. Klakksvík er líka mesti fiskveiðibær Færeyja. Þrjár eyðibyggðir eru á norðanverðri eynni, Skálatóftir, Múli og Fossá. Múli var ein afskekktasta byggð Færeyja og þangað var ekkert vegasamband fyrr en 1989 og allir flutningar voru með bátum og þyrlum. Byggðin fór svo í eyði 1994, fimm árum eftir að vegur var lagður þangað. Á Borðey eru fimm fjöll: Borðoyarnes (392 m), Depilsknúkur (680 m), Háfjall (647 m), Hálgafell (503 m) og hæsta fjallið á eynni er Lokki (755 m). Á árunum 1965 og 1967 voru gerð tvenn jarðgöng á eynni sem tengja Klakksvík við Árnafjörð og svo byggðirnar á austurströndinni, þar á meðal Norðdepil, en þaðan var gerð vegfylling til Hvannasunds á Viðey. Seinna varð gerð vegfylling til Haraldssunds á Kunoy og var þá hægt að aka á milli eyjanna þriggja. Þann 29. apríl 2006 voru svo Norðeyjagöngin opnuð. Þau eru 6,2 km löng neðansjávargöng yfir til Austureyjar og nú er hægt að aka til Austureyjar og þaðan yfir brú til Straumeyjar og síðan um göng til Vága. Raunveruleiki. Raunveruleikinn eða veruleikinn er það sem er, í víðum skilningi felur raunveruleikinn í sér allt sem er (var og jafnvel verður) til, hvort sem það er áþreifanlegt eða óáþreifanlegt, sjáanlegt eða ósjáanlegt eða með einhverjum hætti skiljanlegt innan vísindanna, heimspekinnar eða einhvers annars hugtakakerfis. Frumspeki (og verufræði) er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um hvað það er sem er raunverulega til og "hvernig" það er til eða "í hvaða skilningi". Heimspekilegar kenningar um raunveruleikann. Heimspekin fjallar um raunveruleikann á tvennan hátt: eðli raunveruleikans annars vegar og tengsl hans við hugann (og tungumál og menningu) hins vegar. Verufræði er undirgrein frumspekinnar sem fjallar um hvað er til, helstu flokka tilvistar. Verufræðin reynir að lýsa almennustu tegundum þess sem er til og hvernig þeir tengjast (til dæmis efnislegir hlutir og eiginleikar, sem eru háðir hlutunum sem hafa þá). Sumir heimspekingar gera greinarmun á raunveruleika og tilvist. Margir rökgreiningarheimspekingar forðast að nota orðin „raunverulegur“ og „raunveruleiki“ í umfjöllun um verufræði. Þeir sem gera ekki greinarmun á raunveruleika og tilvist spyrja gjarnan hvort tilvist sé eiginleiki hluta. Flestir heimspekingar síðan Immanuel Kant hafa haldið að tilvist sé alls ekki eiginleiki heldur forsenda þess að hlutir geti haft eiginleika. Í umræðum um hlutlægni, sem eiga sér stað innan bæði frumspeki og þekkingarfræði, snýst spurningin um raunveruleikann oft um það að hvaða marki og á hvaða hátt raunveruleikinn "veltur á" hugrænum og menningarlegum atriðum, svo sem skynjunum, skoðunum og öðrum íbyggnum viðhorfum, trúarbrögðum, stjórnmálahugsjónum og svo framvegis. Sú skoðun að til sé raunveruleiki óháður skoðunum, skynjunum og svo framvegis kallast hluthyggja. Heimspekingar tala oft um hluthyggju "um" þetta og hitt, til dæmis hluthyggju um altök eða hluthyggju um hinn ytri heim. Almennt má segja að þegar maður getur bent á einhvern hóp hluta eða einkenna sem velta ekki á skynjunum, skoðunum, tungumáli eða öðrum mannasetningum, þá sé hægt að tala um hluthyggju "um" þann hóp hluta. Andstæðan við hluthyggju er hughyggja um sama hóp hluta, til dæmis hughyggja um altök (sem er venjulega kölluð nafnhyggja) eða hughyggja um hinn ytri heim. Eitt afbrigði hughyggju er stundum nefnt fyrirbærafræði. Menningarleg afstæðishyggja er hughyggja um siðfræðileg hugtök, sem heldur því fram að siðfræðileg hugtök séu félagsleg smíði sérhvers menningarsamfélags. Hoyvík. Hoyvík er þriðji stærsti bær Færeyja, norðaustan við Höfuðborgina Þórshöfn og auk þess er hann hluti af sveitarfélaginu Þórshöfn. Bærinn hefur stækkað mikið undanfarin ár. Íbúar Hoyvíkur er 3276 manns (1. nóvember, 2007). Póstnúmer bæjarins er FO 188. Slættaratindur. Slættaratindur er hæsta fjall Færeyja og er 880 metrar á hæð. Fjallið er á norðurhluta Eysturoyar á milli þorpanna Eiðis, Funnings og Gjógvar. Nafnið Slættaratindur þýðir "Flatur tindur". Slættaratindur er eitt af 10 fjöllum í Færeyjum sem eru meira en 800 m há. Gráfelli sem er næst hæsta fjall Færeyja, er rétt norðaustan við Slættaratind. Dagskrá 21. Dagskrá 21 er alþjóðlegur samningur Sameinuðu þjóðanna undirritaður af 179 þjóðum í Rio de Janeiro árið 1992. Samningurinn er ætlaður til að vekja þjóðir heims til vitundar um sjálfbæra þróun. Þegar ljóst varð að Dagskrá 21 væri ekki nægilega mótuð fyrir hvert samfélag var samin Staðardagskrá 21 sem sveitarstjórnir eiga að nota til að vinna að sjálfbærri þróun. Þannig væri hægt að ná að grasrótinni. Engar lagalegar bindingar eru innan Dagskrár 21 heldur hefur hún siðferðislegt gildi. Talan "21" vísar til 21. aldarinnar. Gráfelli. Gráfelli er næst hæsta fjall Færeyja staðsett á norðurhluta Eysturoy, norðaustan við hæsta fjall Færeyja Slættaratindur sem er aðeins 26 metrum hærra. Gráfelli er 856 metrar að hæð yfir sjávarmál. Nólsey. Nólseyjarþorp. Hvalbeinshliðið var reist þegar Ingiríður Danadrottning heimsótti Nólsey. Nólsey (færeyska: "Nólsoy") er eyja í miðjum Færeyjum, austur af Þórshöfn á Straumey, og skýlir höfninni í Þórshöfn vel fyrir veðrum úr austri. Hún er 10,3 km² að stærð og 9 km á lengd. Nólsey er láglendust Færeyja og þar er aðeins eitt fjall sem heitir Høgoggj. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Eggjarklettur og er 371 metrar að hæð yfir sjávarmáli. Á eynni er aðeins ein byggð sem einnig heitir Nólsoy og þar bjuggu 245 manns 1. janúar 2011 en voru flestir um 350 árið 1970. Byggðin er á norðanverðri eynni, þar sem hún er mjóst og lægst, raunar svo mjó að í miklum austanstormum brimar stundum þvert yfir eiðið í miðju þorpinu. Nólsey var áður sjálfstætt sveitarfélag en sameinaðist Þórshöfn árið 2004. Aðeins 20 mínútna sigling er til Þórshafnar og allmargir Nólseyingar stunda vinnu þar en fara á milli kvölds og morgna. Syðst á eynni er vitinn Borðan, byggður 1893. Um hann skrifaði William Heinesen bókina "Turninn á heimsenda". Um tíma bjuggu þrjár fjölskyldur í vitavarðarhúsinu og þar voru þá tíu börn, og var skólahald þá til skiptis þar og í Nólseyjarþorpi. Vestan á eynni er eyðibyggðin Korndalur. Þar eru rústir sem kallast Prinsessurústirnar. Sagt er að þar hafi búið skosk konungsdóttir sem hafi strokið til Færeyja með elskhuga sínum. Korndalur fór í eyði á 18. öld. Í Nólsey er haldin árleg hátíð sem kallast Ovastefna, kennd við Ove Joensen frá Nólsey, ævintýramann sem vann sér það meðal annars til frægðar að róa frá Færeyjum til Danmerkur á færeyskum árabát árið 1986 en drukknaði í Skálafirði ári síðar. Þekktasti Nólseyingurinn er þó þjóðhetjan Nólseyjar-Páll, sem barðist gegn dönsku einokunarversluninni í upphafi 19. aldar. Á Nólsey er stærsta stormsvölubyggð í heimi. PDF. Portable Document Format (PDF), ranglega kallað „Printable Document Format“, er skráartegund frá Adobe. Það var fyrst hannað árið 1993. Jessica Stam. Jessica Stam (f. 23. apríl 1986) er kanadísk fyrirsæta. Stam fæddist í Kincardine í Ontario og ólst upp á bóndabæ ásamt 6 bræðrum. Fjölskylda hennar var mjög trúuð í æsku hennar og upprunalega langaði hana helst til að verða tannlæknir. Þegar Stam var aðeins 16 ára var hún uppgvötvð af Michele Miller í Tim Hortons-kaffibúð. Hann er umboðsmaður í International Model Management skrifstofu í Barrie í Ontario. Steven Meisel var svo fenginn til að taka af henni nokkrar myndir og fljótlega sló hún í gegn og hönnuðir á borð við Chanel, Marc Jacobs, Anna Sui, Vera Wang, Valentino, Sonia Rykiel, Miu Miu, Gucci, Prada, Dolce & Gabbana og Holt Renfrew vildu fá hana til starfs við sig. Nú er hún eitt eftirteknarverðasta módelið enda hefur hún fengið viðurnefni „doll face“ eða dúkkuandlit. Reiði. Reiði er geðshræring sem verður til vegna mikillar óánægju, pirrings eða ógnar sem menn skynja gagnvart sjálfum sér eða öðrum, annaðhvort í fortíð nútíð eða framtíð. Ógnin getur virst raunveruleg eða ímynduð. Oft er reiði viðbragð við hótunum, ranglæti, vanrækslu, niðurlægingu eða svika auk annars. Reiði er hægt að tjá í verki eða með því að halda að sér höndum. Öfund. Öfund er geðshræring sem verður til þegar mann skortir eitthvað sem aðrir hafa og maður annaðhvort óskar að maður hefði það eða að hina skorti það. Til grundvallar öfundinni virðist liggja samanburður á stöðu einstaklinga, oft félagslegri stöðu, sem ógnar sjálfsvirðingu manns: einhver annar hefur eitthvað sem sá öfundsami telur mikilvægt að hafa. Efi. Efi er íbyggið viðhorf sem felur í sér óvissu um sanngildi staðhæfingar. Efinn getur leitt til þess að maður hikar við að gera eitthvað til dæmis vegna þess að maður gæti haft á röngu að standa eða af því að maður er óttast afleiðingarnar. Eftirsjá. Eftirsjá er vitsmunaleg og/eða tilfinningaleg óánægja vegna eigin athafna og hegðunar í fortíðinni. Fólk er oft fullt eftirsjár þegar það finnur til sorgar, skammar eða sektar í kjölfar athafnar eða athafna (eða athafnaleysis) sem það vildi seinna óska sér að það hefði ekki framkvæmt. Eftirsjá er ólík sektarkennd, sem er römm tilfinningarleg eftirsjá — sem getur verið erfitt að skilja á hlutlægan hátt. Á hinn bóginn vísat skömm yfirleitt til félagslegrar hliðar sektar eða eftirsjár sem á sér félagslegar og menningarlegar rætur öðru fremur og varðar fyrst og fremst heiður manns. Sektarkennd. Sektarkennd er römm tilfinningarleg eftirsjá sem stafar oftast af því að sá sem finnur til sektarkenndar finnst hann hafa gert eitthvað af sér. Listi yfir þjóðvegi á Íslandi. Eftirfarandi er listi yfir þjóðvegi á Íslandi eftir vegnúmerum. Vegir með fjögurra stafa númer. Vegagerðin heldur númer yfir alla vegi sem hún hefur umsjón með og allir smávegir sem liggja að einstökum býlum hafa fengið fjögurra stafa númer. Þessi númer eru að jafnaði eingöngu birt í vegaskrá eða annars örsjaldan í útgáfum tengdum stofnuninni. Dæmi um veg með fjögurra stafa númeri er vegur 5317; Grímarsstaðavegur, milli Hvanneyrar og Hvítárvalla í Borgarfirði. Þessi vegur var fram að opnun Borgarfjarðarbrúar árið 1980 hluti af Vesturlandsvegi, og eftir það Hvítárvallavegi sem var númer 53 en það númer er ekki lengur í notkun. Hvítárvallavegur hefur nú númerið 510 og aðrir kaflar gamla Hvítárvallavegar tilheyra nú vegum 50 og 511. Skömm. Skömm er geðshræring sem stafar af vitund manns um það að vegið sé að heiðri manns. Raunveruleg skömm stafar af því að raunverulega er vegið að heiðri manns en fólk finnur einnig til skammar vegna þess að það heldur að vegið sé að heiðri sínum. Ótti. Ótti eða hræðsla er íbyggið viðhorf og sterk óánægjuleg tilfinning vegna yfirvofandi hættu, sem er annaðhvort raunveruleg eða ímynduð. Teketill Russells. Hugmyndin um teketil Russells hefur verið nýtt í gagnrýni á trúarbrögðin t.d. í ósýnilega bleika einhyrningnum og fljúgandi spagettískrímslinu. Vandsveinn. Vandsveinn, málverk eftir Cesare Vecellio Vandsveinar voru þjónustumenn í hinni fornu Róm, er gengu fyrir æðstu embættismönnum Rómverja og báru axarvönd, svonefndan „"fasces",“ sem var exi umslegin hrísi og var tákn valdsins. Helsta verkefni vandsveina var að fylgja ræðismönnum og höfðu í raun samskonar hlutverki að gegna og lífverðir nútímans. Þeir báru axarvönd sinn með sér hvert sem ræðismennirnir fóru, hvort sem það var á þing eða í laugar. Vandsveinar ruddu þeim leið í gegnum mannfjöldann og gátu handtekið óbreytta þegna ef ræðismaðurinn skipaði svo fyrir. Vestumey var úthlutaður vandsveinn ef hún þurfti að gegna opinberri þjónustu. Vandsveinn heitir lictor á latínu (komið af orðinu "ligare" (að binda)). Vandsveinn hefur einnig verið nefndur "vöndulsveinn" og "bundinsveinn" á íslensku. Orðið fasisti er dregið af orðinu „"fasces"“. Parsek. Parsek er lengdareining sem er notuð í stjörnufræði, skammstöfuð pc. Jafngildir 206.265 stjarnfræðieiningum eða 3,26 ljósárum. Radio.blog. radio.blog er tónlistar vefsíða studd Adobe Flash og PHP. Það er líka til HTML útgáfa af radio.blog. Radio.blog er haldið úti á vefslóðinni http://www.radioblogclub.com/, og þar er hægt að hlusta á tónlist hvaðanæva úr heiminum, vinsæla sem og neðanjarðar-tónlist. Samkvæmt útreikningum Google var radio.blog í fimmta sæti yfir þær síður sem mest var leitað að árið 2006. 14. mars, 2007, lokaði radio.blog vegna umferðar og tveimur dögum seinna birtist niðurteljari og síðan opnaði síðan á ný 17. mars. Florence Nightingale. Florence Nightingale (12. maí 1820–13. ágúst 1910), einnig þekkt sem „"konan með lampann"“, var bresk hjúkrunarkona, rithöfundur og tölfræðingur. Hún linaði þjáningar sjúkra og særðra hermanna í Krímstríðinu og hlaut sitt fræga viðurnefni „konan með lampann“ þá vegna venju sinnar að ganga á milli manna að næturlagi með lampa í hönd til að hjúkra þeim. Framlag hennar til heilbrigðismála markaði tímamót í sögunni. Hún jók virðingu hjúkrunarkvenna og kom á fót fullnægjandi menntunarkerfi fyrir þær. Hún stofnaði árið 1860 fyrsta eiginlega hjúkrunarskóla í heimi við St. Thomas-sjúkrahúsið í London. Hún kom þess að auki til leiðar að á sjúkrahúsum stórbatnaði allur aðbúnaður, skipulag þeirra varð skilvirkara og hreinlæti jókst til muna. Hún var brautryðjandi í nútíma hjúkrun og notkun tölfræðilegra aðferða við úrvinnslu gagna varðandi meðferð og bata sjúklinga. Það var einnig fyrir hennar áhrif að farið var að senda flokk hjúkrunarkvenna með Breska hernum í styrjaldir. Alþjóðlegi hjúkrunarfræðidagurinn er haldinn á afmælisdegi hennar ár hvert. Árið 2010 var Florence Nightingale minnst með alþjóðlegu ári og Sameinuðu þjóðirnar helguðu áratuginn 2011 til 2020 heilbrigði um allan heim. Uppvaxtarárin. Florence Nightingale, í kringum 1858 Florence fæddist 12. maí árið 1820 í Flórensborg. Foreldrar hennar, William Edward og Frances Fanney Smith voru mjög efnað efri yfirstéttarfólk og mjög vel tengd inn í bresku ríkisstjórnina. Þau lögðu land undir fót eftir að þau höfðu verið gefin saman og eignuðust tvær dætur á þeim þremur árum sem þau voru búsett á Ítalíu. Dætur þeirra voru nefndar eftir borgunum þar sem þær fæddust en eldri dóttir þeirra fæddist í borginni Napólí árið 1819 og fékk nafnið Parhenope sem er gríska heitið yfir borgina. Þegar fjölskyldan sneri aftur til Englands settust þau að í Lea Hurst í Derbyshire en fluttu seinna til Embley Park í Hampshire á Suður-Englandi. Florence og systir hennar hlutu afbragðs menntun frá föður sínum eins og stúlkum úr efri yfirstétt sæmdi, enda var hann vel menntaður maður. Þær lærðu meðal annars frönsku, grísku, ítölsku, latínu, heimspeki, náttúrufræði, stærðfræði og sögu. Einnig kom til þeirra kennslukona sem kenndi þeim bæði tónlist og teikningu. Þrátt fyrir munaðinn sem ríkti á uppvaxtarárum Florence þá dreymdi hana um annað líferni. Þegar hún var aðeins sautján ára gömul þá fannst henni líkt og Guð hefði talað til hennar og úthlutað henni verkefni í lífinu við að þjóna sér. Í mörg ár velktist hún í vafa um hvernig þessu verkefni væri háttað en hún tók köllunina jafnframt mjög alvarlega. Með tímanum fór þó að þróast með henni sterk hvöt til að hjúkra. Staðreyndin var sú að það var henni nánast sjúkleg svölun að sauma saman rifnar brúður systur sinnar og henni dreymdi um að vaka yfir sjúkum og hjálpa fátækum. Hugur hennar var einnig yfirfullur af hugarórum um að breyta heimili sínu í sjúkrahús þar sem hún væri yfirhjúkrunarkona.. Eftir því sem árin liðu fór að örla á eirðarleysi og óhamingju hjá Florence. Foreldrar hennar voru gáttuð á hátterni dótturinnar og gátu ekki skilið hvað amaði að. Það kom þá líkt og þruma úr heiðskíru lofti þegar Florence bað um að fá að komast í nokkra mánuði í starfsnám sem hjúkrunarkona á sjúkrahúsinu í Salsbury. Þar ætlaði hún að stofna mótmælenda nunnureglu, sem yrði án skuldbindinga og einungis fyrir menntaðar konur. Þessi hugmynd var algjörlega máð af yfirborðinu af foreldrum hennar. Það var ekki nema von að foreldrum Florence hafi verið svo brugðið við þessa ósk dóttur þeirra enda var almenningsálit á hjúkrunarkonum á þessum tíma ekki gott. Hjúkrunarkonur voru álitnar sóðalegar, skítugar og drykkfelldnar konur og alræmdar fyrir ósiðlegt líferni sitt. Florence gleymdi þó ekki köllun sinni þrátt fyrir boð og bönn fjölskyldu sinnar. Hún lifði á ytra yfirborði lífi óhófssamrar ungrar stúlku en þjáðist fyrir það af samviskubiti og vanlíðan. Hún notfærði sér þó tímann vel og var dugleg að safna að sér þekkingu og reynslu á sviði hjúkrunarmála. Hún missti aldrei sjónar á takmarki sínu og las í laumi allar athugasemdir læknanefnda, rit heilbrigðisstjórnarinnar og skýrslur frá sjúkrahúsum og fátækrarheimilum. Hún sló heldur ekki slöku við á ferðum sínum erlendis með fjölskyldu sinni og náði að kynna sér hvert einasta meiriháttar sjúkrahús í Evrópu á þessum tíma. Hún grandskoðaði einnig fátækrarheimilin og náði að starfa nokkrar vikur sem „miskunnsöm systir“ í París og að dvelja í fáeina daga í Klausturskóla í Róm án vitneskju fjölskyldu sinnar. Það urðu svo örlagarík tímamót í lífi hennar þegar móðir hennar og systir fóru til Karlsbad og hún laumaðist til heilsuhælis í Kaisersweirth og dvaldi þar í rúma þrjá mánuði og lærði hjúkrun. Sú reynsla sem hún öðlaðist þar í Þýskalandi aðeins tuttugu og fimm ára gömul lagði grundvöllin að framtíðarstarfi hennar sem hjúkrunarkona og auk þess í raun allan grundvöll að framtíðarstarfi komandi hjúkrunarkvenna í heiminum. Þegar Florence varð þrjátíu og þriggja ára gömul var sem foreldrar hennar gerðu sér grein fyrir vanmætti sínum gagnvart starfsvali dóttur sinnar og álitu hana loks nógu gamla og duglega til þess að fá vilja sínum framgengt. Hún fékk þá starf sem forstöðukona fyrir líknarstofnun í Harley Street. En þar starfaði hún í eitt ár. Konan með lampann (Krímstríðið). Florence Nightingale á ferð með lampann. Þegar Krímsstríðið braust út árið 1853 var Florence orðin þrjátíu og fjögurra ára gömul. Florence var fyllilega reiðubúin að vinna það starf sem henni var falið í stríðinu. Það var sem hún hafði undirbúið sig ómeðvitað fyrir þetta starf árum saman. Bretar, Frakkar og Tyrkir áttu í stríði við Rússa. Bretar höfðu verið kokhraustir eftir sigurinn við Waterloo árið 1815, en nú fjörutíu árum síðar voru þeir engan veginn tilbúnir undir stríðsátök. Bardaginn fór fram á Krímsskaga Rússlandsmegin við Svartahaf. Leiðin sem þurfti að ferja særða hermenn um var fimm hundruð kílómetrar, frá vígvellinum við Sevastopol og yfir Svartahaf til Scutari, hverfis í Konstantínópel. Tyrkir höfðu þá byggt þriggja hæða herskála þar í Scutari sem Bretar fengu til umráða sem sjúkrahús. Allar birgðir og útbúnaður var þar af skornum skammti og gat sjúkrahúsið þess vegna ekki þjónað þeim fjölda sem þurfti. Á leiðinni til Konstantínópel fóru þeir landveginn til Varna við Svartahaf í Búlgaríu en á leiðinni kom upp kólerufaraldur sem átti eftir að fylgja hernum og veikja hann illilega. Þegar herinn fór frá Varna yfir til Konstantínópel voru ekki til nógu margir bátar til að ferja bæði birgðir og hermenn og því var gripið til þess ráðs að skilja öll eldurnaráhöld, matvæli, meðul, rúm, sjúkragögn og tjöld eftir. Þessi ákvörðun átti skiljanlega eftir að koma sér mjög illa. Ástandið varð vægast sagt skelfilegt. Engin gögn voru tiltæk til að hlúa að særðum hermönnum hvorki spelkur, sárabindi, morfín né klóróform. Aflimanir voru framkvæmdar án deyfingar við viðbjóðslegar aðstæður og jafnvel án allrar lýsingar um miðjar nætur. En versta vandamálið sem lá við voru óhreinindin. Særðir og kólerusjúkir hermenn voru látnir liggja saman og engin tilraun gerð til að aðskilja þá. Hermenn lágu í sínum eigin saur, enda hirti enginn um að þvo þeim og þegar að einn hermaður lést var þeim næsta einfaldlega plantað í grútskítugt og útsaurugt bæli hans. Þegar fréttir af atburðunum bárust til Bretlands heimtaði almenningur að eitthvað yrði gert í málunum. Ríkjandi hermálaráðherra Bretlands Sir Sidney Herbert ritaði sendiherra Bretlands í Konstantínópel samtímis og skipaði honum að kaupa allt sem þurfti og senda í snatri til Scutari. En hann lét ekki þar við sitja, Sir Sidney Herbert bað þá Florence Nightingale um að fara til Scutari á kostnað ríkisins með fjörutíu hjúkrunarkonur með sér og stjórna þar hjúkrun hermannanna. Florence var skipuð yfir hjúkrunardeild kvenna innan breska hersins og forstöðumaður breska sjúkrahússins í Tyrklandi. Ferðin hófst 21.október 1854 og í hana fóru þrjátíu og átta hjúkrunarkonu auk Florence. Þær komu til Scutari 5. nóvember sama ár og þá var ástandið mjög slæmt en átti þó eftir að versna til muna. Í baráttu sinni í Scutari mætti Florence ómældri mótstöðu, enda voru læknar breska hersins í Scutari lítt vel við þessa konu, og auk þess var hún inn undir hjá bresku ríkisstjórninni sem fór illa í þá. En Florence lét sig ekki, þó henni væri bannað að hjúkra hermönnunum. Þá beindi hún starfi sínu að því sem hún gat fengið breytt og með atorku og útsjónarsemi sinni gjörbreytti hún aðstæðum hermannanna. Hún hafði nóg af peningum milli handanna og öll völd sem þurfti til að eyða þeim. Hún sá til þess að nóg væri af mat og öðrum birgðum og útvegaði auk þess fatnað, eldhúsáhöld og annan nauðsynlegan húsbúnað. Hún réði til sín tvo hundruð verkamenn til að gera við ónýta sjúkrahúsálmu og leigði auk þess annað húsnæði þar sem hún starfrækti þvottahús fyrir sjúkrahúsið. Þar með sá hún til þess að hermennirnir bjuggu við allt annað stig hreinlætis en áður og fengu nú reglulega og vel að borða. Auk þessa alls afrekaði hún að að hjúkra þeim særðu hvert kvöld og var hún vön að labba um stofur hermannanna með lampann sinn og fékk þannig viðurnefnið sitt fræga „konan með lampann“. Florence stundaði einnig heildræna hjúkrun í Scutari sem fól í sér að hún sinnti líka andlegum og félagslegum þörfum hermannanna. Hún skrifaði bréf til fjölskyldna þeirra, kom upp lesstofum og pantaði bækur og sýndi þeim hlýju. Hún vann hugi og hjarta hermannanna og kölluðu þeir hana „konuna með lampann.“ Hróður hennar barst til Bretlands og þar var stofnaður sjóður í hennar nafni til að styrkja menntun hjúkrunarkvenna. Eftir sex mánaða starf hafði dánartala lækkað úr fjörtíu og tveimur af hundraði niður í tvo af hundraði sem var mjög mikið afrek og ekki leið á löngu þar til Florence tók algjörlega við rekstri sjúkrahússins. Florence Nightingale hélt svo heim á leið í ágúst 1856 eftir vel heppnað starf og varð þjóðarhetja Breta. Krímsstríðinu lauk með friðarsamingi milli Breta, Frakka, Tyrkja og Rússa. Florence hafði náð að ljúka verkefni sínu með miklum sóma og þrátt fyrir erfiðleikana þá missti hún aldrei sjónar á markmiði sínu. Löngum hefur verið fullyrt að dánartíðni hermanna á sjúkrahúsinu í Scutari hafi snarlækkað við komu Florence en umdeilt er hvort það hafi verið henni að þakka eða af öðrum örsökum. Breska stjórnin hafði sent á vettvang rannsóknarnefnd, sem lét meðal annars hreinsa frárennslislagnir og bæta loftræstingu sem hafði óneitanlega áhrif. Sjálf hafði Florence talið að léleg næring og ofþreyta hermannanna væru helstu ástæðurnar fyrir hárri dánartíðni en það var ekki fyrr en hún kom heim og fór að skoða gögn sem safnað hafði verið saman sem hún áttaði sig til fulls á mikilvægi hreinlætis og aðbúnaðar. Eftir heimkomuna. Eftir að Florence lauk störfum í Krímsstríðinu var henni þó ekki allri lokið. Hún hóf baráttu sína fyrir umbætum á sviðum heilbrigðismála í Bretlandi, og auk þess vildi hún að hjúkrunarmál og rekstur sjúkrahússa innan hersins yrðu tekin í gegn. Florence veiktist alvarlega í Krím 1855 og árið eftir að hún kom heim aftur og varð þá vart hugað líf. Hún lifði þó í fimmtíu og fimm ár til viðbótar en þessi sjúkdómur sem líklegast er talið að hafi verið öldusótt, varð henni sú blessun að með honum varð hún laus undan kvöðum samfélagsins um að gifta sig. Hún gat þess í stað einbeitt sér að hennar helstu hugðarefnum. Þá var oft á tíðum leitað til Florence í sambandi við uppbyggingu sjúkrahúsa, enda hafði hún náð upp sérlegri leikni við að sjá fyrir sér þá samræmdu starfsemi sem þarf að ná til að rekstur sjúkrahúss gangi upp. Florence var heilluð af tölfræði og vann hörðum höndum við að útbúa staðlaða lista yfir sjúkdóma, svo hægt væri að fylgjast með bæði útbreiðslu þeirra og árangri lækninga. Árið 1860 var svo leitaði sérstaklega til hennar þegar stóð til að stækka eða flytja St. Thomas sjúkrahúsið í London en hún stórbætti allan aðbúnað og skipulag sjúkrahússins. Hún stundaði þess að auki ritstörf og skyldi eftir sig mörg þekkt ritverk um hjúkrun og heilbrigðismál. Hún starfrækti Training School for Nurses þann 9.júlí 1860, þar sem hún ætlaði að þjálfa konur til hjúkrunarstarfa sem síðan myndu kenna áfram við skólann. Hún stofnaði einnig Training School for Housewifes sem átti að kenna konum að taka á móti börnum í heimahúsum en þá var þeirri vitneskju mjög ábótavant og mikið þarfaþing í samfélaginu. Skólinn starfar enn og heitir nú Florence Nightingale School of Nursing and Midwifery. Árið 1869 stofnaði Florence í Bretlandi, ásamt Elísabetu Blackwell (1821-1910) fyrsta kvennlækninum í Bandaríkjunum, Women‘s Medical College. Florence kom aldrei fram opinberlega eftir heimkomu sína frá Krím. Hún lifði í hálfgerðri einangrun og var rúmföst síðustu fjörtíu og fimm árin. Florence hlaut orðuna „Royal Red Cross“ árið 1883 og auk þess heiðruð með „Order of Merit“ árið 1907. Florence varð níutíu ára gömul og lést í svefni 13. ágúst 1910. Breska stjórnin bauð henni legstað í Westminster Abbey en ættingjar Florence höfnuðu boðinu. Ritstörf. Frægasta ritverk Florence er án efa Notes on nursing — what it is and what it is not sem kom fyrst út árið 1859. Sama ár gaf hún þess að auki út bókina Notes on Hospitals. Árið 1852 skrifaði hún bókina "Cassandra" en gaf hana ekki út. Þar setti hún illilega út á iðjuleysi kvenna sinnar kynslóðar og skeytingarleysi þeirra á umbótum samfélagsins. Árið 1859 gaf hún svo út Suggestions for tought. Auk þessa verka skrifaði hún linnulaust um hjúkrun og stóð í bréfaskriftum við margt fólk til að reyna að bæta úr heilbrigðismálum heimsins. Kvenréttindabarátta. Florence lagði sitt á vogarskálar kvenréttindabaráttu með því að rísa upp á móti ríkjandi viðhorfum í þjóðfélaginu um að hlutverk kvenna væri að giftast, stofna heimili og eiga börn. Hún fylgdi þeirri löngun sinni að mennta sig og starfa við það sem hugur hennar stefni til þrátt fyrir að oft væri á brattann að sækja. Tölfræði. "Skýringarmynd af dánarorsökum hersins fyrir austan" eftir Florence Nightingale. Florence hafði mikla hæfileika á sviði stærðfræði og tölfræði. Tölfræðina notaði hún til að greina og koma á framfæri ýmum staðreyndum varðandi dánartíðni og ýmsum þáttum varðandi faraldsfræði og þjónustu heilbrigðisstofnana. 1858 var hún fyrst kvenna til að fá aðild að Konunglega tölfræðifélaginu ("Royal Statistical Socity)". Hún var einnig frumkvöðull í sjónrænni framsetningu á upplýsingum, til dæmis notaði hún kökurit til að lýsa dánarorsökum breskra hermanna í Krímstríðinu. Hjúkrun. Störf Florence og skrif höfðu mikil áhrif á hjúkrunarstarfið. Hún hóf hjúkrun til virðingar sem fræðigrein og breytti ímynd hjúkrunarkvenna. Hún kom á miklum umbótum í heilbrigðismálum og var frumkvöðull í markvissri skráningu hjúkrunar. Hún kom líka á miklum umbótum í hjúkrunarnámi. Hlésey. Þangþökin eru helsta sérkenni eyjarinnar Hlésey (danska: Læsø) er dönsk eyja í Kattegat, staðsett miðja vegu milli Gautaborgar og Friðrikshafnar. Á Hlésey fer fram saltsuða sem hófst á miðöldum og eyjaskeggjar eru frægir fyrir; það á einnig við um hin annáluðu "þangþök". Þang var áður dregið úr sjó og verkað og síðan notað sem efsta reftingarlag á þökum bóndabæja. Nefnast slíkir bæir á dönsku: "tanggårde". Hæsti punktur Hléseyjar er Höjsande 28 m og er á norðurhluta eyjarinnar. Lúðrasveit verkalýðsins. Lúðrasveit verkalýðsins var stofnuð þann 8. mars 1953 til þess að „efla tónmennt meðal verkalýðsins, leika á útifundum, í kröfugöngum og á öðrum samkomum alþýðunnar“ eins og finna má ritað í lögum hennar. Á þeim rúmu 50 árum sem liðin eru frá stofnun hefur starfið þróast og breyst en félagar í Lúðrasveit verkalýðsins hafa alltaf haft uppruna og sögu sveitarinnar að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna þá hafa félagsgjöld ekki tíðkast og ekki verið settur upp aðgangseyrir að tónleikum Lúðrasveitarinnar. Þetta hefur verið gert til að auðvelda öllum sem áhuga hafa á að hlýða á tónlistarflutning. Í áranna rás hafa verkalýðsfélög í Reykjavík stutt við bakið á starfsemi Lúðrasveitar verkalýðsins og einnig Reykjavíkurborg en borgarráð veitti sveitinni fyrst starfsstyrk árið 1960. Lúðrasveit verkalýðsins hóf æfingar undir stjórn Haralds Guðmundssonar og hafði sveitin þá enga fasta æfingaaðstöðu. Fyrsti opinberi tónlistarflutningurinn var þann 5. maí 1953 þegar leikið var á „Þjóðarráðstefnunni gegn her í landi“ ásamt Söngfélagi verkalýðssamtakanna. Fyrsta eiginlega æfingahúsnæðið var í skúr við húsið á Tjarnargötu 20 sem sveitin innréttaði árið 1957. Árið 1962 flutti sveitin æfingaaðstöðu sína úr skúrnum í MÍR salinn að Þingholtsstræti 27 þar sem æft var til ársins 1967 þegar flutt var að Vesturgötu 3. Enn var flutt árið 1969 og nú í Skipholt 21 en varanlegt húsnæði hlaut Lúðrasveitin þegar fest voru kaup á efstu hæðinni í Skúlatúni 6. Þetta var stórt skref í sögu sveitarinnar og hefur reynst mikil stoð við starfsemina að hafa fasta æfinga- og félagsaðstöðu. Undanfarin ár hafa á bilinu 25-30 manns æft reglulega með Lúðrasveit verkalýðsins. Félagar eru á öllum aldri. Sveitin hefur haldið vor- og hausttónleika ár hvert, leikið við hátíðahöld 1. maí og 17. júní auk fleiri tilefna. Afmælisárið 2003 héldu félagar til St. Pétursborgar til tónleikahalds og til að skoða sig um. Sama ár var einnig farið á lúðrasveitarmót til Sviss. Síðast liðin fjögur ár hefur Lúðrasveit verkalýðsins heimsótt bæjarfélög við sjávarsíðuna á Sjómannadaginn þar sem leikið hefur verið við hátíðahöld sjómanna. Árið 2002 var farið til Neskaupstaðar, 2004 til Grindavíkur, 2005 til Bolungarvíkur og vorið 2006 var farið á Grundarfjörð. Þessar ferðir hafa verið bæjarbúum og félögum í sveitinni til mikillar ánægju. Lúðrasveit verkalýðsins er meðal stofnenda Sambands íslenskra lúðrasveita og lék í fyrsta sinn á landsmóti þess í Vestmannaeyjum árið 1960. Að einu móti undanskildu, hefur Lúðrasveit verkalýðsins sótt landsmót SÍL og félagar hafa verið virkir í stjórnarstörfum sambandsins. Siglunes. Siglunes er nyrsta táin á milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Þar var samnefndur bær og var margbýlt þar fyrr á öldum og raunar allt fram yfir miðja 20. öld og mikil útgerð. Þangað komu menn úr ýmsum byggðum til róðra, einkum hákarlaveiða, og var Sigluneshákarlinn víðfrægur. Siglunes hefur verið í eyði frá 1988 en þar standa enn nokkur hús og er dvalið þar á sumrin. Saga Sigluness. Bærinn Siglunes var landnámsjörð Þormóðs ramma að því er segir í Landnámabók og þar var lengi höfuðból sveitarinnar, kirkjustaður og prestssetur þrátt fyrir erfiðar samgöngur en landleiðin úr Siglufirði til Sigluness liggur um Siglunesskriður (Nesskriður), illræmdar og hættulegar, og var farið um tæpar götur ofan við sjávarhamra. Um Nesskriður var aldrei talið óhætt að leggja bílveg og hefur Siglunes því aldrei komist í vegarsamband, heldur voru samgöngur þangað á síðari árum svo til eingöngu af sjó. Þjóðsögur segja að ástæðan til þess að aðalkirkja sveitarinnar ásamt prestssetri var flutt frá Siglunesi að Hvanneyri hafi verið sú að á aðfangadagskvöld árið 1613 hafi fimmtíu manns farist í snjóflóði í Nesskriðum á leið til jólamessu á Siglunesi. Engin samtímaheimild er þó til um þetta stórslys og hefur sagan verið dregin mjög í efa. Hálfkirkja var áfram á Siglunesi til 1765. Staðhættir. Séð yfir Siglufjörð að Siglunesi. Upp af Siglunesi er Siglunesgnúpur, sem er nyrsti hluti Siglunesmúla, fjallsins austan við Siglufjörð. Austan við Siglunesmúla liggur dalur sem nefnist Reyðarárdalur eða Nesdalur. Um hann liggur gönguleið til Siglufjarðar sem er mun öruggari en leiðin um Nesskriður. Austan dalsins er fjallið Hestur, sem gengur fram í sjó milli Sigluness og Héðinsfjarðar. Í mynni dalsins var bærinn Reyðará, sem upphaflega var hjáleiga frá Siglunesi. Þar var lengi veðurathugunarstöð. Nokkurt undirlendi er á Siglunesi og þar var allstórt tún. Á nesinu er viti, Siglunesviti, reistur 1908. Skammt þar frá rak bandaríski herinn ratsjárstöð á árunum 1943 til 1945 og má enn sjá rústir búða þeirra. Töluverðar verbúðarústir eru einnig á Siglunesi. Raunar er talið að þar hafi verið ein elsta verstöð á landinu og ef til vill einn fyrsti vísir að þéttbýlismyndun en elstu mannvistarleifar þar eru taldar frá 9. eða 10. öld. Fornleifarannsóknir fóru fram á Siglunesi sumarið 2011 og fannst þar meðal annars útskorinn taflmaður úr ýsubeini, talinn frá 12. eða 13. öld. Serengeti-þjóðgarðurinn. Serengeti-þjóðgarðurinn er þjóðgarður við Viktoríuvatn í N-Tansaníu og Kenýu. Hann er 15.540 km² og var stofnaður 1951. Í Serengeti-þjóðgarðinum er gróskumikið graslendi í 900 til 1.800 m hæð yfir sjávarmáli. Hann er einkum þekktur fyrir mikinn breytileika í tegundum og eru þar meðal annars yfir 2 milljónir tegundir plantna og þúsundir grasbíta. Hjarðir grasbíta eru gríðarstórar og eru það m.a. gnýir, gíraffar, sebrahestar, nashyrningar og flóðhestar, en einnig bavíanar, ljón og blettatígrar. Bokkbjór. Bokkbjór (þýska: "bockbier", enska: "bock beer") er sterkur, fremur sætur lagerbjór; bruggaður að vetrarlagi til sölu að vori. Bokkbjór var upphaflega dökkur bjór, en getur núna verið dökkur, rauður eða ljósleitur. Nafn sitt bokkbjór ("bockbier") hefur hann fengið frá hinni þýsku bruggborg Einbeck og er miðalda afbökun þess. Stutt tilvitnun. Halldór Laxness minnist á bokkbjór í einni bóka sinna og segir að hann sé... Bjór (byggingarlist). Bjór, gaflbrík eða gaflhlað er orð úr byggingarlist sem vísar til skreytts vatnsbrettis — oft þríhyrningslaga — yfir dyrum (og nefnist þá dyrabjór) eða gluggum (og nefnist þá gluggabjór). Sumstaðar er bjórnum lýst þannnig: þríhyrnt stykki, einkum efsti hluti stafnbils í húsi; sniðrefting á (torf)húsgafli. Stundum notað í sömu merkingu og ‚gaflhlað‘ og ‚gaflflöt‘ í forngrískri byggingarlist. Vísar til þríhyrningslaga efri hluta í íslenska torfbænum. Margmiðlun. Margmiðlun er miðlun sem notar efni og umbreytir efni á ýmis konar formi svo sem texta, hljóð, teikningar, teiknimyndir, myndbönd og ýmis konar gagnvirkni til fræðslu eða afþreyingar. Margmiðun er einnig notkun (en ekki bundin við) stafrænna miðla til að geyma og nota margmiðlunarefni. Flokkun. Margmiðlun má flokka í línulega og ólínulega miðlun. Línuleg miðlun fer áfram án þess að notandinn geti stýrt t.d. eins og kvikmyndasýning. Ólínuleg miðlun er þegar notandinn getur sjálfur stýrt eins og í tölvuleik, kennsluforritum og stiklutexta. Laugaskarð. Laugaskarð eða Laugahlið, stundum nefnt í fleirtölu Laugaskörð (grísku: Θερμοπυλαι (Þermopýlæ)) var til forna mjó landræma milli fjalls og sjávar í austurhluta Mið-Grikklands. Petra (borg). „Gersemin“ í Petru; bedúínar kölluðu húsið svo því þeir héldu að inni í því væru faldar gersemar Petra (grísku: πέτρα "petra" (steinn, klettur); Arabísku: البتراء, Al-Butrā) er forn borg að mestu höggvin inn í hamra austan Vadi Araba (وادي عربه) í S-Jórdaníu. Petra var höfuðborg Nabatea, arabísks þjóðflokks, sem frá 3000 f.Kr. til 106 e.Kr. hafði allstórt ríki í NV-Arabíu. Hún er nú á heimsminjaskrá UNESCO. Leira (fljót). Leira (eða Leirá) (franska: "Loire") lengsta fljót í Frakklandi um 1010 km að lengd. Leira kemur upp í sunnanverðu Franska miðhálendinu, rennur til norðurs, norðvesturs og vesturs um borgirnar Orléans, Blois, Tours og Nantes og fellur í norðvestanverðan Fetlafjörð (Biskajaflóa). Helstu þverár eru Allier, Vienne og Maine og fljótið tengist m.a. Signu með skurðum. Rennsli Leiru er breytilegt og flóð tíð. Siglingar um Leiru voru áður miklar en með stærri skipum hefur mjög dregið úr þeim. Vatnasvið Leiru er 121.000 km². Geirangursfjörður. Gamalt póstkort sem sýnir systurnar sjö Geirangursfjörður (norska: "Geirangerfjorden") er norskur fjörður sem gengur inn úr Stórfirði við Álasund í Noregi. Hann er rómaður fyrir náttúrufegurð, m.a. fossana Sjö systur og Brúðarslörið. Hann er á heimsminjaskrá UNESCO. Þorpið Geirangur liggur í firðinum. Apple Inc.. Apple Inc. (,) er bandarískt raftækjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Cupertino í Kaliforníu. Apple þróar, framleiðir, markaðssetur og selur m.a. borðtölvur, fartölvur, margmiðlunarspilara, síma, stýrikerfi, forrit og aukahluti í tölvur. Þekktustu vörumerki Apple eru Macintosh-einkatölvurnar sem komu á markað 1984 og margmiðlunarspilarinn iPod sem kom fyrst á markað 2001. Farsíminn iPhone hefur einnig náð miklum vinsældum frá því að hann kom á markað í júní 2007. Af öðrum vélbúnaði sem Apple framleiðir má nefna Apple TV sem tengir margmiðlunarsafn einkatölvunnar við sjónvarp og netþjónana Xserve. Stærsta hugbúnaðarafurð Apple er stýrikerfið Mac OS X, nýjasta útgáfa þess, „Lion“, kom út í lok júlí 2011. iLife-pakkinn fylgir með öllum nýjum Apple-tölvum og inniheldur ýmis forrit sem varða einfalda vinnslu með ljósmyndir, kvikmyndir, tónlist og vefsíðugerð, svonefnd „lífstílsforrit“. Fyrir fagmenn á þessum sviðum býður Apple upp á öflugri forrit eins og Aperture (ljósmyndun), Final Cut Studio (kvikmyndir) og Logic Pro (tónlist). iWork-pakkinn inniheldur hefðbundinn skrifstofuhugbúnað, þ.e.: ritvinnsluforrit, töflureikni og glærusmið. Vafrinn Safari og tónlistarspilarinn iTunes eru ekki aðeins vinsæl forrit á Mac OS X heldur eru þau einnig í boði fyrir tölvur sem keyra Windows-stýrikerfið. Í gegnum iTunes er hægt að nálgast iTunes Store sem er vefverslun Apple með afþreyingarefni á borð við tónlist, sjónvarpsþætti, kvikmyndir, tónlistarmyndbönd, hugbúnað fyrir iPhone og iPod touch og hljóðbækur. Saga. Apple var stofnað 1. apríl 1976 af Steve Jobs, Steve Wozniak og Ronald Wayne (fyrirtækið var gert að hlutafélagi 3. janúar 1977 án Wayne) í kringum Apple I tölvuna. Steve Wozniak handsmíðaði Apple I tölvurnar í stofunni hjá foreldrum Steve Jobs. Tölvurnar voru kynntar almenningi í Homebrew Computer Club sem var áhugamannafélag um tölvur sem starfaði í Kísildal. Alls voru smíðaðar 200 Apple I vélar sem innihéldu móðurborð (með örgjörva, vinnsluminni og skjákorti) og voru langt frá því að falla undir seinnitíma skilgreiningu á „einkatölvu“. Jobs fékk tölvuverslunina "„The Byte Shop“" til að kaupa 50 tölvur á 500 dali stykkið. Því næst pantaði hann íhluti af Cramer Electronics. Jobs tókst eftir ýmsum leiðum, m.a. með því að fá lánaða aðstöðu hjá vinum og ættingjum og með því selja persónulegar eigur, þ.á m. Volkswagen-rúgbrauðið sitt, að tryggja að nóg væri til af íhlutum á meðan Wozniak og Wayne handsmíðuðu tölvurnar. Fyrirtækið hét Apple Computer Inc. fyrstu 30 árin. Þann 9. janúar 2007 var orðinu „Computer“ sleppt úr nafninu til þess að endurspegla breyttar áherslur þar sem fyrirtækið eiblíndi ekki lengur á einkatölvuna heldur einnig annarskonar tækjabúnað (iPod, iPhone og Apple TV) og sölu á afþreyingarefni. Frá og með Maí 2010, varð Apple eitt af stærstu fyrirtækjum í heiminum og verðmætasta fyrirtækið í heiminum. Vélbúnaður. Apple setti á markað fyrstu Macintosh-tölvurnar árið 1984. Mac mini er einkatölva sem var sett á markaðinn í janúar 2005, hún er seld án ytri búnaðar á borð við skjá, lyklaborð og mús. iMac er borðtölva sem sett var á markaðinn árið 1998 en helsta einkenni hennar er að tölva og skjár eru sambyggð. Power Mac tölvunni var skipt út fyrir Mac Pro árið 2006, en hún notast við Intel Xeon 64-bita örgjörva. Xserve eru netþjónar frá Apple. Árið 2006 setti Apple á markaðinn MacBook, sem tók við af iBook-fartölvunni. MacBook er frekar dýr fartölva með Intel Core 2 Duo örgjörva og 13 tommu skjá. Þær er hægt að fá hvítar. MacBook Pro er öflugri fartölva með 13, 15 eða 17 tommu skjá og er gerð úr áli. Árið 2001 setti Apple á markað tónlistarspilarann iPod. Nú selur Apple iPod touch (með snertiskjá), iPod classic, iPod nano og iPod shuffle. Apple selur einnig iPhone, sem er farsími með WiFi og Bluetooth og innbyggðum iPod og netvafra. Þeir selja einnig Apple TV fyrir sjónvörp. Tölvuforrit. Apple framleiðir sitt eigið stýrikerfi, Mac OS X. Þeir selja einnig ýmis tölvuforrit, til dæmis iLife (iDVD, iMovie, iPhoto, iTunes, iWeb og GarageBand) og iWork (Keynote, Pages og Numbers). Atvinnuforrit Apple eru Mac OS X Server, Aperture, Final Cut Studio, Logic Pro og Shake. Vefforrit Apple er .Mac. Verslanir. Apple rekur einnig yfir 300 verslanir í tíu löndum, meðal annars í Bandaríkjunum, Japan, Bretlandi, Kanada og Ítalíu. Búðirnar innihalda flestar Apple hluti og einnig vörur frá öðrum framleiðendum. Við þær er einnig tengt verkstæði fyrir Apple-vörur. Apple hefur meira en 60.000 starfsmenn um allan heim. Epli.is er umboðsaðili Apple á Íslandi og rekur tvær verslanir, önnur er við Laugaveg í Reykjavík og hin er í Smáralind. Hóprænustig. hóprænustig (ens. "gregaria phase") er það stig í lífferli engisprettna er þær hópast saman og verða að gróðureyðandi plágu. Frá vísindalegu sjónarmiði hefur áttunda plágan í Gamla testamentinu verið afleiðing af hóprænustigi engisprettna. Aldinbori. Aldinbori eða aldinborri (fræðiheiti: "Melolontha melolontha") (ensku: "cockchafer") er bjalla af ýflaætt og undirætt aldinbora. Aldinborinn er svartur á höfði og frambol með rauðbrúna þekjuvængi og karldýrið með stóra, blævængslaga fálmara. Aldinborinn nærist á trjálaufi en lirfurnar lifa í jarðvegi og verða fullþroska á fjórum árum. Aldinborar valda oft miklu tjóni með því að naga rætur nytjaplantna. Hann er algengur í Evrópu og verður allt að 3 cm á lengd og fer um í rökkri með miklum vængjadrunum. Kolyma (fljót). Kolyma er fljót í Rússlandi, í NA-Síberíu. Kolyma er 2129 km á lengd og þar af er fljótið skipgengt um 2000 km. Vatnasvið: 644.000 km². Kolyma kemur upp í Kolymafjöllum, rennur til norðausturs og fellur í A-Síberíuhaf. Við fljótið voru frægar fangabúðir (gúlag). Gullnám er stundað í dölum við efri hluta Kolymu, og voru fangar látnir starfa í námunum á árum áður. Hræbjöllur. Hræbjöllur ("Silphidae") er ætt bjallna og eru til um um 175 tegundir. Hræbjöllur lifa flestar á hræjum og verpa oft í hræ smárra spendýra og fugla sem þær grafa í jörð í heilu lagi. Sumar tegundir eru meindýr, m.a. í sykurrófnarækt. Á Íslandi lifir fúkahræma ("Catops borealis") sem nærist á myglusveppum. Magellansund. Magellansund er sund milli Eldlands og meginlands Suður-Ameríku, sunnan við Punta Arenas. Það er 560 km langt og 5-30 km breitt. Sigling um Megellansund er erfið vegna þoku, strauma og vestanvinda. North Channel. North Channel (eða Úlfreksfjörður) er sundið milli Norður-Írlands og Skotlands. Úlfreksfjörður tengir Írlandshaf við Atlantshafið. Þar sökk Princess Victoria árið 1953. Komið hefur til tals að gera lestargöng frá Norður-Írlandi til Bretlands til að tengja Norður-Írland betur við Stóra-Bretland. Hugmyndin hefur ekki fengið brautargengi. Öngulsey. Öngulsey (ensku: "Anglesey"; velsku: "Ynys Mon") er bresk eyja í Írlandshafi við strönd Wales. Hún er 705 km² með nálægri smáeyju, Holy Island. Tvær brýr tengja eyjarnar og Wales. Um Öngulsey liggur aðalumferðaræðin milli Englands og Írlands og frá Holy Island gengur ferja til Dyflinnar. Eyjan hét áður (á tímum Drúída) Móna. Járnsmiðir. Járnsmiðir (fræðiheiti: "Carabidae") er ætt bjallna með yfir 30.000 tegundir. Þeir eru langvaxnir, með langa fætur og fálmara. Járnsmiðir eru fráir á fæti en með veikburða flugvængi. Þeir eru yfirleitt rándýr og nærast einkum á skordýrum. Á Íslandi lifa m.a. járnsmiður ("Nebria gyllenhali") og tröllasmiður (tordýflamóðir) ("Carabus problematicus") sem er stærst íslenskra bjallna, allt að 2,3 cm. Golíatbjalla. Golíatbjalla (fræðiheiti: "Goliathus regius") er vestur-afrísk bjalla, ein stærsta og þyngsta tegund núlifandi skordýra, allt að 15 cm löng. Fálmari. Fálmari (í ft. fálmarar) eru tveir þreifiangar sem eru fremst á höfði margra skordýra. Fálmarar nema snertingu, hreyfingu lofts, hita, titring (þ.e. hljóð) og þó aðallega lykt og bragð. Önnur nöfn yfir fálmara. Fálmari á sér önnur nöfn á íslensku, en þau eru: "fálmangi", "fálmstöng", "fálmur", "þreifari", "þreifiangi", "þreifihorn" og "þukla". Benedikt Gröndal nefndi þá "fjaðurskúfa" í „"Dýrafræði"“ sinni: "karlflugan hefir tvo fjaðurskúfa á höfðinu, en kvennflugan hefir brodd aptur úr sér, og hún ein getur stúngið." Bitkjálkar. Bitkjálkar (eða bitkrókar eða áttengur) er fremsta par munnlima á sumum liðdýrum, t.d. krabbadýrum, skordýrum og margfætlum. Dýrin nota bitkjálkana til að hluta sundur fæðuna. Jaðrar bitkjálkana eru ýmist tenntir eða með skurðfleti. Amalþeia. Amalþeia er í grískri goðafræði geitin sem ól Seif á mjólk sinni á Ídafjalli á Krít. Samkvæmt einni útgáfu sögunnar var Amalþeia dóttir Melissosar, Krítarkonungs, en hún gaf Seifi geitarmjólk að drekka. Seifur gaf henni seinna horn geitarinnar, sem hafði þann kraft að geta uppfyllt óskir eiganda síns, og var þekkt (á latínu) sem "cornucopiae" eða nægtahorn á íslensku. Hippokrene. Hippokrene eða Hestlind var lind á Helíkonsfjalli, og einn teygur úr henni var sagður nægja til að hrífa skáldin til guðdómlegra söngva. Sagt var að Hestlind hefði myndast þegar Pegasus steig þar niður til jarðar, og var lindin menntagyðjunum helgur staður. Stundagyðjur. Stundagyðjurnar (grísku: Ώρες) voru dætur Seifs og Þemisar. Stundagyðjurnar eru venjulega taldar þrjár: Evnomía (= Lögmætisgyðja), Dika (= Réttvísi) og Eirene (= Friðsemd). Þar sem þær tákna hina lögboðnu rás tímans og árstíðanna, er Þemis talin móðir þeirra, hið eilífa lögmál alheims, dóttir Úranosar og Gaiu. Þemis heldur verndarhendi yfir allri lögbundinni skipan, bæði með guðum og mönnum. Í umboði Seifs, kallar hún saman ráðstefnur guðanna og meðal manna heldur hún á sama hátt hlífiskildi yfir þjóðþingum. Eins og þemis, móðir þeirra, koma stundagyðjurnar einnig fram sem þjónustumeyjar guðanna. Hómer segir, að þær gæti hliða himinsins, ýmist loki þær þeim með þykkum skýbólstrum eða opni þau með því að skjóta skýjunum frá. Þokkagyðjur. Þokkagyðjurnar (Karítur, á latínu "Gratiae") voru grískar gyðjur sem venjulega voru í fylgd Afródítu, en þær klæða hana og skrýða. Reyndar eru þær líka í fylgd með öðrum guðum, því að allt, sem er hrífandi, fagurt og yndislegt, hvort heldur það er andlegs eðlis eða áþreifanlegt, kemur frá þeim og þróast fyrir þeirra mátt. Þokkagyðjurnar eru hinar fríðustu ásýndum, blómlegar og algervar að allri líkamsfegurð. Einkunnir þeirra eru ýmist hljóðfæri eða myrtusviðargrein, rósir og teningar og fleira þess háttar. Þokkagyðjurnar eru venjulega taldar þrjár: Aglaia (= hátíðaljómi): Evfrosýne (= hátíðagleði) og Þalía (= fagnaðarblómi). Þokkagyðjurnar hafa einnig verið nefndar þokkadísir á íslensku. Þær eru venjulega taldar dætur Seifs og Evrýnome (þ.e. hinnar víttríkjandi) Ókeansdóttur. Tónlist og mælskulist, skáldskapur og myndlist helgast og prýðast af þokkagyðjunum. Þær efla visku, karlmennsku, hjálpsemi, þakklæti og í stuttu máli allar göfugar dyggðir, sem prýða manninn og afla honum góðs þokka hjá meðbræðrum sínum. Nægtahorn. Nægtahornið eða gnægtahornið ("cornu copiae") var horn sem á sér að minnsta kosti tvær skýringar í grískri goðafræði. Sú fyrsta er sú að þegar Herakles barðist við Akkelóos, sem var allra fljótsguða mestur, um ástir Dejaneiru, brá Akkelóos sér í allra kvikinda líki og varð loks að nauti. Braut Herakles annað hornið af nautinu og fyllti ein dísanna horn þetta af blómum og ávöxtum: Það var hið fyrsta nægtarhornið. Önnur tilurðarsaga nægtarhornsins er að Amalþeia dóttir Melissosar, Krítarkonungs hafi gefið Seifi geitarmjólk að drekka í reifum. Seifur gaf henni seinna horn geitarinnar, sem hafði þann kraft að geta uppfyllt óskir eiganda síns. Rómverska gæfu- og örlagagyðjan Fortúna er oft sýnd með nægtarhorn í myndlist. Þrætuepli. Þrætuepli er eplið sem gyðjan Eris fleygði til Heru, Afródítu og Pallas Aþenu, en á eplið var ritað: „til hinnar fegurstu“ (gr. καλλιστι). Var París fenginn til að skera úr um hver þeirra það væri sem eplið ætti að hljóta. Hann gaf Afródítu eplið vegna þess að hún lofaði honum fegurstu konur jarðar. Þannig komst hann yfir Helenu hina fögru. Var þetta upphafið að Trójustríðinu. Þrætuepli er einnig haft um eitthvað sem menn deila um undir drep. Stymfalsfuglar. Stymfalsfuglar voru í Arkadíu. Fuglar þessir höfðu nef, klær og vængi af eiri. Skutu þeir eirfjöðrum sínum sem örvum. Herakles fældi fugla þessa upp með eirskellu, sem hann hafði fengið hjá Aþenu. Drap hann þá síðan og fældi burt. Flotmælir. Flotmælir eða flotvog er áhald notað til að mæla (hlutfallslega) eðlisþyngd vökva. Flotmælir er oftast lokaður glerhólkur, þyngdur í annan endann, og er með kvarða að innanverðu. Flotmælinum er komið á flot í vökvanum og síðan er lesið af kvarðanum þar sem hann nemur við yfirborð vökvans. Algeng mælieining við ölgerð er öksle (skrifað "Öchsle" eða "Oechsle"), sem er skilgreind sem hlutfallsleg eðlisþyngd lausnarinnar miðað við hreint vatn mínus einn margfaldað með 1000. Mælieiningin "öksle" er ekki SI-mælieining. Þrautir Heraklesar. Þrautir Heraklesar voru tólf og þær innti Herakles af hendi í þjónustu Evrýsteifs. Örlagagyðjur. Örlagagyðjur eða örlaganornir (grísku: Moirea, latínu: Parcea) voru myrk og órannsakanleg forlagavöld og töldust til dætur Nætur. Orðið moira táknar eiginlega deildan skammt eða hlut og síðan hlutskipti það, sem hverjum manni er búið frá fæðingu. Þær eru venjulega taldar vera þrjár: Klóþó (= sú sem spinnur), Lakkesis (sú sem ákveður hlutskipti manna) og Atrópos (sú sem ekki verður aftýrt). Rómverjar nefndu örlagagyðjurnar Pörkur ("Parcea"), og voru þær í fyrstu tvær, en síðar töldu þeir þær vera þrjár í samræmi við grískar skoðanir. Orþros. Orþros var tvíhöfða varðhundur Geríons (Gerýonesar), en hann gætti nauta hans ásamt risanum Evrýtíon risa. Herakles drap þá báða. Nemuljón. Nemuljónið var ljón í grískri goðafræði sem hafði feld sem var járn-, brons- og steinheldur. Herakles missti einn fingur í viðskiptum sínum við það, en kyrkti það í fangbrögðum. Notaði hann klær þess til að flá það og hafði síðan haus þess í hjálms stað, en feldinn sem kufl. Bognor Regis Town F.C.. Bognor Regis Town Football Club er knattspyrnulið í bænum Bognor Regis, í Vestur-Sussex á Englandi. Liðið var stofnað árið 1883 og leikur nú í ensku Suður Utandeildinni (Conference South). Gælunafn liðsins er "The Rocks" (ísl. steinarnir) og er dregið af steinunum við strönd bæjarins. Saga. Bognor Regis F.C. var stofnað 1883 og gengu í Vestur Sussex Deildina þremur árum síðar eftir að hafa spilað æfingaleiki fyrstu árin. Þeir unnu deildina fimm ár í röð snemma á þriðja áratugnum og þá gengu þeir í Brighton & Hove District deildina árið 1926. Eftir aðeins eitt ár í þeirri deild þá gengu þeir í Sussex County deildina. Bognor unnu fyrstu deildar keppnina (e. Division One Championship) tímabilið 1948-1949 en féllu úr henni, niður í aðra deild (e. Division Two Championship), tímabilið 1969-1970. Næsta ár vann Bognor deildina og voru þá komnir aftur upp í fyrstu deild og unnu þeir hana líka og voru þar með komnir upp í Suður Knattspyrnu Deildina (e. Southern Football League) sem að þeir spiluðu í til 1981 þegar þeir skiptu yfir í Isthmian deildina. Tímabilið 1991-1992 enduðu þeir í 21. sæti en sluppu við fall þar sem að Dagenham F.C. skráðu sig úr deildinni. Árið eftir, tímabilið 1992-1993 féllu þeir hins vegar og voru þá aftur komnir niður í fyrstu deildar keppnina. Tímabilið 2002-2003 komust þeir aftur upp og enduðu þá í 10. sæti sem að gaf þátttökurétt í Suður Utandeildinni þar sem þeir spila núna. Aðsókn. Bognor Regis eru þekktir fyrir góða aðdáendur og fóru að meðaltali um 400 aðdáendur liðsins á útileiki þessu tímabilið 2005-2006. Lemney. Lemney eða Lemnos er grísk eyja í norðanverðu Eyjahafi. Lemney var einnig fyrsti viðkomustaður Argosarfara, en þar höfðust þeir við um hríð í góðu yfirlæti hjá konum þeim, er þar byggðu. Höfðu þær vegið menn sína, sem voru þeim ótrúir, og réðu síðan sjálfar ríkjum. Gat Jason tvo syni við drottningu þeirra. Hálfkirkja. Hálfkirkja var fyrr á öldum kirkja með minni skyldur en alkirkja. Upphaflega hefur líklega ekki verið gerður greinarmunur á kirkjum en á 14. öld var búið að flokka þær í alkirkjur, hálfkirkjur og bænhús. Í alkirkjum var skylda að messa hvern helgan dag en í hálfkirkjum annan hvern helgidag til að byrja með og voru þær útkirkjur frá alkirkjum. Þar var ekki prestur, heldur var þeim þjónað frá sóknarkirkjunni. Margar þeirra voru aðeins fyrir heimafólkið á bænum þar sem þær stóðu og ef til vill nálægar hjáleigur en aðrar þjónuðu fáeinum bæjum. Ekki voru kirkjugarðar við allar hálfkirkjur og þar sem þeir voru til staðar voru þeir oft aðeins heimagrafreitir fyrir fjölskyldu bóndans. Smám saman dró úr gildi hálfkirkja, messum fækkaði og kirkjugarðar við þær voru aflagðir. Um og upp úr siðaskiptum var mörgum þeirra breytt í bænhús eða þær aflagðar, en einnig var sumum alkirkjum breytt í hálfkirkjur. Flestar þeirra voru lagðar af á 18. öld eða fyrr. Sexliðaháttur. Sexliðaháttur (einnig nefndur hexametur, hetjulag eða sjöttarbragur) er forngrískur bragarháttur. Hann er venjulega órímaður, með fimm rétta þríliði og einn réttan tvílið eða tvö áhersluatkvæði (gr. spondeios) í hverri braglínu en enga erindaskiptingu. Sexliðaháttur er algengur í söguljóðum t.d. kviðum Hómers. Sexliðaháttur myndar distikon ásamt fimmliðahætti (pentametri). Sexliðahætti bregður fyrir í íslenskum skáldskap á 17. öld og var algengur á 19. öld. Svv / Svv / Svv / Svv / Svv /Sv. SS / Svv / Svv / Sv / Svv / Sv. Kvæði undir sexliðahætti eftir Steingrím Thorsteinsson. Til kvöldstjörnunnar eftir Bíon - Steingrímur Thorsteinsson þýddi. Braghenda. Braghenda er bragarháttur þar sem vísan er þrjár línur. Önnur og þriðja braglína ríma næstum saman, og eru oftast látnar ríma við fyrstu braglínu með sérhljóðshálfrími, en stundum með venjulegu rími. Stundum ríma þær ekki við hana og kallast braghendan þá "frárímuð". Undirtegundir braghendu eru fimm: „venjuleg“ "braghenda", "valhenda", "stuðlafall", "vikhenda", og "hurðardráttur". Síðastnefndu tvær tegundirnar sker sig úr að því leyti að fyrsta og síðasta lína ríma saman, en önnur línan ekki. Þar að auki eru afhending og stúfhenda stundum taldar sjötta og sjöunda undirtegund braghendu, en í þær vantar síðustu línuna og þá ríma báðar saman. Bragfræðilega er fyrsta lína braghendu eiginlega fyrri partur úrkasts og síðari tvær línurnar samsvara vísuhelming breiðhendu. Strýhærður þýskur bendir. Strýhærður þýskur bendir er alhliða veiðihundur. 0 (tölustafur). 0 er tölustafur, notaður til að tákna töluna núll. Raðtalan "núllti" er táknuð „"0."“. Pernambuco. Pernambuco er eitt 27 fylkja Brasilíu. Það er staðsett í Norðaustur-Brasilíu og á landamæri að Paraíba og Ceará í norðri, Atlantshafi í austri, Alagoas og Bahia í suðri og Piauí í vestri. Það er 98.311 km² að flatarmáli (aðeins smærri en Ísland). Fernando de Noronha eyjaklasinn er einnig hluti landsvæðis fylkisins. Recife er höfuðborg (aðsetur er "Palácio do Campo das Princesas", eða "Höll Prinsessannalóðarinnar"). Óljóst er hvaðan nafn fylkisins kemur. Sumir fræðimenn fullyrða að það sé nafn sem innfæddu mennirnir notuðu fyrir brasilíuvið (l. "Caesalpinia echinata"). Ein kenning er að það stafi af forntupíi "Paranã-Puca", sem þýðir „"þar sem hafið brýtur"”, fyrst meirihluti strandar er verndaður með rifsveggjum. Stærstu borgirnar eru Recife, Jaboatão dos Guararapes, Olinda, Paulista, Caruaru, Petrolina, Cabo de Santo Agostinho, Garanhuns og Vitória do Santo Antão. Saga. Saga Pernambuco byrjar með Gaspar Lemos leiðöngrum, árið 1501, sem talið er að hafi orðið til þess að verslunarstöðvar byggðust meðfram strönd portúgölsku nýlendunnar, sennilega í Igarassu, þangað sem Cristóvão Jacques var sendur nokkrum árum seinna til þess að verja það. Það varð staðfest árið 1532, þegar Pernambuco (eða "Nova Lusitânia") héraðið var stofnað og gefið Duarte Coelho, sem stofnaði Igarassu og Olinda en byrjaði sykurreyrræktunina. Árið 1630 réðust Hollendingar inn í Pernambuco. Maurits van Nassau var landstjóri hollenska Pernambuco frá 1637 til og með 1644. Maurits van Nassau hjálpaði að þróa borgina, með mörgum grunngerðarverkefnum, skattshögum og lánum. Á þeim tíma var Recife álitið efnaðasta og þróaðasta borgin í Ameríku og þar var stærsta gyðingasamfélagið á meginlandinu. Fólkið frá Pernambuco gerði að lokum uppreisn gegn stjórnun, að mestu leyti af því að WIC (Westindische Compangnie, eða Vesturindía Félagið) leysti Maurits van Nassau frá störfum. Árið 1654 urðu þau að lokum rekin úr landi, í Batalha dos Guararapes. Þá er brasilíski landherinn talinn að hafa orðið til. Eftir að Hollendingarnir voru reknir úr landi byrjaði fylkið að hrörna, vegna flutnings efnahagskjarnans til suðausturs. Hollenski sykurinn framleiddur í Antillaeyjum var betri en sá frá Pernambuco, og það hjálpaði að hraða úrkynjun. Landafræði. Pernambuco er eitt minnsta fylki landsins. Þrátt fyrir það á það ýmis landslög, eins og fjallgarða, hálendi, vatnsósa landsvæði og strandir. Ferðalög. Fjara Pernambuco fylkisins er hér um bil 187 km löng, með ströndum, brimklifum, þéttbýlissvæðum og næstum því hreinum stöðum. Auk strandanna er Fernando de Noronha eyjaklasinn, með hinum 16 ströndum sínum. Þekktastar strendur fylkisins eru staddar í suðri, t.d. Boa Viagem, Candeias, Gaibu, Muro Alto, Porto de Galinhas e Serrambi. Í norðri er þekktastur sögustaður landshlutans, í Olinda borg. Hann er frægur fyrir kjötkveðjuhátíð, þegar margir brasilískir og erlendir ferðamenn safnast saman til þess að njóta menningarmismunarins ásamt ríkulegu veðrunum og nýlendulandslaginu, næstum fullkomlega varðveitt. Stærstar strendur norðursins eru Maria Farinha, Carne de Vaca, Itamaracá og Rio Doce. Fylkið stjórnar fræga Fernando de Noronha eyjaklasanum. Hann er álitinn besti staðurinn til brimbrettabruns í allri Brasilíu. Eðlisþyngd. Eðlisþyngd er mælikvarði á þéttleika hlutar eða efnis, táknuð með "γ". Er margfeldi eðlismassa og þyngdarhröðunar, þ.e. þar sem "ρ" er eðlismassi og "g" er þyngdarhröðun. SI-mælieining er njúton á rúmmetra (N/m3). Er háð þyngdarhröðun og því ekki efniseiginleiki eins og eðlismassi. Getur einnig átt við hlutfallslega eðlisþyngd (enska "Specific gravity"), sem er hlutfall eðlisþyngda efnis og vatns og er því einingarlaus stærð, þ.a. hlutfallsleg eðlisþyngd vatns er „1“. Er oftast mæld með flotmæli í vökvum. Hostel. Hostel er kvikmynd eftir Eli Roth. Hún var heimsfrumsýnd á Íslandi (og einnig forsýnd hér fyrst allra landa); að miklum hluta var það vegna tengsla Eli Roth við Ísland. Í myndinni leikur einnig leikarinn Eyþór Guðjónsson sem leikur Íslendinginn Óla. Recife. Recife er borg í Brasilíu, er höfuðstaður héraðsins Pernambuco. Hún var stofnuð þann 12 mars 1537. Tæplega 1,5 milljón manns búa í Reclife. Kvarki. Kvarkar eru smæstu efniseindir sem þekkjast og mynda sterkeindir, sem ásamt létteindum mynda allt efni alheims. Til eru sex gerðir af kvarka, sem kallast "upp" (u), "niður" (d), "sérstaða" (s), "þokki" (c), "toppur" (t) og "botn" (b). Kvarki finnst aldrei stakur í náttúrunni og ef kalla má kvarka öreind, þá eru þeir einu öreindir, sem allir fjórir frumkraftarnir verka á. Orðsifjar enska heitisis „quark“. Murray Gell-Mann fékk orðið kvarki lánað úr bók James Joyce, Finnegans Wake, en í henni eru sjávarfuglar sem gefa frá sér „three quarks,“ þ.e.a.s. körruðu þrisvar sinnum, og er orðið líklega myndað þannig að það er samrunni borgarnafnsins Cork (í Munster) og ensku sagnarinnar „quack“, sem haft er um það hljóð sem endur gefa frá sér á ensku, sbr. íslensku sögnina að „karra“ sem haft er um það þegar endur garga. Fjórvegur. Fjórvegur ("quadrivium") nefndust einu nafni fjórar af hinum „"sjö frjálsu listum"“ í háskólum miðalda. Greinarnar voru: tölvísi, flatarmálsfræði, stjarnfræði og sönglist. Þessar fjórar greinar (quadrivium) voru framhaldsgreinar að loknum þríveginum ("trivium"). Fjórvegurinn var einnig nokkurskonar fornám ef menn ætluðu að nema heimspeki eða guðfræði. Þrívegur. Þrívegur ("trivium") nefndust einu nafni þrjár af hinum „"sjö frjálsu listum"“ í háskólum miðalda, greinarnar voru: málfræði, mælskufræði og rökfræði. Þrívegurinn var undirbúningsnám að fjórveginum. Í flestum háskólum miðalda var því litið á þríveginn sem algert fornám. Ódalíska. Ódalíska var óspjölluð ambátt í tyrknesku kvennabúri sem með tíð og tíma gat orðið hjákona eða eiginkona hins tyrkneska soldáns. Orðið er komið úr frönsku, en á uppruna sinn að rekja til tyrkneska orðsins "odalık", sem þýðir herbergisþerna eða salmeyja, en "oda" þýðir herbergi eða salur. Ódalískur voru neðstar í virðingastiga kvennabúrsins, og þjónustuðu ekki soldáninn sjálfan, heldur hjá- og/eða eiginkonur hans og voru sérlegar þjónustumeyjar þeirra. Ódalískur voru venjulega ambáttir sem soldáninn fékk gefins og stundum voru það foreldrar stúlkunar sem gáfu soldáninum dóttur sína og vonuðust til að hún yrði hjákona hans eða eiginkona og kæmist þannig til áhrifa. Ef ódalískurnar voru óvenju fallegar eða höfðu einstaka dans- eða sönghæfileika þá gekkst hún undir þjálfun til að verða hugsanleg hjákona soldánsins. Ef hún síðan varð valin til að sofa hjá soldáninum varð hún sjálfkrafa hjákona hans. Flestar hjákonur soldánsins hittu hann þó aðeins einu sinni, nema þær væru sérstaklega vel að sér í dansi, söng eða rekkjubrögðum og næðu þannig athygli hans. Ef hjákona fæddi soldáninum son varð hún sjálfkrafa eiginkona hans. Keisarapápíska. Keisarapápíska var stjórnarfyrirkomulag þar sem æðsti maður ríkis er jafnframt æðsti maður kirkju, eins og t.d. var í Býsanska ríkinu. Gulleldurinn. Gulleldurinn (frönsku:" oriflamme") var hinn rauði ríkis- og gunnfáni Frakka á miðöldum. Gulleldurinn var hinn heilagi vimpill (oddveifa) Sankti-Denis, sem er klaustur í samnefndu úthverfi Parísar. Vimpillinn var rauður eða rauðgulur og var látinn blankta af lensu. Samkvæmt einni helgisögninni er liturinn þannig til kominn að vimplinum hafi verið dýft í blóð heilags Denis eftir að hann var hálshöggvinn. Gulleldurinn varð síðan herfáni Frakkakonunga, og var hampaður af merkisbera konungs í hvert skipti sem gengið var til stríðs. Merkisberi gulleldsins, Gulleldberinn ("Porte Oriflamme"), varð síðar tignarheiti og þótti mikill heiður, rétt eins og starfið var mikilvægt og sérstaklega hættulegt, enda vinsælt að fella merkisberann í styrjöldum. Franska orðið "oriflamme" er úr latínu, "aurea flamma", en það þýðir „logar gulls“. Sírenur. Sírenur voru vængjaðir sjávarvættir í grískri goðafræði, raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki, er seiða menn til bana með söng sínum. Sumar sagnir töldu þær hafa verið leiksystur Persefónu. En er Hades rændi henni, hafi þær ekki komið gyðjunni til hjálpar, og Demeter þá refsað þeim með því að bregða þeim í fuglsham. Enn aðrir töldu þær hafa hætt sér í sönglistarkeppni við menntagyðjurnar og hlotið refsingu fyrir það. Menntagyðjur. Verndari menntagyðjanna og söngstjóri þeirra er Apollon, þess vegna nefndur Músagetes. Klíó. Klíó eða Kleió (grísku: Κλειώ) er grísk gyðja hetjuljóða og söguritunar, ein af menntagyðjunum níu. Hún hefur ritrollu að einkennistákni. Nafn hennar þýðir „sú sem víðfrægir.“ Hún er menntagyðja Sögunnar; stundum einnig nefnd Sögugyðjan. Pönk. Pönk (af enska heitinu "punk") eða ræflarokk er tónlistarstefna sem þróaðist undir lok kalda stríðsins, upp úr úr 8. áratug 20. aldar. Kalda stríðið hafði þau áhrif að hræðsluáróður um þriðju heimstyrjöldina og kjarnorkustríð var orðinn svo mikill að umsnúningur varð í hugsunarhætti margra. Hugsunarhátturinn sneri að því að ef til kjarnorkustríðs myndi koma yrðu allar sögusagnir um tilgang að engu, lífið missti tilgang svo að engu skipti hvað gerðist, jörðin var að farast. Pönktímabilið stóð sem hæst á níunda áratugnum. Þekktar pönk-hljómsveitir eru meðal annarra Ramones, CRASS og Sex Pistols. Guðmundur Óskar Guðmundsson. Guðmundur Óskar Guðmundsson (fæddur 2. mars 1987) er bassaleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín. Hann sigraði söngvakeppni Samfés þrisvar sinnum. Auk þess að vera í Hjaltalín er hann í ballhljómsveitinni Svitabandið. Einnig er hann yngri bróðir söngvarans Sigurð Guðmundssonar en Sigurður er í hljómsveitinni 'Hjálmar'. Foreldrar Guðmundar heita Guðmundur Kr. Sigurðsson og Gróa Hreinsdóttir. Guðmundur á einnig 3 önnur systkini en Sigurð og heita þau Hreinn Gunnar, Gylfi Björgvin og Harpa Sól Guðmundsbörn og eru öll systkinin, þegar Guðmundur og Sigurður eru talnir með fædd á árunum, 1978 - 1996. Fugley. Staðsetning Fugleyjar á korti af Færeyjum. Fugley (færeyska: "Fugloy") er austasta eyja Færeyja. Nafnið Fugley kemur frá öllum fuglunum sem búa sér til hreiður í klettum eyjarinnar. Eyjan er 11.2 km² að stærð. Þrjú fjöll eru á eynni. Hæst þeirra er Klubbin (620 metra hátt). Mikla er 420 metra hátt og Norðberg er 549 metrar. Tvær byggðir eru á eynni, Kirkja (22 íbúar 1. janúar 2011) og Hattarvík (17 íbúar); ekki eru þó allir sem taldir eru til heimilsi í þessum byggðum búsettir þar árið um kring og framtíð byggðarinnar er óviss. Eyjan svo langt frá hinum eyjunum að ekki er raunhæft að gera þangað göng og lendingarnar í báðum byggðunum eru brimasamar og erfiðar. Því hefur íbúum fækkað mikið á síðari árum en snemma á 20. öld bjuggu hátt í 300 manns á eynni. Þyrlur fljúga til eyjarinnar, auk þess sem ferja siglir þangað, og vegur var lagður milli Kirkju og Hattarvíkur á níunda áratug síustu aldar. Rafmagn var lagt um eyna á sjöunda áratugnum. Skólar voru áður í báðum byggðunum en nú er aðeins skóli í Kirkju og þar var einn nemandi skólaárið 2010-2011. Samkvæmt færeyskri þjóðsögu var Fugley eitt sinn fljótandi og byggð tröllum. Menn reyndu að róa út í eyna og festa hana við akkeri en það tókst ekki því tröllin hentu akkerisfestunum jafnóðum í sjóinn. Þá var róið með alla presta Færeyja út að eynni og á meðan þeir horfðust í augu við tröllin og héldu athygli þeirra varpaði einn presturinn biblíu í land og tröllin breyttust í grösuga hóla. Fallöxi. Líkön af fallöxum; frá 1792, vinstri, og frá 1872, hægri Fallöxi var aftökutæki sem er helst þekkt úr frönsku byltingunni sem hófst 1789. Fallöxin er í grundvallaratriðum hár gálgi með skásett, þungt og beitt blað, sem hengt er upp á gálgann. Við aftöku er blaðið látið falla fyrir eigin þunga niður á háls sakamanns. Fallöxin er í flestum tungumálum kennd við meðmælanda hennar, Joseph-Ignace Guillotin, og nefnd "Guillotine". Fallöxin var aðallega notuð í Frakklandi, og var helsta aftökuaðferðin í frönsku byltingunni. Síðasta opinbera aftakan með fallöxi fór fram 17. júní 1939 fyrir utan fangelsið "Saint-Pierre rue Georges Clemenceau 5" í Versölum. Þá var Eugene Weidman tekinn af lífi eftir að hafa verið sakfelldur fyrir sex morð. Síðasta aftaka með fallöxi fór fram 10. september, 1977, þegar Hamida Djandoubi, túnískur innflytjandi sem hafði pyntað og drepið fyrrverandi kærustu sína, var tekinn af lífi í Aix-en-Provence. Bann við dauðarefsingu í Frakklandi gekk í gildi 1981. Joseph-Ignace Guillotin. Dr. Joseph-Ignace Guillotin (fæddur 28. maí 1738 – látinn 26. mars, 1814) var franskur læknir, og er frægastur fyrir að hafa mælt með fallöxinni. Joseph-Ignace Guillotin fann þó ekki upp fallöxina, en hann var meðmælandi hennar 10. október, 1789, þegar hann mælti með því að tekið yrði í gagnið mekanískt amboð til að framkvæma aftökur í Frakklandi. Ættarnafn hans, að viðbættu e, hefur fengið merkingu fallaxarinnar í mörgum tungumálum. Ættingjar hans kvörtuðu við yfirvöld og báðu þau um að hætta að nota ættarnafn þeirra sem heiti yfir fallöxina, en með engum árangri, og varð til þess að fjölskyldan skipti um ættarnafn. Hann varð prófessór í bókmenntum frá "Irish College" í Bordeaux, en ákvað síðan að verða læknir. Hann nam læknisfræði við Háskólann í Reims og einnig við Háskólann í París. Hann útskrifaðist þaðan árið 1770. Árið 1789 varð hann fulltrúi Parísar við "Assemblée Constituante". Það var sem slíkur sem hann mælti með fallöxinni við löggjafarþingið. Þó hann hafi mælt með fallöxinni var Guillotin á móti dauðarefsingu. Hann vonaði að öllu mannlegri og sársaukalausari aftöku-aðferð yrði fundin upp, og það yrði fyrsta skrefið að því að banna aftökur með öllu. Kvikmynd ársins. Edduverðlaunin fyrir bíómynd ársins hefur verið gefun árlega af ÍKSA frá stofnun edduverðlaunanna árið 1999. Leikstjóri ársins. Edduverðlaunin fyrir leikstjóra ársins hafa verið veitt árlega af ÍKSA frá stofnun Edduverðlaunanna árið 1999. Handrit ársins. Edduverðlaunin fyrir handrit ársins hefur verið gefun árlega af ÍKSA frá árinu 2001. Fyrir þann tíma, eða árið 1999 og 2000 voru verðlaun gefin fyrir handrit undir flokknum fagverðlaun en eina skiptið sem handrit vann þau verðlaun var árið 2000 þegar Baltasar Kormákur vann fagverðlaunin fyrir handrit 101 Reykjavík. Heimildarmynd ársins. Edduverðlaunin fyrir heimildamynd ársins hefur verið gefun árlega af ÍKSA frá árinu 1999. Heiðursverðlaun ÍKSA. Sérstök heiðursverðlaun ÍKSA hafa verið gefin á edduhátíðinni árlega frá stofnun ÍKSA árið 1999. Tónlistarmyndband ársins. Edduverðlaun fyrir tónlistamyndband ársins hefur verið gefið árlega frá árinu 2002. Stuttmynd ársins. Edduverðlaunin fyrir stuttmynd ársins var fyrst gefin árið 2001 með leikið sjónvarpsefni ársins í sama flokki kallaður "Sjónvarpsverk/stuttmynd ársins". En það ár vann sjónvarpsþátturinn Fóstbræður verðlaunin. Næsta ár fékk "stuttmynd ársins" hins vegar eigin flokk og hefur verið gefin árlega síðan. Svo það var ekki fyrr en árið 2002 sem fyrsta stuttmyndin hlaut edduverðlaun, en það var stuttmynd Gunnars Karlssonar; Litla lirfan ljóta. Oxford-háskóli. Oxford-háskóli (University of Oxford eða Oxford University) er enskur háskóli í bænum Oxford á Englandi. Hann er elsti háskólinn í enskumælandi landi. Háskólinn á rætur að rekja að minnsta kosti til loka 12. aldar en ekki er vitað nákvæmlega hvenær skólinn var stofnaður. Sagan hermir að óeirðir hafi brotist út á milli nemenda og þorpsbúa árið 1209 og þá hafi sumir fræðimenn flúið norðaustur til bæjarins Cambridge og stofnað þar Cambridge-háskóla. Skólarnir hafa æ síðan att kappi hvor við annan og hafa löngum þótt bestu háskólar Bretlands. Dagblaðið "The Times" telur Oxford-háskóla vera besta breska háskólann árið 2007 "Times Higher Education Supplement" taldi skólann 3. besta háskóla heims árið 2005. Nemendur við skólann eru á 23. þúsund. Þar af eru um 15.500 grunnnemar og rúmlega 7 þúsund framhaldsnemar. Einkunnarorð skólans eru: "Dominus illuminatio mea" eða „Drottinn er upplýsing mín.“ Skólar innan skólans. Innan Oxford-háskóla eru 39 smærri skólar (e. colleges) sem eru að einhverju leyti sjálfstæðar stjórnsýslu einingar en lúta að öðru leyti sameiginlegri yfirstjórn háskólans. Markverðir nemendur. Margt frægt fólk hefur numið við Oxford-háskóla. Þar á meðal eru fjórir breskir og að minnsta kosti átta aðrir konungar eða drottningar, 47 nóbelsverðlaunahafar, þrír handhafar Fields-orðunnar, 25 forsætisráðherrar Bretlands, 28 forsetar og forsætisráðherrar annarra landa, sjö dýrlingar, 86 erkibispupar, 18 kardinálar og einn páfi. Sjö af síðustu ellefu forsætisráðherrum Bretlands hafa brautskráðst frá Oxford-háskóla. Margir vísindamenn og listamenn hafa numið við Oxford-háskóla, m.a. Stephen Hawking, Richard Dawkins nóbelsverðlaunahafinn Anthony James Leggett. Einnig Tim Berners Lee sem var einn þeirra sem fundu upp veraldarvefinn. Leikararnir Hugh Grant, Kate Beckinsale, Dudley Moore, Michael Palin, Terry Jones og Richard Burton námu við háskólann og kvikmyndagerðamaðurinn Ken Loach. T.E. Lawrence var bæði nemandi og kennari við Oxford-háskóla. Sir Walter Raleigh og Rupert Murdoch námu einnig við skólann. John Wesley, upphafsmaður meþódismans nam við Christ Church College og var kjörinn félagi við Lincoln College. nóbelsverðlaunahafinn og lýðræðissinninn Aung San Suu Kyi frá Búrma var nemandi við St Hugh's College. Fjölmargir rithöfundar hafa hlotið menntun sína við skólann og sumir kennt við hann. Meðal þeirra má nefna Evelyn Waugh, Lewis Carroll, Aldous Huxley, Oscar Wilde, C. S. Lewis, J.R.R. Tolkien, Phillip Pullman, Vikram Seth og Plum Sykes, skáldin Percy Bysshe Shelley, John Donne, A.E. Housman, W. H. Auden og Philip Larkin, Thomas Warton, Henry James Pye, Robert Southey, Robert Bridges, Cecil Day-Lewis, Sir John Betjeman og Andrew Motion. Voice. Voice 98,7 var útvarpsstöð á Akureyri. Hún fór í loftið þann 9. júní 2006 og var rekin af plusMedia ehf. Útsendingasvæði Voice var Akureyri, Dalvík og nágrenni á tíðninni fm 98,7 og 95,1. Útvarpsstöðin lauk útsendingum sínum eftir um 4 ár í loftinu þann 31. ágúst 2010. Meðal þekktra dagskrárgerðamanna á Voice voru: Þórhallur Miðill, Siggi Gunnars og Árni Már. Cambridge-háskóli. Clare College og King's Chapel í Cambridge. Cambridge-háskóli (University of Cambridge eða Cambridge University) er enskur háskóli í bænum Cambridge á Englandi. Hann er næstelsti háskólinn í enskumælandi landi og er af mörgum talinn annar af tveimur bestu háskólum Bretlands (ásamt Oxford-háskóla) og einn besti háskóli í heimi. Gamlar heimildir benda til þess að skólinn hafi verið stofnaður af óánægðum fræðimönnum frá Oxford, sennilega árið 1209, í kjölfarið á uppþoti og óeirðum í Oxford þar sem til átaka kom milli háskólamanna og nemenda annars vegar og þorpsbúa hins vegar. Háskólarnir í Oxford og Cambridge eru oft nefndir einu nafni "Oxbridge". Í skólanum eru á 26. þúsund nemendur, þar af rúmlega 16. þúsund grunnnemar og tæplega 10 þúsund framhaldsnemar. Einkunnarorð skólans eru: "Hinc lucem et pocula sacra", sem þýðir (bókstaflega) „Héðan kemur ljós og helgir teygar“ eða (ekki bókstaflega) „Héðan þiggjum við upplýsingu og verðmæta þekkingu“. Skólar innan skólans. Innan háskólans eru 31 smærri skóli (e. college) sem er að einhverju leyti sjálfstæð stjórnsýslueining en að einhverju leyti lúta þeir sameiginlegri yfirstjórn háskólans. Yale-háskóli. Sterling Memorial bókasafnið í Yale. Yale-háskóli (Yale University) er einkaskóli í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1701 og hét þá "Collegiate School". Hann er þriðji elsti háskólinn í Bandaríkjunum og er einn hinna átta svonefndu Ivy League-skóla. Yale er þekktur fyrir að veita góða grunnmenntun en einnig er lagaskóli háskólans, Yale Law School, þekktur sem og leiklistarskóli háskólans, Yale School of Drama. Við háskólann hafa numið bæði forsetar Bandaríkjanna og ýmsir aðrir þjóðhöfðingjar. Árið 1861 varð skólinn fyrsti háskóli Bandaríkjanna til þess að veita Ph.D.-gráðu. Fjárfestingar skólans nema 20 milljörðum bandaríkjadala, sem gerir skólann að næstríkustu menntastofnun Bandaríkjanna á eftir Harvard-háskóla. Við skólann starfa um 3.200 kennarar, sem kenna 5.200 grunnnemum og 6.000 framhaldsnemum. Heimavistarkerfi skólans byggir á fyrirmynd frá Oxford og Cambridge. Hefðbundinn skólarígur hefur lengst af ríkt milli Yale og Harvard jafnt í íþróttum sem námi og rannsóknum. Einkunnarorð skólans eru "Lux et veritas" eða „Ljós og sannleikur“. Pennsylvaníuháskóli. Pennylvaníuháskóli eða University of Pennsylvania (einnig þekktur sem Penn, Upenn eða U of P) er bandarískur einkaskóli í Philadelphiu í Pennsylvaníu. Að sögn skólayfirvalda er skólinn fyrsti rannsóknarháskóli (e university) Bandaríkjanna og fjórði elsti háskólinn (e. college). Pennsylvaníuháskóli er einn hinna átta svonefndu Ivy League-skóla. Níu þeirra sem undirrituðu sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og ellefu þeirra sem undirrituðu bandarísku stjórnarskrána tengdust háskólanum. Benjamin Franklin, stofnandi skólans, var málsvari menntastefnu sem einblíndi ekki síður á hagnýta menntun fyrir verslun og viðskipti en á fornfræði og guðfræði. Pennsylvaníuháskóli var einn fyrsti háskóli Bandaríkjanna til þess að taka upp evrópskt háskóladeildaskipulag. Pennsylvaníuháskóli er einkum þekktur fyrir viðskipta- og lagaskóla og læknaskóla háskólans. Um 4.500 kennarar kenna um 10.000 grunnnemum og um 10.000 framhaldsnemum. Einkunnarorð skólans eru "Leges sine moribus vanae" eða „Lög án siðferðis eru innantóm“. Drexel-háskóli. Mario the Magnificent, lukkudýr skólans. Drexel-háskóli (enska: "Drexel University") er bandarískur einkaskóli og rannsóknarháskóli í Philadelphiu í Pennsylvaníu. Anthony J. Drexel stofnaði skólann árið 1891. Forseti skólans er Constantine Papadakis. Stefna skólans hefur frá upphafi verið sú að veita fólki af báðum kynjum og óháð uppruna hagnýta menntun í vísindum. Skólinn hét upphaflega Drexel Institute of Art, Science and Industry en árið 1936 var nafninu breytt í Drexel Institute of Technology og 1970 var því aftur breytt í Drexel University. Þann 1. júlí 2002 sameinaðist MCP Hahnemann University formlega Drexel-háskóla og til varð læknaskóli Drexel-háskóla, Drexel University College of Medicine. Haustið 2006 var stofnaður lagaskóli Drexel-háskóla, Drexel College of Law. "U.S. News & World Report" taldi Drexel-háskóla vera 109. besta háskóla Bandaríkjanna árið 2006 í flokki skóla sem veita doktorsgráður. Tímaritið "Business Week" taldi að árið 2007 væri grunnnámið í viðskiptafræði við Drexel-háskóla það 58. besta í Bandaríkjunum Stolt skólans er þó verkfræðiskólinn. Við skólann starfa rúmlega 1.300 kennarar og þar eru á 12. þúsund grunnnemar og á 6. þúsund framhaldsnemar. Fjárfestingar skólans nema um hálfum milljarði bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru „Science, Industry, Art“ eða „Vísindi, iðnaður og list“. Árnasafn. Árnasafn (danska "Den Arnamagnæanske Samling") er safn handrita, einkum norænna, í Kaupmannahöfn í Danmörku. Handritasafnarinn Árni Magnússon, sem var prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn, var stofnandi og eigandi þess. Safnið hefur verið starfrækt síðan á dögum Árna og er deild í Kaupmannahafnar háskóla. Geislatæki. Geislatæki er tæki sem gefur rafsegulgeislun sem er að mestu utan sýnilega sviðsins, til aðgreiningar frá ljósgjafa sem gefur sýnilegt ljós. Sem dæmi um geislatæki er hitalampi sem gefur mest innrautt ljós og ljósabekkur sem gefur einkum útfjólublátt ljós. Röntgentæki og eindahraðlar gefa orkumikla jónandi geislun, sem ekki stafar frá geislavirkni. Alþingiskosningar 1987. Alþingiskosningar 1987 voru kosningar til Alþingis sem fram fóru 25. apríl 1987. Á kjörskrá voru 171.402 og kosningaþátttaka var 90,1%. Nýr flokkur Alberts Guðmundssonar, Borgaraflokkurinn, bauð fram í fyrsta skipti og fékk sjö þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fimm. Kvennalistinn tvöfaldaði fylgi sitt og fékk sex þingmenn. Stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tapaði þingmeirihluta sínum en Þorsteinn Pálsson myndaði þá ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Steingrímur Hermannsson var utanríkisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson fjármálaráðherra. Þessi ríkisstjórn hélt velli í rúmt ár og var gagnrýnd meðal annars fyrir að ná ekki samkomulagi um brýnar aðgerðir í efnahagsmálum. Hún sprakk, að sagt er, í beinni útsendingu á Stöð 2, en eftir það myndaði Steingrímur Hermannsson vinstristjórn með stuðningi Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og síðar Borgaraflokksins, en Sjálfstæðismenn fóru í stjórnarandstöðu. Einar Sveinsson. Einar Sveinsson (16. nóvember 1906 – 12. mars 1973) var arkitekt sem átti ríkan þátt í að móta ásýnd Reykjavíkur á 20. öld. Einar Sveinsson fæddist í Reykjavík og útskrifaðist úr MR. Hann tók lokapróf frá tækniháskólanum í Darmstadt, Þýskalandi árið 1932 og fluttist þá til Reykjavíkur og hóf rekstur teiknistofu. Árið 1934 var Einar ráðinn húsameistari Reykjavíkur og gegndi því starfi til æviloka árið 1973. Einar gerði drög að heildarskipulagi Reykjavíkur innan Elliðaáa og skipulagði ásamt samstarfsmönnum mörg þekkt íbúðarhverfi í Reykjavík. Helstu byggingar sem hann teiknaði fyrir borgina voru: Laugarnesskóli, Melaskóli, Langholtsskóli, Heilsuverndarstöð Reykjavíkur að innanverðu (teiknuð ásamt Gunnari H. Ólafssyni), Borgarspítalinn, Vogaskóli og Sundlaugarnar í Laugardal. Þá var hann annar tveggja arkitekta Íþróttahúss Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu. Auk þess að teikna opinberar byggingar var Einar Sveinsson merkur brautryðjandi í hönnun íbúðarhúsa og höfðu hugmyndir hans víðtæk áhrif á reykvíska húsagerð um og eftir seinni heimstyrjöld. Hann teiknaði fyrstu fjölbýlishúsin með nútímasniði við Hringbraut árið 1942 og rúmum áratug síðar hannaði hann fyrsta íbúðarháhýsið í Reykjavík á vegum Byggingarsamvinnufélags prentara, en það er blokkin á horni Laugarnesvegar og Kleppsvegar. Játvarður 3.. Játvarður 3. (1312 - 1377) var enskur konungur sem kom til ríkis 1327 eftir föður sinn, Játvarð 2.. Hann átti í landvinningastríðum við Skota og Frakka. Endurtekið tilkall hans til frönsku krúnunnar 1337 var ein af orsökum Hundrað ára stríðsins. Elsti sonur Játvarðs 3. var Játvarður svarti prins ("Edward the Black Prince") sem vann frægan sigur á Frökkum við Poitiers 1356. Leikari/leikkona ársins í aðalhlutverki. Edduverðlaunin fyrir leikara/leikkonu ársins í aðalhultverki hafa breyst töluvert frá upphafi edduverðlaunanna. Á fyrstu afhendingunni, 1999, voru veitt verðlaun fyrir karlleikara annarsvegar og leikkonu hinsvegar, bæði aðalhlutverk og aukahlutverk. Næsta ár var þeim skipt niður í fjóra flokka, aðalhlutverk annarsvegar og aukahlutverk hins vegar. Verðlaunin 2004 földu í sér þá breytingu að karlleikaraverðlaunin og leikkonuverðlaunin var skeytt saman og því aðeins tvö verðlaun gefin, þar er; fyrir aðalhlutverk annarsvegar og aukahlutverk hins vegar. Ingvar E. Sigurðsson er eini leikarinn sem hefur unnið verðlaunin oftar en einu sinni, eða alls fjórum sinnum. Leikari/leikkona ársins í aukahlutverki. Edduverðlaunin fyrir leikara/leikkonu ársins í aukahlutverki hafa breyst töluvert frá upphafi Edduverðlaunanna. Þegar verðlaunin voru afhent fyrst, árið 1999, voru veitt verðlaun fyrir karlleikara annars vegar og leikkonu hins vegar, bæði aðalhlutverk og aukahlutverk. Næsta ár var þeim skipt niður í fjóra flokka, aðalhlutverk annars vegar og aukahlutverk hins vegar. Verðlaunin 2004 fólu í sér þá breytingu að verðlaunum fyrir leik í karlhlutverki og kvenhlutverki var skeytt saman og því aðeins tvenn verðlaun veitt, þ.e. fyrir aðalhlutverk og aukahlutverk. Virginíuháskóli. Virginíuháskóli (University of Virginia, U.Va., eða UVA) er almenningsháskóli í Charlottesville í Virginíu, sem Thomas Jefferson stofnaði og hannaði árið 1819. Hann var fyrsti bandaríski háskólinn sem bauð upp á nám í greinum eins og arkitektúr, stjörnufræði og heimspeki og var einnig fyrstur til að greina að menntun og kirkju. Verkfræðiskóli háskólans var fyrsti verkfræðiskólinn í Bandaríkjunum sem var tengdur háskóla. Virginíuháskóli er eini háskólinn í Norður-Ameríku sem er flokkaður með heimsminjum af UNESCO, sem segir skólann hafa framúrskarandi menningarlegt mikilvægi fyrir sameiginlega arfleifð mannkyns. Skólinn deilir heiðrinum með heimili Jeffersons, Monticello, sem er skammt frá. Við skólann kenna rúmlega 2000 kennarar og þar nema á 14. þúsund grunnnemar og á 7. þúsund framhaldsnemar. Fjárfestingar skólans nema 3,6 milljörðum bandaríkjadala. Markverðir nemendur. Meðal fólks sem hefur numið við skólann má nefna Edgar Allan Poe, Walter Reed, Georgia O'Keeffe, Richard Byrd, Francis Collins, Katie Couric, Tina Fey, Ralph Wilson og Stephen Malkmus. Ýmsir stjórnmálamenn hafa numið við skólann. Til dæmis má nefna Woodrow Wilson, 28. forseta Bandaríkjanna, Robert F. Kennedy, Ted Kennedy og Javier Solana. Stanford-háskóli. Stanford-háskóli (Leland Stanford Junior University, þekktari sem Stanford University eða einfaldlega Stanford), er einkarekinn rannsóknarháskóli í Kaliforníu. Skólinn er í Silicon Valley í Santa Clara sýslu, 60 km suðaustur af San Francisco og um 36 km norðaustur af San José. Skólinn var stofnaður árið 1891. Við skólann kenna tæplega 1800 kennarar en nemendur eru á 7. þúsund í grunnnámi og rúmlega 8 þúsund í framhaldsnámi. Fjárfestingar skólans nema 15,2 milljörðum bandaríkjadala en skólinn er þriðja ríkasta menntastofnun Bandaríkjanna á eftir Harvard og Yale. Columbia-háskóli. Columbia-háskóli.Columbia-háskóli (Columbia University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í New York í Bandaríkjunum. Aðalháskólavæði skólans er á Manhattan-eyju. Skólinn var stofnaður sem "King's College" af ensku kirkjunni árið 1754. Hann var fyrsti háskólinn í New York fylki og sá fimmti í Bandaríkjunum. Skólinn er einn af hinum átta svonefndu Ivy League-skólum. Columbia-háskóli var fyrsti háskólinn í Norður-Ameríku sem bauð upp á nám í mannfræði og stjórnmálafræði. Í október 2006 höfðu 76 manns sem tengjast skólanum hlotið nóbelsverðlaun í efnafræði, læknisfræði, hagfræði, bókmenntum og Friðarverðlaun Nóbels. Við skólann starfa rúmlega 3.200 háskólakennarar og þar nema á sjötta þúsund grunnnemar og á fimmtánda þúsund framhaldsnemar. Fjárfestingar skólans nema tæplega 6 milljörðum bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru "In lumine Tuo videbimus lumen" eða „Í ljósi þínu munum við sjá ljósið“. Cornell-háskóli. Cornell-háskóli (Cornell University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í bænum Ithaca í New York fylki í Bandaríkjunum. Skólinn rekur einnig tvo læknaskóla, í New York borg og í Katar. Cornell er yngsti skólinn af hinum átta svonefndu Ivy League-skólum. Hann var stofnaður árið 1865 af Ezra Cornell og Andrew Dickson White. Skólanum var ætlað að mennta fólk óháð trúarsannfæringu, kynþætti eða uppruna og átti hann að kenna á öllum sviðum mannlegrar þekkingar — frá fornfræði til raunvísinda og jafnt kennileg sem hagnýtt vísindi. Tæplega 1600 kennarar starfa við skólann í Ithaca, en rúmlega 1000 kenna við læknaskólann í New York borg og 34 í Katar. Nemendur skólans eru á 14. þúsund í grunnnámi, tæplega sex þúsund í framhaldsnámi í Ithaca, rúmlega 800 í New York borg og á annað hundrað í Katar. Fjárfestingar skólans nema um 4,3 milljörðum bandaríkjadala. Cornell háskóli á merkilegt safn íslenskra bóka, Fiske safnið svokallaða. Daniel Willard Fiske ánafnaði háskólanum sitt eigið bókasafn árið 1904 og er það stærsta safn íslenskra bókmennta á erlendri grund, að Danmörku undanskilinni. Hljóðhraði. Hljóðhraði er hraði hljóðbylgja og er mjög háður því efni, sem hljóðið berst um og ástandi efnisins, t.d. hita. Hljóðhraði er venjulega táknaður með "c", en þó er táknið "v" einnig notað og telst jafngilt. Hljóðhraði í gasi er mjög háður hita og gasþéttleika. Oft þegar talað er um hljóðhraða er verið að tala um hraða hljóðs í lofti, en hann er um 344 m/s (1238 km/klst) við 21° hita. Þotur eða önnur farartæki sem ferðast með hljóðhraða eða hraðar eru sagðar hljóðfráar. Ljóshraði í tómi er mesti hugsanlegi hraðinn, en hann er tæplega milljón sinnum meiri en hljóðhraði í lofti. Um hljóðhraða. formula_1 þar sem "C" er efnisstuðull og " formula_2 " er eðlismassi. Almennt gildir að formula_3 þar sem "p" er þrýstingur. Fyrir kjörgas gildir að formula_4 þar sem "R" er gasfasti, formula_5 er hlutfall varamrýmda gassins og "T" hiti. Tíðni. Tíðni, stundum sveiflutíðni ef um reglulega sveiflu er að ræða, er mælikvarði á hversu oft tiltekinn atburður verður á ákveðinni tímaeiningu. SI-mælieining tíðni er hertz, sem einnig nefnist "rið" á íslensku. Táknið fyrir tíðni er "f" og á það rætur sínar að rekja í enska heitið á tíðni, "frequency". Tíðni er formlega skilgreind sem formula_1 þar sem "T" er sveiflutími. Horntíðni, táknuð með "f", á við hringhreyfingu og telur hve mörgum "hringjum" (2π rad) er lokið á hverri tímaeiningu, þ.e. þar sem ω er hornhraði. Fourier-vörpun er fall sem breytir tíma formengi merki í tíðnisvið merka. Bylgjur og tíðni. Bylgjur hafa tíðni og þá er talað um fjölda bylgjuumferða á tímaeiningu (sekúndu ef mæla á bylgjuna í Hz, sem er yfirleitt gert). Hægt er að reikna tíðni bylgju með eftirfarandi jöfnu formula_2 þar sem "v" táknar hraða bylgjunnar og "formula_3" táknar bylgjulengd bylgjunnar. Olof Palme. Olof Palme (30. janúar 1927 - 28. febrúar 1986) var forsætisráðherra Svíþjóðar. Hann var úr röðum sósíaldemókrata. Að kvöldi 28. febrúar 1986 voru Palme og eiginkona hans, Lisbet Palme, á heimleið úr kvikmyndahúsi í miðborg Stokkhólms, þegar ókunnur maður laumaðist aftan að þeim og hleypti af skammbyssu á hjónin af stuttu færi. Eitt skot fór gegnum bakið á Olof Palme, og dró hann til dauða á leiðinni á spítala. Lisbet Palme fékk skot í öxlina, en slapp með skrámur. Árásarmaðurinn komst undan og hefur ekki fundist þrátt fyrir viðamikla leit, sem enn stendur yfir. Tengt efni. Palme, Olof Leðurblaka. Leðurblaka er spendýr af ættbálkinum "Chiroptera". Það sem helst einkennir leðurblökur eru fit sem myndast hafa milli útlima og gera þeim kleift að fljúga. Leðurblökur eru einu náttúrulega fleygu spendýrin þótt sum önnur spendýr (t.d. flugíkorni) geti svifið stutta leið. Talið er að til séu um 1.100 tegundir leðurblaka í heiminum sem er um fimmtungur af öllum þekktum tegundum spendýra. Kameldýr. Kameldýr (fræðiheiti: "Camelus bactrianus") eru klaufdýr af úlfaldaætt sem teljast, ásamt drómedara, til úlfalda. Kameldýr aðgreina sig frá drómedara með því að þau eru með tvo hnúða á bakinu en drómedari aðeins einn. Þau finnast á gresjunum í Mið-Asíu, nær allt húsdýr. Kameldýr eru sterkbyggðari, lágfættari og harðgerri dýr en drómedarar og fara hægar yfir en hafa meira þol sem burðardýr. Salamanca. Salamanca er borg á Spáni. Borgin hefur rúmlega 160.331 íbúa (2005) og er staðsett 215 km frá Madríd. Höfrungar. Höfrungar (fræðiheiti: "Delphinidae") eru ein af fimm ættum tannhvala. Flestar tegundir höfrunga eru tiltölulega litlir hvalir, allt niður í 1,2 metrar á lengd. Stærsta höfrungategundin, háhyrningur, verður þó yfir níu metrar á lengd og vegur tíu tonn. Höfrungar lifa aðallega á uppsjávarfiski og smokkum sem lifa ofarlega í sjó. Þeir ferðast um í vöðum og hafa samvinnu um veiðar. Makimono. Makimono (japönsku: 巻物) er austurasískt málverk sem er málað á breiddina á langa, mjóa vafninga. Vafningnum er síðan rúllað út þegar verkið er skoðað. Á kínverskum makimono-vafningum eru einkum landslagsmyndir en í Japan voru þeir notaðir til að segja sögur. Makimono-málverk voru oft tekin út í guðsgræna náttúruna og þeirra notið undir berum himni og síðan sett í stranga á ný og lögð til geymslu heima fyrir til hægt væri að njóta þeirra aftur seinna. Kakemono. Kakemono (japönsku: 掛け物, en nú oftast 掛け軸) er austurasískt málverk á pappírs- eða silkirenningum sem eru festir við kefli að neðanverðu. Kakemono-málverk eru bæði með mynd og áletrun og eru hengd á vegg við hátíðleg tækifæri (sjá: makimono). Kakemono er blek-og-pentskúfs málverk og hangir oft uppi í tehúsum til að setja réttu stemminguna og innihald þeirra er oftast í samræmi við árstíðina, atburðin eða það tækifæri sem fagna ber þegar hún er hengd upp. Demetra. Demetra eða Demeter (grísku: Δημήτηρ) er móðurgyðja og gyðja akuryrkju í grískri goðafræði. Hún er ein af Ólympsguðunum tólf. Hún er dýrkuð í elevsísku launhelgunum. Persefóna, dóttir Demetru var numin af brott af Hadesi. Harmþrungin og reið stöðvaði Demetra þá þroska alls lífs á jörðinni en Seifur miðlaði málum milli þeirra og Hadesar. Varð að samkomulagi að Persefóna dveldist hjá Hadesi þriðjung árs en byggi hjá Demetru í átta mánuði á ári. Sögnin endurspeglar árstíðarskipti í akuryrkjusamfélagi. Rómversk hliðstæða Demetru er Ceres. Loðfíll. Loðfíll (mammút eða fornfíll) (fræðiheiti: "Mammuthus") er ættkvísl nokkurra útdauðra tegunda fíla sem voru með stórar sveigðar vígtennur og loðskinn hjá norðlægari tegundum. Loðfílar komu fram á pleósentímabilinu fyrir 4,8 milljónum ára og dóu út um 3750 f.Kr. Íó (gyðja). Íó (grísku: Ιώ) var fögur argversk konungsdóttir. Seifur kom auga á hana og gerði til hennar með lostum. Hann huldi hana skýi svo að hin afbrýðissama Hera sæi þau ekki, en allt var unnið fyrir gýg. Hera kom inn í skýið til að athuga hvað um væri að vera en þá breytti Seifur sér í hvítt ský og Íó í hvíta kvígu. (Sumir segja að hann hafi síðar reynt að nálgast hana í nautsham). Hera bað Seif um að gefa sér þessa kvígu og fékk hana að gjöf. Hún lét hinn hundraðeyga Argos halda vörð um hana þannig að Seifur gæti ekki nálgast hana. Fól Seifur þá Hermesi að drepa Argos. En Hera linnti ekki ofsóknum sínum. Sendi hún Íó nú broddflugu sem aldrei lét hana í friði og hrakti hana hálfærða um ýmis lönd veraldar. Loks hlaut Íó lausn í Egyptalandi, breyttist aftur í sína eðlilegu mynd og ól son sinn, Epafos. Fílar. Fílar ("elephantidae") eru ætt stórra landspendýra. Auk þriggja núlifandi tegunda heyra til þeirrar ættar nokkrar aðrar tegundir fíla og mammúta sem hafa dáið út frá lokum síðustu ísaldar fyrir um tíu þúsund árum. Núlifandi tegundir þrjár ganga allar undir nafninu fíll í daglegu tali. Þær eru: gresjufíll ("Loxodonta africana") og skógarfíll ("Loxodonta cyclotis"), sem stundum eru taldar ein tegund og kölluð Afríkufíll, og Asíufíll ("Elephas maximus"). Fílar hafa langan rana og tvær langar skögultennur og eru stærstu núlifandi landdýrin. Í fornöld voru þeir stundum notaðir í hernaði. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ragnheiður Ríkharðsdóttir (f. 23. júní 1949) er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Ragnheiður hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi frá 2007. Ragnheiður er menntaður íslenskufræðingur. Hún starfaði um margra ára bil sem íslenskukennari í Gagnfræðaskólanum í Mosfellsbæ sem nú heitir Varmárskóli. Ragnheiður var jafnframt skólastjóri í Gagnfræðaskólanum um tíma og þar á eftir skólastjóri í Hjallaskóla í Kópavogi. Ragnheiður var bæjarstjóri í Mosfellsbæ á árunum 2002-2007 og var kjörin á Alþingi þann 12. maí 2007 fyrir Suðvesturkjördæmi. Faðir Ragnheiðar er Ríkharður Jónsson fyrrum knattspyrnumaður. Sonur Ragnheiðar er Ríkharður Daðason knattspyrnumaður. Dóttir Ragnheiðar, Hekla Daðadóttir handboltakona. Ragnheiður var sú eina af Sjálfstæðismönnum sem samþykkti tillöguna um að leggja inn aðildarumsókn hjá Evrópusambandinu sem kom fyrir Alþingi þann 16. júlí 2009. Leda. Leda eða Leða (grísku: Λήδα) var drottning sem var gift Tindareifi (Tyndareos) Spartverjakonungi. Seifur náði ástum hennar með því að breyta sér í svan. Samkvæmt einni sögn verpti Leða tveimur eggjum og úr þeim klakktist Helana fagra og Polídefkes og voru börn Seifs. En Klítemnestra og Kastor voru börn Tindareifs. Kastor og Polídefkes voru tákn bróðurkærleikans. Drengirnir voru dýrkaðir um gervallt Grikkland undir nafninu Dioskúroi, þ.e. "Seifsdrengirnir". Maurar. Maurar (fræðiheiti: "Formicidae") eru félagsskordýr sem tilheyra ættbálki æðvængja líkt og vespur og býflugur. Maurar byggja sér vel skipulögð bú sem stundum hýsa milljónir einstaklinga sem skiptast í stéttir með ákveðið sérhæft hlutverk innan búsins og þar sem flest dýrin eru ófrjó og aðeins eitt kvendýr (drottningin) sér um að fjölga einstaklingum. Hjá sumum tegundum, til dæmis "Formica rufa", finnast þó fleiri en ein drottning í búinu, hér um bil tvö hundruð hjá Formica rufa. Maurar finnast nánast alls staðar í heiminum á þurru landi. Einu staðirnir þar sem þeir hafa ekki náð fótfestu eru Suðurskautslandið, Grænland, Ísland og Hawaii. Áætlað hefur verið að allt að þriðjungur lífmassa allra landdýra séu maurar og termítar. Býflugur. Býflugur eru fleyg skordýr sem mynda einn stofn innan yfirættbálksins "Apoidea" sem einnig inniheldur vespur. Um tuttugu þúsund tegundir eru skráðar en þær eru líklega fleiri. Býflugur finnast alls staðar á þurru landi nema á Suðurskautslandinu. 1203. a>jum. Sú kunnátta gleymdist að vísu aftur. Lífland. Lífland var ríki við austanvert Eystrasaltið. Landið náði umhverfis Rígaflóa eða hluta þess sem í dag eru Eistland og Lettland. Íbúarnir töluðu finnskt tungumál. Ríkið varð miðstöð verslunar Hansakaupmanna á 12. öld sem byggðu þar borgina Ríga. Sverðbræður lögðu landsvæðið undir sig 1204 og stofnuðu ríki sem Innósentíus 3. páfi viðurkenndi. Lífland skiptist milli Eistlands og Lettlands, en stærsti hlutinn er í Lettlandi. Líflenska er nú töluð af minna en 100 manns í Lettlandi og er því að deyja út. 1209. Ottó 4. keisari og Innósentíus III páfi heilsast. 1210. a> fær leyfi páfa til að stofna reglu sína. 1212. a> heldur af stað. Mynd eftir Gustave Dore. 1213. Geirþrúður Ungverjalandsdrottning og Andrés 2. konungur. 1216. Erlendis. a> á veiðum. Myndskreyting úr handritinu "De Rege Johanne". Snarrótarpuntur. Snarrótarpuntur ("Deschampsia cespitosa") er stórvaxið gras (Poaceae). Hann er algengur um allt Íslands og vex í gömlum túnum, graslendi, móum og deiglendi upp í 700 m hæð. 1218. a> Ungverjalandskonungur, einn helsti leiðtogi Fimmtu krossferðarinnar. Túnfífill. Túnfífill (fræðiheiti: "Taraxacum spp." eða "Taxacum officinale") er blómplanta og fífiltegund ("Taraxacum") af körfublómaætt. Hann er algeng jurt á Íslandi og getur vaxið upp í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Hann skiptist í nokkrar tegundir. Eftir blómgun lokar fífillinn blómakörfunni og opnar hana svo aftur þegar fræin eru fullþroskuð og nefnist þá "biðukolla". Fræ fífilsins eru með svifhár og geta borist langa leið. Rótin er stólparót. Afblómgaður fífill nefnist "biðukolla" ("bifikolla" eða "bifukolla"). Knjáliðagras. Knjáliðagras (fræðiheiti: "Alopecurus geniculatus") er lágvaxin grastegund af ættkvísl liðagrasa. Knjáliðagras þrífst best í rökum túnum, deiglendi og á engjum. Haugarfi. Haugarfi (fræðiheiti: "Stellaria media") er jurt af hjartagrasaætt sem þrífst vel í áburðarríkum jarðvegi. Blómin eru lítil og hvít. Hann er talinn illgresi. Brown-háskóli. Brown-háskóli (Brown University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Providence á Rhode Island. Brown var stofnaður árið 1764 og hét þá Rhode Island College. Hann er þriðji elsti háskólinn í Nýja Englandi og sjöundi elsti háskólinn í Bandaríkjunum. Brown er einn hinna átta svonefndu Ivy League-skóla. Brown var fyrsti skólinn í Bandaríkjunum sem tók inn nemendur af öllum trúarbrögðum. Skólinn er eini háskóli Bandaríkjanna sem býður upp á grunnnám í Egyptalandsfræði og var lengi eini háskólinn sem hafði sérstaka deild fyrir sögu stærðfræðinnar. Ruth J. Simmons hefur verið forseti skólans síðan árið 2001. Hún er fyrsti afrískættaði forseti Ivy league-skóla, annar kvenforseti Ivy leque-skóla og fyrsti kvenforseti Brown. Við skólann starfa alls um 2900 kennarar. Grunnnemar eru um 5.700 og framhaldsnemar eru rúmlega 1.800. Fjárfestingar skólans nema um 2,3 milljörðum bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru "In deo speramus" eða „Við vonum til guðs“. Varpasveifgras. Varpasveifgras (fræðiheiti: "Poa annua") er sveifgras. Hún er ágætis beitarplanta, en þykir ekki æskileg í túnum og er þá talin til illgresis. Túnsúra. Túnsúra (fræðiheiti: "Rumex acetosa") er fjölær jurt sem vex víða í Evrópu og er sums staðar ræktuð vegna blaðanna sem grænmeti. Túnsúra er meðalhá planta með gáraðan stöngul. Hún blómgast í maí-júní. Hún er algeng á Íslandi og vex upp í 800-900 m hæð. Túnsúra er stundum ranglega nefnd hundasúra, en um er að ræða aðra skylda tegund. Túnsúra þekkist best frá hundasúru á blaðlögun, hornin neðst á blöðkunni vísa niður en eru ekki útstæð eins og á hundasúru. Í túnsúru er oxalsýra. Sýran ver túnsúru fyrir sniglum og öðrum meindýrum en búfénaður sækir í að éta hana. Hún var líka kölluð lambasúra eða lambablaðka. Sem lækningajurt. Túnsúra er talin góð við bjúg, örva og styrkja lifrina og góð við lystarleysi, hægðatregðu og gyllinæð. Dartmouth-háskóli. Baker byggingin í Dartmouth College Dartmouth-háskóli (Dartmouth College) er einkarekinn háskóli í Hanover í New Hampshire, í Bandaríkjunum. Hann er einn hinna átta svonefndu Ivy League-skóla og einn af níu háskólum Bandaríkjanna sem voru stofnaðir áður en nýlendurnar lýstu yfir sjálfsæði. Dartmouth var stofnaður árið 1769 af Eleazar Wheelock. Auk grunnnáms í hug-, raun- og félagsvísindum rekur Dartmouth læknaskóla, verkfræðiskóla og viðskiptaskóla og býður upp á framhaldsnám í sumum greinum. Nemendur eru 5.744 talsins, 4.078 þeirra grunnmenar. Dartmouth er þar með minnsti skólinn í Ivy League-deildinni. Fjárfestingar skólans nema um 3,1 milljörðum bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru "Vox clamantis in deserto" eða „Rödd hrópandans í eyðimörkinni“. Chicago-háskóli. Chicago-háskóli eða Háskólinn í Chicago (The University of Chicago) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Hyde Park hverfi Chicago-borgar. Skólinn var stofnaður árið 1890 af John D. Rockefeller. Fyrsta kennslustundin var haldin 1. október árið 1892. Chicago-háskóli var einn fyrsti háskóli Bandaríkjanna sem hefur allt frá stofnun verið blanda af hefðbundnum bandarískum háskóla og rannsóknarháskóla að þýskri fyrirmynd. Chicago-háskóli er víða talinn einn besti háskóli Bandaríkjanna. 79 nóbelsverðlaunahafar er tengdir skólanum. Markverðir nemendur og kennarar. Meðal markverðra nemenda og kennara við skólann má nefna: Hönnuh Arendt, John Ashcroft, Ramsey Clark, Edward H. Levi, Lien Chan, Gary Becker, Milton Friedman, Friedrich Hayek, Robert Lucas, Saul Bellow og J.M. Coetzee, Subrahmanyan Chandrasekhar, John Dewey, T.S. Eliot, Enrico Fermi, Philip Glass, Seymour Hersh, Edwin Hubble, Robert Millikan, Mike Nichols, Mörthu Nussbaum, Paul Ricoeur, Jean-Luc Marion, Leo Strauss, Barack Obama, Bertrand Russell, Philip Roth, David Rockefeller, Carl Sagan, Marshall Sahlins, Kurt Vonnegut, Thornton Wilder, Michael Foote, Paul Wolfowitz. Skáldaðar persónur. Ýmsar skáldaðar persónur hafa einnig tengst skólanum. Meðal þeirra má nefna: Harry Burns og Sally Albright (leikin af Billy Crystal og Meg Ryan) í kvikmyndinni "When Harry Met Sally...", Indiana Jones (leikinn af Harrison Ford), Robert og Hal (leiknir af Anthony Hopkins og Jake Gyllenhaal) í kvikmyndinni "Proof", Jack McCoy (leikinn af Sam Watterson) í "Law & Order", Dr. Josh Keyes (leikinn af Aaron Eckhart) í kvikmyndinni "The Core", Eddie Kasalivich (leikinn af Keanu Reeves) í kvikmyndinni "Chain Reaction", Brandon Shaw og Philip Morgan (leiknir af John Dall og Farley Granger) í kvikmynd Alfreds Hitchcock "Rope", Dr. Lawrence Green (leikinn af Jeremy Piven) í kvikmyndinni "Runaway Jury" og Kate Forster (leikin af Sandra Bullock) í kvkmyndinni "The Lake House". Theodor Mommsen. Christian Matthias Theodor Mommsen (30. nóvember 1817 – 1. nóvember 1903) var þýskur fornfræðingur, sagnfræðingur og lögfræðingur. Mommsen er almennt talinn einn merkasti fornfræðingur 19. aldar. Framlag hans til rannsókna á Rómarsögu hefur varanlegt gildi og er enn mikilvægt. Hann hlaut nóbelsverðlaunin árið 1902. Mommsen vann einnig að stjórnmálum í Þýskalandi. Rannsóknir hans á rómverskum lögum voru þýðingarmiklar fyrir þróun þýskra laga. Mommsen, Theodor Mommsen, Theodor Mommsen, Theodor Johan Nicolai Madvig. Johan Nicolai Madvig (7. ágúst 1804 – 12. desember 1886) var danskur fornfræðingur og textafræðingur og menningarmálaráðherra Danmerkur. Madvig fæddist á Borgundarhólmi. Hann hlaut menntun sína við fornfræðiskólann í Frederiksborg og við Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1828 varð hann lektor og 1829 prófessor í latínu og latneskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð bókavörður háskólabókasafnsins árið 1832. Madvig settist á þing árið 1848. Í kjölfarið varð hann menningarmálaráðherra en sagði af sér 7. desember 1851. Hann var forseti þingsins árin 1856 til 1863. Utan þessa varði hann ævinni í ástundun fræðanna og í kennslu. Madvig rannsakaði einkum ritverk Ciceros og umbylti rannsóknum á heimspekiverkum hans með útgáfu sinni á riti Ciceros "De Finibus" (1839). Hann samdi rit um latneska málfræði og gríska setningafræði. Madvig hætti kennslu árið 1880 en hélt áfram rannsóknum sínum og gaf út rit um stjórnskipun Rómaveldis. Í bókinni gagnrýnir Madvig harkalega viðhorf Theodors Mommsen til stjórnartíðar Caesars. Madvig, Johan Nicolai Madvig, Johan Nicolai Madvig, Johan Nicolai Eduard Zeller. Eduard Zeller (22. janúar 1814 – 19. mars 1908) var þýskur heimspekingur og fornfræðingur. Merkasta rit hans er "Philosophie der Griechen" (1844-52). Hann hélt áfram að auka við ritið og beturumbæta það í ljósi nýrra rannsókna. Síðasta útgáfa þess birtist árið 1902. Það var þýtt á flest evrópumál og hlaut viðurkenningu sem undirstöðurit um gríska heimspeki. Náms- og starfsferill. Zeller fæddist í Kleinbottwar í Württemberg í Þýskalandi og hlaut menntun sína við háskólann í Tübingen. Á námsárum sínum var hann undir miklum áhrifum Georg Wilhelm Friedrich Hegel. Árið 1840 varð hann "Privatdozent" í guðfræði við háskólann í Tübingen. Hann varð prófessor í guðfræði árið 1847 við háskólann í Berne og prófessor í guðfræði við háskólann í Marburg árið 1849. Stuttu seinna flutti hann sig yfir í heimspekideildina. Hann varð prófessor í heimspeki við háskólann í Heidelberg árið 1862 en fluttist til Berlínar árið 1872. Hann settist í helgan stein árið 1895. Auk "Philosophie der Griechen" ritaði Zeller um guðfræði og heimspeki. Helstu ritverk. Zeller, Eduard Zeller, Eduard Zeller, Eduard Tvistur. Tvistur eða díóða er rafeindaíhlutur sem aðeins hleypir gegn rafstraumi í eina átt. Tvistar er ólínulegur rásaíhlutur þ.a. straumurinn er ekki línulegt fall af spennunni. Tegundir tvista. Til er mismunandi gerðir tvista, t.d. ljóstvistur, sem gefur frá sér ljós þegar straumur fer um hann, ljósnæmur tvistur, innrauður tvistur, sem gefur frá sér innrautt ljós og leysitvistur, sem gefur frá sér leysigeisla. Tvistar eru nú til dags nær alltaf gerðir úr pn-hálfleiðara skeyti, einnig er hægt að búa til tvist úr rafeindalampa. Styx. Styx (Styxfljót eða Stígsfljót) (stundum nefnt „hið óttalega eiðsvatn“) er undirheimafljót í grískri goðafræði sem guðirnir vinna eiða sína við þegar mikið liggur við. Styx er ein kvísl af Ókeansstraumi, sem rennur niður í undirheima. Í "Ódysseifskviðu" eru þar talin þrjú fljót önnur: Akkeron, Kokytos (tárafljót) og Pyriflegeþon (eldfljót). Mætast Kokytos og Pyriflegeþon, falla loks í Akkeron og mynda öll óskaplegan dunandi flaum. Síðar hugsuðu menn sér, að Akkeron myndaði takmörk undirheima. Akkeron. Akkeron er undirheimafljót í grísku goðafræðinni. Handan þess er gullrótarengið, þar sem skuggar hinna framliðnu eru á reiki. Akkeron er eitt þriggja fljóta í undirheimum. Önnur eru: Styx, Kokytos (tárafljót) og Pyriflegeþon (eldfljót). Mætast Kokytos og Pyriflegeþon, falla loks í Akkeron og mynda öll óskaplegan dunandi flaum. Síðar hugsuðu menn sér, að Akkeron myndaði takmörk undirheima. Akkeron er stundum haft um Hades, dauðaheima. Virgill hefur Akkeron í þeirri merkingu þegar hann minnist á fljótið í VI. Bók "Eneasarkviðu", línu 312 og eru fræg orð: "flectere si nequeo superos, Acheronta movebo" eða „Geti ég ekki breytt vilja guðanna, þá hreyfi ég við Akkeron“. 1223. a> krýnd konungur og drottning Frakklands. Evrópa (gyðja). Evrópa var dóttir Agenors konungs í Fönikíu. Seifur kom auga á hana, er hún var að lesa blóm á sjávarströndinni við Týros eða Sídon ásamt öðrum meyjum. Seifur brá sér þá í nautslíki og nálgaðist hana með blíðulátum. Allar hinar meyjarnar flýðu. En Evrópa sem var þeirra hugrökkust, þorði að láta vel að nautinu fagra og fara á bak því. Stakk það sér þá í hafið og synti með meyna til Kríteyjar. Gat Seifur þar við Evrópu tvo sonu, þá Mínos og Hradamantis. Urðu þeir konungar á Krít og eftir hérvistardaga sína dómarar í undirheimum sakir réttvísi sinnar. Bifreiðastyrkur. Bifreiðastyrkur er endurgreiddur kostnaður vegna notkunar starfsmanns á eigin bifreið í þágu vinnuveitanda. Starfsmaðurinn getur þurft að halda sérstaka akstursbók þar sem notkun bifreiðarinnar er skráð niður. Kvennaskólinn í Reykjavík. Kvennaskólinn í Reykjavík, eða Kvennó, er íslenskur framhaldsskóli í Reykjavík sem stofnaður var árið 1874. Kvennaskólinn býður upp á hefðbundið fjögurra ára bóknám til stúdentsprófs á þremur námsbrautum; félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut. Skólinn byggist á bekkjakerfi en þó verður einhver skörun síðustu tvö árin er nemendum býðst takmarkað val. Í skólanum eru um 550 nemendur og starfsmenn eru 55. Skólameistari er Ingibjörg Guðmundsdóttir og Oddný Hafberg er aðstoðarskólameistari. Saga skólans. Aðdraganda að stofnun skólans má rekja til ávarps sem birtist í blaðinu Þjóðólfi árið 1871 og var undirritað af 25 konum. Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður af hjónunum Þóru og Páli Melsteð árið 1874, sem bæði höfðu komið að birtingu ávarpsins. Kvennaskólinn er því einn af elstu skólum landsins. Þóra var fyrsti skólastjóri skólans en Ingibjörg H. Bjarnason tók við starfi skólastjóra um 1906 eftir að hafa kennt þar þrjú undanfarin ár og gegndi því starfi til dauðadags 1941. Eins og nafnið gefur til kynna var skólinn eingöngu fyrir stelpur, en því var breytt 1977 þegar piltum var veitt innganga til náms við skólann. Í dag eru piltar tæpur þriðjungur nemenda. Skólinn varð framhaldsskóli 1979 og fyrsti stúdentahópurinn útskrifaðist 1982. Framan af var töluvert mikil áhersla lögð á að kenna fatasaum, handavinnu og teikningu í skólanum og einnig var sérstök hússtjórnar- eða húsmæðradeild var við skólann frá 1905-1942 en var þá lögð niður þar sem ekki þótti þörf á henni eftir að Húsmæðraskóli Reykjavíkur var stofnaður. Skólinn í dag. Skólinn er til húsa að Fríkirkjuvegi 9 og Þingholtsstræti 37. Þetta hús er í daglegu tali kallað "Uppsalir". Íþróttakennslan fer fram í leikfimissalnum í miðbæjarbyggingu Kvennaskólans. Nokkrar sérstofur eru í skólanum, t.d. fyrir líffræði, efna- og eðlisfræði, listgreinar og nokkur tungumál. Skólinn vinnur mörg alþjóðlega samskiptaverkefni á hverju ári. Á síðustu árum hefur skólinn t.d. unnið með skólum frá Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Írlandi, Rúmeníu og Tékklandi. Nemendur, kennarar og stjórnendur hafa fengið heimsóknir frá og farið í heimsóknir til viðkomandi landa. Kvennskælingurinn Laufey Haraldsdóttir varð fyrsta stúlkan til að sigra í Gettu betur þegar lið Kvennó fór með sigur af hólmi gegn MR vorið 2011. Húsnæði Kvennaskólans. Skólinn var fyrst til húsa í gamla kvennaskólahúsinu við Austurvöll en flutti í núverandi húsnæði á Fríkirkjuvegi 1909. Veturinn 2011 fékk skólinn svo húsnæði Reykjavíkurborgar - Gamla Miðbæjarskólann til afnota undir starfsemi sína og verður haustönn 2011 fyrsta önnin sem sú bygging mun nýtast við kennslu í Kvennaskólanum. Bæjarbardagi. Bæjarbardagi var bardagi sem háður var á Bæ í Bæjarsveit í Borgarfirði 28. apríl 1237. Sturla Sighvatsson hafði hrakið Snorra Sturluson frænda sinn frá Reykholti árið áður og Þorleifur Þórðarson í Görðum á Akranesi, frændi beggja (faðir hans, Þórður Böðvarsson í Görðum var bróðir Guðnýjar, móður Snorra og ömmu Sturlu) taldi Sturlu þrengja að sér og vera orðinn of gráðugan til valda. Snorri og Þorleifur söfnuðu því 400 manna liði vorið 1237 og stefndu því til Borgarfjarðar en Sturla frétti af því og kom með fjölmennara lið. Snorra leist ekki á og hvarf á brott en Þorleifur fór heim að Bæ með liðið og bjóst til varnar. Bæjarbardagi var harður og mikið um grjótkast. Þetta var einn af mannskæðustu bardögum Sturlungaaldar, þar féllu 29 menn úr liði Þorleifs og margir særðust en aðeins þrír féllu úr liði Sturlu. Þorleifur komst sjálfur í Bæjarkirkju ásamt Ólafi hvítaskáldi og fleirum og fengu þeir allir grið en þurftu að fara í útlegð næstu árin. Listi yfir heimsminjar á Norðurlöndum. Inngangur stafkirkjunnar í Urnes í Noregi Þetta er listi yfir heimsminjar á Norðurlöndum'". UNESCO heldur utan um listann og skulu staðirnir njóta verndar vegna menningar- og sögulegs mikilvægis fyrir mannkynið. Heimsminjaskráin er jafnframt útbreiddasti alþjóðasamningurinn í umhverfismálum. Danmörk. Til að sjá heimsminjar á Grænlandi; sjá Listi yfir heimsminjar í Ameríku Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 7. Sjöunda þáttaröð Simpsons markar upphaf tveggja ára stjórnartíð Simpson-rithöfundanna Bills Oakley og Josh Weinstein. Fyrsti þáttur þáttaraðarinar er seinni hluti Hver Skaut Hr. Burns? sem David Mirkin framleiddi (og báðir þættirnir voru samdir af Oakley og Weinstein), ásamt þremur öðrum sem hann framleiddi fyrir þáttaröð 6. Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 8. Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 8 er seinni og síðasta þáttaröð Simpsonfjölskyldunnar þar sem Bill Oakley og Josh Weinstein voru þáttarstjórnendur. The Brother From Another Series. Brother from Another Series er 16. þáttur 8. þáttaraðar Simpson-fjölskyldunnar. Þátturinn inniheldur smáskopstælingu af gamanþáttunum Frasier, sem sýndir voru á Ríkissjónvarpinu út af gestaleikurum þáttarins. Simpson-fjölskyldan er að horfa á sérstakan þátt Krustys þar sem hann er að skemmta föngum í Springfield-fangelsinu. Þar sér fjölskildan Aukanúmera-Bob og Bart óttast að hann reyni að sleppa og drepa hann. Í fangelsinu sýnir Bob fyrirmyndarhegðun og er í kirkjukór fangelsins. Séra Lovejoy er stolltur af Bob og vill að hann taki þátt í atvinnunámskeiði fanga og maðurinn sem ræður hann er bróðir hans Cecil Terwilliger. Bob er sleppt lausum þrátt fyrir mótmæli Bart, því öllum finnst að hann hafi breyst og Quimby bæjarstjóri segir að ástæður Bobs fyrir að vilja reyna drepa bæjarbúana hafi verið fullkomlega eðlilegar. Bob býr hjá bróður sínum og telur Cecil enn bitrann yfir því að Bob fékk að vera aðstoðarmaður Krustys. Cecil útvegar Bob vinnu sem byggingarstjóri nýju raforkustíflu Springfield. En Bob mislíkar að vinna með heimskum sveitalúðum og það að Bart reynir njósna um hann gerir Bob enn þá bitrari út í Springfield. Bart fær Lísu að hjálpa sér að leita að sönnunargögnum í ruslagámi Bobs en Bob kemur að þeim og afhendir Hómer og Marge þau. Bart ætlar enn ekki að gefast upp og að ráðum Lísu fara þau í skrifstofu Bobs við stífluna til að finna sönnunargögn. Þar finna þau ferðatösku fulla að peningum en Bob kemur að þeim. Bart og Lísa taka töskuna og flýja inn í stífluna. Bob eltir þau og króar þau af og biður þau að láta sig í friði því hann hefur ekki gert neitt af sér. Þau spyrja hann út í peningana en Bob segist aldrei hafa séð þá áður og sýnir börnunum hversu sterk stíflan er sem hann hefur verið að láta reisa brotnar innri steypan eins hrökkbrauð. Þau segja að þetta sé honum að kenna því hann hélt meirihluta fjármagnsins handa sjálfum sér. En Bob segist ekki hafa séð um fjármálin heldur Cecil. Allt í einu birtist Cecil með byssu og dínamít og segist hafi haldið aftur af fjármagninu til veikja stífluna og ætlar sér að sprengja stífluna og kenna Bob um. Hann tekur peningana og læsir þau inni. Bob tekst að finna leið út og fær börnin að treysta honum og hjálpa honum. Bart truflar Cecil á meðan Bob reynir að klipa á dínamítskveikþræðinum. Þegar Cecil er að reyna kljást við Bart, missir hann peningana í ána og kastar Bart niður líka. Bob stekkur á eftir Bart með dínamítið sem líflínu. En Cecil hyggst sprengja þá báða en Bob tekst að klippa á vírinn og þeir lenda á vinnupalli og komast upp heilir á húfi. Lögreglan kemur og Cecil játar, en Wiggum lögreglustjóri heimtar að láta handtaka Bob, þrátt fyrir að Lísa og Lou reyna að segja honum að Bob sé saklaus. Þættinum lýkur þar sem bræðurnir rífast um hvor á að hafa efri kojuna í fangaklefanum. Gestaleikarar: Kelsey Grammer sem Aukanúmera-Bob og David Hyde Pierce sem Cecil Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 9. Simpson-fjölskyldan, þáttaröð 9 markar upphafs fjögurra ára stjórnartíð þáttastjórnandans og Simpson-rithöfundarans Mikes Scully. Mike hóf störf í sjöttu þáttaröð sem rithöfundur og samdi 6 þætti fyrir stjórnartíðina. En 9. þáttaröðin er svolítið undarleg í uppsetningu. Hún hefst með tveimur þáttum sem Oakley og Weinstein framleiddu fyrir 8. þáttaröð, einum þætti sem Al Jean og Mike Reiss framleiddu fyrir 7. þáttaröð, svo tekur Scully við og svo kemur David Mirkin með tvo þætti sem hann framleiddi fyrir 9. þáttaröð. Inn í miðri 9. þáttaröð kemur svo einn 8. þáttaraðarþáttur frá Oakley og Weinstein og svo einn 7. þáttaraðarþáttur frá Al Jean og Mike Reiss og svo heldur Scully áfram. Margir góðir þættir fyrirfinnast í 9. þáttaröð, en einn umdeildasti er The Principal and the Pauper, sem Oakley og Weinstein framleiddu. Trash of the Titans. Trash of the Titans er 22. þáttur níundu seríu og er í senn tvöhundruðasti þáttur Simpson-seríunnar og gestaleikaranna vantar ekki og er þetta einn af betri þáttunum frá stjórnatíð Mike Scully. Stórverslunin Costington's er að reyna finna leið til að græða á sumrinu og búa til uppgerðarhátíðardag sem kallast Ástardagur. Simpson-fjölskyldan heldur auðvitað upp á daginn og kaupir gjafir handa hvort öðru og Ástardagsskraut. Eftir að hafa tekið til skrautið, neitar Hómer, sem fyllti ruslatunnuna, að fara út með ruslið og býr til þá reglu að sá sem hellir úr tunnuni fer út með ruslið. Næsta dag gengur Hómer á ruslatunnuna og neyðist til að fara út með ruslið. En Hómer nær ekki öskubílnum í tæka tíð og bölvar á öskukallanna og móðgar þá. Þeir heyra þetta og neita hér með að taka ruslið hjá Simpson-fjölskyldunni. Hómer er svo þrjóskur að byðjast ekki afsökunnar að hann lætur ruslið hrúgast upp fyrir utan húsið. Hómer og Bart skemmta sér konunglega (þeir pirra Flanders með ruslinu), en Marge og Lísa eru ósáttar. Einn daginn vaknar Hómer og sér að ruslið er farið og telur sig hafa unnið öskukallanna en Marge segir honum að hún skrifaði afsökunar beiðni í nafni Hómers. Hómer er hneykslaður og fer til Rays Patterson, sorphirsluforstjóra Springfield, og heimtar afsökunarbeiðni sína tilbaka. Patterson reynir að meðhöndla málið með jákvæðu viðhorfi en Hómer er bara dónalegur og ákveður að gerast sorphirsluforstjóraframbjóðandi. Kosningabarátta Hómers gengur illa og ákveður að ná til yngri markhópsins með því að brjótast inn á U2-tónleika en er hent út. Eftir að hafa talað við Moe, finnur Hómer slagorð kosningabaráttu sinnar: "Getur ekki einhver annar gert það?" Kjósendurnur hyllast af slagorðinu og loforðum Hómers um öskukalla sem munu hreinsa allt. hómer er kosinn og byrjar sjá fyrir sér ferilinn í skopstælilagi af "The Candyman" sem kallas "The Garbageman Can"(Öskukallinn getur það). En Hómer eyðir öllum peningunum sínum á einum mánuði. Til þess að leysa vandann ákveður hann að taka við rusli frá öðrum borgum og troða því í yfirgefna námu, rétt fyrir utan Springfield. Hómer getur loks borgað öskuköllunum og borgin verður gljáandi hrein, en náman, sem Hómer treður ruslinu í, fyllist og ruslið gýs úr holræsum Springfield. Hómer er rekinn sem sorphirsluforstjóri og Ray Patterson er fenginn aftur. Patterson segir að þau ættu bara koma sér vandamálinu sjálf og fer. Quimby bæjarstjóri leggur til að þau nýti sér áætlun B: að flytja helstu hús bæjarins nokkra kílómetra til mynda Springfield annars staðar. Síðan horfir indjánaflokkur syrgjandi yfir því sem Hómer gerði við gömlu Sprngfield. Þátturinn endar í flugvél þar sem U2 eru að tala saman. Adam montar sig af 9. skeiðinni sinni í skeiðasafnið sitt. Bono tekur skeiðina og kastar í Hr. Burns sem situr fyrir aftan hann. Gestaleikarar: Steve Martin sem Ray Patterson, U2, Paul McGuinness og Susie Smith Friðrik 2. Danakonungur. Friðrik 2. (1. júlí 1534 - 4. apríl 1588) var konungur Danmerkur frá 1559 til dauðadags. Friðrik var sonur Kristjáns 3. og Dórótheu af Saxlandi-Láinborg. Hann var útnefndur ríkisarfi árið 1536, eftir að faðir hans vann sigur í Greifastríðinu og var tekinn til konungs í allri Danmörku. Hann tók við ríkjum eftir að faðir hans lést á nýársdag 1559. Sama ár náði hann undir sig Þéttmerski (Dithmarschen) í Norður-Þýskalandi með stuðningi föðurbróður síns, Adólfs hertoga af Gottorp. Áhugi hans á að ná Svíþjóð aftur undir danskt vald leiddi hann út í Sjö ára stríðið við Svía 1563 - 1570. Hann sýndi í fyrstu myndugleik en ærinn stríðskostnaður leiddi til þess að hann varð að fá fornan óvin föður sín, Peder Oxe (1520 - 1575), til að rétta af fjárhag ríkisins. Oxe þrefaldaði meðal annars Eyrarsundstollinn, en fyrir tekjurnar af honum lét konungur reisa Krónborgarhöll og Friðriksborgarhöll. Friðrik 2. veitti töluverðu fé til stjörnufræðingsins Tycho Brahe til að hann gæti unnið að fræðum sínum á eyjunni Hveðn, en þar lét Brahe reisa höllina og stjörnuskoðunarstöðina Úraníuborg og síðar stjörnuskoðunarstöðina Stjörnuborg þar sem hann og lærisveinar hans stunduðu ýmsar athuganir á gangi himintunglanna. Eftir lát Friðriks konungs dró mjög úr stuðningi krúnunnar og Brahe lenti upp á kant við Kristján 4. og flutti á endanum til Prag og dó þar. Friðrik 2. þjáðist lengi vel af malaríu og á síðustu æviárum sínum jukust þjáningar hans mjög. Í líkræðu sinni yfir Friðriki dróp presturinn og sagnfræðingurinn Anders Sørensen Vedel ekki dulá að Friðrik hefði flýtt dauða sínum með drykkjuskap. Ungur varð Friðrik ástfanginn af hefðarmeyjunni Önnu Hardenberg, en hún var lofuð öðrum og þótti heldur ekki konunginum samboðin, svo að ekkert varð af giftingu þeirra. Hann giftist ekki fyrr hann var orðinn 38 ára, 20. júlí 1572, og var brúðurin 15 ára gömul frænka hans, Soffía af Mecklenburg (1557 - 1631). Þau eignuðust saman sjö börn, þar á meðal Kristján 4. Danakonung og Önnu, sem giftist Jakob 6. Skotakonungi, sem síðar varð Jakob 1. konungur Bretlands. Friðrik veitti Guðbrandi Þorlákssyni biskupi leyfi til þess að prenta Guðbrandsbiblíuna árið 1579. Walter Burkert. Walter Burkert (2. febrúar 1931 í Neuendettelsau í Bæheimi í Þýskalandi) er þýskur fornfræðingur og prófessor "emeritus" í fornfræði við háskólann í Zürich í Sviss. Burkert hefur einnig kennt í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann er sérfræðingur um forngrísk trúarbrögð og hefur haft mikil áhrif á aðra fræðimenn á því sviði og trúarbragðafræðinga almennt síðan á 7. áratug 20. aldar. Burkert á nútímalegan hátt niðurstöður fornleifafræði og bókmenntarýni á verkum skálda, sagnaritara og heimspekinga. Hann hefur gefið út bækur um jafnvægið milli dulhyggju og vísinda hjá pýþagóringum og um trúarlegar hefðir í fornum trúarbrögðum, um trúarlegar fórnfæringar og um áhrif persneskrar menningar og menningar miðauðsturlanda á forngríska menningu. Burkert kvæntist Mariu Bosch árið 1957 og á með henni þrjú börn: Reinhard, Andreu og Cornelius. Starfsferill. Burkert nam klassíska textafræði, sögu og heimspeki við háskólana í Erlangen og Ludwig Maximilians háskólann í München (1950–1954). Hann hlaut doktorsgráðu árið 1955. Hann kenndi í Erlangen í fimm ár (1957–1961) varð lektor árið 1961. Þeirri stöðu gegndi hann í fimm ár. Hann var félagi á Center for Hellenic Studies í Washington, D.C. árið 1965. árið 1966 varð hann prófessor í klassískri textafræði við tækniháskólann í Berlín. Hann gegndi þeirri stöðu til ársins 1969 en var gistiprófessor á Harvard árið 1968. Árið 1981 birtist rit Burkerts um mannfræði forngrískra trúarbragða, "Homo Necans", í ítalskri þýðingu. Rúmu ári síðar birtist einnig ensk þýðing. Í dag er bókin talin sígilt undirstöðurit um ýmis hugtök í grískum trúarbrögðum. Burkert varð prófessor í klassískri textafræði við háskólann í Zürich (1969–1996). Hann var gistiprófessor í klassískum bókmenntum við Kaliforníuháskóla árin 1977 og 1988 og lektor á Harvard árið 1982. Hann settist í helgan stein árið 1996. Greinar. Burkert, Walter Theodor Bergk. Theodor Bergk (12. maí 1812 – 20. júlí 1881) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur fæddur í Leipzig. Bergk gekk í háskóla í Leipzig þar sem hann naut leiðsagnar G. Hermanns. Hann fékk lektorsstöðu í latínu við munaðarleysingjaskóla í Halle árið 1835. Síðar kenndi hann í Neustrelitz, Berlín og Kassel. Árið 1842 tók hann við prófessorsstöðu í klassískum bókmenntum í Marburg. Árið 1852 flutti hann sig til Freiburg en sneri aftur til Halle árið 1857. Hann lét af prófessorsstöðu sinni árið 1868 og fluttist til Bonn þar sem hann helgaði sig rannsóknum á klassíkum bókmenntum. Hann lést þann 20. júlí árið 1881 í Ragatz í Sviss, þar sem hann dvaldi sér til heilsuhreystingar. Bergk ritaði margt en orðspor hans hvílir fyrst og fremst á ritum hans um forngrískar bókmenntir, ekki síst lýrísk skáld. Rit hans "Poetae Lyrici Graeci" ("Grísku lýrísku skáldin") (1843) og "Griechische Litteraturgeschichte" ("Grísk bókmenntasaga") (1872–1887) (sem G. Hinrichs og R. Peppmuüller luku við) eru undirstöðurit. Bergk ritstýrði einnig kvæðum Anakreons (1834), brotum Aristófanesar (1840), ritum Aristófanesar (3. útg., 1872), Sófóklesar (2. útg., 1868) og úrvaldi úr kvæðum lýrísku skáldanna (4. útg., 1890). Meðal annarra verka hans má nefna: "Augusti Rerum a se gestarum Index" (1873), "Inschriften römischer Schleudergeschosse" (1876), "Zur Geschichte und Topographie der Rheinlande in römischer Zeit" (1882), "Beitrage zur romischen Chronologie" (1884). Pepmüller ritstýrði ritgerðum Bergks um ýmis textafræðileg efni, "Kleine philologische Schriften" (1884–1886). Bergk, Theodor Bergk, Theodor Friedrich Blass. Friedrich Blass (22. janúar 1843 – 5. mars 1907) var þýskur fornfræðingur. Hann nam fornfræði við háskólana í Göttingen og Bonn árin 1860 til 1863. Hann kenndi við ýmsa menntaskóla og síðar við háskólann í Königsberg. Árið 1876 hlaut hann prófessorsstöðu í klassískri textafræði við háskólann í Kiel. Árið 1892 flutti hann til Halle og tók við prófessorsstöðu þar. Hann lést 5. mars árið 1907. Blass heimsótti England oft og þekkti náið til ýmissa enskra fræðimanna. Háskólinn í Dublin veitti honum heiðursdoktorsgráðu árið 1892. Blass er einkum minnst fyrir rannsóknir sínar á textum grískra ræðumanna. Ritstýrðar útgáfur. Auk fræðirita gaf Blass út fræðilegar ritstýrðar útgáfur á textum ýmissa höfunda, m.a.: Andókídesar (1880), Antífóns (1881), Hýpereidesar (1881, 1894), Demosþenesar (1885), Ísókratesar (1886), Deinarkosar (1888), Demosþenesar (1893), Æskínesar (1896), Lýkúrgosar, Leókratesar (1902), Evdoxosar (1887), Bakkylídesar (3. útg., 1904) og Æskýlosar (1906) Blass, Friedrich Blass, Friedrich Ludwig Friedländer. Ludwig Friedländer (16. júlí 1824 – 16. desember 1909) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Hann nam fornfræði í háskóla í heimabæ sínum Königsberg og í Leipzig árin 1841 til 1845. Árið 1847 hlaut hann kennslustöðu í klassískri textafræði í Königsberg. Hann varð lektor árið 1856 og prófessor árið 1858. Friedländer settist í helgan stein árið 1892. Þá flutti hann til Strassbourg þar sem hann hlaut heiðursprófessorsstöðu við háskólann í Starrbourg. Ritstýrðar útgáfur. Friedländer, Ludwig Friedländer, Ludwig Karl Lehrs. Karl Lehrs (14. janúar 1802 – 9. júní 1878) var þýskur fornfræðingur. Lehr fæddist í Königsberg. Hann var af gyðingaættum en varð kristinnar trúar árið 1822. Árið 1845 varð hann prófessor í grískri textafræði við háskólann í Königsberg og gegndi hann þeirri stöðu til æviloka. Lehrs Hélt eindregið fram að "Ilíonskviða" væri verk eins höfundar. Helstu ritverk. Lehrs, Karl Lehrs, Karl Guðmundur Ólafsson (fornritafræðingur). Guðmundur Ólafsson (fæddur 1652, dáinn 1695) var fornritafræðingur sem fæddist að Undirfelli í Austur-Húnavatnssýslu á Íslandi. Hann fluttist ungur til Svíþjóðar þar sem hann vann að þýðingum íslenskra fornrita á sænsku og latínu sem og umsjón útgáfna nokkurra fornrita. Hann tók saman íslenskt málsháttasafn, sem prentað var í Uppsölum árið 1930 og nefndist "Thēsaurus Adagiōrum" („Málsháttaorðabókin“ á latínu). Í handritasöfnum í Svíþjóð eru varðveittar miklar uppskriftir með hendi Guðmundar. Bróðir hans, Helgi, fékkst við söfnun íslenskra handrita handa fornritadeild Svíakonungs, og varð vel ágengt, að talið er. Jónas Rugman. Jónas Rugman eða Jón Jónsson Rugman eða Ionas Rugman Islandus (d.1679) var vel menntaður Íslendingur sem var herleiddur til Svíþjóðar 1658 í stríði Friðriks 3 við Karl Gústaf Svíakonung. Hann var strax ráðinn til að kenna íslensk fræði og íslensku þar í landi. Hann var síðar gerður að adjúnkt við Handritasafnið í Uppsölum, og þar í borg dvaldist hann til æviloka. Hann tók saman nokkrar bækur og þar á meðal "Mono-syllaba Is-landica â Jona Rvgman Collecta", sem var gefin út í Uppsölum 1676. Eggert Hannesson. Eggert Hannesson (1515? – 1583) var hirðstjóri og lögmaður og bjó í Saurbæ, sem oftast er kallaður Bær á Rauðasandi. Eggert var sonur Hannesar Eggertssonar hirðstjóra á Núpi í Dýrafirði, sem mun hafa verið norskur að ætt, og konu hans Guðrúnar eldri, dóttur Björns Guðnasonar sýslumanns í Ögri. Systir hans var Katrín, kona Gissurar Einarssonar biskups. Eggert var sveinn Ögmundar Pálssonar biskups þegar hann var ungur og mun hafa verið í Þýskalandi og Noregi í erindum hans á árunum 1538-1539 og ef til vil lengur. Síðar var hann í þjónustu Gissurar Einarssonar og fór með honum utan í vígsluferðina. Hann varð sýslumaður á Vestfjörðum um 1544 og bjó fyrst á Núpi. Hann var hirðstjóri 1551-1553 og síðan lögmaður sunnan og austan til 1556, norðan og vestan 1556-1568 og eftir það sýslumaður og umboðsmaður Helgafellsklaustursjarða. Eggert var auðugasti maður á Íslandi um sína daga og jafnframt sá voldugasti. Hann var talinn harðsnúinn og fylginn sér, enda stóð hann oft í miklu málavafstri, lögvitur og héraðsríkur. Eitt sinn meðan Eggert bjó í Saurbæ var honum rænt af enskum sævíkingum og fálkaföngurum og héldu þeir honum heilan mánuð úti á skipi, en slepptu síðan gegn háu lausnargjaldi. Eggert fluttist síðan alfarinn til Hamborgar 1580 og dó þar, að sagt var af völdum drykkjuskapar. Fyrri kona Eggerts var Sesselja Jónsdóttir en síðar kvæntist hann Steinunni Jónsdóttur, sem verið hafði fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, sem höggvinn var með föður sínum og bróður í Skálholti 1550. Eggert átti að ýmsu við barnaólán að stríða. Launsonur hans, Björn, fórst af voðaskoti, sonur þeirra Sesselju, Þorleifur, týndist í hafi og sá þriðji, Jón murti, drap mann í Síðumúla og varð að flýja land. Sagt er að frá Jóni séu ættir komnar í Hamborg. Dóttir Eggerts og Sesselju, Ragnheiður, komst aftur á móti á tíræðisaldur (f. 1550, d. 1542). Hún giftist Magnúsi prúða Jónssyni, sýslumanni í Ögri og síðar í Saurbæ, og áttu þau fjölda barna. Hirðmaður. Hirðmaður var á miðöldum maður sem sór konungi eða fursta trúnaðareið og dvaldist við hirð hans. Hirðmaður hafði sérstaka stöðu við hirðina og tiltekin réttindi. Þeir störfuðu jafnan fyrir herra sinn á eigin heimaslóðum. Nokkrir Íslendingar voru hirðmenn á þjóðveldisöld og báru ýmsa hirðtitla s.s. merkismaður, lendur maður og skutulsveinn og handgenginn maður. Össur hvíti Þorleifsson. Össur hvíti Þorleifsson var landnámsmaður. Össur slagakollur. Össur slagakollur var landnámsmaður á Íslandi. Jonathan Dancy. Jonathan Peter Dancy (fæddur 8. maí 1946) er breskur heimspekingur sem fæst einkum við þekkingarfræði og siðfræði. Hann er prófessor í heimspeki við University of Reading og University of Texas í Austin. Dancy hefur mikið fengist við þekkingarfræði skynjunar en hefur á síðari árum einnig fengist við siðfræði og athafnafræði. Hann heldur því fram að ástæður til athafna séu háðar samhengi. Greinar. Dancy, Jonathan Dancy, Jonathan Dancy, Jonathan Geoffrey Warnock. Sir Geoffrey Warnock (fæddur Geoffrey James Warnock 1923, dáinn 1995) var breskur heimspekingur og aðstoðarkanslari Oxford-háskóla. Áður en hann var aðlaður var hann best þekktur sem G.J. Warnock. Geoffrey Warnock kenndi heimspeki í Oxford en árið 1970 var hann kjörinn skólastjóri Hertford College, þar sem nú er nemendafélag og heimasist nefnd eftir honum. Hann var aðstoðarkanslari Oxford-háskóla árin 1981 til 1985. Warnock kvæntist árið 1949 Mary Warnock (nú Mary Warnock, barónessa), heimspekingi og félaga á St Hugh's College í Oxford. Þau eignuðust tvo syni og þrjár dætur. Geoffrey Warnock settist í helgan stein árið 1988 og lést sjö árum síðar. Warnock, Geoffrey Warnock, Geoffrey Mary Warnock. Helen Mary Warnock, barónessa (f. 14. apríl 1924) er breskur heimspekingur, siðfræðingur og hugspekingur. Mary Warnock kenndi heimspeki við St Hugh's College í Oxford-háskóla frá 1949 til 1966. Frá 1966 til 1972 var hún skólastjóri stúlknaskólans Oxford High School. Hún var Talbot rannssóknarfélagi við Lady Margaret Hall (1972-1976). Frá 1976-84 var hún rannsóknarfélagi á St Hugh's College og varð heiðursfélagi árið 1985. Árið síðar varð hún skólastjóri í Girton College í Cambridge og gegndi þeirri stöðu í þrjú ár. Mary Warnock giftist heimspekingnum Geoffrey Warnock árið 1949. Þau eignuðust tvo syni og þrjár dætur. Helstu rit. Warnock, Mary Warnock, Mary Warnock, Mary Alfred Edward Taylor. Alfred Edward Taylor (22. desember 1869 – 31. október 1945) var breskur heimspekingur sem er þekktastur fyrir framlag sitt til trúarheimspeki, siðfræði og Platonsfræða. Hann var félagi í Bresku akademíunni og forseti Aristotelian Society frá 1928 til 1929. Taylor hlaut menntun sína við Oxford-háskóla. Í upphafi ferils síns var hann undir miklum áhrifum frá bresku hughyggjunni. Taylor er þekktur fyrir að halda því fram að nær allt sem Platon lagði Sókratesi í munn í samræðum sínum endurspegli raunveruleg viðhorf hins sögulega Sókratesar Taylor, Alfred Edward Paul Horwich. Paul Horwich (f. 1947) er breskur heimspekingur og prófessor við New York University. Horwich hefur einkum fengist við málspeki og frumspeki, sannleika og merkingu. Horwich lauk doktorsprófi frá Cornell-háskóla þar sem hann naut leiðsagnar Arthurs Fine. Hann kenndi áður við MIT, University College London og CUNY Graduate Center. Horwich er málsvari naumhyggju um sannleikann og notkunarhyggju um merkingu. Helstu rit. Horwich, Paul Horwich, Paul Horwich, Paul Á. Á eða á (borið fram á) er 2. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. B. B eða b (borið fram bé) er 3. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 2. í því latneska. D. D eða d (borið fram dé) er 4. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 4. í því latneska. Dr. Björn Guðfinnsson kenndi að á íslensku er d ekki haft á milli tveggja sérhljóða. Undantekningarnar eru orðið sódi og kvenmannsnafnið Ída. Ð. Ð eða ð (borið fram eð) er 5. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. Ekkert orð í íslensku byrjar á bókstafnum "ð". Bókstafurinn Ð er einnig notaður í fornensku og færeysku. Hann var einnig notaður í Skandinavíu á miðöldum en var skipt út fyrir „dh“ sem seinna var breytt í „d“. Í hástaf þekkist stafurinn á því að vera eins og D með láréttu striki í gegnum miðja línuna vinstra megin. Lástafurinn þekkist á því að vera eins og lítið bogið d með strik á toppnum. Aðeins ein íslensk hljómsveit hefur notað bókstafinn ð sem fyrsta stafinn í nafninu sínu, það var hljómsveitin Ðe lónlí blú bojs. Í íslensku getur orð aldrei byrjað á ð. Það er vegna þess að bókstafurinn er raddað tannmælt önghljóð sem stendur aldrei fremst í íslensku hljóðkerfi. Í færeysku tilheyrir hann ekki neinu sérstöku hljóðkerfi, til dæmis þegar ð er fyrir framan stafinn r er það stundum borið fram [ɡ]. Eins og í íslensku er ð á eftir d í færeyska stafróinu. Tölvukóðun. Í Unicode-staðlinum er stórt ð kallað fram með kóðanum U+00D0 og lítið ð með kóðanum U+00F0. En þessir kóðar eru úr gömlum staðli, sem kallast ISO 8859-1 eða „Latin-1“. Í Linux er hægt að kalla fram ð með því að ýta á „Compose key“ og síðan á d eða h fyrir lítið ð en fyrir stórt ýtirðu á Compose key og D eða H. Ef stillt er á U.S. lyklaborðið í Mac OS X er hægt að kalla fram ð með því að halda inni Alt og ýta á d til að fá lítið ð en fyrir stórt ð heldur maður inni shift takkanum og alt og ýtir síðan á d. Í Microsoft Windows er ð kallað fram með því að halda Alt inni og slá inn 0208 á talnalyklaborðinu en fyrir lítið ð helduru inni Alt og slærð inn 0240. Á US-alþjóðlegum lyklaborðum er hægt að halda inni AltGr og ýta á d til að kalla fram ð. Málfræðingurinn Rasmus Christian Rask kom ð aftur inn í íslenskt mál. E. E eða e (borið fram e) er 6. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 5. í því latneska. É. É eða é (borið fram je) er 7. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. F. F eða f (borið fram eff) er 8. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 6. í því latneska. G. G eða g (borið fram gé) er 9. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 7. í því latneska. H. H eða h (borið fram há) er 10. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 8. í því latneska. I. I eða i (borið fram i) er 11. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 9. í því latneska. Í. Í eða í (borið fram í) er 12. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. J. J eða j (borið fram joð) er 13. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 10. í því latneska K. K eða k (borið fram ká) er 14. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 11. í því latneska. L. L eða l (borið fram ell) er 15. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 12. í því latneska. M. M eða m (borið fram emm) er 16. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 13. í því latneska. N. N eða n (borið fram enn) er 17. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 14. í því latneska. Í alþjóðlega hljóðstafrófinu táknar hann tannbergsmælt nefhljóðið. O. O eða o (borið fram o) er 18. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 15. í því latneska. Ó. Ó eða ó (borið fram ó) er 19. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. P. P eða p (borið fram pé) er 20. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 16. í því latneska. R. R eða r (borið fram err) er 21. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 18. í því latneska. S. S eða s (borið fram ess) er 22. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 19. í því latneska. U. U eða u (borið fram u) er 24. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 21. í því latneska Ú. Ú eða ú (borið fram ú) er 25. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. V. V eða v (borið fram vaff) er 26. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 22. í því latneska. Ekkert íslenskt orð endar á bókstafnum v nema kvenmannsnafnið Siv. X. X eða x (borið fram ex) er 27. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 24. í því latneska. Ekkert íslenskt orð byrjar á bókstafnum x. Y. Y eða y (borið fram ufsilon y) er 28. bókstafurinn í íslenska stafrófinu og sá 25. í því latneska. Ý. Ý eða ý (borið fram ufsilon ý) er 29. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. Ö. Ö eða ö (borið fram ö) er 32. bókstafurinn í íslenska stafrófinu. Ö sést einnig í finnsku, sænsku, þýsku, og ýmist í færeysku. Þ. Þ eða þ (skrifað "þorn", borið fram „þoddn“) er þrítugasti bókstafurinn í íslenska stafrófinu eins og það er nú haft, en var áður 34. stafurinn (á meðan c, q, z og w voru höfð með). Þ kemur aðeins fyrir í upphafi orðs ("þúfa", "þjófur") eða sem fyrsti stafur í síðari lið samsettra orða ("farþegi"), og endar því ekkert orð á bókstafnum þ. Þ er óraddað og tannmælt önghljóð í nútímamáli, og var líkt í fornmáli- en þorn var stundum ritað í staðin fyrir "ð" (t.d. "verþa"). Þ hefur verið notað samfellt í íslensku frá upphafi. Tíðni. Stafurinn þorn kemur fram í um 1,59% skipta Söngsveitin Fílharmónía. Söngsveitin Fílharmónía er blandaður kór sem var stofnaður árið 1959 til að flytja stór kórverk með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kórinn kom fyrst fram, ásamt hljómsveitinni og Þjóðleikhúskórnum, í uppsetningu á "Carmina Burana" eftir Carl Orff í Þjóðleikhússins 23. mars 1960. Þjóðþing Danmerkur. Þjóðþing Danmerkur (d. "Folketinget") er löggjafarsamkunda Danmerkur. Frá 1953 hefur þingið setið í einni deild, en fram að þeim tíma var því skipt í þjóðþingið annars vegar og landsþingið hins vegar. Fjöldi þingmanna er 179, þar af tveir frá Færeyjum og tveir frá Grænlandi, kjörnir til fjögurra ára í senn. Þjóðþingið kemur saman í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. Carl Orff. Carl Orff (10. júlí 1895 – 29. mars 1982) var þýskt tónskáld sem er þekktastur fyrir tónverkið "Carmina Burana" frá 1937. Hið íslenska fornleifafélag. Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað í Reykjavík 8. október 1879. Í lögum félagsins sem prentuð voru á sama ári segir meðal annars í fyrstu grein: „Ætlunarverk félagsins er að auka kunnáttu þjóðar vorrar með því að fræða almenning um fornleifar og sögulega þýðingu þeirra. Félagið heldur því til forngripasafnsins öllum þeim munum, er geta haft þýðing fyrir sögu vora og lífernisháttu á hinum liðna tíma, þannig að menn með safni þessu geti, að því leyti sem frekast má vera, rakið lífsferil þjóðar vorrar um hinar liðnu aldir. Að þessu styrkir og félagið með því að gefa út tímarit með fornfræðilegum ritgjörðum og skýrslum um aðgjörðir þess.“ "Árbók Hins íslenzka fornleifafélags" kom fyrst út árið 1881 og er enn gefin út árlega. "Árbókin" og Fornleifafélagið eru nátengd Þjóðminjasafni Íslands. Starfsfólk safnsins skrifar mikið í árbókina, og þar er ársskýrsla safnsins birt. Heimskautarefur. Heimskautarefur eða fjallarefur (fræðiheiti: "vulpes lagopus", áður "alopex lagopus"), einnig nefndur tófa eða refur á íslensku, er tegund refa af ættkvísl refa ("vulpes") sem tilheyrir hundaætt ("canidae"). Heimskautarefurinn er eina landspendýrið í íslensku dýraríki, sem hefur borist til Íslands án aðstoðar manna. Dýrafræðingar hafa greint ellefu undirtegundir heimskautarefsins en ekki eru allir fræðimenn sammála um þær greiningar. Tófur má finna um allar Norðurslóðir. Tegundin er í útrýmingarhættu í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og á eyjum við austur Síberíu. Nöfn á refum. Karldýrin eru oftast nefnd "steggur" eða "högni" en einnig kemur fyrir að þeir séu nefndir "refur". Kvendýrin eru nefnd "læða" eða "bleiða" en einnig kemur fyrir að þær séu nefndar "tófur". Ekkert annað dýr á Íslandi hefur haft eins mörg heiti. Má það meðal annars rekja til þeirrar algengu trúar um alla Evrópu að ekki megi nefna nafn hins illa upphátt til þess að kalla hann ekki fram. Fyrir utan þau algengustu refur og tófa má nefna: dratt(h)ali, gortanni, lágfóta, melrakki, skaufhali, skolli og vemma. Refir sem leggjast á fé eru nefndir "bítur", "dýrbítur" og "bitvargur". "Snoðdýr" er tófa sem aldrei fær fallegan belg með vindhárum. Refalæða sem lögst er í greni til að gjóta er kölluð "grenlægja". Afkvæmið nefnist "yrðlingur". Einkenni. Tófan er einstaklega vel hæf til að lifa í heimskautaloftslagi og hefur mjög þéttan feld sem einangrar hana vel, jafnvel í miklum kulda. Um 70% af feldinum er undirhár sem gerir það mögulegt að halda eðlilegum líkamshita þó umhverfið fari allt niður í 35°C frost. Feldurinn er sem þéttastur frá desember til mars. Tófan hefur mjög stutt skott, trýni, háls og lítil eyru miðað við aðrar refategundir og hefur þróast þannig til að takmarka hitatap. Villtar verða tófur 6–10 ára gamlar, en geta orðið allt að 20 ára undir mannahöndum. Fullorðnir íslenskir refir eru á bilinu 3 til 4,5 kg að þyngd. Líkaminn er 40 til 70 cm frá trýni aftur á rass, skottið er svo 30 cm í viðbót. Hæðin upp á herðakamb er um 30 cm og líkist tófan litlum hundi. Tófan er aðallega á ferðinni að degi til, ekki síst í ljósaskiptum kvölds og morgna. Tvö meginlitarafbrigði eru af tófu, hvít dýr og mórauð. Hvítu dýrin hafa hvítan feld að vetrarlagi en á sumrin mógrábrún á baki og utan á útlimum en grá á kviðnum og innan á útlimum. Mórauðu tófurnar eru dökkbrúnar allt árið um kring. Á Íslandi er um 70% dýranna mórauð en á heildina litið er hvíta litarafbrigðið í miklum meirihluta. Mórauðir refir eru einkum á eyjum og við strendur en á meginlandi Síberíu og stærstum hluta heimskautasvæðis Kanada eru hvítir refir um 90% af stofninum. Útbreiðsla. Heimskautarefurinn lifir á eyjum og meginlöndum allt í kringum Norðurslóðir. Á tveimur svæðum er stofninn í útrýmingarhættu, annars vegar á Fennóskandíuskaganum, þar má nú einungis finna refi af þessari tegund hátt til fjalla í suður Noregi og norður Svíþjóð og þar að auki nyrst í Finnlandi og á norðurhluta Kolaskaga og hins vegar á eyjunum austan við Kamtsjatkaskaga. Annars staðar á útbreiðslusvæðinu, frá norðurhluta Rússlands austur Síberíu, Alaska og heimskautasvæði Kanada og einnig á Grænlandi, Íslandi og Svalbarða er stofninn í góðu ástandi. Jan Mayen og Bjørnøya (Bjarnarey við Svalbarða) eru þó undantekningar en þar var tófum útrýmt um 1930 vegna ofveiði. Aðstæður á útbreiðslusvæðinu eru mjög breytilegar, allt frá tiltölulega mildu loftslagi á suðurhluta Alaska og á eyjum í Beringssundi til freðmýranna á kanadísku heimskautaeyjunum og í Síberíu þar sem einna kaldast verður á jörðinni. Útbreiðslan takmarkast að sunnan á meginlandssvæðunum af útbreiðslu rauðrefs ("Vulpes vulpes"). Rauðrefur drepur iðulega tófur og hrekur þær burtu þar sem vistarsvæði skarast enda er tófan um 25% minni en rauðrefurinn. Útbreiðsla rauðrefs norður eftir ræðst af framboði af æti en rauðrefur er miklu þurftarfrekari en tófa og þolir þar að auki miklu ver kulda. Undirtegundir. Dýrafræðingar hafa greint ellefu undirtegundir heimskautarefa en fjöldi tegunda er umdeild. Æti og lifnaðarhættir. Refurinn er bókstafleg alæta. Nyrst á Norðurslóðum er algengt að refir fylgi ísbjörnum og éti selshræ sem þeir leifa. Víðast hvar á útbreiðslusvæðinu lifa þeir aðallega á nagdýrum ýmiss konar, sérstaklega eru læmingjar mikilvægur hluti fæðunnar. Hræ af ýmsum toga, til dæmis af sjávarspendýrum, hreindýrum og sauðfé eru mikill þáttur í fæðuvalinu. Tófan fúlsar ekki heldur við úrgangi manna ef til fellur. Á Íslandi eru fuglar aðaluppistaða í fæði tófunnar. Sjófuglar, fýll, mávar og svartfugl eru mikilvægir við strendurnar en að sumarlagi inn til lands eru farfuglar svo sem gæsir, vaðfuglar og spörfuglar aðalfæðan og rjúpa að vetrarlagi. Refir safna gjarna fæðu ef nóg er framboðið, þeir grafa niður bita hér og þar til seinni tíma. Dýrafræðingar hafa sýnt fram á að tófan notar bæði lyktarskyn og minni til að finna felustaðina. Steggurinn og læðan mynda par sem heldur saman meðan bæði lifa. Yrðlingarnir fæðast eftir um 50 daga meðgöngu og er oftast um miðjan maí á Íslandi. Þeir eru blindir við fæðingu en augun opnast þegar þeir eru um 15 daga gamlir. Fyrstu þrjár vikurnar eru yrðlingarnir algjörlega háðir móðurmjólkinni en fara síðan að éta annað æti í auknum mæli. Við 6 til 10 vikna aldur venur læðan þá af spena. Yrðlingarnir fara fyrst að leita út fyrir grenið við fjögurra vikna aldur og eru þá enn dökkbrúnir á lit. Um átta vikna gamlir eru þeir búnir að fá litarfar fullorðna refa. Að öllu jöfnu fara yrðlingarnir af greni þegar þeir eru um það bil 12 vikna gamlir, sem er snemma í ágúst á Íslandi. Stærsti hluti heimskautarefa lifir aðallega á læmingjum. Læmingjastofninn er mjög misstór og fylgir nokkuð reglulegum sveiflum milli ára. Þar sem heimskautarefir lifa aðallega á læmingjum aðlagast tímgun þessum sveiflum. Fjöldi yrðlinga fylgir þessu, í góðum læmingjaárum getur læðan átt allt að 25 afkvæmi þó það sé sjaldgæft. Venjulega, og á það einnig við á Íslandi, eignast tófan um 6 yrðlinga á ári. Greni refsins er margvísleg og fer það eftir staðháttum. Oft eru þau í stórgrýtisurðum en þau geta einnig verið grafin í moldarjarðveg. Vitað er að greni geta verið notuð í áratugi og hugsanlega árhundruð. Þau geta þakið mjög stórt svæði, meðalstærð grenja sem var mæld voru í Noregi reyndist vera 363 m² og höfðu 27 innganga. Tófuparið markar sér heimasvæði sem það fer um í ætisleit og ver það gegn öðrum refum. Þó kemur fyrir að heimasvæði refapara skarist og virðast bardagar milli granna vera sjaldgæfir. Íslenska tófan. Tófa í vetrarbúningi í ætisleit Talið er að refir hafi komið til Íslands þegar í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og hafi upphaflega borist hingað með hafís. Íslenski refastofninn er mjög sérstakur vegna langvarandi einangrunar frá öðrum refastofnum og aðlögunar að sérstökum aðstæðum hérlendis enda greind sem sérstök undirtegund, "Alopex lagopus fuliginosus" (sem nánast má þýða sem "sótarrefur"). Það er þó sennilegt að grænlenskar tófur hafi borist til Íslands með hafís öðru hvoru þó engar heimildir séu til um það. Áætlað er að íslenski refastofninn árið 2007 sé á bilinu 6000 til 8000 dýr. Allt frá landnámi haf veiðar verið stundaðar á refum og var bændum og búaliði mjög illa við þá. Bæði var að tófan var talin skæður keppinautur um fugla ekki síst æðarfugla, egg þeirra og unga. En sérstaklega var sauðfé í hættu og einnig hænsni. Nú eru dýrbítar nánast úr sögunni hvort sem því veldur aukið eftirlit eða hraustlegri kindur. Refarækt. Refir hafa verið ræktaðir alllengi erlendis en refarækt hófst á Íslandi upp úr 1930 og átti að glæða atvinnumöguleika í sveitum. Sú ræktun leið undir lok eftir nokkra áratugi en hófst að nýju upp úr 1980. Árið 2004 voru 13 refabú á landinu og framleiddu þau um 15.000 refaskinn á ári. Tvær refategundir eru notaðar í loðdýrarækt á Íslandi. Önnur tegundin er það afbrigði af heimskautaref sem oftast er nefnt blárefur og er um 90% af stofninum á Íslandi. Blárefir eru upphaflega ættaðir frá Alaska en síðar hefur þeim verið blandað við refi frá Kanada, Grænlandi, Svalbarða og Síberíu. Þeir eru stærri en íslensku tófurnar, oftast ljósari á lit og miklu frjósamari. Blárefir og villta tófan eru af sömu tegund og geta þau átt frjó afkvæmi innbyrðis og hefur það oft komið fyrir þegar refir hafa sloppið úr búri. Hin tegundin eru kallaðir silfurrefir og er það litarafbrigði af rauðref ("Vulpes vulpes"). Þar að auki eru ræktaðir svo nefndir gullrefir sem einnig er litarafbrigði af rauðref. Rauðrefir og þar með silfurrefir geta átt afkvæmi með heimskautaref en þau eru ófrjó vegna þess að þetta eru skildar tegundir (eins og múlasnar). Talvert hefur verið um það að silfurrefir hafa sloppið frá refabúum hérlendis en þeir hafa ekki tímgast í náttúrunni svo vitað sé. Ein undantekning er þó, vitað er að silfurrefur æxlaðist með villtum íslenskum ref í Lóni, Kelduhverfi 1945 og er það eina dæmið sem vitað er í heiminum um að rauðrefur og heimskautarefur hafi æxlast úti í náttúrunni. Arnbjörg (landnámskona). Arnbjörg var landnámskona. Hún bjó á Arnbjargarlæk í Borgarfirði. Arndís auðga Steinólfsdóttir. Arndís hin auðga Steinólfsdóttir var landnámskona. Arngeir (landnámsmaður). Arngeir var landnámsmaður. Hann nam alla Melrakkasléttu milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur. Hann bjó í Hraunhöfn. Atli Valason. Atli Volason hét landnámsmaður sem nam land á Snæfellsnesi með Ásmundi syni sínum frá Furu til Lýsu. Graut-Atli Þórisson. Graut-Atli Þórisson var landnámsmaður og nam eystri strönd Lagarfljóts milli Gilsár og Vallaness vestan Öxnalækjar. Munkaþverárklaustur. Munkaþverárklaustur var íslenskt munkaklaustur af Benediktsreglu, stofnað 1155 að Þverá í Eyjafirði af Birni biskup Gilssyni. Í banalegu sinni nokkrum árum síðar gaf Björn biskup klaustrinu hundrað hundraða frá Hólastól. Þegar Guðmundur Arason varð biskup á Hólum voru húsakynni klaustursins í mikilli niðurníðslu og fékk biskup Sigurð Ormsson Svínfelling, sem haft hafði staðarforráð á Hólum 1203-1204, til að taka við klausturforráðum á Munkaþverá og sjá um uppbyggingu þar. Ormur faðir Sigurðar hafði einmitt endað ævina sem munkur þar 1191 og Ormur, sem var ábóti þegar Sigurður kom að klaustrinu, mun hafa verið frændi hans. Sigurður reisti við staðinn, flutti svo að Möðruvöllum en gerðist munkur á Þverá í ellinni og dó þar 1235. Eftir Svartadauða 1402 var mjög lengi ábótalaust á Munkaþverá, eða í nærri 30 ár. Í janúarlok 1429 brann klaustrið og kirkjan að næturlagi og allt það fé og gripir sem þar voru. Tveir prestar fórust í eldunum og sá þriðji, Þorgils, sem verið hafði forráðamaður klaustursins, brenndist svo illa að honum var ekki hugað líf. Hann varð þó næsti ábóti á Munkaþverá. Á seinni hluta 15. aldar var Einar Ísleifsson ábóti í Munkaþverárklaustri. Hann var ömmubróðir Jóns Arasonar, síðar biskups, sem ólst upp í Grýtu, litlu koti í grennd við klaustrið og naut menntunar í klaustrinu. Minnisvarði um Jón Arason var reistur í minningarlundi á Munkaþverá árið 1959. Klaustrið stóð fram til 1551, þegar Tómas Eiríksson ábóti lét af embætti og Ormur Sturluson lögmaður fékk umboð klausturjarðanna. Þá lauk klausturlifnaði á Munkaþverá, sem hafði staðið þar í nær 400 ár. Þingeyraklaustur. Þingeyraklaustur var klaustur á Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu af Benediktsreglu sem talið er að Jón Ögmundsson biskup á Hólum hafi stofnað 1112 en það var formlega sett 1133. Sagt er að Jón biskup hafi farið til vorþings á Þingeyrum á hörðu vori skömmu eftir að hann tók við biskupsdómi og hafi þá heitið því til árs að reisa klaustur á Þingeyrum. Gaf hann til klaustursins allar kirkjutíundir af eignum milli Hrútafjarðar og Vatnsdalsár. Vinur hans Þorkell prestur trandill sá um klausturbygginguna en ekki náðist að ljúka henni fyrr en tólf árum eftir lát Jóns biskups, sem dó 1121. Klaustrið varð mjög auðugt og var eitt helsta klaustur landsins. Margir munkanna voru fræðimenn. Í klaustrinu voru samin og skrifuð upp ýmis fornrit, sem enn eru til og stóð klaustrið í miklum blóma þegar Karl Jónsson var þar ábóti. Þá voru í klaustrinu margir lærðir menn, svo sem munkarnir Gunnlaugur Leifsson og Oddur Snorrason. Einnig átti klaustrið blómaskeið á tíma Guðmundar ábóta (1309-1338) og Arngrímur Brandsson, sem var ábóti 1350-1361, var líka mikill fræðimaður. Það stappaði nærri að Svartidauði lagði staðinn í eyði eftir aldamótin 1400, og sagt er að aðeins einn munkur hafi verið eftir í klaustrinu þegar pláguna lægði. Ekki er vitað með vissu um ábóta þar aftur fyrr en 1424. Þingeyraklaustur stóð til siðaskipta. Séra Björn Jónsson á Melstað, sonur Jóns biskups Arasonar, var til aðstoðar síðasta ábótanum, Helga Höskuldssyni, sem orðinn var gamall og hrumur, en var höggvinn með föður sínum og bróður 1550. Klausturlifnaður hélst til næsta sumars en þá var klaustrið lagt af og 65 jarðir sem það átti féllu til konungs. Refir. Refir eru lítil og meðalstór rándýr af hundaætt ("Canidae"). Til eru um 27 tegundir refa. Refir lifa í flestum heimsálfum en algengastir þeirra eru rauðrefir ("Vulpes vulpes"). Refir eru þekktir úr þjóðsögum margra þjóða um allan heim. Nöfn á refum eru ólík nöfnum flestra annarra hunddýra. Karldýrin eru oftast nefnd steggur eða högni en einnig kemur fyrir að þeir séu nefndir refur. Kvendýrin eru nefnd læða eða bleiða en einnig kemur fyrir að þær séu nefndar tófur. Afkvæmi refa kallast yrðlingar. Almenn einkenni. Flestir refir lifa í tvö til þrjú ár en geta lifað í allt að tíu ár og jafnvel lengur í dýragörðum. Flestar tegundir refa eru á stærð við holdugan heimiliskött og eru því töluvert minni en aðrar tegundir innan hundaættar, svo sem úlfur, sjakalar, og hundar. Refir hafa venjulega hvasst trýni og þykkloðna rófu sem kölluð er tæfill. Flest önnur einkenni eru breytileg eftir heimkynum refa. Eyðimerkurrefir hafa til að mynda stór eyru og snöggan feld en heimskautarefir hafa lítil eyru og þykkan og hlýjan feld. Refir eru yfirleitt ekki hópdýr, ólíkt flestum öðrum tegundum innan hundaættar. Þeir eru jafnan einfarar og tækifærissinnar þegar kemur að æti. Þeir veiða oftast lifandi bráð en éta einnig hræ, ávexti og ber. Refir teljast fremur mannafælur en hitt og flokkast ekki sem góð gæludýr. Það er helst að temja megi silfurrefi eins og í Rússlandi þar sem þeir hafa verið ræktaðir í um hálfa öld. Þrátt fyrir mannfælni villtra refa sjást þeir býsna oft nálægt mannabústöðum. Ráðuneyti Björns Þórðarsonar. Ráðuneyti Björns Þórðarsonar (stundum kallað "Coca-Cola"-stjórnin) var íslensk ríkisstjórn sem sat frá 16. desember 1942 til 21. október 1944. Við skipun stjórnarinnar var brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu, þar sem enginn ráðherranna sem skipaðir voru átti sæti á Alþingi, stjórnin var eina utanþingsstjórn Íslands. Viðurnefnið fékk stjórnin sökum þess að tveir ráðherrar stjórnarinnar, Björn og Vilhjálmur, voru hlutafar í Vífilfelli, sem fékk einkaleyfi til innflutnings á gosdrykknum Kóka kóla. Þá var Vilhjálmur Þór meðal forsvarsmanna Sambands Íslenskra Samvinnufélaga er fékk umboð til olíusölu sem varð grunnur starfsemi Olíufélagsins hf. 1261. a> lét slá til að minnast þess er menn hans náðu Konstantínópel á sitt vald að nýju. Auðólfur (landnámsmaður). Auðólfur var landnámsmaður. Hann nam Öxnadal niður frá Þverá til Bægisár. Hann bjó á Syðri-Bægisá. Hrollaugur Rögnvaldsson. Hrollaugur Rögnvaldsson var landnámsmaður í Suðursveit. Hann var hálfbróðir Göngu-Hrólfs, sem gerðist hertogi í Normandí. Derek Parfit. Derek Parfit (f. 11. desember 1942) er breskur heimspekingur sem fæst einkum við hugspeki og siðfræði og tengsl þeirra, vandann um sjálf og samsemd þess og eðli skynseminnar. Rit hans "Reasons and Persons" frá 1984 hefur haft mikil áhrif á þessu sviði. Parfit er rannsóknarfélagi á All Souls College í Oxford og reglulegur gistiprófessor í heimspeki við New York University, Harvard University og Rutgers University. Parfit, Derek Parfit, Derek Parfit, Derek Anthony Kenny. Sir Anthony John Patrick Kenny (f. 16. mars 1931 í Liverpool á Englandi) er enskur heimspekingur sem fæst einkum við hugspeki, trúarheimspeki og heimspekisögu, einkum fornaldarheimspeki, miðaldaheimspeki og skólaspeki sem og heimspeki Ludwigs Wittgenstein. Helstu ritverk. Kenny, Anthony Kenny, Anthony Kenny, Anthony Crispin Wright. Crispin James Garth Wright (f. 21. desember 1942) er breskur heimspekingur, sem hefur fjallað um heimspeki stærðfræðinnar í anda Gottlobs Frege, um heimspeki Ludwigs Wittgenstein og um málspekileg, frumspekileg og þekkingarfræðileg efni, svo sem sannleikann, hluthyggju, efahyggju, þekkingu og hlutlægni. Hann er prófessor í rökfræði og frumspeki við St. Andrews-háskóla og er reglulegur gistiprófessor við New York University. Hann hefur einnig kennt við Michigan-háskóla, Oxford-háskóla, Columbia-háskóla og Princeton-háskóla. Helstu rit. Wright, Crispin Wright, Crispin Wright, Crispin Bernard Williams. Bernard Arthur Owen Williams (21. september 1929 – 10. júní 2003) var breskur heimspekingur sem var af mörgum talinn einn mikilvægasti breski siðfræðingur sinnar kynslóðar. Hann var Knightsbridge-prófessor í heimspeki við Cambridge-háskóla í rúman áratug og síðar Deutsch-prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Williams varð þekktur alþjóðlega fyrir tilraunir sínar til þess að snúa aftur að rótum siðfræðinnar: að sögu og menningu, stjórnmálum og sálfræði og ekki síst til Forn-Grikkja. Honum var lýst sem „rökgreiningarheimspekingi með sál húmanista“. Hann hafnaði smættarhyggju og lét eitt sinn hafa eftir sér að smættarhyggjumenn væru þeir sem honum mislíkaði raunverulega. Williams vildi greiða götu kvenna innan háskólasamfélagsins og Martha Nussbaum sagði að hann væri eins nálægt því að geta talist femínisti eins og maður í hans stöðu gæti nokkurn tíma orðið.. Tenglar. Williams, Bernard Williams, Bernard Williams, Bernard Hilmar Finsen. Søren Hilmar Steindór Finsen (24. janúar 1824 – 15. janúar 1886), sem gekk oftast undir nafninu Hilmar Finsen á Íslandi, var dansk-íslenskur stjórnmálamaður sem gegndi margvíslegum embættum á vegum danska ríkisins á embættisferli sínum. Hann var stiftamtmaður á Íslandi og fulltrúi konungs á Alþingi á árunum 1865-73, fyrsti landshöfðingi Íslands 1873-82, borgarstjóri Kaupmannahafnar 1883-84 og innanríkisráðherra Danmerkur í rétt tæplega ár, 1884-85. Ævi. Hilmar fæddist í Kolding á Jótlandi. Foreldrar hans voru Jón Finsen, héraðsfógeti, og Katharina Dorothea en Jón var sonur Hannesar Finnssonar biskups. Hilmar var uppalinn í Danmörku. Árið 1841 útskrifaðist hann frá grunnskóla í Kolding og fimm árum seinna, 1846 lauk hann embættisprófi í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Á meðan dvöl hans í Kaupmannahöfn stóð kynntist hann mörgum af þeim sem áttu eftir að verða fyrirferðamiklir seinna meir, þeirra á meðal Orla Lehmann, Ditlev Gothard Monrad, Carl Christian Hall, Carl Ploug o.fl. Hann tók þátt í fyrra Slésvíkurstríðinu (einnig þekkt sem "Þriggja ára stríðið") sem herdómari. Árið 1850 var hann skipaður borgarstjóri Sønderborg, þeirri stöðu gegndi hann í fjórtan ár til 2. júlí 1864 en þá hertóku Prússar hana í Síðara Slésvíkurstríðinu. Í tæplega hálft ár, frá mars og fram í nóvember það ár sat Hilmar á danska þjóðþinginu. Þann 8. maí 1865 var hann gerður að stiftamtmanni yfir Íslandi og varð þar með æðsti embættismaður Íslands undir kónginum. Danakonungur hafði ekki skipað stiftamtmann frá því að Trampe greifi lét af embættinu fimm árum fyrr en í millitíðinni hafði Þórður Jónassen sinnt embættisskyldum stiftamtmanns. Hilmar kom til Íslands og var svo gerður að fyrsta landshöfðingjanum 1. apríl 1873. Því embætti gegndi hann í áratug en þá fluttist hann aftur til Danmerkur og tók við embætti yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar. Hilmar var innanríkisráðherra Danmerkur í rétt tæplega ár, 1884-85. Hann lést 15. janúar 1886. Hernám Íslands. Hernám Íslands eða hernámsárin var það tímabil í sögu Íslands þegar landið var hernumið í síðari heimsstyrjöld, fyrst af Bretum árið 1940 og síðan tóku Bandaríkjamenn við. Ekki kom til átaka vegna hernámsins enda voru Íslendingar hliðhollir bandamönnum í stríðinu. Eftir stríðið gerði ríkisstjórn Íslands varnarsamning við Bandaríkjamenn og gekk í NATO árið 1949. Ísland var hernumið vegna þess að landið var talið hafa hernaðarlegt mikilvægi. Á Norður-Atlantshafi geysaði ótakmarkaður kafbátahernaður og miklar orrustur voru háðar á sjó úti eins og til dæmis Orrustan við Grænlandssund þann 24. maí 1941. Þegar Bretar hernámu Ísland aðfaranótt 10. maí 1940 voru átta mánuðir frá því að heimsstyrjöldin síðari hófst og á þeim tíma höfðu Þjóðverjar hernumið hluta Póllands og síðan Danmörku og Noreg. Ljóst var að innrás vofði yfir Frakklandi, Belgíu og Hollandi og raunar réðust Þjóðverjar inn í Belgíu, Holland og Lúxemborg sama dag og Ísland var hernumið. Hernám Breta var til að koma í veg fyrir að Ísland félli undir þýsk yfirráð en Þjóðverjar höfðu sýnt landinu töluverðan áhuga á árunum fyrir styrjöldina vegna hernaðarlegs mikilvægis þess í tengslum við siglingar um Norður-Atlantshaf. Ísland hafði lýst yfir hlutleysi og ríkisstjórnin mótmælti hernáminu og neitaði að ganga formlega til liðs við Bandamenn. Fyrsta verk Bretanna var að handtaka þá Þjóðverja sem á Íslandi voru og senda þá í fangabúðir í Bretlandi. Þann 28. maí 1941 ákvað Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, að Bandaríkin skyldu taka við hervörslu Íslands. Stundum er vitnað til þessa tímabils sem „blessað stríðið“ því hernám Breta og svo yfirtaka Bandaríkjanna var það sem kom Íslandi upp úr kreppunni og atvinnuleysinu sem ríkt hafði á Íslandi frá því heimskreppan skall á. Breytingar urðu á lífsháttum Íslendinga. Fólki var skipað að bera á sér persónuskilríki sem því var skylt að sýna hermönnum ef þess var óskað. Aðdragandinn að hernáminu var mjög stuttur eða fjórir dagar. Hernámið. Um þrjú leitið aðfaranótt föstudagsins 10. maí árið 1940 vöknuðu nokkrir Reykvíkingar við flugvélarhljóð. Þar var bresk herflugvél af herskipinu Berwick á ferðinni sem kom fljúgandi úr vestri en þetta voru ein mestu mistök sem breski herinn gerði í hernámi Íslands. Alls ekki átti að draga athygli að Bretum og sérstaklega ekki þessa tilteknu nótt. Þennan sama morgunn urðu svo nokkri Reykvíkingar varir við sjö herskip úti á sjó sem stefndu að ytri höfninni. Klukkan 3:40 var íslensku lögreglunni tilkynnt að bresk herskip hefðu lagt upp að gamla hafnarbakkanum í Reykjavík og var það Einar Arnald, fulltrúi lögreglustjóra, sem brást við fregnunum. Einar bjóst þegar til að fara út í herskipin og tilkynna þeim reglur landsins, en á meðan hann beið kom tundurspillir að hafnarbakkanum og út úr honum komu 746 alvopnaðir hermenn sem tóku stefnuna beint upp í bæ. Þegar þetta er að gerast er klukkan orðin fimm um morguninn og krafðist Einar að fá að vita hvað sé á seyði. Breski ræðismaðurinn John Bowernig neitaði að svara en seinna kom í ljós þegar Bretar dreifðu tilkynningu til Íslendinga og breskur sendiherra fór á fund með íslensku ríkisstjórninni sem mótmælti þessu broti á hlutleysi landsins. Tilkynning þessi var svo síðar um daginn lesin í útvarpinu ásamt því að forsætisráðherra flutti útvarpsávarp þar sem hann skýrði þjóðinni frá viðburðum dagsins. Bretar lögðu mikla áherslu á friðsamlega sambúð og var hermönnum skyldugt að koma vel fram við Íslendinga. Það fyrsta sem herliðið gerði var að fara á tvo staði. Fyrst var farið til þýska ræðismannsins Werner Gerlach, sem var í óða önn að brenna ýmsa pappíra þegar bresku hermennirnir komu. Fjölskylda Gerlach og hann voru handtekin og voru flutt niður á höfn og þaðan flutt ásamt um 30 Þjóðverjum sem þeir töldu hættulega í fangabúðir í Bretlandi. Bresk hernaðaryfirvöld voru ákaflega tortryggin gagnvart Þjóðverjum á Íslandi og fylgdust vel með þeim. Þeir lokuðu um tíma helstu vegum til Reykjavíkur og tóku á sitt vald helstu fjarskiptastöðvarnar; Loftskeytastöðina, Pósthúsið, Landssímann og Ríkisútvarpið. Byrjuðu á Landsímahúsinu til að loka fyrir allt símasamband við höfuðborgina. Er Bretarnir hertóku Landsímahúsið lá þeim svo á að þeir brutu hurðina upp. Þetta er eina tjónið sem varð í hertöku Íslands. Reykjavík var einangruð og íbúar vissu varla hvað gekk á. Nokkrir bílar höfðu komist út fyrir borgarmörkin áður en Bretarnir lokuðu vegunum og bárust fréttirnar út á land. Viku síðar, eða þann 17. maí, fjölgaði í hernámsliðinu, eða um 3728 hermenn sem byggðu sér bækistöðvar víða um land. Flestir hermannanna voru þó í Reykjavík og nágrenni. Aðdragandi og lifnaðarhættir. Aðdragandinn að hernámi Íslands var vægast sagt mjög stuttur, en þann 28. apríl ákváðu Bretar að hernema landið. Bretar vildu ekki hertaka landið en sáu sér engra annarar kosta völ þar sem þeir sáu ekki fram á að geta fengið Íslendinga í lið með sér um að koma upp bækistöðvum fyrir flugvélar breska flotans á Íslandi. Þessi stutti undirbúningur gerði það af verkum að margt var ekki eins og það átti að vera. Hermennirnir voru í lítilli þjálfun, margir mjög ungir og að prófa vopnin í fyrsta skipti á skotæfingum hér á landi. Margir urðu sjóveikir og er það í raun lán að ekki var veitt mikil mótspyrna hér á landi þegar Bretarnir gengu í land því ekki er hægt að vita hvernig það hefði orðið með þessa óþjálfuðu menn. Um 2000 hermenn tóku þátt í hernámi Íslands og áttu mikið fleiri eftir að koma til landsins. Áttu hermenn Breta eftir að verða rúmlega 25.000 og var mikil vinna í vændum fyrir þá því íslendingar voru ekki færir um að veita 20.000 hermönnum húsnæði. Innflutningur á bröggum var hafinn um sumarið og voru fluttir yfir 20.000 braggar hingað til lands frá Bretlandi. Breskir hermenn og íslenskir verkamenn byrjuðu að setja saman braggana og í október voru flestir hermennirnir komnir með húsaskjól. Fljótlega hófst svo gerð flugvallar í Vatnsmýri í Reykjavík. Þetta var hluti af bretavinnunni og þeir sem fengu vinnu fengu greitt með einhvers konar ávísunum sem þeir fóru með til herforingja sem leystu þær út hjá herstöðinni. Urðu þó nokkrar breytingar á lifnaðarháttum Íslendinga á þessum árum. Fullorðnum einstaklingum var sagt að bera á sér sérstök persónuskilríki sem þeim bar að sýna hermönnum ef þess var krafist. Var þetta fyrst aðeins í Reykjavík en árið 1942 urðu allir þeir sem ætluðu að ferðast um mikilvægustu bæina og hafnirnar að hafa þessi skilríki á sér. Var þetta þó aðallega þar sem mesti viðbúnaðurinn var í sambandi við herinn, til dæmis í Hvalfirði. Miklar breytingar urðu einnig á búhögum Íslendinga. Áður var það undantekning ef Íslendingar höfðu samskipti við útlendinga en allt í einu varð allt fullt af útlendum hermönnum. Hefur sú staða sem kom upp á landinu verið „nefnd „tvíbýli“: þ.e. að á landinu byggju í svipinn tvær þjóðir, herinn og óbreyttir Íslendingar.“ Koma hersins þótti börnum virkilega spennandi og ævintýralega og sóttu þau mikið í hermennina sem voru þeim mjög góðir. Gáfu þeim stöku súkkulaði, leyfðu myndatöku og sýndu þeim vopnin. En brottflutningur barna frá Reykjavík og fjölmennustu kaupstöðunum átti sér stað fljótlega eftir hernámið. Fyrsti hópurinn lagði af stað frá Reykjavík 2.júlí. En alls voru 610 börn frá Akureyri, Hafnarfirði og Reykjavík vistuð á 15 sumardvalarheimilum víðs vegar um landið og að auki voru um 3000 vörn á sveitaheimilum úti um allt land. Bretum var mikið í mun að fá Íslendinga á sitt band og var hermönnunum skipað að koma vel fram við Íslendinga. Margir landsmenn vinguðust við hermennina en þegar her og þjóð býr saman verða allaf einhver ósætti. Íslendingar voru ekki búnir að segja skilið við sjálfstæðisbaráttuna og þjóðernisstefnan var þeim meðfædd. Karlar urðu afbrýðisamir út í Bretana sem tóku frá þeim stúlkurnar og auk þess voru sumir vissir um að „ástandið“ myndi ógna þjóðerni Íslendinga. Tóku Bretar fljótlega eftir því að flestir Íslendingar voru fegnir því að það voru Bretar sem hertóku landið en ekki Þjóðverjar og var viðmót Íslendingar yfirleitt betra en þeir höfðu þorað að vona. Einnig lögðu Bretar mikið upp úr því að allt tjón sem breski herinn olli yrði greitt að fullu. Landsmenn voru hvattir til að tilkynna allt tjón og sérstök kvörtunarnefnd var stofnuð hér á landi sem tók við kvörtunum og afgreiddi þær. Í kvörtunarnefndinni sátu bæði fulltrúar Íslendinga og breska hersins og hafði breski herinn umboð til að greiða allar minni háttar kröfur en hærri kröfur urðu að fara í gegnum breska stríðsráðuneitið í Lundúnum. Bretavinnan. Bretavinnan varð til þess að kreppan tók enda hér á landi og það mikla atvinnuleysi sem hafði verið á landinu í all nokkurn tíma tók enda. Engir flugvellir voru á landinu og þar sem breska hernámsliðinu lá á að hefja eftirlit úr lofti sendi breski flotinn strax sveit lítilla sjóflugvéla sem starfaði á Íslandi um sumarið. Einnig huggðust þeir á flugvallagerð í Vatnsmýrinni og reisa upp braggahverfi ásamt öðrum framkvæmdum víðs vegar um landið. En til þess þurftu þeir vinnuafl. Mikið atvinnuleysi hafði geysað á Íslandi og var ástand mjög slæmt. En með komu hernámsliðsins fengu íslenskir verkamenn næg verkefni við að grafa skurði, reisa byggingar, girða, leggja vegi og flugbrautir. Bretar borguðu mun hærri laun en Íslendingar höfðu nokkurn tíman áður þekkt og var því mjög eftirsóknarvert að vinna fyrir Breta. Þar fyrir utan fara Íslendingar að græða á siglingum með fisk til Bretlands. Atvinnuleysið minnkaði verulega og loks árin 1941-42 var enginn skráður atvinnulaus. Bretavinnan hófst svo að segja strax á hernámsdaginn og ekki leið langur tími þar til flest öll iðnaðarfyrirtæki í Reykjavík og víðar voru að drukkna í verkefnum. Einnig þurfti iðnaðarmenn í braggabyggingar, bílstjórar voru vinsælir og þeir sem kunnu eitthvað í ensku voru ráðnir sem túlkar. Einnig réðu þeir eftirlitsmenn með flugvélaferðum þrátt fyrir að skipverjar og símastöðvarfólk þyrfti að tilkynna alla flugvélaumferð til lögreglu. Þetta ferli krafðist þess að Landsíminn væri opinn allan sólarhringinn, sem hann var. Læknar og hjúkrunarfólk bjó sig undir að taka á móti særðum og skátar stofnuðu sveit til að annast hjálp í viðlögum. Einnig sóttu breskir hermenn mikið í að fá ískenskar húsmæður til að þvo föt og annað og varð Bretaþvotturinn vinsælt starf. Þvotturinn var þó gagnrýndur fyrir „náin“ kynni hermanna við fjölskyldur. Einnig á Bretavinnan þátt í þéttbýlismyndun á Íslandi þar sem hernum vantaði meira vinnuafl en fékkst í Reykjavík og margir sveitamenn flykktust til borgarinnar til að fá vinnu. Á örskömmum tíma hafði kreppan og þetta mikla atvinnuleysi sem Íslendingar höfðu þurft að þola gufað upp og þjóðin hafði aldrei staðið betur fjárhagslega. Bandaríkjamenn. Þann 28. maí 1941 ákvað Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, að Bandaríkin skyldu taka við hervörslu Íslands, þótt þeir teldust enn hlutlausir í stríðinu, samkvæmt herverndarsamningi sem íslenska ríkisstjórnin gerði við þá 1. júlí. Þar með lauk hernámi Íslands í raun. Það var svo þann 7.júlí 1941 sem Íslendingar gerðu herverndarsamning við Bandaríkin. Fyrstu bandarísku hermennirnir komu svo til landsins stuttu síðar en Bretarnir byrjuðu ekki með skipulagða brottflutninga héðan frá Íslandi fyrr en í desember 1941. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins af Bretum sögðu þeir að Bretar hefðu líklegast ekki getað tekið á móti Þjóðverjum ef þeir hefðu gert árás úr lofti því varnir þeirra voru ekki í standi til að taka á móti eins sterkum her og her Þjóðverja. Herverndarsamningurinn eru tímamót í sögu Íslands og í kjölfar hans opnaðist Bandaríkjamarkaður enn frekar fyrir Íslendingum. Með þessum öfluga her kom alls kyns tækni til dæmis má nefna jeppa, gröfur, jarðýtur ofl. sem hafði mikil og varanleg áhrif á neysluvenjur og menningu Íslendinga. Fyrir Breta skipti samningurinn einnig miklu máli því Bandaríkjamenn tóku nú að flytja inn vopn og vörur sem voru ætluð Bretum. Þann 8. maí 1945 lauk stríðinu í Evrópu þegar Þjóðverjar gáfust upp. Síðustu bandarísku hermennirnir yfirgáfu Ísland 8. apríl 1947 í samræmi við Keflavíkursamninginn, sem samþykktur hafði verið á Alþingi árið áður, en Bandaríkjamenn höfðu þó áfram umráð yfir Keflavíkurflugvelli. Ísland gekk í NATO 1949 og urðu talsverðar óreiðir á Austurvelli í kjölfarið. Árið 1951 var svo gerður nýr samningur við (NATO) og samkvæmt honum skyldu Bandaríkjamenn að taka að sér hervernd Íslend um ótiltekin tíma. Bandarískt herlið, kallað "varnarliðið", kom því aftur til landsins í kjölfarið og fóru síðustu hermennirnir ekki frá Keflavíkurflugvelli fyrr en 2006. Tesla. Tesla er SI-mælieining segulviðsstyrks, táknuð með T. Nefnd í höfuðið á Nikola Tesla. Er skilgreind sem segulstyrkurinn hornrétt á beinan vír, sem um fer straumurinn 1 amper, þar sem kraftur vegna segulsviðsins er 1 njúton á hvern metra vírsins, þ.e. 1 T = N /(A m). Eldri mælieining segulstyrks er gauss, táknuð G, en 1 G = 10-4 T. Dyrhólaey. Dyrhólaey er móbergsstapi í Mýrdal á suðurströnd Íslands. Hún dregur nafn sitt af því að gat hefur myndast á þessum um það bil 120 metra háa skaga sem sjórinn flæðir í gegnum. Klettatanginn sem skagar fram úr eynni og gatið er í gegnum nefnist Tóin. Dyrhólaey er einnig nefnd "Portland" af sjómönnum. Hún var lengi syðsti oddi fastalands Íslands en eftir Kötlugosið 1918 hefur Kötlutangi verið syðsti oddi landsins. Í eynni er mikil lundabyggð. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978. Undan Dyrhólaey eru allnokkrir drangar úti í sjónum. Þekktastur þeirra er Háidrangur, sem er þverhníptur og 56 metrar á hæð. Hann kleif Eldeyjar-Hjalti Jónsson fyrstur manna árið 1893 að beiðni bænda í Mýrdal og rak þá nagla í bergið og setti keðjur á nokkrum stöðum, svo að eftir það var hægt að nýta dranginn til fuglatekju. Aðrir drangar eru Lundadrangur, Mávadrangur, Kambur og Kvistdrangur. Árið 1910 var byggður viti á eynni, hann var endurbyggður 1927. Upphaflega hafði vitavörðurinn fasta búsetu á staðnum. Dyrhólaey og drangarnir í nágrenni hennar er mikil paradís fuglaskoðara. Hótel Dyrhólaey er skammt frá Vík í Mýrdal. Um vinda. Höfuðþáttur almennrar veðurfræði.. Um vinda. Höfuðþáttur almennrar veðurfræði, er bók með skýringarmyndum eftir C. F. E. Björling. Hún kom út árið 1882. Prentuð í Prentsmiðju S.L. Möllers í Kaupmannahöfn. Íslenskuð og útgefin að tilhlutan Hins íslenska Þjóðvinafélags. Um vinda er fágætt grundvallarrit um veðurfræði. Ágrip af náttúrusögu handa alþýðu. Ágrip af náttúrusögu handa alþýðu er fræðirit eftir Páll Jónsson. Bókin kom út árið 1884 á Akureyri. Forníslenzk málmyndalýsing. "Forníslenzk málmyndalýsing" er málfræðirit eftir danska háskólakennarann Ludvig F. A. Wimmer (1839 - 1920) sem út kom 1885. Þýðandi þess var Valtýr Guðmundsson. Það kom út hjá forlagi Kristjáns Ó. Þorgrímssonar í Reykjavík. Taípei 101. Taípei 101 er 449,2 metra há bygging sem staðsett er í Taípei, höfuðborg Tævan. Byggingin er hæsti skýjakljúfur heims. Til eru hærri mannvirki, sem ekki teljast byggingar, heldur frístandandi turnar. Nafnið (101) er dregið af fjölda hæða í húsinu. Allt í allt er byggingin 509,2 metra há ef turninn á þakinu er talinn með, en sú tala er oftast notuð þegar hæð byggingarinnar er talin. Fleira er merkilegt við bygginguna en hæðin: t.d. er meginhluti hennar átta kassar sem hver inniheldur átta hæðir, en átta er talin gæfutala í Tævan, enda stendur byggingin við eitt virkasta jarðskjálftasvæði heims. Meðan á byggingunni stóð skók einn stór jarðskjálfti Taípei og féllu þá tveir risakranar niður á jörðina en aðeins einn lét lífið. Kennslubók í sagnafræðinni fyrir viðvaninga. Kennslubók í sagnafræðinni fyrir viðvaninga eða einsog stendur á titilsíðu Kénnslu-Bók í Sagna-Frædinni fyrir Vidvanínga er sagnfræðirit eftir Johann Galletti. Þýðandi bókarinnar er Jón Espólín. Bókin er prentuð í Leirárgarði 1804. Johann Galletti. Johann Georg August Galletti (19. ágúst 1750 - 16. mars 1828) var þýskur sagnfræðingur og landafræðingur. Hann var menntaskólakennari í Gotha og kenndi auk áðurnefnda fræða, latínu og náttúrufræði og skrifaði kennslubækur. Ein þeirra hefur birst á íslensku, en hún nefnist: Kennslubók í sagnafræðinni fyrir viðvaninga. Johann Galletti er þó ekki þekktur fyrir fræðimennsku sína. Friedrich Schiller sagði t.d. um hann að hann væri "langdregnasti og andlausasti sagnfræðingur sem nokkurntíma hafi lifað". Á meðan hann var ofanjarðar var hann þó einna þekktastur fyrir hvað hann var utan við sig og var í raun nokkurskonar holdtekja hins viðutan prófessors. Núna er hann þó þekktastur fyrir "fræðarugl" en af því úir og grúir í bókum hans. Galletti skrifaði og birti ófáar fræðibækur, og oft í mörgum bindum, enda lifði hann fyrir að skrifa. Fræðaruglið sem leynist í bókum hans kalla þjóðverjar "Kathederblüten". Galletti, Johann Hundrað ára stríðið. Hundrað ára stríðið var stríð á milli Frakka og Englendinga sem stóð með hléum í 116 ár, eða frá 1337 til 1453. Meginástæða stríðsins var að Englandskonungar gerðu tilkall til frönsku krúnunnar eftir að hin gamla ætt Kapetinga dó út með Karli 4. árið 1328. Valois-ætt tók þá viðí Frakklandi en Játvarður 3. Englandskonungur, systursonur Karls, taldi sig réttborinn til arfs. Stríðið var háð að langmestu leyti í Frakklandi og lauk með því að Englendingar misstu öll lönd sín í Frakklandi fyrir utan Calais og nánasta umhverfi. Heiti þessara stríðsátaka, "hundrað ára stríðið", er seinni tíma hugtak sem sagnfræðingar nota yfir tímabilið. Stríðinu hefur einnig verið skipt niður í þrjú til fjögur styttri tímabil: "Játvarðsstríðið" (1337-1360), "Karlsstríðið" (1369-1389), "Lankastrastríðið" (1415-1429) og svo síðasta tímabilið, þar semJóhanna af Örk kom fram á sjónarsviðið og síga fór smátt og smátt á ógæfuhliðina hjá Englendingum. Stríðið er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þótt það væri fyrst og fremst átök á milli konungsætta varð það til þess að þjóðerniskennd mótaðist bæði með Englendingum og Frökkum, ný vopn komu fram á sjónarsviðið (til dæmis langboginn) og ný herkænskubrögð drógu úr mikilvægi gömlu lénsherjanna, sem einkennst höfðu af þungvopnuðum riddaraliðssveitum. Í stríðinu komu stríðsaðilar sér upp fastaherjum, þeim fyrstu í Evrópu síðan á tímum Rómverja, og þurftu því ekki lengur að treysta á liðstyrk bænda í sama mæli og áður. Vegna alls þessa og vegna þess hve lengi stríðið stóð er það með mikilvægustu átökum miðalda. Rætur. Rætur stríðsátakanna má rekja allt aftur til ársins 911, þegar Karlunginn Karl einfaldi leyfði víkingnum Hrólfi (Rollo) að setjast að á því svæði innan veldis hans sem seinna kallaðist Normandí og íbúanir Normannar). Upp frá því voru höfðingjar Normanna lénsmenn Frakkakonungs, jafnvel eftir að þeir urðu konungar í Englandi. Árið 1066 lögðu Normannar undir stjórn Vilhjálms sigursæla, hertoga af Normandí, England undir sig með því að sigra Engilsaxa í bardaganum við Hastings. Upp úr því varð til ný valdastétt normanna í Englandi. Eftir erfðadeiluna og borgarastyrjaldirnar í Englandi á 12. öld, en það tímabil hefur verið kallað Stjórnleysið (1135 - 1154), tók ný valdaætt við krúnunni, Plantagenetætt, afkomendur Geoffreys hertoga af Anjou (Angevinætt). Angevin-konungarnir erfðu stór svæði í Frakklandi og réðu á tímabili yfir stærri svæðum en frönsku konungarnir sjálfir. Þeir voru þó lénsmenn frönsku konunganna. Á 13. og 14. öld unnu Frakklandskonungar smám saman mestallar lendur Englendinga á sitt vald. Ringulreið í Frakklandi: 1314-1328. Í Frakklandi hafði Capet-ættin (Kapetingar) ríkt í margar aldir. Þetta var langlífasta konungsætt miðalda í Evrópu og ríkti eða frá 987 til 1328. Filippus 4. dó árið 1314 og lét þá eftir sig þrjá syni sem áttu eftir að erfa krúnuna, einn af öðrum; Loðvík 10., Filippus 5. og Karl 4.. Elsti sonurinn og erfinginn, Loðvík 10., dó árið 1316 og var kona hans þá þunguð. Sonur hans, Jóhann 1. varð konungur við fæðingu en dó fárra daga gamall. Loðvík lét einnig eftir sig dóttur, Jóhönnu, en konur áttu ekki erfðarétt til krúnunnar samkvæmt frönskum lögum. Auk þess breiddi Filippus bróðir Loðvíks út orðróm um að Jóhanna væri í raun ekki dóttir Loðvíks, en móður hennar hafði verið varpað í dýflissu fyrir framhjáhald og dó hún þar. Stéttaþing ályktaði að kona ætti ekki að stjórna landinu og því varð Filippus 5. konunugur. Filippus dó svo árið 1322, án þess að hafa eignast son. Dætur hans voru þá settar til hliðar og þriðji sonur Filippusar 4., Karl 4., varð konungur. Árið 1324 börðust Karl 4. og Játvarður 2. Englandskonungur í hinu stutta stríði í Saint-Sardos í Gaskóníu, en það hertogadæmi, sem var hluti Akvitaníu, var þá eitt eftir af lendum Englandskonunga í Frakklandi. Helsta uppákoman í stríðinu var hertaka enska virkisins La Réole, við ána Garonne. Enski heraflinn neyddist til að gefast upp eftir mánaðarlangar sprengjuárásir frá frönskum fallbyssum, og eftir að liðsauki sem átti að koma til þeirra brást. Stríðið var í raun klúður af hálfu Englendinga og eftir það var aðeins hluti af Gaskóníu í þeirra höndum. Karl 4. dó árið 1328 án þess að hafa eignast son og því var óvissa um hver yrði konungur. Systir Karls, Ísabella, var gift Játvarði 2. Englandskonungi, og hún taldi að sonur þeirra, hinn ungi Játvarður 3. væri lögmætur erfingi frönsku krúnunnar. Aðalsmenn í Frakklandi vildu hinsvegar ekki að útlendur konungur yrði konungur Frakklands og því var fjarskyldari frændi Karls 4., Filippus af Valois, krýndur sem Filippus 6.. Aðdragandi stríðsins: 1328-1337. Englandskonungar höfðu áður verið hertogar Akvitaníu, sem þeir höfðu eignast þegar Elinóra af Akvitaníu giftist Hinrik 2. Englandskonungi árið 1154, en þegar Játvarður 3. tók við konungdæmi árið 1327 eftir að faðir hans var neyddur til að segja af sér var hluti af Gaskóníu það eina sem eftir var af ríki Elinóru. Þar sem Gaskónía var lén innan Frakklands og Játvarður lénsmaður Frakkakonungs sór hann Filppusi 6. hollustueið árið 1329. Á yfirborðinu virtist því Játvarður viðurkenna Filippus sem konung Frakklands og Filippus virtist að sama skapi viðurkenna yfirráð Játvarðs yfir Gaskóníu. Fljótlega kom þó í ljós að þeir höfðu báðir annað í huga; Játvarður áleit sig vera réttmætan erfingja frönsku krúnunnar og gerði því tilkall til hennar og Filippus hafði hug á að ná völdum í hinu auðuga Gaskóníuhéraði. Játvarður hætti hinsvegar að seilast til frönsku krúnunnar árið 1331 því hann þurfti að takast á við vandamál heima fyrir. Árið 1333 fór hann svo í stríð gegn Davíð 2. Skotakonungi, sem var þá aðeins um 10 ára gamall. Davíð flúði fljótlega til Frakklands, því Skotar og Frakkar voru bandamenn og höfðu gert með sér svonefndan Auld-sáttmála. Í framhaldi af því áformaði Filippus að leggja Davíð lið og ná um leið sjálfur yfirráðum í Gaskóníu. Upphaf stríðsins: 1337-1360. Stríðið hófst árið 1337 þegar Filippus 6. endurheimti Gaskóníu af Englendingum. Játvarður 3. brást við með því að endurnýja tilkall sitt til frönsku krúnunnar, sem var í raun stríðsyfirlýsing. Frakkar höfðu á þessum tíma stærri her og stærri flota og á Englandi var, í upphafi stríðsins, stöðugur ótti um að Frakkar gerðu innrás. Það breyttist hins vegar árið 1340 þegar Englendingar eyðilögðu næstum allan franska flotann í bardaganum við Sluys, og höfðu þá yfirráð yfir Ermarsundi það sem eftir var stríðsins. Í júlí 1346 gerði Játvarður innrás inn í Frakkland og vann sama ár sigur á frönskum her í bardaganum við Crécy. Bardaginn var hrein hörmung fyrir Frakka þar sem þeir höfðu margfalt stærri her en voru samt sem áður gjörsigraðir. Játvarður hertók því næst Calais, sem varð hernaðarlega mikilvæg fyrir Englendinga það sem eftir var stríðsins. Árið 1356 réðist sonur Játvarðs 3., Játvarður af Woodstock (Svarti prinsinn), inn í Frakkland frá Gaskóníu og vann franskan her í bardaganum við Poiters. Aftur var franski herinn talsvert stærri en sá enski, en Englendingar unnu stórsigur og tóku Jóhann 2. Frakkakonung, son Filippusar 6., til fanga og var hann fluttur til Englands og var hafður í haldi þar næstu árin. Játvarður 3. gerði eina innrás enn í Frakkland árið 1358 en mistókst að hertaka París og Reims. Fyrsta friðartímabil: 1360-1369. Friðarsamningur sem kallast Brétigny-sáttmálinn var undirritaður árið 1360. Frakkar samþykktu að greiða hátt lausnargjald fyrir konung sinn og var næstelsti sonur hans, Loðvík hertogi af Anjou, sem þá var um tvítugt, látinn í hendur Englendinga sem gísl til tryggingar á að gjaldið yrði greitt. Það gekk hinsvegar erfiðlega að safna peningum í Frakklandi og Loðvík þurfti að vera lengur í haldi en áætlað var í upphafi. Hann strauk því úr haldi Englendinga árið 1363 og komst heim til Frakklands. Föður hans fannst þá heiður sinn í veði og ákvað því að gefa sjálfan sig aftur fram sem gísl, þvert á vilja ráðgjafa sinna, og sigldi til Englands þar sem komu hans var fagnað mjög. Nokkrum mánuðum síðar veiktist Jóhann konungur og lést í haldi árið 1364. Tók þá elsti sonur hans, Karl 5., við af honum sem konungur. Brétigny-sáttmálinn kvað á um að Játvarður skyldi hætta að gera tilkall til frönsku krúnunnar en í staðinn voru yfirráð hans yfir stórum svæðum í Frakklandi viðurkennd. Játvarður hætti þó í raun ekki erfðatilkalli sínu og Karl 5. vildi ná yfirráðum að nýju yfir svæðunum sem Játvarður stjórnaði. Karl lýsti því yfir stríði á hendur Englendingum árið 1369, á þeim forsendum að Játvarður hefði brotið gegn Brétigny-sáttmálanum. Franskir sigrar á tímum Karls 5.: 1369-1389. Á valdatíma sínum náði Karl 5. að vinna á sitt vald stóran hluta af þeim svæðum sem Játvarður hafði lagt undir sig. Það var ekki síst að þakka Bertrand du Guesclin, einum sigursælasta hershöfðingja Frakka í stríðinu. Einnig var Svarti prinsinn orðinn alvarlega veikur og gat því ekki lengur stýrt herjum Englendinga, og Játvarður 3. var orðinn of gamall. Svarti prinsinn lést 1376 og Játvarður 3. 1377. Við krúnunni tók þá Ríkharður 2., sonur Svarta prinsins, en hann var aðeins 10 ára. Du Guesclin vann margar borgir og bæi af Englendingum en forðaðist að mæta meginher þeirra í bardaga. Englendingar reyndu að lokka hann til að leggja til orrustu með því að valda sem mestri eyðileggingu á frönsku landssvæði en du Guesclin vildi ekki taka áhættu á úrslitabardaga. Hann lést svo árið 1380. Ríkharður 2. hafði takmarkaðan áhuga á því að halda stríðinu til streitu og samið var um vopnahlé árið 1389. Annað friðartímabil: 1389-1415. Óstöðugleiki innanlands einkenndi bæði löndin á árunum 1389 - 1415. Í Frakklandi ríkti Karl 6. á árunum 1380 til 1422. Hann átti við geðræn vandamál að stríða og það leiddi til þess að frændi hans og bróðir tókust á um völdin. Hinrik 4. Englandskonungur, sem hafði steypt frænda sínum Ríkharði 2. af stóli árið 1399, gerði áætlanir um innrás í Frakkland en þurfti að fresta henni vegna átaka við Skota og vegna uppreisnar í Wales. Það var svo sonur hans, Hinrik 5. sem lýsti yfir stríði að nýju og réðst inn í Frakkland árið 1415. Enskir sigrar á tímum Hinriks 5.: 1415-1429. Hinrik 5. gerði tilkall til svæða í Frakklandi sem höfðu tilheyrt Englandskonungum á tímum Hinriks 2., en þau voru m.a. Normandí og Akvitanía. Hinrik vann stórsigur á Frökkum árið 1415, í bardaganum við Agincourt, þar sem franski herinn var mun stærri en sá enski. Hann náði mestum hluta Normandí á sitt vald á næstu árum; Caen árið 1417 og Rouen árið 1419. Árið 1420 hittust Hinrik 5. og Karl 6. þegar Troyes-samningurinn var undirritaður. Þar var kveðið á um að Hinrik skyldi kvænast dóttur Karls, Katrínu af Valois, og að Hinrik, eða erfingi hans og Katrínar, skyldi erfa krúnu Frakklands. Hinrik og Karl létust báðir árið 1422. Sonur Hinriks, Hinrik 6., þá aðeins tæplega eins árs gamall, tók við krúnu Englands. Samkvæmt Troyes-samningnum átti hann líka að taka við krúnu Frakklands en Karl 7., sonur Karls 6., gerði einnig tilkall til hennar. Frakkar ná yfirhöndinni: 1429-1453. Árið 1428 hófu Englendingar umsátur um Orléans. Umsátrið varði fram á árið 1429 en þá sendi Karl 7. unga stúlku á táningsaldri, Jóhönnu af Örk, til Orléans. Jóhanna hafði sannfært Karl um að hún hefði fengið skilaboð frá Guði um að hún ætti að berjast gegn Englendingum. Jóhanna leiddi her til Orléans og náði, á níu dögum, að hrekja enska herinn frá borginni. Frakkar unnu í kjölfarið nokkra sigra á enska hernum og náðu að lokum Reims á sitt vald. Karl 7., sem var formlega ennþá krónprins, var þá krýndur konungur í Reims. Jóhanna af Örk var svo tekin til fanga árið 1430 og tekin af lífi af Englendingum árið 1431. Á næstu árum beittu Frakkar sömu aðferðum og Du Guesclin hafði gert áður og forðuðust að mæta Englendingum í stórum bardögum. Smám saman unnu Frakkar flest landsvæði Englendinga, en stríðið dróst þó á langinn, einna helst fyrir tilstuðlan enska hershöfðingjans John Talbot. Talbot sigraði franskt herlið í nokkrum bardögum, en það var ekki nóg til þess að snúa gangi stríðsins við og hann féll svo í bardaganum við Castillon árið 1453. Það var síðasti bardagi hundrað ára stríðsins og eftir hann höfðu Englendingar misst öll sín lönd í Frakklandi fyrir utan Calais, sem þeir héldu til 1558. No-leikur. No eða No-leikur (japönsku: 能) er japanskt leiklistarform, tengt zenbúddhatrú. No-leikur er æðsta tegund klassískrar leiklistar í Japan. Strangt formið var fullkomnað á 14. og 15. öld og hefur lítið breyst. No-leikir eru byggðir á þjóðsögum og ævintýrum og einkennast af upphöfnum, ljóðrænum samtölum tveggja leikenda í senn, undirstrikuðum af hefðbundnum látbragðstáknum, tónlist og dansi. Karlmenn leika öll hlutverk en auk þerra eru fjórir hljóðfæraleikarar og tíu manna talkór. Aðalleikari ber grímu. Leiksviðið er alltaf eins og hver hluti þess hefur táknræna merkingu. Kyogen. Kyogen (japönsku: 狂言 Kyōgen, sem þýðir bókstaflega „sturluð orð“ eða „villingaræða“) er japanskt leiklistarform sem minnir á stuttan farsa. Upphaflega létt millispil í no-leik. Atburðarásin snýst jafnan um að slægvitur þjónn leikur á grunlausan húsbónda. "Hugleiðsla", sem Þjóðleikhúsið sýndi í sýningunni "Kirsiblómum á Norðurfjalli" (1979), er dæmi um kyogen. 1268. Konradín og Friðrik markgreifi á fálkaveiðum. 1276. a> páfi. Hann dó í byrjun Fjögurrapáfaársins svokallaða. 1279. a> á síðari hluta 13. aldar. Hrafn Sveinbjarnarson. Hrafn Sveinbjarnarson (1166? - 4. mars 1213) var íslenskur goðorðsmaður og læknir. Hann var af ætt Seldæla, sonur Sveinbjarnar Bárðarsonar á Eyri, sem einnig var þekktur fyrir læknislist sína, og konu hans Steinunnar Þórðardóttur. Hann fór með Dýrfirðingagoðorð. Hann bjó á Eyri við Arnarfjörð. Bærinn hefur síðar verið kenndur við hann og nefnist Hrafnseyri. Hrafn var annálaðasti læknir á Íslandi á þjóðveldisöld. Hann ferðaðist til Noregs og hélt þaðan til helgra staða á Englandi, færði heilögum Tómasi Becket í Kantaraborg rostungstennur, síðan og í suðurgöngu til Rómar, kom meðal annars við í Santiago de Compostela á Spáni, fór um Frakklandi og Ítalíu og hélt síðan aftur norður til Noregs. Hann hefur vafalaust kynnt sér lækningar á ferðum sínum og er talið að rekja megi lækningaaðferðir hans til Háskólans í Salernisborg (Salerno) á Ítalíu. Hrafn kom svo heim, kvæntist og tók við búi á Eyri og goðorði sínu. Hrafn var ákaflega gestrisinn og vinsæll og var sagt um búskap hans að „öllum mönnum var þar heimill matur, þeim er til sóttu og örenda sinna fóru, hvort sem þeir vildu setið hafa lengur eða skemur. Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti og skip á Barðaströnd. Það höfðu allir þeir sem þurftu yfir Breiðafjörð. Og af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvárum tveggi firðinum fyrir hverjum, er fara vildi.“ Hann veitti líka öllum læknisþjónustu sem til hans leituðu og tók aldrei gjald fyrir. Hrafn átti í langvinnri deilu við Þorvald Snorrason Vatnsfirðing, sem lauk svo að eftir margar tilraunir náði honum loks á vald sitt eftir að hafa brotist með menn sína yfir Glámu í illviðri og lét hálshöggva hann á Eyri. Frá Hrafni segir í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Kona Hrafns var Hallkatla Einarsdóttir. Þau áttu fjölda barna sem flest voru ung er faðir þeirra var drepinn. Elstu synirnir, Sveinbjörn (f. um 1200) og Krákur (f. 1203) hefndu föður síns er þeir brenndu Þorvald Vatnsfirðing inni 1228. Þeir börðust með Sturlu Sighvatssyni í Örlygsstaðabardaga og voru höggnir eftir bardagann. Ein systirin, Steinunn, var kona Odds Álasonar á Söndum, sem Órækja Snorrason drap, og móðir Hrafns Oddssonar. Önnur, Herdís, giftist Eyjólfi Kárssyni. Thomas Reid. Thomas Reid (26. apríl 1710 – 7. október 1796) var skoskur heimspekingur og einn af upphafsmönnum hinnar skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi og einn mikilvægasti hugsuður skosku upplýsingarinnar. Hann brautskráðist frá Aberdeen-háskóla. Hann fékk prófessorsstöðu á King's College í Aberdeen árið 1752, þar sem hann samdi "An Inquiry Into the Human Mind on the Principles of Common Sense" (1764). Stuttu síðar var honum boðin prófessorsstaða við Glasgow-háskóla þar sem hann leysti af hólmi Adam Smith. Hann sagði stöðunni lausri árið 1781. Á sínum tíma og allt fram á 19. öld var Reid talinn mikilvægari hugsuður en Hume. Hann var málsvari ómiðlaðrar hluthyggju og var rammur andstæðingur kenningar Johns Locke um hugmyndir og hulu skynjunar, og Renés Descartes, og flestra nýaldarheimspekinga sem fylgdu í kjölfar þeirra. Hann var mikill aðdáandi Humes, sem hann bað um að lesa yfir fyrstu drög að riti sínu "An Inquiry Into the Human Mind on the Principles of Common Sense". Heimspeki. Reid taldi að heilbrigð skynsemi (í sérstökum heimspekilegum skilningi) væri, eða ætti að minnsta kosti að vera, grunnurinn að allri ástundun heimspekinnar. Hann var ósammála Hume og Berkeley, sem töldu að fólk upplifði ekki efnisheiminn eða hugann annaðhvort með skynreynslu eða sem hugmyndir. Reid hélt því fram að heilbrigð skynsemi segði okkur að efnisheimurinn og hugurinn séu til. Þekkingarfræði Reids hafði mikil áhrif á siðfræði hans. Hann áleit þekkingarfræðina vera eins konar inngang að hagnýttri siðfræði: Þegar við höfum fengið staðfestingu á hversdagslegum skoðunum okkar í heimspekinni, þá þurfum við einungis að haga okkur samkvæmt þeim af því að við vitum hvað er rétt. Siðfræði hans minnir á stóuspeki (einkum rómversku höfundanna) og túlkun skólaspekinnar, Tómasar frá Akvínó og kristninnar á henni. Reid vitnar oft í Cíceró, þaðan sem hann fékk hugtakið "sensus communis". Arfleifð. Orðspor Reids dalaði eftir árásir Immanuels Kant og Johns Stuarts Mill á hina skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi en heimspeki hans var áfram kennd í skólum í Norður-Ameríku á 19. öld og hafði mikil áhrif á franska heimspekinginn Victor Cousin. Reid hafði mikil áhrif á bandaríska heimspekinginn C.S. Peirce, sem líkt og Reid mat mikils þátt heilbrigðrar skynsemi í ástundun heimspekinnar. Peirce taldi að ekki væri hægt að komast nær sannleikanum en með samkomulagi milljóna manna um að einhverju sé háttað einhvern veginn. Reid fór að verða mikils metinn á ný þegar heimspeki heilbrigðrar skynsemi var endurvakin sem heimspekileg aðferðafræði og mælikvarði af G.E. Moore snemma á 20. öld. Tenglar. Reid, Thomas Reid, Thomas Hin skoska heimspeki heilbrigðrar skynsemi. Hin skoska heimspeki heilbrigðrar skynsemi var hreyfing í heimspeki sem blómstraði á Skotlandi á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar. Rætur hennar má rekja til viðbragða við skrifum heimspekinga á borð við John Locke, George Berkeley og David Hume. Helstu málsvarar hennar voru Thomas Reid og William Hamilton, sem sameinaði nálgun Reids og heimspeki Immanuels Kant. Hreyfingin hafði áhrif á heimspekinga á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku, ekki síst bandaríska heimspekinginn Charles S. Peirce. Meginhugðarefni heimspekinga hinnar skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi voru þau að verja „heilbrigða skynsemi“ gegn heimspekilegum þverstæðum og efahyggju. Þeir héldu því fram að almennar hversdagslegar skoðanir liggi til grundvallar lífi og hegðun jafnvel þeirra sem gæla við andstæðar hugmyndir og að öllum sé gefið að skilja það sem fólgið er í heilbrigðri skynsemi. Húsgagn. Húsgagn er viðtækt hugtak yfir þá ýmsu hreyfanlegu hluti sem má nota til að styðja við mannslíkamann (stólar og rúm), sjá fyrir geymslu eða halda öðrum hlutum uppi á láréttu yfirborði yfir gólfinu. Geymsluhúsgögn (sem oft hafa hurðir, skúffur eða hillur) eru notuð til að geyma minni hluti svo sem föt, verkfæri, bækur og heimilisvörur. Fyrstu húsgögnin voru algjörar nauðsynjar en síðan hafa menn verið að þróa húsgögn sér til augnayndis og aukinna þæginda. Hönnun. Hönnuður geta verið af mörgum gerðum og þeir sjá um margvísleg störf. Þeir geta til dæmis unnið við að hanna föt, húsgögn, skrautmuni, vegakerfi, hús og margt fleira. Arkitektar eru náskyldir hönnuðum. Gamla ríkið. Gamla ríkið er tímabil í sögu Egyptalands á 3. árþúsundinu f.Kr. eða frá þriðju til sjöttu konungsættarinnar sem áætlað er að hafi náð frá 2686 f.Kr. til 2134 f.Kr. Sumir Egyptalandsfræðingar telja sjöundu og áttundu konungsættirnar með Gamla ríkinu þar sem stjórnsýslumiðstöð ríkisins var áfram í Memfis á þeim tíma. Gamla ríkið var fyrsta tímabilið þar sem siðmenning í Nílardal náði hápunkti samfara pólitískum stöðugleika og samfelldri stjórn. Í kjölfar Gamla ríkisins kom fyrsta millitímabilið þar sem var stjórnarfarsleg upplausn samfara menningarlegri hnignun. Höfuðborg ríkisins var Memfis sem Djoser gerði að höfuðborg sinni. Þekktustu menjarnar um Gamla ríkið eru pýramídarnir sem reistir voru sem grafhýsi konunga og miðstöðvar trúarathafna. Gamla ríkið er stundum kallað „Pýramídatímabilið“. Þriðja konungsættin. Þriðja konungsættin er í sögu Egyptalands fyrsta tímabil samfelldrar stjórnar á tíma Gamla ríkisins. Þekktasti konungur þessarar konungsættar er Djoser sem lét ráðgjafa sinn, Imhotep, reisa Djoserpýramídann. Fjórða konungsættin. Fjórða konungsættin er önnur þeirra konungsætta sem teljast til Gamla ríkisins í sögu Egyptalands. Meðal faraóa þessarar ættar eru þeir sem reistu stóru pýramídana í Gísa. Allir konungar þessarar konungsættar reistu að minnsta kosti einn pýramída sem grafhýsi eða minnisvarða. Höfuðborg fjórðu konungsættarinnar var í Memfis líkt og hjá þeirri þriðju. Fimmta konungsættin. Fimmta konungsættin er í sögu Egyptalands þriðja konungsættin sem telst til Gamla ríkisins. Frá þessum tíma eru elstu dæmin um Pýramídaritin (trúartexta sem voru ritaðir á veggi pýramída og annarra grafhýsa). Dýrkun sólguðsins Ra varð miklu mikilvægari en áður og nálgaðist að verða ríkistrú. Sjötta konungsættin. Sjötta konungsættin er af sumum talin síðasta konungsætt Gamla ríkisins í sögu Egyptalands en aðrir vilja telja sjöundu og áttundu konungsættina með þar sem höfuðborg ríkisins var áfram í Memfis. Á tíma sjöttu konungsættarinnar urðu landstjórar og héraðshöfðingjar valdameiri sem veikti miðstjórnarvald konunganna og leiddi til fyrsta millitímabilsins. Síðasti faraó þessarar konungsættar, Nitigret, er talinn hafa verið fyrsta konan í heimi sem tók sér konungstitil. Vallardagslátta. Vallardagslátta var mælieining í íslenskum landbúnaði og var meðaldagsverk fullgilds sláttumanns við slátt með orfi og ljá. Vallardagsláttan var 3193 m², eða 0,32 hektarar, og tíðkaðist notkun hennar fram undir lok 19. aldarinnar þegar fór að bera á notkun hestasláttuvéla á Íslandi. Afköst sláttumanna jukust með tilkomu svokallaðra orfhólka þar sem ljánum var stungið upp í orfskaftið í stað þess að hanga laflaust á því; bundið með snæri. Varmárskóli. Varmárskóli er annar tveggja grunnskóla í Mosfellsbæ. Skólinn stendur við Skólabraut. Veturinn 2012-13 voru nemendur við skólann um 680 og skiptast þeir niður í 32 bekki. Skólastjórar Varmárskóla eru Guðrún Þórhildur Elfarsdóttir og Þóranna Rósa Ólafsdóttir. Við skólann er starfrækt hin umdeilda Vinaleið, þar sem prestar eða djáknar veita börnum sálgæslu. Lágafellsskóli. Lágafellsskóli er annar tveggja grunnskóla í Mosfellsbæ. Skólinn er staðsettur í Lækjarhlíð. Í skólanum eru 668 nemendur í 1. - 10. bekk í 34 bekkjardeildum og 33 nemendur í leikskóladeild. Við skólann starfa 74 kennarar. Aðrir starfsmenn skólans eru 33. Starfsmenn leikskóladeildar eru 5. Skólastjórnendur Lágafellsskóla eru Jóhanna Magnúsdóttir og Efemía Gísladóttir. Apollonia Schwartzkopf. Apollonia Schwartzkopf (d. 1724) var norsk mektarkona sem kom til Íslands 1722 eftir að hafa kært Niels Fuhrmann fyrir heitrof. Hann var dæmdur til að eiga hana og bjó hún hjá honum að Bessastöðum uns hún andaðist þar úr undarlegum sjúkdómi. Danskar mæðgur, "Katrín" og "Karen Holm", sem dvöldu einnig hja Fuhrmann, voru grunaðar um að hafa drepið Apolloniu með eitri en ekkert varð þó sannað við rannsókn. Skáldsaga Guðmundar Daníelssonar, "Hrafnhetta" (1958) og leikrit Þórunnar Sigurðardóttur, "Haustbrúður" (Þjóðleikhúsið 1989) fjalla um Apolloniu. Að sögn verður vart við vofu hennar að Bessastöðum. Hektari. Hektari er flatarmálseining, táknuð með ha. Er einkum notaður til að mæla flatarmál á landi og er jafn flatarmáli rétthyrnds skika, sem er 100 metrar á hvorri hlið, þ.e. einn hektari jafngildir 10.000 fermetrum. Hektari er ekki SI-mælieining. Guðmundur Daníelsson. Guðmundur Daníelsson (4. október 1910 – 1990) var íslenskur rithöfundur, kennari og skólastjóri. Guðmundur Daníelsson stundaði nám við Laugarvatnsskóla 1930 – 1932, lauk kennaraprófi 1934 og námi frá Danmarks Lærerhöjskole í Kaupmannahöfn 1948 – 1949. Þegar hann kom heim var hann kennari víða um Ísland. Frá 1973 hætti hann að kenna og sinnti eingöngu ritstörfum upp frá því. Hann var formaður Félags íslenskra rithöfunda 1970 – 1972, sat í Rithöfundaráði 1974 – 1978. Calígúla. Gaius Iulius Caesar Augustus Germanicus, betur þekktur sem Calígúla (á latínu: Caligula, stundum skrifað Kalígúla á íslensku) (31. ágúst 12 – 24. janúar 41) var þriðji keisari Rómaveldis 37 – 41. Hann tók við af Tíberíusi. Calígúla var sonur Germanicusar og Agrippinu eldri. Hann var eyðsluseggur og grimmur og óútreiknanlegur harðstjóri og talinn geðbilaður. Hann ætlaði til dæmis að gera hest sinn Incitatus að ræðismanni. Calígúla var myrtur af liðsforingja í lífvarðasveit sinni, auk annarra. Æska. Viðurnefnið Calígúla hlaut hann er hann fylgdi föður sínum á unga aldri í herferðir í Germaníu, þar sem hann fékk lítinn hermannsbúning til að klæðast. Hermennirnir fóru þá að kalla hann "Caligula" sem þýða má sem „litlir skór“, en skór hermanna voru kallaðir "caliga". Síðar fór honum að líka illa við þetta viðurnefni og þegar hann var orðinn keisari refsaði hann mönnum fyrir að nota það. Fjölskylda. Germanicus, faðir Calígúla, var bróðursonur Tíberíusar keisara, en var ættleiddur af Tíberíusi eftir að Drusus, faðir hans, lést. Germanicus lést þegar Calígúla var aðeins sjö ára, árið 19, hugsanlega af völdum eitrunar. Móðir Calígúla, Agrippina eldri, varð fyrir barðinu á ofsóknum Sejanusar, lífvarðaforingja Tíberíusar, og var hneppt í varðhald, þar sem hún svelti sig að lokum til dauða árið 33. Tveir bræður Calígúla hlutu sömu örlög og dóu báðir í varðhaldi. Calígúla sjálfur flúði Rómaborg og fór til eyjarinnar Kaprí þar sem hann dvaldi hjá Tíberíusi, en á eynni varði keisarinn mestum sínum tíma á síðari hluta valdaferils síns. Árið 35 var Calígúla ættleiddur af Tíberíusi, ásamt Tiberiusi Gemellusi frænda sínum, og þeir þar með gerðir að erfingjum Tíberíusar. Calígúla erfði keisaratign Tíberíusar þegar sá síðarnefndi lést. Gemellus var þá aðeins á táningsaldri og var ættleiddur af Calígúla. Nokkrum mánuðum síðar taldi Calígúla þó að Gemellus væri að skipuleggja samsæri gegn sér og lét því taka hann af lífi. Fjármál. Calígúla var mikill eyðsluseggur og tókst á sinni stuttu valdatíð að eyða öllum þeim miklu fjármunum sem hann fékk í arf frá Tíberíusi. Á meðal þess sem hann lét byggja var floti stórra skipa sem hann notaði meðal annars til þess að mynda fljótandi brú yfir Napolíflóa. Calígúla reið svo yfir flóann á Incitatusi, uppáhalds hestinum sínum, í brynju Alexanders mikla. Þar að auki lét hann byggja tvö risaskip fyrir sjálfan sig. Annað, það minna, var notað sem fljótandi musteri, en hitt, það stærra, var í raun fljótandi höll. Calígúla réðst einnig í ýmsar opinberar framkvæmdir þar á meðal byggingu tveggja nýrra vatnsleiðslna fyrir Rómaborg. Þegar arfur Tíberíusar var uppurinn hækkaði Calígúla skatta og lagði á nýja, meðal annars skatt á vændi. Einnig varð hann sér úti um fé með því að fjárkúga ríka einstaklinga, slá eign sinni á fjármuni manna sem voru nýlátnir og með því að bjóða upp skylmingaþræla. Hneykslismál. Gullmynt (aureus), slegin árið 40, sem sýnir Calígúla (til vinstri) og föður hans, Germanicus, á bakhliðinni (til hægri). Margar sögur eru til af hneykslismálum sem snerta Calígúla. Ein af þeim frægustu er sú að hann hafi ætlað að gera hest sinn Incitatus að ræðismanni og presti. Hvort sem sú saga er sönn eða ekki, sá Calígúla að minnsta kosti til þess að engu væri til sparað þegar kom að hestinum, honum var til dæmis boðið í ýmsar veislur sem keisarinn hélt. Calígúla var einnig sakaður um að fremja sifjaspell með systrum sínum og að hafa neytt þær í vændi. Tvær systra hans, Julia Livilla og Agrippina yngri, voru síðar sendar í útlegð vegna þáttar þeirra í samsæri um að koma Calígúla frá völdum. Ýmsir háttsettir embættismenn voru einnig reknir úr embætti eða teknir höndum vegna ásakana um samsæri og margir í kjölfarið teknir af lífi. Samskipti Calígúla við öldungaráðið fóru í kjölfarið hratt versnandi. Calígúla hneykslaði einnig íbúa Rómar þegar hann lýsti sjálfan sig lifandi guð. Hann lét byggja hof sjálfum sér til heiðurs og kom fram á opinberum vettvangi í gervi ýmissa guða og gyðja. Calígúla neyddi svo efnaða menn til að borga sér háar fjárhæðir fyrir þann heiður að verða prestar í söfnuði sínum. Endalok. Nokkur samsæri um að koma Calígúla frá völdum voru reynd á þeim á þeim tæpu fjórum árum sem hann var keisari. Þessi stöðuga ógn virðist hafa gert Calígúla mjög taugaveiklaðan og hann þjáðist einnig af svefnleysi. Calígúla var að lokum orðinn algerlega einangraður og hafði misst allan stuðning. Lokatilraunin til þess að ráða keisarann af dögum var vel skipulögð og fjölmargir voru viðriðnir samsærið. Liðsforingi í lífvarðasveitinni, Cassius Chaerea, var sá sem skipulagði morðið en einnig komu við sögu fleiri lífverðir, starfsmenn keisarahallarinnar og öldungaráðsmenn. Calígúla var stunginn til bana í undirgöngum í keisarahöllinni þann 24. janúar 41. Cassius stakk keisarann fyrstur en fleiri fylgdu í kjörfarið og að sögn var hann stunginn um þrjátíu sinnum. Eiginkona Calígúla, Caesonia, og dóttir þeirra, Julia Drusilla, voru einnig drepnar af samsærismönnunum. Minniháttar óeirðir brutust út í Róm eftir morðið og öldungaráðið reyndi að endurreisa lýðveldið, en lífvarðasveit keisarans hafði ekki hug á að styðja það og hyllti Claudíus, frænda Calígúla, sem keisara. Heimildir. Scarre, Chris, "Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome" (London: Thames & Hudson, 1995). Charles Sanders Peirce. Charles Sanders Peirce (10. september 1839 í Cambridge í Massachusetts – 19. apríl 1914) var bandarískur heimspekingur, eðlisfræðingur og fjölfræðingur. Peirce var menntaður efnafræðingur og vann að vísindum í rúm 30 ár en er einkum minnst fyrir framlag sitt til rökfræði, stærðfræði, heimspeki og táknfræði. Peirce hlaut ekki mikla athygli á sínum tíma og allt fram yfir miðja 20. öld. Mikið af skrifum hans er enn óútgefið. Hann skrifaði mest á ensku en birti einnig nokkrar greinar á frönsku. Hann var frumkvöðull í stærðfræði og vísindalegri aðferðafræði og vísindaheimspeki, þekkingarfræði og frumspeki en áleit sig öðru fremur vera rökfræðing. Í huga hans náði rökfræðin einnig yfir þekkingarfræði og vísindaheimspeki en Peirce áleit rökfræðina tilheyra táknfræði. Strax árið 1886 sá hann fyrir að rafrásir sem straumur færi um eða væri tekinn af gæti framkvæmt rökaðgerðir, hugmynd sem varð að veruleika þegar fyrstu tölvur litu dagsins ljós. Tenglar. Peirce, Charles Sanders Peirce, Charles Sanders Peirce, Charles Sanders Peirce, Charles Sanders David Chalmers. David John Chalmers (f. 20. apríl 1966) er ástralskur heimspekingur sem fæst einkum við hugspeki. Hann er prófessor í heimspeki við Australian National University þar sem hann stýrir einnig rannsóknarstofu um meðvitundina. Helstu rit. Chalmers, David Chalmers, David Chalmers, David Tatra. Tatra er tékkneskur bílaframleiðandi. Tatra hóf starfsemi sína í bænum Kopřivnice árið 1850 og er þriðji elsti bílaframleiðandi í heimi. Árið 1897 smíðaði fyrirtækið fyrsta fólksbíl Mið-Evrópu og var hann kallaður Präsident. Ári síðar var fyrsti vörubíll fyrirtækisins smíðaður. Tatra hefur framleitt ótal gerðir fólksbíla og vörubíla í gegnum tíðina. Árið 1998 hætti fyrirtækið fólksbílaframleiðslu og hefur einbeitt sér að vörubílaframleiðslu eftir það. Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir Tatra vörubílum og þykja þeir einstaklega hentugir fyrir heri vegna þess hversu vel þeir drífa, hversu auðvelt er að halda þeim við og hversu lengi þeir endast. Þeir eru taldir henta vel við erfiðar aðstæður. Tatra vörubílar hafa keppt árum saman í hinu fræga París-Dakar Rallýi og hafa sex sinnum unnið í flokki vörubíla með ökuþórinn Karel Loprais undir stýri. Mannakorn. Mannakorn er íslensk popphljómsveit, sem gaf út sína fyrstu plötu 1975. Orðið "Mannakorn" kemur úr biblíunni og þýðir brauð af himnum eða orð guðs. Magnús Eiríksson, aðal laga- og textahöfundur, sem lék á ýmsar gerðir gítara og söng. Pálmi Gunnarsson, bassleikari og aðalsöngvari. Baldur Már Arngrímsson, gítar, slagverk og söngur. Björn Björnsson, trommur og söngur. Auk þeirra var Vilhjálmur Vilhjálmsson gestasöngvari á plötunni ásamt Úlfari Sigmarssyni á píanó. Á fyrstu plötunni voru 12 lög og textar, flest/ir eftir Magnús nema Lilla Jóns sem er eftir Ray Sharp og Jón Sigurðsson og svo texti við Hudson Bay eftir Stein Steinarr. Plöturnar. Önnur platan Gegnum tíðina kom út 1977 og geymdi tíu lög og texta eftir Magnús nema textann við Ræfilskvæði sem er eftir Stein Steinarr. Platan þótti marka tímamót í mörgum skilningi en með henni sannaði Magnús sig sem einn fremsta laga og textahöfund landsins. Platan þótti þjóðleg þótt hún væri poppuð og grípandi og umslagið vakti eftirtekt. Platan geymir meðal annars lagið Braggablús sem löngu er orðið sígilt. Hljómsveitin Mannakorn mun hafa til þessa gefið út um ellefu plötur að talið er en síðasta eiginlega Mannakorns platan með frumkvöðlunum kom út 1979 og nefndist – „Brottför kl. 8“ og var hún sú þriðja í röðinni. Seinni plötur eins og „Í ljúfum leik“, 1985, „Mannakorn 5“ árið 1985 og „Mannakorn 6“ sem kom út 1990 eru skipaðar ólíkum tónlistarmönnum en þeir Magnús og Pálmi mynda enn kjölfestuna. Veröld Andrésar andar. Veröld Andrésar andar er skáldaður heimur þar sem sögurnar um Andrés Önd og félaga hans gerast. Persónur. Persónur sagnanna og árið sem þær komu fyrst fram í sviga. Pikkólína. Pikkólína er einkaritari Jóakims Aðalandar í teiknimyndablöðunum Andrés Önd. Hún birtist fyrst í sögunni "The Midas Touch" eftir Carl Barks, þó að þar hafi hún enn verið nafnlaus. Samkvæmt sögum eftir Don Rosa réðu systur Jóakims hana án hans vitundar árið 1909. Sjóntæki. Sjóntæki er ljósfræðilegt áhald eða hlutur sem er notaður til að bæta sjón þeirra, sem hafa sjóngalla. Algengir sjóngallar eru nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja. "Gleraugu", sem borin eru á nefi, er elsta gerð sjóntækja og komu fyrst fram á 14. öld. "Einglyrni" er sjóngler, sem borið er fyrir eitt auga, en er lítið notað nú á dögum. "Lúpa" er lítið stækkunargler sem notað er við vinnu með smáa hluti. Á seinni hluta 20. aldar komu fram "augnlinsur", sem settar eru utan á hornhimnu augans. Með leysiaðgerð á augum má nú orðið laga margar gerðir sjóngalla, sem gerir sjóntæki yfirleitt óþörf eftir aðgerðina. Færeyjahrafn. Færeyjahrafn "Færeyjum: Hvítravnur" (fræðiheiti: "Corvus corax varius var. leucophaeus") er útdauður hrafn frá Færeyjum. Tannhirða. Tannhirða er aðferð til að hreinsa og viðhalda tönnum og koma í veg fyrir tannátu, sýkingar í munnholi og andremmur. Tannburstun með tannbursta og tannkremi er mikilvægasta aðferðin við tannhirðu, en tannlæknar mæla einnig mjög með notkun tannþráðs. Tannstönglar og munnskol er einnig talsvert notað, en þau hreinsa ekki jafn vel og tannþráður og tannbursti. Einkaleyfi var fyrst veitt fyrir tannbursta í Bandaríkjunum 1880, en þeir urðu fyrst algengir í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar. Fyrsti "rafmagnstannburstinn" var hannaður 1939, en varð ekki almenningseign fyrr en eftir 1960. Kverkfjöll. Kverkfjöll er yfir 1900 metra hár fjallgarður við norðausturbrún Vatnajökuls á Íslandi á milli jökulsins og Dyngjufjalla. Hæsti tindurinn er 1.920 m yfir sjó. Kverkfjöll eru megineldstöð með tveimur samliggjandi öskjum. Gossprungur og gígaraðir tengjast þeim og nýleg hraunum. Fjöllin heita eftir kverkinni sem skriðjökullinn Kverkjökull rennur niður úr. Í honum er íshellir sem úr rennur áin Volga. Eitt af stærstu og hálendustu háhitasvæðum landsins er í Kverkfjöllum. Aðal hverasvæðið er í Hveradal, í 1.500–1.800 m hæð, á um 3 kílómetra löngu svæði. Ferðafélag Íslands rekur gistiskála á svæðinu sem heitir Sigurðarskáli. Þar er skálavörður yfir sumarið. Suðvestann skriðjökulsins er skáli sem Jöklarannsóknafélag Íslands á. Hann stendur við jökullón þar sem jarðhiti er undir. 180px 180px 180px 180px 180px Sexfætlur. Sexfætlur (fræðiheiti: "Hexapoda") eru stærsta undirfylking liðdýra sem telur hinn gríðarstóra flokk skordýra auk þriggja skyldra hópa ófleygra liðdýra: tvískottur, stökkmor og frumskottur sem allir voru áður taldir til skordýra. Sexfætlur draga nafn sitt af því að eitt af einkennum þeirra er samfelldur frambolur með þrjú fótapör. Líkami þeirra skiptist í þrennt: höfuð, frambol og afturbol. Áslandsskóli. Áslandsskóli er íslenskur grunnskóli, staðsettur í Áslandi í Hafnarfirði, stofnaður árið 2001. Hann var upprunalega með 1-7. bekk en hefur nú (2007) útskrifað þrjá árganga úr 10. bekk. Nemendur eru um 450 talsins. Árlega halda nemendur í skólanum menningarhátíð, reka 10. bekkingar m.a.s. ár hvert kaffihús. Allur gróði á kaffihúsinu rennur til ABC barnahjálpar, en skólinn hefur styrkt hana undanfarin ár. Skólastjóri skólans er Hafnfirðingurinn Leifur Sigfinnur Garðarsson. Otwock. Otwock er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 42.976 árið 2005. Ciechanów. Ciechanów er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 45.947 árið 2005. Radom. Radom er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 227 þúsund árið 2005. Erró. Erró (fæddur Guðmundur Guðmundsson í Ólafsvík 19. júlí 1932) er íslenskur myndlistarmaður, sem starfar í anda póstmódernisma. Hann bjó á Kirkjubæjarklaustri áður en hann fluttist til Reykjavíkur og hóf nám þar. Erró er núna búsettur í Frakklandi. Árið 1989 gaf Erró Listasafni Reykjavíkur um 2000 af verkum sínum og hefur verið opnuð vefsíða með myndum af þeim. Fyrst málaði Erró undir listamannsnafninu "Ferró", en var gert að breyta því. Faðir hans var Guðmundur frá Miðdal og eru þeir Erró og Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, bræður. Sigurbjörn Þorkelsson. Sigurbjörn Þorkelsson (fæddur 21. mars 1964 í Reykjavík) var framkvæmdastjóri Gídeonfélagsins 1986 - 1998 og forseti þess 2001 - 2004. Forstöðumaður í sumarbúðum KFUM í Vatnasógi 1989 - 2004 og 2011. Framkvæmdastjóri KFUM og KFUK 1998 - 2000. Hann starfaði sem framkvæmdarstjóri og meðhjálpari Laugarneskirkju 2000 - 2010. Og sem fyrirlesari og ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun ríkisins 2010 - 2012. Hann er sonur hjónanna Þorkels G. Sigurbjörnssonar (1912 - 2006), fyrsta forseta Gídeonfélagsins á Íslandi, og Steinunnar Pálsdóttur (1924 - 2006). Föðurafi Sigurbjörns var Sigurbjörn Þorkelsson í Vísi. Sigurbjörn er giftur Laufeyju Geirlaugsdóttur og eiga þau 3 syni. Sigurbjörn hefur skrifað fjölda bóka. Meðal annars ljóðabækurnar: Sjáðu með hjartanu, 2013. Eilíft líf, 2010. Ástríður, 2008. Svalt, 2007. Sítenging SMS 90 smáskilaboð 2006. Lífið heldur áfram, 2002 og Aðeins eitt líf, 2000. Og bænabækurnar, Í fylgd frelsarans, 2012, Í skugga vængja þinna, 2005 og Vef mig vængjum þínum, 1998. Barnabækurnar, Prakkarastrik Bjössa, 2005. Bjössi fer í Vatnaskóg, 2001 og Kærleikurinn mestur, 1999. Greinasafnið Góðan daginn, 2004, skáldsöguna Júlía, 2003. Erindið Lát engan líta smáum augum á elli þína 2003, svo eitthvað sé nefnt. Böðullinn og skækjan. "Böðullinn og skækjan" er sænsk kvikmynd frá 1986 eftir Hrafn Gunnlaugsson. Dreifkjörnungar. Dreifkjörnungar nefnast þær lífverur sem ekki hafa frumukjarna. Hugtakið nær yfir flokkunarfræðilegu lénin "Bacteria" og "Archaea". Munur á dreifkjarnafrumum og heilkjarnafrumum. Heilkjarnafrumur hafa frumukjarna sem er umlukinn kjarnahimnu og geymir erfðaefni frumunnar. Utan kjarnans er umfrymið þar sem mikið af efnaskiptum frumunnar fer fram og þar eru prótín smíðuð eftir forskrift RNA-afrita af genum kjarnans. Í dreifkjarnafrumum, þ.e. raunbakteríum og fornbakteríum, eru hins vegar engin skil milli erfðaefnis og umfrymis. Í umfrymi heilkjarnafrumna eru frumulíffæri sem óþekkt eru í dreifkjörnungum. Næstum því allir heilkjörnungar hafa hvatbera, sem eru miðstöðvar öndunar, og plöntufrumur hafa grænukorn að auki. Bæði þessi frumulíffæri hafa litlar DNA-sameindir enda er talið að þau séu bakteríur að uppruna. Hekkenfeld. Hekkenfeld er íslensk hljómsveit sem hefur starfað í Kaupmannahöfn frá árinu 2000 og haldið nokkra tónleika þar. Hekkenfeld spilar kraftmikil rokklög undir áhrifum íslensku pönk- og rokkbylgjunnar sem reið yfir Ísland í byrjun níunda áratugarins og þyngri rokktónlistar síðari tíma. Hekkenfeld starfar með löngum hléum og kemur saman til að skemmta sjálfum sér og öllum þeim sem á vilja hlýða. Hljómsveitin gaf út geisladiskinn Umturnast árið 2005. Klippimynd. Klippimynd (e. "Collage") er aðferð í myndlist, sem felst í að raða saman ólíkum hlutum eins og úrklippum úr dagblöðum, spýtnarusli, járnbútum og öðru tilfallandi á myndflötinn, líma það saman og jafnvel mála síðan, til að mynda nýtt samhengi á milli hlutanna. Svona myndir hafa líka verið kallaðar "límimyndir", "límingarmyndir" eða "bréfsneplamyndir" á íslensku. Hringanóri. Hringanóri (fræðiheiti: "Phoca hispida", á seinustu árum hafi ýmsir dýrafræðingar nefnt ættkvíslina "Pusa" í stað "Phoca"), er selur sem er ívið minni en landselur. Þessi selategund lifir allt í kring um Norður-Íshaf og er þar langstærsti selastofninn, en giskað er á að þeir séu á bilinu 3,5 til 6 miljónir. Dýrafræðingar hafa greint sex undirtegundir, þar af tvær sem eingöngu lifa í ósöltu vatni. Hringanórinn er algengur flækingur við Ísland, sérlega á Norðurlandi. Oftast koma þeir einir eða fáir saman og í flestum tilfellum fullorðnir brimlar. Einkenni. Lengd hringanóra er á bilinu 120-190 cm og þeir geta orðið allt að 100 kg. Brimillinn er heldur stærri en urtan. Í útliti svipar honum til landsels en er heldur minni, hann hefur einnig hlutfallslega heldur minna höfuð og minni framhreifa. Augun er meira framan á höfði en á öðrum selategundum. Hringanórinn þekkist þó helst á að hann hefur hringlaga flekki á baki með ljósum hringjum í kring og hefur nafn af því. Útbreiðsla og undirtegundir. Hringanórinn lifir allt í kringum Norður-Íshaf og tengdum höfum og vötnum. Þar að auki eru tvær aðrar selategundir náskildar hringanóra sem lifa í sitt hvoru vatninu, Bajkal selurinn ("Phoca sibirica") og Kaspíski selurinn ("Pusa caspica"). Æti og lifnaðarhættir. Teikning af tveimur hringanórum frá 1887 Hringanórinn er fremur einrænn og safnast aldrei í stóra hópa. Allar tegundir nema "h. ladogensis" og "h. saimensis" lifa á og víð hafís allt árið um kring. Hringanórinn hefur mikið lag á að halda opinni vök í ísinn, ekki síst að vetrarlagi, og kemur þar upp til að anda og er eina selategundin sem gerir það. Hann getur haldið vökinni opinni í gegnum þykkt íslag, allt að 2,5 metra á þykkt, með nagi og klóri. Fæðan er aðallega krabbadýr og ískóð og venjulega veiðir hringanórinn ekki stærri en 20 cm langa fiska. Selurinn kafar oftast einungis í tvær til fimm mínútur en getur verið í kafi upp undir 20 mínútur en hann neyðist til þess. Í mars kæpir urtan í snjóhúsi eða snjóhelli sem hún grefur við op í gegnum ísin. Kóparnir fæðast með hvít fósturhár og eru um 65 cm á lengd og vega um 4,5 kg við fæðingu. Þeir eru á spena í 6 til 8 vikur og eru þá orðnir 9 til 12 kg á þyngd. Ísbirnir eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn, en heimskautarefir eru einnig stór hætta fyrir kópana. Veiði og nyt. Hringanóri hefur verið afar mikilvægur þáttur í lífi Inuíta allt fram á þennan dag. Á sumrin voru þeir skutlaðir frá kajak og á veturna biðu veiðimenn við öndunaropin með skutul og spjót. Kjötið var nýtt til matar, skinnið notað í föt og spikið sem ljósgjafi. Hringanóraskinn þóttu einkum góð í "kamik" (snjóstígvél) og utanyfirföt. Enn er veiði á hringanóra stunduð um öll svæði Inuíta. Á suðurhluta Grænlands aðallega sem aukastarf sjómanna en á norður og austur Grænlandi og í flestum byggðum Inuíta í Kanada er veiðinn enn aðalstarf árið um kring og er bæði kjötið og skinnin nýtt. MSN. Microsoft Network er vefsíða í eigu Microsoft. Gísli Sigurkarlsson. Gísli Sigurkarlsson er íslenskt ljóðskáld. Hann samdi ljóðabókina "Af sjálfsvígum" sem kom út 1980. Einn dans við mig. Einn dans við mig er lag með Hemma Gunn af hljómplötu hans Frískur og fjörugur. Lagið er upprunalega eftir Belgann Plastic Bertrand og heitir "Ça plane pour moi". Í texta lagsins segir frá manni sem kemur á skemmtistað klukkan tólf einsamall til í að tjútta svolítið og reyna að finna sér píu til að dansa við og jafnvel taka með sér heim. Neanderdalsmaður. Neanderdalsmaður (fræðiheiti: "Homo neanderthalensis") er útdauð tegund af ættkvíslinni "homo" sem þekkt er af sýnishornum frá pleistósentímabilinu í Evrópu og Asíu. Neanderdalsmenn eru ýmist flokkaðir sem undirtegund manna ("Homo sapiens neanderthalensis") eða sem aðskilin tegund ("Homo neanderthalensis"). Tegundin heitir eftir Neanderdal 12 km austan við Düsseldorf í Þýskalandi vegna þess að ensk-írski jarðfræðingurinn William King stakk upp á því fyrstur manna 1864 að beinaleifar sem þar höfðu fundist 1856 væru ekki bein nútímamanna heldur af annarri tegund. Uppruni. Neanderdalsmenn eru taldir hafa þróast út frá heidelbergmanninum ("Homo heidelbergensis") sem kom til Evrópu mun fyrr. Þeir eru taldir hafa komið fram fyrir um 200.000 árum og dáið út fyrir 28.000 árum. Mest af leifum þeirra hafa fundist víða í Evrópu en einnig allt austur til Írans og norður til Síberíu. Telja má víst að neanderdalsmenn hafi verið komnir fram sem aðgreindur stofn fyrir 150.000 - 200.000 árum. Fundist hafa beinaleifar hundruða einstaklinga af kyni neanderdalsmanna. Athuganir á beinaleifum hafa leitt í ljós að beinabygging neanderdalsmanna hefur verið áþekk og hjá nútímamönnum sem hafa aðlagast köldu veðurfari. Höfuðkúpan var hins vegar frábrugðin höfuðkúpum nútímamanna. Sumir telja útlit þeirra hafi verið sérstök aðlögun að köldu og þurru loftslagi. Útlit. Neanderdalsmenn voru mjög líkir nútímamönnum. Þeir voru þó mun lægri, riðvaxnari, stórskornari og þéttvaxnari en nútímamenn almennt. Mælingar á tíu karl- og fimm kvenbeinagrindum sýndu meðalhæð karla um 1,68 m. og kvenna um 1,59 m. Þeir voru með framsveigð lærbein og lítið sem ekkert mitti. Þeir voru rétthentir, hægri handleggurinn var mun vöðvastæltari. Þeir höfðu afturhallandi enni, þykka brúnahnykla og ofan við augntóttir voru áberandi beinabrýr. Ennið var lágt, haka innfallin og beinhnykill var á hnakka. Kinnbein voru aftursveigð og nasaholurnar stórar og breiðar. Þessi andlitseinkenni hafa ef til vill verið aðlögun að köldu og þurru loftslagi. Heilarými neanderdalsmanna var að meðaltali stærra en hjá nútímamönnum. Neanderdalsmenn voru ef til vill fyrstir manna til að ganga í fötum allt árið til að verjast kulda. Skinn voru notuð til fata og verkuð þannig að þau voru strengd á grind og öll fita og sinar skafnar af. Til þess voru notuð tæki úr tinnu. Þegar búið var að súta skinnin voru föt saumuð úr þeim. Lífshættir. Ýmsar minjar hafa fundist sem gefa innsýn í líf neanderdalsmanna. Til dæmis vopn, verkfæri og leifar fornra eldstæða. Verkfærin sýna að neanderdalsmenn voru mjög færir á sviði verkfæra- og vopnagerðar. Eldstæðin sýna að þeir hafi notað eld til að hita mat og halda á sér hita. Ljóst er að menning neanderdalsmanna hefur verið allþróuð og margbrotin. Tinnusteinssköfur og sílar gefa til kynna að þeir hafi stundað skinnaverkun, og hafa þeir meðal annars notað skinnin í tjöld og klæði. Talið er að neanderdalsmenn hafi lifað í hópum, 30 til 50 í hóp, og að þeir haft fasta búsetu í til dæmis hellum eða þá að þeir hafi verið mikið á faraldsfæti og búið ýmist í tjöldum eða hellumi. Neanderdalsmenn kunnu vel að nýta sér þær bjargir sem frerasléttur við rætur jökulskjaldarins mikla höfðu upp á að bjóða en þar reikuðu um hjarðir stórvaxinna dýra sem aðlagast höfðu helkulda þessa tímabils. Um þetta vitna veiðitól þeirra og áhöld og beinaleifar veiðibráðar við aðsetursstaði þeirra. Neanderdalsmenn hafa haft mikla samkennd og virðast hafa hugsað um hina veiku og öldruðu. „Chapelle-aux-saint-maðurinn“ er gott dæmi um það. Hann var tannlaus með brotinn kjálka sem náði að gróa. Útaf þessu gat hann ekki tuggið. En hann hefði hins vegar ekki getað lifað svona lengi eins og að hann lifði svo að hann hlýtur að hafa fengið hjálp. Maturinn hefur semsagt verið tugginn fyrir hann. Greftrunarsiðir þeirra benda til trúar á annað líf. Oft voru munir, skartgripir eða nytjahlutir, meðal annars úr tinnu, lagðir í grafirnar. Sumar beinaleifar neanderdalsmanna eru af einstaklingum sem hafa átt við alvarlega fötlun að stríða, og fundist hafa menjar um áverka sem hafa gróið. Þá hafa fundist beinaleifar af gamalmennum. Þetta sýnir að annast hefur verið um sjúka og vanburða einstaklinga. Útrýming. Neanderdalsmenn dóu út fyrir um það bil 28.000 árum. Enginn veit hvað olli hvarfi þeirra en kenningarnar eru margar. Því hefur löngum verið haldið fram að nútímamenn ("Homo sapiens sapiens") hafi útrýmt neanderdalsmönnum þegar hinir fyrrnefndu birtust í Evrópu fyrir 40.000 árum. Þetta þarf þó ekki að hafa gerst þannig að nútímamenn hafi farið með hernaði á hendur neanderdalsmönnum, heldur hafa þeir ef til vill þrengt að þeim, til dæmis með því að leggja undir sig vetrardvalarsvæði þeirra í syðri hluta álfunnar og mynda þar þéttari og varanlegri byggð en neanderdalsmenn gerðu. Einnig kom krómagnonmaðurinn til Evrópu fyrir 40-45 þúsund árum og var á sömu svæðum og neanderdalsmaðurinn. Þeir voru of fámennir til að geta útrýmt neanderdalsmanninum, en þeir hafa getað stuðlað að útrýmingu þeirra. Þegar byrjaði að kólna fyrir um 40 þúsund árum fóru jöklar stækkandi og því neyddust neanderdalsmenn til að hörfa undan þeim suður á bóginn. Þar tók við gjörólíkt landslag sem hentaði illa veiðitækni þeirra og búsiðum. Sumir telja þetta hafa valdið því að þeir dóu út. Einnig eru til margar kenningar um að sjúkdómar hafi náð að þurrka út neanderdalsmennina, og bent hefur verið á þann möguleika að nútímamaðurinn hafi komið með sjúkdóma með sér frá Afríku sem neanderdalsmenn höfðu ekki kynnst áður og voru ekki ónæmir fyrir. Erfitt er að segja til um hversu líklegt er að þetta hafi verið reyndin en möguleikinn er til staðar. Miklar deilur eru um það hvort neanderdalsmenn hafi ekki dáið út heldur hreinlega blandast krómagnonmanninum og séu þeir sameiginlegir forfeður Evrópubúa nútímans. Af fornleifafundum að dæma hefur einhver samgangur verið a milli þeirra þar sem á sama tíma og krómagnonmaðurin kemur til sögunnar verður mikil breyting á verkfærum neanderdalsmanna og þykir augljóst að það stafi af menningaráhrifum. Rökrás. Rökrás framkvæmir rökaðgerðir á einum eða fleiri inngöngum og skila merki á einn útgang. Þessar rökaðgerðir eru booleískar aðgerðir og eru nýttar í stafrænum rásum. Rökrásir eru aðallega útfærðar rafrænt með díóðum eða smárum, einnig er hægt að útfæra þær með rafliðum, vökvakerfum, ljóskerfum og vélrænum hlutum. Merkið. Rökrásirnar eru mest útfærðar með rafmerki sem er hátt eða lágt og standur fyrir 0 og 1 í booleísku algebrunni þessar stöður geta verið kallaðar á/af, hátt/lágt, einn/núll, satt/ósatt og fl. Rásin. Rökrás hefur einn eða fleiri inngang og skilar merki á einn útgang. Vegna þess að útgangurinn er alltaf aðeins 0 eða 1 er hægt að tengja hann á inngang á einni eða fleiri öðrum rökrásum, einnig er hægt að tengja tvo eða fleiri útganga saman en þá verður að passa að það verði ekki skammhlaup. Bakgrunnurinn. Einfaldasta gerð rafrænnar rökrásar er díóða. Hún er eingöngu AND eða OR hlið og er hví ekki fullgerð rökrás. Til að fullgera rökrásina getum við notað lampa eða smára. Einfaldasta framleiðslulína rökrása sem notar tvípóla smára er kölluð resistor-transistor logic eða RTL rásir. Ólíkt díóðu rásunum er hægt að raðtengja RTL rásirnar og búa til mjög flóknar rásir. Þessar rásir voru notaðar í fyrstu IC (integrated circut) rásirnar. Til að auka hraðann var viðnámunum í RTL rásunum skipt út fyrir díóður sem gaf okkur diode-transsitor logic eða bara DTL rásir. Þá uppgötvuðu menn að einn smári gat unnið verk tveggja díóða á sama plássi og ein díóða tók og þá varð til transsistor-transistor logic eða TTL rásir. Í sumum gerðum rása til að minnka stærð og afl þörf, var tvípóla smáranum skipt út fyrir field-effect smára (MOSFET) sem gaf okkur complementary metal-oxide-semiconductor (CMOS) rásirnar. Fyrir smærri rásir nota hönnuðir staðlaðar rásir sem tilheyra framleiðslulínum eins og TTL 7400 línan sem Texas Instruments hannaði og CMOS 4000 sem RCA hannaði og seinni afbrigði af þeim. Þessar rásir eru venjulega með smára með fjöltengdan emitter til að búa til AND hliðið, en það er ekki til sem sér íhlutur. Forritanlegar rökrásir eru að taka við af þessum rásum, sem gerir hönnuðum kleift að setja saman í eina IC rás mjög mörgum blönduðum rásum. Forritunareðli Forritanlegu rökrásanna eins og FPGA hefur rutt úr vegi harðkóðuðum vélbúnaði, því nú er mögulegt að breyta hönnun vélbúnaðar kerfanna með því að endurforrita suma hluta þeirra, og breyta þannig útfærslu þeirra og virkni. Rafrökrásir eru allt öðruvísi en rafliða- og vélbúnaðar rásir. Þær eru mun hraðvirkari, nota mun minna afl, og eru mun minni í stærð (allir liðir hafa margfaldar sem er um það bil 1.000.000 eða meira í flestum tilfellum). Einnig er um grundvallar byggingarlegan mun að ræða. Rofa rás býr til samfellda opna rás úr málmi þar sem straumur getur farið óhindrað í báðar áttir á milli inngangs og útgangs. Hálfleiðara rökrás aftur á móti hegðar sér eins og spennu magnari, sem notar mjög lítinn straum á inngangnum en myndar mjög háa spennu á útgangnum. Það er ekki mögulegt að straumur geti farið á milli inngangs og útgangs í hálfleiðara rökrás. Annar mikilvægur kostur staðlaðra rása eins og 7400 og 4000 línanna, er að það er hægt að raðtengja þær, það er útgangurinn á einni rás getur tengst inngangnum á einni eða fleiri rásum nánast í það óendanlega, sem gerir það að verkum að hönnuðir geta hannað rásir að vild, hversu flóknar sem þær kunna að vera án þess að þekkja innri virkni rásarinnar. Í raun getur útgangur á einni rás aðeins keyrt á einhvern ákveðinn fjölda innganga á aðrar rásir, þetta er kallað fanout mark útgangsins, en þessum mörkum er nánast aldrei náð í nýrri gerðum CMOS rása miðað við TTL rásirnar. Einnig höfum við útbreiðslutöf, frá því að merki kemur á inngang þar til að við fáum breytingu á útgang. Þegar rásir eru raðtengdar er heildar útbreiðslu töfin um það bil summa tafanna í einstökum rásum, sem veldur því að í háhraða rásum getur þetta orðið vandamál. Rökrásir og vélbúnaður. NAND og NOR hlið eru grunn hliðin sem öll önnur booleísk hlið (þ.e. AND, OR, NOT, XOR, XNOR) eru búin til úr. Þau geta verið gerð úr rafliðum smárum eða hverri þeirri tækni sem getur myndað invertir það er snúið merki við (þ. e. 0 verður 1 og öfugt) og tveggja innganga AND og OR hlið. Þess vegna eru NAND og NOR hliðin sögð alhliða (universal) hlið. Með tveimur inngöngum er hægt að fá 16 mismunandi útganga en í booleískum rásum eru aðeins 12 notaðir. Í töflunni hér fyrir neðan eiga tvær efstu línurnar að tákna inngangana og síða hinar 16 útgangana, og samsvarandi virkni. A er: 0 0 1 1 B er: 0 1 0 1 0 er: 0 0 0 0 A AND B er: 0 0 0 1 A er: 0 0 1 1 B er: 0 1 0 1 A XOR B er: 0 1 1 0 A OR B er: 0 1 1 1 A NOR B er: 1 0 0 0 A XNOR B er:1 0 0 1 NOT B er: 1 0 1 0 NOT A er: 1 1 0 0 A NAND B er:1 1 1 0 1 er: 1 1 1 1 Rökrásir eru grunn einingin í mörgum stafrænum rásum og fáanlegar sem IC kubbur eins og 4000 línan af CMOS rásum eða 700 línan. Með tákn og sanntöflur hliðana skal vísað á rökaðgerðir. Max Müller. Friedrich Max Müller, best þekktur sem Max Müller (6. desember 1823 – 28. október 1900) var þýskur fornfræðingur, textafræðingur og austurlandafræðingur. Hann var einn af upphafmsmönnum indverskra fræða og upphafsmaður trúarbragðafræða. Müller samdi bæði fræðilegar og alþýðlegar bækur um trúarbragðafræði. Árið 1841 skráði Müller sig til náms við háskólann í Leipzig. Þar ákvað hann að einbeita sér að heimspeki fremur en að tónlist og kveðskap, sem hafði áður átt hug hans allan. Hann hlaut doktorsgráðu árið 1843 en ritgerð hans fjallaði um "Siðfræði" heimspekingsins Baruchs Spinoza. Hann sýndi einnig tungumálum mikinn áhuga og lærði klassísku málin, forngrísku og latínu en einnig arabísku, persnesku og sanskrít. Árið 1844 hélt Müller til Berlínar til að nema undir leiðsögn Friedrichs Schelling. Hann hóf vinnu við að þýða Upanishads fyrir Schelling og hélt áfram að rannsaka sanskrít undir leiðsögn Franz Bopp, sem fyrstur manna rannsakaði kerfisbundið indóevrópsk tungumál. Schelling fékk Müller til að tengj málsögu og sögu trúarbragða. Müller flutti til Parísar árið 1845, þar sem hann nam sanskrít hjá Eugène Burnouf. Ári síðar flutti hann til Englands til þess að rannsaka texta á sanskrít í eigu Austur-Indíafélagsins. Hann kynntist fræðimönnum á sínu sviði við Oxford-háskóla, sem leiddi til frama Müllers á Bretlandi. Hann varð félagi á Christ Church í Oxford árið 1851. Hann varð prófessor í samanburðarmálvísindum í Oxford og síðar fyrsti prófessor Oxford-háskóla í samanburðarguðfræði við All Souls College (1868-1875). Verk Müllers ollu auknum áhuga á arískri menningu, þar sem indóevrópsk (arísk) menning var álitin andstæð semískum trúarbrögðum. Müller harmaði mjög að þetta skyldi sett fram í tengslum við kynþætti og kynþáttahyggju og var það fjarri hugmyndum Müllers sjálfs. Müller taldi þvert á móti að uppgötvun sameiginlegs uppruna indverskrar og evrópskrar menningar væri sterk rök gegn kynþáttahyggju. Árið 1881 gaf Müller út enska þýðingu á fyrstu útgáfu "Gagnrýni hreinnar skynsemi" eftir þýska heimspekinginn Immanuel Kant. Hann var sammála Arthur Schopenhauer um að fyrsta útgáfan væri hnitmiðaðasta framsetningin á kenningum Kants. Helstu ritverk. Müller, Max Müller, Max Herbert Bloch. Herbert Bloch (1911 – 6. september 2006 í Cambridge í Massachusetts) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur og prófessor "emeritus" í fornfræði við Harvard-háskóla. Hann var heimskunnur sérfræðingur um gríska sagnaritun, latneskar áletranir og fornleifafræði, miðaldafræði og arfleifð klassískrar fornaldar. Bloch var þýskættaður gyðingur. Hann nam fornaldarsögu, klassíska textafræði og fornleifafræði við Berlínarháskóla og háskólann í Róm. Þaðan hlaut hann doktorsgráðu á sviði Rómarsögu árið 1935. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 1939 vegna ofsókna sem gyðingar sættu í Evrópu á þeim tíma. Bróðir hans varð eftir í Þýskalandi og lést í helförinni. Bloch kenndi fornfræði við Harvard-háskóla frá 1941 til 1982. Hann var félagi við Institute for Advanced Study í Princeton í New Jersey (1953/4), stýrði bandarísku fornfræðiakademíunni í Róm (1957-59), var forseti American Philological Association (1968/9) og forseti Miðaldaakademíunnar (1990-93). Hann var félagi í American Academy of Arts and Sciences, American Philosophical Society, Pontificia Accademia Romana di Archeologia (heiðursfélagi frá 1990) og þýsku fornleifafræðistofnuninni. Bloch lést 6. september 2006 í Cambridge í Massachusetts. Helstu rit. Bloch, Herbert Bloch, Herbert Hermann Alexander Diels. Hermann Alexander Diels (18. maí 1848 – 4. júní 1922) var þýksur fornfræðingur og textafræðingur. Diels er þekktastur fyrir útgáfu sína á brotum frumherja grískrar heimspeki (hinna svonefndu fovera Sókratesar) og vitnisburði um þá. Ritið, sem nefnist "Die Fragmente der Vorsokratiker" ("Brot forvera Sókratesar") er enn talið undirstöðurit. Ritið er í þremur bindum. Í ritinu er safnað saman öllum brotum forvera Sókratesar úr ritum þeirra (sem nú eru flest glötuð) auk vitnisburði um þá, sem varðveittur er í yngri höfundum ásamt þýskri þýðingu brotanna. Vitnisburðurinn kallast „A-brot“ en sjálf brotin (þ.e. beinar tilvitnanir) kallast „B-brot“. Þessi aðferð Diels til að auðkenna brot og vitnisburð heimspekinganna hefur orðið að hefðbundinni leið til þess að vísa til brota frumherjanna og kallast DK-tölur. DK-tölur. Til dæmis vitna Sextos Empeirikos og Simplikkíos í ljóðlínur sem taldar eru vera upphafið af kvæði Parmenídesar. Í safni Diels er brotið merkt 28B1 — þ.e. kafli 28, hluti B, brot 1. Talan 28 vísar til Parmenídesar (sem Diels helgar 28. kafla í riti sínu), stafurinn B gefur til kynna að um brot (þ.e. tilvitnun) er að ræða en ekki vitnisburð, og talan 1 gefur til kynna að brotið er það fyrsta í röðinni af brotum Parmenídesar í safni Diels. Á hinn bóginn er upphafið af greinargerð Platons (í samræðunni "Parmenídes" 127 o.áfr.) fyrir meintri heimsókn Parmenídesar og Zenon til Aþenu auðkennt 29A11 í safni Diels. Talan 29 vísar til Zenons (sem er helgaður næsti kafli á eftir Parmenídesi í riti Diels), enda ræðir Platon meira um Zenon en Parmenídes í þessum tilteknu línum; bókstafurinn A gefur til kynna að um vitnisburð um Zenon er að ræða en ekki brot úr riti eftir Zenon, og talan 11 þýðir að vitnisburðurinn er sá 11. í röðinni um Zenon í riti Diels. Diels raðaði heimspekingunum í grófa tímaröð en innan hvers kafla er brotunum raðað í stafrófsröð eftir heimildunum fyrir þeim. Venjulega er vísað til brotanna með því að skeyta „Diels-Kranz“ eða „DK“ fyrir framan, t.d. „Diels-Kranz 28B1“ eða „DK 28B1“. Þrátt fyrir mikilvægi rits Diels greinir fræðimenn enn á um meðferð hans á ýmsum britanna, t.d. hvort þau séu réttilega flokkuð sem A eða B-brot (þ.e. hort þau séu bein tilvitnun eða ekki). Í ritinu er vitaskuld ekki að finna brot sem hafa uppgötvast eftir að ritið kom út, t.a.m. þau sem eru varðveitt á Strasbourg-papyrusnum (gefinn út 1998), þar sem er að finna fimm áður óþekkt brot úr kvæði eftir Empedókles. (Þau virðast vera áframhald af brotinu DK 31B17.) Enska þýðingu á öllum B-brotum í Diels-Kranz er að finna hjá Kathleen Freeman, "Ancilla to the Pre-Socratic Philosophers" (Oxford, 1948; Harvard U.niversity Press, 1957), en hún byggir á 5. útgáfunni á riti Diels og því er röðin á brotunum örlítið frábrugðin. Neðanmálsgreinar. Diels, Herman Alexander Diels, Herman Alexander Óseyri. Óseyri er löng sandeyri í Ölfusi, við suðurströnd Íslands, sem myndar ásamt Ölfusá stórt sjávarlón eða stöðuvatn. Eyrin dregur nafn sitt af ós árinnar og á austurenda hennar er brúin Óseyrarbrú sem vígð var 1989. Uppgræðsla eyrinnar hófst á 20. öld og er hún nú klædd melgresi fjara á milli. Þar er einnig veitingastaðurinn Hafið Bláa með útsýni að landi og láði. Meingen. Meingen eða onkógen eru erfðavísar, sem auka líkur á æxlismyndun. Siedlce. Siedlce er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 77.056 árið 2005. Ármaður. Ármaður er formaður skólafélags Menntaskólans við Sund. Ármaður er hluti af miðhóp, sem er þriggja manna stjórn skólafélagsins. Meðal þekktra ármanna MS má nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins og Katrínu Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna. Ísafjörður (Sjálandi). Ísafjörður er stærsti fjörðurinn á Sjálandi í Danmörku. Inn af honum ganga margir minni firðir eins og Holbækfjörður sem borgin Holbæk liggur við og Hróarskeldufjörður sem Hróarskelda liggur við. Íslensk skildingafrímerki. Skildingafrímerki 1873-1875. Íslensk skildingafrímerki voru gefin út 1873. Formlegur útgáfudagur 1. janúar. Gefin voru út 5 verðgildi frímerkja. 2, 3, 4, 8 og 16 skildingar. Hér eru sýnd 2 eintök af 4 skildinga frímerkinu og 16 skildinga frímerkinu. Munurinn liggur í takkafjölda frímerkjanna. 4 skildinga frímerkið hægra megin er miklu sjaldgæfara en það sem er vinstra megin. 16 skildinga frímerkið vinstra megin er miklu sjaldgæfara en það sem er hægra megin. Einnig voru gefin út svokölluð þjónustufrímerki. Þau voru eingöngu til nota hjá opinberum aðilum, ekki almenningi. Hér eru sýnd 2 eintök af 4 skildinga frímerkinu. Munurinn liggur í takkafjölda frímerkjanna. 4 skildinga frímerkið vinstra megin er sjaldgæfasta íslenska skildingafrímerkið, en gott eintak af því gæti selst fyrir margföld mánaðarlaun verkamanns. Valtýr Guðmundsson. Valtýr Guðmundsson (1860 – 1928) var alþingismaður og sagnfræðingur og fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í sagnfræði. Hann var eina af þremur börnum föður síns til að komast til vits og ára. Faðir hans dó ungur og móðir hans kvæntist aftur og eignaðist tvær dætur. Hann fluttist ekki með móðurfjölskyldu sinni til Ameríku þegar hann var um sextán ára og hitti móður sína aðeins einu sinni eftir það þegar hann sjálfur ferðaðist vestur. Hann útskrifaðist úr Latínuskólanum árið 1883. Sama ár varð hann fyrsti forseti Framtíðarinnar, elsta nemendafélags Íslands. Hann varði doktorsritgerð um norræna menningarsögu við Kaupmannahafnarháskóla árið 1889, varð dósent þar ári síðar í sögu Íslands og bókmenntum og síðan prófessor frá 1920 til æviloka. Doktorsritgerð hans bar heitið "Privatboligen pa Island i sagatiden samt delvis i det ovrige Norden" og fjallaði einkum um húsagerð og húsaskipan. Hann tók sæti á Alþingi Íslendinga 1894 og hóf útgáfu Eimreiðarinnar árið eftir, 1895, og ritstýrði tímaritinu til 1918 og ritaði margar greinar í það um stjórnmál og menntir og birti þar einnig frumort kvæði. Hann sat á þingi 1894 – 1901, 1903 – 1908 og 1911 – 1913. Valtýr var lengi meðlimur Atlantseyjafélagsins (De Danske Atlanterhavsøer), sem hafði að markmiði að styrkja tengsl Danmerkur við Ísland, Færeyjar, Grænland og nýlendurnar í Vestur-Indíum. Friedrich August Wolf. Friedrich August Wolf (15. febrúar 1759 – 8. ágúst 1824) var þýskur fornfræðingur, textafræðingur og bókmenntarýnir. Wolf helgaði sig alla tíð að kennslu öðru fremur. Rit hans eru tiltölulega fá. Hann gaf út skýringarrit við Demosþenes (1789) og sex árum síðar "Formála að Hómer" (1795). Fyrir það rit er hann einkum þekktur. Í kjölfar útgáfunnar spruttu upp deilur milli Wolfs og Christians Gottlobs Heine, sem sakaði Wolf um ritstuld. Wolf, Friedrich August Wolf, Friedrich August Chitipa. Chitipa eða Fort Hill er höfuðborg Chitipa-héraðs í Malaví. Hún er ekki langt frá landamærum Sambíu og Tansaníu. Hugh Andrew Johnston Munro. Hugh Andrew Johnstone Munro (29. október 1819 – 30. mars 1885) var breskur fornfræðingur og prófessor í fornfræði við Cambridge-háskóla. Munros er einkum minnst fyrir mikilvæga útgáfu hans á kvæði Lucretiusar (1860; aukin og endurbætt útgáfa ásamt enskri þýðingu og skýringum 1864) en Munro ritstýrði einnig útgáfum á verkum Hóratíusar og Catullusar. Hann þótti einstaklega skarpskyggn textarýnir. Munro var einnig vel að sér um fornleifafræði og ferðaðist oft til Ítalíu og Grikklands. Munro, Hugh Andrew Johnston Karl Lachmann. Karl Konrad Friedrich Wilhelm Lachmann (4. mars 1793 – 13. mars 1851) var þýskur fornfræðingur, textafræðingur og bókmenntarýnir. Hann kenndi klassíska textafræði við háskólann í Königsberg og síðar við Humboldt-háskólann í Berlín. Lachmann hélt því fram að "Ilíonskviða" Hómers væri samin úr a.m.k. 16 öðrum kvæðum sem hefðu verið sett saman í eitt kvæði og svo aukið vð hana. Kenningar hans höfðu töluverð áhrif á hómersrannsóknir á 19. öld en eru nú taldar úreltar. Lachmann ritstýrði einnig útgáfu á texta Lucretiusar (1850). Hann gat sýnt hvernig öll þrjú helstu handritin væru komin af sameiginlegri fyrirmynd, sem var 302 blaðsíður með 26 línum á síðu. Hann sýndi enn fremur fram á að sameiginleg fyrirmynd varðveittra handrita hefði verið ritað með lágstöfum og að fyrirmynd þess hefði verið 4. eða 5. aldar handrit með hástafaletri. Lachmann ritstýrði einnig textum Propertiusar (1816); Catullusar (1829); Tibullusar (1829); Genesiusar (1834); Terentianusar Maurusar (1836); Babriusar (1845); og Avianusar (1845) auk annarra höfunda. Hann þýddi einnig sonnetur Shakespeares (1820) og leikritið "Macbeth" (1829) á þýsku. Lachmann, Karl Lachmann, Karl Hoba-loftsteinninn. Hoba-loftsteinninn er þyngsti loftsteinn á jörðinni og stærsti náttúrulegi járnklumpur sem fundist hefur. Loftsteinn þessi er nefndur eftir fundarstað sínum, "Hoba West" bóndabænum, sem er nálægt Grootfontein í Namibíu. Loftsteinninn fannst árið 1920, og hefur ekki verið fluttur frá lendingarstað sínum, en hann skall á jörðina fyrir 80.000 árum síðan. Steinninn, sem er um 9 rúmmetrar að stærð, er talinn vera að minnsta kosti 200 milljón ára gamall og jafnvel allt að 400 milljón ára. Hann er talinn vega um 50 - 60 tonn. Hann inniheldur 82% járn, um 16% nikkel og nálægt 1% kóbalt. Einnig má finna í honum lítið eitt af krómi, gallíni, germaníni, iridíni, kolefni, kopar, brennisteini og sinki. Loftsteinar, sem innihalda meira en 15% nikkel eru flokkaðir sem ataxít. Karl Friedrich Hermann. Karl Friedrich Hermann (4. ágúst 1804 – 31. desember 1855) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Hermann fæddist í Frankfurt. Hann nam heimspeki við háskólana í Heidelberg og Leipzig og lauk gráðu þaðan árið 1826. Að náminu loknu ferðaðist hann um Ítalíu en sneri aftur til Heidelberg þar sem hann kenndi við háskólann. Hann varð deildarforseti heimspekideildar háskólans í Marburg árið 1832 og síðar prófessor í klassískum bókmenntum. Árið 1842 tók hann við prófessorsstöðu í textafræði og fornleifafræði og stöðu deildarforseta við háskólann í Göttingen. Hermann fékkst nokkuð við fornaldarheimspeki. Meðal rita hans má nefna "Geschichte und System der Platonischen Philosophie" ("Saga og kerfi platonskrar heimspeki") (1839) og "Culturgeschichte der Griechen und Römer" ("Menningarsaga Grikklands og Rómar") (1857-1858). Hann ritstýrði einnig útgáfu á textum Juvenalis og Persiusar (1854) og Lúkíanosar (1828). Hermann, Karl Friedrich Hermann, Karl Friedrich Hermann, Karl Friedrich Ekwendeni. Kort sem sýnir staðsetningu Ekwendeni Ekwendeni er bær í Malaví, um 20 km frá Mzuzu, í héraðinu Mzimba. Bærinn var stofnaður af skoskum trúboðum og þar er ein elsta kirkja landsins. Hún tilheyrir skosku þjóðkirkjunni. Bærinn er miðpunktur umferðar, bæði innan Malaví og á milli Kenýu og Tansaníu. Í nágrenni Ekwendeni er mikil tóbaksframleiðsla. Í bænum er rekið sjúkrahús sem er fjármagnað af Bandaríkjamönnum og Skotum. Tumbuku-tungumál er algengt í bænum en einnig önnur tungumál vegna þess að hann liggur í alfaraleið. Keðjusög. Keðjusög er mótorknúin sög, oftast notuð af skógarhöggsmönnum til að saga niður tré, en einnig af garðyrkjumönnum til að kvista tré og snyrta runna. Sérstaklega útbúnar sagarkeðjur hafa verið útbúnar til að nota í keðjusagarlist, eins og t.d. þegar söguð eru út listaverk í ísklumpa. Flesta keðjusagir eru bensínknúnar, en líka eru til rafmagnsknúnar, og eru þær flestar ætlaðar til heimilisnota. XML. XML (Extensible Markup Language) er staðall fyrir skilgreiningu ívafsmála til almennra nota. XML var þróað af Alþjóðasamtökum um veraldarvefinn. Það er útfært í mörgum ívafsmálum svo sem RSS, Atom, RDF og XHTML. XML-skjöl byggjast upp eins og tré, þ.e.a.s. þau innihalda rótartag sem innheldur texta og/eða önnur tög sem aftur innihalda tög og/eða texta. Hvert tag á sér aðeins eitt „foreldri“ eða móðurtag en getur átt mörg „börn“ sem eru ýmist texti eða önnur tög. Skífumál. Skífumál (einnig kallað rennimál) er mælitæki sem er gert úr tveimur einingum, lengdarkvarðanum sjálfum og sleða sem rennur eftir honum. Á einni algengri tegund skífumáls er merking á sleðanum sem fellur við kvarðann svo lesa megi af honum. Aðrar tegundir eru með hliðrænum eða stafrænum skjám sem lesið er af. Sleðinn og kvarðinn eru svo lagaðir þannig að þær geta mælt utan- og innanmál hluta. Skjálaus skífumál eru einnig oft með Vernier-kvarða sem mælt gefur meiri nákvæmni en kvarðinn einn og sér. 1294. a>. Hann hafði lítinn áhuga á að vera páfi. 1298. Erlendis. Adólf Þýskalandskonungur settur af og Albert 1. kjörinn í staðinn. 1299. a> og lagði þar með grunn að 500 ára stórveldistíma Tyrkjaveldis. 1300. a>, mynd úr handriti frá 14. öld. Eysteinn Ásgrímsson. Eysteinn Ásgrímsson (d. 14. mars 1361) var íslenskur munkur og skáld á 14. öld. Hann tilheyrði Ágústínusarreglu og var fyrst í Þykkvabæjarklaustri. Um ætt hans og uppruna er ekki vitað. Hann virðist hafa verið breyskur og uppivöðslusamur framan af og er talið að hann hafi verið einn þeirra þriggja munka sem Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup lét handtaka og setja í járn í klaustrinu haustið 1343. Þeir höfðu barið Þorlák ábóta og hrakið hann burt, orðið berir að saurlífi og jafnvel barneignum. Nokkru síðar virðist Eysteinn hafa gert yfirbót og sátt við biskup því hann var gerður að officialis í Helgafellsklaustri 1349. Hann var seinna handgenginn Gyrði biskupi Ívarssyni og ferðaðist með honum í vísitasíuferðum 1353-1354. Árið 1355 fóru þeir saman til Noregs og kom biskup heim árið eftir en Eysteinn var tekinn í klaustrið í Helgisetri viðNiðarós. Hann kom þó heim 1357 og þá í fylgd Eyjólfs Brandssonar kórsbróður. Þeir voru eins konar eftirlitsfulltrúar erkibiskupsins í Niðarósi. Þeir létu ýmis mál til sín taka og kom fljótt til árekstra á milli þeirra og Gyrðis biskups. Sagt er að Eysteinn hafi ort níð um biskup, sem bannfærði hann 1359. Gyrðir ætlaði til Noregs sama ár að kæra þá fyrir erkibiskupi en áður en af því yrði sættust þeir. Virðist hafa farið vel á með þeim eftir það en báðir áttu skammt eftir. Þeir sigldu til Noregs hvor með sínu skipi; skipið sem biskup var á fórst í hafi en skipið sem Eysteinn var á kom að landi á Hálogalandi mjög seint um haustið eftir mikla hrakninga og voru allir um borð að þrotum komnir. Eysteinn komst loks í klaustrið í Helgisetri snemma árs 1361 og dó þar skömmu síðar. Eysteinn er talinn hafa ort helgikvæðið "Lilju" og hefur þess verið getið til að það hafi annaðhvort verið ort þegar hann sat í járnum í Þykkvabæjarklaustri eða eftir að hann sættist við Gyrði biskup en ekkert er vitað um það með vissu. Þykkvabæjarklaustur. Þykkvabæjarklaustur er kirkjustaður í Álftaveri. Þar stofnaði auðmaðurinn Þorkell Geirason (d. 1187) munkaklaustur árið 1168 og gaf því eigur sínar. Hélst klaustrið, sem var af Ágústínusarreglu, allt til siðaskipta og var löngum auðugt og áhrifaríkt. Tveir ábótar klaustursins urðu biskupar og Eysteinn Ásgrímsson var munkur þar. Stuðlabergssúla er á þeim stað sem talið er að klaustrið hafi staðið. Ábótar. Hér er upphafsár venjulega miðað við vígslu til ábóta en stundum gegndu menn hlutverkinu nokkuð fyrir formlega vígslu. Sumir ábótar Þykkvabæjarklausturs eru vel kunnir en um aðra eru heimildir mjög rýrar og á það sérstaklega við um 15. öldina. Ýmis ártöl eru óviss. Lilja (kvæði). "Lilja" er helgikvæði sem Eysteinn Ásgrímsson munkur orti um miðja 14. öld. Kvæðið þótti bera af öðrum slíkum á sínum tíma og varð því til orðtakið „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Munn- og kjálkaskurðlækningar. Munn- og kjálkaskurðlækningar eru sú sérgrein innan tannlæknisfræðinnar sem fæst við greiningu og meðferð sjúkdóma, áverka og meina í mjúkum og hörðum vefjum munnhols, kjálkabeina og andlits. Munn- og kjálkaskurðlæknar eru tannlæknar sem hafa lokið a.m.k. fjögurra ára löngu sérnámi við sjúkrahúsdeild í sérgreininni. Ekki er hægt að læra munn- og kjálkaskurðlækningar á Íslandi og því hafa allir íslenskir munn- og kjálkaskurðlæknar sótt sérnám erlendis. Helstu viðfangsefni sérgreinarinnar eru djúplægir endajaxlar, tannplantar, kjálka- og andlitsbrot, alvarlegar tannsýkingar, kjálkafærslur, æxli og aðrar meinsemdir í kjálkum og fl. Stephanie Sunna Hockett. Stephanie Sunna Hockett (f. 2. október 1970) er íslensk fegurðardrottning og leikkona. Þjóðfélag. Þjóðfélag er hugtak sem notað er yfir stóran hóp einstaklinga sem hefur menningu og stofnanir sem aðgreinir það frá öðrum. Dæmi um þjóðfélög gætu verið sígaunar eða þjóðríki eins og Sviss eða jafnvel samheiti yfir menningarsvæði, eins og austræn þjóðfélög. Samfélag er víðara hugtak sem getur átt við allt einstaklinga í fjölskyldu eða mannkynið. Herbert Weir Smyth. Herbert Weir Smyth (8. ágúst 1857 í Wilmington í Delaware – 1937) var bandarískur fornfræðingur og textafræðingur. Rit hans um málfræði forngrísku er undirstöðurit um viðfangsefnið á ensku. Smyth tók við af William Watson Goodwin sem Eliott-prófessor í grískum bókmenntum við Harvard-háskóla. Smyth hlaut menntun sína við Swarthmore College (A.B. 1876), Harvard (A.B. 1878), háskólann í Leipzig og Georg-August háskólann í Göttingen (Ph.D. 1884). Hann kenndi forngrísku og sanskrít á Williams College frá 1883 til 1885 og síðan forngrísku við Johns Hopkins University í tvö ár eftir það. Hann var prófessor í forngrísku á Bryn Mawr frá 1887 til 1901. Árið 1901 bauðst honum prófessorsstaða á Harvard og 1902 var hann skipaður Eliott-prófessor í grískum bókmenntum. Smyth var ritari American Philological Association frá 1889 til 1904 og ritstjóri tímaritsins "Transactions of the American Philological Association". Árið 1904 var hann kosinn forseti samtakanna. Hann var kjörinn félagi í American Academy of Arts and Sciences og American Philosophical Society og var varaforseti Egypt Exploration Society. Helstu ritverk Smyths. Smyth, Herbert Weir Smyth, Herbert Weir David Malcolm Lewis. David Malcolm Lewis (7. júní 1928 í London á Englandi – 12. júlí 1994 í Oxford á Englandi) var enskur fornfræðingur og prófessor í fornaldarsögu við Oxford-háskóla. Hann nam fornfræði við Corpus Christi College í Oxford (MA) og Princeton-háskóla (Ph.D.). Hann var rannsóknarfélagi á Corpus Christi College 1954-1955, kenndi fornfræði og fornaldarsögu á Christ Church í Oxford 1955-1985 og var prófessor í fornaldarsögu við Oxford-háskóla 1985-1994. Ritstjórn. Lewis, David Malcolm Lewis, David Malcolm Johann Gottfried Jakob Hermann. Johann Gottfried Jakob Hermann (28. nóvember 1772 í Leipzig í Þýskalandi – 31. desember 1848) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur. Hermann hóf háskólanám við háskólann í Leipzig fjórtán ára gamall. Hann nam lögfræði en gaf hana fljótt upp á bátinn og las fornfræði í staðinn. Hann varð lektor í fornfræði við háskólann í Leipzig og prófessor "extraordinarius" í heimspeki árið 1798. Hann varð prófessor í mælskulist 1803 og í kveðskap 1809. Hermann hélt því fram að haldgóð þekking á klassísku málunum forngrísku og latínu væri eina leiðin til þess að öðlast skilning á menningarlífi fornaldar og það væri meginmarkmið textafræðinnar. Hermann einbeitti sér að klassískri bragfræði og gaf út nokkur rit um hana. Mikilvægust þeirra rita var "Elementa doctrinae metricae" (1816). Rit hans um málfræði forngrísku voru einnig áhrifamikil, einkum "De emendanda ratione Graecae grammaticae" (1801). Hermann ritstýrði útgáfum á textum fornra höfunda, m.a. á nokkrum leikritum Evripídesar, "Skýjunum" eftir Aristófanes (1799), "Trinummus" eftir Plautus (1800), "Um skáldskaparlistina" eftir Aristóteles (1802), hómerísku "Sálmunum" (1806) og "Lexicon" Fótíosar (1808). Útgáfa hans á ritum Æskýlosar kom út að honum látnum árið 1852. Hermann, Johann Gottfried Jakob Hermann, Johann Gottfried Jakob George Grote. George Grote á yngri árum George Grote (17. nóvember 1794 – 18. júní 1871) var enskur fornfræðingur og sagnfræðingur. Grote gekk vel í skóla en faðir hans neitaði að kosta upp á hann háskólanám og útvegaði honum vinnu í banka í staðinn. Grote varði öllum frístundum sínum í lestur klassískra bókmennta, sagnfræðirita, frumspeki og stjórnmálafræði og lærði þýsku, frönsku og ítölsku. Árið 1817 kynntist Grote verkum Davids Ricardo, sem höfðu þó nokkur áhrif á hann, og í gegnum Ricardo kynntist hann verkum James Mill og Jeremys Bentham. Helstu ritverk. Grote, George Grote, George Hallsteinn Sigurðsson. Hallsteinn Sigurðsson (fæddur 1944) er íslenskur myndlistamaður. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1963 til 1966 en hélt þá til Bretlands þar sem hann lagði stund á höggmyndalist við ýmsar stofnanir til ársins 1972. Höggmyndagarður Hallsteins í Gufunesi. Hallsteinn Sigurðsson mótaði upphaflega í leir og tók mót og steypti í steinsteypu eða ýmis plastefni. Smíðar nú mest úr járni og áli. Hefur tekið mót og steypt verk eftir myndhöggvara og hefur stækkað myndir t.d. úr járni eða áli. Listamanninum var úthlutað einum og hálfum hektara lands í Gufunesi fyrir höggmyndir og eru þar 25 myndir í eigu höfundar. Árið 2012 ánafnaði hann Reykjavíkurborg höggmyndir þær sem staðsettar eru í Gufunesi. Hjól - Plógur - Vængir. "Sýning í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 2006" „Verk Hallsteins Sigurðssonar eru nokkuð sér á parti í jurtagarði íslenskrar höggmyndalistar þar sem þó er allfjölbreytt flóra. Höggmyndir Hallsteins unnar í málm eru opnar og léttar í efni og formi. Það má segja að hann teikni fram rýmið og hann notar gjarnan til þess létta teina og málmplötur sem hann sýður saman en hefur eins mikið loft og innra rými og hægt er. Formbyggingin er naum og rétt nægileg til að ná tilgangi sínum en að því leyti mætti kalla verkin eins konar minimalisma, sér í lagi verkin þar sem endutekin eða hnígandi form draga athyglina að rúmfræði byggingarinnar. Hallsteinn er trúr sínum efnivið, notar járn og stundum ál, en hins vegar dregur hann ávallt úr vægi efnisins, öfugt við það sem nú tíðkast iðulega, og sækist frekar eftir gegnsæi svo innri bygging verkanna verði sýnileg. Þessi áhersla á formbyggingu og léttleiki verkanna valda því að þau virðast hljóðlát samanborið við mikið af höggmyndalist samtímans þar sem lagt er upp úr því að fanga örugglega athygli áhorfandans. Verk Hallsteins hefur síðan verið sífelld framþróun og úrvinnsla þessara formpælinga. Eftir hann liggja nú myndir á söfnum og útilistaverk á almannafæri, hann hefur haldið á annan tug einkasýninga, tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og verið virkur í starfi myndlistarmanna, einkum í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík sem hann stofnaði ásamt þeim Jóni Gunnari Árnasyni, Ragnari Kjartanssyni, Þorbjörgu Pálsdóttur og fleirum árið 1972. Þá má ekki gleyma höggmyndagarðinum sem Hallsteinn hefur komið upp í Gufunesi þar sem sjá má um tuttugu og fimm verk frá honum í ýmsum stærðum og frá ýmsum tímum. Með sýningu á Kjarvalsstöðum 1988 tefldi Hallsteinn hins vegar fram nýrri og skarpari sýn með verkum í járnteina og -plötur. Það var um það talað í umsögn Morgunblaðsins hve sýningin væri heilleg og athyglisverð og sagt að Hallsteinn væri „nú mun öruggari í formum en áður og um leið hnitmiðaðri í vinnubrögðum“ auk þess sem verkin væru lífrænni í útfærslu. Það var öllum ljóst að hér hafði Hallsteinn náð þeim eftirsóknarverða punkti í listsköpun sinni þegar form og efni, hreyfing og inntak, ná að syngja saman einum sterkum hljómi. Myndirnar eru léttar og líkt og svífa í fullkomnu jafnvægi í rýminu þótt þær standi á gólfi. Þær eru þó langt í frá einfaldar; allt vitnar um handbragð hámenntaðs manns og gríðarlega agaða formsýn. Hreyfingin og hrynjandin í formunum er leikandi en hárnákvæm. Verkin voru líka afstrakt og geómetrísk en eldri álverkin höfðu margar haft tilvísun í manneskjur eða hluti þótt tilvísunin hafi verið teygð og losað um hana að mestu. Framþróunin í list Hallsteins hefur ekki verið minni eftir Kjarvalsstaðasýninguna 1988 en fram að þeim tíma. Umfram allt sprettur það af þrotlausri vinnu og umsýslu við myndirnar svo verkið leikur í þjálfaðri hendi listamannsins, formin spretta fram á vinnustofu hans. Smátt og smátt hefur hann líka tekið fyrirmyndir aftur inn í verkin en nú á formrænni forsendum en áður. Gott dæmi um það eru verkin Vængir á þessari sýningu í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þar sem Hallsteinn spinnur saman útlínur af fuglsvængjum í hrynjandi þríðvíð form sem svífa og snúast hangandi úr lofti. Verkin Hjól eru stúdíur um hringformið sem er auðvitað hreint afstrakt en þau fjalla líka um hringhreyfingu í náttúrunni og eru hluti af umfangsmikilli rannsókn Hallsteins í tengslum við útilistaverkið sem nú stendur við lækinn í Hafnarfirði og er minnismerki um fyrstu rafveituna sem sett var upp þar nærri. Loks er plógurinn til enn frekari staðfestingar á því að Hallsteinn veigrar sér ekki við að leita nú hreinna fyrirmynda og hefur öryggi og vald til að fella þær hnökralaust að mynd- og formhugsun sinni.“ -"Jón Proppé" (hluti greinar í sýningarskrá) Benjamin Jowett. Benjamin Jowett (15. apríl 1817 – 1. október 1893) var enskur fornfræðingur, guðfræðingur og skólameistari á Balliol College í Oxford. Hann var skipaður Regius-prófessor í grísku haustið 1855 en hann hafði kennt á Balliol College frá 1842. Jowett tók að sér að þýða allar samræður Platons yfir á ensku. Hann vann að þýðingunum í rúman áratug en þær komu út árið 1871. Þýðingar Jowetts eru enn fáanlegar og víða lesnar. Jowett þýddi einnig "Stjórnspekina" eftir Aristóteles og Þúkýdídes. Jowett, Benjamin Jowett, Benjamin Jowett, Benjamin E-efni. E-efni kallast þau aukefni í mat, samþykkt af ESB, notuð í stað sykurs eða til að kalla fram ákveðinn lit, bragð eða áferð eða jafnvel til að auka geymsluþol. Alls eru um 340 viðurkennd e-efni. Malaví-vatn. Malaví-vatn í Malaví er þriðja stærsta stöðuvatn í Afríku, alls 29 þús. ferkílómetrar. Vatnið er talið hafa myndast í sigdalnum mikla fyrir um 40 þúsund árum. Í vatninu og við strendur þess er mikið líf og er byggðin þéttust á bökkum þess og eru þar mörg þorp og bæir, þeirra á meðal Monkey Bay sem er við suðurenda þess. Tvö lönd auk Malaví eiga landamæri að vatninu en það eru Mósambík og Tansanía. Náttúrufar. Vatnið sjálft er 560 km langt og þar sem það er breiðast er það 75 km. Meðaldýpt þess eru 292 metrar en mesta dýpi er alls 760 m. Í vatninu eru nokkrar eyjar, flestar austanmegin í því. Einungis tvær þeirra eru byggðar, Likoma og Chizumulu, sem eru hólmlendur Malaví, en allt vatnið í kringum þær tilheyrir Mósambík. Eyjaskeggjar lifa á banana- og mangórækt, auk þess sem þeir stunda fiskveiðar á vatninu. Í báðum eyjunum er rafmagn en það er aftengt eftir klukkan 11 á kvöldin og er það gert til sparnaðar. Við suðurenda vatnsins rennur Shire-áin en hún er ein af þverám Zambezi-fljótsins. Samgöngur. Frá Monkey Bay er gerð út gufuaflsferja sem gengur út í eyjarnar Likoma og Chizumulu og til Karonga við norðurenda vatnsins. Hún gengur einnig til Iringa-héraðs í Tansaníu þegar vel liggur á henni. Frá Nkhata Bay er gerð út ferja til eyjanna á vatninu. Þessi ferja leggur ekki að landi heldur ferjar farþega frá skipinu til lands á litlum árabátum. Dýralíf. Áhyggjur af fiskistofnum í vatninu voru lengi vel til staðar, og var það vegna þess að veiðimenn veiddu helst á eintrjáningum á grunnsævi en ekkert lengra úti á vatninu. Talið er að grunnvatnsfiskar hafi af þeim sökum átt undir högg að sækja en úr því hefur verið bætt með því að koma stórvirkari veiðibátum út á meira dýpi. Heimamenn hafa fengið hjálp frá Slippstöðinni á Akureyri, en þeir afhentu Malövum bát árið 1993. Einnig hefur Landhelgisgæslan hjálpað þeim við kortlagningu á botni vatnsins á árabilinu 2000 til 2004. "Cichlidae" eru algengir í vatninu en þeir eru vinsælir sem skrautfiskar. D.R. Shackleton Bailey. David Roy Shackleton Bailey, stundum nefndur Shack en oftast Shackleton Bailey (10. desember 1917 – 28. nóvember 2005 í Ann Arbor í Michigan í Bandaríkjunum) var enskur fornfræðingur, textafræðingur og sérfræðingur um latneskar bókmenntir og textarýni latneskra texta. Hann var prófessor í fornfræði við Cambridge-háskóla, Michigan-háskóla og Harvard-háskóla. Æviágrip. Shackleton Bailey nam fornfræði og austurlandafræði við Gonville & Caius College í Cambridge en á árum síðari heimsstyrjaldarinnar vann hann fyrir bresk yfirvöld í Bletchley Park. Hann sneri aftur til Caius College árið 1944 og varð árið 1948 lektor í tíbetsku við Cambridge-háskóla. Hann flutti sig yfir til Jesus College, Cambridge árið 1955, þar sem hann hóf að einbeita sér að latneskum bókmenntum. Hann kenndi aftur á Caius College frá 1964 til 1968. Sagan hermir að Sir Denys Page, sem var skólameistari á Jesus College, hafi neitað Shackleton Bailey um að láta setja kattalúgu á gamla eikarhurð hjá sér. Árið 1968 flutti Shackleton Bailey til Ann Arbor í Michigan og tók við prófessorsstöðu þar. Árið 1976 tók hann við prófessorsstöðu á Harvard-háskóla, fyrst í grísku og latínu en frá 1982 gegndi hann stöðu Pope-prófessors í latínu og latneskum bókmenntum. Hann var tvisvar sinnum ritstjóri "Harvard Studies in Classical Philology" (1980-1981 og 1983-1985). Shackleton Bailey lét af störfum hjá Harvard 1988 en varð aðjúkt við fornfræðideild Michigan-háskóla. Shackleton Bailey þótti afar vænt um ketti. Fyrsta bindið af sjö binda útgáfu hans af bréfum Ciceros, sem kom út hjá Cambridge University Press, er tileinkað Donum, ketti sem Frances Lloyd-Jones gaf Shackleton Bailey. Shakcleton Bailey var sæmdur Kenyon-orðunni af Bresku akademíunni árið 1985. Háskólinn í Dublin sæmdi hann heiðursdoktorsnafnbót (Litt.D.) árið 1984. Hann var meðlimur í American Philological Association, sem veitti honum Goodwin-verðlaunin árið 1978. Hann var einnig meðlimur í American Academy of Arts and Letters. Megnið af fræðastarfi Shackletons Bailey snerist um textafræði latneskra texta og Rómarsögu. Á eftirlaunaárunum útbjó hann margar þýðingar fyrir Loeb-ritröðina hjá Harvard University Press, þar á meðal á verkum Martialis, Valeriusar Maximusar, Statiusar og bréfum Ciceros. Shackleton Bailey lést úr Alzheimers. Þýðingar. Shackleton Bailey, D.R. Shackleton Bailey, D.R. Satýr. Satýrar eru vættir í grískri goðafræði og eru nátturúvættir eins og dísirnar. Satýrar eru lævísir og kersknir, hneigðir til víndrykkju, dansferðar og söngs. Þeir eru að vísu með töluvert mannlega sköpun, en þeim svipar þó stórum í dýrakyn, einkum til geithafranna. Þeir hafa úfið lubbahár, söðulnef og uppmjó geitareyru og stundum rófur eins og geitur. Reika þeir með gárungsskap og ærslum um fjöll og skóga. Mönnum eru þeir ekki góðviljaðir, ráðast þeir á hjarðir, hræða ferðalanga og elta konur með lostafullu ástaglensi. Þeir bylta sér í fylgdarliði Díonýsosar, og við hátíðahöld þau, sem þeim voru haldin, áttu satýrleikar grísku leikhúsanna upptök sín, hinir svonefndu bukkaleikar. Bukkaleikur. Bukkaleikur er íslensk þýðing á gríska orðinu "satyrikon" (stundum nefnt satýrleikur), en það var stutt leikrit í gamansömum stíl, sem haft var til að hressa upp á áhorfendur eftir að hafa horft á þrjá harmleiki í röð. Aðeins tveir slíkir eru varðveittir, "Kýklópinn" eftir Evrípídes og "Sporrakkarnir" eftir Sófókles. Í þessum leikjum var kórinn í líki satýra eða geitmenna, og af því er nafnið dregið. Má í því sambandi og minna á að hið gríska nafn harmleiksins er dregið af orðinu "tragos", sem þýðir geithafur. Sílenar. Sílenar eru náskyldir satýrum í grískri goðafræði. Þeir eru drykkfeldir, hafa hestseyru og tögl. Í fyrstu hugsuðu menn sér aðeins einn "Sílenos": sköllóttan öldung og loðbrjóstaðan, feitan og ávalan eins og vínbelg. Hann ól upp Díonýsos. Er fæturnir fengu ekki framar borið hann, reið hann á asna í fylgdarliði guðsins, og studdu hann Satýrar. Guðinn hafði á honum hinar mestu mætur. Einu sinni villtist "Sílenos" í ölæði inn í garða Mídasar konung í Frygíu. Konungur færði Díonýsosi hinn vínelska öldung, og hlaut hann að launum eina ósk. Mídas var vellauðugur, en eftir því ágjarn. Óskaði hann sér þess, að allt sem hann snerti við, yrði að gulli. Óskin rættist og það svo hatrammlega, að brauðið, vatnið og allt, sem hann ætlaði að neyta, varð að gulli. Í angist sinni bað hann Díonýsos að losa sig undan þessu böli. Skipaði guðinn honum að baða sig í fljótinu "Paktolos". Síðan ber fljót það fram gullsand. Marsyas, einn af Sílenum, fann upp hljóðpípuna. Að vísu segja attískar sagnir, að Aþena hafi fundið hana upp, en kastað henni brott, af því að hljóðpípuleikurinn afskræmdi á henni munninn. Hafi þá Marsyas fundið hljóðfæri þetta og þreytt kappi við Apollon um sönglegar íþróttir. Í refsingarskyni fyrir fífldirfskuna hefði guðinn svo flegið hann lifandi. Cyril Bailey. Cyril Bailey (1871 – 1957) var breskur fornfræðingur og textafræðingur. Bailey fékkt einkum við rómversk trúarbrögð og epikúríska heimspeki, bæði hjá Epikúrosi sjálfum en ekki síður hjá rómverska skáldinu Lucretiusi; auk þess fékkst hann við höfunda á borð við Óvidíus, Virgil og Aristófanes. Þýðingar. Bailey, Cyril Bailey, Cyril Denys Page. Sir Denys Lionel Page (1908 – 1978) var breskur fornfræðingur og textafræðingur, sem fékkst einkum við forngrískar bókmenntir. Hann kenndi grískar og latneskar bókmenntir í Oxford og fornfræði á Christ Church. Ritstýrðar útgáfur og skýringarrit. Page, Denys Page, Denys Wendell Clausen. Wendell Vernon Clausen (2. apríl 1923 í Oregon í Bandaríkjunum – 12. október 2006) var bandarískur fornfræðingur og textafræðingur og prófessor í latínu og latneskum bókmenntum á Harvard-háskóla. Hann nam enskar bókmenntir og latínu til B.A.-prófs í Washington-háskóla. Þaðan hélt hann til Chicago-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi þremur árum síðar. Hann kenndi fornfræði við Amherst-háskóla (1948-1959) og síðar á Harvard þar sem hann var prófessor í grísku og latínu (1959-1982), síðan Victor S. Thomas-prófessor í grísku og latínu (1982-1988) og að lokum Pope-prófessor í latínu og latneskum bókmenntum (1988-1993). Hann var frumkvöðull í rannsóknum á tengslunum milli latnesks kveðskapar og grísks kveðskapar frá helleníska tímanum Heimildir. Clausen, Wendell Clausen, Wendell Miriam Griffin. Miriam Tamara Griffin er breskur fornfræðingur, textafræðingur og sagnfræðingur, sem fæst einkum við sögu Rómaveldis og hugmyndasögu á tímum Rómaveldis. Hún var lektor í fornfræði á Trinity Collece í Oxford. Hún er gift fornfræðingnum Jasper Griffin. Greinar. Griffin, Miriam Griffin, Miriam G.E.L. Owen. Gwilym Ellis Lane Owen (fæddur 18. maí 1922, látinn 10. júlí 1982) var fornfræðingur og heimspekingur, sem einkum fékkst við frumspeki og málspeki í heimspeki Platons og Aristótelesar. David Ricardo. David Ricardo (18. apríl 1772 í London á Englandi — 11. september 1823) var breskur stjórnmálafræðingur og hagfræðingur af portúgölskum gyðingaættum. Honum er oft eignaður heiðurinn á því að hafa kerfisbundið hagfræðina en hann var ásamt þeim Thomasi Malthus og Adam Smith einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar. Ricardo var einnig viðskiptamaður, fjárfestir og auðmaður. Jarðrenta. Ricardo kom fyrstur orðum að því sem að aðrir höfðu ef til vill veitt athygli að framboð á landi, það er jörðum héldist nokkur nveginn fast. Þess vegna væri það þannig að þegar eftirspurn á landi eykst þá hækkaði verðið og öfugt. Þar sem þessi verðbreyting verður án nokkurs vinnuframlags af hálfu eiganda jarðarinnar kallaði hann þetta "jarðrentu". Seinna meir átti bandarískur hagfræðingur, Henry George, eftir að veita þessu athygli og leggja til að jarðir yrðu skattlagðar með sérstökum auðlindaskatt. Hlutfallslegir yfirburðir. Ein helsta hugmynd Ricardos leit að hlutfallslegum yfirburðum (e. "comparative advantage") í verkaskiptingu. Þá er átt við að sökum náttúrulegra orsakna, til dæmis gena eða misjafnri dreifingu náttúruauðlinda, hentar það mismunandi einstaklingum að sérhæfa sig á því sviði þar sem framleiðni þeirra er sem mest. Þetta gæti virst sjálfgefið við fyrstu sín en á 18. öld var Ricardo fyrstur til að yfirfæra þessa hugmynd yfir á þjóðhagfræði. Til dæmis að þar sem Íslendingar hafa gjöful fiskimið og Spánverjar framleiða mikið af víni væri það hagkvæmt að Íslendingar slepptu framleiðslu víns og Spánverjar einbeittu sér frekar að því en að veiða og viðskipti þjóðanna á milli séu til þess að báðar hefðu gnótt af hvoru. Tenglar. Ricardo, David Ricardo, David Pittsburgh-háskóli. Pittsburgh-háskóli eða Háskólinn í Pittsburgh (University of Pittsburgh), einnig þekktur sem Pitt, er rannsóknarháskóli í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1787 Nemendur í grunnnámi eru rúmlega 17 þúsund en tæplega 10 þúsund stunda framhaldsnám við skólann. Rúmlega 1.500 kennarar starfa við skólann. Fjárfestingar skólans nema rúmlega 1,8 milljörðum bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru "Veritas et Virtus" eða „Sannleikur og dygð“. Michigan-háskóli. Michigan-háskóli í Ann Arbor (University of Michigan, Ann Arbor, einnig þekktur sem UM, U of M eða Umich) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Michigan fylki í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1817 um 20 árum áður en Michigan varð ríki. Skólinn flutti til Ann Arbor árið 1837. Hann er elsti háskólinn í Michigan. Nemendur í grunnnámi eru á 26. þúsund og framhaldsnemar eru á 16. þúsund. Á sjöunda þúsund kennarar starfa við skólann. Fjárfestingar skólans nema um 5,65 milljörðum bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru "Artes, Scientia, Veritas" eða „Listir, vísindi, sannleikur.“ Luzern. Luzern er stærsta borgin í kantónunni Luzern í Sviss (75 þús íbúar) og er jafnframt höfuðborg kantónunnar. Hún er að sama skapi áttunda stærsta borgin í Sviss. Lega og lýsing. Luzern stendur við vesturenda stöðuvatnsins Vierwaldstättersee, nokkuð miðsvæðis í Sviss og nemur við norðurrætur Alpafjalla. Fjallið Pílatus gnæfir yfir borgina. Áin Reuss rennur úr vatninu og í gegnum miðborgina. Til borgarinnar heyrir lítið landsvæði við suðurströnd Vierwaldstättersee, sem er að öðru leyti umlukið kantónunni Nidwalden. Næstu borgir eru Olten til norðvesturs (50 km), Zürich til norðausturs (60 km) og Bern til vesturs (95 km). Luzern er miðstöð menninga og ferðamennsku í miðhluta Sviss. Flestir eru þýskumælandi. Upphaf. Eftir að Rómverjar hurfu af svæðinu, settust alemannar þar að. Árið 710 var klaustrið St. Leodegar stofnað á núverandi borgarstæði Luzern, en svæðið kallaðist um þessar mundir Luciaria. Habsborgarar voru eigendur héraðsins á 12. öld. Borgin Luzern var formlega stofnuð af bræðrunum frá Eschenbach í lok þeirrar aldar. Stofnárið er ekki þekkt, en það mun hafa verið á bilinu 1180-1200. Luzern óx hratt í upphafi, en 1250 náði hún þeirri stærð sem hún var allt fram á 19. öld. Hún var hliðið að Gotthardleiðinni til Ítalíu. Þegar Habsborgarar ásældust meiri og meiri völd yfir staðnum, leituðu íbúar í æ ríkara mæli til svissneska sambandsins, sem stofnað var 1291. 1332 gerði borgin fyrsta samning við sambandið og fékk inngöngu í það á sama ári. Luzern var þar með fyrsta héraðið sem gekk í svissneska sambandið eftir stofnun þess og varð að fimmtu kantónunni. Næstu tvær aldir einkenndust af útþennslu á borgríkinu, enda var Luzern leiðandi aðili í svissneska sambandinu. Trúarórói. Elsta myndin af Luzern er frá 1507. Kapellbrúin er greinileg á miðri mynd. Árið 1520 fóru siðaskiptin fram í nokkrum borgum, en Luzern hafnaði nýju trúnni og hélst kaþólsk. Þetta olli klofningi í sambandinu. Luzern barðist í trúarorrustunni við Kappel 1531, þar sem kaþólikkar sigruðu heri siðaskiptaborganna. Trúartogstreitan stóð þó enn í hartnær tvær aldir. En siðaskiptin fóru aldrei fram í Luzern og er hún kaþólsk enn í dag. Það var ekki fyrr en 1712 að reformeruðu borgirnar sigruðu í seinna Villmerger-stríðinu. Nýrri tímar. 1798 hertóku Frakkar Luzern, sem og allt svissneska sambandið. Stofnað var helvetíska lýðveldið. Höfuðborg þess var borgin Aarau til að byrja með. En hún þótti of lítil og var því leitað að heppilegri borg. Þá varð Luzern fyrir valinu og var Luzern því höfuðborg Sviss þar til Bern var kosin sem höfuðborg 1848. Þegar þingið flutti frá Luzern var iðnbyltingin ekki hafin þar í borg. Árið 1860 störfuðu t.d. aðeins 1,7% íbúanna við iðnað, en það var margfalt minna en í öðrum svissneskum borgum. Borgin var enn landbúnaðarborg. Þetta breyttist síðla á 19. öld er iðnaður varð æ víðtækari. Frá miðri 19. öld til 1913 fjórfaldaðist íbúafjöldinn. Á 20. öld stækkaði borgin enn og fór íbúafjöldinn upp í 75 þús þegar mest var í upphafi 8. áratugarins. En síðan fækkaði í borginni aftur talsvert. Árið 2010 var samþykkt í atkvæðagreiðslu að sameina sveitarfélagið Littau við borgina Luzern. Nú búa þar 75 þús manns á ný, en takmark borgarinnar er að mynda borg með 150 þús manns. Þar með yrði Luzern að fjórðu stærstu borg í Sviss. Viðburðir. Ein af skrúðgöngunum í Luzerner Fasnacht 2009 Luzerner Fasnacht er stærsta hátíð borgarinnar, sem og Mið-Sviss. Um er að ræða skrautgöngur um götur miðborgarinnar. Oftar en ekki er fólkið skreytt í ýmsum skrýtnum búningum, stundum með skrautvagna. Fumetto er árleg teiknimyndahátíð ("Comic-Festival") í borginni. Hún stendur yfir í níu daga í miðborginni. Sýndar eru nýjustu teiknimyndasögurnar, myndir, listaverk, grafík, sýningar, hreyfimyndir og margt annað. Á hátíðinni hittast margir helstu teiknimyndateiknarar í heimi, sem og margir ungir listamenn og byrjendur. Rose d'Or ("Gullna rósin") er heiti á sjónvarpshátíð sem stofnuð var í Montreux 1961. Hér er um sjónvarpsefni að ræða, en eftir sýningar á útvöldu efni eru verðlaunin Gullna rósin veit fyrir besta sjónvarpsefnið. Verðlaunahafar eru oft frá öðrum löndum og meðal verðlaunahafa má nefna Barbra Streisand and other Musical Instruments, The Muppet-Show, The Benny Hill Show, Spitting Image, Mr. Bean, Monty Python og marga fleiri. Hátíðin hefur verið haldin árlega í Montreux frá 1961 til 2004, er hún var flutt til Luzern. Maraþonhlaupið í Luzern er þriðja fjölmennasta Maraþonhlaupið í Sviss. Það hefur verið haldið árlega síðan 2007 og eru þátttakendur hátt í 10 þús. Byggingar og kennileiti. Kapellbrúin er elsta yfirbyggða brú Evrópu Ljónastyttan er eftir Bertel Thorvaldsen Kolkis. Kolkis (gríska: "Κολχίς") var í fornöld konungsríki við botn Svartahafs þar sem nú eru Georgía, Tyrkland og Abkasía. Strönd landsins varð að grískri nýlendu á 6.-5. öld f.Kr.. Ásamt Kákasus-Íberíu varð Kolkis grunnur að ríkinu Georgíu. Í grískri goðafræði var Kolkis landið þar sem gullna reyfið var geymt. Gullna reyfið. Gullna reyfið var hrútsreyfi úr gulli í grískri goðafræði. Þess var gætt af ógurlegum dreka en Jason, fyrirliði Argóarfara, náði því og flutti til Hellas. Aþamant Eolosson, konungur Minýja í Orkomenos, átti við Nefele (= ský), konu sinni, tvö börn, soninn Frixos (= hið niðandi regn) og dótturina Helle (= hið lifandi ljós). Er Aþamant sneri baki við Nefele og kvæntist Ino, steig Nefele til himins og sendi landi Minýja hræðilegan þurrk. Ino vildi Frixos feigan. Taldi hún því mann sinn á að fórna honum Seifi, til þess að guðinn sendi aftur regn. Nefele sendi þá börnum sínum hrút með gullreyfi, og varð systkinunum undankoma auðið á baki hrútsins. Á flóttanum steyptist Helle af baki í sjóinn í sund það, er síðan er við hana kennt og kallað Hellespont. Frixos komst til Pontos. Liggur land það fyrir austan Pontos Evxinos eða Svartahaf. Fórnaði hann Seifi hinum gullna hrút og hengdi reyfið upp í lundi einum. Hélt síðan dreki einn ógurlegur vörð um það. Þaðan flutti Jason gullreyfið til Hellas. Smástirni. Smástirni eru tiltölulega lítil berg- og málmkennd reikistirni í sólkerfinu, sem hafa ekki halastjörnuvirkni, ganga á sporbaugi um sólina á sama stað og Júpíter eða innar og eru of smá til að geta talist til reikistjarna. Þvermál smástirna er innan við 1000 km. Flest smástirna sólkerfisins finnast í smástirnabeltinu á milli brauta Mars og Júpíters. Dvergreikistjarnan Seres er langstærsta smástirnið en massi hennar er þriðjungur af heildarmassa allra smástirna í smástirnabeltinu. Fyrstu smástirnin uppgötvuð. Milli brauta Mars og Júpíters eru þúsundir smástirna í s.n. smástirnabelti og er umferðartími þeirra um sólina 4 til 5 jarðarár að meðaltali. Stærð smástirna er mjög mismunandi og ekki er nákvæmlega vitað um stærð þeirra minnstu, en talið er að mikill fjöldi þeirra sé undir 1 km í þvermál. Seres, 785 km í þvermál, var fyrsta smástirnið sem uppgötvaðist 1801, en er nú talinn til dvergreikistjarna. Eftir að Seres fannst var farið svipast um eftir fleiri himintunglum (vísbendingar voru um himinhnött milli Mars og Júpíters, sem gæti jafnvel verið reikistjarna), en sá fannst 1804. Stjörnufræðingar komust að þeirri niðurstöðu að um smástirni væri að ræða og hlaut það nafnið Pallas. Segja má að smástirnabeltið skiji að "innri-" og "ytri reikistjörnur". Fleiri smástirni finnast. Þriðja smástirnið, Júnó fannst skömmu eftir Pallas, en það fjórða, Vesta fannst þremur árum síðar, 1807. Fimmta smástirnið, Astrea fannst ekki fyrr en árið 1845 af þýskum áhugamanni, sem hafi leitað þess í fimmtán ár, eftir því sem sagan segir. Árið 1847 fundust svo þrjú í viðbót, en síðan hefur þeim fjölgað ört, sem sést best á því að fjöldi þekktra smástirna í smástirnabeltinu er kominn yfir 3000. (Sumir telja fjölda þeirra allt að 50 þúsund.) Brautir margra smástirna hafa verið ákvarðaðar með útreikningum og eru margar nærri hringlaga, en aðrar mjög sporöskjulaga með sólina sem brennipunkt. Lögun smástirna. Álitið er að flest smástirni séu óregluleg að lögun, en ekki hnattlaga eins og reikistjörnur og tungl. Ostrołęka. Ostrołęka er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 53.831 árið 2005. Jason Argóarfari. Jason Argóarfari var kappi í grísku goðafræðinni, fóstri Keirons Kentárs hins vitra. Jason átti að réttu að erfa konungstign í Jolkos, en "Pelías", hálfbróðir föður hans hafði sölsað undir sig völdin. Er Jason var frumvaxta hélt hann því til Jolkos og krafðist konungsdómsins af Pelíasi. Á leiðinni þangað varð Jason laus annar skórinn í keldu. Nú hafði Pelías fengið þær spáfréttir, að hann skyldi vara sig á manni þeim, er mundi koma einskóaður á hans fund. Reyndi hann því að senda Jason forsendingu. Hét hann honum að vísu konungdómi, en þó með því skilyrði, að hann færði sér gullreyfið frá Kolkis. Lét Jason nú gera skip fimmtugært, er "Argó" nefndist. Eins og Argó hafði fimmtíu árar, þannig voru það og fimmtíu hinna ágætustu kappa Grikklands, sem sigldu á þessu skipi til Kolkis undir forystu Jasonar. Argóaför. Lögðu þeir fyrst að landi á eynni Lemnos og höfðust þar við um hríð í góðu yfirlæti hjá konum þeim, er þar byggðu. Höfðu þær vegið menn sína, sem voru þeim ótrúir, og réðu síðan sjálfar ríkjum. Gat Jason tvo syni við drottningu þeirra. Héldu þeir síðan áfram för sinni og lentu í ýmsum mannraunum og ævintýrum, uns þeir komu til Skellidranga ("Symplegades"). Gnæfðu drangar þessir, þar sem leið lá inn í Svartahaf. Í hvert sinn er skipi skyldi sigla á milli þeirra, skelltust þeir saman. Fyrir fulltingi Aþenu komst Argó samt heilu og höldnu í gegn. Upp frá því standa þeir grafkyrrir. Argóarfarar léttu loks akkerum í Kolkis, skammt þaðan, er lundurinn var, sem Frixos hafði hengt upp gullna reyfið í. Eldfnæsandi naut, drekasæði og Medea. Réð þar ríkjum "Eetes", sonur Helíosar. Hann átti dóttur, þá er Medea hét. Var hún hofgyðja Hekete og hin mesta galdranorn. Eetes hét Jasoni reyfinu, en þó með örðugum skilmálum: Hann átti að beita tveim eldfnæsandi nautum fyrir plóg og plægja með þeim akurteig, sá tönnum dreka eins í jörðina og leggja að velli brynjaða kappa, er spretta mundu upp af sæði þessu. Medea varð viti sínu fjær af ást til Jasonar. Tilreiddi hún honum töfrasmyrsl, svo að eldur fekk ekki grandað honum. Að hennar ráðum varpaði hann steinum á meðal kappana. Urðu þeir af því ósáttir sín á milli og drápu hver annan. Gullna reyfið. Þrátt fyrir þetta vildi Eetes ekki láta laust reyfið og sat á svikráðum við kappana grísku. Svæfði Medea þá með göldrum drekann, er reyfsins gætti. Hafði Jason gersemina á brott með sér og flýði ásamt Medeu og köppunum sínum á Argó. Medea hafði og með sér ungan bróður sinn. Er Eetes veitti þeim eftirför, brytjaði hún sveininn í sundur og kastaði líkinu lim fyrir lim í sjóinn, til þess að Eetes tefðist við að taka upp stykkin. Komst Argó undan. Ævintýralok. Eftir að Jason hafði ratað í mörg ævintýri, komst hann loks til "Jolkis" og seldi Pelíasi í hendur gullreyfið. En Pelías vildi ekki að heldur láta konungdóm af hendi við Jason. Neytti Medea þá þá hatrammlegra bragða. Taldi hún dætur hins aldurhnigna konungs á að höggva föður sinni í stykki og sjóða þau í töfralegi nokkrum, er hún hafði bruggað. Fullvissaði hún dæturnar um, að faðir þeirra mundi við það verða ungur í annað sinn. Lét Pelías þannig líf sitt, en sonur hans hrifsaði til sín völdin. Urðu þau Jason og Medea að flýja undan til Korinþuborgar. Andlát Jasonar. Sneri Jason þar baki við Medeu, en gekk að eiga Kreúsu, konungsdóttur í Korinþu. Í brúðargjöf sendi Medea Kreúsu skikkju og ennishlað. Voru gripir þeir eitraðir og urðu hinni ófarsælu brúði að fjörlesti. Drap Medea síðan börn þau, er hún hafði átt með Jasoni og flýði á gandreið til Aþenuborgar. Varð hún þar ástmær Egeifs konungs. En er Þeseifur vitjaði ættborgar sinnar, varð hún að hrökklast til Kolkis. Þau urðu ævilok Jasonar, að hann rotaðist undir skip sínu, Argó, og lét þar líf sitt. Magna Graecia. "Magna Graecia" (latína: „Stór-Grikkland“) var heiti á byggðum Grikkja á Suður-Ítalíu sem hófu að byggjast á 8. öld f.Kr. Sagnariturum ber ekki saman um hvort hugtakið nái líka yfir Sikiley eða aðeins Kalabríu og Apúlíu. Á þessum stöðum reistu Grikkir borgir eins og Neapolis (Napólí), Sýrakúsu, Akragas og Sybaris sem urðu miðstöðvar grískra borgríkja. Grísku nýlendurnar á Ítalíu áttu erfitt með að halda sjálfstæði sínu gagnvart útþenslu Karþagómanna og síðan Rómverja. Að síðustu var "Magna Graecia" lögð undir þá síðarnefndu eftir orrustuna við Beneventum í Pyrrosarstríðinu árið 275 f.Kr. Tarentum og aðrar grískar borgir viðurkenndu rómversk yfirráð árið 272 f.Kr. Töluverðar menjar um gríska menningu er að finna á Sikiley, Kalabríu og Apúlíu. Í tveimur síðarnefndu héruðunum er að auki hægt að finna talaðar mállýskur sem eru beinir afkomendur þeirrar grísku sem töluð var í fornöld. Arsène Wenger. Arsène Wenger (f. 22. október 1949 í Strassborg) er franskur þjálfari og knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Wenger tók við liði Arsenal árið 1996 og hann er farsælasti knattspyrnustjóri liðsins frá upphafi. Wenger lék á yngri árum með nokkrum frönsku knattspyrnuliðum á meðan hann nam við Háskólann í Strasbourg. Wenger er menntaður verkfræðingur en hann er einnig með meistaragráðu í hagfræði. Ferill sem knattspyrnustjóri. Árið 1984 tók Wenger við sem knattspyrnustjóri franska liðsins Nancy en liðinu gekk heldur brösuglega undir hans stjórn og féll í aðra deild á þriðju leiktíð Wenger. Árið 1987 tók hann við stjórnartaumunum hjá A.S. Monaco og gekk betur með það lið. Monaco vann deildina strax þá leiktíð (1987-88) þegar Wenger tók við, og seinna vann hann deildarbikarinn með liðinu árið 1991. Hann fékk marga góða leikmenn til liðsins, s.s. Glenn Hoddle, George Weah og Jürgen Klinsmann. Þá fékk hann einnig hinn 23 ára gamla Youri Djorkaeff frá RC Strasbourg. Wenger bauðst að taka við sem knattspyrnustjóri þýska liðsins Bayern München og franska landsliðinu en afþakkaði. Hann var hins vegar beðinn um að taka pokann sinn hjá Monaco þegar liðinu gekk illa í byrjum leiktíðar 1994-95. Þá tóku við 18 mánuðir í herbúðum japanska liðsins Nagoya Grampus Eight. Liðið sigraði japanska deildarbikarinn, Emperors Cup, strax fyrsta ár Wenger. Þá kom hann liðinu frá botni deildarinnar upp í annað sæti. Hjá Grampus réð Wenger Boro Primorac sem aðstoðarmann en hann átti eftir að verða mikilvægur hlekkur síðar á ferli Wengers hjá Arsenal. Arsenal. Arsène Wenger kynntist þáverandi stjórnarformanni Arsenal, David Dein, á leik milli Arsenal og Queens Park Rangers árið 1988. Þegar Bruce Rioch fór frá liðinu árið 1996 mælti Gerard Houllier, sem þá vann hjá franska knattspyrnusambandinu, með Wenger í stöðu nýs knattspyrnustjóra. Arsenal staðfesti ráðninguna 28. september en Wenger tók við 1. október. Hann var þá fyrsti knattspyrnustjóri liðsins sem ekki var af bresku eyjunum; en jafnframt óþekktur á Englandi. Wenger mælti með kaupum á Frökkunum Patrick Vieira og Remi Garde til liðsins mánuði áður en hann tók til starfa. Fyrsti leikurinn var gegn Blackburn Rovers 12. október en hann endaði með 2-0 sigri Arsenal. Fyrstu leiktíð Wengers endaði liðið í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og rétt missti af sæti í Meistaradeild Evrópu vegna markamunar. Eftir aðra leiktíð Wengers hjá Arsenal stóð liðið uppi sem sigurvegari bæði ensku úrvalsdeildarinnar og bikarsins. Í deildinni hafði liðið unnið upp 12 stiga forskot Manchester United og tveimur leikjum fyrir deildarlok var titillinn í höfn. Liðið samanstóð meðal annars af þeim Tony Adams, Nigel Winterburn, Lee Dixon og Martin Keown en þeir voru allir leikmenn liðsins áður en Wenger kom til sögunnar. Auk þess fékk Wenger til liðisns Emmanuel Petit og Marc Overmars, auk Viera. Þá voru táningsstjarnan Nicolas Anelka og Dennis Bergkamp aðalsóknarpar liðsins. Næstu tímabil dró ekki sérstaklega til tíðinda hjá liðinu. Árið 1999 lentu þeir í 2. sæti í deildinni, einu stigi á eftir Manchester United. United sló liðið út í framlengdum undanúrslitaleik í bikarkeppninni. Þá tapaði liðið fyrir Galatasaray í Meistardeild Evrópu, eftir vítaspyrnukeppni. Tveimur árum síðar lenti Arsenal í 2. sæti í enska deildarbikarnir; Liverpool-menn stóðu þá uppi sem sigurvegarar. Wenger vildi breyta slæmu gengi liðsins og keypti því nokkra nýja leikmenn. Þetta voru meðal annars Sol Campbell frá Tottenham, Fredrik Ljungberg, Thierry Henry og Robert Pires. Nýju liðsmennirnir þurftu sinn aðlögunartíma en þrátt fyrir það sigraði liðið bæði ensku úrvalsdeildina og enska bikarinn leiktíðina 2001-02. Það var í næst síðasta leik deildarinnar, útileik gegn Manchester United, sem Sylvain Wiltord skoraði eina mark leiksins og tryggði Arsenal efsta sæti í deildinni. Þetta var í þriðja sinn sem Arsenal vann úrvalsdeildina. Leiktíðin 2002-03 byrjaði vel og virtist liðið í fyrstu ætla að verja titilinn. Það dró þó úr liðinu undir lok tímabilsins og Manchester United seildust fram úr. Hins vegar tóku Arsenal-menn enska bikarinn heim með sér. Leiktíðina 2003-04 sigraði Arsenal úrvalsdeildina; enda ósigraðir - fyrsta lið til þess frá því Preston North End gerðu hið saman leiktíðina 1888–89. Árið áður var einmitt hlegið af Arsène Wenger þegar hann sagði að liðið kæmist gegnum heila leiktíð ósigraðir. Leikíðina 2004-05 vann liðið bikarinn. Alls voru því komnir þrír úrvalsdeildartitlar og fjórir bikartitlar í tíð Wenger. Eina sem vantaði upp á var sigur í Meistardeild Evrópu, en liðið hefur aðeins einu sinni komist í úrslit hennar; og tapaði þá fyrir FC Barcelona 2-1 (2005-06). Arsène Wenger framlengdi samning sinn árið 2004; aftur 2007, þá út leiktíðina 2010-11, og enn aftur árið 2010, þá til ársins 2014. Ralph Waldo Emerson. Ralph Waldo Emerson (25. maí 1803 í Boston í Massachusetts – 27. apríl 1882 í Massachusetts) var bandarískur rithöfundur, skáld og heimspekingur, sem var í forsvari fyrir bandarískum forskilvithyggjusinnum snemma á 19. öld. Tenglar. Emerson, Ralph Waldo Emerson, Ralph Waldo Emerson, Ralph Waldo Emerson, Ralph Waldo Carl Friedrich Gauss. Johann Carl Friedrich Gauß (stundum ritað Gauss), (30. apríl 1777 — 23. febrúar 1855) var þýskur stærðfræðingur og vísindamaður. Framlag hans til ýmissa fræða telst mjög mikilvægt, ekki síst í talnafræði, stærðfræðigreiningu, rúmfræði, jarðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og sjónglerjafræði. Gauß hefur verið nefndur merkasti stærðfræðingur frá lokum fornaldar. Gauß var undrabarn og margar sögur fara af undraverðum afrekum hans þegar í barnæsku. Hann gerði margar uppgötvanir í stærðfræði á táningsárum og var einungis 21 árs gamall þegar hann lauk við rit sitt "Disquisitiones Arithmeticae", enda þótt það kæmi ekki út fyrr en 1801. Lögmál Gauss er kennt við hann. Gauss, Carl Friedrich Gauss, Carl Friedrich Gauss, Carl Friedrich Gauss, Carl Friedrich Gauss, Carl Friedrich Íslensk aurafrímerki. Aurafrímerki 1876-1901. Aurafrímerkin tóku við af skildingafrímerkjunum 1. ágúst 1876. Ekki voru öll aurafrímerkin gefin út á sama tíma, heldur á misjöfnum tímum eftir þörfum. Hefðbundið er að skipta aurafrímerkjunum í eftirfarandi flokka. Helíos. Helíos var sólargoð í grískri goðafræði sem er talið líklegt að borist hafi frá Asíu til Grikklands. Hann hélt þar ólíkt mörgum öðrum goðum náttúruþýðingu sinni óbreyttri. Dýrkun Helíosar var ávallt bundin við fáeina staði, einkum eyna Ródos. Þar var goðinu haldin vegleg hátíð árlega. Skáldin lýsa Helíosi sem fögrum sveini í æskublóma með leiftrandi augu. Undan gylltum hjálmi hans hrynja gullnir lokkar. Á hverjum degi flytur hann goðum og mönnum dagsljósið. Ekur hann á gullnum vagni afmarkaða braut um himinhvolfið. Fjórum eldfnæsandi gæðingum beitir hann fyrir vagn sinn. Hefur hann ferð sína í austurátt frá Eþíópíu og lýkur henni í vesturátt á eynni "Þrinakíu" (Sikiley), eins og segir í "Ódysseifskviðu". Sú eyja var það land, sem Grikkir þekktu þá vestast. Um næturskeiðið siglir Helíos á gullnökkva yfir Ókeansstraum til austursins, þar sem hann á sér veglega höll. Helíos var sonur Hyperíons (= hins háttbrunandi) og Þeiu, en þau voru bæði Títanar. Helíos sér og heyrir allt og ekkert fer framhjá honum. Leyndustu afbrot dregur hann fram í dagsins ljós. Í hátíðlegum eiðum og særum var hann því ákallaður sem vitni. Helíos, hinn óþreytandi ekill sólbrautarinnar, var tignaður (einkum í Róm), sem verndarvættur kappakstursbrautanna. Faeþón. Með Klymene, dóttur Ókeanosar, átti Helíos son, er Faeþón (= sá skínandi) hét. Er hann var frumvaxta, gekk hann fyrir föður sinn í sólarhöllinni og beiddist þess að fá leyfi til að aka sólarvagninum einn dag. En sveininn skorti afl til að stjórna hinum flugólmu gæðingum. Svifu þeir of nærri jörðinni, og lá við sjálft, að hún brynni upp í loga sólar. Til að afstýra frekari ófarnaði laust Seifur Faeþón reiðarslagi, og steyptist hann niður í fljótið Eridanos. Systur hans grétu hann, uns þær urðu að öspum, en tár þeirra að rafi. Ovidius segir snilldarvel frá þessu í "Myndbreytingunum" ("Metamorphoses"). Risinn á Ródos. Stærsta stytta fornaldar er sögð hafa verið líkneskja Helíosar við hafnarmynni Ródoseyjar. Var styttan reist í minningu um sigur í sjóorrustu árið 304 f.Kr., en hrundi 60 árum seinna í jarðskjálftum. Hún var 31 metri á hæð, talin eitt af sjö furðuverkum heimsins. Stóð risinn sínum fæti á hvorum hafnarhaus við innsiglinguna. Sigldu skip þöndum seglum hindrunarlaust milli fóta honum. Almatyfylki. Almatyfylki (Алматы облысы, Алматинская область) er fylki í Suður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er Taldukórgan, og ekki Almaty. Borgin Almaty er ekki í fylkinu, Almaty er sjálfstæð borg og fylki saman. Almaty fylki er mjög fjalllent í suðri, með stórum vötn í norðri. Balkasjvatn liggur í Almaty fylkinu í norðri. Almaty Fylki á landmæri að Kírgistan í suðri á Tíansjan fjöllum og Xinjiang Austur Túrkestan fylki í Kína í austri. Saga. Áðan árið 1917 var Suðaustur-Kasakstan (eða í dag, Almaty Fylki) hluti af Túrkestan. Þessi hluti hét Sémiretjie (Семиречье) á rússnesku. Þann 10. mars 1932, meðan Sovétríkin, Sémiretjie var núna Alma-Ata Fylki. Höfuðborgin var Almaty, eða sem hét Alma-Ata meðan Sovétríkin, sem þýðir í kasöksku "eplafaðir". Fá sinni, Sovétríkin ríkisstjórnin flutti höfuðborg til Taldukórgan, og stundum Taldukórgan var öðruvísi kjördæmi og ekki hluti af Almaty Fylki. Þegar Kasakstan varð sjálfstætt lýðveldið árið 1991 bjó ríkisstjórn Kasakstans til Almaty Fylkisins. Árið 2001 flutti höfuðborgin til Taldukórgan í Almaty Fylkinu. Hades. Hades var holdgervingur dauðans í grískri goðafræði, en nafn hans er talið komið af indóevrópsku orði sem þýðir "hinn óséði". Stundum er Hades einnig haft um alla undirheima, og nafn hans þá nokkurskonar hluti fyrir heild. Hjá Hadesi er að finna hið sama tvískinnungseðli og hjá Persefónu eiginkonu hans. Eftir hinum eldri hugmyndum er hann sá miskunnarlausi og heiftrækni óvinur alls lífs, er Hómer segir, að leiðastur sé mönnum allra goða. En smám saman ryðja sér til rúms mildari hugmyndir um hann: Hann veitir jurtum og öllum gróðri næringu úr skauti jarðar. Í neðanjarðargöngum og klefum á hann ógrynni auðs, dýra málma og verðmæta steina, sem hann gefur mönnunum. Í þeirri veru nefndist hann "Plúton", hinn auðgi. Hades er bróðir Seifs eins og Póseidón. Þegar synir Krónosar skiptu með sér völdum, hlaut hann undirheima. Er mennirnir hafa runnið sitt takmarkaða skeið, flytur hann þá niður í ríki sitt. Í fyrndinni ímynduðu menn sér hann sem ofbeldisfullan og sterkan ræningja, eins og kemur fram í ráni Persefónu, er hann nemur brúði sína á braut á fráum akjóum. Síðar var Hermesi fengið það hlutverk að leiðbeina sálum framliðinna niður í undirheima. Þjónar hann þannig Pluton eða Seifi undirheima á svipaðan hátt og hann er boðbori hins ólympska Seifs. En þótt hugmyndirnar um Hades milduðust með tímanum, stóð Grikkjum ávallt einhver stuggur af honum. Um hann eru tæplega aðrar sagnir sagðar en rán Persefónu. Hómer kallar Hades: "hinn hestfræga", en sagt er að hann hafi haft ágæta akjóa fyrir vagni sínum. Rómverskur Hades. Með Rómverjum nefndist þessi guð Pluto eða "Dis pater". Voru hugmyndirnar um hann þær sömu og hjá Grikkjum, enda höfðu Rómverjar tekið þennan guð að erfðum frá þeim. David Hilbert. David Hilbert (23. janúar 1862 í Königsberg í Prússlandi – 14. febrúar 1943 í Göttingen í Þýskalandi) var þýskur stærðfræðingur, sem er talinn vera einn áhrifamesti stærðfræðingur 19. og fyrri hluta 20. aldar. Hann þróaði og varði ötullega mengjafræði Georgs Cantor. Hilbert, David Hilbert, David Hilbert, David Kóreustríðið. Kóreustríðið var stríð sem braust út 25. júní 1950 og lauk með vopnahléi 27. júlí 1953. Það hófst með innrás Alþýðulýðveldissins Kóreu (áhrifasvæði Sovétríkjanna) inn í Suður Kóreu (áður hernámssvæði Bandaríkjanna) en Suður Kóreumenn nutu aðstoðar Sameinuðu Þjóðanna (SÞ), einkum Bandaríkjanna. Kínverjar sendu her til aðstoðar Norður Kóreu þegar herir Suður Kóreu og SÞ nálguðust landamærin við Kína. Stríðinu lauk með jafntefli og eftir það var skiptingin milli Norður- og Suður-Kóreu nokkurn vegin sú sama og fyrir stríðið. Í stríðinu dóu meira en 2,5 milljónir manna, allt að helmingur óbreyttir kóreskir borgarar. Kóreustríðið er gjarnan talið fyrstu vopnuðu átök Kalda stríðsins. Forsaga. Skömmu fyrir uppgjöf Japana í ágúst 1945 var Kóreuskaga skipt í hernámssvæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um 38. breiddargráðu, Sovétmenn fyrir norðan og Bandaríkin fyrir sunnan, en síðar átti að sameina svæðin. Ríkin náðu ekki samkomulagu um hvernig stjórnarfyrirkomulag sameinaðrar Kóreu ætti að vera. Sameinuðu Þjóðirnar ályktuðu árið 1947 að Kóreuskagi ætti að fá sjálfstæði og kosin yrði ný ríksstjórn í lýðræðislegri kosningu. Sovétríkin féllust ekki á framkvæmd kosninganna og komu í veg fyrir að þær yrðu framkvæmdar í norðurhlutanum svo að aðeins fóru fram kosningar í suðurhlutanum þar sem Lýðveldið Kórea (LK) var stofnað 15. ágúst 1948 og Syngman Rhee varð forseti. Í kjölfarið var stofnað Alþýðulýðveldið Kórea (AK) í norðurhlutanum og það var sett undir stjórn Kim Il Sung sem hafði barist gegn Japönum í Kína og fengið foringjatign og þjálfun í Sovéska hernum og hann kom upp einræðis -kommúnistaríki. AK var fámennara en LK en hafði helstu iðnaðarsvæði Kóreu. Í kjölfarið á stofnunum þessara ríkja drógu stórveldin heri sína í burtu en margir vildu ekki sætta sig við þessa skiptingu landsins. Gangur stríðsins. Kim Il sung vildi sameina allan Kóreuskaga undur kommúnistastjórn og lagði á ráðin um að koma suðurhlutanum einnig undir stjórn kommúnista. Með vopnum og leiðsögn frá Sovétríkjunum kom AK sér upp miklum her en um leið var nokkuð um skæruhernað kommúnista í suðurhlutanum til að stuðla að upplausn og í kjölfarið valdatöku kommúnista þar. Það dugði ekki og árið 1950 fékk Sung leyfi hjá Stalín fyrir árás suður fyrir 38. breiddargráðu. Þann 25. júní hófst innrásin af miklum krafti. Her LK var ekki vel útbúinn, hafði ekkert þungt stórskotalið, skriðdreka né flugvélar og hafði átt í stöðugum bardögum við skæruliða. Við innrásina greip um sig mikil upplausn í herjum LK og virtist sem þeir yrðu gersigraðir fljótlega. Innkoma Bandaríkjanna. Bandaríkin gripu fyrst og af mestum krafti til aðgerða. Þau höfðu fjögur veik landherfylki í Japan og sendu strax flota umhverfis Kóreu sem gat tryggt yfirráð þeirra á hafi og stutt landherinn með flugvélum og fallbyssum. Douglas McArthur herforingi, sem hafði sannað sig í Síðari Heimsstyrjöldinni, var settur yfir þennan her. Með yfirráðum yfir hafi var hafist handa við að flytja tiltækan landher á staðinn. Á sauðausturenda Kóreuskagans er hafnarborgin Pusan. Þangað streymdu herflutningar Bandaríkjamanna en flutningar þeirra treystu á þá höfn. Fyrstu Bandarísku hermennirnir sem komu á vígstöðvarnar gátu lítð annað en tafið framrás AK. Á endanum héldu þeir aðeins hring umhverfis Pusan en þar náðist að koma upp stöðugri varnarlínu og sóknartilraunum AK gegn þessum hring var naumlega hrint meðal annars með hjálp flughers Bandaríkjanna sem hafði algera yfirburði og varð herjum kommúnista afra skæðut allt stríðið. Hringurinn um Pusan var eina svæðið á Kóreuskaganum sem LK hélt enn svo að allt var komið undir vörnum þar. Með liðstyrk landgönguliða úr flotanum og her sem var fluttur frá Pusan gerðu hermenn Bandaríkjanna og LK óvænta innrás við Inchon, hafnarborg rétt hjá höfuðborginni Seoul, 14. september 1950. Þar voru varnir AK litlar og 25. sept náði Landgönguherinn Seoul og skar á flutningaleiðir AK. Við þetta kom upplausn í her AK sem sundraðist og flúði óskipulega um fjallendi norðureftir. Við þetta hafði taflið snúsist við. Höfnin í Pusan var örugg, verulegur bandarískur liðstyrkur og nokkuð af herjum fra öðrum aðildarríkjum SÞ voru komnir á vettvang og ráðrúm gafst til að koma reglu á her LK á meðan herir AK höfðu veikst verulega. Norður fyrir 38. breiddarbaug. Eftrir viðsnúninginn sóttu herir SÞ og LK hratt norður, í byrjun október fóru þeir norður fyrir 38. breiddarbaug, náðu fljótlega P´yongyang (höfupborg AK) svo að stjórn AK varð að flýja norður. Þegar sóknin nálgaðist Yaluá, sem er á landamærum AK og Kína, voru umsvif herja AK orðin lítil en nálægðin við Kína olli áhyggjum. Herjum SÞ var ekki heimilað að hefja könnunarflug yfir Kína svo að lítið var vitað um hvað Kínverjar voru að gera en þegar hér var komið við sögu höfðu þeir safnað nokkur hundruðþúsund hermönnum og biðu eftir framrás herja SÞ og LK. McArthur gaf út tilkynningu 24. nóvember 1950 þar sem hann lýsti því yfir að hermennirnir kæmust heim fyrir jól en þá höfðu kínverskir hermenn þegar skotið upp kollinum. En sóknin gekk inn í gildru Kínverja og fjaraði út tveimur dögum síðar en við tók hratt undanhald til að forðast innilokun og um jólin var víglínan kringum 38. breiddarbaug en undanhaldið hafði tekist án mikils mannfalls en telst engu að síður ósigur. Deilur McArthurs. Eftir sóknina urðu miklar deilur milli stjórnarinnar í Washington og McArthurs sem var ósáttur við að hafa ekki fengið að ráðast á kínverskar birgðastöðvar í Mansjúríu og lagði fram tillögur hvernig ná mætti lokasigri með aðgerðum sem stjórn Bandaríkjanna óttaðist að gæfu af sér allsherjarstríð, jafnvel með kjarnorkuvopnum. Það endaði með því að McArthur var settur af í apríl 1951 og við tók Ridgeway sem hafði stjórnað landhernum í Kóreu. Nýjar sóknartilraunir. Næsta vor reyndu herir kommúnista (AK og Kína) nokkrar sóknartilraunir, um nýár 1951 sóttu þeir fram og náðu Seoul en SÞ náðu henni aftur í mars. Eftir það reyndu kommúnistar nokkrum sinnum aftur svipaðar sóknir en yfirleitt tókst herjum SÞ og LK að stöðva hana tiltölulega fljótlega og Seoul var ekki hertekin aftur. Sóknir og gagnsóknir kringum 38. breiddarbaug héldu áfram það sem eftir var stríðsins. SÞ nutu aðstoðar úr lofti en kommúnistar reyndu að athafna sig á nóttunni og náðu nokkrum árangri með því. Herjum SÞ og LK tókst að halda stöðunni þrátt fyrir að vera mikið fámennari. Mannfall meðal kommúnista var yfirleitt mun meira en Kínverjar höfðu mikinn mannafla til að fylla í skörðin. Friðarviðræður. Eftir þennan hildarleik voru báðir aðilar sannfærðir um að það væri ekki þess virði að sameina Kóreu með valdi þannig að samningaviðræður hófust opinberlega í júlí 1951. Eftir það færðist víglína lítið en báðir aðilar héldu uppi árásum til að reyna að bæta stöðu sína í samningaviðræðunum, sumar þeirra með umtalsverðu mannfalli þó að bardagar yrðu yfirleitt ekki eins harðir og blóðugir og fyrsta árið. Undir lok ársins var búið að semja um helstu atriði önnur en lausn stríðsfanga. Það ver vegna þess að sumir stríðsfangar í haldi SÞ og LK voru raunar frá Suður Kóreu og höfðu verið neyddir í her AK og sumir Kínversku fangarnir vildu heldur ekki snúa aftur og LK vildi ekki senda fanga sem þeir héldu fram að svo væri komið fyrir til AK en AK og Kína féllust ekki á þetta. 5. mars 1953 dó Jósef Stalín og í kjölfarið ákvað forysta Sovétríkjanna að stríðið skyldi enda. Mao Zedong, leiðtogi Kínverja var ekki á sömu skoðun en Kínverjar voru háðir vopnum Sovétríkjanna og þurftu að láta undan. Loks komst á vopnahlé 27. júlí 1953. Mörkin milli AK og LK voru enn nálægt 38. breiddargráðu og hafa ekki færst síðan. Grimmdarverk. Þó að yfirleitt sé litið á Kóreustríðið sem deilu stórveldannna var þetta líka borgarstríð í Kóreu og þar voru framin mörg voðaverk. Báðir aðilar frömdu fjöldamorð á andstæðingum sínum. Þegar AK náði Seoul hófust kerfisbundin morð á stjórnarmönnum í stjórn Syngman Rhee auk þess sem afar misjöfnum sögum fer um meðferð á stríðsföngum þó að stjórn AK hafi raunar lagst gegn óþarfa grimmdarverkum gegn stríðsföngum. Það sem hefur hinsvegar ekki öðlast viðurkenninga á vesturlöndum fyrr en nýlega er þau fjöldamorð sem stjórn Syngman Rhee stóð fyrir. Fyrir innrásina í Suður Kóreu höfðu margit kommúnistar verið settir í fangelsi og til að koma í veg fyrir að þeir yrðu frelsaðir af AK var fyrirskipað að taka þá af lífi þegar innrásin hófst. Helst þessara fjöldamorða er þegar þúsundir fanga í Taejon voru skotnir og settir í fjöldagrafir og talið er að jafnvel 100 þúsund borgarar hafi verið teknar af lífi í svipuðum aðgerðum LK. Síðar skrifaði LK þessi morð á kommúnista sem frömdu einnig fjöldamorð á sömu slóðum þegar þeir hörfuðu eftir innrásina við Inchon, e.t.v. til að hefna fyrir fjöldamorð Suður-Kóreumanna. Vegna hættu sem stafaði af skæruliðum kommúnista í Suður Kóreu kom fyrir að herir LK og SÞ skutu á eða gerðu loftárásir á óbreytta borgara en eftirá er ómögulegt að vita hve mikið var í raun skæruliðar. Mikið mannfall varð einnig vegna hungurs og vosbúðar í kjölfar eyðileggingar stríðsins, m.a. vegna loftárása SÞ á borgir í Norður Kóreu og auðvitað dó fólk einnig strax í loftárásunum. Stuðningur Sameinuðu Þjóðanna. Strax sama dag og innrás AK hófst, (reyndar 14 tímabeltum seinna) kom öryggisráðið saman. Vegna óánægju með að þjóðernissinnar á Taivan fengju sæti í öryggisráðinu í stað Alþýðulýðveldissins Kína á meginlandinu mættu fulltrúar Sovétríkjanna ekki og þegar hvorki Alþýðulýðveldið Kína né Sovétríkin gátu beitt neitunarvaldi var strax samþykkt að fordæma árás AK. 27. júní hvattir öryggisráðið síðan ríki SÞ til að hjálpa LK við að hrinda árásinni og Bandaríkjamenn hófu aðgerðir undir merkjum SÞ. Skömmu eftir þetta sáu Sovétríkin hvaða afleiðingar skróp þeirra í öryggisráðinu gat haft og tóku sæti sitt aftur svo að frekari ályktanir um aðgerðir gegn AK komust ekki í gegnum öryggisráðið. Undir merkjum Sameinuðu Þjóðanna naut Suður Kórea stuðnings Bandaríkjanna öðrum fremur, en einnig Bretlands, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálands, Frakklands, Belgíu, Hollands, Lúxemborgar, Grikklands, Tyrklands, Kólumbíu, Suður-Afríku, Tælands, og Filippseyja. Nafngiftir. Í Suður-Kóreu er stríðið gjarnan nefnt 6·25, sem vísar til dagsetningarinnar þegar átökin brutust út, eða "Han-guk Jeonjaeng" (á kóresku: 한국전쟁, sem merkir orðrétt „Kóreustríðið“). Í Norður-Kóreu er stríðið formlega nefnt Föðurlandsfrelsunarstríðið (á kóresku: 조국해방전쟁). Í Bandaríkjunum er opinberlega talað um löggæslu („police action“) — Kóreuátökin („Korean Conflict“) — fremur en stríð, aðallega til að komast hjá því að þurfa að lýsa yfr stríði. Stundum er stríðið kallað „gleymda stríðið“ utan Kóreu, vegna þess að um meiri háttar átök var að ræða en er sjaldan rætt. Í Kína voru átökin kölluð Stríðið til að standa gegn Bandaríkjunum og aðstoða Kóreu (抗美援朝), en er í dag oftast nefnt „Kóreustríðið“ (朝鮮戰爭, "Chaoxian Zhanzheng"). Bólusótt. Bólusótt (á latínu "Variola" eða "Variola vera") er bráðsmitandi sjúkdómur sem herjar einvörðungu á mannskepnuna. Tvær veirur geta valdið bólusótt, "variola maior" og "variola minor". "Variola maior" er skæðari og dregur sjúklinginn til dauða í 3–35% tilvika. Á hinn bóginn er "variola minor" mildari og leiðir til dauða í innan við 1% tilvika. Ör á húðinni eru dæmigerðar langtímaaukaverkanir þeirra sem fá sjúkdóminn. Stundum leiðir sjúkdómurinn einnig til blindu og ófrjósemi hjá körlum. Bólusótt olli dauða um 300–500 milljóna manna á 20. öld. World Health Organization (WHO) áætlar að 1967 hafi 15 milljónir smitast af sjúkdómnum og tvær milljónir látist úr honum. Í kjölfar bólusetningarherferða á 19. og 20. öld tókst að útrýma bólusótt árið 1979. Engum sjúkdóm hefur verið fullkomlega útrýmt síðan. Árangrinum er ekki síst að þakka því að aðeins ein veira eða tvær valda sjúkdómnum en ekki eitt til tvö hundruð veirur eins og með ýmsa aðra sjúkdóma og gerir þetta bólusetningu mun einfaldari en bólusótt er einmitt sá sjúkdómur sem menn lærðu einna fyrst að þróa bóluefni gegn. Blöðruselur. Blöðruselur (fræðiheiti: "Cystophora christata" en einnig "Cystophora cristata") er íshafsselur í Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafi frá Svalbarða í austri að St. Lawrence-flóa í Kanada í vestri. Einkenni. Blöðruselur álíka stór og útselur. Fullvaxnir brimlar eru 2,5 til 3 metrar á lengd og eru 300 til 400 kg á þyngd, fullvaxnar urtur eru minni, 2 til 2,4 metrar á lengd og vega 160 til 230 kg. Feldurinn er grár á lit með dekkri óreglulegum flekkjum en höfuðið er mjög dökkt. Það sem einkum einkennir selinn og gefur honum nafn er að húðin á höfði brimlana, frá nösum og upp á koll, er skinnpoki sem þeir geta blásið upp eins og blöðru. Blaðran tvöfaldar höfuðstærðina þegar hún er uppblásin. Annars hangir hún eins og hetta fram yfir snjáldrið (enda er blöðruselur nefndur hettuselur á mörgum málum). Brimlarnir fá þessa blöðru um 4 ára aldur. Þeir geta einnig fyllt skinnblöðruna til hálfs og lokað annarri nösinni og blásið út rauðri himnu með hinni og stendur þá rauð blaðra framan úr þeim. Blöðruselir eru mun árásargjarnari en aðrir selir og brimlarnir blása upp blöðrurnar þegar þeir þurfa að verja sig og þegar þeir keppa við aðra brimla á fengitímanum. Útbreiðsla. Útbreiðsla blöðrusels. Blái liturinn sýnir kæpingarsvæði og rauði megin útbreiðslusvæði á öðrum tímum árs. Áætlaður fjöldi dýra er samanlagt um 650 000, þar af 250 000 í Jan Mayen-stofninum og 400 000 við strendur Kanada og Grænlands. Blöðruselir fara mjög víða og hafa fundist allt vestur við Alaska og suður við Kanaríeyja. Æti og lifnaðarhættir. Teikning af brimli og kóp Fæða blöðrusela er fiskmeti svo sem þorskur, karfi og rækjur, steinbítur og smokkfiskur. Þeir kafa eftir æti allt niður á 600 metra dýpi. Urtan kæpir einum kópi á hafís í mars, kópurinn er á spena í tæplega viku og verður síðan að sjá um sig sjálfur. Við fæðingu er kópurinn um 90 til 110 cm á lengd og vegur um 20 til 30 kg. Á þeim stutta tíma sem hann er á spena tvöfaldast þyngd hans, enda er fitan í mjólkinni um 60-70%. Blöðruselurinn er einrænn og safnast saman við kæpingu en ekki fyrir í stórum hópum eins og vöðuselurinn. Blöðruselsurturnar halda sig í hæfilegri fjarlægð frá hver annarri og hafa um 50 metra á milli. Brimlarnir halda sig í nágrenninu og reyna að hrekja hvern annan a burt. Nánast um leið og urtan hefur vanið kópinn af spena hafa fullorðnu selirnir mök og reyna brimlarnir að ná í eins margar urtur og þeir geta. Selirnir fara úr hárum í júní og byrjun ágúst og halda sig fleiri saman á ísnum á meðan á því stendur. Á sumrin og á veturna milli þess að þeir fara úr hárum og kæpa fara þeir mjög víða í ætisleit. Urturnar verða kynþroska 3 til 6 ára en brimlarnir ekki fyrr en við 5 til 7. Blöðruselirnir verða 30 til 35 ára gamlir. Ísbirnir, hákarlar og háhyrningar eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn. Veiði og nyt. Síðustu tvær aldir hefur mikið kapp verið lagt á veiðar á blöðrusel einkum vegna skinna. Við fæðingu hefur kópurinn blágráan feld og er nefndur „bláselur - blueback“ af veiðimönnum. Einkum voru það Norðmenn og Kanadamenn sem stunduðu veiðar á blöðrusel í stórum stíl og þá einkum á „blásel“. Innflutningur á skinnum og skinnavörum af blöðruselskópum hefur verið bönnuð til Bandaríkjanna síðan 1972 og var bannað tímabundið af ESB 1983 (fleiri lönd innan ESB viðhalda enn banninu) og hefur það leitt til að veiðarnar hafa dregist mikið saman. Vöðuselur á Íslandi. Blöðruselurinn er algengur við Ísland en hann eru mikil úthafstegund og sést oftast langt frá landi. Mest verður vart við hann fyrir Norðurlandi og heldur sig þar lengur en annars staðar. Á árum 1992-1993 voru gerðar rannsóknir á flakki blöðrusels með því að setja senditæki fyrir gervihnetti á seli á íssvæðinu við Jan Mayen og kom þá meðal annars í ljós að er þeir eru mun algengari á Íslandsmiðum en talið hefur verið og fara reglulega allt suður að Skotlandi. Blöðruselir eru óvinsælir meðal sjómanna við Ísland og kvarta þeir meðal annars yfir því að þeir éti fisk úr netum og línu. Táris. Kort af grísku nýlendunni Kersonesos á Krímskaga. Táris (gríska: "Ταυρίς", "Ταυρίδα"; latína: "Taurica") var í fornöld heiti á Krímskaga. Nafnið kemur úr grísku og vísar til íbúa landsins sem Grikkir kölluðu Tára. Í grískri goðafræði fer Artemis með Ífígeníu, dóttur Agamemnons, til Táris eftir að hafa bjargað henni frá því að vera fórnað af föður sínum. Í Táris varð hún prestur í Artemisarhofinu þar sem konungur Táris neyddi hana til að fórna öllum útlendingum sem komu til landsins. Frá þessu segir í harmleik Evripídesar, "Ífígenía í Táris". Á 6. öld f.Kr. var gríska nýlendan Kersonesos stofnuð á suðurhluta skagans. Á 2. öld f.Kr. varð Táris hluti af helleníska konungsríkinu Bosporus. Þrakía. Kort sem sýnir Þrakíu í fornöld Þrakía (gríska: "Θρᾴκη") var í fornöld heiti á ríki sem náði yfir mestan hluta þess sem nú er Búlgaría, norðausturhluti Grikklands og hluti Evrópuhluta Tyrklands auk austurhluta bæði núverandi Serbíu og Makedóníu. Þrakverjar tóku snemma upp siði nágranna sinna Grikkja, en voru álitnir barbarar af hinum síðarnefndu þar sem þeir töluðu ekki grísku sem móðurmál. Í dag er Þrakía heiti á landsvæði sem nær yfir suðurhluta Búlgaríu (Norður-Þrakía), norðausturhluta Grikklands (Vestur-Þrakía) og Evrópuhluta Tyrklands (Austur-Þrakía). Aktöbefylki. Aktöbefylki (Ақтөбе облысы, Актюбинская область) er fylki í Vestur-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Aktöbe. Aktöbe Fylki er 2. stærstt fylki í öllu Kasakstan (fyrst er Karagandy Fylki). Aktöbe Fylki á landamæri að Rússland í norðri og Úsbeskistan í suðri. Nafnið Aktöbe þýðir á kasöksku "Hvítt fell". Kasakskur maður með hestum sínum í Aktöbefylkinu Dimitris P. Kraniotis. Dimitris P. Kraniotis (gríska: Δημήτρης Π. Κρανιώτης) (f. 1966, Stomio - Larissa, Grikklandi) er grískt skáld. Jón Skaftason. Jón Skaftason (f. á Akureyri 25. nóvember 1926) er fyrrverandi hæstaréttarlögmaður og alþingismaður Framsóknarflokksins. Hann er kvæntur Hólmfríði Gestsdóttur (f. 3. apríl 1929), húsmóður. Saman eiga þau þrjá syni og eina dóttur. Foreldrar Jóns voru Skafti Stefánsson (f. 6. mars 1894, d. 27. júlí 1979), útgerðarmaður á Siglufirði, og Helga Sigurlína Jónsdóttir (f. 16. okt. 1895, d. 11. júní 1988), húsmóðir. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1951. Hann varð héraðsdómslögmaður 1951 og hæstarréttarlögmaður 1961. Hann var fulltrúi hjá ríkisskattanefnd 1952-54, fulltrúi í fjármálaráðuneyti 1955-1961, rak lögfræðiskrifstofu í Reykjavík, Kópavogi og Keflavík 1955-1960, bæjarfulltrúi í Kópavogi 1958-1962, alþingismaður Framsóknarflokksins 1959-1978, deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu 1978-1979, yfirborgarfógeti í Reykjavík 1979-1992 og sýslumaður í Reykjavík 1992-1994. Jón hefur gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa, m.a. var hann gæslustjóri Söfnunarsjóðs Íslands 1959-1961, sat í Norðurlandaráði 1970-78 og var formaður Dómarafélags Íslands 1986-87. Menntun. Menntun er hugtak sem oftast er notað um kerfisbundið nám þar sem fólk lærir hjá viðurkenndum fagaðilum, til dæmis kennurum. Til eru ótal kennsluaðferðir sem nýta mismunandi tækni til kennslunnar allt eftir atvikum. Menntun fer oftast fram í menntakerfi ríkis en einnig eru til einkareknir skólar. Í mörgum löndum er lögbundið grunnnám sem hefst þegar börn eru á aldrinum 4-7 ára og lýkur þegar þau eru um 11-12 ára eða jafnvel síðar. Þá er börnum kennd stærðfræði, lestur, móðurmálið, erlend tungumál, saga, samfélagsfræði, íþróttir, heimilsfræði og margt fleira eftir námsskrá. Framhaldsskólanám hefst í flestum löndum að grunnnámi loknu, við aldurinn 13 ára og stendur yfir í um fimm ár. Að því loknu er hægt að stunda nám í háskóla. Tækni. Kort sem sýnir hlutfall hátæknivöru í heildarútflutningi landanna. Tækni er vítt skilgreint hugtak sem notað er um getu lífvera til þess að nýta sér umhverfi sitt sér til framdráttar. Mannkynið hefur nýtt sér vísindin og verkfræði til þess að búa til ýmis konar verkfæri sem hafa breytt lífsskilyrðum á hverjum tíma. Saga þróunar tækni er nátengd sögu þróunar mannsins. Með tækni er hugsanlega átt við hluti eins og tæki, vélar og verkfæri en það á einnig við um huglæga hluti svo sem kerfi, skipulag og aðferðir. Astrópía. "Astrópía" er íslensk kvikmynd sem frumsýnd var 22. ágúst 2007. Leikstjóri er Gunnar B. Guðmundsson og með aðalhlutverk fer Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt fleirum. Siðmenning. a> er ágætt dæmi um það sem kalla mætti siðmenntað svæði. Siðmenning er hugtak sem gjarnan er notað um þróuð, tæknivædd samfélög eða þjóðfélög. Það sem helst einkennir siðmenntuð þjóðfélög er háþróaður landbúnaður, sérhæfð verkaskipting og þéttbýliskjarnar sem oft mynda borgir. Siðmenning hefur mismunandi merkingu eftir því í hvaða samhengi hugtakið er notað. Forn siðmenning Forn-Egypta í Afríku, Maya-indíána eða Azteka í Suður-Ameríku, svo dæmi séu nefnd, eru menningarsamfélög sem einu sinni stóðu í blóma en liðu undir lok. Siðmenning nútímans á rætur sínar að rekja aftur til Mesópótamíu og Egyptalands, en menning þeirra stóð á hátindi sínum fyrir um 5000 árum (3000 f.Kr.). Lýðfræði. Lýðfræði er fræðigrein sem leitast við að halda til haga tölulegum upplýsingum um þjóðfélagið í heild eða ákveðna þjóðfélagshópa. Meðal þeirra upplýsinga sem safnað er eru aldur, kyn, laun, menntun, hjúskaparstaða, heimili, starf, staðsetning, o.fl. Þessar upplýsingar nýtast einna helst í hagfræði og viðskiptafræði. Hagstofa Íslands tekur saman og geymir lýðfræðilegar upplýsingar um Ísland. Heimsvaldastefna. Heimsvaldastefna er stjórnmálastefna stórveldis, sem miðar að því að gera það að heimsveldi. Utanríkisstefnan byggist á útþenslustefnu, þ.a. stórveldið reynir að hafa aukin áhrif á önnur ríki (eða að reynir að afla sér nýlendna). Lykilatriði getur verið að ná yfirráðum yfir náttúruauðlindum landsins eða ná ítökum í stjórnmálalífi þess. Kenningin um heimsvaldastefnu var þróuð í kjölfarið á nýlendutímabilinu sem hófst á 19. öld og lauk, samkvæmt algengri söguskoðun, um miðja 20. öldina. Svín (ætt). Svín (fræðiheiti: "Suidae") eru spendýr. Kvendýrið nefnist "gylta" (eða "sýr") og karldýrið "göltur", en afkvæmin "grísir". Svín hafa mikla aðlögunarhæfni og fyrirfinnast, til dæmis regnskógum, votlendi og laufskógum. Villisvín finnast víða um heim, m.a. í Evrópu, en ein tegund þeirra, vörtusvín eiga heimkynni í Afríku. Veraldarvefurinn. Veraldarvefurinn eða vefurinn er kerfi með tengdum skjölum, oftast HTML skjölum, sem finna má á alnetinu. Með netvafra getur vefnotandi skoðað vefsíður sem innihalda tengla á texta, hljóð, myndir og kvikmyndir. Vefurinn var hannaður 1990 af bretanum Tim Berners-Lee og belganum Robert Cailliau, sem unnu báðir hjá CERN í Genf. Félagsskordýr. Félagsskordýr eru skordýr sem mynda samfélög (bú) þar sem ríkir mikil sérhæfing milli einstaklinga. Í slíkum samfélögum er stærstur hluti einstaklinga ófrjór og hefur það hlutverk að hugsa um þá einstaklinga sem sjá um æxlunina með því að safna mat eða verja búið. Þekktustu dæmin um félagsskordýr eru býflugur, vespur, maurar og termítar. Jónía. Kort sem sýnir staðsetningu Jóníu í Litlu-Asíu. Jónía (gríska: "Ιωνία") var grísk nýlenda á vesturströnd Litlu-Asíu við Eyjahafið. Jóníu tilheyrðu tólf borgir: Míletos, Myous, Príene, Efesos, Kólófón, Lebedos, Teos, Erýþraí, Klasómenaí og Fókaía, ásamt eyjunum Samos and Kíos. Síðar varð Smyrna hluti af jóníska sambandinu. Magnesía við Meander var í Jóníu en taldist ekki jónísk borg þar sem íbúar þar voru frá Magnesíu. Mercedes-Benz-safnið. Mercedes-Benz-safnið er bílasafn í Stuttgart, Þýskalandi, þar sem höfuðstöðvar bílaframleiðandans Daimler eru. Rúgbrauðsgerðin. Rúgbrauðsgerðin er almennt heiti á húsinu Borgartúni 6. Húsið var reist árið 1947 undir starfsemi rúgbrauðsgerðar. 4. apríl 1970 skemmdist húsið mikið í eldi og eftir það voru þar innréttaðir ráðstefnusalir ríkisins. Á tímabili voru þar reglulega haldnir sáttafundir í kjaradeilum sem ríkissáttasemjari kom að. Alþingisbækur Íslands. "Alþingisbækur Íslands" eða "Acta comitiorum generalium Islandiæ" (latínu „gjörðir hins almenna samkomuhúss Íslands“) er ritröð heimildarita sem Sögufélag Íslands gaf út í sautján bindum. Ritröðin er heimildarit sem geymir allar gerðir Alþingis við Öxará frá 1570 til 1800. Fyrsta bindið kom út 1912 og það síðasta 1991. Kalda stríðið. Kalda stríðið er hugtak notað um tímabilið um það bil á milli áranna 1947-1991 sem einkenndist af efnahagslegrar, vísindalegrar, listrænnar og hernaðarlegrar samkeppni á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og bandamanna þeirra. Bæði stórveldin stofnuðu með sér hernaðarbandalög. Hugmyndafræði sitt hvors var stillt upp sem andstæðum. Bæði stórveldin stunduðu njósnir um hitt; hernaðarleg, iðnaðar- og tækniþróun, þar á meðal geimkapphlaupið; miklum fjármunum var varið til varnarmála, sem leiddi til vopnakapphlaups og kjarnorkuvæðingar; og ýmis leppstríð voru háð. Ekki kom til beinna hernaðarátaka milli Bandarikjanna og Sovétríkjanna, þó stundum skylli hurð nærri hælum. Uppruni hugtaksins. Breski rithöfundurinn George Orwell notaði hugtakið „Kalt stríð“ í ritgerð í breska dagblaðinu Tribune árið 1945. Í Bandaríkjunum var það fyrst notað árið 1947 af Bernard Baruch og Walter Lippmann til þess að lýsa aukinni spennu milli stórveldanna tveggja í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Hugmyndin var sú að „sigurvegarinn“ myndi sýna fram á yfirburði síns pólitísks kerfis, annars vegar kommúnisma Sovétríkjanna og hins vegar frjáls markaðsbúskaps Bandaríkjanna. Kalt stríð. Enda þótt Bandaríkin og Sovétríkin hafi verið bandamenn undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar voru uppi afar ólíkar hugmyndir um skipan mála eftir stríðið. Dagana 4-11. febrúar 1945 hittust þjóðhöfðingjar Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands; Franklin D. Roosevelt, Jósef Stalín og Winston Churchill á Yalta-ráðstefnunni og réðu ráðum sínum. Niðurstaðan varð sú að Þýskalandi yrði skipt á milli stórveldanna í þrjú svæði og Berlín, sem var staðsett á yfirráðasvæði Sovétríkjanna, var einnig skipt þannig (seinna urðu fjögur þegar Frakklandi var úthlutað flæmi í Suð-Vestur Frakklandi). Austur-Evrópa var á áhrifasvæði Sovétríkjanna. Í frægri ræðu í mars 1946 komst Winston Churchill þannig að orði að "Járntjald" skipti Evrópu í tvennt. Vegna bágs efnahagsástands í Bretlandi sáu þarlend stjórnvöld ekki fram á að geta veitt Grikkjum og Tyrkjum áframhaldandi efnahagsaðstoð. Af þeim völdum setti þáverandi forseti Bandaríkjanna fram nýja utanríkisstefnu ári 1947 kennda við hann, Truman-kenninguna. Með henni skuldbatt hann Bandaríkin til þess að veita Tyrklandi og Grikklandi fjárhagsaðstoð til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnisma. Á næstu áratugum breiddist spennan út frá Evrópu til allra heimshorna. Bandaríkin leituðust við að halda útbreiðslu kommúnisma í skefjum. Sú utanríkisstefna Bandaríkjanna var nefnd Truman-kennisetningin, kennd við Harry S. Truman, forseta Bandaríkjanna, og fólst hún í því að Bandaríkin stofnuðu til stjórnmálasambands og bandalaga í Vestur-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Suðaustur-Asíu. Bandaríkjamenn áttu frumkvæðið að Marshallaðstoðinni, sem hófst árið 1948 og stóð í um fimm ár. Sú áætlun var í formi efnahagslegrar aðstoðar til handa stríðshrjáðum löndum Vestur-Evrópu svo þau mættu skjótar vinna sig upp úr örbirgð og tryggja þannig stöðugleika í álfunni. Að sama skapi komu þau að stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) hernaðarbandalags, sem var stofnað 1949. Hinu megin járntjaldsins var Varsjárbandalagið stofnað 1955. Oft lá við styrjöld milli heimsveldanna tveggja, til dæmis í Kóreustríðinu (1950-1953), Kúbudeilunni (1962) og Víetnamstríðinu (1964-1975). Ógninni um gagnkvæma gereyðingu af völdum kjarnorkuvopna var beitt til að fæla andstæðinginn frá því að gera árás, samanber "ógnarjafnvægi". Einnig komu tímabil þar sem spennan minnkaði og báðir aðilar leituðust við að draga frekar úr henni, til dæmis með SALT-samningum um fækkun kjarnaodda í vopnabúrum stórveldanna. Kalda stríðið fjaraði út á níunda áratugnum í kjölfar baráttu fyrir auknum borgaralegum réttindum í Póllandi og umbótastefnu Mikhaíls Gorbatsjev, "perestroika" og "glasnost". Sovétríkin slökuðu á haldi sínu á Austur-Evrópu og Sovétríkin sjálf liðuðust í sundur árið 1991. Helförin. Helförin er hugtak sem er notað til þess að lýsa skipulögðum fjöldamorðum á evrópskum gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Fjöldamorðin voru liður í áætlun þýskra nasista undir stjórn Adolfs Hitler til þess að útrýma gyðingum. Um 6 milljónir gyðinga fórust í styrjöldinni og stór hluti þeirra í sérstökum útrýmingarbúðum. Aðrir hópar fólks sættu einnig ofsóknum og voru myrtir af nasistum, þ.á m. fatlaðir, samkynhneigðir, kommúnistar, vottar Jehóva, Pólverjar, Rússar, Hvítrússar og Úkraínumenn. Stundum eru þessir hópar fólks ekki taldir með í helförinni, sem er þá eingöngu talin vera fjöldamorð á gyðingum sem liður í „lokalausninni við gyðingavandanum“ („"Die Endlösung der Judenfrage"“) eins og nasistar nefndu áætlunina. Séu öll fórnarlömb ofsókna nasista tekin með í reikninginn er talið að heildarfjöldi fórnarlamba nemi milli 11 og 17 milljóna. Ofsóknir og fjöldamorð nasista jókst í nokkrum stigum. Sett voru lög sem úthýstu gyðingum úr samfélaginu nokkrum árum áður en síðari heimsstyrjöldin braust út. Þegar Þriðja ríkið náði yfirráðum yfir nýju landi í Austur-Evrópu og Rússlandi voru stofnuð sérstök gyðingahverfi til þess að halda gyðingum aðskildum. Sérstakar sveitir þýska hersins myrti mikinn fjölda gyðinga og annarra stjórnmálaandstæðinga nasista innan gyðingahverfanna og annars staðar þar sem þeirra varð vart. Gyðingar í Vestur-Evrópu voru oftast fluttir austur í sérstakar þrælkunarbúðir sem voru reistar víða en flestar í Austur-Evrópu. Skipulagðar útrýmingarbúðir voru teknar í notkun á síðari árum stríðsins. Afneitun helfararinnar. Sumir menn afneita helförinni eða segja hana ekki hafa gerst með þeim hætti sem almennt er viðurkennt. Í mörgum vestrænum ríkjum liggja þungar refsingar við afneitun helfararinnar. Austræn heimspeki. Austræn heimspeki getur átt við sérhverja heimspeki sem upprunnin er í Indlandi, Kína, Japan, Kóreu og að einhverju leyti í Íran (Persíu). Deila má um notagildi þess að skipta heimspekinni í vestræna heimspeki og aðra heimspeki fremur en að álíta heimspekina vera hina sömu alls staðar. Aftur á móti eru mikilvægar hefðir í heimspeki sem eru skýrt afmarkaðar bæði sögulega og landfræðilega. Í fræðilegri orðræðu á vesturlöndum vísar orðið „heimspeki“ oftast til þeirrar heimspekihefðar sem hófst í Grikklandi hinu forna og á sér órofa sögu á vesturlöndum frá fornöld til nútímans. Austræn heimspeki hefur ekki notið jafnmikillar athygli í vestrænum háskólum. Míla. Míla er algeng fjarlægðaeining, sem er skilgreind með mismunandi hætti eftir ríkjum, en er ekki SI-mælieining. Ein alþjóðlega míla er jafnlöng 1760 jördum, sem er um 1,609 kílómetrar. Sænsk og norsk míla, skrifuð mil, er nú skilgreind sem 10 km. Sjómíla er einkum notuð í siglingum og flugi. Til eru mun fleiri og mislangar skilgreiningar á mílum. Gallía. Landakort Gallíu árið 58 f.Kr. Gallía var svæði í Vestur-Evrópu sem núna spannar það svæði sem er Norður-Ítalía, Frakkland, Belgía, vesturhluti Sviss og sá partur Hollands og Þýskalands sem eru vestan við ána Rín. Kákasus-Íbería. Kákasus-Íbería er svæði í austur- og suðurhluti Georgíu. Íbería var nafn sem Forn-Grikkir gáfu svæði því sem konungsdæmið Kartli spannaði yfir. Hugtakið Kákasus-Íbería er notað til að aðgreina það frá Íberíuskaga, þar sem Spánn og Portúgal eru nú. Krímskagi. Krímskagi (rauður) í Úkraínu (ljósblá) Krímskagi er skagi í Úkraínu sem teygir sig út í Svartahafið. Q. Q eða q er 17. bókstafurinn í latneska stafrófinu en er ekki notaður í því íslenska. W. W eða w er 23. bókstafurinn í latneska stafrófinu en er ekki notaður í því íslenska. Z. Z eða z er 26. bókstafurinn í latneska stafrófinu. Z er einn af hinum fjórum viðbótarbókstöfum íslenska stafrófsins (hinir þrír eru c, q og w) en var hann lagður af úr íslensku ritmáli í september 1973 til að einfalda íslenska stafsetningu en þó er leyft að nota zetuna í sérnöfnum af erlendum uppruna (t.d. Zakarías, Zophonías, Zimsen og svo framvegis) og ættarnöfnum sem hafa verið gerð af manna nöfnum og hafa tannhljóð í enda stofns (eins og t.d. Haralz, Eggerz, Sigurz o.s.frv.). Nokkur orðanna sem enn nota þennan staf er orðið ‚pizza‘ og einnig frasinn ‚bezt í heimi‘ sem er rótgróinn íslenskri tungu. Bókstafurinn táknar raddað tannbergsmælt önghljóð í alþjóðlega hljóðstafrófinu. Samgöngur. Upplýsingaskilti við veg auðveldar fólki að komast leiðar sinnar. Samgöngur er hugtak sem notað er um ferðir manna og varnings á milli tveggja staða, oft með farartæki sem ferðast á vegum. Samgöngur eru veigamikill hluti efnahags ríkja og eru sömuleiðis mikilvægar fyrir viðskipti þeirra á milli. Í grófum dráttum má skipta samgöngum í innviði, farartæki og aðgerðir. Til innviðisins heyrir vegakerfið, lestarkerfið, flugvellir, hafnir, síki og hvers konar mannvirki ætluðum auðveldari samgöngur. Faratækin geta verið reiðhjól, mótorhjól, bílar, flugvélar, skip, lestir, o.s.frv. Aðgerðir lúta svo að stjórnun faratækjanna og þess laga- og reglugerðarumhverfis samgangna sem er til staðar. Innanríkisráðuneyti fer með samgöngumál á Íslandi. Sameining Ítalíu. Kort sem sýnir hvenær hver hluti Ítalíu varð hluti af ríkinu. Sameining Ítalíu (ítalska: "Risorgimento", bókst. „endurreisn“) er heiti á þeim atburðum í sögu Ítalíu sem leiddu til þess að öll ríkin sunnan Alpafjalla sameinuðust í eitt ríki: Ítalíu. Þetta ferli er venjulega talið ná frá lokum Napóleonsstyrjaldanna með Vínarþinginu 1815 til 1870 þegar fransk-prússneska stríðið hófst og ítalska konungsríkið, stofnað árið 1861, gat lagt Róm undir sig. Róm var þó ekki gerð að höfuðborg fyrr en árið eftir. Síðustu héruðin sem urðu hlutar Ítalíu voru Tríeste og Trentó sem Ítalir lögðu undir sig í fyrri heimsstyrjöldinni. Blóm. Blóm eru æxlunarfæri dulfrævinga (blómstrandi jurta). Í blóminu verða til fræ við frjóvgun plöntunnar, þegar frjókorn sest á eggbú plöntunnar. Blóm eru oft á tíðum mjög skrautleg. Þar sem dýr sjá um að bera frjókornin milli plantnanna hafa blómin þróað með sér aðferðir til að laða þau að, t.d. með því að seyta sætum vökva og gefa frá sér lykt, auk þess að skarta miklum litum. Blóm eru eftirsótt af mönnum til að fegra umhverfið, sem uppspretta litarefna og einnig sem fæða. Tré. Tré eru stórar fjölærar trjáplöntur. Tré eru yfirleitt með einn áberandi stofn sem ber greinarnar og þar með laufskrúðið hátt uppi. Munur á trjám og runnum liggur ekki alltaf í augum uppi, en stundum er miðað við að tré séu jurtir sem geta orðið minnst sex metra háar fullvaxnar. Flest tré eru langlíf og sum geta orðið mörg þúsund ára gömul og náð yfir 100 metra hæð. Nokkur tré sem vaxa saman í klasa eru nefnd lundur og svæði sem vaxið er trjám er kallað skógur. Tré er að finna í nokkrum flokkum jurta sem hafa þróað með sér stofn: lauftré eru tré af fylkingu dulfrævinga og barrtré eru tré af fylkingu berfrævinga. Að auki mynda sumar jurtir trjástofn með laufinu: pálmatré, köngulpálmar og trjáburknar. Flest tré tilheyra um fimmtíu ættum jurta. Þungarokk. Þungarokk, stundum kallað bárujárnsrokk eða metal(l), er tegund rokktónlistar sem varð til upp úr 1968 og á rætur í blúsrokki og ofskynjunarrokki. Fyrstu þungarokkshljómsveitirnar eins og Black Sabbath, Cream, Steppenwolf og Led Zeppelin, byggðu tónlist sína á þéttu gítarspili með bjögunareffektum, hröðum gítarsólóum og háværum trommuleik og söng. Til eru ótal ólík afbrigði af þungarokki. Reggí. Reggí er tónlistarstefna sem varð til á Jamaíku seint á 7. áratug 20. aldar. Það er nátengt ska- og rocksteadytónlist enda komin út frá þeim stefnum. Reggí og Rastafari hreyfingin eru oft nefnd í sömu andrá, en Rastafari er trúarhreyfing frá Jamaíku sem hafði í mörgum tilfellum áhrif á reggí tónlistamenn á 8. og 9. áratugnum. Meðlimir hreyfingarinnar, rastar, trúa því að kannabis gefi þeim skýrari og dýpri skilning á trú þeirra og þar sem tónlistarmenn innan stefnunnar eru oft þeirra trúar hefur marijúana löngun verið fylgifiskur hennar. Undanfari. Reggí á rætur sínar að rekja til ska og rocksteady tónlistar en samt sem áður undir áhrifum Afrísku og Amerísku jazzi og eldri ryþmablús tónlist. Annar sterkur þáttur í þróunninni á stefnunni og sterkur áhrifavaldur var Rastafari hreyfingin. Ska varð fyrst mjög vinsælt á Jamaíku seint á 6. áratugnum en það hafði þróast út frá mento. Áhrifin frá jazzi eru mun meira áberandi í ska-tónlist en í reggí, en gítarinn er aftur á móti mjög líkur á milli stefna. Þegar tónlistarmenn fóru að prófa að hægja á ska-tónlist varð til rocksteady. Sú stefna er náskyld reggí, enda getur verið mjög erfitt að greina þessar tvær stefnur að. Bassinn gegnir stærra hlutverki í rocksteady en í ska tónlist, og textarnir eru öðruvísi. Reggíið sjálft hefur aðeins hægari takt en rocksteady og gítarstíllinn er öðruvísi. Einkenni Reggítónlistar. Reggí tónlist einkennist af ákveðnum en óhefðbundnum takti sem er yfirleitt er í 4/4. Reggí trommarar leggja oft áherslu á þriðja taktinn með bassatrommu en til eru undantekningar á því. Þrátt fyrir að gítarspilið í reggí lögum sé oft einfalt og ekki mörg grip notuð er fjölbreytnin ótrúleg miðað við það og getur einfaldleiki reggítónlistar valdið dáleiðandi áhrifum við hlustun þess. Hljóðfærin sem notuð eru við spilun reggí tónlistar eru bassi, gítar og einhvers konar trommur eða slagverk, en einnig má oft heyra í blásturshljóðfærum, orgeli og jafnvel harmónikkum. Slagverkshljóðfæri og bassi eru að miklu leiti undirstaða reggís og skipta höfuðmáli. Textar í reggílögum geta verið mjög fjölbreyttir og eru þemu oft mismunandi eftir undirgerðum. Þó eru líka sameiginleg þemu milli stefna. Sambönd, ást, trú, friður, kynhneigð, óréttlæti og fátækt eru algeng málefni sem rata inn í texta reggí tónlistarmanna. Í sumum reggí lögum er fjallað um umdeild umræðuefni í samfélaginu og eiga listamenn það til að reyna að upplýsa hlustendur sína og vekja athygli á einhverjum af þessum umdeildu umræðuefnum. Algeng félagstengd efni sem eru áberandi í reggí lögunum eru til að mynda þjóðernisstefna svarts fólks, andstæða við nýlendustefnu, barátta gegn kynþáttahatri og barátta gegn kapítalisma. Saga. Árið 1951 var fyrsta stúdíóið á Jamaíku opnað en þá var þar aðallega tekin upp svokölluð mento tónlist. Hljómsveitir í Kingston byrjuðu svo seinna meir að spila amerískan ryþmablús en þeir breyttu hraðanum svo útkoman varð ska. Það þróaðist svo og varð rólegra og endaði í rocksteady. Það var svo ekki fyrr en 1968, með áhrifum frá Afríkanisma og Rastafarium, ásamt þáverandi félags og pólitískum ólgum sem áttu sér stað í Jamaíku á þessum tíma, varð til þess að þetta einkennandi reggí sem við þekkjum enn þann dag í dag varð til. Bob Marley, annar af leiðtogum hljómsveitarinnar the Wailers, var maðurinn sem gerði reggí af þekktu fyrirbæri. Aðrir mikilvægir frumkvöðlar reggís voru til að mynda Prince Buster, Desmond Dekker og Ken Boothe Hljóðfæranotkun. Hefðbundið trommusett eru iðulega notað í reggí, en slagverk af ýmsu tagi eru einnig áberandi. Trommuslátt er hægt að flokka í þrjár gerðir, og einkennist ein þeirra til að mynda af því að áhersla er lögð á þriðja taktinn. Í rokkaðra reggíi er áherslan lögð á fyrsta og þriðja takt en þriðja gerðin er mjög ólík þeim fyrr nefndu. Þar er bassatromman notuð í hverjum takti, og má til dæmis heyra þann takt í laginu Exodus með Bob Marley. Bassi er mjög mikilvægur í reggí og hann ásamt trommutaktinum gerir laglínuna einstaka. Hann er stöðugur og endurtekinn út lagið og yfirleitt mjög grípandi. Bassatónninn er mjög þykkur og þungur en samt sem áður mjög einfaldur í flestum tilfellum. Taktgítarinn í reggílögum spilar grip utan takts með mjög stuttu og beittu hljóði og hljómar að hluta til eins og slagverk. Stundum er einnig slegið tvisvar á einum takti, dæmi um það er til að mynda Stir it Up með The Wailers, sveit Bob Marleys. Leiðandi gítarinn setur síðan mikin stíl á lagið, og eru oft sóló spiluð með honum eða jafnvel sama laglína og bassinn spilar, sem gerir hann auðþekkjanlegri. Leiðandi gítarinn getur einnig verið notaður í stað bassa ef til þess kemur. Undirgerðir. Fyrsta gerð hins eiginlega reggís varð til í kringum árið 1968, og er í dag þekkt sem early reggae. Þetta er tímabilið áður en Rastafari hreyfingin varð almenn. Early reggí þróaðist út frá rocksteady með áhrifum frá fönki. Einkennin voru aðalleg hraðari taktur, háhatturinn á trommunum var mun meira notaður og orgelið hljómaði öðruvísi. Early reggí varð mjög vinsælt í Bretlandi seint á 7. áratugnum og byrjun 8. áratugarins. Jamaískir listamenn áttu það til að spila endurgerðir af lögum frá plötufyrirtækjum eins og Motown, Stax og Atlantic Records sem gerðu þá þar af leiðandi vinsælari í Bretlandi. Reggae-roots er vinsælasta og þekktasta gerð reggís um heim allan. Undirgerðin náði vinsældum með listamönnum eins og Bob Marley og Peter Tosh. Hún tengist sterklega andlegu hliðinni af Rastafarihreyfingunni og er mikið tilbeðið til Jah í textum stefnunnar en hann er guð hreyfingarinnar. Þema textanna var oft tengt fátækt, mótþróa gegn kúgun stjórnvaldanna, félagslegum málefnum, stolti þess að vera svartur og löngun til þess að snúa aftur til Afríku. Dub er undirtegund reggís sem felur í sér mikla hljóðblöndun á uppteknu efni. Það einkennist af því að sérstaklega mikil áhersla er lögð á trommu og bassa. Maðurinn sem á heiðurinn af Dub er Osbourne „King Tubby“ Ruddock en aðrir frumkvöðlar dub reggís eru Lee „Scratch“ Perry og Errol Thompson. Dub hefur haft mikil áhrif á elektróníska tónlist, popp, rokk og ýmsa aðrar tegundir. Reggímenning á Íslandi. Ekki er mikil hefð fyrir reggí á íslandi enda skortir rætur og menningu Jamaíku sem gerðu stefnuna að því sem hún er í dag. Hjálmar eru forsprakkar íslenskrar reggí tónlistar en þeir hafa verið starfandi frá árinu 2004 og eru enn að. Hljómsveitin Ojba Rasta var kom á sjónarsviðið 2011 og Amaba dama 2012 og hafa báðar notið hylli íslenskra reggíaðdáenda. Einnig hefur félagsskapurinn Reykjavík Soundsystem staðið fyrir mánaðarlegum reggíkvöldum á skemmtistöðunum Hemma og Valda og Faktorý þar sem reggítónlist er spiluð af plötum. Trompet. Trompet er málmblásturshljóðfæri sem hefur hæsta tónsviðið af þeim, fyrir ofan franskt horn, básúnu, baritónhorns og túbu. Trompet er látúnshólkur sem er sveigður í flatan, einfaldan spíral. Hljóðið er framkallað með því að blása með samanherptum vörum í munnstykkið og framkalla þannig staðbylgju í loftinu inni í hólknum. Tóninum er breytt með vörunum og með því að breyta lengd loftrásarinnar með þremur stimpillokum. Ræsiforrit. Ræsiforrit er stutt forrit sem er vistfast eða auðvelt að setja í innra minni og ræsir stærri forrit, eins og í tölvum ræsir það upp stýrikerfið þegar notandi kveikir á tölvunni. Tölvuskjár. Tölvuskjár, eða bara skjár ef augljóslega er verið að tala um tölvuskjá, er rafmagnstæki sem sýnir myndir frá tölvu. Vanalega var skjárinn lampaskjár (með bakskautslampa) en í dag er hann oftast flatur kristalsskjár. Notendaviðmót. a> eru meðal annars hnappastikur, valmyndir, íkon o.s.frv. Notendaviðmót eða notendaskil leyfir fólki að „tala við“ ákveðnar vélar, drif, tölvuforrit eða annað. Auðvelt notendaviðmót gerir notendanum auðveldara fyrir að læra á forritið. Du Fu. Du Fu eða Tu Fu (12. febrúar 712 - 770) var kínverskt skáld. Ásamt Li Bai (Li Po), er hann oft nefndur besta kínverska skáldið. Li Bai. Mynd af Li Bai frá 13. öld. Li Bai eða Li Po (f. 701 - d. 762) var kínverskt skáld. Ásamt Du Fu, er hann talinn eitt besta skáld Kína. Zeami Motokiyo. Zeami Motokiyo, einnig kallaður Kanze Motokiyo, var japanskur leikari og skáld. Valkyrja. Valkyrja er kvenkyns persóna úr norrænni goðafræði sem hafði það hlutverk að sækja fallna hermenn og koma þeim til Valhallar. Mary Harris. Móðir Jones, réttu nafni Mary Harris Jones, (f. 1. ágúst 1837 - d. 1. nóvember 1930) var írskur verkalýðsleiðtogi. Mary fæddist á Írlandi, faðir hennar var bóndi. Hún fluttist til Bandaríkjanna þar sem hún giftist og eignaðist þrjú börn. Fjölskylduna missti hún alla er guluveikisfaraldur herjaði árið 1867. Annað áfall dundi svo á fjórum árum seinna, 1871, þegar hún missti aleiguna í "Eldinum mikla í Chicago". Þá hóf hún að vinna fyrir og skipuleggja hagsmunasamtök almennings, hún gekk í Knights of Labour, undanfara Industrial Workers of the World sem hún tók þátt í að stofna 1905. Hún tók þátt í störfum United Mine Workers og Sósíalistaflokki Ameríku Píkareska skáldsagan. Píkareska skáldsagan (spænsku: "la novela picaresca") er tegund evrópskrar bókmenntagreinar sem í upphafi var skáldsaga um léttlynda og bragðvísa persónu sem lendir í hinum ýmsu ævintýrum. Á íslensku hefur þessi bókmenntagrein verið nefnd hrekkja- og prakkarasaga eða grallarasaga, prakkarasaga eða skelmissaga. Ekkert eitt heiti hefur enn fest sig í sessi. Stutt yfirlit. "Píkaresk skáldsaga" hefur með tíð og tíma fengið víðari merkingu og er haft um skáldsögur sem eru litaðar af uppátækjasemi og skrautlegum lýsingum. Jafn ólíkar bækur og Birtingur eftir Voltaire og Skræpótti fuglinn eftir Jerzy Kosiński hafa stundum verið settar í þennan flokk. Bækur sem flokkast undir prakkarasöguna eru oft sögur um andhetjur, menn sem eru á einhvern hátt óæðri (litið til stéttar, virðingar o.s.frv.) en þeir sem eru í kringum þá. En vegna skelmiseiginda í upplagi þá láta persónur prakkarasagna fátt á sig bíta og gefast ekki upp hvað sem yfir dynur. Þetta er þó ekki einhlýtt, því stundum er sagan aðeins fjörleg saga um persónu sem lendir í furðulegum ævintýrum. Föst skilgreining er illfinnanleg. Orðsifjafræði. Uppruni orðsins "pícaro" "pörupiltur; skálkur", sem haft er að viðurnefni og um persónur þær, sem kom fram í þessum prakkarasögum, er á einum stað sögð skyld spænsku sögninni "picar", en hún jafngildir þeirri íslensku "að pikka": það er að segja maður sem pikkar eða kroppar - hnuplar; gæti sú skýring vel átt við "el pícaro" í þeirri sögu sem fyrst telst til þessa bókmenntagreinar. Fyrsta prakkarasagan. Sú bók sem er talin setja rásina fyrir prakkarasöguna er Lazarus frá Tormes ("Lazarillo de Tormes") eftir ókunnan rithöfund og sem út kom í Burgos 1554. Vissulega má benda á að Satýrikon eftir Petróníus eða Gullasninn eftir Apuleius geti talist til þessarar bókmenntagreinar, og sjálfsagt má fara enn lengra aftur, en það er með "Lazarus frá Tormes" sem hún verður til sem grein, fær vængi og tekur flug. Nokkrum mánuðum eftir að Lazarus kom út í Borges birtist hún aftur, aukin nokkrum innskotsþáttum, í Alcala de Henares. Og eftir það í allavega útgáfum. Þróun prakkarasögunnar. Sagan um Lazarus var snemma þýdd á aðrar tungur, og innan tíðar breiddist hið nýja skáldsöguform út um Evrópu eins og eldur í sinu. Hafði hún áhrif á franskan, þýskan og enskan skáldskap og má þar nefna bækur eins og Tom Jones eftir Henry Fielding og Simplicius Simplicissimus eftir Hans Jakob Christoffel von Grimmelshausen. Saga Lazarusar hafði töluverð áhrifa á Miguel de Cervantes og hann skrifaði söguna Króksi og Skerðir ("Rinconete y Cortadillo") undir áhrifum frá Lazarusi, og finna má píkareskt handbragð á Don Kíkóta. Nýlegar skáldsögur sem flokkast gætu undir prakkarasögur eru: Pascual Duarte og hyski hans eftir Camilo José Cela og Blikktromman eftir Günter Grass. Samfelldni. Samfelldni er mikilvægt hugtak í örsmæðarreikningi og grannfræði. Lýsa má samfelldni falls (losaralega) þannig að fallið sé samfellt ef að hvergi finnast,göt" á því, þ.a. að hver punktur,taki við" af öðrum, þ.e. fall "f" er samfellt í punkti "y" ef það er skilgreint í "y" og tölugildið |"f"("y") - "f"("x")| nálgist núll, þegar punkturinn "x" "stefni á" "y". Annars er fallið sagt ósamfellt. 400px Samfelldni raungilds falls. Raungilt fall formula_1, sem skilgreint er á hlutmengi rauntalnanna, er sagt samfellt ef það hefur markgildi fyrir einhvern punkt "y" í iðri formengisins "X" og að markgildið formula_2 sé til og jafnt fallgildinu í "y", þ.e. Samfelldni í grannrúmi. Fyrir almennt grannrúm gildir að fall formula_1 er samfellt þegar fyrir sérhvert opið mengi formula_5 gildir að formula_6 er opið í "X". Segja má að "f" sé samfellt í punkti "x" ef um sérhverja grennd "V" um "f(x)" er til grennd "U" um "x", þ.a. formula_7. Samfelldni í firðrúmi. Efformula_8 eru firðrúm er fallið formula_1 sagt samfellt í "x" ef að fyrir öll ε > 0 er til δ > 0 þ.a. formula_10. formula_12 Orðflokkur. Orðflokkur er ákveðin gerð af orðum,svo sem nafnorð, sagnorð, lýsingarorð, fornöfn, forsetningar, atviksorð, samtengingar og töluorð. Öll orð í íslensku tilheyra einhverjum af ellefu orðflokkum málsins. Skiptingin fer eftir merkingarlegum, formlegum og stafsetningarlegum einkennum orðanna. Merkingarleg einkenni. Nafnorð eru heiti á lifandi verum, hlutum eða hugtökum, sagnorð tákna oft það sem að gerist eða gerðist, töluorð segja til um upphæð eða fjölda o.s.frv. Formleg einkenni. Hér er einkum átt við ýmis beygingaratriði, t.d hvort orðið fallbeygist, tíðbeygist, bæti við sig greini o.s.frv. Setningarleg einkenni. Forsetningar standa alltaf með fallorði í aukafall, lýsingarorð geta staðið með nafnorðum, atviksorð standa oft með sagnorðum o.s.frv. Títanar. Títanar (grísku: "Τιτάν", ft. "Τιτάνες") voru tólf tröllvaxin afkvæmi Gaiu og Úranosar í grískri goðafræði og sem í eina tíð voru æðri öðrum guðum. Títanar réðu alheiminum á Gullöldinni. Ef litið er til Hesíódosar kemur fram í bók hans "Goðakyni" (um uppruna heimsins og ættir guðanna) að títanar voru tólf, en aðrir höfundar hafa talið þá allt frá 6 til 24. Mest títana voru þau: Ókeanos, hinn mikli "Útsær" er umflýtur jörðina, og kona hans Teþys, hin endurnærandi "Rekja", foreldrar allra linda og fljóta; Hyperíon og Þeia, tvær ljósverur, gátu Helíos (sól), Selenu (Mána) og Eos (Morgunroða); Þemis (réttlætisgyðja) og Mnemosyna (minnið), voldug goðmögn í skipun heimsins; Krónos og Rhea, er tóku stjórn heimsins af Úranosi og Gaiu. Í upphafi var Úranos voldugastur guð. En er synir hans, Kýklópar, ætluðu að verða honum ofjarlar, byrgði hann þá niðri í Tartarosi, þar sem þeir máttu ekki líta ljós sólarinnar. Gaiu líkaði það stórilla, og hvatti hún Títani til að freista þess að frelsa bræður sína. Sá yngsti, Kronos, þorði einn að hætta á það stórræði. Í iðrum sínum lét jörðin spretta hið fyrsta járn og smíðaði úr því sigð. Með því vopni limlesti Kronos, föður sinn og hratt honum af veldisstóli. Upp af blóði Úranosar spruttu Erinýjur, nornir blóðhefndanna og Gígantar, vopnaðir og herskáir jötnar svipaðir títönum. En fyrir glæp sinn hófst Kronos til valda. Skipið Titanic ("Títaník") var skýrt í höfuðið á títönum. Gaia. Gaia, Gaja eða Ge (forngrísku: Γαῖα eða Γη) eða "móðir jörð" er nokkurs konar persónugervingur jarðar og var í fyrstu talin eitt helsta goðmagn grískrar goðafræði. Hún var dóttir Kaosar. Það kvað aldrei mikið að dýrkun hennar, því að goð sem gædd voru enn meiri persónulegum þrótti, yfirskyggðu hana, t.d. Rhea, Hestía, Demetra og Þemis. Meira bar á dýrkun Tellusar (samskonar rómversk gyðja) í Róm, enda þótt Ceres og önnur skyld goð yrðu henni einnig yfirsterkari. Höfuðþýðing Gaiu er í því fólgin, að hún getur af sér allt líf og eflir allan vöxt í ríki náttúrunnar. Hugsuðu menn sér hana fyrst og fremst sem móður, er sér öllum börnum sínum farborða af ást og umhyggjusemi. Ásamt Demetru og öðrum skyldum gyðjum heldur hún sérstaklega verndarhendi yfir æskulýðnum. Sem verndari hans var hún einkum tignuð í Aþenuborg. Í Róm var Tellus jafnframt tignuð sem hjónabandsgyðja. Einnig voru henni færðar hátíðlegar fórnir við upphaf og endi sáningar. Kampselur. Kampselur (fræðiheiti: "Erignathus barbatus") sem einnig hefur verið nefndur nefndur granselur og kampur er að finna í höfunum um allt norðurhvel, allt norður að 80°N. Sjaldgæfur flækingur við Ísland. Einkenni. Kampselurinn er 2 til 2,5 m á lengd og 200 og allt að 360 kg á þyngd og er þar með stærri en landselur en minni en fullvaxin útselur. Urturnar eru víða stærri en brimlarnir. Kampselurinn hefur hlutfallslega lítið höfuð miðað við skrokkinn og er það einkum áberandi á haustin og fyrri hluta vetrar en þá eru þeir að safna á sig miklu spiki sem vetrarforða. Höfuðið er hnöttótt eins og á landsel, augun fremur lítil og sitja nokkuð þétt og snúa fram. Breitt trýni og mjög aðskildar nasir. Aðaleinkennið og það sem hefur gefið selnum nafn eru þó veiðihárin sem eru áberandi ljós og löng. Framhreifar eru stuttir en breiðir ólíkt öðrum selum eru klærnar allar svipaðar að stærð en miðklóin þó einna stærst. Ólíkt öðrum selum hafa kampselsurturnar fjóra spena en ekki tvo. Fullorðnir selir eru heldur dekkri á baki en kviði en litarfarið er margbreytilegt. Kampselir hafa mörg litarafbrigði, grá, brún og gulbrún, ljósu og dökk. Þeir hafa yfirleitt dökka rák frá hvirfli, milli augna og fram á snjáldur. Eitt sérkenni kampsela er að brimlarnir „syngja“, ekki ósvipað hvölum og gera það ekki aðrir selir. Söngurinn eru flóknar hljóðsyrpur á bilinu 0,02 til 11 kHz. Söngtíminn er á fengitíma og þar um kring um 90 daga tímabil frá seinni hluta mars fram að miðjum júlí. Útbreiðsla og undirtegundir. Kampsel má finna á Norður-Íshafi, allt norður að 80-85°N, og á hafsvæðum þar suður af. Engar áreiðanlegar tölur eru um stofnstærð kampsels. Ágiskanir á 8. áratug síðustu aldar voru 300,000 í "E. barbatus barbatus" stofninum, og á 9. áratugnum 250,000-300,000 í "E. barbatus nauticus" stofninum. Æti og lifnaðarhættir. Kampselir eru einrænir og halda sig aðallega í gisnum ís eða rekís en þá má einnig finna við borgarísjaka og þéttari ís en þeir viðhelda ekki öndunaropi í gegnum lagnaðarís eins og hringanórinn. Kampselir fylgja hafísjaðrinum norður á bóginn á vorin og suður á haustin. Kampselurinn heldur sig oftast á svæðum sem eru grynnri en 160 metra dýpi. Fæða hans eru aðallega krabbadýr, rækjur og krabbar, skeljar og aðrir botnhryggleysingja og einnig botnfiskar. Kæping á sér stað frá miðjum mars fram í maí byrjun. Kóparnir fæðast með grábrúnan pels með ljósari flekkjum á höfði og baki. Fæðingarhárið er fallið af áður en þeir fæðast. Þeir eru um 1,3 metra langir við fæðingu og um 34 kg á þyngd. Þeir eru syntir nánast frá fæðingu og fræðimenn hafa séð þá kafa í 5 mínútur niður á 75 metra dýpi einungis viku gamla. Kóparnir eru á spena í 18-24 daga og þyngjast ört á þeim tíma. Þeir fara úr hárum og fá fullorðinsfeld þegar þeir hætta á spena. Urturnar verða kynþroska 3 til 8 ára og brimlarnir 6 til 7. Ísbirnir, og háhyrningar eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn, en dæmi er um að rostungar hafi drepið kampselskópa. Veiði og nyt. Kampselur hefur um aldaraðir verið mikilvægur þáttur í lífsviðurværi frumbyggja við strendur Norðurslóða, skinn í föt og tjöld, kjöt til matar og spikið til brennslu. Vöðuselur á Íslandi. Kampselur er sjaldgæfur flækingur við strendur Íslands og er oftast einn á ferð. Yfirleitt eru það ung og ókynþroska dýr sem hingað koma. Kampselur er algengastur fyrir norðan og austan land að vetrarlagi. Aqmolafylki. Aqmolafykli (Ақмола облысы, Акмолинская область) er fylki í Norður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Köksjetá. Atýráfylki. Atýráfylki (Атырау облысы, Атырауская область) er fylki í Vestur-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Atýrá. Fylkið liggur rétt á Kaspíahöf og er mjög ríkt. Olía er mjög mikilvæg hérna, af því að mikið olía í Kasakstan kemur beint úr Atýrá fylkinu. Leiðslan olíu fer frá Atýrá til Grósnij, Téténíu í Rússlandi sem er mjög mikilvægt fyrir Rússland og lönd í Mið-Asíu og auðvitað fyrir Kasakstan. Atýrá fylki á landmæri að Rússlandi, og er minnstur fylki í Kasakstan með Suður-Kasakstan Fylkinu líka. Fólk frá Atýrá eru mjög stólt af lönd þeirra. Þau eru „Austur-Kasakskar“ og allajafna hata útlendingar. Þó mikið fólk frá útlendum, til dæmis frá Þýskalandi, Úkraínu, og Bandaríkjunum, kemur til Atýrá Fylkisins til að vinna og læra um olíu. Mikið fyrirtæki frá útlendum og vestri fjárfesta í Atýrá Fylkinu af því að þetta er örruglega ríkasti hluti í Mið-Asíu með olíu. Bieżuń. Bieżuń er bær í miðhluta Póllands. Íbúar voru 1 864 árið 2005. Ood. Ood er kynstofn úr bresku sjónvarpsseríunni Doctor Who sem kom fyrst fram í þættinum The Impossible Planet sem sýndur var fyrst 3. júní árið 2006. Líffræði. Ood eru tvífættar verur með mennsk einkenni að andlitinu undanskyldu. Á andlitinu er ekki að finna augljóst nef eða munn, en í stað þeirra eru fálmar sem minna helst á arma kolkrabba. Ood hefur þó tvö augu. Ood búa yfir æðri samskiptarvenju sem gerir þeim kleyft að tala sín á milli án orða, en þurfa að notast við samskiptartæki til að eiga samskipti við aðrar verur eins og mannverur. Samskiptatækið birtist áhorfendum sem hvít kúla sem tengist Ood með hvítri snúru sem leiðir upp í fálma þeirra. Engin kynskipting er á meðal þeirra og fylgja þeir engum nafnavenjum eða titlum, enda líta þeir á sig sem eina heild frekar en einstaklinga. Eigendur þeirra hafa þó komið upp einföldum nafnavenjum til að auðvelda skilgreiningu á milli þeirra og til þess að koma skipunum sínum á framfæri. Þessi nöfn eru oftast Ood 1 Alpha 1 til Ood 1 Alpha 2 o.s.frv. Atferli og hegðunarmynstur. Ood eru í framtíðinni viljugir þrælar mannkyns og er haldið fram í þættinum að hvert mannsbarn hafi Ood sem þræl. Ood telja sem svo að þeir hafi engan annan tilgang í lífinu en að taka við skipunum og framfylgja þeim. Í þættinum er því einnig haldið fram að án umsjónar myndu þeir ekki geta séð um sig og sína og að lokum deyja. Eins og nefnt er að ofan þá hafa Ood frumstætt hugarafl sem gerir þeim kleyft að hafa samskipti sín á milli án þess að tala. Sviðið sem leyfir þeim þennan samskiptarmáta er frekar lágt og er mælt sem „Basic 5” í þættinum, en hærri gildi er líkt við hækkandi röddu. „Basic 30” er líkt við öskur og „Basic 100” á að orsaka heiladauða. Fyrstu kynni. Fyrstu kynni áhorfenda af þessum kynstofn er þegar tíundi Læknirinn og Rose Tyler lenda á skipinu sínu Tardis inn í stöð sem hefur verið byggð á plánetu sem kallar Krop Tor og hringsólast í kringum svarthol án þess að sogast inn í það. Listi yfir íslenskar heimildamyndir. __NOTOC__ Hér að neðan eru listar yfir íslenskar heimildarmyndir. ! Python (forritunarmál). Python er forritunarmál þróað með það að leiðarljósi að einfalda forritaranum vinnuna sína frekar en að gera tölvunni auðvelt fyrir. Python, þrátt fyrir að vera oft talið einfalt mál býr yfir flestum þeim möguleikum sem vinsælustu forritunarmál í dag búa yfir, þ.m.t. hlutbundna forritun. Python er til í mörgum útgáfum, sú þekktasta er líklega CPython sem er viðhaldið af. Python kóði er yfirleitt vistaður í skjöl með endingunni codice_1 sem eru svo keyrðar með codice_2 skipuninni. Einnig er hægt að keyra codice_2 skipunina án skráarnafns og fæst þá einskonar Python skel. Í henni má meðal annars prófa sig áfram sem og keyra einföld forrit. Python 2.4.4c1 (#2, Oct 11 2006, 21:51:02) Type "help", "copyright", "credits" or "license" for more information. Það sem fólk rekur sig kannski fyrst á er að codice_6 er ekki notað utan um "blokkir" eins og í Java, C og mörgum málum. Blokkir í Python eru einfaldlega táknaðar með inndrætti, samanber hvernig codice_7 er dregin inn hér að ofan. Þetta getur valdið villum þegar fólk er að rokka milli þess að nota tab eða bil fyrir inndrátt, en ekki má blanda þessu í einni og sömu skránni. Bob (hljómsveit). Haustið 2006 gaf hljómsveitin út frumburð sinn, plötuna dod qoq pop. Platan fékk góða dóma hjá Morgunblaðinu. Hljómsveitin hefur spilað á fjölda tónleika í gegnum tíðina og tóku þeir meðal annars þátt á íslensku tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves haustið 2006. Árið 2010 gaf hljómsveitin út stuttskífuna Best of Breed. Sólstöður. Sólstöður eða sólhvörf er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, sumarsólstöður á tímabilinu 20.-22. júní, þegar sólargangurinn er lengstur og vetrarsólstöður 20.-23. desember, þegar hann er stystur. Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögum. Nafnið sólstöður vísar til þess að sólin stendur kyrr, þ.e. hættir að hækka eða lækka á lofti. Jafndægur. Jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári, á vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á haustjafndægri 21.-24. september. Um þetta leyti er dagurinn um það bil jafnlangur nóttinni hvar sem er á jörðinni, og af því er nafnið dregið. Breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum. Orðið jafndægur hét í fornu máli jafndægrishringur og notuð voru orðin og orðasamböndin "vorjafndægur", "vorjafndægri", "jafndægur á vori" og "jafndægri á vori". Hinsvegar að hausti "haustjafndægur", "haustjafndægri", "jafndægur á hausti" eða "jafndægri á hausti". Orðið jafndægur er til í skyldum málum. Í dönsku er t.d. talað um "jævndøgn". Í ensku er talað um "equinox" sem leitt er af latneska orðinu aeqvinoctium af aeqvus: "jafn" og -noctium sem leitt er af nox: "nótt". Til forna var upphafsdagur ársins ýmist miðaður við vorjafndægur, haustjafndægur eða vetrarsólstöður. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir um vorið að það sé frá jafndægri að vori til fardaga en þá taki við sumar til jafndægris á hausti. Vorið nær því samkvæmt því frá 19. til 21 mars og fram að fardögum sem voru á fimmtudegi í 7. viku sumars eða á bilinu 31. maí til 6. júní. Dagur (tímatal). Dagur er tímaeining sem afmarkast þeim tíma dags sem að staður er lýstur upp af sólinni. Hann byrjar við sólarupprás og endar við sólsetur. Meðallengd dags eru 12 klukkutímar. Í mörgum löndum er skilgreiningin á einum degi oft sú sama og sólarhringur, það er, tíminn frá sólarupprás til næstu sólarupprásar. Lengd dagsins fer eftir möndulsnúningi jarðarinnar. Dagur getur jafnframt verið helmingur sólarhringsins á móti nóttu. Forn hefð er fyrir því að nýr dagur hefst og lýkur þegar sólin er við sjóndeildarhring. Nákvæmur tími fer eftir hnattfræðilegri stöðu og árstíðum. Í Forn-Egyptalandi var dagurinn skilgreindur frá sólarupprás til næstu sólarupprásar. Í Forn-Evrópu afmarkaðist dagurinn af sólsetri. Joey. Joey voru bandarískir sjónvarpsþættir um leikarann Joey Tribbiani úr þáttunum "Vinir". Joey er leikinn af Matt LeBlanc og voru þættirnir á dagskrá frá 9. september 2004 til 5. júlí 2006. Þættirnir fjalla um hinn misheppnaða leikara Joey sem fær starfstækifæri í Los Angles. Hann dvelur hjá einni af sjö systrum sínum og einu nördalegu persónunni í ættinni hans. Hann er álitinn stefnumótaguð af fleirum en einum. Þátturinn var búinn til af sömu höfundum gerðu þættina um "Vini", Shana Goldberg-Meehan og Scott Silveri. Hvamm-Sturla. Hvamm-Sturla Þórðarson bjó í Hvammi í Dölum. Hann var fæddur árið 1116 og dó 23. júlí 1183. Foreldrar hans voru Vigdís Svertingsdóttir og Þórður Gilsson goði á Staðarfell í Dölum. Sturla var goði eins og faðir hans. Hann var stórbokki og lét aldrei sinn hlut fyrir nokkrum manni. Hann stóð í illdeilum við Pál Sölvason prest í Reykholti (f. 1118, d. 1185) og gekkst höfðinginn Jón Loftsson í Odda fyrir sáttum þeirra með því að bjóða Sturlu að fóstra yngsta son hans, Snorra. Sturla var að minnsta kosti tvígiftur og var fyrri kona hans Ingibjörg Þorgeirsdóttir. Þau áttu tvær dætur. Seinni eða síðasta kona hans var Guðný Böðvarsdóttir frá Görðum á Akranesi. Hún var móðir bræðranna Þórðar, Sighvatar og Snorra, sem mest koma við sögu í upphafi Sturlungaaldar. Sturla átti líka nokkrar frillur og með þeim að minnsta kosti sjö börn sem upp komust. Eitt þeirra var Þuríður, móðir Dufgusar Þorleifssonar og amma Dufgussona. Talnareikningur. Talnareikingur er elsta grein stærðfræði, í ákveðnum skilningi er hægt að líta á hana sem forvera stærðfræði. Talnareikningur takmarkast við grunnaðgerðinar í reikningi: Samlagningu, frádrátt, deilingu og margföldun. Möndull. Möndull, öxull eða ás er ímynduð lína, sem liggur í gegnum hlut sem snýst þannig að punktar hlutarins hnita hringi umhverfist möndulinn. Snúningsás er yfirleitt samheiti við möndul, en öfugt við möndul getur hann legið utan við hlutinn. Möndull jarðar, jarðmöndullinn liggur um norður- og suðurskaut. Talnafræði. Talnafræði eða talnalist fjallar um eiginleika talna, einna helst þeirra náttúrlegu eða heilu. Þeir sem leggja stund á talnafræði nefnast talnafræðingar. Rúmfræði. Rúmfræði er undirgrein stærðfræðinnar sem á uppruna sinn að rekja til þess að menn vildu geta reiknað út fjarlægðir í rúmi. Ásamt talnafræði, er rúmfræði elsta grein stærðfræði. Grunnhugtök rúmfræðinnar eru punktur, lína og slétta (plan). Rúmfræði snýst um að geta reiknað út lögun og stærð, eða rúmfræðilega eiginleika hluta. Evklíð, forn-grískur stærðfræðingur er oft nefndur "faðir rúmfræðinnar". Miklar breytingar urðu á skilningi manna á rúmfræði á fyrri hluta 19. aldar þegar fram komu nýjar kenningar um rúmfræði sem byltu þeirri sem Evklíð hafði skilgreint. Bónus (verslun). Bónus er íslensk keðja lágvöruverslana. Saga. Fyrsta Bónusverslunin var opnuð árið 1989 í Skútuvogi í Reykjavík af Jóhannesi Jónssyni og syni hans Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Fjöldi verslana er nú 29 á Íslandi og 5 í Færeyjum. Árið 1992, eftir harkalegt verðstríð, keyptu Hagkaupsverslanirnar helmingshlut í Bónus. Fyrirtækin tvö sameinuðust ári síðar undir merki eignarhaldsfélagsins Baugur Group. Matvöruverslanirnar eru nú í eigu Haga sem er dótturfyrirtæki Baugs Group. Verslanir. Samtals eru 29 Bónus verslanir á Íslandi og 5 í Færeyjum. Sprengihreyfill. Sprengihreyfill eða brunahreyfill er vél sem nýtir bruna (ekki sprengingu, þrátt fyrir heitið) til að hreyfa stimpil vélarinnar, sem síðan knýr sveifarásinn. Blöndu af súrefni og eldsneyti er þjappað saman í brunahólfi (strokk) og ýmist verður sjálfsíkveikja eða kveikjuhetta (kallað "kerti") notuð til að mynda hraðan bruna í blöndunni. Við brunann hitnar eldsneytisblandan og þenst út og þrýstir stimpillinn út, sem snýr þannig sveifarásnum hálfhring. Næsti stipill tekur síðan við og snýr sveifarásnum annan hálfhring og þannig koll af kolli þ.a. hann snýst með jöfnum hraða. Nikolaus August Otto fann upp sprengihreyfilinn árið 1862 og kallast hann því stundum "Otto-hreyfill". Eldsneyti. Eldsneyti sem notað er í sprengihreyfla eru meðal annarra bensín, díselolía, jarðgas, vetni, flugvélabensín, gas úr úrgangi, lífdísill, lífbútanól, hnetuolía og fleiri plöntuolíur, lífetanól, lífmetanól (metýl eða tréspíri) og önnur lífeldsneyti. Aðal krafan sem gerð er til eldsneytisins er að auðveldlega sé hægt að flytja það úr geymi til vélarinnar og að það geymi næga orku til að knýja áfram vélina. Súrefnin er algengasti brunahvatinn og hefur þá kosti að ekki þarf að geyma það innan vélarinnar heldur getur hún tekið það úr umhverfinu jafn óðum og hún nýtir það. Þetta léttir vélina og eykur afl hennar á móti þyngd. Sumar bifreiðar nýta nítrógen (nítrað súrefni) sem hvata við brunanna. Þetta eykur afl t.d. í kappakstri en er dýrt til lengdar. Önnur efni s.s. klór eða flúor hafa verið notuð í tilraunaskyni. Díselvélar eru gjarnan þyngri, háværari og aflmeiri en bensínvélar á lítill ferð. Þær nýta einnig eldsneytið betur og eru því nýttar í þungar bifreiðar (vörubíla, gröfur og beltatæki), einkabíla (verður algengara eftir því sem eldsneytisverð hækkar út af nýtninni), skip, lestar og léttar flugvélar. Bensínvélar eru notaðar í einkabíla og mótorhjól (skellinöðrur og vespur sem ganga ekki fyrir rafmagni). Einnig eru til vélar sem nota vetni, metanól, etanól og lífdísel - draga þær nafn sitt af þeirri tegund sem þær nýta. Sturlungar. Sturlungar voru valdaætt á Íslandi á Sturlungaöld, á fyrri hluta 13. aldar. Ættin er kennd við Sturlu Þórðarson, Hvamm-Sturlu, sem var ættfaðirinn. Margir merkir og sögufrægir menn voru afkomendur hans, til dæmis sagnaritararnir Snorri Sturluson, sem var sonur Hvamm-Sturlu, og Sturla Þórðarson, sem var sonarsonur hans. Einnig Sighvatur á Grund í Eyjafirði og synir hans, Sturla og Þórður kakali. Ættartré Sturlunga. Hvamm-Sturla, Sturla Þórðarson, goði í Hvammi í Dölum, 1116 - 1183. │ ╰─Dufgus Þorleifsson, bóndi á Sauðafelli, í Hjarðarholti og í Stafholti │ ╰─Dufgussynir, Svarthöfði, Kolbeinn grön, Björn drumbur og Kægil-Björn ├─Þórður, (móðir: Guðný Böðvarsdóttir), bóndi á Stað á Ölduhrygg, 1165 - 1237 │ ├─Böðvar Þórðarson, bóndi á Stað á Ölduhrygg. │ │ ╰─Þorgils skarði Böðvarsson (d. 22. janúar 1258). │ ╰─Sturla Þórðarson, sagnaritari á Stað á Ölduhrygg (Staðastað) og Staðarhóli í Saurbæ, 1214 - 1284. │ ╰─Ingibjörg Sturludóttir, f. 1240, sjá Flugumýrarbrennu. ├─Sighvatur, (móðir: Guðný Böðvarsdóttir), goði á Grund í Eyjafirði og víðar, 1170 - 1238. Féll í Örlygsstaðabardaga. │ ├─Tumi (1198 - 1222, drepinn á Hólum af mönnum Guðmundar biskups Arasonar. │ ├─Sturla, goði á Sauðafelli í Dölum, 1199 - 1238, féll í Örlygsstaðabardaga │ ├─Kolbeinn Sighvatsson, bóndi á Grenjaðarstað (d. 1238), höggvinn eftir Örlygsstaðabardaga. │ ├─Markús Sighvatsson (d. 1238), féll í Örlygsstaðabardaga. │ ├─Steinvör Sighvatsdóttir, húsmóðir á Keldum á Rangárvöllum, f. um 1200, d. um 1270. Hún er kölluð „höfuðskörungur“ í Sturlungu. │ ├─Þórður kakali Sighvatsson, einvaldur höfðingi á Íslandi skamma hríð um miðja 13. öld, um 1210 - 1256. │ ├─Þórður krókur Sighvatsson (d. 1238), höggvinn eftir Örlygsstaðabardaga. │ ╰─Tumi yngri Sighvatsson (1222-1244), drepinn á Reykhólum af mönnum Kolbeins unga. ├─Snorri, (móðir: Guðný Böðvarsdóttir), sagnaritari og stórbóndi í Reykholti, 1178 - 1241. │ ├─Hallbera, fyrr gift Árna óreiðu, síðar gift Kolbeini unga á Víðimýri í Skagafirði, um 1201 - 1231. │ ├─Jón murti, var drepinn í Noregi, um 1203 - 1231. │ ├─Þórdís, seinni kona Þorvaldar Snorrasonar í Vatnsfirði, um 1205 - 1245 eða síðar. │ ├─Órækja, bjó í Stafholti í Borgarfirði, en var hrakinn úr landi eftir dráp föður síns (d. 1245). │ ╰─Ingibjörg, kona Gissurar jarls frá 1224 til um 1233, f. um 1208. ├─Vigdís, (móðir: Guðný Böðvarsdóttir), húsfreyja í Flatey á Breiðafirði ╰─Helga, (móðir: Guðný Böðvarsdóttir), gift Sölmundi austmanni. Leikið sjónvarpsefni ársins. Edduverðlaunin fyrir leikið sjónvarpsefni ársins er gefið árlega af ÍKSA. Fyrstu verðlaunin voru gefin 1999 þar til 2001 þegar því var skeitt saman við nýju verðlaunin stuttmynd ársins. Næsta ár var þeim hins vegar gefin verðlaun í sínum eigin flokki. Það leið þó ekki á löngu þar til „leiknu sjónvarpsefni ársins“ yrði skeitt saman aftur við önnur verðlaun en það gerðist einmit árið 2003 þegar því var skeitt saman við sjónvarpsþátt ársins. Það ár vann Sjálfstætt fólk verðlaunin og er því eini spjallþátturinn sem hefur unnið verðlaunin. Þessu var hins vegar breytt strax næsta ár, og var þeim aftur gefin verðlaun í eigin flokki. Sjónvarpsþáttur ársins. Edduverðlaunin fyrir sjónvarpsþátt ársins er gefið árlega af ÍKSA. Fyrstu verðlaunin voru gefin 1999. Tilnefnd getur verið hvert það sjónvarpsefni sem ekki inniheldur leikið efni. Þar varð þó breyting á árið 2003 þegar því var skeitt saman við verðlaunin leikið sjónvarpsefni ársins undir sameiginlegu heiti "sjónvarpsþáttur ársins" og tilnefndu urðu leiknu sjónvarsefnin Spaugstofan og Áramótaskaupið 2002. Næsta ár voru verðlaununum hins vegar gefin eigin flokkur. Skemmtiþáttur ársins. Edduverðlaunin fyrir skemmtiþátt ársins var fyrst gefin árið 2004 en áður hafði það verið gefið undir flokknum sjónvarpsþáttur ársins. Fyrsti skemmtiþátturinn til að hljóta verðlaunin var Spaugstofan. Sjónvarpsfréttamaður ársins. Sjónvarpsfréttamann ársins var hluti af Edduverðlaunum á vegum ÍKSA en þau voru aðeins veitt þrisvar sinnum. Þeókrítos. Þeókrítos (forngrísku Θεόκριτος) var forngrískt skáld og upphafsmaður hjarðkvæða („búkólísks“ kveðskapar). Hann var uppi snemma á 3. öld f.Kr. Lítið er vitað um Þeókrítos umfram það það sem lesið verður út úr kveðskap hans, og því verður að draga allar ályktanir um ævi hans með nokkrum fyrirvara. Enn fremur hafa fræðimenn dregið í efa að sum þeirra kvæða sem honum eru eignuð séu ósvikin. Líklega var Þeókrítos frá Sikiley en sú ályktun byggir á því að Þeókrítos vísar til Pólýfemosar, kýklópans úr "Ódysseifskviðu, sem samlanda síns." Sumir telja að hann hafi einnig búið í Alexandríu um hríð. Vinsælasti sjónvarpsmaður ársins. Edduverðlaunin fyrir vinsælasta sjónvarpsmann ársins hefur verið gefun árlega af ÍKSA frá árinu 2000. Lúkíanos. Lúkíanos frá Samosata (forngrísku Λουκιανὸς ὁ Σαμοσατεύς, um 120 – eftir 180) var sýrlenskur-rómverskur mælskumaður, rithöfundur og höfundur satíra, sem ritaði á forngrísku og var rómaður fyrir fágaan stíl sinn, hugmyndaflug sitt og kímnigáfu sína. Hann fæddist í borginni Samosata í fyrrum konungdæminu Kommagenu (í dag í austurhluta Tyrklands), sem var þá undir yfirráðum Rómaveldis og var sameinað skattlandinu Sýrlandi. Hann vísar til sjálfs sín sem „Sýrlendings“. Að öllum líkindum lést hann í Aþenu seint á 2. öld Lúkíanosi eru eignuð rúmlega 80 ritverk en ósennilegt þykir að þau séu öll ósvikin. Í mörgum verka sinna gerir Lúkíanos óspart grín að bæði grískri goðafræði og grískri heimspeki. Ekkert er vitað um heimspekileg viðhorf hans sjálfs en hann hefur bæði verið talinn hafa aðhyllst aristótelisma og epikúrisma. Sjónvarpsverk/stuttmynd ársins. Edduverðlaunin fyrir sjónvarpsverk/stuttmynd ársins var gefið gefið einu sinni af ÍKSA, eða árið 2001. Þá vann sjónvarpsþátturinn Fóstbræður verðlaunin. Árið eftir var flokknum skeitt í tvennt. Stuttmynd ársins annars vegar og leikið sjónvarpsefni ársins hins vegar Tibullus. Albius Tibullus (um 54-19 f.Kr.) var rómverskt skáld. Lítið er vitað um ævi Tibullusar. Ekki er vitað hvert fornafn hans var og ættarnafn hans, Albius, hefur einnig verið dregið í efa. Líklega hefur hann verið af stétt riddara og arfur hans virðist hafa verið drjúgur en hann virðist hafa glatað honum árið 41 f.Kr., líkt og Virgill, Hóratíus og Propertius þegar Marcus Antonius og Octavianus gerðu eigur þeirra og margra annarra upptækar. Þeófrastos. Þeófrastos (forngrísku Θεόφραστος, fæddur Týrtamos, 370 — um 285 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og vísindamaður frá Eressos á eynni Lesbos. Hann var nemandi Aristótelesar og eftirmaður hans í skólanum Lýkeion í Aþenu. Allt sem vitað er um ævi Þeófrastosar byggir á ævisögu hans sem rituð er af Díogenesi Laertíosi tæplega fimm hundruð árum eftir andlát Þeófrastosar. Einhyrningur (fjall). Einhyrningur er lítið fjall innst í Fljótshlíð í Rangárþingi, á milli Tindfjalla og brúarinnar yfir Markarfljót. Fjallið er bratt og hyrnt eins og nafnið bendir til en þó manngengt. Alexander I. Alexander IAlexander I var páfi í 10 ár, frá 105 til 115. Hann var sjötti páfi kaþólsku kirkjunnar og er einn af dýrlingum kirkjunnar. Annuario Pontificio sem Vatíkanið gefur út segir hann hafa verið Rómverja sem ríkti frá 108 eða 109 til 116 eða 119. Hann er sagður hafa dáið píslarvættisdauða þó engar sögulegar staðreyndir sanni það. Þrír rómverskir píslarvottar voru grafnir við Via Nomentana. Hin gamla rómverska píslarvottabók sem var felld úr gildi 1970 ber ranglega kennsl á Alexander einn úr hóp þessum sem Alexander páfa I. Ekkert er lengur varðveitt eða vitað um þennan páfa. Evsebíos sagnaritari segir að Alexander hafi dáið á þriðja valdaári Hadríanusar keisara Rómarveldis. Dýrlingur. Dýrlingar í samræðum, lýsing í miðaldahandriti Dýrlingur (stundum skrifað "dýrðlingur") er hugtak sem notað er um persónu sem þykir búa yfir einstökum heilagleika. Viðkomandi persóna hefur gert eitthvað í lifandi lífi sem veitir henni sérstakan sess við hlið Guðs. Í kristinni trú eru dýrlingar fólk sem litið er á sem fyrirmyndir um gott og rétt líferni. Helgir menn og dýrlingar. Hugtakið helgur maður eða heilagur maður hefur víðari merkingu en dýrlingur. Oft er talað um "helga menn" ef þeir hafa notið sérstakrar virðingar eða haft sérstakt trúarlegt áhrifavald, en dýrlingar eru aðeins þeir sem hafa fengið staðfestingu kirkjunnar á heilagleika sínum, eða fengið orð fyrir kraftaverk. "Staðbundnir dýrlingar" eru dýrlingar sem vegsamaðir eru á takmörkuðu svæði. Trúin á þá getur verið takmörkuð við eitt land, eitt biskupsdæmi eða hérað, eina kirkjusókn eða kirkju. Staðbundnir dýrlingar hafa yfirleitt ekki fengið staðfestingu páfans, en oft hafa þeir verið staðfestir af viðkomandi biskupi. Segja má að íslensku dýrlingarnir hafi verið staðbundnir dýrlingar, en þó var Þorlákur helgi eitthvað þekktur erlendis. "Nafndýrlingur" var það kallað þegar einstaklingur var skírður í höfuðið á ákveðnum dýrlingi, sem þá varð sérstakur verndardýrlingur viðkomandi manns. Sjálfsagt þótti þá að halda hátíðlegan messudag eða hátíðisdag dýrlingsins. Sem dæmi má nefna að Lárentíus Kálfsson, síðar biskup á Hólum, fæddist á Lárentíusmessu, 10. ágúst, og var skírður í höfuðið á dýrlingi dagsins. "Verndardýrlingur": Í kaþólskri tíð voru kirkjur oftast helgaðar ákveðnum dýrlingum og voru þeir þá taldir "verndardýrlingar" kirkjunnar. Ef kirkjan var kennd við dýrlinginn, var hann jafnframt "nafndýrlingur" kirkjunnar, sbr. t.d. Péturskirkjuna í Róm. Sjá nánar: Staðfesting heilagleika. Dýrlingar í ýmsum kirkjudeildum. Í Rómversk-kaþólsku kirkjunni eru um 10.000 dýrlingar. Til að teljast dýrlingur í kaþólsku kirkjunni verður viðkomandi að hafa verið tekin í tölu dýrlinga af páfanum (þ.e.a.s. kanóníseraður, latína: "canonizatio"). Með því hefur heilagleiki viðkomanda verið staðfestur af kirkjunni. Rétttrúnaðarkirkjan álítur alla dýrlinga sem vitað er fyrir víst að hafi komist til himna. Ekki þarf sérstaka staðfestingu frá trúarleiðtoga hér á jörð til að teljast dýrlingur, en oft eru þeir þó staðfestir af patríarka. Samkvæmt rétttrúnaðarkirkjunni eru því manneskjur eins og Adam, Eva og Móses dýrlingar. Með siðaskiptunum var vegsömun dýrlinga afnumin, enda telja mótmælendur að ekki þurfi aðra milliliði en Jesú Krist til þess að ná sambandi við Guð. Hjá mótmælendum er þó stundum talað um helga menn, um þá sem með lífi sínu og starfi hafa verið óvenju góðar fyrirmyndir í kristilegu líferni. Hugtakið er einstaka sinnum notað yfir alla þá sem eru kristnir. Enska biskupakirkjan og kaþólska kirkjan heiðra að miklu leyti sömu dýrlinga, þó svo að hugtakið hafi ekki sömu þýðingu hjá þessum tveimur kirkjudeildum. Frægasti dýrlingur biskupakirkjunnar er líklega heilagur Georg verndardýrlingur Englands. Íslenskir dýrlingar. Skömmu eftir að kaþólska kirkjan á Íslandi varð stofnun, fóru menn að huga að því að koma upp íslenskum dýrlingum. Þrír menn urðu dýrlingar í vitund þjóðarinnar, en enginn þeirra hlaut formlega viðurkenningu páfa fyrir siðaskipti, þ.e. var kanóníseraður. Um 1400 var Þórður Jónsson helgi, eða Þórður góðimaður talinn góður til áheita af íslenskri alþýðu, a.m.k. vestanlands. Árið 2010 finnst Ísleifur Gissurarson kallaður heilagur í þýskum dýrlingatölum og þeir Gissur Ísleifsson og Guðmundur góði í norsku dýrlingatali. Sjá tengla við þessa menn. Norskir dýrlingar. Einnig má nefna Hákon hálegg Noregskonung, en rannsóknir hafa sýnt að norska kirkjan taldi hann heilagan mann fram til siðaskipta. Hann var þó ekki formlega viðurkenndur af páfa, en venjan er sú að ef gömul hefð er fyrir átrúnaði á menn, megi telja þá dýrlinga. Á síðustu árum hefur hans verið minnst í kaþólskum messum í hallarkirkjunni í Akershúsvirki. Bein hans voru flutt þangað árið 1982. Erlendur biskup í Kirkjubæ í Færeyjum (var af sumum talinn helgur maður) Píslarvottur. Píslarvottur er maður sem deyr fyrir trú sína, oft á kvalafullan hátt. Telesfórus. Telefórus páfiTelesfórus var páfi frá u.þ.b. 126 til u.þ.b. 137 eða í 11. ár. Hann var áttundi páfinn og er einn af dýrlingum kirkjunnar. Valdatíð hans hófst á tímum Hadríanusar keisara. Hann varð vitni að ofsóknum gegn kristnum mönnum á valdatíð sinni. Valdatíð Telesfórusar endaði á tímum Antónínusar Píusar keisara. "Annuario Pontificio" sem Vatíkanið gefur út segir að hann hafi fæðst í Grikklandi. Þær hefðir að halda miðnæturmessu á jólanótt, að halda páskadag ávallt á sunnudegi, að hafa sjö vikna föstu fyrir páska og að syngja "Gloria" í messum eru sagðar koma frá valdatíð hans. Sagnfræðingar hafa dregið í efa sannleiksgildi slíkra frásagna. Sagnaritarinn Eirenæos segir að Telesfórus hafi þjáðst píslarvættisdauða. Honum er vanalega lýst sem fyrsta páfa eftir hl. Pétur sem hlaut þannig dauðdaga. Samkvæmt heimildum er hann eini páfinn frá 2. öld sem er vitað fyrir víst að hafi verið píslarvottur. Dýrlingadagur hans er 5. janúar en gríska kirkjan fagnar dýrlingadegi hans 22. febrúar. Telesfórus er einnig verndardýrlingur Karmelítareglunnar vegna þess að því er haldið fram að hann hafi eitt sinn búið á Karmelfjalli sem einsetumaður. Dýrkun hans var lögð niður 1969. Einsetumaður. Einsetumaður er maður eða kona sem flytur frá mannabygðum og sest að í einangrun oft til þess að tilbiðja Guð. Dýrlingadagur. Dýrlingadagur eða messudagur er sá dagur, þegar ákveðinn dýrlingur er heiðraður. Oftast er miðað við dánardægur hans, upptöku á helgum dómi hans eða flutning á hinum helga dómi úr einum stað í annan. Ef þessir dagar eru ekki ótvíræðir eða falla saman við mikilvæga daga í kirkjuárinu, getur þurft að velja annan dag. Messudagur dýrlings getur verið með ólíku móti eftir kirkjusamfélögum. Þannig hefur sami dýrlingur ekki alltaf sama messudag í rómverk-kaþólsku kirkjunni og í orþódoxum kirkjum. Húnavallaskóli. Húnavallaskóli er grunnskóli í Austur-Húnavatnssýslusem stendur við Reykjabraut. Hann hefur verið starfræktur af sveitafélaginu Húnavatnshreppi frá árinu 1969 og hefur starfað í þágu nemenda sem búa í dreifbýli í héraðinu. Skólaárið 2011 - 2012 stunduðu 60 nemendur nám við skólann. Skólastjórar skólans hafa verið sjö en skólastjóri skólans er nú Sigríður B. Aadnegard. Stórskotalið. Stórskotalið er deild innan landhers, sem beitir hlaupvíðum skotvopnum, fallbyssum, sprengivörpum og flugskeytum. Kom fyrst fram í Kína á öndverðri 12. öld. Loft- og strandvarnir eru einnig meðal verkefna stórskotaliðs. Stórskotalið þjóðverja í seinni heimsstyrjöld beitti í fyrst skipti flugskeytum (V-1 og V-2) í hernaði. Í kalda stríðinu var bandarískt stórskotalið þjálfað til að skjóta kjarnorkuskeytum með fallbyssum. Algeng hlaupvídd nútíma stórskotaliðsbyssa er 120 mm og 155 mm. Evaristus. Evaristus páfiEvaristus (einnig þekktur sem Aristus) var páfi frá u.þ.b. 98 til 105. Hann var fimmti páfi kaþólsku kirkjunnar og er talinn til dýrlinga hennar. Lítið er vitað um Evaristus. Samkvæmt Liber Pontificalis kom hann frá fjölskyldu af hellenískum uppruna og var sonur gyðings frá Betlehem. Hann var kosinn páfi á valdatíð Domitíanusar keisara á tímum Síðari almennu ofsóknanna. Evsebíos kirkjusagnfræðingur og biskup heldur því fram að Evaristus hafi dáið á tólfta ári valdatíðar Trajanusar keisara eftir að hafa verið páfi í 8 ár. Í Liber Pontificalis er talað um að hann hafi verið lagður til hinstu hvílu "in Vaticano", nærri gröf Péturs postula. Evaristus lagði grunninn að kardínálasamkundunni, þeirri stofnun sem síðar bar ábyrgð á páfakjöri. Engar sögulegar sannanir staðfesta eða hrekja sögurnar í kringum dauða hans. Þrátt fyrir það hefur hann ávallt verið álitinn píslarvottur. Tvö páfabréf sem talin voru eftir hann reyndust falsanir. Dýrlingadagur hans var áður fyrr 26. október en dýrkun hans var lögð niður 1969. Íslandshreyfingin. Íslandshreyfingin – lifandi land var íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður vorið 2007, sem lagði höfuðáherslu á umhverfisvernd en kenndi sig einnig við frjálslyndisstefnu. Formaður (til bráðabirgða) var Ómar Ragnarsson og varaformaður Margrét Sverrisdóttir. Að flokknum kom einnig Jakob Frímann Magnússon og Ósk Vilhjálmsdóttir. Flokkurinn fékk 5.953 atkvæði, 3,3% fylgi, í Alþingiskosningum 2007 og engan mann kjörinn. Flokkurinn var á fyrri hluta árs 2009 sameinaður Samfylkingunni þar sem flokkurinn taldi að erfitt yrði að ná yfir 5% múrinn sem flokkar verða að ná í kosningum til að fá jöfnunarmann. Íslandshreyfingin gekk inn í Samfylkinguna í mars 2009, nokkrum dögum eftir að tilkynnt hafði verið um framboð hreyfingarinnar í öllum kjördæmum. Íslandshreyfingin varð þar með fimmti flokkurinn sem hefur gengið í Samfylkinuna. Alkman. Alkman (forngrísku) (7. öld f.Kr.) var forngrískt lýrískt skáld frá Spörtu. Hann er elstur lýrísku skáldanna níu sem alexandrískir fræðimenn töldu öðrum fremri. Símonídes frá Keos. Símonídes frá Keos (um 556 f.Kr. – 469 f.Kr.) var forngrískt lýrískt skáld. Hann var einn af lýrísku skáldanna níu, sem fræðimenn í Alexandríu á hellenískum tíma töldu öðrum fremri. Semonídes. Semonídes var forngrískt jambískt skáld sem var uppi um miðja 7. öld f.Kr. Hann var var eynni Samos. Arkílokkos. Arkílokkos (forngrísku:) (um 680 f.Kr. – um 645 f.Kr.) var forngrískt skáld og ef til vill málaliði. Lítið er vitað um ævi Arkílokkosar annað en það sem álykta má af kvæðum hans. Slíkar áyktanir eru þó varasamar. Arkílokkos fæddist á eynni Paros. Faðir hans Telesíkles flutti með fjölskylduna til nýlendunnar Þasos, samkvæmt fyrirmælum frá Véfréttarinnar í Delfí. Sagan hermir að Arkílokkos hafi verið rekinn úr Spörtu fyrir annað kvæði, þar sem hann kveðst hafa fórnað skildi sínum og flúið af hólmi. Meðal varðveittra kvæða Arkílokkosar eru einnig nokkur klúr ljóð um samfarir og svallveislur. Gregoríus 8.. Gregoríus VIII var fæddur í kringum árið 1100 í Benevento á Ítalíu og dó 17. desember 1187 í Písa. Hann hét réttu nafni Alberto di Mora. Hann var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 25. október 1187 til dánardægurs, aðeins í einn mánuð og tuttu og sjö daga. Hann var 173. páfi kirkjunnar. Gregoríus VIII var vel menntaður aðalsmaður sem varð munkur mjög ungur. Sumar heimildir segja að hann hafi verið af reglu Sisterana en aðrar að hann hafi fylgt benediktusarreglunni. Þegar hann var kardínáli var hann sendur til Englands til að rannsaka hið umdeilda morð á Thomasi Becket. Árið 1172 sótti hann kirkjuþingið í Avranches sem sendimaður páfa. Þingið veitti Hinriki II konungi Englands syndaaflausn vegna morðsins á Becket. Honum var einnig veittur sá heiður að krýna Alfonso II konung Portúgals í nafni páfa. Gregoríus VIII var vígður páfi í stað Úrbans III 25. október 1187. Fyrsta verk hans sem páfa var að gefa út páfatilskipunina Audita tremendi en í henni hvatti hann til Þriðju krossferðarinnar. Jerúsalem var þá nýfallin í hendur Saladíns. Gregoríus VIII lifði ekki nógu lengi til að sjá krossferðina verða að veruleika því hann dó úr hita í desember. Gregoríus var þekktur fyrir rólegt skap og örlæti og sóttist eftir að friða stríðandi aðila. Hann reyndi t.d. að koma á sættum milli Barbarossa og kirkjunnar. Hann reyndi einnig að koma á friði milli hafnarbæjanna Písa og Genóa en dó þegar hann dvaldi í Písa. Hann var grafinn í dómkirkjunni í Písa. Bakkylídes. Bakkýlídes var forngrískt lýrískt skáld frá eynni Keos. Faðir hans hét sennilega Meidon en móðir hans var systir Símonídesar frá Keos. Líklega fæddist Bakkýlídes árið 507 f.Kr. Týrtajos. Týrtajos (einnig ritað Týrtaíos, forngrísku:) var forngrískt skáld sem bjó í Spörtu um miðja 7. öld f.Kr. Gorgías. Gorgías (forngrísku: Γοργίας, um 490-385 f.Kr.) var forngrískur mælskufræðingur og að mati sumra fræðari (sófisti) og heimspekingur. Gorgías var frá Leontíní á Sikiley. Sumar heimildir herma að Gorgías hafi verið nemandi Empedóklesar. Gorgías flutti mælskufræðina frá Sikiley til Aþenu. Gagnrýnendur. Helsti gagnrýnandi Gorgíasar var Platon, sem tileinkaði Gorgíasi samræðu sem nefnd er eftir honum, "Gorgías". Gagnrýni Platons er einkum sú að Gorgías sé mælskufræðingur en mælskufræðin beinist að því að gleðja áheyrandann og/eða sannfæra hann en heimspekin leiti hins vegar sannleikans. Aristóteles gagnrýnir Gorgías einnig og telur hann til fræðaranna. Menandros. Menandros (um 342 í Aþenu – 291 f.Kr.) (forngrísku) var forngrískt gamanleikjaskáld og helsti fulltrúi nýja gamanleiksins svonefnda. Sumir telja að faðir hans, Díopeiþes, sá hinn sami og Demosþenes vísar til í ræðunni "De Chersoneso". Menandros var vinur og ef til vill einnig nemandi Þeófrastosar. Galenos. Claudius Galenos (september 129 – 216) var forngrískur læknir, rithöfundur og heimspekingur frá borginni Pergamon. Kenningar hans voru ríkjandi í læknisfræði í rúmlega 1400 ár en Galenos er ásamt Hippókratesi talinn merkasti læknir fornaldar. 28 ára að aldri varð hann skurðlæknir í skóla skylmingaræla. Hann notaði aðferðir Hippókratesar og annarra grískra lækna á sama tíma. Hann læknaði skylmingarþrælana, með því að nota andstæður veikinda þeirra. Ef einhver var til dæmis með kulda, þá notaði hann hita á móti. Nokkrum árum síðar varð hann læknir keisaranna Marcusar Aureliusar og Commodusar í Róm. Róm var á þeim tíma höfuðstaður lækninga og mikið af rannsóknum hans voru framkvæmdar þar. Hann var ekki í neinum hópi heimspekinga eða lækna og rannsakaði bæði sínar eigin kenningar jafnt og annarra. Þetta leiddi þó jafnframt til deilna frá þessum sömu hópum í hans garð, þar sem þeir töldu að hann væri sjálfumglöð persóna. Þó var Galenos mikill aðdáandi Hippókratesar og Platons og einnig Aristótelesar. Hann skar upp og gerði rannsóknir á dýrum. Í raun, þá var kirkjunni á þeim tíma mjög illa við að skera upp menn og slíkt tíðkaðist ekki. Þar sem rannsóknir hans byggðust aðeins á dýrum, kom síðar í ljós að kenningar hans áttu ekki alltaf við mannslíkamann. Engu síður voru kenningar hans við lýði í rúm 1.400 ár og var ekki umbylt fyrr en á endurreisnartímanum. Út frá rannsóknum sínum skrifaði hann alfræðibók í læknisfræði. Martialis. Marcus Valerius Martialis (1. mars 40 - um 102) var rómverskt skáld frá skattlandinu Hispaniu. Martialis samdi tólf bækur af eftirmælum, sem komu út í Róm á árunum 86 til 103, á valdatíma Domitíanusar, Nervu og Trajanusar. Eftirmælin eru stutt kvæði undir elegískum hætti, sem oftar en ekki fela í sér hnitmiðaða og hárbeitta ádeilu á bæði samfélag og samborgara. Titus Macchius Plautus. Titus Macchius Plautus, stundum ritað Plátus, var rómverskt leikskáld. Hann er talinn hafa fæðst í Sarsinu (borg í Úmbríu) um 254 f.Kr. en hann lést áið 184 f.Kr. Gamanleikir hans eru meðal elstu varðveittu bókmenntaverka á latínu. Terentius. Publius Terentius Afer (d. 159 f.Kr.) var rómverskt leikskáld. Hann fæddist í Karþagó en var ekki karþverskur. Sennilega var hann af líbverskum ættum. Ekki er vitað hvenær hann fæddist en hann lést sennilega árið 159 f.Kr. á leiðinni frá Grikklandi til Rómar. Hann samdi sex gamanleiki sem eru varðveittir. Fræg tilvitnun í Terentíus er á þessa leið: "Homo sum, humani nihil a me alienum puto" eða „Ég er maður, mér er ekkert mannlegt óviðkomandi“. Apuleius. Apuleius (um 123/5 - um 180) var rómverskur Berbi, platonskur heimspekingur og rithöfundur, sem er einkum þekktur fyrir skáldsögu sína "Metamorphoses" ("Myndbreytingar") eða "Aureus Asinus" ("Gullni asninn"). Apuleius erfði fúlgu eftir föður sinn. Hann nam fyrst í Karþagó, síðan í Aþenu, þar sem hann kynntist m.a. platonskri heimspeki. Þaðan hélt hann til Rómar þar sem hann nam latínu og mælskulist. Hann ferðaðist víða um Litlu Asíu og Egyptaland og kynnti sér heimspeki og trúarbrögð. Apuleius var sakaður um að beita göldrum til þess að fá athygli og hafa fé af auðugri ekkju sem hann giftist samdi hann "Málsvörn" sína ("Apologia"). Ritið fjallar ekki nema að litlu leyti um galdra en öllu meira um andstæðinga hans á niðrandi hátt. Verkið er af mörgum talið með fyndnari ritum fornaldar. Meðal annarra rita Apuleiusar má nefna "Um guð Sókratesar", "Florida", "Um Platon og heimspeki hans" og ef til vill einnig "Um alheiminn". "Myndbreytingarnar" eða "Gullni asninn" er eina skáldsagan á latínu sem er varðveitt í heild sinni. Hún segir frá Luciusi, sem er óvart breytt í asna, ævintýrum hans og raunum. Hann verður vitni að ýmsu óvenjulegu en losnar loks úr prísundinni á óvæntan hátt. Margar styttri sögur eru sagðar innan ramma þessarar sögu, en lengst og frægust þeirra er sagan af Cupidó og Psyche. Sögunni lýkur þegar gyðjan Ísis bjargar Luciusi en í kjölfarið verður Lucius fylgismaður hennar. Austur-Kasakstanfylki. Austur-Kasakstanfylki (Шығыс Қазақстан облысы, Восточно-Казахстанская область) er fylki í Austur-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Öskemen. Petronius. Petronius Arbiter (um 27–66) var rómverskur rithöfundur á valdatíma Nerós keisara. Hann var þekktur fyrir háðsádeilu sína, "Satýrikon", sem er eina varðveitta rit hans. Orrustan við Maraþon. Herir Grikkja (bláir) umkringja heri Persa (rauðir). Orrustan við Maraþon átti sér stað í september árið 490 f.Kr. og var háð milli Forn-Grikkja og Persa. Dareios I Persakóngur gerði innrás á meginland Grikklands og reyndi að leggja það undir Persaveldi. Meginheimildin fyrir orrustunni er gríski sagnaritarinn Heródótos. Dareios sendi fyrst Mardoníos árið 492 f.Kr. landleiðina til Evrópou til að treysta völd Persa í Þrakíu og Makedóníu. Leiðangurinn bar að einhverju marki árangur en nær allur herinn fórst í stormi er hann sigldi um Aþosskagann og þeir sem lifðu af neyddust til að halda aftur til Litlu Asíu. Árið 490 f.Kr. voru Datis og Artafernes sendir sjóleiðina til þess að ná yfirráðum yfir eyjunum á Eyjahafi og refsa Eretríu og Aþenu fyrir stuðning sinn við jónísku borgirnar í jónísku uppreisninni. Setið var um Eretríu og borgin féll. Þá hélt flotinn að Maraþonflóa. Þar beið hann ósigur gegn mun fámennara liði hoplíta frá Aþenu og Plataju, undir stjórn Míltíadesar, Kallímakkosar og Arimnestosar. Talið er að í liði Persa hafi verið 20-60 þúsund hermenn en fornar heimildir herma að þeir hafi verið 200-600 þúsund. Í liði Grikkja voru 10 þúsund Aþeningar og 1000 Platajumenn. Samkvæmt Heródótosi létust 6400 Persar auk þess sem Grikkir náðu 11 af herskipum þeirra. Í liði Grikkja féllu 192 Aþeningar og 11 Platajumenn. Seneca eldri. Lucius, eða Marcus, Annaeus Seneca, betur þekktur sem Seneca eldri (um 54 f.Kr. - um 39 e.Kr.) var rómverskur mælskufræðingur og rithöfundur frá Spáni. Hann var faðir heimspekingsins Luciusar Annaeusar Senecu (Senecu yngri) og afi skáldsins Lucanusar. Mýkenumenningin. Mýkenumenningin eða mýkenutíminn er tímabilið í sögu Grikklands nefnt undir lok bronsaldar. Hómerskviður ("Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða") gerast á mýkenutímanum og einnig margt í grískri goðafræði. Tímabilið og menningin er nefnd eftir borginni Mýkenu á Pelópsskaga. Borgirna Pýlos, Þeba og Tíryns voru einnig mikilvægar á mýkenutímanum. Traustur og Tryggur. Traustur og Tryggur er skemmtiefni á hljóðsnældum fyrir börn. Þættirnir fjalla um hundana í "Rakkavík". Aðalpersónurnar eru tveir hundar, hinn greindi "Traustur" og hinn fljótfæri "Tryggur". Allar persónur Rakkavíkur eru leiknar af Felixi Bergssyni, Gunnari Helgasyni og Brynhildi Guðjónsdóttur. Þættirnir eru fullir af skemmtiefni sem um leið er þroskandi kennsluefni fyrir börn. Meðal þess sem fjallað er um á snældunum eru lygar og svik, vinátta og virðing og hvernig líta eigi til lífsins af vináttu og virðingu, en að forðast beri lygar og svik. Inn í söguna er fléttað lögum og er þá oft um að ræða vinsæl erlend dægurlög sem þýdd hafa verið á íslensku, eins og t.d. "Everybody was Kung Fu fighting" og "Wannbe". Það voru 21 þættir gefnir út á geisladisk. Maltneska. Maltneska er þjóðartungumál Möltu og opinbert tungumál Evrópusambandsins. Hún er töluð í Möltu, Kanada, Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Gíbraltar. Um það bil 371,900 eru mæltir á maltneska tungu.. Gargandi snilld. Gargand snilld er heimildarmynd um íslenska tónlist, sú þriðja sinnar tegundar á eftir "Rokk í Reykjavík" (Friðrik Þór Friðriksson 1982) og "Popp í Reykjavík" (Ágúst Jakobsson 1998). Acre (fylki). Acre er fylki í Brasilíu, staðsett í norð-vestur hluta landsins. Í norður er Amazonas fylki, í austur er Rondônia fylki, í suður er Bólivía og í vestur er Perú. Amazonas. Amazonas er stærsta fylki Brasilíu, staðsett í norður parti landsins. Nágranna fylki eru Roraima, Pará, Mato Grosso, Rondônia og Acre. Það er líka við Perú, Kólumbíu og Venesúela. Roraima. Kort af Brasilíu með Roraima merktu Roraima er eitt af fylkjum Brasilíu, staðsett í norður hluta landsins. Það er við Pará og Amazonas fylkjunum, einnig Venesúela og Gvæjana. Roraima er nyrsta fylki Brasilíu og einnig það fámennasta. 27. Árið 27 (XXVII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á miðvikudegi. 40. Árið 40 (XL) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á föstudegi. Magnús Stephensen (f. 1836). Magnús Stephensen (18. október 1836 – 3. apríl 1917) var íslenskur dómari í landsyfirrétti, amtmaður í Suður- og Vesturamti og síðasti landshöfðingi landsins frá 1886 til 1904. Vonlenska. Vonlenska er "tungumál" sem hljómsveitin Sigur Rós bjó til og notaði í tónlist sinni. Lög sem nota Vonlensku. Af "Von" Af "Ágætis byrjun" Af "()" Berufjörður. Berufjörður er um 20 km langur fjörður á Austfjörðum á Íslandi. Upp úr honum ganga 3 dalir, Búlandsdalur, sem liggur fyrst þvert á fjörðinn og síðan inn eftir, því næst Fossárdalur upp af Fossárvík að sunnan, og Berufjarðardalur úr botni fjarðarins. Þorpið Djúpivogur liggur við sunnanverðan fjörðinn. Næstu firðir eru Breiðdalsvík að norðan, og Hamarsfjörður að sunnan. Tambora. Gervihnattamynd þar sem Tambora er merkt inn. Tambora er virk eldkeila á eyjunni Sumbawa í Indónesíu. Fjallið náði allt að 4.300 m hæð og var eitt hæsta fjallið í Indónesíu áður en það gaus árið 1815 með þeim afleiðingum að um 71.000 manns létust, þar af 11 - 12.000 í gosinu sjálfu. Selestínus I. Selestínus I (Latína: Coelestinus) var páfi frá 10. september 422 til 27. júlí 432. Hann var 43. páfi kaþólsku kirkjunnar og ríkti í rúmlega níu ár. Hann er talinn til dýrlinga kaþólsku kirkjunnar. Var Rómverji fæddur í Kampaníu. Hann á að hafa verið skyldur rómverska keisaranum Valentíníusi III. Ekkert er vitað um uppruna hans annað en að faðir hans hét Priscus. Sagt er að hann hafi lifað um tíma í Mílanó með heilögum Ambrósíusi. Þó hann hafi ekki tekið þátt sjálfur sendi hann sendimenn á kirkjuþingið í Efesos þar sem Nestorismi var fordæmdur árið 431. Einnig studdi hann baráttu heilags Germanusar frá Auxerre gegn Pelagíusi og fylgismönnum hans. Hann sendi heilagan Palladíus til að predika á Írlandi og gegna embætti biskups rétt fyrir trúboðsferð hl. Patricks þangað. En Selestínus var einnig maðurinn á bak við leiðangur hl. Patricks. Selestínus réðst gegn novatíanistum í Róm og fangelsaði biskup þeirra og bannaði helgihald hjá þeim. Á þessum tímum voru margir sértrúarsöfnuðir að brjótast fram innan kirkjunnar og Selestíus barði þá niður með harðri hendi. Fyrir vikið var hann gerður að dýrlingi innan kirkjunnar. Selestínus var mjög góður vinur Ágústusar kirkjuföðurs eins og sést á miklum bréfaskriftum þeirra á milli og líka á því að Selestínus bannaði biskupum í Gallíu að skrifa illa um Ágústínus. Hann dó 27. júlí 432 og var grafinn í katakombum heilagrar Prisillu en líkamsleifar hans voru síðar færðar og liggur hann nú í basilíkunni Santa Prassede. Dýrlingadagur hans var 6. apríl þangað til 1922, en var síðar 27. júlí allt til 1969 þegar hann var felldur niður. Í grísku rétttrúnaðarkirkjunni er hann mikið heiðraður enn þann dag í dag vegna fordæmingar hans á Nestoríusi. Dýrlingadagur hans í rétttrúnarðarkirkjunni er 8. apríl. Kommúnismi. Hamar og sigð, merki Sovétríkjanna. Kommúnismi (úr frönsku: "communisme" og upphaflega úr latínu: "communis", „það sem er sameiginlegt“) er hugtak sem notað er um ýmsar náskyldar hugmyndir sem eiga það sameiginlegt að álíta að öll framleiðslutæki eigi að vera í sameign samfélagsins eða a.m.k. jafnt skipt. Orðið „kommúnismi“ hefur stundum verið íslenskað sem „sameignarstefna“, en sú nafngjöf hefur aldrei náð festu. Innan lenínismans á hugtakið kommúnismi sérlega við lokastig stéttabaráttunnar, þegar stéttir og ríkisvald eru horfin úr samfélagsskipaninni, og hver og einn leggur af mörkum eftir getu og ber úr býtum eftir þörfum. Kommúnisminn er hluti af miklu víðtækari hugmyndahefð og framkvæmd sósíalisma, þrátt fyrir að merking þessara tveggja hugtaka hafi verið nokkuð á reiki í gegnum tíðina. Forsaga. Hugmyndir um jafnan aðgang og jafna skiptingu eigna hafa verið til í alda raðir. Meðal annars hefur því oft verið haldið fram að forngríski heimspekingurinn Platon hafi í ritinu "Ríkið" lýst eins konar fyrirmyndarríki af kommúnískum toga. Þetta má draga mjög í efa, meðal annars vegna þess að Platon álítur að kaupmenn og handverksmenn eigi eftir sem áður að stefna að verðmætasöfnun með hefðbundnum hætti. Einnig má benda á að sameignarfyrirkomulag þekktist í raun meðal ýmissa söfnuða frumkristni en það verður þó að hafa í huga að þessir söfnuðir biðu bókstaflega eftir endurkomu Jesú og töldu sig þess vegna ekki hafa mikla þörf fyrir eignasöfnun. Það er þó ekki fyrr en Thomas More gaf út bókina "Útópía" (1516) sem þróaðar hugmyndir um framtíðarríki, sem byggist á sameign allra, taka á sig fast form. Fjölmargir fetuðu í fótspor More og skrifuðu bækur og ritlinga um svipuð framtíðarríki. Hins vegar voru færri tilraunir gerðar til að skapa slík samfélög í reynd. Þar er jesúítaríkið í Paraguay (1610 – 1758) undantekning, en þar var skapað samfélag án einkaeigna. Það var þó ekki fyrr en við byltinguna í Frakklandi (1789 – 1799) og þegar fór að líða á 19. öldina sem hægt er að tala um raunverulegar kommúnistahreyfingar. Á tíunda áratug 18. aldar setti François Babeuf fram kenningar um jöfnuð eigna, sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálaumræðuna. Á fyrstu áratugum 19. aldar höfðu útópískir sósíalistar eins og Charles Fourier og Étienne Cabet mikil áhrif. Þeir fengu mikið fylgi og víða voru gerðar tilraunir til að skapa útópísk sameignarsamfélög, sérstaklega í Norður-Ameríku. Þegar árið 1825 hafði eitt helsta samfélagið, New Harmony, verið stofnað í Indiana í Bandaríkjunum. Söguágrip. Á 19. öld var munurinn á hugtökunum „sósíalismi“ og „kommúnismi“ óljós og oft voru þau notuð sem samheiti. Það var í kring um árið 1830 sem farið var að nota hugtakið „sósíalismi“ og gerðu fylgismenn Pierres Leroux í Frakklandi og Roberts Owen á Englandi það nokkurn veginn samtímis. Á sama hátt fóru byltingarsinnaðir hópar í París að nota hugtakið „kommúnismi“ um 1839. Sósíalistar og kommúnistar höfðu með sér fjölmörg samtök á 19. öld, sem lögðu mikinn kraft í að deila hver við annað. Eitt þeirra mikilvægustu og sem hafði mikil alþjóðleg áhrif var "Bund der Gerechten" ("Bandalag hinna réttlátu") sem skipti um nafn árið 1847 og nefndist eftir það "Bund der Kommunisten" ("Kommúnistabandalagið"). Karl Marx og Friedrich Engels voru fengnir til að skrifa stefnuskrá samtakana og hún kom út snemma árs 1848 undir nafninu "Manifest der Kommunistischen Partei" (sem hefur verið nefnt "Kommúnistaávarpið" á íslensku) og varð þegar að grundvallarriti kommúnista og hefur verið æ síðan. Byltingaraldan sem gekk yfir Evrópu 1848 – 1849 olli kommúnistum vonbrigðum. Marx og Engels og þeirra fylgismenn drógu af því þá ályktun að kommúnísk bylting verði einungis framkvæmd af vel skipulagðri og pólitískt meðvitaðri verkalýðsstétt. Eitt skref í þá átt var stofnun Fyrsta alþjóðasambandsins (Internationalinn) 1864. Á seinni áratugum 19. aldar var orðið „kommúnismi“ lítið notað. Í stað þess nefndu róttækir flokkar og samtök sig annaðhvort sósíalísk eða sósíaldemókratísk. Þannig var um sterkustu samtök þessa tíma, þýska sósíaldemókrataflokkinn, sem voru nátengd Marx og Engels. Þegar í ritinu "Athugasemdir við Gotha-stefnuskránna", sem kom út árið 1875, skrifar Marx um tvö stig hins kommúníska framtíðarsamfélags. Strax eftir byltingu muni koma nokkurs konar aðlögunartímabil, alræði öreiganna, þar sem þess er krafist að allir leggi sig fram eftir getu og enn sé barátta um völdin. Síðara stigið er svo samfélag þar sem ríkisvaldið er orðið óþarft og einkaeignarétturinn verði afnuminn. Á þessu síðara stigi, sagði hann, munu samskipti manna byggjast á þeirri grundvallarreglu að hver leggi af mörkum eftir getu og beri úr býtum eftir þörfum. Þessi stigskipting varð grundvallaratriði í kenningum Leníns þegar hann er að móta kommúnisma seinni tíma. Kallar hann fyrra stigið „sósíalisma“ og hið síðara „kommúnisma„. Það var þó ekki fyrr en eftir Októberbyltinguna árið 1917 og stofnun Sovétríkjanna sem stjórnmálasamtök fóru að kallast kommúnísk á sama hátt og gert hafði verið um miðja 19. öld. Þriðja alþjóðasambandið (Internationalinn) sem varð þekktara undir nafninu Komintern, sem stofnað var 1919, skipti þar miklu máli. Komintern var skipulagt á þann hátt að kommúnistaflokkar hinna ýmsu landa voru ekki sjálfstæðar einingar heldur flokksdeildir í þessum alþjóðlega stjórnmálaflokki. Eitt meginframlag Leníns var kenning hans um flokkinn og skipulag hans. Samkvæmt henni átti flokkurinn að vera harðsnúin „framvarðarsveit“ verkalýðsstéttarinnar á stigi sósíalismans og fara með völdin fyrir hönd öreiganna. Flokkurinn átti að vera skipulagður samkvæmt „lýðræðislegu miðstjórnarvaldi“, sem átti að fela í sér rökræðu og aðhald, en þýddi í reynd að miðstjórn flokksins stjórnaði á svipaðan hátt og herforingjar gera í stríði og að andstæðar skoðanir voru bannaðar. Á meðan Komintern starfaði, fram til ársins 1943, áttu allir flokkar sem áttu aðild að sambandinu að lúta samþykktum miðstjórnar samkvæmt þessum kenningum. Eftir að Jósef Stalín tókst að ná völdum í sovéska kommúnistaflokknum og fyrst hrekja burt og síðan láta myrða Leon Trotskí, magnaðist einræðiskerfið og ofsóknir á hendur raunverulegum og ímynduðum andstæðingum. Eftir sigur bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni tóku kommúnistar völdin í flestum ríkjum í Austur- og Mið-Evrópu og urðu þau í raun eins konar leppríki Sovétríkjanna. Eftir byltinguna í Kína árið 1949 tóku kommúnistar einnig þar að byggja sósíalískt samfélag, að miklu leyti að sovéskri fyrirmynd, og eins í Víetnam og Norður-Kóreu. Á sama tíma náðu margir kommúnistaflokkar utan Sovétveldisins, sérstaklega í Frakklandi og á Ítalíu, miklum framgangi í almennum kosningum. Eftir dauða Stalíns árið 1953 glímdu ráðamenn í Sovétríkjunum við að fylla í skarðið. Niðurstaðan varð að Krústsjoff flutti leyniræðu sína árið 1956, en í henni rakti hann hvernig Stalín og samverkamenn hans hefðu beitt harðræði og fjöldamorðum við stjórn sína. Ræðan er gjarnan skilin sem uppgjör við Stalín, þar sem honum er eignuð ábyrgð á mörgu sem miður fór í stjórnartíð hans. Þegar ræðunni hafði (viljandi) verið lekið til vestrænna fjölmiðla, komu fljótlega alvarlegir brestir í alþjóðahreyfingu kommúnista. Sérstaklega urðu harðar deilur milli Kína og Sovétríkjanna, þar sem Maó hafði stutt Stalín, en kommúnistaflokkar á vesturlöndum, ekki síst sá ítalski, fóru einnig að skapa sér sjálfstæða pólitík. Samtíma þessu höfðu kommúnískar hugmyndir mikil áhrif á andspyrnu- og þjóðfrelsishreyfingar víða um heim og eins á vinstrisveifluna á 7. og 8. áratugnum. Fyrir þessar hreyfingar var það þó oft ekki sovétsamfélagið sem var fyrirmynd, heldur mun frekar hugmyndir um Kína undir stjórn Maós og Kúbu undir stjórn Fídels Kastró og Ches Guevara. Þeir höfðu enda stuðst mikið við skæruhernað í valdabaráttu sinni, líkt og margar andspyrnu- og þjóðfrelsishreyfingar annars staðar, fyrr og síðar. Á 9. áratugnum varð róðurinn æ þyngri fyrir kommúnistana í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra í Austur-Evrópu. Stjórnkerfið var þunglamalegt og stóðst kapítalískum Vesturlöndum ekki snúning. Umbætur Gorbatjofs komu of seint og voru ekki nógu djúptækar til að hægt væri að bjarga þessum samfélagskerfum við. Á árunum 1989 - 1991 féllu allar kommúnistastjórnir í Evrópu. Eftir standa fáein ríki sem enn aðhyllast hugsjónir kommúnismans þó það sé oft ekki annað en í orði. Þau eru Kína, Kúba, Laos, Norður-Kórea og Víetnam. Helstu greinar kommúnismans. Eitt af einkennum þeirra hreyfinga sem kenna sig við kommúnisma er að þær hafa lagt mikinn kraft í að aðgreina sig frá og deila við aðra sem kenna sig við kommúnisma eða sósíalisma. En nánast allar þessar hreyfingar á 20. öld hafa sagt sig byggja á kenningum marxismans (þó skilgreiningin á honum sé ekki alltaf sú sama). Marxismi. Hugtakið „marxismi“ er annars vegar notað yfir þær heimspekilegu og félagsfræðilegu kenningar sem þýski heimspekingurinn Karl Marx (1818 – 1883) og samstarfsmaður hans Friedrich Engels (1820 – 1895) settu fram, og hins vegar túlkanir og viðbætur við þessar kenningar. Þeir félagar skrifuðu fjölda bóka og bæklinga bæði saman og hver fyrir sig, það þekktasta, fyrir utan "Kommúnistaávarpið" sem áður er getið, er "Auðmagnið" ("Das Kapital") sem var skrifað af Marx. Söguskoðun sína kölluðu Marx og Engels sögulega efnishyggju, og er hún nátengd almennri kenningu Marx um heiminn, sem eftir hans daga hefur verið kölluð þráttarefnishyggja (eða „díalektísk“ efnishyggja), og gengur út frá því að hið efnislega sé undirstaðan (öfugt við hughyggju Hegels) og að breytingar verði við átök eða samspil andstæðna. Samkvæmt þessum meginreglum litu Marx og Engels svo á, að aðferðir fólks við framleiðslu lífsnauðsynja væru undirstaða alls annars í samfélaginu og að þær skiptu fólki í stéttir. Eftir því sem aðferðirnar þróuðust, breyttust líka valdahlutföllin milli stéttanna, uns að því kæmi að ríkjandi valdastétt væri hrundið og ný stétt tæki völdin. Þessa baráttu — stéttabaráttuna — litu þeir á sem „hreyfiafl sögunnar“ og að „öll mannkynssagan fram til þessa [væri] saga stéttabaráttu“ ("Kommúnistaávarpið", formáli). Í þjóðfélagi kapítalismans litu Marx og Engels svo á að tvær höfuðstéttir væru í þjóðfélaginu, borgarastéttin (kapítalistarnir) annars vegar og verkalýðsstéttin hins vegar (þeir notuðu reyndar hugtakið Proletariat sem hefur verið þýtt sem öreigar á íslensku). Borgarastéttin er þeir sem ráða yfir framleiðslutækjunum og hráefninu og verkalýðsstéttin er þeir sem eiga ekkert nema vinnuafl sitt. Verkalýðsstéttin lifir á að selja borgarastéttinni vinnuafl sitt, sem hin síðarnefnda nýtir til að skapa arð, sem hún eignar sér (arðrán). Þeir félagar töldu að með vísindalegum hætti mætti sjá þjóðfélagsþróun framtíðarinnar fyrir í grófum dráttum, og að næstu stóru átök stéttabaráttunnar yrðu milli þessara tveggja stétta, þar sem verkalýðsstéttin mundi óumflýjanlega fara með sigur af hólmi í byltingu. Hún mundi þá taka öll völd í þjóðfélaginu í sínar hendur, móta það í sinni mynd og afnema þannig stéttaskiptinguna. Lenínismi. Lenínismi er sú hugmyndafræði sem byggir á túlkun Vladimír Iljitsj Lenín á marxismanum og varð grunnur bolsévismans í Rússlandi og flestra annarra kommúnistahreyfinga 20. aldar. Ein af höfuðkenningum Leníns var sú að samtíð hans lifði á hæsta og síðasta stigi kapítalismans og það einkenndist af „tímabili heimsvaldastefnunnar“. Það væri nauðsynlegt að skapa forystusveit fyrir verklýðsstéttina, agaðan flokk sem stjórnað væri með „lýðræðislegu miðstjórnarvaldi“. Markmiðið var að afnema kapítalismann og koma á fyrsta stigi sósíalismans og „alræði öreiganna“. Marx og Engels voru sannfærðir um að byltingin kæmi í þróuðustu iðnaðarlöndunum og mundi gerast í alþjóðlegu bandalagi verkalýðsins samtímis í mörgum löndum. Lenín taldi aftur á móti að heimsvaldastefnan hefði gert verkalýð iðnvæddustu landanna afhuga byltingu með því að nota hluta af herfangi heimsvaldastefnunnar til að friðþægja hann. Sósíalísk bylting væri hins vegar möguleg í rússneska bændaþjóðfélaginu, sem væri veikasti hlekkur hins alþjóðlega auðvaldsskipulags. Verkalýðsstéttin mundi hafa forystu fyrir bændastéttinni og eftir byltinguna mundu bændurnir gerast verkamenn með því að vinna á samyrkjubúum. Stefna Leníns mótaðist einnig í harðri baráttu gegn sósíaldemókrötum innan hreyfingar sósíalista, en þeir álitu að mögulegt væri að koma á sósíalisma með friðsamlegum umbótum og að bylting væri ekki nauðsynleg. Margir kenndu sig enn þá við marxisma, svo sem Karl Kautsky og Eduard Bernstein, en voru að mati Leníns komnir langt frá réttum skilningi á kenningum Marx. Lenín háði einnig baráttu gegn stjórnvaldsleysingjum (anarkistum) og þjóðbyltingarmönnum (narodnikum) í hinni víðari hreyfingu byltingarsinna. Stalínismi. Jósef Stalín 1949 Stalínismi, sem kenndur er við Jósef Stalín (1878 – 1953), er tæpast eiginleg hugmyndafræðileg undirgrein kommúnisma. Þegar talað er um stalínisma er frekar átt við það einræðislega stjórnarfar sem einkenndi stjórnartíð hans 1922–53, mikil notkun áróðurs og hvatt var til persónudýrkunar á leiðtoganum. Miðstýring þjóðfélagsins var mikil, fólk hafði mjög takmarkað frelsi því allar mikilvægar ákvarðanir teknar ofan frá. Enn fremur setti Stalín á fót vinnuþrælkunarbúðir fyrir fanga, gúlagið, þar sem gífurlegur fjöldi fanga vann dag og nótt við hörmulegar aðstæður. Ofsóknir gagnvart raunverulegum og ímynduðum andstæðingum voru mikilvægur þáttur í uppbyggingu „alræðis öreiganna“. Á árunum 1936–38 hófust hreinsanir í Kommúnistaflokknum, svonefnd Moskvuréttarhöld þar sem 16 pólitískum andstæðingum Stalíns voru bornar upplognar sakir og þeir dæmdir til dauða eða refsivinnu í gúlaginu. Óhemjuleg persónudýrkun foringjans var annað framlag sem kommúnistaforingjar í öðrum löndum tóku upp. Stalín innleiddi stórfelldar fimm ára áætlanir í efnahags- og skipulagsmálum, sem voru í gildi öll þau ár sem hann var við stjórn. Fylgismenn hans töluðu aldrei um stalínisma heldur var það hugtak skapað af andstæðingum Stalíns. Marx-lenínismi. Það hugtak sem á íslensku er oftast nefnt marx-lenínismi (en einnig marxisminn-lenínisminn) var upphaflega skapað af Stalín til að leggja áherslu á að kenningar Leníns (í túlkun Stalíns) væru ekki einungis viðbót við marxismann heldur hefðu lyft honum upp á nýtt svið. Hugtakið hefur hins vegar verið túlkað á ýmsa vegu af mismunandi kommúnistum. Nafngiftin marx-lenínismi var notað sem opinbert heiti á ráðandi hugmyndafræði í Sovétríkjunum og fylgiríkjum og eins fylgiflokkum þeirra frá valdatíma Stalíns og allt þar til sovétveldið hrundi. Eftir að í sundur skildi milli Kína og Sovétríkjanna fóru maóistar hins vegar að kalla sig hins einu sönnu marx-lenínista og hnýttu því oft við nöfn hópa sinna og flokka (samanber EIK (ml) á Íslandi). Maóismi. Maó Zedong heldur ræðu 1939 Andstætt Lenín var Maó Zedong (1893 – 1976) viss um að bændastéttin gæti framkvæmt byltingu öreiganna án þess að verkalýðsstéttin væri þar framvarðarsveit. Byltingin gæti allt eins átt rætur á landsbyggðinni eins og í iðnaðarsvæðum þéttbýlis og borga. Maó var einnig viss um að stéttabaráttan héldi áfram og harðnaði eftir að byltingin hafði verið framkvæmd. Virkjun fjöldans er einnig lykilatriði í maóismanum ólíkt flokkskenningu Leníns og Stalíns, þar sem aðaláhersla er lögð á hlutverk flokksins sem framvarðarsveit og leiðtoga. Maóisminn hefur haft mun meiri áhrif á kommúnistahreyfingar í bændaþjóðfélögum þriðja heimsins en í iðnarþjóðfélögum, ef burtséð er frá maóistahreyfingum 7. og 8. áratuganna á Vesturlöndum. Má þar nefna Skínandi stíg í Perú, Naxalíta í Indlandi og maóistahreyfinguna í Nepal. Maóistar kalla maóisma yfirleitt "Hugsun Maó Zedong". Trotskíismi. Trotskíisminn er eindregið byltingarsinnaður og leggur mikla áherslu á alþjóðahyggju. Samkvæmt Lev Trotskí (1879 – 1940) er alþjóðabyltingin forsenda raunverulegs sósíalisma. Þar sem borgarastéttin ekki hafði getað framkvæmt borgaralegu byltinguna með eigin krafti (eins og staðan var í Rússlandi í upphafi 20. aldar) yrði verkalýðsstéttin að framkvæma hana upp á eigin spýtur og láta hana vaxa yfir í alþjóðlega sósíalíska byltingu og er það algjör andstæða við „sósíalisma í einu landi“, stefnu sem Lenín setti fram (og Stalín hélt fast í) þegar sýnt var að aðrar byltingar, um svipaðar mundir og sú rússneska, voru fljótlega brotnar á bak aftur. Trotskí kallaði sig aldrei „trotskísta“ heldur notaði hugtakið bolsévík-lenínisti. Trotskíistar hafa hvergi verið við völd en hafa víða haft talverið ítök hjá menntamönnum. Flokkar þeirra hafa einkum verið sterkir í Frakklandi og Mexíkó. Evrókommúnismi. Á 8. og 9. áratug 20. aldar óx mjög gagnrýni innan kommúnistaflokka í Vestur-Evrópu á það sem kallað var marx-lenínismi, sem margir voru farnir að álíta kreddu og sem hafði verið stefna flokkanna fram að því. Þetta var samhliða uppgjör við hugmyndir og framkvæmd kommúnista og tilraun að aðlaga hann að vestrænu lýðræðisþjóðfélagi. Þessi gagnrýni og endurskoðun á mörgum grundvallaratriðum kenningarinnar var kallaður evrókommúnismi. Þungamiðja þessarar endurskoðunar var gagnrýni á sem og andstaða gegn þeirri pólitík sem Sovétríkin stóðu fyrir. Grundvallarhugmyndir evrókommúnismans má rekja til ítalska marxistans Antonio Gramscis (1891 – 1937). Hann gagnrýndi mjög kreddufestu vinstrimanna og vildi að hreyfingar þeirra opnuðu sig fyrir samstarfi við önnur pólitísk öfl og fjöldahreyfingar. Það voru einkum kommúnistaflokkarnir í Frakklandi og á Ítalíu sem helst tóku upp evrókommúnisman. Þessir flokkar voru á þessum tíma mjög sterkir og fengu mikið fylgi í kosningum. Hugmyndirnar höfðu þó einnig mjög mikil áhrif innan annarra flokka eins og svo nefndra vinstri sósíalistaflokka á Norðurlöndum. Michail Gorbasjof segir frá því í endurminningum sínum að hugmyndir evrókommúnista hafi haft mikil áhrif á sig þegar hann innleiddi "glasnost" og "perestroika" í Sovétríkjunum. Eftir fall Sovétveldisins hafa flestir þeir flokkar sem aðhylltust evrókommúnisman orðið sósíaldemókratískir flokkar. Kommúnismi á Íslandi. Eitt af sérkennum stjórnmálasögu Íslands á 20. öld er að þar höfðu kommúnistar lengi vel meiri áhrif og höfðu í samstarfi við aðra sósíalista miklu meira fylgi en í sambærilegu löndum. Sögu kommúnista á Íslandi má skipta í þrjá hluta. Kommúnistaflokkur Íslands. Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður 1930. Þá höfðu kommúnistar starfað innan Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins (sem voru tvær greinar af sömu samtökum) frá stofnun þeirra 1916. Þeir höfðu einnig starfað í sérstökum hópum, sá mikilvægast var Jafnaðarmannafélagið Sparta, sem starfaði frá 1926 fram að stofnun flokksins. Kommúnistaflokkurinn gerðist þegar hluti af Komintern og var þar með hluti af alþjóðaflokki kommúnista og laut miðstjórnarákvörðunum hans. Helstu forsprakkar flokksins voru þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason sem var formaður. Þeir höfðu báðir kynnst marxisma við nám erlendis, Einar í Þýskalandi og Brynjólfur í Danmörku. Alþýðusambandið og Alþýðuflokkinn klofnuðu þegar áhrif kommúnista innan þeirra jukust og þeir náðu talsverðum ítökum innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta var ólíkt því sem gerðist á hinum Norðurlöndunum þar sem sósíaldemókratar hafa enn náin tengsl við alþýðusamböndin og tókst lengi vel að útiloka kommúnista úr flestum áhrifastöðum innan þeirra. Málgögn flokksins voru vikublaðið Verkalýðsblaðið og tímaritið Réttur. Frá 1936 hófst útgáfa dagblaðsins Þjóðviljans, og var þá útgáfu Verkalýðsblaðsins hætt. Sósíalistaflokkurinn. Árið 1938 gekk Héðinn Valdimarsson til liðs við kommúnista. Alþýðuflokkurinn klofnaði við þetta og talsverður hluti hans fylgdi Héðni. Hinn sameinaði flokkur fékk nafnið Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn. Flokkurinn gekk ekki í Komintern og var ekki yfirlýstur kommúnistaflokkur, en í stefnuskrá flokksins var hann sagður byggja stefnu sína á „hinum vísindalega sósíalisma - marxismanum“. Hann hafi einnig alla tíð mjög náin formleg og óformleg sambönd við kommúnistaflokkana í Austur-Evrópu. Brynjólfur var formaður miðstjórnar fyrsta áratuginn og eftir að Héðinn yfirgaf flokkinn árið 1939, vegna afstöðu til innrásar Sovétríkjanna í Finnland, tók Einar Olgeirsson við formennsku og var formaður flokksins þangað til hann var lagður niður. Eftir því sem á leið varð allt erfiðara að halda flokknum á „réttri marxískri línu“; kom þar til meðal annars að talsverður fjöldi yngri flokksmanna voru sendir í nám „austantjalds“, sérlega til Austur-Þýskalands og Sovétríkjanna, og færðu misjafnar og oft ófagrar fréttir af sósíalismanum í framkvæmd. En stærsti áhrifavaldurinn var samvinnan við Hannibal Valdimarsson og fylgismenn hans í Alþýðubandalaginu, sem var stofnað sem kosningabandalag 1956. Hannibal hafði verið formaður í Alþýðuflokknum og var forseti Alþýðusambandsins og vildi vinna að sameiningu allra vinstrimanna í ein samtök. Eftir miklar deilur innan Sósíalistaflokksins var ákveðið 1968 að leggja hann niður og þess í stað stofna nýjan stjórnmálaflokk, Alþýðubandalagið. Með því þvarr áhrif þeirrar kynslóðar kommúnista að mestu, sem fylgdi Sovétríkjunum að málum, enda var hinn nýi flokkur hvorki í orðum né gerðum á neinn hátt kommúnískur flokkur. 68-kynslóðin. Einn þáttur í því umróti sem kallað hefur verið 68-kynslóðin var endurvakning kommúnískra hugsjóna. Þó að þau samtök sem virkust voru í þessum málum hafi verið fámenn voru þau áberandi meðal ungs fólks, ekki síst í framhaldsskólum og háskólum. Það voru aðallega þrír hópar sem létu að sér kveða sem kölluðu sig kommúnista. Æskulýðsfylkingin, félag ungra sósíalista, hafði verið ungliðahreyfing Sósíalistaflokksins frá 1938 og fylgt honum mjög að málum og haft sig frekar lítið í frammi. Upp úr miðjum 7. áratugnum breytast samtökin mjög og verða samastaður róttæklinga af ýmsu tagi. Árið 1970 slitu samtökin endanlega öllu sambandi við arftaka Sósíalistaflokksins, Alþýðubandalagið. Nafninu var breytt í Fylkingin - baráttusamtök sósíalista og samtökin þar með orðin pólitískur flokkur. Eftir harðar innri deilur gengu trotskíistar með sigur innan samtakana og sóttu um aðild að Fjórða alþjóðasambandinu (alþjóðasambandi trotskíista). Málgagn Fylkingarinnar og (Æskulýðsfylkingarinnar) var tímaritið Neisti. Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar), sem voru þekktari sem EIK (m-l), voru maóísk samtök sem stofnuð voru 1973 eftir að trotskíistar náðu yfirráðum yfir Fylkingunni. Þau áttu sér megin upptök hjá íslenskum námsmönnum í Noregi og voru nátengd norsku maóistasamtökunum. Málgagn þeirra var Verkalýðsblaðið. Kommúnistasamtökin marxistarnir-lenínistarnir, sem voru þekktari sem KSML, voru stofnuð 1972. Árið 1976 skiptu samtökin um nafn og voru nú nefnd Kommúnistaflokkur Íslands (marxistarnir-lenínistarnir), KFÍ (m-l). Þetta voru einnig maóísk samtök, en deildu harðlega við EIK (m-l) um rétta túlkun á fræðunum. Það voru íslenskir námsmenn í Gautaborg í Svíþjóð sem áttu frumkvæði að KSML, og voru þau nátengd sænsku maóistasamtökunum. Málgagn þeirra var Stéttabaráttan. Þegar róttæknialda 8. áratugarins hneig, lögðu EIK (m-l) og KSML upp laupana, ásamt nokkrum öðrum smærri hópum. Fylkingin var aldrei lögð niður, og mjög fámennur arftaki hennar er enn starfandi sem Kommúnistabandalagið og Ungir sósíalistar. Mínóísk menning. Mínóísk menning eða Krítarmenningin var menningarsamfélag á eynni Krít á Eyjahafi. Tími mínóískrar menningar nær aftur til um 7000 f.Kr. en blómstraði einkum á tímabilinu frá 2700 f.Kr. til 1450 f.Kr. þegar Mýkenumenningin varð ríkjandi á svæðinu. Mínóísk menning var bronsaldarmenning. Bronsaldarsamfélög við Miðjarðarhafið áttu mikil samskipti sín á milli og því er stundum erfitt að greina að hvaða marki mínóísk menning varð fyrir áhrifum frá nágrönnum sínum og höfðu áhrif á þá. Mínóískri menningu er oft lýst sem mæðraveldi. Hugtakið „míníósk menning“ bjó til breski fornleifafræðingurinn Sir Arthur Evans. Það vísar til Mínosar konungs í grískri goðafræði, sem lét byggja mikið völundarhús á Krít. Evans taldi sig hafa fundið það í Knossos. James Clerk Maxwell. James Clerk Maxwell (13. júní 1831 – 5. nóvember 1879) var skoskur stærðfræðingur og eðlisfræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa sameinað raf- og segulkraftana í safn fjögurra jafna sem saman kallast jöfnur Maxwells. Einnig er hann frægur fyrir að hafa komið með tölfræðilega lýsingu á kvikfræðilegri hegðun atóma í formi Maxwelldreifingarinnar. Uppgötvanir Maxwells höfðu mikil áhrif á nútímaeðlisfræði og lögðu til dæmis grundvöllinn að sértæku afstæðiskenningunni og skammtafræðinni. Maxwell er einnig þekktur fyrir að hafa tekið fyrstu litljósmyndina árið 1861. Nánast allur ferill Maxwell var við Cambridge-háskóla, þar sem hann byggði rannsóknir sínar oftar en ekki á miklum stærðfræðihæfileikum, sérstaklega á sviði rúmfræði og algebru. Með þessa kunnáttu að vopni gat Maxwell sýnt fram á að raf- og segulsvið ferðast um rúmið í formi bylgna á föstum hraða ljóssins. Loks árið 1961 birti Maxwell grein í fjórum hlutum í tímaritinu "Philosophical Magazine" sem nefndist, þar sem í fyrsta skipti kom fram sú kenning að ljós sé bylgjuhreyfing í sama miðli og er orsökin fyrir rafmagni og segulmagni. Maxwell er álitinn af mörgum - sérstaklega innan eðlisfræðinnar - vera sá vísindamaður 19. aldar sem mest áhrif hafði á 20. aldar eðlisfræði. Framlög hans til eðlisfræðinnar eru af mörgum talin mega setja til jafns við framlög Newtons og Einsteins. Árið 1931 á aldarafmæli Maxwells lýsti Albert Einstein verkum Maxwells sem „þeim mikilvægustu og þeim sem mestan ávöxt hafa borið síðan Newton var uppi“. Myrku aldirnar í sögu Grikklands. Myrku saldirnar í sögu Grikklands (um 1100 f.Kr. – 750 f.Kr.) er tímabil í sögu Grikklands frá innrás Dóra og endalokum Mýkenumenningarinnar á 11. öld f.Kr. fram að tilkomu grískra borgríkja borgríkja á 9. öld f.Kr. og tilurð Hómerskviða og annarra af elstu bókmenntum Grikkja á 8. öld f.Kr. Fornleifafræðin sýnir að á þessum tíma féllu siðmenningarsamfélög við austanvert Miðjarðarhaf. Hallirnar miklu og borgir Mýkenumenningarinnar voru lagðar í rúst. Menning Hittíta féll. Borgir voru lagðar í eyði frá Tróju til Gaza. Grikkir hættu að skrifa á grísku en þeir höfðu áður skrifað grísku með línuletri B. Leirker frá þessum tíma eru einfaldari en leirker frá Mýkenutímanum og skortir myndskreytingar sem áður voru. GusGus. GusGus er íslensk hljómsveit stofnuð árið 1995 í Reykjavík. Hljómsveitin spilar raftónlist en tónlist þeirra eru aðallega flokkuð sem hústónlist, tæknitónlist og trip-hop tónlist. Snemmgrískur tími. Snemmgrískur tími er tímabil í sögu Grikklands sem nær frá um 800 f.Kr. – 480 f.Kr. Snemmgrískur tími fylgir í kjölfar myrku aldanna í sögu Grikklands. Á þessum tíma varð til hið gríska borgríki, lýðræði, heimspeki, leikritun, grískar bókmenntir og gríska stafrófið. Á snemmgrískum tíma voru meðal annars háð lelantíska stríðið (undir lok 8. aldar f.Kr.) og fyrra og síðara Messeníustríðið (um 750 – 730 f.Kr. og 640 – 620 f.Kr.) Bókmenntir. Meðal merkustu bókmennta þessa tímabils má nefna kviður Hómers ("Ilíonskviðu" og "Ódysseifskviðu"), kvæði Hesíódosar ("Goðakyn" og "Verk og daga") og lýrískan kveðskap eftir höfunda á borð við Arkílokkos, Alkajos, Saffó, Alkman, Semónídes, Hippónax, Týrtajos, Sólon, Stesikkoros, Ibýkos, Fókýlídes, Mímnermos, Símonídes frá Keos. Auk þess varð grísk leikritun til undir lok þessa tímabils. Nytjastefnan. "Nytjastefnan" (e. "Utilitarianism") er rit um siðfræði eftir breska heimspekinginn John Stuart Mill. Það er eitt af áhrifamestu og víðlesnastu ritum um nytjastefnu. Ritið birtist fyrst sem þrjár ritgerðir í í tímaritinu "Fraser's Magazine" árið 1861. Tveimur árum síðar var ritgerðunum safnað saman og þær gefnar út sem bók. Bókin var endurútgefin þrisvar sinnum um ævi Mills með lítilsháttar breytingum. Mill styst við nytjastefnu í fleiri ritum sínum, svo sem "Frelsinu" og "Um kúgun kvenna", en "Nytjastefnan" er engu að síður meginrit Mills um nytjastefnun og siðfræði almennt. Mál, sannleikur og rökfræði. "Mál, sannleikur og rökfræði" (e. "Language, Truth and Logic") er rit um heimspeki eftir breska heimspekinginn Alfred Jules Ayer. Það kom út árið 1936. Ritið skilgreinir, útskýrir og færir rök fyrir sannreynanleikalögmáli rökfræðilegu raunhyggjunnar. Ayer ræðir hvernig beita megi sannreynanleikalögmálinu í glímunni við gátur heimspekinnar. Ayer reynir m.a. að sýna fram á að spurningar og fullyrðingar frumspekinnar, siðfræðinnar og guðfræðinnar séu merkingarlausar. "Mál, sannleikur og rökfræði" er eitt vinsælasta og víðlesnasta ritið í anda rökfræðilegrar raunhyggju. Frelsið. "Frelsið" (e. "On Liberty") er rit á ensku um heimspeki eftir breska heimspekinginn John Stuart Mill. Það kom fyrst út árið 1859. Það þótti á sínum tíma afar róttækt verk. Mill hélt því fram að hver einstaklingur réði yfir sjálfum sér, líkama sínum og hug, og ætti að vera frjáls undan „harðstjórn meirihlutans“, sem með ósögðum siðareglum og siðferðishugmyndum stjórnar samfélaginu með harðri hendi. Mill hélt því fram að einstaklingur ætti að vera frjáls til þess að gera hvaðeina sem skaðar ekki aðra. Öll afbrigði frjálshyggju telja að þetta sé hornsteinn stefnu sinnar. Aftur á móti greinir menn á um hvað felist í því að skaða aðra. "Frelsið" var gríðarlega áhrifamikið rit og hugmyndirnar sem Mill setur fram í ritinu eru enn áhrifamiklar í stjórnspeki og stjórnmálum, þar sem þær móta stefnu margra stjórnmálaflokka og -hreyfinga. Ritið er auk þess stutt og auðlesið. Tengt efni. Lesa má ritið á vef landsbókasafnsins með því að. Bergsbók. Bergsbók – (eða Holm Perg. 1 fol., í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi) – er íslenskt handrit frá því um eða eftir 1400. Í Bergsbók eru Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta og Ólafs saga helga hin sérstaka eftir Snorra Sturluson, nokkur kvæði og styttri textar, sem flestir eru tengdir þessum tveimur konungum, svo sem Rauðúlfs þáttur og kaflar úr Hallfreðar sögu og Færeyinga sögu. Bergsbók er eina handritið með Ólafsdrápu Tryggvasonar, eina handritið þar sem Rekstefja er í fullri lengd, og annað tveggja handrita þar sem kvæði Einars Skúlasonar, Geisli er heilt. Ólafur digri. Ólafur Haraldsson (einnig Ólafur digri og síðar Ólafur helgi; 995 – 29. júlí 1030) var konungur Noregs 1015-1028. Ólafur kynntist kristnum sið í víkingaferðum og lét skírast í Rúðuborg í Frakklandi. Hann sneri aftur til Noregs og sameinaði landið með hernaði og samningum og lét krýna sig til konungs yfir öllum Noregi. Norskir ættarhöfðingjar gerðu uppreisn gegn honum í nafni Knúts ríka, Danakonungs. Ólafur flúði til Rússlands og leitaði hælis hjá Jarisleifi konungi sem kvæntur var systur hans. Hann reyndi að ná völdum aftur en féll 29. júlí 1030 í Stiklastaðarbardaga. Ólafur helgi var jarðsettur í Þrándheimi. Ólafur er á myndum sýndur í herklæðum með ríkisepli, veldissprota og bikar - bryntröll og stríðsöxi sem voru þau vopn sem urðu honum að bana. Undir fótum hans liggur oft dreki með mannshöfuð og kórónu sem tákn um hina sigruðu heiðni. Bryntröll. Bryntröll er fornt vopn, líklegt er talið að það hafi verið sérstök gerð af spjóti með svo breiðu og þungu blaði að það mátti einnig nota til að höggva með. Í Grágás er bryntröll talið upp með vopnum sem ekki mátti bera í kirkjur og eigi setja við kirkjubrjóst eða -veggi. Rekstefja. Rekstefja er kvæði sem talið er ort á tólftu eða þrettándu öld. Höfundur þess er talinn Hallar-Steinn. Smáskífa. Smáskífa er hljómplata sem inniheldur oftast þrjú lög eða færri. Varast ber að rugla smáskífum saman við stuttskífur eða breiðskífur. Mars (sælgæti). Mars sælgæti er súkkulaðistykki sem gert er úr 3 lögum af súkkulaði. Mars súkkulaði kom fyrst á markaðinn 1932. Mars súkkulaðistöngin er súkkulaðistöng framleidd af Mars Incorporated. Það var fyrst framleitt Slough í Stóra-Bretlandi árið 1932 sem sætari gerð af bandaríska súkkulaðistykkinu Milky Way. Annað súkkulaðistykki undir sama nafni var seld í Bandaríkjunum þar til árið 2002 þegar nafni þess var breytt í Snickers Almond Bar. Það inniheldur núggat, hnetur, karamellu og mjólkursúkkulaði. Gallastríðin. Gallastríðin voru átök milli rómverskra hersveita undir stjórn Júlíusar Caesars og gallískra þjóðflokka um miðja 1. öld f.Kr. Rómverjar gerðu innrás í Gallíu árið 58 f.Kr. Síðar gerðu þeir einnig smærri innrásir í Britanniu og Germaniu en háðu ekki langvarandi stríð á þeim vígstöðvum. Gallastríðin náðu hámarki árið 52 f.Kr. í orrustunni við Alesiu, þar sem rómverski herinn hafði yfirburðarsigur og lagði í kjölfarið Gallíu undir Rómaveldi. Átökunum lauk ári síðar. Caesar hélt því fram að innrásin hefði verið í varnarskyni en flestir sagnfræðingar eru sammála um að stríðin hafi verið háð einkum til að styrkja stjórnmálaframa Caesars og afla honum fjár til að greiða niður gríðarmiklar skuldir hans. Samt sem áður er ekki hægt að líta framhjá hernaðarlegu mikilvægi Gallíu fyrir Rómverja, sem höfðu sjálfir mátt þola innrásir keltneskra þjóðflokka, bæði frá Norður-Ítalíu og norðar frá Gallíu. Með sigri í Gallíu gátu Rómverjar treyst náttúruleg landamæri við ána Rín. Rómverjar höfðu aldrei fleiri en 60.000 hermenn í Gallíu meðan á átökunum stóð. Herstyrkur Galla er óþekktur en giskað hefur verið á að Gallar hafi haft milli 500.000 og 1.000.000 hermenn. Rómverjar misstu tugi þúsunda í átökunum en Gallar misstu hundruð þúsunda auk þess sem hundruð þúsunda voru hneppt í þrældóm. Stríðunum er lýst í riti Caesars sjálfs "Commentarii de Bello Gallico" ("Athugasemdir um Gallastríðið"), sem er mikilvægasta ritaða heimildin um átökin. Ritið er einnig meistaraverk í pólitískum áróðri enda var Caesar afar áhugasamur um að auka vinsældir sínar í Róm. Music From the Film More. "Music from the Film More" (oft kölluð "More") er tónlist eftir Pink Floyd við kvikmyndina More sem var leikstýrð af Barbet Schroeder. Var þetta í fyrsta skiptið sem Pink Floyd samdi tónlist við kvikmynd í fullri lengd. Í kvikmyndinni eru tvö lög sem ekki eru á plötunni: „Seabirds“ og „Hollywood“. "More" inniheldur þjóðlaga-ballöður (e. "folk ballads"), en slík verk urðu algeng á seinni plötum Pink Floyd. Á plötunni eru nokkur lög í þungarokksanda (sbr. „The Nile Song“ og „Ibiza Bar“), en yfir öðrum er sýrulegur keimur (eins og t.d. „Quicksilver“ og „Main Theme“). Annars eru lögin flest í venjulegum Pink-Floyd-dúr miðað við tíma og tónlistarstefnu hljómsveitarinnar. Þetta var fyrsta plata þeirra án Syd Barrett og á henni er fyrsti alvöru einleikur David Gilmour og einnig fyrsti einleikur Pink Floyd. Allir litir hafsins eru kaldir. Allir litir hafsins eru kaldir, eða á ensku; Every Colour of the Sea is Cold, er hvort í senn 90 mínútna sjónvarpsmynd og 3 þátta sjónvarpssería. Framleiðsla var í höndum Ax Film og leikstjóri var Anna Th. Rögnvaldsdóttir. Þættirnir slógu rækilega í gegn árið 2006 þegar þeir voru sýndir í Ríkissjónvarpinu og hafði um 60% áhorf samkvæmt Gallup. Línus. Línus páfi Línus var frá Toskana á Ítalíu. Hann var fyrsti arftaki Péturs postula í biskupsdæmi Rómar. Hann stjórnaði í níu ár (67- 76). Áhöld eru um nákvæmar dagsetningar á valdatíð hans. Sumar heimildir segja að hann hafi ríkt árin 56 - 67 á tímum Nerós en Jeremías segir hann hafa ríkt 67 til 78. Evsebíos biskup og kirkjusagnfræðingur segir að hann hafi endað valdatíð sína á öðru ári keisaratíðar Títusar árið 80. Samkvæmt Liber Pontificalis var Línus frá Toskana og faðir hans hét Herculanus. Móðir hans hét Claudia. Sama heimild segir að hann hafi gefið út tilskipun þar sem konur voru skiydaðar til að hylja höfuð sitt í kirkjum. Heimildin segir að hann hafi dáið píslarvættisdauða og hafi verið grafinn á Vatíkanhæðinni. Segir þar einnig að hann hafi dáið 23. september, sem er dýrlingadagur hans en almenn heiðrun hans var lögð niður 1969. Ummagumma. "Ummagumma" er fjórða breiðskífa Pink Floyd og tvöföld plata; gefin út 1969. Fyrri platan inniheldur gamlar tónleikaupptökur (sem voru lagaðar og viðbættar í upptökuveri) en hin 5 ný lög og hvert þeirra samið af einum hljómsveitarmeðlima, að fráskildum Roger Waters sem samdi tvö. Á fyrri plötunni eru "Astronomy Domine", "Saucerful of secrets", "Set the controls for the heart of the sun" og "Careful with that axe", "Eugene" (áður óútgefið). Á seinni plötunni er að finna fjóra parta Sysyphus samið af Richard Wright, Grantchester Meadows og Several Species of Small Furry Animals Gathered Together in a Cave and Grooving with a Pict eftir Roger Waters. Þriggja parta lagið The Narrow Way er eftir David Gilmour og The Grand Vizier's Garden Party eftir Nick Mason sem er einnig í þrem pörtum; "Entrance", "Entertainment" og "Exit". Kaupþing banki. Kaupþing banki hf. var einn af þremur viðskiptabönkum á Íslandi fyrir Bankahrunið 2008. Bankinn rak 34 útibú á Íslandi auk skrifstofa í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, Noregi, Lúxemborg, Sviss og Bretlandi. Vörumerki bankans er Kaupþing. Í apríl 2008 var tilkynnt að viðræður við SPRON um hugsanlega sameiningu hefðu hafist en sú sameining rann út í sandinn á síðustu stundu þegar Kaupþing var þjóðnýtt haustið 2008 vegna gjaldþrots og Nýja Kaupþing stofnað um innlend bankaviðskipti Kaupþins banka. Þegar SPRON fór sömu leið nokkrum mánuðum síðar voru bankaviðskipti sparisjóðsins flutt í Nýja Kaupþing. Saga. Lög um Búnaðarbanka Íslands voru samþykkt árið 1929 og má segja að það marki upphaf Kaupþings banka hf. Bankinn hóf svo starfsemi þann 1. júlí 1930 en var þá að öllu leyti í eign ríkisins. Árið 1998 var Búnaðarbankinn gerður að hlutafélagi. Kaupþing hf. var stofnað af átta Íslendingum í febrúar árið 1982. Árið 1986 seldu stofnfélagarnir 49% hlutabréfa sinna í bankanum til sparisjóðanna. Sama ár var Verðbréfaþing Íslands stofnað og var Kaupþing hf. einn fimm stofnaðila. Árið 1990 eignaðist Búnaðarbanki Íslands 50% og á sama tíma bættu sparisjóðirnir við sig einu prósenti. Árið 2004 fékk "Kaupþing Búnaðarbankinn" nýtt nafn, "KB banki". Snemma ársins 2007 var nafninu svo aftur breytt í Kaupþing banki hf.. Kaupþing varð fyrsti Evrópski bankinn til að falla á greiðslum svonefndra Samúræjaskuldabréfa. Samningsbrot bankans þýddi ígildi greiðslufalls og hann því úr sögunni. Nýr banki, Nýja Kaupþing, var stofnaður utanum innlend viðskipti bankans en skuldir hans skildar eftir. Viðræður um að kröfuhafar í þrotabúið sem flestir eru erlendir bankar, eignist Kaupþing banka og fái með honum líka Nýja Kaupþing (nú Arion banka) hófust árið 2009. Klassísk frjálshyggja. Klassísk frjálshyggja eða "laissez-faire" frjálshyggja, einnig nefnd markaðsfrjálshyggja eða nýfrjálshyggja, er afbrigði af frjálshyggju og er í senn stjórnspeki- og stjórnmálastefnu sem leggur áherslu á frelsi einstaklingsins, frjálsa verslun og takmörkuð afskipti ríkisvalds. Stefnan á rætur að rekja til rita Johns Locke, Adams Smith, Davids Hume, Davids Ricardo, Voltaires og Montesquieus auk annarra. Segja má að hún hafi orðið til upp úr frjálshyggju í hagfræði og stjórnmálum á 18. og 19. öld. Meginhugmyndin er sú að frjáls verslun og viðskipti og takmörkuð afskipti ríkisvaldsins af markaðnum leiði til þess að markaðurinn komi reglu á sjálfan sig. Orðalagið "klassísk" frjálshyggja komst í notkun eftir á til þess að greina hugmyndafræðina frá öðrum afbrigðum frjálshyggju sem urðu til á 20. öld, svo sem félagslegri frjálshyggju, sem leyfði mun meiri ríkisafskipti af hagkerfinu. Ludwig von Mises, Friedrich Hayek og Milton Friedman er eignaður heiðurinn af endurlífgun klassískrar frjálshyggju á 20. öld en vinsældir hennar höfðu dvínað seint á 19. öld og í upphafi 20. aldar. Gagnrýnendur nefndu hugmyndafræðina gjarnan nýfrjálshyggju. Marglyttur. Marglyttur (staðbundið málfar marglot, illa, skollaskyrpa eða skollahráki, í fornu máli kölluð glytta'") er flokkur holdýra ("Scyphoza") sem eru hlaupkenndar og skálarlaga og eru með eitt munnop. Holdýr skiptast í tvo flokka hveljur og holsepa, og eru marglyttur hveljur. Marglyttur hafa griparma í kringum munninn og á gripörmunum eru stingfrumur eða brennifrumur sem marglytturnar nota til þess að drepa sér til matar eða til að vernda sig. Í brennifrumunum eru eitruð efni sem geta valdið skaða á þeim sem verða fyrir. Skaðinn er mismunandi eftir tegundum bæði marglyttunnar og fórnarlambsins, lítill fiskur deyr af völdum skammts sem veldur aðeins roða hjá mönnum. Marglyttur eru miseitraðar, þær eitruðustu geta drepið menn á nokkrum sekúndum. Ein tegund er til sem hefur engar brennifrumur, hún lifir í ferskvatni á eyju sem nefnist Palau. Jón Arason. Jón Arason biskup. Mósaíkmynd á vegg yfir gröf hans í turni Hóladómkirkju. Jón Arason (1484 – 7. nóvember 1550) Hólabiskup var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi fyrir siðaskipti. Hann var einnig skáld og athafnamaður og flutti til Hóla fyrstu prentsmiðjuna á Íslandi. Hann var tekinn af lífi ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti 1550. Uppruni og frami. Jón var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, sonar Sigurðar Jónssonar, sem var príor í Möðruvallaklaustri 1439-1492, og konu Ara, Elínar bláhosu Magnúsdóttur. Ari dó þegar Jón var ungur og ólst hann upp með móður sinni á Grýtu, kotbýli skammt frá Munkaþverárklaustri, en þar var ábóti Einar Ísleifsson frændi Elínar og hafa mæðginin líklega verið þar í skjóli hans. Löngu seinna orti Jón gamansama vísu þar sem hann lét sem Grýta hefði verið mikil kostajörð samanborið við helstu höfuðból Eyjafjarðar: "Ýtar buðu Grund við Grýtu / Gnúpufell og Möðruvelli / en ábótinn vill ekki láta / aðalból, nema fylgi Hólar". Oft mun þó hafa verið þröngt í búi hjá mæðginunum á Grýtu en Einar ábóti liðsinnti frænda sínum, lét hann vinna fyrir mat sínum í klaustrinu og veitti honum menntun. Ekki er þó víst hve mikil sú menntun var og að minnsta kosti þótti latínukunnátta hans ekki mikil en sagt að þeim mun meiri þekkingu hafi hann haft á norrænum fræðum. Frændi hans var líka með lærðustu mönnum og rak skóla í klaustrinu. Líklega hefur Jóni líkað vistin þar vel því að hann setti börn sín þar til mennta síðar. Árið 1507, þegar Jón var 23 ára gekk hann í þjónustu Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Sama ár var hann vígður til prests á Helgastöðum í Reykjadal og kynntist þar Helgu, sem varð fylgikona hans. Ári síðar fékk hann Hrafnagil, sem þótti eitt besta brauð í Eyjafirði. Innan tíðar var hann orðinn prófastur í Eyjafirði og um tíma var hann einnig sýslumaður þar. Árið 1514 varð hann Hólaráðsmaður. Hann var mjög handgenginn Gottskálk biskupi, var til dæmis svaramaður þegar Kristín dóttir hans giftist Jóni Einarssyni 1515, og fór tvisvar til útlanda í erindum biskups. Biskupsefni. Gottskálk andaðist 28. desember 1520 og má segja að Jón hafi þá þegar tekið öll völd á Hólum. Hann var svo kosinn biskup en vígsluför hans dróst næstu árin. Hann tók við ýmsum óloknum málum Gottskálks, meðal annars deilu um eignir Jóns Sigmundssonar lögmanns, sem reyndar lést sama ár og Gottskálk, en Jón reyndi að ná eignum af Einari syni hans. Einar leitaði ásjár hjá Teiti Þorleifssyni lögmanni í Glaumbæ og urðu átök á milli manna þeirra biskups og Teits í Sveinsstaðareið, þar sem einn biskupsmanna féll og nokkrir særðust en Grímur Jónsson lögmaður á Stóru-Ökrum skaut ör í handlegg Teits lögmanns og hélt Teitur því fram að Jón Arason hefði haldið sér föstum. Árið 1522 kom Ögmundur Pálsson til landsins, nývígður Skálholtsbiskup, og var hann andsnúinn Jóni og vildi fá sinn mann, Jón Einarsson, sem Hólabiskup. Hann kom norður með sveina sína og ætlaði að handtaka Jón en hann flúði út í þýskt skip sem lá í Kolbeinsárósi og varð Ögmundur frá að hverfa. Jón sigldi svo út og fékk biskupsvígslu 1524 þótt Ögmundur sendi Jón Einarsson og léti hann ásaka Jón um ýmsa glæpi, þar á meðal stórþjófnað. Erkibiskup valdi fremur Jón Arason en hann útvegaði nafna sínum Odda, eitt besta prestakall landsins, í sárabætur og voru þeir vinir þaðan í frá. Biskupstíð. Hóladómkirkja. Turninn var reistur til minningar um Jón Arason árið 1950. Þegar Jón kom heim 1525 reið hann með 900 manna lið til alþingis en Ögmundur var með enn fjölmennara lið og lá við að til bardaga kæmi en því tókst þó að afstýra. Sættust biskuparnir svo og héldu sáttina upp frá því. Fljótlega eftir heimkomuna tók Jón aftur upp mál sitt við Teit og fékk hann dæmdan sekan og útlægan og eignir hans hálfar til konungs. Teitur var rekinn frá Glaumbæ en Hrafn Brandsson tengdasonur Jóns settist þar að. Teitur hélt þó eftir eignum sínum á Austurlandi, svonefndum Bjarnaneseignum, og seldi þær Ögmundi biskupi, en Jón taldi hann ekkert umboð hafa til þess. Þegar Gissur Einarsson tók við Skálholtsbiskupsdæmi árið 1542 gerðu þeir Jón með sér samkomulag um að halda frið. Kristján 3. Danakonungur hélt einnig frið við Jón og gerði ekkert til að koma á siðaskiptum í Hólabiskupsdæmi, enda var markmið hans fyrst og fremst að hnekkja veldi Þjóðverja á hafinu við Ísland og fá yfirráð yfir helstu útróðrastöðvum landsins, sem voru flestar í Skálholtsbiskupsdæmi. Einnig samdi konungur við Hólabiskup um að fá brennistein hjá honum úr brennisteinsnámunum fyrir norðan. Og árið 1542 sendi Jón Sigurð son sinn og Ólaf Hjaltason prest í Laufási, skjólstæðing sinn, á konungsfund og dvöldust þeir við hirðina um veturinn. Ekki sat Jón þó alveg á friðarstóli, hann ákvað að ná undir sig Bjarnaneseignum og fór austur þeirra erinda í svonefndri Bjarnanesreið og náði eignunum, þrátt fyrir andstöðu Gissurar, en konungur studdi Jón. Uppreisnarbiskup. Gissur Einarsson dó snemma árs 1548 og þá ákvað Jón að grípa tækifærið og gaf út bréf 21. apríl þar sem hann tók sér erkibiskupsvald yfir Íslandi. Hann reið svo til Skálholts til að hertaka biskupssetrið og láta kjósa nýjan biskup. En heimamenn voru við öllu búnir og eftir fimm daga umsátur gafst Jón upp á þófinu og hélt burt. Hann lét í leiðinni kjósa Sigvarð Halldórsson ábóta í Þykkvabæ sem biskupsefni og sendi hann út til að fá vígslu, sem hann fékk vitaskuld ekki; Sigvarður lést ytra 1550 og er sagt að hann hafi þá verið búinn að taka lútherstrú. Biskupsefni mótmælenda, Marteinn Einarsson, var aftur á móti vígður. Marteinn kom heim 1549 en þá brá Jón við, sendi syni sína, Ara og Björn, að handtaka hann og færðu þeir hann til Hóla þar sem hann var í varðhaldi næsta árið. Og vorið 1550 fór Jón í Skálholt, lét grafa lík Gissurar biskups upp og dysja hann utangarðs sem villutrúarmann. Um sumarið reið hann svo til alþingis og fékk þar samþykkt að Íslendingar skyldu taka upp kaþólsku að nýju. Hann og synir hans fóru líka um, handtóku marga helstu forystumenn lútherskra, þvinguðu þá til að taka aftur upp kaþólskan sið eða hröktu þá úr landi. Jón sagði þá að hann hefði nú undir sér allt Ísland nema hálfan annan kotungsson - og átti þá við Gleraugna-Pétur Einarsson, bróður Marteins biskups, og Daða Guðmundsson í Snóksdal, mág Marteins. Endalok. Kirkjugarðurinn á Sauðafelli, þar sem feðgarnir voru handteknir. Haustið 1550 hugðust þeir feðgar svo útrýma síðustu andspyrnunni innanlands og höfðu búið sig undir átök við sendimenn Danakonungs, meðal annars með því að reisa virki á Hólum. Þeir riðu austur í Dali og hugðust ná Daða í Snóksdal á sitt vald, annaðhvort með vopnavaldi eða samningum. Þeir settust upp á Sauðafelli og var lið þeirra ekki fjölmennt. Þar biðu þeir átekta í nokkra daga en á meðan safnaði Daði liði og kom að þeim. Þeir feðgar hörfuðu inn í kirkjuna og voru handteknir þar eftir stutt átök. Minnisvarði um Jón í Skálholti þar sem hann var hálshöggvinn ásamt sonum sínum. Daði kom þeim feðgum svo í Skálholt í hendur Kristjáns skrifara, umboðsmanns konungs. Öll skip voru farin frá landinu og ekki hægt að senda þá út undir dóm konungs. Til stóð að halda þeim föngnum til næsta alþingis á Bessastöðum en Kristján vildi það ekki því að von var á fjölda norðlenskra útróðrarmanna þar í nágrennið um veturinn og eins víst að þeir mundu freista þess að bjarga feðgunum. Jón Bjarnason Skálholtsráðsmaður sagðist þá þekkja ráð sem mundi duga; öxin og jörðin geymdu þá best. Þetta varð úr, enda sagði Kristján að á meðan þeir lifðu yrði aldrei friður á Íslandi, og voru þeir feðgar hálshöggnir 7. nóvember 1550. Þar með lauk kaþólskum sið á Íslandi allt þar til trúfrelsi komst á á Íslandi með stjórnarskránni 1874. Þeir feðgarnir voru grafnir við kórbak í Skálholti en í apríl næsta voru kom flokkur Norðlendinga, gróf líkin upp, setti í kistur og héldu á brott. Þeir þvoðu líkin á Laugarvatni en fluttu þau síðan norður til Hóla og var hvarvetna hringt kirkjuklukkum þar sem líkfylgdin fór hjá. Þjóðsagan segir að aðalklukka dómkirkjunnar, "Líkaböng", hafi farið að hringja sjálfkrafa þegar líkfylgdin kom á Hrísháls, þar sem fyrst sér heim til Hóla, og rifnað þegar hún nálgaðist kirkjuna. Á Hólum voru þeir feðgar svo jarðsungnir. Skáld og prentfrömuður. Jón Arason var gott skáld og hefur töluvert varðveist af kveðskap hans. Hann orti ýmis trúarljóð en er þó þekktastur fyrir veraldlegan kveðskap sinn, tækifærisvísur og danskvæði eða viðlög úr þeim og gerir þá oft gys að sjálfum sér eða andstæðingum sínum. Hann og þeir feðgar virðast hafa verið miklir gleðimenn, vinsælir og höfðingjar í lund. Ljóð Jóns komu út árið 2006 í bókinni "Jón Arason biskup: Ljóðmæli". Jóns er líka minnst fyrir það að hann flutti fyrstu prentsmiðjuna til landsins. Ekki er fullvíst hvaða ár það var en líklega hefur það verið um eða laust fyrir 1530 og hefur verið miðað við það ártal. Hann fékk sænskan mann, Jón Matthíasson eða Mattheusson, til landsins sem prentara. Aðallega voru prentaðar guðsorðabækur í Hólaprentsmiðju á dögum Jóns. Fjölskylda. Ari Jónsson (f. um 1508, d. 7. nóvember 1550), lögmaður í Möðrufelli í Eyjafirði. Kona hans var Halldóra, dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði. Magnús Jónsson (d. 1534), prestur á Grenjaðarstað. Fylgikona hans var Kristín dóttir Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra. Björn Jónsson (d. 7. nóvember 1550), prestur á Melstað í Miðfirði. Fylgikona hans var Steinunn, dóttir Jóns ríka Magnússonar á Svalbarði og konu hans, Ragnheiðar á rauðum sokkum Pétursdóttur. Þórunn Jónsdóttir (f. um 1511, d. 13. desember 1593). Fyrst giftist hún Hrafni Brandssyni lögmanni í Glaumbæ og var þá aðeins 14-15 ára. Hrafn dó 1528 og 1533 giftist Þórunn Ísleifi Sigurðssyni sýslumanni á Grund. Hann dó 1549 og tveimur árum síðar giftist Þórunn Þorsteini Guðmundssyni, lögréttumanni á Grund, sem dó 1571. Helga Jónsdóttir, húsfreyja í Stóradal undir Eyjafjöllum. Maður hennar var Eyjólfur Einarsson lögréttumaður í Stóradal. Sigurður Jónsson (f. um 1520, d. 1595), prestur á Grenjaðarstað. Fylgikona hans var Sesselja, dóttir Péturs Loftssonar í Stóradal í Eyjafirði, sem var einhver auðugasti maður á Íslandi um sína daga. Ferningur. Ferningur er rétthyrningur með allar fjórar hliðar jafn langar. Hliðarlengd fernings er oft táknuð með a. Flatarmál ferningsins er fundið með því að hefja hliðarlengdina upp í annað veldi: F = a2 og ummálið er summa allra hliðanna: U = 4a. Önnur merking. Ferningur tölu "x", er talan "x" margfölduð með sjálfri sér, þ.e. "x" í öðru veldi, táknað með "x"2. Ferningur ferningsrótar tölu, er talan sjálf. Rass. Rass eða afturendi nefnist kúptur hluti líkama manna og apa á aftanverðri mjaðmagrindinni, sem umlykur bakrauf. Íslenskan á mörg orð yfir hið sama: "afturhluti, ars, bakhluti, bossi, botn, daus, drundur, dyndill, döf, endi, gumpur, hlaun, hlöss, jasi, kríkastaður, lend, rumpur, seta, sitjandi, skutur, stélur, stirsla, torta", "óæðri endinn" og "þjó(hnappar)". Sjónfæri. Sjónfæri eru skynfæri, sem gera lífverum kleyft að greina ljós. Í sumum lífverum hafa sjónfærin þróast í augu, sem eru afar flókin líffæri með linsukerfi og frumum sem greina mismunandi ljóstíðnir, þ.e. liti. Í öðrum lífverum er um að ræða klasa ljósnæmra frumna eða frumulíffæra, sem gera aðeins greinarmun á birtu og myrkri. Versalir. Versalir (franska: "Versailles") er borg í útjaðri Parísar. Borgin var á sínum tíma stjórnsetur franska konungsdæmisins. Þar er Versalahöll sem er sögufrægur staður, var konungsaðsetur um langa hríð og þar hófst friðarráðstefnan 1919. Akstursíþróttir. Akstursíþróttir eru íþróttir þar sem ökumenn eru að keppast um að vera fyrstur í mark. Ökutækin sem ökumennirnir keyra geta verið ýmis, meðal annars bílar og mótorhjól. Sem dæmi um vinsæla keppni er Formúla 1. Hafnabolti. Hafnabolti (eða hornabolti) er íþrótt sem fer fram með kylfu og hörðum smábolta. Tvö lið keppa og hefur hvort þeirra níu leikmenn. Leikurinn gengur út á að ná sem flestum stigum með því að slá boltann og hlaupa í hafnir. Stig fæst þegar leikmaður nær heimahöfn. Varnarleikmenn, sem eru í því liði sem ekki er að slá, reyna að koma í veg fyrir að leikmenn nái í höfn. Leikmannaskipting á vellinum er þannig háttað að það lið sem er í vörn hefur níu leikmenn á vellinum; þrjá á ytri velli (hægri-, mið- og vinstrivallarleikmann), fjóra á innri velli (leikmann á fyrstu-, annarri- og þriðjuhöfn auk stuttstoppara), kastara og grípara. Það lið sem er að slá hefur einn leikmann sem slær fyrir liðið og 0-3 hlaupara á höfnum eftir því hvort sá/þeir sem hafa slegið á undan hafi komist í höfn. (ATH: í hverri höfn má aðeins vera einn leikmaður í einu). a) kasta leikmann út, m.ö.o. að láta kylfing slá þrjú vindhögg. b) grípa boltann eftir að hann hefur verið sleginn og áður en hann snertir jörðina. c) koma boltanum í fyrstu höfn áður en hlaupari nær í fyrstu höfn. d) "tagga" leikmann úr með því að snerta hann með boltann í hanskanum. kylfingur þ.e. sá sem slær fyrir liðið sér um að hitta boltann eins langt og hann getur og á þann máta að varnarleikmenn ná ekki að grípahann. þegar kylfingurinn hefur hitt boltann og boltinn komið út á völlinn þannig að hann sé "í leiknum" breytist kylfingurinn í hlaupara og hleypur í fyrstu höfn, eða ef hann getur áfram í 2. 3. eða heimahöfn. Kastari er staðsettur á miðjum innri vellinum og sér um að kasta boltanum til grípa þannig að "battarinn" nái ekki grípari er staðsettur fyrir aftan heimahöfn, örlítið aftar og til hliðar við kylfinginn. sjá um að grípa boltann eftir að hann hefur verið sleginn og koma honum í viðeigandi höfn (oftast fyrstu höfn) eða "tagga" Íshokkí. Tveir varnarmenn og markvörður verja markið. Íshokkí (eða ísknattleikur) er hópíþrótt sem fer fram á ís. Leikmenn eru á skautum og leikið er með kylfum um pökk. Íshokkí er oftast kallað "hockey" í Kanada og Bandaríkjunum til styttingar frá "ice hockey". Ísilögðum leikvanginum er skipt niður með 5 þverlínum. Þær eru: rauð miðjulína, 2 bláar línur sem afmarka sóknarsvæði hvers liðs og að lokum marklína sínhvorumegin ísvallarins. 6 leikmenn frá hvoru liði er inná í einu. 3 framherjar, 2 varnarmenn og 1 markmaður. Algengustu brotin eru "Rangstæða" en til að koma í veg fyrir hana þarf að flytja pökkinn á undan leikmanni í sókn, þ.e.a.s. yfir bláu línuna. "Krækja" (enska: "Hooking") er þegar leikmaður krækir með kylfunni í andstæðinginn. "trypping"þegar leikmaður fellir andstæðingin Ruðningur. Ruðningur eða rúgbý er hópíþrótt og er vinsæl á Englandi. Hvaðan komum við? Hver erum við? Hvert förum við? Hvaðan komum við? Hver erum við? Hvert förum við? (á frönsku "D'où venons nous? Que sommes-nous? Où allons-nous?") er titill málverks, sem Paul Gauguin málaði á Tahíti árið 1897. Verkið er málað með olíulitum á striga. Viðtalsbil. Viðtalsbil var tímaeining (venjul. 3. mínútur) sem hver viðbótargreiðsla fyrir langlínusamtal gilti fyrir. Símtöl eru nú mæld á annan hátt. Gaumljós. Gaumljós er lítið rafljós í tækjum ýmis konar, sem varar við eða vekur athygli á e-u, t.d. í mælaborði bíla, á símum og ýmsum raftækjum til heimilisnota. Eldsneytismælir í bíl hefur yfirleitt gaumljós, sem lýsir þegar þörf er að bæta eldsneyti á tankinn. Oft er notaður ljóstvistur sem gaumljós, ekki síst vegna þess að hann notar mjög litla orku. Kibla. Kibla (arabísku: قبلة) er hugtak í Íslam og þýðir: "tilbeiðsluátt". Kibla er áttin sem múslími á að snúa sér í þegar hann biðst fyrir. Upphaflega sneru múslímar sér í átt til Jerúsalem en frá 624 til Mekka. Veggskot í moskum sýnir rétta stefnu. Miradsj. Miradsj er stytting á "Kitab al-Miradsj" (arabíska: كتاب المعراج sem þýðir: "Uppstigningabók") en það er rit sem fjallar um för Múhammeðs frá Mekka til Jerúsalem og þaðan til himnaríkis, og aftur til Mekka. Bókin skiptist í 7 kafla. Miradsj er haft um þessa ferð hans, en einnig bókina. Á seinni hluta 14. aldar var bókin þýdd á latínu sem "Liber Scale Machometi" og seinna á spænsku, og ekki leið á löngu áður en hún kom út á forn-frönsku. Samkvæmt sumum fræðimönnum hefur lýsing höfundar á helvíti haft mikil áhrif á Dante Alighieri og verk hans Hinn guðdómlegi gleðleikur. Hadsjar. Hadsjar (arabíska: الحجر الأسود lesist "al-Hadsjar-ul-Asvad" og þýðir "svartur steinn") er svarti ímúraði steinninn í Kaba. Kaaba er ferstrend bygging í Masjid al-Haram, "Heilögu moskunni", í borginni Mekka. Íslamskir pílagrímar reyna að kyssa steininn þegar þeir ganga kringum Kaaba. 25. Árið 25 (XXV) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á mánudegi. Netslóð. Netslóð er dæmi um staðlað gagnaauðkenni (e. URI). "Veffang" er í almennu tali netslóð sem vísar á vefsíðu en netslóðir geta vísað á margt fleira en vefsíður, t.d. skjalamöppur á FTP-þjóni og margmiðlunarefni sem veitt er um MMS-þjón. Flestir nota þó aðeins lítinn hluta af svona slóð við að heimsækja vefsíður á netinu, t.d. bara samskiptamáta- og hýsils-hlutana (e. host). Bygging. Bygging netslóða segir til um hvernig slóðir eiga að vera byggðar upp og hvað gera eigi við þær. Innskráning. Innskráning (e. login) er ekki mikið notuð á þann hátt sem hér birtist þar sem flestir vilja ekki að lykilorðið birtist í netslóðinni. Hýsill. Hýsill (e. host) getur verið auðkenndur með IP-fangi (e. IP-Address) eða hýsilsnafni (e. host name). Hýsilsnafnið er venjulega DNS lén sem skiptist í tvo hluta; rótarlén (til dæmis .is) og Í dæminu að ofan er lénið "tildaem" og rótarlénið "is". Sérstakar skrifstofur sjá um úthlutun léna og stjórnar oft ein skrifstofa einu rótarléni. Á Íslandi er það sem stjórnar úthlutun léna innan.is rótarlénsins. Rótarlénum er svo úthlutað af (Internet Assigned Numbers Authority). Port. Port-hlutinn segir til um á hvaða porti skuli reyna að tengjast. HTTP-staðallinn notar port 80 og er það því sjálfgefna gildið í flestum vöfrum sleppi notandi að slá port-númer inn. Slóð. Slóðin segir til um hvaða gögn miðlarinn (hýsillinn) á að senda til biðlarans (notandans). Beiðni. Beiðnar-hlutinn segir til um skilyrði sem gögnin skulu uppfylla. Sé slóðar- og fyrirspurnar-hlutunum sleppt er náð í sjálfgefna síðu, sem skilgreind er af hýsli. Brot/tengill. Tengill/brot segir til um hvar á síðunni eigi að byrja að birta gögnin. EBNF. Hér er algengri byggingu staðlaðra gagnaauðkenna (e. URI) lýst í EBNF fyrir þá sem finnst lýsingin hér á undan óljós eða of löng, en Netslóðir eru stöðluð gagnaauðkenni. netslóð = bygging ":" (["//" [hýsill] "/"] | [hýsill]) [slóð] ["?" beiðni] ["#" brot] bygging = stafur [stafur | tala | "-" | "+" | "." | hýsill = nafn | IPv4 | IP slóð = bókstafir ["/" slóð]* | " beiðni = bókstafir "=" bókstafir ["&" beiðni]* Lýsingin er að miklu leiti fengin úr. Bæversku hreinleikalögin. Bæversku hreinleikalögin (þýska: "das bayerische Reinheitsgebot") eru lög sem Vilhjálmur 4. hertogi yfir Bæjaralandi setti 23. apríl árið 1516 í Ingolstadt og kváðu á um að engin efni mætti nota til bjórbruggunar nema vatn, maltað bygg og humla. Bæversku hreinleikalögin voru byggð á eldri lagasetningu frá München. Eftir að gerið var uppgötvað var það einnig leyft og síðar var notkun hveitimalts leyfð við bruggun á yfirgerjuðum bjór, svokölluðum hveitibjór (þýska: "Weißbier"). Filippus Spánarkrónprins. Filippus, Prinsinn af Astúríu "(Felipe Juan Pablo Alfonso de Todos los Santos de Borbón y de Grecia)" (f. 1968), er þriðja barn og einkasonur Jóhanns Karls Spánarkonungs og konu hans Soffíu Spánardrottningar. Hann á tvær systur: Helena, hertogaynjan af Lugo, (f. 1963) og Kristín, hertogaynjan af Palma, Mallorca, (f. 1965). Þann 22. maí 2004 giftist Filippus Letiziu Ortiz, sem hlaut tiltilinn "prinsessan af Astúríu". Hjónin eignuðust sitt fyrsta barn, stúlkuna Elenóru þann 31. október 2005. Þann 29. apríl 2007 fæddist þeim önnur dóttir, sem hlaut nafnið Sofía. Múhameð VI af Marokkó. Múhameð VI Marokkókonungur, "(Mohammed Ben Al-Hassan)", (f.1963) varð konungur Marokkó árið 1999 eftir að faðir hans Hassan II féll frá. Þann 21. mars 2002 giftist Múhameð Sölmu Bennani í Rabat, höfuðborg Marokkó. Salma er fyrsta eiginkona marokkósks konungs til að vera viðurkennd opinberlega sem slík og til að hafa prinsessutitil. Þann 8. maí 2003 eignuðust hjónin frumburð sinn Moulay Hassan. Þau eiga einnig dóttur, Lalla Khadija, (f. 2007) Nottingham Forest F.C.. Nottingham Forest F.C. er enskt knattspyrnulið staðsett í Nottingham. Staðsetning liðsins er fyrir sunnan ána Trent en hinum megin við ána er erkióvinurinn, Notts County staðsett. Forest er gamalt og gróið stórveldi sem hefur meðal annars unnið Evrópukeppni meistaraliða tvisvar sinnum (nú kallað Meistaradeildin). Það var árin 1979 og 1980. En liðið nýtur þess vafasama heiðurs að vera eina liðið í Evrópu sem hefur unnið Evrópukeppni og fallið svo niður í þriðju efstu deild. Forest er einnig eina liðið sem hefur unnið Evrópukeppnina oftar en deildarkeppnina heima fyrir. Liðið vann enska titilinn 1978 og fóru í Evrópukeppnina 1979 og unnu. Þeir fengu svo að verja titilinn 1980 sem meistarar, sem þeir gerðu. Enska úrvalsdeildin. Enska úrvalsdeildin er efsta atvinnumannadeildin í knattspyrnu á Englandi. Hún er vinsælasta deild í heimi og einnig sú arðbærasta. Saga. Enska úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992 af félögunum í gömlu fyrstu deildinni og hefur nú 20 lið. Á fimmtán tímabilum hafa aðeins 4 lið unnið: Manchester United (tíu sinnum), Arsenal (þrisvar), Chelsea (þrisvar) og Blackburn Rovers (einu sinni). Núverandi meistarar fyrir 2010–11 eru Chelsea sem unnu níunda titilinn sinn 6. maí 2007, eftir að hafa unnið Manchester City daginn áður og daginn eftir gerði Chelsea jafntefli sem leiddi til sigur United. Enska úrvalsdeild kvenna er efsta deild kvennaknattspyrnunnar á Englandi. Hún er ekki alveg atvinnumannadeild og hefur mun færri áhorfendur, jafnvel innan landamæranna. Núverandi meistarar kvennadeildarinnar fyrir tímabilið 2006-07 er Arsenal L.F.C. sem tryggðu sér fjórða titilinn í röð þann 24. apríl 2007 þegar þær unnu Chelsea L.F.C.. Markahæstu menn frá upphafi. Alan Shearer er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með samtals 260 mörk. Forever (GusGus plata). "Forever" er 6. breiðskífa íslensku hljómsveitarinnar GusGus. Platan var gefin út 23. febrúar árið 2007. Jóhann Karl 1.. Jóhann Karl I ("Juan Alfonso Carlos Víctor María de Borbón y Borbón-Dos Sicilias") (f. 1938) er konungur Spánar. Hann er sonur Don Juan de Borbón, sem var sonur Alfonsós XIII Spánarkonungs, og móðir Jóhanns var Maria Mercedes af Bourbon-Orleans. Jóhann Karl varð konungur 1975 er hann tók við af Francisco Franco sem lést það ár. Attention (GusGus plata). "Attention" er 5. breiðskífa íslensku hljómsveitarinnar GusGus. Platan var gefin út í september, 2002. This Is Normal (GusGus plata). "This is normal" er þriðja breiðskífa íslensku hljómsveitarinnar GusGus. Platan var gefin út 27. apríl árið 1999. Jafnaðarstefna á Íslandi. Þorsteinn Erlingsson skáld var einn fyrsti yfirlýsti jafnaðarmaðurinn á Íslandi, og sýndi Jón Trausti litla spádómsgáfu, þegar hann kvað jafnaðarstefnuna hérlendis sennilega fara í gröfina með Þorsteini 1914. Ólafur Friðriksson hafði kynnst hugsjónum jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og kynnti þær, eftir að hann sneri heim til Íslands. Hann var lengi ritstjóri "Alþýðublaðsins" og í forystu hinna róttækari manna Alþýðuflokksins. Hann skrifaði ritgerðina „Jafnaðarstefnuna“ í "Eimreiðina" 1926. Rithöfundarnir Þórbergur Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness sneru þó sennilega fleiri til jafnaðarstefnu en nokkrir blaða- eða stjórnmálamenn í tveimur vel skrifuðum bókum, Þórbergur í "Bréfi til Láru" (1924) og Laxness í "Alþýðubókinni" (1929), sem hann færði sérstaklega jafnaðarmönnum á Íslandi að gjöf. Eftir klofning Alþýðuflokksins 1930 létu kommúnistar meira að sér kveða í fræðilegri kynningu en lýðræðisjafnaðarmenn, en sú venja myndaðist smám saman að nota orðið „jafnaðarstefnu“ aðallega um lýðræðisjafnaðarstefnu, en „félagshyggju“ um sósíalisma í víðari skilningi. Var Gylfi Þ. Gíslason ötulastur við að setja sjónarmið jafnaðarmanna á blað, til dæmis í ritinu "Jafnaðarstefnunni" 1949 og í endurskoðaðri útgáfu þess 1977. Brynjólfur Bjarnason skrifaði hins vegar margt um sameignarstefnu í anda þeirra Marx og Leníns. Þegar talað er um jafnaðarstefnu á Íslandi í byrjun 21. aldar, er nær alltaf átt við frjálslynda lýðræðisjafnaðarstefnu, sem hefur fyrir löngu sagt skilið við kenningar Marx. Raunar horfa íslenskir jafnaðarmenn sérstaklega til bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem getur alls ekki talist sósíalisti í hefðbundnum skilningi orðsins, en hann setti fram hugmyndir um réttláta skipan mála, þar sem reynt vær að búa svo í haginn fyrir lítilmagnann sem auðið væri án þess að skerða frelsi annarra, í "A Theory of Justice" (1971). Murchison-loftsteinninn. Murchison loftsteinninn er loftsteinn sem féll á jörðina. Hann er nefndur eftir Murchison í Viktoríufylki Ástralíu, þar sem að brot úr loftsteininum féllu þann 28. september 1969. Loftsteinninn er kolefnisþéttur óbráðummyndaður loftsteinn af gerð II (type II carbonaceous chondrite), og fundust í honum ýmsar amínósýrur svo sem glycine, alanine og glútensýra, og að auki frekar óalgengar amínósýrur á borð við ísóvalín og gervileucine. Þar sem að amínósýrurnar höfðu bæði hægri- og vinstri snúningsása þá var talið staðfest að amínósýrurnar væru utan úr geimnum. Flókin sambönd alkena fundust einnig í loftsteininum, sem voru svipuð alkenum sem mynduðust í Miller-Urey tilrauninni. Kolefnisþéttni. Kolefnisþéttni er eiginleiki sem efni eru sögð hafa séu þau sérlega rík af kolefni. Til dæmis eru kolefnisþétt kolvetni mjög þungar ómettaðar kolvetniskeðjur með óvenju hátt hlutfall af kolefni með tilliti til vetnis. Letizia, prinsessan af Asturias. Letizia, prinsessan af Asturias (fædd Letizia Ortiz, 1972) er krónprinsessa Spánar. Eignmaður hennar er Felipe, prinsinn af Asturias og saman eiga þau börnin Leonor og Sofiu. 1088. Páfakjör Úrbanusar II. Mynd úr handriti frá 14. öld. Leturgerð. Leturgerð eða stafagerð er í leturfræði safn bókstafa og tákna sem hafa sömu hönnun. Ýmislegar leturgerðaflokkanir eru til en helstu eru þverendaletur og steinskrift. Þverendar kallast þau litlu strik á endum stafs. Orðinu „fontur“ er oft ruglað saman með leturgerð en það á við stílbrigði einstakrar leturgerðar, til dæmis feitletrað eða skáletrað. Upprunulega átti þetta orð við um blýstafi af sömu leturgerð en í dag er það helst notað um tölvuskrár sem innihalda leturgerðarbrigði. Það að hanna nýja leturgerð kallast leturhönnun þar sem það að vinna með og stilla leturgerðir heitir leturfræði. Tilhugalíf. Tilhugalíf nefnist það tímabil í sambandi tveggja einstaklinga þegar ástir takast með þeim. Fundir þeirra nefnast stefnumót séu þeir skipulega undirbúnir. Þá hittast þessir tveir einstaklingar í því augnamiði að samskipti þeirra verði persónulegri og einlægari. Þess kyns fundir geta verið bíóferðir, matarboð, göngutúrar o.fl. Flest öll samskipti þeirra á milli, á meðan þeir eru að kynnast teljast til tilhugalífs, þ.m.t. símtöl, samskipti gegnum netið og bréfasamskipti. Innan líffræðinnar er tilhuglíf gjarnan notað um áþekka hegðun dýra. Tilhugalíf dýra snýst um að heilla gagnstætt kyn með ýmsum aðferðum í þeim tilgangi að verða sér út um maka. Í eldri merkingu orðsins er átt við tímabil trúlofunar. Bengalska. Bengalska er indó-evrópskt tungumál sem er talað í Indlandi og Bangladess. Um 230 milljónir manna hafa það að móðurmáli sem þýðir að bengalska er fimmta mest talaða tungumálið í heiminum í dag. Í bengölsku taka lýsingarorð engum beygingum, nafnorð mjög takmörkuðum en sagnorð hafa flóknar beygingar þó þau beygist ekki milli eintölu og fleirtölu. Nafnorð hafa ekkert málfræðilegt kyn. Kurt Vonnegut. Kurt Vonnegut, yngri (f. 11. nóvember 1922 - d. 11. apríl 2007) var bandarískur rithöfundur af þýskum ættum. Kurt barðist í seinni heimsstyrjöldinni og var tekinn til fanga af Þjóðverjum. Hann var færður til Dresden sem Bandamenn jöfnuðu við jörðu skömmu síðar með sprengjuherferð dagana 13.-15. febrúar 1945. Kurt lifði þennan hildarleik af þar sem hann hafði flúið í skjól í Sláturhús 5, sem seinna varð titill frægustu bókar hans. Eftir þetta var Kurt gert að safna saman líkum látinna í hrúgur sem var svo kveikt í með eldvörpum. Hann lést á heimili sínu 11. apríl 2007 skömmu eftir að hafa fengið slæma byltu sem olli alvarlegum höfuðáverkum. Á Íslandi. Bók hans "Slaughterhouse-five" kom út í íslenskri þýðingu Sveinbjarnar I. Baldvinssonar sem árið 1982. Bók hans "God bless you Mr. Rosewater" kom einnig út í íslenskri þýðingu Sveinbjarnar I. Baldvinssonar sem Guðlaun herra Rosewater eða Perlur fyrir svín árið 1992. Tenglar. Vonnegut, Kurt Ást. a> í grískri goðafræði voru guðir ástarinnar. Ást eða kærleikur er tilfinning djúpstæðrar samkenndar með annarri manneskju. Ást getur einnig verið platónsk, trúarlegs eðlis eða henni getur verið beint til dýra. Í heimspeki og guðfræði er algengt að greina á milli þrenns konar ástar: holdleg ást ("eros"), vinátta eða áhugi ("filia") og kærleikur eða guðleg ást ("agape"). Smættarefnishyggja um ást segir að hún sé raunverulega ekkert annað en efnafræðilegt ferli sem verður til í líkamanum á manni (en líka mörgum dýrum). Ferlið fer aðallega fram í heilanum (ekki hjartanu, andsætt menningarlegu minni). Holdleg ást stýrist aðalega af hormónunum dópamíni, oxytosíni, ferómóni, vasopressíni,Noradrenalíni, serótóníni og estrógeni (hjá konum) og testosteróni (hjá körlum). Sumir eru á því að ást sé hugarástand en ekki tilfinning. Því tilfinning er eitthvað sem þú finnur í skamma stund er hugarástand er í lengri tíma. Alþingiskosningar 1971. Alþingiskosningar 1971 voru kosningar til Alþingis sem fóru fram 13. júní 1971. Kosningaþátttaka var 90,4%. Þau stórtíðindi urðu að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks féll eftir tólf ára setu með þriggja þingmanna mun. Alþýðuflokkurinn fékk mikinn skell og missti þriðjung þingmanna sinna. Í þessum kosningum buðu fram Samtök frjálslyndra og vinstri manna, klofningsframboð Hannibals Valdimarssonar vegna andstöðu við að Alþýðubandalaginu yrði breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Samtökin fengu fimm þingmenn. Framboðsflokkurinn, háðframboð ungs fólks sem gerði grín að hinum framboðunum og lagði fram stefnumál sem voru út í hött, fékk um 2% fylgi á landsvísu en það bauð fram í þremur kjördæmum. Eitt af slagorðum framboðsins var „jarðgöng í hvern hrepp!“. Meðal frambjóðenda voru Gunnlaugur Ástgeirsson, bróðir Kristínar Ástgeirsdóttur sem síðar sat á þingi fyrir Kvennalistann, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, síðar þingkona fyrir Þjóðvaka og Samfylkinguna, og Jörmundur Ingi Hansen, síðar allsherjargoði. Stjórnarmyndun. Samtök frjálslyndra og vinstri manna þóttu vera sigurvegarar kosninganna. Eftir mánaðar þóf tókst að mynda ríkisstjórn Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Samtakanna undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins. Stjórnin hafði tveggja þingmanna meirihluta og tók við völdum 14. júlí. Stjórnin tókst á við útfærslu landhelginnar í 50 mílur og erfiðleika í efnahagsmálum. Vestmannaeyjagosið 1973 bætti ekki úr skák. Verðbólga fór af stað og þegar grípa þurfti til erfiðra aðgerða í efnahagsmálum drógu Hannibal og þrír aðrir þingmenn Samtakanna stuðning sinn við ríkisstjórnina til baka. 8. maí 1974 baðst Ólafur Jóhannesson lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Niðurstöður. Forseti Alþingis var kjörinn Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki. N1. N1 hf. er þjónustufyrirtæki sem varð til við samruna Olíufélagsins hf., Bílanausts, Ísdekkja, Gúmmívinnustofunnar og fleiri fyrirtækja 13. apríl árið 2007. Samkeppniseftirlitið metur markaðshlutdeild N1s á bilinu 35-40% og er það því stærsta olíufélagið á Íslandi. Ker hf., sem áður rak bensínstöðvar N1s undir vörumerkinu Essó, var dæmt til að greiða 605 milljónir í sekt vegna ólöglegs verðsamráðs við önnur olíufélög en sektin var lækkuð í 495 milljónir eftir áfrýjun. Kletus. Kletus (eða Anakletus jafnvel Anenkletus) var þriðji páfi kaþólsku kirkjunnar frá árinu 76 til 88 samkvæmt opinberum lista kirkjunnar. Kletus er viðtekin stytting á Anakletus en í rauninni er ekki vitað hvort þetta hafi verið tveir menn eða einn. Sumar heimildir segja að þetta hafi verið einn og sami maðurinn en aðrar álíka traustar heimildir segja að þetta séu ólíkir menn. Þessi deila hefur verið mikið bitbein meðal sagnfræðinga og í raun engin leið að leysa úr henni. Nafn hans er grískt og þýðir „sá sem hefur verið kallaður aftur“ til þjónustu. Hann var rómverskur ríkisborgari og er talið að hann hafi verið páfi í tólf ár þó erfitt sé að tímasetja það nákvæmlega. Samkvæmt þjóðsögunum á hann að hafa verið píslarvottur eins og margir frumkristnir menn. Sagan segir að það hafi verið hann sem skipti Róm niður í 25 sóknir en annars er lítið vitað um gjörðir hans á páfastól. Líkamsleifar hans hvíla í kirkju heilags Línusar í Vatíkaninu. 88. Árið 88 (LXXXVIII) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á þriðjudegi. Forngrísk trúarbrögð. Forngrísk trúarbrögð eru þær trúarskoðanir og venjur sem ríktu um trúarlegar athafnir, svo sem dýrkun guða, fórnir og svo framvegis, í Grikklandi hinu forna, einkum í svonefndum launhelgum. Trúarbrögð voru margvísleg í Grikklandi hinu forna. Bæði voru sögur grísku goðafræðinnar til í mörgum útgáfum en einnig voru siðir og venjur fjölbreyttar um hinn gríska heim. Grísk trúarbrögð höfðu einnig áhrif á trúarbrögð Etrúra og í gegnum þau á Rómversk trúarbrögð. Rétttrúnaður var aldrei til í forngrískum trúarbrögðum. Þrælahald í Grikklandi hinu forna. Þrælahald var útbreitt um gervallt Grikkland hið forna. Flestir fornmenn töldu ekki einungis að það væri nauðsynlegt heldur jafnvel eðlilegt: Hvorki stóumenn né kristnir drógu lögmæti þess í efa. Með þrælum er átt við einstaklinga sem sviptir hafa verið frelsi sínu og hafa verið beygðir undir vald eiganda, sem getur selt þá eða leigt út að vild. Margir hópar grískra þræla falla ekki undir þessa skilgreiningu, enda nutu þeir einhverra réttinda. Sem dæmi má nefna helótana í Spörtu. Staða margra þessara hópa var ef til vill um margt líkari stéttaskiptingu miðalda. Rannsóknir á forngrísku þrælahaldi eru ekki án vandkvæða. Heimildir eru stundum af skornum skammti og brotakenndar. Mest er vitað um Aþenu. Ekkert varðveitt fornrit er helgað þrælahaldi eingöngu. Birtingarmynd þræla í bókmenntum er margvísleg. Í gamanleikjum gegna þrælar einatt öðru hlutverki en þeir gera í harmleikjum. Rómarréttur. Rómversk lög eru lög Rómaveldis í fornöld. Rómversk lög þróuðust á löngum tíma frá tólf taflna lögunum (frá 449 f.Kr.), sem voru fyrstu rituðu lög Rómaveldis, til "Corpus Iuris Civilis" sem Justiniannus I (um 530) kom á. Rómversk lög í lagabálki Justinianusar urðu undirstaðan að lögum Býsansríkisins og — síðar — laga í Evrópu. Pelópsskagi. a> í gulum lit en Pelópsskagi er litaður rauður. Pelópsskagi (stundum nefndur Pelópsey, á forngrísku: Πελοπόννησος "Peloponnesos") er stór skagi á Suðvestur-Grikklandi, sunnan Kórintuflóa. Skaginn er suðvestur af Attíkuskaga og tengist honum um Kórinþueiðið. Fjölmargar fornminjar eru á skaganum, svo sem á borgarstæðum fornu borganna Messenu, Mýkenu, Ólympíu, Pýloss, Spörtu, Tegeu og Tiryns. Við skagann er Pelópsskagastríðið kennt. Svæði. Gervihnattamynd af Pelópsskaga með landsvæðaskiptingu. Friður Níkíasar. Friður Níkíasar er heiti á friðarsamningum milli forngrísku borgríkjanna Aþenu og Spörtu frá mars 421 f.Kr. Með samningunum lauk fyrsta skeiði Pelópsskagastríðsins. Friðarsamningarnir eru nefndir eftir aþenska herforingjanum og stjórnmálamanningum Níkíasi. Árið 425 f.Kr. höfðu Spartverjar tapað orrustunum við Pýlos og Sfakteríu með slæmum afleiðingum. Aþeningar héldu 120 spartverskum hoplítum föngnum. Spartverjar náðu sér eftir ósigrana ári síðar þegar spartverski herforinginn Brasídas náði borginni Amfípólis á sitt vald. Sama ár biðu Aþeningar mikinn ósigur í Böótíu í orrustunni við Delíon. Árið 422 f.Kr. biðu þeir ósigur aftur í orrustunni við Amfípólis þar sem þeir reyndu að ná borginni aftur. Bæði Brasídas, sem leiddi spartverska herinn, og Kleon, helsti stjórnmálamaður Aþeninga, létust í orrustunni. Aþena og Sparta voru báðar að þrotum komnar og vildu gjarnan frið. Pleistoanax, konungur Spörtu, og aþenski herforinginn og stjórnmálamaðurinn Níkías hófu samningaviðræðurnar. Báðir féllust á að skila öllu því landsvæði sem þeir höfðu náð á sitt vald í stríðinu að Nísaju undanskildri en hún átti að vera áfram í höndum Aþeninga, og Plataju, sem átti að vera áfram undir yfirráðum Þebu. Aþeningar áttu að fá Amfípólis aftur en Aþeningar áttu í staðinn að skila herföngum þeim er þeir tóku eftir orrustuna við Sfakteríu. Úti um allt Grikkland áttu hof að vera opin hverjum þeim sem þar vildi tilbiðja guðina og véfréttin í Delfí átti að verða sjálfráð á ný. Aþena mátti innheimta skatt frá þeim ríkjum sem áður höfðu greitt skatt til hennar en mátti þó ekki neyða þau til þess að verða bandamenn hennar. Aþena féllst enn fremur á að koma til aðstoðar Spörtu ef helótarnir gerðu uppreisn. Allir bandamenn Spörtu féllust á að ganga að skilmálunum, nema Böótía, Kórinta, Elís og Megara. Sautján fulltrúar beggja aðila sóru þess eið að virða samninginn sem átti að vara í fimmtíu ár. Hvorugur aðilinn var samt sáttur og friðurinn var síðar rofinn. Um tilurð og eyðingu. "Um tilurð og eyðingu" (forngrísku Περὶ γενεσεως και φθορας, latínu "De Generatione et Corruptione") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Ritið er í senn heimspekilegs og vísindalegs eðlis en ritið fjallar öðru fremur um frumspeki. Í ritinu fjallar Aristóteles um tvær af frægustu hugmyndum sínum: orsakirnar fjórar og frumefnin fjögur (jarðefni, loft, eld og vatn). Rannsóknir á dýrum. "Rannsóknir á dýrum" (á latínu "Historia Animalium") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles um dýrafræði. Í ritinu eru langar lýsingar á ýmsum tegundum fiska, skelfiska og annarra dýra og líffærafræði þeirra. Siðfræði Níkomakkosar. Upphafið á 1. bók "Siðfræði Níkómakkosar" á frummálinu (forngrísku). "Siðfræði Níkómakkosar" á forngrísku ásamt latneskri þýðingu. "Siðfræði Níkómakkosar" (á latínu "Ethica Nicomacheia") er meginrit forngríska heimspekingsins Aristótelesar um siðfræði. Ritið fjallar öðru fremur um dygðir og siðlega skapgerð sem liggur til grundvallar dygðasiðfræði. Fyrri rökgreiningar. "Fyrri rökgreiningar" er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles sem fjallar um rökfræði. Síðari rökgreiningar. "Síðari rökgreiningar" er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles sem fjallar um rökfræði. Í ritinu fjallar Aristóteles m.a. um sannanir, skilgreiningar og vísindalega þekkingu. Almæli. "Almæli" (á latínu "Topica") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles sem fjallar um rökfræði. Spekirök. "Spekirök" (á latínu "De Sophisticis Elenchis") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Það fjallar um rökfræði, nánar tiltekið rökvillur. Um skáldskaparlistina. Upphafið á "Um skáldskaparlistina" á frummálinu (forngrísku) ásamt textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum. "Um skáldskaparlistina" (á latínu) "De Arte Poetica" eða einfaldlega "Poetica") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Það fjallar um bókmenntafræði, nánar tiltekið kveðskap og tegundir hans. Ritið var gífurlega áhrifamikið á endurreisnartímanum. Umsagnir. Upphafið á "Umsögnum" eftir Aristóteles á frummálinu ásamt textafræðilegum og handritafræðilegum skýringum neðanmáls. "Umsagnir" eða "Kvíarnar" (á latínu "Categoriae", forngrísku "κάτέγόρίά") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Það er einskonar forspjall að rökfræði, heimspeki og vísindum. Ritið fjallar um hvað getur verið frumlag umsagnar og í hvaða skilningi. Siðfræði Evdemosar. "Siðfræði Evdemosar" (á latínu "Ethica Evdemia") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Það fjallar um siðfræði og er annað tveggja meginrita Aristótelesar um þá grein heimspekinnar. Ritið heitir eftir Evdemosi frá Rhódos, sem var nemandi Aristótelesar og gæti hafa ritstýrt lokaútgáfu verksins. Fræðimenn eru nær allir á einu máli um að "Siðfræði Evdemosar" er ósvikið verk Aristótelesar. "Siðfræði Evdemosar" hefur hlotið mun minni athygli fræðimanna og heimspekinga en hitt meginrit Aristótelesar um siðfræði, "Siðfræði Níkomakkosar". "Siðfræði Evdemosar" er styttra rit (í átt bókum í stað tíu bóka) og sumir kaflar í ritinu eru einnig í "Siðfræði Níkomakkosar". Til dæmis eru 4., 5. og 6. bók "Siðfræði Evdemosar" þær sömu 5., 6. og 7. bók "Siðfæði Níkomakkosar". Af þessum sökum er þessum bókum stundum sleppt í útgáfum á "Siðfræði Evdemosar" enda hafðar með "Siðfræði Níkomakkosar". Stjórnskipan Aþenu. "Stjórnskipan Aþenu" er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles eða einhvern af Verkið er einstakt að því leyti að það er hvergi að finna í handritum að verkum Aristótelesar. Það er einungis varðveitt á papýrus-broti sem fannst í Egyptalandi árið 1890. British Museum eignaðist það ári síðar. Listi yfir íslenska sjónvarpsþætti. Þetta er listi yfir íslenska sjónvarpsþætti, þ.e. þáttaraðir sem framleiddar hafa verið fyrir íslenskar sjónvarpsstöðvar. Listinn er eftir vill ekki full kominn. Amritsar. Amritsar er höfuðstaður Amritsarumdæmis í Púnjab-héraði á Norður-Indlandi. Íbúafjöldinn er áætlaður yfir ein milljón. Fjöldamorðin í Amritsar áttu sér stað í borginni 1919. Friðrik Hansen. Friðrik Hansen (17. janúar 1891 á Sauðá í Skagafirði, d. 27. mars 1952 á Sauðárkróki) var íslenskt skáld. Friðrik óx upp á Sauðá hjá foreldrum sínum, Christian Hansen og Björgu Jóhannesdóttur. Sauðárhjónin höfðu fremur órúman búshag; tímarnir erfiðir og börnin átta sem þurftu að fá mat og klæði. Snemma varð augljóst, að Friðrik væri miklum gáfum búinn. Það hamlaði honum ekki til muna að hann varð barnungur fyrir þeirri raun að missa sjón, því hann læknaðist aftur áður en langur tími leið. Til þeirrar reynslu vísar kvæði hans, "Blindi drengurinn". Aðstæður meinuðu Friðriki ekki heldur að njóta skólagöngu. Hann sat í unglingaskóla, nýstofnuðum á Sauðárkróki, en innritaðist í Kennaraskóla Íslands haustið 1913 og lauk prófi þaðan vorið 1915. Friðrik var ekki fermdur þegar hann byrjaði að setja saman vísur og festa þær á blað í litlu kveri. Og senn glímdi hann við ljóðagerð. Fyrstu ljóð hans sem birtust er að finna í handskrifuðu nemendablaði Kennarskólans. Þekktustu ljóð hans eru: "Ætti ég hörpu, Ljómar heimur, Vor, Blindi drengurinn, Við sitjum hljóð" og Vegavinnumenn. Árið 1919 kvæntist hann Jósefínu Erlendsdóttur frá Stóru-Giljá í Húnavatnssýslu. Þau bjuggu fyrst eitt ár, 1920-21, að Garði í Hegranesi, en fluttust þá til Sauðárkróks. Þar beið Friðriks sá starfi sem hann hafði búið sig undir, kennsla barna og unglinga. Upp frá því allt til æviloka gegndi hann kennarastöðu á Sauðárkróki, en kenndi áður í Torfalækjarhreppi í Húnavatnssýslu. Jósefína og Friðrik eignuðust átta börn saman en Jósefína lést árið 1937. Fimm árum seinna giftist Friðrik Sigríði Eiríksdóttur frá Djúpadal í Blönduhlíð. Þau eignuðust fjögur börn saman. Friðrik lést rúmlega sextugur að aldri. Eftir Friðrik Hansen kom ekki út ljóðabók meðan hann var á lífi, en árið 1957 kom út safn ljóða hans og lausavísna undir nafninu "Ljómar heimur". Bókin var endurútgefin 1982 undir nafninu "Ætti ég hörpu". Jógvan Hansen. Jógvan Hansen (borið fram Jegvan Hansen) (fæddur 28. desember 1978) er færeyskur söngvari sem sigraði íslensku X-Factor söngvakeppnina árið 2007. Jógvan á heima í Klakksvík. Úrslitaþátturinn. Úrslitaþátturinn var sýndur í beinni útsendingu frá Smáralind bæði á Íslandi, á Stöð 2, og í Færeyjum. Aðeins Íslendingar gátu tekið þátt í símakosningu þáttarins. Jógvan sigraði með yfir 70% atkvæða en hann keppti á móti HARA systrunum, Rakel og Hildi Magnúsardætrum. Bæði Jógvan og HARA sungu þrjú lög hvor. Tengill. Hansen, Jógvan Alþingiskosningar 1978. Í kjölfar kosninganna mynduðu Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag ríkisstjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, Framsóknarflokki. Alþingiskosningar 1979. Alþingiskosningar 1979 voru kosningar til Alþingis sem fóru fram 2.-3. desember 1979. Þá hafði starfsstjórn Alþýðuflokks undir forsæti Benedikts Gröndals setið í tæpa þrjá mánuði með hlutleysi Sjálfstæðisflokksins eftir að önnur ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar hafði sprungið fyrir tilverknað Alþýðuflokksins, meðal annars vegna deilna ráðherra Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og óstjórnar í efnahagsmálum. Framsóknarflokkurinn vann góðan kosningasigur með nýjum formanni Steingrími Hermannssyni og fékk 17 þingmenn. Hann bætti þar með upp tapið frá því í kosningunum árið áður þegar hann hafði aðeins fengið 12. Eftir kosningarnar tóku stjórnarmyndunarviðræður mjög langan tíma og undir lok janúar 1980 hóf forsetinn Kristján Eldjárn að vinna drög að utanþingsstjórn. Þá tók Gunnar Thoroddsen af skarið og myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi með stuðning hluta þingflokks Sjálfstæðismanna en gegn vilja formanns flokksins Geirs Hallgrímssonar. Alþingiskosningar 1974. Að loknum kosningum mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forystu Geirs Hallgrímssonar. Borgaraflokkurinn. Borgaraflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður af Alberti Guðmundsyni en hann klofnaði frá Sjálfstæðisflokknum árið 1987 í kjölfar Hafskipsmálsins. Fyrirtæki Alberts blandaðist í málið og honum gert að segja af sér embætti iðnaðarráðherra 24. mars af forystu Sjálfstæðisflokksins. Borgaraflokkurinn náði sjö þingmönnum í kosningunum 1987, þar á meðal Alberti Guðmundssyni og Inga Birni Albertssyni. 1989 gerðist Albert sendiherra í París. Haustið 1989 ákvað flokkurinn, undir formennsku Júlíusar Sólnes, að taka þátt í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ásamt Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Við það sögðu tveir þingmenn flokksins sig úr honum og mynduðu eigin flokk sem síðar sameinaðist Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 1991 en náði ekki inn manni og var lagður niður árið 1994. Knútur Danaprins. Knútur Danaprins (Knud Christian Frederik Michael) (27. júlí 1900 - 14. júní 1976) var seinni sonur Kristjáns 10. og bróðir Friðriks 9. Frá árinu 1947 til 1953 var Knútur krúnuerfingi á eftir bróður sínum þar sem dætur Friðriks gátu ekki tekið við krúnunni. En því var svo breytt árið 1953 þannig að Margrét dóttir Friðriks varð krúnuerfinginn. Fjölskylda. Knútur prins dó árið 1976. Pendulum. Pendulum er áströlsk hljómsveit sem spilar „drum and bass“ tónlist. Meðlimir hljómsveitarinnar eru aðeins þrír: Rob Swire, Gareth McGrillen og Paul Harding. Fyrri breiðskífu þeirra nefnist "Hold Your Colour" en hún er ein mest selda "Drum and bass" plata allra tíma. Önnur breiðskífa þeirra er "In Silico" sem kom út 2008. The Beatles (breiðskífa). "The Beatles" er níunda breiðskífa Bítlanna. Platan er tvöföld og var gefin út árið 1968. Platan er betur þekkt sem "Hvíta albúmið" á íslensku eða "The White Album". Ástæða þeirrar nafngiftar er sú að umslag plötunnar er alhvítt og nafn hljómsveitarinnar er aðeins þrykkt í fötinn en ekki prentað í lit. Mörg laganna á plötunni voru samin á Indlandi í ferð sem Bítlarnir fóru ásamt fríðu föruneyti til að hitta Maharishi Mahesh Yogi og til að leggja stund á hugleiðslu. Á meðal þessara laga eru „Dear Prudence“, sem samið var um Prudence Farrow (systur Miu Farrow) sem fór til Indlands með Bítlunum, og „Sexy Sadie“, sem samið var um Maharishi Mahesh Yogi. John Lennon var höfundur beggja laganna. Eitt þekktasta lagið á plötunni er „While My Guitar Gently Weeps“ eftir George Harrison. Í laginu spilar Eric Clapton á gítar. Á meðal annarra laga á plötunni má nefna „Back in the U.S.S.R.“, sem er í anda Beach Boys, og „Ob-La-Di, Ob-La-Da“, samið í nokkurskonar Ska-stíl. Paul McCartney samdi bæði lögin. Einnig mætti nefna „Julia“, sem John Lennon samdi í minningu móður sinnar og „Don't Pass Me By“, sem er fyrsta bítlalagið sem Ringo Starr samdi. „Hey Jude“ eftir Paul McCartney var samið á sama tíma og lögin á "Hvíta albúminu", en var gefið út á smáskífu áður en platan kom út og ekki sett á hana. Spenna var tekin að myndast á milli meðlima sveitarinnar á meðan á upptökum plötunnar stóð og náði hún hámarki þegar Ringo Starr gekk út úr hljóðverinu og sagðist vera hættur í Bítlunum. Hann sneri þó aftur tveimur vikum síðar. Lagalisti. Lennon/McCartney sömdu öll lögin, nema þar sem annað er tekið fram. Viðskiptaáætlun. Viðskiptaáætlun er áætlun um það hvernig viðskiptahugmynd skal hrundið í framkvæmd. Hún er notuð til að skipuleggja og samræma þau verk sem vinna þarf og stundum einnig til að sannfæra fjárfesta um ágæti viðskiptahugmyndar. Ef viðskiptaáætlun er ekki notuð til að samstilla alla þætti framtaks er líklegt að heildarsamræmi skorti. Viðskiptaáætlun hindrar að verkþættir dragist á langinn eða verkþáttum sé ekki sinnt. Þó viðskiptaáætlun sé nauðsynleg til að sýna fjárfestum hvað fyrirtækið, framtakið eða fjárfestingin á að áorka er það ekki aðalhlutverk hennar. Viðskiptaáætlun er aðallega teikningin eða lýsingin á öllu því sem gera þarf til að ná settu marki. Í viðskiptaáætlun felast ítarlegar upplýsingar um t.d. verkáætlanir, aðföng, skipulag, sbr. teikningar/uppdrætti, kostnað og væntanlegar tekjur. Viðskiptaáætlun er einkar mikilvægt verkfæri fyrir upphafspersónu /ur sem leiðarvísir hvað skuli gera og hvert skuli stefna. Gæði viðskiptaráætlunar er hægt að meta út frá því hversu skýr, einföld og markviss áætlunin er og hversu sannfærandi hún er fyrir þeim sem eiga að setja pening eða taka þátt í að koma henni í framkvæmd með einum eða öðrum hætti. Síður sem vert er að kíkja á (á Íslandi) ef þú ert í hugleiðingum í tengslum við stofnun fyrirtækis. Um himininn. Upphafið á "Um himininn" á frummálinu (forngrísku) ásamt handritafræðilegum og textafræðilegum skýringum neðanmáls. "Um himininn" (á latínu "De Caelo") er meginrit forngríska heimspekingsins og vísindamannsins Aristótelesar um heimsfræði og stjörnufræði. Ólíkt heiminum undir neðsta himinhvolfinu, sem Aristóteles taldi að væri út frumefnunum fjórum (jarðefni, vatni, lofti og eldi), eru ytri himinhvolfin samkvæmt kenningu Aristótelesar úr fimmta frumefninu, eter eða því sem nefnt hefur verið ljósvaki á íslensku. Háloftafræði. Upphafið á "Háloftafræðinni" á frummálinu (forngrísku) ásamt handritafræðilegum og textafræðilegum skýringum neðanmáls. "Háloftafræði" (á latínu "Meteorologica") er rit eftir forngríska heimspekinginn og vísindamanninn Aristóteles. Það fjallar um veðurfræði og jarðfræði, m.a. uppgufun vatns, myndun hvirfilbylja, eldinga og jarðskjálfta. The Juniper Tree. "The Juniper Tree" (eða "Einiberjatréð") er kvikmynd eftir Nietzchka Keene, sem var framleidd og tekin á Íslandi. Þó að myndin sé öll á ensku réð Keene aðeins íslenska leikara til að fá sérstakann framburð á enskunni. Vegna fjárskorts var leikarafjöldinn mjög takmarkaður, eða aðeins fimm leikarar í það heila og þar á meðal Björk Guðmundsdóttir. Hún var þá 21 árs og ólétt af syni sínum Sindra Eldon Þórssyni. Handritið er byggt á ævintýri úr Grímsævintýrum. Tökur fóru fram sumarið 1986, en líklega hafa nokkur atriði verið tekin upp næsta sumar. Á meðan klippingunni stóð skorti framleiðendunum aftur fjármuni, sem varð til þess að kvikmyndin var ekki frumsýnd fyrr en árið 1990. Kvikmyndin er enn víða ófáanleg og sú litla athygli sem hún hefur fengið er tilkomin vegna heimsfrægðar Bjarkar. Um hluta dýra. "Um hluta dýra" (á latínu "De Partibus Animalium", grísku: Περι ζώων μορίων) er rit um dýrafræði eftir forngríska heimspekinginn og vísindamanninn Aristóteles. Um heiminn. "Um heiminn" (á latínu "De mundo") er ritverk sem er eignað forngríska heimspekingnum og vísindamanninum Aristótelesi. Fræðimenn telja að verkið sé líklega ranglega eignað Aristótelesi. Um skynjun og skynjanlega hluti. "Um skynjun og skynjanlega hluti" (á latínu "De Sensu et Sensibilibus") er ritverk eftir forngríska heimspekinginn og vísindamanninn Aristóteles. Miðaldaheimspekingarnir Averroes og Tómas frá Aquino sömdu báðir skýringarrit við textann. Stjórnspekin. "Stjórnspekin" (á forngrísku Πολιτικά, latínu "Politica") er meginrit forngríska heimspekingsins og vísindamannsins Aristótelesar um stjórnmálaheimspeki. Ritið tekur upp þráðinn þar sem "Siðfræði Níkomakkosar" sleppir (en það endar á orðunum „Hefjum þá umræðuna“). Yfirlit yfir efni "Stjórnspekinnar". Upphaf "Stjórnspekinnar" á frummálinu (forngrísku) ásamt handritafræðilegum og textafræðilegum skýringum neðanmáls. Mælskufræðin. Upphaf ritsins "Mælskufræðin" á frummálinu (forngrísku) ásamt handritafræðilegum og textafræðilegum skýringum neðanmáls. "Mælskufræðin" (á latínu "Ars Rhetorica") er rit eftir forngríska heimspekinginn Aristóteles. Um reiðmennsku (Xenofon). Um reiðmennsku er rit eftir forngríska rithöfundinn Xenofon. Í ritinu fjallar Xenofon ítarlega um val á hestum, umönnum þeirra og þjálfun, bæði til hernaðar og einkanota. Sigurður Sigurjónsson. Sigurður Sigurjónsson (f. 6. júlí 1955) er íslenskur leikari, leikstjóri og handritshöfundur. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1976 og hefur eftir það farið með gríðarlegan fjölda hlutverka á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Hann er líklega þekktastur fyrir hlutverk sín í gamanþáttum á borð við Spaugstofuna og sex Áramótaskaupum. Fyrsta kvikmyndahlutverk hans var í mynd Ágústs Guðmundssonar, "Land og synir", frá 1980. Guðný Halldórsdóttir. Guðný Halldórsdóttir (f. 23. janúar 1954) er íslenskur kvikmyndaleikstjóri. Hún lærði kvikmyndagerð við London International Film School og útskrifaðist þaðan 1981. Guðný samdi meðal annars handritið fyrir kvikmynd Þórhildar Þorleifsdóttur, "Stellu í orlofi" (1986) en hafði áður unnið við gerð kvikmyndanna "Punktur punktur komma strik" (1980) og "Skilaboð til Söndru" (1983). 1989 var fyrsta leikna kvikmynd hennar í fullri lengd frumsýnd, en það var "Kristnihald undir Jökli", gerð eftir samnefndri skáldsögu föður hennar, Halldórs Laxness. 1992 gerði hún gamanmyndina "Karlakórinn Hekla". Guðný leikstýrði Áramótaskaupinu 1994. 1999 var frumsýnd kvikmyndin "Ungfrúin góða og húsið", byggð á smásögu eftir Laxness. Sú mynd hlaut Edduverðlaunin sem besta kvikmynd 1999. 2003 gerði hún síðan gamanmyndina "Stellu í framboði", framhald kvikmyndarinnar frá 1986. Meginlandsloftslag. Meginlandsloftslag er loftslag sem einkennist af því að það er frekar heitt á sumrin og nokkurt regn en kalt á veturna þannig að snjóa leysir ekki. Svæði þar sem meginlandsloftslag ríkir eru yfirleitt langt frá sjó eða við strendur þar sem ríkjandi vindátt er frá landi. Slík svæði finnast ekki á suðurhveli jarðar þar sem ekkert land þar, sunnan hitabeltisins og norðan Suður-Íshafsins, er nógu stórt til að áhrifa sjávar gæti ekki. Kolviður (sjóður). Kolefnissjóðurinn Kolviður var stofnaður að frumkvæði Skógræktarfélags Íslands og Landverndar en hlutverk sjóðsins er að gera landsmönnum kleift að jafna kolefnislosun sína vegna samgangna með því að beita skógrækt sem vopni í baráttunni. Á heimasíðu Kolviðar verður á einfaldan hátt hægt að reikna út hvað hver einstakur bíll losar mikið af koldíoxíði (CO2) á ári og hvað þarf mörg tré til að jafna þá losun (umbreyta koldíoxíðinu í trjávöxt og súrefni). Þannig gefst landsmönnum tækifæri til þess að greiða andvirði þeirra trjáa sem þarf til þess að jafna kolefnismengun þeirra. Ástríður Belgíudrottning. Ástríður Belgíudrottning'", ("Astrid Sofia Lovisa Thyra") (1905 - 1935) var dóttir Karls Svíaprins, sem var þriðji sonur Óskars II Svíakonungs, og Ingiborgar Danaprinsessu, sem var dóttir Friðriks VIII Danakonungs. Fjölskylda. Þann 4. nóvember 1926 giftist Ástríður Leópold Belgíuprins og varð hún Belgíudrottning árið 1934 þegar tengdafaðir hennar, Albert I, dó. Ástríður drottning dó í bílslysi í Sviss árið 1935 Minningar um Sókrates. "Minningar um Sókrates" eða "Minnisverð samtöl Sókratesar" er lengsta og frægasta rit forngríska rithöfundarins Xenofons um Sókrates. Í ritinu segir Xenofon sögur af kennara sínum og vini, Sókratesi. Xenofon hefur löngum þótt bregða upp einfeldningslegri mynd af Sókratesi sem heimspekingi en Platon. Menntun Kýrosar. "Menntun Kýrosar" (á latínu "Cyropaedia") er ævisaga Kýrosar mikla eftir aþenska rithöfundinn Xenofon. Ritið fjallar um ævi Kýrosar frá fæðingu til andláts. Nútímasagnfræðingar hafa dregið í efa að allir hlutar verksins séu sannleikanum samkvæmir heldur séu þeir ef til vill skáldaðir. "Menntun Kýrosar" var þegar í fornöld talin sígilt rit um stjórnkænsku og stjórnmálafræði og naut á ný vinsælda fyrir þær sakir á endurreisnartímanum. Sagan hermir að Scipio Africanus hafi ætíð haft með sér eintak af bókinni. Í fornöld var talið að ritið væri viðbragð við "Ríkinu" eftir Platon (eða öfugt) og "Lögin" eftir Platon virðast vísa til "Menntunar Kýrosar". Grikklandssaga. "Grikklandssaga" (á latínu "Hellenica") er mikilvægt rit eftir forngríska rithöfundinn og sagnaritarann Xenofon. Það er ein meginheimildin um síðustu ár Pelópsskagastríðsins og eftirleik stríðsins, sem rit Þúkýdídesar fjallar ekki um. Austurför Kýrosar. "Austurför Kýrosar" (á forngrísku: Aνάβασις; latínu: "Anabasis") er frægasta rit forngríska rithöfundarins Xenofons. Ferðalagið sem hún lýsir er jafnfram þekktasta afreksverk hans. Í Persaveldi slógust bræðurnir Kýros yngri og Astaxerxes II um völdin. Kýros ætlaði sér að ná völdum af Artaxerxesi og réð tíu þúsund gríska málaliða í þeim tilgangi. Xenofon var með þeim í för. Í orrustunni við Kunxa höfðu Grikkirnir betur en Kýros lét lífið. Grísku málaliðarnir höfðu því enga ástæðu til þess að dvelja í Persaveldi lengur. Flestir herforingjar Grikkja létu lífið, þ.á m. spartverski herforinginn Klearkos. Xenofon átti mikinn þátt í því að sannfæra Grikkina um að halda í norður í átt að Svartahafi. Grikkir urðu oft að berjast á leiðinni en náðu að endingu að ströndum Svartahafs við mikinn fögnuð hermannanna sem hrópuðu θαλασσα, θαλασσα („hafið, hafið!“) Hafið merkti að þeir gætu loks komist heim til Grikklands. "Austurför Kýrosar" kom út á íslensku árið 1867 í þýðingu Halldórs Kr. Friðrikssonar og Gísla Magnússonar. Varnarræða Sókratesar (Xenofon). "Varnarræða Sókratesar" eða "Málsvörn Sókratesar" eftir Xenofon fjallar um vörn Sókratesar í réttarhöldunum árið 399 f.Kr., um andlát hans og það viðhorf hans að honum væri betra að deyja áður en hann yrði elliær en að halda lífi með því auðmýkja sig frammi fyrir ranglátri ákæru. Híeron (Xenofon). "Híeron" er rit eftir forngríska rithöfundinn Xenofon í formi samræðu milli Híerons, harðstjóra í Sýrakúsu, og skáldsins Símonídesar frá Keos. Xenofon færir rök fyrir því að harðstjórinn sé í engu hamingjusamari en óbreyttur borgari. Hagstjórnin. "Hagstjórnin" (á latínu "Oeconomicus") er rit eftir forngríska rithöfundinn Xenofon í formi sókratískrar samræðu um heimilshald og landbúnað. Það er með elstu ritum um hagstjórn og hagfræði og mikilvæg heimild um félagslega sögu Aþenu í fornöld. Í ritinu er einnig fjallað um muninn á sveitalífi og borgarlífi, þrælahald, trúarbrögð og menntun. Rómverski stjórnmálamaðurinn, heimspekingurinn og rithöfundurinn Marcus Tullius Cicero þýddi ritið á latínu. Það naut mikilla vinsælda á endurreisnartímanum. Stjórnskipan Aþenu (Meintur-Xenofon). "Stjórnskipan Aþenu" er rit sem er eignað forngríska rithöfundinum Xenofoni en er að öllum líkindum ranglega eignað honum. Roger Waters. George Roger Waters (f. 6. september 1943) er enskur tónlistarmaður, þekktastur fyrir að hafa verið í og skrifað mörg frægustu lög hljómsveitarinnar Pink Floyd. Waters fæddist í Great Bookham í Surrey á Englandi. Faðir hans dó í seinni heimsstyrjöldinni þegar Waters var 5 mánaða og hefur föðurmissirinn haft mikil áhrif á skrif hans. Árið 1985, eftir tæp tuttugu ár með Pink Floyd, ákvað Waters að hætta í hljómsveitinni og vildi þá meina að hljómsveitin og hinir meðlimir hennar myndu einnig leggja upp laupana, þar sem hann væri að eigin sögn aðallagahöfundur hljómsveitarinnar. Svo fór þó ekki þar sem meðlimirnir sem eftir urðu, David Gilmour og Nick Mason, vildu ekki hætta með hljómsveitina. Hófust þá harðvítugar deilur, þar sem Waters reyndi að koma í veg fyrir að Gilmour og Mason gætu notað nafnið Pink Floyd. Sáttir um þetta náðust þó á endanum, en ekki var hægt að segja það sama um vinskap meðlimanna. Í júlí 2005 komu þeir félagar saman á svið í fyrsta sinn í 24 ár, en það var á Live 8 tónleikunum. Fjölskylda. Waters er þrígiftur og á þrjú börn. Samdrykkjan (Xenofon). "Samdrykkjan" er skáldað rit eftir forngríska rithöfundinn Xenofon. Í ritinu segir frá samdrykkju sem á að hafa átt sér stað árið 421 f.Kr. heima hjá Kallíasi nokkrum. Meðal veislugesta er gríski heimspekingurinn Sókrates. Um hreyfingu dýra. "Um hreyfingu dýra" (á latínu "De Motu Animalium") er rit um dýrafræði eftir forngríska heimspekinginn og vísindamanninn Aristóteles. Það fjallar um almenn lögmál um hreyfingu dýra. Það er líklega samið eftir árið 334 f.Kr. Um göngulag dýra. "Um göngulag dýra" (á latínu "De Incessu Animalium") er rit um dýrafræði eftir forngríska heimspekinginn og vísindamanninn Aristóteles. Það fjallar almennt um göngulag ólíkra dýrategunda. Aristóteles spyr hvers vegna sum dýr eru tvífætt, önnur ferfætt eða margfætt og enn önnur hafa enga fætur. Ritið þykir gott dæmi um beitingu markhyggju í raunvísindum. Um tilurð dýra. "Um tilurð dýra" (á latínu "De Generatione Animalium") er rit um dýrafræði eftir forngríska heimspekinginn og vísindamanninn Aristóteles. Það er líklega samið eftir árið 334 f.Kr. Elektra (Sófókles). "Elektra" er harmleikur eftir forngríska skáldið Sófókles. Ekki er vitað hvenær hann var saminn en margt bendir til þess að það hafi verið seint á ferli Sófóklesar. Leikritið fjallar um Elektru og Órestes, börn Agamemnons og Klýtemnæstru. Elektra hafði forðað bróður sínum frá vísum bana mörgum árum áður, er móðir þeirra myrti föður þeirra við heimkomu hans frá Tróju. Nú hyggur Órestes á hefndir fyrir föðurmorðið. Ajax (Sófókles). "Ajax" er harmleikur eftir forngríska skáldið Sófókles. Fornfræðingar telja að það hafi verið samið snemma á ferli Sófóklesar. Leikritið fjallar um örlög Ajaxar Telamonssonar að Trójustríðinu loknu. Trakynjur. "Trakynjur" (á forngrísku: Τραχίνιαι) er harmleikur eftir forngríska skáldið Sófókles. Það þykir athygisvert vegna þess hversu neikvæða mynd það dregur upp af Heraklesi. Fíloktetes (Sófókles). Fíloktetes er harmleikur eftir forngríska skáldið Sófókles. Skáldin Æskýlos og Evripídes sömdu einnig harmleiki um Fíloktetes en þau eru ekki varðveitt. Leikritið var fyrst sett á svið árið 409 f.Kr. og vann fyrstu verðlaun á Dýonýsosarhátíðinni. Leikritið gerist í Trójustríðinu (eftir atburðina sem "Ilíonskviða" lýsir en áður en Trója féll). Það fjallar um tilraunir Neóptólemosar og Ódysseifs til að sækja Fíloktetes og færa hann til Tróju. Ödípús í Kólonos. "Ödípús í Kólonos" (á forngrísku Οἰδίπους ἐπὶ Κολωνῷ) er harmleikur eftir forngríska skáldið Sófókles. Það var samið stuttu fyrir andlát Sófóklesar árið 406 f.Kr. og sett á svið á Díonýsosarhátíðinni árið 401 f.Kr. Sonarsonur Sófóklesar og nafni afa síns annaðist uppfærsluna. Ödípús konungur. "Ödípús konungur" (á forngrísku Oἰδίπoυς τύραννoς, á latínu "Oedipus Rex") er harmleikur eftir forngríska skáldið Sófókles. Það var fyrst sett á svið árið 428 f.Kr. Margir hafa talið að "Ödípús konungur" sé besti harmleikur sem saminn hefur verið, þ.á m. Aristóteles (í "Um skáldskaparlistina") Hold Your Colour. "Hold Your Colour" er fyrsta útgefna breiðskífa áströlsku „drum and bass“ hljómsveitarinnar Pendulum. Hljómplatan er ein mest selda „drum and bass“ plata allra tíma. Margar hljómsveitir og tónlistarmennir eiga einnig þátt í nokkrum lögum plötunnar en þeir voru Fats & TC, Freestylers, Jasmine Yee, Fresh, $pyda og Tenor Fly. Elektra (Evripídes). "Elektra" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Það var að líkindum samið eftir árið 413 f.Kr. Óvíst er hvort samnefnt leikrit Sófóklesar var samið á undan leikriti Evripídesar eða öfugt. Medea (Evripídes). "Medea" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið byggir á goðsögunni um Medeu og Jason. Það var fyrst sett á svið árið 431 f.Kr. Það vann þriðju verðlaun á Díonýsosarhátíðinni. Hippolýtos (Evripídes). "Hippolýtos" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes, sem byggir á goðsögunni um Hippolýtos, son þeseifs. Leikritið var fyrst sett á svið í Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 428 f.Kr. og hlaut fyrstu verðlaun. Alkestis (Evripídes). "Alkestis" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið er er eitt elsta varðveitta leikrit Evripídesar. Það var sennilega fyrst sett á svið á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 438 f.Kr. Andrómakka (Evripídes). "Andrómakka" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Það fjallar um ánauð Andrómökku, ekkju Hektors eftir fall Tróju. Hekúba (Evripídes). "Hekúba" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Það var samið um 424 f.Kr. Leikritið gerist í Tróju eftir fall borgarinnar. Helena (Evripídes). "Helena" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Það var fyrst sett á svið árið 412 f.Kr. á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu. Trójukonur. "Trójukonur" eða "Trójudætur" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið var samið á tímum Pelópsskagastríðsins og er af mörgum talið vera ádeila á hernám Aþeninga á eynni Melos árið 415 f.Kr. Trójukonur leikritsins eru þær fjórar sem undir lok "Ilíonskviðu" harma dauða Hektors: Hekúba, Andrómakka, Kassandra og Helena. Ifigeneia í Ális. "Ifigeneia í Ális" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Það var samið árið 410 f.Kr. en var fyrst sett á svið fjórum árum síðar á Díonýsosarhátiðinni í Aþenu, þar sem það hlaut fyrstu verðlaun. Leikritið fjallar um Agamemnon, leiðtoga gríska hersins í Trójustríðinu, og ákvörðun hans að fórna dóttur sinni, Ifigeneiu, fyrir byr svo að herinn komist til Tróju. Gerðarsafn. Gerðarsafn er listasafn Kópavogs og er staðsett í Hamraborg í Kópavogi. Safnið er framsækið og leggur megináherslu á nútíma og samtímalist í glæsilegri byggingu. Safnið var reist í minningu Gerðar Helgadóttur, myndhöggvara sem hannaði meðal annars gluggana í Kópavogskirkju. Um 20 fjölbreyttar sýningar eru haldnar á ári hverju, jafnt innlendar og erlendar. Þrír sýningarsalir eru í safninu ásamt kaffistofu. Árið 1965 hófst skipulögð söfnun listaverka í Kópavogi en þá var samþykkt að stofna Lista- og Menningasjóð og verja til hans fastri fjárhæð árlega. Árið 1994 var Gerðarsafn opnað í húsi sem Benjamín Magnússon teiknaði. Safnið geymir fjölda verka, öll þau verk sem Kópavogsbær hefur eignast frá árinu 1965 og veglegra gjafa sem því hafa borist. Þar má helst nefna um 1400 verk frá erfingjum Gerðar Helgadóttur og verk úr minningasjóði Barböru og Magnúsar Á. Árnasonar. Árið 2001 fékk safnið aðra gjöf sem var eitt stærsta einkasafn landsins, safn Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur sem hefur að geyma meira en 1000 verk. Abbey Road. "Abbey Road" er tólfta breiðskífa Bítlanna og var hún gefin út árið 1969. Platan var sú síðasta sem Bítlarnir tóku upp en hún kom þó út á undan "Let It Be". Fyrsta lag plötunnar er „Come Together“ eftir John Lennon. Lagið samdi hann upphaflega til að styðja framboð Timothy Leary til ríkisstjóra Kaliforníu, en ekkert varð af því framboði og því endurvann hann lagið fyrir plötuna. Lagið „Something“ var samið af George Harrison, og var fyrsta bítlalagið sem hann samdi, sem gefið var út sem A-hlið á smáskífu. Stór hluti hliðar tvö á plötunni er nokkurs konar lagasyrpa þar sem öll lögin frá „You Never Give Me Your Money“ til „The End“ eru tengd saman. Sum þessara laga voru hálfkláruð eða lög sem voru samin fyrir fyrri plötur en skilin eftir. Á meðal þessara laga eru lögin „Mean Mr. Mustard“ og „Polythene Pam“ sem voru samin af John Lennon fyrir "Hvíta albúmið" og lagið „She Came in Through the Bathroom Window“ sem samið var af Paul McCartney fyrir "Let It Be" plötuna. Lagið er að sögn um raunverulegan atburð þegar aðdáandi braust inn á heimili hans, um baðherbergisgluggann. Mikil togstreita, á milli meðlima hljómsveitarinnar, hafði einkennt upptökurnar fyrir "Hvíta albúmið" og "Let It Be", en að sögn gengu upptökurnar fyrir "Abbey Road" mun betur vegna þess að þar sem þeir gerðu sér grein fyrir því að þetta yrði líklega síðasta bítlaplatan, samþykktu þeir að leggja allan ágreining til hliðar. Platan dregur nafn sitt af götunni Abbey Road, en við hana stendur hljóðverið þar sem flest bítlalögin urðu til. Á umslaginu er fræg mynd þar sem Bítlarnir ganga yfir götuna. Fagverðlaun ársins. Fagverðlaun ársins var eitt af fyrstu verðlaunum Edduverðlaunanna árið 1999. Þrjú fagverðlaun voru gefin ár hvert þar til árið 2002 að þeim var skipt niður í Útlit myndar og Hljóð og mynd. Útlit myndar. Edduverðlaunin fyrir Útlit myndar hefur verið gefun árlega af ÍKSA frá árinu 2002 áður höfðu þau verði gefin undir nafninu Fagverðlaun ársins. Hljóð og mynd. Edduverðlaunin fyrir Hljóð og mynd voru gefin þrisvar af ÍKSA, frá árinu 2002, 2003 og 2004. Áður höfðu þau verði gefin undir nafninu Fagverðlaun ársins. 2005 var flokknum skipt niður í tvo flokka, Myndataka og klipping og Hljóð og tónlist. Hljóð og tónlist. Hljóð og tónlist er tegund Edduverðlauna sem hafa verið gefin árlega af ÍKSA frá árinu 2005 áður höfðu þau verði gefin undir nafninu Hljóð og mynd sem aftur hafði verið hluti af Fagverðlaunum ársins. Myndataka og klipping. Edduverðlaunin fyrir Myndatöku og klippingu voru aðeins verið gefin út einu sinni af ÍKSA, en það var árið 2005. Áður höfðu þau verði gefin undir nafninu Hljóð og mynd sem aftur hafði verið hluti af Fagverðlaunum ársins. Sturla Böðvarsson. Sturla Böðvarsson (f. í Ólafsvík á Snæfellsnesi 23. nóvember 1945), er fyrrverandi samgönguráðherra og forseti Alþingis. Sturla sat á Alþingi 1991-2009; fyrir Vesturlandskjördæmi 1991-2003 og Norðvesturkjördæmi 2003-2009. Sturla var forseti Alþingis 2007-2009 og samgönguráðherra 1999-2007. Sturla er giftur Hallgerði Gunnarsdóttur lögfræðingi og eiga þau fimm börn saman. Sturla hefur setið í fjölda stjórna og nefnda á ferli sínum. Foreldrar Sturlu voru Böðvar Bjarnason, byggingameistari í Ólafsvík og Elínborg Ágústsdóttir, húsmóðir. Sturla gekk í Skógaskóla og að grunnnámi loknu, 1961 nam hann húsasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík þaðan sem hann útskrifaðist með sveinspróf 1966. Sturla lauk raungreinaprófi við Tækniskóla Íslands árið 1970 og loks B.Sc.-próf í byggingatæknifræði við sama skóla 1973. Sturla var sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í Stykkishólmi árin 1974-1991. Sturla hefur verið ritstjóri Snæfells, blaðs sjálfstæðismanna á Vesturlandi síðan 1983. Leikari ársins. Edduverðlaunin fyrir leikara ársins voru aðeins gefin 1999. En næsta ár voru þeim skipt í Leikari ársins í aðalhlutverki og Leikari ársins í aukahlutverki. Leikkona ársins. Edduverðlaunin fyrir Leikkona ársins voru aðeins gefin 1999. En næsta ár voru þeim skipt í Leikkona ársins í aðalhlutverki og Leikkona ársins í aukahlutverki. Ólafur 4. Hákonarson. Ólafur 4. Hákonarson eða Ólafur 2. Danakonungur (f. um jólaleytið 1370 - d. 23. ágúst 1387) var konungur Danmerkur 1376-1387 og Noregs 1380-1387. Ólafur var sonur Margrétar, dóttur Valdimars 4. Danakonungs, og Hákonar 6. Noregskonungs. Þegar Valdimar afi hans dó 1375 lifði Margrét ein eftir af sex börnum hans, en eldri systir hennar, Ingeborg af Mecklenburg, átti þó börn á lífi. Margrét kom því þó til leiðar að Ólafur var útnefndur konungur í stað afans og stýrði sjálf ríkinu í nafni hans. Þegar Hákon faðir Ólafs dó 1380 varð hann einnig konungur Noregs og móðir hans fór að vinna að því að fá hann kjörinn konung Svíþjóðar. Hann náði þó aldrei að taka við völdum í ríkjum sínum því að hann dó úr lungnabólgu sumarið 1387 og það varð frændi hans Eiríkur af Pommern sem varð konungur allra ríkjanna þriggja 1396. Fátt er vitað um Ólaf, enda varð hann ekki nema 16 ára. Hann var jarðsettur í klausturkirkjunni í Sórey. Ólafur fæddist í Akershuskastala í Ósló og var síðasti konungur Noregs sem fæddist innan landamæra ríkisins, allt þar til Haraldur 5. fæddist 1937. Bergkvika. Bergkvika er seigfljótandi efni í iðrum reikistjarna, sem safnast fyrir í kvikuhólfum. Þar getur hún kristallast og myndað innskot eða borist til yfirborðs í eldgosi og storknað sem gosberg. Sálfræðileg ánægjuhámörkun. Sálfræðileg ánægjuhámörkun eða sálfræðileg nautnahyggja er sú kenning að það sem ræður hegðun fólks sé á endanum eftirsókn eftir ánægju. Hún leitast við að útskýra hvers vegna fólk fær sér að borða, fer ekki í peysuna öfugt, forðast að lenda í slysum og stundar kynlíf, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað um raunverulegar ástæður þess að það gerir þessa hluti. Siðfræðileg ánægjuhámörkun, oftast nefnd siðfræðileg nautnahyggja, er stundum rökstudd út frá henni. The Wall. "The Wall" er ellefta breiðskífa hljómsveitarinnar Pink Floyd og kom hún út árið 1979. Plötunni var mjög vel tekið af gagnrýnendum sem og almenningi og var hún sögð vera með bestu plötum sem hljómsveitin hefði gefið út. Sagan eða „konseptið“ á disknum snýst um ungan mann að nafni Pink, sem hefur verið traðkaður niður og níðst á af samfélaginu alveg síðan á fyrstu dögum ævi hans; hann missti föður sinn í seinni heimsstyrjöldinni (alveg eins og faðir Roger Waters), bældur niður í skólanum af ofbeldisfullum kennurum, og margt fleira, sem veldur því að Pink fer inn í sinn eigin hugarheim og missir að lokum vitið. Bruninn í Austurstræti (2007). Kort sem sýnir horn Lækjargötu og Austurstrætis Um kl. 14:00 18. apríl 2007 kom upp eldur í húsum við Austurstræti og Lækjargötu í Reykjavík. Tilkynning barst Neyðarlínunni um 14:50. Eldurinn breiddist um húsin á horninu við Lækjargötu; Lækjargötu 2 þar sem Kebabhúsið er m.a. til húsa, og Austurstræti 22 þar sem skemmtistaðurinn Pravda var til húsa og húsið þar á milli sem hýsti upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og þar áður söluturninn Fröken Reykjavík. Uppruni eldsins. Talið er að kviknað hafi í út frá loftljósi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna, þar sem áður var verslunin Fröken Reykjavík, og eldurinn breiðst þaðan yfir í húsin til beggja hliða. Starfsmaður upplýsingamiðstöðvarinnar sem kom að eldinum kveðst ekki hafa fundið handslökkvitæki í versluninni, og farið yfir í Hressingarskálann þar sem hún þekkti starfsmann til þess að fá slökkvitæki lánað. Skemmdir og umfang. Ljósmynd af húsunum sem brunnu (fremst á mynd). Lækjargata 2 brann að hluta en húsið að Austurstræti 22 brann til kaldra kola. Bæði þessi hús eiga stóran sess í sögu Reykjavíkur og Austurstræti 22 í Íslandssögunni en það var reist yfir stiftamtmann 1801-1802 og hýsti síðar landsyfirrétt. Var húsið miðpunktur atburðarrásarinnar sumarið 1809 þegar að Jörgen Hundadagakonungur tók þar völdin. Þegar bruninn varð var þar til húsa skemmtistaðurinn Pravda. Hornhúsið við Lækjargötu 2 sem skemmdist mikið var reist árið 1852. Þar voru meðal annars veitingastaðurinn Café Ópera, ölkráin Café Rósenberg og skyndibitastaðurinn Kebabhúsið þegar bruninn varð. Hressingarskálinn, sem liggur fyrir vestan Austurstræti 22, varð ekki fyrir skemmdum af eldi og opnaði að nýju eftir hreinsun næsta dag, en önnur hús á horninu urðu fyrir skaða. Iðuhúsið við Lækjargötu fylltist einnig af reyk en því var bjargað. Bókabúðin Eymundsson, neðar í götunni, var lokuð á sumardeginum fyrsta vegna hreinsunarframkvæmda. Reykurinn frá brunanum barst alla leið að Stúdentagörðum Háskóla Íslands í Skerjafirði og lögreglan bað íbúa í nágrenni við brunann um að loka gluggum og gera aðrar ráðstafanir eins og að kynda íbúðir sínar vel upp. Manntjón. Ekkert manntjón varð né heldur skaði af reykeitrun svo að vitað sé. Slökkvistarf. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna brunans, auk slökkviliðs frá Reykjanesbæ sem gerir um 110 manns. Stórvirk vinnuvél var síðan notuð til að rífa þakið af Pravda vegna hrunhættu. Erfitt var að koma vélinni að vegna þess að bíl var lagt fyrir framan húsið, en hann var síðan fjarlægður og þurfti lögregla að brjóta rúðu í honum til þess. Á vefsíðu Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins kemur fram að afkastageta þess „var þanin til hins ítrasta“. Rannsókn. Eftir rannsókn lögreglu á vettvangi fékk tryggingarfélag eigenda afhent yfirráð yfir brunarústunum. Daginn eftir (20. apríl) var því hins vegar breytt og lögregla hóf rannsókn að nýju. Í þeirri rannsókn var ekkert útilokað og heldur ekki hugsanleg íkveikja að sögn lögreglu. Haraldur 5. Noregskonungur. Haraldur 5. (f. 21. febrúar 1937) er konungur Noregs. Hann er sonur Ólafs 5. og Mörthu krónprinsessu. Haraldur var settur inn í konungsembættið 17. janúar 1991. Karl Bretaprins. Karl Bretaprins, prinsinn af Wales ("Charles Philip Arthur George") (f. 14. nóvember 1948), er elsta barn Elísabetar Bretadrottningar og er hann því ríkisarfi móður sinnar að Bretlandi. Fjölskylda. 29. júlí 1981 giftist Karl fyrri konunni sinni, Lafði Díönu Spencer að viðstöddum 3.500 gestum í St Pauls dómkirkjunni í Lundúnum. Brúðkaupið var sent út í sjónvarpi og er áætlað að um 750 milljón manns hafi horft á athöfnina. Hjónaband Karls og Díönu var ekki hamingjusamt þegar á leið og stóðu þau bæði í framhjáhöldum. Þau skildu árið 1996. Þekktasta frilla Karls var Camilla Parker-Bowles sem er núverandi eiginkona hans en þau giftu sig árið 2005. Animals. "Animals" er tíunda breiðskífa hljómsveitarinnar Pink Floyd. Hún var gefin út árið 1977. aðallagahöfundur plötunnar, Roger Waters, virðist hafa verið undir miklum áhrifum bókarinnar "Animal Farm" eftir George Orwell, þar sem Waters notar þrjú dýr sem myndlíkingar varðandi almenna hegðun mannskepnunar, hunda, svín og kindur. The Final Cut. "The Final Cut" er tólfta breiðskífa hljómsveitarinnar Pink Floyd og jafnframt sú síðasta sem var gerð með Roger Waters innanborðs. Hún var gefin út árið 1983. Það má í raun segja að "The Final Cut" sé nánast eins og sólóplata Roger Waters, þar eð hinir meðlimirnir eru aðeins hljóðfæraleikarar, en semja ekkert laganna. Platan er tileinkuð föður Waters, sem lést í seinni heimsstyrjöldinni og bera textarnir þess sterklega merki. "The Final Cut" er tekin upp með tækni sem nefnist "Holophonics", sem útleggja mætti á íslensku sem "alhljóðatækni" og sem argentínumaðurinn Hugo Zuccarelli hannaði. Fáar plötur hafa verið teknar upp með þessari aðferð. Meddle. "Meddle" er sjötta breiðskífa hljómsveitarinnar Pink Floyd og var gefin út árið 1971. Þögul kvikmynd. Þögul kvikmynd er kvikmynd án hljóðs. Í flestum tilvikum er átt við kvikmyndir sem gerðar voru fyrir þriðja áratug 20. aldar en á þeim tíma var ekki til tækni til þess að skeyta saman hljóð og mynd. Þá var oft brugðið á það ráð að leika á hljóðfæri í kvikmyndasal á meðan kvikmyndin var sýnd. Enn í dag eru þó gerðar þöglar myndir af ýmsum ástæðum. Meðal meistara þöglu kvikmyndanna má nefna: Buster Keaton, Charlie Chaplin og Harold Lloyd. Aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku. Baðströnd sem er aðeins fyrir hvíta með skilti á ensku, afrikaans og súlú. Aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku eða Apartheid var sú stefna suður-afrískra stjórnvalda að halda aðskildum svörtu fólki og hvítu. Það mætti halda því fram að aðskilnaðarstefnan hafi átt upptök sín í þeim friðarsamningaviðræðum sem gerðar voru eftir Búastríðið svokallaða. Það átti sér stað milli Breta sem vildu ná yfirráðum í Suður-Afríku og afkomenda hollenska landnema sem höfðu stigið á land syðst í Afríku í byrjun 19. aldar. Vestræn heimspeki. Vestræn heimspeki er heimspeki sú sem á rætur að rekja til Grikklands hins forna og er oft stillt upp andspænis austrænni heimspeki. Vestræn heimspeki á sér órofa sögu frá fornöld til samtímans. 1211-1220. 1211-1220 var 2. áratugur 13. aldar. Stærðfræðileg sönnun. Stærðfræðileg sönnun úr rúmfræði Evklíðs. Stærðfræðilega sönnun er sönnun, með ákveðinni frumsendu, sem sýnir að ákveðin fullyrðing sé ávallt sönn. Frá stofnun borgarinnar. "Frá stofnun borgarinnar" (á latínu "Ab Urbe condita") er mikilvægt rit um sögu Rómar eftir rómverska sagnaritarann Titus Livius. Livius segir sögu Rómar frá stofnun borgarinnar (753 f.Kr.) til samtíma síns í 142 bókum. Fyrstu bækurnar komu út á árunum 27 til 25 f.Kr. 35 bækur eru varðveittar auk útdrátta úr öðrum bókum. Fyrsta bók hefst á komu Eneasar til Ítalíu og segir frá Rómúlusi og Remusi og stofnun Rómar, rómverska konungdæminu, afnámi þess og kjöri Luciusar Juniusar Brutusar og Luciusar Tarquiniusar Collatinusar sem ræðismanna árið 509 f.Kr. Bækur II-X fjalla um sögu rómverska lýðveldisins fram að Samnítastríðunum. Bækur XXI-XLV fjalla um annað púnverska stríðið og enda á stríðinu gegn Perseifi frá Makedóníu. Efni annarra bóka er einungis þekkt úr útdráttum frá 4. öld, að undanskildum 136. og 137. bók. Útdrættirnir voru þó gerðir úr styttri útgáfu ritsins, sem nú er glatað. Papýrusbrot með samskonar útdráttum úr bókum 37-40 og 48-55 fundust nærri egypska bænum Oxyrhynchus. Þau eru nú í British Museum. Útdrættirnir frá Oxyrhynchus eru illa farnir. Bækur XLVI-LXX fjalla um tímann fram að Bandamannastríðinu árið 91 f.Kr. Valdatíð Súllu árið 81 f.Kr. er lýst í bók 89 og í bók 103 segir frá fyrsta ræðismannsári Júlíusar Caesars. Bók 142 lýkur eftir dauða Neros Claudiusar Drususar árið 9 f.Kr. Fyrstu tíu bækurnar ná yfir 500 ára langt tímabil en þegar kemur að 1. öld f.Kr. fjallar Livius um u.þ.b. eitt ár í hverri bók. Gallastríðið (Caesar). "Athugasemdir um Gallastríðið", "Um Gallastríðið" eða bara "Gallastríðið" (á latínu "Commentarii de Bello Gallico", "De Bello Gallico", stundum einnig nefnt "Bellum Gallicum") er rit eftir rómverska herforingjann og stjórnmálamanninn Júlíus Caesar. Það fjallar um níu ára langt stríð hans í Gallíu, frá 58 til 50 f.Kr. Ritið "Gallastríðið" skiptist í átta bækur, og fjallar hver bók um eitt ár, nema sú áttunda, sem fjallar um árin 51-50 f.Kr. Áttunda bókin er ekki eftir Caesar. Höfundur hennar mun vera Aulus Hirtius (90–43 f.Kr.), sem var einn af herforingjum Caesars og fylgismaður hans. Hirtius var af alþýðuættum, vel menntaður og rithöfundur góður, en nokkuð skortir þó á að 8. bókin sé með sama snilldarbrag og fyrstu sjö bækurnar, sem Caesar gekk frá. Í frásögn Caesars kemur fram að hann sendi til Rómar skýrslur um gang styrjaldarinnar í Gallíu, og eru þessar skýrslur eflaust stofninn að riti hans, sbr. nafnið "Commentarii de Bello Gallico". Ritið er lofað fyrir fágaðan en einfaldan og skýran stíl. Árið 1933 komu "Gallastríð" út í íslenskri þýðingu Páls Sveinssonar menntaskólakennara, með 45 bls. ritgerð um Júlíus Caesar og ítarlegum skýringum. Kenning um réttlæti. "Kenning um réttlæti" (e. "A Theory of Justice") er rit um stjórnmálaheimspeki og siðfræði eftir bandaríska heimspekinginn John Rawls. Það kom fyrst út árið 1971 en endurskoðuð útgáfá komu út árið 1999. Þegar ritið kom fyrst út olli það fjaðrafoki í heimspeki og blés nýju lífi í stjónspekina. Í "Kenningu um réttlæti" reynir Rawls að lesa vandann um réttláta dreifingu takmarkaðra gæða með kenningu sem byggði á vel þekktri hugmynd um samfélagssáttmálann. Kenning Rawls er þekkt sem kenningin um „réttlæti sem sanngirni“. Með kenningunni rennir Rawls stoðum undir tvær reglur um réttlæti sem nefndar hafa verið "frelsisreglan" og "fjalldalareglan". Heimspeki og spegill náttúrunnar. "Heimspeki og spegill náttúrunnar" (e. "Philosophy and the Mirror of Nature") er umdeilt rit um heimspeki eftir bandaríska heimspekinginn Richard Rorty. Það kom fyrst út árið 1979. Í ritinu reynir Rorty að „leysa upp“ heimspekileg vandamál (fremur en að leysa þau) með því að sýna að þau séu gervivandamál, sem eru einungis til í ákveðnum málaleikjum innan rökgreiningarheimspekinnar. Í anda gagnhyggjunnar segir Rorty að heimspekin verði að komast undan þessum gervivandamálum ætli hún sér að gera gagn. Megin kenning Rortys er sú að heimspekin hafi um of reitt sig á skynhyggju og samsvörunarkenningu um sannleikann í þeirri von að reynsal okkar eða tungumál geti speglað raunveruleikann. Að þessu leyti byggir Rorty á verkum annarra enskumælandi heimspekinga á borð við Willard Van Orman Quine, Wilfrid Sellars og Donald Davidson. Rorty velur að hafna greinarmuninum á hlutlægni og huglægni og kýs heldur að halda fram einfaldari kenningu um sannleikann, sem kveður á um að sannleikur sé einskonar heiðursnafnbót sem fólk sæmir fullyrðingar sem samræmast því sem það sjálft vill segja um viðfangsefnið. Samræður í Túsculum. "Samræður í Tusculum" (á latínu "Tusculanae Disputationes" eða "Tusculanae Quaestiones") er rit eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn Marcus Tullius Cicero. Það var samið árið 45 f.Kr. og var tilraun til þess að auka vinsældir grískrar heimspeki í Róm. Cato eldri um ellina. "Cato eldri um ellina" eða einfaldlega "Um ellina" (á latínu "Cato Maior de Senectute" eða bara "De Senectute") er rit eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn Marcus Tullius Cicero. Það var samið árið 44 f.Kr. Laelius um vináttuna. "Laelius um vináttuna" oft nefnd einfaldlega "Um vináttuna" (á latínu "Laelius de Amicitia" eða "De Amicitia") er rit eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn Marcus Tullius Cicero. Ritið er í formi samræðu milli Gaiusar Fanniusar, Muciusar Scaevola og Gaiusar Laeliusar. Dvergreikistjarna. Dvergreikistjarna er fylgihnöttur sólar, sem er stærri en smástirni, en minni en reikistjarna og er ekki halastjarna. Dvergreikistjörnur eru þrjár talsins (í vaxandi stærðaröð): Seres (sem áður taldist smástirni), Plútó (sem fyrr taldist reikistjarna) og Eris. A Momentary Lapse of Reason. A Momentary Lapse of Reason er þrettánda plata hljómsveitarinnar Pink Floyd og kom út árið 1987. Platan var jafnframt sú fyrsta sem gerð var án Roger Waters en hann hætti í hljómsveitinni árið 1985. Lars Ulrich. Lars Ulrich við trommuleik árið 2004. Lars Ulrich er trommuleikari þungarokkshljómsveitarinnar Metallica. Hann er fæddur og uppalinn í Danmörku og var á sínum yngri árum efnilegur tennisleikari. Hann skorti þó aga og ásetning til að ná langt í íþróttinni. Hann stofnaði Metallica ásamt James Hetfield. 2012. Árið 2012 (MMXII) er í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjar á sunnudegi. Þorsteinn Sæmundsson. Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur (fæddur 1935) var sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá stofnun hennar 1966, gegndi stöðu fræðimanns þar frá 1990 og stöðu vísindamanns frá 1999 til starfsloka 2005. Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954, B.Sc Honours í stjörnufræði frá háskólanum í St. Andrews á Skotlandi 1958 með stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði sem aukagreinar. Doktorspróf (Ph.D.) í stjörnufræði frá Lundúnarháskóla 1962. Félagi í breska stjörnuskoðunarfélaginu frá 1952 og félagi í konunglega breska stjörnufræðifélaginu frá 1962. Deildarstjóri háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskólans frá 1967 og annaðist útreikninga fyrir Almanak Háskóla Íslands (1963-) og Sjómannaalmanakið (1997-2006). Sá um uppbyggingu og rekstur segulmælingastöðvar Háskólans frá 1963 (fyrstu þrjú árin með Þorbirni Sigurgeirssyni, prófessor, sem kom stöðinni á fót 1957). Aðstoðaði við uppsetningu norðurljósamyndavélar á Rjúpnahæð 1957, sá um uppsetningu annarrar slíkrar myndavélar við Egilsstaði 1965 og annaðist rekstur þeirra um árabil. Í stjórn Hins íslenska Þjóðvinafélags og ritstjóri almanaks þess frá 1967 til 1978. Í stjórn sælgætisverksmiðjunnar Freyju frá 1965 til 1976. Einn af forgöngumönnum undirskriftasöfnunarinnar Varið land 1974. Vetrarundur í Múmíndal. Bókakápa íslensku þýðingu bókarinnar, en hún kom fyrst út í Svíþjóð árið 1957 Vetrarundur í Múmíndal (á sænsku: "Trollvinter") er bók eftir finnlandssænska rithöfundinn og teiknarann Tove Jansson, sem gefin var út árið 1957 af finnska bókaforlaginu "Schildts Förlags Ab" sem sérhæfir sig í útgáfu á sænsku í Finnlandi. Bókin er sjötta bókin í bókaröðinni um Múmínálfana en í bókaröðinni eru alls níu bækur. Fyrir myndskreytingarnar í bókinni hlaut Jansson Elsa Beskow-verðlaunin árið 1958. "Vetrarundur í Múmíndal" kom fyrst út í íslenskri þýðingu hjá bókaforlaginu Örn og Örlygur 1969 í þýðingu Steinunnar S. Briem og var endurútgefin af Máli og Menningu árið 2003. Hún var önnur bókin til að vera þýdd á íslensku í bókaflokknum, sú fyrsta var Pípuhattur galdrakarlsins sem út kom árið 1968. Um bókina. Í þessarri bók kveður við munn dimmari og dýpri tón en í fyrri bókum Tove um Múmínálfana, tón sem hún hélt það sem eftir var af ritröðinni. Múmínsnáðin finnur sig oft einmana, vansælan, reiðan eða hræddann, sem afleiðingu þess að vera þvingaður til að takast á við kringumstæður sem hann þekkir ekkert til og finnst hann ekki tilheyra. Þrátt fyrir að halda sjarma og gleði fyrri bókanna þá er meira kafað í djúp sálarlífs og persónu Múmínsnáða en áður. Söguþráður. Múmínálfar leggjast í vetrardvala frá nóvember fram í mars. En einn janúardag vaknar Múmínsnáðin skyndilega og nær ekki að sofna aftur. Honum tekst ekki að vekja aðra í fjölskylduni og aleinn uppgötvar hann kaldan, rólegan en oft á tíðum bæði dásamlegan og hræðilegan veturinn. Hann finnur sig fyrst aleinan en hittir þá fyrir bæði Tikka-tú og Míu litlu, en Mía skemmtir sér konunglega við að renna sér í snjónum á silfurbakka Múmínmömmu. Á veturnar býr Tikka-tú í baðhúsi Múmínfjölskildunnar með fjölmörgum ósýnilegum verum og veiðir sér fisk til matar undir ísnum. Og í baðhúsinu finnur Múmínsnáðinn einmitt forföður sinn, eins og hann sjálfur hefði litið út fyrir þúsund árum. Tikka-tú byggja stóran snjóhest handa hinni ógurlegu Ísdrottningu, sem getur fryst alla lifandi með augnaráðinu einu saman og lifa það ekki allir af. Ísdrottningin frysti Míu litlu en Tikka-tú og Múmínsnáðanum tókst að afþíða hana og fá þannig líf í hana aftur. Eftir því sem á veturinn líður boppa fleiri og fleiri persónur upp, Morrinn, skíða Hemúllinn, litli kaldi hundurinn Aumi og fleiri, allir í leit að yl og góðu sultunni hennar Múmínmömmu. The Division Bell. "The Division Bell" er fjórtánda og jafnframt seinasta breiðskífa hljómsveitarinnar Pink Floyd. Hún var gefin út árið 1994. Mörg laganna voru tekin upp í húsbáti David Gilmour, "The Astoria". Platan fékk almennt góða dóma og fannst gagnrýnendum þeim félögum í hljómsveitinni hafa tekist betur með þessa plötu heldur en "A Momentary Lapse of Reason". Grágrýti. Grágrýti (einnig nefnt grásteinn eða dólerít) er gangberg með sömu samsetningu og basalt. Mætti segja að það sé millistig á milli basalts og gabbrós að grófleika og gert úr sömu frumsteindum. Finnst einkum í þykkum göngum t.d. í Viðey, eða í smærri innskotum eins og í Þverfelli í Esju og Stardalshnjúk í Mosfellssveit Öll bestu vatnsvinnslusvæði á Íslandi eru í grágrýtis- og móbergsmyndununum þar sem berg er gropið. Vilhjálmur 2. Þýskalandskeisari. Vilhjálmur II ("Friedrich Wilhelm Albert Viktor") (f. 27. janúar 1859 - d. 4. júní 1941) var seinasti keisari Þýskalands og konungur Prússlands, frá árinu 1888 til 1918. Vilhjálmur var sonur Friðriks III Þýskalandskeisara og Viktoríu Adelaide keisaraynju, en hún var elsta barn Viktoríu Bretadrottningar og Alberts prins. Þess má geta að Vilhjálmur var fyrsta barnabarn Viktoríu ömmu sinnar. Fjölskylda. Árið 1918 sagði Vilhjálmur af sér keisaradæminu og fór í útlegð. Hann lést árið 1941. Austurstræti. Austurstræti er gata í miðbæ Reykjavíkur sem nær frá Veltusundi austur að Lækjargötu. Í framhaldi af henni er Bankastræti og ofar Laugavegur. Þann 18. apríl árið 2007 kom upp eldur í Austurstræti sem eyðilagði nokkur hús. Nöfn Austurstrætis. Austurstræti hét í fyrstu "Langafortov" eða "Langastétt". Gatan var svo nefnd vegna þess að steinaröð var lögð eftir henni að sunnanverðu til þess að ganga á þegar ekki varð komist yfir hana fyrir forarbleytu. Heiða í Ölpunum. Heiða í Ölpunum (j. アルプスの少女ハイジ Alps no Shoujo Heidi) er japönsk anime teiknimynd gerð árið 1974. Teiknimyndin er byggð á barnabókinni Heiða sem svissneski höfundurinn Johanna Spyri skrifaði árið 1880. Söguþráður. Þegar frænka munaðarleysingjans Heiðu fær starf í Frankfurt er Heiðu komið fyrir í fóstur hjá afa sínum. Afi hennar er gamall og bitur maður sem býr einn í bjálkakofa í svissnesku ölpunum. Með lífsgleði sinni og bjartsýni tekst Heiðu hins vegar að bræða hjarta hans. Let It Be (breiðskífa). "Let It Be" er þrettánda og síðasta breiðskífa Bítlanna og var hún gefin út í maí árið 1970 eftir að hljómsveitin hafði í raun lagt upp laupana. Þegar vinna við plötuna hófst, í janúar árið 1969, var það upphaflega ætlun Bítlanna að láta eina töku nægja fyrir hvert lag og sleppa öllum yfirtökum. Af þessum sökum var hljómborðsleikarinn Billy Preston fenginn til þess að taka þátt í gerð plötunnar. Æfingar áttu sér stað áður en eiginlegar upptökur hófust, og voru þær kvikmyndaðar. Upptökurnar sjálfar voru einnig kvikmyndaðar, þær tóku 10 daga og innihéldu meðal annars fræga tónleika á þaki Apple byggingarinnar, síðustu tónleika Bítlanna. Efnið sem var kvikmyndað var notað í heimildamynd um gerð plötunnar sem einnig hét "Let It Be". Upptökuferlið var erfitt og einkenndist af talsverðri spennu innan hljómsveitarinnar. Á einum tímapunkti gekk George Harrison út úr hljóðverinu og hugðist hætta í sveitinni en snéri aftur eftir nokkra daga. Upphaflega átti platan að koma út í júlí 1969 og átti þá að heita "Get Back". Þeirri útgáfu var fyrst frestað en svo var hætt við hana. Í janúar 1970 komu Paul McCartney, George Harrison og Ringo Starr saman og tóku upp lagið „I Me Mine“ eftir Harrison. Eftir það var aftur sett saman plata, sem líka átti að heita "Get Back", en aftur var hætt við útgáfuna. Í mars 1970 voru upptökurnar svo fengnar Bandaríska upptökustjóraum Phil Spector. Hann bætti yfirtökum við nokkur laganna, m.a. bætti hann sinfóníuútsetningum við lagið „The Long and Winding Road“ eftir Paul McCartney sem McCartney fannst vera eyðilegging á laginu. Einnig bætti hann laginu „Across the Universe“ eftir John Lennon við lagalistann, en það var ekki partur af sjálfum "Let It Be" upptökunum og hafði áður komið út á góðgerðaplötu, í annarri útgáfu. Þrjú lög á plötunni voru gefin út á smáskífu. Það voru lögin „Get Back“, „Let It Be“ og „The Long and Winding Road“ en það varð síðasta smáskífulag Bítlanna. Árið 2003 kom út platan "Let It Be... Naked". Markmiðið með þeirri útgáfu var að gefa lögin út í sem upprunalegastri útgáfu, þ.e. án yfirtakanna sem Phil Spector hafði bætt við upptökurnar. Á "Let It Be... Naked" var lögunum „Dig It“ og „Maggie May“ sleppt, en laginu „Don't Let Me Down“ eftir John Lennon var bætt við lagalistann. „Don't Let Me Down“ hafði verið partur af "Let it Be" upptökunum en aðeins gefið út sem B-hlið á „Get Back“ smáskífunni. Skátar (hljómsveit). Skátar er hljómsveit sem var stofnuð í kringum árið 2001. Hún er þekkt fyrir hressa framkomu í hvítum göllum sem stundum eru kallaðir sæðisfrumugallar en eru í raun taldir vera einhvers konar rykvarnarvinnugallar sem hefur nýlega verið breyttir svolítið. Lag hljómsveitarinnar sem heitir Halldór Ásgrímsson (hugsanlega eftir stjórnmálamanni úr framsóknarflokkinum) hlaut töluverða útvarpsspilun á Íslandi sumarið 2005. Hljómsveitin hefur verið iðin við tónleikahald, og meðal annars spilað á flestum þekktustu tónleikahátíðum Íslands eins og til dæmis Airwaves og Innipúkanum, en ekki upp á síðkastið vegna þess að meðlimir hennar búa núna í mörgum mismunandi löndum. Meðlimir. Kolli (Kobeinn Hugi Höskulddson) og Gylfi (Blöndal) hafa stundum spilað á gítar á tónleikum í staðinn fyrir Óla sem býr í San Francisco. Fyrst var annar söngvari í hljómsveitinni. Markús hefur einnig verið í hljómsveitunum Glasamar Further than far far og Sofandi. Óli Steins var í Graveslime ásamt Kolla, sem nú er í Retron, og Gylfi er í Kimono Útgefin verk. Einnig hafa komið út nokkur „demó“ í takmörkuðu magni og takmörkuðu aðgengi. Stólpípa. Stólpípa er áhald til að láta vökva renna inn í endaþarm og neðri hluta ristils um bakrauf. Það er einnig haft um læknismeðferðina sjálfa og þá talað um að "setja einhverjum stólpípu". Sá verknaður er einnig nefndur "innhelling". Mönnum er yfirleitt sett stólpípa gegn hægðatregðu, en einnig til að koma vökva, sem inniheldur lyf, næringu eða rannsóknarefni í endaþarm. Einnig láta sumir setja sér stólpípu við ristilhreinsun, en sú aðferð er umdeild. Einnig er talað um að "setja einhverjum dás" í sömu merkingu og einnig er sagt við vissar aðstæður að "setja einhverjum sáputappa". Sáputappinn er þó líklega sú aðferð að losa um hægðartregðu með því að stinga agnarögn úr sápustykki upp í endaþarm til að losa um, og engin stólpípa notuð til verksins. Er það gömul aðferð, og ekki mikið notuð nútildags. Fyrsti vetrardagur. Fyrsti vetrardagur er laugardagurinn að lokinni 26. viku sumars (eða 27. viku sumars sé um sumarauka að ræða) er fyrsti dagur fyrsta vetrarmánaðarins Gormánaðar, í gamla norræna tímatalinu. Fyrsta vetrardag ber upp á 21.-27. október, nema í rímspillisárum, þá 28. október. Í gamla stíl var vetrarkoman 10.-17. október ef miðað er við föstudag. Sjá einnig sumardagurinn fyrsti. Hvalveiðiskip. a>i á 19. öld. Hvalur skutlaður á léttabátum og reykur stígur upp af lýsisbræðslunni um borð í skipinu. Hvalveiðiskip er skip sem er útbúið til hvalveiða. Fram á 18. öld voru hvalir skutlaðir af léttabátum og síðan dregnir að skipshlið. Til að vinna hvalinn þurfti að draga hann í land þar sem spikið var brætt í sérstökum ofnum. Dæmi um slíkan ofn frá 17. öld hefur verið grafið upp á Strákatanga í Steingrímsfirði. Á 19. öld voru hvalveiðiskip yfirleitt þrímastra barkskip með sérstakan útúnað til að bræða hvalspikið um borð. Frá fyrri hluta 20. aldar hafa hvalveiðiskip verið fremur lítil skip (um 200 tonn) með skutulbyssu fremst á bakkanum og mastur með útsýnispalli. Þau draga hvalina við skipshlið að hvalstöð á landi eða stærra verksmiðjuskipi. Víðavangshlaup ÍR. Víðavangshlaup ÍR er víðavangshlaup sem hlaupið er árlega á sumardaginn fyrsta. Hlaupið er skipulagt af Íþróttafélagi Reykjavíkur og hefst og lýkur í miðbænum. Hlaupið var fyrst skipulagt árið 1916 og er því elsta víðavangshlaup á Íslandi. Fyrsta árið var það 2,5 km á lengd en árið eftir var það lengt í 4 km. Upphaflega var hlaupið yfir móa, girðingar, skurði og fleiri hindranir, en nú er það orðið götuhlaup. Akihito. Akihito (23. desember 1933) er keisari Japans og hefur verið síðan faðir hans, Hirohito, lést árið 1989. Það er siður í Japan að eftir andlát keisara fái hann nýtt nafn og eftir andlát Akihitos verði hann kallaður "Heisei keisari", en nöfnin koma yfirleitt frá stjórnartíð hvers keisara, en stjórnartíð Akihitos er einmitt kölluð "Heisei". Fjölskylda. Einnig samkvæmt japönskum lögum geta karlmenn bara tekið við keisaraembættinu, og því var beðið með mikilli væntingu eftir fæðingu prins sem gerðist svo þegar Hisahito prins fæddist árið 2006. Því er drengurinn þriðji í erfðaröðinni, á eftir föður sínum og frænda. Saga tölvuleikjavéla (sjötta kynslóð). Sjötta kynslóð tölvuleikjavéla (stundum sagt 128-bita tímabil) eru tölvuleikir, leikjatölvur og handleikjatölvur á 21. öld. Það er meðal annars Sega Dreamcast, Sony PlayStation 2, Nintendo GameCube og Microsoft Xbox. Þetta tímabil byrjaði 27. nóvember 1998 þegar Dreamcast kom út og í mars 2000 bættist PlayStation 2 við. Hætt var við Dreamcast í mars 2001 og sama ár komu Nintendo GameCube í september og Xbox í nóvember. Casimir Funk. Kazimierz Funk (23. febrúar, 1884 - 19. nóvember, 1967), þekktur undir nafninu Casimir Funk, var pólskur lífefnafræðingur og er sagður eiga heiðurinn af fyrstu formúlunni fyrir vítamín árið 1912. Funk, Casimir Hákon krónprins. Hákon krónprins að halda ræðu. Hákon krónprins ("Haakon Magnus") (f. 20. júlí 1973) er krónprins Noregs. Hann er sonur Haraldar Noregskonungs og Sonju drottningar. Fjölskylda. Þann 25. ágúst 2001 giftist Hákon Mette-Marit Tjessem Høiby, og við giftinguna varð hún krónprinsessa Noregs. Mette-Marit var einstæð móðir þegar þau kynntust, og varð það til þess að margir Norðmenn voru ekki alls kostar sáttir við konuefni prinsins. Nú er þó öldin önnur og flestir hafa tekið hana í sátt. Hákon á tvö börn með Mette-Marit, Ingiríði Alexöndru (f. 21. janúar 2004) og Sverri Magnús (f. 3. desember 2005). Efnahvarf. Efnahvarf er breyting sem verður á rafeindabúskap efnis eða efna þannig að nýtt eða ný efni myndast vegna endurröðunar rafeindanna. Engin breyting verður á kjarna við efnahvarf (breytingar á kjarna kallast kjarnahvarf). Efnin sem breytast eru kölluð hvarfefni en efnin sem myndast eru kölluð myndefni. Bæði hvarfefnin og myndefnin geta samanstaðið af frumefnum og sameindum. Efnahvörfum er lýst með efnajöfnum, t.d. Efnahvörf, sem þurfa hita til að ganga, t.d. bráðnun íss, kallast "innvermin", en "útvermin" ef þau mynda hita, t.d. bruni. Oddi (Rangárvöllum). Oddi er bær og kirkjustaður á Rangárvöllum í Rangárvallasýslu. Bærinn stendur á oddanum sem myndast á milli Ytri- og Eystri-Rangánna og Þverár, þar sem hún rennur saman við Ytri-Rangá og ber því nafn með rentu. Þar hefur verið kirkja síðan í öndverðri kristni. Þar bjó Sæmundur fróði Sigfússon og afkomendur hans eftir hann í tvær aldir og nefndust þeir Oddaverjar. Í Odda hafa verið margir frægir prestar, þeirra frægastur er Sæmundur fróði Sigfússon. Aðrir þekktir prestar voru til dæmis Matthías Jochumsson um tíma á 19. öld og Arngrímur Jónsson um tíma á 20. öld. Obscured by Clouds. "Obscured by Clouds" er sjöunda plata Pink Floyd byggt á tónlistinni sem þeir sömdu fyrir myndina "La Vallée". Platan var gefin út í Bretlandi 3. júní, 1972 af Harvest/EMI og svo í Bandaríkjunum 15. júní af Harvest/Capitol. Platan komst í 6. sæti á breska vinsældarlistanum og í 46. sæti á þeim bandaríska. Árið 1986, var tónlistin gefin út á geisladisk í fyrsta skipti. Svo aftur 1996 í stafrænni endurupptöku. „Free Four“ var fyrsta Pink Floyd lagið til að fá góða spilun í Bandaríkjunum, og fyrsta til að hafa eitthvað að gera með Eric Fletcher Waters, pabba Roger Waters. Titillagið, eitt af „ósungnu“ lögunum á plötunni, var spilað á flestum tónleikum Pink Floyd á þessum tíma, oftast opnunar lagið. Lagið „Childhood's End“ er byggt á sögu Arthur C. Clarke með sama nafni. Ródos. Ródos (einnig Roðey eða Róða) er grísk eyja, sem er hluti af Tylftareyjum við Litlu-Asíu. Eyjan fékk nafn sitt af gyðjunni Róðu. Talið er að Risinn á Ródos, eitt af sjö undrum veraldar, hafi staðið í hafnarmynni eyjarinnar. Tylftareyjar. Tylftareyjar ("Dodekanesos") eru grískar eyjar og sýsla í suð-austanverðu Eyjahafi, undan vesturströnd Tyrklands. Þær eru hluti af Syðri-Sporadeseyjum. Tylftareyjar eru alls 14 allstórar eyjar, þ.á m. Ródos, Kos, Samos og Patmos. Þær voru undir stjórn Tyrkja til 1912 og Ítala til 1947 er Grikkir fengu yfirráð yfir eyjunum. Sporadeseyjar. Sporadeseyjar er grískur eyjaklasi í Eyjahafi. Eyjaklasinn skiptist þó í tvennt: í "Nyrðri-Sporadeseyjar" sunnan Evbeu, þar sem m.a. eru Skiaþos, Skopelos, Skyros og Alonnisos og "Syðri-Sporadeseyjar" undan strönd Tyrklands. Til þeirra teljast m.a. Tylftareyjar, Samos og Ikaría. Ævintýri á Norðurslóðum. "Ævintýri á norðurslóðum" er samansafn þriggja stuttra barnamynda í samstarfi Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga þar sem hvert land leggur fram handrit, leikstjóra og leikara. Myndin var frumsýnd í Háskólabíó árið 1992. Félag maraþonhlaupara. Félag maraþonhlaupara var stofnað 1997 og eru félagar allir þeir Íslendingar sem lokið hafa maraþonhlaupi. Félagið heldur utan um maraþonskrá þar sem fram koma upplýsingar um alla íslenska maraþonhlaupara, hve mörg hlaup þeir hafa hlaupið og besta tíma þeirra. Samkvæmt maraþonskrá félagsins hafa 855 Íslendingar hlaupið maraþon (21. apríl 2007). Frjálsar íþróttir. 200 metra hlaup á frjálsíþróttamóti í Helsinki árið 2005. Frjálsar íþróttir er safnheiti yfir margar greinar íþrótta sem byggjast á hlaupum, stökkum og köstum. Á Íslandi er Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) það sérsamband innan ÍSÍ sem sinnir frjálsum íþróttum. Á vefsíðu FRÍ má finna upplýsingar um gild Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Þar eru einnig ýmsar aðrar upplýsingar um frjálsar íþróttir og afrekaskrá fyrir síðustu ár. David Desrosiers. David Phillipe Desrosiers (fæddur 29. ágúst 1980 í Quebec í Kanada) er bassaleikari og söngvari í hljómsveitini Simple Plan. David byrjaði að spila í hljómsveitinni "Reset" sem Pierre Bouvier og Chuck Comeau stofnuðu. Pierre hætti í hljómsveitinni og David kom í stað hans – hann var aðalsöngvari og bassaleikari. David gaf aldrei út hljómplötu með þeirri hljómsveit en eftir slit hljómsveitarinnar buðu Pierre og Chuck honum í nýju hljómsveitina sína, Simple Plan. Árósar. Árósar (danska: Aarhus eða Århus) er önnur stærsta borg Danmerkur með 242.914 íbúa (2010) og enn fleiri í þéttum byggðum í nágrenninu. Árósar er með eina stærstu gámahöfn í skandinavíu og er höfnin einnig ásamt 100 stærstu gámahöfnum í heiminum. Árósar eru á Jótlandi og því hluti af meginlandi Evrópu ólíkt Kaupmannahöfn. Í Árósum er tiltölulega hátt hlutfall innflytjenda, eða um 12%. Í borginni er Háskólinn í Árósum þar sem tæplega 12.000 nemendur voru við nám árið 2005. Í dag hins vegar hefur skólinn stækkað til mikilla muna vegna sameiningar við aðrar skólastofnanir og telja nemendur skólans í heildina vera ca. 34.000. Víkingabærinn. Elsti fornleifafundur sem fundist hefur í Árósum er frá enda sjöundu aldar. Elsti húsafundur er af hálfniðurgröfnum húsum sem að voru bæði notuð sem heimili og verkstæði. Í húsunum og jarðlögunum sem umlykja húsin hefur meðal annars fundist greiða, skartgripir og samskonar hlutir sem gefa til kynna að búseta á svæðinu hafi verið nálægt níundu öld. Minni bæjarsamfélög eins og Holmstrup (Árósar), sem er nálægt Árósum er dagsett nálægt 800 í heimildum frá 1294. Um árið 1040 voru slegnar myntir í Árósum, fyrst af Hörða-Knúti og seinna af Magnúsi góða. Virkisgarður. Á víkingatímabilinu var Árósar umlykin af varnargarði í formi hálfhrings. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær myndun varnargarðsins átti sér stað en þó er talið að það sé nokkrum árum eftir fyrstu búsetu á svæðinu, fyrri hluta níundu aldar. Greftrun vorið 2005 sýnir að varnargarðurinn er byggður mjög hratt upp í kringum 934, sem gæti verið í samhengi með árás Hinriks Fuglafangara á Jótland. Seinni hluta níundu aldar var varnargarðurinn styrktur og árið 1200 var hann stækkaður gríðarlega. Eftir seinustu stækkun var varnargarðurinn 20 metra breiður og sex til átta metra hár. Seung-Hui Cho. Seung-Hui Cho (f. 18. janúar, 1984, d. 16. apríl, 2007), einnig þekktur sem Cho Seung-hui og Seung Cho, var fjöldamorðingi sem skaut 32 manns til bana þann 16. apríl árið 2007. Í átökunum meiddust einnig 29 aðrir. Eftir blóðbaðið framdi Seung-Hui Cho sjálfsmorð. Fjöldamorðið, oft kallað Virginia Tech fjöldamorðið, átti sér staði í Virginia Tech háskólanum í Virguníufylki í Bandaríkjunum. Saga. Seung-Hui Cho fæddist í Suður-Kóreu í Dobong hverfi í Seoul. Þar bjó fjölskylda hans við fátækt svo þau ákvaðu að flytja til Bandaríkjanna í leit að betra lífi. Í september 1992 fluttist Seung-Hui Cho og fjölskylda hans til Bandaríkjanna, þá var hann átta ára gamall. Undirbúningur. Talið er að Seung-Hui Cho hafi notað 9 mm Glock 19 og.22 caliber Walther P22 skammbyssur í fjöldamorðinu. Cho keypti fyrst.22 caliber Walther P22 skammbyssuna þann 22. febrúar árið 2007 á netinu hjá. 13. mars árið 2007 keypti Cho sér svo hina skammbyssuna, 9 mm Glock 19. Ástæða. Lögreglan fann í herbergi hans blaðaknippi þar sem hann gagnrýnir „ríka krakka“, „siðspillingu“ og „svikahrappa“. Í annarri setningu í knippinu má finna textann „þú gerðir mér þetta“. Allt bendir til að tilgangur morðanna hafi verið hefnd gagnvart fórnarlömbunum sem höfðu áður strítt honum og lagt í einelti. Miðlunarpakki sendur til NBC. Seung-Hui Cho sendi NBC í New York myndbönd, ljósmyndir og texta sem útskýrði af hverju hann framkvæmdi fjöldamorðið. NBC gaf aðeins út sáralítinn hluta af því sem það fékk frá Cho. Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, er íþróttafélag í Vesturbænum í Reykjavík. Félagið var stofnað 16. febrúar árið 1899 og er elsta félag sinnar tegundar á Íslandi. Það var stofnað fyrst sem knattspyrnufélag, en núna eru starfræktar margar deildir innan félagsins. KR hefur unnið úrvalsdeildi karla í knattspyrnu 26 sinnum, oftast allra félaga og er KR eitt sigursælasta lið landsins í þremur vinsælustu íþróttagreinum landsins, handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu þar sem það hefur unnið 102 Íslands- og bikarmeistaratitla í karla- og kvennaflokki. KR á fjölda stuðningsmanna og samkvæmt mörgum könnunum á ekkert annað lið fleiri stuðningsmenn á landinu en KR. Fyrstu árin (1899 - 1923). Þrátt fyrir þessar slæmu aðstæður tóku nokkrir piltar sig saman og stofnuðu, hinn 16. febrúar 1899, Fótboltafélag Reykjavíkur í verslun Guðmundar Olsens í Aðalstræti. Þetta staðfestir Morgunblaðið, því að hinn 16. febrúar, 1924 skrifar Kristján L. Gestsson grein þess efnis að Knattspyrnufélag Reykjavíkur ætti 25 ára afmæli, um mánuði fyrr en áður hafði verið talið. Félagið var stofnað með það að leiðarljósi að búa til aðstöðu fyrir unga drengi til að iðka knattspyrnu. Stofnendur og félagsmenn Fótboltafélags Reykjavíkur voru fyrstu árin eftirtaldir,: Pétur Á. Jónsson, Þorsteinn Jónsson, bróðir hans, Jón Antonsson, Þorkell Guðmundsson, Kjartan Konráðsson, Geir Konráðsson, Björn Pálsson Kalman, Davíð Ólafsson, Bjarni Ívarsson, Guðmundur Guðmundsson, Guðmundur Þorláksson, Guðmundur Þórðarson, Jón Björnsson, Bjarni Pétursson, Kristinn Pétursson,bróðir hans, Sigurður Guðjónsson, Guðmundur Stefánsson, glímukappi og Kristinn Jóhannesson. Síðar bættust við smám saman þeir Jón Halldórsson, Pétur Halldórsson,bróðir hans, Richard Thors, Skúli Jónsson, Símon Þórðarson, Jón Þorsteinsson, Árni Einarsson, Lúðvíg Einarsson,bróðir hans og Ben. G. Waage. Starfsemi félagsins var ekki sérlega öflug fyrstu árin. Skipulögð stjórn félagsins var á undanhaldi og var enginn formlegur formaður félagsins fyrr en 1910. Einn maður bar þó höfuð og herðar yfir aðra menn í starfi KR fyrstu árin, hann Þorsteinn Jónsson. Þorsteinn sá um að boða til æfinga og panta bolta, en það gerði hann frá fyrirtæki í Liverpool en treyjur fyrir leikmenn voru ekki keyptar sökum þess hve dýr slíkur fatnaður var. Félagsgjöld voru borguð, en þau voru notuð til þess að kaupa knetti, en tveir slíkir voru yfirleitt keyptir á ári. Vakningarfundur var haldinn árið 1910 og var fyrsta formlega stjórn KR kosin. Þorsteinn Jónsson var kjörinn formaður, Árni Einarsson gjaldkeri, Guðmundur Þórðarson ritari og Jón Halldórsson varaformaður og umsjónamaður áhalda. Fleiri félög stofnuð. KR var fyrsta knattspyrnufélagið sem stofnað var á Íslandi, og var eina knattspyrnufélagið í fjögur ár. Fram að stofnun annarra félaga hafði KR ekkert lið til að keppa við, annað en sjálft sig. Það komu þó í tíma og ótíma skip, utan úr heimi með sjómönnum sem að kunnu eitthvað fyrir sér í knattspyrnu og gátu keppt við knattspyrnulið drengjanna. Yfirleitt báru Reykjavíkurmenn sigur úr býtum og þóttu leikir þeirra og sjómannanna hin mesta skemmtun, einkum er danskir sjómenn voru sigraðir. Þessi háttur var hafður á í níu ár, til ársins 1908 en þá voru knattspyrnufélögin Víkingur og Fram stofnuð, og Knattspyrnufélagið Valur þremur árum síðar, árið 1911. Með þessu eignaðist KR verðuga andstæðinga í Reykjavík, sem þeir hafa átt allar götur síðan. Fyrsta knattspyrnumótið. Sigurlið FR (í hvítum skyrtum) og lið Fram (dökkum treyjum) eftir fyrsta Íslandsmeistaramótið. Nú stóð ekkert í vegi fyrir knattspyrnuiðkendum og gátu liðin hafið keppni sína á milli, því að nýr og flottur völlur stóð þeim til boða, og árið eftir var fyrsta knattspyrnumót Íslands haldið. Þrjú lið tóku þátt í mótinu, Fótboltafélag Reykjavíkur, Knattspyrnufélagið Fram og Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (síðar ÍBV). Mótinu lauk með sigri Fótboltafélags Reykjavíkur og hlaut það nafnbótina „Besta knattspyrnufélag Íslands“. Knattspyrnumót þetta hefur síðan verið haldið árlega. Nýtt nafn og búningur. Erlendur Ó. Pétursson bar nýja og ferska strauma inn í félagið. Hann lagði það fram á aðalfundi félagsins árið 1915 að nafni félagsins yrði breytt úr "Fótboltafélag Reykjavíkur" í "Knattspyrnufélag Reykjavíkur". Hann notaði það máli sínu til stuðnings að honum þótti orðið fótbolti vera bjöguð danska og fannst knattspyrna vera góð íslenska. Tveimur vikum eftir að tillagan var lögð fyrir var hún samþykkt með 17 atkvæðum gegn 10. Birtist stutt grein um þetta í Morgunblaðinu 25. apríl árið 1915. Aðrar greinar í KR. KR tók fljótlega að sér að bjóða uppá æfingar í öðrum íþróttum en knattspyrnu. Upphaf fimleikaæfinga má rekja til fimleikæfingar í leikfimissal Barnaskóla Reykjavíkur 8. nóvember 1923. Á annað hundrað manns mættu á þessar fyrstu æfingar og var ljóst að íþróttin átti eftir að verða gífurlega vinsæl. Glímuæfingar hjá KR hófust af fullum krafti á árunum 1924-25, þó að KR-ingar hafi stundað glímu frá 1920, en Glímudeild KR starfar enn. Hnefaleikar voru líka stundaðir í KR og er talið að hnefaleikar hafi fyrst verið stundaðir meðal KR-inga í kringum 1920, þó að íþróttin næði ekki vinsældum fyrr en mörgum árum seinna. Stækkandi félag (1923 - 1958). Skipulega var unnið að uppbyggingu félagsins á sviði margra íþrótta, þar á meðal knattspyrnu, fimleikum, sundi og tennis. Keypt var félagsheimili fyrir KR-inga árið 1929 sem hét Báran og var byggt 1910, sem stóð þar sem Ráðhús Reykjavíkur stendur nú. KR-ingar unnu marga titla í knattspyrnu og fimleikum og frjálsum íþróttum. KR- blaðið kom fyrst út árið 1932 og átti blaðið að koma sjónarmiðum KR-inga á framfæri. Félagssvæði keypt. KR í leik gegn Fram á einu af fyrstu Íslandsmótunum í knattspyrnu Félagssvæði KR í rúman áratug, frá 1929, var Báran, hús staðsett við Tjörnina þar sem Ráðhús Reykjavíkur stendur nú, sem þótti ekki stórt, og þáverandi formaður KR, Kristján L. Gestsson, hafði bent á það að KR þyrfti grasvöll, þjálfara og nýja félagsaðstöðu. Í seinni heimsstyrjöldinni tóku Bretar KR-húsið herskildi og þegar KR-ingar fengu það aftur kom í ljós að Bretar höfðu farið illa með það og ekki kom annað til greina en að rífa það niður. KR-ingar stóðu þó ekki með tómar hendur því að 1932 hafði verið stofnaður sjóður með það að markmiði að kaupa nýtt félagssvæði og grasvöll fyrir KR. Í mars árið 1939 var ráðist í kaup á svæði í Kaplaskjóli og færðu knattspyrnumenn félaginu það að gjöf á 40 ára afmæli félagsins. Aðstaða var þó ekki fullkomin strax á þessu svæði og þurftu íþróttamenn að æfa í fimleikasölum bæjarins en starf KR hélst þó alltaf jafn fjölbreytt þrátt fyrir þessa húsnæðis erfiðleika. Fyrstu æfingar fóru fram á KR-svæðinu árið 1943, þó svæðið væri ekki nálægt því að vera tilbúið þá. Byrjað var á framkvæmdum við KR-svæðið af fullri alvöru árið 1948 þegar undirbúinn var völlur með hlaupabraut og lögðu knattspyrnumenn og frjálsíþróttamenn á sig mikla sjálfboðavinnu til að klára framkvæmdir fljótt. Hafið var að byggja KR-heimilið, ásamt íþróttahúsi árið 1950 og var byggingu á því lokið 1951 og 18. júlí sama ár var grasvöllur KR í Kaplaskjóli vígður. Lokað á hnefaleikana. Hnefaleikar höfðu verið nokkuð vinsælir innan raða KR-inga fyrr á öldum og var fjöldinn allur af drengjum sem að stunduðu þá með KR. Þann 19. desember 1956 samþykkti Alþingi bann á alla iðkun hnefaleika hér á landi. Miklar deilur risu um þetta mál og töldu sumir Alþingi fara yfir verksvið sitt. Hnefaleikadeildir voru stundaðir í flestum íþróttafélögum á þessum tíma og er bannið tók gildi gengu margir ÍR-ingar í KR, þegar hnefaleikadeild ÍR var lögð niður. Óhentug æfingaraðstaða olli því líka að vinsældir íþróttarinnar tóku að halla og dró mjög úr starfsemi hnefaleikadeildar KR 1954. Starfsemi hnefaleikadeildar KR fjaraði hægt út rétt áður en hnefaleikarnir fengu rothögg frá Alþingi, 1956. Gullöldin (1959-1970). KR gekk afar vel á flestum sviðum íþrótta á árunum 1959-1970. Knattspyrnulið KR sigarði deildina 5 sinnum, eftir að almennilegu skipulagi hafði verið komið á í deildinni og bikarkeppnina sigruðu þeir sjö sinnum. KR-ingar stóðu sig vel í frjálsíþróttamótum innanlands og fékk frjálsíþróttadeild KR titilinn „Besta frjálsíþróttafélag Reykjavíkur“ árið 1959. KR sendi lið til keppni á Íslandsmót í flest öllum flokkum í körfuknattleik og settar voru upp löglegar körfur og aðrar nauðsynlegar aðstæður fyrir körfuknattleiksfólk og sigraði karlalið KR í annað skiptið sem Íslandsmót í körfuknattleik var haldið. Badmintondeild KR var stofnuð 23. september 1963, glímumenn KR voru sigursælir og lyftingadeild KR var stofnuð. Misjafnt gengi (1971 - 1989). Það fór að halla undan fæti í knattspyrnudeild KR á árunum 1971-77 en á sama tíma tókst körfuknattleiksfólki í KR vel til undir handleiðslu Einars Bollasonar og handknattleiksmönnum í KR gekk einnig allt í haginn með Alfreð Gíslason í fremstu víglínu meistaraflokks karla í handknattleik. Jón Páll Sigmarsson, íþróttamaður KR fer á kostum í kraftlyftingum og sigrar keppnina um sterkasta mann heims árin 1984, 1986, 1988 og 1990. Nýtt félagsheimili KR var tekið í notkun 1985, tveggja hæða hús, 2579 fermetrar alls. Kynslóðaskipti í knattspyrnunni. Það er ekki hægt að komast hjá því að kynslóðaskipti verða í knattspyrnunni, og þau urðu þegar að Ellert B. Schram og Bjarni Felixson lögðu skóna á hilluna. Leikirnir um vorið 1971 voru sveiflukenndir en ekkert gekk þó sérlega óvenjulega fyrir sig. Annað átti eftir að koma í ljós, og sat KR fljótt á botninum, með 2 stig. Nýkjörinn þingmaður Ellert B. Schram var fenginn til að spila með KR, eftir að hafa lagt skóna á hilluna, til þess að bjarga KR frá falli. Ellert lék með KR sex leiki og hlutu KR-ingar 8 af 12 stigum í þeim. Þetta ótrúlega einstaklingsframtak Ellerts er eitt það fræknasta í Íslenskri knattspyrnusögu, hann var valinn knattspyrnumaður ársins af Tímanum, með sex spilaða leiki það ár. Ekki gat Ellert þó komið KR-ingum endalaust til bjargar og átti liðið í miklu basli við að halda sér uppi næstu árin. Liðið féll árlega úr bikarkeppninni í fyrstu eða annarri umferð og nýja kynslóðin var lengi að taka við. Það kom að því að liðið féll, en það er í fyrsta og eina skiptið sem það hefur gerst og var það árið 1977. KR-ingar telja fallið stórslys sem hefði aldrei átt að gerast. Ef tímabilin fyrir fallið eru skoðuð sést það að liðið hafði verið að leika sér að eldinum og virtist það vera tímaspursmál hvenær liðið félli. Körfuboltinn. Búningur KR notaður frá 2007 til 2009 Körfuknattleiksdeild KR gekk mjög vel á árunum 1971-89 og sigraði liðið deildina oft, í meistaraflokki karla og kvenna. Erlendir leikmenn færðust í aukana og var það einungis til að styrkja deildina. Einar Bollason kvaddi körfuknattleikinn sem leikmaður með pompi og prakt eftir sigur á Íslandsmeistaramótinu árið 1979. Endurreisn í knattspyrnunni. Knattspyrnudeild KR var staðráðin í að endurheimta stað sinn á meðal efstu liða í íslensku deildinni í knattspyrnu. Ráðinn var Hólmbert Friðjónsson sem þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu. Undir hans stjórn lentu KR-ingar í 3. sæti á Íslandsmótinu 1982 og fengu ári síðar Evrópusæti, í fyrsta skipti í 15 ár. Góður árangur skildi eftir sig vonir um bikar en KR-ingar þurftu að bíða aðeins lengur eftir honum. Silfuröld knattspyrnuliðsins. Búningur KR notaður frá 2007 til 2009 séður aftan frá Knattspyrnulið KR hafði verið í tveggja áratuga lægð og ætluðu leikmennirnir að sanna það að liðið ætti heima meðal efstu félaga hér á landi. Liði KR mistókst þrívegis að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á þessu átta ára tímabili. Árið 1990 töpuðu þeir titilbaráttunni á síðasta degi mótsins á markamuninum einum. Þeir unnu þó bikarkeppnina árið 1994, fyrsti bikar knattspyrnudeildar KR í 26 ár. Ógæfan í deildinni hélt áfram og árið 1996 lutu þeir í lægri hlut fyrir Skagamönnum í síðustu umferð en jafntefli hefði tryggt KR Íslandsmeistaratitilinn. Árið 1998 töpuðu þeir á heimavelli fyrir ÍBV í lokaumferð Íslandsmótsins. Sérfræðingar voru farnir að efast um að eitthvað KR lið kæmi í bráð sem að myndi þola þessa pressu. Ekki þurftu þeir þó að bíða lengi. Karfan aftur á toppinn. Árangur meistaraflokks karla í körfuknattleik hafði ekki verið uppá marga fiska síðustu árin og hafði liðið jafnvel verið í botnbaráttu. Liðið hafði ekki unnið deildina frá því árið 1979, þegar Einar Bollason spilaði með liðinu. KR lék vel í deildinni og sigraði 23 af 26 leikjum sínum tímabilið 1990. KR-ingar mættu Keflvíkingum í úrslitaleik deildarinnar og var búist við harðri keppni. KR-ingar sigruðu Keflvíkinga 3-0 og höfðu þá endurheimt sæti sitt meðal þeirra bestu í körfuknattleik á Íslandi. Það þurfti þó að bíða næstum því jafn lengi eftir næsta bikar. Handboltinn í góðum málum. KR-ingar náðu ekki Íslandsmeistaratitli í handknattleik 1990, þeir lentu í 4. sæti í deildinni en urðu þó Reykjavíkurmeistarar. Það sem að var þó eftirtektarverðast var árangur félagsins í unglingastarfi handboltans. Árið 1990 hlaut KR unglingabikar HSÍ, en um hann segir í reglugerð HSÍ: „Unglingabikar HSÍ skal veittur einu sinni á ári, því félagi sem stendur besta að unglingamálum í handknattleik á ári hverju.“. Það sem að var haft til hliðsjónar við veitingu verðlaunanna voru m.a. keppnisbúningar, framkoma leikmanna, félagsleg starfsemi, keppnis- og æfingarferðir, árangur í keppnum, menntun þjálfara og umsjón með mótshaldi. KR stóð einnig í fyrsta skipti fyrir stórmóti í handknattleik fyrir yngstu aldursflokkana og hlaut handknattleiksdeild KR mikið hrós fyrir þetta framtak. Árið 1997 var samstarf KR og Gróttu kynnt í handknattleik karla og kvenna og komst sameiginlegt lið Gróttu/KR strax uppum deild í karlaflokki. Allt gengur í haginn í knattspyrnunni. Gengi knattspyrnuliðsins hafði verið misjafnt síðustu áratugina en síðustu ár höfðu verið full af vonbrigðum. Liðið var hársbreidd frá því að sigra deildina og spáðu menn því að langt yrði í næsta titil vegna meints skorts á sjálfstrausti. Önnur varð raunin því að sumarið 1999 byrjuðu KR-ingar af krafti. Þeir voru á toppi deildarinnar lengstan hluta tímabilsins og sigruðu deildina með 7 stiga mun. KR-ingar voru í sjöunda himni. Þeir höfðu loksins unnið deildina, eftir 31 árs bið. Ekki hefði liðið getað beðið um betri árangur á 100 ára afmæli félagsins því að bæði karla og kvennaflokkur í knattspyrnu unnu tvöfalt þetta ár. Á afmælisárinu var KR-útvarpið einnig stofnað og lifir það enn þann dag í dag. Ekki gáfu KR-ingar eftir á næsta ári, þegar þeir vörðu Íslandsmeistaratitilinn, eftir harða baráttu við Fylki, sem að mátti þola það sem KR-ingar gengu oft í gegn á árum áður, að tapa Íslandsmeistaratitlinum á síðasta degi. Andri Sigþórsson KR-ingur var markakóngur deildarinnar það ár og hlaut gullskóinn fyrir vikið. KR-ingar sigruðu deildina 2 ár í röð, en það gerðist síðast árin 1948-50, en þeir unnu þá tæknilega séð þrisvar í röð líka. Ekkert gekk upp hjá KR-ingum næsta sumar og lenti liðið í 7. sæti. Leikmenn liðsins létu þetta ekki á sig fá og komu sterkir til baka sumarið 2002 og sigruðu deildina aftur, eftir að hafa verið í öðru sæti að loknum 17 umferðum, en Fylkir missteig sig í lokaumferðinni gegn ÍA og komst KR upp fyrir þá með sigri á Þór, sem að féll það ár. Fylkismenn þurftu aftur að sætta sig við það að missa af Íslandsmeistaratitlinum í síðustu umferð. Ekki lét knattspyrnudeild Knattspyrnufélags Reykjavíkur þetta nægja og sigraði liðið deildina í 24. skipti árið 2003. Á árunum sem fylgdu stóð meistaraflokkur karla ekki undir væntingum og lenti í 6. sæti 2004 og 2005. Liðið lenti þó í öðru sæti í bikar og deild árið 2006 og var tilefni til að vona það besta fyrir tímabilið 2007. En liðið lenti í 8. sæti eftir að hafa setið lengi vel í neðsta sæti deildarinnar. Tímabilið 2007 var mikil vonbrigði fyrir alla KR-inga. Teitur Þórðarson var rekinn á miðju tímabili og við tók Logi Ólafsson. Honum tókst að bjarga liðinu fyrir horn, en þó ekki fyrr en í lokaumferðinni. Miklar hrókeringar urðu í leikmannahópi KR fyrir tímabilið 2008, en 11 leikmenn fóru frá félaginu, margir hverjir á síðasta spretti ferilsins, og 6 nýir leikmenn fengnir. Barátta um Evrópusæti. Á árunum sem fylgdu tóku KR-ingar mikið þátt í toppbaráttunni án þess að takast það að landa þeim stóra. Þeir unnu engu að síður bikarkeppni KSÍ árið 2008 þar sem þeir kepptu á móti Fjölni og unnu sinn fyrsta stóra bikar í 5 ár. Liðið var ávalt nálægt toppnum, en slæm byrjun ár eftir ár gerði titilbaráttuna erfiða og var einungis Evrópusæti oft raunin. Þegar uppi var staðið hafði lið KR fjórum sinnum á fimm árum tekist að komast í keppnina um Evrópubikarinn, 2006 og 2008-2010. Ein merkustu úrslit liðsins úr þeim leikjum var sigur liðsins gegn Gríska úrvalsdeildarliðinu Larissa, en KR vann viðureignina samanlagt með tveimur mörkum. Árangur í körfuboltanum. KR leikmenn þakka Njarðvíkurmönnum fyrir úrslitaleikinn Körfuknattleiksdeild KR hefur einnig gengið vel eftir 100 ára afmæli félagsins. Árið 2000 sigraði liðið deildina aftur, en þá höfðu 10 ár liðið frá síðasta Íslandsmeistaratitli liðsins. Liðið tók á móti Grindavík í úrslitarimmu og vann KR titilinn á heimavelli, þar sem Jón Arnór Stefánsson spilaði stórt hlutverk. Enginn titill vannst aftur fyrr en sjö árum síðar, árið 2007. Liðið lenti í öðru sæti í deildinni, en Njarðvík sigraði deildina með 40 stig, KR fékk 34. Í úrslitakeppninni tóku KR-ingar á móti ÍR. ÍR-ingar komust yfir 1-0 en KR vann tvo næstu leiki og komst í undanúrslit gegn Snæfelli. Þar var dramatíkin ekki minni. Í lokaleik liðanna var Snæfell þremur stigum yfir þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum. KR-ingar knúðu leikinn í framlengingu og sigruðu í henni. Úrslitarimman var einnig afar spennandi. Njarðvíkingar völtuðu yfir KR-inga í fyrsta leik liðanna sem haldinn var í Ljónagryfjunni í Njarðvík. En KR-ingar komu sterkir til baka og sigruðu þrjá næstu leiki, sem haldnir voru á víxl í DHL-höll KR-inga og Ljónagryfjunni. Í síðasta leik rimmunnar þurfti framlengingu til að knýja fram sigurvegara og voru KR-ingar sterkari. Mikið var talað um áhorfendur KR sem mættu á lokaleikinn. Um það bil 50-60 KR-ingar mættu klukkutíma fyrir leik og tóku að kyrja söngva um leikmenn KR og héldu því áfram allt kvöldið, og héldu jafnvel áfram að syngja fram í rauða nóttina þegar titlinum var fagnað í miðborg Reykjavíkur. Tímabilið þar á eftir var tímabil vonbrigða hjá KR. Því þó svo að liðið hafi lent í öðru sæti í deildinni, vantaði greinilega eitthvað í liðið og endaði það þannig að KR datt út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn ÍR, 1-2. Fyrir tímabilið hafði Helgi Már Magnússon komið aftur til KR frá Sviss, sem hann hafði verið að spila körfubolta áður. Ljóst var að miklar breytingar þurftu að eiga sér stað, ætti KR að halda áfram á sigurbraut. Sú varð síðar raunin. Rúmum mánuði fyrir tímabilið 2008-2009 var það tilkynnt að Jón Arnór Stefánsson og Jakob Örn Sigurðarson höfðu gengið til liðs við KR frá liðum sínum á Ítalíu og Ungverjalandi. Auk þess hafði nýr Bandaríkjamaður gengið til liðs við KR-inga. Sigurhefð skapast. Eftir að hafa fengið þennan mikla liðsstyrk var ljóst að KR-ingar ættu eftir að verða í toppbaráttu allan veturinn. KR-ingar unnu 2 fyrstu bikara vetrarins þegar þeir urðu Poweradebikar- og Reykjavíkurmeistarar. Liðið gekk síðan í gegnum veturinn nær taplaust, en töpuðu þó bikarúrslitaleik gegn Stjörnunni. Eftir þetta áfall var það öllum ljóst að Íslandsmeistaratitillinn myndi ekkert endilega enda í Frostaskjólinu. KR-ingar urðu að lokum Deildarmeistarar, töpuðu einungis einum leik í allri deildinni. Þeir fóru einnig taplausir í gegnum fyrstu tvær umferðir úrslitakeppninnar og í úrslitarimmunni sjálfri mættu þeir Grindvíkingum. KR-ingar unnu fyrsta leikinn, sem var í DHL-höllinni, en töpuðu næstu tveimur, einum úti og öðrum heima. Þeir sýndu þó mikinn dugnað og unnu upp það forskot og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli fyrir framan yfir 2000 áhorfendur, mikið fleiri en voru á leiknum tveimur árum áður þegar þeir urðu Íslandsmeistarar. Pavel Ermolinskij, lykilmaður í liði KR 2010-2011Árið á eftir voru KR-ingar einnig taldir sigurstranglegastir og snéri Pavel Ermolinskij heim frá Spáni til að leika með Vesturbæingum. Þeir urðu deildarmeistarar eftir harða rimmu og tvísýna baráttu gegn Snæfelli. Þau lið mættust svo í undanúrslitum nokkrum vikum síðar. Rimman var sú undarlegasta og unnust allir leikirnir á útivelli, en það þýddi að KR-ingar þurftu að lúta í lægra haldi því þeir höfðu heimavallarréttinn. Snæfell fór síðan alla leið og vann Íslandsmeistaratitilinn 2010. KR-ingar voru strax komnir með yfirlýst markmið fyrir næsta tímabil, liðið ætlaði sér að verða Íslands- og Bikarmeistari árið 2011 eitthvað sem þeim hafði ekki tekist frá árinu 1979. Miklu var tjaldað til og voru menn eins og Finnur Atli Magnússon og Marcus Walker kallaðir til verkefnisins, ekki eins og lítið hafi verið til af reyndum leikmönnum fyrir. KR-ingar fóru rólega af stað inn í tímabilið en fyrr en varir skiptu þeir í æ hærri gír. Þeim tókst að leggja Grindvíkinga í úrslitum Bikarkeppni KKÍ, en það var í fyrsta skipti í 20 ár sem bikarinn unni sumarlangt í Vesturbænum. Enn óx leikur liðsins og þegar í úrslitakeppnina var komið voru Njarðvík og Keflavík þeim ekki of mikil fyrirstaða. Í úrslitum léku þeir svo við Stjörnuna þar sem þeir fóru með sigur af hólmi 3-1 samanlagt og hafði þeim í fyrsta skipti í 32 ár tekist að vinna tvöfalt og gátu státað sig af því að hafa unnið titilinn í þriðja skipti á fjórum árum, eða frá 2007. Íslandsmeistarar á ný. Á miðju tímabili 2010 fannst stjórnendum knattspyrnudeildar vera nóg komið, en liðið var undir stjórn Loga Ólafssonar 4. tímabilið í röð. Þetta ár tókst liðinu ekki upp sem skildi eftir að hafa lent í 2. sæti árið á undan og hafði meðal annars mislukkast að vinna Hauka í báðum leikjum liðsins og tapað heima gegn Selfossi, en bæði liðin voru nýliðar í deildinni. Þáverandi yfirmaður knattspynumála og náinn samstarfsaðili Loga, Rúnar Kristinsson, var fenginn til að stýra liðinu út tímabilið. Gengi liðsins snérist við eftir þetta og voru þeir í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en lutu í lægra haldi fyrir Breiðablik á lokaspretti mótsins. Markið var sett hátt næsta tímabil og var það yfirlýstur vilji leikmanna að enda tímabilið með titli. Tímabilið gekk eins og í sögu, liðið náði langt í Evrópukeppni og sló meðal annars út lið sem spilaði gegn Chelsea í meistaradeildinni árið áður, bikarkeppnin vannst með því að sigra 4 úrvalsdeildarlið og Íslandsmeistaratitillinn langþráði kom í hús eftir 7 vetra fjarveru, eftir að liðið hafði trónað á toppnum allt frá 3. umferð og aldrei látið efsta sætið af hendi eftir það. KR varð því fyrsta liðið að vinna tvöfalt síðan einmitt KR gerði það síðast árið 1999. Deildir innan KR. Það starfa núna tíu virkar deildir innan Knattspyrnufélags Reykjavíkur, en það eru knattspyrnu-, körfuknattleiks-, handknattleiks-, borðtennis-, badminton-, glímu-, keilu-, skíða-, skák- og sunddeild. Stuðningsmenn. KR á stærsta hóp stuðningsmanna á Íslandi, samkvæmt könnun Gallup. Ef skoðaðar eru aðsóknartölur á KR-leiki sést þetta greinilega. Á árunum 1997 - 2004 einokuðu KR-ingar listann yfir mestu aðsókn á leiki liða. FH-ingar náðu þeim árið 2005. Einnig má geta þess að aðsóknarmestu leikir annarra liða í deildinni eru yfirleitt leikir gegn KR og flestir áhorfendur mættu að meðaltali á útileiki KR árin 2007 - 2009. KR komst þó aftur í efsta sæti yfir áhorfendatölur 2008, þegar 1.931 áhorfandi kom að meðaltali á hvern heimaleik KR, yfir 300 manneskjum fleiri að meðaltali en næsta lið fyrir neðan KR á listanum, og hafa haldið því sæti síðan þá. Miðjan. Einn hópur stuðningsmanna KR kallar sig Miðjuna. Nafnið er komið frá því að kjarni stuðningsmanna stóðu beint fyrir miðju á KR-vellinum í kringum árið 1994. Fljótlega tók KR-klúbburinn á það ráð að úthluta meðlimum KR-klúbbsins sæti sem að þeir einir máttu setjast í, en það fyrirkomulag hélst til ársins 2006. Miðjan mætir á alla leiki KR í deildinni í karlaknattspyrnunni og einnig á nokkra leiki í körfuknattleik karla. Miðjan stendur yfirleitt aftast í KR stúkunni og syngur KR-lög allan leikinn, ýmist um leikmenn liðsins eða félagið sjálft. Miðjan hefur fengið athygli út á nýstárlega leið í stuðningi og hafa nokkur önnur lið tekið uppá því sama. Þekktir stuðningsmenn. Bubbi Morthens á KR-leik sumarið 2007 Meðal þekktra stuðningsmanna KR eru: Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor, Bubbi Morthens poppstjarna, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Bogi Ágústsson fréttamaður, Gísli Marteinn Baldursson, Sigurjón Magnús Egilsson, Þröstur Emilsson fréttamaður, Mörður Árnason, Egill Helgason, Freyr Eyjólfsson, Haukur Hólm, Geir H. Haarde, Óli Björn Kárason, Gunnar Smári Egilsson ritstjóri, Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Bjarni Felixson íþróttafréttamaður, Ágúst Borgþór Sverrisson, Búi Bendtsen útvarpsmaður og Ari Eldjárn skemmtikraftur. Einna þekktastur þó fyrir það eitt að vera stuðningsmaður KR var Egill "rakari" Valgeirsson. Karlaflokkur. Leikmenn KR hampa bikarnum eftir sigur á Njarðvík í Iceland Express-deild karla 2007. Þeir hafa hampað titlinum tvisvar sinnum aftur síðan þá. Tenglar. KR KR KR-völlur. KR-völlurinn er heimavöllur KR. Á áhorfendasvæði eru 2781 sæti. Völlurinn hefur verið heimavöllur KR frá árinu 1984 en áður notuðu þeir Melavöllinn (þar sem að Þjóðarbókhlaðan stendur nú) og Laugardalsvöllinn. Í upphafi var völlurinn malarvöllur en fljótlega var gerður grasvöllur. Á svæðinu var oft mýri, sérstaklega um vetur og fram á vor, og var völlurinn sem er við hliðina á aðalvellinum oft notaður, frekar en hinn. Meistaraflokkur karla lék fyrsta deildarleik sinn á KR-vellinum þann 15. ágúst 1984 á móti KA. KR vann leikinn 2-0, en mörkin skoruðu þeir Björn Rafnsson og Hálfdán Örlygsson. Uppi eru áform um að stækka völlinn, svo að hann taki um 8000 manns í sæti. Vellinum yrði þá snúið um 90° og stúkan sem nú stendur við hlið vallarins yrði fyrir aftan annað markið. Hringstúka verður að öllum líkindum byggð við þá stúku sem þegar er til staðar. Hugmyndir eru einnig uppi um að hafa á vellinum gjafabúð og fleira. Andstæðingar KR. Tölfræði er einungis úr deildarleikjum KR nema annað sé tekið fram. Fyrstu leikir. "Blár litur merkir sigur KR, en rauður tap" Leikmenn KR fyrir fyrsta leik KR gegn Fjölni á KR-vellinum Áhorfendur. KR-völlurinn hefur verið vel sóttur alveg frá upphafi. Frá árinu 1991 hið minnsta hefur aðsókn á KR-leiki verið vel yfir meðaltali deildarinnar og oftar en ekki verið best sótti völlurinn það sumarið. Aldrei á þeim tíma hefur völlurinn dottið neðar en í 2. sæti yfir best sóttu velli sumarsins. Flestir áhorfendur. Flestir áhorfendur á deildarleik KR á KR-velli. "Blár litur merkir sigur KR, en rauður tap" Fæstir áhorfendur. Fæstir áhorfendur á deildarleik KR á KR-velli. 5 af 6 leikjum eru gegn liðum utan höfuðborgarsvæðisins og 4 af 6 gegn liðum frá Akureyri. "Blár litur merkir sigur KR, en rauður tap" Í augum andstæðingsins. Á hvaða velli er erfiðast að leika ? Á hvaða velli er skemmtilegast að leika fyrir utan þinn heimavöll? Á hvaða velli er að þínu mati erfiðast að leika fyrir utan þinn heimavöll? Á hvaða velli er að þínu mati skemmtilegast að leika fyrir utan þinn heimavöll? Flest mörk KR-inga á KR-velli. Flest mörk KR-inga á KR-velli í deildarleikjum. Þrennur á KR-velli. Tíu KR-ingar hafa skorað þrennu á KR-velli. Björn Rafnsson gegn Keflavík, 1989 Atli Eðvaldsson gegn Víði, 1991 Mihajlo Bibercic gegn ÍA, 1995 Ríkharður Daðason gegn Grindavík, 1996 Einar Þór Daníelsson gegn ÍA, 1997 Andri Sigþórsson gegn Val, 1997 Arnar Gunnlaugsson gegn Fylki, 2003 Björgólfur Takefusa gegn Fylki, 2008 Óskar Örn Hauksson gegn Stjörnunni, 2009 Kjatan Henry Finnbogason gegn ÍBV, 2012 Glock 19. Glock 19 er skammbyssa framleidd af austurríska byssuframleiðandanum Glock. Glock 19 er í raun smærri útgáfa af Glock 17. Magasín byssunnar tekur 15 9 x 19 mm skot. Vinna við hönnun Glock 19 hófst árið 1988. Árið 1990 var hún tekin í notkun af sænska hernum og nefnd "Pistol 88B" ("Pistol 88" var heitið sem sænski herinn gaf Glock 17). Önnur af tveimur skammbyssum sem Seung-Hui Cho notaði í fjöldamorðinu í Virginia Tech 16. apríl 2007 var Glock 19. Walther P22. Walther P22 er hálfsjálfvirk skammbyssa framleidd af þýska vopnaframleiðandanum Walther Sportwaffen. Hefæstos. Hefæstos eða Hefaistos er guð eldsins í grískri goðafræði, bæði þess sem birtist í náttúruöflunum, eldingum og eldfjöllum, og eldsins, sem er skapandi kraftur allrar menningar. Hann starfar sem eldsmiður á Ólympos og býr til vopn og skrautgripi í smíðahöll sinni, bæði handa guðunum og dauðlegum mönnum. Hefæstos var sonur Seifs og Heru. Þegar Hera sá, að sveinninn var heldur ófélegur ásýndum, kastaði hún honum út yfir þröskuld himinsins og hrapað Hefæstos þá í hafið. En Þetis og aðrar sjávargyðjur tóku við honum og hlúðu að honum. Að ytri sýn er Hefæstos burðamikill og vöðvastæltur smiður, en hann er fótlami og ber þannig alltaf minjar byltu þeirrar er hann hlaut nýfæddur. Á samkundum hinna ódauðlegu guða vekur hann oft hlátur þegar hann er á ferli á meðal þeirra haltrandi, másandi og blásandi. Svo bar til eitt sinn í gildi guðanna, að móðir hans deildi við Seif og var illt í skapi. Þá mælti Hefæstos blíðum orðum til hennar og rétti henni tvíker, jós síðan ódáinsvíni af skapkerinu og skenkti hinum guðunum. Kom þá upp óstöðvandi hlátur með hinum sælu guðum, þegar þeir sáu hann haltra um höllina. Hefæstos var kvæntur Afródítu. Varð hún afhuga hinum óásjálega smið og felldi ástarhug til Aresar. Aþenuborg var eini staðurinn á Grikklandi, þar sem Hefæstos var tignaður til muna. Stafaði það vitanlega af því, hve mikið kvað að handiðnum og hvers konar iðnaði þar í borg. Var því eðlilegt, að hann væri dýrkaður þar jafnframt hagleiksgyðjunni Aþenu. Listamenn hafa sýnt Hefæstos sem þrekvaxinn, skeggjaðan öldung, í stuttum kufli með strúthúfu á höfði, svo sem var búnaður handiðnamanna. Nemesis. Nemesis (gríska: Νέμεσις) er grísk hefnda- og refsigyðja. Nemesis úthlutar þó hverjum réttvíslega eftir því, sem viðkomandi á skilið, lán eða ólán. Nemesis merkir upphaflega "úthlutun eftir verðleikum". Það er líka sá munur á henni og örlagagyðjunum, að þær ákveða hlutskipti manna fyrir fæðinguna, en Nemesis veitir mönnum lán eða ólán fyrir framdar gerðir, umbunar þeim eða hegnir eftir siðferðilegri réttlætismeðvitund. Hitt er þó lang algengast, að hún leiði óhamingju yfir menn. Þegar ofstopafullum mönnum hefur hlotnast of mikið hamingjulán, þá færir hún þeim gífurlegt tjón til þess að minna þá á, að þeir eru dauðlegir, því að óbrigðul hamingja veitist engum nema guðunum einum. San Diego. San Diego er borg í Suður-Kaliforníu í Bandaríkjunum, skammt frá landamærum Mexíkó. Hún er næststærsta borg Kaliforníu og áttunda stærsta borg Bandaríkjanna. Íbúar voru rúmlega 1,2 milljónir árið 2006. Phoenix, Arizona. Phoenix er höfuðborg Arizona-ríkis í Bandaríkjunum. Hún er jafnframt stærsta borg ríkisins og sjötta stærsta borg Bandaríkjanna. Íbúar voru tælega 1,5 milljónir árið 2010. Á Phoenix stórborgarsvæðinu bjuggu tæplega 4,2 milljónir árið 2005 en Phoenix stórborgarsvæðið er það 13. stærsta í Bandaríkjunum. Körfuknattleiksliðið Phoenix Suns er þekktasta íþróttafélagið. San Jose. San Jose er borg í Kaliforníu í Bandaríkjunum. San Jose er þriðja stærsta borg Kaliforníu og tíunda stærsta borg Bandaríkjanna. Íbúar voru rúmlega 912.000 árið 2005. San Jose liggur í Silicon Valley sunnan San Francisco-flóans í norðanverðri Kaliforníu. Þýðing. Þýðing er túlkun á merkingu talaðs eða ritaðs máls úr einu tungumáli á annað. Alexander Púskin kallaði þýðandann „boðbera mannsandans“ og Vladimir Nabokov sagði að það að þýða úr einu tungumáli á annað væri "hægfara næturferðalag frá einu þorpi til þess næsta með aðeins kerti til að lýsa sér leið". Magnús Magnússon þýðandi og ritstjóri, sagði að hin vandrataði vegur þýðandans „væri að vera höfundinum trúr, án þess að láta trúmennskuna bitna á [því máli sem þýtt er á]“. Bestu þýðendurnir eru oft sagðir þeir sem kunna tungumálið sem þeir þýða úr mjög vel, en kunna tungumálið sem þeir þýða á fullkomlega og málsögu þess í grunninn. Frá því tölvur komu fram á sjónarsviðið hafa verið gerðar tilraunir til að þýða texta með gervigreind. Þá er oftast talað um vélþýðingar. Samheiti. Þýðandi nefnist sá sem þýðir, t.d. úr ensku á íslensku. Sögnin að þýða er komin af germanskri rót sem þýðir: "gera þjóðinni skiljanlegt". Gamalt heiti á þýðanda er útleggjari og gamalt orð á þýðingu er færing. Technics SL-1200. Technics SL-1200 er gerð plötuspilara sem japanski raftækjaframleiðandinn Matsushita hefur framleitt frá október 1972 undir vörumerkinu Technics. Technics SL-1200 var upphaflega settur á markað sem hágæðaplötuspilari fyrir almenning en var fljótlega tekinn í notkun á útvarpsstöðvum og af plötusnúðum á næturklúbbum. Árið 1978 var Technics SL-1200MK2 settur á markað. Í MK2 hafði mótorinn verið bættur, sem og umgjörðin. MK2 og önnur sem fylgt hafa í kjölfarið hafa æ síðan verið staðallinn hjá plötusnúðum. Seint á tíunda áratug 20. aldar hafa plötuspilarar á borð við Stanton st/str8 150/t.120, Vestax PDX plötuspilarar og Numark TTx1 veitt Technics SL-1200 plötuspilaranum harða samkeppni. Plötusnúðar nefna plötuspilarann oft einfaldlega SL eða SL-inn. Indianapolis. Indianapolis er höfuðborg Indiana-ríkis í Bandaríkjunum og jafnframt stærsta borg ríkisins. Hún er einnig 13. stærsta borg Bandaríkjanna og þriðja stærsta borg miðvesturríkjanna á eftir Chicago og Detroit. Íbúar voru rúmlega 785.000 árið 2005. Klettasalat. Klettasalat (fræðiheiti: "Eruca sativa") er græn fjölær jurt af krossblómaætt sem líkist salati með löng og mjó blöð. Blöðin eru bragðmikil með beiskum keim og eru yfirleitt borðuð hrá. Þau innihalda mikið af C-vítamíni og járni. Klettasalat hefur verið ræktað sem grænmeti við Miðjarðarhafið frá því í fornöld og Rómverjar töldu það vera kynörvandi. Ræktun í stórum stíl hófst þó ekki fyrr en á 10. áratug 20. aldar, einkum á Ítalíu, en um svipað leyti var farið að rækta það um allan heim, meðal annars á Íslandi. Við Miðjarðarhafið vex jurtin í sendnum og gljúpum jarðvegi frá ströndinni upp í 800 metra hæð yfir sjávarmáli. Ræktun. Klettasalat er hraðvaxta og verður fullvaxið á nokkrum vikum. Því er sáð beint í beðin og er hægt að taka af því smám saman eftir því sem blöðin ná nægilegri stærð. Það þolir ágætlega kulda en síður vind og er t.d. ræktað utandyra á Íslandi í skjóli þar sem sólar nýtur. Matseld. Klettasalat er yfirleitt borðað hrátt eitt og sér eða sem bragðbætir með hefbundnu salati. Það er algengt á flatbökur og þá yfirleitt sett yfir eftir bökun. Það er einnig soðið, svipað og spínat, og notað í mauk með osti og jafnvel í staðinn fyrir basil í pestó. Krossblómaætt. Krossblómaætt (fræðiheiti: "Brassicaceae" eða "Cruciferae") er ætt dulfrævinga sem telur margar mikilvægar matjurtir, svo sem hvítkál, blómkál, rófur, næpu, repju, sinnep og piparrót. Allar tegundir af þessari ætt eru ætar en sumar innihalda erúsínsýru sem gerir varasamt að neyta þeirra í miklu magni. Nafnið vísar til þess að blóm þessara jurta bera fjögur krónublöð sem minna á kross. Krossblómabálkur. Krossblómabálkur (fræðiheiti: "Brassicales" eða "Capparales") er ættbálkur dulfrævinga sem margir innihalda glúkósínólöt (sinnepsolíu). Nafnið er dregið af því að blóm þessara jurta hafa fjögur krónublöð sem minna á kross. Kálfiðrildaætt ("Pieridae") dregur nafn sitt af því að lirfur margra tegunda af þeirri ætt lifa á blöðum jurta af þessum ættbálki. Kál. Kál (fræðiheiti: "Brassica") er ættkvísl jurta af krossblómaætt. Ættkvíslin inniheldur fleiri matjurtir en nokkur önnur ættkvísl. Hún inniheldur einnig margar tegundir illgresis. Um þrjátíu villtar tegundir og villtir blendingar tilheyra þessari ættkvísl auk fjölda ræktunarafbrigða og ræktaðra blendinga. Flestar tegundirnar eru einærar eða tvíærar. Ættkvíslin er upprunnin í tempraða beltinu í Evrópu og Asíu en káljurtir eru ræktaðar um allan heim. Salat. Salat (fræðiheiti: "Lactuca sativa") er einær jurt sem er ræktuð sem grænmeti og venjulega borðuð hrá eða soðin í salöt og aðra rétti, til dæmis hamborgara. Stilkurinn skiptir sér þegar hann er enn mjög stuttur og myndar marga blómknúppa, svipað og fífill. Blöð af jöklasalati eða öðru stökku salati eru stundum notuð sem ílát eða undirlag fyrir ýmiss konar rétti, heita eða kalda, og borðuð með þeim. Afbrigði. Til eru fjölmörg ólík afbrigði salats. Þau helstu eru höfuðsalat (þar á meðal jöklasalat eða iceberg), blaðsalat og romaine-salat. "Bataviasalat" (fræðiheiti: "Lactuca sativa var. capitata") er af ýmsum talið ein gerð jöklasalats, en af öðrum sem sérstakur flokkur innan höfuðsalats, mitt á milli smjörsalats (venjulegs höfuðsalats) og jöklasalats. Bataviasalat er tilkomið við æxlun á milli jöklasalats og smjörsalats. Blöð plantnanna líkjast blöðum jöklasalats að útliti og gerð, en eru þykkari, bylgjóttari og með dýpri skerðingar en blöð smjörsalats. Körfublómabálkur. Körfublómabálkur (fræðiheiti: "Asterales") er stór ættbálkur tvíkímblöðunga sem inniheldur körfublómaætt (sólblóm, fífla, þistla o.fl.) og tengdar ættir. Einkenni á ættinni eru fimm bikarblöð og blómkollur með mörgum smáblómum sem mynda knippi (körfu). Nokkrar tegundir eru með mjólkurlitan safa í stilknum. Körfublómaætt. Körfublómaætt (fræðiheiti: "Asteraceae") er ætt tvíkímblöðunga. Þau einkennast af því að blómin eru blómkollur (mörg lítil blóm á einum grunni) sem lítur út eins og eitt blóm þar sem ystu smáblómin eru með eitt stórt krónublað. Fræin mynda síðan biðukollu. Gulrót. Gulrót (fræðiheiti: "Daucus carota") er rótargrænmeti sem venjulega er rauðgulur eða hvítur á litinn. Hlutinn sem er étinn er stólparótin. Gulrætur eru tvíærar þar sem rótin vex og safnar forða fyrsta árið fyrir blómgun annað árið. Blómstilkurinn verður um metri á hæð og ber uppi blómsveip með litlum hvítum blómum. Spergilblómkál. Spergilblómkál (fræðiheiti: "Brassica oleracea var. botrytis") er ræktunarafbrigði garðakáls ("Brassica oleracea") sem fyrst var ritað um á Ítalíu á 16. öld. Það er sérstakt fyrir það að knúpparnir mynda nokkuð reglulega brotamynd. Nafnið kemur til að því að þetta afbrigði er stundum talið vera blendingur spergilkáls og blómkáls. Garðakál. Garðakál (fræðiheiti: "Brassica oleracea") er káltegund upprunnin við strendur Suður- og Vestur-Evrópu. Það þolir vel salt og kalk en illa samkeppni frá öðrum jurtum. Garðakál er stór tvíær jurt sem myndar breið og þykk græn blöð sem geyma vatn og næringarefni fyrir blómgunina sem fer fram á seinna árinu. Vitað er að garðakál var ræktað á tímum Forngrikkja og Rómverja og hefur líklega verið orðið vel þekkt sem grænmeti löngu fyrir þann tíma. Til er fjöldinn allur af afbrigðum garðakáls, svo sem grænkál, hvítkál, blómkál, spergilkál, rósakál og skrautkál. Köln. Köln er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með yfir milljón íbúa. Hún er jafnframt fjórða stærsta borg Þýskalands og ein af fjórum milljónaborgum í Þýskalandi. Lega. Dómkirkjan í Köln er þriðja hæsta kirkja heims Köln liggur við ána Rín nokkuð vestarlega í Þýskalandi og rétt fyrir sunnan Ruhr-héraðið. Hollensku landamærin eru 30 km til vesturs. Næstu stærri borgir eru Leverkusen til norðurs (10 km), Bonn til suðurs (25 km) og Aachen til vesturs (40 km). Skjaldarmerki. Heilög Úrsúla drepin ásamt nokkrum öðrum meyjum Skjaldarmerki Kölnar sýnir ellefu svarta dropa á hvítum grunni. Fyrir ofan eru þrjár gullnar kórónur á rauðum grunni. Droparnir tákna hina heilögu Ursulu sem fórst ásamt tíu öðrum meyjum sem voru drepnar af húnum þegar þær voru á heimleið úr pílagrímsferð til Rómar. Kórónurnar minna á að borgin var áður hluti af þýska ríkinu. Rauði og hvíti liturinn er tákn Hansasambandsins en Köln var stofnfélagi í því sambandi. Orðsifjar. Borgin hét á tímum Rómverja "Colōnia Claudia Āra Agrippīnēnsium" sem var síðar stytt í "Colōnia Agrippīna" eða bara Colonia og loks á miðöldum í Cöln. Það var ekki fyrr en á síðustu öld að rithátturinn Köln (með c-i) varð ofan á. Á frönsku og ensku heitir borgin Cologne. Upphaf og miðaldir. Það voru Rómverjar sem stofnuðu borgina Köln og mun það hafa gerst árið 38 f.Kr. Rómverjar og germanski þjóðflokkurinn úbíar bjuggu þar saman í sátt og samlyndi. Borgin dafnaði vel, en hún var landamæraborg í nokkrar aldir. Árið 260 e.Kr. varð Köln að höfuðborg vesturhluta Rómaveldis, til 274. Konstantínus keisari leyfði gyðingum að setjast að í borginni í upphafi 4. aldar og er söfnuður þeirra í borginni elsti gyðingasöfnuður Þýskalands. Á svipuðum tíma var uppgangur kristninnar í Evrópu. Heimildir eru fyrir kristinni kirkju í Köln árið 355, en það væri elsta þekkta kirkja Þýskalands. Í tengslum við kristnu kirkjuna var heilög Úrsúla drepin af húnum, en tákn hennar er í skjaldarmerki borgarinnar enn í dag. Á sama ári réðust frankar á borgina, ræna hana og leggja hana undir sig. En Rómverjar náðu henni aftur á sitt vald. Frankar fluttu vestur og stofnsettu frankaríkið. Þeir hertóku borgina hins vegar á nýjan leik 454 og héldu henni eftir það. Nokkrir frankakonungar sátu gjarnan í Köln. Við Verdun-samningunum 843 var ríkinu skipt og lenti Köln þá í austurríkinu. 882 sigldu víkingar (normannar) upp Rínarfljót alla leið til Kölnar og rændu þeir hana. Frá og með þessum tíma jukust áhrif erkibiskupanna í borginni, en þeir urðu að kjörfurstum í þýska ríkinu. 1164 lét erkibiskupinn Rainald von Dassel flytja líkamsleifar vitringanna þriggja til Kölnar. Borgin verður þar með að mesta pílagrímsstað þýska ríkisins og eina af þremur merkustu pílagrímsstöðum Evrópu, ásamt Róm og Santiago de Compostela á Spáni. Síðmiðaldir. Köln 1531. Mynd eftir Anton Woensam. Á 14. öld var Köln meðlimur í Hansasambandinu. 1367 var aðalfundur sambandsins haldinn í ráðhúsinu í Köln. Þar var myndað hernaðarbandalag gegn Valdimar IV Danakonungi. 1388 var gamli háskólinn í Köln stofnaður. Þetta var fjórði háskóli þýska ríkisins og næstelsti í núverandi Þýskalandi. Um þetta leyti var Köln stærsta borgin í ríkinu. Siðaskiptin urðu ekki í Köln. Lúterskir predikarar voru brenndir á báli 1529 og höfðu þeir ekki haft erindi sem erfiði. Hins vegar snerist erkibiskupinn Gebhard Truchsess von Waldburg til lútersku 1582 og var bannfærður fyrir vikið. Málið var tekið fljótt fyrir, því með lúterskum erkibiskupi Köln væru lútersku kjörfurstarnir í ríkinu þá í meirihluta. Slíkt varð að hindra með öllum ráðum. Köln hélst því kaþólsk og kom lítið sem ekkert við sögu í 30 ára stríðinu. Frakkar og prússar. 1669 tók Köln í síðasta sinn þátt í Hansadögum í Lübeck. Sambandið leystist upp eftir það. 1701 stofnaði Ítalinn Giovanni Battista Farina fyrstu ilmvatnsfyrirtæki heims. Hann bjó til og seldi "Eau de Cologne", sem enn er þekkt vörumerki í dag. 1794 hertók franskur byltingarher borgina. Á næstu árum lögðu Frakkar niður háskólann og lokuðu ýmsum kirkjum og klaustrum. Einnig var erkibiskupsdæmið lagt niður. Íbúar Kölnar fengu franskt ríkisfang. Napoleon sjálfur sótti borgina heim í september 1804, skömmu eftir krýningu sína til keisara. Eftir tap Napoleons við Jena og Auerstedt 1814 yfirgáfu allir Frakkar borgina, sem við það verður þýsk á ný. Vínarfundurinn ákvað að gefa prússum borgina. Á prússneska tímanum var lokið við að reisa dómkirkjuna frægu. Borgin óx og dafnaði. 1850 fór íbúatalan yfir 100 þúsund. 1855 er fyrsta fasta brúin yfir Rín smíðuð síðan 953. Dómkirkjan var loks vígð 1880, 632 árum eftir fyrstu skóflustunguna. 1881 voru gömlu borgarmúrarnir rifnir til að skapa meira byggingapláss. 20. öldin. 1914 töpuðu Þjóðverjar heimstyrjöldinni fyrri. 6. desember það ár hertóku Bretar borgina. Köln tilheyrði að vísu Weimar-lýðveldinu, en í borginni var farið eftir breskum lögum. 1924 var Hansaháhýsið reist í borginni en það var þá hæsta háhýsi Evrópu. Bretar hurfu úr borginni 1926. 4. janúar 1933 hittust Hitler og Franz von Papen ríkiskanslari í Köln til að ræða yfirtöku nasista á stjórn landsins. Köln varð fyrir gífurlegum loftásásum í heimstyrjöldinni síðari. Um 95% af miðborginni eyðilagðist. 6. mars hertóku Bandaríkjamenn borgina nær átakalaust, en áður höfðu nasistar sprengt brýrnar yfir Rín. Borgin var þá nær mannlaus. 1963 heimsækir John F. Kennedy Bandaríkjaforseti borgina. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er 1. FC Köln. Það hefur þrisvar orðið þýskur meistari, síðast 1978, og fjórum sinnum bikarmeistari, síðast 1983. Maraþonhlaup fer fram í borginni árlega á haustin. Hlaupið var fyrst haldið 1997 og er í tengslum við það einnig hlaupið Maraþon á línuskautum. Hjólreiðakeppnin Rund um Köln er íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið frá 1908. Þar með er hjólreiðakeppnin sú næstelsta innanborgar í Þýskalandi (á eftir "Rund um Berlin"). Hjólað er í kringum og í gegnum borgina og er nær öll borgin hertekin af hjólreiðafólki í heilan dag meðan keppnin stendur yfir. Blómkál. Blómkál (fræðiheiti: "Brassica oleracea var. botrytis") er ræktunarafbrigði garðakáls sem líkist mjög spergilkáli. Líkt og með spergilkál er það með stóran blómknúpp sem er það eina sem er étið af plöntunni. Blöðum og stilk er yfirleitt hent. Blómkál þolir vel kulda en getur blómgast með mörgum litlum knúppum í stað eins stórs ef hitinn er of lítill. Við of háan hita myndar það ekki blóm. Spergilkál. Spergilkál (sprotakál eða brokkólí (fræðiheiti: "Brassica oleracea var. silvestris") er ræktunarafbrigði garðakáls. Það myndar stóra klasa grænna blómknúppa sem eru það eina sem er étið af plöntunni, líkt og hjá blómkáli, sem er náskylt afbrigði. Spergilkál var fyrst og fremst ræktað á Ítalíu, þar sem það var þekkt að minnsta kosti frá tímum Rómverja, fram á 19. öld þegar ræktun þess breiddist hægt út til annarra landa. Nafnið er dregið af því að bragðið af stilkunum þykir minna á spergil. Það þolir vel kulda. Graslaukur. Graslaukur (fræðiheiti: "Allium schoenoprasum") er minnsta lauktegundin, upprunnin í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Hann vex í klösum og eru blöðin nýtt með því að saxa þau út í mat sem krydd. Hann er líka nýttur sem skordýrafæla í matjurtagörðum. Laukar. Laukar (fræðiheiti: "Allium") eru fjölærar laukplöntur með einkennandi sterkt bragð og lykt. Margar tegundir eru notaðar sem matjurtir eða kryddjurtir. Ættkvíslin telur um 1250 tegundir sem gerir hana að einni fjölbreyttustu ættkvísl jurta. Langflestar lauktegundir eru upprunnar á norðurhveli jarðar. Flestir laukar fjölga sér með því að mynda smálauka við rót aðallauksins, auk þess að mynda fræ. Sumar tegundir mynda æxliknappa í blóminu sem falla til jarðar og verða að nýjum lauk. Blómsveipurinn vex á einum berum stilk sem vex uppúr lauknum. Selena. Selena er mánagyðja í grískri goðafræði; hún er systir Helíosar. Listamenn hugsa sér hana sem konu með kyndil. Á kvöldin ekur hún upp úr Ókeansstraumi á vagni, sem tveimur hvítum fákum er beitt fyrir. Rennur hún síðan skeið sitt um himinbogann. Hún er blíð og ófröm. Á laun á hún ástfarir við fagra yngissveina, sem hún kyssir í svefni. Einkum kveða skáldin unaðslega um ástir hennar og Endymíons, konungssonar frá Elis. Að bæn Selenu leyfir Seifur sveininum að ákveða hlutskipti sitt. Kýs hann ævarandi svefn í æsku og fegurð. Hvílir hann síðan sofandi í helli á Latmosfjalli í Karíu. Þangað læðist Selena stundum til þess að láta hrífast af fegurð hins sofandi sveins. Í átrúnaðinum kvað aldrei neitt að Selenu með Grikkjum. Skáldin segja, að hún sé hvítörmuð og fagurlokkuð gyðja með skínandi ennishlað á höfði. Sambandsríki. Kort sem sýnir sambandsríki í heiminum. Sambandsríki er samband tveggja eða fleiri fylkja (oft kölluð ríki) með talsverða sjálfstjórn sem lúta miðstýrðri ríkisstjórn. Þetta fyrirkomulag er tryggt í stjórnarskránni og ekkert fylki/ríki getur sagt sig úr sambandsríkinu með einhliða ákvörðun. Andstæðan við sambandsríki er einingarríki eins og t.d. Ísland. Sambandsríki eru algengust í stórum og víðáttumiklum löndum eða löndum þar sem eru hlutfallslega stórir eða margir minnihlutahópar. Stærstu sambandsíkin eru Bandaríkin og Þýskaland. Laukætt. Laukætt (fræðiheiti: "Alliaceae") er ætt laukplantna af laukabálki. Áður voru þessar plöntur oft flokkaðar með liljuætt. Einkennandi fyrir þessa ætt er ættkvíslin laukar ("Allium") sem inniheldur meðal annars graslauk og hvítlauk. Laukabálkur. Laukabálkur (fræðiheiti: "Asparagales") er ættbálkur einkímblöðunga. Einkennisætt ættbálksins er sperglaætt ("Asparagaceae") en hverjar aðrar ættir hafa verið settar í þennan ættbálk hefur verið mjög mismunandi í gegnum tíðina. Ættir. Þar sem "+..." merkir mögulega sérstaka ætt sem þá er klofin úr fyrrnefndri ætt. Sveipjurtaætt. Sveipjurtaætt (fræðiheiti: "Apiaceae" eða "Umbelliferae") er ætt dulfrævinga sem venjulega eru lyktsterkir með holan stöngul og blómsveip. Þessari ætt tilheyra meðal annars matjurtir eins og hvönn og gulrót, og kryddjurtir eins og steinselja, dill, kúmen, kóríander og kerfill. Sveipjurtaætt er stór ætt sem telur um 300 ættkvíslir og meira en 3000 tegundir. Blómin eru samhverf með fimm bikarblöð, fimm krónublöð og fimm fræfla. Sveipjurtabálkur. Sveipjurtabálkur (fræðiheiti: "Apiales") er ættbálkur dulfrævinga sem telur þekktar tegundir eins og gulrót, ginseng, steinselju og bergfléttu. Didda og dauði kötturinn (kvikmynd). "Didda og dauði kötturinn" er fjölskyldumynd byggð á samnefndri barnabók eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur. Kvikmyndin var tekin upp í Keflavík og forsýnd þar 6 febrúar 2003 en almennar sýningar hófust daginn eftir. Juuso Pykälistö. Juuso Pykälistö (f. 21. maí 1975 í Padasjoki) er finnskur ralliökumaður. Hann hefur keppt í World Rally Championship bæði á Citroën og Peugeot. Pykälistö hefur unnið Arctic Rally keppnina tvisvar sinnum. Black Holes & Revelations. "Black Holes & Revelations" er fjórða breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Muse og kom hún út árið 2006. Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja. Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja er íslenskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður 2007. Formaður er Arndís H. Björnsdóttir. Flokkurinn hefur gefið það út að boðið verði fram í öllum kjördæmum. Eftir að hafa borið saman bækur sínar hafa hópar aldraðra og öryrkja ákveðið að bjóða fram til kosninganna. Félagasamtök umræddra hópa, þ.e.a.s. Landssamband eldri borgara, Sjálfsbjörg landsamband fatlaðra og Öryrkjabandalag Íslands, hafa gefið út yfirlýsingu þar sem þau undirstrika að þau komi ekki með beinum hætti að framboðinu heldur hvetji félaga „til að vera virka þátttakendur á vettvangi stjórnmálanna, hvar í flokki sem þeir standa, og sinna þannig borgaralegum réttindum og skyldum sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu“. Eftir að hafa unnið að undirbúningsvinnu í ríflega mánuð var stofnun Stjórnmálasamtaka eldri borgara og öryrkja tilkynnt 4. mars og stefnt sé að því að bjóða fram í öllum kjördæmum. Einungis fjórum dögur síðar tilkynnti annar hópur, Áhugafólk um málefni eldri borgara og öryrkja, að ekki hefði tekist að sameina hópana tvo þrátt fyrir tilraunir til þess og að það hyggðist ekki bjóða fram af ótta við að veikja málstaðinn. Amstel. Amstel er hollensk bjórtegund sem var fyrst brugguð við "Mauritskade" í Amsterdam. Brugghúsið Amstel hefur fengið nafn sitt af fljótinu Amstel (sem borgin Amsterdam heitir eftir). Amstel var stofnað 11. júní 1870. Margrét Friðriksdóttir. Margrét Friðriksdóttir (fædd 20. september 1957) er skólameistari Menntaskólans í Kópavogi og hefur gegnt því embætti síðan 1993. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2007 fyrir störf í þágu menntunar og fræðslu. Nítíða saga. Nítíða saga er íslensk riddarasaga frá síðmiðöldum. Hún fjallar um Nítíðu, dóttur Frakklandskonungs, sem erfir ríki föður síns og stjórnar því sem meykóngur. Sagan er hluti af íslenskri hefð sagna um voldugar konur sem forðast að ganga í hjónaband þrátt fyrir að vera mjög eftirsóttar. Hún sker sig úr að því leyti að Nítíða er ekki grimm eins og stallsystur hennar. Hún er auk þess sjálf aðalpersóna sögunnar en ekki karlhetjan sem kvænist henni að lokum. Sagan naut mikilla vinsælda öldum saman. Fyrirmyndir og hliðstæður. Nítíða saga er hluti af íslenskri hefð sem talin er hefjast með Clári sögu. Hana á Jón biskup Halldórsson að hafa fundið „skrifaða með látínu í Frannz“ en hann var Skálholtsbiskup frá 1322 til 1339. Ekkert er varðveitt af upphaflegu latínusögunni en fræðimenn telja þó að hún hafi verið til. Clárus, sonur Þýskalandskeisara, verður ástfanginn af Sérénu, dóttur Frakkakonungs. Hún er bæði vitur og fögur og „sakir hennar vizku lýtr náliga at henni öll stjórn ríkisins jafnfram sjálfum konungi.“ Clárus fer bónorðsför til hennar. Hún tekur honum vel í fyrstu og býður honum til veislu en þar niðurlægir hún hann með því að láta hann hella á sig eggjarauðu og hann verður frá að hverfa. Clárus er ósáttur við sinn hlut og fær læriföður sinn, meistara Pérús frá Arabíu, til að hjálpa sér. Pérús lætur smíða þrjá forkunnarfagra gripi sem Clárus siglir með til Frakklands. Nefnist hann nú Eskelvarð og segist vera prins af Blálandi. Séréna ágirnist kjörgripi Eskelvarðs og falar þá af honum, einn af öðrum. Hann vill ekki selja nema „fyrir sjálfrar hennar blíðu“. Þetta samþykkir hún en þegar hann ætlar að innheimta kaupið byrlar hún honum svefnlyf og lætur húðstrýkja hann. Allt fer á sömu leið með næsta kjörgrip. Þegar kemur að þriðja gripnum hafa Pérus og Clárus hins vegar snúið á Sérénu. Með því að beita galdraþröskuldi hafa þeir heillað Teclu Skotlandsprinsessu, þjónustumey Sérénu og fengið hana til að ganga erinda sinna. Hina þriðju nótt setur Tecla minna af svefnlyfinu í drykk Clárusar svo að hann vaknar um nóttina og getur komið fram vilja sínum við Sérénu. Pérus og Clárus taka nú til við að niðurlægja, blekkja og lúskra á Sérénu. Eftir að hún hefur þolað illa meðferð í eitt ár tekur Clárus hana loks til drottningar og sagan er úti. Aðrar riddarasögur sem fjalla um meykónga eru allar taldar frumsamdar á Íslandi eftir að Clári saga var þýdd snemma á 14. öld. Þær sem taldar eru í þennan flokk eru Dínus saga drambláta, Nítíða saga, Sigurðar saga þögla, Sigurgarðs saga frækna og Viktors saga og Blávus. Þær eiga margt sameiginlegt. Meykóngurinn er alltaf falleg kona og miklum mannkostum búin en mjög treg til að ganga í hjónaband. Hún er venjulega grimmlynd og ágjörn og hefur yndi af því að leika á vonbiðla sína. Að lokum sigrast hetjan þó alltaf á henni og þau giftast hamingjusamlega. Áður þurfa þó hetjan og meykóngurinn að þola miklar raunir hvort af annars hálfu. Meykóngasögurnar eru mjög í ætt við aðrar frumsamdar riddarasögur að stíl, sögusviði og byggingu. Söguþráður. Meykóngurinn Nítíða hin fræga tekur við ríki í Frakklandi eftir föður sinn. Hún er bæði vitur og fögur og er hvoru tveggja lýst í mörgum orðum. Sagan hefst á því að Nítíða vitjar fóstru sinnar, Egidíu drottningar, og fær son hennar Hléskjöld til liðs við sig. Nítíða siglir síðan til eyjarinnar Visio sem liggur út undan Svíþjóð hinni köldu. Þar stelur hún náttúrusteinum og fleiri dýrgripum af Virgilíusi jarli. Jarlinn veitir þeim eftirför en Nítíða hylur skip sitt með einum náttúrusteininum og sleppur þannig. Virgilíus er þá úr sögunni en náttúrusteinarnir koma oft fram seinna. Meginhluti sögunnar fjallar um tilraunir erlendra prinsa til að ná ástum Nítíðu eða neyða hana að öðrum kosti í hjónaband. Helstu vonbiðlarnir eru tveir, Ingi frá Miklagarði og Liforíus frá Indlandi. Ingi reynir að ná Nítíðu á sitt vald með aðstoð kuklarans Refsteins. Þeim tekst að færa meykónginn til Miklagarðs en hún sleppur auðveldlega þaðan aftur með því að beita náttúrusteini. Næst er það hinn fjölkunnugi Slægrefur sem hjálpar Inga að ræna Nítíðu en þegar til kemur hefur drottningin aftur leikið á þá því að sú sem þeir ræna er aðeins ambátt hennar í dulargervi. Tilraunir Liforíusar fara fyrst í stað á svipaða lund og Inga. Honum tekst með aðstoð dvergs nokkurs að nema Nítíðu á brott en hún sleppur auðveldlega aftur heim og hefur Svíalín, systur Liforíusar með sér. Þær verða síðan hinir mestu mátar. Liforíus leitar nú ráða hjá móðursystur sinni en í þessari sögu eru það ráð kvenna sem duga best. Hún ráðleggur Liforíusi að búast í dulargervi, dveljast einn vetur hjá Nítíðu og skemmta henni með fróðleik um fjarlæg lönd. Þetta gerir hann og nefnist Eskilvarður í dulargervinu, rétt eins og Clárus í sinni sögu. Nítíða sér að vísu í gegnum dulargervi Liforíusar en lætur sér þó vel líka og þegar veturinn er liðinn biður hún hann að kasta af sér gervinu. Ber nú Liforíus fram bónorð sitt og Nítíða þiggur. Ingi konungur er þó ekki af baki dottinn og þeir Liforíus heyja úrslitaorrustu. Á endanum friðmælast þeir og sögunni líkur hamingjusamlega á að allir fá kvonfang við sitt hæfi. Liforíus kvænist Nítíðu, Ingi Svíalín og Hléskjöldur Listalín, systur Inga. Sérstaða. Nítíða saga á margt sameiginlegt með öðrum meykóngasögum og ekki síst Clári sögu. Fyrir utan líkindi í söguþræði og að nafnið Eskilvarður er endurnýtt hefur verið bent á að sjálf nöfnin Nítíða og Clárus eru næstum sömu merkingar. Hins vegar er sagan af Nítíðu miklu þíðari og laus við allan kvalalosta. Nítíða er sjálf aðalpersóna sögunnar og sýnir töluvert sjálfstæði. Hefur jafnvel verið talið að Nítíða saga hafi verið skrifuð sem einhvers konar „svar“ við Clári sögu. Þótt Nítíða sé býsna sjálfstæð losnar hún þó ekki alveg undan hefðbundnu kynjahlutverki sínu. Bent hefur verið á að um leið og hún hefur heitið að giftast Liforíusi getur hann boðið hana fram sem verðlaun í viðureign þeirra Inga án þess að ráðgast við hana fyrst. Viðtökur. Nítíða saga er ein hinna frumsömdu íslensku riddarasagna en þær voru lengi vinsælt lesefni. Fræðimaðurinn Matthew Driscoll kallar þær „langvinsælasta lesefnið hér á landi um 700 ára skeið“. Til marks um vinsældirnar nefnir hann sérstaklega Nítíða sögu, segir hana varðveitta í tæplega 70 handritum og sé hún því „án efa vinsælust allra íslenskra sagna“. Í seinni tíð hefur riddarasögunum hins vegar lítið verið sinnt. Árið 1938 skrifaði fræðimaðurinn Erik Wahlgren að Nítíða saga væri „nánast óþekkt“ en hann bætir sjálfur nokkuð úr með bók sinni um meykónga. Sagan var fyrst gefin út 1965 í safni Agnete Loth, "Late Medieval Icelandic Romances". Þar birtist stafréttur texti eftir elsta handritinu eins og það hrekkur til en fyllt upp í með fáeinum öðrum. Samhliða er birt endursögn á sögunni á ensku. Sagan hefur ekki verið gefin út síðan og er því ekki til í lestrarútgáfu. Hún hefur þó vakið einhverja athygli undanfarin ár en til viðbótar orðum Driscoll sem vitnað var til að ofan má benda á BA-ritgerð Guðbjargar Aðalbergsdóttur um söguna. Priapos. Priapos eða Priapus var völsastórt goð frjósemdar og einnig garða í grískri goðafræði. Hann var allra mest tignaður í héruðunum við Hellusund. Hann réð fyrir frjóvgun akra og kvikfénaðar og var talinn sonur Díonýsosar og Afródítu. Sumar heimildir nefna Hermes eða Adonis sem föður hans. Líkneski hans voru reist í görðum og vínbrekkum til heilla. Rómversk útgáfa Priaposar nefndist: "Mutinus Mutunus". Ein frægasta mynd af honum er úr "Húsi tveggja Vettiusa" í Pompei. Á henni vigtar Priapos völsa sinn með reislu á móti sekk sem er fullur af peningum, og svo virðist sem völsinn vegi þyngra. Napólí. Napólí er borg í Kampanía-héraði á Suður-Ítalíu. Hún er þriðja stærsta borg landsins með rúmlega 1,3 milljónir íbúa en á stórborgarsvæðinu búa tæplega 4,5 milljónir. Borgin er um 2.500 ára gömul. Dresden. Dresden er höfuðborg þýska sambandslandsins Saxlands og er með 504 þúsund íbúa. Hún er þó ekki nema næststærsta borg Saxlands (Leipzig er fjölmennari). Dresden var áður fyrr höfuðborg kjörfurstadæmisins og konungsríkisins Saxlands. Borgin er þekkt fyrir ægifagrar byggingar og mikla menningu. Hún var nánast þurrkuð út af landakortinu í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Lega. Glæsibyggingar í miðborg Dresden. Til hægri er Saxelfur. Dresden liggur við Saxelfi um miðbik sambandslandsins, rétt norðan við tékknesku landamærin. Næstu borgir eru Chemnitz til vesturs (40 km), Leipzig til norðvesturs (60 km), Cottbus til norðausturs (70 km) og Prag í Tékklandi til suðausturs (90 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Dresden er lóðrétt tvískiptur skjöldur. Til vinstri er svart ljón á gulum grunni, en ljónið er tákn markgreifadæmisins Meissen. Til hægri eru tvær lóðréttar svartar rendur á gulum grunni en rendurnar tákna markgreifadæmið Landsberg. Bæði táknin voru þegar til árið 1309 sem innsigli borgarinnar. Orðsifjar. Heitið Dresden er dregið af slavneska orðinu drezdany, sem merkir "mýraskógabúar". Upphaflega er um tvær borgir að ræða, Dresden og Altendresden, en borgirnar sameinuðust ekki fyrr en 1549. Dresden er stundum kölluð Flórens við Elfina ("Florenz an der Elbe") og er með þeim orðum vísað til hinna frægu listaverka og listasafna sem eru í borginni. Upphaf. Landnám germana hófst á svæðinu snemma á 10. öld er Hinrik I keisari náði að leggja undir sig héraðið úr höndum slava. Hann stofnaði markgreifadæmið Meissen og þegar Dresden byggðist upp sem bær tilheyrði hann því. Bærinn kom fyrst við skjöl 1206. Í öðru skjali frá 1216 kemur fram að Dresden sé þegar komin með borgarréttindi. Dresden reis við vestari bakka Saxelfar. Við eystri bakkan myndaðist önnur byggð sem kallaðist Altendresden ("Gamla Dresden"). 1403 fékk Altendresden borgarréttindi og er því hér um tvær aðskildar borgir að ræða. 1429 lögðu hússítar borgirnar í rúst. Þær voru ekki sameinaðar í eina borg fyrr en 1549. Þrátt fyrir það var Dresden á þessum tíma enn frekar lítil og ómerk. 1485 var Saxlandi skipt í tvennt er synir kjörfurstans erfðu landið eftir föður sinn. Einn sonanna, Albert, ákvað að gera Dresden að aðsetri sínu. Í kjölfarið óx borgin og margar skrautbyggingar risu. Eftirmaður hans innleiddi siðaskiptin í borgina og varð einnig að kjörfursta. Þar með varð Dresden að einni mikilvægustu borg lúterstrúarmanna í þýska ríkinu. Stríðstímar. Í 30 ára stríðinu var Dresden hlutlaus til að byrja með. En þegar leið á stríðið kaus borgin að ganga til liðs við keisaraherinn og mótmælendur til skiptis, allt eftir því hvernig aðstæður voru hverju sinni. Borgin var víggirt og var aldrei hernumin í stríðinu. Þannig var Dresden með fáum stórborgum sem sluppu við stríðsátök og hersetu. Hins vegar ríkti oft hungursneyð í borginni og drepsóttir herjuðu á íbúa á stundum. 1685 eyddi stórbruni Altendresden gjörsamlega. Eftir uppbygginguna var hætt að nota heitið Altendresden heldur Neustadt, sem í dag er miðborgin sjálf. Glanstími borgarinnar hófst 1697 er furstinn Friðrik Ágúst I (kallaður hinn sterki) varð konungur Póllands í gegnum erfðir. Þá varð Saxland og Pólland undur stjórn sama manns. Í kjölfarið voru reistar ýmsar skrautbyggingar í Dresden, bæði kirkjur og kastalar. Einnig myndarleg herstöð, því konungur varð að hafa her. Á fyrri hluta 18. aldar þrefaldaðist íbúafjöldi borgarinnar og fór upp í 63 þús í manntali árið 1755. Meðan erfðastríðið í Austurríki geysaði í Evrópu hertóku prússar Dresden og héldu borginni til stríðsloka. Friðarsamningar stríðsins voru gerðir í Dresden 1745 og kallast Dresden-samningarnir. Aðeins örfáum árum seinna hófst 7 ára stríðið og hertóku prússar borgina þá á nýjan leik 1756. Þeir héldu henni í þrjú ár, þangað til austurrískur her gerði árás á borgina og náði að hrekja prússa þaðan. Mestu skemmdir á borginni urðu hins vegar í júlí 1760 er prússar komu aftur og réðust á Austurríkismenn í borginni. Þeir fengu ekki unnið hana, en skemmdir urðu miklar, enda var mikið skotið úr fallbyssum. Skemmdir urðu svo miklar og tjónið svo mikið að það tók 50 ár þar til íbúafjöldinn var aftur orðinn sá sami og fyrir stríð. Napoleonstríðin. Borgin var endurreist og talsvert víkkuð. Í frönsku byltingunni komu margir flóttamenn til Dresden, en einnig margir eftir skiptingu Póllands. 1806 barðist Saxland gegn Napoleon við Jena og Auerstedt, þar sem Frakkar unnu stórsigra. Í kjölfarið hernámu Frakkar Dresden 25. október. Í desember gekk Saxland í Rínarbandalagið og sveigðist með Frökkum. Saxland varð að konungsríki og kjörfurstinn varð að konungi. Dresden varð því að konungsborg og varaði það í rúm 100 ár, allt til 1918. Árið 1812 var haldin mikil ráðstefna í Dresden, er Napoleon hitti þar Frans I keisara Austurríkis og Friðrik Vilhjálm III konung Prússlands, ásamt ýmsum öðrum smáfurstum. Þar var rætt um framtíð Evrópu. Næsta ár gerðu rússneskir kósakkar Frökkum ýmsar skráveifur með skæruhernaði. Á tímabili náðu kósakkarnir að hertaka Dresden, en urðu brátt frá að hverfa aftur. 26. – 27. ágúst 1813 fór orrustan við Dresden fram. Þar réðust bandamenn á Frakka, sem á þessum tíma voru frekar fáliðaðir í borginni. Napoleon var að fást við Blücher herforingja í Slesíu en yfirgaf svæðið með her sinn og náði til Dresden í tæka tíð. Í bardaganum sem fylgdi sigruðu Frakkar, en aðeins vegna þess að sú frétt breiddist út að annar franskur her væri á leiðinni. Orrustan við Dresden var síðasta orrustan sem Napoleon sigraði í á þýskri grundu. Fáum mánuðum seinna fór Napoleon af stað í hina misheppnuðu herferð til Rússlands. Í kjörfarið yfirgáfu allir Frakkar borgina. Nýrri tímar. Dresden í rústum eftir loftárásir í heimstyrjöldinni síðari Á Vínarfundinum 1815 var alvarlega talað um að leysa upp konungsríkið Saxland, en það var ekki gert. Í iðnbyltingunni varð Dresden þekkt fyrir fíniðnað, sjónglerjaiðnað og matargerð. Hún var einnig gjarnan notuð sem ráðstefnuborg. Um aldamótin voru íbúar orðnir um hálf milljón og var Dresden þá fjórða stærsta borg Þýskalands. Þegar Þjóðverjar töpuðu heimstyrjöldinni fyrri, sagði Friðrik Ágúst III, konungur Saxlands, af sér, rétt eins og Vilhjálmur II keisari Prússlands. Dresden var ekki lengur konungsborg. Saxland varð að lýðveldi innan Weimar-lýðveldisins, ásamt ýmsum öðrum héruðum Þýskalands. Lengi vel slapp Dresden við loftárásir í heimstyrjöldinni síðari. Þær hófust hins vegar í ágúst 1944, en voru tiltölulega léttar og miðaðar við þann litla iðnað sem í borginni var. En 13.-14. febrúar 1945 var borgin fyrir gífurlegum loftárásum. Nær öll borgin var lögð í rúst, miðborgin sjálf var gjöreyðilögð. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um mannfall en það mun ekki hafa verið undir 25 þús manns og trúlega langtum fleiri. Það er þó rangt sem gjarnan er sagt að Dresden hafi verið sú þýska borg sem eyðilagðist hvað mest í stríðinu. Bæði Hamborg og Berlín eyðilögðust meira, sömuleiðis smáborgin Pforzheim. Hins vegar er enn deilt um tilgang loftárásanna. Sumir vilja meina að þær hafi verið hefnd fyrir loftárásir nasista á ensku borgina Coventry. Hins vegar varð eyðilegging Dresden að orðatiltæki í ensku máli en Bretar töluðu um að gera eitthvað eins og Dresden ("like Dresden"), sem þýðir að leggja eitthvað í rúst. Sovétmenn hertóku Dresden, sem var á þeirra hernámssvæði. Sem austurþýsk borg var hin skemmda miðborg látin vera í rústum að mestu leyti. Nokkrar byggingar voru gerðar upp, eins og Zwingerkastalinn og Semperóperan, aðrar rifnar niður. En stór hluti miðborgarinnar var í rústum allt til sameiningar Þýskalands. Þá var byrjað að endurgera ýmsar frægar byggingar, eins og Frúarkirkjuna. Við sameiningu Þýskalands 1990 varð Saxland að sambandslandi og Dresden varð að höfuðborg á ný. 2004 voru bakkarnir sitt hvoru megin við Saxelfi í borginni settir á heimsminjaskrá UNESCO en þeir voru teknir af skrá aftur þegar borgin lagði brú yfir fljótið á þessum stað. Viðburðir. Ýmsir listviðburðir eru í Dresden. Í apríl er kvikmyndahátíðin Filmfest Dresden í gangi. Hér er aðallega um teiknimyndir og stuttmyndir að ræða. Í júní er tónlistarhátíðin Dresdner Musikfestspiele sem sótt er af 150 þús manns árlega. Dixieland-hátíðin er haldin í maí en það er stór jazzhátíð með tónleikum, skrúðgöngum og ýmsu öðru. Hin alþjóðlega dansvika í Dresden er einnig haldin í maí en þar eru sýndir dansar úr ýmsum áttum og stefnum, allt frá ballett til nútímadansa. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Dynamo Dresden sem átta sinnum varð austurþýskur meistari, síðast 1990. Liðið komst í undanúrslit í Evrópukeppni meistaraliða 1989 en tapaði þá fyrir VfB Stuttgart. Meðal þekktra leikmanna félagsins má nefna Matthias Sammer og Ulf Kirsten. 1995 var liðið dæmt niður um tvær deildir þar sem það er enn. Kvennaliðið í blaki hefur tvisvar orðið þýskur meistari (1999 og 2007). Árið 2010 varð liðið Evrópumeistari en þá var úrslitakeppnin (kölluð Final Four) haldin í Dresden. Byggingar og kennileiti. Kastalasamstæðan Zwinger. Fyrir aftan kastalann er Semperóperan. Barnaheill. Barnaheill (e. "Save the Children") eru alþjóðleg félagasamtök sem starfa að því markmiði að bæta hag barna á Íslandi og í öðrum löndum. Upprunalegu samtökin voru stofnuð 1919 í London í Englandi. Íslandsdeild samtakanna var stofnuð 24. október 1989. Félagsmenn eru um 20 þúsund talsins og er félagið rekið með félagsgjöldum, fjárframlögum og fjáröflunum, þ.á m. útgáfu minningar- og jólakorta. Formaður er Helgi Ágústsson. Palermo. Palermo er stærsta borg Sikileyjar og fimmta stærsta borg Ítalíu. Í janúar 2006 voru íbúar borgarinnar 675.501. Verndardýrlingur hennar er Rosalia mey. Rotterdam. Rotterdam er næststærsta borgin í Hollandi með 610 þúsund íbúa og stærsta borg héraðsins Suður-Hollands. Í Rotterdam er stærsta höfn Evrópu og þriðja stærsta höfn heims. Lega og lýsing. Rotterdam er hafnarborg við Norðursjó og liggur í suðvestarlega í landinu. Meginborgin liggur við ána Nieuwe Maas en það er á sem myndast við samflæði Lek, (einn Rínararmanna) og norðurarms fljótsins Maas. Þar er myndarleg höfn, þótt hún sé nokkuð langt frá sjónum. En nýju hafnirnar, Europoort og Maasvlakte, liggja miklu vestar og eru mestmegnis á landfyllingu allt vestur í Norðursjó. Nú nær höfnin allt frá Norðursjó til miðborgarinnar en það er um 25-30 km vegalengd. Engin önnur höfn er svo stór í Evrópu. Um höfnina fara að sama skapi fleiri vörur en í nokkurri annarri evrópskri höfn. Um 80% af jarðolíu til Evrópu fer um Rotterdam. Við höfnina starfa um 320 þúsund manns. Stór hluti hennar er að meðaltali tveimur metrum fyrir neðan sjávarmál. Fáni og skjaldarmerki. Gervihnattamynd af hinni 30 km langri höfn í Rotterdam Skjaldarmerki Rotterdam er tvískipt. Fyrir ofan eru fjögur ljón, tvö rauð og tvö svört. Rauðu ljónin eru tákn héraðsins Hollands. Svörtu ljónin eru tákn héraðsins Hainaut, sem í dag er í suðurhluta Belgíu. Neðri hluti skjaldarmerkisins mynda þrjár lóðréttar rendur, græna, hvíta og græna. Græni liturinn er tákn greifanna af Weena, en hvíti liturinn vísar til árinnar Rotte. Það var Vilhjálmur I, greifi af Hollandi, sem veitti borginni þetta skjaldarmerki 1304 en hann var jafnframt greifinn af Weena og eigandi héraðsins Hainaut. Fáni Rotterdam var opinberlega tekinn í notkun 10. febrúar 1949. Hann var tekinn úr neðri hluta skjaldarmerkisins, en rendurnar látnar vera láréttar. Merking litanna er sú sama. Orðsifjar. Rotterdam heitir eftir ánni Rotte sem bærinn var byggður við. Á 13. öld var varnargarður lagðir við ána og landið gert byggilegt. Orðið –dam merkir "varnargarður". Saga Rotterdams. Rotterdam 1340. Fyrir miðju er áin Rotte, sem var nafngefandi fyrir borgina. Upphaf. Svæðið á núverandi borgarstæði var fenjótt í upphafi og þreifst þar aðeins lítilsháttar landbúnaður áður fyrr. Í kringum 1150 var mikið flóð í ánni Rotte, sem batt enda á allan landbúnað þar. Síðla á 13. öld var farið að byggja varnargarð um farveg árinnar, til að koma í veg fyrir önnur flóð og til að þurrka meira ræktarland. Í kjölfarið myndaðist myndarlegur bær við neðri hluta árinnar sem hlaut borgarréttindi 1340. Íbúar þar voru þó ekki nema 2000 þá. Áratug seinna var grafinn skipaskurðurinn Rotterdamse Schie, sem tengdi borgina við fjölmenn landsvæði í norðri. Þetta varð upphafið að því að Rotterdam varð að umskipunarhöfn verslunarvara frá Englandi og Þýskalandi. Við það varð borgin að auðugri og mikilvægri hafnarborg. Sjálfstæðisstríð. Rotterdam 1652. Höfnin er gríðarstór á þeim tíma mælikvarða. Rotterdam var ein fárra hafnarborga á Niðurlöndum sem hafði aðgang að sjó meðan 80 ára stríðið (sjálfstæðisstríð Niðurlanda) geysaði. 1572 réðust Spánverjar inn í borgina og rændu hana, enda stóð Rotterdam með Hollendingum í stríðinu gegn spænska landstjóranum. Þrátt fyrir það héldu vörur áfram að berast um höfnina í Rotterdam. Áður en 16. öldin var öll var búið að stækka hafnarsvæðið til muna til að anna vöruflutningum, sem sífellt jukust. Árið 1622 var íbúafjöldi Rotterdam kominn upp í 20 þús og hafði tvöfaldast á örfáum áratugum. Þar var Austur-Indíafélagið með aðalaðsetur, en það félag var með gríðarmikil umsvif í austurhluta Asíu (Indónesía í dag). Höfn. Höfnin í Rotterdam var aðaldriffjöðurinn í atvinnulífi borgarbúa, enda var borgin mesta hafnarborg Hollands. 1853 var árfarvegurinn Nieuwe Waterweg (Nýja vatnaleiðin) myndaður úr rennsli ánna Rín og Maas. Við það var Rínarfljót skipgengt til Ruhrhéraðsins í Þýskalandi í uppgangi iðnbyltingarinnar og hægt var að flytja kol og járn þaðan til Rotterdam. Höfnin stækkaði sífellt til vesturs með tilkomu Nieuwe Waterweg. Fyrst þandist hún út til hverfisins Feijenoord en 1894 var Rijnhaven lagður. Fyrir þá hafnaraðstöðu varð heilt þorp að víkja. Árið 1905 var Maashaven gerður og 1919 Waalhaven, en sá síðarnefndi gegndi hlutverki hafnaraðstöðu fyrir kol, málma og korn. 1923 bættist Merwehaven við og 1929 fyrsta olíuhöfnin. Í kjölfarið var olíuhreinsunarstöð reist þar. 1938 bættist svo önnur olíuhöfn við. Með öllum þessum höfnum fjölgaði störfum og þar með mannfjöldi í Rotterdam. Milli 1869 og 1913 fjórfaldaðist íbúafjöldinn en hann fór úr 116 þúsundum í 462 þúsund á þessum árum. Heimstyrjöldin síðari. Rotterdam brennur 14. maí 1940 Kveikt var á hundruðum ljóssúlna 14. maí 2007 til minningar um bruna Rotterdam Þegar Þjóðverjar réðust inn í Holland 10. maí 1940, áttu þeir ekki í teljandi vandræðum með að ná stærstu borgunum á sitt vald. Aðeins borgirnar Haag og Rotterdam veittu mikið viðnám. Þegar Holland var á valdi Þjóðverja þremur dögum síðar, var enn hart barist í Rotterdam. Þar hafði myndast nokkurs konar þrátefli. Hollendingar vörðu borgina af svo miklum þrótti að Þjóðverjar voru stöðvaðir. Þann 13. maí báðu herforingjar nasista um aðstoð Luftwaffe (herflugvéla). Næsta dag, 14. maí, gerðu þýskar flugvélar loftárásir á borgina. Þegar flugvélarnar nálguðust borgina, höfðu þýskir og hollenskir herforingjar þegar náð samkomulagi um uppgjöf borgarinnar. General Schmidt sendi þá orðsendingu til Berlínar um að láta flugvélarnar snúa við, en einhverra hluta vegna var það ekki gert. Allt í allt vörpuðu 57 flugvélar um 97 tonnum af sprengjum yfir Rotterdam, aðallega yfir miðborgina, sem við það gjöreyðilagðist í sprengingum og eldum. Áætlað er að um eitt þúsund manns hafi farist í þessum loftárásum og 85 þúsund manns urðu heimilislausir. Ástæðan fyrir því að aðeins eitt þúsund manns létu lífið í hildarleiknum var sú að tugþúsundir borgarbúar höfðu flúið átökin í borginni síðustu daga. Í loftárásunum var í kringum 2,6 km2 svæði í miðborginni jafnað við jörðu. Þar af voru tæp 25 þúsund heimili, 24 kirkjur, 775 vöruhús og 62 skólar. Við þessar hamfarir gafst hollenski herforinginn, General Winkelman, upp. Eftir þetta varð Rotterdam fyrir loftárásum Breta og Bandaríkjamanna, sem reyndu að eyðileggja þýskar stöðvar í borginni. Alls varð borgin fyrir 128 loftárásum í stríðinu. Alvarlegasta slíka árásin var gerð 31. mars 1943, er Bandaríkjamenn vörpuðu sprengjum á hafnarsvæðið vestur af miðborginni. Europoort. Europoort er 15 km langt hafnarsvæði í Rotterdam. Til vinstri er Maasvlakte í Norðursjó, en til hægri eru eldri hafnir. Eftir stríð var Rotterdam byggð upp á ný. Í stað gamalla húsa risu nú nýtískulegar byggingar, enda gamla miðborgin horfin. Einnig var höfnin lagfærð og stækkuð enn. Fyrsta stóra verkefnið var hin tröllaukna höfn Europoort, en hún er 15 km löng og er á landfyllingu skammt undan Norðursjó. Fyrir þessa nýju höfn urðu tvö heil þorp að víkja og eitt náttúrufriðsvæði. 1962 leysti Rotterdam New York af hólmi sem stærsta höfn heims. Síðan þá hafa hafnirnar í Shanghai og Singapúr farið framúr Rotterdam, sem enn er þriðja stærsta höfn heims. Næsta höfnin, Maasvlakte, var lögð 1970 til 1985 og er hún á mikilli uppfyllingu í Norðursjó (Hoek van Holland). Þegar framkvæmdum lauk var höfnin í Rotterdam orðin tæplega 30 km löng (loftlína). Fyrir vikið hefur hluti gömlu hafnarinnar í miðborginni verið lagður af og hafa risið þar ný íbúðahverfi, svo sem Kop van Zuid. En gríðarlegt magn af vörum fara um höfnina þar fyrir vestan. Til dæmis fara um 80% af allri jarðolíu til Evrópu um Rotterdam. Á hafnarsvæðinu öllu starfa í dag um 320 þúsund manns. Viðburðir. International Film Festival Rotterdam er stærsta kvikmyndahátíð í Hollandi. Hún hefur verið haldin síðan 1972. Síðan 1995 hefur hátíðin verðlaunað bestu myndir hvaðanæva að úr heiminum. Veitt eru Tiger-verðlaunin fyrir fyrstu kvikmynd ungra leikstjóra. Einnig eru sýndar tölvuteiknimyndir og tónlistarmyndbönd. North Sea Jazz Festival er jazzhátíð í Rotterdam. Hún var sett á laggirnar 1976 í Haag, en var flutt til Rotterdam 2006. Hátíðin fer fram aðra helgi í júlí og fara þá fram rúmlega 100 jazztónleikar. Margir af frægustu jazzgeggjurum heims mæta þar til leiks. Karnival er haldið hvert sumar í Rotterdam. Hér er ekki um dæmigert evrópskt karnival að ræða (sem haldið er að vori þegar kalt er), heldur er hermt eftir kjötkveðjuhátíðunum í Suður-Ameríku. Klæðnaður er eftir sumri og heitu veðri. Síðan hátíðinni var hleypt af stokkunum 1984 hefur hún verið gríðarlega vel sótt. Um ein milljón manna koma þá sérstaklega til borgarinnar. Hátíðin stendur yfir í nokkra daga. Í lokin er drottning hátíðarinnar valin, en það er sú kona sem þykir bera af í skrautklæðum. Íþróttir. Maraþonhlaupið í Rotterdam er fjölmennasta Maraþonhlaupið í Hollandi. Það hefur verið haldið í apríl síðan 1981 og er hlaupið í gegnum miðborgina. Þrisvar hefur verið sett heimsmet í greininni í Rotterdam: Carlos Lopes frá Portúgal 1985, Belayneh Dinsamo frá Eþíópíu 1988 og Tegla Loroupe frá Kenía 1998 í kvennahlaupinu. Þrjú stór knattspyrnufélög eru í Rotterdam, auk nokkurra minni. Feyenoord, Sparta og Excelsior. Feyenoord er eitt þriggja helstu liða í Hollandi (ásamt PSV Eindhoven og Ajax Amsterdam). Liðið hefur fjórtán sinnum orðið hollenskur meistari (síðast 1999), ellefu sinnum bikarmeistari (síðast 2008) og þrisvar Evrópumeistari (síðast 2002). Af fyrrum þekktum leikmönnum félagsins má nefna Giovanni van Bronckhorst, Johan Cruyff, Ronald Koeman, Ruud Gullit, Robin van Persie og Danann Jon Dahl Tomasson. Íslendingurinn Pétur Pétursson lék með félaginu 1978-81 og aftur 1984-85. Sparta Rotterdam hefur sex sinnum orðið hollenskur meistari (síðast 1959) og þrisvar bikarmeistari (síðast 1966). Í hjólreiðakeppninni Tour de France var Rotterdam ráspunkturinn árið 2010. Hjólað var af stað þann 4. júlí og var fyrsti áfangastaðurinn Brussel í Belgíu. Byggingar og kennileiti. Lárentínusarkirkjan er eina miðaldabyggingin sem eftir stendur í Rotterdam Sökum þess að Rotterdam varð illa úti í loftárásum í heimstyrjöldinni síðari, skartar hún fáum gömlum, þekktum byggingum. Kleon. Kleon (forngrísku: Κλέων) (d. 422 f.Kr.) var aþenskur herforingi í Pelópsskagastríðinu. Hann var fyrsti mikilsverði fulltrúi verslunarstéttarinnar í aþenskum stjórnmálum. Kleon var andstæðingur Períklesar í stjórnmálum. Gildran (kvikmynd). "Gildran" er íslensk kvikmynd eftir Örn Inga Gíslason. Hún fjallar um nokkrar unglingstúlkur á Akureyri sem vinna ferð til Færeyja. Myndin var frumsýnd árið 2002. Heimildir. http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=673666 Síðasti bærinn í dalnum (kvikmynd). "Síðasti bærinn í dalnum" er fyrsta leikna kvikmynd Óskars Gíslasonar. Hún var tekin upp á Tannastöðum í Ölfusi, í Kershelli og í Kjósinni og var frumsýnd árið 1950. Jórunn Viðar samdi tónlistina við myndina og var það fyrsta kvikmyndatónlist sem samin var á Íslandi við mynd í fullri lengd. Brot úr kvikmyndinni "Síðasta bænum í dalnum". Kímon. Kímon (forngrísku Κίμων, "Kimōn") (510 - 450 f.Kr.) var aþenskur herforingi og stjórnmálamaður. Hann var sonur Míltíadesar, sem leiddi her Grikkja til sigurs í orrustunni við Maraþon. Plútarkos segir að Kímon hafi verið „jafn hugrakkur og Míltíades, jafn klókur og Þemistókles og báðum mönnum réttvísari“. Hann var efnaður maður og þekktur fyrir örlæti. Kímon barðist í orrustunni við Salamis árið 480 f.Kr. Hann naut mikillar virðingar sem herforingi. Í stjórnmálum var hann íhaldssamur. Hann var mjög hlynntur Spörtu og studdi fámennisstjórnarsinna í aþenskum stjórnmálum. Helsti andstæðingur hans í stjórnmálum var Períkles. Knattspyrnufélag Vesturbæjar. Knattspyrnufélag Vesturbæjar (KV) var stofnað 17. september 2004. Stofnendur félagsinns eru 11 ungir drengir úr Knattspyrnufélagi Reykjavíkur, vildu ekki hætta að leika fyrir félagið þegar þeir gengu uppúr 2. flokk félagsinns. Síðan þá hefur Knattspyrnufélag Vesturbæjar verið hugsað fyrir þá KR-inga sem vilja halda áfram fótbolta. KV spilar á gervigrasvelli KR við Frostaskjól, sem hefur hlotið nafnið KV-park af stuðningsmönnum félagsinns. Stuðningsmannasveit KV heitir Miðjan. KV er í dag ekki eingöngu fótboltalið, heldur hefur félagið stofnað kvennalið, handknattleikslið, körfuknattleikslið og borðtennislið. Í kvennafótbolta KV sigraði meistaraflokkur 3. deild íslandsmótsinns, árið 2007. Kvennaliðið hafði fyrrum landsliðsþjálfarann Þorberg Aðalsteinsson sér innan handar á sama tímabili. Önnur lið KV hafa komist í 32 liða úrslit bikarkeppna á sínu sviði. Handknattleikslið KV datt út úr 32 liða úrslitum SS bikarkeppnarinnar gegn FH, árið 2006. Í körfuboltanum mætti liðið B-liði Snæfells í 32 liða úrslitunum ári síðar, eða á árinu 2007. Körfuliðið mætti svo nýstofnuðu liði Körfuknattleiksliði Ísafjarðar, í Reykjavík, en andstæðingarnir eru skipaðir uppöldum KFÍ leikmönnum. Körfulið KV náði jafntefli í fyrri hálfleik leiksinns, en annars hafði KFÍ-R yfirhöndina og vann leikinn 41-32. Fótboltalið KV hóf innreið sína í íslenska knattspyrnu sumarið 2005 þegar þeir mættu Hrunamönnum í VISA-bikar karla í knattspyrnu. KV vann leikinn 4-2 með tvennu frá Magnúsi Bernhard Gíslasyni, stöku marki frá Ómari Inga Ákasyni og Sverri Björgvinssyni. KV spilaði tveimur mönnum undir í leiknum eftir brottvísun Páls Kristjánssonar og Ómars Inga Ákassonar. Sigurður Pétur Magnússon, í liði Knattspyrnufélags Vesturbæjar skoraði sjálfsmark. Liðið komst svo upp í 2 deild tveimur árum seinna, eða á árinu 2009. Eftir það afrek styrkti liðið sig nokkuð með því að fá Halldór Svavar Sigurðsson frá Hömrunum, Ingvar Rafn Stefánsson frá Leikni, Jason Már Bergsteinsson frá Gróttu, Magnús Helgason frá Víking og Björn Ívar Björnsson frá KR, sem jafnframt hafði verið á láni til KV. Knattspyrnufélag Vesturbæjar spilar í svartri og hvítri peysu með svörtum buxum og sokkum, sem aðalbúning félagsinns. Varabúningur félagsins er bleik peysa við svartar buxur og svart-hvíta (röndótta) sokka. Stjórn félagsins í dag skipa (í stafrófsröð): Björn Berg Gunnarsson, Guðmundur Óskar Pálsson, Gunnar Kristjánsson, Jón Bjarni Kristjánsson og Páll Kristjánsson, sem jafnframt er formaður. KR-heimilið, þar eru höfuðstöðvar KR, sem þeir deila með KV Heimavöllur. KV-Park er heimavöllur KV. Völlurinn heldur 2781 manns. Völlurinn hefur verið heimavöllur félagsins frá því fyrsti leikur þess var leikinn árið 2005. Þekktir stuðningsmenn. Spennusagna og metsölu rithöfundurinn Arnaldur Indriðasson heldur með liðinu og sonur hans, Örn Arnaldsson spilaði með félaginu. Hann mætir þó einstaka sinnum á æfingar til að halda sér við. Heimildir. Vesturbær Lyngætt. Lyngætt (fræðiheiti: "Ericaceae") er ætt tvíkímblöðunga sem fælast kalk og þrífast í súrum jarðvegi. Ættin telur fjölda jurta sem flestar lifa við temprað loftslag, þar á meðal beitilyng, sortulyng, bláber, stikilsber og trönuber. Lyngbálkur. Lyngbálkur (fræðiheiti: "Ericales") er stór og fjölbreyttur ættbálkur tvíkímblöðunga sem telur bæði tré og runna, auk vafningsviðar og jurta. Sútun. Sútun er meðferð húða og skinna sem breytir eiginleikum þeirra og ver þau rotnun. Talað er um að súta skinn, en einnig að "barka" eða "garfa skinn". Fyrst eru skinnin útvötnuð til að skola salt úr húðinni, síðan er yfir- og fituhúð losuð, auk hárs ef ekki á að framleiða loðskinn. Það er oftast gert með kalklausn. Síðan er húðin afkölkuð og tyrð og böðuð í sútunarefnum. Þegar sútun er lokið eru skinnin borin feiti, stundum teygð og elt til að mýkja þau og oftast lituð. Hinar ýmsu sútunaraðferðir draga venjulega nafn sitt af þeim sútunarefnum sem notuð eru hverju sinni. Skrifræði. Skrifræði, regluveldi eða skrifstofuveldi er félagsfræðilegt hugtak sem vísar til ákveðinnar tegundar skipulagsheildar til stjórnunar. Einkenni skrifræðis eru sérhæfð verkaskipting, stigveldi, ítarlegt regluverk, miðstýring, varðveisla vinnugagna og starfsmannakerfi sem byggir á menntun og reynslu. Margar stofnanir fylgja skrifræðislegu skipulagi t.d. stjórnsýsla, herir, skólar, sjúkrahús og fyrirtæki. Í dag er hugtakið oft notað í neikvæðri merkingu, það er gjarnan tengt við Sovétríkin sálugu. Svo virðist sem að fólk tengi skrifræði við óskilvirkni. Þannig segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 1999 að meðal markmiða sé að „[d]regið verði úr skrifræði í samskiptum við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðaákvæði afnumin.“ Hugtakið er upphaflega franskt, "bureau" sem vísar til dúks sem var lagður yfir skrifborð og "kratos" sem er grískt orð sem þýðir ræði. Skrifræði er stundum óformlega nefnt "búrókrasía" og þeir sem fylgja henni "búrókratar" (sbr.: Thor Vilhjálmsson í "Ópi Bjöllunnar"). Sumir skrifa bæði orðin með enskum framburði og skrifa "bjúró-". Uppruni og þróun. Hugtakið skrifræði hefur verið notað síðan á 18. öld. Það er hins vegar þýski fræðimaðurinn Max Weber sem er þekktastur fyrir kenningar sínar um skrifræði. Weber hafði jákvæða skoðun á skrifræði, hann taldi það merki um stjórnarhætti sem væru lausir við geðþótta og einkenndust af skynsemi og lögmæti. Önnur skipulagsform lýsti hann sem náðargáfu og hefðarvaldi. Hefðarvaldsskipulag telst hver sú stofnun hafa séu yfirráð ákvörðuð byggt á hefðum og venjum, gott dæmi um slíkt eru konungsríki þar sem æsta vald ríkisins erfist milli kynslóða. Náðargáfa er það skipulag þegar persónutöfrar einstaklings eða sérstakir eiginleikar hans verði til þess að honum eru veitt völd. Hér má sem dæmi taka Adolf Hitler, Gandhi eða Che Guevara sem nutu ómældra vinsælda meðal þegna sinna og var veitt valdsumboð í krafti þess. Önnur dæmi geta verið trúarlegir leiðtogar sem segjast hafa sérstaka stöðu eða hæfileika. Í þessu samhengi skiptir ekki máli hvort umræddir leiðtogar hafi verið kosnir til valda á lýðræðislegan hátt, líkt og Hitler var, eða ekki heldur er greinarmunur gerður á því hvort viðkomandi sé í embættinu vegna verðleika eða ekki. Gliese 581 c. Gliese 581 c er fjarreikistjarna utan sólkerfis okkar sem er staðsett á sporbaug rauða dvergsins Gliese 581. Hún uppgötvaðist 4. apríl árið 2007 og líklega finnst á henni vatn í formi vökva. Reikistjarnan er 20,4 ljósár frá jörðu og er í stjörnumerkinu Voginni. Frekar upplýsingar gætu staðfest að Gliese 581 c sé fyrsta plánetan utan sólkerfisins sem líkist jörðinni. Eðlisfræðileg. Rannsóknir sýna að meðalhiti plánetunnar er um 0°-40° C. Massi plánetunnar áætlaður að vera 5 sinnum massi jarðarinnar og dregin var sú áætlun að plántetan er úr grjóti frekar en ís. Radíus plánetunnar er 50% helmingi meira en radíus jarðar og þyngdarkraftur 2,2 sinnum sterkari en á jörðinni. Sporbraut. Gliese 581 c er aðeins 14 jarðdaga að fara heilan hring á sporbraut sinni í kringum Gliese 581. Frá Gliese 581 c er 14 sinnum styttra til Gliese 581 en vegalengdin frá jörðinni til sólarinnar. Fundur. Plánetan var fundin 4. apríl árið 2007 af liði undir stjórn Stephen Udry hjá Geneva Observatory í Sviss. Stjörnukíkirinn sem notaður var staðsettur í La Silla í Chile. Spatt. Spatt (einnig nefnd hækilskemmd) er sjúkdómur í hestum sem einkennist af langvarandi bólgu, brjóskeyðingu og síðar kölkun í hækillið; stafar m.a. af mari á liðbrjóski, t.d. vegna ofreynslu eða af höggi á liðinn. Skiptar skoðanir eru þó um spattið. Talað er um að hestar séu "spatthaltir" (jafnvel "spattaðir"), eða að "spatthelti" þjái hest. "Spatthnútur" er beinhnútur sem myndast á hæklinum við spatt. Uppruni og einkenni. Spatt er slitgigt í flötu liðum hækilsins og einkennist af brjóskeyðingu og kölkun liða. Fyrstu sjúkdómseinkenni eru brjóskeyðing í smáliðunum þremur fyrir neðan hækillið. Venjulega eru breytingarnar í miðliðnum en stundum í þeim neðsta eða báðum neðri liðunum, sjaldan í efsta liðnum. Þessi smáliðir eru ekki hreyfiliðir en virka sem demparar. Hreyfing hækilsins verður milli völubeins og langleggs. Brjóskið eyðist smám saman upp og þegar svo er komið að bein liggur við bein byrjar liðurinn að kalka saman. Sýnt hefur verið fram á að spatt er arfgengt en tengist ekki notkun á hestum til reiðar enda byrjar brjóskeyðingin alla jafa fyrir tamningu. Sumir hestar heltast við spatt, aðrir ekki, jafnvel greinileg merki slitgigtar hafi komið fram á röntgenmyndum. Hægt er að framkalla svokallað beygjupróf til að finna út hvort hestur sé spattaður eða ei. Liðurinn er þá krepptur í 1 til 2 mínútur og hesturinn næst látinn hlaupa. Helti í spöttuðum hestum er mest þegar hann leggur af stað en lagast svo þegar líður á þjálfunina - hesturinn liðkast til. Sé spattið á háu stigi, þ.e. að liðirnir séu mikið skemmdir og brjóskið mikið eytt, þá versnar heltin með brúkun. Spatt á Íslandi. Spatt er mjög algengur sjúkdómur í íslenskum hestum. Merki um spatt hefur fundist í beinum hesta í kumlum frá landnámsöld. Tekist hefur að rækta spatt úr mörgum hestakynjum, en íslenskir hestaræktendur eiga langt í land. Á Ísland er ekki gefið upp hvaða stóðhestar hafa komið illa út úr spattrannsóknum, sem er mjög umdeilt. Allir 5 vetra stóðhestar sem koma til kynbótadóms skulu hafa verið röntgenmyndaðir til að sjá hvort skuggi (spatt á frumstigi) hafi myndast í hækilliðum. Neðanmálsgreinar. Nú árið 2011 eru ný lög um upplýsingaskyldu vegna kynbótahrossa á Íslandi og eru öll hross sem greinst hafa með spatt merkt með (S) í skýrslum sínum. Hrossasótt. Hrossasótt er sjúkdómur í hestum og er haft um innanveiki af ýmsum toga. Hrossasótt er í raun samheiti yfir sjúkdóma í kviðarholi hrossa. Yfirleitt er orsökin truflanir í meltingarvegi, magaoffylli, stífla, vind- eða krampakveisa eða garnaflækja. Orsakir hrossasóttar má oftast rekja til snöggra breytinga á fóðrun og fóðri, t.d. þegar hestar eru teknir á hús fyrri hluta vetrar. Helstu einkenni hrossasóttar geta verið að hesturinn missir skyndilega alla matarlyst, krafsar hvar sem hann stendur án þess að grípa niður, slær afturfótum fram undir kvið, lítur aftur fyrir sig á magann og nartar í hann, veltir sér og svitnar mikið. Mikilvægt er að greina öll einkenni á vanlíðan hestsins. Dýralæknir sker svo einn úr um hvað beri að gera og metur ástand hrossins með því að athuga blóðrás, þarmahreyfingar og framkvæmir endaþarmsskoðun. Ef komið er að hesti sem liggur og hefur einkenni hrossasóttar skal koma honum sem fyrst á fætur og reyna að láta hann hreyfa sig. Batamerki er þegar loft og tað fer að ganga aftur af hestinum. Múkk. Múkk eða múk er bólga og útbrot á hestfæti, einkum undir hófskegginu. Múkk er bólga og útbrot sem kemur oft í kjúkubætur á hestum á því tímabili sem hárskipti fara fram (hárlos á vetrum). Þetta er ekki hættulegur sjúkdómur en getur orðið erfiður viðureignar og veldur oft helti. Múkk lýsir sér sem hrúður af útferð úr bólginni húðinni og svo myndast oft djúp sár. Ef hestur er með múkk skal sápuþvo sárið vel, leysa hrúðrið upp og þegar húðin er orðin þurr skal nudda vel inní hana "múkkáburði" eða öðrum "súlfaáburði". Grautaræxli. Grautaræxli er æxli á nösum hesta, stafar af fitukirtli. Skjal (hrossasjúkdómur). Skjal er bólga í tannholdi hesta sem lýsir sér m.a. í því að tannholdið vex yfir tennurnar. Holdhnóska. Holdhnjóska eða holdhnúskar nefnast útbrot á útigangshrossum sem koma til af kulda og vætu. Tíðnin er mest að hausti os vetri þegar tíð er rysjótt. Orsakir og einkenni. Þegar holdhnjóskar myndast koma hrúður og sár á hrygg og lend hrossins. Þetta kemur vegna þess að efsta lag húðarinnar blotnar og springur. Leðurhúðin verður varnarlítil en hún á að sjá um að halda hita á hrossinu. Þá veita fitukirtlar fitu út á yfirborð líkamans en sú fita klessist í hár hrossins. Séu holdhnjúskarnir rifnir af sést í bera kvikuna þar. Hross sem þjáð eru kvillanum geta fljótt lagt af og verða kulvísir þar sem hárin og leðurhúðin virka ekki lengur á réttan hátt til að halda á þeim hita. Sum hross fá það mikla hnjúska að ekki er hægt að leggja á þau hnakk fyrr en hnjóskarnir eru dottnir af. Meðferð. Hross í hagagöngu þurfa að hafa aðgang að góðu skjóli en það er mikilvægasta aðgerðin til að koma í veg fyrir holdhnjóska. Eftir því sem hárin vaxa lyftast holdhnjóskarnir upp. Hægt er að mýkja hnjóskana mep grænsápu eða mjúkri olíu. Einnig er hægt að örva hárvöxt með bíótín- og vítamíngjöf. Ágrip. Grip er sár aftan á framfæti hests vegna þess að hann hefur stigið afturfætinum fram á hann. Það er einnig nefnt grip, þegar hestur stígur afturfæti fram á hliðstæðan framfót og særir hann eða mer. Þá geta hrossin „fléttað“ og slegið framfótarskeifu á olnboga sem og innanfótar á legginn. Klums. Klums er krampi í tyggivöðvum (einkum hrossa) sem veldur því að skepnan getur ekki opnað kjaftinn og nærst. Hækillega. Hækillega er fæðingargalli hjá ferfætlingum, en það er þegar afturlimir fóstursins eru beygðir í hækillið. Skæll. Skæll (enska: "Lampas") er bólga í tannholdi hesta (aftan við efri framtennur) og veldur því að hesturinn á erfitt með að bíta gras. Magnús Einarsson segir í "Dýralækningabókinni," að skæll kallast það í hestum, þegar fremsta gómfellingin, rétt aftan við efri framtennurnar, stækkar að mun, svo að hún verður mun hærri en tennurnar. Skrautknappur (byggingarlist). Skrautknappur er skraut í byggingarlist. Skrautknappur getur verið hringlaga kúptur hlutur eða eitthvert miðjuskraut þar sem bogar eða steigar mættast í miðri (kirkju)hvelfingu. Það getur verið gylltur hnappur, andlit eða hnútavöndull. Alabastur. Lampi gerður úr ljósu og brúnu alabastri Alabastur eða mjólkursteinn er afbrigði af gifsi og er oft notað sem tálgusteinn í listmuni. Miklar alabastursmyndanir eru m.a. á Ítalíu. Sinalco. Sinalco er gosdrykkur sem var fyrst settur á markað árið 1902. Hann er seldur í yfir 40 löndum. Sinalco er elsti gosdrykkur Evrópu. Árið 1902 fann þýski vísindamaðurinn Friedrich Eduard Bilz upp „Bilz Brause“, gosduft, sem hann hóf að selja í félagi við auðjöfurinn Franz Hartmann. Ýmsar eftirlíkingar voru settar á markað. Bilz og Hartmann héldu keppni um nafn á vöruna. Þeir völdu nafnið „Sinalco“ (stytting á latneska frasanum "sine alcohole", „án alkóhóls“). Sinalco var fljótlega fluttur út til annarra Evrópulanda, til Suður-Ameríku og miðausturlanda. Vörumerkið með rauða hringnum var skráð árið 1937. Sérstaklega hönnuð flaska var sett á markað á 6. áratug 20. aldar. Afbrigði. Að auki framleiðir Sinalco orkudrykki, te og drykkjarvatn. Bókrolluskreyti. Bókrolluskreyti er skreytiverk sem minnir á uppvafða pappírsrollu. Það var einkum notað í umgjörðum ýmiss konar, t.d. um skjaldarmerki og í íburðarmiklum römmum. Bókrolluskreyti var algengt í franskri og hollenskri skreytilist á 16. og 17. öld. Rolla. Rolla (latína: rotulus) (einnig nefnd ströngull eða roðull) er uppvafið pergament (bókfell), papírus eða pappír og hefur að geyma bók. "Pappírsrolla" er rolla úr pappír, "bókfellsrolla" (eða "pergamentsrolla") rolla úr pergamenti o.s.frv. Bókfell. Bókfell er verkað skinn, sem notað var til að skrifa á bækur og önnur rit. Bókfell er ósútað skinn, rotað, skafið og sléttað. Skinnið er einkum af kálfum, kindum og geitum. Farið var að nota pergament í handrit á 2. öld og hélst svo uns pappír leysti það af hólmi. Pergament var (og er) einnig notað við bókband og í trumbur. Íslendingasögurnar voru t.d. skrifaðar á bókfell. Bækur í slíku formi eru oftast kallaðar "skinnhandrit". Viktor Dyk. Viktor Dyk (31. desember 1877, Pšovka u Mělníka – 14. maí 1931 Lopud) var tékkneskt skáld, leikskáld, rithöfundur, lögfræðingur og stjórnmálamaður. Viktor taldist íhaldssamur þjóðernissinni, árið 1918 stofnaði hann Lýðræðislega þjóðernisflokk Tékkóslóvakíu (t. Československá národní demokracie). Teiknimynd. Teiknimynd er röð teiknaðra mynda sem eru sýndar með stuttu millibili og veldur því að þær virðast vera á hreyfingu. Yfirleitt er hver rammi í teiknimynd sýndur í u.þ.b. 8 til 10 hundruðustu úr sekúndu (10 til 12 rammar á sekúndu), en í venjulegri kvikmynd í u.þ.b. 4 hundruðustu úr sekúndu (24 rammar í sekúndu). Teiknimyndir eru líka þættir sem eru sýndir á barnastöðvum eins og Cartoon Network. Ómar Ragnarsson. Ómar Ragnarsson á Edduverðlaununum 2007. Ómar Þorfinnur Ragnarsson (f. 16. september 1940) er íslenskur fjölmiðlamaður og formaður stjórnmálaflokksins Íslandshreyfingarinnar til bráðabirgða. Ómar var í fyrsta sæti á framboðslista þeirra í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2007 en náði ekki kjöri. Á löngum ferli sínum hefur Ómar starfað sem fréttamaður, skemmtikraftur, rithöfundur, flugmaður og lagasmiður. Ómar er giftur Helgu Jóhannsdóttur forstöðukonu, og eiga þau sjö uppkomin börn. Hann hefur til margra ára barist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunnar og gaf út bókina "Kárahnjúkar - með og á móti" árið 2006. Að kvöldi 26. september sama ár leiddi hann ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 um mann ársins 2006 varð Ómar hlutskarpastur. Fréttastofa Stöðvar 2 valdi hann sömuleiðis mann ársins það ár. Niðurgangur. Niðurgangur er þunnar og vatnskenndar hægðir. Niðurgangur er ósjaldan af völdum veiru- eða bakteríusýkinga, en getur einnig verið merki um ofnæmi, vannæringu eða bara tilfallandi eins og t.d. að áfengi dragi til sín vatn úr líkamanum sem veldur niðurgangi. Alvarlegur bráðaniðurgangur er algeng dánarorsök í þróunarlöndum og veldur stórfelldum ungbarnadauða á heimsvísu. Niðurgangur á íslensku. Til eru fjölmörg orð og orðasambönd sem höfð hafa verið um niðurgang á íslensku. Mætti þar t.d. nefna: "aflausn", "áhlaup", "bakruni", "búkhlaup", "drulla", "hlessa", "hlessingur", "innanskömm", "innantökur", "innyflakvíði", "lífsýki", "lækjarkata" eða "lækjarkatrín", "puðra", "pula", "skepa", "skita", "skotra", "skurra", "steinsmuga", "útsótt", "þotur", "þunnlífi" og "þúfnalúra". "Þotur" er einnig haft um vindgang. Einnig er talað um að "fá búkhlaup", "kyssa hann Indriða", "fá Katrínu frá Langalæk í heimsókn" og allt haft í merkingunni að "fá niðurgang". Sögnin að "skurra" er einnig höfð um lekandi hægðir. Áramótaskaup 1968. "Áramótaskaupið 1968" nefndist "„Í einum hvelli.“" Það var í umsjá Flosa Ólafssonar og Ólafs Gauks Þórhallssonar. Auk þeirra komu fram m.a. Bessi Bjarnason, Egill Jónsson, Gísli Alfreðsson, Jón Aðils, Róbert Arnfinnsson, Sigríður Þorvaldsdóttir, Þóra Friðriksdóttir og Sextett Ólafs Gauks ásamt Svanhildi Jakobsdóttur og Rúnari Gunnarssyni. Áramótaskaup 1969. "Áramótaskaupið 1969" var eftir Flosa Ólafsson sem auk þess var leikstjóri þess. Magnús Ingimarsson útsetti, stjórnaði tónlist og samdi handrit að hluta. Auk Flosa komu fram: Árni Tryggvason, Bryndís Schram, Gísli Alfreðsson, Helga Magnúsdóttir, Jón Aðils, Karl Guðmundsson, Nína Sveinsdóttir, Pétur Einarsson, Þórunn Sigurðardóttir og fleiri. Áramótaskaup 1966. "Áramótaskaupið 1966" var í leikstjórn Andrésar Indriðasonar. Það var tekið upp í nýstofnuðu Ríkissjónvarpinu 30. desember 1966 og sýnt daginn eftir. Það fylgdi á eftir árlegri áramótaútvarpssendingu Ríkisútvarpsins, en í kjölfar þess hefur skapast hefð fyrir því að eitt skaup sé sýnt ár hvert á gamlárskvöld. Landmannahellir. Landmannahellir er lítill skúti vestan við Löðmundarvatn. Landmannahelli er varla hægt að telja sem helli þar sem hann er aðeins 14 metrar að dýpt, 8 metra breiður og 4 metrar til lofts. Þar höfðust bændur við með sauðkindur sínar þegar farið var í leitir og eftirleitir áður en kofi var byggður á staðnum. Landmannahellir er 50 kílómetra frá Rjúpnavöllum og vinsæll áningastaður ferða- og hestamanna. Þar er tjaldstæði og ágæt aðstæða fyrir ferðmenn. Skeiðarárhlaup. Eitt stærsta hlaup aldarinnar var Skeiðarárhlaupið árið 1996. - Sunnudaginn 29. september kl. 10:48 hefst skjálftahrina í Bárðarbungu sem boðar komu eldgoss. -Um einum og hálfum sólahring síðar, stuttu fyrir miðnætti mánudagsins 30. sept. hefst gos á um 6 km langri spurngu undir ísnum. Bræðsluvatnið rennur í gengum móbergshrygg sem myndaðist í gosi árið 1938 yfir í grímsvötn. -Þriðjudaginn 1. okt höfðu myndast myndarlegir sigkatlar yfir sprungunni, og vatnið hækkaði og hækkaði í Grímsvötnum. -2. október kl. 5 um morgun braust eldurinn upp úr 400m þykkum ísnum sem segir okkur að þá hafi töluvert magn af ís þegar verið bráðnaður en ekkert bólaði hlaupi. -Föstudaginn 11. okt hafði myndast um 3.5 km löng gjá í jökulinn. Hún var um 500 m breið nyrst en mjókkaði niður í 200 m syst. Þar sem gjánni sleppti tók við sprungubelti í jöklinum sem náði langleiðina suður að Grímsvötnum. -Þriðjudaginn 15. Okt, tveim vikum eftir að gosið hófst, lauk því eða lá allavegana niðri í bili. Eldgígurinn sem lengst var virkur hafði náð að hlaðast upp úr vatni og gjáin nánast full af gosefnum. -Fimmtudaginn 17. Okt lauk gosinu endanlega, eldgígurinn náði allveg upp úr vatninu og vatnshæð Grímsvatna komin upp í 1505 m. -Skeiðarárhlaup hófst kl. 8 að morgni þriðjudagsins 5. Nóv og náði hámarki um kl. 23 með 45 þús. rúmmetra á sek. Tveim klst seinn var hlaupið hjaðnað Sameignarstefna. Sameignarstefna (e. "Collectivism") er sú hugmynd að framleiðslutæki og annað sem skapar verðmæti og nauðsynjar (t.d. land, verksmiðjur, verkfæri, húsnæði) eigi að vera í almannaeigu og sé nýtt á grundvelli jafnræðis. Samfélagið í heild sér um daglegan rekstur þess með því að skipuleggja nýtingu sameigna á grundvelli sameiginlegrar ákvarðanatöku og jafnrar ábyrgðar. Sameignarstefnan hefur verið útfærð með aðalega tvennu móti, annarsvegar af stjórnleysingjum og hins vegar kommúnistum. Í kommúnisma hefur hugmyndin verið sú að afrakstri framleiðslutækjanna sé dreift til almennings eftir þörfum hanns. Hins vegar hefur sú hugmynd verið við lýði meðal stjórnleysingja að dreifing afrakstursins ætti að fara eftir framlagi hvers og eins. Hugmyndin er sú að grundvöllurinn í sameignarsamfélagi sé félagslegur ávinningur, ekki fjárhagslegur hagnaður. Stjórnleysingjar telja auk þess að sameignarstefnu sé ekki hægt að þvinga upp á fólk heldur verði viljinn til hennar að koma frá því sjálfu á meðan kommúnistar gera almennt ráð fyrir því að sameignarstefnan eigi að gilda sjálfkrafa fyrir alla í hverju þjóðfélagi og eiga við um alla framleiðslu óháð vilja hvers einstaklings. Tennis. Tim Henman að gefa upp. Tennis er íþrótt sem leikin er milli tveggja leikmanna eða tveggja liða með tveim leikmönnum í hverju liði sem kallast tvíliðaleikur. Notast er við tennisbolta sem slá á yfir net og á vallarhelming andstæðingsins. Boltinn má ekki skoppa tvisvar á sama vallarhelmingi. Við uppgjöf þarf maður að hitta inn í kassa sem er ská á móti manni til þess að byrja stigið. Það eru fjórar aðal keppnir í tennis, Ástralska opna, Franska opna, Wimbledon og Bandaríska opna. Melrakkaey. Melrakkaey er eyja á Grundarfirði við Snæfellsnes. Þar er mikið og fjölbreytt fuglalíf. Eyjan var friðlýst vegna þess árið 1972. Óheimilt er að fara í eyna án leyfis Náttúruverndar ríkisins og til verndar fuglalífi eru skot bönnuð nær eynni en 2 km. Áramótaskaup 1971. "Áramótaskaupið 1971" átti upphaflega að vera í höndum Flosa Ólafssonar eins og árin á undan. Hann var fenginn til að skrifa handrit, en Jóni Þórarinssyni dagskrárstjóra þótti það bera of mikinn keim af fyrri skaupum. Hann lofaði þó að málið væri í góðum höndum, en "Áramótaskaupið 1970" varð ekkert venjulegt skaup. Í stað þess var Gamlársgleði. Um hana sáu Ása Finnsdóttir og Ómar Ragnarsson. Þau tóku á móti gestum í sjónvarpssal og á milli var sungið, spilað og sprellað með léttu hjali. Meðal gesta voru: Bessi Bjarnason, Gunnar Eyjólfsson, Símon Ívarsson, Guðrún Á. Símonar, Þuríður Sigurðardóttir, Árni Johnsen, Björgvin Halldórsson, Ingimar Eydal og hljómsveit hans, Jónas R. Jónsson, Kristinn Hallsson, Ragnar Bjarnason, Sigurður Rúnar Jónsson og systkini og Þrjú á palli. Náttúruvernd. Náttúruvernd er sú stefna að vilja vernda náttúruna fyrir óæskilegum áhrifum af athöfnum mannsins. Á Íslandi hefur menn í seinni tíð sérstaklega greint á um jafnvægið á milli náttúruverndar annars vegar og hins vegar þess að að knýja orkufreka stóriðju með vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Til að ná jafnvægi á milli þessara ólíku sjónarmiða hefur Alþingi samþykkt Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Áramótaskaup 1970. "Áramótaskaupið 1970" var í höndum Flosa Ólafssonar. Hann sá um sjónvarpshandrit og leikstjórn. Magnús Ingimarsson útsetti og stjórnaði tónlist og samdi að hluta. Auk Flosa komu fram: Þóra Friðriksdóttir, Ævar R. Kvaran, Jón Aðils, Bessi Bjarnason, Jón Júlíusson, Laddi, Þuríður Friðjónsdóttir, Anna Geirsdóttir o.fl. Áramótaskaup 1972. "Áramótaskaupið 1972" var í raun ekkert áramótaskaup. Um var að ræða áramótagleðskap sem hét: "Hvað er í kassanum?" þar sem fjöldi þekktra og óþekktra listamanna kom fram. Kynnir var Vigdís Finnbogadóttir. Upptöku stjórnaði Tage Ammendrup. Áramótaskaup 1973. "Áramótaskaupið 1973" var ekkert eiginlegt áramótaskaup. En þess í stað var sýndur þáttur sem var nefndur "Þjóðskinna". Þjóðskinna var helgaður ýmsum þjóðþrifamálum og merkisatburðum sem áttu sér stað 1973. Meðal efnis má nefna fréttir, fréttaskýringar og viðtöl, auk þess framhaldssögur, fjölda greina og fleira létt efni. Ritstjórar Þjóðskinnu voru Andrés Indriðason og Björn Björnsson, en leikstjóri var Laddi og um tónlistina sá Magnús Ingimarsson. Á undan Þjóðskinnu var sýndur þátturinn: "Jólaheimsókn í fjölleikahús". Sjónvarpsdagskrá frá jólasýningu í Fjölleikahúsi Billy Smarts. Áramótaskaup 1974. "Áramótaskaupið 1974" var í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar og fjallaði "um minnisverð tíðindi frá árinu, sem senn er á enda" - eins og sagði í kynningu. Höfundar þess voru Andrés Indriðason, Björn Björnsson, Hrafn Gunnlaugsson og Tage Ammendrup. Söngtextar voru eftir Hermann Jóhannesson, Helga Seljan o.fl. Meðal þátttakenda voru: Áróra Halldórsdóttir, Árni Tryggvason, Bessi Bjarnason, Helga Stephensen, Jón Aðils, Karl Guðmundsson, Klemenz Jónsson, Nína Sveinsdóttir, Sigríður Þorvaldsdóttir, Sigurður Karlsson, Soffía Jakobsdóttir, Steinun Jóhannesdóttir, Valdemar Helgason, Valur Gíslason, Henny Hermannsdóttir o.fl. Áramótaskaup 1967. "Áramótaskaupið 1967" var skemmtidagskrá í umsjá Ómars Ragnarssonar, Magnúsar Ingimarssonar og Steindórs Hjörleifssonar. Gestir voru m.a.: Bessi Bjarnason, Flosi Ólafsson, Lárus Ingólfsson, Margrét Ólafsdóttir, Sigríður Þorvaldsdóttir, Þóra Friðriksdóttir, Þorgrímur Einarsson ásamt hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og söngvurunum Þuríði Sigurðardóttur og Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Seres (dvergreikistjarna). Seres (einnig ritað Ceres) er dvergreikistjarna í smástirnabeltinu. Seres var uppgötvuð 1. janúar 1801 af "Guiseppe Piazzi" (1746-1826). Hún var upphaflega flokkuð sem reikistjarna, síðar sem smástirni og frá 2006 sem dvergreikistjarna. Ceres (gyðja). Ceres var gyðja akuryrkju, einkum kornræktar, og móðurástar í rómverskri goðafræði. Nafn hennar er af indóevrópskum uppruna, af rótinni „ker“, sem þýðir „að vaxa“. Ceres var dóttir Satúrnusar og Ops, móðir Próserpínu og systir Júpíters, Júnóar, Vestu, Neptúnusar og Plútós. Ceres samsvarar Demetru í grískri goðafræði. Mínerva. Mínerva var gyðja visku og hagleiks í rómverskri goðafræði. Uppruna hennar má rekja til Etrúra en Mínerva varð fyrir miklum áhrifum frá grískri goðafræði og varð að rómverskri hliðstæðu Aþenu í grískri goðafræði. 2013. Árið 2013 (MMXIII) verður í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á þriðjudegi. 2014. Árið 2014 (MMXIV) verður í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á miðvikudegi. Áramótaskaup 1977. "Áramótaskaupið 1977" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1977 og nefndist "áður en árið er liðið" og var sýnt á RÚV. Stjórnendur þáttarins voru Ómar Ragnarsson og Bryndís Schram. Listi yfir íslenska framhaldsskóla. Heimildir. Framhaldsskólar Eiður Smári Guðjohnsen. Eiður Smári Guðjohnsen (f. 15. september 1978) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann byrjaði atvinnuferill sinn hjá hollenska félaginu PSV Eindhoven og hefur síðan átt litríkan feril í atvinnuknattspyrnu. 24. apríl 1996 urðu Guðjonsen og faðir hans, knattspyrnumaðurinn Arnór Guðjohnsen, fystu feðgarnir til að spila í landsleik gegn Eistlandi í Talinn. Arnór var í byrjunarliðinu og Guðjonsen kom inn í hálfleik sem varamaður fyrir föður sinn. Þáverandi forseti Knattspyrnusambands Íslands Eggert Magnússon gaf þjálfaranum Loga Ólafssyni skipun um að spila leikmennina ekki saman fyrr en leikurinn gegn Makedóníu yrði tveimur mánuðum síðar. Það varð þó aldrei, því að hinn ungi Guðjonsen öklabrotnaði í U19 landsliðsleik gegn Írlandi 1996. Hann spilaði með PSV Eindhoven í Hollandi og liðið loks rifti samningi sínum við hann. Eidur gekk því til liðs við Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Það var þó stutt því Eiður Smári spilaði aðeins 8 leiki með KR áður en hann fór til Bolton árið 1998 eftir að Guðni Bergsson þáverandi leikmaður Bolton lýsti Eiði sem ótrúlegum leikmanni. Eiður er langmarkahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi með 24 mörk. Bolton Wanderers. Eiður spilaði aðallega með varaliði Bolton árið 1998 þar sem hann barst við að ná sér af meiðslum sínum. En eftir að Bolton seldi Arnar Gunnlaugsson til Leicester City ákvað Colin Todd að fríska upp á framlínuna og Eiður fékk að spreyta sig með aðalliðinu snemma árs 1999. Þetta tímabil skoraði Eiður 5 mörk. Á tímabilinu 99/00 átti Eiður frábært tímabil með Bolton og skoraði 18 mörk. Eftir þetta frábæra tímabil voru mörg lið á eftir leikmanninum. Eiður hafði lýst því yfir að hann vildi vera lengur hjá Bolton en hann féllst á tillboð frá Chelsea upp á 4 milljónir punda. Chelsea FC. Eiður Smári byrjaði vel og 01/02 tímabilið var mjög gott með Jimmy Floyd Hasselbaink sér við hlið. Eiður og Jimmy eru af mörgum talnir besta framherjapar Chelsea frá upphafi. Þetta tímabil skoraði Eiður 23 og hjálpaði Hasselbaink skora heil 27 mörk. Þessi boltameðferð hjá honum sem hann fullkomnaði með frábærum mörkum fór alls ekki framhjá neinum. Árið 2004 skoraði hann sína fyrstu þrennu á sínum atvinnumannaferli á móti Blackburn Rovers. Á þessum sex árum sem hann spilaði með Chelsea átti hann yfir 60 stoðsendingar og Jose Mourinho taldi sig þurfa að setja Eið Smára á miðjuna, kanntinn eða sem djúpan framherja þar sem hann taldi leikmanninn hafa svakalega yfirsýn, fyrstu snertingu og knatttækni. Eftir yfirtöku Roman Abramovich á félaginu og komur Andriy Shevchenko, Adrian Mutu, Didier Drogba, Salomoun Kalou og Mikael Ballack var ljóst að Eiður myndi ekki fá mörg tækifæri með Chelsea á næsta tímabili. Eiður skoraði á sínum 6 árum með Chelsea 54 mörk. FC Barcelona. Þann 14. júní 2006 skrifaði Eiður Smári Guðjohnsen undir fjögurra ára samning við spænska liðið Barcelona og er talið að hann hafi kostað í kringum 8,5 milljónir punda. Eiður stóð sig vel hjá Barcelona fyrstu 2 árin í framlínunni. En tímabilið 07/08 fékk Eiður ósköp lítið að spreyta sig eftir komu nýja stjórans Guardiola. Eiður var byrjaður að spila á miðjunni sem tengiliður og taldi hann það vera sín besta staða. Tímabilið 08/09 reyndist það síðasta með Barcelona og spilaði hann töluvert meira með liðinu heldur en á síðasta tímabili. Eiður spilaði 113 leiki með Barcelona og skoraði 19 mörk. En í byrjun ársins 2010 tók Guardiola þá ákvörðun að Eiður væri ekki í sínum framtíðarplönum og mætti hann leita sér af nýju liði. Mörg lið á Englandi sýndu Eiði Smára áhuga eftir að hann fór á sölulista hjá Josep Guardiola, stjóra liðsins. AS Monaco. Eiður Smári gekk til liðs við AS Monaco í Frakklandi á tveggja ára samningi frá FC Barcelona í lok ágústmánaðar 2009 fyrir um það bil þrjár milljónir evra. Eiður náði sér ekki á strik og skoraði ekki deildarmark í yfir tíu leikjum með liðinu þannig að hann staldraði stutt við hjá Monaco því að hann gekk til liðs við Tottenham Hotspur á Englandi á 5 mánaða lánssamningi þann 28. janúar 2010. Eiður hafði þó farið í læknisskoðun hjá West Ham United en valdi á síðustu stundu að fara til Spurs. Tottenham Hotspur. Eiður Smári kláraði seinna hluta 09/10 tímabilsins hjá Tottenham Hotspur á Englandi, þrátt fyrir að hafa gengist undir læknisskoðun hjá West Ham United. David Sullivan einn af tveimur eigendum West Ham varð bálreiður og sakaði Tottenham um að hafa stolið Eið frá sér. Gianfranco Zola, fyrrum liðsfélagi Eiðs Smára hjá Chelsea og þáverandi þjálfari West Ham, sagði að hann beri alls enga virðingu fyrir Eiði Smára lengur. Eiður Smári stóð sig með prýði hjá Tottenham á þessum 5 mánuðum og hjálpaði liðinu með að komast í Meistaradeild Evrópu. Eiður skoraði sitt fyrsta mark fyrir Spurs í 2-1 sigurleik gegn Stoke City þann 20. mars, þá skoraði hann fyrra mark liðsins og lagði upp hið seinna. Eiður skoraði einnig mark gegn Fulham í FA Cup en sá leikur endaði 3-1 fyrir Tottenham. Eftir þessa góðu frammistöðu leikmannsins sagði Harry að hann dáist að hæfileikum leikmannsins og vill endilega fá hann aftur næsta tímabil. Stoke City. Eiður Smári gekk til liðs við Stoke City rétt fyrir lok félagsskiptagluggans þann 31. ágúst 2010 á samningi sem gildir út tímabilið. Fyrst virtist þetta vera lánssamningur en seinna kom í ljós að Stoke City hafi borgað um 3 milljónir punda fyrir hann og Eiður Smári var laus allra mála hjá Monaco. Einkalíf. Eiður Smári er giftur maður og á þrjú börn með konu sinni Ragnhildi. Börn hans heita Sveinn Aron, Andri Lucas og Daníel Tristan. Sveinn og Andri spila knattspyrnu í knattspyrnuakademíu FC Barcelona. Árið 2003 viðurkenndi Eiður að hann ætti við spilafíkn að stríða og hafði tapað yfir 3 milljónum punda. Hann sagði að hann spilaði mikið fjárhættuspil vegna þess að honum leiddist á Englandi í frítíma sínum Í febrúar 2010 greindi breska slúðurblaðið The Sun frá að Eiður Smári hafi haldið framhjá konu sinni með frönsku fyrirsætunni Vanessu Perroncell. Bæði Eiður Smári og Vanessa Perroncell neituðu þessum fréttaumfjöllunum. Duke-háskóli. Duke-háskóli (e. Duke University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Durham í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1838 í bænum Trinity en var fluttur til Durham árið 1892. Tóbaksframleiðandinn James B. Duke stofnaði Duke-sjóðinn árið 1924 en af því tilefni var skipt um nafn á skólanum og var hann nefndur Duke-háskóli í minningu Washingtons Duke, föður James B. Duke. Skólinn skiptist í tvo grunnnámsskóla og átta framhaldsnámsskóla. 37% grunnnema tilheyra minnihlutahópum en grunnnemar koma frá öllum 50 fylkjum Bandaríkjanna og 117 löndum víða um heim. Árið 2007 taldi "U.S. News & World Report" að í grunnnámi væri Duke áttundi besti háskóli Bandaríkjanna. Læknaskóli, lagaskóli og viðskiptaskóli Duke voru jafnframt meðal 11 bestu í Bandaríkjunum. Kennarar við skólann eru 2518. Grunnnemar eru á 7. þúsund eða framhaldsnemar eru tæplega 6000. Fjárfestingar skólans námu 4,5 milljörðum dollara árið 2006. Einkunnarorð skólans eru "Eruditio et religio" eða „Þekking og trú“. Próserpína. Próserpína er gyðja í rómverskri goðafræði. Hún samsvarar Persefónu í grískri goðafræði. Nafn hennar er myndað af sögninni "proserpere" sem þýðir að „koma í ljós“. Próserpína, sem er dóttir Ceresar og Júpíters, er gyðja endurfæðingar. Hún er jafnframt drottning undirheima þar sem hún ríkir ásamt manni sínum Plútó. Próserpína dvelur hálft árið með Plútó en hálft árið með móður sinni ofanjarðar. Árstíðarskipti voru talin fylgja komu og för Próserpínu. Þegar Próserpína kemur til Ceresar móður sinnar vorar og náttúran lifnar öll við, en vetur skellur á þegar hún hverfur aftur til undirheima. Vulcanus. Vulcanus er guð elds og smíða í rómverskri goðafræði. Hann samsvarar Hefæstosi í grískri goðafræði. Vulcanus er sonur Júpíters og Júnóar og eiginmaður Venusar. Hann var talinn ljótastur guðanna. Smiðja hans var gjarnan talin vera undir eldfjallinu Etnu á Sikiley. Pomona. Pomona var aldingyðja í rómverskri goðafæði. Hún var gyðja ávaxta, trjáa og garða. Pomona er eingöngu rómversk gyðja og á sér ekki hliðstæðu utan rómverskrar goðafræði. Fortuna. Fortuna eða Fortúna er persónugervingur lukkunnar í rómverskri goafræði (hliðstæð "Tykke" í grískri goðafræði). Fortuna var stundum talin blind (eins og Réttlætið) og gat því bæði táknað góða lukku og slæma, heppni og óheppni. Fortuna var dýrkuð um gervallt Rómaveldi. Gormánuður. Guðbrandur Þorláksson á málverki frá 17. öld Gormánuður heitir fyrsti mánuður vetrar og ber nú upp á laugardag á bilinu 21. – 27. Október, nefnist sá dagur Fyrsti vetrardagur. Gormánuður virðist ekki hafa átt önnur nöfn að fornu og nafnið vísar til sláturtíðar. Frá því um 1500 og fram yfir 1800 hófst vetur hinsvegar á föstudegi og í gamla stíl lenti það þá á bilinu 10.-17. Október. Eins og sumardagurinn fyrsti var hann messudagur fram til 1744, en sérstakar hugvekjur voru lesnar í heimahúsum lengi eftir það. Guðbrandur Þorláksson kallar október "slátrunarmánuð". Vetrarboð eða blót fyrsta vetrardag. Veturnáttaboða er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu. Raunar má segja, að engin árstíðabundin boð eða blót séu nefnd eins oft nema um jólaleytið. Þetta á sér líklega þær náttúrulegu skýringu að á haustin var mest til af nýju sláturkjöti, og var það nánast nauðsyn að neyta þess nýmetis þá í sem ríkustu mæli vegna þeirra vandkvæða, sem þá voru á geymslu þess, þegar ekki voru til frystihús og salt. Kornuppskera var þá einnig lokið, hafi hún verið einhver. "Öllu verri er veturinn en Tyrkinn." Og er þar vísað til hræðslu manna við sjóræningja þá sem kenndir voru við Tyrki. Því er líklegt að í veturnóttaboðum hafi heiðnar vættir verið blótaðar í þeim tilgangi að fá þær til að milda veturinn, líkt og líklega hafi verið með þorrablót. Þegar svo kirkjan tekur að berjast fyrir afnámi heiðinna siða, treysti hún sér sjaldnast til að afleggja veisluhöldin sjálf, því að fólkið vill hafa sína eiki og brauð, heldur leitaðist hún við að breyta trúarlegu inntaki þeirra og hnikar tímasetningunni til. Varla hefur því mannfagnaður í vetrarbyrjun verið látinn með öllu niður falla. Ólafur Tryggvason færði haustöl til Mikjálsmessu, en sá dagur hefur ekki hentað hér, þar sem sláturtíð var vart hafin. Líkur benda hinsvegar til þess, að annar dagur nærri vetrarbyrjun, allraheilagramessa, hafi komið í staðinn. Veðurspá fyrir vetri. Eins og fyrir sumarbyrjun hafa menn gert sér far um að spá með ýmsum hætti fyrir veðurfari vetrarins. Einna kunnastur voru þær aðferðir að spá í vetrarbrautina, kindagarnir eða milta úr stórgripum. Vetrarbrautin. Vetrarbrautina átti að lesa frá austri til vesturs, en hún þótti sjást best í nóvember. Henni var skipt í þrjá hluta og vetrinum sömuleiðis. Þar sem voru þykkir kaflar í vetrarbrautinni, átti að verða snjóþungt um veturinn á samsvarandi tíma. Sauðagarnir. Þegar spá skyldi í sauðagarnir, var aðeins mark takandi á fyrstu kindinni, sem slátrað var heima á haustin. Byrjað var að skiða garnirnar hjá vinstrinni og táknaði hún upphaf vetrar. Síðan var haldið ofaneftir. Jafnan er nokkuð um tóma bletti í görnunum og áttu þeir að boða harðindakafla á vetrinum. Milta. Þegar spáð var í milta, voru skornir tveir eða þrír skurðir í það, helst blindandi, og það síðan hengt upp á vegg. Menn greinir lítið eitt á um það, hvort taka ætti mark á skurðunum sjálfum, hversu djúpir þeir yrðu, eða þeim hlutum miltans, sem urðu á milli þeirra, og virðist það algengara. Miltað hvítnar smám saman, þegar það hangir og þornar, og áttu þeir hlutar þess, sem fyrst hvítnuðu, að segja fyrir um snjóasömustu kafla vetrarins. Atferli dýra. Talsvert mark var og tekið á ýmsu í atferli dýra. Þetta átti bæði við um húsdýrin, en líka önnur nábýlisdýr svo sem mýs, hrafna og refi, jafnvel orma og pöddur. Ýlir. Ýlir er annar mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst á mánudegi í fimmtu viku vetrar á tímabilinu 20. nóvember til 27. nóvember. „Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuður heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstur í vetri heitir gormánuður, þá er frermánuður...“ (1949:229). Ásgeir Blöndal Magnússon telur orðið skylt orðinu jól en uppruni þess orðs er umdeildur. (Árni Björnsson 1993:321) telur mánaðarheitið ýlir helstu röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember. Þennan mánuð kallar séra Oddur "skammdegismánuð". Mörsugur. Mörsugur er þriðji mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst alltaf á miðvikudegi í níundu viku vetrar á tímabilinu 20. til 27. desember. Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, hélt því fram að mörsugur væri sá mánuður sem sýgur mörinn, „ekki einasta úr skepnunum, heldur nánast öllu sem lífsanda dregur.“ Sólmánuður. Sólmánuður, einnig nefndur "selmánuður" í Snorra-Eddu, er níundi mánuður ársins og þriðji sumarmánuður samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst alltaf á mánudegi í 9. viku sumars (18. – 24. júní). Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu "Atli" sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um Sólmánuður, að hann væri sá tími er sól gengur um krabbamerki. Hann byrjar á sólstöðum og fyrst í honum fara menn á grasafjall. Um það leyti safna menn þeim jurtum, sem til lækninga eru ætlaðar og lömb gelda menn nálægt Jónsmessu er færa frá viku seinna. Engi, sem maður vill tvíslá, sé nú slegið í 10. viku sumars. Vilji maður uppræta skóg skal það nú gjörast; þá vex hann ei aftur. Nú er hvannskurður bestur síðast í þessum mánuði. Heyannir. Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Heyannir er mánuður sá, sem sól hleypur um ljónsmerki. Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími. Tvímánuður. Tvímánuður er ellefti mánuður ársins og fimmti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Tvímánuður hefst alltaf á þriðjudegi í 18. viku sumars eða hinni 19., ef sumarauki er, þ.e. 22. – 28. ágúst. Í Snorra-Eddu heitir hann "kornskurðarmánuður". Haustmánuður. Haustmánuður er tólfti mánuður ársins og sjötti og þar með síðasti sumarmánuður samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Haustmánuður hefst alltaf á fimmtudegi í tuttugustu og þriðju viku sumars, á bilinu 20. til 26. september. Sima Qian. Sima Qian (u.þ.b. 145 f.Kr. – 90 f.Kr.) var embættismaður á Han tímabilinu í Kína. Hann er álitinn vera faðir sagnaritunar í Kína vegna rit hans Shiji sem dekkar sögu Kína frá Gula Keisaranum til Wu Keisara sem spannar yfir 2000 ár. Einnig var hann stjörnufræðingur og bjó til eitt merkasta dagatal á sínum tíma, Taichuli. Þar lýsti hann árinu sem 365,25 dögum og mánuðinum sem 29,53 dögum. Mao Zedong. Maó Zedong heldur ræðu árið 1939 Mao Zedong (skrifað með hefðbundnum kínverskum táknum: 毛澤東, með einfölduðum táknum: 毛泽东, umskrifað með pinjin: Máo Zédōng, umskrifað með aðferð Wade-Giles: Mao Tse-tung) (f. 26. desember 1893, d. 9. september 1976) var kínverskur marxisti og pólitískur leiðtogi Kína. Mao er einnig þekktur sem skáld, rithöfundur og skrautskrifari. Í samræmi við kínverskar nafnhefðir er kenni- eða fjölskyldunafnið talið fyrst, það er Maó, eiginnafnið er Zedong. Maó Zedong tók þátt í stofnþingi kommúnistaflokks Kína árið 1921 sem fulltrúi Hunan-héraðs. Hann var síðan skipaðu formaður kommúnistaflokks Kína á 7. flokksþingi hans árið 1945. Kommúnistaflokkurinn stofnaði Alþýðulýðveldið Kína árið 1949 undir forystu Maós og var hann leiðtogi þess til dauðadags árið 1976. Maó hefur verið gagnrýndur mjög harkalega eftir dauða sinn og verður umfjöllun um hann sífellt neikvæðari því meira sem kemur í ljós. Nafni hans er þó haldið á lofti í Kína enn þann dag í dag þar sem kommúnistastjórn er enn við völd. Fjölskylda, menntun og fyrri störf. Maó fæddist í Shaoshan í Hunan héraði. Hann var af fátækum bændaættum en faðir hans, Yi Chang (fæddur 1870) hafði borgað skuldir sínar með herþjónustu og hafði efnast töluvert á hrísgrjónaræktun og sölu. Fjölskylda Maós var sem sagt ein sú ríkasta í þorpinu vegna eljusemi og ósérhlífni föður Maós. Þrátt fyrir þetta leyfðu þau sér engan munað og vann Maó ýmis sveitastörf baki brotnu í æsku. Maó leiddist sveitastörf og erfiðisvinna og vildi helst liggja yfir bókum. Maó byrjaði í barnaskóla átta ára að aldri og gekk vel þar sem að námið byggðist aðallega á utanbókarnámi upp úr ritum Konfúsíusar og hafði Maó afburðagott minni. Maó var mjög uppreisnagjarn og svaraði eldra fólki og kennurum alltaf fullum hálsi. Þegar hann var þrettán ára var hann rekinn, eða beðinn að fara úr skóla í fjórða sinn og hætti faðir hans þá að borga fyrir menntun hans. Því kom Maó aftur heim að hjálpa föður sínum við búskapinn og reikningshald. Fjórtán ára giftist Máo síðan átján ára gamalli frænku sinni (sem dó ári seinna) og settist aftur á skólabekk. Maó hóf 18 ára gamall nám við gagnfræða- og menntaskóla í Changsha borg árið 1911. Þar fóru leiðtogahæfileikar Maós að blómstra og var hann leiðtogi stúdentasamtaka í skólanum. Árið 1918 lauk hann þar námi og stofnaði „Námssamtök nýrrar alþýðu“. Maó fékk síðan starf á bókasafni Peking háskóla þar sem hann kynntist Li Dazhao. Þar varð Maó fyrir sósíalískum áhrifum og tók hann því þátt í 4. maí-hreyfingunni árið 1919. Árið 1920 stofnaði Maó bókmenntasamtök til að dreifa boðskap kommúnista. Maó tók síðan þátt í stofnþingi kommúnista árið 1921. Stóra stökkið framávið. Maó lýsir yfir stofnun Kínverska alþýðulýðveldisins 1. október 1949 á Torgi hins himneska friðar Máo lagði mikla áherslu á að koma iðnvæðingu á í Kína sem hafði verið bændasamfélag frá örófi alda. Frá stofnun alþýðulýðveldisins var farið af stað með svokallaðar fimm ára áætlanir að sovéskri fyrirmynd allt þar til árið 1957 þegar áætlunin um stóra stökkið framávið var hrundið af stað. Stóra stökkið (The great leap forward) var efnahagsáætlun sem miðaði að því að koma iðnaði í Kína framar en helstu iðnríkja heims á örfáum árum. Til þess átti að eyða sem minnstum fjármunum og átti þessi áætlun að byggja á mannlegri viðleitni. Frá október 1957 fram í júní 1958 voru yfir 100 milljónir Kínverja látnir grafa skurði og hlaða flóðgarða í áveituframkvæmdum við lélegar aðstæður. Þetta verkefni var ekki árangursríkt og leiddi það af sér tímabundinn afturkipp í efnahagslífinu. Samtímis varð uppskerubrestur og kreppa í landbúnaði sem leiddu af sér mikla hungursneyð sem kostaði 15-25 milljónir manns lífið.. Á árunum 1960-1962 ríkti því kreppa í Kína. Menningarbyltingin. Menningarbyltingin hófst í nóvember 1965 og var allsherjar uppgjör hins róttækra og hins hægfara arms Kommúnistaflokks Kína. Kona Maós, Jiang Qing, fór þar fremst í flokki sem fulltrúi menningarmálaráðuneytisins. Mikil eyðilegging fornminja og menningarverðmæta átti sér stað í baráttunni gegn „gamaldags hugsun“. Stöðnun varð í menntamálum í Kína á þessum tíma þar sem forsvarsmenn menningarbyltingarinnar börðust gegn fornum kínverskum menningararfi, svo sem kenningum Konfúsíusar, sem þeir töldu að ýttu undir íhaldssemi og hefðu staðið framþróun í Kína fyrir þrifum. Í menningarbyltingunni var kommúnistaflokkurinn nánast klofinn og ýmsir innan flokksins voru bornir alvarlegum sökum og fangelsaðir. Róttæklingar hvöttu til uppreisnar menntamanna sem leiddi síðan af sér fylkingu „Rauðra varðliða“ sem hugðust gera uppreisn gegn öllum andstæðingum Maós. Undir lokin lá við borgarastríði í Kína og Frelsisherinn varð að grípa inn í. Maó tókst þó að styrkja stöðu sína innan flokksins enn frekar og hafa aðgerðir hans á þessu tímabili oft verið nefndar „hreinsuninn mikla“. Síðustu dagar Maós. Maó dvaldi síðustu vikur ævi sinnar í jarðskjálftaheldri byggingu sem kallaðist 202. Hann var bitur og sár undir það síðasta og harmaði mjög að hafa ekki náð að breyta Kína í það heimsveldi sem hann hafði ætlaði sér. Hann hélt skýrri hugsun allt til dauðadags en heilsu hans hafði verið að hraka í nokkra mánuði áður en hann lét lífið tíu mínútur yfir miðnætti aðfaranótt 9. september 1976. Bækur um Maó. Maó er mjög umdeildur leiðtogi og um hann hafa verið samdar margar bækur. Nafni hans er haldið mjög á lofti í Kína enn þann dag í dag þar sem kommúnistastjórn er enn við völd. Hann hefur þó verið gagnrýndur mjög harkalega eftir dauða sinn, einkum á Vesturlöndum. Hann hefur til dæmis verið gagnrýndur harðlega fyrir „stóra stökkið framávið“ og „menningarbyltinguna“ en þessar áætlanir hans höfðu í för með sér margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir efnahag og menningu Kína. Neikvæð gagnrýni í garð Maós nær hámarki í bókinni "Maó, sagan sem aldrei var sögð" eftir Jung Chang og Jon Halliday. Aðrar bækur sem gagnrýna Maó, þó mismikið, eru til dæmis: "Mao Zedong" eftir Deliu Davin (1997), "Mao Zedong" eftir Jonathan Spence (1999), "Mao: A Biography" eftir Ross Terill (1999) og "Mao: A Life" eftir Philip Short (1999). Tenglar. Zedong, Mao Sun Tzu. Sun Tzu (f. 544 f.Kr. – d. 496 f.Kr.) var höfundur bókarinnar Stríðslistin. Mikil duld er uppruna þessa mans og eina heimildin um hann er ævisaga skrifuð af Sima Qian sem lýsir honum sem kínverskum hershöfðingja sem lifði á 6. öld f.Kr. og var því samtímamaður Konfúsíusar. Ekki er um samtímaheimild að ræða og Sun Tzu gæti vel verið tilbúin persóna eða einhver sem útfærði gamla texta. Þá er Stríðslistin hugsanlega samantekt annarra texta eða munnmæla líkt og Bókin um veginn, en Stríðslistin er undir áhrifum hennar og taóisma. Sun Tzu var svokallaður "shi" sem var meðlimur af landlausum aðli og ferðaðist um og bauð þjónustu sína í hernaði (einskonar hernaðar ráðgjafi). Helü konungur af Wu á að hafa notið þjónustu hans og breytt konungsveldi sínu úr frekar frumstæðu konungsveldi yfir í ráðandi konungsveldi í Kína með aðstoð Tzu. Eftir þetta þá hverfur Sun Tzu af sögusviðinu og því er dánardagur hans ókunnur. Gammageisli. Mynd af flutningabíl með laumufarþega innanborðs tekin með gammageislum. Gammageisli er rafsegulgeislun sem á uppruna sinn innan kjarna atóms í stað fyrir færslu rafeinda á milli brauta eins og venjulegt ljós og röntgengeislun á uppruna sinn í, eða þegar rafeind og jáeind rekast á og eyða hvor annarri. Gammageislar eru orkuríkustu geislar rafsegulrófsins og eru því hættulegastir fyrir lifandi vefi en eru einnig þeir geislar sem eiga minnstu möguleika á að hafa áhrif á atómin sem byggja upp líkamsvefi lífvera. Vegna þess hversu litlar líkur eru á því að gammageisli víxlverki við atóm þarf mikið og þykkt efni til að verjast gammageislunar. Kjarnakraftur. Kjarnakraftur er skammdrægur frumkraftur, sem verkar milli nokkura öreinda, einkum kjarneinda í frumeindakjarna. Á annars vegar við sterka kjarnakraft, sem heldur saman kjarneindum frumeindakjarnams og veika kjarnakraft, sem veldur betasundrun. J. K. Rowling. Joanne Rowling betur þekkt sem J. K. Rowling (f. 31. júlí 1965) er höfundur hinna sívinsælu ævintýrabóka um galdrastrákinn Harry Potter, sem selst hafa í milljónatali um allan heim. Í júní 2011 hafa bækur hennar um Harry Potter selst í um 450 milljónum eintaka og verið þýddar á 67 tungumál. Brons. Brons er málmblanda kopars og tins, en á einnig við ýmsar málmblöndur kopars og áls, kísils og mangans. Brons gegndi mikilvægu hlutverki í mannkynssögunni á bronsöld. Brons er enn notað en er þá aðallega þekkt sem látún, sem er blanda kopars og sinks. Standa. Standa er keðja stórmarkaða á Ítalíu. Keðjan var formlega lögð niður árið 1999 en nokkrir tugir stórmarkaða eru enn reknir undir þessu vörumerki sem nú er í eigu þýska eignarhaldsfélagsins Rewe-Billa sem rekur stórmarkaði undir nafninu Billa. Fyrirtækið "Magazzini Standard" var stofnað í Mílanó 21. september 1931 og rak brátt fjölda vöruhúsa um alla Ítalíu. Vegna nýrra laga á tímum fasista þar sem reynt var að gera ítölsk heiti fyrirtækja að skyldu, var nafninu breytt í "Standa" sem átti að standa fyrir "Società Nazionale Tutti Articoli Nazionali Dell'Abbigliamento". 1958 opnaði fyrirtækið fyrsta stórmarkað Ítalíu sem seldi matvöru. Eignarhaldsfélagið Montedison eignaðist fyrirtækið 1966 og 1988 var það selt til Fininvest, fyrirtækis í eigu Silvio Berlusconi. Það keypti stórmarkaðakeðjuna Brianzoli 1991 og hóf að bæta við sig sölustöðum. 1998 var keðjan leyst upp og allir hlutar rekstursins sem ekki voru matvara seldir til eignarhaldsfélagsins Coin sem rekur fataverslanir undir merkinu Oviesse. Matvöruhluti rekstursins var seldur sama ár til eins af fyrri eigendum Brianzoli sem seldi hann síðan til Rewe-Billa árið 2000. Timothy McVeigh. Timothy James McVeigh (23. apríl 1968 – 11. júní 2001) var bandarískur hryðjuverkamaður og fjöldamorðingi. Hann hlaut dauðadóm fyrir hryðjuverk sem hann framdi í Oklahoma-borg þann 19. apríl 1995 en þá sprengdi hann í loft upp byggingu og drap 168 manns. Hryðjuverkin voru þau mannskæðustu í sögu Bandaríkjanna fyrir hryðjuverkin 11. september 2001. Fjölmiðlar nefndu hann gjarnan „Oklahoma-borgar sprengjumanninn“ (e. Oklahoma City bomber). Hann var tekinn af lífi með eitursprautu klukkan 7:14 að morgni 11. júní 2001. Halldór Jakobsson. Halldór Jakobsson (f. 2. júlí 1735 — d. 9. september 1810) var sýslumaður í Strandasýslu. Hann var sonur Jakobs sterka Eiríkssonar á Búðum í Staðarsveit og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Bróðir hans var Jón Jakobsson sýslumaður á Espihóli, faðir Jóns Espólín. Halldór lauk prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 22 ára að aldri og var ári síðar skipaður sýslumaður í Strandasýslu. Hann var róstusamur og drykkfelldur, átti oft í deilum, beit bændur í ölæði svo sá á þeim og var oftar en einu sinni vikið frá embætti fyrir afglöp. Hann þótti fégjarn og nískur og hið sama var sagt um konu hans, Ástríði Bjarnadóttur Halldórssonar sýslumanns á Þingeyrum. Þau giftust 1760 en tveimur árum áður hafði Ástríður eignast barn með skrifara föður síns, Erlendi Sigurðssyni frá Brekkum. Bjarni sýslumaður er sagður hafa reiðst svo ákaflega þegar hann frétti af þunguninni að hann sló dóttur sína niður og sparkaði í hana. Vafalaust hefur Ástríður ekki verið spurð álits þegar hún var gefin Halldóri, enda var samkomulag þeirra hjóna alltaf slæmt og þegar þau voru komin á sjötugsaldur skildu þau. Fór Ástríður þá fyrst til Halldórs bróður síns á Reynistað en síðar til Þorbjargar systur sinnar í Víðidalstungu og dó hjá henni 1802. Halldór lauk einnig ævinni hjá mágkonu sinni, hann andaðist í Víðidalstungu 1810 og var þá kominn í kör. Þau hjónin áttu aðeins eina dóttur sem dó rúmlega tvítug og átti enga afkomendur. Halldór er höfundur bókar um veldi Stefánunga sem kom út 1792 í Kaupmannahöfn. Titill hennar er Ærefrygt. Liste over Hr. Stiftamtmand Oluf Stephensens Familie i Island. Allene de beregnede som sidde i publiqve Embeder 1791. og fjallaði bókin um hve valdamiklir Stefánungar væru í íslensku samfélagi og að þessi ætt Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns einokaði opinber embætti á Íslandi. Ryð (kvikmynd). "Ryð" er íslensk kvikmynd byggð á leikritinu "Bílaverkstæði Badda". Lárus Ýmir Óskarsson leikstýrði. Strákarnir okkar. "Strákarnir okkar" er íslensk kvikmynd eftir Róbert I. Douglas. Hún fjallar um fótboltamann sem hefur hlotið mikla frægð á Íslandi fyrir hæfileika sína, en er rekinn úr liðinu þegar hann viðurkennir að vera hommi. Þjóðernishreyfing Íslendinga. Þjóðernishreyfing Íslendinga (ÞHÍ) var íslensk stjórnmálahreyfing, stofnuð 1933. Helstu leiðtogar hennar voru Jón H. Þorbergsson frá Laxamýri, Eiður S. Kvaran sagn- og mannfræðingur og frímerkjasalinn Gísli Sigurbjörnsson. Þeir Eiður og Gísli höfðu báðir dvalist í Þýskalandi og orðið þar vitni að framgöngu nasista. Aðalstefnumál hreyfingarinnar var að efla íslenska menningu á þjóðlegum grundvelli og vernda kynstofn Íslendinga. Mikið mál var að útlendingar ættu ekki að fá landvistarleyfi á Íslandi, nema um sérfræðinga væri að ræða í þeim greinum atvinnulífs, þar sem Íslendingar réðu ekki yfir sambærilegum fræðingum. ÞHÍ samanstóð af tveimur andstæðum öflum: annars vegar óánægðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum og hins vegar af ungu fólki sem hrifist hafði af þýska nasismanum. Tímaritið "Íslenzk endurreisn", sem kom út árin 1933 og 1934, var megin málgagn ÞHÍ. Hreyfingin klofnaði 1934 og stofnuðu fylgjendur þýsku nasistanna Flokk þjóðernissinna, en ÞHÍ lagði fljótlega niður stafsemi. Meginstefna flokksins var megnt hatur á kommúnistum og takmark "„þjóðernissinna væri alger útrýming kommúnista...engir flokkar, aðeins sameinuð og sterk íslenzk þjóð." „Takmark þjóðernisjafnaðarstefnunnar er að skapa Volksgemeinschaft —þjóðarsamfélag, órjúfandi þjóðarheild…Stéttamunurinn á að hverfa og allur ágreiningur, sem stafað getur af mismunandi uppeldi manna…Í því skyni starfa hin stóru æskulýðsfélög —Hitlersæskufélögin …„Ef þjóðin á að lifa, verður Marxisminn að deyja". Þrátt fyrir að Gyðingahatur væri eitt meginatriði í stefnu þýskra nasista skrifuðu flest málgögn íslenskra þjóðernissinna lítið um það. Hins vegar var Gyðinga stöku sinnum getið í tengslum við kommúnisma. "Mjölnir", málgagn "Félags þjóðernissinnaðra stúdenta" við Háskóla Íslands, var harðast í hatri á Gyðingum. Hins vegar var dýrkun á öllu "íslensku" og kynþáttahatur mikilvægur þáttur í hugmyndafræðinni. Helstu málgögn þjóðernissinnaflokksins voru "Ísland" og "Ákæran". Flokkur þjóðernissinna hætti að mestu störfum um 1940 en var formleg lagður niður 1944 þegar ósigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni var orðinn augljós. Flokkurinn bauð fram í Alþingiskosningum og bæjarstjórnarkosningum og varð fylgi hans mest í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 1934, 2,8%, en það voru samanlagt 399 atkvæði. Nýtt hlutverk (kvikmynd). "Nýtt hlutverk" er fimmta íslenska kvikmyndin í fullri lengd. Hún er eftir Óskar Gíslason en leikstjóri var Ævar Kvaran. Í aðalhlutverkum voru Óskar Ingimarsson og Gerður H. Hjörleifsdóttir. Myndin kom út í apríl 1954. Gilitrutt (kvikmynd). "Gilitrutt" er íslensk kvikmynd eftir Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson. Aðalhlutverk léku Ágústa Guðmundsdóttir, Martha Ingimarsdóttir og Valgarð Runólfsson en Jónas Jónasson leikstýrði. Efnahagur Íslands. Efnahagur Íslands er lítill í alþjóðlegum samanburði. Mældur á mælikvarða S.Þ. um lífsgæði er efnahagur Íslands sá þróaðasti í heimi. Verg landsframleiðsla var 1.279.379 milljónir króna árið 2007. Vinnuafl taldist vera 179.800, atvinnuleysi 1,9%. Gjaldmiðill Íslands er íslensk króna, hún er sjálfstæð og fljótandi, þ.e.a.s. ekki beint háð eða bundin við annan gjaldmiðil. Líkt og á öðrum Norðurlöndum er blandað hagkerfi á Íslandi, þ.e. kapitalískt markaðskerfi í bland við velferðarkerfi. Nokkuð dró úr hagvexti á árunum 2000 til 2002, en árið 2002 var hann neikvæður um 0,6%, frá 2003 hefur hagvöxtur hins vegar verið drjúgur en efnahagur í samanburði við nágrannalönd einkennst af óstöðugleika. Samsetning. Fiskveiðar afla um helming útflutningstekna og veita 8% vinnandi manna störf. Þar sem aðrar náttúruauðlindir skortir (fyrir utan jarðhita og fallvötn til virkjunar), er efnahagslíf á Íslandi viðkvæmt og háð heimsmarkaðsverði á fiski, áli og sjávarafurðum. Auk þess geta minnkandi fiskstofnar í efnahagslögsögu landsins haft töluverð áhrif á sveiflur í efnahagslífinu og heimsmarkaðsverð á áli og kísilgúri sem eru stærstu útflutningsvörur Íslendinga á eftir sjávarafurðum. Fjölbreytileiki í efnahagslífinu hefur aukist undanfarna tvo áratugi. Ferðaþjónusta verður æ fyrirferðameiri, og reyna Íslendingar að lokka til sín útlendinga með auglýsingum um hreina og ómengaða náttúru og öflugt næturlíf. Efnahagssaga Íslands. Olíukreppan kom illa við Íslendinga en mestu tíðindin úr efnahagslífinu voru þau að mikil verðbólguskriða fór af stað sem stöðvaðist ekki fyrr en eftir 1990. Verðbólga hafði lengi verið meiri á Íslandi en í nágrannalöndunum en árið 1973 tvöfaldaðist hún frá því sem verið hafði árið áður, fór yfir 20%. Árið seinna var hún komin upp í rúm 40% og tæp 50% árið þar á eftir. Þannig rúllaði boltinn áfram og hámarkinu var náð 1983 þegar verðbólgan fór yfir 80% en það kalla hagfræðingar óðaverðbólgu. Árið 1980 sáu stjórnvöld þann kost vænstan að klípa af krónunni og skera tvö núll aftan af. Í einu vettfangi urðu 100 krónur að einni krónu. Ef þetta hefði ekki verið gert hefði á árinu 2000 hálfur lítri af kók getað kostað um 10 þúsund krónur úti í sjoppu. Undirrótin að verðbólgunni var óstöðugt efnahagslíf og sveiflur í afla og aflaverðmæti. Auknar tekjur í sjávarútvegi gátu leitt til almennra launahækkana sem svo orsökuðu hækkanir á vöru og þjónustu í þjóðfélaginu öllu. Svo kom babb í bátinn í fiskveiðum og þá gripu stjórnvöld oft til gengisfellinga en við það lækkar krónan í verði miðað við erlenda mynt. Þá fengu Íslendingar fleiri krónur fyrir útflutningsvörur en að sama skapi hækkuðu innfluttar vörur í verði. Vísitölubinding launa átti að tryggja hag launþega en í því fólst að kaupið hækkaði í samræmi við aðrar hækkanir. Þetta olli víxlverkandi hækkunum kaupgjalds og verðlags og verðbólgan óð áfram. Sumir hagfræðingar hafa sagt að léleg hagstjórn hafi verið meginskýringin á því að verðhækkanir fóru úr böndunum. Ráðamenn hafa ekki sýnt nógu mikið aðhald í peningamálum auk þess sem mikil ríkisafskipti og margar aðgerðir stjórnvalda hafa ýtt undir þenslu á þjóðfélaginu. Verðbólgan át upp sparifé landsmanna og um árabil þótti það hámark heimskunnar að eiga peninga á bankareikning. Þeir sem áttu fé á milli handa reyndu að koma því í lóg sem fyrst og oft var sagt að steinsteypa væri besta fjárfestingin. Óskynsamlegar fjárfestingar voru einn af fylgikvillum verðbólgunnar auk þess sem hún sljóvgaði verðskyn almennings. Fólk vissi aldrei almennilega hvað hlutirnir kostuðu enda breyttist verðið ört. Meistaradeild Evrópu. Meistaradeild Evrópu (enska: UEFA Champions League) er árleg keppni í knattspyrnu. Keppnina heldur Knattspyrnusamband Evrópu fyrir öll bestu lið Evrópu. Sigurvegarar keppninnar hljóta Evrópumeistaratitilinn, sem eru mjög virt verðlaun í knattspyrnuheiminum. Sigurvegarinn í keppninni fær þátttökurétt í Super Cup keppninni í Evrópu, sem og í heimsmeistarakeppni félagsliða. Meistaradeildinni var hleypt af stokkkunum 1955 og hét þá Evrópukeppni félagsliða, en 1992 var keppninni breytt í Meistaradeildina. Sigursælasta lið keppninnar er Real Madrid, sem hefur unnið níu sinnum (síðast 2002). Saga. Bikar Meistaradeildarinnar 2005 fór til Liverpool Keppni evrópskra knattspyrnuliða var ekki ný af nálinni. 1927 hófst Mitropabikarinn, en það var félagskeppni liða frá Austurríki, Ungverjalandi, Júgóslavíu, Tékkóslóvakíu, Ítalíu, Sviss og Rúmeníu. Hún lagði hins vegar upp laupana við upphaf heimstyrjaldarinnar síðari. Eftir stríð var önnur slík keppni í gangi, miklu minni þó, og hét hún Coupe Latine. Í henni kepptu meistaralið frá Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Portúgal. Hugmyndir um nýja Evrópukeppni með meistaraliðum frá sem flestum löndum í Evrópu fæddust snemma á sjötta áratugnum með Gabriel Hanot, íþróttafréttamanni L‘Équipe og fyrrverandi frönskum landsliðsmanni. Skipulagning Hanots var gerð opinber í blaðinu í desember 1954 og hófst keppnin sjálf á haustmánuðum árið eftir. 16 lið voru þátttakendur í fyrstu keppninni. Ekki sáu þó öll lið sér fært að taka þátt. T.d. meinaði enska knattspyrnusambandið Chelsea þátttöku og var þá Gwardia Varsjá sent í staðin. Sigurvegari var Real Madrid sem sigraði franska liðið Stade Reims í úrslitaleik 4-3. Real Madrid vann keppnina reyndar 5 fyrstu skiptin, árangur sem ekkert annað lið hefur tekist að gera. Suðurevrópsk lið (frá Spáni, Ítalíu og Portúgal) sigruðu keppnina allt til 1966, en 1967 tókst Glasgow Celtic að sigra, fyrst breskra liða. Aðeins tvisvar hefur liði tekist að sigra keppnina þrisvar í röð (eftir hina stórkostlegu byrjun Real Madrid): Ajax 1971-73 og Bayern München 1974-76. Mesta sigurganga liða frá einu landi var 1977-82 en þá sigruðu Liverpool, Nottingham Forest og Aston Villa til skiptis sex sinnum í röð. Einn sorglegasti viðburður keppninnar var úrslitaleikurinn 1985 á Heyselvellinum í Brussel milli Juventus og Liverpool, en þá hrundi veggur og létust við það 39 manns. Afleiðingarnar voru þær að ensk lið voru útilokuð frá keppninni í fimm ár (Liverpool í sjö ár). Frá byrjun til ársins 1991 var fyrirkomulag keppninnar útsláttur, þ.e. heimaleikur og útileikur. Á leiktíðinni 91-92 var í fyrsta sinn komið upp riðlum, þ.e. í átta liða úrslitum var liðunum komið fyrir í tveimur riðlum. Sigurlið riðlanna komust í úrslitaleikinn. 1992 var keppninni breytt í Meistaradeild Evrópu. Fyrsta árið (92-93) var fyrirkomulag keppninnar eins og á síðasta ári, þ.e. útsláttur og tveir riðlar. En 1994 var í fyrsta sinn komið upp riðlakeppni strax í upphafi. 16 lið voru sett í fjóra riðla. Efstu tvö liðin í riðlunum komust í átta liða úrslit. Í leiktíðunum 96-97 og 97-98 var liðunum fjölgað í 24 og léku þau í 6 riðlum. Efstu liðin í riðlunum og þau bestu sem lentu í öðru sæti komust í átta liða úrslit. Leiktíðina 1999-2000 var keppninni enn breytt. Að þessu sinni fengu 32 lið þátttökurétt og voru þau skipuð í átta riðla. Tvö efstu lið riðlanna mynduðu svo fjóra nýja riðla. Tvö efstu liðin þar komust í átta liða úrslit. Liðið í þriðja sæti fer í Evrópudeild UEFA, en liðið í neðsta sæti fellur úr leik. Milliriðlarnir voru þó fljótt afnumdir, þannig að í dag hefst útsláttarkeppnin strax að lokinni fyrstu riðlakeppninni. Tólf af liðunum 32 voru meistarar í sínum eigin löndum, en þar að auki sex lið sem lentu í 2. sæti. Afgangurinn, 10 lið, vinna sér þátttökurétt með forkeppni. Sigurliðin. Listi yfir öll sigurlið Meistaradeildarinnar frá upphafi. Leikjahæstu menn. Listi leikjahæstu manna er frá 7. desember 2012. Hér er átt við leiki á öllum stigum keppninnar. Nokkrir leikmenn eru enn virkir og því breytist listinn frá tíma til tíma. Markahæstu menn. Markahæstu leikmenn á öllum stigum Meistaradeildarinnar. Listinn er frá 7. desember 2012. Nokkrir leikmenn eru enn virkir og því breytist listinn frá tíma til tíma. Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra. "Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra" er leikin íslensk gamanmynd í fullri lengd eftir Óskar Gíslason. Leikstjóri var Ævar Kvaran. Kvikmyndin fjallar um Bakkabræður sem komast í kynni við þrjár stúlkur úr Reykjavík. Þær bjóða þeim að heimsækja sig í borgina. Þeir aka þangað á gömlum traktor og lenda í vandræðum í umferðinni í borginni. Loks komast þeir heim til stúlknanna þar sem þeir reyna meðal annars að strokka smjör í þvottavél. Ævintýrið endar með því að þeir sjá stúlkurnar á leikæfingu í Þjóðleikhúsinu, halda að það sem gerist á sviðinu sé raunverulegt og reyna að bjarga þeim, með þeim afleiðingum að þeim er hent út með harðri hendi. Kvikmyndin var sýnd í Stjörnubíói við Laugaveg og önnur stutt kvikmynd eftir Óskar, "Töfraflaskan", sýnd með sem aukamynd. Vankynssveppir. Vankynssveppir (Deuteromycota) var flokkur sveppa sem dreifði sér á kynlausan hátt. Vankynssveppir voru taldir flokkunareining sambærileg við kólfsveppi, asksveppi, kytrusveppi og oksveppi. Með aukinni þekkingu kom í ljós að vankynssveppirnir voru flokkaðir saman vegna eiginleika sem margir óskyldir sveppir eiga sameiginlega, þ.e. að fjölga sér kynlaust. Einnig kom í ljós að margir sveppir, einkum askveppir, hafa tvo, stundum óháða, lífsferla. Annar lífsferillinn inniber kynæxlun, rýriskiptingu og þroskun gróa í öskum (sé um asksveppi að ræða)og nefnist sá hluti lífsferilsins teleomorph meðan hinn lífsferillinn inniber kynlausa fjölgun sveppsins og nefnist sá hluti anamorph. Áður en þessi tengsl milli teleomorph og anamorph stigana urðu ljós var oft sitt hvoru stigi sömu tegundar lýst sem sitt hvorri tegundinni. Sveppur sem hefur bæði stigin samtímis þroskuð nefnist holomorph. Hlaup. Hlaup er skilgreint sem hraðasta ferð sem dýr kemst á fótum. Í íþróttum má skipta hlaupum gróft í spretthlaup, millivegalengdahlaup og langhlaup (sjá maraþonhlaup). Síðan eru einnig til götuhlaup og víðavangshlaup. Til aðskilnaðar frá síðarnefndu flokkunum eru hefðbundin keppnishlaup sem keppt er í á frjálsíþróttamótum oft nefnd brautarhlaup og fara þau hefðbundið fram á 400 m hringbraut sem samanstendur af tveimur 100 m löngum beinum brautum og tveimur 100 m löngum hálfhringjum. Áður fyrr voru hlaupabrautir oftast grasi vaxnar en síðar var farið að leggja þær möl og sandi og fljótlega komust menn upp á lag með að blanda saman fínni möl og leirkenndum sandi eða silti þannig að brautirnar þjöppuðust og þannig náðu keppendur meiri hraða. Nú eru hlaupabrautir margra frjálsíþróttavalla lagðar gerfiefnum sem gefa gott grip án þess að draga úr hraða keppenda vegna mýktar. Það gerviefni sem einna mest er notað í hlaupabrautir bæði innanhúss og utan nefnist tartan. Framlenging (knattspyrna). Framlenging í knattspyrnu er þegar venjulegum leiktíma, 90 mínútur, er lokið og bæði lið hafa skorað jafn mörg mörk. Framlenging á sér þó einungis stað ef liðin eru að keppa í útsláttarkeppni en þá slær sigurliðið tapliðið út úr keppninni. Framlenging er samtals 30 mínútur, 15 mínútur fyrri hálfleikur og 15 mínútur seinni hálfleikur. Ef liðin eru enn jöfn eftir framlenginguna er venjulega haldin vítaspyrnukeppni. Bronsmark. Þetta er algengasta gerð framlengingar. Það lið sigrar, sem skorað hefur fleiri mörk þegar allri framlengingunni er lokið. Silfurmark. Það lið, sem skorað hefur fleiri mörk í framlengingunni annaðhvort þegar fyrri eða seinni hálfleikur er búinn, sigrar. Gullmark. Það lið sem skorar sigrar leikinn um leið og það skorar. Þessi regla gildir óháð því hve mikið er búið af framlengingunni. 1. mars 2004 var opinberlega reglan um gullmark tekin úr reglum FIFA. Sigur með fleiri útivallarmörkum. Þó er stundum ekki framlenging þó svo að liðin skilji jöfn í útsláttarleik. Það getur gerst ef liðin hafa ekki skorað jafn mörg mörk á útivelli. En þá er sigurliðið það lið sem hefur skorað fleiri mörk samtals á útivelli. Þessi regla er meðal annars notuð í Meistaradeild Evrópu. Sólargangur. Sólargangur á við hreyfingu sólar á himninum. "Sólarupprás" eða "sólris" telst þegar efri rönd sólar nemur við sjóndeildarhring (sjónbaug) á uppleið, en "sólarlag" eða "sólsetur" þegar sólin hverfur niður fyrir sjóndeildarhring. Lengd sólargangs er tíminn frá sólarupprás til sólseturs. Í almanaki telst "dögun" þegar sólmiðjan er 18° undir sjónbaug og á uppleið, og svo "birting" þegar hún er 6° undir sjónbaug. Samsvarandi telst "myrkur" þegar sólmiðjan er 6° undir sjónbaug og á niðurleið, og svo "dagsetur" þegar hún er 18° undir sjónbaug. Hádegi er þegar sólmiðjan er í hásuðri, en miðnætti hálfum sólarhring síðar. (Reiknað er með 0,6° ljósbroti í andrúmsloftinu.) Vítaspyrnukeppni (knattspyrna). Vítaspyrnukeppni í knattspyrnu er þegar bæði lið er jafn bæði eftir venjulega leiktíma, 90 mínútur, og framlengingu. Áramótaskaup 1976. "Áramótaskaupið 1976" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1976 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 1978. "Áramótaskaupið 1978" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1978 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Þórhildur Þorleifsdóttir. Aðaleikarar voru Edda Björgvinsdóttir, Arnar Jónsson og Þórunn Sigurðardóttir. Áramótaskaup 1979. "Áramótaskaupið 1979" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1979 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Sigríður Þorvaldsdóttir. Aðaleikarar voru Gísli Alfreðsson, Róbert Arnfinnsson og Bessi Bjarnason. Skaupið fór fram á skemmtistað og þeim einstaklingum sem komu mest við sögu á árinu var veitt viðurkenning. Áramótaskaup 1980. "Áramótaskaupið 1980" var ekkert eiginlegt áramótaskaup. Þess í stað var skemmtidagskrá í þætti sem var nefndur "Á síðasta snúningi". Þetta var gert vegna verkfalls leikara. Handritshöfundur var Andrés Indriðason. Áramótaskaup 1981. "Áramótaskaupið 1981" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1981 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins 1981 var Gísli Rúnar Jónsson auk þess sem hann var aðalhöfundur. Skaupið gerist að stórum hluta í fréttasetti sjónvarpsins en einnig er fylgst með söngkeppni sjónvarpsins og ýmsu fleiru. Dolli og Doddi komu fyrst fram í þessu skaupi. Aðalleikarar skaupsins eru Randver Þorláksson, Bessi Bjarnason, Edda Björgvinsdóttir og Sigurður Sigurjónsson. Áramótaskaup 1982. "Áramótaskaupið 1982" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1982 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Þráinn Bertelsson. Aðaleikarar voru Edda Björgvinsdóttir, Gísli Rúnar Jónsson og Sigurður Karlsson. Áramótaskaup 1983. "Áramótaskaupið 1983" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1983 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Þórhallur Sigurðsson. Höfundar þess voru Þráinn Bertelsson og Andrés Indriðason. Leikarar voru Árni Tryggvason, Edda Björgvinsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Hanna María Karlsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason. Skaupið var 55. mínútur að lengd. Þulur var Vilhelm G Kristinsson. Áramótaskaup 1984. "Áramótaskaupið 1984" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1984 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Guðný Halldórsdóttir. Aðaleikarar voru Kjartan Bjargmundsson, Edda Björgvinsdóttir, Gísli Rúnar Jónsson, Margrét Helga Sigurðardóttir, og Laddi. Skaupið er gjarnan nefnt kvennaskaupið og voru í því mörg atriði sem snérust um að konur voru að gera grín að konum og kvennahreyfingunni - eins og Edda Björgvinsdóttir sagði einhverju sinni í viðtali. Áramótaskaup 1985. "Áramótaskaupið 1985" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1985 og var sýnt á RÚV. (Skaupið þegar áramótaskaupinu var stolið). Leikstjóri skaupsins 1985 var Sigurður Sigurjónsson. Höfundar skaupsins voru Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason, Randver Þorláksson og Þórhallur Sigurðsson (Laddi). Í kjölfar skaupsins hófu kumpánarnir að vinna enn frekar saman og kölluðu sig Spaugstofuna. Þeir gerðu fjóra stutta sjónvarpsþætti sem kölluðust Spaugstofan og voru fyrst sýndir árið 1987. Það má því segja að skaupið 1985 hafi verið undanfari Spaugstofunnar, sem verið hefur reglulega á vetrardagskrá sjónvarpsins (og síðar á Stöð 2) með hléum frá árinu 1989 þegar þættirnir 89' af stöðinni fóru í loftið - þá með Pálma Gestsson innanborðs í stað Ladda. Skaupið 1985 naut mikilla vinsælda og þykir mörgum það vera eitt besta skaupið frá upphafi - þó vissulega sýnist sitt hverjum í þessum efnum. Strax í janúar 1986 var Spaugstofuhópurinn beðinn um að annast næsta skaup, sem og varð. Í skaupinu 1985 komu bræðurnir Magnús og Eyjólfur Laufdal (leiknir af Ladda og Karli Ágústi) fyrst fram á sjónarsviðið í þættinum Spriklur. Leikarar í skaupinu (auk höfundanna) voru Edda Heiðrún Bachman, Tinna Gunnlaugsdóttir og Guðjón Pedersen. Áramótaskaup 1986. "Áramótaskaupið 1986" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1986 og var sýnt á RÚV. Skaupið 1986 var líkt og skaupið árið áður í umsjá hins svokallaða Spaugstofuhóps, þ.e. Karls Ágústs Úlfssonar, Sigurðs Sigurjónssonar, Arnar Árnasonar, Randvers Þorlákssonar og Þórhalls Sigurðssonar. Skaupið gerist að stórum hluta í Höfða þar sem leiðtogafundur þeirra Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjovs fór fram síðla árs 1986. Einnig er fjallað um atriði á borð við stofnun Stöðvar tvö, fyrsta framlag Íslendinga í Eurovision og ýmislegt fleira. Aðrir aðalleikarar í skaupinu (auk höfunda) voru Gísli Halldórsson, Rúrik Haraldsson, Hanna María Karlsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir. Leikstjóri skaupsins var Karl Ágúst Úlfsson. Áramótaskaup 1987. "Áramótaskaupið 1987" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1987 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Sveinn Einarsson. Aðaleikarar voru Arnór Benónýsson, Ásta H. Stefánsdóttir og Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Áramótaskaup 1988. "Áramótaskaupið 1988" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1988 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Gísli Snær Erlingsson. Aðaleikarar voru Jón Rúnar Arason, Sóley Elíasdóttir og Eggert Guðmundsson. Áramótaskaup 1989. "Áramótaskaupið 1989" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1989 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Stefán Baldursson. Aðaleikarar voru Aðalsteinn Bergdal, Edda Björgvinsdóttir og Edda Heiðrún Backman. Áramótaskaup 1990. "Áramótaskaupið 1990" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1990 og var sýnt á RÚV. Handritshöfundar skaupsins voru Randver Þorláksson og Gísli Rúnar Jónsson. Aðaleikarar voru Bessi Bjarnason, Edda Björgvinsdóttir og Edda Heiðrún Backman. Áramótaskaup 1991. "Áramótaskaupið 1991" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1991 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri skaupsins var Ágúst Guðmundsson. Höfundar skaupsins voru Andrés Indriðason, Ágúst Guðmundsson, Árni Ibsen, Marteinn Þórisson, Steinunn Sigurðardóttir og fleiri. Tónlistarstjóri var Magnús Kjartansson. Leikarar voru Erla Ruth Harðardóttir, Gísli Halldórsson, Guðfinna Rúnarsdóttir, Hilmar Jónsson, Hjálmar Hjálmarsson, Jóhannes Kristjánsson, Júlíus Agnarsson, Magnús Ólafsson, Rúrik Haraldsson, Sigurveig Jónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson (Laddi) og Örn Árnason. Sýningartími 62 mínútur. Áramótaskaup 1992. "Áramótaskaupið 1992" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1992 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 1993. "Áramótaskaupið 1993" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1993 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 1994. "Áramótaskaupið 1994" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1994 á RÚV, og var því leikstýrt af Guðnýju Halldórsdóttir. Höfundar skaupsins voru Gísli Rúnar Jónsson, Guðný Halldórsdóttir, Edda Björgvinsdóttir og Randver Þorláksson. Leikarar voru Bessi Bjarnason, Edda Björgvinsdóttir, Eggert Þorleifsson, Gísli Rúnar Jónsson, Guðmundur Ólafsson, Helga Braga Jónsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Magnús Ólafsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Randver Þorláksson og Ragnhildur Gísladóttir. Sýningartími 53 mínútur. Skaupið gerist að mestu leyti á Þingvöllum þar sem hátíðarhöld vegna 50 ára lýðveldisafmælis Íslands fóru fram fyrr á árinu. Áramótaskaup 1995. "Áramótaskaupið 1995" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1995 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 1996. "Áramótaskaupið 1996" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1996 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 1997. "Áramótaskaupið 1997" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1997 og var sýnt á RÚV. Leikstjóri var Viðar Víkingsson. Handritshöfundar voru Viðar Víkingsson, Friðrik Erlingsson, Hlín Agnarsdóttir, Gunnar Hansson, Hjálmar Hjálmarsson, Þórarinn Eldjárn, Halldóra Geirharðsdóttir, Inga María Valdimarsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Leikarar voru Aldís Baldvinsdóttir, Atli Rafn Sigurðsson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Gunnar Hansson, Halldóra Geirharðsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Inga María Valdimarsdóttir, Jóhann Sigurðsson, Júlíus Brjánsson, Kjartan Guðjónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Róbert Arnfinnsson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Steinn Ármann Magnússon, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Sýningartími 58 mínútur. Áramótaskaup 1998. "Áramótaskaupið 1998" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1998 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 1999. "Áramótaskaupið 1999" er áramótaskaup sem sýnt var árið 1999 og var sýnt á RÚV. Í skaupinu 1999 voru Buddu-verðlaunin afhent. Leikstjórar skaupsins voru Örn Árnason og Sigurður Sigurjónsson. Leikarar voru Steinn Ármann Magnússon, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Örn Árnason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Björn Jörundur Friðbjörnsson, Stefán Karl Stefánsson, Kjartan Guðjónsson, Vala Þórsdóttir, Randver Þorláksson, Erla Ruth Harðardóttir, Eggert Þorleifsson, Markús Örn Antonsson, Sigurgeir Halldór Garðarsson, Lilja Þorsteinsdóttir, Jón Þór Guðmundsson, Arnmundur Ernst Björnsson, Matthildur Óskarsdóttir og börn úr 5-LH Ártúnsskóla. Áramótaskaup 2000. "Áramótaskaupið 2000" er áramótaskaup sem sýnt var árið 2000 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 2001. "Áramótaskaupið 2001" er áramótaskaup sem sýnt var árið 2001 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 2002. "Áramótaskaupið 2002" er áramótaskaup sem sýnt var árið 2002 á RÚV. Leikstjóri þess var Óskar Jónasson. Áramótaskaup 2003. "Áramótaskaupið 2003" er áramótaskaup sem sýnt var árið 2003 og var sýnt á RÚV. Áramótaskaup 2004. "Áramótaskaupið 2004" er áramótaskaup sem sýnt var árið 2004 og á RÚV. Því var leikstýrt af Sigurði Sigurjónssyni og hann líkti því að leikstýra Áramótaskaupinu við það að vera knattspyrnustjóri í ensku knattspyrnunni. Áramótaskaup 2005. "Áramótaskaupið 2005" er áramótaskaup sem sýnt var árið 2005 á RÚV. Efsta deild karla í knattspyrnu 1912. Sigurlið FR (í hvítum skyrtum) og lið Fram (dökkum treyjum) eftir fyrsta íslandsmeistaramótið. Árið 1912 var fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu haldið. Þrjú lið skráðu sig til keppnis, Fótboltafélag Reykjavíkur (síðar KR), Knattspyrnufélagið Fram og Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (síðar ÍBV). Mótið fór fram dagana 28. júní - 2. júlí 1912. Pétur Jón Hoffman Magnússon skoraði fyrsta markið á Íslandsmóti í knattspyrnu. Fótboltafélag Reykjavíkur fór með sigur af hólmi. Framgangur mótsins. Það var þann 28. júní árið 1912 sem að fyrsti leikur fyrsta Íslandsmótsins í knattspyrnu var leikinn. Mótið hafði átt að hefjast degi síðar, en var flýtt um einn dag vegna þess að Eyjamenn vildu komast heim til sín á sunnudeginum 30. júní, en þann dag lagði millilandaskipið Ceres úr Reykjavíkurhöfn. Leiðin sem leikmenn ÍBV ferðuðust á leið sinni á fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu árið 1912 Næsti leikur Íslandsmótsins var leikur Fótboltafélags Reykjavíkur og Knattspyrnufélags Vestmannaeyja. Fótboltafélagið vann þann leik nokkuð sannfærandi 3-0. Leikurinn var hinsvegar hinn harðasti, af þeim 12 leikmönnum sem komu frá Vestmannaeyjum til að taka þátt voru einungis 7 leikfærir eftir þennan tapleik. Þurftu þeir því að gefa leikinn gegn Fram. Mikil vonbrigði fyrir Eyjamenn sem lögðu á sig heilmikið ferðalag. Fyrst að Eyjamenn voru úr leik og lið KR og Fram höfðu einungis gert jafntefli í fyrsta leik sínum þurfti að leika til þrautar og var úrslitaleikur Íslandsmótsins haldinn 2. júlí. KR keppir gegn Fram á Íþróttavellinum á Melunum. Stöðutafla. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Phnom Penh. Veisluskáli við konungshöllina í Phnom Penh Á þessarri loftmynd má sjá hverning Phnom Penh hefur vaxið á mótum Mekong-fljótsins (að ofan á myndinni) og Tonle Sap-fljótsins (frá vinstri á myndinni) Phnom Penh (á khmer ភ្នំពេញ, einnig umskrifað sem "Phnum Pénh") er höfuðborg Kambódíu og einnig langstærsta borg landsins. Borgin hefur verið aðsetur stjórnsýslu og miðstöð efnahagslífs allt frá því að Frakkar lögðu landið undir sig í lok nítjándu aldar. Íbúatala Phnom Penh er um 1,3 milljónir samkvæmt manntali 2008. Borgin er byggð þar sem Mekong-fljótið mætir Tonle Sap-fljótinu og þar sem Bassac-fljótið skilur við meginkvísl Mekong. Í borginni er alþjóðlegur flugvöllur og fremur stór höfn. Mekong-fljótið er skipgengt að stórum hluta og geta allt að 8000 tonna skip siglt til Phnom Penh á rigningartímanum og allt að 5000 tonna skip á þurrkatímanum. Þjóðsagan. Samkvæmt þjóðsögu má rekja upphaf borgarinnar til konu sem nefnd var „Gamla konan Penh“ (Duan Penh) og bjó á svæðinu á seinni hluta 14. aldar. Á þeim tíma var höfuðborg landsins í Angkor í nágrenni við núverandi Siem Reap, svæðið þar sem Phnom Penh nú er var nefnt Tjaktomuk (Chaktomuk) sem þýðir „andlitin fjögur“, það er fljótin fjögur sem þar mætast. Eitt sinn þegar Duan Penh var að safna viði við fljótsströndina fann hún fljótandi trjábút sem hún tók með sér. Í trjábútnum fann hún fjögur Búddalíkneski og eitt af Vishnu (það eru mismunandi fjöldi í ýmsum útgáfum sögunnar). Þessi fundur var túlkaður þannig að þarna mundi ný höfuðborg rísa. Duan Penh lét gera allstórann hól og byggja musteri á honum. Er það þar sem nú er musterið Vat Phnom (phnom þýðir hæð á khmer). Hæðin var síðar kennd við þessa konu og kölluð Phnom Duan Penh og svæðið þar um kring nefnt eftir hæðinni, Phnom Penh. Sögubrot. Um miðja 15. öld flutti konungurinn aðsetur sitt frá Angkor til núverandi Phnom Penh. Aðalástæðan hefur eflaust verið efnahagsleg. Á fimmtándu og sextándu öld er Kambódía miðsvæðis í miklu viðskiptasvæði þar sem kaupmenn koma alla leið frá Japan og Evrópu. Kaupmenn frá Spáni og Portúgal sem komu til Phnom Penh á 16. öld lýsa borginni sem alþjóðlegri miðstöð, þar sem Kínverjar, Japanir, Malajar, Cham og einnig nokkrir Evrópumenn bjuggu og stunduðu viðskipti. Samskiptin voru þá ekki alltaf vinsamleg og má nefna það að allir Evrópumenn þar voru drepnir 1599. Viðskiptin héldu þó áfram og urðu Hollendingar helsta evrópska verslunarþjóðin á svæðinu á 17. öld eða fram til 1644 þegar kom til mikilla bardaga milli Hollendinga og Kambódíumanna og endaði það þetta viðskiptatímabil. Það var ekki fyrr en á Frakkar fóru að sækjast eftir yfirráðum í lok 19. aldar að Phnom Penh varð að nýju miðstöð í samskiptum við Evrópumenn. Árið 1863 þegar Frakkar yfirtóku stærstan hluta Kambódíu bjuggu um 10 000 manns í borginni, mikill meirihluti Kínverjar. Með frönsku nýlenduherrunum kom uppgangstímabil í sögu Phnom Penh ekki síst byggingarsögu. Byggðu þeir meðal annars nýja konungshöll sem var tilbúin 1870, og fjölda annarra opinberra bygginga og íbúðarhús fyrir sendimenn Frakklands. Þótti Phnom Penh svo falleg borg að hún ver nefnd „perla Suðaustur-Asíu“. Stór hluti þessara bygging eru nú í mikilli niðurníðslu. Eftir að landið öðlaðist sjálfstæði frá Frakklandi 1953 tók við nýtt uppgangstímabil, og einkenndist það af uppbyggingu ríkisvaldsins og nýjum byggingarstíl, eins konar þjóðernisstíl þar sem tengdir voru saman þættir úr hefðbundnum kambódískum byggingarstíl og nútímalegum alþjóðlegum stílum (hugmyndalega áþekkt verkum Guðjóns Samúelssonar á Íslandi á svipuðum tíma). Þetta tímabil tók snöggan enda árið 1970 þegar Sihanouk prinsi var steypt af stóli. Þá tók við skæruhernaður og innanlandsstyrjöld sem endaði ekki fyrr en 1975. Bardagarnir milli hermanna Lon Nol annars vegar og stuðningsmanna Rauðu khmerannna og Sihanouks hins vegar ollu flótta fjölda manns frá landsbyggðinni. Sprengjuárásir bandaríkjahers sem stóðu yfir frá 1965 til 1972 voru þó aðalástæða flóttamannastraumanna. Fræðimenn hafa giskað á að milli 300 þúsund og hálf miljón manns hafi dáið í sprengjuárásunum. Flestir flóttamannanna sótt til Phnom Penh og borgi bólgnaði út skömmum tíma. Um 1970 bjuggu um hálf miljón manns í borginni, 1975 við valdatöku Pol Pot bjuggu þar um tvær miljónir. Markaður í Phnom Penh Þegar Rauðu khmerarnir tóku Phnom Penh 17 apríl 1975 var fyrsta verk þeirra að bókstaflega tæma borgina. Öllum var skipað að flýja og borið við að bandaríkjaher mundi gera árás á borgina en að íbúar mundu fá að snúa aftur innan skamms. Það reyndist þó ekki vera. Fjöldi manns dó á leiðinni út úr borginni og enn fleiri á næstu árum. Það er óvíst hversu margir Kambódíumenn létu lífið á sjónartímum Pol Pot, ágiskanirnar eru allt frá einni upp í tvær miljónir. Flestir dóu úr hungri og af sjúkdómum sem stöfuðu af matarleysi og illri aðbúð en fjöldi manns var einnig myrtur. Sérlega var farið illa með borgarbúa. Þegar her Víetnam hertók Phnom Penh í janúar 1979 var borgin nánast eins og draugaborg. Þar bjuggu örfáir ríkisstarfsmenn Pol Pots en flestar byggingar stóðu auðar og yfirgefnar eins og skilið var við þær í apríl 1975. Húsgögn og annað verðmæti hafði ekki verið hreyft. Víetnamarnir og fylgdarmenn þeirra voru þó fljótir að láta greipar sópa. Hin nýja ríkisstjórn sem tekið hafði við völdum þurfti því að byggja borgina frá grunni. Það var þó hægara sagt en gert og framkvæmdir gerðar allt eftir því sem til féll en ekki eftir neinu skipulagi og býr borgin enn að því. Íbúafjöldi borgarinna óx frá um 100 000 1980 til 600 000 árið 1990. Síðasta áratuginn hefur borgin einkennst af miklum breytingum. Umferðin hefur gjörbreyst, frá hjólum og mótorhjólum hjá þeim sem voru vel stæðir og yfir í mikla bifreiðaeign, ekki síst stória fjórhjóla bílar. Það hefur líka verið mikil uppgangur í byggingariðnaðinum og er það einkum kóreanskt og kínverskt fjármagn sem hefur valdið því. Veðurfar. Veðurfar í Phnom Penh er dæmigert hitabeltisloftslag. Hitastig er á bilinu 18 °C til 38 °C og úrkoma er tengd monsúnvindum. Í venjulegu árferði blása monsúnvindar úr suðvestri frá Taílandsflóa og Indlandshafi frá maí og fram í október og ber með sér mikla úrkomu. Frá nóvember og fram í mars blæs monsúnvindur frá norðaustri og er þá þurrkatímabil. Mesti ringningatíminn í borginni er í september og október og þurrasti tíminn janúar og febrúar. Í Phnom Penh eru tvær árstíðir. Rigningatími sem stendur frá maí til október og þurrkatíminn sem stendur yfir frá nóvember fram til apríl, hitinn getur þá farið upp í 40 °C og er venjulegast heitast í apríl. Vientiane. Vientiane er höfuðborg Laos og er borgin staðsett í Mekongdal. Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar er um 200.000, en á stórsvæðinu er talið að búi um 730.000 manns. Nafn borgarinnar er komið frá palí, tungumálið sem notast er við í ritum Theravada búddisma. Upprunaleg merking þess er „sandelviðarþyrping konungsins“. Gull-Ívar Grjótharði. Gull-Ívar Grjótharði (enska: "Flintheart Glomgold") er persóna í veröld Andrésar andar. Hann birtist fyrst í sögunni "The Second Richest Duck" eftir Carl Barks árið 1956. Hann er næst ríkasta önd í heiminum, á eftir Jóakim Aðalönd og svarinn óvinur Jóakims. Hann býr í Suður-Afríku. Í sumum sögum hefur Gull-Ívar verið nefndur Glúmur. Samkvæmt sögunni "The Terror of the Trasvaal" eftir Don Rosa hittust Gull-Ívar og Jóakim fyrst árið 1887 í Afríku áður en þeir urðu ríkir (reyndar virtist fyrsta saga Gull-Ívars vera fyrsta sinn sem þeir hittust, en Jóakim kemst aldrei að því hvað Gull-Ívar heitir í "Terror of the Transvaal", svo að hann þekkir hann sennilegast ekki aftur í "The Second Richest Duck"). Þó að bæði Jóakim og Gull-Ívar hafi fæðst í fátækt, er munurinn á þeim sá að Gull-Ívar varð ekki ríkur heiðarlega. Gull-Ívar er líka í sjónvarpsþáttinum "Sögur úr Andabæ", en þar er hann býsna ólíkur sjálfur sér og nafnið hans var misþýtt sem "Glúmur". Ítalskir og brasilískir höfundar nota venjulega Jóa Rokkafelli í staðinn fyrir Gull-Ívar. Þetta er ef til vill einfaldlega vegna þess að Jói býr í Andabæ og er því auðveldara að blanda honum í sögurnar um Jóakim. Landsbankadeild karla í knattspyrnu 2007. Landsbankadeild karla 2007 var 96. tímabilið sem að keppt var í knattspyrnu á Íslandi. KR, FH og Valur eru liðin sem talið var að myndu berjast um titilinn. HK keppti í Landsbankadeildinni í fyrsta sinn. Deildin var stækkuð eftir þetta tímabil frá 10 liðum í 12 lið, einungis eitt lið féll úr deildinni og þrjú lið komu upp úr 1. deild. Fyrsti leikur tímabilsins var 12. maí 2007 og sá síðasti 29. september 2007. Valur varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í 20 ár, og í 20. skipti samtals. Staðan í deildinni. "(Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem luku með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur)" 1. Einnig komast sigurvegarar VISA-bikarsins í keppni um Evrópubikarinn. Ef það lið er í eitthverju af efstu þrem sætunum fær 3. sætið þátttöku í Evrópubikarnum og 4. sætið fær þátttöku í Intertoto bikarnum. Spáin. Þrettán knattspyrnuáhugamenn hafa spáð í spilin undanfarin ár og gefið út spá um hvernig lokastaða deildarinnar verði eftir tímabilið. Spámennirnir að þessu sinni eru: Atli Eðvaldsson, Ásmundur Arnarsson, Bjarni Jóhannsson, Gunnar Oddsson, Henry Birgir Gunnarsson, Hrafnkell Kristjánsson, Hörður Magnússon, Jörundur Áki Sveinsson, Logi Ólafsson, Luka Kostic, Pétur Pétursson,Víðir Sigurðsson, Þorlákur Árnason. Spáin gekk þannig fyrir sig að hver spáði í hvaða sæti hvert félag myndi vera í í lok tímabilsins. 1. sæti fær 10 stig frá hverjum, 2. sæti fær 9 stig frá hverjum o.s.frv. Hvert lið gat fengið mest 130 stig samtals. Spáin var gefin út á 10 dögum en á hverjum degi var gefið út nýtt sæti. Spáin gaf fyrst út 10. sæti þann 2. maí 2007, 9. sæti þann 3. maí 2007 o.s.frv. 1. sæti var gefið út 11. maí 2007. FH er spáð 1. sæti í deildinni, fjórða árið í röð. FH hafa fengið aftur Auðunn Helgason og Sverri Garðars eftir meiðsli. Auk þess hafa Mattías Guðmundsson og bræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir gengi til liðs við þá svo búast má við góðu liði hjá FH þetta sumarið. Fjölgun félaga. Samþykkt var á stjórnarfundi KSÍ þann 27. desember 2006 að leggja fram tilllögu á fjölgun félaga í Landsbankadeild karla og 2. deild karla úr 10 félögum í 12. Verði tillagan samþykkt verða 12 lið í efstu þremur deildum árið 2008. Á 61. ársþingi KSÍ 10. febrúar 2007 var tilllagan um fjölgunina samþykkt. Hún mun taka í gildi á næsta keppnistímabili. Þriðjungsverðlaunin. Þriðjungsverðlaunin eru veitt í hverjum þriðjungi Landsbankadeildarinnar. Fyrsti þriðjungur spannar 1.-6. umferð, annar 7.-12. umferða og sá þriðji 13. - 18. umferð. Fyrsti þriðjungur. Besti leikmaður: Helgi Sigurðsson (Valur) Besti þjálfari: Ólafur Jóhannesson (FH) Besti dómari: Garðar Örn Hinriksson Lið fyrsta þriðjungs. Markvörður: Bjarni Þórður Halldórsson (Víkingur) Varnarmenn: Barry Smith (Valur) – Atli Sveinn Þórarinsson (Valur) - Sverrir Garðarsson (FH) – Freyr Bjarnason (FH) Miðjumenn: Matthías Guðmundsson (FH) - Baldur Sigurðsson (Keflavík) - Simun Samuelsen (Keflavík) Framherjar: Magnús Páll Gunnarsson (Breiðablik) – Helgi Sigurðsson (Valur) – Tryggvi Guðmundsson (FH) Nikita Krústsjov. Níkíta Krústsjov ("Níkíta Khrushchev") (f. 17. apríl 1894 — 11. september 1971) var eftirmaður Stalíns sem aðalritari sovéska kommúnistaflokksins. Hann var litríkur persónuleiki, lítill, þybbinn og sköllóttur, og vakti oft athygli fyrir óvenjulega framkomu. Frægt varð þegar hann eitt sinn hélt ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, fór úr öðrum skónum og lamdi honum í ræðupúltið til að leggja áherslu á orð sín. Tengt efni. Krústsjov, Níkíta James Dean. James Dean (8. febrúar 1931 – 30. september 1955) var bandarískur kvikmyndaleikari, sem öðlaðist heimsfrægð fyrir leik sinn í kvikmyndinni "Rebel Without a Cause" um miðjan sjötta áratuginn. Hann varð fyrirmynd ungmenna á Vesturlöndum. Dean lést með sviplegum hætti í bílslysi árið 1955. "Bölvun" Little Bastard. James Dean keypti bílinn (Porsche 550 Spyder) sem hann lést í þann 21. september árið 1955 og kallaði hann "Little Bastard." Margir af vinum og vandamönnum hans lýstu því hvernig þau fengu einhverja ónotatilfinningu af því að horfa á bílinn og reyndu því að fá hann ofan af því að aka honum. Á meðal þeirra var stórleikarinn Alec Guinness sem sagði að "ef hann færi í þennan bíl á hann eftir að deyja eftir viku." Sjö dögum síðar lést Dean í alvarlegu bílslysi. Brakið og varahlutir úr bílnum voru seldir til ýmissa áhugasamra safnara, en lentu margir af nýju eigundunum og fólk sem kom nálægt brakinu í slysum og talið er að bílinn eigi sök á dauða að minnsta kosti þriggja annarra. Þar fyrir utan hafa orðið mörg óútskýranleg slys og áttu þau sér öll stað á aðeins fimm ára fresti. Að lokum hvarf bílinn á dularfullan hátt árið 1960. Telja því margir að hér hafi verið bölvun á ferð. Björn Jónsson. Björn Jónsson (f. 8. október 1846 í Djúpadal í Barðastrandarsýslu, d. 24. nóvember 1912) var stofnandi og ritstjóri Ísafoldar frá 1874 til 1909 er hann gerðist ráðherra Íslands 1909-11. Björn var einnig bæjarfulltrúi í Reykjavík 1885-91 og alþingismaður 1878—80 og svo 1908—12 fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri. Björn var faðir Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands, og Ólafs Björnssonar sem tók við ritstjórn Ísafoldar af Birni. Foreldrar Björns voru Jón Jónsson bóndi frá Djúpadal og Sigríður Jónsdóttir. Björn lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1869 og í kjölfarið á því starfaði hann sem kennari á heimili Brynjólfs Benedictsen kaupmanns á Flatey á Breiðafirði 1869-71. Björn stundaði nám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1871—1874 en sneri frá því áður en hann lauk því til þess að geta ritstýrt blaði á Íslandi. Sama ár giftist Björn Elísabetu Guðnýu Sveinsdóttur, dóttur Sveins Níelssonar, alþingismanns og prófasts á Staðarstað. Maður nokkur er nefndur er Jón ritari og gaf út blaðið Víkverji kom að máli við Björn haustið 1874 um að hann skyldi taka við ritstjórn blaðsins. Þannig varð úr að Víkverji var lagt niður, vegna þess að Birni þótti nafnið ekki höfða til þeirra sem byggju utan Reykjavíkur. Blaðið kom fyrst út 19. september 1874, á þeim tíma kom út blaðið Þjóðólfur í ristjórn Matthíasar Jochumssonar. Um aldamótin 1900 fór Björn að finna til heilsubrests en árið 1903 hélt hann til Kaupmannahafnar til þess að finna bót meina sinna. Björn varð þekktur fyrir Sambandsmálið og Landsbankamálið. Þjóðlenda. Þjóðlenda er landsvæði á Íslandi, sem eru utan eignarlands og telst því eign ríkisins samkvæmt þjóðlendulögunum () sem sett voru 1998. Gildistaka laganna fól í raun í sér stærsta landnám Íslandssögunnar þar sem að land sem áður var talið eigendalaust var lýst eign íslenska ríkisins. Mörk þjóðlendna og eignarlanda bænda hafa enn sem komið er ekki verið endanlega skilgreind nema að litlu leyti en kröfur ríkisins annarsvegar og landeigenda hinsvegar stangast iðulega á. Lögin settu einnig á laggirnar sérstaka nefnd sem skyldi skera úr um þessi mörk, svonefnda óbyggðanefnd. Úrskurðum óbyggðanefndar má skjóta til almennra dómstóla (héraðsdóma og hæstaréttar). Miklar deilur hafa skapast í kringum framkvæmd þjóðlendulaganna. Margir landeigendur hafa talið ríkið vera of stórtækt í þjóðlendukröfum sínum en einnig hefur því verið haldið fram að sú sönnunarbyrði sem lögð hefur verið á landeigendur fyrir óbyggðanefnd og dómstólum um að þeir sýni fram á eignarumráð yfir umdeildu landi sé of þung. His vegar fá landeigiendur gjafsókn í máli sínu gegn ríkinu og þurfa því ekki að greiða kostnað við málareksturinn. Á þjóðlendum gildir almanna veiðirétturinn. Veiðimenn mega stunda þar veiðar séu þær ekki bannaðar þar af öðrum ástæðum. Kommúnismi á Íslandi. Saga Kommúnisma á Íslandi hófst í kringum aldamótin 1900. Kreppan mikla á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar hvatti kommúnista hvarvetna til dáða. Þeir gátu bent á augljósa bresti í efnahagskerfi Vesturlanda og vísað á Sovétríkin sem fyrirmynd. Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, laut forræði valdamanna í Moskvu og lagði línur fyrir starf kommúnista um allan heim. Eftir að Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður varð hann deild í Komintern og grundvallaratriði stefnu hans voru mótuð af leiðtogum þess og sóvéska kommúnistaflokksins. Þaðan kom fjárstuðnigur til styrktar flokksstarfinu hér á landi. Sovétmenn styrktu einnig blaða- og bókaútgáfu og ýmsa aðra menningarstarfsemi íslenskra sósíalista fram eftir 20. öldinni. Ósk Vilhjálmsdóttir. Ósk Vilhjálmsdóttir er íslensk stjórnmálakona, myndlistarkona og ferðamálafrömuður. Hún er hvað þekktust fyrir baráttu gegn Kárahnjúkavirkjun, og í því starfi var hún meðal annars ein af stofnendum Framtíðarlandsins og Íslandshreyfingarinnar. Watergate-hneykslið. Watergate-hneykslið var pólitískt hneykslismál sem kom upp á áttunda áratug 20. aldar í Bandaríkjunum. Upphaf málsins var það að upp komst um innbrot í höfuðstöðvar demókrataflokksins, Watergate-skrifstofubygginguna í Washington, sem leiddi til þess að repúblikaninn Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, neyddist til að segja af sér og varð þar með fyrsti og eini forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að gera það. Hneykslið leiddi einnig til þess að nokkrir af opinberum starfsmönnum Nixon voru ákærðir. Saga málsins. Upphaf málsins var það að fimm menn voru handteknir fyrir að brjótast inn í höfuðstöðvar Demókrataflokksins 17. júní, 1972. Alríkislögreglan í Bandaríkjunum komst að því að innbrotsþjófarnir höfðu fengið greitt úr mútusjóð sem notaður hafði verið af fjáröflunarsamtökum stjórnar forseta Bandaríkjanna, Richard Nixon. Eftir að frekar sannanir leiddu í ljós að starfsfólk forsetans var viðriðið innbrotið fóru spjótin fljótlega að beinast gegn forsetanum sjálfum. Hljóðupptökur af skrifstofu forsetans sýndu síðan fram á að forsetinn hafði reynt að hylma yfir innbrotið. Nixon ætlaði í fyrstu ekki að segja af sér og neitaði hann raunar alla tíð sök en eftir að lykilmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings upplýstu hann um að næsta víst væri að hann yrði ákærður í neðri deild þingsins og miklar líkur væru á sakfellingu í öldungadeild þingsins ákvað hann að segja af sér. Þann 9. ágúst 1974 varð Richard Nixon því fyrstur bandarískra forseta, og sá eini enn sem komið er, til þess að segja af sér. Eftirmaður Nixon, Gerald Ford, veitti honum síðar sakaruppgjöf en líklega hafði loforð Ford um að gera slíkt, áhrif á ákvörðun Nixon um að segja af sér. Þrátt fyrir mikil áhrif Watergate-hneykslisins tókst aldrei að staðfesta hverju þjófarnir voru á höttunum eftir en líklegt er talið að ætlunin hafi verið að brjótast inn á skrifstofu Larry O‘Brien, formanns Demókrataflokksins. Ein kenningin er sú að Nixon hafi fengið upplýsingar um að á skrifstofu O‘Brien væru viðkvæm skjöl sem gætu haft úrslitaáhrif á niðurstöðu væntanlegra kosninga, Nixon í óhag. Skjöl þessi áttu að innihalda upplýsingar um ólögleg viðskipti á milli Richard Nixon og Howard Hughes, athafnamanns, sem aldrei höfðu komið fram. Í kosningabaráttu Nixon til forseta árið 1960 hafði komist upp um hneyksli sem tengdist Donald Nixon, bróður Richard Nixon og Howard Hughes. Hughes hafði lánað Donald Nixon peninga sem Donald Nixon endurgreiddi ekki. Hneyksli þetta hafði neikvæð áhrif á kosningabaráttu Richard Nixon og hann kærði sig ekki um annað hneyksli og sá sig því knúinn til að koma höndum yfir þessi skjöl. Islamabad. Islamabad (Urdu: اسلام آباد; íslenska: lögheimili íslam) er höfuðborg Pakistan og liggur á Potohar hálendinu í norðvesturhluta landsins. Borgin er á á Höfuðborgarsvæði Pakistan, þó svo að í fyrndinni hafi borgin tilheyrt Punjab svæðinu og Norðvestur landamærahéraðinu. Islamabad er staðsett á 33°40′N 73°10′A. Talið er að í borginni búi rúm milljón manns. Búenos Aíres. Búenos Aíres er höfuðborg Argentínu og stærsta borg landsins og höfn. Borgin er á suðurbakka Río de la Plata (Silfuráin) á suðausturströnd Suður-Ameríku. Vegna mikilla áhrifa frá evrópskri menningu er borgin stundum kölluð „París Suður-Ameríku“. Á stórborgarsvæðinu búa rúmar 12 milljónir manna. Samfélagsrýni. Samfélagsrýnir er einstaklingur sem leitast við að greina samtímann, stefnur og málefni. Hann sækir gjarnan í að deila niðurstöðum sínum með öðrum, bæði í ræðu og riti. New Orleans. New Orleans (borið fram [nu ˈorlɪnz]; franska: La Nouvelle-Orléans) er stór hafnarborg í Louisiana í Bandaríkjunum og er sögulega stærsta borg Louisiana. Borgin er staðsett í suðausturhluta Louisiana, við ánna Mississippi. Borgin á landamæri við Pontchartrainvatn í norðri og Mexíkóflóa í austri. Borgin er nefnd eftir Philippe II, hertoganum af Orléans. Borgin er ein elsta borg Bandaríkjanna og er þekkt fyrir fjölmenningarlega sögu, tónlist og matargerð og er talin vera fæðingarstaður jazztónlistar. Katrina. Þann 29. ágúst gekk fellibylurinn Katrina yfir borgina. Katrina var 6. sterkasti fellibylur sem hefur mælst og sá 3. sterkasti sem tekið hefur land í Bandaríkjunum. Stormflóðið olli því að varnargarðar borgarinnar brustu með þeim afleiðingum að stór hluti hennar fór á kaf og a.m.k. 1836 manns létu lífið. Greenpeace. Greenpeace (liðsmenn samtakanna eru kallaðir "Grænfriðungar" á íslensku) eru ein þekktustu náttúruverndasamtök heims. Þau voru stofnuð í Canada 1971. Samtökin reka skrifstofur í yfir 40 löndum um víða veröld. Þau hafa tekjur sínar af frjálsum framlögum frá um 2,8 milljónum stuðningsaðila að því er talið er en taka ekki við opinberu fé. Á Íslandi eru samtökin kunnust fyrir baráttu sína gegn hvalveiðum Íslendinga og að hafa látið sökkva tveimur hvalveiðiskipum í höfninni í Reykjavík. Paul Watson, skipstjóri samtakanna, er líklega eini einstaklingurinn sem hefur verið lýstur "persona non grata" (óvelkominn einstaklingur) af íslenskum stjórnvöldum. Vímuefni. Vímuefni eru efni sem hafa aðallega áhrif á miðtaugakerfið þar sem þau breyta starfsemi heilans og þar með geta breytt skynjun, skapi, meðvitund og hegðun einstaklings. Svona efni eru stundum tekin til afþreyingar til að breyta meðvitund mans, sem lyf við öðrum kvillum eða sem skynvilluefni í trúarlegum tilgangi. Fíkniefni kallast þau vímuefni, sem geta myndað fíkn hjá neytendum. Tökuorð. Tökuorð er orð, sem fengið er að láni úr öðru tungumáli en hefur lagað sig að hljóð- og beygingarkerfi viðtökumálsins. Nær öll íslensk orð sem byrja á bókstafnum "p" eru upprunalega tökuorð enda urðu órödduð lokhljóð (eins og "p") í frumindóevrópsku að önghljóðum (eins og "f") í germönskum málum samkvæmt lögmáli Grimms. Sagnbeyging tökusagna. Flestar tökusagnir raða sér í flokk veikbeygðra sagna enda er veika sagnbeygingin einfaldari en sú sterka. Sletta. Sletta er orð eða orðasamband sem borist hefur inn í tungumál úr öðru máli en er ekki viðurkennt mál þar eða hefur ekki aðlagast hljóð- eða beygingarkerfi tungumálsins. Og jafnvel þó það aðlagist, þá tekur það oft langan tíma til að fá viðurkenningu sem íslenska. Flestar slettur hverfa þó með þeirri kynslóð sem tók þær upp, og nýjar koma í staðin. Sumar verða þó langlífar og öðlast viðurkenningar. Í íslensku máli er mest um dönsku- og enskuslettur. Guðmundur Finnbogason, heimspekingur og rithöfundur, sagði í grein um slettur sem birtist í Skírni árið 1928 og nefndist "Hreint mál": „Útlendu orðin eru hægindi hugarletinnar“. Meistaradeild Evrópu 2006-07. Meistaradeild Evrópu 2006-07 er 52. Meistaradeild Evrópu sem haldin er. Úrslitaleikurleikurinn var haldinn í Aþenu, Grikklandi þann 23. maí 2007 á Olympic Stadium leikvanginum, þar sem Liverpool og AC Milan mættust. H riðill. "(Útskýringar: Stg= Stig; Spl= Leikir spilaðir; S= Sigrar; J= Jafntefli; T= Töp; Sk= Mörk skoruð; Fe= Mörk fengin á sig; Mm= Markamunur)" Umferð 1. Leikir spilaðir 20. og 21. febrúar 2007 og 6. og 7. mars 2007. Útivallarregla. Útivallarregla er regla í knattspyrnu. Reglan er oft notuð í útsláttarkeppni þegar tapliðið dettur úr keppni. Ef jafnt er samtals bæði á heima- og útivelli liðanna þá sigrar það lið sem hefur skorað samtals fleiri mörk á útivelli samkvæmt reglunni. Reglan er meðal annars notuð í Meistaradeild Evrópu. Dæmi. Lið A spilar á heimavelli sínum og sigrar lið B með stöðunni 2-1. Lið B sigrar á sínum heimvelli 1-0. Lið B sigrar vegna útivallarreglunnar, Lið B skoraði samtals 1 mark á útivelli en lið A skoraði ekki neitt mark. Ráðuneyti Emils Jónssonar. Ráðuneyti Emils Jónssonar sem sat frá 23. desember 1958 til 20. nóvember 1959. Var hún vinstrisinnuð minnihlutastjórn sett saman af Alþýðuflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn studdi stjórnina. Með tilstyrk Alþýðubandalagsins var breyting á kjördæmaskipan samþykkt, en hún var fram að því Framsóknarmönnum mjög í hag. Þar sem breyting á kjördæmaskipan fól í sér stjórnskrárbreytingu þurfti að rjúfa þing og kjósa aftur. Kosning fór fram í júní og á næsta þingi var kjördæmabreytingin endanlega samþykkt. Aftur var þing rofið og blásið til kosninga í október eftir nýrri skipan. Ólympíuleikvangurinn í Aþenu. Ólympíuleikvangurinn í Aþenu (á grísku: Ολυμπιακό Στάδιο), Grikklandi, er leikvangur notaður til margra íþrótta. Á leikvanginum er meðal annars góð aðstaða fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Leikvangurinn var notaður í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2006-07 sem var haldinn þann 23. maí 2007. Liverpool. Liverpool er borg í Merseyside í Norðvestur-Englandi. Hún er fimmta stærsta borg Englands með 466 þús íbúa en á stórborgarsvæðinu búa rúmlega 800 þúsund manns. Borgin var stofnuð 1207 og er helst þekkt fyrir að vera heimaborg Bítlanna. Langflestir Íslendingar, sem fluttust til Ameríku á 19. öld, fóru í gegnum Liverpool. Sögulegir staðir í miðborginni eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. Liverpool er hafnarborg við fljótið Mersey skammt frá Írlandshafi. Næstu stærri borgir eru Chester til suðurs (30 km), Manchester til austurs (40 km) og Preston til norðus (40 km). Landamærin að Wales eru aðeins 10 km til suðurs. Vegalengdin til London eru tæpir 300 km. Borgin liggur við austurbakka Mersey, gegnt bæjunum Birkenhead, Seacombe og New Brighton. Höfnin liggur meðfram gjörvöllu fljótinu og tekur borgin sjálf norður/suður stefnu meðfram Mersey. Miðborgin sjálf liggur inn við Albert Dock og Riverside, gegnt Birkenhead. Orðsifjar. Elsta skjalfesta heiti borgarinnar er Liuerpul. Mönnum greinir á hvaða merking felst í heitinu. Algengast er að rætt sé um livrarpoll, þ.e. moldugt eða óhreint vatn, til dæmis leirurnar í Mersey. Önnur útskýring er að Liver- hafi í upphafi verið Elver-, sem merkir áll (fiskur). Einnig getur Liver- hafa verið welskt að uppruna og merkir því "flóð". Íbúar borgarinnar eru kallaðir Liverpudlians eða Scousers eftir pottréttinum scous. Skjaldarmerki. thumb Skjaldarmerki borgarinnar er skarfur með þara í nefinu. Skarfurinn er þó oftast kallaður lifrarfugl (Liver Bird) og kemur víða við í sögu Liverpool. Skjaldarberanir eru sjávarguðirnir Tríton til hægri og Neptúnus til vinstri. Báðir halda þeir á fánum. Á einum er skip í fullum seglum og á hinum er skarfur. Efst er enn annar skarfur með þara í nefinu. Neðst er boði með áletrun, en hún merkir: "Guð hefur veitt oss þessar blessanir". Skjaldarmerki þetta var veitt 1797 og átti að herma eftir merki Jóhanns konungs landlausa. Merki hans var upphaflega örn með smágrein í nefinu en það týndist 1644. Þegar nýtt merki var búið til, tókst ekki betur en svo að listamaðurinn taldi að örninn væri skarfur. Allt í merkinu, skarfurinn, þarinn, sjávarguðirnir og skipið, vísa til hafsins og mikilvægi þess í efnahag Liverpool. Upphaf. Saga Liverpool hófst 28. ágúst 1207 er Jóhann landlausi, konungur Englands, gaf út leyfisbréf fyrir stofnun nýrrar borgar og bauð fólki að setjast þar að. Talið er að Jóhann konungur hafi ætlað sér að koma upp hafnaraðstæðu sem ekki væri á yfirráðasvæði jarlsins af Chester. Jóhann notaði nýju höfnina til að senda herlið til Írlands og að fylgjast með Írlandshafi. 1235 var konungskastali reistur á staðnum og borgin dafnaði sem markaðs- og hafnarborg. Á hinn bóginn var Liverpool nokkuð einangraður staður næstu aldir. Íbúar voru aldrei margir og duttu niður í 600 á miðri 16. öld. 1571 sendu íbúarnir beiðni til Elísabetar drottningar um skattalækkanir, enda voru þeir fátækir fyrir. Hafnarborg og þrælaverslun. Liverpool var árið 1650 aðeins lítill bær. Efst (nr. 7) trónir gamli vitinn í Everton Í lok 16. aldar fór hafnarborgin Chester rétt sunnan Liverpool að missa vægi er áin Dee grinnkaði sökum framburðar. Þetta nýtti Liverpool sér til að auka siglingar og verslun, meðal annars við eyjuna Mön í Írlandshafi, Írland og víðar. Í borgarastríðinu á 17. öld studdi borgin við Cromwell og lýðveldissinnana. Því sendi Karl I konungur her til Liverpool undir stjórn Rúperts frá Pfalz 1644, enda var hann frændi Karls. Borgin féll eftir 18 daga umsátur, enda var hún ekki með neina varnarmúra og hefur aldrei haft. Liverpool fór hins vegar að dafna vel eftir að siglingar til Vesturheims hófust upp úr miðri 17. öld. Fyrsta skipið frá Ameríku kom til hafnar 1648. Síðan þá voru reglulegar ferðir farnar fram og til baka. Í upphafi voru klæði, kol og salt flutt út, en til baka voru flutt sykur og tóbak. Fyrsta sykurhreinsunarfyrirtækið opnaði í Liverpool 1670. Árið 1699 tóku skip frá Liverpool í fyrsta sinn þátt í þrælaversluninni. Fyrsta þrælaskipið hét "Liverpool Merchant" og sigldi til Barbados með 220 afríska þræla. 1715 var votkví tekin í notkun í borginni en hún var sú fyrsta í heimi. Hún var svo stór og afkastamikil að hægt að var að vinna að 100 skipum í henni samtímis. Í kjölfarið varð Liverpool að einni mikilvægustu hafnarborg Englands. Í lok 18. aldar voru 40% allra þrælaskipa heims og 80% breskra þrælaskipa frá Liverpool. Toppárið 1799 voru 45 þús þrælar fluttir til Vesturheims með skipum frá Liverpool. Samfara þessu fjölgaði borgarbúum og náðu 100 þús á fyrsta áratug 19. aldar. 1850 voru þeir orðnir rúmlega 300 þúsund og var Liverpool þá orðin að næststærstu borg Englands, á eftir London. Íbúum hélt áfram að fjölga þrátt fyrir þrælabannið í breskum nýlendum 1833. Iðnbyltingin. Fyrsta farþegajárnbraut heims keyrði milli Liverpool og Manchester 1830 Albert Dock (hluti) kom mikið við sögu í vesturferðum Íslendinga Þegar þrælahaldið var bannað, breyttist mynstur verslunarinnar í Liverpool. Nú var það baðmull sem skipin kom með, en hún var öll flutt yfir í verksmiðjur til Manchester. Til að bæta samskiptaleiðir til Manchester var skipaskurður grafinn milli borganna 1721, þannig að skip gátu siglt milli staðanna. Skurðurinn var lengdur 1816 þannig að hann náði alla leið til Leeds. 1830 var fyrsta farþegajárnbraut heims tekin í notkun, en hún ók á milli Liverpool og Manchester. Verslun til Austur-Indía hófst einnig á 19. öld. Til að anna öllum skipakomum var höfnin stækkuð verulega. Milli 1824-58 var 16 km löng hafnaraðstaða byggð upp, þannig að höfnin lá meðfram gjörvallri austurhluta Mersey. Þegar hungursneyðin mikla á Írlandi gekk í garð 1845-49 fluttu tugþúsundir Íra til Liverpool. Um miðja 19. öldina voru þeir fjórðungur borgarbúa. Sömuleiðis fluttu margir íbúar Wales til Liverpool. Borgin kemur mikið við sögu í vesturferðum Evrópumanna, en hundruð þúsundir manna stigu á skip þar sem fluttu þá vestur um haf. Af íslenskum vesturförum komu langflestir þeirra 20 þúsund sem fluttu vestur við í Liverpool. Flest sigldu skipin til New York. Liverpool fékk almenn borgarréttindi 1880. Ári síðar var háskólinn þar stofnaður. Um aldamótin 1900 voru íbúar orðnir rúmlega 700 þúsund. Fyrstu áratugir 20. aldar náði Liverpool mestu stærð. Borgin þandist út og innlimaði nágrannabæi. Íbúar fóru mest í 850 þúsund 1931 en hefur fækkað um helming síðustu áratugi. Heimstyrjöldin síðari. Í heimstyrjöldinni síðari og árunum þar á undan var höfnin í Liverpool hernaðarlega mjög mikilvæg. Hún var helsta herskipahöfn Breta og um 90% allra hergagna (mest frá Ameríku) sem komu til Bretlands komu sjóleiðina til Liverpool. Höfnin þar var einnig notuð fyrir herskip, bæði innlend og erlend frá vinveittum ríkjum. Því kemur ekki á óvart að Liverpool varð fyrir gríðarlegum loftárásum Þjóðverja, þeim verstu í Englandi fyrir utan London. Árásir Þjóðverja á hafnir í Mersey kallast "Liverpool Blitz" og voru þær 80 talsins. Þær fyrstu voru gerðar 28. ágúst 1940 er 160 flugvélar létu sprengjum rigna yfir borgina í þrjá daga í röð. Árásum hélt áfram út árið og fram til 1942. Verstu árásirnar urðu 28. nóvember 1940, 20.-22. desember 1940 og 1.-7. maí 1941, en í síðastnefndu árásunum voru 681 þýsk flugvél sveimandi í sjö daga í röð yfir borginni. Alls létust 2.700 manns og heilu hverfin voru jöfnuð við jörðu. 190 þúsumd heimili voru skemmd eða eyðilögð. Síðustu árásirnar voru gerðar 10. janúar 1942 og skemmdust við þær hús við Upper Stanhope Street. Einkennilegt er að húsið við nr. 102 í þeirri götu, sem einnig eyðilagðist, hafði hálfbróðir Hitlers, Alois, búið í ásamt írskri eiginkonu sinni nokkru áður. Húsið var ekki endurbyggt. Nútími. Bítlarnir hófu feril sinn í Liverpool Eftir stríð missti breyttist atvinnumynstur borgarinnar mjög. Iðnaður minnkaði og umsvif hafnarinnar nánast hrundi, þrátt fyrir að Seaforth Dock, ein stærsta gámahöfn Bretlands, var opnuð þar 1972. Íbúum fækkaði gríðarlega og fóru úr 850 þúsund fyrir stríð niður í 460 þúsund árið 1985. Mjög umdeilt mál átti sér stað í á sjötta og sjöunda áratugnum er Liverpool sótti um vatnsleyfi nyrst í Wales 1956. Búa átti til stíflu og lón, ásamt vatnsveitu. Eftir miklar deilur í breska þinginu, í Wales og víðar, var málið samþykkt, en það fól í sér að velski bærinn Capel Celyn færi í kaf. Hann var einn síðasti bærinn í Wales þar sem eingöngu gelíska var töluð. 1965 voru íbúar hans fluttir á brott og lónið varð að staðreynd. Strax í upphafi sjöunda áratugarins hófst mikill uppgangur popptónlistar í borginni. Nýjar stefnur komu upp á yfirborðið og talað var um fyrirbærið "Merseybeat". Rokkið frá borginni barst víða. Ýmsar hljómsveitir dúkkuðu upp og lifðu í mislangan tíma. Meðal þeirra eru Bítlarnir, ein frægasta hljómsveit allra tíma. Á níunda áratugnum náði Liverpool botninum í efnahagskrísunni er atvinnuleysið var einna mest allra borga í Englandi. 12 þúsund manns yfirgáfu borgina árlega. Mótmæli og óeirðir náðu hámarki 1981. Í þeim notaði lögreglan í fyrsta sinn í sögu Englands táragas á almenna borgara. Á síðustu árum hefur ferðamennska einkennt borgina, ekki síst vegna vinsælda Bítlanna. 2004 voru söguleg svæði í Liverpool sett á heimsminjaskrá UNESCO og 2008 var Liverpool menningarhöfuðborg Evrópu. Hljómsveitir. Cavern Club eins og hann lítur út í dag Liverpool er meðal þekktustu tónlistarborga heims. Samanlagt hefur tónlistarfólk frá borginni framleitt 56 lög sem náð hafa toppi vinsældarlistanna, fleiri en nokkur önnur borg í heimi. Í upphafi sjöunda áratugarins komu fram margar hljómsveitir sem þróuðu poppið í það sem kallast Merseybeat. Fyrst þeirra til að landa lögum á toppi vinsældarlistanna var Gerry & The Pacemakers. Fljótlega hóf þó önnur hljómsveit að umbylta heiminum er Bítlarnir komu á sögusviðið. Hljómsveitin spilaði meðal annars í Cavern Club, tónlistarbar í Mathew Street í miðborginni. Þar spiluðu ýmsar aðrar hljómsveitir sem náðu vinsældum á skömmum tíma. Af öðrum þekktum hljómsveitum frá Liverpool má nefna Frankie Goes to Hollywood og The Merseybeats. Bítlahringurinn. Strawberry Fields Forever er eitt laga Bítlanna Mathew Street tónlistarhátíðin. a> á Mathew Street Festival 2006 Árlega er haldin stór tónlistarhátíð í og við Mathew Street, götuna þar sem Cavern Club er staðsettur. Hátíð þessi er sú stærsta í Liverpool en þá troða hljómsveitir upp á fimm sviðum í miðborginni. Hljómsveitirnar eru bæði innlendar og erlendar, þar á meðal margar sem stæla Bítlana. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1992 og fer yfirleitt fram í ágúst. Árið 2010 sóttu 100 þúsund manns hátíðina heim. Íþróttir. Liverpool er ein af háborgum knattspyrnunnar í Englandi. Aðalliðin eru tvö: Liverpool F.C. og Everton F.C. Hnefaleikar eru mjög vinsælir í Liverpool, enda búa þeir yfir langri sögu í borginni. Rúmlega 20 áhugamannafélög eru borginni og hafa boxarar þaðan verið mest áberandi í landsliði Breta. Margir þeirra eru verðlaunahafar á Ólympíuleikunum. Ein þekktasta veðreiðabraut Englands er í Aintree í Liverpool. Þar fer árlega fram keppnin "John Smith‘s Grand National" og taka hestar og knapar þátt hvaðanæva að úr heiminum. Körfuboltaliðið Mersey Tigers (áður Everton Tigers) leikur í efstu deild og hefur lyft áhuga borgarbúa á íþróttinni til muna. Liverpool er ein af þremur borgum í Englandi þar sem breskur hafnabolti er enn leikinn. Þar fara fram landsleikir við Wales annað hvert ár (hitt árið fer landsleikurinn fram í Wales). Félagið Liverpool Trojans er elsta hafnaboltalið Bretlands. Byggingar og kennileiti. Dómkirkjan í Liverpool er næstlengsta kirkjubygging heims Lúðvík Geirsson. Lúðvík Geirsson er fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Lúðvík fæddist þann 21. Apríl 1959 í Reykjavík. Lúðvík er sonur Geirs Gunnarssonar og Ástu Lúðvíksdóttur. Lúðvík á þrjá syni þá Lárus, Brynjar og Guðlaug. Félagshyggja (stjórnmálaheimspeki). Félagshyggja er stefna í stjórnmálaheimspeki sem varð til á seinni hluta 20. aldar. Félagshyggja er andstæð róttækri einstaklingshyggju en leggur áherslu á samfélag og samfélagslega ábyrgð. Félagshyggja er ekki nauðsynlega ósamrýmanleg frjálslyndisstefnu og á oft samleið með jafnaðarstefnu. Upphaf félagshyggjunnar má rekja til viðbragða ýmissa heimspekinga við riti bandaríska stjórnmálaheimspekingsins Johns Rawls, "Kenning um réttlæti", sem kom út árið 1971. Töldu þeir að í riti Rawls væri of mikil áhersla lögð á einstaklinginn óháð samfélaginu sem hann býr í. Á Íslandi hafa stjórnmálahreyfingar á vinstri væng stjórnmálanna, sem kjósa að kenna sig ekki við jafnaðarstefnu, stundum kennt sig við félagshyggju. Charles Taylor. Charles Margrave Taylor (f. 5. nóvember 1931) er Kanadískur heimspekingur sem hefur einkum fengist við stjórnmálaheimspeki, heimspeki félagsvísinda og sögu heimspekinnar. Hann er oftast talinn til félagshyggjumanna en kýs að lýsa sér ekki þannig sjálfur. Frekari fróðleikur. Taylor, Charles Taylor, Charles Taylor, Charles Enska úrvalsdeildin 2006-07. Enska úrvalsdeildin 2006-07 byrjaði 19. ágúst 2006 og endar 13. maí 2007. Þetta er í 15. skipti sem hún er haldin. Núverandi meistarar, Chelsea, hafa unnið titilinn tvisvar í röð og eiga möguleika á að vinna hann í þriðja skiptið. Aðeins fjögur önnur lið hafa unnið efstu deildina á Englandi þrisvar í röð áður, Huddersfield Town (1924-26), Arsenal (1933-35), Liverpool (1982-84) og Manchester United (1999-2001). Manchester United er eina liðið sem hefur gert það síðan enska úrvalsdeildinn var stofnuð 1992. 6. maí 2007 varð Manchester United öruggur sigurvegari ensku úrvalsdeildarinnar 2006-07. Leikir. "Síðast uppfært 13. maí 2007" Markahæstu leikmenn. "Seinast uppfært 5. maí 2007" 15000 markið. Flestir bjuggust við að 15,000 markið í ensku úrvalsdeildinni myndi vera skorað einhvern tíman milli jóla og nýárs. Markmiðinu var náð 30. desember þegar Moritz Volz skoraði fyrir Fulham gegn Chelsea. Barcleys, styrktaraðili úrvalsdeildarinnar gaf 15,000 pund til Fulham í nafni Volz. Volz hefur oft verið kallaður "15,000 Volz" eftir þetta sögulega mark. Markmaður skorar. 17. mars skoraði Paul Robinson, markmaður Tottenham gegn Watford frá 83 fetum í aukaspyrnu sem skoppaði yfir enska markmanninn Ben Foster sem var í markinu fyrir Watford. Leikurinn endaði 3-1 fyrir Spurs á White Hart Lane. Þetta var í þriðja skipti sem markmaður skorar í sögu úrvalsdeildarinnar. Hin tvö skoruðu Peter Schmeichel fyrir Aston Villa gegn Everton 21. október 2001 og Brad Friedel fyrir Blackburn Rovers gegn Charlton þann 21. febrúar 2004. Í báðum tilvikum töpuðu liðin. Robinson varð því fyrsti markmaðurinn til að skora fyrir sigurliðið í úrvalsdeildarleik. Leikmaður ársins. Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, var valinn leikmaður ársins. Á verðlaunaafhendingunni hafði hann einnig tekið við verðlaunum fyrir leikmann ársins í hópi ungra leikmanna. Ekki hefur slíkt gerst síðan árið 1977 en þá Andy Gray afrekaði það sama. Didier Drogba, leikmaður Chelsea, lenti í 2. sæti og Paul Scholes, leikmaður Manchester United, lenti í 3. sæti. Leikmaður ársins í hópi ungra leikmanna. Cristiano Ronaldo var einnig valinn leikmaður ársins í hópi ungra leikmanna. Cesc Fàbregas, leikmaður Arsenal, lenti í 2. sæti og Aaron Lennon, leikmaður Tottenham Hotspur í 3. sæti. Wayne Rooney hafði unnið verðlaunin 2 síðustu árin en var ekki meðal hæstu þriggja manna að þessu sinni. Lið ársins. Markvörður: Edwin van der Sar (Manchester United) Varnarmenn: Gary Neville, Patrice Evra, Rio Ferdinand, Nemanja Vidić (allir í Manchester United) Miðjumenn: Steven Gerrard (Liverpool), Paul Scholes, Ryan Giggs, Cristiano Ronaldo (allir í Manchester United) Sóknarmenn: Didier Drogba (Chelsea), Dimitar Berbatov (Tottenham Hotspur) Virðingarverðlaun. Virðingarverðlaunin vann Sir Alex Ferguson, þjálfari Manchester United. Leikmaður ársins valinn af aðdáendum. Valinn var leikmaður með kosningu á netinu á heimasíðu PFA. Cristiano Ronaldo vann einnig þessa kosningu. Verðlaun samtök knattspyrnuskrifa. Cristiano Ronaldo vann þessi verðlaun. Verðlaunin voru valin af meðlimum samtaka knattspyrnuskrifa. Cristiano Ronaldo afrekaði þann merka áfanga að vinna verðlaun í: leikmaður ársins, leikmaður ársins í hópi ungra leikmanna, leikmaður ársins valinn af aðdáendum og verðlaun samtök knattspyrnuskrifa auk þess sem að hann var valinn í lið ársins. Michael Walzer. Michael Walzer (3. mars 1935) er stjórnmálaheimspekingur og siðfræðingur og prófessor við Institute for Advanced Study í Princeton í New Jersey. Hann hefur skrifað um ýmis efni, m.a. réttlát og ranglát stríð, þjóðernishyggju, félagslegt réttlæti, umburðarlyndi og fleira. Hann hefur gefið út 27 bækur og á fjórða hundrað greina. Walzer er venjulega talinn einn meginhugsuður félagshyggju í stjórnmálaheimspeki, ásamt Alasdair MacIntyre og Michael Sandel. Michael Sandel. Michael Sandel (f. 5. mars 1953) er bandarískur stjórnmálaheimspekingur og prófessor á Harvard-háskóla. Sandel er málsvari félagshyggju í stjórnspeki og er einna þekktastur fyrir gagnrýni sína á kenningu Johns Rawls í "Kenningu um réttlæti". Helstu rit. Sandel, Michael Sandel, Michael Sandel, Michael Taekwondo. Taekwondo (kóreska: 한국어; framburður: tæ-kvon-dó) er kóresk bardagalist og þjóðaríþrótt Suður-Kóreu. Hún er byggð á alda gamalli sjálfsvarnarlist sem Kóreubúar fundu upp fyrir um tvöþúsund árum til þess að verja sig. Í dag er taekwondo íþrótt þar sem keppt er í poomse (form), kyourgi (bardagi) og kykopa (brot). Núna er Taekwondo þjóðaríþrótt Suður-Kóreu og er helsta bardagaíþróttin sem notuð er í kóreska hernum. Taekwondo er samansett af þrem orðum: „tae“ (fótur), „kwon“ (hnefi) og „do“ (leið) og saman þýða þau „fóta- og handatækni“. Árið 1988 var í fyrsta sinn keppt í Taekwondo á Ólympíuleikunum og frá árinu 2000 hefur íþróttin verið fullgild á Ólympíuleikunum. Björn Þorleifsson hefur náð einna lengst í íþróttinni á Íslandi en hann er margfaldur Norðurlandameistari með svarta beltið. Í dag eru 16 félög á Íslandi sem kenna listina. Meðal félaga sem kenna greinina er U.M.F.A (ungmennafélag Aftureldingar) Tignir og belti. Litir belta geta verið mismunandi eftir skólum. Ø. Ø er bókstafur sem notaður er í dönsku, færeysku og norsku. Í íslensku, sænsku,tyrknesku, finnsku, aserbaídsjönsku, tatar, túrkmen, þýsku, eistnesku, rúmversku og ungversku er notast við stafinn Ö í stað Ø. Samsvarandi tákn, ∅, er notað í stærðfræði til að tákna tómamengið. Nótnaskrift. Nótnaskrift er það þegar nótur eru skrifaðar niður á blað, tölvu eða annan hlut. Margrét prinsessa, greifynjan af Snowdon. Margrét prinsessa, greifynjan af Snowdon ("Margaret Rose") (21. ágúst 1930 — 9. febrúar 2002) var yngri dóttir Georgs VI og Elisabetar drottningar. Margrét prinsessa var ávallt umdeildur meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar vegna einkalífs hennar sem oftar en ekki lenti á forsíðum bresku blaðanna. Fjölskylda. Mikið var fjallað um hjónaband þeirra en því var oft haldið fram, árin sem þau voru gift, að hjónaband þeirra stæði á brauðfótum. Þau skildu árið 1978. Margét prinsessa lést 71 árs gömul, eftir að hafa fengið slag árið 2002. Nikkelfjallið. "Nikkelfjallið" (en: "Nickel Mountain") er íslensk-bandarísk kvikmynd frá árinu 1984. Framleiðandi var Jakob Magnússon. Aðrir Íslendingar sem unnu við myndina voru Sigurjón Sighvatsson, Ragna Fossberg, Björn Emilsson, Guðmundur Kristjánsson, Ólafur Rögnvaldsson, Edda Sverrisdóttir og Vilborg Aradóttir. Skarphéðinn Njálsson. Skarphéðinn Njálsson er persóna í Brennu-Njáls sögu. Skarphéðinn er sonur Njáls Þorgeirssonar og er einn af aðalpersónum sögunnar. Hann bjó á Bergþórshvoli, og var elsti sonur Njáls og Bergþóru. Hann var mikill maður vexti og styrkur, vígur vel og syndur sem selur. Manna fóthvatastur, skjótráður, öruggur, gagnorður og skjótorður og löngum vel stilltur. Hann var jarpur á hár og sveipur í hárinu, eygður vel, fölleitur og skarpleitur, liður á nefi og lá hátt tanngarðurinn, munnljótur nokkuð og þó manna hermannalegastur. Hann var kvæntur Þórhildi Hrafnsdóttur. Hann var mesti vígamaður þeirra bræðra. Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu eða Pepsideild kvenna er efsta deild kvenna í knattspyrnu á Íslandi. Deildin er rekin af Íslenska knattspyrnusambandinu. Keppni meðal efstu liða kvenna hófst árið 1972, en ekki sem eiginleg deild. Í stað þess var riðlakeppni og það fyrirkomulag var við lýði á næstu þremur árum keppninar. Árið 1976 varð síðan fyrsta eiginlega úrvalsdeild kvenna, sem hét "1. deild kvenna". Það var þó ekki fyrr en 1995 sem að deildin var fyrst nefnd eftir styrktaraðilum. Síðar varð sameiginlegur styrktaraðili yfir úrvalsdeildir karla og kvenna, frá árinu 2000 og hefur haldist þannig síðan. Hans Küng. Hans Küng (f. 1928) er svissneskur guðfræðingur. Hann er einn af best þekktu guðfræðingum samtímans. Küng fæddist 1928, sótti frjálslyndan menntaskóla í Luzern og fékk síðan stranga, kaþólska guðfræðimenntun í anda nýskólaspekinnar við Gregórshákólann í Róm (heimspeki 1948-51, guðfræði 1951-55, prestsvígsla 1954). Framhaldsnám í Sorbonne í París (1955-57), þar sem hann skrifaði um réttlætingarkenningu Karls Barths Rechtfertigung. Die Lehre Karl Barths und eine katholische Besinnung (1957). Bók sú vakti athygli fyrir tvennt. Karl Barth mælti með henni sem sannri umfjöllun um kenningar sínar. Hitt vakti undrun, að kaþólskur guðfræðingur gat haldið því fram, að friðþægingarkenningin hafi ekki átt að valda kirkjuklofningi á sextándu öldinni, og að kenningin geti sameinað kirkjudeildirnar í nútímanum. Frægð sína á hann starfi sínu við og kringum síðara Vatíkanþingið (1959-1965) að þakka, en þar var hann einn mótenda umbótastefnunnar, sem varð niðustaða þingsins. Eðlilegt framhald þessa starfs voru rit hans um kirkjuna, einkum Die Kirche (1967), þar sem hann dró upp kaþólska kirkjufræði, sem jafnframt getur talist samkirkjuleg. Á áttunda áratugnum skrifaði hann tvær bækur sem fóru sigurför um heiminn: Christ sein (1974) og Existiert Gott? Antwort auf die Gottesfrage der Neuzeit (1978). Einkenni þessara bóka er, að þær eru almennt skiljanlegar jafnframt því að vera vísindalegar og framsæknar. Jafnframt því var Küng einn háværasti gagnrýnandi afturhaldsstefnu í Páfagarði, sem leitaðist við að gera að engu umbótastefnu Vatíkanþingsins. Bók hans um óskeikulleika Páfans Unfehlbar? Eine Anfrage (1970), skrifuð í kjölfarið á páfabréfinu Humanae vitae (1968), sem endurtók hefðbundna kaþólska kynlífs-, hjónabands- og fjölskyldusiðfræði, í stað þess að kenna í anda Vatíkanþingsins, varð til þess að Hans Küng komst í alvarleg vandræði við Páfagarð. Árið 1979, eftir að núverandi Páfi komst til valda, var Hans Küng sviftur kennsluréttindum sínum við kaþólsku guðfræðideildina í Tübingen, en þar hafði hann gengt prófessorstöðu í trúfræði og samkirkjulegri guðfræði síðan 1960. Háskólinn kom Küng til hjálpar og í samvinnu við bókmenntafræðinginn Walter Jens kom Hans Küng á fót „Studium generale“, stofnun við háskólann þar sem almenningur hefur möguleika að hlýða á fyrirlestra úr öllum greinum raun- og hugvísinda. Hans Küng hélt prófessorstöðu sinni og stýrði (kaþólskri) deild samkirkjulegrar guðfræði, sem stofnuð var 1964 til 1998, þegar hann fór á eftirlaun. Hann er forseti, sem dregur nafn sitt af samnefndri bók hans, gefin út 1990. Jafnframt því að kenna guðfræði í Tübingen, hefur Hans Küng verið eftirsóttur fyrirlesari um allan heim. Küng, Hans Landsbankadeildin. Landsbankadeildin er efsta deild bæði í karla- og kvennaflokki í knattspyrnu á Íslandi. Deildirnar eru nefndar eftir aðalsyrktaraðila þeirra, Landsbanka Íslands. Vercingetorix. Vercingetorix (d. 46 f.Kr.) var leiðtogi Averna og annarra Galla í Gallastríðunum gegn Rómverjum. Vercingetorix beið ósigur fyrir Júlíusi Caesari í orrustunni við Alesiu. Hann var handsamaður og færður til Rómar þar sem hann var tekinn af lífi fimm árum síðar í hefðbundinni sigurhátíð. 15. Árið 15 (XV) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. 16. Árið 16 (XVI) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á miðvikudegi. 17. Árið 17 (XVII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á föstudegi. 18. Árið 18 (XVIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á laugardegi. 19. Árið 19 (XIX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á sunnudegi. 20. Árið 20 (XX) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á mánudegi. 11. Árið 11 (XI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. 12. Árið 12 (XII) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á föstudegi. 13. Árið 13 (XIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á sunnudegi. 4. Árið 4 (IV) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á þriðjudegi eða almennt ár sem byrjaði á miðvikudegi. 5. Árið 5 (V) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. 6 (ártal). Árið 6 (VI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á föstudegi. 7. Árið 7 (VII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á laugardegi. 8. Árið 8 (VIII) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á sunnudegi. 10. Árið 10 (X) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á miðvikudegi. Feidías. Feidías eða Fidías (forngrísku Φειδίας) (um 491 f.Kr. - 430 f.Kr.) var aþenskur myndhöggvari. Hann er almennt talinn hafa verið merkasti myndhöggvari fornaldar. Feidías hannaði Meyjarhofið á Akrópólíshæð í Aþenu og Seifsstyttuna í Ólympíu. Í Aþenu var Feidías ráðinn til verka af Períklesi, sem greiddi honum laun úr sjóði Deleyska sjóbandalagsins. 21. Árið 21 (XXI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á miðvikudegi. 22. Árið 22 (XXII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. 23. Árið 23 (XXIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á föstudegi. 26. Árið 26 (XXVI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. 28. Árið 28 (XXVIII) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á fimmtudegi. 29. Árið 29 (XXIX) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á laugardegi. 31. Árið 31 (XXXI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á mánudegi. 32. Árið 32 (XXXII) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á þriðjudegi. 33. Árið 33 (XXXIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. Alexander frá Afrodísías. Alexander frá Afrodísías var forngrískur heimspekingur, uppi á 2. öld og 3. öld. Hann var nemandi Aristóklesar frá Messínu. Alexander var aristótelískur heimspekingur og er gjarnan talinn einn merkasti heimspekingur síðfornaldar. Alexander hlaut viðurnefnið "ho exegetes" („ritskýrandinn“). Alexander kom til Aþenu undir lok 2. aldar. Hann varð skólastjóri Lýkeion, skólans sem Aristóteles stofnaði á 4. öld f.Kr. Þar kenndi hann heimspeki í anda Aristótelesar. Eitt markmiða Alexanders var að hrekja kenningar Ammoníosar um aristótelíska heimspeki en hann hafði reynt að sameina kenningar Aristótelesar og Platons. Ritverk. Ritið "Skýringar við Spekirök" er ranglega eignað Alexandri. Alexander samdi ekki skýringarrit við "Siðfræði Níkómakkosar", "Stjórnspekina", "Mælskufræðina" né "Um skáldskaparlistina". Skýringarrit Alexanders voru afar vinsæl meðal araba, sem þýddu mörg þeirra sem og önnur verk hans. Sumar af þýðingum þeirra eru enn varðveittar, svo sem "Um forsjón" og "Gegn Galenosi um hreyfingu". Mýron. Rómversk endurgerð af styttu Mýrons, Kringlukastaranum. Mýron frá Elevþeræ (forngrísku Μύρων) var forngrískur myndhöggvari sem var uppi um miðja 5. öld f.Kr. Mýron vann eingöngu með brons. Hann er einkum frægur fyrir styttur af íþróttarmönnum. Frægasta stytta Mýrons er Kringlukastarinn. Telemakkos. Telemakkos (orðrétt „sá sem berst í fjarska“) er persóna í grískri goðafræði og í "Ódysseifskviðu" Hómers. Hann er sonur Ódysseifs og Penelópu. Hlutverk Telemakkosar er hvað mest í fyrstu fjórum bókum "Ódysseifskviðu". Peleifur. Peleifur felur Kíroni að mennta Akkilles. Peleifur (forngrísku: Πηλεύς) er persóna í grískri goðafræði. Hann var sonur Endeísar og Ajakosar, konungs á Ægínu, og faðir Akkillesar. Peleifur var bróðir Telamons, föður Ajasar. Tyndareifur. Tyndareifur er persóna í grískri goðafræði. Hann var konungur í Spörtu, eiginmaður Ledu og faðir Klýtæmnestru, Helenu fögru, Pólýdevkesar (Polluxar), Kastors auk annarra. Seifur tældi Ledu, eiginkonu Tyndareifs, í líki svans. Leda verpti tveimur eggjum. Úr hvoru eggi um sig komu tvö börn, Pólýdevkes og Helena fagra úr öðru og voru þau Seifsbörn; Kastor og Klýtæmnestra úr hinu en þau voru börn Tyndareifs. Menelás. Menelás (forngrísku Μενέλαος) er persóna í grískri goðafræði. Hann kemur fyrir í "Ilíonskviðu" og "Ódysseifskviðu" Hómers, sem og í ýmsum forngrískum harmleikjum. Menelás var konungur í Spörtu. Hann var sonur Atreifs og Ærópu, yngri bróðir Agamemnons og eiginmaður Helenu fögru. Grímsnes. Grímsnes kallast landsvæðið milli Sogsins í vestri, Hvítár í suðri og Brúarár í austri. Í norðri taka Laugardalur og Lyngdalsheiði við. Grímsnes tilheyrir nú Grímsness- og Grafningshreppi en var áður sér hreppur; Grímsneshreppur. Um alla sveitina eru gróin hraun sem öll hafa runnið eftir ísöld. Þar eru því þekktar eldstöðvar á borð við Kerið og Seyðishóla en einnig eru þar aðrar minni. Í Grímsnesi eru stórar sumarhúsabyggðir þar sem víða leynist kjarr og þurrlendi. Bjarni Þorsteinsson. Séra Bjarni Þorsteinsson (14. október 1861 – 1938) var íslenskur prestur og tónskáld en er þekktastur fyrir að hafa safnað íslenskum þjóðlögum og fékk síðar prófessorstitil fyrir verk sitt. Bjarni varð stúdent 1883 frá Latínuskólanum í Reykjavík, lauk prófi í Prestaskólanum 1888 og vígðist sama ár til Siglufjarðarprestakalls, sem hann þjónaði samfleytt í 47 ár. Árið 1892 kvæntist hann "Sigríði" dóttur "Lárusar Blöndals" sýslumanns Húnvetninga. Þau eignuðust 5 börn. Veturinn 1903-1904 var séra Bjarni í Kaupmannahöfn að rannsaka og afrita sönglegar heimildir úr gömlum íslenskum handritum. Hann átti í miklu stríði við Bókmenntafélagið um útgáfu þjóðlagasafnsins, því að félaginu óx mjög í augum fyrirferð þess. Loks fékk hann Carlsbergssjóðinn til að gefa bókina út. Viðurkenningu verks síns fékk Bjarni mjög af skornum skammti fyrst í stað. Þingið vildi fyrst ekki styrkja hann neitt, enda höfðu menn lítinn skilning á þessu starfi hans. Það voru helst Danir sem greiddu götu hans, tónskáldið J.P.E. Hartmann og prófessor Angul Hammerich, danska kennslumálaráðuneytið og Carlsbergssjóðurinn, með því skilyrði að Alþingi sýndi einhvern lit, sem svo marðist í gegn. Íslensk þjóðlög kom svo út á árunum 1906-1909. Landstjórnin sæmdi síðan Bjarna prófessorsnafnbót, aðallega með tilliti til þessa verks. Polýkleitos. Polýkleitos var grískur myndhöggvari sem uppi var á 5. öld f.Kr. Hann var einn markverðasti listamaður klassíska tímans og sérhæfði sig í gerð bronsmynda. Polýkleitos bjó til mælikvarða á hlutföll mannslíkamans sem hafði mikla þýðingu fyrir seinni tíma höggmyndalist. Hann skrifaði einnig fræga kennslubók í myndhöggvaralist sem nefndist "Kanon". Meðal þekktustu verka Polýkleitosar er Doryforos "Spjótberinn" sem til er í rómverskum eftirmyndum úr marmara, m.a. í Museo Nazionale í Napólí og verk hans Diadumenos eða "Drengur með ennishlað". Veitur. Veitur (sænska: Vättern) er annað stærsta stöðuvatn í Svíþjóð á eftir Væni. Helstu borgir sem liggja að strönd Veiturs eru Karlsborg, Motala og Jönköping. Baldvin Belgíukonungur. Baldvin ("Baudouin Albert Charles Léopold Axel Marie Gustave") (7. september 1930 - Motril 31. júlí 1993) varð konungur Belgíu. Hann var sonur Leópolds III konungs og Ástríðar prinsessu af Svíþjóð. Landsbankadeild karla í knattspyrnu 2006. Landsbankadeild karla 2006 var 95. tímabil úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í knattspyrnu á Íslandi. Sigurvegarar deildarinnar voru FH. Staðan í deildinni. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem luku með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Laxdælir. Laxdælir voru afkomendur Unnar (Auðar) djúpúðgu í Hvammi í Dölum, sér í lagi þeir sem bjuggu í Laxárdal í Dalasýslu og þar í grennd. Margir þeirra voru höfðingjar og stórbændur, svo sem Höskuldur Dala-Kollsson, sem bjó á Höskuldsstöðum og sonur hans, Ólafur pái, sem bjó í Hjarðarholti. Unnur (Auður) djúpúðga, landnámskona í Hvammi í Dölum, kona Ólafs hvíta Ingjaldssonar. Hún var kristin. ╰─Þorsteinn rauður Ólafsson, smákonungur í Skotlandi, drepinn af Skotum á Katanesi, k.h. Þuríður Eyvindardóttir ├─Gró(a) Þorsteinsdóttir, gift í Orkneyjum, formóðir Orkneyingajarla ├─Ólöf Þorsteinsdóttir, gift í Færeyjum, ættmóðir Götuskeggja ├─Ólafur feilan Þorsteinsson, stórbóndi í Hvammi í Dölum ╰─Höskuldur Dala-Kollsson, bóndi á Höskuldsstöðum í Laxárdal, k.h. Jórunn Bjarnardóttir, bm. Melkorka ├─Þorleikur Höskuldsson, bóndi á Kambsnesi, k.h. Gjaflaug Arnbjarnardóttir │ ╰─Bolli Þorleiksson, k.h. Guðrún Ósvífursdóttir ├─Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir, kona Þorvalds, Glúms og Gunnars á Hlíðarenda │ ├─Þorgerður Glúmsdóttir, seinni kona Þráins Sigfússonar á Grjótá í Fljótshlíð (veginn af Skarphéðni) │ │ ╰─Höskuldur Þráinsson Hvítanessgoði, k.h. Hildigunnur Starkaðardóttir (bróðurdóttir Brennu-Flosa) ╰─Ólafur pái Höskuldsson (móðir: Melkorka), bóndi í Hjarðarholti, k.h. Þorgerður Egilsdóttir frá Borg ├─Kjartan Ólafsson, heitmaður Guðrúnar Ósvífursdóttur ╰─Þorbjörg digra, kona Vermundar mjó(v)a í Vatnsfirði. Hún var bjargvættur Grettis. Apollóníos frá Aþenu. Apollóníos frá Aþenu var forngrískur myndhöggvari sem var uppi 1. öld f.Kr. Þekktustu verk Apollóníosar eru "Belvederebolurinn", marmarastytta í Páfagarði sem fannst í byrjun 16. aldar og hafði mikil áhrif á listamenn þeirra tíma og "Hnefaleikarinn", bronsstytta, varðveitt í Museo delle Terme í Róm. Í fyrstu héldu menn að verk þessi væru frumverk, en nú er talið að þau séu frá fyrsta og öðru árhundraði okkar tímatals. Kallímakkos (myndhöggvari). Kallímakkos var forngrískur myndhöggvari sem var uppi á síðari hluta 5. aldar f.Kr. Hann er sagður hafa komið fram með korinþísku súluna. Engar frummyndir eru til eftir Kallímakkos en samtímamenn gagnrýndu hann fyrir að leggja of mikla áherlsu á smáatriði. Leókares. Leókares var forngrískur myndhöggvari sem var uppi á 4. öld f.Kr. Hann var nemandi Skópasar. Meðal þekktustu verka Leókaresar er Apollon Belvedere. Hann er einnig talinn hafa tekið þátt í skreytingu grafhýsisins í Halikarnassos. Lýsippos. Lýsippos var forngrískur myndhöggvari sem var uppi á 4. öld f.Kr. Hann var hirðmyndhöggvari Alexanders mikla. Bronsstyttur Lýsipposar af nöktum piltum höfðu mikil áhrif á stíl annarra listamanna. Af mörgum þeirra hafa varðveist rómverskar eftirlíkingar úr marmara, þ.á m. "Skafarinn" (gríska: Apoxyomenos) (þ.e. íþróttamaður að skafa af sér svita og olíu eftir keppni). Skafarinn fannst í Róm 1849. Frumeintak hennar (bronsstytta) var flutt til Rómar, þar sem hún var um tíma í svefnherbergi Tíberíusar keisara. Skópas. Skópas var forngrískur myndhöggvari sem var uppi á 4. öld f.Kr. Skópas var einnig arkitekt. Hann vann einkum úr marmara og þykir afburða túlkandi tilfinninga. Hann stjórnaði endurbyggingu Aþenuhofsins í Tegeu og tók þátt í að prýða Másoleion í Halikarnassos með höggmyndum. Rómverskar eftirlíkingar af mörgum verka hans hafa varðveist. Hessen. Hessen er sjöunda stærsta sambandsaland Þýskalands með rúmlega 21 þús km². Fyrir utan borgríkin er það eitt af þremur sambandslöndum sem umkringt er öðrum sambandslöndum og liggur Hessen því hvergi að sjó. Íbúar eru tæplega 6,1 milljón talsins, sem gerir Hessen að fjórða fjölmennasta sambandslandi Þýskalands. Höfuðborgin er Wiesbaden við Rínarfljót, en stærsta borgin er Frankfurt am Main. Lega. Hessen er suðvestan við landfræðilega miðju Þýskalands og tilheyrði áður Vestur-Þýskalandi. Fyrir norðvestan er Norðurrín-Vestfalía og Neðra-Saxland, fyrir austan er Þýringaland (Thüringen), fyrir suðaustan er Bæjaraland, fyrir sunnan er Baden-Württemberg og fyrir austan er Rínarland-Pfalz. Fáni og skjaldarmerki. Hessenljónið í skjaldarmerkinu er upprunnið úr Ludowinger-ættinni, en litir ættarinnar voru rauður og hvítur. Þessir litir voru því valdir í fánann sem var tekinn upp þegar Hessen var stofnað sem sambandsland á hernámsárunum eftir heimstyrjöldina síðari. Orðsifjar. Nafnið "Hessen" er komið af germanska þjóðflokknum "chatten" (á latnesku: "Chatti"), sem bjuggu á svæði þar sem norðurhluti Hessen er í dag. Chatten og frísar eru einu germönsku þjóðflokkarnir sem hafa haldið bæði heiti sínu og upprunahérað sitt í gegnum aldirnar.. Söguágrip. Germanir og keltar bjuggu upphaflega í héraðinu, þar til Rómverjar tóku suðurhluta þess sem nú er Hessen. 9. e.Kr. töpuðu Rómverjar orrustu gegn germönum í Teutoburger Wald. Eftir ósigurinn drógu þeir sig að mestu úr héraðinu og hófu að reisa Limes-varnargarðinn sem lá að einhverju leyti eftir suðurjaðri núverandi Hessen. Á 6. öld námu frankar land í héraðinu og réðu landinu. Þar náðu greifadæmi ekki að myndast eins og í öðrum þýskum héruðum. 1292 verður Hessen að ríkisfurstadæmi að vilja keisarans (oft kallað Hessen-Kassel og Hessen-Darmstadt). Seinna myndaðist einnig héraðið Hessen-Nassau. 1806 klípa Frakkar Hessen-Darmstadt af Hessen og innlima það í Rínarsambandið meðan Napoleon ríkir. 1866 börðust Prússar gegn Austurríki í þýska stríðinu. Í því sigruðu Prússar. Þar sem Hessen-Kassel barðist með Austurríkismönnum, innlima Prússar allt norðurhérað Hessen. Tveimur árum síðar mynduðu Prússar héraðið Hessen-Nassau úr afgöngunum af Hessen. 1919 var Weimar-lýðveldið stofnað. Úr Hessen-Nassau verður Volksstaat Hessen (Grosshessen). 1945 lendir Volksstaat Hessen í hernámssvæði Bandaríkjamanna eftir heimstyrjöldina síðari. 1946 var sambandslandið Hessen stofnað úr Grosshessen og smáhéruðum í kring. Wiesbaden verður höfuðborg. Hessen var þar með fyrsta þýska héraðið sem fékk lýðveldisstjórn á ný. Ástæðan fyrir því að Wiesbaden varð að höfuðborg en ekki Frankfurt var sú að til álita kom að gera Frankfurt að höfuðborg Vestur-Þýskalands. Úr því varð hins vegar ekki, þar sem Bonn varð fyrir valinu. Hessen varð síðan hluti af Vestur-Þýskalandi þegar það var myndað 1949. Wiesbaden. Wiesbaden er höfuðborg þýska sambandslandsins Hessen og jafnframt næststærsta borg héraðsins með 276 þús íbúa. Wiesbaden er gömul rómversk borg, þekkt fyrir böð. Lega. Wiesbaden liggur við Rínarfljót nær suðvestast í Hessen, einmitt þar sem áin Main rennur í Rín. Gegnt Wiesbaden, við suðurbakka Rínar, liggur borgin Mainz í sambandslandinu Rínarland-Pfalz. Aðrar nálægar borgir eru Frankfurt am Main til austurs (20 km) og Koblenz til norðvesturs (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Wiesbaden sýnir þrjár gylltar liljur á bláum fleti. Það er franskt að uppruna og er frá 16. öld. Núverandi merki var tekin upp 1906. Orðsifjar. Rómverjar nefndu borgina Aquae Mattiacorum eða Civitas Mattiacorum, eftir germanska þjóðflokknum mattiaker. En á tímum Karlamagnúsar kölluðu menn borgina Wisibada, sem merkir "baðið á enginu" (Wiese = engi). Upphaf. Það voru Rómverjar sem fyrst settust að á núverandi borgarstæði, en þeir reistu virki þar snemma á 1. öld (um 6-15 e.Kr.). Pliníus eldri minnist fyrstur manna á heitu böðin árið 77 e.Kr. Í kjölfarið reisa Rómverjar þar baðhýsi. Aðalhverinn er 66° heitur (Celsius) og gefur enn í dag af sér 346 lítra á mínútu. En strax árið 260 eyddu alemannar rómverska virkinu og hurfu Rómverjar því á brott. Þeir reistu þar þó varnargarð (landamæragarð) sem alemannar létu í friði. Á 6. öld hertóku frankar svæðið og reistu þar borg. Heitið Wiesbaden kemur fyrst við skjöl milli 820-830. Á 12. öld fengu greifarnir í Nassau borgina að léni, en 1232 verður Wiesbaden að ríkisborg. Þetta fór fyrir brjóstið á erkibiskupnum í Mainz, sem jafnframt var einn kjörfurstanna. 1242 safnaði hann liði, réðist á Wiesbaden og brenndi hana til kaldra kola. Wiesbaden og Mainz liggja gegnt hvor annarri og skilur aðeins Rínarfljót á milli. 1283 er Wiesbaden aftur brennd til kaldra kola í deilum greifanna af Nassau. Erjur og trúarórói. Wiesbaden 1655. Mynd eftir Matthäus Merian. Meðan siðaskiptin fóru fram í öðrum borgum snemma á 16. öld, hélt kaþólska kirkjan borgarbúum í föstum höndum. 1525 var blásið til bændauppreisarinnar miklu. Hópuðust þá margir borgarbúar saman og gengu til liðs við bændur. En uppreisnin var barin niður af mikilli hörku. Borgarbúar misstu fyrir vikið öll réttindi sem þeir höfðu áskilið sér í gegnum aldirnar. Siðaskiptin fóru ekki fram í Wiesbaden fyrr en 1543. Sama ár var latínuskóli stofnaður. En aðeins þremur árum seinna verður stórbruni í borginni og eyðilögðust við það margar byggingar. Annar stórbruni varð 1561. Höfuðborg og baðbær. 1744 setjast greifarnir í Nassau að í Wiesbaden og reisa sér þar kastala. En 1806 er þýska ríkið lagt niður og Rínarsambandið stofnað. Nassau verður að hertogadæmi og verður Wiesbaden þá höfuðborg, í fyrsta sinn í sögu borgarinnar. 1810 er spilavíti stofnað í borginni, enda laðaði borgin ýmsa vel stæða gesti til sín í sambandi við böðin. Meðal gesta spilavítisins má nefna rússneska rithöfundinn Fedor Dostojeskíj og tónskáldið Richard Wagner. 1848 urðu uppreisnir í mörgum þýskum borgum. Í Wiesbaden söfnuðust 30 þús manns saman við kastala greifans og heimtuðu stjórnarskrá. Greifi lét undan og urðu því íbúar greifadæmisins Nassau meðal þeirra fyrstu í þýska ríkinu til að hljóta stjórnarskrá. Í þýsk-austurríska stríðinu 1866 gekk Nassau til liðs við Austurríki og barðist gegn Prússum. En Prússar sigruðu í því stríði og innlimaði Bismarck þá Nassau í Prússland. Wiesbaden missti þar með status sinn sem höfuðborg sem hún hafði aðeins haft í 60 ár. Á hinn bóginn dafnaði borgin mjög sem heilsubær og ráðstefnuborg. Um aldamótin 1900 er borgin orðin að heimsbaðborg og kölluð Nice norðursins ("Nizza des Nordens"), en Nice er franskur baðbær við Miðjarðarhaf. Vilhjálmur II, Prússakeisari, var reglulegur baðgestur í Wiesbaden. Íbúatalan fór á þessum tíma yfir 100 þús. Nýrri tímar. Bretar þramma um götur Wiesbaden 1929 Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri hertóku Frakkar borgina. Hún varð hluti Rínarsvæðisins sem Frakkar áskildu sér sem stríðsskaðabætur. 1921 fór fram mikil ráðstefna í borginni um stríðsskaðabætur Þjóðverja og voru samningar þess eðlis undirritaðir þar. 1925 settust Bretar að í borginni og varð hún aðalaðsetur breska hersins á Rínarsvæðinu allt til 1930, en árinu áður var borginni skilað aftur til Þýskalands. Þjóðverjar reistu þar herflugvöll og það var frá þessum flugvelli sem þýska herdeildin hóf sig til flugs sem gerði loftárásir á spænsku borgina Gernika meðan spænska borgarastríðið geysaði. Í heimstyrjöldinni síðari varð Wiesbaden fyrir minni loftárásum en margar aðrar þýskar borgir. Loftárásirnar urðu alls 66 talsins og eyðilagðist um fjórðungur af borginni. 28. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina. Hún var á bandaríska hernámssvæðinu. Hessen varð fyrsta sambandsríki Þýskalands 1. desember 1946 og varð Wiesbaden þá höfuðborg þess. Ástæða þess að Wiesbaden var valin sem höfuðborg var sú að hún var tiltölulega lítið skemmd eftir stríðið og Frankfurt (og reyndar Kassel einnig) biðu í voninni um að verða höfuðborg nýs Þýskalands. Herflugvöllurinn í Wiesbaden var notaður sem stökkpallur til Berlínar meðan loftbrúin var í gangi þar eftir stríð. Daglega í 11 mánuði fóru vélar þaðan með matvæli og vistir til Vestur-Berlínar sem Sovétmenn höfðu einangrað. Þegar Sambandslýðveldi Þýskalands var stofnað 1949 festist Wiesbaden í sessi sem höfuðborg Hessen, þrátt fyrir að Frankfurt náði ekki að verða höfuðborg Þýskalands, heldur Bonn. Byggingar og kennileiti. Nýja ráðhúsið er einkar glæsilegt Praxiteles. Praxiteles var forngrískur myndhöggvari sem talið er að hafi látist um 370 f.Kr. Hann var talinn einn ágætasti listamaður síns tíma og var þekktur fyrir snilldarlega meðhöndlun á marmara, en úr honum hjó hann þokkafullar myndir af guðum og gyðjum. Af þeim má nefna Afródítu frá Knídos, sem þekkt er af rómverskum eftirmyndum, m.a. í Vatíkaninu, og Hermes og Díonýsosbarnið sem fannst í Ólympíu 1877 og er talin frummynd. Fryne hét fræg hofgleðikona (hetaera) sem var þekkt fyrir fegurð sína og ríkidæmi í Aþenu. Hún er talin hafa setið fyrir hjá Praxiteles og Apelles sem fyrirmynd að Afródítu. Leg (söngleikur). "Leg" er söngleikur eftir Hugleik Dagsson. "Leg" var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2007. Verkið fjallar um unga stúlku, Kötu, sem þarf að þroskast ansi hratt þegar hún kemst að því að kærastinn er búinn að segja henni upp, hún er ólétt, foreldrarnir fráskildir og bróðir hennar kominn með fuglaflensuna. Verkið er allt á léttari nótunum og groddalegur neðanbeltishúmor Hugleiks áberandi. Michael Carrick. Michael Carrick í leik með Manchester United í desember 2006. Michael Adrian Carrick (fæddur 28. júlí 1981 í Wallsend á Englandi) er breskur knattspyrnumaður sem leikur sem miðjumaður með Manchester United. Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, greiddi 14 milljónir punda fyrir hann. Hann tók við treyju nr. 16 en sá sem síðastur bar hana var kempan Roy Keane. Ferill. Michael hóf ferilinn í neðri deildunum. Byrjaði hjá smáliði sem heitir Wallsend Boys Club. Þar var hann þangað til hann skrifaði undir atvinnumannasamning við West Ham United árið 1998 ásamt Joe Cole. Hann var lykilmaður í skólaliði West Ham en liðið vann hinn eftirsótta FA Youth Cup-bikar ári seinna. Hann lék sinn fyrsta leik í byrjun tímabilsins 1990-2000. Hann varð síðan fljótt fastamaður í liði West Ham og lék seinna meir stórt hlutverk í liði þess. Carrick komst í U-21-lið Englands og var í hópnum sem fór á Evrópumótið í Slóvakíu árið 2000. Tímabilið 2002-03 átti hann við meiðsli að stríða en var stöku sinnum inni á vellinum. Þá átti hann fína leiki í efstu deild, en liðið féll í 1. fyrstu deild eftir tímabilið. Þá var talið að Carrick yrði látinn fara eins og menn á borð við Freddie Kanoute, Jermaine Defoe og Joe Cole, en hann ákvað að leika áfram með liðinu. Það varði þó bara eitt tímabil því sumarið 2004 var hann seldur til Tottenham fyrir tæpar 3 milljónir punda. Síðan þá hefur hann verið einn af fastamönnum í landsliði Englands og var meðal annars valinn í heimsmeistaramótshópinn árið 2006. Á meðan á Heimsmeistaramótinu stóð staðfesti Tottenham að Manchester United hefði gert tilboð í Carrick, upp á 11 milljónir punda sem var hafnað umsvifalaust. Þeir sögðust vilja að minnsta kosti helmingi hærri upphæð. Eftir það var talið að minnsta kosti tveim öðrum tilboðum hefði verið hafnað, og var einnig talið að Ferguson væri hættur að eltast við hann. En Ferguson var ákveðinn í að ná í hann, enda hafði hann ekki enn fengið neinn til viðbótar við leikmannahóp sinn og eftir HM, þann 31. júlí barst mörgum að óvörum tilkynning frá Tottenham að félögin tvö hefðu komist að samkomulagi um kaup Manchester á Michael Carrick. Hvannir. Hvönn (fræðiheiti: "Angelica") er ættkvísl jurta af sveipjurtaætt sem lifa á norðurhveli jarðar. Hvannir verða um 1-2 metrar á hæð með stór lauf og stóran blómsveip með hvítum eða grænleitum blómum. Aston Villa. Aston Villa Football Club (einnig þekkt sem The Villans eða einfaldlega Villa) er lið í ensku úrvalsdeildinni. Félagið er staðsett í Aston-hverfinu í Birmingham og var stofnað árið 1874. Félagið var eitt af stofnfélögum ensku deildarinnar árið 1888 og ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992. Villa er eitt af sigursælustu félögum Englands, hefur orðið enskur meistari sjö sinnum og enskur FA-bikarmeistari sjö sinnum. Þá er félagið eitt af aðeins fjórum enskum liðum sem hefur unnið Meistaradeild Evrópu en það var árið 1982 þegar keppnin hét Evrópubikarinn. Blackburn Rovers. Blackburn Rovers er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Leikmenn og spilaðir leikir og mörk No. NAME GS SB SV A FC FS YC RC W L D 1 Brad Friedel 22 0 130 0 0 5 0 0 10 6 6 32 Jason Brown 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 31 Peter Enckelman 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 No. NAME GS SB G SH SG A FC FS YC RC 3 Stephen Warnock 21 0 1 2 1 3 22 21 4 0 11 David Bentley 21 0 5 65 27 6 25 47 5 0 7 Brett Emerton 20 0 1 11 6 0 24 15 2 1 4 Christopher Samba 20 0 2 23 13 0 33 29 7 0 9 Roque Santa Cruz 20 1 10 44 26 5 24 23 1 0 19 David Dunn 18 3 1 21 9 2 29 25 4 1 10 Benedict McCarthy 17 3 6 22 14 1 19 19 1 0 12 Morten Gamst Pedersen 17 5 0 57 25 2 35 36 3 0 6 Ryan Nelsen 14 0 0 4 1 0 28 16 3 2 2 Andre Ooijer 13 3 0 4 2 0 12 6 2 0 5 Tugay Kerimoglu 10 4 2 14 8 0 13 11 4 1 8 Robbie Savage 10 2 0 1 1 0 19 9 4 0 15 Aaron Mokoena 8 5 0 3 1 1 9 8 2 0 14 Steven Reid 4 4 0 5 1 0 9 14 0 0 13 Zurab Khizanishvili 3 2 0 1 0 0 5 1 0 0 27 Matt Derbyshire 2 13 1 5 2 2 4 9 1 0 20 Bruno Berner 1 0 0 0 0 0 2 2 1 0 30 Jason Roberts 1 10 1 6 6 2 5 8 0 0 29 Martin Olsson 0 1 0 1 1 0 0 0 0 0 17 Maceo Rigters 0 1 0 0 0 0 0 0 0 0 Bolton Wanderers. Bolton Wanderers er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Charlton Athletic. Charlton Athletic er knattspyrnulið á Englandi. Það var stofnað árið 1905 og núverandi knattspyrnustjóri er Phil Parkinson. Chelsea F.C.. Chelsea FC er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Saga. Chelsea FC var stofnað á kránni Rising Sun (nú Butcher's Hook) við Fulham Road gegnt Stamford Bridge-leikvanginum 10. mars 1905. Stamford Bridge var alltaf fyrsta flokks íþróttaleikvangur en eigandi hans, Gus Mears, vildi nýta hann betur og þá undir knattspyrnulið. Hann skoðaði ýmsa möguleika og meðal annars var reynt að leigja hann Fulham FC sem er staðsett aðeins neðar í götunni. Fulhan þáði ekki boðið og því var brugðið á það ráð að stofna alveg nýtt knattspyrnufélag sem skyldi gera eigendurna stolta. Ekki dró mikið til tíðinda hjá félaginu fyrstu 50 árin og satt best að segja var það eina að liðið komst í úrslit ensku bikarkeppninnar árið 1915, þar sem það tapaði fyrir Sheffield United í hinum svokallaða kakíúrslitaleik á Old Trafford í Manchester. Leikurinn fékk nafn sitt frá fyrri heimstyrjöldinni sem þá stóð sem hæst og fjölda hermanna sem voru viðstaddir leikinn. Það voru þó fjölmargir öflugir sóknarmenn sem klæddust blárri treyju Chelsea á þessum tíma og áhorfendamet var sett, svo eitthvað sé nefnt. Það var ekki fyrr en 1952, þegar Ted Drake tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá félaginu, að liðið fór að gera atlögu að titlum sem hófst með endurskipulagningu félagsins. Gamla „lífeyrisþegamerkið“ fékk að fjúka og æfingaaðferðir Drakes slógu í gegn hjá leikmönnum sem og góð kaup hans á vinnusömum leikmönnum úr neðri deildum. Þetta bar ávöxt þegar félagið náði að vinna sinn fyrsta Englandsmeistaratitil árið 1955. Á þessu tímabili voru gefin tvö stig fyrir sigur og titillinn vannst með 55 stigum en aldrei hefur hann unnist á svo fáum stigum. Eftir titilsigurinn hætti stjórnin að taka upp veskið og Drake sat uppi með að þurfa að nota 17 ára pjakka í lykilstöður og það tókst svo sem ágætlega enda uppgötvaði hann Jimmy Greaves meðal annars á þessum tíma en lykilmenn voru svo seldir einn af öðrum á næstu tímabilum, þar á meðal Greaves, og það var ekki fyrr en hinn skoski Tommy Docherty tók við stjórnartaumunum af ráðþrota Drake sem hjólin fóru að snúast aftur. Tommy Docherty var ungur knattspyrnustjóri og var reyndar nýkominn í þjálfaralið Drakes rétt áður en sá síðarnefndi var látinn fara. Hann tók við liðinu tímabundið í 3 mánuði áður en ljóst var að agastjórn hans og stífar þrekæfingar hentuðu kornungu liði Chelsea vel og eftir að hann var miskunnarlaust búinn að losa sig við eldri leikmennina var Docherty kominn á skrið með lið sitt sem almennt var kallað „Demantanar Dochertys". Meðalaldurinn komst niður í 21 ár og Docherty uppgötvaði marga öfluga unga leikmenn sem áttu eftir að láta til sín taka hjá félaginu. Þar nægir að nefna menn eins og Peter Bonetti, Peter Osgood, John Hollins og Terry Venables. Liðið komst þrjú ár í röð í undanúrslit bikarkeppninnar (í þriðju tilraun í úrslit árið 1967 þar sem það tapaði fyrir Tottenham, 1:2) og vann Deildabikarinn á 5. aldursári þeirrar keppni árið 1965 eftir tvo úrslitaleiki við Leicester. Það varð til þess að liðið tók þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn af einhverri alvöru og mættu „Demantarnir" AC Milan, Roma og fleirum áður en Barcelona sló strákana út í undanúrslitum. En eins og svo oft áður í sögu Chelsea fóru hlutirnir á verri veg áður en liðið náði að sýna fullkomlega hvað í því bjó. Docherty lenti í útistöðum við leikmenn og stjórnarmenn, var mjög þrjóskur og stóð fast á sínu. Hann missti traust allra hjá félaginu eftir að hann rak 8 lykilmenn heim eftir að þeir brutu gegn útgöngubanni hans þar sem þeir dvöldu á hóteli í Blackpool fyrir leik gegn Burnley á Turf Moor og það varð á endanum til þess að þessi ungi knattspyrnustjóri sagði af sér þegar stutt var á liðið leiktímabilið 1967-1968. Þegar Dave Sexton tók við liði Chelsea var það í vondum málum og hann þurfti, líkt og Docherty, þegar hann tók við, að endurbyggja liðið nánast frá grunni. Sexton var andstæða Dochertys, mjög rólegur og yfirvegaður og tók sinn tíma til að byggja upp þéttan og sterkan hóp leikmanna. Hann keypti sáralítið á sínum 7 árum hjá félaginu og lét sér nægja efniviðinn sem kom upp úr unglingastarfinu. Þrátt fyrir að búa yfir hæfileikaríkum leikmönnum, voru leikmennirnir ekki tilbúnir að sýna sitt „rétta" andlit í hverri viku og það varð fljótt ljóst að Chelsea var best til þess fallið að skapa eftirminnilegar minningar í útsláttarkeppnum og svo fór að liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn árið 1970 eftir úrslitaleik við Leeds. Tvo framlengda leiki þurfti til að fá úrslit. Fór hinn fyrri á Wembley 2:2 en seinni leikinn, á Old Trafford, vann Chelsea 2:1 með mörkum frá Peter Osgood og David Webb. Hefur sá leikur verið kallaður grófasti úrslitaleikur í sögu ensku bikarkeppninnar. Elstu menn muna vart annað eins stríð milli tveggja liða og þrjóska Chelsea-manna gegn sigurstranglegu liði Leeds entist þeim til sigurs. Ári síðar var leikurinn endurtekinn gegn öðru hvítklæddu liði, þá í Evrópukeppni bikarhafa gegn Real Madrid. Leikið var í Aþenu og aftur þurfti tvo leiki til að skera úr – fór sá fyrri 1:1 en seinni leikinn tveimur dögum síðar vann Chelsea 2:1 og gerðu John Dempsey og Peter Osgood mörkin. Mikið var fagnað í Aþenu þegar þessi fyrsti Evróputitill félagsins vannst. Ekki náðist að byggja á þessum árangri og búa liðið nægilega vel til að ráðast aftur á Englandsmeistaratitilinn. Bygging nýrrar austurstúku reyndist fjárhag félagsins erfið og fyrr en varði fór að syrta aftur í álinn. Sagan endurtók sig að því leyti að stjórinn hafði ekki næga stjórn á óstýrilátum glaumgosum innan liðsins og tók hann pokann sinn eftir að hafa misst nokkra af bestu leikmönnum í sögu félagsins burt, þar á meðal Peter Osgood (fór til Southampton) og Alan Hudson (fór til Stoke). Erfiðir tímar voru framundan þar sem 7 þjálfarar stýrðu liðinu á jafnmörgum árum. Áhorfendatölur voru í lágmarki. Ungir og efnilegir leikmenn komu áfram í gegnum unglingastarfið og Ray Wilkins varð yngsti fyrirliði í sögu Chelsea, aðeins 18 ára. Á sama tíma voru boltabullur (hooligans) að ná sterkri fótfestu á meðal „stuðningsmanna" og félagið átti í mestu vandræðum með að sýna fram á að það ætti heima á meðal þeirra bestu í efstu deild og raunar féll félagið niður í 2. deild vorið 1979. Árið 1981 gafst Brian Mears upp á baslinu, sagði af sér sem stjórnarformaður og Ken Bates keypti félagið. Lauk þar með afskiptum Mears-fjölskyldunnar af félaginu. Bates gaf 1 sterlingspund fyrir félagið til málamynda en var í rauninni að taka við margra milljóna sterlingspunda skuldum. Fór nú í hönd eitt svartasta tímabilið í sögu félagsins og vorið 1983 var það aðeins tveimur stigum frá því að falla niður í gömlu 3. deildina. Þegar Bates tók við var þar fyrir knattspyrnustjórinn John Neal og hann hafði umsjón með endurnýjun leikmannahópsins sumarið 1983. Menn sem ekki þóttu standa sig voru látnir fara en efnilegir (og ódýrir) leikmenn úr neðri deildum og frá Skotlandi keyptir í staðinn, þar á meðal nokkrir vinsælustu leikmenn í sögu félagsins eins og Kerry Dixon, Pat Nevin og Eddie Niedzwiecki. Þetta lið kom öllum á óvart og vann 2. deildina með töluverðum glæsibrag vorið 1984. John Neal var veill fyrir hjarta og ákvað Bates að eftirláta fyrrverandi leikmanni félagsins, John Hollins, knattspyrnustjórastöðuna. Hollins gerði nokkrar breytingar á leikmannahópnum, sem ekki þóttu allar til bóta, og vorið 1989 féll Chelsea aftur í 2. deild. Hins vegar tók það ekki nema eina leiktíð að vinna sig aftur upp í efstu deild undir stjórn Bobbys Campbell og þar hefur félagið verið síðan. Áttundi og níundi áratugurinn voru ólgutímar í sögu Chelsea Football Club en þó minnast margir stuðningsmenn þessara tíma með hlýju einfaldlega vegna þess að þeir kunna þá betur að meta núverandi velgengni. Glenn Hoddle tók við liði Chelsea á þeim tíma sem félagið var að losna undan fjárhagsáhyggjunum sem höfðu hrjáð það í um það bil tvo áratugi og hann kom einnig inn með mikla reynslu af Evrópuboltanum og sterkar skoðanir á því hvernig ætti að spila knattspyrnu svo að skemmtun væri að. Að koma slíkum hugsunum inn hjá leikmönnum í enska boltanum var hins vegar allt annar handleggur og Hoddle hófst tafarlaust handa við að gerbreyta því hvernig Chelsea lék knattspyrnu. Þessi tími reyndist mjög mikilvægur í sögu Chelsea því Hoddle og Colin Hutchinson gerðu sér grein fyrir því að það var nú eða aldrei sem Chelsea þurfti að taka á honum stóra sínum til að koma sér í hóp sterkustu liða Evrópu. FA-bikarúrslit, undanúrslit Evrópukeppni bikarhafa, önnur undanúrslit í FA-bikarnum og gerbreytt útlit á liðinu var það það sem Hoddle færði Chelsea og hann lagði grunninn að þeim sigrum sem Chelsea átti eftir að fagna á næstu árum. Chelsea voru síðast krýndir Englandsmeistarar árið 2010 í þriðja frá því að enska Barclays premiership deildin var stofnuð. Everton. Everton er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Flestir leikir. "Seinast uppfært 7. júní 2007." Fulham F.C.. Fulham er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Nágrannalið. Stuðningsmenn Fulham álíta Chelsea F.C. sinn helsta andstæðing. Viðureignir þeirra á milli voru fáar á seinni hluta 20. aldar eða þegar Fulham var í basli í neðri deildum Englands. Þegar liðið komst upp í Úrvalsdeildina árið 2001 mættust þessi nágrannalið og má segja að þá hafi nágrannaerjurnar hafist fyrir alvöru. Heimavöllur Chelsea, Stamford Bridge, er staðsettur á Fulham Road. Þótt stuðningsmenn Fulham álíti Chelsea sína erkifjendur er ekki sömu sögu að segja frá áhangendum Chelsea. Þeir álíta Tottenham Hotspurs, Arsenal, West Ham, Leeds, Millwall og æ meir Liverpool mikilvægari andstæðinga. Ástæður þessa eru ekki fullljósar, en mögulega skýrist það af því að þessi lið hafa oftar verið andstæðingar Chelsea í úrvalsdeildinni. Af öðrum nágrannaliðum Fulham má nefna QPR og Brentford. Fulham spilaði síðast við QPR á tímabilinu 2000-01 og við Brentford 1997-98. Þá má nefna knattspyrnuliðið Gillingham, en þeir eru enn taldir fjendur Fulham þrátt fyrir að liðin hafi ekki mæst á sama velli í nær 10 ár. Fulham og Gillingham hafa mæst í nokkrum mikilvægum leikjum í neðri deildum Englands, m.a. árið 1990 í Kent, þegar stuðningsmaður Fulham lét lífið í átökum við stuðningsmann mótherjanna. Hofgleðikona. Hofgleðikona (gríska: "hetaera") var í Grikklandi hinu forna dýrasta og fágaðasta tegund af vændiskonum. Hofgleðikona hafði venjulega ekki aðeins útlitið til að bera, heldur þroskaðan smekk og anda og voru í alla staði vel menntaðar. Venjulega bjuggu þær einar sér, eða tvær eða þrjár saman, og lifðu við mikil efni, enda dýrar vændiskonur. Þær voru auk þess verndaðar og skattlagðar af ríkinu. Hofgleðikonur voru venjulega útlendar konur, ambáttir eða frelsingjar. Að undanskildum spartverskum konum var frjálsræði þeirra kvenna mest, og öllu meira en attískra kvenna. Hofgleðikonur voru efstar í virðingarstiga vændiskvenna, voru vel virtar af þjóðfélaginu og voru ósjaldan fengnar til að vera skemmtikraftar í samdrykkjum. Í Kórinþu og Aþenu voru hofgleðikonurnar sérstaklega myndarlegar, tignarlegar í fasi og menningarlega sinnaðar. Fryne, Þeodota og Þais voru mjög frægar hofgleðikonur. Ráðuneyti Gunnars Thoroddsens. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var samsteypustjórn Gunnars-sjálfstæðismanna, Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins. Ríkisstjórnin starfaði frá 10. febrúar 1980 til 26. maí 1983. Ban Ki-moon. Ban Ki-moon (fæddur 13. júní 1944) er núverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Hann tók við embættinu 1. janúar 2007. Ban Ki-moon er Suður-Kóreumaður og var utanríkisráðherra Suður-Kóreu frá janúar 2004 til nóvember 2006. Handverk. Handverk kallast sú framleiðsla sem fer fram í höndunum eða með hjálp einfaldra verkfæra og getur bæði átt við um gjörninginn eða afurðina. Handverk var notað þar til fjöldaframleiðslubylgjan hófst með tilkomu stórra véla og sérhæfðra tækja. Í dag telst handverk gjarnan til listsköpunar, en einnig sem tómstundargaman og hafa margir atvinnu af því. Gísli S. Einarsson. Gísli S. Einarsson (f. 12. desember 1945) er bæjarstjóri Akraness og sat á Alþingi frá 1993-2003 fyrir Alþýðuflokkinn og seinna Samfylkinguna. Hann varð bæjarstjóri á Akranesi í júní 2006 í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra. Gekk í Sjálfstæðisflokkinn í maí 2008. Reykjavíkurlistinn. Reykjavíkurlistinn, R-listinn, var sameiginlegur framboðslisti félagshyggjuflokkanna í Reykjavík í þrennum borgarstjórnarkosningum 1994, 1998 og 2002. Upprunalega stóðu að honum Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Framsóknarflokkur og Samtök um kvennalista. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjóraefni R-listans árið 1994, og varð borgarstjóri í kjölfar sigurs listans í kosningunum það ár. R-listinn hélt meirihluta í borgarstjórn í þrjú kjörtímabil, en á þeim tíma höfðu allir flokkarnir sem stóðu að listanum hætt störfum utan Framsóknarflokksins. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 ákváðu flokkarnir sem þá stóðu að listanum, Samfylking, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsóknarflokkur, að bjóða fram hver í sínu lagi, og varð þá aftur Sjálfstæðisflokkurinn stærsta aflið í borgarstjórn Reykjavíkur. Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu. Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu eða Evrópubikarinn er keppni í knattspyrnu. Núverandi bikarmeistarar eru Atletico Madrid. Evrópukeppni bikarhafa. Evrópukeppni bikarhafa (e. "UEFA Cup Winners' Cup") var keppni í knattspyrnu. Fyrsta keppnin var haldin 1960-61 sú síðasta 1998-99. Ríkisstjórnir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks 1995 – 2007. a> í Hvíta húsinu í júlí 2004 Ríkisstjórnir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks störfuðu samfellt á árunum 1995 – 2007. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hélt meirihluta sínum í kosningunum 1995, en aðeins með eins manns meirihluta. Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og varð Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra. Davíð sagði á blaðamannafundi sumarið 1995, að kreppu síðustu ára væri lokið og góðæri tekið við. Við tók mikill vöxtur í atvinnulífinu næstu ár. Einnig voru tveir ríkisbankar seldir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, og mörg önnur opinber fyrirtæki. Sala bankanna sætti nokkurri gagnrýni, aðallega vegna þess að kaupendur Búnaðarbankans voru taldir tengjast Framsóknarflokknum, en ríkisendurskoðandi komst að þeirri niðurstöðu í sérstakri skýrslu, að ekkert hefði verið athugavert við hana. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í þingkosningunum 1999, þótt hann hefði haft stjórnarforystu í átta ár. Í kosningunum vorið 2003 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn talsverðu fylgi. Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin þingmeirihluta sínum, og sömdu stjórnarflokkarnir um að halda samstarfi sínu áfram, og tæki Halldór Ásgrímsson við stöðu forsætisráðherra eftir eitt og hálft ár. Var ákveðið að ráðast í frekari skattalækkanir, og er tekjuskattur fyrirtækja nú 18%, eignarskattur hefur verið felldur niður og erfðaskattur stórlega lækkaður. Tekjuskattur einstaklinga hefur einnig verið lækkaður, en á móti hefur komið, að útsvar, sem rennur til sveitarfélaga, hefur hækkað. Vegna bættra kjara greiddu fleiri tekjuskatt en áður. Ríkistjórnin beitti sér vorið 2004 fyrir frumvarpi, sem setti hömlur við eignarhaldi stórfyrirtækja á fjölmiðlum og samþjöppun eignarhalds. Fjölmiðlafrumvarpið svonefnda var mjög umdeilt, enda blasti við að það myndi aðallega bitna á Norðurljósum hf. Frumvarpið var samþykkt eftir talsverðar breytingar sumarið 2004. En forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði frumvarpinu staðfestingar og var það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins að forseti synjaði frumvarpi frá Alþingi staðfestingar. Eftir nokkurt þóf samþykkti Alþingi að taka frumvarpið aftur, og varð því ekki úr þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Skömmu eftir þessar málalyktir greindist Davíð með krabbamein í nýrum og hálsi, en hann náði fullum bata og tók við stöðu utanríkisráðherra haustið 2004, er Halldór Ásgrímsson tók við forsætisráðuneytinu. Verk. Tjáningafrelsi komið inn í ríkistjórnina í stað prentfrelsis Gjaldskrá símtala í fastlínukerfi var samræmd. Boðið var upp á nám til stúdentsprófs sem tæki skemmri tíma en 4 ár. Bryddað var upp á degi íslenskrar tungu. Norðurál tók til starfa á Grundartanga í Hvalfirði 1998. Póstur og Sími voru aðskildir í Landssímann og Íslandspóst og Almenningi gefinn kostur á að kaupa hlutabréf í Landssímanum. Almenningi var gefinn kostur á að skrá sig fyrir hlutabréfum sem ríkið hafði farið með í fyrirtækjum s.s. Landsbanka Íslands, Búnaðarbankanum, Járnblendifélaginu, Fjárfestingabanka Atvinnulífsins, sem var mindaður með sameiningu nokkurra sjóða sem höfðu lánað fé hver til síns geira atvinnulífsins. Búið var í haginn fyrir farsímavæðingu landsmanna. Reikningsskil ríkisins voru færð til þess sem þekkist hjá fyrirtækjum Ríkisstjórn Íslands með Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson í forystu, ákvað að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak árið 2003. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Ráðuneyti Davíðs Oddssonar sat frá 23. apríl 1995 til 15. september 2004. Juventus FC. Juventus Football Club einnig þekkt sem Juventus Torino, Juventus F.C., Juventus eða einfaldlega Juve, er knattspyrnulið frá Tórínó á Ítalíu. Tómas Árnason. Tómas Árnason (f. 21. júlí 1923) var Alþingismaður frá 1974 til 1984 og sat hann fyrir Framsóknarflokkinn. Friðjón Þórðarson. Friðjón Þórðarson (fæddur 5. febrúar 1923, látinn 14. desember 2009) var Alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1956 – 1959 og svo aftur 1967 – 1991. Hann var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens á árunum 1980 – 1983. Hjörleifur Guttormsson. Hjörleifur Guttormsson (f. 31. október 1935) var Alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið frá 1978 til 1999. Hann starfaði sem Iðnaðarráðherra frá 1978 til 1979 og svo aftur 1980 til 1983. Hjörleifur er þekktur fyrir baráttu sína fyrir náttúruvernd. Hann var einn af stofnendum Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs árið 1998. Pálmi Jónsson. Pálmi Jónsson (f. 11. nóvember 1929) var Alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1967 til 1995. Þar af var hann landbúnaðarráðherra á árunum 1980-3. Ingvar Gíslason. Ingvar Gíslason (f. 28. mars 1926) var Alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 1961 til 1987. Hann starfaði sem Menntamálaráðherra í Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens og var formaður þingflokks Framsóknarflokksins 1979 til 1980. Lýðfræði Íslands. Íslendingar eru í megindráttum Norðurlandaþjóð hvað varðar menningu og tungumál. Samkvæmt elstu ritheimildum byggðist landið upphaflega af norrænum mönnum, einkum frá Noregi og frá nýlendum víkinga á Bretlandseyjum en með þeim í för voru meðal annars kristnir Írar og Bretar. Íslendingar hafa í gegnum tíðina átt mest samskipti við helstu fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi. Íbúafjöldi landsins sveiflaðist á milli um 30.000 og 80.000 við hefðbundinn efnahag í bændasamfélagi fyrri alda. Frá miðri 19. öld fjölgaði Íslendingum hins vegar ört, bæði vegna framfara í læknavísindum og breyttra atvinnuhátta. Nú eru íbúar landsins rétt rúmlega 300.000 auk nokkurra þúsunda af íslenskum uppruna sem ekki eru búsett á Íslandi. Kenningar um uppruna Íslendinga. Til er kenning um að Íslendingar séu að uppruna sérstakur germanskur þjóðflokkur, ólíkur öðrum þjóðflokkum á Norðurlöndum („Herúlakenningin“). Á síðari tímum hafa ýmsar kenningar um uppruna þjóðarinnar verið settar fram með erfðafræðilegum rökum. Þá er talað um að flestar konur sem hingað komu hafi verið upprunnar á Bretlandseyjum en karlarnir aftur norrænir. Þessar kenningar hafa verið gagnrýndar með erfðafræðilegum rökum. Aðrar erfðafræðilegar rannsóknir benda til þess að nútímaíslendingar séu blandaðri en meðaltal Evrópu. Trú. flestir íbúar Íslands eru í hinni evangelísk-lúthersku þjóðkirkju. Hagsaga Íslands. Hagsaga Íslands er saga íslensks efnahags, sem hefst með landnáminu árið 874. 14. öld: Norska öldin. "Aðalgrein: Norska öldin" Norðmenn versluðu aðallega með skreið við Íslendinga á 14. öld. Einkaleyfi Norðmanna á skreiðarverslun varð til þess að útgerð óx mjög fiskur um hrygg á landinu. 15. öld: Enska öldin. "Aðalgrein: Enska öldin" Bretar versluðu aðallega við Íslendinga á árunum 1415 til 1475, og hefur það tímabil verið kallað "enska öldin". 16. öld: Þýska öldin. Hansakaupmenn versluðu einkum við Íslendinga á tímabili, sem kallað hefur verið "þýska öldin", en Bretar einnig þó í minna mæli væri en á Ensku öldinni. 17. öld: Einokunarverslun. Danir ráku einokunarverslun á landinu frá 1602 til 1787. 18. öld: Innréttingarnar. Skúli Magnússon fógeti hóf verksmiðjurekstur í Reykjavík með stofnun Innréttinganna 1752 og störfuðu þær til 1803. 19. öld: Sjálfstæðisbaráttan. "Aðalgrein: Sjálfstæðisbarátta Íslendinga" Jón Sigurðsson var fylgjandi frjálsri verslun á Íslandi enda vænti hann þess að efnahagslegar framfarir fylgdu í kjölfarið. Verslunarfrelsið myndi stuðla að fjölbreyttari og öflugri atvinnuháttum og þar með auka hagsæld landsmanna. Jón benti á að „reynslan hefir sýnt gæði þess bæði á Íslandi og annarstaðar“. 20. öldin: Hernámið og olíukreppan. "Aðalgreinar: Hernámið og Olíukreppan". Með hernámi landsins 1940 tók efnahagur landsins mikinn kipp vegna hins erlenda fjármagns, sem streymdi inn í landið. Olíukreppan á áttunda tug aldarinnar olli samdrætti hér sem annars staðar og fór af stað mikil verðbólguskriða, sem stöðvaðist ekki fyrr en eftir 1990. Verðbólga hafði lengi verið meiri á Íslandi en í nágrannalöndunum en árið 1973 tvöfaldaðist hún frá því sem verið hafði árið áður, fór yfir 20%. Árið seinna var hún komin upp í rúm 40% og tæp 50% árið þar á eftir. Þannig rúllaði boltinn áfram og hámarkinu var náð 1983 þegar verðbólgan fór yfir 80% en það kalla hagfræðingar óðaverðbólgu. Árið 1980 sáu stjórnvöld þann kost vænastan að klípa af krónunni og skera tvö núll aftan af. Í einu vetfangi urðu 100 krónur að einni krónu. Ef þetta hefði ekki verið gert hefði á árinu 2000 hálfur lítri af kók getað kostað um 10 þúsund krónur úti í sjoppu. Undirrótin að verðbólgunni var óstöðugt efnahagslíf og sveiflur í afla og aflaverðmæti. Auknar tekjur í sjávarútvegi gátu leitt til almennra launahækkana sem svo orsökuðu hækkanir á vöru og þjónustu í þjóðfélaginu öllu. Svo kom babb í bátinn í fiskveiðum og þá gripu stjórnvöld of til gengisfellinga en við það lækkar krónan í verði miðað við erlenda mynt. Þá fengu Íslendingar fleiri krónur fyrir varningin sinn en á móti hækkuðu innfluttar vörur í verði. Vísitölubinding launa átti að tryggja hag launþega en í því fólst að kaupið hækkaði í samræmi við aðrar hækkanir. Þetta olli víxlverkandi hækkunum kaupgjalds og verðlags og verðbólgan óð áfram. Sumir hagfræðingar hafa sagt að léleg hagstjórn hafi verið meginskýringin á því að verðhækkanir fóru úr böndunum. Ráðamenn hafa ekki sýnt nógu mikið aðhald í peningamálum auk þess sem mikil ríkisafskipti og margar aðgerðir stjórnvalda hafa ýtt undir þenslu á þjóðfélaginu. Verðbólgan át upp sparifé landsmanna og um árabil þótti það hámark heimskunnar að eiga peninga á bankareikning. Þeir sem áttu fé á milli handa reyndu að koma því í lóg sem fyrst og oft var sagt að steinsteypa væri besta fjárfestingin. Óskynsamlegar fjárfestingar voru einn af fylgikvillum verðbólgunnar auk þess sem hún sljóvgaði verðskyn almennings. Fólk vissi aldrei almennilega hvað hlutirnir kostuðu enda breyttist verðið ört. 21. öld: Efnahagskreppa. "Aðalgrein: Efnahagskreppan á Íslandi 2008." Lausafjárkreppan 2007-2008 olli kreppu á íslenskum fjármálamarkaði í október 2008, sem varð til þess að bankakerfið hrundi. Ingibjörg Einarsdóttir. Ingibjörg Einarsdóttir (9. október 1804 – 16. desember 1879) var eiginkona Jóns Sigurðssonar, en þau voru bræðrabörn. Hún var sjö árum eldri en hann og elst systkina sinna og sá um uppeldi þeirra og bústjórn við hlið móður sinnar. Þegar Ingibjörg var á tuttugasta og fimmta ári flutti Jón inn á heimili foreldra hennar í Reykjavík. Jón fluttist til Kaupmannahafnar árið 1833 og Ingibjörg sat í festum í 12 ár, en þau voru loks gefin saman 4. september 1845. Fimbulljóðin níu. Fimbulljóðin níu (frá fimbul- sem þýðir ‚mikið‘ eða ‚stórfellt‘ + "ljóð"; merkir hin níu miklu ljóð) eru ljóð sem Óðinn lærði þegar hann hékk í Aski Yggdrasils í níu daga án matar og drykkjar. "Inn frægi sonur" Bölþórs Bestlu föður ætti að vera móðurbróður Óðins. Sá er hins vegar ekki frægari en svo að enginn veit hver hann hefur verið. Það er því hugsanlegt að átt sé við Óðin sjálfan og að sonur eigi hér við dóttursoninn. Ef svo er hefur Óðinn lært ljóðin af sjálfum sér. Enda fær hann drykk "ins dýra mjaðar" sem er skáldamjöðurinn og það er Óðinn sem færir goðum og mönnum skáldskapinn. Nýöld á Íslandi. Nýöld kallast það tímabil í mannkynssögunni sem tekur við af miðöldum eða endurreisnartímanum, sé hann talinn sérstakt tímabil. Yfirleitt er nýöld talin hefjast árið 1492, er Kristófer Kólumbus kom til nýja heimsins, en stundum er hún talin hefjast fyrr eða um 1420 með upphafi endurreisnarinnar. Á Íslandi eru endalok miðalda og þar með upphaf nýaldar stundum miðuð við árið 1550 þegar Jón Arason, síðasti kaþólski biskup landsins, var hálshöggvinn ásamt sonum sínum. Manchester City. Manchester City ensku úrvalsdeildinni. Joseph Conrad. Joseph Conrad (upphaflega Teodor Józef Konrad Korzeniowski, 3. desember 1857 – 3. ágúst 1924) var breskur rithöfundur af pólskum uppruna sem oft er talinn með frumkvöðlum módernismans í bókmenntum. Faðir hans var dæmdur í útlegð með fjölskyldu sinni árið 1861 fyrir þátttöku í uppreisn gegn rússneska keisaradæminu í Varsjá. Þau voru send til Vologda þar sem móðir Conrads lést úr berklum. Faðir hans lést síðan fjórum árum síðar í Kraká og Conrad var fóstraður af frænda sínum til sextán ára aldurs þegar hann gerðist sjómaður. 1878 hóf hann störf á bresku skipi og varð breskur þegn 1887. Sjö árum síðar hætti hann sjómennsku og gerðist rithöfundur. Margar af sögum hans byggja á reynslu hans af sjóferðum um víða veröld. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Edward Said hefur skrifað mikið um túlkanir á bókum hans í samhengi við síðnýlendustefnu (sjá Austurlandahyggja). Hin vinsæla kvikmynd "Apocalypse Now" er byggð á bók hans "Innstu myrkur" (e. "Heart of Darkness"). Skáldsögur. Conrad, Joseph Enska úrvalsdeildin 2005-06. Staðsetninga liða á tímabilinu 2005-06 Enska úrvalsdeildin 2005-06 sigraði Chelsea í annað skiptið í röð með samtals 91 stig. Manchester United hafnaði í 2. sæti. Tölfræði af tímabilinu. Meðaltal marka í hverjum leik: 2,48 Markahæstir. Markahæstur var Thierry Henry, leikmaður Arsenal. Félög upp um deild. Í byrjun tímabilsins fóru eftirfarandi lið upp um deild í ensku úrvalsdeildina frá ensku meistaradeildinni. Félög niður um deild. Í lok tímabilsins fóru eftirfarandi lið niður um deild í ensku meistaradeildina frá ensku úrvalsdeildinni Old Trafford. Old Trafford er knattspyrnuvöllur í borginni Manchester í Englandi og er heimavöllur Manchester United. Völlurinn rúmar tæplega 76 þús manns í sæti og er því næststærsti knattspyrnuvöllur Englands (á eftir Wembley í London) hvað sætafjölda varðar. Byggingarár. Það var John Davies, sem nýorðinn var forseti knattspyrnufélagsins Manchester United, sem ákvað upp á sitt einsdæmi að láta reisa nýjan völl fyrir félagið. Áður hafði félagið haft North Road og Bank Street til afnota, en báðir vellirnir voru slitnir og lélegir. 1909 lagði Davies til peninga í sjóð og leitaði sjálfur að heppilegum stað. Í lokin sættist hann á lóð við Bridgewater-skipaskurðinn í hverfinu Old Trafford. Vandamálið var að þar áttu járnbrautarlínur að rísa, ásamt lestarstöð. Samið var um málið, en á endanum reis nýi völlurinn á reitnum, en lestarstöðin, Trafford Park, reis aðeins lengra frá. Framkvæmdir hófust strax og lauk áður en árið var á enda. Völlurinn átti að rúma 100 þús manns. Stúka fyrir sæti á einni hlið, en standpallar á hinar þrjár hliðar. Nýi völlurinn hlaut heitið Old Trafford eftir hverfinu. Hann varð þegar í stað heimavöllur Manchester United og hefur verið það síðan, að undanskildum 8 árum þegar völlurinn skemmdist í loftárásum Þjóðverja. Frá upphafi til stríðs. Jómfrúarleikur vallarins fór fram 19. febrúar 1910, en þá áttust heimamenn við Liverpool. Gestirnir unnu 4-3. 1911 fór fyrsti bikarúrslitaleikur fram á Old Trafford og áttu þeir eftir að verða fleiri þar til Wembley-leikvangurinn í London var tekinn í notkun 1923. 27. desember 1920 settu áhorfendur vallarmet fyrir leik Manchester United er 70.504 keyptu sig inn á leik heimamanna gegn Aston Villa. United tapaði leiknum 3-1. Fyrsti landsleikur vallarins var leikinn 17. apríl 1926, en þá tók enska landsliðið á móti því skoska fyrir framan 49 þús áhorfendur. Skotar unnu leikinn 1-0. 25. mars 1939 var vallarmet sett er 76.962 áhorfendur komu á völlinn til að sjá Wolves og Grimsby leika í undanúrslitum bikarkeppninnar. Met þetta stendur enn. Old Trafford fékk nýtt þak yfir eina hlið 1936 og annað 1938. Þegar heimstyrjöldin síðari hófst 1939 krafðist herinn þess að fá að nota leikvanginn fyrir hergagnageymslu. Þrátt fyrir það héldu leikir áfram á vellinum allt til jóla 1940. 22. desember varð Manchester fyrir miklum loftárásum þýskra flugvéla og við það skemmdist Old Trafford nokkuð. Eftir bráðabirgðaviðgerð gátu kappleikir haldið áfram 8. mars 1941, en aðeins þremur dögum síðar varð leikvangurinn aftur fyrir loftárasum. Að þessu sinni stórskemmdist völlurinn og þurfti yfirstjórn félagsins að flytja í nýtt húsnæði. Viðgerðir hófust ekki fyrr en eftir stríð, ekki síst sökum peningaleysis. Á tímabilinu 1941-49 lék Manchester United því heimaleiki sína á Maine Road, heimavöll Manchester City, gegn árlegu leigugjaldi. Nútíma leikvangur. 1949 var Old Trafford í leikfæru ástandi á ný, en var þaklaust. Fyrsti leikurinn fór fram 24. ágúst að viðstöddum 41 þús gestum, sem sáu heimalið sitt leggja Bolton Wanderers 3-0 að velli. Þak var ekki reist á völlinn fyrr en 1951 og þá aðeins á eina hlið. Hinar þrjár hliðar fengu þak skömmu síðar. Verkinu lauk 1959. Við það tækifæri voru flóðljós í fyrsta sinn sett upp. Þetta gerði Manchester United kleyft að leika Evrópuleiki á miðri viku, eftir að dimmdi, í stað að notast við helgarnar þegar deildarleikir voru á dagskrá. 1965 var norðurhliðin algjörlega endurbyggð. Hún fékk nýtt þak og sæti fyrir 20 þús manns. Þá voru einkaklefar einnig settir upp, þeir fyrstu í enskum leikvangi. Austurhliðin fékk sömu andlitslyftingu 1973. Auk þess var raftöflu bætt við, en fram að þessu hafði skortaflan verið handvirk. 1971 hófst vandamál fótboltabullanna fyrir alvöru er áhorfandi henti hnífi inn á völlinn. Í kjölfarið var varnargrindverk reist í kringum stúkurnar, þær fyrstu á enskum velli. 1973 var völlurinn stækkaður og komið fyrir svítum og veitingasal fyrir heldri gesti. Einnig voru skrifstofur félagsins fluttar úr suðausturhorninu í austurstúkuna. Við hverja breytingu minnkaði sætafjöldinn, enda hurfu sætaraðir fyrir svítur, veitingahús og annað. Fjöldinn minnkaði úr 80 þús niður í 60 þús, og aftur niður í 44 þús. Við byggingu á nýrri stúku 1992 jókst sætafjöldinn aftur í 55 þús og árið 2000 var enn nýrri stúku bætt við, þannig að sætafjöldinn fór í 58 þús. Þannig varð Old Trafford orðin að einum stærsta leikvangi Englands. 2003 var leikvangurinn í fyrsta sinn notaður fyrir úrslitaleik í Meistaradeildinni. Það ár kepptu AC Milan og Juventus, sem hinir fyrrnefndu unnu í vítaspyrnukeppni. Þegar gamli Wembley-leikvangurinn var rifinn 2001, lék enska landsliðið 27 heimaleiki á ýmsum stöðum í Englandi frá 2001-2007 þar til nýi Wembley-leikvangurinn var opnaður. Tólf þeirra fóru fram á Old Trafford. Síðasti landsleikurinn þar fór fram 7. febrúar 2007, en þá töpuðu Englendingar fyrir Spán 1-0 fyrir framan 58 þús áhorfendur (fullt hús). Síðasta stækkun vallarins fór fram 2005-2006, en þá var tveimur hornstúkum bætt við. Við það fór sætafjöldinn upp í 76 þús. 31. mars 2007 var aðsóknarmet vallarins slegið (eftir stríð) er 76.098 manns horfðu á United sigra Blackburn Rovers 4-1. Aðeins 114 sæti voru auð. 2009 voru nokkrar sætaraðir endurskipulagðar, þannig að sætunum fækkaði niður í 75.957, sem þau eru enn í dag. Vallarmet verður því ekki slegið fyrr en að sætum fjölgar á ný. Old Trafford kom við sögu á Ólympíuleikunum 2012, sem að mestu voru haldnir í London, en þar fóru fram nokkrir landsleikir í knattspyrnukeppninni, þ.e. fimm leiki í riðlakeppni, leik í fjórðungsúrslitum og leik í undanúrslitum í karlakeppni. Í kvennakeppni fóru fram einn leikur í riðlakeppni og einn leikur í undanúrslitunum. Þetta voru fyrstu kvenlandsleikirnir sem fram fóru á Old Trafford. Aldarafmæli. 19. febrúar 2010 hélt Manchester United uppá aldarafmæli leikvangsins Old Trafford. Í því tilefni setti heimasíða félagsins upp 100 ógleymanleg atvik á leikvanginum á netið, 1 atvik fyrir hvern dag í 100 daga fram að afmælinu. Í lokin voru 10 bestu atvikin valin af nefnd. Ný sýning um Old Trafford var opnuð í galleríi leikvangsins. Þar var einnig sett upp módel af leikvanginum í stærðinni 1:220. Í afmælisleiknum á móti Fulham, sem var deildarleikur, fengu áhorfendur prógram eins og það leit út við fyrsta leikinn á Old Trafford 100 árum áður. Í hálfleik komu fram ættingjar þeirra sem léku fyrsta leikinn. Einnig var tímahylki jarðað með sögulegum minningum. Alex Ferguson stúkan. Alex Ferguson stúkan er stærsta stúkan á Old Trafford Á Old Trafford eru fjórar aðalstúkur. Sú sem er í norðri var nefnd "Alex Ferguson stúkan" 2011 til heiðurs hinum fræga þjálfara Manchester United til margra ára. Hann hafði þá verið þjálfari liðsins í 25 ár, lengur en nokkur annar þjálfari liðsins. Stúkan er þrílyft og tekur 26 þús manns í sæti. Hún er því stærsta stúkan á leikvanginum. Þar eru líka svítur og einkaklefar. Undir stúkunni er kaffitería og sögusafn. Safnið sjálft var sett á laggirnar 1986 í suðausturhorni leikvangsins og var þá fyrsta sinnar tegundar á knattspyrnuvelli. Það flutti í Alex Ferguson stúkuna 1998 og var það brasilíski snillingurinn Pelé sem opnaði hana við hátíðlegt tækifæri. Safnið er mjög vinsælt. 2009 sóttu 300 þús manns það heim. Hluti af safninu er sýningargluggi með bikurum og öðrum verðlaunagripum, og eru þeir ófáir. Á torginu fyrir utan stúkuna er stytta af Sir Alex sem sett var upp 2012. Suðurstúkan. Gegnt Alex Ferguson stúkunni er suðurstúkan. Hún var áður fyrr aðalstúka leikvangsins. Stúkan er bara einlyft, en þar eru samt sem áður aðsetur fjölmiðlamanna, ásamt stúdíóklefum. Þar er einnig MUTV með aðsetur, sjónvarpsstöð Manchester United. Stúkan hýsir fjölmargar svítur fyrir mikilvæga gesti. Neðst undir stúkunni er starfsfólk viðhalds með aðsetur. Þar í kjallaranum eru einnig göng til búningsklefa liðanna, bæði heimaliðs og gestaliðs. Það er einnig hægt að aka inn í þau að utan, s.s. með aðföng, mikilvæga gesti, o.fl. 2008 var nafn ganganna breytt í Munich Tunnel (Münchengöngin) til minningar um flugslysið í München 1958 þegar stór hluti liðs Manchester United lést. Vesturstúkan. Vesturstúkan heitir öðru nafni Stretford End. Þar hittast heitustu United áhangendur á leiki og þar lætur hæst í stuðningsmönnum. Stúkan er tvílyft og tekur 20 þús manns í sæti. Hún var ekki fullkláruð fyrr en 2000. Undir stúkunni er stytta af Denis Law, fyrrum leikmanni og snillingi liðsins. Austurstúkan. Heilaga þrenningin er stytta af George Best, Denis Law og Bobby Charlton Austurstúkan kallast einnig Scoreboard End (Tímatöfluhornið), þar sem upphaflega tímataflan og skorið var staðsett. Stúkan tekur 12 þús manns í sæti. Þar er einnig aðstaða fyrir fatlaða og þar sitja aðallega áhangendur gestaliðsins, ásamt því að sitja í Alex Ferguson stúkunni. Bak við glervegg sem snýr að bílastæði eru aðalstöðvar Manchester United. Þar eru skrifstofur stjórnenda liðsins, útgáfublað Manchester United og ýmislegt fleira. Þar er einnig minjagripaverslun með vörur fyrir aðdáendur. Verslunin hefur mátt þola marga flutninga uns henni var fundinn staður undir austurstúkunni árið 2000. Á göngutorgi fyrir utan stúkuna er stytta af George Best, Denis Law og Bobby Charlton. Hún var sett upp 2008 og kallast Holy Trinity (Heilaga þrenningin). Völlurinn. Völlurinn sjálfur er 105x68 m að lengd og breidd, ásamt nokkrum aukametrum við endanna. Miðja vallarins er örlítið hærri en hliðarnar svo að rigningarvatn geti runnið undan. Fyrir neðan grasið eru 37 km af vatnsrörum til hitunar. Grasið er vökvað reglulega og slegið þrisvar í viku á sumrin, en aðeins einu sinni í viku á veturna. Aðrir viðburðir. Á Old Trafford er ekki eingöngu spiluð knattspyrna. Þar hefur rúgbý verið leikið alveg síðan 1924, bæði deildarleikir og fjöldi landsleikja. Framtíðaráætlanir gera ráð fyrir að rúgbý verði áfram leikið þar. Áður fyrr var völlurinn einnig notaður fyrir hafnabolta og krikket. Auk íþrótta hafa tónleikar verið haldnir á Old Trafford. Frægir tónlistarmenn sem hafa troðið þar upp eru m.a. Bon Jovi, Genesis, Bruce Springsteen, Status Quo, Rod Stewart, Simply Red o.fl. Þar fyrir utan er leikvangurinn gjarnan notaður af einkaaðilum, s.s. fyrir brúðkaup, risaveislur og ráðstefnur. Emirates Stadium. Emirates Stadium er leikvangur enska knattspyrnuliðsins Arsenal. Leikvangurinn tók við af Highbury í júlí 2006. Fyrsta á vellinum. Fyrsti leikurinn á þessum nýja velli Arsenal var Arsenal-Ajax kveðjuleikur Dennis Bergkamps sem fór 2-1 Arsenal í vil. Fyrsta Mark: skorað af Klaas jan Huntelaar á 37. mínútu í kveðjuleiknum. Fyrsta Arsenal Mark: skorað af Thierry Henry á 50. mínútu. Middlesbrough F.C.. Middlesbrough Football Club er enskt knattspyrnulið, oft kallað The Boro, sem spilar í ensku úrvalsdeildinni. Félagið spilar á Riverside Stadium í Middlesbrough í Norðaustur-Englandi. Núverandi knattspyrnustjóri þess er Gareth Southgate sem var ráðinn 7. júní 2006 af núverandi stjórnarformanni félagsins, Steve Gibson. Middlesbrough sigruðu enska deildarbikarinn árið 2004 sem er fyrsti titill félagsins síðan það var stofnað 1876. Steinöld. Steinöld er forsögulegt tímabil og fyrsta tímabilið í þróun mannsins þegar hann tekur að notast við tinnu til að gera sér eld og verkfæri. Steinöld skiptist í fornsteinöld (~1.4 milljón – 22.000 ár síðan), miðsteinöld (~22.000 – 12.000 ár síðan) og nýsteinöld (~12.000 – 3.300 ár síðan). Á steinöld breiddist mannkynið út frá Afríku. Steinöld vísar til þess að þá tóku menn að búa til áhöld úr tilhöggnum steini og henni lauk þegar menn tóku að bræða málmgrýti til að búa til málma en þá hófst bronsöld. Um sama leyti átti landbúnaðarbyltingin sér stað þegar samfélög manna tóku að byggja afkomu sína fyrst og fremst á landbúnaði í stað veiða og söfnunar. Járnöld. Járnöld er síðasta tímabilið í þriggja alda kerfinu til að flokka forsöguleg samfélög og kemur þannig á eftir steinöld og bronsöld. Nafnið vísar til þróunar í málmvinnslutækni þegar menn fundu upp tækni til að bræða járn sem hefur mun hærra bræðslumark en kopar. Venjulega er járnöld talin hefjast á 12. öld f.Kr. í Austurlöndum nær, Indlandi og Grikklandi hinu forna en hún hófst mun síðar í Mið- og Norður-Evrópu eða á 8. og 6. öld f.Kr. Járnöld lauk við upphaf sögulegs tíma þegar fornöldin hófst í Grikklandi um 776 f.Kr. eða við stofnun Rómar 753 f.Kr. Á Norðurlöndunum er járnöldin talin ná frá 5. öld f.Kr. til upphafs víkingaaldar um miðja 8. öld e.Kr. Tækni til að vinna járn var óþekkt í Ameríku og Ástralasíu þar til þessi svæði komust í kynni við Evrópubúa á landafundatímabilinu. Þar var því aldrei um neina járnöld að ræða. Newcastle United F.C.. Newcastle United er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Hornsteinn. Hornsteinn er steinn sem komið er fyrir á áberandi stað utan á byggingu með áletrun sem tilgreinir ýmsar upplýsingar varðandi bygginguna, eins og byggingarár, hönnuð, byggingaraðila o.s.frv. Hornsteinn byggingar er yfirleitt lagður við hátíðlega athöfn sem markar formlegt upphaf byggingartímans, þótt það gerist yfirleitt eftir að grunnurinn hefur verið lagður. Hugmyndin er komin til af því að áður fyrr var fyrsti hornsteinninn sú viðmiðun sem hin horn byggingarinnar voru miðuð við. Portsmouth F.C.. Portsmouth er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Spilafíkn. Spilafíkn er fíkn þar sem viðkomandi ræður ekki við löngun sína til að stunda fjárhættuspil. Rannsóknir hafa sýnt fram á samband spilafíknar og vöntunar á neroadrenalíni eða serótóníni. Endurhæfing. Endurhæfing eða hæfing er meðferð á þeim sem orðið hefur fyrir líkamlegum eða sálfræðilegum skaða, sem veldur því að hann hefur tapað hæfni sína, að hluta eða öllu leyti, til að gagnast samfélaginu. "Líkamleg endurhæfing" á fólki innifelur oftast í sér sjúkraþjálfun þar sem viðkomandi fer til sjúkraþjálfara. "Sálfræðileg endurhæfing" felur í sér meðferð hjá sálfræðingi. Algengir kvillar sem valda þvía að menn þarfnast endurhæfingar eru t.d. beinbrot, fíknir og hjartaáföll. Magnús Stefánsson. Magnús Stefánsson (f. í Reykjavík 1. október 1960) er fyrrverandi félagsmálaráðherra og þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Vesturlandskjördæmi 1995-1999 og 2001-2003 og Norðvesturkjördæmi 2003-2009. Magnús lauk samvinnuskólaprófi, stúdentsprófi og prófi í rekstrarfræði frá Samvinnuskólanum (í dag Háskólinn á Bifröst) samhliða vinnu hjá SÍS, Grunnaskóla Ólafsvíkur, vinnu á sjó og störfum sem bæjarritari Ólafsvíkur. Á árunum 1990-95 var hann sveitarstjóri í Grundarfirði. Magnús var fyrst kosinn á þing í gamla vesturlandskjördæminu en síðan 1999, þegar því var breytt, norðvesturkjördæmi. Hann var skipaður félagsmálaráðherra 15. júní 2006. Þann 8. mars 2007 leið yfir Magnús er hann flutti þingsályktunartillögu um jafnrétti við ræðupúltið í Alþingishúsinu. Guðni Ágústsson. Guðni Ágústsson (f. á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi 9. apríl 1949) er framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. Guðni tók við formennsku flokksins eftir afsögn Jóns Sigurðssonar hinn 23. maí 2007 og gegndi formennsku í tæpa 18 mánuði. Hann var alþingismaður á árunum 1987 til 2008. Faðir Guðna, Ágúst Þorvaldsson, var einnig þingmaður Framsóknarflokksins. Guðni var formaður Félags ungra framsóknarmanna í Árnessýslu 1972-75. Hann starfaði sem mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna árin 1976-1987. Hann sat í stjórn Hollustuverndar ríkisins 1982-86 og bankaráðs Búnaðarbanka Íslands 1990-98, þar af var hann formaður 1990-93. Hann var landbúnaðarráðherra frá 28. maí 1999 til 24. maí 2007. 17. nóvember 2008 sagði Guðni af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum. Við formennskunni tók Valgerður Sverrisdóttir en Eygló Harðardóttir tók við þingsæti Guðna í Suðurkjördæmi. Eitt og annað. Árið 1991 sagði Guðni, sem þá var formaður bankaráðs Búnaðarbankans: „Ég hef í tvö þing í röð lagt til að kannað verði hvort ekki megi gera upp núverandi kerfi [lífeyrissjóðanna] og stofna þess í stað eigin eftirlaunasjóði hvers og eins. Ég mun halda áfram þeirri baráttu, sem ég hef hafið fyrir því að menn átti sig á því að lífeyrissjóðirnir, eins og þeir eru nú reknir, verða gjaldþrota og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar“. Tillaga Guðna var að gjörbylta lífeyrisjóðakerfinu og vildi hann steypa lífeyrissjóðunum inn í bankana. LZ 129 Hindenburg. LZ 129 Hindenburg var þýskt loftskip. Loftskipið, ásamt systurskipi sínu LZ 130 Graf Zeppelin II, voru stærstu loftskip sem byggð hafa verið. Eldur kviknaði upp í Hindenburg í Lakehurst, New Jersey, Bandaríkjunum þann 6. maí árið 1937. Í skipið komust samtals 200 milljónir lítra af gasi. Fræg mynd af loftskipinu LZ 129 Hindenburg. Myndin var tekin nokkrum sekúndum eftir að eldur kom upp í því. Forsetakosningar á Íslandi 1968. Forsetakosningar 1968 voru hinar íslensku forsetakosningar sem fóru fram þann 30. júní árið 1968. Í þeim vann Kristján Eldjárn stórsigur á Gunnari Thoroddsen, mótframbjóðanda sínum. Film.is. Film.is er íslenskur kvikmyndavefur, sem opnaður var í maí 2006. Á vefnum má meðal annars finna gagnagrunn fyrir íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsefni, ÍKSG. Nicolas Sarkozy. Nicolas Sarkozy (fullt nafn: "Nicolas Paul Stéphane Sárközy de Nagy-Bócsa") (fæddur 28. janúar 1955 í Paris) er franskur stjórnmálamaður og var forseti Frakklands frá 16. maí 2007 (þegar Jacques Chirac lét af embætti), til 15. maí 2012. Árið 2004 varð Nicolas Sarkozy formaður franska íhaldsflokksins Union pour un Mouvement Populaire, skammstafað UMP, og var forsetaefni flokksins í forsetakosningunum 2007 á móti fulltrúa Sósíalistaflokksins, Ségolène Royal. Nicolas Sarkozky var borgarstjóri í Neuilly-sur-Seine frá 1983 til 2002. Árið 1983 fór hann á þing og hefur síðan þá gengt ýmsum embættum, svo sem: fjármálaráðherra og talsmaður þingsins (1993-1995), samgöngumálaráðherra 1994-1995 og auk þess að vera innanríkisráðherra á árunum 2002-2004 og 2005-2007. Sarkozy, Nicolas Istorrent. Istorrent er íslenskt vefsamfélag með yfir 26.000 notendur. Félagið var stofnað 1. maí 2005. Markmið notenda samfélagsins er að nýta sér BitTorrent tæknina til að dreifa tölvuskrám á milli sín á jafningjaneti. Þann 19. nóvember 2007 setti sýslumaðurinn í Hafnarfirði lögbann á síðuna að beiðni SMÁÍS, SÍK, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félag hljómplötuframleiðenda. Rekstur. Um allan rekstur samfélagsins sér Svavar Kjarrval (dulnefni á vefsíðunni: "Kjarrval") í sjálfboðavinnu, líkt og allir aðrir stjórnendur félagsins. Svavar sér einnig um yfirumsjón, þróun og fjármál vefsins. Aðrir stjórnendur gefa vinnu sína við almenna umsjón hans. Félagið fær tekjur sínar eingöngu með frjálsum styrkjum notenda eða annarra sem vilja styrkja samfélagið. Samfélaginu voru gefnir samtals 385 styrkir eða 345.732 ISK árið 2006. Tekjurnar eru t.d. notaðar í vélbúnað fyrir félagið, kaup og endurnýjanir léns og fleira. Notendur. Notendur samfélagsins eru yfir 26.000 og fer sú tala hækkandi með hverjum deginum. Fjöldi nýskráninga árið 2006 voru samtals 9.641. Flestar nýskráningarnar voru sama árs voru í desember, samtals 1.849. Mikil fjölgun var á notendum í samfélaginu á síðstu 3 mánuðum ársins en þá nýskráðu sig um 45,63% notenda af öllum nýskráningum samtals yfir árið. Þessi mikla notendafjölgun gæti hafa orsakast vegna fjölmiðlaumræðu sem myndaðist í október 2006 þegar lögfræðibréf barst Svavari Kjarrval frá samtökunum SMÁÍS, STEF og SÍK. Einnig hefur það sýnt sig að fjöldi nýskráninga eru fleiri á veturna en á sumrin. Lögfræðibréf. Í október 2006 var Svavari Kjarrval sent lögfræðibréf frá samtökunum SMÁÍS, STEF og SÍK. Í bréfinu var skorað á hann að loka síðunni á þeirri forsendu að síðan stuðlaði að brotum á höfundarétti. Tinna Jóhannsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri SMÁÍS, sagði að ef ekki yrði við kröfu þeirra áskilji þau sér rétt til þess að grípa til aðgerða. Hún sagðist muna krefjast lögbanns á rekstur síðunnar, opinberrar rannsóknar og höfðun einkamáls. 22. október 2006 tilkynnti Svavar Kjarrval notendum Istorrents að halda ætti áfram með vefinn í óbreyttri mynd þangað til annað væri ákveðið. Sprengjuuppskriftir. Þann 17. maí 2007 birti dagblaðið Blaðið (nú 24 stundir) forsíðufrétt að á Istorrent megi nálgast 16 blaðsíður af uppskriftum að sprengjum, margar þýddar á íslensku. Skráin var send inn til dreifingar í samfélaginu mánudaginn 14. maí 2007. Sprengjurnar sem var er að ræða voru af ýmsum toga en þær áttu það sameiginlegt að til þess að búa þær til þarf einungis auðfáanleg efni, s.s. efni sem finna má á bensínstöðvum eða matvöruverslunum. Að sögn Ágústs Kvaran, prófessors í efnafræði við HÍ voru leiðbeiningarnar illa framsettar. Svavar Lúthersson, einn af stjórnendum Istorrent, sagði ekki sjálfgefið að upplýsingar sem þessar yrðu fjarlægðar af vefnum. Nauðgunartölvuleikur. Þann 24. maí 2007 var frétt birt á heimasíðu Morgunblaðsins um tölvuleik að nafni "RapeLay" væri hægt að nálgast á vefsvæði samfélagsins en aðalmarkmið leiksins er að þjálfa sig í nauðgunum. Leikurinn var sendur inn á vefinn þriðjudaginn 22. maí 2007. Hann er tölvuteiknaður og er japanskur að uppruna, svokallaður hentai leikur. Framvinda leiksins er sú að kynferðisbrenglaður maður nauðgar konu í neðanjarðarlest í upphafi leiksins. Konan kærir manninn en í hefndarskyni nauðgar maðurinn öllum konum í fjölskyldu konunnar, konunni aftur, móður hennar og lítilli systur hennar. Maðurinn þarf svo að láta konurnar fara til fóstureyðingar, því annars verður hann fyrir lest. Málið var tekið til athugunar hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Svavar Kjarrval sagði efnið ekki mundu verða fjarlægt af vefnum nema sýnt væri fram á að leikurinn sé ólöglegur. Daginn eftir, 25. maí 2007, var frekari deiling á leiknum á vefsvæðinu hindruð að beiðni lögreglu á meðan rannsóknum stendur. Þann 21. júní 2007 var tilkynnt á vef félagsins að lögreglan hefði ekki getað lagt fram sönnun fyrir því að Istorrent hefði brotið í bága við lögin í þessu máli. Málið var því fellt niður. Hins vegar voru allir leikir af sömu tegund og "Rapelay" settir á bannlista síðunnar. Nauðgunarmyndband. Stöð 2 og Vísir greindu frá myndbandi sem er hægt á nálgast á vefsvæði samfélagsins hefur vakið óhug fólks. Myndbandið, sem er rússneskt að uppruna, sýnir nauðgun en óljóst er hvort efnið sé leikið eða ekki. Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingar, telur ekki að hægt sé að tengja saman aukið aðgengi að ofbeldi og klámi og aukningu á ofbeldi og klámi í samfélaginu. Hins vegar benda rannsóknir til þess að myndbönd af þessu tagi geti verið notuð sem afsökun fyrir afbrotamenn en þetta á aðeins við þá sem hneigst hafi til ofbeldis áður en þeir horfðu á slíkt myndband. Lögbann. Þann 19. nóvember 2007 var Svavar Lúthersson yfirheyrður af sýslumanninum í Hafnarfirði vegna beiðni SMÁÍS, SÍK, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félag hljómplötuframleiðenda um lögbann á síðunni. Sýslumaður varð við lögbanninu og setti tímabundið lögbann á síðuna. Sýslumaður varð hins vegar ekki að beiðni fyrrnefndra félaga að gera vélbúnað síðunnar upptækann. Orrustan við Lützen (1632). Gústaf Adolf II konungur Svía Orrustan við Lützen, nærri Leipzig í Þýskalandi, var háð þann 16. nóvember (samkvæmt gregoríanska tímatalinu) árið 1632. Hún var ein mest afgerandi orrusta Þrjátíu ára stríðsins. Þar barðist mótmælendaher Svía, undir forystu Gústafs Adolfs II. Svíakonungs, við kaþólskan her Heilaga rómverska keisaradæmisins. Svíar unnu sigur, en Gústaf Adolf konungur þeirra féll, og þeir misstu um 6000 menn til viðbótar. Kaþólikkar misstu milli 3000 og 3500 menn. Aðdragandi orrustunnar. Tveim dögum fyrir orrustuna, þann 14. nóvember, hafði kaþólski herforinginn Albrecht von Wallenstein skipt liði sínu upp og fært höfuðstöðvar sínar til Leipzig. Vetur var að skella á, og eftir stríðsrekstur sumarsins bjóst hann ekki við frekari vandræðum af hálfu mótmælendahers Gústafs Adolfs Svíakonungs, enda var erfitt fyrir Svíana að slá upp búðum eða athafna sig á annan hátt á berangri að vetrarlagi. En Gústaf Adolf hafði aðrar fyrirætlanir. Snemma morguns þann 15. nóvember hélt hann með her sinn frá búðunum, þangað sem hann hafði síðast frétt af ferðum Wallensteins, og ætlaði að koma honum að óvörum. Honum tókst það þó ekki. Í síðdeginu varð lítill þýskur herflokkur á vegi hans, sem Wallenstein hafði skilið eftir við ána Rippach, um 5-6 km suður af bænum Lützen. Skærur milli þýska herflokksins og Svíanna töfðu þá síðarnefndu um tvo eða þrjá tíma, og þegar ekki var lengur vígljóst voru enn tveir eða þrír kílómetrar milli herjanna. Wallenstein frétti von bráðar að Svíarnir nálguðust, og áttaði sig strax á hættunni. Hann sendi boð til herforingja síns, Pappenheims greifa, og skipaði honum að koma til sín eins fljótt og honum væri unnt, og hafa her sinn með sér. Það var komið fram yfir miðnætti þegar Pappenheim fékk skilaboðin, en hann ræsti herinn samstundis og hélt í átt til Wallensteins. Wallenstein vissi að við ofurefli væri að etja, svo hann bjó her sinn til varnar og lét grafa gryfjur og gera víggirðingar meðfram veginum milli Lützen og Leipzig. Hann staðsetti hægri arm hers síns á lágri hæð, ásamt mestum hluta stórskotaliðs síns. Orrustan sjálf. Um morguninn töfðust Svíar vegna þoku, en um 9-leytið voru herirnir komnir í sjónmál hvor við annan. Það tók Svía langan tíma að fylka liði, vegna skurða og lækja, og slæms skyggnis, en um 11-leytið voru þeir tilbúnir til orrustu. Til að byrja með gekk mótmælendum betur, og þeim tókst að komast fyrir vinstri vænginn á her Wallensteins, sem var ekki nógu sterkur. Léttvopnaða finnska Hakkapeliitta-riddaraliðið skaut andstæðingunum skelk í bringu undir forystu Torsten Stålhandske ofursta, og veittu birgðalest Wallensteins þung högg. Þegar kaþólikkarnir virtust vera að missa tökin, kom Pappenheim á vettvang með milli 2 og 3000 riddara með sér, réðst beint á Svíana og tókst að stöðva sókn þeirra. „Þarna þekki ég hann Pappenheim minn,“ á Wallenstein þá að hafa sagt. Ekki vildi þó betur til en svo, að Pappenheim hlaut sjálfur banasár af völdum lítillar sænskrar fallbyssukúlu. Gagnsóknin féll um sjálfa sig um leið og hermennirnir sáu foringja sinn falla í valinn. Hann gaf upp öndina síðar um daginn, þegar verið var að færa hann af vígvellinum á kerru. Á vinstri væng keisarahersins hélt riddaraliðsorrustan áfram og báðir herir tefldu fram varaliði sínu til að reyna að ná yfirhöndinni. Um klukkan 1 var Gústaf Adolf sjálfur drepinn, þar sem hann var í broddi fylkingar í riddaraliðsáhlaupi þeim megin. Vegna þess hve þykkt mistur af þoku og púðurreyk lá yfir vígvellinum, leið nokkur stund meðan menn vissu ekki hvað hafði orðið af honum, áður en menn áttuðu sig á að konungur væri fallinn. Einum eða tveim tímum eftir að hann féll, var illa leiknu líkinu komið undan á laun, á fallbyssuvagni. Á meðan hélt sænska fótgönguliðið, fyrir miðri fylkingu, áfram að fylgja skipunum sínum og reyndi að brjóta sterka miðfylkingu og hægri væng keisarahersins. Áhlaup þeirra mistóks mjög illa. Fyrst urðu þeir fyrir skæðri kúlnahríð frá stórskotaliði kaþólikka, og síðan áhlaupi riddaraliðs þeirra. Tvær elstu og reyndustu sveitir sænska hersins, „Gamla bláa herdeildin“ og „Gula -“ eða „Hirðherdeildin“, voru svo gott sem stráfelldar í þessum árásum og þeir sem eftir voru flúðu. Skelfing greip um sig í röðum mótmælenda, samtímis því sem fall konungsins spurðist út. Brátt var gjörvöll framvarðarsveit Svía á óskipulegu undanhaldi. Prestur konungsins, Jakob Fabricius, safnaði um sig sænskum yfirmönnum og hóf að syngja sálm. Þeim tókst að róa hermennina, sem staðnæmdust og fengu nýjan kjark. Forsjálni þriðjahæstráðanda Svía, Dodo Knyphausen herforingja, hjálpaði þeim einnig við að fylkja liði á nýjan leik - hann hafði haldið varalínunni vel utan við skotfæri stórskotaliðs keisarahersins, og með henni gátu þeir fylkt framvarðarsveitinni aftur. Um 3-leytið hafði næstráðandi mótmælenda, Bernhard af Saxe-Weimar, frétt af falli konungs, sneri frá vinstri væng hersins og tók yfirstjórnina að sér. Sagt er að hann hafi reynt að halda dauða konungsins leyndum fyrir hermönnunum, en talið er að það hafi hann ekki gert, heldur strengt þess heit að hefna hans með því að sigra í orrustunni, en liggja sjálfur dauður ella. Lokaáhlaup Svía átti sér stað um klukkan 4 síðdegis. Það var barist af hörku, og mannfallið ægilegt á báða bóga. Er rökkva tók, náðu Svíar loks yfirhöndinni á vígvellinum, þegar þeir tóku hæðina sem fallbyssur Wallensteins voru á. Keisaraherinn hörfaði út úr skotfæri og Svíar réðu vígvellinum. Um klukkan 6 komu 3-4000 fótgönguliðar Pappenheims loks á vettvang, eftir að hafa að hafa þrammað allan daginn. Þótt alldimmt væri orðið vildu þeir reyna gagnsókn gegn Svíum, en Wallenstein taldi stöðuna vonlausa og skipaði hernum í staðinn að hörfa til Leipzig í skjóli hins óþreytta fótgönguliðs. Strategískt og taktískt séð höfðu mótmælendur sigur í orrustunni við Lützen. Wallenstein hafði ætlað að hafa vetursetu í Saxlandi, en neyddist til að hörfa til Bæheims. Sigurinn varð Svíum þó dýrkeyptur, og misstu þeir mun fleiri menn en keisaraherinn, þótt öðru sé stundum haldið fram. Þeir misstu um 6000 menn fallna, særða og flúna, þegar þeir réðust á kaþólikka, sem höfðu víggirðingar og varnargrafir, en kaþólikkar misstu í heildina 3000-3500 menn. Eftirleikur. Mótmælendaherinn náði meginmarkmiði herferðar sinnar, sem var að bjarga Saxlandi undan árás keisaradæmisins. Dauði konungsins setti þó strik í reikninginn, en hann var leiðtogi herja mótmælenda, og þegar hann var ekki lengur til að sameina þýska mótmælendur að baki sér, fór stríðsrekstur þeirra úr jafnvægi. Hinir kaþólsku Habsborgarar náðu vopnum sínum aftur og unnu nýja sigra. Stríðið hélt áfram þangað til Vestfalski friðurinn var saminn 1648. Dagsetningin. Þegar orrustan fór fram hafði hið kaþólska Heilaga rómverska keisaradæmi tekið gregoríska tímatalið upp, en hinir lúthersku Svíar notuðu júlíska tímatalið ennþá. Orrustan við Lützen var þannig 16. nóvember fyrir kaþólikkum, en 6. nóvember fyrir mótmælendum. Þótt Svíar hafi tekið gregoríska tímatalið upp á átjándu öld er samt ennþá hefð fyrir því þar í landi að minnast dauða Gústafs Adolfs konungs þann 6. nóvember. Ráð Evrópusambandsins. Ráð Evrópusambandsins, betur þekkt sem ráðherraráðið, er ein af höfuðstofnunum Evrópusambandsins (ESB). Það samanstendur af mörgum undirráðum sem sem fjalla hvert um sitt málefni og eru setin af viðkomandi ráðherrum allra aðildarríkjanna. Aðildarríki ESB eru 27 í dag. Til dæmis sitja allir 27 landbúnaðarráðherrarnir í landbúnaðarráðinu og allir 27 menningarmálaráðherrarnir í menningarmálaráðinu. Í dag starfa tíu mismunandi ráðherraráð. Ráðherraráðið fer með mesta löggjafarvald innan sambandsins ásamt Evrópuþinginu og virkar líkt og ríkisráð í sumum löndum t.d. Þýskalandi. Atkvæðavægi innan ráðsins fer eftir íbúafjölda ríkjanna, minnst þrjú atkvæði en mest 29. Ráðherraráðið hefur einnig nokkurt framkvæmdavald en það er að mestu í höndum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Enginn forseti er í ráðherraráðinu heldur gengur forsæti ráðs Evrópusambandsins á milli aðildarríkja með sex mánaða millibili, það ríki sem hefur forsæti hverju sinni hefur dagskrárvald. Undantekningin frá þessu er á sviði utanríkismála þar sem nýtt embætti utanríkismálastjóra Evrópusambandsins hefur forsæti. Ritari Ráðs Evrópusambandsins er Frakkinn Pierre de Boissieu. Ráðherraráðið getur átt frumkvæði að lagasetningu á ákveðnum málefnasviðum. Í þeim tilvikum eru lög sett með auknum meirihluta eða einróma kosningu. Í flestum tilvikum deilir ráðherraráðið þó löggfjararvaldinu með Evrópuþinginu. Ráðherraráðið hefur lengi legið undir ámæli fyrir ógagnsæi og árið 1995 dæmdi Evrópudómstóllinn breska blaðinu Guardian í hag í máli gegn ráðherraráðinu fyrir að veita ekki nægar upplýsingar. Evrópska ráðið. Evrópska ráðið einnig nefnt leiðtogaráðið tekur allar helstu ákvarðanir innan Evrópusambandsins (ESB) og mótar stefnu ESB. Ráðið er samráðsvettvangur þjóðarleiðtoga aðildarríkjanna. Ráðið kemur saman tvisvar á ári á leiðtogafundi þar sem rædd öll helstu málefni og tekin er lokaafstöðu til fyrirliggjandi mála. Forseti ráðsins hverju sinni er þjóðarleiðtogi þess aðildarríkis sem fer með formennsku í ráðherraráðinu. Meðal hlutverka leiðtogaráðsins er að velja forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Tanngnjóstur og Tanngrisnir. Tanngnjóstur og Tanngrisnir voru geithafrar Þórs, sem drógu vagn hans. Hann gat drepið þá og étið, og safnað svo beinunum saman á húðirnar, en þegar hann sveiflaði hamri sínum, Mjölni, yfir þeim, þá lifnuðu þeir við. Til er saga af því er Þór bauð hjónum að eta með sér kjöt hafranna en þegar hann hafði lífgað hafrana við var sprungið bein í fæti á öðrum þeirra. Þór reiddist mjög en hjónin báðu sér griða og að lokum féllst Þór á að taka börn þeirra, Þjálfa og Röskvu, sér til þjónustu og fylgja þau honum síðan. Green Day. Green Day er bandarísk pönk-/rokkhljómsveit. Hún hefur gefið út plöturnar "1,039/Smoothed Out Slappy Hours", "Kerplunk", "Dookie", "Insomniac", "Nimrod", "Warning", "American Idiot", "21st Century Breakdown" og safnplötuna "Bullet In A Bible" Jason White spilar á gítar með þeim á tónleikum. Börn og skilnaðir. Í þessari grein er fjallað náið um hvernig skilnaður foreldra hefur áhrif á börn, almennt um skilnað, hvernig á að segja börnum frá skilnaði, viðbrögð barna við skilnaði, það sem er best fyrir börnin við skilnað og tengsl foreldra og barna eftir skilnaðinn. Vitað er að skilnaður foreldra er börnum nær alltaf vonbrigði og kallar oft fram mikla erfiðleika í sálarlífi barna. Börn gera sér yfirleitt ekki grein fyrir skilnaði og séu oftast óviðbúin þegar að hann kemur upp. Óhamingjusamt fjölskyldulíf er alltaf mjög erfitt fyrir börnin í fjölskyldunni. Þau skilja oft ekki ástæðurnar fyrir deilum eða þögn foreldra sinna. Mörg börn reyna oft að leiða hjá sér ósætti foreldrana. Fæst börn hugsa um skilnaðinn sem raunhæfan möguleika. Ákvörðunin um að skilja kemur því oft eins og þruma úr heiðskíru lofti. Almennt um skilnað. Skilnaður er viðkvæmt efni, sem snertir tilfinningar margra, einkum vegna þeirra barna sem í hlut eiga. Á Vesturlöndum er skilnaður nú almennt viðurkenndur sem útgönguleið ef hjónin finna ekki aðra lausn á vandamálum sínum. Hjónaskilnaðir eru tíðastir eftir 5-10 ára samband og á milli 24-40 ára aldurs. Ákvörðunin um skilnað þýðir að viðkomandi einstaklingar hafa misst vonina um ánægjulegt líf með maka sínum. Skilnaður er oft sársaukafull breyting og hefur í för með sér talsvert álag, sem reynir verulega á tilfinningalíf og jafnvel heilsufar þeirra sem í hlut eiga. Þeir sem skilja þurfta oft að endurskipuleggja líf sitt, að laga sig að nýjum aðstæðum og jafna sig tilfinningalega. Algengt er að þessi aðlögun taki um eitt til tvö ár. Málið verður hinsvegar erfiðara og flóknara ef að börn eru inn í myndinni. Flestir hika við að skilja og reyna til hins ýtrasta að bjarga sambandinu, barnanna vegna. Helsta áhyggjuefnið varðandi skilnað er hvaða áhrif skilnaðurinn getur haft á börnin. Viðbrögð og áhrif barna við skilnað. Skilnaður foreldra er oftast talsvert áfall fyrir börn og setur þau úr lagi tilfinningalega. Skilnaðurinn getur þó orðið léttir fyrir börnin ef ástandið hefur verið lengi mjög slæmt, til dæmis orðið vitna að líkamlegum átökum milli foreldranna. Það er mikið komið undir foreldrum hve vel börnin ná að jafna sig eftir skilnaðinn. Ýmsar tilfinningar geta brotist um í börnum eftir skilnað foreldranna, oftast eru það sorg og depurð vegna þess missis sem skilnaðurinn hefur í för með sér. Sorgin getur leitt til þess að börnin loki sig af með tilfinningar sinar og dragi sig í hlé um sinn gagnvart umhverfinu. Skilnaðurinn vekur einnig oft reiði hjá börnunum við foreldranna vegna sársaukans og óþægindanna sem þeir leggja á börnin með skilnaðinum. Það eykur líka á reiðina, ef fljótlega eftir skilnaðinn er stofnað til nýs ástarsambands. Viðbrögð barna við skilnaði foreldra fer eftir þroska þeirra og aldri og geta því verið mjög mismunandi. Yngstu börnin (0-2 ára) hafa tæplega þroska til þess að gera sér grein fyrir skilnaðinum, en ef foreldrið líður illa þá getur það átt erfitt með að hugsa um barnið af sömu vellíðan og áður. Um leið og foreldrinu sem annast barnið líður betur þá fer barninu einnig að líða betur. Börn á leikskólaaldri (2ja-5 ára) verða oft kvíðin, vansæl, ergileg, gráta mikið og suða. Algengt er að þau hangi í foreldrunum og þoli illa að sjá af þeim. Sú vitneskja að annað foreldrið er farið getur gert barnið hrætt um að missa hitt foreldrið líka. Börnin sýna líka oft afturhvarf í þroska og taka aftur upp smábarnahegðun. Þetta gera börnin ómeðvitað í leit að öryggi sem þau hafa misst. Drengir verða oft hávaðasamari, reiðigjarnari og ókyrrari. Stúlkur verða stundum litlar fyrirmyndarfrúr sem leggja ofuráherslu á að vera snyrtilegar og góðar til að vinna sér inn viðurkenningu fullorðinna. Samt geta þær líka sýnt sömu viðbrögð og drengir. Börn á leikskólaaldrinum þurfa oft á mikilli umhyggju og líkamlegri snertingu að halda fyrst eftir skilnaðinn. Barnaskólaaldurinn (6-12 ára) er erfiðastur fyrir börn sem lenda í skilnaði foreldra, sérstaklega sex til átta ára börnum. Börn á þessum aldri verða fyrst og fremst döpur og þurfa mikið að gráta út af skilnaðinum. Þau sakna mjög foreldrið sem fluttist í burtu. Þau eiga erfitt með að sætta sig við skilnaðinn og reyna jafnvel að koma í veg fyrir hann. Börn á aldrinum níu til tólf ára hættir til að taka afstöðu með öðru foreldrinu á móti hinu og dragast þannig inn í deilur. Í því mikla tilfinningaróti vanmáttarkenndar, gremju, söknuðar og einmanaleika, sem ríkir, getur börnunum reynst erfitt að einbeita sér í námi. Frammistaða í skóla slaknar hjá um það bil helmingi barna á þessum aldri, þegar að skilnaðarferli foreldra er í gangi. Unglingar bregðast mjög misjafnlega við skilnaði foreldra. Skilnaður foreldra getur auðveldlega aukið á ójafnvægi og tilfinningarót unglingsáranna, einkum á gelgjuskeiðinu. Sumir unglingar bregðast við skilnaði með því að draga sig úr fjölskyldunni og leita til vina. Skilnaðurinn getur einnig ýtt undir vantrú þeirra á samböndum, vakið áhyggjur um eigin framtíð í samskiptum við hitt kynið og stundum hafa unglingar áhyggjur af fjármálum vegna skilnaðarins. Mikilvægt er að gefa þeim færi á að ræða um þær tilfinningar sem skilnaðurinn vekur upp. Að segja börnum frá skilnaði. Erfitt er fyrir foreldra að setjast með barninu sínu eða börnum og segja þeim frá ákvörðun um skilnað. Sumir fresta því um lengri tíma til þess að forða sér frá því að gera börnin leið. Það er þó oftast misráðið að fresta slíku samtali, vegna þess að börnin skynja þegar að ákvörðunin um skilnað liggur í loftinu. Börnin virðast yfirleitt gera sér grein fyrir að foreldrarnir eiga í erfiðleikum, en hafa ekki gert sér grein fyrir að skilnaður lægi fyrir. Það er mikilvægt að útskýra fyrir börnunum af hverju foreldrar þeirra sjá ekki aðra leið úr erfiðleikunum og að þeir fullorðnu hafi tekið þessa ákvörðun sjálfir. Í mörgum tilvikum geta börnin tekið á sig mikla ábyrgð við að reyna að koma foreldrunum saman aftur. Ábyrgð sem þau eiga ekki að geta ráðið við. Börn þurfa að vita hvar þau eiga að búa, hvort þau haldi áfram í sama skóla og hvað breytist hjá foreldrunum. Ráðlegt er að segja við barnið að það eigi engan þátt í skilnaðinum. Ef foreldrarnir sýna sjálfir sínar eigin tilfinningar þá hjálpa þeir börnunum að segja hvernig þeim líður og minnka hættuna á að þau loki sig af með einmanakennd og söknuð sem kemur oftast upp. Það sem er best fyrir börnin við skilnað. Eins og viðbrögð barna við skilnaði foreldra ráðast af mörgu er það líka misjafnt hve fljótt börn ná sér. Hvernig til tekst er líklegast mest undir foreldrum komið. Það þarf að búa börn undir skilnað, ef skilnaðurinn kemur barni í opna skjöldu getur verið erfiðara fyrir það að átta sig á hlutunum. Börn þurfa að umgangast báða foreldra sína. Samvinna foreldra er best fyrir barnið, ef foreldrar barns deila heiftarlega eftir skilnað og blanda jafnvel barninu í þessar deilur, getur það haft langvarandi áhrif á barnið. Ef báðir foreldrar sýna börnum sínum áfram hlýju og áhuga og hafa samvinnu um uppeldi þeirra og umgengni við þau, þá hjálpar það börnum mikið að koma jafnvægi á tilfinningar sínar, sérstaklega fyrstu árin eftir skilnað. Það þarf að hlusta og tala við börnin, það þýðir ekki að þvinga börn til að tala um það sem þau vilja ekki ræða. Sérstaklega er það brýnt ef börnin ala með sér ranghugmyndir um skilnaðinn að ræða við þau um það. Fullorðið fólk verður að sýna mikla nærgætni í slíkum samræðum og vera tilbúið til að hlusta þegar að barnið vill tala. Afkoma fjölskyldunnar, húsnæði hennar og félagslíf skipta miklu máli. Ef barni er falin óhóflega mikið ábyrgð á heimilisstörfum eða í samskiptum við foreldrana verður það barni fjötur um fót. Oftast skánar ástanið þegar að á líður. Flestum foreldrum tekst smám saman að ná tökum á nýjum aðstæðum og þeir ná betri stjórn á börnunum. Þó svo að mörg börn nái sé eftir skilnað foreldra, þá halda þau samt áfram að líta á skilnaðinn sem dapurlegan atburð sem varpar skugga á bernsku þeirra og unglingsár. Tengsl foreldra og barna eftir skilnað. Eftir skilnað, þegar foreldrarnir þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum og um leið gera upp tilfinningar í garð fyrrverandi maka breytast samskipti þeirra við börnin. Algegnt er að foreldrar sýni börnunum minni hlýju en áður, tali sjaldnar við þau og hafi minna eftirlit með þeim. Foreldrar hafa minni tíma en áður til að sinna börnum sínum. Þetta ástand er mjög óheppilegt fyrir börnin þar sem þau eru sjálf viðkvæm, oft einmana, hrædd og hjálparvana eftir skilnað. Aðstæður á heimili eftir skilnað getur komið í vítahring þar sem barn og foreldri ásaka hvort annað um langvarandi skilningsleysi og deilur magnast, uppeldisaðferðir verða harkalegri og samskipti háværari. Slíkan vítahring er hægt að rjúfa ef foreldri áttar sig og reynir að breyta aðstæðum. Stundum keppa foreldrar um hylli barns, bæði fyrir og eftir skilnað. Ef barn er ánægt hjá föður sínum þá telur hann að barnið vilji hvergi annars staðar vera. Móðirin kýs hinsvegar að skýra þetta þannig að faðirinn kaupi ástúð barnsins með gjöfum og fleiru. Ef barnið grætur þegar að það kveður föður sinn telur hann að það sé harmi slegið að þurfa að fara til móðurinnar. Ef barnið er pirrað þegar það kemur aftur til móðurinnar finnst henni að samneyti við föðurinn sé skaðlegt fyrir barnið. En viðbrögð barnsins eru eðlileg í flókinni og erfiðri aðstöðu og bera aðeins vott um ráðaleysi þess og vanlíðan. Slíkar deilur eru því óheppilegar fyrir barn sem er að reyna að átta sig eftir skilnað. Í rannsóknum kemur fram að börn telji það eitt erfiðasta atriðið í skilnaði foreldra sinna að missa samband við annað foreldrið. Flest börn missa sambandið og traust föður síns við skilnað. Síðar meir eftir skilnaðinn leggja þau minna upp úr föðurtengslum yfirleitt. Út af þessu er fyrsta tímabilið eftir skilnað sem skiptir mestu máli fyrir það sem síðar verður. Það er ánægja samskiptanna, á milli barnsins og föðurins/móðurinnar sem skipta sem skiptir mestu en ekki fjöldi heimsókna. Í þeim tiltölulega fáu tilvikum sem mæður búa ekki hjá börnum sínum eftir skilnað halda þær yfirleitt umgengni við börnin. Fátítt er því að börn missi af samskiptum við móður sína við skilnað, á sama hátt og sum börn missa af föður sínum. Heiðrún (norræn goðafræði). Heiðrún nefnist geit í norrænni goðafræði er stendur upp á Valhöll og bítur barr af limum trés þess, er Léraður heitir, en úr spenum hennar rennur mjöður svo mikill, að allir einherjar verða fulldrukknir af. Ægir. Ægir er jötunn í norræni goðafræði og konungur hafsins. Kona hans er Rán og með henni á hann 9 dætur: Angeyja, Atla, Eistla, Eyrgjafa, Gjálp, Greip, Imðr, Járnsaxa og Úlfrún, en líka Bára, Blóðughadda, Bylgja, Dúfa, Hefring, Himinglæva, Hrönn, Kolga og Uðr. Kvensköp. Kvensköp eða sköp (í daglegu tali er orðið píka oft notað um kvensköp) eru ytri æxlunarfæri konu, þ.e. ytri- og innri (blygðunar)barmar, snípur, þvagrásarop, meyjarhaft og leggangaop. Í víðasta skilningi er einnig átt við innri getnaðarfæri konunnar, þ.e. leggöng, leg, legop, legháls, eggjastokka, eggjaleiðara og ýmsa kirtla, sem tengjast þeim. Auk þess að vera æxlunarfæri losar kvenlíkaminn þvag um sköpin. Téténía. Téténía er sjálfstjórnarlýðveldi í norðurhluta Kákasusfjalla í Rússlandi. Höfuðborg þess er Grosní. Landfræði. Téténía liggur milli Georgíu, Dagestan, Ingúsjetíju, Norður-Ossetíu og Stavropol. Köngulóarmaðurinn. Köngulóarmaðurinn, eða Spider-Man eins og hann heitir á frummálinu, er ofurhetja úr Marvel-myndasöguheiminum skapaður af Stan Lee og Steve Ditko. Köngulóarmaðurinn naut strax hylli almennings þegar hann kom fram í fyrstu myndasögu sinni árið 1962 og hefur verið vinsælasta myndasöguhetja Marvel. Hluti af þessari vinsæld var af því að nú var það unglingur sem var kynntur sem ofurhetja, frekar en að vera hjálparhella, og hann þurfti oftast að takast á við persónulegu vandamál sín ásamt ábyrgðinni að vera ofurhetja. Síðan hann birtist fyrst hafa komið mörg myndasögublöð um hann ásamt teiknimyndum, leiknum sjónvarpsþáttum og þremur kvikmyndum. Uppruni. Peter Benjamin Parker var eitt sinn venjulegur unglingslúði sem bjó hjá frænku sinni og frænda í Queens-hverfi í New York. Peter hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og vísindum og hélt sig oft einn. Á vísindasýningu var Peter bitinn af geislavirkri könguló og hlaut brátt hæfleika köngulóa; svo sem að geta klifið veggi með fingurgómunum og köngulóarskynjun. Hann hlaut einnig yfirnáttúrulegt afl og fimi. Hann hannaði seinna tæki til að framleiða köngulóavef og bjó til búning til þess að vinna sem glímukappi og verða sjónvarpsstjarna. Eitt skiptið þegar hann er gestur í sjónvarpsþætti lætur hann þjóf sleppa (hann segir að það sé ekki hans vandamál) en kemst seinna að því að sá sami þjófur skaut frænda hans til bana. Peter, sem þá var kominn með samviskubit, ákveður að gerast sjálfskipaður löggæslumaður. Hæfleikar og tæki. Eftir köngulóabitið fékk Peter ofurmátt og hæfileika köngulóa. Hann varð einnig miklu fimari, sneggri, hafði meira þol og sterkari. Hann gat klifið veggi og hafði eins konar „köngulóaskynjun“ til að vara hann við hættum. En Peter erfði ekki vefspuna köngulóa og bjó sér „vefdrífur“ sem hann hafði um úlnliðinn og skaut hann vef úr þeim með því að þrýsta á takka í miðjum lófanum með löngutöng og baugfingri. Seinna bjó hann sér til búninginn einkennandi: rauður og blár með vefmynstri um rauða litinn ásamt litlu köngulóarmerki á bringunni og stóru á bakinu. Hann hafði einnig grímu sem þakti andlitið og sá hann út um hálfgegnsæar hvítar linsur. Hann hafði tækjabelti og vefdrífurnar undir búningnum. Þá hefur hann einnig notað eftirtalin tæki: lítil köngulóarlöguð staðsetningartæki, vasaljós, innrautt vasaljós, vefhylki og næturlukt. Óvinir. Köngulóarmaðurinn hefur þurft að glíma við fjöldann allan af skúrkum með einhvers konar ofurmætti. Óvinirnir eru Græni Púkinn, sem var Norman Osborn og varð geðveikur eftir tilraun til að auka styrkleika sinn og klæddist búningi með púkagríma og flaug um á svifdreka; Dr. Kolkrabbi (e. "Dr. Octopus"), vísindamaðurinn Dr. Ottó Oktavíus sem er með fjóra vélarma á bakinu; Eðlan (e. "The Lizard"), sem er kennari Peters og eðlisfræðingurinn Dr. Curt Connors sem stökkbreyttits í risaeðlu; Eitur (e. "Venom"), sem var blaðamaðurinn Edward Charles Brock sem komst í snertingu við sambýlisveruna sem var fyrst á Köngulóarmanninum; Sandmaðurinn (e. "Sandman"), sem er glæpamaðurinn Flint Marko sem stökkbreyttist í lifandi sand; Svartálfurinn (e. "Hobgoblin"), sem var upphaflega tískuhönnuðurinn Roderick Kingsley og líkist Græna Púkanum; Seinni Græni Púkinn (e. "The Second Green Goblin"), sem var Harry Osborn sem fetar í fótspor föður síns; og Blóðbað (e. "Carnage)", sem var geðsjúklingurinn og fjöldamorðinginn Kletus Casady og kemst í snertning við afkvæmi Eiturssambýlisveruna. Teiknimyndirnar og kvikmyndirnar. Fyrsta teiknimyndaserían um Köngulóarmanninn var fyrst sýnd 1967 undir nafninu "Spider-Man" og lauk 1970. Síðan kom barnaþátturinn "The Electric Company - Spidey Super Stories" á 8. áratungnum. Árið 1977 voru sýndir leiknir sjónvarpþættir, "The Amazing Spider-Man", þar sem Nicolas Hammond lék Lóa en þeir entust ekki lengi. 1978 voru leiknu japönsku þættirnir "Spider-Man" sýndir aðeins í Japan og lauk 1979. Köngulóarmaðurinn kom svo út í tveimur teiknimyndaseríum 1981 undir nöfnunum "Spider-Man" (1981-82) og "Spider-Man and His Amazing Friends" (1981-83). Árið 1994 kom út teiknimyndasería sem bar nafnið "Spider-Man: The Animated Series" og entist til 1998. Árið 1999 var byrjað að sýna teiknimyndaþættina "Spider-Man Unlimited" og entist ekki lengi. 2002 var fyrsta leikna kvikmyndin um Köngulóarmanninn frumsýnd. Ári síðar voru teiknimyndaþættirnir "Spider-Man: The New Animated Series" sýndir en þeir byggðust lauslega á kvikmyndinni. Framhaldið af fyrstu myndinni var frumsýnd 2004 og glímdi Köngulóarmaðurinn þar við Dr. Kolkrabba. Þriðja myndin var frumsýnd 4. maí "2007" og barðist hann þar við Sandmanninn, Nýja Púkann og Eitur. Ný teiknimyndasería verður sýnd 2008 undir nafninu "The Spectacular Spider-Man". Enska meistaradeildin. Enska meistaradeildin (e. "Football League Championship"), áður þekkt sem enska fyrsta deildin, er næstefsta atvinnumannadeild í knattspyrnu á Englandi. Fyrsta tímabil deildarinnar var tímabilið 2004-2005. Reading F.C.. Reading er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Sheffield United F.C.. Sheffield United er knattspyrnulið í ensku annarri deildinni. Tottenham Hotspur F.C.. Tottenham Hotspur er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Watford F.C.. Watford er knattspyrnulið í enska meistaradeildin. West Ham United F.C.. West Ham United er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Wigan Athletic F.C.. Wigan Athletic er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Zgierz. Zgierz er borg í miðhluta Póllands, í Województwo Łódzkie, við fljótið Bzura í miðhluta Póllands. Íbúar bjuggu 58 164 íbúar árið 2007. Brétigny-sáttmálinn. Brétigny-sáttmálinn var undirritaður 8. maí 1360 af Játvarði 3. Englandskonungi og Jóhannesi góða Frakkakonungi og markaði endalok fyrsta hluta Hundrað ára stríðsins. Sáttmálinn markaði jafnframt hápunkt valda Englandskonunga í Frakklandi. Sáttmálanum fylgdi níu ára hlé á styrjöldum. Carl Barks. Carl Barks (27. mars 1901 – 25. ágúst 2000) var heimsþekktur teiknari og myndasöguhöfundur sem starfaði fyrir The Walt Disney Company. Hann skapaði fyrstur Andabæ og margar af sögupersónunum í veröld Andrésar andar, s.s. Jóakim aðalönd, Georg gírlausa og Ömmu önd. Hann hóf störf sem teiknari í teiknimyndaverum Disney árið 1935 en hætti 1942 vegna vinnuálags og slæms lofts á vinnustaðnum. Rétt áður en hann hætti hafði hann tekið þátt í ásamt Jack Hannah að teikna myndasögu með Andrési Önd sem var gefin út af Western Publishing. Ári síðar hóf hann störf þar sem myndasöguhöfundur og vann bæði sögurnar og myndirnar. Sögurnar sem hann gerði voru ómerktar, eins og venjan er í framleiðslu á myndasögum Walt Disney Company en lesendur tóku brátt eftir því að gæðin á sögum Barks voru meiri en annarra. Hann var því kallaður „góði andateiknarinn“ löngu áður en nafn hans varð þekkt. Hann fór á eftirlaun árið 1966 en hélt áfram að skrifa fyrir myndasögur. Barks, Carl Gosdrykkur. Gosdrykkur eða einfaldlega gos er óáfengur drykkur sem inniheldur kolsýru. Flestir gosdrykkir, aðrir en sódavatn, innihalda ýmis bragðefni, litarefni og sætuefni. Írlandshaf. Írlandshaf (írska: "Muir Éireann"; gelíska: "Muir Eireann"; velska: "Môr Iwerddon"; manska: "Mooir Vannin") er hafsvæðið sem skilur milli Írlands og Stóra-Bretlands í Norður-Atlantshafi. Eyjan Mön er í miðju hafinu. Sundið milli Írlands og Skotlands nefnist North Channel eða Úlfreksfjörður. Guns N' Roses. Guns N' Roses er bandarísk rokkhljómsveit stofnuð í Los Angeles árið 1985. Húsafriðun. Húsafriðun (eða húsavernd) er stefna sem tekin er í skipulagsmálum, og snýr að því að friða og vernda gömul hús gegn skemmdum eða niðurrifi, eða þegar þau hafa farið illa svo sem í bruna. Oft er um sögufræg hús að ræða, hús sem halda borgarmyndinni saman eða búa yfir vissum byggingarstíl sem þarf að halda til haga. Dæmi um húsfriðun var þegar rífa átti Bernhöftstorfuna í miðbæ Reykjavíkur á áttunda áratugnum en þá voru Torfusamtökin stofnuð. Þau börðust kröftuglega gegn niðurrifi húsanna á Bernhöftslóðinni og komu loks í veg fyrir byggingu nýtísku húsa. Húsafriðun á Íslandi. Samkvæmt lögum má friða mannvirki, hús eða húshluta sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Friðun getur náð til nánasta umhverfis hins friðaða mannvirkis. Friða má samstæður húsa sem hafa slíkt gildi sem að framan greinir og gilda þá reglur friðunar um hvert einstakt þeirra. Tilgangur friðunarinnar er að tryggja sem best varðveislu þess mannvirkis sem um ræðir. Ítalska A-deildin. Ítalska A deildin er efsta atvinnumannadeildin í knattspyrnu á Ítalíu. Núverandi meistarar deildarinnar 2006-07 eru Inter. Klement Gottwald. Klement Gottwald (fæddur þann 23. nóvember 1896 í Dědice (Vyškov) í Suður-Mæri í Austurríki-Ungverjalandi, nú Tékklandi, og lést þann 14. mars 1953) var tékkneskur stjórnmálamaður og kommúnisti sem var leiðtogi Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu (KSČ), og forsætisráðherra og forseti Tékkóslóvakíu. Gottwald vann fyrir sér sem húsgagnasmiður í byrjun. Þegar KSČ var stofnaður árið 1921 var hann einn af stofnfélögunum. 1921-1926 ritstýrði hann blaði og starfaði fyrir flokkinn í Slóvakíu. Hann var í miðnefnd KSČ frá 1925 og 1926-1929 var hann formaður Áróðurs- og stjórnmálamiðnefndar miðnefndar KSČ, þingmaður flokksins 1929-1948 og aðalritari flokksins frá 1929-1945. 1935-1943 var hann ritari hjá Komintern og á stríðsárunum, 1939-1945, var hann í Moskvu og var einn af nokkrum leiðtogum sem þaðan stýrðu andspyrnuhreyfingu tékkneskra kommúnista gegn nasistum. Frá 1945-1953 var Gottwald formaður KSČ. Frá 1945-1946 var hann varaforsætisráðherra og frá 1946-1948 forsætisráðherra í ríkisstjórn Tékkóslóvakíu. Frá 1948-1953 var hann forseti landsins. Í mars 1945 samþykkti Edvard Beneš, kjörinn forseti Tékkóslóvakíu, sem hafði verið leiðtogi útlagastjórnar Tékka í London frá 1941, að mynda þjóðstjórn með Gottwald og KSČ. Gottwald var þá varaforsætisráðherra, en eftir fyrstu kosningar í landinu eftir stríðið, árið eftir, varð hann forsætisráðherra. Þann 9. maí 1948 frömdu kommúnistar valdarán og létu þingið samþykkja nýja stjórnarskrá. Beneš forseti neitaði að undirrita nýju lögin og sagði af sér þann 2. júní (og dó þrem mánuðum seinna). Þann 14. júní kaus þjóðþingið Klement Gottwald sem nýjan forseta Tékkóslóvakíu. Gottwald var trúr fylgismaður Stalíns. Hann þjóðnýtti iðnað landsins og samyrkjuvæddi landbúnaðinn. Vaxandi áhrif Rússa í landinu mættu töluverðri mótspyrnu, og Gottwald framdi því nokkrar hreinsanir. Fyrst hreinsaði hann flesta þá úr valdastöðum, sem ekki voru kommúnistar, og síðan nokkurn fjölda kommúnista líka. Í hópi málsmetandi kommúnista sem voru ákærðir í Pragréttarhöldunum voru aðalritari flokksins Rudolf Slánský, utanríkisráðherrann Vladimir Clementis og Gustáv Husák fylkisstjóri í Slóvakíu. Þeir voru allir reknir og gefið að sök að aðhyllast borgaralega þjóðernisstefnu. Clementis var tekinn af lífi í desember 1952 og hundruð annarra fyrrverandi embættismanna voru fangelsaðir. Husák fékk uppreist æru á sjöunda áratugnum og varð forseti Tékkóslóvakíu 1975. Gottwald andaðist 1953, aðeins níu dögum eftir að hann kom heim úr útför Stalíns. Því hefur verið haldið fram, meðal annars af Enver Hoxha þáverandi forseta Albaníu, að hann hafi verið myrtur með eitri. Arftaki Gottwalds var Antonín Zápotocký, sem hafði verið forsætisráðherra frá 1948-1953. Borgin Zlín í Mæri, þá í Tékkóslóvakíu en nú í lýðveldinu Tékklandi, hét Gottwaldov, í höfuðið á honum, frá 1949-1990. Gottwald, Klement Gottwald, Klement Gottwald, Klement Gottwald, Klement Forsætisráðherra Tékkóslóvakíu. Forsætisráðherra Tékkóslóvakíu var höfuð ríkisstjórnar Tékkóslóvakíu, lýðveldis sem var í Mið-Evrópu frá október 1918 til 1. janúar 1993. Ítalska A-deildin 2006-07. Ítalska A deildin 2006-07 er hófst 10. september 2006. Upphaflega átti deildin að hefjast 26. og 27. ágúst 2006 vegna Ítalska A-deildar skandallsins 2006. Tímabilið 2006-07 er 104. tímabil ítölsku A-deildarinnar og í fyrsta sinn án Juventus FC. Staðan í deildinni. 1. "Þar sem bæði Roma og Internazionale keppa til úrslita í ítalska bikarnum og eru örugglega með sæti í Meistaradeild Evrópu mun 7. sæti fá sæti í Evrópubikarnum. 8. sætið mun leika í Intertoto bikarnum." 2. "Í byrjun leiktíðar voru þessi félög gefin eftirfarandi refsistig:" Ítalski A deildar skandallinn 2006. Eftir ítalska A deildar skandalinn voru félögin Juventus F.C., ACF Fiorentina og S.S. Lazio refsað með því að hefja næstu leiktíð í ítölsku B deildinni. AC Milan var einnig refsað með 15 refsistigum. Félögin U.S. Lecce, F.C. Messina Peloro og Treviso F.B.C. áttu að komast í ítölsku A deildina í stað liðanna þriggja sem var refsað með falli til að félög deildarinnar yrðu enn 20. Fiorentina, Juventus, Lazio og Milan báðu öll um áfrýjun á dómnum. Niðurstaðan var sú að Fiorentina og Lazio fengu aftur að vera með í ítölsku A deidlinni en fengu 15 og 11 stiga refsingu hvort félagið um sig. Refsistig AC Milan voru lækkuð niður í 8 stig. Juventus þurfti enn að vera í ítölsu B deildinni með 17 refsistig. Lecce og Treviso færðust aftur til ítölsku B deildarinnar en Messina hélt stöðu sinni í ítölsku A deildinni í staðinn fyrir Juventus. Eftir frekar rannsóknir fékk Reggina Calcio einnig 15 refsistig, en var enn með í A deildinni. Knattspyrnuofbeldi í Cataníu 2007. 2. febrúar 2007 lést lögregluþjónninn Filippo Raciti í Cataníu vegna ofbeldis milli stuðningsmanna Cataníu og Palermo. Fresta þurfti öllum deildarleikjum ítölsku A deildarinnar vegna þessa. Deildarsigur Inter. Með sigri á Siena 22. apríl 2007 tryggði Internazionale sér ítalska deildarbikarinn 2006-07. Félagið hafði þá 16 stiga forskot á Roma sem átti aðeins 5 leiki eftir. Forseti Tékkóslóvakíu. Forseti Tékkóslóvakíu var þjóðhöfðingi lýðveldisins Tékkóslóvakíu, sem var í Mið-Evrópu frá október 1918 - 1. janúar 1993. Hér eru þeir taldir upp sem hafa gegnt forsetaembætti Tékkóslóvakíu. Einnig fylgir listi yfir leiðtoga Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu árin 1948-1989, meðan flokkurinn réð lögum og lofum í landinu. Dong Fangzhuo. Dong Fangzhuo (董方卓) (fæddur 23. janúar 1985) er kínverskur knattspyrnumaður sem hefur verið í herbúðum Manchester United í þó nokkurn tíma. Hann fékk þó ekki atvinnuleyfi í Bretlandi fyrr en í árbyrjun 2007. Hann hefur ekki leikið með aðallandsliði Kína, aðeins með U-17 lansliðinu og síðan U-23. Hann er nú í láni hjá Royal Antwerpen. Quedlinburg. Quedlinburg er þýsk borg með 22.795 íbúa (30. júni 2006). Borgin er staðsett í sambandslandinu Saxland-Anhalt í Þýskalandi. Borgin liggur norðan við Harz-fjöllin við ána Bode sem tengir Norðursjóinn. Borgin var höfuðborg Hansasambandsins. Miðbær Quedlinburg var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1994. Sanskrít. Sanskrít (devangari: संस्कृता वाक्) er klassískt indverskt tungumál, helgisiðatungumál í búddisma, hindúatrú og jaínisma auk þess að vera eitt af 22 opinberum helgisiðatungumálunum Indlands. Það hefur sömu stöðu í Nepal. Staða þess í menningarheimi Suðaustur-Asíu er álík stöðu latínu og grísku í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu og mörg nútímamál á meginlandi Indlands hafa þróast út frá sanskrít. Köngulóarmaðurinn (kvikmynd). Köngulóarmaðurinn eða Spider-Man er kvikmynd byggð á samnefndum teiknimyndablöðum. Sony Pictures framleiða myndina ásamt Marvel, þar sem Stan Lee, höfundur persónunar er einn af framleiðendum myndarinnar. Sam Raimi leikstýrir og með aðalhlutverkin fara Tobey Maguire, Kirsten Dunst, Willem Dafoe, James Franco, Rosemary Harris, Cliff Robertson og J.K. Simmons. Myndin var frumsýnd 3. maí 2002. Söguþráður. Myndin fjallar um unglingsstrákinn Peter Parker (Tobey Maguire), sem er lúði í miðskóla og býr hjá May, frænku sinni, og Ben, frænda sínum, (Rosemary Harris & Cliff Robertson) í Queens-hverfi í New York. Parker er yfir sig ástfanginn af nágrannastelpunni Mary Jane Watson (Kirsten Dunst) en hún tekur varla eftir honum. Einn daginn þegar Peter fer námsferð á erfðavísindastofu ásamt vini sínum Harry Osborn (James Franco) og hinum í skólanum, er hann bitinn af erfðabreytttri könguló. Þegar hann kemur heim líður yfir hann. Á meðan er faður Harrys, Norman Osborn (Willem Dafoe) að reyna viðhalda samningi fyrirtæki síns, OsCorp, um að afla hernum vopn og tæknibúnað, þar á meðal lyf sem eykur styrk manna og svifdreka. En herinn dæmir lyfið ekki tilbúið og hyggst snúast til keppinauta hans Quest-fyrirtækisins. Norman prófar lyfið á sér og eykst styrkur og árásargirni hans og hann verður kleifhugi og rústar keppinautum sínum með sprengjuvopnum sínum. Næsta morgunn vaknar Peter og uppgötvar að hann hefur fengið vöðva og getur séð fullkomlega. Í skólanum uppgötvar hann margt annað: hann getur spunnið vef úr úliðnum og hefur yfirburðar viðbröð og ofurmannlegann styrkleika. Eftir skóla prófar Peter meira og uppgötvar að hann getur klifið veggi og stökkið og getur sveiflað sér með vefnum. Seinna ákveður Peter að kaupa sér bíl til að ganga í augun á Mary Jane, en til þess að fá peninga skráir hann sig í glímukeppni. Þegar Peter hyggst fara (hann lýgur og segist ætla á bókasafnið), heimtar frændi hans að skutla honum. Ben reynir að segja honum að með miklum mætti fylgir mikil ábyrgð, Peter hunsar hann og Ben segist ætla að sækja hann. Peter vinnur keppnina, en gjaldkerinn svindlar á honum og gefur honum ekki þann pening sem var auglýst og segir að það hafi ekki komið honum við. Eftir að Peter fer er gjaldkerinn rændur og Peter lætur hann sleppa til að hefna sín. Stuttu síðar kemur Peter að frænda sínum sem var skotinn til bana í bílaráni. Peter eltir ræningjann uppi en kemst að því að þetta er ræninginn sem hann hefði getað stöðvað. Peter kennir sjálfum sér um og ákveður að nýta hæfileika sína til að berjast gegn glæpum. Til að afla sér fjár gerist Peter ljósmyndari Köngulóarmannsins hjá Daily Bugle en ritstjórinn, J. Jonah James (J.K. Simmons) er lítið hrifinn af hetjunni og álítur hann plágu. Nokkrum mánuðum síðar virðist allt ganga í haginn hjá Norman, stjórnarnefnd OsCorp hefur ákveðið að selja fyrirtækið. Á Heimssameiningarhátíð OsCorp ætlar stjórnin að tilkynna söluna, en Norman, í grænum búning með grímu á svifdreka drepur stjórnarmeðlimina en Köngulóarmaðurinn hrekur hann á brott áður en hann gerir meiri skaða. Norman skilur daginn eftir hvað hefur gerst og byrjar að hlýða hinum persónuleika sínum. Hann rænir Köngulóarmanninum og biður hann að ganga í lið með sér en hann neitar. Seinna borðar Norman, May frænka og Mary Jane (sem er orðin kærasta Harrys) þakkargjörðarmat í íbúðinni sem Harry og Peter leigja saman. Norman tekur eftir því að Peter er með eins sár og Köngulóarmaðurinn hlaut bardaga þeirra fyrir stuttu síðan og strunsar út. Osborn, sem Púkinn, ræðst á May frænku. Peter fatta þá að Púkinn hefur komist að því hver hann er. Hann reynir að vara Mary Jane við, en Púkinn hefur rænt henni og heldur henni sem fanga á Queens-hverfisbrúnni. Þar lætur hann Köngulóarmannin velja á milli þess að bjarga Mary Jane og að bjarga börnum. Köngulóarmanninum tekst að bjarga þeim báðum. Púkinn flýgur með hann í yfirgefna byggingu þar sem þeir berjast af lífs og sálarkröftum þar til Norman segir Peter hver hann er, og biður hann að fyrirgefa sér með langri ræðu en reynir að drepa hann með svifdrekanum að aftanfrá en Köngulóarmaðurinn skynjar þetta og stekkur frá og svifdrekinn drepur Norman í staðinn. Peter virðir hinstu ósk Normans: að segja ekki Harry frá þessu. Peter, í búningnum, skilar líki Normans á heimili hans og Harry sér hann fara og telur Kóngulóarmanninn ábyrgann. Á jarðarför föður síns segist Harry ætla að hefna sín á Köngulóarmanninum. Á jarðarförinni segir Mary Jane Peter að hún sé ástfangin af honum, en hann hafnar henni til að vernda hana... Myndin endar svo á Köngulóarmanninum að sveifla sér um borgina. Bandaríkjaher. Yfirmenn allra herafla Bandaríkjanna í nóvember 2002 Bandaríkjaher (enska: "United States Armed Forces") er her Bandaríkjanna og heyrir undir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna (aðeins strandgæslan) en forseti Bandaríkjanna er jafnframt æðsta yfirvald hans. Yfir 1,4 milljónir manna eru starfandi í hernum sem auk þess getur kallað út yfir 1,2 milljón manna varalið. Almenn herskylda var lögð niður í Bandaríkjunum árið 1973 og er herinn síðan þá eingöngu skipaður atvinnuhermönnum. Tyrkneska. Tyrkneska (Türkçe, [tyɾktʃe]) er tyrkískt tungumál og þar af leiðandi eitt af hinum umdeildu altísku tungumálum. Hún er mest töluð í Tyrklandi en einnig af minni hópum á Kýpur, í Grikklandi og Austur-Evrópu, auk þess að vera töluð af nokkrum milljónum innflytjenda í Vestur-Evrópu. Tyrkneska er útbreiddasta tyrkíska málið og 65 – 73 milljón manns hafa málið að móðurmáli. Rætur tungumálsins má rekja til Mið-Asíu, þar sem fyrstu skrifin ná aftur um tæp 1.200 ár. Í vesturátt eru áhrifin aðalega af Ottoman tyrknesku — sem er afsprengi tyrknesku tungunnar og var notuð í Ottoman stórveldinu og breiddist út samhliða því. Tyrkneska hefur verið rituð með latínuletri frá 1928 en var áður rituð með arabísku letri. Nafnorð í tyrknesku hafa sex föll. Enginn tiltekin greinir er í málinu en tiltekni er oft mynduð með notkun þolfalls. Lýsingarorð taka engum beygjingum. Persónufornafn þriðju persónu greinir ekki kyn. Brandenborgarkonsert. Brandenborgarkonsertarnir er flokkur sex konserta eftir Johann Sebastian Bach sem hann tileiknaði markgreifanum af Brandenborg og Schwedt árið 1721. Þeir eru meðal þekktustu hljómsveitarverka barroktímans. Rétttrúnaðarkirkjan. Kristur hinn almáttugi, "Kristos Pantokrator". Íkon frá Klaustri heilagrar Katarínu á Sínaí-skaga, frá 6. eða 7. öld Rétttrúnaðarkirkjan, einnig verið kölluð Austurkirkjan, er kristið samfélag sem telur sig vera runnið beint frá fyrsta kristna söfnuðinum, sem stofnaður var af Jesú og postulunum, og hafa varðveitt órofið samband milli embættismanna kirkjunnar og postulanna gegnum postullegu erfðakenninguna. Hún telur sig einnig hafa best varðveitt siði og hefðir fyrsta safnaðarins og fylgja nánast þeim kennisetningum sem samþykktar voru á fyrstu sjö kirkjuþingunum sem haldin voru á tímanum frá 4. til 8. aldar. Rétttrúnaðarkirkjan er ekki miðstýrð eins og sú kaþólska, heldur eru kirkjudeildirnar sjálfstæðar þjóðkirkjur. Yfir hverri kirkjudeild er patríarki og nýtur patríarkinn í Konstantínópel af hefð meiri virðingar en hinir en er þó einungis álitinn vera „fremstur meðal jafningja“. Á flestum málum er kirkjan kölluð "orþodox", en það er orð sem kemur úr grísku orðunum "ορθός" „rétt“ og "δόξα" „trú“, það er að segja „hin rétta kenning“. Saga. Kristni náði fyrst fótfestu í austurhluta rómaveldis þar sem gríska var aðal samskiptatungumálið. Páll postuli og postularnir tólf ferðuðust víða um Rómaveldi og stofnuðu söfnuði. Þeir fyrstu í Antiokkíu, Alexandríu og Jerúsalem og fljótlega einnig í pólitísku aðalstöðunum Róm og Konstantínópel. Með stofnun þessara safnaða skapaðist hinn postullegi arfur en þessi hugmynd hefur skipt meginmáli í sjálfsímynd kirkjunnar sem verndara hinar réttu trúar. Ofsóknir gagnvart kristnum mönnum hættu árið 313 þegar Konstantín mikli veitti þeim trúarfrelsi. Konstantín flutti höfuðborg Rómaveldis frá Róm til Konstantínópel 330. Frá stjórnartíma Theodosiusar I (379 – 395) fóru keisarar Austrómverska ríkisins í vaxandi mæli að ráðskast með málefni kirkjunnar þó þeir væru ekki formlegir yfirmenn. Klofningur Rómaríkis í Austrómverska og Vestrómverska ríkið á 5. öld leiddi meðal annars af sér að kirkjan skiptist í austur og vesturhluta. Biskupinn í Róm hafði aukið völd sín smám saman og varð embætti hans að því sem kallað er páfaveldi. Páfinn krafðist þess að allar kristnar kirkjur viðurkenndu embætti hans sem leiðtoga og yfirmann kristni. Austurkirkjurnar neituðu að sætta sig við það og ákærðu latnesku kirkjuna um rangtúlkanir á ýmsum trúaratriðum. Klofningurinn varð algjör árið 1054 þegar sendimaður páfa skildi eftir bannlýsingu á patríarkanum í Konstantínópel á altarinu í Hagia Sofia kirkjunni. Enn verra verð sambandið þegar krossfarar í fjórðu krossförinni árið 1204 rændu og rupluðu Konstantínópel. Allt frá þeim tíma hafa kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan verið aðskildar þó samtöl og samskipti milli þeirra hafi verið tekin upp á nýtt á síðustu áratugum. Árið 1453 féll Kostantínópel, síðasta vígi Býsansríkisins, í hendur Ottómana. Þegar þetta gerðist hafði stærsti hluti þess svæðis í Asíu og Norður-Afríku sem áður hafði fylgt rétttrúnaðarkirkjunni snúist að mestu til íslam, meðal annars Egyptaland. Kristnar kirkjudeildir héldust þó við sem minnihlutahópar og hafa gert allt fram á vora daga í miðausturlöndum. Gríska rétttrúnaðarkirkjan undir stjórn partíarkans í Konstantínópel fékk sérstöðu í Ottómanska veldinu sem sérstakt "millet" (trúfélag). Rétttrúnaðarkirkja í Ulan Ude, Rússlandi Á 9. og 10. öld stundaði rétttrúnaðarkirkjan mikið trúboð í Austur-Evrópu og hafði mikinn framgang. Andstætt kaþólsku kirkjunni notuðu trúboðarnir og hinir nýju söfnuðir tungumál innfæddra við helgigerðir og þýddu fljótlega helgiritin. Kirkjurnar urðu sjálfstæðar einingar, nánast þjóðkirkjur þó tunga og ekki ríkismörk settu mörkin. Fyrir Októberbyltinguna hafði rétttrúnaðarkirkjan sérstöðu í rússneska keisaradæminu. Hún var hluti af ríkisvaldinu með sérstakt ráðuneyti sem kallað var Heilaga synódan sem heyrði beint undir keisarann sjálfan. Í upphafi sovéttímans var kirkjan hins vegar ofsótt og Stalín lét meðal annars byggja um margar kirkjur sem gripahús og geymslur. Eftir því sem tíminn leið fékk kirkjan meira svigrúm þó svo að stjórnvöld litu hana hornauga og sérlega allt samband við kristna erlendis. Eftir fall kommúnistastjórnanna í Austur-Evrópu og sérlega í Rússlandi hefur rétttrúnaðarkirkjan endurfengið mikið af fornri stöðu í þjóðfélaginu. Rússneska kirkjan er stærsta kirkjudeild rétttrúnaðarkirkjunnar. Trú. Rómversk-kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan álíta sig vera, hver um sig, hin „eina, heilaga, almenna og postullega kirkja“ sem nefnd er í Níkeujátningunni, það er alþjóðakirkjan („hin almenna kirkja“ heitir á grísku kaþolikē ekklēsia). Deilumál milli þessara kirkjudeilda hafa verið fjölmörg, meðal annars hvort altarisbrauðið eigi að vera gerjað (rétttrúnaðarkirkjan) eða ógerjað (kaþólska kirkjan og mótmælendakirkjurnar) og eins hvort Heilagur andi gangi einungis út frá Föðurnum (rétttrúnaðarkirkjan) eða bæði Föðurnum og Syninum (kaþólska kirkjan). Rétttrúnaðarkirkjan leyfir giftum mönnum að vera prestar en það bannar kaþólska kirkjan. Rétttrúnaðarkirkjan álýtur sig varðveita sömu trú og fyrsta kristna kirkjan og leggur þess vegna mikla áherslu á að viðhalda helgihaldi óbreyttu. Á sama hátt og kaþólska kirkjan leggur rétttrúnaðarkirkjan mikla áherslu á helgi og rétt postullegu erfðakenningarinnar. Það er einungis hægt að skilja Biblíuna, sem er þungamiðja í trúarkenningunni, í samhengi við "Hina heilögu hefð". Rétttrúnaðarkirkjan álítur, andstætt mótmælendakirkjunum, að lestur og íhugun á Biblíunni einni og sér á parti, hið svo nefnda "sola scriptura", taki hana úr samhengi við þann heim sem hún skapaðist í og geri hana óskiljanlega. Það er því einungis hægt að skilja ritninguna á réttan hátt innan rétttrúnaðarkirkjunnar. Þar sem aðrir hafa fundið mótsagnir í frásögum Biblíunnar álítur rétttrúnaðarkirkjan að báðar frásagnir séu jafn sannar og séu jafn mikilvægar. „Mótsagnirnar“ eru heilög dulúð sem menn geta ekki skilið. Altarisganga er einn mikilvægasti þátturinn í trúarlífinu og ganga flestir til altaris ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Þegar sá sem gengur til altaris bergir brauðið og víninu við altarisgöngu verður brauðið bókstaflega að holdi og vínið að blóði Krists gegnum Heilagan anda. Rétttrúnaðarkirkjan hefur aldrei gert tilraun til að útsýra nánar hverning þetta gerist. Ætíð er fastað fyrir altarisgöngu en það er misjafnt hversu löng fastan er eða allt frá nokkrum klukkustundum (í grísku rétttrúnaðarkirkjunni) upp í tvo daga, það er frá og með föstudegi til sunnudags (í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni). Börn, hafandi konur og sjúklingar eru undanþegnir föstu. Fasta þýðir hér að þeir sem fast borða hvorki kjöt né mjólkurafurðir meðan á föstu stendur. Kirkjan hafur gefið út ákveðnar reglur um föstu en það er val einstaklingsins hvort hann fastar eða ekki. Á sama hátt og kaþólikkar, en andstætt mótmælendum, álíta rétttrúarsinnar að dýrlingar, píslarvættir og sérlega guðrækið fólk, geti verið milligöngumenn milli Guðs og manna. Íkonar. Guðsmóðirin frá Vladimir, Theotokos frá Vladimir eða Vladimirskaya er einn af virtustu íkonunum frá 1131 Íkonar eru helgimyndir, oftast málaðar á tréplötur. Á þeim eru myndir af Jesú, Maríu mey, postulunum og dýrlingum eða sögur úr Biblíunni. Algengastir eru íkonar sem sýna Maríu Guðsmóður. Gerð íkona eru háð ströngum myndbyggingarlegum reglum og hafa aldrei verið ætlað að vera raunsæisverk. Hver íkoni er meira og minna nákvæm eftirmynd þekktrar fyrirmyndar. Þessi hefð helgast af því myndirnar eru taldar búa yfir kynngi og kraftaverkamætti. Íkonar eru mikilvægur þáttur í öllum guðshúsum réttrúarkirkna en þeir eru einnig algengir á heimilum. Mörg kraftaverk eru rakin til áhrifamáttar íkona og sumir þeirra hafa orðið víðfrægir. Heitið íkon kemur af gríska nafnorðinu εἰκών „eikon“ sem þýðir mynd og sagnorðinu „eikenai“, að líkjast. Íkon er ekki mynd „af“ einhverju heldur er raunveruleiki, andlegur gluggi. Sá sem horfir á það er talinn vera viðstaddur atburðina. Íkoninn á því rétt á sömu virðingu og er heiðraður á sama hátt og persónurnar sem eru á honum. Krossinn. Rétttrúnaðarkirkjan notar margar gerðir af krossum, ein sú algengasta er þriggja þversláakrossinn sem sjá má á mynd hér til hliðar. Efsta þversláin táknar merki það sem Pontíus Pilatus lét negla fyrir ofan höfuð Jesú en í stað latnesku skammstöfunarinnar INRI ("Iesus Nazarenus Rex Iudaeorum", það er „Jesus frá Nasaret, Konungur gyðinga“) þá er notuð gríska INBI eða slavneska samsvörunin ІНЦІ. Neðsta þversláin, sem ekki finnst á svo kölluðum latnesku krossum, hallar ætíð. Sögulegar og biblíulegar heimildir eru fyrir því að slík þverslá hafi verið notuð við krossfestingar í Rómarveldi til að taka þunga af handleggjunum og þar með lengja dauðastríðið. Ástæðan fyrir því að krossgerðin sýnir alltaf að sláin hallar er annars vegar til að sýna píningu Jesú og hins vegar táknrænt að þjófurinn á hægri hönd Jesú kaus réttu leiðina og sá á vinstri hönd gerði það ekki. Skipulag. Rétttrúnaðarkirkjan er skipulögð að mestu sem þjóðkirkjur. Patríarkinn í Konstatntínópel er viðurkenndur sem fremstur meðal jafningja og hefur úrskurðarvald í ýmsum málum. Yfir hverri þjóðkirkju er patríark, erkibiskup eða metrópólít. Prestar í rétttrúnaðarkirkjunni geta verið giftir hins vegar verða munkar að stunda skírlífi. Einungis munkar geta orðið biskupar og patríarkar. Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi. Tveir söfnuðir á Íslandi tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni, Söfnuður heilags Nikulásar úr Moskvupatríarkatinu í Reykjavík (Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi)með 144 safnaðarmeðlimum og Fæðing Heilagrar Guðsmóður (serbneska rétttrúnaðarkirkjan) með 163 safnaðarmeðlimum. Slóvenska. Kort sem sýnir landfræðilega dreifingu helstu mælenda slóvensku. Slóvenska (slóvenska: "slovenski jezik" eða "slovenščina") er indó-evrópskt tungumál sem tilheyrir slavneskum tungumálum, nánar tiltekið suður-slavneskum tungumálum. Um 2,4 milljónir manna tala slóvensku, mestmegnis Slóvenar. Slóvenska hefur þá sérstöðu að vera eitt fárra tungumála sem notast við tvítölu. Þar sem Slóvenía er aðildarríki ESB er slóvenska eitt af 23 opinberum tungumálum þess. Til slóvenskur teljast 48 fjölbreyttar mállýskur. Meðal frægustu rithöfunda sem skrifa á slóvensku eru Ivan Cankar og ljóskáldið France Prešeren. Meira en 100 þúsund íbúa Ítalíu tala slóvensku, 25 þúsund í Austurríki, 12-13 þúsund í Króatíu og um sex þúsund í Ungverjalandi. Saga. Elsta heimild slavneskrar tungu eru Freising handritin sem talin eru hafa verið rituð einhvern tímann á bilinu 972 til 1093. Slóvensku í nútímalegri mynd varð vart á 16. öld í verkum Primož Trubar, Adam Bohorič og Jurij Dalmatin sem voru undir áhrifum Endurreisnarinnar. Á 19. öld er Slóvenía var hluti Austurrísk-ungverska keisaradæmisins talaði slóvenskur aðall þýsku og almúginn slóvensku. Slóvenska mótaðist því að nokkru leyti af þýsku, dæmi um tökuorð eru þýska nafnorðið "Polster" sem þýðir koddi og til eru tvö slóvensk orð yfir "blazina" og "poušter". Annað dæmi er "izvijač " sem þýðir skrúfjárn og "šrauf'ncigr" sem á rætur sínar að rekja til þýska orðsins "Schraubenzieher". Vísinda- og fræðimenn notuðu gjarnan þýsku í verkum sínum fram á þriðja áratug 20. aldar. Menningarbylgjur Illyrisma, þjóðernishreyfingu Króata, og Pan-Slavisma, sameinaðri þjóðernishreyfingu Slava, höfðu einnig áhrif á þróun slóvensku. Josip Jurčič einn fyrsti rithöfundur Slóvena sem skrifaði bækur á slóvensku nýtti serbnesk orð í bók sinni Tíundi bróðirinn sem kom út 1866. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar var Slóvenía hernumin af Öxulveldunum: Ítalíu, Þýskalandi og Ungverjalandi. Slóvensk menning var barin niður og áróðri dreift sem hvatti Slóvena til þess að tala þýsku. Eftir stríðið varð Slóvenía hluti af Júgóslavíu, í stjórnartíð Josip Broz Tito varð slóvenska eitt af opinberum tungumálum ríkisins og notuð á öllum sviðum daglegs lífs. Eina undantekningin var júgóslavneski herinn þar sem serbo-króatíska var notuð eingöngu. Er Slóvenía hlaut sjálfstæði 1991 var slóvenska að opinberu tungumáli einnig innan slóvenska hersins. Freising-handritin. Freising-handritin (slóvenska: "Brižinski spomeniki", þýska: "Freisinger Denkmäler", latneska: "Monumenta Frisingensia, Slovak Frizinské pamiatky") eru elsta varðveitta skjalið sem skrifað er með latnesku stafrófi í samfelldum texta og jafnframt elsta skjalið sem ritað er á slóvensku. Nafngiftin er komin af því að þau voru rituð í klaustri í bænum Freising í Suður-Þýskalandi líklegast á einhverntíman á seinni hluta 10. aldar. Lárus Pálsson. Lárus Pálsson (12. febrúar 1914 – 13. mars 1968) var íslenskur leikari. Hann stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1933. Hann lærði við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn 1934 til 1937 og byrjaði feril sinn þar en kom heim með Petsamoförinni 1940 og starfaði eftir það hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hafliðaskrá. Hafliðaskrá eða Bergþórslög var fyrsta lagaskráin sem var skrifuð á Íslandi. Hún var rituð af Hafliða Mássyni, Bergþóri Hrafnsyni lögsögumanni og öðrum. Í Íslendingabók Ara fróða stendur að hún hafi verið skrifuð 1117-1118. Af henni hefur þó ekkert varðveist. Vodka. Vodka er brennt vín, sem bruggað er úr korni eða kartöflum. Vodka þýðir „lítið vatn“ á slavneskum málum. Sigvaldi Kaldalóns. Sigvaldi Kaldalóns (Stefánsson) (13. janúar 1881-1946) var íslenskt tónskáld og læknir. Eitt þekktasta lag hans er Ísland ögrum skorið. Sigvaldi nam læknisfræði við Læknaskólann í Reykjavík og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Þar kynnti hann sér danska og erlenda tónlist. Í Kaupmannahöfn kynntist hann einnig verðandi eiginkonu sinni, "Karen Margrethe Mengel Thomsen". Þegar heim kom fékk hann veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og bústað á Ármúla í Nauteyrarhreppi nálægt Kaldalóni. Hann hreifst mjög af náttúrunni þar í kring og tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns. Frostaveturinn mikla 1917-18 veiktist Sigvaldi af taugaveiki og náði sér aldrei almennilega eftir það. Hann dvaldist á Vífilstaðahæli og fór síðan utan til Kaupmannahafnar á heilsuhæli. Þegar honum hafði batnað sótti hann um Flateyjarhérað og var veitt það. Þar samdi hann lagið við ljóð Eggerts Ólafssonar, "Ísland ögrum skorið" og þar söng Eggert Stefánsson óperusöngvari, bróðir hans það fyrst opinberlega. Þar var hann þar til hann fluttist í Keflavíkurhéraðið. Sigvaldi var læknir við héraðslæknisembættið í Keflavík árin 1929-45, búsettur í Grindavík. Sigvaldi Kaldalóns var yfirleitt mjög hógvær í garð laga sinna en um "Ísland ögrum skorið", sem er eitt þekktasta lag hans, sagði hann þó að það ætti eftir að verða þjóðsöngur Íslands. Íþróttafélagið Fylkir. Íþróttafélagið Fylkir, oftast kallað Fylkir, er íslenskt íþróttafélag sem var stofnað 28. maí 1967. Fylkir er staðsett í Árbænum í Reykjavík. Fylkir á lið í blaki, fimleikum, handknattleik, karate og knattspyrnu. Sagan. Íþróttafélagið Fylkir var stofnað þann 28. maí árið 1967 í Árbæ. Það var stofnað af ungu og áhugasömu fólki sem vildi byrja að æfa og spila fótbolta í sínu eigin hverfi. Frá stofnun félagsins hefur verið lögð áhersla á barna og unglinastarf innan félagsins, til að mynda var ekkert lið í meistaraflokki fyrstu árin. Upprunalega nafn félagsins var Knattspyrnufélag Selás og Árbæjar eða KSÁ, nafnið var talið óheppilegt og því breytt í Fylkir seint á árinu 1969 eftir að félagsmenn kusu það fram yfir annað nafn, Elliði. Fylkir telfdi fyrst fram liði í meistaraflokki árið 1972 og enduðu það ár í öðru sæti í 3. deildinni (nú 2. deildin). Það nægði þó ekki til þess að fara upp um deild og spilaði því liðið næstu 5 árin til viðbótar í 3. deildinni. Öll þessi var Fylkir nálægt því að komast upp um deild en það gerðist þó ekki fyrr en árið 1977 þegar að draumurinn rættist. Fylkir komst upp í 2. deildina (nú 1. deildin) eftir sögulegan úrslitaleik þar sem að Fylkir þurfti að spila fram B-liði sínu þar em að meirihluti byrjunarliðsins hafði farið til Spánar í langt fyrirfram greitt frí! Næstu sex árin spilaði Fylkir í 2. deildinni og aðeins einu sinni nálægt því að komast upp um deild. Á árunum 1984-1988, flakkaði liðið á milli 2. og 3. deildarinnar. Það var svo árið 1989 sem að Fylkir spilaði sinn fyrsta leik í 1. deildinni (nú Úrvalsdeildin). Það gekk ekki nægilega vel, Fylkir endaði í 9. sæti og féll um deild, en tímabilið er áhugavert sé litið til þess að þrír leikmenn liðsins Kristinn Tómasson, Þórhallur Dan Jóhannsson og Finnur Kolbeinsson voru að spila í fyrsta sinn fyrir liðið í meistaraflokk og áttu þeir eftir að koma mikið við sögu liðsins næstu ár. Fylkir komst aftur upp í 1. deildina árið 1993 en líkt og í fyrstu tilraunin í deildinni þá endaði liðið aftur í 9. sæti og féll um deild. Árið 1996 endurtók liðið aftur leikinn í 1. deildinni og endaði enn og aftur í 9. sæti. Það var svo árið 1999 sem að Fylkir vann sér rétt til að leika í efstu deild, í fjórða sinn, en þá hafði nafni hennar verið breytt í Úrvalsdeildina. Árið 2000 var Fylkir einungis tveimur stigum frá því að vinna deildina sem nýliðar. Annað sætið tryggði þó liðinu rétt til þess að spila í evrópukeppni. Árið 2001 vann Fylkir bikarkeppnina í fyrsta sinn sögu félagsins, en endaði í 5. sæti í deildinni eftir að hafa leitt deildina fyrri tvo þriðjunga tímabilsins. Í UEFA bikaranum þá vann Fylkir Pogoń Szczecin frá Póllandi 2-1 í fyrsta evrópuleik liðsins. Í Póllandi þá jafni Fylkir leikinn á lokamínútum leiksins fyrir framan þá 200 dyggu stuðningsmenn sem fylgdu liðinu til Póllands. Fylkir sigraði samtals 3-2 og var komið áfram í næstu umferð UEFA bikarins. Næstu andstæðingar Fylkis var Roda Kerkrade frá Hollandi, sem reyndust vera betri en Pólverjanir. Roda sigraði fyrri leikinn í Hollandi 3:0 á degi þar sem fótbolti spilaði aukahlutverk í skugga atburðana sem áttu sér stað 11. september. Á Íslandi þá skoraði Fylkir fyrsta markið en Hollendingarnir skoruðu næstu þrjú og enduðu þar með evrópuævintýri Fylkismanna. Sigur í Bikarkeppninni árið 2001 tryggði Fylki aftur sæti í UEFA bikarinum. Í þetta skipti var það Royal Excelsior Mouscron frá Belgíu sem spilaði hlutverk andstæðingsins. Fyrri leikurinn á Íslandi endaði með jafntefli 1-1 en Mouscron unnu svo seinni leikinn í Belgíu 3-1. Í deildinni þetta ár endaði Fylkir í 2. sæti, aðeins nokkrum sekúndum frá bikarnum í lokaslag á mót KR. Fylkir gerði svo góða hluti í bikarkeppninni og vann hana annað árið í röð. 40 árum frá stofnun liðsins þá er Fylkir orðið rótgróið félag í hverfinu og meirihluti leikmanna og starfsfólk eru fæddir og uppaldir Árbæjingar. Félagið er nú eitt af stærri liðum landsins og hefur nánast tryggt sér fast sæti í efstu deild eftir mikið flakk þar áður. Leiktímabilið árið 2006, var ekki gott fyrir Fylkir. Þeir enduðu í 8. sæti og héldu sér aðeins í deildinni með 2 stigum frá fallsæti. Í stað féll Grindavík eftir að hafa gert 1-1 jafntefli á móti FH sem þurftu á sigri að halda til að vinna deildina. Árið 2007 reyndist hins vegar vera gott fyrir Fylkir, eftir að hafa setið um miðbik deildar meira og minna allt tímabilið, endaði liðið í 4. sæti og tryggðu sér sæti í UEFA Intertoto bikarnum árið 2008. Fylkir komst einnig í undanúrslit VISA-bikarsins en tapaði þá á mót 1. deildar liðinu Fjölni og skemmdi það vonir Fylkis að vinna sinn þriðja bikar á áratugnum. Árið 2007 var einnig gott ár fyrir 2. flokk Fylkis sem vann deildina í fyrsta sinn í sögu klúbbsins. Árið 2008 reyndist vera erfitt tímabil fyrir Fylki. Þeir byrjuðu leiktíðina á tveimur ósigrum, en eftir það fyldu þrír sigrar og útlitið var gott. Þá byrjuðu vandræðin, eftir fjölda tapa var Fylkir komið inn á hættusvæði og nálægt því að falla. Þann 28. ágúst var þjálfari liðsins Leifur Garðarsson látinn fara og Sverrir Sverrisson tók við út tímabilið. Fylkir tókst að halda sér frá falli og enduðu í 9. sæti með 22 stig. Tímabilið árið 2008 var það fyrsta sem að 12 lið spiluðu í deildinni. Fylkir komst aftur í undan úrslit VÍSA-bikarins, en töpuðu fyrir Fjölni annað árið í röð. Í fyrstu umferð Intertoto bikarsins árið 2008, þá tókst Fylki að sigra FK Rīga 2-1 út í Lettlandi. Klúðraði Fylkir þessu í seinni leiknum þegar að liðið tapaði 0-2 á heimavelli og endaði þetta samtals 3-2 fyrir Lettunum. Í byrjun októbers árið 2008 þá var það tilkynnt að Ólafur Þórðarson yrði nýr þjálfari liðsins. Ólafur hafði starfað fyrir klúbbinn áður en hann var spilandi þjálfari tvö tímabil árin 1998 og 1999. Heimavöllurinn. Fylkisvöllur er heimavöllur Fylkis, stundum kallaður Lautin. Allt til ársins 1999 var engin stúka við völlinn heldur tiltu stuðningsmenn sér í grasbrekkuna við völlinn. Þegar að Fylkir hafði tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni árið 1999 var steypt stúka í brekkunni. Eins og staðan er í dag fullnægir núverandi stúka ekki reglum KSÍ og FÍFA og er á undanþágu til ársins 2012. Liggur fyrir að þurfi að byggja stækka stúkuna eða byggja nýja. Stuðningsmenn. Opinber stuðningsmannaklúbbur Fylkis heitir Kiddi Tomm og er skírt eftir fyrrum leikmanni Fylkis, Kristinn Tómasson, sem spilaði sem sóknarmaður hjá Fylki allan ferilinn sinn frátalið eitt tímabil með Fram. Stuðningsmannaklúbburinn var stofnaður fyrir tímabilið 2007, Heimsíðan þeirra er fylkismenn.is Blásteinn. Hverfisbarinn heitir Blásteinn. Stuðningsmenn Fylkis hittast þar fyrir leiki hita upp grillið og mynda skemmtilega stemmningu fyrir ungna sem aldna. Eftir leiki liðsins láta leikmenn stundum sjá sig og blanda geði og ræða mál sem brenna á tungum stuðningsmanna. Breiðablik UBK. Breiðablik er íslenskt ungmennafélag sem keppir í dansi, frjálsum íþróttum, karate, knattspyrnu, kraftlyftingum, körfuknattleik, skíðaíþróttum, sundi og taekwondo. Félagið var stofnað 12. febrúar 1950. Knattspyrnulið Breiðabliks í dag er eitt af bestu knattspyrnu klúbbum landsins, liðið hefur náð frábærum árangri síðastliðin ár og árið 2010 varð liðið til dæmis íslandsmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins, árið áður urðu Blikar einnig bikarmeistarar. Umgjörðin sem Breiðablik hefur uppá að bjóða er ein sú langbesta á íslandi í dag enda hefur liðið tvö knattspyrnuhús í kópavogi að velja úr ásamt frábærum grasvöllum um allan Kópavogsbæ. Kópavogsvöllur er einn glæsilegasti völlur landsins en ný stúka var vígð þar fyrir nokkrum árum og er hún með þeim glæsilegri sem sjást hér á landi i dag. Breiðablik er klúbbur á íslandi sem er framúrskrandi í að framleiða efnilega knattspyrnumenn og koma þeim í Atvinnumennsku í Evrópu dæmi um leikmenn í dag sem Breiðablik hefur alið af sér er Alfreð Finnbogasson Leikmaður Heerenven í Hollandi, Jóhann Berg Guðmundsson Leikmaður AZ Alkmar í Hollandi, Guðmundur Kristjánsson leikmaður Start Í Noregi og svo má ekki gleyma stærsta nafninu í Íslenska boltanum í dag Gylfi Sigurðsson Leikmaður Tottenham Hotspur á Englandi. Leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu. Breiðablik Breiðablik Breiðablik Breiðablik Breiðablik Breiðablik Breiðablik Kráku-Hreiðar Ófeigsson. Kráku-Hreiðar Ófeigsson var landnámsmaður í Skagafirði og nam Tungusveit eða hluta hennar. Kráku-Hreiðar nam því neðri hluta Reykjatungu, sem er á milli Svartár að vestan og Héraðsvatna að austan og hafði verið hluti af landnámi Eiríks Hróaldssonar, en óvíst er hvar efri mörkin voru því örnefnið Skálamýri er týnt. Landnámsjörðin Steinsstaðir er neðarlega í Tungunni. Samkvæmt frásögn Landnámu kom Ófeigur faðir Hreiðars með honum til Íslands en hann er þó aldrei talinn landnámsmaður, heldur aðeins sonurjnn. Geld þolmynd. "Spurningar" eru ekki hvorugkyn eintölu, heldur kvenkyn fleirtölu. Rétt er að segja: "Hann svarar öllum spurningum sem fyrir hann eru lagðar". Grein er kvenkyns, því á að standa þarna: "Gerð var grein fyrir því". "Lögin" eru hvorugkyn fleirtölu, því á að standa þarna: "Þeir eiga mörg góð lög sem eru tileinkuð sólinni". Landsbankadeild karla í knattspyrnu 2005. Landsbankadeild karla 2005 var 94. tímabil úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í knattspyrnu á Íslandi. Sigurvegari deildarinnar var FH. Staðan í deildinni. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem luku með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markakóngar. Sá maður sem að skorar flest mörk á tímabilinu hlýtur titilinn "markakóngur". Hann hlýtur einnig gullskó. Knattspyrnufélagið Víkingur. Knattspyrnufélagið Víkingur er knattspyrnulið sem að spilar í 1.Deild Karla 2011. Félagið var stofnað 21. apríl árið 1908. Tenglar. Víkingur Íþrótta- og ungmennafélag Keflavíkur. Íþrótta- og ungmennafélag Keflavíkur er íslenskt íþróttafélag sem er staðsett í Keflavík, sem er hluti Reykjanesbæjar. Félagið keppir í knattspyrnu, körfubolta, sundi, taekwondo, fimleikum, badminton og skotfimi. Tenglar. Keflavík Keflavík Keflavík Keflavík Keflavík Keflavík Keflavík Handknattleiksfélag Kópavogs. Handknattleiksfélag Kópavogs (HK) er íslenskt íþróttafélag frá Kópavogi. Félagið er einna þekktast fyrir lið sín í fótbolta, handbolta og blaki. Liðið komst í fyrsta skipti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu árið 2006. HK lenti í 9. sæti árið 2007 og mun því spila aftur í Landsbankadeildinni árið 2008 Efsta deild karla í knattspyrnu 1913. Árið 1913 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í annað sinn. Fram vann sinn fyrsta titil. Lið Fótboltafélags Reykjavíkur neitaði að skrá sig í mótið vegna deilna sem þá stóðu yfir um Íslandsmótið. Fram og Fótboltafélagið áttu í deilum um það hvenær mótið skyldi haldið. Fram vildi keppa í byrjun júní áður en menntaskólapiltar þeirra dreifðust um landið. Fótboltafélagið vildi keppa í lok júní því þá voru leikmenn liðsins komnir í betri æfingu. Fótboltafélagið var einnig ósátt við að Fram hirti allan ágóða af mótinu. Fram vann því sjálfkrafa. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Efsta deild karla í knattspyrnu 1914. Árið 1914 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í þriðja skipti. Fram vann sinn annan titil. Lið Fótboltafélags Reykjavíkur neitaði að skrá sig í mótið vegna deilna sem þá stóðu yfir um Íslandsmótið. Fram og Fótboltafélagið áttu í deilum um það hvenær mótið skyldi haldið. Fram vildi keppa í byrjun júní áður en menntaskólapiltar þeirra dreifðust um landið. Fótboltafélagið vildi keppa í lok júní því þá voru leikmenn liðsins komnir í betri æfingu. Fótboltafélagið var einnig ósátt við að Fram hirti allan ágóða af mótinu. Hér varð Fram titilhæsta lið landsins og hélt þeim titli til ársins 1952. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Bob Moran. Bob Moran í túlkun Vance Róbert „Bob“ Moran. Frakki sem barðist sem sjálfboðaliði í Breska flughernum RAF í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið ferðast hann um heiminn sem sjálfstætt starfandi blaða- og ævintýramaður. Bob er hár og sterklega vaxinn, er liðtækur í ýmsum bardagaíþróttum og kann að beita margs konar vopnum. Hann talar mörg tungumál reiprennandi og í upphafi margra bóka er hann staddur á framandi stöðum. Býr í íbúð við Voltaire-götu í París. Bob á einnig höll í Feneyjum og miðaldakastala í Dardogne héraði í Frakklandi. Hann ekur um á Jaguar. Bill Ballantine. William „Bill“ Ballantine. Besti vinur Bobs. Bill er Skoti, rauðhærður, tveir metrar á hæð og heljarmenni að vexti. Hann var vélvirki í breska flughernum og vann við flugvél Bob Morans. Býr á Skotlandi og ræktar hænsni. Á einnig íbúð í London. Drekkur viskí með þjóðarstolti. Bill kemur fyrir í bókum 1, 5, 9, 10, 11, 12, 14, 16, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26 og 27 Prófessor Aristide Clairembart. Prófessor Aristide Clairembart er lágvaxinn öldungur, framúrskarandi ern með geithafursskegg og tindrandi augu sem skinu skært undir þykkum gleraugunum í stálumgerð. Hann kemur fyrir í bókum 2, 5, 13, 14, 20, 21, 23, 24 og 25 Frú Durant. Frú Durant er húsvörður í húsi Bob Morans við Voltairegötu. Frank Reeves. Frank flaug sprengjuflugvélum í seinni heimstyrjöldinni fyrir bandaríska flugherinn. Hann er milljónamæringur og vinur Bob Morans. Hann kemur fyrir í bókum 1, 2, 17 og 24 Sir Archibald Baywatter. Archibald er aðalvarðstjóri Scotland Yard. Hann er á sextugsaldri. Hann kemur fyrir í bókum 11, 12, 14, 19, 22, 23, 25 og 27 Jouvert ofursti. Jouvert er yfirmaður í deild 2 í frönsku leyniþjónustunni. Hann kemur fyrir í bókum 8, 18 og 25 Tatjana Orloff. Tatjana „Tanja“ Orloff er systurdóttir Herra Mings, Gula skuggans. Hún er kínverskur blendingur, átti rússneskan föður og kínverska móður. Tanja er tuttugu og tveggja eða þriggja ára, með dökka húð, há kinnbein, svart hár sem sló á bláleitum lit og féll eins og tagl niður á bak. Augu eins og tvær svartar stjörnur. Hún unnir Bob Moran hugástum. Tanja kemur fyrir í bókum 12, 14, 16, 19, 22, 23, 25 og 27 Guli skugginn. Herra Ming, öðru nafni Guli skugginn, er Mongóli og með ofurgreind. Hann er um tveir metrar á hæð klæddur svörtum fötum með prestaflibba. Hann er horaður en með langa og vöðvastælta handleggi og geysistórar hendur en sú hægri er gervihendi úr stáli með fínni plasthúð í sama lit og hörundið. Hann er með kringlótt andlit, gult á lit með ofurlítinni grænni slikju, með nauðrökuðum skalla og flatt nef sem skagaði fram á milli framstæðra kinnbeina. Munnurinn varaþunnur og sterkar, hvassar tennur. Augun ómennsk, undir skásettum brúnum minntu þau á svo gullmola eða tvo ógegnsæja tópassteina. Herra Ming stefnir á að leggja vestræna menningu í rúst svo allir menn geti lifað í friðsæld í þessum fagra blómagarði sem plánetan er. Hann beitir margvíslegum brögðum til að ná fram áætlun sinni, launmorð og hryðjuverk auk margra flókinna áætlana. Hefur uppgötvað leyndarmálið um eilíft líf, klónum manna og tímaflakk. Hann er með flokk launmorðinga á sínum snærum, dakóíta vopnuðum rýtingum. Herra Ming stjórnar samtökunum „Gamla Asía“. Hann kemur fyrir í bókum 12, 14, 16, 19, 22, 23, 25, 27 og 28 Roman Orgonetz. Roman Orgonetz, einnig þekktur sem Artúr Greenstreet eða „Maðurinn með gulltennurnar“ er leigunjósnari í þjónustu árásarveldanna, samviskulaus og djöfullega slægur. Hann er stór, herðabreiður, þungur og „með frámunalega andstyggilegt andlit, sem að lit og þéttleika minnti einna helzt á hlaup með stórum ljósrauðum kufungi í miðjun, sem átti að heita nef, útstandandi, sljó augu og þykkar opnar varir, svo skein í logagylltan tanngarðinn, og yfir þessu öllu skalli, jafnfægður og marmarakúla.“ Hann kemur fyrir í bókum 8 og 11. Bækur. Bækur um Bob Moran voru gefnar út af Prentsmiðjunni Leiftri hf. í íslenskri þýðingu. (Innan sviga er upprunalegt heiti, útgefandi og útgáfuár). Magnús Jochumsson þýddi flestar sögurnar. Kápumyndir eru eftir Pierre Joubert. Efsta deild karla í knattspyrnu 1915. Árið 1915 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í fjórða skipti. Fram vann sinn þriðja titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram og Valur. Valur tók þátt í fyrsta sinn þetta ár, en Valsmenn kepptu þó sem gestir, þar sem félagið hafði enn ekki gengið í ÍBR. Leikir liðsins hefðu því aldrei komið til með að ráða úrslitum. Leikið var frá sjötta til þrettánda júní. Framarar og KR-ingar unnu sigra á reynslulitlum Valsmönnum í fyrstu tveimur leikjum mótsins og mættust því næst í hreinum úrslitaleik. Þar höfðu Framarar betur í æsispennandi viðureign, 5:4. KR-ingurinn Ludvik Einarsson skoraði fjögur mörk í einum og sama leiknum gegn Val og varð markakóngur í mótinu með sex mörk alls. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Markahæstu menn. 17 mörk voru skoruð og gerir það 5,66 mörk í leik að meðaltali. Efsta deild karla í knattspyrnu 1916. Árið 1916 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í fimmta skipti. Fram vann sinn fjórða titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram og Valur. Úrslit mótsins. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum 13 mörk voru skoruð og gerir það 4,33 mörk í leik að meðaltali. Framarar fögnuðu sigri á Íslandsmótinu eftir jafntefli gegn KR í lokaleik, enda efstir á stigum. KR-ingar mótmæltu og þegar farið var að rýna í reglurnar kom í ljós að sú krafa var gerð að sigurvegari á mótinu yrði að vinna í það minnsta tvo leiki. Því var efnt til aukaleiks milli Fram og KR. Efsta deild karla í knattspyrnu 1917. Árið 1917 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í sjötta skipti. Fram vann sinn fimmta titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram og Valur. Úrslit mótsins. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Lýsing. Lýsingu af úrslitaleik KR og Fram á þessu Íslandsmóti má finna, í Morgunblaðinu 27. júní 1917. 15 mörk voru skoruð og gerir það 5 mörk í leik að meðaltali. Efsta deild karla í knattspyrnu 1918. Árið 1918 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í sjöunda skipti. Fram vann sinn sjötta titil í röð. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. Víkingur tók þátt í fyrsta skipti og endaði í öðru sæti. Úrslti mótsins. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Efsta deild karla í knattspyrnu 1919. Árið 1919 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í áttunda skipti. KR vann sinn annan titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. Lokastaða á mótinu. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Efsta deild karla í knattspyrnu 1920. Árið 1920 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í níunda skipti. Víkingur vann sinn fyrsta titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur. Valur tók ekki þátt þetta ár. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Skoruð voru 17 mörk, eða 5,66 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1921. Árið 1921 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 10. skipti. Fram vann sinn sjöunda titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Skoruð voru 16 mörk, eða 5,33 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1922. Árið 1922 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 11. skipti. Fram vann sinn áttunda titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Skoruð voru 12 mörk, eða 4 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1923. Árið 1923 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 12. skipti. Fram vann sinn níunda titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Skoruð voru 25 mörk, eða 4,166 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1924. Árið 1924 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 13. skipti. Víkingur vann sinn 2. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. Víkingar unnu mótið, en þurftu svo að bíða í 57 ár eftir næsta titli, sem kom árið 1981. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Skoruð voru 24 mörk, eða 4 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1925. Árið 1925 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 14. skipti. Fram vann sinn 10. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru spilaðir á Íþróttavellinum á Melunum Skoruð voru 19 mörk, eða 3,167 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1926. Árið 1926 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 15. skipti. KR vann sinn 3. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, Valur og ÍBV. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" "Allir leikirnir voru spilaðir á Melavellinum Skoruð voru 50 mörk, eða 5,00 mörk að meðaltali í leik. Umspil: KR 20px 8 - 2 20px Fram Efsta deild karla í knattspyrnu 1927. Árið 1927 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 16. skipti. KR vann sinn 4. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 21 mörk, eða 3,50 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1928. Árið 1928 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 17. skipti. KR vann sinn 5. titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 15 mörk, eða 5,00 mörk að meðaltali í leik. Bill Hicks. William Melvin Hicks (16. desember 1961 – 26. febrúar 1994), betur þekktur sem Bill Hicks, var umdeildur bandarískur uppistandari, satíristi og samfélagsrýnir. Hann lýsti eigin uppistandi sem: „Chomsky með typpabröndurum“. Tengill. Hicks, Bill Hicks, Bill Efsta deild karla í knattspyrnu 1929. Árið 1929 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 18. skipti. KR vann sinn 6. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Valur, Víkingur, ÍBV og ÍBA. Deildin var með nýju sniði þetta tímabil og féll lið úr keppni eftir að hafa tapað tveimur leikjum. Lýsing. Lýsingu á úrslitaleik KR og Vals má lesa, í Morgunblaðinu 2. júlí 1929 (3. blaðsíðu). Patríarki. Patríarki, er titill biskupa (sem gegna embætti við ákveðinna biskupsstóla) í rómversk-kaþólsku kirkjunni, rétttrúnaðarkirkjunni og austrænu rétttrúnaðarkirkjunum. Uppruni orðsins patríarki er gríska orðið Πατριάρχης, sem er samsett úr πατήρ (pater, það er „faðir“) og αρχων (arkon, það er „leiðtogi“, „höfðingi“, „konungur“). Patríarki var og er ættarhöfðingi ("pater familias") yfir ætt eða fjölskildu. Saga. Íkon með Jóhannesi frá Antiokíu og Gregor frá Nanzianz, sem báðir voru patríarkar í Konstantínópel á 4. öld og dýrlingar í kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni Þegar á 4. öld er farið að nota titillinn "patríarki" sem heiðurstitil á einstaka biskupa. Hugtakið fékk þó fljótlega afmarkaða þýðingu. Kirkjuþingið í Kalkedon 451 veitti biskupunum í Róm, Konstantínópel, Alexandríu, Antiokkíu og Jerúsalem sérstöðu gagnvart öðrum biskupum. Patríarkanum í Konstantínópel var var gefin sérstaða gagnvart hinum fjórum enda var þar höfuðborg ríkisins og aðsetur keisarans. Þessir fimm fóru að titla sig patríarka (nema í Róm þar sem "papa" var notað í staðin). Það var þó ekki fyrr en á stjórnartíma Justinianus I (483 - 565) sem þeir fengu lögsögu og formlega stjórn á hver sínum hluta kirkjunnar. Eftir að klofnaði á milli kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar fengu partíarkar ólík hlutverk í hinum tveimur megin kirkjudeildum. Rómversk-kaþólska kirkjan. Rómversk-kaþólska kirkjan hefur biskup yfir latneska söfnuðinum í Jerúsalem, og ber hann titilinn patríarki. Þar að auki eru nokkrir biskupsstólar á vesturlöndum sem bera heiðurstitilinn patríarki, sá elsti biskupinn í Feneyjum sem var veitt þessi virðing 1451. Kaþólskir patríarkar eru einnig í Vesturindíum (1517), Lissabon (1711) og Indlandi (1886). Þessir patríarkar hafa ekki á neinn hátt neina sjálfstæða stöðu gagnvart páfanum í Róm. Yfirmenn annarra kirkjudeilda en þeirra latnesku sem lúta páfa bera einnig titilinn patríarki (eða katholikos) og hafa í mörgu sjálfstæða stöðu í ýmsum trúaratriðum og helgiathöfnum. Rétttrúnaðarkirkjur. Innan rétttrúnaðarkirkjunnar er að finna fjögur af elstu patríarkaembættunum, í Konstantinópel, Antiokkíu, Alexandríu og Jerúsalem, og ber patríarkinn í Konstantinópel titilinn ökumeníski-patríarkinn. En andstætt páfaveldinu eru hinir patríarkarnir ekki undirmenn þess ökumeníska heldur er hann nefndur fremstur meðal jafningja. Yfirmenn margra þjóðkirknanna innan rétttrúarkirkjunnar bera einnig titlinn og vald patríarka. Elsta embættið er í Búlgaríu sem tilkom 927. Síðan koma Georgía (1010, en þar er titilinn "katholikos-patriark"), Serbía (1379), Rússland (1589) og Rúmenía (1885). Nestoríönsku kirkjurnar hafa patríarka í Jerúsalem og Katholikos Patríark í Babýlon (Bagdad). Googol. Googol er heiti tölunnar 10.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000 sem má einnig tákna sem 10100. Heiti leitarvélarinnar Google má rekja til þess að einhver stafaði googol rangt. En upphaflega hugmyndin var að kalla leitarvélina googolplex sem er heiti tölunnar 1010100 Kristján L. Möller. Kristján Lúðvík Möller (f. 26. júní 1953 á Siglufirði) er fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann hefur verið alþingismaður Samfylkingarinnar síðan 1999. 1999-2003 sat hann á þingi fyrir Norðurland vestra en síðan 2003 fyrir Norðausturkjördæmi. Foreldrar hans eru Helena Sigtryggsdóttir og Jóhann Georg Möller. Kristján er með iðnskólapróf 1971 og íþróttakennarapróf frá 1976. Hann hefur stundað kennslu og starfað að félags- og íþróttamálum. Einar Már Sigurðarson. Einar Már Sigurðarson (f. 29. október 1951 í Reykjavík) er fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar fyrir Norðausturkjördæmi. Foreldrar hans eru Sigurður Guðgeirsson og Guðrún R. Einarsdóttir. Einar Már er giftur Helgu Magneu Steinsson og eiga þau fimm börn: Heiðrún Helga (1971), Jóhann Már (1972), Karl Már (1977), Einar Torfi (1980), Sigurður Steinn (1990). Einar lauk stúdentsprófi 1971, kennaraprófi 1979 og prófi í náms- og starfsráðgjöf 1994. Hann hefur starfað sem kennari, skólastjóri og skólameistari og verið forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands. Hann sat á Alþingi á árunum 1999-2009. Kristján Þór Júlíusson. Kristján Þór Júlíusson (f. 15. júlí 1957 á Dalvík) er heilbrigðisráðherra, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri. Kristján Þór hefur setið á Alþingi frá vorinu 2007 og verið 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 2012. Æviferill. Kristján Þór lauk stúdentsprófi við MA 1977 og prófi í bókmenntafræði og íslensku með uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1984 og tók kennsluréttindapróf HÍ 1984. Einnig hefur hann lokið fyrsta og öðru stigi skipstjórnarnáms. Foreldrar Kristjáns Þórs eru Ragnheiður Sigvaldadóttir og Júlíus Kristjánsson. Eiginkona hans er Guðbjörg Ringsted myndlistarmaður og eiga þau saman fjögur börn, Maríu, Júlíus, Gunnar og Þorstein. Kristján Þór var stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík 1978-1981 og á sumrin 1981-1985, kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík 1981-1986 og kennari við Dalvíkurskóla 1984-1986. Það ár var hann ráðinn bæjarstjóri á Dalvík og gegndi því starfi 1986-1994. Hann var bæjarstjóri á Ísafirði 1994-1997 og á Akureyri 1998-2007. Hann sat jafnframt í bæjarstjórn Akureyrar á árunum 1998-2010 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var forseti bæjarstjórnar 2007-2009. Kristján Þór hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og átt sæti í stjórn margra fyrirtækja og stofnana. Hann sat í stjórn Útgerðarfélags Dalvíkinga hf. 1987-1990, var formaður stjórnar Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1987-1992, sat í stjórn Söltunarfélags Dalvíkur hf. 1987-1993 og stjórn Sæplasts hf. 1988-1994. Hann var í stjórn Togaraútgerðar Ísafjarðar hf. 1996-1997, formaður stjórnar Samherja hf. 1996-1998 og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar 1998-2007. Hann hefur setið í stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands síðan 1999 og sat í stjórn Landsvirkjunar 1999-2007, í stjórn Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999-2000 og í Ferðamálaráði Íslands 1999-2003. Hann var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000-2007, í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000-2007, í stjórn Íslenskra verðbréfa 2002-2009 og í ráðgjafanefnd Tölvuþjónustu sveitarfélaga 1988-1990. Hann sat í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1989-1990 og í Héraðsráði Eyjafjarðar 1990-1994, var formaður stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga 1994-1997, formaður stjórnar Eyþings 1998-2002 og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1998-2007. Kristján var kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi árið 2007 og hefur átt sæti þar síðan. Kristján Þór tók við embætti heilbrigðisráðherra 23. maí 2013. Kristján hefur verið 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 2012. Kristján hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2002 og var formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins 2002-2009. Guggumálið. Frystitogarinn Guðbjörg („nýja Guggann“) kom ný til Ísafjarðar í október 1994 og var þá stærsta og glæsilegasta fiskiskip sem hafði verið smíðað fyrir Íslendinga. Útvegsfyrirtækið Samherji og Hrönn unnu mikið saman á þessum árum og útvegaði Samherji mikið af rækjukvóta á Guðbjörgina. Guðbjörgin var frystitogari og kom afli hennar því lítið til vinnslu á Ísafirði, en hún landaði þar af og til engu að síður. Þessir erfiðleikar leiddu svo til þess að sameining Samherja og Hrannar var ákveðin tveimur árum eftir að skipið kom nýtt til landsins. Þegar sameiningin var rædd sagði Kristján Þór, þáverandi bæjarstjóri Ísafjarðar, meðal annars í Morgunblaðinu: „Mér finnst eðlilegt að forsvarsmenn þessara fyrirtækja geri þær ráðstafanir, sem þeim þykir eðlilegt sjálfum. Þeir eiga þessi fyrirtæki og hafa full umráð yfir þeim. Skoðanir sveitarstjórnarmanna á þessum málum geta verið æði misjafnar, en áhrif bæjarfélaga, þegar þau eiga ekki hlut í viðkomandi fyrirtækjum, eru engin.“ Hann sagði að það lægi í augum uppi að sameining af þessu tagi gæti komið sveitarfélaginu bæði vel og illa, það ylti allt á því hvernig forsvarsmenn þessara fyrirtækja spiluðu úr sínum málum. „Ég er viss um það að eigendur Samherja sem og eigendur Hrannar muni eftir sem áður gera það besta úr kvótanum sem hægt er,“ sagði Kristján Þór. Ísfirðingar voru þó ekki í rónni. Þorsteinn Már Baldvinsson reyndi að sannfæra Ísfirðinga og sagði við sameininguna „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði.“ Þessi orð urðu fleyg. Hann sló einnig á óánægju Ísfirðinga með því að gera Kristján að stjórnarformanni Samherja. Í þetta lásu Ísfirðingar heiðursmannasamkomulag um að þeir gengju fyrir störfum um borð. Það þótti þó bregðast þegar Akureyringur var ráðinn í hið veigamikla starf yfirvélstjóra um borð. Guðbjörgin kom auk þess ekki til Ísafjarðar eftir sameininguna. Hún var eftir þetta við veiðar á Flæmska hattinum, meðal annars á pólskum veiðiheimildum, þar til hún var leigð til þýskrar útgerðar um haustið og loks seld til þýska útgerðafélagsins DFFU, sem er reyndar í eigu Samherja, árið 1999. Maðurinn með gulltennurnar. "Maðurinn með gulltennurnar" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Leyndardómsfullur og hættulegur njósnari er kominn til Lundúna. Hann gengur undir mörgum nöfnum, en menn kannast einkum við eitt þeirra, en það er: Maðurinn með gulltennurnar. Hvaða erindi myndi hann eiga til Englands? Brezka leyniþjónustan veit ekkert. Hún er samt ákveðin í að taka til starfa og fær frá Washington upplýsingar um, að þetta sé gamall fjandmaður samveldisins. Þá er það ráð tekið, að leita til Bob Morans yfirforingja, sem þekkir þennan náunga og háttalag hans betur en nokkur annar, enda hafði hann kynnzt honum þó nokkuð. Og þarna er nú Bob kominn í harðvítuga baráttu við hinn gamla þrjót og mótstöðumann sinn, Ramon Orgonetz, öðru nafni Arthur Greenstreet eða manninn með gulltennurnar. Í Lundúnaþokunni og dimmviðrinu á Suðureyjum þarf nú Bob Moran að berjast við heilan her af skuggum. En það eru skuggar, sem kunna að berja frá sér á hinn grimmilegasta hátt undir forystu Ramons Orgonetzar. Heppnast Bob að vinna bug á þessu illþýði? Bob lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. En Orgonetz er nú líka maður, sem býr yfir mörgu harðsnúnu og vel skipulögðu illræðinu. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Sir Archibald Baywater, Roman Orgonetz (Artúr Greenstreet), Son Sao, Fan Lí, Ludmilla Suei, Mína Leutner Arnbjörg Sveinsdóttir. Arnbjörg Sveinsdóttir (f. 18. febrúar 1956 í Reykjavík) var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2005-2009 og alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi 2004 - 2009. Arnbjörg átti áður sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Austfjarðakjördæmi 1995 - 2003. Foreldrar hennar eru Guðrún Björnsdóttir og Sveinn Már Guðmundsson. Maður hennar er Garðar Rúnar Sigurgeirsson og eiga þau tvö börn. Arnbjörg lauk stúdentsprófi árið 1976 og stundaði laganám við Háskóla Íslands á árunum 1980-1982. Hún sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1986-1998 og var forseti bæjarstjórnar 1994-1996. Hún sat í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, formaður árin 1991-1992 og var á sama tíma formaður landshlutasamtaka sveitarfélaga. Fyrir þingmennsku vann Arnbjörg við skrifstofustörf hjá Fiskvinnslunni hf. og Gullbergi hf. 1983-1990 og var skrifstofu- og fjármálastjóri Fiskiðjunnar Dvergasteins hf. 1990-1995. Hermenn Gula skuggans. "Hermenn Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Hverjir eru þessir óhugnanlegu hermenn Gula Skuggans, sem láta sér hvorki bregða við sár né bana og att er út í ófrið við alla veröldi, og helst er útlit fyrir, að þeir í grimmdaræði sínu ætli að gereyða öllu kviku? Það er í ís og helkulda Norðuríshafsins, að Bob Moran og vinur hans Bill Ballantine upptötva hið ótrúlega upphaf þessara undravera, eins konar gervimanna, sem Guli skugginn er farinn að framleiða eins og á færibandi. Þetta eru leikföng hans, sem ætla er það göfuga hlutverk að útrýma með öllu vestrænni menningu og þar með gersigra heiminn. En Bob þekkir Gula skuggann og vélræði hans, og veit að nú er sá máttugi herra Ming farinn að leika sér á ný. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Sir Archibald Baywater, Herra Ming (Guli skugginn), Tanía Orloff, Lingli Krímstríðið. Bardaginn við Sinope eftir rússneska málarann Ivan Aivazovsky. Krímstríðið var stríð sem var háð á árunum 1853—1856 (október 1853 til febrúar 1856). Í því börðust bandalag á milli ríkja Ottóman-tyrkja, Breta, Sardiníu og Frakka gegn útþenslu Rússa við Svartahaf. Mest var barist á Krímskaganum en einnig í Búlgaríu, Rúmeníu, við Eystrasaltið og í Tyrklandi. Krímstríðið er álitið fyrsta nútímastríðið og er talið að nýlegar tæknilegar nýjungar hafi verið prófaðar í því. Eftir stríðið varð Balkanskaginn þrætuepli, síðan þá hefur órói endurtekið einkennt svæðið. Á meðan stríðinu stóð vann Florence Nightingale við hjúkrun og lækkaði þá dánartíðni særðra manna og hlaut góðan orðstír af. Í framhaldinu af stríðinu aflétti Alexander II. Rússakeisari bændaánauð 1861, iðnaður jókst og samgöngur voru bættar. Ríkisstjórn Rússlands harðnaði aftur eftir að keisarinn var myrtur 1881. Köngulóarmaðurinn 2. "Köngulóarmaðurinn 2" (eða "Spider-Man 2") er framhaldið af Köngulóarmanninum, sem var byggð á samnefndum teiknimyndasögum úr Marvel-myndasöguheiminum, og var frumsýnd í Bandaríkjunum 30. júní. Myndin er sem fyrr framleidd af Marvel og Sony Pictures. Sam Raimi situr á ný við leikstjórastólinn og Tobey Maguire, Kirsten Dunst, James Franco, Rosemary Harris og J.K. Simmons taka aftur upp hlutverk sín. Alfred Molina og Dylan Baker koma nýir í leikarahópinn. Söguþráður. Tvö ár eru liðin frá því að fyrstu myndinni lauk og Peter Parker (Maguire) á erfiðum að lifa sínu tvöfalda lífi sem Köngulóarmaðurinn og venjulegur nemandi/ljósmyndari sem er sífellt rekinn úr störfum því hann kemur alltaf of seint. Dr. Curt Connors (Dylan Baker), kennari Peters, hefur áhyggjur af einkunnum og mætingu Peters og óttast að hann falli. Peter á líka í erfiðum með að hitta vini sína Mary Jane Watson (Dunst), sem er leikkona á Broadway, og Harry Osborn (Franco), sem hefur tekið við fyrirtæki föður síns. Auk þess eru Harry og Peter ekki á vingjarnlegum skilmálum núna því að hann telur Köngulóarmanninn hafa drepið föður sinn (sem var illmennið Græni Púkinn en Haryy vissi það ekki) og að Peter sé að hilma yfir honum. May frænka (Rosemary Harris) á vandræðum með leiguna. J. Jonah Jameson (Simmons) heldur áfram að koma óorði á Köngulóarmanninn. Harry bíður Peter að tala við átrúnaðargoð hans, Dr. Otto Octavius(Alfred Molina). Harry er fjármagna tilraun Octaviusar. Peter þyggur það þar sem hann á að gera ritgerð um Octavius fyrir skólann. Octavius (sem er góðvinur dr. Connors) líkar vel við Peter og tala þeir tímunum saman um kjarneðlisfræði og nýju uppfinninguna hans. Otto biður Peter að koma á sýninguna á uppfinningunni næsta dag. Þar sýnir Octavius að uppfinningin eru fjórir vélarmar sem festast við mæna Octavius svo hann geti stjórnað þeim. Armarnir eru ónæmir hita og segulafli og nýtir hann þá við kjarnasamruna á þrívetni. Armarnir eru einnig með mikla gervigreind og notar Otto hömlunarkubb til að hindra það armarnir stjórni honum. Tilraunin byrjar að ganga vel þar til segulaflið verður of mikið og allir hlutir í bygginguni byrja fljúga í áttina að "þrívetnissólinni". Peter sem Köngulóarmaðurinn tekst að taka kjarnasamrunaapparatið en hömlunarkubbur Ottos eyðilegst og eiginkonan hans (Donna Murphy) deyr. Harry verður næstum gjaldþrota. Stuttu seinna ná armarnir stjórn á honum og sannfæra hann að byggja aftur vélina. Hann vantar peninga og sannfæra armarnir hann að stela þeim. Hann fer í banka þar sem Peter er staddur með frænku sinni og hleypur Peter út og fer í búninginn sinn og reynir að stöðva Otto. Otto rænir May en Peter sem Köngulóarmaðurinn bjargar henni og May skiptir þá um skoðun á Köngulóarmanninum og sér að hann er hetja. Otto kemst burt með peningana og verður kallaður Dr. Kolkrabbi. Samband Peters og Mary Jane fer að versna og er hún vonsvikinn því að hann hefur aldrei séð leikritið sem hún er í. Hún trúlofast seinna geimfaranum John Jameson, syni J. Jonah Jameson. Þetta veldur Peter mikilli ástarsorg og ásamt því að hann er að missa köngulóarkrafta sína. Peter gefst því upp á að vera Köngulóarmaðurinn. Allt virðist ganga Peter haginn: hann sér leikritið hennar Mary Jane; honum tekst að mæta í skólann og halda stöðugri vinnu. Harry er að ganga af göflunum að finna Köngulóarmanninn og fær heimsókn frá Octaviusi sem heimtar þrívetni fyrir tilraunina sína. Harry segist gefa honum þrívetnið ef hann færi honum Köngulóarmanninn lifandi. Hann segir honum að leita að Parker því hann ku vita hvar Köngulóarmaðurinn er. Mary Jane er með bakþanka um brúðkaup sitt og biður Peter að hitta sig. Á þeim fundi ´vill hún vera viss hvort hann elski hana. En Octavius brýst inn og rænir Mary Jane og segir Peter að finna Köngulóarmanninn. Eftir að Octavius fer fær Peter kraftana sína aftur og mætir Otto sem Köngulóarmaðurinn. Þeir berjast fyrst uppi á klukkuturni og falla síðan niður á lest. Otto eyðileggur bremsur lestarinnar og neyðir Köngulóarmanninn að stöðva lestina. Honum tekst það en verður svo örmagna að það verður létt fyrir Otto að færa Harry hann. Eftir að Otto færir Harry Köngulóarmanninn og tekur þrívetnið ætlar Harry að drepa Köngulóarmanninn og tekur af honum grímuna en bregður svo við þegar hann sér að þetta er Peter. Peter sannfærir Harry að segja sér hvar Otto er. Peter kemst þangað, en kjarnasamrunaapparatið er þegar komið í gang. Hann berst við Otto og tekur apparatið úr sambandi en ekkert gerist. Hann tekur af sér grímuna til koma vitinu fyrir Otto og sannfærir hann að farga vélinni. En eina leiðin er drekkja henni í ánni svo að Otto notar vélarmanna til að brjóta stoðirnar og deyr með vélinni. Mary Jane sér Peter án grímunnar og hann bjargar henni. Á sama tíma sér Harry föður sinn heitinn (Willem Dafoe) sem biður hann að hefna sín og drepa Peter. Harry neitar og kastar hníf í áttina að honum en býtur þá spegil. Handan spegilsins finnur Harry bæli Græna Púkans ásamt styrkbreytiformúlunni og vopnunum... Í brúðkaupi Mary Jane og Johns Jameson, skilur Mary Jane John eftir við altarið og fer til Peters, segir honum að sé ásfanginn af honum og treystir sér að taka áhættuna að vera kærasta Köngulóarmannsins. Myndin endar með Mary Jane að horfa á eftir Peter sveifla sér um að bjarga fólki... Pilsnerfylgi. Pilsnerfylgi er það nefnt óformlega þegar fylgi stjórnmálaflokks er á milli 2-3 prósenta, eða álíka og áfengisstyrkleiki pilsners sem er um 2,25%. Helgi og hljóðfæraleikararnir. Helgi og hljóðfæraleikararnir er hljómsveit úr Eyjafjarðarsveit. Upphaf sveitarinnar má rekja til ársins 1987 þegar að elstu meðlimir hennar voru á lokaárum grunnskólaferils síns. Meðlimir sveitarinnar eru þau Helgi Þórsson söngvari, Brynjólfur Brynjólfsson bassaleikari, Atli Rúnarsson trommuleikari, Bergsveinn Þórsson gítarleikari, Gunnur Ýr Stefánsdóttir flautuleikari og Hjálmar Brynjólfsson gítarleikari, "búsúkí"-leikari og harmonikkuleikari. Árið 1990 gaf hljómsveitin út rokkóperuna Landnám sem að tekin var upp á einu bretti og á henni má heyra leikið á blokkflautu í bland við hefðbundnari hljóðfæri. Sú útgáfa var þó að sögn meðlima einungis undirbúningur fyrir næsta disk, sem svo loks kom út árið 1992. Það var geisladiskur sem að hlaut nafngiftina "Helgi og hljóðfæraleikararnir". Í dagblaðinu Degi var diskurinn valinn einn af tíu bestu diskum ársins 1992. Stuttu eftir útgáfu disksins lagði hljómsveitin upp laupana. Eftir að hafa verið sundurslitin í nokkur ár kom þó hljómsveitin saman á ný árið 1998. Bætti hljómsveitin þá við sig fiðlu- og flautuleikurum og hóf að leika ótt og títt á tónleikum um land allt. Stuttu eftir endurfundi hljómsveitarinnar gaf hún út disk sem nefndist "Endanleg hamingja" og hefur hún verið mjög virk við tónleikahald og plötuútgáfu síðan. Höskuldur Þórhallsson. Höskuldur Þór Þórhallsson (f. 8. maí 1973) er lögfræðingur frá Akureyri og 6. þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var kosinn í þriðja sæti á framboðslista á kjördæmisþingi flokksins 13. janúar 2007 og var kjörinn á þing í kosningunum í maí sama ár. Þann 23. febrúar 2009 myndaði Höskuldur meirihluta í viðskiptanefnd Alþingis ásamt Sjálfstæðismönnum og kom í veg fyrir afgreiðslu frumvarps um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Höskuldur skipaði 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í alþingiskosningunum 25. apríl 2009 Í júní 2012 var Höskuldur sviptur ökuréttindum eftir að hafa ekið ölvaður. Hann kvaðst ekki muna hve mikið hann hefði drukkið þegar hann var stöðvaður af lögreglunni. Jón Bjarnason. Jón Bjarnason (f. 1943) er leiðtogi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðvesturkjördæmi og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hann er búfræðingur að mennt og hefur meðal annars starfað sem bóndi og skólastjóri Bændaskólans á Hólum. Jón var kjörinn á þing fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð 1999 og endurkjörinn 2003 og 2007 og 2009. Jón var þingflokksformaður VG frá febrúar til maí 2009. Jón var eini ráðherrann sem greiddi atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um aðilarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Álfheiður Ingadóttir. Álfheiður Ingadóttir (f. 1951) er íslenskur stjórnmálamaður og hefur setið á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð frá árinu 2007 en hafði áður verið varaþingmaður. Álfheiður var heilbrigðisráðherra í tæpt ár, 2009-2010. Árni Þór Sigurðsson. Árni Þór Sigurðsson (f. 1960 í Reykjavík) er íslenskur stjórnmálamaður og alþingismaður. Árni Þór lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Hamrahlíð 1979 og cand.mag. prófi í hagfræði og málvísindum frá Oslóarháskóla 1986. Hann stundaði framhaldsnám í slavneskum málum við háskólana í Stokkhólmi og Moskvu. Auk þess hefur Árni Þór stundað nám í ensku við King‘s College í Bournemouth á Englandi, í rússnesku við Extra Class í Pétursborg í Rússlandi og í opinberri stjórnsýslu og alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Árni Þór ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigurður Kristófer Árnason skipstjóri og Þorbjörg Friðriksdóttir hjúkrunarkennari (bæði látin). Eiginkona Árna Þórs er Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingi og eiga þau þrjú börn. Störf. Árni Þór starfaði sem leiðsögumaður í Rússlandi um tíma, var fréttaritari við Ríkisútvarpið þar í landi og á fréttastofu RÚV. Þá var hann deildarstjóri í samgönguráðuneytinu og ritstjórnarfulltrúi á Þjóðviljanum og Helgarblaðinu. Á árunum 1992-1997 starfaði hann við kjara- og félagsmál hjá Kennarasambandi Íslands. Í sveitarstjórn. Árni Þór hefur starfað í sveitarstjórnarmálum sem borgarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í Reykjavík hefur hann stýrt málaflokkum eins og hafnamálum, leikskólamálum, skipulagmálum og umhverfis- og samgöngumálum. Þá var hann forseti borgarstjórnar 2002-2005. Árni Þór sat í stjórn Hafnasambands Íslands 1994-2004, þar af sem formaður frá 1997 og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1999-2007, meðal annars sem varaformaður. Þá hefur hann reynslu af alþjóðasamstarfi á sviði sveitarstjórnarmála. Á Alþingi. Árni Þór var kjörinn alþingismaður í Alþingiskosningunum 12. maí 2007 og er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hann átti sæti í og Alþingis og einnig í. Í kosningunum 2009 var hann endurkjörinn sem þingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi norður. Á kjörtímabilinu 2009-2013 hefur Árni Þór verið formaður, átt sæti í allsherjarnefnd, menntamálanefnd, félagsmálanefnd, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Þá hefur hann átt sæti í, þar af sem formaður frá 2009, á sæti í, var m.a. formaður mennta- og menningarmálanefndar ráðsins 2012 og sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2009. Árni Þór er formaður. Árni Þór hefur verið virkur í alþjóðastarfi, bæði á sveitarstjórnarstigi og á vegum Alþingis. Hann átti sæti í, var fulltrúi íslenskra sveitarfélaga á, sat þing árin 1994 - 2006 og var í stjórn. Þá starfaði hann um skeið sem verkefnisstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel. Atli Gíslason. Atli Gíslason var íslenskur stjórnmálamaður og er fyrrum Alþingismaður. Hann lærði lögfræði við Háskóla Íslands, fór svo í framhaldsnám í Osló og í Kaupmannahöfn. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1979 og hæstaréttarlögmaður tíu árum síðar. 21. mars 2011 sagði Atli sig úr þingflokki Vinstri grænna vegna foringjaræðis á Alþingi. Maki Atla er Rannveig Sigurðardóttir, tjónafulltrúi. Hann á sjálfur þrjú börn, Jón Bjarna, Gísla Hrafn og Friðrik, og eina fósturdóttur, Guðrúnu Ernu. Þuríður Backman. Þuríður Backman er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó þar uns hún fluttist með fjölskyldu sinni til Egilsstaða. Þuríður lauk námi við Hjúkrunarskóla Íslands, stundaði nám við Nýja hjúkrunarskólann og Norræna lýðheilsuháskólann. Vann við hjúkrun á Borgarspítalanum, heilsugæslunni í Reykjavík og á sjúkrahúsi og heilsugæslu á Egilsstöðum. Vann um nokkur ár sem fræðslufulltrúi Krabbameinsfélags Íslands á Austurlandi og sinnti tóbaksvörnum bæði í skólum og með námskeiðahaldi. Þuríður hefur tekið þátt í pólitískum störfum allt frá því að hún var á lista Alþýðubandalagsins í Reykjavík til Alþingis árið 1978. Eftir að hún flutti austur á Hérað varð hún varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið árið 1991 og tók árlega sæti fyrir þann flokk á árunum 1992 til 1997 og sem óháður þingmaður 1998. Hún tók einnig þátt í bæjarmálapólitíkinni bæði í Reykjavík og á Egilsstöðum. Tók sæti í bæjarstjórn Egilsstaða 1990-98 og var forseti bæjarstjórnar síðara kjörtímabilið. Var stofnfélagi í Vinstrihreyfingunni grænu framboði 1999 og hefur setið á Alþingi síðan. Hún leiddi lista hreyfingarinnar i Austurlandskjördæmi það ár, var í 2. sæti við nýja kjördæmaskipan 2003 og er það einnig í komandi kosningum. Þuríður er gift Birni Kristleifssyni arkitekt, hún á 3 börn, Ragnheiði, Kristleif og Þorbjörn. Ömmustelpurnar eru dætur Ragnheiðar, Tinna Björk og Hildur Sif og Ronja Þuríður dóttir Kristleifs. Foreldrar Þuríðar eru Ernst Backman íþróttakennari og Ragnheiður Jónsdóttir sjúkraliði. Queen. Queen var bresk rokkhljómsveit sem kom fram á sjónarsviðið 1970. Hún var stofnuð af Freddie Mercury söngvara sveitarinnar, Roger Taylor trommuleikara og Brian May gítarleikara í London sama ár. Félagarnir fengu ýmsa bassaleikara til liðs við sig áður en John Deacon var ráðinn bassaleikari sveitarinnar 1971. Hljómsveitin var með allra vinsælustu rokk-hljómsveitunum á áttunda og níunda áratugnum og frá henni hafa komið heimsþekkt lög á borð við „Bohemian Rhapsody“, „We Will Rock You“ og „Killer Queen“. Lag þeirra Bohemian Rhapsody sem var gefið út á plötunni "A Night at the Opera" árið 1975 var kosið vinsælasta lag allra tíma árið 2007. Queen hefur löngum verið talið ein besta rokk-hljómsveitin á sviði og er þáttur þeirra í Live Aid-tónleikunum árið 1985 oft talinn vera besta sviðsframkoma rokksögunnar. Meðlimir. Af þeim eru aðeins Brian May og Roger Taylor eftir, því að John Deacon er hættur og Freddie Mercury lést árið 1991 af völdum alnæmis. Austrænar rétttrúnaðarkirkjur. Með hugtakinu "austrænu rétttrúnaðarkirkjurnar" er átt við þær kirkjudeildir sem einungis viðurkenna fyrstu þrjú ökumenísku kirkjuþingin — Fyrsta Níkeu-þingið, Fyrsta þingið í Konstantínópel og þingið í Efesos. Kirkjudeildirnar afneita einnig þeim trúarsetningum sem samþykktar voru við kirkjuþingið í Kalkedon 451. Þessar kirkjudeildir eru einnig nefndar fornu austurkirkjurnar. Þrátt fyrir að nöfnin sér snarlík eru austrænu rétttrúnaðarkirkjurnar algjörlega aðskildar frá þeim rétttrúnaðarkirkjum sem oft eru nefndar á íslensku gríska og rússneska kirkjan. Koptiska dómkirkjan í Aswan í Egyptalandi, kennd við heilagan Mikael Litið er á koptísku rétttrúnaðarkirkjuna í Alexandríu og páfa og patríarka þeirrar kirkju sem andlegan leiðtoga annarra austrænna rétttrúnaðarkirkna. Páfi og patríarki koptísku kirkjunnar hefur þó á engan hátt vald yfir hinum kirkjudeildunum, hvorki í andlegum né veraldlegu efnum. Saga. Klofningur austrænu rétttrúnaðarkirknanna frá því sem seinna varð kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjurnar í Grikklandi og slavnesku löndunum átti sér stað á 5. öld. Dioscorus páfi, patríarkinn í Alexandríu, neitaði að gangast undir þær samþykktir kirkjuþingsins í Kalkedon um eðli Jesús sem sögðu um að hann hafði tvö eðli - guðlegt og mannlegt. Dioscorus og fylgismenn hans álitu þetta vera guðlast og nánast nestoríanisma. Austrænu kirkjurnar eru því oft kallaðar „Eineðliskirkjur“, þar sem þær álíta að eðli Jesú hafi einungis verið eitt, guðlegt og mannlegt í einu. Kalkedon samþykktin segir eðli Jesú hafi verið tvö, guðlegt og mannlegt samtímis. Þó deilurnar um eðli Krists hafi skipt miklu máli réði einnig deilur um stjórnmál og kirkjulegt skipulag og stjórnum miklu máli við klofninginn. Það var þó ekki fyrr en 518 að keisari Justianus I skipaði svo um, að óskum patríarkans í Róm, að allir prestar og biskupar kirkjunnar játuðust undir samþykktir Kalkedon-þingsins og yrðu annars bannfærðir. Frá 525 hófu rómversk yfirvöld og kirkjudeildir sem þeim fylgdu að ofsækja alla þó sem ekki gengust undir þetta. Þessum ofsóknum á hendur austrænu kirkjunum lauk ekki fyrr en íslam hafði lagt undir sig að mestu þau lönd þar sem þær störfuðu í. Frá öðru Vatíkan-þinginu á sjöunda áratug 20. aldar hefur samband austrænu kirknanna við kaþólsku kirkjuna batnað mjög. Útbreiðsla. Austrænu kirkjurnar hafa víða útbreiðslu, sérlega í Asíu og Afríku. Í Armeníu aðhyllast 94% íbúanna kirkjuna og 51% í Eþíópíu (kristnir menn eru þar 62% af íbúum). Í Eritreu er hún jafn stór og íslam með 50% íbúa. Í Egyptalandi tilheyrir minnihluti þessari kirkju (15%), í Súdan (3-5% prósentueiningar af þeim 15% sem eru kristnir í landinu) og í Sýrlandi (2-3% prósentueiningar af þeim 10% sem eru kristnir í landinu). Kirkjudeildin er einnig fjölmenn í Kerala á Indlandi (8% prósentueiningar af þeim 23% sem eru kristnir í landinu). Assýríska austurkirkjan. Assýríska austurkirkjan er stundum flokkuð með austrænu rétttrúnaðarkirkjunum þó það sé alls ekki rétt. Kirkjan starfaði aðallega í Persíu og sagði skipulagslega skilið við kirkjuna í Rómaveldi um ár 400 og rauf allt samstarf eftir kirkjuþingið í Efesos 431. Assýríska austurkirkjan fylgir kenningum Nestoríana sem er algjörlega hafnað af austrænu rétttrúnaðarkirkjunum. Norræna vinstri-græna bandalagið. Norræna vinstri-græna bandalagið var stofnað í Reykjavík 1. febrúar 2004 og er bandalag fimm vinstri-grænna flokka á Norðurlöndum. NVGB stendur fyrir fundum a.m.k. einu sinni á ári þar sem formenn og framkvæmdastjórar flokkanna skiptast á skoðunum og reynslu, hafa samstarf um alþjóðleg tengsl og fjalla um sérstök efni sem varða þróun hvers flokks fyrir sig. Stjórnmálastefnur á Íslandi. Jafnaðarstefna á Íslandi. Þorsteinn Erlingsson skáld var einn fyrsti yfirlýsti jafnaðarmaðurinn á Íslandi, og sýndi Jón Trausti litla spádómsgáfu, þegar hann kvað jafnaðarstefnuna hérlendis sennilega fara í gröfina með Þorsteini 1914. Ólafur Friðriksson hafði kynnst hugsjónum jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og kynnti þær, eftir að hann sneri heim til Íslands. Hann var lengi ritstjóri "Alþýðublaðsins" og í forystu hinna róttækari manna Alþýðuflokksins. Hann skrifaði ritgerðina „Jafnaðarstefnuna“ í "Eimreiðina" 1926. Rithöfundarnir Þórbergur Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness sneru þó sennilega fleiri til jafnaðarstefnu en nokkrir blaða- eða stjórnmálamenn í tveimur vel skrifuðum bókum, Þórbergur í "Bréfi til Láru" (1924) og Laxness í "Alþýðubókinni" (1929), sem hann færði sérstaklega jafnaðarmönnum á Íslandi að gjöf. Eftir klofning Alþýðuflokksins 1930 létu kommúnistar meira að sér kveða í fræðilegri kynningu en lýðræðisjafnaðarmenn, en sú venja myndaðist smám saman að nota orðið „jafnaðarstefnu“ aðallega um lýðræðisjafnaðarstefnu, en „félagshyggju“ um sósíalisma í víðari skilningi. Var Gylfi Þ. Gíslason ötulastur við að setja sjónarmið jafnaðarmanna á blað, til dæmis í ritinu "Jafnaðarstefnunni" 1949 og í endurskoðaðri útgáfu þess 1977. Brynjólfur Bjarnason skrifaði hins vegar margt um sameignarstefnu í anda þeirra Marx og Leníns. Þegar talað er um jafnaðarstefnu á Íslandi í byrjun 21. aldar, er nær alltaf átt við frjálslynda lýðræðisjafnaðarstefnu, sem hefur fyrir löngu sagt skilið við kenningar Marx. Raunar horfa íslenskir jafnaðarmenn sérstaklega til bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem getur alls ekki talist sósíalisti í hefðbundnum skilningi orðsins, en hann setti fram hugmyndir um réttláta skipan mála, þar sem reynt vær að búa svo í haginn fyrir lítilmagnann sem auðið væri án þess að skerða frelsi annarra, í "A Theory of Justice" (1971). Kommúnismi á Íslandi. Kreppan mikla hvatti kommúnista hvarvetna til dáða. Þeir gátu bent á augljósa bresti í efnahagskerfi Vesturlanda og vísað á Sovétríkin sem fyrirmynd. Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, laut forræði valdamanna í Moskvu og lagði línur fyrir starf kommúnista um allan heim. Eftir að Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður varð hann deild í Komintern og grundvallaratriði stefnu hans voru mótuð af leiðtogum þess og sóvéska kommúnistaflokksins. Þaðan kom fjárstuðnigur til styrktar flokksstarfinu hér á landi. Sovétmenn styrktu einnig blaða- og bókaútgáfu og ýmsa aðra menningarstarfsemi íslenskra sósíalista fram eftir 20. öldinni. Kommúnistaflokkur Íslands var íslenskur stjórnmálaflokkur sem starfaði á árunum 1930–1938 eftir að hafa klofið sig úr Alþýðuflokknum. Brynjólfur Bjarnason var eini formaður flokksins. Kommúnistarnir stofnuðu ásamt Héðni Valdimarssyni og öðrum fylgismönnum hans úr Alþýðuflokknum Sameiningarflokk alþýðu Sósíalistaflokkinn 1938. Kommúnistaflokkurinn var formlega hluti af alþjóðasamtökum kommúnista, Komintern. Nasismi á Íslandi. Nasisminn féll ekki í frjóan jarðveg á Íslandi. Hér starfaði Þjóðernishreyfing Íslendinga en hún klofnaði og nokkrir félagar hennar gengu til liðs við Sjálfstæðisflokkinn sem margir þeirra höfðu stutt áður. Hinir yngri og ákafari, margir ekki enn komnir með kosnigarétt, stofnuðu Flokk þjóðernissinna sem var hreinræktaður nasistaflokkur. Þeim tókst stundum að vekja á sér athygli með fánaburði og áflogum við kommúnista. Í blaði íslenskra nasista var Hitler kallaður mikilhæfasti núlifandi stjórnmálamaðurinn, sem hefði unnið slík þrekvirki að ekki þekkjast þess dæmi. Fylgi flokksins varð mest í bæjarstjórnarkosnigum í Reykjavík árið 1934, 2,8% en það voru 399 atkvæði. Íslensk stjórnvöld voru varkár gagnvart þýsku nasistasjórninni. Líkt og víða annars staðar var gyðingum, sem hröktust undan ofsóknum í Þýskalandi, ekki tekið opnum örmum hér á landi og mörgum var neitað um landvistaleyfi. Björgvin G. Sigurðsson. Björgvin Guðni Sigurðsson (fæddur 30. október 1970) er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis fyrir Samfylkinguna og fyrrverandi viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Björgvin sagði af sér vegna pólitískrar ábyrgðar sinnar á bankahruninu. Hann bað stjórn og forstjóra Fjármálaeftirlitsins að segja af sér störfum sömuleiðis. Hann er menntaður í sagnfræði og heimspeki. Björgvin var fyrst kjörinn á þing í kosningunum 2003 en hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og þingflokksins og kosningastjóri í Alþingiskosningunum 1999 og sveitarstjórnakosningunum 2002. Helgi Hjörvar. Helgi Hjörvar (f. 9. júní 1967) er 4. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður fyrir Samfylkinguna. Hann lærði heimspeki við Háskóla Íslands og var meðal annars formaður og framkvæmdastjóri Blindrafélagsins 1994 til 1998, en hann er með arfgengan augnsjúkdóm, "Retinitis Pigmentosa", sem leiðir til hrörnunar nethimnunnar og blindu. Hann var fyrst kjörinn á þing i kosningunum 2003. Helgi er sitjandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem og formaður sendinefndar Íslands í Norðurlandaráði, og var forseti Norðurlandaráðs 2010. Hermigervill. Hermigervill er listamannsnafn tónlistarmannsins Sveinbjörns Thorarensen (fæddur 1984). Hann hefur gefið út fjórar hljómplötur. Lausnin (2003). Gefin út 2003 af Hermigervli, 74:40 að lengd. Sleepwork (2005). Gefin út 2005 af Hermigervli, 52:03 að lengd. Hermigervill leikur vinsæl íslenzk lög (2009). Gefin út 2009 af Hermigervli, 35:07 að lengd. Hermigervill leikur fleiri íslenzk lög (2011). Gefin út 2009 af Hermigervli í samstarfi við Kimi Records, 41:30 að lengd. Pétur Ottesen. Pétur Ottesen (fæddur á Ytra-Hólmi í Innri-Akraneshreppi 2. ágúst 1888, lést 16. desember 1968) var alþingismaður fyrir Borgarfjörð frá 1916 til 1959. Wieluń. Wieluń () er borg í miðhluta Póllands, í Województwo Łódzkie, við fljótið Pyszna. Íbúar voru 27 000 árið 2004, flatarmál 16,9 km². Köngulóarmaðurinn 3. "Köngulóarmaðurinn 3" ("Spider-Man 3") er þriðja myndin um Köngulóarmannin. Handritið var samið stuttu eftir frumsýningu seinni myndarinnar og tökur hófust 2005. Sony Pictures og Marvel framleiða myndina og Enn ný leikstýrir Sam Raimi. Og Tobey Maguire, Kirsten Dunst og James Franco endurleika hlutverk sín og leika á móti nokkrum nýliðum í leikarahópinn þar sem að Thomas Haden Church úr Sideways og Topher Grace, sem lék Eric Foreman í That 70's Show, leika illmennin ásamt Franco. Bryce Dallas Howard bætist við ásamt James Cromwell. Myndin var heimsfrumsýnd í Tókýó 16. apríl 2007 og var ýmist frumsýnd 4. maí 2007 annars staðar í heiminum. Myndin kostaði 258 milljón dollara. Söguþráður. Peter Parker (Tobey Maguire) hefur loksins tekist að koma jafnvægi á tvöfalda líf sitt sem ofurhetjan Köngulóarmaðurinn og sem námsmaðurinn/ljósmyndarinn Peter Parker. Ásamt því að hann er byrjaður með draumastúlkunni Mary Jane Watson (Kirsten Dunst) sem er leik- og söngkona á Broadway. Á leikriti sem Mary Jane leikur í, hittir Peter fyrrum besta vin sinn, Harry Osborn (James Franco), sem komst að leyndarmáli hans í seinni myndinni og kenndi alltaf Köngulóarmanninum um dauða föður síns og hugsar bara um hefnd. Flint Marko (Thomas Haden Church) tókst að sleppa úr fangelsi til þess að halda áfram að stela peningum til að borga fyrir aðgerð á Penny, veikri dóttur sinni. Hann stoppar örstutt við heima hjá sér til að skipta um föt. Eiginkona hans, Emma, heimtar að hann fari. Hann heldur áfram að stela peningum. Á sama tíma eru Peter og Mary Jane á stefnumóti. Skammt frá hrapar loftsteinn og úr honum brýst út svört slímug vera sem eltir Parker eftir hann og Mary Jane fara. Peter stoppar við hjá frænku sinni May (Rosemary Harris) og segir henni að hann ætli að kvænast Mary Jane. Hún er stórhrifin og segir honum frá því þegar Ben frændi bað hana að giftast sér og gefur honum trúlofunar hringinn sem hann gaf henni. Eftir að Peter fer frá henni ræðst árasarmaður í hátæknibúnaði og flýgur um á svifbretti. Þetta er Harry sem hefur fetað í fótspor föður síns og orðið Nýi Púkinn. Í bardaga þeirra rotast Harry og er hársbreidd frá dauða og Peter fer með hann á sjúkrahús. Á sama tíma er Marko að flýja undan lögreglunni og fer inn á tilraunar svæði þar sem hann lendir í eindahraðali fylltur sandi og breytist í lifandi sand sem sem getur breytt um form og myndun. Stuttu seinna vaknar Harry á sjúkrahúsina og hefur hlotið skammtímaminnisleysi og man ekkert eftir andúð sinni á Köngulóarmanninum eða að Peter sé hann. Næsta dag fær Mary Jane slæma umsögn og látin hætta í leikritinu. Peter sem Köngulóarmaðurinn er mjög vinsæll meðalbærjarbúa og er afhent lyklinum að borginni fyrir að bjarga dóttur lögreglustjórans, Gwen Stacy (Bryce Dallas Howard) sem er einnig bekkjarsystir Peters og þegar Gwen kyssir Köngulóarmanninn verður Mary Jane öfundsjúk. En stuttu seinna rænir Marko brynvarðann bíl en Köngulóarmanninum tekst naumlega að ná peningunum og Marko sleppur. Nýr hrokafullur ljósmyndari að nafni Edward Brock yngri (Topher Grace) hefur störf á Daily Bugle. J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) lætur Parker og Brock keppast um hvor verður fyrstur að ná mynd af Lóa að fremja glæp til þess að fá obinbert starf sem ljósmyndari blaðsins. Eitt kvöldið býður Peter Mary Jane út að borða á frönskum veitingastað þar sem hann ætlar að biðja hana að giftast sér en allt verður fyrir ekki. Gwen Stacy kemur að þeim og veldur koma hennar því að Mary Jane strunsar út. Seinna um kvöldið er Peter og May boðuð á lögreglustöðina þar sem þeim er sagt að sá sem drap frænda Peters var Flint Marko. Peter með samviskubit fyrir að hafa ekki náð að stöðva Marko áður vakir nær alla nótina að biða eftir tilkynningu um Marko í hans eigin lögreglu talstöð en sofnar. En þá festir svart slímveran sig við Peter og Peter vaknar í miðri borginni í svörtum búningi. Hann finnur að hann sneggri fimari og sterkari. Peter lætur Dr. Connors (Dylan Baker) greina veruna en hann segist ekki geta gefið honum nákvæmar upplýsingar fyrr en seinna. Connors segir honum að efnið virðist virka eins og sambýlisvera og gæti verið hættulegt. Seinna það kvöld heyrir Peter tilkynningum um sandstorm í nágreni við bankarán og Peter setur á sig svarta búninginn og fer á staðinn. Peter sér að sandurinn hefur farið niður í lestargöng. Brock kemur á staðinn og tekur myndir en Peter eyðileggur myndavélina og eltir Marko. Brock tekur svo myndir með vara myndavél sinni. Peter og Marko berjast í lestargöngunum og Peter hefur yfirhöndina og skolar Marko burt og verður hann að drullu og telur Peter hann dauðann. Næsta dag heimsækir Mary Jane Harry og borða þau saman og tala saman og kyssast. En Mary Jane sér eftir því og fer. Harry fær þá skyndilega minnið aftur og byrjar að sjá föður sinn (Willem Dafoe) sem biður hann hefna sín með því að láta Peter þjást. Harry hemsækir Mary Jane og hótar að drepa Peter ef hún hætti ekki með honum og gerir hún það. Seinna talar Peter við Harry sem byrjar að sýna samúð en segir síðan að hann og Mary Jane eru byrjuð saman og glottir. Peter skilur að Harry hefur fengið minnið aftur. Peter mætir Harry sjálfur en með svarta búninginn innan undir fötunum. Þeir berjast og hafna inn á bæli Púkans þar sem Harry kastar graskerssprengja í átt að Peter en Peter kastar henni aftur til Harrys og springur hún við andlit hans. Peter fer að gefa eftir svarta búningum og sýnir á sér eigingjarna hlið. Connors hringir í hann og reynir að vara hann við efninu en Peter hlustar ekki. Peter sér svo að Eddie hefur falsað grein um Köngulóarmanninn að ræna bankann og kemur upp um hann og Eddie er rekinn. Peter er ráðinn sem ljósmyndari fyrir að færa Daily Bugle myndir af svarta Köngulóarmanninum. Peter ákveður að hefna sín á Mary Jane með að niðurlægja hana á djassklúbbnum sem hún vinnur á. Hann tekur Gwen Stacy með en hún heldur að þetta sé stefnumót. Brock, sem er skotinn í Gwen, sér þau saman og verður enn þá reiðari út í Peter. Á djassklúbbnum efnir Peter til slagsmála og slær óvart Mary Jane. Peter sér nú hvernig búningurinn hefur breytt honum og vill losna við hann. Peter heldur upp klukkuturn á kirkju einni til að rífa búninginn af sér, en búningurinn leyfir honum það ekki. Peter rekur sig í bjölluna og veikist þá búningurinn við hljóðin sem auðveldar Peter að rífa hann af. Eddie er í sömu kirkjunni að biðja Guð um að drepa Peter en fer svo að kanna lætin í bjöllunni og uppgötvar þá að Peter er Köngulóarmaðurinn. Svarti búningurinn skynjar að Peter er að reyna að losa sig við hann og álítur Peter óvin sinn. Hann lekur svo á Brock og bindir sig við hatur hans á Peter og breytir honum í illmennið Eitur. Brock sem Eitur leitar uppi Flint Marko, sem lifði af, og fær hann til að koma lið með sér til að drepa Köngulóarmanninn. Saman ræna þeir Mary Jane og halda henni upp i vef á byggingarsvæði og skora Köngulóarmanninn að berjast við sig. Peter fer aftur í gamla búninginn og stoppar við hjá Harry til að biðja hann um að hjálpa sér. Bernard, bryti Harrys, segir honum að Köngulóarmaðurinn drap ekki föður hans. Hann segir honum að þegar hann var hreinsa sá föður hans sá hann þau voru komin af svifdreka hans. Peter kemur á staðinn og Eddie ræðst að honum með alla krafta Peters og er auk þess ónæmur Köngulóarskynjun hans og miklu sterkari. Marko breytir sér í risastórt sandskrímsli og saman ná þeir að koma Peter niður en Harry kemur á síðust stundu sem Nýi Púkinn til að bjarga vini sínum. Saman berjast þeir við Brock og Marko og bjarga Mary Jane. Harry sigrar Marko með eldvörpu úr svifbretti sínu. Hann hyggst síðan stinga Eddie á hol með brettinu en Eddie fleygir honum af brettinu og ætlar að nota það til að drepa Peter en Harry stekkur fyrir framan Peter og er stunginn í bringuna. Peter man skyndilega að búningurinn er veikur fyrir hljóði og ber saman holum rörum og nær Eddie úr búningnum og kastar síðan einni af graskerssprengjum Harrys til að eyða verunni. En Eddie sem var orðinn svo háður búningnum reynir að binda sig við veruna en þeim er báðum eytt. Marko lifir en og er kominn í eðlilega stærð og sér Peter án grímunar. Hann segir honum að hann ætlaði aldrei að drepa frænda hans. Hann ætlaði bara að fá bílinn en Ben sagði honum að sleppa byssunni og fara heim. Síðan kom félagi hans (sem Peter mætti í fyrstu myndinni) með peningana og Marko brá og tók óvart í gikkinn. Marko segir að hann biðji hann ekki fyrirgefningu bara um skilning. Peter fyrirgefur honum og Marko hverfur á braut. Peter fer til Harrys. Mary Jane situr hjá honum og halda þau í höndina á honum er hann deyr. Stuttu eftir jarðarför Harrys byrja Peter og Mary Jane aftur saman. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2007. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2007 (e. "Eurovision Song Contest") var 52. skiptið sem keppnin var haldin. Serbía, sem tóku þátt í keppninni í fyrsta skiptið, sigruðu keppnina með lagið "Molitva". Eiríkur Hauksson sem fór fyrir hönd Íslands í keppnina með lagið „Ég les í lófa þínum“ eða „Valentine lost“ komst ekki í úrslit keppnninnar. Hann hafnaði í 13. sæti í undanúrslitunum með 77 stig. Eftir úrslitin. Lokaúrslit (Undanúrslit 11-28 og úrslit sett saman). Rauður 1. sæti, blár seinasta sæti. Tengt efni. 2007 Shinzō Abe. Shinzō Abe (f. 21. september 1954) var 90. forsætisráðherra Japans og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Abe sagði af sér þann 12. september 2007 vegna lélegt gengi flokksins í kosnigum. Er nuverandi forsaetisradherra fra 26. desember 2012. Tengill. Koizumi Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (Japan). Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er stjórnmálaflokkur sem kennir sig við hægristefnu í Japan. Formaður hans er Yasuo Fukuda. Flokkurinn hefur stjórnað Japan að mestu síðan 1955 en beið afhroð í kosningunum 2009. Saga Japans. Japanskt samfélag grundvallaðist á rótgróinni menningu og siðvenjum en Bandaríkin voru nýtt þjóðfélag þar sem landnemar víða að úr heiminum voru að festa rætur. Á þessum tíma, þegar nýlendukapphlaup Evrópuríkja stóð sem hæst, var Japan eina Asíuríkið sem stóðst vestrænum löndum snúning. Vestræn áhríf jukust mjög mikið í Japan á síðari hluta 19. aldar. Bandaríkjamenn þvinguðu Japana til þess að opna hafnir sínar fyrir erlendum kauðmönnum árið 1854. Þrátt fyrir að Japan væri einangrað land voru ýmsar hliðstæður í samfélagsþróun Japan og Evrópu. Lénskerfið hafði t.d lengi verið ríkjandi í landinu. Samúræjar voru hinir japönsku lénsriddarar og tóku þátt í byltingu gegn herstjórninni, sem lengi hafði farið með völdin, árið 1868. Þá urðu tímamót í sögu Japan og á næstu áratugum hófst víðtæk iðnaðaruppbygging og nútímavæðing. Landið varð fljótt iðnríki að evrópskri fyrirmynd. Japanir leituðu ráða hjá Evrópumönnum og undir aldarlok störfuðu um 3000 evrópskir ráðgjafar í Japan. Frakkar veitu ráðgjöf um lagasetningu og uppbyggingu iðnaðar en járnbrautalagning, viðskiptamál og uppbygging flotans var undir breskra handleiðslu. Japanski herinn var mótaður eftir prússneskri og franskri fyrirmynd. Japanir tóku líka upp vestræna siði, klæðaburð og hártísku. Evrópskra áhrifa gætti líka í japanskri byggingarlist. Staða Japan var mjög sterk á alþóðavettvangi og í átökum við Kínverja á árunum 1894 til 1895 höfðu þeir sigur og stuttu síðar, eða árið 1905, sigruðu þeir Rússa. Sá sigur varð mörgum Evrópuþjóðum undrunarefni og sýndi fram á styrkleika japanska ríkisins. Bikarkeppni karla í knattspyrnu. Bikarkeppni karla í knattspyrnu er útsláttakeppni í knattspyrnu karla á Íslandi á vegum KSÍ. Aðalstyrktaraðili keppninnar er Valitor. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. En frá 1973 hefur úrslitaleikurinn verið leikinn á Laugardalsvelli. 1. deild karla í knattspyrnu. 1. deild karla í knattspyrnu er næstefsta deildin í Íslandsmótinu í knattspyrnu. Í deildinni eru 12 félög. Deildin hét 2. deild karla frá 1955 til 1996. Lista yfir þjálfara í 1. deild karla má nálgast hér: Þjálfarar í íslenskri knattspyrnu Meistarasaga. Eftirfarandi lið hafa unnið sér þátttökurétt í Úrvalsdeild karla í knattspyrnu eftir að hafa lent í tveimur efstu sætunum (eða þremur þegar efsta deild var stækkuð árið 2008). Frá 1955 til og með 1974 var bara eitt lið sem fór upp að hverju sinni en frá 1975 hafa tvö lið farið upp á ári hverju, að árinu 2007 undanskildu þegar deildirnar voru stækkaðar. Þátttaka liða. Eftirfarandi tafla sýnir þáttöku liða sem hlutfall af 59 tímabilum. Þróttur hefur spilað flest tímabil í 1. deild, eða 40 af 59. Í töflunni er tímabilið 2013 tekið með. Íslenska karlaknattspyrnudeildakerfið. Íslenska karlaknattspyrnudeildakerfið er íslenskt deildakerfi í knattspyrnu í flokki karla. Laugardalsvöllur. Laugardalsvöllur er stærsti knattspyrnuvöllur Íslands. Völlurinn er mest notaður við iðkun knattspyrnu en einnig er aðstaða fyrir frjálsar íþróttir á honum. Íslenska knattspyrnulandsliðið notar leikvanginn sem heimavöll sinn, auk Fram. Metaðsókn á völlinn var árið 2004 þegar Ísland tók á móti Ítalíu en þá voru samtals 20.204 áhorfendur. Ísland sigraði í leiknum með 2 mörkum gegn engu. Lengjubikarinn. Lengjubikarinn er keppni í knattspyrnu á Íslandi. Framtíðarlandið. Framtíðarlandið er félag áhugafólks um framtíð Íslands var stofnað 17. júní 2006 á fjölmennum fundi í Austurbæ. Frumkvæðið kemur frá einstaklingum af ólíkum sviðum þjóðlífsins sem telja að þörf sé fyrir afl sem upplýsir, gagnrýnir og leggur til hugmyndir að nýrri framtíðarsýn á Íslandi. Nestoríanar. Nestorískir prestar í skrúðgöngu, veggmynd úr helli í Kína Nestoríanismi er guðfræðikenning sem segir að Jesús sé og hafi verið tvær persónur, maðurinn Jesús og Jesús hinn guðlegi, sonur Guðs, og ekki ein persóna með tvö eðli eins og flestar kristnar kirkjur prédika. Þessi kenning er kennd við Nestoríus (fæddur 386 – látinn 451), patríarki í Konstantínópel. Þessi kenning um eðli Krists var fordæmd sem villutrú á kirkjuþinginu í Efesos árið 431, og það leiddi til þess að fylgjendur Nestoríusar sögðu skilið við meginkirkjuna. Nestoríanismi var ein af þeim tilraunum sem gerðar voru í frumkristni til að útskýra og skilja eðli annars þáttar hinnar Heilögu þrenningar í manninum Jesú. Nestoríanar kenna að mannlegt og guðlegt eðli Jesú sé aðskilið og að hér sé um að ræða tvær persónur, maðurinn Jesús annars vegar og hins vegar Guð sem tók sér bólfestu í honum. Sem afleiðing af þessu afneita nestoríanar sem guðlasti orðalagi eins og „píning Guðs“ eða „Guð var krossfestur“, það var maðurinn Jesús Kristur sem var píndur og krossfestur en ekki Guð. Á sama hátt afneita þeir hugtakinu Theotokos (Sú sem fæðir Guð/Guðsmóðir) sem titli Maríu mey, og nota í staðin hugtakið Kristotokos (Sú sem fæðir Krist/Kristmóðir) vegna þess að María fæddi manninn Jesú en ekki Guð. Nestoríus. Nestoríus (fæddur 386– dáinn 451) var sennilega fæddur í Persíu en menntaður í Antiokkíu í Sýrlandi (en er nú í Tyrklandi) og varð patríarki í Konstantínópel. Hann kenndi að guðleg og mannleg hlið Jesús væru aðskildar og á engan hátt samanfléttaðar. hann prédikaði gegn notkun hugtaksins "Theotokos" ("Guðsmóðir") um Maríu mey og vildi nefna hana "Kristotokos" ("Kristsmóðir"). Hann hélt því einnig fram að guð hefði ekki getað verið píndur á krossinum þar sem hann er alsmáttugur. Þar af leiðandi dó hin mannlega hlið Jesú á krossinum en ekki sú guðlega. Kenningar Nestoríusar voru úrskurðaðar villutrú af kirkjuþinginu í Efesos árið 431. Kirkjuþingið lýsti því yfir að Jesú væri ein og heil persóna og að María mey væri móðir Guðs. samþykktir þingsins leiddu til þess að kirkjan klofnaði og þeir söfnuðir sem fylgdu kenningu Nestoríusar mynduðu eigin kirkjudeild. En deilurnar innan höfuðkirkjunnar um eðli Jesú héldu áfram og eftir kirkjuþingið í Kalkedon 451 klofnaði kirkjan en að nýju. Nestoríanskt trúboð. Kýrill patríarki í Alexandríu með stuðningi páfans í Róm hóf að ofsækja fylgismenn Nestoríusar hvar sem þeir komust að. En utan Rómaveldis og sérlega þar sem sýríska var töluð fjölgaði fylgismönnum Nestoríusar. Sassanída konungar Persíu, sem stóðu í stöðugum útistöðum við Austrómverska ríkið sáu sér leik á borði að fá bandamenn úr óvæntri átt. Öllum nestoríönum var lofað stuðningi og vernd kóngs 462 og konungur studdi byggingu kirkna og guðfræðiskóla í landinu. Kirkja nestoríana sendi trúboða um Persíu alla til að byrja með þar til konungur bannaði trúboð innanlands. Hófst þá mikið trúboð í mið og austur Asíu á næstu öldum. Nestoríanskir trúboðar komu til Kína 635 og er enn að sjá mörg merki um starfsemi þeirra þar. Á svipuðum tíma fengu nestoríanar marga fylgismenn í Mongólíu og alla leið austur til Kóreu. Á stjórnartíma keisarans Wuzong (840 til 846) varð kristni söfnuðurinn í Kína fyrir miklum ofsóknum. Keisarinn vildi útrýma öllum erlendum trúarhugmyndum og snérist þess vegna gegn bæði kristni og búddisma. Á næstu öldum átti kristni söfnuðurinn fremur erfitt uppdráttar. Það var ekki fyrr en á tímum Yuan keisaranna sem söfnuðurinn blómstraði að nýju. Markó Póló og aðrir vesturlandamenn lýsa nestoríönskum samfélögum bæði í Kína og Mongólíu á 13. öld. Það er ekki ljóst hvaða ástæður voru fyrir því en þessir kristnu söfnuðir liðu undir lok á Mingtímanum. Arfur trúboðanna lifir þó enn í söfnuðum assýrísku austurkirkjunnar í Írak, Íran og á Indlandi. Úr hadíðum múslima má lesa samskipti Múhameðs við nestoríana. Einnig álíta margir fræðimenn að lýsingar Kóransins á Jesú (eða Isa eins og hann er kallaður þar) megi rekja til kenninga nestoríana. Þar að auki eru bænahefð múslima sem nefnd er raka'ah og bænahefð nestoríana fyrir páska nauðalíkar. Eyjafjöll. Eyjafjöll eru fjallgarður á Suðurlandi sem liggur vestur úr Mýrdalsjökli. Efst í Eyjafjöllum er jökulhetta, Eyjafjallajökull, en fjöllin draga nafn sitt af því að þau standa gegnt Vestmannaeyjum. Fjallgarðurinn nær frá Markarfljóti í vestri að Jökulsá á Sólheimasandi í austri. Fjöllin eru flest móbergsfjöll. Í Eyjafjöllum eru meðal annars Seljalandsfoss og Skógafoss en einnig margir minni. Í fjöllunum eru einnig margir hellar s.s. Paradísarhellir. Nestoríos. Nestoríos (fæddur um 386, látinn um 451) eins og hann hét á grísku, "Νεστόριος", er þekktari á Vesturlöndum sem Nestoríus, var patríark í Konstantínópel frá 10. apríl 428 til 22. júní 431. Hann var sennilega fæddur í Persíu en menntaðist í Antokkíu, einni aðalstöð kristinnar menningar á þeim tíma. Antiokkía er þar sem nú er borgin Antakya í Tyrklandi en sem þá var hluti af grískumælandi hluta Rómaveldis. Nestoríos er álitinn upphafsmaður þeirra guðfræðikenninga sem kallaðar eru nestoríanismi. Upphaf þeirra eru efasemdir hans um notkun hugtaksins "þeotokos" (grísku Θεοτόκος) eða "Guðsmóðir", "Móðir Guðs", hugtak sem notað var um Maríu mey. Þessar skoðanir mættu mikilli andstöðu sérlega frá Kýrill biskupi og patríarka í Alexandríu (á grísku hét hann Kyrillos, Κύριλλος, og latínu Cyrillus). Fyrir utan guðfræðiþrætur flæktist inn í deilurnar valdabarátta milli stuðningsmanna patríarkanna í Alexandríu og Antiokkíu, deilur um hlutverk keisarans gagnvart patríarkanum í Konstantínópel og einnig valdafíkn páfans í Róm. Guðfræðideilurnar snerust um eðli Jesú og guðleika. Að formi til var deilt um hugtökin „guðsmóðir“ ("þeotokos / Θεοτόκος") sem lýsingu á hlutverki Maríu meyjar. Nestoríos vildi ekki nota það og valdi í þess stað í prédikunum sín að hota „Kristsmóðirin“ ("Kristotokos/Χριστοτόκος"/). Fyrra hugtakið afneitaði mannlegu eðli Jesú samkvæmt Nestoríosi og gerði hann einungis guðlegan. Haft er eftir Nestoríosi: „Guð getur ekki verið tveggja eða þriggja mánaða ungabarn“. Samkvæmt honum hafði María mey fætt hina mannlegu hlið Jesúsar en ekki þá guðlegu. Kýrill biskup andmælti og sagði Nestoríos með þessu afneita raunveruleika þess að Guð sendi eingetinn son sinn til manna með því að gera Jesús að tveimur persónum, mannlegri og guðlegri, í sama líkama. Theodosius II, keisari, (401–450) kallaði saman kirkjuþing í Efesos árið 431 til að ræða málin. Keisarinn hafði stutt patríarkann í Konstantínópel gegn Kýrilli í Alexandríu og Selestínus I páfa í Róm. En á þinginu snérist honum hugur og eftir heiftarlegar deilur samþykkti þingið að kenningar Nestoríusar væru algjör villutrú og bannfærðu hann. Keisarinn sendi Nestoríos nauðugan í klaustur í Egyptalandi, þar sem nú heitir al-Khargah, og var hann þar fangi Kýrills biskups það sem eftir var æfi. Bækur hans voru brenndar hvar sem þær fundust. Engar bækur eftir Nestoríos hafa varðveittst á ritmáli hans, grísku, en þó nokkuð í þýðingum á sýrísku. Þetta leiddi til fyrsta alvarlega klofningi í kirkjunni þar sem Nestoríanskar kirkjur breiddust út í miðausturlöndum og um stóran hluta mið Asíu. Nestorius er í miklum hávegum hafður af Assýrísku austurkirkjunni og er einn höfuðdýrlingur hennar, á sýrísku heitir heilagur Nestoríos "Mar Nestorios". Efsta deild karla í knattspyrnu 1930. Árið 1930 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 19. skipti. Valur vann sinn 1. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, Valur og ÍBV. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 48 mörk, eða 4,8 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1931. Árið 1931 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 20. skipti. KR vann sinn 7. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 26 mörk, eða 4,33 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1932. Árið 1932 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 21. skipti. KR vann sinn 8. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, Valur og ÍBA. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 30 mörk, eða 3,0 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1933. Árið 1933 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 22. skipti. Valur vann sinn 2. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum 1. deild karla í knattspyrnu 2007. 1. deild karla 2007 var 63. tímabilið sem keppt er í 1. deild karla í knattspyrnu á Íslandi. Lokastaðan í deildinni. "(Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem luku með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur)" Efsta deild karla í knattspyrnu 1934. Árið 1934 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 23. skipti. KR vann sinn 9. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, Valur og ÍBV. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Basi. Basi er efni, sem skv. Brønstedskilgreiningu getur tekið upp róteindir. Aðrar skilgreiningar eru að basar geta gefið frá sér rafeinda par eða sem uppspretta hýdroxíð forjóna. Einnig er hægt að hugsa um basa sem efnafræðilega andstöðu sýrna. Þetta er algengt sjónarmið vegna þess að þegar sýru og basa er blandað saman mynda þau oft vatn og salt en einnig vegna þess að sýra eykur innihald hydroníum jónarinnar H3O+ í vatni, en basi minnkar innihald hennar. Basar hafa sýrustig hærra en pH 7. SG-hljómplötur. SG-hljómplötur var útgáfufyrirtæki tónlistar- og útvarpsmannsins Svavars Gests (1926 - 1996) en það stofnaði hann árið 1964. Alls gaf fyrirtækið út 80 litlar, 45-snúninga (45 r.p.m.) hljómplötur og 180 stórar hæggengar 33 snúninga (Long-Playing) hljómplötur þau 20 ár sem fyrirtækið starfaði. SG-hljómplötur - Fyrsta vörumerki SG á plötumiða SG-hljómplötur - Þriðja og síðasta vörumerki SG á plötumiða Sagan. Þessi plata kom svo út 1964 og varð metsöluplata. Þar með var grunnurinn að SG hljómplötum lagður og brátt óx fyrirtækið í eitt af stærstu útgáfufyrirtækum landsins með marga fremstu listamenn þjóðarinnar á sínum snærum, svo sem; Elly Vilhjálms, Ragnar Bjarnason, Vilhjálm Vilhjálmsson, Ómar Ragnarsson, Savanna tríóið og Hljóma. Önnur fyrirtæki í tónlistarútgáfu voru á þessum tíma um það bil að hætta eða höfðu dregið verulega úr starfsemi sinni. Fyrirtæki Tage Ammedrup Íslenzkir tónar hafði hætt útgáfu og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur, sem hafði gefið út plötur undir merkinu HSH var að hætta. Fálkinn sem var umsvifamikill í plötuútgáfu hafði dregið seglin saman þannig að Svavar varð nánast einráður á markaðnum og SG-hljómplötur blómstruðu. Fyrri útgáfur. Svavar hafði reynslu af útgáfu frá fyrri tíð því hann og Kristján Kristjánsson stofnuðu Músikbúðina árið 1953. Auk verslunarreksturs stóðu þeir í útgáfu hljómplatna undir nafninu Tónika og gáfu út um tuttugu plötur fram til ársins 1956 er fyrirtækið hætti. Frétt um sameiginlegt upptökustúdíó SG hljómplatna og Tónaútgáfunnar Stúdíó SG-hljómplatna. Í byrjun árs 1975 hefja Svavar Gests og Pálmi Stefánsson (Tónaútgáfan) í Tónabúðinni Akureyri samstarf um að koma á fót hljóðupptökuverum í Reykjavík og á Akureyri. Pálmi innréttar sitt í gömlu tveggja hæða reykhúsi að Norðurgötu 2B á Akureyri. Hann hefur keypt tvö Revox- segulbandstæki og sex rása hljóðblöndunartæki (mixer) af breskri gerð, Alice, og hyggst hefja upptökur með vorinu. Svavar opnar sitt í Síðumúlanum í samstarfi við Sigurð Árnason úr hljómsveitinni Náttúru sem verður aðal upptökumaður. Frá árinu 1975 - 1984 eru flest allar SG hljómplötur teknar upp í stúdíóinu. Íslenzkir tónar. Árið 1974 seldi Tage Ammendrup, Íslenzka tóna ásamt útgáfurétti þeim sem fyrirtækinu fylgdi til SG hljómplatna. Á árunum 1977 - 1981 gaf Svavar svo út nokkrar plötur á merki Íslenzkra tóna með fram eigin útgáfu. Íslensk tónlistarsaga. Hlutur Svavars Gests og SG hljómplatna í íslenskri tónlistarsögu er ómetanlegur. Hér hafa varðveist verk listamanna sem annars hefðu orðið hít tímans að bráð og gleymst. Ýmsar hljómsveitir, einsöngvara, kóra, gamanmál, ljóð, þjóðlög, jólaefni, leikrit, barnalög og rímur er hér að finna þrykkt í vinyl komandi kynslóðum til gagns og gleði. Útgáfuréttur. Útgáfuréttinn á SG-hljómplötum og "Íslenskum Tónum" sem Svavar átti, seldi hann til fyrirtækisins Steinars en í dag er rétturinn í eigu Senu, sem á útgáfuréttinn að öllu efni sem SG-hljómplötur gaf út. Sena hefur veitt góðfúslegt leyfi sitt fyrir birtingu SG umslaga og hljóðdæma. Synir Svavars þeir Nökkvi og Máni hafa veitt góðfúslegt leyfi fyrir birtingu á efni úr bók Svavars "Hugsað upphátt". Hljómplötulisti. Listinn hér að neðan telur uppsettur 79 litlar plötur 45-snúninga og 176 stórar plötur 33-snúninga. Þetta eru þær plötur sem vitað er með vissu að SG hljómplötur gaf út. Þá eru ótaldar þær snældur (kassettur) sem fyrirtækið gaf út samhliða plötuútgáfunni, einkum á seinni hluta útgáfutímans en listi yfir snældurnar hefur ekki fundist svo þær bíða seinni tíma. Texti sem fylgir myndum af umslögum er texti af bakhlið hvers umslags. Þar birtist listi yfir nöfn laga ásamt höfundum texta og laga. Upplýsingar um hljóðritun, ljósmyndun, útlit og prentun. Einnig umfjöllun um hljómsveit og lög sem er yfirleitt skrifað af Svavari sjálfum. Að auki fylgir hljóðdæmi hverri plötu. (Smellið á [sýna] til að skoða listann). Postulleg vígsluröð. Úr bókinni "Les Très Riches Heures du duc de Berry" frá 1410, postularnir fara út í heim til að boða fagnaðarerindið Postulleg vígsluröð sem einnig er nefnd postulleg erfðakenning (á latínu: "successio apostolica") er trúarkenning innan margra kirkjudeilda sem segir að viðkomandi kirkja sé beinlínis andlegur erfingi postulanna. Hins vegar eru þessar kirkjur ekki sammála um hvaða þýðingu þetta hefur. Þær kirkjur sem leggja áherslu á mikilvægi órofinnar vígsluraðar vitna meðal annars í "Postulasöguna 14:23, Postulasöguna 20:28 og 2. Tímóteusarbréf 1:6" máli sínu til stuðnings. Kaþólska kirkjan, rétttrúnaðarkirkjan, austrænu rétttrúnaðarkirkjurnar, nestoríönsku kirkjurnar og enska biskupakirkjan leggja allar mikla áherslu á órofa vígsluröð biskupa allt aftur til postulanna. Flestar mótmælendakirkjur, að sænsku lútherstrúarkirkjunni undantekinni, leggja lítið upp úr þessari hefð. Í guðfræði kaþólsku- og rétttrúnaðarkirkjanna er órofin vígsluröð í sjálfu sér álitin mjög mikilvæg vegna þess að Jesús lofaði að vera með postulum sínum og lærisveinum allt til enda veraldar. Ef vígsluröðin er rofin verður þessu loforði ekki framfylgt. Það var Ireneus frá Lyon sem lagði fyrstur fram þessa kenningu á 2. öld í deilum við gnostíkera sem héldu því fram að til væru postular í leynum sem þekktu til hinna sönnu og leyndu kenninga Krists. Rómversk-kaþólska kirkjan er sú kirkjudeild sem hefur lagt mesta áherslu á hinn postullega arf og þá helgi sem fylgir með honum og jafnframt það túlkunar- og kennivald sem fellur í hlut erfingjans, það er páfans. Kaþólska kirkjan telur hann vera beinan erfingja Péturs postula sem þeir telja hafa verið fyrsta biskupinn í Róm. Rétttrúnaðarkirkjan álítur sig hafa tekið við arfi frá postulanum Andrési og það sé patríarkinn í Konstantínópel sem tryggi vígsluhefðina. Koptíska kirkjan telur sig hafa órofa vígsluhefð allt aftur til Markúsar sem skrifaði Markúsarguðspjallið. Efsta deild karla í knattspyrnu 1935. Árið 1935 var íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 24. skipti. Valur vann sinn 3. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem luku með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Efsta deild karla í knattspyrnu 1936. Árið 1936 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 25. skipti. Valur vann sinn 4. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 26 mörk, eða 4,333 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1937. Árið 1937 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 26. skipti. Valur vann sinn 5. titil. Þrjú lið tóku þátt; KR, Fram og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 14 mörk, eða 4,66 mörk að meðaltali í leik. Geldingahnappur. Geldingahnappur eða gullintoppa (fræðiheiti: "Armeria maritima") er blóm sem finnst einkum í nágrenni við strendur og sandflæmi. Blóm hans eru fölbleik og raða sér þétt saman þannig að á að líta virðist sem eitt stórt sé. Rætur geldingahnapps kallast harðasægjur og voru étnar í hallærum. Sjöstirnið. Sjöstirnið eða Sjöstjarnan er lausþyrping stjarna í um 300 til 400 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Nautinu. Sex til sjö stjörnur sjást með berum augum, en sú bjartasta nefnist Alcyone með birtustig 2,89. Alls eru um 300 stjörnur í Sjöstirninu en 50 þeirra sjást í handsjónauka. Sjöstirnið hefur kennið M45 í Messierskránni. Messierskráin. Messierskráin er skrá yfir fjarlæg geimfyrirbæri, uppgötvuð af Charles Messier. Í skránni eru samtals 110 geimfyrirbæri. Árni Páll Árnason. Árni Páll Árnason er 4. þingmaður Suðvesturkjördæmis, núverandi formaður Samfylkingarinnar Jafnaðarmannaflokks Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Árni Páll lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1985 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1991. Hann stundaði nám í Evrópurétti við Collège d’Europe í Brugge í Belgíu 1991-1992, í Evrópurétti við Harvard Law School / European University Institute í Flórens 1999. Árni Páll varð héraðsdómslögmaður 1997. Hann var ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum 1992-1994, deildarsérfræðingur á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins 1994 og lögfræðingur varnarmálaskrifstofu 1994-1995. Hann starfaði sem lögmaður með eigin rekstur og ráðgjafi 1998-2007. Árni Páll hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2007. Hann var félags- og tryggingamálaráðherra 2009-2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra frá 2010 til 2011. Árni Páll var kjörinn formaður Samfylkingarinnar í febrúar 2013, og sigraði Guðbjart Hannesson í kjörinu, sem allir flokksmenn í Samfylkingunni gátu tekið þátt í með netkosningu. Heimshlýnun. Yfirborðshiti á jörðinni frá 1850 til 2006 Breyting á yfirborðshita frá 1995 til 2004 borin saman við meðalhiti á árunum 1940 til 1980 Heimshlýnun eða hnattræn hlýnun er mæld og áætluð aukning á meðalhita yfirborðs jarðar og sjávar frá iðnbyltingunni. Gróðurhúsaáhrif. Joseph Fourier uppgötvaði gróðurhúsaáhrif árið 1824 og þau voru fyrst rannsökuð af Svante Arrhenius árið 1896. Ýmsar lofttegundir í lofthjúpi jarðar, s.n. gróðurhúsalofttegundir, valda gróðurhúsaáhrifum, en án þeirra myndi meðalhiti jarðar vera um 30 °C lægri en hann er, sem þýddi að jörðin væri óbyggileg.. Helstu gróðurhúsalofttegundir í lofthjúpi jarðar eru: 0-4 % vatnsgufa, 9-26% koltvíoxíð (CO2), 4-9% metan (CH4) og 3-7% ósón (O3). Geislun frá sólu. Aukning á geislun sólar gæti hafa valdið hækkun á meðalhita jarðar. Efsta deild karla í knattspyrnu 1938. Árið 1938 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 27. skipti. Valur vann sinn 6. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 29 mörk, eða 4,833 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1939. Árið 1939 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 28. skipti. Fram vann sinn 11. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem að lið varð Íslandsmeistari með neikvæða markatölu. Skoruð voru 18 mörk, eða 3,0 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1940. Árið 1940 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 29. skipti. Valur vann sinn 7. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 23 mörk, eða 3,833 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1941. Árið 1941 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 30. skipti. KR vann sinn 10. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, Valur og ÍBA. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Efsta deild karla í knattspyrnu 1942. Árið 1942 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 31. skipti. Valur vann sinn 8. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, Valur og ÍBV. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Vegna þess að Valur og Fram voru efst, jöfn að stigum, þurftu liðin að spila úrslitaleiki, gegn hvor öðru. Leikirnir fóru svo Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Efsta deild karla í knattspyrnu 1943. Árið 1943 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 32. skipti. Valur vann sinn 9. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBV, Valur og ÍBA. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 45 mörk, eða 4,5 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1944. Árið 1944 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 33. skipti. Valur vann sinn 10. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" ÍR skráði sig í fyrsta sinn til leiks á þessu Íslandsmóti. Þeir drógu sig úr keppni eftir fyrsta leik sem þeir spiluðu, sem var á móti Fram. Úrslit þess leiks voru ekki tekin gild. Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 16 mörk, eða 2,66 mörk að meðaltali í leik. Adobe Dreamweaver. Adobe Dreamweaver er forrit til að smíða vefsíður. Forritið er svokallað wysiwyg-forrit. Það þykir þægilegt fyrir byrjendur en er ekki mjög fagmannlegt sökum klunnalegs "HTML" kóða sem það skilar frá sér. Efsta deild karla í knattspyrnu 1945. Árið 1945 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 34. skipti. Valur vann sinn 11. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 27 mörk, eða 4,50 mörk að meðaltali í leik. WYSIWYG. WYSIWYG-ritill (vinstra megin) sem líkir eftir endanlegri útgáfu skjals og LaTeX-kóði í textaritli (hægra megin) sem líkist ekkert endanlegri útgáfu. WYSIWYG er skammstöfun sem stendur fyrir what you see is what you get eða „það sem þú sérð er það sem þú færð“. Það er notað um ritla sem sýna „endanlegt“ útlit jafnóðum og maður skrifar inn/breytir. Þetta hugtak er þannig einkum notað um ritvinnsluforrit, umbrotsforrit, vefsíðugerðarforrit o.s.frv. þar sem endanleg útkoma (í prentun eða vafra) er nokkurn veginn sú sama og notandinn sér á skjánum þegar hann vinnur með viðkomandi skjal, öfugt við t.d. LaTeX-ritla eða HTML-ritla þar sem endanleg útkoma verður ekki sýnileg fyrr en skjalið fer í gegnum vinnsluferli sem breytir því í endanlega útgáfu (t.d. í myndsetningarkerfi vafra, eða PDF-setningarkerfi). Til þess að þetta virki þarf ritillinn að herma eftir endanlegu úttaki eins vel og hann getur sem getur verið miserfitt. Betri umbrotsforrit bjóða oft upp á möguleikann að stilla litanotkun fyrir viðkomandi skjá svo hún líkist sem mest litanotkun í prentsmiðju til að tryggja að endanlegur prentgripur verði sem líkastur því sem notandinn sér á skjánum. WYSIWYG-ritlar komu fyrst fram á sjónarsviðið á tölvum sem notuðust við tölvumús og myndræn notendaskil en áður notuðu ritvinnsluforrit ívafsmál til að stýra umbrotsaðgerðum texta (breiðletrun, skáletrun, jöfnun o.s.frv.). Fyrsti ritillinn sem bauð upp á WYSIWYG-virkni er talinn hafa verið Bravo sem var skrifaður fyrir Xerox Alto-tölvuna árið 1974, en fyrsta ritvinnsluforritið af þessu tagi sem náði almennri útbreiðslu var MacWrite fyrir Apple Macintosh-tölvur árið 1984. Skjáupplausn Macintosh-tölvanna (72dpi) var miðuð við upplausn ImageWrite-nálaprentara sem Apple seldi með tölvunum (144dpi) þannig að þegar notandinn hélt prentaða skjalinu upp að skjánum var útkoman jafnstór en í helmingi betri upplausn. Dæmi um WYSIWYG-ritla. wysiwyg er einnig notað til að svindla á fólki líkt og þegar þú kaupir myndavél og það er að Efsta deild karla í knattspyrnu 1946. Árið 1946 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 35. skipti. Fram vann sinn 12. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA, ÍBA og Valur. Þetta var í fyrsta skiptið sem ÍA tók þátt í deildinni og í fyrsta skiptið sem sex lið tóku þátt. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 67 mörk, eða 4,467 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1947. Árið 1947 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 36. skipti. Fram vann sinn 13. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skoruð voru 30 mörk, eða 3,0 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1948. Árið 1948 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 37. skipti. KR vann sinn 11. titil. Fjögur lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Efsta deild karla í knattspyrnu 1949. Árið 1949 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 38. skipti. KR vann sinn 12. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Skjávarpi. Stafrænni mynd varpað upp frá skjávarpa Skjávarpi er tæki sem tekur á móti stafrænni sendingu frá tölvu, DVD-spilara eða sambærilegu tæki og varpar upp mynd á hvítt tjald. Skjávarpar eru seldir með mismunandi upplausn og birtustig (lumens). Efsta deild karla í knattspyrnu 1950. Árið 1950 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 39. skipti. KR vann sinn 13. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum" Skoruð voru 34 mörk, eða 3,40 mörk að meðaltali í leik. Efsta deild karla í knattspyrnu 1951. Árið 1951 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 40. skipti. ÍA vann sinn 1. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA og Valur. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Skorað var 41 mark, eða 4,1 mark að meðaltali í leik. Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum" Efsta deild karla í knattspyrnu 1952. Árið 1952 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 41. skipti. KR vann sinn 14. titil. Fimm lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA og Valur. Hér varð KR titilhæsta lið landsins í úrvalsdeild karla og heldur liðið þeim titli enn þann dag í dag. Ekkert lið getur bætt um betur fyrr en í fyrsta lagi árið 2018. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Skoruð voru 33 mörk, eða 3,30 mörk að meðaltali í leik. Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum" Alzheimer. Samanburður á heilum aldraðra einstaklinga án (til vinstri) og með Alsheimer(til hægri) sjúkdóm. Alzheimer er sjúkdómur sem orsakast af hrörnunarbreytingum í miðtaugakerfinu og lýsir sér meðal annars í minnisleysi, skapsveiflum, missi á orðaforða og ruglingi. Alsheimer er hvorttveggja erfiður fyrir aðstandendur jafnt sem sjúklingana sjálfa. Talið er að 24 milljónir manna í heiminum þjáist af Alzheimer. Nýtt lyf Rember eða Metýlenblátt (methylthioninium chloride) er nú í prófun og gæti komið á markað kringum 2012. Það hefur áhrif á próteinið Tau í taugafrumum Alzheimer sjúklinga. Methylthioninium chloride er algengt í notkun sem blátt litunarefni á tilraunastofum en áhrif þess á Tau uppgötvuðust fyrir tilviljun. Rannsóknir benda til að hátt magn Leptín minnki líkur á Alzheimer. Rannsóknir fara nú fram á hvort Alzheimer geti stafað af viðbrögðum líkamans gegn sýkingu þ.e. hvort próteinið beta amyloid eða A-beta drepi örverur eins og bakteríur en einnig heilafrumur. Próteinið safnast af ókunnum ástæðum fyrir í heilanum (bæði manna og dýra) og veldur eituráhrifum sem skemmir heilafrumur sem deyja í kjölfarið. Í heila fólks með Downs heilkenni safnast nánast undantekningalaust upp amyloid flekkir sem valda Alzheimer hjá miðaldra fólki með það heilkenni. Uppsöfnun á beta amyloid getur einnig eyðlagt frumur í auga og er talin meginorsök blindu og sjúkdóma eins og gláku. SPL. SPL, eða „Sound Pressure Level“, og er mælieining yfir hljóðstyrk, sem vísar til margfeldis af lægsta heyranlega hljóði (álíka mikill „hávaði“ og fótatak maurs). Í daglegu tali er látið nægja að tala um dB (desibel) þar sem notast er við lógaryþmískan skala. Stafræn tækni. Stafræn tækni. Tækni mest notuð við að auðvelda geymslu/flutning á gögnum. Stafræn tækni hefur ýmislegt í för með sér. Sínatökutíðnin samling rate margfaldað með Bitafjölda, á hvert síni gefur Bitahraða bitrate (yfirleitt gefið upp í Kíló eða Mega bitum á sekundu þ.e. Kb/s eða Mb/s) Fólk. Fólk er menningarlegt hugtak, sem nær yfir hóp manna óháð aldri og kyni og er haft um þjóð eða almenning (sbr. "fólkið í Frakklandi" eða "fólkið í grasrótinni"). Það er einnig haft um ættingja eða skyldmenni (sbr. "hún lét fólkið hans vita af andláti hans"). VISA-bikarinn. VISA-bikarinn er bikarkeppni sem er keppt er í knattspyrnu bæði í karla- og kvennaflokki einnig í yngri knattspyrnuflokkum. Bug. Bug er bandarísk kvikmynd frá 2007. VISA-bikar karla 2007. VISA-bikar karla 2007 er 48. skiptið sem bikarkeppni karla í knattspyrnu er haldin. Fyrsti leikur keppninar var spilaður 11. maí 2007 kl: 18:00 en þá mættust Grundarfjörður og Höfrungur en Grundarfjörður hafði betur með sex mörkum gegn fimm. Í úrslitaleiknum þann 6. október 2007 kl: 14:00 mættust FH og Fjölnir á Laugardalsvelli. Elly og Ragnar - Fjögur jólalög. Fjögur jólalög er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1964. Á henni syngja Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason fjögur jólalög ásamt Hljómsveit Svavars Gests. Þrjú þúsund handtök vegna þriggja mínútna lags. Blaðamenn vikublaðsins Fálkans komu að máli við Svavar Gests hljómplötuútgefanda í október 1964 til að forvitnast um hvernig hljómplata verður til. Elly og Ragnar - Hvít jól. Ellý Vilhjálms & Ragnar Bjarnason - Hvít jól er jólaplata með þeim Ragnari Bjarnsyni og Ellý Vilhjálms sem kom út árið 1968. Hún er endurútgáfa plötunnar Ellý Vilhjálms & Ragnar Bjarnason - Fjögur jólalög sem kom út 4 árum fyrr. Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason - Hvert er farið blómið blátt. "Hvert er farið blómið blátt" er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Þar syngja Elly og Ragnar ásamt hljómsveit Svavars Gests fjögur lög. Elly og Ragnar - Heyr mína bæn. Heyr mína bæn er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni syngja Elly og Ragnar ásamt Hljómsveit Svavars Gests fjögur lög. Heyr mína bæn. Viðlagið endurtekið og seinni tvö erindin. Zdeno Chara. Zdeno Chara (f. 18. mars 1977) er slóvakískur íshokkíleikmaður sem leikur í vörn Boston Bruins í Bandaríkjunum. Ignacy Łukasiewicz. Jan Józef Ignacy Łukasiewicz (1822 - 1882) var pólskur lyfjafræðingur og var fyrstur til að uppgötva aðferð til að eima steinolíu úr olíu. Hann var stofnandi pólsks olíuiðnaðar og frumherji í alþjóðaviðskiptum með olíu. Þessi viðskipti gerðu hann vellauðugan og notaði hann auð sinn til góðgerðamála innan mið-Evrópu. Christina Stürmer. Christina Stürmer (fædd 9. júní 1982) er austurrísk söngkona samnefndrar hljómsveitar. Stürmer, Christina Enska fyrsta deildin. Enska fyrsta deildin er ensk deild í knattspyrnu. Enska úrvalsdeildin 2004-05. Enska úrvalsdeildin 2004-05 byrjaði í ágúst 2004 og lauk í maí 2005. Chelsea urðu meistarar 30. apríl 2005. Ómar Ragnarsson - Þrjú hjól undir bílnum. Þrjú hjól undir bílnum er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni syngur Ómar Ragnarsson ásamt hljómsveit Svavars Gests fjögur lög. Arezzo (sýsla). Kort sem sýnir staðsetningu Arezzo á Ítalíu Arezzo er austasta sýslan í Toskanahéraði á Ítalíu og nær frá Appennínafjöllunum í austri að vínræktarhéraðinu Chianti í vestri. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Arezzo þar sem tæpur þriðjungur íbúanna býr. Íbúar voru 323.288 árið 2001. Sýslan skiptist í þrjátíu sveitarfélög. Sveitarfélög. Anghiari · Arezzo · Badia Tedalda · Bibbiena · Bucine · Capolona · Caprese Michelangelo · Castel Focognano · Castel San Niccolò · Castelfranco di Sopra · Castiglion Fibocchi · Castiglion Fiorentino · Cavriglia · Chitignano · Chiusi della Verna · Civitella in Val di Chiana · Cortona · Foiano della Chiana · Laterina · Loro Ciuffenna · Lucignano · Marciano della Chiana · Monte San Savino · Montemignaio · Monterchi · Montevarchi · Ortignano Raggiolo · Pergine Valdarno · Pian di Sco' · Pieve Santo Stefano · Poppi · Pratovecchio · San Giovanni Valdarno · Sansepolcro · Sestino · Stia · Subbiano · Talla · Terranuova Bracciolini Arezzo. Arezzo er borg í Toskanahéraði á Ítalíu og höfuðstaður samnefndrar sýslu. Íbúar voru rétt rúmlega 90 þúsund talsins árið 2001. Hún stendur á hæð sem rís upp af flóðsléttu Arnófljóts. Borgin var stofnuð af Etrúrum en Rómverjar lögðu hana undir sig árið 311 f.Kr. Stia. Stia er um 3000 manna smábær í Arezzo sem stendur við rætur Appennínafjalla í dalnum Casentino við upptök Arnófljóts. Sansepolcro. Sansepolcro (áður Borgo San Sepolcro) er um 15 þúsund manna bær í Arezzo í Toskanahéraði á Ítalíu. Bærinn stendur við rætur Appennínafjalla við ána Tíber. Hann er fæðingarstaður ítalska endurreisnarmálarans Piero della Francesca. Pastaframleiðandinn Buitoni var stofnaður í Sansepolcro árið 1827. DJ Ötzi. DJ Ötzi (fæddur 7. janúar 1971 í St. Johann í Tirol) er austurrískur söngvari og skemmtikraftur. Stein Rokkan. Stein Rokkan (1921 – 1979) var norskur stjórnmálafræðingur og félagsfræðingur. Hann var prófessor í samanburðarstjórnmálafræði við Háskólann í Bergen. Þar sem Rokkan var upprunalega menntaður sem heimspekingur stundaði hann rannsóknir með Arne Næss. Seinna beindust áhugamál hans að stjórnmálum og þá sérstaklega að myndun stjórnmálaflokka og evrópskra þjóða. Sem stjórnmálafræðingur starfaði hann mikið með Seymour Martin Lipset og er þetta tvíeyki vel þekkt innan stjórnmálafræðinnar. Rokken er einnig þekktur fyrir að vera brautryðjandi í notkun tölvutækni innan félagsfræðanna. Gula húsið. Gula húsið er smásagnasafn eftir Gyrði Elíasson sem kom út árið 2000. Fyrir bókina hlaut Gyrðir Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Gangandi íkorni. Gangandi íkorni er skáldsaga eftir Gyrði Elíasson og kom út 1987; þetta var fyrsta skáldsaga Gyrðis. Mál og menning gaf bókina út og síðan endurútgaf Íslenski kiljuklúbburinn bókina árið 1990. Sagan er súrrealísk fantasía og fjallar um strák sem heitir Sigmar, sem fer úr raunheimi inn í ímyndaðan heim þar sem hann er ekki lengur strákur heldur íkorni. Bókin er talin tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Næturluktin er sjálfstætt framhald af bókinni, en hún kom út árið 2001. Bækurnar tvær voru síðan gefnar út saman í kilju árið 2006. Tvíundakerfi. Tvíundakerfi eða tvítölukerfi er talnakerfi með grunntöluna tvo. "Tvíundartala" er staðsetningartáknkerfi, sem notar tvö tákn, 0 og 1. Tvíund á við ákveðið tónbil. Tölur í tvíundakerfinu er hægt að setja fram sem röð handahófskenndra bita (0 eða 1). Sem dæmi er talan 667 skrifuð 1010011011 í tvíundakerfinu. Tölur í tvíundakerfinu eru vanalega lesnar staf eftir staf til að greina þær frá tölum í tugakerfinu. Þannig væri talan 100 í tvíundakerfinu (jafngildir 4 í tugakerfinu) borin fram "einn núll núll" en ekki "eitt hundrað". Talning í tvíundakerfinu. Talning í tvíundakerfinu er svipuð og talning í öðrum talnakerfum. Við byrjum með einum tölustaf, talning heldur svo áfram í gegn um hvern staf, í hækkandi röð. Tugakerfið notar tölustafina 0 til 9 en tvíundakerfið notar aðeins 0 og 1. Samlagning. 1 1 1 1 1 (tölur fluttar til vinstri) + 1 0 1 1 1 1 0 0 1 0 0. Í þessu dæmi eru tvær tölur lagðar saman: 011012 (13 í tugakerfinu) og 101112 (23 í tugakerfinu). Efsta röðin sýnir tölur sem eru fluttar til vinstri. Byrjum á dálkinum lengst til hægri, 1 + 1 = 10. 1 er fluttur til vinstri og 0 er skrifað í dálkinn lengst til hægri í neðstu röðina. Í öðrum dálki frá hægri eru lagðar saman tölurnar 1 + 0 + 1 = 10 aftur, 1 er fluttur til vinstri og 0 skrifað í neðstu röðina. Þriðji dálkur frá hægri: 1 + 1 + 1 = 11. Núna er 1 fluttur til vinstri og 1 skrifað í neðstu röðina. Þessu er svo haldið áfram og út kemur 1001002 (36 í tugakerfinu). Breytingar milli talnakerfa. Til að breyta heiltölu úr tugakerfinu yfir í tvíundakerfið er tölunni deilt með tveim og afgangurinn af því er þá aftasta talan í tvíundatölunni. Útkomunni (heiltala) er svo aftur deilt með tveim og afgangurinn er þá næst aftasta talan í tvíundatölunni. Þetta er svo endurtekið þangað til útkoma frekari deilingar verður núll. Tvíundatalan er svo fengin með því að lesa rununa af afgöngunum frá bottni til topps og gefur þá formula_1. Tvíundakerfið: 1 1 0 0 1 0 1 0 1 1 0 1 Tugakerfið: [(2^11)*1] + [(2^10)*1] + [(2^9)*0] + [(2^8)*0] + [(2^7)*1] + [(2^6)*0] + [(2^5)*1] + [(2^4)*0] + [(2^3)*1] + [(2^2)*1] + [(2^1)*0] + [(2^0)*1] = 3245 Adobe Systems. Adobe Systems er bandarískt hugbúnaðarfyrirtæki. Höfuðstöðvar þess eru í San Jose, Kaliforníu. Hulduefni. Hulduefni (e. dark matter) er óstaðfest tilgáta um efni sem er hulið sjónum og endurvarpar ekki ljósi né orku. Talið er að 85% alls efnis í alheiminum sé hulduefni. Hulduefni er talið liggja í hjúp umhverfis Vetrarbrautina. Hulduefni mælist vegna þyngdaráhrifa þess á allt efni. Svo virðist sem vetrarbrautir haldist saman vegna hulduefnisins. Snúningur Vetrarbrautarinnar er ein helsta sönnun fyrir tilvist hulduefnis því ferð stjarnanna umhverfis miðjuna kemur ekki saman við útreikninga um massa efnis í henni. Elsa Beskow-verðlaunin. Elsa Beskow-verðlaunin eru listaverðlaun veitt af félagi sænskra bókasafnsfræðinga þeim myndskreytara barnabóka sem þykir standa upp úr á ári hverju. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1958 en þá hlaut verðlaunin finnsk-sænski höfundurinn Tove Jansson fyrir bók sína "Vetrarundur í Múmíndal". Verðlaunin eru alls 10.000 sænskar krónur. Ragnar Bjarnason og Elly Vilhjálms - Járnhausinn. Járnhausinn er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni flytja Ellý Vilhjálms, Ragnar Bjarnason og Ómar Ragnarsson ásamt hljómsveit Svavars Gests sex lög úr samnefndum söngleik eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni. Um útsetningu laga sá Magnús Ingimarsson. Undir Stórasteini. Jónas Árnason Nökkvi Elíasson. Erlingur Nökkvi Elíasson (fæddur 2. desember 1966) er íslenskur ljósmyndari sem hefur að mestu leyti einbeitt sér að svart/hvítum ljósmyndum af eyðibýlum og öðrum yfirgefnum mannvirkjum, eins og sjá má í bók hans er nefnist einfaldlega "Eyðibýli" og kom út árið 2005. Nökkvi hefur haldið tvær sýningar á verkum sínum. Annars vegar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og svo hins vegar í Pakkhúsinu á Höfn í Hornafirði. Nökkvi er sonur Elíasar Halldórssonar myndlistarmanns og bróðir Gyrðis Elíassonar rithöfundar og Sigurlaugar Elíassonar ljóðskálds og myndlistarmanns. Tenacious D. Tenacious D er bandarísk hljómsveit þar seim einu alvöru meðlimirnir eru Jack Black og Kyle Gass. Þeir eru yfirleitt tveir að spila og þá spila þeir hvor á sinn kassagítar og syngja. Black er aðal söngvarinn og Kyle aðal gítar leikarinn. Þeir koma þó af og til fram með heilli hljómsveit og hafa þeir slíka hjá sér á báðum plötunum sínum. þeir byrjuðu á þáttum hjá HBO en náðu ekki miklum frama þar. Þeir héldu þá áfram að fylla upp á littlum skemmtistöðum og slíku þangað til þeir hittu Dave Grohl sem hjálpaði þeim t.d. með því að leyfa þeim að hita upp fyrir Foo Fighters. Eftir það gerðu þeir fyrstu plötu sína sem hét einfaldlega Tenacious D. Núna hefur ein bæst við og er það platan og kvikmyndin Tenacious D: The Pick of Destiny. Karius og Baktus (hljómplata). Karius og Baktus er 45-snúninga hljómplata með leikriti Thorbjörns Egners, gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Super Bowl XLI. Super Bowl XLI var 41. Super Bowl leikur NFL deildarinnar. Þann 4. febrúar 2007 mættu meistarar AFC deildarinnar, Indianapolis Colts, meisturum NFC deildarinnar, Chicago Bears í Miami Gardens í Flórída. Indianapolis Colts sigruðu Chicago Bears 29 - 17 þar sem að liðsstjórnandi Colts, Peyton Manning, var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar. Bæði liðin bundu enda á langa fjarveru sína frá úrslitaleiknum, Indianapolis Colts komust síðast í úrslitaleikinn árið 1971 og Chicago Bears komust síðast í úrslit árið 1985. ITunes. iTunes er stafrænt margmiðlunar forrit, kynnt af Apple 10. janúar 2007 á Macworld í San Francisco, notað til að spila og flokka stafræna tónlist og myndbönd. Forritið er einnig notað til að stjórna innihaldi á iPod. Þar að auki getur iTunes einnig tengst iTunes Store (krefst internet tengingu) til að kaupa og hlaða niður stafræna tónlist, tónlistarmyndbönd, sjónvarpsþætti, iPod leiki, kvikmyndum og fleiru. iTunes er fáanlegt ókeypis fyrir Mac OS X og Windows frá vefsíðu Apple. Það fylgir einnig með öllum Macintosh tölvum. Þó sumir notendur hafa tekist að setja inn iTunes á 64-bita útgáfu af Windows Server 2003 og Windows XP, styður Apple það ekki enn. Saga. Það var upprunalega þróað af Jeff Robbin og Bill Kincaid sem MP3 spilari, kallaður SoundJam MP og gefin út af Casady & Greene árið 1999. Það var keypt af Apple árið 2000, gefið nýtt notendaviðmót og möguleika á að brenna CD diska og upptökumöguleikinn og möguleikinn á að breyta útlitinu var sleppt og var síðan gefið út sem iTunes. Upprunalega aðeins fyrir Mac OS 9 en Mac OS X stuðning var bætt við í útgáfu tvö, níu mánuðum seinna og Mac OS 9 stuðningi var hætt í útgáfu 3. Í október 2003 var útgáfa 4.1 gefin út og Apple bætti við stuðningi fyrir Microsoft Windows 2000 og Windows XP. Stuðningi við Windows 2000 var hætt eftir útgáfu 7.3.2. Super Bowl XL. Super Bowl XL var 40. Super Bowl leikur NFL deildarinnar. Þann 5. febrúar 2006 mættu meistarar AFC deildarinnar, Pittsburgh Steelers, meisturum NFC deildarinnar, Seattle Seahawks í Detroit í Michigan. Pittsburgh Steelers sigruðu Seattle Seahawks 21 - 10 þar sem að Hines Ward, var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar. ILife. iLife er forritasvíta frá Apple Inc., hönnuð fyrir Mac OS X. Forritin eru notuð til þess að búa til, halda um og skoða stafrænt efni, s.s ljósmyndir, kvikmyndir, tónlist og vefsíður. Í iLife '08, inniheldur pakkinn 6 forrit: iTunes, iPhoto, iMovie, iDVD, GarageBand og iWeb. Í þeirri útgáfu kom nýtt forrit í staðinn fyrir iMovie en heitir sama nafni. Hægt er að niðurhala gömlu útgáfunni af iMovie hjá apple.com ef maður hefur keypt iLife '08. Svítan fylgir öllum nýjum Apple tölvum og einnig er hægt að kaupa hana sér. Kristján Finnbogason. Kristján Finnbogi Finnbogason (8. maí 1971) er íslenskur markvörður í knattspyrnu. Hann spilaði áður fyrir Gróttu, K.F.C. Lommel S.K. og ÍA en spilar nú fyrir KR. Hann var aðalmarkvörður KR frá 1999, þegar liðið vann sinn fyrsta titil í 31 ár til ársins 2008. Hann á 20 A-landsliðs leiki að baki og var lengi varamarkvörður þess. Hann er núna markmannsþjálfari hjá Val Ólafur Teitur Guðnason. Ólafur Teitur Guðnason (fæddur 2. október 1973) er íslenskur blaðamaður. Hann gekk í Verslunarskólann og tók þá þátt í Morfís, þá þýddi hann einnig leikrit Verslunarskólans The Wall, eftir Roger Waters, sem sýnt var í Háskólabíó árið 1995. Síðar var hann fréttamaður á Ríkisútvarpinu, blaðamaður hjá DV og svo hjá Viðskiptablaðinu. Hann var um skeið þáttastjórnandi Sunnudagsþáttsins á Skjá einum. Ólafur ritstýrði með Gísla Marteini Bók aldarinnar og hefur einnig gefið út bækurnar "Fjölmiðlar 2004", "Fjölmiðlar 2005" og "Fjölmiðlar 2006" þar sem hann leitast við að greina fréttaumfjöllun íslenskra fjölmiðla með gagnrýnu hugarfari. Hnefaleikar. Hnefaleikar eða box er íþrótt þar sem tveir einstaklingar eigast við hnefunum einum saman og reyna að koma sem flestum löglegum höggum á hvorn annan. Ólympískir hnefaleikar fara fram á upphækkuðum palli, sem er girtur köðlum. Keppt er í þremur lotum í áhugamannaboxi en allt að 15 lotum í atvinnumannaboxi. Stig eru gefin fyrir hvert "hreint högg" og dómarar dæma yfirleitt þann sem skorar flest stig sigurinn. Undantekningar eru að unnt er að sigra með "rothöggi", þ.e.a.s. andstæðingur er sleginn niður og stendur ekki upp innan 10 sekúndna, "tæknilegu rothöggi", andstæðingur getur ekki haldið áfram vegna meiðsla eða þreytu og er þá dæmdur úr leik eða ef andstæðingur greiðir leikmanni högg neðan beltis og er þá umsvifalust dæmdur úr leik. Mesta aðsókn á bardaga er 136 þúsund áhorfendur. Hnefaleikar á Íslandi. Árið 1916 kom til Íslands danskur maður, Wilhelm Jackobson hraðritari. Hann kunni hnefaleika og tók að veita mönnum tilsögn í hnefaleikum í leikfimisal Landakotsspítala. Sú kennsla stóð aðeins yfir í einn vetur, en nokkrir nemendur hans héldu áfram æfingum næsta ár undir stjórn Eiríks Bechs. Þetta var fyrsti vísir hnefaleika á Íslandi. Íþróttafélagið Ármann var stórveldi á sviði hnefaleika á meðan þeir voru stundaðir hér á fyrri hluta 20. aldar. Iðkun hnefaleika hjá félaginu hófst árið 1926. Það ár fluttist hingað til lands Færeyingurinn Peter Wigelund og settist hér að. Hann lærði ungur skipasmíðar í Danmörku en æfði þá jafnframt hnefaleika og náði svo langt að komast í danska landsliðið. Wigelund gerðist þjálfari hjá Ármanni og hélt hnefaleikasýningu í Iðnó árið 1926, þar sem fram komu auk hans Sveinn G. Sveinsson, Ólafur Pálsson og Lárus Jónsson. Fyrsta opinbera hnefaleikamótið var svo haldið hér á landi þann 22. apríl 1928 í Gamla bíó, og var það haldið á vegum Ármanns. Hringdómari var sjálfur Jóhannes á Borg, en utanhringsdómari Eiríkur Bech og Reidar Sörensen. Keppt var í fluguvigt, fjaðurvigt, veltivigt og millivigt (en þá nefndust þyngdarflokkarnir: "Hvatþyngd" (107-115 pund), "veltiþyngd" (115-122 pund), "meðalþyngd" (122-133 pund) og "garpsþyngd" (133-145 pund)). Árið 1933 tók Íþróttasamband Íslands hnefaleika á stefnuskrá sína og voru þá hnefaleikareglurnar þýddar, staðfærðar og gefnar út. Fyrsta Íslandsmeistaramótið var haldið í júní 1936 á upphækkuðum palli á Melavelli við afar frumstæð skilyrði. Frægt hnefaleikamót fór fram við Hálogaland 1. júní 1945. Þá áttust við Hrafn Jónsson, Ármanni og Thors R. Thors, ÍR og kepptu í þungavigt. Bardaginn stóð aðeins í eina mínútu og sextán sekúndur. Á þeim tíma sló Hrafn andstæðing sinn fjórum sinnum í gólfið. Hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956. Um bannið var mikið deilt á sínum tíma. Hnefaleikafélög á Íslandi. Hnefaleikafélag Reykjaness var stofnað árið 2001. Hnefaleikafélagið ÆSIR var stofnað árið 2007 og er með aðstöðu sína í Hnefaleikastöðinni að Viðarhöfða 2, 110 Reykjavík. Helgi Hóseasson. Helgi Hóseasson (21. nóvember 1919 í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal - 6. september 2009) var íslenskur alþýðumaður sem er þekktastur fyrir fyrir mótmæli sín og var síðustu ár sín oft nefndur "Mótmælandi Íslands". Mótmæli Helga stóðu allt frá árinu 1962 til síðustu ára hans. Mótmælin beindust í fyrstu gegn meintu órétti, sem honum finnst hann hafa verið beittur af íslenska ríkinu allt frá fæðingu, en síðar einnig stuðningi Íslensks ríkisvalds við stríð og ójöfnuð. Óréttlætið sem Helgi sagðist þurfa þola fólst í því að hann gat ekki fengið kirkju, dómstóla eða annað yfirvald til að rifta skírnarsáttmála sínum. Kirkjan og samfélagið vildu ekki viðurkenna að hann væri ekki lengur bundinn loforðum gefnum við skírn og fermingu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðstoð lögfræðings hafði Helgi ekki fengið kröfum sínum framgengt við andlát sitt. Helgi var þó þekktastur fyrir að hafa slett skyri á forseta Íslands, biskup og alþingismenn við þingsetningu árið 1972. Þegar Helgi var spurður í viðtali á Útvarpi Sögu í júní 2007 af hverju hann hefði skvett skyri en ekki einhverju öðru sagðist hann ekki hafa viljað skaða sjón mannanna með sýru eða öðru hættulegu. Seinna skvetti Helgi svo tjöru og ryðvarnarefni á stjórnarráðshúsið ásamt því að brjóta í því rúðu. Árið 2003 var heimildarmyndin Mótmælandi Íslands frumsýnd. Hún fjallar um Helga og mótmælastöður hans og hlaut tilnefningu til Eddunnar fyrir bestu heimildarmyndina sama ár. Höfundar myndarinnar voru þau Þóra Fjelsted og Jón Karl Helgason. Efsta deild karla í knattspyrnu 1953. Árið 1953 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 42. skipti. ÍA vann sinn 2. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA, Valur og Þróttur. Þróttur tók þátt í fyrsta skipti. Þetta ár var mótið haldið með nýju sniði. Leikið var í tveimur riðlum og sigurvegarar þeirra riðla mættust í úrslitaleik. Mótið var einna þekktast fyrir það að markið sem réði úrslitum í úrslitaleik Vals og ÍA, „þaknetsmarkið“ svokallaða, var afar umdeilt. Margir vildu meina að það hefði ekki átt að standa. Riðill A. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Riðill B. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Þaknetsmarkið. Þann 6. september 1953, í rigningarveðri og 6 vindstigum, tókust Valsmenn og Akurnesingar á í úrslitaleik Íslandsmótsins það ár. Skagamenn fóru með 3-2 sigur af hólmi, en sigurmark Akurnesinga var vægast sagt umdeilt svo ekki sé meira sagt. Á 68. mínútu í stöðunni 2-2 hreinsar Dagbjartur Hannesson boltann frá miðjum vellinum, eftir að Valsmenn höfðu sparkað honum úr teig sínum. Boltinn fer í háan boga og áður en nokkur vissi af lá hann í marki Valsmanna, skot af 55 metra færi, og dómari leiksins, Guðjón Einarsson flautar umsvifalaust og dæmir mark. Valsmenn taka þá við sér og mótmæla markinu harkalega, vildu meina að boltinn hefði aldrei farið yfir línuna, heldur í gegnum þaknetið og benda máli sínu til stuðnings á gat sem var komið á þaknetið. Dómarinn lét þó ekki segjast og dæmdi markið gott og gilt og var það þegar uppi var staðið, sigurmark leiksins. Eftir leik fóru áhorfendur inn á völlinn til að líta gatið augum og fullyrtu sumir að boltinn hefði farið þarna í gegn á meðan aðrir sögðu hann hafa farið rétta leið inn í markið. Ekki var þó hægt að draga það í efa að þarna var gat á þaknetinu, það stórt að knötturinn hefði hæglega komist þar í gegn. Ummæli þátttakenda leiksins. „Ég athugaði netið áður en leikurinn hófst og var það þá alveg heilt. Hvernig netið hefur rifnað, er erfitt að geta sér til um. Línuvörðurinn gerði enga athugasemd við síðasta mark Akurnesinga og sjálfur sá ég ekki betur en markið væri skorað á löglegan hátt“ „Ég misreiknaði ekki knöttinn. Ég sá að hann fór yfir þverslána. Ég var á þeim stað, sem kvötturinn fór yfir markið, og hafði báðar hendur fast við þverslána.“ „Ég fullyrði, að síðasta mark okkar var algjörlega löglegt, enda hafði ég góða aðstöðu til að fylgjast með því.“ — Ríkharður Jónsson, fyrirliði og þjálfari ÍA „Ég athugaði netið áður en seinni hálfleikurinn hófst, og var það í fullkomnu lagi. Knötturinn féll næstum beint lóðrétt úr talsverðri hæð, og vegna þess hve hann var þungur vegna rigningarinnar reif hann einn möskvann á netinu. Á engan annan hátt hefur netið getað rifnað.“ IDVD. iDVD er forrit frá Apple fyrir Mac OS X. Það er notað til að búa til DVD diska. Hægt er að skrá QuickTime kvikmyndir, MP3 tónlist og stafrænar myndir á diskinn og spila hann á venjulegum DVD spilara. Forritið hefur oft verið talið lokaskrefið í iLife pakkanum með því að safna saman öllu úr öðrum iLife forritum og koma því á DVD disk. Efsta deild karla í knattspyrnu 1954. Árið 1954 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 43. skipti. ÍA vann sinn 3. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA, Valur og Þróttur. Þetta var í síðasta skiptið sem ekkert lið féll úr deildinni, fyrir utan árin 1968-69 þegar fjölgað var í deildinni. 2. deild karla var stofnuð árið eftir, árið 1955. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum" Skorað var 61 mark, eða 4,067 mörk að meðaltali í leik. GarageBand. GarageBand er forrit frá Apple Inc. fyrir Mac OS X. Það leyfir notendum að búa til sína eigin tónlist eða hlaðvörp. Forritið er partur af iLife pakkanum sem fylgir með öllum tölvum frá Apple. IMovie. iMovie er forrit frá Apple. Það er notað til að klippa saman myndbönd og búa til heimatilbúna kvikmynd. Upprunalega var forritið gefið út af Apple sem Mac OS 9 forrit sem fylgdi með ákveðnum Macintosh tölvum en síðan útgáfa 3 kom út hefur það aðeins verið fyrir Mac OS X sem partur af iLife pakkanum. Listi Death Note mangabóka. Þetta er fullkláraður listi allra kafla og bóka í manganu, skrifað af Tsugumi Ohba og teiknað af Takeshi Obata. Serían fjallar aðalega um háskólanemanda sem ákveður að leysa heiminn við illsku með hjálp ofurnáttúrulegrar stílabókar, sem drepur þann er nafn hans er ritað niður í bókina. "Death Note" manga serían var upphaflega gefin út af Shueisha í "Weekly Shonen Jump" frá fyrsta tölublaðinu í Desember 2003 til Maí 2006, og eru samtals 108 kaflar. Serían hefur verið gefin út í heild sinni, í 12 myndasögum í Japan. Á endanum var rétturinn til að gefa "Death Note" út í Ameríku keyptur af VIZ Media og hóf það útgáfu Death Notes í Október 2005. Bók 1 - Leiðindi (Boredom). Kafli 5 - Augu Dauðans (Eyeballs) Bók 2 - Samrennsli (Confluence). Kápa annarrar bókarinnar, með mynd af L framan á. Kafli 15 - Símhringing (Phone Call) Bók 3 - Á hlaupum (Hard Run). Kápa þriðju bókarinnar. Mynd af Ryuk. Kafli 20 - Fyrsta höggið (First Move) Kafli 21 - Að leika tveimur skjöldum (Duplicity) Kafli 23 - Á hlaupum (Hard Run) Bók 5 - Leiðrétting (Whiteout). Kápa fimmtu bókarinnar með mynd af L og Light Yagami framan á. Kafli 36 - Faðir og sonur (Father and Son) Kafli 37 - Hinir átta (Eight) Bók 6 - Jafnir (Give-and-Take). Kápa sjöttu bókarinnar með mynd af Light Yagami, en fyrir aftan hann eru Dauðaguðirnir Ryuk og Rem. Kafli 49 - Pottaplanta (Potted Plant) Kafli 52 - Órskömm stund (Split-Second) Bók 7 - Núll (Zero). Kápa sjöundu bókarinnar með mynd af L. Kafli 54 - Innra með (Inside) Kafli 57 - Valkostirnir (Two Choices) Kafli 58 - Innri tilfinningar (Feelings Within) Kafli 61 - Alltaf annar (Number Two) Bók 8 - Takmarkið (Target). Kafli 64 - Frá réttu horni (Right Angle) Volume 9 - Tengiliður (Contact). Kafli 74 - Góð frammistaða (A Fine Performance) Bók 10 - Eyðing (Deletion). Kápa tíundu bókarinnar með mynd af Light Yagami fyrir aftan Mello og Near. Bók 11 - Samhuga (Kindred Spirit). Kafli 89 - Samhuga (Kindred Spirit) Kafli 94 - Utan við (Outside) Kafli 96 - Á meðan (Meanwhile) Bók 12 - Endirinn (Finis). Kápa tólftu bókarinnar með mynd af Light Yagami sem líkneski, umkringdur L, Misu, Mello, Near og hauskúpum. Kafli 99 - Tveir (Two People) Kafli 100 - Auglitis til auglitis (Face to Face) Kafli 106 - Með drápshuga (Killing Intent) Kafli 107 - Þungamiðja (Extreme Center) Death Note: How To Read 13 - The Truth. Kápa þrettándu bókarinnar, með mynd af Light (vinstra megin) og L (hægra megin). 1. deild karla í knattspyrnu 1955. Árið 1955 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 44. skipti. KR vann sinn 15. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA, Valur og Þróttur. Þetta var í fyrsta skiptið sem að lið féll úr deildinni, niður í 2. deild karla. Það lið sem fékk þann vafasama titil, að hafa fallið fyrst liða úr úrvalsdeildinni, var Þróttur Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum" Markahæstu menn. Skoruð voru 74 mörk, eða 4,933 mörk að meðaltali í leik. Fyndnasti maður Íslands. Fyndnasti maður Íslands er keppni í uppistandi sem fyrst var haldin árið 1998. Sigurvegarar. Fram til ársins 2007 var keppnin ekki haldin en það ár vann Þórhallur Þórhallsson hana. Af þeim sem hafa lent í öðru sæti má nefna Bjarna töframann og Auðunn Blöndal. 1. deild karla í knattspyrnu 1956. Árið 1956 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 45. skipti. Valur vann sinn 12. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍA, Valur og ÍBA. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum" Markahæstu menn. Skoruð voru 64 mörk, eða 4,267 mörk að meðaltali í leik. Hesteyri. Rústir síldarbræðslunnar og hvalstöð á Stekkeyri. Hesteyri er eyðiþorp við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þorpið fór í eyði rétt eftir miðja 20. öld. Hesteyrarjörðin, sem þorpið stendur á, á landamerki með jörðinni Sléttu í Sléttuhreppi yst í Hesteyrarfirði. Jörðin nær frá landamerkjum við Sléttu fyrir Hesteyrarfjörð og fremst á Lásfjall. Á Hesteyri eru nú 9 hús sem notuð eru sem sumarhús. Flest þessara húsa eru frá fyrri hluta síðustu aldar en nokkur voru reist fyrir aldamótin 1900. Í húsi, sem gengur undir nafninu Búðin, var rekin verslun en Hesteyri varð löggiltur verslunarstaður 1881. Þegar flest var bjuggu rúmlega 80 manns á Hesteyri. Þar var læknisbústaður en oft gekk illa að fá lækni þangað. Innan við Hesteyri rennur Hesteyrará sem oft reyndist farartálmi þeim sem ætluðu norður í víkur (Kjaransvík, Hlöðuvík, Hornvík). Sumarið 2004 var áin brúuð. Rúmum tveimur kílómetrum innan við þorpið stóð áður hvalstöð, reist 1894, sem síðar varð síldarbræðsla. Stöðin var reist af Norðmönnum en komst síðan í eigu Íslendinga. Stöðin var starfrækt fram í seinna stríð. Í dag er orðið lítið eftir af stöðinni nema rústir og strompur mikill sem enn stendur. Kirkja var reist á Hesteyri, og var hún vígð 3. september 1899. Kirkjunni var þjónað frá Staðarkirkju í Aðalvík. Það voru Norðmenn þeir, sem áttu hvalverksmiðjuna á Stekkeyri, sem gáfu Hesteyringum kirkjuna, sem var flutt tilhöggvin frá Noregi. Árið 1962 var hún tekin niður og flutt til Súðavíkur þar sem hún stendur enn. Það láðist að fá leyfi landeigenda á Hesteyri fyrir töku kirkjunnar. Hesteyrarþorp fór í eyði 1952. Þar sem kirkjan stóð áður hefur nú verið reistur minnisvarði með bjöllu og koparskildi með teikningu af kirkjugarðinum og lista yfir þá sem þarna eru grafnir. Kambsránið. Kambsránið er rán sem framið var þann 9. febrúar árið 1827 á bænum Kambi í Flóa. Fjórir grímuklæddir menn réðust inn í bæinn og bundu bóndann Hjört Jónsson og húsfólk hans og brutu upp hirslur í leit að peningum. Þeir rændu um 1000 ríkisdölum. Ræningarnir skildu eftir sig verksummerki m.a. skó, járnflein og vettling. Þuríður formaður á Stokkseyri taldi sig þekkja handbragðið á skónum og að för á járnfleininum pössuðu við steðja í eigu Jóns Geirmundssonar á Stéttum í Hraungerðishreppi. Vettlingur sem fannst í túninu á Kambi var talinn kominn frá Jóni Kolbeinssyni á Brú í Stokkseyrarhreppi. Grunur beindist einnig að bróður hans Hafliða. Þessir menn játuðu og bentu á forsprakkann sem var Sigurður Gottsvinnsson á Leiðólfsstöðum. Í réttarhöldunum komst einnig upp um ýmis önnur þjófnaðarmál í Árnessýslu m.a. þjófnað úr Eyrarbakkaverslun og sauðaþjófnað. Málaferlin stóðu í tæpt ár og um 30 manns var stefnt fyrir rétt. Í febrúar 1828 kvað sýslumaður upp dóm sem áfrýjað var til Landsyfirréttar í Reykjavík og Hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Þar gekk dómur 1829 og voru ránsmennirnir fluttir til Kaupmannahafnar árið 1830. Sigurður var dæmdur til hýðingar, brennimerkingar og ævilangs þrældóms í Kaupmannahöfn. Sigurður var í fangavistinni dæmdur til lífláts fyrir áverka sem hann veitti fangaverði og var hálshöggvinn árið 1834. Jón Geirmundsson var dæmdur til hýðingar og þrældóms ævilangt, Jón Kolbeinsson til 12 ára þrældóms og Hafliði til 8 ára. Þeir fengu sakauppgjöf frá konungi árið 1844. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skráði sögu af Þuríði formanni og Kambránsmönnum og kom hún fyrst út 1893. Þuríður formaður. Þuríður Einarsdóttir (oftast nefnd Þuríður formaður) (1777 - 13. nóvember 1863) var einn mesti kvenskörungur í Árnesþingi á 19. öld og þekktust fyrir formennsku sína á sjó og því að koma upp um Kambsránið. Hún stundaði sjó til ársins 1843 og var lengst af formaður á bát en það þótti einstakt fyrir konur á hennar tíma. Þuríður formaður var fædd á Stéttum í Hraunshverfi, en þar bjuggu foreldrar hennar í mörg ár, og þar ólst hún upp til 25 ára aldurs. Móðir Þuríðar var Helga yngri Bjarnadóttir í Ranakoti efra Þorsteinssonar, er bjó í Sandlækjarkoti árið 1703, Jónssonar. Ævi Þuríðar formanns er stundum skipt í þrjú tímabil að mestu eftir dvalarstöðum hennar. Fyrsta tímabilið, þar til hún er 25 ára gömul, átti hún heima á Stéttum hjá foreldrum sínum. Hún byrjaði að róa á vorvertíð hjá föður sinum 11 ára gömul og er síðan látin róa vor og haust sjá föður sínum og Bjarna bróður sínum, þar til hún gerist fullgildur háseti á vetrarvertíð hjá Jóni í Móhúsum, þá rúmlega tvítug að aldri. Á þessum árum klæddist hún karlmannsfötum vegna sjómennskunnar en til þess þurfti sérstakt leyfi sýslumanns. Annað tímabilið nær frá 1802—1830. Þá á hún heima á ýmsum stöðum í Stokkseyrarhverfinu, lengst í einum stað í Götu. Á þeim árum stendur hún upp á sítt besta. Þá byrjar hún formennsku fyrst á vor- og haustvertíð, síðan á vetrarvertiðum sem formaður á Stokkseyri frá 1816—30. Þriðja tímabilið nær frá 1830 til dauðadags Þuríðar. Allan þann tíma á hún heima á Eyrarbakka að undanskildum 7 árum, 1840—1847, er hún dvaldist víð verslunarstörf í Hafnarfirði. Fyrsta áratuginn, sem hún átti heima á Eyrarbakka, var hún formaður í Þorlákshöfn á vetrarvertíðum og stýrði áttæringi og aflaði vel. Lengst af var hún sjálfrar sín, ýmist við smábúhokur eða sem húskona á Skúmsstóðum þar til seinustu 8—9 árin sem hún lifði, er hún varð að þiggja sveitarstyrk, þá komin fast að áttræðu. Hún dó í Einarshöfn haustið 1863 86 ára gömul, furðanlega ern til hins síðasta. Þuríðarbúð á Stokkseyri var reist árið 1949 til minningar um Þuríði formann. Búðin stendur nálægt þeim stað sem búð Þuríðar stóð. Þuríður varð fræg fyrir að koma upp um Kambsránið, en það var rán, sem framið var á bænum Kambi í Flóa. IPhoto. iPhoto er forrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Það er partur af iLife pakkanum sem fylgir með öllum nýjum Mac tölvum. Í iPhoto geturu sett inn, flokkað, breytt, prentað og deilt stafrænum myndum. Það er oft borið saman við Picasa frá Google og Adobe Photoshop Album frá Adobe. Sjóminjasafn Rúðuborgar. Sjóminjasafn Rúðuborgar er safn um sögu hafnar Rúðuborgar í Frakklandi. 1. deild karla í knattspyrnu 1957. Árið 1957 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 46. skipti. ÍA vann sinn 4. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBH, ÍA, Valur og ÍBA. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Þar sem KR og ÍBA urðu jöfn að stigum í neðsta sæti, spiluðu liðin um það hvort liðið félli. 20px KR 1 - 0 ÍBA 20px Töfluyfirlit. "Allir leikirnir, nema úrslitaleikur ÍA og Fram, voru leiknir á Melavellinum" Markahæstu menn. Skoruð voru 46 mörk, eða 3,067 mörk að meðaltali í leik. IWeb. iWeb er WYSIWYG forrit sem býr til heimasíður og er gefið út af Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Það var gefið út á meðan Macworld var í San Francisco 10. janúar 2006. Það var partur af iLife '06 pakkanum. iWeb býr til vefsíður og blogg og birtir það í gegnum .Mac og aðrar vefhýsingar. Yfirlit og fítusar. iWeb er notað til að búa til vefsíðu og blogg. Notandi þarf ekki að hafa neina þekkingu í forritun til að nota forritið. 1. deild karla í knattspyrnu 1958. Árið 1958 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 47. skipti. ÍA vann sinn 5. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBH, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Þar sem Fram og ÍBH urðu jöfn að stigum í neðsta sæti, spiluðu liðin um það hvort liðið félli. 20px Fram 6 - 0 ÍBH 20px Töfluyfirlit. "Allir leikirnir voru leiknir á Melavellinum Markahæstu menn. Skoruð voru 66 mörk, eða 4,40 mörk að meðaltali í leik. 1. deild karla í knattspyrnu 1959. Árið 1959 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 48. skipti. KR vann sinn 16. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Þróttur, ÍA, Valur og Keflavík. Þetta var í fyrsta skipti sem að lið spiluðu bæði á heimavelli og útivelli. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 135 mörk, eða 4,50 mörk að meðaltali í leik. Ellert B. Schram. Ellert Björgvinsson Schram (fæddur 10. október 1939) fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Ellert útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 1959 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1966. Hann lék einnig knattspyrnu fyrir KR og var á lista yfir markahæstu menn Úrvalsdeildarinnar frá árinu 1959 til 1964 án þess þó að vera markahæstur. Ellert lék einnig með landsliði Íslands í knattspyrnu. Ellert var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 og Samfylkingarinnar 2007-2009. Ellert var kjörinn forseti Íþróttasambands Íslands árið 1991 og gegndi því embætti til ársins 2006. Hann var sæmdur riddarakross Fálkaorðunnar árið 2001 „fyrir störf í þágu íþrótta.“ IWork. iWork er safn af forritum frá Apple. Það inniheldur forritin Pages, Numbers og Keynote. Það er hannað sem viðbót við hinn pakkann frá Apple, iLife. Þó að iLife fylgi ókeypis með öllum Mac tölvum þarf að kaupa iWork. Það fylgir 30 daga prufa af iWork á öllum Mac tölvum og einnig ef viðskiptavinir uppfæra í nýrri útgáfu af iLife fylgir líka með 30 daga prufa af nýjustu útgáfu af iWork. 1. deild karla í knattspyrnu 1960. Árið 1960 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 49. skipti. ÍA vann sinn 6. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 146 mörk, eða 4,867 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Keynote (forrit). Keynote er kynningarforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Það var fyrst kynnt í janúar 2003 og er nú partur af iWork pakkanum. Nýjasta útgáfan er Keynote 4. Hún keyrir á Mac OS X 10.4 Tiger og Mac OS X 10.5 Leopard. Pages. Pages er textaritill frá Apple fyrir Mac OS X. Það er partur af iWork pakkanum ásamt Keynote. Pages 1.0 var kynnt í byrjun 2005 og var byrjað að selja það í febrúar 2005. Líkt og meirihlutinn af forritum frá Apple keyrir Pages aðeins á Mac OS X. Pages 2, partur af iWork '06 var kynnt 2006 á Macworld. Pages 3 var kynnt 7. ágúst 2007 og keyrir það aðeins á Mac OS X 10.4 Tiger og Mac OS X 10.5 Leopard. 1. deild karla í knattspyrnu 1961. Árið 1961 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 50. skipti. KR vann sinn 17. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍA, Valur og ÍBH. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 109 mörk, eða 3,63 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. 1. deild karla í knattspyrnu 1962. Árið 1962 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 51. skipti. Fram vann sinn 14. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍA, Valur og ÍBÍ. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Úrslitaleikur. Þar sem Fram og Valur voru efst að stigum að 10 umferðum loknum spiluðu þau til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. 20px Fram 1 - 0 Valur 20px Markahæstu menn. Skorað var 101 mark, eða 3,367 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð 22. maí 1954 en það ár hófst framleiðsla áburðar. Verksmiðjan var stofnuð árið 1952. Hún fékk rafmagn til framleiðslunnar úr Írafossvirkjun í Sogi. Á þeim tíma var ekki markaður fyrir alla þá raforku sem framleidd var nema til kæmi stóriðja. Sú stóriðja varð að áburðarverksmiðju í Gufunesi sem framleiddi köfnunarefnisáburð sem fékk nafnið "Kjarni". Bygging Írafossvirkjunar og Áburðarverksmiðjunnar var fjármögnuð með Marshall-aðstoðinni. Stofnað var fyrirtækið Áburðarsala ríkisins sem hafði einkarétt á innflutningi og sölu áburðar. Þetta fyrirtæki flutti inn steinefnaáburð, þrífosfat og kalí til að blanda með hinum íslenska Kjarna en köfnunarefnið í áburðinum var unnið úr andrúmsloftinu. Rekstur Áburðarverksmiðjunnar og Áburðarsölunnar var fljótlega sameinaður og hafði verksmiðjan einkaleyfi á sölu á áburði á Íslandi til ársins 1995. Framleiðsla. Í fyrstu framleiddi verksmiðjan aðeins eina tegund áburðar og framleiðslugetan var 24 þús. tonn á ári. Árið 1999 var framleiðslugetan orðin 65 þús. tonn á ári og framleiðslutegundir alls 20 talsins. Framleiðsla tilbúins áburðar hjá Áburðarverksmiðjunni fór árið 1999 fram í þessum fimm einingum sem allar eru staðsettar í Gufunesi: vetnisverksmiðju, köfnunarefnisverksmiðju, ammoníaksverksmiðju, sýruverksmiðju og blöndun. Verksmiðjan seldi þá því nær eingöngu í heildsölu til kaupfélaga og verslunarfyrirtækja. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni var lögð niður í október árið 2001 og var þá hráefni flutt inn í kornaformi og blandað saman í verksmiðjunni og áburðurinn sekkjaður. Mengun og umhverfi. Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í verksmiðjunni 15. apríl 1990. Í kjölfar þess lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum á staðsetningu verksmiðjunnar svo nálægt íbúðarhverfi. Borgarráð samþykkti í apríl 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt. Öflug sprenging varð í verksmiðjunni 1. október 2001. Fimm starfsmenn verksmiðjunnar voru að störfum en engan sakaði. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á staðinn og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Sagt var „að hús í Grafarvogi [hafi nötrað] og margir íbúar [hafi fundið] loftþrýstibylgju“. Þetta varð til þess að framleiðslu þar var hætt fyrr en ella. Í febrúar 2010 dæmi Hæstiréttur Íslands konu sem býr skammt frá áburðarverksmiðjunni 4,2 milljónir kr. í skaðabætur fyrir líkamstjón og örorku vegna mengunar frá verksmiðjunni. Eigendur og eignarhald. Áburðarverksmiðjan var í fyrstu hlutafélag að meirihluta í eigu ríkisins en árið 1969 keypti ríkið meðeigendur sína út og nafni verksmiðjunnar var breytt í Áburðarverksmiðja ríkisins. Árið 1994 var rekstrinum breytt í hlutafélag og heimilað í lögum nr. 89/1994 að selja allt hlutaféð. Í ársbyrjun 1995 var einkaréttur Áburðarverksmiðjunnar til framleiðslu og sölu áburðar afnuminn og innflutningur á áburði varð þá frjáls. Það var nauðsynlegt vegna ákvæðis í EES samningnum um að samningsaðilar skuldbundu sig til þess að sjá til þess að ríkiseinokun á hvers konar verslun mismuni ekki samkeppnisstöðu annarra aðildarlanda. 49% hlutur Áburðarverksmiðjunnar var auglýstur til sölu árið 1997. Tvö tilboð bárust en þau voru undir áætluðu upplausnarverði fyrirtækisins og var hafnað. Áburðarverksmiðjan var seld í mars 1999 fyrir 1.257 milljónir króna til einkaaðila. Fyrirtækið velti miklum fjármunum og verðmæti birgða var metið á 750 milljónir. Því var haldið fram að innan við 500 milljónir hafi verið greiddar fyrir sjálfa verksmiðjuna og aðstöðuna. Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna. Áburðarverksmiðjan hafði starfsleyfi til ársins 2019 og var lóðin sem hún leigði af Reykjavíkurborg 20 hektarar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í framtíðinni á þessu svæði og landfyllingum út í sjó. Orkunotkun. Áburðarverksmiðjan var eitt af fjórum stóriðjufyrirtækjunum á Íslandi árið 2000 og þá voru orkukaup verksmiðjunnar frá Landsvirkjun 93 Gwh en til samanburðar var raforkunotkun hinna stóriðjufyrirtækjanna þessi: Íslenska álfélagið (ÍSAL) 2.718 GWh, Íslenska Járnblendifélagið 984GWh og Norðurál 887 GWh. Áburðarverksmiðjan notaði að jafnaði um 140 Gwh á ári frá 1970 en notaði áður 70 GWh á ári. 1. deild karla í knattspyrnu 1963. Árið 1963 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 52. skipti. KR vann sinn 18. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 114 mörk, eða 3,80 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. 1. deild karla í knattspyrnu 1964. Árið 1964 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 53. skipti. Keflavík vann sinn 1. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, Þróttur, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Umspil um fall. Þar sem Þróttur og Fram voru neðst og jöfn að stigum eftir 10 umferðir og spiluðu þau um hvaða lið félli. 20px Fram 4 - 1 Þróttur 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 117 mörk, eða 3,90 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. 1. deild karla í knattspyrnu 1965. Árið 1965 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 54. skipti. KR vann sinn 19. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Úrslitaleikur. Þar sem ÍA og KR voru efst og jöfn að stigum eftir 10 umferðir og spiluðu þau til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. 8534 manns lögðu leið sína á Laugardalsvöllinn til að fylgjast með leiknum. 20px KR 2 - 1 ÍA 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 108 mörk, eða 3,60 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Íþróttabandalag Akureyrar. Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) er héraðssamband íþróttafélaga á Akureyri. Knattspyrna. KA og Þór voru sameinuð undir merki ÍBA árið 1928. Félagið spilaði 20 tímabil í Úrvalsdeild karla. Árið 1974 hættu félögin samstarfi sínu og urðu aftur að KA og Þór. 1. deild karla í knattspyrnu 1966. Árið 1966 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 55. skipti. Valur vann sinn 13. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Þróttur, ÍBA, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Úrslitaleikur. Þar sem Valur og Keflavík voru efst og jöfn að stigum eftir 10 umferðir og spiluðu þau til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Leikur 1. 20px Valur 2 - 2 Keflavík 20px Leikur 2. 20px Valur 2 - 1 Keflavík 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 102 mörk, eða 3,40 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. 1. deild karla í knattspyrnu 1967. Árið 1967 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 56. skipti. Valur vann sinn 14. titil. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍA, Valur og Keflavík. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Úrslitaleikur. Þar sem Valur og Fram voru efst og jöfn að stigum eftir 10 umferðir og spiluðu þau til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. 20px Valur 2 - 0 Fram 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 89 mörk, eða 2,967 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Listi yfir leikmannabreytingar fyrir Landsbankadeild karla 2007. Listi yfir leikmannabreytingar fyrir Landsbankadeild karla 2007 er listi yfir þær breytingar á leikmönnum sem urðu fyrir Landsbankadeild karla 2007. Listinn er ekki tæmandi. Ingvar Eggert Sigurðsson. Ingvar Eggert Sigurðsson (f. 22. nóvember 1963), oft nefndur Ingvar E. Sigurðsson, er íslenskur leikari og edduverðlaunahafi. Hann hefur leikið í leikhúsi, útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Hann hefur einnig starfað sem handritshöfundur og kvikmyndaframleiðandi. Ævi. Ingvar fæddist 22. nóvember 1963 í Reykjavík. Árið 1990 útskrifaðist hann úr Leiklistarskóla Íslands. Ári síðar var hann ráðinn til Þjóðleikhússins þar sem hann hefur farið með fjölda hlutverka. Ferill í leikritum. Hlutverk sem Ingvar hefur leikið í Þjóðleikhúsinu eru: Pétur Gaut í "Pétur Gautur", Vitju í "Kæra Jelena", Tíbalt í "Rómeó og Júlíu", Ingimund í "Elínu Helgu Guðríði", Scullery í "Stræti", Svenna í "Kjaftagangi", drenginn í "Stund gaupunnar", Leonardó í "Blóðbrullaupi", Ormur Óðinsson í "Gauragangi", Fernando Krapp í "Sönnum karlmanni", Don Carlos í "Don Juan", Ketil í "Tröllakirkju", Prófstein í "Sem yður þóknast", Sergé í "Listaverkinu", Túzenbach barón í "Þremur systrum" og Kládíus konungur í "Hamlet". Edduverðlaunin. Ingvar hefur hlotið Edduverðlaunin alls fimm sinnum. Fyrst sem leikari ársins árið 1998 fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni "Slurpurinn & Co." Árið 2000 hlaut hann aftur verðlaun sem leikari ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem Pál í kvikmyndinni "Englar alheimsins". Þá hlaut hann verðlaun árið 2004 sem leikari ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem Grímur eldri í "Kaldaljós". Hann hlaut sömu verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Erlendur í kvikmyndinni "Mýrin árið 2006". Árið 2007 hlaut hann verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni Foreldrar. Gríman. Ingvar hefur hlotið Íslensku leiklistarverðlaunin (Grímuna) tvisvar sinnum. Árið 2006 hlaut hann verðlaunin sem leikari ársins í aukahlutverki fyrir leik sinn í leikritinu "Pétur Gautur". Og árið 2011 sem leikari ársins í aðalhlutverki fyrir leik sinn í Íslandsklukkunni 1. deild karla í knattspyrnu 1968. Árið 1968 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 57. skipti. KR vann sinn 20. titil. Það var mál manna að þetta væri bara enn einn titill KR. Engum hefði dottið það í hug að liðið ynni titilinn næst árið 1999. Sex lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur og Keflavík. Þetta ár var deildin stækkuð um eitt lið, ekkert lið féll úr deildinni og eitt lið kom upp úr 2. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 100 mörk, eða 3,333 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Ólöf Nordal. Ólöf Nordal, hdl. (f. 3. desember 1966) er fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 2007-2013. Ólöf sat á Alþingi fyrir Norðausturkjördæmi 2007-2009 og Reykjavíkurkjördæmi suður 2009-2013. Ólöf var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2010-2013. Ólöf ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningum 2013 og hætti sem varaformaður á landsfundi í aðdraganda þingkosninga. Faðir hennar er Jóhannes Nordal, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands og móðir hennar er Dóra Nordal, píanóleikari og húsmóðir. Eiginmaður Ólafar er Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi og eiga þau fjögur börn; Sigurð 1991, Jóhannes 1994, Herdísi 1996 og Dóru 2004. Menntun. Ólöf varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1986, lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1994 og fékk málflutningsréttindi fyrir Héraðsdómi árið 1999. Árið 2002 útskrifaðist hún með MBA-próf frá Háskólanum í Reykjavík. Ólöf hefur sótt ýmis námskeið á sviði lögfræði, afbrotafræði og réttarsögu, meðal annars við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Einnig hefur hún sótt ýmis námskeið á sviði stjórnsýslu og fjármála. Starfsferill. Ólöf starfaði í lögfræðideild Landsbanka Íslands 1995-1996. Hún var deildarstjóri í samgönguráðuneytinu 1996-1999. Lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999-2001. Stundakennari í lögfræði við Háskólann á Bifröst 1999-2002 og vann að stofnun lagadeildar við skólann. Deildarstjóri lagadeildar við Háskólann á Bifröst 2001-2002. Yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002-2004. Framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004-2005 og framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005-2006. Ólöf hefur einnig unnið við þýðingar og þýddi bókina Sjáðu barnið eftir Desmond Morris, sem var gefin út af Almenna bókaforlaginu árið 1993. Trúnaðarstörf. Á Alþingi hefur Ólöf gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum, meðal annars verið varaformaður samgöngunefndar, setið í allsherjarnefnd og umhverfisnefnd. Hún situr í háskólaráði Háskólans á Akureyri, stjórn Handverks og hönnunar, er formaður nefndar á vegum fjármálaráðuneytis um kynbundinn launamun og fleira. Hún hefur setið í ýmsum nefndum í tengslum við störf sín, meðal annars á sviði fjármálamarkaða, og er formaður nefndar á vegum fjármálaráðuneytis, sem hefur það að markmiði að draga úr kynbundum launamuni hjá hinu opinbera. Kristinn H. Gunnarsson. Kristinn H(alldór) Gunnarsson (f. 19. ágúst 1952 í Reykjavík) var alþingismaður fyrir Vestfjarðakjördæmi og Norðvesturkjördæmi á árunum 1991-2009. Kristinn hóf feril sinn í stjórnmálum hjá Alþýðubandalaginu en hann var bæjarfulltrúi fyrir flokkinn í bæjarstjórn Bolungarvíkur á árunum 1982-1998. 1991 náði hann kjöri á Alþingi í Vestfjarðakjördæmi. 1998 sagði hann skilið við Alþýðubandalagið, gekk í Framsóknarflokkinn og náði kjöri fyrir hann í kosningunum 1999. Síðan 2003 hefur Kristinn verið þingmaður Norðvesturkjördæmis. Samstarf Kristins og þingflokks Framsóknarflokksins var oft örðugt en hann lét gjarnan í ljós aðrar skoðanir á málum eins og fjölmiðlamálinu og Íraksmálinu en aðrir þingmenn flokksins. Í september 2004 ákvað þingflokkurinn að Kristinn myndi ekki sitja í neinum nefndum fyrir flokkinn vegna „trúnaðarbrests“ milli flokksins og hans. Á þingflokksfundi í maí 2005 var það þó samþykkt að Kristinn tæki sæti í tveimur nefndum. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2007 bauð Kristinn sig fram í fyrsta sæti listans gegn Magnúsi Stefánssyni félagsmálaráðherra en beið lægri hlut og lenti raunar í þriðja sæti. Skömmu síðar gekk hann til liðs við Frjálslynda flokkinn og tók annað sætið á lista frjálslyndra í norðvestri á eftir formanninum Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Í kosningunum 2007 náði hann svo kjöri fyrir þriðja stjórnmálaaflið á sínum þingmannsferli. Hann var ekki í kjöri í alþingiskosningunum 2009 eftir að hann sagði skilið við Frjálslynda flokkinn og reynt fyrir sér í prófkjöri Framsóknarflokksins þar sem hann lenti í 8. sæti af 9 frambjóðendum. Chianti. Kort sem sýnir Chianti samkvæmt núgildandi skilgreiningu. Rauða svæðið í miðjunni er upprunalega vínræktarsvæðið. Chianti er heiti á lágum fjallgarði í Toskana sem liggur milli Flórens, Písa, Siena og Arezzo og hæðunum umhverfis hann. Hæsti tindur fjallgarðsins er Monte San Michele sem liggur 893 metra yfir sjávarmáli. Svæðið er einkum þekkt sem vínræktarhérað en á 13. öld gerðu vínframleiðendur í bæjunum Radda, Gaiole og Castellina með sér bandalag og tóku upp sérstakt merki, svartan hana á gylltum grunni sem síðan hefur verið upprunamerking Chianti-víns. Þessi þrjú sveitarfélög mynduðu síðan í upphafi 19. aldar "Chianti-sýslu" samkvæmt fyrstu skiptingu Toskana í sýslur og sveitarfélög. Síðan þá hefur vínræktarsvæðið sem kallað er Chianti verið stækkað umtalsvert svo það nær yfir nánast allar hæðirnar í miðju Toskana. Um leið var héraðinu skipt í nokkur undirsvæði til aðgreiningar. Casentino. Horft yfir Bibbiena í Casentino. Casentino er dalur í Appennínafjöllum vestanverðum í Arezzo þar sem fljótið Arnó rennur fyrsta spölinn frá norðurhlíðum Monte Falterona sem myndar norðurmörk dalsins. Að austanverðu skilja fjöllin Alpe di Serra og Alpe di Catenaia dalinn frá Val Tiberina þar sem áin Tíber rennur úr Monte Fumaiolo. Að vestanverðu skilur fjallgarðurinn Pratomagno milli Casentino og Valdarno þar sem Arnó heldur för sinni áfram. Dalurinn skiptist milli þrettán sveitarfélaga: Bibbiena, Capolona, Castel Focognano, Castel San Niccolò, Chitignano, Chiusi della Verna, Montemignaio, Ortignano-Raggiolo, Poppi, Pratovecchio, Stia, Subbiano og Talla. Monte Falterona. Monte Falterona er 1.654 metra hátt fjall í norðurhluta Appennínafjalla á mörkum héraðanna Toskana og Emilía-Rómanja og skiptist milli sýslnanna Flórens, Arezzo (Toskanamegin) og Forlì-Cesena. Fjallið er aðallega myndað úr sandsteini. Í hlíðum þess í 1.328 metra hæð er uppspretta sem er skilgreind sem upptök Arnófljóts. Arnó. Arnófljót þar sem það rennur gegnum Flórens. Arnó er fljót í Toskanahéraði á Ítalíu. Það er næststærsta fljót Mið-Ítalíu á eftir Tíberfljóti. Fljótið á upptök sín í uppsprettu í norðurhlíðum Monte Falterona í Appennínafjallgarðinum og rennur þaðan 241 km leið í vesturátt gegnum borgirnar Flórens, Empólí og Písa og út í Tyrrenahaf. Vatnsmagn í Arnó er mjög breytilegt og gat áin valdið stórflóðum á rigningartímanum seint á haustin, síðast í Flórens árið 1966 þegar mikill hluti gömlu borgarinnar fylltist af vatni. Stíflur ofar í ánni hafa dregið mjög úr hættunni á slíkum flóðum. Tyrrenahaf. Tyrrenahaf er hafsvæði í Miðjarðarhafi milli vesturstrandar Ítalíu og eyjanna Korsíku, Sardiníu og Sikileyjar. Nafnið er dregið af gríska nafninu yfir Etrúra: Τυῥῥηνόι ("Tyrrhēnoi"). Rut Hallgrímsdóttir. Rut Hallgrímsdóttir er íslenskur ljósmyndari og hefur starfrækt eigin ljósmyndastofu, Ljósmyndir Rutar, frá árinu 1988. Á ljósmyndastofu sinni hefur Rut lagt metnað sinn í vinnslu svart-hvítra ljósmynda auk litmynda. Rut hefur unnið jöfnum höndum við ýmis verkefni; ljósmyndun fyrir tímarit, auglýsingaljósmyndun og portrettljósmyndun. Barnaljósmyndun hefur verið stór hluti af störfum hennar. Í portretljósmyndun hefur kjörorð Rutar alltaf verið að ná sambandi við þá sem sitja fyrir. Rut lærði ljósmyndun í Iowa, Bandaríkjunum við Hawkeye Institute of Technology á árunum 1978 til 1979, Hún stundaði nám hjá Sigurgeiri Sigurjónssyni ljósmyndara og öðlaðist meistararéttindi árið 1986. Rut er félagi í Ljósmyndarafélagi Íslands og hefur starfað þar í stjórn og prófnefnd. .Mac. .Mac (borið fram „Dot Mac“) var safn netþjónusta frá Apple, aðallega fyrir Mac OS X-notendur þó nokkrir möguleikar væru einnig fyrir önnur stýrikerfi. Til að byrja með.Mac frítt fyrir notendur Mac OS-stýrikerfisins en síðar þurfti að borga fyrir ársáskrift af þjónustunni. Þrátt fyrir nafnið er.Mac ekki rótarlén. 9. júlí 2008 breyttist.Mac í MobileMe og voru notendur þjónustunnar fluttir sjálfkrafa milli kerfa. Saga. 30. september 2002 kom.Mac áskriftarþjónusta sem þurfti að borga fyrir. Þann 17. september 2002 tilkynntu Apple að meira en 100.000 notendur væru nú með.Mac-aðgang. Í október 2006 uppfærði Apple.Mac tölvupóstþjónustuna svo það líkist meira Mac OS X Mail-forritinu. .Mac leið svo undir lok 9. júlí 2008 og varð að MobileMe. Bam Margera. Brandon Cole Margera (fæddur 28. september 1979), þekktastur sem Bam Margera er atvinnu-hjólabrettakappi og ofurhugi. Hann þekktur fyrir að hafa stjórnað þættinum "Viva la bam", leikið í öllum 4 (Jackass 1, Jackass 2, Jackass 2,5, Jackass 3 og Jackass 3.5"Jackass"-kvikmyndunum sem og "Haggard" (sem hann einnig var handritshöfundur að hluta og leikstýrði). Besti vinur hans, Ryan Dunn, lést þann 20. júní 2011. Söguþráður Eneasarkviðu. Fyrsta bók. en sá maður er Eneas, sem fyrstur kom frá Trójuströndum til Ítalíu, rekinn á flótta að ætlun forlaganna, að stofna borg og ættir Latverja. (Bláupphafið er sögugangur kviðunnar í hnotskurn). Eftir það ákallar Virgill sönggyðjuna með orðunum: "Seg mér, Sönggyðja, hvað hafði hann [Eneas] gert henni [Júnó] í mót, hvað gramdist guðanna drottning svo, að hún lét þann mann, svo trúfastan, rata í aðrar eins hættur". Þá segir frá því að Júnó ann Karþagóborg, en hatast við þá Tróverja sem sluppu úr eyðingu borgarinnar og sigla nú frá Sikiley á leið til Latíums. Eólus vindakonungur tekur að æsa stórviðri á hendur Tróverjum að ósk Júnóar, en Neptúnus lægir ofviðrið. Trójumenn ná landi á Afríkuströnd. Venus talar máli Tróverja við Júpíter. Hann skýrir henni frá mikilfengleika Rómaborgar í framtíðinni. Júpíter sendir Merkúríus á fund Dídóar, svo að hún taki Tróverjum með vinsemd. Venus, í gervi veiðimeyjar, birtist Eneasi. Hún segir honum sögu Dídóar og Karþagóborgar og hylur hann og Akkates þokuhjúpi. Eneas og Akkates koma til Karþagóborgar, dást að Júnóarhofi að lágmyndum úr Trójustríði. Dídó heldur til hofs. Skipreika förunautar Eneasar ganga fyrir drottninguna og biðja hana ásjáar. Eneas brýst út úr þokuhjúpinum og ávarpar Dídó. Venus lætur Kúpídó taka á sig gervi Askaníusar Eneassonar, svo að Dídó felli hug til Eneasar. Kúpídó kemur til hallar Dídóar. Þar er haldin veisla. Dídó biður Eneas að rekja sögu sína. Önnur bók. Eneas hefur upp sögu sína og segir frá tréhestinum (þ.e. Trójuhestinum). Að tróverskir hirðar hafi leitt fram fangann Sínon, grískan mann og að hann hafi talið Tróverja á að draga tréhestinn upp í borgina. Laókóon varar við hestinum ("quidquid id est, timeo danaos et dona ferentes" = "hvað sem það er, þá óttast ég Danáa, jafnvel þegar þeir færa gjafir"), en af hafi kemur höggormur og drepur hann og syni hans. Hesturinn dreginn inn í Trójuborg. Tróverjar sofa. Sínon fær merki um að hleypa Grikkjum úr hestinum. Svipur Hektors birtist Eneasi. Hann segir honum að forða sér úr borginni með dýrgripi Tróju og húsgoð. Barist á strætum Trójuborgar. Eneas berst með fámennri sveit. Pyrrhus brýst inn í höll Príamusar og Príamus er veginn. Eneas kemur augu á Helenu hina fögru í Vestuhofi, hyggst hefna falls borgarinnar með því að drepa hana. Venus birtist Eneasi og biður hann fremur að huga að heill fjölskyldu sinnar. Guðlegt teikn birtist, eldslogi um höfuð Júlusar. Eneas heldur á braut, ber Ankíses föður sinn á baki og leiðir son sinn. Kreúsa kona hans fylgir í humátt á eftir. Kreúsa hverfur. Eneas leitar hennar, en finnur ei. Ofurstór svipur hennar birtist honum, segir að hann skuli ótrauður halda leiðar sinnar að vilja forlaganna. Dagur rennur. Eneas heldur til fjalls ásamt föður sínum og syni. Þriðja bók. Eneas og förunautar smíða flota og sigla burt í sumarbyrjun út í óvissuna. Eneas leggur grundvöll að borg í Þrakíu. Pólýdórus Príamusson kallar til Eneasar úr jörðu og segir að hann hafi verið myrtur í Þrakíu. [Hér, þar sem lýst er af hverju Pólýdórus hafi verið myrtur, kemur fyrir hin fræga setning: "quid non mortalia pectora cogis, auri sacra fames" = "því til hvaða verka neyðir þú ekki hjörtu dauðlegra manna, þú bölvaða gullgirnd"]. Tróverjar afráða að sigla á braut. Þeir sigla til Deloseyjar. Eneas spyr Apolló frétta. Ankíses ræður véfréttina ranglega svo að siglt er til Krít. Tróverjar taka að hlaða borgarmúra á Krítey. Húsgoðin birtast Eneasi á nóttu og segja honum að borg fyrirheitana sé ekki á Krit, heldur í Hesperíu. Tróverjar sigla á braut. Tróverjar hreppa stórviðri og ná landi á fjórða degi á Strófadeseyjum. Tróverjar drepa nautgripi sér til matar og Harpýjurnar, hálfmennsk illfygli, gera aðsúg að þeim. Þeir hrekja kvikindin burt, en Kelenó, þeirra elst, spáir því að þeim auðnist ekki að finna borgarstæði fyrr en þeir hafa etið matborð sín. Þeir sigla fram hjá Íþöku og lenda við Levkateshöfða. Tróverjar færa fórnir og halda leika við Aktíum. Þeir sigla áfram og til Búþrótumsborgar. Þar finna Tróverjar fyrir Helenus Príamusson og konu hans Andrómökku, sem Hektór átti áður. Eneas spyr Helenus ráða vegna illspár Kelenóar. Helenus segir honum spá sína, að Tróverjar eigi enn langa ferð fyrir höndum, þurfi ekki að óttast óheillaspá Kelenóar, skuli forðast Karybdísi og Skyllu, færa Júnó fórnir og lenda loks við Kúmu og spyrja völvuna Síbyllu frétta. Helenus færir Tróverjum ríkulegar gjafir í kveðjuskyni og Andrómakka gefur Askaníusi gjafir til minningar um Astýanax, son þeirra Hektors. Lent við „Castrum Minervae“. Tróverjar komast klakklaust fram hjá Karybdísi að strönd Sikileyjar allskammt frá Etnu. Akkemenídes, maður úr liði Ódysseifs, leitar ásjár Tróverja og segir þeim af Pólýfemusi Kýklópa. Pólýfemus og aðrir Kýklópar birtast. Tróverjar hraða sér burt fullum seglum suður með strönd Sikileyjar. Tróverjar koma loks til Drepanum og þar sálast Ankíses. Eneas lýkur þar frásögu sinni frammi fyrir Dídó drottningu, segir að þeir hafi hrakist fyrir illviðrum þaðan og til Karþagóborgar. Fjórða bók. Dídó kvelst af ást til Eneasar og trúir systur sinni Önnu fyrir því. Anna hvetur hana til að láta eftir þrá sinni og gefast Eneasi. Dídó færir fórnir til að vinna hylli guðanna, einkum Júnóar hjúskapargyðju. Dídó er ær af ást og lætur alla landstjórn reka á reiðanum. Júnó og Venus leggja á ráðin um samfund Dídóar og Eneasar, og með því vill Júnó koma í veg fyrir að Trójumenn nemi land á Ítalíu. Venus treystir því hins vegar að Júpíter muni aldrei fallast á þá ráðagjörð. Dídó og Eneas halda til veiða með fylgdarsveitum sínum. Júnó lætur óveður skella á, svo að Dídó og Eneas leita skjóls ein í helli. Dídó lítur á samfund þeirra þar sem hjónavígslu, náttúruvættir séu vottar að henni. Orðrómurinn, Fama, kemur af stað illum rógi um ást Dídóar og Eneasar. Fregnin berst loks til Jarabasar konungs, vonbiðils Dídóar. Júpíter sendir Merkúríus til Eneasar í því skyni að minna hann á vilja forlaganna og skipa honum að sigla burt frá Karþagó. Eneas hyggst sigla burt sem skjótast, en veit ekki hvernig hann geti fært Dídó tíðindin. Dídó skynjar að Eneas undirbýr brottför, æðir um sem Bakkynja, og talar til hans örvingluð. Eneas segir Dídó frá boðum Merkúríusar, og að hann haldi ófús á braut. Dídó þylur Eneasi bölbænir og heitir honum hefndum. Eneas heldur til flota síns og Tróverjar búa skipin til ferðar. Dídó sendir önnu á fund Eneasar að biðja hann að fresta brottförinni um sinn. Eneas haggast hvergi. Dídó vill deyja en blekkir systur sína, biður hana að hjálpa sér við að reisa bálköst til athafnar sem muni leysa sig undan ástinni til Eneasar. Merkúríus birtist Eneasi í svefni og hvetur hann til að sigla sem skjótast vegna hættu á árás. Eneas vekur menn sína og þeir hraða sér á haf út. Dídó sér í höll sinni að Tróverjar sigla brott. Hún ákallar sól, guði og Hefndanornir, biður þess að þau og Karþagómenn megi hefna sín með því að ofsækja Eneas og alla þjóð hans. Dídó kastar sér í bálköstinn, lætur fallast fram á sverðsodd. Harmakvein fer um borgina þegar fréttist af voðaverki drottningar. Anna ryður sér leið að kestinum, en þá verður Dídó ekki lengur bjargað. Júnó sendir Írisi ofan af himni til að skera lokk úr hári Dídóar, til að leysa líf hennar úr fjötrum. Fimmta bók. Eneas siglir til Sikileyjar og kemur að landi nærri gröf Ankísesar föður síns. Akestes tekur á móti Tróverjum. Eneas setur leika til heiðurs föður sínum. Þar fer fram kappróður, kapphlaup, hnefaleikur, bogaskotfimi og riddaraleikur pilta. Júnó sendir Írisi ofan af himni, og æsir hún Trójukonur til að leggja eld að skipunum. Eneas ákallar Júpíter. Guðinn sendir steypiregn, svo að öll skipin bjargast nema fjögur. Eftir skipabrunann er Eneas að því kominn að falla frá ferð lengra. Öldungurinn Nátes ræður honum að skilja sumt af fólkinu eftir á Sikiley og halda áfram ásamt öðrum til Ítalíu. Ankíses birtist syni sínum og segir honum að fylgja ráði Nátesar; hann skuli þó koma til fundar við sig í undirheimum áður en hann stofni borg. Borgin Akesta grundvölluð handa þeim sem eftir sitja. Að loknum hátíðahöldum siglir Eneas áleiðis til Ítalíu. Venus fer þess á leit við Neptúnus, að Tróverjar komist óskaddaðir leiðar sinnar þrátt fyrir óvild Júnóar. Svefnguðinn yfirbugar Palínúrus stýrimann og steypir honum fyrir borð. Sjötta bók. Lending við Kúmu. Eneas heldur að hofi Apollós til fundar við völvuna Síbyllu. Í helli völvunnar flytur hún honum véfrétt sem er innblásin af Apolló. Hún er þannig að Eneas komist ekki til undirheima fyrr en hann hafi náð hinni gullnu trjágrein og jarðsett einn manna sinna sem ógrafinn sé. Stuttu eftir það finnst Mísenus, lúðurþreyttari, dauður. Tvær dúfur vísa Eneasi á gullnu trjágreinina. Eneas og Síbylla halda til undirheima. Þar mæta þau ferjukarlinum Karoni. Svipur Palínúrusar verður á vegi Eneasar. Karon fær gullnu trjágreinina og ferjar Eneas og Síbyllu yfir Stýgarfljót. Þau rekast á varðhundinn Kerberos, Mínos dómsforseta og sjálfsmorðingja. Þau koma að Sorgarvöllum. Dídó ber fyrir augu Eneasi. Þau mæta stríðsköppum og þar á meðal Deífóbus Príamusson, sem var vopnabróðir Eneasar. Komið að Tartarus sem er hinn mesti kvalarstaður og síðan að Sæluvöllum. Eneas á tal við Ankíses föður sinn. Þau mæta sálunum við Leþuelfi. Ankíses sýnir Eneasi merkismenn Rómar, sem bíða þess að fæðast, konunga Albverja, Rómúlus, Ágústus, Rómarkonunga og frægðarmenn á dögum komandi Rómarlýðveldis. Komið að hliði Somnusar. Ankíses fylgir Eneasi og Síbyllu út úr undirheimum. Sjöunda bók. Útför Kæjetu fóstru Eneasar. Tróverjar sigla fram með landi Kirku og ná til Tíberósa. Latínus konungur kemur til sögu og Lavinía dóttir hans, sem örlögin ætla að muni giftast útlendingi. Eneas sendir mann á fund Latínusar konungs og reisir virkisborg. Latínus skynjar að Eneasi muni ætlað að eignast Laviníu. Júnó sendir meinvættina Allektó til að spilla friðarsáttmála. Æði Amötu drottningar, sem er andsnúin ráðahagnum. Júlus Eneasson á hjartveiðum. Allektó kemur ófriði af stað með því að etja hundum Júlusar á eftirlætishjört Silvíu. Hirðar Latínusar konungs rísa óvægir upp. Allektó gefur ófriðarmerki. Hjarðmenn berjast. Allektó segir Júnó að verki hennar sé lokið „farsællega“. Lýsing á foringjum og hersveitum Latverja. Áttunda bók. Túrunus dregur upp gunnfána. Fljótsguðinn Tíberínus talar til Eneasar og segir honum að leita liðsinnis Evanders konungs. Eneas slátrar gyltunni. Arkadar halda fórnarhátíð til heiðurs Herkúlesi. Eneas og menn hans sigla til þeirra upp Tíberfljót. Evander heitir Eneasi liðveislu. Evander greinir frá því hvernig Herkúles réð niðurlögum skrímslisins Kakusar. Herkúlesarhátið er fram haldið. Evander segir Eneasi sögu Latíums og sýnir honum borg sína. Venus fær Volkanus til að smíða vopn handa Eneasi. Kýklópar hefja smíðina. Eneas og Evander eiga viðræður. Evander sendir son sinn Pallas til stríðs í fylgd Eneasar. Venus fær Eneasi vopn frá Volkunusi. Lýsing á skildi Eneasar. Níunda bók. Júnó sendir Írisi á fund Túrnusar, segir honum að ráðast á búðir Tróverja, því að Eneas sé fjarstaddur. Skipum Tróverja er borgið frá bruna og breytt í dísir. Nísus og Evrýalus ætla að brjótast gegnum óvinaraðir og komast á fund Eneasar. Þeir ráðast á Rútula, sem eru sofand og falla í hendur óvium og eru báðir vegnir. Rútúlar ganga fram til orrustu, bera í fylkingarbrjósti höfuð Nísusar og Evrýalusar á spjótsoddum. Móðir Evrýalusar harmar dauða sonar síns. Ráðist að búðum Tróverja. Sagt frá framgöngu Túrnusar og vígfimi hans. Fyrsta dáð Askanísar í hernaði. Apolló spáir honum glæstri framtíð. Bitías og Pandarus ljúka upp hliði á búðum Tróverja. Rútular fara halloka uns Túrnus kemur þeim til liðisinnis. Túrnus kemst inn í Tróverjabúðir og vegur margan mann. Loks verður hann að láta undan síga, steypir sér í Tíberfljót og nær aftur til liðsmanna sinna. Tíunda bók. Júpíter kallar guðina til stefnu á Ólympusfjalli. Venus og Júnó deila. Júpíter úrskurðar að örlögin skuli hafa sinn gang. Rútular gera enn atlögu að búðum Tróverja. Eneas siglir til búða sinna úr liðsbónarför. Sagt frá bandamönnum Eneasar. Sjávardísirnar, sem áður voru skip, verða á vegi Eneasar og gera honum viðvart, að bardagi bíði hans. Eneas kemur að landi, við mikinn fögnuð Tróverja í búðunum. Orrustan hefst. Eneas ryðst fram og vinnur sigra, en lengi er bardaginn tvísýnn. Framgöngu Pallasar lýst í orrustunni. Túrnus vegur Pallas. Eneas fer hamförum um vígvöllinn, leitar hefnda eftir Pallas. Samtal Júpíters og Júnóar. Hann leyfir henni að halda hlífiskildi yfir Túrnusi um sinn. Hún gerir tálmynd með yfirbragði Eneasar. Túrnus eltir tálmyndina á skip eitt. Þannig kemur Júnó honum úr bardaganum. Mezentíus gengur til bardagans og vinnur margar dáðir. Eneas og Mezentíus berjast. Mezentíus særist. Eneas vegur Lásus Mezentíusson. Mezentíus fer til að hefna sonar síns. Eneas særir hann til ólífis. Ellefta bók. Eneas helgar Mars vígverjur Mezentíusar sem sigurmerki. Þá er sagt frá líkfylgd Pallasar. Latverjar beiðast vopnahlés og Eneas fellst á málaleitan þeirra. Harmur í Pallasborg. Evander heitir á Eneas að hefna sonar síns með því að vega Túrnus. Tróverjar, og eins Latverjar, jarðsetja fallna menn. Díómedes synjar þess að berjast að nýju við Tróverja, allra síst við slíkan garp sem Eneas. Latínus konungur heldur ræðu, segir baráttu Latverja tapaða og leggur til að gerður verði friðarsáttmáli við Eneas. Drankes tekur undir orð konungs. Túrnus andmælir Drankesi og Latínusi. Hann segist reiðubúinn að heyja einvígi við Eneas. Meðan á deilum stendur í herbúðum Latverja, sækir Eneas fram. Túrnus fréttir það og býst óðara herklæðum. Herkonan Kamilla kemur til liðs við Túrnus. Þá er Vígaferlaþáttur Kamillu. Opis hefnir Kamillu. Ringulreið meðal Latverja, borg þeirra umsetin. Túrnus fregnar dauða Kamillu og hraðar sér til borgar Hestur (Færeyjum). Hestur. Talið er að nafnið sé komið af því að lögun eyjarinnar hafi þótt minna á liggjandi hest. Hestur eða Hestoy er eyja í miðjum Færeyjum, sunnan og vestan viðStraumey og norðan við Sandey. Hún er aflöng og mjó. Hún er hálendust nyrst og þar eru Eggjarók og Múlin, bæði 421 metrar, og fuglabjörg eru á vesturströnd eyjarinnar; þekktast þeirra er Álvastakkur. Fjögur lítil vötn eru á eynni og heitir það stærsta Fagradalsvatn. Aðeins eitt þorp er á Hesti og er það samnefnt eynni. Það er á austurströnd eyjarinnar, andspænis Velbastað á Straumey og ferjuhöfninni Gömlurætt. Þar voru 27 íbúar 1. janúar 2001 en voru 51 árið 2001. Áður fyrr bjuggu oft um 100 manns á eynni. Enginn skóli er nú starfræktur þar því ekkert barn er þar á skólaaldri. Hestur var áður sérstakt sveitarfélag en sameinaðist sveitarfélaginu Þórshöfn 1. janúar 2005. Talið er að elsta byggðin á eynni hafi verið á suðurenda eyjarinnar, þar sem heitir Hælur. Þar er sólríkt og gott ræktarland en þar er engin lending og hefur byggðin því flust þangað sem hún er nú. Fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur eyjarskeggja. Árið 1919 fórust tveir bátar og með þeim helmingur allra fullorðinna karlmanna á eynni. Á Hesti er einnig stunduð sauðfjárrækt og fuglatekja var mikilvæg aukabúgrein áður fyrr. Hún var þó hættuleg því mikið grjóthrun er í björgunum og á 19. öld hlupu mörg björg fram. Ferja gengur á milli Hests og Straumeyjar einu sinni til tvisvar á dag. Kalsoy. Karlsey (færeyska: Kalsoy) er löng og mjó eyja norðan til í Færeyjum, á milli Austureyjar og Kunoy (Konueyjar). Nyrst á eynni var áður drangur sem hét Kallurin og hafði eyjan nafn sitt af honum en hann er nú hruninn. Hæsta fjall á Kalsoy er Nestindar (788 m). Stærð eyjarinnar er 30,9 km² og hún er 18 km löng en aðeins 1-3 km á breidd. Þar bjuggu 116 manns 1. janúar 2011. Á eynni eru fjórar litlar byggðir eða þorp, tengdar saman með vegum og jarðgöngum. Vesturströnd eyjarinnar er sæbrött og byggðirnar eru allar á austurströndinni. Þær eru Húsar (47 íbúar 1. janúar 2011), Syðradalur (6 íbúar), Mikladalur (34 íbúar) og Trøllanes (19 íbúar). Byggðin Blankskáli var syðst á eynni en fór í eyði fyrir nærri 200 árum. Aðalatvinnuvegir eyjarskeggja eru landbúnaður og fiskveiðar og þar er einnig fiskeldisstöð. Bílferja siglir milli Syðradals og Klakksvíkur nokkrum sinnum á dag og frá Syðradal gengur svo rúta norður til Trøllaness. Fimm jarðgöng eru á leiðinni og þess vegna kalla Færeyingar hana oft „Blokkflautuna“. Þessi göng, sem gerð voru á árunum 1979-1985, eru Villingadalstunnilinn (1193 m), Mikladalstunnilin (1082 m), Ritudalstunnilin (683 m), Teymur í Djúpadal (220 m) og Trøllanestunnilin (2248 m). Hljómsveit Ingimars Eydal - Á sjó. Á sjó er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni syngja Vilhjálmur Vilhjálmsson og Þorvaldur Halldórsson fjögur lög ásamt hljómsveit Ingimars Eydal. Tunglfiskur. Tunglfiskur (fræðiheiti: "Mola mola") er þyngsti beinfiskur jarðar, og getur verið yfir tvö tonn að þyngd og rúmir þrír metrar að lengd. Meðalþyngd er um eitt tonn og meðallengd tæpir tveir metrar. Þá er aðallega að finna í hlýjum sjó. Þeir nærast einkum á marglyttum, smokkfiskum, krabbadýrum og minni fiskum. Munnur þeirra er líkur goggi sem gerir þeim kleift að brjóta harða skel krabbadýranna. Tunglfiskar eru eitraðir og hefur sala á þeim verið bönnuð í Evrópulöndum með tilskipun frá 1991. Korsíka. Korsíka (franska: "Corse"; ítalska: "Corsica"; korsíka: "Còrsica") er eyja undan suðurströnd Frakklands sem hún tilheyrir, rétt norðan við ítölsku eyjuna Sardiníu. Hún er fjórða stærsta eyjan í Miðjarðarhafinu, á eftir Sikiley, Sardiníu og Kýpur. Korsíka er meðal annars fræg sem fæðingarstaður Napóleons Bonaparte. Korsíkanska er þó skyldari ítölsku en frönsku. Að flatarmáli er hún tæpir 9 þúsund ferkílómetrar eða innan við 1 / 10 hluti Íslands en mannfjöldi er álíka eða 300 000. Elba. Elba (latína: "Ilva") er fjalllend eyja í Tyrrenahafi, 10 km suðvestan við strönd Toskana á Ítalíu og 35 km austan við frönsku eyjuna Korsíku. Hún er stærsta eyjan í toskanska eyjaklasanum. Eyjan skiptist í átta sveitarfélög: Portoferraio, Campo nell'Elba, Capoliveri, Marciana, Marciana Marina, Porto Azzurro, Rio Marina og Rio nell'Elba. Íbúafjöldi eyjarinnar er um þrjátíu þúsund og stærsti bærinn er Portoferraio með um tólf þúsund íbúa. Elba varð á 11. öld hluti af borgríkinu Písa. 1398 var Písa seld Visconti-fjölskyldunni frá Mílanó en Elba varð hluti af eigum Appiani-fjölskyldunnar sem ríkti yfir Piombino. 1546 fékk Kosímó 1. hertogi í Flórens hluta eyjunnar og reisti virki í Portoferraio sem hann nefndi "Cosmopoli". 1603 lagði Filippus 2. Spánarkonungur Portoferraio undir sig og 1802 komst eyjan í eigu Frakka. Eftir Vínarþingið 1815 var eyjan svo færð undir Stórhertogadæmið Toskana og hún varð hluti af Ítalska konungdæminu eftir 1860. Elba er einkum fræg sem staðurinn þar sem Napóleon eyddi níu mánuðum og 21 degi í útlegð 1814-1815. Piombino. Borgarhliðin á Populoniu í Piombino. Piombino er um 35 þúsund manna bær í Livorno-sýslu á vesturströnd Toskana gegnt eyjunni Elbu og rétt norðan við héraðið Maremma. Bærinn er ævaforn og gegndi hlutverki hafnarborgar á tímum Etrúra en leifar af grafhýsaþyrpingum frá þeim tíma er að finna við Populoniu. Elstu grafir frá svæðinu eru frá tímum Villanova-menningarinnar frá 9. öld f.Kr. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2007. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2007 fór fram á Ólympíuleikvanginum í Aþenu þann 23. maí 2007. Liverpool og AC Milan mættust líkt og á úrslitaleik meistaradeildar Evrópu 2005, en þá skildu liðin jöfn eftir venjulega leiktíma og framlengingu en Liverpool sigraði í vítaspyrnukeppni 3-2. Í þetta skiptið sigruðuð AC Milan með eins marks mun, 2-1. Liverpool léku í rauðu heimaleikjabúningum en AC Milan léku í sínum hvítu útileikjabúningum. Fyrri hálfleikur. Í fyrri hálfleik var aðeins skorað eitt mark og skoraði markið Filippo Inzaghi á 45. mínútu eftir aukaspyrnu hjá Andrea Pirlo fyrir A.C. Milan. Ásakanir voru um hendi en endursýning sýnir að svo var ekki. Seinni hálfleikur. Liverpool spiluðu varlega eftir hálfleik en héldu samt boltanum meira. Á 62. mínútu fengu þeir besta færið í leiknum, Steven Gerrard komt einn í gegn en skaut ekki nógu fast til að skora framhjá markverði Milan, Dida. Á 82. mínútu skoraði Filippo Inzaghi aftur eftir sendingu frá Kaká. Leikurinn virtist vera búinn en Dirk Kuyt gaf Liverpool von þegar hann skoraði með skalla á 89. mínútu í horni. Endursýning sýndi að hann var rangstæður. Tíminn var of naumur fyrir Liverpool og Milan vann, 2-1. Knattspyrnuboltinn. Adidas, framleiðandi bolta fyrir öll stærstu knattspyrnumót UEFA, FIFA og IOC, framleiddi boltann sem mun vera notaður í leiknum. Livorno (sýsla). Kort sem sýnir staðsetningu sýslunnar á Ítalíu. Livorno er sýsla í Toskanahéraði á Ítalíu og er að stærstum hluta strandlengjan við Lígúríuhaf og Tyrrenahaf. Höfuðstaður sýslunnar er hafnarborgin Livorno. Sýslunni tilheyra 20 sveitarfélög, þar af átta á eyjunni Elbu. Sveitarfélög. Bibbona · Campiglia Marittima · Campo nell'Elba · Capoliveri · Capraia Isola · Castagneto Carducci · Cecina · Collesalvetti · Livorno · Marciana · Marciana Marina · Piombino · Porto Azzurro · Portoferraio · Rio Marina · Rio nell'Elba · Rosignano Marittimo · San Vincenzo · Sassetta · Suvereto Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2006. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2006 fór fram á Stade de France í París 17. maí 2006. Barcelona frá Spáni voru í aðalbúningnum sínum en Arsenal frá Englandi í gulum varabúningnum. Arsenal keppti í fyrsta skipti í úrslitum meistaradeildarinnar en Barcelona vann leikinn 2-1. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 1999. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 1999 var haldinn í Nou Camp í Barcelona 26. maí 1999. Liðin sem voru í úrslitum voru Englandsmeistararnir Manchester United og Þýskalandsmeistararnir Bayern Munich. Hann er minnistæður því Manchester United skoruðu tvö mörk í viðbótartíma og unnu 2-1. Sigur United var lokapunkturinn á fræga tímabili þeirra þegar þeir unnu þrennuna eftir að hafa unnið ensku úrvalsdeildina og enska bikarinn fyrr um mánuðinn. Bayern voru einnig að sækjast eftir þrennu því þeir höfðu þegar unnið þýsku úrvalsdeildina og þýska bikarinn sama tímabilið. Manchester United klæddust venjulegu rauðu treyjunni, meðan Bayern Munich klæddust gráu meistaradeildatreyjunni sinni. Heimþekkti dómarinn Pierluigi Collina hefur sagt að þetta sé minnistæðasti leikur feril síns, jafnvel meira en úrslitaleikurinn í heimsmeistarakeppninni 2002. Herbert Fandel. Herbert Fandel (f. 9. mars 1964 í Kyllburg) er þýskur knattspyrnudómari. Hann dæmdi meðal annars úrslitaleikinn í Evrópubikarnum árið 2006 þegar Middlesbrough mætti Sevilla. Síðasti leikurinn sem hann dæmdi á ferli sínum var leikurinn milli Danmerkur og Svíþjóðar í undankeppni EM 2008 þann 2. júní 2007. Á 89. mínútu leiksins fljótaði hann leikinn af og dæmdi Svíþjóð sigurinn, 3-0, eftir að stuðningsmaður Danmerkur réðst á hann. Staðan í leiknum var jöfn 3-3 áður en Fandel dæmdi hann af. Áhorfandi hljóp inn á leikvöllinn eftir að Fandel hafði gefið leikmanni Danmerkur, Christian Poulsen, rautt spjalld og vítuspyrnu vegna brot hans. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2007. Herbert Fandel dæmdi í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu 2007, sem var haldinn á Ólympíuleikvanginum í Aþenu. Hljómsveit Ingimars Eydal - Vor í Vaglaskógi. Vor í Vaglaskógi er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni syngja Vilhjálmur Vilhjálmsson og Þorvaldur Halldórsson fjögur lög ásamt hljómsveit Ingimars Eydal. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2005. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2005 fór fram á Atatürk ólympíuleikvanginum í Istanbúl, Tyrkland, þann 25. maí 2005. Liðin skildu jöfn eftir venjulega leiktíma og framlengingu en Liverpool sigraði í vítaspyrnukeppni 3-2. Liðin mættust aftur í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu 2007. Lucius Aemilius Paullus Macedonicus. Lucius Aemilius Paullus Macedonicus (229 f.Kr. – 160 f.Kr.) var rómverskur herforingi og stjórnmálamaður. Faðir hans var was Lucius Aemilius Paullus, ræðismaðurinn sem beið ósigur og lét lífið í orrustunni við Cannae. Lucius Aemilius var höfuð Paullusar-greinar aemilísku ættarinnar, fornrar yfirstéttarættar. Hún var gífurlega valdamikil, ekki síst vegna ættarauðsins og bandalags ættarinnar við Scipio-grein cornelísku ættarinnar. Paullus var kosinn edíll árið 193 f.Kr. og praetor árið 191 f.Kr. Hann var fyrst kjörinn ræðismaður árið 182 f.Kr., ásamt Gnaeusi Baebiusi Tamphilusi. Þriðja makedónska stríðið braust út árið 171 f.Kr., þegar Perseifur Makedóníukóngur sigraði rómverskan her undir stjórn ræðismannsins Publiusar Liciniusar Crassusar í orrustunni við Callicinus. Paullus var kosinn ræðisamður á ný árið 168 f.Kr. (ásamt Gaiusi Liciniusi Crassusi). Öldungaráð Rómar fól honum umsjón með stríðsrekstrinum í Makedóníu. Skömmu síðar, 22. júní sama ár, vann hann yfirburðarsigur í orrustunni við Pydna. Perseifur Makedóníukóngur var tekinn höndum og stríðinu lauk. Paullus fyrirskipaði aftöku 500 Makedóníumanna vegna mótspyrnu þeirra gegn Rómverjum, öðrum víti til varnaðar. Hann sendi mikinn fjölda fólks í útlegð og gerði upptækar eigur þeirra í nafni Rómar en hélt of miklu eftir fyrir sjálfan sig samkvæmt Plútarkosi. Hersveitir hans voru óánægðar með sinn skerf af herfanginu og til þess að halda þeim ánægðum ákvað Paullus að kom við í Epírus á leiðinni heim til Rómar. Enda þótt Epírus lyti þá þegar rómverskum yfrráðum ákvað Paulus samt að láta hersveitir sínar fara ránshendi um 70 þorp í landinu. Um 150.000 voru hneppt í þrældóm og landið var skilið eftir í sárri fátækt. Heimkoma Paullusar þótti afar glæsileg. Hann hélt gæsta sigurgöngu inn í borgina og skartaði sjálfum konungi Makedóníu. Öldungaráðið viðurkenndi afrek Paullusar með því að veita honum viðurnefnið Macedonicus. Meðal herfangsins sem Paullus færði heim til Rómar var mikið safn grískra bóka en frá miðri 2. öld f.Kr. jukust mjög áhrif grískrar menningar á rómverska menningu, meðal annars vegna aukinna kynna Rómverja af grískum bókmenntum og fræðum. Paullus var kosinn censor árið 164 f.Kr. en lést á kjörtímabili sínu árið 160 f.Kr. Gæfa Paullusar-greinar aemilísku ættarinnar fór sígandi eftir andlát Paullusar Macedonicusar. Paulus hafði verið kvæntur Papiriu Masonis en skildi við hana. Með henni átti hann fjögur börn, tvo syni og tvær dætur. Önnur dætra hans giftist syni Marcusar Porciusar Catos en hin giftist Aeliusi Tubero, auðugum manni af almúgaættum. Paullus Macedonicus kvæntist öðru sinni og eignaðist tvo syni. Hann hafði ekki efni á að styðja fjóra drengi á framabraut og kom því eldri drengjunum tveimur í fóstur. Quintus Fabius Maximus tók annan þeirra að sér, sem síðan nefndist Quintus Fabius Maximus Aemilianus. Publius Cornelius Scipio, sonur Scipios Africanusar, tók að sér hinn drenginn sem síðan nefndist Publius Cornelius Scipio Aemilianus. Paullus treysti á að yngri synir hans tveir myndu halda nafni hans áfram en þeir létust báðir ungir að árum og með stuttu millibili. Dátar - Leyndarmál. Leyndarmál er 45 snúninga (45 r.p.m.) hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni flytja Dátar fjögur lög. Hljómsveitina skipa Hilmar Kristjánsson sem leikur á sóló-gítar, Rúnar Gunnarsson leikur á rhytma-gítar og syngur, Jón Pétur Jónsson leikur á bassa-gítar og syngur og Stefán Jóhannsson á trommur. Ríkissaksóknari. Í embætti ríkissaksóknara felst æðsta stig ákæruvalds sem ráðherra skipar í með þeim forsendum að viðkomandi uppfylli lagaleg skilyrði til úthlutunar í embætti dómara við Hæstarétt. Ríkissaksóknari vinnur með vararíkissaksóknara og saksóknurum. Hann er til húsa að Hverfisgötu 6 í Reykjavík. Aemilius. Aemilius (kvk. Aemilia) var ættarnafn "aemilísku ættarinnar" ("gens Aemilia"), einnar af fimm mikilvægustu yfirstéttarætta ("gentes maiores") í Rómaveldi. Aemilíska ættin var forn ætt. Hún var talin verea komin af Mamercusi, syni Pýþagórasar sem var kallaður „Aemýlos“ eða „Aimilios“ vegna fágunar sinnar og mælsku. Önnur saga, sem Plútarkos segir, kvað Mamercus hafa verið son Numa Pompiliusar, konungs, en Numa mun hafa verið aðdáandi Pýþagórasar og því hafi hann nefnt son sinn eftir syni Pýþagórasar. (Aftur á móti eru líkindin milli nafnsins „Aemilius“ og forngríska orðsins "aimilios" líklega bara tilviljun.) Greinar aemilísku ættarinnar voru: Barbula, Buca, Lepidus, Mamercus, Papus, Paullus, Regilus og Scaurus. Lepidusar-greinin reis til mestra metorða einkum undr lok lýðveldistímans. Ludo sextett - Laus og liðugur. Lúdó Sextett - Laus og liðugur er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni flytja söngvararnir Stefán Jónsson og Þuríður Sigurðardóttir ásamt Lúdó Sextett fjögur lög. Lepidus. Lepidus Þórunn Sveinbjarnardóttir. Þórunn Sveinbjarnardóttir (f. 22. nóvember 1965 í Reykjavík) var þingmaður fyrir Samfylkinguna í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi umhverfisráðherra. Þórunn er menntaður stjórnmálafræðingur og var framkvæmdastjóri Samtaka um kvennalista á árunum 1992-1995. Hún hefur einnig gegnt ýmsum störfum fyrir Rauða krossinn, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Stóra brosma. Stóra brosma (fræðiheiti: "Urophycis tenuis") er þorskfiskur af brosmuætt sem lifir í Norðvestur-Atlantshafi á um þúsund metra dýpi. Hún verður allt að 1,2 metrar að lengd. Rómverskar nafnavenjur. Rómverskar nafnavenjur áttu rætur að rekja til menningar Etrúra. Nöfn Rómverja, ekki síst yfirstéttarmanna, voru venjulega þrjú: praenomen (fornafn), nomen gentile eða gentilicium (nafn ættarinnar ("gens")) og cognomen (fjölskylduheiti eða viðurnefni ættgreinar eða fjölskyldu innan ættar, "gens"). Stundum var bætt við öðru viðurnefni, sem kallaðist agnomen'". Rómverskar konur báru kvenkynsútgáfu ættarnafns föður síns og voru kenndar við föður sinn með fjölskylduheiti ("cognomen") hans í eignarfalli en eiginmans síns ef þær voru giftar. Oft báru þeir einhvers konar viðurnefni sem gaf til kynna hvar í röð systra þær voru. Seint á lýðveldistímanum komu einnig fram kvenkynsútgáfur af fjölskylduheitum ("cognomina") feðranna. Fornöfn. Fornöfnin ("praenomen") jafngilda nokkurn veginn eiginnöfnum samtímans. Tiltölulega fá fornöfn tíðkuðust meðal Rómverja. Um 40 nöfn voru langalgengust, og um 18 seint á lýðveldistímanum. Í sumum ættum tíðkuðust ekki nema fáein þessara nafna og sum nöfn tíðkuðust jafnvel einungis innan einnar ættar. Ættarfaðirinn, "pater familias", nefndi oft börnin eftir sjálfum sér (t.d. "Lucius", eða "Lucia"). Mörg fornöfn voru gjarnan skammstöfuð með einum eða tveimur stöfum í rituðu máli. Algengustu skammstafanirnar eru: Appius (Ap.), Aulus (A.), Flavius (Fl.), Gaius (C.), Gnaeus (Cn.), Decimus (D.) Lucius (L.), Manius (M'.), Marcus (M.), Publius (P.), Quintus (Q.) Servius (Ser.), Sextus (Sex.), Spurius (Sp.), Titus (T.), Tiberius (Ti.). Nöfnin Primus, Secundus, Tertius, Quartus, Quintus, Sextus, Septimus, Octavius, Nonius, and Decimus merkja (tilsvarslega) „fyrsti“, „annar“, „þriðji“, „fjórði“, „fimmti“, „sjötti“, „sjöundi“, „áttundi“, „níundi“ og „tíundi“ og voru upphaflega gefin öðrum, þriðja, fjórða syni o.s.frv. Síðar meir vru þau notuð án þess að samsvara því hvar í röðinni barnið var: Sextus Pompeius var til dæmis ekki sjötti sonurinn. Ef til vill fóru nöfnin að tákna í staðinn mánuðinn þegar barnið fæddist. Ættarnöfn. Annað nafnið ("nomen gentile") er ættarnafn, sem er sameiginlegt allri ættinni. Upprunalegu ættirnar voru komnar af þeim sem stofnuðu borgina. Er fram liðu stundir uxu ættirnar og náðu oft yfir ákveðin landsvæði. Ásamt því sem borgin óx fjölgaði einnig ættum og ættgreinum, þannig að ekki allar ættir og ættgreinar voru komnar af þeim sem upphaflega stofnuðu borgina. Sumar nefndust eftir etrúskum ættum en aðrar eftir ættum annarra nálægra þjóðflokka. Meðal þekktra ættarnafna má nefna Aemilius, Claudius, Cornelius, Domitius, Fabius, Junius, Julius, Pompeius, Antonius og Valerius. Fjölskylduheiti. Þriðja nafnið, fjölskylduheitið ("cognomen"), var upphaflega persónulegt viðurnefni eða persónulegt nafn, sem greindi að einstaklinga innan hverrar ættar. "Cognomina" koma ekki fyrir í opinberum skjölum fyrr en um 100 f.Kr. á lýðveldistímanum og á keisaratímanum erfðust viðurnefnin frá föður til sonar og greindu þannig að fjölskyldur innan hverrar ættar. Viðurnefnið var oft valið með hliðsjón af líkamlegum einkennum eða skapgerðareinkennum, stundum með kaldhæðnislegum afleiðingum: viðurnefni Júlíusar Caesars þýddi t.d. "loðinn" enda þótt hár hans væri farið að þynnast og viðurnefni Tacitusar merkti "þögull" enda þótt hann væri vel kunnur ræðumaður. Viðurnefni. Öðru viðurnefni, kallað "agnomen", var stundum bætt við til að greina betur milli fólks innan einnar og sömu fjölskyldunnar. Mörg voru notuð sem gælunöfn, en sum þeirra erfðust eins og fjölskylduheiti. Meðal annar mætti nefna viðurnefnin Africanus, Asiaticus, Augustus (hjá keisurum), Britannicus, Caligula, Germanicus og mörg önnur. Þessi viðurnefni voru oft dregin af heitum landsvæða þar sem viðkomandi hafði unnið orrustu. Dæmi: Publius Cornelius Scipio Africanus, sigurvegri í orrustunni við Zama í Norður-Afríku árið 202 f.Kr. Ættleiðing. Ættleiðingar voru algengar í Rómaveldi. Þegar maður var ættleiddur inn í aðra fjölskyldu hlaut hann fullt nafn fósturföður síns auk viðurnefnis sem gaf til kynna þá fjölskyldu sem hann fæddist inn í. Dæmi: Publius Cornelius Scipio Aemilianus Africanus, líffræðilegur sonur Luciusar Aemiliusar Paullusar Macedonicusar, sem var ættleiddur Publiusi Corneliusi Scipio, elsta syni Publiusar Corneliusar Scipios Africanusar. Erlend nöfn. Þegar Rómverjar lögðu undir sig ný lönd utan Ítalíu voru mörg erlend nöfn tekin í notkun. Nýir ríkisborgarar gátu haldið nafni sínu eða hluta af því. Mörg nöfn voru af grískum rótum. Fyrrverandi hermenn af erlendum uppruna tóku sér stundum ættarnafn keisarans og bættu upprunalegu nafni sínu við sem fjölskylduheiti þegar þeir fengu ríkisborgararétt. Nöfn kvenna. Upprunalega voru til kvenkynsútgáfur af fornöfnum en nöfn kvenna samanstóðu líklega af fornafni og ættarnafni. Er liðið var á lýðveldistímann voru ekki lengur til kvenkynsútgáfur fornafna. Þess í stað nefndust þær einfaldlega kvenkynsútgáfu ættarnafns feðra sinna. Ef þörf var á frekari lýsingu var nafninu fylgt með eignarfalli fjölskylduheitis föðurs eða eiginmans, ef konan var gift. Þannig talar Cicero um konu sem Annia P. Anni senatoris filia (Anniu dóttur P. Anniusar, öldungaráðsmannsins). Ef dætur voru einungis tvær gátu þeir verið greindar að með nöfnunum "major" og "minor" (eldri og yngri). Dætur Marcusar Antoniusar voru Antonia major (amma Nerós keisara) og Antonia minor (móðir Claudiusar keisara). Ef dætur voru fleiri en tvær voru þær einatt aðgreindar með tölusetningu, t.d. Cornelia Quinta, fimmta dóttir Corneliusar. Seint á lýðveldistímanum urðu einnig til kvenkynsútgáfur að fjölskylduheitum feðranna (t.d., Caecilia Metella Crassi, dóttir Q. Caeciliusar Metellusar og eiginkona P. Liciniusar Crassusar). Stundum fékk þetta nafn smækkunarendingu (t.d. var eiginkona Augustusar, Livia Drusilla, dóttir M. Liviusar Drususar). Nokkur dæmi eru um það að kona hafi tekið nafn móður sinnar: Arria var dóttir Paetusar og konu hans Arriu (Tac. "Ann". 16, 34; Plinius "Ep". 3, 6, 10; 7, 19, 3). Föðurnöfn. Á elstu tímum var fornafn og ættarnafn fullt nafn rómversks manns en því fylgdi stundum föðurnafn, sem gaf til kynna faðerni mannsins. Föðurnafn var myndað af fornafni föðurins í eignarfalli og orðinu "filius" („sonur“) (skammstafað f.). Þannig gæti Rómverji hafa heitið M. Antonius M. f. ("Marci filius"), það er að segja, Marcus Antonius, sonur Marcusar. Enn fremur var hægt að gefa til kynna nafn afans með orðinu "nepos" („sonarsonur“) (skammstafað n.), t.d. M. Antonius M. f. L. n. ("Marci filius, Lucii nepos"), það er að segja, Marcus Antonius, sonur Marcusar sonar Luciusar Greining á nafni. Dæmi um fullt nafn væri: Marcus Aurelius Marci f. Quinti n. tribu Galeria Antoninus Pius, domo Caesaraugusta. Hversdagslega nefndist fólk annaðhvort fjölskylduheiti sínu eða fornafni og ættarnafni. Til dæmis hefði Marcus Livius Drusus annaðhvort verið kallaður Drusus eða Marcus Livius. Iulia Marciana hefði kallast einfaldlega Iulia. Þessi venja getur valdið erfiðleikum fyrir nútímafræðimenn því ekki er alltaf vitað við hvern er átt. Göran Kropp. Göran Kropp (11. desember 1966 – 30. september 2002) var sænskur fjallgöngumaður og ævintýramaður frá Eskilstuna í suðurhluta Svíþjóðar. Hann er frægastur fyrir að hafa náð tindi Everestfjalls 23. maí 1996 einn og án súrefniskúta. Hann lést vegna höfuðáverka sem hann hlaut við að falla 60 metra þar sem hann var að klífa í Washingtonfylki. Vestur-Þýskaland. Vestur-Þýskaland er algengt heiti á þeim hluta Þýskalands sem nefndist Sambandslýðveldið Þýskaland eða "Bundesrepublik Deutschland" eftir "de facto" skiptingu hins hernumda Þýskalands í tvo hluta sem voru annars vegar hernámssvæði Frakka, Bandaríkjanna og Bretlands og hins vegar Sovétríkjanna árið 1949 við upphaf Kalda stríðsins. Sá hluti sem var á áhrifasvæði Sovétríkjanna var þá nefndur Austur-Þýskaland. Höfuðborg Vestur-Þýskalands var Bonn. Berlín var öll innan Austur-Þýskalands en var skipt í tvennt með Berlínarmúrnum og annar helmingurinn var hluti Vestur-Þýskalands en hinn höfuðborg Austur-Þýskalands. Árið 1990 voru ríkin tvö sameinuð í eitt Þýskaland með því að Austur-Þýskaland varð hluti af sambandslýðveldinu. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2008. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2008 fór fram á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu þann 21. maí 2008. Ensku liðin Manchester United og Chelsea börðust um Meistaradeildartitilinn að þessu sinni. Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem tvö ensk lið mætast í úrslitum í Meistaradeildinn eða annari Evrópukeppni. Tvisvar áður í sögu Meistaradeildarinnar hafa lið frá sama þjóðerni spilað úrslitaleik en það gerðist árið 2000, þegar spænsku liðin Real Madrid og Valencia mættust, og árið 2003, þegar ítölsku liðin Juventus og A.C. Milan mættust. Eftir framlengingu var staðan 1-1 og því þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. Manchester United vann þá 6-5. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar - Það er bara þú. Það er bara þú er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar ásamt Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Önnu Vilhjálms fjögur lög. Edwin van der Sar. Van der Sar í leik með Manchester United Edwin van der Sar (fæddur 29. október 1970 í Voorhout, Hollandi) er atvinnumaður í fótbolta. Hann spilar í marki og er fyrirliði hollenska landsliðsins. Hann spilar með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Hann var hluti af liði ársins í 2007. Díana prinsessa. Díana prinsessa í Bristol árið 1987. Lafði Diana Spencer, betur þekkt sem Díana prinsessa, (fædd Diana Frances Spencer 1. júlí 1961, dáin 31. ágúst 1997), var fyrsta eiginkona Karls Bretaprins. Hún var yngsta dóttir Edward John Spencers sem seinna hlaut nafnbótina John Spencer, 8. jarl af Spencer og fyrri eiginkonu hans Frances Spencer, greifynju af Althrop. Díana giftist Karli Bretaprins þann 29. júlí 1981, en þau skildu þann 28. ágúst 1996. Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997. Dauði Díönnu er talinn hafa verið bílslys sem var valdið af papparössum, Diana var að keyra í París með kærasta sínum Dodi, líferði Dodi, Trevor, og bílstjóranum Henri. Papparassarnir fylgdu fast á hælum þeirra og er talið að allt flassið úr myndavélunum hafi valdið því að bílstjórinn sem keyrði á miklum hraða keyrði á steypta súlu sem olli bílslysinu, einnig talið er að Henri hafi verið að drekka og hafi verið fullur áður en hann setist undir stýri og hafi hann þessvegna keyrt á. Það var hvítur bíll sem hafði rispað bíl Díönu og seinna meir var komist að því að eigandi þess bíls var ljósmyndarinn James Andenson sem hafði verið að elta Díönu um eithvað bil, spurning er hvort að hann hafi verið þar sem papparassi, eltihrellir eða að hann hafði verið að vinna fyir MI6 og var að hjálpa til að drepa þau. Tíu mánuðum áður en hún dó, október 1996 skrifaði hún bréf til einkaþjón síns Paul Burrell. Í bréfinu lýsti hún því að hún væri hrædd um að Karl Bretaprins væri að skipuleggja,slys” sem hún myndi lenda í svo að hann gæti gifst Camillu Parker. Díana lét Paul Burrell að geyma bréfið ef eitthvað skyldi gerast. Talið er að konungsfjöldan hafi ráðið MI6 til að drepa Díönnu og hafa verið fundnar nokkrar ástæður eins og t.d. það að Dodi Fayed var múslimi og að hún gæti verið ólétt,þau vildu losna við skandala og þeim langað að losna við hana svo að Karl gæti gifst aftur Einnig er talið að fjöldskyldan Dodi hafi myrt þau og er talinn stærsta ástæðan hefnd á prins Philip því að hann hafi lengi vel ekki leyft Al fayed (pabba Dodi) landvistarleyfi eða það að þeim langaði í meiri frægð En furðulegasta sem við fundum var þessi. Ofur-samsærikenningarmaðurin David Icke telur að ástæðan fyrir dauða Diönnu hafi verið sú að hún hafi séð Drottninguna breyta sér í yfir 3 metra geimveru eðlu og að þetta leyndarmál væri svo hræðilegt að það þyrfti að myrða hana til að enginn kæmist að sannleikanum. .cs. .cs var þjóðarlén sambandsríkisins Tékkóslóvakíu en eftir aðskilnað þess í Tékkland og Slóvakíu var það lagt af. Sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands hefði getað notað það sem þjóðarlén sökum ISO 3166-1 en gerðu það ekki, notuðu þess í stað áfram .yu. Sextett Ólafs Gauks - Segðu ekki nei. Sextett Ólafs Gauks og Svanhildur - Segðu ekki nei er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytja Sextett Ólafs Gauks og söngkonan Svanhildur fjögur lög. Pípuhattur. Pípuhattar eru svartir hattar með háum, strokklaga kolli sem er flatur að ofan, þeir eru stundum fernisbornir til að gera þá gljáandi. Pípuhattar voru almennur á 19. og byrjun 20. aldar. Pípuhatturinn féll úr tísku þegar hraði samfélagsins jókst, og við það varð hann sparihattur og síðan aðeins borinn af sóturum og af syrgjendum við jarðarfarir. Grár pípuhattur er stundum notaður sem giftingarhattur. Pípuhattur var hér áður fyrr stundum kallaður stromphattur í hálfkæringi. Spaðahúfa. Spaðahúfa var djúp, svört húfa úr flaueli sem var notuð við íslenskan búning á 18. og 19. öld. Spaðahúfan var mjög lík skarðhúfunni, en bryggja var yfir um þvera húfuna og lítill spaði upp úr henni miðri. Empólí. Framhliðin á kirkjunni Collegiata di San Andrea. Empólí er 46 þúsund manna bær í Toskana á Ítalíu. Hann stendur á flóðsléttu fljótsins Arnó um 30 km suðvestan við Flórens. Bærinn er þekkt fyrir landbúnað sem stundaður er á frjósamri sléttunni umhverfis hann. Empólí varð hluti af sveitarfélaginu Flórens árið 1189. Knattspyrnulið bæjarins, Empoli F.C., leikur nú í ítölsku A-deildinni. Mugello. Mugello er dalverpi í Appennínafjöllunum í Toskana um 20 km norðan við Flórens. Sunnan við dalinn eru hæðirnar Monte Giovi, Vetta le Croci, Monte Senario og Croci di Calenzano sem greina hann frá Valdarno og sveitinni umhverfis Flórens þar sem Arnó rennur. Við vesturmörk dalsins liggur Sólarhraðbrautin sem tengir Napólí og Mílanó. Eftir dalnum rennur áin Sieve í austurátt, en hún kemur upp í fjöllunum norðaustan við Barberino di Mugello. Héraðið er mikið landbúnaðarhérað þar sem er stunduð meðal annars ólífurækt, vínrækt, kornrækt og kvikfjárrækt. Mugello varð smám saman hluti af ríki Flórens á miðöldum og meðal þeirra aðalsætta sem eiga uppruna sinn þar er Medici-ættin sem varð síðar einráð í Flórens og Toskana. Í Mugello er fræg kappakstursbraut, Circuito del Mugello, í eigu Ferrari þar sem þeir prófa meðal annars þá kappakstursbíla sem keppa í Formúlu 1-kappakstrinum. Sveitarfélög. Dalurinn skiptist milli tíu sveitarfélaga: Barberino di Mugello, Borgo San Lorenzo, Dicomano, Firenzuola, Marradi, Palazzuolo sul Senio, San Piero a Sieve, Scarperia, Vaglia og Vicchio. Maremma. Maremma er gríðarstórt svæði sem myndar suðvesturhluta Toskanahéraðs á Ítalíu. Mörk svæðisins liggja nánast saman við mörk sýslunnar Grosseto en lítill hluti þess er í héraðinu Latíum. Maremma er láglent svæði og var fram til upphafs 20. aldar mýrlent. Sjúkdómar eins og malaría voru algengir vegna votlendisins og nafn héraðsins varð að blótsyrði í máli Toskanabúa. Einkenni svæðisins var kvikfjárrækt þar sem hjarðir nautgripa og sauðfjár voru reknar um svæðið á hestum. Á 19. öld voru mýrarnar ræstar fram og íbúafjöldi á svæðinu jókst mjög í kjölfarið, en vegna þess hversu seint það byggðist eru þar enn stór ósnortin svæði sem að hluta eru friðuð. Það nýtur nú síaukinna vinsælda sem ferðamannastaður. Skotveiði er stunduð þar (til dæmis villisvínaveiðar) og bændagisting hefur aukist mikið á síðustu áratugum. Skólaár. Skólaár er hugtak sem notað er yfir eitt starfstímabil skóla. Konfúsíusismi. Konfúsíusismi er kínverskt siðfræði- og heimspekikerfi kennt við Konfúsíus sem var einn af upphafsmönnum þessa heimspeki kerfis á sínum tíma, þ.e. fimmtu til fjórðu öld f.Kr. Helstu einkenni konfúsíusisma er sú að taka skal hefðbundin gildi og aðlaga þau að nútímanum. Margir gagnrýnendur konfúsíusisma telja einmitt að hann boði einungis hefðbundin gildi og að fylgja skuli þeim í hvívetna. Saga. Upphaf konfúsíusisma er erfitt að segja til um því Kína hefur ávallt verið land hefða og fylgt þeim sterklega. En segja má að upphaf hans hafi átt rætur sínar í Zhou keisaraveldinu sem er kennt við tímabilið 772-221 f. Kr. því heimspekingar þess tíma töldu að upphaf þess tímabils hefði verið tímabil grósku og vildu viðhalda þeim siðgæðum sem hefðu fylgt þeim tímum. Þegar Konfúsíus var uppi, var þetta keisaraveldi aðeins til að nafninu til og hertogar og furstar höfðu tekið sér völdin og voru að kljást sína á milli sem leiddi landið í upplausn. Konfúsíus og samstarfsmenn hans fóru að predika sína heimspeki til að fá fólk til að sameinast aftur undir einni þjóð. Þessar predikanir voru skráðar niður af fylgismönnum Konfúsíusar sem voru í tugatali. Það eru þó einna helst Mensíus og Xunzi sem voru hvað áhrifamestir í áframhaldandi þróun á konfúsíusisma. Talið er að Mensíus hafi fylgt kenningum Konfúsíusar meira heldur en Xunzi þar sem sá síðarnefndi þróaði heimspeki sem var fraker einræðisleg og leiddi til þess að Qin Shi Huang komst til valda og Qin veldið varð ráðandi í 15 ár frá 221 f.Kr. til 206 f.Kr. þegar Hanveldið tók við. Undir Han veldinu varð konfúsíusismi að opinberri stefnu og var hún leiðandi alveg til loka kínverska keisaraveldisins árið 1911. Andhverfa. Andhverfa gagntækrar vörpunar(eða sem sértilfelli falls) formula_1 er vörpun formula_2 sem uppfyllir að fyrir sérhvert:formula_3 og formula_4 er Með öðrum orðum er formula_6 samsemdarvörpunin á "A" og formula_7 samsemdarvörpunin á "B". Gagntækni vörpunar er nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði fyrir því að hún eigi sér andhverfu og á vörpunin sér þá nákvæmlega eina andhverfu, þ.e. andhverfan ákvarðast ótvírætt. Stundum er rithátturinn formula_8 notaður um andhverfur falla til þess að aðgreina þær frá margföldunarandhverfu sinni, formula_9. Rafbassi. Rafbassi af gerðinni Rickenbacker 4001JG Rafbassi eða bassagítar er rafmagnsstrengjahljóðfæri. Rafmagnsbassi hefur oftast 4 strengi en 5 og 6 strengja rafbassar eru ekki sjaldséðir. Oftast eru strengir á rafmagnsbassa stilltir í E, A, D og G (áttund neðar en fjórir dýpstu strengir gítars) en margir bassaleikarar kjósa að að stilla bassann sinn öðruvísi. Rafbassar eru yfirleitt með þverböndum þó bandalausir rafbassar séu einnig til. Á búki rafbassa eru hljóðnemar sem gerðir eru úr seglum sem nema titring strengjanna þegar slegið er á þá. Utan um seglanna er vafin spóla sem umbreytir hreyfiorku seglanna í rafstraum. Snúra er tengd frá rafbassa yfir í magnara sem magnar upp rafmerkið. Valdarno. Valdarno er langur dalur í Toskana á Ítalíu þar sem Arnó rennur frá Arezzo til Flórens og lengra, allt vestur að Písa. Dalurinn var á miðöldum bitbein borganna tveggja og síðar vettvangur fyrstu bylgju iðnvæðingar á svæðinu. Hann skiptist í efri Valdarno (ofan Flórens) og neðri Valdarno (neðan Flórens). Melstaðarprestakall. Melstaðarprestakall er prestakall í Húnavatnsprófastsdæmi. Í því eru fimm sóknir, þau eru Melstaðarsókn, Prestbakkasókn, Staðarbakkasókn, Staðarsókn og Víðidalstungusókn. Núverandi prestur í Melstaðarprestakalli er Guðni Þór Ólafsson. Prófastsdæmi. Prófastsdæmi er stjórnsýslueining innan kristinnar kirkju. Hver prófastur, en svo nefnast yfirprestar, eru í andlegum málefnum settir yfir prestana og er trúað fyrir sýslu sem hann er prófastur í og nefnist hún prófastsdæmi. Prófastdæmi skiptast svo í prestaköll. Á Íslandi. Þjóðkirkja Íslands skiptist í níu prófastsdæmi sem hvert hefur sinn prófast. Þau lúta svo aftur annað hvort til vígslubiskups í Skálholti eða á Hólum. 1. leikur í Landsbankadeild karla 2007. 1. leikur í Landsbankadeild karla 2007 var leikur milli knattspyrnuliðanna ÍA og FH. FH sigraði með þrem mörkum gegn tveim. 2. leikur í Landsbankadeild karla 2007. 2. leikur í Landsbankadeild karla 2007 var leikur milli knattspyrnuliðanna Valur og Fram. Leiknum lauk með jafntefli, 1-1. 3. leikur í Landsbankadeild karla 2007. 3. leikur í Landsbankadeild karla 2007 var leikur milli knattspyrnuliðanna Breiðablik og Fylkir. Fylkir sigraði leikinn með einu marki gegn engu. 4. leikur í Landsbankadeild karla 2007. 4. leikur í Landsbankadeild karla 2007 var leikur milli Víkings R. og HK. Leiknum lauk með markalausu jafntefli. Ragnar Bjarnason - Föðurbæn sjómannsins. Ragnar Bjarnason - Föðurbæn sjómannsins er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Ragnar Bjarnason og hljómsveit hans fjögur lög eftir Þórunni Franz. Claudius (ætt). Claudius var ættarnafn (cognomen) einnar af elstu og virtustu ættum Rómar til forna. Samkvæmt venju var ættin atlin eiga uppruna sinn að rekja til "Attiusar Claususar", Sabína sem leitaði eftir friði við Rómverja en viðhorf hans var óvinsælt meðal annarra Sabína og leiddi til þess að hann yfirgaf borgina Regillus ásamt fylgismönnum sínum árið 504 f.Kr. Hann fluttist til Rómar, sem var þá nýorðið lýðveldi og var vel tekið. fylgismenn hans fengu bæði ríkisborgararétt og land, en Attius Clausus eða "Appius Claudius Sabinus Inregillensis", eins og hann kallaðist á latínu, varð sjálfur öldungaráðsmaður. Talið er að nafnið sé komið af sögninni "claudeo" (að haltra), því margir í fjölskyldunni voru haltir, ef til vill vegna erfðagalla. Fjölskyldur innan claudísku ættarinnar. Í claudísku ættinni voru þrjár eða fjórar megin fjölskyldur undir lok lýðveldistímans. Claudia (og Clodia) voru kvenkynsútgáfur nafnanna. Markverðir menn af claudísku ættinni. Athugasemd: Þeir sem báru nafnið Claudius eftir andlát Neros voru sennilega afkomendur leysingja meðlima claudísku ættarinnar eða menn sem meðlimir claudísku ættarinnar veittu ríkisborgararétt. Einnar nætur gaman. Einnar nætur gaman kallast það þegar tveir eða fleiri einstaklingar stunda saman kynlíf í eitt skipti án þess að nokkur ásetningur sé uppi um að stofna til langtímasambands. Önnur orð sem höfð eru um slíka pörun eru: "Skyndikynni" (þ.e.a.s. holdleg kynni sem vara stutt), "typpatrúlofun" (mest notað af karlmönnum) og stundum er talað um að eitthvert samband hafi verið: (ríða, búið, bless). Sé farið lengra aftur í tímann var talað um að "gera skyndibrúðkaup til einhverjar konu", og þá átt við að maður sængaði hjá einhverri konu án þess að brúðkaup færi á undan. Oft var þá aðeins um holdlegt samræði að ræða. Kjarnorkuleyndarmálið. "Kjarnorkuleyndarmálið" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Í þessari Bob Moran-bók er það Balkanbandalagið, sem athyglin beinist að. Þar hefur verið fundin upp ný aðferð til að eyða kjarnorkuúrgangi — en í hverju hún er fólgin, veit umheimurinn ekki. Og auðvitað er það Bob, sem fenginn er til að athuga þetta svolítið nánar. Hann dulbýr sig sem kjarnorkufræðing, með þykk gleraugu og allt tilheyrandi andliti vísindamannsins. Svo er lagt upp í þessa háskaför. Það er óvíst um endurkomuna — það eru harðvítugir bófar umhverfis hann, hvar sem litið er — og skæðastur þeirra er „maðurinn með gulltennurnar“. Hann þekkir Bob strax, þrátt fyrir ágætt dulargerfi, en hann ljóstrar ekki upp um hann. Þá ánægju ætlar hann að geyma sér þar til síðar, og við aðrar og heppilegri aðstæður. Þeir eru nefnilega gamlir kunningjar Bob og „Maðurinn með gulltennurnar“, en það er eins konar gælunafn á höfðingjanum og er hans nánar getið í sérstakri bók með sama nafni. En Bob kemst að leyndarmálinu eitt kvöldið, svona af einskærri tilviljun. Síðan hefst baráttan, eftirförin, eltingaleikurinn alla leið heim til Parísar, þar sem úrslitaátökin eiga sér stað. Aðalpersónur. Bob Moran, Jouvert ofursti, Roman Orgonetz (Artúr Greenstreet) Sögusvið. La Panne, Frakkland - Varna, Balkan - Mikligarður, Tyrkland - París, Frakkland. Ungfrú Ísland. Ungfrú Ísland er fegurðarsamkeppni sem haldin hefur verið á Íslandi nánast árlega síðan 1950. Keppnin er að sögn skipuleggjenda „fyrir ungar konur sem vilja læra og fá þjálfun að ná markmiðum sínum“. Sigurvegari keppninnar fær tækifæri til að ferðast um heiminn og láta gott af sér leiða í þágu líknarmála og góðgerðastarfsemi. Sigurvegari keppninnar fær einnig þátttökurétt í eftirfarandi keppnum: Miss World, Miss Europe, Miss Skandinavia, Miss International og Miss Universe. Páfaríkið. Páfaríkið eða Kirkjuríkið var eitt af stærstu ríkjunum á Appennínaskaganum fram að sameiningu Ítalíu 1861-1870. Ríkið var þau svæði sem páfinn í Róm ríkti yfir jafnt sem veraldlegur valdsmaður og andlegur leiðtogi en á miðöldum átti hugtakið einungis við það land sem var "arfur heilags Péturs" (latína: "Patrimonium Petri") þ.e. það land sem var í einkaeigu kirkjunnar. Á hátindi sínum náði ríkið yfir hluta Rómanja, Marke, hluta Úmbríu og Latíum þar á meðal borgirnar Bologna, Ravenna og Ferrara, auk Rómar. Það eina sem nú er eftir af því er Vatíkanið í Róm. Jói Rokkafellir. Jói Rokkafellir (eða John D. Rockerduck, eins og hann heitir á frummálinu) er persóna í veröld Andrésar andar. Hann birtist fyrst í sögunni "Boat Buster" eftir Carl Barks árið 1961. Þetta var eina sagan með Rokkafelli sem Barks gerði, en Ítalskir höfundar byrjuðu af einhverjum ástæðum að nota hann í miklum mæli í staðinn fyrir Gull-Ívar Grjótharða sem keppinaut Jóakims Aðalandar, raunar svo mikið að Gull-Ívar virðist ekki einu sinni vera til hjá þeim höfundum sem nota Rokkafelli. Hann er venjulega notaður á svipaðan hátt og Gul-Ívar, nema að sögurnar með honum snúast of um viðskiptadeilur milli hans og Jóakims. Í sögunni "The Raider of the Copper Hill", eftir Don Rosa, er sýnt að Jóakim hitti Jóa fyrst árið 1885, í Anaconda í Montana, þegar Jóakim var 18 ára og Jói var barn. Sama sagan sýndi að faðir Jóa, Hávarður Rokkafellir var auðugur og Jói hefur þ.a.l. erft öll auðæfi sín, ólíkt Jóakim (og Gull-Ívari), sem stritaði fyrir sínum. Nafn Jóa er augljóst grín að auðjöfrinum John D. Rockefeller. Samsemdarvörpun. Samsemdarvörpun er stærðfræðilegt fall sem skilar alltaf sama gildi og óháða breytan sem fallinu er gefið. Fallið er skilgreint sem "f"("x") = "x". Myndmengi. Myndmengi raungilds falls getur verið allur rauntalnaásinn eða hluti hans, t.d. fallið "f", sem skilgreint er sem "f"("x") = 2"x" + 1 með talnabilið [0,1] sem formengi hefur talnabilið [1,3] sem myndmengi. Myndmengi fallsins g("x") = 1, þar sem formengið er allur rauntalnaásinn, hefur aðeins eitt stak, þ.e. töluna 1. Ef bakmengi og myndmengi falls er sama mengið er fallið sagt átækt. Myndmengið er oft sett fram myndrænt með línuriti. Bakmengi. Bakmengi falls "f" er mengi "Y", sem inniheldur frálag fallsins, táknað "f":"X"→"Y", þar sem "X" er formengið. Myndmengi falls er hlutmengi í bakmenginu, en ef bakmengi og myndmengi eru sama mengið er fallið sagt átækt. Melstaður. Melstaður er kirkjustaður og prestsetur í Miðfirði. Sókn kirkjunar tilheyrir Melstaðarprestakalli. Fyrsta skrásetta aðsetur á Melstað er frá 14. öld. Arngrímur Jónsson hinn lærði er að líkindum frægasti prestur sem hefur setið á Melstað. Núverandi kirkja var reist 1947. Saga. Talið er að kirkja hafi staðið á Melstað allt frá því um 1050. Þó var engin kirkja þar frá árinu 1942 til 1947 eftir að þáverandi kirkja fauk. Ný kirkja var tekin í notkun fimm árum seinna og stendur þar enn. Í fornöld nefndist staðurinn Melur en eftir að kirkja var reist þar eftir kristnitökuna afbakaðist nafnið í Staður og síðar Melstaður. Bærinn stendur á mel einum vestan við Miðfjarðará og sér þaðan vel yfir fremri hlut sveitarinnar sem og að Laugarbakka. Arngrímur Jónsson hinn lærði bjó að Melstað á 17. öld og var lengi vel prestur á staðnum. Skammt frá kirkjustaðnum er kuml; svokallaður "Kormákshaugur". Þjóðsaga segir að álög séu á honum svo að ef grafið verði í hann komi kirkjan til með að standa í björtu báli. Sr. Guðmundur Vigfússon hóf þjónustu sína á Mel 1859 og þótti honum þá gamla torfkirkjan (byggð 1810) orðin hrörleg og gömul. Gamla kirkjan var „ekki fokheld á vetrardag“ og stóð á lægsta stað í gamla kirkjugarðinum. Það var þá þannig að „flöturinn umhverfis kirkjugarðinn er meira en hálfri annarri alin hærri en grundvöllur kirkjurnnar“ og þar af leiðandi rann vatn að kirkjunni en ekki frá henni. Vildi hann láta færa kirkjuna á ávalan hól, Hjallhól, nokkuð hærri en bæjarstæðið sjálft. Þetta skrifar sr. Guðmundur í bréfi til prófasts; dagsett 14. október 1861. Samþykki fékkst meðal íbúa sveitarinnar að færa kirkjuna. Kirkjan var svo tekin í notkun 2. desember 1865 eftir 376 dagsverka vinnu. Haustið 1941 dreymir Björn G. Bergmanns, sóknarnefndarformaður og bóndi á Svarðbæli í Miðfirði, nokkru vestan við Melstað, að hann heyri í fimm prestum sem ganga til kirkju á Melstað. Aðfaranótt fokdags, 15. janúar 1942, dreymir hann sama draum en þá eru einungis sumir prestanna hempuklæddir og aðrir ekki. Veit Björn þá um morguninn að draumurinn viti ekki á gott. Eftir gegningar hringir séra Jóhann Kr. Briem, sem þá þjónaði að Melstað, og segir að kirkjan hafi fokið þá um morguninn. Brotnaði hún í spón. Brak kirkjunnar var boðið upp 12. maí sama ár og voru tekjur af því rúmar 6 milljónir krónur. Þá fundu nokkrir menn brak um allann norðurhluta Melstaðarlands og í skurði einum fannst altarið lítið skemmt. Núverandi kirkja var vígð 8. júní 1947. Hún er úr steinsteypu og rúmar tæplega 100 manns í sæti. Við kirkjuna stendur safnaðarheimilið sem var byggt árið 1911. Predikunarstóll kirkjunnar er eftir Ríkarð Jónsson myndlistarmann (myndskera). Einn af fáum minjunum sem glötuðust ekki úr gömlu kirkjunni er altaristaflan. Hún skiptist í miðhluta, þar sem segir frá Jesú á fjallinu, og hliðarvængi, þar sem sagt er frá þeim Móses og Aron. Taflan var þó mikið skemmd og var gerð upp fyrir 50 ára afmæli kirkjunar. Hún hefur verið til sýnis í kirkjunni eftir það. Núverandi altaristafla er eftir Magnús Jónsson og er af skírn Jesú. Gifting samkynhneigðra. Árið 2008 fór fram fyrsta kristilega gifting samkynhneigðra á Íslandi fram í Melstaðarkirkju. Einhalla fall. Gagntæk föll eru alltaf annað hvort sívaxandi eða síminnkandi. Bjarni Harðarson. Bjarni Harðarson (fæddur í Hveragerði 25. desember, 1961) er bóksali og fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins. Hann var kjörinn á þing 2007 sem áttundi þingmaður Suðurkjördæmis. Bréfið. Þann 10. nóvember 2008 kom upp hneykslismál þegar Bjarna urðu á þau mistök að senda skeyti ætlað aðstoðarmanni hans til allra fjölmiðla Íslands, þar sem hann vildi láta áframsenda nafnlaust bréf þriðja aðila þar sem kom fram sterk gagnrýni á Valgerði Sverrisdóttur varaformann Framsóknarflokksins. Daginn eftir sagði Bjarni af sér þingmennsku. Jón Magnússon (f. 1946). Jón Magnússon (f. 23. mars 1946 á Akranesi) er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi Alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Frjálslynda flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME, er sonur Jóns. Bjarni Benediktsson (f. 1970). Bjarni Benediktsson (f. 26. janúar 1970) er fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2009. Bjarni hefur fjórum sinnum haft betur gegn meðframbjóðanda á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið umdeildur fyrir þáttöku sína í viðskiptalífinu áður en hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins. Hvað stefnu Bjarna í utanríkismálum varðar er hann yfirlýstur stuðningsmaður samvinnu við Bandaríkin, hann hefur lýst yfir vilja „til þess að efla enn frekari tengsl þessara vinaþjóða í framtíðinni. Ný tækifæri og nýjar áskoranir, hvort sem er í viðskiptum milli landanna, ferðamennsku, menningar- og menntamálum, öryggis- og varnarmálum eða málefnum tengdum norðurskautinu eiga að vera okkur hvatning til þess að styrkja böndin enn frekar.“ Bjarni hefur lýst því yfir að hann styðji ekki sjálfstæði Palestínu. Menntun. Bjarni útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1989, lauk námi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1995, stundaði nám í þýsku og lögfræði í Þýskalandi 1995 – 1996, LL.M.-gráða (e. "Master of Laws") frá Háskólanum í Miami í Bandaríkjunum 1997 og varð löggiltur verðbréfamiðlari árið 1998. Hann starfaði sem fulltrúi sýslumannsins í Keflavík árið 1995 og sem lögfræðingur Eimskipafélags Íslands á árunum 1997 – 1999. Bjarni var lögmaður með eigin rekstur á Lex lögmannsstofu 1999 – 2003 og var faglegur framkvæmdastjóri Lex 2002 – 2003. Þingstörf. Bjarni hefur setið á Alþingi fyrir Suðvesturkjördæmi frá árinu 2003. Bjarni var formaður allsherjarnefndar Alþingis á árunum 2003 – 2007 og formaður utanríkismálanefndar á árunum 2007 – 2009. Hann sat í stjórnarskrárnefnd af hálfu flokksins á árunum 2004 – 2007 og ennfremur árið 2009. Bjarni sat í fjárlaganefnd Alþingis 2003 – 2007, var í iðnaðarnefnd á árunum 2003 – 2004, heilbrigðis- og trygginganefnd 2004 – 2005, utanríkismálanefnd 2005-2009 og efnahags- og skattanefnd frá 2007. Bjarni var formaður Íslandsdeildar VES-þingsins 2003 – 2005 og hefur setið í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA frá 2005. Hefur setið í fjölda nefnda á vegum ráðuneyta, svo sem nefnd um ytri endurskoðun laganáms við Háskóla Íslands, nefnd um endurskoðun laga um ríkisborgararétt og nefnd um endurskoðun jafnréttislaga. Viðskiptalíf. Bjarni Benediktsson var stjórnarformaður N1 og BNT á árunum 2005 – 2008. Hann lét af stjórnarformennsku eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008 vegna þess að hann taldi fulla þörf á að helga stjórnmálum alla krafta sína. Í byrjun desember 2009 skýrði DV frá því að Bjarni hefði í febrúar 2008 skrifað undir samning í umboði eigenda félagsins Vafnings. Viðskiptafléttan sem um ræðir er flókin. Hún fólst í því að félagið "Vafningur" fékk lánaða 10,5 milljarða króna til þess að endurfjármagna félagið "Þáttur International" sem var í eigu Milestone og bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona. Benedikt er faðir Bjarna. Bjarni sjálfur hefur sagt aðkomu sína hafa verið „fólgin í því að veita Glitni veð í hlutafélaginu Vafningi til tryggingar á láni sem Glitnir hafði veitt því. Aðra aðkomu að málinu hafði ég ekki“. Í umfjöllun DV er haldið fram að Þáttur International hafi með þessum hætti greitt 15 milljarða króna skuld við bandaríska bankann Morgan Stanley og varnaði því að bandaríski bankinn hafi leyst til sín 7% hlut félagsins í Glitni. Fram hafa komið ásakanir um að Bjarni hafi með þessu gerst sekur um ólögleg viðskipti en hann hefur ekki verið kærður. Formennska í Sjálfstæðisflokknum. Bjarni var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 29. mars 2009, er Geir H. Haarde hvarf af vettvangi stjórnmála. Hann tilkynnti um formannsframboð sitt, eftir að Geir tilkynnti um ákvörðun sína að hætta, 31. janúar. Bjarni sigraði Kristján Þór Júlíusson í formannskjörinu. Bjarni hlaut 990 atkvæði, tæp 60%, en Kristján Þór 688, tæp 40%. Aðrir fengu minna. Þrír aðrir höfðu lýst yfir áhuga á formannssætinu. Stuttu eftir að Bjarni hafði verið kosinn til formennsku í Sjálfstæðisflokknum bárust fréttir um það í fjölmiðlum að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið á móti styrkjum frá FL Group (sem heitir Stoðir í dag) og Landsbanka Íslands upp á samtals 50 milljónir króna. Þetta mál var nefnt Styrkjamálið, Bjarni taldi alla ábyrgð vera á þáverandi framkvæmdastjórum flokksins sem hefðu samkvæmt honum átt að vita af styrkjunum, þá Kjartan Gunnarsson og Andra Óttarsson. Hann dró síðar til baka ummæli sín og sagði fráleitt að draga nafn Kjartans í atburðarrásina, hann hefði ekkert haft með þessi mál tengd styrkjum að gera. Bjarni var endurkjörinn formaður á landsfundi 26. júní 2010. Bjarni hlaut 573 atkvæði í kjörinu eða 62% greiddra atkvæða en Pétur H. Blöndal alþingismaður fékk 281 atkvæði eða 30%. Alls greiddu 925 atkvæði í kjörinu en auðir seðlar voru 50. Aðrir hlutu færri atkvæði. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 17.-20. nóvember 2011 bauð Hanna Birna Kristjánsdóttir sig fram til formanns gegn Bjarna. Bjarni hlaut 727 af 1323 greiddum atkvæðum. Hann hlaut því 55 prósent kosningu. Hanna Birna fékk 577 atkvæði og rúmlega 44 prósent atkvæða. Á landsfundi 2013 var hann svo kjörinn með tæplega 80% atkvæða. Einkalíf. Eiginkona Bjarna er Þóra Margrét Baldvinsdóttir. Þau búa í Garðabænum í einbýlishúsi og eiga saman fjögur börn. Meðal áhugamála Bjarna er fótbolti. Hexía de Trix. Hexía de Trix er persóna í veröld Andrésar andar. Hún birtist fyrst árið 1961 í sögunni "The Midas Touch" eftir Carl Barks. Hexía er norn sem býr á Vesúvíusarfjalli á Ítalíu. Hún er svarinn óvinur Jóakims Aðalandar vegna þess að hún vill stela fyrstu krónunni sem hann vann sér inn (sem er honum mjög kær). Hún ætlar sér að bræða hana í hálsmen sem gefur henni hæfileika til að breyta öllu sem hún snertir við í gull. Tilgangur hennar með því að stela skildingnum hefur breyst eftir því hvaða höfundar skrifa; í sumum sögum vill hún einungis búa til öflugan töfragrip með honum; í öðrum heldur hún einasta að gæfa fylgi honum. Hexía á hrafn sem heitir Rottufés/Pjakkur (nafnið breyttist með þýðendunum). 5. leikur í Landsbankadeild karla 2007. 5. leikur í Landsbankadeild karla 2007 var leikur milli KR og Keflavíkur. Keflavík sigraði leikinn með tveimur mörkum gegn einu. 6. leikur í Landsbankadeild karla 2007. 6. leikur í Landsbankadeild karla 2007 var leikur milli Fylkis og Vals. Valur sigraði leikinn með tveimur mörkum gegn einu. Queens of the Stone Age. Queens of the Stone Age (QotSA) er bandarísk stoner-rokk hljómsveit sem var stofnuð 1997 og er frá Palm Desert í Kaliforníu. Stofnandi hennar og aðallagasmiður er Josh Homme (Joshua Michael Homme) en hann var áður í hljómsveitinni Kyuss. Queens of the Stone Age. Upphaflega var sveitin stofnuð árið 1996 undir nafninu "Gamma Ray" en sveitin þurfti svo að breyta um nafn ári seinna eftir að þýsk power-metal hljómsveit með sama nafn hótaði að kæra þá. Fyrsta plata sveitarinnar kom út árið 1998 en þar spilaði Homme bæði á gítar og bassa en vinur hans, Alfredo Hernandez, spilaði á trommur. Platan hét einfaldlega "Queens of the Stone Age" en stuttu eftir að upptökum var lokið gengu bassaleikarinn Nick Oliveri, sem einnig var í Kyuss, og gítarleikarinn Dave Catching til liðs við sveitina en í lok lagsins „I was a teenage hand model“ sem er síðasta lagið á plötunni má heyra upptöku af símsvara Homme þar sem Oliveri samþykkir að byrja í sveitinni. Rated R. Eftir fyrstu plötuna voru mannabreytingar í hljómsveitinni með reglulegu millibili og sveitin gaf svo út sína aðra breiðskífu árið 2000 en hún fékk nafnið „Rated R“. Hún fékk góða dóma gagnrýnenda en vinsældir hennar voru þó takmarkaðar. Sveitin fékk þó að koma fram á Ozzfest 2000 og Rock in Rio ári seinna en þar var Nick Oliveri handtekinn fyrir að koma nakinn fram á sviðinu. Songs for the deaf. Árið 2002 kom svo út þriðja breiðskífa sveitarinnar „Songs for the deaf“ en á henni trommaði fyrrum liðsmaður Nirvana og núverandi forsprakki Foo Fighters, Dave Grohl. Einnig hafði gítarleikari A Perfect Circle, Troy Van Leeuwen, gengið til liðs við sveitina auk þess sem fyrrum söngvari Screaming Trees, Mark Lanegan kom örlítið við sögu. Þessi plata skaut QOTSA almennilega uppá stjörnuhimininn og lög eins og „No One Knows“ og „Go With The Flow“ urðu vinsæl og voru spiluð á MTV. Þrátt fyrir gríðarlega velgengni vildi Dave Grohl ekki vera áfram í sveitinni og sneri aftur til fyrri verkefna. Í hans stað kom svo hinn tattúveraði Joey Castillo sem enn gegnir slagverksskyldum sveitarinnar. Eftir farsælan feril var svo Nick Oliveri rekinn úr sveitinni snemma árs 2004 fyrir vanvirðingu við aðdáendur og óhóflega mikið partýstand. Seinna sagði Homme svo reyndar að raunverulega ástæða fyrir þessu væri sú að Oliveri hefði beitt kærustu sína líkamlegu ofbeldi. Lullabies to Paralyze. Þremur árum seinna eða 2005 kom svo fjórða breiðskífan, „Lullabies to Paralyze“, en þá hafði hinn fjölhæfi Alain Johannes gengið til liðs við sveitina. Platan seldist einstaklega vel og jók enn frekar á vinsældir sveitarinnar. Seinna sama ár gaf sveitin svo út tónleikamynddisk/geisladisk sem heitir „Over the years and through the woods“. Á disknum eru upptökur af tvennum tónleikum sveitarinnar í London en einnig aukaefni úr ýmsum áttum frá árunum 1998-2005. Era Vulgaris. Fimmta breiðskífan, „Era Vulgaris“, kom út 12. júní 2007 en þar spilar Michael Shuman á bassa og Dean Fertita (áður í The Racounters) á hljómborð. Fyrsta smáskífan á plötunni heitir „Sick, Sick, Sick“ og önnur heitir „3's and 7's“. Auk þess koma fjölmargir heimsfrægir tónlistarmenn við sögu á plötunni eins og Trent Reznor forsprakki Nine Inch Nails og Julian Casablancas söngvari The Strokes. Á plötunni má finna lag sem áður kom út með Desert Sessions (hliðarverkefni Homme og vina hans), en það heitir „I wanna make it wit chu“. Plötunni var lekið á internetið þann 23. maí 2007. Kambur hf.. Kambur hf. er íslenskt fiskvinnslufyrirtæki staðsett á Flateyri á Vestfjörðum. Kambur er stærsta atvinnufyrirtækið á Flateyri en þar starfa um 120 manns, liðlega 50 sjómenn og hinir í landi. Sala á kvóta. Þann 17. maí 2007 var tilkynnt að Kambur væri nú í samningaviðræðum um að selja frá sér stóran hluta kvóta sinn og fiskveiðiskip en Kambur gerði þá út samtals 5 báta. Daginn eftir, þann 18. maí 2007, var haldinn starfsmannafundur fyrir starfsmenn Kambs. Miklar áhyggjur voru fyrir Flateyri ef kvótinn væri seldur. Á fundinum var starfsmönnum félagsins greint frá því að eigendur Kambs hafi ákvaðið að hætta allri starfsemi og selja allar eignir félagsins. Brimill. Brimill (eða grunnli) er karldýr sels. Kvendýr sels nefnist urta. "Skerjakollur" er brimill nefndur sem sækir alltaf í sama skerið. Urta. Urta (einnig nefnd kæpa, sem bæði getur átt við urtu með eða án kóps) er kvendýr sels. Karldýrið nefnist brimill. "Skerjakolla" er urta sem sækir árlega í sömu skerin. Grim. Grim er teiknimyndapersóna sem Hallgrímur Helgason bjó til. Útvegsbanki Íslands. Útvegsbanki Íslands var íslenskur banki sem var stofnaður 12. apríl 1930. Eins og nafnið gefur til kynna var honum ætlað að styðja við íslenskan sjávarútveg og aðrar atvinnugreinar. Útvegsbanki Íslands varð til í blábyrjun Kreppunnar. Hann kom í stað Íslandsbanka sem hafði verið stofnaður árið 1904 en var síðan lokað sökum gjaldþrots þann 3. febrúar 1930. Við gjaldþrot Íslandsbanka var hafin undirbúningur að stofnun Útvegsbankans og innistæðueigendur fengnir til að leggja fé sitt í nýstofnaðan Útvegsbanka. Árið 1957 var bankanum breytt úr hlutafélagi í ríkisbanka. Á miðjum níunda áratugnum varð Útvegsbankinn gjaldþrota vegna vangoldinna skulda eins stærsta viðskiptavinar síns, Hafskips. Árið 1990 voru Útvegsbankinn, Iðnaðarbankinn, Verslunarbankinn og Alþýðubankinn sameinaðir í Íslandsbanka, síðar Glitni h.f. sem eftir fjármálahrunið 2008 tók aftur upp nafnið Íslandsbanki. Orrustan við Cannae. Orrustan við Cannae var mikilvæg orrusta í öðru púnverska stríðinu. Orrustan átti sér stað 2. ágúst 216 f.Kr. skammt frá bænum Cannae á suðaustur Ítalíu. Her Karþagómanna undir stjórn Hannibals gjörsigraði fjölmennari her rómverska hersins undir stjórn ræðismannanna Luciusar Aemiliusar Paullusar og Gaiusar Terentiusar Varros. Í kjölfar orrustunnar hlupust Capua og aðrar ítalskar borgir undan merkjum og sögðu sig úr rómverska lýðveldinu. Karþagómönnum tókst ekki að binda endi á stríðið en þó er orrustan talin vera einn glæsilegasti hernaðarsigur styrjaldarsögunnar. Rómverjar, sem höfðu jafnað sig á ósigrum sínum í orrustunni við Trebia (218 f.Kr.) og Trasimene (217 f.Kr.), ákváðu að mæta Hannibal við Cannae, með um 87.000 manna herlið rómverskra hermanna og bandamana. Hægri vængur rómverska hersins sneri að ánni Aufidus en riddaralið þeirra gætti hliðanna og í miðjunni var þungvopnað fótgöngulið í fleiri röðum en venjulega. Ef til vill vonuðust Rómverjar til að ná að rjúfa fylkingu Karþagómanna fyrr í orrustunni en þeir höfðu gert í orrustunni við Trebia. Hannibal brást við með tangarsókn. Hann skipaði óáreiðanlegasta fótgönguliði sínu í miðjuna en til hliðanna var riddaralið Karþagómanna. Áður en til átaka kom raðaði karþagóski herinn sér upp í oddafylkingu, þannig að miðjan sótti fyrr fram. Þegar orrustan hófst hörfaði miðja Karþagómanna. Rómverjar sóttu fram inn í töng Karþagómanna án þess að átta sig á því og vængir karþagóska hersins og riddaralið náðu að umkringja rómverska herinn. Rómverjar voru nú umkringdir og sótt var að þeim úr öllum áttum. Þeir áttu sér enga undankomuleið og voru brytjaðir niður. Talið er að um 60.000–70.000 Rómverjar hafi verið drepnir eða handsamaðir við Cannae (þ.á m. ræðismaðurinn Lucius Aemilius Paullus og áttatíu rómverskir öldungaráðsmenn). Talið er að orrustan við Cannae sé ein mannskæðasta orrusta sögunnar miðað við fjölda látinna á einum degi og mannskæðasta orrusta Evrópusögunnar. Dagur Kári. Dagur Kári Pétursson (fæddur 12. desember 1973) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður. Hann er sonur rithöfundarins Péturs Gunnarssonar. Hann fæddist í Frakklandi, en fjölskyldan fluttist til Íslands þegar hann var þriggja ára gamall. Dagur Kári útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 1999. Stuttmynd hans "Lost Weekend" vann 11 verðlaun á erlendum kvikmyndahátíðum. Villutrú. Villutrú, eða trúvilla er hugtak sem notað er um hugmyndir sem eru í andstöðu við eða eru frábrugðnar „réttri trú“. Á íslensku er hugtakið einkum tengt kristinni trú en alþjóðlega eru það einkum abrahamísku trúarbrögðin sem hafa notað þetta hugtak eða önnur náskyld trúarbrögð. Villutrúarmenn eða trúvillingar telja sjaldan sínar eigin kenningar vera villutrú. Sem dæmi má nefna að kaþólska kirkjan leit á alla mótmælendur sem trúvillinga (og telur enn suma mótmælendasöfnuði vera það) en margir mótmælendur líta á kaþólska trú sem villutrú. Gyðingar töldu kristni í upphafi vera villutrú af verstu gerð og svik við gyðingdóm og öfugt hafa kristnir álitið gyðingdóm vera villutrú. Í raun flokka trúfélög trúarvillu á tvennan hátt, annars vegar eru önnur trúarbrögð (íslam og kristni t.d.) og hins vegar kenningardeilur innan trúflokksins. Oftast ríkir einskonar „friðsamleg sambúð“ í fyrra tilfellinu en hins vegar eru trúbræður sem falla frá „réttri trú“ og setja fram afbrigðilegar kenningar afar illa séðir og ofsóttir ef við verður komið. Kristni. Á seinni tímum, sérlega eftir Vatíkanþingið 1962 – 1965 og sameiginlegrar yfirlýsingar um kenninguna um réttlætingu af trú sem Lútherska heimssambandið og Vatíkanið undirrituðu árið 1999 hafa hinar stærri kirkjudeildir notað hugtakið villutrú minna um hverja aðra. Formlega eru þó mótmælendur enn villutrúarmenn í augum kaþólsku kirkjunnar en oftar er þó talað um þær sem aðskildar systurkirkjur. Villutrú í frumkristni. Páll postuli lagði grunn að trúarkenningum kristindóms með bréfum sínum sem sem safnað hefur verið í Nýja testamentinu. Hann varar þar við falsspámönnum og villukenningum og setur fram ýmsar trúarreglur. Nokkrir þeirra kirkjufeðra sem snemma snérust gegn villutrú voru Tertullianus, Ireneus frá Lyon, Ignatius frá Antiokkíu og Polykarpos frá Smyrnu. Skrif þeirra urðu grundvöllur þeirrar trúarjátningar sem samþykkt var við kirkjuþingið í Níkeu árið 325. Áður en kristni varð ríkstrú í Rómaveldi voru oft hörð átök andstæðra kristinna hópa en enginn þeirra hafði vald til að nota á andstæðinga sína. Frá og með 325 urðu kennisetningar kirkjunnar samstæðari og hún fékk þar að auki stuðning keisaravaldsins. Keisarinn hafði hag að gæta í því að halda villutrúarmönnum á mottunni því deilur þeirra sköpuðu óró í ríkinu. Úr þessu skapaðist samspil milli hins veraldlega og kirkjulega valds. Fyrsti kristni villutrúarmaðurinn sem heimildir eru um að hafi verið drepinn vegna skoðana sinna var Priscillianus frá Avila. Hann var tekinn af lífi samkvæmt skipun frá Magnus Maximus keisara árið 385. Kaþólska kirkjan og villutrú. Heilagur Dóminik (1170 – 1221) úrskurðar heilagan dóm yfir villutrúarmönnum, málverk eftir Pedro Berruguete (1450 - 1504) Tómas af Aquino skilgreindi villutrú sem „ótrúnaður þeirra manna sem eftir að hafa meðtekið trú á Krist falsa kenninguna“. Samkvæmt reglum kaþólsku kirkjunnar veldur villutrú sjálfkrafa bannlýsingu. Frá sjónarhóli kirkjunnar þýðir það að sá sem ekki óskar eftir að vera hluti af hinni réttur trú kirkjunnar fái ekki heldur að vera það. Kaþólska kirkjan skapaði á miðöldum sérstakan rannsóknarrétt til að berjast við trúvillinga. Þetta var gert í nánu samstarfi milli kirkjunnar og hins veraldlega arms, eins og það var nefnt. Villutrú var dauðasök í kaþólskum löndum enda litið á hana sem landráð. Kirkjan leit svo á að dauðarefsingin væri í raun miskunnarverk vegna þess að hún gæti bjargað trúvillingunum frá eilífri glötun. Sem villutrúarmenn töldust bæði þeir sem á einhvern hátt afneituðu eða þóttu afneita kenningum kirkjunnar og þeir sem taldir voru göldróttir. Hugmyndin um að rétt sé að brenna fólk lifandi fyrir galdra á sér uppsprettu hjá Heilögum Ágústínusi (354-430) sem ritaði í "pistli 62" í bókinni "Guðsríkið": „að heiðingjar, gyðingar og villutrúarmenn muni brenna í eilífum eldi hjá Djöflinum nema kaþólska kirkjan bjargi þeim“. Spænski rannsóknarrétturinn hefur orðið sérlega umtalaður vegna harðneskju í afskiptum sínum af múslimum, gyðingum og mótmælendum auk þeirra sem ákærðir voru fyrir galdra. Á síðustu áratugum hefur kaþólska kirkjan algjörlega snúið bakinu við sögulegum ofsóknunum á villutrúarmönnum og Jóhannes Páll II páfi bað 1999 opinberlega afsökunar og fyrirgefningar á þeim. Síðasta aftaka eftir dóm í rannsóknarrétti átti sér stað 28. júlí 1826 þegar spánverjinn Cayetano Ripoll var tekinn af lífi. Rannsóknarrétturinn var lagður af 1908 og við tók „Söfnuður til varnar trúnni“ (Congregatio pro Doctrina Fidei). Eftir annað Vatíkan-þingið 1965 hefur rómversk-kaþólska kirkjan sýnt miklu meira umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og sérlega gagnvart öðrum kristnum trúardeildum. Kaþólikkar sem skipta um trú eða ganga í söfnuði mótmælenda eru þó enn taldir vera trúvillingar í augum kirkjunnar. Mótmælendur og villutrú. Mótmælendakirkjur eru af mörgu tagi og hafa mismunandi skilning á villutrú og samskiptum við „trúvillinga“. Marteinn Lúther var sjálfur harðorður í garð þeirra sem ekki fylgdu trúarsetningum hans, hann sagði meðal annars um gyðinga að það ætti að eyðileggja heimili þeirra, brenna sýnagógurnar og læsa þá sjálfa inni. Samtíðamenn hans, Kalvín og Zwingli, voru enn harðari í garð þeirra sem ekki vildu aðhyllast rétta trú. Allmennt álíta mótmælendur nokkur helstu atriði kaþólskrar kenningar sem rangan trúarskilning eða villutrú. Þar er sérlega dýrkun á dýrlingum og sögulega ekki síst helgidýrkun á Maríu mey. Einnig álíta þeir skilning kaþólskra á altarissakramentinu vera alranga og sömuleiðis sérstöðu páfans sem eftirmanns Péturs postula. Við kristnitöku lauk trúfrelsi á Íslandi og öll önnur trú en kristni var dæmd sem villutrú og alvarlegt afbrot. Frá siðaskiptunum um 1550 varð kaþólsk trú (sem oft var nefnd „pápíska“) ólögleg og hélst svo til 1874 þegar ný stjórnarskrá tók gildi á Íslandi. Fyrsti trúarhópurinn til að leita réttar síns sem sjálfstætt trúfélag voru mormónar árið 1875. Þeir höfðu fyrst reynt trúboð 1851 urðu þá fyrir miklu aðkasti og ofsóknum og var bannað með dómi að prédika opinberlega. En 1857 fengu tveir kaþólskir prestar undanþágu til að dveljast á Íslandi og þjóna frönskum sjómönnum sem voru að veiðum þar. Kirkjan á Íslandi hélt sig ekki síður frammi en aðrar kirkjur við ofsóknir á hendur þeim sem taldir voru villutrúarmenn og sakaðir voru um galdur. Ekki er með öllu ljóst hversu margir voru líflátnir fyrir galdur í galdrafárinu á Íslandi á 17. öld en í annálum frá 1400 til 1800 þá má finna 24 tilfelli þar sem 21 karlmaður og ein kona voru brennd, einn maður hálshöggvin og annar hengdur. Gyðingdómur. Gyðingar brenndir á báli fyrir villutrú. Úr "Nürnberg Weltchronik" eftir Hartmann Schedel frá 1493 Rétttrúnaðargyðingar (orþódox) telja allar trúarkenningar sem ekki samrýmast kenningum þeirra sem villutrú. Gyðingasagnfræðingurinn Jósefos Flavíos sem uppi var á 1. öld notar hugtakið villutrú um þrjá söfnuði: sadúkkera, farísea og essena. Villutrú er nefnt "minim" í gyðingdómi, en það þýðir bókstaflega 'form'/'gerðir' (óeiginlega 'trúarform'/'trúgerðir'). Hugtakið "hitsonim" einnig notað í Talmud en það þýðir „sá sem heldur sig fyrir utan“ og má einnig þýða sem villutrú. Í kenningum gyðinga er fjöldinn allur af reglum um afstöðu sanntrúaðra gyðingar til villutrúarmanna, hvort sem þeir eru "minim' eða "hitsonim". Íslam. Trúfræðingar beggja aðaltrúardeilda íslam, súnní og shía, telja gagnkvæmt hina kenninguna vera villutrú. Flestir fylgjendur sunni telja súfista vera innan marka réttrar trúar, hins vegar telja vahabítar þá vera örgustu villutrúarmenn. Í Kóraninum eru gyðingar og kristnir kallaðir "fólk bókarinnar" ("ahl al-kitab") og í langri sögu múslimskra ríkja hafa þeir yfirleitt alltaf haft fullt trúfrelsi. Hins vegar eru þeir múslimar sem skipta um trú (svo nefndir "mortad") og gerast kristnir til dæmis taldir réttdræpir samkvæmt sharíalögunum (þó það sé umdeilt meðal múslima). Söfnuðir sem eiga uppruna í íslam, eins og bahá'íar og Ahmadiyya eru harðlega fordæmdir og ofsóttir þar sem þeir eru skilgreindir sem mortad. Jens Stoltenberg. Jens Stoltenberg (f. 16. mars 1959) er forsætisráðherra Noregs síðan 17. október 2005 og gegndi einnig embætti frá 3. mars 2000 til 19. október 2001, hann er einnig formaður norska Verkamannaflokksins. Val di Chiana. Val di Chiana er um 100 km langt hallandi dalverpi í Toskana á Ítalíu sem nær frá rótum Appennínafjalla í norðri að sléttunni kringum Orvieto í suðri. Dalurinn dregur nafn sitt af ánni Chiana sem nú rennur í Chiana-skurðinum í dalnum miðjum. Chiana var þverá Tíber en á tímum Ágústusar var hún stífluð þar sem rómverskir verkfræðingar töldu hana skapa flóðahættu. Við þetta hægði á rennsli hennar og dalbotninn breyttist smám saman í mýri og byggðin fluttist yfir á hæðirnar í kring. Í byrjun 19. aldar var skurðurinn gerður eftir nánast öllum hinum gamla árfarvegi og látinn renna í Arnó. Orvieto. Orvieto er 21 þúsund manna bær í suðvesturhluta Úmbríu á Ítalíu. Bærinn stendur á lágum, flötum móbergsstapa. Cortona. Cortona er um 22 þúsund manna bær í sýslunni Arezzo í Toskana á Ítalíu. Bærinn var stofnaður af Etrúrum í brattri hlíð fyrir með útsýni yfir Val di Chiana, en núverandi bæjarmynd er frá miðöldum að stærstum hluta. Cortona er heimabær fútúríska listmálarans Gino Severini og popptónlistarmannsins Jovanotti. Chianina. Chianina-kvíga er gefin sem verðlaun í "calcio storico" í Flórens. Chianina er nautgripakyn sem á uppruna sinn á Mið-Ítalíu í héruðunum Toskana, Úmbríu og Marke. Það er kennt við Val di Chiana. Kynið er mjög fornt og er meðal annars nefnt í ritum Pliniusar eldra. Chianina-nautgripir eru mjög stórir (nautin ná allt að 1,7 metrum á herðakamb) með svart skinn og hvít eða gráhvít hár. Fullorðin naut verða allt að 1700 kíló að þyngd. Chianina-nautgripir eru oftast hafðir á fóðrum heima við. Þeir hafa gott skap og voru upphaflega fyrst og fremst ræktaðir sem vinnudýr. Þeir eru oft hafðir sýnilegir við hátíðleg tækifæri, t.d. notaðir sem dráttardýr í athöfninni "scoppio del carro" á páskadag í Flórens og chianina-kvíga er gefin sem fyrstu verðlaun í "calcio fiorentino". Chianina-nautgripir eru nú aðallega ræktaðir vegna kjötsins sem er mjög bragðgott og meyrt, en hættir við að verða seigt, t.d. við ofeldun eða frystingu. "Bistecca fiorentina" er aldrei gerð úr öðru kjöti. Chianina-nautgripir vaxa hratt, þola mikla hita og hafa mikið þol gegn sjúkdómum. Vegna þessara eiginleika eru þeir notaðir til kynbóta í hitabeltinu í Afríku. Grunnungur. Grunnungur (fræðiheiti: "Tinca tinca") er fiskur sem tilheyrir ætt vatnakarpa. Hann lifir í vötnum og mjög hægfara ám um alla Evrópu og Asíu, einkum þar sem er leirbotn og mikið um gróður. Hann er alæta og étur botndýr og vatnajurtir. Grunnungur er breiður fiskur með smágert hreistur og þykka hringlaga ugga, en einn ferkantaðan bakugga. Hann er grænn á bak og gulleitur á kvið með rauð augu. Þeir verða fullvaxnir 30-50 sm að lengd og 1-2 kíló að þyngd. Vatnakarpar. Vatnakarpar (fræðiheiti: "Cyprinidae") eru ætt karpfiska sem lifa í ferskvatni. Margir af þessum fiskum eru mikilvægir matfiskar á svæðum þar sem langt er til sjávar. Stærsti vatnakarpinn er risabarbi ("Catlocarpio siamensis") sem verður allt að 3 metra langur, en ættin telur líka minnsta þekkta ferskvatnsfiskinn, "Danionella translucida", sem verður aðeins 12 mm langur fullvaxinn. Allir fiskar af þessari ætt hrygna og fáir huga að eggjunum eða verja þau eftir hrygningu. Ýmsar tegundir vatnakarpa eru vinsælir búrfiskar, s.s. gullfiskar, barbar og dannar. Forsetakosningar á Íslandi 1980. Forsetakosningar 1980 voru hinar íslensku forsetakosningar sem fóru fram árið 1980. Þær enduðu með sigri Vigdísar Finnbogadóttur. Karpfiskar. Karpfiskar (fræðiheiti: "Cypriniformes") eru ættbálkur geislugga. Áður innihélt þessi ættbálkur alla þá fiska sem tilheyra yfirættbálknum "Ostariophysi" nema grana sem mynduðu ættbálkinn "Siluriformes". Karpfiskar voru þannig af samsíða þróunarlínum og nýlega hafa ættbálkarnir "Gonorynchiformes", "Characiformes" og "Gymnotiformes" verið klofnir frá karpfiskum til að mynda einstofna ættbálka. Ættbálkurinn telur sex ættir, 321 ættkvíslir og um það bil 3.268 tegundir. Flestar tegundir karpfiska lifa í Suðaustur-Asíu en engar tegundir af þessum ættbálki finnast í Suður-Ameríku eða Ástralíu. Forsetafrú Íslands. Forsetafrú Íslands er kona forseta Íslands. Baccalaureus Scientiarum. Baccalaureus Scientiarum (skammst. B.S. eða B.Sc.) er háskólagráða sem námsskrár gera ráð fyrir að sé náð á þremur til fjórum árum, í námi með raunvísindaáherslu. Ást er.... "Ást er..." (en: "Love is...") eru myndasögur eftir Kim Grove Csala. Aðalpersónurnar eru par sem sýnir mismunandi aðstæður þar sem ást getur komið fyrir. Eftir andlát Kim Grove tók sonur hennar, Stefano Casala, við framleiðslu myndasögunnar. Á Íslandi hefur "Ást er..." verið birt í Morgunblaðinu. Baccalaureus Artium. Baccalaureus Artium (skammstafað B.A. eða A.B.) er háskólagráða sem er veitt að loknu þriggja eða fjögurra ára löngu námi á grunnstigi, þ.e. á fyrsta stigi háskólanams. Gráðan er veitt að loknu námi í hugvísindum, oftast í félagsvísindum og stundum í raunvísindum. Fyrsta ráðuneyti Geirs Haarde. Fyrsta ríkisstjórn Geirs Haarde var ríkisstjórn Íslands frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar 15. júní 2006 til 24. maí 2007. Ríkistjórn Geirs tók við völdum í kjölfar þess að Halldór Ásgrímsson baðst lausnar frá embætti forsætisráðherra, er hann hafði ákveðið að draga sig í hlé. Annað ráðuneyti Geirs Haarde. Önnur ríkisstjórn Geirs H. Haarde var ríkisstjórn Íslands ríkisstjórn Íslands frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009. Í henni sátu ráðherrar frá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni. Hún tók við völdum 24. maí 2007 í kjölfar þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ákváðu að slíta samstarfi sínu vegna naums þingmeirihluta eftir Alþingiskosningarnar 2007. Ríkisstjórnin hafði einn rúmasta meirihluta sem ríkisstjórn hefur haft á Alþingi, 43 menn en einungis 20 þingmenn voru í stjórnarandstöðu. Stór hluti viðræðnanna í aðdraganda stjórnarmyndunarinnar fór fram á Þingvöllum og þar undirrituðu formenn stjórnarflokkana jafnframt stjórnarsáttmálann 23. maí 2007. Þess vegna hefur stjórnin verið kölluð "Þingvallastjórnin". Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir ríkisstjórnina 26. janúar 2009 vegna erfiðleika í samstarfi flokkanna í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins í október 2008. Samfylkingin myndaði í kjölfarið minnihlutastjórn með Vinstrihreyfingunni - grænu framboði sem tók við völdum 1. febrúar 2009. Háský. Háský er flokkur skýja, sem eru í yfir 6 kílómetra hæð yfir sjávarmáli. Algeng háský eru klósigar, blika og maríutásur. Regnþykkni. Regnþykkni (latína: "Nimbostratus") er tegund miðskýja (af sumum talið til lágskýja), sem rignir úr og getur teygt sig í allt að 12 kílómetra hæð. Erfitt getur verið að greina á milli regnþykknis og grábliku. 1. deild karla í knattspyrnu 1969. Árið 1969 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 58. skipti. Keflavík vann sinn 2. titil. Sjö lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur, Keflavík og ÍA. Þetta ár var deildin stækkuð um eitt lið, ekkert lið féll úr deildinni og eitt lið kom upp úr 2. deild. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 124 mörk, eða 2,952 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. 20px ÍBA 3 - 2 ÍA 20px Microsoft PixelSense. Microsoft PixelSense (áður Microsoft Surface) er tæki frá Microsoft sem byggir á snertiskjám sem geta unnið úr mörgum snertingum samtímis. Stafrænt borð til að skoða myndir og myndbönd og fleira er veigamikill þáttur í kynningu á tækninni. Hún var fyrst tilkynnt 30. maí 2007 og kemur líklega út í nóvember 2007. Markaðshópurinn eru meðal annars veitingastaðir, hótel og verslunir sem geta nýtt sér örgjörva í kredit- og debetkortum til að leyfa viðskiptavinum að borga við borðið. 1. deild karla í knattspyrnu 1970. Árið 1970 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 59. skipti. ÍA vann sinn 7. titil. Átta lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Víkingur. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Umspil: 20px Fram 3 - 2 20px Keflavík Markahæstu menn. Skorað var 181 mark, eða 3,232 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Końskowola. Końskowola er þorp í suð-austur Póllandi, staðsett milli Puławy og Lublin, nálægt Kurów. Íbúarfjöldi er 2188 íbúar (árið 2004). 1. deild karla í knattspyrnu 1971. Árið 1971 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 60. skipti. Keflavík vann sinn 3. titil. Átta lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Breiðablik. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Úrslitaleikur. Þar sem Keflavík og ÍBV voru efst og jöfn að stigum eftir 14 umferðir og spiluðu þau til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. 20px Keflavík 4 - 0 ÍBV 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 195 mörk, eða 3,482 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. Foleo. Foleo er óútkomið tæki frá Palm. Það er í raun pínu lítil fartölva með 10" skjá sem tengist síma og kemst á netið. Það vegur rétt rúmlega 1 kg. Það inniheldur bluetooth, Wi-Fi og Infra-Red tengi. Það keyrir á Linux kjarna. 1. deild karla í knattspyrnu 1972. Árið 1972 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 61. skipti. Fram vann sinn 15. titil. Átta lið tóku þátt; KR, Fram, Víkingur, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Breiðablik. Þetta keppnistímabil hófst keppni í Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 180 mörk, eða 3,214 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Frá 1960 til 1972 var úrslitaleikurinn leikinn á Melavellinum, sem var malarvöllur. 1. deild karla í knattspyrnu 1973. Árið 1973 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 62. skipti. Keflavík vann sinn 4. titil en liðið hefur ekki unnið deildina síðan. Átta lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Breiðablik. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 199 mörk, eða 3,554 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Fram 2 - 1 Keflavík 20px 1. deild karla í knattspyrnu 1974. Árið 1974 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 63. skipti. ÍA vann sinn 8. titil. Átta lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Víkingur. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Þar sem Víkingur og ÍBA voru jöfn að stigum eftir 14 umferðir spiluðu þau leik um það hvort liðið héldi sæti sínu í deildinni. 20px Víkingur 3 - 1 20px ÍBA Markahæstu menn. Skoruð voru 151 mörk, eða 2,696 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Valur 4 - 1 ÍA 20px Astmi. Astmi er krónískur sjúkdómur í öndunarfærum, sem lýsir sér í að afturkræf þrenging verður á öndunarvegi vegna bólgu eða aukinnar slímmyndunar, en þá kemst minna loft um öndunarveginn. Helstu þættir sem valda astma eru ofnæmi, til dæmis vegna dýra, frjókorna eða rykmaura en kuldi á þar einnig hlut að máli. 1. deild karla í knattspyrnu 1975. Árið 1975 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 64. skipti. ÍA vann sinn 9. titil. Átta lið tóku þátt; KR, Fram, FH, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Víkingur. Þetta ár var deildin stækkuð í 9 lið. Liðið sem hafnaði í neðsta sæti Úrvalsdeildarinnar spilaði leik gegn liðinu sem lenti í 2. sæti í 2. deild um það hvort liðið spilaði í Úrvalsdeild á næsta ári. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Liðið sem lennti í neðsta sæti Úrvalsdeildarinnar spilaði leik gegn liðinu sem lenti í 2. sæti í 2. deild um það hvort liðið spilaði í Úrvalsdeild á næsta ári. Það voru Þróttur úr 2. deild og ÍBV sem spiluðu um það sæti. 20px Þróttur 2 - 0 ÍBV 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 134 mörk, eða 2,393 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Keflavík 1 - 0 ÍA 20px 1. deild karla í knattspyrnu 1976. Árið 1976 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 65. skipti. Valur vann sinn 15. titil. níu lið tóku þátt; KR, Fram, ÍBA, ÍBV, Valur, Keflavík, ÍA og Víkingur. Þetta ár var deildin stækkuð í 10 lið og hélt þeirri stærð til ársins 2007. Liðið sem lennti í neðsta sæti Úrvalsdeildarinnar spilaði leik gegn liðinu sem lenti í 2. sæti í 2. deild um það hvort liðið spilaði í Úrvalsdeild á næsta ári. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Liðið sem lennti í neðsta sæti Úrvalsdeildarinnar spilaði leik gegn liðinu sem lenti í 2. sæti í 2. deild um það hvort liðið spilaði í Úrvalsdeild á næsta ári. Það voru Þór úr 2. deild og Þróttur sem spiluðu um það sæti. 20px Þór 2 - 0 Þróttur 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 208 mörk, eða 2,889 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Valur 3 - 0 ÍA 20px Lágský. Lágský er flokkur skýja sem eru undir 2 km hæð. Dæmi um lágský eru þokuský, flákaský, bólstraský og skúraský. 1. deild karla í knattspyrnu 1977. Árið 1977 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 66. skipti. ÍA vann sinn 10. titil. Tíu lið tóku þátt. Þetta ár var fyrst spilað með 10 liðum og hélt deildin þeirri stærð til ársins 2007. Þetta ár féll KR, en það er í fyrsta og eina skiptið sem að KR hefur fallið. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 273 mörk, eða 3,033 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Valur 2 - 1 Fram 20px Móðir Teresa. Móðir Teresa (fædd Agnes Gonxha Bojaxhiu 26. ágúst 1910, dáin 5. september 1997) var albönsk nunna rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Hún stofnaði „Missionaries of Charity“ og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Geri og Freki. Geri og Freki eru tamdir úlfar Óðins í norrænni goðafræði, sem hann sendir út um heim allan til að safna upplýsingum. Þeir borða allan mat Óðins, enda lifir hann bara á miði. Kjarvalsstaðir. Kjarvalsstaðir eru sýningarhús í eigu Listasafns Reykjavíkur og standa á Miklatúni í Reykjavík. Þeir eru kenndir við myndlistarmanninn Jóhannes Kjarval. Fyrsta skóflustunga að þeim var tekin árið 1966 og húsið var formlega tekið í notkun 24. mars 1973, tæpu ári eftir lát Kjarvals. Þar er geymd og sýnd umdeild listaverkagjöf Kjarvals til borgarinnar sem afkomendur hans hafa dregið í efa að hafi verið gefin með réttu. Askur (ílát). Askur í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Askur er matarílát úr tré með loki, sem Íslendingar virðast hafa farið að nota eftir að miðöldum lauk en þá fóru húsakynni smækkandi vegna kólnandi veðurs og í þröngum baðstofunum var ekki lengur mögulegt að matast við borð. Hver heimilismaður hafði sinn ask og sinn spón. Oftast var fólki skammtaður matur í askinn hvert kvöld og borðaði fólk úr honum á rúmi sínu, en á milli mála var hann geymdur á hillu. Fjöldi aska frá 19. öld og síðari hluta 18. aldar hefur varðveist. Askar voru alltaf kringlóttir og smíðaðir úr stöfum sem voru festir saman með þremur gjörðum, og yfirleitt var hald eða hanki á hliðinni. Þeir voru oft gerðir úr rekavið og lokið, sem oftast var á hjörum, var skorið út. Georges Pompidou. Georges Jean Raymond Pompidou (5. júlí 1911 – 2. apríl 1974) var forseti Frakklands frá 1969 þar til hann lést árið 1974. Hann var forsætisráðherra Frakklands í forsetatíð Charles de Gaulle frá 1962 til 1968 og vann forsetakosningarnar eftir að de Gaulle hafði sagt af sér 1969. Tenglar. Pompidou, Georges Pompidou, Georges Sigurjón Kjartansson. Sigurjón Kjartansson (f. 20. september 1968) er tónlistarmaður, útvarpsmaður, gamanleikari og handritshöfundur. Sigurjón er í íslenska rokkbandinu HAM, en í þeirri hljómsveit leikur hann á gítar og syngur. Hann var einn af höfuðpaurunum í Fóstbræðrum og Svínasúpuni og annar stjórnandi útvarpsþáttarins "Tvíhöfða" ásamt Jóni Gnarr. 1. deild karla í knattspyrnu 1978. Árið 1978 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 67. skipti. Valur vann sinn 16. titil. Tíu lið tóku þátt. Þetta ár er eitt af þremur árum sem KR tók ekki þátt í Úrvalsdeild karla. Hin tvö voru árin 1913 og 1914. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 279 mörk, eða 3,100 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px ÍA 1 - 0 Valur 20px Battlefield 2. Battlefield 2 (oft skrifað BF2) er fyrstu persónu skotleikur sem er spilaður í gegnum netið. Hann er einnig með smá herkænsku og RPG þætti. BF2 var hannaður af Digital Illusions CE (DICE). Á meðan framleiðslu stóð tók Trauma Sudios þátt í gerð leiksins eftir að Digital Illusions keypti Trauma Studios. BF2 er gefinn út af Electronic Arts sem þriðji leikurinn í Battlefield seríunni. Hann var gefinn út seint í júní 2005. BF2 inniheldur útgáfu fyrir einn í þrem styrkleikum og einnig fjölspilunarmöguleika í gegnum internetið eða LAN. Báðar útgáfur nota sömu kort. Einspilunar útgáfan leyfir 15 tölvustýrða leikmenn en internet útgáfan 64. Leikmenn geta valið um þrjú lið: United States Marine Corps (USMC), People's Liberations Army (PLA) og Middle East Coalition (MEC). Leikjatölvu útgáfur er einnig til fyrir Xbox, Xbox 360 og PS2 og er kölluð. Þrátt fyrir nafnið er munur á tölvuútgáfunni. 1. deild karla í knattspyrnu 1979. Árið 1979 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 68. skipti. ÍBV vann sinn 1. titil. Tíu lið tóku þátt. Loka staða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Leikur um Evrópusæti. Þar sem ÍA og Valur jöfn að stigum í 2. sæti eftir 18 umferðir og spiluðu þau til úrslita um Evrópusæti. Fyrsti leikur. 20px ÍA 0 - 0 Valur 20px Annar leikur. 20px ÍA 3 - 1 Valur 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 254 mörk, eða 2,822 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Fram 1 - 0 Valur 20px 1. deild karla í knattspyrnu 1980. Árið 1980 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 69. skipti. Valur vann sinn 17. titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Leikur um Evrópusæti. Þar sem ÍA og Víkingur jöfn að stigum í 3. sæti eftir 18 umferðir og spiluðu þau til úrslita um Evrópusæti, þar sem að Fram hafði þegar tryggt sér sæti með sigri í bikarkeppninni. 20px Víkingur 2 - 1 ÍA 20px Markahæstu menn. Skoruð voru 239 mörk, eða 2,656 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Fram 2 - 1 ÍBV 20px 1. deild karla í knattspyrnu 1981. Árið 1981 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 70. skipti. Víkingur vann sinn 3. titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 242 mörk, eða 2,689 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px Fram 2 - 3 ÍBV 20px 1. deild karla í knattspyrnu 1982. Árið 1982 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 71. skipti. Víkingur vann sinn 4. titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 200 mörk, eða 2,222 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. 20px ÍA 2 - 1 Keflavík 20px Finnbogi Rútur Valdimarsson. Finnbogi Rútur Valdimarsson (fæddur 24. september 1906 í Fremri-Arnardal við Skutulsfjörð, lést 19. mars 1989) var ritstjóri Alþýðublaðsins 1933-38, varaoddviti og oddviti Seltjarnarneshrepps, oddviti Kópavogshrepps, fyrsti bæjarstjóri Kópavogskaupstaðar, alþingismaður 1949-63 og bankastjóri Útvegsbanka Íslands 1957-72. Túnið Rútstún var nefnt eftir honum. Ættingjar og makar. Kona hans, Hulda Jakobsdóttir varð fyrst kvenna bæjarstjóri á Íslandi, en hún tók við bæjarstjórastöðunni af Finnboga. Þau hjónin voru svo kjörin fyrstu heiðursborgarar Kópavogs 8. október 1976. Eitt barna þeirra, Hulda Finnbogadóttir, náði kjöri sem bæjarfulltrúi í Kópavogi í kosningunum 1986. Finnbogi var bróðir Hannibals Valdimarssonar. Hulda Dóra Jakobsdóttir. Hulda Dóra Jakobsdóttir (fædd 21. október 1911 í Reykjavík, lést 31. október 1998 í Reykjavík) var fyrsta konan á Íslandi sem varð bæjarstjóri, hún var bæjarstjóri Kópavogs frá 1957 til 1962. Hún náði kjöri sem bæjarfulltrúi í kosningunum 1970 og sat það eina kjörtímabil. Hún var meðal þeirra sem stóðu að stofnun Leikfélags Kópavogs ásamt því að vera einn helsti hvatamaðurinn að byggingu Kópavogskirkju, hún var formaður sóknarnefndar í 10 ár. Hún og eiginmaður hennar, Finnbogi Rútur Valdimarsson, voru kjörin fyrstu heiðursborgarar Kópavogs 8. október 1976. Eitt barna þeirra, Hulda Finnbogadóttir, náði kjöri sem bæjarfulltrúi í Kópavogi í kosningunum 1986. Bókasafn Kópavogs opnaði sýningu um ævi og störf Huldu þann 4. júlí 2007, 50 árum upp á dag eftir að hún varð fyrst kvenna bæjarstjóri á Íslandi. Guglielmo Marconi. Guglielmo Marconi (25. apríl 1874 – 20. júlí 1937) var ítalskur eðlisfræðingur sem fann upp og fékk einkaleyfi á kerfi til þráðlausra skeytasendinga, en á slíku kerfi byggja meðal annars útvarp, sjónvarp, farsímakerfi, fjarstýringar og fleira. Hann var annað barn Giuseppe Marconi, landeiganda í Bologna og konu hans Annie Jameson, sem var barnabarn John Jameson, stofnanda viskýframleiðandans Jameson & Sons. Hann hóf rannsóknir á rafmagni og útvarpsbylgjum hjá Augusto Righi við Bolognaháskóla sem hafði meðal annars gert rannsóknir út frá kenningum Heinrich Hertz. Marconi hóf að gera tilraunir með kerfi til að senda þráðlaus símskeyti líkt og margir aðrir voru að reyna (t.d. Ørsted, Faraday, Hertz, Tesla, Edison og Popov). Ekki er hægt að halda því fram að Marconi hafi fundið upp notkun útvarpsbylgja til merkjasendinga, en hann á heiðurinn af því að hafa hannað fyrsta nothæfa útvarpskerfið sem náði einverri útbreiðslu. 2. júní 1896 lagði hann fram umsókn um einkaleyfi á kerfi til þráðlausra skeytasendinga í London. Ári síðar stofnaði hann "Wireless Telegraph Trading Signal Company" sem síðar var nefnt "Marconi Wireless Telegraph Company"). Á þessum árum hélt hann margar sýningar á kerfinu í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem hann lýsti meðal annars Ameríkubikarnum beint frá New York-borg árið 1899. 12. desember 1901 tókst félaginu að senda fyrsta skeytið yfir Atlantshafið en það var ekki staðfest fyrr en með sendingu 17. desember 1902. Fyrsti viðskiptavinur Marconis var breska flotamálaráðuneytið sem tók kerfið í notkun sem öryggiskerfi fyrir skip á sjó. Kerfið byggði alla tíð á rafneistasendingum sem eingöngu var hægt að nota fyrir sendingar með merkjakerfi eins og Morse, en 1906 tókst Reginald Fessenden að senda hljóðbylgju þráðlaust. Síðar voru mörg af einkaleyfum Marconis véfengd og flest þeirra felld úr gildi fyrir bandarískum dómstólum en Bandaríkjaher stóð þá meðal annars í málaferlum vegna brots gegn þessum einkaleyfum. Marconi, Guglielmo Marconi, Guglielmo Homo erectus. Hinn upprétti maður (latína: "Homo erectus") er útdauð tegund af ættkvísl manna. Búsvæði þessarar tegundar var í Afríku fyrir um 1,6 miljónum ára, en þeir fluttust síðar þegar þeir fengu andlega getu til búferlum til Asíu og Evrópu. (latína: "Homo erectus") Kunni ekki að búa til eld, heldur beið hann eftir að elding kveikti í runna og færðu svo eldinn. Aðal veiði-tækni þeirra var að hlaupa uppi dýr þangað til að þau dóu úr örmögnun. Austur-Húnavatnssýsla. Austur-Húnavatnssýsla er sýsla á Norðurlandi, milli Vestur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu en þar að auki á hún mörk að Mýrasýslu og Árnessýslu. Sýslan liggur fyrir botni Húnaflóa og er alls um 4920 km². Tveir þéttbýlisstaðir eru í sýslunni; Blönduós og Skagaströnd. Sýslunnar var fyrst getið, svo vitað sé, árið 1552. Saman eru sýslurnar, Austur- og Vestur-Húnavatnssýsla, oft nefndar Húnaþing. Náttúrufar. Austur-Húnavatnssýsla liggur fyrir botni Húnafjarðar, inn af Húnaflóa, og upp af honum liggja láglendar sveitir. Upp af þessum sveitum ganga svo dalir á borð við Vatnsdal, Langadal, Svínadal, Blöndudal sem og Svartárdal. Upp af Húnafirði eru nokkur vötn; stærst þeirra eru Hópið, Flóðið, Húnavatn og Svínavatn. Upp af láglendum sveitunum ganga víðáttumikil heiðalönd á borð við Grímstunguheiði, Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði. Nokkrar af þekktustu ám landsins setja mark sitt á sýsluna og eru það helstar Blanda, Laxá á Ásum og Laxá í Refasveit, sem og Vatnsdalsá. Á Skagaströnd er undirlendi meðfram sjó á um 2-4 km breiðri ræmu. Er sú sveit grösug og gróin. Á Skaga eru einnig ýmsir dalir; mestur þeirra er Laxárdalur en um hann liggur þjóðvegurinn um Þverárfjall. Berggrunnurinn í Austur-Húnavatnssýslu myndaðist á tertíertíma fyrir um 6-8 milljón árum síðan. Það einkennist af blágrýti og halla berglögin alla jafna til vestur - þó eru nokkur stór misgengi s.s. um Langadalsfjall og Blöndudal. Fjórar megineldstöðvar eru þekktar innan sýslunnar; eru þær í Víðidalsfjalli, Vatndals- og Svínadalsfjalli, Laxárdalsfjöllum á Skaga og fyrir botni Blöndudals. Á þessum stöðvum er að finna líparít. Inn til heiða og á Skaga eru víða grágrýtismyndanir frá miðhluta ísaldar fyrir 1-2 milljón árum síðan. Sýslan er öll gróðursæl þó þar sé engvir skógarnir. Á Skaga ber gróðurinn þess vitni að vera á útkjálka enda er hann opinn fyrir köldum hafáttum. Upp af sveitunum eru heiðarlöndin víðáttumikil með brokmýrar, moseþembur og flóa. Gróið land innan sýslumarka er talið vera alls um 1384 km² eða 28% af flatarmáli hennar. Vegna þessara gróðurskilyrða er sýslan mikið landbúnaðarhérað. Á Skagaströnd er mikið útræði en slíkt var einnig í Kálfshamarsvík framan af síðustu öld en það lagðist af milli 1930 og 1940. Þar var reistur viti fyrst árið 1913 og síðar endurreistur árið 1939. Eyjafjarðarsýsla. Eyjafjarðarsýsla er sýsla í samnefndum firði á Norðurlandi. Nágranni hennar í vestri er Skagafjarðarsýsla en í austri kúrir Suður-Þingeyjarsýsla henni við hlið. Sýslumörk voru í Hvanndalabjargi utan Ólafsfjarðar þar til Siglufjörður og Ólafsfjörður voru gerð að sjálfstæðu lögsagnarumdæmi sem fylgir Skagafjarðarsýslu. Sýslan nær að mörkum Austurhlíðar í Kaupangssveit að austan verðu en til fjalla nær hún inn á reginfjöll suður af Eyjarfjarðardal. Sýslunnar er fyrst getið árið 1550. Náttúrufar. Að flatarmáli er sýslan um 3930 km² en með Siglufirði og Ólafsfirði er hún alls 4300 km². Út með Eyjafjarðaströnd að vestanverðu er sæbratt en þó er þó nokkuð láglendi í Svarfaðardal og inndölum hans. Á firðinum eru eyjarnar Hrísey og Hrólfssker, sem og Grímsey á hafi úti. Allar tilheyra þær Eyjafjarðarsýslu. Megindalir Eyjafjarðarsýslu eru þrír; Svarfaðardalur með Skíðadal, Hörgárdalur og Öxnadalur inn af honum og Eyjafjörður með sína þverdali. Fjöllin umhverfis þessa dali eru hrikaleg og mörg þeirra teygja sig í um 1000 m.y.s. Ár eru margar og vatnsmiklar en draga þær flestar nafn sitt af dalnum sem þær renna um. Þá er þeirra stærst Eyjafjarðará sem rennur út í Eyjafjarðarbotn. Elsta berg í sýslunni er í Hvanndalabjargi og Ólafsfjarðarmúla - um 11-12 milljón ára. Halli berglaga í sýslunni eru að jafnaði 3-7°. Innst í Eyjafjarðardölum er bergið um 2-3 milljón ára gamalt. Í sýslunni er að finna 2 gamlar megineldstöðvar; önnur þeirra, kennd við Súlur, er milli Kerlingar og Öxnadals. Hin er nokkur yngri, um 7 mill. ára gömul, og er milli Villingadals og Torfufells. Fjöll í sýslunni, sérstaklega á Tröllaskaga, eru mjög mótuð af öflum skriðjökla og sjást þar víða skála- og dalajöklar. Gróðursælt er að jafnaði í sýslunni með starengjum við árósa og ofar mýrar og graslendi. Engir eru skógar í sýslunni nema í Leyningshólum í Eyjafjarðardal. Norður-Þingeyjarsýsla. Norður-Þingeyjarsýsla er sýsla fyrir botni Öxarfjarðar og Þistilfjarðar en milli þeirra er Melrakkaslétta. Austan við Þistilfjörð er svo Langanes. Nábúar Norður-Þingeyjarsýslu eru Suður-Þingeyjarsýsla og Norður-Múlasýsla en sýslan er alls um 5380 km². Hún var fyrst nefnd í skjali frá árinu 1550. Náttúrufar. Engar eyjar eru fyrir ströndu sýslunnar en Melrakkaslétta er öll vogskorin. Þá er Tjörnesströndin sæbrött sem og Langanes framanvert. Sýslan er öll nokkuð láglend og hækkar inn til landsins. Mesta á sýslunnar er Jökulsá á Fjöllum sem rennur í mörkum að vestanverðu. Þá falla nokkrar stórar ár í Þistilfjörð en Hafralónsá er þeirra mest. Stöðuvötn eru nokkur, sérstaklega á Sléttunni, og er Hraunhafnarvatn þeirra mest. Láglendi sýslunnar er yfirleitt gróið og eru uppsveitirnar þurrlendar. Mýrafláka er að finna austan til i og á Melrakkasléttu. Í Kelduhverfi eru starengjar. Í Öxarfirði eru náttúrulegir skógar en þeir eru einnig víðar. Gróið land er alls 1914 km² sem er um 35% flatarmálsins. Stjórnsýsla. Í Norður-Þingeyjarsýslu eru þéttbýlisstaðirnir Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn. Byggist afkoma þeirra á útgerð og þjónustu. Þá lifa íbúar sveitanna á landbúnaði, sérstaklega sauðfjárrækt. Víðihóll á Fjöllum er útkirkjustaður frá Skútustaðaprestakalli í Suður-Þingeyjarsýslu. Suður-Múlasýsla. Suður-Múlasýsla merkt með grænum lit Suður-Múlasýsla er sýsla á Austurlandi; milli Norður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Sýslan nær frá Dalatanga að Hlaupgeira í Hvalnesskriðum. Um fjöll liggja mörkin með annars um Hofsjökul eystri, Lagarfljót og um kræklótt jarðamörk um Vestdals- og Fjarðarheiði að Dalatanga. Alls er sýslan 3980 km². Hún var fyrst nefnd í skjali árið 1603. Náttúrufar. Margir staðir í sýslunni eru farnir í eyði og á það sérstaklega við inndali og annnes. Þá er mestallur Mjóifjörður í eyði, suðurbyggð Norðfjarðar, Kálkur í Eskifirði og suðurdalir Berufjarðar. Á Héraði er enn mikil byggð. Þar er einna mesta undirlendið í sýslunni sem og í Breiðdal. Út af ströndinni eru eyjarnar Seley fyrir mynni Reyðarfjarðar, Andey og Skrúður fyrir utan Fáskrúðsfjörð og Papey fyrir Hamarsfirði. Í sýslunni eru að minnsta kosti 35 tindar yfir 1.100 metra hæð þó nær hún hvergi inn að miðhálendinu. Þessi tindar eru að mestu úr basaltlagastafla sem myndaðist fyrir 4-13 milljón árum síðan. Þá eru elstu berglögin austast, þ.e. í sjávarmáli við Gerpi, en þau yngstu á Hraununum við Vatnajökul. Margar þekktar megieldstöðvar eru innan sýslunnar og er ein þeirra út af Norðfjarðarflóa, ein í Reyðarfirði, ein í Skriðdal, sú næsta í Breiðdal, tvær í Álftafirði og fleiri þar í suðurfjörðunum. Þá hafa roföfl jökla smám saman sorfið af þessum fjöllum og mynduðu meðal annars dældina þar sem Lagarfljót er í dag. Á nokkrum stöðum er að finna surtarbrand í jarðlagastaflanum sem og geislasteina (zeolíta) í Berufirði. Þá var silfurberg um langan aldur unnið úr Helgustaðanámu í Reyðarfirði. Fjöll í sýslunni eru gróðurlítil en dalirnir gróskumiklir. Stærsta samfellda gróðursvæðið er Hérað en þar er líka stærstu skógar landsins s.s. Hallormsstaðaskógur. Stjórnsýsla. Í sýslunni eru þrír kaupstaðir; Egilsstaðir, Neskaupsstaður og Eskifjörður. Þá eru þéttbýlismyndanir á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Búðakaupstaður í Fáskrúðsfirði, Búðareyri eða Reyðarfjörður í Reyðarfirði, Brekka í Mjóafirði og í Berufirði. Núverandi Sýslumaður á Eskifirði heitir Inger Linda Jónsdóttir. Þá eru í Múlaprófastsdæmi Vallanesprestakall, með kirkjum að Vallanesi, Þingmúla og Egilsstaðabæ, og Eiðaprestakall, með kirkjum á Eiðum, Hjaltastað, Kirkjubæ og Sleðbrjót í Norður-Múlasýslu. Vestur-Húnavatnssýsla. Vestur-Húnavatnssýsla er sýsla á Norðurlandi, milli Austur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu. Nær hún frá Hrútafjarðará fyrir botni Hrútafjarðar að Víðidalsfjalli og Gljúfurá sem rennur í Hópið. Innan sýslunnar eru þrír firðir; Hrútafjörður, Miðfjörður og Húnafjörður - allir inn af Húnaflóa. Sýslan er alls 2580 km². Stærsti þéttbýlisstaður er Hvammstangi en einnig er vísir að þorpi á Laugarbakka og á Reykjum í Hrútafirði. Sýslunnar var fyrst getið árið 1552. Náttúrufar. Berggrunnur Vestur-Húnavatnssýslu er að mestu leyti basaltberg en einnig er að finna líparít og myndbreytt berg í Vatnsnes- og Víðidalsfjöllum. Fjöll á svæðinu eru mótuð af útrænun öflum jökla, vinda og vatns. Víða eru jökulruðningar en út við ströndina finnast vísbendingar um hærri sjávarstöðu, s.s. vestan á Vatnsnesi og á Heggstaðanesi. Heggstaðanes skilur Hrútafjörð og Miðfjörð og Vatnsnes skilur Miðfjörð og Húnafjörð. Í Húnafirði eru nokkur stór vötn innan sýslumarka; það eru Vesturhópsvatn í Vesturhópi, Sigríðastaðavatn lítið utar og Hópið. Sveitirnar eru grösugar og nýtast einkar vel til sauðfjárræktar. Einnig er þar mikil hrossarækt og mjólkurframleiðsla en landbúnaður er aðal máttarstólpi héraðsins. Hlunnnindi s.s. reki og dúntekja er víða við ströndina. Upp af sveitunum er Arnarvatns- og Holtavörðuheiði sem nýtast til beitar sauðfjár að sumarlagi. Á Arnarvatnsheiði er vötnin mörg og stærst þeirra er Arnarvatn stóra. Heiðarnar eru grónar en sjaldséðir eru skógar í héraðinu. Fiskgengd er mikil í öllum ám og ber þar að nefna lax í ár og silungur í vötnum og tjörnum. Stjórnsýsla. Prestaköll Húnaþings vestra eru tvö; Duck Hunt. Duck Hunt er tölvuleikur fyrir Nintendo Entertainment System (NES) leikjatölvuna. Spilandi notar NES Zapper sem er byssa fyrir NES til að skjóta endur á skjánum fyrir stig. Leikurinn var búinn til af Nintendo og gefinn út 1984 í Japan. Endur birtast ein eða tvær í einu og leikmaður fær þrjú skot til að skjóta þær niður. Vegamót (hús). Vegamót er hús númer 100 við Nesveg á Seltjarnarnesi. Húsið var reist árið 1930. Í húsinu hefur lengi vel verið starfrækt einhvers konar verslunarstarfsemi og í dag (2007) er þar starfrækt Fiskbúðin Vegamót. 1. deild karla í knattspyrnu 1983. Árið 1983 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 72. skipti. ÍA vann sinn 11. titil. Tíu lið tóku þátt. Í loka umferðinni þufti ÍBV jafntefli gegn Breiðablik til að halda sér uppi á kostnað Keflvíkinga. Þeim tókst það en notuðu Þórð Hallgrímsson í leik sínum gegn Blikum, sem hafði verið dæmdur í þriggja leikja bann, en ekki eins leiks bann eins og Eyjamenn héldu fram. ÍBV var dæmdur ósigur og féllu um deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 231 mörk, eða 2,567 mörk að meðaltali í leik. 1. deild karla í knattspyrnu 1984. Árið 1984 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 73. skipti. ÍA vann sinn 12. titil. Tíu lið tóku þátt. Þetta ár var 3. stiga reglan tekin í notkun. Lið fékk 3 stig fyrir sigur í staðin fyrir 2, en sú regla hafði verið við lýði frá stofnun deildarinnar. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 232 mörk, eða 2,578 mörk að meðaltali í leik. 1. deild karla í knattspyrnu 1985. Árið 1985 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 74. skipti. Valur vann sinn 18. titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 277 mörk, eða 3,078 mörk að meðaltali í leik. Sam Harris. Sam Harris (fæddur 1967) er þekktur guðleysingi og vísindamaður að mennt. Hann er höfundur bókarinnar "The end of faith". Tetris. Tetris er vinsæll tölvuleikur sem hefur verið gefinn út á margar tölvur. Alexey Pajitnov bjó til upprunalega leikinn árið 1984. Leikurinn er fáanlegur á nánast allar leikjatölvur, stýrikerfi, síma og margt fleira. Tetris er á mörgum listum yfir bestu leiki allra tíma. Upphaflega útgáfan samanstendur af kubbum sem eru mismunandi í laginu, takmarkið er að ná línum þvert yfir borðið. Gerðar hafa verið margar aðrar útgáfur, þar sem hlutir og jafnvel fólk er í stað kubbana, en takmarkið er hið sama. Pac-Man. Pac-Man er tölvuleikur frá Namco sem var gefinn út í Japan árið 1979. Hann varð strax gríðarlega vinsæll og er enn spilaður. Pac-Man er með frægustu leikjum allra tíma. Persónan hefur birst í yfir þrjátíu öðrum tölvuleikjum. Mac mini. Mac mini er minnsta einkatölva Apple. Hún er hönnuð til að laða að sér eigendur Windows tölva, iPoda, eldri Macintosh gerða og alla sem hafa áhuga á ódýrri og auðveldri einkatölvu. Hún var kynnt á Macworld 11. janúar 2005. Tvær gerðir voru gefnar út í Bandaríkjunum 22. janúar 2005 (29. janúar á heimsvísu). Smávægilegar uppfærslur voru gefnar út 26. júlí 2005, nýjar útgáfur með Intel Core örgjörva voru gefnar út 28. febrúar 2006 og endurbætt útgáfa var kynnt 6. september 2006. Apple TV. Apple TV er tæki frá Apple fyrir sjónvörp. Því er ætlað að vera tengt við Mac OS X eða Windows tölvu og spila stafrænt efni í gegnum iTunes. Apple TV getur virkað sem heimabíó tengdur iPod eða margmiðlunar mótakari, það fer eftir þörfum notanda. Það fæst í 40 og 160 gígabæta útgáfum. Seint í júní var YouTube möguleika bætt í Apple TV. Það gengur þannig fyrir sig að öll myndbönd sem hægt er að horfa á í Apple TV í gengum YouTube hafa verið færð í H.264 snið sem Apple TV styður, fleiri vörur frá Apple spila þetta snið, svo sem iPod, iPhone og Apple TV öll myndbönd og tónlist sem eru í þessum tækjum fara í gegnum iTunes forritið frá Apple. 2038-vandinn. Dæmi um hvernig dagsetningin mun líta út 19. janúar 2038. 2038-vandinn á við um tæknilegar annmarkanir í forritum sem notast við tímaframsetningu POSIX. Vandamálið gæti orðið til þess að forrit festist í lykkjum (þ.e. forrit endurtekur sömu aðgerðir aftur og aftur), þau gefi rangar niðurstöður o.s.frv. Tímaframsetningin er í raun talning í sekúndum frá 1. janúar 1970, takmörkunin er sú að form tímaframsetningarinnar einskorðast við formerkta 32 bita tölu (mögulegur fjöldi jákvæðra sekúnda er því 231). Þetta þýðir að sekúndurnar eru taldar frá 0 upp í 2.147.483.647 (231) eða til klukkan 03:14:07 UTC þriðjudaginn 19. janúar 2038 ef talið er frá 1. janúar 1970. Á áðurnefndum degi byrjar forritið svo að telja upp á við frá −2.147.483.648 (-231) sekúndum. Þetta veldur að sjálfsögðu ruglingi í mörgum forritum þar sem tíminn verður neikvæður og mun valda því að forritið heldur að árið sé 1901 (þ.e.a.s. −2.147.483.648 sekúndum frá árinu 1. janúar 1970). Lausnin felst í að breyta tímaframsetningunni úr 32 bitum yfir í 64 bita. Samsvarandi takmarkanir eru til staðar á þeirri framsetningu en þeirra verður ekki vart fyrr en eftir 290 milljarða ára. Ekki er litið á það sem aðkallandi vandamál. Alþingiskosningar 1953. Alþingiskosningar árið 1953 voru haldnar 28. júní og var niðurstaðan svona. Alþingiskosningar 1933. Alþingiskosningar 1933 voru kosningar til Alþingis sem voru haldnar 16. júlí 1933. Kosið var samkvæmt nýrri kjördæmaskipan sem átti að tryggja þingmannafjölda í samræmi við fylgi á landsvísu. Kosningaréttur var miðaður við 25 ár og þiggjendur sveitastyrks gátu ekki kosið. Fjöldi á kjörskrá var 53.327 eða tæp 47% íbúa landsins. Kosningaþátttaka var 70,1%. Þetta voru aðrar alþingiskosningarnar sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram í eftir að hann var myndaður með samruna Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins í maí árið 1929. Kosningasigur flokksins var sá mesti í sögu hans en hann hlaut tæpan helming atkvæða. Eftir kosningarnar sat „samstjórn lýðræðissinna“ (ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar) áfram við völd, en það var samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Framsóknarmenn höfðu þrjá ráðherra en Sjálfstæðismenn einn. Jörð (gyðja). Jörð er í norrænni goðafræði móðir Þórs, en hann eignaðist hún með Óðni. Búri. Búri var fyrsti guðinn í norrænni goðafræði, hann var sonur Auðhumlu. 1. deild karla í knattspyrnu 1986. Árið 1986 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 75. skipti. Fram vann sinn 16. titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 253 mörk, eða 2,811 mörk að meðaltali í leik. 1. deild karla í knattspyrnu 1987. Árið 1987 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 76. skipti. Valur vann sinn 19. titil, en liðið vann ekki titilinn eftir það í 20 ár. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 253 mörk, eða 2,811 mörk að meðaltali í leik. Þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar var haldið árið 1874 er þúsund ár voru frá landnámi Ingólfs Arnarsonar. Þá fengu Íslendingar sína fyrstu stjórnarskrá. Herúlakenningin. Herúlakenningin er kenning um að Íslendingar séu afkomendur Herúla og séu að uppruna sérstakur þjóðflokkur, aðgreindur frá öðrum þjóðflokkum á Norðurlöndum. 1. deild karla í knattspyrnu 1988. Árið 1988 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 77. skipti. Fram vann sinn 17. titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 255 mörk, eða 2,833 mörk að meðaltali í leik. Straton. Straton frá Lampsakos (um 340 f.Kr. – um 268 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur, sem fékkst einkum við náttúruheimspeki. Hann tók við sem þriðji skólastjóri Lýkeions við andlát Þeófrastosar. Straton veitti því meðal annars athygli að fallandi hlutir, t.d. regndropar, auka hraða sinn í fallinu en falla ekki með jöfnum hraða eins og aflfræði Aristótelesar gerði ráð fyrir. Hann hélt því einnig fram að í öllum efnislegum hlutum væri mismikið tómarúm sem útskýrði þyngdarmun hlutanna (og efnanna). Straton er stundum talinn vera fyrsti trúleysingi eða guðleysingi heimspekisögunnar. Meðal nemenda Stratons var Aristarkos frá Samos. Sótíon. Sótíon frá Alexandríu (uppi um 200-170 f.Kr.) var forngrískur rithöfundur sem reit einkum ævisögur og um hugmyndasögu. Rit hans voru ein meginheimild Díogenesar Laertíosar. Engin rita hans eru varðveitt. Meginrit hans Διαδοχή eða Διαδοχαί ("Diadokkē" eða "Diadokkai", "Raðir"), var fyrsta ritið um sögu heimspekinnar sem vitað er að hafi raðað heimspekingum í ólíka skóla hugsunar, t.d. jóníska skólann (Þales, Anaximandros og Anaximenes). Sennilega var rit Sótíons í þrettán bókum og byggði líklega að einhverju leyti á ritum Þeófrastosar. Rit Sótíons var nægilega áhrifamikið til þess að verða gefið út í styttri útgáfu en þá útgáfu annaðist Herakleides Lembos um miðja 2. öld f.Kr. Sósikrates frá Ródos og Antisþenes frá Ródos sömdu einnig rit með sama titli. Hermann Göring. Hermann Wilhelm Göring (1893 - 1946) var yfirmaður flughers nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Hann var dæmdur fyrir glæpi gegn mannkyninu í Nürnberg-réttarhöldunum að stríðinu loknu en framdi sjalfsmorð rétt áður en dauðadómi yfir honum yrði framfylgt. 1. deild karla í knattspyrnu 1989. Árið 1989 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 78. skipti. KA vann sinn fyrsta og eina titil. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 227 mörk, eða 2,522 mörk að meðaltali í leik. Breiðbogafall. Breiðbogaföll eru keilusnið og því hliðstæð hornaföllum. Helstu breiðbogaföllinn kallast breiðbogasínus (lat. "sinus hyperbolicus, sinh") og breiðbogakósínus (lat. "cosinus hyperbolicus, cosh"). Úr þeim eru svo mynduð önnur breiðbogaföll og andhverfur líkt og úr hornaföllum. Talnatvenndinn (cosh(t), sinh(t)) lýsir hægri hluta breiðboga "x2-y2 = 1" eins og (cos(t), sin(t)) lýsir hring. Breiðbogaföll eru mikilvæg þar sem þau birtast í lausnum margra línulegra deildajafna, svo sem lýsingum á keðjuferli og ýmsu öðru. Netfrelsi. Netfrelsi er íslenskt félag stofnað 17. október 2004. Félagið spratt út frá P2P tenglanetinu Deilir. Markmið félagsins er að standa vörð um frjáls samskipti á netinu. Þó varð ekkert úr markmiðum félagsins og dó það fljótt og einfaldlega út. 1. deild karla í knattspyrnu 1990. Árið 1990 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 79. skipti. Fram vann sinn 18. titil, en liðið hefur ekki unnið deildina síðan. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 254 mörk, eða 2,822 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Fyrri leik lauk með 1-1 jafntefli eftir framlengdan leik og léku liðin aftur. Þar þurfti aftur framlengingu og loks vítaspyrnukeppni eftir markalausan leik. Teitur Þórðarson. Teitur Þórðarson (f: 14. janúar 1952) er íslenskur knattspyrnustjóri. Auk þess hefur hann þjálfað í Svíþjóð, Noregi og Eistlandi, m.a. liðin F.C. Lyn Oslo og SK Brann. Teitur spilaði knattspyrnu m.a. með ÍA, RC Lens, AS Cannes, Yverdon Sports, Östers IF og Jönköpings IF. 1. deild karla í knattspyrnu 1991. Árið 1991 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 80. skipti. Víkingur vann sinn 5. titil, en liðið hefur ekki unnið deildina síðan. Fram tapaði titilbaráttunni með einu marki. Tíu lið tóku þátt. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 270 mörk, eða 3,00 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Fyrri leik lauk með 1-1 jafntefli eftir framlengdan leik og léku liðin aftur. Hið íslenzka reðasafn. Hið íslenzka reðasafn er safn við Hlemm í Reykjavík sem hefur til sýnis getnaðarlimi undan hinum ýmsu dýrum. Frægasti gripur safnsins er limur Páls Arasonar sem hafði heitið því að gefa safninu kynfæri sín eftir andlát sitt. Páll lést 5. janúar 2011 og fjórum mánuðum síðar, þann 8. apríl, tók safnið formlega við limnum. Reðasafnið var upphaflega við Laugaveginn í Reykjavík, en fluttist síðan til Húsavíkur. Reðasafnið er hugarfóstur Sigurðar Hjartarsonar, og er hann safnstjóri Reðasafnsins. Hjörtur, sonur Sigurðar, tók við rekstri safnsins í lok sumars 2011, og þá flutti safnið aftur suður til Reykjavíkur. Samkvæmt heimasíðunni "OddEdge.com" er safnið það skrýtnasta í heimi. Sigurlaugur Elíasson. Sigurlaugur Elíasson (f. 1957) er íslenskur myndlistarmaður og ljóðskáld. Hann lauk stúdendsprófi árið 1978 og lokaprófi frá málunardeild Mynlista-og handíðaskóla Íslands 1983. Sigurlaugur sýndi fyrst myndir sýnar á sýningu 5 ungra málara í Nýlistasafninu árið 1983. Fyrsta einkasýning hans var í Listasafni ASÍ 1985. Hann hefur haldið tíu einkasýningar á málverkum og grafík. Sigurlaugur gaf út fyrstu ljóðabók sína "Grátónaregnbogann" 1985. Sú síðasta og áttunda í röðinni er "Lesarkir landsins", 2004. Hann býr og starfar á Sauðárkróki. Bannfæring. Bannfæring (sem samsvarar hugtakinu anathema á latínu og á grísku Ανάθεμα) er kirkjuleg refsing sem einkum hefur verið notuð af rómversk-kaþólsku og rétttrúnaðarkirkjum og kirkjudeildum tengdum þeim. Sá sem var bannfærður var útilokaður frá altarisgöngu (sem á latínu er nefnt "ex communio", fyrir utan kvöldmáltíðina eða fyrir utan söfnuðinn) og einnig frá öðru kirkjulegu samfélagi. Bannfæring er nefnd sem lokalausn við óguðlegu athæfi í "Nýja testamentinu", í Matteusarguðspjallinu 18:15-17 og í 1. Korintubréfinu 5:1-5 Bannfæring var notuð sem refsiaðgerð við alvarlegum afbrotum eins og villutrú, óguðlegu líferni og óhlýðni við skipunum kirkjunnar. Þessi refsiaðferð kristinna safnaða á sér rætur í samsvarandi refsingu innan gyðingdóms, en þar gátu menn átt yfir höfði sér að vera útilokaðir frá sýnagógunni í lengri eða skemmri tíma. Þessi refsing á sér forna sögu í gyðingdómi en er sjaldan notuð á seinni tímum. Bannfæring í kristni var í upphafi einkum notuð til að hvetja einstaklinga í söfnuðinum til að betrumbæta sig og með því viðhalda trúarhreinleika safnaðarins ("poena medicinalis") en varð þegar á leið bein refsiaðferð. Á 4. og 5. öld fékk bannfæringin fastara form bæði í skilgreiningu á hvað var refsivert athæfi og hver refsingin var og hvað sá seki þurfti að gera til að verða fullgildur safnaðarmeðlimur að nýju. Framsíðan á riti Leós X, Exurge Domine, þar sem hann hótar að bannfæra Martein Lúther Í upphafi 13. aldar varð bann hið meira sama og að vera dæmdur friðlaus og Gregóríus VII páfi lýsti því yfir að þegnar bannfærðs fursta þyrftu ekki að hlýða honum. Biskupar höfðu rétt til að úrskurða bann í sínum umdæmum en páfinn fyrir kirkjuna alla. Bannfæringin var einkum tvíþætt: forboð, sem var útilokun frá kirkjulegri þjónustu, og bann hið meira eða stórmæli sem útilokaði menn frá öllu samneyti við kristna menn. Þriðja stigið, bann á heil lönd eða héruð, var einungis á valdi páfa. Sögulega mikilvægar voru hinar gagnkvæmu bannfæringar frá Róm og Konstantínópel frá 1054 (sem ekki voru endurkallaðar fyrr en 1965) og bannfæring páfans Leó X á Marteini Lúther og fylgismönnum hans árið 1520 (sem einnig var endurkallað 1965). Bannfæringin er ekki um alla framtíð, allt eftir afbroti getur sá áfelldi sýnt iðrun og þar með verið tekinn í söfnuðinn að fullu að nýju. Bannfæringin er einungis veraldleg refsing, það er ekki eins og oft er haldið, að sá sem deyr bannfærður sé þar með fordæmdur að eilífu. Þrátt fyrri hafa sjálfur verið bannfærður áleit Marteinn Lúther þetta refsingarform nauðsynlegt og gagnlegt og lýsir því meðal annars í "Fræðum Lúters hinum minni", spurningum 277-283. Þessi refsing hefur því verið notuð af mótmælendakirkjum og þá eingöngu sem "poena medicinalis", en afar sjaldan af þeim flestum á síðari tímum og einungis af þeim strangtrúaðri. Með breyttu þjóðfélagsviðhorfi hefur bannfæring orðið afar sjaldgæf í flestum kirkjum. Fyrir kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjuna leiðir ákveðin hegðun safnaðarmeðlima sjálfkrafa til bannfæringar. Innan kaþólsku kirkjunnar er þetta nefnt bannlýsing við "sjálffelldan dóm" (á latínu "latae sententiae"). Fóstureyðing eða aðstoð annarra við fóstureyðingu og það að ganga úr kikjunni og í annan söfnuð telst til þeirra hluta sem valda þesskonar bannfæringu. Dátar - Gvendur á eyrinni. Gvendur á eyrinni er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytja Dátar fjögur lög. Lárus Sveinsson - Stef úr Dr. Zhivago. Stef úr Dr. Zhivago er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Lárus Sveinsson fjögur lög. Ljósmynd á framhliö: Bragi Hinriksson. Samskipadeild karla í knattspyrnu 1992. Árið 1992 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 81. skipti. ÍA vann sinn 13. titil. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 274 mörk, eða 3,044 mörk að meðaltali í leik. Faxafen. Faxafen er íslensk gata sem liggur við Miklabrautina, við Skeifuna og Fákafen. Faxafen er aðsetur margra fyrirtækja og sölustaða. Getraunadeild karla í knattspyrnu 1993. Árið 1993 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 82. skipti. ÍA vann sinn 14. titil. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 328 mörk, eða 3,644 mörk að meðaltali í leik. Kringlan (gata). Kringlan er gata í Reykjavík sem fellur undir Háaleitis- og Bústaðahverfi og nær út að Miklubraut. Hún dregur nafn sitt af Kringlumýrinni. Við götuna liggur verslunarmiðstöðin Kringlan og bæði Verzlunar- og Háskóli Íslands eru á næstu grösum. Simplikkíos. Simplikkíos frá Kilikíu (uppi á 6. öld) var nýplatonskur heimspekingur og einn af síðustu heimspekingum síðfornaldar. Hann var nemandi Ammoníosar og Damaskíosar. Simplikkíos samdi skýringarrit við rit Aristótelesar "Um himininn", "Eðlisfræðina", "Um sálina" og "Umsagnir", sem eru öll varðveitt auk skýringarrits hans við "Handbók" Epiktetosar. Simplikkíos var ekki frumlegur hugsuður en hann var víðlesinn og lærður maður og athugasemdir hans eru afar gagnlegar. Í ritum hans eru ómetanegar upplýsingar um gríska heimspeki, m.a. tilvitnanir í eldri höfunda hverra verk eru ekki varðveitt. Ammoníos Hermíasarson. Ammoníos Hermíasarson () (5. öld) var heimspekingur í síðfornöld. Hann var sonur heimspekingsins Hermíasar og vinur Prókloss. Hann kenndi í Alexandríu m.a. Jóhannesi Fílopónosi, Damaskíosi og Simplikkíosi. Ammoníos frá Aþenu. Ammoníos frá Aþenu (uppi á 1. öld) var platonskur heimspekingur. Hann var kennari Plútarkosar Frá Kæroneiu. Trópídeild karla í knattspyrnu 1994. Árið 1994 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 83. skipti. ÍA vann sinn 15. titil. Styrktaraðili mótsins var Trópí. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 267 mörk, eða 2,967 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Markaskorarar: Rúnar Kristinsson '54, Einar Þór Daníelsson '73 Ammoníos Sakkas. Ammoníos Sakkas (3. öld) var forngrískur heimspekingur frá Alexandría. Hann var kennari Plótínosar og er stundum talinn vera upphafsmaður nýplatonismans. Allt sem vitað er um ævi hans og kenningar er komið út broti eftir Porfyríos sem Evsebíos og Híerónýmus vitna í. Hann mun hafa verið af fátæku fólki kominn. Sagan hermir að hann hafi unnið fyrir sér sem burðarmaður á höfninni í Alexandríu og hafi þess vegna hlotið viðurnefnið „sekkberi“ ("sakkas" stytting á "sakkoforos"). Sjóvá-Almennra deild karla í knattspyrnu 1995. Árið 1995 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 84. skipti. ÍA vann sinn 16. titil. Styrktaraðili mótsins var Sjóvá Almennar. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 304 mörk, eða 3,378 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Markaskorarar: Hilmar Björnsson '39, Mihajlo Bibercic '84 - Ríkharður Daðason '68 Fyrsta millitímabilið. Fyrsta millitímabilið er tímabil í sögu Egyptalands hins forna sem nær frá lokum gamla ríkisins að upphafi miðríkisins eða frá því um 2184 f.Kr. til 2055 f.Kr.. Tímabilið nær yfir sjöundu, áttundu, níundu, tíundu og elleftu konungsættirnar. Það hófst eftir lát Pepys 2. en hann ríkti lengur en nokkur annar konungur Egypta. Síðustu ár hans á valdastóli einkenndust af upplausn þar sem héraðshöfðingjar tókust á við stjórn landsins upp á eigin spýtur og ríkið liðaðist í sundur. Fyrsta millitímabilið stóð þar til einn af konungum elleftu konungsættarinnar, Mentuhotep 2., sameinaði efra og neðra Egyptaland á ný. Ekki er vitað með vissu hvers vegna miðstjórnarvaldið hrundi á þessu tímabili en ein kenning segir að í kjölfar hnattrænnar kólnunar hafi vatnsmagn Nílar minnkað sem hafi valdið þurrkum og hungursneyð. Níunda og tíunda konungsættin náði að sameina neðra Egyptaland og ríkti frá borginni Herakleopolis. Um svipað leyti tókst annarri konungsætt, elleftu konungsættinni, að sameina efra Egyptaland og ríkti frá Þebu. Talið er að til átaka hafi komið milli þessara konungsætta um völdin í landinu öllu en það er ekki vitað með vissu. Að lokum tókst Mentuhotep 2. af elleftu konungsættinni að sameina efra og neðra Egyptaland undir sinni stjórn sem markar upphaf miðríkisins. Efra Egyptaland. Efra Egyptaland var annar tveggja hluta Egyptalands hins forna. Hinn var neðra Egyptaland. Efra Egyptaland var löng og mjó landræmi meðfram Níl sem náði frá fyrstu flúðunum við borgina Asvan syðst í landinu að upptökum Nílarósa nálægt þeim stað þar sem Kaíró stendur núna. Helstu borgir voru Abýdos og Þeba. Tuttugasta og önnur konungsættin. Tuttugasta og önnur konungsættin í sögu Egyptalands hins forna var önnur konungsætt þriðja millitímabilsins. Þessi konungsætt ríkti frá Tanis í neðra Egyptalandi. Konungar þessarar ættar voru messúessar (berbar) frá Líbýu sem höfðu sest að í Egyptalandi frá tímum tuttugustu konungsættarinnar. Þeir ríktu frá 943 f.Kr. til 720 f.Kr. Tuttugasta og þriðja konungsættin sem ríkti yfir efra Egyptalandi var líklega afsprengi þessarar konungsættar. Moulay Rachid. Prins Moulay Rachid (arabíska: الأمير مولي رشيد بن الحسن) (f. 20. júní 1970) er prins í Marokkó. Hann er sonur Hassan II og Lalla Latifa Hammou. Tuttugasta og þriðja konungsættin. Tuttugasta og þriðja konungsættin var í sögu Egyptalands hins forna konungsætt sem ríkti yfir efra Egyptalandi samhliða tuttugustu og annarri konungsættinni á þriðja millitímabilinu. Konungar þessarar ættar voru messúessar frá Líbýu líkt og konungar tuttugustu og annarrar konungsættarinnar. René Follet. René Follet (fæddur 10. apríl 1931 í Brussel, Belgíu), belgískur myndasöguhöfundur. Follet, René Tuttugasta og fjórða konungsættin. Tuttugasta og fjórða konungsættin í sögu Egyptalands hins forna var fjórða konungsættin sem ríkti á þriðja millitímabilinu. Einungis tveir konungar eru þekktir frá þessari konungsætt sem ríktu frá Saís í Nílarósum: Tefnakte 1. og Bakenranef (eða "Bokkóris") sem ríkti frá 725 til 720 f.Kr. samhliða tuttugustu og fimmtu konungsættinni. Þessi konungsætt leið undir lok þegar Sjabaka lagði Saís undir sig, tók Bakenranef höndum og lét brenna hann lifandi. Gísbargs. Gísbargs "(flæmska/hollenska/gísbargs: Giesbaargs)" er mállýska í flæmsku og er töluð í Geraardsbergen í Belgíu. 30.000 menn tala hana. Hún er ekki skrífað í borginni Geraardsbergen, en hún er sannarlega töluð í strætum. Sjóvár-Almennra deild karla í knattspyrnu 1996. Árið 1996 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 85. skipti. Þegar 1 umferð var eftir af mótinu voru ÍA og KR efst og jöfn að stigum og áttu eftir að mætast á Akranesvelli. Þann 29. september léku liðin saman og sigraði ÍA. ÍA vann sinn 17. titil, og sinn 5. í röð. Styrktaraðili mótsins var Sjóvá Almennar. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 280 mörk, eða 3,11 mörk að meðaltali í leik. Úrslit deildarbikarsins. Markaskorarar: Haraldur Ingólfsson '50 (víti) Ólafur Þórðarson '53 - Tryggvi Guðmundsson '90 (víti) Ragnar Bjarnason - Úti í Hamborg. Ragnar Bjarnason - Úti í Hamborg er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytja Ragnar Bjarnason og hljómsveit hans fjögur lög. Forsíðumyndina tók Kristján Magnússon. Hljómsveit Ingimars Eydal - Sumarást. Hljómsveit Ingimars Eydal - Sumarást er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Hljómsveit Ingimars Eydal, Helena Eyjólfsdóttir og Þorvaldur Halldórsson fjögur lög. Um lag. „Ég tek hundinn“ var upphaflega aukalag á plötunni en breyttist svo í aðallag. Sjóvá-Almennra deild karla í knattspyrnu 1997. Árið 1997 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 86. skipti. ÍBV vann sinn 2. titil. Styrktaraðili mótsins var Sjóvá Almennar. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 276 mörk, eða 3,067 mörk að meðaltali í leik. Enska úrvalsdeildin 2007-08. Enska úrvalsdeildin 2007-08 verður í 16. skipti sem Enska úrvalsdeildin er haldin og byrjar hún í ágúst 2007. Leikir verða kynntir 14. júní. Manchester United eru núverandi meistarar eftir að hafa unnið níunda úrvalsdeildartitil sinn á seinasta tímabili. Charlton Athletic, Sheffield United og Watford féllu niður í meistaradeildina - Watford féllu eftir 1-1 jafntefli við Manchester City 21. apríl, Charlton eftir að hafa tapað 2-0 gegn Tottenham Hotspur 7. maí og Sheffield United féllu eftir 2-1 tap á heimavelli gegn Wigan 13. maí á meðan West Ham United vann 1-0 á Old Trafford og björguðu sér. Í staðinn fyrir Charlton, Sheffield United og Watford munu Sunderland, Birmingham og Derby. Sunderland vann ensku meistaradeildina, Birmingham í öðru sæti og Derby unnu umspil um seinasta lausa sætið. Staðan. "Seinast uppfært 28. maí 2007" Landssímadeild karla í knattspyrnu 1998. Árið 1998 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 87. skipti. ÍBV vann sinn 3. titil. Styrktaraðili mótsins var Landssíminn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Markahæstu menn. Skoruð voru 249 mörk, eða 2,767 mörk að meðaltali í leik. Eyjólfur Sverrisson. Eyjólfur Gjafar Sverrisson (f. 3. ágúst 1968) er íslenskur fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, hann hóf feril sinn hjá Tindastóli á Sauðárkróki. Hann lék sem varnar- og miðjumaður með liðunum VfB Stuttgart, Beskitas J.K. og Hertha BSC Berlin. Í dag er hann þjálfari Undir 21 árs karlalandsliðsins í knattspyrnu. VfB Stuttgart. Tekið var eftir Eyjólfi Sverrissyni með U21 árs landsliðinu árið 1989 þegar Ísland sigraði Finnland 4-0 á Akureyri í undankeppni EM U21. Útsendari Stuttgarts tók eftir honum í leiknum og hóf hann atvinnumannsferil sinn hjá VfB Stuttgart árið 1990. Eyjólfur spilaði mestmegnis sem varnar- og miðjumaður hjá Stuttgart og líka Hertha BSC Berlin og Beskita J.K.. Þegar hann var hjá VfB Stuttgart varð hann þýskur meistari leiktíðina 1991-1992. Hann var hjá Stuttgart til ársins 1994. Besiktas J.K.. Eftir ferilinn hjá Stuttgart hófst ferð hans til Istanbúl í Tyrklandi þar sem hann spilaði með Beskitas J.K. en með Beskitas varð hann Tyrkneskur meistari leiktíðina 1994-1995. Hann fór þaðan til Hertha BSC Berlin árið 1996. Hertha BSC Berlin. Eyjólfur sneri aftur til Þýskalands árið 1996 og lék með Hertha Berlin og vann þýska deildarbikarinn árin 2001 og 2002. Hann lék með Hertha BSC Berlin við gott orðspor til ársins 2002 þegar hann lagði skóna á hilluna. Landsbankadeild karla í knattspyrnu 2004. Árið 2004 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 93. skipti. FH vann sinn 1. titil. Styrktaraðili mótsins var Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Etrúría. Svæðið sem menning etrúra náði yfir. Etrúría (venjulega kölluð Tyrrhenia í grískum og latneskum textum) var svæði á Mið-Ítalíu sem náði yfir stærstan hluta Toskana, og hluta Úmbríu og Latíum suður að ánni Tíber. Etrúría var kjarnasvæði menningar Etrúra á 8. öld f.Kr. en hún breiddist síðan út yfir Pódalinn og suður með strönd Tyrrenahafs allt til Kampaníu. Mörg borgríki Etrúra voru reist á grunni eldri þorpa frá tímum Villanovamenningarinnar sem stóð frá 12. öld til 8. aldar f.Kr.. Róm var syðst á þessu menningarsvæði þar sem hún stendur á bökkum Tíberfljóts og nokkrir etrúskir konungar ríktu yfir borginni þar til lýðveldið var stofnað 509 f.Kr. Á 4. öld f.Kr. gerðu Gallar innrás á Appennínaskagann og lögðu undir sig etrúsku borgirnar í Pódalnum. Á sama tíma hófu Rómverjar að leggja hluta Etrúríu undir sig og innlimuðu hana alla við upphaf 1. aldar f.Kr.. Telpnakór Langholtsskóla - Litla ljót. Litla ljót er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Litla ljót er ævintýri með söngvum eftir Hauk Ágústsson og flutt af telpnakór úr Langholtsskóla undir stjórn Stefáns Þengils Jónssonar. Um útsetningar og hljómsveitarstjórn sá Carl Billich. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu og sá Pétur Steingrímsson um hana. Teikningu á framhlið gerði Halldór Pétursson. Sextett Ólafs Gauks - Út við himinbláu sundin. Út við himinbláu sundin er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Sextetts Ólafs Gauks, Svanhildur og Rúnar fjögur lög. Forsíðumyndina tók Óli Páll Kristjánsson. Normandí. Normandí (eða Norðmandí) (franska: "Normandie"; normanska: "Normaundie") er hérað í norðvesturhluta Frakklands. Það skiptist í tvö stjórnsýsluleg héruð: Efri Normandí (umdæmin Seine-Maritime og Eure) og Neðri Normandí (umdæmin Orne, Calvados og Manche). Gamla sýslan Normandí innihélt, auk núverandi héraða, landshluta sem nú tilheyra umdæmunum Eure-et-Loir, Mayenne og Sarthe. Menn frá Normandí heita "Norðmandingar" eða "Normannar", en hið síðarnefnda er einnig haft um norræna menn sem þar tóku sér bólfestu u.þ.b. á 9. öld. Í Gerplu eftir Halldór Laxness segir svo í upphafi 28. kafla: "Normandíbúar, þeir er vér köllum rúðubændur"... Áður var Normandí sjálfstætt hertogadæmi sem náði yfir ósa Signu frá Pays de Caux að Cotentin-skaganum. Ermarsundseyjar voru hluti af hertogadæminu og fylgdu titlinum (sem Bretadrottning ber nú) þótt héraðið væri innlimað í Frakkland. Lénið var upphaflega sett á stofn af Karli einfalda sem lausnargjald handa víkingnum Göngu-Hrólfi sem herjaði á Frakka árið 911. Nafnið er dregið af því að þar ríktu norrænir greifar. Einn afkomenda Hrólfs, Vilhjálmur sigursæli, lagði England undir sig árið 1066 í orrustunni við Hastings og gerðist þar konungur en hélt Normandí áfram sem lén. Í tíð Jóhanns landlausa lagði Filippus Ágústus Frakkakonungur meginlandshluta greifadæmisins undir sig og Hinrik 3. Englandskonungur viðurkenndi þau yfirráð í Parísarsáttmálanum 1259. Englendingar gerðu síðar kröfu til héraðsins og lögðu það undir sig í Hundrað ára stríðinu, fyrst 1346 til 1360 og síðan 1415 til 1450. 6. júní 1944 hófu bandamenn allsherjarinnrás á meginland Evrópu á strönd Normandí. Orrustan um Normandí er enn stærsta innrás sögunnar af hafi þar sem nær þrjár milljónir hermanna fóru yfir Ermarsund. Afleiða (fjármál). Afleiða (e. "derivative") í viðskiptum er samningur eða fjármálagerningur þar sem undirliggjandi verðmæti þeirra fer eftir verðþróun annarrar eignar eða eigna. Nafnið vísar því til þess að verðmæti verðbréfsins er "leitt af" verðþróun annarra eigna. Því eru lítil takmörk sett á hverju afleiður geta byggt. Sem dæmi má nefna hlutabréf, húsnæðislán, almenn lán, verðbréf, gjaldmiðla, hagvísitölur eða vextir banka. Þannig er hægt að eiga viðskipti með afleiður með hrávörur t.d.: ál, hveiti eða olíu sem undirliggjandi eignir. Til dæmis gæti afleiða kveðið á um réttinn til að kaupa tiltekið magn af áli á tilteknu verði á tilteknum degi eða tímabili en það kallast kaupréttarsamningur (e. "call option"). Algengustu tegundir afleiða eru framvirkir samningar, valréttarsamningar eða vilnanir, t.d. kaup- eða söluréttarsamningar (e. "put option") og skiptasamningar, t.d. vaxtaskiptasamningar. Öðruvísi afleiður. Þar sem afleiður eru í eðli sínu samningar á milli tveggja aðila þá eru því nánast engin takmörk sett hvað getur verið sem viðmið, eða undirliggjandi eign, þegar verðmæti afleiðusamningsins er reiknaður. Þannig eru til afleiður sem reiknast útfrá veðri, t.d. fjöldi góðviðris- eða rigningardaga á ákveðnu landsvæði, eða ævilengd einhverns ákveðins hóps fólks, t.d. meðlima í lífeyrissjóð. Þetta útskýrist af því hvernig afleiður eru notaðar til að verjast áhættu. Appelsínuræktendur í Flórída eru háðir veðri og rekstraraðilar lífeyrissjóða háðir því að raunveruleg ævilengd sé ekki lengri en þær ævilíkur sem voru notaðar til að reikna út réttindi til lífeyrisgreiðslna. Það er því eðlilegt að þessir aðilar reyni að verjast þessari áhættu en til þess má nota afleiður. Skilyrðið er að finna aðila sem er tilbúinn til þess að taka áhættuna, gegn greiðslu, á því að veðrið verði vont eða meðalævi lengist ekki úr hófi. Ellý Vilhjálms - Ég veit þú kemur. Ég veit þú kemur er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Elly Vilhjálms fjögur lög. Snareðla. Snareðla (fræðiheiti: "Velociraptor" sem merkir „snarræningi“) er risaeðlutegund sem lifði á seinni hluta krítartímabilsins. Af steingervingum virðist snareðlan hafa verið fótfrá ráneðla. Hún var allt að 1,8 metrar á lengd og einn metri á hæð og vóg um 20 kg. Hún kann að hafa náð allt að 70 km/h. Snareðlan lifði í mongólíu. Þingeyjarsýsla. Þingeyjarsýsla er sýsla á Norðurlandi eystra og nær frá botni Eyjafjarðar að Bakkaflóa sunnan Langaness. Sýslumaður hefur aðsetur á Húsavík. Upphaf sýslunnar má rekja til Jónsbókar þar sem talað er um Þingeyjarþing. Kjördæmi. Þingeyjarsýsla var sérstakt kjördæmi frá 1844 til 1877 þegar henni var skipt í tvö einmenningskjördæmi, Suður-Þingeyjarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu. Þessi skipting hélst til 1959 þegar þau urðu bæði hluti af Norðurlandskjördæmi eystra. Nú er sýslan hluti Norðausturkjördæmis. Skaftafellssýsla. Skaftafellssýsla var sýsla á Suðurlandi sem náði frá Mýrdalsjökli í vestri að Hvalsnesskriðum í austri. Hún skiptist nú í Vestur-Skaftafellssýslu og Austur-Skaftafellssýslu með sýslumenn á Vík í Mýrdal og Höfn í Hornafirði. Sýslan var kjördæmi frá 1844 til 1877 þegar henni var skipt í tvö einmenningskjördæmi: Vestur-Skaftafellssýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Með nýju kjördæmaskipaninni 1959 varð Vestur-Skaftafellssýsla hluti Suðurkjördæmis en Austur-Skaftafellssýsla hluti Austurlandskjördæmis. Þegar kjördæmaskipaninni var breytt aftur 1999 varð öll Skaftafellssýsla hluti Suðurkjördæmis. Dátar. Dátar er íslensk hljómsveit sem gaf út tvær hljómplötur á ferli sínum af SG - hljómplötum. Smáskífur. Leyndarmál (1966) Gvendur á eyrinni (1967) Forsætisráðherra Bretlands. Forsætisráðherra Bretlands er í raun stjórnmálaleiðtogi Sameinaða konungdæmisins (e. "United Kingdom"). Hann kemur fram sem höfuð ríkisstjórnar hennar hátignar, drottningarinnar, og er í raun sameiningarafl bresku ríkisstjórnarinnar. Sem slíkur hefur hann á hendi þau svið framkvæmdavaldsins, sem oft eru kölluð konunglegur einkaréttur (e. "royal prerogative"). Samkvæmt venju ber forsætisráðherrann og ríkisstjórn hans ábyrgð gagnvart þinginu, en ráðherrarnir eiga sæti þar. Forsætisráðherra Bretlands á heima í Downingstræti 10. Ultra Mega Technobandið Stefán. Ultra Mega Technobandið Stefán (skammstafað UMTBS) er íslensk hljómsveit sem hefur gefið út eina breiðskífu, og tvær smáskífur sem nefnast „Story of a Star“ og „Cockpitter“. Saga. Hljómsveitin lenti í 2. sæti á Músíktilraunum 2006, en undanúrslitakvöldið var fyrsta skiptið sem þeir spiluðu á tónleikum. Þegar þeir lentu í 2. sæti voru meðlimir hljómsveitarinnar fimm talsins, en síðan þá hefur Ingvar Baldursson, sem spilaði á hljóðgervil, hætt í hljómsveitinni. Frægir eru Frostrokk tónleikarnir árið 2006 þar sem UMTBS gerði allt vitlaust ásamt hljómsveitum eins og Retro Stefson, Underdrive (Í þeirri hljómsveit var Stefán Finnbogason, nú meðlimur í hljómsveitinni Sykur), Spooky Jetson (í þessari hljómsveit eru núverandi meðlimir Nolo) og The Unknown. Eftir Músíktilraunir var þeim boðið að spila á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni árið 2006 á Pravda, þeir voru svo beðnir um að spila aftur, á lokakvöldi hátíðarinnar. Síðar fékk hljómsveitin boð um að spila á norsku tónlistarhátíðinni. Hljómsveitin gaf út fyrstu plötu sína árið 2008, en lag þeirra, Story Of A Star, var mikið spilað í útvarpi og seldist vel á vefnum Tonlist.is, en þar var það lag vikunnar. Teista. Teista (fræðiheiti: "Cepphus grylle") er meðalstór svartfugl, á milli 30-38 sentimetrar að lengd og um 400 grömm. Stofnstærð á Íslandi er talin á milli 20-30.000 pör. Haftyrðill. Haftyrðill (fræðiheiti: "Alle alle") er smávaxinn svartfugl af svartfuglaætt. Haftyrðillinn hefst við í björgum á daginn, en á kvöldin fljúga þeir til hafs í leit að æti. Þeir snúa svo aftur í björgin á morgnana. Helsta æti þeirra eru krabbadýr, en einnig allavega hryggleysingjar, eins og til dæmis blaðfætlur. Haftyrðillinn er á milli 19-21 sentimetrar að lengd. Haftyrðlar á Íslandi. Ísland er á syðstu mörkum haftyrðla, enda eru heimkynni þeirra mjög norðarlega. Haftyrðlar finnast nú eingöngu í Grímsey á Íslandi. Toppklumba. Toppklumba (fræðiheiti: "Aethia cristatella") er smávaxinn svartfugl sem einkum er að finna í Berings-hafi. Dvergsvanur. Dvergsvanur (fræðiheiti: "Cygnus columbianus") er stór fugl af andaætt og minnsti svanur við Íslandsstrendur. Facon - Ég er frjáls. Ég er frjáls er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytur hljómsveitin Facon ásamt söngvaranum Jóni Kr. Ólafssyni fjögur lög. Vélhjólaíþróttaklúbburinn. Vélhjólaíþróttaklúbburinn (skammstafað VÍK) er íslenskur klúbbur og félag sem vinnur að framgangi torfæruvélhjólaíþróttarinnar. Saga. Félagið var stofnað árið 1978 en gekk þá erfiðlega að fá æfingar- og keppnisaðstöðu fyrir félagsmenn. Loks árið 2003 fékk félagið úthlutað aðstöðu frá Reykjavíkurborg og árið 2005 samdi félagið við sveitarfélagið Ölfus um afnot af bolaöldusvæðinu og Jósepsdal. Brautirnar við Bolaöldu eru þrjár og voru teknar í notkun í maí 2006. Í dag stendur félagið fyrir ýmsum keppnum og stærst þeirra er Trans Atlantic Off-Road Challenge keppnin en hún er stærsta akstursíþróttakeppni og ein fimmta fjölmennasta íþróttakeppni sem haldin er hérlendis. Síðast, í Trans Atlantic Off-Road Challenge 2007 kepptu um 500 manns. Keppnir á vegum félagsins. VÍK stendur fyrir fjölda keppna á hverju ári bæði motocross-keppnum og enduro-keppnum. Þuríður Sigurðardóttir - Ég á mig sjálf. Ég á mig sjálf er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytur Þuríður Sigurðardóttir tvö lög. Tatarar - Dimmar rósir. Dimmar rósir er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytur hljómsveitin Tatarar tvö lög. Hljóðritun plötunnar gerði Ríkisútvarpið og sá Pétur Steingrímsson um upptöku. Ljósmyndir á framhlið og í miðopnu tók Óli Páll Kristjánsson. Aðrar ljósmyndir tók Ólafur H. Torfason. Listi yfir íslenska golfklúbba. Listi yfir íslenska golfklúbba, sem er hópur áhugamanna um íþróttina golf. Golfklúbburinn Kjölur. Golfklúbburinn Kjölur (skammstafað GKj eða GKJ) er íslenskur golfklúbbur staðsettur í Mosfellsbæ. Golfvöllur klúbbsins nefnist Hlíðavöllur. Saga. Klúbburinn var stofnaður 7. desember árið 1980. Í maí 1983 var undirritaður samningur milli Mosfellshrepps og klúbbsins um leigu á landi til 20 ára. Framkvæmd við völlinn hófst sama sumar og var að mestu leyti unnin í sjálfboðavinnu. Framkvæmdum lauk svo árið 1986 og var 9 holu völlurinn formlega opnaður í júlí sama ár. Komnar eru hugmyndir um stækkunn vallarins upp í 18 holur. Tenglar. Kjölur Milta. Miltað (eða milti) er líffæri úr eitilvef, hluti bæði vessa- og ónæmiskerfis, staðsett milli maga og þindar. Þéttur bandvefur myndar hylki þess. Miltað er forðabúr blóðs og hefur að geyma ýmis blóðkorn, s.s. rauðkorn, hvítfrumur og átfrumur. Ólíkt öðrum einingum vessakerfis síar milta ekki vessa. Miltað tæmist við blóðmissi fyrir tilstuðlan driftaugakerfis, til að viðhalda samvægi. Þá haldast eðlileg rúmmál og þrýstingur blóðs. Í hlaupadýrum, svo sem köttum, virkar miltað eins og „blóðbanki“ sem gefur frá sér rauðkorn við aukið álag sem kallar á súrefnisnotkun. Á þennan hátt verða þessir einstaklingar ekki móðir og eftir álagið geta þeir aftur sett rauðkornaskammt í „geymslu“ á ný. Í milta myndast B-eitilfrumur og verða að mótefnaframleiðandi B-verkfrumum (plasmafrumum). Frumur í miltanu sundra bakteríum, gömlum rauðkornum og blóðflögum. Þá er miltað forðabúr járns í líkamanum ásamt lifur. B.G. og Ingibjörg - Þín innsta þrá. Þín innsta þrá er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja B. G. og Ingibjörg tvö lög. Ellý Vilhjálms - Það er svo ótalmargt. Það er svo ótalmargt er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Elly Vilhjálms tvö lög. Tatarar - Gljúfurbarn. Gljúfurbarn eða SG-550 er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Tatarar tvö lög. Siglingastofnun Íslands. Siglingastofnun Íslands er íslensk stofnun sem hefur það hlutverk að tryggja öryggi á sjó og við hafnir landsins og stuðla að hagkvæmum siglingum. Frá og með 1935 hafa allir bátar lengri en 6 metrar verið skyldir til opinberrar skráningar og eftirlits. Aðalskrifstofa er í Kópavogi en útibú er einnig rekið á Ísafirði. Saga. Fyrsti vitinn sem byggður var á Íslandi var Reykjanesviti árið 1878. Fyrst um sinn sá landshöfðinginn um umsjón með vitanum og seinna, árið 1897, tók skólastjóri Stýrimannaskólans við. Þegar heimastjórn komst á 1904 var stofnað embætti landverkfræðings. Tveimur árum seinna var Thorvald Krabbe skipaður annar landverkfræðingur sem tók að sér vita- og hafnarmál. Árið 1918, þegar Ísland varð fullvalda var hann skipaður sérlegur vita- og hafnamálastjóri Vita- og hafnamálastofnunnar. Lög um skráningu skipa voru sett 1896, eftirlit skipa 1903 og lög um skoðun skipa 1922. Skipaskoðun ríkisins og Skipaskráningarstofa ríkisins voru stofnaðar 1930 og skipaskoðunarstjórinn Ólafur Th. Sveinsson sem áður hafði starfað sem skipaeftirlitsmaður. Árið 1970 breytti Skipaskoðun ríkisins um nafn og hét frá því Siglingamálastofnun ríkisins. Siglingamálastofnun og Vita- og hafnamálastofnun sameinuðust svo í Siglingastofnun Íslands 1. október 1996. Ómar Ragnarsson - Minkurinn í hænsnakofanum. "Minkurinn í hænsnakofanum" er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Ómar Ragnarsson fjögur lög. Teikningu á framhlið gerði Halldór Pétursson. Kristín Ólafsdóttir - Tennurnar mínar. Tennurnar mínar er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Kristín Ólafsdóttir tvö ný barnalög. Útsetningar og hljómsveitarstjórn, Reynir Sigurðsson. Um hljóðritun sá Ríkisútvarpið. Ljósmynd á umslagi er eftir Jóhönnu Ólafsdóttur. Teikningar á umslagi gerði Halldór Pétursson Árni Tryggvason - Færeyingur á Íslandi. Færeyingur á Íslandi er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Árni Tryggvason tvö lög. Róbert Arnfinnsson - Ef ég væri ríkur. Ef ég væri ríkur er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Róbert Arnfinnsson lög úr söngleikjunum "Zorba" undir stjórn Garðars Cortes og "Fiðlaranum á þakinu" undir stjórn Jóns Sigurðssonar. Teikningar gerði Halldór Pétursson. Um lögin. Fyrstu tvö lögin eru úr grikkjanum „Zorba“ en tvö síðastnefndu úr þeim fræga söngleik „Fiðlarinn á þakinu“ sem varð metsölustykki í Þjóðleikhúsinu. Mjöll Hólm - Jón er kominn heim. Jón er kominn heim er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Mjöll Hólm tvö lög. Hlíðavöllur. Hlíðavöllur er golfvöllur staðsettur í Mosfellsbæ og er völlur golfklúbbsins Kjalar. Saga. Í maí árið 1983 leigði golfklúbburinn Kjölur land fyrir völlinn til 20 ára af Mosfellshrepp. Framkvæmd við völlinn hófst svo strax sama sumar og var að mestu leyti unnin í sjálfboðavinnu. Framkvæmdum lauk svo árið 1986 og var 9 holu völlurinn formlega opnaður í júlí sama ár. Komnar eru hugmyndir um stækkunn vallarins upp í 18 holur. Ragnar Bjarnason - Ástarsaga. Ástarsaga er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Á henni flytur Ragnar Bjarnason tvö lög. Útsetning og hljómsveitarstjórn Jón Sigurðsson. Um lag. Lagið Ástarsaga hlaut miklar vinsældir á sínum tíma og trónaði vinsældarlista svo vikum skipti. Golfklúbbur Reykjavíkur. Golfklúbbur Reykjavíkur (skammstafað GR) er íslenskur golfklúbbur staðsettur í Reykjavík. Klúbburinn rekur þrjá golfvelli: Grafarholtsvöllur, Korpúlfsstaðavöllur og „Litli völlur“. Saga. Golfklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 14. desember árið 1934 undir nafninu „Golfklúbbur Íslands“ og var fyrsti golfklúbbur sem stofnaður hefur verið á Íslandi. Nafninu var breytt í Golfklúbb Reykjavíkur þegar aðrir golfvellir voru stofnaðir. Tenglar. Reykjarvíkurgolfvöllur Karl Einarsson (eftirherma) - Heimsmeistaraeinvígið í skák í Laugardalshöll 1972. Heimsmeistaraeinvígið í skák í Laugardalshöll 1972 er-45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Á henni flytur Karl Einarsson eftirherma gamanþátt eftir Spóa. Myndin á framhlið plötuumslagsins er eftir hinn kunna listamann, Halldór Pétursson. Golfklúbbur. Golfklúbbur er klúbbur áhugamanna um íþróttina golf. Golfvöllur. Golfvöllur er völlur sem er sérhæfður fyrir íþróttina golf. Hanna Valdís - Lína Langsokkur. Lína langsokkur er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Á henni flytur Hanna Valdís Guðmundsdóttir fjögur lög eftir sænska rithöfundinn Astrid Lindgren. Þýðing söngtexta á íslensku gerði Kristján frá Djúpalæk. Hljómsveit Ólafs Gauks leikur undir. Hana skipa: Carl Möller, Kristinn Sigmarsson, Ólafur Gaukur og Erlendur Svavarsson. Halldór Kristinsson - Lamb í grænu túni. Lamb í grænu túni er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Halldór Kristinsson fimm lög. Um útsetningar og hljómsveitarstjórn sá Jón Sigurðsson. Sólskinskórinn - Sól skín á mig. Sól skín á mig er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Sólskinskórinn fjögur ný barnalög. Um kórstjórn, hljómsveitarstjórn og útsetningar sá Magnús Pétursson. Ljósmynd á framhlið tók Kristinn Benediktsson. Hólmavíkurkirkja. Hólmavíkurkirkja stendur á Brennuhól í miðju þorpinu á Hólmavík við Steingrímsfjörð á Ströndum. Hún var vígð á uppstigningardag árið 1968 af Sigurbirni Einarssyni biskup. Kirkjan hafði þá verið rúman áratug í byggingu, en prestsetur hafði verið á Hólmavík frá því um miðja 20. öld. Kaldrananeskirkja. Kaldrananeskirkja er friðuð kirkja sem stendur á Kaldrananesi utarlega við sunnanverðan Bjarnarfjörð á Ströndum. Þar var lengi bændakirkja, en kirkjubyggingin sem nú stendur á Kaldrananesi er næstelsta hús Strandasýslu, byggð árið 1851 úr timbri og er klædd með járni. Kirkjan var gefin söfnuðinum um miðja 20. öld. Í Kaldrananeskirkju er margt góðra gripa. Á kirkjuhurðinni er hringur með áletrun frá 1840. Altiaristaflan er eftir C. Rosenberg og er máluð eftir höggmynd Bertel Thorvaldsen af frelsaranum. Kirkjan á einnig merkan kaleik, patínu (diskur undir oblátur) og tvær klukkur, aðra með ártalinu 1798. Undanfarin ár hefur hægt og bítandi verið unnið að viðgerðum á kirkjunni. Einnig hefur umhverfi kirkjunnar verið lagfært töluvert, t.d. hlaðinn nýr veggur kringum kirkjugarðinn. Svanhildur Jakobsdóttir - Ég hugsa til pabba. Ég hugsa til pabba er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Svanhildur Jakobsdóttir tvö lög. Brasilía (borg). Brasilía (portúgalska: Brasília) er höfuðborg Brasilíu. Borgin er dæmi um tilbúið samfélag og var hún hönnuð af arkitektinum Oscar Niemeyer og byggð á 41 mánuði á árunum 1956 til 1960. Landssímadeild karla í knattspyrnu 1999. Árið 1999 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 88. skipti. Enginn virtist geta stöðvað KR-inga,á 100 ára afmæli félagsins, sem að unnu sinn 21. titil, sinn fyrsta í 31 ár, eða síðan 1968. KR-ingar áttu í harðri baráttu við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn fram eftir sumri. Eftir 3-0 sigur KR á ÍBV í Frostaskjóli í 15. umferð voru KR-ingar komnir með aðra hönd á Íslandsbikarinn, með 5 stiga forystu. Markahæstur á mótinu var Steingrímur Jóhannesson, leikmaður ÍBV með 12 mörk. Styrktaraðili mótsins var Landssíminn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Spáin. Fyrir upphaf leiktímabilsins spáðu þjálfarar og leikmenn liða í Landssímadeildinni fyrir um úrslit deildarinnar, rétt eins og fyrri tímabli. KR var spáð sigri, en Grindavík og Víkingum var spáð falli. 16. umferð. Í Laugardalnum tóku Framarar á móti KR-ingum. KR-ingar höfðu 5 stiga forskot á toppinum og kæmust skrefnu nær titlinum með sigri á Fram. Fram hafði hafið leik í deildinni á mikilli ferð en þeim hafði fatast flugið í síðustu umferðum. Lítið líf var í leiknum í fyrri hálfleik, Framarar virtust ekki hafa mikinn kraft og smituðust KR-ingar af því kraftleysi, en þeir spiluðu ekki vel heldur. Bjarki Gunnlaugsson, mesti markaskorari KR þetta sumar þurfti að yfirgefa völlinn eftir hálftíma leik vegna meiðsla, var það mikið áfall fyrir KR. Í seinni hálfleik skoruðu KR-ingar og var mikilli spennu létt af þeim. Framarar héldu áfram að spila sömu knattspyrnu og áður og endaði það með að KR-ingar skoruðu annað mark á 73. mínútu. 17. umferð. Víkingar tóku á móti KR-ingum á Laugardalsvellinum í næst seinustu umferð deildarinnar. Víkingar voru í mikilli fallhættu, á botni deildarinnar, á meðan að KR-ingar voru nokkuð öruggir á toppnum og þurftu einungis 2 stig til viðbótar til að tryggja sér titilinn. Leikurinn fór ekki vel af stað. Leikmenn KR virtust vera mjög spenntir og taugatrekktir vegna mikilvægi leiksins. Þeir náðu þó að krækja sér í heldur ódýra vítaspyrnu sem að Bjarki Gunnlaugsson fiskaði og Guðmundur Benediktsson skoraði úr. Víkinar voru alls ekki lakari aðilinn í þessum leik, þeir fengu nokkur tækifæri til að jafna metin, bæði í fyrri og seinni hálfleik en allt kom fyrir ekki. Þegar að stundarfjórðungur var eftir af leiknum gáfu KR-ingar verulega í. Þeir skoruðu 3 mörk. Með þessum sigri sigruðu KR-ingar deildina í fyrsta skipti í 31 ár og allt ætlaði um koll að keyra í stúkunni og sungu stuðningsmenn sigursöngva. 18. umferð. Keflvíkingar komu í heimsókn á KR-völlin til tilvonandi Íslandsmeistara KR. Þetta var stór dagur fyrir KR-inga því að Íslandsbikarinn fór á loft að leik loknum. KR leyfði sér að byrja með hálfgert varalið inná, en ungu KR strákunum virtust ganga vel þrátt fyrir það. KR-ingar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins á fyrstu 16 mínútum leiksins. Þeir slökuðu aðeins af eftir það og komust Keflvíkingar meira inn í leikinn eftir það. Þeir minnkuðu loks muninn snemma í seinni hálfleik, en þar var að verki Þórarinn Kristjánsson. KR-ingar svöruðu ó fyrir sig og skoruðu þriðja mark sitt þegar um korter var eftir af leiknum. Kristján Brooks lagaði stöðuna örlítið fyrir Keflavík undir lok leiksins en þeir komust ekki lengra. Eftir leikinn tók Þormóður Egilsson fyrirliði KR við Íslandsbikarnum úr höndum Eggerts Magnússonar formanns KSÍ. Á lokaleik tímabilsins komu 3470 manns á KR-völlinn til að sjá bikarinn afhentan. Í hinum leikjunum öllum samanlagt mættu 2660 mans, eða 810 færri en á KR-völl. Markahæstu menn. Skoruð voru 264 mörk, eða 2,933 mörk að meðaltali í leik. Ríad. Staðsetning Ríad í Sádí Arabíu. Ríad (arabíska: الرياض ar-Riyāḍ, enska: Riyadh) er höfuðborg Sádí-Arabíu, sem og samnefndu héraði og stærsta borg landsins. Borgin er staðsett á miðjum Arabíuskaganum á stórri hásléttu. Íbúafjöldi borgarinnar rúmlega 4.260.000 manns (u.þ.b. 20% þjóðarinnar). Borgarstjóri Ríad er Abdul Aziz ibn Ayyaf Al Migrin síðan 1998. Nafnið. Nafnið Ríad er dregið af arabíska orðinu "rawdha" sem þýðir "garður", nánar tiltekið þess kyns garðar sem myndast í eyðimörkum eftir að rignt hefur á vorin. Þar sem Ríad stendur í dag hefur verið frjósamt svæði í miðri eyðimörkinni í yfir 1500 ár. Sú byggð sem spratt þar var upprunalega þekkt fyrir pálmatrén og aldingarðana sem þar uxu og var nafnið Ríad því valið. Fjölmargir - Sannleiksfestin. Sannleiksfestin er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Á henni flytja fjölmargir listamenn lögin úr barnaleikritinu Sannleiksfestin eftir Gunnar Friðþjófsson. Hljómsveitarstjórn var í höndum Árna Ísleifs og um útsetningar sáu Gunnar Friðþjófsson og Árni Ísleifs. Teikningu á framhlið umslagsins gerði Halldór Pétursson. Trípólí. Trípólí (arabíska: طرابلس Ṭarābulus, einnig طرابلس الغرب Ṭarā-bu-lus al-Gharb) er höfuðborg Líbýu. Borgin er stærsta borg landsins, þar búa alls 1.682.000 manns. Borgin var upphaflega stofnuð af Fönikíumönnum á 7. öld f.Kr. og hét þá "Oea". Úlan Bator. Staðsetning Úlan Bator í Mongólíu. Úlan Bator (mongólska: Улаанбаатар) er höfuðborg Mongólíu. Í gegnum tíðina hefur borgin heitið mörgum nöfnum. Á árunum 1639-1706 hét hún Örgöö og á árunum 1706-1911 hét hún Ikh Khüree, Da Khüree eða einfaldlega Khüree. Íbúar borgarinnar eru u.þ.b. ein milljón talsins. N'Djamena. N'Djamena er höfuðborg Tsjad, auk þess að vera langstærsta borg landsins. Íbúar borgarinnar eru alls 721.000 talsins. Aðal iðngrein borgarinnar er kjötvinnsla. Níamey. Níamey er höfuðborg Níger. Í borginni búa um 666 þúsund manns og er hún stærsta borg landsins. Borgin er stjórnar-, menningar- og hagfræðileg þungamiðja landsins. Lúanda. Lúanda er höfuðborg og stærsta borg Angóla. Borgin stendur við Atlantshaf og er því helsta hafnarborg landsins, auk þess að vera stjórnarsetur þess. Í borginni búa u.þ.b. 4.500.000 manns. Pretoría. Pretoría er borg í norðurhluta Suður-Afríku. Borgin er ein þriggja höfuðborga landsins og hefur stjórnsýslan aðsetur í borginni. Hinar tvær eru Höfðaborg og Bloemfontein. Bloemfontein. Bloemfontein ([ˈblumfɑnˌte(ɪ)n]) er ein þriggja höfuðborga Suður-Afríku og aðsetur dómsvaldsins. Nafn borgarinnar merkir "blómalind" á bæði afríkönsku og hollensku. Borgin nefnist Mangaung á suður-sótó, sem að merkir "híbýli blettatígranna". Íbúar borgarinnar eru alls 369.568 talsins. VBScript. VBScript (Visual Basic Scripting Edition) er forritunarmál fyrir vefskoðara sem að var hannað af Microsoft og byggir á Visual Basic forritunarmálinu. Það má nota innan (X)HTML skjala og einnig eitt og sér. Przasnysz. Przasnysz er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 17.110 árið 2004. Bógóta. Bógóta (spænska: Bogotá) er höfuðborg og stærsta borg Kólumbíu. Opinbert nafn borgarinnar er "Bogotá, D.C." (D.C. stendur fyrir Distrito Capital, sem að þýðir Höfuðborgarsvæði). Í borginni búa u.þ.b. 7.000.000 manns, en á öllu stórborgarsvæðinu er talið að búi 9'.000.000manns. Addis Ababa. Staðsetning Addis Ababa í Eþíópíu. Addis Ababa (amharíska: አዲስ አበባ) er höfuðborg Eþíópíu. Hún er stærsta borg Eþíópíu, með íbúafjöldann 3.384.569 árið 2007. Höfuðstöðvar Afríkusambandsins eru í borginni. Borgin er oft nefnd sem "pólitísk höfuðborg Afríku" vegna sögulegrar og pólitísku mikilvægi hennar fyrir heimsálfuna. Borgin er fjölmenningarleg, um 80 tungumál eru töluð í borginni sem tilheyra víðum hópi trúarlegra samfélaga. Háskólinn í Addis Ababa, Stofnun Afrískra samfélaga í efnafræði (FASC) og fjölmiðlastofnun Afríku (HAPI) eru öll í borginni. Landafræði. Borgin er í 2.300 metra hæð og er grasland við rætur fjallsins Entoto. Frá lægsta punkti borgarinnar, við Bole alþjóðaflugvöllinn í 2.326 metra hæð hækkar borgin yfir 3.000 metra í fjöllunum til norðurs. La Paz. La Paz (spænska: Nuestra Señora de La Paz, eða Chuquiyapu) er önnur tveggja höfuðborga Bólivíu og aðsetur stjórnsýslunnar. Árið 2001 bjuggu u.þ.b. 1.000.000 manns í borginni. Líftækni. Líftækni er tækni sem notast við lífverur eða hluta þeirra til að framleiða afurðir eða til að hraða eða breyta náttúrlegum ferlum. Líftækni snýst því um hagnýtingu líffræðilegrar og lífefnafræðilegrar þekkingar, gjarnan til framleiðslu lyfja, matvæla eða annarra afurða, en einnig til úrlausna annars konar tæknilegra verkefna, til dæmis við niðurbrot á úrgangi eða hreinsun umhverfismengunar. Fyrir 1970 var þessi tækni aðallega notuð í matvælaframleiðslu og landbúnaði en síðan þá hefur tæknin útvíkkað sig inn í genatækni, lífgagnatækni og fleira. Líftækni hefur í raun verið stunduð um árþúsund, eða allt frá því í árdaga landbúnaðarbyltingarinnar, þó svo hugtakið sem slíkt sé að miklum mun yngra. Öll gerjuð matvæli, svo sem brauð, vín, bjór, osta, jógúrt, skyr, súrdeig, súrpæklað grænmeti, sojasósu og gerjaðar pylsur, má telja til líftækniafurða, enda er framleiðsla þeirra bæði beint og óbeint háð aðkomu gerjandi örvera á borð við gersveppi eða bakteríur. Frá því upp úr miðri 20. öld hefur mikill fjöldi annarra afurða bæst í flóru líftækniafurða, og má þar nefna ýmis ensím, vítamín, lyf og fleiri efni til heimilis- eða iðnaðarnota sem framleidd eru með aðstoð lífvera í ræktunartönkum, oftast vegna þess að of erfitt eða dýrt þykir að framleiða þau með efnafræðilegum aðferðum. Einnig hefur á síðari árum litið dagsins ljós ýmis önnur hagnýting lífvera, þar sem ekki á sér stað framleiðsla á afurðum, heldur felst hagnýtingin í annars konar vinnu, svo sem við lífhreinsun á mengunar- og spilliefnum. Saga Líftækninnar. Eftirmynd af smásjá Leeuwenhoeks. Sýninu er komið fyrir á nálinni og lýst með sólarljósi. Þó svo fræðiorðið „líftækni“ (þ. "Biotechnologie") komi ekki fram á sjónarsviðið fyrr en árið 1919, þá má rekja sögu líftækni langt aftur í aldir, raunar allt til landbúnaðarbyltingarinnar þegar stýrð alkohólgerjun á korni og þrúgum til ölgerðar, víngerðar og brauðbaksturs leit fyrst dagsins ljós. Með tilkomu smásjárinnar um aldamótin 1600 varð tæknilega mögulegt að greina smásæjar lífverur og uppgötvaði Antonie van Leeuwenhoek smásæja einfrumunga á borð við frumdýr og bakteríur á síðari helmingi 17. aldar. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld sem Charles Cagniard de la Tour lagði það til fyrstur manna að það væru örverur sem bæru ábyrgð á gerjun. Á síðari helmingi 19. aldar var mikil gróska í örverurannsóknum, borin voru kennsl á bakteríutegundir og aðferðir þróaðar til að lita þær og greina. Upp úr miðri 19. öld verður svokölluð „gertækni“ (e. "zymotechnology") að mikilvægri fræði- og tæknigrein í Þýskalandi, Danmörku og víðar, en bjóriðnaðinum hafði þá mjög vaxið fiskur um hrygg. Í fyrri heimsstyrjöld fær „gertækni“ stóraukið vægi, en þá framleiddu Max Delbrück og samstarfsmenn hans ger á stórum skala til fóðurgerðar í Þýskalandi og Chaim Weizmann gerjaði maís og myndaði asetón til sprengjugerðar fyrir breska herinn. Lífefnafræðin var einnig að komast á legg á þessum tíma og menn öðluðust þekkingu á próteinum, ensímum og litningum. Lífvísindum fleygði óðfluga fram á 20. öld. Fjölmargar uppgötvanir voru gerðar sem skutu mikilvægum stoðum undir nútíma líftækni. Meðal þeirra mikilvægustu mætti telja uppgvötun Alexanders Fleming á penisillíni og þróun sýklalyfja í framhaldi af því, tilurð nútíma erfðafræði og tengsl gena við arfbæra sjúkdóma, uppgötvun vaxtarhormóna og ýmislegt fleira. Árið 1944 sýndu svo Avery, McCarty og MacLeod fram á að erfðaefnið er DNA. Tæpum áratug síðar (1953) leiddu James Watson og Francis Crick út þrívíða byggingu DNA. Árið 1955 var ensím sem kemur við sögu í kjarnsýrusmíð einangrað í fyrsta sinn og 1969 er ensím búið til í stýrðu umhverfi í fyrsta sinn. Á seinni hluta 20. aldarinnar urðu gífurlegar framfarir í þekkingu á DNA. Upp úr 1980 voru menn farnir að hagnýta þá þekkingu sem þeir höfðu um DNA og afritun þess, en PCR-tæknin leit fyrst dagsins ljós árið 1983 og hlutu þeir Kary Mullis og Michael Smith fyrir nóbelsverðlaunin í efnafræði 1993. Upp úr 1980 voru menn einnig farnir að erfðabreyta plöntum.. Undir lok 20. aldar hlaut klónun dýra mikla athygli, en fyrstur til þess að klóna dýr var Ian Wilmut sem kynnti sauðkindarklónið Dollý 1996. Undanfarin 20 ár hefur hafa orðið gífurlegar framfarir í rannsóknum í erfðafræði sem hafa orðið til þess að lækningar og þekking á hinum ýmsu sjúkdómum hefur aukist. Þróun og framleiðsla lyfja hefur stóraukist með tilkomu rannsókna í líftækni. Lífvirk efni eru þróuð úr hinum ýmsu afurðum og notuð í matvælaiðnaði og snyrtivöruiðnaði. Síðastliðin ár hefur verið mikið lagt í rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum og eldsneytisframleiðslu með örverum. Saga líftækni á Íslandi. Á Íslandi hefur um langan aldur verið lögð stund á ýmsa verkun matvæla sem telja mætti til líftækni. Ýmsar gamlar geymsluaðferðir sem að meira eða minna leyti byggja á gerjun mætti nefna, svo sem kæsingu brjóskfiska, skreiðar- og saltfiskverkun. Skipulagðar rannsóknir á matvælum hefjast hér á landi með stofnun Efnarannsóknastofu landsins þegar árið 1906, en meðal merkra manna sem þar störfuðu má nefna Gísla Guðmundsson, gerlafræðing og frumkvöðul. Gísli var einnig hvatamaður að stofnun Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sem væntanlega má telja eitt af fyrstu líftæknifyrirtækjum landsins. Aukinn kraftur færðist í matvæla- og líftæknirannsóknir með tilkomu Atvinnudeildar Háskóla Íslands 1937 og 1965 er svo Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins stofnuð, en þar átti sér stað mikið þróunarstarf, meðal annars í líftækni. Má sem dæmi nefna rannsóknir Sigurðar Péturssonar gerlafræðings á roðaskemmdum í saltfiski og tilraunir Emilíu Martinsdóttur til framleiðslu á matarlími úr grásleppuhvelju. Saga hátækniiðnaðar á Íslandi er, hins vegar öllu styttri, aðeins um 20 ár. Atvinnulíf landsmanna þróaðist nær alla tuttugustu öldina í nálægð við náttúruauðlindir. Það var ekki fyrr en undir lok aldarinnar að vísindi og tækni urðu drifkraftur nýrra atvinnugreina. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar voru á Íslandi stofnuð mörg fyrirtæki sem byggðust á rannsóknum og þróun (r&þ). Svið líftækninnar. Líftæknilegum aðferðum er beitt á fjölmörgum sviðum framleiðslu og tækni. Til hægðarauka er því talið hentugt að skipta líftækninni upp í svið sem hefð er fyrir að „litakóða“ eins og sýnt er hér fyrir neðan. Athuga ber þó að einstök viðfangsefni líftækninnar geta hæglega skarast milli sviða, til dæmis framleiðsla lyfja (rauð líftækni) í erfðabreyttum plöntum (græn líftækni). Líftækni á Íslandi. Hefðbundin matvælalíftækni á borð við öl-, brauð- og ostagerð hefur verið stunduð á Íslandi um langan aldur og er nokkur fjöldi fyrirtækja starfandi á því sviði. Á öðrum sviðum líftækninnar hefur einnig verið mikil gróska hér á landi á umliðnum árum. Menntun og rannsóknir. Háskólinn á Akureyri býður einn íslenskra háskóla upp á sérhæft nám í líftækni, en nám á skyldum sviðum er einnig í boði við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum. Líftækni er tiltölulega ný grein innan Háskólans á Akureyri og hefur verið kennd frá haustinu 2002. Alls hafa um 65 nemendur skráð sig í nám í Líftækni og þar af 26 lokið námi. Á Vorönn 2009 eru 17 nemendur skráðir við brautina. Líftækni býður upp á marga atvinnumöguleika og gæti þetta orðið iðnaður framtíðarinnar. Líftækni iðnaður er alþjóðlegur og er haldin árleg sýning þar sem helstu aðilar í líftæknigeiranum koma saman. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og gestafjöldinn árið 2007 var yfir 22.000 manns frá 64 löndum. Auk háskólanna og ofangreindra fyrirtækja stunda rannsóknastofnanir á borð við Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands rannsóknir á sviði líftækni. Súkre. Súkre (spænska: Sucre) er önnur tveggja höfuðborga Bólivíu. Í borginni hefur dómsvaldið og löggjafavaldið aðsetur, á meðan að stjórnin hefur aðsetur í La Paz. Í borginni búa u.þ.b. 250.000 manns. Abuja. Abuja er höfuðborg Nígeríu. Í borginni búa 1.800.000 manns. Þegar það var tekin ákvörðun um að breyta um höfuðborg í landinu árið 1976 (þáverandi höfuðborg var Lagos) var ákveðið svæði nálægt miðju landsins. Abuja er dæmi um tilbúið samfélag. Karakas. Karakas er höfuðborg Venesúela. Íbúar Karakas eru 5.452.320 talsins sem gerir borgina að stærstu borg landsins. Windhoek. Windhoek í lok 19. Century Stimpill Imperial staða fyrir þýska Suðvestur Afríku merkt "Windhuk" Windhoek er höfuðborg Namibíu. Borgin er staðsett í Khomas héraði og í henni búa 230.000 manns. Borgin gegnir mikilvægu hlutverki í sauðskinnsviðskiptum landsins. Alsdorf. Alsdorf er bær í vesturhluta Þýskalands, u.þ.b. 50 km vestan af Köln og 10 km austan hollensku landamæranna. Árið 2005 bjuggu þar 46.508 manns. Hrein algebra. Hrein algebra eða abstrakt algebra er grein stærðfræðinnar sem fæst við athuganir á algebrumynstrum, grúpum, baugum, sviðum, mótúllum og vigurrúmum. Hrein algebra er gjarnan kölluð "algebra", en hún er aðskild einfaldri algebru sem snýst aðalega um að leysa jöfnur með óþekktum stærðum og er kennd á grunnskóla– og framhaldsskólastigi. Hrein algebra er mikið notuð í nútímastærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði, svo dæmi séu nefnd er Lie algebra notuð í kennilegri eðlisfræði og önnur svið stærðfræðinnar svo sem algebrutalnafræði, algebrugrannfræði og algebrurúmfræði notast við hreina algebru. Golfklúbbur Álftaness. Golfklúbbur Álftaness (skammstafað GÁ) er íslenskur golfklúbbur staðsettur á Álftanesinu. Klúbburinn rekur golfvöllinn Álftanessvöll. Saga. Klúbburinn var stofnaður 14. maí árið 2002. Sveitarfélagið Álftanes úthlutaði fljótlega eftir stofnun klúbbsins landi til afnota til ársins 2007. Sveitafélagið á helming í landinu en hinn helmingurinn er í einkaeign. Nánast öll vinna við golfvöllinn var lögð fram í sjálfboðavinnu. Golfvöllurinn, sem nefnist Álftanessvöllur er 9 holur. Unnið er að undirbúningi á nýju svæði fyrir framtíðarvöll sem verður til að byrja með 9 holu, par 34, hæfur keppnisvöllur. Tenglar. Álftanessgolfklúbbur Landssímadeild karla í knattspyrnu 2000. Árið 2000 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 89. skipti. KR vann sinn 22. titil. Styrktaraðili mótsins var Landssíminn. Þetta var í fyrsta skiptið frá árunum 1948-50 sem að KR-ingar vörðu titil sinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Símadeild karla í knattspyrnu 2001. Árið 2001 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 90. skipti. ÍA vann sinn 18. titil. Styrktaraðili mótsins var Síminn, sem hafði breytt nafninu úr Landssíminn frá síðasta ári. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Ivy League. Ivy League, stofnuð árið 1954, var upphaflega íþróttakeppni á milli átta háskóla í norðausturhluta Bandaríkjanna. Hugtakið er nú frekar notað sem samheiti allra skólanna, en þeir eru: Brown-háskóli, Columbia-háskóli, Cornell-háskóli, Dartmouth-háskóli, Harvard-háskóli, Pennsylvaníuháskóli, Princeton-háskóli og Yale-háskóli. Ivy League háskólar hafa á sér það orð að vera með bestu háskólum Bandaríkjanna. Mun fleiri sækja um en komast inn, en hlutfall samþykktra umsókna er á bilinu 9% til 20%. Enn fremur keppa skólarnir innbyrðis um góða nemendur. Það er því gjarnan talinn viss heiður að ganga í Ivy League skóla, en að sama skapi er Ivy League stundum tengd menntasnobbi. Ivy League háskólarnir eru með elstu háskólum í Bandaríkjunum. Harvard-háskóli, sá elsti, var stofnaður 1636, en sá yngsti, Cornell-háskóli, árið 1865. Skólarnir eru allir einkareknir, og eru með auðugustu menntastofnunum heims. Hugtakið Ivy League er talið vera komið af því að útveggir margra þessara gömlu háskóla eru þakktir bergfléttu (Ivy). Ivy League þýðir í raun „Bergfléttu-deildin“. Símadeild karla í knattspyrnu 2002. Árið 2002 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 91. skipti. KR vann sinn 23. titil. Styrktaraðili mótsins var Síminn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Taugavísindi. a>um.Taugavísindi er vísindagrein sem hefur taugakerfið sem meginviðfangsefni. Taugavísindi hafa til umfjöllunar byggingu taugakerfisins, virkni þess og þroska, lífefnafræði þess og lífeðlisfræði, og meinafræði taugakerfisins og áhrif lyfja á það. Taugavísindi hafa yfirleitt verið talin til lífvísinda, en greinin hefur á seinni árum orðið þverfaglegri og tengist nú greinum á borð við sálfræði, tölvunarfræði, tölfræði, eðlisfræði og læknisfræði nánum böndum. Landsbankadeild karla í knattspyrnu 2003. Árið 2003 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 92. skipti. KR vann sinn 24. titil. Styrktaraðili mótsins var Síminn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Snjótittlingur. Snjótittlingur (að sumri er hann kvenkenndur og kallaður sólskríkja) (fræðiheiti: "Plectrophenax nivalis") er smávaxinn fugl af tittlingaætt. Sumstaðar á landinu er fuglinn einnig nefndur heydoðra. Krossnefur. Krossnefur (fræðiheiti: "Loxia curvirostra") er smávaxin finka sem lifir í skógum Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu. Nafnið er dregið af lögun goggsins sem fer í kross. Mýósín. Mýósín er ætt hreyfivirkra prótína (e. motor proteins). Flest mýósín hafa bæði haus og hala. Hausinn getur hreyfst fyrir tilstilli krafts sem myndast við ATP vatnsrof. Halinn getur svo meðal annars bundist öðrum sameindum svo að mýósínið beri þær með sér. Páll Zóphóníasson. Páll Hjaltdal Zóphóníasson (f. 12. júlí 1942 í Kaupmannahöfn) er ræðismaður Svíþjóðar í Vestmannaeyjum og fyrrverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja. Hann er sonur Zóphóníasar Pálssonar, skipulagsstjóra ríkisins og Lis Pálssonar (Nellemann), háskólakennara. Páll er kvæntur Sesselju Áslaugu Hermannsdóttur frá Ísafirði, og þau eiga saman börnin Zóphónías, Sigríði og Sif. Páll lauk námi í trésmíði árið 1962 og í byggingartæknifræði 1967 frá Álaborg. Hann var byggingatæknifræðingur hjá ráðgjafarverkfræðifyrirtækinu Studstrup & Östgaard a/s í Álaborg á árunum 1967–1972. Páll starfaði svo sem bæjartæknifræðingur í Vestmannaeyjum árin 1972–1976. Hann tók við sem bæjarstjóri á árunum 1976–1982. Síðan þá hefur hann rekið ráðgjafar- og teiknistofu, Teiknistofa PZ, í Vestmannaeyjum. Páll er formaður Norræna félagsins í Vestmannaeyjum og sænskur ráðgjafi í Vestmannaeyjum. Goðar. Goðar (fræðiheiti: "Podicipediformes") eru ættbálkur vatnafugla sem inniheldur aðeins eina ætt: "Podicipedidae" og um tuttugu tegundir sem skiptast milli sex ættkvísla. Fuglarnir gera sér hreiður við stöðuvötn í Evrópu, Asíu og Kanada og á afviknum stöðum í Bandaríkjunum. Á veturna fara þeir að ströndinni. Þeir lifa á vatnaskordýrum, krabbadýrum og smáfiskum sem þeir kafa eftir. Verslanasambandið. Verslanasambandið var félag íslenskra kaupmanna sem var stofnað 1954 til þess að gæta að hagsmunum þeirra við innflutning varnings frá útlöndum. Fljótlega eftir stofnun var ákveðið að stofna sérstakt skipafélag til þess að annast innflutning fyrir kaupmennina. Þvi stóð félagið fyrir því að skipafélagið Hafskip var stofnað 11. nóvember 1958. Snobb. Snobb er sú athöfn að viðra sig upp við fólk sem talið er æðra af þjóðfélaginu af einhverjum ástæðum, til dæmis þá sem eru ríkari, af betri ættum eða greindari og betur menntaðir. Hið síðastnefnda er gjarnan kallað "menntasnobb". "Talað er um að snobba fyrir einhverjum" og átt við að menn geri sig til og viðri sig upp við „fína fólkið“ til að finna til einhverskonar samheyrileika með því. Í orðabók Blöndals er talað um "snápmennsku" í sömu merkingu. Í öfugri merkingu er talað um að "snobba niður á við". Þá er virðingarstiganum snúið við og sá sem er talinn af „fínu fólki“ leitar félagsskapar þeirra sem eru taldir af lægri stigum. Snobb á það þó til að fá aðra merkingu þegar einstaklingur lítur stórt á það sem hann stendur fyrir, hefur til dæmis mikið álit á þeirri hausklíku sem hann sjálfur tilheyrir. Snobb getur þá orðið til þess að viðkomandi lítur niður á aðra sem ekki tilheyra þeirri klíku, eins og þegar menntaður menntasnobbari lítur niður á ómenntað fólk. Gaukfuglar. Gaukfuglar (fræðiheiti: "Cuculiformes") eru ættbálkur fugla og telur um 160 tegundir sem flestar lifa í skóglendi í Afríku. Þar af telur gaukaætt 140 tegundir en 50 af þeim eru hreiðursníklar sem verpa í hreiður annarra fugla og láta þá unga eggjunum út. Haukur (fugl). Haukur er ránfugl af ættbálki fálkunga. Fálkungar. Fálkungar eða dagránfuglar (fræðiheiti: "Falconiformes") eru ættbálkur um 290 tegunda ránfugla. Flokkurinn inniheldur bæði erni og fálka en stundum er gerður greinarmunur og allar ættir aðrar en fálkar settar í ættbálk ránfugla ("Accipitriformes"). Griplunibba. Hér sést gripla (e. dendrite) og háls (e. neck) og haus (e. head) griplunibbu.Griplunibba er útskot á griplu taugafrumu sem myndar viðtökuhluta taugamóta. Griplunibbur eru smáar, oft innan við míkrómetra að stærð. Talið er að griplunibbur takmarki flæði jóna og innboða frá taugamótunum inn í gripluna. Þannig geta þær kóðað fyrir ástand tiltekinna taugamóta án þess að það hafi áhrif á önnur taugamót sömu taugafrumu. Einnig auka þær yfirborð griplunnar þannig að hún getur tekið við boðum á fleiri stöðum. Ávaxtaæta. Ávaxtaæta er í dýrafræði dýr sem nærist á ávöxtum. Frææta. Frææta er í dýrafræði dýr sem nærist á næringarríkum fræjum jurta. Dæmi um fræætur eru margar tegundir fugla, skordýra og spendýra. Jurtaæta. Jurtaæta er heiti í dýrafræði sem notað er yfir dýr sem nærist á jurtum. Skordýraæta. Skordýraæta er í dýrafræði dýr sem nærist á skordýrum. Blómsykursæta. Blómsykursæta er í dýrafræði dýr sem nærist á blómsykri. Sveppaæta. Sveppaæta er í dýrafræði dýr sem nærist á sveppum. Alæta. Alæta er í dýrafræði dýr sem nærist á bæði jurtum og kjöti. Þekkt dæmi um alætur eru svín, hröfnungar og menn. Bjarndýr eru flest alætur en mataræði einstakra dýra getur verið mjög breytilegt, frá því að vera eingöngu jurtir að því að vera eingöngu kjöt, eftir því hvaða fæða finnst í umhverfinu. Ísbirnir eru þannig skilgreindir sem kjötætur og pandabirnir sem jurtaætur. Þá eru það menn þar sem umhverfið skiptir eftirvill ekki öllu máli, félagslegar aðstæður skipta eflaust máli. Fiskiæta. Fiskiæta er í dýrafræði dýr sem nærist á fiskum. Blóðæta. Blóðæta er dýr sem nærist á blóði. Jurtaslímsæta. Jurtaslímsæta er í dýrafræði dýr sem nærist á jurtasafa. Hrææta. Hrææta er í dýrafræði dýr sem nærist á hræjum. Grískur borði. Grískur borði einnig nefndur mæanderborði eða alexandersbekkur er skreyti þar sem samfelldur ferill hlykkjast í hornrétt form og myndar einhverskonar borða. Grískur borði er mjög algengur í forngrrískri skreytilist. Sumir sem ekki hafa komið fyrir sig nafni borðans hafa stundum nefnt þetta skreyti "horn-krákustíga Grikkja". Grískan borða má sjá víða eins og til dæmis hár á Íslandi þar sem hann umlykur útjaðarinn á málmloki götubrunna (þ.e.a.s. göturæsisloki). Mapútó. Mapútó (portúgalska: Maputo) er höfuðborg og stærsta borg Mósambík. Borgin er hafnarborg og byggist efnahagur hennar aðallega í kringum höfnina. Samkvæmt opinberum tölum frá árinu 1997 búa þar 996.837 manns, en talið er að þar búi í raun mun fleiri. Ankara. Ankara er höfuðborg Tyrklands og næststærsta borg landsins á eftir Istanbúl. Árið 2005 bjuggu 4.319.167 manns í borginni og 4.548.939 manns í öllu héraðinu. Borgin stendur 938 metra yfir sjávarmáli. Áður fyrr hét borgin Angora. Santíagó. Santiago, eða Santiago de Chile er höfuðborg Síle. Borgin stendur 520 metra yfir sjávarmáli í stærsta dal landsins. Árið 2002 bjuggu 6.293.000 manns í borginni. Hungurvaka. "Hungurvaka" er rit sem segir sögu fimm fyrstu biskupanna í Skálholti, frá Ísleifi Gissurarsyni, sem vígður var biskup 1056, til Klængs Þorsteinssonar sem lést 1176. Naypyidaw. Naypyidaw (búrmíska: 100px, einnig stafað Nay Pyi Taw) er núverandi höfuðborg Mjanmar. Naypyidaw merkir "Höfðingjaborg", en getur einnig þýtt "aðsetur konunga". Þann 6. nóvember 2005 var borgin gerð að aðsetri stjórnsýslu landsins, Yangon hafði áður gegnt því hlutverki. Naypyidaw er nákvæmlega 320 km norður af Yangon. Mógadisjú. Mógadisjú (sómalska: Muqdisho, arabíska: مقديشو, ítalska: Mogadiscio) er höfuðborg og stærsta borg Sómalíu. Stríð hefur geisað stöðugt í borginni frá árinu 1991. Talið er að 1.700.000 manns búi í borginni. Kíev. Kíev (Kyiv), eða Kænugarður (úkraínska: Київ) er höfuðborg og stærsta borg Úkraínu. Borgin liggur í norðurhluta landsins við fljótið Dnjepr. Árið 2005 bjuggu 2.660.401 manns í Kíev. Spætufuglar. Spætufuglar (fræðiheiti: "Piciformes") eru ættbálkur fugla sem telur um 400 tegundir í 60 ættkvíslum, þar á meðal spætur. Flestir spætufuglar nærast á skordýrum þótt túkanar lifi á ávöxtum og hunangsgaukurinn lifi á býflugnavaxi. Nær allir spætufuglar eru með tvær klær sem vísa fram og tvær aftur líkt og páfagaukar. Fjórtán fóstbræður - Syngið með. Magnús Ingimarsson raddsetti fyrir kór og hljómsveit. Forsíðumyndina tók Rafn Hafnfjörð og er hún frá Hellisgerði í Hafnarfirði. Myndina á baksíðu tók Kristján Magnússon. Setningu á umslagi annaðist Prentsmiðja Jóns Helgasonar. Myndamót, prentun og umslag gerði Kassagerð Reykjavíkur. Hljómplatan er tekin upp hjá Ríkisútvarpinu en steypt hjá NERA í Ósló. Fjórtán Fóstbræður. Fremri röð frá vinstri (sjá mynd á bakhlið umslags): Hákon Oddgeirsson, Ásgeir Hallsson, Ragnar Magnússon, Einar G. Þorsteinsson, Sigurður Jóelsson, Aðalsteinn Guðlaugsson og Einar Ágústsson. Aftari röð frá vinstri: Árni Eymundsson, Jóhann Guðmundsson, Þorsteinn Helgason, Magnús Guðmundsson, Sigurður Símonarson, Guðmundur Helgi Guðmundsson og Garðar Jökulsson. Savanna tríóið - Folksongs From Iceland. "Folksongs From Iceland" er 33-snúninga LP-hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1964. Á henni flytur Savanna-tríóið íslensk þjóðlög. Um útlit plötunnar sá Björn Björnsson. Fjórtán fóstbræður og Elly - Lagasyrpur. Lagasyrpur er 33-snúninga LP-hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni flytja Fjórtán fóstbræður ásamt Elly Vilhjálms og hljómsveit Svavars Gests lagasyrpur. Ríkisútvarpið annaðist hljóðritun hljómplötunnar, en hún var steypt hjá Nera a.s. í Noregi. Rafn Hafnfjörð tók forsíðumyndina, sem er úr garði Alþingishússins. Mynd á baksíðu tók Pétur Þorsteinsson. Setningu á plötuumslagi annaðist Prentsmiðja Jóns Helgasonar. Myndamót, prentun og umslag annaðist Kassagerð Reykjavíkur. Magnús Ingimarsson raddsetti fyrir kór og hljómsveit. Fjórtán Fóstbræður. Fremri röð frá vinstri (sjá mynd á bakhlið umslags): Hákon Oddgeirsson, Ásgeir Hallsson, Ragnar Magnússon, Einar G. Þorsteinsson, Sigurður Jóelsson, Aðalsteinn Guðlaugsson og Einar Ágústsson. Aftari röð frá vinstri: Árni Eymundsson, Jóhann Guðmundsson, Þorsteinn Helgason, Magnús Guðmundsson, Sigurður Símonarson, Guðmundur Helgi Guðmundsson og Garðar Jökulsson. Hrafnseyri. Hrafnseyrarbærinn. Endurbyggður samkvæmt gömlum teikningum og lýsingum á gamla bænum. Hrafnseyri er gamall bæjarstaður á Vestfjörðum, staðurinn er nefndur í höfuðið á Hrafni Sveinbjarnarsyni sem bjó þar á 12. öld. Staðurinn var fyrst byggður á landnámsöld og nefndist þá "Eyri". Jón Sigurðsson, sjálfstæðishetja Íslendinga, var fæddur á Hrafnseyri 17. júní 1811 og í dag er þar Safn Jóns Sigurðssonar. Í Landnámu segir að Ánn rauðfeldur og Grelöð, kona hans, hafi byggt þar bú því Grelöðu hafi þótt „hunangsilmur úr grasi“. Rannsóknir benda til þess að byggt hafi verið þar um 900. Þar nálægt eru Grelutóttir og fjallið Ánarmúli þar sem sagt er að Ánn hafi verið heygður. Í Hrafns sögu, um Hrafn Sveinbjarnarson sem var goðorðsmaður á Sturlungaöld og bjó á Eyri, segir að hann hafi verið víðförull maður og ferðast til m.a. Salerno á Ítalíu, þar sem rekinn var læknaskóli og menntaðist þar. Hann var veginn af frænda sínum Þorvaldi Vatnsfirðingi. Hrafn er sagður grafinn undir bautasteini við Hrafnseyri. Sagskötur. Sagskötur (fræðiheiti: Pristidae) eru ættbálkur flatra brjóskfiska skyldar hákörlum. Einkenni á sagskötum er langt trýni þeirra sem líkist helst sög. Glúkósi. Glúkósi eða þrúgusykur er einsykra. Tvísykrur með glúkósa. Maltósi er dæmi um tvísykru af glúkósa. Þá er súkrósi keðja af glúkósa og frúktósa en laktósi keðja af galaktósa og glúkósa. Einingar keðjanna eru tengdar saman með glýkósíðtengjum. Fjölsykrur með glúkósa. Sellulósi (beðmi) og sterkja (mjölvi) innihalda aðeins glúkósa. Eggjastokkur. Eggjastokkar eru kynkirtlar kvendýra sem geyma eggfrumur, en þær eru til staðar strax við fæðingu. Hryggdýr eru gjarnan með tvo eggjastokka. Þar myndast hormónin estrógen, prógesterón, relaxín og inhibín. Eggjastokkar kvendýra samsvara eistum karldýra. Estrógen. Estrógen, östrógen eða brímahormón (einnig kallað kvenhormón) eru hópur kynhormóna sem finnast hjá báðum kynjum en mun meir í kvendýrum. Þau koma að skipulagi tíðahrings/gangferil, meðgöngu og fósturþroska. Þá hafa þau áhrif á kynhvöt og á þroska t.d. brjósta. Estrógen myndast aðallega í eggjastokkum en einnig í nýrnahettum og legköku. Þá myndast sum þeirra t.d. í brjóstum og nýrum. Þrjú algengustu estrógeninu eru estradíól, estríól og estron. Líkaminn framleiðir þau með því að umbreyta andrógenum með hjá ensíma. Estradíól er framleitt úr testósteróni en estrón úr andróstendíoni. Estron hefur veikari áhrif en estradíól og fyrirfinnst í meira magni, en hið síðarnefnda, hjá konum á breytingaskeiðinu. Estrógen í lyfjum. Eins og áður hefur komið fram stjórnar estrógen tíðahring kvenna og því innihalda margar getnaðarvarnarpillur breyttu estrógeni. Kemur það til vegna þess að helmingurnartími hormónsins er mjög stuttur og erfitt er að fá tak í nægilegt magn til að hægt væri að fjöldaframleiða getnaðarvarnarpillur með því. Sana. Sana (arabíska: صنعاء) er höfuðborg Jemen. Árið 2004 bjuggu 1.747.627 manns í borginni. Elstu ritaðar heimildir um borgina eru frá 1. öld eftir Krist. Asgabat. Asgabat (túrkmenska: Aşgabat) er höfuðborg Túrkmenistan. Árið 2001 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 695.300 manns. Helsta þjóðarbrot borgarinnar eru Túrkmenar, en auk þeirra er mikið af Rússum, Armenum og Aserum. Jánde. Jánde (franska: Yaoundé, framburður: [ja.un.deɪ]) er höfuðborg og næststærsta borg Kamerún, á eftir Douala. Borgin liggur í miðju landi og er u.þ.b. 750 m fyrir ofan sjávarmál. Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar er 1.430.000 manns. Port Moresby. Port Moresby (eða Pot Mosbi á Tok Pisin) er höfuðborg Papúa-Nýju Gíneu. Borgin liggur við Papúaflóa við suðausturströnd Nýju Gíneu. Árið 2000 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 255.000 manns. Taskent. Taskent (úsbekska: Toshkent, Тошкент, rússneska: Ташкент) er höfuðborg Úsbekistan og Taskenthéraðs. Árið 2006 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 1.967.879 manns. Rabat. Rabat (arabíska: الرباط) er höfuðborg Marokkó. Árið 2005 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 1.200.000 manns. Harare. Harare (áður Salisbury) er höfuðborg Simbabve. Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar var árið 2006 1.600.000 manns og 2.800.000 á stórborgarsvæðinu. Í borginni fara fram mikil skipti á tóbaki, maís, bómul og sítrusávöxtum. Borgin er 1.483 m yfir sjávarmáli. Brazzaville. Brazzaville er höfuðborg og stærsta borg Lýðveldisins Kongó og stendur við Kongófljót. Árið 2005 var íbúafjöldi borgarinnar 1.174.000 manns. Rúmlega þriðjungur íbúa landsins búa í Brazzaville og fer þar fram 40% af allri atvinnu sem ekki tengist landbúnaði. Hún er einnig efnahags- og stjórnsýsluleg miðja landsins. Kúala Lúmpúr. Staðsetning Kúala Lúmpúr í Malasíu. Kúala Lúmpúr er höfuðborg og stærsta borg Malasíu. Borgin er eitt af þremur ríkisumdæmum í Malasíu. Í borginni sjálfri er áætlað að búi 1.800.674 manns, en á öllu stórborgarsvæðinu er talið að búi 6.900.000 manns. Bifröst h.f.. Bifröst h.f. var íslenskt skipafélag stofnað af bílainnflytjendum til þess að annast innflutning fyrir þá. Félagið átti erfitt með rekstur í samkeppni við Eimskipafélag Íslands, Hafskip og Skipadeild SÍS. Árið 1979 áttu forráðamenn Bifrastar í viðræðum við Hafskip um möguleg kaup Hafskips á félaginu en ekkert varð úr því. Árið 1985 var Eimskipafélag Íslands svo til búið að kaupa nær allt hlutafé fyrirtækisins. Eimskipafélag Reykjavíkur. Eimskipafélag Reykjavíkur var íslenskt skipafélag stofnað 1932. Þetta var annað íslenska skipafélagið sem stofnað var, hitt var Eimskipafélag Íslands árið 1914. Eimskipafélag Reykjavíkur eignaðist þrjú skip: Öskju, Kötlu og eitt annað skip. Rekstur þess var samofinn Eimskipafélagi Íslands og runnu skipafélögin tvö saman. Jöklar h.f.. Jöklar h.f. var íslenskt skipafélag stofnað 1947. Fyrirtækið rak tvö lítil frystiskip framan af en upp úr 1960 var fyrirtækið komið með stærri skip sem fluttu frosinn fisk út og vörur heim. Samkeppnin við Eimskipafélag Íslands reyndist fyrirtækinu um of og um miðjan sjöunda áratuginn hafði Eimskipafélaginu tekist að bola Jöklum burt með undirboðum. Undirstöðusetning reikningslistarinnar. Undirstöðusetning reikningslistarinnar, grunnsetning reikningslistarinnar eða frumþáttunarsetning er setning í stærðfræði sem er mikið hagnýtt í talnafræði. Setningin segir að rita megi allar náttúrulegar tölur sem eru stærri en einn sem margfeldi frumtalna á nákvæmlega einn hátt. Að rita tölu sem margfeldi frumtalna nefnist frumþáttun. Sönnun að hætti Ernst Zermelo. Hverja náttúrlega tölu "n" stærri en 1 má rita sem margfeldi frumtalna á einn og aðeins einn hátt (óháð röð). Það er gefið að formula_1 séu frumtölur svo margfeldi þeirra sé formula_2 þar sem formula_3 má vera formula_4 svo formula_5. (a) Sýnum fyrst að rita megi n sem margfeldi frumtalna: Látum "F(n)" vera fullyrðinguna „"n" er margfeldi frumtalna“. Þetta er augljóst fyrir "F(2)" því 2 er frumtala. Gerum ráð fyrir að "F(k)" sé rétt fyrir allar tölur "k = 2..., n" og sýnum að "F(n+1)" sé sönn. Ef "n + 1" er frumtala er "F(n+1)" sönn fullyrðing, annars er "n+1" margfeldi minni náttúrlegra talna sem við getum kallað "u" og "v". Þá er "2 ≤ u ≤n" og "2 ≤ v ≤n". Samkvæmt þrepunarforsendu eru bæði "u" og "v" margfeldi frumtalna. Ritum þá "u = p1· ··· ·pr" og "v = pr+1· ··· ·ps". Þá er "n + 1 = k·j = pr· ··· ·ps" og því er "n + 1" margfeldi frumtalna. Því er "F(n+1)" sönn fullyrðing og eins og átti að sýna er hægt að rita "n" sem margfeldi frumtalna. formula_6 formula_7 (I) formula_8 (II) formula_9 Talan "p1" gengur ekki upp í "(q1 - p1)" þar sem "q1" er frumtala. Þá er (I) og (II) tveir mismunandi rithættir á "n - m" sem er í mótsögn við þrepunarforsendu. Þar með er "p1 = q1" og einnig "r=s" fyrir "p1· ··· ·pr = q2· ··· ·qs"og "pk = qk" fyrir "k = 2..., r". Magnús Jónsson - Sönglög. Sönglög er 33-snúninga LP-hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1964. Á henni flytur Magnús Jónsson fjórtán íslensk sönglög við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Savanna tríóið - Icelandic Folk Songs and Minstrelsy. Icelandic Folk Songs and Minstrelsy er 33-snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni flytur Savanna-tríóið íslensk þjóðlög og gamanvísur. Víkur (skipafélag). Víkur h.f. var íslenskt skipafélag sem var stofnað 1968. Félagið sinnti venjulegum vöruflutning fram til 1974 en þá hóf félagið að sigla með krýolít frá Ivittuut í Grænlandi og til Danmerkur. Fyrirtækið reyndi fyrir sér við flutning á saltfiski en snéri sér svo að saltflutningum. Víkur í þessu tilfelli er hverfi í Reykjavík ekki skipafélag. Eddukvæði. Eddukvæði eru fornnorræn kvæði, sem skiptast í goðakvæði og hetjukvæði. Um aldur þeirra hefur verið deilt. Þau hafa oft verið talin ort á tímabilinu frá síðari hluta 9. aldar til um það bil 1100. Sumir telja þó kvæðin, í þeirri mynd sem þau hafa varðveist í, ekki vera miklu eldri en 13. aldar ritin þar sem þau er að finna. Menn eru ekki á einu máli um það hvar þau hafi verið ort og hefur verið haldið fram Íslandi, Noregi, Grænlandi og jafnvel Færeyjum og Vestureyjum. Þekktustu goðakvæðin eru Völuspá og Hávamál en hetjukvæðin eru ort um afrek hetja eins og Völsunga og Niflunga. Gránufélagið. Gránufélagið var verslunarfélag á Norðurlandi. Það var stofnað 1870 og var Tryggvi Gunnarsson kosinn kaupstjóri þess 1871. Félagið hóf rekstur með einu skipi og einum farmi. Árunum 1877-83 eignaðist það þrjú skip og flutti 10-15 skipsfarma til Íslands og rak eina stærstu verslun á Íslandi. Fram að 1877 var ekkert flutt af saltfiski frá Norðurlandi til útlanda en þá hóf Gránufélagið að selja salt miklu ódýrara en áður og byggði salthús utarlega í fjörðum Norðanlands. Þetta varð til að auka saltfiskverkun og saltfiskútflutning frá Norðurlandi. Gránufélagið hóf gufubræðslu á hákarlalifur við Eyjafjörð. Það gekk hinsvegar illa um árið 1880 og danskur kaupmaður tók yfir rekstur þess. Heimild. Það gekk hinsvegar illa um árið 1880 og danskur kaupmaður tók yfir rekstur þess. Matthew Bellamy. Matthew James Bellamy (fæddur 9. júní 1978 í Cambridge á Englandi) er aðalsöngvari, gítarleikari og píanóleikari rokksveitarinnar Muse. Christopher Wolstenholme. Christopher Tony Wolstenholme (fæddur 2. desember 1978 í Rotherham, Yorkshire, Englandi) er bassaleikari rokksveitarinnar Muse. Dominic Howard. Dominic James Howard (fæddur 7. desember 1977 í Stockport, Englandi) er trommuleikari rokksveitarinnar Muse. Trommuleikari. Trommuleikari (einnig trommari eða trumbuslagari, trymbill eða trumbari) er sá maður sem spilar á trommur. Píanóleikari. Píanóleikari eða píanisti er manneskja sem spilar á píanó eða flygil. Aðallega á þetta við einhvern hæfleikaríkan sem spilar í hljómsveit eða sem einleikari. Bassaleikari. Bassaleikari er sá maður sem spilar á bassa. Aðalsöngvari. Aðalsöngvari er sá maður sem syngur aðal textann í lagi. Yamoussoukro. Yamoussoukro er stjórnsýslusetur og höfuðborg Fílabeinsstrandarinnar. Borgin er staðsett 240 km norðan Abidjan, sem að er höfuðborg landsins í reynd. Borgin var höfuðborg landsins í rúmlega þrjá áratugi eftir að það fékk sjálfstæði árið 1960. Ástæðan fyrir því var sú að forseti landsins, Pélix Houphouët-Boigny var fæddur í henni, bjó í henni og var óopinber starfsvettvangur hans. Þann 1. janúar 2005 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 200.659 manns. Víetnamska. Víetnamska ("tiếng Việt") er þjóðtunga og opinbert mál Víetnam. Á þeim tíma þegar að landið var enn frönsk nýlenda kallaðist tungumálið annamska. Ástæðan fyrir þeirri nafngift var sú, að kínverska nafnið yfir Norður Víetnam á nýlendutímanum var Annam. Víetnamska er móðurmál Víetnama, sem eru 86% af öllum íbúum Víetnam, og u.þ.b. 3.000.000 brottfluttra Víetnama, mest í Bandaríkjunum. Málið er hluti af ástróasísku tungumálafjölskyldunni og hefur langflesta málhafendur innan þeirrar fjölskyldu. Flokkun víetnömsku til ástróasísku málaættarinnar er þó ekki óumdeild og vilja aðrir telja hana til taí-mála, meðal annars vegna þess að víetnamska er tónamál einsog taí-málin og ólíkt mon-khmer málunum. Enn aðrir telja víetnömsku vera skildleikalaust stakmál án sannaðra tengsla við önnur mál. Mikið af orðaforða er úr kínversku og var málið upprunlega skrifað með kínversku letri. Víetnamska letrið sem notast er við í dag er afbrigði af latneska stafrófinu, með tveimur auka aðgreiningamerkjum fyrir tóna og ákveðna stafi. Abidjan. Abidjan er efnahagsleg og fyrrum opinber höfuðborg Fílabeinsstrandarinnar(núverandi höfuðborg er Yamoussoukro). Borgin er stærsta borg landsins og fjórða stærsta Frönskumælandi borg heims, á eftir París, Kinshasa og Montréal. Einkenni Abidjan er mikill iðnaður og dreifbýli. Borgin er í Ebrié-lóninu á eyrum og eyjum sem eru tengdar með brúm. Aðal útfutningsvörur frá borginni eru kaffi, kakó, timbur, bananar, ananas og pálma- og fiskafurðir. Árið 2003 var talið að íbúar borgarinnar væru alls 3.660.682. Borgin stækkaði eftir byggingu nýrrar bryggju árið 1931 og á þeim tíma sem borgin varð höfuðborg, árið 1933. Bygging Viridi skipaskurðsins 1951 opnaði fyrir möguleika borgarinnar að verða að hafnarborg. Árið 1983 var Yamoussoukro valin sem höfuðborg landsins, en flestar skrifstofur ríkisins og sendiráð eru enn í Abidjan. Landafræði. Abadjan liggur á suð-austur strönd landsins í Gíneuflóa. Borgin er staðsett á eyrum Ebrie lónsins. Viðskiptahverfi borgarinnar Le Plateau er miðborg hennar ásamt Cocody, Deux Plaeaux (ríkasta hverfi borgarinnar) og fátækrahverfið Adjamé á norðurströnd lónsins. Hitastig. Borgin er með hitabeltisloftslag með langri regntíð frá Maí til Júlí og stuttri regntíð frá September til Nóvember. Borgin er rök allt árið, með rakastig um eða yfir 80%. Yfir regntímabilið getur ringt stanslaust yfir nokkra daga eða ákaft yfir einn klukkutíma. Regnkoma borgarinnar er 2.000 mm á ári. Múskat (borg). Múskat (arabíska: مسقط Masqaṭ) er höfuðborg og stærsta borg Óman. Árið 2005 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 600.000 manns. Stórborgarsvæði Óman, sem að heimamenn þekkja einfaldlegasem "höfuðborgarsvæðið", nær yfir 1500 km². Internet Explorer. Windows Internet Explorer (áður Microsoft Internet Explorer), oftast kallaður IE er vafri frá Microsoft og fylgir öllum Microsoft Windows stýrikerfum síðan árið 1995. Eftir fyrstu útgáfu vafrans, sem gerð var fyrir Windows 95, voru gerðar útgáfur af Internet Explorer fyrir önnur stýrikerfi, Mac OS og UNIX. Hætt var að framleiða vafrann fyrir önnur stýrikerfi og er hann núorðið einungis gerður fyrir Windows stýrikerfi. IE var lengi vel mest notaði vafrinn og náði næstum 95% markaðshlutdeild milli áranna 2002 og 2003. Frá þeim tíma hefur notkun hans dalað og er nú áætluð einhversstaðar á milli 21% og 54%. Quito. Quito (opinbert nafn: San Fransisco de Quito) er höfuðborg Ekvador. Borgin stendur austan við Pinchincha, virka eldkeilu í Andesfjöllum. Árið 2005 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 1.500.000 manns, sem gerir borgina að næststærstu borg landsins á eftir Guayaquil. Kónakrí. Kónakrí (malinkeska: Kɔnakiri) er höfuðborg Gíneu og stærsta borg. Borgin er hafnarborg við Atlantshaf. Erfitt er að segja til um hve margir búi í raun í Kónakrí, en talið er að u.þ.b. tvær milljónir búi í borginni. Akkra. Kort af Gana sem að sýnir staðsetningu Akkra. Akkra er höfuðborg Gana og stærsta borg landsins, ásamt því að vera stjórnarfars-, efnahags- og samskiptaleg miðja landsins. Árið 2005 var áætlað að 1.970.400 manns byggju í borginni. Georgetown. Georgetown er höfuðborg og stærsta borg Gvæjana. Borgin stendur við Atlantshaf og við Demerarafljót. Borgin er miðja stjórnsýslu og verslunar í landinu. Árið 2002 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 213.705 manns. Bishkek. Bishkek (með kýrillísku letri: Бишкек) еr höfuðborg Kirgisistan. Árið 2005 bjuggu þar u.þ.b. 900.000 manns. Borgin var stofnuð árið 1878 sem rússneska virkið Pishpek (Пишпек). Á árunum 1926-1991 hét borgin Frunze (Фрунзе), í höfuðið á herhöfðingjanum Mikhail Frunze. Æsir (nafn). Æsir er íslenskt karlmannsnafn. Westwood Studios. Westwood Studios (1985-2003) var tölvuleikjafyrirtæki, stofnað 1985 sem Westwood Associates af Brett Sperry og Louis Castle og var í Las Vegas, Nevada. Electronic Arts. Electronic Arts (EA) er fyrirtæki sem hannar, markaðsetur og gefur út tölvuleiki. Það var stofnað árið 1982 af Trip Hawkins. Frank Klepacki. Frank Klepacki (fæddur 25. maí 1974) er bandarískur tónlistarmaður sem býr til tónlist fyrir tölvuleiki. Hann er best þekktur fyrir tónlistina í Command & Conquer seríunni. Hann lærði að spila á trommur þegar hann var barn og fór til Westwood Studios þegar hann var aðeins 17 ára. Game Boy. "Til að sjá allar Game Boy tölvunar, sjá Game Boy línan." Game Boy (ísl. "„Leikjastrákur“") er handleikjatölva frá Nintendo sem kom á markað árið 1989. Game Boy var fyrsta handleikjatölvan sem náði almennum vinsældum og var fyrsta tölvan í Game Boy línunni. Með Game Boy fylgdi Tetris sem með ávanabindandi eigindum sínum átti að ná athygli kaupenda. Gunpei Yokoi betur þekktur sem Mr. Game Boy hannaði tölvuna en eftir fráfall hans var haldið áfram að framleiða þær, meðal annars Game Boy Color, Game Boy Pocket og Game Boy Light. Ísarr. Ísarr er íslenskt karlmannsnafn og forn ritháttur nafnsins Ísar. Game & Watch. Donkey Kong 2 Game & Watch frá 1983 Game & Watch var vörulína af vasatölvuleikjum frá Nintendo. Game & Watch-línan var hönnuð af Gunpei Yokoi frá 1980 til 1991. Í hverju tæki var einn leikur sem hægt var að spila á LCD-skjá en tækin voru líka með með klukku og vekjaraklukku. Flestir leikir höfðu GAME A- og GAME B-takka. Leikur B var vanalega erfiðari útgáfa af leik A. Ymir. Ymir er íslenskt karlmannsnafn. Ýr (nafn). Ýr er íslenskt kvenmannsnafn. Djambýlfylki. Djambýlfylki (Жамбыл облысы, Жамбылская область) er fylki í Suður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Taras. Í norðri fylkisins, liggur frægt vatnið sem heitir Balkasjvatn að fylkimæri. Fylkið er með landmæri að Kirgistan og er mjög nálægt Úsbekistan. Ýrar. Ýrar er íslenskt karlmannsnafn. Ýrr. Ýrr er íslenskt kvenmannsnafn. Karagandyfylki. Karagandyfylki (Қарағанды облысы, Карагандинская область) er fylki í Mið-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Karaganda. Jósef Stalín sendi mikið af fólki til að vinna í kolanámanum í Karagandyfylki á valdatíma sínum.Fylkið er enn í dag með kolanámur. Willum Þór Þórsson. Willum Þór Þórsson (fæddur 17. mars 1963) er fyrrum knattspyrnumaður og þjálfari í knattspyrnu og núverandi þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var kosinn í alþingiskosningunum 2013 og er 5. þingmaður Suðvesturkjördæmis. Hann er rekstrarfræðingur að mennt og hefur kennt hagfræði undanfarin ár við Menntaskólann í Kópavogi. Willum var í ungmennalandsliðunum í körfubolta og knattspyrnu en valdi knattspyrnuna fram yfir körfuboltann. Willum hefur tekið virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins og verið á framboðslistum í bæjarstjórnarkosningum. Knattspyrnuferillinn. Willum hóf feril sinn sem leikmaður hjá KR, fór þaðan til Breiðabliks og síðar til Þróttar þar sem hann hóf feril sinn sem þjálfari. 1997 kom hann Þrótti í Úrvalsdeildina, liðið féll svo úr deildinni 1998 á markatölu. Árið 2000 tók hann við Haukum. 2002 var hann skipaður þjálfari KR og leiddi þá til sigurs í úrvalsdeildinni 2002 og 2003. 2004 varð KR um miðja deild og samningur Willums var ekki endurnýjaður. Hann tók þá við Val sem voru að snúa aftur í Úrvalsdeildina og leiddi þá til annars sætis í deildinni 2005 ásamt því að vinna VISA-bikar karla. 2006 endaði Valur í þriðja sæti deildarinnar. Valur varð svo Íslandsmeistari 2007. Willum hætti að þjálfa Val 1. júlí 2009. Hann var ráðinn þjálfari Keflavíkur 29. september 2009, eftir að tímabilinu lauk. Willum var ráðinn fyrsti landsliðsþjálfari Íslands í futsal í nóvember 2010. Tildra. Tildra (fræðiheiti: "Arenaria interpres") er vaðfugl af snípuætt. Útbreiðsla. Tildra í vetrarbúningi, en þá er hún mikið mun daufari á litin en í sumarbúningi sínum Tildra er farfugl sem verpir á Norðurslóðum oftast stutt frá sjó. Undirtegundin "Arenaria interpres morinella" verpir í norður Alaska, heimskautasvæði Kanada og allt austur að Baffinslandi. Hin eiginlega tildra, "Arenaria interpres" verpir í vestur Alaska, Grænlandi, Skandinavíu, Eistlandi og Norður-Rússlandi. Hún verpti áður fyrr við strendur Þýskalands og mögulega líka í Skotlandi og Færeyjum. Í Ameríku hafa tildrur vetursetu frá Washington-fylki og Massachusetts suður til syðsta odda Suður-Ameríku þótt þær séu fáar í Chile og Argentínu og aðeins óstaðfestar fréttir af þeim frá Falklandseyjum. Í Evrópu hafa þær vetursetu frá vestustu ströndum, Íslandi, Noregi og Danmörku og suður eftir álfunni. Aðeins lítill fjöldi hefur þó fundist við strendur Miðjarðarhafs. Í Afríku eru þær algengar allt suður til Suður-Afríku og fjölmennar á nálægum eyjum. Í Asíu eru þær fjölmennar og dreifðar um allan suðurhlutann, frá Suður-Kína og Japan (aðalega á Ryukyu eyju). Þær finnast suður á Tasmaníu og Nýja-Sjálandi og má finna þær á ýmsum eyjum Kyrrahafsins. Margir ókynþroska fuglar halda til sumum vetrarstöðvunum allt árið um kring. Á Íslandi er tildran fargestur og kemur hér við vor og haust á ferð sinni milli varpstöðva og vetrarstöðva. Þær tildrur sem koma við á Íslandi koma flestar frá Bretlandseyjum en sumar alt frá Máritaníu í Norðvestur-Afríku. Þær koma í maí byrjun og dvelja á fjörusvæðum aðalega á suð-vesturlandi í 3 - 4 vikur og safna fituforða fyrir för sína til varpstöðva á Grænlandi og Norður-Kanada. Seinnipart júlí koma þær svo aftur við á Íslandi leið sinni suður eftir til vetrarstöðva sinna. Talið er að um 40 þúsund tildrur fljúgi um Ísland. Einnig hafa á milli tvö-til fimmþúsund fuglar vetrarsetu á Íslandi. Einkenni. Tildran er frekar smá og kubbslegur fugl. Svartur goggurinn er um 2 til 2,5 sentimetra langur og örlítið uppbrettur. Fæturnir eru frekar stuttir miðað við vaðfugla eða um 3,5 sentimetrar og skær appelsínugulir á lit. Bæði vetur og sumar er tildran með svart og hvítt blettótt mynstur á bakinu en varpfuglar verða rauðbrúnir að ofan með svörtum skellum. Höfuðið er aðalega hvítt með svörtum rákum ofaná og svörtu mynstri í andlit. Brjóstið er svart en þó með tvem hvítum strikum sem liggja niður frá hálsinum til beggja hliða. Að öðruleiti er fuglinn hvítur að neðan. Kvenfuglinn er örlítið daufari á litin en karlfuglinn og er með mun brúnna höfuð með meiri rákum. Ókynþroska fuglar auk fugla utan varptíma eru mun daufari á litin og eru grábrúnir að ofan með svörtum blettum. Bringan er þó með nánast svörtum kraga en alsekki eins dökkum og miklum og í varpbúningnum. Fæða. Fæða tildrunnar eru aðalega skordýr en einnig ýmis konar lindýr eins og gljásilfri, þangdoppa og þarastrútur. Hún veltir oft við steinum til að ná í æti og er enskt nafn hennar "turnstone" dregið af því. En einnig er hún þekkt fyrir að leggjast á egg annarra fugla og jafnvel eigin tegundar. Varp. Tildran er einkvænisfugl og oft halda pörin saman meira en eitt varp. Hreiðrið er grunn laut oft fóðruð með laufi. Það er oftast um 11 sentimetra að þvermáli og um þriggja sentimetra djúpt. Tildrur velja sér ekki einn ákveðin hreiðurstað, hreiðrið getur verið staðsett innan um gróður en einnig í grjóti eða jafnvel beint á klöpp. Oft verpa þær nokkrar saman í hóp. Eggin geta verið mismunandi á litin en oftast þó föl grænbrún með dökkbrúnum doppum. Tildran liggur á eggjunum í 22 til 24 daga og er það aðalega kvenfuglinn sem liggur á en oft kemur karlfuglinn líka til hjálpar undir lokin. Ungarnir fæðast mjög þroskaðir og geta yfirgefið hreiðrið fljótlega eftir að hafa skriðið úr eggi. Þeir eru daufgulir á litin á baki með gráum flekkjum en hvítir að neðan. Þeir eru færir um að afla sér fæðu sjálfir strax en eru verndaðir að foreldrunum, sérstaklega karlfuglinum. Þeir eru orðnir fleygir eftir 19 til 21 dag. Snípuætt. Snípuætt (fræðiheiti: "Scolopacidae") er stór ætt vaðfugla með langan og mjóan gogg. Flestir lifa á hryggleysingjum sem þeir tína upp af jörðinni eða úr sandi með goggnum. Mismunandi lengd og lögun goggsins gerir það að verkum að nokkrar tegundir geta haldið sig á sama svæði án þess að keppa um fæðu. Máfuglar. Máfuglar (fræðiheiti: "Lari") eru undirættbálkur strandfugla sem inniheldur máfa, skúma, þernur og bakkaskara. Aðrir undirættbálkar eru vaðfuglar og svartfuglar en þeir síðastnefndu eru stundum flokkaðir sem máfuglar. Máfuglar eru yfirleitt stærri en aðrir strandfuglar og lifa á fiskveiðum á hafi úti en nokkrar tegundir ræna aðra fugla og sumir hafa aðlagast lífi inni í landi. Flæmingjar. Flæmingjar eða flamingófuglar (fræðiheiti: "Phoenicopterus") eru ættkvísl háfættra, hálslangra og litríkra fugla. Þeir eru flokkaðir sem sérstakur ættbálkur en hafa áður verið flokkaðir með storkfuglum ("Ciconiiformes") og eru taldir skyldastir þeim og gásfuglum. Til ættkvíslarinnar teljast sex tegundir fugla, tvær í Gamla heiminum og fjórar í Nýja heiminum. Rauðflæmingi og karíbahafsflæmingi eru stundum álitnir vera tvær deilitegundir sömu tegundar. Kjói. Kjói (fræðiheiti "Stercorarius parasiticus") er sjófugl af kjóaætt ("Stercorariidae") en skúmur tilheyrir einnig þeirri ætt. Hann er farfugl á Íslandi og kemur til landsins snemma í maí. Kjói er algengur um allt land en velur helst sandauðnir nálægt sjó fyrir varp. Hann er um 45 sm langur og vænghaf hans er um 120 sm. Hann verpir allt að fjórum ólífugrænum eggjum. Kjói eltir fugl til að ræna fæðu Kjóinn lifir á ýmis konar smádýrum og hann tekur oft unga eða egg frá öðrum fuglum og stelur fæðu frá sjófuglum með því að elta þá þar til þeir sleppa fæðunni. Stofnstærð kjóa hér á landi er talin frá 5.000 til 10.000 pör. Tvær aðrar tegundir kjóa; ískjói ("Stercorarius pomarinus") og fjallkjói ("Stercorarius longicaudus") koma stundum til Íslands en verpa ekki þar. Húmgapar. Húmgapar (fræðiheiti: "Caprimulgiformes") eru ættbálkur fugla sem finnast nánast um allan heim. Flestir þeirra eru næturfuglar sem veiða skordýr til matar. Þeir eru með góða nætursjón og öfluga vængi sem minna á vængi þytfugla en litla fætur. Kólibrífugl. Kólibrífuglar (fræðiheiti: "Trochilidae") eru ætt lítilla þytfugla sem hafa þann hæfileika að geta haldið sér kyrrum í loftinu með því að blaka vængjunum ótt og títt. Þeir geta þannig haldið kyrru fyrir meðan þeir lepja blómasafa með langri og mjórri tungunni. Kólibrífuglar eru einu fuglarnir sem geta flogið afturábak. Hunangsbríi ("Mellisuga helenae") er minnsti fugl í heimi, aðeins um 5 sm langur. Í Sibley-Ahlquist-flokkuninni eru kólibrífuglar flokkaðir sem sérstakur ættbálkur, "Trochiliformes". Konungsríki. * Á fáeinum stöðum er þjóðhöfðingi kosinn úr hópi fjölskyldna þar sem framboðsréttur erfist. Þjóðhöfðingi er hér ekki forseti heldur kóngur, khalif, keisari o.s.frv. Konungsríki eða konungdæmi er ríki þar sem þjóðhöfðinginn er konungur eða drottning. Venjulega er konungurinn valinn úr tiltekinni konungsætt þar sem titillinn gengur til þess næsta í tiltekinni erfðaröð. Konungurinn heldur stöðu sinni oftast ævilangt nema eitthvað sérstakt komi til. Nú eru 32 einstaklingar sem fara með konungsvald í 46 löndum heims. Sextán samveldislönd heyra undir Elísabetu 2. Bretadrottningu og smáríkið Andorra heyrir undir tvo fursta, franskan og spænskan. Gullbringusýsla. Gullbringusýsla var sýsla á Íslandi sem náði yfir Suðurnes, Álftanes og Seltjarnarnes að Elliðaám. Hún var hluti af Kjalarnesþingi. Hennar er fyrst getið árið 1535. 19. mars 1754 voru hún og Kjósarsýsla sameinaðar og Gullbringu- og Kjósarsýsla búin til. 1903 voru búin til tvö sýslufélög undir einum sýslumanni í Hafnarfirði og mörkin milli þeirra færð að mörkum Garðabæjar og Álftaness. 1974 varð bæjarfógetinn í Keflavík sýslumaður Gullbringusýslu sem þá náði að Hafnarfirði. Sýslumaður í Kjósarsýslu var bæjarfógetinn í Hafnarfirði. Gljásilfri. Gljásilfri (fræðiheiti: "Margarites helicinus") er lítill sæsnigill. Kuðungurinn er aðeins um 3 mm hár og litur hans er getur verið frá appelsínugulu til brúns með grænu eða fjólubláu mynstri. Gljásilfra má finna undir steinum eða fasta við þang við neðri mörk flæðarmáls og í fjörupollum. Montevídeó. Montevídeó (framburður: [monteβi'deo]) er höfuðborg, stærsta borg og aðal hafnarborg Úrúgvæ. Borgin er þakin söfnum og minnisvörðum, sem og merkilegar byggingar og torg. Borgin er ein af 30 öruggustu borgum í heimi. Árið 2004 bjuggu 1.325.968 manns í borginni. Fortálknar. Fortálknar, mynd úr bók Ernst Haeckel "Artforms of Nature", 1904 Fortálknar (fræðiheiti: "Prosobranchia") eru undirhópur snigla sem hafa möttulhol og loku úr hornkenndri plötu sem gerir þeim kleift að loka munna kuðungsins. Flestar tegundir þeirra lifa í sjó en færri í ferskvatni og nokkrar eru landsniglar. Flestir fortálknar gjóta eggjum í þunnum, hornkenndum eða leðurkenndum hylkjum sem dýrin festa saman í sívala ströngla eða eggjabú og festa það á þara eða steina. Unginn kemur oftast sem lítið þroskað svifdýr eða lirfa úr egginu, með aðeins vísi að fæti og skelin rétt farin að myndast. Þó eru nokkrar tegundir sem ljúka lirfustiginu í egginu en aðrar lifa sem svifdýr uns þær ná fullum þroska. Nokkrar tegundir fæða lirfur í stað eggja og af íslenskum tegundum gera klettadoppa og brúðarhetta það. Þekktar eru um 33.000 tegundir af fortálknum en einungis hafa fundist 135 tegundir við Ísland innan 400 metra dýptarlínu.* Meðal fortálkna eru kóngar svo sem beitukóngur og hafkóngur og doppur eins og fjörudoppa og þangdoppa. Bertálknar. Bertálknar (fræðiheiti: "Opisthobranchia") eru tegund lindýra. Í hefðbundinni dýrafræði voru þeir áður flokkaðir sem undirtegund snigla í fylkingu lindýra en nú er litið á þá sem sérstakan ættbálk. Bertálknar draga nafn sitt af því að oft eru tálknin utanáliggjandi og mynda einskonar krans utan á dýrinu. Algengt er þó einnig að bertálknar hafi ekki tálkn heldur andi gegnum húðina og hafa þeir oft ýmsar fellingar þannig að líkamsyfirborðið verður stærra sem gerir öndun um húð auðveldari. Þeir hafa langoftast hvorki möttulhol né loku eins og fortálknar. Margar tegundir hafi ekki kuðung eða hann (skelin) er staðsettur inni í sniglunum. Ef þeir hafa kuðung þá er hann mjög lítill ólíkt hjá fortálknum sem hafa stóra og sterka kuðunga. Margar tegundir bertálkna eru skrautlegar og litríkar t.d. sjófiðrildi (e. sea butterfly) og sjóhéri (e. sea hare). Þekktar eru um 4000 tegundir af bertálknum. Gengi. Gengi er verð gjaldmiðils reiknað í öðrum gjaldmiðli. Paramaríbó. Paramaríbó er höfuðborg og stærsta borg Súrínam. Borgin stendur við Súrinamfljót og er u.þ.b. 15 km frá Atlantshafi. Árið 2004 voru 242.946 íbúar í Paramaríbó. Dakka. Shahid Sriti Stombho - Sohrawardy Uddan. Dakka (bengalska: ঢাকা; framburður: [ɖʱaka]) er höfuðborg Bangladess. Borgin stendur við Búrígangafljót. Á stórborgarsvæði Dakka búa 11 milljónir, sem gerir borgina eina af fjölmennustu borgum jarðar. Snasi. Snasi eða schnauzer er hundategund sem upprunalega var ræktuð í Þýskalandi. Schnauzerhundar eru til í þrem mismunandi stærðarflokkum: dvergschnauzer sem eru á stærð við kjölturakka. "Meðalstór schnauzer" sem er eins og nafnið gefur til kynna, meðalstór hundur og svo "risaschnauzer" en þeir eru nokkuð stórir. Allir hafa þessir hundar svipuð einkenni, mikið skegg, eru til í nokkrum litaafbrigðum og þykja einstaklega góðir heimilishundar. Dúshanbe. Dúshanbe (tadsjikíska: Душанбе, Dushanbe; áður Dyushambe eða Stailínabad) er höfuðborg og stærsta borg Tadsjikistan. Árið 2000 bjuggu 562.000 manns í borginni. Katmandú. Katmandú (nepalska: काठमाडौं, काठमान्डु, nepalskt basamál: यें) er höfuðborg og stærsta borg Nepal. Upprunalegir íbúar Katmandú eru Nevar, sem að tala nepalskt basamál. Borgin er u.þ.b. 1300 m yfir sjávarmáli. Talið er að u.þ.b. 1.500.000 manns búi í borginni. Managva. Managva er höfuðborg og stærsta borg Níkaragva og stendur borgin við Managvavatn. Borgin var gerð að höfuðborg landsins árið 1857. Árið 2006 bjuggu 1.671.759 manns í borginni. Eva Braun. Eva Braun (fædd Eva Anna Paula Braun 6. febrúar árið 1912, dáin Eva Hitler 30. apríl árið 1945) var langtíma félagi og stuttlega eiginkona Adolfs Hitler. Hún framdi sjálfsmorð með eitri þann 30. apríl 1945 um klukkan 3:30 síðdegis. Asmara. Asmara (ge'ez: አሥመራ; arabíska: أسمرا) er höfuðborg og stærsta þéttbýli Erítreu. Í borginni búa u.þ.b. 579.000 manns. Borgin er rúmlega 2.000 metra yfir sjávarmáli. Handverk og föt, unnar kjötvörur, bjór, skór og leirverk eru helstu iðngreinar borgarinnar. Ávaxtafluga. Ávaxtafluga (fræðiheiti: "Drosophila melanogaster") er skordýr með tvo vængi sem algengt er að nota við líkanagerð í líffræði t.d. í erfðafræði og við rannsóknir á lífsferli og þróun. Útlit. Male (left) and female "D. melanogaster" Ávaxtaflugur eru með rauð augu og gulbrúnar á lit með svarta hringi. Kvendýrin eru um 2.5 mm löng og karldýrin eru örlítið minni og bak þeirra er dekkra. Auðvelt er að kyngreina ávaxtaflugur á litamun. Sjá má myndir á. Lífshlaup. Þroski ávaxtaflugu ræðst af hitastigi. Þroski (egg til fullvaxta flugu) tekur skemmstan tíma eða 7 daga við 28 °C. Þroski tekur lengri tíma við hærra hitastig (30 °C, 11 daga) vegna streitu við svo háan hita. Bestu skilyrðin eru við 25 °C og 8.5 daga, við 18 °C tekur þroskinn 19 daga. Þroskatíminn lengist ef mergð flugna er mikil. Kvendýr verpa 400 eggjum, um fimm í einu inn í rotnandi ávöxt eða aðra hentuga staði t.d. rotnandi sveppi. Eggin sem eru um 0.5 mm löng klekjast út eftir, 12-15 klukkustundir (við 25 °C). Lifran vex í 4 daga (við 25 °C) og nærist á meðan á örverum sem valda rotnun ávaxtarins sem og af sykri hans.Lirfan breytist svo í púpu og eftir fjóra daga (við 25 °C) koma fullorðnar flugur úr púpum. Kvendýrin verða frjó um 8-12 klst eftir að þær skríða úr púpu. Villt ávaxtafluga (vinstri) hefur skynjara á meðan fluga með skynjara stökkbreytingu hefur aukafót í staðinn fyrir skynjara. Golfklúbburinn Keilir. Golfklúbburinn Keilir (skammstöfun GK) er íslenskur golfklúbbur staðsettur í Hafnarfirði. Golfklúbburinn rekur tvo golfvelli; Hvaleyrarvöll og hinn svokallaða 9 holu golfvöll. Saga. Golfklúbburinn Keilir var stofnaður 18. febrúar 1967 í félagsheimili Kópavogs. Tenglar. Keilir Flókadalur (Borgarfirði). Flókadalur er dalur í Borgarfjarðarsýslu og liggur frá vestri til austurs á milli Reykholtsdals og Lundarreykjardals. Hann er breiður en grunnur og liggur á milli lágra hálsa. Flókadalur þykir fremur sviplítill. Hlíðarnar og dalbotninn eru aflíðandi og dalurinn rennur í raun saman við hálendið án greinilegra marka. Dalbotninn er ekki sléttur, heldur er hæðahryggur eftir miðjum dalnum sem skiptir honum í tvennt. Nokkur smávötn og tjarnir eru í lægðum í hryggnum. Um syðri dalinn rennur Flóka eða Flókadalsá en Geirsá um þann nyrðri. Allnokkrir bæir eru í dalnum en hann var þó ekki sérstakt sveitarfélag, heldur heyrði hann til Reykholtsdalshreppi og síðan Borgarfjarðarsveit og er nú í Borgarbyggð. Flókadalur (Skagafirði). Flókadalur er bæði dalur og byggðarlag í Skagafjarðarsýslu og er kenndur við Hrafna-Flóka Vilgerðarson, sem sagður er hafa numið þar land þegar hann sneri aftur til Íslands löngu eftir að hann hafði vetrardvöl í Vatnsfirði og gaf landinu nafn. Framan við Flókadal er Hópsvatn og skilur lágur malargrandi það frá hafinu. Inni í dalnum er Flókadalsvatn. Um Flókadal rennur Flókadalsá. Allnokkrir bæir eru í dalnum, sem er grösugur en snjóþungur á vetrum. Nokkrir þverdalir ganga inn úr Flókadal og er þar afrétt sveitarinnar. Láglendisræman við ströndina, frá mörkum Sléttuhlíðar við Stafá og að mynni Flókadals, kallast „á Bökkum“. Þar er Reykjarhóll, sérkennilegur, strýtulaga hóll og er laug í kolli hans. Hann er á náttúruminjaskrá. Adam Curtis. Adam Curtis staddur á San Francisco International Film Festival árið 2005 Adam Curtis (f. 1955) er breskur heimildamyndagerðarmaður sem nú starfar hjá bresku sjónvarpsstöðinni BBC. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir heimildarmyndir sínar, sem taka skýra afstöðu til umfjöllunarefnisins og verða oft mjög umdeildar. Gerpla (skáldsaga). "Gerpla" er skáldsaga eftir Halldór Kiljan Laxness gefin út árið 1952. Gerpla er nokkurskonar skopstæling á Fóstbræðrasögu, sem rekur æviferil fóstbræðranna Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds í upphafi elleftu aldar. Lén (líffræði). thumb Lén er flokkur í vísindalegri flokkun lífvera. Árið 1990 stakk Carl Woese upp á því að raungerlar, forngerlar og heilkjörnungar væru þrjár helstu þróunarlínur lífvera og gerði þá í samræmi við það að lénum sem hann kallar "Bacteria", "Archaea" og "Eucarya". Þetta þriggja léna kerfi hefur fengið á sig mikla gagnrýni en hefur engu að síður að mestu tekið við af tveggja léna kerfi Chattons sem leið til að flokka ríkin sjálf. Tveggja léna kerfi Chattons flokkaði lífverur í dreifkjörnunga og heilkjörnunga. Hringur (skartgripur). Hringar á málverki frá 1559. Hringur (eða baugur (sbr. baugfingur)) er skartgripur sem oftast er borinn á fingri, annaðhvort til skrauts eða til staðfestingar á trúlofun eða giftingu. "Táhringur" er borinn á tám (sjaldnast um þumaltána) og "nefhringur" er borinn í gati í nasavængnum eða í miðsnesinu. Til forna var "fingurgull" hringur hafður á fingri, en "baugur" og "hringur" voru orð sem höfð voru aðallega um armbauga sem voru miklu stærri og þyngri en fingurgullin. Hálsmen. Hálsmen er skartgripur sem maður setur um hálsinn á sér. Kóreska. Kóreska er tungumál talað í Austur-Asíu. Það er talað af 78 milljónum manns sem gerir það af þrettánda mest talaða tungumáli heims. Ekki hefur tekist að sýna fram á skyldleika kóresku við neitt annað tungumál. Helmingur orðaforðans eru tökuorð úr kínversku. Engin tilvísunarfornöfn eru til í kóresku og enginn greinir. Nafnorð flokkast ekki í kyn og taka engum breytingum í fleirtölu. Kóreska er ýmist rituð lóðrétt eða lárétt með han gúl-stafrófi sem hefur 40 bókstafi. 21 bókstafur táknar sérhljóð (tíu einhljóð og ellefu tvíhljóð) en nítján bókstafir tákna samhljóð, þar af tákna fimm stafir tvö samhljóð í einu. Grundvallarorðaröð er frumlag — andlag — sögn. Elstu ritheimildir eru frá um 1100. Ungverska. Ungverska er evrópskt tungumál talað af 14 milljónum (11 milljónum í Ungverjalandi sjálfu, 1,5 milljónum í Rúmeníu og 0,5 milljónum í Slóvakíu og fyrrverandi Júgóslavíu) og er 57da mest talaða mál heims. Engin málfræðileg kyn eru. Ákveðni greinirinn minnir að sumu leyti á þann óákveðna í ensku, a og az eftir því hvort eftirmælt orð hefst á sérhljóða eða samhljóða. Líkt og í finnsku hafa nafnorð mörg föll eða 16 en stofnin helst oft vel þó viðskeyti lúti fram. Nefna má veru-, orsaka-, verkfæris- og áhrifsföll. Fleirtala er mynduð með -i eða -k viðskeyti. Ungverska er rituð með afbrigði af latnesku letri. Rúmenska. Rúmenska er rómanskt mál skylt ítölsku talað af 24 milljónum að móðurmáli og 4 milljónum sem annað mál. Það er 34. mest talaða mál heims sem móðurmál. Rúmenska er rituð með afbrigði af Latnesku letri. Ekki er langt síðan latnest letur var tekið upp og skriftarósamræmi því með minnsta móti. Ákveðin greinir viðskeyttur en óákveðinn undansettur. Nafnorð hafa 3 föll: nefnifall, eignarfall og ávarpsfall. Ennfremur hafa nafnorð 3 málfræðileg kyn. Hefur orðið fyrir áhrifum frá slavneskum málum. Elstu textar frá 15 hundruð eða mun yngri en elstu textar íslensku. Lýsingarorð í rúmensku beygjast eftir tölu, falli og kynjum og eru oft eftirsett líkt og í frönsku. XForms. XForms er XML-mál sem er notað til að búa til eyðublöð á heimasíðum. Það er notað í (X)HTML skjölum. XLink. XLink er XML-mál sem er notað til gera hlekki í XML skjölum. XPath. XPath er XML-mál sem er notað til að finna gögn í eigindum XML-skjala. XPointer. XPointer er XML-mál sem að notað er til að búa til nákvæma hlekki í XML-skjölum. XQuery. XQuery er spurnarmál notað til að sækja gögn úr XML-skjölum og meðhöndla. XSLT. XSLT (eða XSL) er XML-mál notað til að setja stíla á XML skjöl. Það er W3C-staðall. XSL Formatting Objects. XSL Formatting Objects (skammstafað XSL-FO) er XML-mál notað til að setja stíla á XML-skjöl. RDF. RDF (Resource Description Framework) er XML-mál notað til að lýsa gögnum á vefnum. RSS. RSS (Really Simple Syndication) er XML-mál notað til að dreifa gögnum einnar vefsíðu yfir á margar. SOAP. 220pxSOAP (Simple Object Access Protocol) er einfalt XML-samskiptamál sem gerir vefsíðum einfaldara fyrir að senda gögn yfir HTTP. Wireless Markup Language. WML (Wireless Markup Language) er XML-samskiptamál hannað til að sýna vefsíðuefni á farsímum. Web Services Description Language. Web Services Description Language (skammstafað WSDL) er XML-mál hannað til að lýsa vefþjónustu. WSDL 2.0 er W3C-tilmæli. Klasahús. Klasahús eru íbúðarhús sem eru hönnuð samtímis og reist í litlum þyrpingum, oft utan um þjónustumiðstöð. Muggur. Guðmundur Pétursson Thorsteinsson, betur þekktur sem Muggur, (5. september 1891 – 26. júlí 1924) var íslenskur listamaður frá Bíldudal, sonur athafnamannsins Péturs J. Thorsteinssonar. Hann vann fjölbreytt verkefni með olíu, vatnslitum, kolum og klippimyndum, meðal annars „Sjöundi dagur í Paradís“ sem er eitt af hans frægustu verkum og barnabókina "Sagan af Dimmalimm". Hann myndskreytti líka íslensk spil sem urðu mjög vinsæl. Hann lék eitt af aðalhlutverkunum í "Sögu Borgarættarinnar" sem var tekin á Íslandi 1919. Hann lést um aldur fram úr brjóstveiki. Öll listaverk eftir Mugg eru úr höfundarétti samkvæmt íslenskum höfundalögum. Knattspyrnumennirnir Samúel, Gunnar og Friðþjófur voru bræður Muggs. Ríkarður Jónsson. Ríkarður Rebekk Jónsson (20. september 1888 - 17. janúar 1977) var íslenskur myndhöggvari og tréskurðarlistamaður. Menntun og ferill. Ríkarður nam tréskurð í Reykjavík og stundaði listnám í Kaupmannahöfn. Hann fór námsferðir til Ítalíu. Hann gerði mannamyndir og minnisvarða en einnig rismyndir og tréskurðarverk í kirkjur og aðrar opinberar byggingar. Krullujárn. Krullujárn (einnig sléttujárn, áður nefnt bárujárn) er áhald sem breytir formi hárs með notkun hita. Krullujárn eru notuð til að krulla hárið, á meðan sléttujárn eru notuð til að slétta hár. Saga. Krullujárnið var þekkt í Róm til forna, en þar nefndist það "calamistrum" sem kom af því að það var holt að innan eins og reyr en hann nefndist "calamus". Krullujárnið var oft hitað í viðarösku er oft minnst í ritum Cícerós og þá var notkun þess algeng á meðal ungmenna og hefðarkvenna í Róm. Sókrates (nafn). Sókrates er íslenskt karlmannsnafn af grískum uppruna. Þjóðvaki. Þjóðvaki var stórnmálaafl sem Jóhanna Sigurðardóttir stofnaði ásamt Ágústi Einarssyni árið 1994 eftir að hafa klofið sig út úr Alþýðuflokknum. Flokkurinn fékk 4 þingmenn kjörna í Alþingiskosningunum 1995. Þingflokkur Þjóðvaka og þingflokkur Alþýðuflokksins sameinuðust 2. október 1996 í Samtök jafnaðarmanna. Þjóðvaki gekk formlega inn í Samfylkinguna árið 2000. Súla (nafn). Súla er íslenskt kvenmannsnafn. Nafnið er dregið af fuglsnafninu. Sessilía. Sessilía er íslenskt kvenmannsnafn. Sophia. Sophia er íslenskt kvenmannsnafn. Svani. Svani er íslenskt karlmannsnafn. ASP. ASP (Active Server Pages) er túlkur notaður á vefþjónum. Forrit í ASP eru oftast skrifuð í forritunarmálinu VBScript en hægt er að nota mörg önnur forskriftumál. Kóstanæfylki. Kóstanæfylki (Қостанай облысы, Костанайская область) er fylki í Mið-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Kóstanæ. MS-DOS. MS-DOS (Microsoft Disk Operating System) er stýrikerfi framleitt af Microsoft. Það var vinsælasta stýrikerfið í DOS fjölskyldunni og vinsælasta stýrikerfið fyrir einkatölvur á níunda áratugnum. Það var byggt á Intel 8086 örgjörva fjölskyldunni. Microsoft framleiddi þetta stýrikerfi og var það notað í grunn Windows 1, 2, 3, 95, 98, ME og meira að segja sumar útgáfur af Linux. Microsoft eru hætt að framleiða MS-DOS og síðasta útgáfan af MS-DOS kom út 14. september 2000. Stýrikerfið var fyrst skrifað af Seattle Computer Products. Microsoft keypti það fyrir 50.000 dollara því Microsoft hafði gert samning við IBM um að framleiða stýrikerfi fyrir þá en höfðu ekki tíma til þess. Áður en Microsoft keypti MS-DOS hét það QDos(Quick & Dirty Operating System)/86-DOS. Flautuleikari. Flautuleikari er sá maður sem spilar á flautu. Flauta. Flauta er blásturshljóðfæri sem fundið var upp fyrir 30.000 til 37.000 áru, en sumar gamlar flautur eru allt að 43.000 ára gamlar. Til eru mismunandi gerðir af flautum, til dæmis pikkólóflauta, altflauta og bassaflauta. Allar tegundir flauta eiga það sameiginlegt að ganga fyrir lofti og gefa frá sér samfleytt hljóð. Að flauta er einnig sagnorð og þýðir að munda varirnar í kríng og blása svo að það kemur skært hljóð (sjá flaut). Að flauta krefst æfingar. Saga. Fornar flautur eins og þær sem notaðar voru á steinöld voru oft gerðar úr beinum dýra sem drápin höfðu verið til matar. Stórt bein var tekið úr dýrinu, mergurinn fjarlægður og göt gerð þá í. Svo var blásið í. Í upphafi voru flautur oftast gerðar úr beini eða timbri en nú á dögum eru þær yfirleitt gerðar úr silfri eða öðrum málmi. Þverflautan er gerð úr þrem stykkjum og hægt að taka hana í sundur. Á flautunni eru yfirleitt að minnsta kosti 13 göt sem flautarinn getur lokað og breytt þannig tónhæð. Tóninn ræðst af „stellingu“ varanna og því hvaða göt er lokað fyrir. Þó erfitt sé að sjá þá á flautunni er hún keilulaga. Fyrsta nútímaflautan var fundin upp árið 1832 af Theobald Boehm. Einhvers konar flautuhljóðfæri hafa þó verið þekkt mun lengur og í raun er ómögulegt að segja nákvæmlega hvenær þau koma fram — fornegyptar spiluðu á slík flautur og mörg samfélög fyrir þeirra tíma sem var í gamla daga. Tegundir. Margar tegundir eru til af flautum, t.d. sú sem spilað er á þannig að hún vísi beint fram kallast "blokkflauta" og sú sem telst þverlæg — líkt og sú flauta sem allir þekkja flest — kallast "þverflauta". En það er flauta sem liggur þvert yfir munnvik flautarans og þegar blásið er kemur flaut. Að spila á flautu. Hljóðið myndast þegar flautuleikarinn blæs lofti þvert á lítið gat við annan enda hljóðfærisins, þá myndar blásið titring og loftið innan hólksins kemst á hreyfingu og gerir flaut. Hljóðfærir flauta magnar upp hljóðið sem myndast þegar blásið er í flautuna. Blásturshljóðfæri. Blásturshljóðfæri er hljóðfæri sem að blásið er í gegnum til að mynda hljóð. Þau mynda hljóðið með titringi loftsúlu innan í þeim. Tíðni bylgjunnar sem kemur fer eftir lengd loftsúlunnar og lögun hljóðfærisins, á meðan hljómblær hljóðsins fer eftir byggingu hljóðfærisins og hvernig hljóðið er framkallað. Þessi flokkur hljóðfæra er venjulega skipt niður í Tréblásturshljóðfæri og Málmblásturshljóðfæri. Dæmi um blásturshljóðfæri eru okkarínan og flautan. Þrælkun. Þrælkun er það þegar manneskja er neydd til að vinna gegn vilja sínum og kallast það þá þrælkunarvinna eða nauðungarvinna. Málvenja. Málvenja er hugtak í málfræði yfir það þegar óhefbundið mál eða annars ótækt mál verður að venju hjá fólk. Java. Java (indónesíska, javamál, og sundeyska: "Jawa") er indónesísk eyja, um 126.700 km² að stærð. Höfuðborg Indónesíu, Djakarta, er á eyjunni. Java er fjölmennasta eyja heims. Súkrósi. Sakkarósi er tvísykra sem samanstendur af glúkósa og frúktósa. Í daglegu tali er súkrósi kallaður sykur. Hann er táknaður með efnaformúlunni C12H22O11. Ómar Ragnarsson - Krakkar mínir komið þið sæl. Krakkar mínir komið þið sæl er 33-snúninga LP-hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni flytur Ómar Ragnarsson jólalög fyrir börnin - Telpnakór aðstoðar - Útsetningar og hljómsveitarstjórn: Magnús Ingimarsson. Teikning á framhlið gerði Halldór Pétursson. Ljósmynd á bakhlið tók Kristján Magnússon. Platan var hljóðrituð hjá Ríkisútvarpinu. Hljómsveitina skipuðu Magnús Ingimarsson, Garðar Karlsson, Grettlr Björnsson, Gunnar Ormslev, Karl Lillendahl, Ólafur Gaukur, Pétur Björnsson, Svavar Gests og Vilhjálmur Guðjónsson. Ómar Ragnarsson - Gamanvísur og annað skemmtiefni. Gamanvísur og annað skemmtiefni er 33-snúninga LP-hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni flytur Ómar Ragnarsson gamanvísur og annað skemmtiefni hljóðritað að viðstöddum áheyrendum. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar leikur undir í 1 og 6 á hlið A og 2 og 4 á hlið B. Jafnframt leikur Magnús einn undir, í 5 á hlið B. Allan annan undirleik annast Haukur Heiðar Ingólfsson, hinn reglulegi undirleikari Ómars. Ljósmyndir á framhlið eru eftir Óla Pál Kristjánsson. Sykur. Orðsifjar. Sykur er tökuorð í íslensku úr dönsku: "sukker". Orðið sykur er komið á Norðurlönd úr arabísku: "sukkar" og indversku: "sakkara", sbr. sakkarín, en í latínu er grískættaða orðið "saccharinus", sem þýðir: sætur. Sykur er bæði karlkyns og hvorugkyns í íslensku, sykurinn og sykrið. "Sparaðu ekki sykrið að hneppa þar í", segir í Gilsbakkaþulu, en í Aravísum er spurt: "Hví er sykurinn sætur?" Kaktus (mannsnafn). Kaktus er íslenskt karlmannsnafn. Kilían. Kilían er íslenskt karlmannsnafn. Kristin. Kristin er íslenskt kvenmannsnafn. Vápni. Vápni er íslenskt karlmannsnafn. Róbjörg. Róbjörg er íslenskt kvenmannsnafn. Róman. Róman er íslenskt karlmannsnafn. Randý. Randý er íslenskt kvenmannsnafn. Rannva. Rannva er íslenskt kvenmannsnafn. Rikharður. Rikharður er íslenskt karlmannsnafn. Tóki. Tóki er íslenskt karlmannsnafn. Tristana. Tristana er íslenskt kvenmannsnafn. Náttmörður. Náttmörður er íslenskt karlmannsnafn. Nóa. Nóa er íslenskt kvenmannsnafn. Naomi. Naomi er íslenskt kvenmannsnafn. Nicolas. Nicolas er íslenskt karlmannsnafn. Aímaríska. Aímaríska ("Aymara") er aímarískt tungumál sem er talað í Suður-Ameríku. Aíníska. Aíníska ("Aini") er tyrkískt tungumál sem er talað í Vestur-Kína. Það er leynilegt tungumál sem er bara talað af karlmönnum. Aínúmál. Aínúmál ("アイヌ イタク") er einangrað tungumál sem talað er á Hokkaidōsvæðinu í Japan, auk þess á eyjunni Sakhalín sem tilheyrir Rússlandi. Málabraut. Málabraut er fyrir það fólk sem er mikið fyrir tungumál og er yfirleitt að læra 3-4 tungumál á þessari braut f. utan íslensku. Til greina kemur þýska,spænska eða franska. Enska og danska eru náttúrulega fastir liðir. Félagsfræðibraut. Félagsfræðibraut er einfaldlega fyrir þá sem hafa áhuga á sögu, landafræði, heimsspeki, fjölmiðlafræði og uppeldisfræði svo fátt eitt sé nefnt. Stærðfræðiáfangar eru ekki margir í félagsfræðibraut. Oftast þarf bara að ljúka 6 einingum í stærðfræði. Þegar þú útskrifast af félagsfræðibraut opnast ýmsir möguleikar á framhaldsnámi í háskóla og margir atvinnumöguleikar í kjölfarið. Akanmál. Akanmál ("Akan") er nígerkongó tungumál sem er talað í Gana. Serbneska. Serbneska ("српски језик"; með latnesku stafrófi: "srpski jezik") er tungumál talað í Serbíu af yfir 12 milljónum manns. Úkraínska. Úkraínska ("украї́нська мо́ва"; með latnesku stafrófi: "ukrayins'ka mova") er tungumál talað í Úkraínu af 39,4 milljónum manns. Úkraínska er rituð með afbrigði af kýrillíska stafrófinu. Litháíska. Litháíska ("lietuvių kalba", í eldra mali lithaugska) er tungumál talað í Litháen af 4 milljónum manna. Litháíska er stundum sögð einna fornlegust allra indóevrópskra mála en elstu textar á tungumálinu eru frá 1550. Málfræði. Föll nafnorða eru átta í litháísku. Þetta eru ávarpsfall, staðarfall, tækisfall og íferðarfall (auk nefnifalls, þolfalls, þágufalls og eignarfalls). Enginn greinir er notaður með nafnorðum en kynin eru 2; karlkyn og kvenkyn. Nafnháttur sagna endar alltaf á "-ti". Líkt og í íslensku tákna "-i" og "-y" alltaf það sama en yfsilon er ekki einna seinast í stafrófinu heldur strax eftir "-i". Sérkennilegt er hvernig neitun er forskeytt við sagnir. Ritmál. Litháíska notar latínuletur sem hefur verið aðlagað með smástrikum. Það hefur 32 stafi. Öfugt við íslensku er upphafleg stafsetning á erlendum mannanöfnum og borgarnöfnum ekki látin haldast heldur eru stafsett hljóðrett, þannig t.d. verður Elton John "Elton Džon" og George Bush "Džordž Buš". Albanska. Albanska ("Shqip") er tungumál sem talað er í Albaníu, en einnig í Kosóvó, Grikklandi og Makedóníu. Málnotendur eru u.þ.b. 6 milljónir manna. Greinist í 2 megin mállýskur; norður (geg) og suður (tosk), en þessar tvær greinast aftur í margar undirmállýskur sem illa skiljast sín á milli. Elstu textar frá 15. öld. Þrjú málfræðileg kyn. Ótiltekni greinirinn er undansettur en sá tiltekni eftirskeyttur. Nafnorð hafa 6 föll og í sumum mállýskunum 7. Nafnorð eru sett í fleirtölu með annars vegar sjö eftirskeytum (-ë, -a,-e, -ër, -ra -t, -nj) og hins vegar þremur stofn-breytingum þar sem -a er skipt út fyrir -e, -k fyrir -q og -g fyrir gj. Lýsingarorð venjulega eftirsett líkt og rómönskum málum og beygjast eftir kyni og tölu en ekki falli. Einu stafirnir í albanska stafrófinu sem ekki er að finna í því enska er setillu-sé og tvípunkts-e. 40 % orðaforðans tökuorð frá latínu. Ennfremur þúsundvís af tökuorðum frá tyrknesku enda albanir undirsátar tyrkjaveldis um aldir. Orrustuflugvél. Orrustuflugvél er flugvél notuð til orrustu. Orrustuflugvélum er beitt gegn öðrum flugvélum eða gegn skotmörkum á landi eða sjó. Yfirleitt eru þó orrustuflugvélar greindar að frá sprengjuflugvélum. Loftárás. Loftárás er árás gerð úr lofti, annaðhvort með orrustuflugvélum, sprengjuflugvélum eða flugskeytum. 34. Árið 34 (XXXIV) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á föstudegi. Farsími. Farsímatækni er tegund þráðlauss og langdægs símkerfis. Orðið "farsími" á yfirleitt við símtæki notenda, en þau er ekki mögulegt að nota án farsímakerfis, t.d. GSM. Orðið "þráðlaus sími" á oftast við þráðlausan heimasíma ásamt móðurstöð, sem er skammdrægt símtæki. Nota má farsíma til margs auk þess að auki til að hringja í einhvern, svo sem til þess að senda smáskilaboð (SMS), tölvupóst, til að tengjast Internetinu (til dæmis með því EDGE eða 3G), til að leika leiki, tengjast gegnum Bluetooth, taka myndir auk þess að senda myndskilaboð (MMS). Cotonou. Cotonou er efnahagsleg höfuðborg Benín, sem og stærsta borg landsins. Árið 2006 var íbúafjöldi borgarinnar 761.137 samkvæmt opinberum tölum. Þrátt fyrir það er áætlað að íbúafjöldinn gæti verið 1,2 milljónir. Árið 1960 bjuggu einungis 70.000 í borginni. Borgin liggur í suðvesturhluta landsins, á milli Atlantshafsins og Nokouévatns. Tegucigalpa. Tegucigalpa (framburður: [ˌteɰusiˈɰalpa]) er höfuðborg og stærsta borg Hondúras. Nafnið kemur úr nahúötlsku, "teguz-galpa" sem merkir „silfurhólar“. Árið 2006 bjuggu u.þ.b. 1.200.000 manns í borginni. Sófía. Sófía (búlgarska: София) er höfuðborg og stærsta borg Búlgaríu. Í borginni búa 1.246.791 manns og á stórborgarsvæðinu 1.401.406, sem gerir hana að 15. stærstu borg Evrópusambandsins. Gvatemalaborg. Gvatemalaborg (fullt nafn á spænsku: La Nueva Guatemala de la Asunción; stytting: Guatemala eða Guate) er höfuðborg og stærsta borg Gvatemala. Borgin er einnig stærsta borg Mið-Ameríku. Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar er 2.541.581 manns. 15 (tala). 15 er náttúruleg tala. Talan á undan 15 er 14 og talan á eftir er 16. Einangrað tungumál. Einangrað tungumál eða stakmál er tungumál sem er ekki flokkað í ætt með neinu öðru tungumáli. Orsakir einangrunar tungumáls eru oft þær að öll önnur tungumál innan tungumálaættarinnar urðu útdauð. Tengt efni. Listi yfir útdauð tungumál eftir heimsálfum á enskri Wikipediu Ungur ofurhugi. "Ungur ofurhugi" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Bob Moran tók fast um hæðarstýrið á flugvélinni og renndi henni svo að segja beint upp í loftið, því að annars hefði hún rekist á háan fjallstind, sem gnæfði hrikalegur framundan. - Með skarpskyggnum augum leit hann niður og blóðið brann í æðum hans. Bob Moran og flugvélin hans voru sem samrunnin. Í skyndingu minntist hann þess, er hann var flugstjóri í stríðinu og stjórnaði orrustuflugsveit sinni í tvísýnum bardögum gegn djörfum óvinum.En í þetta sinni flaug hann ekki orrustuflugvél. Það var einungis venjuleg flutningaflugvél, sem hinn ungi ofurhugi stjórnaði. - Nú voru óvinir hans háfjöll og frumskógar Nýju-Gíneu. Og baráttuna við þessar hættulegu aðstæður varð han að heyja einn síns liðs. Bob Moran hafði frá æsku þráð tvísýn ævintýri. Og var því þessi hættulega flugferð honum kærkomið tækifæri, því að flugferð yfir Djöfladalinn í venjulegri flutningaflugvél var djarft fyrirtæki. Ef eitthvað bar út af var dauðinn vís. En ef svo ólíklega skyldi vildi til, að hann slyppi lífs af eftir nauðlendingu á slíkum stað, lágu höfðaveiðarar í launsátir. - En ævintýrið var ekki langt framundan: Áður en varði var skammbyssu beint að hnakka hans og honum skipað að nauðlenda lengst inni í frumskóginum... Aðalpersónur. Bob Moran, Vilhjálmur „Bill“ Ballantine, Frank Reeves, Lewis Broom Ævintýri á hafsbotni. "Ævintýri á hafsbotni" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Það kann að vera, að á uppboði í París komi oft sjaldgæfir munir, sem safnarar hafa áhuga á. Uppboð á gömlu málverki verður upphafið að ótrúlegum og spennandi atburðum. Myndin af hinni hörundsdökku konu verður þess valdandi, að þeir vinirnir Bob Moran og Frank Reeves takast á hendur óralanga ferð til þess að leita að dularfullri líkkistu. Þeir komast með erfiðismunum inn í egypka grafhvelfingu, djúpt niðri á hafsbotni, en þangað kafa þeir í froskmannabúningum, og þar liggja hætturnar í leyni við hvert fótmál. Menn og náttúruöfl taka höndum saman til þess að meina Bob Moran og vini hans að leysa hina torráðu gátu. Aðalpersónur. Bob Moran, Frank Reeves, prófessor Aristide Clairembart, Leonide Scapalensi Sögusvið. París, Frakkland - Kasr El-Ama, Egyptaland Jórturdýr. Jórturdýr (fræðiheiti: "Ruminantia") nefnast þau dýr sem eru grasætur og með hófa (eða klaufir í flestum tilfellum). Aðaleinkenni jórturdýra er að þau melta fæðuna í tveimur stigum. Í fyrsta lagi grípur jórturdýr niður, tyggur þá grasið lítið sem ekkert og kyngir. Síðan elgir það fæðunni upp lítið eitt meltri (þ.e.a.s. selur henni upp í munnholið), tyggur hana þá aftur (jórtrar) og kyngir síðan enn á ný og þá taka örverur vambarinnar við og brjóta niður trénið í tuggunni. Magi jórturdýra greinist í fjögur hólf, vömb ("rumen"), kepp ("reticulum"), laka ("psalterium") og vinstur ("abomasus"). Eiginleg jórturdýr ("Pecora") greinast í slíðurhyrninga (með slóhorn, sem sitja alla æfi) og kvíslhyrninga með greinótt horn (sem falla tíðast árlega). Akavajo. Akavajo ("Akawaio") er karíbamál sem er talað í Venesúela og Gvæjönu í Suður-Ameríku af 5.000 manns. Georgíska. Georgíska ("ქართული ენა", í latnesku stafrófi: "kartuli ena") er opinbert tungumál Georgíu, lands í Kákasusfjöllum. Georgíska er fyrsta mál u.þ.b. 3,9 milljón manns í Georgíu (83% af íbúum landsins) og 500.000 brottfluttra Georgíumanna, mest í Tyrklandi, Íran, Rússlandi, Bandaríkjunum og annars staðar í Evrópu. Önnur þjóðarbrot innan Georgíu nota málið þó ávallt sem ritmál, sérstaklega þau þjóðarbrot sem tala suðurkákasísk mál. Eitt af því sem einkennir georgísku er georgíska stafrófið, sem þykir mjög einstakt og líkist engu öðru stafrófi sem fyrirfinnst í heiminum. Georgíska er það kákasíska mál sem á sér flesta mælendur. Elstu textar frá 5. öld. Enginn greinir er í georgísku og ekkert málfræðilegt kyn. Nafnorð hafa 7 föll, þar á meðal gerendafall eða ergatívus. Nafnorð mynda fleirtölu með eftirskeytinu -eb. Í forn-georgísku var fleirtölumyndun nafnorða margbrotnari og flóknari þar sem sérhvert fall hafði sérstaka fleirtöluendingu. Lýsingarorð eru venjulega undansett og beygjast í föllum en ekki tölum. Sextant. Sextant (eða sjöttungur) er mælitæki, einkum notað til að mæla hæð sólar eða stjörnu út á sjó. Notkun hans fólst í því að "ná stjörnu niður að hafsbrún" í sextantinum, en þá var hægt að reikna út þá breiddargráðu sem skipið er á. Nafnið sextant. Nafnið sextant eða sjöttungur er dregið af því að það miðast við sjötta part úr hring eða 60 gráður. Sextant hefur stundum verið kallaður "skuggsjárbaugur" á íslensku. Forsaga sextantsins. Að finna breiddina á hafi úti með því að athuga norðlægar stjörnur hefur líklega fyrst verið notað á Indlandshafi. Marco Polo lýsir slíkri aðferð um 1290. Arabar virðast einnig hafa fyrstir fundið upp krossstafinn, sem síðar var mjög notaður af Vesturlandabúum. Þessi krossstafur voru stuttar spýtur festar þvert á langa spýtu og merktar. Hornið milli stjörnunnar og sjóndeildarhringsins var síðan fundið með því, að bera spýtuna fyrir augað og færa hana til fyrir auganu, þar til hornið var fengið og lesa síðan af mælikvarðanum. Evrópskir sjómenn tóku ekki að notfæra sér stjarnfræðilegar athuganir til að finna breiddina fyrr en á dögum Hinriks siglingafræðings, þegar kvaðranturinn varð almennt notað tæki til ákvörðunar breiddar. Þegar kvaðrant var notaður til að mæla hæð stjörnu (og þar af breiddina) horfði siglingafræðingur til hliðar yfir skipssíðuna. Lóðlína var látin hanga frá einu horni kvaðrantsins og sýndi hún hallahornið, sem lesið var af bogmynduðum mælikvarða, sem lóðlínan lá yfir. Annað tæki svipaðrar gerðar, svonefndur stjörnumælir var einnig notaður, og var það gert af þungum málmi hringmynduðum og gráðumerktum og var á honum hreyfanlegur armur með götum til að kíkja í gegnum á stjörnuna eða sólina. Þetta tæki létu menn hanga á fingrum sér í hringum, sem komu þá í stað lóðlínunnar á kvaðrantinum. Bæði þessi tæki var erfitt að nota á sjó, vegna hreyfinga skipsins, en með ítrekuðum athugunum mátti ná hornamælingum, sem ekki skeikaði nema hálfri gráðu eða svo. Kristófer Kólumbus notaði bæði þessi tæki á ferðum sínum, en það hefur þýtt það, að hann hefur þurft tvenns konar töflur, aðra fyrir hina reglulegu göngu sólar fyrir norðan eða sunnan miðbaug, og aðra fyrir helstu stjörnurnar. Athuganir á sól og stjörnum varð að gera þegar sólin eða stjarnan gekk yfir hádegisbaug skipsins, svo að ekki gat verið nema um eina athugun á sólinni að ræða daglega, og einnig einungis eina athugun á hverri stjörnu í töflunni á nóttum. Þar sem miklu auðveldara var að ákveða breiddina heldur en lengdina, höfðu siglingamenn þá venju að miða við stað fyrir austan sig eða vestan á þekktri breidd og halda frá þeim stað eftir breiddarbaugnum. Þetta var mjög örugg aðferð og notuð, þar til menn fundu betri aðferð til að ákvarða með lengdina. Þeir urðu samt fyrst að endurbæta aðferðirnar til að mæla með hæð himinhnattar. Tilurð sextantsins. John Hadley - og um leið, þó að hvorugur vissi af hinum, Thomas Godfrey — smíðuðu fyrsta sextantinn. Sextantinn var þannig gerður að hann hentaði betur til mælinga á veltandi skipi en kvaðrantinn sem hafði verið notaður áður. En með tilkomu sextantsins var breiddarákvörðun orðin tiltölulega einfalt siglingaatriði, en lengdarákvörðunin var enn um hríð mjög ónákvæm og á löngum sjóferðum, þegar ekki sást land langtímum saman, gat skekkjan hjá skipstjóranum í ákvörðun lengdarinnar numið hundruð sjómílna. Þessi vankunnátta í því að ákveða lengdina olli mörgum slysum, og þess vegna var það, að breska stjórnin bauð verðlaun að upphæð 20 þúsund sterlingpunda, þeim manni, sem gæti fundið aðferð til að ákveða lengdarbaug á hafi úti. Vegalengdin milli lengdarbauga er í rauninni munurinn á staðartíma og Greenwichtíma, svo að viðfangsefnið var það, að búa til klukku, sem sýndi jafnan Greenwichtíma á siglingunni með allmikilli nákvæmni. Þetta var það sem John Harrison, syni smiðs í Yorkshire, tókst að leysa, en hann fann upp skipsklukkuna. Gnómon. Gnómon er fornt mælitæki til að finna hádegislínu staðar. Phil Spector. Harvey Phillip Spector (fæddur 26. desember 1940 í The Bronx, New York) er bandarískur upptökustjóri, útgefandi og þekktur fyrir að vera heilinn á bak við mörg af þekktustu lög 6. og 7. áratugarins. Spector var þekktur fyrir að beina tónlist sinni að yngri kynslóðinni og var stundum kallaður „"the first tycoon of teen"“ vegna þess hversu ungur hann varð milljónamæringur. Barnæska. Föðurafi Phil Spectors var rússneskur gyðingur sem breytti nafni sínu úr Spekter í Spector á Ellis Island þegar hann fluttist búferlum til Bandaríkjanna. Phil bjó fyrstu ár lífs síns í New York-borg í faðmi fjölskyldunnar. Árið 1949 stytti faðir Phils sér aldur vegna áhyggja yfir skuldum og erfiðum efnahag. Fjórum árum síðar, 1953, flutti ekkja hans, Bertha, með Phil og systkini hans til Los Angeles þar sem hún fékk vinnu sem saumakona. Á unglingsárum var Phil einfari. Þessi litli (um 1,60 m), mjóslegni pjakkur með sorgmæddu augun, átti erfitt með að falla í hópinn. Í skóla hafði hann áhuga á tónlist og fékkst þá helst við gítar- og píanóleik. Seinna meir náði hann einnig tökum á slagverki, bassa og blásturshljóðfærum. Á þessum tíma var Los Angeles miðja Rhytm and blues-tónlistarinnar og þar var urmull af litlum plötufyrirtækjum. Phil gekk milli þeirra og reyndi ítrekað að ná sér í vinnu við tónlistarflutning. Þannig kynntist hann fólki í greininni. Eftir að hafa lokið framhaldsskóla við "Fairfax High School" árið 1958 vildi hann reyna fyrir sér í tónlistarheiminum og pantaði því tíma í hljóðveri "Gold Star Studios". Peninga til þess fékk hann að láni hjá móður sinni en einnig hjá vinum og kunningjum. Hann tók upp efni á litla hljóðsnældu og náði að lokum samningi við litla útgáfufyrirtækið "Era Records", en eigandi þess, Lew Bedell, var nágranni Phils. Fyrsta útgáfa á vegum Spectors, og hástökkvari á vinsældalistum í Los Angeles árið 1958, var lagið "To Know Him is To Love Him" með The Teddy Bears. Nafn lagsins kom af legsteini föður Spectors og nafn hljómsveitarinnar úr lagi Elvisar Presley "Teddy Bear". Lagið átti í raun að vera B-hlið lagsins "You Don't Know My Little Pet" sem útgáfufyrirtækið hafði sent til útvarpsstöðva en plötusnúður nokkur í Fargo í Norður-Dakota snéri plötunni öfugt og þá var ekki aftur snúið - lagið sló rækilega í gegn. Pöntun frá Minneapolis hljóðaði upp á 18.000 eintök svo þeir félagar, Bedell og Spector, héldu að um grín væri að ræða og báðu því um staðfestingu. Svarið kom; og hafði eintökum þá fjölgað og eftir því sem fréttin barst út fóru fleiri útvarpsstöðvar að leika lagið. Frá því lagið var sent út í ágúst fram að jólum seldist smáskífan í meira en milljón eintökum. Hann var aðeins 17 ára þegar hér var komið sögu. Era Records varð fljótlega of lítið fyrirtæki fyrir þessa vinsældasprengju og því fylgdu rifrildi um peninga. Eitt vinsælt lag er ekki nóg til að tryggja framtíð eða opna leið inn í hinn harða heim tónlistar svo Phil hóf aftur störf sem ritari í dómssal. Þeir Lester Sill höfðu þekkst í áraraðir og Sill stofnaði útgáfufyrirtæki með söngvaranum og tónsmiðnum Lee Hazlewood. Sill bauð Spector í hljóðver - í þetta skipti undir eigin nafni í stað þess að nota "The Teddy Bears"-nafnið sem hann hvort eð er ekki gat notað eftir málin milli hans og Era Records. Árið 1960 sendu Sill og Hazlewood hinn 19 ára gamla Spector til New York til að fræðast um tónlistargreinina, sem var, að sögn Spectors, að mestu leyti bara uppfull af „"morons"“ (bjánum). Sill og Spector stofnuðu Phillies Records haustið 1961 en nafn fyrirtækisins var samansett af fornöfnum þeirra. Ári síðar keypti Phil hlut Sills og varð þannig, 21 árs gamall, yngsti eigandi útgáfufyrirtækis í Bandaríkjunum. Útgáfa. Sem upphafsmaður „"Wall of Sound"“-tækninnar varð Phil Spector einna þekktastur fyrir svokallaðar "stúlknahljómsveitir" sem ruddu sér til rúms í byrjun og fram á miðjan 7. áratug síðustu aldar. Þekktustu sveitirnar á hans vegum voru The Crystals („Da Doo Ron Ron“), The Ronettes („Be My Baby“) og The Righteous Brothers með „Unchained Melody“ og „You've Lost that Lovin' Feelin'“. Síðastnefnda lagið komst í efsta sæti bandaríska vinsældalistans 17. febrúar 1965. Þetta tímabil endaði svo á botninum með laginu „River Deep, Mountain High“ með þeim Ike og Tinu Turner. Lagið þótti þó lyfta listamannsferli Spectors í hæstu hæðir þó plötusalan hafi farið forgörðum. Seinna á ferli sínum hefur Spector unnið með fleiri og þekktari listamönnum á borð við Bítlana, John Lennon, George Harrison, Leonard Cohen og The Ramones. Meðal þekktust verka hans á 8. áratugnum eru lög eins og „The Long And Winding Road“ með Bítlunum, „Imagine“ með John Lennon og „My Sweet Lord“ með George Harrison. Akkadíska. Akkadíska ("lišānum akkadītum") er útdautt tungumál sem var talað í Mesópótamíu. Jeziorka. Jeziorka er fljót í Póllandi. Það rennur 66,3 km langa leið. Við fljótið standa margar stórar borgir, svo sem Piaseczno, Konstancin-Jeziorna. Havana. Havana (spænska: La Habana; framburður: /la a'βana/) er höfuðborg, aðal hafnarborg og miðja verslunar Kúbu. Borgin er eitt af fjórtán kúbverskum héruðum. Í borginni búa 2,3 milljónir manns og á stórborgarsvæðinu búa yfir 3 milljónir, sem gerir hana að stærstu borg Kúbu og Karíbahafsins og þá 9. stærstu í Mið-Ameríku. Bakú. Bakú (aserbaídsjanska: Bakı) er höfuðborg og stærsta borg Aserbaídsjan. Bakú nútímans samanstendur af þremur borgarhlutum, innri hlutanum, uppgangsbænum og Sóvéthlutanum. Árið 2005 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 2.045.815 manns (2011). Bakú er austast í Aserbaídsjan og er á skaga út í Kaspíahaf. Þar er unnin mikil olía. Í Bakú eru margar frægar byggingar eins og Flame towers og stóri sjónvarpsturninn. Í Bakú var Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva haldin árið 2012 í Kristalhöllinni. Freetown. Staðsetning Freetown innan Síerra Leóne. Freetown er stærsta borg og höfuðborg Síerra Leóne. Borgin stendur í vesturhluta landsins og á höfn við Atlantshaf. Árið 2004 bjuggu 1.070.200 manns í borginni. Tíblisi. Tíblisi (framburður: [ˈtʰbɪlɪsɪ]; georgíska: (თბილისი) (stundum nefnd Tvílýsi á íslensku) er höfuðborg og stærsta borg Georgíu, sem stendur við bakka Kúrafljóts ("Mtkvari"). Borgin nær alls yfir 372 km² svæði og í henni búa 1.093.000 manns. Srí Jajevardenepúra. Srí Jajevardenepúra (tamilíska: ஸ்ரீ ஜயவர்த்தனபுரம் கோட்டே) er stjórnsýsluleg höfuðborg Srí Lanka. Srílankska þingið hefur haft aðsetur í borginni frá 29. apríl 1982. Árið 2001 bjuggu 115.826 í borginni sjálfri og 2.234.289 á stórborgarsvæðinu. Búri (nafn). Búri er íslenskt karlmannsnafn, kemur frá guðnum Búri. Beníta. Beníta er íslenskt kvenmannsnafn. Bergheiður. Bergheiður er íslenskt kvenmannsnafn. Bergrán. Bergrán er íslenskt kvenmannsnafn. Ferðbúinn til Marz. "Ferðbúinn til Marz" er vísindaskáldsaga fyrir unglinga eftir Carey Rockwell. Fyrstu ævintýri Tómasar Corbett á bókarformi. Söguþráður. Tómas Corbett lendir í ævintýrum í geimnum með nýjum loftliða vinum sínum í Geimháskólanum. Aðalpersónur. Tómas Corbett (Tom Corbett), Astro, Mike McKenny, Roger Manning Sögusvið. Kjarnaborg, Mars, Venus, um borð í geimskipum. 1115. Bernharður frá Clairvaux. Upphafsstafur í handriti frá 13. öld. Lodda. Lodda (fræðiheiti: "Terathopius ecaudatus") er meðalstór örn af "Accipitridae"-ættinni. Loddan er eini fuglinn af ættkvíslinni "Terathopius" og að öllum líkindum fyrirmyndin að "„Simbabve-fuglinum“" sem er þjóðartákn Simbabve. Bil (mannanafn). Bil er íslenskt kvenmannsnafn. Bill. Bill er íslenskt karlmannsnafn. 1130. a> (lengst til vinstri) með dýrlingunum Lárentíusi og Kalixtusi. Jenetta. Jenetta er íslenskt kvenmannsnafn. Julian. Julian er íslenskt karlmannsnafn. Líba. Líba er íslenskt kvenmannsnafn. Leif. Leif er íslenskt karlmannsnafn, norrænn ritháttur af Leifur. Leo. Leo er íslenskt karlmannsnafn. Lisbeth. Lisbeth er íslenskt kvenmannsnafn. Nesskip. Nesskip er íslenskt skipafélag stofnað 1974. Fyrirtækið sinnir aðallega stórflutningum og er aðili að alþjóðasamtökum skipafélaga. Nesskip flytur út lýsi með tankskipum sínum Freyju og Frigg. Þann 19. desember 2006 strandaði Wilson Muuga, flutningaskip í eigu Nesskips, undan Hvalsnesi. Við björgunaraðgerðir danska varðskipsins Triton sem var statt skammt frá fórst Jan Nordskov Larsen, einn dönsku sjóliðanna. Í maí 2007 var Wilson Muuga dregið aftur út á sjó og selt til líbansks fyrirtækis. Árið 2006 eignast norska skipafélagið Wilson EuroCarries meirihluta í Nesskipum. Atlantsskip. Atlantsskip er íslenskt skipafélag sem var stofnað 1998. Fyrst um sinn sá Atlantsskip og Trans Atlantic Lines, systurfélag þess í Bandaríkjunum, um flutninga fyrir Bandaríkjaher fyrir herstöðina í Keflavík. Í apríl 2002 hóf fyrirtækið að sigla til hafna í Evrópu og í nóvember 2005 að sigla vítt og breitt um heiminn. Atlantsskip á og rekur tvö skip, "A.S. Africa" og "Kársnes", sem eru bæði skráð á Antígva og Barbúda. Músfuglar. Músfuglar (fræðiheiti: "Coliiformes") eru ættbálkur fugla sem allir lifa í Afríku sunnan Sahara. Kirsuberjatré. Kirsuberjatré eða sakura (japanskt kanji & kínverskir stafir: 桜 eða 櫻; katakana: サクラ). Sakura er japanska nafnið fyrir tréin "Prunus serrulata", og blómstur þeirra. Hyogo-hérað. er staðsett í Kinki svæðinu á Honshū eyjunni, Japan. Höfuðborgin er Kobe. Nafnið var áður einnig ritað Hiogo. Borgir. 29 borgir eru að finna í Hyogo héraðinu. Þrúgar. Þrúgar (fræðiheiti: "Trogoniformes") eru ættbálkur fugla sem inniheldur aðeins eina ætt "Trogonidae". Þessir fuglar lifa í hitabeltisskógum og flestar tegundirnar eru í Mið- og Suður-Ameríku. Þeir eru með breiðan gogg og veikbyggða fætur og lifa á ávöxtum og skordýrum. Frímerki. Frímerki er vottun á því að borgað hafi verið fyrirfram fyrir póstsendingu. Fyrsta frímerkið var gefið út í Bretlandi 1. maí 1840, hið svokallaða "Penny Black". Fram til þess tíma höfðu viðtakendur póstsendinga greitt fyrir sendingarkostnaðinn. Með tilkomu frímerkisins færðist greiðsluskyldan nú yfir til sendandans. Fjöldi póstsendinga í Bretlandi tvöfaldaðist á rúmlega ári við þessa einföldu breytingu. Gagnsiðbótin. Gagnsiðbótin er tímabil í sögu Evrópu sem náði frá miðri 16. öld til loka 17. aldar og einkenndist af tilraunum kaþólsku kirkjunnar til að stöðva framrás mótmælendatrúar, bæði með því að reyna að útrýma mótmælendatrú í kaþólskum löndum og reyna að endurheimta þau lönd sem tekið höfðu upp mótmælendatrú og eins með gagngerum umbótum innan kaþólsku kirkjunnar. Gagnsiðbótin á sér upphaf í kirkjuþinginu í Trentó 1545 til 1563. Einn þáttur gagnsiðbótarinnar var stofnun nýrra trúarreglna eins og Jesúítareglunnar (1534). Eins var rannsóknarrétturinn efldur og honum gert að fást við mál mótmælenda í kaþólskum löndum. Sigfús Blöndal. Dr. Sigfús Blöndal (1874 – 1950) var bókavörður við "Konunglega bókasafnið" í Kaupmannahöfn, er þekktastur fyrir íslensk-danska orðabók, sem hann samdi ásamt eiginkonu sinni, Björg Caritas Þorláksson. Vinna þeirra hjóna við orðabókina stóð í tæp tuttugu ár, en hún kom fyrst út á árunum 1920 – 1924 og hefur síðar tvisvar verið ljósprentuð eftir frumútgáfunni. Viðbætir var gefinn út 1963; ritstjórar hans voru Halldór Halldórsson og Jakob Benediktsson. "Blöndalsbókin" eða "Orðabók Blöndals", eins og hún er oftast kölluð, er ómissandi heimild um íslenska tungu, og mun seint missa gildi sitt. Ýmsir - Danslagakeppni Útvarpsins. Úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins er 33-snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni flytja ýmsir tónlistamenn úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins, veturinn 1966. Útsetningar og hljómsveitarstjórn voru í höndum Magnúsar Ingimarsson. Ljósmynd á framhlið tók Gunnar Hannesson. Karíbamál. Karíbamál eða karíba tungumál eru tungumál sem töluð eru í Mið-Ameríku og Suður-Ameríku. Elly Vilhjálms - Lög úr söngleikjum og kvikmyndum. Elly Vilhjálms er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni flytur Elly Vilhjálms ásamt Hljómsveit Vic Ash lög úr söngleikjum. Útsetningar gerði Tony Russell trombónleikari. Forsíðumynd, Óli Páll Kristjánsson. Þorvaldur Halldórsson - Syngur sjómannalög. Þorvaldur Halldórsson - Syngur sjómannalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni syngur Þorvaldur Halldórsson sjómannalög. Útsetningar og hljómsveitarstjórn, Ingimar Eydal. Forsíðumynd, Bragi Hinriksson. Bisingen. Bisingen er bær í sýslunni Zollernalbkreis í Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar bæjarins eru rétt innan við tíu þúsund talsins. Landshöfðingi. Landshöfðingi var æðsti embættismaður danska ríkisins á Íslandi á árunum 1873-1904, er Ísland var enn hluti af því. Landshöfðingi sat á Alþingi fyrir hönd konungs og veitti umsagnir um frumvörp sem bárust konungi til staðfestingar. Við hann er kennt Landshöfðingjatímabilið í íslenskri sögu. Landshöfðingjanum til aðstoðar var landshöfðingjaritari. Landshöfðingjaembættið var stofnað árið 1872 með setningu Stöðulaganna og tók embættið við embætti stiftamtmanns. Þegar Hilmar Finsen var skipaður fyrsti landshöfðingi Íslands árið 1873 varð það tilefni mikils hneykslismáls. Með þessu þótti mörgum Íslendingum Danir ganga of langt í stjórn sinni á Íslandi þar sem Hilmar var dansk-íslenskur, fæddur og uppalinn í Danmörku og þótti þannig líklegri til að taka málstað Dana heldur en Íslendinga (sjá Landshöfðingjahneykslið). Enn fremur voru Stöðulögin sett einhliða af hálfu danska þingsins og voru Íslendingar ekki hafðir með í ráðum. Á þessu var þó ráðin nokkur bót árið 1874 þegar Íslendingar fengu nýja stjórnarskrá. Maria. Maria er íslenskt kvenmannsnafn. Marit. Marit er íslenskt kvenmannsnafn. Rökhenda. Rökhenda (gríska: συλλογισμός) er sú rökfræðilega leiðsla að niðurstöðu sem dregin er út frá tveimur forsendum (sem einnig mætti nefna fullyrðingar). Saman mynda þessar tvær forsendur og niðurstaðan rökhendu. Ef forsendurnar eru ósannar, eða stækar alhæfingar, getur niðurstaðan orðið röng. Notkun rökhenda til að leysa guðfræðileg vandamál leiddi um 1100 af sér nýja fræðigrein, skólaspekina. Norðurkaríbamál. Norðurkaríbamál eru karíbamál sem eru og voru töluð í norðurhluta Suður-Ameríku. Þó það sé einhver munur sé á norðurkaríbamálum og suðurkaríbamálum, eru þau svipuð. Suðurkaríbamál. Suðurkaríbamál eru karíbamál sem eru og voru töluð í suðurhluta Suður-Ameríku. Þó það sé einhver munur sé á norðurkaríbamálum og suðurkaríbamálum, eru þau svipuð Makúsji-kabón tungumál. Makúsji-kabón tungumál eru tungumál frá flokkum norðurkaríbamál. Þessi tungumál eru talað bara í Gvæjana. Apalaí. Apalaí er karíbamál sem er talað í Brasilíu af u.þ.b. 450 manns. Vajana Tríó tungumál. Vajana Tríó tungumál eru tungumál frá flokkum norðurkaríbamál. Þessi tungumál eru talað í Venesúela og Súrínam. Kalínja. Kalínja ("Galibi") er karíbamál sem talað er af 10.000 manns í Brasilíu, Gvæjönu og Súrínam í Suður-Ameríku. Mapójó. Mapójó ("Wanai" eða "Mapayo") er karíbamál sem er útdautt. Gwen Stefani. Gwen Renée Stefani (f. 3. október 1969) er bandarísk söngkona, tískuhönnuður. Stefani er aðalsöngkona rokkbandsins No Doubt. Eftir að hafa skipt úr punk-rokki yfir í nútímalegri tónlist, færði þriðja breiðskífan þeirra, "Tragic Kingdom"(1995), þeim frægð og frama og seldist hún í yfir 16 milljónum eintaka umallan heim. Platan gaf af sér þrjár smáskífur, "Just a Girl", "Spider Webs" og "Don't Speak". Bandið hélt áframað vera vinsælt þegar það gaf út fjórðu breiðskífuna, "Return of Saturn" (2000) og "but Rock Steady" (2001) sem einblíndu á danstónlist og fékk jákvæða dóma. Gwen tók upp fyrstu sólóplötuna sína, "Love. Angel. Music. Baby.", árið 2004. Platan sótti innblástur í lög frá 9. áratugnum og seldist hún í yfir sjö milljónum eintaka um allan heim. Þriðja smáskífa plötunnar, "Hollaback Girl" var fyrsta lagið sem seldist í milljón eintökum í gegnum niðurhal. Önnur sólóplata Gwen, "The Sweet Escape" (2006) náði einnig miklum vinsældum. Að meðtaldri þáttöku sinni í No Doubt hefur Stefni selt yfir 40 milljón platna um heim allan. Paris Hilton. Paris Whitney Hilton (fædd 17. febrúar 1981 í New York-borg) er bandarísk leikkona, popp-söngkona og milljónaerfingi. Síðan 2003 hefur hún verið með þætti sem kallast The Simple Life ásamt Nicole Richie. Snemma á árinu 2007 fékk hún 42 daga fangelsisvist fyrir að keyra undir áhrifum áfengis. Jessica Simpson. Jessica Ann Simpson (fædd 10. júlí 1980) er bandarísk poppsöngkona og leikkona sem varð fræg seint á 10. áratugnum. Hún hefur átt sjö Billboard Top 40 smelli og á þrjár gullplötur og tvær tvöfaldar platínumplötur. Simpson lék með þáverandi eiginmanni sínum, Nick Lachey, í raunveruleikaþættinum "Newlyweds: Nick og Jessica". Hún kom sér inn á kántrímarkaðinn árið 2008 með plötunni "Do You Know". Æska og Ferill. Jesica fæddist í Abilene í Texas og er dóttir Tinu og Joe Truett Simpson, sem var prestur og sálfræðingur. Hún á yngri systur sem heitir Ashlee og er hún líka söngkona.Sem barn byrjaði hún að syngja í kirkjunni í bænum. 12 ára fór hún í misheppnaða áheyrnarprufu fyrir Mikka Mús klúbbinn. Þegar hún gekk í J.J. Pearce menntaskólann skrifaði hún undir samning við Proclaim Records, lítil Gospel plötuútgáfufyrirtæki. Hún tók upp samnefndu plötuna, "Jessica", en fyrirtækið fór á hausinn og var platan aldrei gefin út nema í litlu upplagi sem var fjármagnað af ömmu hennar. Þetta litla upplag fékk þó athygli og kom hún fram á tónleikum ásamt öðrum listamönnum eins og Kirk Franklin, God's Property og Cece Winans. Jessica hætti 16 ára í menntaskóla (hún kláraði prófið seinna) og eftir að forstjóri Columbia Records, Tommy Mottola, heyrði í Jessicu, fékk hún plötusamning. 1999 - 2001 "Sweet Kisses" og "Irresistible". Simpson gaf út fyrstu smáskífuna sína, "I Wanna Love You Forever", og náði hún 3. sæti á Billboard Hot 100 listanum árið 2000. Stuttu eftir það kom breiðskífan "Sweet Kisses" út. Til þess að styðja plötuna sína túraði Jessica með Ricky Martin og strákabandinu 98 Degrees og þar hitti hún Nick Lachey og byrjuðu þau saman stuttu eftir það. Eftir að hafa átt í sambandi í tvö ár, hvíldu þau sambandið. Eftir hryðjuverkin þann 11. september 2001, endurnýjuðu þau sambandið. Jessica sagði; " Eftir 11. september vissi ég að ég vildi aldrei aftur vera í burtu frá Nick restina af lífinu". 1181. a> páfi. Mynd úr handriti frá 12. öld. Pósturinn Páll. Pósturinn Páll er brúðumyndaröð sem sýnd var á Ríkissjónvarpinu. Fyrstu þættirnir voru gerðir árið 1981 og voru skriftaðir af barnabókahöfundinum John Cunliffe. Lagið "Pósturinn Páll" þekkja flest börn sem horft hafa á þættina. Lætur pakka og bréf í bílinn sinn. Börnin þekkja Pál og bílinn hans. Brosa og hlæja allir er Palli veifar. Kannski, vertu þó ekki of viss. Lætur pakka og bréf í bílinn sinn. 1146. a>. Upphafsstafur úr handriti frá 13. öld. 1155. a>. Mynd úr handriti frá 1188. Daley. Daley er íslenskt kvenmannsnafn. Dreki (nafn). Dreki er íslenskt karlmannsnafn. Jarfi. Jarfi (eða fjallfress) (fræðiheiti: "Gulo gulo") er stærsta landdýrið af marðarætt. Jarfi verður allt að 23 kíló að þyngd og getur unnið á stórum dýrum, og til eru dæmi þess að hann hafi ráðist á veikburða elg, en það er þó talið sjaldgæft. Jarfann er að finna allt frá norðanverðri Skandinavíu, og á stórum svæðum í Síberíu og sömuleiðis í norðanverðri Norður-Ameríku (Kanada og Alaska) og allt suður til Washingtonfylkis og Oregon í Bandaríkjunum. Jarfar hafa einnig fundist svo sunnarlega sem í Snæfjöllum ("Sierra Nevada") í Kaliforníu. Hér mætti þó nefna að jarfinn hefur lítil eyru, en einnig það að jarfinn nefnist "glotón" á spænsku. Vilníus. Vilníus (framburður: ['vilɲus], pólska: "Wilno") er höfuðborg og stærsta borg Litháen. Í desember 2005 bjuggu 553.904 manns í borginni og 900.000 manns á stórborgarsvæðinu. Nafn borgarinnar er leitt af á sem þar hjá rennur og nefnd er Vilnía. Ríga. Ríga (lettneska: Rīga) er höfuðborg Lettlands. Borgin er stærsta borg landsins og Eystrasaltsríkjanna. Í borginni búa 727.578 manns. Zagreb. Zagreb (framburður: [ˈzɑː.greb]) er höfuðborg og stærsta borg Króatíu. Borgin er vísindaleg, efnahagsleg og stjórnsýsluleg miðja landsins. Árið 2001 var íbúafjöldi borgarinnar 779.145 manns, en 1.088.841 á stórborgarsvæðinu. Sarajevó. Staðsetning Sarajevó innan Bosníu og Hersegóvínu. Sarajevó (með kýrillísku letri: Сараjево; framburður: ['sarajɛʋɔ]) er höfuðborg og stærsti þéttbýliskjarni Bosníu og Hersegóvínu. Árið 2006 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 420.000 manns. Sarajevo er staðsett í Sarajevodal í Bosníuhéraði, milli Dinaric alpanna. Áin Miljacka rennur í gegnum borgina. Saga Sarajevo er viðburðarík. Árið 1885 varð Sarajevo fyrsta borg Evrópu og önnur borg í heimi til að taka í notkun rafrænt sporvagnakerfi í allri borginni. Árið 1914 var Frans Ferdinand erkihertogi af Austurríki myrtur í borginni og varð það kveikjan að fyrri heimsstyrjöldinni. Árið 1984 voru vetrarólympíuleikarnir haldnir í Sarajevo. Árin 1992-1996 ríktu umsátursástand og blóðugt stríð í borginni í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Bosníu og Hersegóvínu. Hátt í 10.000 manns féllu og um 56.000 manns særðust í sprengjuárásum og árásum leyniskytta á borgara á meðan á umsátrinu stóð, auk þess sem stór hluti borgarinnar var lagður í rúst. Luciano Pavarotti. Luciano Pavarotti (f. 12. október 1935, d. 6. september 2007) var ítalskur lýrískur tenór og einn af frægustu óperusöngvurum síðustu áratuga tuttugustu aldar. Hann var frá Módena í Emilía-Rómanja á Norður-Ítalíu. Hann myndaði hinn gríðarvinsæla sönghóp Tenórana þrjá ásamt José Carreras og Plácido Domingo rétt fyrir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu á Ítalíu 1990 þegar þeir sungu saman á tónleikum í baðhúsi Caracalla í Róm. Upptaka frá tónleikunum varð ein mest selda hljómplata allra tíma með klassískri tónlist. Pavarotti hélt tónleika í Laugardalshöll á listahátíð í Reykjavík í júní árið 1980. Listahátíð í Reykjavík. Listahátíð í Reykjavík er listahátíð sem fram fer í Reykjavík í maí á hverju sumri. Hátíðin er safn margra menningarviðburða með þátttöku bæði íslenskra og erlendra listamanna og hefur stundum tekist að fá til landsins listamenn á barmi heimsfrægðar. Hún var fyrst sett 20. júní árið 1970 og var haldin annað hvert ár til ársins 2004 en hefur verið árlegur viðburður eftir það. 1978 til 1993 var Kvikmyndahátíð listahátíðar haldin í tengslum við hátíðina og var þá orðin elsta kvikmyndahátíð Norðurlanda. Hátíðin er aðili að European Festivals Association. Lene Alexandra. Lene Alexandra Øien (fædd 29. október 1981 í Trøgstad) er norsk fyrirsæta og poppsöngkona. Smáskífur. 2007: "My Boobs Are OK 13 (tala). 13 er náttúruleg tala. Talan á undan 13 er 12 og talan á eftir er 14. Þegar krakkar verða þrettán ára eru þeir orðnir táningar. Rómverska táknið fyrir 13 er XIII, og sumir telja að talan 13 sé ógæfutala t.d. föstudagurinn 13 er óhappadagur. Þjóðtrú. Þjóðtrú er trú og siðir sem falla utan hefðbundinna trúarbragða og flytjast milli kynslóða í tiltekinni menningu. Hluti af þjóðtrú er ýmis konar hjátrú, trú á hið yfirnáttúrulega og kreddur. Eldgígur. Eldgígur er hringlaga dæld í eldstöð með aðfærslugöng þaðan sem bráðið hraun og gas getur borist upp á yfirborðið í eldgosi. Strandferðaskip. a> en er nú notað sem afleysingaskip. Strandferðaskip er skip sem flytur minni farm og farþega milli nokkurra hafna á einni strandlengju eftir tiltekinni siglingaáætlun. Á Íslandi voru strandferðaskip í notkun allt þar til innanlandsflug varð almennt á síðari hluta 20. aldar. Sum nútímastrandferðaskip, eins og Hurtigruten í Noregi, eru nú aðallega notuð sem skemmtiferðaskip. Daniel Barenboim. Daniel Barenboim (f. 15. nóvember 1942 í Buenos Aires) er argentínsk-ísraelskur píanóleikari og hljómsveitarstjóri af rússneskum gyðingaættum. Hann er meðal annars þekktur fyrir samstarf sitt við Edward Said og árið 2001 vakti hann mikið umtal fyrir að stjórna flutningi á tónlist Wagners. Slippur. Slippur eða skipasmíðastöð er staður þar sem skip eru smíðuð, tekin upp til viðgerða og rifin. Slippurinn Akureyri. Slippurinn Akureyri (áður Slippstöð Akureyrar) er slippur á Akureyri sem fæst við skipasmíðar, viðgerðir og viðhald skipa. Slippstöð Akureyrar var stofnuð árið 1952 og tók þá á leigu dráttarbrautina sem hafði verið reist á vegum hafnarnefndar bæjarins árið 1949. Slippstöðin varð gjaldþrota árið 2005 en var endurreist af fyrrum starfsmönnum þess og fleiri fyrirtækjum á Akureyri undir heitinu Slippurinn Akureyri ehf. Helvíti. Helvíti eða Víti er í ýmsum trúarbrögðum staður þar sem sálir hinna fordæmdu dvelja og þar sem syndurum er refsað eftir dauðann. Nafnið er samsett úr orðunum hel („ríki hinna dauðu“) og víti („refsing“ eða „bann“). Samheiti. Helvíti á sér mörg samheiti á íslensku. Þau eru til dæmis: "djöfladíki", "heljardíki", "kvalastaður", "Niðurkot" (sbr. sá gamli í Niðurkoti), "verri staðurinn" og "ystu myrkur" (sbr. í ystu myrkrum). 1150. Kort sem sýnir útbreiðslu Roma-fólks (sígauna) í Evrópu á miðöldum. Eberg. Eberg er íslenskt karlmannsnafn. 14 (tala). 14 er náttúruleg tala. Talan á undan 14 er 13 og talan á eftir er 15. Christina Aguilera. Christina María Aguilera (f. 18. desember 1980) er bandarísk poppsöngkona og lagasmiður. Aguilera birtist fyrst í sjónvarpi árið 1990 en þá var hún keppandi í Star Search þættinum og lék síðar í Mikka Músar klúbbnum á Disney-stöðinni á árunum 1993-1994. Aguilera skrifaði undir samning við RCA Records eftir að hafa tekið upp lagið „Reflection“ fyrir Disney-myndina Mulan. Árið 1999 gaf Aguilera út fyrstu plötuna sína, "Christina Aguilera", sem fékk góðar viðtökur og gaf platan af sér fjóra smelli, „Genie in a Bottle“, „What a Girl Wants“, „I Turn To You" og „Come On Over Baby (All I Want Is You)“. Plata í Suður-Amerískum stíl, "Mi Reflejo" (2001) og nokkrir dúettar komu í kjölfarið og hjálpaði Aguilera að ná heimfrægð, þrátt fyrir að ekki öllum líkaði hvað hún lagði lítið í tónlist og ímynd sína. Eftir að hafa sagt umboðsmanni sínum upp, tók Aguilera stjórnina á næstu plötu sinni, "Stripped" (2002), og náði önnur smáskífa hennar, „Beautiful“, miklum vinsældum. Þriðja stúdíóplata Aguilera, "Back to Basics" (2006), innihélt lög í sálar, jass og blús-stíl og fékk mikið lof gagnrýnenda. Fjórða plata Aguilera, "Bionic" kom út í júní 2010. Fyrir utan að vera þekkt fyrir mikið raddsvið, tónlistarmyndbönd og myndir, tónlistarlega, koma ýmis atriði úr hennar persónulega lífi, eins og æska hennar og fleiri þættir, til þegar hún semur tónlistina sína. Hún hefur ekki aðeins unnið í tónlist en hún hefur einnig verið talsmaður ýmissa góðgerðarfélaga, mannréttinda og heimsvandamála. Aguilera hefur unnið nokkur verðlaun, þar á meðal fjögur Grammy-verðlaun og Latin Grammy-verðlaun, ásamt 15 tilnefningum til Grammy-verðlauna. Tímaritið "Rolling Stone" setti hana í 53. sæti á lista þeirra yfir 100 bestu söngvara allra tíma og var hún yngsti og eini tónlisarflytjandinn undir þrítugu. Hún er einn farsælasti tónlistarmaður áratugarins, með 50 milljónir platna og yfir 50 milljón smáskífur seldar um allan heim, hún er því ein af söluhæstu tónlistarmönnum samtímans. Árið 2010 fékk Christina stjörnu á Hollywood Walk of Fame og hún var einnig fyrst til að fá stjörnu á Hollywood Gay Walk of Fame. Hún er ötull stuðningsmaður samkynhneigðra. Barnæska. Christina fæddist í Staten Island í New York ríki. Foreldrar hennar voru Fausto Wagner Xavier Aguilera og Shelly Loraine Fidler. Faðir hennar vann í hernum en mamma hennar var spænskukennari. Faðir Christinu var fæddur í Ekvador en mamma hennar er bandarísk. Faðir Christinu var í flughernum og var meðal annars staðsettur í Japan en þar bjó fjölskyldan um nokkurt skeið. Foreldrar Christinu skildu þegar hún var sjó ára gömul. Samkvæmt Christinu og móðir hennar var faðir hennar mjög stjórnsamur og ofbeldisfullur og beitti bæði Christinu og móðir hennar miklu ofbeldi. Í viðtali við "Rolling Stone" sagði Christina „there was so much domestic violence going on when I grew up with my dad travelling in the military. I think the reason that my drive was so strong and I was so passionate about music was because I grew up in an environment of domestic violence.“ Hún hefur sungið um þessa erfiðu lífsreynslu í tvemur lögum. I'm OK sem var á Stripped og Oh Mother sem var á Back To Basics. Móðir Christinu flúði með dóttir sína til ömmu Christinu og bjuggu þær þar þangað til að Christina öðlaðist frægð. Þó að faðir hennar hefur margoft reynt að tengjast dóttir sinni aftur hefur hún útilokað það. Móðir hennar er nú gift sjúkraliða sem heitir Jim Kearns og hefur breytt nafni sínu í Shelly Kearns. Christina á yngri systur sem heitir Rachel og bróður sem heitir Mikey. Fjölskyldulíf. Christina giftist tónlistarframleiðandanum Jordan Bratman árið 2005. Þau eignuðust saman strákinn Max Liron árið 2008, nafnið þýðir á hebresku „our song“. Christina og Jordan skildu í lok árs 2010 eftir fimm ára hjónaband og deila forræði yfir Max. Burlesque og The Voice. Árið 2009 hófust tökur á kvikmyndinni Burlesque en Christina lék aðalhlutverið í þeirri mynd. Myndin kostaði um 55 miljónir dollara og þénaði rétt rúmlegar 100 miljónir dollara í kvikmyndahúsum og vel á þriðja tug miljóna dollara í DVD og Blue-Ray sölu. Hljómplatan sem fylgdi myndinni hefur selst í um hálfri miljón eintökum. Árið 2011 tók Christina að sér að vera leiðbeinandi í nýjum raunveruleikaþætti á Bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC sem heitir The Voice. Önnur sería þáttanna var frumsýnd í lok árs 2011 með sömu leiðbeinendum. Aðrir leiðbeinendur í þáttunum eru Blake Shelton, Adam Levine og Cee Lo Green. Kynnir þáttanna er Carson Daly. Þættirnir eru sýndir um allan heim. Sumarið 2011 var gefið út að Christina fær greiddar $225.000 fyrir hvern þátt. Adam Levine og hljómsveit hans Maroon 5 og Christina unnu saman að lagi á meðan á þáttunum stóð. Lagið Moves Like Jagger hlaut miklar vinsældir um allan heim og hefur var eitt vinsælasta lag í heimunum frá því að það var gefið út, þá er myndbandið eitt það vinsælasta á iTunes. Lagið fór í fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum 1. September 2011 og varð því fimmta lagið sem Christina hefur náð á topp listans á ferli sínum, lagið sat í fyrsta sæti listans í fjórar vikur en síðan í öðru sæti. Lagið varð einnig mjög vinsælt á Íslandi og fór á toppinn á Íslenska Listanum á FM957 og var einnig vinsælt á Kananum og Bylgjunni. Það náði öðru sæti á Lagalista Tónlist.is. Borgarvirki. Borgarvirki er klettaborg á ásunum milli Vesturhóps og Víðidals, og er 177 metra yfir sjávarmáli. Borgarvirki er gosstapi með 10-15 metra háu stuðlabergslagi efst. Það myndaðist viið eldgos á hlýskeiði ísaldar en þá rann grágrýtislag út Víðidal. Efst í virkinu er skeifulaga dæld, um 5-6 metra djúp og er eitt skarð út úr því að austanverðu. Þar er grjótveggur mikill en víðar á virkinu eru hlaðnir grjótveggir sem margir voru fallnir. Á árunum 1940-1950 voru þessar hleðslur lagaðar. Inni í virkinu eru rústir af tveimur skálum og skammt frá þeim samanhruninn brunnur sem í eina tíð hefur verið nothæfur. Ekki er vitað hver byggði í Borgarvirki en hugsanlega hefur það verið Barði Guðmundsson frá Ásbjarnarnesi sem átti í deilum við Borgfirðinga og frá er sagt í Heiðarvíga sögu. Önnur tilgáta er sú að virkið hafi verið héraðsvígi á landnámsöld og að það hafi verið notað sem slíkt eitthvað fram eftir. Elínora. Elínora er íslenskt kvenmannsnafn. Listi yfir leiki í Landsbankadeild karla 2007. Listi yfir leiki í Landsbankadeild karla 2007er listi yfir alla leiki og úrslit spilaðra leikja í Landsbankadeild karla 2007. Eufemía. Eufemía er íslenskt kvenmannsnafn. Jennifer Lopez. Jennifer Lynn Lopez (fædd 24. júlí 1969) er bandarísk leik- og söngkona, plötuframleiðandi, dansari, fatahönnuður og sjónvarpsþáttaframleiðandi. Hún er ríkasta manneskjan af Suður-Amerískum ættum í Hollywood samkvæmt Forbes. Síðan 1999 hefur Lopez gefið út sjö plötur, m.a. tvær plötur sem hafa verið á toppi Billboard 200 listans og fjórar smáskífur í 1. sæti á Billboard Hot 100 listanum. Hún vann Bandarísku tónlistarverðlaunin árið 2003 fyrir "Uppáhalds Pop/Rokk söngkonuna" og Bandarísku tónlistarverðlaunin árið 2007 sem "uppáhalds söngkonan af Suður-Amerískum ættum". Hún hefur einnig leikið í mörgum kvikmyndum og unnið verðlaun og fleira. Fjölmiðlar hafa mikið fylgst með einkalífi hennar. Hún hefur átt í frægum samböndum við Ojani Noa, Cris Judd, Sean Combs, Ben Affleck og Marc Anthony. Fyrstu börn hennar, tvíburarnir Max og Emme, fæddust þann 22. febrúar 2008. Æska. Jennifer Lopez er fædd og uppalin í Suður-Bronx, New York, og eru foreldrar hennar frá Puertó Ríkó og heita Gudalupe Rodríguez sem er leikskólakennari og David Lopez sem er tölvusérfræðingur. Hún á tvær systur, Lyndu og Leslie. Jennifer eyddi allri skólagöngu sinni í kaþólskum skólum, og útskrifaðist úr stúlknaskólanum Preston High í Bronx. Hún borgaði sjálf söng- og danskennslu fyrir sig þegar hún var 19 ára. Eftir að hafa gengið í Baruch háskólann í hálft ár skipti hún tíma sínum á milli þess að vinna á lögfræðistofu, danstíma og þess að dansa á Manthattan á næturklúbbum. Hún fékk lítið hlutverk í kvikmyndinni "My Little Girl" árið 1987. Eftir marga mánuði af áheyrnarprufum fyrir danshlutverk, var hún valin sem dansari fyrir nokkur rapp-tónlistarmyndbönd í þætti af Yo! sem var sýndur á MTV árið 1990, hún var einnig bakdansari fyrir Kids on the Block. Eftir að hafa verið hafnað tvisvar, fékk hún fyrsta alvöru hlutverkið sitt sem "Fly Girl"dansari í grínþættinum "In Living Color" árið 1990. Stuttu eftir það var hún dansari hjá Janet Jackson og kom fram í myndbandinu við "That's the Way Love Goes" árið 1993. Kvikmyndir og sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk hennar sem leikkona var í FOX þáttaröðinni "South Central" og kom til vegna þess að framleiðandi þáttanna var giftur einni leikkonunni í "Fly Girl" og hann tók eftir Jennifer þegar FOX sýndi sérstakan þátt um þær. Lopez lék einnig í "Second Chances" og "Hotel Malibu". Hún lék síðan í sjónvarpsmyndinni "Nurses on the Line: The Crash of Flight 7". Árið 1996 sigraði hún Ashley Judd og Lauren Holly í slagnum um aukahlutverk í kvikmynd Francis Ford Coppola, "Jack" með Robin Williams í aðalhlutverki. Hún lék síðan á móti Jack Nicholson í hrollvekjunni "Blood and Wine". Fyrsta stóra hlutverkið kom árið 1997, þegar hún var valin í titilhlutverk kvikmyndarinnar "Selena" sem fjallar samnefnda poppsöngkonuna. Þrátt fyrir að hafa áður unnið með Nava í "Mi Familia", var Lopez látin fara í áheyrnarprufur áður en hún fékk hlutverkið. Hún fékk mikla athygli og lof fyrir frammistöðu sína og hlaut Golden Globe verðlaunin sem besta leikkonu í tónlistar- eða gamanmynd. Seinna þetta sama ár lék hún í tveimur stórum kvikmyndum. Hún lék í "Anaconda" með Ice Cube og John Voight og lék hlutverk Terri Flores, leikstjóra sem er að taka upp heimildarmynd á leið sinni í gegnum Amazon-skóginn. Þrátt fyrir að fá gríðarlega mikla athygli og hala miklu inn, fékk hún ekki góða dóma. Síðan lék hún aðalhlutverk í kvikmyndinni "U-Turn" sem er byggð á bókinni Stray Dogs og lék þá á móti Sean Penn og Billy Bob Thornton. Michael Jordan. 200pxMichael Jeffrey Jordan (fæddur 17. febrúar 1963 í Bandaríkjunum) er fyrrverandi körfuknattleiksmaður. Hann er af mörgum talinn einn af bestu körfuknattleiksmönnum allra tíma, ef ekki sá besti og var einn best markaðssetti íþróttamaður sinnar kynslóðar ásamt því að leika lykilhlutverk í að breiða út vinsældir körfuknattleiks á heimsvísu á 9. og 10. áratug 20. aldar. Hann lék lengst af ferli sínum í NBA deildinni með liði Chicago Bulls, en tvö síðustu árin var hann liðsmaður Washington Wizards. San José. Þjóðleikhús Kosta Ríka í San José. San José er höfuðborg og stærsta borg Kosta Ríka. Borgin er einnig höfuðborg San José umdæmis. Borgin er staðsett á hálendi landsins, á hásléttu sem nefnist Central Valley-sléttan og er 1.170 metra yfir sjávarmáli. Árið 2000 bjuggu 309.672 manns í borginni. Bratislava. Bratislava (framburður: [ˈbracɪslava]) er höfuðborg og stærsta borg Slóvakíu. Í borginni búa 455 761 manns (2010), en á stórborgarsvæðinu u.þ.b. 600.000. Bratislava er staðsett í suðvesturhluta Slóvaíku og í gegnum borgina rennur áin Dóná. Bratislava er eina höfuðborg heims sem á landamæri að tveimur löndum, Austurríki (Preßburg) og Ungverjalandi (Pozsony). Santó Dómingó. Staðsetning Santó Dómingó innan Dóminíska lýðveldisins. Santó Dómingó (fullt spænskt nafn: Santo Domingo de Guzmán) er höfuðborg og stærsta borg Dóminíska lýðveldisins. Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar var árið 2006 2.061.200 manns, á stórborgarsvæðinu 2.253.437 manns. Stórborgarsvæði Santó Dómingó er stærsta stórborgarsvæði Karíbahafsins. Timfú. Timfú (tíbetskt letur: ཐིམ་ཕུ་) er höfuðborg Bútan. Árið 2003 bjuggu um 50.000 manns í borginni og gerir það hana að stærstu borg landsins. Borgin er 2320 metra yfir sjávarmáli. Panare. Panare ("Eñapa") er karíbamál sem er talað í Venesúela í Suður-Ameríku af 3.000 - 4.000 manns. Patamóna. Patamóna ("Ingaricó") er karíbamál sem um 4.000 manns tala í Gvæjönu í Suður-Ameríku. Orðið „Ingariko“ þýðir "Kjarrfólk" á patamóna. Pemón. Pemón ("Pemong") er karíbamál sem er talað í Venesúela í Suður-Ameríku af 6.154 manns. Tíríjó. Tíríjó ("Tarëno ijomi") er karíbamál sem er talað í Brasíliu og Súrínam í Suður-Ameríku af 2.000 manns. Gígtappi. Gígtappi myndast þegar hraun storknar í gosrás á virku eldfjalli. Við þetta jarðfræðilega fyrirbæri verður mikill þrýstingur ef rokgjörn kvika festist undir tappanum en þá breytist eldgosið gjarnan í sprengigos. Rof geta síðar orðið til þess að steininn sem umlukti tappann hverfur svo hann stendur einn eftir. Heggstaðanes. Heggstaðanes eða Bálkastaðanes kallast nesið milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar. Er það framhald af Hrútafjarðarhálsi með áþekku landslagi en láglendara. Þar er mýrlent með melholtum á milli. Hæst er nesið utanvert, milli bæjanna Heggstaða (að austanverðu) og Bálkastaða (að vestanverðu), 184 metrar yfir sjávarmáli. Kallast landið þar Heggstaðaheiði. Sauðfjárrækt er mikil á nesinu; er það grösugt og mikil sauðalönd. Þar fóru fyrstu fjárskipti á Íslandi fram árið 1937 og var fé tekið á ný úr Norður-Þingeyjarsýslu. Þá er þar æðardúntekja - mest á Heggstöðum en einnig á Bálkastöðum og Bessastöðum. Yfir Heggstaðanesháls liggur malarvegur fær öllum fólksbílum en hann var mikið betrumbættur haustið 2006. Var þetta aðalvegurinn á nesinu lengst af þar sem fólk á nesinu hafði lítið að sækja fram í Hrútafjörð. Heggstaðanes tilheyrði Ytri-Torfustaðahreppi fram til ársins 1998 en er síðan hluti af Húnaþingi vestra. Kirkjusókn er að Melstað. Fjórir bæir eru á nesinu: Bessastaðir og Bálkastaðir að vestanverðu og Útibleiksstaðir og Heggstaðir að austanverðu. Útibleiksstaðir eru í eyði. Frá botni Miðfjarðar út á Heggstaðanestá eru 13,6 kílómetrar beina sjóleið en frá botni Hrútafjarðar eru 34,7 kílómetrar beina sjóleið, þar af 20,3 kílómetrar frá Heggstaðanestá að Reykjarifi í Hrútafirði. Á Heggstaðanesi er fjölskrúðugt fuglalíf og finnst mörgum skemmtilegt að ganga fyrir nesið frá Heggstöðum til Bálkastaða, eða öfugt. Þar má sjá fugla eins og hrafn, æðarfugl, fýl og kríu, að ógleymdum haferni ásamt ýmsum smáfuglum. Gídeon. Gídeon er íslenskt karlmannsnafn. Arnar Jónsson. Arnar Jónsson (f. 21. janúar 1943 á Akureyri) er best þekktur sem íslenskur leikari á sviði, í ýmsum kvikmyndum og í útvarpsleikritum. Hann er einnig leikstjóri og í stjórn golfklúbbsins Odds. Arnar er giftur Þórhildi Þorleifsdóttur. Leiklistarferill. Arnar er nú á samningi hjá Þjóðleikhúsinu. Hann hefur leikið í aðalhlutverki oftast allra íslenskra leikara á sviði, yfir 150 hlutverk og af því meira en 60 aðalhlutverk. Gabriel. Gabriel er íslenskt karlmannsnafn. Það er annar ritháttur nafnsins Gabríel. Auðunn Blöndal. Auðunn Blöndal, gengur einnig undir gælunafninu Auddi, (f. 8. júlí 1980 á Sauðárkróki) er íslenskur leikari og skemmtikraftur. 70 mínútur. Hann hóf feril sinn í þættinum 70 Mínútur á Popptíví árið 2001 með því að hjálpa Sigmari Vilhjálmssyni og Jóhannesi Ásbjörnssyni (ganga almennt undir gælunöfnunum Simmi og Jói) með falda myndavél. Síðar var Auðunn meira og meira í þáttunum og varð einn af stjórnendum þáttarins þegar Jóhannes hætti, en þá voru Auðunn, Sigmar og Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) með þáttinn. Þeir gáfu út diskinn "Besta úr 70 Mínútum" sem seldist í yfir 5.000 eintökum og "Besta úr 70 Mínútum 2" sem seldist í yfir 10.000 eintökum. Þeir gáfu einnig út diskinn "Besta úr 70 Mínútum 3". Sigmar hætti í þættinum 2003 og voru þeir Auðunn og Sverrir (Auddi og Sveppi) einir með þáttinn þar til í byrjun árs 2004 þegar Pétur Jóhann Sigfússon gekk til liðs við þá, en hann hafði leikið með þeim í "Svínasúpunni". Þeir stýrðu þættinum til 20.desember 2004 ásamt innslögum frá Huga Halldórssyni eða "Ofurhuga". Fyrir framlag sitt til þáttanna hlaut Auðun tilnefningu til Eddu verðlaunana sem sjónvarpsmaður ársins. Strákarnir. Þá færðu þeir sig yfir á Stöð 2 með þáttinn "Strákarnir" sem var með svipuðu sniði og 70 Mínútur nema bara 25 mínútur og ekki í beinni útsendingu, og allt fyrir fram unnið en 70 Mínútur var yfirleitt unnið samdægurs. Strákarnir gengu til ársins 2006 en þá hættu þeir samstarfinu í bili. Tekinn. Auðun byrjaði með þáttinn "Tekinn" þar sem hann hrekkti fræga einstaklinga með falinni myndavél. Þátturinn var til ársins 2007. Hann lék einnig þættinum "Stelpurnar" árið 2006 ásamt Pétri og Sverri. Árið 2008 lék hann í "Ríkinu", og 2009 stýrði hann þáttunum "Atvinnumennirnir Okkar" þar sem hann heimsótti fræga boltastráka frá Íslandi. Auddi og Sveppi. Hann og Sveppi hófu samstarf sitt á ný árið 2009 með þáttinn "Auddi og Sveppi" sem var á dagskrá til 2011. Árið 2010 var Auddi í þáttunum "Ameríski Draumurinn" ásamt Sveppa, Villa naglbít og Agli Einarssyni. Í þeim þáttum fóru þeir um öll Bandaríkin og söfnuðu stigum með áskorunum og földum myndavélum og alskonar þess háttar. FM95Blö. 2011 byrjaði hann með útvarpsþáttinn FM95Blö á FM957 þar sem hann er með einn aðstoðarstjórnanda á dag, og er þátturinn á hverjum virkum degi frá klukkan 16-18, og í þættinum tók hann upp ný nöfn og þau eru Blö Poop, Blö saurinn, the Poop. 2012 var hann í "Evrópska Draumnum" sem gekk út á nokkurn veginn það sama og "Ameríski Draumurinn" nema það að hann var tekinn upp í Evrópu. Með honum í þáttunum voru Sveppi, Pétur Jóhann og Steindi Jr.. Geiri. Geiri er íslenskt karlmannsnafn. Benedikt Erlingsson. Benedikt Erlingsson (f. 31. maí árið 1969) er íslenskur leikari. Hann líklegast best þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Fóstbræður. Hulda (skáld). Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, fædd 6. ágúst 1881, látin 10. apríl 1946) var íslenskt ljóðskáld og rithöfundur. Hún sendi frá sér fjölda bóka en er þekktust fyrir þjóðhátíðarljóð sitt sem oftast gengur undir nafninu "Hver á sér fegra föðurland" og vann ásamt ljóði Jóhannesar úr Kötlum til verðlauna í ljóðasamkeppni sem efnt var til í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944. Hún átti líka stóran þátt í að endurvekja þulur sem bókmenntagrein. Ævi. Unnur var dóttir Benedikts Jónssonar bónda og félagsmálafrömuðar á Auðnum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu og konu hans Guðnýjar Halldórsdóttur. Hún ólst upp hjá þeim á miklu menningarheimili, þar sem Bókafélag Þingeyinga var meðal annars til húsa, og hlaut góða menntun hjá foreldrum sínum og heimiliskennurum. Hún stundaði einnig nám í einkatímum í Reykjavík 1903-1904. Unnur giftist árið 1905 Sigurði Sigfússyni frá Halldórsstöðum í Reykjadal og tóku þau sér ættarnafnið Bjarklind. Sigurður var lengi kaupfélagsstjóri á Húsavík og bjuggu þau þar. Unnur las alla tíð mikið og leitaði sér fróðleiks, meðal annars fór hún tvisvar í utanlandsferðir til að kynna sér menningu og hætti annarra þjóða, sem þá var fátítt að íslenskar húsmæður gerðu, fyrst til Englands og Danmerkur 1910-1911 og svo til Norðurlanda og Englands 1922. Hún dvaldi meðal annars um tíma hjá Íslandsvininum prófessor William A. Craigie í Oxford. Skáldaferill. Hún fór ung að yrkja og birtust fyrstu ljóð hennar á prenti í nóvember 1901, þegar hún var tvítug að aldri, í kvennablaðinu Framsókn, undir skáldanafninu "Hulda" sem hún notaði eftir það. Á næstu árum birti hún fáein ljóð í tímaritum. Þau þóttu nýstárleg og formfögur og vöktu þegar athygli skálda eins og Matthíasar Jochumssonar, Þorsteins Erlingssonar og Einars Benediktssonar, sem orti til hennar kvæði og hvatti hana til dáða. Fyrsta ljóðabók Huldu, "Kvæði", kom út árið 1909. Alls komu út eftir hana átján bækur - ljóðabækur, smásögur, skáldsaga í tveimur bindum, ævintýri og fleira. Þótt verk Huldu fengju góða dóma og afköst hennar væru mikil jafnhliða erilssömu húsmóðurstarfi og erfiðum veikindum, en Hulda var heilsulaus mörg síðustu ár ævinnar og oft rúmföst, taldist hún ekki til þekktari skálda þjóðarinnar. Því kom það mörgum mjög á óvart þegar ljóð hennar var annað tveggja sem fengu fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni sem efnt var til í tilefni þess að Ísland fékk sjálfstæði 1944 og var ljóðið flutt á hátíðinni. Ljóðin voru send inn undir dulnefni en sögusagnir fóru seinna á kreik um að dómnefndin hefði ætlað að láta Davíð Stefánsson fá verðlaunin (hann sendi raunar ekki inn ljóð í keppnina) og hefði talið að Hver á sér fegra föðurland væri verk hans þar sem umslagið sem ljóðið barst í hefði haft póststimpil frá Akureyri. Sú saga fær þó varla staðist því Hulda og maður hennar höfðu flutt til Reykjavíkur 1935. Hulda dó í Reykjavík árið 1946 eftir langvinn og erfið veikindi, 64 ára að aldri. Verk. Úrval verka Huldu kom út í bókinni "Ljóð og laust mál" árið 1990. Ásta Sóllilja. Ásta Sóllija er persóna í hinni íslensku sögu Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Hún er barn Rósu og Ingólfs en fæðist eftir að Bjartur giftist Rósu. Móðir hennar lést við fæðingu hennar. .jp. .jp er þjóðarlén Japans. .jo. .jo er þjóðarlén Jórdaníu. .jm. .jm er þjóðarlén Jamaíku. .je. .je er þjóðarlén Jerseyjar. .kp. .kp er þjóðarlén Norður-Kóreu. .ke. .ke er þjóðarlén Kenýa. .kg. .kg er þjóðarlén Kirgistans. .kh. .kh er þjóðarlén Kambódíu. .ki. .ki er þjóðarlén Kíribatí. .km. .km er þjóðarlén í Kómoreyjum. .kn. .kn er þjóðarlén í Sankti Kristófer og Nevis. .kr. .kr er þjóðarlén Suður-Kóreu. .kw. .kw er þjóðarlén Kúveit. Sálin hans Jóns míns (hljómsveit). a> í Sálinni hans Jóns míns á Nasa Sálin hans Jóns míns er íslensk hljómsveit sem spilar rokk, og er úr Reykjavík. Nafnið er dregið af því að í upphafi lék hljómsveitin sálartónlist og einn af stofnendunum hét Jón, en jafnframt vísar það í íslenska þjóðsögu. Saga. Snemma árs 1988 ákváðu þeir Guðmundur Jónsson, Jón Ólafsson og Stefán Hilmarsson að stofna nýja hljómsveit, og fengu þeir Rafn Jónsson trymbil, og Harald Þorsteinsson til liðs við sig. Þeir héldu sína fyrstu tónleika í Bíókjallaranum við Lækjargötu 10. mars 1988, og telst það stofndagur hljómsveitarinnar. Framan af var nokkuð um mannaskipti, en skipanin hefur verið nokkuð óbreytt frá 1999. Þess má geta að einu meðlimir núverandi hljómsveitar sem hafa verið frá upphafi eru Stefán Hilmarsson og Guðmundur Jónsson. En strax árið eftir að hljómsveitin var stofnuð(1989) gengu til liðs við þá Friðrik Sturluson og Jens Hansson og því má segja að þeir hafi næstum verið með frá upphafi. Fyrsti smellur hljómsveitarinnar var "Á tjá og tundri". Á ferli sínum hafa þeir samið fjölmörg vinsæl lög, m.a.: "Undir þínum áhrifum", "Hjá þér" og "Okkar nótt". Sérstakur aðdáendaklúbbur var stofnaður um 2003, og heitir hann "Gullna liðið". Á 20 ára afmæli sveitarinnar voru 1.389 manns skráðir í klúbbinn. Plötur Sálarinnar. Í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar, 2008, sendi hún frá sér safnútgáfu með ofangreindum plötum, og ber hún nafnið "Vatnaskil". Góðan dag. Góðan dag eða góðan daginn er íslenskt ávarp. Skegg. Skegg er hárvöxtur í andliti karla. Skeggvöxtur er karlmönnum eðlislegur, en konum getur einnig vaxið skegg við vissar aðstæður. Skeggstæði á karlmönnum nefnist "granstæði", "skeggstæði" eða "mumpur"."Hýjungur" eða "horlopi" er gisið og mjúkt skegg (oft á yngri mönnum). Hár. Hár kallast próteinútvextir úr hársekkjum í leðurhúð spendýra. Hár er aðallega úr hyrni, löngum amínósýrukeðjum. Jurtir, s.s. vallhæra, bera annars konar hár; en skordýr hafa hár úr kítíni. .tm. .tm er þjóðarlén Túrkmenistans. .nr. .nr er þjóðarlén Nárú. .vu. .vu er þjóðarlén Vanúatú. Jaworzno. Jaworzno er bær í Suður-Póllandi þar sem búa 96,600 manns (2005). Bærinn er staðsettur í Sílesíuhéraði (síðan 1999), en áður var hann í Katowice-héraði (1975–1998). Flosi Ólafsson. Flosi Ólafsson (27. október 1929 – 24. október 2009) var íslenskur leikari, leikstjóri, hagyrðingur og rithöfundur. Flosi leikstýrði áramótaskaupinu þrisvar sinnum; árin 1968, 1969 og 1970. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1953, nam leiklist við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins á árunum 1956 til 1958 og leikstjórn og þáttagerð hjá Breska ríkisútvarpinu (BBC) frá 1960 til 1961. Flosi leikstýrði fjölda leikrita og þátta fyrir útvarp og sjónvarp og lék sjálfur og söng í fjölmörgum uppfærslum Þjóðleikhússins og í fjölda kvikmynda. Flosi var líka mikill hestamaður. Fjölskylda. Flosi var sonur Ólafs Jónssonar (1905-1989) verslunarmans og Önnu Oddsdóttur, síðar Stephensen (1908-1980) kaupkonu. Kjörforeldrar Flosa voru Flosi Sigurðsson (1874-1952) trésmiður og Jónína Jónatansdóttir (1869-1946) húsmóðir. Flosi var giftur Lilju Margeirsdóttur og þau eignuðust eitt barn. Fyrir átti Flosi eina dóttur .gq. .gq er þjóðarlén Miðbaugs-Gínea. .gg. .gg er þjóðarlén Guernsey. .pl. .pl er þjóðarlén Póllands. Austurlönd. Kort sem sýnir lausleg landamörk Austurlanda eins og þau voru kölluð fyrir nýöld með rauðu. Austurlönd eiga ýmist við um lönd allrar Asíu eða í sértækari merkingu ákveðin lönd í Asíu. Talað erum "Austurlönd nær" og "fjær". Fyrir nýöld áttu Austurlönd gjarnan við um svipað svæði og það sem við köllum "Austurlönd nær" í dag, þ.e. Botnalönd og svo hluta Tyrklands, Mesópótamíu, Írans og Egyptalands. Það svæði er á mörgum tungum nefnt "Levant" sem kemur úr latínu og vísar til þess að austur er átt rísandi sólar. Þetta svæði er þó illa skilgreint. Botnalönd. Botnalönd eru þau lönd sem eru fyrir botni Miðjarðarhafs, sem er í raun austasti hluti hafsins. Í hefðbundinni merkingu í dag er átt við Ísrael, Jórdaníu, Sýrland og Líbanon. Þó eiga Egyptaland og Tyrkland landamæri að þessum ímyndaða botni. Botnalönd ásamt Arabíuskaga og Íran nefnast svo Mið-Austurlönd. Þetta svæði hefur í svipaðri merkingu verið nefnt Austurlönd, Palestína, Kanaansland o.fl. Hedí. Hedí er íslenskt kvenmannsnafn. Heiðarr. Heiðarr er íslenskt karlmannsnafn. Bern. Bern er höfuðborg Sviss og jafnframt fjórða stærsta borgin í landinu með rúmlega 120 þúsund íbúa. Bern er einnig höfuðborg kantónunnar Bern. Borgin var á 16. öld stærsta borgríki norðan Alpa. Sökum þess að miðborgin hefur haldið upprunalegu formi sínu var hún sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1983. Íbúarnir eru flestir þýskumælandi. Lega og lýsing. Miðborgin í Bern afmarkast af slaufu í ánni Aare Bern liggur við ána Aare vestarlega í Sviss og rétt austan við Neuchatelvatn. Næstu borgir eru Basel til norðurs (95 km), Lausanne til suðvesturs (100 km), Luzern til austurs (110 km) og Zürich til norðausturs (120 km). Aare myndar breiða slaufu í kringum miðborg Bern, sem afmarkar vel gömlu borgina. Innan borgarmarkanna búa 123 þús manns, en á stórborgarsvæðinu rúmlega 350 þús. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bernar er svartur björn á gulum fleti en tungan, klærnar og reðurinn eru rauð. Svartur litur bjarnarins táknar varnargetu, guli liturinn hið eðalborna blóð og rauði liturinn blóð feðranna. Björninn sjálfur er táknrænn fyrir heiti borgarinnar og var lögð rík áhersla á að hann sé karlkyns. Merki þetta kom fyrst fram 1224 og er notað bæði af borginni og kantónunni Bern. Orðsifjar. Bern merkir björn. Sagan segir að stofnandi borgarinnar hafi drepið björn á staðnum þar sem hann byggði borgina. En líklegra þykir að hann hafi nefnt borgina eftir ítölsku borginni Veróna, sem hét Bern á þýsku eða Wälschbern. Sömuleiðis kölluði Ítalir borgina Bern Verona. Upphaf. Berchtold V drepur bjarndýrið. Mynd úr Tschachtlan-annálunum Það var hertoginn Berchtold V af Zähringer-ætt sem stofnaði borgina Bern 1191 í stórri slaufu í ánni Aare. En 1218 dó Zähringer-ættin hins vegar út og varð Bern þá að hálfgerðri fríborg í þýska ríkinu. Rúdolf I af Habsborg, sem þá var konungur þýska ríkisins (sá fyrsti af Habsborg), staðfesti fríborgarstatusinn en setti þó skatt á borgina. Skattur þessi var mikill þyrnir í augum borgarbúa og reyndu þeir með aðstoð frá Búrgúnd og Savoy að komast undan yfirráðum Habsborgara. Árið 1289 réðust Habsborgarar gegn borginni og sigruðu borgarbúa í orrustunni við Schosshalde. Auk skattsins urðu þeir nú að greiða háar skaðabætur. 1298 dró aftur til orrustu. Að þessu sinni sameinuðust herir Habsborgara her frá borginni Fribourg. Í orrustunni við Dornbühl, rétt við vesturdyr Bernar, sigraði her Bernar. Við sigurinn varð Bern endanlega sjálfstætt borgríki. Hin svissneska Bern. Árið 1323 gerði Bern samning við svissneska bandalagið til að eiga öflugan bandamann í baráttunni við þýska ríkið. Stefna borgarinnar var sú að vinna meira land og auka áhrifin sín. Landvinningar fóru aðallega fram á kostnað Búrgúnd og Habsborgar. Árið 1339 var Habsborgurum nóg boðið og sendu her til að stöðva framgang Bernar. Í orrustunni við Laupen sigraði sameiginlegur her frá Bern og Sviss stóran her frá Habsborg og nokkrum bandamönnum. Samningurinn við svissneska bandalagið var endurnýjað 1341 en 1353 gekk borgin skrefið til fulls og fékk inngöngu í bandalagið. Bern varð þar með áttunda kantónan í Sviss. Borgríkið Bern. Elsta myndin sem til er af Bern, gerð af Matthäus Merian 1549. Sem kantóna hélt Bern áfram að vinna landsvæði af nágrannaríkjum. Á 15. öld voru landeignir Bernar orðnar svo miklar að talað var um ríkið Bern í stað borgarinnar Bern. Árið 1528 fóru siðaskiptin fram í Bern og áhrifasvæðum hennar. Þegar borgin hertók héraðið Vaud við Genfarvatn 1536 var Bern orðið að stærsta borgríki norðan Alpa. Ríkinu stjórnaði borgarráð en í því sátu milli 200 – 300 meðlimir. Forseti ráðsins kallaðist Schultheiss (formaður). Formennirnir voru kosnir til eins eða tveggja ára í senn, stundum lengur. Íbúar áhrifasvæða Bern voru ósáttir við hlutskipti sitt og gerðu endrum og eins uppreisn. En 1798 réðust Frakkar inn í Vaud og hertóku héraðið. Þeir réðust einnig inn í önnur héruð Sviss. Þrátt fyrir að borgarráð Bernar gafst upp, ákvað her borgarinnar að berjast gegn ofureflinu. Í orrustunni við Grauholz ("Gráaskóg") nálægt Bern sigruðu Frakkar og hertóku í kjölfarið borgina. Orrusta þessi markaði endalok Bernar sem borgríki. Bern missti auk þess flest héruð sín, svo sem Vaud, Aargau og fleiri. Höfuðborgin Bern. Vínarfundurinn úrskurðaði 1815 að Bern skyldi haldast án þeirra héraða sem Frakkar höfðu klipið af. Bern varð því að kantónuhöfuðborg. 1831 sagði borgarráðið af sér og fram fóru fyrstu borgarkosningar. Þingið í Sviss hafði fundað á ýmsum stöðum í landinu fram að þessu, til dæmis í Aarau og í Luzern. Mikill ágreiningur var innan Sviss að einhver borg yrði gerð að höfuðborg, þar sem engin ein borg skyldi vera mikilvægari en önnur. Því var ákveðið að Sviss skyldi ekki hafa höfuðborg heldur sambandsborg, þar sem þingið og stjórnin kæmu saman. Árið 1848 varð Bern fyrir valinu. Svisslendingar kalla Bern ekki höfuðborg heldur sambandsborg en stjórnmálalega séð er Bern höfuðborg Sviss. Borgin kom ekki við sögu í heimstyrjöldunum. Árið 1968 fengu konur kosningarétt í borginni og 1988 var kosningaaldurinn lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Í dag eru 20% íbúa Bernar útlendingar, flestir frá Þýskalandi, Ítalíu og Spáni. Helstu atvinnuvegir eru stjórnsýsla, iðnaður og ferðamennska. Í Bern er til að mynda hið kunna Toblerone súkkulaði framleitt. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Young Boys, sem ellefu sinnum hefur orðið svissneskur meistari (síðast 1986), sex sinnum bikarmeistari (síðast 1987) og einu sinni deildarbikarmeistari (1976). Íshokkífélagið SC Bern er eitt árangursríkasta félag í sinni grein í Sviss. Síðan íshokkídeildin var stofnuð 1959 hefur liðið tólf sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 2010). Meðalaðsókn liðsins á heimavelli er sú mesta í Evrópu. Heimavöllur liðsins var vettvangur HM í íshokkí 1971, 1990 og 2009. Helsta handboltafélag borgarinnar er BSV Bern, sem þrisvar hefur orðið svissneskur meistari (síðast 1985). Kvennahlaupið í Bern (Schweizer Frauenlauf) er stærsta kvennahlaupið í Mið-Evrópu, en þrettán þúsund þátttakendur hlaupa fimm eða tíu kílómetra. Auk þess er fimmtán kílómetra vegalengd fyrir göngu og norræna göngu (Nordic Walking). Viðburðir. Stærsta tónlistarhátíð borgarinnar er Gurtenfestival. Þeir voru settir á laggirnar 1977 og hafa verið haldnir árlega í júlímánuði síðan. Aðallega er um popp og rokk að ræða en einnig er leikið blús og hip hop. Af þekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum sem troðið hafa upp þar má nefna Billy Idol, Avril Lavigne, James Blunt, Placebo, Earth, Wind & Fire, Oasis, Motörhead, All Saints, Rammstein, Sinead O'Connor og ýmsa aðra. Karnevalið í Bern er tvíþætt. Það hefst 11. nóvember en þá er björninn í bjarnargryfjunni lokaður inni í Käfigturm (gamalt borgarhlið) fyrir vetrarsvefninn. Þremur mánuðum síðar hefst hið eiginlega karneval með því að björninn er vakinn og honum hleypt út á ný. Karneval þetta er þriðja stærsta sinnar tegundar í Sviss, á eftir Basel og Luzern. Vinabæir. Ólíkt öðrum svissneskum borgum hefur borgarráð Bernar ákveðið að viðhalda ekki vinabæjatengslum við aðrar borgir. Þessi ákvörðun var fyrst tekin 1979. Undantekning var þó gerð í sambandi við EM í fótbolta 2008, en þá tengdist Bern formlega vinaböndum við aðrar þátttökuborgir til skamms tíma: Basel, Genf, Zürich og Salzburg í Austurríki. Á hinn bóginn er borgarráð opið fyrir vinabæjatengslum í framtíðinni. Hlíðar. Hlíðar er hverfi í Reykjavík, en til þess telst Norðurmýri, Hlíðarhverfi, Hlemmur, Holt, Suðurhlíðar, Öskjuhlíð og Nauthólsvík. Í vestur markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Snorrabraut, gamla Flugvallarveg og Hlíðarfót. Í austur markast hverfið af línu sem dregin er eftir miðri Kringlumýrarbraut. Í norður markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Hverfisgötu og Laugaveg. Hlíðarnar heita eftir bænum "Varmahlíð" sem Sigurður Gíslason, lögregluþjónn, reisti í upphafi fjórða áratugar 20. aldar. Íbúar í hverfinu (Hlíðarhverfi og Norðurmýri) voru rúmlega 11.000 árið 2012. Hnikarr. Hnikarr er íslenskt karlmannsnafn. Hugbjört. Hugbjört er íslenskt kvenmannsnafn. Hvannar. Hvannar er íslenskt karlmannsnafn. Ákvörðun. Ákvörðun er hugmynd eða val um það sem maður kýs að gera í einhverri tiltekinni stöðu. Eggert Þorleifsson. Eggert Þorleifsson (fæddur 18. júlí 1952) er íslenskur leikari. Hann er meðal annars þekktur fyrir leik sinn með Karli Ágústi Úlfssyni í -líf myndum Þráins Bertelssonar og sem Dúddi rótari í kvikmynd Ágústs Guðmundssonar "Með allt á hreinu". Eggert hefur einnig talað inn á helling af teikimyndum og er hann líklega þekkastur fyrir að hafa talað fyrir allar persónur í upprunalegu íslensku útgáfu af ævintýrum Tinna. Fúnafútí. Fúnafútí er höfuðborg smáríkisins Túvalú. Árið 2002 bjuggu 4.492 í borginni sem gerir hana að þéttbýlasta kjarna landsins. Bessi Bjarnason. Bessi Bjarnason (f. 5. september 1930 - d. 12. september 2005) var íslenskur leikari. Majúró. Majúró (framburður: [məˈdʒuːroʊ]) er höfuðborg Marshalleyja. Árið 2004 voru íbúar Majúró 25.400 talsins. Elma Lísa Gunnarsdóttir. Elma Lísa Gunnarsdóttir (f. 7. september 1973) er íslensk leikkona. Bissá. Bissá er höfuðborg Gíneu-Bissá. Borgin stendur við Gebafljót sem rennur í Atlantshaf. Borgin er stærsta borg landsins, aðal höfn og stjórsýslu- og hernaðarleg miðja þess. Árið 2004 bjuggu 355.000 manns í borginni. Kisínev. Kisínev er höfuðborg Moldóvu, auk þess að vera stærsta borg, iðnaðar- og verslunarmiðja landsins. Borgin er í miðju landsins við ánna Bîc. Árið 2004 voru íbúar borgarinnar 647.513 talsins. Bújúmbúra. Bújúmbúra er höfuðborg Búrúndí. Hún er vestast í landinu á norðausturbakka Tanganyikavatns. Íbúafjöldi er áætlaður um 300.000. Borgin var áður lítið þorp sem hét Usumbura, vaxtartími hennar hófst 1889 á nýlendutíma Þjóðverja sem settu þar upp herbækistöð. Eftir fyrri heimsstyrjöldina komst hún í hendur Belga sem gerðu hana að miðstöð svæðisins Rúanda-Úrúndí. Eftir að Búrúndí varð sjálfstætt árið 1962 var nafninu breytt í núverandi nafn, Bujumbura. Tírana. Tírana (albanska: Tiranë eða Tirana) er höfuðborg og stærsta borg Albaníu. Árið 2005 bjuggu 823.093 í borginni og 1.034.344 á stórborgarsvæðinu. Honíara. Honíara er höfuðborg Salómonseyja. Árið 1999 bjuggu 49.107 í borginni. Malabó. Malabó (framburður: [ˈmæləboʊ]) er höfuðborg Miðbaugs-Gíneu. Íbúafjöldi borgarinnar hefur stækkað mikið á síðustu 10 árum og búa þar nú u.þ.b. 100.000 manns. Borgin stendur á norðurströnd Biokoeyju. Port-au-Prince. Port-au-Prince (framburður: [ˌpɔːrtəʊˈprɪns]); haítískt blendingsmál: Pòtoprens) er höfuðborg og stærsta borg Haítí. Mikil fólksfjölgun hefur orðið í borginni á undanförnum árum, sérstaklega í þjöppuðum fátækrahverfum og búa nú í henni 2,5-3 milljónir manns og 4 milljónir á stórborgarsvæðinu. Miklar skemmdir urðu á borginni eftir jarðskjálfta 12. janúar 2010 og mannfall talið gífurlegt. Blót. Að blóta er siður sem var iðkaður um norðurlöndin á tímum heiðinnar trúar sem felst í því að fórna lífi, stundum mannslífi eða dýri, eða verðmæti til goðanna. Sumum líkaði illa við þennan sið og stunduðu hann ekki en það er kallað að trúa á mátt sinn og megin. Menn blótuðu t.d. til Óðins til að ganga vel í stríði, en til að þakka honum fyrir hjálpina þurftu þeir að drepa þá sem þeir hefðu eðlilega tekið sem þræla og skemmt dýrmæti sem þeir fundu, með því að drepa þrælanna og "drepa" vopnin senda þeir þá í andlega heiminn þar sem Óðinn getur tekið við gjöfunum. Ef þeir gæfu ekkert til baka fyrir hjálpina við að vinna stríðið myndu þeir fá yfir sig ólukku. Svo var líka blótað á hátíðum sem allir tóku þátt í, en þar var ekki beðið um hjálp frá goðunum heldur þakkað fyrir velsælt tímabil. Orðið blót er líklega komið af blóð, þar sem blóð spilaði mikið hlutverk í fórnum og notað til að styrkja tengls sín við guðina líkt og þegar menn blanda blóði sínu saman, eins og Óðinn og Loki gerðu. Örn Árnason. Örn Árnason (f. 19. júní 1959 í Reykjavík) er íslenskur leikari, einn af meðlimum Spaugstofunnar og lék hann eitt sinn Afa í sjónvarpsþættinum Með Afa á Stöð 2. Örn er sonur Árna Tryggvasonar leikara. Jórdan. Jórdan (hebreska: נהר הירדן nehar hayarden, arabíska: نهر الأردن nahr al-urdun) er á sem rennur um Sigdalinn mikla. Áin er 251 kílómetri að lengd. Upphaf árinnar er nærri landamærum Líbanon þar sem fjórar ár renna saman og mynda Jórdan sem síðan rennur til Genesaretvatns og þaðan áfram til Dauðahafsins. Otaku. Otaku (katakana: オタク, kanji: 御宅) er japanskt hugtak sem notað er um manneskju haldna áráttu, oftast er átt við þá sem hafa mikinn áhuga á anime eða manga og oftast er það notað í niðrandi merkingu. Nostalgía. Nostalgía er hugtak sem merkt getur tvennt: ljúfsáran söknuð til fyrri tíma (þegar allt var einfaldara, betra, viðkomandi var yngri o.s.frv.) og í öðru lagi heimþrá. Orðið kom fyrst upp árið 1688, en það ár var "Johannes Hofer" (1669-1752), svissneskur læknastúdent, að reyna þýða þýska orðið "Heimweh" sem merkir heimþrá. Orðið nostalgía er samsett úr tveimur grískum orðum (νόστος = "nostos" = að snúa heim, and άλγος = "algos" = verkur/sársauki). Íslenska orðið "heimhugur" þýðir hið sama og þýska orðið, en "heimhugur" merkir "löngun, þrá til að komast heim". Orðið "nostalgía" fékk síðan víðtækari merkingu og merkir nú oftast söknuð til liðinna tíma. Aðalsteinn Bergdal. Aðalsteinn Bergdal (f. 1. desember 1949) er íslenskur leikari og tónlistarmaður. Hann ásasmt félaga sínum Skúla Gautasyni mynda leiklistardúetinn Skralli og Lalli, Skralli í leik Aðalsteins en Lalli í leik Skúla. Skralli og Lalli komu fyrst fram á sjónarsvið árið 2000 í leikritinu „Tveir misjafnlega vitlausir“. Agnar Jón Egilsson. Agnar Jón Egilsson (f. 13. ágúst 1973) er íslenskur leikari, leikstjóri og leikskáld. Ari Matthíasson. Ari Matthíasson (f. 15. apríl 1964) er íslenskur leikari. Atli Rafn Sigurðarson. Atli Rafn Sigurðarson (f. 16. september 1972 í Reykjavík) er íslenskur leikari. Bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi. Fyrstu bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 2. október 1955, 5 mánuðum eftir að bærinn fékk kaupstaðarréttindi og rúmu ári eftir sögulegar hreppsnefndarkosningar sem þurfti að endurtaka. 1955. Kosið var 2. október 1955. G-listi Óháðra kjósenda myndaði meirihluta, Finnbogi Rútur Valdimarsson var kjörinn fyrsti bæjarstjóri Kópavogs. Þegar Finnbogi var skipaður bankastjóri Útvegsbankans 1957 tók Hulda Jakobsdóttir eiginkona hans við stöðunni, fyrst kvenna til að gegna embætti bæjarstjóra á Íslandi. 1958. Kosið var 25. janúar 1958. Óháðir kjósendur þurftu að skipta um listabókstaf þar sem G hafði verið úthlutað í Alþingiskosningunum 1956. H-listi Óháðra kjósenda hélt sínum meirihluta. Hulda Jakobsdóttir gegndi áfram embætti bæjarstjóra. 1962. Kosið var 27. maí 1962. Sökum fólksfjölgunar í bænum var bæjarfulltrúum fjölgað um tvo. H-listi Óháðra kjósenda stofnaði til meirihlutasamstarfs með B-lista Framsóknarflokks. Hjálmar Ólafsson var kjörinn í embætti bæjarstjóra. Svandís Skúladóttir varð fyrsta konan sem tók sæti í bæjarstjórn sem aðalfulltrúi. 1966. Kosið var 22. maí 1966. H-listi og B-listi héldu áfram samstarfi. Hjálmar Ólafsson var endurkjörinn bæjarstjóri. 1970. Kosið var 31. maí 1970. D-listi og H-listi stofnuðu til samstarfs. Auglýst var eftir bæjarstjóra og var Björgvin Sæmundsson ráðinn. Um áramótin 1972-73 lýsti Eggert Steinsen því yfir að hann styddi ekki lengur meirihlutann. Fulltrúi F-listans, Hulda Jakobsdóttir fyrrum bæjarstjóri, gekk þá inn í meirihlutasamstarfið. 1974. Kosið var 26. maí 1974. Bæjarfulltrúum var aftur fjölgað um tvo vegna fólksfjölgunar. Framsóknarflokkurinn ásamt Frjálslyndum og vinstri mönnum buðu fram sameiginlegan I-lista. H-listinn bauð ekki fram en Alþýðubandalagið bauð fram í fyrsta sinn. Meirihluti var myndaður af D-lista og tveimur fulltrúum I-lista, framsóknarmönnunum. Sigurjón Hilaríusson af I-lista studdi ekki meirihlutann. Björgvin Sæmundsson var endurkjörinn bæjarstjóri. 1978. Kosið var 28. maí 1978. Klofningur varð í röðum sjálfstæðismanna, boðinn var fram listinn "Almennt borgaraframboð" með listabókstafinn S og óháðir borgarar buðu fram "Borgaralistann" með listabókstafinn K. A-listi, B-listi og G-listi mynduðu meirihluta. Björgvin Sæmundsson var endurráðinn bæjarstjóri, við lát hans 1980 var bæjarritarinn Bjarni Þór Jónsson ráðinn bæjarstjóri. 1982. Kosið var 22. maí 1982. A-listi, B-listi og G-listi héldu áfram samstarfi um meirihluta. Kristján H. Guðmundsson var ráðinn bæjarstjóri. 1986. Kosið var 31. maí 1986. A-listi og G-listi héldu áfram samstarfi en nú án B-lista. Kristján H. Guðmundsson var endurkjörinn bæjarstjóri. Hulda Finnbogadóttir, dóttir Huldu Jakobsdóttur og Finnboga Rúts Valdimarssonar, náði kjöri sem bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins. 1990. Kosið var 26. maí 1990. B-listi og D-listi mynduðu meirihluta. Sigurður Geirdal bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins var kjörinn bæjarstjóri, í fyrsta sinn síðan 1955 að bæjarfulltrúi varð jafnframt bæjarstjóri. 1994. Kosið var 28. maí 1994. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi, Sigurður Geirdal bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins gegndi áfram embætti bæjarstjóra. 1998. Kosið var 23. maí 1998. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi, Sigurður Geirdal oddviti Framsóknarflokksins gegndi áfram embætti bæjarstjóra. Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalistinn sameinuðust í framboði Kópavogslistans. 2002. Kosið var 25. maí 2002. Fyrrum Kópavogslisti bauð nú fram undir merkjum Samfylkingar og Vinstri-grænna. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi. Að samkomulagi varð að Sigurður Geirdal oddviti B-lista gegndi áfram embætti bæjarstjóra til 1. júní 2005 þegar oddviti D-lista, Gunnar I. Birgisson tæki við. Sigurður lést 2004 og tók þá næsti maður á B-lista, Hansína Á. Björgvinsdóttir við embætti bæjarstjóra þar til umsömdum tímamörkum var náð og Gunnar varð bæjarstjóri. Gunnar sagði af sér þingmennsku þegar hann tók við embætti bæjarstjóra, Sigurrós Þorgrímsdóttir bæjarfulltrúi tók við þingsæti hans sem fyrsti varamaður kjördæmisins. 2006. Kosið var 27. maí 2006. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi. Vinstri-grænir skiptu um listabókstaf. Gunnar I. Birgisson var áfram bæjarstjóri en sagði af sér embætti 2009 og við tók Gunnsteinn Sigurðsson. 2010. Kosið var 29. maí 2010. Meirihluti B-lista og D-lista féll. Tvö óháð framboð komu fram og fengu hvort um sig mann kjörinn. Meirihluti var myndaður af Samfylkingu, Vinstri-grænum, Næstbesta flokknum og Kópavogslista. Guðrún Pálsdóttir var kjörinn bæjarstjóri. Hildur Dungal hætti sem bæjarfulltrúi eftir að hafa flutt í Garðabæ og tók næsti maður á lista, Aðalsteinn Jónsson, við sem bæjarfulltrúi. Meirihlutinn sprakk í upphafi árs 2012 og þann 14. febrúar tók nýr meirihluti við, skipaður Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Kópavogslista. Ármann Kr. Ólafsson var kjörinn bæjarstjóri. Heimildir. Kópavogur B Veik beyging. Veik beyging er hugtak í málfræði. Veik beyging sagna. Sagnorð hafa ýmist veika eða sterka beygingu. Sterk beyging. Sterk beyging er hugtak í málfræði. Sterk beyging sagna. Sagnorð hafa ýmist veika eða sterka beygingu. Veikar sagnir hafa endinguna -ði-, -di-, -ti í þátíð eintölu 1. persónu (t.d. ég elskaði, ég faldi, ég henti). Flest sagnorð í íslensku hafa veika beygingu. Sterkar sagnir hinsvegar eru endingarlausar í þátíð 1. persónu eintölu. Sterkar sagnir eru aðeins eitt atkvæði. Sterk beyging lýsingarorða. Lýsingarorð sem er veikbeygt endar á sérhljóða í öllum föllum, bæði í eintölu og fleirtölu og standa oftast með nafnorði með ákveðnum greini. Hins vegar hafa lýsingarorð sem standa með nafnorðum án greinis oftast sterka beygingu. Sterk beyging nafnorða. Nafnorð eru sterk þegar þau enda ekki á sérhljóða (a, u, i, o..) í neinum föllum í eintölu með óákveðnum greini, og eru flóknari í beygingu en veik nafnorð: Enda alltaf á samhljóða í eignarfalli. 1166. a>. Þessi stytta er að vísu ekki úr bronsi. Hjálmar Ólafsson. Hjálmar Ólafsson (fæddur 25. ágúst 1924, lést 27. júní 1984) var bæjarstjóri Kópavogs frá 1962 til 1970. Hann var fyrsti formaður Samtaka sveitarfélaga á Suðvesturlandi. Hann var fyrsti formaður Norræna félagsins í Kópavogi og gengdi því embætti 1962-1968 og aftur 1972 til dauðadægurs 1984. 1974 varð hann formaður Norræna félagsins á Íslandi og síðar framkvæmdastjóri og sat í framkvæmdaráði Sambands norrænna félaga (FNF). Bæjarstjóri Kópavogs. Skjaldarmerki KópavogsKópavogur fékk kaupstaðarréttindi 1955, fyrir þann tíma hafði hann verið hreppur með oddvita. Fagott. Fagott (úr ítölsku: knippi, bundin) er tréblásturshljóðfæri á tónsviðinu fyrir neðan klarínettu. Fagott er langur tvöfaldur viðarhólkur sem oftast er gerður úr hlyni með tónblaði (tvíblöðungi) á bognu málmröri fyrir miðju. Fagott er stundum nefnt "lágpípa". Einnig er til kontrafagott sem er einni áttund neðar en venjulegt fagott. Björgvin Sæmundsson. Björgvin Sæmundsson (fæddur 4. mars 1930, lést 20. ágúst 1980) bæjarverkfræðingur Akraness 1958-1962 og bæjarstjóri á Akranesi frá 1962 til 1970 þegar hann var skipaður bæjarstjóri Kópavogs, gegndi hann því embætti til dánardægurs 1980. Bjarni Þór Jónsson. Bjarni Þór Jónsson (fæddur 18. febrúar 1946) var bæjarstjóri Siglufjarðar árin 1974 til 1979 þegar hann var ráðinn sem bæjarritari Kópavogs. Við andlát Björgvins Sæmundssonar 1980 var Bjarni Þór ráðinn bæjarstjóri Kópavogs og gegndi starfinu til 1982. Hann er nú skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg. Kristján Helgi Guðmundsson. Kristján Helgi Guðmundsson (fæddur 10. september 1943) var bæjarstjóri Kópavogs frá 1982 til 1990. Hann hafði áður verið félagsmálastjóri Kópavogs frá 1971. Sigurður Geirdal. Sigurður Ásgrímur Geirdal Gíslason (fæddur 4. júlí 1939 í Grímsey, lést 28. nóvember 2004) var bæjarstjóri Kópavogs frá 1990 til dánardægurs 2004. Árni Pétur Guðjónsson. Árni Pétur Guðjónsson (f. 19. ágúst 1951) er íslenskur leikari. Árni Pétur Reynisson. Árni Pétur Reynisson (f. 21. nóvember 1970) er íslenskur leikari. Hansína Á. Björgvinsdóttir. Hansína Ásta Björgvinsdóttir (fædd 18. janúar 1946 á Eyrarbakka) var bæjarstjóri Kópavogs frá 2004 til 2005, hún tók við embættinu við fráfall Sigurðar Geirdal. Hansína var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Kópavogs 1998-2006 og var formaður bæjarráðs Kópavogs 2005-2006. Gunnar Ingi Birgisson. Gunnar Ingi Birgisson (fæddur 30. september 1947 í Reykjavík) er fyrrum bæjarstjóri Kópavogs. Hann var formaður bæjarráðs Kópavogs frá 1990 til 2005 þegar hann tók við embætti bæjarstjóra. Hann var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi og síðar Suðvesturkjördæmi frá 1999 til 2005 þegar hann vék af þingi vegna bæjarstjórastarfa. Sigurrós Þorgrímsdóttir tók sæti hans. Gunnar tók stúdentspróf frá MR 1972 og lauk prófi í verkfræði frá HÍ 1977. Hann fór til Edinborgar og útskrifaðist með M.Sc.-próf í byggingaverkfræði frá Heriot-Watt University árið 1978. Hann lauk doktorsprófi í jarðvegsverkfræði frá University of Missouri í Bandaríkjunum 1983. Árni Tryggvason. Árni Tryggvason (f. 19. janúar 1924 að Víkurbakka á Árskógsströnd) er íslenskur leikari. Sigurrós Þorgrímsdóttir. Sigurrós Þorgrímsdóttir (fædd 16. apríl 1947) hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi síðan 1998, er fyrrum Alþingismaður og núverandi formaður Breiðabliks. Þegar Gunnar I. Birgisson tók við embætti bæjarstjóra í Kópavogi sagði hann af sér þingmennsku og Sigurrós sem fyrsti varamaður fór á þing í hans stað 1. október 2005. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2007 hafnaði hún neðar á listanum en hún sóttist eftir og dró framboð sitt til baka. Hún hefur verið formaður skólanefndar Menntaskólans í Kópavogi síðan 1998. Cachoeira do Sul. Cachoeira do Sul er borg í Brasilíu með yfir 90 þúsund íbúa (2006). Síðmiðaldir. Síðmiðaldir er hugtak sem notað er yfir það tímabil í sögu Evrópu sem nær frá 14. öld til 16. aldar, þ.e. frá lokum hámiðalda til nýaldar. Á þessu tímabili átti endurreisnin sér stað og það nær að stórum hluta saman við endurreisnartímabilið. Lok tímabilsins eru ýmist miðuð við uppgötvun Ameríku 1492, siðaskiptin 1517 eða jafnvel andlát Leonardo da Vinci 1519. Vísindabyltingin hefst á síðmiðöldum. Hámiðaldir. Vilhjálmur hertogi í orrustunni við Hastings. Hámiðaldir er tímabil í sögu Evrópu sem nær yfir 11., 12. og 13. öld eða frá lokum ármiðalda að upphafi síðmiðalda. Þetta var að mörgu leyti blómaskeið í sögu Evrópu eftir lok víkingaaldar (orrustan við Hastings átti sér stað 1066) sem einkenndist af eflingu konungsvalds og mikilli fólksfjölgun. Kaþólska kirkjan efldist mikið og fékk aukið sjálfstæði, klausturlífi urðu algeng um alla Evrópu og krossferðir voru farnar, bæði til landsins helga og eins innan Evrópu, til Finnlands, Eistlands, Pommern og Suður-Frakklands. Hreppsnefndarkosningar í Kópavogi. 1948 öðlaðist Kópavogshreppur sjálfstæði sitt þegar hann var klofinn frá Seltjarnarneshreppi að ósk Seltirninga eftir að Kópavogsbúar höfðu náð stjórnarvöldum í hreppsnefndinni í kosningunum 1946. Aðeins sjö ár liðu þar til Kópavogur öðlaðist kaupstaðarréttindi sökum hraðrar mannfjölgunar. 1948. Kosið var 29. janúar 1948. A-listinn eða Framfarafélagið Kópavogur vann hreinan meirihluta undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar. 1950. Kosið var 29. janúar 1950. Framfarafélagið hélt meirihluta sínum. 1954. Mikil dramatík varð í kringum kosningarnar sem áttu upphaflega að fara fram 31. janúar 1954. Þeim var frestað til 14. febrúar af yfirkjörstjórn eftir að sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu hafði ógilt undirbúning kosninga sökum deilna Óháðra kjósenda og Sjálfstæðisflokksins um listabókstafinn D. Þegar úrslitin úr kosningunum þann 14. febrúar voru gerð ljós munaði aðeins einu atkvæði á milli A-lista og B-lista. 8. apríl gekk úrskurður sýslunefndar Kjósarsýslu varðandi kæru vegna ógiltra utankjörfundaratkvæða og dæmdi kosningarnar ómerktar. Kjörræðismaður Íslendinga í Minneapolis hafði rifið fylgibréfin frá kjörseðlunum sjálfum og þannig ógilt atkvæðin. Aðeins hafði munað einu atkvæði á milli Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og því ljóst að atkvæðin hefðu getað haft úrslitavægi þar á milli. Úrslitin voru því dæmd ómerk og sömu listar og frambjóðendur því í framboði aftur. Kosið var því aftur 16. maí. Skipting hreppsnefndarfulltrúa breyttist ekki. G-listi Óháðra kjósenda hélt meirihluta sínum. Ári síðar fékk Kópavogur kaupstaðarréttindi og bæjarstjórnarkosningar voru haldnar í október 1955. Heimildir. Kópavogur H Machu Picchu. Machu Picchu (framburður: ['mɑ.tʃu 'pik.tʃu]) (stundum nefnd „Týnda borgin“) er forn borg byggð fyrir komu Kólumbusar til Ameríku af Inkunum. Borgin er 2.430 metra yfir sjávarmáli á fjallsbrún yfir Urubambadalnum í Perú, um 70 km norðvestur af Cusco. Borgin er á Heimsminjaskrá UNESCO. Borgin var lengi gleymd umheiminum þó íbúar svæðisins vissu af henni. Fornleifafræðingurinn Hiram Bingham uppgötvaði hana svo 1911 og skrifaði um borgina metsölubók. Saga Kópavogs. Saga Kópavogs sem bæjarfélags er ekki löng, ekki er öld síðan að í Kópavogi mátti aðeins finna örfá býli og nokkra sumarbústaði. Elstu merki um mannaferðir eru frá 9. öld við Kópavogsþing, bærinn Kópavogur reis þar skammt frá. Fram að fyrri hluta 20. aldar var aðeins að finna nokkra bóndabæi í því landi sem nú tilheyrir Kópavogi, uppbygging Kópavogs hófst ekki fyrr en í kreppunni miklu upp úr 1930. Fram á 20. öld. Elstu merki um búsetu í landi Kópavogs eru í botni Kópavogs, norðan við ósa Kópavogslækjar, en þar fannst jarðhýsi sem talið er að geti verið frá 9. öld. Önnur forn bæjarstæði í landi Kópavogs eru Digranes, Hvammur (síðar Hvammskot og Fífuhvammur) og Vatnsendi. Fyrsta ritaða heimild um búsetu á Vatnsenda er frá 1234 og nafnið Kópavogur kemur fyrst fram í heimildum árið 1523. Á Þingsnesi við Elliðavatn er stórt rústasvæði, 6000-7000 m² að stærð, sem hefur vakið mikla athygli fornleifafræðinga. Jafnvel er talið að um sé að ræða hið forna Kjalarnesþing, en elstu rústir á svæðinu eru frá 10. öld. Kópavogsþing var staðsett á Þinghól í botni vogsins, en Bessastaðir voru mikilvægur staður á 17. öld og því þörf fyrir þingstað í nágrenninu. Íslendingar vildu þingstað utan lands Bessastaða og því varð Kópavogur fyrir valinu. Af heimildum virðist það hafa verið frekar stórt þing og á 16. öld voru uppi hugmyndir um að flytja Alþingi þangað, þó að til þess hafi aldrei komið. Erfðahyllingin árið 1662, oft kölluð Kópavogsfundurinn, fór fram á Kópavogsþingi. Fundurinn var haldinn til þess að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldi Danakonungs. Þetta hafði það í för með sér að allt ríkisvald komst í hans hendur. Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var erfðahyllingin notuð sem dæmi um yfirgang Dana á Íslendingum í gegnum tíðina. Danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund segir svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sem var gefin út árin 1877-82: „Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Árið 1870 bjuggu 46 í Kópavogi. Ekki eru til miklar heimildir um mannlíf í landi Kópavogsbæjar á síðustu öldum en þar var búið á nokkrum bæjum fram á 20. öld. Jarðirnar í Kópavogi voru leigujarðir og því voru ör skipti ábúenda. Því hefur verið haldið fram að þetta sé ástæðan fyrir að ekki er rótgróin saga í Kópavogi eða stórar ættir þaðan. Frumbýlisárin. Í landi Kópavogs var við upphaf 20. aldar að finna nokkur býli, Kópavogur og Digranes voru ríkisjarðir sem voru í útleigu til bænda, einnig var búskapur á Vatnsenda og í Fífuhvammi. Á kreppuárunum upp úr 1930 tók ríkisstjórnin Kópavogs- og Digranesjarðirnar úr leigu og skipti niður í smærri einingar, nýbýli og leigulönd. Samkvæmt lögum nr. 25/1936 gátu þeir sem höfðu nóg efni og ekki áttu þegar býli sótt um nýbýli og hafið þar búskap að veittu samþykki nýbýlastjóra. 1935 var lagður vegur til austurs frá Hafnarfjarðarvegi til að þjónusta komandi nýbýli. Lýður Jónsson vegaverkstjóri gaf veginum svo nafnið Nýbýlavegur sem stendur enn. Efnið í veginn var flutt með hestvögnum og verkfærin voru hamrar, sleggjur, handborar og dínamít. Ofan Nýbýlavegar voru smábýli sem voru ætluð til garðræktar, þó mátti byggja á þeim sumarbústaði. Flestir þeirra urðu þó að ársíbúðum enda húsnæðisskortur í Reykjavík. Fyrsta þéttbýlið í Kópavogi myndaðist því meðfram Nýbýlaveginum. Nýbýlajarðirnar voru í mýrlendi í Fossvogsdal. Þær þurfti að ræsa fram og þurrka og var það gert í atvinnubótavinnu árin 1935-36. Sækja þurfti verslun, þjónustu og menntun til Reykjavíkur. Skólabörn tóku Hafnarfjarðarstrætó til Reykjavíkur þar sem flest fóru í Austurbæjarskóla. Árið 1950 hafði 10 nýbýlalöndum og 146 smábýlalöndum verið úthlutað úr landi Digraness og 198 smábýlum úr landi Kópavogs. Heimsstyrjöldin síðari. Hér vantar fjölmörg herskálahverfi í landi Kópavogskaupstaðar. Kampurinn í Sæbólslandi hét Bournemouth en ekki Boumouth. Átta herskálahverfi voru á heimajörðum Kópavogskaupstaðar, Kópavogi, Digranesi, Fífuhvammi og Vatnsenda og auk þess nokkrir kampar á útjöðrum kaupstaðarins. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði þessar athugasemdir 4. júlí 2011. Vegir. Kópavogslandið var nú á gráu svæði. Reykvíkingar vildu ekki leggja meira fé til vegagerðar enda landið í eigu Seltjarnarneshrepps, hreppsnefnd þar sagðist hins vegar ekki geta ráðið við vegagerð í Kópavogi. Að auki hafði Fífuhvammsvegur verið til staðar 3 km að lengd en í eigu Seltjarnarneshrepps. Framfarafélagið Kópavogur var stofnað 19. maí 1945 af mönnum úr mörgum stjórnmálaflokkum, félagið skilaði inn skýrslu og tillögu til ríkisins um hvernig best væri að verja fjárveitingu Alþingis til vegalagningar, og mælti með lagningu Kópavogsbrautar enda þar 60 lönd og 20 hús. Kópavogshreppur. 1946 voru haldnar hreppsnefndarkosningar í Seltjarnarneshreppi og komust Kópavogsbúar í meirihluta. Þeir þrýstu mjög á að fá margfalt hærri fjárveitingar til vegagerðar en náðu ekki fram nema hluta þess. Sökum mikillar fólksfjölgunar í Kópavogi og því að Seltjarnarneshreppur var nú í tveimur aðskildum hlutum eftir að Skerjafjörður var færður undir Reykjavíkurbæ, óskuðu Seltirningar eftir því að aðskilja Seltjarnarneshrepp þannig að Kópavogsbúar mynduðu eigin hrepp. Sú skipting var samþykkt og 1. janúar 1948 tók hún gildi þegar Kópavogur og þau landsvæði sem féllu í hans hlut mynduðu Kópavogshrepp. Mikil húsnæðisekkla var í Reykjavík og bjuggu þúsundir manna í herskálum og íbúðum sem taldar voru ófullnægjandi. Nóg landrými var í Kópavogi og íbúafjöldi hríðjókst á hverju ári. 1948 voru 1163 fullorðnir skráðir í Kópavogi en 1950 voru þeir orðnir 1647 og 1955 var fjöldinn orðinn 3783. Á árunum 1949-1954 var unnið að heildarsýn í skipulagsmálum bæjarins. Framfarafélagið Kópavogur var stofnað árið 1945 og hafði á stefnuskrá sinni endurbætur í ýmsum málum, svo sem menningu, menntun, samgöngum, síma- og póstsamskiptum, vatnsveitu og jarðrækt. Rafmagn var komið í sum hús í Kópavogi árið 1940 en var komið í flest hús árið 1945. Fyrsta skólahald í Kópavogi var veturinn 1945-1946 í húsi á Hlíðarvegi. Kennsla hófst síðan í Kópavogsskóla árið 1949; í skólanum voru 232 nemendur árið 1951 en árið 1957 voru þeir orðnir 580. Árið 1946 var fyrst lögð vatnsveita í Kópavogi og árið 1948 var fyrsta holræsið lagt frá Kópavogsskóla niður í Kópavogslæk. Kópavogshöfn var byggð árið 1952-1953 og árið 1952 var póstafgreiðsla opnuð í bænum. Ungmennafélagið Breiðablik var stofnað árið 1950. Tvær litlar matvöruverslanir opnuðu í Kópavogi árið 1945 en Kaupfélag Kópavogs hóf rekstur árið 1952. Kaupstaður. Fyrst var kosið í bæjarstjórn í október 1955 eftir að kaupstaðarréttindi tóku gildi í maí það ár. Líkt og í öllum þremur hreppsnefndarkosningunum hélt meirihluti Framfarafélagsins við stjórnvölinn eftir það undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og það var ekki fyrr en 1962 að breyting varð á þegar Framsóknarflokkurinn gekk í lið með þeim til að mynda meirihluta og svo síðar Sjálfstæðisflokkurinn. Til að byrja með fundaði bæjarstjórn í Kópavogsskóla en síðar í Félagsheimili Kópavogs þar sem bæjarskrifstofurnar eru enn. Fyrsta stóra ágreiningsmál bæjarstjórnar var tillaga um að sameina Reykjavík og Kópavog en sú tillaga hlaut ekki hljómgrunn. Í bæjarstjórnartíð sinni lagði Finnbogi mikla áherslu á að opinberar byggingar í bænum stæðu efst á Digraneshálsi, en það er ólíkt því sem var með flesta bæi landsins á þessum tíma. Víðast hvar í rótgrónari byggðarlögum voru opinberar stofnanir oftast niður við sjó eða í dalverpum, í lægi undan vindi og veðrum. Þetta viðhorf Finnboga hafði mikil áhrif á mótun bæjarmyndarinnar. Árið 1957 keypti Kópavogsbær land Digraness og Kópavogs og gat þá skipulagt það til lengri tíma. Á áratugunum á eftir var hröð uppbygging í innviðum svo sem menntun og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Á sama tíma varð mikill vöxtur í ýmiss konar iðnaði og þjónustu í bænum. Í lok 9. áratugarins voru aðalatvinnugreinar í Kópavogi húsgagnaiðnaður, matvælaiðnaður, bifreiðaumboð og almenn verslun. Kópavogskirkja var teiknuð árið 1957 af Herði Bjarnasyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og vígð árið 1962. Lestrarfélag Kópavogs var stofnað árið 1953, en Jón úr Vör var mesti hvatamaðurinn að baki því. Lestrarfélagið myndaði grunn að Bókasafni Kópavogs. Tónlistarskóli Kópavogs var stofnaður árið 1963 og Skólahljómsveit Kópavogs árið 1966. Kópavogsvöllur var tilbúinn árið 1975 og íþróttahúsið Digranes árið 1983. Ný og stór heilsugæslustöð hóf starfsemi árið 1981 og hafði þá verið mörg ár í byggingu. Kópavogshöfn var stækkuð á árunum 1989-1992. Náttúrufræðistofa Kópavogs var stofnuð árið 1983, en Gerðarsafn var opnað árið 1994 og hefur nú yfir 3000 verk í vörslu. Árið 1999 var Tónlistarskóli Kópavogs fluttur í nýtt menningarhús við hlið Gerðarsafns en í húsinu var einnig Salurinn sem var þá fullkomnasti tónlistarsalur landsins. Árið 2002 voru náttúrufræðistofan og bókasafnið flutt í annan áfanga menningarhússins. Árið 1958 var lokið við fyrsta skipulagsuppdrátt Kópavogs. Á næstu áratugum voru talsverðar deilur um skipulagsmál í bænum, einkum vegna hraðrar umskiptingar úr sveit í þéttbýli en einnig vegna landadeilna við Reykjavík. Miðbær Kópavogs var hannaður í áföngum á 8. áratugnum og framkvæmdum við Hamraborg var að mestu lokið árið 1984. Árið 1990 tók stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völdum. Frá þeim tíma hefur íbúafjöldi Kópavogs tvöfaldast og stórt verslunar- og þjónustuhverfi risið í Kópavogsdal. Austan Reykjanesbrautar hefur verið mikil uppbygging undanfarin 15 ár, og þar hafa risið íbúðahverfi kennd við Lindir, Salir, Kórar, Þing og Hvörf. Smáratorg var opnað árið 1997, Smáralind árið 2001 og hinn 20 hæða turn á Smáratorgi 3 árið 2008. Í kosningunum 2006 hrapaði fylgi Framsóknar en þó náðu flokkarnir tveir að halda meirihluta. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2010 hefur haft talsverð áhrif á uppbyggingu í Kópavogi, en til dæmis hefur bygging Norðurturnsins við Smáralind verið stöðvuð og óljóst er hvort eða hvenær lokið verður við bygginguna. Í kosningunum 2010 féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og meirihluti Samfylkingar, Vinstri Grænna, Næstbesta flokksins og Y-lista Kópavogsbúa var myndaður. Kate Moss. thumb Katherine Ann Moss (fædd 16. janúar 1974 í London) er ensk fyrirsæta. Moss, Kate Bæjarstjórnarkosningar á Akureyri. Kosningar til bæjarstjórnar á Akureyri hafa verið haldnar reglulega frá því að bærinn endurheimti kaupstaðarréttindi sín 29. ágúst 1862. Fyrst var kosið 31. mars 1863. 1863. Kosið var 31. mars. Kosningarétt höfðu allir heiðarlegir menn sem stóðu á eigin fótum, voru orðnir hálfþrítugir, uppfylltu viss búsetuskilyrði og greiddu tiltekna lágmarksupphæð í útsvar. 25 bæjarbúar uppfylltu þessi skilyrði en aðeins 12 greiddu atkvæði. Þar á meðal var ein kona, „madame“ Vihelmína Lever. Hún varð þannig fyrsta konan á Íslandi til að taka þátt í opinberum kosningum vegna þess að konur fengu í raun ekki takmarkaðan kosningarétt fyrr en 1882. Kosningaþátttaka Vilhelmínu skrifast mögulega á túlkun kjörstjórnar á orðinu „maður“ og merkingarmun á milli dönsku og íslensku að þessu leyti. Í tilskipun frá 29. ágúst 1862 varðandi kosningaréttinn er talað um: „alle fuldmyndige Mænd“. Væntanlega hafa Danirnir þó átt við karlmenn eingöngu. Það er heldur ekki ljóst hvort að sýslumaður setti Vilhelmínu ótilneyddur á kjörskrá eða hvort að hún sótti það sjálf með kæru. Einnig voru þessar fyrstu bæjarstjórnarkosningar merkilegar fyrir það að verslunarstjórinn Edvald Eilert Möller sem hafði fengið öll greidd atkvæði í kosningunum neitaði í fyrstu að taka sæti í bæjarstjórn. Þetta gerði hann á þeirri forsendu að hann hefði hvorki kosningarétt né kjörgengi samkvæmt kaupstaðarreglugerðinni fyrir Akureyri sem meinaði hjúum að kjósa og vera í kjöri. Kjörstjórn skar þó úr um það að staða hans sem faktors (þ.e. verslunarstjóra) væri ekki sambærileg stöðu venjulegra vinnuhjúa. Eilert gaf sig þó ekki fyrr en úrskurður sama efnis kom frá Pétri Havstein amtmanni sem þá var staddur í Kaupmannahöfn. Í september hittist nýkjörin bæjarstjórn öll á fundi í fyrsta skipti og í október gekk aðskilnaður Akureyrar frá Hrafnagilshreppi formlega í gegn. 1919. Þann 28. janúar var ellefu manna bæjarstjórn kosin í samræmi við ný lög. 1921. Kosið var 13. janúar og voru valdir með hlutkesti fjórir fulltrúar sem kjósa skyldi um: (Ingimar Eydal, Júlíus Havsteen, Otto Tulinius og Sigurður Bjarnason). Skyldi kjörtímabil nýju fulltrúanna vera sex ár. Sérstakur kvennalisti bauð fram og náði fulltrúa. Kjörsókn var döpur, um helmingur kosningabærra manna mætti á kjörstað en brunagaddur var í bænum þennan dag. Samhliða þessum kosningum var ákveðið að kjósa nýjan bæjarfulltrúa til tveggja ára til að leysa af hólmi Böðvar Bjarkan, sem hugðist flytja frá Akureyri. Tveir listar komu fram og var sami maður á þeim báðum og taldist sjálfkjörinn. 1923. Kosið var 3. janúar og voru valdir með hlutkesti fjórir fulltrúar sem kjósa skyldi um. (Erlingur Friðjónsson, Jakob Karlsson, Halldór Einarsson og Sveinn Sigurjónsson). Skyldi kjörtímabil nýju fulltrúanna vera sex ár. Samhliða þessum kosningum voru kjörnir tveir bæjarfulltrúar til fjögurra ára, til að leysa af hólmi fulltrúa sem flutt höfðu úr bænum (O.C. Thorarensen eldri og Halldóra Bjarnadóttir). Þar öttu tveir listar kappi: jafnaðarmenn og borgaralegu öflin. 1925. Kosið var 7. janúar um sæti þriggja bæjarfulltrúa (Ragnars Ólafssonar, Sigurðar Ein. Hlíðar og Þorsteins Þorsteinssonar) og skyldi kjörtímabil nýju fulltrúanna vera sex ár. 1927. Kosið var 20. janúar um sæti fjögurra bæjarfulltrúa (Hallgríms Jónssonar, Ingimars Eydal, Jakobs Karlssonar og Kristjáns Árnasonar) og skyldi kjörtímabil nýju fulltrúanna vera sex ár. 1929. Kosið var 18. janúar um sæti fimm bæjarfulltrúa og skyldi kjörtímabil þeirra vera sex ár. 1930. Kosið var 14. janúar eftir nýjum lögum. Bæjarfulltrúar skyldu vera ellefu talsins og kosið um þá alla í einu á fjögurra ára fresti. 1934. Kosið var 16. janúar. Töluverðar útstrikanir urðu á framboðslista Framsóknarflokksins. Brynleifur Tóbíasson, efsti maður listans, var strikaður svo mikið út að hann féll niður í þriðja sæti.. Steinn G. Steinsen var kjörinn bæjarstjóri. Hann gegndi embættinu í 24 ár, lengst allra, samfellt til ársins 1958. 1938. Sveitarstjórnarkosningarnar 1938 fóru fram 30. janúar. Töluverðar tilfæringar urðu á lista Sjálfstæðisflokks og óháðra vegna útstrikana. Jón Sveinsson, fyrrverandi bæjarstjóri og efsti maður listans, var þannig strikaður svo mikið út að hann náði ekki kjöri þrátt fyrir að listinn fengi fjóra menn. Einnig var sjötti maður listans, Jakob Karlsson, færður svo mikið upp að hann náði kjöri á kostnað Arnfinnu Bjarnadóttur sem skipaði fimmta sætið. Steinn G. Steinsen var endurkjörinn bæjarstjóri. 1942. Sveitarstjórnarkosningarnar 1942 fóru fram 25. janúar. Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði þannig að sérstakt framboð óháðra borgara bauð fram. Efsti maður á lista óháðra náði ekki kjöri vegna útstrikana en annar maður listans, Jón Sveinsson fyrrverandi bæjarstjóri náði kjöri í hans stað. Steinn G. Steinsen var endurkjörinn bæjarstjóri. 1946. Sveitarstjórnarkosningarnar 1946 fóru fram 27. janúar. Steinn G. Steinsen var endurkjörinn bæjarstjóri. 1950. Sveitarstjórnarkosningarnar 1950 fóru fram 29. janúar. Þorsteinn M. Jónsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar og Steinn Steinsen bæjarstjóri með stuðningi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Úrslit bæjarstjórakjörs réðust þó ekki fyrr en í þriðju umferð þar sem Framsókn studdi í fyrstu tveimur umferðunum sinn eigin umsækjanda, Guðmund Guðlaugsson, á meðan fulltrúar Alþýðuflokksins studdu aðra umsækjendur og Sósíalistar sátu hjá. Í þriðju umferðinni var aðeins kosið á milli Steins og Guðmunds og hlaut Steinn þá atkvæði fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á meðan vinstri flokkarnir sátu hjá. 1954. Sveitarstjórnarkosningarnar 1954 fóru fram 31. janúar. Þorsteinn M. Jónsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar. Steinn G. Steinsen var endurkjörinn bæjarstjóri. 1958. Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 fóru fram 26. janúar. Magnús E. Guðjónsson var kjörinn bæjarstjóri og tók við af Steini G. Steinsen, sem gegnt hafði bæjarstjóraembættinu samfellt í 24 ár. Jakob Frímannsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar. 1962. Sveitarstjórnarkosningarnar 1962 fóru fram 27. maí. Magnús E. Guðjónsson var endurkjörinn bæjarstjóri með samhljóða atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Jón G. Sólnes var kjörinn forseti bæjarstjórnar. 1966. Sveitarstjórnarkosningarnar 1966 fóru fram 22. maí. Jakob Frímannsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar með stuðningi Framsóknar og Alþýðuflokksins. Magnús E. Guðjónsson var kjörinn til að gegna áfram stöðu bæjarstjóra með 9 atkvæðum en fulltrúar Alþýðuflokks sátu hjá. Hann lét af embætti bæjarstjóra árið eftir og var Bjarni Einarsson þá kjörinn bæjarstjóri. 1970. Sveitarstjórnarkosningarnar 1970 fóru fram 31. maí. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta. Var það í fyrsta skipti í sögu Akureyrarbæjar sem flokkar mynduðu formlega meirihluta en unnu ekki saman samhliða. Jón G. Sólnes var kjörinn forseti bæjarstjórnar. Bæjarstjóri var áfram Bjarni Einarsson með einróma samþykki allra bæjarfulltrúa. 1974. Sveitarstjórnarkosningarnar 1974 fóru fram 26. maí. Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og sameiginlegt framboð Alþýðuflokks og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna mynduðu nýjan meirihluta. Valur Arnþórsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar 1974-1977 og Stefán Reykjalín 1977-1978. Bjarni Einarsson var endurkjörinn í embætti bæjarstjóra með samhljóða atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Hann lét af störfum bæjarstjóra árið 1976 og var þá Helgi M. Bergs ráðinn bæjarstjóri. 1978. Sveitarstjórnarkosningarnar 1978 fóru fram 28. maí. Meirihlutinn hélt velli og bætti raunar við sig á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Samstarfið hélt áfram en nú með þátttöku fjögurra framboða í stað þriggja þar sem Alþýðuflokkurinn og Samtök frjálslyndra og vinstrimanna buðu fram í sitthvoru lagi í þetta skipti. Helgi M. Bergs var endurkjörinn bæjarstjóri með samhljóða atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Sigurður Jóhannesson var kjörinn forseti bæjarstjórnar 1978-1979 og 1981-1982 en Freyr Ófeigsson 1979-1981. 1982. Sveitarstjórnarkosningarnar 1982 fóru fram 22. maí. Sérstök kvennaframboð komu fram í Reykjavík og á Akureyri og fengu tvo fulltrúa á hvorum stað. Hlutfallslega naut framboðið á Akureyri þó meira fylgis og myndaði meirihluta með Alþýðubandalagi og Framsókn. Helgi M. Bergs var endurkjörinn bæjarstjóri. Valgerður Bjarnadóttir var kjörin forseti bæjarstjórnar 1982-1984, Sigfríður Þorsteinsdóttir 1984-1985 og Sigurður Jóhannesson 1985-1986. Gísli Jónsson baðst lausnar úr bæjarstjórn árið 1983. Sæti hans tók Margrét Kristinsdóttir. Sigurður Óli Brynjólfsson lést árið 1984. Sæti hans í bæjarstjórn tók Jón Sigurðarson. Helgi Guðmundsson baðst lausnar úr bæjarstjórn árið 1984. Sæti hans tók Sigríður Stefánsdóttir. 1986. Sveitarstjórnarkosningarnar 1986 fóru fram 31. maí. Kvennaframboðið frá 1982 var ekki með núna. A-flokkarnir bættu við sig töluverðu fylgi en Alþýðuflokkurinn myndaði meirihluta með Sjálfstæðisflokki. Sigfús Jónsson var ráðinn bæjarstjóri. Gunnar Ragnars var forseti bæjarstjórnar 1986-1989 og Sigurður J. Sigurðsson 1989-1990. Bergljót Rafnar sagði sig úr bæjarstjórn árið 1989. Sæti hennar tók Guðfinna Thorlacius. Gunnar Ragnars sagði sig úr bæjarstjórn þegar hann varð framkvæmdastjóri ÚA árið 1989. Sæti hans tók Jón Kr. Sólnes. 1990. Sveitarstjórnarkosningarnar 1990 fóru fram 26. maí. Alþýðuflokkurinn tapaði töluverðu fylgi og tveimur fulltrúum og því féll meirihlutinn. Sjálfstæðismenn stofnuðu til nýs meirihlutasamstarfs með Alþýðubandalagi. Halldór Jónsson var ráðinn bæjarstjóri. Í fyrsta skipti í sögu Akureyrarbæjar var bæjarstjóri ekki sjálfkrafa formaður bæjarráðs og breyttist því hlutverk bæjarstjóra umtalsvert. Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag skiptu með sér embættum formanns bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar. Sigríður Stefánsdóttir var fyrst forseti bæjarstjórnar og Sigurður J. Sigurðsson formaður bæjarráðs og skiptust svo á embættum árlega út kjörtímabilið. 1994. Sveitarstjórnarkosningarnar 1994 fóru fram 28. maí. Framsóknarflokkurinn vann töluvert á og fékk sína bestu útkomu í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri. Hrein stjórnarskipti urðu þegar Framsókn myndaði svo meirihluta með Alþýðuflokki. Jakob Björnsson, oddviti framsóknarmanna, var ráðinn bæjarstjóri og var það í fyrsta skipti sem sitjandi bæjarfulltrúi gegndi stöðu bæjarstjóra.. Sigfríður Þorsteinsdóttir var kjörin forseti bæjarstjórnar 1994-1996 og Þórarinn E. Sveinsson 1996-1998. Gísli Bragi Hjartarson var kjörinn formaður bæjarráðs. Björn Jósef Arnviðarson baðst lausnar árið 1996 þegar hann varð sýslumaður á Akureyri og tók Valgerður Hrólfsdóttir sæti hans í bæjarstjórn. Oddur Helgi Halldórsson tók sæti Guðmundar Stefánssonar í bæjarstjórn árið 1997, en fór í sérframboð í lok kjörtímabilsins og stofnaði Lista fólksins, sem hlaut hreinan meirihluta í kosningunum 2010. 1998. Sveitarstjórnarkosningarnar 1998 fóru fram 23. maí. Sjálfstæðisflokkurinn endurtók leik framsóknarmanna frá 1994 og fékk fimm menn kjörna. Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn stóðu saman að Akureyrarlistanum en þessir flokkar voru á landsvísu í sameiningarviðræðum sem leiddu til stofnunar Samfylkingarinnar. Framsókn tapaði töluverðu fylgi þegar Oddur Helgi Halldórsson sagði sig úr flokknum og stofnaði Lista fólksins. Meirihluta mynduðu Akureyrarlistinn og Sjálfstæðisflokkur. Kristján Þór Júlíusson, oddviti sjálfstæðismanna, var kjörinn bæjarstjóri en hann hafði áður verið bæjarstjóri á Dalvík og Ísafirði. Sigurður J. Sigurðsson var forseti bæjarstjórnar 1998-2002 en við afsögn hans undir lok kjörtímabilsins var Þóra Ákadóttir kjörin forseti. Ásgeir Magnússon varð formaður bæjarráðs. Sigfríður Þorsteinsdóttir baðst lausnar úr bæjarstjórn árið 1999 og tók Guðmundur Ómar Guðmundsson sæti hennar. Valgerður Hrólfsdóttir lést árið 2001 og tók Þóra Ákadóttir sæti hennar í bæjarstjórn. Vilborg Gunnarsdóttir baðst lausnar frá setu í bæjarstjórn árið 2001 og tók Steingrímur Birgisson sæti hennar. Sigurður J. Sigurðsson, sem setið hafði í bæjarstjórn frá árinu 1974 og verið leiðtogi Sjálfstæðisflokksins 1988-1998, baðst lausnar í ársbyrjun 2002 og tók Páll Tómasson sæti hans. 2002. Kosið var 25. maí. Akureyrarlistinn bauð ekki fram aftur en Samfylkingin var arftaki hans í bæjarstjórn, auk þess sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð bauð fram í fyrsta skipti. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur náðu saman um myndun nýs meirihluta, Kristján Þór Júlíusson var áfram bæjarstjóri (fyrsti pólitískt ráðni bæjarstjórinn til að sitja fleiri en eitt kjörtímabil), Þóra Ákadóttir var kjörin forseti bæjarstjórnar og Jakob Björnsson varð formaður bæjarráðs. Í fyrsta skipti voru konur meirihluti bæjarfulltrúa á Akureyri. Í desember 2005 gekk Oktavía Jóhannesdóttir úr Samfylkingunni og til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og var Samfylkingin því án bæjarfulltrúa það sem eftir var af kjörtímabilinu. 2006. Kosið var 27. maí. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks féll vegna fylgishruns Framsóknar sem hélt aðeins eftir einum fulltrúa í bæjarstjórn. Samfylking, Vinstri-grænir og Listi fólksins áttu í skammvinnum meirihlutaviðræðum en niðurstaðan varð að Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn stóðu saman að meirihluta. Samkomulagið byggðist m.a. á flóknari stólaskiptingu en sést hafði í bæjarstjórn á Akureyri. Fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins hafði Sjálfstæðisflokkurinn bæjarstjórann og forseta bæjarstjórnar en Samfylkingin formann bæjarráðs. Síðasta ár kjörtímabilsins fékk Samfylkingin stól bæjarstjóra og Sjálfstæðisflokkurinn fékk formennsku í bæjarráði. Til að byrja með sat Kristján Þór Júlíusson áfram sem bæjarstjóri en hann hafði lýst því yfir í kosningabaráttunni að hann væri bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins fyrir allt kjörtímabilið. Eftir að Kristján bauð sig fram fyrir alþingiskosningarnar 2007 hætti hann þó sem bæjarstjóri og Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við 9. janúar 2007. Hún var fyrsta konan til að gegna embættinu. Sigrún Björk Jakobsdóttir var forseti bæjarstjórnar 2006-2007 og 2009-2010 og formaður bæjarráðs 2009-2010 og Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi bæjarstjóri, var forseti bæjarstjórnar 2007-2009. Hermann Jón Tómasson var formaður bæjarráðs 2006-2009. Kristján Þór sagði sig úr bæjarstjórn frá 1. janúar 2010. Ólafur Jónsson tók sæti hans eftir að varamaðurinn Þórarinn B. Jónsson, sem var bæjarfulltrúi 1994-2006, sagði sig frá setu í bæjarstjórn. Í samræmi við samkomulag Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2006 tók Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, við embætti bæjarstjóra þann 9. júní 2009 og gegndi því út kjörtímabilið. 2010. Sveitarstjórnarkosningarnar 2010 fóru fram þann 29. maí. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kolféll: D-listi missti þrjá menn og S-listi tvo. L-listinn, Listi fólksins, vann stórsigur og hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Það var í fyrsta skiptið frá því að kosningakerfið í núverandi mynd var tekið upp 1930 sem að einn flokkur náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn. Önnur framboð í bænum náðu öll inn einum manni, þar á meðal Bæjarlistinn undir forystu Sigurðar Guðmundssonar. Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, sagði af sér að kosningum loknum og Ólafur Jónsson tók sæti hennar sem oddviti D-listans og bæjarfulltrúi á fyrsta fundi bæjarstjórnar. Geir Kristinn Aðalsteinsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar og Oddur Helgi Halldórsson varð formaður bæjarráðs í upphafi kjörtímabils. L-listinn ákvað að auglýsa stöðu bæjarstjóra. Eiríkur Björn Björgvinsson var ráðinn bæjarstjóri 9. júlí 2010 og tók til starfa 12. ágúst 2010.. Halla Björk Reynisdóttir varð formaður bæjarráðs í júní 2012. Hermann Jón Tómasson baðst lausnar úr bæjarstjórn Akureyrar 16. ágúst 2012. Sæti hans í bæjarstjórn tók Logi Már Einarsson. Heimildir. Akureyri B Ármiðaldir. Ármiðaldir eru tímabil í sögu Evrópu sem nær frá lokum fornaldar sem markast af falli Vestrómverska ríkisins árið 476 til upphafs hámiðalda árið 1000. Það hefst þannig í miðju þjóðflutningatímabilinu, nær yfir hinar myrku aldir, útbreiðslu Íslams og karlungatímabilið og lýkur við lok víkingaaldar sem miðast við orrustuna við Hastings árið 1066. 2. árþúsundið. 2. árþúsundið er í gregoríska tímatalinu tímabilið sem hófst við upphaf ársins 1001 og stóð til loka ársins 2000. Aldir og áratugir 2. árþúsundsins Steinn Ármann Magnússon. Steinn Ármann Magnússon (f. 28. október 1964) er íslenskur leikari. Stefán Karl Stefánsson. Stefán Karl Stefánsson (fæddur 10. júlí 1975 í Hafnarfirði) er íslenskur leikari. Baldur Trausti Hreinsson. Baldur Trausti Hreinsson (f. 15. mars 1967) er íslenskur leikari. Sena. Sena er fyrirtæki í eigu 365 sem sérhæfir sig í að gefa út tónlist, tölvuleiki, kvikmyndir og myndbönd. Sena rekur kvikmyndahúsin Smárabíó, Regnboginn,Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri. Penélope Cruz. Penélope Cruz Sánchez (f. 28. apríl 1974), betur þekkt sem Penélope Cruz, er spænsk leikkona. Hún fékk mikla athygli sem ung leikkona í kvikmyndum á borð við Jamón, Jamón, La Niña de tus ojos og Belle époque. Hún hefur einnig leikið í mörgum bandarískum myndum eins og Blow, Vanilla Sky og Vicky Christina Barcelona. Hún er kannski betur þekkt fyrir verk sín með spænska leikstjóranum Pedro Almodóvar í Broken Embraces, Volver og All About My Brother. Cruz hefur unnið þrenn Goya-verðlaun, tvenn evrópsk kvikmyndaverðlaun og verið valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Árið 2009 vann hún Óskarsverðlaunin fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki, Goyu- og BAFTA-verðlaun fyrir hlutverk sitt í "Vicky Christina Barcelona. Hún er fyrsta spænska konan til þess að vinna Óskarsverðlaun. Rügen. Rügen "(lat. Rugia)" eða Ré er stærsta eyja Þýskalands og liggur í Eystrasalti undan strönd fylkisins Mecklenborg-Vestur-Pommern. Eyjan var byggð Vindum á miðöldum en 1169 lögðu Danir hana undir sig og eyðilögðu hofið í Arkona. 1325 lagði hertoginn í Pommern eyjuna undir sig. Eftir Vestfalíufriðinn 1648 varð eyjan hluti af Sænsku Pommern og hélst þannig til 1815 þegar hún varð hluti af Prússlandi. Magnús góði. Magnús og Hörða-Knútur mætast við Gautelfi 1037. Magnús góði Ólafsson (1024 – 25. október 1047) var konungur Noregs frá 1035 til dauðadags. Hann var sonur Ólafs digra en var komið til valda af banamönnum hans, stórbændunum Kálfi Árnasyni og Einari þambarskelfi vegna óánægju með stjórn Sveins Alfífusonar sonar Knúts ríka. 1037 gerði hann samning við Hörðaknút, erfingja Knúts um að sá þeirra sem fyrr félli frá skyldi erfa hinn. Við lát Hörða-Knúts 1042 varð hann þannig konungur Danmerkur en ekki konungur Englands þar sem Játvarður góði tók við völdum. Magnús gerði engu að síður tilkall til ensku krúnunnar og eins erfingi hans, Haraldur harðráði, eftir hans dag. [ Árið 1043 vann hann mikinn sigur á Vindum í orrustunni á Hlýrskógsheiði og bar þá öxi Ólafs helga, Hel. 1046 gerði hann Harald harðráða, föðurbróður sinn, að meðkonungi sínum þannig að sá sem fyrr létist skyldi erfa hinn. Hann lést ári síðar við fall af hestbaki. Frá Magnúsi segir í "Magnúss sögu góða" í "Heimskringlu". Ingi Bárðarson. Ingi Bárðarson eða Ingi 2. (1185 – 23. apríl 1217) var konungur Noregs frá 1204 til dauðadags. Hann var sonur Sesselju, systur Sverris konungs og höfðingjans Bárðar Guttormssonar á Rein. Hann var kjörinn konungur af birkibeinum og sat í Þrándheimi eftir lát barnakonungsins Guttorms Sigurðssonar. Konungsefni baglanna voru Erlingur steinveggur til 1207 og síðan Filippus Símonsson og réðu þeir yfir Víkinni. Þeir eru þó ekki taldir með í norsku kóngaröðinni. Ingi og Filippus gerðu með sér sátt á Hvítingsey árið 1208 og þegar þeir létust báðir árið 1217 var Hákon gamli kjörinn konungur af báðum hópum og þar með lauk loks deilum birkibeina og bagla og um leið norsku borgarastyrjöldinni sem staðið hafði með hléum frá dauða Sigurðar Jórsalafara 1130. Ingi var ókvæntur en átti frilluborinn son. Hálfbróðir hans móðurmegin var Hákon galinn, sem var því einnig dóttursonur Sigurðar Jórsalafara og kom til greina þegar velja þurfti konung eftir lát Guttorms en var hafnað af því að faðir hans var sænskur. Hálfbróðir Inga föðurmegin var Skúli jarl Bárðarson. Hákon ungi. Hákon ungi Hákonarson (10. nóvember 1232 – 5. maí 1257) var sonur Hákonar gamla Noregskonungs, og meðkonungur hans frá 1. apríl 1240 til dauðadags. Móðir Hákonar var Margrét drottning, dóttir Skúla jarls. Hákon fékk konungstitilinn árið 1240, þegar hann var á áttunda ári, en þá hafði Skúli afi hans gert misheppnaða uppreisn og reynt að brjótast til valda. Hann giftist 1251 Ríkissu dóttur Birgis jarls og systur Svíakonunganna Valdimars Birgissonar og Magnúsar hlöðuláss. Hún var þá líklega um 13 ára að aldri og var stofnað til hjónabandsins í framhaldi af friðarsamningum milli Norðmanna og Svía árið 1249. Eftir lát Hákonar giftist hún aftur Hinrik fursta af Mecklenburg-Werle. Hákon og Ríkissa áttu aðeins einn son, Sverri, sem lést 1261 níu ára gamall, þannig að við lát Hákonar gamla 1263 varð yngsti sonur hans, Magnús lagabætir, konungur. Guttormur Sigurðsson. Guttormur Sigurðsson (1199 – 11. ágúst 1204) var konungur Noregs um nokkurra mánaða skeið árið 1204, aðeins fimm ára gamall. Hann var sonur Sigurðar lávarðar og barnabarn Sverris konungs. Móðir hans er óþekkt. Við lát Hákonar harmdauða í janúar 1204 var allur Noregur undir hans stjórn og birkibeina en skömmu síðar gerði Erlingur steinveggur innrás í Víkina með mikið lið og stuðning frá Valdimar Danakonungi. Eftir krýningu Guttorms var frændi hans, Hákon galinn, skipaður jarl og gerður foringi birkibeina. Birkibeinar sigldu með konung til Niðaróss þar sem hann var kjörinn konungur á Eyraþingi. Í ágúst sama ár varð hann veikur og lést. Sögur gengu um að baglar ættu sök á dauða hans en ekkert bendir til að þær hafi átt við eitthvað að styðjast. Þar sem Guttormur var síðasti afkomandi Sverris konungs að því er best var vitað var systursonur Sverris, Ingi Bárðarson, kjörinn af birkibeinum sem næsti konungur Noregs. Eyraþing. Eyraþing var á miðöldum landshlutaþing fyrir Þrændalög í Noregi, en ekki er að fullu ljóst hver voru tengsl þess við Frostaþing og hver verkaskipting þinganna var. Eyraþing var háð í Niðarósi, á svokölluðum Eyrum, sem voru sandeyrar vestan við ós árinnar Niðar. Samkvæmt lögbók hafði Eyraþingið einkum tvenns konar hlutverk: Annars vegar að staðfesta lög og réttarbætur, hins vegar að útnefna konung Noregs. Ármaður boðaði til þingsins, sem var almannaþing, þ.e. allir bændur sem höfðu vinnufólk í þjónustu sinni áttu að hlýða þingboðinu. Deilt er um hver voru tengsl Eyraþings og Frostaþings. Sumir fræðimenn, t.d. Gustav Indrebø, töldu Eyraþing eldra sem sameiginlegt þing fyrir Þrændalög, en um 950 hafi þingið svo verið flutt til Frostu og umdæmið víkkað út. Jørn Sandnes taldi hins vegar Frostaþing eldra, og að Eyraþing hafi komið upp með myndun þéttbýlis við Niðarós og tilkomu konungsgarðs þar. Hlutverk þess hafi verið takmarkað við mál sem snertu sambandið milli konungs (síðar einnig kirkju) og bændasamfélagsins í Þrændalögum. Umdæmi. Talið er að upphaflega hafi Innþrændir og Útþrændir haft hvorir sitt þing. Þingstaður Innþrænda var líklega á bænum Mæri í sveitarfélaginu Sparbu, um 10 km sunnan við Steinker. Þingstaður Útþrænda var á Eyrum við Niðarós. Síðar sameinuðust þeir um eitt þing í Niðarósi, þ.e. Eyraþing. Konungshylling í Noregi. Eftir daga Hákonar gamla (1263) virðist Eyraþing hafa misst gildi sitt við útnefningu konunga í Noregi. Hins vegar hafði Niðarósdómkirkja hlutverk við krýningu konunga, og enn hefur dómkirkjan táknrænt gildi fyrir konungsfjölskylduna, t.d. við brúðkaup o.fl. Kársnes. Kársnes er nes sem liggur milli voganna Kópavogs (vogsinns ekki bæjarfélagsinns) og Fossvogs. Það er vestasti hluti Kópavogsbæjar. Efst á Kársnesi stendur Borgarholt. Nafnið. Uppi eru nokkrar kenningar varðandi nafngiftina. Í örnefnaskrá Adolfs J. E. Petersens segir eftirfarandi: „Kórsnes, svo hét að minnsta kosti vestasti hluti þess svæðis sem nú er almennt nefnt Kársnes. Nafnið Kórsnes er dregið af hellisskúta er var næstum fram við sjó vestan við hús 108 við Kársnesbraut.“ Einnig hefur Adolf það eftir Ingjaldi Ísakssyni að nafnið Kórsnes sé dregið af þjóðsögu sem segir að ormur hafi legið á skerjum úti fyrir nesinu þegar lágsjávað var en síðan hafi hann skriðið í land og legið í laut sem hét Kór. Kórssker þetta er nú komið undir landfyllingu sem og tjörn sem nefndist Kórstjörn og var jafnframt vestast á nesinu. Byggð. Fyrir 1936 var aðeins að finna ríkisjörðina Kópavog á nesinu og samnefndan bæ sem þar stóð. Síðan byrjaði Kópavogur að byggjast. Á nesinu er að finna helstu menningarstofnanir Kópavogs, Listasafn Kópavogs Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs og tónleikahúsið Salinn. Þar er líka Kópavogskirkja og Kársnesskóli. Bæjarhlutinn á Kársnesi hefur yfirleitt verið nefndur Vesturbærinn af Kópavogsbúum, landamörkin voru miðuð við Hafnarfjarðarveginn sem í áratugi sleit byggð á Kársnesi frá öðrum hlutum Kópavogs. Małgorzata Kożuchowska. Małgorzata Kożuchowska (fædd 27. apríl 1971 í Wrocław) er pólsk leikkona. Eva Herzigová. Eva Herzigová (fædd í Litvínov 10. mars 1973) er tékknesk fyrirsæta og leikkona. Heima er bezt. Heima er bezt er íslenskt tímarit sem komið hefur út samfellt frá árinu 1951. Í hverju tölublaði er að finna eitt forsíðuviðtal hverju sinni þar sem rætt er við einstaklinga vítt og breitt af landinu um ævistarf þeirra, hugðarefni og margt fleira. Í blaðinu birtast einnig frásagnir fólks af ýmsum atburðum, sem það hefur upplifað á árum áður; ferðasögur, þjóðhættir, siðir og venjur áður fyrr. Þá eru birtar smásögur, framhaldssögur, vísna- og dægurljóðaþáttur er í hverju hefti, myndbrot með myndum héðan og þaðan af landinu, auk ýmiss annars efnis. Tímaritið er gefið út mánaðarlega. Frístund. Frístund: krossgátublað kom fyrst út 1982. Í því eru krossgátur og aðrar heilaþrautir. Skopje. Skopje (makedónska: Скопje; albanska: Shkup) er höfuðborg og stærsta borg Lýðveldisins Makedóníu. Í borginni búa 506.926 manns, sem er rúmlega fjórðungur allra íbúa landsins og er hún stjórnmála-, menningar- og viðskiptaleg miðja landsins. Hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi. Seltjarnarnes valdi sína fyrstu hreppsnefnd árið 1875 og fékk kaupstaðarréttindi 29. mars 1974. 1946. Sveitarstjórnarkosningarnar 1946 fóru fram 7. júlí. Framfarafélagið Kópavogur bauð fram lista með mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum með það að markmiði að ná meirihluta til að þrýsta á frekari framfarir í Kópavogi og höfðu fyrir kosningarnar sent kjósendum bréf þar að lútandi. Sameinaðir Kópavogsbúar unnu kosninguna með 4 atkvæða mun gegn A-lista þar sem fyrrum hreppsnefndarmenn skipuðu efstu sætin. Guðmundur Gestsson var skipaður oddviti en Finnbogi Rútur Valdimarsson gegndi störfum oddvita á meðan Guðmundur dvaldi erlendis. Sigurjón Jónsson vék sæti sínu skömmu eftir kosningar, hugsanlega vegna mikilla útstrikana af A-listanum og tók Kjartan Einarsson við sæti hans. Ákveðið var svo að skipta hreppnum upp og kljúfa Kópavog úr honum enda sé hreppurinn í tveim ólíkum og ótengdum hlutum, og Kópavogur nú nær jafnfjölmennur og Sauðárkrókur sem hafði þá nýverið fengið kaupstaðarréttindi. Skiptingin fór fram um áramótin 1947-48, og héldu Kópavogsbúar eigin hreppsnefndarkosningu. 1948. Kosið var 29. janúar 1948. B-listinn vann kosningarnar. 1950. Sveitarstjórnarkosningarnar 1950 fóru fram 29. janúar. Sjálfstæðismenn náðu meirihluta. 1954. Sveitarstjórnarkosningarnar 1954 fóru fram 31. janúar. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta. 1958. Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 fóru fram 25. janúar en aðeins einn listi kom fram í hreppnum, skipaður frambjóðendum úr flestum flokkum, og var því sjálfkjörið. 1962. Sveitarstjórnarkosningarnar 1960 fóru fram 27. maí. Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta. 1966. Sveitarstjórnarkosningarnar 1966 fóru fram 22. maí. Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta gegn sameinuðu framboði Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. 1970. Sveitarstjórnarkosningarnar 1970 fóru fram 31. maí. Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta gegn sameiginlegu framboði hinna flokkanna. Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi 29. mars 1974, því voru næstu kosningar bæjarstjórnarkosningar. Heimildir. Seltjarnarnes H Margot Fonteyn. Frú Margot Fonteyn de Arias (18. maí 1919 – 21. febrúar 1991) var enskur ballettdansari og talin mesta ballerína heims á sinni tíð. Eftir mjög farsælan feril á 5. og 6. áratugnum (hún var slegin til riddara 1957) átti hún sitt mesta blómaskeið eftir fertugt þegar hún hóf samstarf við Rudolf Nureyev eftir að hann gerðist landflótta frá Sovétríkjunum 1961. Samstarf þeirra stóð allt þar til hún settist í helgan stein árið 1979. Hún dansaði á tveimur sýningum ásamt hópi dansara í Þjóðleikhúsinu 26. júní 1972. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga er verksmiðja Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga í norðanverðum Hvalfirði. Meginafurð verksmiðjunnar er kísiljárn sem notað er við stálframleiðslu. Verksmiðjan var gangsett 26. júní árið 1979. Brennivín. Brennivín er íslenskt brennt vín bruggað úr gerjuðum kartöflum, líkt og vodki, og kryddaður með kúmeni. Það er stundum kallað „svarti dauði“. Brennivín er með 37,5% áfengisinnihald. Flöskurnar eru grænar með svörtum miða með hvítum eða silfruðum hring og nafninu yfir. Inni í hringnum stóð áður skammstöfunin ÁTVR en nú er þar útlínumynd af Íslandi. Tilgangurinn með svarta miðanum var upphaflega sá að gera flöskuna fráhrindandi. Lengst af hefur brennivín þótt vera vondur drykkur, bæði vegna mikils áfengisinnihalds og vegna þess að það var ódýrasta sterka vínið sem fékkst á Íslandi. Þetta orðspor hefur smám saman verið að breytast. Brennivín er nú oftast drukkið sem snafs en áður fyrr var algengt að drekka það blandað með vatni eða kóki. Nafnið brennivín var áður notað um ýmis brennd vín sem danskir kaupmenn fluttu inn til landsins á tímum einokunarverslunarinnar og voru upphaflega brugguð úr rúgi. Þessi vín höfðu hátt áfengisinnihald þar sem þannig fékkst fyrir þau hærra verð miðað við magn sem gerði flutninginn hagkvæmari. Nafnið er notað í bæði Danmörku ("brændevin") og Svíþjóð ("brännvin") yfir ákavíti. Brennivín var upphaflega framleitt af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins frá lokum áfengisbannsins 1. febrúar 1935 til 26. júní 1992 þegar Vífilfell tók við framleiðslunni. Það er nú framleitt af Ölgerðinni. Lindau. Lindau er borg og eyja í austurhluta Bodensee í Bæjaralandi í Þýskalandi. Hinn sögulegi miðbær er á eyjunni sem tengist við meginlandið um brú. Bodenvatn. Bodenvatn (þýska: "Bodensee") er stöðuvatn í Rínarfljóti á landamærum Þýskalands, Austurríkis og Sviss. Landafræði. Bodenvatn er 536 km³ að stærð og er því þriðja stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu á eftir Balatonvatni og Genfarvatni. Það skiptist í þrjá meginhluta. Aðalhlutinn kallast "Seerhein". Fyrir norðvestan er langur rani sem heitir "Überlingersee" (einnig "Obersee"), en fyrir suðvestan er "Untersee". Þar rennur Rín úr vatninu. Mesta dýpi vatnsins er 254 m. Við aðrennslið Austurríkismegin myndar Rín gríðarmikla óshólma. Þeir heita Vorarlberger Rheindelta og eru mestu óshólmar Mið-Evrópu inni í landi. Helstu borgir Þýskalandsmegin eru Konstanz, Lindau og Friedrichshafen. Austurríkismegin er borgin Bregenz. Svissmegin eru bæirnir Arbon og Romanshorn. Miklar samgöngur eru á vatninu. Ferjur ganga borga á milli. Vatnið er einnig mikið notað af ferðamönnum, sem gjarnan baða sig og reyna sig á seglbretti. Milla Jovovich. Milla Jovovich (úkraínska: Мілла Йовович, fædd í Kíev 17. desember 1975) er bandarísk fyrirsæta og leikkona af úkraínskum uppruna. Fingurnir (gæla). Fingurnir eða fingravísan (stundum nefnd vísan um puttana eða puttavísan'") er barnagæla í C-dúr með 4 takti um alla fingurna. Textinn. Einfaldar nótur og hljómar fingravísunnar. Tófukvæði. "Tófukvæði" er norrænt danskvæði eða vikivaki. „Tófa“ er hér íslenskun á kvenmannsnafninu Tove. Lagið er að finna á hljómdisknum "Raddir" sungið af Brynjúlfi Sigurðssyni. Krumminn á skjánum. Krumminn á skjánum er íslensk þjóðvísa. Krummi svaf í klettagjá. Krummi svaf í klettagjá er íslensk þjóðvísa eftir Jón Thoroddsen, lagið við vísuna er í 4 takti í frýgískri tóntegund. Texti. Nótur við lagið "Krummi svaf í klettagjá". Krummavísa. Krummavísa eða Krummi krunkar úti er íslenskt þjóðlag. Lagið kom út í bókinni "Íslenzk þjóðlög" eftir Bjarna Þorsteinsson 1906. Bjarni segist hafa lært það af Ólafi Davíðssyni en hann sagðist hafa lært það í æsku í Sléttuhlíð. Bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi. Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi 1974 og því voru hreppsnefndarkosningar aflagðar og þess í stað kosið til bæjarstjórnar. Jafnframt var fulltrúum fjölgað um tvo. 1974. Sveitarstjórnarkosningarnar 1974 fóru fram 26. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum. 1978. Sveitarstjórnarkosningarnar 1978 fóru fram 21. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum. Guðrún Katrín Þorbergsdóttir (síðar forsetafrú) varð fyrst kvenna til að ná kjöri í bæjarstjórn Seltjarnarness. 1982. Sveitarstjórnarkosningarnar 1982 fóru fram 22. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum. 1986. Sveitarstjórnarkosningarnar 1986 fóru fram 31. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum en Alþýðubandalagið náði að saxa á hann. 1990. Sveitarstjórnarkosningarnar 1990 fóru fram 26. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum gegn "Neslista Bæjarmálafélags Seltjarnarness". 1994. Kosið var 28. maí 1994. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum en "Neslisti Bæjarmálafélags Seltjarnarness" saxaði talsvert á forskotið. 1998. Kosið var 23. maí 1998. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum og náðu 5 bæjarfulltrúum. 2002. Kosið var 25. maí 2002. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum en Neslisti Bæjarmálafélags Seltjarnarness vann mann. 2006. Kosið var 27. maí 2006. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum og unnu aftur fulltrúa af Neslista Bæjarmálafélags Seltjarnarness. Heimildir. Seltjarnarnes B Teresa Lipowska. Teresa LipowskaTeresa Lipowska er pólsk leikkona. Hún er fædd í Varsjá 14. júlí 1937. Agnieszka Włodarczyk. Agnieszka Włodarczyk (13. desember 1980fædd í Sławno) er pólsk leikkona. Pink. Alecia Beth Moore (P!nk) (f. 8. september 1979 í Doylestown í Pennsylvaníu) er bandarísk poppsöngkona. Skógræktarfélag Íslands. Skógræktarfélag Íslands er landssamband 61 staðbundinna skógræktarfélaga sem hefur það markmið að rækta skóga á Íslandi. Samtals telja félagar um átta þúsund talsins. Félagið var stofnað á Alþingishátíðinni 1930. Félagið gefur út félagsritið Skógræktarritið, fréttablaðið Laufblaðið og sérritið Frækornið, stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum tengdum skógrækt og útnefnir á hverju ári Tré ársins. Elliðaár. Elliðaár eru ár sem renna frá Elliðavatni skammt frá Reykjavík, um Elliðaárdal og út í Faxaflóa. Árnar kvíslast og því heita þær Elliðaár en ekki Elliðaá. Árnar og vatnið eru kenndar við skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns sem getið er í Landnámu. Við Elliðaár var fyrsta virkjunin á Íslandi byggð árið 1921. Í ánum veiðist lax og silungur. Það er hefð fyrir því að borgarstjóri Reykjavíkur veiði fyrsta laxinn á hverju sumri. Guðrún Katrín Þorbergsdóttir. Guðrún Katrín Þorbergsdóttir (fæddist 14. ágúst 1934 í Reykjavík, lést 12. október 1998 í Seattle) var fyrsta konan til að ná kjöri í bæjarstjórn Seltjarnarness, framkvæmdastjóri Póstmannafélag Íslands og forsetafrú. Hún giftist Ólafi Ragnari Grímssyni árið 1974 og eignaðist með honum tvíburadætur ári seinna. Hún náði fyrst kjöri sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórnakosningunum 1978 og sat í fjögur kjörtímabil, ýmist sem fulltrúi Alþýðubandalagsins eða sameiginlegs lista nokkurra framboða. Hún lést af hvítblæði árið 1998. Skógarkerfill. Skógarkerfill (fræðiheiti: "Anthriscus sylvestris") er ágeng sveipjurt sem var líklega flutt til Íslands sem skrautplanta upp úr 1920. Hann er hávaxinn og öflugur í samkeppni við þær tegundir sem fyrir eru og getur eytt þeim gróðri sem fyrir var. Naomi Campbell. Naomi Campbell (fædd 22. maí 1970 í London) er ensk fyrirsæta og leikkona. Handanvera. Handanvera (franska: "Transcendance") er samkvæmt 20. aldar heimspekingnum Jean-Paul Sartre annar hlutinn af hugtakapari. Í fyrsta lagi er staðvera (franska: "facticité"), en hún er heild þeirra staðreynda sem einkenna hlutskipti mannsins, sá efniviður sem hann getur smíðað líf sitt úr. "Handanvera" er aftur á móti það hvernig hann vinnur úr þessum efnivið, hvað hann gerir úr sér á grundvelli þessara staðreynda. Sumum finnst handanvera vera óskýr þýðing á franska hugtakinu, alltént eins og Sarte lítur á það, og vilja frekar nefna "Yfirstigningu". Staðvera. Staðvera (franska: "facticité"), er samkvæmt 20. aldar heimspekingnum Jean-Paul Sartre annar hlutinn af hugtakapari. Í fyrsta lagi er "staðvera" en hún er heild þeirra staðreynda sem einkenna hlutskipti mannsins, sá efniviður sem hann getur smíðað líf sitt úr. Handanvera merkir aftur á móti það hvernig hann vinnur úr þessum efnivið, hvað hann gerir úr sér á grundvelli þessara staðreynda. Safari. Safari er vafri hannaður og markaðsettur af Apple Inc. Hann er byggður á WebKit kóðasafninu. Hann fylgir með stýrikerfunum Mac OS X og iOS. Fyrsta útgáfa vafrans var gefin út sem prufuútgáfa 7. janúar 2003. Vafrinn var fyrst gefin út fyrir Windows stýrikerfið 11. júní 2007 og vafrinn styður Windows XP, Vista og Windows 7. Vafrinn er fjórði mest notaði vafri Bandaríkjanna, á eftir Internet Explorer, Mozilla Firefox og Google Chrome. Í janúar 2009 var markaðshlutdeildin af Safari 8,29%. Saga og þróun. Þangað tl 1997 voru Apple tölvur seldar með Netscape Navgator og Cyberdog. Internet Explorer var síðar seldur með stýrikerfinu Mac OS 8.1 í tengslum við fimm ára samning Apple og Microsoft. Á þessum tíma voru þrjár útgáfur af Internet Explorer gefnar út. Safari 1. 7. janúar 2003 tilkynnti Steve Jobs að Apple hafi hannað sinn eigin vafra sem gengi undir nafninu Safari. Fyrsta stóra útgáfa vafrans var útgefin 23. júní 2003. Mac OS X 10.3 kom út með vafranum en Internet Explorer var enn seldur með stýrikerfinu. Safari 2. Í apríl 2005 voru gallar lagfærðir í vafranum sem gerðu honum kleift að verða fyrsti vafrinn sem stóðst Acid2 prófið. Með tilkomu Mac OS X 10.4 varð Safari eini vafrinn sem fylgdi með stýrikerfinu. Safari 3. 9. janúar 2007 tilkynnti Steve Jobs að iPhone myndi nota farsímaútgáfu af Safari vafranum. 11. júní sama árs var vafrinn útgefinn fyrir Mac OS X 10.5, Windows XP og Windows Vista. Í Windows útgáfu vafrans leyndist galli sem leyfði farstjórnun vafrans, en Apple lagaði gallann þremur dögum síðar. Farsímaútgáfa vafrans fyrir iPhone var gefin út 29. júní 2007. Íslensk málfræði. Saga fræðilegrar umfjöllunar. Fyrsta skriflega umfjöllunin um íslenska málfræði sem vitað er um er Fyrsta málfræðiritgerðin. Fyrsta málfræðiritið sem gefið var út á prentuðu formi var "Grammatica Islandica rudimenta" (sem er latína og þýðir „grunnkennsla í íslenskri málfræði“) sem er oft stytt í "Rudimenta" eftir Runólf Jónsson (latínu: "Runolphus Jonae") sem kom út árið 1651 og var prentað í Oxford árið 1689. Fyrsta forníslenska orðabókin var "Specimen lexici runici" prentuð 1650. Fyrsta orðabók nútímaíslensku var "Lexicon Islandicum" eftir Guðmund Andrésson. Baldvin Halldórsson. Baldvin Halldórsson (23. mars 1923 - 14. júlí 2007) var íslenskur leikari. Barði Guðmundsson. Barði Guðmundsson (fæddur 5. maí 1957) er íslenskur leikari. Bergur Þór Ingólfsson. Bergur Þór Ingólfsson (f. 6. janúar 1969) er íslenskur leikari. Auðkennislykill. Auðkennislykill til að skrá sig inn á vefþjónustu. Auðkennislykill er tæki sem gerir notanda tölvuþjónustu auðveldara fyrir að bera kennsl á sig. Hugtakið á einnig við um hugbúnað sem gegnir sama hlutverki. Auðkennislyklar eru notaðir til að sanna auðkenni manneskju á rafrænan hátt. Talnaruna ásamt eða í stað lykilorðs er notuð til að sanna að viðskiptavinurinn sé sá sem hann segist vera. Sumir lyklana innihalda dulkóðaða lykla, eins og stafræna undirskrift, lífsýni eða fingraför á meðan aðrir eru með lítil lyklaborð til að stimpla in PIN númer eða takka sem gefur upp talnarunu. Auðkennislyklar á íslandi. Á íslandi býður fyrirtækið Auðkenni ehf upp á svokallaða takka auðkennislykla. Þessir lyklar eru notaðir til innskráningar í íslenska vefbanka og eru af gerðinni Todos eCode Ez Token. Íslensku bankarnir fengu sérstakt leyfi fyrir auðkennislyklunum frá samkeppniseftirlitinu. N-reglur. N-reglur eru reglur í íslenskri stafsetningu um það hvort rita skuli eitt n eða tvö í tilfellum þar sem enginn greinarmunur er gerður í framburði. Eftir uppruna orða. Fjöldi n-a í orði fer eftir uppruna þess. Það getur oft reynst erfitt að finna skyld orð sem sýna hvort eitt n sé í orðinu eða tvö, og ef allt bregst er best að nota útilokunaraðferðina. Er þá best að leita að orðum sem eru af sömu rót með tvö nn í stofni. Ef ekkert slíkt orð finnst, er best að nota eitt n. Í smáorðum. Ýmis smáorð sem tákna stefnu frá einhverjum stað enda á "-an" og aldrei á "-ann". Atviksorðin „þanneiginn“ (þann + veginn) og „hinseginn“ enda með tveimur n-um. Enn og en. Það skal skrifa „enn“ ef það er hægt að setja „enn þá“ í staðinn án þess að merkingin breytist. Annars er „en“ notað. „En“ er líka oftast notað í samanburði. Einnig er „en“ samtenging. Í greini. Jafnmörg n eru í lausum greini, í viðskeyttum greini og í eignarfornöfnum. Hægt er að finna n fjölda í viðskeyttum greini með því að bæta "minn" eða "mín" fyrir aftan vafaorðið. Ef fyrsta sérhljóðið í eignarfornafninu er í er eitt n ("mín", "mínar") en ef sérhljóðið er i eru tvö n ("minn", "mínir"). Regla eitt. Karlkynsorð sem hafa endinguna "-ann", "-inn" og "-unn" í nefnifalli eintölu, hafa eitt n í öllum öðrum föllum (þolfalli, þágufalli og eignarfalli). Orðin Huginn, Reginn og Muninn eru eins í þolfalli og þágufalli (Hugin, Munin og Regin). Orðið aftann (sem þýðir kvöld eða síðdegi) er eina orðið í nútímaíslensku sem beygist eftir þessari reglu, og er mest notað í samsettum orðum eins og "aftan'"söngur" (kvöldmessa) eða "aftan'"bjarmi" (kvöldroði). Regla tvö. Sum ættarnöfn sem enda á -an í nefnifalli hafa eitt n í öllum föllum. Nöfnin Kiljan, Kamban, Kjaran, Kvaran, Kjartan, Natan osfv. eru dæmi um slík ættarnöfn. Regla eitt. N-regla eitt fyrir kvenkyns nafnorð, oft kölluð Þórunnarregla hljómar svo að íslensk kvennanöfn sem eru mynduð af orðinu unnur sem þýðir alda (eins og Þórunn, Jórunn, Iðunn, Ingunn, Ljótunn, Dýrunn, Sæunn), hafa tvö n í öllum föllum. Regla tvö. N-regla tvö fyrir kvenkyns nafnorð, oft kölluð miskunnarregla hljómar svo að hin fjögur kvenkyns nafnorð sem eru dregin af sögnunum að "kunna" og að "kenna" (einkunn, vorkunn, miskunn og forkunn) hafa tvö n í öllum föllum. Regla þrjú. N-regla þrjú fyrir kvenkyns nafnorð, oft kölluð verslunarregla hljómar svo að kvenkyns nafnorð sem enda á -un eða -an í nefnifalli, og eru dregin af nafnhætti sagna, á að skrifa með einu n í öllum föllum. Internet Movie Database. Internet Movie Database (skammstafað IMDb) er vefsíða sem var stofnuð árið 1990. Hún hýsir gagnagrunn um leikara, kvikmyndagerðamenn, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki. Upplýsingarnar eru að mestu aðsent efni frá innskráðum notendum síðunnar. Árið 1998 var "IMDb" keypt af Amazon. Bjarni Ingvarsson. Bjarni Ingvarsson (f. 30. ágúst 1952) er íslenskur leikari og leikstjóri. Hann er einn af stofnendum Möguleikhússins og hefur leikið og stjórnað á þeim vettvangi. Einnig hefur hann sett upp sýningar með Hugleik og fleiri leikfélögum. Björgvin Franz Gíslason. Björgvin Franz Gíslason (f. 9. desember 1977 í Reykjavík) er íslenskur leikari. Björn Hlynur Haraldsson. Björn Hlynur Haraldsson (f. 8. desember 1974) er íslenskur leikari og leikstjóri. Ferill í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Björn Hlynur leikstýrði söngleiknum Jesus Christ Superstar sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu í desember 2007. Björn Ingi Hilmarsson. Björn Ingi Hilmarsson (f. 17. ágúst 1962) er íslenskur leikari. Dofri Hermannsson. Dofri Hermannsson (f. 25. september 1969) er íslenskur leikari og stjórnmálamaður. hann er 3. varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, en er í leyfi. Hann var 1. varaborgarfulltrúi á síðasta kjörtímabili og hefur átt talsverðam þátt í mótun stefnu flokks síns í umhverfismálum. Eggert A. Kaaber. Eggert A. Kaaber (f. 17. janúar 1964) er íslenskur leikari. Egill Heiðar Anton Pálsson. Egill Heiðar Anton Pálsson (f. 26. október 1974) er íslenskur leikari. Eiríkur Guðmundsson. Eiríkur Guðmundsson (f. 7. apríl 1957) er íslenskur leikari. Egill Ólafsson. Egill Ólafsson (f. 9. febrúar 1953) er íslenskur söngvari, leikari, laga- og textahöfundur. Eiginkona hans er Tinna Gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjóri. Ellert Ingimundarson. Ellert Ingimundarson (f. 17. ágúst 1957) er íslenskur leikari. Emil Gunnar Guðmundsson. Emil Gunnar Guðmundsson (f. 30. júlí 1954) er íslenskur leikari. Erlendur Eiríksson. Erlendur Eiríksson (f. 22. febrúar 1970) er íslenskur leikari. Erling Jóhannesson. Erling Jóhannesson (f. 10. apríl 1963) er íslenskur leikari. Erlingur Gíslason. Erlingur Gíslason (f. 13. mars 1933) er íslenskur leikari. Brimarhólmur. Brimarhólmur eða Brimarahólmur (danska "Bremerholm") var upphaflega eyja við Kaupmannahöfn, en síðan tengd landi á 16. öld og reist þar verkstæði danska sjóhersins er var að nokkru rekið með nauðungarvinnu afbrotamanna. Þangað voru m.a. margir íslenskir brotamenn dæmdir. Brimarhólmur var við lýði sem fangelsi frá 16. öld og fram um miðja 19. öld. Frá 17. maí 1741 var hætt að hafa þar aðra afbrotamenn en úr danska sjóhernum og tók Stokkhúsið þá við íslenskum brotamönnum. Beltaþyrill. Beltaþyrill (fræðiheiti: "Ceryle alcyon" eða "Megaceryle alcyon") einnig verið nefndur Ísfugl er stór fugl af þyrlaætt sem verpir í Norður-Ameríku og Kanada. Beltaþyrillinn grefur sér grenishreiður í jarðveg líkt og Lundinn. Það er með göngum líkt og greni refa og góð vörn og skjól fyrir unga og egg. Rihanna. Robyn Rihanna Fenty (fædd 20. febrúar 1988) sem er betur þekkt undir millinafninu Rihanna, er barbadósk söngkona, lagasmiður og fyrirsæta. Hún fæddist í Saint Michael á Barbados en flutti til Bandaríkjanna þegar hún var 16 ára til þess að láta reyna á söngferil undir leiðsögn plötuframleiðandans Evan Rogers. Árið 2005 gaf Rihanna út stúdíó-plötuna Music of the sun sem náði ágætum vinsældum og var vinsælasta lagið á plötunni "Pon de Replay". Innan árs síðar gaf hún út aðra plötuna sína, "A Girl Like Me" (2006), sem náði meiri vinsældum en fyrri platan og náði lagið "SOS" miklum vinsældum ásamt lögunum "Unfaithful" og "Break it Off". Þriðja platan hennar, "Good Girl Gone Bad" (2007), náði öðru sæti á Billboard 200-listanum og átti fimm vinsæl lög: „Umbrella“, „Take a Bow“, „Disturbia“, „Don't Stop the Music“ og „Shut Up and Drive“. Platan var tilnefnd til níu Grammy-verðlaunanna og vann verðlaun fyrir besta rap- eða söngsamstarfið fyrir lagið „Umbrella“ sem hún söng með Jay-Z. Rihanna hefur selt yfir 12 milljónir platna um allan heim á fjögurra ára ferli sínum og hefur fengið nokkur virt verðlaun. Rihanna hefur átt fimm smáskífur á toppi Hot 100-listans og er sú fyrri af aðeins tveimur söngkonum sem hafa náð þessum fjölda síðan árið 2000. 1988 - 2004: Æska og plötusamningur. Rihanna fæddist í Saint Michael á Barbados og eru foreldrar hennar Ronald Fenty, umsjónarmaður í vöruhúsi, og Monica Fenty. Móðir hennar sem er frá Guyana er hálf-afrísk og faðir hennar er frá Barbados og Írlandi. Hún er elst af þremur systkinum en hún á tvo yngri bræður, Rorrey og Rajad Fenty. Hún byrjaði að syngja í kringum sjö ára aldurinn. Æska hennar var að miklu leyti mótuð af fíkn föður hennar í kókaín og óstöðugu hjónabandi foreldra hennar, sem endaði þegar hún var 14 ára. Rihanna gekk í Charles F. Broom Memorial-skólann og seinna í Combermere-skólann þar sem hún stofnaði tónlistartríó með tveimur bekkjarfélögum sínum þegar hún var 15 ára. Árið 2004 vann hún ungfrú Combermere-fegurðarsamkeppnina. Þegar hún var fimmtán ára stofnaði hún stelpnaband með tveimur bekkjarsystrum sínum. Árið 2003 kynntu vinir Rihönnu og bandfélaga hennar, þær fyrir plötuframleiðandannum Evan Rogers, sem var í fríi á Barbados með konunni sinni. Hópurinn fékk áheyrnarprufu hjá Rogers og sagði hann að um leið og Rihanna hafi gengið inn í herbergið, væri eins og hinar tvær væru ekki til. Í áheyrnarprufunni söng Rihanna Destiny's Child lagið "Emotion". Næsta árið skutluðust Rihanna og móðir hennar til og frá heimili Rogers í Stamford í Connecticut. Stuttu eftir að hún varð 16 ára fluttu hún til Bandaríkjanna og flutti inn til Rogers og konu hans. Carl Sturken hjálpaði Rihönnu að taka upp fjögur demó-lög, m.a. ballöðuna "Last Time", "For the Love of You" (upphaflega með Whitney Houston) og það sem átti eftir að verða fyrsti smellurinn hennar, "Pon de Replay", og var demóið sent til margra plötuútgáfufyrirtækja. Það tók ár að taka upp lögin vegna þess að hún gekk í skóla og gat aðeins tekið upp í sumar- og jólafríum. Demóin náðu til Def Jam, sem bauð henni að koma í prufu hjá þáverandi forstjóra, Jay-Z, sem bauð henni strax samning. 2005 - 2006: "Music of the Sun" og "A Girl Like Me". Eftir að hafa skrifað undir samning hjá Def Jam, eyddi hún næstu þremur mánuðum í að taka upp og klára fyrstu plötuna sína. Hún innihélt lög frá Evan Rogers, Carl Sturken, Stargate og Poke & Tone. Hún starfaði með rapparanum Memphis Bleek á fjórðu stúdíóplötunni hans "534" áður en hún byrjaði á sinni eigin. Hún gaf út smáskífuna "Pon de Replay" þann 22. ágúst 2005 og náði það öðru sæti á Billboard Hot 100 listanum. Það varð einnig vinsælt um allan heim. Platan, "Music of the Sun", kom út í ágúst 2005 í Bandaríkjunum og seldist hún í 69,000 eintökum fyrstu vikuna. Platan hefur selst í yfir tveimur milljónum eintaka um allan heim og náði gullsölu eftir að hafa selst í 500,000 eintökum. Tónlistin hennar var markaðsett innan soca- og reggítónlistar vegna tengsla hennar við Karíbahafið. Platan fékk misgóða dóma og gaf tímaritið Rolling Stone 2.5 stjörnur af 5. Fleiri tímarit og gagnrýnendur sögðu álit sitt á plötunni sem var misgott. Mánuði eftir að "Music of the Sun" kom út byrjaði hún að vinna að annarri stúdíóplötunni sinni. Platan innihélt verk frá plötuframleiðendunum Evan Rogers og Carl Sturken, sem framleiddu meirihlutann af fyrstu plötunni hennar, Stargate, J.R. Rotem og Ne-Yo. Á meðan hún var að taka upp plötuna var Rihanna upphitunaratriði fyrir Gwen Stefani þegar hún var að kynna plötuna sína. Aðalsmáskífan, "SOS", náði fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum og var það fyrsta lagið hennar sem náði fyrsta sæti. "A Girl Like Me" kom út í apríl 2006, aðeins átta mánuðum á eftir fyrstu plötunni. Platan seldist í 115,000 eintökum fyrstu vikuna og náði platínumsölu og hefur selt yfir milljón eintök um allan heim. Aftur voru dómarnir misgóðir og sagði tímaritið Rolling Stone „eins og fyrri platan hennar er þessi nokkuð svipuð en er góðir eftirfari en kemur ekki neinu til skila...“. Gagnrýnendur sögðu einnig að platan væri mitt á milli glaðlegs dancehall/dup-pop og hip-hop sem blandast klúbbatónlist og ballöðum. Önnur smáskífan, "Unfaithful", náði miklum vinsældum um allan heim og náði á topp 10 lista í löndum um allan heim, m.a. í Kanada, Frakklandi og Sviss. Þriðja smáskífan, "We Ride", náði litlum vinsældum en sú fjórða "Break it Off", sem hún söng með Sean Paul náði mjög miklum vinsældum. Eftir að platan kom út fór hún í tónleikaferðalag sem bar nafnið "Rock Tha Bloc Tour" og svo fór hún að túra með The Pussycat Dolls frá nóvember 2006 - febrúar 2007 í Bretlandi. Síðan 2007: "Good Girl Gone Bad" og ofbeldismál. Rihanna fór í hljóðver snemma árið 2007 ásamt Ne-Yo, Stargate og Timbaland ásamt öðrum til þess að taka upp þriðju sólóplötuna sína, "Good Girl Gone Bad". Hún eyddi Grammy-vikunni í að semja lög með Ne-Yo. Markmið plötunnar var að fara í aðra átt með hjálp Timbaland, will.i.am og Sean Garrett en einnig að gæða ímynd hennar fersku og danslegu ívafi. Þegar hún var að taka upp plötuna sagði hún að hún vildi halda fólki dansandi en samt vera í soul-stíl á sama tíma. Hún sagði síðar: „Manni líður mismunandi á hverri plötu og á þessum tímapunkti líður mér eins og ég vilji gera mörg hress lög.“ Hún byrjaði síðan í söngtímum hjá Ne-Yo fyrir þriðju plötuna. "Good Girl Gone Bad" kom út í júní 2007. Ólíkt fyrri plötum hennar, innihélt þessi fleiri danslög í staðinn fyrir ballöður og reggílög. Platan gaf af sér átta smáskífur, meðal annars smellinn "Umbrella" með Jay-Z. Til viðbótar var lagið einnig á toppi breska vinsældarlistans tíu vikur í röð, sem gerði lagið að því vinsælasta síðan hljómsveitin Wet Wet Wet gaf út "Love is All Around" sem sat samtals í fimmtán vikur á toppnum árið 1994. Lagið lenti í þriðja sæti á Billboard Hot 100 listanum árið 2007 sem birtur er af tímaritinu Rolling Stone. Aðrar smáskífur plötunnar voru "Shut up and Drive", "Don't Stop the Music" og "Hate That I Love You" náðu miklum vinsældum eins og "Umbrella". Endurútgáfa af þriðju plötunni hennar, titlðari "Good Girl Gone Bad: Endurhlaðin", var gefin út í júní 2008. Rihanna gaf út fyrstu smáskífuna af plötunni "Take a Bow" sem varð vinsæl um allan heim; einnig var gefinn út dúett með Maroon 5, "If I Never See Your Face Again" og annar smellur, "Distrubia". "Disturbia" náði í 4. sæti áður en lagið fór upp í fyrsta sætið og þar sem önnur smáskífa, "Take a Bow" var í 2. sæti varð Rihanna sjöunda söngkonan til þess að eiga tvö lög á topp 5-listanum. Eftir það söng Rihanna lagið "Live Your Life" með rapparanum T.I.. Það gerði Rihönnu að annarri af tveimur söngkonum með flestar smáskífur á þessum áratug en hin er Beyoncé Knowles. Good Girl Gone bad hefur selst í yfir tveimur milljónum eintaka og er orðin tvöföld platínum plata, og er það best selda platan hennar til þessa. Hún var tilnefnd í fjórum flokkum á MTV tónlistarverðlaununum árið 2007 og vann hún Risa Smáskífu ársins og Myndband ársins. Árið 2008 fékk hún fyrstu Grammy verðlaunin sín fyrir besta Rap/Sungna samstarfið til viðbótar við hinar fimm tilnefningarnar, meðal annars plata ársins, besta danslagið, besta R&B frammistaðan í hóp og besta R&B lagið. Til þess að styjða plötuna lagði hún í "Good Girl Gone Bad tónleikaferðina" þann 12. september 2007 og hélt hún tónleika í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu og hélt síðan á "Glow in the Dark" tónleikaferðalagið með Kanye West, Lupe Fiasco og N.E.R.D. þann 16. apríl 2008. Rihanna vann líka "uppáhalds Pop/Rock söngkonan" og "uppáhalds Soul/R&B söngkonan" árið 2008 á Bandarísku tónlistarverðlaununum. Miðenska. Miðenska er enskan sem töluð var frá 1066 til 15. aldar á Englandi. Fornfranska. Fornfranska er franskan sem töluð var frá um 1000 til 1300 í norður-Frakklandi og að hluta í Belgíu og Sviss. Evert Ingólfsson. Evert Ingólfsson (f. 29. október 1947) er íslenskur leikari. Eyþór Árnason. Eyþór Árnason (f. 2. ágúst 1954) er íslenskur leikari og skáld. Hann hefur starfað sem sviðsstjóri frá 1987, lengst af hjá Stöð 2, en var ráðinn fyrsti sviðsstjóri tónlistarhússins Hörpu fyrir opnun hússins. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2009 fyrir fyrstu ljóðabók sína, "Hundgá úr annarri sveit". Árið 2011 sendi hann frá sér ljóðabókina "Svo ég komi aftur að ágústmyrkrinu". Felix Bergsson. Felix Bergsson (f. 1. janúar 1967) er íslenskur leikari, útvarpsmaður og söngvari. Friðrik Friðriksson (leikari). Friðrik Friðriksson (f. 12. apríl 1972) er íslenskur leikari. Gestur Einar Jónasson. Gestur Einar Jónasson (f. 4. maí 1950) er íslenskur leikari og útvarpsmaður. Skoska. Skoska (skoska: Scots) er vesturgermanskt tungumál talað í Skotlandi af yfir 1,5 milljónum manns. Sumir telja skosku vera mállýska úr ensku en ekki aðgreint tungumál. Þetta er ágreiningsmál á meðal málamanna og fræðimanna. Stundum er skoska nefnd "Lowland Scots" í Skotlandi til þess að greina sundur skosku og skoska gelísku, sem töluð er í skosku hálöndunum og á skosku eyjunum. Scarlett Johansson. Scarlett I. Johansson (fædd 22. nóvember 1984) er bandarísk leik- og söngkona. Johansson lék í fyrstu myndinni sinni árið 1994 en það var "North" og var hún tilnefnd til verðlauna fyrir frammistöðu sína. Scarlett varð frægari árið 1998 eftir að hafa leikið í myndinni "The Horse Whisperer" og fékk mikið lof gagnrýnenda fyrir hlutverk sitt í "Ghost World" árið 2001 en það hlutverk gerði hana fræga og vann hún Chlotrudis verðlaunin fyrir vikið. Hún skipti yfir í fullorðinshlutverk með marglofaðri frammistöðu sinni í mynd Sofiu Coppola, "Lost in Translation" á móti Bill Murray og vann hún BAFTA verðlaun, og "Girl with a Pearl Earring" en báðar myndirnar færðu henni Golden Globe tilnefningu árið 2003. Hlutverk hennar í "A Love Song for Bobby Long" færði henni þriðju Golden Globe tilnefninguna fyrir bestu leikkonu. Eftir að hafa leikið í "The Island" fékk Scarlett náð fyrir augum gagnrýnenda og fjórðu Golden Globe tilnefninguna, fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki, fyrir leik sinn í mynd Woody Allen, "Match Point". Hún fylgdi henni eftir með annarri mynd Allen, "Scoop", með Hugh Jackman. Eftir að hafa leikið í misheppnuðu myndinni "Nanny Diaries" árið 2007 fékk ferill Johansson endurvakningu að hálfu gagnrýnenda með myndinni "The Other Boleyn Girl" árið 2008, þar sem hún lék á móti Natalie Portman og Eric Bana og Woody Allen myndinni "Vicky Christina Barcelona" með Javier Bardem og Penélope Cruz. Hún fékk góða dóma fyrir leik sinn í "He's Just Not That Into You" árið 2009 og mun leika í "Iron Man 2" ásamt Robert Downey Jr. og Samuel L. Jackson. 20. maí 2008 gaf Scarlett út sína fyrstu plötu, "Anywhere I Lay My Head", þar sem hún söng lög Tom Waits. Önnur platan hennar, "Break Up" með Pete Yorn kom út í september 2009. Árið 2010 lék hún ofurnjósnarann Black Widow (Natasha Romanov) í Marvel-ofurhetjumyndinni "Iron Man 2" og endurtók hlutverkið í ofurhetjumyndinni "The Avengers". Kvikmyndir. Johansson, Scarlett Dýrabær. "Dýrabær" ("Animal Farm") er skáldsaga eftir George Orwell og ein frægasta háðsádeilan sem lýsir sovéskum alræðistilburðum. Orwell byggði bókina á atburðum sem áttu sér stað fram að og á meðan einveldi Jósef Stalíns stóð. Orwell, demókratískur sósíalisti og meðlimur í Sjálfstæða Verkalýðsflokknum í mörg ár, gagnrýndi Stalín og hafði efasemdir um gagn Stalínisma eftir upplifanir sínar í spænsku borgarastyrjöldinni. Bókin var valin ein af 100 bestu ensku skáldsögunum á tímabilinu 1923 til dagsins í dag af tímaritinu TIME Magazine. Söguþráður. Söguþráðurinn flokkast undir allegóríu, þar sem svínin leika hlutverk uppreisnarsinnaðra Bolsjevíkana og steypa mannverunum á bænum af stóli og setja upp samfélag þar sem öll dýrin eru "jöfn", allavega í fyrstu. Major, gamli gölturinn á búgarðinum "Miklabæ" kallar hin dýrin á bænum á sinn fund, þar sem hann líkir mannverunum við sníkjudýr, og tekur svo upp á því að kenna dýrunum uppreisnarsönginn "Skepnur Englands." Þegar Major deyr svo þrem dögum seinna taka tveir ungir geltir - Snækollur og Napóleon - völdin og breyta draumi hans í veruleika. Dýrin á bænum gera uppreisn og reka hjónin sem eiga bæinn á brott og skýra hann "Dýrabæ." Sjö boðorð dýrahyggjunar eru svo rituð á hlöðuvegginn þar sem allir geta lesið þau. Mikilvægasta boðorðið er "öll dýr eru jöfn." Þessi pólitíska dæmisaga verður ekki einungis að ævintýri í höndum Orwells, heldur á endanum að harmleik um draum og veruleika. Tómhyggja. Tómhyggja eða níhílismi (áður nefnd alneitunarstefna) er stefna í heimspeki, sem staðhæfir að alheimurinn, einkum þó tilvist mannskepnunnar, sé án einhvers raunverulegs gildis, markmiðs, sannleika eða ómissandi tilgangs. "Tómhyggjumenn" eða "níhilistar" trúa ýmist öllum eða einhverju af eftirfarandi hugmyndum: það er engin rökbundin sönnun fyrir tilvist „æðri drottnara“ eða skapara, „sannur“ siðaboðskapur er með öllu óþekktur og einhver sönn siðferðisgildi sem ná eiga yfir alla veröldina eru ómöguleg; lífið hefur engan ósvikinn æðri „sannleika“ að geyma og engar gjörðir manna né dýra séu í raun „ákjósanlegri“ eða „betri“ en einhverjar aðrar. Orðið "níhilismi" er dregið af latneska fornafninu "nihil" sem þýðir einfaldlega „ekkert“. Hugtakið varð fyrst fleygt eftir að það kom fyrir í skáldsögu rússneska rithöfundarins Ivans Turgenévs (1818 – 1883), "Feður og synir". Hin svonefnda Nihilistahreyfing í Rússlandi tók orðið upp á sína arma og gerði að stefnu sinni en Nihilistahreyfingin lýsti sig andsnúna öllu valdi og varð mjög umdeild í Rússlandi á nítjándu öld. Wicca. Wicca er nafn á nýheiðinni sértrú sem einkennir alls konar hópa víðsvegar um heiminn. Það var fyrst dregið fram á sjónarsviðið 1954 af breskum opinberum starfsmanni, Gerald Gardner að nafni, eftir að galdralögin á Bretlandi voru numin úr gildi. Gardner hélt því fram að wicca væri trúarbrögð og nútíma afkomandi „nornatrúar“ sem hafði legið í leyni frá fornöld og ætti því upphaf sitt að rekja til heiðins siðar fyrir tíð kristni í Evrópu. Það hefur engum tekist að færa rökbundna sönnun fyrir fullyrðingum Gardners og í dag er það álitið að Gardner hafi sett saman wicca sjálfur, þar sem mest af trúfræðilegu innihaldi þess er hægt að rekja til fyrirbæra sem sagnfræðirit frá 19. öldinni hafa þegar gefið til kynna. Wicca virðist að mestu leyti byggt á enskum og keltneskum þjóðfræðum, enokíska kerfi Johns Dee, Thelema, Golden Dawn, Stregheria, tantrísku jóga og KJV Biblíunni. Í nútímanum hafa mörg mismunandi afbrigði af wicca verið búin til eftir þeirri reglu sem Gardner skapaði upphaflega og fékk viðurnefnið gardnerískt wicca. Þessi afbrigði byggja þó flest öll á sinni eigin sjálfstæðu trú, helgisiðum og athöfnum. Sjóher. Sjóher (flotalið eða sjólið) er herlið sem er þjálfað og útbúið til að berjast á sjó, á herskipum. Undir sjóher flokkast mannskapur um borð í herskipum, kafbátum og einnig sá hluti flughers sem tekur á loft af flugmóðurskipum. Nokkur hugtök. "Stólaher" er haft um allan herskipaflota þjóðar eða einhverjar tiltekinnar einingar. "Sjóhernaður" er hernaður sem fer fram á sjó. "Sjóhermaður" er maður í sjóher. "Sjóliðsforingjar" (flotastjórar) eru nefndir "aðmírálar". "Lautinant" er foringi herflokks (bæði á sjó og landi). Lautinantar eru stundum nefndir "luktafantar" á íslensku. Til forna börðust víkingar oft á sjó. Nokkur hugtök eru tengd þeim tíma. "Frálaga" (sbr. atlaga) nefnist það að leggja frá í sjóorrustu, "hrjóða skip" nefndist það að fella eða hrekja menn af skipi, "stafnleggja skipi" var það nefnt að leggja stafni að öðru skip í sjóorrustu. Melgresi. Melgresi (melgras, melur eða sandhafrar) (fræðiheiti: "Leymus arenarius") er sérlega stórgert og hávaxið gras, allt að 90 sentímetra á hæð. Það er fyrst og fremst þekkt fyrir að geta vaxið í þurrum fjörusandi og sandorpnum hraunum og bundið þar foksand. Melgresi er því mikið notað við uppgræðslu. Þó melgresi vaxi á Íslandi einnig til landsins vex það víða annars staðar eingöngu sem strandplanta. Ax melgresis er 12 til 20 sentimetra langt. Smáöxin hafa þrjú blóm. Stundum er fjórða blómið en það er þá gelt. Þúfa vaxin melgresi nefnist "melakollur", "melhnubbur" eða "melborg" (melborg er þó oftast notað um hól vaxinn melgresi). Melkorn. "Melkorn" (eða "melbygg") nefndist korn af melgresinu og var á Austurlandi (í Skaftafellssýslum) nýtt til brauðgerðar. "Tisma" eða "tismi" nefndist brauðdeigið sem var gert úr melkorni. Melgresið var þá skorið og hrist (talað var um að "skaka mel") og korn þess þurrkuð í sofnhúsum. Sofnhús gat verið klefi eða grjóthlaðinn kofi. "Sigðagjöld" var mjölgrautur úr melkorni, en hann var gefinn hjúum fyrir melskurð. Brenninetla. Brenninetla (einnig: natra, notrugras eða nötrugras) (fræðiheiti: "Urtica dioeca") er planta með örsmá grágræn blóm í þéttum blómskipunum. Brenninetla getur verið allt frá 40 til 120 cm á hæð. Hún er frekar sjaldgæfur slæðingur hér á landi, nema í nánd við mannabústaði, og þá oftast í görðum eða í nánd við ræktaða garða. Hún blómgast í júlí. Laufblöð, stönglar og blaðstilkar eru með grófum um 2 mm löngum brennihárum, sem vernda plöntuna gegn snertingu manna og dýra. Af þessum eigindum hennar hefur hún fengið nafn sitt. Alþjóðastofnun. Alþjóðastofnun eða alþjóðasamtök er samtök fullvalda ríkja sem hafa ákveðin markmið og reglur sem aðilar að þeim þurfa að fullnægja og fylgja eftir. Sem dæmi má nefna Evrópusambandið, Rauða krossinn eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Alþjóðleg félagasamtök, sem á ensku útleggst sem "non-governmental organization (NGO)", eru samtök sem fyrir einstaklinga sem starfa þvert á landamæri. Nokkuð er um að þessi hugtök séu notuð frjálslega og þeim ruglað saman en almennt er notast við alþjóðastofnun um samtök ríkja og alþjóðasamtök eða alþjóðleg félagasamtök um frjáls félagasamtök. Margar alþjóðastofnanir eru bundnar við ákveðin svæði eða jafnvel heimsálfur, t.d. Samband Suðaustur-Asíuríkja. Aðrar stofnanir eru hnattrænar, t.d. Sameinuðu þjóðirnar. Flestar alþjóðastofnanir og alþjóðasamtök eiga sér stofnsáttmála. Sem aðildarríki þurfa að samþykkja og, í sumum tilvikum, binda í lög. Gísli Alfreðsson. Gísli Alfreðsson (f. 24. janúar 1933) er íslenskur leikari. Gísli Pétur Hinriksson. Gísli Pétur Hinriksson (f. 29. maí 1979) er íslenskur leikari. Gísli Rúnar Jónsson. Gísli Rúnar Jónsson (f. 20. mars 1953) er íslenskur leikari, leikstjóri og handritshöfundur. Aino Freyja Järvelä. Aino Freyja Järvelä (f. 10. maí 1974) er íslensk leikkona. Þrúður Vilhjálmsdóttir. Þrúður Vilhjálmsdóttir (f. 31. mars 1973) er íslensk leikkona. Þórunn Lárusdóttir. Þórunn Lárusdóttir (f. 6. janúar 1973) er íslensk leikkona. Þórunn Pálsdóttir. Þórunn Pálsdóttir (f. 3. nóvember 1951) er íslensk leikkona. Þórunn Magnea Magnúsdóttir. Þórunn Magnea Magnúsdóttir (f. 10. nóvember 1945) er íslensk leikkona. Þórunn Erna Clausen. Þórunn Erna Clausen (f. 12. september 1975) er íslensk leikkona. Þórunn Erna er dóttir hins dansk ættaða Hauks Clausen (8. nóvember 1928 – 1. maí 2003), tannlæknis og frjálsíþróttamanns, og konu hans Elínar Hrefnu Thorarensen (f. f. 17. febrúar 1944). Hún lærði leiklist við Webber Douglas Academy í London og útskrifaðist þaðan árið 2001. Þórunn Erna hefur meðal annars leikið Rauðhettu í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Dóru í" Lykli um hálsinn" í Vesturporti. Hún lék einnig í einleiknum "Ferðir Guðríðar" í Skemmtihúsinum, bæði á ensku og þýsku, og í söng- og spunasýningunni "Le Sing" á Broadway. Hún lék Nansí í söngleiknum "Ólíver" hjá Leikfélagi Akureyrar og Sue í "Dýrlingagenginu" sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur og hlaut fyrir það tilnefningu til Grímunnar árið 2003 sem leikkona ársins í aukahlutverki. Hún var tilnefnd til Edduverðlauna árið 2004 fyrir aukahlutverk í kvikmyndinni "Dís" og árið 2005 fyrir aðalhlutverk í sjónvarpsþáttunum "Reykjavíkurnætur". Af öðrum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum má nefna "Mannaveiðar," "Maður eins og ég", "Going up", "Fjölskyldu" og "Rétt 2". Þórunn Erna hefur lengst af starfað við Þjóðleikhúsið og meðal annars leikið þar í "Syngjandi í rigningunni", Ragnheiði Birnu í "Þetta er allt að koma", Reyndar í "Leitinni að jólunum", í "Virkjuninni", "Sælueyjunni", móðurina í "Sitji guðs englar", bangsann í "Góðu kvöldi" og Tínu í "Konan áður". Í Borgarleikhúsinu lék Þórunn Erna systur Margréti í "Söngvaseið" og var aðstoðarleikstjóri í leiksýningunni "Fjölskyldan – ágúst í Osage-sýslu". Þórunn Erna leikur nú í nýrri leikgerð af einleiknum um Guðríði Þorbjarnardóttur, "Ferðasögu Guðríðar" á íslensku í Víkingaheimum í Reykjanesbæ. Þórunn Erna var gift tónlistarmanninum Sigurjóni Brink, en saman sömdu þau lagið "Aftur heim", sem var framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2011. Sigurjón lést skyndilega þann 17. janúar 2011. Ýviður. Ýviður (eða ýr) (fræðiheiti: "Taxus baccata") er barrtré af ýviðarætt. Ýviðurinn er með dökkgrænar, mjúkar og gljáandi nálar. Nálarnar eru eitraðar, en einnig blómin á blaðöxlunum og kjarni aldinana sem eru hárauðir berkönglar. Ýviðurinn er seinvaxinn en verður allt að 1000 ára. Hann er ræktaður í görðum en þrífst illa á Íslandi. Spelt. Spelt (eða speldi) (fræðiheiti: "Triticum spelta") er hveititegund sem er ræktuð í sumum fjallahéruðum Evrópu. Speltið hefur löng, grönn og opin öx og var mikið ræktuð á bronsöld og allt fram á miðaldir. Spelti er algengt í heilsufæði vegna þess að það er talið hollara, en venjulegt hveiti. Spelt inniheldur mörg mikilvæg steinefni eins og kopar, zink, járn og mangan. Einnig inniheldur það B1- B2- og B3- Vítamín. Wikiorðabókin. Wikiorðabók er samstarfs vettvangur sem hefur það markmið að safna saman orðabókaskilgreiningum. Hún er fjöltyngd orðabók svo hún virki bæði sem venjuleg orðabók og til þýðinga á milli tungumála. Hún er eitt af verkefnum Wikimedia-stofnunarinnar og systurverkefni Wikipediu. Fyrsta wikiorðabókin var stofnuð á ensku 12. desember 2002. Á ensku eru greinarnar orðnar tæplega 80.000, en fæstar eru svo stórar, til dæmis hefur sú íslenska aðeins 24 greinar (þann 20. júlí 2005). Wikiheimild. Wikiheimild er samstarfsverkefni sem svipar til Wikipedia. Verkefnið hefur það markmið að safna saman frumtextum. Wikibækur. Wikibækur er samstarfsverkefni sem svipar til Wikipedia. Það inniheldur hins vegar frjálsar bækur og kennsluefni en ekki alfræðiefni eins og Wikipedia. Wikimedia Commons. Wikimedia Commons er miðlægur gagnagrunnur af myndum sem falla undir frjálst afnotaleyfi. Það er verkefni á vegum Wikimedia Foundation, stofnað 7. september 2004. Skrár á Commons er hægt að nota beint á öllum öðrum wiki-verkefnum á vegum WMF. Stefna. Commons hefur það aðalmarkmiði að styðja önnur Wikimedia verkefni. Því verða myndir sem eru hlaðnar inn að hafa notagildi fyrir eitthvert af Wikimedia verkefnunum. Þetta útilokar efni eins og persónulegar myndir og listaverk, ólíkt myndasöfnum eins og Flickr og Photobucket. Gæðaflokkar. Síðan hefur þrjá gæðaflokka til að meta myndir. Einn eru valdar myndir sem eru bestu myndir Commons. Úr völdum myndum er valin mynd dagsins og mynd ársins. Annar flokkur eru gæðamyndir. Ólíkt völdum myndum verða gæðamyndir að vera teknar af notendum Wikimedia verkefnanna. Þriðji flokkurinn "Valued images" eru bestu myndirnar í sínum flokki. Gordon Brown. James Gordon Brown (fæddur í Glasgow í Skotlandi, 20. febrúar 1951) er fyrrum formaður Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Bretlands en síðarnefnda embættinu gegndi hann frá 27. júní 2007 til 11. maí 2010. Gordon var fjármálaráðherra Bretlands á árunum 1997-2007 sem er lengsta tímabilið sem sami maðurinn hefur setið í því embætti frá því að Nicholas Vansittart gegndi því á árunum 1812-1823. Brown hefur átt í löngu samstarfi við fyrirrennara sinn, Tony Blair, og eru sögusagnir á kreiki um að þeir hafi gert með sér samkomulag um að deila með sér embættum. Æviferill. Foreldrar Gordons voru John Ebenezer Brown, prestur Skosku þjóðkirkjunnar og Elizabeth Brown. Gordon á tvo bræður, John og Andrew. Fjölskyldan bjó í Kirkcaldy í Skotlandi, þar sem Gordon hlaut grunnmenntun sína. Eftir að hafa útskrifast frá menntaskóla þar, tveimur árum á undan jafnöldrum sínum, gekk hann í Háskólann í Edinborg þar sem hann nam sagnfræði. Hann lauk meistaragráðu með hæstu einkunn árið 1972 og doktorsgráðu 1982 þar sem hann fjallaði um þróun breska Verkamannaflokksins á árunum 1918-1929. Gordon var kosinn rektor Háskólans í Edinborg árið 1972, á meðan hann var enn við nám þar. Hann var rektor skólans til 1975 en þá hóf hann kennslu í stjórnmálafræði við Tækniháskólann í Glasgow, þar sem hann kenndi til 1980. Hann bauð sig fram til þingkosninga árið 1979 en tapaði gegn Michael Ancram, frambjóðanda Íhaldsflokksins. Þá vann hann sem fréttamaður hjá Skoska ríkissjónvarpinu fram að 1983 en þá náði hann á þing. Heimild. Brown, Gordon Brown, Gordon .sl. .sl er þjóðarlén Síerra Leóne. .tz. .tz er þjóðarlén Tansaníu. .na. .na er þjóðarlén Namibíu. .zm. .zm er þjóðarlén Sambíu. .it. .it er þjóðarlén Ítalíu. .si. .si er þjóðarlén Slóveníu. .ua. .ua er þjóðarlén Úkraínu. .uz. .uz er þjóðarlén Úsbekistans. .ge. .ge er þjóðarlén Georgíu. Gjögur. Gjögur er fornfræg veiðistöð í Árneshreppi á Ströndum á Vestfjörðum og þar var vísir að þorpi á 20. öld. Nú býr þar enginn lengur allt árið, en nokkuð er um að fólk hafi þar sumardvöl. Gjögur er utan við Sætrafjall á Reykjanesi, milli Trékyllisvíkur og Reykjarfjarðar. Þar var fræg hákarlaveiðistöð á síðustu öld og margir voru þar í verbúðum yfir veiðitímabilið. Gengu þá oft þaðan 15-18 opin skip til hákarlaveiða samtímis og voru 7-11 menn á hverju skipi. Upphaflega voru tvær hákarlaveiðistöðvar í Strandasýslu Gjögur og Skreflur og um aldamótin 1800 gengu 3 eða 4 skip út frá hverri. Skipin voru sexæringar. Hætt var seinna að róa í Skreflum. Við Gjögur er bryggja og flugvöllur og þar hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð síðan 1994. Gluggi. Gluggi er op á vegg eða þak byggingar, sem hleypir inn ljósi í vistarverunar. Á gluggum geta verið opnanleg fög sem notuð eru til að hleypa inn fersku lofti. Gluggarúður úr gerðar úr gleri eða plexigleri. Þórey Sigþórsdóttir. Þórey Sigþórsdóttir (f. 25. nóvember 1965) er íslensk leikkona. Þórdís Arnljótsdóttir. Þórdís Arnljótsdóttir (f. 13. júní 1963) er íslensk leikkona. Þóranna Krístín Jónsdóttir. Þóranna Krístín Jónsdóttir (f. 15. janúar 1976) er íslensk leikkona. Þóra Friðriksdóttir. Þóra Friðriksdóttir (f. 26. apríl 1933) er íslensk leikkona. Vilborg Halldórsdóttir. Vilborg Halldórsdóttir (f. 18. júní 1957) er íslensk leikkona. Hún hefur einnig verið að skrifa. Hún hefur þýtt ítalskt leikrit. Hún samdi textann við frægt lag eiginmanns síns og söngvara Helga Björnssonar, Mér finnst rigningin góð. Á sumrin vinnur hún sem leiðsögumaður á bæði á hestum og í rútuferðum. Vilborg ólst upp í Kópavogi hjá foreldrum sínum Jóhönnu Guðmundsdóttur og Halldóri Magnússyni. Hún á tvær systur. Vilborg lærði í Kvennaskólanum í Reykjavík þegar það var enn gagnfræðaskóli og fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík. Vilborg er einnig útskrifuð úr Leiklistarskóla íslands. Á seinni árum fóru hún í Háskóla Íslands og lærði ítölsku og heimspeki. Vilborg býr nú í Þingholtunum með eiginmanni sínum og barnsföður. Hún á þrjú börn. Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Vigdís Hrefna Pálsdóttir (f. 5. október 1977) er íslensk leikkona. Vigdís Gunnarsdóttir. Vigdís Gunnarsdóttir (f. 5. október 1965) er íslensk leikkona. Valgerður Dan. Valgerður Dan (f. 1. desember 1944) er íslensk leikkona. Valdís Arnardóttir. Valdís Arnardóttir (f. 17. mars 1974) er íslensk leikkona. Vala Þórsdóttir. Vala Þórsdóttir (f. 22. júlí 1968) er íslensk leikkona. Mía litla. Mía litla (s. "Lilla My" f. "Pikku Myy") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Hún býr í Múmínhúsinu með Múmínfjölskyldunni og kom fyrst fram í bókinni "Minningar Múmínpabba (Muminpappans bravader / Muminpappans memoarer)" árið 1950. Hún á 11 systkini, eina stóra systur, Mimlu, sem á að passa hana og hefur eilíflega áhyggjur af henni. Auk þess 10 lítil systkini sem eru álíka ólátabelgir og hún sjálf. Mía litla er stjórnsöm, forvitin og oft frek. Hún er oft á tíðum mjög stríðin og hefur sérstaklega gaman af því að stríða Snabba sem í einfeldni sinni liggur oft vel við höggi. Hún er þó umfram allt góður vinur þegar vinir hennar þurfa á því að halda. Tove sagði að Mía litla væri að mikluleiti byggð á henni sjálfri sem barni og er hún sú persóna sagnanna sem nýtur einna mestra vinsælda. Miklar vinsældir Míu litlu má glögt sjá á því að í Svíþjóð hafa 7.600 stúlkur verið skýrðar "My" (sænska nafn Míu) eftir henni. Persónuleiki. Mía litla er mjög hrjúf og ákveðin persóna. Henni tekst nær alltaf að sannfæra fólk og fá það á sitt band í samtölum, sem oftar en ekki endar með ósköpum en ekki alltaf því stundum eru harkalegustu aðferðirnar þær áhrifaríkustu. Hún er orðfá í rökræðum og samtölum, spilar frekar inn á tilfinningar bæði sinna og viðmælenda, en beita rökfræði eða skynsemi. Hvatvísi er eiginlega mottó hennar. Í bókunum um Múmínálfana. Mía litla er í eftirfarandi bókum um Múmínálfana. Minningar Múmínpabba — Mía litla fæddist á Jónsmessunótt þegar Múmínpabbi var ennþá ungur og er minnst sem minnstu og yngstu dóttur Mimlu. Í rauninni var hún svo lítil að hún varla sást. Hún spilar ekki stóra rullu í þessarri bók en sínir þó eitt og eitt prakkarastrik. Örlaganóttin — Í þessarri bók hefur Mía litla stækkað það mikið að vera orðin virkur þátttakandi í söguþræði bókarinnar þótt hún sé ennþá það lítil að Snúður ber hana í vasa sér. Vetrarundur í Múmíndal — Mía litla er eina persónan utan Múmínsnáðanns sem vaknar af vetrardvalanum og nær að upplifa veturinn. Ólíkt honum elskar hún þennan ískalda heim og alla þá möguleika sem hann gefur til að lifa og leika sér. Þótt það verði henni næstum að aldurstilla þegar hún horfist djörf í augu Ísdrottningarinnar sem fristir hana en Múmínsnáðanum og Tikka tú tekst að afþíða hana og bjarga henni. Ósýnilega barnið og aðrar sögur — er í rauninninni smásagnasafn og kemur Mía litla fyrir í þrem þeirra. Eyja Múmínpabba — Mía litla fer með Múmínfjölskildunni út í eyjuna með vitanum og spilar stóra rullu í sögunni. Eins og oft áður er hún eina persónan sem tekur þessu nýja lífi fagnandi og finnur alltaf eitthvað nýtt og spennandi í þessarri veröld sem vitin og eyjan er þótt öllum öðrum fjölskildumeðlimum reynist eyjadvölin erfið, utan Múmínpabba. Andrew W. Mellon. Andrew William Mellon (24. mars 1855 — 27. ágúst 1937) var bandarískur iðnjöfur, bankamaður, mannvinur og listaunnandi. Hann var fjármálaráðherra Bandaríkjanna frá 4. mars 1921 til 12. febrúar 1932, sá eini sem gegndi embætti í forsetatíð þriggja forseta (Warren G. Harding, Calvin Coolidge og Herbert Hoover). Carnegie-Mellon háskólinn í Pittsburgh í Pennsylvaníu er nefndur eftir honum og Andrew Carnegie. Mellon, Andrew W. Mellon, Andrew W. Andrew Carnegie. Andrew Carnegie (25. nóvember 1835 – 11. ágúst 1919) var bandarískur iðnjöfur og mannvinur af skoskum ættum. Hann stofnaði Carnegie-stálfyrirtækið sem seinna varð U.S. Steel. Carnegie er þekktur fyrir að hafa byggt upp eina öflugustu og áhrifamestu viðskiptasamsteypu í sögu Bandaríkjanna og fyrir að hafa síðar á ævinni gefið megnið af eigum sínum til ýmissa góðgerðarmála svo sem stofnunar bókasafna, skóla og háskóla í Bandaríkjunum og Skotlandi og víða annars staðar. Árið 1919 voru um það bil 3500 bókasöfn í Bandaríkjunum og hafði Carnegie gefið eða styrkt um það bil helming þeirra. Carnegie-Mellon háskólinn í Pittsburgh í Pennsylvaníu er nefndur eftir honum og Andrew W. Mellon, sem og Carnegie-vatnið í Princeton, New Jersey, en hann fjármagnaði gerð þess fyrir Princeton-háskóla. Frægasta styrktarverkefni Carnegies er ef til vill tónleikasalurinn Carnegie Hall á Manhattan í New York borg. Carnegie, Andrew Carnegie, Andrew Karlakór Reykjavíkur - Lög Sigvalda Kaldalóns. Karlakór Reykjavíkur er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni syngur Karlakór Reykjavíkur fjórtán lög eftir Sigvalda Kaldalóns. Stjórnandi. Páll P. Pálsson. Einsöngvarar. Guðrún Á. Símonar, Sigurður Björnsson, Jón Sigurbjörnsson og Friðbjörn G. Jónsson. Hljóðritun fór fram í Háteigskirkju í Reykjavík í Desember 1970 og Janúar 1971 undir stjórn Péturs Steingrímssonar. .be. .be er þjóðarlén Belgíu. .ro. .ro er þjóðarlén Rúmeníu. .hr. .hr er þjóðarlén Króatíu. .fi. .fi er þjóðarlén Finnlands. .fr. .fr er þjóðarlén Frakklands. .ee. .ee er þjóðarlén Eistlands. .gr. .gr er þjóðarlén Grikklands. .gm. .gm er þjóðarlén Gambíu. .in. .in er þjóðarlén Indlands. Sigrún Björk Jakobsdóttir. Sigrún Björk Jakobsdóttir (f. 23. maí 1966 í Keflavík) er fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og var oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar 2007-2010. Hún var bæjarstjóri á Akureyri, fyrst kvenna, í tvö og hálft ár, frá 9. janúar 2007 til 9. júní 2009. Sigrún Björk er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist úr IHTTI hótelstjórnunarskólanum í Sviss árið 1990. Einnig hefur hún lokið námi í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar HA. Sigrún hefur starfað sem hótelstjóri á Hótel Austurlandi, í sölu- og markaðsdeild Hótel Íslands, verið hótelstjóri á Hótel Norðurlandi, deildarstjóri hjá Úrvali-Útsýn, verkefnastjóri hjá Menntasmiðjunni á Akureyri og verkefnastjóri hjá Price Waterhouse Coopers. Sigrún Björk var bæjarfulltrúi á Akureyri 2002-2010 og var forseti bæjarstjórnar Akureyrar 2006-2007 og aftur 2009-2010 auk þess að vera formaður bæjarráðs. Hún sagði af sér 31. maí 2010 eftir afhroð Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum 2010, þar sem flokkurinn missti þrjá af fjórum bæjarfulltrúum sínum. Sigrún Björk var ráðin hótelstjóri Icelandair Hótel, í Þingvallastræti, á Akureyri í mars 2011. .eg. .eg er þjóðarlén Egyptalands. .lr. .lr er þjóðarlén Líberíu. .hu. .hu er þjóðarlén Ungverjalands. .lv. .lv er þjóðarlén Lettlands. .ng. .ng er þjóðarlén Nígeríu. .au. .au er þjóðarlén Ástralíu. Auckland Grammar School. Drengjaskólinn Auckland Grammar School í Auckland á Nýja Sjálandi var stofnaður 1868. Hann er meðal stærstu grunnskóla landsins og eingöngu ætlaður piltum á aldrinum 9 - 13 ára. Skólinn sem er byggður í spænskum stíl er vinsæll meðal nemenda á Nýja Sjálandi og komast færri að en vilja. Einnig sækja erlendir nemendur skólann og eru á þessu ári (2007) um 60 talsins. Skólagjöld miðast við frjáls framlög einstaklinga og voru árið 2006 frá NZD$740 - til NZD$4,472 fyrir infædda en eru bundin við NZD$20,000 fyrir gesti. "Per Angusta ad Augusta" (Through rough ravines to hallowed heights) eru einkunarorð skólans og mætti þýða: „Þrautirnar eru til að sigrast á þeim.“ Diskó. Diskó er tónlistarstefna sem var ríkjandi á miðjum áttunda áratug. Tilkoma diskó hafði gífurleg áhrif á rafræna danstónist sem gerði það að verkum að diskó var aðskilið pop og rokki og varð að eigin tónlistartegund. Diskó var samt sem áður oft litið hornauga í byrjun og þá aðallega af rokkaðdáendum en hugsanlega vegna þess að þeir hafi vitað að ný stefna væri á hraðri uppleið. Eftir diskóið hafa rokktónlist og danstónlist alltaf verið aðskilin. Tónlistin er undir miklum áhrifum frá fönki og sálartónlist en einnig djassi, rokki og fleiri tegundum tónlistar. Diskó kemur út frá ýmsum menningarkimum og aðallega samkynhneigðum og blökkumönnum og var hugmyndin að geta farið og dansað til að gleyma amstri dagsins á litríku dansgólfinu með dúndandri tónlist og litadýrð. Upphaf. Síðari hluta sjöunda áratugsins má tengja sem upphaf diskósins þar sem tónlistarmenn fóru að blanda saman alls konar hljóðfærum og gera nýja tegund tónlistar. Árið 1969 gaf Jerry Butler út lagið „Only the strong survive“ sem mætti kalla fyrsta diskólagið. Þetta má tengja sem upphaf diskó, en þessi nýja tónlist var ekki komin með nafn ennþá. Fjórum árum seinna eða 1973, eftir að mörg lög í þessum stíl höfðu verið samin, skrifaði Vince Aletti grein þar sem hann gaf þessum tónlistarstíl nafnið „Diskó“. Diskó dregur nafn sitt af diskótekunum þar sem voru einungis spilaðir diskar þar sem löng lög voru spiluð alla nóttina. Diskóið byrjaði upprunalega í þéttbýlum víða í Bandaríkjunum, og heillaði því að sér ýmsa menningarkima í einu, svo sem blökkumenn, Latino og samkynhneigða sérstaklega. En diskóið hafi hægt og rólega verið að myndast í nokkur ár þar á undan. Og vegna þess hve hratt það skaut sér á vinsældarlistann og stækkaði á svona miklum hraða, varð diskóið fljótlega orðið gott efni í bíómyndir og vegna glæsileika þess lífgaði diskóið upp danssalina. Diskó var orðið nokkuð vinsælt í kringum 1975 svo nokkrir hvítir listamenn byrjuðu að prófa þennan nýja stíl en virtist þó ekki verða eins vinsælt innan þess menningarkima. Þangað til að Saturday Night Fever leyfði tónlistarmönnum að láta ljós sitt skína um helgar. Uppúr því spruttu skemmtistaðir og vídeóleigur, og tónlistarmenn sem höfðu greitt félagsgjöld tóku forskot í þessum nýja stíl. Velgengni. Á áttunda og níunda áratuginum varð diskó að aðal tísku þess tímabils. Hópar eins og Jackson Five, ABBA og Bee Gees eru hljómsveitir sem eru ennþá frægar fyrir tónlistina sína sem var við líði á diskótímabilinu. Tónlist þeirra var verulega vinsæl á þeim tíma og hafa hljómsveitirnar náð að halda vinsældum sínum og oft hafa nýjir tónlistarmenn tekið upp lög þeirra og breytt og laðað að tónlistarstefnum nýrra tíma og þar af leiðandi náð að halda minningu þeirra og vinsældum. Í byrjun diskó voru aðeins fáar hljómsveitir sem komu fram, en með velgengni þeirra spruttu upp nýjar og nýjar hljómsveitir. Snemma fór diskó að verða meginstraumur tónlistarinnar og allskonar hljómsveitir fóru að spila diskó. ABBA var hljómsveit sem spilaði diskótónlist og gerði fræga um ekki einungis í Bandaríkjunum heldur einnig í Evrópu og Asíu. Lög þeirra voru svo vinsæl að allstaðar í heiminum urðu gerð fleiri diskólög. Boney M, hljómsveit samansett af fjórum indverskum söngvörum var annar hópur sem braut vegginn sem hindraði húðlit, trúarbrögð og stétt og gerðu mörg góð diskólög sem áttu eftir að komast á topplistann. Lagið þeirra „J‘attendrai“ skaust strax á toppinn, einnig í Japan, mið og suður Asíu og Kanada. Skemmtistaðirnir sem diskótónlistin var spiluð voru því valdandi að diskólög yrðu vinsæl og eftir nokkurn tíma fór það að hjálpa til að ákvarða hvernig lögin voru gerð. Lög urðu lengri og það hjálpaði plötusnúðunum að uppfylla þarfir þeirra. Diskólögin urðu svo vinsæl að stór hluti þeirra var gefin út í atvinnuskyni, svo sem auglýsingum í bíómyndum. Mörg pop lög voru síðan gefin út í „diskó útgáfu“. Diskó tryggði að lokum almennt samþykki í gegnum velgengni Saturday Night Fever sem var gefin út árið 1977. Í myndinni eru spiluð mörg diskólög með Bee Gees og fleirum og varð það mest selda breiðskífan. Á þessum tímapunkti hafði diskóið haldist utan pop tónlistarinnar og vinsældar þess, vegna þess að í fyrsta lagi voru fáir alvöru diskó tónlistarmenn utan smáborganna, í öðru lagi voru mörg lögin bönnuð í mörgum pop útvarpsstöðvum og í þriðja lagi vantaði stórar stjörnur innan diskó fyrri aðdáendur sína. Með diskóbylgjunni komu aðrir listamenn til sögunnar og jafnvel nýar bylgjur í kjölfarið. Blondie er dæmi um eitthvað alveg nýtt. Blondie notaðst við margar tegundir tónlistar og þar á meðal diskó. Útvarpstöðvar fóru eftir það að spila mun meira af diskólögum og tóku jafnvel diskó alla leið. Útgáfufyrirtæki fóru jafnvel að keppast um að ráða tónlistarmenn sem spiluðu diskó. Stíll. Þessi tónlistarstíll er samansettur af mörgun hljóðfærum blandað saman og söngurinn er annaðhvort í áttundapartsnótum eða sextándapartsnótum. Nokkuð var um að rafmagnshljóðfæri væru notuð í bakrunninn. Þessi mynd af tónlist hefur mikið um rafmagnaðan bassatakt og gítarinn er sjaldan notaður sem aðal hljóðfæri til að leiða út lagið. Hugmyndin var að fólk gæti dansað við tónlistina og sleppt sér algjörlega. Plötusnúðurinn notaði tvo plötuspilara, míkrófón og söngkerfi sem var búnaður sem kom frá blökkumönnum. Hvítir plötusnúðar notuðu svipaða aðferð fyrir eldra fólk í kjallurum og götumiðstöðum. Diskótek hjálpuðu til að gera dans vinsælari og jafnvel ríka fólkið fannst gaman að blandast í hópinn á aðal diskóstöðunum í New York. Aukin lengd diskólaga, áhrifarík tónlist og áhersla á hljóðfæraleikinn frekar en sönginn og persónulega texta, hneigði til sterkra evrópskra áhrifa og kallaðist þessi stíll „euro disco“ eða evrópskt diskó. Evrópsk tónskáld voru lykilhlutverk í að frelsa diskó frá tilhneigingu til að festast í fortíðinni með því að þróa form sem voru meira við hæfi. Frekar en að lengja pop lög með brellum, stúdíó snillingum sem þróuðu löng, skipulögð verk reiknuð til að fylla út heila plötu hlið, með tónlist sem fjaraði út og rann í einn takt en melódían breytileg. Lagið „Love to love you baby“ með Donna Summer er einkennandi fyrir þessa evrópsku aðferð, þar er forðast þetta hefðbundna og notast við fjölbreytilegan takt. ABBA notaðist við evrópska diskóið og náðu þau mestri velgengninni í þessum stíl. Lög sem falla sérstaklega undir þennan stíl eru smellirnir „Waterloo“, „Dancing Queen“ og „Take a Chance on Me“. Menning. Þessi nýja og öðruvísi tónlist með fjölbreytt hljóðfæri og takt fann sér leið inn í hjörtu fólks. Fljótlega urðu diskótek þar sem fólk hittist til að gleyma dagsins amstri. Þar var diskótónlistin spiluð hástöfum, dansgólfin upplýst í allskyns litadýrð með diskóljósunum. Úr því fór fólk að klæða sig í föt í stíl við diskóið. Diskóið hefur alltaf haft sína eigin menningu út á fyrir sig. Tónlistin var svo há að hún fékk hjartað til að slá hraðar og ljósin skiptu um lit, með þessu fór fólk á diskótek til að bægja niður leiðinlegar tilfinningar og skipta alveg um skap í litadýrðinni og dansvænni tónlistinni. Fötin voru þröng og litrík til að sýna líkamann og voru bolir með víðu hálsmáli og buxurnar útvíðar. Með diskói jukust aðrar hefðir og fjölbreyttari tíska. Eitt af því sem diskó gerði afar vinsælt var dóp. Kókaín og „Quaalude“ voru vinsælasta dópið. Með áhrifunum frá kókaíni hjálpaði fólkinu að njóta háværra tónlistar en með áhrifum Quaalude var auðveldara að njóta litadýrðarinnar sem fylgdi ljósunum. Áhrifin frá Quaalude létu fólki líða vel og frjálst sem hjálpaði þeim að sleppa úr klaufunum í takt við kraftmikla tónlistina. Fólkið naut diskótekanna þar sem þau gátu hlustað á háværa og góða tónlist, dansað í takt, tekið inn fíkniefni og haft gaman. Diskóstaðir urðu vinsælir og jafnvel uðru sumir að áhugaverðum feraðamannastöðum. Manhattan Studio 54 var dæmi um þannig stað sem fólk lét ekki fram hjá sér fara. Diskótek lofuðu veruleikaflótta og með tónlist og ljósum samið til að koma til geðs við líða dansaranna. Þannig voru plötusnúðarnir mikilvægur partur af diskótekunum, því hann þurfti að geta spilað í takt við það sem almenningur vildi fá að heyra. Því var stundum sagt að sá sem spilaði lögin væri mikilvægari heldur en lögin sjálf. Endalok. Velgengnin og áhrifaríka tískan sem diskó sá um, reiddi rokkarana til reiði. Á meðan sumir hreinlega henntu öllum diskóplötum, tóku sumir róttækari mótmæli sem skiluðu miklu meiri árangri í niðurrifi diskó. Rokkarar héldu viðburði eins og „diskókollvörpun“ til að mótmæla diskóinu. Margir hópar komu sér saman til að sýna fram á andstæðu diskósins. Eftir að hafa verið í stutta stund sem aðal pop tegundin á árunum 1978-1979, fór diskóið að missa einstaka dans og tónlistar eiginleika sína. Í framhaldi fór að birtast límmiðar og graffití á veggjum bæjarins sem á stóð „diskó sökkar“. Diskólögum var ýtt til hliðar og andstæðingar diskó mótmæltu og stöfuðu að ófriði. Rokkið mótmælti og gagnrýndi diskóið og náði að yfirbuga það á endanum. Þrátt fyrir að diskó væri úrellt héldu nokkurs konar diskótek áfram með nýrri tónlist og var diskóið oft í bakrunninum. Diskó var því endurlífgað inn í ýmsar tegundir danstónlistar svo sem hústónlist, raftónlist, techno og svokallaðar DOR tónlist og ýmsir tónlistarmenn eins og Madonna, Kate Ryan og Suzanne Palmer spiluðu tónlist undir áhrifum diskó. Donna Summer var svo nánast sú eina sem hélt áfram að gefa út diskó eins og árin áður. Harðkjarni. Harðkjarni (úr ensku: "hardcore") er tónlistarstefna. Djass. Djass (enska jazz) er tónlistarstefna sem byggist mikið á snarstefjun (spuna) og ákveðinni hrynjandi. Djassinn er upprunninn í Bandaríkjunum og á rætur að rekja til blústónlistar blökkumanna. Djass er oft kallaður „hin klassíska tónlist Bandaríkjanna“ en djassinn er ein af elstu og dáðustu tónlistarstefnum sem komið hafa frá Norður-Ameríku. Sögu djassins má rekja aftur á fyrri hluta 20. aldarinnar í Bandaríkjunum og hefur hann verið áberandi hluti af menningu bandarískra blökkumanna í meira en 100 ár. Rætur djassins má rekja til bandarísku borganna New Orleans, New York og Chicago og lifir þessi tónlistarlega hefð góðu lífi í þessum borgum enn þann dag í dag. Það sem einkennir djasstónlistina er sterkur hrynjandi, dapurlegir tónar, einleikskaflar og melódíur sem eru leiknar af fingrum fram. Í gegnum sögu djassins hafa þessi einkenni verið sterkustu áhrifavaldarnir í að skapa þessa frumlegu tónlistarstefnu. Djassinn bar einnig með sér ýmsar nýjungar í tónlistarheiminn og má þar til dæmis nefna að trommusettið var uppgötvað af djasstónlistarmönnum. Þau hljóðfæri sem mest eru notuð í djassi eru saxófónn, klarinett, flauta, trompet, píanó, gítar, banjo, túba, bassi, söngur, trommusett og básúna. a> átti þátt í því að gera djass vinsælan um allan heim. Djass þróaðist út frá blöndu af blús, ragtime tónlist, lúðraflokkum, ýmissi evrópskri tónlist, spirituals og einnig óhefbundinni danstónlist sem mátti heyra á götum Storyville red-light hverfi í New Orleans í lok 19. aldarinnar. Þar má meðal annars nefna að King Oliver, kornettleikari sem Louis Armstrong leit gríðarlega mikið upp til var mikið með tónleika á þessum tímum. Fyrsta tónlistarstefnan sem kalla má djass þróaðist í New Orleans. Þar þróaðist sérstakur stíll sem síðar var kallaður Dixieland. Tónlistin var samin af mörgum litlum hópum hljóðfæraleikara sem spunnu tónana hver fyrir sig og tvinnuðu það saman í eina heild sem náði að halda jafnvægi í tónlistarlegu flæði. Margir þessara tónlistarmanna kunnu ekki að lesa nótur en spunnu tónlistina út frá mikilli tilfinningu í samfloti við aðra meðlimi hljómsveitarinnar. Sveifludjass. Sveiflutónlist (swing) stóð upp úr á þriðja áratugnum. Á þessum tíma þá voru flestar djass hljómsveitirnar fjölmennar og notuðust við mikið af hljóðfærum. Swingið þróaðist út frá New Orleans djassinum og var kraftmikið og hressandi þar sem því fylgdu margar nýjungar í tónlist. Sveiflutónlist var einnig mikil danstónlist sem fékk góð viðbrögð frá hlustendum og varð fljótt mjög vinsæl. Þrátt fyrir að sveiflutónlist væri samleikstónlist þá gaf það tónlistarmönnunum einnig tækifæri til þess að spinna melódíur og prófa að taka einleik en það gat oft verið mjög flókið að framkvæma. Einna þekktustu sveiflutónlistarmennirnir eru Louis Armstrong, Duke Ellington, Ella Fitzgerald og einnig Billie Holiday. Klassískur djass. Klassískur djass varð til í New Orleans í byrjun 19. aldarinnar. Sú stefna bauð ekki eins mikið upp á það og aðrar stefnur að hljóðfæraleikararnir gætu leikið einleik. Í klassískum djass snerist tónlistin meira um það að hver leikmaður í hljómsveitinni myndi leggja sitt af mörkum í sameiginlegum hljóðfæraleik svo úr yrði margbrotin tónlist. Klassískur djass varð til út frá lúðrasveitum sem spiluðu í samkvæmum og á dansleikjum sem áttu sér stað í lok 19. aldar og í byrjun 20. Aldar. Bíbop. Bíbop, sem stundum er kallað boptónlist, þróaðist í byrjun fimmta áratugsins og var orðið gífurlega vinsælt um árið 1945. Megin frumkvöðlar voru saxófónleikarinn Charlie Parker og trompetleikarinn Dizzy Gillespie. Einnig má nefna trommuleikarann Max Roach og bassaleikarann Ray Brown sem voru mjög áberandi í þessari tónlistarstefnu. Fram að þessum tíma einkenndist djassinn af spuna sem átti rætur sínar að rekja í melódískum línum. Bíbop-einleikarar stunduðu hljóma spuna og forðuðust oft melódíuna alveg eftir fyrsta viðlagið. Þeim var þá frjálst að leika af fingrum fram svo lengi sem það passaði inn í hljóma uppbyggingu lagsins. Ólíkt sveiflutónlistinni skildi boptónlist sig snemma frá danstónlist og varð að sjálfstæðri listgrein og rauf hugsanleg auglýsingleg gildi þess. Bíbop sem þótti í byrjun vera rótæk tónlistarstefna varð það grunnur fyrir allar nýjungar í djassi sem fylgdu á eftir. Dixieland. Í blús og ragtime tónlist ásam öðrum tónlistarstefnum var farið að notast við lúðrasveitir í byrjun þriðja áratugarins í New Orleans, Louisiana. Úr því varð til ný tegund tónlistar sem kallaðist Dixieland djass. Dixieland er einnig þekkt sem hefðbundinn djass þar sem það var fyrsta tónlistarstefnan sem hægt var að kalla djass. Þegar Dixieland djassinn fór að njóta meiri vinsæla þá breiddist hann norður frá til Chicago, New York, Kansas City og alveg til Kaliforníu. Nafnið „Dixieland“ var líklegast dregið frá djasshljómsveitinni The Original Dixieland Jazz Band, sem var hljómsveit frá New Orleans. Hún gerði fyrstu hljóðupptökuna af þessari tegund tónlistar sem var í boði fyrir almenning. Þessar hljóðupptökur voru gífurlega vinsælar og hljómsveitin hlaut alþjóðlega frægð. Dixieland tónlist var vanalega spiluð án söngvara. Tónlistin var þekkt fyrir jafnan og oft upbeat hraða, 4/4 takt og hrynjanda sem var í ýktum triplet sveiflustíl. Meðal frægra Dixieland djass listamanna má nefna trompetleikarann og söngvarinn Louis Armstrong sem er einn áhrifaríkasti djasslistamaður sögunnar og píanóleikarann Jelly Roll Morton, klarinettleikarann Sidney Bechet, hljómsveitarstjórnandann og trompetleikarann King Oliver og Duke Ellington. Sumir gagnrýnendur hafa reyndar haldið því fram að tónlist Dukes Ellington hafi ekki verið djass vegna þess að hún væri of skipulögð og auk þess stjórnað af hljómsveitarstjóra. Svalur djass. Svalur djass (cool djass) þróaðist beint út frá bíbop á seinni hluta fimmta og fram á sjötta áratuginn. Svalur djass er þýðari blanda af bíbop og sveiflutónlist. Tónarnir eru harmónískari og dýnamíkin er mun mýkri. Samspilið endurheimti mikilvægi sitt og tónlistarmennirnir voru meira í takt við hver annan. Svalur djass hlaut viðurnefnið Vesturstrandardjass (West Coast Jazz) og kom það til vegna þess hve margar nýjungar komu frá Los Angeles. Svalur djass hafði náð útbreiðslu um öll Bandaríkin í lok sjötta áratugarins og þá höfðu tónlistarmenn frá austurströndinni einnig náð að setja mark sitt á stefnuna. Hljómsveitarstjórnandinn og trompetleikarinn Miles Davis var mjög áberandi á vettvangi svala djassins og einnig trompetleikarinn Chet Baker. Hörð boptónlist. Hörð boptónlist kom fram árið 1955 og þróaðist út frá bíbop. Í harðri boptónlist voru melódíurnar oft hjartnæmari og var uppbygging þeirra stundum fengin að láni frá takti og trega (Rythm and Blues) og jafnvel trúartónlist (Gospel). Takturinn var fágaðri og fjölbreyttari heldur en bíbop djasinn var á fimmta áratugnum. Píanóleikarinn Horace Silver er þekktur fyrir að vera stór frumkvöðull innan harðrar boptónlistar. Sviðsljósinu var samt að miklu leyti stolið frá harðri boptónlist af svala djassinum sem var í gangi á sama tíma. Um miðjan sjöunda áratuginn hafði harði bopdjassinn klofnað í póst-bop, modal djass og sálardjass. Hörð boptónlist birtist síðan aftur á sjónarsviðinu sem stór áhrifavaldur snemma á þessari öld. Modal djass. Modal djass kom fram á sjónarsviðið snemma á sjöunda áratugnum og varð til þegar sólóistar í minni samleikshópum byrjuðu að þyrsta eftir nýjum leiðum í gerð spuna. Þá sóttu sumir hljóðfæraleikaranna að leita út fyrir hefðbundna vestræna tónstiga. Með því að sækja innblástur í kirkjutónlist miðalda, sem hafa breytilegt bil milli helstu tóna tónstigans, fundu djassiðkendur nýjan innblástur. Einleikarar gátu nú losað sig undan takmörkunum hefðbundinna tónstiga og fundið nýjar harmoníur í leik sínum. Þetta gagnaðist sérstaklega píanóleikurum og gítaristum sem og trompet- og saxafónleikurum. Píanistinn Bill Evans er sérstaklega þekktur fyrir hvernig hann leikur djass samkvæmt modal-hugmyndafræðinni. Sálardjass. Sálardjass (Soul djass) kom fram á sjöunda áratugnum. Sálardjassinn var leiddur frá harða bop-djassinum og er hann áreiðanlega vinsælasta tegund af djassi frá sínum tíma. Í sálardjassinum reynir einlikarinn að skapa spennandi tónlistarupplifun fyrir tónleikargesti með því að spinna síbreytilega hljómaganga. Samleikshópurinn einbeitir sér að hrynjandi „grúvi“ sem byggist í kringum sterka en einnig fjölbreytta bassalínu. Horace Silver hafði sterk áhrif á stílinn með því að blanda saman angurværu og oft gospel-píanóhljómum saman í verk sín. Póst-bop. Póst-bop hófst árið 1979 þegar nýir tónlistarmenn spruttu fram og komu með ferska nálgun á hörðum bopdjass sjöunda áratugarins. Í staðinn fyrir að færa harða boptónlist yfir í „grúv“ og „funk“ hrynjanda, sem hafði þróast kynslóð áður, bætti þessi nýja kynslóð ungra tónlistarmanna áhrifum frá áttunda og níunda áratugnum og fengu þá út nýja stefnum sem kallast póst-bop. Evrópskur djass. Djass var ekki spilaður mikið í Evrópu fyrr en á sjötta áratuginum. Helsta skýringin á því er líklegast sú að djasstónlist var blökkumannatónlist og blökkumenn bjuggu aðallega í Bandaríkjunum á þessum tíma. Seinni heimstyrjöldin átti stóran þátt í því að flytja tónlist til Evrópu en fáir evrópskir tónlistarmenn voru jafn flinkir í að spila djass og Bandaríkjamenn. En þegar evrópskir tónlistarmenn kynntust frjálsum djassi (Free Jazz) byrjaði tónlistarstefnan að blómstra hjá þeim og Evrópubúar tóku vel á móti þessari frjálsu tónlistarstefnu. Klassík. Klassík er hugtak sem vísar til klassískrar fornaldar, einkum í menningarsögulegu tilliti. Klassík getur líka vísað til þeirrar tilhneigingar í listum og bókmenntum á nýöld að notast við fyrirmyndir frá klassíska tímanum og er stundum kölluð klassisismi. Einn angi klassisismans var nýklassíska stefnan. Rapp. Rapp er tónlistarstefna sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna seint á 8. og snemma á 9. áratug 20. aldar. Einkennist af taktföstum ryþma, skratsi og rímuðum texta. Saga rappsins. Rappið á upptök sín í Bandaríkjunum. Rapptónlistin varð til meðal fátækra blökkumanna og var ákveðin þróun út frá sagnahefð þeirra líkt og þekktist hjá þrælum. Það byrjaði upp úr 1980 og þekktist helst meðal atvinnulausra fátæklinga sem voru í klíkum. Helstu klíkurnar voru í Los Angeles en það voru LA-klíkan og hinsvegar Hollywood-klíkan. Þær tókust mjög hart á meðal annars með skotbardögum. Tupac Shakur var meðal þeirra þekktustu í Hollywood-klíkunni en hann var myrtur var af LA-klíkunni þann 13. september árið 1996. Tupac Shakur var þekktur fyrir húðflúr sitt sem hann fékk á húðflúrstofu í New York, á bringunni stóð „Thug Life“ en er talið að það hafi verið mistök þar sem hann ætlaði að setja „Thug for life“. Eftir miklar styrjaldir milli LA og Hollywood-klíkunnar varð til ný klíka að nafni New York-klíkan sem barðist gegn þeim einnig. Seinna var ákveðið að klíkufundur yrði haldinn í Winstonville í Washington fylki, fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Á fundinum var ákveðið að útkljá ósættið með orðum. Mikilvægt var að orða hlutina skemmtilega og helst reyna að ríma (rappa). Þá tók ofbeldið milli þeirra nánast enda og við tók tími vísna. Margir meðlimir klíkanna voru einnig að reyna að vinna fyrir sér sem hljóðfæraleikarar og var bassinn algengasta hljóðfærið. Seinna fóru þeir að spila á hljóðfærin undir kveðskap hinna meðlimanna en þá varð fyrsta rapplagið til. Síðar átti frægur upptökustjóri frá New York leið framhjá sem vann aukavinnu sem vörubílstjóri. Þar heyrir hann rappið í frumgerð sinni og fær þá frumrapparana til að koma með sér til New York. Manhattan er eftir það oft kölluð móðir rappsins. Stuttu seinna hóf Erpur Eyvindarson viðskiptanám í New York en þaðan kom hann með rappið til Íslands ásamt Dóra DNA. Í dag er Ungverjaland helsta rappland Vesturlanda. Meira en öld áður en rapp kom á yfirborðið í Ameríku þá voru tónlistarmenn í Vestur-Afríku að segja segja sögur með rímum, með einungis trommuslátt sér til hjálpar. Á sama tíma voru tónlistarmenn í Karabíska hafinu einnig að segja sögur með rímum. Það mætti því segja að syngjandi skáldin frá Afríku og Karabískahafinu lágu grunninn fyrir nútíma raptónlist í Bandaríkjunum. Árið 1979 var tímamótaár í sögu rapsins því í fyrsta sin hafði rapplag vakið verulega athygli og einnig heimsvinsældum. Það var lagið „Rapper's Delight“ með sveitinni Sugarhill Gang. Sugarhill Gang var strákatríó frá New Jersey. Sveitin komst á samning hjá útgáfufyrirtækinu Sugar Hill Records en þar réð ríkjum framleiðandinn og soul-dívan Sylvia Robinson. „Rapper's Delight“ náði 4. sæti á R&B-listanum í Bandaríkjunum og seldist í tveimur milljónum eintaka á heimsvísu. Þá fyrst var farið að tala um rapp í fjölmiðlum og segja má að í lok 8. áratugarinns hafi rappið komist í almenna umræðu eða að minnsta kosti út fyrir afmörkuð hvefi New York borgar. Þótt þrír strákar frá New Jersey hafi gengt stóru hlutverki í sögu rappsins þá er uppsprettan engu að síður í New York, nánar tiltekið í hvefunum Bronx og Harlem en þar var mikil gerjun í menningarlífi ungra svertingja. Hipp-hopp menningin var í miklum blóm með tilheyrandi breikdansi og graffíti. Einn maður stóð öðrum fremur í að leggja grunninn að því sem á eftir kom í tónlistnni en hann var DJ Kool Herc. Hann fæddist árið 1954 í Kingston á Jamaíku, í sama hvefi og Bob Marley. Herc fluttist til Bronx í New York árið 1967 og frá árinu 1937 kom hann reglulega fram sem dj eða plötusnúður á götum úti, í klúbbum og víðar við góðar undirtektir. Herc var fyrstur til að mixa, tvær plötur með sama lagi og þróa svokölluð „break beats“ sem varð undirstaða rapptónlistar. Afrika Bambaataa fylgdi fordæmi Herc og annara tónlistarmanna en sótti einnig innblástur úr allt annarri átt. Það sem átti hug hans allan var tónlist þýsku raftónlistarmannanna úr Kraftwerk. Fyrir tilstilli hans hljómaði nú þýsk raftónlist af plötum eins og Autobahn og Trans-Europe Express í svertingjaklúbbum New York. Þannig læddust raftónlistaráhrifin inn í rapptónlistina og einnig hjálpaði útbreiðsla ódýrra rafhljóðfæra, þar á meðal hljóðgervla og trommuheila. Að sjálfsögðu komu áhrif úr ótal áttum inn í rapptónlistina þó eigna megi ofantöldum aðilum stóran hlut. Nöfn eins og Gil Scott-Heron, Last Poets, Cab Calloway komu einnig við sögu, jafnvel Louis Armstrong og Commander Cody. Seinni hluti 8. áratugarins var upphafsskeið hipp-hoppsins og lykilmenn í tónlistinni voru DJ Kool Herc, Afrika Bambaataa, Kurtis Blow (sem var fyrsti rapparinn sem fékk útgáfusamning hjá stóru útgáfufyrirtæki, Mercury/Polygram árið 1979) og Grandmaster Flash. Þetta voru þeir sem skipuðu fyrstu kynslóð rappara og lögðu grunninn að þeirri fjölbreyttu flóru sem skilgreind er sem rapptónlist í dag. Næstu tímamót í sögu rappsins voru árið 1982 en þá var lagið „The Message“ með Grandmaster Flash and the Furious Five’s gefið út. Tónlistin var reyndar ekki frábrugðin þeirri sem hafði tíðkast á árunum á undan en í textagerðinni kvað við annan tón. Þar var að finna nöturlega lýsingu á lífinu í fátækrarhverfinu, til dæmis línur eins og þessar: „Don’t push me ‘cause I’m close to the edge...“ Í kjölfarið fylgdu rappsveitir á borð við Run-DMC og Public Enemy og þeim lá meira á hjarta en forverum þeirra. Pólitík og félagsleg kýli samfélagsins voru nú meðal yrkisefna rappara. Önnur kynslóð rappara fór að láta á sér bera með stórstjörnum eins og Run-DMC, Beastie Boys, L.L. Cool J, sem oft er nefndur fyrsta kyntákn rapptónlistarinnar, og fleirum. Árið 1984 náði rapp svo endanlega að festa sig í sessi með samstarfi Run-DMC og rokkhljómsveitarinnar Aerosmith. Þar var um að ræða þriðju breiðskífu Run-DMC sem bar titilinn Raising Hell og innihélt hún smellinn „Walk This Way“. Þessi plata, sem gefin var út af Def Jam Records, útgáfufyrirtæki framleiðendanna Russell Simmons og Rick Rubin, náði metsölu innan rapptónlistargeirans. Um hálfu ári síðar gáfu Beastie Boys út sína fyrstu breiðskífu Liscense to Ill en það var fyrsta rappplatan sem náði toppsæti bandaríska vinsældalistans og seldist í yfir sjö milljónum eintaka á heimsvísu. Þegar hér var komið sögu var rapptónlist orðin að yfirgripsmiklum iðnaði sem teygði anga sína um gervöll Bandaríkin og víðar. Breiddin í tónlistinni var orðin mikil og ekki síður í textagerðinni. Nokkrir tónlistarmenn, fyrir utan þá sem áður hafa verið nefndir, hafa skipt sköpum í sögu rappsins. Þeirra á meðal eru De La Soul, N.W.A., Ice Cube, Dr. Dre, Snoop Doggy Dog, Wu-Tang Clan, Puff Daddy, Eminem, Jay-Z, Lauryn Hill, Missy Elliott og DMX. Upp úr 1990 tók rappið breytingum frá því að vera „old-school-style“ sem var byggt á frekar einföldum textum í að vera „new-school-style“sem var háværari og innihélt flóknari texta. Flytjendur eins og The Notorious B.I.G, Snoop Dogg og Tupac sem voru kóngar rapsins á þessum tíma líkt og Eminem einn vinsælasti hvíti rappari allra tíma. Í dag er rapp einn af stærri hlutum tónlistargeirans. Stíltegundirnar sem falla undir rappið eru fjölmargar. Þar má til dæmis nefna: 'Hardcore Rap', 'West Coast Rap', 'Gangsta Rap' og 'Pop Rap'. Rapptónlistarmenn geta verið eins ólíkir og Will Smith og Eminem, BlazRoca og Nelly. Varla er gefið út R&B lag í dag án þess að rapp komi þar við sögu og hipp-hopp-menningin teygir anga sína víða. Tupac Shakur fæddist inn í Black Panther fjölskyldu og hans rapp og heimsspeki var frá áhrifum þessa hóps. Tupac rappaði um ofbeldi löggunnar, fátækt, kynþáttarfordóma og félagslegt ofbeldi. Tónlist hans var mótuð af árásargirni, slangri og mikilli gagnrýni á samfélagið. Af því mörgum sem Tupac var þá leit hann á sjálfan sem gott skáld, en hann var kosinn sem besti rappari allra tíma árið 2004 af Vibe magazine. Rolling Stone sagði að Tupac væri 6. Ódauðlegasti tónlistarmaður allra tíma. 2pacalypse now, Thug life, greatest hits og Still I Rise eru meðal vinsælustu platna hans. Shakur seldi 75 milljón plötur á heimsvísu árið 2010. Stuttu eftir að Tupac var hvað vinsælastur spratt upp westcoast/eastcoast deilur sem uðru útaf samanburði á Tupac og Notorious B.I.G. og í kjölfarið var stríð á milli plötufyrirtækja sem magnaði bara upp westcoast/eastcoast deiluna. Rappararnir létu ekkert stoppa sig og notuðu hvert tækifærið sem gafst til að skjóta á keppinaut sinn einkum Tupac og Biggie (B.I.G.) Báðir þessir rapparar voru drepnir í kjölfar þessara deilna. Í lok 8. áratugarinns og í byrjun á þeim 9. varð Gangster rap gríðarlega vinsælt. Allir vildu verða Gangsta rappari. Felstir tónlistarmennirnir höfðu fjárfest peningum sínum í sitt eigið plötufyrirtæki. Þekktir Gangsta rapparar eru eins og Schoolly D, Ice-T og The N.W.A. Gangsta Rap var harðlega gagnrýnt fyrir texta þeirra um skemmdarverk, kynlíf, eiturlyf og samfélagið í heild sinni. Rappið tók breytingum frá ári til árs og fljótlega fór fátækt í rapp lögum að missa marks og í stað þess urðu lögin fyrir áhrifum af efnishyggju og aulýsingavæðingu. Plötufyrirtækin urðu stærri og stærri og peningarnir streymdu inn. Loyd Banks, 50 cent and Tony Yayo stofnuðu G-unit og í kjölfarið stofnuðu þeir G-unit records. 50 Cent varð vinsæll með lögunum „Candy Shop“, „Disco Inferno“, and „How we Do“. Rappsenan var orðin vettvangur þar sem tónlistarmennirnir montuðu sig yfir auði sínum, gulli, bílum en einnig var merkjadýrkunin allsráðandi þar sem „Bentley“, „Limousine“, „Versace“ ásamt fleirum vel þekktum merkjum sem spruttu upp í textum rapparanna. Efnishyggjan í lögunum átti eftir að verða áfram í framtíðinni. Samt sem áður spratt upp kristilegt rapp í senunni með trúarlegt viðhorf og gospel. Flytjendur eins og Nas, Gospel Gangstaz, Dynamic Twins, Souljahz og margir fleiri. Rappsenan í dag inniheldur rapparar eins og Eminem, Ludacris, 50 cent, Damien Marely, Jay-Z, Nas, L.L. Cool J, Beastie boys ásamt fleirum röppurunum em hafa náð vinsældum í gegnum árin. Kvenrapparar eins og Missy Elliot og Lil Kim komu inn í senuna með miklum látum og eru frægar um allan heim. Samba. Sambaskrúðganga í Rio de Janeiro, 2008. Samba er brasilískur dans og tónlistarstefna sem upprunin er í héraðinu Bahia en rætur hennar eru í menningu og helgihaldi þræla frá Vestur-Afríku í Brasilíu (Rio de Janeiro) og Afríku. Samba er táknmynd fyrir Brasilíu og brasilískt karníval. Sú gerð af samba sem spiluð er og dönsuði í Río de Janeiro er að stofni til úr "Samba de Roda" (danshringur) frá Bahia sem komst á heimsmenningarskrá UNESCO árið 2005. Uva de caminhão leikið af Assis Valente, tekið upp af Carmem Miranda árið 1939. Drungarokk. Drungarokk, (einnig þekkt sem blakkmetal(l) (enska: black metal)), er ein af undirtegundum þungarokksins og á sér upphaf í Skandinavíu og Bretlandi á níunda áratug 20. aldar. Á níunda áratugnum mynduðu nokkrar bylturokks hljómsveitir frumgerð drungarokksins. Hljómsveitir í fyrri kynslóð drungarokksins voru til dæmis Venom, Hellhammer og Bathory. Seinni kynslóðin átti sér upptök í Noregi á tíunda áratugnum þar sem hljómsveitir á borð við Mayhem, Darkthrone, Burzum, Immortal og Emperor voru vinsælastar meðal vaxandi hóps drungarokks hlustenda. Saga. Breska hljómsveitin Venom átti upphafið með drungarokki þegar hún gaf út sína aðra plötu sem heitir Black Metal árið 1982. Fyrri kynsljóð svartmálms var útskot frá thrash metal sem átti sér stað á níunda áratugnum og átti seinna eftir að færa sig enn fjær thrash metal rótum sínum og vera viðurkennd sem sér tónlistarstefna. Margir frægir drungarokkstónlistarmenn hafa verið tengdir við ýmiss konar glæpi eins og morð og fjöldan allan af íkveikjum. Einkenni. Drungarokkshljómsveitir voru mikið á móti því sem taldist vera gæða framleiðsla. Þeir vildu láta allt hljóma hrátt og ódýrt. Þeir eyddu sem minnstum tíma í að stilla hljóðfærin og mjög litlum pening í tæki eins og magnara og upptökutæki. Þetta hugarfar var sérstaklega vinsælt hjá seinni kynslóðinni. Líkt og pönk eru drungarokkstónlistarmenn og hlustendur einnig á móti frægð og vinsældum. Hljóðfæri og söngur. Í drungarokkshljómsveitum er aðallega notast við rafmagnsgítar, bassa, hljómborð og trommur. Gítarleikarar notast oft við svokallað tremolo picking til að gefa lögunum hræðilega og drungalega tilfinningu. Trommarar nota mjög mikið af double bass og blast beats. Bassar spila lítið hlutverk í drungarokkinu og er ekki óalgengt að bassinn spili sömu nótur og gítarinn eða að hljóðið frá gítarnum yfirgnæfi bassann þannig að það heyrist alls ekkert í honum. Söngurinn einkennist af hátónuðum söng þar sem notast er við svokallað „knurr” eða „urr“ (e. „growl“). Svona hátónað urr er sjaldan notað utan drungarokksins. Textar og þemu. Í drungarokki er mikil áhersla á myrkt og kalt þema og er það það sem textinn gengur oft út á. Drungarokkið hefur oft verið tengt við „djöfladýrkun“ vegna skýrskotana í slíkar athafnir í textum. Frægir drungarokkstónlistarmenn hafa þó fullyrt að þessir textar voru einungis notaðir til ögrunar. Drungarokkstónlistamenn hafa þó oft sett sig upp á móti kristni, sérstaklega í Noregi og hvernig hún hafði traðkað á norrænnum trúarhefðum Noregs. Súpa. Súpa er spónamatur sem er gjarnan gerður úr kjöti, grænmeti eða ýmsum ávöxtum. Kaka. Kaka er sætt brauðmeti sem er oftast bakað í ofni en stundum steikt á pönnu eða djúpsteikt í feiti. Kökur eru yfirleitt borðaðar með kaffi og öðrum drykkjum eða hafðar sem eftirréttur. Íburðarmiklar, skreyttar kökur eru oft kallaðar "tertur" en mörkin þar á milli eru óljós. Kökutegundir. Flestar kökur eru gerðar úr hveiti eða öðru mjöli, sætuefni (til dæmis sykri), bindiefni (svo sem eggi, fitu (til dæmis smjöri, smjörlíki eða olíu), stundum vökva (svo sem mjólk, vatni eða ávaxtasafa), svo og bragðefnum og lyftiefnum. Í sumum kökum eru einnig ávextir, ávaxtamauk, hnetur, súkkulaðibitar og fleira. Kökur eru stundum þaktar kremi, glassúr, súkkulaði eða þeyttum rjóma. Stundum eru nokkrar þunnar kökur lagðar saman með kremi eða rjóma á milli og kallast kakan þá lagkaka eða lagterta. Kökur eru líka oft skreyttar með sælgæti, kökuskrauti, súkkulaðispónum, ávöxtum, berjum og fleiru. Stundum eru þær líka þaktar marsípani eða sykurmassa. Mjög margar kökur eru bakaðar í kringlóttum formum en einnig eru til ferköntuð form, aflöng form (jólakökuform), stór, grunn form (ofnskúffur og rúllutertuform) og form með ýmiss konar lögun. Múffur, bollakökur og fleiri áþekkar kökur eru bakaðar í litlum formum. Smákökur eru litlar, þunnar kökur sem oftast eru bakaðar á málmplötu. Sumar kökur eru ekki bakaðar í formi eða á plötu, heldur djúpsteiktar í olíu eða annarri feiti, til dæmis kleinur, eða steiktar á pönnu (pönnukökur, lummur). Saga. Kökur í einhverri mynd voru bakaðar þegar í fornöld. Forngrikkir steiktu kökur í olíu og bökuðu ostakökur. Rómverjar blönduðu smjöri, eggjum og hunangi saman við brauðdeig og bökuðu. Framan af var munurinn á brauði og kökum óljós og er það raunar enn að sumu leyti; til dæmis er álitamál hvort á að kalla sætt gerbrauð, bananabrauð og annað slíkt brauð eða kökur. Talið er að svampkökur, þar sem egg eru þeytt til að fá lyftingu í deigið, hafi komið fram á síðmiðöldum, hugsanlega á Spáni. Fyrir tíma lyftiefna og hrærivéla þurfti að nota mikið af eggjum og þeyta mjög vel og lengi ef kökurnar áttu að vera léttar en einnig var mikið um kryddaðar ávaxtakökur sem geymdust vel. Kökubakstur var þó alltaf vandasöm list þegar bakað var við opinn eld eða í frumstæðum ofnum þar sem hitinn var ójafn og kom aðeins úr einni átt; þá þurfti að snúa kökunum oft og fylgjast vel með svo þær brynnu ekki og stórar kökur voru mjög lengi að bakast. Kökubakstur breyttist mikið þegar lyftiduft kom til sögunnar á síðari hluta 19. aldar og á svipuðum tíma urðu eldavélar með bakaraofnum almenningseign. Kökur til hátíðabrigða. Kökur eru oft bakaðar til að fagna ákveðnum tímamótum, til dæmis afmæli, skírn, fermingu eða brúðkaupi. Þá er oft um íburðarmiklar tertur að ræða, einkum þó brúðkaupstertur, sem oftar en ekki eru á mörgum hæðum og glæsilega skreyttar. Eva Longoria. Eva Jacqueline Parker (fædd 15. mars 1975) er bandarísk leikkona. Hún lék Isabellu Braña Williams í sápuóperunni The Young and the Restless. Um þessar mundir leikur hún Gabrielle Solis í sjónvarpsþáttunum Aðþrengdar eiginkonur. Hún hefur einnig orðið heimsfræg fyrirsæta eftir að hafa birtst í nokkrum stórum auglýsingum og á blaðsíðum karlatímarita. Eva er einnig þekkt fyrir samband sitt við NBA-körfuboltaleikmanninn Tony Parker en þau giftu sig árið 2007. Æska. Eva Jacquelin Longoria fæddist í Corpus Christi í Texas og er dóttir Enrique Longoria Jr. og Ellu Evu Mireles en þau eru Tejanos en það eru mexikóar fæddir í Texas kallaðir, þrátt fyrir að vera af mexikósku bergi brotin hefur fjölskylda Longoria búið í margar kynslóðir í Bandaríkjunum. Eva er yngst af fjórum systrum og heita systur hennar Elizabeth Judina, Emily Jeannette og Esmeralda Josephina. Fjölskyldan bjó og vann á fjölskyldubúgarðinum en þau áttu oft litla peninga og börðust Enrique og Ella í mörg ár til þess að geta gefið dætrum sínum sæmilegt uppeldi. Í þætti hjá Opruh árið 2006 deildi Eva með áhorfendum hversu fátæklegt líf hennar hafði verið þegar hún var yngri og hvernig það hafði verið að alast upp sem fátæklingur. Hún fór með tökuliði á fjölskyldubúgarðinn og sýndi hvernig líf þeirra hefði verið. Eva sagði að fjárhagurinn hafi ekki batnað fyrr en hún varð fræg. Í öðru viðtali við Stone Phillips hjá Dateline sagði hún hvernig systur hennar hefðu látið við hana. „Ég ólst upp sem litli ljóti andarunginn. Þær kölluðu mig alltaf ‚la prieta fea‘ sem þýðir ‚þessi ljóta dökka‘“, sagði hún. Evu langaði að verða fyrirsæta og sendi inn myndir til umboðsskrifstofa en var neitað vegna hæðar sinnar. Hún gekk í Marvin P. Baker-grunnskólann og seinna Roy Miller menntaskólann og síðan útskrifaðist hún með B.S.-gráðu úr háskólanum í Texas. Á þessum tíma vann hún titilinn "Ungrú Corpus Christi" árið 1998. Eftir háskóla tók Eva þátt í hæfileikakeppni sem leiddi hana til Los Angeles og stuttu eftir það var hún uppgvötuð og fékk samning við umboðsmann. Ferill. Eva Longoria Parker árið 2006 Eva landaði fyrsta sjónvarpshlutverkinu sínu árið 2000 þegar hún fékk gestahlutverk í þætti af Beverly Hills 90210. Hún lék síðan annað gestahlutverk í Almenna Spítalanum þetta sama ár. Stóra tækifærið kom þegar hún fékk hlutverk í Ung og óþreytandi þar sem hún lék Isabellu Braña Williams á árunum 2001-2003. Tímaritið 'People en Español' sem er bandarískt tímarit gefið út á spænsku, útnefndu hana eina af fallegasta fólkinu árið 2003. Eftir Ung og óþreytandi lék hún í Dragnet. Þrátt fyrir að þátturinn hafi aðeins endst í tvö ár gaf hann Evu annað hlutverk. Eftir Dragnet lék hún í tveimur misheppnuðum kvikmyndum, Señorita Justice, sem fékk slæmar viðtökur, og sjónvarpsmynd sem hét The Dead Will Tell. Árið 2004 kom Eva sér á A-listann. Hún fékk hlutverk Gabrielle Solis í þáttunum Aðþrengdar eiginkonur sem urðu strax vinsælir. Eva hefur samt aldrei hugsað þannig að ferillinn hennar hafi orðið til svona snögglega: „Mér finnst það fyndið þegar fólk segir að ég hafi orðið stjarna á einni nótti, vegna þess að ég hef verið að vinna við þetta í 10 ár.“ Stuttu eftir að hún byrjaði að leika í Aðþrengdum eiginkonum lék Eva í kvikmynd sem hét Carlita's Secret en hún varð ekki vinsæl. Árið 2005 fékk hún verðlaun fyrir frammistöðu sína sem Gabrielle Solis í Aðþrengdum eiginkonum og fékk hún tilnefningu Golden Globe-verðlaunanna fyrir bestu leikkonu í sjónvarpsþáttaröð - Tónlistar- eða gamanþáttaröð ásamt meðleikkonum sínum. Þrátt fyrir að Eva eða einhver annar í leikaraliðinu hafi ekki fengið verðlaun var hún verðlaunuð á ALMA-verðlaununum og valin skemmtikraftur ársins. Hún lék á móti Michael Douglas og Kiefer Sutherland í hasarmyndinni The Sentinel árið 2006 og var það fyrsta stóra hlutverk hennar í kvikmynd. Árið 2005 lék hún Sylviu í Harsh Times sem skartaði Freddie Rodriguez og Christian Bale í aðalhlutverkum. Longoria heldur áfram að birtast á listum yfir fallegasta fólkið í Hollywood og var valin kynþokkafyllsta (kvenkyns)stjarnan árin 2005 og 2006 af tímaritinu "Maxim" og varð hún fyrsta konan til að sitja á toppi listans tvö ár í röð. Hún hefur einnig lent á fleiri listum. Það hafa gengið sögusagnir um það að hún muni leika Janet Van Dyne í kvimyndinni Avangers. Longoria kemur til greina í hlutverk Mariuh Carey í sýningu á Broadway sem á að fjalla um söngkonuna. Leona Lewis er efst á blaði hjá Mariuh. Vanessa Hudgens og Eva koma báðar til greina ef Leona hafnar hlutverkinu. Í apríl 2009 toppaði Eva "People en Español Los 50 Más Bellos"-listann. Hún var á forsíðunni ásamt Maite Perroni og Öna Bárbara. Einkalíf. Longoria var gift General Hospital-stjörnunni Tyler Christopher frá 2002 til 2004. 30. nóvember 2006 trúlofaðist Eva körfuboltaleikmanninum Tony Parker. Parið giftist opinberlega föstudaginn 6. júlí 2007, vegna þess að frönsk lög krefjast þess að gera heit sín opinber í ráðhúsinu. Athöfnin var framin í kirkju þann 7. júlí 2007 í París. Hjónabandið gekk í gegnum sína fyrstu þrekraun þegar franska fyrirsætan Alexandra Paressant sagðist hafa átt í ástarsambandi við Parker. Árið 2008 opnaði Eva veitingastað í Los Angeles sem heitir Beso, sem þýðir „koss“ á spænsku. Eva á hús í Los Angeles sem hún keypti árið 2006 á 3,6 milljónir dollara. Hún á einnig hús í klúbbnum Velano í Chino hæðum í Kaliforníu. Þegar Aðþrengdar eiginkonur líða undir lok ætlar hún að flytja til Frakklands með eiginmanni sínum. Nýrýni. Nýrýni (e. "New Criticism") er stefna í bókmenntarýni sem ruddi sér til rúms í Bretlandi og Bandaríkjunum á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Þeir höfundar sem nú eru kenndir við nýrýni voru sundurleitir í skoðunum en helsta sameiginlega einkenni þeirra er höfuðáhersla á nákvæma greiningu á sjálfum texta þess bókmenntaverks sem um er fjallað. Þeir höfnuðu rannsóknaraðferðum sem byggðust á að skoða æviferil skáldsins eða hugmyndafræðilegan og samfélagslegan bakgrunn þess. Þannig beindist nýrýnin gegn klassískri textafræði, pósítivisma og áhrifum sálfræði og félagsfræði á bókmenntarannsóknir. Forvígismenn nýrýni náðu mestum árangri í greiningu á lýrík enda voru þeir margir ljóðskáld sjálfir. Með því að beita „nákvæmum lestri“ (e. "close reading") á texta hugðust þeir finna mynstur innan hans, til dæmis með því að skoða myndhverfingar og tákn en einnig þversagnir og margræði. Árið 1919 birti bresk-bandaríska ljóðskáldið T. S. Eliot greinina „Hefðin og hæfileiki einstaklingsins“ sem var áhrifamikill undanfari nýrýninnar. Eins og fylgjendur nýrýni seinna lagði Eliot höfuðáherslu á fagurfræðilegt inntak texta en skeytti minna um hugmyndafræðilegt inntak hans. Kenningar hans gengu þó ekki jafnlangt og nýrýnin í að úthýsa höfundinum úr bókmenntagreiningunni. Nýrýni hlaut nafn af grein eftir John Crowe Ransom, „The New Criticism“, sem birtist 1941. Af öðrum forvígismönnum hennar má nefna William Empson, Robert Penn Warren og Cleanth Brooks. Blómaskeið nýrýni er um miðja 20. öldina en hún fór ekki að hafa veruleg áhrif á Norðurlöndum fyrr en á sjötta og sjöunda áratugnum. Bók Njarðar P. Njarðvík, "Eðlisþættir skáldsögunnar", sem kom út 1975, er að nokkru leyti í anda nýrýni. Varg Vikernes. thumb Varg Vikernes (f. Kristian Vikernes þann 11. febrúar 1973 í Bergen í Noregi), einnig þekktur af viðurnefninu "Grishnackh greifi" eða "Greifinn", er norskur tónlistarmaður. Vikernes varð þekktur þekktur á upphafsdögum hinnar svokölluðu Svartmálms tónlistarstefnu í Noregi á 9. áratug 20. aldar. Vikernes stóð að baki eins manns tónlistarverkefnisins Burzum, hann varð seinna áberandi talsmaður fyrir heiðinni óðalshyggju. Vikernes var sakfelldur fyrir morðið á Øystein „Euronymous“ Aarseth árið 1993, en hefur nú lokið afplánun. Vikernes, Varg Listasafn ASÍ. Listasafn ASÍ er listasafn Alþýðusambands Íslands. Safnið var stofnað utanum listaverkagjöf Ragnars í Smára 1. júlí 1961, en hann gaf sambandinu um 120 verk eftir íslenska listamenn. Sýningarsalir safnsins eru í Ásmundarsal á Skólavörðuholti í Reykjavík. Unnur Ösp Stefánsdóttir. Unnur Ösp Stefánsdóttir (fædd 6. apríl 1976) er íslensk leikkona. Tristan Elizabeth Gribbin. Tristan Elizabeth Gribbin (f. 15. ágúst 1967) er íslensk leikkona. Tinna Hrafnsdóttir. Tinna Hrafnsdóttir (f. 25. ágúst 1975) er íslensk leikkona. Tinna Gunnlaugsdóttir. Tinna Þórdís Gunnlaugsdóttir (f. 18. júní 1954) er íslensk leikkona og Þjóðleikhússtjóri. Hún er gift Agli Ólafssyni leikara og tónlistarmanni. Börn þeirra eru Ólafur Egill, leikari og handritshöfundur, (f.12.10.1977) Gunnlaugur Egilsson, balettdansari (f 26.03.1979) og Ellen Erla Egilsdóttir (f. 18.10.1988) Heimild. Samtíðarmenn J-Ö, Vaka-Helgafell, 2003, Pétur Ástvaldsson ritstjóri. Sunna Borg. Sunna Borg (f. 20. desember 1946) er íslensk leikkona. Stella Guðný Kristjánsdóttir. Stella Guðný Kristjánsdóttir (f. 22. maí 1974) er íslensk leikkona. Steinunn Ólafsdóttir. Steinunn Ólafsdóttir (f. 25. janúar 1962) er íslensk leikkona. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir (f. 2. júlí 1969) er íslensk leikkona og var með spjallþátt hér áður fyrr á laugardagskvöldum á undan Spaugstofunni. Stefanía Thors. Stefanía Thors (f. 2. mars 1971) er íslensk leikkona. Sólveig Pálsdóttir. Sólveig Pálsdóttir (f. 13. september 1959) er íslensk leikkona, kennari og bókmenntafræðingur. Foreldrar Sólveigar eru Björg Ásgeirsdóttir og Páll Ásgeir Tryggvason. Sólveig Halldórsdóttir. Sólveig Halldórsdóttir (f. 15. febrúar 1954) er íslensk leikkona. Sólveig Guðmundsdóttir. Sólveig Guðmundsdóttir (f. 19. maí 1977) er íslensk leikkona. Sólveig Foster Svavarsdóttir. Sólveig Foster Svavarsdóttir er íslensk leikkona. Sólveig Arnarsdóttir. Sólveig Arnarsdóttir (f. 26. janúar 1973) er íslensk leikkona. Hún er dóttir Arnars Jónssonar, leikara, og Þórhildar Þorleifsdóttur, leikstjóra. Sóley Elíasdóttir. Sóley Elíasdóttir (f. 13. júlí 1967) er íslensk leikkona. Hún er eiginkona Hilmars Jónssonar, leikara, og systir Laufeyjar Elíasdóttur, leikkonu. Soffía Jakobsdóttir. Soffía Jakobsdóttir (f. 1. desember 1939) er íslensk leikkona. Sjöfn Evertsdóttir. Sjöfn Evertsdóttir (f. 22. september 1969) er íslensk leikkona. .gl. .gl er þjóðarlén Grænlands. .fo. .fo er þjóðarlén í Færeyjum. .sk. .sk er þjóðarlén Slóvakíu. .nl. .nl er þjóðarlén Hollands. .ie. .ie er þjóðarlén Írlands. .ru. .ru er þjóðarlén Rússlands. .tr. .tr er þjóðarlén Tyrklands. .mk. .mk er þjóðarlén Makedóníu. .bg. .bg er þjóðarlén Búlgaríu. .et. .et er þjóðarlén Eþíópíu. .sy. .sy er þjóðarlén Sýrlands. .mr. .mr er þjóðarlén Máritaníu. .co. .co er þjóðarlén Kólumbíu. .bo. .bo er þjóðarlén Bólivíu. .am. .am er þjóðarlén Armeníu. .pk. .pk er þjóðarlén Pakistans. .id. .id er þjóðarlén Indónesíu. .mn. .mn er þjóðarlén Mongólíu. .tj. .tj er þjóðarlén Tadsjikistans. .th. .th er þjóðarlén Taílands. .my. .my er þjóðarlén Malasíu. .az. .az er þjóðarlén Aserbaídsjans. .tv. .tv er þjóðarlén Túvalú. .sz. .sz er þjóðarlén Svasílands. Leikfélag Kópavogs. Leikfélag Kópavogs er áhugaleikfélag í Kópavogi sem var stofnað 5. janúar 1957. Fyrsta verkefni félagsins var Spanskflugan eftir Arnold og Bach og var sýnt í barnaskólanum Kópavogsskóla þar sem ekki var til húsnæði í bænum fyrir leiksýningar. Starfsemi félagsins fluttist yfir í Félagsheimili Kópavogs árið 1959 og var það aðsetur félagsins allt til ársins 2007 þegar neðsta hæð Félagsheimilisins var tekin undir skrifstofur bæjarins. Þann 3. nóvember 2007 var skrifað undir rekstrar- og samstarfssamning til 10 ára milli Leikfélagsins og Kópavogsbæjar og fékk félagið þá um leið húsnæðið að Funalind 2 í Kópavogi til afnota. Leikfélag Kópavogs hefur verið aðili að Bandalagi íslenskra leikfélaga frá stofnun þess. .su. .su var þjóðarlén Sovjétríkjanna fyrir hrun þeirra. Spanskflugan. Spanskflugan er leikrit í farsastíl eftir Þjóðverjana "Arnold" og "Bach" sem skrifuðu nokkur leikverk í sameiningu á fyrri hluta 20. aldar. Nokkur verka þeirra félaga hafa verið sett upp á Íslandi og má auk "Spanskflugunnar" nefna "Saklausa svallarann". "Spanskflugan" var fyrsta leikritið sem Leikfélag Kópavogs setti upp. Rainhard Fendrich. Rainhard Fendrich (fæddur 27. febrúar 1955 í Vín) er austurrískur söngvari og leikari. Fendrich, Rainhard Opus. Opus var vinsæl austurrísk hljómsveit. Sigurveig Jónsdóttir. Sigurveig Jónsdóttir (f. 10. janúar 1931- 3. febrúar 2008) var íslensk leikkona. Sigrún Waage. Sigrún Waage (f. 5. júní 1961) er íslensk leikkona. Sigrún Sól Ólafsdóttir. Sigrún Sól Ólafsdóttir (f. 31. ágúst 1968) er íslensk leikkona. Hún starfar sem prufuleikstjóri ("casting director"). Sigrún Gylfadóttir. Sigrún Gylfadóttir (f. 25. mars 1962) er íslensk leikkona. Sigrún Edda Björnsdóttir. Sigrún Edda Björnsdóttir (f. 30. ágúst 1958) er íslensk leikkona. Digimon-þáttaraðir. Digimon eru seríur af Toei Animation. Þær birtust frá 1999 til 2006. Söguþræðir fyrstu þvo seríanna eru tengdir, en hin eru alveg óháð. Adventure. Digimon Adventure er nafn fyrstu seríunnar sem gerð var um Digimon. Hún inniheldur 54 þætti og var sá fyrsti sýndur 7. Mars 1999 á Fuji TV. Serían átti í byrjuninni erfitt, þó varð hún mjög vinsæl nokkurn tímann eftir. Sagan fjallar um sjö krakka, sem lenda í stafræna heiminum og þurfa þar að berjast við mirkraöflin með hjálp digimonanna. Zero Two. Digimon Adventure 02 er önnur serían um Digimon. Hún tekur við þremur árum eftir fyrstu seríunni og gerist á árinu 2002. Fyrsti þátturinn var sýndur 2. apríl 2000 á Fuji TV. Þremur árum eftir atvikunum í Odaiba er stafræni heimurinn í hættu á ný. Svokallaður "Digimona Keisari" hefur byrjað að undiroka þann heim. Ný kosin börn þurfa að fara í stafræna heiminn til að frelsa honum. Tamers. Digimon Tamers er óháð fyrstu tveimur seríunum. Hún var frumsýnd 1. apríl 2001. Nokkrir krakkar, sem eru miklir aðdáendur af Digimon, komast að því að digimonar eru til í raun og veru. Þau fá digimona félaga og ala þau upp. En hver þeirra hefur aðra hugmynd um tilgang þeirra og hvernig á að ala þau upp. Frontier. Digimon Frontier er nafn fjórðu seríunar og er hún algerlega óháð hinum seríunum. Serían hefur fimmtíu þætti og var sá fyrsti sýndur 7. apríl 2002 á Fuji TV. Nokkrir krakkar komast í stafræna heiminn og finna digisálir hinna tíu forna stríðsmannana, sem leyfa þeim að breytast í digimona. Savers. Digimon Savers er fimmta serían og er óháð hinum seríunum. Fyrsti þátturinn var sýndur á Fuji TV 2. apríl 2006. Nokkrir unglingar, sem hafa komist í samband við digimona, eru ráðnir í starf hjá "DATS", stofnun sem reynir að koma í veg fyrir því að digimonar komast á jörðina. Digimon-kvikmyndir. Margar myndir um Digimon komu út í Japan, en birtust nokkrar þeirra ekki í vestræna heiminum. Digimon Adventure. Digimon Adventure kom út í Japan stutt á undan seríu með sama nafnið. Our War Game! Bokura no Wō Gēmu! er tímasett stuttu eftir fyrstu seríunni. Illur digimoni, Diablomon, kemst inn á net bandaríska hersins og skýtur kjarnorkusprengju á Japan. Taichi, Koushiro, Yamato, Takeru og digimona félagar þeirra verða að stöðva hann áður en hún springur. Digimonar Taichis og Yamatos sameinast í Omegamon. Diablomon margfaldast nokkrum þúsund sinnum en þau sigra þó alla á seinustu sekúndunni. Digimon Hurricane Touchdown!! Supreme Evolution!! The Golden Digimentals. Þessi mynd gerist í miðju seríu númer tvö. Taichi, Yamato, Koushiro, Jou, Mimi og Sora hverfa. Takeru og Hikari eru í Bandaríkjunum og hitta þar annan strák, Wallace, með félaga hans Terriermon, en þeir hlaupa undan. Á meðan koma Daisuke, Iori og Miyako einnig til Bandaríkjanna til að finna þau sem hurfu og hitta hin tvö. Wallace eltir eftir digimonanum, Wendimon, sem ræðst alltaf á hann. Seinna hitta Daisuke, Iori og Miyako á Wallace og verða samferða. Að lokum þurfa þau að berjast við Wendimon, sem þróast í Antiramon og svo Cherubimon (myrkur útfærsla). Krakkarnir breytast í smábörn út af krafta Cherubimons og digimonar þeirra verða sigraðir. En þá bætast Takeru og Hikari í hópinn. Digimonar þeirra gefa V-mon, sem er digimoni Daisukes og Terriermon, digimona Wallacear, heilaga krafta sína svo að þau þróast í Magnamon og Rapidmon (gull útfærslu). Þau ná að sigra Cherubimon, er verður að góðum digimona aftur rétt áður en hann breytist í digiegg. Krakkarnir sem hurfu birtast aftur og allt verður til góðs. Revenge of Diablomon. Diaboromon no Gyakushuu - Tímasetningin er nokkuð eftir annarri seríunni. Diablomon er enn á lífi og hefur búið til fullt af Kuramon afkvæmum. Hann sendir Kuramonin til Tókýó með mörgum litlum hliðum í GSM símum, því að sjálfur kemst hann ekki. Daisuke, Ken, Iori og Miyako reyna að safna þeim saman til að senda þá aftur í stafræna heiminn. Á meðan fara Taichi, Yamato, Hikari og Takeru í stafræna heiminn til að takast á við Diablomon sjálfann. Omegamon, Angemon og Angewomon saman tekst að sigra hann, en á sömu stundu sleppa öll Kuramonin, sem eftir eru, á jörðina. Þar sameinast þau öll og verða að Armagemon. Þar berjast þá Omegamon og Imperialdramon (fighter útfærsla) við hann, en þeim mistekst. Omegamon gefur Imerialdramon kraftinn sinn svo að hann breytist í Paladin útfærslu. Honum tekst þannig að buga Armagemon, sem leysist upp í Kuramonin. Með hjálp símanna allra áhorfenda tekst að eyða þeim og voru það endalok Diablomons. The Adventurers Battle. Boukensha Tachi no Tatakai - Þessi mynd er tímasett í miðri þriðju þáttaröðinni. Takato ferðast til Okinawa til að heimsækja frænda sinn, Kai, sem vingast við digimon félaga Takatos, Guilmon og einnig Culumon. Meðan þau leika sér á ströndinni koma þau auga á stelpu úti í sjónum, sem er að flýja frá Tylomon, hákarla digimona. Kai, Takato og Guilmon bjarga henni og í ljós kemur að hún er Minami, dóttir þekkta stafræna gæludýra framleiðandas. Seinna ráðast nokkrir digimonar á þau og út úr tölvu Minami kemur Shiisamon, sem var stafrænt gæludýr hennar, til að bjarga henni. En þó verður henni rænd og félagarnir ásamt Shiisamon reyna að bjarga henni. Föður Minami hefur einnig verið rænt og í ljós kemur að vinnufélagi hans er í raun Mephismon, sem ætlar að finna lækninguna fyrir tölvuvírus, sem hann bjó til og setti inn í stafrænu gæludýrin og eyða henni. Hann bjóst þó ekki við því að Omegamon myndi senda Jenrya, Ruki og félaga þeirra, hinum til hjálpar. Þá tekur Mephismon alla í hluta stafræna heimsins sem hann bjó sjálfur til. Þar berjast digimonarnir við hann. Þegar það virðist að Mephismon væri sigraður þróast hann í Galfmon. Þó tapar hann í lokin. En ekki fyrr en að Shiisamon særist banasári. Í ljós kemur að hann var lækningin og hann eyddi öllum vírusunum þegar hann leystist upp og skildi þar með Minami eftir grátandi. Runaway Digimon Express. Bousou Dejimon Tokkyuu - Nokkrum mánuðum eftir lok þriðju seríunnar tekur þessi mynd við. Krakkarnir eru sameinaðir aftur við digimonana sína og þurfa að stöðva lesta digimona, Locomon, sem fer um alla borgina á teinunum og geta því venjulegar lestir ekki keyrt. Eftir að Growmon mistekst að stöðva Locomon stekkur Takato á lesta digimonann. Ruki og Renamon komast einnig á lestina og saman reyna þau að stöðva hana að innan. En eitthvað heilaþvær Ruki og ræðst hún á hina. Renamon dettur af lestinni og Takato flýr á þakið. Ruki eltir hann og sýnir þar digimoninn sig, er stýrir Ruki. Það er Parasimon, sem reynir að henda Takato af þakinu. En Guilmon, sem komst líka á lestina, leysir Ruki úr álögunum en dettur hún næstum því ofan af lestinni. Takato grípur í hana og á þeirri stundu þróast Locomon í Grand Locomon og eykur hraðann. Í ljós kemur að Parasimon stýrir hann líka og stýra þau í áttina að hliði í stafræna heiminn. Takato og Guilmon breytast saman í Dukemon og drepa Parasimon. En áður en það deyr sendir það eitthvað gegnum hliðið og á næstu augnablikinu koma margir Parasimon úr hliðinu og ráðast á borgina. Ruki og Renamon þróast þá í Sakuyamon og Jenrya og Terriermon, sem bæst hafa í hópinn, í Saint Galgomon. Einnig kemur Justimon, er samanstendur af Ryo og Cyberdramon, til hjálpar. Saman berjast þau gegn Parasimon herinn og þegar Dukemon fer í "Crimson útgáfu" vinna þau bardagann og eyða Parasimonunum. Locomon leysist úr álögununum og fer aftur í stafræna heiminn. Myndin endar með veislu handa Ruki og lagi, sem hún syngur. Revival of the Ancient Digimon. Revival of the Ancient Digimon eða Kodai Dejimon Fukkatsu - Þessi mynd gerist í miðri fjórðu seríunnar. Hún var frumsýnd 20. júlí 2002 í Japan. Krakkarnir lenda í bardaga milli mannalíkum digimonum og skepnulíkum digimonum og dreifast í báða hópa. Þau reyna að fá frið milli báða liðana, en illur digimoni, Murmuxmon, hefur aðrar áætlanir. Ultimate Power! Activate Burst Mode! Kyūkyoku Pawā! Bāsuto Mōdo! er fyrsta myndin fyrir fimmtu seríuna. Hún var frumsýnd 9. desember 2006. Illur digimoni ætlar að svæfa allt mannkynið. Krakkarnir þurfa að komast í kastala hans til að stöðva hann. Digital Monster X-evolution. Digital Monster X-evolution er byggt á söguþræði Digimon Chronicle en þó eru engin menn í henni. Hún er gerð eingöngu í tölvunni og er þar með CG-mynd. Sagan fjallar um DORUmon, sem fæðst hefur í heim, sem er að nálgast endalokin. Yggdrasil, móðurtölva stafræna heimsins, er farinn að eyða öllum digimonum með hjálp konunglegu riddarana. Hópur uppreisnarmanna reynir að koma í veg fyrir því. Ameríska myndin. Digimon The Movie var birt október 2000 af Fox Kids og 20th Century Fox. Hún samanstendur af fyrstu þremur myndunum, Digimon Adventure, Our War Game og Digimon Hurricane Touchdown!! Supreme Evolution!! The Golden Digimentals, sem voru klipptar og breyttar þannig að söguþráðurinn er ekki sá sami og í upprunalegu myndunum. Margir Digimon aðdáendur voru mjög ósáttir við þessa útgáfu. Stafræni heimurinn. Stafræni heimurinn er sá staður þar sem Digimonar lifa og þróast. Heimurinn myndaðist í tölvunni Yggdrasil og breiddist út um alla gagnaflutningakerfi jarðarinnar. Hraundrangi. Hraundrangi er 1075 metra hár er fjallatindur á Drangafjalli í Öxnadal. Hann var lengi talinn ókleifur, en 5. ágúst 1956 var hann klifinn af tveimur Íslendingum og einum Bandaríkjamanni. Sagnir höfðu verið um að kista full af gulli væri geymdu upp á tindinum, en sú saga reyndist ekki á rökum reist að sögn klifurmannanna. Hraundrangi er ekki síst þekktur vegna ljóðs Jónasar Hallgrímssonar, "Ferðalok", sem hefst á línunum „Ástarstjörnu / yfir Hraundranga / skýla næturský.“ Nafnið er oft haft í fleirtölu, Hraundrangar, en það er rangt, enda er dranginn aðeins einn. Drangafjall skilur að Öxnadal og Hörgárdal og Hraundrangi blasir einnig við úr innanverðum Hörgárdal en þeim megin er hann yfirleitt aðeins nefndur "Drangi". Eyjafjarðarprófastsdæmi. Eyjafjarðarprófastsdæmi var til ársloka 2010 eitt af fimmtán prófastsdæmum Þjóðkirkju Íslands. Með breytingum á skipan prófastsdæma var það sameinað Þingeyjarprófastsdæmi. Sjá Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Tenglar. http://www.kirkjan.is/reykjavikurprofastsdaemi_vestra/ Þingeyjarprófastsdæmi. Þingeyjarprófastsdæmi var til ársloka 2010 eitt af fimmtán prófastsdæmum Þjóðkirkju Íslands. Með breytingum á skipan prófastsdæma var það sameinað Eyjafjarðarprófastsdæmi. Sjá Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi Knattspyrnudeild KR. Knattspyrnudeild KR var formlega stofnuð árið 1948 þegar að ný deildarskipting leit dagsins ljós innan knattspyrnufélagsins. Knattspyrnudeild KR hefur náð góðum árangri í gegnum tíðina. Innan hennar geta margir aldurshópar æft knattspyrnu undir leiðsögn þjálfara hjá KR. Þeir eru ríkjandi Bikarmeistarar í karlaflokki. Meistaraflokkur karla. Núverandi þjálfari meistaraflokks karla er Rúnar Kristinsson en hann er einnig yfirmaður knattspyrnumála, Pétur Pétursson er aðstoðarþjálfari. Ráðgjafi meistaraflokks og KR Akademíunar er Viðar Halldórsson og Lúðvík J. Jónsson er liðsstjóri. Evrópuleikir KR. KR hefur keppt við lið frá löndum sem eru lituð blá á þessu korti, 22 lönd alls. Meistaraflokkur kvenna. Núverandi þjálfari meistaraflokks kvenna er Björgvin Karl Gunnarsson Heimildir. KR Körfuknattleiksdeild KR. Meistaraflokkur karla. Meistaraflokkur karla í körfuknattleik í KR leikur í Iceland Express-deild karla. Þeir eru núverandi Bikar- og Íslandsmeistarar, en þeir hafa alls 12 sinnum hampað bæði bikarnum og Íslandsmeistaratitlinum. Hrafn Kristjánsson er þjálfari liðsins, en hann þjálfar einnig kvennalið KR. Meistaraflokkur kvenna. Þjálfari meistaraflokks kvenna er Hrafn Kristjánsson. Meistaraflokkur kvenna í körfubolta hefur oftast liða orðið Íslandsmeistari, eða 14 sinnum. Liðið hefur 10 sinnum orðið bikarmeistari. Geysir Green Energy. Geysir Green Energy (eða GGE) er í eigu Atorku, Íslandsbanka hf., VGK-Invest og Reykjanesbæjar og sérhæfir sig í verkefnum tengdum orkuframleiðslu á há- og lág-hitasvæðum. Geysir Green Energy var stofnað 5. janúar 2007. Þann 30. apríl 2007 keypti fyrirtækið 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja á 7,6 milljarða. Stærstu eigendur Geysis Green Energy í árslok 2008 voru Atorka Group með 41 % og Glacier Renewable Energy Fund (GREF) með 40 %. Meðal helstu verkefna fyrirtækisins eru ENEX, dótturfyrirtæki sem þróar orkuver sem nýta jarðhita. Enex-China sem er samstarfsverkefni á milli Enex og kínverska fyritækisins Shaanxi Geothermal Energy Development Corporation. Loks Exorka annað fyrirtæki sem er rekið á Húsavík sem sérhæfir sig sömuleiðis í nýtingu jarðvarma og vinnur að nýtingu lághita til raforkuframleiðslu m.a. í Þýskalandi. Jarðboranir eru í eigu Geysis Green Energy ásamt 80% hlutar í Envent, sem vinnur að verkefnaþróun í jarðhita í Filippseyjum. Félagið á einnig hlut í Ram Power Inc. verkefnaþróunarfélags í jarðhita í Bandaríkjunum og WesternGeoPower, sem vinnur að byggingu 35 MW jarðhitavirkjunar í Kalíforníu í Bandaríkjunum. Þann 29. júní 2007 keypti Geysir Green Energy 28,4% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Heildarkaupverð var 15 milljarðar íslenskra króna. Geysir Green Energy er einn af stofnaðilum Keilis menntastofnunar á háskólastigi á Suðurnesjum. Ísabella Danaprinsessa. Ísabella Danaprinsessa skírð Isabella Henrietta Ingrid Margrethe (fædd 21. apríl 2007) er annað barn Friðriks krónprins og Maríu krónprinsessu. Ísabella á eldri bróður, Kristján prins. Ísabella var skírð í kapellu Fredensborghallar þann 1. júlí 2007. Guðforeldrar hennar voru Matthildur Belgíuprinsessa, Alexia Grikkjaprinsessa, Dr. Nadine Johnston, Dr. Christian Buchwald, Hr. Peter Heering og Frú Marie Louise Skeel. Nafnið Henrietta var eftir móður Maríu, Ingrid var í höfuðið á móðurömmu Friðriks og Margrét eftir Danadrottningunni. Riverton, Manitoba. Riverton er þorp í Manitoba-fylki í Kanada. Það er fyrsta þorpið sem Íslendingar stofnuðu í Kanada, 1876. Riverton er vinabær Kópavogs. Útsending. Í fjarskiptum og gagnaflutningum er útsending að senda út rafræn skilaboð fyrir móttöku annars staðar. Skilaboðin geta verið í stafrænu eða hliðrænu formi. Hliðræn útsending. Hliðræn útsending getur verið merki, sem er sent beint frá einum stað til annars án mótunar, eins og mors kóða. Nú á tímum er þó yfirleitt notuð einhvers konar mótun, sé það styrkmótun (AM), tíðnimótun (FM), eða fasamótun (PM). Mótun er aðferð að breyta merki frá upprunalegu formi í annað form, sem er á betri tíðni eða auðveldara að senda út. Stafræn útsending. Í stafrænni útsendingu er merki breytt í stafrænt form og síðan sent út. Til eru nokkrar aðferðir að móta merki í stafrænu formi. Nefna má púlsvíddmótun (PDM), púlsstyrkmótun (PAM) og púlsstaðsetningarmótun (PPM). Einnig er hægt að breyta merkið í bitaruna, eins og gert er í tölvum. Í þessum aðferðum, fyrir utan púlsstyrkmótuninni, geta gögnin aðeins haft tvö gildi, 0 og 1. Þetta kemur í veg fyrir truflanir, sem breyta styrk merkisins. Miðill. Gögn eru flutt með mörgum mismunandi aðferðum. Sjónvarps- og útvarpsútsendingar, til dæmis, eru send út með kóaxkapli, ljósleiðara, í gegnum loftið og með gerfihnöttum. Mjólkárvirkjun. Mjólkárvirkjun er 8,1 MW vatnsaflsvirkjun í ánni Mjólká í botni Borgarfjarðar í Arnarfirði á Vestfjörðum. Bygging hennar hófst árið 1956 og var lokið á tveimur árum. Virkjunin var byggð af Rafmagnsveitum ríkisins en er nú rekin af Orkubúi Vestfjarða. Mannát. Mannát er það að leggja sér til munns hluta mannslíkama, stundum kallað „mannakjöt“. Mannát er víðast hvar fordæmt núorðið en deilt er um hvort mannát hafi nokkurn tímann tíðkast mjög víða. Því hefur verið haldið fram að mannát hafi aldrei verið útbreitt og sögur af því ýkju- og lygasögur. En víða hafa sögur verið sagðar af mannáti á sögulegum tíma. Forngríski sagnaritarinn Heródótos greinir til að mynda frá því í riti sínu að Messagetar hafi stundað mannfórnir og stundað mannát og landræðingurinn Strabon greinir frá mannáti Kelta til forna. Og margir mannfræðingar telja að mannát hafi áður fyrr tíðkast víða um heim. Til dæmis eru fullyrðingar Strabons um mannát Kelta til forna studdar fornleifum. Hugsanlega hefur mannát einnig tíðkast á forsögulegum tíma. Sumir telja að Neanderdalsmenn hafi stundað mannát og hugsanlegt er að nútímamenn hafi lagt sér kjöt Neanderdalsmanna til munns. Sumir ættflokkar á Papúa Nýju-Gíneu hafa stundað mannát, þar má nefna Fore-ættbálkinn þar sem uppgötvaðist að kuru-sjúkdómurinn smitaðist við át á heila ættingja. Fólk af Korowai-ættbálknum er sagt enn stunda mannát þótt dregið hafi úr því en það telur sig þó ekki mannætur þar sem aðeins eru etnir þeir sem taldir eru galdramenn og þar með ómennskir. Á Íslandi eru til ýmsar þjóðsögur um mannát, bæði útilegumannasögur, tröllasögur og ævintýri, en einnig frásagnir af fólki sem lagði sér mannakjöt til munns fremur en að svelta til bana í harðindum og í "Húnvetninga sögu" Gísla Konráðssonar er þessi frásögn af hungraðri skagfirskri flökkustúlku, Tófu-Gunnu frá Syðsta-Vatni, í Móðuharðindunum: „Hún fékk og gistingu á bæ einum í Refasveit. Lá þar barnslík í útikofa. Urðu menn varir við að hún gekk úr bóli sínu um nóttina, er þá var björt, og var komið að henni, að tekin var hún að skera vöðva úr líkinu og vildi éta, en varð hindruð.“ Tegundir mannáts. Stundum er gerður greinarmunur á mannáti eftir því hvaða stöðu fórnarlambið hefur hjá þeim sem stunda mannátið. Í grófum dráttum felst munurinn í því að borða einstaklinga sem tilheyra ekki hópnum annars vegar og hins vegar að borða einstaklinga sem teljast til hópsins. Einnig er gerður greinarmunur á útfararmannáti annars vegar og stríðsmannáti hins vegar. í fyrra tilvikinu leggja syrgjendur sér til munns kjöt eða líkamshluta látinna ættingja. Af þessu tagi er mannát það sem Heródótos greinir frá meðal Messagetanna og einnig mannát Wari’-fólksins í Amazon-skóginum. Á hinn bóginn felst stríðsmannát í því að leggja sér til munns kjöt eða líkamshluta fallinna andstæðinga í bardaga. Mannát í bókmenntum og kvikmyndum. Mannát kemur fyrir í ýmsum grískum goðsögum þar sem það veldur ættarskömm og bölvun. Atreifur drap til að mynda bróðursyni sína og matreiddi þá ofan í bróður sinn Þýestes. Einnig í germönskum sögum, til dæmis drepur Guðrún Gjúkadóttir, eiginkona Atla Húnakonungs, syni þeirra og matreiðir þá ofan í hann. Í barnabók Þórarins Leifssonar, "Leyndarmálið hans pabba", er faðirinn mannæta en börnum hans leiðist það mjög og þau reyna að fá hann til að hætta því. .uk. .uk er þjóðarlén Bretlands. Samkvæmt tölum frá júlí 2008 er.uk fimmta vinsælasta þjóðarlén heims. .cz. .cz er þjóðarlén Tékklands. .so. .so er þjóðarlén Sómalíu. .bs. .bs er þjóðarlén í Bahamaeyjum. .mv. .mv er þjóðarlén í Maldíveyjum. .sc. .sc er þjóðarlén í Seychelleseyjum. .sb. .sb er þjóðarlén í Salómonseyjum. .mh. .mh er þjóðarlén í Marshalleyjum. .fj. .fj er þjóðarlén í Fídjieyjum. Sandur. Sandur kallast fínkorna jarðefni, set, sem kvarnast úr föstu bergi. Algengasta kornastærð sands er 0,0625–2 mm að þvermáli. Gler er búið til úr bráðnum sandi. Tónstig. Tónstig kallast þau stig sem að nemendur í tónlistarnámi taka. Á Íslandi eru 8 tónstig og þar á eftir kemur einleikaranám eða kennaranám. Miðhollenska. Miðhollenska er samheiti yfir mállýskur sem talaðar voru á milli 1150 og 1500 í Hollandi. Fornnorræna. Fornnorræna, frumnorræna eða norræna (áður fyrr norrœnt mál eða dǫnsk tunga'") er samheiti yfir norræn mál sem töluð voru í Skandinavíu (þ.m.t á Íslandi), hlutum Bretlandseyja, Grænlandi og hluta Rússlands á árunum 800 til 1700. Í frumnorrænu hurfu upphafssamhljóðar margra orða - wolf, wool, wound, wonder, wotan, word, young, year. Bókasafn. Bókasafn er staður þar sem að upplýsingar; bækur, tímarit, dagblöð og einnig myndbönd og hljóðdiska eru geymdar. Fyrsta bókasafnið í Reykjavík. Fyrsta bókasafn í Reykjavík var stofnað að frumkvæði C.C. Rafns, síðar prófessors, en það var hið svonefnda "stiftbókasafnið", stofnað 1815. Þetta var upphafið að Landsbókasafni. Ekkert hús var til fyrir safnið, svo að því var fyrst komið fyrir í Konungsgarði. Svo var það flutt á loft dómkirkjunnar, og þaðan í Alþingishúsið 1881. Listasafn. Listasafn er safn þar sem að listarverk eru geymd og eru oft til sýnis almenningi. Wales. Wales (borið fram; velska: "Cymru", borið fram) er land í Evrópu og eitt af þeim fjórum löndum sem tilheyra Bretlandi. England liggur í austri og Atlantshaf og Írlandshaf eru í vestri. Íbúatala Wales er um það bil þrír milljónir manna. Það er tvítyngt land, velska er studd til jafns við ensku, en flestir tala ensku sem móðurmál. Einu sinni var Wales keltneskt ríki og í dag er talið vera ein keltneskar þjóðirnar sex. Á 5. öldinni kom fyrir sérstök velsk þjóðerniskennd þegar Rómverjir hörfuðu úr Bretlandi. Á 13. öldinni sigraði Játvarður 1. Llewelyn hinn síðasta og þá kom Wales undir stjórn Englands í nokkrar aldir. Seinna varð Wales hluti Englands með Sambandslögunum 1535–1542, og þannig var myndaður sá lögaðili sem heitir England og Wales. Á 19. öldinni þróaði stjórnmál í Wales og árið 1881 voru lög sett um verslun á sunnudögum, þau fyrstu sem voru sérstaklega fyrir Wales. Árið 1955 var Cardiff tilkynnt sem höfuðborg landsins. Árið 1999 var Velska þingið stofnað sem sér um öll mál sem hafa verið afhent til Wales. Höfuðborgin Cardiff (velska: "Caerdydd") er stærsta borg í Wales og þar búa 317.500 manna. Einu sinni var hún stærsta kolahöfn í heimi, og fleiri farmar fóru í gegnum Cardiff en London eða Liverpool. Um það bil tveir þriðjungar íbúa eiga heima í Suður-Wales. Það eru líka margir íbúar í austri í Norður-Wales. Wales er mjög vinsælt hjá ferðamönnum vegna fagurrar sveitarinnar. Síðan 19. öldin hefur Wales verið þekkt sem „söngvalandið“. Það eru margir leikarar og söngvarar frá Wales sem eru þekktir um allan heim. Cardiff er stærsta fjölmiðlamiðstöð á Bretlandi útan við London. Llewelyn hinn mikli stofnaði furstadæmið Wales árið 1216. Núverandi Walesbúaprinsinn er Karl. Fangelsi. Fangelsi er staður, oftast rammbyggður, þar sem afbrotafólk afplánar fangelsisdóm og er við fangelsun svipt frelsinu og borgaralegum réttindum sínum. Dómstólar dæma brotamenn til refsingar og fullnusta hennar er framkvæmd í fangelsum. Fangelsi, og aðrar sambærilegar stofnanir, er hluti réttarfarskerfinu. Samheiti og önnur orð tengd fangelsi. Á íslensku eru til mörg orð sem höfð eru um fangelsi. Mætti þar t.d. nefna "hegningarhús", "tukthús", "betrunarhús" og "sakahús". Orðin steinn eða grjót (oftast með greini: "steininn" eða "grjótið") eru tilkomin vegna Hegningarhúsins á Skólavörðustíg 9, sem stundum er einnig nefnd "Nían". Önnur orð tengd fangelsi eru t.d. "Letigarður" sem var vinnuhæli sem var sambyggt fangelsinu. Það orð var þó einnig haft um þurfamannahæli. "Dýflissa" er orð sem aðallega haft er um fangelsi í köstulum, svo er um "svarthol" og "myrkvastofu", þó þau séu jöfnum höndum einnig höfðu um fangelsi almennt. "Prísund" er einnig haft um dýflissu, en sömuleiðis um hverskonar kvalarstað. Nýyrði. Nýyrði er nýtt orð yfir hugtak eða hlut. Nýyrðasmiðir nefnast þeir sem annaðhvort starfa í nýyrðanefndum eða koma nýyrðum á framfæri í skrifum sínum. Skipting nýmæla. Nýyrði skiptast í tvo flokka "ný orð" (þ.e.a.s. nýyrði) og svo "nýmerkingar". Nýmerking kallast það þegar gamalt orð fær nýja merkingu (sbr. sími). Stundum eiga nýmerkingar sér erlendar rætur og eru þá nefndar "tökumerkingar" (sbr. berklar). Ný orð eru ýmist tökuorð eða nýyrði mynduð úr íslenskum orðstofnum. Á meðal nýyrðanna eru þó firn af samsettum orðum sem kallast tökuþýðingar en tökuþýðing er það þegar erlent orð eða orðasamband er þýtt lið fyrir lið, sbr. t.d. „kjarnorka“ (enska: "nuclear energy"), „samviska“ (latína: "conscientia"), „meðvitund“ (enska: "consciousness" úr lat. "conscientia"). Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar. Jónas segir svo í formála að þýðingu sinni um nýyrði sín: „Ég vonast einnig eftir að önnur betri komi bráðum í stað þeirra, og að þessi litla fjárgata, er eg nú hefi lagt, verði með tímalengdinni að breiðum og ruddum þjóðvegi.“ Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (skammstafað ÍSÍ) eru heildarsamtök íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og æðsti aðili frjálsar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmt íþróttalögum. Eitt af meginverkefnum ÍSÍ er að efla, samræma og skipuleggja íþróttastarfsemi á Íslandi, auk þess að stuðla að þróun hvers kyns íþrótta, jafnt almennings- sem afreksíþrótta. ÍSÍ varð til árið 1997 þegar Íþróttasamband Íslands (st. 1912) og Ólympíunefnd Íslands sameinuðust. Forseti ÍSÍ frá árinu 2006 er Ólafur Rafnsson, lögmaður og fyrrverandi formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Þar áður gegndi Ellert B. Schram forsetaembættinu á árunum 1990-2006. Dolly. Dolly eða Dollý (5. júlí 1996 – 14. febrúar 2003) var sauðkind og fyrsta klónaða spendýrið. Dollý var klónuð í Roslin-stofnuninni í Edinborg, Skotlandi og ól þar sína ævi. Burðurinn. Fruman, sem Dollý var klónuð úr, var tekin úr júgra 6 ára gamallar finnskrar Dorset-kindar. Dollý var eina tilraunin til klónunar sem tókst af samtals 277 tilraunum, sem Roslin-stofnunin framkvæmdi á sauðfé. Fæðing hennar var ekki kynnt fyrr en í febrúar 1997. Dauðinn. Dollý dó 14. febrúar 2003 af mæðiveiki (votamæði) og þann 9. apríl 2003 var hún stoppuð upp og sett til sýnis á Royal-safninu í Edinborg. Nafnið. Kindin Dollý gekk upprunalega undir dulnefninu 6LL3. Einn aðilanna, sem aðstoðaði við burð kindarinnar, stakk upp á nafninu „Dolly“ í höfuðið á hinni brjóstamiklu kántrísöngkonu Dolly Parton, þar sem fruman, sem Dollý var klónuð úr, kom úr júgra móður hennar. Hagur af tilrauninni. Eftir Dollý hefur orðið ör þróun á sviði klónana. Vísindamenn Roslin-stofnunarinnar hafa síðar klónað stærri spendýr, þ.á m. hesta og nautgripi. Hugmyndir eru um að nota klónun í framtíðinni til að bjarga dýrum í útrýmingarhættu. Moodle. Moodle er hugbúnaður til að byggja upp netbundið námsumhverfi. Moodle er í stöðugri þróun og sérstaklega hannað með það í huga að styðja við kennsluhætti sem grundvallast á félagslegri hugsmíðahyggju. Moodle er frjáls hugbúnaður og geta allir sem áhuga hafa nýtt sér hann (samkvæmt skilmálum GNU Public hugbúnaðarleyfisins). Í grundvallaratriðum þýðir það, að Moodle er verndað af höfundarrétti en notendur búa engu að síður við ákveðið frelsi. Heimilt er að taka afrit af Moodle hugbúnaðinum, hagnýta og breyta á hvern þann hátt sem hentar svo lengi sem viðkomandi samþykkir að veita öðrum notendum aðgang að frumkóðanum; breyta ekki eða fjarlægja upprunalega leyfisskilmála eða höfundarrétt og láta sama leyfi ná yfir öll afleidd verk. Frekari upplýsingar má finna í heildartexta hugbúnaðarleyfisins og einnig má hafa samband við handhafa höfundarréttar ef einhverjar spurningar vakna. Moodle er hægt að setja upp á öllum tölvum sem geta keyrt PHP forritunarmálið og styðja við SQL gagnagrunn (t.d. MySQL). Moodle keyrir á Windows og Macintosh stýrikerfum og mörgum Linux dreifningum (s.s. Red Hat eða Debian). Fjölmargir Moodle samstarfsaðilar eru reiðubúnir að veita aðstoð og jafnvel hýsa Moodle vefinn þinn. Orðið Moodle var upprunalega hugsað sem skammstöfun á Modular Object-Oriented Dynamic Learning Environment, sem fyrst og fremst er gagnlegt fyrir forritara og kennslufræðinga. Orðið er einnig sögn sem lýsir því að vinna við eitthvað á eitthvað á afslappaðan hátt, eða ánægjulegu fikti sem stundum leiðir til innsæis og sköpunar. Á þennan hátt vísar orðið Moodle bæði til þess hvernig hugbúnaðarlausnin var þróuð og einnig hvernig nemandi eða kennari gætu hugsanlega nálgast nám og kennslu á Netinu. Alþingishúsið. Alþingishúsið er bygging sem stendur við Austurvöll í Reykjavík og er aðsetur Alþingis Íslendinga. Húsið teiknaði Ferdinand Meldahl, forstöðumaður listaakademíunnar í Kaupmannahöfn. Það var reist árið 1881, en byggingaverktaki þess var "F. Bald", danskur maður. Húsið var reist úr höggnu íslensku grágrýti (dólerít). Áður, á árunum 1845-1881, hafði Alþingi starfað í gamla Latínuskólanum sem í dag hýsir Menntaskólann í Reykjavík. Húsið reist. Árið 1880 var hafist handa við byggingu Alþingishússins við Kirkjustíginn, en áður hafði verið gert ráð fyrir að húsið yrði byggt við Bakarastíg, þar sem nú er Bankastræti. Halldór Kr. Friðriksson yfirkennari seldi þá land sitt við Kirkjustíginn fyrir 2.500 krónur og þótti óheyrilegt verð í þá daga. Þar hafði áður verið kálgarður hans og þar var Alþingishúsið reist. Við byggingu hússins, sem og fangahússins við Skólavörðustíg, sem hafði verið reist ellefu árum áður, eða árið 1872, lærðu reykvískir iðnaðarmenn að höggva og tilreiða grjót úr holtunum til húsabygginga. Kristlaug María Sigurðardóttir. Kristlaug María Sigurðardóttir er íslenskur rithöfundur og hefur skrifað bækur, útvarpsleikrit, sjónvarpshandrit og kvikmyndahandrit. "Ávaxtakarfan" er með þekktari verkum hennar og hefur leikritið verið sett upp tvisvar sinnum á Íslandi. Auk þess hefur verið framleidd kvikmynd um Ávaxtakörfuna og sjónvarpsþáttaröð sem verður sýnd á stöð 2 haustið 2013. Kristlaug rekur eigið framleiðslufyrirtæki, Galdrakassann ehf. Kennitala. Kennitala er einkvæmt 10-tölustafa númer sem einstaklingar, félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki nota á Íslandi til að auðkenna sig í viðskiptum og samskiptum við stofnanir, fyrirtæki og aðra einstaklinga. Þetta númer er á forminu DDMMÁÁ-NNPÖ þar sem DD er dagurinn, MM er mánuðurinn, ÁÁ eru síðustu tveir stafirnir í fæðingarárinu, NN er handahófskennd tala, P er prófsumma sem er reiknuð út frá fyrstu átta tölunum og Ö táknar öldina. Kennitölur voru teknar upp á áramótum 1987-1988, en áður var notast við nafnnúmer. Fyrstu átta stafirnir. Fyrstu 6 stafir kennitölu eru myndaðir af fæðingardagsetningu einstaklings. Ef um félagasamtök, stofnun eða fyrirtæki er að ræða er notuð stofndagsetning þess nema hvað tölunni 4 er bætt við fyrsta tölustafinn. Næstu tveir stafir kennitölunnar eru valdir af handahófi, þó er varast að þeir verði eins og aðrir sem þegar var úthlutað þannig að einstaklingar fæddir sama dag fái ekki sömu tvo stafi. Níundi stafurinn. Níundi stafur kennitölunnar er vartala, og virkar sem ákveðin prófsumma sem er fengin með því að beita ákveðnu reikniriti á fyrstu 8 tölurnar. Fyrstu átta tölurnar eru margfaldaðar með tölunum 2, 3, 4, 5, 6, 7, 2 og 3 frá hægri til vinstri, margfeldin eru svo lögð saman og módúlus 11 fundinn af summunni, þessi módúlus er svo notaður sem níundi stafurinn. Þannig er hægt að athuga hvort að kennitala sé löglega mynduð og hafna kennitölum sem slegnar eru inn sem ekki standast þetta vartölupróf. Dæmi hvernig reikna ætti út níunda staf kennitölu einstaklings sem byrjar á 120160 og hefur handahófskenndu stafina 33. þar sem formula_3 er samleifa þar sem samleifin er formula_5 (ef það er enginn afgangur þá er talan alltaf núll, ef afgangurinn er formula_6 þá er slembitala notuð þess í stað). Svo er afgangurinn dreginn frá tölunni ellefu og níundi stafurinn er því átta. Arnljótur Ólafsson. Arnljótur Ólafsson (fæddur á Auðólfsstöðum í Langadal 21. nóvember 1823, dáinn 29. október 1904) var íslenskur hagfræðingur, prestur og stjórnmálamaður. Arnljótur lauk stúdentsprófi 1851 og las hagfræði við Kaupmannahafnarháskóla í nokkur ár án þess að ljúka prófi. Í Kaupmannahöfn var hann ritstjóri Skírnis á árunum 1853 og 1855-60 og einkakennari sonar Blixen-Finecke baróns. Arnljótur lauk guðfræðiprófi frá Prestaskólanum árið 1863 og var prestur á Bægisá árin 1863—89 og á Sauðanesi frá 1889 til æviloka. Árið 1880 gaf hann út bókina Auðfræði, þá fyrstu á Íslandi um hagfræði. Þingstörf. Kosinn Alþingismaður Norður Þingeyinga árið 1900, en kom ekki til þings 1901 vegna veikinda. Sigríður Þorvaldsdóttir. Sigríður Þorvaldsdóttir (f. 12. apríl 1941) er íslensk leikkona og leikstjóri. Sigríður Eyþórsdóttir. Sigríður Eyþórsdóttir (f. 21. ágúst 1940) er íslensk leikkona. Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Sigríður Eyrún Friðriksdóttir (f. 9. maí 1976) er íslensk leikkona. Saga Geirdal Jónsdóttir. Saga Geirdal Jónsdóttir (f. 28. júlí 1948) er íslensk leikkona. Hljómar - Fyrsti kossinn -Bláu augun þín. Hljómar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni flytja Hljómar tvö lög. Ómar Ragnarsson - Ég er að baka. Ómar Ragnarsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni syngur Ómar Ragnarsson fjögur barnalög. Hljómar - Ertu með? Hljómar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1965. Á henni flytja Hljómar fjögur lög. Rósa Ingólfsdóttir. Rósa Ingólfsdóttir (f. 5. ágúst 1947) er íslensk leikkona og auglýsingateiknari, útskrifuð úr Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og Handíðaskólanum. Hún var fyrsti teiknari Ríkissjónvarpsins og starfaði hjá RÚV um árabil, fyrst sem fréttateiknari og síðar meir sem sjónvarpsþula samhliða því sem hún hélt áfram að starfa sem fréttateiknari. Árið 1992 kom út ævisaga Rósu Ingólfsdóttur, sem skrásett var af Jónínu Leósdóttur blaðamanni og rithöfundi og gefin út af bókaútgáfunni Fróða. Rósa er dóttir hjónanna Ingólfs Sveinssonar og Klöru Halldórsdóttur, (bæði látin) en hún er yngst þriggja systkina. Rósa Guðný Þórsdóttir. Rósa Guðný Þórsdóttir (f. 30. september 1958) er íslensk leikkona. Pyrrhosarsigur. Pyrrhosarsigur er dýrkeyptur hernaðarsigur. Hugtakið á rætur rekja til sigurs gríska herforngjans Pyrrhosar frá Epíros á Rómverjum í orrustunni við Heracleu 280 f.Kr. og orrustunni við Asculum 279 f.Kr.. Við Heracleu misstu Rómverjar 7000 menn en Pyrrhos missti um 4000; við Asculum misstu Rómverjar um 6000 menn en Pyrrhos um 3500. Aftur á móti var endurnýjun í rómverska hernum mikil en Pyrrhos hafði einungis það lið sem hann hafði leitt til Ítalíu. Sagt er að eftir sigurinn við Asculum hafi Pyrrhos mælt svo: „Einn slíkur sigur enn á Rómverjum, og við erum sigraðir“. Varnarstríð. Varnarstríð eða varnarstyrjöld er stríð háð af ríki sem ráðist hefur verið á. Dæmi um varnarstríð er þegar Frakkar börðust gegn Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni. Árásarstríð er andstæða varnarstríðs. Skæruhernaður. Skæruhernaður er hernaður þar sem áhersla er lögð á margar aðgreindar árásir sem óvinurinn veit aldrei hvar er að vænta. Skæruhernaður á uppruna sinn að rekja til þess tíma þegar Napóleon ætlaði að gera bróður sinn Josef Bonaparte að konungi yfir Spáni. Þá stunduðu Spánverjar það sem þeir kölluðu "guerrilla" ("lítið stríð", eða "skæra"), en það voru fámennar skyndiárásir sem óvinurinn gat ómögulega séð fyrir. Og með því var farið að nefna þessa árásaherferð "guerrilla" á Spáni, og innan tíðar varð þetta spænska hugtak að alþjóðlegu heiti yfir það sem á íslensku hefur verið nefnt skæruhernaður. Rebekka A. Ingimundardóttir. Rebekka A. Ingimundardóttir (f. 12. júlí 1967) er íslensk leikkona, leikmynda- og búningahönnuður. Ferill í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. !Ár !! Kvikmynd/Þáttur !! Hlutverk !! Athugasemdir og verðlaun Rannveig Þorkelsdóttir. Rannveig Þorkelsdóttir (f. 28. september 1962) er íslensk leikkona. Rannveig Kristjánsdóttir. Rannveig Kristjánsdóttir (f. 19. september 1971) er íslensk leikkona. Ragnhildur Rúriksdóttir. Ragnhildur Rúriksdóttir (f. 12. febrúar 1964) er íslensk leikkona. Hún er dóttir Rúriks Haraldssonar leikara. Ragnheiður Steindórsdóttir. Ragnheiður Steindórsdóttir (f. 26. júní 1952) er íslensk leikkona. Ragnheiður Elín Gunnarsdóttir. Ragnheiður Elín Gunnarsdóttir (f. 27. júlí 1974) er íslensk leikkona. Pálína Jónsdóttir. Pálína Jónsdóttir (f. 16. maí 1968) er íslensk leikkona. Ólöf Sverrisdóttir. Ólöf Sverrisdóttir (f. 13. júní 1958) er íslensk leikkona. Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Ólafía Hrönn Jónsdóttir (f. 7. desember 1962) er íslensk leikkona. Anders Fogh Rasmussen. Anders Fogh Rasmussen (fæddur 26. janúar 1953) er fyrrveradi forsætisráðherra Dana og formaður Venstre. Hann átti sæti á danska þjóðþinginu á árunum 1978 – 2009. Hann gegndi embætti skattaráðherra árin 1987 – 1992. Hann leiddi hægristjórn þar frá 27. nóvember 2001 fram til 5. apríl 2009, var það minnihlutastjórn í samvinnu Venstre og danska íhaldsflokksins og var hún studd af danska þjóðarflokknum. Anders Fogh Rasmussen tók við stöðu aðalritara NATO 5. apríl 2009 og Lars Løkke Rasmussen tók þá við embætti forsætisráðherra Danmerkur. Grettir Björnsson - Eftir töðugjöldin. Grettir Björnsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1966. Á henni leikur Grettir Björnsson gömlu dansana ásamt Árna Scheving, Ragnari Páli Einarssyni og Guðmundi R. Einarssyni. Innrásarstríð. Innrásarstríð (eða árásarstríð eða árásarstyrjöld) er stríð háð af ríki sem ræðst með herjum sínum inn fyrir landamæri, þ.m.t. einnig landhelgi og lofthelgi, annars ríkis. Dæmi um innrásarstríð er t.d. árás Þýskalands á Pólland í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Aðilinn sem ráðist er á bregst við með varnarstríði, og reynir að hrekja innrásarherinn af höndum sér, eða játar sig sigraðan og gefst upp fyir innrásarliðinu. Ef varnaraðilinn gefst upp lýkur innrásarstríði og innrásaraðilinn kemur upp setuliði. Varnaraðili, sem er mun fáliðaðri, reynir stundum að breyta innrásarstríði í langvinnt þreytistríð, ef hann telur sig með því móti geta á löngum tíma veikt innrásarherinn það mikið að hann hopi af sjálfsdáðum eða að hann geti hrakið hann á flótta með sífelldum skæruhernaði og gagnárasum. Steinn Steinarr - Tíminn og vatnið. Steinn Steinarr - Tíminn og vatnið er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni les Steinn Steinarr eigin ljóð. Málverk á framhlið gerði Kristján Davíðsson. Ljósmynd á bakhlið tók Jón Kaldal. Tíminn og vatnið er talið tímamótaverk í íslenskri ljóðlist, þá hófst hinn svokallaði Atómskáldskapur. Nexus. Nexus er sérvöruverslun á Hverfisgötu 103 í Reykjavík sem selur spil, bækur, leikföng, teiknimyndasögur (meðal annars manga) og DVD-mynddiska (anime). Nexus hefur starfað síðan 1992. Þema búðarinnar er vísindaskáldskapur og fantasíur. Meðal spila sem búðin selur eru spunaspilin Warhammer og Dungeon and Dragons. Nexus-forsýningar. Nexus hefur í mörg ár staðið fyrir sérstökum forsýningum á kvikmyndum. Þær eru þá nokkrum dögum, jafnvel vikum á undan frumsýningunni á Íslandi. Miðaverð er hærra en á almennar sýningar, en stundum er boðið uppá fríar veitingar í staðin. Nexus-sýningar eru alltaf hlélausar og reynt er að hafa þær textalausar. Jón Espólín. Jón (Jónsson) Espólín (22. október 1769 – 1. ágúst 1836) var sýslumaður, fræðimaður og íslenskur annálaritari og er einna frægastur fyrir að hafa tekið saman "Íslands Árbækur í söguformi". Æviágrip. Jón var fæddur á Espihóli í Eyjafirði og kenndi sig við þann bæ. Foreldrar hans voru Jón Jakobsson sýslumaður og kona hans Sigríður Stefánsdóttir. Jón lærði í heimaskóla hjá Jóni presti Jónssyni í Núpufelli og fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla.Hann var skipaður sýslumaður í Snæfellsnessýslu frá 19. september 1792. Hann tók við sýslunni seint í nóvember sama ár. Árið 1797 hafði hann sýsluskipti við Finn Jónsson sýslumann í Borgarfjarðarsýslu og var þar í fimm ár en þá skipti hann um sýslu við Jónas Scheving og fékk Skagafjarðarsýslu, þar sem hann var síðan sýslumaður til dauðadags. Hann bjó fyrst á Flugumýri í Blönduhlíð 1803–1806, síðan í Viðvík í Viðvíkursveit til 1822 og síðast á Frostastöðum í Blönduhlíð. Jón hafði mikinn áhuga á sagnfræði og ættfræði frá unglingsárum og skrifaði mikið um þau efni. Annállinn "Íslands Árbækur í sögu-formi", sem venjulega gengur undir nafninu "Árbækur Espólíns", kom út í 12 bindum á árunum 1821–1855. Árbækurnar eru yfirlit yfir sögu Íslands frá því um 1262 til samtíma höfundarins, og eru beint framhald af Sturlungu. Einnig liggja eftir Espólín meiri ættfræðiupplýsingar en nokkurn annan mann frá fyrri tíð og við hann er kennt ættfræðiforritið Espólín. Sagt hefur verið um Jón að hann hafi skrifað óvenju góða íslensku á tíð þegar málfar embættismanna var æði dönskuskotið. Samantekt "Árbókanna" var ótrúlegt afrek á sinni tíð, þegar litið er á þær aðstæður sem Jón Espólín starfaði við, og þær höfðu mikil áhrif, enda um langt skeið eina prentaða yfirlitið um sögu Íslands eftir 1262. Jón Espólín tók einnig saman fjöldamörg rit um mannkynssögu, einkum sögu fornaldar, en einnig sögu síðari alda. "Langbarða sögur, Gota og Húna" og þýðingarnar eftir Plútarkos eru sýnishorn af því safni. Ritstörf. Eftir Jón Espólín liggja fjöldamörg ritverk, bæði frumsamin og þýdd. Flest þeirra hafa aldrei verið gefin út og eru aðeins til í handritum. Bergflétta. Bergflétta (eða viðvindill eða vafningsviður) (fræðiheiti: "hedera helix") er sígræn planta með klifurrætur og getur vaxið allt upp í 20 til 30 metra upp tré, kletta eða húsveggi. Rekill (tölvunarfræði). Rekill í tölvunarfræði er hugbúnaður sem notaður er til þess að vélbúnaður geti haft samskipti við annan vélbúnað. Rekill gerir t.d. tölvu kleyft að hafa samskipti við prentara, þráðlaus netkort og fleiri tæki og búnað sem tölvan kann að vera tengd við. Reklar eru oft uppfærðir af framleiðanda vélbúnaðarins eftir að hann eru kominn í sölu vegna villna sem gætu hafa komið upp í hugbúnaðinum og þarfnast lagfæringa eða vegna endurbóta á reklinum sem getur leitt til betri afkasta vélbúnaðarins sem rekillinn keyrir. Strandrauðviður. Strandrauðviður (eða strandrisafura) (fræðiheiti: "Sequoia sempervirens") er barrtré af fenjasýprusætt og er hæsta núlifandi trjátegund heims og eina tegund sinnar ættkvíslar. Strandrauðviður vex á litlu svæði með strönd Kyrrahafs í Oregon og Kaliforníu. Í síðarnefnda ríkinu hafa fundist tré sem eru allt að 112 m á hæð og 2000 ára gömul. Tónakvartettinn frá Húsavík - Rauðar rósir. Tónakvartettinn frá Húsavík er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Tónakvartettinn frá Húsavík sex lög. 2003. Öll lög þessarar plötu voru endurútgefin á geislaplötunni "Tónakvartettinn frá Húsavík - Upptökur frá 7. áratugnum" árið 2003. Voru það eftirlifandi meðlimir Tónakvartettsins og ættingjar hinna sem stóðu fyrir útgáfunni, í tilefni 40 ára afmælis þessa vinsæla kvartetts. Antwerpen-hérað. Antwerpen (hollenska/flæmska: Antwerpen provincie; franska: Province d'Anvers) er ein af fimm hollenskumælandi héruðum í Belgíu, staðsett í Flæmingjalandi. Íbúar eru 1,7 milljónir. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Antwerpen. Lega og lýsing. Antwerpen er nyrst í Belgíu og á löng landamæri að Hollandi. Það liggur auk þess að þremur öðrum belgískum héruðum: Austur-Flæmingjalandi að vestan, Flæmska Brabant að sunnan og Limburg að austan. Antwerpen á eitt útsvæði sem er staðsett í hollenska héraðinu Norður-Brabant og heitir það Baarle-Hertog. Stærð Antwerpen héraðs er 2.867 km2. Fljótið Schelde rennur í gegnum héraðið frá suðri til norðurs. Við það liggur höfuðborgin Antwerpen, sem er með stærstu höfnum Evrópu. Héraðið er marflatt. Hæsti punkturinn er Beerzelberg sem nær aðeins 51s metra hæð. Þó er manngerð hæð við höfnina í Antwerpen sem nær í 55 metra hæð. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Antwerpen sýnir 24 ferninga: 8 rauða, 6 hvíta, 6 gula og 4 bláa. Ferningarnir og litirnar eru teknir út fánum þriggja stærstu sýslna héraðsins, Antwerpens, Mechelen og Turnhout. Fáninn var samþykktur í október 1996 og tekinn í notkun 7. janúar 1997. Skjaldarmerkið kom fyrst fram á innsigli 1239 og samanstendur af þremur merkjum, þ.e. merkjum frá markgreifadæminu Antwerpen (borgarvirkið og tvíhöfða örninn), Mechelen (svarti örninn á strípunum) og Turnhout (bláhvíti borðinn neðst). Merkið var samsett við sjálfstæði Belgíu 1830, en hefur tekið nokkrum breytingum á síðari tímum. Orðsifjar. Gervihnattamynd af héraðinu. Schelde rennur í gegnum borgina Antwerpen. Höfnin mikla sést greinilega báðu megin við Schelde. Nokkrir skipaskurðir eru einnig sjáanlegir. Héraðið Antwerpen heitir eftir borginni Antwerpen, sem er ein mesta hafnarborg Evrópu. Heitið kemur úr þýsku og er dregið af orðunum "an de warp", sem merkir "við hólmana". Hólmarnir voru eiginlega litlar manngerðar eyjar á fljótinu Schelde sem fólk bjó á. Söguágrip. Þegar frankaríkið mikla skiptist upp eftir Karlamagnús varð fljótið Schelde að landamærum Frakklands og þýska ríkisins. Ottó II keisari stofnaði markgreifadæmið Antwerpen sem mótvægi og vörn gegn Flæmingjalandi. Héraðið varð síðar hluti af greifadæminu Brabant, sem tilheyrði ýmist Búrgúnd, Habsborg, Spáni og Austurríki. 1795 var héraðið innlimað Frakklandi meðan Napoleons naut við. Frakkar mynduðu héraðið eins og það er í dag. Antwerpen varð hluti af konungsríki Belgíu 1830, þrátt fyrir að flestir töluðu hollensku, ekki frönsku. Kusulórdafylki. Kusulórdafylki (Қызылорда облысы, Кызылординская область) er fylki í Suður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Kusulórda. Mangystáfylki. Mangystáfylki (Маңғыстау облысы, Мангистауская область) er fylki í Suðvestur-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Aktá. Norður-Kasakstanfylki. Norður-Kasakstanfylki (Солтүстік Қазақстан облысы, Северо-Казахстанская область) er fylki í Norður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Petrópavil. Suður-Kasakstanfylki. Suður-Kasakstanfylki (Оңтүстік Қазақстан облысы, Южно-Казахстанская область) er fylki í Suður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Sjimkent. Theodore Roosevelt. Theodore Roosevelt (27. október 1858 – 6. janúar 1919) var 26. forseti Bandaríkjanna fyrir repúblikana frá 14. september 1901 til 4. mars 1909. Hann var sá yngsti til þess að taka við sem forseti í sögu Bandaríkjanna. Hann gegndi einnig embætti varaforseta Bandaríkjanna frá 4. mars 1901 til 14. september 1901. Hann vann til friðarverðlauna nóbels árið 1906. Burðardýr. Burðardýr er húsdýr sem notað er til burðar. Burðurinn getur verið allavega, allt frá að flytja nauðsynjavörur frá kaupstað út í sveit, eða efnisburður þar sem ekki verður komið við venjulegum vinnuvélum, eins og t.d. þegar byggja á kirkju upp í bröttum hlíðum fjalls. Burðardýr er einnig notað óformlega um mann sem flytur ólögleg fíkniefni (eða aðra smyglvöru) yfir landamæri gegn greiðslu. Nína Dögg Filippusdóttir. Nína Dögg Filippusdóttir (f. 25. febrúar 1974) er íslensk leikkona, kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur. Maki hennar er Gísli Örn Garðarsson. Nanna Kristín Magnúsdóttir. Nanna Kristín Magnúsdóttir (f. 9. maí 1974) er íslensk leikkona. Marta Nordal. Marta Nordal (f. 12. mars 1970) er íslensk leikkona. Faðir hennar er Jóhannes Nordal fv. seðlabankastjóri. María Sigurðardóttir (leikkona). María Sigurðardóttir (f. 20. október 1954) er íslensk leikkona, leikstjóri og fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. María lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1983 og hefur síðan þá unnið við fjölda verkefna sem leikkona og leikstjóri jafnt í kvikmyndum sem leikhúsi. Hún hefur jafnframt starfað við kennslu í leiktúlkun, meðal annars við Listaháskóla Íslands. María hefur leikið í ýmsum sýningum hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Alþýðuleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar og Þjóðleikhúsinu. Hún hefur á undanförnum tveimur áratugum leikstýrt yfir tuttugu leiksýningum áhugamanna, meðal annars hjá Leikfélagi Húsavíkur, Umf. Eflingu í Reykjadal og Freyvangsleikhúsinu. Í Borgarleikhúsinu leikstýrði María Sex í sveit, Pétri Pan, Fegurðardrottningunni frá Línakri, Leitinni að vísbendingu að vitsmunalífi í alheiminum, Bláa herberginu, Öfugu megin uppí og söngleiknum Honk!. Hún leikstýrði Þjóni í súpunni í Iðnó og á Friðriki V á Akureyri árin 2008-2010, Sýndri veiði hjá Leikfélagi Íslands, Fífli í hófi hjá Sögn ehf. í Íslensku Óperunni, Hálsfesti Helenu hjá Þjóðleikhúsinu og Fló á skinni, Fúlum á móti og 39 þrep hjá Leikfélagi Akureyrar. María leikstýrði dans- og söngvamyndinni Regínu og heimildamyndunum Locomotion og My Family and Me. Hún hefur einnig starfað sem aðstoðarleikstjóri við yfir tíu íslenskar kvikmyndir, meðal annars Tár úr steini, Bíódaga, Djöflaeyjuna, Stikkfrí og Engla Alheimsins. María Reyndal. María Reyndal (f. 27. nóvember 1970) er íslensk leikkona. María Pálsdóttir. María Pálsdóttir (f. 30. desember 1970) er íslensk leikkona. Svanhildur og Sextett Ólafs Gauks - Húrra, nú ætti að vera ball. Svanhildur er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Svanhildur og Sextett Ólafs Gauks fjögur lög. Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar - Hláturpolki. Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar og Sigríður Magnúsdóttir er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar ásamt söngkonunni Siggu Maggý fjögur lög. Ljósmynd á framhlið, Óli Páll Kristjánsson. Hljómsveit Ingimars Eydal - Þú kysstir mig. Helena Eyjólfsdóttir og hljómsveit Ingimars Eydal er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytja Helena Eyjólfsdóttir og hljómsveit Ingimars Eydal fjögur lög. Sylvester Stallone. Michael Sylvester Enzio Stallone (f. 6. júlí 1946), þekktastur sem Sylvester Stallone eða undir gælunafninu Sly, er bandarískur leikari og handritshöfundur. Ævi. Stallone fæddist í Hell's Kitchen, New York. Móðir hans heitir Jackie Stallone og er stjörnuspekingur. Faðir hans var innflytjandi frá Sikiley. Sylvester Stallone hefur leikið í fjöldan allan af kvikmyndum. Þar má helst nefna "Rocky"- og "Rambo"-myndirnar. Hann hefur einnig framleitt sjónvarpsþættina „The Contender“. Tæknifrjóvgun. a> á leið inn í egg. Tæknifrjóvgun er yfirheiti þeirra aðferða sem notaðar eru til að gera konur þungaðar án samfara. Tæknifrjóvgun er notuð þegar þekkt eða óþekkt vandamál eru til staðar hjá annaðhvort karli, konu eða báðum sem valda því að þungun verður ekki eftir samfarir án getnaðarvarna í lengri tíma. Karlar og konur geta af ýmsum ástæðum verið ófrjó. Tæknisæðing, glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun eru tegundir tæknifrjóvgunar. Geoffrey Rush. Geoffrey Rush (f. 6. júlí 1951) er ástralskur leikari. Hann var fyrsti ástralski leikarinn til að vinna Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni "Shine". Janet Leigh. Janet Leigh (f. Jeanette Helen Morrison 6. júlí 1927 – d. 3. október 2004) er bandarísk leikkona. Hún er þekttust fyrir hlutverk sitt sem Marion Crane í kvikmyndinni "Psycho". Hljómar - Bara við tvö. hljómar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja hljómar fjögur lög. Framhlið teiknaði Hilmar Helgason. Sextett Ólafs Gauks - Bjössi á hól. Sextett Ólafs Gauks er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur og Rúnar fjögur lög. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar - Þuríður & Vilhjálmur - S.O.S. ást í neyð. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar - Þuríður & Vilhjálmur er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, Þuríður og Vilhjálmur fjögur lög. Ljósmynd á framhlið: Kristján Magnússon. Stýrivextir. Stýrivextir eru vextir sem stjórnvöld nota til að hafa áhrif á markaðsvexti, einkum vextir seðlabanka í viðskiptum við lánastofnanir. Stýrivextir eru þannig hagstjórnartæki til þess að hafa áhrif á verðbólgu, gengi íslensku krónunnar og þar með hagvöxt. Með töluverðri einföldun mætti útskýra stýrivexti þannig að þeir eru nokkurskonar heildsöluverð á peningum sem lánastofnanir (oftast bankar) „kaupa“ peninga á hjá Seðlabankanum, en „selja“ svo lántakenda á smásöluverði. Þannig að ef stýrivextir hækka, þá hækka einnig útlánsvextir bankanna. The Hives. The Hives er sænsk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993. Geislar - Skuldir. Geislar - Skuldir er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Geislar fjögur lög. Ómar Ragnarsson - Jói útherji. Ómar Ragnarsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Ómar Ragnarsson tvö lög. Italo Balbo. Italo Balbo (1896-1940) var ítalskur flugmaður, flugmálaráðherra og fasistaleiðtogi. Hann átti drjúgan þátt í að byggja upp flugher Ítala og gekkst fyrir flugsýningum víða um heim m.a. með flugsveit til Íslands, þann 5. júlí 1933. Italo Balbo fórst er ítalskir hermenn skutu flugvél hans niður, í misgripum að talið er. Hlekkir. Balbo, Italo Eugenio Montale. Eugenio Montale (Genúa 12. október 1896 - 12. september 1981) var ítalskt ljóðskáld, rithöfundur, þýðandi og ritsjóri. Hann hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1975. Hlekkir. Montale, Eugenio Montale, Eugenio Storkbit. Storkbit (eða storkabit) (fræðiheiti: "Naevus occipitalis") er rauður flekkur í hnakka sumra nýfæddra barna. Flekkurinn getur einnig birst á enni eða augnlokum, en það er öllu sjaldgæfara. Flekkurinn birtist vegna þess að undir honum eru margar æðar í einum hnapp, en þessi æðahnappur orsakast vegna minniháttar anmarka við þroskun fóstursins. Flekkir þessir eru hættulausir og hverfa flestir á fyrsta æviári barnsins. Junichiro Koizumi. Junichiro Koizumi (f. 8. janúar 1942) var forsætisráðherra Japans frá 2001 til 2006 og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hann studdi innrásina í Írak, en er annars kunnur af því að hafa haft forgöngu að því að borga sektir Japans og fyrir að hafa staðið fyrir einkavæðingu á japönsku "Póstþjónustunni". Árið 2005 vann hann einn stæsta sigur frjálslyndra lýðræðissinna í sögu Japans þegar flokkur hans fékk 38,2% atkvæði. Einnig vakti hann mikla atygli þegar hann sendi japanskt herlið til íraks sem og opinber heimsókn hans til Yasukuni-helgidómsins. Vinsældir Koizumi voru ávallt miklar vegna þess hversu vel máli farinn hann var og hversu litríka fortíð hann átti. Í júní 2001 naut hann stuðnings 85% Japana. Viðurnefni hans var "ljónshjarta" vegna hárgreiðslu hans. Koizumi lýsti því yfir að hann mundi segja af sér 2006 og hann mundi ekki velja eftirmann sinn fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn heldur yrði hann kosinn. Shinzō Abe tók við formennsku flokksins 20. september og sem forsætisráðherra 26. september 2006. Jorja Fox. Jorja-An Fox (fædd 7. júlí 1968) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Sara Sidle í '. Einkalíf. Fox er yngri af tveim börnum og var alin upp á lítilli í eyju í Melbourne Beach í Florída. Hún hefur lýst sjálfri sér sem ofþungri á barnsárum og var með skarð á milli framtannanna. Um tvítugsaldur höfðu hvorki endajaxlar né spangir hjálpað til og Fox sagði „gleymdu þessu“. Nafn hennar er borið fram sem „Georgia“. En hún er oftast nær skráð sem Jorja Fox en hefur líka verið skráð sem „Jorjan Fox“. Eftir að hafa stundað nám við Melbourne High School í tvö ár, þá byrjaði hún að vinna sem módel eftir að hafa unnið bæjarkeppnina. Ákvað hún að skrá sig sem drama stúdent við Lee Strasberg Institute í New York, undir leiðsögn leikarans William Hickey. Fox er meðstofnandi að Honeypot Productions, sem er sjálfstætt leikhús í Los Angeles og hefur þegar sýnt fimm leikrit. Vinkona hennar og meðeigandi Heather Reid skrifaði "Dear Bernard", sem Fox hjálpaði með að framleiða. Fox er einnig tónlistamaður: spilar hún á gítar og er nýbúin að kaupa trommusettt. Einnig skrifar hún og semur lög, þekktast fyrir myndina "Traveling Companion". Jorja og samleikkona hennar Marg Helgenberger sungu „Stand by Me“ sem dúet fyrir What a Pair 4!, sem er árleg góðgerðarsamkoma sem safnar peningum fyrir brjóstakrabbameins rannsóknir. Fox býr núna í Los Angeles og meðal vina hennar er Emily Procter, sem hún hvatti til þess að taka þátt í '. Árið 2001, Jorja staðhæfði að hún væri „með einhverjum, en ekki gift“. Kringum 2003 var hún á lausu. Árið 2003 var hún 80. sæti á lista tímaritsins "Stuff" yfir 103 kynþokkafyllstu konur. Árlega þá er hún útnefnd hjá People for the Ethical Treatment of Animals – PETA sem „Kynþokkafyllsta grænmetisæta í heiminum“. Aðgerðarstefna og stjórnmál. Fox er stuðningsmaður Human Rights Campaign og hefur verið grænmetisæta síðan hún var 19 ára, og hefur unnið með People for the Ethical Treatment of Animals-PETA til þess að kynna grænmetishyggju og vinnur einnig með Animal Defenders International til þess að skýna ljósi á þjáningar dýra í fjölleikahúsum. Er hún með tösku nefnda eftir sér eftir Montréal company "Matt & Nat", sem hannar grænmetis töskur. Fox var viðstödd útgáfu bókarinnar Thanking The Monkey eftir Karen Dawn, og hægt er að sjá hana á Access Hollywood ræða hvernig grænmetisætur hjálpa umhverfinu. Árið 2008 Fox bauð sig fram til þess að taka upp Public Service tilkynningu fyrir New York sjálfeignarstofnunina. Þessi 30-sekúnda mynd var sýnd á Animal Planet á meðan verið var að sýna verðlaunaseríuna "Orangutan Island". Söngleikir. Eftir að hafa hætt í "CSI" árið 2007, kom Fox fram í söngleiknum "Stay Forever: The Life and Music of Dusty Springfield" sem Kirsten Holly Smith, sem var sýnd í Renberg Theatre í Los Angeles Gay and Lesbian Center. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Fox var árið 1992 í "ABC Afterschool Specials". Frá 1996-1999 þá lék hún lækninn Maggie Doyle í ER. Árið 1999 þá var hún ráðin til þess að leika leyniþjónustu fulltrúann Gina Toscano í "The West Wing" sem hún lék í eina seríu. Árið 2000 þá var Fox boðið hlutverk í sem Sara Sidle sem hún lék til ársins 2007. Þann 18. apríl, 2007, þá greindi "TV Guide" frá því að Fox myndi ekki koma aftur í seríu átta af "CSI", eftir að hafa ekki skrifað undir nýjan samning. Loka þáttur seríunnar reyndist vera tvísýnn sem tengdist persónu hennar, Sara Sidle. "New York Post" greindi svo frá því að Fox hafi ekki mætt til þess að taka upp lokaþáttinn vegna áframhaldandi ágreinings vegna samningsvinnu. Hvorki CBS né umboðsmaður Jorju staðfestu þessar ásakanir. Í september 2007, eftir að sögusagnir fóru á kreik þess efnis að Fox væri að hætta í þættinum, þá hóf internet spjallsíða sem kallast "Your Tax Dollars At Work" undirskriftarsöfnun og herferð til þess að halda Sidle í "CSI". Herferðin (sem kallast Dollars for Sense) fól meðal annars í sér að senda framleiðendum þáttarins dollara til þess að halda Fox í þættinum. Með hjálp framlaga, þá gat herferðin skipulagt það að flugél flægi yfir, á þriðjudögum og fimmtudögum fyrstu tvær vikurnar í október, yfir Universal Studios, þar sem "CSI" er tekið upp. Á áróðursborðanum stóð „Höldum Jorju Fox á CBS“. Þann 15. október 2007 greindi Fox Entertainment Weekly að hún hefði yfirgefið "CSI," þar sem hana langaði í smá hlé frá „skuldbindingu við vikulegan sjónvarpsþátt“. Að hennar beiðni, þeir peningar sem söfnuðust í „Dollars for Sense“ herferðinni yrði gefið Court Appointed Special Advocate, samtök sem hjálpar fóstur börnum. Þann 15. nóvember 2007 var þátturinn „Goodbye and Good Luck“ seinasti þátturinn sem Fox lék í sem aðalleikari í "CSI". Í maí 2008 kom Fox aftur í níundu þáttaröð "CSI sem gestaleikari. í þremur þáttum. Fox kom síðan fram í seinasta þætti Grissom's „One To Go“ í lokasenunni þegar Grissom kemur skóginn, til þess að koma Söru á óvart og þátturinn endar með því að þau kyssast innilega. CBS tilkynnti haustið 2009 að Jorja Fox mundi endurtaka hlutverk sitt sem Sara Sidle í "CSI". Framleiðslustjórinn Carol Mendelsohn staðfesti þetta. CSI - ágreiningur. Jorja og meðleikari hennar George Eads voru rekin úr þættinu árið 2004. Fox hafði ekki sent bréf sem staðfesti komu sína í upptökurnar þegar þær áttu að byrja. Ágreiningurinn var leystur á einni viku, og voru þau bæði ráðin aftur af CBS; samt sem áður, þá fengu hvorug þeirra launahækkun eins og samleikarar þeirra. Einnig var sagt frá því að af þeim tveimur, þá var haft samband við Fox fyrst þegar átti að endursemja samning hennar við "CSI", en hún neitaði að skrifa undir nema að Eads væri endurráðinn líka. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Fox var árið 1999 í "The Kill-Off". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Jerky Boys", "Forever Fabulous", "Memento" og "Next Exit". Tenglar. Fox, Jorja Shelley Duvall. Shelley Alexis Duvall (f. 7. júlí 1949) er bandarísk leikkona. Billy Campbell. William O. Campbell (f. 7. júlí 1959 í Charlottesville, Virginíufylki) er bandarískur leikari. The Shining (kvikmynd). The Shining er hryllingsmynd frá árinu 1980. Myndin er leikstýrð af Stanley Kubrick og styðst við skáldsögu Stephen King, "The Shining", sem kom út árið 1977 og heitir á íslensku "Duld". Faðirinn (Jack Nicholson) er rithöfundur með ritstíflu og fær þá frábæru hugmynd að "hugsa um" hótel yfir veturinn, og með honum koma kona hans og sonur. Dularfullir atburðir hafa átt sér stað í þessu hóteli áður, þegar Jack Nicholson. John Joseph Nicholson (f. 22. apríl 1937 í Neptune, New Jersey), best þekktur sem Jack Nicholson, er bandarískur leikari. Yngri ár. Nicolson fæddist á Jersey Shore Medical Center í Neptune, New Jersey. Móðir hans hét June Frances Nicholson (betur þekkt sem "June Nilson") sem starfaði sem fatafella. Þann 16. október 1936, 6 mánuðum áður en Nicholson fæddist hafði June gifst Donald Furcillo í Elkton, Maryland. Þó svo að Donald Furcillo hafi staðfest að hann sé faðir Nicholson heldur Patrick McGilligan því fram að raunverulegi faðir Nicholsons sé Eddie King, umboðsmaður June. Nicholson hefur neitað að úr sér verði skoðað DNA-sýni til að athuga hver hans raunverulegi faðir sé. Móðir June, Ethel, krafðist þess að taka Nicholson að sér í fóstur svo að June gæti einbeitt sér að starfsferli sínum. Nicholson hélt að afi hans og amma, Ethel May Rhoads og John J. Nicholson, væru foreldrar hans. Nicholson komst að því að svo var ekki árið 1974, þegar hann var 37 ára gamall. Blaðamaður frá „"Time Magazine"“ komst að þessu við skrif á grein um líf Nicholsons. Þá höfðu bæði móðir hans og amma látist, en þær voru þær einu sem vissu hver raunverulegi faðir hans var. Nicholson ólst upp kaþólskur, en í viðtali við "Vanity Fair" árið 1992 sagðist hann ekki trúa á Guð enn. Upphaf leiklistarferils. Þegar Nicholson flutti til Hollywood var honum boðið starf hjá teiknimyndarisanum Hanna-Barbera, en hann neitaði. Hann vildi heldur verða leikari. Nicholson hóf feril sinn sem leikari, handritshöfundur og kvikmyndaframleiðandi. Hann starfaði hjá og með Roger Corman, ásamt öðrum. Hann skrifaði handritin og lék lítil hlutverk í myndunum "The Cry Baby Killer" (1958), "The Little Shop of Horrors" (1960), "The Raven" (1963) og "The Terror" (1963). Í "The Terror" vann hann með Sandra Knight, sem hann giftist síðar. Leiðin til frama. Nicholson hlaut sinn fyrsta Óskar fyrir leik sinn í kvikmyndinni One Flew Over the Cuckoo's Nest sem besti leikari í aðalhlutverki árið 1975. Aðrar stórar kvikmyndir sem Nicholson hefur leikið í eru "The Shining" (1980), "Batman" (1989), "As Good as It Gets" (1997), "About Schmidt" (2002), "Anger Management" (2003), "The Departed" (2006) Einkalíf. Samkvæmt tímaritinu Maxim hefur Nicholson sofið hjá yfir 2.000 kvenmönnum Hann á 5 börn með 4 mismunandi konum en hefur aðeins verið giftur einu sinni. Lengsta sambandið hans spannaði yfir 17 ára tímabil, en það var með leikkonunni Anjelica Huston, dóttir kvikmyndaleikstjórans John Huston. Sambandinu lauk þegar Anjelicu bárust fréttir af því að Rebecca Broussard væri ólétt eftir Jack. Verðlaun og tilnefningar. För eftir fætur og hendur Jack Nicholson, ásamt undirskrift hans við Grauman's Chinese Theatre. Óskarinn. a> and Jack Nicholson á 62. Óskarsverðlaunahátíðinni. Nicholson hefur verið tilnefndur fyrir leik (aðal- eða aukahlutverk) á fimm mismunandi áratugum: 7. áratug 20. aldar, 8. áratug 20. aldar, 9. áratug 20. aldar, 10. áratug 20. aldar og 1. áratug 21. aldar. Aðeins einn leikari hefur afrekað það sama, Michael Caine. Nicholson hefur verið tilnefndur 12 sinnum (8 sinnum fyrir aðallhlutverk og 4 sinnum fyrir aukahlutverk). Hann hefur fengið flestar tilnefningar karlleikara í sögu Óskarsins. Hann hefur unnið Óskarinn samtals þrisvar sinnum. AFI-verðlaunin. Árið 1994 hlaut Nicholson AFI-verðlaunin fyrir leik um ævina. Miguel Angel Asturias. Miguel Ángel Asturias (19. október 1899 – 9. júní 1974) var gvatemalískur rithöfundur og sendiherra. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1967. Nadine Gordimer. Nadine Gordimer (fædd 20. nóvember 1923) er suður-afrískur rithöfundur og pólitískur aðgerðastefnusinni. Bækur Gordimer fjalla fyrst og fremst um siðferðilega þætti samfélagsins og málefni kynþáttanna, einkum áhrif aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku á samfélagið. Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1991. Tenglar. Gordimer, Nadine Yllir. Yllir (fræðiheiti: "Sambucus") er ættkvísl með á fjórða tug tegunda marggreindra lauffellandi runna eða trjáa innan geitblaðsættar. Finnst villtur um allan heim, að Suðurskautslandinu undanskildu. Á norðlægum slóðum, aðalega Norður-Evrópu, er algengastur Rauðyllir ("Sambucus racemosa") og tegundaafbrigði af honum sem verður oft 4 - 6 metra hár runni. Sunnar í Evrópu og Norður-Ameríku er algengastur Svartyllir ("Sambucus nigra") og tegundaafbrigði af honum, en hann getur mest orið um 15 metra hátt tré. Lýsing. Laufblöðin gagnstæð, stakfjöðruð og sagtennt. Blómin eru lítil og hvít í stórum endastæðum klösum. Hann blómstrar snemma og verða berin rauð eða svört. Harðvaxta, skuggþolin og þrífst best í rökum jarðvegi. Yllir er víða ræktaður og úr blómunum er unnir drykkir en berjunum sulta og lyf. Þjóðtrú. Gömul lækningajurt sem þótti góð gegn kvefi en eitruð í miklu magni. Í þjóðtrú er yllir annaðhvort notaður til að fæla burt nornir eða að þær söfnuðust við yllinn þegar ber hans voru fullþroskuð. Ekki þótti gott að smíða vöggu úr ylli því þá áttu álfar og nornir að ásækja barnið sem í henni lág. Einnig þótti ógæfulegt að fella ylli vegna þess að þá myndi yllimóðirin hefna sín grimmilega. Tegundir. Svartberjayllir er ýmist flokkaður sem ein tegund "Sambucus nigra" sem finnast í hlýrri hlutum Evrópu og Norður Ameríku með nokkrum svæðisbundnum stofnum eða undirtegundum, eða sem hópur af nokkrum svipuðum tegundum. Rauðberjayllir er ýmist meðhöndlaður sem ein tegund, "Sambucus racemosa" sem finnst á kaldari slóðum á norðurhveli jarðar, með nokkrum svæðisbundnum stofnum eða undirtegund, eða sem hópur af nokkrum svipuðum tegundum. Lófótur. Lófótur (fræðiheiti: "Hippuris vulgaris") er vatnajurt sem vex út í grunnu vatni, en teygir sig töluvert hátt upp úr vatninu. Dökkgrænn holur stöngullinn er þéttsettur kransstæðum blöðum. Hæð stöngulsins fer eftir vatnsdýpinu, og getur verið 20 til 70 cm hár. Örsmá blómin standa í blaðöxlunum. Lófótur vex líka stundum í mýrum og fenjum, einkum þar sem vatn flýtur yfir. Lófótur blómgast í júlí. Slý. Slý (að minnsta kosti í Kelduhverfi einnig nefnt slafak) er almennt nafn á grænum, slepjulegum vatnagróðri, sem einkum samanstendur af þráðlaga grænþörungum. Margar hverjar eru aðeins nefndar á latínu, en ættkvíslin "Tetraspora" hefur verið nefnd lækjagörn á íslensku. Sú tegund er mjög algeng, einkanlega í ám og lækjum með lindarvatni, eins og er t.d. í gjánum í Þingvallahrauni. Lækjagarnirnar geta orðið nokkra metra langar og liðast til í straumnum ef einhver er. Svartösp. Svartösp (fræðiheiti: "Populus nigra") er tré af asparætt sem á uppruna sinn að rekja til Evrópu og suðvestur Asíu. Svartöspin getur orðið allt að 30-40 metra há. Blæösp. Blæösp (fræðiheiti: "Populus tremula") er tré af víðisætt, en heimkynni hennar er Mið- og Norður Evrópa og Asía. Íslenska blæöspin hefur fundist vilt á sex stöðum á landinu. Erlendis getur blæösp orðið 10-25 m há, en er hæst 13 m á Íslandi. Vegna beitar vex hún þar oftast sem runni sem vex út frá rótarskotum, einkum í móum og kjarrlendi. Laufblöðin eru stilklöng og breytileg í laginu á sömu plöntunni, oft kringlótt eða egglaga. Map24. Map24 er vefsíða sem bauð uppá ókeypis aðgang að landakortum. Hún var í eigu Mapsolute og var keyrð á forritinu MapTP þangað til Nokia yfirtók félagið 2007. Vefsíða Map24 bendir nú á kortagrunn Nokia. Á síðunni er hægt að finna kort af næstum öllum löndum heimsins með upplýsingar um götuheiti, háa upplausn af gervihnattamyndum og fleira. Kortaupplýsingar um Ísland á Map24 er eitt það besta sem til finnst á netinu með áður óþekkta upplausn á gervihnattamyndum sem og mjög nákvæmar upplýsingar um götur, vegi og um 28.000 örnefni, bæði innan- og utanbæjar. Þessar upplýsingar koma frá Loftmyndum ehf, sem hefur starfað við upplýsingasöfnun frá árinu 1996. Prófastur. Prófastur er yfirprestur í prófastsdæmi, en orðið getur einnig átt við yfirmann stúdentagarða. Lundinn hefur einnig verið nefndur prófastur, vegna þess hvernig hann gengur, og einnig viss tegund af fatahengjum, þ.e.a.s. súla með uglum á. Prófbók. Prófbók er bók sem verkefni, próf og einkunnir nemenda eru færðar í. Ritrýni. Ritrýni er það ferli að að bera fræðileg ritverk höfundar undir sérfræðinga á viðeigandi sviði áður en það er gefið út. Ritrýni er form af jafningjamati. Mikilvægt er að nafnleyndar sé gætt í þessu ferli — bæði er höfundur ritverksins sem rýna skal ónafngreindur og eins eru ritrýnendur ónafngreindir. Þannig vita ritrýnendur ekki hver höfundur ritverksins er né heldur veit höfundur frá hverjum athugasemdir sem honum gætu borist eru. Ritstjórar fræðitímarita styðjast einkum við ritrýni til þess að velja greinar í tímaritið. Ritrýninni er ætlað að tryggja að ritverk standist fræðilegar kröfur og að ákvarðanir um útgáfu byggist einungis á verðleikum ritverksins. Innan fræðasamfélagsins eru tímarit sem eru ekki ritrýnd gjarnan talin óáreiðanlegri en þau sem eru ritrýnd. Venjulega er hver grein send til tveggja eða þriggja ritrýnenda. Ritrýni er venjulega ekki launuð. Jason Priestley. Jason Bradford Priestley (f. 28. ágúst 1969 í Vancouver í Kanada) er kanadískur leikari og leikstjóri. Hann er aðallega þekktur fyrir leik sinn í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Beverly Hills 90210 þar sem hann lék persónuna Brandon Walsh. Hann hefur verið tvígiftur en núverandi kona hans er Naomi Lowde Priestley og eiga þau saman eina dóttur Ashlee Petersen. Science. "Science" er tímarit um vísindi sem bandarísku vísindasamtökin American Association for the Advancement of Science [hér eftir AAAS] gefa út. Það kom fyrst út árið 1880 og er talið vera eitt af virtustu tímaritum sinnar tegundar í heiminum. Tímaritið er ritrýnt. Það kemur út vikulega í um 130.000 eintaka upplagi. Tímaritið er aðgengilegt á mörgum bókasöfnum víða um heim og í netáskrift. Talið er að lesendur blaðsins séu um ein milljón. Höfuðstöðvar "Science" eru í Washington, D.C. í Bandaríkjunum en tímaritið hefur einnig skrifstofu í Cambridge á Englandi. Tímaritið leggur áherslu á að birta mikilvægar frumlegar rannsóknir og gagnrýni á öllum sviðum raunvísinda en þar að auki birtir tímaritið fréttir sem tengjast vísindum, álitsgreinar um vísindastefnu og annað efni sem tengist tækni og vísindum. Ólíkt flestum tímaritum um vísindi, sem eru sérhæfð á einhverju tiltekni sviði vísindanna, en líkt og meginkeppinautur tímaritsins, "Nature", fjallar "Science" um allar greinar raunvísindanna. Samt sem áður er áhersla lögð á líffræði og önnur lífvísindi vegna tilurðar líftækniiðnaðarins og erfðafræðinnar undanfarna áratugi. Enda þótt AAAS gefi tímaritið út er aðild að samtökunum ekki skilyrði fyrir útgáfu í "Science". Tímaritið birtir greinar eftir vísindamenn frá öllum heimshornum. Mikil samkeppni er um að fá birta grein í "Science", innan við 10% innsendra greina eru birtar en allar rannsóknargreinar eru ritrýndar fyrir birtingu. Blaðamaðurinn John Michaels stofnaði "Science" í New York borg árið 1880. Hann naut til þess fjárhagsstuðnings frá Thomasi Edison og síðar Alexander Graham Bell. Útgáfan átti í fyrstu erfitt uppdráttar og í mars 1882 var útgáfunni hætt. Samuel Hubbard Scudder endurreistu útgáfu tímaritsins ári síðar. Árið 1894 átti tímaritið enn á ný í fjárhagserfiðleikum og var selt sálfræðingnum James McKeen Cattell fyrir 500 dollara. Samkvæmt samkomulagi Cattells og ritara AAAS, Leland O. Howard, var "Science" tímarit AAAS árið 1900. Á fyrri hluta 20. aldar birtust ýmsar mikilvægar greinar í "Science", þ.á m. greinar eftir Thomas Hunt Morgan, Albert Einstein og Edwin Hubble. Að Cattell látnum árið 1944 eignaðist AAAS tímaritið. Philip Hauge Abelson var ritstjóri tímaritsins frá 1962 til 1984. Í ritstjórnartíð hans var ritrýningarferlið endurbætt. Á þessum tíma birtust m.a. greinar um Apollo-áætlunina og nokkrar af fyrstu greinunum um alnæmi. Nature. "Nature" er alhliða tímarit () um vísindi og meðal virtustu tímarita sinnar tegundar í heiminum. Það kom fyrst út 4. nóvember 1869. Ólíkt flestum vísindatímaritum, sem fjalla um ákveðin svið vísindanna, en líkt og meginkeppinauturinn, þ.e. tímaritið "Science", fjallar "Nature" um allar greinar raunvísindanna. Tímaritið kemur út vikulega og er ritrýnt. Markhópur tímaritsins er einkum vísindamenn en samantektir og fylgigreinar gera margar greinar tímaritsins skiljanlegar upplýstum almenningi sem og vísindamönnum sem starfa í öðrum greinum vísindanna. Tímaritið birtir einnig fréttir tengdar vísindum, álitsgreinar og greinar um vísindasiðfræði. Mikilvægar greinar. Margar mikilvægar greinar hafa birst í "Nature". Eftirfarandi er úrval mikilvægra greina sem birtust fyrst í "Nature" og höfðu allar mikil áhrif. (Greinarnar eru í aldursröð frá elstu til yngstu.) Akademískt frelsi. Akademískt frelsi er frelsi háskólakennara, háskólanemenda og háskólanna sjálfra til að leita þekkingar hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta. lágmarksskilyrði akademísks frelsis eru að geta tekið þátt í öllum sviðum þekkingarleitarinnar, þ.á m. að velja sér rannsóknarefni, að ákveða kennsluefni, að kynna samstarfsfólki niðurstöður rannsókna og gefa niðurstöðurnar út. Akademísku frelsi eru settar skorður. Í Bandaríkjunum ættu kennarar til að mynda að forðast að ræða í kennslustofum sínum umdeild efni sem tengjast ekki þeirra greinum. Á opinberum vettvangi er þeim aftur á móti frjálst að tjá skoðanir sínar. Reglur um fastráðningar standa vörð um akademískt frelsi með því að tryggja að einungis sé hægt að víkja kennara úr starfi af ásættanlegum ástæðum, svo sem vegna faglegrar vanrækslu eða vegna hegðunar sem fræðasamfélagið sjálft fordæmir. Akademískt frelsi nemenda. Hugmyndir um akademískt frelsi sem rétt nemenda er upprunnin í Þýskalandi (þekkt á þýsku sem "Lernfreiheit" eða "lærdómsfrelsi"). Samkvæmt þessari hugmynd á nemandanum að vera frjálst að móta eigin námsleið með því að velja sér námskeið að eigin vild í háskóla að eigin vali. Hugmyndin barst til Bandaríkjanna á 19. öld með nemendum og fræðimönnum sem höfðu numið við þýska háskóla. Hún hafði hvað mest áhrif á Harvard-háskóla undir stjórn Charles William Eliot á árunum 1872 til 1897; þá var eina skyldunámskeið nemenda á fyrsta ári í mælskufræði. Akademísku frelsi nemenda er víðast hvar settar skorður af kennaraliði skólans, sem ákvarðar hvaða sjónarmið standast fræðilegar kröfur, jafningjamat og njóta viðurkenningar í viðkomandi grein. Akademískt frelsi fræðimanna. Hugmyndin um akademískt frelsi kennara og fræðimenna innan veggja háskóla (á þýsku "Lehrfreiheit") er rótgróin a Vesturlöndum. Hugmyndin felur í sér rétt fræðimannsins til að stunda rannsóknir að eigin vali og birta niðurstöður rannsókna sinna. Hugmyndir um frelsi kennarans í kennslustofunni eru breytilegar frá einu landi til annars. Í þýsku hefðinni er prófessorum frjálst að reyna að sannfæra nemendur sína um sínar eigin skoðanir. Aftur á móti eru þeir hvattir til að láta ekki í ljósi skoðanir sínar utan kennslustofunnar, einkum stjórnmálaskoðanir. Á prófessornum hvíla engar skyldur eða kvaðir um námsefni eða námsfyrirkomulag. Í Bandaríkjunum er litið svo á að prófessor sé frjálst að fjalla um sín fræði í kennslustofnunni en það þykir ekki sjálfsagt að prófessorinn reyni að sannfæra nemendur sína um sínar eigin skoðanir. Aftur á móti nýtur prófessorinn meira frelsis utan kennslustofunnar, einkum á opinberum vettvangi. Í Frakklandi er mikil áhersla lögð á hlutleysi og óhlutdrægni, ekki síst þegar um stjórnmála- og trúarskoðanir er að ræða. Akademískt frelsi og málfrelsi kennara er þó tryggt með lögum. Ráðningarferli er byggt á jafningjamati. Akademískt frelsi háskóla. Hugmyndin um akademískt frelsi háskólans sem stofnunar er einkum fólgin frelsi hennar til að ráða í stöður, bjóða nemendum skólavist og gera kröfur til bæði nemenda og kennara. Hugmyndinni er ef til vill betur lýst sem hugmynd um sjálfræði stofnunarinnar og sjálfstæði t.d. frá fjárveitingavaldinu (í tilfelli ríkisrekinna háskóla). .ky. .ky er þjóðarlén Caymaneyja. .ck. .ck er þjóðarlén í Cookseyjum. .ph. .ph er þjóðarlén í Filippseyjum. Fleygbogi. Fleygbogi (oft nefndur parabóla) er eitt keilusniðanna og notað til að lýsa ferli fallsins formula_1 þar sem formula_2 er fallsbreytan og formula_3, formula_4 og formula_5 stuðlarnir og formula_3 er ekki núll. Teri Hatcher. Teri Lynn Hatcher (fædd 8. desember 1964 í Palo Alto) er bandarísk leikkona sem er best þekkt sem Susan Mayer í Aðþrengdum eiginkonum og Paris Carver í James Bond kvikmyndinni Tomorrow Never Dies. Hún vann Golden Globe verðlaunin fyrir hlutverk sitt í Aðþrengdum eiginkonum 2005. Það sama ár vann hún SAG-verðlaunin var einnig tilnefnd til Emmy-verðlauna, en verðlaunin fóru til meðleikkonu og góðrar vinkonu, Felicity Huffman. Æska. Teri fæddist í Palo Alto í Kaliforníu og er dóttir Esther tölvuforritara, og Owens W. Hatcher, kjarnorku-eðlisfræðings og rafmagnsverkfræðings. Faðir Teri er af velskum ættum og móðir hennar er hálf sýrlensk og hálf frönsk/þýsk. Teri ólst upp í Sunnyvale, í Kaliforníu. Hún æfði ballet í San Juan dansskólanum í Los Altos. Stærsta hlutverk hennar var aðal fljúgandi apinn í Galdrakarlinum í Oz. Sem einkabarn, gekk hún í Mango grunnskólann, Fremont menntaskólann og De Anza háskólann í Cupertino. Hún lærði bæði stærðfræði og verkfræði. Í mars 2006 greindi Teri frá því í Vanity Fair að hún var kynferðislega misnotuð frá fimm ára aldri af Richar Hayes Stone, manni sem var giftur frænku hennar, sem skildi seinna við hann. Foreldrar hennar vissu ekki af misnotkuninni þá. Árið 2002 aðstoðaði hún saksóknara í Santa Clara-sýslu við rannsókn þeirra á Stone eftir nýlegt afbrot hans sem leiddi til þess að kvenkynsfórnarlamb hans undir 14 ára aldri framdi sjálfsmorð. Stone játaði fjögur kynferðisbrot á börnum og var dæmdur í 14 ára fangelsi. Í viðtali sem kom í Vanity Fair, sagðist Teri hafa sagt saksóknurunum frá misnotkuninni á sér vegna þess að hún gat ekki hætt að hugsa um 14 ára stelpuna sem skaut sig, og óttaðist að Stone myndi sleppa við sannfæringu. Stone dó úr ristilskrabbameini 19. ágúst 2008 eftir að hafa setið inni í sex ár. Ferill. Teri lærði leiklist í Bandaríska listaskólanum. Eitt af fyrstu störfunum hennar (árið 1984) var sem NFL-deildar klappstýra með 49ers frá San Francisco. Á þessum tíma lék hún einnig eina af hafmeyjunum í sjónvarpsþáttaröðinni The Love Boat í síðustu þáttaröðinni. Eitt af fyrstu stóru hlutverkunum hennar var Penny Parker, sem var vinur hetju Richards Dean Anderson í sjónvarpsþáttaröðinni MacGyver á árunum 1986 til 1989. Teri landaði aukahlutverki sem fréttamaður á Daily Planet, Lois Lane (á móti Dean Cain) í "Lois & Clark: Nýju ævintýri Súpermans frá 1993 til 1997. Þegar vinsældir þáttarins voru mestar árið 1985, var mynd af Teri vafinni inni í skikkju Súpermans halað niður á netinu 20.000 sinnum. "Þetta er frábær mynd" sagði hún við Entertainment Weekly. "Ekkert sérstaklega af því að ég er á henni. Hún er bara töff". .fk. .fk er þjóðarlén Falklandseyja. .fm. .fm er þjóðarlén Míkrónesíu. Halle Berry. Halle Maria Berry (fædd 14. ágúst 1966 í Cleveland) er bandarísk leikkona. Hún hlaut óskarsverðlaun árið 2002 fyrir hlutverk sitt í myndinni Monster's Ball. Hún er eina blökkukonan sem hlotið hefur óskarsverðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki. Ingrid Bergman. Ingrid Bergman (fædd 29. ágúst 1915 í Stokkhólmi - d. 29. ágúst 1982 í London) var sænsk leikkona. Wentworth Miller. Wentworth Earl Miller (f. 2. júní 1972 í Chipping Norton) er bandarískur leikari. Framboð og eftirspurn. Í hagfræði er framboð og eftirspurn hugtak sem notað er til að lýsa breytingum hlutfallslega á milli hugsanlegra kaupanda og seljanda. Þ.e.a.s. ef fleiri vilja kaupa tiltekna vöru og ekki er til nóg af henni til að anna eftirspurn hækkar verðið, og ef meira er til af tiltekinni vöru en sótt er eftir þá lækkar verðið. Húð. Sneiðmynd af mannshúð. 1. Yfirborðshús 2. Húðþekja (e. epidermis) 3. Leðurhúð (e. dermis) 4. Húðbeður (e. subcutaneous layer) Húðin er stærsta líffærið í þekjukerfinu. Hún skiptist í þunna húðþekju úr þekjufrumum og hinsvega þykkari leðurhúð úr bandvef sem saman vernda undirliggjandi vöðva og líffæri. Yfirborðshúð húðþekjunnar eru dauðar frumur úr hyrni sem flagna af jafnóðum og nýjar frumur myndast. Leðurhúðin hýsir meðal annars æðar, taugaenda skyntaugunga, svitakirtla, fitukirtla og hársekki. Húðin gegnir ýmsum tilgangi svo sem draga úr rakatapi líkamans og hitastjórn með svitakyrtlum auk þess að hýsa fjölda skynfruma og verja hann gegn áverkum. Þekjukerfið. Í dýralíffærafræði er hörundskerfið eða þekjukerfið hið ytra líffærakerfi sem þekur líkamann og samanstendur af húð, hári, fjöðrum, hreistri, nöglum, svitakirtlum og afurðum þeirra (svita og slími). Bruce Willis. Walter Bruce Willis (f. 19. mars 1955), best þekktur sem Bruce Willis, er bandarískur leikari og söngvari. Framaferill hans hófst seint á 9. áratugnum, helst fyrir hlutverk sitt sem John McClane í "Die Hard"-kvikmyndunum. Willis er ógiftur en 13 ára sambandi hans og Demi Moore lauk árið 2000. Hann hefur unnið fjölda verðlauna á ferli sínum og hefur sýnt stuðning við bandaríska herinn. Á sínum ungu árum. Willis fæddist í Idar-Oberstein, Þýskalandi. Faðir hans, David Willis, var bandarískur hermaður við störf í varnarstöðinni í Idar-Oberstein. Móðir hans, Marlene, var þýsk og starfaði í banka. Willis var elstur fjagra barn Marlene og David Willis. Árið 1957 var föður hans sagt upp störfum hjá hernum svo fjölskyldan flutti til Penns Grove í New Jersey. Árið 1971 skildu foreldrar hans. Á sínum ungu árum stammaði Willis mikið, en hann átti auðvelt með að vera á sviði og náði þannig smám saman að sigrast á vandamálinu. Leiðin til frama. Eftir að Willis flutti til Kaliforníu tók hann leikprufu á nokkrum sjónvarpsþáttum. Hann fékk hlutverk David Addison Jr. í sjónvarpsþáttunum "Moonlighting" (1985-1989). Die Hard kom út og sló óvænt í gegn. Willis lék hlutverk John McClane sem er aðalpersóna myndarinnar. Willis lék í öllum áhættuatriðum myndarinnar. Innkoma myndarinnar nam $138,708,852 Vegna vinsælda hafa verið gefin út 3 framhaldsmyndir: Die Hard 2, Die Hard with a Vengeance og Live Free or Die Hard. Die Hard 4.0. "Die Hard 4.0" (nefnd "Live Free or Die Hard" í Norður-Ameríku) er fjórða kvikmyndin í "Die Hard kvikmyndaseríunni." Með hlutverk John McClane, aðalpersónu myndarinnar, fer Bruce Willis rétt eins og í hinum myndunum þremur. "Die Hard 4.0" gerist 19 árum eftir fyrstu "Die Hard" kvikmyndina, og nú tekst John McClane á við hryðjuverkamenn sem ætla að gereyða netkerfi Bandaríkjanna. Myndin byggir á blaðagreinnni "A Farewell to Arms" ("Vopnin kvödd") eftir John Carlin, sem birtist í tímaritinu Wired árið 1997. Fredrik Reinfeldt. John Fredrik Reinfeldt (4. ágúst 1965) er formaður sænska hægriflokksins ("Moderata samlingspartiet") og forsætisráðherra Svíþjóðar frá og með 6. október 2006. Tónakvartettinn og Grettir Björnsson - Svífur um mar. Tónakvartettinn og Grettir Björnsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytja Tónakvartettinn og Grettir Björnsson fjögur lög. Ljósmynd á framhlið tók Þorsteinn Gíslason, skipstjóri. Endurútgáfa 2003. Þessi plata er sú eina sem ekki var endurútgefin á geislaplötunni "Tónakvartetinn frá Húsavík - Upptökur frá 7. áratugnum" árið 2003, sem eftirlifandi meðlimir Tónakvartettsins og ættingjar hinna stóðu fyrir, í tilefni 40 ára afmælis þessa vinsæla kvartetts. Var það álit útgefanda að þessi plata, með hljómsveitar undirspili sínu (gítar, harmoniku, trommum og bassa), hefði orðið stílbrot á geislaplötunni, þar sem aðeins voru fyrir mun fleiri lög með píanó undirspili eingöngu. Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar - Bréfið hennar Stínu. Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar fjögur lög. Mánar - Einn, tveir, þrír. Mánar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Mánar tvö lög. Óðmenn - Spilltur heimur. Óðmenn er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Óðmenn tvö lög. Hljóðritun fór fram í Olympic Sound Studios í London. Tæknimaður, George Chris. Umsjón með hljóðritun (producer), Derek Wadsworth. Ljósmynd á umslagi, Sigurgeir Sigurjónsson. Þuríður Sigurðardóttir - Í okkar fagra landi. Þuríður Sigurðardóttir er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Þuríður Sigurðardóttir ásamt Lúdó Sextett tvö lög. Ljósmynd á framhlið tók Stefán Guðni. Time and Time Again. Time and Time Again er önnur plata hljómsveitarinnar Lada Sport, og var útgefin 9. júlí árið 2007 hjá keflvísku útgáfunni Geimsteinn. Platan var tekin upp að mestu leyti í stúdíó Geimsteini vorið 2007, upptökustjóri hennar var Axel Árnason. Fyrsta lag í útvarpsspilun var lagið „Love Donors“ sumarið 2006, annað lag í spilun kom út rétt áður en platan sjálf kom út, og hét það „The World Is a Place for Kids Going Far“, náði það í 1. sæti á útvarpsstöðinni Radíó Reykjavík. Meðspilarar og hönnun á umslagi. Á plötunni Time and Time Again spila með þeim í Lada Sport; Umslagið er hannað af Haraldi Leví Gunnarssyni, trommuleikara Lada Sport en ljósmyndin framan á tekin af Hilmi Berg Ragnarssyni. Diskurinn er gefinn út í Super Jewel Case. Robert F. Kennedy. Robert Francis Kennedy eða Bobby Kennedy, einnig þekktur sem RFK (20. nóvember 1925 — 6. júní 1968) var bandarískur stjórnmálamaður, dómsmálaráðherra og forsetaframbjóðandi. Hann var yngri bróðir Johns F. Kennedy bandaríkjaforseta og gegndi embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn hans á árunum 1961 til 1964. Hann var einn af nánustu samstarfsmönnum forsetans og einn helsti ráðgjafi hans í Kúbudeilunni. Hans er minnst fyrir framlag sitt til réttindabaráttu afrískættaðra Bandaríkjamanna á 6. og 7. áratug 20. aldar. Kennedy gegndi embætti dómsmálaráðherra undir forsæti Lyndons B. Johnson í níu mánuðu eftir morðið á bróður hans, John F. Kennedy. Hann lét af starfi í september 1964 og varð fulltrúi New York-fylkis í öldungaráðinu nóvember sama ár. Hann var ósammála Johnson um Víetnamstríðið og ýmislegt annað. Árið 1968 tilkynnti Kennedy að hann sæktist eftir tilnefningu Demókrataflokksins til framboðs í forsetakosningum sama ár. Kennedy var skotinn í eldhúsi Ambassador-hótelsins í Los Angeles, skömmu eftir að hann hafði tilkynnt sigur sinn í undankosningunum í Kaliforníu þann 5. júní 1968 og lést hann daginn eftir. Vestur-Kasakstanfylki. Vestur-Kasakstanfylki (Батыс Қазақстан облысы, Западно-Казахстанская область) er fylki í Vestur-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Óral. Babsk. Babsk er þorp í miðhluta Póllands, i województwo łódzkie (Łódź-hérað), á milli borganna Łódź og Varsjá, við fljótið.Íbúar voru 690 árið 2005. Bókasafn Kópavogs. Bókasafn Kópavogs er almenningsbókasafn á þremur hæðum að Hamraborg 6a. Í sömu byggingu er einnig Náttúrufræðistofa Kópavogs. Útibú frá bókasafninu, Lindasafn, er rekið í Lindaskóla að Núpalind 7. Báðar einingarnar eru reknar af Kópavogsbæ. Saga. 1948 ræddi Jón úr Vör við oddvita Kópavogshrepps Finnboga Rút um nauðsyn þess að stofna bókasafn. Kópavogshreppur lagði fyrst til fé til bókasafns árið 1949 þegar 2000 krónur voru lagðar fram. Í janúar 1953 var sent dreifibréf til íbúa Kópavogshrepps þar sem undirtektir voru kannaðar með að stofna lestrarfélag, undir bréfið rituðu Áslaug Eggertsdóttir, Jón Þorsteinsson og Jón úr Vör. Félagið var stofnað 15. mars 1953 og hafði í fyrstu aðsetur í Kópavogsskóla og síðan einnig í Kársnesskóla. Jón úr Vör og Sigurður Ólafsson voru fyrstu bókaverðir safnsins, 1962 var Jón svo eini bókavörðurinn en hafði skáldin Þorstein frá Hamri og Jón Óskar sér til aðstoðar um skamman tíma. 1964 flutti safnið í 150 fermetra aðstöðu í nýju félagsheimili bæjarins. 1981 flutti það svo í Fannborg 3-5 og var þar til húsa allt þar til það flutti í Hamraborg 6a þann 11. maí 2002. Sama ár opnaði útibú frá safninu í Lindaskóla í 190 fermetra húsnæði. Forstöðumenn bókasafnsins hafa verið tveir, Jón úr Vör frá stofnun 1953 til 1976, og Hrafn Andrés Harðarson frá 1976. Jón úr Vör. Jón Jónsson (f. 21. janúar 1917, d. 4. mars 2000) betur þekktur sem Jón úr Vör var rithöfundur, ritstjóri, fornbóksali og fyrsti bæjarbókavörður Bókasafns Kópavogs. Orðuveitingar Hinnar íslensku fálkaorðu 1941-1950. Hér er listi yfir þá sem hafa fengið Hina íslensku fálkaorðu á árabilinu 1941 til 1950. Fálkaorðan er íslensk heiðursviðurkenning sem er veitt einstaklingum, bæði íslenskum og erlendum. Nýjum orðuhöfum er oftast veitt viðurkenningin 1. janúar eða 17. júní það ár. Bandalag íslenskra leikfélaga. Bandalag íslenskra leikfélaga (skammstafað BÍL) er samtök áhugaleikfélaga á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1950 og var Ævar Kvaran helsti hvatamaðurinn að stofnun þeirra. Bandalagið rekur Þjónustumiðstöð að Kleppsmýrarvegi 8 í Reykjavík. Þjónustumiðstöðin sinnir ýmsum málum fyrir áhugaleiklistarhreyfinguna en einnig er þar almenn þjónusta við leikhús og leikhópa af öllu tagi. Meðal annars er hægt að kaupa þar förðunarvörur og þar er einnig að finna stærsta leikritasafn landsins. Bandalagið hefur starfrækt leiklistarskóla síðan árið 1997 að Húsabakka í Svarfaðardal þar sem á hverju sumri er boðið upp á leiklistarnámskeið af ýmsu tagi auk námskeiða í leikstjórn, leikritun og ýmsu fleira. Þá er Bandalagið einnig meðlimur í Leiklistarsambandi Íslands sem m.a. stendur fyrir Grímunni. Gaddavír. Gaddavír er vír með hvössum göddum eða blöðum sem er notaður í girðingar og ofaná veggi. Gaddavír var mikið notaður sem vörn í skotgrafahernaði. Sá sem reynir að komast yfir eða gegnum gaddavír verður fyrir óþægindum og á það á hættu að særast alvarlega. Gaddavír er tiltölulega ódýr og einfaldur í uppsetningu miðað við girðingarefni almennt. Hann er fyrsti vírinn sem hægt var að nota sem aðhald fyrir nautgripi. Samúel Jónsson. Samúel Jónsson (1884-1969) var bóndi í Brautarholti í Selárdal í Ketilsdalahreppi í Arnarfirði. Hann er oftast nefndur Samúel Jónsson í Selárdal eða Listamaðurinn með barnshjartað og er einn frægasti alþýðulistamaður sem upp hefur komið á Íslandi í seinni tíð. Samúel málaði mikið sem ungur maður, en ferill stærri verka hans hófst þegar hann reisti sér kirkju með laukturni á landareign sinni. Það gerði hann þegar sóknarnefndin vildi ekki hafa altaristöfluna sem hann hafði málað í Selárdalskirkju, en kirkjan átti gamla altaristöflu og hún fékk að vera. Samúel gerði einnig frægt líkan af Péturskirkjunni sem og líkan af indversku musteri, sem listasafn ASÍ tók að sér eftir andlát hans. Hann gerði einnig styttu af Leifi heppna og steypti upp eftirmynd af frægum gosbrunni sem er í "Ljónagarðinum" ("Patio de los Leones") í Alhambra á Spáni. Mörg af þessum stærri verkum hans er enn að finna í Selárdal, en flest af þeim liggja undir skemmdum. Ártúnsholt. Ártúnsholt, oft kallað Ártún, er hverfi í Reykjavík sem hluti er af Árbæjarhverfi. Hverfið var byggt um árið 1923 og hefur póstnúmerið 110. Öll götuheiti í hverfinu hafa annaðhvort endinguna -kvísl eða -hyl, að undantöldu aðalgötunum Straumur og Strengur og götunni Árkvörn. Í Árkvörn er hverfisgrunnskólinn Ártúnsskóli og leikskólinn Kvarnaborg. Í Ártúnsskóla eru grænar peysur skólabúningur skólans. Skólinn hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006. Fyrirhugað er að sameina Ártúnsskóla, Kvarnaborg og frístundaheimilið Skólasel. Íþróttafélag hverfisins er Fylkir. Í Ártúnsbrekku er liggur Vesturlandsvegur. Í brekkunni er einnig endurgjaldslaus skíðalyfta á veturna og 18 holu púttvöllur á sumrin. Harry Potter og Fönixreglan (kvikmynd). Harry Potter og Fönixreglan (á ensku: Harry Potter and the Order of the Phoenix) er fimmta kvikmyndin í Harry Potter-kvikmyndaseríunni. Myndin byggist á skáldsögu eftir J. K. Rowling með sama titil. Pavlódarfylki. Pavlódarfylki (Павлодар облысы, Павлодарская область) er fylki í Norður-Kasakstan. Höfuðborg fylkisins er borgin Pavlódar. Almaty. Almaty (kasakska: Алматы) er stærsta borg Kasakstans. Almaty er líka fylki í Kasakstan, en borgin Almaty er fylki án staðarrar eins og Medeú og Sjimkent, sem liggja í Almatyfylkinu. Orðið „Almaty“ eða gamla orðið „Alma-Ata“ þýðir „faðir epla“. Svarthöfðasauðfé. Svarthöfðasauðfé (eða svarthöfðafé) (e. "Scottish blackface") er sérstakt sauðfjárkyn upprunalega ræktað í Skotlandi. Svarthöfðasauðfé er smávaxið með hvítan búk en svart höfuð og fætur. Bæði kynin eru hyrnd og ull þess er með langt tog. Svarthöfðasauðfé var flutt til Íslands eftir 1940 til kynbóta, en það hvarf úr stofninum við fjárskiptin 1951-1954. Var kynið meðal annars notað í blendingsrækt að Hesti í Borgarfirði. Gunnþórunn Halldórsdóttir. Gunnþórunn Halldórsdóttir (9. janúar 1872 - 15. febrúar 1959) var íslensk leikkona á upphafsárum leiklistar í Reykjavík. Hún kom fyrst fram á leiksviði 6. janúar 1895. Hún sneri sér seinna að kaupsýslu og rak búskap að Nesjum í Grafningi. Stefanía Guðmundsdóttir. Stefanía (Anna) Guðmundsdóttir (29. júní 1876 - 16. janúar 1926) var íslensk leikkona á upphafsárum leiklistar í Reykjavík. Fáar leikkonur nutu jafnmikillar aðdáunar og Stefanía og hún var álitin fremsta leikkona á Íslandi á sínum tíma. Hún lék í fyrsti skiptið 30. janúar 1893 þá aðeins 16 ára gömul. Jarún. Jarún er íslenskt kvenmannsnafn myndað af forliðnum ja- sem kemur úr stofninum Jave (guð) og endingunni -rún sem þýðir tákn. Það þýðir því guðstákn. Nafnið var búið til af hjónunum Jakobi Frímanni Magnússyni og Birnu Rún Gísladóttur fyrir dóttur þeirra sem fæddist í maí 2007 og hlaut náð fyrir augum Mannanafnanefndar. Silný kafe. Silný kafe er kvikmynd sem var samframleidd á Íslandi og Tékklandi. Leikstjóri og handritshöfundur var Börkur Gunnarsson. Myndin var öll tekin í Tékklandi þar sem hún gerist, og aðeins tveir íslendingar birtast í myndinni. Þeir tala dálítið af íslensku sín á milli en þó aðallega á ensku. Justin Timberlake. thumb Justin Randall Timberlake (f. 31. janúar 1981 í Memphis) er bandarískur söngvari og leikari. Merki Kópavogsbæjar. Merki Kópavogsbæjar var valið í samkeppni árið 1965 og var tekið í notkun það sama ár í tilefni 10 ára afmæli bæjarins. Allmargar tillögur bárust og greiddi bæjarstjórn atkvæði um tillögurnar 26. mars 1965 á bæjarstjórnarfundi. Sigurtillagan er núverandi merki sem hlaut 9 atkvæði.Höfundar þess eru Sigurveig Magnúsdóttir arkitekt og Ingvi Magnússon auglýsingateiknari. Merkið sýnir boga Kópavogskirkju með selkópi fyrir neðan. Græni liturinn er Pantone 356. Karakúlfé. Karakúlfé (fræðiheiti: "Ovis vignei") er sérstök sauðfjártegund upprunnin í Úsbekistan og gefur af sér mjög verðmætar gærur (sérstaklega lömbin). Karakúlféð er nefnt eftir þorpi í Úsbekistan þar sem ræktun þessa sauðfjár hófst. Árið 1933 var flutt inn karakúlfé til Íslands frá Þýskalandi, en með þeim fluttist hingað garnaveiki ("Paratuberculosis") sem gerði mikinn usla í sauðfé bænda um nær allt land. Ær af karakúlkyni hafa engan sérstakan fengitíma heldur geta þær borið þrisvar sinnum á tveimur árum. Gefur það þannig meiri afurðir þar sem lömbunum er slátrað ungum út af gærunum. Gærurnar eru saltaðar, stundum sútaðar, og verður þá til hið svokallaða persaskinn. Merking karakúl í karakúlfé. Orðið karakúl er komið inn í íslenskt ritmál nálægt miðri 20. öld. Það merkir: "Með svört eyru", og er afbökun úr tyrknesku orðunum: "qara qulag" (svart eyra). Það merkir: Loðskinn sem haft er í kvenkápur. Skinnið er af persneskum gaupum sem eru heldur stærri en refir. Það er með rauðbrúnu hári. Eyrun á gaupunum eru stór og svarthærð. Styttur. Styttur er stutt ull á bóg og bringu. Styttur er fleirtöluorð. Spikdyndilfé. Spikdyndilfé er sauðfjártegund sem safnar sérstaklega mikilli fitu í dyndilinn. Fjallafé. Fjallafé (eða snæfé) (fræðiheiti: "Ovis montana") er sauðfjártegund. Sauðfé ættað af Hólsfjöllum hefur einnig verið nefnt fjallafé á Íslandi. Merki Reykjavíkurborgar. Merki Reykjavíkurborgar sýnir hvítar öndvegissúlur Ingólfur Arnarson og öldur á bláum grunni. Það er teiknað af Halldóri Péturssyni, teiknara, sem var ráðinn til að útfæra merkið á grundvelli samkeppni sem bæjarstjórn Reykjavíkur efndi til í mars 1951. Endanleg útfærsla merkisins var samþykkt á fundi 14. maí 1957 og hlaut samþykki bæjarstjórnar 6. júní það ár. Borgarstjóri. Borgarstjóri er æðsti embættismaður borgar og bæjarstjóri er æðsti embættismaður bæjar. Þeir eru iðulega kjörnir í einstaklingskosningu eða af starfandi meirihluta borgarstjórnar. Á Íslandi er borgarstjórinn í Reykjavík framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn kýs borgarstjóra og yfirleitt verður sitjandi borgarfulltrúi fyrir valinu. Hliðstæð embætti í öðrum sveitarfélögum landsins eru bæjarstjórar, sveitarstjórar og hreppstjórar. Jim Carrey. James Eugene Carrey (f. 17. janúar 1962), best þekktur sem Jim Carrey, er leikari og uppistandari, sem er fæddur í Kanada, en hefur aðallega búið og starfað í Bandaríkjunum. Hann hefur unnið til tvennra Golden Globe-verðlauna. Yngri ár. Carrey fæddist í Newmarket, Ontario í Kanada. Foreldrar hans eru Kathleen Oram, heimavinnandi húsmóðir og Percy Carrey, tónlistarmaður og bókhaldari. Carrey á þrjú eldri systkini: John, Patricia og Rita. Fjölskyldan er kaþólsk og er ættuð frá Frakklandi. Frá ungum aldri hafði hann gaman að því að skemmta fólki. Kennarar hans leyfðu honum oft að vera með hálfgert uppistand fyrir bekkinn í lok skóladags. Var það umsamið þannig að hann myndi ekki trufla eðlilegt skólahald. Fjölskylan flutti til Scarborough árið 1976 þegar Carrey var 14 ára. Hann gekk þar í kaþólskan skóla í North York í tvö ár. Síðan fekk hann í Agincourt Collegiate-stofnunina, elsta menntaskóla Scarborough. Upphaf ferils sem skemmtikraftur. Árið 1979 var Carrey með uppistönd á Yuk Yuk's í Toronto. Umboðsmaður Carrey var Leatrice Spevack. Í febrúar 1981, þegar Carrey var nýorðinn 19 ára, var birt grein um hann í dagblaðinu Toronto Star. Þar var honum lýst sem „rísandi stjörnu“ Upphaf kvikmyndaferils. Fyrsta kvikmynd Carrey var myndin "Rubberface" (1983). Hann lék einnig í myndum eins og "Peggy Sue Got Married" (1986), "Earth Girls are Easy" (1988) og "The Dead Pool" (1988) en Carrey bar ekki mikið úr býtum fyrir leik sinn í þeim myndum. Það breyttist heldur betur árið 1994 þegar hann lék í þremur myndum sem slógu allar í gegn: ', "The Mask" og "Dumb and Dumber". Sjeviotfé. Sjevíotfé (eða Cheviotfé) er sauðfjártegund sem á ættir sínar að rekja til Sjevíotfjalla í Skotlandi. Norðmenn fluttu mikið inn af cheviot-sauðkindum á nítjándu öld og hefur kynið haft áhrif á önnur norsk kyn. Sjevíotfé hefur mikinn fallþunga og er ræktað til kjötframleiðslu. Ullin af því er nýtt í tweedefni. Kynið er harðgert og þolir vel veruna í fjöllunum. Það er hvítt, kollótt og hefur stundum svartar fætur. Stuttrófufé. Stuttrófufé er sauðfjárkyn með stuttan dyndil. Norræn sauðfjárkyn tilheyra Norður-evrópsku stuttrófufé og eru talin skyldari stuttrófufé í Evrópu en öðrum fjarlægari sauðfjárkynjum. Heiðafé. Heiðafé (fræðiheiti: "Ovis brachyura var. borealis") er smávaxið dyndilstutt sauðfjárkyn sem var á Norðurlöndum að fornu og sem íslenskt sauðfé er talið komið af. Merinófé. Merinófé er sauðfjárkyn sem er upphaflega spænskt og er ræktað vegna ullarinnar. Það fyrirfinnst bæði kollótt og hyrnt. Ull þess er einstaklega mjúk. Það er eitt algengasta kynið í heiminum um þessar mundir. Rachael Taylor. Rachael Taylor (f. 11. júlí 1984) er áströlsk leikkona. Hún hefur leikið í kvikmyndum eins og "See No Evil" (2006) og "Transformers" (2007) Greg Grunberg. Gregory Phillip Grunberg (f. 11. júlí 1966), best þekktur sem Greg Grunberg, er bandarískur leikari. Hann er þriggja barna faðir og er giftur Elizabeth Grunberg. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Matt Parkman í spennuþáttunum "Heroes". Bruce McGill. Bruce Travis McGill (f. 11. júlí 1950), best þekktur sem Bruce McGill, er bandarískur leikari. Hann hefur leikið í kvikmyndum eins og "National Lampoon's Animal House", "Tough Enough", "The Last Boy Scout", "Rosewood", "My Cousin Vinny", "Timecop", "The Insider", ', "Collateral", "Matchstick Men", "Bagger Vance" (2000), "The Sum of All Fears" (2002), "Runaway Jury" (2003) og "Cinderella Man" (2005) Steinn Steinarr. Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld. Árið 1967 kom út hljómplatan Tíminn og vatnið þar sem Steinn las upp samnefnt verk eftir sjálfan sig. Derek Walcott. Derek Alton Walcott (23. janúar 1930) er eitt helsta ljóðskáld enskrar tungu á ofanverðri 20. öld. Hann er einnig leikritahöfundur, leikstjóri og hefur auk þess getið sér gott orð sem listmálari. Derek hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1992. Þekktustu verk hans eru hið epíska ljóð "Omeros", sem er yfir 300 blaðsíður, ljóðabækurnar "The Star-Apple Kingdom" og "Another Life", sem fjallar um æsku hans á Sankti Lúsíu. Robert Graves sagði á sjöunda áratugnum um Derek Walcott að hann beitti enskunni af meiri skilningi á innri töfrum hennar en flestir (ef ekki allir) samtímamenn hans. Æska. Derek Walcott fæddist í Castries á Sankti Lúsíu í Karíbahafi og er tvíburabróðir Rodericks (1930-2000), sem var leikritaskáld á Sankti Lúsíu og í Kanada. Systir þeirra, Pamela St. Hill, er tveimur árum eldri en þeir bræður. Faðir þeirra, Warwick, sem var opinber starfsmaður, frístundamálari og háðskáld, lést úr afleiðingum stikilbólgu þegar bræðurnir voru á fyrsta ári. Móðir þeirra, Alix, var kennari í Meþódistaskóla. Hún giftist ekki aftur, heldur ól börn sín upp ein og lifði það að verða níræð. Báðir afar þeirra voru hvítir Evrópumenn, en báðar ömmurnar af afrísku bergi brotnar og komnar af þrælum. Nám og starfsár. Eftir að hafa stundað nám á Sankti Lúsíu í St. Mary’s college hélt hann í framhaldsnám til Jamaíku árið 1949, og stundaði nám í "Háskóla Vestur-Indíu í Kingston", og nam þar ensku, frönsku og latínu. Þaðan flutti hann til Trínidad árið 1953, og starfaði þar sem myndlista- og leiklistargagnrýnandi. Hann nam leikhúsfræði í New York á árunum 1958-1959 og bjó eftir það í Bandaríkjunum og á Trinidad. Þar stofnaði hann "Trinidad Theater Workshop" árið 1959, og frumsýndi helstu leikverk sín. Hann var virkur þátttakandi leikhússins til ársins 1976. Í Bandaríkjanum kenndi Derek skapandi skrif við Boston háskóla ("BU") eða allt til ársins 2007. Eftir að hann hætti þar hefur hann ferðast um og haldið fyrirlestra og komið fram á ljóðaupplestrum. Árið 2009 sóttist hann eftir stöðu í Oxford háskóla sem prófessor í ljóðlist ("Oxford Professor of Poetry"), en dró umsókn sína tilbaka þegar upp kom staðhæfing þess efnis að hann hafði verið sakaður um kynferðislega áreitni í Boston. Sankti Brendan. Sankti Brendan ("Bréanainn of Clonfert") (nefndur Brendan sæfari á íslensku) (u.þ.b. 484 - u.þ.b. 578) var írskur dýrlingur sem samkvæmt hinu latneska riti "Navigatio Sancti Brendani Abbatis", ferðaðist víða. Samkvæmt því má gera ráð fyrir því að hann hafi fundið Færeyjar og Ísland og jafnvel Vesturheim. Seinni tíma sporgöngumenn. Árið 1976 sigldi írski landkönnuðurinn "Tim Severin" frá Írlandi til Nýfundnalands á bát svipuðum þeim og Sankti Brendan hefði hugsanlega getað notað. Þetta gerði hann til þess að sýna fram á, að ferð Brendans hefði verið möguleg á þeim tíma. Ferðin tók tvö sumur, hann lagði upp frá Suðureyjum og hafði viðkomu í Færeyjum og á Íslandi þangað til hann kom til Nýfundnalands. Um ferðina skrifaði hann síðan bókina "The Brendan Voyage" ISBN 0-349-10707-6 Mansal. Mansal (oft ranglega nefnt "mannsal") er glæpastarfsemi sem felst í verslun með menn í hagnaðarskyni. Fórnarlömbin eru seld sem vinnuafl í verksmiðjum eða kynlífsiðnaði, en börn eru m.a. seld mansali til ólöglegrar ættleiðingar og til þjálfunar í hermennsku sem barnahermenn. Mansal er náskylt þrælahaldi og sumir telja að bein tengsl séu milli kláms og mansals. Mansal nefnist svo vegna þess að "man" er gamalt orð yfir ófrjálsan, ánauðugan mann og var einnig haft um ambátt. Tromsø. (Romsa á Norður-samísku, í nefnifalli) er borg og sveitarfélag í Tromsfylki í Noregi. Tromsø er áttunda stærsta borg Noregs með um 64.000 íbúa, og eru þar norðlægasti grasagarður heims, norðlægasta brugghús heims, og fleira til. Borgin fær nafn sitt frá eyjunni sem hún stendur mestmegnis á, Tromsøya. Endingin "øya" merkir "ey", en merking orðsins "troms" er löngu glötuð. Fyrsta kirkjan á Tromsøya var byggð á 13. öld og skans var byggður um borgina á 17. öld. Tromsø fékk borgarréttindi árið 1794 frá Kristjáni VII Danakonungi. Sveitahéröðin Tromsøysund og Ullsfjord og megnið af Hillesøy sameinuðust Tromsø þann 1. janúar 1964. Saga. Byggð í Tromsø á rætur að rekja til ísaldar. Samar settust líklega fyrstir þar að, en á járnöld settust norðmenn þar að. Fyrsta kirkjan var byggð árið 1252 í stjórnartíð Hákonar Hákonarsonar Noregskonungs, og var það þá nyrsta kirkja heims: Ecclesia Sanctae Mariae de Trums juxta paganos, eða „Sankti Maríukirkja í Tromsø í nánd við heiðingja.“ Á svipuðum tíma var bærinn víggirtur með torfhleðslum til þess að verjast árásum frá Karelíu og Rússlandi. Tromsø fékk borgarréttindi árið 1794, en þá bjuggu aðeins um 80 manns þar. Á 19. öld varð borgin mun mikilvægari með tilkomu biskupsstóls (1834), kennaraháskóla (1848), skipasmíðastöðvar (1848), byggðasafns (1872) og Mack brugghússins (1877). Heimskautaveiðar hófust upp úr 1820 á svæðum frá Novaya Zemlya til Kanada. Um 1850 var Tromsø orðin mikilvæg miðstöð heimskautsveiðiferða og fór fram úr Hammerfest í viðskiptatekjum. Við enda 19. aldar var Tromsø orðin að mikilvægustu viðskiptaborg á svæðinu. Þá lögðu margir heimskautsleiðangrar upp þaðan: landkönnuðir á borð við Roald Amundsen, Umberto Nobile og Fridtjof Nansen nýttu sér þekkingu íbúa Tromsø á aðstæðum á heimskautinu og fengu oft áhafnir sínar úr borginni. Norðurljósarannsóknarstöðin var stofnuð þar 1927. Á meðan á seinni heimstyrjöld stóð fluttist ríkisstjórn Noregs til Tromsø meðan suðurhluti Noregs var undir völdum Nasista. Borgin slapp úr stríðinu án nokkurs skaða en þó sökk þýska orustuskipið Tirpitz utan strandar Tromsøy þann 12. nóvember 1944. Þá létust um 1000 þýskir hermenn. Í lok stríðsins komu þúsundir flóttamanna úr Finnmörk sem flúðu eyðileggingu Nasista sem bjuggust undir innrás Rauða hersins. Eftir seinni heimstyrjöld byggðist borgin upp hratt. Flugvöllur opnaði á norðurhluta Tromsøy árið 1964 og háskólinn í Tromsø var stofnsettur 1972. Norska Heimskautastofnunin fluttist til Tromsø frá Oslo árið 1998. Árið 2004 fóru um 1.5 milljón farþegar um flugvöllinn í Tromsø. Hagtölur. Fulltrúar meira en 100 þjóðerna búa í Tromsø, en auk norska meirihlutans eru stórir minnihlutar Sama, Rússa og Finna. Norðlægasta moska heims er í Tromsø, og norðlægasti kaþólski biskupinn á sér aðsetur í kaþólsku kirkjunni þar, þó svo að einungis 350 kaþólikkar séu í borginni. Vaxandi fjöldi Sama sest að í borginni og fyrir vikið er Sami leikskóli í borginni og sumir grunnskólar bjóða upp á kennslu á samísku. Að auki eru opinberar byggingar merktar bæði á samísku og norsku. Samíska var eitt sinn algengt sem annað tungumál íbúa héraðsins en fjöldi innfæddra sem tala málið hefur minnkað. Íbúafjöldinn hefur aukist hratt í Tromsø. Árið 1964 bjuggu um 32.000 íbúar í borginni en árið 2004 bjuggu þar 63.596. Það er aukning að meðaltali um 789 íbúa á ári á síðustu fjörutíu árum. Víðmynd af Tromsø tekin ofan af Fjellheisen Tyra Banks. Tyra Lynne Banks (f. 4. desember 1973 í Inglewood) er bandarísk fyrirsæta og leikkona. Stjórnar raunveruleikaþættinum "Americas Next Top Model". Píanósónata nr. 14 (Beethoven). Píanó sónatan númer 14 í cís-moll "Quasi una fantasia" (ítalska „allt að því fantasía“) Op. 27 númer 2 eftir Ludwig van Beethoven, oftast þekkt undir nafninu Tunglskinssónatan, er sónata í þremur hlutum sem fylgir ekki hefðbundnu sónötuformi. Verkið fylgir ekki hefðbundnu sónötu formi og er eitt þekktasta píanóverk allra tíma. Listi yfir táknmál. Þessi listi nær yfir öll táknmál. Nelly Furtado. Nelly Kim Furtado (f. 2. desember 1978) er kanadísk söngkona. Hún hefur selt 20 milljón albúm og 18 milljón smáplötur á heimsmarkaði. Fjölskylda Nelly. Hún á eina dóttur sem heitir Nevis en faðir hennar er DJ Jasper Gahunia. Furtado sleit sambandi sínu við hann árið 2005. Aklanska. Aklanska ("Akeanon") er malay-pólýnesískt tungumál sem er talað í Filippseyjum, í norðri. Svæði þar sem aklanska er talað heitir Aklanía. Tungumálið er mjög svípuð tagalog og cebuano. Nokkrar setningar og orð. Landkort þar sem Aklanía liggur, svæði þar sem aklanska er talað Gísli Örn Garðarsson. Gísli Örn Garðarsson (f. 15. desember 1973) er íslenskur leikari, kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur. Hann ólst upp í Noregi þar byrjaði hann leiklistarferilinn sinn. Hann komst inn í listaháskóla á Íslandi árið 1997 og útskrifaðist árið 2001. Gotti Sigurðarson. Gotti Sigurðarson (f. 23. febrúar 1974) er íslenskur leikari. Guðbrandur Valdimarsson. Guðbrandur Valdimarsson (f. 5. desember 1940) er íslenskur leikari. Guðmundur Haraldsson. Guðmundur Haraldsson (f. 28. janúar 1962) er íslenskur leikari. Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Guðmundur Ingi Þorvaldsson (f. 25. júní 1973) er íslenskur leikari. .ml. .ml er þjóðarlén Malí. .tg. .tg er þjóðarlén Tógó. .sm. .sm er þjóðarlén San Marínó. Guðmundur Ólafsson (leikari). Guðmundur Ólafsson (f. 14. desember 1951) er íslenskur leikari, rithöfundur og þýðandi. Hann fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 1986 fyrir skáldsöguna "Emil og Skundi" og aftur 1998 fyrir bókina "Heljarstökk afturábak". Hann er sá eini sem hlotið hefur verðlaunin oftar en einu sinni. Gunnar Gunnsteinsson. Gunnar Gunnsteinsson (f. 27. desember 1969) er íslenskur leikari. Gunnar Hansson. Gunnar Hansson (f. 26. maí 1971) er íslenskur leikari. Gunnlaugur Helgason. Gunnlaugur Helgason (f. 26. ágúst 1963) er íslenskur leikari og sjónvarpsmaður. Bryndís Petra Bragadóttir. Bryndís Petra Bragadóttir (fædd 11. október 1958) er íslensk leikkona. Hilmir Snær Guðnason. Hilmir Snær Guðnason (f. 24. janúar 1969) er íslenskur leikari. Halldór Björnsson. Halldór Björnsson (f. 10. ágúst 1962) er íslenskur leikari. Halldór Gylfason. Halldór Gylfason (f. 13. júní 1970) er íslenskur leikari. Hallmar Sigurðsson. Hallmar Sigurðsson (f. 21. maí 1952) er íslenskur leikari. Harald G. Haraldsson. Harald G. Haraldsson (f. 1. september 1943) er íslenskur leikari. Hákon Leifsson. Hákon Leifsson (f. 7. maí 1958) er íslenskur leikari. Transformers (kvikmynd). Transformers er bandarísk kvikmynd frá árinu 2007 í leikstjórn Michael Bay. Kvikmyndin er byggð Transformers einkaleyfinu. Nýlendualemanníska. Nýlendualemanníska (nýlendualemanníska: Alemán Coloniero) er germanskt mál og indóevrópskt tungumál sem er talað í Venesúelu, í svæðinu sem heitir Colonia Tovar. Hún er svípuð alemannísku, sem er hágermönsk mállýska. Colonia Tovar í Venesúelu er með miklu fólk frá Þýskalandi sem tala á þessu mállýsku. Nýlendualemanníska getur ennþá verið fundið í fréttablaðinu í Colonia Tovar. Alemanníska. Alemanníska (á alemannísku: Alemannisch) er Germanskt og Indóevrópskt tungumál. Alemanníska er þýsk mállýska sem er töluð í Sviss, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Lichtenstein. Mállýskan telst til háþýskra mállýska. Hnit (landafræði). a>i þar sem hnitakerfið sést vel Hnit er kerfi sem gerir fólki kleift að skilgreina staðsetningu jarðarinnar með þremur breiddargráðum. Aleutíska. Aleutíska ("Aleut") er eskimó-aleútískt tungumál sem er talað í Alösku af 480 manns. Algonkinsk tungumál. Algonkísk tungumál eru norður amerísk frumbyggjamál. Þau telja um 30. 300px Shakira. Shakira Isabel Mebarak Ripoll þekkt sem Shakira (f. 2. febrúar 1977 í Barranquilla í Kólumbíu) er kólumbísk söngkona og dansari. .bn. .bn er þjóðarlén Brúnei. .pe. .pe er þjóðarlén Perú. .cl. .cl er þjóðarlén Chile. .dj. .dj er þjóðarlén Djíbútí. .bf. .bf er þjóðarlén Búrkína Fasó. Óðmenn - Bróðir. Óðmenn er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Óðmenn tvö lög Kristín Ólafsdóttir - Ég einskis barn er. Kristín Á. Ólafsdóttir er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Kristín Á. Ólafsdóttir tvö lög. Ljósmynd á framhlið, Jóhanna Ólafsdóttir. Ljósmyndastofa Kristjáns Magnússonar. Búlgarska. Búlgarska ("Български") telst til suðurslavneskra mála ásamt serbókróatísku, slóvensku og makedónsku. Málfræði. Ákveðinn greinir er oft viðskeyttur líkt og í norðurgermönskum túngumálum. Fallbeygingar nafnorða eru að mestu horfnar og hafa forsetningar því sterkara vægi. Makedónska. Makedónska er indóevrópskt tungumál af ætt slavneskra tungumála. Makedónska er rituð með afbrigði af kýrillíska stafrófinu. Eistneska. Eistneska er evrópskt tungumál talað í Eistlandi. Eistneska er rituð með afbrigði af Latnesku letri. Lettneska. Lettneska ("Latviešu") er indóevrópskt tungumál talað í Lettlandi. Hún er rituð með afbrigði af latneska stafrófinu, sem einkennist af flötum strikum ofan við -e, -a, og -u en ekki -o, og setillum neðan við -k og -l. Engir tvípunktar eða skástrik eru sett fyrir ofan sérhljóða. Föll nafnorða eru sex í lettnesku. Líkt og í litháísku eru elstu textar frá 16 öld. Auk litháísku og lettnesku telst hin útdauða fornprússneska til baltneskra mála. Sjóvá. Sjóvá er íslenskt vátryggingarfélag sem rekur 12 útibú og er með 24 umboðs og þjónustuaðila á landinu. Fyrirtækið er stærsta íslenska tryggingafyrirtækið. Sjóvá þjónustar fyrirtæki og einstaklinga. Hagnaður fyrirtækisins á árinu 2004 var 3,59 milljarðar íslenskra króna, 3,76 milljarðar árið 2005 og 11,9 milljarðar árið 2006. Sjóvá-Almennar tryggingar var a.m.k. að ⅔ í eigu Milestone ehf.. Eftir bankahrunið varð Sjóvá gjaldþrota og í ljós kom að fyrri eigendur höfðu notað tryggingarsjóði Sjóvár ólöglega til fjárfestinga. Sjóvá var selt sumarið 2011 við umdeildar kringumstæður. Sjóvá sýndi áhuga á fjármögnun verkefna sem lið í forvarnarstarfsemi sinni, í því augnamiði stofnaði það Forvarnarhúsið. Í desember 2006 stofnaði Sjóvá Suðurlandsveg ehf. ásamt nokkrum sveitarfélögum en markmið þess að er flýta fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Sjóvá sýndi því einnig áhuga að koma að byggingu viðbyggingar Grensádeildar Landspítala - Háskólasjúkrahúss. Þjónusta. Einstaklingum bjóðast á bruna-, fasteigna-, fartölvu-, innbús-, ferða-, sumarhúsa-, ökutækja-, hesta- og hundatryggingar. En auk þess líf-, sjúkdóma-, afkomu- og slysatryggingar sem dótturfyrirtæki Sjóvá, Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. sér um en Sjóvátryggingarfélag Íslands hf. bauð fyrst upp á líftryggingar árið 1934. Fyrirtækjum býður Sjóvá þjónustu sem þeir nefna "Grunnvernd" en inní henni er falið innbrots og þjóðnaðar-, vatnstjóns-, rekstrarstöðvunar- og ábyrgðartrygging vegna tjóns þriðja aðila. Hægt er að semja um frekari tryggingar til viðbótar. Viðskiptavinir Glitnis banka hljóta sérkjör en þar til nýlega átti Milestone ehf. hluta í bankanum. Túkótkó-kamtjatkansk tungumál. Túkótkó-Kamjatkansk tungumálin eru tungumál sem eru töluð í Siberíu, Rússlandi. Það eru bara 5 tungumál í þessum tungumálaflokkum. Mánar - Frelsi. Mánar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Kennaraskólakórinn - Skólasöngur Kennaraskólans. Kennaraskólakórinn er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Kennaraskólakórinn undir stjórn Jóns Ásgeirssonar sex lög. Alutor. Alutor ("Aлютор") er túkótkó-kamtjatkanskt tungumál sem er talað í Kamtjötku í Siberíu í Rússlandi af 40 manns. Forest Whitaker. Forest Whitaker (fæddur Forest Steven Whitaker, 15. júlí 1961) er bandarískur leikari, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Last King of Scotland, Platoon, Bird, Good Morning, Vietnam, The Crying Game og. Fjölskylda. Whitaker fæddist í Longview, Texas en ólst upp í Los Angeles. Sem unglingur þá gekk Whitaker í "Palisades-menntaskólann" þar sem hann æfði amerískan fótbolta. Í menntaskóla þá tók hann söngtíma, kom fram í söngleikjum og tók upp leiklistina. Þar lék hann í sínu fyrsta hlutverki sem leikari í "Under Milk Wood". Whitaker stundaði nám við "California State Polytechnic háskólann (Cal Poly Pomona)" í Pomona, Kaliforníu á íþróttastyrk en vegna bakmeiðsla þá breytti hann aðalfaginu yfir í tónlist (söng). Whitaker ferðaðist um England með "Cal Poly Chamber" kórnum árið 1980. Skipti hann stuttlega um fag við Cal Poly, yfir í drama. Whitaker komst inn í tónlistardeildina við Suður-Kaliforníuháskólann til þess að læra óperusöng, ásamt því að komast inn í dramadeildina við skólann. Whitaker útskrifaðist árið 1982 og hafði hann fengið skólastyrk til að stunda nám við "Drama Studio London" sem staðsett er í Berkeley, Kaliforníu. Þann 16. apríl 2007, þá fékk Whitaker stjörnu á "Walk of Fame" göngugötuna og er staðsett á 6801 Hollywood Blvd. Whitaker giftist leikkonunni Keisha Nash árið 1996, saman eiga þau fjögur börn: tvær dætur saman, son hans úr fyrra sambandi og dóttur hennar úr fyrra sambandi. Augnsjúkdómur. Whitaker fæddist með augnsjúkdóminn "ptosis" í vinstra auganu, sem þýðir "drúpandi augnlok". Hefur hann sagt að sjúkdómurinn sé arfgengur og að hann hafi hugsað um að láta laga augað með skurðaðgerð þar sem hann hefur áhrif á sjón hans. Góðgerðarmál. Whitaker er grænmetisæta. Whitaker og dóttir hans True, töluðu inn á kynningarmyndband fyrir almenning til þess að kynna grænmetishyggju fyrir "People for the Ethical Treatment of Animals" (PETA). Whitaker er stuðningsaðili og talsmaður góðgerðarsamtakanna "Hope North", sem er heimavistar-og verknámsskóli í norður Úganda fyrir barnahermenn, heimilislaus börn og önnur ung fórnarlömb borgarastríðsins í landinu. Stjórnmál. Whitaker var stuðningsmaður Baracks Obama í forsetakosningunum árið 2008. Þann 6. apríl, 2009, þá var Whitaker gefinn höfðingjatitill í Imo ríkinu í Nígeríu. Whitaker, var gerður að höfðingja á meðal Igbo fólksins í Nkwerre og var gefinn titilinn "Nwannedinamba of Nkwerre", sem þýðir "Bróðir í framandi landi". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Whitaker var árið 1982 í "Making the Grade". Kom hann síðan fram í þáttum á borð við "Hill Street Blues", "The Fall Guy" og "North and South". Frá 2006-2007 þá lék Whitaker gestahlutverk í ER sem Curtis Ames og á samatíma þá var hann með gestahlutverk í The Shield sem Lieutenant Jon Kavanaugh. Árið 2010 þá tilkynnti CBS að búið væri að ráða Forest Whitaker í hlutverk Sam Coopers í. Hætt var við framleiðslu á þættinum eftir aðeins 13 þætti vegna lélegs áhorfs. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Whitaker var árið 1982 í "Tag: The Assassination Game". Whitaker lék fótboltaleikmann í "Fast Times at Ridgemont High" þar sem hann lék á móti Judge Reinhold, Phoebe Cates og Sean Penn. Árið 1986 þá lék hann í The Color of Money með Paul Newman og Tom Cruise og í Platoon. Árið eftir þá lék hann í Good Morning, Vietnam á móti Robin Williams. Árið 1988 þá var Whitaker boðið hlutverk Charlie "Bird" Parker í Bird sem var leikstýrt af Clint Eastwood. Síðan árið 1992 þá réði Neil Jordan hann í hlutverk Jody í The Crying Game. Whitaker lék mafíu leigumorðingjann Ghost Dog í árið 1999. Kom Whitaker síðan fram í kvikmyndum á borð við, Panic Room og Phone Booth. Árið 2005 þá var honum boðið hlutverk í kvikmynd Baltasars Kormáks, A Little Trip to Heaven þar sem hann lék Abe Holt. Fyrir hlutverk sitt sem Idi Amin í The Last King of Scotland þá vann Whitaker Óskarsverðlaunin, Golden Globe verðlaunin, BAFTA verðlaunin, Screen Actors Guild-verðlaunin, "New York Film Critics Circle" verðlaunin og "Los Angeles Film Critics Association" verðlaunin meðal annars. Hefur Whitaker síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Ripple Effect, Vantage Point, Street Kings, Where the Wild Things Are, Repo Men og The Experiment. Leikstjórn. Whitaker hefur leikstýrt þrem kvikmyndum Waiting to Exhale, Hope Floats og First Daughter. Verðlaun og tilnefningar. Boston Society of Film Critics verðlaunin Dallas-Fort Worth Film Critics Association verðlaunin Kansas City Film Critics Circle verðlaunin Las Vegas Film Critics Society verðlaunin Los Angeles Film Critics Association verðlaunin National Society of Film Critics verðlaunin New York Film Critics Circle verðlaunin Washington DC Area Film Critics Association verðlaunin Rófa. Rófa er aftasti hluti hryggdýrs og er í beinu framhaldi af rófubeini þess. Dindill er stutt rófa sauðkinda eða sela. Rófa hunda nefnist skott, en einnig rófa músa, katta og refa. Tagl er stertur á hrossi með tilheyrandi hárskúf. Hali er rófa einkum á nautgripum, einnig ösnum, músum, rottum og ljónum o.fl. Stél er afturhluti fugls. Fiskar eru með sporð. Forngrísk sagnaritun. Forngrísk sagnaritun varð til í Jóníu seint á 6. öld f.Kr. Tilurð hennar hafði mikil áhrif á þróun grískra bókmennta í óbundnu máli. Ásamt forngrískri læknisfræði og heimspeki hafði hún einnig mikil áhrif á heimsmynd Forngrikkja. Á 5. öld f.Kr. tíðkaðist að sagnaritarar nefndu rit sín "historiai" eða "rannsóknir", seinna öðlaðist orðið þrengri merkingu. Áhrifamestur fyrstu sagnaritaranna var Hekatajos frá Míletos (um 550-476 f.Kr.). Verk hans og annarra sagnaritara 6. aldar f.Kr. eru ekki varðveitt nema í brotum. Heródótos (490-425 f.Kr.) er talinn vera fyrsti gríski sagnfræðingurinn en hann hefur verið nefndur „faðir sagnfræðinnar“. Rit hans um sögu Persastríðanna er elsta bókmenntaverk vestrænnar menningar í óbundnu máli. Í riti sínu fjallaði Heródótos um hvaðeina sem hann taldi skipta máli um skilning á sjálfri sögunni, þar á meðal landafræði, mannfræði, trúarbragðafræði og ýmislegt fleira. Þúkýdídes var mestur grískra sagnfræðinga, ekki síst vegna gagnrýnins mats hans á heimildum sínum. Rit hans um sögu Pelópsskagastríðsins hafði gríðarleg áhrif á þróun sagnfræðinnar. Auk þess að greina frá því sem gerðist reyndi Þúkýdídes að greina frá undirliggjandi orsökum atburðarásarinnar. Umfjöllunarefni Þúkýdídesar voru nokkuð þrengri en Heródótosar. Hann fjallaði ekki um landafræði og trúarbrögð eins og Heródótos, heldur einblíndi hann þess í stað á stjórnmálasögu. Þúkýdídes er almennt talinn meðal bestu höfunda Forngrikkja í óbundnu máli ásamt Platoni og Demosþenesi. Rit Xenófons "Grikklandssaga" ("Hellenika") segir frá framvindu Pelópssakastríðsins frá árinu 411 f.Kr., þar sem sögu Þúkýdídesar lýkur, til endaloka stríðsins árið 404 f.Kr. og allt til ársins 362 f.Kr. Xenófon þykir síðri sagnfræðingur en Þúkýdídes en hann ritaði þó af mikilli þekkingu um hermennsku og herstjórnun. Í ritinu "Austurför Kýrosar" ("Anabasis") segir hann m.a. frá herleiðangri tíu þúsund grískra málaliða til Persíu. Xenófon samdi ýmis önnur verk sem hafa nokkuð sagnfræðilegt gildi. Á 4. öld f.Kr. varð sagnaritun í æ meira mæli álitin til þess fallin að koma áleiðis siðaboðskap. Þessi stefna í sagnaritun hafði þónokkur áhrif á rómverska sagnaritara, m.a. Lívíus. Á helleníska tímanum og í síðfornöld þróaðist grísk sagnaritun meira í áttina að sögu mikilmenna, sem voru talin skapa söguna. Slíka ævisöguritun er meðal annars að finna hjá Plútarkosi Meðal annarra forngrískra sagnaritara má nefna Eforos, Híerónýmos frá Kardíu, Pólýbíos. Japetos. Japetos (forngrísku: "Ιαπετός"), var títani í grískri goðafræði. Hann var sonur Úranosar og Gaju og faðir Atlasar, Prómeþeifs og Epimeþeifs og forfaðir mannkyns. Tom Hanks. Thomas Jeffrey Hanks (f. 9. júlí 1956), best þekktur sem Tom Hanks, er bandarískur leikari og kvikmyndaframleiðandi. Hann hefur tvívegis unnið Óskarinn fyrir hlutverk sitt í kvikmyndunum "Forrest Gump" og "Philadelphia". Hanks er annar tekjuhæsti leikari allra tíma. Deinarkos. Deinarkos, (um 360 – 290 f.Kr.) var síðastur attísku ræðumannanna tíu. Hann var frá Kórinþu, sonur Sostratosar. Deinarkos settist að í Aþenu ungur að árum. Hann var bæði nemandi Þeófrastosar og Demetríosar frá Faleron en gerðist snemma lögfræðilegur ræðuhöfundur að atvinnu. Þar sem hann var aðfluttur mátti hann ekki sjálfur taka þátt í stjórnmálum borgarinnar en hafði eigi að síður pólitísk ítök og áhrif. Leiðiliður. Leiðiliður er sá liður rökfærslu sem leiddur er af öðrum, afleiðing. Amdang. Amdang ("Sìmí Amdangtí") er nílósaharamál sem töluð er í Tsjad í Biltíne-héraði og í Súdan. Þrætubók. Þrætubók (rökmálslist eða díalektík) er að leggja mál fyrir og það á tvo ólíka og gjarnan öndverða vegu, og reyna að vega og meta með rökfræðinni hvor kosturinn sé betri. Þrætubók hefur þó einnig á sér verri stimpilinn og er það sumum sófistunum að kenna sem segja mætti að hafi komið óorði á þrætubókina. Platon reyndi að nota þrætubók til að leiða sig að sannleikanum. Stundum er einnig talað um "þrætubókarlist" og talað um að einhver „iðki þrætubókarlist“. Amharíska. Amharíska ("አማርኛ", í latnesku stafrófi: "Āmariññā") er semískt tungumál sem er talað í Eþíópíu og Erítreu. Oft er litið á Amharísku sem staðalímynd afrískra mála sem nota smellhljóð, en þau eru mikilvægur þáttur í amharísku. Amharískan notast við stafróf sem nefnist Ge'ez stafróf. Fara í gegnum sig. Að fara í gegnum sig er að halda fram á víxl gagnstæðum skoðunum eða fullyrðingum t.d. í rökræðum. Sem dæmi mætti nefna mann sem segir að allir menn séu fífl og þannig hafi það alltaf verið frá því sögur hófust, en segir svo stuttu síðar að Nikola Tesla og langafi sinn hafi verið einstaklega gáfaðir menn. Andalúsíska. Andalúsíska ("Andaluza") er rómönsk mállýska spænsku sem töluð er á Gíbraltar og í Andalúsíu. Tweed. Tweed (eða tvíd) er gróft, hálfunnið klæðisefni úr ull; það er mjúkt, andar vel og frekar þéttofið. Tvíd er oft með síldarbeinsmynstri eða rúðótt og oftar en ekki jarðitað en marglitt. Framleiddar eru kápur, frakkar og buxur úr tvídi - sem og margt annað. Angáríska. Angáríska ("Angaur") er malay-pólýnesískt tungumál sem er talað í Angaríu, svæði sem er í Palá. Angáríska er opinbert tungumál í Palá, en þar er einnig töluð enska og japanska. Anló. Anló ("Eʋegbe") er nigerkongó tungumál sem er talað í Gana. Aó. Aó ("Ao") er sinó-tíbetskt tungumál sem talað er á Indlandi af 141.000 manns. Landkort þar sem aó er talað Demetríos frá Faleron. Demetríos frá Faleron (d. um 280 f.Kr.) var aþenskur ræðumaður, upprunalega frá bænum Faleron, og nemandi Aristótelesar og Þeófrastosar. Demetríos var mikilvirkur rithöfundur og fjallaði meðal annars um sagnfræði, mælskufræði og bókmenntarýni. Astýanax. Astýanax (nefndur Skamandríos af föður sínum eftir ánni Skamandrosi) var sonur Hektors og Andrómökku í grískri goðafræði. Hann var drepinn barnungur í Trójustríðinu. Neoptólemos, sonur Akkillesar, henti honum fram af borgarvegg. Í annarri útgáfu sögunnar er það Ódysseifur sem drepur Astýnax og með sama hætti. Astýanax var gæluheiti Trójubúa á Skamandríosi, en það þýðir "Borgarkonungur" eða "Borgarvörður". Velska. Velska ("Cymraeg" eða "y Gymraeg") er brýþonskt tungumál í keltnesku málaættinni talað í Wales og á svæðum nálægt landamærinu við Wales á Englandi. Það eru líka sumir sem tala málið í Argentínu en þetta fólk heitir "Y Wladfa". Velska hefur verið þekkt undir ýmsum heitum í gegnum söguna, meðal annars „breska“ og „kambríska“. Samkvæmt breska manntalinu árið 2011 tala 19 % allra Walesbúa eldri en þriggja ára velsku eða 562.000 manns. Þar af geta 77 % (431.000 manns) talað, lesið og skrifað velsku. 73 % allra Walesbúa eða 2,2 milljónir manns segjast hafa enga velskukunnáttu. Bera má þetta saman við manntalið árið 2001, þar sem 20,8 % Walesbúa sögðust geta talað velsku, þar af 57 % (315,000 manns) reiprennandi. Árið 2011 varð velska opinbert mál í Wales með nýjum lögum sem tóku gildi þá. Velska er eina opinbera tungumálið á Bretlandi; enska og önnur tungumál hafa enga opinbera stöðu. Saga. Velska varð til sem greinanlegt tungumál á 6. öld. Frummál velsku var breska, sem bretónska, kornbreska og kúmbríska eiga allar rætur að rekja til. Fjögur tímabil einkennast sögu velsku en takmörkin eru frekar ónákvæm: frumvelska, stuttu eftir að tungumálið skildi sig frá bresku; fornvelska, sem töluð var frá 9. til 12. aldar; miðvelska, töluð frá þeim tíma til 14. aldar og nútímavelska, töluð frá þeim tíma til dagsins í dag. Heitið "velska" á rætur að rekja til enska orðsins "Welsh" sem Engilsaxar notuðu til að lýsa Walesbúum. Orðið þýðir „erlent mál“. Velska orðið yfir tungumálinu er "Cymraeg" en landið sjálft heitir "Cymru". Dreifing velskumælenda. Velska hefur verið töluð í Wales í gegnum alla söguna en það var árið 1911 sem tungumálið varð minniháttar mál. Þá töluðu 43,5 % Walesbúa velsku. Þó að tungumálið væri á niðurleið í gegnum árin sem fylgdu dó það ekki út fullkomlega. Í byrjun 21. aldar fór velskumælendum að fjölga aftur. Frá og með árinu 2004 töluðu 21,7 % Walesbúa velsku, miðað við 20,8 % árið 2001 og 18,5 % árið 1991. Manntalið árið 2011 sýnir þó að velskumælendum hefur fækkað í 562.000 manns eða 19 % mannfjöldans. Manntalið leiðir líka í ljós að velskumælendum hefur fækkað töluvert á kjarnasvæðum í Norður-Wales, það að segja í Ceredigion og Carmarthenshire. Þar tala nú færri en 50 % Walesbúa velsku í fyrsta sinn í sögunni. Velskumælendur annars staðar á Bretlandi hafa ekki verið taldir í manntölum. Árið 1993 gaf velska sjónvarpsstöðin S4C út niðurstöður úr könnun á fjölda þeirra sem tala eða skilja velsku, og talið var að um það bil 133.000 manns töluðu velsku á Englandi á þeim tíma, þar af 50.000 manns á Stór-Lundúnasvæðinu. Einu sinni talaði stór fjöldi Walesbúa eingöngu velsku. Á 20. öld hurfu velflestir þeirra sem töluðu aðeins velsku en frá og með manntalinu árið 1981 var lítill fjöldi þeirra eftir. Langflestir velskumælendur tala líka ensku (nema þeir sem búa í Argentínu, sem tala spænsku). Þrátt fyrir það vilja margir velskumælendur heldur tjá sig á velsku. Tungumálið sem verður fyrir valinu er mismunandi eftir sviðum og samfélagslegum aðstæðum. Oft er skipt á tungumálum í sama samtali. Flestir þeirra sem hafa velsku að móðurmáli búa í Norður- og Vestur-Wales, aðallega í Gwynedd, Conwy, Denbighshire ("Sir Ddinbych"), á Öngulsey ("Ynys Môn"), í Carmarthenshire ("Sir Gâr"), Norður-Pembrokeshire ("Sir Benfro"), Ceredigion, hlutum af Glamorgan ("Morgannwg") og Norðvestur- og Suðvestur-Powys. Þó er þá sem hafa velsku að móðurmáli að finna í strjálbýli um allt Wales. Opinber staða. a> á bæði velsku og ensku Þó að velska sé minniháttar tungumál óx stuðningur fyrir hana stöðugt á 20. öld í samræmi við uppgang samtaka eins og þjóðernisstjórnmálaflokkurinn Plaid Cymru sem stofnaður var árið 1925 og Cymdeithas yr Iaith Gymraeg ("Félag velskrar tungu") sem stofnað var árið 1962. Lögin um velska tungu 1993 og lögin um velska ríkisstjórn 1998 tryggja það að velska og enska séu jafnnotaðar eins mikið og hægt er. Velska þingið var stofnað árið 1997. Þann 7. desember 2010 leiddi það í lög ráðstafanir í að þróa notkun velskrar tungu í Wales. Lögin voru samþykkt af drottningunni þann 9. febrúar 2011. Með þessum lögum varð velska opinbert tungumál í Wales. Lögin áskilja nokkrum opinberum stofnunum og einkafélögum til að veita þjónustur á velsku. Árið 1993 var Velsk málnefnd ("Bwrdd yr Iaith Gymraeg") stofnuð í þeim tilgangi að auka notkun velskrar tungu í Wales. Málnefndin var lögð niður 31. mars 2012. Í kjölfar þess var nýr nefndarmaður tilnefndur. Síðan árið 2000 hefur verið skylda í öllum velskum skólum til að læra velsku til 16 ára aldurs. Þetta hefur haft mikil áhrif á að snúa hnignun velskrar tungu við og leiðir til þess að allir sem alast upp í Wales hefur einhverja kunnáttu á tungumálinu, jafnvel þeir sem eiga ekki velskumælandi foreldra. Í Wales eru flest umferðarskilti á bæði velsku og ensku og oft en ekki alltaf koma velsk örnefni á undan enskum. Í mörgum verslunum eru skilti á bæði velsku og ensku en leiðbeiningar og upplýsingar á umbúðum eru sjaldnast á velsku. Texti á peningaseðlum er ekki heldur á velsku en undantekning er eins punds myntir sem gefnar voru út árin 1985, 1990 og 1995. Á þessum myntum stendur "Pleidiol wyf i'm gwlad" „Trúr er ég landi mínu“ sem er lína úr velska þjóðsöngnum "Hen Wlad Fy Nhadau". Velska hefur hlotið meiri áberandi stöðu síðan velskumælandi sjónvarpsstöðin S4C var stofnuð árið 1982. Í upphafi voru 70 % sjónvarpsþátta sýndir í samútsendingu við Channel 4. Síðan flaumrænum sjónvarpsútsendingum lauk í Suður-Wales 31. mars 2010 hefur allir þættir S4C verið á velsku. Kvöldfréttir BBC eru líka fáanlegar á velsku. Frá árinu 1977 hefur breska ríkisútvarpið líka rekið velskumælandi útvarpsstöð en hún heitir BBC Radio Cymru. Þó ekkert dagblað sé gefið út á velsku er vikublað sem heitir "Y Cymro" („Walesbúinn“) og því er dreift um allt Wales. Áætlað var að stofna velskt dagblað árið 2008 undir nafninu "Y Byd" („Veröldin“) en því var aflýst vegna lítillar eftirspurnar. Síðan desember 2001 hefur breska ríkisstjórnin krafist þess að allir innflytjendur tali ensku. Ekki er vitað hvort reglan eigi við um velsku. Eins og er er nægilegt að kunna velska, ensku eða gelísku til þess að sækja um breskan ríkisborgararétt. Ritun. Á velsku er „w“ talið sérhljóð ásamt „a“, „e“, „i“, „o“, „u“ og „y“. Bókstafurinn „j“ er notaður í mörgum venjulegum orðum sem eiga uppruna sinn á ensku, til dæmis "jam" „sulta“, "jôc" „grín“ og "garej" „bílskúr“. Bókstafirnir „k“, „q“, „v“, „x“ og „z“ eru notaðir í sumum íðorðum, til dæmis "kilogram", "volt" og "zero", en í öllum tilfellum má nota velska bókstafi í staðinn: "cilogram", "folt" og "sero". Á 16. öld var „k“ víða notað en þegar nýja testamentið var gefið út á velsku var byrjað að nota „c“ í staðinn. Ástæðan fyrir því er sú að prentarar voru ekki með nóg „k“-stafi til þess að prenta velsk orð. Tvíbroddur er notaður til þess að tákna löng sérhljóð, til dæmis "man" „staður“ og "mân" „fíngerður, lítill“. Hljóðfræði. Hljóðfræði velsku einkennist af fjölda hljóða sem eru ekki til á ensku og sjaldan á öðrum evrópskum málum, það er að segja óraddað tannbergsmælt hliðmælt önghljóð [ɬ], órödduð neflokhljóð [m̥], [n̥], og [ŋ̊] og óraddað sveifluhljóð [r̥]. Áhersla er oftast á næstsíðasta atkvæði í margra atkvæða orðum. Orðhlutafræði. Velsk orðhlutafræði er mjög svipuð þeim á öðrum keltneskum tungumálum og einkennist af sérhljóðavíxlum í fyrsta atkvæði orða og svokölluðum „beygðum forsetningum“. Þessar forsetningar bætast við persónufornöfnin sem eru andlögin þeirra. Á velsku eru tvö kyn: karlkyn og kvenkyn. Nafnorð fallbeygjast ekki. Það eru nokkrar ólíkar endingar sem tákna fleirtölu og tvær endingar sem tákna eintölu. Í velsku talmáli beygjast aðalsagnir ekki eftir persónu en hjálparsagnir beygjast. Í bókmenntamáli beygjast aðalsagnir líka. Setningafræði. Í þessu dæmi er "mae" þriðju persónu nútíðarmynd sagnarinnar "bod", og "mynd" er sögn sem þýðir „að fara“. Ólokið horf sagnar í þátíð er myndað á svipaðan hátt. Samsett framtíð og samsettur skildagaháttur eru bæði mynduð þannig. Í þátíð, framtíð og skildagahætti beygjast allar sagnir. Þó er algengara í dag að nota sagnnafnorð saman með beygðri mynd sagnarinnar "gwneud" „að gera“, þannig að „eg fór“ getur annaðhvort verið "Mi es i" eða "Mi wnes i fynd". Á velsku eru smáorð á undan sögnum mjög algeng; "mi" í dæmi um það. Á velsku er engin leið til þess að mynda aukasetningar. Í staðinn eru smáorð á undan sögnum notuð ásamt sérstökum sagnmyndum. Kúgildi. Kúgildi (eða kvígildi) er gömul verðeining í vöruskiptum. Kúgildi var jafngildi einnar kýr að verðmæti, sem var samasem 6 ær loðnar og lembdar. Kúgildi var fylgifé leigujarðar sem hver ábúandi varð að afhenda þeim er tók við jörðinni af honum. Kúgildi hefur verið misverðmætt eftir tímabilum og landsvæðum. Um 1200 var kúgildi 3 vættir osts eða smjörs. Á 13. öld var t.d. eitt kúgildi metið á hundrað álnir vaðmáls, þ.e. stórt hundrað =120. Og á 15. öld 120 gildir fiskar, þ.e. 40 á 4 merkur og 80 á 5 merkur. FM 957. FM 957 er íslensk útvarpsstöð. Hún er í eigu 365 miðla. Hún er fjórða vinsælasta útvarpsstöð landsins með 29,6% uppsafnaða hlustun yfir vikuna Brynjar Már Valdimarsson er dagskrár- og tónlistarstjóri hennar. Ioannina. Ioannina (gríska Ιωάννινα, borið framm ĺoanína), önnur heiti Jannena eða Jannina, er borg í norð-vesturhluta Grikklands, og höfuðborg Epirus, sem er eitt af 13 héruðum Grikklands. Íbúafjöldinn er u.þ.b. 120000. Aragónska. Aragónska ("aragonés", "idioma aragonés" eða "luenga aragonesa", óformlega: "fabla") er indóevrópskt tungumál af ætt rómanskra tungumála. Aragónska er töluð í Aragón á Spáni af milli 10.000 og 30.000 manns, einkum í sýslum í norðurhluta Aragón og Pýreneafjöllunum. Aragónska dagsins í dag er það sem eimir eftir af navarró-aragónsku, íberísku tungumáli á miðöldum. Staða aragónsku er ekki ósvipuð og staða astúríönsku sem nýtur ákveðinnar verndar en er ekki viðurkennt sem opinbert tungumál. 200px Jamie Foxx. Jamie Foxx (f. Eric Marlon Bishop þann 13. desember 1967) er bandarískur leikari, söngvari og uppistandari. Hann hefur unnið Óskarsverðlaun fyrir leik sinn sem Ray Charles í kvikmyndinni Ray. Fyrir söng sinn hefur hann unnið til Emmy-verðlauna. Are. Are ("Are") er malay-pólýnesískt tungumál sem er talað í Papúa Nýja-Gínea. Króatíska. Króatíska ("Hrvatski") er indóevrópskt tungumál af ætt slavneskra tungumála. Króatíska er rituð með afbrigði af latneska stafrófinu. .pw. .pw er þjóðarlén Palá. Grænmetishyggja. Grænmetishyggja kallast stefna þeirra sem borða eingöngu fæðu úr plönturíkinu s.s. grænmeti, ávexti, ber, baunir, korn, hnetur, fræ og sjávarplöntur. Fylgjendur stefnunna kallast "grænmetisætur". Ekki eru allar stefnur grænmetishyggju svo strangar, en sumir neyta mjólkurvara og eggja. Sumar grænmetisætur forðast að ganga í fatnaði sem er framleiddur með þeim hætti að hann veldur dauða dýra, eins og leður, silki og loðfeldur. "Veganismi" gengur út á það að neyta ekki afurða dýra, hvort sem um er að ræða fæðu eða fatnað (mjólkurvörur, egg, hunang, ull, silki, fjaðrir, o.s.f.v.). Grænmetisætur hafa fjölbreyttar ástæður til grænmetisátu, trúarbrögð, menning, umhverfislegar ástæður, félagslegar, heilsusamlegar og pólitískar. Einar Oddur Kristjánsson. Einar Oddur Kristjánsson (26. desember 1942 á Flateyri – 14. júlí 2007 á Kaldbaki) var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestfjarðakjördæmi og síðar Norðvesturkjördæmi frá 1995 til dánardægurs. Einar Oddur var framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar "Hjálms hf" á Flateyri og var enn fremur stjórnarformaður "Kambs hf" og sat í hreppsnefnd Flateyrarhrepps í rúman áratug. Hann var formaður Vinnuveitendasambands Íslands árin 1989-1992 og var einn helsti lykilmaðurinn í hinni sögufrægu Þjóðarsátt. Einar lést úr hjartaáfalli í fjallgöngu á Kaldbaki. Ratatouille (kvikmynd). Ratatouille er tölvuteiknuð gamanmynd frá árinu 2007. Myndin er framleidd af Pixar og er dreift af Walt Disney Pictures. Myndin fjallar um Rémy (ensk talsetning af Patton Oswalt), frönsk rotta sem býr í París, sem vill verða kokkur. Ratatouille. Ratatouille í skál með brauð. Ratatouille er réttur sem inniheldur soðið grænmeti. Maturinn á uppruna sína í Nice í Frakklandi. Viðfjörður. Viðfjörður er fjörður á Austfjörðum í Suður-Múlasýslu og gengur inn úr Norðfjarðarflóa. Í Viðfirði er samnefnt eyðibýli, en það fór í eyði skömmu eftir 1950. Á bænum er sagt að hafi verið reimt öldum saman og á öðrum fjórðungi 20. aldar gengu draugar þar ljósum logum, leystust upp í eldglæringum, tóku fyrir kverkar fólki og gerðu mönnum hvers konar skráveifur aðrar. Í Viðfirði er Dr. Björn Bjarnason fæddur. Hann var kunnur rithöfundur og fræðimaður. Hlaut hann doktorsnafnbót fyrir rit sitt um íþróttir fornmanna á Norðurlöndum, þýddi fjölda rita, samdi eða sá um útgáfur annarra. Kaldbakur (Vestfjörðum). Kaldbakur er hæsta fjall Vestfjarða, 998 metra hátt. Það liggur milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Aravakíska. Aravakíska ("Arawak") er aravakískt tungumál sem er talað í Súrinam, Gvæjönu, Frönsku Gvæjönu, og Venesúelu af 2.450 manns. Stóra planið. Stóra planið (e. The Higher Force) er óútgefin íslensk gamanmynd. Myndin var frumsýnd 28. mars 2008 í Kringubíói og fór í almenna sýningar sama dag. Útgefendur eru "Poppoli Pictures" í samstarfi við "Kukl ehf." Söguþráður. Myndin fjallar um Davíð (Pétur Jóhann Sigfússon), sem missti litla bróður sinn þegar hann var yngri og hefur síðan leitað sér aðstoðar með því að horfa á kínverskt sölumyndband. Myndbandið heitir "The Higher Force" en Davíð kýs að kalla það "Stóra planið". Davíð er meðlimur í handrukkaragengi en hinir meðlimirnir gera lítið úr honum við hvert tækifæri. Davíð trúir því þó að hans bíði annað stærra lífshlutverk með hjálp "Stóra plansins". Davíð kynnist svo Haraldi (Eggert Þorleifsson), einmana grunnskólakennari, sem ákveður að veita Davíð leiðsögn í lífinu. Síðar trúir Davíð Haraldi fyrir því að hann sé meðlimur í glæpagengi. Haraldur lýgur því þá í Davíð að hann sé sjálfur glæpakóngur. Hann segist flytja ólöglega inn leynilegan varning, eiga sæg af íbúðum og hafi marga grunsamlega menn í vinnu. Þegar hinir meðlimirnir í handrukkaragengi Davíðs frétta að hann þekki Harald, hinn mikla glæpakóng, hætta þeir að gera lítið úr honum og við það verður hann virtur meðlimur í genginu. Davíð er fullviss um að þessi mikla umbreyting eigi hann "Stóra planinu" að þakka. Það líður svo að því að foringi handrukkarafélagsins vill losna við stóra glæpakónginn, Harald, og biður Davíð að láta til skara skríða og ekki síðar en strax. Framleiðsla. "Poppoli Pictures" og "Kukl ehf." starfa saman að framleiðslu kvikmyndarinnar. Þorvarður Björgúlfsson frá "Kukl" mun sjá um stafrænar upptökur á þessari mynd (sjá High-definition video) og þannig tryggja að þessi tiltölulega kostnaðarlitla kvikmynd hafi upp á mikil gæði að bjóða. Upptökur myndarinnar hófust í apríl 2007. Sigurður Skúlason. Sigurður Skúlason (f. 1946) er íslenskur leikari sem hefur leikið mörg aðalhlutverk á sviði, en einnig í bíómyndum og sjónvarpsmyndum. Sveitabrúðkaup. "Sveitabrúðkaup" (enska: "Country Wedding") er íslensk gamanmynd sem forsýnd var þann 28. ágúst 2008 á Íslandi. Leikstjóri var Valdís Óskarsdóttir, kvikmyndaklippari. Söguþráður. Par ákveða að giftast í kirkju út á landi. Keyrsla að kirkjunni ætti að taka eina klukkustund en hlutirnir fara ekki eins og ákveðið var. Áburður. Áburður er efnablanda notuð til að auka vöxt plantna. Hann er ýmist lífrænn (molta, saur og hland búfjár) eða tilbúinn, þá gjarnan búinn til úr efnum sem nauðsynlegar eru plöntum (meginplöntunæringarefnin köfnunarefni, fosfór og kalí; NPK) eða jafnvel búfé. Framleiðsla tilbúins áburðar hófst af alvöru þegar rafgreining andrúmslofts, Haber-Bosch-aðferðin, leiddi til þess að hægt var að vinna úr því ammoníak (NH3). Áburður getur verið í föstu formi eða fljótandi og eru dreifiaðferðir eftir því. Lífrænn áburður. Saur húsdýra er víða notaður sem lífrænn áburður, t.d. "hrossatað" og "kúamykja". ABO-blóðflokkar. ABO-blóðflokka kerfið er mikilvægasta blóðflokkunarkerfið í blóðgjöf manna. Ásta Möller. Ásta Möller (f. 12. janúar 1957 í Reykjavík) er hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Foreldrar hennar voru Agnar Möller fulltrúi og Lea Rakel Möller. Ásta Möller er gift Hauki Þór Haukssyni rekstrarhagfræðingi. Þau eiga fjögur börn. Menntun. Ásta Möller lauk stúdentsprófi frá MH 1976. B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði við HÍ 1980. MPA prófi í opinberri stjórnsýslu við HÍ 2006. Störf. Ásta starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Borgarspítalanum 1980-1982. Fastur stundakennari við HÍ á námsbraut í hjúkrunarfræði 1981-1984, settur adjunkt 1982-1984. Deildarstjóri við öldrunardeild Borgarspítala 1984-1986 og fræðslustjóri á Borgarspítalanum 1987-1992. Formaður Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga 1989-1994 og formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999. Stundakennari við HÍ og HA frá 1981. Framkvæmdastjóri Liðsinnis ehf. 2005. Í stúdentaráði HÍ 1977-1979, varaformaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta við HÍ 1979-1980. Í stjórn Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga 1980-1982, í kjaranefnd Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga 1987-1988. Í öldungaráði Bandalags háskólamanna 1984-1990, í stjórn Bandalags háskólamanna 1996-1998 og í miðstjórn Bandalags háskólamanna 1989-1999. Varaformaður Samtaka hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum 1996-1999. Í stjórn International Council of Nurses (ICN), alþjóðasamtaka hjúkrunarfræðinga frá 1999, varaformaður samtakanna 2001-2005. Í hjúkrunarráði 1996-1999. Í stjórn Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga frá 1994, formaður stjórnar 1997 og 1999, 2004 og 2006. Formaður nefndar um ritun sögu hjúkrunar á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá 2000. Í stjórn heilbrigðis- og trygginganefndar Sjálfstæðisflokksins frá 1990, formaður nefndarinnar 1991-1995 og 2004-2005. Í framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins frá 2005. Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1999-2003 og frá 2005. Í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 2003-2006 og formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna frá 2005. Þingmaður. Ásta Möller var kosin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkin í Reykjavík árið 1999 og sat þar til ársins 2003. Í alþingiskosningunum 2003 náði hún ekki kjöri sem þingmaður en starfaði sem varaþingmaður þegar á reyndi. Hún komst aftur inn á þing þegar Davíð Oddson hætti afskiptum af stjórnmálum, árið 2005. Í Alþingiskosningunum árið 2007 náði hún kjöri sem þingmaður Reykjavíkur-kjördæmis norður. Hún féll af þingi í alþingiskosningunum 2009. Áfangar. Áfangar er ljóð eftir Jón Helgason, ellefu erindi, og birtist fyrst í annarri útgáfu ljóðabókarinnar "Úr landsuðri" árið 1948. Í hverju erindi lýsir höfundur einum stað á landinu í kjarnmiklu ljóðmáli: Kili, Þúfubjargi, Dritvík, Helgafelli, Látrabjargi, Hornströndum, Ólafsfjarðarmúla, Köldukvísl, Herðubreiðarlindum, Lakagígum og Lómagnúpi. Aabenraa. Aabenraa (einnig Åbenrå, (þýsku: "Apenrade")) er borg í Danmörku við Åbenrå fjord á Suður-Jótlandi ("Sønderjylland"). Nafnið — "Aabenraa", sem borið er fram "Affenrå" á staðbundinni málýsku — þýddi upprunalega „opin strönd“ (á dönsku, "åben strand"). Argobba. Argobba ("አአአ", í latnesku stafrófii: "Argobba") er semískt tungumál sem er talað í Eþíópíu norðvestur Addis-Ababa, höfuðborg Eþíópíu. Hún er mjög svípuð Amharísku. Eins og amharíska, argobba er líka notast við stafróf sem nefnist Ge'ez stafróf. Það eru 4 mállýskur af argobbu, þau eru harar (sem er útdautt), Aliyu Amba, Showa Robit, og Shonke. Mikið fólk sem talar argobbu talar meira amharísku, þess vegna argobba er næstum útdautt. Armenska. Armenska ("Հայերեն") er indóevrópskt tungumál sem talað er í Armeníu og í Nagornó-Karabak, sem er svæði í Aserbaídsjan. Armenska hefur eigið ritmál og eigið stafróf og er áhugavert í augum málfræðinga vegna sérstakrar hljóðfræðilegrar þróunar. Armenska er talin sérstök grein innan indóevrópskra tungumála. Málið á langa bókmenntahefð og er elsti textinn á armensku biblíuþýðing frá fimmtu öld. Nafnorð hafa ekkert málfræðilegt kyn en aftur á móti 7 föll. Stacy Ferguson. "Stacy Ann Ferguson" (fædd 27. mars 1975), betur þekkt undir sviðsnafninu Fergie, er bandarísk söngkona og lagasmiður, fatahönnuður og leikkona. Hún var meðlimur í sjónvarpsþættinum "Kids Incorporated" og í stelpnahópnum "Wild Orchid". Ferguson var líka einn umsjónarmaður þáttanna "Great Pretenders". Hún er söngkona í hip-hop/pop bandinu Black Eyed Peas en hún er einnig sóló-söngkona og gaf út sína fyrstu plötu, "The Dutchess", í september 2006. Æska. Fergie fæddist í Hacienda Heights í Kaliforníu og er dóttir Terri Jackson og Patrick Ferguson. Foreldrar hennar eru af mexíkóskum-, írskum-, skoskum- og indjánaættum. Stacy er dóttir trúaðra kaþólskra kennara og var alin upp í úthverfi með sterkum gildum rómanskra kaþólikkaþ Hún gekk í Mesa Robles-grunnskólann og Glen A. Wilson-menntaskólann. Hún lærði dans og byrjaði að tala inn á teiknimyndir og veitti Sally rödd sína í Peanuts teiknimyndunum. Á árunum 1984 til 1989 lék hún í sjónvarpsþættinum "Kids Incorporated". Allan þann tíma var hún klappstýra, með góðar einkunnir (A í öllum fögum) og var meistari í stöfunarkeppnum en líka skáti. Leiklistarferill. Sem barnaleikkona var Stacy í sjónvarpsþættinum "Kids Incorporated" í nokkur ár með sjónvarpssystur sinni, Renee Sands, sem varð síðan meðlimur í "Wild Orchid". Stacy var rödd Sally Brown í nokkrum Charlie Brown-myndum: "It's Flashbeagle", Charlie Brown" (1984) og "Snoopy's Gettin Married, Charlie Brown" (1985). Hún lék Ann í "Married... with Children" (1994) og "Nooner or Nothing". Árið 2003 fékk Fergie gestahlutverk í "Nickelodeon" í sérstökum þætti sem hét "Big Beach Break", hún lék pop stjörnu sem hét Shaffika. Í mars 2005 var hún ráðin í endurgerð kvikmyndarinnar "John Carpenter's the Fog", hún hætti við á síðustu stundu og fékk Selma Blair hlutverkið. Stacy sneri aftur í leiklistina árið 2006 og lék söngkonu í endurgerð kvikmyndarinnar um "Poseidon ævintýrið". Hún lék síðar í Grindhouse árið 2007. Í nóvember 2009 kemur myndin "Nine" í bíó þar sem Fergie leikur aukahlutverk. Einkalíf. Ferguson giftist leikaranum Josh Duhamel þann 10. janúar 2009. Þau hittust og byrjuðu saman í september 2004 þegar þau hittust þegar hún og bandið hennar komu fram í Las Vegas, þætti sem Duhamel lék í (þátturinn heitir "Montecito Lancers" og var sýndur 1. nóvember 2004). Stacy og Josh búa í Brentwood í Kaliforníu í húsi sem þau keyptu saman árið 2007. Í apríl 2007 gaf hún viðtal og í því játaði hún að hún hafi stundað mikið kynlíf og notað mikið af eiturlyfjum þegar hún varð átján ára og sagði: „Ég átti lesbíska reynslu í fortíðinni. Ég vil ekki segja hvað ég hef sofið hjá mörgum mönnum — en ég er mikið fyrir það að stunda kynlíf“. Í maí 2009 tilkynnti Fergie að hún væri tvíkynhneigð. Ferguson hefur sagt nokkrum sinnum að hún noti dáleiðslu reglulega til þess að halda sig frá eiturlyfjum og til þess að slaka á. Wild Orcid: 1991 - 2001. Fergie var meðlimur í stúlknatríóinu "Wild Orchid" og voru Stefanie Ridel og vinkona Fergie og "Kids Incorporated", Renee Sandstrom einnig meðlimir. Wild Orchid gaf út tvær plötur en eftir að hafa lokið þeirri þriðju neitaði útgáfufyrirtækið að gefa hana út og yfirgaf Fergie hópinn stuttu eftir það. Black Eyed Peas: 2003 –. Árið 2003 var Black Eyed Peas að taka upp þriðju plötuna sína, "Elephunk", þegar William Adams bauð Ferguson að koma og prófa að syngja fyrir lagið „Shut Up“. Hún fékk söng í laginu og tengdist meðlimum hljómsveitarinnar svo vel að hún tók upp fimm fleiri lög með þeim sem eru á plötunni. Um vorið, rétt áður en Elephunk kom út, bauð Jimmy Iovine frá Interscope, Fergie að fylla upp í skarðið sem bakraddasöngkonan Kim Hill hafði skilið eftir þegar hún hætti í hljómsveitinni árið 2000. Þegar Adams (will.i.am) var beðinn um að safna félögum sínum saman, kallaði hann Fergie "líkama" bandsins. Eftir að hafa gefið út sólóplötu, gáfu Black Eyed Peas út lagið "Boom Boom Pow" í mars 2009 og fór það í fyrsta sæti Billboard listans. Fergie á MuchMusic verðlaununum árið 2007 Sólóferill síðan 2006. Eftir tvær vinsælar plötur með Black Eyed Peas, byrjaði Fergie sólóferil. Hún tók upp tvö lög fyrir kvikmyndina Poseidon og söng hún lagið "Auld Lang Syne" í myndinni. Sólóplatan hennar, "The Dutchess", kom út þann 19.september 2006. Nafnið er vitlaust stafað nafn Söruh Ferguson, hertogynju (duchess) af York, sem Fergie deilir ættarnafni með. Platan er í svipuðum stíl og Black Eyed Peas og var will.i.am. einn framleiðanda plötunnar. The Dutchess sem innihélt blöndu af popp- og R&B lögum gaf af sér sex mjög vinsælar smáskífur; "London Bridge", "Fergalicious", "Glamorous", "Big Girls Don't Cry", "Clumsy" og "Finally". "Big Girls Don't Cry" var fyrsta lag Fergie sem náði vinsældum um allan heim og er vinsælasta lag hennar til þessa. 18. nóvember 2007 vann Stacy Pop/Rock "Uppáhalds Söngkonan" á American Music Awards. Til viðbótar við það fékk lagið "Big Girls Don't Cry" tilnefningu til Grammy verðlaunanna sem besta frammistaða söngkonu en Amy Winehouse vann verðlaunin. Í desember 2007 valdi Blender Ferguson sem konu ársins. Árið 2008 í "Idol Gives Back" söng Fergie með Ann Wilson úr Heart. Þær tvær (með Nancy Wilson á gítar) sungu lagið "Barracuda". Lagið "Labels or Love" var tekið upp fyrir Sex and the City kvikmyndina. Í viðtali við "Entertainment Weekly" sagði höfundurinn og leikstjórinn að „þetta er algjörlega nýtt lag með texta en það hefur Sex and the City lagið sem grunn — á sterum.“ Ferguson starfaði með japönsku söngkonunni Kumi Koda í laginu "That Ain't Cool" og kom það út á smáskífu Kumi, Moon, sem kom út 11. júní 2008. Hún söng einnig "dúett" með Michael Jackson (röddinni hennar var bætt inn í upptökur Jacksons frá árinu 1982) í laginu "Beat It 2008". Samkvæmt viðtali við "Ahlan! Live.com" er Fergie að leika í myndinni "Nine" í London og eru aðrir leikarar Rob Marshall, Nicole Kidman, Kate Hudson og Daniel Day Lewis. Hún sagði einnig í viðtali að eina núverandi tónlistarverkefnið hennar sé með Black Eyed Peas. Eschweiler. Eschweiler er bær í vesturhluta Þýskalands, u.þ.b. 50 km vestan við Köln og 15 km austan hollensku landamæranna. Árið 2007 bjuggu þar 56.000 manns. Í Eschweiler eru allmargir kastalar og tilbúið stöðuvatn sem heitir "Blausteinsee". Þar var forðum stundaður námugröftur (steinkol, sink, brúnkol). Samgöngur. Járnbrautarstöðvar: "Eschweiler Hbf" (aðaljárnbrautarstöð), "Eschweiler-Aue", "Eschweiler-West", "Eschweiler-Talbahnhof", "Eschweiler-Nothberg" og "Eschweiler-Weisweiler". "Eschweiler-West", "Eschweiler-Ost" og "Weisweiler" (bílabraut A 4 (E 40)). .dm. .dm er þjóðarlén Dóminíku. .mq. .mq er þjóðarlén Martinique. .ht. .ht er þjóðarlén Haítí. Arpitanska. Arpitanska ("Arpitan") er rómanskt tungumál sem er talað á Ítalíu, Frakklandi og Sviss. Hún er opinbert tungumál í héraði á Ítalíu sem heitir Ágústudalur. Arvaníska. Arvaníska ("Arbërisht") er tungumál sem talað er í Grikklandi, en það er nær útdautt. Málið svipar mjög til albönsku. Harry Potter og fanginn frá Azkaban. Harry Potter og fanginn frá Azkaban er þriðja bókin um galdrastrákinn Harry Potter eftir J.K. Rowling. Bókin kom upprunalega út á ensku árið 1999 og heitir á frummálinu "Harry Potter and the Prisoner of Azkaban". Bókaútgáfan Bjartur gaf bókina út á Íslandi á íslensku árið 2000. Samnefnd kvikmynd sem gerð var eftir bókinni var frumsýnd árið 2004. Daniel Radcliffe, Rupert Grint og Emma Watson fóru með aðalhlutverkin. Harry Potter snýr aftur til Hogwarts en núna er morðingin Sirius Black á eftir honum. Black átti að hafa svikið foreldra Harrys og Harry langar að hefna sín. Þegar Harry loks hittir Black finnur hann út að Black sveik foreldra hans ekki heldur Peter, fyrverandi vinur Blacks. Peter nær að flýja svo Black hefur enga sönnun fyrir því að hann var ekki morðingi. 3 Stefán Logi Magnússon. Stefán Logi Magnússon (5. september 1980) er íslenskur markvöður og var aðalmarkvörður KR. Stefán spilaði upp yngstu flokka Víkings en fór síðar til Fram. Hann gekk til liðs við unglingalið Bayern Munchen í júlí árið 1997 og varð góður vinur Owen Hargreaves. Tveimur árum seinna fór hann til Öster í sænsku 2. deildinni, og tveimur árum eftir það hélt hann til Farum í Danmörku. Snemma árs 2003 fór Stefán til Bradford í ensku fyrstu deildinni. Þaðan fór hann til Víkinga, Þróttara, KS/Leifturs og loks KR. Hann sat á bekknum í fyrstu leikjum sínum hjá KR en fékk tækifæri í leik liðsins gegn Fram þar sem hann stóð sig vel og varði m.a. vítaspyrnu. Síðan þá átti hann fast sæti í byrjunarliði KR-inga, og varð Bikarmeistari með þeim 2008. Árið 2009 fór hann á lánasamningi til Lilleström, og sló í gegn í fyrsta leiknum sínum með þeim Aachen. Stytta af Karlamagnúsi fyrir framan ráðhúsið Aachen er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 259 þúsund íbúa. Hún er vestasta borgin í Þýskalandi. Aachen er þekktust fyrir að vera aðsetur Karlamagnúsar og var sem slík höfuðborg og krýningaborg þýska ríkisins. Karlamagnús hvílir í dómkirkjunni í borginni, sem jafnframt er á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Aachen liggur vestast í sambandslandinu, nokkuð fyrir suðvestan Ruhr-héraðið. Hún er vestasta borg Þýskalands og liggur við hollensku og belgísku landamærin. Næstu borgir eru Köln til austurs (50 km), Maastricht í Hollandi til vesturs (20 km) og Liége í Belgíu til suðvesturs (30 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Aachen sýnir svartan örn á gulum grunni. Örninn er tákn um gamla þýska ríkið, enda var Aachen keisaraborg. Örninn er búinn að vera tákn borgarinnar í margar aldir og hefur breyst örlítið með tímanum. Síðustu breytingar áttu sér stað 1980. Orðsifjar. Nafnið Aachen er vatnanafn eða árnafn og er dregið af gamla germanska orðinu "Ahha" eða "Ache", sem aftur er dregið af latneska orðinu "aqua", sem merkir "vatn". Á 8. öld hét bærinn Aquis Villa ("Vatnabær"). Meintar eru uppsprettur sem lengi hafa verið notaðar við böð og heilsuböð. Aachen heitir öðru nafni á hinum ýmsu tungumálum. Franska: Aix-la-Chapelle. Latína: Aquisgranum. Hollenska: Aken. Keisaraborgin. Það voru Rómverjar sem fyrstir settust að á núverandi borgarstæði. Þeir fundu lindir sem þeir notuðu fyrir böð. Bærinn sem Rómverjar reistu var þó ekki stór, enda við jaðar Rómaveldis. Rómverjar hurfu í upphafi 5. aldar og settust þá germanir að í bænum, ekki síst frankar. Árið 765 kemur Aachen fyrst við skjöl er Pippin yngri frankakonungur hélt upp á jólin þar og páska árið eftir. Sonur hans, Karlamagnús, lét reisa kastalavirki í Aachen og gerði staðinn að aðalaðsetri sínu. Það með varð Aachen að höfuðborg hins mikla frankaríkis. Karlamagnús varð síðan fyrsti keisari hins mikla ríkis. Hann lét einnig reisa dómkirkjuna. Árið 817 lét Karlamagnús krýna son sinn Lúðvík hinn fróma til meðkonungs í Aachen. Síðan þá hafa rúmlega 30 konungar þýska ríkisins verið krýndir í dómkirkjunni í Aachen og voru margir þeirra seinna krýndir til keisara. Síðasta krýningin í Aachen fór fram 1531 er Ferdinand I var krýndur til konungs. Seinni konungar voru að mestu leyti krýndir í Frankfurt. Margir konunganna og keisaranna hvíla í dómkirkjunni í Aachen. Hún er enn talinn mesta keisaraborg Þýskalands. Fríborg. Friðrik Barbarossa var krýndur til konungs í Aachen 1152. Hann lét gagnpáfann Pascalis III lýsa Karlamagnús heilagan árið 1165. Á næsta ári gerði hann Aachen að fríborg í ríkinu. Borgin fékk skömmu seinna veglega borgarmúra, sem kölluðust Barbarossamúrar. 1248 varð Vilhjálmur frá Hollandi gagnkonungur í þýska ríkinu, meðan Friðrik II var keisari. Vilhjálmur vildi láta krýna sig í Aachen, en borgarbúar lokuðu á hann borgarhliðunum og stóðu fast með Friðriki keisara. Vilhjálmur lét því gera umsátur um borgina. Eftir nokkra mánuði fór honum þó að leiðast þófið og lét gera stíflur í nokkra læki sem runnu í gegnum Aachen. Fyrir vikið hækkaði í þeim vatnið og flæddi út um alla borg. Borgarbúar gáfust loks upp eftir sex mánaða úthald og var Vilhjálmur þá krýndur. Til krýninga konunga voru þrjú ríkisdjásn notuð: Myndabók guðspjallamannanna, Stefánsskrínið (með mold frá Jerúsalem og dreypt með blóði heilags Stefáns) og korði Karlamagnúsar. Þessi ríkisdjásn voru í fyrsta sinn notuð í helgigöngu í Aachen 1349. Síðan þá hefur helgigangan farið fram á sjö ára fresti í Aachen, sem varð ein af mest sóttu pílagrímsstöðum kristninnar í Evrópu. Siðaskiptin. Siðaskiptin gengu hægt fyrir sig í Aachen. Það var ekki fyrr en eftir 1560 að nokkrir íbúar snerust til lúterstrúar. En með tilkomu hollenskra innflytjenda stórjókst hlutfall lúterstrúarmanna í borginni. 1581 voru lúterskir borgarráðsmenn í fyrsta sinn í meirihluta í borgarráðinu. Þá voru sett lög um trúfrelsi í borginni og í raun voru allir sáttir við aðstæður. En keisaranum, Rúdolf II, mislíkaði að keisaraborgin skyldi snúast til lúterstrúar. Hann sjálfur hafði verið krýndur til konungs í Regensburg í Bæjaralandi. Seinasta konungskrýningin í Aachen hafði farið fram 1531. Rúdolf setti ríkisbann á borgina og í kjölfarið varð borgarráð eingöngu skipað kaþólikkum. Þeir stóðu hins vegar andspænis lúterskum íbúum borgarinnar, sem þar voru í miklum meirihluta. Í fyrstu varð ágreiningur lítill, en smájókst með árunum. 1611 voru lúterskar messur bannaðar og lúterstrúarmenn áttu að missa réttindi sín. Þessu gátu borgarbúar ekki unað og gerðu allsherjar uppreisn. Þeir stormuðu í ráðhúsið og handtóku allt borgarráðið. Einnig brutust þeir inn í kaþólskar innréttingar og eyðilögðu ýmislegt þar. Keisarinn krafðist hlýðni af borgarbúum, en hann lést nokkrum mánuðum síðar. Nýr keisari varð Matthías. 1614 sendi hann 16 þúsund manna her undir stjórn Spánverjans Spinola herforingja til Aachen. Þegar herinn birtist við borgarhliðin, urðu borgarbúar svo skelfdir að þeir gáfust upp án þess að einu einasta skoti hafði verið hleypt af. Spinola gekk hart fram gegn lúterstrúarmönnum. Nokkrir voru teknir af lífi, aðrir voru gerðir útlægir. Afleiðingarnar voru þær að kaþólska kirkjan varð einráð í Aachen þar til Frakkar hertóku borgina í upphafi 19. aldar. Bruninn mikli og friðarsamningar. Aachen 1647. Mynd eftir Matthäus Merian 1656 kom eldur upp í bakaríi í borginni. Eldurinn breiddist hratt út og næstu 20 tíma brann nær gjörvöll miðaldaborgin. Opinberar tölur segja til um að 4.664 hús af 5.300 hafi eyðilagst. Þó létust aðeins 17 manns í eldsvoðanum. Í kjölfarið var borgin endurreist sem einn glæsilegasti baðstaður Evrópu. Baðlæknirinn Francois Blondel frá Liége stjórnaði verkinu. Mikið af heldra fólki í Evrópu sótti böðin heim. Þeirra á meðal má nefna Pétur mikla frá Rússlandi og Friðrik mikla konungur Prússlands. Tvisvar fóru fram friðarsamningar í Aachen. 1668 sömdu Frakkar og Spánverjar um frið í fransk-spænska stríðinu en í því hafði Loðvík XIV tekið nokkur landsvæði af spænsku Niðurlöndum. 1748 var aftur samið um frið í Aachen en að þessu sinni í austurríska erfðastríðinu. Stríðið hafði verið nokkurs konar allsherjarstyrjöld í Evrópu og var einnig háð í nýlendum Evrópubúa í Norður-Ameríku og Asíu. Frakkar. Franskur byltingarher þrammaði inn í borgina 1792 og plantaði friðartré á markaðstorginu. Þeir reyndu að koma hugmyndum um frelsi og réttlæti áleiðis. En 1. mars 1793 sigruðu Austurríkismenn Frakka í orrustunni við Aldenhoven og frelsuðu Aachen. Það stóð þó stutt. 22. september sama ár sigruðu Frakkar Austurríkismenn og hertóku borgina á nýjan leik. Að þessu sinni héldu Frakkar borginni og 1797 var hún innlimuð Frakklandi. Napoleon var tíður gestur í Aachen og notaði þá böðin þar óspart. Eitt sinn var meira að segja Jósefína keisaraynja með í för til að njóta baðanna. Sonur Napoleons var skírður í Aachen 1811. Hann lét rífa niður alla borgarmúra og umbreyta ásýnd borgarinnar. Eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi yfirgáfu Frakkar Aachen. 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að Aachen skyldi tilheyra Prússlandi. Prússar. 1818, aðeins þremur árum eftir Vínarfundinn, var haldin Aachen-ráðstefnan. Á henni voru fulltrúar Prússlands, Englands, Rússlands og Austurríkis mættir og ræddu þeir um stríðsskaðabæturnar sem Frakkar höfðu verið að greiða eftir Napoleonsstríðin. Þar var ákveðið að fella niður allar eftirstöðvar. Þjóðhöfðingjarnir sjálfir mættu til borgarinnar og sátu minningarguðsþjónustu um orrustuna við Leipzig sem farið hafði fram fimm árum áður. Þetta voru Friðrik Vilhjálmur III frá Prússlandi, Frans I frá Austurríki og Alexander I frá Rússlandi. 1830 var uppreisn meðal borgarbúa. Tilkoma gufuvélarinnar í vefnaðariðnaði í borginni hafði orsakað mikið atvinnuleysi og fátækt. Iðnbyltingin var hafin. 1841 fékk Aachen járnbrautartengingu. Teinarnir urðu að fara yfir Wurmdalinn. Til þess var reist 275 metra löng járnbrautarbrú og þótti þá mikið afrek. Hún er enn elsta þýska járnbrautarbrúin sem enn er í notkun. Íbúafjöldinn fór yfir 100 þúsund árið 1890 og í 150 þúsund 1906. 20. öldin. Þýskir stríðsfangar þramma um götur Aachen Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri hertóku Frakkar og Belgar borgina. Frakkar yfirgáfu Aachen 1920, en Belgar ekki fyrr en á kreppuárinu 1929. Eftir að nasistar náðu völdum í Aachen 1933, reyndu borgarbúar að mótmæla með því að efna til helgigöngu. 800 þús manns tóku þátt í þessari göngu, sem er enn í dag ein mesta fjöldaganga þýskrar sögu. Í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari voru 40 þúsund þýskir hermenn staðsettir í Aachen. Þeir tóku þátt í innrásinni í Hollandi. Aachen varð fyrir fimm loftárásum í stríðinu og eyðilagðist um 65% borgarinnar. 1944 létu nasistar rýma borgina að mestu og breyttu henni í vígi. Þeir höfðu á 5.000 manna herliði að skipa. Í október réðust Bandaríkjamenn á borgina og nærsveitir. Þeir náðu ekki að hertaka hana fyrr en eftir tveggja vikna bardaga og var hún þá fyrsta þýska borgin sem féll í hendur bandamanna. Aðeins 11 þús almennir borgarar voru þá eftir í borginni. Strax var hafist handa við að endurreisa Aachen og náði íbúatalan 100 þúsund á ný 1946 en hún var sett í hið nýstofnaða sambandsland Norðurrín-Vestfalíu. Bandaríkjamenn hurfu úr borginni og við tóku breskir og belgískir hermenn. 1950 voru Karlsverðlaunin stofnuð í Aachen, en það eru friðarverðlaun nefnd eftir Karlamagnúsi. Margir þekktir leiðtogar Evrópu hafa hlotið þessi verðlaun, þar á meðal Angela Merkel, Gro Harlem Brundtland, Václav Havel og Jóhannes Páll II páfi. Íþróttir. Í Aachen fór fyrsta alþjóða hestaíþróttin fram árið 1925. Síðan þá hefur hestamót farið fram árlega í borginni. Hér er um stökkmót, göngumót ("Dressur") og hestvagnahlaup að ræða, allt í senn. HM 2006 í hestaíþróttum fór fram í Aachen. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Alemannia Aachen sem leikur ýmist í 1. eða 2. deild. Besti árangur félagsins er 2. sæti 1969. Liðið hefur þrisvar komist í úrslit bikarkeppninnar, síðast 2004 (tapaði þá fyrir Werder Bremen). Viðburðir. Loftmynd af skemmtigarðinum Öcher Bend Jeppe Aakjær. Jeppe Aakjær (f. 10. september 1866 – d. 22. apríl 1930) var danskt ljóðskáld og skáldsagnahöfundur. Aakjær fylgdi þjóðernisstefnunni. Helsta viðfangsefni hans var Jótland. Hann var einnig þekktur fyrir að lýsa í ljóðum sínum áhyggjum af fátækt og lenti tvítugur í fangelsi fyrir sósíalískar skoðanir sínar. Frá 1907 til dauðadags bjó hann á sínum eigin bóndabæ í Jenle þar sem hann fékk mikinn frið til að yrkja ljóð og skrifa skáldsögur sínar. Hann var einn af "Limafjarðarskáldunum" ásamt t.d. Johannes V. Jensen, Jakob Knudsen og Johan Skjoldborg. Sigþór Júlíusson. Sigþór Júlíusson (27. apríl 1975) er fyrrverandi knattspyrnumaður sem lék í stöðu varnarmanns. Sigþór lék upp yngri flokka Völsungs. Hann hefur leikið með KA, KR og Val, en hann varð Íslandsmeistari með KR árin 1999, 2000, 2002 og 2003. Sigþór fór síðar til Vals en snéri aftur til KR 31. júlí 2006. Hann var lengi meiddur á tímabilinu 2007, en snéri til baka undir lok þess. Sigþór hætti knattspyrnuiðkun eftir tímabilið 2007. Michael Martin. Michael L. Martin (f. 3. febrúar 1932) er bandarískur heimspekingur og prófessor "emeritus" við Boston-háskóla. Martin hefur einkum fengist við trúarheimspeki en einnig vísindaheimspeki og réttarheimspeki. Martin hefur gefið út nokkrar bækur þar sem hann ver trúleysi og færir mótrök gegn guðssönnunum. Martin er náttúruhyggjumaður en ekki gallharður efnishyggjumaður; hann trúir á tilvist óhlutbundinna fyrirbæra svo sem stærfræðilegra og siðferðilegra fyrirbæra. Tilvísanir. Martin, Michael Martin, Michael Martin, Michael Guðmundur J. Guðmundsson. Guðmundur Jóhann Guðmundsson (f. í Reykjavík 22. janúar 1927, d. 12. júní 1997), oft nefndur "Guðmundur Jaki" eða "Gvendur Jaki", var íslenskur stjórnmálamaður og verkalýðsleiðtogi. Hann var þingmaður Alþýðubandalagsins á árunum 1979-87. Guðmundur stundaði nám við gagnfræðiskóla á árunum 1941-44. Hann sótti ekki frekar nám en vann sem verkamaður og lögreglumaður á Siglufirði 1946-50. Hann réðist til starfa hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1953. Hann starfaði í miðstjórn Sósíalistaflokksins árin 1954-67 sem og Alþýðubandalagsins árin 1956-87. ABC-ríkin. ABC-ríkin þrjú – Argentína, Brasilía og Chile ABC-ríkin er hugtak sem stundum eru notað um þrjú auðugustu ríki Suður-Ameríku; Argentínu, Brasilíu og Chile. Hugtakið má rekja til upphafs 20. aldar. Peter Abrahams. Peter Henry Abrahams (f. 3. mars 1919) er suður-afrískur skáldsagnahöfundur. Hann helsta umfangsefni var kynþáttahatur. Ångström. Ångström (oft skrifað Aangstroem) er lengdareining notuð í frumeindaeðlisfræði og efnafræði, skammstöfuð með Å eða A. Er nefnd í höfuðið á sænskum eðlisfræðingi, Anders Jonas Ångstöm (1814 - 1874), en er ekki SI-mælieining. Þvermál algengustu frumeinda er af stærðargráðunni 1 Å. Eitt ångstöm jafngildir 0,1 nanómetra, þ.e. 1 Å = 10-10 m. Fermí. Fermí (ítölsku: Fermi) er fjarlægðaeining notuð í kjarneðlisfræði, skammstöfuð með fm. Er nefnd í höfuðið á Enrico Fermi, en er ekki SI-mælieining. Þvermál kjarneinda er um 1 fm. Eitt fermí jafngildir einum femtómetra, þ.e. 1 fm = 10-15 m. Rigning. Rigning (eða regn) er úrkoma, sem fellur til jarðar sem vatnsdropar, stærri en 0,5 mm. Rigning fellur úr regnþykkni eða grábliku, en einnig úr flákaskýjum séu þau undir grábliku sem rignir úr. Helregn er rigning menguð helryki. Súld. Súld eða úði er úrkoma, sem fellur til jarðar sem tiltölulega smáir vatnsdropar (þ.e. minni en 0,5 mm) og fellur úr þokuskýjum. (Sjá einnig rigning.) Samheiti. Súld á sér mörg samheiti á íslensku. Þar má t.d. nefna: "fylja, hraunasubbi, hraunsubb, léttingsúði, myrja, regnhjúfur, regnsalli, regnsubba, regnýra, regnýringur, sallarigning, skúraslæða, sori, suddarigning, suddi, súldra, syrja, úðahjúfringur, úðaregn, úðarigning, úr, úrvæta, ysja, ysjurigning, ýra, ýringur". Asímál. Asímál ("Asi") er malay-pólýnesískt tungumál sem er talað í Filippseyjum. Askúnska. Askúnska ("اشکن") er indóíranskt tungumál sem er talað í Pechdalnum, héruð sem liggur í Afganistan. Hún er talað af 1.200 manns. Kai Nielsen. Kai Nielsen (fæddur 1926) er kanadískur heimspekingur og prófessor "emeritus" við háskólann í Calgary. Hann kennir um þessar mundir heimspeki við Concordia-háskólann í Montreal í Kanada. Nielsen kenndi áður við New York-háskóla (NYU). Nielsen fæst einkum við heimspeki heimspekinnar, siðfræði, félagslega heimspeki og stjórnspeki. Hann hefur einnig skrifað um trúarheimspeki, en hann er yfirlýstur trúleysingi. Hann er einnig þekktur fyrir að verja nytjastefnu gegn gagnrýni Bernards Williams. Nielsen lauk B.A.-gráðu frá Norður-Karólínuháskóla í Chapel Hill og doktorsgráðu frá Duke-háskóla. Hann hefur samið 32 bækur og á fimmta hundrað greina. Hann var einn stofnenda "Canadian Journal of Philosophy". Bækur. Nielsen, Kai Nielsen, Kai Nielsen, Kai .ls. .ls er þjóðarlén Lesótó. .zw. .zw er þjóðarlén Simbabve. Sýrustig. Sýrustig (hugtakið pH-gildi er notað þegar tala er tilgreind) er í efnafræði mælikvarði fyrir hversu súr vökvi er. Sýrustig er skilgreint sem logrinn af umhverfu styrks vetnisjóna í lausninni. Gildi frá 0 til 7 tákna súra lausn, þ.e. sýru (því súrari sem gildið er lægra), gildið 7 táknar hlutlausa lausn, og gildi frá 7 og upp í 14 táknar basíska lausn (því basískari sem gildið er hærra). Mælingar sýrustigs. Þar sem sýrustigsskalinn er á lograskala byrjar hann ekki á núlli. 2. deild karla í knattspyrnu. 2. deild karla í knattspyrnu er þriðja hæsta deildin í íslenskri knattspyrnu. Deildin var stofnuð árið 1966 undir nafninu "3. deild" og hélt því nafni til 1997 þegar nafninu var breytt í núverandi nafn. Íþróttafélagið Þór Akureyri. Íþróttafélagið Þór er íþróttafélag sem er starfrækt á Akureyri. Það var stofnað árið 1915 en árið 1928 rann það saman við Knattspyrnufélag Akureyrar og mynduðu Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA). Því samstarfi var slitið árið 1974 og urðu félögin aftur að Þór og KA. Innan félagsins eru stundaðar margar íþróttagreinar, meðal annars fótbolti, körfubolti og tae-kwon-do. Handboltadeild félagsins sameinaðist KA árið 2006 undir merkjum Akureyri Handboltafélag. Saga. Íþróttafélagið Þór var stofnað 6. júní 1915, og er elsta starfandi íþróttafélag á Akureyri. Stofnandi félagsins var Friðrik Einarsson og var einnig fyrsti formaður þess. Friðrik var tæplega 15 ára gamall þegar hann stofnaði félagið, ásamt nokkrum öðrum 12-15 ára drengjum á Oddeyri. Í fyrstu hét félagið Íþróttafélag Oddeyringa, Þór. Drengirnir hófu æfingar strax við stofnun, undir stjórn Friðriks sem var óumdeildur leiðtogi hópsins. Samkvæmt fyrstu lögum Þórs, sem samþykkt voru á stofnfundinum 6. júní 1915, gátu aðeins þeir orðið félagar sem voru á aldrinum 10-15 ára. "Undantekning verður veitt ef það er samþykkt á fundi" segir í lögunum. Aðeins drengir voru í félaginu framan af en fyrstu stúlkurnar gengu í Þór 14. janúar 1934, fimm talsins. Heimildir herma að innganga þeirra hafi mætt nokkurri andstöðu. Athygli vekur að í þessum fyrstu lögum er skýrt tekið fram að þeir sem gangi í félagið megi hvorki neyta áfengis né tóbaks og þeir sem brjóta af sér þrisvar, svo upp komist, eru burtrækir úr félaginu. Þá er kveðið á um það að þeir, sem hylma yfir með félaga sem brýtur af sér, séu jafnsekir. Þór Þór Ungmennafélagið Víkingur. Ungmennafélagið Víkingur er íþróttafélag sem er staðsett í Ólafsvík og var stofnað 7.október 1928. Liðið spilar heimaleiki sína á Ólafsvíkurvelli. Knattspyrnulið félagsins tryggði sér í fyrsta sinn þátttökurétt í efstu deild karla 2013. Ungmennafélagið Stjarnan. Ungmennafélagið Stjarnan er staðsett í Garðabæ. Félagið teflir fram knattspyrnuliði sem að er í Úrvalsdeild karla og í úrvalsdeild kvenna. Félagið á handknattleikslið í efstu deild í handbolta, bæði kvenna og karla bikarmeistari nokkrum sinnum í karla og kvennaflokki og unnið Íslandsmótið í kvennahandbolta. Í blaki á félagið mjög sterkt lið, og var m.a. Íslandsmeistari í blaki karla árið 2007. Stjarnan teflir einnig fram sterku körfuknattleiksliði sem leikur í efstu deild karla sem urðu Bikarmeistarar 2009. Tenglar. Stjarnan Stjarnan Stjarnan Stjarnan Stjarnan Stjarnan Atvinnubótavinna. Atvinnubótavinna er ein þeirra aðferða sem ríkisstjórnir nota til að slá á áhrif atvinnuleysis. Í stað þess að fá þá atvinnuleysisbætur sinna einstaklingar vinnu fyrir svipaða upphæð við opinberar framkvæmdir, til dæmis vegavinnu. Reynir Sandgerði. Reynir Sandgerði er íþróttafélag í Sandgerði. Innan félagsins er hægt að stunda ýmsar íþróttir m.a. sund, körfubolta og knattspyrnu. Knattspyrnulið félagsins er fyrsta liðið til að vinna sér beint inn þátttökurétt í 1. deild með því að ná 3. sæti í 2. deild. Ungmennafélag Njarðvíkur. Ungmennafélag Njarðvíkur er íþróttafélag í Njarðvík. Félagið er með knattspyrnulið í 2. deild karla í knattspyrnu og teflir einnig fram sterku körfuknattleiksliði í Iceland Express deild karla. Árangur. Besti árangur: 6 sæti í B deild 1982, 1985 og 2003. Bikarkeppni KSÍ: 16 liða úrslit 1968, 1972, 1985, 2004, 2005 og 2006. 13-0 gegn Hvatberum D. deild 1993. 10-0 gegn Sindra C. deild 2006. 0 - 8 gegn Víði C. deild 1972. 0 - 8 gegn Þrótti R. B. deild 1986.. Íþróttafélagið Leiknir. Íþróttafélagið Leiknir, Reykjavík var stofnað 17. maí 1973 í vinnuskúr sem staðsettur var við Iðufell. Besti árangur liðsins er 3. sæti í B-deild 2010 og 16-liða úrslit í bikarkeppni KSÍ 2006. Þekktasti leikmaður Leiknis frá upphafi er Rúnar Kristinsson en hann hóf sinn feril hjá félaginu og lék á landsliðsferli sínum 106 landsleiki. Félagið er staðsett í Efra-Breiðholti í Reykjavík og hefur nú til umráða frábært félagsheimili sem þeir tóku í gagnið 2010. Tengill. Leiknir Kópavogsþing. Þingstaður var í Kópavogi og 1574 var gefið út konungsbréf sem mælti um að Alþingi yrði flutt af Þingvöllum í Kópavog. Það kom þó aldrei til framkvæmda. Kópavogur hafði það sér einna helst til framdráttar að vera miðja vegu milli Reykjavíkur og Bessastaða þar sem embættismenn konungs dvöldu. Elsta ritaða heimild um þinghald í Kópavogi er dómur dagsettur 1. júní 1523 þegar Týli Pétursson, fyrrum hirðstjóri, var dæmdur fyrir aðför að þáverandi hirðstjóra Hannesi Eggertssyni. 1753 var þingið flutt til Reykjavíkur. Þekktasti atburður í sögu Kópavogsþings er án efa Kópavogsfundurinn. 28. júlí árið 1662 gengu íslenskir forystumenn til fundar við Henrik Bjelke höfuðsmann að þingstaðnum í Kópavogi. Þar var gengið frá erfðahyllingu Friðriks 3. Danakonungs og einveldisskuldbindingu Íslendinga, tilskipunin hafði komið of seint til að hægt hefði verið að vinna eiðana á Alþingi og voru forsvarsmennirnir 107 því boðaðir í Kópavog. Knattspyrnufélag Akureyrar. Knattspyrnufélag Akureyrar (K.A.) er íþróttafélag á Akureyri. Hjá KA er boðið upp á að stunda fjórar íþróttagreinar: blak, handbolta, júdó og knattspyrnu. Knattspyrnulið KA lék lengi vel í efstu deild karla í knattspyrnu og varð Íslandsmeistari í knattspyrnu árið 1989, en Íslandsmeistartitilinn hefur aldrei farið lengra frá höfuðborgarsvæðinu en þá. K.A. er stundum kallað "Akureyrarstoltið". Saga K.A.. Knattspyrnufélag Akureyrar var stofnað 8. janúar 1928 á heimili hjónanna Margrétar og Axels Schiöth bakara, að Hafnarstræti 23, með það að leiðarljósi að efla íþróttaiðkunn á Akureyri. Að stofnun félagsins komu: Alfred Lillendahl, Arngrímur Árnason, Eðvarð Sigurgeirsson, Einar Björnsson, Georg Pálsson, Gunnar H. Kristjánsson, Helgi Schiöth, Jón Sigurgeirsson, Jónas G. Jónsson, Karl L. Benediktsson, Kristján Kristjánsson og Tómas Steingrímsson. Meistaraflokkur karla. Bjarni Jóhannsson er þjálfari meistaraflokks karla. Pétur Ólafsson er yfirþjálfari allra flokka knattspyrnudeildar KA. Tengill. Akureyri Akureyri Akureyri Akureyri Ungmennafélag Grindavíkur. Ungmennafélag Grindavíkur er íþróttafélag í Grindavík. Félagið á sterk lið í körfubolta og knattspyrnu. Knattspyrnulið félagsins leikur nú í Pepsi deild karla. Friðrik 3. Danakonungur. Friðrik 3. (18. mars 1609 - 9. febrúar 1670) var konungur Danmerkur 1648 - 1670. Hann innleiddi einveldi í ríkjum sínum, þar á meðal á Íslandi, og var erfðahyllingin undirrituð á Kópavogsfundinum árið 1662. Friðrik var næstelsti sonur Kristjáns 4. og Önnu Katrínar af Brandenborg. Eldri bróðir hans, Kristján krónprins, dó barnlaus árið 1647 og varð Friðrik þá ríkiserfingi og tók við eftir lát föður síns ári síðar. Hann var vel menntaður, meðal annars í guðfræði, náttúrúvísindum, fornfræði og ríkisrétti. Þegar hann tók við ríkjum hafði hann dvalið frá barnsaldri í þýsku hertogadæmunum og var meðal annars biskup Brimaborgar (Bremen) frá 1635. Helstu ráðgjafar hans voru þýskir og danska ríkisráðið treysti honum því illa svo að þegar hann tók við ríkum var hann látinn undirrita yfirlýsingu sem jók völd ríkisráðsins umtalsvert. Skipti konungur sér lítið af stjórn landsins fyrstu árin. Á meðan stjórnuðu mágar hans mestu, þeir Corfitz Ulfeldt, sem var giftur Leonoru Christinu, og Hannibal Sehested, sem giftur var Christiane systur konungs. Þegar skarst í odda með ríkisráðinu og mágum konungs tók hann afstöðu með ríkisráðinu og Ulfeldt og Sehested misstu öll völd og embætti og Ulfeldt var dæmdur fyrir landráð. Leonora Christina, systir konungs, var dæmd meðsek og sat í fangelsi í Bláturni í 22 ár. Þetta varð jafnframt til þess að konungur styrkti mjög völd sín. Sehested komst reyndar aftur í náðina hjá mági sínum. Danir fóru í stríð við Svía 1657 og hugðust grípa tækifærið á meðan Karl 10. Gústaf var önnum kafinn við stríðsrekstur í Póllandi, en hann leiddi her sinn yfir hertogadæmin og Jótland og þegar vetur gekk í garð og dönsku sundin lagði tókst Svíum að komast á ís yfir til Fjóns og síðan Sjálands og Friðrik neyddist til að gefast upp. Með friðarsamningunum í Hróarskeldu 1658 neyddust Danir til að afsala sér Skáni, Hallandi, Blekinge, Bóhúsléni og Þrændalögum. Friðarsamningarnir héldu þó ekki og Karl Gústaf settist um Kaupmannahöfn. Friðrik konungur tók sjálfur þátt í vörn borgarinnar og varð gífurlega vinsæll, Svíum varð ekkert ágengt og eftir að Karl Gústaf lést 1660 var saminn friður á ný. Svíar héldu mestöllum landvinningum sínum, nema Þrændalögum. Fjárhagur danska ríkisins var í rúst eftir ófriðinn og ljóst að leggja þyrfti á þunga skatta. Aðallinn var mótfallinn því en fékk engu ráðið, ekki síst vegna vinsælda konungs, og á stéttaþingi sem kallað var saman 1660 var Danmörk gerð að erfðaríki. Konungur lýsti sig einvaldan og afturkallaði forréttindi aðalsins, sem þar með missti völd sín að miklu leyti. Fulltrúar stéttanna sóru konunginum erfðahyllingareið 18. október 1660 en á Íslandi fór erfðahyllingin fram á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662. Friðrik 3. var vel menntaður og hafði áhuga á guðfræði og ýmsum vísindum. Hann stofnaði Konunglega bókasafnið um það leyti sem hann tók við ríkjum og var uppistaðan í því bækur úr safni hans sjálfs. Árið 1643 kvæntist hann Soffíu Amalíu af Braunschweig-Lüneburg (1628-1685) en þau voru þremenningar, bæði komin af Kristjáni 3. Þau eignuðust saman átta börn. Ungmennafélagið Fjölnir. Ungmennafélagið Fjölnir er íþróttafélag sem að er í Grafarvoginum. Félagið á sterkt lið í kvenna knattspyrnunni, í Landsbankadeild kvenna. Meistaraflokkur karla tryggði sér sæti í Landsbankadeild karla árið 2007 og mun spila í Landsbankadeild karla í fyrsta skiptið árið 2008. Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Fjölnir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar. Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar er knattspyrnufélag í Fjarðabyggð. Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar var stofnað árið 2001 utan um rekstur meistaraflokka karla og kvenna þeirra þriggja aðildarfélaga sem að KFF standa. Þau eru Austri Eskifirði, Valur Reyðarfirði og Þróttur Neskaupstað. Fyrstu þrjú árin var karlaliðið í 3. deild og komst ávallt í úrslitakeppnina en var slegið út af KFS árið 2001, Fjölni árið 2002 og Leikni R. Leikni R. árið 2003. Árið 2004 tókst svo langþráð markmið, að komast upp í 2. deild eftir að hafa sigrað Núma í átta liða úrslitum og Reyni Sandgerði í fjögurra liða úrslitum. Þetta var fyrsta ár Elvars Jónssonar og Heimis Þorsteinssonar sem þjálfarar og heldur betur góð byrjun. Árið 2005 spilaði svo KFF í 2. deild í fyrsta skipti og náði 4. sæti á fyrsta sumri undir stjórn heimamannana Elvars og Heimis. Í lok árs 2005 var Þorvaldur Örlygsson ráðinn þjálfari liðsins og Elvar Jónsson var honum til aðstoðar. Frábær árangur fylgdi í kjölfarið og sigruðu strákarnir 2. deild sumarið 2006 og ljóst að leikið yrði í 1. deild sumarið 2007. Það sumar náði svo KFF 5. sæti í 1. deildinni. Þorvaldur réð sig síðan til úrvalsdeildarliðs Fram haustið 2007 og með honum fylgdi einn sterkasti maður KFF Halldór Hermann Jónsson sem alla tíð hafði spilað með Fjarðabyggð. Í kjölfarið fór Jón Gunnar Eysteinsson í úrvalsdeildarlið Keflavíkur eftir að félögin höfðu komist að samkomulagi um það. Magni Fannberg Magnússon var síðan ráðinn þjálfari liðsins í lok ársins 2007 og Elvar Jónsson aðstoðarþjálfari. Nú lá leiðin því enn upp á við, margir nýir leikmenn bættust í hópinn. Kvennalið Fjarðabyggðar hefur alla tíð spilað í 1. deild og komust í úrslit árið 2002 þar sem liðið tapaði gegn Haukum. Árið 2008 var ákveðið að Fjarðabyggð og Leiknir F. tefli fram sameiginlegu liði í 1. deildinni og vonir voru um að það samstarf tækist vel. Þjálfari sumarið 2008 var Viðar Jónsson. Árið 2008 var viðburðaríkt hjá KFF. Í júní tók David Hannah við sem aðstoðarþjálfari af Elvari Jónssyni. David tók síðan við sem aðalþjálfari af Magna Fannberg í lok júlí eftir að Magna var sagt upp störfum. Heimir Þorsteinsson stýrði síðan liðinu í lok móts eftir að David ákvað að snúa aftur til Skotlands. Karlaliðið endaði í 9. sæti sumarið 2008 og kvennaliðið í neðsta sæti síns riðils en þar var einnig skipt um þjálfara í upphafi móts þegar Jóhann Ingi Jóhannsson og Kjartan Orri Sigurðsson tóku við liðinu af Viðari Jónssyni. Í lok árs 2008 voru Heimir Þorsteinsson og Páll Guðlaugsson ráðnir þjálfarar karlaliðs Fjarðabyggðar. Páll stýrði sameiginlegum 2.flokki Fjarðabyggðar/Leiknis/Hugins árið 2009 og þjálfaði hann einnig kvennalið Fjarðabyggðar/Leiknis sumarið 2009. Sveinbjörn Jónasson markahæsti leikmaður Fjarðabyggðar árið 2008 gekk í raðir Grindvíkinga í janúar 2009. Árið 2009 var fyrsta ár sameiginlegs 2.flokks liðs Fjarðabyggðar/Leiknis og Hugins og gekk samstarfið vel og ágætur árangur náðist. Mfl. kvenna gekk illa sumarið 2009 og unnu ekki leik. Mfl. karla náði sínum besta árangri frá upphafi eða 4. sæti í 1. deild. Sannarlega góður árangur undir stjórn þeirra Heimis Þorsteinssonar og Páls Guðlaugssonar sem endurnýjuðu samninga sína um þjálfun liðsins fram á haustið 2011. Tilvísanir. Fjarðarbyggð Assameíska. Assameíska ("অসমীয়া") er indóíranskt tungumál sem er talað í héruð Assamíu í Indlandi. Norman Malcolm. Norman Malcolm (1911 í Selden í Kansas – 1990) var bandarískur heimspekingur. Malcolm lauk doktorsgráðu frá Harvard-háskóla. Árið 1938 dvaldi hann í Cambridge á Englandi þar sem hann kynntist Ludwig Wittgenstein. Hann sat fyrirlestra Wittgensteins um undirstöður stærðfræðinnar en vinátta hélst milli þeirra æ síðan. Árið 1940 tók þáði hann stöðu við Princeton-háskóla. Malcolm gegndi herþjónustu á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann var í bandaríska sjóhernum á árunum 1942 til 1945. Að stríðinu loknu þáði hann kennslustöðu við Cornell-háskóla þar sem hann kenndi heimspeki í rúman áratug (1947-1958). Árið 1958 flutti Malcolm til Englands. Malcolm er þekktur fyrir að halda því fram að heimspeki heilbrigðrar skynsemi og heimspeki hversdagsmáls séu ein og sama spekin. Hann var rammur andstæðingur kenninga G.E. Moores um þekkingu. Malcolm var ekki efahyggjumaður en honum þótti rök Moores gegn efahyggju bæði óskýr og ófullnægjandi. Helstu rit. Malcolm, Norman Malcolm, Norman Evan Almighty. "Evan Almighty" er gamanmynd frá árinu 2007. Myndin er framhald kvikmyndarinnar "Bruce Almighty". Leikstjóri er Tom Shadyac, líkt og í fyrri myndinni. Leikarar. Jim Carrey og Jennifer Aniston neituðu bæði að leika í myndinni. Carrey sagði að hann væri ekki mikill aðdáendi að leika sama hlutverkið tvisvar. Öreind. Öreind er heiti smæstu einda sem eru ódeilanlegar, þ.e. eru ekki samsettar úr minni eindum. Staðallíkanið flokkar öreindir í þrjá flokka, kvarka, létteindir og kvarðbóseindir. Einnig er hægt að flokka eindirnar sem fermíeindir og bóseindir sem er kannski óþægilegra því margar fermíeindir og bóseindir eru ekki öreindir, en allar öreindir eru annaðhvort fermíeindir eða bóseindir. Flestar öreindir eiga sér andeindir en sumar eindir eins og til dæmis ljóseindir sem hafa enga hleðslu, eru andeindir sjálfs síns. Nokkrar bóseindir sem miðla kröftum kallast "kraftmiðlarar". Kjarneindir ásamt rafeindum kallast "efniseindir" og mynda efni alheims en andefni er samsett úr andeindum efniseindanna. Öreindafræði ("háorkueðlisfræði") fjallar um öreindir og víxlverkun þeirra. Flákaský. Flákaský (fræðiheiti: "Strato-Cumulus") er lágský, og eru gráleitir (eða dökkir) og ávalir lágskýjalopar á himni. Flákaský raðast hlið við hlið og mynda þykkni yfir allt loftið eða hluta þess. Oft sjást ljósleit skýjadeili milli lopanna eða blár himinn. Stundum geta þau nálgast stórgerð netjuþykkni að útliti. Sjaldan rignir úr flákaskýjum, nema þau séu undir grábliku, sem rignir úr, eða jafnvel runnin saman við hana. Efra borð flákaskýja er oft um 1500 m yfir jörð. Úr flugvél sýnast þau sem hvítleitt, öldótt þokuhaf, sem fjallatindar mæna stundum upp úr. Regnskúr. Regnskúr (stundum kallað skúr, slembra eða demba) er úrkoma á fljótandi formi, sem fellur úr skúraskýi. Oft getur komið talsverð úrkoma í skúr og droparnir verið stórir. Skúrir myndast í óstöðugu lofti og þeim fylgja stundum þrumur og eldingar. Él. Él er úrkoma, sem fellur úr éljaskýi. Oft getur komið talsverð úrkoma í éli, sem stendur stutt yfir. Eru ýmist "snjóél", "slydduél" eða haglél. Él myndast í óstöðugu lofti og þeim fylgja stundum þrumur og eldingar. (Sjá einnig rigning og regnskúr.) Listi yfir tungumálakóða í ISO 639-1. ISO 639 hefur þrjár tegundir af tungumálakóðum. Eftirfarandi er listi yfir tungumálakóða í ISO 639-1. Til hliðsjónar er gefin upp upplýsingar um ISO 639-2 og ISO 639-3 tungumálakóðana, en þeir eru lengri en ISO 639-1. Max Black. Max Black (fæddur 24. febrúar 1909 í Rússneska keisaradæminu (í dag Aserbaídsjan), dáinn 27. ágúst 1988 í Ithaca í New York-fylki í Bandaríkjunum) var bandarískur heimspekingur, sem hafði mikil áhrif innan rökgreiningarhefðarinnar í heimspeki á fyrri hluta 20. aldar. Hann fékkst einkum við málspeki, vísindaheimspeki, heimspeki stærðfræðinnar og listaheimspeki. Black fæddist í Aserbaídsjan en ólst upp í London á Englandi. Þangað flutti fjölskylda hans árið 1912 þegar hann var þriggja ára gamall. Hann nam stærðfræði við Cambridge-háskóla og fékk áhuga á heimspeki stærðfræðinnar. Russell, Wittgenstein, Moore og Ramsey voru allir í Cambridge á þeim tíma og höfðu mikil áhrif á Black. Hann brautskráðist árið 1930 og hlaut styrk til eins árs námsdvalar í Göttingen í Þýskalandi. Fyrsta bók Blacks var "Eðli stærðfræðinnar" (e. "The nature of mathematics", 1933) sem fjallaði um kenningu Russells í "Principia Mathematica" og önnur viðfangsefni í heimspeki stærðfræðinnar. Black fékkst einnig við frumspeki, einkum samsemdarhugtakið. í ritgerð sinni „The Identity of Indiscernables“ andmælir Black lögmáli Leibniz um samsemd óaðgreinanlegra hluta. Black kenndi stærðfræði í London á árunum 1936 til 1940. Þá flutti hann til Bandaríkjanna og tók við kennslustöðu við Illinois-háskóla í Urbana-Champaign. Hann þáði prófessorsstöðu í heimspeki við Cornell-háskóla í Ithaca í New York-fylki árið 1946. Hann gerðist bandarískur ríkisborgari árið 1948. Bróðir Blacks var arkitektinn Misha Black. Helstu rit. Black, Max Black, Max Paul Boghossian. Paul Boghossian er bandarískur heimspekingur og prófessor í heimspeki við New York-háskóla (NYU). Hann fæst einkum við þekkingarfræði, hugspeki og málspeki. Boghossian lauk B.S.-gráðu í eðlisfræði frá Trent-háskóla árið 1978 og doktorsgráðu frá Princeton-háskóla árið 1987. Áður en hann tók við stöðu við New York-háskóla kenndi Boghossian heimspeki við Michiga-háskóla í Ann Arbor. Boghossian er þekktur fyrir vörn sína gegn þekkingarfræðilegri afstæðishyggju. Discworld. Discworld er röð gamansamra ævintýrabóka eftir breska rithöfundinn Terry Pratchett. Sögusvið bókanna er hin svonefnda Discworld, sem er flöt jörð sem hvílir á baki fjögurra fíla sem standa á baki risavaxinnar skjaldböku sem nefnist "Great A'Tuin". Discworld bækurnar eru m.a. nokkurs konar skopstæling á verkum rithöfunda á borð við J.R.R. Tolkien, Robert E. Howard, H.P. Lovecraft og William Shakespeare, sem og goðsögnum, þjóðsögum og ævintýrum. Ádeila og skopstæling á samtímamenningu kemur þar einnig oft fyrir eins og rokktónlist í "Soul Music" eða sammannlegum hlutum einsog prentfrelsi sem var tekið fyrir í bókinni "The Truth" eða stríði í "Jingo". Frá því fysta bókin, The Colour of Magic (1983), kom út hefur bókaröðin getið af sér fjórar smásögur, teiknimyndir og leiki, og jafnvel aðrar bækur og tónlist. Fyrsta leikna sjónvarpsmyndin (Terry Pratchett's Hogfather) var frumsýnd á sjónvarpsstöðinni Sky One um jólin 2006. Kvikmynd eftir bókinni The Wee Free Men er í undirbúningi. Undanfarin ár hafa nýútkomnar Discworld bækur iðulega komist á topp metsölulista The Sunday Times, og gerðu Pratchett að söluhæsta rithöfundi Bretlands á tíunda áratug 20. aldarinnar, en J.K. Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter, selur núorðið fleiri bækur. Bókum Pratchetts er þó ennþá oftast stolið úr bókabúðum. Ein bók í Discworld röðinni hefur komið út í íslenskri þýðingu en Tónleikur gaf út,Litbrigði galdranna" (e. The Colour of Magic) árið 2007 í þýðingu Jóns Daníelssonar (f.1949). Eitt leikrit hefur verið sett upp hér á landi, byggt á Discworld bók, Wyrd Sisters. Leikritið var nefnt "Örlagasystur" á íslensku og var sett upp af Leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð. Trúarheimspeki. Trúarheimspeki er undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli trúarbragða og guðstrúar, um eðli og tilvist guðs, um bænir og bölsvandann og tengsl trúar og trúarbragða annars vegar og siðfræði og vísinda hins vegar. Stundum er trúarheimspeki talin vera undirgrein frumspekinnar. Kynþáttahyggja. a> frá 1857 þar sem þeir héldu því fram að greind þeldökks fólks væri mitt á milli greindar hvíts fólks og apa. Kynþáttahyggja eða rasismi er sú hugmynd að mannkynið skiptist í nokkra kynþætti. Þeirri hugmynd fylgir oft alhæfing um einkenni ákveðinna kynþátta og sú hugmynd að munur eða meintur munur á kynþáttum endurspegli verðleika fólks og ráði getu þess. Oftast felur kynþáttahyggja í sér þá hugmynd að manns eigin kynþáttur sé öðrum betri. Rasistar aðhyllast oft mannarfbótastefnu sem er ekki í sjálfu sér rasísk hugmyndafræði. Keikó. Keikó (1976 - 12. desember 2003) var íslenskur háhyrningur. Hann er frægastur fyrir hlutverk sitt sem Willy í kvikmyndunum "Free Willy", ' og '. Keikó lést úr lungnasjúkdómi við strendur Noregs árið 2003. Ævi. Keikó fæddist við Íslandsstrendur árið 1976. Árið 1979 var hann fangaður og seldur til þjálfunar, en þjálfunina annaðist bandaríski sjóherinn í fyrstu. Árið 1993 sló Keikó í gegn í kvikmyndinni "Free Willy". Keikó lék einnig í framhaldsmyndunum tveimur; ' (1995) og ' (1997). Þann 9. september 1998 var Keikó fluttur aftur til Íslands þar sem átti að gera honum kleift að lifa eins og aðrir háhyrningar og að því búnu átti að sleppa honum lausum. Þjálfunin fór fram við Vestmannaeyjar, og fylgdi honum heill hópur af aðstoðarfólki sem ætlaði að „ómennska“ ("dehumanize") Keikó. Íslenskur talsmaður hans á þeim tíma var Hallur Hallsson. Það var svo í júlí 2002 að þjálfarar hans töldu að hægt væri að sleppa honum lausum. Í september 2002 varð vart við hann við Helsa í Noregi þar sem íbúar sáu til hans og léku jafnvel við hann. Stuttu síðar, að beiðni dýraverndasamtaka, var almenningi bannað að eiga samskipti við hann, þar eð hann átti að aðlagast lífi háhyrninga og ekki að umgangast fólk. Þann 10. desember 2003 greindist hann með lungnasjúkdóm sem síðar varð honum að bana þann 12. desember 2003. Staðará (Steingrímsfirði). Staðará í Steingrímsfirði er á í Strandasýslu á Vestfjörðum. Hún rennur frá Steingrímsfjarðarheiði í gegnum Staðardal og út í Steingrímsfjörð. Staðará er dragá og í hana renna Aratunguá og Þverá. Hólasunnudalsá og Farmannsdalsá sameinast í Þverá í Farmannsdal. Í Staðará veiðist lax og bleikja. Veiðifélag Staðarár hefur verið starfandi frá 1974 og er stjórn félagsins skipuð landeigendum. Veiðileyfi. Veiðileyfum í Staðará er úthlutað til landeigenda við ánna. Landeigendur selja svo ýmist leyfin eða nota þau sjálfir. Veiðileyfaeigendur geta látið Upplýsingamiðstöðina vita af veiðileyfum sem eru til sölu eða látið Upplýsingamiðstöðina fá upplýsingar um aðila sem hafa má samband við til að spyrja um veiðileyfi til sölu. Æskilegt er að laxi sé sleppt og sér í lagi stærri laxi. Með stærri laxi er átt við hrygnur þyngri en 3,5 kg. og hænga þyngri en 4 kg. Með þessu á að stuðla að uppbyggingu laxastofns Staðarár, minnka sveiflur í veiði og auka hlutfall stærri laxa í Staðará. Veiðitímabilið skiptist í tvennt. Frá 8. júlí til 31. ágúst má veiða í allri ánni og drepa má lax sem veiðist. Hámarksafli á dag eru þrír laxar. Frá og með 1. september má bara veiða upp að Þverá og öllum laxi skal sleppt. Á báðum tímabilunum má einungis veiða á flugu. Veitt er með 2 stöngum og skiptist áin í efra og neðra svæði. Veiðimenn veiða hálfan dag á hvoru svæðinu fyrir sig. Sá sem til dæmis veiðir á neðra svæðinu fyrir hádegi veiðir á efra svæðinu eftir hádegi. Til 1. september nær neðra svæðið frá ósi til og með Hýshyl í landi Hóla (neðan við Hólaskilti við veginn). Eftir 1. september er skipting svæðisins frá ósi að Þverá samkvæmt samkomulagi á milli veiðimanna. Eigendur. Jarðir í Staðardal sem eiga Staðará sameiginlega eru Märklin. Märklín (einnig ritað Maerklin)er þýskur leikfangaframleiðandi stofnaður 1859 af "Theodor Friedrich Wilhelm Märklin", þekktastur fyrir rafknúnar leikfangalestir. Höfuðstöðvarnar eru í Göppingen í Þýskalandi. Fyrirtækið var selt fjárfestingafélaginu "Kingsbridge Capital" árið 2006. Assyríska. Assyríska ("ܐܬܘܪܝܐ") er semískt tungumál sem talað er í Mið-Austurlönd. Málhafar eru 4.420.000 manns. Astúríska. Astúríska ("Asturianu") er rómanskt tungumál sem talað er á Spáni í héraði sem nefnist Astúría. Slaufa (fatnaður). Annað afbrigðið af hnýtingu þverslaufu Slaufa (eða þverslaufa) er formlegt hálsklæði sem hnýtt er eftir kúnstarinnar reglum svo úr verði slaufa sem liggur á þverveginn. Þverslaufur eru mikið notaðar við smóking, en sumir klæðast þeim þó daglega og láta hana prýða venjulega skyrtu og jakkaföt. Einnig er til einfaldari gerðir af slaufum, sem eru forhnýttar. Einfaldasta gerðin eru hinar svonefndu "smelluslaufur" sem festar eru með smellum við skyrtuna. En það eru einnig til þverslaufur sem eru ögn virðulegri. Þær eru festar með ásaumuðum linda fyrir aftan hnakka og þá með annaðhvort frönskum rennilási í endanum eða krókapari. Atabaskamál. Atabaskamál ("Obolo") er nígerkongótungumál sem talað er í Nígeríu. Málhafar eru 200.000 manns, en þeir eru flestir í Akva-Íbom héraði sem er í Suðvestur-Nígeríu. Ein af mállýskum Atabaskamáls er efík. Fjöldi talenda mállýskunnar eru um fjórar milljónir í Suður-Nígeríu. Richard Dawkins. Richard Dawkins á fyrirlestri í Reykjavík 24. júní 2006. Clinton Richard Dawkins (fæddur 26. mars 1941) er breskur líffræðingur, rithöfundur og prófessor við Oxford-háskóla. Hann er einna þekktastur fyrir að vera málsvari trúleysis, fyrir gagnrýni á trúarbrögð og hjátrú og fyrir að halda á lofti erfðafræðilegum sjónarmiðum í þróunarlíffræði. Hann hefur hlotið verðlaun frá Dýrafræðisamtökum Lundúna (1989), Michael Faraday-vísindaverðlaunin frá Royal Society (1990) og Kistler-verðlaunin (2001). Dawkins hlaut fyrst eftirtekt árið 1976 með bók sinni "The Selfish Gene", sem jók mjög vinsældir erfðafræðilegra sjónarmiða í þróunarlíffræði. Þar kynnti hann til sögunnar hugtakið „meme“ sem er undirstöðuhugtak í menningarþróunarfræðum. Árið 1982 kom út annað meginrit hans um þróun, "The Extended Phenotype". Dawkins hefur í kjölfarið samið fjölda vinsælla bóka um vísindi og komið fram í sjónvarpi og útvarpi þar sem hann hefur fjallað um þróunarlíffræði, sköpunarhyggju, vithönnun (e. intelligent design) og trúarbrögð. Dawkins er yfirlýstur trúleysingi og efahyggjumaður. Hann hefur verið nefndur „rottweiler-hundur Darwins“ fyrir staðfasta vörn sína fyrir þróunarkenninguna. Í bréfi til blaðsins sem birtist í "The Independent" 14. ágúst 1998, sagði Dr. Dawkins að ótti manna við erfðabreytt matvæli væri ástæðulaus. Erfðabreytingar af þessu tagi væru ekkert öðruvísi en þær sem bændur stunduðu með ræktunarvali og hefðu gert í þúsundir ára. Tenglar. Dawkins, Richard Dawkins, Richard Avarska. Avarska ("MагӀарул MацӀ") er opinbert tungumál Dagestan í Kákasus. Hún er kákasískt tungumál. Draumur konu fiskimannsins. er erótísk tréútskurðarmynd eftir Katsushika Hokusai, skorin út um 1814. Hann er hugsanlega upphafið að svonefndri fálmaraerótík og forveri hentai-teiknimynda. Á myndinni er kona sýnd samanslungin tveimur kolkröbbum á kynferðislegan máta í fjöruborðinu. Hún virðist kyssa minni kolkrabbann, á meðan stærri kolkrabbinn veitir henni munnmök. Þessi ukiyo-e viðarútskurður er frá Edo-tímabilinu í Japan þegar Shinto trú var að vakna aftur til lífsins. Sálartrúin sem fylgdi fast á hæla hennar, sem og léttvægari skoðanir á kynferðislegum málefnum, varð verkinu burðarliður. Verk þetta er frægt dæmi um svonefnt shunga og hefur verið margstælt af listamönnum. Lík verk af konum sem stunda kynmök með sjávarverum hafa komið fram frá því á 17. öld í japanskri netsuke-list, og eru oft litlir meitlaðir skúlptúrar sem eru aðeins nokkrir sm. á hæð, en oft æði margbrotnir. Laugavegur (gönguleið). Laugavegurinn kallast gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Er hún um 54 km löng og fer hæst í um 1050 m.y.s. við Hrafntinnusker. Leiðin er afar vinsæl meðal innlendra sem erlendra göngumanna enda þykir hún ægifögur og bjóða upp á brot af flestu því sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Áfangar á gönguleiðinni eru látnir ráðast af skálum sem á henni er. Ef gengið er frá Landmannalaugum eins og algengast er verður fyrst á vegi manna skálinn í Hrafntinnuskeri, svo Álftavatni, Hvanngili og Emstrum (Botnum), en allir skálarnir eru í eigu Ferðafélags Íslands. Endar gönguleiðin í Þórsmörk þar sem gengið er í Húsadal, Langadal eða Bása (í Goðalandi). Algengast er að skipta leiðinni upp í 3-4 dagleiðir þó svo það sé stundað að hlaupa leiðina á allt frá fimm klukkustundum. Gönguleiðin milli Landamannalauga og Hrafntinnuskers eru 12 km. Áætlaður göngutími er 4-5 klukkustundir. Hækkunin er mest á þessum kafla leiðarinnar eða 470 metrar. Oftast er þetta fyrsta dagleiðin en sumir leggja snemma af stað og ganga alla leið inn að Álftavatni. Vegalengdin milli Hrafntinnuskers og Álftavatns eru einnig 12 km og er lóðrétt hækkun 490 metrar. Þessi hækkun er jafnari en á fyrsta degi. Áætlaður göngutími er 4-5 klst. Þriðja göguleiðin er inn í Emstrur. Þangað er 15 km ganga og lítil hækkun, 40 m. Göngutíminn er 6-7 klukkustundir. Síðasti dagurinn fer svo í að ganga inn í Þórsmörk og er vegalengdin og áætlaður göngutími sá sami og á þriðja degi. Hækkunin er þó meiri eða 300m. Fyrsta ferðin sem skráð var á vegum Ferðafélags Íslands á Laugaveginum var 30. september 1978. Árið 1979 var í fyrsta sinn sem Ferðafélag Íslands auglýsti fjögurra daga ferð um Laugaveginn og Þórsmörk og var sú ferð farin 13.-18. júlí 1979. Eftir það hefur fjöldinn allur af fólki og ferðamönnum farið Laugaveginn á vegum Ferðafélags Íslands. Margir halda því fram að það sé enginn vandi að ganga Laugaveginn en það er vissulega ekki rétt. Það fer allt eftir aðstæðum og það sem ræður mestu er veðrið. Það getur ekki talist auðvelt að ganga í marga klukkutíma í roki og rigningu og jafnvel snjó með þunga byrgðir á bakinu. Aftur á móti er miklu auðveldara að fara Laugaveginn í sól og hita, þá er einnig hægt að gefa sér meiri tíma til að staldra við og njóta útsýnisins. Gróðurfar. Gróðurfarið í Þórsmörk er mjög fjölbreytt. Meginástæða fyrir því er sú að svæðið er varið fyrir búfé af torfærum ám og jöklum. Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé á Þórsmörk til beitar bæði á sumrin og veturna. Einnig stunduðu þeir skógarhögg á svæðinu. Skógar voru mjög illa farnir af beit á Þórsmörk og urðu einnig illa farnir vegna Kötlugoss 1918. Þá var ákveðið að Þórsmörk yrði beitarfriðuð og var Skógrækt ríkisins falið það hlutverk að hafa umsjón með svæðinu. Undirbúningur. Þegar undirbúa skal nokkra daga gönguferð um Laugaveginn þarf að hafa ýmislegt í huga eins og hvort maður hafi andlegan og líkamlegan styrk til göngunnar. Það þarf einnig að huga að því að hafa góðan búnað með sér og skiptir þar mestu máli góðir gönguskór, nægilega stór bakpoki til að geyma auka fatnað og nesti og hlífðarföt sem henta veðri eftir aðstæðum. Fjallið Háalda, 1089 metrar að hæð Fyrsti hluti göngunnar - 12 km. Fyrsti hluti göngunnar um Laugaveginn er yfir Laugahraun sem er talið hafa myndast í kringum 1480. Þegar komið er upp á hraunið má sjá mjög fallegt útsýni, margskonar fjöll og gil í alls konar litum. Þar má finna fjall sem heitir Háalda sem er hæðsta fjallið á þessum slóðum enda er það 1089 metrar að hæð. Næsti hluti göngunnar liggur að hásléttunni, þar er landslagið sundurskorið því árnar á þessum slóðum hafa með árunum étið sig niður í mjúkt bergið. Frá hásléttunni má einnig sjá fjallið Háalda þar sem það virkar enn þá stærra og meira en séð frá Laugahrauni. Næsti áfangastaður göngunnar er Stórihver, er það eini staður göngunnar sem má finna grænt gras. Þetta er því tilvalin staður til að setjast niður og hvíla sig, jafnvel gæða sér á nesti. Stórihver er gufu-gutlhver. Þegar göngunni er haldið áfram er komið að Hrafntinnuskerssvæðinu. Þegar enginn snjór er á staðnum og sólin skín þá lítur svæðið út eins og glitrandi eyðimörk og landslagið þar endurspeglast eins og kista full af gimsteinum. Talið er að Hrafntinnusker hafi myndast í Eldgosi í kringum 900.Finna má skála við Hrafntinnusker og er gott að hvíla sig þar eftir fyrsta hluta göngunnar. Annar hluti göngunnar - 12 km. Frá Hrafntinnuskeri liggur leiðin meðfram hlíðum Reykjafjalla. Þar er dalur sem er að mestum hluta sléttur. Þegar gengið er úr dalnum liggur leiðin við Kaldaklofsfjall. Ef veður leyfir er sjálfsagt að ganga upp fjallið Háskerðing sem er 1281 metri að hæð. Ef skyggni er gott þaðan sést meðal annars vel til Öræfajökuls og Langjökuls. Næsti áfangastaður er Jökultunga. Þar má finna mikla litadýrð og ljósgrænar mosaþembur. Leiðin niður -Jökultungu er mjög brött og þarf því að hafa varann á og fara varlega. Leiðin héðan liggur að Álftavatni þar sem má finna tvo skála sem er tilvalið að hvíla lúin bein fyrir næsta dag. Þriðji hluti göngunnar - 15 km. Næsti áfangastaður göngunnar er Hvanngil, þá er gengið frá Álftavatni yfir Brattháls. Á leiðinni má sjá fjöll eins og Bláfjöll og Smáfjöll. Þaðan er komið að göngubrú við Kaldaklofskvísl. Austan Kaldaklofskvíslar skiptist leiðin í tvennt, annars vegar er hægt að ganga eftir Mælifellssandi og hins vegar Emstrum. Ef valið er að ganga eftir Emstrum þá er aftur um tvær leiðar að velja. Hægt er að ganga að Útigönguhöfðum, þar sem má meðal annars finna fjallið Hattafell en einnig er hægt að fara suður með Álftavatni. Þar er að finna fallegt útsýni og hægt er að vaða á á leiðinni. Þeir sem ganga á Emstrum mega ekki láta fram hjá sér fara að ganga að Markarfljótsgljúfri. Það er 160 til 180 metra djúpt og er talið að það hafi myndast í hamfarahlaupi fyrir um 2500 árum. Fjórði hluti göngunnar - 15 km. Næst hefst ganga suður Almenninga, eftir að komið er upp úr Bjórgili er komið að Fauskatorfum sem er skóglendi og er því tilvalin staður til þess að staldra við og hvíla sig. Næst er gengið yfir Kápu, er það síðasti brattinn á leiðinni. Þegar komið er niður af Kápu er komið að Þröngá, þar verður að vaða árnar. Þröngá dregur nafn sitt af þröngum gljúfrum sem eru í kringum hana og hún rennur í gegnum. Næst er komið að Hamraskógi og þar á eftir er komið að Skagfjörðsskála í Langadal á Þórsmörk. Síðasti spölur Laugavegsgöngunnar er skóglendi. Koss. Koss er það þegar vörum er þrýst að öðrum sem tjáning ástar eða hlýju, af virðingu eða til kveðju. Margir prímatar sýna atferli sem líkist kossum. "Fingurkoss" er það þegar menn kyssa í lófa sér og blása honum í átt að þeim sem á að hljóta hann. Fræðimenn eru ekki sammála um það hvort það að kyssa sé manninum eðlislægt eða hvort það er lærð hegðun. Björgólfur Hideaki Takefusa. Björgólfur í leik með KR. Á myndinni er Björgólfur lengst til vinstri Björgólfur Hideaki Takefusa (11. maí 1980) er íslenskur knattspyrnumaður sem spilar í stöðu sóknarmanns hjá Víkingum. Hann er af Japönskum,Bandarískum og Íslenskum ættum. Björgólfur hóf feril sinn hjá Þrótti Reykjavík og var þeim drjúgur í baráttunni í 1. deild, en hann skoraði mörg mörk í þeim leikjum sem hann spilaði í, en hann var einnig í námi í Bandaríkjunum. Björgólfur fékk gullskóinn árið 2003, en þá féll Þróttur úr efstu deild. Björgólfur skipti yfir í Fylki það ár og spilaði með þeim í 2 ár. Hann gekk til liðs við KR í október árið 2005 og hefur skorað 50 mörk fyrir liðið í 90 leikjum í A-deild. Björgólfur hefur spilað 3 landsleiki með íslenska landsliðinu. Eftir að Rúnar Kristinsson tók við liði KR fékk Björgólfur færri tækifæri hjá liðinu og skipti yfir í Víking Reykjavík eftir lok tímabils 2010. Afi, eða réttara sagt fósturfaðir móður hans, Björgólfs Takefusa er Björgólfur Guðmundsson, viðskiptamaður og formaður bankaráðs Landsbanka Íslands. Hálfsystir Björgólfs er fyrrum sjónvarpskonan Dóra Takefusa. Svartþröstur. Svartþröstur (fræðiheiti: "Turdus merula") er þrastartegund sem er algeng um alla Evrópu og Asíu sunnan norðurheimskautsbaugs. Akurhæna. Akurhæna (fræðiheiti: "Perdix perdix") er hænsnfugl sem verpir á ræktarlandi um nær alla Evrópu og í vesturhluta Asíu. Vegna þess hve akurhænan er vinsæll veiðifugl hefur hún verið flutt til annarra landa og er algeng í Norður-Ameríku og sunnanverðu Kanada. Eiginlegir þrestir. Eiginlegir þrestir (fræðiheiti: "Turdus") eru ættkvísl meðalstórra þrasta sem flestir eru upprunnir í Gamla heiminum. Þessir fuglar lifa aðallega á skordýrum eða eru alætur. Þrestir. Þrestir (fræðiheiti: "Turdidae") eru ætt spörfugla sem flestir eru upprunnir í Gamla heiminum. Þetta eru litlir eða meðalstórir fuglar, flestir skordýraætur en sumir alætur. Hröfnungar. Hröfnungar (fræðiheiti: "Corvidae") eru ætt spörfugla sem telur um 120 tegundir, þar á meðal kráku, hrafn, skrækskaða og skjó. Hröfnungar eru meðalstórir eða stórir fuglar með sterklega fætur og öflugan gogg. Þeir fella fjaðrirnar aðeins einu sinni á ári (flestir spörfuglar fella þær tvisvar á ári). Hröfnungar lifa um allan heim, nema syðst í Suður-Ameríku og á heimskautasvæðunum. Hákon Waage. Hákon Waage (29. júní 1946) er íslenskur leikari. Helgi Björnsson. Helgi Björnsson (10. júlí 1958) er íslenskur leikari og tónlistarmaður. Hann var meðal annars í hljómsveitunum Grafík og Síðan skein sól (SSSól). Gustav Vigeland. Gustav Vigeland (11. apríl, 1869 – 12. mars, 1943) var norskur myndhöggvari. Hann var talinn einn fremsti myndhöggvari Norðmanna í upphafi 20. aldar og eftir hann liggja fjölmörg verk. Þekktastur er Vigeland-garðurinn í Osló þar sem mörg verka hans standa, meðal annars risavaxinn gosbrunnur sem hann vann að um margra ára skeið. Árið 1947 gáfu Norðmenn Íslendingum styttu af Snorra Sturlusyni sem Vigeland hafði gert árið 1914 og stendur í Reykholti. Hrímtittlingur. Hrímtittlingur (fræðiheiti: "Carduelis hornemanni") er smávaxin finka sem lifir norðarlega í Norður-Ameríku og Evrópu. Loftleiðir. Loftleiðir voru íslenskt flugfélag sem var stofnað 10. mars 1944 af þremur íslenskum flugmönnum sem höfðu lokið flugnámi í Kanada. Fyrstu árin rak félagið aðeins innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli en 1947 hóf það millilandaflug til Kaupmannahafnar með Douglas DC-4-vél. 1948 fékk félagið starfsleyfi í Bandaríkjunum og 1952 hóf það ferðir milli Bandaríkjanna og Evrópu með millilendingu á Íslandi. Á 7. áratug 20. aldar varð félagið fyrst í heimi með lággjaldaflug milli Bandaríkjanna og Evrópu. Harðnandi samkeppni leiddi til þess að félagið sameinaðist Flugfélagi Íslands árið 1973 undir nafninu Flugleiðir sem var myndað úr nöfnum flugfélaganna tveggja. Auðnutittlingur. Auðnutittlingur (fræðiheiti: "Carduelis flammea") er smávaxin finka sem lifir norðarlega í Norður-Ameríku og Evrópu. Á Íslandi er undirtegundin "Carduelis flammea islandica" og á Grænlandi og Baffins-eyju er undirtegundin "Carduelis flammea rostrata". Barrfinka. Barrfinka (fræðiheiti: "Carduelis spinus") er smávaxin finka sem lifir norðarlega í Evrópu og í austurhluta Asíu. Áætlunarbifreið. Áætlunarbifreið, langferðabíll eða rúta er bifreið sem er notuð til farþegaflutninga á lengri leiðum milli staða, bæja eða borga, eftir tímaáætlun, ólíkt strætisvagni sem flytur farþega innanbæjar. Áætlunarbifreiðar eru venjulega með þægilegum sætum (og ekkert rými fyrir standandi farþega) og stórt rými fyrir farangur. Rúta, orðsifjar. Í íslensku talmáli er rúta án efa algengasta orðið yfir áætlunarbifreið. "Rúta" er að uppruna tökuorð úr dönsku og er fyrirmyndin "rutebil", það er að segja bifreið sem flytur farþega eftir ákveðinni áætlun. "Rutebil" er samansett úr orðunum "rute" og "(auto)mobil". Rute kom inn í dönsku úr frönsku, "route", en er upphaflega úr latínu, "rupta (via)", það er að segja ruddur vegur. Þistilfinka. Þistilfinka (fræðiheiti: "Carduelis carduelis") er smávaxin finka sem lifir í Evrópu, Norður-Afríku og vestur- og mið-Asíu, einkum í skóglendi. Ólafur 5.. Ólafur og Märtha árið 1950. Ólafur 5. (2. júlí 1903 – 17. janúar 1991) var konungur Noregs frá 1957 til dauðadags. Hann var sonur Hákons 7. og Matthildar (Maud) drottningar. Hann giftist Märtha Sofia Lovisa Dagmar Thyra árið 1929 og átti með henni þrjú börn, þar á meðal núverandi konung Noregs, Harald 5.. Märtha lést árið 1954 áður en Ólafur varð konungur. Bókfinka. Bókfinka (fræðiheiti: "Fringilla coelebs") er smávaxin finka sem lifir í Evrópu, Norður-Afríku, Kanaríeyjum og vestur- og mið-Asíu. Sökum litadýrðar og það að þær eru algengustu finkur Vestur-Evrópu eru þær vinsælar sem gæludýr. Gráspör. Gráspör (fræðiheiti: "Passer domesticus") er fugl af spörvaætt. Hann er upprunninn í Evrópu og hluta Asíu en hefur nú breiðst um mest allan heim með landnámi Evrópuþjóða um allan heim á liðnum öldum. En evrópubúar hafa flutt hann til annarra landa þar sem þeir hafa sest að, sérstaklega sem vörn gegn meindýrum, en hann étur mikið af skordýrum sem teljast til meindýra. Starri (fugl). Starri (eða stari) (fræðiheiti: "Sturnus vulgaris") er spörfugl af staraætt sem er upprunninn í Evrópu og Asíu en hefur nú breiðst um mest allan heim nema Afríku. Starrinn hóf varp á Íslandi á Höfn í Hornafirði upp úr 1940 en í kringum 1960 í Reykjavík. Starrinn er smávaxinn, svartleitur og kvikur fugl. Dvergkráka. Dvergkráka (fræðiheiti: "Corvus monedula") er einn minnsti fuglinn af ætt hröfnunga, 34-39 sentimetrar að lengd. Bláhrafn. Bláhrafn (fræðiheiti: "Corvus frugilegus") er fugl af ætt hröfnunga, latneska heitið frugilegus þýðir fæðusafnari. Mu isamaa, mu õnn ja rõõm. Mu isamaa, mu õnn ja rõõm er þjóðsöngur Eista. Laglína þjóðsöngsins er sú sama og finnska þjóðsöngsins. Þjóðsöngurinn var fyrst notaður 1920 og tekinn upp aftur 1990 þegar Eistar öðluðust sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Texti á eistnesku. Mu isamaa, mu õnn ja rõõm, mis mul nii armas oleks ka, La Concorde. La Concorde er þjóðsöngur Gabon. Hann var saminn af gabonska stjórnmálamanninum Georges Aleka Damas og tekinn upp sem þjóðsöngur þegar landið fékk sjálfstæði árið 1960. .ga. .ga er þjóðarlén Gabon. Omar Bongo. a> Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu árið 2004. El Hadj Omar Bongo Ondimba (f. Albert-Bernard Bongo, 30. desember 1935 – 8. júní 2009) var forseti Gabon frá 1967 til dauðadags. Hann var yngsti ríkjandi forseti þegar hann tók við embætti aðeins 31 árs gamall eftir lát þáverandi forseta, Leon M'ba sem hafði verið við völd frá því landið fékk sjálfstæði. Þegar Gnassingbé Eyadéma, forseti Tógó, lést árið 2005 varð Bongo sá Afríkuleiðtogi sem lengst hafði verið við völd. Þegar Bongo lést var hann fimmti þaulsætnasti þjóðarleiðtogi heims. Bongo, Omar Bongo, Omar Jean Eyeghe Ndong. Jean Eyeghe Ndong (f. 12. febrúar 1943) hefur verið forsætisráðherra Gabon frá 20. janúar 2006 fyrir gabonska demókrataflokkinn. Hann tók við af Jean-François Ntoutoume Emane en hann hafði áður verið fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ntoutoumes. Hann er skyldur fyrrum forseta Gabon, Léon M'ba. Ndong, Jean Eyeghe CFA-franki. Kort sem sýnir löndin sem nota CFA-franka. CFA-franki (franska: "franc CFA" eða "céfa" eða bara "franc") er gjaldmiðill tólf fyrrum franskra nýlendna í Afríku, auk Gíneu-Bissá (fyrrum portúgölsk nýlenda) og Miðbaugs-Gíneu (fyrrum spænsk nýlenda). ISO 4217-kóðinn er XAF fyrir Mið-Afríku-CFA-franka en XOF fyrir Vestur-Afríku-CFA-franka. CFA-frankinn var upphaflega með fast gengi miðað við franskan franka en er nú með fast gengi miðað við evru, þar sem 1 evra = = 655,957 CFA-frankar. Fáni Gabon. Fáni Gabon var tekinn í notkun þegar landið fékk sjálfstæði árið 1960. Litirnir eru grænn, sem táknar skógana; gylltur, sem táknar miðbauginn; og blár, sem táknar hafið. Skjaldarmerki Gabon. Skjaldarmerki Gabon var hannað af svissneska skjaldarmerkjafræðingnum Louis Mühlemann, einum af stofnfélögum FIAV og sem einnig hannaði fyrrum skjaldarmerki Vestur-Kongó. Skjaldarmerkið hefur verið í notkun frá 15. júlí 1963. Merkisberar eru tvö svört pardusdýr. Gullskífurnar efst í merkinu tákna auðlegð landsins og skipið merkir hvernig landið siglir í átt til bjartari framtíðar. Tréð táknar timburverslunina. Lopezhöfði. Lopezhöfði er vestasti oddi Gabon og markar suðurenda Gíneuflóa. Hann er vesturoddi eyjunnar Mandji. Rétt við höfðann er helsta hafnarborg Gabon, Port-Gentil. Viti stendur á höfðanum. Á nesinu sem höfðinn er á stendur líka olíuhreinsistöð sem var reist árið 1967. Beyoncé Knowles. Beyoncé Giselle Knowles-Carter, betur þekkt sem Beyoncé (borið fram: "Bíjonsei") (f. 4. september 1981) er bandarísk söngkona, lagahöfundur, dansari og leikkona. Hún er fædd og uppalin í Houston, Texas og gekk í marga listaskóla og keppti í mörgum söng- og danskeppnum sem barn. Hún varð fræg á seinni hluta 10. áratugarins sem forsprakki hljómsveitarinnar Destiny's Child en hljómsveitin er ein vinsælasta stúlknasveit allra tíma. Á meðan Destiny's Child tók sér hlé gaf Knowles út sína fyrstu sólóplötu, "Dangerously in Love" árið 2003 sem gaf af sér smellina „Crazy in Love“ og „Baby Boy“ og varð ein söluhæsta plata ársins og færði henni fimm Grammy-verðlaun. Eftir að hljómsveitin lagði upp laupana árið 2005 gaf Knowles út plötuna "B'Day" (2006) sem innihélt m.a. smellina „Déjà Vu“, „Irreplaceable“ og „Beatiful Liar“. Þriðja sólóplatan, "I Am... Sasha Fierce" (2008) og innihélt meðal annars „Single Ladies (Put a Ring on It)“, „If I Were a Boy“, „Halo“ og „Sweet Dreams“. Platan færði Beyoncé sex Grammy-verðlaun á 52. Grammy verðlaunahátíðini árið 2010 og setti hún þar með nýtt met, en hún hefur sú söngkona sem hefur unnið flest Grammy-verðlaun á einu kvöldi. Fjórða sólóplata hennar, "4" (2011) varð fjórða plata hennar í röð sem náði efsta sæti Billboard 200 listans. Vinna Knowles hefur áunnið henni fjölda verðlauna og viðurkenninga, þ.á.m. 16 Grammy-verðlaun, 12 MTV Video tónlistarverðlaun, Billboard Millennium verðlaun og stjörnu á frægðargötu Hollywood (e. "Hollywood Walk of Fame") með (Destiny's Child). Sem sjálfstæður tónlistarmaður hefur Knowles selt yfir 13 milljónir platna í Bandaríkjunum og yfir 75 milljónir platna um allan heim, sem gerir hana að einum af söluhæstu tónlistarmönnum allra tíma. Árið 2009 útnefndi Billboard hana sem "Top Female Artist" og "Top Radio Song Artist" frá 2000-2010, og setti hana í fjórða sæti yfir bestu tónlistarmenn sama áratugar. RIAA veitti henni einnig sama titil. Árið eftir var Knowles í efsta sæti lista Forbes yfir 100 áhrifamestu tónlistarmennina í heiminum. Hún lenti einnig á lista VH1 yfir 100 bestu tónlistarmenn allra tíma, og í þriðja sæti á lista þeirra yfir 100 bestu konur í tónlist árið 2012. Fyrir utan vinnu sína í tónlist hefur Knowles einnig unnið fyrir sér í leiklist, fatahönnun og ilmvötnum. Frammistaða hennar í kvikmyndinni "Dreamgirls" gaf henni tvær tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna. Knowles kynnti tískulínu fjölskyldunnar, House of Deréon, árið 2005 og hefur verið talsmaður merkja eins og L'Oréal, Pepsi, Tommy Hilfiger, Nintendo og Vizio. Í apríl 2008 giftist Knowles rapparanum Jay-Z. Þau eignuðust fyrsta barn sitt, Blue Ivy Carter, í janúar 2012. 1981-96: Æska og upphaf ferils. Knowles fæddist í Houston, Texas og er dóttir hjónanna Mathew Knowles, umboðsmanns og Tinu Knowles (áður Beyoncé), búningahönnuðar og hárgreiðslukonu. Faðir Beyoncé er af afrískum uppruna og er móðir hennar af kreólskum uppruna (blanda af afrískum-, indijána- og frönskum ættum). Knowles var skírð eftir fjölskyldunafni móður sinnar. Hún er eldri systir Solange Knowles sem er einnig leik- og söngkona. Knowles gekk í St. Mary's grunnskólann í Texas, þar sem hún skráði sig í danstíma, m.a. ballet og djass. Sönghæfileikar hennar uppgötvuðust þegar danskennarinn hennar byrjaði að raula lag og hún kláraði það og náði hæstu nótunum. Áhugi Knowles á tónlist og framkomu byrjaði eftir að hún tók þátt í hæfileikakeppni skólans. Hún söng lag John Lennons, „Imagine“ og vann keppnina. Sjö ára byrjaði Knowles að fá athygli frá blaðamönnum, eftir að hafa verið tilnefnd til Sammy-verðlaunanna sem voru veitt listamanni á svæðinu. Haustið 1990 var Knowles skráð í Parker grunnskólann í Houston, en skólinn lagði mikið upp úr tónlist, þar sem hún átti eftir að syngja á sviði með skólakórnum. Hún gekk síðan í Framkomu- og listamenntaskóla í Houston og síðar í Alief Elsik menntaskólann, sem er staðsettur í úthverfi Houston, Alief. Knowles var einsöngvari í kirkjukórnum sínum, í St. John's United Methodist kirkjunni. Hún var aðeins í tvö ár í kórnum. Átta ára hitti Knowles LaTaviu Robertson þegar þær voru í áheyrnarprufum fyrir stelpuskemmtihóp. Þær, ásamt vinkonu Knowles, Kelly Rowland, voru settar í hóp sem rappaði og dansaði. Í fyrstu hét hópurinn Girl's Tyme og seinna var hópurinn minnkaður niður í sex meðlimi. R&B framleiðandinn Arne Frager flaug til Houston til að sjá þær. Hann fór að lokum með þær í stúdíóið sitt í N-Kaliforníu þar sem sönghæfileikar Knowles fengu að njóta sín. Hluti af áætlun til að fá Girl's Tyme á samning hjá stóru fyrirtæki var að skrá þær í "Star Search" sem var stærsta hæfileikakeppnin í sjónvarpi á þessum tíma. Girl's Tyme tók þátt í keppninni en tapaði vegna þess að lagið sem þær sungu var ekki gott, eins og Knowles játaði sjálf. Knowles varð fyrir fyrsta „faglega áfallinu" eftir ósigurinn en hún náði aftur upp sjálfstraustinu þegar hún komst að því að poppstjörnur eins og Britney Spears og Justin Timberlake höfðu einnig orðið fyrir sömu reynslu. Árið 1995 sagði faðir Knowles (sem seldi lyf á þeim tíma) upp vinnunni til að sjá um hópinn. Hann helgaði líf sitt hópnum og setti þær í „herþjálfun“. Breytingin minnkaði innkomu fjölskyldunnar um helming og neyddust foreldrar hennar til að flytja í sitthvora íbúðina. Ekki löngu eftir Rowland var sett inn í hópinn, minnkaði Mathew hópinn úr sex stúlkum í fjórar og gekk LeTayoa Luckett til liðs við hópinn árið 1993. Hópurinn æfði sig á hárgreiðslustofu Tinu og í bakgörðunum heima hjá sér og hélt áfram að koma fram sem upphitunaratriði fyrir fræga R&B sönghópa á þeim tíma; Tina lagði til búninga, sem hún gerði í gegnum allt Destiny's Child tímabilið. Með stuðningi frá Mathew fóru þær í prufur hjá stórum plötuútgáfufyrirtækjum og fengu loks samning hjá Elektra-plötuútgáfunni. Þær fluttu til Atlanta til að vinna að fyrstu upptökunni en fyrirtækið rifti samningum við þær árið 1995. Þær þurftu því að snúa heim og byrja upp á nýtt. Þetta setti mikla pressu á fjölskydluna og tóku foreldrar Beyoncé sér hlé frá hjónabandinu þegar hún var 14 ára. Árið 1996 sameinaðist fjölskyldan aftur og til að fullkomna árið fengu stelpurnar einnig samning við Columbia plötuútgáfuna. 1997-2001: Destiny's Child tímabilið og þunglyndi. Hópurinn breytti nafninu í "Destiny's Child" árið 1993, byggt á sálmi úr bók Jesaja. Þær sungu saman á opinberum viðburðum og eftir fjögur ár fékk hópurinn loks plötusamning við Columbia Records seinni hluta árs 1997. Þetta sama ár tók Destiny's Child upp fyrsta alvöru lagið sitt, „Killing Time“, fyrir kvikmyndina "Men in Black" (1997). Árið eftir gáfu þær út fyrstu plötuna sína sem var nefnd eftir hljómsveitinni og varð fyrsti smellurinn þeirra „No, No, No“. Platan gaf hljómsveitinni þrjú Soul Train Lady of Soul-verðlaun. Önnur plata hljómsveitarinnar, "The Writing's on the Wall" kom út árið 1999 og fór hún margoft í platínumsölu. Platan inniheldur marga af helstu smellum hljómsveitarinnar í gegnum tíðina eins og „Bills, Bills, Bills“, fyrstu smáskífu þeirra í efsta sæti, „Jumpin' Jumpin'“ og „Say My Name“ sem urðu vinsælustu lögin á þessum tíma og eru enn þá einkennislög þeirra. „Say My Name“ vann tvenn Grammy-verðlaun árið 2001. "The Writings on the Wall" seldist í meira en átta milljónum eintaka. Á þessum tíma tók Knowles upp dúett með Marc Nelson í laginu „After All Is Said and Done“ fyrir kvikmyndina "The Best Man" frá árinu 1999. Luckett og Roberson stefndu hljómsveitinni fyrir brot á samningi. Michelle Williams og Farrah Franklin léku í tónlistarmyndbandi lagsins „Say My Name“ sem gaf til kynna að staðgenglar væru strax komnir fyrir Luckett og Roberson. Að lokum hættu Luckett og Roberson í hljómsveitinni. Franklin dróst smám saman úr hópnum næstu fimm mánuðina en það sást helst á fjarveru hennar á kynningum og tónleikum. Hún sagði ákvörðun sína byggjast á neikvæðu andrúmslofti innan hópsins eftir deilurnar. Á þessum tíma barðist Knowles við þunglyndi vegna uppsafnaðra erfiðleika: deilurnar við Luckett of Roberson, opinber árás af fjölmiðlum, gagnrýnendum og bloggurum vegna deilnanna, og kærastinn hennar til sjö ára hafði sagt henni upp. Þunglyndið var svo alvarlegt að það varði í nokkur ár og á meðan hélt hún sig inni í herberginu sínum dögum saman og neitaði að borða. Knowles sagði að hún hefði átt erfitt með að tala um þunglyndið vegna þess að Destiny's Child hafði nýlega unnið fyrstu Grammy-verðlaunin sín og óttaðist að enginn myndi taka hana alvarlega. Allir þessir atburðir urðu til þess að hún efaðist um sjálfa sig og hverjir vinir hennar voru og hún lýsti aðstæðunum og sagði, "Nú þegar ég var fræg, var ég hrædd um að ég myndi aldrei finna neinn aftur sem myndi elska mig fyrir mig. Ég var hrædd við að eignast nýja vini." Hún þakkar móður sinni, Tinu Knowles, fyrir að hjálpa henni út úr þunglyndinu, "Af hverju heldur þú að enginn myndi elska þig? Veistu ekki hve klár og góð og falleg þú ert?" Eftir að hafa ákveðið lokauppröðun hópsins, tók tríóið upp „Independent Women Part I“ sem síðan hljómaði í kvikmyndinnni "Charlie's Angels" árið 2000. Lagið varð vinsælasta lag þeirra og sat í efsta sæti Billboard listans í ellefu samfelldar vikur. Seinna þetta ár drógu Luckett og Roberson málsókn sína gegn fyrrum hljómsveitarfélögum sínum til baka, en héldu sig þó við málsóknina gegn Mathew, sem endaði með því að báðir aðilar sættust. Fyrri hluta árs 2001, á meðan Destiny's Child var að ljúka við þriðju plötu sína, landaði Knowles stóru hlutverki í MTV-sjónvarpskvikmyndinni "Carmen: A Hip Hopera" þar sem hún lék á móti Mekhi Phifer. Myndin gerist í Fíladelfíu og er nútíma túlkun á 19. aldar óperuverkinu "Carmen" eftir franska útsetjarann Georges Bizet. Luckett og Roberson stefndu hljómsveitinni aftur eftir að þriðja plata sveitarinnar, "Survivor", kom út í maí 2001 og sögðu þær að lögunum væri beint að þeim. Platan fór strax á topp bandaríska plötulistans og seldist í 663 þúsund eintökum fyrstu vikuna. Í dag hefur platan selst í yfir tíu milljónum eintaka um allan heim og seldust fjórar milljónir í Bandaríkjunum einum. Platan gaf af sér smellina „Bootylicious“ og „Survivor“ og vann það síðarnefnda Grammy-verðlaun fyrir „bestu R&B raddframmistöðu dúetts eða hóps“. Eftir að hafa gefið út jólaplötu, "8 Days of Christmas" tilkynnti hópurinn hlé til að meðlimir sveitarinnar gætu látið reyna á sólóferil. 2002-03: Sólóferill, kvikmyndir og "Dangerously in Love". Árið 2002 lék Knowles aukahlutverk í gamanmyndinni "Austin Powers in Goldmember" þar sem hún lék Foxxy Kleopötru á móti Mike Myers. Knowles tók upp sína fyrstu sóló-smáskífu, „Work It Out“, fyrir kvikmyndina. Árið eftir lék Knowles á móti Cuba Gooding, Jr. í rómantísku gamanmyndinni "The Fighting Temptations" og tók upp nokkur lög fyrir myndina, meðal annars „Fighting Temptation“ og „Fever“. Í október 2002 söng Knowles inn á smáskífu kærastans Jay-Z, „'03 Bonnie & Clyde“ og fór lagið í fjórða sæti Billboard Hot 100 listans. Hún söng einnig með 50 Cent í lagi hans „In Da Club“ sem kom út í mars 2003. Eftir að Williams og Rowland höfðu gefið út árangur sólóferilsins, gaf Knowles út sína fyrstu sólóplötu, "Dangerously in Love" í júní 2003. Platan fór strax í efsta sæti Billboard 300 listans og seldist í 317.000 eintökum fyrstu vikuna. Platan seldist í yfir 4,6 milljónum eintaka í Bandaríkjunum og fór fjórum sinnum í platínumsölu. Dangerously in Love seldist í yfir 11 milljónum eintaka um allan heim og er enn mest selda plata Knowles. Aðalsmáskífa plötunnar, „Crazy in Love“ (ásamt rapparanum Jay-Z), var í átta samfelldar vikur á toppi Billboard Hot 100 listans. Önnur smáskífa plötunnar „Baby Boy“ (ásamt söngvaranum Sean Paul) var síðan níu samfelldar vikur á toppnum. Þriðja smáskífan, „Me, Myself and I“, náði fjórða sæti á sama lista. Fjórða smáskífan, „Naughty Girl“, náði síðan þriðja sæti. Beyonce flytur lagið „Listen” í Munich Platan leiddi til þess að Knowles vann fimm Grammy-verðlaun á 46. Grammy-verðlaununum árið 2004, fyrir „bestu frammistöðu R&B söngkonu“ fyrir „Dangerously in Love 2“, „Besta R&B lagið“, „Besta Rapp/Sungna samstarfið“og „Besta nútímalega R&B platan“. Í nóvember 2003 lagði Knowles af stað í tónleikaförina „Dangerously in Love“ um Evrópu. 2004-05: "Destiny Fulfilled" og lok hljómsveitarinnar. Í mars 2004 gekk Knowles til liðs við Aliciu Keys, Missy Elliott og Tamiu fyrir the Verzion Ladies tónleikaferðalagið um Norður-Ameríku. Knowles hafði áður ætlað að gefa út eftirfara "Dangerously in Love" í mars 2004 sem átti að innihalda þau lög sem ekki fóru á plötuna. Hins vegar ákvað hún að setja plötuna í bið til að einbeita sér að næstu plötu Destiny's Child. Eftir þriggja ára ferð sem innihélt áherslu á sólóverkefni, gekk Knowles á ný til liðs við Rowland og Williams til að gefa út fjórðu og síðustu plötu þeirra, "Destiny Fulfilled" í nóvember 2004. Platan náði öðru sæti á Billboard 200 listanum og seldist í meira en 3,1 milljón eintökum í Bandaríkjunum, þar sem hún fór þrisvar sinnum í platínum sölu. Platan gaf af sér þrjá smelli, „Lose My Breath“, „Solider“ og „Cater 2 U“. Í apríl 2005 fór hljómsveitin í "Destiny Fulfilled... And Lovin' It" tónleikaferðina sem kláraðist í september sama ár. Á síðustu tónleikum þeirra í Evrópu, á Barcelona, Spáni tilkynnti Rowland að hljómsveitin myndi hætta eftir tónleikana í Norður-Ameríku. Safnplata sem bar nafnið, "1's" innihélt vinsælustu smelli hljómsveitarinnar, kom út í október 2005. Platan náði efsta sæti Billboard 200 listans og náði platínumsölu. Lag Knowles, „Check on It“ (ásamt Slim Thug) var á plötunni og var gefið út í desember 2005. Lagið var í fimm vikur á toppi Billboard Hot 100 listans. Í mars 2006 sameinaðist Destiny's Child til að taka á móti stjörnu á frægðargötunni í Hollywood (e. „Hollywood Walk of Fame“). Myndin er kvikmyndaútgáfa af vinsælum Broadway-söngleik frá árinu 1981 sem gerist á 7. áratugnum og er lauslega byggður á kvennahljómsveitinni The Supremes. Í myndinni leikur hún persónu byggða á Diönu Ross og Deenu Jones. Myndin kom út í desember 2006 og léku Jamie Foxx, Eddie Murphy, Jennifer Hudson og Anika Noni Rose einnig í henni. Knowles tók upp nokkur lög fyrir myndina, þar á meðal nýtt lag, „Listen“. Þann 14. desember 2006 var Knowles tilnefnd til tveggja Golden Globe verðlauna fyrir hlutverk sitt: "Besta leikkona: Tónlistar- eða gamanmynd" og "Besta nýja lagið" fyrir „Listen“. 2006-07: "B'Day" og kvikmyndir. Í febrúar 2006 lék Knowles á móti Steve Martin í gamanmyndinni The Pink Panther. Þar lék hún alþjóðlegu poppstjörnuna Xaniu. Knowles gaf út aðra stúdíó plötuna sína, "B'Day" í september 2006; og fór hún strax á topp Billboard 200 og seldist í 541.000 eintökum fyrstu vikuna. Platan seldist í 3,2 milljónum eintaka í Bandaríkjunum og fór þrisvar sinnum í platínumsölu. Aðal smáskífa plötunnar, „Déja Vu“ (ásamt Jay-Z), náði fjórða sæti á Billboard Hot 100 og toppi bandaríska R&B/Hip-Hop listans. „Ring the Alarm“ kom út sem önnur smáskífa plötunnar í Bandaríkjunum, en „Irreplaceable“ var önnur smáskífan í öðrum löndum og þriðja smáskífan í Bandaríkjunum. „Irreplaceable“ var í tíu samfelldar vikur á toppi bandaríska listans. Í desember 2006 lék Knowles í "Dreamgirls", kvikmyndaútgáfu af vinsælum Broadway-söngleik frá 1981 og fjallar um sönghóp á sjöunda áratugnum. Jamie Foxx, Eddie Murphy og Jennifer Hudson léku einnig í myndinni. Knowles tók upp nokkur lög fyrir myndina, m.a. lagið „Listen“. Hlutverk hennar veitti henni Golden Globe tilnefningu árið 2007 fyrir Bestu leikkonu og Besta lag. Þann 3. apríl 2007 gaf Knowles aftur út "B'Day", sem lúxusútgáfu og voru fimm ný lög á plötunni, þ.á.m. „Beautiful Liar“, dúett með kólumbísku söngkonunni Shakiru. Lagið náði þriðja sæti á Billboard Hot 100 listanum. Lagið var þó vinsælla utan Bandaríkjanna og náði t.d. toppnum á listum í Bretlandi. 10. apríl 2007 lagði Knowles af stað í tónleikaferð um heiminn, "The Beyoncé Experience". Knowles hélt tónleika á nítíu stöðum um allan heim og seinna var gefinn út DVD-diskur með tónleikaferðalaginu, "The Beyoncé Experience Live!". "B'Day" fékk fimm tilnefningar til 49. Grammy verðlaunanna, fyrir Besta nútíma R&B platan, Besta R&B frammistaða söngkonu fyrir „Ring the Alarm“, og Besta R&B lag og Besta Rapp/Sungna samstarf fyrir „Déja Vu“. Platan vann verðlaun fyrir Bestu nútíma R&B plötuna. Árið eftir fékk "B'Day" tvær tilnefningar til Plötu ársins fyrir „Irrepaceable“ og Besta Popp Samstarf fyrir „Beautiful Liar“. Knowles fékk líka Grammy tilnefningu fyrir vinnu sína í "Dreamgirls". 2008-09: Hjónaband, "I Am... Sasha Fierce" og kvikmyndir. Árið 2002 byrjaði Knowles með bandaríska rapparanum Jay-Z sem hún hefur nokkrum sinnum unnið með. Orðrómur var uppi um samband þeirra eftir að Knowles söng í lagi hans „'03 Bonnie & Clyde“. Þrátt fyrir stöðugan orðróm héldu þau sambandi sínu leyndu. Þann 4. apríl 2008 giftu þau sig í New York borg. Knowles setti giftingarhringinn ekki opinberlega upp fyrr en á Fashion Rocks tónleikum þann 5. september 2008 í New York. Áður en þau giftust voru Knowles og Jay-Z útnefnd áhrifamesta parið af TIME tímaritinu árið 2006. Í janúar 2009 voru þau útnefnd tekjuhæsta parið í Hollywood en innkoma þeirra var samtals 162 milljónir Bandaríkjadala. Þau komust einnig á topp listans árið eftir þegar þau höfðu samtals þénað 122 milljónir dala á tímabilinu frá júní 2008 til júní 2009. Í nóvember 2008 tilkynnti Forbes tímaritið að Knowles hafði þénað 80 milljónir milli 1. júní 2007 og 1. júní 2008 fyrir tónlist sína, tónleikaferðalag, kvikmyndir og fatafyrirtæki. Þetta gerði hana að öðrum tekjuhæsta tónlistarmanni allra tíma. Knowles gaf út þriðju plötuna sína, "I Am... Sasha Fierce" þann 14. nóvember 2008. Platan kynnir „breytt-sjálf“ Knowles, „Söshu Fierce“. Platan náði strax toppi bandaríska plötulistans (Billboard 200) og seldist í 482.000 eintökum fyrstu vikuna og er þriðja plata hennar í röð sem fer strax á topp listans. Síðan varð Knowles þriðji tónlistarmaður 10. áratugarins til að eiga þrjár plötur sem fara strax á topp bandaríska listans. Platan seldist í 2,9 milljónum eintaka í Bandaríkjunum og hefur tvisvar sinnum farið í platínum sölu. Í dag hefur platan selst í yfir 7 milljónum eintaka um allan heim. „If I Were a Boy“ og „Single Ladies (Put a ring on It)“ voru aðalsmáskífur plötunnar. Fyrsta smáksífan náði þriðja sæti á Billboard Hot 100 listanum en sú síðarnefnda náði efsta sætinu og er fimmta smáskífa Knowles sem nær efsta sætinu. „Single Ladies“ eyddi samtals fjórum vikum á toppi listans. Tónlistarmyndband lagsins hefur fengið mikla athygli fyrir flókin dansspor og fékk myndbandið níu tilnefningar til MTV myndbandaverðlaunanna 2009 og vann verðlaun fyrir Myndband ársins og auk þess tvö önnur verðlaun, þrátt fyrir að hafa tapað fyrir myndbandi Taylor Swift við lagið „You Belong With Me“ sem skapaði deilur á verðlaunahátíðinni. Í desember 2008 lék Knowles blússöngkonuna Ettu James í tónlistar-heimildarmyndinni "Cadillac Records". Hún söng klassísk lög með James, þ.á.m. „At Last“ fyrir forsetahjónin Barack og Michelle Obama þegar þau dönsuðu sinn fyrsta dans sem forsetahjón þann 20. janúar 2009. „Diva“ var gefin út sem þriðja smáskífa "I Am... Sasha Fierce" en „Halo“ var þriðja smáskífan utan Bandaríkjanna og síðar fjórða smáskífa plötunnar í Bandaríkjunum. Lagið náði fimmta sæti á Billboard listanum. Þetta olli því að Knowles hafði átt fleiri lög á Topp 10 á Hot 100 listanum en nokkur önnur söngkona 10. áratugarins. „Ego“ var fimmta smáskífa plötunnar og náði lagið 31. sæti á Billboard Hot 100 listanum. Lögin „Broken-Hearted Girl“ og „Sweet Dreams“ voru smáskífur númer sex og sjö. Til að kynna plötuna hélt Knowles af stað í tónleikaferðina "I Am..." í mars 2009. Samkvæmt Polstar þénaði Knowles 103,2 milljónir dala fyrir 97 tónleika. Í apríl 2009 lék Knowles á móti Ali Larter og Idris Elba í hryllingsmyndinni "Obsessed". Kvikmyndin halaði inn 11,1 milljón dala fyrsta sýningardaginn og hafði í vikulok halað inn meira en 28 milljónum dala. Í júní 2009 setti Forbes tímaritið Knowles í fjórða sæti á lista yfir „100 áhrifamestu stjörnurnar í heiminum“ og í þriðja sæti á lista sínum yfir „Tekjuhæstu tónlistarmennina“ og auk þess efsta á lista yfir „Best launuðu stjörnurnar undir 30“ eftir að hafa þénað meira en 87 milljónir Bandaríkjadala á árunum 2008 og 2009. „Video Phone“ kom út sem áttunda smáskífa "I Am... Sasha Fierce" og var lagið endurútgefið þar sem söngkonan Lady Gaga söng einnig með Knowles í laginu. Myndband lagsins var tilnefnt til tveggja BET verðlauna fyrir „Myndband ársins“ og „Besta samstarf“ og vann myndbandið fyrrnefndu verðlaunin þann 27. apríl 2010. Myndbandið fékk einnig fimm tilnefningar til MTV Myndbandaverðlaunanna fyrir „Besta danssmíði“, „Besta samstarf“, „Besta Popp Myndbandið“, „Besta myndband söngkonu“ og „Besta listræna stjórnun“. Knowles fékk 10 tilnefningar til 52. Grammy verðlaunanna, m.a. „Plata ársins“ fyirr "I Am... Sasha Fierce", „Skífa ársins“ fyrir „Halo“ og „Lag ársins“ fyrir „Single Ladies (Put a Ring on It)“. Knowles náði meti Lauren Hill sem var sú söngkona sem hafði fengið flestar Grammy-tilnefningar á einu ári en Knowles setti síðan met, en hún vann flest Grammy verðlaun á einu kvöldi sem söngkona hefur unnið, þegar hún vann sex veðlaun; Lag ársins, Besta R&B lagið og Besta frammistaða R&B söngkonu fyrir „Single Ladies“, Besta frammistaða Poppsöngkonu fyrir „Halo“, Besta nútíma R&B platan og Besta hefðbundna R&B frammistaðan fyrir „At Last“ 2010-: Nýtt umboð og 4. Í janúar 2010 sagði Knowles í viðtali við USA Today að hún ætlaði að taka sér frí frá tónlistinni árið 2010. Hún sagði: „Það er klárlega kominn tími fyrir hlé, til að hlaða batteríin....Ég væri alveg til í að taka u.þ.b. sex mánuði og ekki fara í hljóðver. Ég þarf bara að lifa lífinu, til að fá innblástur aftur.“ Á þessum tíma var sýnd umfjöllum um Knowles í "60 mínútum" þar sem kom fram að Knowles hafi verið kennt heima þegar hún var barn og hún fer með bænir fyrir hverja tónleika. Í febrúar 2010 kom út lagið „Telephone“ með söngkonunni Lady Gaga en Knowles söng einnig í laginu. „Telephone“ fékk Grammy tilnefningu fyrir Besta Popp Samstarf Söngvara á 53. Grammy verðlaununum. Í júní 2010 setti Forbes tímaritið Knowles í þriðja sæti á lista yfir „Launahæstu tónlistarmennina“ með yfir 87 milljónir í tekjur fyrir tónleikaferð, samninga við Nintendo ogL'Oréal og House of Deréon fatalínuna. Í október 2010 sagði Forbes Knowles vera „Öflugustu konu í heiminum“. Hún lenti einnig í níunda sæti yfir „Þá 20 Tekjuhæstu í Hollywood 2010“ og var hún eini tónlistarmaðurinn sem náði á topp tíu listann. Í janúar 2011 varð ljóst að Knowles myndi birtast í endurgerð af "A Star is Born" sem væri leikstýrt og framleidd af Clint Eastwood fyrir Warner Bros.. Endurgerðin verður fjórða sagan af A Star Is Born og er sú nýjasta kvikmynd frá árinu 1976 með Barbra Streisand og Kris Kristofferson. Í febrúar 2011 greindi vefsíðan WikiLeaks frá því að Knowles ásamt Usher, Mariuh Carey og Nelly Furtadohefðu fengið 1 milljón dala fyrir að syngja fyrir fjölskyldumeðlimi Muammars Gaddafi. Tímaritið Rolling Stone sagði að tónlistarbransinn reyndi að fá þau til að skila þeim peningum sem þau höfðu fengið fyrir tónleikana. Þann 2. mars 2011 sagði talsmaður Knowles að hún hefði gefið peningana til Haíti sjóðs Clinton Bush, sem var stofnaður fyrir fórnarlömb jarðskálftanna á Haítí. Þann 28. mars 2011 var tilkynnt að faðir Knowles og umboðsmaður hennar til langs tíma myndi láta af störfum. Hún hefur nú umboð fyrir sig sjálf og hefur ráðið til sín liðsauka. Í júní 20011 var Knowles áttunda á lista yfir „Tekjuhæstu stjörnurnar undir þrítugu“ fyrir að þéna 35 milljónir dala milli 2010 og 2011. Fjórða stúdíóplata Knowles, "4" kom út þann 24. júní 2011. Platan var innblásin af fjölmörgum tónlistarmönnum, þ.á.m Fela Kuti, The Stylistics, Lauryn Hill, Stevie Wonder og Michael Jackson. Platan náði strax toppi Bandaríska plötulistans, Billboard 200, og seldist í 310.000 eintökum fyrstu vikuna en það er minnsta sala í fyrstu viku sólóplatna Knowles. Aðalsmáskífa plötunnar, „Run the World (Girls)“ náði 29. sæti á Billboard Hot 100 listanum. Önnur smáskífa plötunnar, „Best Thing I Never Had“ kom út 1. júní 2011. Tónlist og rödd. Tónlist Knowles er aðallega nútíma-R&B en hún tekst einnig á við popp, funk, hip hop og sálartónlist. Þó að hún taki aðallega upp lög á ensku, hefur hún einnig tekið upp lög á spænsku fyrir lagið „Irremplazable“ og endurútgáfu "B'Day". Áður en hún tók upp spænsku lögin fékk hún sérstaka þjálfun frá bandaríska upptökustjóranum Rudy Perez. Síðan hún var í Destiny's Child hefur Knowles tekið mikinn þátt í listrænni hlið ferils síns. Hún tók þátt í að semja flest lög hópsins, sem og lög sólóferilsins. Hún er þekkt fyrir að semja persónuleg og hvetjandi lög, en Knowles hefur sagt að það að hafa Jay-Z í lífi sínu hafi breytt miklu um hvernig hún hugsaði um samskipti karla og kvenna, sem hjálpaði henni að fara úr því að semja lög eins og „Independent Women“ og „Survivor“ yfir í lög eins og „Cater 2 U“ þar sem hún syngur um að sækja fyrir hann inniskóna og láta renna í bað fyrir hann. Sum af lögunum hennar fjalla um atburði úr hennar eigin lífi eða jafnvel lífi vina hennar. Knowles hefur einnig meðframleitt flestar plöturnar sínar. Hún býr þó ekki til taktinn sjálf, hún býr oftast til melódíurnar og hugmyndir á meðan framleiðslu lagsins stendur. Knowles var þekkt sem lagahöfundur á Destiny's Child tímabilinu, frá miðjum 10. áratugnum og fram yfir aldamótin. Hún vann verðlaun fyrir Popp lagahöfund ársins á American Society of Composers, Authors and Publishers Popp tónlistar verðlaununum árið 2001, og er hún fyrsta afrísk-bandaríska konan og önnur konan til að vinna þessi verðlaun. Knowles er meðhöfundur laganna „Irreplaceable“, „Grillz“ og „Check on It“, sem hafa öll náð á topp Billboard Hot 100 listans. Knowles er mezzo-sópran og hefur því meira en þriggja áttunda raddsvið. Hún hefur oft verið skilgreind sem aðalrödd Destiny's Child. Jon Pareles hjá The New York Times sagði hað hún hefði þá rödd sem skilgreindi hópinn, og skrifaði að rödd hennar væri „silkimjúk en sterk með mikla sál“. Aðrir gagnrýnendur hafa hrósað henni fyrir raddsvið og styrk. Í gagnrýni um aðra plötuna hennar, "B'Day" var sagt: „Beyoncé Knowles er stormur dulbúinn sem söngvari. Á annarri sólóplötunni sinni, "B'Day", koma lögin í stórum gusti hrynjanda og tilfinninga þar sem rödd Beyoncé fer vel með sterkum hljómnum; þú þyrftir að leita langt, jafnvel inn fyrir veggi Metropolitan óperunnar, til að finna söngvara sem syngur um fleiri hrein gildi... Enginn - ekki R. Kelly, ekki Usher, til að segja eitthvað um keppinautana - eru jafningjar Beyoncé í snilli í að draga raddlínur sínar við hip-hop-taktinn.“ Chris Richards hjá The Washington Post skrifaði: „Hún er hafin yfir alla keppinautana. Það er allt í röddinni hennar - ofurmannlegu hljóðfæri sem er fært um að syngja hvaða takt sem er og maður fær gæsahúð af dívutónunum...“ Knowles hefur oft verið gagnrýnd fyrir að „ofsyngja“. Hún notar oft „melisma“ (þar sem eitt orð er teygt yfir marga tóna) og er oft borin saman við tónlistarmenn eins og Mariuh Carey, en hún er þekkt fyrir að skreyta lögin sín helst til mikið með „melisma“ og draga þannig athyglina frá laglínunni. Eye Weekly skrifaði, „Það er engin spurning að Beyoncé er ein af bestu popp söngkonunum, kannski ein sú besta á lífi... [þó] eins áhrifamikill og söngur hennar getur verið, geta áhrifin stundum verið eins og að vera laminn í höfuðið af silkihanskaklæddum hnefa.“ Áhrif. Knowles segir Michael Jackson vera aðaláhrifavald sinn í tónlist. Knowles hefur einnig nefnt Diönu Riss sem annan tónlistarmann sem hefur haft mikil áhrif á hana, vegna þess að „hún er fjölhæfur skemmtikraftur: frábær leikkona, góð söngkona, og falleg, fáguð kona. Hún er ein af fáum söngvurum sem eru mjög góðir kvikmyndaleikarar.“ Aðrir áhrifavaldar hennar í tónlist eru Tina Turner, Prince, Lauryn Hill, Aaliyah, Mary J. Blige, Whitney Houston, Janet Jackson, Anita Baker og Rachelle Ferrell. Knowles segir Mariuh Carey einnig vera frábæra söngkonu og að Knowles hafi verið undir áhrifum frá henni þegar hún söng lagið „Vision of Love“. Oprah Winfrey veitir henni einnig innblástur sem og eiginkona Bandaríkjaforseta, Michelle Obama. Knowles segir að Oprah sé „skilgreiningin á sterkri konu. Þegar ég er nálægt henni langar mig að standa bein og bera orðin rétt fram.“ Knowles hefur einnig haft mikil áhrif á tónlistarmenn nútímans, m.a. Rihönnu, Alexöndru Burke, Leonu Lewis, Adele og Nicki Minaj. Trey Songz, Keri Hilson og Jazmine Sullivan hafa einnig lýst því yfir að vera aðdáendur Knowles. Kelly Rowland sagði einnig í viðtali við MTV News að Knowles væri ein þeirra sem veittu henni innblástur við upptöku annarrar sólóplötu hennar, "Ms. Kelly". Adele sagði í viðtali við tímaritið Rolling Stone að hún sækti í innblástur frá „öðru sjálfi“ Knowles til að búa til sitt eigið, Söshu Carter, og hún tekur Carter fram þegar hún þarf á miklu sjálfstrausti að halda. Poppsöngkonan Miley Cyrus sagði við bandaríska tímaritið Seventeen að hún vildi verða eins og Knowles og sagði „Hún er aðalkonan. Þú horfir á hana og þú hugsar ekki, ég velti því fyrir mér hvernig einkalíf hennar er. Þú horfir á hana og þú segir, ‚Konan á sviðinu er stórstjarna‘. Þér er sama um allt annað; þér er bara annt um tónlistina hennar. Svo ég vona að þetta verði ég í framtíðinni“. Lady Gaga sagði í viðtali við MTV að hún hefði sótt innblástur í Knowles, áður en hún varð fræg. Hún sagði: „Veistu, ég hef aldrei sagt Beyoncé þetta, en ég man eftr að hafa legið í sófanum heima hjá ömmu, grátandi, og tónlistarmyndband með Destiny's Child kom í sjónvarpinu. Ég man eftir því að hafa horft á Beyoncé, og hugsað „Oh, hún er stjarna. Ég vil þetta. Ég vil vera á MTV“ og núna er ég í tónlistarmyndböndum með Beyoncé.“ Leikkonan Gwyneth Paltrow sagði í viðtali við bresku útgáfu Harper's Bazaar að hún horfði oft á Knowles á tónleikum þegar hún var að læra að vera tónlistarflytjandi fyrir kvikmyndina "Country Strong". Tónlistarmyndband Knowles við lagið „Single Ladies (Put a Ring on It)“ hefur fengið mikla athygli fyrir flókin dansspor og á það að hafa komið af stað „nýju dansæði á nýrri öld og á Internetinu.“ Myndbandið varð til þess að bæði karlar og konur fóru að setja myndbönd af sér, þar sem þau dönsuðu við lagið, inn á YouTube. Fræga fólkið hefur einnig reynt við dansinn, m.a. Justin Timberlake, Joe Jonas, Tom Hanks og Bandaríkjaforsetinn Barack Obama. Svið og „annað sjálf“. Árið 2006 kynnti Knowles kvennabandið "Suga Mama" sem er ætlað til tónleikaferða. Í hljómsveitinni eru bassaleikari, trommari, gítar-, horn-, píanó- og slagverksleikari. Bandið spilaði í fyrsta skipti á BET-verðlaununum árið 2006 og aftur í tónlistarmyndbandi fyrir „Irreplaceable“ og „Green Light“. Bandið hefur stutt Knowles þegar hún syngur opinberlega, m.a. á "Beyoncé Experience"- og "I Am.." tónleikaferðunum. Í grein sem titluð var „Fædd til að skemmta“ fékk Beyoncé ásamt öðrum klassískum- og nútímalegum flytjendum, mikið lof fyrir frammistöðu sína á sviði. Í gagnrýni um "I Am..."-túrinn, sagði Alice Jones hjá "The Independent", „Að horfa á Beyoncé syngja og gera sitt getur best verið unaðslegt, í versta falli dáleiðandi. Hún tekur hlutverk sitt sem skemmtikraftur svo alvarlega að hún er næstum of góð“. "New York Times" segir, „það er hrífandi glamúr í vilja hennar til að skemmta“. Renee Michelle Harris hjá "South Florida Times" skrifar, „Knowles á sviðið með vörumerki sínu, ákveðni og styrkleika...sem sýnir mikla rödd hennar, án þess að missa úr nótu, þegar hún er upptekin í kröftugum, frábærlega útsettum danssporum...enginn, ekki Britney, Ciara og ekki Rihanna geta boðið upp á þennan pakka; rödd, hreyfingar og nærveru.“ "Daily Mail" skrifar, „margir sérfræðingar í bransanum hafa titlað Beyoncé sem næsta Michael Jackson. Á meðan það er of snemmt til að vera með þess konar samanburð, hefur hún svo sannarlega sannað að hún er ein af mest spennandi og hæfileikaríkustu tónlistarmönnum samtímans og gæti jafnvel komist þannig í sögubækurnar.“ Gagnrýnendur hafa einnig lofað söng hennar á tónleikum. Um eina frammistöðu hennar sagði Jim Farber hjá "The Daily New", „Beyoncé þandi söngpípurnar og svakalegan styrk. Þegar hornið í hljómsveitinni hóf að spila, söng hún með. Hvernig Beyoncé notaði líkamann efldi frammistöðuna mikið. Með hárið túberað upp og með nógu langa leggi til að gera Tinu Turner stolta, setti nærvera Beyoncé greinarmerki við sönginn eins og upphrópunarmerki.“ Stephanie Classen hjá "Star Phoenix" skrifar, „Beyoncé er enginn venjulegur flytjandi... frá fyrstu nótu reis 27 ára orkuverið upp fyrir allar brellur og flutti sýninguna eins og kynþokkafull geimveruprinsessa. Ekkert nema geimveru uppruni gæti skýrt þessa rödd...[Beyoncé] gæti hringað hvaða poppstjörnu sem er.“ "Newsday" skrifar, „hún sannar að kynþokkafullur dans og sterk rödd þurfa ekki að vera aðgreind... engar áhyggjur af varsöng þarna.“ Knowles hefur einnig verið gagnrýnd fyrir tvíræða dansa sína. Opinber ímynd. Knowles hefur sagt: „Ég elska að klæðast kynæsandi fötum og bera mig eins og dama,“ en hún segir að fötin sem hún klæðist á sviðinu séu aðeins fyrir sviðið. Sem mikill aðdáandi tísku, sameinar Knowles það listræna í tískunni í tónlistarmyndböndum sínum og tónleikum. Samkvæmt ítalska tískuhönnuðinum Roberto Cavalli, notar hún mismunandi stíla og reynir að sameina það tónlist sinni. Tímaritið People útnefndi Knowles best-klæddu-stjörnuna árið 2007. Móðir Knowles gaf út bókina "Destiny's Style: Bottylicious Fashion, Beauty and Lifestyle Secrets from Destiny's Child" árið 2002, en bókin var um hvernig tískan hafði áhrif á velgengni Destiny's Child. Sem ein af þeim svörtu stjörnum í Bandaríkjunum sem fær hvað mesta umfjöllun, hefur Knowles oft fengið gagrýni sem margir telja vera kynþáttahatur og kynjamisrétti. Tímaritið "Rolling Stone" sagði að síðan "Dangerously in Love" kom út „hefur [Beyoncé] orðið kyntákn eins og Halle Berry...“ Árið 2007 var Knowles á forsíðu "Sports Illustrated", sundfatablaðinu, fyrsta konan sem ekki er fyrirsæta eða íþróttakona til að vera á forðsíðunni og önnur afrísk-bandaríska konan á eftir Tyru Banks. Sama ár, birtist Knowles á myndum þar sem hún hélt á gömlum sígarettu-haldara. Myndin sem var tekin af plötuumslagi "B'Day", hreyfði við samtökum sem berjast á móti reykingum og sagði að hún þyrfti ekki að bæta sígarettu-haldaranum við „til að fá fágaðara útlit“. 24. apríl 2009 kom Knowles í Larry King Live, þar sem hún skapaði sér pólitískari ímynd og talaði um allt frá því að syngja fyrir Barack Obama forseta, til kynþáttahaturs sem hún hefur orðið fyrir, vegna þess að hún er svört. Hún sagði að Michelle Obama sé „svo skvísuleg“ og sagði einnig að það að syngja við fyrsta dans Obama-hjónanna sem forsetahjóna hafi verið hápunktur ferilsins. Hún giftist rapparanum Jay-Z í apríl 2008. Þau eiga von á sínu fyrsta barni. House of Deréon. Knowles og móðir hennar kynntu "House of Deréon", nútímalega fatalínu fyrir konur, árið 2005. Hugmyndin er innblásin af þremur kynslóðum kvenna í fjölskyldunni og er nafnið virðingarvottur við ömmu Knowles, Agnès Deréon, sem vann fyrir sér sem saumakona. Samkvæmt Tinu Knowles, er yfirbragð línunnar endurspeglun á smekk og stíl Beyoncé. Línan fór í búðir árið 2006 og fékk House of Deréon mikla kynningu frá Destiny's Child, en þær klæddust fötum línunnar á tímabili "Destiny Fulfilled". Búðin, sem er í Bandaríkjunum og Kanada, selur íþróttafatnað, föt úr gallaefni ásamt feldi, hlífðarfatnað og fylgihluti, þar á meðal handtöskur. Knowles tók einnig saman við House of Brands, skófyrirtæki á svæðinu, til að hanna skó fyrir House of Deréon. Árið 2004 stofnaði hún ásamt móður sinni fyrirtækið Beyond Productions. Snemma árs 2008 var gefinn út símaleikurinn Beyoncé Fashion Diva. Samtök dýraverndunarsinna (PETA) hafa gagnrýnt Knowles fyrir að vera í og nota feld í fatalínunni. Samtökin sendu inn mótmælabréf og hafa reynt að ná sambandi við stjörnuna á opinberum vettvangi. Knowles hefur enn ekki svarað. Vörur og framsal. Knowles skrifaði undir kynningarsamning við Pepsi árið 2002, sem innihélt meðal annars sjónvarpsauglýsingar en einnig útvarps- og netauglýsingar. Ástæða samninganna var að Pepsi vildi fá breiðari neytendahóp. Árið 2004 birtust Knowles, Britney Spears, Pink og Enrique Iglesias í svokallaðri „Gladiator“-auglýsingu fyrirtækisins og árið eftir birtist Knowles með Jennifer Lopez og David Beckham í svokallaðri "Samurai"-auglýsingu. Auglýsinga- og vörusamningar Knowles eru meðal annars við förðunarvörur og ilmvötn. Knowles hefur unnið með L'Oréal síðan hún var 18 ára. Hún kom ilm Tommy Hilfiger, True Star, af stað árið 2004. Knowles söng útgáfu af laginu „Wishing on a Star“ fyrir True Star-auglýsingarnar, en fyrir það fékk hún 250,000 dollara. Hún kom einnig True Star Gold af stað árið 2005 og Diamonds ilmi Armani árið 2007. Tímaritið Forbes sagði að Knowles þénaði 80 milljónir dala frá júní 2007 til júní 2008 en inni í því var meðal annars platan hennar, tónleikaferðalag, fatalínan og auglýsingaherferð. Hún var annar tekjuhæsti tónlistarmaðurinn á einu ári. Árið 2009 setti Forbes Knowles í fjórða sæti á lista sinn yfir 100 áhrifamestu stjörnurnar í heiminum, þriðja á listanum yfir tekjuhæsta tónlistarfólkið og í efsta sæti af tekjuhæstu stjörnunum undir 30 ára aldri með yfir 87 milljónir dollara í árstekjur frá 2008-2009. Forbes setti Knowles í þriðja sæti á lista áhrifamestu stjarnanna 2010 með 87 milljónir í tekjur vegna 93 daga tónleikaferðar, samninga við Nintendo og L'Oréal og fatalínuna House of Deréon. Knowles var einnig í þriðja sæti yfir 100 öflugustu og áhrifamestu stjörnurnar í heiminum og reyndist einnig vera tekjuhæsta söngkonan. Árið 2010 gaf Knowles út sinn fyrsta ilm, „Heat“. Til að kynna ilminn tók Knowles upp sína útgáfu af laginu „Fever“ fyrir „Heat“-auglýsingarnar. Knowles tók fyrst upp „Fever“ fyrir kvikmyndina "The Fighting Temptations" árið 2003. Sérfræðingar í bransanum hafa metið að ilmurinn gæti halað inn 100 milljónum dala á einu ári. Knowles útskýrði hugtakið á bakvið ilminn: „Mikið af sýningum mínum hafa innihaldið eld, svo við hugsuðum „Hiti“ (e. „Heat“). Einnig er rauður einn af uppáhalds litunum mínum en það er gylltur einnig. Allt, frá hönnun flöskunnar að nafninu og hugmyndunum bakvið auglýsingarnar, er komið frá mér.“ Knowles hefur einnig sagt um ilminn: „Fyrir mig endurspeglar ilmur afstöðu og smekk hennar, á meðan ég dái nokkur ilmvötn, hef ég ekki fundið ilminn sem persónugerir mig sem konu. Þegar ég vann með Coty gat ég breytt drauma-ilmnum mínum í raunverulegan ilm með því að gera aðlaðandi og fágaðan ilm; eitt af því sem endurspeglar minn innri styrk.“ Sasha Fierce fatalína. Þann 1. júlí 2009 fóru Knowles og fatahönnuðurinn móðir hennar, Tina, af stað með aftur-í-skólann fatalínuna sem var innblásin af búningum tónleikaferðarinnar. Fötin voru hönnuð af Thierry Mugler. Línan samanstóð af íþróttafatnaði, yfirhöfnuð, handtöskum, skófatnaði, augsnskuggum, nærfötum og skartgripum. Fatalínan ætlaði sér að grípa anda poppstjörnunnar á sviði. Útlitið er slétt, mjög öðruvísi og poppað upp með fullt af málmskartgripum, meðal annars sundbolum og mikið af legginsbuxum. „Línan er í rauninni hin hliðin á mér og ég er mjög þakklát fyrir að geta tjáð hana. ‚Sasha Fierce‘-línan er fyrir öruggar, næmar og þorandi hliðina á konum,“ útskýrir Beyoncé. Í grundvallaratriðum er hún fyrir allar ungar konur þarna úti sem vilja segja tískuheiminum: „Ég er eins konar Sasha Fierce...“ Avril Lavigne. Avril Lavigne (f. Avril Ramona Whibley 27. september 1984) er kanadísk Rock/punk/pop söngkona. Hún fæddist í Belleville í Ontario. Þegar hún var 5 ára gömul flutti hún með fjölskyldu sinni til Napanee, Ontario í Kanada og hún ólst upp þar. Fyrsta einsöngsframkoma hennar var í kirkju þegar hún söng, „Near to the heart of god“, aðeins 10 ára gömul. Árið 1998 vann hún keppni og verðlaunin voru þau að hún fengi að syngja með kanadísku söngkonunni Shania Twain í tónleikaferð hennar. Avril stóð við hlið söngkonunnar á tónleikum í Ottawa, Kanada og þær sungu saman „What Made You Say That“. Avril á eina yngri systur sem heitir Michelle og einn eldri bróður sem heitir Matthew. Avril býr í L.A. með manninum sínum Derek Whibly. Derek Whibly hélt fram hjá henni og er lagið hennar „My happy ending“ um hann. József Kossics. József Kossics (9. október 1788 í Bagonya í Ungverjalandi, í dag Slóveníu – 26. desember 1867 í Felsőszölnök í Ungverjaland) var slóvenskur rithöfundur og kaþólskur prestur. Kossics, József Kossics, József Jesse McCartney. thumbnail Jesse Arthur McCartney (f. 9. apríl 1987 í New York-borg) er bandarískur söngvari og leikari. .bb. .bb er þjóðarlén Barbados. .tt. .tt er þjóðarlén Trínidad og Tóbagó. .iq. .iq er þjóðarlén Írak. Kill Bill. "Kill Bill" er bandarísk kvikmynd í leikstjórn Quentin Tarantino. Kvikmyndin var gefin út í tveimur hlutum, þó upphaflega hafi hún átt að vera einu lagi. Ástæðan var lengd myndarinnar, sem er um fjórar klukkustundir. Myndin hleypur fram og aftur í tíma og er það eitt einkenni kvikmynda frá Quentin Tarantino. Búið er að boða útkomu 3. hluta á árinu 2014. Uma Thurman. Uma Karuna Thurman (29. apríl 1970) er bandarísk leikkona. Hún er best þekkst fyrir hlutverk sín í kvikmyndum Quentin Tarantino. Lucy Liu. Lucy Alexis Liu (kínverska: 劉玉玲 Liú Yùlíng, fædd 2. desember 1968), best þekkt sem Lucy Liu, er bandarísk leikkona og Emmy-verðlaunahafi. Hún kom fyrst fram á sjónarsviði fyrir leik sinn í gamanþáttunum "Ally McBeal" (1998-2002). Hún hefur einnig leikið í nokkrum vinsælum kvikmyndum, t.d. "Kill Bill" og "Charlie's Angels". Brugge. Brugge (til forna stundum nefnd Bryggja á íslensku) (franska: Bruges; þýska: Brügge) (stundum nefnd Bryggja á íslensku) er borg í Belgíu. Hún er jafnframt höfuðborg og stærsta borgin í flæmska héraðinu Vestur-Flæmingjalandi. Borgin er mikilvæg hafnarborg en tvær stórar hafnir eru í borginni, norðan miðborgarinnar og í Zeebrugge við Norðursjó. Miðborgin hefur lítið breyst síðan á miðöldum og er í heild sinni á heimsminjaskrá UNESCO. Íbúar eru 116 þúsund. Lega og lýsing. Brugge er vestasta stórborgin í Belgíu og liggur norðvestast í landinu, aðeins 15 km frá Norðursjó og 15 km fyrir sunnan hollensku landamærin. Næstu stærri borgir eru Oostende til vesturs (25 km), Gent til austurs (45 km), Kortrijk til suðurs (45 km) og Dunkerque í Frakklandi til suðvesturs (70 km). Brugge er skipt upp í tvo meginhluta: Gamla borgin, sem er 15 km frá ströndinni, og höfnin sjálf við Norðursjó, sem er bær út af fyrir sig og heitir Zeebrugge. Önnur höfn, talsvert minni, er við miðborgina sjálfa. Frá miðborginni er hægt að sigla til Zeebrügge eftir Baldvinsskurðinum (Boudewijnkanaal), sem og til Oostende, sem einnig er hafnarborg við Norðursjó. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Brugge samanstendur af sjö láréttum röndum, fjórum rauðum og þremur hvítum. Merking þeirra er ekki þekkt. Fyrir miðju er blátt ljón, en það er sennilega ljón greifanna af Flæmingjalandi. Fáninn eins og hann er í dag var samþykktur 1986. Skjaldarmerkið sýnir fánann í skjaldarformi. Skjaldarberar eru björn til hægri og ljón til vinstri. Neðst er borði með áletruninni SPQB, sem stendur fyrir "Senatus PopulusQue Brugensis" ("ráð og fólk borgarinnar Brugge"). Áletrunin er frá 17. öld og hermir eftir frægri skammstöfun Rómverja (SPQR). Skjaldarmerkið var formlega veitt 1819 og staðfest 1842. Síðustu breytingar á merkinu voru gerðar 1986. Orðsifjar. Orðið Brugge er germanskt að uppruna og merkir upphaflega "brú" eða "bryggja". Elsti rithátturinn er Bruggia (eða Bruccia), en önnur heiti finnast í skjölum, s.s. Bruggas, Brugis, Brugias, og þessu líkt. Rithátturinn Brugge kom fyrst fram 1116. Vegna fjölda síkja í borginni er Brugge gjarnan nefnd "Feneyjar norðursins" (eins og Amsterdam). Íbúar borgarinnar eru kallaðir Bruggelingen (Bryggjubúar). Gælunafn þeirra er Zotten (eða Brugse Zotten), sem merkir "vitleysingarnir í Brugge". Þjóðsagan segir að þegar Maximilian I keisari hafi átt í stríði við Frakka, var hann handtekinn af eigin þegnum í Brugge 1488. Í varðhaldinu bannaði hann borgarbúum að halda markaði og hátíðir. Til að skaprauna keisaranum héldu borgarbúar hins vegar allstóra veislu og báðu síðan um leyfi til að halda markaði á ný, því annars yrði fangelsisbyggingin nýtt vitleysingjahús (zothuis). Þá svaraði keisari: "‚Lokið öllum hliðum í Brugge og þá breytist borgin öll í vitleysingjahús.‘" Gæluheitið Brugse Zotten er gjarnan notað enn í dag. Upphaf. Síðan á 2. eða 3. öld e.Kr. hefur þorp verið á núverandi borgarstæði, þar sem gallar og rómverjar bjuggu í sameiningu. Íbúarnir voru ekki bara bændur, heldur stunduðu einnig verslun, svo sem við England og aðra hluta Gallíu. Það var Baldvin járnhönd, stofnandi greifadæmisins í Flandri, sem reisti kastalavirki á staðnum um miðja 9. öld til varnar árásum víkinga (sem eyddu Antwerpen 836). Mikil byggð myndaðist í kringum virkið og hlaut Brugge almenn borgarréttindi þegar árið 1128. 1134 átti sér stað mikið stormflóð sem myndaði lítill fjörð úr Norðursjó, Het Zwin, sem náði nær alla leið til Brugge. Borgin varð því í einu vettvangi að hafnarborg og fóru verslunarmenn óðara að flytja út vefnaðarvörur en flytja inn ull frá Englandi og vín frá Frakklandi. Hansaborgin. Brugge hlaut víðtæk markaðsréttindi og dró að sér verslunarmenn víða að. 1253 gerði greifaynjan Margrét af Flandri samning við Hansakaupmenn frá ýmsum borgum. Hansasambandið reisti sér stór verslunar- og lager hús í borginni. Gífurleg velmegun fylgdi í kjölfarið og var Brugge næstu aldir ein mesta verslunarborg Niðurlanda. Hús verslunarættarinnar Van der Beurse var notað sem vöru- og verðbréfamarkað. Talið er að þaðan hafi orðið "börsen" (kauphöll) orðið til. Meðan á blómatíma borgarinnar stóð voru tveir enskir konungar í útlegð í Brugge: Játvarður IV og Ríkharður III, báðir á 15. öld. Tvær ástæður urðu til þess að Hansasambandið hætti verslun í Brugge. Í fyrsta lagi gerðu búrgundar, sem þá réðu héraðinu á 16. öld, verslunina erfiða með auknum álögum og kröfum. Í refsingarskyni setti Hansasambandið verslunarbann á borgina í þrjú skipti, sem reyndust borginni gífurlega erfið. Í öðru lagi fór fjörðurinn Zwin að grynnka. Loks fór svo að hann var ekki lengur skipgengur og er reyndar horfinn í dag. 1520 voru verslunarhús Hansasambandsins færð til Antwerpen, sem tók við sem helsta verslunarborg Niðurlanda. Hnignun borgarinnar stóð yfir næstu 300 árin, sem var á þeim tíma meðal fátækustu borga Flæmingjalands. Nýrri tímar. Kort af Brugge 1562 eftir Marcus Gerards Brugge kom varla við sögu í stórstyrjöldum Evrópu næstu alda. 1524-1713 var borgin á valdi Spánverja, 1713-1795 á valdi Habsborgar og 1795-1815 á valdi Frakka. 1815 var konungsríki Niðurlanda stofnað en 1830 gerðu Belgar uppreisn. Brugge tók ekki þátt í þeirri uppreisn, en engu að síður lengi borgin í Belgíu, ekki Hollandi. Iðnvæðing 19. aldar fór nær algerlega framhjá Brugge. Þar af leiðandi myndaðist ekki mikill iðnaður í borginni. Það var ekki fyrr en í lok 19. aldar að Brugge komst á kortin á ný en nú sem ferðamannaborg. 1907 lagði Brugge nýja stórhöfn við Norðursjó, sem hlaut heitið Zeebrugge. Þar með var Brugge orðin að hafnarborg á ný. Höfnin hefur verið stækkuð í gegnum árin og er hún orðin meðal stærstu hafna Evrópu. 1987 átti sér stað stórslys í höfninni er ferjan Herald of free Enterprise lagðist á hliðina. 193 manns biðu bana. Árið 2000 var miðborgin öll, sem verið hefur nánast óbreytt í langan tíma, sett á heimsminjaskrá UNESCO. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar eru tvö: FC Brugge og Cercle Brugge. FC Brugge hefur lengi verið sigursælasta knattspyrnufélag borgarinnar. Það hefur þrettán sinnum orðið belgískur meistari (síðast 2005), tíu sinnum bikarmeistari (síðast 2007) og einu sinni deildarbikarmeistari. Liðið komst einnig í úrslit í Evrópukeppni meistaraliða 1976 en tapaði úrslitaleiknum fyrir Liverpool. Cercle Brugge hefur þrisvar orðið belgískur meistari (1911, 1927 og 1930) og tvisvar bikarmeistari (1927 og 1985). Tveir Íslendingar leika sem stendur með félaginu: Arnar Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen. De ronde van Vlaanderen er hjólreiðakeppni og lang vinsælasta einsdagskeppnin í Belgíu. Hjólaðir eru um 400 km með viðkomu í helstu borgum Flæmingjalands og víðar. Keppnin fer fram í apríl árlega og er Brugge ávallt rásmark keppninnar. Byggingar og kennileiti. Miðborg Brugge er í heild sinni á heimsminjaskrá UNESCO, sökum gamalla og sögufrægra bygginga. Miðborgin afmarkast af ánni Leie sem hringum í kringum hana. Einnig eru talsvert mörg síki í miðborginni. Smedenpoort frá 14. öld, Ezelpoort frá 14. öld, Kruispoort frá 13. öld og Gentpoort frá 13. öld. .mc. .mc er þjóðarlén Mónakó. Þýsk málfræði. Þýsk málfræði fjallar um þær reglur sem að þýska byggir á. Kyn. Þýska hefur haldið öllum þeim þremur kynjum sem finnast í Frumindóevrónsku. Þau eru karlkyn (männlich/Maskulinum), kvenkyn (weiblich/Femininum) og hvorugkyn (sächlich/Neutrum). Orð sem lýsa karlkyni eða kvenkyni, eins og „maður“ ("der Mann") eða „kona“ ("die Frau"), eru oftast í sama kyni og líffræðilega kynið (með undantekningunni „ungfrú“ - öll nafnorð sem enda á „-chen“ eru í hvorugkyni). Á hinn boginn eru kyn hluta sem hvorki eru karlkyns né kvenkyns frekar handahófkennd. Tilviljunarkennt eðli nafnorða má sjá í þremur dæmum um algeng hífapör: „skeið“ ("der Löffel") er karlkynsorð, „gaffall“ ("die Gabel") er kvenkynsorð og „hnífur“ ("das Messer") er hvorugkynsorð. Nemendum er oft ráðlagt að læra greini nafnorða samhliða þeim því á greininum má sjá í hvaða kyni orðið er. Guðmundur G. Hagalín. Guðmundur Gíslason Hagalín (10. október 1898 í Lokinhömrum í Arnarfirði – 26. febrúar 1985 á Akranesi) var íslenskur rithöfundur, blaðamaður, ritstjóri, ævisagnahöfundur og bókavörður. Fjölskylda Guðmundar bjó í fyrstu að Lokinhömrum, þar sem Guðmundur fæddist, en fluttist síðar að Haukadal í Dýrafirði. Guðmundur lauk gagnfræðaprófi og hóf árið 1917 nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Árið 1918 gerðist hann blaðamaður í Reykjavík og síðar á Seyðisfirði en þar var hann ritstjóri blaðanna Austurlands og Austanfara. Hann dvaldi í Noregi árin 1924-27 en flutti árið 1928 til Ísafjarðar og starfaði þar sem bókavörður og kennari. Árið 1965 fluttist hann í Borgarfjörð og bjó á Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal. Hann stofnaði ásamt fleirum Félag íslenskra rithöfunda árið 1945. Árið 1955 var hann skipaður bókafulltrúi ríkisins og gegndi því starfi til 1969. Kingston upon Hull. Kingston upon Hull (oftast stytt í Hull og borið fram Húll á íslensku) er borg í Yorkshire við Norðursjávarströnd Englands. Hull er gömul hafnarborg, en skip þaðan komu við sögu í þorskastríðunum við Íslandsstrendur. Íbúar eru tæp 260 þús. Lega og lýsing. Hull er hafnarborg við norðurströnd fljótsins Humber sem rennur í austurátt og mundar í Norðursjó. Borgin er um 40 km inn í landi frá ósunum. Áin Hull rennur í gegnum borgina og mundar í Humber. Næstu stærri borgir eru Grimsby til suðausturs (25 km loftlína), Leeds til vesturs (80 km), York til norðvesturs (80 km) og Sheffield til suðvesturs (100 km). Borgin er með víðáttumikil hafnarsvæði við ána Humber, fyrir flutningaskip, fiskiskip og ferjur. Sérhvert hafnarsvæði er með stórar hafnarlokur, þar sem gríðarlegur munur er á sjávarföllum við Humber. Orðsifjar. Fullt heiti borgarinnar er Kingston upon Hull. Borgin hét upphaflega Wyke on Hull, sem merkir "bærinn við ána Hull". En 1299 breytti Játvarður I Englandskonungur heitinu í Kings town upon Hull (Bær konungsins við Hull). "Kings town" var svo skeytt saman síðar í Kingston. Yfirleitt tala menn hins vegar bara um Hull og gildir það bæði á Íslandi og í Bretlandi. Íbúar borgarinnar eru kallaðir Hullensians. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Hull sýnir þrjár gullnar kórónur á bláum fleti. Kórónurnar vísa til þjóðsögurnar um vitringanna þrjá (konungar á ensku máli), en þeir koma víða fyrir í skjaldarmerkjum í Evrópu. Þó er ekki vitað með vissu hvernig á því stóð að Hull tók merki þetta upp. Það kemur fyrst fram á mynd á 15. öld, en á skjaldarmerki árið 1612. Það var staðfest 1879 og hefur ekki breyst síðan. Konungsborgin. Klaustrið Meaux var stofnað 1151 á reit sem nú er borgarstæði Hull. Ábótarnir þar áttu landið allt í kring, einnig bæinn sem myndaðist í kringum vefnað munkanna. Lítil hafnaraðstaða myndaðist við ána Hull sem var notuð til að flyta vefnaðinn út. 1293 keypti Játvarður 1 Englandskonungur bæinn allan af klaustrinu og reisti sér herrasetur þar. Honum þótti staðsetningin ágæt þegar verja skyldi landið erlendum innrásarher. Sjálfur dvaldi Játvarður í Hull þegar hann safnaði liði fyrir innrásina í Skotland 1296, en þar höfðu Andrew de Moray og William Wallace gert uppreisn. 1299 veitti Játvarður Hull formleg borgarréttindi. Við það tækifæri breyttist heiti bæjarins í King‘s town upon Hull, sem síðar breyttist í Kingston. Leyfisskjalið, undirritað af konungi, er enn til og er til sýnis í safni í borginni. Sökum hafnarinnar var verslun æ ríkari þáttur í athafnalífi borgarbúa. Skip sigldu til Niðurlanda og Eystrasalts og versluðu einnig við Hansasambandið. Hull varð að mestu hafnarborg Englands við Norðursjó. Umsátrið. 1440 veitti konungur Hull leyfi til að mynda borgarstjórn. Fyrsti borgarstjórinn hét William de la Pole. Honum til aðstoðar var embætti fógeta stofnað, sem og öldungaráð tólf manna. Borgin óx mjög á 16. og 17. öld. Siglingar urðu æ mikilvægari, ekki síst með tilkomu Vesturheims og annarra heimshluta. Í Hull hafði Englandskonungur einnig látið reisa sér eitt stærsta vopnabúr Englands. 11. janúar 1642 skipaði Karl I jarlinn af Newcastle sem nýjan landstjóra í Hull. Þingið í London hafði hins vegar rofið tengslin við konunginn og skipað John Hotham sem landstjóra í Hull. Hotham hélt rakleiðis til Hull og vann borgina á sitt band. Því meinuðu borgarbúar Karli inngöngu í borgina þegar hann kom þangað í apríl. Karl hóf þá umsátur um Hull en Hotham náði að hrekja umsátursliðið á brott. Karl hrökklaðist frá og þótti hafa farið mikla hneisuför. Enska borgarastyrjöldin hófst aðeins nokkrum mánuðum síðar. Nýrri tímar. Næstu aldir óx borgin og var enn sem áður mikilvægasta hafnarborg Englands við Norðursjó. Þúsundir Evrópubúa komu til Hull á leið sinni til Vesturheims, en frá Hull fór fólkið yfirleitt með lest til Liverpool og sigldi þaðan yfir Atlantshafið. 1825 var skipafélagið Wilson Line of Hull stofnað, en það er í dag stærsta einkarekna skipafélag heims. Auk farþegasiglinga og fiskveiða, voru einnig nokkur hvalskip gerð út frá Hull, allt þar til Englendingar hættu hvalveiðum á 19. öld. Í heimstyrjöldinni fyrri varð Hull fyrir loftárásum Zeppelin loftskipa í 7 skipti. Í heimstyrjöldinni síðari varð Hull fyrir gríðarlegum loftárásum Þjóðverja og skemmdist borgin meira en nokkur önnur ensk borg, fyrir utan London. 86 þús byggingar skemmdust eða eyðilögðust, en það voru 95% allra bygginga í borginni. Nær öll miðborgin var í rústum, en einnig mörg íbúðahverfi, iðnaðarhverfi og járnbrautarkerfið. Tæplega 1.200 manns biðu bana og rúmlega 150 þús manns urðu heimilislausir. Síðasta loftárás Þjóðverja á enska borg var í Hull 17. mars 1945. Árásir þessar fóru í sögubækurnar sem Hull Blitz. Þrátt fyrir allar skemmdir hélt starfsemin í höfninni áfram allt stríðið, enda mikilvægasta höfn Englendinga við Norðursjó. Eftir stríð veiddu margir togarar frá Hull við Íslandsstrendur og voru þátttakendur í þorskastríðunum, en þeim lauk 1976 með sigri Íslendinga. Margir sjómenn í enskum borgum, þar á meðal Hull, urðu atvinnulausir. Þetta varð til þess að efnahagur borgarinnar fór síversnandi og afleiðingin var mikil fólksfækkun. Á tímabilinu 1991-2001 fækkaði íbúum um 5,3%, úr 300 þús niður í 240 þús, en hefur fjölgað aftur í 260 þús allra síðustu ár. Könnun sem gerð var 2003 sýndi fram á að 27% íbúa lifðu með innan við £10.000 í tekjur á ári. Breska ríkisstjórnin bað sjómenn afsökunar á atvinnuleysið og erfiðleikana, þó ekki fyrr en árið 2012 og gaf þeim að auki 1000 pund á mann. Þetta var mikið gagnrýnt fyrir að koma 35 árum of seint. Í dag er höfnin enn einn mikilvægasti atvinnuvettvangur borgarinnar, en þar starfa um 5 þús manns. Ferjur frá Hull flytja um milljón farþega árlega til ýmissa hafna á meginlandi Evrópu. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Hull City. Í tvö ár, 2008-2010, lék félagið í úrvalsdeildinni, en leikur í sem stendur í b-deildinni. Félagið hefur aldrei unnið stóran bikar. Tvö helstu rúgbýlið borgarinnar eru: Hull F.C. og Hull Kingston Rovers. Til eru nokkur smærri, en þau leika í neðri deildum. Íshokkí er einnig hátt skrifað í Hull, en þaðan er liðið Hull Stingrays. Félagið á hins vegar í fjárhagskröggum og tókst með naumindum að bjarga því frá gjaldþroti. Ekki er útséð hvernig framhaldið verður. Í hafnabolta leikur liðið Hull Hornets í efri deildum. Borgin verður vettvangur bresku meistarakeppninnar í skvassi fyrir árin 2013 og 2014. Byggingar og kennileiti. Mjög lítið er um gamlar byggingar í Hull, þar sem þær eyðilögðust að mestu leyti í loftárásum seinna stríðsins. Hamid Karzai. Hamid Karzai (f. 24. desember 1957) Tók við forsetaembætti Afganistan 22. desember 2004. Hann er fyrsti forseti landsins, en fram til ársins 2001 höfðu aðeins konungar, emírar og talíbanar stjórnað landinu. .ac. .ac er þjóðarlén Ascension eyjar. .ae. .ae er þjóðarlén Sameinuðu Arabísku Furstadæmana. .ag. .ag er þjóðarlén Antígva og Barbúda .ai. .ai er þjóðarlén Angvilla .an. .an er þjóðarlén Hollensku Antillaeyja .ao. .ao er þjóðarlén Angólu. .aq. .aq er þjóðalén Suðurskautslandsins .ar. .ar er þjóðarlén Argentínu .as. .as er þjóðarlén Bandarísku Samóu .at. .at er þjóðarlén Austurríkis .aw. .aw er þjóðarlén Arúba .ax. .ax er þjóðarlén Álandseyja. .ba. .ba er þjóðarlén Bosníu og Hersegóvínu. .bd. .bd er þjóðarlén Bangladess. .bh. .bh er þjóðarlén Barein. .bi. .bi er þjóðarlén Búrúndí. .bj. .bj er þjóðarlén Benín. .bm. .bm er þjóðarlén Bermúda. .br. .br er þjóðarlén Brasilíu. .bt. .bt er þjóðarlén Bútan. .es. .es er þjóðarlén Spánar. .no. .no er þjóðarlén Noregs. John Howard. John Howard í bandaríkjunnum árið 1997 John Howard (fæddur 26. júlí 1939) var 25. forsætisráðherra Ástralíu og gengdi því embætti frá 11. mars 1996 - 3. desember 2007. Howard, John .bu. .bu var þjóðarlén Búrma (nú Mjanmar) en var lagt niður þegar nafni landsins var breytt. Þjóðarlén Mjanmar er .mm .bv. .bv er þjóðarlén Bouvet eyjar sem er óbyggð eyja í suður Atlantshafi og þar með er lénið ekki í gildi. MIME-staðall. MIME-staðall (enska: "Multipurpose Internet Mail Extensions") er staðall fyrir gagnaflutninga sem gefur þann valmöguleika að senda margmiðlunarskrár og viðhengi sem eru ekki texti (eins og myndir, símbréf, lög eða hljóð) með tölvupósti. Leikskóli. Leikskóli er skólastofnun fyrir börn innan skólaskyldualdurs þar sem börn læra að leika sér í félagi, áður en þau fara í grunnskóla. Sumar. Sumar er eitt af árstíðarheitunum fjórum á tempraða beltinu. Hinar eru haust, vetur og vor. Sumur á norðurhveli jarðar miðast oftast við mánuðina júní, júlí og ágúst, en á suðurhveli við desember, janúar og febrúar. Veðurstofa Íslands telur sumar vera mánuðina júní, júlí, ágúst og september, en þetta eru þeir fjórir mánuðir ársins, sem að jafnaði hafa hæstan meðalhita. Eldri notkun. Á norræna tímatalinu hefst sumarið á sumardaginn fyrsta, sem er fyrsti fimmtudagurinn eftir 18. apríl. Sumartímabilinu lýkur á föstudegi á tímabilinu 20. til 27. október. Í þessu kerfi eru aðeins tvær árstíðir: sumar og vetur. Hilmar Jónsson. Hilmar Jónsson (13. maí 1964) er íslenskur leikari. Hinrik Hoe Haraldsson. Hinrik Hoe Haraldsson (19. apríl 1972) er íslenskur leikari. Hinrik Ólafsson. Hinrik Ólafsson (11. apríl 1963) er íslenskur leikari. Steinarr Ólafsson. Steinarr Ólafsson (fæddur 10. október 1966) lék annað tveggja aðalhlutverka í kvikmyndinni Foxtrot og lék hlutverk víkingasveitarmanns í Skyttunum. Hann vinnur í dag hjá Teris Hjálmar Hjálmarsson. Hjálmar Hjálmarsson (fæddur 28. ágúst 1963) er íslenskur leikari. Hann er meðal annars þekktur fyrir ekki-fréttamanninn "Hauk Hauksson". Hann lék Einar blaðamann í sjónvarpsþáttunum Tími Nornarinnar (2011) og Krumma í sjónvarpseríunum Hæ Gosi. Hjálmar hefur leikstýrt fjölda útvarpsleikrita, stjórnað útvarps og sjónvarpsþáttum og leikið mörg hlutverk á sviði. Hann hefur einnig talsett fjölda teiknimynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Meðal þeirra má nefna Shrek, Pó í Kung Fu Panda, Grettir (Garfield), Rex í Toy Story, Piglet í Winnie the Poo, Wallace í Wallace and Gromit, Marel í Leitin að Nemo, Ralph í Wreck'it Ralph og Scrooge í Jólaævintýri Dickens. Hann var á framboðslista Borgarahreyfingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar 2009 en náði ekki kjöri. 2010 var Hjálmar kjörinn í bæjarstjórn Kópavogs fyrir hönd NæstBestaFlokksins. Ingólfur Björn Sigurðsson. Ingólfur Björn Sigurðsson (26. nóvember 1950) er íslenskur leikari. Ívar Örn Sverrisson. Ívar Örn Sverrisson (7. febrúar 1977) er íslenskur leikari. Jakob Þór Einarsson. Jakob Þór Einarsson (14. janúar 1957) er íslenskur leikari. Jóhann G. Jóhannsson (f. 1971). Jóhann Gunnar Jóhannsson (23. nóvember 1971 í Reykjavík) er íslenskur leikari, handritshöfundur, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Forseti Tansaníu. Forseti Tansaníu er þjóðhöfðingi Tansaníu og er kosinn í almennum kosningum til fimm ára í senn. Hann er jafnframt æðsti maður í ríkisstjórn Tansaníu og skipar forsætisráðherra. Fáni Tansaníu. Fáni Tansaníu var tekinn í notkun þegar Tanganjika og Sansibar mynduðu ríkið Tansaníu árið 1964. Fánanum er skipt með svartri skálínu með gulum jöðrum. Línan merkir íbúa landsins og guli liturinn gullnámur þess. Efri þríhyrningurinn er grænn, sem táknar gróður landsins, en sá neðri blár sem merkir vötn og ár og Indlandshafið. Skjaldarmerki Tansaníu. Skjaldarmerki Tansaníu sýnir hefðbundinn tansanískan leðursköld þar sem efsti hlutinn er gylltur og táknar gullnámur landsins. Þar fyrir neðan er fáni Tansaníu og síðan rauður hluti sem táknar frjósemi jarðarinnar. Þar fyrir neðan koma bláar öldur sem tákna höf og vötn Tansaníu. Í gyllta hlutanum er kyndill sem táknar frelsi, upplýsingu og þekkingu. Eftir miðjunni er spjót sem táknar vörn frelsisins og í rauða hlutanum eru krosslögð öxi og hlújárn. Skjöldurinn stendur á fjallinu Kilimanjaro. Skjaldberar eru maður og kona sem halda á fílstönnum. Maðurinn stendur á smárarunna og konan á baðmullarrunna. Á borða neðst í skjaldarmerkinu standa kjörorð landsins; "Uhuru na umoja", sem þýðir „Frelsi og eining“ á svahílí. Trölladyngja (Reykjanesi). Trölladyngja (275 m) er eldfjall á Reykjanesskaga, nyrst í Núpshlíðarhálsi. Rétt við hana er Grænadyngja (393 m), sem er mjög áþekk og er oft talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. Þær líkjast ekki gosdyngjum þrátt fyrir nöfnin og eru það heldur ekki. Suðurhlíðar fjallanna þykja mjög litskrúðugar og er þar háhitasvæði, Sogin. Báðar Dyngjurnar þykja athyglisverðar jarðfræðilega séð og eru þær mjög vinsælar til uppgöngu, enda er mjög auðvelt að ganga á þær. Trölladyngja er þó nokkuð klettótt að ofan. Af Dyngjunum er mjög gott útsýni. Á Trölladyngjusvæðinu hafa verið boraðar tilraunaborholur. Áform voru um að virkja jarðhitann þar en boranir gáfu ekki nógu góðan árangur. Glókollur. Glókollur (fræðiheiti: "Regulus regulus") er smár fugl sem lifir í barrskógum. Hann er minnsti fugl sem finnst í Evrópu, verður mest tæpir 10 sentimetrar að lengd. Gransöngvari. Gransöngvari (fræðiheiti: "Phylloscopus collybita") er algengur laufsöngvari hvers heimkynni eru norðursvæði og tempruð svæði Evrópu og Asíu. Jón Bjarni Guðmundsson. Jón Bjarni Guðmundsson (12. mars 1962) er íslenskur leikari. Jón Júlíusson. Jón Júlíusson (19. desember 1942) er íslenskur leikari. Joey Barton. Joey Barton (fæddur 2. september 1982) er enskur knattspyrnumaður. Hann er þekktur fyrir vandræði, jafnt innan sem utan vallar. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Allt er breytt. Vilhjálmur Vilhjálmsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Vilhjálmur Vilhjálmsson tvö lög. Lagalisti. Vilhjálmur Vilhjálmsson var bróðir söngkonunnar Elly Vilhjálms. B.G. og Ingibjörg - Komdu aftur. B.G. og Ingibjörg er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Á henni flytja B.G. og Ingibjörg tvö lög. Mjöll Hólm - (Ég syng þér sönginn) Mamy Blue. Mjöll Hólm er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Á henni flytur Mjöll Hólm tvö lög. Um lag. Breska pop-hljómsveitin Pop Tops flutti lagið Mamy Blue upprunalega. Heiðagæs. Heiðagæs (fræðiheiti: "Anser brachyrhynchus") er gæs sem verpir á Íslandi, Grænlandi og á Svalbarða en hefur vetursetu ívið sunnar, einkum á Bretlandi. Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar - Lífsflótti. Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Á henni flytja hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar fjögur lög. Blesgæs. Blesgæs (fræðiheiti: "Anser albifrons") er gæs sem verpir nyrst í Evrópu, Asíu og Ameríku en hefur vetursetu ívið sunnar, einkum á Bretlandi, í Bandaríkjunum og Japan. Veiðar á blesgæs eru bannaðar á Íslandi. Grágæs. Grágæs (fræðiheiti: "Anser anser") er stór gæs sem verpir í Evrópu og Asíu. Grettir Björnsson - Óli Skans. Grettir Björnsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni leikur Grettir Björnsson gömlu dansana. Honum til aðstoðar eru: Árni Shceving, Helgi Kristjánsson og Guðmundur R. Einarsson. Snjógæs. Snjógæs (fræðiheiti: "Anser caerulescens") er gæs sem verpir norðarlega í Norður-Ameríku. Hún er einnig flokkuð sem tegundin "Chen" eða hvítar gæsir. Kanadagæs. Kanadagæs (fræðiheiti: "Branta canadensis") er gæs sem verpir í Norður-Ameríku en er einnig að finna í norðurhluta Evrópu. Béla Bartók. Béla Bartók (fæddur 25. mars 1881, látinn 26. september 1945) var ungverskt tónskáld og brautryðjandi í þjóðlagasöfnun. Einar Hólm - Eldar minninganna. Einar Hólm er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Einar Hólm tvö lög. Um höfund. Einar Hólm gaf aðeins út þessa einu plötu. Elly Vilhjálms og Svanhildur Jakobsdóttir syngja bakraddir í laginu Eldar minninganna. Einar S. Ólafsson - Þú vilt ganga þinn veg. Einar Ólafsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Einar Ólafsson tvö lög. Robot Chicken. "Robot Chicken" er bandarískur "Stop-motion"/hreyfimynda/gaman/sketsþáttur. Þættirnir eru framleiddir af "Stoop!d Monkey", "ShadowMachine Films" og "Williams Street" og dreift af "Sony Pictures Digital". Þættirnir voru skapaðir af aðalframleiðendunum Seth Green og Matthew Senreich og var fyrsti þátturinn, "Junk in the Trunk", sýndur þann 20. febrúar 2005. Green og Senreich eru einnig í hópi fjölda handritshöfunda. Þættirnir áttu upphaflega að vera kallaður "Junk in the Trunk". Nafnið "Robot Chicken" fengu Green og Senreich af matseðli á kínverskum veitingastað. Þættirnir hafa einnig unnið til einna Emmy-verðlauna, það var árið 2006. Raddir. Flestar raddir talsetja Seth Green, Breckin Meyer, Chad Morgan og Dan Milano. Einnig hafa fjölmargir gestir komið og talað inn á þættina. Verðlaun. Þættirnir unnu ein Emmy-verðlaun árið 2006 og eru tilnefndir á Emmy-verðlaununum árið 2007. Stúlknakór Selfoss - Ég sá mömmu kyssa jólasvein. Stúlknakór Selfoss er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Stúlknakór Selfoss fjögur jólalög. Ómar Ragnarsson - Úr þorskastríðinu. Ómar Ragnarsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytur Ómar Ragnarsson tvö lög. Útsetning og hljómsveitarstjórn: Jón Sigurðsson. Um plötuna. Á þessum tíma áttu íslendingar í stríði við breta. Beatrix Potter. (Helen) Beatrix Potter (28. júlí 1866 – 22. desember 1943) var enskur barnabókahöfundur og myndskreytingamaður, fræg fyrir að hafa skapað „Pétur Kanínu“ (e. „Peter Rabbit“) og aðrar dýrapersónur. Síðar í lífinu varð hún einnig þekkt sem náttúruverndarkona. Ævisaga. Beatrix Potter fæddist í Kensington, London árið 1866. Á bernskuárum sínum hlaut hún kennslu heima við og fékk sjaldan tækifæri til að hitta önnur börn. Yngri bróðir hennar, Bertram, var lítið heima þar sem hann var sendur í heimavistarskóla og var Beatrix því mest ein ásamt gæludýrunum sínum. Hún átti froska, salamöndrur, tvær kanínur og jafnvel leðurblöku. Önnur kanínan hennar hét Benjamín og þótti Potter hann vera ófyrirleitinn og hortugur. Hina kanínuna sína kallaði hún Pétur og tók hún hann með sér hvert sem hún fór. Potter fylgdist með þessum dýrum tímunum saman og rissaði myndir af þeim á blað. Með tímanum urðu myndirnar æ betri og þróuðust þannig listrænir hæfileikar hennar frá unga aldri. Faðir Potters, Rupert William Potter (1832-1914), var menntaður hæstaréttarlögmaður en eyddi flestum stundum sínum í klúbbi fyrir herramenn og vann mjög lítið. Móðir hennar, Helen Potter née Leech (1839-1932), var dóttir bómullarkaupmanns og gerði lítið annað en að heimsækja fólk og taka sjálf á móti gestum. Fjölskyldan lifði að mestu á tekjum úr arfi beggja foreldra. Á hverju sumri leigði Rupert Potter hús í sveitinni, fyrst Dalguise House í Perthshire í Skotlandi á árunum 1871-1881 og síðar annað hús í Lake District héraðinu í Englandi. Árið 1882 hitti fjölskyldan prestinn á staðnum, Canon Hardwicke Rawnsley, sem hafði miklar áhyggjur af afleiðingum iðnaðar og ferðaþjónustu í Lake District héraðinu. Hann stofnaði síðar náttúruverndarráðið National Trust árið 1895 til að stuðla að varðveislu sveitarinnar. Beatrix Potter varð strax hugfangin af stórskornum fjöllunum og dimmum stöðuvötnunum og fyrir tilstuðlan Rawnsleys lærði hún mikilvægi þess að reyna að varðveita náttúruna, eitthvað sem fyldi henni alla tíð. Áhugi á vísindum og rannsóknir á sveppum. Þegar Potter komst á unglingsárin gerðu foreldrar hennar hana að ráðskonu hjá sér og drógu úr henni allan kjark til að mennta sig frekar. Frá fimmtán ára aldri fram yfir þrítugt skrifaði hún um daglegt líf sitt í dagbók með sérstöku dulmáli (sem ekki tókst að ráða í fyrr en áratugum eftir andlát hennar). Frændi hennar reyndi að koma henni að sem nemanda við Royal Botanical Gardens skólann í Kew en henni var hafnað vegna þess að hún var kona. Potter varð síðar ein af þeim fyrstu til að benda á að fléttur (e. lichens) séu í raun samband sveppa (e. fungi) og þörunga (e. algae). Þar sem að á þessum tíma var einungis hægt að skrásetja örsmáar myndir með því að mála þær, gerði Potter fjölmargar teikningar af fléttum og sveppum. Niðurstöður athuganna hennar leiddu til þess að hún naut virðingar víða á Englandi sem reyndur sveppafræðingur. Hún lærði einnig um spírun gróa og lífsferil sveppa. Nákvæmar vatnslitamyndir Potters af sveppum, sem voru um 270 talsins árið 1901, eru geymdar í Armitt Library safninu í Ambleside. Árið 1897 kynnti frændi hennar, Sir Henry Enfield Roscoe, ritgerð hennar um spírun gróa fyrir Linnean Society, þar sem konum var meinaður aðgangur að fundum. (Árið 1997 gaf félagið út opinbera afsökunarbeiðni vegna framkomu þess gagnvart Potter). The Royal Society hafnaði einnig beiðni hennar um að gefa út eina af ritgerðum hennar. Bókmenntaferill. Margar sögur hennar og verkefni voru byggð á litlu dýrunum sem hún læddi inn á heimilið eða fylgdist með í fjölskyldufríunum í Skotlandi eða í Lake District sýslu. Hún var hvött til að gefa út Söguna af Pétri Kanínu (e. "The Tale of Peter Rabbit"), en hún átti erfitt með að finna útgefanda þar til hún fékk Frederick Warne & Company til að gefa hana út árið 1902, en þá var Potter orðin 36 ára gömul. Þessi litla bók og þær sem á eftir komu hlutu ákaflega góðar viðtökur og hún fékk góðar tekjur af sölu þeirra. Hún trúlofaðist útgefandanum Norman Warne á laun en foreldrar hennar voru mótfallnir því að hún giftist smákaupmanni. Andstaða þeirra við ráðahaginn gerði það að verkum að Beatrix fjarlægðist foreldra sína. Hins vegar varð ekkert af brúðkaupinu þar sem Norman veiktist skömmu eftir trúlofunina og lést innan fárra vikna. Beatrix varð miður sín. Potter skrifaði alls 23 bækur sem gefnar voru út og gerðar með því sniði sem hentar börnum. Um 1920 dró heldur úr skrifunum sökum þess að sjón hennar fór versnandi. "The Tale of Little Pig Robinson" var gefin út árið 1930, þó svo að handritið hafi verið eitt af þeim fyrstu sem hún skrifaði. Efri ár. Eftir andlát Warnes, keypti Potter sveitabýlið Hill Top Farm í þorpinu Sawrey, Cumbria í Lake District héraðinu. Hún elskaði landslagið og heimsótti býlið eins oft og hún gat. Vegna fastra ritlauna fyrir bækur sínar gat hún keypt landskika með aðstoð lögfræðingsins William Heelis. Árið 1913 þegar Potter var 47 ára giftist hún Heelis og fluttu þau á sveitabýlið til frambúðar. Í sumum af vinsælustu verkum Potters má sjá myndir af sveitabýlinu Hill Top Farm og þorpið. Þau hjónin áttu engin börn en býlið var iðandi af dýralífi, s.s. hundum, köttum og einnig áttu þau broddgöltinn „Frú Tiggywinkle“. Þegar Potter fluttist í Lake District sýsluna fékk hún áhuga á að rækta og sýna vissa tegund af sauðfé. Hún varð virtur bóndi, dómari á landbúnaðarsýningum í sveitinni og forseti Herdwick Sheep Breeders’ Association félagsins. Þegar foreldrar Potters létust notaði hún arfinn sinn til að kaupa fleiri býli og landsvæði. Nokkrum árum síðar fluttu Potter og Heelis inn í þorpið Sawrey og í Castle Cottage þar sem hún var þekkt af börnum bæjarins fyrir geðillsku og kölluðu þau hana „Auld Mother Heelis“. Beatrix Potter lést árið 1943 að Castle Cottage í Sawrey. Líkami hennar var brenndur og öskunni dreyft yfir sveitina í grennd við Sawrey. Í kjölfarið. Samkvæmt erfðaskrá Potters lét hún allar eigur sínar renna til náttúruverndarráðsins The National Trust, þ.m.t. 4,000 ekrur (16 km²) landsvæðis, sumarbústaði og 15 sveitabýli. Framlag hennar hefur stuðlað að því að tryggja að fegurð Lake District héraðsins og iðkun landbúnaðar hefur haldist óbreytt fram á þennan dag. Eigur hennar eru nú allar í þjóðgarðinum Lake District National Park. Árið 1971 voru Sögurnar af Beatrix Potter (e. "The Tales of Beatrix Potter") gefnar út undir stjórn Reginald Mills. Tónlist var gerð við nokkrar af þessum sögum og meðlimir The Royal Ballet dönsuðu við þær. Sagan "The Tale of Pigling Bland" var gerð að söngleik eftir Suzy Conn og var hann sýndur 6. júlí 2006 á Toronto Fringe Festival hátíðinni í Toronto, Kanada. Árið 1982 framleiddi BBC "The Tale of Beatrix Potter". Þessi leiktúlkun á lífi Potters var skrifuð af John Hawkesworth og henni leikstýrt af Bill Hayes. Holly Aird og Penelope Wilton léku Beatrix á sínum yngri og efri árum. Rithöfundurinn Susan Wittig Albert gefur út ritröð ráðgáta þar sem líf Beatrix Potter er fært í söguform og einblína þær á tímabilið á milli andláts unnusta hennar og þar til hún gerist bóndi í Sawrey, Cumbria. Í desember 2006 gáfu Penguin Books út "Beatrix Potter: A Life in Nature", nýja ævisögu eftir Lindu Lear, sem leggur áherslu á vísíndaleg afrek Potters bæði sem listakonu í grasafræði og áhugamanneskju um sveppafræði. "Miss Potter", kvikmynd um ævisögu hennar með Renée Zellweger í aðalhlutverki var frumsýnd 29. desember 2006. Ewan McGregor er í hlutverki Norman Warne og Lloyd Owen leikur William Heelis. Tilvitnanir. „I remember I used to half believe and wholly play with fairies when I was a child. What heaven can be more real than to retain the spirit-world of childhood, tempered and balanced by knowledge and common-sense...“ – Beatrix Potter’s Journal, 17. november 1896, frá National Trust safninu. Tenglar. Potter, Beatrix .bz. .bz er þjóðarlén Belís. Fleischmann (leikföng). Fleischmann ("Gebr. FLEISCHMANN GmbH & Co. KG") er þýskt fjölskyldufyrirtæki og leikfangaframleiðandi, stofnað 1887 af "Jean Fleischmann", þekktast fyrir rafknúnar leikfangalestir. Höfuðstöðvar eru í Nürnberg í Þýskalandi og slagorðið er "Die Modellbahn der Profis". Forstjóri er "Horst Fleischmann". Roco. Roco er austurrískur leikfangaframleiðandi, stofnaður 1960 af verkfræðingnum "Heinz Rössler". Þekktast fyrir rafknúnar leikfangalestir. Höfuðstöðvarnar eru í Salzburg í Austurríki. Fyrirtækið varð gjaldþrota árið 2005 en starfar síðar undir heitinu "Modelleisenbahn GmbH". .de. .de er þjóðarlén Þýskalands. Grímur Atlason. Grímur Atlason (fæddur 6. desember 1970) er sveitarstjóri Dalabyggðar og fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur. Grímur sem er menntaður þroskaþjálfi starfaði áður meðal annars hjá Styrktarfélagi vangefinna, sem ráðgjafi hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík og sem kynningarstjóri hjá Zonet útgáfunni áður en hann tók við embætti bæjarstjóra Bolungarvíkur árið 2006. Hann er giftur Helgu Völu Helgadóttur leikkonu. Grímur er einnig þekktur sem rokktónlistarmaður, og hefur starfað sem bassaleikari í hljómsveitunum Rosebud, Drep, Dr. Gunni og Grjóthrun í Hólshreppi. Hann hefur einnig sérhæft sig í umboðsmennsku og innflutningi tónlistarmanna. Grímur var til ársins 2011 í Vinstri hreyfingunni - Grænu framboði og var í 6. sæti lista VG fyrir alþingiskosningarnar 2009. Vörtubirki. Vörtubirki eða hengibirki eða skógviður (fræðiheiti: "Betula verrucosa" eða "Betula pendula") er hávaxið evrópskt birkitré með laufskrúði sem slútir niður svipað og á grátvíði. Það er náskylt mansjúríubjörk ("Betula platyphylla"). Vörtubirki verður venjulega 15-25 metra hátt með granna krónu og sveigðar greinar með slútandi smágreinum. Börkurinn er hvítur með svörtum flekkjum neðst á stofninum. Rosabaugur. Rosabaugur og Gíll yfir sundum Reykjavíkur. Rosabaugur (á fræðimáli 22° rosabaugur'") er ljósfyrirbæri, sem myndast þegar sól skín gegnum klósiga og ljósbrot verður i ískristöllum skýsins. Börkur. Börkur er ysta lagið á stofni og rótum trjáplantna. Börkurinn liggur yfir viðnum og skiptist í þrjú lög: korkvef, sáldvef og vaxtarlag. Aukasól. Aukasól á Suðurpólnum; skyggt er á alvöru sólina Aukasól er ljósfyrirbæri, sem myndast við ljósbrot sólargeisla í ískristöllum í grábliku, gjarnan með rosabaugi. Aukasól, sem sést vestan við sólu nefnist gíll, en úlfur sú sem sést austan við. Ef gíll og úlfur sjást samtímis er sólin sögð í "úlfakreppu". Munnmæli um veður segja að "ekki sé gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni (og í fullu vestri sé)". A priori. "A priori" er þekkingarfræðilegt hugtak. "A priori"-þekking er þekking sem byggir ekki á reynslu, til dæmis rökfræðileg og stærðfræðileg sannindi. Dæmi um "a priori"-þekkingu væri til dæmis að 2+5=7 eða að háskólanemandi nemi við háskóla. Umdeilt er innan þekkingarfræðinnar hvort "a priori"-þekking sé möguleg. Orðasambandið "A priori" er tekið úr latínu og er notað sem lýsingarorð. Wir sind Helden. Mark Tavassol, Jean-Michel Tourette, Pola Roy og Judith Holofernes Wir sind Helden (við erum hetjur) er þýsk pop-rokk hljómsveit sem var stofnuð í Berlin, Þýskaland árið 2001. Helsingi. Helsingi (fræðiheiti: "Branta leucopsis") er gæs sem verpir við Norður-Atlantshaf en hefur vetursetu sunnar í Evrópu. South Park. "South Park" er bandarískur teiknimynda-gamanþáttur. Þættirnir fjalla um fjóra stráka (Stan, Kyle, Cartman og Kenny) sem eru í þriðja og fjórða bekk í smábænum South Park í Colorado-fylki í Bandaríkjunum. Þáttaröðin, sem er ætluð fullorðnum, er þekkt fyrir gróft orðbragð og dökkt skopskyn. Þáttaröðin var sköpuð af Trey Parker og Matt Stone og hefur verið sýnd á Comedy Central frá 1997 og hefur allt frá því verið ein vinsælasta þáttaröð stöðvarinnar. Henni er ætlað að halda áfram í sýningu í það minnsta út árið 2016. Uppruni. Upphaf "South Park" má rekja til ársins 1992 þegar Parker og Stone, sem þá voru nemendur í Colorado-háskóla, hittust í kvikmyndakennslutíma og sköpuðu stuttmynd sem kallaðist "Jesus vs. Frosty". Stuttmyndin innihélt upprunalegt útlit aðalpersónanna í "South Park". Stuttmyndin fjallaði um aðalpersónurnar fjórar sem vöktu til lífs snjókarl með töfrahatti. Árið 1995 sá Brian Graden, framkvæmdarstjóri FOX, stuttmyndina og veitti Parker og Stone umboðslaun til að gera aðra stuttmynd, "Jesus vs. Santa". Stuttmyndin var vinsæl og mikið notuð sem jólapóstkort á internetinu. Hún var síðar aftur birt í þættinum "A Very Crappy Christmas". Sjónvarpssamingur. Eftir útgáfu "Jesus vs. Santa" hófust umræður um gerð á sjónvarpsþáttum, fyrst með FOX og síðar með Comedy Central. Fyrsti sjónvarpsþátturinn, "Cartman Gets an Anal Probe", var sýndur 13. ágúst 1997 á Comedy Central. Þátturinn var í 3 mánuði í vinnslu en hann var búinn til með skærum og pappír. Núna eru þættirnir unnir í hreyfimyndarforritum, fyrst PowerAnimator og síðar Maya. Með notkun hreyfimyndaforrita tókst að minnka framleiðslutímann umtalsvert(niðrí eina viku), sem gerði Parker og Stone kleift að fjalla um nýliðna atburði í þáttunum sínum. Persónur. Matt Stone og Trey Parker talsetja flestar karlkynspersónurnar í "South Park" en April Stewart og Mona Marshall (áður Mary Kay Bergman og Eliza Schneider) talsetja flestar kvenkynspersónurnar. Aðrir sem talsetja einnig í "South Park" eru Adrien Beard (Token Black), Vernon Chatman (Towelie), Jennifer Howell (Bebe Stevens) og John Hansen (Mr. Slave). Þættir. Sýndir hafa verið 237 "South Park" þættir í sextán þáttaröðum. Stephen King. Stephen Edwin King (f. 21. september 1947) er bandarískur rithöfundur. Stephen King hefur skrifað smásögur, framhaldssögur en þó aðallega skáldsögur og þar má helst nefna bækur eins og "Græna mílan", "The Shining", "It" og "Misery". Á sínum ungu árum. Stephen King fæddist í Portland, Maine í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru Donald Edwin King og Nellie Ruth Pillsbury. Eldri bróðir King er David King en hann var ættleiddur strax við fæðingu árið 1945. Donald, faðir King, sagði skyndilega skilið við konu sína eitt kvöldið þegar King var aðeins tveggja ára. Leiðin til frægðar. Fyrsta skáldsaga King var "Carrie" sem samnefnd kvikmynd var gerð eftir. Skáldsöguna sendi hann til Doubleday sem launuðu honum með $2,500 fyrirframgreiðslu auk þess sem King fékk helming hagnaðarins af bókinni, sem nam $400,000. Stuttu eftir útgáfu bókarinnar lést móðir hans úr krabbameini. Lars Demian. Lars Demian (f. 9. apríl 1957) er sænskur tónlistarmaður frá Halmstad. Lars er þekktur fyrir kröftuga texta sína sem fjalla oftar en ekki um svartari hliðar tilverunnar, oft með bítandi háði. Lars Demian heitir réttu nafni "Lars Bengtsson", en tók upp listamannsnafnið Demian til að skapa sér sérstöðu. Í fyrstu nefndi hann sig "Demian D" þegar hann gaf út fyrsta lag sitt: "Tårar". En upp frá fyrstu hljómplötu sinni nefndi hann sig Lars Demian. Það var hljómplatan "Pank" sem kom út 1990, en sú plata inniheldur eitt þekktasta lag hans: "Alkohol". 1991 hlaut Lars Demian styrk sem kenndur er við trúbadorinn Fred Åkerström. Einkalíf. Lars Demian hefur verið giftur Ika Nord í mörg ár og samdi þematónlistina við barnaþætti hennar "Ika i rutan" og "Ikas TV-kalas" sem voru sýndir í Ríkissjónvarpi Svíþjóðar ("Sveriges Television") á níunda áratugi 20. aldar. Tenglar. Demian, Lars Innyflaspámaður. Innyflaspámaður (eða iðrablótsmaður) (latína: "haruspex") var maður í Rómaveldi til forna sem las í framtíðina úr innyflum fórnardýra, s.s. sauðkinda og jafnvel fugla. Talið er að þessi athöfn að „ráða þarma“ sé komin frá Etrúrum, en orðið er af etrúskum uppruna. Innyflaspá minnir að nokkru leyti á það sem fuglaspámenn stunduðu og aðra álíka spámenn sem gátu lesið í framtíðina. Innyflaspár hafa einnig farið fram hér á landi, og eru enn stundaðar sumstaðar, til að lesa í veðrið næstu misseri. Daguerreaðferð. Daguerreaðferð (franska: "Daguerréotype") nefnist ein af fyrstu aðferðunum til að framkalla ljósmyndir og var upphafið að þeirri framköllunaraðferð sem enn er notuð. Aðferðin nefnist í höfuðið á Frakkanum Louis Daguerre sem uppgötvaði hana á fjórða áratug nítjándu aldar. Hann fékk einkaleyfi fyrir henni 1839. Ljósmyndir sem framkallaðar eru með þessari aðferð eru oft nefndar "daguerreóljósmyndir" eða "daguerreótýpur". Teknar voru margar portrettmyndir með þessari aðferð, allar götur til ársins 1860. Þjóðminjasafn Íslands á besta safn af daguerreótýpum á Íslandi. Die Reklamation. "Die Reklamation" er breiðskífa sem hljómsveitin Wir sind Helden gaf út árið 2003. Hljómsveit Ingimars Eydal - Lög úr Mary Poppins. Helena og Þorvaldur er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Helena og Þorvaldur með hljómsveit Ingimars Eydal sex lög úr Mary Poppins. Forsíðumynd tók Ljósmyndastofa Páls, Akureyri. Foxtrot (dans). Foxtrot (beinþýð.: "refabrokk") er samkvæmisdans sem dregur nafn sitt af upphafsmanninum; Harry Fox sem hannaði dansinn árið 1914. Hann brenndi sig á því að finna hvergi dömu sem gæti dansað two step svo hann bætti því við skrefum og útkoman varð grunnurinn að Foxtrot. Vernon og Irene Castle tóku dansinn upp á arma sér og þróuðu hann og kynntu. Seinna staðlaði Arthur Murray dansinn svo hann fór að líkjast bandarískum tangó. Upphaflega var foxtrot dansaður við ragtime-tónlist en síðar, og fram á okkar daga, tókum stórsveitir að leika undir við dansinn. Þegar rokk og ról (e. "rock 'n roll") kom fram á sjónarsviðið upp úr 1950 leituðu útgefendur með logandi ljósi eftir passlegri danstegund við þessa nýju tónlist. Þar koma foxtrot-inn sterkur inn og markaðssetti fyrirtækið Decca Records lag Billy Haley and His Comets, "Rock around the clock", einmitt sem slíkt. Lagið seldist í meira en 25 milljón eintökum og er því söluhæsta foxtrot-lag allra tíma. Með tímanum hefur foxtrot verið skipt í tvo flokka eftir hraða; Slowfox hið rólega en Quickstep hið hraða. Leiðarvísir í ástamálum I. karlmenn. Leiðarvísir í ástamálum I. karlmenn er bæklingur eftir Ingimund Sigurðsson sem var upprunalega gefinn út af Nýja Bókafélaginu árið 1922 og prentaður af Félagsprentsmiðjunni, og svo endurútgefinn 25. júlí 2007 af Project Gutenberg, enda þá ekki lengur vernduð af höfundarétti, Jóhannes Birgir Jensson sá um þá útgáfu. Í bæklingnum kemur fram hvernig karlmenn eiga að haga sér til að vinna sér hylli heiðvirðra kvenna. Honum er skipt í fjórtán hluta, þar af einn inngang, níu um það hvernig karlmaður á að haga ýmsu í fasi sínu og fjóra aðra hluta um hvernig velja á sér maka, hvenær karlinn megi ganga í hjónaband og hvernig góður eiginmaður eigi að haga sér. Bæklingurinn var gefinn út á sama tíma og annar fyrir kvenfólkið, Leiðarvísir í ástamálum II. fyrir ungar stúlkur af ástmey Ingimundar. Formáli. Í þessum hluta sem er inngangur bæklingsins kemur fram tilgangur hans sem er „"er sú von, að með því kunni mér að takast að koma í veg fyrir einn eða fleiri hjónaskilnaði, ef menn hlýta mínum ráðum. Eg hefi, sem sé, veitt því eftirtekt, að árlega fjölgar hjónaskilnuðum, bæði til sveita og í kaupstöðum, en þó einkum hér í Reykjavík."“. Hvernig vinna skal hylli kvenna. Í þessum hluta kemur það fram að hreint hjartalag og góð sál er hið allra mikilvægasta sem karlmaður getur boðið. Mannorð. Lögð er gríðarleg áhersla á að viðhalda óflekkuðu mannorði, sem og minnst á heilsutjón sem getur orðið ef lag er lagt við vændiskonur. Nefnt er að vanda val á vinum og að sniðganga slæpingja. Viðmót og framkoma. "Sá, sem er þögull og þunglamalegur vinnur aldrei hylli kvenna, þótt hann sé fríður sýnum. Þær halda, að hann sé heimskur — og heimskuna hatar kvenþjóðin!" Kurteisi. Línur lagðar í almennri kurteisi, svo sem í hvaða röð kona og karl skulu ganga upp og niður stiga og hvernig á að heilsa. Íþróttir. Mælt er með íþróttaiðkun til að herða líkamann sem muni vekja eftirtekt kvenna, þó er varað við "knattsparkinu" þar sem menn verða svo einhliða að þeir geti um lítið annað talað, frekar er mælt með glímu, sundi og leikfimi. Hreinlæti og klæðaburður. Almenn ráð um að halda sér sómasamlegum í útliti. Mentun === . Lögð áhersla á að menn lesi sér til og myndi sér sjálfstæðar skoðanir á líðandi málefnum, varast er við því að hreykja sér af þekkingu þinni með því að gaspra um fátt annað á mannamótum. Dans o. fl.. Nefnt að dansfimi og söngur heilli kvenfólk. Meira um kurteisi. Almennir borðsiðir og hvernig haga skal röðinni þegar kynna á fólk. Að velja konuefnið. Stærsti kaflinn enda um mikilvægt skref að ræða. Lögð mikil áhersla á að kynna sér allt hið góða og slæma sem verðandi konuefni hefur að geyma, og ekki má gleyma því að kynna sér ættir og fjölskyldu hennar. Varað við ýmsum atriðum sem geta valdið togstreitu milli ólíkra hjóna. Að biðja sér konu. Lögð áhersla á að gera það augliti til auglitis, ekki nota símskeyti eða póst. Tekið fram að stundum þurfi að bera bónorð upp oftar en einu sinni til að fá jákvætt svar. Hvenær þú mátt kvongast. Mælt með því að ganga ekki í hjónaband fyrr en maður geti staðið undir heimilisrekstri. Hvernig góður eiginmaður á að vera. Dyggðir nefndar, aldrei skal geyma leyndarmál fyrir konunni og reyna að létta henni lífið við heimilisstörf. Jón Hjartarson. Jón Hjartarson (f. 20. janúar 1942) er íslenskur leikari. Jón Páll Eyjólfsson. Jón Páll Eyjólfsson (f. 19. apríl 1970) er íslenskur leikari. Jón Stefán Kristjánsson. Jón Stefán Kristjánsson (f. 11. apríl 1958) er íslenskur leikari. Karl Guðmundsson. Karl Guðmundsson (f. 28. ágúst 1924) er íslenskur leikari. Ketill Larsen. Ketill Larsen (f. 1. september 1934) er íslenskur leikari. Kjartan Bjargmundsson. Kjartan Bjargmundsson (f. 22. nóvember 1956) er íslenskur leikari. Rímur af Grámanni í Garðshorni. Rímur af Grámanni í GarðshorniRímur af Grámanni í Garðshorni er rímnakver eftir Jón Hjaltason á Ármúla sem var upprunalega gefið út af Hjalta Jónssyni árið 1895 og prentað af Prentsmiðju Þjóðviljans unga, og svo endurútgefið 25. júlí 2007 af Project Gutenberg, enda þá ekki lengur verndað af höfundarétti, Jóhannes Birgir Jensson sá um þá útgáfu. Rímurnar segja ævintýrið af Grámanni og viðskiptum hans við bóndahjón og konungshjón. Ævintýrið er talið vera franskt að uppruna. Tamílska. Tamílska (தமிழ் tamiḻ;) er dravidískt tungumál talað á Indlandi, Srí Lanka og Singapúr. Þau tvö síðarnefndu, Srí Lanka og Singapúr eiga Tamílsku sem opinbert tungumál. Það er eitt af tuttugu og tveim skipulögðum tungumálum Indlands og það fyrsta til að verða lýst yfir sem klassískt tungumál af stjórnvöldum Indlands árið 2004. Tamil tungumálið er einnig talað af verulegum minnihlutahópum í Malasíu, Mauritius og Réunion ásamt því að vera töluð í innflytjendahverfum um allan heim. Bókmenntir Tamils hafa verið til í yfir tvöþúsundir ára. Elsti tími Tamil bókmenntra, Sangam bókmenntir, eru dagsettar frá 300 fyrir krist til 300 eftir krist. Áletranir á Tamil tungumálinu frá fyrstu öld fyrir krist og frá annari öld eftir krist hafa fundist í Egyptalandi og Tælandi. Samkvænt könnun frá árinu 2001, voru 1,863 dagblöð gefin út á Tamil tungumálinu, og 353 þeirra daglega. Flokkun. Tamil tungumálið er partur af Tamil tungumálafjölskyldu, sem inniheldur um það bil 35 ethno-tungumála hópa eins og Irula og Yerukula tungumál. Saga. Fræðimenn flokka sögu Tamil tungumálsins í þrjá flokka. Gamla Tamil (300 fyrir krist - 700 CE), Mið Tamil (700-1600) og Modern Tamil (1600-dagsins í dag). Landfræðileg dreifing. Í Malasíu, Singapore, Mauritius, Réunion, Suður Afríku, Indónesíu, Tælandi, Búrma, Víetnam, Gana, Fiji, Suriname og Trinidad og Tobago er fólk ættað frá Tamil tungumálinu en fáir tala Tamil tungumálið. Réttarstaða. Tamil er opinbera tungumál Tamil Nadu ríkisins á Indlandi. Tamil er einnig eitt af opinberu tungumálum Sri Lanka og Singapore. Í Malasíu eru 543 ríkisreknir grunnskólar sem notast við Mið Tamil. Ritmál. Tamílska ritmálið (tamílska: தமிழ் அரிச்சுவடி, tamílskt „stafróf“) er ritmál notað til að skrifa tamílsku og einnig önnur minna útbreidd tungumál, svo sem; Badaga, Irulas og Paniya. Einnig notað af Tamílum við ritun á sanskrít. Ritmálið samanstendur af 12 sérhljóðum, 18 samhljóðum og einum sérstökum karakter, āytam. Tamil er skrifað með riti sem kallast vaṭṭeḻuttu. Sérhljóðarnir og samhljóðarnir sameinast og mynda 216 blandaða stafi, sem búa til 247 stafi. Tamil sérhljóðarnir eru kallaðir uyireḻuttu (uyir – life, eḻuttu – stafir). Tamil samhljóðarnir eru þekktir sem meyyeḻuttu (mey—body, eḻuttu—stafir). Númer og tákn. Fyrir utan venjulega tölustafi hefur Tamil tungumálið einnig tölutákn fyrir 10, 100 og 1000. Tákn fyrir dag, mánuð, ár, debit, kredit, eins og fyrir ofan, rupee og numeral. Heimildaskrá. Greinin „Tamil language“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010." Svahílí. Svahílí ("kiswahili") er bantúmál talað í Tansaníu, Úganda og Kenýa og víðar. Svahílí er það tungumál sunnan Sahara sem hefur flesta málhafa. Orðið „svahílí“ er komið af arabísku orði sem merkir „strönd“ eða „landamæri“ en með forliðnum ki- þyðir það: „tungumál strandarinnar“. Svahílí er opbinbert tungumál fjögurra þjóða en einungis móðurmál 5-10 milljón manna. Svahílí er annað mál margra þjóða á austurafrísku strandlengunni og um það bil 35% af orðaforða tungumálsins kemur frá arabísku, þar sem meira en tólf aldir af viðskiptum við araba hefur haft mikil áhrif á svahílí. Einnig hafa persnersk, þýsk, portúgölsk, ensk og frönsk orð bæst við á síðustu fimm öldum og stafar það af auknum viðskiptum við þessi landsvæði. Svahílí er orðið annað mál tugi milljóna manna í þremur löndum, Tansaníu, Kenýu og Kongó þar sem svahílí er orðið opinbert tungumál í þessum löndum. Uganda gerði það að skyldulærdómi í grunnskólum árið 1992, en framkvæmd á þessum lögum hefur farið fyrir ofan garð og neðan. Því var svahílí gert að opinberu tungumáli í Uganda árið 2005. Svahílí og önnur skyld tungumál eru töluð í Comoros, Burundi, Rúanda, norður Zambiu, Malaví og Mosambik. Nafnið „Kiswahili“ kemur frá fleirtölu orðinu sawāḥil (سواحل), sem á uppruna sinn að rekja í arabíska orðið sāḥil (ساحل), en það merkir „landamæri“ eða „strönd“ (notað sem lýsingarorð yfir „þá sem dvelja á ströndinni“ eða með því að bæta ki- („tungumál“) fyrir framan stendur það fyrir „strandtungumál“). Elsta þekta ritið á Svahílí eru bréf skrifuð í Kilwa 1711, skrifuð með arabísku letri. Þessi bréf voru send til Portúgalanna í Mósambik og bandamanna þeirra. Upprunalegu bréfin eru nú geymd í „the Historical Archives of Goa“, á Indlandi. Önnur þekt rit eru ljóð einnig skrifuð með arabísku letri sem heita „Utendi wa Tambuka“ („Saga Tambuka“) frá árinu 1728. Í dag er latneska stafrófið notað til að skrifa Svahílí þar sem evrópa hefur haft mikil áhrif á þessi landsvæði. Mungu ibariki Afrika. "Mungu ibariki Afrika" er þjóðsöngur Tansaníu. Hann er svahílíútgáfan af sálmi Enoch Sontonga, "Nkosi Sikelel' iAfrika" („Guð blessi Afríku“) sem er þjóðsöngur Sambíu og hluti af þjóðsöng Suður-Afríku og var áður þjóðsöngur Simbabve. Jakaya Kikwete. Jakaya Mrisho Kikwete (f. 7. október 1950) er tansanískur stjórnmálamaður og núverandi forseti Tansaníu. Hann var kjörinn árið 2005 sem frambjóðandi Chama Cha Mapinduzi sem er langstærsti stjórnmálaflokkur landsins. Hann nam hagfræði við Dar es Salaam-háskóla. Kikwete, Jakaya Kikwete, Jakaya Edward Lowassa. Edward Lowassa er tansanískur stjórnmálamaður og núverandi forsætisráðherra í ríkisstjórn Jakaya Kikwete. Hann tók við embætti 30. desember 2005. Hann hefur gegnt ýmsum embættum í ríkisstjórn Tansaníu frá 1988. Austur-Afríkutími. Kort sem sýnir tímabelti Afríku. Austur-Afríkutími er litaður gulur. Austur-Afríkutími er sá tími sem notaður er í Austur-Afríku. Hann er þremur klukkustundum á undan UTC (UTC+3) sem er það sama og Moskvutími og austurevrópskur sumartími. Þar sem þessi tími er notaður í hitabeltinu þar sem er sáralítill munur á lengd dags sumar og vetur, þá er ekki notast við sumartíma. Fuglaspámaður. Fuglaspámaður (eða fuglheillamaður) (latína: "augur") var maður til forna sem las í hátterni fugla eða flug þeirra. Kalkas í "Ilíonskviðu" var frægur fuglaspámaður. Hann sagði t.d. leið fyrir skipum Akkea til Ilíonsborgar, sökum spádómsgáfu þeirrar, er Föbos Appollon hafði veitt honum. Helenos Príamsson var annar fuglaspámaður í "Ilíonskviðu". Í Ódysseifskviðu segir á einum stað að spámaður nokkur hafi verið „glöggþekkinn á fuglateikn“. Fuglar þeir sem fuglaspámaður las í nefndust "spáfuglar". Hrafninn var oft talinn spáfugl á Íslandi til forna, og er enn sums staðar. Kyu Sakamoto. Kyu Sakamoto (坂本九 "Sakamoto Kyū") (fæddur Hisashi Oshima (大島ひさし, "Ōshima Hisashi") 10. desember 1941, látinn 12. ágúst 1985) var japanskur söngvari og leikari. Ævisaga. Sakamoto var fæddur í Kawasaki, yngstur níu systkinja. Foreldrar hans voru Hiroshi Sakamoto og Iku Sakamoto en bæði unnu þau á veitingastað. Í menntaskóli hófst söngferill Kyu og hann byrjaði sem söngvari í japönsku hljómsveitinni The Drifters árið 1958. Þekktasta lag hans, "Ue o muite arukō", betur þekkt sem "Sukiyaki" á Vesturlöndum, sló í gegn í Japan og komst í efsta sæti bandaríska vinsældalistans árið 1963. Lagið fór sem stormsveipur um höf og lönd og hið þekkta stef hefur verið áhrifavaldur margra annarra verka í seinni tíð. Kyu var dugmikill í vinnu fyrir eldri, yngri og fatlaða í Japan. Lag hans "Ashita Ga Aru Sa" var aðalstef Ólympíuleika fatlaðra sem var haldið í Tókýó árið 1964. Hann lést í flugslysi í Japan árið 1985 og lét hann eftir sig eiginkonu og tvær dætur; þær Hanako og Maiko. Little Peggy March. Peggy March (fædd Margaret Annemarie Battavio 8. mars 1948 í Pennsylvaníu) er bandarísk söngkona. Hún kom fram á sjónarsviðið við 13 ára aldur þegar hún söng við brúðkaupsveislu. Upptökutvíeykið Hugo & Luigi kölluðu hana Little Peggy March vegna þess hve lágvaxin hún var (enda bara 13 ára), því hún átti afmæli í mars (e. "March") og fyrsta lagið sem hún söng var "Little Me". Ævisaga. Í apríl 1963 flaug fyrsta smáskífa hennar "I will follow him" (ísl. "Ég mun fylgja honum/Ég mun elta hann") á topp bandaríska vinsældaslistans. Lagið var tekið upp í janúar sama ár og gefið út þann 22. Með laginu varð March yngsta söngkona sem kemur lagi í 1. sæti vinsældalistans vestra - 15 ára gömul. Smáskífan skreið einnig til topps á vinsældalistum í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan og á Skandinavíuskaga. Frægðin dró dilk á eftir sér og efnahagsvandamál fóru að segja til sín. Þar sem March var ekki orðin lögráða komu svokölluð "Coogan"-lög í veg fyrir það að hún mátti sjá um fjármál sín sjálf. Þess vegna tóku foreldrar hennar við peningaráði en létu umboðsmann Peggy, Russel Smith, um ráðin. Árið 1966 kom í ljós að Smith þessi hafði laumað hluta fjárins á brott svo einungis voru 500 bandaríkjadalir eftir. Hún fékk sér því nýja umboðsmann, Arnie Harris, sem einnig varð eiginmaður hennar og barnsfaðir. Lög á borð við "I wish I were a princess" og "Hello heartache, goodbye love" komust upp fyrir 30. sæti vinsældalista bæði í Bandaríkjunum og á Stóra-Bretlandi. Hún komst inn á evrópska og asíska tónlistarmarkaði og flutti loks til Þýskaland um 1969. Vinsældir hennar þar héldust á 8. áratugnum og árið 1979 kom út diskótilraunin "Electrifying". Platan féll í grýttan jarðveg og árið 1981 vildi plötufyrirtækið ekki endurnýja samning March. Því flutti hún aftur til Bandaríkjanna. Í dag starfar March í tónlistariðnaðinum í Las Vegas. I will follow him. Lagið kom út árið 1963 og er eina virkilega þekkta lag söngkonunnar. Laglína lagsins var meðal annars endurhljóðblönduð og notuð í lagið "Guilty Conscience" með tvíeykinu Eminem og Dr. Dre. Árið 1992 kom lagið fram í myndinni "Sister Act". Darfúr. Darfúr (arabíska: دار فور, "heimili Fúr") er hérað í vesturhluta Súdan sem á landamæri að Líbýu, Tsjad og Mið-Afríkulýðveldinu. Það er myndað úr þremur af 26 sambandsríkjum Súdan: Gharb Darfur (Vestur-Darfúr), Janub Darfur (Norður-Darfúr) og Shamal Darfur (Suður-Darfúr). Á svæðinu geisa nú átök á milli Janjaweed-skæruliða (sem taldir eru njóta stuðnings súdanskra stjórnvalda) og ýmissa uppreisnarhópa. Talið er að átökin og það neyðarástand sem þeim hefur fylgt hafi kostað 200-400 þúsund mannslíf síðan 2003 og rekið 2,5 milljónir á vergang. Kosóvó. Kosóvó er landsvæði á Balkanskaga í suðaustur Evrópu. Það á landamæri að Serbíu, Svartfjallalandi, Albaníu og Makedóníu. Kosóvó lýsti einhliða yfir sjálfstæði undan Serbíu 17. febrúar 2008 en hafði þá aðeins verið hluti af Serbíu að nafninu til síðan í Kosóvóstríðinu 1999 en eftir það tóku Sameinuðu þjóðirnar við stjórn þess. Sjálfstæðisyfirlýsingin var mjög í óþökk Serba sem líta eftir sem áður á Kosóvó sem hluta af Serbíu. Þær þjóðir sem eru meðlimir í sameinuðu þjóðunum skiptast í tvær nokkurn veginn jafn stórar fylkingar hvað þetta varðar: 90 meðlimsríki viðurkenna fullveldi Kosóvó en 93 meðlimsríki líta á Kosóvo sem hluta Serbíu. Ísland viðurkennir fullveldi Kosóvó. Af 27 aðildaríkjum ESB viðurkenna 22 fullveldi Kosóvó, en 5 (Spánn, Slóvakía, Grikkland, Kýpur og Rúmenía) líta á Kosóvó sem hluta Serbíu. Íbúar Kosóvó eru rúmar tvær milljónir, þar af eru langflestir Albanir en einnig eru þar Serbar, Tyrkir, Bosníumenn og Sígaunar. Pristína er höfuðborg landsins og stærsta borg þess. Draumaspámaður. Draumaspámaður (eða draum(a)maður) var til forna maður sem réð drauma manna og túlkaði framtíðina eftir þeim, annaðhvort til góðs eða ills. Slíkar spár voru stundum nefndar "draumspár". Draumaspámenn koma víða fyrir í fornum ritum, t.d. í Biblíunni, og má þar t.d. nefna Jósef í Gamla testamentinu sem réð drauma Faraós, og einnig í "Ilíonskviðu", en þar er sagt frá Evrýdamanti sem sagður er vera aldraður draumaspámaður. Draumaspámenn til forna stunduðu grein sem síðan hefur orðið að draumaráðningum nútímans, þó að engin óslitin eða bein tengsl séu þar á milli. Draumaráðningabækur eru þó kannski gamlar leifar af því sem einu sinni var, og sést best ef litið er í bók eins og "Oneirokritíka", sem er gömul grísk draumaráðningabók sem skrifuð var um 200 e.Kr., en höfundur hennar var Artemídoros. 69 (kynlífsstelling). Teiknuð mynd af tveimur einstaklingum að stunda 69. Karlmaðurinn liggur undir konunni og framkvæmir munnmök á henni er hún grúfir sig yfir honum og tottar hann samtímis. 69 eða sextíu og níu (franska: Soixante-neuf) er kynlífsstelling sem lýsir sér þannig að báðir aðilar veita hvor öðrum munnmök. Ávarpsfall. Ávarpsfall er fall í málfræði sem tekur gildi þegar orðið er sagt í beinni ræðu, það er að segja þegar viðkomandi er ávarpaður. Ávarpsfall í íslensku. Íslenska hefur tæknilega ekki ávarpsfall, þótt nokkur orð hafi falli undir þetta eins og orðið Jesús, sem einusinni beygðist eins og samheitið "Iesus" beygist í Latínu- og var ávarpsfall orðsins Jesús; „Jesú“. Ávarpsfall í latínu. Ávarpsfall er nokkuð algengt í latínu. .bw. .bw er þjóðarlén Botsvana. Því er stýrt af Háskóla Botsvana ("University of Botswana"). .by. .by er þjóðarlén Hvíta-Rússlands. Því er stýrt af ríkisrekna fyrirtækinu SCIS sem sér um upplýsingaöryggi. Kelly Clarkson. Kelly Brianne Clarkson (fædd 24. apríl 1982) er bandarísk söngkona, lagasmiður og leikkona. Hún gaf út fyrstu plötuna sína með RCA Records eftir að hafa unnið fyrstu þáttaröð American Idol árið 2002. Clarkson hefur gefið út fjórar plötur: tvöfaldu platínum plötuna "Thankful" (2003), margfalda platínum plötu, "Breakaway" (2004) - vann tvö Grammy-verðlaun, "My December" (2007), og nýjustu plötuna, "All I Ever Wanted" (2009). Plöturnar fjórar hafa selst í meira en 10,5 milljónum eintaka í Bandaríkjunum. Clarkson er eini sigurvegari American Idol sem hefur náð á topp breska listans. Hún náði því þann 1. mars 2009 með laginu "My Life Would Suck Without You". Hún hefur selt yfir 20 milljónir platna um alan heim og er söluhæsti sigurvegari American Idol. Ellefu af smáskífum Clarkson náðu topp 20 á Billboard Hot 100 listanum. Smáskífan, "My Life Would Suck Without You" fór úr 97. sæti upp í það fyrsta á Hot 100 listanum fyrstu vikuna og sló metið fyrir stærsta stökkið á toppinn í sögu listans. Kelly átti mest seldu American Idol-plötuna í Bandaríkjunum, þangað til í nóvember 2009, þegar Carrie Underwood náði þeim stóra titli með 100.000 fleiri plötum. Clarkson er samt sem áður áfram söluhæsti þátttakandi í American Idol. Æska. Kelly Brianne Clarkson fæddist í Fort Worth í Texas og ólst upp í litlum bæ sem heitir Burleson, í úthverfi Fort Worth. Hún er þriðja og yngsta barn Jeanne Rose, 1. bekkjar kennara, og Stepehens Michael Clarkson. Kelly á bæði bróður og systur, Jason og Alyssu. Þegar Kelly var sex ára skildu foreldrar hennar eftir sautján ára hjónaband. Fjölskyldan settist að í Buerlson þar sem móðir hennar gifstist seinni eiginmanni sínum, Jimmy Taylor. Fjölskylda Clarkson átti í fjárhagsvandræðum og eftir að skilnað foreldra hennar leitaði Kelly skjóls í tónlistinni. Hún gekk í Pauline G. Hughes grunnskólann og menntaskólann í Burleson. Hún vildi verða sjávarlíffræðingur en skipti um skoðun eftir að hafa séð myndina Jaws. Í sjöunda bekk heyðir kennarinn hennar hana syngja á ganginum og bað hana að koma í áheyrnaprufur fyrir skólakórinn; Kelly sagði henni að hún hefði aldrei fengið formlega söngþjálfun. Í menntaskóla tók Clarkson þátt í söngleikjum, til að mynda í "Annie Get Your Gun", "Seven Brides for Steven Brothers" og "Brigadoon". Hún söng í hæfileikakeppni í skólanum sínum og eftir það sagði einn áhorfandinn við hana: „Guð hefur gefið þér þessa gjöf. Þú verður að syngja. Það eru örlög þín“. Clarkson hélt áfram að syngja og byrjaði fljótlega í klassískri þjálfun og vonaði að tónlistin myndi veita henni háskólastyrk. Eftir útskrift úr menntaskóla var Clarkson boðinn fullur skólastyrkur til háskólanáms í háskólann í Austin, Texas, háskóla Norður-Texas og Berklee en hún ákvað að fara ekki í háskóla, þar sem hún hafði nú þegar samið svo mikið af tónlist að hún vildi prófa sig áfram og hún sagði að maður er aldrei of gamall til að fara í háskóla. 2002-2003: American Idol og World Idol. Clarkson vann fyrstu þáttaröð American Idol þann 4. september 2002 og hafði fengið 58% atkvæða. Á meðan hún barðist við tárin söng hún ballöðuna "A Moment Like This" en lagið var samið sérstaklega fyrir sigurvegara kvöldins og var lagið á fyrstu plötunni hennar, "Thankful". Þegar lagið kom út sem smáskífa í október 2002 setti það met í sögu Billboard Hot 100-listans þegar það fór úr 52. sæti upp í það fyrsta. Þessi árangur var aðallega undir áhrifum frá American Idol og seldist geisladiskurinn í 236.000 eintökum í fyrstu vikunni og var fimm vikur í fyrsta sæti á vinsældarlista í Kanada. Í desember 2003 var haldin keppni sem bar nafnið World Idol, í London, Englandi þar sem sigurvegarar úr fyrstu þáttaröðum Idol alls staðar úr heiminum kepptu. Clarkson var samningsbundin til að taka þátt og lenti í öðru sæti á eftir norska idolinu, Kurt Nielson. Hún sögn lag Arethu Franklin, "(You Make Me Feel Like) a Natural Woman". 2003-2004: "Tankful". Stuttu eftir lok 1. þáttaraðar Idolsins, var Kelly sökuð um að hafa unnið með plötufyrirtæki. Samkvæmt reglum keppninnar má keppandi ekki taka þátt ef hann hefur unnið með plötuútgáfufyrirtæki. Stuttu seinna var hún sýknuð af öllum ásökunum. FC Metz. Football Club de Metz (FC Metz) er franskt íþróttafélag frá Metz. John Lydon. John Joseph Lydon (fæddur 31. janúar 1956) er enskur tónlistarmaður. Hann var meðlimur bresku pönksveitarinnar Sex Pistols. Sviðsnafn hans var "Johnny Rotten". Hann er giftur Nora Forrester og eiga þau engin börn. Æska. John Joseph Lydon er fæddur 31. Janúar 1956 í London á Englandi. Lydon ólst upp í félagsmálaíbúð í Finsbury Park ásamt írskum foreldrum sínum og þremur yngri bræðrum. Þau voru kaþólikkar. Þegar Lydon var 7 ára fékk hann heilahimnubólgu sem orsakaði það að hann var í dái í hálft ár og þegar hann vaknaði mundi hann ekkert frá sínu fyrra lífi. Heilahimnubólgan og dáið ullu því að hann varð á eftir í skóla og gáfu honum einnig þetta starandi augnaráð sem seinna varð nokkurs konar einkenni hans. Oftar en einu sinni var honum vísað úr skóla fyrir „ruddalega“ og (of) hreinskilna framkomu eða einfaldlega klippinguna sem hann var með. Hann kom sér auðveldlega í vandræði og var viðriðinn ýmsa smáglæpi. Sex Pistols. Lydon var oft í búð Malcolm McLaren, SEX, (sem var eins konar kynlífsleiktækja/hjálpartækja-búð) sem var að reyna að koma nýrri hljómsveit sem kallaðist Sex Pistols á kortið. Hann tók eftir Johnny þegar hann var í Pink Floyd bol sem krassað var á fyrir ofan 'Pink Floyd', orðin „I hate“. McLaren bauð Lydon að koma í áheyrnarpróf sem hann fór í og söng Eighteen eftir Alice Cooper ásamt glymskrattanum. Lydon var fljótt gefið sviðsnafnið Rotten út af því hversu hræðilegar tennurnar í honum voru (og eru). Sex Pistols gaf út lagið God Save the Queen á silfurvaldaafmæli Elísabetu Drottningar II árið 1977. Þetta lag olli svo mikilli ringulreið og reiði almennings að eitt sinn var ráðist á Lydon úti á götu og hníf var stungið í löppina á honum, öðrum nánast í gegnum hendina og hann skorinn í andlitið með glerbroti. Það fyrsta sem gert var þegar hann kom á sjúkrahúsið var að hringja í lögregluna svo að hægt væri að kæra hann fyrir upptök af átökum. Lydon samdi texta nokkurra laga sveitarinnar s.s. Anarchy In the U.K., No Fun og Liar. Hann var eini söngvari hljómsveitarinnar og spilaði ekki á hljóðfæri. Lydon mælti með vini sínum John Simon Ritchie-Beverly (Sid Vicious) sem bassaleikara þegar Glen Matlock yfirgaf Sex Pistols. það var einmitt Lydon sem nefndi hann Sid Vicious eftir hamstrinum sínum (Sid the Vicious) sem beit Ritchie. Árið 1978 hættu Sex Pistols starfsemi. Public Image Ltd.. 1978 stofnaði Lydon hljómsveitina Public Image Limited, sem entist í fjórtán ár. Sveitin var lofuð fyrir „mér er alveg sama hvað þér finnst“ viðhorfið og hversu tónlistin þeirra var öðruvísi. Framkoma hljómsveitarinnar í sjónvarpsþættinum American Bandstand er orðin að hálfgerðri goðsögn, en Rotten gafst upp á að mæma (e. miming/ lipsync) og fór bara af sviðinu og dansaði með áhorfendum í staðinn. Hljómsveitinni gekk ágætlega á breskum vinsældalistum en var oft slegin niður af endurútgefnum Sex Pistols lögum. John Lydon í seinni tíð. Lydon hefur tekist á við ýmis verkefni í seinni tíð. Hann hefur meðal annars komið fram í heimildamyndinni. Hann lék einnig í myndinni Copkiller þar sem hann fór með hlutverk geðbilaðs ríks „drengs“. John gaf út ævisögu sína árið 1994. Tenglar. Lydon, John God Save the Queen (Sex Pistols). God Save the Queen er lag eftir John Lydon, Steve Jones, Glen Matlock og Paul Cook. Það kom út 6. júní árið 1977. Aš. Kort sem sýnir staðsetningu Aš Aš (þýska "Asch") er borg í Tékklandi. Borgin þekur 55,86 ferkílómetra stórt svæði. Íbúar Aš eru um 12.814 talsins. Borgin liggur í 666 metra hæð. Borgarstjóri er Dalibor Blažek. Cheb. Kort sem sýnir staðsetningu Cheb Cheb (þýska: "Eger") er borg í Tékklandi. Borgin þekur 96,37 ferkílómetra stórt svæði. Íbúar Cheb eru um 33.462 talsins. Borgin liggur í 459 metra hæð. Borgarstjóri er Jan Svoboda. Opole. Opole (þýska: "Oppeln") er 28. stærsta borg Póllands og höfuðborg samnefnda héraðsins. Flatarmál borgarinnar er 96,2 ferkílómetrar en árið 2006 voru íbúarnir 127.602 samtals. Lublin. Lublin (úkraínska: Люблін, "Liublin", jiddíska: לובלין "Loblin") er níunda stærsta borg Póllands og höfuðborg Lubelskie sýslu. Lublin hefur verið tilnefnd til Menningarborgar Evrópu 2016. Árið 2006 var mannfjöldinn 353.483 manns. Borgin er 147,5 ferkílómetrar að flatarmáli. Kielce. Kielce er 16. stærsta borg Póllands og höfuðborg Świętokrzyskie sýslu. Simpsonskvikmyndin. Simpsons kvikmyndin (enska: The Simpsons Movie) er teiknimynd í fullri lengd byggð á þáttaröðinni Simpson-fjölskyldan. Íslensk talsetning. Davíð Þór Jónsson þýddi kvikmyndina á íslensku fyrir talsetningu og Jakob Þór Einarsson leikstýrði henni. Þeir sem ljáðu raddir sínar voru meðal annars Örn Árnason sem Homer, Margrét Gunnarsdóttir sem Marge, Sigrún Edda Björnsdóttir sem Bart og Álfrún Örnólfsdóttir sem Lisa. Elfriede Jelinek. Elfriede Jelinek (fædd í Mürzzuschlag í Steiermark 20. október 1946) er austurrískur rithöfundur. Hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 2004. Nelly Sachs. Nelly Sachs (rétt nafn Leonie Sachs) var þýskur rithöfundur, f. 10. desember 1891 í Berlín, d. 12. maí 1970 í Stokkhólmi. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels ásamt Samuel Josef Agnon árið 1966. 3. deild karla í knattspyrnu. 3. deild karla í knattspyrnu er fjórða hæsta deildin í íslenskri knattspyrnu. Deildin var stofnuð árið 1982 undir nafninu "4. deild" og bar það nafn til 1997 þegar nafninu var breytt í núverandi nafn. Í 3. deild var leikið í 4 riðlum, riðli A, B, C og D. Á ársþingi KSÍ í febrúar 2012 var samþykkt tillaga þess efnis að 3. deild skyldi breytt í 10 liða deild og hennar í stað koma ný deild, 4. deild karla í knattspyrnu sem yrði neðsta deild mótsins. Afturelding, Haukar, HK, Reynir Sandgerði, Höttur og Sindri hafa oftast unnið 3. deildina, eða tvisvar sinnum. Leiktími er frá enduðum maí til miðs septembers. Í takt við tímann. "Í takt við tímann" er íslensk kvikmynd leikstýrð af Ágústi Guðmundssyni. Myndin er framhald af Með allt á hreinu sem var frumsýnd árið 1982. Bjólfskviða (2006 kvikmynd). "Bjólfskviða" (enska: "Beowulf & Grendel") er kvikmynd í samframleiðslu á Íslandi, Kanada og Bretlandi frá árinu 2005. Leikstjóri var Sturla Gunnarsson og er hún byggð á miðaldakvæðinu Bjólfskviðu. Myndin var að öllu leyti tekin upp á Íslandi og er aðallega á ensku, þó eru nokkur orð á latínu og íslensku. Köld slóð. "Köld slóð" er íslensk kvikmynd leikstýrð af Birni Brynjúlfi Björnssyni. Hún var frumsýnd árið 2006. The Amazing Truth About Queen Raquela. "The Amazing Truth About Queen Raquela" (stytt "Queen Raquela") er íslensk kvikmynd leikstýrð af Ólafi Jóhannessyni frá árinu 2007. Myndin átti upphaflega að vera heimildarmynd, en Ólafur ákvað fljótlega að gera frekar leikna kvikmynd sem lítur út fyrir að vera heimildarmynd. Margir leikaranna leika sjálfan sig í myndinni. Blóðbönd. "Blóðbönd" er íslensk kvikmynd frá árinu 2006. Leikstjóri var Árni Ásgeirsson. Söguþáður. Pétur er hamingjusamlega kvæntur Ástu sem á von á sér, en fyrir eiga þau dreng, sem heitir Örn. Fyrir tilviljun kemst Pétur að því að hann er ekki faðir Arnar og tilvera fjölskyldunnar tekur á sig nýja mynd. Foreldrar. "Foreldrar" er íslensk kvikmynd frá árinu 2007. Leikstjóri var Ragnar Bragason. Myndin hlaut fimm Eddur á uppskeruhátíð Íslensku Kvikmynda og Sjónvarpsakademíunnar árið 2007 fyrir Kvikmynd Ársins, Handrit Ársins, leikstjóri Ársins og Besti leikarinn og Besta Leikkonan. Edduverðlaunin 2007 Bluetooth. Bluetooth (heitir einnig blátönn) er staðall fyrir þráðlaus LAN. Bluetooth býður upp á leið til að tengja og skiptast á upplýsingum á milli farsíma, fartölva, borðtölva og prentara í gegnum örugga stuttbylgju útvarpsbylgju. Joseph Butler. Joseph Butler (fæddur 18. maí 1692, dáinn 16. júní 1752) var enskur biskup, guðfræðingur og heimspekingur.Hann fæddist í Wantage í Berkshire (nú Oxfordshire) á Englandi. Hann lést í Bath í Somerset á Englandi. Butler er frægastur fyrr rit sín "Fifteen Sermons on Human Nature" (1726) og "Analogy of Religion, Natural and Revealed" (1736). "Fifteen Sermons on Human Nature" er gjarnan talið vera viðbragð við sálfræðilegri sérhyggju Thomasar Hobbes. Butler, Joseph Butler, Joseph Samuel Clarke. Samuel Clarke (11. október 1675 – 17. maí 1729) var enskur heimspekingur en fékkst einnig við guðfræði, stærðfræði og textafræði. Hann var undir áhrifum frá Isaac Newton. Hann hafnaði efnishyggju Thomasar Hobbes, algyðistrú Baruch Spinoza, raunhyggju Johns Locke og nauðhyggju Gottfrieds Leibniz. Tengill. Clarke, Samuel Clarke, Samuel Francis Hutcheson. Francis Hutcheson (8. ágúst 1694 – 8. ágúst 1746) var skosk-írskur heimspekingur og guðfræðingur, fæddur skoskum foreldrum á Norður-Írlandi. Hann var einn af upphafsmönnum skosku upplýsingarinnar. Hutcheson, Francis Hutcheson, Francis Hutcheson, Francis Hutcheson, Francis Hutcheson, Francis Pierre Bayle. Pierre Bayle (fæddur 18. nóvember 1647, dáinn 28. desember 1706) var franskur heimspekingur og rithöfundur. Hann var undir áhrifum frá pyrrhonískri efahyggju sem hann þekkti úr ritum Sextosar Empeirikosar Tenglar. Bayle, Pierre Bayle, Pierre Bayle, Pierre Thomas Aikenhead. Thomas Aikenhead (um 1678 – 8. janúar 1697) var skoskur nemandi frá Edinburgh, sem árið 1696 var ákærður fyrir að lýsa því opinberlega yfir að honum fyndist kristin trú vera eintóm vitleysa. Hann var dæmdur sekur fyrir guðlast og tekinn af lífi. Aikenhead bað dómstólinn að auðsýna sér miskunn og reyndi að draga ummæli sín til baka en allt kom fyrir ekki og var hann dæmdur til hengingar. Við gálgann hélt Aikenhead því fram að siðferðisreglur væru mannasetningar en ekki frá guði komnar. Hann var sagður hafa dáið með biblíu í hendi og sýnt öll merki iðrunar. Aikenhead var síðasti maðurinn sem var hengdur fyrir guðlast í Bretlandi. Aikenhead, Thomas Sandalda. Sandalda er vindborinn sandur sem safnast saman í öldulaga form í eyðimörkum og hvar sem þurrkur og landeyðing fer saman. Stafrænn Hákon. Stafrænn Hákon er tónlistarverkefni Ólafs Josephssonar. Ólafur hefur frá árinu 1999 verið að bralla við heimatilbúnar upptökur. Snemma árs 2001 sauð Ólafur saman litla heimatilbúna plötu sem fékk nafnið „eignast jeppa“ og fór hún í sölu í hinni sálugu plötubúð Hljómalind. Ólafur hafði fljótt samband við góðvin sinn Samúel White sem áður hafði verið meðlimur ásamt Ólafi í bílskúrsbandinu Sullaveiki Bandormurinn og fékk hann með sér í lið til að leggja hönd á plóg. Úr varð samstarf sem enn lifir í dag og hefur Samúel lagt til 10 lög inná plötur Stafræns Hákons. Hljómsveitin árin 2005-2006. Stafrænn Hákon hefur verin viðloðandi svokallaðann bræðing af sveimkenndu Lo-Fi, síðrokki, gítarsveimi og elektróník. Frá 1999 hefur Ólafur Josephsson, hugmyndasmiður Stafræns Hákons fengist við upptökur heimavið vopnaður verkfærum sem gera honum kleift að fást við tónsmíðar. Seint á árinu 2005 var Stafrænn á fullu með að púsla saman sinni fimmtu afurð sem hefur fengið nafnið „Gummi“. Ólafur heldur í leiðangur uppá Sólheima í Grímsnesi þar sem hann hefur mælt sér mót við góðvin sinn Lárus Sigurðsson. Þeir hafa fengið til afnota kirkjuna þar til að taka upp hörpur og önnur órafmögnuð hljóðfæri sem þar eru til staðar. Enginn vísir eru af huldufólki eða draugum í nágrenninu, skýringin er einföld, slíkar skepnur eru ekki til. Fallegir tónar úr hörpum Lárusar hljóma ásamt kraumandi gítar vegg úr fyrsta kaflanum á laginu „Járn“ sem er upphafslag „Gumma“. Hið órafmagnaða hljóð sem vermir hljóm plötunnar kemur svo sannarlega í ljós þegar Birgir Hilmarsson forsprakki Ampop/Blindfold og góðvinur Stafræns sleppir höndinni af harmonium orgelinu í síðasta laginu á plötunni og labbar út úr stúdíóinu. Háppunktur lokalagsins „Veggur“ er án vafa þegar Birgir þenur raddböndinn yfir sveimandi gítarvegginn og þéttar trommurnar sem Daniel Lovegrove (AKA Dialect) slær af innlifun. Hægri hönd Stafræns Hákons, Samúel White hefur náð að framkalla sína fullkomnustu lagasmíðar með sínu óaðfinnanlega gítarplokki, og heyrist það vel í hinu tilfinningaríka lagi „Hausi“ er söngurinn hjá Minco Eggersman passar fullkomlega við gítarspil Samúels. Í laginu „PRofi“ þar sem Stafrænn Hákon er í samstarfi við dönsku drengina í Efterklang, má heyra hvernig elektrónikin bindur innihald plötunnar saman um leið og hún brýtur upp hljóðheim Stafræns Hákons. Þegar Ólafur er staddur í stúdíóinu hjá Daniel þar sem lokahnykkur plötunnar á sér stað, er Ólafur þess viss að hér er sérstök afurð á ferðinni, jafnvel sú albesta í gæðum sem Stafrænn hefur gert á sínum ferli. Ný vídd hefur færst yfir hljóðheim Stafræns með góðri hjálp frá meðspilurum og Daniel Lovegrove sem slær skinnin og hljóðblandar. Árið 1999 þegar menntaskóla hljómsveitin „Sullaveiki Bandormurinn“ hætti störfum hélt einn meðlimur þess áfram ótrauður í kjallaranum sínum vopnaður fjögurra rása upptökutæki og gítar. Segulböndin fóru snemma að fjölga sér í skúffunni hjá Ólafi og enduðu nokkurra þessara laga á geisladisk sem Ólafur kom í sölu í hinni sálugu Hljómalind. „Eignast jeppa“ fyrsta afurðin fékk góðar viðtökur, sérstaklega þar sem hún var alunninn heimavið og gefin út af Ólafi sjálfum þar sem 5 hljóðfæri fengu að ráða ferðinni, gítar, bassi, melodica, trommuheili og segulbandssuð var fimmta hljóðfærið. Stemmningin var lágstemmd og sveimkennd með gítarlínum umlykktum mjög svo lo-fi hljómandi trommuheilanum. Í kjölfarið fylgdu 2 plötur, „í ástandi rjúpunnar“ og „skvettir edik á ref“ sem voru stórt stökk frá frumrauninni. Meiri áhersla var lögð á sveimkennda gítarveggi og var stemmningin ekki eins lágstemmd og fyrr. Seinna voru þessar 3 plötur endurútgefnar á erlendri grunndu af tveimur mismunandi útgáfufyrirtækjum. Resonant (www.resonantlabel.com) gáfu út síðustu tvær skífurnar og Secret Eye (www.secreteye.org) gáfu út frumrauninna. Árið 2003 var Ólafur á fullu við upptökur á sinni fjórðu plötu sem koma átti út á Resonant útgáfunni. Þegar platan „Ventill/Poki“ kom út í september 2004 var hún það metnaðarfyllsta sem Stafrænn Hákon hafði sent frá sér frá upphafi. Í kjölfarið fór Stafrænn Hákon og hljómsveit hans í 3 vikna reisu til Bretlandseyja við góðar móttökur á öllum stöðum. „Ventill/Poki“ var tímamótaverk fyrir Stafrænann þar sem í fyrsta skipti var farið í stúdíó og tekið upp með alvöru trommum sem virkilega þétti hljóðheim Stafræns til muna. Seint á árinu 2006 var fimmta afurðinn „Gummi“ að veruleika og tónleikaferð í aðsigi í Bretlandi og jafnvel í Japan. Útgáfa á „Gumma“ er nú þegar ákveðinn í Asíu, meginlandi Evrópu og Bandaríkjunum. En á Norðulöndum fór platan í dreifinu hjá [12 Tónum]. Bakkasel. Bakkasel er eyðibýli innst í Öxnadal sem fór í eyði 1960. Var þar um skeið rekið gistiheimili, veitingastaður og eldsneytissala. Bakkasel var byggt úr steinsteypu í kringum 1933. Bakkasel er innsti bær í Öxnadal. Hjá Bakkaseli liggur þjóðvegur 1 upp á Öxnadalsheiði um bratta brekku sem nefnist Bakkaselsbrekka. Fjallið fyrir ofan bæinn heitir Heiðarfjall og er 1178 m hátt. Bakkasel var upphaflega sel frá Bakka í Öxnadal. Nálægt Bakkaseli er steinn sem heitir "Lurkasteinn" en þar börðust Sörli sterki og Þórður Hreða og féll Sörli. Sagt er að ferðamenn sem eigi leið í fyrsta skipti hjá steininun eigi að varpa steini að honum um leið og þeir færu með fyrirbænir áður en lagt væri af stað á Öxnadalsheiði. Fyrst var búið í Bakkaseli árið 1850 og var það í byggð í 110 ár eða til 1960. Tryggvi Emilsson bjó líka nokkur ár í Bakkaseli. 1. deild karla í knattspyrnu 2006. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 52. sinn árið 2006. Markahæstu menn. 13 Helgi Sigurðsson (Fram) 9 Hreinn Hringsson (KA) 8 Jónas Grani Garðarsson (Fram) 8 Ómar Hákonarson (Fjölnir) 7 Jón Þorgrímur Stefánsson (HK) 7 Guðjón Baldvinsson (Stjarnan) Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði. Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði (SHMN) er íslenskt stéttarfélag þeirra sem eru með próf frá háskóla eða hliðstæðum menntastofnunum og starfa á sviði matvælafræða, næringarfræða eða skyldra greina. SHMN er aðildarfélag Bandalags háskólamanna. Logi Ólafsson. Logi Ólafsson (14. nóvember 1954) er íslenskur knattspyrnuþjálfari en hann hefur þjálfað frá árinu 1987 en þá þjálfaði hann kvennalið Vals í tvö ár. Hann þjálfaði síðan Víkinga frá 1990 til 1992 og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 1991. Þá þjálfaði hann Íslenska kvennalandsliðið á árunum 1993-1994 og fór síðan til Skagamanna árið 1995 og gerði liðið að Íslandsmeisturum. Á árunum 1996-1997 stýrði hann Íslenska landsliðinu. Hann tók aftur við liði ÍA árin 1997-1998. Logi stýrði FH-ingum til sigurs í 1. deild árið 2000 og var þar til 2001. Á sama tíma stjórnaði hann kvennalandsliðinu. Árið 2001 varð hann aðstoðarþálfari Lilleström og tók síðan við Íslenska landsliðinu árið 2003 og var þar til ársins 2005 með Ásgeiri Sigurvinssyni. Árið 2007 tók Logi við erfiðu búi Knattspyrnufélags Reykjavíkur og gerði þá meðal annars að bikarmeisturum 2008. Hann var þó rekinn árið 2010 eftir slæma byrjun í deildinni. Árið 2010 tók hann svo við liði Selfyssinga og mun stýra þeim í fyrstu deildinni. Logi hefur um nokkurt skeið verið íþróttakennari við Menntaskólann við Hamrahlíð. J.L. Mackie. John Leslie Mackie (1917 – 1981) var ástralskur heimspekingur, upprunnin frá Sydney. Hann er sennilega þekktastur fyrir viðhorf sín í siðspeki, einkum vörn sína fyrir siðfræðilegri efahyggju. Mackie fékkst einnig við trúarheimspeki og frumspeki. Æviágrip. Mackie brautskráðist frá Háskólanum í Sidney árið 1938, þar sem hann nam heimspeki hjá John Anderson. Hann hlaut styrk til náms við Oriel College í Oxford á Englandi. Mackie gegndi herþjónustu á árum síðari heimsstyrjaldarinnar en að stríðinu loknu tók hann við stöðu lektors í siðfræði og stjórnmálaheimspeki við Háskólann í Sidney og gegndi hann þeirri stöðu frá 1946 til 1954. Árið 1955 varð hann prófessor í heimspeki við Háskólann í Otago í Dunedin á Nýja Sjálandi. Fjórum árum síðar tók hann við stöðu prófessors við Háskólann í Sidney en árið 1963 varð hann prófessor við Háskólann í York á Englandi. Hann gegndi þeirri stöðu í fjögur ár en var þá kjörinn félagi á University College í Oxford. Mackie var kjörinn félagi í Bresku akademíunni árið 1974. Ein af dætrum Mackies, Penelope Mackie, varð einnig heimspekingur. Hún var lektor í heimspeki við Háskólann í Birmingham frá 1994 til 2004 en kennir nú við Háskólann í Nottingham. Heimspeki. Mackie fékkst einkum við siðspeki, trúarheimspeki og frumspeki. Í siðspeki varði Mackie siðfræðilega efahyggju (sem má ekki rugla saman við siðfræðilega tómhyggju). Hann færði rök gegn hluthyggju um "rétt" og "rangt". Mackie var trúleysingi og hélt því fram að bölsvandinn gerði út af við helstu eingyðistrúarbrögðin. Hann færði enn fremur rök fyrir því að tilvist frjáls vilja væri engin afsökun fyrir tilvist illsku, böls og þjáningar enda hefði guð getað ljáð manninum bæði frjálsan vilja og siðferðilega fullkomnun, þannig að menn myndu velja það sem er gott í öllum tilvikum. Í frumspeki fékkst Mackie einkum við hugmyndir um orsakavensl og skilyrðissetningar sem lýsa slíkum venslum. Helstu rit Mackies. Mackie, J.L. Mackie, J.L. Thomas Henry Huxley. Thomas Henry Huxley (4. maí 1825 – 29. júní 1895) var enskur líffræðingur. Hann var kallaður „bolabítur Darwins“ vegna varnar sinnar fyrir þróunarkenningar Charles Darwin. Árið 1860 átti Huxley í frægum rökræðum við Samuel Wilberforce, biskup í Oxford, um þróunarkenninguna. Rökræðurnar voru mikilvægur þáttur í útbreiðslu þróunarkenningarinnar. Huxley, Thomas Henry Frumgyðistrú. Frumgyðistrú (deismi) er trú á guð sem ópersónulegt afl. Yfirleitt felur frumgyðistrú í sér hugmyndir um að guð skipti sér ekki af manninum né náttúrulögmálum. Þeir sem aðhyllast frumgyðistrú hafna yfirleitt hugmyndum um kraftaverk og trúarlega opinberun. Kenning forngríska heimspekingsins Aristótelesar um guð sem frumhreyfil eða hinstu orsök er dæmi um frumgyðistrú. Bristol. Bristol er borg og sýsla í Suðvestur-Englandi. Borgin var um aldalangt skeið önnur eða þriðja stærsta borg Bretlands, þar til borgirnar Liverpool, Manchester og Birmingham tóku örum vexti í iðnbyltingunni á síðari hluta 18. aldar. Bristol þykir með fegurri stórborgum Englands. Lega og lýsing. Bristol liggur við ána Avon við nær innst í Bristolflóa í suðvestur Englandi. Miðborgin sjálf er steinsnar undan suðurströnd flóans. Næstu stærri borgir eru Cardiff í Wales (40 km), Southampton til suðausturs (70 km) og Oxford til norðausturs (70 km). London er í um 100 km til austurs. Áin Avon skipti borginni í tvennt, en hún mundar í Bristolflóa við Avonmouth aðeins tíu km fyrir norðan miðborgina. Í vesturjaðri borgarinnar er Avon-gljúfrið (Avon Gorge) sem áin rennur um. Mikil brúarmannvirki ganga yfir gljúfrið. Í miðborginni er árhöfn og þurfa skip og bátar að sigla um stórar lokur til að komast um gljúfrið til sjávar. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Brycgstow, sem merkir "staðurinn við brúna". Á 15. öld var rithátturinn Bristow. Nú bregður svo við að íbúar héraðsins hneigjast til að bæta bókstafnum ell við ýmis orð. Þannig breyttist framburður heitisins (og rithátturinn) í Bristol. Íbúar borgarinnar eru kallaðir Bristolians á ensku. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bristol synir hvítt borgarvirki, hálft skip og grænt engi á rauðum grunni. Táknin hafa verið í notkun á mynt og innsigli borgarinnar allt frá 14. öld og vísa til mikilvægi siglinga í sögu borgarinnar. Skjaldarberarnir eru tveir einhyrningar og var þeim bætt við 1569, ásamt hjálminum, höndunum með slöngunni og voginni. Slangan táknar visku, en vogin réttlæti. Neðst er borði með áletruninni VIRTUTE ET INDUSTRIA, sem merkir "með dyggð og iðni". Upphaf. Elsta mynd af Bristol er frá 1478. Mynd eftir Robert Ricart. Á 8. öld var klaustur stofnað á svæðinu og kom það fyrst við skjöl 804. Bærinn sjálfur myndaðist ekki fyrr en í upphafi 11. aldar en það sést á mynt sem var slegin í bænum árið 1010. Í annálum segir að Haraldur Guðinason hafi lent skipi sínu við Bristol 1052. Árið 1062 lagði hann frá Bristol á skipum á leið til orrustu í Wales. Allt frá þessum tíma hefur Bristol verið mikilvæg hafnarborg en skip sigldu upp Bristolflóa og upp ána Avon til að komast til hafnar. Ein mesta verslunarvaran í borginni voru þrælar en þeir voru seldir til Dyflinnar. Kastalavirkið í Bristol var reist af Geoffrey de Montbray, einn af riddurum Vilhjálms sigursæla, skömmu eftir landtökuna 1066. Í kastalanum sátu ýmsir enskir konungar til skamms tíma, svo sem Hinrik II sem aldist upp og hlaut menntun sína þar. Á 13. öld var Bristol orðin mikilvæg hafnarborg. Ullarklæði og hveiti voru flutt út þaðan en flutt inn vín frá Frakklandi og Spáni. Heimildir eru um að skip frá Bristol hafi verslað fisk við Ísland. 1348-49 skall á svarti dauðinn en í honum létust allt að helmingur borgarbúa. Þeir voru á bilinu 15-20 þúsund þegar pestin skall á og er álitið að Bristol hafi verið þriðja stærsta borgin í Englandi á þessum tíma, á eftir London og York. Þeir voru hins vegar ekki nema 10-12 þús á 15. og 16. öld. Þrátt fyrir það leysti Játvarður III Bristol frá sýslunum Gloucester og Somerset árið 1373 og bjó til nýja sýslu, Bristol County. Enska öldin. Skipið Matthew (endursmíðað) við höfn í Bristol Nær alla 15. öldina sigldu fiskiskip frá Bristol til veiða við Íslandsstrendur. Þeir stunduðu einnig verslun við Ísland og er álitið að allt að 3% af verslunarvarningi Bristol hafi verið Íslandsverslun. Jafnfram fluttu nokkrir Íslendingar til Bristol. Árið 1483 voru 48 Íslendingar skráðir þar í borg. Einhverjir Íslendingar hafa einnig verið á skipum sem sigldu frá Bristol til erlendra hafna. Þegar Englendingar voru hraktir í æ meira mæli burt frá Íslandi síðla á 15. öld, leituðu þeir á önnur mið. 1497 lagði John Cabot af stað frá Bristol á skipinu Matthew í leit að dularfullri nýrri eyju í Vesturheimi sem Englendingar hafi fundið skömmu áður en þar voru gjöful fiskimið. Nokkuð víst er að Cabot hafi verið fyrsti Evrópubúinn sem kom til Norður-Ameríku eftir daga víkinganna. Leiðangur Cabots sneri síðan heim aftur til Bristol 6. ágúst. Ári síðar lagði John Cabot aftur upp í Ameríkuferð frá Bristol. Engar heimildur eru til um þá ferð. Talið er að skipin hafi farist. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að leiðangurinn hafi komist til Vesturheims og stofnað fyrsta kristna bæinn á Nýfundnalandi. Rannsóknir þess eðlis eru í gangi í háskólanum í Bristol. Borgarréttindi og borgarastríðið. 1542 veitti Hinrik VIII Bristol almenn borgarréttindi. Samtímis var Ágústínusarklaustrinu lokað og kirkja þess gerð að dómkirkju anglísku kirkjunnar. Allar aðrar innréttingar kaþólsku kirkjunnar í borginni var sömuleiðis lokað. 1557 kom sæfarinn Martin Frobisher til hafnar í Bristol á tveimur skipum. Hann hafði verið í könnunarleiðangri í Vesturheimi og kom með þrjá villimenn, indíána sem trúlega tilheyrðu Exquimaux-ættbálknum. Þeir klæddust eingöngu mittisskýlum og dóu allir innan þriggja mánaða. Elísabet drottning sótti borgina heim 1574 á ferðalagi sínu um vesturhluta Englands. 1642 hófst enska borgarastyrjöldin. Bristol tók stöðu með þinginu í London og lagfærði margar af vörnum borgarinnar. Karl II konungur sendi því her til Bristol en hann var undir stjórn Róberts Rínarfursta (frændi Karls V keisara). 26. júlí 1642 réðist hann á borgina og tók hana eftir mikil átök. Íbúar og þingliðar fengu að fara óáreittir. Hins vegar komst konungsherinn yfir mikið magn af vopnum. Þeir náðu sömuleiðis átta kaupskipum í höfninni en þau urðu grundvöllurinn að herskipaflota konungs. 1645 sigraði þingherinn nokkrar orrustur við konungsherinn í suðvesturhluta Englands og sneri sér því næst að Bristol. Róbert prins sneri þangað aftur til að skipuleggja varnir. Þingherinn gerði umsátur um borgina í þrjár vikur og gerðu síðan stórárás 10. september. Róbert fékk ekkert við ráðið og gafst upp. Bristol var hertekin af þinghernum, sem hélt borginni það sem eftir lifði stríð. 1656 gaf Oliver Cromwell fyrirskipun um að rífa niður kastalavirkið í Bristol. Þrælaskip og óeirðir. Á ofanverðri 17. öld hófst þrælaverslunin og stóð hún allt fram á 19. öld (þrælaverslunin var bönnuð 1807. Á þessum tíma sigldu skip frá Bristol 2000 skipti til Ameríku með hálfa milljón þræla frá Afríku. 1764-68 var ný brú reist yfir Avon-gljúfrið, enda var sú gamla löngu úr sér gengin. Þetta var eina leiðin yfir fljótið, utan ferju, og var ákveðið að setja vegtoll á brúna til 1793. Þegar vegtollurinn var endurnýjaður á því ári, ásamt því að borgarráðið ætlaði að rífa nálæg hús til að bæta aðgengið að brúnni, sauð upp úr. 30. september brutust út mótmæli og óeirðir sem enduðu í átökum við lögreglu. 11 manns biðu bana og 45 aðrir slösuðust. Þetta reyndust verstu óeirðir í Englandi á 18. öld. Iðnbyltingin. Verslun í Bristol átti mjög undir högg að sækja í upphafi 19. aldar, ekki síst vegna harðnandi samkeppni frá öðrum hafnarborgum í Englandi, svo sem Liverpool. Afnám þrælaverslunarinnar og hafnbannið á Napoleontímanum greiddi borginni þung högg. Auk þess varð skipalægið í Avon erfitt fyrir sífellt stækkandi skip. Atvinnuvegir breyttust. Nokkur minniháttar kolasvæði eru í grennd við borgina, en kolavinnsla var ekki sérlega ábatasöm og var henni á endanum hætt. Verslun jókst hins vegar aftur talsvert er framleiðsla á tóbaksvörum, pappír og vélaiðnaði var komið á í borginni. Snemma á 19. öldinni voru lokur settar á ánni Avon, þannig að vatnsmagnið í höfninni hélst stöðugt, enda gætti mikilla sjávarfalla frá Bristolflóa alla leið inn höfnina. Með tilkomu járnbrautarinnar var hægt að flytja iðnaðarvörur fljótar og víðar en með skipum. Hafnaraðstaðan færðist neðar í Avon og ný höfn reis í Avonmouth, sem er hluti af Bristol. Þar myndaðist einnig mikill iðnaður. Samfara bættum samgöngum og iðnaði fimmfaldaðist íbúatalan á 19. öldinni. Hún var 68 þúsund árið 1801 en var komin í yfir 300 þúsund áður en öldin var liðin. 1911 voru íbúar orðnir rúm 350 þúsund. Árið 1910 var flugvélaverksmiðjan British Aircraft Company stofnuð í Bristol en hún var ein allra mikilvægasta flugvélaverksmiðja Bretlands. Þaðan komu margar tegundir flugvéla, ekki síst á stríðstímum. Margar vélanna sem tóku þátt í heimsstyrjöldunum báðum komu frá Bristol. Bristol Blitz. Borgin varð fyrir gífurlegum loftárásum Þjóðverja í heimstyrjöldinni síðari en markmiðið var að eyðileggja höfnina og flugvélaverksmiðjuna. Þær verstu urðu í nóvember 1940 og í apríl 1941. Nánast öll borgin var sprengd niður. Hitler sjálfur lýsti því yfir að borgin hafi verið þurrkuð út af yfirborði jarðar. Síðustu árásirnar voru gerðar í maí 1944. Alls urðu árásirnar 77 talsins. Í þeim létust 1299 manns og 80 þúsund hús eyðilögðust. Bristol var í fimmta sæti yfir borgir í Englandi sem hvað verst komu út úr stríðinu. Englendingar kalla atburði þessa Bristol Blitz. Eftirstríðsárin. 1963 áttu sér stað atburðir í borginni sem kallast Bristol Bus Boycott. Strætisvagnafyrirtækið setti sér rasistareglur og neitaði að ráða blökkumenn og Indverja til starfa. Borgarbúar voru hneikslaðir og hunsuðu strætisvagnana í fjóra heila mánuði þar til fyrirtækið afnam reglur sínar. Atburðirnir vöktu gífurlega athygli í landinu öllu og áttu stóran þátt í andrasistalögum breska þingsins 1965 (Race Relations Act). Flugvélaframleiðslan (fyrirtækið heitir Filton í dag) náði nýjum hæðum með farþegavélum. Hin hljóðfráa Concorde var að hluta smíðuð í Bristol, sem og hlutar Airbus-vélanna. Í Bristol er einnig talsverð framleiðsla á tæki og tólum fyrir geimferðir. Höfnin hafði hægt og rólega færst til Avonmouth og þangað eru fluttir inn fleiri bílar en í nokkurri annarri höfn í Englandi. Mikil ferðamennska er einkennandi fyrir Bristol en borgin er sjöunda í röðinni í Englandi hvað fjöldi ferðamanna varðar. Viðburðir og menning. Loftbelgir hefja sig til flugs í Bristol Bristol International Balloon Fiesta er heiti á árlegri loftbelgjahátíð í borginni. Þangað streyma menn úr öllum heimshornum með loftbelgi, sem eru um hundrað talsins. Margir þeirra er með óvenjuleg og skemmtileg form. Hátíð þessi hófst árið 1979 og er í dag ein sú stærsta í Evrópu. Hún er haldin í ágústbyrjun. Bristol International Kite Festival er árleg flugdrekahátíð í borginni, haldin í september. Hún hefur verið haldin síðan 1986 og dregur að sér um 30 þús áhorfendur. 1991 var heimsmeistarakeppni í flugdrekakeppni haldin í borginni. Hafnarhátíðin mikla í Bristol fer fram fram í júlí og hefur verið haldin síðan 1971. Hana sækja 250 þúsund manns árlega en þar má finna útitónlist, götulistarmenn, ýmsar aðrar skemmtanir og vitanlega sölubása. Einnig sigla skip og bátar um höfnina og ána Avon. St Pauls Carnival er skrúð- og danshátíð í afró-karibískum stíl og er haldin í júlí. Kvikmyndir. Í Bristol er kvikmyndafyrirtækið Aardman Animation, sem gert hefur leirbrúðumyndir á borð við Chicken Run. Náttúrufræðideild BBC, sem gerði náttúrulífsmyndirnar með David Attenborough er með aðsetur í borginni. Ýmsar kvikmyndir hafa verið teknar upp í borginni, sérstaklega utanhúss. Bristol er fæðingarstaður kvikmyndaleikarans Cary Grant. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru tvö: Bristol City og Bristol Rovers. Hvorugt liðið hefur unnið til stærri bikars, en Bristol City komst í úrslit bikarkeppninnar 1909. Bæði liðin leika í neðri deildum. Í borginni er haldið árlegt hálfmaraþon. 2001 var heimsmeistarakeppnin í hálfmaraþon haldið í Bristol. Sigurvegarinn var Eþíópíumaðurinn Haile Gebrselassie. Aðrar hópíþróttir sem stundaðar eru í Bristol eru rúgbý, krikket og íshokkí. Vinabæir. Stytta af leikaranum Cary Grant í miðborginni Byggingar og kennileiti. Clifton-brúin er helsta kennileitið í Bristol Aberdeen. Aberdeen er þriðja stærsta borg Skotlands. Íbúar borgarinnar eru rúmlega 200 þúsund. Byggð hefur verið þar sem borgin stendur í að minnsta kosti 8000 ár. Aberdeen er miðstöð æðri menntunar í Norðaustur-Skotlandi. Í Aberdeen eru tveir háskólar, Háskólinn í Aberdeen, stofnaður 1495, og Robert Gordon-háskóli, sem varð háskóli árið 1992. Aberdeen er stundum nefnd "Olíuhöfuðborg Evrópu". Gamalt íslenskt heiti á borginni er "Apardjón". Alþjóðasiglingamálastofnunin. Alþjóðasiglingamálastofnunin (á ensku: IMO sem stendur fyrir International Maritime Organization), áður fyrr Inter-Governmental Maritime Consultative Organization (IMCO), er ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Höfuðstöðvarnar eru í London í Bretlandi. Hlutverk stofnunarinnar er að efla samstarf milli þjóða þegar kemur að samgöngum á hafi úti og lágmarka mengun á hafi. Hlöllabátar. Hlöllabátar er keðja skyndibitastaða sem sérhæfa sig í samlokum sem nefnast bátar (eins og New York-bátur, línubátur og gúmmíbátur). Fyrsti staðurinn var opnaður í miðbæ Reykjavíkur 14. apríl 1986 en síðan hafa útibú opnað í Kópavogi, Keflavík, Selfoss og á Akureyri. Savanna tríóið - Ég ætla heim. Ég ætla heim er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Savanna tríóið Þjóðlög, Hljóðritun plötunnar fór fram við hin fullkomnustu skilyrði í London og er í stereo. Bassaleikari er enskur, Bill Sutcliffe en yfirumsjón með hljóðritun hafði Tony Russell. Ómar Ragnarsson - Best of Ómar. Best of Ómar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Ómar Ragnarsson sín bestu lög. Ýmsir - Dýrin í Hálsaskógi (plata). Dýrin í Hálsaskógi er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytja leikarar við Þjóðleikhúsið "Dýrin í Hálsaskógi" eftir Thorbjörn Egner. Tónlistin er eftir Christian Hartmann og Thorbjörn Egner. Hulda Valtýsdóttir þýddi leikritið og Kristján frá Djúpalæk þýddi ljóð. Carl Billich leikur á píanó. Leikstjóri er Klemens Jónsson og sögumaður Róbert Arnfinnsson. Tryggvi Sveinn Bjarnason. Tryggvi Sveinn Bjarnason (16. janúar 1983) er íslenskur varnarmaður í knattspyrnu. Tryggvi spilar með Stjörnunni og gekk til liðs við þá árið 2007 frá KR. Tryggvi hafði spilað með KR upp yngri flokka en fór til ÍBV. Hann gekk síðan aftur til liðs við KR. Tryggvi fór á reynslu til Watford haustið 2004 en ekki varð meira úr því. Savanna tríóið - Folksongs from Iceland. Savanna tríóið - Folksongs from Iceland er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1964. Á henni flytur Savanna tríóið þjóðleg lög. Hönnun umslags, Björn Björnsson. Ljósmynd á forsíðu tók Kristján Magnússon af Surtseyjargosi 14. nóvember 1963. .dk. .dk er þjóðarlén fyrir Danmörku. Gunnlaugur Jónsson. Gunnlaugur Jónsson (29. nóvember 1974) er íslenskur varnarmaður og þjálfari. Hann spilar með liði Selfoss í næst efstu deild. Gunnlaugur hóf feril sinn hjá ÍA árið 1995. Hann hefur einnig spilað hjá KFC Uerdingen, Motherwell FC, Kongsvinger og Örebro SK. Hann fór til Selfoss eftir tímabilið 2008 með KR. Hann varð Íslandsmeistari með ÍA 2001 og árið 1996 og einnig bikarmeistari árin 2000 og 2003 og síðan 2008 með KR. Gunnlaugur var valinn leikmaður Íslandsmótsins árið 2001. Samræður um trúarbrögðin. "Samræður um trúarbrögðin" (e. "Dialogues concerning Natural Religion") er rit um heimspeki eftir skoska heimspekinginn David Hume. Í ritinu ræðast við þrjár skáldaðar persónur, Demea, Fílon og Kleanþes, um eðli trúarbragðanna og tilvist guðs. Þeir eru allir sammála um að guð sé til en greinir á um eðli hans og eiginleika og hvort menn geti nokkurn tímann öðlast þekkingu á guði. Meðal þess sem þeir ræða um er bölsvandinn og hönnunarrökin fyrir tilvist guðs. Hume hóf að rita "Samræður um trúarbrögðin" árið 1750 en lauk ekki við þær fyrr en 1776 skömmu áður en hann lést. Ritið byggir að hluta til á riti Ciceros "De Natura Deorum" ("Um eðli guðanna"). "Samræður um trúarbrögðin" komu út að Hume látnum árið 1779. Rannsókn á siðgæðislögmálum. "Rannsókn á siðgæðislögmálum" eða "Rannsókn á frumatriðum siðfræðinnar" (e. "An Enquiry Concerning the Principles of Morals") er rit um siðfræði eftir skoska heimspekinginn David Hume. Í ritinu færir Hume rök fyrir því að undirstöður siðferðisins séu ekki í skynseminni heldur í geðshræringum. Ritið kom fyrst út árið 1751. Rannsókn á skilningsgáfunni. "Rannsókn á skilningsgáfunni" (e. "An Enquiry concerning Human Understanding") er rit um heimspeki eftir skoska heimspekinginn David Hume. Það kom fyrst út árið 1748. Ritið var tilraun Humes til þess að auka vinsældir kenninga sinna en fyrra riti hans "Ritgerð um mannlegt eðli" var illa tekið á sínum tíma. "Rannsókn á skilningsgáfunni" er mun styttri og einfaldari en "Ritgerð um mannlegt eðli". Ritið hafði mikil áhrif, ekki síst eftir að prússneski heimspekingurinn Immanuel Kant sagði að það hefði vakið sig af værum kreddublundi. Internetslangur. Internetslangur er slangur sem finna má á Netinu, t.d. á spjallborðum, í tölvupósti og á bloggi. Er oftast ensk skammstöfun orða í algengum setningum, sem notaðar eru í samskiptum á netinu og er ýmist notaðir há- eða lágstafir. Afbrigði. Til eru a.m.k tvær gerðir internetslangurs, skammstafanir og tilfinningaslangur. Skammstafanir. Skammstafaslangur er notað til þess að stytta þann texta sem slangrið finnst í, oft er hægt að stytta texta verulega með slangri en það skilja ekki allir slangrið og ekki er til nein "Slangurorðabók" þar sem hver sem er hefur sinn stíl Tilfinningaslangur. Tilfinningaslangur finnst aðallega á spjallborðum og í blogg skrifum. Tilfinningaslangur útkýrir skap viðkomandi eða tilfinningum til ákveðins hlutar. Fis. Fis er loftfar sem hefur leyfða hámarksþyngd upp að 450 kg. Nokkrar gerðir loftfara falla undir þessa skilgreininingu, til dæmis svifdrekar, fallhlífar, mótorsvifdrekar og fleiri. Þær gerðir fisa sem eru algengastar hafa tvær tegundir stjórntækja, annars vegar stjórnað með þyngdartilfærslu (líkamsþungi færður til, til að stýra) og hins vegar þriggja ása stjórnun (stjórntæki líkt og á „venjulegum“ flugvélum). Hinir framliðnu. Hinir framliðnu ("The Departed") er bandarísk kvikmynd frá árinu 2006. Myndin hlaut óskarsverðlaunin sama ár. Die Hard with a Vengeance. "Die Hard with a Vengeance" (eða "Die Hard 3") er bandarísk kvikmynd frá árinu 1995. Myndin er þriðja kvikmyndin í "Die Hard"-kvikmyndaseríunni. Heroes. "Heroes" er bandarískur sjónvarpsþáttur skapaður af Tim Kring sem hóf göngu sína þann 25. september 2006 á NBC. Þættirnir fjalla um venjulegt fólk sem uppgötvar að það hefur ofurkrafta og hvernig þau ákveða að nota þá. The Bourne Ultimatum. "The Bourne Ultimatum" er bandarísk kvikmynd frá árinu 2007. Kvikmyndin er byggð á samnefndri skáldsögu. Balls of Fury. "Balls of Fury" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2007. Edinborgarháskóli. Háskólinn í Edinborg eða Edinborgarháskóli er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Edinborg í Skotlandi. Skólinn var stofnaður árið 1582 og var sjötti háskólinn á Stóra Bretlandi. Skólinn er einnig meðal stærstu háskóla Bretlands. Nemendur við skólann eru um 23.750. Háskólinn í Glasgow. Háskólinn í Glasgow er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Glasgow í Skotlandi. Skólinn var stofnaður árið 1451. Hann er fjórði elsti háskólinn á Stóra Bretlandi og meðal stærstu háskóla landsins. Einkunnarorð skólans eru "Via, Veritas, Vita" eða „vegurinn, sannleikurinn og lífið“. Bölsvandinn. Bölsvandinn er í trúarheimspeki og guðfræði sú ráðgáta hvernig stendur á því að illska og þjáning og náttúruhamfarir — með öðrum orðum böl — eru til í heimi sem alvitur, algóður og almáttugur guð skapaði og ríkir yfir. Bölsvandinn er stundum nefndur "Þverstæða Epikúrosar". Matt Damon. Matthew Paige Damon (f. 8. október 1970), best þekktur sem Matt Damon, er bandarískur leikari og handritshöfundur. Hann er af ensku, skosku, sænsku og finnsku ætterni. Hann stundaði enskunám í Harvard-háskóla á árunum 1988 - 1992 en útskrifaðist ekki. Hann og Ben Affleck eru æskuvinir. Stiklusteinabrú. Stiklusteinabrú er manngerð brú sem er oft ekki nema nokkrir steinar yfir á eða votlendi. Yfir hana er stiklað svo að viðkomandi þurfi ekki að væta sig í fæturna. Á íslensku er venjulega ekki talað um brú ef steinar liggja hipsum-haps í á eða mýri, heldur "stiklur", "stillu" eða "stiklusteina", "stiklustíg" eða "staksteina". Die Hard 2. "Die Hard 2", stundum nefnd "Die Hard 2: Die Harder", er bandarísk spennumynd frá árinu 1990. Kvikmyndin er önnur í "Die Hard"-kvikmyndaseríunni. Die Hard. "Die Hard" er bandarísk spennumynd frá árinu 1988. Kvikmyndin er sú fyrsta í "Die Hard"-kvikmyndaseríunni. Kvikmyndin er byggð á skáldsögunni "Nothing Lasts Forever". Pulp Fiction. "Pulp Fiction" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1994 í leikstjórn Quentin Tarantino. Gamanmynd. Gamanmynd eða Grínmynd er tegund kvikmynda sem leggur mikla áherslu á kímni. Sögu gamanmynda má rekja til fyrstu kvikmynda sem gerðar hafa verið. Spennumynd. Spennumynd eða hasarmynd er tegund kvikmynda sem leggja mikla áherslu á hasa: skotbardaga, eltingaleiki á bílum, sprengingar og fleira. Algengt að er að spennumyndir hafi eina góða hetju sem sigrar venjulega. Moritz Schlick. Moritz Schlick(14. apríl 1882 – 22. júní 1936) var þýskur heimspekingur. Hann var helsti upphafsmaður rökfræðilegrar raunhyggju og aðalskipuleggjandi Vínarhingsins. Schlick var myrtur af Johann Nelböck, fyrrverandi nemanda sínum. Schlick, Moritz Schlick, Moritz Teignmouth. Teignmouth (borið fram) er bær við bakka árinnar Teign í Suður-Devon á Englandi. Skoska upplýsingin. Skoska upplýsingin var tími aukinnar frjóesmi og útgáfu á í vísindum, heimspeki og bókmenntum í Skotlandi á upplýsingaöldinni (1730 til 1800). Meðal helstu heimspekinga þessa tíma var Francis Hutcheson, sem var deildarforseti heimspekideildar Háskólans í Glasgow frá 1729 til 1746. Hann var meðal upphafsmanna leikslokasiðfræðinnar. Thomas Reid var helsti málsvari hinnar skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi. David Hume var annar af helstu heimspekingum Skotlands á þessum tíma. Hann var einn meginhugsuður raunhyggjunnar en hafði einnig mikil áhrif í siðfræði og hagfræði. Meginhagfræðingur skosku upplýsingarinnar var þó Adam Smith, faðir nútímahagfræði. Meðal annarra meginhöfunda tímabilsins má nefna James Burnett, Adam Ferguson, James Hutton, John Millar, John Playfair, William Robertson, Walter Scott, William Smellie og Dugald Stewart. Söngur. Söngur er tónlist flutt af söngvara, sem myndar tónana með raddböndunum. Að syngja nefnist einnig að "ljóða". Það að "púa" er að syngja orðalaust (sbr. "púa eitthvert lag"), "raula" eða "söngla" er að syngja lágt, kveða fyrir munni sér, "rolla" er að syngja hátt og illa, "tripla" er að syngja með trillum (eða þríradda) og að "kveða undir" nefnist það að fylgja öðrum í söng. Söngtegundir. Söngstílarnir eru margir. Til er bablsöngur (enska: "scat singing"), flúrsöngur (enska: "coloratura"), grallarasöngur (gamaldags sálmasöngur), gregoríanskur söngur, kanón (lágsöngur), keðjusöngur, kórall (einraddaður söngur án undirleiks), lessöngur, rapp, samsöngur, tvísöngur (samsöngur tveggja manna í tveimur röddum), íslenskur tvísöngur (fimmundarsöngur, einnig nefndur kvintsöngur), vinnusöngur, víxlsöngur, vókalísa (franska: "vocalise"), þrepsöngur og þrísöngur osfrv. Forskriftarvandinn. a> vakti fyrst athygli á forskriftarvandanum í "Ritgerð um mannlegt eðli". Forskriftarvandinn er vandi í siðspeki sem skoski heimspekingurinn David Hume vakti fyrst athygli á í riti sínu "Ritgerð um mannlegt eðli". Hann veitti því athygli að margir tala um "það sem ætti að vera" á grundvelli fullyrðinga um "það sem er". Það er að segja, þeir reyna að leiða gildisdóma af staðreyndum. En það viðist vera mikilvægur munur á lýsandi fullyrðingum (um það sem er, þ.e. um staðreyndir) annars vegar og á forskriftum (fullyrðingum um það sem ber) hins vegar. Ef það er, til dæmis, staðreynd að skurðaðgerð geti eða jafnvel muni bjarga lífi manns, þá leiðir ekki af þeirri staðreynd að maður "ætti" að gangast undir aðgerðina. Til þess að komast að þeirri niðurstöðu þar að gefa sér gildisdóm sem forsendu í röksemdafærslunni, svo sem að lífið sé þess virði að því sé lifað. Ef maður gefur sér á hinn bóginn að lífið sé ekki þess virði að því sé lifað leiðir alls ekki af forsendunum að maður ætti að gangast undir aðgerðina enda þótt það sé óvefengjanleg staðreynd að aðgerðin muni bjarga lífi manns. Hume varar við því að breyta umræðuefninu á þennan hátt og fara að tala um hvernig eitthvað ætti að vera á grundvelli þess hvernig eitthvað er án þess að útskýra fyrst hvernig forskriftirnar eigi að leiða af staðhæfingum um staðreyndir. En er hægt að fara að því að leiða „ber“ (forskriftir og gildi) af „er“ (staðreyndum)? Þessi spurning er nú miðlæg í siðfræðilegri orðræðu. Hume er venjulega eignuð sú skoðun það sé ekki hægt að leiða forskriftir eða gildi af staðreyndum. (Aðrir túlka Hume á þann veg að hann sé ekki að segja að það sé ekki hægt að leiða siðferðilegar staðhæfingar af staðhæfingum um staðreyndir, heldur að það sé ekki hægt að gera það nema á grundvelli mannlegs eðlis, þ.e. með hliðsjón af mannlegum tilfinningum.) Hume er sennilega einn fyrsti hugsuðurinn sem gerir skýran greinarmun á staðhæfingum um staðreyndir annars vegar og gildi hins vegar. Greinarmunurinn liggur nú til grundvallar félagsvísindunum. Enski heimspekingurinn G.E. Moore varði áþekka kenningu í upphafi 20. aldar með gagnrýni sinni á hluthyggju um gildi. Morgan Nicholls. Morgan Nicholls er enskur tónlistamaður. Í dag aðstoðar hann sveitina Muse á tónleikum og spilar á píanó, gítar, trompet og syngur einnig bakraddir. Hljómborð. Hljómborð er rafhljóðfæri sem að líkist píanói. Það er notað til að framkalla hin ýmsu hljóð og hljóðfæri. Saga Englands (Hume). "Saga Englands" (e. "The History of England") er rit í sex bindum eftir skoska heimspekinginn David Hume. Það kom út á árunum 1754 til 1762. "Saga Englands" var langvinsælasta rit Humes á meðan hann lifði og var það rit sem frægð hans hvildi einkum á. Rit hans um heimspeki, "Ritgerð um mannlegt eðli", "Rannsókn á skilningsgáfunni" og "Rannsókn á frumatriðum siðfræðinnar", hlutu ekki mikla eftirtekt fyrr en að Hume látnum, einkum eftir að prússneski heimspekingurinn Immanuel Kant kvað Hume hafa vakið sig af „værum kreddublundi“. Hume hagnaðist verulega á útgáfu "Sögu Englands" enda þótt hún hafi ekki selst í jafn mörgum eintökum og rit hans um heimspeki. Hume vann að endurskoðaðri útgáfu "Sögu Englands" til æviloka árið 1776. Ævi mín. "Ævi mín" (e. "My own Life") er stutt sjálfsæviágrip eftir skoska heimspekinginn David Hume. Það samdi Hume á dánarbeði sínu árið 1776 og það kom út ári síðar. Frekara lesefni. Ævisögur Humes, "My own Life" og "A Kind of History of My Life", eru meðal annars prentaðar í viðauka hjá David Fate Norton (ritstj.), "The Cambridge Companion to Hume" (Cambridge: Cambridge University Press, 1993): 345-356. Devon. Devon eða Devonskíri er stór sýsla (skíri) á suðvestur Englandi við landamæri Cornwall í vestri og Dorset og Somerset í austri. Ritgerðir um siðferði og stjórnmál. "Ritgerðir um siðferði og stjórnmál" (e. "Three Essays, Moral and Political") er ritgerðasafn í tveimur bindum eftir skoska heimspekinginn David Hume. Það kom fyrst út á árunum 1741-1742. Gagnrýnendur tóku ritinu betur en fyrra riti Humes "Ritgerð um mannlegt eðli". Ritið var endurútgefið nokkrum sinnum og var þá ritgerðum ýmist bætt við eða sleppt úr upphaflegu útgáfunni. Árið 1758 voru ritin "Orðræður um stjórnmál" (e. "Political Discourses") sem kom fyrst út árið 1752 og "Fjórar ritgerðir" (e. "Four Dissertations") sameinuð "Ritgerðum um siðferði og stjórnmál". Að því tilefni var titlinum breytt í "Essays, Moral, Political and Literary" eða "Ritgerðir um siðferði, stjórnmál og bókmenntir". Ritgerðirnar fjalla meðal annars um smekk fólks, hjátrú, ást og hjónabönd, fjölkvæni og skilnaði, prentfrelsi, borgaralegt frelsi, uppruna yfirvaldsins, sjálfstæði þingsins, stjórnmálaflokka, verslun, skatta, græðgi og fyrirmyndarríkið. Anjou. Anjou er svæði í vesturhluta Frakklands umhverfis borgina Angers. Mótsagnarlögmálið. Mótsagnarlögmálið er algert undirstöðulögmál allrar rökfræði og allra vísinda og mannlegrar hugsunar. Hringferð í sönnun. Hringferð í sönnun eða hringsönnun er rökvilla þar sem maður gefur sér það sem á að sýna fram á undir yfirskini röksemdafærslu. Í hringferð í sönnun er einhverju haldið fram, ályktun er dregin af því og ályktunin svo notuð til að styðja upprunalegu forsenduna. Fastir liðir, eins og venjulega. "Fastir liðir, eins og venjulega: Léttur fjölskylduharmleikur í sex þáttum" var íslensk gamansería framleidd af RÚV,í leikstjórn Gísla Rúnars Jónssonar eftir handriti Eddu Björgvinsdóttur og Helgu Thorberg. Þættirnir voru sýndir annað hvert laugardagskvöld á eftir "Staupasteini" október til desember 1985. Þættirnir fjalla um þrjár nágrannafjölskyldur í raðhúsi í úthverfi á Íslandi þar sem hefðbundnum kynjahlutverkum er snúið við (með tilheyrandi breytingum á t.d. starfsheitum) og karlarnir eru heimavinnandi húsfeður. Hver fjölskylda hefur sín sérstöku einkenni og þær passa alls ekki saman þrátt fyrir að búa í sömu húsalengju. Skrímsli (kvikmynd). "Skrímsli" (e. "No Such Thing") er bandarísk/íslensk kvikmynd frá árinu 2001 í leikstjórn Hal Hartley. Skrímsli. Skrímsli eða skrýmsli (sjá mismunandi rithætti) er einhverskonar ófreskja eða ferlegt kvikindi sem kemur fyrir í goðafræði flestra þjóða og í mörgum trúarbrögðum og þjóðsögum. Skrímslin eru oft óhugnanleg útlits og hafa slæma eiginleika. Það er þó ekki einhlýtt. Stundum getur skrímsli verið landvættur. Drekar, allavega ormar (t.d. lindormur) eða aðrir óvættir flokkast oft sem skrímli. Heilsubælið. "Heilsubælið" eða "Heilsubælið í Gervahverfi" er íslensk þáttasería í leikstjórn Gísla Rúnars Jónssonar. Þættirnir voru framleiddur fyrir Stöð 2 og fyrst sýndir árið 1987. Þættirnir fjalla um líf starfsfólks Heilsubælisins og baráttu þeirra við sjúklingana. Gert er grín að sjúkrahúslífinu eins og mögulegt er og koma þar ýmsir við sögu, þ.á.m. Dr. Saxi læknir, Dr. Sigríður, Malberg Snædal (sem les skilaboð af hurðum Haraldar Kristjánssonar læknis og Kristjáns Péturssonar læknis), Hallgrímur matsveinn, Dr. Adolf yfirlæknir, Sigríður gamla, Steini, Olli og ýmsir fleiri. Búbbarnir. "Búbbarnir" er íslensk þáttaröð, sem Bragi Hinriksson leikstýrir. Þættirnir eru brúðugrínþættir sem gerast á sjónvarpstöð. Handritshöfundur þáttana er Gísli Rúnar Jónsson, og var þróaður af Braga Þór Hinriksyni. Raddsetning er í höndum Sveppa, Björgvins Franz Gíslassonar, Jóhanns G. Jóhannassonar og Viljálms Goða. Tónlist þáttarins er samin af Jóni Ólafssyni. Þættirnir hófu göngu sína 26. ágúst 2006 á Stöð 2. Kvöld í klúbbnum. "Kvöld í klúbbnum" (en: "A Night at the Roxbury") er bandarísk gamanmynd frá árinu 1998. Með aðalhlutverk fara Will Ferrel og Chris Kattan. Óskar Gíslason. Óskar Gíslason (15. apríl 1901 – 25. júlí 1990) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður. Meðal mynda hans eru "Síðasti bærinn í dalnum", "Nýtt hlutverk", "Björgunarafrekið við Látrabjarg" og "Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra". Lalli Johns. Lárus Björn Svavarsson, oftast kallaður "Lalli Johns" eða "Lalli djóns", (f. 12. september 1951) er íslenskur smáglæpamaður. Sagan segir að Lárus hafi fengið viðurnefnið "Lalli Johns" eftir að hann stal "Johnson" utanborðsmótor.. Árið 2001 varð Lalli landsþekktur eftir frumsýningu heimildarmyndar Þorfinns Guðnasonar "Lalli Johns", sem fjallar um líf Lalla. Auglýsing Öryggismiðstöðvarinnar. Árið 2007 lék Lalli í auglýsingum fyrir Öryggismiðstöðina, sem birtar voru í fjölmiðlum. Þar var Lárus gerður að holdgervingi þess sem fólk ætti að varast. Öryrkjabandalag Íslands kærði auglýsingastofuna Himinn og haf "(heitir nú PIPAR\TBWA)" sem framleiddi umræddar auglýsingarnar, til Sambands íslenskra auglýsingastofa fyrir að hafa brotið gegn siðareglum og starfsreglum sambandsins. Ástæða kæranda er að í umræddum auglýsingum sé verið að vekja ótta meðal almennings á öllu heimilislausu fólki en þar sem margir heimilislausir einstakingar eru öryrkjar þá telur Öryrkjabandalag Íslands sér skyld að gæta hagsmuna þeirra þegar að þeim er vegið en Lalli Johns er þekktur meðal almennings sem heimilaus maður. Lárus fékk um 300.000 kr. fyrir þáttöku sína í umræddum auglýsingum. Lárus var á þessum tíma heimilislaus og voru því mjög miklar fjárhæðir sem erfitt var að hafna. Auglýsingarnar voru fljótt teknar úr birtingu. Ágúst Guðmundsson. Ágúst Guðmundsson (29. júní 1947) er íslenskur leikstjóri. Fyrsta kvikmyndin hans, Land og synir frá árinu 1980 er stundum kölluð upphaf íslenska kvikmyndavorsins, en með því er verið að tala um upphaf íslenskrar kvikmyndagerðar síðari tíma. Ágúst er í kvikmyndaráði Bandalags íslenskra listamanna. Þráinn Bertelsson. Þráinn Bertelsson (fæddur 1944) er íslenskur þingmaður, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur gert 7 kvikmyndir í fullri lengd, þar á meðal líf-þríleikinn (Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf), verðlaunamyndina Magnús og skrifað bækur. Óskar Jónasson. Óskar Jónasson (f. 30. júní, 1963) er íslenskur leikstjóri. Hann stundaði nám í kvikmyndagerð í Danmörku og hefur síðan gert fjölda sjónvarpsmynda, stuttmynda og tvær kvikmyndir í fullri lengd. Hann er einnig þekktur sem töframaðurinn Skari skrípó. Böðvar Bjarki Pétursson. Böðvar Bjarki Pétursson (fæddur 1962) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður sem gerði heimildirarmyndina "Glíman", erótísku stuttmyndina "Bráðin" og leikstýrði "Gæsapartí" sem er leikin kvikmynd í fullri lengd frá árinu 2001. Hann er ef til vill þekktastur fyrir að framleiða heimildarmyndina "Í skóm drekans" sem vakti mikla umræðu. Böðvar Bjarki er einnig stofnandi Kvikmyndaskóla Íslands. Da Vinci lykillinn (bók). "Da Vinci lykillinn" (e. "Da Vinci Code") er metsölubók eftir Dan Brown, sem fjallar um táknagæjann Robert Langdon. TextEdit. TextEdit er textaritill fyrir Mac OS X. Forritið er staðalbúnaður í Mac OS X. Kláfur. Kláfur (loftferja eða kláfferja) er farartæki, dregið á línu yfir ófærur (s.s. vatnsföll) eða upp fjöll. Áður en vegasamgöngur komust í nútímalegt horf á Íslandi voru kláfar yfir margar ár í alfaraleið, og voru flestir knúnir áfram með handsnúinni sveif. Voru slíkir staðir nefndir "ferjustaðir". Sumir kláfar eru enn þann dag í dag notaðir til að ferja sauðkindur yfir vatnsföll. Fjallatoglest. Fjallatoglest (toglest eða strengbraut) er farartæki sem er oftast einn lestarvagn sem er dreginn með vírum upp og niður fjallshlíðar. Fjallatoglestir eru oft notaðar til að flytja ferðamenn upp á útsýnisstaði eða skíðafólk upp fjallshlíðar. Kálfur. Kálfur er afkvæmi ýmissa tegunda spendýra, þar á meðal nautgripa, hreindýra og hvala. Lamb. Lamb er afkvæmi sauðkindar. Lambakjöt er algengt hráefni í matargerð. Folald. Folald sem sýgur móður sína Folald er afkvæmi hests og hryssu og telst vera folald þar til það er orðið eins vetra. Aldursár hesta eru talin í vetrum. Folald er aðeins folald fram yfir fyrsta veturinn, þá verður það að trippi og er trippi á aldrinum 1–3 vetra. Folöld sem ganga undir móður sinni nefnast "dilkhestar". Ef folald er haustkastað er það kallað "haustungur". Kjartan Guðjónsson. Kjartan Guðjónsson (f. 2. febrúar 1965) er íslenskur leikari. Kristján Franklín Magnúss. Kristján Franklín Magnúss (f. 24. maí 1959) er íslenskur leikari. Hann hefur margoft lesið inn á teiknimyndir og má þar nefna Snúð í Múmínálfunum. Hann fór þar að auki með hlutverk djöfulsins í Meistaranum og Margarítu í uppsetningu Hafnarfjarðarleikhússins. Magnús Jónsson (f. 1965). Magnús Jónsson (f. 24. október 1965) er íslenskur leikari. Magnús Ólafsson (leikari). Magnús Ólafsson (f. 17. febrúar 1946) er íslenskur leikari. Magnús Ragnarsson. Magnús Ragnarsson (f. 16. maí 1963) er íslenskur leikari. Marinó Þorsteinsson. Marinó Þorsteinsson (f. 30. ágúst 1920) er íslenskur leikari. Marteinn Marteinsson. Marteinn Marteinsson (f. 19. maí 1965) er íslenskur leikari. Ólafur Darri Ólafsson. Ólafur Darri Ólafsson (f. 3. mars 1973) er íslenskur leikari, kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur. Ólafur Guðmundsson (f. 1965). Ólafur Guðmundsson (f. 10. janúar 1965) er íslenskur leikari. Páll Pálsson (leikari). Páll Pálsson (f. 18. mars 1974) er íslenskur leikari. Enski samfélagsskjöldurinn 2007. Enski samfélagsskjöldurinn 2007 er knattspyrnuleikur sem var leikinn 5. ágúst 2007. Meistarar ensku úrvalsdeildarinnar 2006-07, Manchester United, mættu meisturum FA bikarsins 2006-07, Chelsea. Eftir venjulegan leiktíma var lokastaðan 1-1 svo brugðið var á vítaspyrnukeppni. Manchester United skoruðu úr öllum sínum þremur skotum en Edwin van der Sar varði allar spyrnur Chelsea og var því lokastaðan í vítaspyrnukeppninni 3-0 fyrir Manchester. ENSEEIHT. École Nationale Supérieure d'Électronique, d'Électrotechnique, d'Informatique, d'Hydraulique, et des Télécommunications (skammstafað ENSEEIHT) er franskur háskóli sem sérhæfir sig í rafmagnsverkfræði, tölvunarfræði, vökvafræði og fjarskiptafræði. Hann var stofnaður árið 1907. Nám í skólanum tekur 3 ár og lýkur með franskri verkfræðigráðu, "Diplôme d'Ingénieur", sem viðurkennd er í Bandaríkjunum og jafngildir grunnstigi í verkfræði. Pálmi Gestsson. Pálmi Gestsson (f. 2. október 1957 í Bolungarvík) er íslenskur leikari. Pétur Eggerz. Pétur Eggerz (f. 19. nóvember 1960) er íslenskur leikari. Valdís Óskarsdóttir. Valdís Óskarsdóttir (f. 1950 á Akureyri) er íslenskur ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og klippari. Hún hefur aðallega klippt kvikmyndir, þ.á m. Sódómu Reykjavík, dönsku myndina Veisluna og verðlaunamyndina Eilíft sólskin hins flekklausa hugar, sem Michel Gondry leikstýrði. Hún leikstýrði Sveitabrúðkaupi, sem var fyrsta myndin í fullri lengd undir hennar stjórn. Sturla Gunnarsson. Sturla Gunnarsson (f. 1951) er kanadískur leikstjóri. Hann fæddist á Íslandi en flutti til Kanada þegar hann var sjö ára gamall. Þar hefur hann leikstýrt fjölda kvikmynda, en snéri aftur til Íslands í skamma stund til að leikstýra "Bjólfskviðu" sem frumsýnd var árið 2005. Ólafur Jóhannesson (kvikmyndagerðarmaður). Ólafur Jóhannesson (stundum kallaður Olaf de Fleur) er íslenskur leikstjóri. Fyrsta heimildarmynd hans í fullri lengd var Blindsker sem segir frá ævi söngvarans Bubba Morthens. Silja Hauksdóttir. Silja Hauksdóttir (f. 12. janúar 1976) er íslenskur rithöfundur og leikstjóri. Hún skrifaði bókina "Dís" með tveimur vinkonum sínum, Birnu Önnu Björnsdóttur og Oddnýju Sturludóttur og leikstýrði síðar samnefndri kvikmynd sem er byggð á bókinni. Kvikmyndin "Dís" var frumsýnd árið 2003. Ragnar Bragason. Ragnar Bragason á Edduverðlaununum 2007. Ragnar Bragason fæddur 15. september 1971 er íslenskur kvikmyndaleikstjóri. Árið 2000 frumsýndi hann sína fyrstu kvikmynd, "Fíaskó". Ári seinna var "Villiljós" frumsýnd, en hann leikstýrði einum af fimm hlutum hennar sem hét "Aumingjaskápurinn". Ragnar hefur fengið fjölda verðlauna fyrir tvíeykið "Börn" og "Foreldrar" sem voru frumsýndar árið 2006 og sú síðari árið 2007. Einnig hefur Ragnar leikstýrt mörgum af vinsælustu þáttaröðum í íslensku sjónvarpi eins og "Fóstbræður", "Stelpurnar", "Næturvaktin" og "Dagvaktin". Hilmar Oddsson. Hilmar Oddsson er íslenskur leikstjóri. Hann hefur leikstýrt kvikmyndunum "Eins og skepnan deyr", "Tár úr steini", "Sporlaust" og "Kaldaljós". Pétur Einarsson (f. 1940). Pétur Einarsson (f. 31. október 1940) er íslenskur leikari. Randver Þorláksson. Randver Þorláksson (f. 7. október 1949) er íslenskur leikari. Pétur Jóhann Sigfússon. Pétur Jóhann Sigfússon (fæddur 21. apríl 1972 er íslenskur leikari, útvarpsmaður, uppistandari og handritshöfundur. Pétur var valinn fyndnasti maður Íslands árið 1999. Ipswich. Hið "Forna hús" í Ipswich. Ipswich er strjálbýl sýsla í Austur Anglíu á Englandi við árósa Orwellárinnar. Borg með sama nafni er dreifð um svæði sýslunnar og er talið að um 85% íbúa hennar búa innan sýslumarkanna. Íbúar borgarinnar eru um 120 þúsund talsins. Í desember 2006 fundust lík fimm vændiskvenna nálægt Ipswich. Eftir lögreglurannsókn var Steven Gerald James Wright handtekinn og mun vera leiddur fyrir rétt 14. janúar 2008. Rannsóknir í heimspeki. "Rannsóknir í heimspeki" (þ. "Philosophische Untersuchungen") er ásamt "Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki" annað tveggja meginrita austurríska heimspekingsins Ludwigs Wittgenstein. Í ritinu fjallar Wittgenstein um ýmsar gátur heimspekinnar, meðal annars í málspeki, merkingarfræði, rökfræði, heimspeki stærðfræðinnar og hugspeki. Hann heldur því fram að hugtakaruglingur sé rót flestra heimspekilegra vandamála. Ritið er almennt talið eitt miilvgasta rit um heimspeki frá 20. öld. Það kom fyrst út árið 1953 að Wittgenstein látnum. Heimspeki stærðfræðinnar. Heimspeki stærðfræðinnar er undirgrein heimspeki og stærðfræði sem fjallar um heimspekilegar undirstöður og afleiðingar stærðfræðinnar. Friedrich Waismann. Friedrich Waismann (21. mars 1896 – 4. nóvember 1959) var austurrískur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og heimspekingur. Hann var meðlimur í Vínarhringnum og einn meginhugsuður rökfræðilegrar raunhyggju. Waismann fæddist í Vínarborg. Hann nam stærðfræði og eðlisfræði við Háskólann í Vín. Árið 1922 hóf hann nám í heimspeki undir leiðsögn Moritz Schlick, stofnanda Vínarhringsins. Waismann fluttist til Bretlands árið 1938. Hann kenndi vísindaheimspeki við Cambridge-háskóla frá 1937 til 1939 og heimspeki stærðfræðinnar við Oxford-háskóla frá 1939 til æviloka. Á árunum 1927 til 1936 ræddi Waismann oft um heimspeki við Ludwig Wittgenstein, einkum heimspeki stærðfræðinnar og málspeki. Waismann tók samtölin upp og þau voru síðar gefin út undir ritstjórn B.F. McGuinness undir titlinum "Ludwig Wittgenstein og Vínarhringurinn" (e. "Ludwig Wittgenstein and the Vienna Circle") (1979). Aðrir heimspekingar Vínarhringsins (þ.á m. Schlick, Rudolf Carnap og Herbert Feigl) ræddu einnig heimspeki við Wittgenstein en ekki jafn mikið og Waismann. Árið 1934 íhuguðu Wittgenstein og Waismann að vinna saman að bók en þegar heimspekilegur ágreiningur kom upp varð ekkert úr þeim áformum. Í ritinu "Inngangur að stærðfræðilegri hugsun: Hugtakamyndun í nútímastærðfræði" (e. "Introduction to Mathematical Thinking: The Formation of Concepts in Modern Mathematics") (1936) hélt Waismann því fram að stærðfræðileg sannindi væru sönn í krafti venju en ekki af því að þau væru sannreynanleg eða nauðsynlega sönn. Rit hans "Lögmál málspekinnar" (e. "The Principles of Linguistic Philosophy") (1965) og "Sýn mín á heimspekina" (e. "How I See Philosophy") (1968) komu út að honum látnum. Waismann, Friedrich Waismann, Friedrich Waismann, Friedrich Waismann, Friedrich Peter Hacker. Peter Michael Stephan Hacker (fæddur 15. júlí 1939 í London á Englandi) er breskur heimspekingur. Hann fæst einkum við hugspeki og málspeki. Hacker er kunnur fyrir ritskýringar sínar á ritum Ludwigs Wittgenstein og gagnrýni sína á heimspeki byggðri á taugavísindum. Hacker, P.M.S. Hacker, P.M.S. Rush Rhees. Rush Rhees (19. mars 1905 – 22. maí 1989) var bandarískur heimspekingur. Hann kenndi heimspeki við Swansea-háskóla frá 1940 til 1966. Rhees var nemandi og vinur Ludwigs Wittgenstein. Hann hefur ásamt G.E.M. Anscombe séð um útgáfu á verkum Wittgensteins að honum látnum, þ.á m. "Rannsóknum í heimspeki" (1953). Helstu rit. Rhees, Rush Rhees, Rush Georg Henrik von Wright. Georg Henrik von Wright (borið fram "fon vrikt", IPA: [je:ɔrj hɛn:rik fɔn-vrik:t]) (14. júní 1916 – 16. júní 2003) var finnskur heimspekingur, sem tók við stöðu Ludwigs Wittgenstein sem prófessor við Cambridge-háskóla. Hann gaf út bækur og birti greinar um heimspeki á ensku, finnsku, þýsku og móðurmáli sínu sænsku. Meðal áhrifavalda von Wrights voru Ludwig Wittgenstein og Osvald Spengler. "Framfaragoðsögnin" kom út í íslenskri þýðingu í ritflokknum Lærdómsrit Bókmenntafélagsins árið 2003 í þýðingu Þorleifs Haukssonar með inngangi eftir Sigríði Þor- geirsdóttur. Tilvitnanir. Wright, Georg Henrik von Wright, Georg Henrik von Stanley Cavell. Stanley Louis Cavell (fæddur 2. september 1926) er bandarískur heimspekingur. Hann er „Walter M. Cabot“-prófessor "emeritus" í fagurfræði á Harvard-háskóla. Æviágrip. Cavell fæddist í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Foreldrar Cavells voru gyðingar. Cavell stundaði tónlistarnám og brautsrkáðist frá Kaliforníuháskóla í Berkeley með B.A.-gráðu í tónlist árið 1947. Heimspeki. Cavell hlaut þjálfun í rökgreiningarheimspeki en á oft í orðræðu við heimspekinga meginlandshefðarinnar. Hann er þekktur fyrir að fjalla um heimspeki í sambandi við kvikmyndir og bókmenntir. Cavell hefur ritað margt um heimspeki Ludwigs Wittgenstein, J.L. Austin, Martins Heidegger, Henrys Thoreau og Ralphs Waldos Emerson. Helstu rit Cavells. Cavell, Stanley Cavell, Stanley Vínarhringurinn. Vínarhringurinn (á þýsku: der "Wiener Kreis") var hópur heimspekinga og vísindamanna í Vínarborg á 3. og 4. áratug 20. aldar. Skipuleggjandi hópsins var Moritz Schlick en meðal annarra meðlima má nefna Gustav Bergmann, Rudolf Carnap, Herbert Feigl, Philipp Frank, Kurt Gödel, Hans Hahn, Tscha Hung, Victor Kraft, Karl Menger, Richard von Mises, Marcel Natkin, Otto Neurath, Olga Hahn-Neurath, Theodor Radakovic, Rose Rand og Friedrich Waismann. Heimspekingar Vínarhringsins töldu að reynsla væri eina uppspretta kenningar og að rökgreining með hjálp rökfræðinnar væri rétta leiðin til að leysa gátur heimspekinnar. Áhrif Vínarhringsins á heimspeki 20. aldarinnar voru mikil og hafa mörg verk síðari tíma verið skrifuð sem svör við kenningum Vínarhringsins og má þar helst nefna Willard Van Orman Quine. Saga Vínarhringsins. Upphaf Vínarhringsins voru fundir sem haldnir voru af Philipp Frank, Hans Hahn og Otto Neurath frá 1908 um vísindaheimspeki og þekkingarfræði. Hans Hahn, sem var elstur af þeim þremur (1879 – 1934), var stærðfræðingur og hlaut gráðu sína í því fagi árið 1902. Seinna lærði hann undir handleiðslu Ludwigs Boltzmann í Vín og Davids Hilbert, Felix Klein og Hermanns Minkowski í Göttingen. Árið 1905 hlaut hann svo doktorsgráðu í stærðfræði. Hann kenndi í Innsbruck frá 1905-1906 og í Vín frá 1909. Otto Neurath (1882 – 1945) lærði félagsfræði, hagfræði og heimspeki í Vín og Berlín. Frá 1907 til 1914 kenndi hann við Neuen Wiener Handelsakademie (Viennese Commercial Academy). Neurath kvæntist systur Hahns, Olgu, árið 1911. Philipp Frank var yngstur í hópnum (1884 – 1966) og lærði hann eðlisfræði í Göttingen og Vín með Ludwig Boltzmann, David Hilbert og Felix Klein. Frá 1912 hafði hann prófessorsembætti í kennilegri eðlisfræði við Þýska háskólann Í Prag. Hahn fór frá Vín á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð og sneri aftur árið 1921. Ári ðsíðar lagði hann til, ásamt Frank, að bjóða Mortiz Schlick, sem hélt prófessorsembætti í aðleiðsluvísindaheimspeki við Háskólann í Vín, í hópinn. Schlick hafði þá þegar birt tvö af hans helstu verkum "Raum und Zeit in die gegenwärtigen Physik" ("Rúm og tími í samtímaeðlisfræði") árið 1917 og "Allgemeine Erkenntnislehre" ("Almenn kenning um þekkingu") árið 1918. Undir handleiðslu Schlick tóku meðlimir Vínarhringsins aftur upp regluleg fundarhöld. Árið 1926 var Rudolf Carnap, en hann var við Háskólann í Vín, boðið í hópinn af Schlick og Hahn. Árið 1928 var "Verein Ernst Mach" ("Ernst Mach félagið") stofnað og var Schlick formaður þess. Árið 1929 var opinber stefnuyfirlýsing Vínarhringsins, "Wissenschaftliche Weltauffassung. Der Wiener Kreis" ("Vísindaleg hugarsmíð um heiminn. Vínarhringurinn"), birt. Bæklingurinn sem yfirlýsingin var birt á var tileinkaður Schlick og var formáli hans undirritaður af Hahn, Neurath og Carnap. Í viðbót kom listi yfir meðlimi Vínarhringsins. Vínarhringurinn leystist upp þegar Nasistaflokkurinn kom til valda í Þýskalandi og fluttust margir meðlimir til Bandaríkjanna, þar sem þeir kenndu við nokkra háskóla. Schlick varð eftir í Austurríki en var drepinn árið 1936 af nemanda við Háskólann í Vín sem var stuðningsmaður nasista. Krafthringurinn (e. "Kraft Circle") var arftaki Vínarhringsins en hann varð til árið 1949 undir stjórn Viktor Kraft. Kenningum hans var haldið á lofti löngu eftir dauða hans af Paul Feyerabend. Stefnuyfirlýsing Vínarhringsins. Stefnuyfirlýsingin segir að vísindaleg heimssýn Vínarhringsins einkennist fyrst og fremst af tveimur hugmyndum. Í fyrsta lagi einkennist hún af "raunhyggju" og "framstefnu": Þekking kemur einungis frá reynslu. Í öðru lagi einkennist hún af rökgreiningu. Rökgreining er aðferð sem notuð er við útskýringu á vandamálum í heimspeki. Hún notast mikið við rökfræði og aðgreinir raunhyggju Vínarhringsins frá fyrri hugmyndum um raunhyggju. Hlutverk heimspeki, samkvæmt kenningum Vínarhringsins, er að útskýra fullyrðingar og vandamál með hjálp rökgreiningar. Rökgreining sýnir fram á að tvær tegundir fullyrðinga séu til. Ein tegundin inniheldur fullyrðingar sem hægt er að stytta í einfaldari fullyrðingar um það sem sé gefið út frá raunhyggju. Hin tegundin inniheldur fullyrðingar sem ekki er hægt að stytta í fullyrðingar um reynslu og eru þær því án merkingar. Fullyrðingar innan frumspeki tilheyra þessum seinni flokki og eru því merkingarlausar samkvæmt kenningum rökfræðilegu raunhyggjunnar. Samkvæmt því eru mörgum vandamálum innan heimspekinnar hafnað sem sýndarvandamálum sem stafi af rökvillum á meðan önnur vandamál eru endurtúlkuð sem raunhyggjufullyrðingar og því geta vísindalegar aðferðir unnið bug á þeim. Stefnuyfirlýsingin skráir Walter Dubislav, Josef Frank, Kurt Grelling, Hasso Härlen, Eino Kaila, Heinrich Loewy, F.P. Ramsey, Hans Reichenbach, Kurt Reidemeister og Edgar Zilsel sem „þeir sem eru hliðhollir Vínarhringnum“ og Albert Einstein, Bertrand Russell og Ludwig Wittgenstein sem „leiðandi fulltrúar vísindalegrar heimssýnar“. Útilokun frumspekinnar. Viðhorf Vínarhringsins gagnvart frumspeki er gerð skýr skil af Carnap í grein hans „Überwindung der Metaphysik durch Logische Analyse der Sprache“ („Útrýming frumspekinnar með rökgreingu tungumálsins“) í öðru bindi tímaritsins "Erkenntnis" frá árinu 1932. Carnap segir að tungumál samanstandi af orðaforða og setningafræði. Sýndarfullyrðingar eða fullyrðingar sem virðast við fyrstu sýn hafa einhverja merkingu en hafa í raun enga eru myndaðar á tvenns konar hátt. Annaðhvort innihalda þær merkingarlaus orð eða þær eru mynduð á setningafræðilega rangan hátt. Samkvæmt Carnap eru sýndarfullyrðingar af báðum gerðum til staðar í frumspeki. Ráðstefnur og útgáfa. Meðlimir Vínarhringsins voru mjög virkir við að dreifa heimspekihugmyndum sínum. Þó nokkrar ráðstefnur voru skipulagðar sem beindust að þekkingarfræði og vísindaheimspeki, með hjálp Berlínarhringsins. Það voru einnig nokkrar kynningarráðstefnur í Prag (1929), Kaliningrad (1930), Prag (1934) og þeirra fyrsta ráðstefna sem beindist að vísindaheimspeki var haldin í París (1935) og var henni fylgt eftir af ráðstefnum í Kaupmannahöfn (1936), París (1937), Cambridge, Bretlandi (1938), Cambridge, Massachusetts (1939). Ráðstefnan í Kaliningrad árið 1930 var mjög mikilvæg vegna þess að Kurt Gödel tilkynnti að hann hefði sannað fullkomleikasetningar sinnar af frumsendum (e. "first-order logic") og ófullkomleikasetningar sinnar af formlegri talnafræði. Önnur mikilvæg ráðstefna var haldin í Kaupmannahöfn 1936 þar sem fjallað var um skammtafræði og orsakaráhrif. Á milli 1928 og 1937 birti Vínarhringurinn tíu bækur í safni sem kallað var "Schriften zur wissenschaftlichen Weltauffassung" ("Fræðirit um vísindalega heimssýn") sem Schlick og Frank ritstýrðu. Bók Karls Popper, "Logik der Forschung", var birt í þessu safni. Sjö verk voru birt í öðru safni sem kallað var "Einheitswissenschaft" ("Sameinuð vísindi"). Árið 1930 tóku Rudolf Carnap og Hans Reichenbach við ritstjórn tímaritsins "Erkenntnis" sem var gefið út á milli 1930 og 1940 (frá 1939 voru ritstjórnarir Otto Neurath, Rudolf Carnap og Charles Morris). Eftirfarandi er listi sem inniheldur þau verk sem gefin voru út í ritsöfnunum tveimur sem ritstýrt var af Vínarhringnum. Þessi verk eru þýdd í "Sameinuð vísindi: Fræðiritasafn Vínarhringsins", upphaflega ritstýrt af Otto Neurath, Kluwer, 1987. James F. Conant. James Ferguson Conant (fæddur 10. júní 1958) er bandarískur heimspekingur sem fæst einkum við málspeki, siðfræði og heimspeki heimspekinnar. Ef til vill er hann þekktastur fyrir skrif sín um Ludwig Wittgenstein. Hann hefur einnig skrifað um Stanley Cavell, Friedrich Nietzsche og Søren Kierkegaard og ritstýrt greinasöfnum eftir Hilary Putnam og (ásamt John Haugeland) Thomas Kuhn. Conant fæddist í Kyoto í Japan. Hann bjó í Japan og Kóreu til 14 ára aldurs. Þá flutti hann til Bandaríkjanna og stundai nám við Phillips Exeter Academy. Hann lauk B.A.-gráðu í heimspeki og vísindasögu frá Harvard-háskóla árið 1982 og doktorsgráðu í heimspeki frá Harvard-háskóla árið 1990. Hann kenndi heimspeki við Pittsburgh-háskóla frá 1991 til 1999 en tók þá við prófessorsstöðu í heimspeki við Háskólann í Chicago. Conant, James F. Conant, James F. Róbert Arnfinnsson. Róbert Arnfinnsson (f. 16. ágúst 1923 í Leipzig í Þýskalandi) er íslenskur leikari. Cora Diamond. Cora Diamond er bandarískur heimspekingur. Hún hefur fengist við túlkun á heimspeki Ludwigs Wittgenstein og siðfræði. Í siðfræði hefur Diamond meðal annars fjallað um réttindi dýra. Diamond lauk B.A.-gráðu frá Swarthmore College árið 1957 og BPhil-gráðu frá Oxford-háskóla árið 1961. Hún er nú prófessor "emeritus" við Virginíu-háskóla í Bandaríkjunum. Diamond, Cora Diamond, Cora Diamond, Cora Rúnar Freyr Gíslason. Rúnar Freyr Gíslason (f. 29. apríl 1973) er íslenskur leikari. Hann var giftur söng-og leikkonunni Selmu Björnsdóttur. Í dag er hann fastráðinn leikari í Borgarleikhúsinu og hefur þar meðal annars leikið í Fjölskyldunni, Faust og Söngvaseið. Einnig hefur hann leikið í 1998-útfærslunni af Grease, Glanni Glæpur í Latabæ og Koddamanninum. Catchphrase-ið hans er „Það er vitleysa!“ sagt með vélmenna-röddu. Sigurður Eyberg. Sigurður Eyberg (f. 11. maí 1971) er íslenskur tónlistarmaður, leikari og leikstjóri. Hann er söngvari hljómsveitarinnar Deep Jimi and the Zep Creams sem hefur starfað frá 1991. Sigurður Hallmarsson. Sigurður Hallmarsson (f. 24. nóvember 1929) er íslenskur leikari. Sandra Laugier. Sandra Laugier (1961) er franskur heimspekingur sem fæst einkum við málspeki, athafnafræði, siðfræði og vísindaheimspeki. Hún er prófessor við Háskólann í Picardie Jules Verne í Amiens í Frakklandi. Hún hefur kynnt frönskum lesendum bandaríska heimspeki, til dæmis höfunda á borð við Emerson og Thoreau en ekki síst Stanley Cavell. Helstu rit. Laugier, Sandra Laugier, Sandra Sigurður Karlsson. Sigurður Karlsson (f. 25. mars 1946) er íslenskur leikari. Paul Feyerabend. Paul Karl Feyerabend (13. janúar 1924 – 11. febrúar 1994) var austurrískur vísindaheimspekingur. Hann er þekktastur fyrir rit sín "Gegn aðferð" (e. "Against Method") sem kom út árið 1975, "Vísindi í frjálsu samfélagi" (e. "Science in a Free Society") sem kom út árið 1978 og "Sæl veri skynsemin" (e. "Farewell to Reason") sem kom út árið 1987. Feyerabend varð frægur fyrir stjórnleysisviðhorf sitt í þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Æviágrip. Paul Karl Feyerabend fæddist þann 13. janúar 1924 í Vínarborg. Eftir menntaskóla þá var hann kvaddur til herþjónustu í Þýska hernum. Hann barðist á austur vígstöðvunum og var sæmdur járn krossinum. Sökum skotsára sem hann hlaut í stríðinu þá átti hann eftir að vera haltur það sem eftir var. Eftir stríð stundaði hann nám við Vínarháskóla og tók áfanga í sögu og félagsfræði, það henntaði honum ekki og hann færði sig yfir í eðlisfræði. Hann átti þó eftir að breyta til enn einu sinni og endaði námið með að ástunda heimspeki sem er sú fræðigrein sem hann er þekktur fyrir í dag. Feyerabend vann fyrst við Bristol-háskóla en átti eftir að starfa við þá marga, þar á meðal Berkeley, Yale og Sussex-háskóla. Hann lifði hálfgerðu flökkulífi (e. peripatetic) þar sem hann fluttist búferlum oft á tíðum á lífsleiðinni og bjó oftar en einu sinni í til að mynda Englandi, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi, Ítalíu. Að lokum bjó hann þó í Sviss þar sem hann lést árið 1994. Hugmyndafræði í vísindaheimspeki. Paul Feyerabend þótti ekki vera hefðbundinn heimspekingur, þetta var eitthvað sem skemmti honum mjög og gerði hann í því að viðhalda þessu orðspori. Hann hélt því fram í bók sinni "Gegn aðferð" að stök vísindaleg nálgun væri ekki til og að vel heppnuð vísindaleg rannsókn styðst ekki við né getur stuðst við hugsjóna módel hönnuð fyrir vísindi af heimspekingum. Þessu var einna helst beint gegn þeim sem aðhylltust rökfræðilega raunhyggju. Feyerabend staðhæfði að þess í stað ætti vísindaheimspeki að endurspegla vísndalega framkvæmd og sögu vísindanna. Seinni verk hans fengu ekki sömu athygli, þar sem margir heimspekingar höfðu móðgast vegna bókarinnar og hvernig hún var framsett. Var hún gagnrýnd fyrir að vera óvægin og fjandsamleg. Paul Feyerabend var óánægður með þessa gagnrýni og svaraði í sömu mynt. Hann breytti stíl sínum þónokkuð seinna á lífleiðinni og fór að kynna sér menningu í auknum mæli. Í "Sæl veri skynsemin" frá 1987 heldur Feyerabend því fram að hver menning ætti að vera látin í friði, fá að lifa og dafna í samræmi við þær trúr og venjur sem væru innan hverrar menningar. Hann dró þetta þó að nokkru leyti til baka á þeim grundvelli að menning væri í raun flæðandi og þar af leiðandi breytist þegar hún kemst í snertingu við aðra menningarheima hvort sem manni líkar betur eða verr. Tenglar. Feyerabend, Paul Feyerabend, Paul Línan. "Línan" (ítölsku: "La Linea") er ítölsk teiknimyndasería eftir Osvaldo Cavandoli. Serían fjallar um persónu kölluð „Mr. Linea“, eða herra Lína. Hann er teiknaður með einni línu sem einkennist af óvenju stóru nefi. Þættirnir eru yfirleitt ekki lengri en þrjár mínútur og því oftast notaðar sem uppfyllingarefni milli annara þátta. Cavandoli teiknaði "Línuna" í síðasta skipti, rétt fyrir dauða sinn, fyrir auglýsingaherferð Kaupþings árið 2006. Rökfræðileg eindahyggja. Rökfræðileg eindahyggja eða rökeindahyggja er heimspekileg kenning sem á rætur að rekja til þróunar rökgreiningarheimspekinar snemma á 20. öld. Helstu málsvarar hennar voru breski heimspekingurinn Bertrand Russell, austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein og þýski heimspekingurinn Rudolf Carnap. Samkvæmt kenningunni er grunneining heimsins staðreyndir. Wittgenstein hélt rökeindahyggjunni fram í "Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki" en snerist hugur og hafnaðu henni í ritinu "Rannsóknir í heimspeki". Nafn kenningarinnar varð til árið 1918. Russell nefndi kenninguna rökfræðilega eindahyggju til aðgreiningar frá „rökfræðilegri heildarhyggju“, þ.e. þeirri skoðun að heimurinn sé slíkur að ekki sé hægt að þekkja neinn hluta hans án þess að þekkja alla heildina. Alfred North Whitehead. Alfred North Whitehead (fæddur 15. febrúar 1861 í Ramsgate í Kent á Englandi, dáinn 30. desember 1947 í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum) var enskur stærðfræðingur og heimspekingur. Hann fékkst meðal annars við algebru, rökfræði, undirstöður stærðfræðinnar, vísindaheimspeki, eðlisfræði, frumspeki og menntunarfræði. Hann samdi ásamt Bertrand Russell hið áhrifamikla rit "Principia Mathematica". Tengill. Whitehead, Alfred North Whitehead, Alfred North Whitehead, Alfred North Heimildarmynd. Heimildarmynd er tegund kvikmynda þar sem reynt er að gera raunverulegum atburðum eða viðfangsefni skil. Heimildarmyndir einkennast oft af viðtölum og fréttamyndum. Francis Herbert Bradley. Francis Herbert Bradley (30. janúar 1846 – 18. september 1924) var breskur heimspekingur. Heimspeki. Bradley hafnaði nytjastefnunni og raunhyggjunni í enskri heimspeki sem var undir miklum áhrifum frá John Locke, David Hume og John Stuart Mill. Bradley var einn helsti hugsuður bresku hughyggjunnar, sem var undir miklum áhrifum frá Immanuel Kant og þýsku hughyggjumönnunum Johann Fichte, Friedrich Schelling og Georg Wilhelm Friedrich Hegel en hann reyndi þó að gera lítið úr þessum áhrifum. Tengill. Bradley, Francis Herbert Bradley, Francis Herbert Bradley, Francis Herbert Öræfasveit. Morgunsól á Öræfajökli austan Skaftafells. Öræfasveit eða Öræfi (áður Litlahérað) er vestasta sveitin í Austur-Skaftafellssýslu, milli Breiðamerkursands og Skeiðarár, austan við Kirkjubæjarklaustur og sunnan Öræfajökuls. Á miðöldum var þessi sveit kölluð "Hérað" eða "Litlahérað" en hún fór í eyði í kjölfar eldgoss í Öræfajökli árið 1362 og vatnsflóðs sem því fylgdi og var eftir það kölluð "Öræfi". Sveitin var lengst af mjög einangruð þar sem tvö stór vatnsföll tálmuðu ferðir bæði í austur og vestur. Þessi einangrun stóð þar til Jökulsá á Breiðamerkursandi var brúuð árið 1967 og Skeiðarárbrúin opnaði 1974 og þar með Hringvegurinn. Í Öræfasveit er þjóðgarður í Skaftafelli sem var stofnaður 1967. Öræfajökull. Hvannadalshnúkur horft frá Skaftafelli. Í forgrunni er Hrútafell. Öræfajökull er eldkeila á Suðausturlandi (Austur-Skaftafellssýslu). Yfir fjallinu er jökulhetta þ.e. Öræfajökullinn sjálfur, sem er jafnframt syðsti hluti Vatnajökuls. Hann fyllir stóra öskju efst á fjallinu. Margir skriðjöklar skríða út frá jökulhettunni niður fjallshlíðarnar og um dali við fjallsræturnar. Meðal þeirra eru Svínafellsjökull, Virkisjökull, Kotárjökull, Kvíárjökull og Hrútárjökull. Á norðurhlið fjallsins er Hvannadalshnúkur, hæsti tindur Íslands, 2.110 m. Öræfajökull (jökullinn sjálfur) er allur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og fjallið að miklu leyti líka. Öræfajökull er megineldstöð og hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma; fyrst 1362 þegar Litlahérað lagðist í eyði, og síðan minna gosi 1727. Mikið tjón varð í báðum gosunum og þeim fylgdi öskufall og jökulhlaup. Fálmaranauðgun. Fálmaranauðgun er hugtak sem tengist japönsku hentai. Fálmaranauðgun er þegar vera eða verur með fálmara nauðga konu eða karli. Eitt frægasta og fyrsta dæmið um þetta er listaverkið draumur konu fiskimannsins. Ukiyo-e. , „myndir af hinum fljótandi heimi“, er tegund af japönskum tréskuraðarmyndum og málverkum sem framleidd voru frá 17. öld til 20. aldar sem sýndu mótíf af landslögum, leikhúsum og gleðihúsum. 365 (tala). Fyrri tala: 364 Næsta tala: 366 Tímatal. Það eru 365.2422 dagar í meðal hvarfári. Hvarfár. Hvarfár (einnig nefnt sólarár, árstíðarár eða trópískt ár) er sá tími sem það tekur jörðina að ganga einn hring um sólu miðað við vorpunkt. Það tekur 365 meðalsólarhringa (daga), 5 klukkustundir, 48 mínutur og 45 sekúndur, eða 365,242190419 daga. Fucking. Fucking [ˈfʊkɪŋ] er þorp í Austurríki, 32 km norður af Salzburg og 4 km austan þýsku landamæranna. Þorpið er þekkt fyrir að hafa haldið nafninu Fucking síðan a.m.k. 1070, eftir manni frá 6. öld sem bar nafnið Focko. "Ing" er forngermanskur orðliður sem að notaður var til að tákna fólk, svo merking nafnsins er "staður fólks Fockos". Í þorpinu búa 93 manns. Það sem einkennir Fucking er umferðarskilti með nafni þorpsins, sem enskumælandi ferðamenn stoppa gjarnan við og taka myndir af sér við skiltið. Því hefur oft verið stolið og hefur töluverðu fjármagni verið eytt í ný skilti. Árið 2004 var haldin atkvæðagreiðsla um breytingu á nafni þorpsins vegna vandræðalegrar merkingar þess og síendurtekinna skiltaþjófnaða, en íbúarnir kusu gegn breytingunni. Í ágúst 2005 var umferðarskiltunum skipt út og sett voru skilti sem erfiðara er að stela. Intercourse. Intercourse er lítið þorp í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Sveitarfélagið var stofnað undir þessu nafni árið 1754. Íbúar bæjarins eru nálægt 1000. Á þessum slóðum eru margar Amishbyggðir, þar sem Amishfólkið er fjölmennara en annað fólk. Ýmis bæjanöfn í grenndinni þykja skrýtin, svo sem Blue Ball, Paradise og Bird in Hand. Nafnið vekur eftirtekt og kátínu vegna nútímamerkingar sinnar (intercourse = samfarir). Upphafleg merking nafnsins mun vera samskipti eða samgöngur. Ferðamenn láta iðulega taka af sér mynd við skilti með nafni bæjarins og algengt er að skiltum sé stolið. Aðalatvinnuvegur er ferðaþjónusta og nafn bæjarins dregur ferðamenn að. Kvikmyndin "Vitnið" (Witness 1985) var tekin þarna og umhverfis eru víðáttumiklir kornakrar, sem minna á atriði úr kvikmyndinni Children of the Corn. Teignmouth Community College. Teignmouth Community College er almenningsskóli sem sérhæfir sig í kennslu stærðfræði og tölvunarfræði í Teignmouth, Devon, Englandi. Núverandi skólastjóri skólans er Tony Gray og hefur hann geint þeirri stöðu í rúm 5 ár. Hann er talinn hafa bætt skólan töluvert þar sem að þörf var á breytingum, t.d fengið nýjar innréttingar, breytt skólabúningum og bætt tölvuver skólans töluvert. Skólinn er þekktur í samfélagi Teignmouth fyrir það að stór hluti nemenda skólans er samkynhneigður. Chasey Lain. Chasey Lain.Chasey Lain (fædd "Tiffany Jones" þann 7. desember, 1971 í Newport, Norður Karólínu) er bandarísk klámmyndaleikkona. Hún varð fatafella ung að aldri og varð strax mjög vinsæl sem slík, og hélt því til Kaliforníu. Þar hefur hún leikið í mörgum erótískum myndum og einnig birst í hefðbundari kvikmyndum. AVN magazine valdi Lain sem eina af 50 bestu klámmyndastjörnum allra tíma árið 2002. Cornwall. Cornwall (nefnt Kornbretaland í gömlum íslenskum bókum) er sýsla á Suðvestur-Englandi á Bretlandi. Um 526.300 íbúar búa í sýslunni sem er 3.563 km² að flatarmáli. Stjórnarborg Cornwall er Truro, sem er líka eina borgin í sýslunni. Cornwall er ein af sex keltneskum þjóðum, og er líka föðurland kornbresku fólksins. Korníska er keltneskt tungumál sem er talað á Cornwall. Einhjól. Einhjól er fótstigið farartæki á einu hjóli sem svipar til venjulegs reiðhjóls, nema að því leyti að það eru engar keðjur, heldur eru fótstigin tengd beint við hjólnöfina. Hnakkurinn liggur svo á gafli beint upp af nöfinni. Einfaldara getur farartæki varla orðið. Muse (stuttskífa). Muse er fyrsta smáskífa bresku rokkhljómsveitarinnar Muse sem kom út í mars, 1998. Hún var tekin upp í Sawmills hljóðverinu í Cornwall og aðeins 999 merkt afrit framleidd. Þar sem að hún er sjaldgjöf selst hún öðru hvoru á eBay á himunháu verði. Muscle Museum (stuttskífa). Muscle Museum var önnur stuttskífa bresku rokkhljómsveitarinnar Muse. Hún var gefin út í janúar 1999 í 999 eintökum. Steve Lamacq. Steve Lamacq (f. 16. október 1965), stundum þekktur undir nafniu Lammo (sem hann fékk frá John Peel) eða "The Cat" (vegna hæfleika hans sem markvörður), er enskur plötusnúður, sem vinnur nú fyrir BBC. NME. "New Musical Express" (betur þekkt sem "NME") er breskt tónlistarblað sem gefði hefur verið út vikulega síðan í mars 1952. Taste Media. Taste Media er útgáfuvörumerki og framleiðslufyrirtæki sem að sér sum sveitirnar Muse og Shed Seven. Fyrirtækið var stofnað af Safta Jaffery og Dennis Smith, eiganda Sawmills í Cornwall sérstaklega fyrir Muse. Potone. Potone (fædd fyrir 427 f.Kr.) var dóttir Aristons og Periktíone og eldri systir forngríska heimspekingsins Platons. Potone giftist Evrýmedoni frá Myrrhínos og ól honum tvö börn. Sonur hennar var heimspekingurinn Spevsippos sem tók við stjórn Akademíunnar eftir andlát frænda síns Platons. Adeimantos. Adeimantos frá Kollýtos () var eldri bróðir forngríska heimspekingsins Platons. Hann er ásamt Glákoni bróður sínum aðalviðmælandi Sókratesar í "Ríkinu". Glákon. Glákon (forngríska: Γλαύκων. Fæddur fyrir 427 f.Kr., dáinn 409 f.Kr.) var sonur Aristons og Peiktíone og eldri bróðir forngríska heimspekingsins Platons. Glákon lést í orrustunni við Megöru árið 409 f.Kr. Glákon kemur fyrir í nokkrum samræðum Platons, meðal annars í "Ríkinu" þar sem hann er ásamt bróður sínum Adeimantosi aðalviðmælandi Sókratesar. Ariston. Ariston frá Kollýtos (dáinn um 424 f.Kr.) var faðir forngríska heimspekingsin Platons. Hann rakti ættir sínar aftur til konunga Aþenu. Ariston lést er Platon var enn barnungur. Ariston átti þrjú önnur börn með konu sinni Periktíone: Glákon, Adeimantos og Potone. Periktíone. Periktíone var móðir forngríska heimspekingsins Platons. Langalangafi hennar var bróðir Sólons, löggjafa Aþeninga. Periktíone var gift Aristoni og átti með honum fjögur börn: Glákon, Adeimantos, Potone og Platon. Efir að Ariston féll frá giftist hún Pýrilampesi, vini aþenska stjórnmálamannsins Períklesar og átti með honum soninn Antífon. Pýrilampes. Pýrilampes var forngrískur stjórnmálamaður frá Aþenu og stjúpfaðir heimspekingsins Platons. Fæðingar- og dánarár hans eru óþekkt. Pýrilampes var sendifulltrúi Aþeninga í Persaveldi og einkavinur stjórnmálaleiðtogans Períklesar. Hann særðist í orrustunni við Delíon árið 424 f.Kr., þá á miðjum aldri. Pýrilampes átti soninn Demos frá fyrra hjónabandi. Sá var rómaður fyrir fegurð sína. Um 423 f.Kr. varð Pýrilampes ekkill. Hann kvæntist síðar frænku sinni Periktíone, móður Platons. Hún ól honum soninn Antífon. Listi yfir erlend orð í tónfræði. Þetta er listi yfir erlend orð sem að eru líklega til að koma fyrir í erlendum tónverkum. Flest þeirra eru hugtök á ítölsku og eru stundum frábrugðin nútímamerkingu orðana. Flest hina orðana koma úr frönsku og þýsku. Önnur orð koma frá latínu og spænsku. Nafnorð í þýsku eru alltaf rituð með stórum upphafsstaf. ít = Ítalska, fr = Franska, þ = Þýska, la = Latína, en = Enska Karmídes. Karmídes var forngrískur stjórnmálamaður frá Aþenu. Hann var einn af þrjátíumenningunum sem rændu völdum í Aþenu í kjölfar ósigurs í Pelópssakagastríðinu. Karmídes var móðurbróðir heimspekingsins Platons, sem nefndi eftir frænda sínum eina samræðu, "Karmídes". Karmídes var drepinn árið 403 f.Kr. þegar lýðræðissinnar náðu á ný völdum í borginni. Krítías. Krítías (á forngrísku, 460 f.Kr. – 403 f.Kr.) var forngrískur stjórnmálamaður frá Aþenu. Hann var föðurbróðir stjórnmálamannsins Karmídesar og afabróðir heimspekingsins Platons. Krítías var einn af leiðtogum þrjátíumenninganna sem rændu völdum í Aþenunborg í kjölfar ósigurs borgarinnar í Pelópsskagastríðinu. Hann var kunningi Sókratesar. Krítías var einnig þekkt skáld og kunnur af harmleikjum sínum, elegíum og ritum í óbundnu máli. Platon nefndi eina samræðu, "Krítías", eftir frænda sínum. Honum bregður einnig fyrir í öðrum samræðum heimspekingsins. Spevsippos. Spevsippos (407 f.Kr. – 339 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur. Spevsippos var systursonur Platons. Eftir að Platon féll frá tók Spevsippos við stjórn Akademíunnar og stýrði skólanum í átta ár. Þegar Spevsippos varð of veikur til að geta sinnt starfi sínu tók Xenokrates við stjórninni. Ólíkt Platoni rukkaði Spevsippos nemendur um skólagjöld. Spevsippos var kunnur fyrir hófleysi og munað. Hann er sagður hafa dáið úr sjúkdómi eða hafa framið sjálfsmorð. Að honum látnum eignaðist Aristóteles bókasafn hans. Spevsippos aðhylltist kenningar Platons en hafnaði eigi að síður frummyndakenningunni. Xenókrates. Xenókrates (') (396 – 314 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og skólastjóri Akademíunnar frá 339 til 314 f.Kr. Marteinn Meulenberg. Stytta af Marteini Meulenberg við Landakotskirkju í Reykjavik Marteinn Meulenberg (upphaflega "Martin Meulenberg") (30. október 1872 – 3. ágúst 1941) var fyrsti kaþólski biskup Íslands eftir siðaskiptin. Marteinn fæddist í Hillensberg í Þýskalandi. Faðir hans var þýskur en móðirin hollensk. Séra Meulenberg tilheyri Montfortreglunni sem er kaþólsk prestaregla og nefnist "Societas Mariae Montfortana" (skammstöfun: SMM) á latínu. Hann kom til Íslands árið 1903 og hafði þá verið tvö ár sóknarprestur í Danmörku. Þegar Ísland varð fullvalda ríki, árið 1918, sótti séra Meulenberg fyrstur útlendra manna um ríkisborgararétt á Íslandi. Í samband við fullveldið stofnaði Páfastóll sjálfstæða trúboðskirkju fyrir Ísland og varð Marteinn Meulenberg yfirmaður hennar. Árið 1929 var trúboðskirkjan gerð að postullegu umdæmi og séra Meulenberg stjórnandi. Hann var vígður biskup í nýju kaþólsku dómkirkjunni, Landakotskirkju í Reykjavík, í júlí sama ár. Það gerði yfirmaður trúboðsdeildarinnar í Róm, „De Propaganda Fide“, kardínálinn William van Rossum, og varð Marteinn þar með fyrsti biskupinn í hinni endurreistu kaþólsku kirkju á Íslandi. Meulenberg dó árið 1941. Heimild. Meulenberg, Martin Elizabeth Taylor. Elizabeth Rosemond Taylor (27. febrúar 1932 – 23. mars 2011) var bresk-bandarísk leikkona sem var ein þekktasta kvikmyndastjarna heims og og jafnframt sú hæstlaunaða um tíma. Hún hlaut tvenn Óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki og fjölmargar viðurkenningar. Æviágrip. Foreldrar Elizabeth Taylor voru bandarískir en bjuggu í London þegar hún fæddist og er hún því oft talin bresk. Faðir hennar var listmunasali en móðirin hafði verið sviðsleikkona áður en þau giftust. Elizabetn átti einn eldri bróður, Howard, sem var þremur árum eldri en hún. Fjölskyldan flutti frá London til Los Angeles árið 1939 þegar Elizabeth var sjö ára vegna ófriðvænlegs ástands í Evrópu en seinni heimstyrjöldin braust út skömmu síðar. Elísabet þótti einstaklega fallegt barn og vinir foreldra hennar hvöttu til þess að reyna að koma henni að hjá kvikmyndaveri. Hún fór í prufu hjá Universal Pictures og þar var þegar gerður við hana samningur. Hún var tíu ára þegar hún lék í fyrstu mynd sinni, "There's one born every minute". Universal Pictures endurnýjuðu þó ekki samninginn við Elizabeth en stuttu síðar var hún byrjuð að leika hjá MGM. Elizabeth sló í gegn 12 ára gömul þegar hún lék í kvikmyndinni "National Velvet". Hún var hjá MGM í 21 ár og lék í 14 kvikmyndum. Skólaganga hennar fór fram hjá MGM og hún fékk prófskírteini frá Miðskólanum í Los Angeles 18 ára gömul.Hún lék barna- og unglingahlutverk í nokkrum vinsælum myndum en öfugt við margar aðrar barnastjörnur gekk henni vel að finna sér stað í fullorðinshlutverkum þegar hún eltist. Fyrsta bitastæða fullorðinshlutverkið fékk hún í kvikmyndinni "Father of the Bride" 1950, þar sem hún lék á móti Spencer Tracy. Hún fékk líka mjög góða dóma fyrir hlutverk sitt í "A Place in the Sun" (1951). Næstu myndir hennar voru flestar lítt eftirminnilegar en árið 1955 lék hún aðalkvenhlutverkið í stórmyndinni "The Giant" á móti James Dean og fékk góða dóma. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir aðalhlutverk fjögur ár í röð: Fyrir "Raintree County" 1957, "Cat on a Hot Tin Roof" 1958, "Suddenly, Last Summer" 1959 og fékk svo loks verðlaunin fyrir "Butterfly 8" árið 1960. Árið 1960 sagði hún skilið við MGM og fór til Englands til að leika í myndinni "Cleopatra", sem framleidd var af 20th Century Fox. Fyrir það fékk hún eina milljón dollara, sem var hæsta greiðsla sem leikkona hafði nokkru sinni fengið. Jafnframt fékk hún prósentur af tekjum og þegar upp var staðið námu tekjur hennar af myndinni sjö milljónum dollara. Á meðan tökur á Kleópötru stóðu yfir tókust ástir með Elizabeth og mótleikara hennar, Richard Burton, og giftust þau þegar þau höfðu skilið við maka sína. Þau léku saman í allnokkrum myndum og fyrstu árin hlutu myndir þeirra geysilega aðsókn; sagt var að þegar heyrðist að þau ætluðu að taka sér þriggja mánaða leyfi hefði Hollywood skolfið því næstum helmingur af tekjum bandaríska kvikmyndaiðnaðarins kæmi frá myndum sem annaðhvort þeirra eða bæði ættu þátt að. Frægust þeirra mynda sem þau léku saman í er "Who's Afraid of Virginia Woolf?" árið 1966 en fyrir hlutverk sitt í henni fékk Elizabeth Óskarsverðlaunin öðru sinni. En frá árinu 1967 hallaði undan fæti og myndir þeirra fengu minni aðsókn en áður. Eftir 1970 fækkaði hlutverkum hennar og síðasta kvikmyndin sem hún lék í var "The Flintstones" árið 1994. Hún lék þó í einni sjónvarpsmynd eftir það og kom fram í nokkrum sjónvarpsþáttaröðum. Á síðari árum einbeitti Elizabeth Taylor sér fyrst og fremst að góðgerðamálum og var sérlega ötul við að afla fjár til alnæmisrannsókna og var ein fyrsta stjarnan sem talaði opinskátt um sjúkdóminn en góðvinur hennar og mótleikari, Rock Hudson, dó úr alnæmi 1985. Árið 1992 fékk hún sérstaka viðurkenningu á Óskarsverðlaunahátíðinni fyrir störf sín í þágu alnæmissjúkra. Hún tók gyðingatrú árið 1959, eftir að hún giftist Mike Todd, og var eftir það ötull stuðningsmaður Ísraels og ýmissa málefna sem varða gyðinga. Árið 1999 aðlaði Elísabet Englandsdrottning Elizabeth Taylor og hlaut hún þá nafnbótina "Dame Commander of the British Empire". Elizabeth í myndinni Cleopatra árið 1963 Makar. Elizabeth Taylor var á síðari árum ekki síður þekkt fyrir hjúskaparsögu sína en leikferil en hún giftist alls átta sinnum þótt eiginmennirnir væru aðeins sjö. Hún giftist hótelerfingjanum Conrad Hilton árið 1950 þegar hún var átján ára gömul. Hjónabandið entist í innan við ár og vorið 1952 gekk Elizabeth að eiga leikarann Michael Wilding, sem var 20 árum eldri en hún. Þau eignuðust tvo syni, 1953 og 1955. Þau skildu í janúar 1957 og aðeins viku síðar giftist Elizabeth kvikmyndaframleiðandanum Micheal Todd, sem var 23 árum eldri en hún. Dóttir þeirra fæddist í ágúst sama ár en 22. mars 1958 fórst Todd í flugslysi og var það eina hjónaband Elizabeth sem ekki lauk með skilnaði. Besti vinur Todds, söngvarinn Eddie Fisher, sinnti Elizabeth mjög vel eftir lát Todds og ekki leið á löngu þar til hann skildi við konu sína, Debbie Reynolds, og giftist ekkjunni ungu aðeins innan við tíu mánuðum eftir slysið. Þau ættleiddu tveggja ára stúlku frá Þýskalandi. Hjónabandið stóð þó ekki traustum fótum og á meðan Elizabeth lék í myndinni Kleópatra hóf hún ástarsamband við mótleikara sinn, Richard Burton. Þau giftust 1964 og áttu í stormasömu hjónabandi sem lauk með skilnaði tíu árum síðar, en eftir aðeins hálft annað ár gengu þau í hjónaband að nýju. Síðara hjónabandið entist þó aðeins í tæpt ár og þau skildu endanlega sumarið 1976. Þau eignuðust ekki barn en Burton ættleiddi báðar dætur Elizabethar. Í desember sama ár giftist Elizabeth bandaríska öldungadeildarþingmanninum John Warner. Hún fann sig þó ekki sem þingmannsfrú í Washington og þjáðist af þunglyndi. Hún fór í meðferð á Betty Ford-stofnunina og viðurkenndi eftir það að hún væri alkóhólisti og hefði verið háð verkjalyfjum frá unga aldri, en hún hafði nær alla tíð átt við margvísleg heilsufarsvandamál að stríða og lenti einnig í mörgum slysum. Þau John Warner skildu 1982. Árið 1991 giftist Elizabeth svo byggingarverkamanninum Larry Fortensky, sem hún hafði kynnst í einni dvöl sinni á Betty Ford-stofnuninni, en hann var 20 árum yngri en hún. Brúðkaupið var haldið á Neverland-búgarði Michaels Jackson, en þau Elizabeth voru nánir vinir. Hjónabandið entist til 1996. Jóhannes Gijsen. Jóhannes Mattías Gijsen (upphaflega "Joannes Baptist Matthijs Gijsen") (7. október 1932 − 24. júní 2013) var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á árunum 1996−2007. Hann fæddist í Oeffelt í Hollandi og var vígður til prests 1957. Séra Jóhannes var skipaður biskup í Roermond í Hollandi 20. janúar 1972 og var síðar vígður af Páli páfa VI í Róm 13. febrúar 1972. Séra Jóhannes þótti harður í horn að taka af frjálslyndum kaþólikkum í Hollandi og átti í ýmsum útistöðum og deilum. Hann sagði af sér biskupsembættinu í Roermond 22. janúar 1993 og fékk embætti biskups í Maastricht 3. apríl 1993 en var síðar skipaður stjórnandi biskupsdæmisins í Reykjavík 24. maí 1996. Hann gegndi því embætti allt þar til Pétur Bürcher tók við 30. október 2007. Árið 2010 komu fram í Hollandi ásakanir um að Jóhannes Gijsen hefði gerst sekur um kynferðislega misnotkun gegn börnum í hollenskum skóla á sjötta og sjöunda áratugnum. Hann neitaði þeim ásökunum. 2. nóvember 2012 var birt í Reykjavík skýrsla sem sérstök rannsóknarnefnd, skipuð af kaþólsku kirkjunni, hafði unnið um kynferðisbrot presta og starfsmanna kaþólska söfnuðarins á Íslandi og Landakotsskóla, sem rekinn hafði verið lengi af söfnuðinum. Beindust ásakanir ekki síst gegn séra Ágúst George skólastjóra og Margréti Müller kennara við skólann. Niðurstaða nefndarinnar var sú að allir biskupar kaþólsku kirkjunnar hefðu brugðist skyldum sínum með því að þagga niður kvartanir yfir hátterni séra Georges og annarra, þar á meðal Jóhannes Gijsen. Var sérstaklega vísað til þess að hann hefði eyðilagt bréf frá manni sem lýsti slæmri reynslu sinni í Landakotsskóla. Jafnframt var þá upplýst að Gijsen biskup hefði árið 1998 lagt til við páfagarð að séra George væri veitt sérstök viðurkenning. Tenglar. Gijsen, Jóhannes Mattías Bílgreinasambandið. Bílgreinasambandið (BGS) eru hagsmunasamtök íslenskra atvinnurekenda í sölu ökutækja, vöru og þjónustu þeim tengdum. Markmið samtakanna er að vera sameiginlegur málsvari aðildarfyrirtækja, efla samstarf þeirra á milli, bæta menntun starfsmanna innan þess og auka öryggi í umferðinni. Bílgreinasambandið vinnur einnig miðlæga kjarasamninga. Fjöldi fyrirtækja með aðild er 155. Saga. Bílgreinasambandið var stofnað 14. nóvember 1970 þegar Samband bílaverkstæða á Íslandi (stofnað 1933) og Félag bifreiðainnflytjenda (stofnað 1954) sameinuðust að norrænni fyrirmynd. Árið 1998 sagði Bílgreinasambandið sig úr Vinnuveitendasambandi Íslands og hefur gert sjálfstæða kjarasamninga síðan 2000. FIT. FIT er íslensk bankaskammstöfun sem stendur fyrir: "Færsluskrá innistæðulausra tékka". Hafi viðkomandi reikiningshafi í ótilteknum banka farið yfir á reikiningnum, þá þarf hann að borga visst gjald, sem nefnist þessu sama nafni. Á heimabanka birtist oft "Ath-FIT" ef farið er yfir á reikningnum. Orðatiltækin að "vera á fitti" er oft notað yfir þá sem eru á skrá yfir útgefendur innistæðulausra ávísanna og sögnin að "fitta" merkir að gefa út innistæðulausa ávísun. Rögnvaldur Ólafsson. Rögnvaldur Ólafsson (5. desember 1874 – 14. febrúar 1917) var íslenskur arkitekt og húsameistari. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Rögnvaldur fæddist á Ytrihúsum í Dýrafirði. Faðir hans var Ólafur bóndi Sachariasson og móðir hans Veronika Jónsdóttir. Rögnvaldur byrjaði nám nokkuð gamall. Hann lærði undir skóla hjá Þorvaldi Jónssyni prófasti á Ísafirði. Hann stundaði svo nám við Latínuskólann í Reykjavík. Þar hóf hann nám árið 1894 og var efstur námsmanna við útskrift árið 1900 og útskrifaðist sem utanskólasveinn. Fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til að nema húsgerðalist og fékk til náms nokkurn stuðning af landsfé. Lagði hann sig þar um hríð af miklu kappi eftir því námi, en sem nokkuð leið, tók hann að kenna heilsubilunar, sem síðar átti eftir að draga hann til dauða. Ágerðist sjúkleiki hans svo mjög, að hann hélt aftur til Íslands árið 1904. Starfaði hann þar til hann lést á Vífilsstaðaspítala. Eitt af þekktari verkum Rögnvaldar er Húsavíkurkirkja sem var vígð 2. júní 1907. Hún er krosskirkja, byggð úr norskum viði. Edinborgarhúsið á Ísafirði sem er timburhús reist 1907. Nokkur önnur verk hans voru: Vífilsstaðaspítali sem var reistur 1908, Bíldudalskirkja, sem er steinhús og Þingeyrarkirkja sem er einnig steinhús og í gotneskum stíl. Jón Einarsson gelgja. Jón Einarsson gelgja (d. 1306) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld og líklega riddari og er lögbókin Jónsbók kennd við hann. Hann var að öllum líkindum sonur Einars Þorvaldssonar í Hruna, Gissurarsonar, sem dó 1240, og þá sennilega bróðir Teits Einarssonar lögsögumanns. Hann var lögsögumaður 1267 og aftur 1269-1270. Jón var lengi í Noregi, kom út til Íslands með Jónsbók 1280 og mun hafa átt mikinn þátt í henni, enda nefnd eftir honum. Þegar Sturla Þórðarson þótti ekki lengur gegna lögmannsembættinu nægilega vel var Jón Einarsson settur með honum og gerður lögmaður sunnan og austan 1277-1294. Í bréfi sem Árni biskup skrifaði Noregskonungi haustið 1277 segir hann að Jón lögmaður hafi farið vel og viturlega í sínu starfi en af Sturlu hafi staðið minna gagn en þörf stóð til. Jón kemur oft við sögu í Árna sögu biskups og fylgdi höfðingjum gegn biskupi í staðamálum en reyndi þó heldur að miðla málum. Hann og Hrafn Oddsson gengu í að sætta Árna biskup og Loðinn lepp árið 1284. Hann var herraður af Noregskonungi, en missti þá nafnbót 1299, fór út árið eftir og kann að hafa fengið riddaranafnbótina aftur því að Flateyjarannáll kallar hann herra Jón lögmann þegar sagt er frá láti hans 1306. Hann er talinn hafa verið með auðugustu mönnum landsins um sína daga. Kaþólskir biskupar á Íslandi eftir endurreisn. Eftirfarandi hafa verið biskupar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi frá því að hún var endurreist sem postullegt umdæmi 1929. Fyrstu tveir biskuparnir, Marteinn og Jóhannes, voru vígðir til Hóla en með aðsetur í Reykjavík. Hinir hafa verið biskupar í Reykjavíkurbiskupsdæmi. Maverick Records. Maverick Records var stofnað af Madonnu, Frederick DeMann, Ronnie Dashev og Warner Bros. árið 1991. Fyrirtækið er nefnt eftir upphafsstöfunum í nafni Madonnu, Madonna Veronica, og síðustu stöfum Fredericks. Foo Fighters. Foo Fighters er bandarísk rokkhljómsveit stofnuð af Dave Grohl árið 1995. John Leckie. John Leckie er einn af afkastamestu framleiðendum breskrar tónlistar. Hann hefur unnið með sveitum á borð við Radiohead, Muse, My Morning Jacket, George Harrison, The Stone Roses og The Verve. Radiohead. Radiohead er ensk rokkhljómsveit stofnuð í Abingdon, Oxfordshire á Englandi árið 1986. Hinrik Frehen. Hinrik Frehen ("Henrik Hubertus Frehen") (24. janúar 1917 – 31. október 1986) var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi frá 1968 til 1986. Hinrik Frehen fæddist í héraðinu Waubach syðst í Hollandi við landamæri Þýskalands og Belgíu. Hann stundaði nám í menntaskóla Montfort-presta og gerðist meðlimur reglu þeirra (S.M.M.) 1937. Hinrik stundaði nám í heimspeki og guðfræði í prestaskóla Montfortpresta í Oirschot í Hollandi og var vígður prestur 18. desember 1943. Hann tók doktorspróf við háskólann í Louvain í Belgíu. Doktorsritgerð hans fjallaði um Kristsfræði Bérulle kardínála. Næstu sex árin gegndi hann tveimur prófessorsembættum, fyrst í Biblíufræðum og síðar í trúfræði og trúarlífssögu við prestaskólann í Oirschot. Árið 1958 varð hann yfirprestur í Montfort-reglunni og framkvæmdastjóri trúboðsstöðvar, fyrst í Louvain og síðar í Róm. Hinrik Frehen var útnefndur biskup á Íslandi 18. október 1968 og vígður 8. desember sama ár en settur inn í embætti 22. sama mánaðar. Hinrik þótti fyrst og fremst vera vísindamaður sem reyndi að vinna bug á vandamálunum á vitrænan hátt og lagði mikla stund á íslenskunám en náði þó aldrei fullum tökum á talmálinu. Hann fylgdi fyrirmælum og ákvörðunum annars Vatíkanþingsins og sá til þess að helgisiðirnir væru framkvæmdir eftir nýjum reglum þess. Hann lét meðal annars þýða messu- og helgitexta á íslensku. Henrik biskup hafði víðtæk sambönd í Hollandi og Þýskalandi og notfærði sér þau til að bæta fjárhagsstöðu biskupsdæmisins. Hann kom meðal annars á tengslum við St. Ansgar-stofnunina í Þýskalandi og stofnaði eigin hjálparsjóð í Hollandi fyrir íslensku kirkjuna. Biskup var jarðsunginn í Landakoti 7. nóvember 1986. Stjórnarráð Íslands. Stjórnarráð Íslands nefnast þau ráðuneyti, eða stofnanir, sem ríkisstjórn Íslands samanstendur af. Þannig er með stjórnarráði Íslands átt við þá verkaskiptingu framkvæmdavaldsins sem ríkisstjórninni er fært að ákvarða innan ramma laga Alþingis um Stjórnarráðið. Nýrri verkaskiptingu var síðast komið á undir lok árs 2007 og eru ráðuneyti, og þar með ráðherraembætti, í dag tíu talsins. Í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu, andspænis Lækjartorgi, er forsætisráðuneytið til húsa. Saga. Miðað er við að stofnun Stjórnarráðs Íslands hafi verið 1. febrúar 1904, daginn sem Hannes Hafstein tók við embætti ráðherra Íslands. Þann 1. febrúar 2004 var þess minnst með breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Frá 1904 til 1917 var Stjórnarráðinu skipt í þrjár skrifstofur sem hver hafði sína verkaskiptingu. Sú fyrsta sá um dóms-, skóla- og kirkjumál, önnur um atvinnumál, samgöngumál og póstmál og sú þriðja fjármál. Ráðherra Íslands var æðsti embættismaður, en hver skrifstofa hafði skrifstofustjóra og landritari var yfirmaður þeirra. Árið 1917 varð til embætti forsætisráðherra Íslands þó svo að ekki væri enn búið að stofna forsætisráðuneyti Íslands og ráðherrar urðu þrír talsins. Þremur árum seinna var bætt við einum ráðherra. Frá árinu 1927 voru fastir starfsmenn ráðnir til skrifstofu forsætisráðherra og því eiginlegt ráðuneyti orðið til með óformlegum hætti. Fyrsta lagasetningin um Stjórnaráð Íslands varð ekki fyrr en árið 1969 en fram að því hafði íslensk stjórnsýsla verið heldur laus í reipunum. Vindrós. Vindrós er myndræn framsetning notuð í veðurfræði til af sýna tíðni vinda á tilteknu tímabili. Vindar eru flokkaðir í 32 vindáttir, þ.e. 4 höfuðáttir og 28 milliáttir og talið hversu oft hver vindátt kemur fyrir á tímabilinu. Á vindrósina er síðan merktur punktur fyrir hverja milliátt, þ.a. fjarlægð punktsins sýni hlutfallslega tíðni hverrar áttar, og línustrik dregin milli allra punktanna. Áttarósin í kompási er oft höfð sem grunnmynd hennar, eða eingöngu tveir ásar sem sýna höfuðáttirnar. Vindrósin birtist sem línurit (eða súlurit) og því lengra sem vindrósin teygir sig í ákvaðna átt því tíðari er vindurinn úr þeirri átt. Tíðnisveiflur þessar mynda sjálfa vindrósina. „Weird Al“ Yankovic. Alfred Matthew „Weird Al“ Yankovic (fæddur 23. október 1959) er bandarískur skemmtikrafur frá Kaliforníu. The Verve. The Verve (upprunalega Verve) er ensk rokkhljómsveit stofnuð 1989. The Stone Roses. The Stone Roses var bresk rokkhljómsveit frá Manchester sem stofnuð var 1984. Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. og nefndarritaranum og stjórnmálafræðinginum Magnea Kristín Marinósdóttir. Löggjafarþing. Löggjafarþing heitir það þegar Alþingi kemur fyrst saman hver ár eftir að fyrra löggjafarþingi er lokið. Þá hefst nýtt löggjafarþing sem vanalega stendur í eitt ár. Hvert slíkt þing skiptist í haust-, vetrar- og vorþing. Haustþingið stendur vanalega frá 2. þriðjudegi septembermánaðar (frá og með árinu 2012) og til jóla, vetrarþingið frá jólum og að dymbilviku, en vorþingið stendur frá dymbilvikunni og fram í maí. Þetta er ekki alltaf svona, en afbrigði koma stundum fram, t.d. vegna kosninga. Ichirou Mizuki. Ichirou Mizuki (水木一郎, "Mizuki Ichirou"), fæddur Toshio Hayakawa (早川俊夫, "Hayakawa Toshio") (7. janúar 1948, Tókýó) er japanskur söngvari, tónskáld og leikari sem naut mikilla vinsælda á síðustu öld. Hann var í blóðflokki O. Hann var einn af fjórum meðlimum JAM Project. Mizuki var fæddur í Tókýó, yngstur níu systkinja. Í júlí 1968 kom fyrsta plata Ichirou Mizuki út. Platan var nefnd eftir söngkonunni, "Kimi ni sasageru Boku no Uta". Tengill. Mizuki, Ichirou Mizuki, Ichirou Forsætisráðherra Noregs. Þessi síða hefur að geyma lista yfir forsætisráðherra Noregs. Vindátt. Vindátt er sú átt sem vindur blæs úr. Þannig er til dæmis rætt um sunnanátt, suðlæga átt eða sunnanvind þegar vindur kemur úr suðri. Mæld meðalvindátt í 10 mínútur nefnist "segulvindátt" ("magnetísk átt") þegar miðað er við áttavita, en "sönn vindátt", þegar leiðrétt hefur verið fyrir misvísun. Í veðurskeytum er gefin vindhraði og "sönn vindátt" í heilum tug bogagráða. Tíðni vinda er oftast sýnd með vindrós. Vindhraði. Vindhraði í veðurfræði er 10 mínútna meðalhraði vinds á ákveðinni hæð (oft 10 metrar frá yfirborði), sem mældur er með vindmæli, eða metinn af veðurathugunarmanni. Í veðurskeytum er gefinn vindhraði og vindátt og stundum "hámarksvindhraði" og mesta "vindhviða" frá síðustu veðurathugun. Minnsti vindhraði er núll eða "logn", en mesti hugsanlegi vindhraði er hljóðhraðinn í lofti. Beaufort-kvarðinn er enn talsvert notaður til að gefa mat á vindstyrk. Sveinbjörn Pálsson. Sveinbjörn Hermann Pálsson var síðasti ritstjóri tímaritsins Vamm sem kom út árin 2004-2005. Hann er útlitshönnuður Iceland Airwaves hátíðarinnar og kúabjölluleikari í hljómsveitinni FM Belfast. Sveinbjörn er einnig þekktur undir plötustnúðanafninu Terrordisco en undir því heitir hefur hann m.a. komið fram á Iceland Airwaves. Hann er annar stjórnanda Funkþáttarins á útvarpsstöðinni Xinu. Bláklukka. Bláklukka (fræðiheiti: "Campanula rotundifolia") blóm af bláklukkuætt. Bláklukkan hefur 1 til 2 blóm á hverjum stöngli en stundum þó fleiri. Blóm þessi eru, eins og nafnið gefur til kynna, blá og klukkulaga. Stöngull jurtarinnar er blöðóttur og blöðin hjartlaga eða með kringlótta blöðku. Bláklukka vex í móajarðvegi, brekkum og grasbölum. Kratýlos. Kratýlos (á forngrísku: ', "Kratylos", uppi á 5. öld f.Kr.) var forngrískur heimspekingur, líklega frá Aþenu. Meginheimildin um ævi hans er samræðan "Kratýlos" eftir Platon. Kratýlos var herakleitingur en mun hafa verið öllu róttækari. Herakleitos á að hafa sagt að maður stígi ekki tvisvar í sömu ána en samkvæmt Aristótelesi hélt Kratýlos því fram að ekki væri hægt að stíga einu sinni í sömu ána.. Kratýlos taldi að heimurinn væri breytingum algerlega undirorpinn. Ef það er ekki hægt að "stíga" í ána því áin er í sífelldri breytingu, þá er líka ómögulegt að tala um ána, því um leið og orðin eru sögð er áin horfin og ný á orðin til. Kratýlos hætti af þessum sökum að tala. Hann tjáði sig með því að benda fingrinum í staðinn. Þrasýllos. Þrasýllos frá Mendes (dáinn árið 36) var grísk-egypskur stjörnuspekingur, stjörnufræðingur og stærðfræðingur sem starfaði við hirð Tíberíusar keisara í Róm. Hann var þekktur fyrir að vera sannspár um framtíðina. Þrasýllos er frægastur fyrir að hafa annast útgáfu á ritum Platons í fornöld. Þrasýllos raðaði samræðunum í fernur eða fjórleiki og þannig eru þær varðveittar í handritum. 28 vikum síðar. "28 vikum síðar" (e. "28 Weeks Later") er kvikmynd frá árinu 2007. Myndin gerist í heimi þar sem mannkyninu stafar ógn af óþekktum vírus, þar sem þeir sýktu breytast í blóðþyrsta djöfla í mansmynd. Hún er framhald myndarinnar "28 dögum síðar". Audioslave. Audioslave var bandarísk rokkhljómsveit sem samanstóð af meðlimum Rage Against the Machine. Vágur. Vágur sýndur á korti yfir Færeyjar Vágur (danska: "Våg") er stærsti bærinn á Suðuroy sem er syðsta eyja Færeyja. Þar búa u.þ.b. 1300 manns. Auðunn rauði. Auðunn rauði Þorbergsson (um 1250 – 1322) var biskup að Hólum 1313 – 1322. Auðun var Norðmaður og var um tíma prestur á Þrándarnesi á Hálogalandi (skammt frá Harstad í Norður-Noregi). Hann varð síðar kórsbróðir við dómkirkjuna í Niðarósi, og varð brátt einn af forystumönnum kórsbræðra, t.d. í deilum við Jörund erkibiskup. Auðun var víðförull og fór oftar en einu sinni á fund páfa í Róm. Hann vann sig í álit hjá Noregskonungi og var lengi féhirðir Hákonar háleggs Magnússonar. Auðun var vígður Hólabiskup 25. nóvember 1313. Hann kom til Íslands sumarið 1315 (að Seleyri í Borgarfirði) og reið norður til Hóla. Tók hann biskupsembættið föstum tökum, bæði hvað snerti fjármál og aga meðal kennimanna. Lenti hann brátt í deilum við helstu klerka í Hólabiskupsdæmi. Þrátt fyrir skamman tíma í embætti beitti hann sér fyrir ýmsum málum. Hann lét taka upp bein Guðmundar biskups góða og stuðlaði þannig að helgi hans. Um 1318 lét hann safna í bók máldögum (eignaskrám) kirkna í Hólabiskupsdæmi, og eru þeir kallaðir Auðunarmáldagar. Hann flutti með sér timburstofu frá Noregi, sem reist var á Hólum 1316–1317, síðar kölluð Auðunarstofa. Einnig lét hann smíða upp biskupsherbergin á staðnum. Sumarið 1320 fór Auðun til Noregs, m.a. til að tryggja hagsmuni sína í deilum við Íslendinga. Hann andaðist í Niðarósi 28. janúar 1322. Helsta heimild um Auðun rauða er Lárentíus saga biskups. Þrándarnes. Þrándarnes (Trondarnes, Trondenes), fornt höfðingjasetur og kirkjustaður á Hálogalandi, skammt frá Harstad í Norður-Noregi. Þrándarnes var auðugasti kirkjustaður í Norður-Noregi, og þar er nyrsta miðaldasteinkirkja Noregs, Þrándarneskirkja. Þrándarnes kemur við sögu í Heimskringlu. Auðunn rauði Þorbergsson, sem var biskup á Hólum 1313–1322, var sóknarprestur á Þrándarnesi um eða fyrir 1280. Á Þrándarnesi er nú safn og sögusetur (Trondarnes distriktsmuseum, Trondenes historiske senter), og þar er verndarsvæði vegna merkra forn- og náttúruminja. Auðunarstofa. Mynd af hinni nýju Auðunarstofu um sumar. Auðunarstofa eða Timburstofan var reist á Hólum á árunum 1316 til 1317 og stóð í tæp 500 ár eða uns hún var rifin árið 1810. Auðunn rauði Þorbergsson, biskup á Hólum, hafði með sér viði í timburstofuna, þegar hann kom til Íslands 1315. Viðirnir voru dregnir að vetrarlagi frá Seleyri í Borgarfirði, yfir Stórasand, til Hóla, þar sem timburstofan var reist. Timburstofan var hluti af staðarhúsunum á Hólum, stóð fast sunnan við kirkjugarðinn. Hún var tvískipt, annars vegar bjálkahús eða stokkahús, þ.e. hin eiginlega timburstofa, og hins vegar stafverkshús sem var sambyggt timburstofunni. Stafverkshúsið var á tveimur hæðum, var neðri hæðin stundum kölluð Anddyr eða Forstofa, og sú efri Studium eða Studiumloft. Hugsanlegt er að svalagangur hafi í öndverðu verið meðfram Timburstofunni. Nafnið Auðunarstofa kemur fyrst fyrir í Árbókum Espólíns, þegar sagt er frá niðurrifi stofunnar árið 1810. Árið 1995 orðaði Bolli Gústavsson vígslubiskup þá hugmynd í Hólanefnd að láta endurgera Auðunarstofu á Hólum. Tókst með samvinnu íslenskra og norskra aðila að koma því í kring, og var Auðunarstofa hin nýja fullfrágengin sumarið 2002. Húsið er allnákvæm endurgerð stofunnar fornu, að öðru leyti en því að stafverkshlutinn er nokkru stærri, til þess að auka notagildi hússins. Tom Morello. Tom Morello er bandarískur gítarleikari fæddur 30. maí 1964 í New York. Hann er þekktur fyrir að framkalla alls konar hljóð úr gítar sínum, sem menn jafnvel trúa ekki að séu þannig til orðin. Morello, Tom Timbúktú. Timbúktú (formleg enska: "Timbuctoo"; franska: "Tombouctou") er borg í norðanverðu Malí, í suðurjaðri Saharaeyðimerkurinnar. Borgin var menningarleg og trúarleg höfuðborg og miðstöð fyrir útbreiðslu íslams á 15. og 16. öld. Í borginni eru 3 stórar moskur og tveir háskólar, sem öll bera vitni um forna frægð. Frægasta moskan er Sankoremoskan. Borgin á sér langa og merka sögu og er nú á Heimsminjaskrá UNESCO. Íbúarnir eru af mismunandi uppruna, helst skal nefna Songhay, Tuareg, Fulani, og Mandé. Timbúktú í vestrænni dægurmenningu. Teiknimyndapersónan Andrés Önd hefur oftar en einu sinni flúið í felur til Timbúktú eftir að hafa sett allt á annan endann. (Í íslenskum þýðingum Andrésblaðanna er þó yfirleitt talað um ímyndaða landið "Fjarskanistan" í þessu samhengi.) Í Disney-teiknimyndinni um Hefðarkettina hyggst illmennið senda aðalsöguhetjurnar til Timbúktú, en læsist sjálfur ofan í kassanum og er sendur af stað. Timbúktú er nafn á dægurlagi eftir Pál Torfa Önundarson, sem fyrst kom út með hljómsveitinni Diabolus in Musica. Það varð síðar titillag á sólóplötu Páls Torfa, þá í flutningi Egils Ólafssonar. Leikskólinn Furugrund. Leikskólinn Furugrund hóf starfsemi sína 8. apríl 1978. Til ársins 1988 var leikskólinn tveggja deilda dagheimili þar sem 36 börn dvöldu allan daginn. Á tíu ára afmæli skólans var tekin í notkun viðbygging sem hýsir Álfastein og Dvergastein í dag. Börnin sem dvelja í leikskólanum í dag eru 80 og á aldrinum 1. - 5 ára. Leikskólinn er einsetinn. Foldaborg. Foldaborg er leikskóli í Reykjavík og er rekinn af Reykjavíkurborg. Leikskólinn var opnaður í desember 1986. Í starfi skólans er lögð áhersla á heimspeki. Veturinn 2007 til 2008 taka kennarar þátt í þróunarverkefni um heimspeki sem felst í að æfa sig í samræðu. Þá verður líka þróunarverkefni um umhverfið sem þriðji kennari. Í verkefninu verður skoðað hvernig kennararnir geta betur nýtt efnislegt umhverfi leikskóladeildanna til að hafa áhrif á samskipti og nám barnanna. Umhverfið sem þriðji uppalandinn er notað í Aðalnámskrá leikskóla en í Reggio fræðum er talað um þriðja kennarann. Barnið sjálft og hinn formlegi kennari eru hinir tveir kennarar skólans. Leturfræði. Leturfræði eða týpógrafía (úr grísku "τύπος" ("typos") „form“ og "γραφή" ("graphy") „skrift“) er prentlist þar sem lögð er áhersla á notkun leturs. Ýmislegar leturgerðir eru til, það er að segja söfn bókstafa sem hafa sömu hönnun. Orðið fontur á við tilbrigði leturgerðar, eins og skáletrað eða feitletrað. Leturgerð má vera með ýmislegum fontum. Með komu tölvunnar hefur leturfræði mikið breyst, áður en hún var kynnt til sögunnar var leturfræði fag útlærðra starfsmanna. Í dag með ritvinnslu- og hönnunarforriti er orðið mun auðveldara að búa til prentuðum textum. Samt sem áður er leturfræði stundum ennþá talin fagkunnátta. Saga leturfræði er nátengd sögu prentunar. Letursetning er mikilvægur þáttur leturfræðis. Í henni felast línuþéttleika, leturþjöppun og stafþjöppun. Funaborg. Funaborg er einn af leikskólunum sem rekinn er af Leikskólasviði Reykjavíkurborgar. Leikskólinn er í Grafarvogi og var opnaður 1994. Í starfi hans er lögð áhersla á leik, samskipti, sjálfstyrk barnanna og möguleika þeirra til að velja sjálf. Viðskiptavild. Viðskiptavild er hugtak í viðskiptafræði sem vísar til huglægra eigna fyrirtækis, þ.e. það fjárhagslega verðmæti sem felst t.d. í því að eiga hóp fastra viðskiptavina. Við mat á verðmæti fyrirtækja eru fjármunir ávallt metnir skv. kostnaðar- eða markaðsverði. Skýring á þessu umframverðmæti getur legið í góðu orðspori fyrirtækisins, þekktra vörumerkja þess, vel uppbyggðs innra skipulags, góðum samböndum við verkalýðsfélög eða félagasamtök, góðu lánstrausti og viðskiptasamböndum. Viðskiptavild er hluti af óefnislegum eignum fyrirtækja. Hún verður til þegar fyrirtæki kaupir annað félag í rekstri og greiðir fyrir hærri upphæð en bókfærð eigið fé félagsins er. Bókfært eigið fé fyrirtækis er í raun eignir þess að frádregnum skuldum. Í sem einfaldastri mynd má ímynda sér félag sem á húsnæði sem kostar tíu miljónir króna, en skuldar þrjár miljónir í húsnæðinu. Eigið fé þess er þá sjö miljónir króna. Ef fyrirtæki borgar hærra verð fyrir annað félag en eigið fé þess, þarf að gera grein fyrir mismuninum á verðinu sem greitt var og því sem kalla má raunverulegt verðmæti félagsins, eigin fé þess, í bókhaldinu. Það er gert með því að skrá mismuninn sem viðskiptavild í bókhaldi félagsins. Eitt þekktasta dæmi þess að fyrirtæki hafi verið keypt dýrum dómi sökum viðskiptavildar var þegar bandaríski matariðnaðarrisinn Kraft var keyptur fyrir 11,8 milljarða Bandaríkjadala árið 1989 af tóbaksfyrirtækinu Philip Morris. Tilboðið var margfalt hærra en markaðsverð fyrirtækisins og endurspeglaði huglægt mat á andvirði Kraft vörumerkisins sem kom fyrst á markað árið 1923. Ísland. Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans 30. mars 2007 varaði Davíð Oddsson seðlabankastjóri við því að bókfærð viðskiptavild fyrirtækja skráð í Kauphöll Íslands í lok árs 2006 hefði numið 500 milljörðum kr. og dæmi væru um að viðskiptavild væri meira en helmingur bókfærðra eigna. Brotinn hljómur. Brotinn hljómur er hljómur spilaður í einingum í stað þess að vera spilaður heill. Mellotron. Mellotron er hljómborð fundið upp í Birmingham á Englandi. Orgel. Orgel er hljóðfæri sem hefur eitt eða fleiri lyklaborð og stundum fótstig (pedala) sem er hljómborð sem spilað er á með fótunum. Tónninn er framleiddur með loftstraumi, sem ýmist fer um málm- eða trépípur, eins konar flautur, eða þá að loftstreymið myndar titring í málmfjöðrum, sem gefa tóninn. Misjafnt er hvernig loftstraumurinn er myndaður, ýmist er troðinn belgur, svipaður fýsibelg, eða þá að rafknúin loftdæla heldur uppi þrýstingi. Þegar nótum lyklaborðsins er þrýst niður, opnast loftrás að viðeigandi pípu og tónn myndast á meðan þrýst er á nótuna. Rómantíkin. Rómantíkin eða Rómantíska tímabilið var stefna innan listar sem var ríkjandi í evrópskri list og menningu frá lokum 18. aldar til miðrar 19. aldar (u.þ.b. 1800-1850). Tímabilið tók við af upplýsingunni. Engin eiginleg lok tímabilsins hafa verið skilgreind þar sem hún tórði lengur innan sumra listgreina en annarra. Sergei Rachmaninoff. Sergei Vasilievich Rachmaninoff (rússneska: Сергей Васильевич Рахманинов, (Sergej Vasilevič Rahmaninov), fæddur 1. apríl 1873 (N.S.) eða 20. mars 1873 (O.S.) – 28. mars 1943) var rússneskur lagahöfundur, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj. Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj (7. maí 1840 – 6. nóvember 1893) var rússneskt tónskáld á rómantíska tímabilinu. Meðal þekktra verka eru tónlist við ballettana "Hnotubrjótinn", "Þyrnirós" og "Svanavatnið". Dauði. Opinber skýring á dauða tónskáldsins var að hann hefði látist úr kóleru, en sumir fræðimenn telja að hann hafi verið þvingaður til að stytta sér aldur, til forðast hneyksli tengt samkynhneigð tónskáldsins. Rage Against the Machine. Rage Against the Machine (oft skammstafað sem RATM) er bandarísk rokkhljómsveit sem stofnuð var 1991 en hætti að spila 2000. Hún spilaði lög með pólitískum textum. Hún tók þá saman aftur árið 2007. Eitt af hennar frægari lögum er "Killing in the name". Brian May. Brian May (fæddur 19. júlí 1947) er enskur tónlistarmaður, þekktastur fyrir að hafa verið aðalgítarleikari hljómsveitarinnar Queen. May lauk doktorsgráðu í stjarneðlisfræði frá Imperial College London árið 2007. May, Brian Q (tímarit). Q er tónlistartímarit í Bretlandi sem stofnað var 1986 og gefur út tölublað mánaðalega. Vögguprent. Vögguprent er haft um bækur sem prentaðar voru með lausaletri fyrir árið 1501, og á Norðurlöndum fyrir 1550. Nafnið er sótt í titil skrár sem nefnist "Incunabula typographiae" (Vagga prentlistarinnar) og kom út 1688 og var yfirlit yfir vögguprent. Latneska nafnið "incunabula" (eintala: "incunabulum"), sem haft er um vögguprent á mörgum tunguálum, þýðir í raun reifar (sbr. reifabarn) eða vagga, en það kemur til af því að prentlistin var svo að segja „nýfædd“ þegar þær bækur (eða það prentefni) sem hér um ræðir voru prentaðar. Vögguprent hefur stundum einnig verið nefnt "fornprent" á íslensku. Jóhannes Nordal. Jóhannes Nordal (f. 1924) er íslenskur félags- og hagfræðingur og fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands. Faðir Jóhannesar var Sigurður Nordal. Jóhannes lauk doktorsnámi við London School of Economics árið 1953, þá lauk hann við ritgerð sína "Changes in Icelandic social structure since the end of the 18th century with particular reference to trends in social mobility". Hann var seðlabankastjóri frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 til ársins 1993 þar af formaður bankastjórnar frá 1965. Þegar hann var heiðraður af Seðlabankanum í tilefni af hálfrar aldar afmæli Fjármálatíðinda var haft á orði að hann hefði verið „ímynd Seðlabankans og mikill áhrifavaldur um íslensk efnahagsmál.” Jóhannes var kjörinn stjórnarformaður Landsvirkjunar við stofnun hennar 1. júlí 1965 og gegndi hann því starfi til 1995. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót við félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1988. Hann var ritstjóri Fjármálatíðinda um árabil. Jóhannes ritaði innganginn að lærdómsritinu "Iðnríki okkar daga" eftir kanadíska hagfræðinginn John Kenneth Galbraith sem var þýðing á Reith fyrirlestri Galbraiths árið 1966, Hann ritaði einnig inngang að bók Hannesar Finnssonar: "Mannfækkun af hallærum", Rvík 1970. Árið 1994 kom út bókin Málsefni, sem var safn ritgerða, í tilefni af sjötugsafmæli Jóhannesar. Maki Jóhannesar er Dóra Guðjónsdóttir Nordal og börn þeirra: Bera Nordal, Sigurður Nordal, Guðrún Nordal, Salvör Nordal, Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Marta Nordal. Dagblað. Dagblað er blað sem inniheldur fréttir, upplýsingar, skemmtiefni og auglýsingar. Breskt pund. Algengasta táknið fyrir breskt pund er ₤ eða £ („pundamerkið“), og p fyrir penníið. Upphaflega jafngilti verðmæti þess einu pundi (454 grömm) af 92,5% hreinu silfri með 7,5% eir, sem kallast sterling silfur. Af því er dregið nafnið sterlingspund. Fyrir 1971 var einu pundi skipt í 20 skildinga ("shillings"), sem hver um sig jafngilti 12 penníum. Þannig var eitt pund jafnt 240 penníum. Frá og með 1971 voru skildingar lagðir niður og verðgildi á „nýja penníinu“ varð 2,4 sinnum meira en áður hafði verið. MacBook. MacBook er lína af Macintosh-fartölvum frá Apple sem koma í stað iBook fartölvanna og einnig 22" PowerBook G4. Fyrstu MacBook tölvurnar voru byggðar í kringum Intel Core Duo örgjörvann og gefnar út 16. maí 2006. Vélarnar hafa verið uppfærðar þrisvar sinnum síðan þá, síðast 1. nóvember 2007. Nú eru notaðir Intel Core 2 Duo örgjörvar. Vélarnar eru seldar í þremur útgáfum, tvær þeirra eru hvítar eins og forverinn iBook en sú nýbreytni var tekin upp að bjóða einnig upp á svartar MacBook vélar. Macintosh 128K. Macintosh var fyrsta Apple Macintosh heimilistölvan. Hún var kynnt í janúar 1984 á $2495 bandaríkjadollara. Efst á tölvunni var handfang til að bera tölvuna. Þessi fyrsta Macintosh tölva er nú kölluð Macintosh 128K til að rugla ekki saman við nýrri tegundir. Leturflötur. Leturflötur er sá hluti blaðsíðu í prentuðu riti sem þakinn er letri. Hann afmarkast af spássíum til allra hliða. Samsæriskenning. Samsæriskenningar eru kenningar þar sem kennismiðir hennar líta á opinberar skýringar sem vafasamar eða ósannar. Í stað opinberu skýringana reyna kennismiðirnir að finna aðrar skýringar. Kenningarnar eru misjafnlega róttækar, frá einföldum kenningum til kenninga um kerfi eða hulin leyndarþráð í gjörðum einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. Orðið samsæriskenningar er venjulega notað í neikvæðri merkingu, og oft notað til að gera lítið úr spillingarkenningum. Lending Apolo 11. Appaló 11 er fyrsta mannaða ferð Bandaríkjanna til tunglsins. Margar samsæriskenningar draga þá ferð í efa. Samkvæmt rannsóknum, og gögnum frá öðrum en NASA og kennismiðum kemur annað í ljós. "Curtin" háskólinn í Ástralíu rannsakaði steina frá Appolo ferðum Nasa, út frá aldursgreiningu. Elsti steinninn var 4.5 billjón ára, eða 200 milljón ára eldri en elstu steinar jarðarinnar. Í appolo ferðunum var ekki eingöngu tekin efni, heldur jafnframt komið fyrir endurvörpum. Þessi tæki virka þannig, ef að leysir, á svipaðri stærðargráðu og finnst í stjörnuskoðunarstöðvum, er beint á rétttann stað, þá fæst út endurvarp. Sú tilraun er reglulega gerð af stofnunni "Observatore de La Cote D´Azur", stjörnuskoðunarstöðvunum "McDonald", "Apache point", "Halekala" og í sjónvarpsþættinum "MythBusters". Þar kom fram, að tunglið endurvarpar ekki leysi geislum og sýnt fram á tilvist endurvarpana með auknu tíðnisviði. Jafnframt í sérstökum þáttum Mythbusters, sem sérhæfa sig í að sanna, eða afsanna kenningar, voru aðrar kenningar jafnframt teknar fyrir. Kenningarnar um að myndirnar væru falsaðar út af skugga, að fáninn blakti af sjálfsdáðum, fótspor á tunglinu dregin í efa og að myndskeiðið væri falsað, voru allar rannsakaðar, með neikvæðri niðurstöðu. Í raun, gekk þátturinn það langt, að segja að lending Appaló 11 gerðist í raun og veru. Jafnframt rennir það stoðum undir að Appoló hafi lent á tunglinu, að engin af geimferðarstofnunum jarðarinnar trúa samsæriskenningum um atburðinn. Samsæriskenningar á íslandi. Meðal íslenskra samsæriskenninga, er að Björgólfur Guðmundsson, kenndur við Hafskip og Landsbankann, sé illa við kolkrabba. Í þeirri kenningu, á Björgólfur átt að hafa reynt að borða kolkrabba, en gert hann að andstæðingi sínum. Nafnið kolkrabbi, er jafnframt notað yfir fyrrum íslenskt viðskiptarveldi, og kenningin er vísun í það. Samsæriskenningar hafa fengið eiginlegan talsmann í þættinum Spaugstofunni. Í spaugstofunni er maður, leikinn af Erni Arnarsyni, sem grunar Norðmenn um samsæri að ná aftur völdum á íslandi. Annað dæmi um samsæriskenningar í íslensku sjónvarpi er þátturinn "Penn & Teller: Bullshit", sem er sýndur á Skjá Einum. Þátturinn er gerður til að afhjúpa svikahrappa, en einstaka samsæriskenningar er að finna í þættinum. Yfirnáttúrleiki. Yfirnáttúruleiki á við um veru, atvik eða öfl sem sumir telja að séu fyrir utan náttúruleg lögmál. Það er að segja að ekki sé hægt að útskýra þau með tilvísun til náttúrulögmála. Ýmiss konar kraftaverk eru gjarnan talin vera yfirnáttúrleg atvik sem brjóta beinlínis gegn náttúrulögmálunum. Oft er guð talinn hafa mátt til þess að beygja náttúrulögmálin og í þeim skilningi er guð talinn vera yfirnáttúrleg vera. Örlögin eru dæmi um öfl sem oft eru talin vera yfirnáttúrleg. Jim Marrs. Jim Marrs (f. 5. desember 1943) er bandarískur samsæriskenningasmiður, fréttamaður, háskólaprófessor og bóka- og greinahöfundur sem fjallar um samsæriskenningar. Marrs, Jim Earls Court Exhibition Centre. Earls Court Exhibition Centre (einnig þekkt sem Earls Court Arena eða einfaldlega Earls Court) er tónleikahöll staðsett í Vestur-Lundúnum. Live 8. Live 8 var tónleikaröð sem haldin var í G8-ríkjunum í júlí 2005. Tónleikarnir voru haldnir í 20 ára minningu Live Aid-tónleikanna sem og í tilefni 31. fundar G8-ríkjanna í Perthshire í Skotlandi í mánuðinum. Glastonbury-hátíðin. Glastonbury Festival of Contemporary Performing Arts, oftast stytt í Glastonbury eða Glasto, er hátíð sem haldin er árlega í Glastonbury á Englandi. Hátíðin er sögð vera stærsta tónlistar- og leiklistarhátíð sem haldin er undir berum himni í heiminum. Hátíðin stendur í þrjá daga, síðustu helgi í júní ár hvert. Hún er þekktust fyrir samtímatónlist, en einnig eru danssýningar, leiklist, kabarett og fleira. Wiltern Theatre. Wiltern Theatre er leikhús í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Absolution Tour. "Absolution Tour" er tónleikamynddiskur frá ensku rokksveitinni Muse. Hann var að mestu tekinn upp á Glastonbury-hátíðinni 2004. Setningafræði. Setningafræði (sem áður hét orðskipunarfræði) er sú undirgrein málfræði sem fæst við gerð setninga (hvernig orð raðast saman) og setningarliða. Frægust íslenskra bóka um setningafræði er "„Íslensk setningafræði“" eftir Jakob Jóh. Smára, sem kom út árið 1920. Grúpa. Grúpa er algebrumynstur sem samanstendur af mengi ásamt aðgerð þannig að hver tvennd úr menginu er vensluð staki úr sama mengi. Aðgerðin, sem um ræðir, er almennt kölluð "margföldun", þótt ekki sé um margföldun í venjulegum skilningi að ræða. Svo almenn lýsing nær yfir fjölda fyrirbrigða í stærðfræði, t.d. er mengi heiltalna með venjulegri samlagningu grúpa og einingarhringurinn í tvinntalnasléttunni er margföldunargrúpa. Grúpur eru notaðar til að búa til einfalda lýsingu á flóknu kerfi. Þetta á einnig við um grannfræði, talningarfræði og stærðfræðigreiningu. Skilgreining. Í mörgum kennslubókum um grúpufræði er tekið fram að tvíundaraðgerðin er lokuð með tilliti til þessarar aðgerðar, þ.e. fyrir öll "a", "b" í "G" gildir að til er "c" í "G" þ.a. "a • b" = "c". Hinsvegar er oftast innifalið í skilgreiningunni á tvíundaraðgerð að hún sé lokuð. Ef aðgerðin er víxlin, þ.e. fyrir öll "a", "b" í "G" gildir að "a • b" = "b • a", þá kallast grúpa víxlgrúpa eða Abel-grúpa, til heiðurs Niels Henrik Abel. Samsæri. Samsæri er hugtak, sem er oftast notað í neikvæðri merkingu, um samantekin ráð til þess að ná fram markmiði, oft með leynd. Hafi menn grun um slík vélráð setja þeir fram samsæriskenningu. Ljubljana. Ljubljana er höfuðborg Slóveníu og stærsta borg landsins. Borgin er staðsett í miðju landinu. Í norðri eru Alpafjöllin, Adríahafið í vestri og Pannoniusléttan í austri. Borgin breiðir úr sér yfir um 273 km² svæði, er 298 m yfir sjávarmáli og þar búa um 276 þúsund manns. Ljubljana er skipt í nokkur hverfi, sem voru áður fyrr sveitarfélög, þau helstu eru Šiška, Bežigrad, Vič, Moste, and Center, þessi hverfi þjóna einnig sem kjördæmi. Saga. Landsvæðið þar sem Ljubljana liggur, sem áður tilheyrði Júgóslavíu, hefur verið byggt frá því á forsögulegum tíma. Miðað er við að borgin hafi verið stofnuð árið 15, þá sem Colonia Iulia Aemona (Emona), nýlenda Rómaveldis. Árið 425 réðust Húnar undir forystu Atla Húnakonungs á borgina og lögðu í rúst. Elstu rituðu heimildir þar sem minnst er á Ljubljana eru frá árinu 1144 á þýsku (þ. "Laibach") og latnesku (l. "Luwigana"). Árið 1200 fékk Ljubljana kaupstaðarréttindi og varð hluti af Habsborgarveldinu árið 1335 þar til það leið undir lok í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918. Á því tímabili var Ljubljana höfuðborg Carniola-hertogadæmisins. Þar var biskupsstóll stofnaður 1461. Árið 1511 reið yfir öflugur jarðskjálfti og þá eyðilagðist Ljubljanakastali. Fáni. Fáni er litað klæði eða dúkur sem er flaggað á fánastöng. Fánar er m.a. notaðir sem þjóðfánar, þ.e. tákn lands og þjóðar eða í auglýsinga- eða áróðursskyni. Skipafánar eru notaðir í samskiptum á hafi úti. Fánar voru líklega upprunalega notaðir í herjum, til að herforingjar gætu fylgst með framvindu orrustna og sent skilaboð milli herfylkinga. Að vinna fána óvinarins var tákn um sigur í orrustunni. Hólmar Örn Rúnarsson. Hólmar Örn Rúnarsson (f. 10. desember 1981) er atvinnumaður í knattspyrnu og spilar með Silkeborg. Hann spilaði með yngriflokkum Keflavíkur en skrifaði svo undir samning við Silkeborg í ágúst 2006. Íslenskar myndasögur. Íslenskar myndasögur eru myndasögur gefnar út á Íslandi fyrir íslenskan lesendahóp. Íslenskar myndasögur gerðar af Íslendingum voru lengst framan af lítið áberandi í íslensku menningarlífi og hafa að mestu verið bundnar við skopmyndir og stuttar myndasögur sem hafa birst í dagblöðum og tímaritum. Örfáar íslenskar myndasögubækur hafa verið gefnar út og flestar eru safn þeirra skopmynda sem áður hafa birst í dagblöðum og tímaritum. Þekktir íslenskir myndasöguhöfundar eru Gísli J. Ástþórsson ("Sigga Vigga"), Kjartan Arnórsson ("Pétur og vélmennið" og "Kafteinn Ísland") og Hugleikur Dagsson ("Eineygði kötturinn Kisi"). Af íslenskum myndasögutímaritum má nefna "Gisp" 1990-1999 og "NeoBlek" sem hefur komið út frá 2005. Saga íslenskra myndasagna. Myndasöguformið barst seint til Íslands, hvort sem horft er til innlendra verka eða þýðinga á erlendum verkum. Fram á síðustu ár hafa innlendar myndasögur verið jaðarfyrirbæri í íslenskri útgáfu og enn þykir tíðindum sæta þegar ný myndasöguverk koma út. Saga íslenskra myndasagna er brotakennd og stundum líða áratugir milli verka einstakra frumkvöðla. Í Evrópu þróaðist myndasagan sem sjálfstæð listgrein í sérstökum aukablöðum fyrir börn sem stóru dagblöðin gáfu út á millistríðsárunum. Sá tími markar hins vegar upphaf skopmyndagerðar á Íslandi, áratugum síðar en í nágrannalöndunum. Þýddar myndasögur tóku fyrst að birtast í íslenskum dagblöðum á stríðsárunum og eiginlegar myndasögur eftir íslenska höfunda sáust ekki fyrr en í kringum 1960. Skopmyndir í tímaritum (1920-1940). Fyrsta íslenska myndasagan hefur verið talin vera klippiverkið "Tre yndige smaapiger" eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson) frá 1921. Skopmyndir þar sem skopast var að þjóð og þekktum einstaklingum í þjóðfélaginu fóru að líta dagsins ljós á Íslandi á 19. öld; þekktar eru skopmyndir frá Íslandi eftir Jörund hundadagakonung og eins voru slíkar myndir gefnar út á póstkortum síðar á 19. öldinni og í byrjun þeirrar 20.. Fyrstur til að helga sig skopmyndagerð af alvöru var Tryggvi Magnússon en myndir eftir hann birtust á 3. áratugnum í "Stúdentablaðinu" og síðar í "Speglinum". "Kattafarganið" sem Tryggvi Magnússon teiknaði í tímaritið "Spegilinn" 1930 er gott dæmi um þróun íslenskra myndasagna og skopmynda í upphafi. Ef hægt er að tala um hefð íslenskra myndasagna, þá helst að hún hefur þróast út frá íslenskum skopmyndum. Myndasyrpur og ádeilumyndir í dagblöðum (1940-1970). Fyrstu „myndasögurnar“ sem birtust á íslensku voru myndskreyttar sögur sem birtust á hálfsíðu aftast í "Æskunni" frá 1930 þar sem textinn var fyrir neðan myndirnar. Þar birtust á 4. áratugnum myndskreyttar útgáfur af "1001 nótt", "Skyttunum þremur" og draumsagan "Galdrakarlinn góði". 1946 birtist svo "Bjössi bolla" ("Smörbukk" eftir Jens R. Nilssen) í fyrsta skipti og í kjölfarið fylgdu fleiri norrænar myndasögur. Myndasyrpa með myndasögum um "Tarzan" eftir Hal Foster hóf göngu sína í "Vísi" um 1932. Bandarísk hasarblöð bárust til Íslands í seinni heimstyrjöld og á sama tíma hófu íslensku dagblöðin að birta myndasögur á borð við "Örn eldingu" ("Rex Baxter") eftir Edmond Good ("Alþýðublaðið" 1942), "X 9" ("Secret Agent X-9") eftir Robert Storm ("Morgunblaðið" 1943) "Valla víðförla" ("Pinky Rankin") eftir Dick Briefer ("Þjóðviljinn" 1945), "Kjarnorkumanninn" ("Superman") eftir Jerry Siegel og Joe Shuster ("Vísir" 1945) og "Kátir voru karlar" ("Katzenjammer Kids") eftir Rudolph Dirks ("Tíminn" 1945). Þessar sögur birtust sem einnar línu myndasyrpur þar sem enski textinn var látinn halda sér í talblöðrum og römmum en þýðingin birt sem texti fyrir neðan hvern myndaramma. Margir söfnuðu þessum sögum í úrklippubækur. Með tímanum fjölgaði syrpunum í blöðunum svo að þær fylltu jafnvel heila síðu og undir lok 8. áratugarins sáust í fyrsta sinn sérstök litprentuð aukablöð með myndasögum. Árið 1959 birtist í "Morgunblaðinu" myndasagan "Njálsbrenna og hefnd Kára" þar sem Halldór Pétursson gerði myndasögu við styttan texta hluta "Njáls sögu". Fyrstu íslensku myndasögurnar sem birtust reglulega í dagblöðum voru "Sigga Vigga" eftir Gísla J. Ástþórsson og "Láki og lífið" eftir Ragnar Lár. Þetta voru stuttar skrýtlur eða háðsádeila í einni mynd eða 2-3 mynda syrpu sem birtust reglulega í dagblöðunum á 6. og 7. áratugnum. Elsta dæmið um hugsanablöðru í íslenskri myndasögu er hugsanlega "Láki og lífið" í "Þjóðviljanum" 31. janúar 1960 og fyrsta dæmið um talblöðru í sömu myndasögu 3. febrúar sama ár. Fyrsta íslenska framhaldssagan á formi myndasyrpu var líklega "Ævintýri Ása-Þórs" eftir Harald Guðbergsson sem birtist reglulega í "Lesbók Morgunblaðsins" frá 9. ágúst 1964. "Ævintýri Ása-Þórs" var ekki með talblöðrum heldur texta fyrir neðan myndirnar fyrst og síðan inni á myndum. Myndasögubækur og myndasögublöð (1970-2000). Evrópskar bókaraðir eins og "Ævintýri Tinna", "Ástríkur gallvaski" og "Lukku Láki" komu út í íslenskum þýðingum upp úr 1970 hjá bókaforlaginu Fjölva og nokkrum árum síðar hóf Iðunn útgáfu myndasagna frá belgíska forlaginu Dupuis um Sval og Val og Viggó viðutan. Kringum árið 1980 fóru fyrstu íslensku myndasögurnar í bókarformi að líta dagsins ljós. Fyrsta íslenska myndasögubókin telst vera "Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan" sem Kjartan Arnórsson gaf út árið 1979. Hann var þá aðeins fjórtán ára gamall. Haraldur Guðbergsson gaf út tvær myndasögur árið 1980, "Baldursdraumur" og "Þrymskviða". Sama ár var fyrsta íslenska teiknimyndin sýnd, "Þrymskviða" eftir Sigurð Örn Brynjólfsson. Myndasögublöð á borð við "Tarzan" og "Andrés Önd" tóku að birtast í íslenskum þýðingum, Tarzan árið 1979 og Andrés Önd 1983, en íslenskar útgáfur af bandarískum hasarblöðum eins og "Kóngulóarmaðurinn" og "Batman og Robin" sáust fyrst seint á 9. áratugnum. Goðsögn, sérverslun með myndasögur, hlutverkaspil og fleira, opnaði við Rauðarárstíg 1993 og arftaki hennar, Nexus, var stofnuð 1996. Fyrsta tímaritið sem var helgað íslenskum myndasögum var tímaritið "Bandormur" sem kom út óreglulega frá 1982. Tímaritið "GISP!" hóf göngu sína 1990 og fóru hópurinn í kringum tímaritið seinna að tengja útgáfuna við sýningar á íslenskum myndasögum, oftast ásamt erlendum þýddum myndasögum. Íslenskar myndasögur í dagblöðum og tímaritum. 1959 birtust myndskreytingar Halldórs Péturssonar við hluta "Njáls sögu" undir heitinu "Njálsbrenna og hefnd Kára" í "Morgunblaðinu". Árið 1959 hóf "Sigga Vigga og tilveran" eftir Gísla J. Ástþórsson göngu sína í "Alþýðublaðinu". Upphaflega voru þetta stakar myndir með texta undir með ádeilu á íslenskt þjóðfélag frá sjónarhóli fiskverkakonu, en fljótlega þróaðist það út í 2-3 mynda myndasöguborða sem þó voru oftast án talblaðra. "Sigga Vigga" birtist í blaðinu til 1965. Hluti þessara sagna auk fjölda nýrra birtist endurteiknaður í vasabókarbroti 1978 til 1980. "Láki og lífið" voru ádeilumyndir eftir Ragnar Lár sem birtust í "Þjóðviljanum" árið 1960. 1965 gaf höfundur þær sjálfur út á bók. 1961 var Birgir Bragason fenginn til að teikna endi á söguna "Markús" ("Mark Trail" eftir Ed Dodd) í "Morgunblaðið". Hann teiknaði raunar tvenn möguleg sögulok í blaðið. Framhaldssagan "Ævintýri Ása-Þórs" eftir Harald Guðbergsson birtist í "Lesbók Morgunblaðsins" 1964 og"Sæmundur fróði" eftir sama höfund birtist í tímaritinu "Fálkanum" 1965. 1966 birtist svo "Gylfaginning" í Lesbókinni. Árið 1966 birtist framhaldssagan "Stebbi stælgæ" eftir Birgi Bragason í "Tímanum". Í sögunni er fylgst með rokkaranum Stebba þar sem hann flakkar um tímann frá fornöld til miðalda, en endaði fremur snubbótt með aftöku aðalsöguhetjunnar, þar sem Birgir var þá orðinn leiður á verkefninu. Stígur Steinþórsson birti myndasöguna "Luba" í "Þjóðviljanum" 1975, en hann var þá 15 ára. Þetta var vísindaskáldsaga undir áhrifum frá bandarískum neðanjarðarmyndasögum. 1978 birtist eftir hann sagan "Guðaborgir" í tíu hlutum í blaðinu. Frá 1975 til 1979 sá Vilborg Dagbjartsdóttir um Kompuna, vikulega síðu með aðsendu efni frá börnum og unglingum í "Þjóðviljanum". Þar birtist töluvert af myndasögum, meðal annars fyrstu verk Kjartans Arnórssonar. 1976 til 1979 var "Morgunblaðið" með barna- og fjölskyldusíðu þar sem líka birtust reglulega myndasögur eftir Bjarna Hinriksson, Þór Hauksson, Friðrik G. Sturluson og fleiri. 1977 og 1978 birtist myndasagan "Bísi og Krimmi" eftir SÖB (Sigurð Örn Brynjólfsson) í "Dagblaðinu". 1982 birtist reglulega í "Þjóðviljanum" myndasagan "Öldungar á flakki" eftir Emil H. Valgeirsson og Hallgrím Óla Hólmsteinsson. 1982 hóf "Svínharður smásál" eftir Kjartan Arnórsson göngu sína í "Þjóðviljanum" og gekk til 1985. Ein persóna úr sögunum, Kafteinn Ísland, varð síðar efni í myndasögubók sem kom út 1990. 1994 gekk myndasagan "Silfurskottumaðurinn" eftir Sjón og Steingrím Eyfjörð í vikublaðinu "Eintaki". Þetta var hálfsíða með súrrealískum sögum. Búi Kristjánsson gerði tvær myndasögur byggðar á Íslendingasögum fyrir "Lesbók Morgunblaðsins" á 10. áratug 20. aldar. "Laxdæla" birtist sem heilsíðuframhaldssaga 1993-1994 og "Egils saga" sem Búi gerði í samstarfi við Jón Karl Helgason, birtist 1996-1997. "Laxdæla" kom síðar út á bók. 1998 til 2000 gekk hálfsíðumyndasagan "Grim" eftir Hallgrím Helgason í vikuriti "DV", "Fókus". Árið 2004 sneri persónan aftur sem myndaborði í "Fréttablaðinu". Hluti af sögunum kom út í bókinni "Best of Grim" árið 2004. "Amma Fífí" voru myndasögur (bæði ein mynd og myndasyrpa) eftir Halldór Baldursson og Þorstein Guðmundsson sem birtist í "Fókus" 2002-2003. Árin 2004 og 2005 birtust í "Fréttablaðinu" myndasyrpan "Pú og Pa" eftir SÖB með persónum sem Sigurður hafði þróað fyrir jóladagatal Ríkissjónvarpsins 1994. Íslenskar myndasögubækur. Íslensk bókaforlög hafa verið treg að gefa út myndasögubækur eftir íslenska höfunda og því hafa þeir neyðst til að gefa út bækurnar sjálfir og dreifa. Bækurnar eru því gefnar út í mjög takmörkuðu magni og eru ekki áberandi í bókabúðum eða fjölmiðlum fyrir vikið. Seinni árin hefur þetta þó batnað og íslensk forlög hafa verið opnari fyrir íslenskum myndasögum. Fyrsta skráða myndasagan sem var gefin út í bók var lítill bæklingur sem nefndist "Láki og lífið" eftir Ragnar Lár og kom út 1965. Í bæklingnum voru skopmyndir sem höfðu birst í Þjóðviljanum árið 1960 af Láka og sýn hans á íslenskt þjóðlíf. Sigga Vigga eftir Gísla J. Ástþórsson hóf göngu sína í Alþýðublaðinu 1959 og var fastur liður út allan 7. áratuginn en kom fyrst út á bók 1978 endurteiknuð. Upphaflega var Sigga Vigga stakar skopmyndir en hún þróaðist út í að verða myndaborði með 2-3 myndum sem mynduðu eina heild. Fyrsta íslenska myndasögubókin (þar sem ein saga fyllir heila bók) var "Pétur og vélmennið: Vísindaráðstefnan" sem Kjartan Arnórsson gaf út árið 1979, en hann var þá aðeins 14 ára. Hann fylgdi bókinni eftir tveimur árum síðar með "Pétur og vélmennið: frosinn fjarsjóður". Það sama ár kom út bók eftir Emil H. Valgeirsson og Hallgrím Óla Hólmsteinsson sem bar nafnið "Flauga-spaug: ýmsar tilraunir til eldflaugaskota". Árið 1980 komu út tvær myndasögubækur eftir Harald Guðbergsson, "Baldursdraumur" og "Þrymskviða". Árið 1985 gaf Björn Ólafsson út bókina "Ævintýri burstasölumanns: splunkuný, ekta, alvöru myndasaga" og árið 1990 eignuðust Íslendingar sína fyrstu ofurhetju Kaftein Ísland í bók Kjartans Arnórssonar, "Kafteinn Ísland: hvernig Fúsi Ánason verður hetja dagsins!". 1989 kom út bókin "1937" eftir Þorra Hringsson og Sjón; saga um uppgang nasismans í "ligne claire"-stíl. Dæmi um sjálfsútgáfu er bók Kristjáns Jóns Guðnasonar "Óhugnalega plánetan" sem að hann gaf út árið 1992. Fimmtán árum síðar, árið 2007, gaf hann svo út aðra bók sína "Edensgarðurinn". Búi Kristjánsson hefur sótt efni sitt til Íslendingasagnanna og árin 1993-4 gaf hann út tvö bindi byggð á "Laxdælu" sem höfðu áður birst sem heilsíður í "Lesbók Morgunblaðsins". 1996-1997 birtist framhaldssaga eftir hann og Jón Karl Helgason byggð á "Egils sögu" vikulega í blaðinu. Ingólfur Örn Björgvinsson og Embla Ýr Bárudóttir gáfu út fjórar myndasögur byggðar á "Njáls sögu" 2003-2007; "Blóðregn" (2003), "Brennan" (2004), "Vetrarvíg" (2005) og "Hetjan" (2007). Bjarni Hinriksson, sem átti sögur í myndasögutímaritinu "Gisp!", gaf út fyrstu bók sína "Stafrænar fjaðrir" árið 2003 og fylgdi því eftir með bókinni "Krassandi samvera", sem var samin ásamt Dönu Jónsson, árið 2005. Jean Antoine Posocco öðru nafni Jan Pozok og Sigrún Edda Björnsdóttir unnu saman að myndasögubók um íslensku jólasveinana, "Rakkarapakk", sem kom út árið 2005. Hann fylgdi því eftir eins sins liðs með bókina "Úrg Ala Buks Unum" árið 2006. Árið 2007 gáfu Jan Pozok og Sveinn Sveinsson bókina "Skuggi Rökva" út. Hugleikur Dagsson gaf út sína fyrstu myndasögubók með skopteikningum árið 2005 "Forðist okkur" og hefur fylgt því eftir með bókunum "Bjargið okkur" (2005), "Fermið okkur" (2006), "Fylgið okkur" (2006), "Ókei bæ" (2007), "Kaupið okkur" (2007) og "Jarðið okkur" (2008). Fyrsta myndasögubókin í fimm bóka röð um eineygða köttinn Kisa, "Eineygði kötturinn Kisi og hnakkarnir" kom út árið 2006. "Garðarshólmi" kom fyrst út í "Símaskránni" 2008 og 2009 en var endurútgefin í bók árið 2010. Íslensk myndasögutímarit. "Spegillinn" var fyrsta skopmyndatímaritið og birtust þar við og við stuttar myndasyrpur eftir Tryggva Magnússon, Bjarna Jónsson og Halldór Pétursson, einkum þó eftir að Ási í Bæ tók við ritstjórn 1968 og Ragnar Lár og Haraldur Guðbergsson hófu að teikna fyrir tímaritið. Fyrsta eiginlega myndasögutímaritið sem gefið var út á Íslandi hét "Bandormur" og kom út árið 1982. Blaðið var neðanjarðarblað og því eru til mjög fá eintök á bókasöfnum. Þeir sem stóðu fyrir útgáfu blaðsins voru Ómar Stefánsson og Óskar Thorarensen. Tímaritið "GISP!" (Guðdómleg Innri Spenna og Pína) var gefið út af öðrum hóp og fóru þeir seinna að tengja útgáfuna við sýningar á íslenskum myndasögum, oftast ásamt myndasöguhöfundum frá öðrum löndum. Fyrsta eintak "GISP" kom út árið 1990. Þeir sem stóðu að útgáfu blaðsins voru Bjarni Hinriksson, Halldór Baldursson, Jóhann Torfason og Þorri Hringsson, en fleiri birtu þar myndasögur, þar á meðal Gunnar Hjálmarsson, Freydís Kristjánsdóttir, Bragi Halldórsson og Þórarinn B. Leifsson. Alls komu út sjö blöð óreglulega til 1999. 1992 kom út bók með íslenskum og erlendum myndasögum í tengslum við myndasögusýningu á Kjarvalsstöðum sama ár, og árið 2005 kom út "(Gisp!): nían" í tengslum við myndasögumessu í Listasafni Reykjavíkur. "Hasarblaðið Blek" kom fyrst út árið 1996. Frá 2005 hefur það komið út undir heitinu "NeoBlek". Jean Posocco er ritstjóri blaðsins. Myndasögublaðið "Skríbó" var gefið út árið 1996. Myndasögublaðið Zeta var gefið út af NordicComics árin 2000-2002 og var helsti drifkrafturinn Búi Kristjánsson. Innihald blaðsins var að mestu franskar teiknimyndasögur ásamt einstaka íslenskri myndasögu. NordicComics fékkst líka við útgáfu íslenskra þýðinga af frönskum myndasögum. Numbers. Numbers er töflureikni forrit frá Apple og er partur af iWork ásamt Keynote og Pages. Numbers 1.0 var kynnt 7. ágúst 2007 og keyrir á Mac OS X v10.4 Tiger og Mac OS X v10.5 Leopard. Aðal keppinauturinn er Microsoft Excel sem og OpenOffice.org Calc. Menntaskólinn að Laugarvatni. Menntaskólinn að Laugarvatni (skammstöfun "ML") er framhaldsskóli við Laugarvatn, formlega stofnaður sem sjálfstæður skóli 12. apríl 1953, en hafði frá árinu 1947 verið starfræktur í samvinnu við Menntaskólann í Reykjavík. Jónas frá Hriflu var einn ötulasti hvatamaður að stofnun skólans. Skólameistari er Halldór Páll Halldórsson. Stofnun skólans. Skólahald í sveitum tíðkaðist ekki í kring um 1880 og raunar hvergi í landinu. Skálholtsskóli var lagður niður árið 1785 og í staðinn reis Hólavallaskóli í Reykjavík og starfaði hann við lélegan orðstír til ársins 1800. Sífellt var verið að breyta og herða lög um skólaskyldu og árið 1907 voru sett fræðslulög um skólaskyldu 10-14 ára barna. Þessi lög höfðu greinilega mjög góð áhrif á lærdómsfýsn landans. Það varð til þess að Árnesingar stofnuðu hérðasskóla á Laugarvatni. Árið 1940 gengu í gildi lög um gagnfræðinám. Bjarni Bjarnason, skólastjóri héraðsskólans og þingmaður Framsóknarflokksins skildi mikilvægi náms Íslendinga og flutti hann þingsályktunartillögu árið 1941 fyrir umbótum. Hann var ekki einn í þessari tillögu heldur barðist Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík fyrir þessu einnig. Þingsályktunartillagan fól í sér bættara námsframboð á landsbyggðinni. Hún komst á endanum í gegn árið 1947 þó eftir mikið basl og var ákveðið að stofna menntaskóla á Laugarvatni en skólinn starfaði sem útibú fyrir Menntaskólann í Reykjavík fyrstu árin. Það var síðan 6 árum síðar, þann 12. apríl 1953, kl. 16 nánar tiltekið, sem Menntaskólinn að Laugarvatni var settur sem sjálfstætt starfandi skóli, en ekki útibú frá MR. Fyrsti skólameistari menntaskólans var dr. Sveinn Þórðarson. Margir tóku til máls við stofnun skólans, þar á meðal Björn Ólafsson, þáverandi menntamálaráðherra og Jónas Jónsson frá Hriflu, fyrrverandi ráðherra. Jónas færði einnig menntaskólanum Hvítbláinn, útfararfána Einars Benediktssonar, að gjöf.Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 15 Við útför Einars var kista hans sveipuð bláhvíta fánanum, sem hann hafði barist lengi fyrir að yrði þjóðfáni Íslendinga, en ekki fengið í gegn. Við lát Einars lét Már, sonur Einars, Jónas frá Hriflu fá fánann til varðveislu og leyfi til að ráðstafa honum vel. Hann ákvað við stofnun menntaskólans að færa skólanum fánann að gjöf. Telst þetta vera ein merkasta eign skólans enn þann dag í dag. Talið er að Jónas hafi haft það í hyggju að vekja áhuga æskunnar á verkum þjóðskáldsins Einars Benediktssonar. Eftir stofnun skólans ákvað dr. Sveinn Þórðarson að Hvítbláinn skyldi vera merki skólans og ljóðið „Til fánans“ söngur hans, auk þess sem hann kom á þeirri hefð, að halda 31. október ár hvert skyldu verk þjóðskáldsins vera kynntur fyrir nemendum skólans. Tengdu' í oss að einu verki fólks í hjartað ár og síð. Sveinn Þórðarson valdi einnig einkunnarorð skólans Manngildi, Þekking, Atorka en það er þýðing Baldvins Einarssonar á hugtakinu "humanismus". Til að byrja með voru nemendur um 83-100 talsins. Við fyrstu skólasetninguna árið 1953, voru til að mynda tæplega 90 nemendur, og þar af aðeins 12 stúlkur, sem var mjög dæmigert á þessum tímum. Húsnæði. Í skólahúsnæðinu var heimavist sem tók 84 nemendur, en þá voru kröfur til pláss ekki jafn miklar og þær eru í dag. Nös og Kös eru heimavistarhús sem voru byggð á árunum 1966-1969 en þau rúmuðu rúmlega 140 nemendur. Skólaárið 1972-1973 var tekin í gagnið viðbygging við skólann og í henni er góð aðstaða til raungreinakennslu, fyrirlestrarsalur og salernisaðstaða. Þá var, árið 1996, tekin í notkun hæð, sem var byggð ofan á viðbygginguna, en þar eru nútíma herbergi fyrir elstu nemendur skólans. Þessi heimavist kallast Fjarvist. Nemendafélagið Mímir. Stofnfundur nemendafélagsins var 25. október 1952, að frumkvæði Bjarna Bjarnasonar, skólastjóra héraðsskólans. Á Laugarvatni heitir formaður nemendafélagsins Stallari. Talið er að Ólafur Briem kennari og seinna skólameistari, eða Haraldur Matthíasson hafi eitthvað haft með nafngiftina að gera, en orðið Stallari kemur úr fornu máli og var notað um einn af mikilvægustu hirðmönnum konungs og fólst starf hans í að tilkynna fólkinu boðskap konungsins. Fyrsti formaður nemendafélagsins var kosinn og var það Jóhannes Sigmundsson sem varð fyrir valinu. Í önnur embætti voru kosnir Kjartan Pálsson, varaformaður, Árni Sveinsson ritari og Jóhann Gunnarsson ritari. Fyrsta verk nýrrar stjóranar var að finna nafn á nemendafélagið. Á fundi 1. nóvember var samþykkt einróma að nemendafélagið skildi heita Mímir. Smátt og smátt fóru umsvif nemendafélagsins að aukast og urðu til fleiri embætti. Nú í dag eru innan stjórnar nemendafélagsins 13 embætti. Eitt það merkilegasta sem tengist nemendafélaginu er útgáfa skólablaðsins Mímisbrunns. Fyrsti ritstjóri blaðsins var Björgvin Salómonsson, en í ritnefnd, ásamt ritstjóra sat einn úr hverjum bekk. Hefðir. Menntaskólinn að Laugarvatni er skóli þar sem mikið er um hefðir af ýmsu tagi. Margar hefðir hafa haldið sér frá upphafi fram á þennan dag, en aðrar hafa verið lagðar niður af ýmsum ástæðum. Fyrst skal nefna göngudag. Sú hefð hófst skólaárið 1956-7, þegar allir nemendur skólans skelltu sér í gönguferð upp á Gullkistu, en hún er ekki langt frá staðnum. Þessi hefð hefur haldið sér allt til dagsins í dag og er gengið hvert haust á eitthvert fjall í nágrenninu. Önnur hefð sem er mjög einkennandi fyrir skólann er húsþing. Menntaskólinn að Laugarvatni er örugglega eini framhaldsskólinn á landinu þar sem skólameistari boðar til húsþings þar sem allir nemendur skólans safnast saman og hlýða á orð hans. Húsþingin eiga rætur að rekja sín allt til fyrsta skólameistara skólans, dr. Sveins Þórðarsonar. Bekkjarveisla kallast það, bekkur kemur saman að kvöldlagi og borðar góðan mat. Hefðin hófst skólaárið 1960-1 og þá komu nemendur saman í vel skreyttri skólastofu. Á árunum 1962-66 varð hins vegar breyting á og pöntuðu nemendurnir þá mat úr Kaupfélagi Árnesinga og elduðu sjálfir. Stelpurnar sáu aðallega um eldamennskuna. Frá árunum 1967 og til dagsins í dag hefur bryti mötuneytisins séð um matseldina og hittast bekkjarfélagar fínt klæddir og eiga góða stund saman. Þessi hefð er enn til staðar. Bjölluslagur var fyrst haldinn skólaárið 1958-9. Reglur eru nokkrar, en í stuttu máli að þá eiga 2. bekkingar, sem sjá um vanalega um að hringja inn og út úr tíma, að reyna að hringja bjöllunni, en allir nemendurnir í hinum bekkjunum eiga að hindra þá í að hringja henni. Ef ekki næst að hringja bjöllunni á 15 mínútum, fæst frí í tímanum eftir það. Eina skilyrðið fyrir bjölluslag er, að skólameistarinn má ekki vera á staðnum. Þessi hefð er enn til staðar Söngsalur er skemmtileg hefð, sem upphaflega er fengin alla leið frá Akureyri. Þá safnast nemendur skólans saman og syngja heila kennslustund. Þessi hefð er enn til staðar. Göngufrí: Hægt er að spyrja kennara einu sinni á önn hvort hann vilji fara í göngufrí og ef hann samþykkir það að þá fellur niður ein kennslustund og kennarinn fer í gönguferð með nemendum þess bekkjar um Laugarvatn. Þessi hefð er enn til staðar. Kaffitímar er þegar nemendur geta spurt kennarana hvort þeir vilji fara með skólabækurnar upp á setustofur vistanna og kenna þar. Kamel (Karlrembufélag Menntaskólans að Laugarvatni) og Kvemel(Kvenrembufélag Menntaskólans að Laugarvatni) eru félög sem,berjast á móti” hvoru öðru. Félögin eru frekar leynileg og vita félögin mjög lítið um hvort annað. Helstu atburður félagana eru að halda svokallaðar átveislur án þess að hitt kynið viti neitt af því. Upphaflega voru stelpurnar með vöffluveislu. Nú eru þær með ísveislu og strákarnir með pizzaveislu. Stelpurnar þurfa að borða 25 lítra af ís og strákarnir að borða 25 16” pizzur. Þá voru hluti af þessum hefðum voru svokallaðar táskoðanir hjá stelpum og naflaskoðanir hjá strákunum. Þessar hefðir hafa verið lagðar nýlega niður sökum þess að þetta særði blygðunarkennd sumra. Margar aðrar hefðir hafa verið lagðar af og hér koma nokkrar. "Listavika" er hefð sem lagst hefur niður og var haldin í fyrsta skipti skólaárið 1970-71 og var tilraun nemenda skólans að vera menningarleg. Buðu nemendur upp á t.d myndlistasýningar, bókmenntakynningar og kvikmyndasýningar. Hefð þegar Kvemel og kennaralið fóru í reiptog sín á milli einu sinni á ári og var keppt á stéttinni fyrir framan skólahúsið. Talið er að þessi siður hafi hafist skólaárið 1961-2. "Teygja" er hefð, sem var notuð til að refsa fólki fyrir að fara inn í skólahúsnæðið á útiskóm. 4. bekkingar sáu um teygjuna og hófst þetta skólaárið 1975-6 "Vimmun" var tekin upp skólaárið 1976-7 og fól hún í sér að fylla rörið á ryksugu, sem hægt var að láta blása út með ræstiduftinu,Vim”. Rörið var sett upp að skráargatinu á tilteknu herbergi og ryksugan síðan sett í gang. Námið. Lengi vel voru 3 deildir við skólann, máladeild, náttúrufræðideild og eðlisfræðideild, eða frá 1975 fram til 1999, þegar ný aðalnámsskrá var tekin í notkun. Lítil aðsókn hafði verið í eðlisfræðibraut og því var hún því sameinuð náttúrufræðibraut. Reynt hefur verið að setja af stað íþróttabraut en hún reyndist mjög dýr í rekstri auk þess sem brottfall nemenda var mikið. Árið 2005 var í fyrsta skipti byrjað að kenna á félagsfræðibraut við menntaskólann og er sú braut ennþá starfandi Þekktir nemendur. Allnokkrir þekktir einstaklingar hafa stundað nám við Menntaskólann að Laugarvatni. Draugur. Draugur (vofa eða afturganga) er yfirskilvitleg vera í þjóðtrú og goðsögnum. Á Norðurlöndum átti draugur upprunarlega við uppvakning sem risið hafði úr gröf sinni, oftar en ekki vakinn upp með fjölkynngi til að sinna illviljuðum erindagjörðum sem galdramaðurinn fól honum í té. Það var almennt álitið að draugar gætu einnig risið upp úr grafarhaug sínum af sjálfsdáðum og oft voru sérstakar galdrarúnir ristar í steina við grafir stríðsmanna til að koma í veg fyrir að þeir gengju aftur, líkt og rúnasteinnin í Kalleby í Svíþjóð gefur til kynna. Fartölva. Fartölva (sjaldnar kjöltutölva en einnig lappi í talmáli frá enska orðinu "lap'"top") er tiltölulega lítil, færanleg tölva með sambyggt lyklaborð, tölvuskjá, rafhlöðu og harðan disk eða aðra gagnageymslu. Þyngd fartölva er yfirleitt á bilinu 1 til 5 kg og hefur notkun þeirra stóraukist á síðustu árum á kostnað borðtölva. Sigurður Líndal (f. 1973). Sigurður Líndal (f. 1. júní 1973) er íslenskur leikari. Sigurþór Albert Heimisson. Sigurþór Albert Heimisson (f. 1. nóvember 1962) er íslenskur leikari. Skúli Gautason. Skúli Gautason (f. 25. október 1959) er íslenskur leikari, leikstjóri, tónlistarmaður og menningarstjóri. Skúli fæddist í Reykjavík og ólst upp í bláu húsi í vesturbænum. Hann tók þátt í því að stofna Bifhjólasamtök lýðveldisins, Snigla árið 1984 og stofnaði Sniglabandið ári síðar. Hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1986 og réðist strax til starfa við Leikfélag Akureyrar. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hjá áhugaleikfélögum um land allt og tveim sýningum við Leikfélag Akureyrar. Skúli hefur starfað sem viðburðastjóri hjá Reykjavíkurborg og menningar- og atvinnumálafulltrúi hjá Hörgársveit. Hann starfrækir menningarhús í hlöðunni sinni að Litla-Garði. Skúli hefur samið tónlist við leiksýningar og kvikmyndir Stefán Jónsson (f. 1964). Stefán Jónsson (f. 23. ágúst 1964) er íslenskur leikari og leikstjóri. Stefán Sturla Sigurjónsson. Stefán Sturla Sigurjónsson (fæddur 4. júní 1959) er íslenskur leikari. Æviágrip. Stefán Sturla fæddist í Reykjavík þann 4. júní árið 1959. Foreldrar hans eru Sigurjón Valdimarsson fæddur 3. janúar 1932 ritstjóri og Sólveig Stefánsdóttir fædd 10. júní 1939 bóndi. Maki Stefáns er Petra Högnäs fædd 4. júní 1967 frá Molpe í Finnlandi. Börn þeirra eru Sandra Björg fædd 30. ágúst 1983, Sólveig fædd 29. október 1985, Adam Thor fæddur 19. nóvember 1999 og Anna Alina fædd 5. desember 2002. Stefán Sturla stundaði húsasmíðanám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti (1976), er búfræðingur frá Hvanneyri (1979) og leikari frá Leiklistarskóla Íslands (1987) Hann var einn af frumkvöðlum að stofnun barnaleikhúss á Íslandi með Möguleikhúsinu (1992-1997). Hann stofnaði leikhópinn Sjónleikhúsið ásamt Jakopi Þór Einarssyni árið 1997. Sjónleikhúsið einbeitir sér að uppsetningu barnaverka. Stefán hefur starfað með leikhópnum Bandamenn frá upphafi leikhópsins árið 1992. Stefán hefur leikið hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Útvarpsleikhúsinu, Alþýðuleikhúsinu, Eih-leikhúsinu, Þíbilju, Frú Emilíu, Bandamönnum, Möguleikhúsinu, Nótt og Degi og Íslenska dansflokknum. Hann hefur einnig gert heimildarmyndir fyrir sjónvarp: Skálar á Langanesi, Papósverslun, Veröld undir Vatnajökli, Seyðisfjörður saga byggðar, 100 ára afmælishátíð á Seyðisfirði. Hvar, hvers vegna, fyrir hverja og fjölda þátta fyrir börn. Fígúran Trjálfur sem komið hefur fram við ýmis tækifæri víða um land frá 1997-2006 er unnin af Stefáni Sturlu. Hann hefur skrifað tvær barnabækur: Trjálfur og Mimmli (2000) og Alina - tönnin og töframátturinn (2007). Hann hannaði og gerði Fjölskylduspilið Ísland sem kom út árið 2002. Frá árinu 2006 hefur Stefán einbeitt sér að leikstjórn. Víkingar. Víkingar var heiti á fornnorrænum sæförum og vígamönnum, sem upp voru á víkingaöld, það er á árunum frá 800 til 1050. Þessi ártöl eru þó ekki fastnjörvuð niður því það fer dálítið eftir löndum hvaða aldir eru einkum taldar einkennast af víkingum og menningu þeirra. Þannig er í Bretlandi oftast rætt um Víkingaöld frá árinu 793 til 1066, á Íslandi er miðað við 800 til ársins 1170, í Frakklandi er Víkingaöldin enn skemmri eða frá um 830 til 900 en í Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum er miðað við ártölin 750 til elleftu aldar. Hugmyndir manna um hverjir víkingarnir voru eru ekki að öllu leyti samhljóma. Sumir telja að allir norrænir menn hafi verið víkingar þar sem orðið víkingasamfélag sé samheiti yfir þau norrænu samfélög sem stóðu með hvað mestum blóma á fyrrnefndum tímaskeiðum. Þessi skilningur orðsins er ef til vill af ensk-amerískum uppruna og samræmist illa fornri merkingu orðsins „víkingur“. Aðrir halda því fram að Víkingar hafi aðeins verið þeir menn sem lögðu í víking og að því hafi í raun fæstir norrænir menn verið eiginlegir víkingar. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um uppruna og merkingu orðsins víkingur og helgast skilningur manna á orðinu ef til vill nokkuð af því hversu víða skýrskotun menn vilja gefa því. Hafi víkingar verið einvörðungu þeir sem lögðust í víking má ef til vill rekja merkingu orðsins til þess að þeir hafi gert árásir sínar í víkum eða jafnvel setið í launsátri í víkum og þannig náð að koma óvinum sínum á óvart með skyndiáhlaupi. Þá er hugsanlegt að víkingarnir séu þeir sem áttu fyrst og fremst heimaslóð í víkum, enda sennilega flest bú norrænna manna staðsett í víkum í fjörðum. Víkingar geta hins vegar líka verið þeir sem fluttust búferlum og settust að í öðrum löndum, ýmist með landnámi eins og á Íslandi eða með því að þeir tóku sér bústað meðal annarra þjóða. Þannig eru víkingar afkomendur norrænna þjóða sem hafa flust búferlum og haft menningarleg áhrif á því landsvæði sem þeir hafa tekið sér upp nýja búfestu. Almennt má telja að flestir álíti Víkinga syni og dætur norrænna samfélaga á Víkingatímabilinu. Samkvæmt því voru flestir víkingar einnig bændur, sæfarar, smiðir, lögmenn eða skáld. Víkingar notuðu víkingaskip (langskip eða knerri) í víkingaferðum sínum. Landnámabók fjallar um norska víkinga, sem námu land á Íslandi, en Íslendingasögur fjalla einkum um íslenska víkinga. Að fara í víking. Þegar víkingar fóru um á skipum sínum með ránum og hernaði var það kallað að "fara í víking" eða "leggjast í víking". Fyrstu herferðir norrænna manna, á árabilinu 790 til 830 hafa líklegast einkennst af áköfum árásum en þær hafa þó ekki verið stórar í sniðum og einkum beinst að strandhéruðum annarra landa. Þetta er stundum kallað að gera strandhögg. Að þessu tímabili loknu tekur við annað, frá árinu 830 til um 890, en þá urðu herferðirnar stærri í sniðum og seildust árásaherjirnir lengra inn til landsins, fóru til dæmis langt inn eftir landi í Englandi og Frakklandi. Frá síðari hluta níundu aldar fer að bera á fastri búsetu norrænna manna í þeim löndum sem þeir höfðu herjað á til dæmis í Englandi, Skotlandi og jafnvel í Rússlandi. Upphaf ýmissa enskra og írskra borga má jafnframt rekja til þessarar búsetu norrænna manna auk þess sem skammvinnt konungdæmi í Dyflinni var af norrænum rótum sprottið. Víkingar af Norðurlöndum herjuðu þó ekki allir sömu slóðir, heldur fór það nokkuð eftir afstöðu landanna. Svíar náðu ekki til Norðursjávar og herjuðu lönd þau sem að því liggja sunnan og austan. Það var kallað að herja "í austurveg". Um miðja 9. öld settu þeir ríki á stofn þar eystra. Sátu konungar þeirra í Novgorod, er þeir kölluðu Hólmgarð, en ríkið kölluðu þeir Garðaríki. Norðmenn og Danir fóru aftur í víking vestur á bóginn, til Þýskalands, Frakklands og Englands, og var það kallað að "fara í vesturvíking". Af víkingum þeim er veittu Englandi heimsókn eru frægastir Ragnar loðbrók og þeir Loðbrókarsynir. Settust Danir að lokum að í landinu og lögðu undir sig norðausturhluta Englands sem síðan var kallaður Danalög. Líkt var háttað um ríki það sem víkingar komu á fót í Frakklandi nokkru seinna. Settist höfðingi þeirra, Hrólfur, að í Rúðuborg ("Rouen"). Var hann að sögn Snorra Sturlusonar norskur að ætt og sonur Rögnvalds Mærajarls. Reis þar upp á skömmum tíma voldugt ríki, er kallað var Normandí, en þeir Rúðujarlar er því stýrðu. Frá tíundu öld má segja að umsvif víkinga utan heimalanda sinna hafi fyrst og fremst snúið að bresku eyjunum og í austurveg. Ríkjamyndun hafði hafist og árásir Víkinga í sífellt meira mæli studdar og stofnað til af hinum nýju ríkiseiningum. Þessi þróun endaði með sigri Knúts, konungs Danmerkur og Noregs, yfir Englandi árið 1016. Það er athyglisvert að skoða mismunandi áhrif búsetuflutninga norrænna manna til hinna ólíku svæða í norð-vestur Evrópu. Ef horft er til skosku eyjanna til dæmis má sjá að norræn menning virðist hafa tekið algerlega yfir svo jafnvel er talað um þjóðarmorð á því fólki sem fyrir var á eyjunum eða þá að menning hinna norrænu innflytjenda hafi yfirtekið staðbundna menningu fullkomlega. Á Norður-Englandi, Normandí og norð-vestur Rússlandi settust víkingar að í hinum dreifðu byggðum og spurning hvort ekki hafi verið um að ræða fremur umfangsmikla flutninga frjálsra bænda frá Norðurlöndum til þessara svæða. Þar ýmist tóku norrænir menn yfir staðbundna menningu eða fylltu upp í ónumin skörð í landfræðilegu og menningarlegu tilliti. Þá er borgamyndun norrænna manna athyglisverð þar sem þær virðast framan af vera sjálfstæðar menningarlegar og pólitískar einingar en eru smám saman teknar inn í samfélagið umhverfis. Steindór Hjörleifsson. Steindór Hjörleifsson (f. 22. júlí 1926, d. 13. september 2012) var íslenskur leikari og handritshöfundur. Steindór lék mest fyrir Leikfélag Reykjavíkur og var lengi formaður þess. Hann fékk riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu 1993 fyrir störf að leiklist. Sveinn Geirsson. Sveinn Geirsson (f. 19. október 1971) er íslenskur leikari. Alkanar. Alkanar eru efnasambönd sem innihalda aðeins kolefni og vetni (þ.e. kolvetni) og öll atómin eru eintengd sín á milli og án hringtengingar; til dæmis H3C-CH3. Alkenar. Alkenar eru, í lífrænni efnafræði, ómettuð efnasambönd með minnst eitt tvítengi á milli kolefnisatóma. Einfaldasta dæmið um alkena er etýlen (C2H4) sem má skrifa sem H2C=CH2 þar sem = táknar tvítengið. Biblíubrúður. Biblíubrúður (stundum kallaðar Egli-brúður) eru handgerðar brúður, ýmist 30, 50 eða 70 cm háar. Þær eru hugsaðar til að gera sögur Biblíunnar sýnilegri. Biblíubrúðurnar eru andlitslausar svo að skilningur á tjáningu þeirra mótist ekki af svipbrigðum brúðanna heldur skilningi áhorfandans. Þær eru úr sveigjanlegri vírgrind sem gerir þær hreyfanlegar. Blýfætur gefa þeim þá hæfileika að standa, krjúpa eða „ganga“. Þannig geta þær sýnt tilfinningar og aðstæður úr sögum. Hægt er að breyta brúðunum með því að skipta um föt þeirra, en fötin eru gerð úr náttúrulegum efnum. Biblíubrúður opna nýja óvenjulega nálgun á sögur biblíunnar. Senurnar gefa áhorfendum möguleika til að finna sjálfa sig í persónum biblíunnar og boðskap hennar. Yfirleitt eru biblíubrúður notaðar í fræðslu um biblíusögur í sunnudagaskóla eða annars staðar þar sem kristin fræðsla fer fram. Vinsælast er að stilla upp tveimur brúðum sem sýna Maríu og Jósef við jötu Jesúbarnsins. Biblíubrúður á Íslandi. Nokkrar kirkjur nota biblíubrúður í sunnudagaskólum og öðru starfi á Íslandi og hafa gert það frá árinu 2005 en þá voru fyrstu námskeiðin í gerð Biblíubrúða haldin á Íslandi. Biblíubrúðurnar framleiddar í Sviss. Grunnbrúðurnar sem biblíubrúðurnar eru föndraðar utan um eru framleiddar hjá í Horw í Sviss. Árið 2007 var eftirspurnin orðin slík að átta fatlaðir einstaklingar vinna við gerð grunnbrúðanna. Glerárkirkja. Glerárkirkja er kirkja Glerárprestakalls, sem var stofnað árið 1981 þegar Akureyrarprestakalli var skipt í tvennt. Glerárprestakall er í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Í dag tilheyra íbúar sem eru skráðir í þjóðkirkjuna og búa í póstnúmeri 603 Akureyri yngra prestakallinu. Glerárkirkja var vígð 6. desember 2002 en hluti byggingarinnar hafði þá verið nýttur til messuhalds í nokkurn tíma. Ágrip af byggingarsögu Glerárkirkju. Þann 31. maí 1984 tók hr. Pétur Sigurgeirsson biskup fyrstu skóflustunguna á lóð sem sókninni hafði verið úthlutað við Bugðusíðu. Glerárkirkja er alls 2100 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Arkitekt var Svanur Eiríksson en Halldór Jóhannsson landslagsarkitekt sá um skipulagningu lóðarinnar. Nokkur umræða hafði farið fram um hvar kirkjan ætti að vera staðsett. Þegar árið 1969 hafði verið skipuð byggingarnefnd til að finna nýrri kirkju í Glerárhverfi stað en Lögmannshlíðarkirkja þótti orðin of lítil til að sinna íbúum í Glerárhverfi. Fljótlega kom upp sú hugmynd að kirkjan yrði staðsett á svokölluðum Neðri-ás sem er austan við Glerárskóla á milli Harðangurs og Melgerðis. Ekkert varð af þeim hugmyndum. Fyrsta messan. Þann 18. ágúst 1985 var messað í fyrsta sinn í nýju kirkjunni og kirkjugestum kynnt skipulag og framkvæmdir við kirkjuna en hún varð fokheld ári síðar, þann 7. júní 1986. Það var svo þann 15. febrúar 1987 sem hr. Pétur Sigurgeirsson biskup vígði fyrsta hluta kirkjunnar og hófst þá reglulegt messuhald í kirkjunni í þeim hluta hennar þar sem nú er skrifstofuálma. Vígðir þjónar kirkjunnar. Prestar og fermingarbörn ganga til kirkju í apríl 2007 Sr. Pálmi Matthíasson var sóknarprestur í Glerárprestakalli frá stofnun þess þar til hann var kallaður til starfa í Bústaðarsókn í apríl 1989. Sr. Pétur Þórarinsson tók við af honum og gegndi embættinu í tvö ár en var mikið frá vegna veikinda. Sr. Lárus Halldórsson leysti Pétur af í veikindum hans veturinn 1990 - 1991. Í apríl 1991 voru haldnar prestkostningar og hlaut sr. Gunnlaugur Garðarsson kosningu í embætti sóknarprests og gegnir hann þeirri stöðu enn. Frá því í ársbyrjun 2005 eru formlega tvær prestsstöður við Glerárkirkju og gegndi sr. Arnaldur Bárðarson þeirri stöðu prests í Glerárkirkju frá því að sú staða varð til út árið 2009. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir gegnir í dag stöðu prests. Þá réði sóknin Pétur Björgvin Þorsteinsson djákna til starfa frá 1. janúar 2005. Organistar. Áskell Jónsson var organisti Lögmannshlíðarsóknar frá 1945 til 1987. Þegar hann lét af störfum tók Jóhann Baldvinsson við organistastarfinu og gegndi því fram til ársins 1997. Þá tók Hjörtur Steinbergsson við stöðu organista og gegndi hann því starfi fram til haustsins 2009. Valmar Väljots gegnir í dag stöðu organista. Kór Glerárkirkju. Kór Glerárkirkju er blandaður kór sem var stofnaður 12. febrúar 1944 og hét þá Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar en því nafni hélt kórinn fram til ársins 1990. Við kirkjuna eru einnig starfandi tveir aðrir kórar, æskulýðskór og barnakór. Djákni. Djákni (úr grísku διάκονος, "diakonos") er vígður þjónn kirkjunnar, en munur er á milli kirkjudeilda hvaða skilningur er lagður í vígslu og hlutverk djákna. Hugtakið djákni er líka þekkt í tengslum við söguna Djákninn á Myrká og margir íslenskir hestar bera nafnið Djákni. Í fornu máli tíðkaðist oftast orðmyndin "djákn", sem beygðist: djákn, um djákn, frá djákni, til djákns. Nú er að jafnaði notuð orðmyndin "djákni", sem beygist: djákni, um djákna, frá djákna, til djákna. Beyging orðanna í fleirtölu er eins. Djákni í þjóðkirkjunni. Innan íslensku þjóðkirkjunnar hafa um 40 manns vígst til starfa sem djáknar hin síðari ár, flestir með B.A. próf úr guðfræðideild Háskóla Íslands. Johann Hinrich Wichern (1808 – 1881) er gjarnan talinn einn af frumkvöðlum djáknaembættisins eins og það er þekkt innan þjóðkirkjunnar í dag. En Wichern þessi sinnti munaðarleysingjum í Hamborg um miðbik nítjándu aldar. Samkvæmt kenningum evangelískrar kirkju fylgir hinn almenni kristni einstaklingur því fordæmi sem Kristur sýndi þegar hann kraup niður, gerðist þjónn og þvoði fætur lærisveinana sinna. Í starfi djáknanna fær þessi þjónusta á sig fasta mynd. Djákni í Rómversk-kaþólsku kirkjunni. Alla jafna er djákni í Rómversk-kaþólskri kirkju sá sem hefur hlotið fyrstu vígslu og stundar starfsþjálfun sem hluta af sínu prestsnámi og stefnir að því loknu að frekara námi að prestsvígslu. Frá 18. júní 1967 hefur þó verið gert ráð fyrir, að sumir djáknar taki ekki frekari vígslur. Sérstakar námsbrautir hafa verið settar upp fyrir þá. Stundum gegna þeir veraldlegu aðalstarfi. Ýmsir þeirra eru giftir, og fá konur þeirra jafnvel að taka þátt í djáknanáminu til að geta stutt þá í starfi. Djákni í öðrum, kristilegum söfnuðum. Í Hvítasunnukirkjum og bræðasöfnuðum tíðkast það víða að þeim úr stjórn safnaðanna sem falin eru ákveðin verkefni sé gefið embættisheitið djákni. Ástjörn. Ástjörn eru sumarbúðir sem starfræktar eru í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur við samnefnt vatn í næsta nágrenni við Ásbyrgi. Arthur Gook, enskur trúboði stofnaði sumarbúðirnar 1946 ásamt Sæmundi G. Jóhannssyni. Sumarbúðirnar eru starfræktar af Sjónarhæðarsöfnuði. Fyrstu árin. Arthur Gook, gjarnan kenndur við Sjónarhæð, var búsettur á Akureyri frá árinu 1905 en þangað kom hann til að stunda kristniboð. Að hans frumkvæði var reistur hermannabraggi í skjólgóðum reit við vatnið Ástjörn í Kelduhverfi. Þar hafði hann hug á að starfrækja sumarbúðir og fengið til þess leyfi hjá landeigandanum Sigríði Jóhannesdóttur, húsfreyju í Ási. Sumarið 1946 dvöldu 13 börn í sumarbúðum á Ástjörn, fimm drengir aðra vikuna og átta stúlkur hina vikuna. Dvöl í eina viku kostaði 63 krónur. Bogi á Ástjörn. Í febrúar 1960 fól Sjónarhæðarsöfnuður Boga Péturssyni að fara með forstöðu starfsins en Bogi hafði aðstoðað Arthur og Sæmund frá upphafi við starfið. Bogi var forstöðumaður í 40 ár. Í tíð Boga voru allt að eitthundrað börn í sumarbúðunum í senn og naut hann dyggrar aðstoðar sjálfboðaliða frá Færeyjum sem og úr eigin fjölskyldu. Ástjörn í dag. Í dag býðst strákum og stelpum á aldrinum 6 til 16 ára að dvelja í sumarbúðum við Ástjörn. Sumarbúðastjóri er Árni Hilmarsson. Á kemur fram að hugsjón frumkvöðla starfsins á Ástjörn með starfinu var að veita börnum tækifæri til að dvelja á fallegum stað og heyra jafnframt boðskapinn um Jesúm Krist. Frumkvöðlarnir þeir Arthur Gook og Sæmundur G. Jóhannesson, létust árið 1959 og 1991. Intel Corporation. Intel Corporation (;) er bandarískt fyrirtæki sem framleiðir örgjörva og hálfleiðara. Fyrirtækið var stofnað árið 1968 sem Integrated Electronics Corporation í Santa Clara, Kaliforníu, af Robert Noyce og Gordon Moore. Einnig framleiðir Intel móðurborð, kísilflögur, netkort, vinnsluminni, skjákísilflögur og önnur tölvutæki. IBM. International Business Machines Corporation (einnig IBM eða „Big Blue“,) er bandarískt raftækjafyrirtæki sem selur tölvur og netþjóna. Michael Frede. Michael Frede (31. maí 1940 – 11. ágúst 2007) var þýskur heimspekingur, heimspekisagnfræðingur, fornfræðingur, textafræðingur og prófessor í fornaldarheimspeki. Ævi og störf. Michael Frede fæddist í Berlín í Þýskalandi árið 1940. Eftir að hann brautskráðist frá Sankt Ansgar-Gymnasium í Hamburg árið 1959 hóf hann nám í heimspeki og fornfræði við háskólana í Hamburg og München og síðar undir leiðsögn Günthers Patzig við háskólann í Göttingen. Hann varði vetrinum 1962-1963 við Oxford-háskóla þar sem hann nam hjá G.E.L. Owen en sneri svo aftur til Göttingen og lauk doktorsgráðu þaðan árið 1966. Doktorsritgerð hans, sem fjallaði um samræðu Platons "Fræðarann", kom út ári seinna undir titlinum "Prädikation und Existenzaussage" og hlaut mikla eftirtekt enda þótt hugmyndir Fredes væru umdeildar. Næsta bók hans "Die Stoische Logik" (1974) fjallaði um stóíska rökfræði og var tímamótaverk. Frede var æ síðan talinn einn helsti sérfræðingur heims um heimspeki fornaldar. Frede fékkst einkum við heimspeki Platons og Aristótelesar, stóuspeki og efahyggju en hann átti mikinn þátt í að auka á ný vinsældir og áhuga á hellenískri heimspeki meðal heimspekinga og fræðimanna. Frede ritaði einnig um vísinda- og hugmyndasögu fornaldar, þ.á m. læknisfræði, málvísindi og málfræði í fornöld, og forn trúarbrögð. Frede kenndi fornaldarheimspeki við Kaliforníu-háskóla í Berkeley sem gistikennari veturinn 1968-1969 og sem kennari við heimspekideildina frá 1971. Árið 1976 þáði hann prófessorsstöðu við Princeton-háskóla þar sem hann kenndi til ársins 1991. Þá tók hann við stöðu prófessors í heimspekisögu á Keble College við Oxford-háskóla. Árið 2005 settist hann í helgan stein og flutti til Aþenu í Grikklandi. Frede lést í sundi á Kórinþuflóa 11. ágúst 2007. Fyrrverandi kona Fredes er Dorothea Frede en sambýliskona hans var Katerina Ierodiakonou. Þær eru báðar sérfræðingar um fornaldarheimspeki. Tenglar. Frede, Michael Frede, Michael Frede, Michael AMD. Advanced Micro Devices, Inc. (eða AMD;) er bandarískt fyrirtæki sem framleiðir örgjörva og hálfleiðara. Motorola. Motorola Inc. er bandarískt fyrirtæki sem framleiðir og selur farsíma, örgjörva og net. Toshiba. () er japanskt fyrirtæki sem framleiðir hálfleiðara, heimilistæki og stafræn tæki. Siemens AG. Siemens AG (,) er þýskt fjölþjóðafyrirtæki sem selur boðskipta-, rafmagns-, flutnings- og læknatæki og ljósabúnað. Siemens var stofnað af Werner von Siemens í Berlín árið 1847, en höfuðstöðvar fyrirtækisins voru fluttar til München eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Hjá Siemens starfa um 475.000 manns (á heimsvísu 2007). Pentium. Pentium er gerð af örgjörvum sem eru framleiddir af Intel. Nafnið „Pentium“ er frá gríska orðinu "penta" („fimm“). NASDAQ. NASDAQ ("National Association of Securities Dealers Automated Q'"uotations system") () er bandarísk kauphöll. Kauphöllin í London. Kauphöllin í London (eða LSE) (, enska: "London Stock Exchange") er bresk kauphöll staðsett í London á Bretlandi. Stofnuð 1801 er hún ein stærsta kauphallirnar í heimi. Mörg erlend fyrirtæki eru skráð við kauphöllina. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru við Paternoster Square nærri Sankt Pauls-dómkirkja, London. Kauphöllin í Frankfurt. Kauphöllin í Frankfurt (þýska: "Frankfurter Wertpapierbörse" eða "FWB") er þýsk kauphöll í Frankfurt í Þýskalandi. Hún er sú stærsta í Þýskalandi og ein sú mikilvægasta í heimi. Nár. Lík eða nár er líkami manns eftir að lífi hans lýkur. Andvana líkami dýrs nefnist aftur á móti "hræ", en er stöku sinnum einnig haft um dauðan mann. Kristnir menn jarðsetja lík í kirkjugörðum eða sérstökum grafreitum. Orðskýring. "Lík" þýðir hvortveggja (lifandi) líkami, þó það sé oftast haft um líkama látins manns. (Líkami þýðir í raun "lík-hamur"). Önnur orð sem haft er um andvana líkama (manna og dýra) eru orð eins og "epja" (gamalt orð), "hrör" (sem getur bæði þýtt dauði og lík) og "kilja" (frekar sjaldgæft). "Gálgnár" er lík af hengdum manni, "sænár" er sjórekið lík og "skernár" er lík sem finnst á skeri. Hlutabréfamarkaður. Hlutabréfamarkaður er fyrirtæki sem hefur aðstöðu fyrir verðbréfasala til að kaupa og selja birgðir og verðbréf. Frægt dæmi um hlutabréfamarkaði er NASDAQ. The Guardian. "The Guardian" (nefnt "The Manchester Guardian" þar til 1959) er breskt dagblað í eigu Guardian Media Group. Það var stofnað árið 1821 og er ólíkt öðrum breskum dagblöðum í því að vera í eigu stofnunar, Scott Trust. Það kemur út alla daga vikunnar nema sunnudaga í pappírstærðum Berliner. Aðalskrifstofurnar dagblaðsins eru í London og Manchester. "The Guardian" er miðvinstri dagblað. "The Guardian Weekly" er blað sem er dreift um allan heim og inniheldur efni frá "The Guardian" og "The Observer", systurblaði sínu, "The Washington Post" og "Le Monde". Árið 2009 var daglega dreifing "The Guardian" á Bretlandi um það bil 358.844 eintaka, eftir "The Daily Telegraph" og "The Times", en á undan "The Independent". Vefsíða "The Guardian", guardian.co.uk, er ein mesta heimsótt vefsíða á ensku. Essex. Essex (borið fram) er sýsla í Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðstaður sýslunnar er Chelmsford. Hæsti staður sýslunnar er Chrishall Common, 147 m.y.s., sem er í grennd við þorpið Langley, skammt frá mörkum Essex og Hertfordshire. Saga. Bærinn Colchester er í norðausturhluta sýslunnar og er elsti bærinn í Englandi, stofnaður áður en Rómverjar komu til landsins. Á tímum Rómverja kallaðist hann "Camulodunum". Upprunalega var Colchester höfuðstaður rómverska skattlandsins Brittaníu og hafði eigin myntsláttu. Árið 61 var borgin lögð í rúst í uppreisn Boudicu drottningar. Síðar varð London höfuðborg skattlandsins. Heitið "Essex" er engilsaxneskt og er dregið af fornensku orðinu "Ēastseaxe" sem þýðir „Austursaxar“, austlægt konungsríki Saxa. Konungsríkið Essex var stofnað árið 527 af konunginum Æscwine og spannaði það svæði norðan við Thames-ána og stóran hluta þess svæðis sem varð síðar Middlesex og Hertfordshire, en var síðar bundið við löndin austan við Lee-ána. Lönd Austursaxa lágu að löndum Engla frá Austur-Anglíu, það er að segja Norfolk, Suffolk og Cambridgeshire. Seinna varð konungsríkið Essex hluti konungsríkisins Englands og var þá gert að skíri. Sýsluráðið í Essex var stofnað árið 1889. Núverandi landamerki milli Essex og Austur-London urðu til árið 1965 þegar East Ham og West Ham urðu borgarhlutar London. Umdæmi. Það eru fjórtán umdæmi í Essex: Harlow, Epping Forest, Brentwood, Basildon, Castle Point, Rochford, Maldon, Chelmsford, Uttlesford, Braintree, Colchester og Tendring. Thurrock og Southend-on-Sea eru sameiningarumdæmi. Íbúar og byggðir. Fjölbreytt byggð er í sýslunni. Útþensla London inn í sýsluna er hindruð af svokölluðu „græna belti“, en í sýslunni eru þó tveir bæir, Basildon og Harlow, sem voru byggðir upp frá grunni til að hýsa fólk sem flutt hafði frá London eftir eyðilegginguna þar í seinni heimsstyrjöldinni. Báðir hafa vaxið heilmikið síðan. Eppingskógur takmarkar líka útþenslu frá London. Vegna nálægðar London við Essex fara margir íbúar sýslunnar daglega til London í vinnu, sérstaklega frá þeim bæjum þar sem lestarstöðvar eru. Í Bretlandi er oft grínast með staðalímyndina „Essex girl“, sem þýðir nánast sama og heimsk ljóska, en „Essex man“ er aftur á móti notað um óheflaða menn af verkamannastétt sem kjósa Íhaldsflokkinn. Fyrirhuguð er uppbygging í suðausturhluta sýslunnar, þar sem þegar eru þéttbýliskjarnarnir Southend og Thurrock á Thames Gateway-svæðinu. Í suðvesturhluta sýslunnar eru svæði sem hafa nánast runnið saman við London, til dæmis Buckhurst Hill og Chigwell, sem talin eru hluti af þéttbýli Stór-Lundúnasvæðisins. Norðan við „græna beltið“ er aðallega dreifbýli, nema bæirnir Colchester og Chelmsford. Í norðarhlutanum eru margir smábæir, þorp og smáþorp með húsum reistum úr hefðbundnum efnivið eins og timbri og múrsteini. Oft eru húsin þar með þökum úr leirhellum eða hálmi. Samgöngur. Aðalflugvöllurinn í Essex er London Stansted-flugvöllur og þaðan er flogið til ákvörðunarstaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Southend-flugvöllur, sem var áður einn fjölsóttasti flugvöllur á Bretlandi, er núna í endurbyggingu, en þaðan er þó flogið til Ermarsundseyja. Í sýslunni eru líka nokkrir litlir flugvellir, sumir þeirra voru gerðir á tímum fyrri eða seinni heimsstyrjaldarinnar. Nú eru þeir notaðir fyrir einkaflugvélar eða til flugkennslu. Höfnin í Tilbury er ein þriggja aðalhafna Bretlands, og höfnin í Harwich tengir Essex við Holland. Í Dartford er stór brú sem tengir Essex við Kent í suðri. Einnig er hægt að fara yfir Thames-ána með ferju. Um alla sýsluna er víðtækt almenningsamgangnakerfi. Hraðbrautirnar M25 og M11 liggja báðar yfir þvera sýsluna, og aðalvegirnir A12 og A13 liggja út frá London. Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar og önnur lestakerfi þjóna sumum hlutum sýslunnar. Iðnaður og viðskipti. Lakeside-verslunarmiðstöðin í Thurrock var ein fyrsta verslunarmiðstöð á Englandi og er enn vinsæl þrátt fyrir umferðartafir á M25-hraðbrautinni og samkeppni við Bluewater-verslunarmiðstöðina þar nálægt. Iðnaðarsvæði eru aðallega í suðurhluta Essex en annars staðar í sýslunni er aðallega stundaður landbúnaður. Bærinn Harlow er miðstöð fyrir rafeindavara-, vísinda- og lyfjafyrirtæki, og evrópskar höfuðstöðvar Ford-bílaverksmiðjanna eru í Brentwood. Í bænum Loughton er prentsmiðja sem prentar breska og erlenda peningaseðla. Mörg rafeindafyrirtæki hafa byggst upp í Chelmsford allt frá árdögum rafeindaiðnaðsins, og þar eru líka nokkur vátrygginga- og fjármálafyrirtæki. Gosframleiðandinn Britvic er einnig þar. Adobe Photoshop. Adobe Photoshop er myndvinnsluforrit frá bandaríska fyrirtækinu Adobe. Forritið er hluti af Creative Suite pakkanum sem Adobe hefur gefið út síðan árið 2003. Photoshop í til í tveimur útgáfum: Adobe Photoshop og Adobe Photoshop Extended, sem er sniðað að þrívíddarmyndvinnslu, kvikmyndavinnslu og myndgreiningu. Adobe Photoshop Extended fylgir öllum útgáfum af Creative Suite nema Design Standard-útgáfunni, sem fylgir venjulega Photoshop. Auk þess að gefa út Photoshop selur Adobe Photoshop Elements, sem er takmörkuð útgáfa ætluð fyrir heimilisnotkun, og Photoshop Lightroom, sem er ætlað ljósmyndurum og er í samkeppni við Aperture frá Apple. Árið 2008 gaf Adobe út Photoshop Express, sem er ókeypis vefforrit til að laga myndir á bloggsíðum og netsamfélögum. Útgáfa þessa forrits fyrir Android og iPhone var sett á markað árið 2011. Photoshop virkar með tölvum sem keyra Mac OS X eða Windows. Rafsegulhögg. Rafsegulhögg er höggbylgja, sem myndast í rafsegulsviði og varir aðeins nokkur hundruð nanósekúndur. Slíkt högg getur verið nægjanlega öflugt til þess að eyðileggja rafrásir í rafeindatækjum. Öflugt rafsegulhögg myndast við kjarnorkusprengingu. Vél. Vél er í vísindalegum skilningi fyrirbæri sem flytur eða umbreytir orku. Vél á í daglegu tali við um búnað sem vinnur eða aðstoðar við vinnu og samanstendur af hreyfanlegum hlutum. Dæmi um einfalda vél er vogarstöng sem samanstendur af hreyfanlegri vogarstöng og vogarás. Árstíð. Árstíð er tímabil ársins sem er venjulega miðuð við árlegar breytingar á veðri. Haust. Haust er ein af árstíðunum fjórum. Hinar eru vetur, vor og sumar. Á norðurhveli jarðar eru mánuðirnir september, október og nóvember almennt taldir til hausts, en á suðurhveli eru mánuðirnir mars, apríl og maí haustmánuðir. Veðurstofa Íslands telur haust vera október og nóvember. Á haustin styttir dag mjög hratt og í kjölfarið kólnar og gróður sölnar. Vor. Vor er ein af árstíðunum fjórum. Hinar eru sumar, haust og vetur. Á norðurhveli jarðar eru mánuðirnir mars, apríl og maí oftast taldir til vors, en á suðurhveli eru mánuðirnir september, október og nóvember vormánuðir. Veðurstofa Íslands telur vor vera mánuðina apríl og maí. Vor er sá tími ársins þegar daginn er að lengja hvað mest og í kjölfar þess hækkar meðalhitinn dag frá degi og gróður tekur við sér. Reykjavíkurkjördæmi. Reykjavíkurkjördæmi var eitt átta kjördæma vegna Alþingiskosninga árin 1959-1999. Kjördæmið tók yfir alla Reykjavíkurborg og var langfjölmennasta kjördæmið, bæði hvað varðar íbúafjölda og fjölda þingmanna. Eftir kjördæmabreytinguna 1999 hefur Reykjavíkurborg verið skipt í tvö kjördæmi: Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður Þingmenn Reykjavíkurkjördæmis. (*)Við uppstokkun vinstri flokkana kvaðst Kristín Ástgeirsdóttir ekki ætla í framboð fyrir hina nýju flokka í næstu kosningum, en það sem eftir lifði af kjörtímabilinu var hún félagi í þingflokki óháðra, sem seinna varð að Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Apple I. Apple I var fyrsta tölvan frá Apple. Hún var hönnuð og smíðuð með höndunum af Steve Wozniak. Félaginn Wozniaks Steve Jobs var með hugmynd til að selja tölvunni. Apple I var fyrsta varan frá Apple og var sýnd á Homebrew Computer Club í Palo Alto, Kaliforníu. Hún var sett á markað júlí 1976 og kostaði US$666,66. Bara voru 200 tölvar framleiddar og hver var seld sem pakki. IBook. iBook var Macintosh-fartölva frá Apple en iBook-tölvan var seld á árunum 1999–2006. Hún var aðallega ætluð fyrir mennta- og heimilistölvumarkaðinn og var mun ódýrari en til dæmis PowerBook og hin nýlega MacBook Pro fartölva. Þann 16. maí 2006 setti Apple á markað MacBook, sem tók við af iBook. EMac. eMac („education Mac“) var Macintosh-borðtölva frá Apple, upphaflega fyrir menntamarkaðinn. Hún var mun ódýrari en iMac tölvan, og hafði PowerPC G4 örgjörva og 17 þumlunga skjá. Apple setti eMac tölvuna fyrst á markað 29. apríl 2002. Þann 5. júlí 2006 hætti Apple að framleiða eMac. MacBook Pro. MacBook Pro er lína af Macintosh-fartölvum frá Apple fyrir atvinnumarkaðinn. Apple settu MacBook Pro fyrst á markað 10. janúar 2006, sem tók við af PowerBook G4 fartölvunum. Hún var fyrsta Macintosh-tölvan með Intel Core Duo og Intel Core 2 Duo örgjörva. MacBook Pro hefur 15.4 eða 17 þumlunga skjá. Mac Pro. Mac Pro er borðtölva framleidd af Apple. Tölvan inniheldur Intel Xeon örgjörva og PCI Express. Forveri hennar er Power Mac G5. Hún er öflugasta Macintosh-tölvan seld af Apple í dag. Apple kynnti Mac Pro tölvuna þann 7. ágúst 2006 á WWDC. Xserve. Xserve er netþjónn frá Apple. Þegar Xserve var kynnt árið 2002, var það fyrsti netþjónninn frá Apple síðan "Apple Networks Servers" frá 1996. Til að byrja meðkeyrði hann á einum eða tveimur PowerPC G4 örgjörvum, en þeim var seinna skipt út fyrir hina nýju PowerPC G5, og keyrir núna á einum til teim '2.8GHz-3.0GHz Quad-Core Intel Xeon “Harpertown”' örgjörva. Xserve kemur með 2-32GB aðalminni. Xserve er hægt að nota á mjög fjölbreyttan máta; t.d. sem skrámiðlara eða sem vefþjón. Hægt er að nota Xserve í hugbúnaðarklösun. Xserve G4. Apple kynnti Xserve 14. maí 2008. Upphaflega hafði hann einn til tvo PowerPC G4-örgjörva á 1.0Ghz hraða og studdu allt að 2 GiB af PC-2100 á 64 bita minnis-tengibraut, þrjú FireWire 400 tengi (þar af eitt að framan), tvö USB-tengi, RS-232 og stakt "onboard" tengi. Venjulega eru 64-bit/66 MHz PCI raufirnar Tvær fylltar með ATI Rage Myndkorti og gígabætis íðnetkorti ("ethernet" korti). Allt að fjögur UATA/100 harðdiskadrif (60 eða 120 Gígabæta) passa í 'hot-swap' raufir að framan, sem leyfir RAID (Redundant array of independent disks eða Redundant array of inexpensive disks)-0 og 1 að vera búin til. Xserve G4 er að lokum með CD ROM drif að framan. Tvær stillingar voru mögulegar: einn örgjörvi Xserve með 256 MiB minni á $2999 (með flutningi) og tvöfaldann örgjörva Xserve með 512 MiB minni á $3999 (flutningur með). Bæði selt með stökum 60 GB og Mac Os X v10.2 "Jaguar" Server. Þann 10. febrúar 2003 kynnti Apple bættann og uppfærðann Xserve "lineup". Bætingin innihélt einn eða tvo 1.33 Ghz PwoerPc G4 örgjörva, tvö FireWire 800 tengi, Fljótvirkara minni (PC-2700), og stærri UATA/133 harðdisksdrif (80 eða 160 GB). Svo var framplatan endurhönnuð fyrir betra CD-ROM drif. Nýtt módel, Xserve Cluster var seldur á sama verði og eins-örgjörva Xserve, með tvo 1.33 GHz örgjörva, ekkert fjarlægjanlegt drif, einn harðann dryve bay, engin mynd- eða net- (íðnet) kort, og 10-biðlara útgáfu af "Jaguar" server. Þann 2. apríl 2003 var Xserve RAID kynnt, skilandi mun meira minni og meiri afköstum undirkerfa diska fyrir Xserve. Xserve G5. 6. janúar 2004 kynnti Apple Xserve G5, endurhannaðan, afkastameiri Xserve. 32-bita PowerPC G4-arnir voru leystir af með einum til tveim 64-bita PowerPc 970 örgjörvum keyrandi á 2 GHz. Allt að 8 Gib af PC-3200 ECC minni var var stutt á 128-bita tengibraut. Eitt FireWire 400 tengi (framan), tvö FireWire 800, tvö USB 2.0 tengi, RS-232 og tvær innbyggðar gigabætis net (íðnet)-kort með TOE (TCP Offload Engine) sem gefa betri tengingu. 133Mhz/64-bita og 100MHz/64-bita PCI-X raufar brenndu upp aukastillingar. Kælingarvandamál héldu því í 3 SATA "hot-swap" dryve bays (80 eða 250 GB hver), með upprunalega plássinu fyrir fjórða drifið notað fyrir loftkælingu. Frampatan og geisladiskadrifið (CD-ROM, DVD-ROM/CD-RW valfrjálst) voru endurnýtt frá nýjustu útgáfunni af Xserve G4. Þrír stillingarmöguleikar voru mögulegir; staks-örgjörva Xserve G5 með 512 MiB af minni á $2999, tveggja-örgjörva Xserve G5 með 1 GiB af minni á $3999 og tveggja-örgjörva cluster node módel (með óbreytt útlit frá G4 cluster node með 512 GiB af minni, ekkert geisladrif, staka harðdisksrauf og 10-biðlara úgáfu af "Panther" Server á 2999, Minnisstækkunin og bandvíddin á Xserve G5 og sterkari flotpúnkts srammistaða PowerPC 970 gerði hann betur í sstakk búinn fyrir HPC forrit. System X er ein svoleiðis "cluster" talva byggð við Xservera. neðanmálsgreinar. Sum orðin eru afrituð beint úr ensku wikipediu. Aperture. Aperture er ljósmyndaforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. AppleWorks. AppleWorks var skrifstofuhugbúnaður frá Apple fyrir Mac OS og Microsoft Windows stýrikerfið. Apple Mighty Mouse. Apple Mighty Mouse („Apple ofurmúsin“) er fyrsta fjölhnappa USB-tölvumúsin sem Apple setti á markað. Hún birtist fyrst í verslunum þann 2. ágúst 2005. Músin er skírð í höfuðið á teiknimyndapersónunni Mighty Mouse og var það gert með góðfúslegu leyfi Viacom. ISight. iSight var netmyndavél frá Apple. Núorðið er iSight innbyggð í iMac, MacBook og MacBook Pro tölvur. Apple Cinema Display. Apple Cinema Display er tölvuskjár frá Apple. Tónlistarmyndband. Tónlistarmyndband er myndband með tónlist, venjulega með sönglist. ITunes Store. iTunes Store er tónlistarnetverslun frá Apple. Hún inniheldur mikið úrval af stafrænni tónlist, geisladiska, leiki, tónlistarmyndbönd, sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Cydonia (Mars). Cydonia er svæði á reikistjörnunni Mars. Storm Thorgerson. Storm Thorgerson (f. 28. febrúar 1944 í Potters Bar í Hertfordshire; látinn 18. apríl 2013) var enskur myndlistahönnuður. Hann var lykilmeðlimur myndlistahóps Hipgnosis, og hannaði margar af þeirra vinsælustu myndum á hulstrum stuttskífa og breiðskífa. Fjórmenningarnir. Fjórmenningarnir eru öfl mannsins til að valda eyðileggingu samkvæmt Biblíunni, sem samanstanda af Dauða, Stríði, Farsótt og Hungursneyð. Þeir koma fram í Biblíunni í Opinberunarbókinni, sjötta kafla. Í íslenski þýðingu Biblíunnar er sagt að Dauðinn ríði bleikum hesti, og er þá átt við að hann ríði ‚fölum‘ eða ‚laslegum‘ hesti. Floria Sigismondi. Floria Sigismondi (f. 1969 í Pescara á Ítalíu) er ljósmyndari og leikstjóri. Hún hefur leikstýrt tónlistarmyndböndum fyrir Amon Tobin, Billy Talent, Björk, Christina Aguilera, David Bowie, Incubus, Interpol, Marilyn Manson, Muse, Sheryl Crow, Sigur Rós, The Cure og The White Stripes. Tímaröð Macintosh-tölva. Hér eru allar Macintosh tölvurnar frá Apple í þeirri röð sem að þær voru kynntar. Steve Wozniak. Stephan Gary „Woz“ Wozniak (f. 11. ágúst 1950) er einn þriggja stofnenda Apple (hinir voru Steve Jobs og Ronald Wayne). Cupertino. Cupertino er borg í mið-Kalíforníu í Santa Clara-sýslu. Íbúar voru rúmlega 50.546 árið 2000. Höfuðstöðvar Apple eru í borginni. Final Cut Pro. Final Cut Pro er kvikmyndaforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Logic Express. Logic Express er tónlistarforrit og MIDIforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Logic Pro. Logic Pro er tónlistarforrit og MIDIforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Final Cut Express. Final Cut Express er kvikmyndaforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Shake (forrit). Shake er myndsmíðforrit frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Mac OS 9. Mac OS 9 var stýrikerfi frá Apple. Árið 2001 setti Apple á markað Mac OS X, sem tók við af Mac OS 9 stýrikerfinu. Helíodóros frá Emesa. Helíodóros frá Emesa var forngrískur rithöfundur sem er talinn hafa verið uppi á 3. öld. Hann er þekktur fyrir skáldsögu sína "Eþíópíusögu" (einnig nefnd "Þeagenes og Kariklea"). Longos. Longos (forngríska: Λόγγος) var forngrískur rithöfundur. Hann samdi söguna "Dafnis og Klói". Ekkert er vitað um ævi Longosar en talið er að hann gæti hafa búið á eynni Lesbos (sem er sögusvið "Dafnis og Kloe") á 2. öld Akkilles Tatíos. Akkilles Tatíos (á forngrísku Ἀχιλλεύς Τάτιος) frá Alexandríu var forngrískur rithöfundur sem er þekktur fyrir skáldsögu sína "Levkippe og Kleitofon". Lítið er vitað um ævi Akkillesar og heimildir um hann eru stundum villandi. Talið er að hann hafi verið uppi á 2. öld og hafi ritað sögu sína á undan Longosi. Karíton. Karíton (á forngrísku Χάριτον Ἀφροδισίας) frá Afródísías var forngrískur rithöfundur og höfundur skáldsögunnar "Ástir Kaereasar og Kallirhoe". Talið er að sagan sé frá 1. öld f.Kr. Ef það er rétt, þá er sagan elsta skáldsaga sem er varðveitt í heild sinni. Heimilistölva. Heimilstölva er heiti á tölvum, sem komu fyrst á markað á 8. áratug 20. aldar og voru nægjanlega smáar og ódýrar til að einstaklingar hefðu efni á að kaupa þær og nota heima fyrir. Heimilistölvur voru yfirleitt ekki eins öflugar og tölvur sem voru ætlaðar fyrirtækjum, en gátu verið með litaskjá og stuðning við hljóð. Heimilistölvur voru ætlaðar fyrir leiki, einfalda ritvinnslu og heimilisbókhald. Macintosh. Macintosh (enskur framburður:), líka þekkt sem Mac eða Makki á íslensku, er vörumerki tölvulínu frá Apple. Nafnið kemur frá McIntosh sem er eplategund og það var uppáhalds eplið hans Jef Raskin sem vann hjá Apple 1979. Fyrsta Macintosh-tölvan kom á markaðinn þann 24. janúar 1984: Macintosh 128K. Allar núverandi Mac-tölvur eru með Thunderbolt-tengi sem þróað var af Apple og Intel. Intel Core. Intel Core er tegund 32-bita, x86 örgjörva, sem eru framleiddir af Intel og komu fyrst á markað 5. janúar 2006 undir heitinu Yonah. Hönnun Intel Core byggist á Pentium-örgjörvanum. Helstu örgjörvarnir nefnast Intel Core Solo og Intel Core Duo. Final Cut Studio. Final Cut Studio er kvikmyndaforritssvíta frá Apple fyrir Mac OS X stýrikerfið. Íhlutar. Final Cut Studio 2 inniheldur sex aðalforrit og nokkur lítil forrit. Ronald Wayne. Ronald Gerald Wayne (f. 1934) er einn þriggja stofnenda Apple (hinir voru Steve Jobs og Steve Wozniak). The Black Eyed Peas. Black Eyed Peas (BEP) er bandarísk hip hop hljómsveit sem stofnuð var í Los Angeles. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Will.I.Am, Apl.De.Ap, Taboo og Fergie. Síðan sveitin gaf út plötuna Elephunk árið 2003, sem gerði þau fræg, hafa plötur hljómsveitarinnar selst í meira en 18 milljónum eintaka út um allan heim og seldar hafa verið 9 milljónir smáskífa. Nýjasta stúdio-plata þeirra heitir The E.N.D og kom hún út í júní 2009. Sveitin er ein af ellefu listamönnum sem hafa átt lög í fyrsta og öðru sæti Billboard listans á sama tíma. 1998–2001: "Behind the Front" og "Bridging the Gap". Popp-hljómsveitin skrifaði undir samning hjá Interscope og gaf út fyrstu plötuna sína "Behind the Front" árið 1998. Platan náði athygli gagrýnenda. Platan innihélt smellinn „Joints & Jams“, sem var notað í myndinni Bulworth. Önnur plata þeirra, "Bridging the Gap", kom út árið 2000; hún innihélt lagið „Request Line“ og söng Macy Grey með þeim. Platan seldist í 1,2 milljónum eintaka. 2003-2004: "Elephunk". Black Eyed Peas árið 2001 Platan sem kom sveitinni á kortið var "Elephunk" sem kom út árið 2003. Þetta var fyrsta platan þar sem Fergie (Stacy Ferguson) söng með þeim en hún kom í staðinn fyrir bakraddasöngkonuna Kim Hill, sem hætti árið 2000. Upphaflega var áætlað að Nicole Scherzinger (aðalsöngkona The Pussycat Dolls) myndi ganga til liðs við sveitina. Hún neyddist til að neita vegna þess að hún var meðlimur Eden's Crush og samningsbundin. Seinna kynnti hún Fergie fyrir Will.I.Am. Fyrsta smáskífan sem kom út af plötunni Elephunk var Where is the Love? (e. "Hvar er ástin?") og söng Justin Timberlake með sveitinni og varð lagið fyrsti slagari sveitarinnar. Lagið var mjög vinsælt í Bandaríkjunum en það varð einnig vinsælt í Bretlandi og Ástralíu. Lagið „Shut up“ varð líka mjög vinsælt í þessum löndum. Elephunk varð vinsæl um allan heim og fór hún í gull og platínu í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og í fleiri Evrópulöndum. Þriðja smáskífa plötunnar, þrátt fyrir að vera í annarri útgáfu en á plötunni, var „Hey Mama“ og náði það allnokrum vinsældum. Það varð ennþá vinsælla þegar það var notað í auglýsingum. Lagið „Let's Get Retarded“ var endurútgefið sem „Let's Get It Started“ fyrir alþjóðlega auglýsingu fyrir NBA. Lagið náði þónokkrum vinsældum. Á disknum er það aukalag og er á undan hinu aukalaginu, „Third Eye“. Laginu gekk vel sem smáskífa, sérstaklega í iTunes og var það notað í myndinni Harold & Kumar Go to White Castle. Lagið fékk Grammy-verðlaun árið 2005 fyrir bestu rapp-frammistöðu í dúói eða hópi. Þau tóku aftur upp lögin „Let's Get It started“ og „Shut Up“ ásamt öðrum lögum á simsku, tungumáli karakteranna í Sims-leiknum. Þessar útgáfur voru notaðar í auglýsingum fyrir iMac G5. Árið 2004 fór The Black Eyed Peas í heimstónleikaferð og komu þau við á mörgum stöðum, meðal annars sums staðar í Afríku og Evrópu. Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur og Rúnar - Lög Oddgeirs Kristjánssonar. Sextett Ólafs Gauks er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur Jakobsdóttir og Rúnar Gunnarsson fjórtán lög eftir Oddgeir Kristjánsson. Hljóðritun hljómplötunnar fór fram í upptökusal sjónvarpsins og sá Jón Þór Hannesson um hljóðritun. Myndina frá Vestmannaeyjum á framhlið plötunnar tók Oddgeir Kristjánsson. Myndina af sextett Ólafs Gauks tók Óli Páll. Setningu á bakhlið annaðist Prentsmiðja Jóns Helgasonar en um myndamót og prentun sá Kassagerð Reykjavíkur. Kirkjukór Akureyrar - Oss berast helgir hljómar. Oss berast helgir hljómar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Kirkjukór Akureyrar jólalög. Stjórnandi, Jakob Tryggvason, organleikari Haukur Guðlaugsson. Hljóðritun fór fram í Mattíasarkirkju, Akureyri undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Þrír Akureyringar eiga heiðurinn af útliti plötuumslagsins, þeir Kristján Kristjánsson, sem teiknaði það, Eðvarð Sigurgeirsson, sem tók ljósmyndina af kirkjunni og Matthías Gestsson, sem tók myndina af kórnum. 30 Seconds to Mars. 30 Seconds to Mars af MTV Video Music Awards. 30 Seconds to Mars (einnig skrifað "Thirty Seconds to Mars") er bandarísk alternative-metal hljómsveit. Saga. 30 Seconds to Mars (Thirty seconds to Mars) var stofnuð árið 1998 af Jared Leto og bróður hans Shannon Leto. Árið 2001 bættist Matt Wachter í hópinn og spilaði hann á bassa og hljómborð frá 2002-2007. Eftir að hafa spilað með nokkrum gítarleikurum, sem hættu allir vegna vandamála tónlistarferðalaga, kom Tomo Miličević til sögunnar. Hann kom árið 2003 og spilar enn með bandinu. Núna skipa hljómsveitina leikarinn Jared Leto, sem er söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar, Tomo Miličević, sem er gítarleikari og hljómborðsspilari, og Shannon Leto trommuleikari. Hljómsveitin leikur progressive rokk og er á mála hjá útgáfufyrirtækinu Virgin Records. Hljómsveitin á tónleikum í Þýskalandi 2007. "30 Seconds to Mars" (2002-2005). Árið 2002 gaf hljómsveitin út fyrstu plötu sína (30 Seconds to Mars). Þeir gáfu út tvær smáskífur, Capricorn (A brand new name) og Edge of the earth. "A Beautiful Lie" (2005-2009). 30. ágúst 2005 gaf hljómsveitin út sína aðra plötu (A Beatuiful Lie). Platan lak inn á netið fimm mánuðum áður en hún var gefin út svo að hún inniheldur tvö aukalög („Battle of one“ og útgáfu af „Hunter“ eftir Björk) og eitt falið lag (Praying for a riot). Einnig voru settir gullmiðar í tólf eintök. Þeir sem fengu þessa miða gátu farið á alla tónleika með bandinu frítt og fengið baksviðspassa. Bandið stefnir á að gefa út sína þriðju plötu vor 2009. Tónleikaferðalög. Í október 2006 fór hljómsveitin í „Welcome to the universe“ tónleikaferðalag sem var styrkt af MTV2. Þeir voru studdir í þessu tónleikaferðlagi ásamt hljómsveitum eins og Head Automatica, The Receiving End of Sirens, Cobra Starship, Rock Kills Kid og nokkrum öðrum hljómsveitum. Tónleikaferðalagið var umhverfisvænn og var t.d. rútan þeirra knúin áfram af grænmetisolíu. Sumarið 2007 studdi 30 Seconds to Mars hljómsveitina The Used í Taste of Chaos tónleikaferðalagi og nokkra tónleika með Linkin Park. Einnig spiluðu þeir á Roskilde, Rock am Ring, Pinkpop, Give It A Name hátíð og Download. Hljóðrás. "Echelon" „The Core“ (2003) Hljómar - Hljómar II. Hljómar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytja Hljómar tólf lög. Hljómplatan var hljóðrituð í stereo í London. Yfirumsjón með hljóðritun hafði Tony Russell. Ljósmynd á plötuumslagi tók Dezo Hoffman, London. Buxur. Buxur eru tegund klæðnaðar sem hylur mjaðmir og fótleggi. Buxur eru fleirtöluorð, og því tala menn um tvennar buxur, en ekki tvær. Ómar Ragnarsson - Gáttaþefur á jólaskemmtun. Gáttaþefur á jólaskemmtun með börnunum er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Ómar Ragnarsson ásamt telpnakór úr Álftamýrarskóla tólf jólalög. Útsetningar og hljómsveitarstjórn. Magmús Ingimarsson. Ljósmyndir. Óli Páll Kristjánsson. Lögmannshlíðarkirkja. Lögmannshlíðarkirkja var vígð á aðventu árið 1860. Hún tilheyrir Glerárprestakalli (Lögmannshlíðarsókn) í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Lögmannshlíðarkirkja var sóknarkirkja þar til að Glerárkirkja tók við því hlutverki fyrir Lögmannshlíðarsókn árið 2002. Ágrip af sögu Lögmannshlíðarkirkju. Þó svo að Lögmannshlíð hafi aldrei verið eiginlegt prestssetur hefur staðið kirkja þar frá fornu fari. Núverandi kirkja er arftaki torfkirkju sem hafði verið reist 1792. Það var Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni (1796-1882) sem hafði frumkvæði að kirkjubyggingunni, útvegaði efni og réði smið. Yfirsmiður var Jóhann Einarsson frá Syðri-Haga á Árskógsströnd. Endanlegur reikningur vegna kirkjusmíðarinnar sem var gerður 31. ágúst 1866 sýnir að bygging kirkjunnar kostaði 1.157 ríkisdali og 11 skildinga. Í vísitasíubók Eyjafjarðarprófastsdæmis er að finna lýsingu Daníels prófasts Halldórssonar frá 1862. Þar er kirkjan sögð 15 og 1/2 al að lengd, byggð á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring, klædd að utan með slagborðum og alþiljuð að innan með slagborðum. Smíði á húsinu er sögð vönduð og tekið fram að máttarviðir kirkjunnar séu sterkir. Með nýrri prestakalla- og sóknaskipan árið 1880 varð Lögmannshlíðarsókn hluti af Akureyrarprestakalli og tilheyrði þá ekki lengur Glæsibæjarprestakalli. Árið 1981 var prestakallinu skipt og nýtt prestakall varð til á Akureyri, Glerárprestakall. Lögmannshlíðarsókn og þar með Lögmannshlíðarkirkja tilheyrðu hinu nýja prestakalli. Lögmannshlíðarkirkju er vel við haldið í dag og fara þar fram stöku sinnum kirkjulegar athafnir og helgihald. Systkinin Vilhjálmur og Elly Vilhjálms - Syngja saman. Vilhjálmur og Elly Vilhjálms er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytja systkinin Vilhjálmur og Elly Vilhjálms tólf lög. Magnús Ingimarsson hefur útsett lögin, hann leikur einnig á píanó og orgel auk þess sem hann stjórnar hljómsveit og kór. Hljóðritun fór fram hjá Ríkisútvarpinu undir stjórn Knúts Skeggjasonar. Forsíðumynd tók Óli Páll Kristjánsson. Hljómplatan var endurútgefin á hljómdiski af Íslenskum Tónum árið 2006 með nýrri kápumynd og heitinu "Vilhjálmur og Elly Vilhjálms - Systkinin syngja saman". Árið 2009 var platan valin í 43. sæti yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum Tónlist.is. Bessi Bjarnason - Vísur Stefáns Jónssonar. Bessi Bjarnason er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni syngur Bessi Bjarnason hinar góðkunnu barnavísur Stefáns Jónssonar. Útsetningar, kór- og hljómsveitarstjórn, Magnús Pétursson. Hljóðritun fór fram hjá Rikisútvarpinu undir stjórn Guðmundar R. Jónssonar. Ljósmyndir tók Óli Páll Kristjánsson. Stúlknakór úr Melaskóla. Aftari röð frá vinstri (sjá mynd á bakhlið plötuumslags): Una Árnadóttir, Jóhanna E. Hilmarsdóttir, Erla Hallbjörnsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Anna Guðný Ásgeirsdóttir og Regína E. Grettisdóttir. Fremri röð frá vinstri: Þórunn Hulda Guðmundsdóttir, Anna Lind Sigurðsson, Guðrún J. Karlsdóttir, Guðný Guðmundsdóttir og Svava Loftsdóttir. Guðmundur Jónsson - Lax lax lax. Guðmundur Jónsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytur Guðmundur Jónsson tólf dægurlög ásamt eftirfarandi hljóðfœraleikurum og söngfólki: Magnús Ingimarsson, píanó, orgel og celeste; Pétur Östlund, trommur; Árni Scheving, bassi, óbó og klukkuspil; Birgir Karlsson, gítar; Þorvaldur Steingrímsson, fiðla; Jónas Dagbjartsson, fiðla; Herdís Gröndal, fiðla; Sveinn Ólafsson, lágfiðla; Jóhannes Eggertsson, celló; Rúnar Georgsson, tenór-saxó-fónn og flauta; Jósep Magnússon, flauta; Stefán Stephensen, horn og Örn Ármannsson, gítar. Söngfólk: Ásta Hannesdóttir, Eygló Viktorsdóttir, Ingunn Sigurðardóttir, Magnea Hannesdóttir, Oktavía Stefánsdóttir, Sigriður Guðmundsdóttir, Sigríður Maggý Magnúsdóftir, Aðalsteinn Guðlaugsson, Árni Sveinsson, Ásgeir Hallsson, Einar Ágústsson, Einar Þorsteinsson, Hákon Oddgeirsson og Þorsteinn Helgason. Útsetningar, kór- og hljómsveitarstjórn: Magnús Ingimarsson. Hljóðritun fór fram hjá Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. SG-hljómplötur hafa ekki fyrr hvatt jafnmarga til starfa eins og á þessari hljómplötu, og kann fyrirtœkið öllu þessu fólki þakkir fyrir — því enginn vafi leikur á, að þessi plata, sem gefin er út í tilefni af fimm ára afmœli fyrirtœkisins, er einhver vandaðasta hljómplata, sem út hefur verið gefin hér á landi. Forsíðumynd: Óli Páll Kristjánsson. Nútímabörn - Nútímabörn. Nútímabörn er 33 snúninga LP hljómplata með hljómsveitinni Nútímabörn gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristinn Benediktsson. Curitiba. Kort sem sýnir Curitiba unnan Paraná Curitiba er stórborg í Paraná-fylki í Brasilíu með yfir 1,8 milljón íbúa. Paraná (fylki). Paraná er fylki í Suður-Brasilíu. Fylkishöfuðborgin er Curitiba. Olíuhreinsistöð. Olíuhreinsistöð er iðnaðarstöð þar sem unnar eru nothæfar afurðir úr hráolíu, svo sem bensín, dísil- og steinolía. Hugmyndir hafa verið uppi um að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þann 15. ágúst 2007 samþykkti bæjarstjórn Vesturbyggðar að breyta deiliskipulagi í sveitarfélaginu og hliðra þannig til fyrir byggingu olíuhreinsistöðvar í Hvestudal í Arnarfirði. Öryggi og mengun. Við hreinsun hráolíu losna ýmis eiturefni út í andrúmsloftið, auk þess sem af olíuhreinsistöðvum stafar sprengihætta. Þetta er ein helsta ástæða þess að olíuhreinsistöðvar eru reistar í töluverðri fjarlægð frá íbúðabyggð. Fnykur og hávaði fylgja einnig starfsemi stöðvanna og þær hafa sumstaðar mengað grunnvatn. Í Bandaríkjunum er hörð andstaða gegn opnun meiriháttar olíuhreinsistöðva, og engin stór stöð hefur verið reist þar í landi síðan 1976 en það ár reis ein í Garyville, Louisiana. Þær stöðvar sem reistar voru fyrir þann tíma hafa þó breitt úr sér og stækkað á síðustu árum. Á síðustu árum hafa einnig óvenju margar olíuhreinsistöðvar í Bandaríkjunum lagt niður starfsemina (fleiri en 100 síðan á níunda áratugnum) og er það helst vegna úreldingar eða samruna fyrirtækja. Heima. "Heima" er heimildamynd um hljómsveitarferðalag Sigur Rósar um Ísland sumarið 2006. Hljómsveitin spilaði meðal annars á Miklatúni, Ásbyrgi, Seyðisfirði, Kirkjubæjarklaustri og fleiri stöðum um allt Ísland. Kvikmyndin var frumsýnd á opnunardegi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík 27. september 2007. Apple Store. Apple Store er verslanakeðja í eigu Apple Inc. sem selur tölvur og raftæki. Í september 2007 stafrækti Apple 194 verslanir, þar af 172 í Bandaríkjunum, tíu í Bretlandi, sjö í Japan og fjórar í Kanada og eina á Ítalíu. Brátt verður einnig opnuð búð í Ástralíu. Hönnun og saga. Verslanarnirnar selja Apple-tölvur, forrit, iPod tónlistarspilara, iPhone farsímann, fylgihluti og einnig heimilistæki á borð við Apple TV. Í mörgum verslunum eru kvikmyndasalir fyrir kynningar og námskeið. Svokallaður „snillingsbar“ ("e. Genius Bar") er til staðar í öllum verslununum en þar geta viðskiptavinir leitað ráða varðandi tæknileg vandamál. Þar fara einnig allar viðgerðir fram sem framkvæmdar eru í verslununum. Fyrstu tvær verslanirnar voru opnaðar þann 19. maí 2001 í Glendale, Kaliforníu og Tysons Corner, Virginíu. PostSecret. PostSecret er verkefni sem Frank Warren hóf í byrjun ársins 2005 þar sem fólk sendir inn nafnlaus póstkort með leyndarmálum sínum sem hann setti svo upp á vefsíðu verkefnisins. Margir hafa notað þennan vef til að smíða alls kyns bréf, einkum þau sem tengjast ástinni. Ýmsir - Jólin hennar ömmu. Jólin hennar ömmu er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytja ýmsir efni tengt jólum. Útsetningar, píanóleikur, kór- og hljómsveitarstjórn var Magnús Pétursson. Hljóðfæraleikarar: Sigurður Ísólfsson á orgel, Karl Lilliendahl á gítar og Árni Scheving á bassa. Hljóðritun samtals ömmu og barnanna fór fram í Ríkisútvarpinu. Hljóðritun sálmasöngs í Fríkirkjunni í Reykjavík. En hljóðritun heimsóknar jólasveinsins í veitingahúsi í Reykjavík fyrir fáum árum. Hljóðritun meginefnis annaðist Pétur Steingrímsson. Teikningu á framhlið gerði Halldór Pétursson, en ljósmynd á bakhlið tók Óli Páll Kristjánsson. Efnið er sett saman í leikritsform af Svavari Gests, Þrjú á palli - Þið munið hann Jörund - Eitt sumar á landinu bláa. Þrjú á palli - Eitt sumar á landinu bláa er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Þrjú á palli söngva úr leikriti Jónasar Árnasonar, „Þið munið hann Jörund“. Ljóðin eru eftir Jónas Árnason, en lögin eru fyrst og fremst írsk þjóðlög, en þó einnig skosk og ensk. Hljómplatan var hljóðrituð í Marquee-studio í London. Þórir Baldursson hafði umsjón með hljóðritun og útsetti jafnframt fyrir þau aukahljóðfœri, sem heyrast í fáeinum laganna. Aðrar útsetningar gerði Páll Einarsson. Steinþór Sigurðsson leikmyndateiknari átti hugmyndina að framhlið plötuumslagsins og valdi muni þá sem eru á mynd, en muni þessa lánaði Þjóðminjasafn Íslands góðfúslega. Myndina tók Kristján Magnússon. William McKinley. William McKinley var 25. forseti Bandaríkjanna. Hann fæddist 29. janúar 1843 í Niles í Ohio. Hann var myrtur 14. september 1901 í Buffalo, New York. McKinley, William Veldismengi. Veldismengi er mengi, sem venslað er öðru mengi "A" þannig að stök þess eru öll hlutmengi mengisins "A", táknað formula_1. Setjum að mengi "A" sé endnalegt með "n" stök, en þá er fjöldi staka í veldismenginu formula_2 = 2"n". Fjöldatala veldismengis tiltekins mengis, er alltaf stærri en fjöldatala þess mengis. Ekki er til mengi allra fjöldatalna, því veldismengi slíks mengis hefði þá hærri fjöldatölu en mengið sjálft. Katalónska. Katalónska ("català") er indóevrópskt tungumál af ætt rómanskra tungumála. Málið á uppruna sinn í latínu. Það telst til undirflokksins "oksítanórómönsk" mál. Elísabetartímabilið. Elísabetartímabilið er tímabil í sögu Englands sem miðast við ríkisár Elísabetar 1. 1558 til 1603. Oft er litið á Elísabetartímabilið sem eins konar gullöld þegar enska endurreisnin náði hátindi sínum í bókmenntum og leiklist. Á þessum tíma varð England sjóveldi sem gat staðið gegn stórveldunum Spáni og Portúgal á úthöfunum. Landkönnun og landnám Englendinga á þessum tíma lagði þannig grunninn að breska heimsveldinu. Elísabetartímabilið var lokaskeið valdatíma Túdorættarinnar. Ozzy Osbourne. Ozzy Osbourne (f. John Michael Osbourne 3. desember, 1948 í Aston, Birmingham, Englandi) er söngvari rokksveitarinnar Black Sabbath. Hlutfall. Hlutfall er samband tveggja talna "n" og "m", þar sem "n" almennt brot: "n"/"m" eða "n":"m", sem tugabrot eða hundraðshluta. Algeng hlutföll eru "hálfur", "þriðjungur" og "fjórðungur". Dæmi: „Helmingurinn féll á prófinu“, „1 af hverjum 3 lesa blöðin daglega“, eða „25% þjóðarinnar eru ólæs“. Hlutföll geta einnig verið óræð, t.d. pí, sem er ummál hrings á móti þvermáli og gullinsnið, sem algengt er í byggingarlist og myndlist. Í ljósmyndun og sjónvarpstækni er oftast notast við hlutföllin 3/2, 4/3 og 1/1, en breiðskjár hefur hlutföllin 16/9. Tákn. Stærðfræðitáknið ∝ gefur til kynnaað tvö gildi séu í beinu hlutfalli við hvort annað, formula_1 merkir til dæmis að A sé í beinu hlutfalli við B. Ef formula_2 þá væri formula_3. Unicode-táknið fyrir þetta er U+221D. Norðausturleiðin. Norðausturleiðin sýnd með rauðum lit. Norðausturleiðin (rússneska: "Се́верный морско́й путь") er siglingaleið milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins meðfram norðurströnd Rússlands. Stærstur hluti leiðarinnar er í ísi lögðu Norður-Íshafinu og hlutar hennar eru aðeins lausir við ís tvo mánuði á ári. Norðausturleiðin var, ásamt Norðvesturleiðinni, eftirsótt skipaleið þar sem hún styttir mjög ferðatímann frá Evrópu til Kína og Indlands, sérstaklega áður en Súesskurðurinn og Panamaskurðurinn voru opnaðir. Fyrstu könnunarleiðangrar á Norðurslóðum voru tilraunir til að finna þessar leiðir. Pómorar höfðu áður notað siglingaleið sem náði að ósum Jenisejfljóts. Meðal þeirra sem könnuðu Norðurslóðir í leit að Norðausturleiðinni voru Willem Barents, Henry Hudson, Semjon Desnjev og Vitus Bering en tveir þeir síðarnefndu náðu að sigla alla leiðina með hléum vegna íss. Með tilkomu útvarpssenda, gufuskipa og ísbrjóta varð fyrst mögulegt að nýta Norðausturleiðina til reglulegra siglinga. Sovétríkin lögðu mikla áherslu á notkun hennar og formleg opnun skipaleiðar norður fyrir Rússland var 1935. Þessari skipaleið hefur hnignað frá upplausn Sovétríkjanna 1990. Hafnir. Nokkrar hafnir á leiðinni eru íslausar allt árið. Þær eru (frá vestri til austurs): Múrmansk á Kólaskaga, Petropavlovsk á Kamtsjatka og Magadan, Vanino, Nakodka og Vladivostok í Kyrrahafinu. Aðrar hafnir eru yfirleitt nothæfar frá júlí fram í október eða er haldið opnum af kjarnorkuknúnum ísbrjótum. Hinrik 4. Frakkakonungur. Hinrik 4. Frakkakonungur eða Hinrik 3. af Navarra (13. desember 1553 – 14. maí 1610) var konungur Navarra frá 1572 og konungur Frakklands frá 1589. Hann var fyrsti konungurinn af ætt Búrbóna sem var grein af ætt Kapetinga. Konungur Navarra. Hinrik var sonur Jóhönnu 3., drottningar Navarra, og eiginmanns hennar, Antons hertoga af Vendôme, sem fékk titilinn Konungur Navarra þegar hann gekk að eiga Jóhönnu. Hún var eindreginn húgenotti og gerði kalvínisma að ríkistrú í Navarra en Antoine virðist ekki hafa haft mikla trúarsannfæringu því hann skipti hvað eftir annað um trúarbrögð. Hinrik var skírður til kaþólskrar trúar en alinn upp sem mótmælandi og hóf þátttöku í Frönsku trúarbragðastyrjöldunum á unglingsaldri. Móðir Hinriks dó 9. júní 1572 og hann tók þá við völdum í Navarra (faðir hans hafði látist 1562). Áður en Jeanne dó hafði verið gengið frá samkomulagi um að Hinrik gengi að eiga Margréti af Valois, systur Karls 9. Frakkakonungs og dóttur Hinriks 2. og Katrínar af Medici. Brúðkaupið var haldið í París 19. ágúst um sumarið en þann 24. ágúst hófust Bartólómeusarvígin og leiðtogum húgenotta sem höfðu komið til borgarinnar til að vera við brúðkaupið var slátrað og í kjölfarið öllum mótmælendum sem til náðist í París. Hinrik skapp naumlega með hjálp konu sinnar og neyddist til að játa kaþólska trú. Hann var kyrrsettur við frönsku hirðina en snemma árs 1576 tókst honum að komast til Suður-Frakklands, þar sem hann afneitaði kaþólskunni og gerðist að nýju einn af leiðtogum húgenotta. Árið 1584 dó Frans hertogi af Anjou, yngsti bróðir Hinriks 3., þáverandi Frakkakonungs. Samkvæmt þeim erfðalögum sem giltu um frönsku krúnuna áttu systur konungs og börn þeirra engan erfðarétt og svo vildi til að næsti erfingi að krúnunni var Hinrik Navarrakonungur, sem var afkomandi Loðvíks 9. Frakkakonungs í karllegg. En þar sem hann var húgenotti voru leiðtogar kaþólikka afar ósáttir og þetta hratt af stað nýrri lotu í Frönsku trúarbragðastyrjöldunum, sem hefur verið kölluð „stríð Hinrikanna þriggja“, það er að segja Hinriks Frakkakonungs, Hinriks Navarrakonungs og Hinriks hertoga af Guise, helsta herforingja kaþólikka, sem sjálfur er sagður hafa haft augastað á krúnunni. Um jólin 1588 leiddi Hinrik Frakkakonungur svo Hinrik hertoga og bróður hans, kardínálann af Guise, í gildru og lét lífverði sína drepa þá. Sjálfur var hann drepinn af launmorðingja 2. ágúst 1589. Konungur Frakklands. Hinrik af Navarra varð þá konungur Frakklands en gekk ekki þrautalaust að ná völdum. Kaþólska bandalagið barðist af krafti á móti honum en það sem meðal annars háði baráttu þess var skortur á heppilegum valkosti í hásætið. Reynt var að lýsa föðurbróður Hinriks, Karl kardínála af Bourbon, konung en sá hængur var á að hann var fangi Hinriks. Þegar hann dó ári siðar studdu kaþólikkar Ísabellu Klöru Evgeníu, dóttur Filippusar 2. Spánarkonungs og Elísabetar af Valois, systur Hinriks 3., en það mætti mikilli mótstöðu því margir óttuðust aukin áhrif Spánverja. Hinrik tókst þó ekki að ná París á sitt vald. En 25. júlí 1593 afneitaði Hinrik kalvínismanum og gerðist kaþólikki til að tryggja sér stuðning þegna sinna. Húgenottar voru vitaskuld ósáttir við þá ákvörðun en sú saga hefur lengi verið sögð að Hinrik hafi sagt „París er þó alltaf einnar messu virði“. Hann var krýndur konungur Frakklands 27. febrúar 1594. Árið 1598 gaf hann út Nantes-tilskipunina sem tryggði mótmælendum trúfrelsi og batt þar með enda á borgarastyrjöldina. Hinrik var vinsæll hjá þegnum sínum, sem kölluðu hann Hinrik mikla (Henri le Grand), Hinrik góða (Le bon roi Henri) eða græna glæsimennið (Le vert galant), sem vísar meðal annars til kvenhylli hans. Hann var líka hermannlegur, glaðvær, djarfur og hraustur, algjör andstæða við síðustu konungana af Valois-ætt, sem voru heilsuveilir, daufgerðir og stóðu í skugga móður sinnar, Katrínar af Medici. Hann hafði mikinn áhuga á velferð þegna sinna og var umburðarlyndur í trúmálum. Þó átti Hinrik marga óvini og voru honum sýnd nokkur banatilræði. Á endanum var hann myrtur af kaþólskum trúarofstækismanni, François Ravaillac. Hjónabönd. Hjónaband Hinriks og Margrétar af Valois var ekki hamingjusamt og þau eignuðust engin börn saman. Þau höfðu slitið sambúð áður en Hinrik tók við frönsku krúnunni en nú þurfti að tryggja ríkiserfðirnar. Sjálfur vildi hann reyna að láta ógilda hjónabandi og ganga að eiga ástmey sína, Gabrielle d'Estrées, sem hafði þegar fætt honum þrjú börn. Hann elskaði hana heitt og hún var einn helsti ráðgjafi hans. Sú fyrirætlun þótti mörgum mikið óráð en Hinrik stóð fastur við sitt og sótti um ógildingu hjónabandsins og leyfi til að giftast aftur til páfa. Fáeinum dögum seinna, 9. apríl 1599, fæddi Gabrielle andvana son fyrir tímann og dó næsta dag. Páfi brást vel við ósk Hinriks og ógilti hjónaband hans og Margrétar. Í október árið 1600 gekk hann að eiga Maríu de'Medici, dóttur stórhertogans af Toskana. Hinrik var farinn að nálgast fimmtugt og bráðlá á að eignast erfingja. Á því varð heldur engin bið, sonurinn Loðvík fæddist ellefu mánuðum síðar og síðan fimm börn til viðbótar. Loðvík var aðeins átta ára þegar faðir hans var myrtur og var móðir hans gerð að ríkisstjóra. Þakning. Þakning í mengjafræði er haft um mengjasafn, sem uppfyllir það skilyrði að ef ákveðið mengi er hlutmengi í sammengi mengjasafnsins, þá er sagt að mengjasafnið sé "þakning" þess mengis. Ef mengjasafnið inniheldur aðeins opin mengi er talað um "opna þakningu". þá kallast C "þakning" mengisins X. Hlutþakning er önnur,þrengri" þakning sama mengis "X", þannig að sammengi hluttþakningarinnar er eiginlegt hlutmengi í sammengi þakningarinnar "C". Firðrúm. fyrir öll stök "x", "y" og "z" í "M". Firðrúm, þar sem sérhver Cauchyruna er samleitin, með markgildi í rúminu, er sagt fullkomið firðrúm. Firðrúm hafa mikilvæga eiginleika og koma mikið við sögu í náttúruvísindum. Fullkomið firðrúm. Fullkomið firðrúm er firðrúm sem hefur þann eiginleika að sérhver Cauchyruna í því hefur markgildi sem einnig er í firðrúminu. Dæmi: Mengi rauntalna er fullkomið, en ekki mengi ræðra talna, því til er Cauchyruna af ræðum tölum sem hefur óræða tölu sem markgildi. Staðall (stærðfræði). Staðall (einnig nefndur norm) í stærðfræði er tiltekið fall, táknað með einu eða tveim lóðréttum strikum sitthvoru megin við stak v í vigurrúmi "V", þ.e. ||v|| eða |v|, og gefur jákvæða tölu fyrir hvern vigur, nema núllvigurinn, en staðall hans er núll. Staðall er stundum kallaður "lengd" eða "stærð" staksins, þannig er staðall hliðstæða vigurrúms við firð í firðrúmi. Algengir staðlar vigurrúma. er algengasti staðallinni í R"n". gefur stærð vigurs skv. reglu Pýþagórasar. þar sem "p"≥ 1. ("p" = 1 og "p" = 2 gefa staðlana hér að ofan.) Eiginleikar staðla. Tveir staðlar ||•||α og ||•||β í vigurrúmi "V" eru sagðir "jafngildir" ef til eru jákvæðar rauntölur "C" og "D" þ.a. Cauchyruna. Cauchyruna er runa, nefnd eftir Augustin Louis Cauchy, þar sem fjarlægð tveggja samliggjandi staka minnkar eftir því farið er lengra frá fyrsta stakinu. þar sem formula_6 táknar fjarlægðina milli formula_7 og formula_8. Í fullkomnu firðrúmi hefur sérhver Cauchyruna markgildi í firðrúminu. Cauchyrunur gegna mikilvægu hlutverki í grannfræði og fallafræði. Mismengi. Mismengi, mismunamengi eða mengjamismunur er mengi, sem venslað er tveimur öðrum mengjum þannig að stök mismengis eru þau stök annars mengisins, sem ekki eru einnig stök í hinu. Til að tákna mismengi eru oftast notuð táknin,\" eða,-" og lesið,mis". Mismengið "U" \ "A", þar sem "U" er grunnmengi, nefnist fyllimengi mengisins "A". Grunnmengi. Grunnmengi er mengi, sem inniheldur öll hugsanleg stök annara mengja í einhverjum skilningi, gjarnan táknað með "U". Dæmi: ef unnið er með mengi af náttúrulegum tölum, þá er grunnmengið mengi náttúrlega talna, formula_1 og sömuleiðis ef unnið er með mengi af rauntölum þá er grunnmengið mengi rauntalna, formula_2. Grunnmengi er skv. skilgreiningu fyllimengi tómamengisins. Ef unnið er með mengi, þar sem stökin eru mengi, þá inniheldur grunnmengið öll hugsanlegra mengi, þ.m.t. sig sjálft (grunnmengið er almengi), en það er í mótsögn við Zermelo Fraenkel mengjafræði. Russel mótsögnin felst í að skilgreina mengi allra þeirra mengja, sem ekki innihalda sjálft sig. Noisettes. Noisettes (stundum skrifað NOISEttes) er ensk rokkhljómsveit stofnið 2003 í London Reading and Leeds Festivals. Reading and Leeds Festivals (voru opinberlega Carling Weekend til 2008) eru par árlegra tónlistarhátíða sem haldnar eru í Reading og Leeds á Englandi af Festival Republic. Wembley-leikvangur. Wembley-leikvangur er knattspyrnuleikvangur í Wembley, London á Englandi. Hann rúmar 90.000 sæti og er þar með næststærsti leikvangur heims talið í fjölda sæta og sá stærsti ef miðað er við fjölda sæta undir skýli. Byggingu hans lauk 9. mars 2007. The Streets. Mike Skinner (f. 27. nóvember 1978), betur þekktur sem The Streets, er rappari frá Birmingham á Englandi. Skinner, Mike My Chemical Romance. 2001 til 2002. Hljómsveitin var formlega stofnuð árið 2001, stuttu eftir árásirnar þann 11. september sama ár, af þeim Gerard Way og fyrrum trommara Matt Pelissier. Áhrifin sem að árásirnar á World Trade Center höfðu á Gerard Way voru alveg til hið ítrasta. Eða allveg það miklar að hann ákvað að stofna hljómsveit. Gerard samdi síðan lagið "Skylines and Turnstiles" til að láta í ljós tilfiningar sýnar á árásunum. Stuttu eftir allt þetta var Ray Toro beðinn að koma og sameinast hljómsveitinni þar sem að Gerard gat ekki á þeim tíma bæði spilað á gítar og sungið. Fyrstu upptökur strákanna voru uppi á háalofti hjá Matt Peliessier, þar sem að þeir tóku upp lögin "Our Lady of Sorrows" og "Cubicles". Mikey Way, yngri bróðir Gerards, heyrði demóið og fýlaði það svo mikið að hann ákvað að ganga til liðs við hljómsveitina sem bassaleikari, þar sem hann kunni ekki mikið á bassa hætti hann í háskóla og sótti bassatíma í staðinn. My Chemical Romance gerði samning við útgáfufyrirtækið Eyeball Records og spiluðu eftir það með Pencey Prep og Thursday. Það var á þeim tíma og stað þar sem að þeir hittu Frank Iero, sem var aðalsöngvari og gítarleikari Pencey Prep. Eftir að sú hljómsveit hætti á árunum 2001 og 2002, fór Frank að spila fyrir My Chemical Romance á gítar (ásamt Ray Toro sem var í hljómsveitinni fyrir) og gerðist allt þetta aðeins örfáum dögum áður en að þeir tóku upp fyrsta diskinn. Sá diskur heitir "I Brought You My Bullets, You Brought Me Your Love". Hann var gefinn út árið 2002. Á þessum disk, þrátt fyrir að vera aðeins nýbyrjaður í hljómsveitinni, spilaði Frank Iero í tvem af þeim lögu sem voru á disknum: "Early Sunsets Over Monroeville" og "Demolition Lovers". Eftir það fór hljómsveitin að fá meiri og meiri athygli... 2003 til 2006. Árið 2003, gerði bandið samning við Reprise Records og túruðu með Avenged Sevenfold. Þá byrjuðu þeir að vinna í sinni seinni plötu, sem síðan var kölluð "Three Cheers For The Sweet Revenge" sem síðan var gefin út árið 2004. Sú plata náði platínu innan árs. Í júlí árið 2004 fóru strákarnir til Japans. Eftir að heim var komið, enudurnýjuðu þeir trommarann. Í staðinn fyrir Matt Pelissier kom Bob Bryar. Árið 2005 fóru hlutirnir að gerast hraðar, fullt af hlutum fóru að gerast. Hljómsveitin átti byrjunaratriði á "American Idiot" túrnum (Green Day) og tóku upp lag með The Used. Það var cover-lag frá David Bowie og Queen sem heitir "Under Pressure" og var því síðan selt í gegnum netið með iTunes og öðrum löglegum tónlistar-dreifendum. 21. mars 2006 var tveggja diska DVD gefinn út, sem bar nafnið "Life On The Murder Scene". Einn diskurinn af tvem hafði að geyma sögu hljómsveitarinnar og hinn tónlistarmyndbönd og bakvið tjöldin varðandi gerð mynbandanna. Auk þess nokkrar upptökur af einhverjum lögum á tónleikum. Hljómsveitin byrjaði að vinna í þriðja disknum sínum (fyrir utan DVD) 10. apríl 2006 með Rob Cavallo, sem hefur gefið út nokkra diska með Green Day. Diskurinn átti upphaflega að heita "The Rise And Fall Of My Chemical Romance" en í viðtali við "Kerrang" (tímarit) kom Gerard með þá uppástungu að það væri aðeins titillinn sem þeir notuðu meðan þeir væru að vinna í plötunni. 3. ágúst 2006 kláruðu þeir tókur á fyrstu tvem lögunum á disknum, "Welcome To The Black Parade" og "Famous Last Words". Bæði videoin voru gerð á einum degi og sama deginum. Við gerð þess seinna, sem var "Famous Last Words" brenndi Bob sig á fæti og fékk þriðja stigs bruna. Upptökunum stjórnaði Sam Bayer, sem stjórnaði líka "Smells Like Teen Spirit" ("Nirvana") og einhverjum lögum af "American Idiot" disknum (Green Day). 2006 til 2008: "The Black Parade". Árið 2006 var diskurinn "The Black Parade" gefinn út (sem hét fyrst "The Rise And Fall Of My Chemical Romance"). Hann sló í gegn, enda á honum frábær lög á borð við "Teenagers" og "Mama". 22. ágúst 2006 kom hljómsveitin fram og kynnti og spilaði lögin af "The Black Parade". Miðarnir á þessa tónleika seldust upp á 15 mínútum. Í tímaritinu "Rolling Stone", var "The Black Parade" valinn tuttugasti besti diskur ársins. My Chemical Romance unnu verðlaunin the best international band á NME Awards. Gerard Way vann einnig „Hero of the Year“ verðlaunin. 19. apríl 2007 var það tilkynnt að Mikey Way mundi tímabundið yfirgefa hljómsveitina til að eyða tíma með nýrri eiginkonu Alicia Simmons-Way. Sá sem spilaði í stað hans á þessum tíma var Matt Cortez en Mikey kom aftur 29. ágúst sama ár á tónleikum sem voru í Holmdel, New Jersey og fyrsta lagið sem hann spilaði var "I'm Not Okay (I Promise)". 1. júní 2008 gafu þeir svo út diskin The Black Parade Is Dead sem inniheldur seinustu tónleikana sem My Chemical Romance spiluðu sem the Black Parade. Rodrigo y Gabriela. Rodrigo y Gabriela er mexíkósk tveggjamanna hljómsveit sem sérhæfir sig í því að spila hratt á kassagítara. Hún samanstendur af Rodrigo Sánchez og Gabriela Quintero. Dirty Pretty Things (hljómsveit). Dirty Pretty Things er ensk rokkhljómsveit stofnuð 2005. Shy Child. Shy Child er rokksveit stofnuð í New York borg 2000 og hefur hún gefið út 3 plötur. Biffy Clyro. Biffy Clyro er skosk rokksveit frá Ayrshire sem stofnuð var 1995. Sveitina skipa þeir Simon Neil (söngvari, gítarleiakri), James Johnston (bassaleikari, söngvari) og Ben Johnston (trommari, söngvari). Aðdáendahópur Biffy Clyro stækkaði til muna við útgáfu fjórðu plötu þeirra, "Puzzle", sem gefin var út árið 2007. Gagnrýnendur tóku plötunni vel og seldist hún í yfir 100.000 eintökum á Bretlandi. Vinsældir sveitarinnar jukust enn frekar árin 2008 og 2009 þegar gefnar voru út smáskífurnar "Mountains" og "That Golden Rule" sem náðu báðar á topp tíu vinsældarlista yfir smáskífur á Bretlandi. Dream Theater. Dream Theater er bandarísk rokkhljómsveit stofnuð 1985. Björk Guðjónsdóttir. Björk Guðjónsdóttir (f. 16. janúar 1954 í Keflavík) er forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Krani. Krani er ventill til að stjórna vökva og gasi. Cauchy-Schwarz ójafnan. Cauchy-Schwarz ójafnan (stundum aðeins nefnd ójafna Schwarz) er ójafna í stærðfræði, kennd við Augustin Louis Cauchy og Hermann Schwarz. Gildir um tvo vigra og segir að margfeldi summu ferninga liða hvors vigurs sé stærra eða jafnt ferningi af summu margfelda liða vigranna. Grétar Mar Jónsson. Grétar Mar Jónsson (f. 29. apríl 1955 í Hafnarfirði) er fyrrverandi þingflokksformaður og alþingismaður fyrir Frjálslynda flokkinn í Suðurkjördæmi, á árunum 2007-2009. Guðbjartur Hannesson. Guðbjartur Hannesson (f. 3. júní 1950 á Akranesi) er alþingismaður og oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Guðbjartur hefur setið á Alþingi frá árinu 2007 og var forseti Alþingis í nokkra mánuði árið 2009. Guðbjartur varð ráðherra 2. september 2010 og tók sæti sem heilbrigðis- og félagsmálaráðherra í aðdraganda þess að nýtt velferðarráðuneyti varð til með sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis. Guðbjartur var velferðarráðherra á árunum 2011-2013. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1971 og starfaði sem kennari í fjöldamörg ár. Guðbjartur var skólastjóri Grundaskóla á Akranesi 1981-2007, allt þar til hann tók sæti á Alþingi. Guðbjartur sat í bæjarstjórn Akraness 1986-1998, sat í bæjarráði 1986-1998, sem formaður bæjarráðs 1986-1989 og 1995-1997 og var forseti bæjarstjórnar 1988-1989, 1994-1995 og 1997-1998. Guðfinna S. Bjarnadóttir. Guðfinna S. Bjarnadóttir (f. 27. október 1957 í Keflavík) var alþingismaður Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður á árunum 2007-2009. Hún var rektor Háskólans í Reykjavík 1998-2007. Gunnar Svavarsson. Gunnar Svavarsson (f. 26. september 1962) er forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar og fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Herdís Þórðardóttir. Herdís Þórðardóttir (f. 31. janúar 1953) var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi á árunum 2007-2009. Hún tók sæti á Alþingi í kjölfar fráfalls Einars Odds Kristjánssonar. Illugi Gunnarsson. Illugi Gunnarsson (f. 26. ágúst 1967 á Siglufirði) er menntamálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Illugi var þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins 2009-2010 og aftur 2012-2013. Menntun og ferill. Foreldrar hans fluttust til Hafnarfjarðar þar sem Illugi lauk grunnskólanámi við Víðistaðaskóla. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1987, lauk B.Sc.-gráðu í hagfræði við Háskóla Íslands árið 1995 og MBA-námi við London Business School árið 2000. Á meðan námi hans við Háskóla Íslands stóð sat Illugi í stjórn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta árin 1989-1990. Hann var oddviti Vöku í stúdentaráði 1992-1993 og fulltrúi stúdenta í háskólaráði 1992-1994. Þá var Illugi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1997-1998. Árið 2005 réði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, Illuga sem aðstoðarmann sinn og fylgdi Illugi Davíð í utanríkisráðuneytið. Sagði hann upp störfum um leið og Davíð hætti haustið 2005. Ferill á Alþingi. Árið 2007 var Illugi kjörinn á Alþingi. Hann var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2009-2010 og aftur 2012-2013. Illugi tók við embætti menntamálaráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins 23. maí 2013. Afstaða til Evrópusambandsins. Grein Illuga og Bjarna Benediktssonar, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu 13. desember 2008 vakti mikla athygli, en í greininni töluðu þeir Bjarni mjög fyrir því farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Daginn áður en skrif Illuga og Bjarna birtust hafði sérstök nefnd innan Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál tekið til starfa og voru skrifin í Fréttablaðið almennt túlkuð sem fyrirboði um að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að láta af einangrunarstefnu sinni í utanríkismálum og taka upp stefnu hlynnta Evrópusambandinu. Bjarni og Illugi töldu að til lengri tíma myndi krónan reynast Íslendingum fjötur um fót. Ákvörðunin um Evrópusambandsaðild mætti hins vegar ekki eingöngu snúast um gjaldmiðilsmál heldur þyrfti að kanna málið frá öllum hliðum. Þær sérstöku aðstæður sem væru uppi kölluðu þó á að ráðist yrði í aðildarviðræður og í kjölfarið tæki þjóðin öll ákvörðun um málið. Í aðildarviðræðunum bæri að hafa hagsmuni Íslendinga gagnvart ESB í fyrirrúmi með það að leiðarljósi að ná sem víðtækastri sátt um niðurstöðuna. Þrátt fyrir þetta greiddu þá bæði Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson sex mánuðum síðar atkvæði gegn þingsályktunartillögu þess efnis, að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Styrkveitingar fyrir Alþingiskosningar. Styrkjamálið svokallaða, sem upp kom fyrir þingkosningarnar 2009, kom verula illa við Illuga. Í ljós kom að hann hafði þegið næst mest í styrki frá einstaklingum eða fyrirtækjum, eða 14,5 milljónir. Einungis Guðlaugur Þór Þórðarson þáði meiri styrki. Mest styrkti Exista Illuga, eða um 3 milljónir. Þá styrktu FL-Group, Samson og Atorka Illuga um eina milljón króna hvert fyrirtæki. Hneyksli tengt „Sjóði 9“ og leyfi frá þingstörfum. Sjóður 9 var fjárfestingarsjóður starfræktur af Glitni. Sjóðurinn var ein fimm sjóðsdeilda Fjárfestingarsjóðs Glitnis sem stofnaður var í desember 2003 undir heitinu Fjárfestingarsjóður Íslandsbanka. 20. febrúar 2007 var Illugi skipaður í stjórn Glitnis sjóða og var stjórnarmaður í Sjóði 9 hjá Glitni. Eftir bankahrunið varð nokkur styr um Sjóð 9 af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi var gagnrýnt að raunverulegar fjárfestingar sjóðsins hefðu ekki verið í nokkru samræmi við auglýsta fjárfestingarstefnu. Þrátt fyrir að sjóðurinn ætti samkvæmt auglýstri fjárfestingarstefnu aðallega að kaupa ríkisskuldabréf eða bréf með ríkisábyrgð reyndist yfirgnæfandi hluti fjárfestinga sjóðsins vera í skuldabréfum eignarhaldsfélaga, sem við hrunuð reyndust lítils virði. Töldu margir að með þessu hefði almenningur verið blekktur, þar sem sjóðurinn var auglýstur sem algjörlega öruggur fjárfestingarkostur. Sérstaka athygli vakti að stærstu fjárfestingar sjóðsins voru í fyrirtækjum tengdum Baugi, en Baugur átti stóran hluta í Glitni. Um helmingur eigna sjóðsins reyndist vera bundinn í skuldabréfum Baugs eða FL Group, en í síðarnefnda félaginu átti Baugur stóran hluta. Í öðru lagi var gagnrýnt að Illugi hefði beitt sér fyrir því að Glitnir keypti verðlaus skuldabréf út úr sjóðnum daginn eftir að Glitnir var þjóðnýttur. Ekkert fé rann úr ríkissjóði við þann gjörning eins og fram kom í svari fjármálaráðherra á alþingi sumarið 2010. Hinn 16. apríl 2010 ákvað Illugi að taka sér leyfi frá þingstörfum á meðan á rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum sjóða Glitnis stæði yfir, en rannsóknin beinist fyrst og fremst að því að kanna hvort það að sveigja svo gróflega frá fjárfestingarstefnunni sé refsivert. Illugi sneri aftur á þing haustið 2011 eftir að ljóst var að sérstakur saksóknari myndi ekki aðhafast frekar vegna starfa Illuga fyrir Glitni og lögmannsstofan LEX hafði unnið minnisblað fyrir Íslandssjóði dótturfélag Íslandsbanka um fjárfestingarstefnu Glitnissjóða. Ummæli. Stuttu síðar réð Davíð Illuga sem aðstoðarmann sinn. Hundraðshluti. Hundraðshluti eða prósent er heiti á einingalausri tölu sem á við hlutfall, þar sem nefnarinn er talan "100". Setja má fram hundraðshluta í orðum, t.d. "einn af hundraði", "3 af hundraði" o.s.frv. Notað er prósentutáknið,%" til auðkenna hunraðshluta, t.d. "mætingin var 100 %", "líkurnar eru innan við 50 %", "1 til 2 % velja þessa leið". Hundraðshluti er yfirleitt ekki gefinn með fleirum en tveimur aukastöfum, t.d. "vextrinir voru 4,95%". Til að breyta tugabroti í hudraðshluta er margfaldað með tölunni 100, t.d. 0,5*100% = 50%, 0,01*100% = 1%. Hundraðshlutar geta einnig verið stærri en 100, t.d. "verðið hefur hækkað um 118% á tímabilinu". Talað er um að eitthvað sé "að hundrað hundruðustu" ef það er 100 prósent (dæmi: Nú sjáum við fyrirtækið starfa að hundrað hundruðustu). Sé það t.d. 75%, þá er það "sjötíu og fimm hundruðustu". Jón Gunnarsson. Jón Gunnarsson (f. 21. september 1956 í Reykjavík) er þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi og verður í 3.sæti á lista þeirra fyrir Alþingiskosningarnar 2013. Karl V. Matthíasson. Karl V. Matthíasson (f. 12. ágúst 1952 á Akureyri) er íslenskur prestur og fyrrverandi þingmaður fyrir Samfylkinguna og Frjálslynda flokkinn í Norðvesturkjördæmi. Hann sagði sig úr Samfylkingunni snemma árs 2009 og bauð sig fram fyrir Frjálslynda flokkinn fyrir Alþingiskosningarnar 2009 en náði ekki á þing. Kjartan Ólafsson (f. 1953). Kjartan Ólafsson (f. 2. nóvember 1953 í Reykjavík) var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi á árunum 2004-2009 og áður fyrir Suðurlandskjördæmi 2001-2003. Marke. Marke (ítalska: "Marche") er fjallent og hæðótt hérað á mið-Ítalíu með landamæri að San Marínó og Emilía-Rómanja í norðri, Toskana í norðvestri, að Úmbría i vestri, Latíum og Abrútsi í suðri, Adríahafinu í austri. Íbúar héraðsins eru um 1.536.098 og búa í 246 veitarfélögum. Höfuðstaður héraðsins er Ankóna. Kort sem sýnir staðsetningu Markei á Ítalíu. Milljónarfélagið. Milljónarfélagið var útgerðarfélag P.J. Thorsteinsson & Co sem var með höfuðstöðvar í Viðey á árunum 1907-1914. Viðey var valinn sem aðalmiðstöð félagsins vegna þess að í Reykjavík vantaði höfn, vatnsveitu og rafmagn. Félagið nefndist svo vegna þess að hlutafé félagsins var miljón krónur sem samsvaraði ríkisútgjöldum stofnárið. Helstu hvatamenn að stofnun þess voru Pétur J. Thorsteinsson á Bíldudal og Thor Jensen í Reykjavík auk danskra fjármálamanna. Félagið lét reisa tvær hafskipabryggjur í Viðey, hafnarbakka, fiskverkunarhús, sem járnbrautarteinar tengdu við bryggjurnar, og kola- og saltgeymslur. Örlygur Hálfdánarson. Örlygur Hálfdanarson (f. 21. desember 1929) er íslenskur bókaútgefandi. Hann rak lengi vel Bókaútgáfuna Örn og Örlyg, en stofnaði síðar Íslensku bókaútgáfuna. Örlygur fæddist í Viðey, og átti heima í þorpinu sem stóð á Sundbakka á austurenda eyjarinnar frá 1907 til 1943. Hann ólst þar upp í húsi sem var byggt á fjölunum af kútter "Ingvari" sem fórst við Viðey 1906. Örlygur er virkur meðlimur í Viðeyingafélaginu og hefur leiðsagt fólki um eyna, enda æði fróður um sögu hennar frá fyrstu tíð. Örlygur er einnig talsmaður þess að reisa Viðeyjarstofu eftir upprunalegum teikningum, þegar og ef hús "Strætisvagna Reykjavíkur" á Lækjartorgi verður rifið og segir að þar með komi bygging sem rími vel við átjándu og nítjándu aldar hús við Lækjargötu og Austurstræti Stjórnarráðið. Viðeyjarstofa átti að vera tveggja hæða hús samkvæmt upphaflegum teikningum, en varð aldrei nema einlyft. Menntaskóli Borgarfjarðar. Menntaskóli Borgarfjarðar er einkarekinn menntaskóli með aðsetur í Borgarnesi. Skólinn var stofnaður árið 2006 en kennsla hófst haustið 2007. Hann er eini menntaskólinn í Borgarfirði og þjónar nokkuð stóru svæði en fyrir eru tveir háskólar í sveitarfélaginu. Skólahúsið var ekki fullbúið við skólasetningu á fyrsta starfsári svo kennt var í öðrum húsum í Borgarnesi. Arkitektastofan Kurtogpí. Stærstu hluthafar í skólanum eru Sparisjóður Mýrasýslu, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Loftorka, Kaupfélag Borgfirðinga og Nepal hugbúnaður en að auki eru 150 minni hluthafar í fyrirtækinu. Nám til stúdentsprófs við skólann tekur að jafnaði 3 ár en alls býður skólinn upp á 3 námsbrautir; félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut og almenna braut. Annarpróf tíðkast ekki, heldur er notað námsmat sem byggist á virkni nemandans jafnt og þétt allt árið. Kennslu aðferðir byggjast að miklu leyti á upplýsingatækni og eiga allir nemendur möguleika á að fá Macbook tölvu leigða af skólanum (þó að það sé valfrjálst er skylda að hafa með sér tölvu). Skólameistari er Kolfinna Jóhannesdóttir. Við skólann er nemendafélag, NMB, en auk þess hefur Ungmennahúsið Mímir aðstöðu í nemendarými í kjallara skólans. Það má því segja að við skólann séu starfandi tvö nemendafélög. Þjóðfáni. Þjóðfáni er fáni, sem er flaggað sem tákni lands eða þjóðar. Íslenski fáninn var opeinberlega tekinn í notkun 17. júní 1944. Hnífur. Hnífur er einjárnungur og eggvopn og skiptist í "blað" og "skaft", en haldið er utan um skaftið þegar hnífi er beitt. Sá endi hnífsblaðsins sem gengur upp í skaftið nefnist "tangi". Hnífsblaðið er tvískipt: Í fyrsta lagi er það bitið sem nefnist "egg". Flatvegur blaðsins, ofan á hnífsblaðinu, nefnist "bakki" (nema að hnífurinn sé "tvíeggja", en þá er enginn slíkur). Ysti hlutinn er svo "oddurinn". Í sjálfsskeiðungsskafti nefnist milligerðin, sem er úr járni, "skíði". En hnífsblaðið á vasahníf má samkvæmt íslenskum lögum ekki vera lengra en 12,5 sentímetrar. Þjóðtrú. Ýmis þjóðtrú tengist hnífum, t.d. sú að ef vinur gefur manni hníf muni hann skera á vináttuna. Þess vegna er við hæfi að krefjast málamyndagjalds þegar hnífur er gefinn svo að ekki sé um eiginlega gjöf að ræða. Neslistinn. Merki Neslistans Neslistinn er framboðslisti á Seltjarnarnesi. Bæjarmálafélag Seltjarnarness var stofnað 23. apríl 1990. Félagið er fyrsta bæjarmálafélag í sveitarfélögum landsins. Síðan hefur félagshyggjufólk víða um land fylgt fordæmi þess. Helsti hvatamaður að stofnun Bæjarmálafélagsins var "Hallgrímur Magnússon" læknir. Fyrsti formaður félagsins var "Stefán Bergmann". Síðan hafa "Þorvaldur Árnason", "Ingibjörg Benediktsdóttir" og "Kristján Þorvaldsson" gegnt formennsku. Núverandi formaður er "Brynjúlfur Halldórsson". Bæjarmálafélag Seltjarnarness hefur boðið fram Neslistann sveitarstjórnarkosninga síðan 1990. Í kosningunum 1990 hlaut listinn 34,4% atkvæða og tvo fulltrúa í bæjarstjórn. Kjörtímabilið á eftir, 1994, hlaut listinn 45,7% og þrjá fulltrúa í bæjarstjórn. Árið 1998 fékk Neslistinn 34,7% og tvo fulltrúa í bæjarstjórn. Í kosningunum 2002 hlaut Neslistinn 39,7% atkvæða og þrjá fulltrúa í bæjarstjórn. Í kosningum árið 2006 hlaut framboðið 32,8% atkvæða og tvo fulltrúa í bæjarstjórn. Bæjarfulltrúar frá stofnun hafa verið: Siv Friðleifsdóttir, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, Katrín Pálsdóttir, Eggert Eggertsson, Högni Óskarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Árni Einarsson. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði á Íslandi og eru félagar í því um 300 talsins. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem hýsir aðalsjónauka félagsins. Hann er af gerðinni JMI NGT-18 og er spegill hans 46 cm í þvermál. Þetta er stærsti stjörnusjónauki landsins og hafa félagsmenn aðgang að honum. Félagið á einnig tvo aðra stjörnusjónauka. Annars vegar 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade og hins vegar 14 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Celestron. Sá hinn síðari er fyrsti sjónauki félagsins. Saga Stjörnuskoðunarfélagsins nær yfir rúm þrjátíu ár en félagið var stofnað þann 11. mars árið 1976 og voru stofnfélagar tuttugu talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Stjörnuskoðunarfélagið er opið öllum áhugamönnum um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Félagsmenn greiða félagsgjöld árlega sem varið er í starfsemi félagsins. Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum spennandi uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning auk ýmiss annars. Ragnar Sólberg Rafnsson. Ragnar Sólberg Rafnsson eða Zolberg (f. 2. desember 1986, Hafnarfirði) er söngvari, gítarleikari og einn aðal lagahöfunda hljómsveitarinnar Sign. Ragnar og bróðir hans, Egill Örn Rafnsson, eru synir Rafns Jónssonar, trommuleikara. Ragnar á tvö önnur systkini þau Helgu Rakel Rafnsdóttur og Rafn Inga Rafnsson. Lúðvík Bergvinsson. Lúðvík Bergvinsson (f. 29. apríl 1964 í Kópavogi) var þingmaður fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi. Hærusveppir. Hærusveppir (fræðiheiti: "Inocybe") eru stór ættkvísl sveppa sem mynda svepprót með trjám. Til þessarar ættkvíslar teljast nokkur hundruð tegunda sveppa. Hatturinn er oftast brúnn eða brúnleitur og hnýfður. Með aldrinum klofnar hattbarðið svo það virðist kögrað eða hært. Margar tegundir hærusveppa innihalda mikið magn af sveppaeitrinu múskaríni og þar sem mjög erfitt er að greina ætar tegundir frá eitruðum er ekki mælt með því að neinir sveppir af þessari ættkvísl séu étnir. Hættulegasta tegundin er "Inocybe patouillardii" sem getur valdið dauða. Paraíba. Paraíba er fylki í norðaustur-Brasíliu. Fylkishöfuðborgin er João Pessoa. Ragnheiður Elín Árnadóttir. Ragnheiður Elín Árnadóttir (f. 30. september 1967) er iðnaðar- og viðskiptaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Elín er fædd og uppalin í Keflavík. Hún lauk stúdenstprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1987. Hún fékk bestu einkunnina af þeim sem útskrifuðust. Hún lauk BA-prófi í stjórnmálafræði Háskóla Íslands 1991 og MS-próf í alþjóðasamskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum. Á árunum 1995-1998 starfaði hún fyrir Útflutningsráð Íslands, þar af 1996-1997 í New York. Hún var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde á árunum 1998-2007 sem fjármála-, utanríkis- og forsætisráðherra. Ragnheiður sat í nefnd þeirri sem samdi um brottflutning varnarliðsins frá Keflavíkurstöðinni. Ragnheiður Elín hefur átt sæti á Alþingi frá árinu 2007, 2007-2009 fyrir Suðvesturkjördæmi en frá árinu 2009 fyrir Suðurkjördæmi. Ragnheiður Elín var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2010-2012 og verið iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 23. maí 2013. Ragnheiður hefur skrifað greinar í tímaritið Þjóðmál. Sigurður Kári Kristjánsson. Sigurður Kári Kristjánsson (f. 9. maí 1973 í Reykjavík) er íslenskur lögfræðingur sem var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 2003-2009. Hann féll af þingi í kosningunum 2009, en varð aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að kosningum loknum. Sturla Þórðarson. Sturla bjó lengi á Staðarhóli í Saurbæ. Hér sést yfir Staðarhólsdal og í forgrunni er minnismerki um Sturlu, Stein Steinarr og Stefán frá Hvítadal, sem allir bjuggu í sveitinni í lengri eða skemmri tíma. Sturla Þórðarson (29. júlí 1214 – 30. júlí 1284) var lögsögumaður, lögmaður, sagnaritari og skáld sem bjó á Staðarhóli í Saurbæ. Uppruni og æska. Sturla var sonur Þórðar Sturlusonar og frillu hans Þóru og áttu þau fleiri börn saman, þar á meðal Ólafs Þórðarsonar hvítaskálds, en Sturla var yngstur. Þórður átti einnig skilgetinn son, Böðvar, og fékk hann meirihluta arfs eftir föður þeirra er hann dó 1237, en Sturla hafði áður erft ömmu sína, Guðnýju Böðvarsdóttur, sem ól hann upp fyrstu árin, í Hvammi til 1218 og síðan í Reykholti. Snorri Sturluson, sonur Guðnýjar og föðurbróðir Sturlu, hirti þó þá fjármuni og urðu þeir bræðurnir, hann og Þórður, ósáttir út af arfinum en þeir sættust þó seinna og varð Sturla nemandi Snorra og ólst upp hjá honum að einhverju leyti. Átök Sturlungaaldar. Sturla var talinn friðsemdarmaður en var þó þátttakandi í mörgum helstu viðburðum Sturlungaaldar. Hann barðist með Sighvati föðurbróður sínum og sonum hans í Örlygsstaðabardaga, hann var í liði Þórðar kakala er hann sneri heim frá Noregi. Þegar Gissur Þorvaldsson kom til landsins 1252 og vildi leita sátta við Sturlunga var Sturla helsti leiðtogi þeirra og þeir sömdu um að Ingibjörg dóttir Sturlu, sem þá var 13 ára, skyldi giftast Halli syni Gissurar. Brúðkaupið var haldið á Flugumýri haustið 1253 en Sturla var farinn þegar brennumenn riðu í garð svo að hann varð ekki vitni að Flugumýrarbrennu. Lögsögumaður, lögmaður og rithöfundur. Sturla var lögsögumaður 1251-1253, fékk Borgarfjörð að léni er Gissur varð jarl 1258 en missti hann skömmu síðar í hendur Hrafns Oddssonar. Hann átti síðan í erjum við Hrafn sem lauk með því að Sturla hraktist til Noregs 1263. Þar var honum falið að skrifa sögu Hákonar gamla. Hann fór heim árið 1271 með lögbókina Járnsíðu og kann að hafa átt þátt í að semja hana en hún mætti mótstöðu og var ekki lengi í gildi og Jónsbók kom í staðinn áratug síðar. Hann varð lögmaður alls landsins 1272-1276. Síðasta árið eða árin þótti mönnum hann vera afskiptalítill og leyfa Hrafni Oddssyni og Árna biskupi að fara sínu fram og skrifaði Þorvarður Þórarinsson konungi umkvörtunarbréf. Úr varð að landinu var skipt í tvö lögmannsumdæmi og varð Sturla lögmaður norðan lands og vestan en Jón Einarsson sunnan og austan. Árið 1277 fór Sturla aftur til Noregs og var þá falið að skrifa sögu Magnúsar lagabætis. Hann kemur lítið við sögu næstu árin þótt hann væri lögmaður og er til dæmis að engu getið í sambandi við deilurnar sem urðu um Jónsbók. Eftir að hann sagði af sér lögmannsstarfi 1282 flutti hann út í Fagurey á Breiðafirði og dvaldi þar síðustu æviárin. Hann skrifaði Íslendinga sögu, rit sem síðar varð miðjuþáttur Sturlunga sögu. Hún er sjálfstætt verk og er oft birt sem slíkt. Einnig var hann konunglegur sagnaritari og skrifaði Hákonar sögu Hákonarsonar og sögu Magnúsar sonar hans. Hann skrifaði líka eina gerð Landnámabókar og orti kvæði og vísur sem sum hafa varðveist. Fjölskylda. Kona Sturlu var Helga Þórðardóttir. Auk Ingibjargar áttu þau dótturina Guðnýju, sem giftist Kálfi Brandssyni á Víðimýri, syni Brands Kolbeinssonar, og synina Þórð, sem var hirðprestur Magnúsar lagabætis, og Snorra á Staðarhóli. Fagurey (Breiðafirði). Fagurey er eyja í Breiðafirði, norður af Stykkishólmi. Næstu eyjar eru Bíldsey, Arney og Elliðaey. Á Fagurey bjó Sturla Þórðarson síðustu æviár sín og andaðist þar. Miško Kranjec. Miško Kranjec (15. september 1908 í Nagypalina í Ungverjalandi, í dag Slóveníu – 8. júní 1983 í Ljubljana í Slóveníu) var slóvenskur rithöfundur og kommúnisti. Kranjec, Misko Kranjec, Misko Kranjec, Misko Kórsbróðir. Kórsbróðir – (kórbróðir, kanoki eða kanúki'") – er prestur í samkundu dómkirkjuklerka. Í kaþólskri tíð voru svokölluð dómkirkjuráð eða dómklerkaráð ("capitulum") við helstu biskupsstóla. Þau voru biskupum til ráðuneytis og deildu völdum með þeim. Ráðin völdu einnig biskup þegar til þess kom. Í Noregi voru þeir sem sátu í þessum ráðum kallaðir kórsbræður eða kanúkar. Nafnið „kórsbróðir“ er dregið af því að kórsbræður áttu sín sérstöku sæti í kór dómkirkjunnar, eins og sjá má í fornum erlendum dómkirkjum. Dómkirkjuráðið við erkibiskupsstólinn í Niðarósi hafði sérstöðu, og var áhrifameira en önnur dómkirkjuráð. Dómkirkjuráð hafa verið með mjög ólíkum hætti víða um heim og á Íslandi virðast til dæmis ekki hafa verið formleg dómkirkjuráð við biskupsstólana, heldur hafi prestastefnur og ábótar farið með þetta hlutverk, ásamt dómkirkjuprestum. Fljótsdalur. Fljótsdalur er dalur á Fljótsdalshéraði á Austurlandi, kenndur við Lagarfljót, sem um hann rennur. Dalurinn er djúpur og breiður, veðursæll og snjóléttur. Tveir af hæstu fossum landsins eru í dalnum, báðir yfir 100 m á hæð, Hengifoss í Hengifossá og Strútsfoss í Strútsá. Dalurinn er víða vel gróinn en mun þó hafa verið grónari áður, fyrir Öskjugosið 1875. Víða eru þó birkiskógar og á síðustu árum hefur mikið verið gróðursett af lerki og furu og eru sumstaðar vaxnir upp allmiklir barrskógar. Niðarós. Dómkirkjan í Niðarósi, byggð á árunum 1140 til 1320. Niðarós er borg í Noregi sem núna nefnist Þrándheimur (norska: "Trondheim"). Áin Nið (nú Nidelva eða Nia) rennur til sjávar í Þrándheimsfirði og var gott skipalægi í ósnum. Á víkingaöld byggðist þar upp kaupstaður, sem hlaut nafnið Niðarós. Skammt norðan við Niðarós var höfðingjasetrið Hlaðir, sem Hlaðajarlar eru kenndir við, þar hafði verið helgistaður heiðinna manna. Niðarós varð brátt höfuðstaður fyrir Þrændalög og nálæg héruð, bæði í veraldlegum og kirkjulegum efnum. Eftir að Ólafur Haraldsson Noregskonungur féll á Stiklarstöðum árið 1030, urðu ýmsar jartegnir, sem leiddu til þess að hann varð höfuðdýrlingur Norðmanna, og víðar um Norðurlönd. Biskupsstóll var settur í Niðarósi og dómkirkja reist á legstað Ólafs (Niðarósdómkirkja). Árið 1153 fengu Norðmenn erkibiskup og var aðsetur hans í Niðarósi. Umdæmi hans náði yfir Noreg, og þau lönd sem þaðan höfðu byggst, allt frá Orkneyjum, Suðureyjum, Hjaltlandi og Færeyjum, til Íslands og Grænlands. Varð það til þess að efla mjög Niðarós sem kirkjulega miðstöð. Þar var einnig konungsgarður, þar sem konungar Noregs bjuggu þegar þeir voru í Þrándheimi. Haustið 1239 sigldi Snorri Sturluson frá Niðarósi í banni Hákonar Hákonarsonar konungs. Þá mælti hann hin örlagaþrungnu orð: „Út vil ek!“ Hákon háleggur. Hákon háleggur (1270 – 8. maí 1319) eða Hákon 5. Magnússon var konungur Noregs frá 1. nóvember 1299 til dauðadags. Hann tók við af bróður sínum, Eiríki Magnússyni. Hákon hertogi. Foreldrar Hákonar voru konungshjónin Magnús Hákonarson lagabætir og Ingibjörg, dóttir Eiríks plógpenings Danakonungs. Faðir Hákonar gerði hann að hertoga árið 1273, um leið og hann gerði Eirík á meðkonungi sínum. Í "Hirðskrá" Magnúsar sem gerð var nokkru síðar kom fram að hertogi skyldi stýra hluta landsins sem konungur væri en um leið sýna konunginum trúmennsju og hlýðni. Þegar Magnús dó árið 1280 voru báðir synirnir á barnsaldri og höfðingjar stýrðu landinu ásamt Ingibjörgu drottningu. Hákon varð fullveðja 14 ára, 1284, og tók þá við stjórn hertogadæmis síns. Hann tók sér aðsetur í Ósló, en Eiríkur bróðir hans dvaldi löngum í Björgvin. Ekki kemur nákvæmlega fram hve stórt hertogadæmi Hákonar var en auk Óslóarsvæðisins mun það hafa verið Upplönd, Ryfylki, hugsanlega Agðir og svo Færeyjar og Hjaltlandseyjar. Hann stýrði hertogadæminu af myndarskap og kom á ýmsum réttarbótum. Konungur Noregs. Eiríkur konungur dó sumarið 1299. Hann lét eftir sig kornunga dóttur en samkvæmt norskum ríkiserfðareglum stóð bróðir hans mun framar í erfðaröðinni en dóttirin og varð Hákon því konungur. Hann var krýndur í Ósló 1. nóvember það ár og skömmu síðar lét hann hefja byggingu virkisins í Akershús við Ósló. Segja má að á ríkisstjórnarárum hans hafi miðstöð stjórnsýslunnar í Noregi flust frá Björgvin til Óslóar en þó var Hákon oft í Björgvin, einkum á veturna. Hákon háleggur var mun sterkari leiðtogi en Eiríkur bróðir hans, meðal annars hreinsaði hann til í ríkisráðinu þegar hann tók við völdum, og lét árið 1302 hengja valdamesta manninn þar, Auðun Hugleiksson hestakorn. Hann losaði sig við ýmsa ættgöfuga tignarmenn og preláta en valdi þess í stað með sér vel menntaða, dugmikla og trygga ráðgjafa. Hann var stjórnsamur og óþreytandi í viðleitni sinni að styrkja konungsvaldið og auka miðstýringu. Meðal annars sendi hann hvað eftir annað fulltrúa sína til Íslands til að reyna að auka völd sín yfir landinu. Hákon lét kristin viðhorf ráða miklu um stjórn ríkisins, og eftir dauða hans var hann af mörgum talinn helgur maður. Eimdi eftir af því fram til siðaskipta. Hjónaband og erfingjar. Líkneski Hákonar háleggs í dómkirkjunni í Stafangri. Kona Hákonar háleggs (1299) var Evfemía af Rügen. Dóttir þeirra var Ingibjörg Hákonardóttir (1301 -um 1360). Laungetin dóttir Hákonar, með Gró Sigurðardóttur, var Agnes Hákonardóttir (1290-1319). Eftir fæðingu Ingibjargar vildi Hákon leitast við að tryggja ríkiserfðirnar og fékk fram breytingu á erfðaröð norsku krúnunnar, þannig að skilgetinn sonur skilgetinnar dóttur var settur í þriðja sæti, skilgetin dóttir í níunda sæti og skilgetinn sonur óskilgetinnar dóttur í ellefta sæti. Ennfremur var sett inn ákvæði um að ef konungur væri ekki fullveðja skyldi ríkinu stýrt af tólf manna ríkisráði og því var svo settur ákveðinn rammi. Hákon háleggur dó vorið 1319 og með honum karlleggurinn af ætt Sverris konungs en Magnús, sonur Ingibjargar dóttur hans og Eiríks Magnússonar hertoga af Södermanland, erfði krúnuna og varð konungur bæði Noregs og Svíþjóðar, aðeins þriggja ára að aldri. Breska heimsveldið. Landsvæði Breska heimsveldisins árið 1897 merkt bleikum lit. Breska heimsveldið var stærsta heimsveldi sögunnar og var öflugasta ríki jarðar á hátindi sínum. Það var afrakstur landafundanna miklu sem hófust með sjóferðum og landkönnun Evrópubúa seint á 15. öldinni. Árið 1921 bjuggu 458 milljónir manna í Breska heimsveldinu, en það var um það bil fjórðungur fólksfjölda heimsins á þeim tíma. það náði yfir u.þ.b. 33 milljónir km², sem er rétt rúmur fjórðungur af landsvæði jarðar. Fjarlæg framtíð. Merki fyrirtækisins sem aðalsöguhetjur Fjarlægrar framtíðar vinna hjá. Futurama (á íslensku Fjarlæg framtíð) eru bandarískir teiknimyndaþættir eftir Matt Groening sem er þekktastur fyrir Simpsonfjölskylduna. Söguþráður. Fry (Philipus J Fry)er flatbökusendill sem býr í New York, kærasta hans er hætt með honum, fjölskylda hans lítur niður til hans og hann missir af veislu til að fagna komu tuttugustu og fyrstu aldarinnar vegna þess að hann þarf að sendast með nokkrar bökur. Þegar hann kemur á staðinn og kallar "pizza sending til I.C. Wiener" er staðurinn yfirgefinn og er fullur af skrítnum klefum sem virðist frysta fólk. Fry fagnar því tuttugustu og fyrstu öldinni einn á þessum stað en hann dettur óvart í einn klefann og stillist klukkan á klefanum sjálfkrafa á 1000 ár. Fry vaknar árið 2999 við aldarmót þrítugustu og fyrstu aldar þar sem lífið er allt öðruvísi. Þar hittir hann Leelu hina eineygðu geimveru sem hann verður ástfanginn af, Bender hitt drukkna vélmenni, Amy Wong hina kínversku stelpu frá mars, krabbann fátæka dr.Zoidberg lækni, snillinginn sem er aðeins kallaður "Prófessor"(Hubert Farnsworth), Hermes Conrad hinn gáfaði aðstoðarmaður prófessorins. Eftir komu sína til framtíðarinnar fær Fry vinnu hjá langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa frænd sínum Hubert Farnsworth(prófessorinn) sem sendill. Þættir og myndir. Fry er í frystiklefa í 1000 ár og kemur í framtíðna. Fyrsti vinnudagur Fry, Benders og Leelu. sendiferð til tunglsins Fry flytur inn í skápinn hans Benders. Why Must I Be A Crustacean In Love. Put Your Head on My Shoulder. How Hermes requisitioned his groove back. The beast with a billion backs. Bender fer að spila Dungeons and Dragons. Endurnýjanleg orka. a> sem umbreyta má í rafmagn. Endurnýjanleg orka er sú orka sem kemur frá orkulind sem minnkar ekki, heldur endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni og helst þannig í jafnvægi. Ekki má rugla saman hugtökunum endurnýtanlegur og endurnýjanlegur. Orðið endurnýtanlegur (e. "recyclable") vísar til þess að hægt sé að nýta eitthvað aftur. Sem dæmi má nefna dagblöð og flöskur sem við förum með til endurvinnslu. Orðið endurnýjanlegur (e. "renewable") vísar hins vegar til þess að eitthvað endurnýjar sig þegar tekið er af því. Einnig kemur fyrir að hugtökunum „sjálfbær“ og „endurnýjanlegur“ er ruglað saman, en hafa skal í huga að sjálfbærni lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki eðli hennar. Ekki er rétt að segja að orka sé endurnýtanleg, og ekki er heldur alveg rétt að segja að orka sé endurnýjanleg. Það sem átt er við þegar talað er um endurnýjanlega orku er að hún komi frá endurnýjanlegri orkulind. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 er endurnýjanleg orka skilgreind þannig: orka sem ekki kemur frá jarðefnaeldsneyti heldur endurnýjanlegum orkulindum, þ.e.a.s. frá sól, vindi, jarðhita, haforku, lofthita, varma úr yfirborðsvatni og vatnsorku, lífmassa, haugagasi, skolphreinsistöðvum og lífgasi. Orkulindir. Orkulindir jarðefna, þ.e. olíu, kola og gass, teljast ekki endurnýjanlegar sökum þess hversu langur nýmyndunartími þeirra er miðað við nýtingarhraðann. Ekki er vitað með nákvæmni hversu langan tíma það tekur fyrir jarðefnaeldsneyti að myndast, en ljóst er að um er að ræða þúsundir eða milljónir ára, eftir aðstæðum. Flest ef ekki öll lönd eru mjög háð jarðefnaeldsneyti, en sökum þess hversu hratt gengur á þær byrgðir sem til staðar eru, með tilheyrandi verðhækkunum, og losun koltvísýrings (CO2) við bruna þess hefur þörfin fyrir endurnýjanlega orkugjafa aukist til muna undanfarin ár. Jarðhiti. Hugtakið jarðhiti er í dag fyrst og fremst notað um það fyrirbæri þegar heitt vatn og gufa koma upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum, auk fyrirbæra þessu tengd s.s. efnaútfellingu. Þessi svæði skiptast í lág- og háhitasvæði. Forsendurnar fyrir jarðhita í þessum skilningi eru að jarðskorpan sé gljúp sem gerir vatni kleift að hripa niður og flytja svo með sér varmaorku frá neðri jarðlögum. Hitastigið hækkar eftir því sem neðar dregur og á það sérstaklega við á eldfjallasvæðum og heitum reitum líkt og á Íslandi. "„Þegar greina þarf á milli fyrirbærisins jarðhita og þeirrar orku sem berst með vatni og gufu upp til yfirborðs er orðið jarðvarmi notað um orkuna“". Nýting jarðhita á Íslandi. Þegar kemur að nýtingu jarðhita hafa Íslendingar skipað sér í fremstu röð. Lengi skorti kunnáttu til að beisla þessa orku, en rannsóknir hófust fyrst um 18.öld miðja. Sú ákvörðun að safna upplýsingum og reynslu á þessu sviði hefur stuðlað að því að hér á landi hefur byggst upp sérþekking á heimsmælikvarða. Til marks um það má nefna að við stofnun Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna árið 1978 var ákveðið að hann yrði staðsettur á Íslandi. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarbúsins af nýtingu jarðvarma til upphitunar húsa er gríðarlegur enda er um að ræða innlenda orkulind sem ekki er háð sveiflum á erlendum markaði. Jarðhitinn hefur að að mestu verið nýttur til upphitunar húsa og í dag njóta þess u.þ.b. 90% heimila auk fjölda sundlauga víðsvegar um landið. Einnig hefur áhersla á raforkuframleiðslu með jarðhita aukist síðustu ár. Til þess að framleiða rafmagn með jarðhita er borað eftir gufu sem þá kemur upp með þrýstingi. Gufan er svo notuð til þess að keyra túrbínur sem drífa rafal, sem aftur skilar rafmagni. "„Háhitasvæðin eru notuð til raforkuframleiðslu og einnig til húshitunar, í minna mæli til iðnaðar. Ekki er unnt að nota vatn háhitasvæðanna beint til neyslu og erfitt er að nota það beint til húshitunar án vandamála við útfellingar og tæringu... Þegar varmaorka er nýtt til að framleiða raforku nýtast aðeins um 10% varmans en 90% er skilað sem afgangsvarma við lægri hita. Þennan varma má nýta til hitunar ef markaður finnst en að öðrum kosti er honum dreift til umhverfis eða dælt aftur niður í jarðhitakerfið.“" Vatnsorka. Vatn er orkumiðill og vatnsorka er sú orka sem vatn býr yfir á vissum stað í náttúrulegri hringrás sinni, en mikil orka felst í vatnsföllum. Fyrir tilstuðlan sólarinnar gufar vatn í sífellu upp af jörðinni og við það að kólna þéttist gufan í ský, sem aftur skilar sér til jarðar sem úrkoma. Vatn sem rennur til sjávar ber orku sem fólgin er í falli þess. Þetta er sú orka sem beisluð er með vatnsaflsvirkjunum. Vatnsafl er virkjað til þess að framleiða rafmagn. Það er gert þannig að vatnið er látið falla, og þungi þess og fallhæð nýtt til þess að knýja túrbínur. Því meira vatnsmagn og fallhæð, því meiri orka. Nýting vatnsorku á Íslandi. Þann 12.desember árið 1904 var fyrsta vatnsaflsvirkjunin á Íslandi tekin í notkun í Hafnarfirði. Hún var nefnd Hörðuvallavirkjun og skilaði 9kW, sem nægði til þess að lýsa 16 hús og knýja ýmsan vélbúnað.Rafvæðingin fór hægt af stað og það var ekki fyrr en um sumarið 1921 að Elliðaárvirkjun var tekin í notkun og straumi hleypt á Reykjavík, stækka þurfti og bæta virkjunina á næstu árum þar til hún skilaði 3160kW, sem hún gerir enn. Fleiri virkjanir voru reistar í kjölfarið og má nefna Ljósafossvirkjun í Soginu sem var tekin í notkun árið 1937 með 8.800kW í uppsett afl, nokkrum árum síðar var stöðin orðin 14.600kW. Árið 1953 voru vélasamstæður Írafossvirkjunar ræstar og 10 árum síðar var afkastagetan orðin 48MW. Þriðja virkjunin í Soginu er Steingrímsstöð gangsett 1959 og 26MW. Upp úr 1960 var Landsvirkjun stofnuð vegna fyrirhugaðra álversframkvæmda í Straumsvík, og ætlað að setja upp raforkuver og reka það í tengslum við stóriðjuna sem og selja almenningi raforku. Landsvirkjun byggði á næstu árum Búrfellsvirkjun enda jókst eftirspurnin hratt og Járnblendifélagið bættist við sem stórkaupandi. Sigölduvirkjun fylgdi fast á eftir og loks Hrauneyjafossvirkjun sem gangsett var árið 1981. Samkvæmt vef Orkustofnunar eru í dag um 37 vatnsaflsvirkjanir á Íslandi auk u.þ.b. 200 smávirkjana. Stærstu virkjanirnar eru Sultartangi 120MW, Sigalda 150MW, Hrauneyjafoss 210MW, Búrfell 270MW og Kárahnjúkar 690MW. Heildar raforkuvinnsla landsins árið 2006 var alls 9.925 GWh. Mest eða um 73% var unnið úr vatnsorku og restin 27% kom frá jarðhitarafstöðvum. Heildar uppsett afl vatnsaflsvirkjana var 1.162MW og árið eftir bættust Kárahnjúkar við með 690MW Vindorka. Vindorka er orka á formi hreyfiorku sem vindurinn felur í sér og á uppruna í geislum sólar. Maðurinn hefur beislað þessa orku í vel yfir 5.500 ár, þá með seglum báta og skipa. Á 7.öld að talið er voru fyrstu vindmyllurnar hannaðar, sem gerði mönnum kleift að nýta þessa orku til þess að mala korn og dæla vatni á milli staða. Síðar var farið að nota hana til þess að knýja ýmsan vélbúnað. Það var þó ekki fyrr en upp úr aldamótunum 1900 að vindmyllur voru fyrst notaðar til rafmagnsframleiðslu. Þróun vindmylla var hæg allt til ársins 1990 þegar stórt stökk varð í kjölfar umræðna um umhverfismál. Vindorka er ókeypis og ótæmandi orkulind sem felur í sér ýmsa kosti varðandi nýtingu. Hún er vissulega ódýr virkjunarkostur, veldur lítilli röskun á umhverfi og er almennt umhverfisvæn. Þó eru ýmsir vankantar á og má þá helst nefna hversu óstöðug orkulind vindurinn er og stuttan líftíma vindmylla. Vindmylla þarf lágmarks vindhraða, um 4 m/s til þess að framleiða rafmagn og nær fullum afköstum við 15 m/s, þeim heldur hún að 25 m/s. Þá aftengist hún þar til vindhraði er kominn niður í 20 m/s. Það getur því verið vandasamt að finna góða staðsetningu fyrir vindorkuver og þar að auki að nauðsynlegt að hafa varaaflstöð til þess að tryggja stöðuga orku. Nýting vindorku á Íslandi. Á Íslandi er bæði jarðhiti og vatnsorka nýtt en hvor tveggja er stöðugri og hagkvæmari en vindorkan. Af þessum sökum hefur lítil þörf verið fyrir vindmyllur hér á landi. Margar þjóðir hafa þó séð hag sinn í því að beisla vindorkuna og greiða jafnvel með vindorkuverum, til þess að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis. Þó skal tekið fram að vindorkuver hafa þróast mikið og hratt á undanförnum árum svo kostnaður við rafmagnsframleiðslu frá vindorku hefur stórlega dregist saman. Samkvæmt bandaríska orkumálaráðuneytinu er uppsetningar- og rekstrarkostnaður vindorkuvera orðinn mjög svipaður því sem kostar að setja upp og reka raforkuver knúin jarðefnaeldsneyti. Í dag eru stærstu vindorkuverin staðsett á hafi, en þó eru litlar líkur á því að slíkt vindorkuver hér á landi yrði samkeppnishæft við vatnsaflsvirkjanir. "„Áður fyrr var nokkuð um að reistar væru litlar vindrafstöðvar við sveitabæi á Íslandi. Þær lögðust af með rafvæðingu landsins eftir miðja öldina og á tímabili munu Rafmagnsveitur ríkisins meira að segja hafa gert þá kröfu að slíkum heimarafstöðvum væri lokað... Á Íslandi hefur aldrei risið neitt vindorkuver í þeim stærðarflokki sem nú þekkist víða um heim. Hér er einungis að finna mjög litlar vindrafstöðvar sem t.d. Vegagerðin mun hafa nýtt sér. Ekki er kunnugt um að almennar hagkvæmnisathuganir hafi verið gerðar um að reisa vindorkuver hér á landi, en einhverjar staðbundnar athuganir í tengslum við vindmælingar hafa verið gerðar, svo sem í Grímsey og Vestmannaeyjum." Unnið hefur verið að því síðustu ár að gera vindatlas fyrir Ísland í samtarfi Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands. Vindatlas þessi er kortlagning vindorku landsins og gefur góða mynd af vindafari sem og heppilegum stöðum fyrir hugsanleg vindorkuver. Þó þyrfti ítarlegri rannsóknir á tilteknum svæðum áður en hægt væri að taka ákvörðun um að setja upp slíkt orkuver. Vindatlasinn er aðgengilegur um og í gegnum vef Orkustofnunnar. Sólarorka. Á hverri sekúndu gefur sólin frá sér um formula_1 júl af orku á formi rafsegulgeislunar. Til samanburðar samsvarar heildar orkuframleiðsla á jörðinni á ári því sem sólin framleiðir á einum billjónasta hluta úr sekúndu. Þessi orka er kölluð sólarorka og hluti af henni streymir til jarðar. Gufuhvolfið endurkastar svo eða gleypir flest alla skaðlega geisla áður en þeir ná til yfirborðs jarðar. Sólarorkan er uppspretta allra orkulinda jarðar að undanskildum jarðhitanum og kjarnorku. Hún er orkan sem drífur veðrakerfi og hafstrauma jarðar og því má rekja upptök vind- og vatnsorku til sólarinnar. Sama gildir um þá orku sem losnar við brennslu trjáa og plantna, því sú orka er í raun sólarorkan sem plönturnar beisluði við vöxt sinn. Þetta gildir einnig um jarðefnaeldsneyti enda myndast það úr gömlum jurtaleifum og má þess vegna rekja til sólar. Hægt er að nýta sólarorku á ýmsa vegu bæði í iðnaði og á heimilum til dæmis til hitunar vatns og lýsingar. Sólarljósið er þó ekki stöðugt og orkumagnið á hverjum stað misjafnt. Það fer eftir staðsetningu, árstíma, tíma dags og veðráttu, og því hentar best að beisla þessa orku á sólríkari svæðum. má sjá á korti hver meðaldreifing sólarorku um jörðina á ári er, dekksti liturinn sýnir hvar hún er mest. Nýting sólarorku á Íslandi. Þó sólarorka sé mikið nýtt erlendis hefur lítið farið fyrir beinni nýtingu hennar hér. Hún hefur hingað til nær eingöngu verið verið nýtt af hjólhýsa- og sumarhúsaeigendum sem og fleirum sem ekki hafa beinann aðgang að veitukerfum, og gefið góða raun. Þessi kostur er hagkvæmur fyrir minni aðila en þó hefur ekki verið gerð nein heildarúttekt á mögulegri nýtingu sólarorku í stærri stíl. Í Sesseljuhúsi á Sólheimum hefur verið sett upp stærsta sólarsellusamstæða landsins, hún er um 2kW og reynist vel yfir sumartímann. Lífmassi. Dæmi um framleiðslu lífmassa, hampræktun á Möðruvöllum 2008 Lífmassi er í grunninn lífrænt efni sem gengur af í líffræðilegum ferlum. „Þegar rætt er um lífmassa sem orkulind er yfirleitt átt við afurðir eða aukaafurðir úr skógrækt og landbúnaði, en etanól, metan og lífdísill eru helstu lífmassa-orkumiðlarnir. Því kemur ekki á óvart að þau lönd sem komin eru einna lengst í þróun á lífmassa sem eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis eru Brasilía, þar sem sykurreyr er hráefnið, Svíþjóð og Finnland, þar sem skóglendi er mikið, þó fleiri lönd standi einnig framarlega í þessum efnum.“ "Lífmassi er meðal þeirra orkugjafa sem munu koma í stað jarðefnaeldsneytis til að draga úr aukningu gróðurhúsaáhrifa. Með því að vinna gas úr sorpi og búfjáráburði er einnig dregið úr losun metans sem er mjög virk gróðurhúsalofttegund, og afgangar úr grisjun skóga og timburvinnslu eru mikilvægt hráefni. Úrgangur sem til fellur dugir þó skammt. Hér á landi kemur til greina að hirða lífmassa af túnum eða rækta tún sérstaklega með tegundum eins og strandreyr, byggi og alaskalúpínu. Víði ætti að mega rækta með góðum árangri. Minni líkur eru á að rækta megi olíujurtir til að fá dísileldsneyti". Orkan sem fæst úr lífmassa er ekki jafn þétt og sú úr jarðefnaeldsneyti og því þarf aukna tækni til þess að lífmassaorka sé samkeppnisfær. Því er ljóst að landbúnaðurinn og iðnaður þarf meiri gróður og hagkvæmari vinnslu til þess að unnt sé að auka notkun lífmassa. Mögulegar afurðir úr lífmassa er eldsneyti í vökva- og gasformi auk fleiri gagnlegra efnasambanda sem nú eru framleidd úr jarðefnum. Nýting lífmassa á Íslandi. Árið 1997 var Íslenska lífmassafélagið stofnað með það fyrir augum að styðja verkefni um etanól framleiðslu sem og annarra efna með nýtingu jarðgufu. Í grunninn var hugmyndin að nýta háhitasvæðin og lífmassa. Meginhráefnin áttu að vera úrgangspappír, alaskalúpína, bygg, hey og mysa og afurðirnar m.a. etanól. "„Gróft séð virðist vera möguleikar á framleiðslu allt að 50.000 tonnum af etanóli úr innlendum gerjunarmassa og hugsanlega um 700.000 tonn með fáanlegri jarðgufu. Þar með er ekki sagt að þessar leiðir væru þær hagkvæmustu í úrvinnslu lífmassa á Íslandi. Hugsanlegt er að etanólið nýtist með hagkvæmari hætti í ýmiskonar efnaframleiðslu en athuganir á þessum þáttum liggja ekki fyrir. Því er varlegt að áætla um lífmassa sem orkugjafa þangað til frekari rannsóknir og hagkvæmniathuganir liggja fyrir.“" Árið 2009 var opnuð á kurlkyndistöð á Hallormsstað sem Skógarorka ehf. rekur. Þar er viður sem fellur til við grisjun á svæðinu nýttur sem orkugjafi. Kyndistöðin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og kemur til með að þjóna bæði opinberum byggingum og heimilum á svæðinu þegar fram líða stundir. Kurlkyndistöð sem þessi er kolefnishlutlaus enda losar tré sem hefur verið kurlað og brennt einungis kolefnið sem bundið var í því. Fengi tréð að standa, deyja og fúna myndi sama magn kolefnis losna út í andrúmsloftið. Endurnýjanleg orka á Íslandi. Ísland hefur mikla sérstöðu þegar kemur að orkumálum. Hér á landi er notuð meiri orka af hverjum íbúa en þekkist annarsstaðar og sömuleiðis er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa óvenju hátt. Orkubúskapur þjóðarinnar byggist aðallega á jarðhita, vatnsafli og innfluttu jarðefnaeldsneyti. Samkvæmt Hagstofu Íslands var heildar orkunotkun þjóðarinnar árið 2008, 227,6 PJ (petajúl). Rúmlega 80% kom frá innlendum og endurnýjanlegum orkulindum og 18% innfluttu jarðefnaeldsneyti, en þessi hlutföll eru alveg öfugt við það sem gerist annarsstaðar í heiminum. Af innlendri orku kom 19,6% frá vatnsafli en mest eða 61,3% frá jarðhita. Notkun jarðefnaeldsneytis einskorðast að mestu við bíla- og skipaflotann eða um 16% og tæp 2% eru kol sem notuð eru í iðnaði. Íslensk stjórnsýsla. Ísland er í samstarfi á alþjóðavettvangi um orkumál og þannig fengið tækifæri til þess að miðla reynslu og upplýsingum á þessu sviði. Í dag heyra orkumál því undir utanríkisráðuneytið sem er samvinnu við umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Orkustofnun er stjórnsýslustofnun orkumála í umboði stjórnvalda og gefur ráðleggingar í þeim efnum. Stofnunin aflar þekkingar um orkumál og varðveitir þann þekkingarbrunn; aflar undirstöðugagna um vatnafar og vatnsbúskap, jarðhita, náttúrufar og umhverfi; miðlar þurfandi þjóðum af þekkingu okkar í rannsóknum og nýtingu á jarðhita. Kröfur um samræmda stefnu og aðgerðir á heimsvísu hafa aukist mjög og því er alþjóðlegt samstarf engu síður mikilvægt svo markmiðum verði náð. Slíkt samstarf er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem að miklu leyti byggir efnahag sinn á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og hreinni náttúru. Vinna að aukinni þekkingu og tækniþróunar á sviði endurnýjanlegrar orku hefur verið sett í forgang á Norðurlöndunum. Náttúrulegar aðstæður eru þó mjög ólíkar á milli landa eða svæða, og því misjafnt hvaða orkulindir hentar að nýta á hverjum stað. Þær orkulindir sem mest er horft til á norðurlöndum eru: vindorka, vatnsorka, jarðhiti, lífræn orka og sólarorka. Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms - Lög Sigfúsar Halldórssonar. Vilhjálmur og Elly Vilhjálms er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Vilhjálmur Vilhálms og Elly Vilhjálms tólf lög eftir Sigfús Halldórsson. Hljóðritun hljómplötunnar fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar, sem lagði mikla rœkt við að ná hinu besta fram í söng og hljóðfæraleik. Forsíðumynd tók Kristján Magnússon, en plötuumslagið var að öðru leyti unnið í Grafík hf. Skutur. Skutur (ft. "skutir" eða "skutar", sjá mismunandi rithætti) er afturhluti skips. Stýrið er oftast staðsett í skutnum. Þar var einnig aðstaða skipstjórans og hefðarmanna fyrr á öldum. Verulega var vandað við skreytingar á þessum hluta skipsins og gjarnan útskornar myndir o.fl. sem prýddi híbýlin. Fremsti hluti skipsins kallast stefni. Valdimar Indriðason. Valdimar Indriðason (f. 9. september 1925 á Akranesi) var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vesturlandskjördæmi. Rachel Green. Rachel Karen Green var tilbúin persóna í bandarísku sjónvarpsþáttunum "Friends" (1994-2004) og var hún leikin af Jennifer Aniston sem fékk bæði Emmy- og Golden Globe verðlaun fyrir frammistöðu sína. Bakgrunnur. Rachel birtist fyrst í fyrsta þætti "Friends" þegar hún hleypur inn á Central Perk í gegnblautum brúðarkjól. Rachel hafði flúið brúðkaup sitt og tannlæknisins Barry Farber þegar hún áttaði sig á því að hún elskaði hann í rauninni ekki og vildi heldur sósuskálina sem þau höfðu fengið í brúðargjöf en hann. Það kemur fram í gegnum þættina að Rachel átti nokkuð mörg gæludýr, meðal annars kött, hund, póníhest, skjaldböku, hamstur og tarantúlu þegar hún var að alast upp. Foreldrar Rachel, Dr. Leonard og Sandra Green, eru rík og efast mikið um getu hennar til að lifa upp á sínar eigin spýtur í borginni. Móðir hennar, sem leikiner af Marlo Thomas, er snobbuð og faðir hennar (leikinn af Ron Leibman) er erfiður og ógnand, þrátt fyrir það kemur það fram í þættinum „The One with Rachel's Sister“ að hann er mjög stoltur af árangri Rachel í lífinu. Rachel er fæddd 5. maí 1970 þegar Gunther, framkvæmdastjóri Central Perk kaffihússins, spyr Rachel um afmælisdaginn. Í öðrum þætti segir hinsvegar lögreglumaður að hún sé vatnsberi, svo afmælisdagurinn hennar ætti að vera milli 21. janúar og 19. febrúar. Þátturinn „The one where the all turn thirty“ sýnir Rachel fagna 30. afmælisdeginum og vinir hennar hverfa aftur til þeirra dags sem þau urðu þrítug. Þetta bendir til þess að hún sé yngst í hópnum. Í gegnum þáttaraðirnar eru systur hennar oft nefndar og birtast í nokkrum þáttum. Amu (leikin af Christinu Applegate) er dónaleg og áhyggjulaus, á meðan Jill (leikin af Reese Witherspoon) er dekruð og til einskis. Í einum þætti segir Rachel óvart að Jill sé uppáhalds systir hennar, eftir að Amy öskrar á Rachel í gegnum hurðina (eftir að hafa komið í óvænta heimsókn) „Þetta er uppáhalds systir þín!“ en þá svara Ross og Rachel „Jill?“ Af/á samband Rachel við Ross gefur henni dótturina Emmu. Rachel var önnur í hópnum til að verða ólétt eftir að Phoebe var staðgöngumóðir fyrir bróður sinn og konuna hans. Þættirnir enda á því að Ross og Rachel byrja aftur saman eftir að Rachel ætlaði að flytja til Parísar til að vinna fyrir Louis Vuitton. Það hefur verið uppi orðrómur um að þau hafi gift sig eftir að þættirnir enduðu og eignast fjölskyldu. Persónuleiki. Persónuleiki Rachel þróast mikið í þáttunum. Í byrjun er hún dekruð „pabbastelpa“ en seinna, sérstaklega eftir að hafa eignast Emmu, er hún ekki eins sjálfselsk. En hún hefur ennþá miklar áhyggjur af ímynd sinni og á það til að verða sjálfselsk. Það kemur fram í þakkargjörðaþættinum í 4. þáttaröð að Rachel er gjörn á að skipta gjöfum fyrir aðra hluti eða inneign. Henni var oft lýst sem vinsælustu og snobbuðustu stelpunni í skólanum, og Brad Pitt (eiginmaður Aniston á þessum tíma) lék jafnvel gestahlutverk í þáttunum þar sem hann lék strák sem hafði verið mjög feitur og er ennþá reiður yfir því að Rachel hafi komið illa fram við hann. Þjóðvegur 44. Þjóðvegur 44 eða Hafnavegur er vegur á Reykjanesi og liggur af Reykjanesbraut hjá Fitjum í Njarðvík, meðfram varnarliðsgirðingunni, að þorpinu Höfnum. Vegurinn er 8,5 km langur. Þjóðvegur 22. Þjóðvegur 22 eða Dalavegur er þjóðvegur í Vestmannaeyjum, sem liggur frá Básaskersbryggju, í gegnum bæinn um Skildingaveg, Heiðarveg og Strembugötu, inn á Dalaveg og að flugstöðinni. Þjóðvegur 25. Þjóðvegur 25 eða Þykkvabæjarvegur er vegur á Suðurlandi og liggur af hringveginum (Þjóðvegi 1) hjá bænum Ægissíðu vestan við Ytri-Rangá hjá Hellu og niður í Þykkvabæ. Liggur vegurinn á köflum á varnargarði sem gerður var um 1923 til að verja Þykkvabæ og nærsveitir fyrir flóðum úr Ytri-Rangá og Hólsá, og til að þurrka upp Safamýri. Þjóðvegur 26. Þjóðvegur 26 eða Landvegur er vegur á Suðurlandi og liggur frá hringveginum (Þjóðvegi 1) við söluskálann Vegamót (einnig kallað Landvegamót, eftir veginum) skammt vestan við Hellu. Liggur hann síðan upp eftir Holta- og Landsveit, framhjá Skarði og Galtalæk og áfram norðan við Heklu um Rangárbotna, framhjá Tröllkonuhlaupi og að Þjórsárdalsvegi (32) sunnan Þjórsár. Landvegur er 63 km langur. Frá Þjórsárdalsvegi breytir Þjóðvegur 26 um nafn og heitir Sprengisandsleið eftir það. Vegurinn hefur verið uppbyggður í tengslum við virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar langt upp fyrir Þórisvatn og fær leiðin ekki F-númerið fyrr en komið er að skálanum Versölum. Liggur leiðin um Tungnaá hjá Hrauneyjafossi og um svonefndan Kvíslaveg upp að Versölum. Um Sprengisandsleið er fjallað sér. Sprengisandsleiðin er 219 km alla leið í Bárðardal, þar af eru 65 km frá Þjórsárdalsvegi að Versölum. Þjóðvegur 30. Þjóðvegur 30 eða Skeiða- og Hrunamannavegur er 56 kílómetra langur vegur í Flóahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Hrunamannahreppi og Bláskógabyggð. Liggur hann frá Hringveginum nálægt Bitru, um Skeið og framhjá Brautarholti, mætir Skálholtsvegi (31) við Reyki og Þjórsárdalsvegi (32) við Sandlækjarkot 1,5 km lengra, áfram yfir Stóru-Laxá og framhjá Hrepphólum til Flúða. Vegurinn liggur í gegnum Flúðir, og áfram upp eftir að Brúarhlöðum, síðan yfir Hvítá og að Biskupstungnabraut við Kjóastaði. Vegurinn er nú malbikaður að mestu leyti, en ennþá eru eftir um 4 km næst Biskupstungnabraut. Þjóðvegur 31. Þjóðvegur 31 eða Skálholtsvegur er 15 kílómetra langur vegur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Bláskógum. Hann liggur frá Skeiða- og Hrunamannavegi hjá Reykjum, upp Skeið og um Iðubrú á Hvítá, í gegnum Laugarás framhjá Skálholti og að Biskupstungnabraut hjá Spóastöðum. Vegurinn var til skamms tíma eina tengileiðin milli vega 30 og 35, og þar með milli Hreppa og Biskupstungna, þar til Hvítárbrú hjá Bræðratungu komst í gagnið árið 2011. Þjóðvegur 32. Þjóðvegur 32 eða Þjórsárdalsvegur er vegur á Suðurlandi. Hann liggur af Skeiða- og Hrunamannavegi (Þjóðvegi 30) inn í Gnúpverjahrepp, framhjá Árnesi og fyrir Gaukshöfða upp í Þjórsárdal. Vegurinn sveigir upp á Skeljafell við Búrfellsvirkjun og liggur síðan meðfram Bjarnalóni og Þjórsá allt að Sultartangavirkjun. Þar er farið yfir Þjórsá og að Landvegi (Þjóðvegi 26). Þjóðvegur 33. Þjóðvegur 33 eða Gaulverjabæjarvegur er 26 kílómetra langur vegur í Árborg og Flóahreppi. Hann liggur frá Hringveginum við Selfoss, niður í Gaulverjabæ, sveigir þar vestur með ströndinni, fer framhjá rjómabúinu á Baugsstöðum, liggur í gegnum Stokkseyri og til Eyrarbakkavegar. Þjóðvegur 34. Þjóðvegur 34 eða Eyrarbakkarvegur er 24 kílómetra langur vegur í Árborg og Ölfusi. Hann liggur frá Hringveginum við Ölfusárbrú, um Eyrarveg á Selfossi og niður eftir gamla Sandvíkurhreppi, framhjá Eyrarbakka og yfir Óseyrarbrú, um Hafnarskeið til Þorlákshafnarvegar. Vegurinn niður til Eyrarbakka var malbikaður í áföngum á árunum 1977-1980. Óseyrarbrúin var vígð 1988. Þjóðvegur 35. Þjóðvegur 35 er stofnvegur í Suðurkjördæmi Íslands. Vegurinn skiptist í tvo meginhluta: Biskupstungnabraut í byggð frá Suðurlandsvegi undir Ingólfsfjalli vestan Selfoss að Gullfossi, sem má teljast heldri hluti vegarins, og Kjalvegur yfir Kjöl tekur síðan við fyrir norðan Gullfoss og ber hann númerið 35 alla leið niður í byggð í Blöndudal. Þjóðvegur 35 er í heildina 237 km langur. Biskupstungnabraut. Biskupstungnabraut er meginstofnvegurinn í Uppsveitum Árnessýslu vestan Hvítár og jafnframt aðalleiðin að Geysi og Gullfossi. Liggja allar helstu leiðir á svæðinu út frá henni, s.s. Þingvallavegur (36) í Þrastarskógi, Laugarvatnsvegur (37) við Svínavatn og aftur á Biskupstungnabraut við Múla, Skálholtsvegur (31) við Brúarárbrú hjá Spóastöðum og Hrunamannavegur (30) við Kjóastaði. Í grennd við veginn er fjöldi áhugaverðra staða. Má þar nefna Kerið, fossinn Faxa í Tungufljóti og svo að sjálfsögðu Geysi og Gullfoss. Leiðin liggur einnig framhjá tveimur byggðarkjörnum við félagsheimilin Minni-Borg og Aratungu (Reykholt í Biskupstungum). Sogsbrúin við Alviðru er á veginum. Upphaflega brúin var byggð 1905 og þótti hún mikil samgöngubót á sinni tíð. Núverandi brú er byggð 1983. Biskupstungnabraut er 69 km löng frá Suðurlandsvegi við Selfoss upp að Gullfossi. Kjalvegur. Kjalvegur taldist til fjallvega til skamms tíma og bar þá númerið F35 (og áður F37). Frá Gullfossi liggur hann upp með Hvítá að Hvítárvatni, fer þar yfir hana og liggur síðan að kjördæmamörkum á Fjórðungsöldu á Kili en kemur vegurinn þá yfir í Norðvesturkjördæmi. Þaðan liggur hann um Hveravelli, Auðkúluheiði og Blöndulón áður en hann kemur niður í Blöndudal við stöðvarhús Blönduvirkjunar. Vegurinn endar við Svínvetningabraut (731) hjá Löngumýri utarlega í Blöndudal, en vegur 732 sem var kaflinn út Blöndudal frá Blönduvirkjun var bætt við Kjalveginn nýlega. Svínvetningabraut tengir síðan Kjalveg við Norðurlandsveg í Langadal. Kjalvegur einn og sér er 168 km langur. Þingvallavegur. Þingvallavegur eða þjóðvegur 36 er stofnvegur á sunnanverðu Íslandi. Vegurinn samanstendur af aðalleiðinni frá Reykjavík til Þingvalla, auk gamla Sogsvegar niður með Þingvallavatni og Soginu austanmegin sem tengir Þingvallasveit við Selfoss og nágrenni. Vegurinn er 68 km að lengd, þar af eru 33 km frá Vesturlandsvegi að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þingvallavegur telst hafa upphafspunkt við Biskupstungnabraut (35) í Þrastarskógi og liggur þaðan upp með Soginu framhjá Ljósafossvirkjun og Steingrímsstöð. Fjöldi sumarhúsabyggða er við veginn á þessum slóðum. Nálægt Gjábakka og vegamótum Lyngdalsheiðarvegar (365) greinist vegurinn frá hinum eiginlega Þingvallavegi (361) og fylgir vegi sem gerður var fyrir þjóðhátíðarárið 1974 ofar í landinu. Kemur gamli Þingvallavegurinn aftur á hinn nýja við þjónustumiðstöðina. Frá þjónustumiðstöðinni liggur einnig leiðin upp á Uxahryggi (52) og Kaldadal (550). Vegarkaflinn fyrir ofan þinghelgina var tekinn í notkun 1965 og þar með var lokað fyrir umferð um Almannagjá. Fyrir vestan Hakið liggur leiðin í landi Kárastaða, framhjá Vinaskógi og upp á Mosfellsheiði. Mætir vegurinn Kjósarskarðsvegi (48) á háheiðinni. Lengi framan af 20. öldinni lá vegurinn talsvert sunnar og um sjálfa Mosfellsheiðina og tók stefnuna á Miðdal fyrir ofan Hafravatn. Núverandi vegur liggur hinsvegar nyrst á Mosfellsheiðinni og fram hjá Leirvogsvatni, og heldur síðan niður Mosfellsdal út að Vesturlandsvegi fyrir ofan Mosfellsbæ. Vegurinn frá Reykjavík var ekki að fullu malbikaður fyrr en stuttu fyrir lýðveldisafmælið 1994, og hluti af Sogsveginum var enn með malarslitlagi fram til ársins 2000. Oftar en ekki hefur því verið unnið að lagfæringum á veginum þegar stórhátíðar á Þingvöllum hafa verið á döfinni. Þjóðvegahátíðin mikla. Árið 1994 var ætlunin að stefna sem flestum landsmönnum til Þingvalla á hátíðarhöldin 17. júní vegna 50 ára afmælis lýðveldisins, en vegna lélegrar umferðarstjórnunar tepptist vegurinn báðum megin frá svo margir urðu að sitja tímunum saman í umferðarteppu. Hátíðin hefur stundum verið kölluð þjóðvegahátíðin mikla með tilvísun í þennan atburð. Þessi atburður olli því að gerðar voru ýmsar ráðstafanir við Kristnihátíðina árið 2000, og umferð aðeins leyfð í aðra hvora áttina á báðum akreinum eftir því hvaða tími dagsins var. Gekk umferðarflæðið mun betur fyrir sig þá. Þjóðvegur 37. Þjóðvegur 37 eða Laugarvatnsvegur er 36,4 kílómetra langur vegur í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð. Hann liggur frá Biskupstungubraut hjá Svínavatni, að og í gegnum Laugarvatn, um Laugardal, yfir Brúará og framhjá Úthlíð og inn á Biskupstungabraut hjá Múla. Þjóðvegur 38. Þjóðvegur 38 eða Þorlákshafnarvegur er 19 kílómetra langur vegur í Hveragerði og Ölfusi. Hann liggur frá Suðurlandsvegi frá hringtorginu við Hveragerði, út eftir vestanverðu Ölfusi að Þrengslavegi (39), beygir þar inn á hann og liggur meðfram hitaveiturörinu niður til Þorlákshafnar. Endar vegurinn við hringtorgið í útjaðri bæjarins. Þjóðvegur 39. Þjóðvegur 39 eða Þrengslavegur er 16 kílómetra langur vegur í Ölfusi. Hann liggur frá Suðurlandsvegi á mislægu gatnamótunum í Svínahrauni, um Þrengslin og um Eldborgarhraun niður til Þorlákshafnarvegar þegar komið er niður af brúninni. Vegurinn var gerður á 7. áratugnum í tengslum við ríkjandi hugmyndir á þeim tíma að aðalleiðin skildi liggja um þá leið. Fljótlega eftir það var lagður vegur yfir Hellisheiðina og vegurinn um Þrengslin var mjókkaður í kjölfarið. Þrengslavegur, og leiðin í framhaldi af honum til Þorlákshafnar, var malbikaður árið 1980. Þar sem vegurinn líður niður af brúninni liggur hann á köflum ofan á Raufarhólshelli, en munni hans er rétt við veginn á þeim slóðum. Þjóðvegur 40. Þjóðvegur 40 eða Hafnarfjarðarvegur er 9,4 kílómetra langur vegur á höfuðborgarsvæðinu. Hann liggur frá Sæbraut, í gegnum Kópavog og Garðabæ til Reykjanesbrautar við Kaplakrika. Vegurinn er ein af helstu aðalbrautunum á Höfuðborgarsvæðinu. Innan Reykjavíkur heitir vegurinn Kringlumýrarbraut, og við Miklubraut 49) eru einhver fjölförnustu gatnamót landsins. Helstu gatnamótum er stýrt með umferðarljósum frá Sæbraut og að Listabraut. Þaðan og alla leið að Vífilsstaðavegi í Garðabæ eru að- og fráreinar við öll gatnamót, þ.m.t. í Kópavogi. Frá Vífilsstaðavegi er gatnamótum stýrt með ljósum á ný. Vegurinn er 4 akreinar á flestum stöðum. Kringlumýrarbraut er þó 6 akreinar frá Miklubraut og inn í Kópavog. Þegar komið er að gatnamótunum í Engidal hjá Hafnarfirði, beygir vegurinn út af aðalbrautinni. Aðalvegurinn heitir eftir það Reykjavíkurvegur, en þjóðvegur 40 liggur um Fjarðarhraun sem er aðeins 2 akreinar. Við Kaplakrika kemur Reykjanesbraut (41) inn á veginn og endar þjóðvegur 40 þar. Þjóðvegur 42. Þjóðvegur 42 eða Krýsuvíkurvegur er 27 kílómetra langur vegur í Hafnarfirði og Grindavík. Hann liggur frá Reykjanesbraut við Hafnarfjörð, inn að Undirhlíðum og um Vatnsskarð, meðfram Kleifarvatni, framhjá Seltúni og Krýsuvík til Suðurstrandarvegar í Krýsuvík. Þjóðvegur 43. Þjóðvegur 43 eða Grindavíkurvegur er 14 kílómetra langur vegur sem liggur frá Reykjanesbraut við Vogastapa, framhjá Seltjörn og að Svartsengi, um skarð bak við Þorbjörn til Grindavíkur. Þjóðvegur 45. Þjóðvegur 45 eða Garðskagavegur er 31 kílómetra langur vegur á Reykjanesi. Hann liggur frá hringtorgi við Reykjanesbraut við Rósaseltjarnir, ofan við Keflavík og út í Garð, um Garðinn og til Sandgerðar, áfram um bæinn og þaðan framhjá Hvalneskirkju út að Stafnesi. Þaðan liggur vegurinn um Básenda og fyrir Ósabotna á Hafnaveg (44). Vegurinn er að mestu einbreiður frá Sandgerði og út að Stafnesi. Vegurinn frá Stafnesi að Hafnavegi er að miklu leyti gamall vegur frá Varnarliðinu. Hvalfjarðarvegur. Hvalfjarðarvegur eða þjóðvegur 47 er sá hluti Hringvegarins sem lá um Hvalfjörðinn áður en hann var færður í Hvalfjarðargöngin árið 1998. Vegurinn er 61 km að lengd. Á sínum tíma var vegurinn mjög varasamur vegna mikillar umferðar og erfiðra aðstæðna. Bundið slitlag komst ekki á allan veginn fyrr en laust eftir 1990. Um tveimur árum áður en Hvalfjarðargöngin opnuðu var gerð ný brú yfir Botnsvog og tvær mjög varasamar einbreiðar brýr yfir Botnsá og Brunná voru aflagðar, en við Botnsá höfðu fjölmörg alvarleg umferðarslys orðið. Við veginn um Hvalfjörð voru þrjár vegasjoppur. Hinn frægi Botnsskáli stóð við brúna yfir Botnsá, honum var lokað um það leyti sem vegurinn var færður í botni fjarðarins. Við Miðsand var annar skáli og sá þriðji var yst við bæinn Ferstiklu, þar sem eru vegamót Dragavegar (520). Með minnkandi umferð tók einnig að halla undan viðskiptum hjá hinum skálunum. Í dag er vegurinn um Hvalfjörð fáfarinn almennt, en á góðviðrisdögum að sumarlagi er þó töluverð frístundaumferð um veginn, enda hentar hann vel til sunnudagsbíltúra. Í Hvalfjarðarsveit hefur orðið töluverð uppbygging í ferðaþjónustu á síðustu árum, auk þess sem Kjósin nýtur vaxandi vinsælda til búsetu. Vegurinn er einnig notaður sem varaleið fyrir Hvalfjarðargöngin, og þá getur umferðin aukist verulega tímabundið. Vegnúmer 47 var áður notað á stuttan kafla núverandi Reykjanesbrautar, næst Flugstöð Leifs Eiríkssonar, eða frá hringtorginu við Garðsveg (45). Reykjanesbraut lá á þeim tíma til Sandgerðis, en sá kafli fékk númerið 429 við breytingarnar. Þjóðvegur 48. Þjóðvegur 48 eða Kjósarskarðsvegur er 22 kílómetra langur vegur í Kjósarhreppi og Bláskógabyggð. Hann liggur frá Hvalfjarðarvegi, um Kjós norðan Laxár, upp í Kjósarskarð og framhjá Fellsenda til Þingvallarvegar á Mosfellsheiði. Nesbraut. Nesbraut eða þjóðvegur 49 er vegur sem liggur um Ísland. Vegurinn liggur út frá þjóðvegi 1 við gatnamót Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar og liggur til vesturs í gegnum Reykjavíkurborg og Seltjarnarnes. Leiðin er þekktari undir þeim nöfnum sem hún ber í gatnakerfi Reykjavíkur og Seltjarnarness en þau eru (frá austri til vesturs): Vesturlandsvegur, Miklabraut, Hringbraut, Eiðsgrandi og Suðurströnd. Þjóðvegur 50. Þjóðvegur 50 eða Borgarfjarðarbraut er vegur sem liggur um Borgarfjörð, frá hringveginum (Þjóðvegi 1) við Borgarfjarðarbrú og um Andakíl, Reykholtsdal og Stafholtstungur og aftur inn á Þjóðveg 1 við söluskálann Baulu. Þjóðvegur 51. Þjóðvegur 51 eða Akrafjallsvegur er 18,4 kílómetra langur vegur í Hvalfjarðarsveit og Akranesi. Hann liggur frá Hringveginum við Innrihólm, í kringum Akrafjall og til Hringvegarins við Urriðaá. Metrakerfið. Metrakerfið er kerfi mælieininga sem notað er í vísindum um allan heim. Það er tugakerfi þ.e.a.s. byggt á grunntölunni 10 og er lögð sérstök áhersla á tölur sem fást með því að margfalda töluna 10 með sjálfri sér, t.d. 100 og 1000 eða með því að deila með 10 t.d. 1/10 og 1/1000. Þessum margfeldum er svo gefin sérstök nöfn með forskeytum eins og kíló-, hekta-, deka-, desi-, sentí- og milli-. Metrakerfið er hluti SI-kerfisins. Díll. Þetta dæmi sýnir þar sem einn hluti myndarinnar hefur verið mikið stækkaður, og auðveldlega er hægt að sjá hvern díl (líta út eins og litlir kassar) fyrir sig. Díll, depill eða pixill (einnig sjaldan kallað tvívíð myndeind) er minnsta eining í stafrænni mynd, og er alltaf einlit. James Madison. James Madison 4. Forseti Bandaríkjanna James Madison (16. mars 1751 - 28. júní 1836) var bandarískur stjórnmálamaður og varð 4. forseti Bandaríkjanna frá 1809 til 1817. Hann var sonur ríkra plantekrueigenda í Virginíu eins og Thomas Jefferson. Þeir voru góðir vinir og stóðu saman í baráttunni fyrir „The bill of rights“. Madison var „federalisti“ og ásamt Alexander Hamilton mótaði hann stefnu flokksins sem barðist fyrir sterkri miðstýringu og voldugri ríkisstjórn. Hann var einn af aðalstuðningsmönnum Georgs Washingtons og átti stóran þátt í tilurð forsetaembættisins. Madison er einn „landsfeðra“ Bandaríkjanna, en hann hefur verið nefndur „faðir stjórnarskrárinnar“ því hún er að mestu talin hans höfundarverk. Þegar George Washington varð meiri „federalisti“ og sammála þeim Alexander Hamilton og James Madison um það að ríkisstjórnin ætti að vera valdamikil tók Madison að efast um þessa stefnu. Hann fór að líta þannig á að ríkisstjórnin ætti ekki að styrkja iðnað eða verslun umfram landbúnað eða slíka hluti og gekk því yfir í stjórnarandstöðuna og í Demókratískir repúblikanar Thomasar Jeffersons. Þess vegna varð hann utanríkisráðherra (e. "secretary of state") á valdatíma Jeffersons og aðalsamningamaður í Louisiana kaupunum. Árið 1808 varð hann svo forsetaefni demókratískra repúblikana og vann kosningarnar. Kosningabaráttan. Kosningabaráttan var þó tvísýn. Viðskiptabannið á Bretland og Frakkland hafði lagt efnahag Bandaríkjamanna í rúst. Jefferson hafði aukið herkvaðningu og skatta andstætt kosningaloforðum. Og ekki bara það, heldur þá skiptist Repúblikanaflokkurinn í tvennt, helmingur þeirra studdi George Clinton til forseta embættis. Ekki nóg með það heldur hótaði Nýja England að segja sig úr ríkjasambandinu. Öllum að óvörum þá burstaði James Madison kosningarnar. Federalistar voru í algjörum minnihluta og þrátt fyrir Demókratískir repúblikanar væru tvískiptir þá hlutu báðir flokkshelmingur í hvoru lagi meira en þeir. James Madison varð forseti. Á sama tíma og George Clinton varð varaforseti. Kjörtímabilið 1808-1812 var tiltölulega tíðindalaust, engin söguleg tíðindi áttu sér stað í utanríkismálum. En vegna þess magnaðist spenna milli Bandaríkjanna og Breta. Fimmtán dögum fyrir kosningar fékk Madison stuðning þingsins fyrir stríði gegn Bretlandi. BNA menn voru sannfærðir um að Bretar væru svo veikburða að þeir gætu ekki svarað fyrir sig og að Kanada yrði innan skamms frelsað og innlimað í Bandaríkin. Þetta átti ekki eftir að fara alveg eins og þeir höfðu hugsað sér. Stríðið 1812. Eins og ávallt gerist í stríðum þá linnir gagnrýni á ráðamenn og þjóðin þjappast saman. Repúblikanaflokkurinn (sem ég minni á að er ekki sá sami og er til í dag) sameinaðist um forsetann og það má segja að þetta hafi gilt um alla þjóðina. Í raun má rekja upphaf sterkrar þjóðernishyggju Bandaríkjanna til þessa stríðs, fram af því höfðu oft fylki hótað að segja sig úr sambandinu eða deilur staðið á um stjórnarskrána. En þetta batt enda á slíkar deilur. (Í bili). „Federalistar“ hófu að gagnrýna stríðið af mikilli hörku. Það leiddi til algjörs vinsældahruns hjá flokknum, fólk tók að líta á þá sem föðurlandssvikara. Í fyrsta sinn í bandarískri sögu fór fólk að vera uppnefnt „unpatriotic“ og slíkum nöfnum. Stríðið gekk þó alls ekki vel. Madison hafði búist við að Bretar myndu láta undan sökum þess að stríðið gegn Frökkum var að taka sinn toll en Þvert á móti gekk Bretum óhemju vel í stríðinu. Hin tiltölulega nýstofnaða Washington borg varð meira að segja hertekin og hvíta húsið brennt til grunna seint á árinu. Það má segja að þar hafi Bandaríkjamenn sloppið með skrekkinn þó svo að sjálfsögðu túlkuðu repúblikanar og Madison þetta sem algjöran sigur, en í raun tókst þeim bara rétt svo að komast undan algjörum ósigri. En þeir unnu þó sigur hvað almenningsálitið varðar, því „federalistar“ urðu óhemju óvinsælir fyrir gagnrýnina á stríðið. Tenglar. Madison, James Síðumúlafangelsið. Síðumúlafangelsið (eða Múlinn) var íslenskt fangelsi í götunni Síðumúla í Reykjavík og nefnt eftir henni. Húsnæðið var upphaflega byggt sem bílageymsla eða bílaþvottastöð fyrir lögregluna í Reykjavík. Fangelsinu var lokað í maí 1996 og var rifið stuttu seinna. Áður en til þess kom var sett upp listasýningin "Tukt í fangelsinu" og var aðgangur frjáls. Þar sátu inni ákærðir í Geirfinns- og Hafskipsmálunum. Víðgelmir. a>i er víða stórgrýttur. Gárurnar á veggjum hellisins sýna yfirborðsstöðu hraunflaumsins á ýmsum tímum eldgossins. Víðgelmir er einn af lengstu (1.585 m) hellum landsins og rúmtaksmestu (148.000 m³) hraunhellum heims. Hann er í Hallmundarhrauni, u.þ.b. 2 km suðaustur af Fljótstungu í Hvítársíðu. Þak hellisins hefur hrunið á allstórum kafla, nærri norðurenda hans, og er það eini inngangurinn. Hellirinn er víður fremst en þrengist á köflum þegar innar dregur. Þar var, í október árið 1991 sett upp járnhlið af félagsmönnum í Hellarannsóknafélagi Íslands til að vernda þær dropasteinsmyndanir sem ekki hafa þegar verið eyðilagðar. Mannvistarleifar sem fundust í hellinum eru varðveittar í Þjóðminjasafninu og eru að líkindum frá víkingaöld. Hellirinn er á köflum afar erfiður yfirferðar og tæpast ráðlegt að fara um hann nema með leiðsögumanni. Leiðsögn og aðgangur að innri hluta hellisins er fáanleg frá Fljótstungu. Hellirinn var lokaður af ís frá árinu 1918 til ársins 1930 en hann lokaðist aftur um veturinn 1972-1973. Í apríl 1990 fór hópur á vegum Hellarannsóknafélags Íslands með tól og tæki og freistaði þess að opna hellinn. Ekki tókst það að þessu sinni en árið eftir tóku nokkrir heimamenn af bæjum í Hvítársíðu og Hálsasveit sig saman, undir forystu Kristleifs Þorsteinssonar bónda í Húsafelli og kláruðu verkið. Vitré. Vitré er bær í Austur-Bretagne í Frakklandi. Þar búa 18.000 manns (2006). Bretanía. Kort sem sýnir héraðið Bretagne í Frakklandi. Bretagne (Bretanía eða Bertangaland og nefnt Bretland, Syðra-Bretland eða Bretland hið syðra til forna) er eitt af 26 héruðum í Frakklandi og er skagi sem teygir sig út í Atlantshafið í vestanverðu landinu. Héraðið skiptist í fimm sýslur og íbúafjöldi þess er 6,5 milljónir (1998). Þar er töluð, ásamt frönsku, bretónska, en það er keltneskt tungumál skylt velsku. Um 1,2 milljónir manna tala bretónsku á þessum slóðum. Einnig er talað galló sem er latnesk mállýska, en hún á rætur að rekja til hernáms Rómverja. Íbúar Bretagne nefnast "Bretónar". Strandlengja Bretagne er 1200 km löng. Bretónar kalla strandlengjuna "Armor" og innskagann "Argoat". Þar eru um 200 sumarleyfisstaðir og munur flóðs og fjöru allt að 18 m. Ströndin austur og vestur af St. Maló er kölluð Smaragðsströndin ("Côte d'Emeraude"). Á Bretagneskaga tíðkast byggingarstíll sem er einkennandi fyrir svæðið og heimamenn halda fast í gamla siði og hefðir. Millard Fillmore. Millard Fillmore (f. 7. janúar 1800, d. 8. mars 1874) var 13. forseti Bandaríkjanna, milli 1850 og 1853. Millard tók við af Zachary Taylor við andlát hans og var því ekki kosinn til starfans. Æska. Millard var fæddist Nathaniel og Phoebe Millard Fillmore í bjálkakofa og var annað barn þeirra af níu. Faðir hans var fátækur bóndi sem bjó skammt undan New York og hann Millard fór í læri hjá vefnaðarmanni. Millard þjónaði í varðsveitinni í New York og lærði þar í New Hope-skólanum. Þá kynntist hann Abigail Powers, þau giftu sig 26. febrúar 1826. Þau eignuðust tvö börn, Millard Powers Fillmore and Mary Abigail Fillmore. Millard keypti sig út úr læri hjá vefnaðarmanninum og fluttist til Buffalo í New York og hélt áfram námi sínu. Hann fékk lögmannsréttindi árið 1823 lögmannsembætti hjá héraðsdómaranum. Millard gekk til liðs við andfrímúrara smáflokk. Á þessum tíma árið 1828 voru margir frímúrarar við völd á þingi, og Andrew Jackson þáverandi forseti var frímúrari. Þegar maður að nafni William Morgan sem hafði sagt sig úr frímúrara reglunni og hafði hótað að ljóstra upp ýmiskonar leyndarmálum fannst látinn urðu fjölmargar samsæriskenningar til. Millard var boðið að bjóða sig fram fyrir hönd þeirra sem voru á móti ítökum frímúrara. Millard komst inn á þing ekki einu sinni þrítugur og stuttu síðar sameinaðist flokkur hans við Whigs flokkin. Whigsflokkurinn varð til þegar fjölmargir smáflokkar sameinuðust til að berjast gegn einræðistilburðum Jacksons. Ferill Millards innan Whigs gekk vel og árið 1848 varð hann varaforsetaefni Zachary Taylors og loks árið 1850, varð hann öllum að óvörum forseti BNA. Það þykir nú nokkuð gott fyrir strák sem byrjaði feril sinn í barnaþrælkun. Mikilvægir atburðir í stjórnartíð Millards Filmore. Á tímum hans opnaði Bandaríski sjóherinn fyrir verslun við Japan. Einnig varð Hawaii hluti af BNA en þó ekki fylki strax. Árið 1848 hófst gullæðið og Millard sem var forseti 1850-53 var forseti á þeim tíma sem Kalífornía byggðist og járnbrautir voru reistar til að tengja landið. En á meðan allt þetta gerðist tók að harðna í átökum milli þeirra sem vildu afnema þrælahald og þeirra sem ekki vildu gera það. Whigsflokkurinn reyndi að vera hlutlaus, Demókratar studdu þrælahald og voru þar með komnir með meirihluta atkvæða frá suðurríkjunum. Whigsflokkurinn sá fram á að pólitískur stuðningur við þá fór þverrandi. Þeir gengu því til liðs við annan flokk sem var kallaður hinu skrýtna nafni The Know nothing party. Sá flokkur barðist gegn fleiri innflytjendum til BNA. Millard var ekki forsetaefni Whigsflokksins í annað sinn því þeir höfðu verið ósáttir yfir 1850 samkomulaginu sem hann átti þátt í að samþykkja, í staðinn fyrir var Scott Winfield forsetaefni þeirra.. Á þessum tíma var gerð innrás inn á Kúbu sem misheppnaðist. Millard var á móti innrásinni en hún var framkvæmd án hans blessunar af suðurríkjamönnum sem vildu með því fjölga fylkjum sem iðkuðu þrælahald með því að stækka sig suður á bóginn. Spennan magnast, Demókratar ná völdum. Fjórir aðilar sóttust eftir því að verða forsetaefni Demókrata. James Buchanan, William Marcy, Stephen Douglas og Lewis Cass. Þeir voru svo jafnir að engin þeirra varð kjörinn forsetaefni. Í staðinn fyrir var ákveðið að sættast á að láta einhvern tiltölulega óþekktan pólitíkus vera forsetaefnið í staðinn fyrir að tvístra flokkinum upp í deilur. Franklin Pierce varð fyrir valinu. Hann hafði enga óvini, ekkert orðspor hvorki gott né slæmt, hafði þó barist í Mexíkó stríðinu sem gaf plúss og var að auki nokkuð laglegur og góður ræðumaður. Franklin Pierce þótti nokkuð hlutlaus í þræla málinu og tók voða litla afstöðu yfirleitt í nokkrum málum. Ekki nóg með það, heldur tók hann engan þátt í kosningabaráttunni heldur. Engu að síður vann hann og margir sagnfræðingar í dag vilja meina að það sé m.a. út af því að Scott Winfield þótti afar leiðinlegur maður. (Á botnin hvolft þá eru það ekki alltaf málefnin sem þetta snýst um). Franklin og Scott voru reyndar báðir fyrir miðju og vildu forðast breytingar á jafnvægi. Sorgleg forsetatíð. Aðeins tveimur mánuðum fyrir vígsluræðu Franklins í Mars lést sonur hans í lestarslysi sem Franklin og eiginkona hans urðu vitni að. Eiginkona Franklins var ekki viðstödd við vígsluathöfnina og engin veisla var haldin að henni lokinni. Franklin veitti stjórn landsins fremur litla athygli og varð harðlega gagnrýndur af þeim sem vildu afnema þrælahald fyrir að setja öfgasinnaða Demókrata í ráðherrastöður. Einnig voru miðjusinnaðir Demókratar ósáttir við það. Varaforseti Franklins, William Rufus King lést úr berklum fljótlega eftir að Franklin tók við embætti. Þegar Kansas fylki var stofnað hófust deilur um hvort að þrælahald ætti að vera löglegt þar eða ekki. Franklin tók ekki afstöðu í málinu og sagði að íbúar fylkisins ættu sjálfir að ákveða þetta. Íbúar Kansas fóru því að kjósa um þetta mál. Þrælahaldsstuðnings menn frá suðurríkjunum streymdu inn til þess að taka þátt í kosningunum (enda ómögulegt á tímum án persónuskilríkja að sannreyna hvar fólk bjó). Norðurríkjamenn svöruðu tilbaka með að sjálfir halda til Kansas, og innan skamms var fylkið uppfullt af helstu baráttumönnum fyrir og gegn þrælahaldi. Þegar kjörtímabili Franklins lauk logaði Kansas í deilum og fjölmörg morð höfðu orðið út af slagsmálum og átökum milli þrælasinna og andþrælasinna. Þrælasinnar neituðu að viðurkenna stjórnvöld Kansas og stofnuðu sín eigin, andþrælasinnar svöruðu tilbaka með stofnun sinna eigin stjórnvalda. Kansas var orðið miniútgáfa af BNA í borgarastyrjöldinni. Dýragras. Dýragras (fræðiheiti: "Gentiana nivalis") er einær jurt af maríuvandarætt. Blómin eru dökkblá eða fjólublá og 1 til 2 sentimetra löng en 7 til 8 millimetra í þvermál. Bikarblöðin eru 5 talsins. Alls verður jurtin 4-12 sm há. Lýsing. Stundum stirnir af blóminu eins og það sé þakið glimmeri. Þegar krónan verður fyrir áreiti lokast hún fáum sekúndum, sem skýrir hvers vegna margt fólk heldur að dýragras sé pödduæta. Dýragras vex í móum eða á snöggum flötum; gjarnan þar sem beitarþungi er mikill. Heiti dýragrass. Hugsanlega hefur heiti dýragrass verið ýmist "hið dýra gras" eða "digragras" sem svo hefur afbakast í dýragras. Önnur þekkt nöfn á dýragrasi eru svo karlmannstryggð, arnarrót og bláin. Það er sagt gróa þar sem huldufólk býr. Elísabet Ólafsdóttir. Elísabet Ólafsdóttir eða Beta rokk (f. 1977) er fjöllistakona og bókmenntafræðingur. Hún var söngkona í rokkhljómsveitinni Á túr á árunum 1996 til 1998, en árið 2002 gaf Edda útgáfa út bók hennar „Vaknað í Brussel“. Bókin er samantekt á dagbókarfærslum skrifuðum í svokölluðum blogg-stíl og vakti umræðu meðal rithöfunda og áhugamanna um menningarlegt gildi bloggsins. Á túr. Á túr er íslensk hljómsveit sem var stofnuð viku fyrir Músíktilraunir 1996. Hljómsveitin lenti í öðru sæti tilraunanna og gaf út EP plötuna Píka hjá Smekkleysu árið 1998 og urðu útgáfutónleikar hljómsveitarinnar einnig lokatónleikar hennar. Mengjasafn. Mengjasafn eða fjölskylda af mengjum er mengi, þar sem stökin eru einnnig mengi. Þakning mengis er dæmi um mengjasafn. Bugspjót. Bugspjót (útleggjari eða spruð) er (tré)stöng fram úr stafni (segl)skips sem fremsti hluti reiðans (m.a. klýfir) er festur á. "Brandauki" er viðauki bugspjóts. "Vaturstagur" nefnist stag neðan á bugspjóti. Undir bugspjóti seglbáts var á fyrri öldum oft komið fyrir stafnlíkani. Vikur. Vikur er frauðkennt berg, lítt kristallað. Vikur er súrt eða ísúrt glerfrauð sem finnst í misþykku gosseti úr allstórum kornum og getur flotið á vatni. Það er til ljós vikur (líparít) eða dökkur (andesít, basalt). Vikurinn fellur harðstorknaður til jarðar. Hann er mjög efnisléttur, enda flýtur hann ef hann er lagður á vatn. "Vikrar" nefnist landsvæði sem þakið er þykku vikurlagi. Notkun á vikri. Vikur er aðallega notaður í byggingariðnaði svo sem í hleðslusteina, léttsteypueiningar og í múrkerfi. Vikur er notaður sem íblöndunarefni í hita og hljóðeinangranir og til eldvarna. Vikur hefur verið fluttur út til að nota í skorsteinseiningar. Vikur hefur einnig verið notaður í kattarsand og sem íblöndunarefni í gróðurmold til að auka rakaheldni hennar. Vikur á Íslandi. Fjórar eldstöðvar á Íslandi hafa gosið ljósum vikri á Nútíma. Hekluvikur er súr líparítvikur. Margar eldstöðvar hafa hins vegar gosið basísku eða ísúru gjalli eða ösku þ.e. basaltvikri. Frægust þeirra er Katla. Meistaradeild Evrópu 2007-08. Meistaradeild Evrópu 2007-08 var haldin í 53 sinn. Úrslitaleikurleikurinn var leikinn þann 21. maí 2008. Þar áttust við Manchester United og Chelsea á Luzhniki Stadium í Moskvu, Rússlandi. Leiknum lauk 1-1 í venjulegum leiktíma og varð að grípa til framlengingar. Ekkert mark var skorað í henni og fór leikurinn í vítaspyrnukeppni. Þar sigraði Manchester United 6-5. Jarðskorpa. Innri gerð ásamt lofthjúpi jarðar. Jarðskorpan er ysta lag jarðarinnar, rautt að lit á hægri mynd en grátt þeirri vinstri. Jarðskorpa er ysta jarðlag steinplánetu. Jarðskorpa jarðarinnar (oft nefnd Jarðskorpan) skiptist í tvær gerðir jarðskorpna, meginlandsskorpu sem er 20-70 km þykk og hafsbotnsskorpu sem er um 6-7 km þykk. Hafsbotnsskorpan er úr þyngri og málmríkari efnum efni en meginlöndin, en eðlismassi hafsbotnsberg er á bilinu 3-3,3 g/cm3 á meðan eðlismassi meginlandsbergs er um 2,7 g/cm3. Hún flýtur á möttlinum. Flekakenningin er sú kenning sem hvað best skýrir hreyfingar í jarðskorpunni. Karl. Karl eða karlmaður er karlkyns maður, oftast fullorðinn einstaklingur. Karlkyns barn kallast "drengur", "strákur" eða "piltur". Kvenkyns maður nefnist kona. Kona. Kona (stundum kölluð "kvenmaður") er kvenkyns manneskja, oftast fullorðinn einstaklingur. Kvenkyns barn kallast "stúlka", "telpa" eða "stelpa". Karlkyns maður nefnist karl. Fullorðin, kynþroska, kona er með brjóst, mjaðmir, sköp, leggöng, leg og eggjastokka. Hún er með skapahár og hár undir höndum. Melting. Melting er ferli í lífverum þar sem fæðu er breytt í orku með efnaskiptum í meltingarfærum. Rochester í Kent. Rochester er bær í Kent á Suður-Englandi. Bærinn er við árósa Medway-árinnar. Þar búa um 24 þúsund manns. Kræklingahlíð. Kræklingahlíð nefnist strandlengjan og hlíðin á milli Glerár og Hörgár við vestanverðan Eyjafjörð. Samkvæmt Landnámu dregur hún nafn sitt af sonum Öndótts kráku sem námu þar land. Fyrir ofan hlíðina stendur Hlíðarfjall sem lækkar til norðurs og myndar langan háls er kallast Moldhaugnaháls. Nálægt Hörgárósum er hinn forni verslunarstaður Gásir. Kræklingahlíð tilheyrði lengst af öll Glæsibæjarhreppi en 1955 voru bæjarmörk Akureyrarkaupstaðar færð norður að Lónsá til þess að færa hið vaxandi Glerárhverfi undir lögsögu bæjarins. Glæsibæjarhreppur sameinaðist síðan tveimur nágrannahreppum 1998 til þess að mynda Hörgárbyggð. Kræklingahlíð hefur frá landnámi þótt þéttbýl sveit með tveimur til þremur bæjarröðum meðfram hlíðinni. Auk Glerárhverfis hefur á síðustu árum einnig myndast þéttbýliskjarni við Lónsá í landi Hörgárbyggðar. Norah Jones. Norah Jones (fædd Geethali Norah Jones Shankar, 30. mars 1979) er bandarískur tónlistarmaður, tónskáld og kvikmyndaleikari. Tónlist hennar er blanda af þjóðlaga-, sálar- og kántrýtónlist. Það vakti athygli þegar Norah gerði samning við Blue Note-tónlistarútgáfuna 2002, sem fram að því hafði eingöngu gefið út djasstónlist. Norah hefur hlotið fjölda viðurkenninga og slegið sölumet. Hún er dóttir sítarleikarans Ravi Shankar. Tengiregla. Tengiregla er regla í algebru, sem segir að ekki skipti máli í hvað röð aðgerð er framkvæmd. ("x" * "y") * "z" = "x" * ("y" * "z"). Samlagning og margföldun eru tengnar aðgeðir, en frádráttur og deiling ekki. Aðgerð * í mengi A kallast víxlin ef a * b = b * a fyrir öll a og b úr A. Þá er sagt að víxlregla gildi fyrir * í menginu A. Gildi víxlreglan ekki má sýna fram á það með því að finna tvö stök úr A, köllum þau x og y, sem eru þannig að. Til dæmis má sýna að frádráttur er ekki víxlin aðgerð í Z með því að benda á að 3 - 2 er ekki það sama og 2 - 3. Ef aðgerð er víxlin er aðgerðartafla hennar samhverf um hornalínuna sem liggur úr efra vinstra horninu niður í neðra hægra hornið. Samlagning í N og margföldun í Z eru dæmi um víxlnar aðgerðir. Aðgerð * í mengi A kallast tengin ef fyrir öll a, b og c í A gildir að. Ef aðgerð í mengi er tengin er sagt að tengiregla gildi. Ef aðgerð er ekki tengin má sýna það með því að finna þrjú stök, x, y og z úr A sem eru þannig að. Samlagning í Z og margföldun í Z eru dæmi um tengnar aðgerðir. Víxlregla. Hér er víxlreglan notuð til að sýna að formula_1 er jafnt og formula_2. Víxlregla er regla í algebru, sem segir að röð staka í inntaki aðgerðar breyti ekki úttakinu, þ.e. niðurstöðunni. Samlagning og margföldun eru víxlnar aðgeðir, en frádráttur og deiling ekki. Dreifiregla. Dreifni er eiginleiki tvístæðra aðgerða í stærðfræði og hreinni algebru sem veldur dreifireglunni. Stafnlíkan. Stafnlíkan (eða galíonsmynd) er útskorið trélíkneski í stafni seglskips, fest undir bugspjót; oft persónur úr goðafræði eða einhvers konar líkingamynd sjávarvætta. Hvalbakur. Hvalbakur á skipinu "Sichem Princess Marie-Chantal". Hvalbakur (eða bakki) er þiljur eða hvelfing yfir fremsta hluta skips (fremsta rúmi í bát). Hvalbakur veitir aukið rými í lúkar. Skilrúmið milli vélarrýmis og farþegarýmis í bíl er kallað hvalbakur. Varast bera að rugla saman karlkyns orðinu hvalbakur við hvorkyns orðið hvalbak, sem merkir jökulsorfin klapparbunga. Vörpun. Vörpun er aðferð í stærðfræði, sem felst í að taka eitt að fleiri stök úr s.n. formengi vörpunarinnar og mynda úr þeim nýtt stak, oftast eftir ákveðinni forskrift eða reiknireglu, í bakmengi vörpunarinnar. Myndmengi vörpunar inniheldur þau stök bakmengis, sem stök formengisins varpast í. Stærðfræðilegt fall á yfirleitt við vörpun, þ.a. fyrir sérhvert stak í formenginu er til eitt og aðeins sitt stak í myndmenginu, en stundum eru orðin „vörpun“ og „fall“ notuð sem samheiti. Aðgerð (stærðfræði). Aðgerð í stærðfræði, á við tiltekna vörpun, sem verkar á eitt eða fleiri inntaksgildi og skilar einu úttaksgildi. Aðgerð er yfirleitt lokuð í þeim skilningi að for- og bakmengi aðgerðarinnar eru sama mengið. Aðgerðir geta einnig verkað á föll, en þá er oftast talað um virkja. Eingild aðgerð hefur eitt inntaksgildi, tvígild aðgerð hefur tvö inntaksgildi o.s.frv. Urriði. Urriði (fræðiheiti: "salmo trutta") er ferskvatnsfiskur sem finnst í velflestum ám og vötnum á Íslandi. Hann er silfurlitaður með áberandi brúnum doppum á kroppnum. Á hryggningartíma dökknar hann og hængar mynda krók á neðri skolti. Urriðinn hrygnir að hausti og fram að áramótum. Hann er gjarnan 0,5 til 1 kíló að stærð þó fiskar yfir 15 kíló hafi veiðst, t.d. í Þingvallavatni. Fiskurinn er bæði til staðbundinn og sjógenginn, en þá lifir hann í sjó en gengur upp í ferskvatn til hrygningar og er þá kallaður sjóbirtingur. Urriði er góður matfiskur og vinsæll hjá sportveiðimönnum um allan heim. Sjóbirtingur eru 2-5 ára gamall þegar hann yfirgefur uppeldisstöðvar sínar í ferskvatni og heldur út á haf. Það gerist oftast að vorlagi. Á haustin (september/október) gengur urriði síðan aftur í árnar þar sem hann ólst upp og hefur þar vetursetu en gengur á haf út á nýjan leik næsta vor. Urriði sem ekki gengur í sjó dvelur fyrstu ár ævi sinnar í ánni en gengur síðan í stöðuvatn. Þar verður urriðinn fram að kynþroska en fer þá í nærliggjandi á til að hrygna. Urriðavötn eru algeng í íslenskri náttúru og má þar nefna Þingvallavatn og Veiðivötn. Virki (stærðfræði). 1. T("f" + "g") = T("f") + T("g") þar sem "f" og "g" eru föll og "c" er fasti. Línulegir virkjar eru mjög mikið notaðir í eðlisfræði og verkfræði. Hið íslenska töframannagildi. Hið íslenska töframannagildi er íslensk félagasamtök töframanna. Samtökin nefna 29. febrúar 2007 sem stofndag sinn þó sá dagur sé ekki til í tímatali. HÍT er hringur nr. 371 innan IBM. Stofnfélagar HÍT eru eftirfarandi töframenn: Jón Víðis Jakobsson, Gunnar Kr. Sigurjónsson, Baldur Brjánsson, Bjarni Baldvinsson, Magnús Böðvarsson, Pétur G. Finnbjörnsson, Björgvin Franz Gíslason, Valdemar Gestur Kristinsson, Lárus Guðjónsson, Ingólfur Geirdal, Pétur Þorsteinsson og Sigurður Helgason. Tilgangur félagsins er að vera vettvangur áhugafólks um töfra og töfrabrögð, að auka áhuga á töfrum og töfrabrögðum í samfélaginu og að bæta þekkingu og færni félagsmanna í töfrabrögðum. Fundir eru haldnir einu sinni í mánuði og þar er farið yfir sviðið um allt sem tengist töfralistinni. Félagsmenn sýna einnig ýmis töfrabrögð á fundum, en hver töframaður sýnir á eigin forsendum. Fundir eru haldnir síðasta miðvikudag hvers mánaðar, nema í júní, júlí og desember kl. 19:58 Árlega heldur HÍT töfrasýningu fyrir almenning, þar sem aðalsýnandi er erlendis frá. Árið 2007: David Jones frá Englandi. Árið 2008: Henry Evans frá Argentínu. Árið 2009: John Archer frá Englandi. Árið 2010: Lennart Green frá Svíþjóð, kynnir Eiríkur Fjalar. Fasti. Fasti er stærð, sem er óbreytanleg eða óbreytt í því samhengi sem hún er skoðuð og er andstaða breytu. Fastar skipta miklu máli í stærðfræði og eðlisfræði. Mikilvægir, torræðir stærðfræðilegir fastar eru t.d. pí og "e". Dæmi um fasta í eðlisfræði: Ljóshraðinn er fasti í öllum tregðukerfum, en sólarfastinn, sem segir til um styrk sólargeislunar á lofthúpi jarðar, er strangt tekið ekki fasti, nema þegar hann er mældur í skamman tíma miðað við sveiflur á styrk sólar. Ekki er vitað hvort heimsfastinn, sem segir til um hraða útþenslu alheims, sé ranverulegur fasti. Fastafall er stærðfræðilegt fall, sem tekur fast gildi fyrir öll stök í formengi fallsins. Kafteinn Ísland. Forsíða bókarinnar "Forsetaslagurinn æsilega" með Kafteini Ísland í fararbroti Kafteinn Ísland er fyrsta íslenska ofurhetjan sem birtist í íslenskri teiknimyndasögu og teiknuður af Kjarnó (Kjartan Arnórsson). Hann byrjaði sem aukapersóna í teiknimyndasögunni "Svínharði Smásál" í Þjóðviljanum, en tók síðar að lifa sjálftæðu lífi. Tvær bækur hafa verið gefnar út um Kafteinn Ísland, "Árás Illhuga" gefin út árið 1990 og "Forsetaslagurinn æsilegi" gefin út árið 1996. Báðar bækur voru gefnar út af Fjölva. Í bókinni "Forsetaslagurinn æsilegi" er erkióvinur Kafteins Íslands, Illugi ógeð, búinn að dulbúa sig sem elskulegan ættjarðarvin og býður sig fram til forseta Íslands. Þjóðin lætur glepjast, en Kafteinn Ísland sér í gegnum svindlið og tekur til sinna ráða. Bókin er 32 blaðsíður. Hljómsveit Ingimars Eydal - Höldum heim. Hljómsveit Ingimars Eydal er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Hljómsveit Ingimars Eydal ásamt Þorvaldi og Helenu fjögur lög. Það er svo geggjað. Flosi Ólafsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Flosi Ólafsson ásamt hljómsveitinni Pops tvö lög. Flosi og Pops - Það er svo geggjað. Flosi og Pops er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Flosi Ólafsson ásamt hljómsveitinni Pops tvö lög. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Myndin af þér - Einni þér ég ann. Vilhjálmur Vilhjálmsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytur Vilhjálmur Vilhjálmsson tvö lög. Vilhjálmur og Elly Vilhjálms - Lög Tólfta september. Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms - Lög Tólfta september er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja Vilhjálmur Vilhjálms og Ellý Vilhjálms tólf lög og ljóð eftir Tólfta september. Hljóðritun hljómplötunnar fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Forsíðumynd tók Kristján Magnússon, en plötuumslagið var að öðru leyti unnið í Grafík hf. Vorperla. Vorperla (fræðiheiti: "Draba verna" eða "Erophila verna") er lítil einær blómplanta sem finnst í tempraða beltinu á norðurhveli jarðar. Áður var talið að hún hefði flust til Norður-Ameríku frá Evrópu en nú er hún talin frumbyggi á báðum stöðum. Blómin eru með fjórum hvítum klofnum krónublöðum og vaxa á mjóum stilk sem nær 2-15 sm hæð. Hún vex í þurrum jarðvegi og möl. Hún blómstrar mjög snemma á vorin og myndar fljótt fræ. Á Íslandi er vorperla algengust á Norðurlandi og á Fljótsdalshéraði. Roðamaur. Roðamaur (eða roðamítill eða veggjamítill) er ættkvísl mítla af "Tetranynchus"-ætt. Þeir eru alvarleg meinsemd á plöntum í gróðurhúsum og híbýlum. Oft má sjá roðamaurinn í gluggakistum eða utan á húsum. Lokasjóður. Lokasjóður, peningagras eða skrapalauf (fræðiheiti: "Rhinanthus minor") er einær blómplanta sem vex á graslendi í Evrópu og Asíu og sækir hluta af næringu sinni úr rótarkerfi jurta í kringum sig. Hann verður 25-50 sm á hæð með gul blóm sem vaxa í klasa á enda stöngulsins. Fræhylkin eru þurr og disklaga með litlum hringlandi fræjum. Lokasjóður er algengur í graslendi og móum um allt Ísland. Náttúruval. Náttúruval er sú kenning að ef einstaklingar af mismunandi arfgerðum eru misvel hæfir til að lifa og að eignast lífvænleg afkvæmi við ráðandi skilyrði, hljóta þau genin, sem stuðla að meiri hæfni, að breiðast út á kostnað hinna. Náttúruval er því það þegar hæfari eiginileikar erfast frá einni kynslóð til annarar vegna samspils milli eiginleika lífverunnar og umhverfis hennar. Fyrstur til að setja fram þessa kenningu var Charles Darwin og nefndi hann hana náttúruval, "natural selection". Blóðregn. "Blóðregn" er íslensk teiknimyndasaga eftir Emblu Ýr Bárudóttur og Ingólf Örn Björgvinsson, byggð á lokaþætti Brennu-Njáls sögu. Bókin fjallar um hefnd Kára Sölmundarsonar á brennumönnum. Kári þarf ekki aðeins að eiga við öfluga andstæðinga og horfast í augu við ýmsar hættur á leiðinni heldur einnig að heyja innri baráttu þar sem gömul heiðin gildi takast á við hina nýju kristnu trú. Bókin er 60 blaðsíður að lengd og var gefin út 2003 af Máli og menningu. Bókin hlaut Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur vorið 2004. Maríulykill. Maríulykill (fræðiheiti: "Primula stricta") er sjaldgæf háplanta sem vex á norðurslóðum. Hann vex í votum jarðvegi við árbakka í fjallendi. Maríulykill er afar sjaldgæfur á Íslandi og finnst aðeins á nokkrum stöðum í Eyjafirði. Jaba. Jaba (fæddur Silfur João de Carvalho 20. maí 1981) er brasilískur knattspyrnumaður sem leikur með Ankaragücü. Hann lék áður með aðalkeppinauti þeirra, Ankaraspor, í tyrknesku meistaradeildinni. Giljaflækja. Giljaflækja (fræðiheiti: "Vicia sepium") er fjölær háplanta af ertublómaætt. Hún vex í graslendi í tiltölulega snauðum jarðvegi og hengir sig á aðrar jurtir. Hún verður 30-50 sm há. Blöðin skiptast í fjögur til átta smáblöð á stöngli með vafþráðum. Hún blómstrar frá júlí til ágúst tveimur til fimm blómum sem eru blá eða fjólublá að lit. Fræhirslurnar eru langir belgir sem hver inniheldur þrjú til tíu fræ. Giljaflækja er fremur sjaldséð á Íslandi og finnst aðallega á suður- og suðvesturlandi, undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum. Janis Joplin. Janis Lyn Joplin (f. 19. janúar 1943, d. 4. október 1970) var bandarísk söngkona, tónskáld og útsetjari, sem hafði mikil áhrif á rokktónlist í samtíma sínum og síðar. Hún varð fræg sem söngkona með hljómsveitinni Big Brother and the Holding Company. Hún var ein áhrifamesta og vinsælasta söngkona á sjöunda áratug síðustu aldar og er talin í hópi bestu rokksöngkvenna sögunnar, en hún söng einnig blús, kántrí og djass. Árið 2004 hafði tímaritið Rolling Stone hana í 46. sæti á lista yfir 50 mestu listamenn allra tíma. Janis Joplin var eiturlyfjasjúklingur og notaði bæði amfetamín og heróín auk fleiri efna. Hún lést af afleiðingum of stórs skammts af heróíni og var auk þess drukkin. Frægasta plata hennar er Pearl sem kom út árið 1971 að henni látinni. Á plötunni voru lögin "Me and Bobby McGee" eftir Kris Kristofferson og "Mercedes Benz" eftir Joplin sjálfa og textahöfundana Michael McClure og Bob Neuwirth, en það lag söng hún án undirleiks. Þessi tvö lög urðu frægust þeirra 10 laga sem voru á plötunni. Síðasta upptaka hennar var lagið "Happy Trails" eftir Dale Evans, sem hún söng inn á segulband 1. október 1970 og sendi John Lennon (f. 9. október) í afmælisgjöf. Hann sagði síðar svo frá, að segulbandið hafi borist sér eftir andlát hennar. Í svörtum fötum. Í svörtum fötum er íslensk hljómsveit stofnuð árið 1998. Drullutjakkur. Drullutjakkur er fjölnota tjakkur sem er gjarnan notaður í landbúnaði, bílaíþróttum eða þar sem þarf að lyfta þungum byrðum á lausu undirlagi. Hann var fundinn upp í kring um 1905 og var markaðssettur undir nafninu "Automatic Combination Tool". Hönnunin hefur lítið breyst síðan þá. Aðalhluti drullutjakks er járnbiti en á honum eru göt með jöfnu millibili. Á þessum bita rennur sleði sem læsir sig í götin eftir því sem tjakkurinn kemst. Aflstöngin er járnstöng, álíka löng og tjakkurinn sjálfur. Fjölbreytni drullutjakksins lýsir sér í því að ekki er bara hægt að lyfta með honum heldur er hægt að nota hann til að spenna eitthvað saman eða í sundur, nota hann sem dráttarspil eða jafnvel sem þvingu. Embla Ýr Bárudóttir. Embla Ýr Bárudóttir (fædd 1973) er íslenskur rithöfundur. Embla Ýr lauk BA-prófi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands árið 1998. Hún hefur unnið sem þýðandi og prófarkalesari. Fyrsta bók hennar var teiknimyndasagan Blóðregn (2003). Fyrir hana hlaut hún ásamt meðhöfundi sínum, Ingólfi Erni Björgvinssyni, Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur vorið 2004. Ingólfur Örn Björgvinsson. Ingólfur Örn Björgvinsson er fæddur 1964 og lauk lokaprófi úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992. Síðan þá hefur hann starfað sem myndskreytir og hönnuður á auglýsingastofum. Fyrsta bók hans var teiknimyndasagan Blóðregn (2003). Fyrir hana hlaut hann ásamt meðhöfundi sínum, Emblu Ýr Bárudóttur, Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur vorið 2004. Kent. Kent er sýsla á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Kent er Maidstone. Et tu, Brute? „Et tu, Brute?“ („og þú líka, Brútus?“) er latneskur frasi sem er oft sagður vera hinstu orð Júlíusar Sesars en sú heimild er fengin frá skáldinu Shakespeare úr leikriti hans Kleópötru og Júlíusi Sesar, en líklegra þykir þó flestum fræðimönnum að hann hafi annaðhvort mælt á grísku „καὶ σὺ τέκνον;“"(kaì sy téknon)" eða „og þú líka barnið mitt“ eða sagt alls ekki neitt en samkvæmt sumum heimildum lést hann þegjandi. Snarrót (félag). Snarrót er félag sem var stofnað um rekstur samnefndrar félagsmiðstöðvar í Reykjavík. Félagsmiðstöðin Snarrót var stofnuð á haustmánuðum árið 2004 og starfaði nokkurn veginn samfellt fram á sumar 2006. Yfirlýstur tilgangur stöðvarinnar var að vera athvarf og miðstöð fyrir grasrótarstjórnmál, einkum á vinstrivængnum. Hún var til húsa að Garðastræti 2 til að byrja með, en flutti síðan í kjallarann á Laugavegi 21. Þar fóru m.a. fram fundir, kvikmyndasýningar og námskeið, sem tengdust umhverfisvernd, baráttu fyrir friði og mannréttindum, afhjúpun meintra og raunverulegra samsæra og fleiru. Starfsemin var fjármögnuð með félagsgjöldum og fjáröflunarviðburðum, einkum kvöldverðum, auk þess sem komið var upp aðstöðu, fyrir ferðamenn og aðra, til að komast á internetið gegn vægu gjaldi. Félagar í félaginu skiptu nokkrum tugum, en dagleg umsjón stöðvarinnar var í höndum stjórnar sem kjörin var á árlegum aðalfundi. Á fyrri hluta ársins 2007 var ákveðið að leggja félagsmiðstöðina Snarrót niður. Félagið er enn til, en óvíst um framtíð þess. Merseyside. Merseyside er sýsla á Norðvestur-Englandi á Bretlandi. Íbúar voru rúmlega 1.365.900 árið 2004. Borgin Liverpool er í Merseyside. Al-Kaída. Al-Kaída (arabíska: القاعدة, „"bækistöðin"“) eru hryðjuverkasamtök súnní-íslamista stofnuð af Osama bin Laden 1989. Samtökin báru ábyrgð á hryðjuverkunum 11. september 2001 í Bandaríkjunum og hryðjuverkunum 7. júlí 2005 á Bretlandi. Eiman Al-Savahírí er leiðtogi samtakanna. Hryðjuverkin 7. júlí 2005. Hryðjuverkin 7. júlí 2005 voru hryðjuverkaárásir, skipulagðar og framkvæmdar af Al-Kaída hryðjuverkasamtökunum, sem gerðar voru þriðjudaginn 7. júlí 2005 og beindust gegn Lundúnum á Bretlandi. Um háannatíma, klukkan 8:50, sprungu þrjár sprengjur á 50 sekúnda fresti í þremur lestum neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Fjórða sprengjan sprakk klukkan 9:47 í strætisvagni í Tavistock Square. Í sprengingunum létu 50 manns lífið og fjórir hryðjuverkamenn og slasaðist 700 manns. Þær ollu truflunum í samgöngukerfið Lundúna og fjarskiptakerfið landsins. Þær varu stærstu og mannskæðustu hryðjuverk í sögu Lundúna. Árásir á neðanjarðarlestakerfi Lundúnarborgar. Í byrjun fólk hélt að voru þær sex sprengingar í staðinn fyrir þrjár á neðanjarðalestarkerfi. Með sprengjan í strætisvagni, fréttir skýrðu frá sjö spregjum höfðu sprungnar. Hverning sem var villan leiðrétt samdægurs. Sætti þetta sprengingin bar við á milli stöðva, þess vegna voru sárt fólk að koma upp frá báðum stöðvum, sem gaf í skyn að þær voru atvik á hver stöð. Árás í tvílyftum strætisvagni. Áðan strætisvagninn hafði farinn framhjá King’s Cross svæðið, sem hann fór frá Hackney Wick til Marble Arch. Á Marble Arch strætisvagninn snéri til að byrja að fara á leiðinni frá Marble Arch til Hackney Wick. Hann fór úr Hackney Wick klukkan 9:00 og kom á Euston strætisvagnsstöð klukkun 9:35 hvar margmenni voru að fara úr neðanjarðarlestakerfi og voru að ganga um borð strætisvagnar. Strætisvagninn beindi í aðra átt af lögreglum, að sögn því hafa verið vegir lokaðir í King’s Cross svæðinu. Fólk sem hafa verið flutt á brott frá neðanjarðarlestakerfinu voru að halda áfram til að ganga um borð strætisvagninn. Þegar sprengingin bar við strætisvagninn var að fara í gegnum Tavistock Square. Sprengingin reif efsti hluta strætisvagns frá farartækinu og hún eyðilagði bakhluta strætisvagnsins. Fólkið sem var vitna um atvikinu sögðu „helmingur strætisvagns var að fljúga í loftinu“. Sprengjan sprakk gerðist utan við bygginguna British Medical Association á Upper Woborn Place, og læknar í byggingunni gátu hjálpa þeim fólk sem voru slasað. "BBC Radio 5" útvarpsstöð og "The Sun" dagblað skýrðu frá tveimur slösuðum farþegum sögði að þeir sáu mann sprakk í strætisvagni. Fréttir fundu mann með sprengjuna í strætisvagninum til að vera Hasib Hussain. Torfþak. Torfþak (eða þekja) er þak á torfhúsum, þannig gert að notað er torf sem þakefni ofan á áreftið. "Nærþak" nefndist innri byrði þaksins, og utan þess kom þunnt moldarlag, en yst snyddu- eða torfþak úr valllendistorfi og sneri grasrótin út. Á tvíása torfþökum var þakið þykkast yfir miðjum vöglum, og var það gert til þess að fá vatnshalla. Torfþök voru algengustu þök húsa á Íslandi í næstum því þúsund ár. Rokk í Reykjavík (hljómplata). "Rokk í Reykjavík" er tvöföld safnplata sem var gefin út eftir frumsýningu heimildarmyndarinnar "Rokk í Reykjavík". Platan inniheldur lög eftir nokkrar af helstu hljómsveitum pönktímabilsins í íslenskri tónlistarsögu sem komu fram í myndinni. Árið 2009 var platan valin í 32. sæti yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum vefsins Tónlist.is. Buckinghamhöll. Buckinghamhöll (enska: "Buckingham Palace") er opinbert aðsetur bresku konungsfjölskyldunnar í London. Hún var byggð 1703 fyrir Hertogann af Buckingham. Viktoría Bretadrottning bjó í höllinni frá 1837. Klukkuturn Westminsterhallar. Klukkuturn Westminsterhallar, oft ranglega nefndur Big Ben, er klukkuturn nærri norðausturenda Westminsterhallar í London. Gælunafnið "Big Ben" hefur lengi loðað við turninn, en það átti upphaflega við stærstu bjölluna í honum. Stóra bjallan. Aðalbjallan, þekkt sem the "Great Bell" á ensku, er stærsta bjallan í turninum og partur af Great Clock of Westminster, betur þekkt fyrir viðurnefnið Big Ben, sem er oftast misnefni fyrir "Clock Tower". Klukkan sjálf er 9 fet að þvermáli og vegur 13 1/2 smálestir. Hún var steypt árið 1856. Í loftárás Þjóðverja á London árið 1940 skemmdist hún, en var stuttu síðar komið í samt lag. Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar. Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar (enska: "London Underground") er neðanjarðarlestakerfi á Stór-Lundúnasvæðinu á Bretlandi og var hið fyrsta sinnar tegundar og er þess vegna elsta neðanjarðarlestakerfi í heimi. Rekstur þess hófst 9. janúar 1863 með Metropolitan-járnbrautinni (sem núna er Hammersmith og City-leiðin). Það var líka fyrsta neðanjarðarlestakerfi sem notaðist við rafmagnsknúnar lestir. Þrátt fyrir nafnið er 55% neðanjarðarlestakerfisins ofanjarðar. Bretar kalla kerfið gjarnan "the Underground" eða "the Tube", sem útleggst sem "rörið" á íslensku. Eldri brautirnar sem mynda núverandi kerfið voru byggðar upp af ýmsum fyrirtækjum. Þær voru sameinaðar í eitt kerfi árið 1933 undir stjórn London Passenger Transport Board (LPTB), sem er einnig þekkt sem London Transport. Neðanjarðarlestarkerfið sameinaðist árið 1985 við myndun fyrirtækisins London Underground Limited (LUL). Síðan 2003 hefur fyrirtæki þetta verið fullkomlega í eigu Transport for London (TfL), hlutafélag sem sér um samgöngukerfið í Mið-London. Fyrirtækinu er stjórnað af nefnd sem borgarstjóri Lundúnaborgar kýs. Í kerfinu eru 270 brautarstöðvar og samtals eru brautirnar um það bil 400 km langar. Kerfið er það lengsta í heimi. Auk þess er það neðanjarðarlestakerfið með stærsta magn stöðva í heimi. Árið 2007 notaði yfir einn milljarð manns kerfið og þess vegna er það þriðja fjölsóttasta neðanjarðarlestarkerfið í heimi, eftir þau í Moskvu og París. Saga. Byggingar járnbrauta hófust á Bretlandi á 19. öld. Áður en 1854 höfðu sex stórar lestarstöðvar verið byggðar í Lundúnum: London Bridge, Euston, Paddington, King's Cross, Bishopsgate og Waterloo. Á þeim tíma var Fenchurch Street einasta lestarstöðin í Lundúnaborg. Umferðaröngþveiti voru algeng í miðborginni og nærliggjandi umhverfum, að sumu leyti af því að farþegar urðu að keyra á milla lestarstöðvanna til þess að ljúka ferðum sínum. Stungið hafði verið upp á að byggja neðanjarðarlestakerfi í Lundúnum á fjórða áratug 19. aldar en hugmyndin var ekki studd þangað til sjötta áratug sömu öldina. Fyrstu neðanjarðarjárnbrautir. Árið 1855 var lög um uppbyggingar neðanjarðarjárnbrautar á milli Paddington og Farringdon Street í gegnum King's Cross. Járnbraut þessi hét Metropolitan-járnbrautin. Lestafyrirtækið Great Western Railway (GWR) fjárfesti í verkefninu þegar samþykkt var að byggja tengingu á milli neðanjarðarjárnbrautarinnar og Paddington-lestarstöðvar. Auk þess samþykkti GWR að hanna sérstakar lestir fyrir notkun í kerfinu. Vegna fjárskorts drógust uppbyggingar á langinn í nokkur ár en Metropolitan-járnbrautin opnaði 10. janúar 1863. Innan tveggja mánuða voru um það bil 26.000 farþega að nota kerfið á hverjum degi. Hammersith og City-járnbrautin opnaði 13. júní 1864 á milli Hammersmith og Paddington. GWR rak þjónustur á milli Hammersmith og Farringdon Street. Fyrir apríl 1865 hafði Metropolitan-fyrirtækið yfirtekið þjónustur. Þann 23. desember 1865 var ný járnbraut til Moorgate Street opnuð. Síðar sama áratuginn voru nýjar leiðir til Swiss Cottage, South Kensington og Kensington opnaðar. Metropolitan District Railway hóf að reka þjónustur á milli South Kensington og Westminster með vögnum og lestum Metropolitan-járnbrautarinnar. Fyrirtækið var þekkt sem „the District“ og var stofnað árið 1864. Fyrirtækið lauk uppbyggingum járnbratuar sem hét Inner Circle ("innri hringurinn") í samstarfi við Metropolitan-fyrirtækið. Áætlað var að byggja innri og ytri hringjárnbrautir í Lúndunum og þetta var hluti þessarar áætlunar. Það var mikil samkeppni milli fyrirtækjanna District og Metropolitan. Þannig drógust uppbyggingar Inner Circle á langinn meðan á fyrirtækin kepptu að byggja nýjar leiðar úti á umhverfunum. Þessar leiðir voru allar byggðar með aðferð sem kallast „grafa og þekja“ (e. "cut-and-cover"). Vegna þess var það mikil truflun á yfirborðinu og nokkrar byggingar voru rifnar niður. Í fyrstu voru lestarnir gufuknúnar og þannig voru nokkrir loftræsisháfar byggðir á götunum. Fyrstu neðanjarðar leiðirnar. „Grafa-og-þekja“ aðferðin var talin vera of mikið niðurrifsverk og þá voru næstu leiðir byggðar miklu dýpra í jörðinni. Þessi aðferðin var ódýrari og það var ekki eins mikil truflun á yfirborðinu. City & South London Railway (C&SLR, núna hluti Northern-leiðarinnar) var opnuð árið 1890 á milli Stockwell og King William Street (þessari stöð hefur síðan verið lokað). Hún var fyrsta neðanjarðar rafknúna járnbrautin í heimi. Áður en 1990 hafði járnbrautin verið lengd í báðar áttir, suður til Clapham Common og norður til Moorgate Street. Waterloo and City Railway (W&CR) var önnur þess konar járnbraut og var opnuð 1898. Hún var byggð og rekin af London and South Western Railway. Þann 30. júlí 1900 opnaði Central London Railway (núna þekkt sem Central-leiðin) á milli Bank og Shepherd's Bush. Henni var gefið gælunafnið „Twopenny Tube“ ("tveggja pennía rörið") vegna fargjaldsins og lögunar ganganna. Síðar var orðið „tube“ notað um allt kerfið. Bank-stöðin var skiptistöð á milli C&SLR og W&CR. Fyrir ágúst 1898 var uppbygging Baker Street & Waterloo Railway hafin en var hætt þegar fjármagn þraut. Sameining. Á 20. öld var það orðið vandamál fyrir farþega að sex aðskilin fyrirtæki voru að reka járnbrautirnar. Það var oft nauðsynlegt að ganga á milli stöðva til þess að skipta leið. Reksturskostnaðurinn var líka hár og mörg fyrirtæki báðu um fjárfestingu til þess að lengja leiðarnir sínar út á umhverfin og keypa rafmagnaðar lestir í stað fyrir gufuknúnar. Helsti viðskiptamaður þessara fyrirtækja var Bandaríkjamaðurinn Charles Yerkes sem fékk samning að byggja Charing Cross, Euston and Hampstead Railway (CCE&HR, í dag hluti Northern-leiðar) 1. október 1900. Fyrir mars 1901 hafði hann yfirtekið stjórn yfir District-fyrirtækinu sem gerði honum kleift að stofna Metropolitan District Electric Traction Company (MDET) 15. júlí sama ár. Með þessu fyrirtæki keypti hann Great Northern and Strand Railway og Brompton and Piccadilly Circus Railway september 1901, sem ríkisstjórnin hafði ennþá samþykkt að byggja. Hann keypti Baker Street & Waterloo Railway-verkefnið sem var á þrotum mars 1902. GN&SR og B&PCR járnbrautirnar mynda núverandi Piccadilly-leiðina. Þann 9. apríl sama ár var MDET breytt í Underground Electric Railways Company of London (UERL). UERL átti þrjú sporvagnafyrirtæki og keypti London General Omnibus Company ("Almannastrætisvagnafyrirtæki Lundúnaborgar"). Þetta fyrirtæki var kallað „the Combine“ og var aðalfyrirtækið sem byggði járnbrautir í Lundúnum fram til fjórða áratugsins. Með fjárfestingu frá Yerkes opnaði District-fyrirtækið nýja leið til South Harrow árið 1903 og lauk tengingunni við Uxbridge-stöðina sem var í eigu Metropolitan-fyrirtækisins árið 1904. Samt sem áður voru þjónustur ekki reknar á nýju leiðinni þar til 1910 vegna ágreinings milli fyrirtækjanna. Í dag eru þjónustur til Uxbridge á Piccadilly-leiðinni heldur en District-leiðinni. Fyrir lok 1905 voru allar leiðir í eigu District-fyrirtækisins og Inner Circle-leiðin rafmagnaðar. Kort yfir kerfinu árið 1908. Baker Street & Waterloo Railway var opnuð 1906 og stutt á eftir var nafninu breytt í Bakerloo. Fyrir 1907 hafði leiðin verið lengd í báðir áttir norður til Edgware Road og suður til Elephant & Castle. Nýja Great Northern, Piccadilly and Brompton Railway sem var útkoma tveggja verkefnanna sem MDET keypti árið september 1901 var líka opnuð síðar sama ár. Jarðgöngin voru 61 m undir jarðaryfirborðinu og leiðin fór frá Finsbury Park til Hammersmith. Sama ár var CCE&HR var líka opnuð frá Charing Cross til Camden Town með tveimur leiðum fyrir norðan: ein til Golders Green og ein til Highgate (nú heitir Archway). Í byrjun 1908 var samþykkt milli járnbrautafyrirtækjanna að þau skyldu auglýsa þjónustur sínar með nafninu „the Underground“ til þess að laða að fleiri farþegum. Nýjar auglýsingar voru gefnar út og ókeypis bæklingur með leiðakort allra fyrirtækjanna var prentaður. Á kortinu voru Bakerloo Railway, Central London Railway, City & South London Railway, District Railway, Great Northern & City Railway, Hampstead Railway (stytting á CCE&HR), Metropolitan Railway og Piccadilly Railway. Aðrar leiðir voru á kortinu en voru ekki eins sjáanlegar og hinar. Vegna þess var nafnið „Underground“ notað á lestarstöðum í fyrsta sinn og rafknúnir miðasjálfssalar voru settir upp. Þessu fylgdi kynning táknsins sem heitir „the roundel“ á ensku, það er að segja velþekkta merkið sem er enn í notkun í dag. Myndhönnuðurinn Edward Johnston hannaði þetta tákn auk leturgerðar sem heitir Johnston Underground sem er ennþá notuð í öllum prentuðum efnum og á öllum skiltjum í kerfinu í dag. Tilraunir með nýju korti voru gerðar janúar 1933, það var útlínukort hannað af Harry Beck og gefið út í bæklingum. Kortið varð strax vinsælt og er talið klassískt verk í grafískri hönnun. Uppfærð útgáfa kortsins er ennþá í notkun í dag. London Transport. Árið 1933 sameinuðust „the Combine“, Metropolitan-fyrirtækið og öll strætisvagna- og sporvagnafyrirtæki í Lundúnum í eitt fyrirtæki sem fékk nafnið London Passenger Transport Board (LPTB). Fyrirtækið var sjálfstandandi óniðurgreitt almannafyrirtæki sem stofnað var 1. júlí 1933. Strax á eftir varð fyrirtækið þekkt undir nafni "London Transport" (LT). Stutt eftir það var stofnað byrjaði fyrirtækið á að sameina allar niðurjarðarjárnbrautir í Lundúnum í eitt kerfi. Allar aðskilnu járnbrautirnar voru kallaðar „leiðir“ (e. "lines") í kerfinu. Á fyrstu útgáfu kortsins frá LT voru eftirfarandi leiðarnir: District-leið, Bakerloo-leið, Piccadilly-leið, Edgware, Highgate og Moorgate-leið, Metropolitan-leið, East London-leið og Central-leið. Árið 1937 voru styttri nöfn á tveimur leiðum tekin í notkun: Circle-leið og Northern-leið. Í fyrstu var Waterloo og City-leiðin ekki á kortinu því hún var ekki í eigu LT en árið 1937 var henni bætt við. LT tilkynnti verkefni um að lengja kerfið sem hét New Works Programme og fylgdi tilkynningu um endurbætur á Metropolitan-leiðinni. Lagt var fram að leiðirnar væru lengdar og rafmagnaðar og að fyrirtækið keypti leiðir frá öðrum járnbrautafyrirtækjum. Á fjórða og fimmta áratugum voru nokkrar leiðir keyptar og þeim var breytt í grunnar leiðir neðanjarðarlestakerfisins. Elsti hluti kerfisins sem ennþá er í notkun er hluti Central-leiðarinnar sem fer á milli Leyton og Loughton. Þessi járnbraut var opnuð aðeins nokkrum árum fyrir neðanjarðarkerfið sjálft. Við byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar drógust öll endurbótaverkefni á langinn. Frá miðjum fimmta áratugnum voru margar stöðvar kerfisins notaðar, auk ganga, sem skjól frá Leifturstríðinu. Um það bil 177.500 manns leituðu skjóls í neðanjarðarlestakerfinu og um 200.000 börn notuðu það til að komast upp í sveitina. Í fyrstu var fólki ekki leyft að leita skjóls í kerfinu en síðar buðu stjórnvöldin 22.000 rúmpláss, kamra og veitingaaðstöður. Eftir smástund urðu sérstakar stöðvar með bókasöfnum og kennslustofum notaðar sem kvöldskólar. Seinna í heimsstyrjöldinni voru sérstök skjól byggð undir átta neðanjarðarlestarstöðvum, hvert skjól gæti hýsað um 8.000 manns. Sumum stöðvum var breytt í ríkistjórnarskrifstofur en flestar þessara stöðva eru ekki lengur í notkun. Lestarstöðvar og leiðir. Ekið er á ellefu leiðum, sem hver um sig er auðkennd með eigin lit. Þessar leiðir eru Bakerloo-leið, Central-leið, Circle-leið, District-leið, Hammersmith og City-leið, Jubilee-leið, Metropolitan-leið, Northern-leið, Piccadilly-leið, Victoria-leið og Waterloo og City-leið. Tólfta leið kerfisins, East London-leiðin, var lokuð árið 2007 vegna endurbyggingar. Hún var opnuð aftur árið 2010 sem hluti kerfisins London Overground, sem er hluti netsins National Rail, og varð tengd við North London-leiðina. Kerfið þjónar 268 stöðvum með lestum, það eru sex aðrar stöðvar sem voru á East London-leiðinni og þeim er núna þjónað af tímabundnum strætisvögnum. Það eru fjórtán lestarstöðvar útan við Stór-Lundúnasvæðið og fimm þeirra eru útan við M25-hraðbrautina. Það eru sex borgarhlutar (Bexley, Bromley, Croydon, Kingston, Lewisham og Sutton) úr 32 sem eru ekki þjónað af neðanjarðarlestakerfinu, og borgarhlutinn Hackney er með bara lestarstöðvarnar Old Street og Manor House. Vagnakostur. Á kerfinu er notað vagnakost sem byggður var á milli 1960 og í dag. Vagnakosturinn í notkun á grunnu leiðunum er táknaður með bókstaf (til dæmis A-vagnakostur, notaður á Metropolitan-leiðinni) þar sem sá sem er í notkun á djúpu leiðunum er nefndur eftir framleiðlsuári (til dæmis vagnakostur 1996, notaður á Jubilee-leiðinni). Aðeins ein tegund vagnakosts er í notkun á hverri leið, nema á District-leiðinni þar sem er notað báða C og D-vagnakosti. Neðanjarðarlestarkerfi Lundúnaborgar er meðal þeirra fárra neðanjarðarlestarkerfa sem eru með fjórum teinum. Miðar. Á kerfinu er hægt að nota Travelcard-miða sem seldir eru af Transport for London. Stór-Lundúnasvæðið skiptist í sex svæði (e. "zones"): svæði 1 er í Mið-London og svæði 6 er yst. Það eru nokkrar stöðvar utan Stór-Lundúnasvæðisins á Metropolitan-leiðinni sem liggja á svæðum 7–9. Á mörgum stöðvum eru mannaðar miðasölur, þar sem opið er á ákveðnum tímum, og miðasjálfsalar sem má nota hvenær sem er. Sumir miðasjálfsalar taka peningum, peningaseðlum og kreditkortum; sumir aðeins peningum og aðrir aðeins kortum. Árið 2003 tilkynnti Transport for London Oyster-kort, snertifrjálst rafkort með innbyggðum RFID-kubbi. Farþegar geta keypt kortið og fyllt á það í stað fyrir pappírsmiða. Hægt er líka að hlaða Travelcard-miða á slíkt kort. Eins og pappírsmiðar gilda Oyster-kort á neðanjarðarlestarkerfið, strætisvagna, sporvagna, Docklands Light Railway og aðrar járnbrautaþjónustur í borginni. Fargjöld með Oyster-kortum eru ódýrari en pappírsmiðar. Transport for London hvetur öllum farþegum að nota Oyster-kort í stað fyrir Travelcard-miða með stórum munum á fargjöldum. Fargjöld eru ódýrari fatlafólum og ellilífeyrisþegum sem búa í London. Síðan 2006 hefur þetta áform verið kallað „Freedom Pass“ og býður upp á ókeypis ferðum á leiðum Transport for London hvenær sem er. Þeim sem má nota áformið er gefið kort sem er í raun Oyster-kort en merkið stendur ekki á því. Páskar. Páskar (sem upphaflega kemur af hebreska orðinu "pesaḥ" eða "pesach" פֶּסַח sem þýðir „fara framhjá“, „ganga yfir“ en kom inn í íslensku gegnum orðið pascha í latínu) er sameiginlegt heiti á einni af aðalhátíðum gyðinga og mestu hátíð í kristnum sið. Þær eiga þó fátt annað sameiginlegt. Upphaf páska. Samkvæmt söguhefð gyðinga eiga páskarnir uppruna í útförinni af Egyptalandi (Exodus) er Móses leiddi Ísraelsmenn út úr ánauðinni hjá faraó, gegnum Rauðahafið og eyðimörkina í átt til hins fyrirheitna lands eins og sagt er frá í Biblíunni í 12. kapítula 2. Mósebókar. Þar segir að Guð hafi sagt Móses að hann ætli að „fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað“ svo að faraó sleppti gyðingum úr landi. Til þess að Guð gæti þekkt hvar gyðingarnir bjuggu var þeim uppálagt að slátra lambi og ríða blóði þess á dyrastafi hýbýla sinna. Pesah (páskar) hefur í þessum texta verið þýtt sem „framhjáganga“ vegna þess að Drottinn hét að „Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland“. Síðasta kvöldmáltíðin máluð af Leonardo da Vinci á árunum 1495-1498 Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana "Festum festorum" eða hátíð hátíðanna. Tilefnið er upprisa Jesú en kristnir menn trúa því að hann hafi risið upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu AD 27 til 33. Samkvæmt frásögum í Nýja testamentinu (Matt. 26.-27. kap., Mark. 14.-15. kap., Lúk. 22.-23. kap. og Jóh. 18.-19. kap.) bar handtöku og krossfestingu Jesú upp á páskahátíð gyðinga. Páskalambið varð að tákni fyrir Jesú í hugum kristinna manna því honum var fórnað á sama hátt og lambinu. Það er með öllu óvíst hvenær kristnir menn fóru að halda upp á páska. Í frumkristni var nefnilega sunnudagurinn haldinn heilagur til áminnis um upprisu Jesú (enda hvíldardagurinn fluttur frá laugardeginum sem gyðingar höfðu og hafa enn sem hvíldardag). Samkvæmt hefðinni og guðspjöllunum dó Jesús á föstudegi og reis upp frá dauðum á sunnudegi. Að öllum líkindum héldu þeir sem snúist höfðu til kristni í fyrstu söfnuðunum og ekki voru gyðingar ekki upp á páska. Samkvæmt kirkjusagnfræðingnum Socrates Scholasticus (fæddur ár 380) hófu kirkjudeildir að halda upp á páska einungis á einstaka svæðum og nefnir meðal annars að hvorki Jesús né postularnir hafi haldið upp á páska ekki frekar enn neinar aðrar hátíðir. Þegar a annarri öld er hins vegar greinilegt að páskahátíðin var orðin föst í sessi. Í lok þeirrar aldar stóðu yfir miklar deilur um tímasetningu atburða þeirra sem páskarnir eiga að minna á. Það var ekki fyrr en við kirkjuþingið í Níkeu 325 sem samþykkt var að páskarnir mundu ekki fylgja tímasetningu páskahátíðar gyðinga heldur fylgja fullu tungli næst jafndægri á vori eftir allflókinni reglu. Aðdragandi páska. Lengi vel var sá siður í kaþólsku kirkjunni að fasta í 40 daga fyrir páska sem innlifun í píningu og píslarvætti Jesú og er sú fasta kölluð langafasta. Rétttrúnaðarkirkjan heldur enn í þennan sið. Fastan fólst í því að ekki mátti neyta kjötmetis. Dagana þrjá áður en fastan hófst, sem kallaðir voru föstuinngangur, var haldin hátíð sem nefnd var kjötkveðjuhátíð og er enn mikil hátíð í mörgum kaþólskum löndum. Fyrsti dagurinn í föstunni var nefndur öskudagur en þann dag voru trúaðir blessaðir í kirkjunni og fengu krossmark dregið á enni með ösku. Fimmti sunnudagur í föstu var boðunardagur Maríu, þegar María mey fékk boð Gabríels erkiengils um að hún væri hafandi og mundi fæða son Guðs. Dymbilvika og páskarnir. Síðasta vikan fyrir páska er oftast nefnd dymbilvika eða kyrravika á íslensku en hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum gegnum aldirnar. Þar á meðal má nefna dymbildagar, dymbildagavika, dymbildægur, dymbilvika, passíuvika, efsta vika, helga vika, helgu dagar og píningarvika. Dymbilvikan hefst með pálmasunnudegi en samkvæmt Mattheusarguðspjallinu reið Jesú þann dag á asna inn í Jerúsalem til að halda páska gyðinga, margir fögnuðu honum með því að veifa pálmagreinum og hylltu hann sem konung og frelsara. Á fimmtudeginum borðaði Jesús með lærisveinum sínum í síðasta sinn og er það nefnt síðasta kvöldmáltíðin. Dagurinn er nefndur skírdagur vegna þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sina fyrir máltíðina, en skír í þessu samhengi þýðir hreinn. Föstudagurinn langi snýst allur um sakfellingu Jesú, krossfestingu og dauða. Páskahátíð gyðinga "Pesach", var haldin á laugardeginum á sabbatinu. Þennan dag lá öll starfsemi niðri en daginn eftir, á sunnudeginum, var venjulegur virkur dagur. Það var þá sem María Magdalena og María móðir Jakobs, samkvæmt, Markúsarguðspjallinu 16. kafla, sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda þess vegna páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar. Samkvæmt guðspjöllunum birtist Jesús mörgum og víða eftir upprisuna allt fram að uppstigningadegi 40 dögum eftir páska, þá steig hann til himins og varð hægri hönd Guðs. Hvenær eru páskar? Tímasetning páska hefur ekki alltaf verið sú sama. Samkvæmt tímatali gyðinga (sem er tungltímatal) ber páska alltaf upp á 14. daginn í vormánuðinum Nisan en þá er alltaf fullt tungl. Kristnir menn fluttu fljótlega páskadaginn yfir á næstkomandi sunnudag enda álitu þeir að Jesús hafi endurrisið á þeim vikudegi. Allt frá árinu 325 ber páskadaginn ætíð upp á fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægri á vori. Tunglfyllingardagur þessi er þó ekki raunveruleg tunglfylling heldur er hann reiknaður út samkvæmt ákveðinni reglu en fylgir þó oftast raunverulegri tunglfyllingu nokkuð náið Í vestrænni kristni geta páskar allra fyrst verið 22. mars og seinast 25. apríl. Nýtt tímavandamál kom upp þegar júlíanska tímatalið var yfirgefið fyrir það gregoríanska á 14 til 16 öld. Stærsti hluti rétttrúnaðarkirknanna fylgdu áfram júlíanska tímatalinu í kirkjuárinu. Þess vegna ber páskana þar upp á aðra daga en í öðrum kirkjudeildum. Fjallabrun. Fjallabrun er íþrótt sem snýst um það að bruna eftir ákveðinn braut niður fjall. Í þetta eru oft notuð reiðhjól með mikilli fjöðrun (fram- og aldempun) og er hún mjög mjúk svo að keppendur finni sem minnst fyrir hindrununum. Cannondale. Cannondale Bicycle Company er bandarískur reiðhjólaframleiðandi, stofnaður 1971. Höfuðstöðvarnar eru Bethel í Conneticut íBandaríkjunum. Þéttefni. Þéttefni eða fast efni er efnishamur, sem veldur mótstöðu vegna þess að frumeindir raðast þétt saman. Þéttefnisfræði eða storkufræði fjallar um slík efni. Vegna þess hve þétt samanpökkuð atómin eru verður til spenna þegar við snertum fast efni eins og t.d. stein sem byggist upp á milli atóma okkar og atóma steinsins sem veldur því að a fasta efnið snertir okkur aldrei sem leiðir af sér að atómin í fasta efninu blandist aldrei saman við annað fast efni. Einungis er hægt er að skilja föst efni í sundur. Hins vegar er hægt að blanda föstum efnum saman ef þeim er breitt í vökvaform með því að hita fasta efnið verður hreyfing atómana örari sem leiðir af sér að þéttnin minkar og fasta efnið verður því að vökva sem getur eingöngu blandast öðrum efnum í vökvaformi. Ef fast efni er hitað nógu mikið verður það að lofti og besta dæmið um fjölbreytileika fasa efnis er því líklega vatn (H2O) sem þekkist sem fast efni þegar það er í formi íss. Einnig má nefna plast, járn, við og steina sem dæmi um föst efni sem við þekkjum vel úr okkar daglega lífi Þrjú á palli - Við höldum til hafs á ný. Þrjú á palli - Við höldum til hafs á ný er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Ljóð eftir Jónas Árnason við erlend þjóðlög. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Þórir Baldursson útsetti. Aðstoð við útfœrslu og nánari músiseringu, Jón Stefánsson. Aðstoðarfólk með meirapróf á ýms hljóðfœri: Anna Ingvarsdóttir, Gunnar Björnsson, Guðmundur R. Einarsson, Jóhannes Eggertsson, Páll Einarsson, Úlfar Sigmarsson, Þórarinn Ólafsson og fleiri. Fyrsta íslenska steríóupptakan. Pétur Steingrímsson upptökumaður hafði smíðað eigin búnað til steríóhljóðritunar, en þar sem hann hafði ekki komið sér upp hljóðveri stillti hann græjunum upp í Háteigskirkju. Þrjú á palli fengu þann heiður að vígja þessi fyrstu íslensku steríóupptökutæki í ágústlok 1970 þegar platan Við höldum til hafs á ný, var tekin upp. LungA. LungA eða Listahátíð ungs fólks, Austurlandi er listahátíð fyrir ungt fólk haldin á Seyðisfirði í júlí ár hvert. Árið 2000 leit listahátíð LungA dagsins ljós í fyrsta sinn. Um er að ræða listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum og lýkur með uppskeruhelgi: sýningum og tónleikum. Hátíðin er frábær blanda af listum, sköpun, tjáningu og stórbrotinni náttúru. Hún hefur getið sér gott orðspor, bæði á Ísland og út fyrir landsteinana fyrir frábært andrúmsloft, námskeið af miklum gæðum og með mikilli virkni þátttakenda. Ennfremur færir hátíðin gleði, sjálfsþekkingu, elskendur, nýja vini og góðar minningar fyrir þá sem sækja hátíðina heim. Árið 2010 kviknaði sú hugmynd að stofna skóla á Seyðisfirði út frá hugmyndarfræði LungA. Nú er hugmyndin orðin að veruleika og fyrsti hópurinn mun hefja nám við skólann árið 2014. LungA „fjölskyldan“ samanstendur nú bæði af árlegri listahátíð og skóla. Dagsdaglega er þetta tvennt rekið sitt í hvoru lagi, en heitið, gildin og hugmyndafræðin eru af sama meiði. Gleðileg jól - Fjórtán jólalög. Gleðileg jól - Fjórtán jólalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Ljósmynd á plötuumslagi tók Jón Þórðarson. İstiklâl Marşı. Veggur í skólastofu í Tyrklandi með texta þjóðsöngsins (hægra megin). İstiklâl Marşı (tyrkneska: "Sjálfstæðismarsinn") er þjóðsöngur Tyrklands. Hann var tekinn upp 12. mars 1921, tveimur árum fyrir stofnun Tyrkneska lýðveldisins. Pálmasunnudagur. Pálmasunnudagur er trúarleg hátíð kristinna sem fellur á sunnudaginn fyrir páskana og er fyrsti dagur dymbilviku. Pálmasunnudagur er haldinn til minningar um innreið Jesú í Jerúsalem, þegar fólkið breiddi klæði sín á veginn og veifaði pálmagreinum til að fagna komu hans, en þannig var konungum fagnað á þeim tímum. Í kaþólskum kirkjum og sumum lúterskum fer fram pálmavígsla og helgiganga á þessum degi. Þá er pálmagreinum, eða greinum sem líkjast þeim, úthlutað til safnaðarins, og að lokum er helgiganga með söng. Þá er sungin ævaforn lög, sem tilheyra þessari athöfn. Sumstaðar eru vígðu pálmagreinarnar, sem ekki ganga út, brenndar og askan geymd fram á næsta öskudag, en áður fyrr var henni stundum dreift yfir söfnuðinn. Pálmasunnudagur er hræranlegur hátíðisdagur og fellur því ekki upp á sama mánaðardag ár hvert. G.O.R.A.. G.O.R.A. er a tyrknesk gamanmynd skrifuð af Cem Ylmaz og leikstýrt af Ömer Faruk Sorak. Hokkabaz. Hokkabaz er tyrknesk gamanmynd samin af Cem Ylmaz en Ali Taner Baltacı leikstýrði henni. Emre Altuğ. Niyazi Emre Altuğ (f. 14. apríl 1970 í Istanbul) er tyrkneskur söngvari og leikari. Almengi. Almengi er hugtak í heimspeki og mengjafræði, sem á við hugsanlegt mengi, sem inniheldur öll önnur mengi, þ.e. "megi allra mengja". Slíkt mengi innihéldi þá einnig sjálft sig, en fyrifinnst ekki skv. Zermelo Fraenkel mengjafræði. Ef gert er ráð fyrir mengi allra mengja, sem ekki innihalda sjálft sig fæst Russell mótsögnin. Þrándarneskirkja. Þrándarneskirkja er nyrsta miðaldasteinkirkja Noregs (og raunar Norðurlanda). Hún er um 3 km norðan við miðbæinn í Harstad. Kirkjan hefur löngum verið talin frá miðri 13. öld, en aldursgreining byggð á árhringjatímatali bendir til að henni hafi verið lokið skömmu eftir 1434. Samanborið við tíu aðrar miðaldasteinkirkjur, sem enn eru uppistandandi í Noregi, er Þrándarneskirkja vel varðveitt, og hefur að utan haldið sem næst upprunalegu útliti. Heildarlengd kirkjunnar er 36 metrar, Kirkjuskipið eða framkirkjan er 22.6x17.0 metrar og kórinn 13.5x11.5 metrar, og er kirkjan því ein sú stærsta frá kaþólskum tíma, utan þéttbýlis í Noregi. Á miðöldum var Þrándarnes miðstöð kirkjulegs starfs í Norður-Noregi. Þrándarneskirkja er einkum þekkt fyrir ríkulegar skreytingar og kirkjugripi, m.a. þrjár altaristöflur í gotneskum stíl. Ein þeirra (sú stærsta) er talin eftir víðkunnan þýskan listamann Bernt Notke (1435-1508/09). Predikunarstóllinn, sem er í barrokkstíl er með stundaglasi til að minna prestinn á að halda ekki of langar ræður. Orgelið er frá 18. öld. Í kórnum eru leifar af múrmálverkum frá miðöldum. Núverandi kirkja er líklega sú þriðja á þessum stað. Sú fyrsta, stafkirkja, var byggð á 11. öld. Önnur kirkjan, sem byggð var á 12. öld, var víggirt með steinvegg (múrvegg), og má sjá leifar hans umhverfis kirkjugarðinn. Áður fyrr var lítill turn á kirkjunni, sem var tekinn niður. Nú eru kirkjuklukkurnar í litlum klukkuturni vestan við kirkjudyr. Veiðivötn. Ljótipollur er eitt af veiðivötnunum Veiðivötn eru vatnaklasi á Landmannaafrétti, sem samanstendur af allt að fimmtíu vötnum, bæði smáum og stórum. Mörg vötnin eru sprengigígar sem mynduðust í Veiðivatnagosinu 1477. Vatnaklasinn verð til í núverandi mynd í þessu eldgosi. Fjölmörg eldgos hafa orðið á Veiðivatnasvæðinu frá því ísöld lauk, t.d. gosið í Vatnaöldum í upphafi landnámstíðar (um 870) en þá myndaðist landnámsgjóskulagið. Tungnárhraunin, þar á meðal Þjórsárhraunið mikla, eru upp runnin á Veiðivatnasvæðinu. Í vötnunum er mikil urriðaveiði en bleikju hefur einnig fjölgað á síðustu árum, sérstaklega í þeim vötnum sem eiga samgang við Tungnaá. Urriðinn í vötnunum þykir sérstaklega vænn og er af ísaldarstofni, þ.e. sjóbirtingur sem lokaðist inni við lok síðustu ísaldar. Stangveiði er mikið stunduð í vötnunum og er fjöldi stanga takmarkaður við áttatíu stangir á dag. Myndavél. Myndavél er tæki notað til þess að taka ljósmynd og/eða kvikmynd. Myndavél notar linsu til að safna ljósi frá myndefni og lýsir ljósmyndafilmu eða myndflögu, sem skráir lýsingu og lit myndefnisins á því augnabliki þegar "myndin er tekin". Kvikmyndavél tekur margar ljósmyndir á hverri sekúndu, sem síðan eru spilaðar upp á réttum hraða til að búa til kvikmynd. Hafskip hf.. Hafskip hf. var íslenskt skipafélag, stofnað 1958, sem varð gjaldþrota á níunda áratugnum. Oft komu upp erfiðleikar í rekstri fyrirtækisins. Lengst af þurfti Hafskip á miklum lánum að halda hjá viðskiptabanka sínum, Útvegsbanka Íslands. Vendipunktur varð árið 1984 þegar mikið tap varð á rekstri fyrirtækisins, að miklu leyti sökum „óviðráðanlegra orsaka”. Sumarið 1985 er fyrirtækið barðist í bökkum, og reynt var að ná samningum um sölu þess, hófst mikil og neikvæð umfjöllun fjölmiðla um Hafskip sem sumir líktu við ofsóknir. Hafskip var lýst gjaldþrota 6. desember 1985. Málsatvik voru með þeim hætti að úr varð mikið dómsmál, Hafskipsmálið. Dómsmálið vatt mikið upp á sig og lauk í júní 1991, fimm árum eftir gjaldþrotið, með því að fjórir æðstu menn fyrirtækisins voru dæmdir sekir um brot á lögum og Útvegsbankinn varð gjaldþrota. Margir vildu meina að stjórnmálamenn hefðu haft óeðlileg áhrif á framvindu mála. Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði af sér 24. mars 1987 vegna þáttar síns í málinu. Samkeppni í siglingum. Hlutafélagið Hafskip h.f. var stofnað 11. nóvember 1958 að frumkvæði Verslanasambandsins. Stofnendur og hluthafar voru 35 talsins og stofnfé var 1.565.000 kr. Markmiðið var að bjóða upp á hagkvæmari flutninga fyrir kaupmenn innan Verslanasambandsins en fram að því hafði Eimskipafélag Íslands haft einokunarstöðu á flutningum til og frá landinu. Ákveðið var að fjárfesta í nýju skipi. Til þess að fjármagna kaupin samþykktu hluthafarnir víxla að andvirði hlutafjár síns sem Útvegsbankinn keypti. Fyrsta skip Hafskipa, M.s. Laxá, var tilbúið í september 1959 og kom í heimahöfn sína í Vestmannaeyjum með timburfarm frá Póllandi í desember það ár. Árið 1963 höfðu tvö skip, M.s. Rangá og M.s. Selá, bæst við og gat Hafskip nú veitt öðrum íslenskum skipafélögum þ.e. Eimskipafélaginu, Skipadeild Sambands íslenskra samvinnufélaga, Eimskipafélag Reykjavíkur og Jöklum h.f. beina samkeppni með áætlunarferðum til Hamborgar, Rotterdam og Hull. Fyrstu fimm árin hafði skipafélagið verið tiltölulega lítið fyrirtæki með fáa starfsmenn og það sá fyrst og fremst um flutninga fyrir Verslanasambandið. Frá stofnun var Sigurður Njálsson forstjóri Hafskips en undir lok sjöunda áratugarins versnaði afkoman og hann sagði af sér árið 1970. Magnúsartíminn. Í byrjun áttunda áratugsins var fyrirtækið komið í fjárkröggur. Árið 1972 keypti Magnús Magnússon hlutafé í Hafskipi fyrir um 30 milljónir króna eða um 40% í fyrirtækinu. Í kjölfarið var hann kosinn stjórnarformaður, Ólafur B. Ólafsson varaformaður (stöðu sem hann gegndi fram að lokum) og Magnús Gunnarsson ráðinn forstjóri í ágúst 1973. Eftir aðeins nokkurra mánaða starf hafði hann komist að þeirri niðurstöðu að illmögulegt væri að snúa tapinu í hagnað. Í byrjun árs 1974 voru hafnar óformlegar viðræður við Eimskip um kaup þess á Hafskipi. Magnúsi Magnússyni snerist hugur og hætti viðræðunum við Eimskip þegar þær voru langt komnar og tók við starfi forstjóra í febrúar 1974. Hafskip fjárfesti í fimm nýjum skipum fyrir lán sem tekin voru erlendis með ábyrgð hjá Útvegsbankanum og seldi þau þrjú skip sem fyrirtækið átti fyrir. Árið 1977 var komið í óefni og skuldir Hafskips orðnar miklar. Seðlabankinn hafði sérstakar áhyggjur af stöðu mála og sendi aðvörunarbréf til Útvegsbankans, áritað af Jóhannesi Nordal og Guðmundi Hjartarsyni, bankastjórum. Útvegsbankinn ákvað þá að senda viðlíka aðvörunarbréf til Hafskips og ekki var þess lengi að bíða að breytingar yrðu gerðar innan fyrirtækisins. Í lok ársins 1977 var stokkað upp innan fyrirtækisins og Björgólfur Guðmundsson fenginn til þess að taka við stöðu framkvæmdastjóra. Valið á honum var líklegast til komið vegna þrýstings frá Útvegsbankanum. Björgólfur vildi ráða annan framkvæmdastjóra og réði Ragnar Kjartansson í það starf í júlí sama ár. Í ljós kom að Magnús, stjórnarformaður, hafði falsað reikningana fyrir kaupunum á skipunum fimm og stungið mismuninum undan. Hann var kærður fyrir fjárdrátt til rannsóknarlögreglunnar 15. desember 1978. Eftir hluthafafund í febrúar 1979 féllst hann á að skila fénu sem hann hafði dregið sér og því var fallið frá kæru í júní. Aðalfundur Hafskips var haldinn 11. maí 1979. Nýtt hlutafé safnaðist, hluthöfum fjölgaði mikið og kosin var ný stjórn fyrirtækisins undir formennsku Alberts Guðmundssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Ársreikningurinn fyrir 1978 sýndi tap upp á 63 milljónir kr en nú ríkti bjartsýni á ný um rekstur fyrirtækisins. Á einu ári söfnuðust um 897 milljónir kr. í hlutafé. Um haustið voru hafnar viðræður á milli Hafskips og Bifrastar h.f., innflutningsfyrirtækis bílainnflytjenda, um yfirtöku Hafskips á viðskiptum á fyrirtækinu. Helgi Magnússon segir í bók sinni að hann hafi skoðað bókhaldsgögn Bifrastar fyrir hönd Hafskips og komist að þeirri niðurstöðu að skuldir þess væru of miklar og að sú viðskiptavild sem kaupin hefðu í för með sér borgaði sig ekki. Ragnar Kjartansson sagðist vongóður í blaðaviðtali um að þeir samningar tækjust en ekkert varð úr þeim. Í kjölfarið keypti Eimskip fyrirtækið. Aukin viðskipti. Hafskip bauð nú nýja þjónustu, stykkjavöruflutning, flutning á smærri einingum. Þetta laðaði fljótt að sér viðskiptavini og krafðist á sama tíma endurskipulagningar fyrirtækisins og endurnýjun skipakosts þess. Í ágúst 1979 tók Hafskip í notkun fyrsta skipið af þremur af nýrri gerð sem þeir nefndu fjölhæfnisskip vegna opnanlegs skuts og færanlegra millidekkja. Annað fjölhæfnisskipið fylgdi í apríl 1980 og það þriðja snemma árið 1982. Þessi skip voru mikið fljótari að losa og lesta farma og því talsvert hagkvæm fyrir Hafskip. Með þessum kaupum skaut Hafskip Eimskipafélaginu ref fyrir rass því félagið hafi nýlega keypt sex skip sem höfðu ekki þessa tækni. Einnig var samkeppni um vörugeymsluaðstöðu, þá stóð yfir landfylling og uppbygging á Sundahöfn og fékk Eimskip þá aðstöðu. Hafskip fékk fyrri aðstöðu Eimskips við Faxaskála við Austurhöfnina og stækkaði athafnasvæði sitt þar með mjög. Í október 1980 hóf félagið að sigla til Bandaríkjanna, það voru fyrst og fremst flutningar fyrir varnarliðið. Hafskip sá um þriðjung þeirra flutninga á móti tveimur þriðjungum Eimskips. Snemma árs 1981 gerði Hafskip þjónustusamning við Ríkisskip um flutning kísilgúrsfarma frá Húsavík til Reykjavíkur þaðan sem Hafskip flutti hann út. Óraunsæir stórveldisdraumar. Hafskip mátti illa við fjárhagslegum áföllum sökum bágrar eiginfjárstöðu og tómra varasjóða en eftir um þriggja ára langt uppbyggingarskeið urðu nokkrir atburðir á árinu 1984 til þess að þyngja róðurinn verulega. Einnig voru nokkrar afdrifaríkar ákvarðanir teknar að því er Helgi Magnússon, endurskoðandi Hafskips, lýsir í bók sinni. „Forráðamenn Hafskips voru óskaplega uppteknir við ýmsa stórveldisdrauma og helst alheimsstarfsemi allt frá árunum 1981-82. … Þá fóru menn að vilja gleypa allan heiminn í stað þess að styrkja innviði Hafskips og taka skrefin hægt og örugglega. … Það er auðvitað ósanngjarnt að gagnrýna þessa stefnu eftir á þegar allt er farið á versta veg. Ef menn þreifa sig ekki áfram verða engar framfarir og einhverjir verða að þora að taka áhættu. “ Um þetta leyti funduðu Ragnar, Björgólfur og Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, og Þorkell Sigurlaugsson um hugsanlega sameiningu fyrirtækjanna í London. Þessar þreifingar leiddu af sér rekstur farþegaferjunnar Eddu eins og rakið er hér fyrir neðan. Í desember 1982 skrifaði Ragnar Kjartansson, framkvæmdastjóri Hafskips, grein sem birtist í Morgunblaðinu sem var eins konar ákall til íslenskra fyrirtækja um að þau þyrftu að herja á erlenda markaði ellegar lúta í lægra haldi fyrir utanaðkomandi samkeppni. Umboðsskrifstofur voru opnaðar í Ipswich í maí og New York í júní sama ár. Í grein hans segir Aðrar umboðsskrifstofur opnuðu í mars 1983 í Kaupmannahöfn, apríl 1983 í Hamborg, apríl 1984 í Rotterdam og október 1984 í Varberg. Edda. Sumarið 1983 hófu Eimskip og Hafskip rekstur bílaferjunannar Eddu sem sigldi milli Reykjavíkur, Newcastle í Bretlandi og Bremerhaven í Þýskalandi. Skipafélögin stofnuðu sameiginlega dótturfyrirtækið Farskip gagngert til þess. Það kom mönnum undarlega fyrir sjónir að samkeppnisaðilar tækju saman um slíkt. Mikil undirbúningsvinna hafði farið skipulagningu og var byrjað að auglýsa og kynna starfsemina í lok janúar. Farþegaskipið gat tekið 900 farþega og 160 bíla og var lýst sem fljótandi hóteli. Edda kom í fyrsta skiptið að höfn í Reykjavík þann 1. júní en rekstri var hætt 15. október. Yfir sumarið sigldi skipið vikulega en engu að síður var tap á rekstri ferjunnar. Um 15.000 farþegar nýttu sér ferjuna, fimmtungi færri en áætlað var. Ein af ástæðun dræmrar rekstrarafkomu var að Edda sigldi aðeins að sumri til. Pólska fyrirtækið sem leigði Farskipi Eddu vildi ekki veita hagstæðan leigusamning nema til lengri tíma. Til greina kom að leigja Eddu til aðila á Máritíus yfir veturinn en allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan varð sú að rekstur hennar var lagður niður og tap upp á 40 milljónir féll jafnt á fyrirtækin tvö. „Gulldrengirnir“. Eftir að Hafskip hafði opnað umboðsskrifstofu í New York í júní 1982 hófu þeir fljótt að leita tækifæra til þess að færa út kvíarnar. Gunnar Andersen, rekstrarhagfræðingur sem reynt hafði sjálfstæða fjármálaráðgjöf við Wall Street var fenginn til þess að veita Hafskipi ráðgjöf. Í lok ársins 1983 festi Hafskip kaup á Cosmos Shipping Company Inc., flutningsmiðlunarfyrirtæki sem rak skrifstofur í New York, Miami, Baltimore, Chicago og New Orleans. Gunnar undirbjó kaupin og var ráðinn forstjóri. Fljótlega seinna voru dótturskrifstofur Cosmos stofnaðar í Rotterdam og á Íslandi. „Miklar vonir voru bundnar við starf Gunnars því allir trúðu því að hann væri einkar klár maður og fær í flestan sjó. Þess vegna urðu vonbrigðin með starf hans hrikaleg þegar hvorki gekk né rak og ekkert kom út úr því nema bullandi tap.... Hann sannfærði menn þó stöðugt um að dæmið væri að snúast við yfir í hagnað og þannig maraði þetta fram á vor 1985. Þetta olli talsverðum titringi hjá Hafskip í Reykjavík en Björgólfur hélt stöðugt hlífiskildi yfir Gunnari og sló á alla gagnrýni. Það mátti ekki blása á gulldrenginn.“ Í bók sinni segir Helgi Magnússon frá "gulldrengjum" Björgólfs Guðmundssonar, forstjóra Hafskips, mönnum sem hann hélt sérstaklega upp á og voru verðlaunaðir umfram verðleikum. „Flest vandamál var hægt að leysa en það kostaði oft talsverða fyrirhöfn. Eitt vandamál varð þó aldrei leyst og það varð Hafskip afar dýrkeypt áður en yfir lauk. Þar á ég við rekstur New York skrifstofunnar.“ Eitt innanhúsvandamál fyrirtækisins, samkvæmt frásögn Helga Magnússonar, laut að Baldvini Berndsen, sem var yfir umboðsskrifstofu Hafskip í New York. Hann segir Björgólf og Baldvin vera gamla kunningja úr vesturbænum sem báðir hafi glímt við áfengisvandamál á tímabili og það hafi þjappað þeim saman. Helgi segir frá tveimur ferðum sem hann fór í heimsóknir til New York. Í febrúar 1983 í fyrra skiptið og svo aftur í desember og í það skiptið var Páll Bragi Kristjónsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Hafskips, með honum í för. Hann lýsir Baldvini sem hrokafullum, vanhæfum og óskipulögðum. Þá hafði Sigurþór Guðmundsson aðalbókari endurtekið kvartað yfir bókhaldi skrifstofunnar. Starfsmenn Coopers & Lybrand, bandarísks endurskoðendafyrirtækis sem fór yfir bókhaldsgögnin í New York fyrir Hafskip, sögðust einnig fá ófullnægjandi gögn til yfirferðar. Í desember 1984 sagði Baldvin upp viðskiptunum við Coopers og Lybrand án þess að ráðfæra sig við stjórn Hafskips. Helgi segir frá því að hann hafi sjálfur sent Björgólfi og Ragnari bréflega úttekt þar sem hann lagði til að Baldvini yrði sagt upp. En samkvæmt honum var Baldvin „einn af gulldrengjum Björgólfs … sem aldrei mátti gagnrýna“. Flutningssamningarnir við varnarliðið tapast. Vorið 1984 töpuðu Eimskip og Hafskip flutningssamningum við bandaríska herinn um flutning á varningi varnarliðið. Þá tók bandarískt fyrirtæki, Rainbow Navigation Inc. við flutningunum í krafti einokunarlaga í Bandaríkjunum frá því 1904 (e. Cargo Preference Act). Þessi lög kváðu um að innlend skipafélög hefðu forgang um flutninga fyrir herinn. Eimskip og Hafskip höfðu séð um flutninga fyrir herinn frá árinu 1967 og þá jafnan siglt með sjávarafurðir til Bandaríkjanna en hergögn til baka. Flutningarnir fyrir varnaliðið skiptust þannig að Eimskip sá um 70% en Hafskip 30%. Þetta voru verðmætir samningar fyrir bæði skipafélögin og strax um sumarið fór Geir Hallgrímsson, forsætisráðherra, til Bandaríkjanna til viðræðna við Caspar Weinberger, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Georg Shultz, utanríkisráðherra kom hingað til lands. Bandaríska ríkisstjórnin sendi einnig nefnd til viðræðna um mögulegar lausnir. Til greina kom að bandarískt fyrirtæki í eigu Íslendinga sæi um flutninga en úr því varð ekki. Albert Guðmundsson sem þá var yfirmaður tollgæslunnar brást við þessu með því að stöðva kjötsendingar til varnarliðsins í gegnum hafnir. Herinn sendi þá kjötið með flugi en á Keflavíkurflugvelli var Geir Hallgrímsson, utanríkisráðherra yfirmaður tollgæslunnar og leyfði hann innflutninginn. Að lokum fékk Ísland sérstaka undanþágu frá lögunum í nýjum varnarsamningi sem var undirritaður stuttu áður en Ronald Reagan hitti Mikhaíl Gorbatsjov á leiðtogafundinum í Höfða í október 1986. Bandaríska dagblaðið New York Times mat heildarvirði flutningssamninganna á $11 milljónir. Tekjumissir Hafskips vegna þessa var um 25 milljónir íslenskra króna á árinu 1984. Eindregin afstaða íslenskra hagsmunaaðila, s.s. skipafélaga, var sú að það væri atlaga að íslensku fullveldi að grafa með þessum hætti undan rekstrargrundvelli þeirra. Í viðtölum og yfirlýsingum yfirmanna skipafélaganna sem og íslenskra stjórnmálamanna kom iðulega fram að þetta yrði leyst með viðunandi hætti fyrir íslenska hagsmuni. Málið dróst á langinn því forstjóri Rainbow Navigation gaf sig hvergi og af þessu hlutust dómsmál sem leystust ekki ekki fyrr á seinni hluta tíunda áratugsins. Verkfall BSRB. Verkfall BSRB hófst í byrjun október 1984 og varði í um mánuð. Hafnarstarfsmenn; hafnsögumenn, bryggjuverðir og aðrir starfsmenn tóku þátt í verkfallinu. Á meðan því stóð var hvorki hægt að landa né lesta skip sem lágu við höfn. Eftir því sem tíminn leið fjölgaði skipum sem þurftu að leggja að höfn. Verkfallsverðir sáu til þess að engin löndun eða losun ætti sér stað. Til ryskinga kom á sumum höfnum og sums staðar voru skip afgreidd með ólöglegum hætti. Sú verkstöðvun kostaði Hafskip um 20 milljónir króna. Allt efnahagslíf þjóðarinnar var sett úr skorðum, mörg önnur fyrirtæki, þ.m.t. Eimskipafélagið, urðu sömuleiðis fyrir fjárhagslegum skaða. Atlantshafssiglingar. Með því að setja á laggirnar umboðsskrifstofur í þeim löndum sem Hafskip sigldi til og frá var verið að leggja grunninn að nýrri þjónustu sem stjórnarmenn Hafskips bundu miklar vonir við. Þetta voru flutningar varnings milli Evrópu og Norður-Ameríku, án viðkomu á Íslandi sem nefndust Atlantshafssiglingar. Siglingar Hafskip til Bandaríkjanna hófust haustið 1980 - er Hafskip fékk hlutdeild í varnarliðsflutningunum - og strax þá fæddust hugmyndir um að herja á þennan markað. Við missinn á varnarliðsflutningunum var Reykjavík um sinn notað sem umhleðsluhöfn fyrir siglingar á milli meginlandanna. Á hálfu ári skiluðu þessir flutningar um 70 milljónum í tekjur. Þetta sumar stóð undirbúningur fyrir frekari flutninga sem hæst. Björgólfur Guðmundsson, Þorvaldur Björnsson og Baldvin Berndsen unnu að því og ferðuðust mikið milli landa. "Varfærnisáætlanir" þar sem gert var ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði sýndu verulegan hagnað. Þessar siglingar hófust 15. október 1984 þegar leiguskip lagði af stað frá Árósum í Danmörku. Ragnar Kjartansson skóf ekkert utan af því í blaðaviðtölum að „við ríkjandi aðstæður [yrði] eignalaust félag að berjast fyrir lífi sínu“. Þrjú önnur leiguskip höfðu bæst við í upphafi árs 1985. Þetta voru mun stærri skip en Hafskip hafði áður rekið og voru stærstu skipin í íslenska skipaflotanum. Stór erlend skipafélög einokuðu markaðinn fyrir þessum flutningum, en umfang reksturs Hafskips var lítið og auk þess sigldi Hafskip til smærri hafna. Umfangið fyrir Hafskip var hins vegar mikið og reyndist fyrirtækinu ofviða. Velta fyrirtækisins þrefaldaðist; Íslandsreksturinn velti u.þ.b. $20-25 milljónum en Atlantshafssiglingarnar $40-45 milljónum. Þeir fjármunir sem þurfti til, skipin, gámar, gámavagnar og ýmis konar verktakastarfsemi voru leigðir til skemmri eða lengri tíma. Áætlanir um þessar skuldbindingar voru vanmetnar og kostnaðareftirlitið brást. Skrifstofan í New York, sem Baldvin Berndsen stjórnaði, var eina skrifstofa Hafskips í Bandaríkjunum og telur Helgi í bók sinni að Baldvin beri mikla sök að illa fór. Hann segir að á þessum tíma hafi verið að uppfæra tölvubúnað skrifstofanna og samskipti verið erfiðari en ella. Á krossgötum. Þrátt fyrir bjartsýnina sem ríkti í byrjun um Atlantshafssiglingarnar vildi Ragnar Kjartansson ræða við Eimskip um hugsanlega sameiningu í nóvember það ár. Ástæðan var viðvarandi taprekstur Hafskips. Mánuði fyrr lágu fyrir tölur um skuldastöðu Hafskips hjá Útvegsbankanum, þær námu 366 milljónum kr. en tryggingarnar 349 milljónum kr. Í ljósi þessa stöðvaði Útvegsbankinn afgreiðslu nýrra lána til Hafskips. Ekkert varð úr yfirtöku Eimskips að þessu sinni og var þeim athugunum hætt fljótlega eftir áramótin. Þá hafði stjórn Hafskips ákveðið að halda áfram rekstri og láta reyna á Atlantshafssiglingarnar. Í byrjun desember 1984 sendi Hafskip ítarlegt trúnaðarbréf til Útvegsbankans. Í því kom fram að fyrirtækið stæði í ströngu og aðdragandi bágrar stöðu fyrirtækisins rakinn. Jafnframt sagði að miklar vonir væru bundnar við afkomu Atlantshafssiglinganna. Óskað var eftir $2 milljóna láni sem væri afborgunarlaust til 2-3 ára, að eldri skammtímalánum upp á $4-5 milljónum yrði breytt í afborgunarlaus lán til 2-3 ára og einnig að afborgunum lána árið 1985 yrði frestað. Útvegsbankinn hafnaði lánsbeiðninni. Á fundi með Útvegsbankanum 8. janúar greindu stjórnendur Hafskips frá áætlun sinni um að selja tvö elstu skipin sín og efna til hlutafjárútboðs að kröfu Útvegsbankans. Þann 9. febrúar 1985 var leitað eftir frekara fé til fjárfestinga á hluthafafundi. Fundurinn var nefndur „Á krossgötum“ og á honum söfnuðust 80 milljónir króna. Fyrir fundinn nam hlutafé 16 milljónum kr. Útvegsbankinn veitti lán gegn skuldabréfum hluthafa til þess að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Á hluthafafundinum hóf Ragnar Kjartansson erindi sitt með orðunum „Í dag stöndum við á sérkennilegum krossgötum“. Í bréfi stjórnarinnar til hluthafa voru taldar upp ástæður tapreksturs undanfarinna mánaða og fullyrt að eiginfjárstaða væri neikvæð. Saman vegnir námu þessi þættir um 150-160 milljónum á árinu. Auk þessa taldi hann aukin vanskil viðskiptamanna frá því árinu á undan. Í ofanálag hafði heimsmarkaðsverð skipa lækkað og áætlað að andvirði skipa í eigu félagsins hefði lækkað um $2-3 milljónir. Ragnar lauk ræðu sinni með eftirfarandi orðum. „Eins og margsinnis hefur verið komið inn á áður, bæði hér í dag og í síðustu aðalfundarskýrslum, þá getur þetta félag ekki átt sér langa framtíð án þess að skapa sér sérstöðu. Eimskip á hægri hönd með endurmetið eigið fé allt að einum milljarði króna og Samvinnuhreyfingin í fílabeinsturni valdahrokans með óþrjótandi millifærslumöguleika á vinstri hönd. Hafskip verður að skapa sér sérstöðu, og eins og nú horfir, mun sú sérstaða skapast erlendis - ekki til að draga úr starfinu á heimavelli, heldur einmitt til að efla það og styrkja.“. Stjórnarmenn og hluthafar Hafskips keyptu nýtt hlutafé. Af nýjum hluthöfum keypti Finnbogi Kjeld mest, fyrir 15 milljónir. Eftir gjaldþrot Hafskips kærði hann hlutafjárútboðið. Í varfærinni grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins voru dregnar saman helstu staðreyndir um stöðu sjóflutninga á Íslandi. Tilefnið var nýafstaðin hlutafjáraukning Hafskips. Um betri rekstur fyrirtækisins í höndum Björgólfs og félaga hans sagði hann að „Hafskipsmenn [hefðu hitt] Eimskipafélagið í talsverðri lægð um þetta leyti því að félagið hafði setið eftir í þróuninni hvað snertir skipastól og tækjakost og var líklega verr undir samkeppnina búið en nokkru sinni í sögu félagsins. Það stóð hins vegar ekki lengi”. Í sömu grein var haft eftir ónefndum heimildarmanni að Atlantshafssiglingarnar væru „þeirra eina tromp... þar sem Hafskip [er] með erfiðasta fjárhaginn frá fornu fari, lakasta skipakostinn og þrengstu aðstöðuna, hljóti það félag að heltast úr lestinni nema ævintýrið í útlöndum gangi upp.” Eftir að komið hafði í ljós að kostnaður Atlantshafssiglinga hefði farið töluvert fram úr áætlunum var reynt að selja Atlantshafssiglingarnar til erlenda aðila sumarið og haustið 1985. Verðmæti þeirra var metið á $3-4 milljónir en ekkert varð úr því vegna neikvæðrar umræðu í íslenskum fjölmiðlum um Hafskip. Hafskipsmálið. Helgarpósturinn hóf neikvæða umfjöllun um málefni Hafskips á viðkvæmum tímapunkti, stuttu eftir hluthafafundinn Á krossgötum. Reynt var að selja fyrirtækið í rekstri en allt kom fyrir ekki og 6. desember, eftir mikið fjaðrafok, var Hafskip hf. lýst gjaldþrota. Þá höfðu þingmenn kveðið hljóðs á Alþingi um málið og snérist umfjöllunin að miklu leyti um hversu mikið tap þjóðarinnar yrði á þessum lánum Útvegsbankans til fyrirtækisins. Málið fór fyrir dómstóla en var dæmt ómerkt vegna skyldleika saksóknarans við bankaráðsmann Útvegsbankans. Annar sérstakur saksóknari var þá kallaður til og urðu lyktir málsins loks þær fyrir Hæstarétti í júní 1991, að Björgólfur Guðmundsson fékk 12 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm, Ragnar Kjartansson fimm mánaða skilorðsbundinn dóm, Páll Bragi Kristjónsson tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm og Helgi Magnússon kr. 500 þús. sekt. Féllu dómar aðeins fyrir örfáar sakargiftir af þeim hundruðum, sem ákært hafði verið fyrir. Myndband. Myndband eða vídeó (úr latínu: "video", „ég sé”) er tækni til að taka upp, geyma, vinna úr, útvarpa og afrita kvikmyndir. Myndbandatækni var þróuð fyrir sjónvarp en er núorðið líka notuð á Internetinu. Torfbær. Torfbær (stundum einnig talað um torfkofa eða torfhús'") er hús sem er reist úr torfi að mestu eða nær öllu leyti. Torfbæir voru með timburgrind (og/eða steinhleðslum), og voru helsta hústegund á Íslandi frá 9. til 19. aldar. Þeir voru þó ekki alltaf burstabæir eins og flestir þeir bæir sem varðveist hafa, slíkir bæir komu ekki til sögunnar fyrr en seint á 18. öld. Einangrun torfbæjanna. Gunnlaugur bætti við þetta: Þeir voru nefnilega býsna vel einangraðir þessir gömlu torfbæir, og þurftu enga upphitun. Torf var líka töluvert notað sem einangrun milli þilja í timburhúsum á fyrri hluta 20. aldar. Annar kostur við torfbæi var að byggingarefnið var ódýrt og yfirleitt auðvelt að nálgast það. Torftekja var talin til hlunninda fyrr á tíð og var torfið skorið í mýrum. Besta torfið er það sem er að uppistöðu rótarkerfi votlendisplantna og inniheldur lítið sem ekkert af leir og sandi. Torfið var ýmist rist með torfljá eða stungið með skóflu. Torfið var látið þorna áður en hlaðið var úr því, annars var hætta á að það sigi saman og veggir aflöguðust. Viðhald. Torfhleðsla er handverk sem var í þann veginn að glatast og örfáir sem kunnu handbragðið en á síðustu árum hefur áhugi vaknað á að varðveita þá þekkingu og reynslu sem byggðist upp á þúsund árum og hafa meðal annars verið haldin námskeið í torfhleðslu til að kenna fólki að nýta torf til mannvirkjagerðar. Árhringjatímatal. Borað eftir sýni til að telja árhringi og aldursgreina timbur Árhringjatímatal eða trjáhringjatímatal er vísindaleg aðferð til að aldursgreina timbur með því að rannsaka vaxtarmynstur árhringja. Þessi aðferð var fundin upp og þróuð á 20. öld, fyrst af Andrew E. Douglass, sem stofnaði rannsóknarstofu í trjáhringjafræðum við Arizonaháskóla. Með þessari aðferð er hægt að aldursgreina timbur svo nákvæmlega, að varla skeikar ári. Á þeim breiddargráðum, þar sem eru umtalsverð árstíðaskipti, myndast árhringir þegar tré vaxa, og er sá yngsti næst berkinum. Þykkt árhringjanna fer eftir loftslagi á þeim tíma þegar tréð var að vaxa. Við góð skilyrði, þegar hlýtt er og rakt, verða árhringir þykkir, í hörðum árum verða hringirnir þunnir. Á æviferli trésins myndast samfellt árhringjamynstur, sem endurspeglar loftslagsbreytingar á því tímabili. Af því að loftslag og vaxtarskilyrði geta verið mismunandi eftir löndum, hefur árhringjamynstrið séreinkenni á hverjum stað, þó að það sé svipað í nálægum löndum. Í vissum heimshlutum hefur tekist að kortleggja vaxtarmynstur trjáa allt að 10.000 ár aftur í tímann, en á öðrum svæðum nær kortlagningin yfir styttra tímabil. Sum tré geta orðið mörg þúsund ára gömul, t.d. risafurur og eikur, og hafa þau auðveldað mönnum að byggja upp árhringjatímatal. Þegar timburleifar finnast, t.d. við fornleifarannsóknir, er hægt að aldursgreina timbrið gróft með geislakolsaðferð, og bera það síðan saman við árhringjamynstur frá svipuðum tíma og fá þannig nákvæma aldursgreiningu. Ef ysta lag timbursins er varðveitt, er hægt að ganga úr skugga um hvaða ár tréð var fellt. Með því að athuga séreinkenni í mynstrinu er stundum hægt að leiða líkur að því í hvaða landi tréð óx upp. Upphaflega var þessi samanburður gerður sjónrænt, en nú eru tölvur notaðar til að finna bestu samsvörun. Árhringir í óþekktri trjátegund, við Bristol á Englandi Hamborgari. Hamborgari er samloka með kjöti, hakki, sem ýmist er steikt á pönnu eða grillað. Kjötið sjálft er kryddað með hentugu kryddi og sett í hamborgarabrauð. Álegg, s.s. grænmeti og sósa, er haft á milli. Hamborgari er vinsæll skyndibiti eins og pizza (flatbaka) og samloka. Þorramatur. Þorramatur er hefðbundinn íslenskur matur sem hefð er fyrir að bera fram á þorra, sérstaklega á svokölluðum þorrablótum, sem eru miðsvetrarhátíð í fornum stíl. Mörg veitingahús í Reykjavík og annars staðar bjóða þá þorramat, sem oftast eru kjöt- eða fiskafurðir, verkaðar með hefðbundnum aðferðum og bornar fram niðursneiddar í trogum. Upphaf þorramatar má rekja til miðsvetrarmóta hinna ýmsu átthagafélaga á fyrri hluta 20. aldar (svo sem Breiðfirðingamót og Árnesingamót). Á þessum mótum upp úr 1950 voru oft auglýst „hlaðborð“, „íslenzkur matur“ eða „íslenzkur matur að fornum sið“ og voru þar bornir fram nokkrir réttir vel þekktir í íslenskum sveitum en voru orðnir sjaldséðir á borðum íbúa þéttbýlisstaða á 6. áratugnum. Orðið „þorramatur“ kom hins vegar hvergi fyrir fyrr en árið 1958 þegar veitingastaðurinn Naustið við Vesturgötu í Reykjavík fór að bjóða upp á sérstakan „þorramatseðil“ sem var hefðbundinn sveitamatur borinn fram í trogum sem smíðuð voru eftir fyrirmyndum á Þjóðminjasafninu. Yfirlýstur tilgangur með þorramatnum var, að sögn veitingamannsins á Naustinu, að bjóða fólki upp á að smakka íslenskan mat án þess að þurfa að vera félagi í átthagafélagi. Þorramaturinn var upphaflega hópmatseðill eða hlaðborð en árið eftir lét Naustið smíða minni trog sem hentuðu undir mat fyrir tvo. Fljótlega varð vinsælt að bera slíkan mat fram á öðrum veitingastöðum í bænum enda margir kunnugir þessum mat frá fyrri tíð og sum átthagafélögin tóku upp orðin „þorramatur“ og „þorrablót“ þegar þau auglýstu mótin sín. Þorrann ber líka upp á tíma sem var venjulega fremur dauður í veitingahúsageiranum. Upp úr 1970 var farið að nota orðið „þorrabakki“ þegar rætt var um þorramatinn sem stakan rétt. Á síðari árum hefur færst í vöxt að á þorrabakkanum séu líka matvæli sem eiga sér langa sögu en eru ekki óalgeng, svo sem harðfiskur, hangikjöt og saltkjöt. Margir veitingastaðir bjóða upp á val milli hefðbundinna súrsaðra og ósúrra þorrabakka. Þorramaturinn hefur þannig þróast með árunum til að taka mið af breytingum á matarsmekk. Stjörnusteinbrjótur. Stjörnusteinbrjótur (fræðiheiti: "Saxifraga stellaris") er fjölær steinbrjótstegund sem vex í fjalllendi í Mið- og Norður-Evrópu. Blómin eru hvít og fimmblaða og vaxa á 15-30 sm löngum stilkum. Stjörnusteibrjótur er algengur um allt Ísland, bæði á láglendi og hálendi. Ferlaufungur. Ferlaufungur (fræðiheiti: "Paris quadrifolia") er jurt sem dregur nafn sitt af fjórum stórum sívölum blöðum (sjaldan 5-7) sem vaxa út frá stilknum ofanverðum en krónublöðin löng og mjó. Frævan er svarbrún. Jurtin ber eitt ber sem er gráblátt á lit og eitrað. Á Íslandi er ferlaufungur sjaldgæfur en finnst á láglendi um allt land. Hann er friðaður. CAPTCHA. CAPTCHA sem stendur fyrir „Completely Automated Public Turing test to tell Computers and Humans Apart“ ("algjörlega sjálftvirkt og almennt Turing próf til að greina í sundur tölvur og mannfólk"), er próf sem er notað á vefsíðum til að greina á milli manna og véla. Litla hryllingsbúðin (söngleikur). Litla hryllingsbúðin er söngleikur eftir Alan Menken (tónlist) og Howard Ashman (texti). Söngleikurinn, sem byggður er á samnefndri kvikmynd frá árinu 1960 í leikstjórn Roger Corman, var frumsýndur í útjaðri leikhússlífsins í New York, í WPA-leikhúsinu 6. maí 1982, en 27. júlí sama ár var söngleikurinn sýndur í Orpheum-leikhúsinu í New York, sem svokölluð Off-Broadway sýning. Þegar sýningum var hætt, eftir 2209 skipti, hafði söngleikurinn fengið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar og af söngleikjum sem sýndir hafa verið í lengstan tíma samfellt var Litla hryllingsbúðin í þriðja sæti. Tónlistin í Litlu hryllingsbúðinni er í anda sjöunda áratugar 20. aldar. Mörg þekkt lög eru í söngleiknum og þekktustu lögin á Íslandi eru eflaust "Þú verður tannlæknir" og "Gemmér" (í þýðingu Megasar). Einnig er vitnað í dægurmenningu sjöunda áratugarins, til dæmis koma fram persónur í söngleiknum sem heita Chiffon, Crystal og Ronnette, en þær heita eftir vinsælum hljómsveitum sjöunda áratugarins. Litla hryllingsbúðin hefur verið sýnd víða um heiminn og meðal annars var gerð kvikmynd eftir söngleiknum árið 1986. Söngleikurinn hefur einnig verið vinsælt viðfangsefni áhugaleikfélaga. Söguþráður. Litla hryllingsbúðin segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi borgarinnar, hjá Músnikk, sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur einnig Auður, sæt ljóska sem Baldur er ástfanginn af. En hún á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni, sem ferðast um á mótorhjóli og beitir Auði ofbeldi. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, sem hann nefnir Auði II. Eftir því sem plantan vex og dafnar aukast viðskiptin stöðugt meira í blómabúðinni og Baldur verður sífellt vinsælli. Kvöld eitt uppgötvar hann að plantan getur talað og hún lofar honum frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Matarvenjur plöntunnar eiga eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Sýnt á Íslandi. Á Íslandi hefur Litla hryllingsbúðin verið sett upp þrisvar sinnum í atvinnuleikhúsum. Samhliða þessum þremur uppfærslum var tónlistin úr sýningunum gefin út á plötum/geisladiskum. Einnig hefur Hryllingsbúðin verið sýnd af áhugamannaleikhópum víða um landið, s.s. í grunn- og framhaldsskólum. 1985. Forsíðumynd af leikskrá frá árinu 1985 Fyrsti atvinnuleikhópurinn sem sýndi Litlu hryllingsbúðina á Íslandi var Hitt leikhúsið. Sýnt var í Gamla bíó (Íslensku óperunni) við Ingólfsstræti í Reykjavík og fór frumsýningin fram 13. janúar 1985. Sýningum lauk í byrjun desember sama ár og voru þær þá orðnar fleiri en 100. Sýningargestir urðu u.þ.b. 50.000 og fram að þeim tíma hafði aðeins eitt leikhúsverk verið betur sótt á Íslandi: Fiðlarinn á þakinu. Yfirumsjónarmenn sýningarinnar voru Sigurjón Sighvatsson og Páll Baldvin Baldvinsson. Einar Kárason þýddi laust mál í sýningunni en Magnús Þór Jónsson (Megas) þýddi söngtextana. Pétur Hjaltested (Hljómborð, hljómsveitarstjórn), Haraldur Þorsteinsson (Bassi), Björgvin Gíslason (Gítar) og Ásgeir Óskarsson (Trommur). 1999. Forsíðumynd af leikskrá frá árinu 1999 Leikfélag Reykjavíkur var annað atvinnuleikfélagið sem sýndi Litlu hryllingsbúðina. Hún var sýnd á stóra sviði Borgarleikhússins, frumsýnt var 4. júní 1999. Að þessu sinni var það Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði verkið, en áfram var notast við söngtexta Megasar. Sýningin var 468. verkefni Leikfélags Reykjavíkur. Sýningar urðu samtals 66 og sýningargestir urðu 29.603. Leikstjóri var Kenn Oldfield. Jón Ólafsson (Hljómborð og tónlistarstjóri), Karl Olgeirsson (Hljómborð), Jón Elvar Hafsteinsson (Gítar), Friðrik Sturluson (Bassi), Jóhann Hjörleifsson (Trommur, slagverk). 2006. Forsíðumynd af leikskrá frá árinu 2006 Þriðja íslenska atvinnuleiksýningin á Hryllingsbúðinni var sett upp af Leikfélagi Akureyrar, í samstarfi við Íslensku óperuna og var hún frumsýnd 24. mars 2006 í Samkomuhúsinu á Akureyri. Sýnt var á Akureyri allt vorið, en í maí var farið með sýninguna til Reykjavíkur og var hún frumsýnd í Íslensku óperunni við Ingólfsstræti þann 13. maí. Sýnt var í Reykjavík í maí og júní, en í september voru sýndar nokkrar aukasýningar á Akureyri. Einar Kárason þýddi laust mál og enn var notast við söngtextaþýðingar Megasar. Andrea Gylfadóttir hlaut Grímuverðlaunin 2006 sem besti söngvari fyrir hlutverk sitt í söngleiknum, en auk þess var Ástrós Gunnarsdóttir, danshöfundur sýningarinnar, tilnefnd til sömu verðlauna sem danshöfundur ársins. Leikstjóri sýningarinnar var Magnús Geir Þórðarson. Hljóðfæraleikarar í sýningunni voru þeir Kristján Edelstein (Gítar, hljómsveitarstjóri), Arnór Vilbergsson (Hljómborð, aðstoðarhljómsveitarstjóri), Stefán Ingólfsson (bassi) og Halldór G. Hauksson (trommur). Styrmir Sigurðsson. Styrmir Sigurðsson (f. 30. nóvember 1967) er íslenskur leikstjóri. Hann leikstýrði m.a. fyrstu þáttaröð af Fóstbræðrum sem og ótal sjónvarpsauglýsingum. Emre Aydın. thumb Emre Aydın (fæddur 2. febrúar 1981 í Isparta) er tyrkneskur söngvari og leikari. Hermann Hreiðarsson. Hermann Hreiðarsson (11. júlí 1974) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann er varafyrirliði landsliðs Íslands og leikur með Coventry City á Englandi. Hermann Hreiðarsson lét fyrst sjá sig í ensku úrvalsdeildinni árið 1997, þegar hann gekk í raðir Crystal Palace á frjálsri sölu frá verðandi Íslandsmeisturum ÍBV. Hermann náði þó ekki að hindra liðið frá falli sama ár. Í september 1998 gekk hann til liðs við þriðjudeildarliðið Brentford fyrir 750 þúsund pund sem var þá metupphæð fyrir leikmann í þeirri deild. Brentford vann deildina þetta ár, en í óktóber 1999 fór Hermann til úrvalsdeildarliðsins Wimbeldon fyrir 2,5 milljónir punda. Líkt og hann gerði hjá Crystal Palace náði hann ekki að hindra liðið frá falli tímabilið 1999-00, þó vakti hann mikla athygli meðal margra liða. Tímabilið 2000-01 gerði hann 4,5 milljóna punda samning við Ipswich sem voru þá nýlega búnir að komast upp í efstu deildina á Englandi og hafði félagið þá aldrei eytt svo miklu í leikmann áður. Ipswich náði fimmta sæti á sínu fyrsta ári í ensku úrvalsdeildinni og tryggðu sér þá þátttökurétt í UEFA Cup. 12 mánuðum seinna voru Ipswich menn ekki eins heppnir og þeir voru á síðasta tímabili og féllu niður um deild. Á sama tíma missti félagið þeirra bestu leikmenn en Hermann neitaði hins vegar að ganga til liðs við þáverandi nýliðana í ensku úrvalsdeildinni West Bromwich Albion sem buðu honum samning. Í mars 2003 hélt Hermann til úrvalsdeildarliðsins Charlton fyrir 800 þúsund pund. Hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við félagið, auk þess sem að liðið fengi 100 þúsund pund ef þeir næðu að halda sér uppi tímabilið 2003-04. Hermann sannaði að hann væri eins og klettur í vörninni þegar að hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið þegar Charlton sigraði Manchester City á heimavelli 3-0. Sama tímabil missti hann aðeins af fimm leikjum af leiktíðinni og var reglulegur byrjunarliðsmaður hjá félaginu. Í lok tímabilsins 2006-07 féllu Charlton niður um deild, þá var það í fjórða skiptið sem Hermann féll niður úr úrvalsdeildinni, og allt með mismunandi liðum. Hermann var með klásúlu í samningnum sínum sem gerði honum kleyft að yfirgefa félagið ef það félli niður um deild. Þann 25. maí 2007 gerði hann tveggja og hálfs árs samning við úrvalsdeilarliðið Portsmouth. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið þegar hann skoraði í 7-4 sigri Porstmouth gegn Reading. Síðar gekk hann til liðs við Coventry, en hefur lítið leikið fyrir félagið vegna meiðsla. Hermann Hreiðarsson er kvæntur Rögnu Lóu Stefánsdóttur og eiga þau tvær dætur saman. Þorsteinn M. Jónsson. Þorsteinn M. Jónsson (f. 18. febrúar 1963) er stjórnarformaður Vífilfells hf. og fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis hf.. Hann hefur átt sæti í stjórnum ýmissa fleiri fyrirtækja, þeirra á meðal FL Group hf., Refresco Holding BV., 365 hf. og Teymis hf. Á meðan stjórnarsetu hans í fjárfestingarfyrirtækinu FL Group stóð útvegaði Þorsteinn Sjálfstæðisflokknum 25 milljón króna styrk. Þetta hefði ekki verið í frásögur færandi ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki um sama leyti sett lög sem takmörkuðu fjárstyrki við flokka frá stökum lögaðilum við 300 þúsund krónur (sjá Styrkjamálið). Nýlega hefur komið í ljós að Þorsteinn átti í umfangsmiklum viðskiptum við Kaupþing banka, sem nú er gjaldþrota, og skuldaði marga milljarða króna. Meðal annars gegn verðlausum veðum. Einhverju eftir að Þorsteinn fjárfesti í Vífilfelli kom hann að máli við Styrmi Gunnarsson sem spurði hann „"Þorsteinn, ég veit að þú átt enga peninga, geturðu útskýrt fyrir mér hvernig þú getur keypt Vífilfell?"”, ekki lá á svari Þorsteins „"Með þróaðri fjármálatækni"”. Nám og starfsferill. Þorsteinn lauk Cand. oecon prófi (BA í hagfræði) frá Háskóla Íslands árið 1988 og hlaut MA gráðu í hagfræði frá Northwestern University árið 1991. Þorsteinn starfaði sem hagfræðingur, fyrst hjá Seðlabanka Íslands og síðan Samtökum Iðnaðarins þar til hann var ráðinn sem framkvæmdastjóri Vífilfells 1996. Því starfi gegndi hann til ársins 2005 þegar hann tók við sem stjórnarformaður fyrirtækisins. Þorsteinn hefur samhliða störfum sínum gegnt hlutverki fjárfestis og hefur tekið þátt í margvíslegum verkefnum á Íslandi og erlendis á undanförnum árum. Hann var kosinn stjórnarformaður Glitnis í febrúar 2007. Þorsteinn býr í Reykjavík og London, er fráskilinn og á eitt barn. Faðir hans er Jón Þórarinsson, tónskáld. Málsókn Glitnis banka. Þann 11. maí 2010 var málsókn Glitnis banka á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur þingfest fyrir rétti í New York-fylki, þar sem þau eru ákærð fyrir það að „...hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemur meira en tveimur milljörðum dala...“. Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers er einnig ákært fyrir að „...greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau sviksamlegu viðskipti sem Jón Ásgeir og félagar komu í kring og sem að endingu leiddu til falls bankans í október 2008.“ John Betjeman. Sir John Betjeman (28. ágúst 1906 - 19. maí 1984) var enskt skáld, rithöfundur og útvarps- og sjónvarpsmaður. Hann hóf feril sinn sem blaðamaður, en varð síðan frægt ljóðskáld. 1972 var hann valinn lárviðarskáld Bretlands. John Betjeman hafði mikinn áhuga á byggingarlist og sérstaklega gömlum byggingum með sögu. Hann var t.d. helsti liðsoddur þeirra sem vildu friða gömul hús víða í Bretlandi. Hann átti þátt í að bjarga mörgum húsum t.d. gömlu viktóríönsku ráðhúsi í smábæ einum, en þar átti að reisa neðanjarðarbílastæði. Tengill. Betjeman, John Hundur í óskilum. Hundur í óskilum er íslensk hljómsveit skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki G. Stephensen. Hljómsveitin, sem er upp runnin í Svarfaðardal, leikur á fjölda óvenjulegra hljóðfæra og spilar einkum lög annarra tónistarmanna í spaugilegum útsetningum. Hafa þeir félagar, sem báðir eru kennaramenntaðir, haldið fjölda tónleika og verið iðnir við að kynna grunnskólabörnum hinar fjölbreyttu hliðar tónlistarinnar. Hljómsveitin gaf út plötu árið 2002 sem hét "Hundur í óskilum". Útgáfutónleikar voru haldnir á á Dómó í Reykjavík þann 15. nóvember og á Græna hattinum á Akureyri þann 29. nóvember. Seinni plata þeirra félaga nefndist "Hundur í óskilum snýr aftur" og kom hún út árið 2007. Hún var tekin upp á Græna hattinum í maí sama ár. Þeir félagar í Hundinum sömdu tónlist fyrir sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni, sem sýnd var 2010-2011 undir stjórn Benedikts Erlingssonar, og fluttu hana sjálfir á fjölunum. Fyrir tónlistina hlotnuðust þeim Grímuverðlaunin 2010. Þeir sömdu einnig og sviðsettu leikritið Saga þjóðar sem var frumsýnt og leikið nokkrum sinnum hjá Leikfélagi Akureyrar haustið 2011 en var síðan sýnt í Borgarleikhúsinu fram á vor 2013. Leikritið hlaut Grímuverðlaun 2012. Murat Boz. Murat Boz (f. 7. mars,1980 í Zonguldak) er tyrkneskur söngvari og leikari. Ásgeir Elíasson. Ásgeir Elíasson (22. nóvember 1949 – 9. september 2007) var knattspyrnuþjálfari og stjórnaði landsliði Íslands í knattspyrnu 1991-1995. Hann var þjálfari Fram í tólf keppnistímabil, lengst allra manna. Ásgeir lék landsleiki fyrir Íslands hönd í þremur íþróttagreinum: knattspyrnu, handknattleik og blaki. María Teresa af Austurríki. María Teresa, heilög rómversk keisaraynja, drottning af Bæheimi, erkihertogaynja af Austurríki (þýska: "Maria Theresia", ungverska: "Mária Terézia", rúmenska: "Maria Tereza", slóvakíska: "Mária Terézia", tékkneska: "Marie Teresie"; 13. maí 1717 – 29. nóvember 1780) var erkihertogaynja Austurríkis, drottning Bæheims og Ungverjalands og í raun heilög rómversk keisaraynja. Hún var elsta barn Karls 6. keisara og konu hans, en þau átti enga syni. Hann reyndi að koma því fyrir svo að hún myndi erfa veldi hans þegar hann lést (árið 1740), en það olli miklum deilum og af því hlaust austurríska erfðastríðið, en loksins árið 1745 gat hún komið því svo að maður hennar var krýndur keisari og réði hún í raun öllu um það fyrirkomulag og hún titlaði sjálfa sig heilaga rómverska keisaraynju. María Teresa var einn þekktasti og valdamesti meðlimur Habsborgaraættarinnar, og af mörgum einnig talinn einn besti þjóðhöfðinginn úr þeirra röðum. Hún beitti sér meðal annars fyrir umbótum á sviði fjármála og menntunar, ýtti undir verslun og þróun í landbúnaði og endurskipulagði austurríska herinn, en þessar aðgerðir allar eru sagðar hafa styrkt ríki hennar mjög. María Teresa átti 16 börn en á meðal þeirra voru Marie Antoinette og Leópold 2.. Kardemommubærinn - leikrit á hljómplötu. Kardemommubærinn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Á henni flytja leikarar við Þjóðleikhúsið "Kardemommubæinn" eftir Thorbjörn Egner í uppfærslu Þjóðleikhússins frá 1960. Tónlistin er eftir Thorbjörn Egner. Hulda Valtýsdóttir þýddi leikritið og Kristján frá Djúpalæk þýddi ljóð. Hljómsveitarstjóri er Carl Billich. Leikstjóri er Klemens Jónsson og sögumaður er Jónas Jónasson. Niðarósdómkirkja. Niðarósdómkirkja (norska: "Nidarosdomen") í Niðarósi eða Þrándheimi, er næst stærsta dómkirkja í Norður-Evrópu (á eftir Uppsaladómkirkju). Kirkjan er miðstöð fyrir Niðarósstifti eða Þrándheimsstifti sem nær yfir Norður-Þrændalög og Suður-Þrændalög. Þar sem Niðarósdómkirkja stendur hefur í frumkristni verið lítil timburkirkja. Eftir að Ólafur Haraldsson Noregskonungur féll á Stiklarstöðum árið 1030, var hann grafinn í Niðarósi. Brátt urðu þar ýmsar jartegnir, sem leiddu til þess að hann varð höfuðdýrlingur Norðmanna, og víðar um Norðurlönd. Flokkar pílagríma streymdu að úr ýmsum áttum eftir Niðarósvegunum, til þess að sækja Ólaf heim og njóta þeirra jarteikna (kraftaverka) sem hann var frægur fyrir. Um 1070 var hafist handa við að byggja mun stærri steinkirkju yfir legstað Ólafs, og var hún fyrsti vísir að Niðarósdómkirkju. Árið 1153 varð Niðarós erkibiskupssetur. Umdæmi erkibiskupsins náði yfir norðvesturhluta Svíþjóðar, Noreg, og þau lönd sem þaðan höfðu byggst, allt frá Orkneyjum, Suðureyjum, Mön, Hjaltlandi og Færeyjum, til Íslands og Grænlands. Varð það til þess að efla mjög Niðarós sem kirkjulega miðstöð. Niðarósdómkirkja er krýningarkirkja Noregskonunga, þó að sá siður sé nú reyndar aflagður. Byggingarsaga. Elstu hlutar kirkjunnar eru um 850 ára gamlir, en viðgerðir, viðbætur og breytingar hafa verið gerðar allt til okkar daga. Háaltarið, sem er í barrokkstíl, er frá árinu 1743 og er eftir myndskerann Jonas Granberg. Eldsvoði og viðgerð. Oftar en einu sinni hefur kviknað í kirkjunni, síðast 1719 eftir að eldingu laust niður í kirkjuna. Árið 1869 hófst mikil viðgerð, og raunar endurgerð, á dómkirkjunni, undir stjórn arkitektsins Heinrich Ernst Schirmer. Viðgerðinni var að mestu lokið 1965, en það var þó ekki fyrr en 2001 að gengið var formlega frá verklokum. Artemidóros. Artemidóros (2. öld e.Kr.) var forngrískur rithöfundur, uppi á 2. öld e. Kr. Hann var frá Efesos en kenndi sig við borgina Daldes í Lýdíu. Eftir hann liggur ritið "Oneirokritika", um drauma og draumráðningar. Það er byggt á rannsóknum hans á verkum forvera sinna í greininni auk draumlýsinga sem hann safnaði á ferðum sínum. Er það jafnframt helsta heimildin um lífshlaup hans og skoðanir. Verkið er í fimm bókum. Þar af eru þrjár fyrstu tileinkaðar manni að nafni Cassius Maximus og ætlaðar hinum almenna lesanda. Fjórða og fimmta bók voru aftur á móti ætlaðar syni hans (og nafna) einum til lestrar. "Oneirokritika" er eina varðveitta draumráðningabókin úr fornöld. Hlutleysa. "x" * I = "x" og/eða I * "x" = "x". Talan núll er hlutleysa samlagningar og nefnist samlagningarhlutleysa, en talan "1" er hlutleysa margföldunar og nefnist margföldunarhlutleysa. Núllfylkið er sömuleiðis hlutleysa við samlagningu fylkja og einingarfylkið, en hlutleysa við margöldun fylkja. Listi yfir ensk orð af fornnorrænum uppruna. Listi yfir ensk orð af fornnorrænum uppruna. Ólafur Hjaltason. Ólafur Hjaltason (1491(?) – 9. janúar 1569) var biskup á Hólum frá 1552 til dauðadags. Hann var fyrsti lúterski biskupinn á Hólum. Kaþólskur prestur. Faðir: Hjalti Arnkelsson smiður og hringjari á Hólum. Móðir: Ókunn. Óvíst er hvenær Ólafur var fæddur, ártölin 1481 og 1484 hafa verið nefnd, en Páll Eggert Ólason telur líklegast að hann hafi verið fæddur 1491 eða 1492. Ólafur ólst upp á Hólum, stundaði síðan nám í Björgvin í Noregi, og varð prestur um 1517. Fékk skömmu síðar Vesturhópshóla og var prófastur í Húnaþingi 1527-1532. Varð síðan dómkirkjuprestur á Hólum og var mikils metinn af Jóni Arasyni biskupi. Fékk Laufás 1539, en var þó áfram á Hólum a.m.k. næsta ár. Fór vorið 1542 ásamt tveimur öðrum á konungsfund, sem fulltrúi Jóns Arasonar, og dvaldist í Danmörku og Þýskalandi veturinn 1542-1543. Kom aftur heim og var áfram í þjónustu Jóns Arasonar, var t.d. með honum í Bjarnanesreið 1547. Eftir utanförina hneigðist Ólafur til kenninga Lúthers og varð það til þess að Jón biskup bannfærði hann 1549 og svipti hann embætti. Ólafur fór til Kaupmannahafnar 1550 og fékk uppreisn æru af konungi, og Laufás á ný. Kom aftur til Íslands 1551. Biskup á Hólum. Ólafur fór enn utan haustið 1551 og var 16. október útnefndur biskup í Hólabiskupsdæmi. Hann vígðist skömmu eftir nýár 1552 og kom til landsins um vorið. Var biskup á Hólum til æviloka 1569. Ólafur er ekki talinn meðal helstu biskupa á Hólum, enda var fjárhagur stólsins erfiður fyrst eftir siðaskiptin. Hann lagði þó áherslu á skólahald, m.a. til að styrkja prestastéttina í hinum nýja sið. Ólafur lét prenta nokkrar bækur í prentsmiðjunni á Breiðabólstað í Vesturhópi. Til eru tvær óheilar bækur sem hann gaf út: Passio (þ.e. píslarpredikanir, 1559), eftir Antonius Corvinus, í þýðingu Odds Gottskálkssonar, og Guðspjallabók (1562), en heimildir eru um að fleiri bækur hafi verið prentaðar í hans tíð. Ólafur mun hafa þýtt nokkra sálma á íslensku. Í Þjóðskjalasafni Íslands er brot úr máldagabók Ólafs Hjaltasonar. Fjölskylda. Kona Ólafs Hjaltasonar var Sigríður Sigurðardóttir. Hún var öllu yngri en hann þegar þau áttust. Þau áttu engin börn saman. Sigríður eignaðist þó barn framhjá honum með manni sem Bjarni hét og er sagður hafa flúið land. Ólafur og Sigríður skildu 1562 eða fyrr. Á meðan Ólafur var kaþólskur prestur eignaðist hann tvö launbörn, Hallfríði Ólafsdóttur og Hjalta Ólafsson (d. 1588) síðar prest í Fagranesi á Reykjaströnd, Skagafirði. Astekar. Astekar voru nokkrir indíánaþjóðflokkar í Mið-Ameríku sem bjuggu til stórveldi þar sem nú er Mexíkó. Þeir voru þekktir fyrir mannfórnir og grimmd auk hernaðarlegra yfirburða yfir nágrannaþjóðum sínum. Þeir töluðu tungumálið nahúatl og notuðu ótrúlega nákvæmt dagatal sem taldi 365 daga auk sérstaks trúarlegs dagatals sem taldi 260 daga. Ríki asteka var í raun bandalag þriggja borgríkja: Tenochtitlán, Texcoco og Tlacopan. Stærsta borgríkið og miðpunktur ríkisins, Tenochtitlán, var staðsett í Mexíkódal. Þar stendur nú Mexíkóborg. Saga. Skjaldamerki Mexíkó vísar til þjóðsögunnar um uppruna asteka. Goðsögulegur Uppruni Asteka. Astekar voru frá stað sem kallaðist "Atzlan" og því kallaðir astekar. Kaldhæðnislega sóru þeir þess eið að þeir skyldu hverfa af landi brott ef þeir yrðu aftur kallaðir astekar. Sjálfir kölluðu þeir sig "mexíka" og dregur Mexíkó nafn sitt af þeim. Sagan segir að guð þeirra hafi sagt þeim að finna stað og byggja borg þar sem kaktus yxi upp af steini og á kaktusnum sæti örn með slöngu í gogginum. Mexíkar héldu því af stað suður að leit að merkinu sem guð þeirra hafði sagt frá. Þeir fóru inn í land tolteka og tóku upp ýmsa siði frá þeim og fleiri guði. Land tolteka var að mestu leiti byggt en þeir tóku samt vel á móti mexíkum. Upp úr farsælu sambandi þeirra slitnaði þó þegar mexíkar fórnuðu konu einni er toltekar ætluðu að gifta leiðtoga mexíka. Í kjölfarið ráku toltekar þá til vatnsins Texcoco í Mexíkódal. Þar komu þeir svo auga á merkið sem guð þeirra hafði skipað þeim að finna og á vatninu reistu þeir borgina Tenochtitlán. Ris Astekaveldis. Sannur uppruni asteka er ókunnur og staðsetning Atzlan er heldur ekki þekkt. Deilt er um hvort staðurinn hafi verið einhvers staðar í norðanverðum Bandaríkjunum eða frekar stutt frá Mexíkódal en flestir fræðimenn telja að staðurinn hafi verið goðsögulegur. Almennt er talið að mexíkar hafi fyrst komið í Mexíkódalinn í kringum árið 1248 Guðbrandsbiblía. Guðbrandsbiblía er fyrsta heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð á Hólum í Hjaltadal og kennd við Guðbrand Þorláksson biskup þar. Útgáfuár samkvæmt titilblaði er 1584, prentuð voru 500 eintök og tók það tvö ár. Upprunalegt eintak af Guðbrandsbiblíu er til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands. Hún var endurprentuð á sama prentverki árin 1644 og 1728. Undirbúningur. Við undirbúning útgáfunnar notaði Guðbrandur eldri þýðingar eins og hægt var. Hann tók Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1540) upp nálega óbreytt. Hvað Gamla testamentið snerti notaði hann þýðingar Gissurar Einarssonar á Orðskviðunum og Síraksbók, og e.t.v. Samúelsbókunum. Þá notaði hann þýðingar Odds Gottskálkssonar á Davíðssálmum og líklega Spámannabókunum og Makkabeabókunum. E.t.v. hefur hann haft aðgang að fleiri þýðingum. Annað þýddi Guðbrandur sjálfur, eða fékk menn til þess. Þá samræmdi hann textann og færði málfar til betri vegar, því að hann var málvöndunarmaður. Vorið 1579 er undirbúningur útgáfunnar hafinn. Í apríl það ár gaf Friðrik 2. Danakonungur út tvö bréf, þar sem Guðbrandur fékk leyfi til að láta prenta Biblíuna. Einnig voru allar sóknarkirkjur á Íslandi skyldaðar til að kaupa eintak, og leggja fyrst fram einn dal til undirbúnings. Þar með var fjárhagslegur grundvöllur lagður. Auka þurfti útbúnað prentverksins, auk þess sem Guðbrandur aflaði myndamóta frá útlöndum. Sumt bókarskrautið skar hann út sjálfur ásamt Grími Eiríkssyni í Viðvík. Sagt var að 7 menn hefðu prentað bókina á tveimur árum, og hefur prentunin líklega hafist 1582. Talið er að tvær pressur hafi verið notaðar til þess að flýta prentuninni. Yfir verkinu var Jón Jónsson prentari frá Breiðabólstað í Vesturhópi, og meðal aðstoðarmanna hans var Guðmundur Erlendsson, síðar prestur á Felli í Sléttuhlíð. Prentun. Aftast í bókinni segir að prentun hennar hafi verið lokið 6. júní 1584. Biblían var öll prentuð í svörtum lit, nema hluti titilsíðu í rauðu. Brotið var stórt (folio) og blaðsíður 1242. Bókin var skreytt um 30 myndum sem var nýjung í íslenskri bókagerð. Upplagið var 500 eintök. Útlendur bókbindari, Jurin að nafni, var fenginn til að binda helming upplagsins, 120 eintök voru send til bands í Kaupmannahöfn, en afgangurinn bundinn af íslenskum manni, Jóni Arngrímssyni, sem lært hafði handverkið af Jurin. Var bandið hið vandaðasta, oftast með spennslum og doppum til skrauts. Nokkur eintök voru í sérstöku skrautbandi, sem skipt var í tvö bindi. Guðbrandsbiblía mun ekki hafa farið að koma úr bandi fyrr en árið 1585. Hún var dýr, hvert eintak kostaði 8-12 ríkisdali eftir því hve mikið var lagt í bandið. Þetta voru tvö til þrjú kýrverð, eða rausnarleg mánaðarlaun á nútímamælikvarða. Biskup gaf 20 fátækum kirkjum í Hólastifti Biblíur, og eru slík eintök enn til með áritun hans. Ef raðað er eftir þjóðtungum, er Guðbrandsbiblía 17. heildarútgáfa Biblíunnar í heiminum. Guðbrandsbiblía er talin gersemi íslenskrar bókagerðar, vegna handverks og frágangs, og um leið einhver mesti skerfur til íslenskrar menningarsögu fyrr og síðar. Útgáfa hennar var ómetanleg til að festa íslenska tungu í sessi í starfi íslensku kirkjunnar eftir siðaskiptin, og hamla þannig gegn dönskum áhrifum, sem þá fóru mjög vaxandi. "Guðbrandsbiblía" hefur tvisvar verið ljósprentuð sem næst í upprunalegri mynd. Lithoprent sá um fyrri útgáfuna árið 1956, og var upplagið 500 eintök. Bókaútgáfan Lögberg gaf bókina út aftur árið 1984, þegar minnst var 400 ára afmælis Guðbrandsbiblíu, og var upplagið 400 eintök. Ráðhús Kaupmannahafnar. Ráðhús Kaupmannahafnar stendur við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. Það er teiknað af Martin Nyrop, sem var undir innblæstri frá Ráðhúsinu í Siena á Ítalíu, en hann var valinn eftir samkeppni. Húsið var byggt á árunum 1892-1905 og var opinberlega vígt 12. september 1905. Mest áberandi á húsinu eru framhlið þess, gyllt stytta af Absalon Hróarskeldubiskupi yfir svölunum og hár turn á hlið byggingarinnar. Ráðhústurninn er 105,6m að hæð og þar með ein af hæstu byggingum Kaupmannahafnar, efst í turninum eru klukka og bjöllur, en hljóðið í bjöllunum er mjög þekkt meðal Dana enda leikið kl. 12:00 daglega á DR sem og á nýársnótt kl. 00:00. Síðan 8. október 2003 hefur hádegishringingin verið spiluð af upptöku, en áður var hún send út beint úr turninum. Önnur þekkt klukka er í húsinu, en það er heimsklukka Jens Olsens. Fyrir aftan ráðhúsið er Ráðhúsgarðurinn, sem hægt er að komast inn í frá H. C. Andersens Boulevard og Vester Voldgade. Forveri garðsins á fyrri hluta 20. aldar náði meðfram öllu ráðhúsinu á milli því og þáverandi Vester Boulevard. Hann hvarf í byrjun 6. áratugsins þegar sú gata var lögð aftur í tengslum við smíði Langebro, en þá tók gatan einnig nafn H. C. Andersen. Saga. Eldra ráðhús Kaupmannahafnar, frá 1815 Áður en Ráðhúsið var flutt að Ráðhústorginu hefur það staðið á á öðrum stöðum. Fyrsta ráðhús Kaupmannahafnar stóð við Gamla torg. Annað ráðhúsið stóð við Bispegård á horni Nørregade og Studiestræde, sem Kaupmannahafnarháskóli tók yfir árið 1479. Þá var flutt í þriðja ráðhúsið, sem var við á Gamla torgi/Nýja torgi, og stóð það hús til ársins 1728 þegar það brann niður í brunanum í Kaupmannahöfn. Fjórða ráðhúsið var byggt á svipuðum stað 1728 og var teiknað af J.C. Ernst og J.C. Krieger en það brann niður 1795. Í dag er hægt að sjá á Gamla torgi hvar ráðhúsin tvö stóðu í hellulögnunum á torginu. Það var síðan ekki fyrr en 1815 sem fimmta ráðhúsið var byggt við Nýja torg sem bæði var ráðhús og dómshús. Það hús stendur enn og hýsir í dag Bæjardómstól Kaupmannahafnar. Það var notað sem ráðhús til ársins 1903. Kambhvelja. Kambhvelja (fræðiheiti: "Bolinopsis infundibulum") er hveljutegund sem lifir í Svartahafinu og Kaspíahafinu. Þær fljóta um í vatninu og spyrna sig áfram með bifhárum sem mynda raðir kamba eftir líkamanum endilöngum. Þær eru taldar einna vatnsmestar af lífverum jarðar, enda svo til litlausar og gegnsæjar. Kambhveljur eru um 25 sentimetra langar. Hellir. Hellir er kallað hvert það holrými sem leynist neðanjarðar. Hellar á Íslandi eru aðallega þrennskonar, íshellar, manngerðir hellar og hraunhellar, en einnig eru önnur holrými í jörðu oft kallað hellar, t.d. skútar í sjávarbjörgum eða árfarvegum. Íshellar finnast aðallega þar sem jökull liggur yfir háhitasvæði, t.d. í Grímsvötnum í Vatnajökli. Fjölmargir manngerðir hellar eru á suðurlandsundirlendi og uppsveitum Árnessýslu Hellar voru áður fyrr notaðir sem mannabústaðir, og sjálfsagt verið fyrstu skýli mannsins fyrir veðri og vindum. Seinna með þróun mannkyns urðu hellar aðeins að skjóli fyrir skepnur, og jafnvel innréttaðir sem slíkir. Þó eru enn til hellar þar sem fólk býr. Í Kína er hellir sem nefnist Sjongdong (enska: "Zhongdong") og þar hefst fólk við í húsum sem eru byggð í hellinum. Sumstaðar á Íslandi eru hellar enn notaðir sem fjárhús. Nýfundnaland. Nýfundnaland (enska: "Newfoundland", franska: "Terre-Neuve") er eyja út fyrir ströndu Norður-Ameríku. Landkönnuðurinn John Cabot (Giovanni Caboto) gaf eyjunni nafn árið 1497. Nýfundnaland er, ásamt Labrador í fylkinu Nýfundnaland og Labrador, en það hét raunar bara Nýfundnaland fram til ársins 2001. Íbúar eyjunnar eru rúmlega 505.000 og er það fjölmennari hluti fylkisins. Sumir telja að Nýfundnaland sé Vínland, sem fornar norrænar heimildir tala um, en það er mjög umdeilt. Nýfundnaland og Labrador. Nýfundnaland og Labrador er austast af fylkjum Kanada og nær yfir eyjuna Nýfundnaland og meginlandssvæðið Labrador. Það var tíunda fylkið til að verða aðili að kanadíska fylkjasambandinu, árið 1949. Fram til 1964 var fylkið nefnt Newfoundland en þá var nafninu heima við breytt í Newfoundland and Labrador og þeirri breytingu bætt inn í stjórnarskrá Kanada 2001. Fólksfjöldi árið 2007 var 506.548. John Cabot var fyrstur til að tala um eyjuna sem "new found isle" árið 1497. Í opinberum plöggum var eyjan lengi nefnt upp á latínu "Terra nova" (eða „Nýja landið“). Nafnið Labrador er hins vegar talið koma úr portúgalska orðinu "lavrador" (smálandeigandi) og er nafngiftin eignuð portúgalska landkönnuðinum João Fernades en hann var þar á ferð 1498. ! Björn Th. Björnsson. Björn Th. (Theodor) Björnsson (fæddur í Reykjavík 3. september 1922 — dáinn 25. ágúst 2007) var íslenskur listfræðingur og rithöfundur. Hann hefur skrifað bækur um íslenska listasögu og sögulegar skáldsögur. Foreldrar Björns voru "Baldvin Björnsson" gullsmiður og "Martha Clara Björnsson", fædd Bemme, húsmóðir. Björn útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943 en þar gegndi hann embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1941. Því næst nam hann listasögu við Edinborgarháskóla 1943-44, var í háskóla í London 1944-46 og svo Kaupmannahafnarháskóla 1946-49. Að námi loknu kenndi Björn við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Kennaraskólann og Háskóla Íslands. Hann starfaði að undirbúningi að stofnun Ríkissjónvarpsins á árunum 1958-1964 og að þáttagerð eftir stofnun þess. Hann ritstýrði tímaritinu Birtingi á tímabilinu 1958-1963. "Virkisvetur", fyrsta skáldsaga Björns, hlaut fyrstu verðlaun í skáldsögusamkeppni Menntamálaráðs árið 1959. Domenico Modugno. Domenico Modugno á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1958 Domenico Modugno (9. janúar 1928 – 6. ágúst 1994) var ítalskur leikari, söngvari, gítarleikari og lagahöfundur, og síðar á ævinni þingmaður á ítalska þinginu. Hann er frægastur fyrir lagið „Nel blu dipinto di blu“ (stundum kallað „Volare“) sem hann samdi ásamt Franco Migliacci. Þetta lag varð vinningslag á Sanremo-tónlistarhátíðinni árið 1958, lenti í þriðja sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og vann tvenn Grammy-verðlaun. Hann tók aftur þátt í söngvakeppninni árið eftir með lagið „Piove“, síðan sem höfundur lagsins „Addio, addio“ sem Claudio Villa flutti 1962 og aftur 1966 með lagið „Dio, come ti amo“. 1986 hóf hann þátttöku í stjórnmálum í róttæka flokknum og var kosinn á þing fyrir Tórínó árið eftir. Claudio Villa (söngvari). Claudio Villa (listamannsnafn Claudio Pica; 1. janúar 1926 – 7. febrúar 1987) var ítalskur söngvari frá Róm. Hann á, ásamt Domenico Modugno, metið í fjölda vinningslaga á Sanremo-tónlistarhátíðinni. Hann flutti ítalska lagið í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árin 1962, þar sem hann lenti í níunda sæti, og 1967 þar sem hann hafnaði í því Grænserkur. Grænserkur (fræðiheiti: "Amanita phalloides") er stór hvítur reifasveppur sem vex um alla Evrópu. Hann er einn af eitruðustu sveppum heims og ber einn ábyrgð á meirihluta dauðsfalla af völdum sveppaeitrunar í heiminum. Hann inniheldur eitrið alfaamanítín sem eyðileggur nýru og lifur. Ekkert móteitur er til við alfaamanítíni og oft er ígræðsla nýrra líffæra eina leiðin til að bjarga lífi þeirra sem veikjast eftir að hafa neytt sveppsins. Talið er að neysla grænserks hafi valdið dauða Claudíusar keisara og Karls 6. keisara. Sveppurinn líkist ýmsum algengum ætisveppum sem eykur hættuna á neyslu af gáleysi. Uppeldisfræði. Uppeldisfræði er fræðigrein um manninn. Hver maðurinn er og hvað hann getur orðið fyrir tilstilli náms. Þá er nám skilgreint sem allt sem maðurinn lærir frá vöggu til grafar. Fræðigreinin fæst einnig við að skoða þróun uppeldishugmynda, þróun menntastofnana og samspil þess við nám einstaklinga. Í uppeldisfræði er margskonar rannsóknum beitt. Upp úr miðri 20. öld voru tilraunir og samanburðarrannsóknir algengar. Einnig hafa þekkingarfræði, fyrirbærafræði og túlkunarfræði gegnt mikilvægu hlutverki í rannsóknum á sviðinu. Reifasveppir. Reifasveppir (fræðiheiti: "Amanita") eru ættkvísl hattsveppa sem telur nokkrar af eitruðustu sveppategundum heims. Reifasveppir eru valdir að 95% dauðsfalla vegna sveppaeitrunar í heiminum, en grænserkur ("Amanita phalloides") er einn valdur að um helmingi þeirra. Þessir sveppir innihalda ýmsar gerðir eiturs, en það öflugasta er alfaamanítín. Nokkrir reifasveppir, eins og t.d. hinn eftirsótti keisaraserkur ("Amanita caesarea"), eru vel ætir og bragðgóðir en sumt sveppatínslufólk forðast ættkvíslina alveg vegna þess hve margar hættulega eitraðar tegundir tilheyra henni. Reifasveppir mynda stóran æxlihnúð með hatti. Gróbeðurinn er í lagi af fönum neðan á hattinum. Eitt helsta einkenni reifasveppa er að stafur þeirra er með bæði hring og slíður. Hringurinn efst á stafnum eru leifar af fanhulu, en slíðrið við rótina eru leifar af himnu (reifum) sem hylur allan sveppinn meðan hann er ungur. Á hattinum sjást líka oft leifar af þessari himnu, eins og á greinilegum hvítum skellunum á rauðum hatti berserkjasvepps ("Amanita muscaria"). Lyngbúi. Lyngbúi (fræðiheiti: "Ajuga pyramidalis") er fjölær jurt af varablómaætt sem vex í fjalllendi í Evrópu. Á Íslandi er lyngbúi afar sjaldgæfur og finnst aðeins á norðanverðum Austfjörðum. Hann er alfriðaður samkvæmt náttúruverndarlögum. Burnirót. Burnirót (eða burn (kvk)), einnig verið nefnd Blóðrót (fræðiheiti: "Rhodiola rosea") er fjölær jurt af helluhnoðraætt sem vex á köldum stöðum, svo sem á norðurslóðum og í fjalllendi í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Hún vex einna helst í þurrum, sendnum jarðvegi allt frá láglendi og upp í 2.280 metra hæð. Burnirót er algeng um allt Ísland en vegna þess hve sauðfé er sólgið í hana hefur hún horfið af stórum svæðum. Lýsing. Burnirótin er rótarmikill þykkblöðungur. Hún er einkynja, það er hver einstaklingur hefur aðeins karlblóm eða aðeins kvenblóm. Karlblómin eru gul á lit en kvenblómin rauðleit. Blómin standa mörg saman í greinóttum skúf eða hálfsveip á endum hliðarstöngla sem vaxa upp af gildum jarðstöngli. Krónublöðin eru tungulaga, 3 - 5 millimetrar á lengd en bikarblöðin nokkru styttri. Karlblómin hafa átta fræfla og fjórar vanþroska frævur. Kvenblómin hafa fjórar til fimm þroskalegar gulrauðar frævur, sem verða að 7 - 10 millimetra löngu hýðisaldini. Stöngullinn er 2 - 6 millimetra gildur og þétt settur laufblöðum. Blöðin eru venjulega ydd og oft ofurlítið tennt í endann, 2 - 4 sentimetrar á lengd og 1 - 1,5 sentimeter á breidd. Nýting. Rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsa læknandi eiginleika burnirótar, svo sem það að hún virðist verka vel gegn stressi, þunglyndi, mígreni og einbeitingarskorti, en virkni hennar virðist svipa til ginsengs. Burnirót hefur verið notuð í hefðbundnum kínverskum lækningum þar sem hún er kölluð "hóng jǐng tiān" (红 景 天). Starir. Starir (fræðiheiti: "Carex") eru ættkvísl grasa sem telur 1100 til 2000 tegundir. Flestar starir finnast í votlendi þar sem þær verða ríkjandi gróður. Vashti Bunyan. Vashti Bunyan (fædd 1945 á Englandi) er ensk söngkona sem á öndverðum sjöunda áratugnum gaf út nokkrar smáskífur auk einnar breiðskífu. Fyrsta breiðskífa Vashti Bunyan nefnist "Just Another Diamond Day" og kom út árið 1970. Þó að sú plata hafi ekki fengið arfaslaka dóma náði hún á sínum tíma ekki eyrum né athygli almennings og tók Vashti það mjög nærri sér. Hún ákvað að snúa baki við tónlistinni, fjárfesti í hestvagni og ferðaðist um víðan völl þangað til hún kom sér loks fyrir á sveitabæ þar sem hún eignaðist fjölskyldu. Þaðan flutti Vashti ekki fyrr en fyrir rúmum áratug síðan og segir hún þau umskipti hafa haft mikil áhrif á sig og hafi átt þátt í tilurð "Lookaftering" sem kom út árið 2005. Tilkomu þeirrar plötu má að mörgu leyti þakka tónlistarmanninum Devendra Banhart sem hvatti hana til dáða og aðstoðaði. Af þeim sem einnig hafa aðstoðað Vashti má nefna Joönnu Newsom og meðlimi Animal Collective. Áður en kynni þeirra komust á hafði Vashti hvorki snert gítarinn sinn né samið svo lítið sem lagstúf frá því "Just Another Diamond Day" kom út. Bunyan, Vashti Kristín og Helgi - Á suðrænni strönd. Á suðrænni strönd er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á plötunni flytja Kristín og Helgi Einarsson tólf þjóðleg lög. Savanna tríóið - more folksongs from Iceland. Savanna tríóið - more folksongs from Iceland er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Plötuumslag gerði Björn Björnsson. Grasbálkur. Grasbálkur (fræðiheiti: "Poales") er ættbálkur einkímblöðunga sem inniheldur meðal annars grös, starir og ananas. Ættir. Þessi bálkur var ekki til í Cronquist-kerfinu heldur voru nokkrar af þessum ættum taldar sem sérstakir ættbálkar. Stóll. Stóll (eða setgagn) er húsgagn til að sitja á. Hann er með fætur, setu, bak og arma (sem einnig nefnast "(arm)bríkur" eða "stólbrúður"). Í fornu máli var stóll nefndur "sitill" eða "sjötull". Stóll án arma og baks, nefnist "kollur". Stólar í farartækjum og samkomusölum, þ.m.t. í kvikmyndahúsum og á Alþingi, nefnast "sæti". "Hásæti" er tignarheiti á sæti konungs eða annars þjóðhöfðingja. Stararætt. Stararætt (fræðiheiti: "Cyperaceae") er ætt jurta sem á yfirborðinu líkjast grösum eða sefi. Margar tegundir af þessari ætt vaxa í votlendi þótt það sé ekki algilt. Þrjú á palli - Ljóð Jónasar Árnasonar við erlend þjóðlög. Ljóð Jónasar Árnasonar við erlend þjóðlög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmyndir og útlit plötuumslags Björn Björnsson. Þrjú á palli eru Troels Bendtsen, Edda Þórarinsdóttir og Halldór Kristinsson. Auk þeirra leikur Ríkharður Örn Pálsson á bassa. Iceland (kvikmynd). "Iceland" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1942 sem gerist á Íslandi en var þó alfarið tekin upp í Bandaríkjunum. Skjaldarmerki Íslands. Skjaldarmerki lýðveldisins Íslands, eftir 1944, er silfurlitaður kross á himinbláum skildi, með eldrauðum krossi varpað inn í silfurkrossinn. Skjaldamerkið prýða hinir fjóru landvættir Íslands, einn fyrir hvern landsfjórðung: griðungur (Vesturland), gammur (Norðurland), dreki (Austurland) og bergrisi (Suðurland). Þeir standa á helluhrauni. Skjaldarmerki konungsríkisins Íslands, 1918–1944, var lítið eitt öðruvísi en hér er sýnt, með kórónu efst. Á fyrri öldum var skjaldarmerki Íslands lengi saltfiskur á rauðum skildi. Stefán Jónsson (1905 - 1966). Stefán Jónsson (f. 22. desember 1905 á Háafelli í Hvítársíðu, d. 12. maí 1966) var rithöfundur og kennari og er líklegast hvað þekktastur fyrir kvæði sín og sögur, ætluð börnum og unglingum, og má þar helst nefna Guttavísur og Hjaltabækurnar þrjár, "Sagan hans Hjalta litla", "Mamma skilur allt" og "Hjalti kemur heim". Verk. Guttavísur eða "Sagan af Gutta litla", sem flestir Íslendingar kannast við, kom fyrst út árið 1938 í hefti ásamt nokkrum öðrum kvæðum en áður hafði Stefán sent frá sér smásöguna "Konan á klettinum" og hlotið fyrir hana fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Eimreiðarinnar árið 1933. Hann hlaut sömu verðlaun árið 1940 fyrir smásöguna "Kvöld eitt í september". Af öðrum verkum Stefáns má nefna smásagnasafnið "Við morgunsól (1966)", skáldsögurnar "Vinir vorsins (1941)" og "Óli frá Skuld (1957)" og myndskreytta barnakvæðið "En hvað það var skrýtið (1949)". Stefán skrifaði tvær skáldsögur fyrir fullorðna, "Sendibréf frá Sandströnd" (1960) og "Vegurinn að brúnni" (1962). Verk Stefáns eru talin njóta mikillar sérstöðu innan bókmennta fyrir börn og unglinga og fullorðnir kunna ekki síður að meta þau. Þótt hann hafi skrifað barna- og unglingasögur notaðist hann alltaf við eðlislægt raunsæi sitt. Á sínum tíma sætti Stefán þó nokkurri gagnrýni þar sem persónur hans þóttu ekki alltaf vera gott fordæmi eða hegða sér á hátt sem þótti til eftirbreytni og fyrirmyndar. Stefán náði hins vegar að snerta mannlegar hliðar lesenda sinna og hélt því ætíð fram og skrifaði ósjaldan í formála bóka sinna að honum þætti varasamt þegar barnasögur væru hreinn barnaskapur. Hann leitaðist við að segja börnum sögur sem gerðu þau að þenkjandi manneskjum og að sama skapi höfða til barnsins í þeim fullorðnu. Þórir Baldursson leikur vinsæl íslensk lög. Þórir Baldursson leikur vinsæl íslensk lög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1970. Þórir Baldursson, sem hefur útsett allar lagasyrpurnar, leikur á hammond-orgel (og lítið eitt á harmoniku) en með honum eru nokkrir kunnir sœnskir hljómlistarmenn. Bernt Rosengren leikur á altó-saxó-fón, tenór-sax og flautu. Leif Bengtsen á trompet, Dave Maytan á bassa-básúnu, Flemming Jörgensen á trommur, Lennart Nyhlén á gítar og Hjörleifur Björnsson á bassa (en Hjörleifur er íslenzkur hljómlistamaður, sem starfað hefur í Svíþjóð í tœpan áratug). Hljóðritun fór fram í STEREO í fullkomnasta stúdíói Stokkhólmsborgar, AB Europafilm undir stjórn (pro-ducer) Þóris Baldurssonar, en tœknimenn voru Gert Palmcrantz og Lars Rosin. Forsíðumynd á umslagi tók Bengt H. Malmqvist. Jón Þórarinsson. Jón Þórarinsson (13. september 1917 – 12. febrúar 2012) var íslenskt tónskáld og tónlistarkennari. Jón stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og hjá Paul Hindemith við Yale háskólann og sótti eitt sumarnámskeið við Julliardskólann. Jón var yfirkennari 1947 til 1968 við Tónlistarskólann í Reykjavík, yfirmaður lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins frá 1968 til 1979, auk fjölmargra annara vekefna á sviði tónlistar. Jón hefur aðallega samið kammer- og söngverk, en meðal þekktra sönglaga eru "Fuglinn í fjörunni" og "Íslenskt vögguljóð á Hörpu". Jón samdi einnig hljómsveitar-/kórverkið "Völuspá". Þorsteinn M. Jónsson, athafnamaður, er sonur hans. Iceland (verslunarkeðja). Iceland er bresk verslunarkeðja sem sérhæfir sig í frosnum matvælum. Hún er að stærstum hluta í eigu Landsbankans og Íslandsbanka. Ragnar Bjarnason - Ragnar Bjarnason. Ragnar Bjarnason er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Útsetningar allar gerði Jón Sigurðsson og stjórnar hann fimmtán hljóðfœraleikurum, sem koma við sögu í undirleik. Ljósmynd á framhlið tók Kristján Magnússon. Boðháttur. Boðháttur er einn af mörgum háttum sagna sem getur til kynna skipun, bann eða boð. Oft er notkun boðháttarins talin dónaleg og því er gott að nota hana í hófi. Í íslensku. Í íslensku er boðhátturinn alltaf í annarri persónu og stendur alltaf fremst í setningu. Tvær leiðir eru til að mynda boðhátt í íslensku: stýfður boðháttur og viðskeyttur boðháttur. Stýfður boðháttur. Fyrsta leiðin er að finna stofn sagnorða (sem er gert með því að taka nafnháttinn (að hoppa, að elska) og fjarlægja endinguna "-a" nema þetta sé veik sögn sem endar á "-aði" í þátíð eins og "skrifa") og kallast þetta stýfður boðháttur og er hann í annarri persónu eintölu. Viðskeyttur boðháttur. Viðskeyttur boðháttur er þegar fornafni ("þú" eða "þið") er skeytt aftan á stofn sagnar og tekur breytingum í samræmi við grannhljóð. Boðháttur annarrar persónu fleirtölu hefur sama form og framsöguháttur nútíðar. Persónufornafninu "þið" er ýmist sleppt eða haft á eftir boðhættinum. Dæmi: "Farið" (þið) út! (Samanber „Þið farið út“ þar sem sögnin er í framsöguhætti.) Hægt er að mynda boðhátt af sögninni "að vinna" (stýfður "vinn", viðskeyttur fleirtölu "vinnið") en hann er sjaldan notaður. Í ensku. Í ensku hafa boðháttur („Jump!“ (hoppaðu)) og nafnháttur (to jump (að hoppa)) sama form. Boðháttur fyrstu persónu fleirtölu (us, „við“) er gefinn til kynna með orðasambandinu "let's" (bókstaflega "lof okkur" en samsvarar frekar "við skulum"). Í latínu. Í latínu er boðháttur notaður. Þegar boðháttur í latínu er settur í fleirtölu bætist oftast "-te" við boðháttinn í fleirtölu. Eddukórinn - Jól yfir borg og bæ. Eddukórinn - Jól yfir borg og bæ er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í stereo í Háteigskirkju í Reykjavík undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Útsetningar, undirleik og stjórn hljómsveitar sá Jón Sigurðsson um. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Gunnar Hannesson af Árbæjarkirkju. Eddukórinn skipa: Hjónin Sigríður Sigurðardóttir (sópran) og Friðrik Guðni Þórleifsson (bassi), hjónin Sigrún Jóhannesdóttir (sópran)og Gunnar Guttormsson (tenór), hjónin Sigrún Andrésdóttir (alt) og Sigurður Þórðarson (bassi) og svo Guðrún Ásbjörnsdóttir (alt), Ásta Valdimarsdóttir (alt) og Örn Gústafsson (tenór). (Þó að þau séu níu, þá syngja þau aldrei fleiri en átta á plótunni, þar sem Ásta Valdimarsdóttir og Sigrún Andrésdóttir skipta nokkrum lögum á milli sín). Colin Archer. a> - hönnun og smíði Colin ArcherColin Archer (22. júlí 1832 - 3. febrúar 1921) var skipaverkfræðingur og skipasmiður frá Larvik í Noregi. Var hann af skoskum uppruna en foreldrar hans fluttu til Noregs 1825. Skipasmíðastöð hans var þekkt fyrir að smíða endingargóð og örugg skip. Þekktasta skipið sem Colin Archer byggði er án efa skipið Fram, sem tók þátt í leiðöngrum á norðurpólinn og seinna í leiðangri Roald Amundsen á suðurpólinn. Það er til sýnis í Fram safninu í Osló. Einnig er Archer þekktur fyrir skip sín fyrir Redningsselkabet (norska björgunarbáta stofnunin) sem þeir notuðu í mörg ár. Í dag er þeir bátar venjulega kallaði "Colin Archer". Fyrsti björgunarbáturinn "Colin Archer RS 1" er enn til og er notaður sem fljótandi safngripur. Archer eyddi miklum tíma í að reikna út hvernig góður skipsskrokkur ætti að vera. Verk hans eru jafnvel enn notuð í dag við hönnun nýrra skipa. Þrjú á palli - Hátíð fer að höndum ein. Hátíð fer að höndum ein er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Diekestúdíó í Stokkhólmi undir stjórn (pro-ducer) Þóris Baldurssonar, en tœknimaður við hljóðritun var Lars Wallander. Útsetningar sá Jón Sigurðssonum og hafa "Þrjú á palli" fyrir tilstilli Jóns, líklega aldrei gert betur, því að hann nýtir hverja rödd til hins ýtrasta í útsetningum sínum. Ríkarður Pálsson leikur með á kontrabassa og Claes Hellman á flautu. Björn Björnson réði útliti plötuumslags. Styttan á forsíðunni, sem sýnir vitringana hjá þeim Maríu, Jósef og Jesúbarninu, er frá 15. öld, skorin í tré og máluð. Í textaopnunni er mynd af altarisklæði frá Reykjum í Tungusveit, gert á 16. öld. Hvortveggja er í Þjóðminjasafni Íslands og myndir birtar með leyfi þess. Oceansize. Oceansize er ensk framsækin rokkhljómsveit frá Manchester á Englandi hún var stofnuð árið 1998. Oceansize hafa látið frá sér þrjár breiðskífur: "Effloresce" (2003), "Everyone Into Position" (2005) og "Frames" (2007) Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja jólalög. Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja jólalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Útsetningar og hljómsveitarstjórn, Jón Sigurðsson. Verðbólga. Kort sem sýnir verðbólgu í hinum ýmsu löndum (2009). Verðbólga er hugtak í hagfræði, sem á við efnahagsástand sem einkennist af síhækkandi verðlagi á vörum og þjónustu yfir langt tímabil. "Eftirspurnarverðbólga" er verðbólga sem kemur til vegna þess að eftirspurn er meiri en framboð vöru og þjónustu. "Kostnaðarverðbólga" er verðbólga sem er tilkomin vegna þess að laun hækka umfram framleiðni. Óðaverðbólga var heiti sem notað var í fjölmiðlum á 8. áratug 20. aldar til að lýsa verðbólgu á Íslandi og víðar í heiminum, þar sem verðhækkanir mældust í mörgum tugum prósentna á ársgrundvelli eða jafnvel vel yfir 100%. Verðhjöðnun er andstæða verðbólgu og þýðir að verðlag lækkar: þ.e.a.s. að verð á vörum og þjónustu lækkar. Framfærsluvísitala. Framfærsluvísitala er vísitala sem mælir breytingar á framfærslukostnaði meðalfjölskyldu. Meðalfjölskyldan, sem miðað er við, er hin svokallaða vísitölufjölskylda, þ.e.a.s. hjón með tvö börn (3,98 einstaklingar). Grunnur framfærsluvísitölu byggir á niðurstöðum rannsókna Hagstofunnar yfir visst tímabil. Þeir útgjaldaþættir sem mest vægi hafa eru t.d. húsnæði, bifreið, matvörur, föt, skemmtanir o.s.frv. Vísitala framfærslukostnaðar er reiknuð fjórum sinnum á ári og sýnir verðlag í byrjun febrúar, maí, ágúst og nóvember. Byggingarvísitala. Byggingarvísitala er vísitala sem mælir hvernig kostnaður við húsbyggingar breytist frá einum tíma til annars. Gjøa. Gjøa var fyrsta skipið til sigla norðvesturleiðina milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins norður fyrir Grænland. Áhöfn sex manna með Roald Amundsen við stjórnvölinn fór leiðina á þremur árum. Var siglt frá Osló 1903 og kom skipið til Nome í Alaska 1906. Skipið var frosið fast allt að tvö ár af þeim þremur sem ferðin tók og minnir því um margt á ferðalag Fram sem Fridtjof Nansen stýrði 1895. Leiðangursmenn Gjøa notuðu tímann til mælinga svo hægt væri að ákvarða staðsetningu segulnorðurs og einnig var áhersla á að rannsaka og kynnast menningu Inúíta. Lánskjaravísitala. Lánskjaravísitala er vísitala sem var í upphafi reiknuð út frá vísitölu neyslu og byggingarvísitölunni - þ.e.a.s. að 2/3 framfærsluvísitölunnar eru lagðir saman við 1/3 af byggingarvísitölunni og þá fékkst út lánskjaravísitalan. Árið 1990 var vísitölunni breytt þannig að þrjár vísitölur giltu jafnt, vísitala neyslu, launavísitala og byggingarvísitala. Árið 1995 var vísitölunni breytt aftur þannig að nú fylgir lánskjaravísitala eingöngu vísitölu neyslu. Vefverslun. Vefverslun er verslun sem fer fram á Internetinu. Oftast er um einhvers konar afbrigði af áskriftarverslun eða póstverslun að ræða. Gott dæmi um vefverslun er Amazon.com. Verðtrygging. Verðtrygging er aðferð notuð til að tryggja að fjárskuldbindingar haldi verðgildi sínu, þó að gjaldmiðillinn sem þær eru í falli í verði. Með verðtryggingu er tryggt að endurgreiðslur í framtíðinni haldi verðgildi sínu frá þeim degi, sem lán er veitt eða sparnaður hefst. Á Íslandi hafa verðtryggð lán verið boðin um árabil, þannig að lán eru tengd við vísitölu neysluverðs, það er að segja lánin hækka í sama hlutfalli og verðbólga. Verðtrygging er gjarnan notuð þar sem verðbólga er há eða hefur verið há, t.d. á Íslandi þar sem yfirleitt er miðað við lánskjaravísitölu, sem hefur verið notuð frá árinu 1979. Tvenns konar aðferðum er beitt við að verðtryggja lán, annars vegar eru verðbætur reiknaðar og lagðar á afborganirnar lánsins og hins vegar á höfuðstólinn. Verðtrygging felst í því að verð á vöru, þjónustu eða skuldbindingum er hækkað eftir fyrirfram ákveðnum reglum, oftast vísitölum reiknuðum af viðurkenndum aðilum. Allmargar ólíkar vísitölur eru reiknaðar út hér á landi. Í riti Seðlabankans, "Hagtölum mánaðarins," eru birtar sjö vísitölur. Fleiri vísitölur eru reiknaðar út reglulega. Einnig eru notaðar aðferðir við verðtryggingu sem taka mið af mörgum vísitölum. Hækkun lánskjaravísitölunnar hefur því víðtæk áhrif. Hún veldur því til dæmis að skuldir þeirra sem tekið hafa verðtryggð lán hækka og greiðslubyrði þyngist. Mótorhjól. Mótorhjól eða vélhjól er bifhjól knúið sprengihreyfli, sem hefur meira rúmtak en 50 cm3. "Torfæruhjól" eru notuð í akstri á vegleysum eða í torfærukeppnum, en "götuhjól" aðeins á góðum vegum. "Kappaksturshjól" eru hraðskreið mótorhjól notuð í mótorhjólakappakstri. Ökutæki sem eru í grunnin hönnuð eins og reiðhjól, en hafa hjálparmótor eru flokkuð sem tegund af reiðhjólum, kölluð pedelecs á ensku, háð nokkrum skilyrðum samkvæmt tilskipun ESB, 2002/24. Skilyrðin eru: Vélin er bara er virkur ef stigið er á pedölunum, hámarksafl vélar er 250 W, og ennfremur minnki aflið úr vélinni eftir sem hraðinn aukist, uns vélin veiti enga aðstoð við 25 km hraða. Nýja Frakkland. Kort af Nýja Frakklandi eftir Samuel de Champlain frá 1612. Nýja Frakkland er heiti á þeim svæðum sem Frakkar lögðu undir sig í Nýja heiminum frá því að Jacques Cartier hóf könnun Lawrencefljóts árið 1534 þar til Frakkar létu Spáni og Bretlandi landsvæði sín eftir árð 1763. Á hátindi sínum náði Nýja Frakkland frá Nýfundnalandi í austri að Klettafjöllum í vestri, og frá Hudsonflóa í norðri að Mexíkóflóa í suðri. Nýi heimurinn. Kort af Nýja heiminum úr bók Pietro Martire. Nýi heimurinn er heiti sem var notað af fyrstu landkönnuðum Ameríku þar sem sú heimsálfa var ný fyrir þeim, meðan Gamli heimurinn var sá heimur sem þeir þekktu fyrir (Evrópa, Afríka og Asía). Kristófer Kólumbus notað fyrstur hugtakið "novi orbis" um Ameríku. Árið 1516 gaf Pietro Martire út ritið "De orbe novo" um landkönnun Spánverja í Ameríku. Hugtakið er einkum notað í samhengi við fyrstu könnunarleiðangra og landnám Evrópubúa í Norður- og Suður-Ameríku. Í líffræði er oft talað um gamlaheimstegundir og nýjaheimstegundir þegar talað er um tegundir sem urðu eftir í Ameríku við aðskilnað meginlandanna og þróuðust í aðrar áttir en sömu tegundir í Gamla heiminum. Vínland. Vínland er nafn á svæði í Norður-Ameríku sem Leifur heppni fann um árið 1000. Árið 1960 fundust rústir byggðar norrænna manna í L'Anse aux Meadows nyrst á Nýfundnalandi. Norsku fornleifafræðingarnir Helge Ingstad og Anne Stine Ingstad grófu rústirnar upp, og rituðu tveggja binda verk um niðurstöðurnar. Ekki er hægt að fullyrða hvort staðurinn er Vínland, sem sagt er frá í fornritum. Árið 1957 fannst fornt kort, Vínlandskortið, sem sýnir staðsetningu Vínlands. Er ennþá ráðgáta hver gerði kortið og í hvaða tilgangi og hvort það sé falsað. Ashley Tisdale. Ashley Michelle Tisdale (fædd 2. júlí 1985) er Bandarísk söng- og leikkona og framleiðandi sem varð fræg fyrir að leika ritarann Maddie Fitzpatrick í "The Suite Life of Zack and Cody" á Disney stöðinni og fyrir að leika Sharpay Evans í "High School Musical"-myndunum. Myndaröðin varð mjög vinsæl sem innihélt tvær sjónvarpskvikmyndir, kvikmynd og nokkrar plötur. Vinsældir Tisdale í myndunum gerði það að verkum að hún skrifaði undir plötusamning við Warner Bros. árið 2006. Fyrsta platan hennar, "Headstrong", kom út í febrúar 2007 og náði 5. sæti á bandaríska vinsældarlistanum og seldist í 64.000 eintökum fyrstu vikuna. Önnur stúdíóplatan hennar, "Guilty Pleasure" kom út árið 2009. Tisdale á framleiðslufyrirtæki og unnið sem aðalframleiðandi nokkura kvikmynda, m.a. sjónvarpskvikmyndarinnar "Picture This". Tisdale er í áberandi raddhlutverki sem Candace Flynn (Eydís Árnadóttir) í Disney stöðvar þáttunum "Finnbogi og Felix" (e. "Phineas & Ferb"), teiknimyndaþættir sem hafa eitt mesta áhorf í Bandaríkjunum og hafa fengið mikið lof gagnrýnenda. Árið 2009 var hún ráðin í fyrsta stóra sjónvarpshlutverkið sitt í þáttunum "Hellcats" þar sem hún leikur Savönnuh Monroe sem er ákveðin og mjög trúuð klappstýra. Æska. Tisdale fæddist í West Deal í Monmouth-sýslu í New Jersey 2. júlí 1985 og heita foreldrar hennar Lisa (áður Morris) og Mike Tisdale og eiga þau byggingafyrirtæki. Eldri systir hennar, Jennifer Tisdale, er leikkona og afi hennar, Arnold Morris, þróaði Ginsu hnífana. Í gegnum afa sinn er hún einnig skyld kaupsýslumanninum Ron Popeil. Hún ólst upp í Ocean Township. Móðir Ashley er gyðingur og lítur Ashley á sjálfa sig sem gyðing. Þriggja ára hitt hún núverandi umboðsmann sinnn, Bill Perlman, í verslunarmiðstöð í New Jersey. Hann sendi Ashley í margar áheyrnarprufur fyrir auglýsingar sem varð til þess að hún lék í yfir 100 sjónvarpsauglýsingum þegar hún var lítil. Ashley byrjaði leikhúsferilinn á því að leika í "Gypsy: A Musical Fable" og "The Sound of Music" í leikhúsi í sýslunni. Átta ára var hún ráðin í hlutvrk Cosette í túristavænni útgáfu af söngleiknum "Vesalingarnir". "Þegar ég var lítil sá ég leikritið "Vesalingarnir" á Broadway og mér fannst það vera eitt þar stórkostlegasta sem ég hef séð, svo ég fór til umboðsmannsins míns og sagði honum að mig langaði að leika í því", sagði Tisdale í viðtali við Newsday árið 2007. Hún hefur einnig sagt að hún hafði aðeins farið í einn söngtíma áður en hún fékk hlutverkið. Tisdale ferðaðist um í tvö ár með "Vesalingunum" áður en hún fékk hlutverk í "Annie". Þegar Ashley var tólf ára söng hún fyrir Bill Clinton í Hvíta Húsinu. 1997-2006. Seinni hluta 10. áratugarins lék Tisdale lítil hlutverk í nokkrum sjónvarpsþáttum eins og "The Hughleys", "Smart Guy", "7th Heaven", "Boston Public" og "Bette" og í kvikmyndum á borð við "A Bug's Life" og "Donnie Darko". Á þessum tíma vann hún einnig sem Ford-módel. Hún fékk tilnefningu til Young Artist Awards árið 2000 fyrir frammistöðu sína í "Boston Public". Árið 2004 var Ashley ráðin í hlutverk Maddie Fitzpatrick í "The Suite Life of Zack & Cody" á Disney stöðinni sem byrjaði í mars 2005 og endaði árið 2008. Þrátt fyrir að framleiðendur "High School Musical" kvikmyndarinnar höfðu ekki tekið hana til greina fyrir hlutverk í myndinni vegna þess að hún er svo "góð stelpa" í "The Suite Life", var Tisdale ráðin sem vinsæla, sjálfhverfa menntaskólastelpan Sharpay Evans í myndunum. Platan með lögunum úr myndinni, þar sem Tisdale söng nokkur lög, varð mest selda platan í Bandaríkjunum það árið. Ashley varð fyrsta söngkonan til að eiga tvö lög samtímis á Billboard Hot 100 listanum með lögin "What I've Been Looking For" og "Bop to the Top" en bæði lögin eru úr myndinni. "High School Musical" varð vinsælasta mynd Disney-stöðvarinnar það árið en 7,7 milljónir manna horfðu á frumsýningu myndarinnar. Í júlí 2006 skrifaði Tisdale undir plötusamning við risann Warner Bros. og byrjaði að vinna að sinni eigin plötu. Hún gaf út lagið "Last Christmas" með Wham!, en það var fyrsta lagið sem hún gaf út undir samningi hjá Warner Bros. Hún söng einnig lagið „Kiss the Girl“ og lék í myndbandi við lagið sem síðan fór á DVD diskinn "Litla Hafmeyjan: Platínu útgáfa á DVD". Í desember 2006 gaf hún út nokkur lög til þess að vekja athygli á nýju plötunni sinni. Hún lagði síðan af stað í tónleikaferð með High School Musical og söng lög úr myndinni. Árið 2007 kom tónleikaferðin út á DVD. 2007-2009. "Headstrong" er fyrsta sólóplata Ashley sem kom út í febrúar 2007 hjá Warner Bros, fór í gullsölu og náði 5. sæti Billboard listans þegar hún kom út og seldist í 64.000 eintökum fyrstu vikuna. "Be Good to Me" var fyrsta smáskífa plötunnar og kom hún út í desember 2008. "He Said She Said" kom út önnur í september 2007. Árið 2008 komu út "Not Like That" og "Suddenly" í nokkrum löndum en ekki Bandaríkjunum. Ashley endurtók hlutverk sitt sem Sharpay Evans í High School Musical 2, annarri myndinni í kvimyndaröðinni og söng hún einnig nokkur lög í þeirri mynd. Gagnrýnendur voru sammála um að frammistaða Ashley í myndinni væri mjög góð. Alls sáu 17 milljónir manna myndina þegar hún var frumsýnd á Disney stöðinni. Sem framleiðandi, stofnaði Tisdale hennar eigið framleiðslufyrirtæki árið 2008 og nenfndi það Blondie Girl Productions (eða "ljósku-framleiðsla"). Tisdale fékk fyrsta aðalhlutverkið sitt í sjónvarpskvikmyndinni "Picture This" árið 2008, þar sem hún lék Maddie Gilbert sem er óvinsæl og verður fyrir einelti. Hún var einnig aðalframleiðandi myndarinnar en alls horfðu 4,3 milljónir manna á myndina á frumsýningarkvöldinu. Tisdale endurtók hlutverk sitt sem Sharpay Evans árið 2008 í Disney-kvikmyndinni. Frammistaða hennar í kvikmyndinni gaf henni kvikmyndaverðlaun MTV fyrir "framúrskarandi frammistöðu konu árið 2009" og fékk mikla athygli frá Entertainment Weekley sem sagði hana eina af stjörnum ársins. "High School Musical 3" halaði inn 42 milljónum dollara á opnunarhelginni sem er stærsta opnunarhelgi tónlistarkvikmyndar. Önnur platan hennar, "Guilty Pleasure", kom út árið 2009. Tisdale sagði hana rokkaðari og beittari en fyrri plötuna en hún fékk blandaða dóma og Billboard sagði að söngkonan fengi ekki nóg svigrúm til að sleppa sér. Guilty Pleasure komst í 12. sæti Billboard 200 listans og seldist í 25.000 eintökum fyrstu vikuna gekk ekki eins vel og fyrstu plötunni. Lagið "It's Alright, It's OK" var aðalsmáskífa plötunnar en hún kom út í apríl 2009 og önnur smáskífan, "Crank It Up" kom út í október sama ár. Ashley lék í kvikmyndinni "Aliens in the Attic". Hún var í hlutverki Bethany Pearson, eldri systur fjölskyldunnar og þrátt fyrir að vera flokkuð sem aðalpersóna sagði New York Times að Tisdale væri mestan hlut myndarinnar ekki á skjánum. Myndin halaði inn 60 milljónir dollara um allan heim. 2010-. Á þessu ári hefur Tisdale verið orðuð við fjölmörg kvikmyndahlutverk. Það var tilkynnt að Ashley myndi leika í myndinni "Sleapless Beauty" sem er endurgerð myndarinnar "Teen Witch" frá árinu 1989. Tilkynnt var að hún myndi leik hlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni "Hellcats" í mars. "Sharpay's Fabulous Adventures" er kvikmynd sem stefnt er að að sýna sumarið 2011 á Disney stöðinni en þar mun Ashley vera í hlutverki Sharpay Evans og einnig vera aðalframleiðandi. 21. maí 2010 staðfesti leikarinn Jason Fuchs að Tisdale mun leika ástarævintýri hans í nýjustu kvikmynd hans, "The Last First Time", en búist er við að hún komi í kvikmyndahús haustið 2010. Tónlistarstíll. Tónlist Tisdale er aðallega popp og hefur innihaldið ballöður og popp-rokk. Ást og ástarsorg spila stóran þátt í lögum hennar og notar hún mikið rafmagnshljóðfæri eins og trommuvélar og rafmagnsgítara. Hún samdi sum lögin á plöturnar sínar ásamt öðrum. Það tónlistarfólk sem hefur haft áhrif á hana eru Kelly Clarkson, The Used, Boys Like Girls, Michael Jackson, My Chemical Romance, Lady Gaga og Fergie og í viðtali við AOL sagði Tisdale: "Ég hef verið mikill aðdáandi Pink alveg síðan hún byrjaði. Ég elska húmor Katy Perry og popp/rokk fílinginn hennar. Ég elska tónlist Pat Benatar. Allar þessar konur hafa áhrif á mig þegar ég er á leiðinni í stúdíóið, en næstum allt hefur áhrif á mig." Ímyndin og einkalíf. Tisdale er meðlimur í "Creative Artist Agency". Árið 2007 birtist Tisdale í herferð fyrir Staples Inc. sem hét "Geared 4 School" en hún hefur einnig verið í herferðum fyrir Eckō Red fatamerkið. Ashley átti í ástarsambandi við Jared Murillo en sambandið endaði í mars 2009. Í mars 2007 sagði Ashley við Blender að hún væri laus við áfengi og vímuefni og reykti ekki og sagði til viðbótar: "mamma mín hefur mjög mikla trú á mér, svo ég er ekki einhver sem er undir hópþrýstingi." Hún var í 28. sæti yfir 100 "heitustu" konur heims árið 2008. Ashley gekkst undir lýtaaðgerð í nóvember 2007 til þess að láta laga á sér nefið. Samkvæmt Tisdale var þetta gert heilsu hennar vegna en ekki vegna trúar á lýtaaðgerðir. Aðgerðin lagaði tvö brot á nefinu sem truflaðu hana við andadrátt. Hún talaði við tímaritið "People" um aðgerðina og sagði að hún hefði verið nauðsynleg og hún hafi viljað vera hreinskilin við aðdáendur sína. Hlutverk. ! colspan="4" style="background: LightSteelBlue;" | Sjónvarp ! Ár !! Titill !! Hlutverk !! Athugasemd Heimildir. Tisdale, Ashley Tisdale, Ashley Feðginin Sigurður Ólafsson og Þuríður Sigurðardóttir syngja saman. Feðgin syngja saman er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Jón Sigurðsson stjórnar hljómsveitinni er leikur undir og útsetti öll lögin og veit ég, að margir eru mér sammála um, að hann hefur heldur betur blásið rykinu af þessum gömlu lögum og klætt þau í búning ársins 1971. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristján Magnússon. Grenndarhópurinn. Grenndarhópurinn er þyrping um 30 stjörnuþoka, sem inniheldur m.a. Vetrarbrautina. Hjól. Hjól er kringlótt tæki sem snýst á öxull til að færa farartæki. Lögskýring. Lögskýring er sú aðgerð að skýra sett lög. Greinamun má gera á því að rannsaka merkingu lagagreinar (skýring), eða hitt að „ákveða hvaða tilvik megi falla undir lagareglu (heimfærslu)“. Sá greinamur hefur þó ekki mikla þýðingu fyrir íslenskum dómstólum. Almennt er talið að lögskýringarleiðir séu þrjár. Almenn lögskýring, þrengjandi lögskýring og rýmkandi lögskýring. Vaxtavextir. Vaxtavextir eru vextir af vöxtum. Þorlákur Skúlason. Þorlákur Skúlason (24. ágúst 1597 – 4. janúar 1656) var biskup á Hólum frá 1628 til dauðadags, 1656. Uppvöxtur. Faðir: Skúli Einarsson (d. 1612) á Eiríksstöðum í Svartárdal. Móðir: Steinunn Guðbrandsdóttir (f. 1571), laundóttir Guðbrands biskups. Þorlákur ólst upp á Hólum hjá Guðbrandi biskupi afa sínum og lærði þar til prests. Fór utan haustið 1616 og skráður í Hafnarháskóla 9. desember. Varð baccalaureus 21. apríl 1618 með lofsamlegum vitnisburði. Kom til landsins 1619 og varð þá um haustið rektor í Hólaskóla. Fór utan sumarið 1620 vegna morðbréfamála afa síns, og stundaði nám í Hafnarháskóla veturinn 1620-1621. Kom til landsins 1621, tók aftur við rektorsstörfum og vígður dómkirkjuprestur á Hólum 1624. Gamla dómkirkjan á Hólum fauk haustið 1624. Þorlákur fór utan 1625 til þess að afla viðar til nýrrar kirkju og kom aftur til landsins 1626. Þau Þorlákur og Halldóra Guðbrandsdóttir móðursystir hans, stóðu síðan fyrir byggingu nýrrar dómkirkju, svokallaðrar Halldórukirkju. Biskup á Hólum. Eftir að Guðbrandur biskup andaðist, 20. júlí 1627, var þess farið á leit við Arngrím lærða að hann yrði biskup, en hann færðist undan. Var Þorlákur Skúlason þá kjörinn. Fór hann utan sama haust, var vígður í Kaupmannahöfn 16. maí 1628, kom til landsins sama sumar og tók við biskupstólnum 2. ágúst. Hann var biskup til æviloka. Páll Eggert Ólason segir um Þorlák: „Var mildur maður og óáleitinn, jafnaði allt fremur í kyrrþey en með hávaða. Fór honum þó kirkjustjórn vel úr hendi. Glaðlyndur maður og gamansamur, liðlegt latínuskáld og hafði liprar gáfur.“ Bókaútgáfa og fræðistörf. Þorlákur biskup hélt áfram útgáfu guðsorðabóka á Hólum í svipuðum anda og Guðbrandur afi hans hafði gert. Gaf hann út um 30 bækur. Mesta stórvirkið var önnur útgáfa biblíunnar á íslensku, sem við hann er kennd. Þorláksbiblía var prentuð á árunum 1637-1644, og er hún í meginatriðum endurprentun á Guðbrandsbiblíu, en textinn þó endurskoðaður með hliðsjón af danskri biblíu. Þorlákur þýddi nokkrar guðsorðabækur. Einna þekktastar eru „Fimmtíu heilagar hugvekjur“ eftir Johann Gerhard (Hólum 1630 og oft síðar, seinast Reykjavík 2004) og "Dagleg iðkun guðrækninnar" eftir sama höfund (Hólum 1652). Þorlákur Skúlason unni íslenskum fræðum og lét skrifa upp fjöldamörg gömul handrit. Einnig fékk hann Björn Jónsson á Skarðsá til þess að semja Skarðsárannál og fleiri rit. Telst Þorlákur meðal brautryðjenda fornmenntastefnunnar á Íslandi. Þorlákur samdi eðlislýsingu Íslands á latínu (1647), sem prentuð var 1943 (Bibliotheca Arnamagnæana 3). Einnig hafa bréfaskipti hans við Ole Worm verið gefin út (Bibliotheca Arnamagnæana 7). Í Þjóðskjalasafni Íslands er útdráttur úr Bréfabók Þorláks biskups Skúlasonar (prentuð 1979). Einnig brot úr vísitasíubók og reikningabók. Fjölskylda. Kona Þorláks Skúlasonar var Kristín Gísladóttir (27. febrúar 1610 - 10. júní 1694). Foreldrar: Gísli Hákonarson lögmaður í Bræðratungu, og kona hans Margrét Jónsdóttir. Kristín ólst upp á menningarheimili í Bræðratungu, giftist Þorláki Skúlasyni 1630 (kaupmáli 31. júlí) og fluttist með honum norður í Hóla. Um hana var sagt að henni hafi allir hlutir verið vel gefnir. Börn þeirra voru: Gísli Þorláksson biskup á Hólum. Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Guðbrandur Þorláksson sýslumaður í Vallholti. Skúli Þorláksson prófastur á Grenjaðarstað. Elín Þorláksdóttir, gift Þorsteini Þorleifssyni sýslumanni á Víðivöllum. Jón Þorláksson sýslumaður í Berunesi. Sumir afkomendur Þorláks Skúlasonar tóku upp ættarnafnið „Thorlacius“. Bibliotheca Arnamagnæana. "Bibliotheca Arnamagnæana" (latína: "Bókasafn Árna Magnússonar") er ritröð sem Árnasafn í Kaupmannahöfn, Den Arnamagnæanske Samling, gefur út. Í ritröðinnni er fjallað um íslensk og norræn fræði, bæði í útgáfum og fræðilegum ritgerðum. Fyrsta bindið kom út 1941 og 47. bindið árið 2011. Árið 1956 hófst útgáfa á viðaukabindum (latína: "supplementum") í stærra broti, sem eru einkum fyrir mikið myndskreytt verk. Af þeim hafa komið út 7 bindi, um rúnir, tónlist, útskurð o.fl. Jón Helgason forstöðumaður stofnunarinnar var ritstjóri meðan hans naut við, en síðan hafa Jonna Louis-Jensen, Peter Springborg, Britta Olrik Frederiksen og fleiri annast ritstjórn. Sum bindin eru greinasöfn, og hafa þau titilinn "Opuscula" (fleirtala orðsins "opusculum" eða „smárit“). Þau eru tölusett og mynda ritröð innan ritraðarinnar. Má líta á þau sem tímarit um textafræði, sem kemur út óreglulega. Den Arnamagnæanske Samling. Den Arnamagnæanske Samling er rannsóknarstofnun í íslenskum og norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Stofnunin er systurstofnun Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Báðar eru kenndar við Árna Magnússon (1663-1730), sem kunnastur er fyrir handritasafn sitt. Einnig eru notuð nöfnin Det Arnamagnæanske Institut og Den Arnamagnæanske Kommission. Hino Nacional Brasileiro. Hino Nacional Brasilero er þjóðsöngur Brasilíu. Áreiðanleikakönnun. Áreiðanleikakönnun er ítarleg rannsókn ásamt skýrslugjöf um stöðu og starfsemi félags sem gerð er í tengslum við samruna, kaup á hlutafé og útboð sem tengist aðgæsluskyldu kaupanda og upplýsingaskyldu seljanda. Egill Eyjólfsson. Egill Eyjólfsson (1295 – 1341) var biskup á Hólum frá 1331 til dauðadags, 1341. Faðir Egils var Eyjólfur, gullsmiður, en móðir hans var Þorgerður Egilsdóttir. Egill var settur til náms í Þingeyraklaustri, og var Lárentíus Kálfsson, síðar biskup, einkakennari hans þar. Varð Egill fyrst djákni, vígðist prestur 1318 og varð um svipað leyti skólameistari á Hólum, rúmlega tvítugur. Auðunn rauði var þá biskup, og var mjög stirt samband hans við Þingeyramunka, ekki síst Lárentíus. Egill beitti sér þá fyrir því, haustið 1319, að þeir Auðun og Lárentíus sættust. Egill hélt síðar Grímstungur í Vatnsdal, en fékk svo Grenjaðarstað í Aðaldal að veitingu Eilífs erkibiskups. Eftir fráfall Lárentíusar Kálfssonar, 1331, var Egill kjörinn biskup á Hólum. Lítið er vitað um biskupstíð hans, en þó er talið að fjárhagur stólsins hafi þá verið í góðu lagi. Ómar Ragnarsson - Gáttaþefur í glöðum hópi. Ómar Ragnarsson - Gáttaþefur í glöðum hópi er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Útsetningar og hljómsveitarstjórn er í höndum Jóns Sigurðssonar. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristinn Benediktsson. Þorvaldur víðförli. Minnisvarði um Þorvald víðförla, Friðrik biskup og kristniboðsstarf þeirra. Þorvaldur Konráðsson "víðförli" var íslenskur maður sem tók kristna trú á ferðum sínum um Evrópu. Hann var aðstoðarmaður og túlkur Friðriks trúboðsbiskups frá Þýskalandi, þegar hann reyndi að boða kristni Íslandi í kringum 981. Þetta trúboð var jafnframt hið fyrsta sem fór fram á Íslandi. Þeir félagar bjuggu í fjóra vetur á Lækjamóti í Víðidal og fóru um landið og boðuðu trú við misjafnar undirtektir. Ort voru um þá níðkvæði og þeir sagðir samkynhneigðir. Það þoldi Þorvaldur illa og drap þá sem þannig höfðu ort. Að lokum héldu þeir til Noregs og þar sagði biskup skilið við Þorvald „því að þú vilt seint láta af manndrápum“. Þorvaldur var frá Stóru-Giljá í Austur-Húnavatnssýslu og er þar minnisvarði um þá félaga alveg við þjóðveginn beint á móti bænum. Í Þorvaldar þætti víðförla segir að Þorvaldur hafi farið í pílagrímsferð til Jerúsalem og víðar og endað ævina í klaustri í Býsansríki. Árni Bergmann samdi skáldsögu um Þorvald. Þingmaríumessa. Þingmaríumessa (eða þingmáríumessa) er 2. júlí. Það er vitjunardagur Maríu, en hann bar upp á alþingistíma frá lokum 13. aldar til 1700. Sami dagur er einnig nefndur: "Maríumessa hin nýja". Vikan frá Jónsmessu til Þingmaríumessu nefnist messur (kv.ft). Skyn. Skyn eru félag nemenda með sérstaka námsörðuleika með aðsetur við Háskóla Íslands. Félagið er heildar- og þverfagleg samtök sem vinnur meðal annars að umbætum á Uglunni, fjarkennslu skólans. Orðið kemur úr kvæðinu Gylfaginning Saga. Forverar félagsins voru meðal annars "Sameinað hagsmunafélag nemenda með sérstaka námsörðuleika", "Skuld" og "Lesblindufélag Háskóla Íslands". Lesblindufélag Háskóla Íslands var stofnað snemma árs 2006 á rótum eldra félags sem var starfandi 1998 - 2000. Félagið var hagsmunafélag fyrir fólk með einkenni lesblindu og vildi ljúka háskólanámi, óháð því hvort það sé í námi eða ekki. Félagið var starfandi við Háskóla Íslands. 4. apríl 2007 gekk félagið í hið nýstofnaða félag Sameinað hagsmunafélag nemenda með sérstaka námsörðuleika. Sameinað hagsmunafélag nemenda með sérstaka námsörðuleika var stofnað til að gefa lesblindum, ADHD og Tourette, og öllum þeim sem telja sig hafa sértæka námsörðugleika, tækifæri til að hittast, veita þeim stuðning og auka samheldni þeirra. Á stefnuskrá félagsins var markmiðið að verða sýnilegt afl innan háskólans og í forsvari þegar málefni félagsins bar á góma. Félagið á að beita sér fyrir réttindabaráttu félagsins jafnt innan og utan háskóla og vera þrýstihópur fyrir félagsins um málefni þess. Félagið á stuðla að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefni hópanna innan sem flestra háskólagreina. Tilgangur félagsins var að vera sjálfstætt og án samkeppni við önnur félög um sömu málefni á öðrum sviðum. Núverandi félag tók við starfsemi þess 2007. Árið 2010 voru stofnaðir tveir nemendahópar sjálfstæðr frá starfsemi Skyn annar um málefni Lesblindra nemenda og hinn um málefni ADHD nemenda. Klassísk tónlist. Klassísk eða sígild tónlist er tónlist sem samin er á klassíska tímabilinu í tónlistarsögunni, þ.e. á árunum 1750-1830 eða þar um bil. Í daglegu tali er hugtakið "klassísk tónlist" þó notað um (vestræna) tónlist sem samin er frá því um 1100 til dagsins í dag. Yfirleitt er þá átt við einhverskonar „listræna tónlist“ til aðgreiningar frá öðrum tónlistarstefnum, s.s. þjóðlögum, jazz-, blús-, popp-, eða rokktónlist. Þessi skilgreining er þó óljós, bæði vegna þess að mörk milli tónlistarstefna eru oft ónákvæm og einnig er það misjafnt hvað mönnum finnst vera „listrænt“. Oft er tónlist líka sögð klassísk ef hún hefur elst vel eða staðist tímans tönn, þó hún sé samin undir öðrum tónlistarstefnum. Til dæmis er oft sagt að tónlist Bítlanna sé orðin klassísk. Granatepli. Granatepli (eða kjarnepli) (fræðiheiti: "Punica granatum") er sumargræn jurt sem er runni eða lítið tré sem ber ávexti. Það verður 5-8 metra á hæð. Það er upprunnið frá landsvæðum í Afganistan og Íran til Himalajafjalla í Norður Indlandi og hefur verið ræktað frá fornu fari í löndunum við Miðjarðarhafið og Kákasus. Það er einnig ræktað í Armeníu, Íran, Indlandi og þurrari hlutum suðaustur Asíu, Malaja og Austur-Indíum og frumskógabelti Afríku. Lýsing. Granatepli kemum frá Persíu (Íran) og hefur verið ræktað í Georgíu, Armeníu og við Miðjarðarhafið í margar aldir. Í Georgíu og Armeníu og austur fyrir Svartahafið þá vex Granatepli villt. Granatepli barst til Suður-Ameríku og Kaliforníu með spænskum landnemum árið 1769 og er nú ræktað aðallega í þurrari hlutum Kalíforníu og Arizona þar sem unninn er ávaxtasafi úr berjum þess. Ávextir granateplis eru taldir heilsubætandi og fyrirbyggja sjúkdóma. Blóm granateplis eru skærrauð, 3 sm að þvermáli með fjórum til fimm krónublöðum. Ávöxturinn er milli sítrónu og greipaldins að stærð, 5-12 sm í þvermál, aldinið er rautt og inniheldur um 600 fræ. Granatepli þolir vel þurrk. Á svæðum þar sem mikið úrkoma er þá skemmast ræturnar oft vegna sveppasýkingar.Granatepli þolir frost allt að −10 °C. Annað. Orðið granatepli þýðir „epli með fræum“ (frá latneska orðinu "grānātus" þ.e. "með fræum"), enda er ávöxturinn stundum nefndur kjarnepli á íslensku. Fræ Granateplis eru borðuð hrá. Granateplasafi er vinsæll drykkur í Mið-Austurlöndum og er notaður í írönskum og indverskum réttum. Borgin Granada á Spáni ber nafn eftir þessum ávöxt. Kirkjurokið. Kirkjurokið var fárviðri sem menn í Svarfaðardal nefndu svo, en það gekk yfir landið þann 20. september árið 1900. Víða var það einnig nefnt Aldamótaveðrið. En dag þennan gekk yfir landið suðvestan- og vestan illviðri, eitt hið allra versta af þeirri gerð sem sögur fara af. Margháttaður skaði varð bæði á mönnum og munum og má í því sambandi nefna drukknun 17 manna á fjórum bátum sem reru frá Arnarfirði í bítið þennan örlagaríka morgun. Manntjón varð einnig við Eyjafjörð. Þar brast veðrið á um hádegi. Íbúðarhúsið í Rauðuvík á Árskógsströnd, sem þá var nýbyggt timburhús, hófst af grunni og steyptist ofan fyrir sjávarbakkan sem það stóð á. Átta manns voru þar innan veggja og létust þrír þegar húsið féll saman. Tveir bátar fórust á Hríseyjarsundi og með þeim sex manns og bóndi í Arnarneshreppi lést síðar vegna áverka sem hann fékk í rokinu. Á landinu öllu fórust um 30 manns af völdum veðurofsans og auk þess varð gríðarlegt eignatjón. Í Svarfaðardal minntust menn og minnast enn þessa óveðurs sem "Kirkjuroksins" haustið 1900. Það kom til af því að tvær af fjórum kirkjum dalsins fuku og brotnuðu í spón. Það voru kirkjurnar á Urðum og Upsum. Kirkjurnar á Tjörn og Völlum skekktust á grunnum sínum svo lá við stórtjóni. Lurkur (vetur). Lurkur (eða Lurkavetur eða Þjófur'") er nafn á harðindavetrinum 1601-1602 en það er einhver harðasti vetur sem þekkist á Íslandi. Í Ballarárannál segir, að komið hafi fjúk og jarðbönn með hallærum og harðindum, svo að kolfellir hafi orðið um allt landið, en um Jónsmessu á vori hafi enginn gróður verið, og raunar hafi sumarið eftir verið nær graslaust. Í Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson er talað um veturinn 1600-1601. Í íslensku er talað um að eitthvað hafi gerst" árið fyrir hann Lurk", og átt við að það hafi gerst fyrir langalöngu síðan. Píningsvetur. Píningsvetur (eða Píningur) var harðræðisveturinn 1602–1603. Í Ballarárannál er vetur þessi nefndur "Píningur" en í Vatnsfjarðarannál elsta nefnist hann "Píningsvetur". Hvítivetur. Hvítivetur nefndist harðindaveturinn 1633-1634. Segir í annálum að þá hafi verið mikið frost og ófærð á miðjum vetri og fram eftir vori. Svellavetur. Svellavetur var veturinn 1625-1626. Gertrude Stein. Gertrude Stein (3. febrúar 1874 – 27. júlí 1946) var bandarískur rithöfundur sem var forgöngumaður í þróun nútíma mynd- og ritlistar. Hún dvaldist meiri hluta ævinnar í París og varð þar einn fyrsti safnari nútímamyndlistar og hafði með því mikil áhrif á rithöfundinn Ernest Hemingway. Gertrude Stein bjó með Alice B. Toklas frá 1910 til andláts síns 1946. Jón Víðis Jakobsson. Jón Víðis Jakobsson er (fæddur 7. janúar 1970). Hann hefur undanfarin ár starfað sem töframaður og sýnt víða, bæði á Íslandi og erlendis. Hann kemur reglulega fram sem töframaður og er félagi í alþjóða sambandi töframanna, IBM. Jón var kjörinn fyrsti forseti Hins íslenska töframannagildis, sem er hringur númer 371 innan IBM. Hann skrifaði Töfrabragðabókina, sem JPV útgáfa gaf út 2005. (ISBN-9979-791-23-3). Jón safnar alls kyns höttum, húfum og öðrum höfuðfötum og telur safn hans nú um 500 slíka gripi. Stormur. Stormur er heiti vindhraðabils, sem svarar til 9 vindstiga (20,8 - 24,4 m/s) á vindstigakvarðanum (Beaufortskvarðanum). Veðurstofan gefur út "stormviðvörun", þegar spáð er vindhraða yfir 20 m/s. Þoka. Þoka er heiti skýja (s.n. "þokuskýja") sem ná niður á yfirborð jarðar. Þoka skiptist í meginatriðum eftir myndun í "geislunarþoku" og "aðstreymisþoku". Þykkt þokunnar er sjaldan meiri en 100 m, en hún er stundum varla ökkladjúp og nefnist þá dalalæða. Dalalæða. Dalalæða (eining nefnd kerlingarvella, útgeislunarþoka eða næturþoka) er þoka, sem myndast á kyrrum nóttum eftir hlýjan sólskinsdag, en er varla meira en mittisdjúp. Neðsta loftlagið kólnar niður fyrir daggarmark vegna útgeislunar og myndar þokuslæðu nálægt yfirborðinu. Sumstaðar á landinu er dalalæðan nefnd "kerlingarlæða", "láreykur" og "völsavilla". Svefn. Svefn er náttúruleg hvíld manna og dýra og felur í sér meðvitundarleysi, algert eða hálfgert, auk þess sem hlé verður á meðvitaðri líkamsstarfsemi. Svefn veitir líkamanum hvíld og endurnærir hann. Öll spendýr og fuglar sofa og einnig sum skriðdýr, froskdýr og fiskar. Fyrir menn og spendýr er svefn lífsnauðsynlegur en þó er ekki fullljóst hvers vegna. Svefn hefur þó verið mikið rannsakaður og margar rannsóknir eru í gangi. Bæði hjá spendýrum og fuglum eru aðalstig svefns tvö: draumsvefn (e. "REM") eða léttur svefn og hvíldarsvefn (e. "NREM") eða djúpur svefn. Hvort stig um sig hefur í sér mismunandi lífeðlisfræðilega, taugafræðilega og sálfræðilega þætti. Hvíldarsvefn skiptist líka í fleiri stig: N1, N2 og N3, sem er dýpsta svefnstig. Í svefni skiptast á REM- og NREM-svefntímabil. Heilastarfsemi breytist mjög í svefni. Of lítill svefn getur orsakað þreytu, vanlíðan og streitu og haft áhrif á einbeitingu, minni og rökhugsun. Svefnleysi getur líka haft slæm áhrif á ónæmiskerfið, seinkað því að sár grói og valdið truflunum á framleiðslu vaxtarhormóna og þar með haft áhrif á líkamsvöxt barna. Það dregur úr svefnþörf með aldrinum. Tímalengd REM-svefns er lengri hjá börnum: kornabörn sofa REM-svefni í um 9 klukkustundir á sólarhring en þegar barnið er um fimm ára gamalt er tímalengd REM-svefns aðeins um það bil tvær klukkustundir á sólarhring. Lína Langsokkur. Lína býr ein með apanum Níels og hesti í húsinu Sjónarhóli Sigurlína Rúllugardína Nýlendína Krúsimunda Eiríksdóttir Langsokkur betur þekkt sem Lína langsokkur var sögupersóna í bókaflokki eftir Astrid Lindgren. Sögurnar um Línu langsokk hafa verið gefnar út á fjölmörgum þjóðtungum. Á íslensku hefur komið út hljómplatan Hanna Valdís - Lína Langsokkur. Lína býr á Sjónarhóli ásamt apanum herra Níels og hestinum sínum doppótta. Faðir hennar er skipstjóri sem er eyðir öllum sínum tíma á sjó og því þarf Lína að sjá um sig sjálf. Það reynist henni auðvelt þar sem hún er sterkasta stelpa í heimi. Nágrannar hennar Tommi og Anna eru bestu vinir hennar. Hellarannsóknafélag Íslands. Hellarannsóknafélag Íslands er áhugamannafélag um hraunhella á Íslandi. Félagið var stofnað þann 25. nóvember 1989 að frumkvæði jarðfræðinganna Björns Hróarssonar, sem jafnframt var kosinn fyrsti formaður félagsins, og Sigurðar Sveins Jónssonar. Markmiðið með starfsemi félagsins er skrásetning, vernd og varðveisla svo og rannsóknir á íslenskum hraunhellum. Félagið gaf út félagsritið Surtur. Alls komu út 7 tölublöð á árunum 1990 til 1999 en útgáfan hefur legið niðri síðan. Enskt heiti félagsins er „Icelandic Speleological Society“ en "speleology" er enska fræðiheitið fyrir hellafræði. Blóðkollur. Blóðkollur (fræðiheiti: "Sanguisorba officinalis") er fjölær jurt af rósaætt sem vex á köldum stöðum á norðurhveli jarðar. Hann verður allt að meter á hæð og vex vel á grösugum árbökkum. Á Íslandi er blóðkollur fremur sjaldséður og finnst aðeins á Vesturlandi. Persónuleikasálfræði. Persónuleikasálfræði getur talist til sígildra undirgreina sálfræðinnar og eiga rætur að rekja til kenninga Freuds um persónuleikann. Áhersla er lögð á einstaklingsmun og gengið er út frá því að fólk sé ólíkt vegna meðfæddra eða áunninna persónuleikaþátta sem móta hegðun fólks í vissum aðstæðum og valda því að hver einstaklingur sýnir ákveðinn stöðugleika í hegðun. Bolludagur. Íslensk vatnsdeigsbolla með rjóma, sultu og súkkulaði ofaná Sænsk bolludagsbolla, gerbolla með marsípan- og rjómafyllingu. Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, 7 vikum fyrir páska, en "föstuinngangur" kallast síðustu þrír dagarnir fyrir lönguföstu, sem hefst á miðvikudegi með öskudegi. Algengt var í kaþólskum sið að fastað væri á kjöt dagana tvo fyrir lönguföstu og var það boðið í þjóðveldislögunum. Önnur merki um siði tengdan þessum degi er ekki að finna fyrr en á 19. öld. Í Sturlungu og biskupasögum er talað um „að fasta við hvítan mat“ (mjólkurmat) í föstuinngang. Líklegt er að menn hafi nýtt sér þessa daga fyrir langt föstutímabil til að gæða sér á ýmsu góðgæti, ekki síst brauðmeti. Í dönskum heimildum frá því um 1700 er talað um hveitibollur sem muldar eru og hrærðar með mjólk og smjöri og borðaðar í föstuinngang. Bolluát og feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meir bundið við þriðjudaginn næsta í föstu. En á Íslandi hafa menn bundið þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundinn matarsið sprengidagsins. Á síðustu áratugum hefur bolluátið þó færst að hluta yfir á sunnudaginn. Bolludagur á Íslandi. Flengingar og bolluát berst líklega til Íslands fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að. Heitið "Bolludagur" er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin. Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á öskudaginn og hafa síðan smásaman breiðst þaðan út aftur sem öskudagssiðir. Heitið bolludagur sést fyrst á prenti 1910 en annars var dagurinn oft kallaður "flengingardagur". Bolluát á bolludag. Á Íslandi hefur tíðkast í yfir hundrað ár að borða bollur á þessum degi og í Þjóðólfi 1910 er talað um bolluát á bolludaginn. Þó mun það hafa þekkst eitthvað áður og í matreiðslubók Þ.A.N. Jónsdóttur frá 1858 er uppskrift að "langaföstusnúðum", þ.e. bolludagsbollum. Reykvísk bakarí fara að auglýsa bollur á bolludaginn á öðrum áratugaldarinnar og í Morgunblaðinu 1915 er kvartað yfir hnignun bolludagsins: „... það eina sem virðist vera eftir af kætinni frá fyrri tímum á»bolludaginn«, er óhemju kökuát barnanna — og full búðarskúffan af smápeningum hjá bökurum bæjarins.»Bollan«kostar því miður þrjá tveggeyringa í þetta sinn!“ Ýmsir hafa líka þann sið að borða fisk- eða kjötbollur á bolludaginn og má rekja það a.m.k. aftur á fjórða áratug 20. aldar en þá auglýsti niðursuðuverðsmiðja S.Í.F. fiskbollur á bolludaginn undir slagorðinu: „Gerið bolludaginn þjóðlegan“. Fyrst og fremst hafa það þó verið rjóma-og krembollur sem einkennt hafa mataræðið þennan dag. Bolluvendir. Það er einnig rík hefð fyrir því að föndraðir séu bolluvendir, oftast úr litríkum pappírsræmum sem límdar eru á prik. Börn flengja svo foreldra sína með eða forráðamenn með vendinum og hrópa: „Bolla! Bolla! Bolla!“. Sá siður að vekja menn með flengingum á bolludaginn er talinn hafa borist til Danmerkur frá mótmælendasvæðunum í norðanverðu Þýskalandi og síðan til Íslands með dönskum kaupmönnum á 19. öld. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað“ foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu. Flengingar þessar eiga sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum hirtingum á öskudag. Vöndurinn minnir á stökkul sem notaður var til að dreifa vígðu vatni við föstuinngang. Sumir telja hýðingarnar upprunalega lið í frjósemisgaldri og með þeim eigi að vekja alla náttúruna til lífs og starfa þegar vorið sé í nánd. Móastör. Móastör (fræðiheiti: "Carex rupestris") er stör sem vex í þurrum móum. Hún verður 5 til 20 sm há og ber þrjú til átta rauðbrún öx. Á Íslandi er móastör algeng á Norðurlandi. Sulta. Sulta er hlaup gert úr safa ávaxta og bitum þeirra eða mauki. Safinn, maukið eða bitarnir eru svo hitaður með vatni og sykri til að pektínið (sem er sykra) hlaupi. Afraksturinn er síðan settur í krukkur. Rjómi. Rjómi er mjólkurafurð sem verður til þegar mjólkurfita er skilin frá ófitusprengdri mjólk. Áður var þetta gert með því að láta mjólkina standa þar til rjóminn settist á yfirborðið og þá var hann fleyttur ofan af en fitusnauðari hluta mjólkurinnar var rennt undan og því nefnist hann undanrenna. Seinna komu skilvindur til sögunnar og nú er mjólk skilin í stórvirkum vélum í mjólkurbúum. Vegna þess að rjómi er ekki fitusprengdur er hægt að þeyta hann en þá setjast fitukúlurnar utan um loftbólur og bindast saman með hjálp próteins. Þannig eykst rúmmál hans um helming. Hérlendis er rjómi til þeytingar með 36% fituinnihaldi, auk þess sem fá má matreiðslurjóma sem er 15% feitur, en víða erlendis er hægt að fá feitari rjóma, allt að 48%. Hleyptur rjómi (clotted cream) er raunar 55% feitur. Eftir gerilsneyðingu rjóma þarf að halda honum köldum í lengri tíma en við vinnslu t.d. nýmjólkur vegna „innri hita“ sem myndast í fitukúlunum. Ef ekkert væri að gert myndi hitastig rjómans hækka á nýjan leik og þannig skemmast. Sýrður rjómi er rjómi sem hefur verið sýrður með mjólkursýrugerlum og þykknar við það. Broddastör. Broddastör (fræðiheiti: "Carex microlochin") er stör með stíft strá sem ber tíu blóm. Hún vex í votlendi. Á Íslandi vex broddastör um allt land, bæði á láglendi og á hálendinu í allt að 600m hæð. Fjallafoxgras. Fjallafoxgras (fræðiheiti: "Phleum alpinum") er gras af foxgrasa-ættkvíslinni ("phleum"). Fjallafoxgras hefur 8-12 mm breiðan og 1-3 sm langan axpunt og smáöxin eru einblóma. Slíðurhimnan er stutt. Fjallafoxgras verður 15-40 sm á hæð og vex í grasi gefnu landi, gjarnan inn til landsins eða upp til heiða. Það þekkist frá vallarfoxgrasi á styttra axi og útblásnu blaðslíðri. Apaplánetan (1968 kvikmynd). "Apaplánetan" (ensku: "Planet of the Apes") er bandarísk kvikmynd frá árinu 1968 byggð á samnefndri bók eftir Pierre Boulle. Quintus Fabius Pictor. Quintus Fabius Pictor (fæddur um 254 f.Kr.) var einn af fyrstu sagnariturum Rómaveldis. Hann var öldungaráðsmaður sem barðist gegn Göllum árið 225 f.Kr. og gegn Karþagómönnum í öðru púnverska stríðinu. Pictor skrifaði á grísku. Rit hans voru meðal heimilda Pólýbíosar, Liviusar og Díonýsíosar frá Halikarnassos. Rit hans höfðu verið þýdd yfir á latínu á tímum Ciceros. Pictor, Quintus Fabius Bótólfur (biskup). Bótólfur var biskup á Hólum frá 1238 til dauðadags, 1247. Ekkert er vitað um ætt Bótólfs, föðurnafn hans, né hvenær hann var fæddur. Eftir Örlygsstaðabardaga 1238 ákvað Hákon gamli Noregskonungur að reyna að efla áhrif sín á Íslandi. Vildi þá svo til að Íslendingar höfðu kosið sem biskupsefni menn sem strangt til tekið voru ekki embættisgengir skv. kirkjulögum. Beitti konungur sér fyrir því að erkibiskup skipaði sem biskupa norræna eða norska menn, án þess að leitað væri atkvæða Íslendinga um það, eins og lög gerðu ráð fyrir. Bótólfur var þá skipaður biskup á Hólum, og átti hann að styðja fyrirætlanir konungs. Bótólfur var áður kanoki eða kanúki í Ágústínusarklaustrinu á Helgisetri í Niðarósi. Hann var vígður biskup 1238 og kom til landsins árið eftir, 1239. Ekki þótti Íslendingum mikið til hans koma. Var hann sagður "góður maður og einfaldur og eigi mikill klerkur". Sögðu Norðlendingar að ekki mætti "sjá á höfði hans né hendi að hann væri biskup". Hafði Bótólfur litla stjórn á undirmönnum sínum og kristnihaldi í Hólabiskupsdæmi. Fékk hann brátt nóg af dvölinni hér, og eftir fjögurra ára veru á Íslandi hvarf hann til Noregs (1243) og andaðist í Noregi árið 1247. Gegnir. Gegnir er sameiginleg verkaskrá flestra bókasafna á Íslandi, rekin af Landskerfi bókasafna. Almenningur getur leitað í Gegni eftir efni á söfnunum út um allt Ísland á vefsíðunni "Gegnir.is". Hægt er að leita með þremur aðferðum, "venjulegri leit", "ítarleit" og "skipanaleit". Í venjulegri leit er eitt leitarorð slegið inn, mögulegt að velja sérstakt leitarsvið (svo sem titil, höfund o.þ.h.) og leitað eftir því. Í ítarleit eru möguleikarnir aðeins fleiri, en þar er hægt að leita eftir fleiri leitarorðum, velja "og/eða/ekki" á milli þeirra, og þrengja leitina eftir tungumáli, formi og safni. Skipanaleit gefur flesta möguleika, en í henni eru slegin inn ýmis skipanaorð til að þrengja leitina að vild. Þá er sérstök leitarskrá fyrir námsritgerðir. Sum söfn gefa einnig lykilorð að "Mínar síður"-hluta gegnis, en þar er hægt að sjá hvaða bækur maður hefur í útláni og fleira þess háttar. Gegnir byggir á kerfinu Aleph 500 frá Ex Libris. Heinrekur Kársson. Heinrekur Kársson var biskup á Hólum frá 1247 til dauðadags, 1260. Ekkert er vitað um ætt Heinreks, né hvenær hann var fæddur. Hann er talinn hafa verið norskur, en þó eru einnig ágiskanir um að hann hafi verið þýskur að ætterni. Í sumum heimildum er hann sagður Karlsson. Biskup konungs. Eftir að Bótólfur biskup féll frá, var Heinrekur kjörinn Hólabiskup. Hann fylgdi fram málum Hákonar gamla Noregskonungs hér á Íslandi fastar en nokkur annar. Hefur konungur eflaust staðið á bak við kosningu hans. Hann var vígður 1247 af Vilhjálmi af Sabína kardínála, er þá var staddur í Noregi vegna krýningar Hákonar gamla. Segir sagan að Heinrekur hafi komið út með skriflega áskorun til Íslendinga frá Hákoni konungi um að játast undir ríki sitt, en hún var m.a. gerð í samráði við Vilhjálm kardínála. Heinrekur kom til Íslands sumarið 1248. Hann var ekki vinsæll biskup, enda lét hann sig kirkjumál og kristnihald litlu skipta en var meira í því að reka erindi konungsvaldsins hér. Deilur við höfðingja. Urðu brátt fáleikar með Heinreki og þeim Þórði kakala og Gissuri Þorvaldssyni, sem þá voru helstu valdamenn hér á landi. Fann biskup þeim til foráttu að þeir rækju ekki erindi konungs sem skyldi. Má sem dæmi nefna að eftir Flugumýrarbrennu haustið 1253, þar sem reynt var að brenna Gissur inni, riðu brennumenn heim til Hóla. Tók Heinrekur biskup vel við þeim, veitti þeim aflausn fyrir glæp sinn og hélt þeim svo veislu. Í miðri veislunni bárust þau tíðindi til Hóla að Gissur hefði komist af úr brennunni. Sló þá talsvert á fögnuð veislugesta. Heinrekur var biskup á Hólum í 13 ár, en dvaldi þó ekki á Íslandi nema u.þ.b. 5 ár af þeim tíma. Veturinn 1250-1251 var hann við hirð konungs og er þá nefndur meðal ráðgjafa hans. Heinrekur fór af landi brott 1256 og er svo að sjá að hann hafi síðan dvalist við hirð konungs og verið ráðunautur hans um íslensk málefni. Hann andaðist í Noregi sumarið 1260. Jöklabréf. Jöklabréf eða krónubréf (e. "glacier bonds") eru skuldabréf sem hafa verið gefin út í íslenskum krónum af erlendum aðilum frá því í ágúst 2005. Í lok árs 2010 var áætlað að erlendir fjárfestar ættu krónubréf að andvirði um 400 milljörðum króna, það er um fjórðungur af landsframleiðslu Íslands. Í lok árs 2011 var áætlað að um helmingur þessarar upphæðar, um 200 milljarðar króna, væru nú á innlánsreikningum íslensku bankanna. Vegna gjaldeyrishafta eru þessar upphæðir hins vegar fastar í íslenska bankakerfinu og er í því samhengi rætt um „"jöklabréfahengju"“ þar sem myndlíkingin við ís og snjó er notuð til þess að gefa til kynna að íslenska efnahagnum stafi hætta af því ef inneigninni væri skipt í aðra mynt og tekin úr landi. Tilurð krónubréfa. Forsenda viðskipta sem þessa, þar sem erlendir aðilar gefa út skuldabréf í íslenskri mynt, er hár munur á vöxtum í hagkerfum viðkomandi landa, hátt gengi þess gjaldmiðils sem gefa á bréfin út í (íslenska krónan) og mikil eftirspurn í því landi á lánsfé. Á Íslandi hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti jafnt og þétt eftir að flotgengisstefnan var tekin upp 2001 og verðbólgumarkmið var ákveðið við 2,5%. Stýrisvextir á Íslandi voru 13,3% í júní 2007 en höfðu hækkað í 18% í lok október 2008. Til samanburðar voru stýrvextir Seðlabanka Evrópu 2,5% í lok árs 2008. Enginn grundvallarmunur er á skuldabréfum sem íslenskir bankar gefa út og krónubréfum, í báðum tilvikum á kaupandi bréfsins kröfu á útgefandann í íslenskum krónum. Þau erlendu fjármálafyritæki sem gefa út krónubréf taka því á sig gengisáhættu, þar eð þau hafa ekki greiðan aðgang að krónum. Til þess að komast hjá því vandamáli tekur íslenskt fjármálafyrirtæki lán hjá erlenda útgefandanum sem erlenda fjármálafyrirtækið tekur að greiða af. Íslenska fjármálafyrirtækið greiðir vexti og afborgarnir til erlenda útgefandans í íslenskum krónum. Íslenski bankinn fær íslensku krónurnar sem fást fyrir sölu krónubréfanna og erlenda fjármálafyrirtækið andvirði lánsins í erlendu gjaldmyntinni. Hvítfjall. Hvítfjall (franska: Mont Blanc, ítalska Monte Bianco) er hæsta fjall Alpanna og hæsta fjall í Vestur-Evrópu, 4.808 metrar á hæð. Listi yfir hæstu fjöll heims. Þetta er listi yfir hæstu fjöll á jörðu (yfir sjávarmáli). Öll eru í Asíu. Halldór H. Jónsson. Halldór Haukur Jónsson (f. 3. október 1912 - d. 6. febrúar 1992) var íslenskur arkitekt og viðskiptamaður. Vegna setu hans í fjölda stjórna stórra, íslenskra fyrirtækja var hann á tíðum nefndur "stjórnarformaður Íslands". Hann var stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands frá árinu 1974 til dauðadags. Ævi. Foreldrar Halldórs voru Jón Björnsson frá Bæ í Borgarfirði, bóndi og kaupmaður, og Helga Björnsdóttir, húsmóðir. Halldór gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi þaðan árið 1931. Hann hélt til Svíþjóðar í nám í arkitektúr í Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi og lauk þaðan námi árið 1938. Eftir að hann sneri heim hóf hann störf við Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Ári seinna stofnaði hann eigin arkitektastofu. Árið 1940 giftist hann Margréti Þ. Garðarsdóttur, dóttur Garðars Gíslasonar, stórkaupmanns. Halldór hóf störf við fyrirtæki tengdaföður síns, G. Gíslason & Hay (seinna Garðar Gíslason hf.). Í gegnum Garðar kynntist Halldór sterkefnuðum mönnum í íslensku viðskiptalífi s.s. Ingólfi á Hellu. Hann hafði þá þegar kynnst Sveini Valfells en Halldór sat í stjórn fyrirtækis hans, Steypustöðinni hf. frá 1947-73. Halldór var stjórnarformaður Sameinaðra verktaka sem var stofnað 1954 og átti helmingshlut í verktakafyrirtækinu Íslenskir aðalverktakar. Góðkunningi hans Geir Hallgrímsson, seinna forsætisráðherra Íslands var þá forstjóri Íslenskra aðalverktaka. Halldór settist fyrst í stjórn Eimskipafélags Íslands árið 1965 og varð stjórnarformaður 1974. Hann sat í stjórn Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi frá 1960-78. Í stjórn Vinnuveitendasambands Íslands 1952-79. Aðgerð Pólstjarnan. Aðgerð Pólstjarnan er viðamikil lögregluaðgerð á vegum fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunnar og lögregluliða í Danmörku, Noregi, Færeyjum, Þýskalandi og Hollandi í gegnum Europol. Aðgerðin beindist gegn umfangsmiklu smygli á fíkniefnum til Íslands með seglskútu og leiddi til þess að fjöldi manns var handtekinn bæði á Íslandi, Noregi og í Danmörku. Þrír voru handteknir þegar skútan kom að landi á Fáskrúðsfirði að morgni 20. september 2007 með 50-60 kíló af amfetamíni, sem er mesta magn örvandi fíkniefna sem náðst hefur í einni aðgerð á Íslandi. Gráserkur. Gráserkur eða Fjallaskeiðsveppur (fræðiheiti: "Amanita vaginata") er reifasveppur sem er eitraður hrár en ætur eftir suðu. Ekki er þó mælt með því að tína hann til neyslu vegna þess hve líkur hann er nokkrum náskyldum baneitruðum sveppum, eins og grænserk og hvíta reifasvepp. Gráserkur er með silfurgráan hatt og stafurinn er með slíður en ekki hring eins og t.d. grænserkurinn er með. Gráserkur finnst víða á Íslandi í lyngmóum. Brandur Jónsson (biskup). Brandur Jónsson var biskup á Hólum í eitt ár, frá 1263 til dauðadags, 26. maí 1264. Brandur var af ætt Svínfellinga, sem var ein helsta höfðingjaætt landsins, og fór með héraðsvöld á austanverðu landinu. Foreldrar Brands voru Jón Sigmundsson goðorðsmaður á Svínafelli í Öræfum og seinni kona hans Halldóra Arnórsdóttir. Hún var af ætt Ásbirninga, dóttir Arnórs Kolbeinssonar. Talið er að Brandur hafi fæðst skömmu eftir 1200 (e.t.v. um 1205) á Svínafelli og alist þar upp. Hann var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri 1247-1262, en þar var klaustur af Ágústínusarreglu. Líklega hefur hann áður verið munkur í klaustrinu en hann tók við þegar Arnór Össurarson sagði af sér. Á þeim árum sem hann var ábóti var hann tvisvar umboðsmaður Skálholtsbiskups. Brandur kom talsvert að deilum höfðingja á Sturlungaöld, og þá oft sem sáttasemjari. Í Svínfellinga sögu segir um Brand: "Hann réð fyrir austur í Þykkvabæ í Veri og var ágætur höfðingi, klerkur góður, vitur og vinsæll, ríkur og góðgjarn. Og í þann tíma hafði hann mesta mannheill þeirra manna, er þá voru á Íslandi." Eftir að Íslendingar gengu undir vald Noregskonungs, 1262, var aftur farið að skipa íslenska menn í biskupsembættin. Var Brandur Jónsson þá útnefndur biskup á Hólum en Runólfur Sigmundsson lærisveinn hans tók við sem ábóti í Þykkvabæjarklaustri. Brandur sigldi til Noregs haustið 1262, vígður 4. mars 1263 og kom til landsins sumarið 1263. En hans naut ekki lengi við í biskupsembætti á Hólum, því að hann andaðist 26. maí 1264. Brandur Jónsson var vel lærður maður og kenndi ýmsum. Hann var einnig þekktur rithöfundur. Hann þýddi á íslensku Alexanders sögu, söguljóð frá um 1170 eftir Philippus Gualterus, um Alexander mikla. Þetta er lausamálsþýðing og þykir málfarið á þýðingunni með miklum snilldarbrag. Halldór Laxness hreifst svo af verkinu að hann beitti sér fyrir því að Alexanders saga var gefin út árið 1945 í alþýðlegri útgáfu. Í formála bókarinnar segir Halldór: "Hverjum manni sem ritar á íslensku, jafnvel á vorum dögum, ætti að verða til eftirdæmis sá hreinleiki og tignarbragur norræns máls, sem hér birtist í samhæfingu við erlent efni. Af þeim vitra og lærða manni, sem bókina þýddi, geta Íslendingar allra tíma lært fleira en eitt um það, hvernig útlenda hluti skal um ganga á Íslandi." Brandur þýddi einnig Gyðinga sögu á íslensku, og e.t.v. fleiri rit. Hermann Pálsson hefur sett fram þá tilgátu að Brandur hafi samið Hrafnkels sögu Freysgoða skömmu fyrir 1260. Brandur Jónsson var ókvæntur, en hann átti þó son, Þorstein Brandsson (d. 1287) á Kálfafelli í Fljótshverfi. Reifasveppsætt. Reifasveppsætt (fræðiheiti: "Amanitaceae") er ætt hattsveppa og inniheldur þrjár ættkvíslir. Helst þeirra eru reifasveppir ("Amanita"). Flestar tegundir vaxa í skóglendi. Ungir sveppir eru hjúpaðir hulu sem verður slíður við rót stafsins þegar þeir stækka upp úr henni. Keiluklukka. Keiluklukka (fræðiheiti: "Panaeolus acuminatus") er mjög algengur lítill brúnn eða fjólublár hattsveppur með svart gróprent sem vex á mykjuhaugum. Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Árna Thorsteinsson. Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Árna Thorsteinson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Stjórnandi: Páll P. Pálsson. Einsöngvarar: Svala Nielsen, Guðmundur Jónsson og Friðbjörn G. Jónsson. Hljóðritun í stereo fór fram í Háteigskirkju í Reykjavik í maí og október 1971 undir stjórn Péturs Steingrimssonar. Samfellutilgátan. Samfellutilgátan er tilgáta í mengjafræði, sett fram af Georg Cantor, um samanburð á hugsanlegri stærð óendanlegra mengja. Samfellutilgátan segir að ekki sé til fjöldatala formula_1, sem sé stærri en fjöldatala náttúrlegru talnanna, formula_2 en jafnframt minni en fjöldatala rauntalnanna, formula_3, þ.e. formula_2 < formula_1 < formula_3. Er umdeild og ósönnuð tilgáta meðal stærðfræðinga. Trey Parker. Randolph Severn „Trey“ Parker III (f. 19. október 1969) er handritshöfundur sjónvarpsþáttana "South Park" sem hann, ásamt Matt Stone, skapaði. Hann talsettur einnig fjölda persóna í þáttunum. Matt Stone. Matt Stone (fæddur 26. maí 1971) er þáttaskrifandi þáttana South Park ásamt Trey Parker. Mánar - Mánar. Mánar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Metronome-studió (tœkni-maður Bent Hulröj) og Rosenberg-studíó (tœkni-maður Freddy Hansson) Kaupmannahöfn. Pressun plötunnar annaðist Nera í Osló. Myndir á umslagi tók Óli Páll. Setningu texta annaðist Prentsmiðja Jóns Helgasonar, en prentun umslags Grafik hf. Texti af innblaði plötuumslags. HVERS VEGNA? - "Lag: Guðmundur Benediktsson Ljóð: Ómar Halldórsson" Hörður Torfason - Án þín. Án þín er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Hörður Torfason tólf frumsamin lög með textum átta skálda. Lagalisti. Lög 5 og 6 eru samtengd. Undirleikur: Hörður Torfason og Steinþór Nicholaison gítarar. Þrír tólf ára drengir syngja með Herði: Ásmundur P. Ásmundsson, Þórður Bogason og Kristinn Ö. Torfason. Þorvaldur Halldórsson - Gerir ekki neitt. Gerir ekki neitt er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Jón Sigurðsson sá um útsetningar og hliómsveitarstjórn, en hljóðritun fór fram hjá Pétri Steingrímssyni. Ljósmynd á framhlið var tekin af Ljósmyndastofu Páls á Akureyri, og stendur Þorvaldur framan við hið kunna Nonnahús. Grettir Björnsson - Grettir Björnsson. Grettir Björnsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmynd á plötuumslagi tók Óli Páll. Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Bjarna Þorsteinsson. Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Bjarna Þorsteinsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Stjórnandi: Páll P. Pálsson. Einsöngvarar: Guðrún Tómasdóttir og Sigurður Björnsson. Hljóðritun fór fram í Háteigskirkju í Reykjavík fyrri hluta ársins 1972 undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Litmynd á framhlið tók Gunnar Hannesson, en ljósmynd af Karlakór Reykjavíkur á bakhlið tók Kristján Magnússon að afloknum hljómleikum kórsins í Austurbœjarbiói vorið 1972. Svanhildur - Húrra nú ætti að vera ball. Svanhildur - Húrra nú ætti að vera ball er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1967. Á henni flytur Svanhildur Jakobsdóttir og sextett Ólafs Gauks fjögur lög. Staðarbakkakirkja. Staðarbakkakirkja kirkja að Staðarbakka í Miðfirði. Þar er bændakirkja (útkirkja) sem þjónuð hefur verið frá næsta bæ, Melstað, frá árinu 1907. Núverandi kirkja þar var reist árð 1890 og tekur 120 manns í sæti. Hún er úr timbri en altaristöfluna málaði Eyjólfur Eyfells árið 1931. Sýnir hún Krist. Staðarkirkja (Hrútafirði). Staðarkirkja er kirkja að Stað í austanverðum Hrútafirði. Kirkjan á Stað var reist árið 1884 úr timbri og tekur alls um 80 manns í sæti. Hún var endurbyggð á árunum 1983 til '86 sem næst að upprunalegri gerð. Yfir altarinu er tréskurðarskreyting. Forn altaristafla kirkjunnar sýnir heilaga kvöldmáltíð en hún er máluð á tré. Staður var viðkomustaður landspóstsins áður en bílaumferð hófst yfir Holtavörðuheiði. Vestan Hrútafjarðarár á móts við Stað er verslunarstaðurinn Staðarskáli. Tjarnarkirkja (Vatnsnesi). Tjarnarkirkja er kirkja að Tjörn á vestanverðu Vatnsnesi. Kirkan þar var reist á árunum 1930 til 1940 úr steinsteypu. Alls tekur kirkjan milli 70 og 80 manns í sæti en altaristafla er eftir Þórarinn B. Þorláksson, máluð 1910. Er hún eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík eftir G.T. Wegener. Frá Tjörn er víðsýnt yfir Húnaflóa og til Stranda. Inn af Tjörn opnast mikill dalur sem teygir suður í Vatnsnesfjall. Klofnar hann í Þorgrímsstðadal og Katadal að austan. Jörðinni á Tjörn fylgja ýmiss hlunnindi s.s. reki og veiði. Vesturhópshólakirkja. Vesturhópshólakikja er kirkja að Vesturhópshólum í Vesturhópi. Bærinn er ysti bær í sveitinni og dregur nafn sitt af urðartungu sem hefur hreyfst úr fjallinu fyrir ofan. Kirkjan á Vesturhólshólum var byggð árið 1879 en hún var bændakirkja allt fram til 1959. Henni tilheyrir predikunarstóll sem talinn er vera frá 17. öld. og talinn smíðaður af Guðmundi Guðmundssyni „bíld“ frá Bjarnastaðahlíð. Altaristaflan í kirkjunni sýnir Krist á krossinum og er hún talin vera gömul. Á henni kemur fram nafnið Bertel Øland og ártalið 1761. Hvort tveggja, predikunarstóll og altaristafla, er talið vera komið úr kirkjunni á Höskuldsstöðum í Vindhælishrepp. Víðidalstungukirkja. Víðidalstungukirkja er kirkja í Víðidalstungu í Víðidal. Bærinn stendur á tungunni milli Víðidalsár og Fitjár. Mestu kostir jarðarinnar til fornar voru uppgripaheyskapur og laxveiði í ánum. Kirkja staðarins var byggð árið 1889 en hún er úr timbri. Alls komast 100 manns á kirkjubekkina. Ásgrímur Jónsson málaði altaristöfluna árið 1916 en hún sýnir fjallræðuna. Flateyjarbók var rituð í Víðidalstungu um 1400 en hún er ein stærsta og merkilegasta skinnbók sem varðveist hefur á Íslandi. Jón Hákonarson (f. 1350), bóndi á staðnum, lét skrifa bókina en talið er að 113 kálfsskinn hafi þurft til verksins. Vídalínsætt átti Víðidalstungu í á 5. hundrað ár en af þeirri ætt var m.a. Páll Vídalín (1667-1727) lögmaður. Hann vann Jarðabók með Árna Magnússyni prófessor og handritasafnara. Breiðabólsstaðarkirkja (Vesturhópi). Breiðabólsstaðarkirkja er kirkja að Breiðabólsstað í Vesturhópi. Núverandi kirkja þar var reist árið 1893 úr timbri. Í henni er altaristafla eftir Anker Lund frá árinu 1920 en hún sýnir Jesú blessa börnin. Um 1100 bjó á Breiðabólsstað Hafliði Másson sem sá um að íslensk landslög yrðu færð í letur árið 1117. Um hann var reistur minnisvarði árið 1974 af Lögmannafélagi Íslands. Þá var þar starfrækt prentsmiðja frá 1535 til 1572. Það var Jón Arason Hólabiskup sem lét flytja prentsmiðjuna inn. Með henni kom séra Jón Matthíasson (d. 1567) og fékk hann Breiðabólsstað árið 1535. Vitað er um 3 bækur sem prentaðar voru á staðnum en ein þeirra er með öllu glötuð. Fárviðri. Fárviðri á við vindhraða, samsvarandi 12 vindstigum (vindhraði meiri en 32,7 m/s) á vindstigakvarðanum (Beaufortskvarðanum). Orðið er stundum notað yfir illviðri. Ofsaveður. Ofsaveður er heiti vindhraðabils, sem svarar til 11 vindstiga (28,5 - 32,6 m/s) á vindstigakvarðanum (Beaufortskvarðanum). Rok. Rok er heiti vindhraðabils, sem svarar til 10 vindstiga (24,5 - 28,4 m/s) á vindstigakvarðanum (Beaufortskvarðanum). Slydda. Slydda, kraparigning eða bleytukafald er rigning sem er á mörkum þess að vera snjór. Íðorðafræði. Í íslensku eru mörg samheiti yfir slyddu eins og "bleytuhríð", "hlussuhríð" (eða "hlussudrífa"), "krepja", "lonsa", "slepjuveður" og "slúð". Slydda kallast "klessingur" eða "níðsla" (það er slydda sem frýs er niður kemur, samanber "níðslubyr") þegar hún fellur á jörðina og talað er um að „það slyddi“ eða „það krepji“. Stangveiðifélag Reykjavíkur. Stangveiðifélag Reykjavíkur eru stærstu félagasamtök áhugamanna um stangveiði á Ísland, stofnað 17. maí árið 1939. Skrifstofa félagsins er við Háaleitisbraut í Reykjavík. Fjöldi félagsmanna 2007 var yfir 2600. Tilgangur félagsins er að geta boðið félagsmönnum veiðileyfi á hagstæðum kjörum og í þeim tilgangi leigir félagið veiðisvæði af veiðiréttareigendum og endurselur til félagsmanna. Félagið stuðlar einnig að vexti og viðgangi veiðiíþróttarinnar með öflugu fræðslu- og útgáfustarfi. Félagið gefur út tímaritið Veiðimaðurinn sem kemur út 4 á sinnum á ári og fréttablaðið Veiðifréttir sem kemur út 7 sinnum á ári. Verndun villtra laxastofna er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins og vinnur félagið að því m.a. með takmörkun á fjöldra veiddra fiska þar sem það á við, banni á ákveðnum veiðarfærum á tilteknum tímum eða svæðum, veiða-sleppa fyrirkomulagi, og síðast en ekki síst með uppkaupum eða leigu á netaveiðirétti. Félagið hefur uppá að bjóða veiðileyfi hvort sem er fyrir lax eða silung, bæði í ám og vötnum. Á vegum félagsins eru núna tæplega 40 laxveiðisvæði og u.þ.b. 35 silungsveiðisvæði. Félagið hefur lengi haft uppi áform um að reisa bækisstöðvar við Elliðaár í Reykjavík, en skiptar skoðanir eru um þau áform. Silungur. Silungur er samheiti fyrir urriða og bleikju, hvort sem er staðbundin eða sjógengin afbrigði sem oftast eru kölluð sjóbirtingur og sjóbleikja. Ra. Ra (fornegypska: Rꜥ "Re") var sólguð í fornegypskri goðafræði. Hann réð yfir himninum, jörðinni og undirheimum. Ra var guð hádegissólarinnar og varð höfuðguð trúarbragðanna á tímum fjórðu konungsættarinnar. Hann var einkum dýrkaður í Helíópólis. Litið var á faraóa sem syni Ra og holdgervingu hans á jörðu niðri. Ra rann snemma saman við guðinn Hórus og var dýrkaður sem Re-Horakty („Ra, sem er Hórus tveggja sjóndeildarhringa“). Hann er sýndur sem maður með fálkahöfuð og sólskífu á höfði sem slanga hringar sig um. Á tímum Miðríkisins var Ra í auknum mæli sameinaður öðrum höfuðguðum eins og Amún og Ósíris og tók yfir hlutverk þeirra. Á tímum Nýja ríkisins, þegar dýrkun guðsins Amún jókst, var hann sameinaður honum og dýrkaður sem Amún-Ra. Þegar kristni reis til áhrifa innan Rómaveldis lagðist átrúnaður á Ra af meðal Egypta. Bris. Briskirtill eða bris er líffæri í hryggdýrum, sem framleiðir hormón og brissafa. Brisið telst því bæði vera út- og innkirtill og er hluti af meltingarkerfinu. Eftir dauða dýrs minnkar eða hverfur brisið vegna sjálfsmeltingar. Í manni er brisið um 15-25 cm á lengd og vegur um 65-75 g. Žemaičių Kalvarija. Žemaičių Kalvarija er þorp í Litháen. Árið 2001 bjuggu 798 manns þar. Lausamjöll. Lausamjöll er nýfallinn snjór sem er laus í sér. Lausamjöll er stundum einnig nefnd "(snjó)mulla", "esja" eða "ysja". Þetta eru þó frekar sjaldgæf orð. Orðskrípið "púðursnjór", sem heyrist stundum haft um lausamjöll, er hrá þýðing úr ensku ("powder snow"). Lausamjöll er ákveðin tegund af snjóbreiðu sem fellur aðeins í miklu frosti við afar lágt rakastig, og er þar af leiðandi léttur í sér og þurr (4-7% rakastig). Skíðafæri í djúpum ósnortnum lausasnjó er mjög eftirsótt af skíða- og snjóbrettafólki, en slíkar aðstæður er algengastar í Klettafjöllum Norður-Ameríku og einnig víða í Japan. Nútímabörn. Nútímabörn var íslensk þjóðlagarokksveit sem starfaði árið 1969 og gaf út eina breiðskífu, "Nútímabörn", sama ár. Platan innihélt mest erlend lög með íslenskum textum en líka tvö frumsamin lög eftir Ágúst Atlason. Hljómsveitina skipuðu Drífa Kristjánsdóttir, Ágúst Atlason, Ómar Valdimarsson, Snæbjörn Kristjánsson og Sverrir Ólafsson. Leirfinnur. Leirfinnur er gælunafn notað um leirstyttu, sem kom við sögu í Geirfinnsmálinu. Er brjóstmynd af karlmanni, sem listakonan Ríkey gerði eftir lýsingu sjónarvotta, af manni sem hringdi úr Hafnarbúðinni í Keflavík, kvöldið 19. nóvember 1974. Talið var að óþekkti maðurinn hafi hringt í Geirfinn Einarsson og boðaði hann á stefnumót umrætt kvöld, en ekkert hefur síðar spurst til Geirfinns. Leirstyttan var gerð í þeim tilgangi að hafa upp á manninum sem hringdi úr Hafnarbúðinni með því að birta ljósmynd af styttunni í dagblöðum og lýsa þannig eftir honum. Nafnið "Leirfinnur" á einnig við um þennan óþekkta mann. Því hefur verið haldið fram að leirstyttan hafi vísvitandi verið látin líkjast Magnúsi Leopoldssyni, fasteignasala, sem síðar var handtekinn og haldið í einangrun í 105 daga í Síðumúlafangelsi. Teiknari úr Keflavík, Magnús Gíslason, hefur sagt að rannsóknarmenn hafi látið sig hafa ljósmynd af Magnúsi Leopoldssyni, sem fyrirmynd að teikningu, sem hann átti að gera af umræddum "Leirfinni". Þessi ásökun hefur þó verið borin til baka opinberlega. Leikin heimildakvikmynd, "Aðför að lögum" eftir Sigurstein Másson, Kristján Guy Burgess og Einar Magnús Magnússon, fjallar um Geirfinnsmálið, þar með talið um "Leirfinn". Keltahaf. Keltahaf (írska: "An Mhuir Cheilteach"; velska: "Y Môr Celtaidd"; kornbreska og devonska: "An Mor Keltek"; bretónska: "Ar Mor Keltiek") er hafsvæði í Norður-Atlantshafi úti fyrir ströndu Suður-Írlands, Kornbretalands og Wales. Samloka. Samloka er tvær, eða fleiri, brauðsneiðar með áleggi á milli. Áleggið getur verið margs konar, til dæmis kjöt, grænmeti, ostur eða sulta. Brauðið er oftast smurt með smjöri, smjörlíki eða majonesi. Valladolid. Valladolid er höfuðborg Kastilíu og León á Spáni. Íbúafjöldinn var áætlaður 319.943 árið 2006 en séu íbúar aðliggjandi byggða taldir með verður fjöldinn 400.653. Kantabría. Kantabría (spænska: "Cantabria") er sjálfstjórnarhérað á Norður-Spáni. Bălţi. Bălţi er borg í Moldóvu, auk þess að vera stærsta borg, iðnaðar- og verslunarmiðja landsins. Borgin er í miðju landsins við ánna Răut. Árið 2004 voru íbúar borgarinnar 126.000 talsins. Kúlulán. Kúlulán (e. "bullet loan") eða eingreiðslulán eru yfirleitt langtímalán þar sem engin afborgun á sér stað fyrr en við lok lánstímans. Vextir eru annað hvort greiddir reglulega, t.d. einu sinni á ári, eða endurlánaðir og bætast þá við höfuðstól lánsins. Slík lán eru gjarnan kölluð blöðrulán vegna þess hvernig þau „blása út“. Þessi tegund lána hefur þann kost fyrir lántakandann að hann hefur fjármagnið lengur í höndum sínum sem samsvarar þeim afborgunum sem hann hefði annars þurft að greiða á lánstímanum. Ókosturinn felst hins vegar í hárri lokagreiðslu þar sem greiða þarf upp allan höfuðstólinn í einni greiðslu. Algengast er að lántakandinn endurfjármagni þá lánið. Kjartan Ólafsson (tónlistarmaður). Kjartan Ólafsson (fæddur 1958) lauk stúdenstprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1980. Hann stundaði nám við nýstofnaða tónfræðadeild í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk prófi í tónsmíðum þaðan árið 1984. Næstu tvö árin stundaði hann nám í raftónlist í Hollandi við Utrecht Conservatory og Institute for Sonologie. Frá 1986 til 1995 stundaði hann tónsmíðanám hjá Einojuhani Rautavaara og Paavo Heininen við Sibeliusarakademíunni í Finnlandi þaðan sem hann lauk Licentiat (PhD) gráðu í tónlist. Tónverk Kjartans teljast tæplega hundrað og má þar nefna einleiksverk, söngverk, ballettverk, leikhúsverk, óperur, kammerverk, raftónverk, dægurtónlist, barnatónlist, spunatónlist, kórverk, konserta og hljómsveitarverk. Frá 1988 hefur Kjartan unnið að hönnun og þróun tónsmíðaforritsins CALMUS. Forritið byggir m.a. á gervigreindartækni og er hannað sérstaklega fyrir nútímatónsmíðar og rannsóknir. Á meðal verkefna sem tengjast því má nefna rannsóknir og hönnun reiknimódela á sviði gervigreindar fyrir tónsmíðalega framvindu, reiknislegt mat á hljómum með tilliti til ómstreytu, lita, tónbila, yfirtónaskyldleika og hljómaframvindu. Þá má nefna rannsóknir á sviði laglínugerðar með gervigreindartækni í hlutbundnu forritunarumhverfi ásamt reiknislegum samanburði í laglínu- og hljómagerð. Í tengslum við þessi verkefni hefur hann notið styrkja m.a. frá Sibelius Akademíunni, finnska menntamálaráðuneytinu, Rannís, menntamálaráðuneytinu á Íslandi og NorFa. Kjartan hefur ritað greinar og haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um algrímskrar aðferðir í gervigreindarumhverfi fyrir tónlist og rannsóknir á því sviði, m.a. við Háskóla Íslands, Sibeliusar Akademíuna í Finnlandi, New York University, á alþjóðlegu ICMC tölvutónlistarhátíðinni, International Computer Music Festival, og við EMS – Electro-Acoustic Music stofnunina í Svíþjóð. Tónlist hans hefur verið flutt opinberlega víða um heim s.s. á hinum ýmsum tónlistarhátíðum - Norrænum músíkdögum, ISCM - International Society for Contemporary music, Avanti sumarhátíðin í Finnlandi, Myrkum músíkdögum, ICMC - International Computer Music Festival og Listahátíð í Reylkjavík. Kjartan starfar á Íslandi sem tónskáld, kennari við Tónlistardeild Listaháskóla Íslands, og að ýmsum rannsóknum á sviði tónlistar. Þá hefur hann starfað að ýmsum félagsmálum m.a. fyrir UNM, Ung Nordisk Musik, STEF og Tónskáldafélag Íslands og starfað að tónleikahaldi m.a. í samvinnu við Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 og Listahátíð í Reykjavík. Árið 2005 var Kjartan Skipaður prófeesor í tónsmíðum og tónfræði við Listaháskóla Íslands. Lúðrasveit Reykjavíkur - The Reykjavík City Band. Lúðrasveit Reykjavíkur - The Reykjavík City Band er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Stjórnandi er Páll P. Pálsson. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristján Magnússon. Hannes Jón - Hannes Jón. Hannes Jón er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Sigurgeir Sigurjónsson. Jörundur Þorsteinsson. Jörundur Þorsteinsson var biskup á Hólum frá 1267 til dauðadags, 1313. Foreldrar Jörundar voru Þorsteinn Einarsson og Guðlaug Grímsdóttir. Hann lærði hjá Brandi Jónssyni ábóta í Þykkvabæjarklaustri, síðar biskupi. Taldi Brandur Jörund vera minnugastan þeirra sem hann hafði kennt. Jörundur var vígður biskup 1267 og var Hólabiskup í 46 ár. Hann var hagsýnn og hygginn stjórnandi, auðgaði mjög Hólastól og endurbyggði dómkirkjuna á staðnum (skömmu eftir 1280). Hann setti nunnuklaustur á Reynistað 1295 og munkaklaustur á Möðruvöllum í Hörgárdal 1296. Hann var fylgjandi hinum fornu kirkjustjórnarháttum og fylgdi ekki Árna Þorlákssyni Skálholtsbiskupi í staðamálum síðari, þ.e. í kröfum um að kirkjan fengi yfirráð yfir kirkjustöðum. Jörundur andaðist 1. febrúar 1313, þá orðinn ellimóður mjög. Ketill Þorsteinsson. Ketill Þorsteinsson (latína "Ketillus Thorsteini filius", 1075–7. júlí 1145) var biskup á Hólum frá 1122 til dauðadags, 1145, eða í 23 ár. Faðir Ketils var Þorsteinn Eyjólfsson (Guðmundssonar ríka á Möðruvöllum í Eyjafirði). Móðir ókunn. Ketill fæddist um 1075, og hefur líklega alist upp á Möðruvöllum. Síðar tók hann við staðarforráðum þar og varð með mestu höfðingjum norðanlands. Hann mun hafa verið með í ráðum þegar biskupsstóll var settur á Hólum 1106. Ketill var kjörinn biskup eftir Jón Ögmundsson og var vígður af Össuri erkibiskupi í Lundi 12. febrúar 1122. Þingeyraklaustur var formlega stofnað 1133, í biskupstíð Ketils, þó að hugsanlegt sé að þar hafi verið vísir að klaustri fyrir. Ketill var vinsæll maður og virtur og hefur haft menningarlegan metnað. Í formála Íslendingabókar segist Ari fróði hafa gert hana fyrir biskupana, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og þeir lesið hana yfir og sett fram tillögur um breytingar og viðauka. Kristinréttur hinn forni eða Kristinréttur eldri var settur í tíð þessara sömu biskupa, 1122-1133, og er hann stundum kenndur við þá. Össur erkibiskup átti nokkurn þátt í að ráðist var í að semja og lögtaka kristinréttinn. Ketill andaðist að Laugarási í Biskupstungum 7. júlí 1145, þar sem hann var staddur í tilefni af samkomu í Skálholti. Rósa Ingólfsdóttir - Rósa. Rósa er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmynd á plötuumslagi tók Óli Páll. Þorsteinn Ingi Sigfússon. Þorsteinn Ingi Sigfússon'", eðlisfræðingur og prófessor við HÍ (fæddur í Vestmannaeyjum 4. júní, 1954), er frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi. Stúdent frá MH 1973, nám í eðlisfræði og stærðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn 1973-1978 og doktorspróf frá háskólanum í Cambridge á Bretlandi 1982. Hefur stofnað mörg sprotafyrirtæki, m.a. Íslenska NýOrku ehf. og sýnt fram á að nota megi vetni til að knýja ökutæki. Sæmdur riddarakrossi hinnar íslenzku fálkaorðu 2004. Hlaut Alheimsorkuverðlaunin í júní 2007 (um 27 milljónir íslenskra króna, þar af um helminginn til persónulegra nota) og gegnir starfi forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá sama mánuði. Þorsteinn er bróðir Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ, Þórs Sigfússonar fyrrverandi forstjóra Sjóvar hf. og Gylfa Sigfússonar forstjóra Eimskipafélags Íslands hf. Þuríður og Pálmi syngja lög eftir Gunnar Þórðarson. Þuríður og Pálmi syngja lög eftir Gunnar Þórðarson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Umsjón með hljóðritun fyrir hönd SG-hljómplatna hafði Ólafur Gaukur (en það var einmitt hann, sem gerði texta við fyrstu lög Gunnars, sbr. "Bláu augun þín"). Íslenska alfræðiorðabókin A-Ö. "Íslenska alfræðiorðabókin A-Ö" er alfræðirit á íslensku, sem gefið var út árið 1990 af bókaútgáfunni Erni og Örlygi. Bókin er í þremur bindum, inniheldur um 37.000 efnisorð og 4.500 teikningar og kort, og er jafnframt fyrsta íslenska alfræðiritið, almenns umfangs sem samið er fyrir fullorðna lesendur. Ritstjórar voru Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Önnur prentun var gerð 1992. Bókin er byggð á danska alfræðiritinu Fakta, Gyldendals etbinds leksikon sem gefið var út 1988. Samningar um útgáfuna tókust 1987 og upphaflega stóð til að alfræðiorðabókin kæmi út samhliða dönsku útgáfunni. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Glugginn hennar Kötu. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Glugginn hennar Kötu er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Tannlæknasalnum undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Hinar afbragðs góðu útsetningar á lögunum gerði Jón Sigurðsson, sem jafnframt stjórnar hljómsveit. Má segja að í hljómsveitinni sé valinn maður í hverju rúmi. Ljósmynd á plötuumslagi tók Óli Páll. Illustrated London News. Illustrated London News er tímarit stofnað af Herbert Ingram og Mark Lemon sem þá var ritstjóri háðsádeiluritsins Punch. Fyrsta tölublaðið kom út 14. maí 1842 og kostaði sex pens. Það innihélt sextán síður og 32 tréskurðarmyndir. Illustrated London News kom út vikulega til ársins 1971 þegar því var breytt í mánaðarrit. Frá 1989 var það gefið út annan hvern mánuð, síðan ársfjórðungslega og að síðustu tvisvar á ári. Kjarnaskógur. Kjarnaskógur er skógur og útivistarsvæði í Kjarnalandi í Eyjafirði milli Kjarnalæks og Brunnár rétt vestan við Akureyri. Landið komst í eigu Akureyrarbæjar frá 1910 og var nýtt af bæjarbúum fyrir grasnytjar og garðrækt til 1946 þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk þar aðstöðu. Markviss skógrækt hófst síðan 1952. Ríkjandi trjátegundir í skóginum eru birki og lerki. Björn Gilsson. Björn Gilsson (f. um 1100, d. 20. október 1162) var biskup á Hólum frá 1147 til dauðadags, 1162, eða í 15 ár. Foreldrar Björns voru Gils Einarsson á Þverá (Munkaþverá) í Eyjafirði, og Þórunn Bjarnardóttir, sonardóttir Þorfinns karlsefnis á Reynistað. Bróðir Bjarnar og alnafni var Björn Gilsson (d. 1181), síðar ábóti á Munkaþverá. Björn hefur líklega verið fæddur um 1100. Hann lærði hjá Teiti Ísleifssyni í Haukadal, syni Ísleifs Gissurarsonar biskups. Björn var kjörinn Hólabiskup 1146 og var vígður af Áskatli erkibiskupi í Lundi 4. maí 1147. Hann virðist hafa haft góða stjórn á fjárhag biskupsstólsins. Árið 1155 gaf hann föðurleifð sína, Þverá í Eyjafirði, til munkaklausturs og heitir þar síðan Munkaþverá. Þar var klaustur af Benediktsreglu. Björn Gilsson andaðist 20. október 1162. Reynir Jónasson - Leikur 30 vinsælustu lög síðustu ára. Reynir Jónasson - Leikur 30 vinsælustu lög síðustu ára er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun Péturs Steingrímssonar. Útsetningar gerði Ólafur Gaukur, sem jafnframt stjórnaði hljóðritun. Ljósmynd á plötuumslagi tók Jóhannes Long. Einsöngvarakvartettinn - Einsöngvarakvartettinn. Einsöngvarakvartettinn - Einsöngvarakvartettinn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda. Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda var stofnað 9. febrúar 1916. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Thor Jensen, þáverandi aðaleigandi og framkvæmdastjóri Kveldúlfs hf.. Var hann fyrsti formaður félagsins, en með honum í stjórninni voru þeir Th. Thorsteinsson, varaformaður, Ágúst Flygenring, ritari, Jes Zimsen, gjaldkeri og Magnús Einarsson dýralæknir, meðstjórnandi. Síðari formenn félagsins voru Ólafur Thors frá 1918 til 1935 og Kjartan Thors frá 1935 til 1959. Þverflauta. Þverflauta er blásturshljóðfæri sem haldið er út til hægri frá munni flautuleikarans. Á henni eru 16 göt sem ráða tónunum. Saga. Þverblásnar flautur eru meðal elstu hljóðfæranna, allt frá beinflautum frumþjóða. Elstu áreiðanlegar heimildir um þverflautur eru frá 10. öld. Þó er vitað að öldunum fyrir Krist voru til þverflautur með sex götum. Á þessum tíma voru þær oftast smíðaðar úr tré. Þverflauturnar urðu vinsælar í Evrópu á 12. öld. Fjallabláklukka. Fjallabláklukka (fræðiheiti: "Campanula uniflora") er lítil fjölær jurt sem ber aðeins eitt blátt blóm á hverjum stilk. Hún er algeng á norðurslóðum þar sem hún vex í kalkríkum jarðvegi til fjalla. Á Íslandi er fjallabláklukka fremur sjaldséð og er algengust í fjallshlíðum við Eyjafjörð. Skollakambur. Skollakambur (fræðiheiti: "Blechnum spicant") er burkni sem er algengur um alla Evrópu. Á Íslandi er skollakambur fremur sjaldgæfur en vex á láglendi þar sem snjóþyngsli eru mjög mikil í fjörðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Eitt smávaxið afbrigði skollakambs sem vex á jarðhitasvæðum (var. "fallax") er aðeins þekkt á Íslandi og er alfriðað. Tjarnalaukur. Tjarnalaukur (fræðiheiti: "Littorella uniflora") er vatnajurt sem vex í grunnum vötnum eða tjörnum. Hann myndar um 12 sm löng blöð og 15 sm langar renglur. Á Íslandi er tjarnalaukur fremur útbreiddur á suðvesturlandi en sjaldséður annars staðar. Mykines. Kort af Færeyjum sem sýnir staðsetningu Mykiness. Mykines er vestust Færeyja og er um 11 km² að flatarmáli. Á eyjunni er samnefnt þorp þar sem hafa búið flestir um 180 manns árið 1925, en nú aðeins um tíu. Sundið á milli Mykiness og Vága kallast Mykinesfjörður. Ferja siglir milli Mykiness og Vága. Byggð. Mykines er fyrst nefnt í heimildum um 1400 en grasafræðingurinn Jóhannes Jóhansen telur að ræktun hafra hafi byrjað í Mykinesi um miðja 7. öld og hafi þar keltneskir einsetumenn og munkar verið að verki. Um 200 árum síðar virðist ræktun byggs hafa hafist með komu norrænna landnámsmanna. Annars voru fiskveiðar og sauðfjárrækt atvinnuvegir eyjarskegga og eitt sinn voru yfir þúsund kindur á eynni. Í Mykinesi hefur orðið mikil fólksfækkun eins og í öðrum úteyjum Færeyja. 61 íbúi var þar árið 1769, 100 árið 1850, 179 árið 1925 og voru þá 27 börn í skólanum, en 1970 hafði íbúum fækkað í um 60 og voru flestir við aldur. Í apríl 1595 herma sagnir að um fimmtíu bátar frá Mykinesi hafi farist í óveðri og með þeim allir uppkomnir karlmenn á eynni. Byggðin í eynni er öll í einu þorpi, Mykinesi, og hefur svo líklega alltaf verið nema þegar byggð var í Mykineshólma. Í þorpinu eru um fjörutíu hús en aðeins er búið í örfáum að staðaldri og eru íbúarnir nú um tíu talsins. Hin eru þó mörg hver nýtt á sumrin því þá fjölgar íbúum eyjarinnar til muna. Í þorpinu er skólahús, reist 1894, og kirkja sem byggð var 1879. Fyrsta sundlaug í Færeyjum var gerð í Mykinesi 1927 með því að gera stíflu neðan við hyl í á sem rennur gegnum byggðina. Myndlistarmaðurinn Mikines fæddist í Mykinesi árið 1906 og bjó þar. Vinnustofa hans er nú gistihús, Kristianshús. Mykineshólmur. Vestur af aðaleynni er hólmi sem heitir Mykineshólmur og er næststærsti hólmur Færeyja, skilinn frá eynni af mjórri gjá, Hólmgjógv. Í hólmanum er geysimikið fuglalíf eins og raunar á allri eynni og er þar eini varpstaður súlu í Færeyjum. Sagt er að ef súlan fyrirfinnst á einni af hinum eyjunum sé hún feig. Súlan kemur til hólmsins þann 25. janúar og dvelur þangað til ungviðið er flugfært, þann 11. nóvember. Á hólminum er einnig lundavarp. Göngubrú er út í hólmann og þar er viti, byggður 1909. Þá hófst byggð í Mykineshólma og voru þar mest 22 íbúar en þeir síðustu fluttu þaðan 1970, þegar vitinn varð sjálfvirkur. Vitinn er 14 metra hár og stendur á 113 metra háu bjargi. Flugslysið 1970. Austan til á eynni er fjallið Knúkur (560 m). Þar fórst Fokker F27-flugvél Flugfélags Íslands 26. september 1970 og með henni átta manns, þar á meðal flugstjórinn, en 26 björguðust, sumir illa slasaðir. Þrír færeyskir farþegar sem sluppu lítt meiddir gengu klukkutíma leið um óbyggt fjallendi að Mykinesþorpi til að gera viðvart. Fóru þá flestir íbúar þorpsins á slysstað til að liðsinna slösuðum en björgunarþyrla komst ekki strax á vettvang vegna þoku. Mýrfjóla. Mýrfjóla (fræðiheiti: "Viola palustris") er lítil fjölær jurt af fjóluætt sem vex í votlendi, rökum skógarlundum og við árbakka á norðurhveli jarðar. Á Íslandi er mýrfjóla algeng um allt land. Snæsteinbrjótur. Snæsteinbrjótur (fræðiheiti: "Saxifraga nivalis") er lítill fjölær steinbrjótur. Fræhirslan er efst á hærðum stöngli. Blöðin liggja með jörðinni og eru þykk, gróftennt og oft rauðleit að neðan. Snæsteinbrjótur vex um allt norðurhvel jarðar. Snæsteinbrjótur er algengur um allt Ísland, bæði á láglendi og hálendi. Blálilja. Blálilja (fræðiheiti: "Mertensia maritima") er fjölær jurt sem vex með jörðu í sand- og malarfjörum í Evrópu og Norður-Ameríku. Stönglarnir eru sléttir og blöðin egglaga með oddi og alveg hárlaus. Blómin eru lítil, blá og bjöllulaga. Á Íslandi finnst blálilja í fjörum allt í kringum landið. Fjallafræhyrna. Fjallafræhyrna (fræðiheiti: "Cerastium arcticum") er fjölær jurt sem vex á norðurslóðum. Hún vex í klösum í möl. Hún blómstrar í júlí-ágúst hvítum blómum sem sitja eitt á hverjum stilk. Blómin eru með fimm hálfklofin krónublöð. Á Íslandi finnst fjallafræhyrna til fjalla um allt land. Hóffífill. Hóffífill (fræðiheiti: "Tussilago farfara") er fjölær jurt sem vex gjarnan í röskuðum jarðvegi og í vegarköntum um allt norðurhvel jarðar. Hóffífill blómstrar snemma á vorin. Blómin eru gul og sitja efst á þykkum stönglum sem eru alsettir litlum mjóum blöðum. Við rótina vaxa svo stór og þykk blöð eftir blómgun. Hóffífill hefur verið notaður í grasalækningum en inniheldur eiturefni í blómknúppnum. Inniheldur eiturefni sem hefur pyrrolizidin kjarna. Fyrstu eitrunareinkenni eru magakrampar, ógleði og uppköst. Síðkomin einkenni eru meðal annars lifrarstækkun, skorpulifur vökvasöfnun í kviðarholi og jafnvel krabbamein Mikið magn hóffífils bendir til mikils magns af kalíum og magnesíum í jarðvegi. Hjartagrasaætt. Hjartagrasætt (fræðiheiti: "Caryophyllaceae") er ætt tvíkímblöðunga. Ættkvíslir hennar eru 88 talsins og tegundirnar um 2.000. Helsta vaxtarsvæði plantna innan ættarinnar er tempraða beltið en einnig fyrirfinnast þær til fjalla á heitari slóðum. Greiningareinkenni. Blöðin eru gagnstæð eða stundum stakstæð. Blómin eru regluleg og oftast tvíkynja. Bikarblöðin er 4-5 talsins og krónublöðin einnig. Ættkvíslir. Akurarfi ("Stellaria graminea") er af hjartagrasaætt Rökkvi Vésteinsson. Rökkvi Vésteinsson (fæddur 22. mars 1978) er úr Reykjavík. Hann er skemmtikraftur og uppistandari og fyrsti einstaklingurinn til að bera nafnið Rökkvi. Hann er stofnandi og eigandi síðunnar uppistand.is, sem er tileinkuð uppistandi á Íslandi. Rökkvi útskrifaðist með B.S.-próf í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og B.S.-próf í tölvunarfræði árið 2004. Uppistand víðsvegar um heiminn. Rökkvi hefur komið fram með uppistand á fjórum tungumálum: íslensku á Íslandi og Englandi, á ensku í Kanada, Írlandi, Hollandi og Belgíu, Skotlandi og Íslandi, á sænsku á Íslandi og á þýsku í Þýskalandi og á Íslandi. Árið 2006 vann hann í fyrstu umferð af The Great Canadian Laugh off keppninni í Ottawa, Kanada. Þátttaka í Fyndnasta manni Íslands og deilur við skipuleggjendur. Rökkvi hefur í tvígang tekið þátt í Fyndnasta manni Íslands keppninni, 2003 og 2007. Hann féll úr keppni í bæði skiptin í undanúrslitum. Í bæði skiptin gagnrýndi hann keppnina og framkvæmd hennar, sem var haldin af Vodafone 2003 (sem héldu keppnina aldrei aftur) og AM Events og Oddi Eysteini Friðrikssyni árið 2007. Góðgerðarstarf. Frá og með október 2007 hefur Rökkvi gefið allan ágóða af uppistöndum sínum, öðru gríni og framkomum til góðgerðarstarfsemi, m.a. til Barnaspítalasjóðs Hringsins, UNICEF og Umhyggju (Félag til stuðnings langveikum börnum) með það markmið að safna í heild einni milljón Innrásarvíkingarnir. Árið 2011 stofnuðu Rökkvi, Bergvin Oddsson og Óskar Pétur Sævarsson uppistandshópinn Innrásarvíkingana. Síðar tók Elva Dögg Gunnarsdóttir við af Óskari í hópnum. Innrásarvíkingarnir komu fram víðsvegar um Íslandi árið 2011 en hópurinn var síðan lagður niður. Grínhátíðir og innflutningur á erlendum uppistöndurum. Rökkvi hélt fyrstu grínhátíðina á Íslandi "Iceland Christmas Comedy Festival" í desember 2009, sem var aldrei haldin aftur. Árið 2012 hélt hann síðan grínhátíðina "Iceland Comedy Festival 2012" með grínistunum DeAnne frá Bandaríkjunum Smith og Freddie Rutz frá Sviss. Samkvæmt uppistand.is verður Iceland Comedy Festival haldin næst í nóvember 2013. Auk DeAnne Smith og Freddie Rutz hefur Rökkvi flutt inn og haldið uppistönd með belgíska grínistanum Lieven Scheire og kanadíska grínistanum John Hastings. Brasilískt jiu jitsu. Árið 2010 skoraði Rökkvi á uppistandarann Halldór Halldórsson að glíma við sig í brasilísku jiu jitsu, eftir að Rökkvi tók þátt í lítilli keppni í þeirri íþrótt, en Halldór tók ekki áskoruninni og því varð engin glíma milli þeirra. Árið 2013 skoraði Rökkvi síðan á söngvarann Geir Ólafsson að glíma við sig með blönduðum reglum af judo og brasilísku jiu jitsu, þar sem ágóði af glímunni færi til Barnaspítalasjóðs Hringsins. Rökkvi sigraði þá glímu og söfnuðust 56.500 kr fyrir Barnaspítalasjóð. Mons. Mons (hollenska: "Bergen") er höfuðborgin í héraðinu Hainaut í Belgíu. Íbúar eru 92 þús og eru frönskumælandi. Í Mons eru aðalstöðvar herja NATO. Lega og lýsing. Mons liggur milli tveggja lítilla hæðardraga sunnarlega í Belgíu, aðeins 10 km fyrir norðan frönsku landamærin. Áin Haine rennur við norðurjaðar borgarinnar. Næstu stærri borgir eru Tournai til vesturs (45 km), Charleroi til austurs (50 km), Brussel til norðausturs (65 km) og Cambrai í Frakklandi (70 km). Orðsifjar. Mons hét áður fyrr Castri Locus, sem merkir vinakastali. Á miðöldum var hins vegar talað um "Mont du lieu du château", þ.e. "fjallið við vinakastalann". Yfirleitt sögðu menn þó aðeins Mont, sem merkir fjall. Síðar breyttist rithátturinn í Mons við áhrif frá latínu. Á hollensku hefur heitið einfaldlega verið þýtt í Bergen, sem merkir "fjöll" (fleirtala). Upphaf. Mons varð til á tímum Caesars, en hann lét reisa þar virki og herstöð gegn göllum. Virkið stóð þar sem klukkuturninn er nú. Eftir brotthvarf Rómverja lá staðurinn í eyði, nema hvað klaustur var reist þar snemma á miðöldum. Í kringum það myndaðist byggðin. Á 12. öld lét Baldvin greifi af Hainaut reisa nýtt virki og varnargarð í kringum bæinn. 1295 tók Mons við sem höfuðstaður Hainaut greifadæmisins í stað Valenciennes. Íbúar voru þá orðnir 8.900 talsins. Stríð. Loðvík XIV Frakklandskonungur situr um Mons 1691 Borgin erfðist til Búrgúnds og síðar til austurrísku og spænsku línu Habsborgar. 1515 lét Karl V keisari greifann af Hainaut sverja sér trúnaðareið í borginni Mons. Í sjálfstæðisstríði Niðurlendinga seinna á öldinni var borgin á valdi Spánverja. 1572 tókst Lúðvík af Nassau að hertaka borgina og hrekja Spánverja burt. Tilgangurinn var að greiða leið Gaspard de Coligny frá Frakklandi til Niðurlanda. Sú von brást hins vegar er Coligny var drepinn í Bartólómeusarvígunum. Því náðu Spánverjar að hertaka borgina á ný í september á sama ári. Frá 1580 - 1584 var Mons höfuðborg spænsku Niðurlanda. Meðan 9 ára stríðið geysaði í Evrópu lagði Loðvík XIV Frakklandskonugur umsátur um Mons. Hún féll 8. apríl 1691 eftir níu mánuði. Borgin var á valdi Frakka allt til 1697, en við friðarsamninga stríðsins í Rijswijk skiluðu þeir Spánverjum borgina. Í spænska erfðastríðinu hertóku Hollendinga borgina eftir ósigur Frakka í orrustunni við Malplaquet (hjá Lille) 11. september 1709. Í friðarsamningum stríðsins í Utrecht 1713 fengu Hollendingar yfirráð yfir Mons, sem nokkurs konar útborg fyrir ágangi Frakka. Að öðru leyti var Belgía undir yfirráðum Austurríkis. Franski tíminn. 10. júlí 1746 hertóku Frakkar borgina enn á ný, en viðvera þeirra stóð stutt yfir. Þeir voru aftur komnir til Niðurlanda 1792. Franskur byltingarher og herir Austurríkis börðust í orrustunni við Jemappes (sem í dag er borgarhluti Mons), en þar voru Austurríkismenn gerðir afturreka og hurfu úr landi. Mons var innlimuð Frakklandi og varð að franskri borg. Eftir fyrra fall Napoleons 1814 yfirgáfu Frakkar borgina á ný og var hún þá tekinn af Vilhjálmi af Hollandi, sem varð fyrsti konungur Niðurlanda ári síðar. Í belgísku uppreisninni 1839 slitu Belgar sig lausa frá Hollandi. Mons tók þátt í uppreisninni og varð í kjölfarið að belgískri borg. Nýja stjórnin í Brussel ákvað að rífa niður öll varnarvirki í borgunum Mons, Charleroi og Namur. Þeirri vinnu var ekki lokið fyrr en á sjöunda áratug 19. aldar. Þetta skapaði mikið byggingapláss fyrir iðnað og íbúðahverfi. Mikill þungaiðnaður var starfræktur í Mons í iðnbyltingunni og var hann einn mesti efnahagsbakhjarl Vallóníu. Nýrri tímar. Í apríl 1893 hófst allsherjarverkfall í Belgíu, eitt það fyrsta í sögunni í iðnríki, eftir að stjórnin hafnaði almennum kosningarétti. Miklir bardagar blossuðu upp, sérstaklega í og við Mons. Margir létust í átökum við hermenn og lögreglu og hundruðir særðust áður en ástandið komst í eðlilegt horf aftur. Í fyrri heimstyrjöldinni réðust Þjóðverjar inn í Belgíu. 23. og 24. ágúst 1914 átti sér stað mikil orrusta í Mons. Breskur her var staðsettur þar og tók hann á móti þýska hernum. Þetta var fyrsta orrusta Breta í styrjöldinni. Orrustan stóð yfir í tvo daga og hörfuðu Bretar loks undan ofureflinu. Þjóðverjar héldu Mons allt til 1918, en þá frelsað kanadískur her borgina. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku Þjóðverjar borgina á nýjan leik. Hún varð fyrir talsverðum loftárásum bandamanna sökum iðnaðarins þar. Í septemberlok frelsuðu Bandaríkjamenn undir stjórn Pattons borgina, eftir nokkra bardaga við hörfandi Þjóðverja. Eftir stríð minnkaði þungaiðnaðurinn talsvert. 1967 flutti herdeild NATO til Mons, en hafði áður verið í Fontainebleau í Frakklandi. Ástæða þess að herstöðin flutti til Mons var sú að glæða átti atvinnulíf borgarinnar. Mons hefur verið valin sem menningarhöfuðborg Evrópu fyrir árið 2015, ásamt tékknesku borginni Pilsen. Viðburðir. Gullvagninn að keyra með helgriskrínið Ducasse de Mons eða bara Doudou er árleg hátíð sem haldin er heila viku eftir Hvítasunnu í borginni. Hún samanstendur af nokkrum hlutum. Í fyrsta lagi er helgiskrín heilagrar Valþrúðar fengið í hendur borgarstjóra. Daginn eftir er haldið í skrúðgöngu. Helgiskrínið er þá á gullvagni og er gengið til heiðurs heilagrar þrenningar. Göngufólk er prúðbúið skrúðklæðum. Hápunktur hátíðarinnar er helgileikur sem kallast Lumeçon. Leikurinn fer fram utandyra og sýna leikarar, sem allir eru áhugamenn, bardaga heilags Georgs við drekann. Leikur þessi á uppruna sinn á 14. öld eftir að borgin lá í lamasessi vegna svarta dauða. Leikþátturinn var settur á lista munnlegs og óáþreifanlegs menningararfs mannkyns árið 2005, en það er UNESCO sem gefur út þann lista. Í ágúst er haldin stríðsminningahátíðin Tanks in town til að halda uppá frelsun borgarinnar 1944. Skriðdrekar frá heimstyrjöldinni keyra síðari inn í borgina og er það stærsta samansafn heims með skriðdreka frá stríðinu. Byggingar og kennileiti. Valþrúðarkirkjan er bæði ókláruð og turnlaus í dag Vídalínspostilla. Vídalínspostilla (sem heitir fullu nafni "Húspostilla eður einfaldar predikanir yfir öll hátíða- og sunnudagaguðspjöll árið um kring", en er einnig stundum nefnd "Jónsbók"), er íslenskt guðræknirit sem var ein mest lesna bók á Íslandi í eina og hálfa öld. Hún kom út 1718-1720 og var kennd við höfund sinn, Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), biskup í Skálholti. Hún þótti sjálfstæðara verk en hinar hefðbundnu húslestrabækur. Jón notaðist ekki bara við þýsk og dönsk verk eins og tíðkaðist heldur má einnig greina áhrif frá ensku riti sem hann þýddi sjálfur úr dönsku. Vídalínspostilla var margoft endurprentuð og var til á flestum heimilum í um 150 ár eftir að hún var fyrst gefin út. Píslarsaga séra Jóns Magnússonar. Píslarsaga er rit sem séra Jón Magnússon (1610-1696) samdi og fjallar hún um þær hræðilegu plágur og píslir sem yfir hann höfðu gengið eftir að hann veiktist af völdum galdra (eftir því sem hann sjálfur hélt fram) árið 1655. Var ritið varnarskjal Jóns í málinu gegn Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði og jafnframt ákæra á hendur henni fyrir galdraofsóknir. Jón hafði áður fengið því framgengt að faðir hennar og bróðir voru brenndir á báli fyrir galdra. Barnalánið. "Barnalánið" kallast hluti af efnahagsráðstöfunum, sem ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens greip til í efnahagsþrengingum snemma á 9. áratugnum. "Barnalánið" voru tvö kúlulán sem ríkisstjórnin tók hjá Hambros-bankanum í London upp á 15 milljónir sterlingspunda árið 1981, og aðrar 15 milljónir árið 1983, alls 30 milljónir punda. Lánið hefur gjalddaga árið 2016 og hefur verið kallað „Barnalánið“ því ljóst var að það yrðu börn þeirra sem tóku lánið sem loksins greiddu það upp. Af láninu eru greiddir fastir 14.5% vextir árlega og er það í fullum skilum. Lánið er óverðtryggt en hins vegar er það háð breytingum á gengi sterlingspunds, sem var tæpar 15 krónur þegar lánið var tekið en er nú (apríl 2011) um 185 krónur. Því er áætlað er að uppgreiðslufjárhæð á gjalddaga verði um 5,5 milljarðar króna. Andvirði lánsins var nýtt til margvíslegra framkvæmda, m.a. til þess að minnka atvinnuleysi. Fjármálaráðherra var Ragnar Arnalds. Elly Vilhjálms - Heilsaðu frá mér. Heilsaðu frá mér er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytur Elly Vilhjálms tvö lög. Um verð. Verðið sem sést á bakhlið plötuumslagsins er verðið á plötunni árið 1968 í krónum talið. Svanhildur - Þú ert minn súkkulaði-ís. Svanhildur og hljómsveit Ólafs Gauks er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytur Svanhildur tvö lög. Hljómsveit Ólafs Gauks leikur undir. Hana skipa: Carl Möller, Kristinn Sigmarsson, Ólafur Gaukur og Erlendur Svavarsson. Elijah Wood. Elijah Wood (fæddur 28. janúar 1981) er bandarískur kvikmyndaleikari. Frægastur er hann fyrir að leika aðalhlutverk í stórmyndunum um Hringadróttinssögu ("Lord of the Rings"). Forsetakosningar á Íslandi 1996. Forsetakosningar 1996 voru hinar íslensku forsetakosningar sem fóru fram árið 1996, og enduðu þær með sigri Ólafs Ragnars Grímssonar. Auk neðangreindra var Guðrún Pétursdóttir meðal frambjóðenda frá því hún tilkynnti framboð sitt fyrst allra í janúar 1996 allt þar til hún dró það til baka hinn 19. júní. Var nafn hennar því ekki á kjörseðlum þó umdeilt hafi verið hvort sú ákvörðun kjörstjórnar ætti sér stoð í lögum. Samband ungra framsóknarmanna. Samband ungra framsóknarmanna (SUF) var stofnað þann 13. júní árið 1938 á Laugarvatni. Sambandið mynda 20 svæðisbundin aðildarfélög. Hlutverk sambandsins er að kynna stefnu Framsóknarflokksins á meðal ungs fólks á Íslandi, auka þátttöku og áhrif ungs fólks innan Framsóknarflokksins og berjast fyrir hagsmunamálum ungs fólks við stefnumótun innan flokksins og gera það hæfara til að taka þátt í stjórnmálastarfi. Sambandsþing, sem haldið er árlega, er æðsta stofnun sambandsins. 13 manna stjórn fundar mánaðarlega. 5 manna framkvæmdastjórn sér um daglegan rekstur samtakanna. Skrifstofa sambandsins er að Hverfisgötu 33 í Reykjavík. Sambandið á aðild að tveimur alþjóðlegum samtökum miðjuflokka, þ.e. Nordiska Centerungdomens Förbund (NCF) sem eru samtök ungliðahreyfinga miðflokka á Norðurlöndum og International Federation of Liberal Youth (IFLRY) sem eru samtök ungliðahreyfinga frjálslyndra flokka í heiminum. Ármenn. Ármenn eru eitt af nokkrum félagasamtökum áhugamanna um stangveiði á Ísland, stofnað 28. febrúar árið 1973. Félagið sker sig frá öðrum sambærilegum félögum með því að í lögum félagsins er það áskilið að í veiðiferðum á vegum félagsins, eða á veiðisvæðum sem það hefur yfir að ráða, sé eingöngu stunduð fluguveiði Félagið hefur lengi haft ítök í Hlíðarvatni í Selvogi þar sem það á veiðihús. Félagið á sína eigin félagsaðstöðu að Dugguvogi 13 í Reykjavík. Það gefur út félagsritið Áróð RMS Titanic. RMS Titanic, almennt þekkt sem Titanic, var breskt, gufuknúið farþegaskip og stærsta skip sem byggt hafði verið fram að því. Skipið lagði af stað í jómfrúarferð sína 10. apríl 1912. Skipið var á leiðinni til New York með stoppi í Frakklandi og Írlandi. Á fjórða degi siglingar 14. apríl kl. 23:40 sigldi skipið utan í borgarísjaka, rúmlega 600 km frá Nýfundnalandi. Klukkan 2:20 eftir miðnætti sökk skipið. Frýgísk tóntegund. Frýgísk tóntegund er ein kirkjutóntegundanna (sjá tónstigi). Hún er díatónísk, þ.e. misstíg líkt og dúr og moll, en litlu bilin liggja milli fyrsta og annars tóns og þess fimmta og sjötta. Landsbankadeild karla í knattspyrnu 2008. Árið 2008 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 97. skipti. Í fyrsta skipti var leikið í 12 liða deild og tók Fjölnir þátt í Landsbankadeild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Á árinu urðu Knattspyrnufélagið Fram sem og Knattspyrnufélagið Víkingur 100 ára, en Víkingar leika í 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar eftir æsispennandi lokabaráttu, en þeir voru í 2. sæti að lokinni 21 umferð, en Keflvíkingar þurftu að sætta sig við 2. sætið, eftir að hafa verið lengi vel með forystu í deildinni. Spáin. Spá þjálfara, fyriliða og forráðamanna allra liða í Landsbankadeild karla 2008 var gefin út 7. maí. Þar var Val spáð efsta sætinu en Fjölni og Grindavík falli. Áfangakerfi. Áfangakerfi á við skipulag framhaldsskóla þar sem nemendum er ekki skipað í bekki heldur sitja þeir áfanga í hverri námsgrein á hverri önn. Hverjum áfanga er lokið með prófi í lok annar en það veitir síðan nemanda venjulega heimild til þess að sitja næsta áfanga í sömu námsgrein á næstu önn. Hver áfangi veitir ákveðinn fjölda eininga, 2-3, eftir fjölda tíma í viku. Ef nemandi fellur á prófi, eða á annan hátt uppfyllir ekki skilyrði fyrir að hafa náð áfanganum, þarf hann að endurtaka prófið eða áfangann í heild sinni. Menntamálaráðuneytið setur reglur um fjölda þeirra eininga sem þarf að ljúka til þess að geta talist hafa lokið stúdentsprófi í ákveðinni námsgrein og/eða í heild. Áfangakerfi veitir nemendum aukið frelsi í námsvali þar sem þeir geta innan ákveðinna marka valið sér áfanga á önn og þannig t.d. tekið fleiri námsgreinar en skylt er og þannig flýtt fyrir sér í námi, eða tekið áfanga utan sinnar valinnar námsbrautar og þannig fengið aukna fjölbreytni í námið. Algengt er að nemendur í áfangakerfi ljúki stúdentsprófi á þremur árum eða af tveimur námsbrautum. Á meðal skóla sem starfa með áfangakerfi á Íslandi í dag nefna Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Borgarholtsskóla Stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur. Stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur er rit eftir Jón lærða Guðmundsson og er frá 17. öld. Þetta er skemmtileg blanda af athugunum og hjátrú. Fatnaður. Fatnaður, föt (eða klæðnaður) er sniðið efni sem ver mannslíkamann fyrir slæmu veðri og öðrum þáttum í umhverfinu. Fólk klæðist fötum vegna öryggisins, þæginda og til þess að gæta velsæmdar, föt eru einnig táknræn í menningar-, félags- og trúarlegum skilningi. Í gegnum sögna hafa föt verið gerð úr efnum eins og leðri og loði. Nú á dögum eru þau oft gerð úr tilbúnum eða nátturulegum þráðum. Það eru til rannsóknir sem stinga upp á að menn hafi verið í fötum í um það bil 650.000 ára. Talið er að hlutir eins og handtöskur, göngustafir og regnhlífar eru aukahlutir og ekki föt, en stundum eru höfuðföt og lítlar peysur til dæmis talin að vera aukuhlutir eða föt. Stál. Stál er málmblanda járns (Fe) og kolefnis (C), þar sem kolefnisinnihald er 0,02 - 2,04%. Hver. Hver er jarðhitalind með grunnvatni frá jarðskorpum. Það eru hverir víða um heim, í öllum heimsálfum og neðansjávar. Myntslátta. Myntslátta er verksmiðja þar sem gjaldmiðill er framleiddur. Brandur Sæmundsson. Brandur Sæmundsson (latína "Brandus Sæmundi filius", 1120–6. ágúst 1201) var biskup á Hólum frá 1163 til dauðadags, 1201, eða í 38 ár. Fjölskylda. Foreldrar Brands voru Sæmundur Grímsson og kona hans Ingveldur Þorgeirsdóttir. Sæmundur Grímsson faðir Brands, og Sæmundur fróði Sigfússon í Odda, voru bræðrasynir, og var Brandur því af ætt Oddaverja. Kona Brands var Auð-Helga Bjarnardóttir. Þau áttu tvö börn. Dóttir þeirra hét Guðrún Brandsdóttir, sem átti fyrr Pál Þórðarson í Vatnsfirði, síðar Arnór Kolbeinsson á Reynistað, af ætt Ásbirninga. Sonur þeirra hét Þorgeir Brandsson (d. 1186). Hann var nánasti vinur Guðmundar góða. Biskupsævi. Brandur var líklega fæddur um 1120, en fátt er vitað um uppvöxt hans. Hann var kjörinn Hólabiskup 1162 og var vígður 1163 í Niðarósi af Eysteini Erlendssyni erkibiskupi. Brandur þótti skörungur í embætti. Upp úr 1170 fór erkibiskup að hlutast til um málefni kirkju og þjóðar hérlendis, og sendi margar skipanir til Íslands, og um 1190 bætast einnig við tilskipanir páfa. Brandur Sæmundsson var fulltrúi goðakirkjunnar, og mun hafa reynt að sigla á milli skers og báru til að lenda ekki í deilum við frændur sína, Oddaverja. Um 1195 var Guðmundur góði Arason kominn í tölu helstu klerka norðanlands og hafði Brandur biskup mikið traust á honum, valdi hann t.d. skriftaföður sinn. Árið 1198 kom Guðmundur því til leiðar að Brandur vakti máls á helgi Þorláks Þórhallssonar og sendi Alþingi vitnisburði um jarteiknir hans. Varð það til þess að koma hreyfingu á málið, en Páll Jónsson Skálholtsbiskup hafði tregðast við. Brandur biskup mælti hin frægu orð um Hvamm-Sturlu: "Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um gæsku." Að gruna er hér í fornri merkingu, þ.e. 'talinn skorta'. Eftir að orðið 'gruna' fékk nýja merkingu breyttist málshátturinn: "Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um græsku". Orðið 'græska' merkir 'grályndi' eða 'illgirni'. Brandur Sæmundsson andaðist 6. ágúst 1201, þá talsvert hrjáður af elli. Fellaskóli. Fellaskóli er almennur grunnskóli í efra-Breiðholti. Hann var tekinn í notkun árið 1973 og þjónar aðallega nemendum úr Fellunum, neðri hluta Vesturbergs og neðri hluta Austurbergs. Skólinn er staðsettur við Norðurfell 17-19. Í skólanum er kennt í öllum árgöngum frá 1. til 10. bekk. Við skólann er íþróttahús en nemendur fá sundkennslu í Breiðholtslaug. Skólastjóri frá árinu 2007 er Kristín Jóhannesdóttir. Stór-Lundúnasvæðið. Stór-Lundúnasvæðið (enska: Greater London) er sýsla á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Svæðið var myndað opinberlega árið 1965 og inniheldur Lundúnaborg og þrjátíu og tvo borgarhluta, auk þess hundruð hverfa og nágrenna. Svæðið hefur hæstu landsframleiðslu á mann á Bretlandi. Það myndar kjördæmi í Evrópuþinginu. Stór-Lundúnasvæðið er 1.579 km² að flatarmáli og íbúatala var um það bil 7.512.400 manns árið 2006. Sýslurnar Essex, Hertfordshire, Buckinghamshire, Berkshire, Surrey og Kent allar umkringja Stór-Lundúnasvæðið. Thames. Tempsá eða Temsá (enska: "River Thames", [ˈtemz]) er helsta á Suður-Englands. Hún rennur um London, en einnig í gegnum borgirnar Oxford, Reading og Windsor. Hún önnur stærsta á Bretlands og stærsta áin sem rennur eingöngu um England. Tempsdalur dregur nafn sitt af ánni og umlykur hana milli Oxford og Vestur-London. Tempsárósinn er austan megin við London þar sem hún rennur í Norðursjó. Fleiri en 80 eyjar eru í ánni. Tower-brúin. Tower-brúin (enska: "Tower Bridge") er samsett hengibrú og reisibrú í London sem brúar Thamesá og er nærri Tower of London. Ferflötungur. Reglulegur ferflötungur, með allar hliðar jafn langar. Ferflötungur, fjórflötungur (einnig þrístrend strýta eða þrístrendur píramíti) er margflötungur með þríhyrndar hliðar og þríhyrndan grunnflöt. Ferflötungur er sagður "reglulegur" þegar allir kantar hans eru jafn langir. Formleg skilgreining. Látum "∆ABC" vera þríhyrning á sléttu og "D" vera einhvern punkt sem ekki er í sléttunni. Þá eru þrjár sléttur til sem skera hverja hlið þríhyrningsins og "D". Þríhyrningarnir "∆ABC", "∆ABD", "∆ACD" og "∆BCD" mynda þá ferflötung. Ef allir þríhyrningarnir eru jafnir nefnist ferflötungurinn reglulegur fjórflötungur eða "platónskur". Rúmmál. þar sem "F" er flatarmál grunnflatarins og "h" er hæðin frá grunnfletinum upp í toppinn. Orðið pýramídi er oft notað um ferflötung. London Eye. London Eye eða Millennium Wheel er risastórt parísarhjól á suðarbakka Thamesár í London. Bygging þess var fjármögnuð af British Airways og var það reist í tilefni af aldamótafögnuði Breta. Þegar það var byggt var það stærsta parísarhjól heims. Hjólið er vinsæll ferðamannastaður í London: 3,5 milljónir manns heimsækja það á hverju ári. Hjólið er 135 m hátt en arktitektarnir voru David Marks, Julia Barfield, Malcolm Cook, Mark Sparrowhawk, Steven Chilton, Frank Anatole og Nic Bailey. Þau hönnuðu líka klefana sem eru 32 samtals og með loftkælingu. Í hverjum klefa er pláss fyrir 25 manns. Snúningshraði hjólsins er 26 cm/s (0,9 km/klst) og það tekur þá 30 mínútur að snúast einu sinni. .do. .do er þjóðarlén Dóminíska lýðveldisins. .ca. .ca er þjóðarlén Kanada. .cc. .cc er þjóðarlén Kókoseyja. Þúsaldarhvelfingin. Þúsaldarhvelfingin (enska: Millennium Dome, eða í stuttu máli The Dome) er hvolfþakbygging í Greenwich, London. Árið 2000 var haldin sýning til að halda upp á þriðja árþúsundið. Frá 1. janúar 2000 til 31. desember hafði byggingin „Millennnium Experience“ sýninguna. Sýningin var umdeild og barðist við fjármálavanda. Sýningin hefur verið tekin niður og er byggingin í eigu Telefónica O2. Þess vegna er hún kölluð The O2. Classical Philology. "Classical Philology" er fræðitímarit um fornfræði sem háskólaútgáfa Chicago-háskóla gefur út. Tímaritið var stofnað árið 1906. Áhersla er lögð á klassískar bókmenntir og klassíska textafræði en tímaritið birtir einnig greinar um fornaldarsögu, heimspeki, trúarbrögð og listasögu. Classical Antiquity. "Classical Antiquity" er fræðitímarit um fornfræði sem Kaliforníu-háskóli í Berkeley gefur út. Tímaritið kom fyrst út árið 1982. "Classical Antiquity" kemur út annað hvert ár. Áhersla er lögð á þverfaglegar rannsóknir um forngrískar og latneskar bókmenntir, sögu fornaldar, fornleifafræði, listasögu og heimspeki fornaldar frá bronsöld til síðfornaldar. The Philosophical Quarterly. "The Philosophical Quarterly" er tímarit um heimspeki sem Blackwell Publishing gefur út fyrir hönd skoska heimspekifélahsins Scots Philosophical Club og St. Andrews University. Philosophical Quarterly The Journal of Philosophy. "The Journal of Philosophy" er fræðilegt tímarit um heimspeki sem Columbia-háskóli gefur út. Markmið þess er að birta greinar um það sem er efst á baugi í heimspeki og hvetja til skoðanaskipta, ekki síst um ýmislegt er varðar snertifleti heimspeki og annarra fræðigreina. Tímaritið var stofnað árið 1904 og hét þá "The Journal of Philosophy, Psychology, and Scientific Methods". Það hefur komið út undir núverandi titli frá árinu 1923. .hn. .hn er þjóðarlén Hondúras. .hm. .hm er þjóðarlén Heard og McDonaldseyja. .hk. .hk er þjóðarlén Hong Kong. .dd. .dd var tekið frá sem þjóðarlén Austur-Þýskalands en vegna endursameiningar Þýskalands 1990 var það aldrei tekið í notkun. Lén í austurhluta Þýskalands báru endinguna .de frá upphafi. .dz. .dz er þjóðarlén Alsír. Fimmtardómur. Fimmtardómur var dómstóll á Alþingi sem var stofnaður stuttu eftir árið 1000 og náði yfir landið allt. Til fimmtardóms var hægt að skjóta málum sem höfðu verið dæmd í fjórðungsdómum og var þetta því í rauninni hæstiréttur landsins. Í fimmtardóm voru skipaðir 48 menn en síðan mátti hvor málsaðili ryðja sex mönnum úr dómnum, þannig að 36 dæmdu. Þar réði einfaldur meiri hluti úrslitum mála. Þetta fyrirkomulag hélst út þjóðveldisöldina. Einangrari. Einangrari (stundum kallaður "rafsvari") er efni sem leiðir treglega rafstraum. Er notaður til að hindra skammhlaup og óæskilegan straum milli rafleiðara. Fullkominn einangrari hefur óendnlegt rafviðnám (rafleiðni núll), en öll efni verða rafleiðandi við nógu háa rafspennu. Einangrarar eru gerðir úr mismunandi efnum allt eftir því til hvers leiðarinn er ætlaður. Því þykkari sem einangrunin er, þeim mun hærri spennu þolir hann. Algengast er að einangrunin sé úr plasti en gallinn við plast er að það þolir ekki eins mikinn hita og mörg önnur efni. Ef leiðarinn er gerður til að þola mikinn hita getur einangrunin verið trefjagler, asbest eða önnur hitaþolin efni. Gæta verður að þegar slíkir leiðarar eru afeinangraðir er rykið, eða það sem tekið er af, hættulegt öndunarfærunum. Ef leiðarinn á að vera sérstaklega lipur er hann fjölþættur og einangraður með gúmmí. Til að gera leiðara sveiganlegan er stundum ysta kápan úr bómull eða næloni, til dæmis straujárnssnúrur. Vegemite. Vegemite er dökkbrúnt fæðumauk búið til úr geri og notað sem álegg á samlokur, ristað brauð og hrökkbrauð og sem fylling í bakstur. Vegemite er algengt viðbit í Ástralíu og Nýja-Sjálandi og oft er það talið með þjóðarréttum og tákn fyrir það fyrrnefnda. Það var fundið upp árið 1923 af Dr. Cyril P. Callister þegar fyrirtækið sem hann vann hjá fól honum að búa til mauk úr bjórgeri. Vegemite er aukaafurð úr bjórframleiðslu. Blandað er í ger ýmiskonar grænmeti og kryddi þannig að maukið verður salt, örlítið beiskt og með maltbragði. Maukið er slétt og seigfljótandi líkt og hnetusmjör og mysingur. Vegemite inniheldur mikið af B-vítamíni en í það er ekki bætt B-12 vítamíni. Endurvinnsla. Endurvinnsla er aðferð eða sú stefna að nýta hluta sorps til að búa til nýtilegt efni með því markmiði að minnka þörf á nýjum hráefnum og minnka mengun. Sorp, sem mögulegt er að endurvinna, er til dæmis gler, pappír, málmar, malbik, bylgjupappi, fatnaður og tiltekin plastefni. FTSE 100. FTSE 100 [ˈfʊtsiː] er bresk hlutabréfavísitala yfir 100 stærstu fyrirtækin sem skráð eru í kauphöllinni í London. Mælingar á vísitölunni hófust 3. janúar 1984 og var upphafsgildi hennar 1000. Tíbetreynir. Ber og blöð á Tíbetreyni að haustlagi Tíbetreynir (fræðiheiti: "Sorbus fruticosa") er reyniviður sem svipar til Koparreynis. Það er ræktað sem skrautrunni. Blómin og berin eru hvít. Hafþyrnir. Hafþyrnir (eða sandþyrnir eða tindaviður) (fræðiheiti: "Hippophae rhamnoides") er sumargrænn, fíngerður en kræklóttur og skriðull runni sem verður 0,5 til 6 metra hár en getur náð 18 metra hæð í Mið-Asíu. Blöðin eru gráblá og berin eru gulrauð. Hafþyrnir er harðgerð jurt og dafnar vel í rýrum sendnum og þurrum jarðvegi á sólríkum stöðum. Hann þolir vel saltan jarðveg. Hann er notaður sem landgræðslujurt. Lýsing. Greinar hafþyrnis eru þéttar og stífar og mjög þyrnóttar. Laufið er ljóssilfurgrænt, 2-8 sm langt og minna en 7 mm þykkt.Það er til bæði karl og kvenplöntur. Karlpönturnar framleiða brúnleit blóm sem framleiða frjókorn sem dreifast með vindi. Kvenplönturnar framleiða appelsínugul mjúk og safarík ber 6-9 mm í þvermál og innihalda berin mikið af C vítamíni. Sumar tegundir innihalda einnig mikið af A vítamíni og E vítamíni og ólíum. Berin eru mikilvæg vetrarfæða ýmissa fugla. Erfitt er að nýta hafþyrnir vegna þess hve þyrnar eru þéttir á runnunum. Venjuleg aðferð við uppskeru er að fjarlægja allan stofninn og frysta hann því þá detta berin af. Þessi aðferð eyðileggur stofninn. Stofnarnir eru skornir af, djúpfrystir niður að −32°C. Þeir eru svo örlítið endurþíddir á yfirborði til að losa berin frá stofnunum og síðan hreinsaðir. Berin eru svo kramin og hreinsuð og geymd við -22°C. Hafþyrnir hefur verið notaður sem landgræðsluplanta á Íslandi. Önnur aðferð sem ekki eyðileggur stofninn er að nota berjahristara. Á tímum kalda stríðsins þróuðu rússneskir og austurþýskir garðyrkjufræðingar nýjar tegundir hafþyrna með meira næringargildi, stærri ber og mismunandi þroskatíma og stofngerð sem auðveldara var að rækta og nytja. Hafþyrnir er vinsæl garðplanta og er jurtin notuð við landmótun, sérstaklega til að búa til þyrnigerði sem erfitt er að komast í gegnum. Greinar eru notaðar til skrauts. Ber hafþyrnis. Ber hafþyrnis eru æt og hafa mikið næringargildi þó þau séu súr og bragðvond hrá nema þau hafi verið fryst og/eða blönduð með ávaxtasafa sem er sætari svo sem eplasafa eða greipaldinsafa. Ber hafþyrnis eru einnig notuð í bökur og sultur. Safinn sem kemur úr pressuðum berjum skiptist í þrú lög: efst er þykkt appelsínugult krem, í miðju er lag sem inniheldur mikið magn af ómettuðum fitusýrum og neðst er botnlag eða dreggjar. Efstu tvö lögin eru unnin m.a. í húðkrem og ýmsar snyrtivörur en botnlagið er notað í safa, sultur og aðrar matarafurðir. Talið er að hollusta berja sé óvenjumikil sem afoxunarefni og komi að gangi m.a. til að hindra krabbamein. Hafþyrnir er ræktaður og notaður sem heilsujurt í Kína og Asíu til að stilla hósta og laga meltingu, draga úr sársauka og auka blóðflæði. Greinar og lauf hafþyrnis er notað í Mongólíu til að lækna meltingartruflanir. Börkur og lauf eru notuð við niðurgangi o.fl. Hægt er að nota blómin í húðkrem. Berin eru notuð í lækningaskyni og til að fyrirbyggja sjúkdóma. Rafleiðari. Rafleiðari (eða leiðari) er efni sem leiðir vel rafstraum og hefur því mikla rafleiðni, þ.e.a.s lágt rafviðnám. Algengasta efni í rafleiðara er kopar, en stundum er notað silfur eða gull í rafrásir. Silfur hefur mesta rafleiðni en er dýrari en kopar og gull er gjarnan notað í stað kopars vegna þess að það tærist síður. Einangrari er notaður til hindra skammhlaup. Lögmál Amperes og lögmál Biot-Savarts tengja saman raf- og segulsvið í rafleiðara, en jöfnur Maxwells er heildarkerfi jafna sem lýsa "rafsegulsviði". Lusitania. RMS Lusitania var breskt farþegaskip (skemmtiferðaskip þess tíma) sem var sjósett 7. júní 1906. Lusitaniu var sökkt í fyrri heimsstyrjöldinni við Írlandsstrendur þann 7. maí 1915 af þýskum kafbáti, U-20. 1198 manns létu lífið og varð þessi atburður til þess að mörg ríki snerust gegn Þjóðverjum. Kaka (tölvunarfræði). Kaka eða smygildi (enska "cookie") er gagnapakki sem vefþjónn sendir til vafra og inniheldur texta sem vafrinn sendir síðan til baka óbreyttan í hvert skipti sem hann hefur samskipti við vefþjóninn. Smygildiseitrun á við það að breyta köku til að komast yfir upplýsingar. 1006. a> við Berg-Önund Þorgeirsson. Málverk eftir Johannes Flintoe. Janez Janša. Janez Janša, skírður Ivan Janša, (f. 17. september 1958 í Ljubljana í Slóveníu) er slóvenskur stjórnmálamaður, formaður Lýðræðisflokks Slóveníu, fyrrverandi (2004 - 2008) og nuverandi (2012-) forsætisráðherra Slóveníu. Hann hefur verið formaður flokksins frá árinu 1993. Janez á tvö börn með Silva Predalič en hefur sést við opinber tækifæri með 28 ára lækni, Urška Bačovnik að nafni. Hann hefur gefið út nokkrar bækur. Tvær best þekktu þeirra eru "Premiki" (e. "The Making of the Slovenian State", 1992) og "Okopi" (e. "Barricades", 1994), sem fjallar um þróun Slóveníu í átt að þingræðislegu stjórnarfyrirkomulagi. Ferill. Janez útskrifaðist frá Háskólanum í Ljubljana árið 1982 með gráðu í varnarfræðum (e. defence studies) og hóf störf við slóvenska varnarmálaráðuneytið. Á yngri árum var hann meðlimur í kommúnistaflokknum og tók virkan þátt í félagsstarfi þar. Ári eftir útskrift sína birtist fyrsta grein hans sem gagnrýndi júgóslavneska herinn í hinu rótttæka slóvenska blaði Mladina. Í kjölfarið var hann útskúfaður af kommúnistaflokkinum og fékk hvergi vinnu. Um miðbik níunda áratugarins starfaði hann sem forritari og leiðsögumaður um fjöll. Eftir því sem pólitískar umbætur í Slóveníu jukust og höftum á tjáningarfrelsi var fækkað fékk hann aftur að vinna við dagblaðið Mladina. JBTZ-réttarhöldin. Þann 30. maí 1988 var Janez handtekinn ásamt tveimur öðrum starfsmönnum Mladina og liðþjálfa júgóslavenska hersins. Þeim var gefið að sök að hafa í fórum sínum hernaðarleyndarmál. Hin svokölluðu JBTZ-réttarhöld voru haldin bak við luktar dyr og þeir fengu ekki að verja sig. Enn fremur voru réttarhöldin haldin á serbó-króatísku (opinberu tungumáli júgóslavneska hersins) en ekki á móðurmáli þeirra slóvensku. Janez fékk 18 mánaða dóm sem hann átti að taka út í hámarks-öryggisfangelsinu Dob, almenningur brást harkalega við og því var ákveðið að hann skyldi taka út refsinguna í Ig. Eftir að hafa verið hálft ár í fangelsinu var honum sleppt. Stjórnmál. Janez kom að stofnun nýs stjórnmálaflokks (SDZ) árið 1989 og vann sem ritstjóri tímaritsins "Demokracija" fram að þingkosningum í maí 1990. Hann var fyrst um sinn varaformaður flokksins og því næst þingsflokksformaður. Eftir kosningarnar fékk hann embætti varnarmálaráðherra. Tíu daga stríðið, sjálfstæðisstríð Slóveníu, hófst 26. júní 1991. Undir leiðsögn Janezar beitti slóvenski herinn skæruliðataktík gegn ofjörlum sínum, júgóslavneska hernum. Að sjálfstæði fengnu leystist flokkur Janezar upp og hann gekk í Lýðræðisflokk Slóveníu. Hann var áfram varnarmálaráðherra fram í mars 1994 þegar Janez Drnovšek, þáverandi forsætisráðherra, leyst hann úr embætti vegna ásakana um að herinn hefði haft óeðlieg afskipti af borgurum. Eftir að rannsókn hafði farið fram var Janez sýknaður af ásökunum. Þann 3. nóvember 2004, að þingkosningum loknum, var Janez skipaður forsætisráðherra af Drnovšek forseta landsins. Hann var forsætisráðherra eitt kjörtímabil þar til arftaki hans Borut Pahor tók við af honum veturinn 2008. Greenwich. Greenwich (borið fram /'ɡɹɛn.ɪtʃ/, /'ɡɹɪn.ɪdʒ/ eða /'ɡɹɛn.ɪdʒ/) er hverfi í borgarhlutanum Greenwich í Suðaustur-London á Englandi, sunnan megan við Thames-ána. Hverfið er þekkt fyrir siglingasögu sína og staðartímann kenndan við Greenwich. Ásamat helstu ferðamannastöðunum eru Þúsaldarhvelfingin, stjörnuathugunarstöðin Royal Observatory og klipparinn Cutty Sark. Háskólinn í Greenwich er í hverfinu. Cutty Sark. "Cutty Sark" er skoskur klippari byggður árið 1869. Það var kaupskip og því næst þjálfunarskip. Frá árinu 1954 hefur skipið verið til sýnis í þurrkví í Greenwich. Eldur kviknaði í skipinu 21. mars 2007 og hluti þess skaðaðist. Þjóðminjasafn Bretlands. Þjóðminjasafn Bretlands (eða Breska safnið) (enska: "British Museum") er minjasafn í London. Það er eitt stærsta safn sögu- og menningarminja í heiminum. Þar eru um 13 milljón hlutir. Það var stofnað árið 1753 og samanstóð að mestu af safngripum vísindamannsins Hans Sloane. Safnið var opnað almenningi 15. janúar 1759 í Montagu House á Bloomsbury. Frá árinu 2001 hefur Neil MacGregor gegnt formannsstöðu. Líkt og með önnur þjóðminjasöfn á Bretlandi er aðgangur ókeypis. Ólafur Rögnvaldsson. Ólafur Rögnvaldsson var biskup á Hólum frá 1459 til dauðadags, 1495, eða í 36 ár. Faðir: Rögnvaldur Keniksson, bróðir Gottskálks Kenikssonar Hólabiskups. Móðir ókunn. Ólafur var af norskri ætt sem fór með völd á Hólastað 1358-1390 og 1442-1520. Óvíst er hvænær Ólafur fæddist og hvar hann ólst upp, en hann mun hafa verið langdvölum hér á landi. Hann er nefndur prestur á Breiðabólstað í Vesturhópi 1449, og fékk síðan Odda á Rangárvöllum 1453, en báðar jarðirnar voru erkibiskupslén. Sumarið eftir fráfall Gottskálks Kenikssonar, þ.e. 1458, var haldin prestastefna á Víðivöllum og var Ólafur Rögnvaldsson þar kosinn eftirmaður hans sem Hólabiskup. Kjörbréf hans er til í frumriti og er merkilegt skjal. Kristján 1. Danakonungur samþykkti kosninguna, og tók Ólafur við sem biskup á Hólum 1459. Samhliða biskupsembætti var hann sýslumaður í Hegranesþingi 1459-1469, að skipan konungs. Ólafur biskup hóf að koma skipan á kristnihald og fjárreiður kirkna í biskupsdæminu. Risu af því miklar deilur við leikmenn, m.a. um gjöld af hálfkirkjum, kostnað við að hýsa biskup og fylgdarlið í yfirreiðum, forræði fyrir bændakirkjum o.fl. Var Hrafn Brandsson lögmaður fremstur í andstöðu við biskup, og var bannfærður fyrir. Ólafur var mikill fjárgæslumaður fyrir hönd biskupsstólsins, siðavandur og refsingasamur, og lagði háar sektir á menn fyrir brot sín. Þekktast er svokallað Hvassafellsmál, þar sem Bjarni Ólason á Hvassafelli í Eyjafirði var borinn sökum um óleyfilegt samband við Randíði dóttur sína. Auk hagsmunagæslu fyrir kirkjuna varð Ólafur biskup með tímanum stórauðugur maður sjálfur. Ólafur Rögnvaldsson hafði náin tengsl við erkibiskup í Niðarósi, og átti einnig rétt til setu í norska ríkisráðinu. Ólafur var mun atkvæðameiri en þeir biskupar sem sátu samtíða honum í Skálholti og bar ægishjálm yfir flesta aðra valdsmenn hérlendis á sinni tíð. Allmikið er til af skjölum úr embættistíð Ólafs Rögnvaldssonar, t.d. máldagabók hans frá 1461 yfir kirkjur í Hólabiskupsdæmi, sem er elsta máldagabók íslensk sem varðveitt er í frumriti (skinnbók). Ólafur biskup var strangur einlífismaður og átti ekki börn. Oxford. Oxford (sjaldan nefnt Öxnafurða eða Uxavað) er borg í Oxfordshire á Englandi. Fólksfjöldi 134.248 (2001). Hún er annáluð fyrir Oxford-háskóla, sem er elsti háskólinn í enskumælandi landi. Borgin er einnig þekkt fyrir byggingarlist. Thames rennur um borgina og heitir þar Isis. Úthverfið Cowley er þekkt fyrir bílaframleiðslu og þar er nú framleiddur BMW MINI. Borgin var fyrst byggð á Saxaöld og kölluð „Oxnaford“. The Times. "The Times" er breskt dagblað sem hefur verið prentað síðan 1788. Það kemur út alla daga vikunnar. Það hefur haft mikil áhrif á bresk stjórnmál og almenningsálit. "The Times" er í eigu Times Newspapers Limited, sem er dótturfyrirtæki News International sem er í eigu News Corporation þar sem Rupert Murdoch er framkvæmdastjóri. Það var fyrsta dagblaðið sem notaði nafnið „Times“. Þekkta stafagerðin Times Roman var hönnuð fyrir dagblaðið, þó hún sé ekki notuð þar lengur. Í 200 ár notaði dagblaðið breiðblaðsbrot en árið 2004 tók það að nota minni pappírstærð. Gottskálk Keniksson. Gottskálk Keniksson (stundum skrifað Keneksson eða Kæneksson) var norskur biskup að Hólum 1442 - 1457, eða í 15 ár. Faðir hans var Kenik riddari Gottskálksson, bróðursonur Jóns skalla Eiríkssonar biskups á Hólum. Gottskálk hafði veitingu Ásláks bolts erkibiskups fyrir Hólastað, en þá höfðu páfabiskupar setið þar í tæpa öld. Gottskálk mun ekki hafa komið til Íslands fyrr en 1444. Hann fékk umboð erkibiskups yfir Skálholtsstól 1449 og veitingarvald yfir erkibiskupslénunum Odda, Hítardal, Breiðabólstað í Vesturhópi og Grenjaðarstað. Um þetta leyti var Marcellus biskup í Skálholti, skipaður af páfa, og virðist erkibiskup ekki hafa viðurkennt páfaveitingu embættisins. Gottskálk hafði biskupsvald í Skálholti a.m.k. til 1453, og hafði á þeim árum eftirlit með kirkjum og kennimönnum um allt land. Árið 1450 fór Gottskálk til Danmerkur og fékk leyfi konungs til að láta skip sitt vera í förum milli Íslands og Björgvinjar án þess að gjalda toll. Í þessari för mun hann hafa komið við sögu þegar Langaréttarbót var samin, en þar voru ákvæði til að tryggja áhrifavald Íslendinga í málefnum kirkjunnar. Gottskálk átti sæti í norska ríkisráðinu og gat þar haft áhrif á stjórn ríkisins. Gottskálk var eindreginn stuðningsmaður dansk-norsku stjórnarinnar á Íslandi á tímum er losarabragur var á kirkjumálum og Englendingar reyndu að auka ítök sín á Íslandi. Hann var dugandi maður og farsæll biskup. Til er sú sögn að Gottskált hafi látið smíða upp miðkirkjuna á Hólum og múrinn í kringum kirkjuna, og að hann hafi orðið bráðkvaddur í Laukagarðinum á Hólum. Eftirmaður hans á biskupsstóli var Ólafur Rögnvaldsson, sem var bróðursonur Gottskálks. Listasafn Bretlands (London). Listasafn Bretlands (enska: "National Gallery") í London, stofnað 1824, hefur safn af 2.300 málverkum frá mið-13. öldin til 1900. Bygging er í Trafalgar Square. Jónas Svafár. Jónas E. Svafár (f. 8. september 1925 í Reykjavík, d. 27. apríl 2004 á Stokkseyri), var skáld og myndlistarmaður. Hann er almennt talinn eitt af atómskáldunum. Hann var óreglumaður og lifði oft slarksömu lífi, bjó t.d. í tjaldi í Vatnsmýrinni í tvö sumur þar sem hann lifði á rúgbrauði og lýsi. Hann tók sér nafnið Svafár sjálfur eftir að hafa dottið í braggagrunn og vaknað skáld. Aðrir segja að hann hafi sofið í ár, og því hafi hann tekið upp nafnið, en það er alþýðuskýring. Hann myndskreytti gjarnan bækur sínar sjálfur. Westminsterhöll. Westminsterhöll (enska: "Palace of Westminster", "Westminster Palace" eða "Houses of Parliament") er þinghús Bretlands í City of Westminster við norðurbakka Thames-árinnar. Höllin er eitt stæðsta þing í heiminum. Hönnunin er mjög flókin, það eru yfir 1.200 herbergi, 100 stigar og yfir 3 km af göngum. Árið 1834 kom upp eldur í höllinni og var hún endurbyggð á um 30 árum. Hönnuðirnir voru Sir Charles Barry (1795–1860) og aðstoðarmaður hans Augustus Welby Pugin (1812–52). Hönnunin innlimaði Westminstersalur og rústirnar af St. Stephen’s-kapellu. Sjálfsmorðsklefi. Sjálfsmorðsklefi er skálduð vél sem aðstoðar fólk við að fremja sjálfsmorð. Sjálfsmorðsklefar hafa komið fram í fjölmörgum verkum; og eru þeir frægastir í hinni bandarísku teiknimynd "Fjarlægri framtíð", en hefur einnig komið fram í hinni japönsku mangasögu "Gunnm" (sem er einnig þekkt sem "Battle Angel Alita"). Fanir (sveppir). Fanir nefnast gróhirslur nokkurra flokka sveppa og og eru þær meðal annars eitt af einkennum hattsveppa. Þær eru þunn blöð sem liggja þétt saman í gróbeðnum og geisla út frá stafnum að hattbarðinu. Fanir (fuglar). Fanir vaxa út frá fjöðurstaf fjaðrar. Á fönum er að finna fanargeisla sem tengjast hverjir öðrum með fanarkrókum svo að yfirborð fjaðrar virðist vera heilt. The Smiths. The Smiths var hljómsveit frá Manchester, Englandi, sem starfaði á árunum 1982 til 1987. Aðallagasmiðir sveitarinnar voru söngvarinn Morrissey og gítarleikarinn Johnny Marr. Það sem einkenndi tónlist Smiths voru þunglyndislegir textar Morrissey, grípandi lagalínur og þéttur gítarleikur Johnny Marr. Plötur sveitarinnar voru gefnar út af Rough Trade Records. Þeir náðu aldrei miklum vinsældum utan Bretlands á meðan þeir voru saman en hafa síðan náð nánast „költ status“ beggja vegna Atlantsála. Smiths teljast með svokallaðra Indie sveita og eru í dag taldir á meðal áhrifamestu hljómsveita 9. áratugarins. The Believer. The Believer er kvikmynd gerð árið 2001 eftir handriti Mark Jacobson og Henry Bean sem leikstýrði einnig. Ryan Gosling leikur Daniel Balint sem er rétttrúaður gyðingur sem gerist nýnasisti. Myndin er byggð á sögu Daniel Burros sem var gyðingur í Nýnasistaflokki Bandaríkjanna og Ku Klux Klan. Hún vann til verðlauna 2001 á Sundance kvikmyndahátíðinni. Ku Klux Klan. Meðlimir síðari KKK samtakanna á fundi 1923. Ku Klux Klan (skammstafað KKK og nefndir Hvíthettir á íslensku áður fyrr) er heiti á fyrrverandi og núverandi samtökum í Bandaríkjunum sem halda fram yfirburðum hvíta kynstofnsins. KKK er þekkt fyrir blökkumannahatur sitt, en einnig fyrir gyðinga- og hommahatur sem og fyrirlitningu á ýmsum öðrum minnihlutahópum. Meðlimir samtakanna hafa oft sýnt að þeir eru hneigðir til ofbeldis. Þeir hafa t.d. afréttað menn án dóms og laga, unnið voðaverk og stundað krossabrennur og annað til að hræða menn til hlýðni við skoðanir sínar. Guðrún Á. Símonar - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld. Guðrún Á. Símonar - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristján Magnússon, en teikningu á bakhlið gerði Árni Elfar. Svanhildur syngur jólalög - Jólin, jólin. Svanhildur syngur jólalög - Jólin, jólin er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Útsetningar og hljómsveitarstjórn Ólafur Gaukur. Ljósmyndir á framhlið plötuumslags tók Óli Páll. Ljósmyndir á bakhlið plötuumslags tók Kristinn Benediktsson. Teiknun og útlit Ólafur Gaukur. Beint útvarp úr Matthildi - Úrval 1971-1972. Beint útvarp úr Matthildi - Úrval 1971-1972 er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Auk þeirra Davíðs, Hrafns og Þórarins eru flytjendur efnis þulirnir Gunnar Stefánsson, Jóhannes Arason, Jón B. Gunnlaugsson, Pétur Pétursson og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir. Fréttamennirnir Árni Gunnarsson og Sigurður Sigurðsson og listamennirnir Margrét Helga Jóhannsdótfir, Baldvin Halldórsson, Karl Guðmundsson, Rúrik Haraldsson og Hannes Jón Hannesson. Þórður Breiðfjörð sá um útlit hljómplötuumslagsins. 1. deild karla í knattspyrnu 2005. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 51. sinn árið 2005. 1. deild karla í knattspyrnu 2004. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 50. sinn árið 2004. Póker. Póker er fjárhættuspil spilað er með einum spilastokki af tveimur eða fleiri þátttakendum. Til eru ýmsar gerðir pókers með örlítið ólíkar reglum. Hver spilari byrjar spilið með ákveðin fjölda spilapeninga (chips á ensku), sem ekki má breyta á meðan á spilinu stendur og spilari notar til að "leggja undir" í "potti", sem spilað er upp á. Spilari fær í hverri umferð ákveðinn fjölda spila og getur síðan eftir tegundum pókers ýmist dregið sér ákveðinn fjölda af spilum úr spilastokknum eða notað sér sameinginleg spil, sem hafa verið lögð upp á borðið, til að mynda sterkustu mögulega hendi fimm spila. Spilari notar hluta fjárins eða allt fé sitt í einu til að veðja á að hann sé með bestu hendi. Ef hann fær "sjón" hjá einum eða fleiri meðspilurum verða þeir spilarar að leggja spil sín upp, en sá sem sýnir hæstu hendi vinnur pottinn óskiptan. Þegar spilari hefur tapað öllum sínum spilapeningum er hann úr leik. Póker er ein mest spilaða íþrótt á Netinu. Pókerhendurnar (þær sterkustu efst). Ef spilarar sýna eins hendi, vinnur sú sem hefur sterkustu spilin, þ.e. ásapar vinnu kóngapar, drottningarpar o.s.frv og litur sem inniheldur háspil vinnur lit, sem hefur lægra eða ekkert háspil. Ef spilarar sýna röð vinnur sá með röðina sem inniheldur hæsta spilið. Ás, getur verið lægsta spil í röð, þ.e. Á2345, eða það hæsta eins og í konunglegri röð, TGDKÁ (T = 10). Ás getur þó ekki verið inni í röðinni eins og t.d. DKÁ23. Ef spilarar sýna jafn sterka hendi skipta þeir pottinum jafnt á milli sín. Ýmsar gerðir pókerleikja. Texas Hold 'em er ein vinsælasta tegund pókers. Hver "spilari" fær tvö spil á hendi, en "gjafari" gefur eitt spil til þess sem situr honum á vinstri hönd og svo koll af kolli þangað til allir eru komnir með sín tvö spil. Sá sem er vinstra megin við gjafara kallast "Litli blindur", sá sem er svo vinstra megin við hann kallast "Stóri blindur". Litli blindur borgar ákveðna peningaupphæð í byrjun leiks og Stóri blindur borgar tvöfalt hærri upphæð. Svo byrjar sá sem er vinstra megin við Stóra blind og ræður hvort hann vilji "sjá" hann, "pakka", eða "hækka". Svo gengur þetta koll af kolli. Eftir þetta kemur "Floppið", eða 3 fyrstu spilin á borðið. Þá mega spilarar nota þessi 3 spil sem eru í borði með sínum tveim og reyna að mynda eins góða 5 spila "hendi" og mögulegt er. Svo segir Litli blindur. Maður getur "tékkað", "veðjað" eða "hækkað" þann sem veðjaði ef einhver veðjaði. Svo kemur fjórða spilið, sem er kallað "Turn" og þá má veðja aftur. Að lokum kemur fimmta og seinasta spilið, kallað "River", og þá má veðja í síðasta skipti. Svo eru sýnd spilin og sá sem er með sterkustu höndina tekur allan "pottinn". Maður á móti manni: Er það kallað þegar aðeins tveir spilarar eru í pottinum og þá breytast reglur dálítið. Í stað þess að sá sem er vinstra megin við gjafarann sé litli blindur þá er gjafarinn sjálfur litli blindur, og hinn er þá stóri blindur. Sorpa. Sorpa er íslenskt fyrirtæki sem stundar endurvinnslu og sorphirðu á Íslandi. Fyrirtækið endurvinnur til dæmis garðaúrgang, pappír, málma og föt. Það hefur líka Nytjagáma á sorpstöðum sínum. Knattspyrnufélagið Haukar. Knattspyrnufélagið Haukar var stofnað af ungum mönnum úr KFUM árið 1931 í Hafnarfirði. Félagið á sterk lið í öllum stóru boltagreinunum, handbolta, fótbolta og körfubolta og afrekaði það árið 2010 að leika með öll sín meistaraflokkslið karla og kvenna í efstu deild. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu lék á ný í úrvalsdeild árið 2010, eftir 31 árs fjarveru meðal þeirra bestu, en féll rakleitt niður aftur. Tenglar. Haukar Haukar Haukar Ungmennafélag Selfoss. Ungmennafélag Selfoss var stofnað á Selfossi annan dag hvítasunnu, þann 1. júní 1936. Það voru tíu ungir Selfyssingar sem stóðu að stofnun þess. Liðið lék í 1. deild karla í knattspyrnu árið 2008, eftir að hafa komist upp úr 2. deild. Árið 2009 komst liðið upp í Pepsi deildina en féll svo niður í fyrstu deildina 2010. Því leikur það í þeirri fyrstu sumarið 2011. Selfoss lék í efstu deild sumarið 2012 þar sem liðið lenti í 11 sæti og féll því niður í fyrstu deildina. Logi Ólafsson hætti þá með liðið og tók Gunnar Guðmundsson fyrrverandi þjálfari u-17 ára landsliði Íslands við liðinu. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2007. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2007 var knattspyrnuleikur leikinn þann 6. október 2007 á Laugadalssvelli. FH unnu Fjölni með tveimur mörkum gegn einu. Þetta var fyrsti bikarmeistaratitill FH-inga. Thierry Henry. Thierry Daniel Henry (f. 17. ágúst 1977) er franskur knattspyrnuleikmaður sem leikur fyrir Arsenal á láni frá New York Red Bulls. Henry hóf feril sinn sem kantmaðu hjá AS Monaco undir stjórn Wenger. Seinna tók Juventus eftir hæfileikum hans og keypti kauða. Henry leið ekki vel hjá Juve og sýndi það sig í leikjum þeirra. Sumarið 1999 eftir heimsmeistarakeppnina í Frakklandi keypti Arsenal FC leikmanninn og þá var ekki aftur snúið. Arsene Wenger framkvæmdastjóri Arsenal setti hann í Framherjastöðuna sem hann hafði spilað í alla yngri flokkana. Þar spilaði hann við hlið Dennis Bergkamp og mynduðu þeir eitt skæðasta framherjapar ensku deildarinnar. Eftir 6 ára dygga þjónust var Henry gerður að Fyrirliða liðsins. 17,10,2005 var besti dagur Henry í búningi Arsenal þann dag skoraði hann gegn Spörtu frá Prag og bætti þar með met Ian Wright Um flest mörk fyrir Arsenal. Eftir tímabilið 2006-2007 var Henry keyptur til FC Barcelona fyrir 24 milljónir evra. Þar lék hann til ársins 2010 þegar hann fluttist vestur um haf til NYRB. Í janúar 2012 blés upp orðrómur að Henry myndi snúa aftur til Arsenal á láni. Orðrómurinn reyndist sannur og lék Henry fyrsta leik sinn með "Nýja liðinu" 9.1.2012 og skoraði gegn Leeds United eftir að hafa komið inn af bekknum Thierry Henry er þriðji markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 176 mörk á eftir Alan Shearer og Andrew Cole. Foxgrös. Foxgrös (fræðiheiti: "Phleum") er ættkvísl grasa sem ýmist eru einærar eða fjölærar. Alls eru tegundir ættkvíslarinnar 15 talsins og margar hverjar ræktaðar sem fóður fyrir búfé. Sigfús Jónsson. Sigfús Jónsson (f. 2. apríl 1951) er fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri. Sigfús er skráður félagi í ÍR (Íþróttafélag Reykjavíkur) og er íslandsmethafi karla í 10.000m hlaupi (sett í Sjotsi 12. maí 1976). Hann var bæjarstjóri á Akureyri 1986-1990. Erkibiskupslén. Þetta fyrirkomulag mun hafa verið við lýði frá því um 1300 fram undir siðaskipti, um 1540. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2006. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2006 var knattspyrnuleikur leikinn þann 30. september 2006 á Laugadalssvelli. Keflavík sigruðu KR 2-0. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2005. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2005 var knattspyrnuleikur leikinn þann 30. september 2006 á Laugadalssvelli. Valur hafði betur gegn Fram, 1-0. Páfabiskupar. Páfabiskupar voru biskupar sem voru tilnefndir af páfanum í Róm. Íslenskir biskupar voru páfabiskupar frá 1350 til u.þ.b. 1442. Kirkjuþingið í Lateran 1215 samþykkti að dómklerkaráð hverrar dómkirkju ætti að kjósa biskup. Af því að slík ráð voru ekki á íslensku biskupsstólunum gaf þetta kórsbræðrum í Niðarósi færi á að kjósa biskupa til Íslands, þó að stundum væri farið að vilja Íslendinga í því efni. Um 1350 varð nokkur breyting á í Noregi þegar páfi tók fram fyrir hendur kórsbræðra og áskildi sér skipunarrétt í embætti biskupa. Eftir 1380 kom Margrét drottning því til leiðar að hún réð því hverjir yrðu skipaðir, og kom það til af því að biskupar í Niðarósumdæmi áttu sæti í ríkisráði Noregs, og því var mikilvægt fyrir einingu ríkisins að biskupar hér væru ekki andvígir stefnu konungsvaldsins. Voru þá hagsmunir íslensku kirkjunnar síður hafðir í huga. Fyrst í stað voru danskir menn áberandi, en eftir 1430 virðist páfi hafa fengið frjálsari hendur um skipun í biskupsembætti. Varð þá þjóðerni biskupa fjölbreyttara, og aðrir en Danir boðið betur. Kirkjuþingið í Basel hafði árið 1437 viðurkennt rétt dómklerkaráðsins í Niðarósi til að kjósa biskupa til Íslands. Það varð til þess að Áslákur Bolt erkibiskup greip fram fyrir hendur páfa um 1442 og skipaði Gottskálk Keniksson í embætti Hólabiskups, áður en Robert Wodborn, sem páfi hafði skipað, náði að taka við embættinu. Var það upphaf þess að Íslendingar tóku biskupskjör í eigin hendur. Jón Tófason. Jón Tófason eða Jón Henriksson var biskup á Hólum 1411 – 1423, eða í 12 ár. Lítið er vitað um uppruna Jóns Tófasonar, t.d. ber heimildum ekki saman um föðurnafn hans og hvort hann var danskur eða sænskur. Hann var skipaður Hólabiskup 1411 af Jóhannesi 23. páfa, sem er ekki viðurkenndur lögmætur páfi. Árni Ólafsson Skálholtsbiskup gegndi lengstum biskupsembætti á Hólum í umboði Jóns biskups, sem dvaldist um tíma hjá Eiríki af Pommern Danakonungi. Jón Tófason kom fyrst til Íslands 1419, kom hann með Íslandsfari frá Björgvin með Hannesi Pálssyni hirðstjóra og mörgum öðrum dönskum mönnum. Meðal þeirra voru danskir og norskir prestar sem hann gaf forræði á kirkjustöðum. Jón er talinn hafa stutt vald konungs gegn Englendingum, sem þá voru að seilast til áhrifa hér. Hinum erlendu biskupum (páfabiskupum), sem oft voru langdvölum erlendis, reyndist mörgum erfitt að fá innlenda presta og leikmenn til að lúta boðum sem þeir töldu sér í óhag, sem leiddi til óstjórnar í kristnihaldi og fjármálum. Jón Tófason dó 1423. Árið 1425 tilnefndi páfi eftirmann Jóns Tófasonar. Sá maður hét Trud og var af förumunkareglu. Um hann er nánast ekkert vitað. Hann kom ekki til Íslands og hefur e.t.v. andast skömmu eftir tilnefninguna. Er hann því ekki talinn meðal Hólabiskupa. Brekkuskóli. Brekkuskóli er fjölmennasti grunnskóli Akureyrar. Hann var stofnaður 1997 með sameiningu Gagnfræðiskólans á Akureyri og Barnaskóla Akureyrar. Rómanovættin. Rómanovættin var rússnesk keisaraætt sem komst til valda í kjölfar rósturtímanna í Rússlandi árið 1613. Fyrsti Rómanovkeisarinn var Mikael Rómanov. Árið 1917 var ættinni steypt af stóli í rússnesku byltingunni. Mikael Rómanov. Mikael Fjodorovitsj Rómanov (rússneska: Михаи́л Фёдорович Рома́нов "Mikhaíl Fjodorovitsj Romanov"; 12. júlí 1596 – 13. júlí 1645) var Rússakeisari frá 1613 til dauðadags. Hann var fyrsti keisari Rómanovættarinnar. Nikulás 2.. Nikulás 2. Rússakeisari eftir að honum hafði verið steypt af stóli Nikulás 2. (fæddur 18. maí 1868, látinn 17. júlí 1918) var Rússakeisari af Rómanovættinni í Fyrri heimstyrjöld. Honum var steypt af stóli í Rússnesku byltingunni. Nikulás var myrtur ásamt konu sinni og börnum af Bolsévikum, eftir að þeir náðu völdum í Rússlandi. Teikniborð. Teikniborð eða sjaldan hnitaborð (enska: "Graphics tablet") er ílagstæki sem heimilar notendum að handteikna myndir á spjald eins og þeir myndu teikna myndir á blað, sem færast svo inn í tölvuna. Teikniborð samanstendur af flötu yfirborði, sem notandinn má „teikna“ mynd á með fyrirbæri sem líkist penna. Myndin birtist vanalega ekki á töflunni sjálfri, heldur er hún sýnd á tölvuskjánum. Kirkjulén. Kirkjulén, lénskirkja eða beneficium er kirkjustaður sem biskup hafði forræði yfir og veitti presti að léni. Fyrstu kirkjulénin eru frá lokum 12. aldar, frá tímum staðamála fyrri, en þeim fjölgaði mjög eftir sættargerðina í Ögvaldsnesi 1297, eftir staðamál síðari. Eftir það unnu biskupar stöðugt að því að fjölga kirkjulénum. Sjá einnig erkibiskupslén. Prestar sem fengu kirkjulén, sátu á þeim eins og þau væru þeirra eign og nutu allra tekna og hlunninda. Þeir höfðu bæði forræði heimalands, auk annarra jarða og ítaka sem fylgdu. Mörg kirkjulén voru stórauðug og höfðu prestar sem sátu þau miklar tekjur af landskuldum og ítökum. Urðu prestarnir því oft auðugir og valdamiklir, en voru hins vegar háðir biskupi, sem hafði veitingarvaldið, og gat svipt þá kirkjuléninu. Ákveðnar reglur giltu um rekstur kirkjuléna, menn urðu að skila þeim í ekki lakara ástandi en þeir tóku við þeim. Einnig skyldi dánarbú presta greiða kirkjunni tíunda hluta þess er þeir höfð aflað meðan þeir sátu kirkjulénin. Á 16. öld (eftir siðaskiptin) fór "kirkjulén" eða "beneficium" að merkja fast prestsetur, og hélst sú merking orðanna fram á 20. öld. Veitingarvaldið var þá að nokkru leyti í höndum veraldlegra valdsmanna konungs, enda hafði konungur við siðaskiptin, sölsað undir sig flestar eigur kirkjunnar hér á landi. Sprengjuhöllin. Sprengjuhöllin er íslensk hljómsveit sem að hefur verið starfandi frá því um haustið 2005. Meðlimir hennar eru Atli Bollason, hljómborð og söngur; Bergur Ebbi Benediktsson, söngur og gítar; Georg Kári Hilmarsson, bassi og söngur; Sigurður Tómas Guðmundsson, trommur og söngur; og Snorri Helgason, söngur og gítar. Hljómsveitin leikur gítardrifið popp og leggur mikið upp úr íslenskri textagerð. Sprengjuhöllin spilaði á sínum fyrstu tónleikum í fullskipaðri mynd í mars/apríl 2006. Haustið 2006 tók sveitin upp nokkur demó. þ.á m. lagið „Can't dance“ sem fékk þó nokkra útvarpsspilun í kjölfar tónleika sveitarinnar á Grand Rokk á Iceland Airwaves hátiðinni í október. Undir lok ársins 2006 kom Sprengjuhöllin fram í Kastljósi og spilaði þar lagið „Tímarnir okkar“. Stuttu seinna fór sveitin í hljóðver og tók „Tímana okkar“ upp og naut það töluverðra vinsælda á óháðum útvarpsstöðvum á Íslandi, eins og á X-inu 977 og Xfm. Í lok apríl árið 2007 sendi Sprengjuhöllin frá sér lagið „Verum í sambandi“ sem varð fljótlega eitt mest spilaða lag landsins. Sprengjuhöllin tók upp sína fyrstu plötu í júlí og ágúst 2007. Platan hlaut nafnið "Tímarnir okkar" og kom út 10. október 2007. Rúmu ári síðar kom önnur plata sveitarinnar "Bestu kveðjur" út. Í millitíðinni samdi hljómsveitin og flutti tónlistina við uppsetningu Leikfélags Akureyrar á leikritinu "Fló á skinni". Sveitin kom síðast fram á tónleikum í Kanada í október 2009 og er í „pásu“ skv. viðtölum við hljómsveitarmeðlimi. Áramótaskaup 2007. "Áramótaskaupið 2007" var sýnt þann 31. desember 2007 á Ríkissjónvarpinu, en tökur hófust þann 15. október 2007. Leikstjóri og handritshöfundur að fyrsta hlutanum var Ragnar Bragason, en einnig skrifuðu Jón Gnarr og Jóhann Ævar Grímsson fyrsta hlutann með honum, en skaupið var unnið í tveimur hlutum. Þetta var fyrsta áramótaskaupið sem var rofið með auglýsingahléi en það var fasteignasalan RE-MAX sem keypti það á 3 milljónir. Umfjöllunarefni. Skaupið árið 2007 hafði innflytjendaþema til þess að fylgja íslensku þjóðlífi. Safaspæta. Safaspæta (fræðiheiti: "Sphyrapicus varius") er meðalstór spætutegund. Varpsvæði þeirra er í skóglendi í Kanada, austurhluta Alaska og norðaustur hluta Bandaríkjanna. Þessir fuglar fara til vetrarstöðva í suðaustur hluta Bandaríkjanna, Vestur-Indía og mið-Ameríku. Afar sjaldgæft er að flækingar af þessari tegund fari til Írlands og Stóra-Bretlands. Safaspæta fannst í garði á Selfossi í október 2007. Safaspætur bora göt í tré og éta safann og skordýr sem festast í honum. Þær lifa einnig á skordýrum sem þær finna í stofnum trjánna og á berjum og ávöxtum. Rúdolf 2.. Rúdolf 2. (18. júlí 1552 – 20. janúar 1612) var Ungverjalandskonungur (sem Rúdolf, 1572-1608), konungur Bæheims (sem Rúdolf 2., 1575-1608/1611), erkihertogi af Austurríki (sem Rúdolf 5., 1576-1608) og keisari hins Heilaga rómverska ríkis (sem Rúdolf 2., 1576-1608). Hann var af ætt Habsborgara. Foreldrar hans voru Maximilían 2. keisari og María Spánarprinsessa, dóttir Karls 5. og Ísabellu frá Portúgal. Rúdolf varði unglingsárunum við spænsku hirðina. Hann hafði lítinn áhuga á stjórnmálum en þeim mun meiri á listum og dulspeki. Hann var kaþólskur en umburðarlyndur gagnvart bæði mótmælendatrú og gyðingdómi. Þegar gagnsiðbótin hófst kom hann sér hjá því að taka afstöðu sem leiddi til stjórnmálaóreiðu. Árið 1593 hóf hann langvinna styrjöld gegn Tyrkjaveldi sem varð þegnum hans í Ungverjalandi þungt í skauti. 1605 neyddu aðrir í fjölskyldunni hann til að láta yngri bróður sínum, Matthíasi, eftir stjórn mála í Ungverjalandi. Matthías samdi um frið við uppreisnarmenn í Ungverjalandi og Tyrki en Rúdolf reyndi þá aftur að efna til stríðs gegn Ottómönum. Við þetta snerist Matthías gegn Rúdolf og neyddi hann til að láta sér eftir konungdæmi í Ungverjalandi, Austurríki og Mæri. Eftir þessa niðurlægingu hófu íbúar Bæheims að krefjast aukins trúfrelsis. Rúdolf lét undan þeim í upphafi en þegar þeir héldu fram meiri kröfum sendi hann her til að berja þá niður. Íbúar Bæheims sneru sér þá til Matthíasar eftir hjálp og hann lét taka bróður sinn til fanga og hélt honum í kastala sínum í Prag þar til Rúdolf lét honum eftir konungstign í Bæheimi árið 1611. Níu mánuðum síðar lést Rúdolf og Matthías var kjörinn keisari. Friðarsúlan. Friðarsúlan (enska: "Imagine Peace Tower") er útilistaverk eftir Yoko Ono reist í Viðey í Kollafirði til að heiðra minningu látins eiginmanns listakonunnar, John Lennons. Listaverkið var vígt á afmæli Johns Lennons þann 9. október 2007. Friðarsúlan er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði, sem hófst á sjöunda áratug 20. aldar. Ono segist hafa fengið hugmyndina að "friðarsúlu" árið 1967. Á stalli súlunnar eru grafin orðin „hugsa sér frið“ eða „imagine peace“ á 24 tungumálum, þar á meðal á íslensku, ensku, þýsku, japönsku og hebresku. Enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon. Uppbygging. "Friðarsúlan" er ljóskastari, sem lýsir upp í himininn, listaverkið er þannig hannað að 6 ljósgangar liggja lárétt í jörðinni að ljósbrunninum þar sem þeir falla á spegla sem halla í 45° og varpa því ljósinu lóðrétt upp í loftið. Í botni ljósbrunnsins, sem er 4 metrar að þvermáli og 2 metra hár, eru einnig aflmiklar ljósaperur, fylltar Xenon-gasi, sem beinast upp á við. Samanlagt afl ljósanna er 70 kW. Bygging friðarsúlunnar var fjármögnuð af Yoko Ono, Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur, sem einnig greiðir rekstrarkostnað. Upplýsing. Eins er mögulegt, við sérstök tilefni, af fá leyfi hjá listakonunni til að kveika á friðarsúlunni utan ofantaldra tímabila. Babýlon. Babýlon var fornaldarborg í Mesópótamíu, en leifar hennar má enn sjá í borginni Al Hillah í Babilfylki, Írak, um það bil 80 km frá Bagdad. Í Babýlon voru garðar sem venjulega eru nefndir Hengigarðarnir í Babýlon. Babýlóníumenn eru höfundar Gilgameskviðu og Enuma Elish, sem má telja til fyrstu varðveittu bókmenntaverka. Piet Mondrian. Pieter Cornelis Mondriaan, sem nefndi sig Piet Mondrian frá 1912, (f. Amersfoort, Hollandi, 7. mars 1872 — d. New York, 1. febrúar 1944) var hollenskur listmálari. Romm. Romm er brennt vín úr gerjuðum sykurreyrsafa. Flestar rommtegundir eru framleiddar á eyjunum í Karíbahafi og í Mið-Ameríku þar sem það á uppruna sinn, en upphaflega er það frá Barbados Núorðið er það einnig framleitt í Ástralíu og Indlandi og víðar. Hverfisgata. Hverfisgata er gata í Reykjavík sem liggur samsíða Laugavegi og teygir sig frá Hlemmi niður á Lækjargötu. Hverfisgata er kennd við Skuggahverfi, og fékk formlega nafn sitt árið 1898. Hverfisgata er ein af höfuðgötum í miðbæ Reykjavíkur. Frá því skömmu eftir þarsíðustu aldamót hefur hún ásamt Laugavegi verið aðalsamgönguæðin út úr og inn í bæinn til austurs og á fyrri hluta 20. aldar var hún ein af fjölmennustu götum höfuðstaðarins. Hringur Jóhannesson. Hringur Jóhannesson (21. desember 1932 - 17. júlí 1996) var íslenskur myndlistamaður. Hann þótti vera einn helsti fulltrúi ljóðræns nýraunsæis í íslenskri myndlist á 7. og 8. áratugnum. Hringur fæddist að Haga í Aðaldal. Hann útskrifaðist úr Handíða- og myndlistarskóla Íslands árið 1952 og hélt sína fyrstu einkasýningu 1962. Alls urðu einkasýningar hans tæpar fjörtíu og samsýningar um sjötíu, bæði hér á landi og erlendis. Hann var kennari við "Handíða- og myndlistaskóla Íslands" 1959-1962, Myndlistaskólann í Reykjavík frá 1962 og í stjórn skólans frá 1965. Hringur myndskreytti fjöldann allan af blöðum, tímaritum og einnig margar byggingar. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík. Hodász. Hodász er þorp í Szabolcs-Szatmár-Bereg-sýslu í austurhluta Ungverjalands. Þorpið nær yfir 26,49 km² svæði og þar bjuggu 3487 árið 2001 George Robert Gray. Teckningar gjorda av George Robert Gray George Robert Gray (fæddur 8. júlí 1808, dáinn 6. maí 1872) var enskur dýrafræðingur og rithöfundur. Hann var yfir fuglahluta British Museum í London í 41 ár. Hann var yngri bróðir John Edward Gray og sonur grasafræðingsins Samuel Frederick Gray. Mikilvægasta ritverk hans var "Genra of Birds" (1844-49), sem myndskreytt var af David William Mitchell og Joseph Wolf og innihélt 46.000 fræðigreinar. Gray hóf störf við British Museum sem aðstoðarvörður dýrafræðideildarinnar árið 1831. Hann hóf feril sinn á að skrá skordýr og gaf út ritið "Entomology of Australia" (skordýrafræði Ástralíu) árið 1833. Árið 1833 stofnaði hann það sem síðar varð Hið konunglega skordýrafræðifélag London. Gray, George Robert Culture Shock. Culture Shock var anarkó- og ska-pönk hljómsveit stofnuð í Warminster í Wiltskíri í Englandi árið 1986 af Dick Lucas sem áður hafði verið í hljómsveitinni Subhumans. Á þriggja ára starfsferli hljómsveitarinnar spilaði hún á hundruðum hljómleika og gaf út þrjár breiðskífur hjá Bluurgútgáfunni. Umfjöllunarefni texta hljómsveitarinnar voru oftast félags- og stjórnmálaleg málefni, frá dýravernd, Norður Írlandi, stríði og félagsfirringu. Þrátt fyrir að snúast um umdeilanleg efni voru textar hljómsveitarinnar oftast með jákvæðu ívafi. Culture Shock leysti upp laupana árið 1989 þegar meðlimirnir Nige og Bill þurftu að sinna fjölskyldum sínum. Dick stofnaði svo hljómsveitina Citizen Fish með bassaleikaranum Jasperi og tveimur öðrum fyrrum meðlimum Subhumans. Nige lést árið 1993 Lén. Lén er aðstaða til fjáröflunar sem veraldlegur eða kirkjulegur valdsmaður veitir öðrum, sem gat farið með aðstöðuna sem sína eign á meðan hann hafði hana að léni. Sá sem veitti lénið var yfirleitt konungur eða biskup. Morten Ramsland. Morten Ramsland (f. 1971) er danskur rithöfundur. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók "Når fuglerne driver bort" árið 1993 og fimm árum síðar kom út fyrsta skáldsaga hans, "Akaciedrømme". Eftir það gaf hann út röð myndskreyttra barnabóka en sló fyrst í gegn með skáldsögunni "Hundehoved" árið 2005 sem hlaut fjölda verðlauna (m.a. Boghandlernes gyldne Laurbær og Læsernes Bogpris) og hefur verið þýdd á mörg tungumál. Hún kom út á íslensku sem "Hundshaus" í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur árið 2007. Common Gateway Interface. Common Gateway Interface (CGI) er safn samskiptareglna til að keyra útværann hugbúnað á netþjóni. Jedótímabilið. Japanskir samúræjar á tímum Boshin-styrjaldarinnar. Jedótímabilið (japanska: 江戸時代, "Edo-jidai"), líka nefnt Tokugawa-tímabilið ("Tokugawa-jidai") er tímabil í sögu Japans sem nær frá 1603 til 1868. Upphaf tímabilsins miðast við það þegar Tokugawa Ieyasu varð sjógun eða herstjóri og gerði Jedó (núverandi Tókýó) að stjórnarsetri. Á þessum tíma var sjóguninn æðsti stjórnandi ríkisins og Japanskeisari hafði aðeins trúarlegt hlutverk. Tímabilinu lauk með Meiji-endurreisninni á síðari hluta 19. aldar þegar hefðbundnir titlar lénsveldisins (sjógun, daímýó og samúræ) voru lagðir niður og löggæsluumdæmi tekin upp. Tíminn flýgur. "Tempus fugit" á gamlalli úrskífu. "Tíminn flýgur" (Latína "tempus fugit", sem þýðir „tíminn flýr“, en er oftast þýtt sem „tíminn flýgur“) er latneskt orðatiltæki, oft ritað á úrskífur. Var fyrst notað í 284. erindi þriðju bókar "Búnaðarbálks", Virgils: "Sed fugit interea fugit irreparabile tempus", sem þýða mætti sem „en hann flýr á meðan, óbætanlegur týminn flýr“. Orðtakið er oft notuð í talmáli í merkingunni: „nú líður óafturkræfur tími“, sem gefur til kynna að verið sé að eyða þeim tíma sem maðurinn hefur til umráða af lífi sínu. Síbería. Síberíuhluti Rússlands sýndur með dekkri rauðum lit. Dökkrauði liturinn merkir rússneska sambandssvæðið Síberíu. Síbería (rússneska: Сиби́рь) er gríðarstórt landsvæði sem nær yfir allan austur- og norðausturhluta Rússlands. Síbería nær yfir nær alla Norður-Asíu frá Úralfjöllum í vestri að Kyrrahafinu í austri, og frá Norður-Íshafinu í norðri að hæðunum í norðvesturhluta Kasakstans og landamærum Rússlands við Mongólíu og Kína í suðri. Síbería nær yfir 77% af flatarmáli Rússlands (13,1 milljón ferkílómetrar) en hýsir eingöngu 27% af íbúafjölda landsins (39 milljónir). Entlebuch. Entlebuch er sveitarfélag í Luzernfylki í Sviss. Íbúar voru 3352 talsins árið 2005. Klukka. Klukka eða úr er tæki sem er notað til að mæla tíma. Tímamæling klukkunnar byggir á tylftakerfi og sextugakerfi, en 24 (2*12) klukkustundir eru í einum sólarhring, en 60 mínútur í klukkustund og 60 sekúndur í mínútu. Það eru einnig til tölvuklukkur sem byrja í 00:00 og enda í 24:00. Þegar hún er kominn upp í 12 heldur hún áfram upp í 13, 14, 15 o.s.f. Fyrstu tvær tölurnar segja hvaða klukkutími er liðinn og seinni tvær tölurnar segja um hve margar mínútur hafa liðið frá því að síðasti klukkutími sló. Á venjulegri klukku bendir litli vísirinn á klukkutímann og stóri á mínúturnar. Svissnesku Alparnir. Svissnesku Alparnir eru sá hluti Alpafjalla sem liggur innan landamæra Sviss. Stórbruni. Stórbruni er bruni sem veldur miklu tjóni á byggingum, og helst þar sem hús standa þétt saman eins og í bæjum og borgum. Stórbrunar teljast einnig vera þar sem margir láta lífið eða mikil verðmæti fara forgörðum af völdum elds. Anna Akmatova. Anna Akmatova (rússneska: А́нна Ахма́това; 23. júní (11. júní) 1889 - 5. mars 1966) var rússneskt ljóðskáld og einn helsti liðsoddur rússneskrar ljóðagerðar á fyrri hluta 20. aldar. Hið eiginlega nafn hennar var "Anna Andrejevna Gorenko". Hroki og hleypidómar. "Hroki og hleypidómar" (enska: "Pride and prejudice") er ein frægasta skáldsaga rithöfundarins Jane Austen og var fyrst gefin út árið 1813. Sagan fylgist með aðalpersónunni Elizabeth Bennett þegar hún glímir við vandamál sem tengjast mannasiðum, uppeldi, samvisku, menntun og hjónabandi í samfélagi landeigendaaðalsins á fyrri hluta 19. aldar í Englandi. Elizabeth er önnur fimm dætra sveitaherramanns og búa þau nálægt skáldaða bænum Meryton í Hertfordshire, nálægt London. Þrátt fyrir að sagan gerist við upphaf 19. aldar vekur hún hrifningu margra nútíma lesenda og er nálægt því að vera á toppnum á lista yfir "mest elskuðu bækurnar". Hún er orðin ein vinsælasta skáldsaga enskra bókmennta og hefur fengið töluverða umfjöllun hjá bókmenntafræðingum. Nútíma áhugi á bókinni hefur getið af sér fjöldann allan af dramatískum skáldsögum og sögum sem reyna að líkja eftir eftirminnilegustu persónum Austen og umfjöllunarefnum bókarinnar. Bókin hefur selst í meira en 20 milljónum eintaka um allan heim. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur árið 1988 en árið 1956 hafði komið út stytt þýðing undir heitinu "Ást og hleypidómar". Magnús Eiríksson. Magnús Eiríksson (f. 5. júní 1806 á Skinnalóni í Norður-Þingeyjarsýsla á Íslandi – d. 3. júlí 1881 í Kaupmannahöfn, Danmörku) var íslenskur guðfræðingur í Kaupmannahöfn. Æviágrip. Faðir hans var Eiríkur Grímsson (†1813), bóndi á Skinnalóni, og móðir Magnúsar var Þorbjörg (†1841), dóttir síra Stefáns Láritssonar Schevings, sem var prestur á Presthólum í Þingeyjarsýsla 1794-1825. Árið 1831 fer hann til Danmerkur og tók við háskólann (examen artium) með bezta vitnisburði sama ár. Þegar hann hafði verið eitt ár við háskólann, tók hann "annað háskólaprófið", og sneri sér því næst með kappi að guðfræðinni, og leysti af hendi embættispróf í 28. apríl 1837 með bezta vitnisburði. Þorskastríðin. Þorskastríðin nefndust politískar deilur milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum, sem leiddu til átaka á miðunum, en frá árunum 1948 til 1976 voru háð fjögur "þorskastríð". Fyrsta þorskastríðið. Fyrsta varð þegar landgrunnslög voru gerð, og landhelgin var færð út í 4 sjómílur. Það vakti hörð viðbrögð hjá mörgum þjóðum að ekki var lengur hægt að stunda togveiðar innan fjögurra mílna marka og var sett löndunarbann á íslenskan fisk í Englandi. Mótmæli bárust einnig frá Belgíu, Frakklandi og Hollandi. Þann 15. nóvember 1956 var svo gerður löndunarsamningur milli Breta og Íslendinga og var þar með fiskveiðideilunni lokið í það skiptið. Annað þorskastríðið. Þann 24. maí 1958 tilkynnti Lúðvík Jósepsson, sjávarútvegsráðherra að landhelgin kringum Ísland skyldi færð út í 12 sjómílur. Bretar mótmæltu þessari ákvörðun mjög og sendu herskip á Íslandsmið. Þar á meðal freigátuna "HMS Russel" en skipherra freigátunnar hafði sig mjög í frammi og sakaði meðal annars skipherra varðskipsins Ægis um að hafa reynt að sigla freigátuna í kaf. Mótmæli vegna yfirgangs Breta voru haldin í Reykjavík, en deilunni lauk með samningi milli Íslendinga og Breta árið 1961. En þetta reyndist bara vera skammgóður vermir á deilu þjóðanna. Þriðja þorskastríðið. Myndin sýnir hverning togvíraklippunum var beitt Þann 15. febrúar 1972 ákvað ríkisstjórn Íslands að færa út landhelgina enn frekar og í þetta skiptið út í 50 sjómílur. Ekki stóð á viðbrögðum Breta og voru herskip og dráttarbátar send á Íslandsmið til verndar breskum togurum. Átökin versnuðu stöðugt og hófu bresku dráttarbátarnir ásiglingar á íslensku varðskipin. Þann 5. september 1972 voru togvíraklippunum beitt í fyrsta skipti og var það Ægir sem halaklippti breska síðutogarann "Peter Scott". Eftir hörð átök var samið um vopnahlé þann 13. nóvember árið 1973. En það stóð stutt. Fjórða þorskastríðið. Íslenska ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum að landhelgin skyldi færð út enn frekar og í þetta skipti í 200 sjómílur. Og þann 15. október 1975 tóku nýju lögin gildi. Bretar mótmæltu að venju hástöfum og neituðu að samþykkja útfærsluna og þann 16. nóvember 1975, aðeins sólarhring eftir að lögin tóku gildi, varð breski togarinn "Primella" frá Hull fyrir togvíraklippunum. Deilurnar voru nú komnar á háskalega braut og beittu Bretar bæði dráttarbátum og freigátum til ásiglinga á íslensku varðskipin sem aftur á móti voru óþreytandi við að klippa aftan úr bresku togurunum. En eftir fund þjóðanna í Ósló þann 23. maí árið 1976 náðust loks samningar og lauk þar með þorskastríðinu í júní sama ár. Taumatawhakatangihangakoauauotamateaturipukakapikimaungahoronukupokaiwhenuakitanatahu. Taumatawhakatangihangakoauauotamateaturipukakapikimaungahoronukupokaiwhenuakitanatahu er fjall á Norðurey Nýja-Sjálands. Fjallið er 305 metra hátt. Það er oftast nefnt Taumata í daglegu tali. Umfeðmingur. Umfeðmingur (fræðiheiti: "Vicia cracca") er jurt af ertublómaætt, sem ber blá blóm. Greiningareinkenni. Blómin eru einsamhverf og mörg saman á stilklöngum klösum. Króna blómanna er 1 sm á lengd. Í hverju blómi eru 5 fræflar en einungis 1 fræva. Blöðin eru fjöðruð og hafa 8 til 10 pör af langoddbaugóttum, broddyddum og hærðum smáblöðum. Á endum blaðanna koma fram langir vafþræðir sem sjá um að blómið haldist upprétt þrátt fyrir veikburða stilk. Umfeðmingur verður 20 til 50 cm hár og vex í graslendi, sléttum engjum og annars staðar á láglendi. Ólafsfjarðarvatn. Ólafsfjarðarvatn er um 2,5 ferkílómetra stórt stöðuvatn í Ólafsfirði. Vatnið er aðeins um 250 metra frá sjó en rif skilur milli sjávar og vatnsins og á því rifi stendur Ólafsfjarðarkaupstaður að hluta. Talið er að Kúluskítur, sem annars finnst ekki nema á örfáum stöðum í heiminum, þar á meðal í Mývatni, hafi fundist í vatninu árið 2012. Guðjón Valur Sigurðsson. Guðjón Valur Sigurðsson (fæddur 8. ágúst 1979) er íslenskur handknattleiksmaður. Hann leikur með AG Köbenhavn í dönsku deildinni. Guðjón Valur Sigðursson hóf ferl sinn ungur og byrjaði með Gróttu á Seltjarnarnesi. Hann var kominn upp í meistaraflokk Gróttu ungur að árum og var valinn í landsliðið í fyrsta skipti þegar Grótta var í annarri deild og Ólafur B. Lárusson að þjálfa hann. Hann vildi prufa nýjan stað á Íslandi og valdi Akureyri. Þar lék hann með KA í allnokkur ár en ákvað að fara til Þýskalands og spila með Essen í nokkur ár. Þar varð hann Evrópumeistari með liði sínu en þeir þurftu síðan að sætta sig við gjaldþrot og fór Guðjón Valur því í annað félag, Gummersbach. Þar lék hann undir stjórn Alfreðs Gíslasonar fyrrum landsliðsþjálfara Íslendinga. Guðjón var valinn handboltamaður ársins árið 2006 úti í Þýskalandi og var markahæsti leikmaður þýsku bundeslígunnar. Árið 2008 skrifaði hann undir samning við Rhein-Neckar-Löwen í þýsku deildinni og árið 2011 fór hann til AG Köbenhavn. Árið 2012 skrifaði Guðjón undir hjá þýska liðinu THW Kiel. Í ágúst 2008 lék Guðjón Valur með íslenska landsliðinu á handknattleiksmóti karla á Ólympíuleikunum í Peking í Kína og vann til silfurverðlauna. Guðjón Valur var næstmarkahæsti leikmaður íslenska landsliðsins með 43 mörk og var valinn í sjö manna úrvalslið Ólympíuleikanna. Guðjón Valur vann síðan sín önnur verðlaun með landsliðinu á stórmóti þegar íslenska landsliðið vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Guðjón Valur lék einnig með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Svíþjóð 2011 og var næstmarkahæstur íslenskra leikmanna með 47 mörk og 68% skotnýtingu. Alexander Petersson. Alexander Petersson (fæddur 2. júlí 1980 í Ríga í Lettlandi) er íslenskur handknattleiksmaður af Lettneskum uppruna. Hann leikur í stöðu hægri skyttu eða sem hægri hornamaður. Alexander var valinn íþróttamaður ársins ársins 2010. Alexander byrjaði feril sinn með Gróttu/KR í Vesturbænum, fór svo til HSG Düsseldorf árið 2003. Árið 2005 gekk hann í raðir Großwallstadt og spilaði með þeim til ársins 2007. 2007 - 2010 lék hann með þýska liðinu Flensburg, ásamt Einari Hólmgeirssyni. 2010 skipti Alexander um lið vegna þess að hinn umdeildi þjálfari Flesburgar Per Carlen gaf honum fá tækifæri, Per Carlen gaf syni sínum Oscar Carlen sem leikur í sömu stöðu og Alexander (hægri skyttu) mun meiri spiltíma heldur en Alexanderi. Alexander fór til Füchse Berlin árið 2010, þar hitti hann einn íslending, þjálfara liðsins Dag Sigurðsson. Alexander leikur eins og áður segir með Füchse Berlin núna. Alexander lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Hann lék einnig með liðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Svíþjóð árið 2011 og var markahæstur íslenskra leikmanna með 53 mörk og 60% skotnýtingu. Hann átti einnig 28 stoðsendingar og 14 stolna bolta eða að meðaltali 1,6 stolinn bolta í hverjum leik. Alexander var með flesta stolna bolta á mótinu. Doris Lessing. Doris Lessing (fædd "Doris May Tayler" í Kermanshah, í Persíu 22. október, 1919) er breskur rithöfundur. Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2007. Doris sem var 87 ára þegar hún tók við verðlaununum er elsti verðlaunahafinn hingað til, en fyrri aldursforseti var Theodor Mommsen sem var 85 ára þegar hann hlaut verðlaunin. Doris var gestur Listahátíðar í Reykjavík 1986 ("Dagstund í Iðnó"). Æviferill. Doris Lessing fæddist í Persíu (núverandi Íran), en er af breskum foreldrum. Þegar hún var fimm eða sex ára gömul fluttist fjölskyldan til Suður-Ródesíu (núverandi Simbabve), þar sem foreldrar hennar hófu að stunda landbúnað. Þar hófst einnig pólitískur ferill hennar, en hún tilheyrði ung að árum kommúnískum hóp og leit á sig sem kommúnista. Eftir tvö misheppnuð hjónabönd, en hið seinna var við harðlínu-kommúnistan "Gottfried Lessing", ákvað hún að flytjast til Bretlands. Þegar hún kom þangað þrítug að aldri hafði hún með sér handritið að "Grasið syngur" í farteskinu. Bókin kom út 1950 og hlaut strax góðar viðtökur, bæði í Bretlandi, meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Og þar með hófst glæstur rithöfundarferill Dorisar. Árið 1954 snerist hún þó alfarið gegn kommúnismanum og talaði eindregið gegn honum og því sem átti sér stað í Austur-Evrópu. Upp úr því fékk hún áhuga á kenningum sálkönnuðarins R.D. Laing og snerist á sveif með súfisma, sem er austræn dulhyggju- og meinlætastefna. Munaðarleysi. Munaðarleysi á við barn, sem hefur misst báða foreldra sína. Spádómsgáfa. Spádómsgáfa er ætlaður hæfileiki sumra, sem á að gera þeim kleift að sjá fyrir um óorðna atburði. Saving Iceland. Saving Iceland er alþjóðlegur hópur umhverfisverndarsinna sem berst fyrir verndun á náttúru Íslands. Í hópnum eru bæði Íslendingar og útlendingar og aðhyllast félagarnir að stórum hluta hugmyndir stjórnleysis, beinna aðgerða og borgaralegrar óhlýðni. Hefur hann einkum beint spjótum sínum gegn stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda, meðal annars með andspyrnutjaldbúðum við Kárahnjúka sumurin 2005 og 2006 (undir Snæfelli), í Mosfellssveit sumarið 2007 (í landi eyðibýlisins Gullbringu) og á Hellisheiði sumarið 2008. Einnig hefur hópurinn haldið fundi og vakið athygli á málstað sínum með ýmiss konar mótmælum, bæði á Íslandi og erlendis, og rekið. Aðgerðir Saving Iceland hafa stundum hlotið mikla fjölmiðlaathygli og hefur sitt sýnst hverjum um gagnsemi og réttmæti aðgerðanna. Óhætt er því að segja að hópurinn sé umdeildur. Hefur lögregla oft haft afskipti af mótmælum hans, og nokkrir félaganna verið dregnir fyrir dómstóla vegna þeirra. Finnbogi rammi. Finnbogi rammi er aðalsöguhetjan í Íslendingasögu þeirri sem við hann er kennd, Finnboga sögu ramma. Hann er sagður hafa fæðst á Eyri á Flateyjardal á tíundu öld og verið sonur stórbóndans Ásbjarnar dettiáss er þar bjó. Hann var borinn út, en Gestur og Syrpa, ábúendur á Tóftum á Flateyjardal, fundu hann þar sem hann lá reifaður í urð, og ólu hann upp. Var hann í fyrstu kenndur við fundarstaðinn og nefndur Urðarköttur. Nafnið Finnbogi hlaut hann eftir að hafa bjargað manni þeim úr sjávarháska er Finnbogi hét, en sá gaf upp öndina og gaf Urðarketti nafn sitt að launum fyrir björgunina. Viðurnefnið „hinn rammi“ hlaut hann vegna líkamlegs atgervis síns. Hann var vígamaður og drap marga menn, bæði á Íslandi og í Noregi. Heiðarhús. Heiðarhús eru eyðibýli fyrir miðri Flateyjardalsheiði, þau fóru í eyði árið 1904. Þar er gangnamannakofi. Í Finnboga sögu ramma er greint frá bónda þeim er Uxi hét, og bjó á Heiðarhúsum. Hans örlög urðu þau að Finnbogi drap hann, eftir deilur um beitarland. Félagið Ísland-Palestína. Félagið Ísland-Palestína er stofnað 29. nóvember 1987 til þess að styrkja vináttu og tengsl Íslendinga og íbúa Palestínu, og stuðla að friði í Palestínu, vinna gegn aðskilnaðarstefnu og styðja baráttu Palestínumanna fyrir réttindum sínum. Félagið hefur í gegn um tíðina staðið fyrir heimsóknum erlendra gesta til Íslands, þar á meðal eru Omar Sabri Kittmitto, þá sendiherra Frelsissamtaka Palestínu í Osló, ísraelska baráttukonan Arna Meir, palestínski læknirinn og forsetaframbjóðandinn dr. Mustafa Barghouti og Ziad Amro, stofnandi Öryrkjabandalags Palestínu. Einnig hefur félagið haft milligöngu um að Íslendingar fari til Palestínu, bæði sjálfboðaliðar sem hafa veitt Palestínumönnum aðstoð, og aðrir, sem hafa farið til að sjá ástandið þar. Félagið hefur haldið nokkra fundi á ári, auk tónleika og matar- og menningarkvölda. Félagar í Félaginu Íslandi-Palestínu eru rúmlega 500 talsins. Málgagn þess heitir "Frjáls Palestína" og hefur yfirleitt komið út árlega. Félagið hóf neyðarsöfnun handa Palestínumönnum síðla árs árið 2000, og höfðu alls safnast um fimm milljónir króna snemma árs 2005. Þeim fjármunum hefur verið varið í að styðja palestínsk læknasamtök, öryrkjasamtök, kvennasamtök og fleiri grasrótarhreyfingar. Félagið hefur hvatt til þess að ísraelskar vörur séu sniðgengnar. Í lok árs 2008 hóf félagið söfnun til handa íbúum Gaza strandarinnar. Tóftir (Flateyjardalur). Tóftir voru kot á Flateyjardal sem getið er um í Finnboga sögu ramma, en þar bjuggu hjónin Gestur og Syrpa, sem fundu útburðinn sem í fyrstu hét Urðarköttur en nefndist seinna Finnbogi, og ólu hann upp þar á kotinu. Ekki er vitað hvar Tóftir voru staðsettar, ef þær þá hafa verið til. Finnboga saga ramma. Finnboga saga ramma er Íslendingasaga sem greinir frá ævi og uppvexti Finnboga hins ramma. Sögusvið hennar er á Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu og víðar á Íslandi, svo og í Noregi. Hún á að gerast á 10. öld. Jökulá. Jökulá er samheiti yfir þær ár sem eiga aðalupptök sín í jökli. Í jökulám rennur s.k. jökulvatn, þ.e. leysingavatn jökuls. Rennsli í jökulám er mjög háð lofthita. Í kuldatíð er lítil leysing í jöklum og lítið vatn í þeim ám sem undan þeim renna. Þegar hlýtt er í veðri er mikil leysing í jöklum og mikið vatn í jökulám. Miklar rennslissveiflur eru í jökulám, bæði dægursveiflur og árstíðasveiflur. Flestar jökulár eru meira eða minna blandaðar af bergvatnsám, sem sameinast þeim á leiðinni til sjávar. Stærstu fljót Íslands eru flest jökulár að stofni til. Dæmi um jökulár eru Þjórsá, Ölfusá, Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá á Dal, Jökulsá á Sólheimasandi, Blanda og Héraðsvötn. Að minnsta kosti 10 ár á Íslandi, bæði stórar og smáar, bera nafnið Jökulsá og tveir bæir hafa einnig þetta nafn. Knudsensætt. Knudsensætt er kennd við ættföðurinn Lauritz Michael Knudsen kaupmann, sem fæddur var í Ribe á Jótlandi þann 30. janúar árið 1779 og lést í Reykjavík þann 4. ágúst árið 1828. Ættmóðirin var kona hans, Margrethe Andrea Hölter Knudsen (1781 – 1849), sem hann kvæntist þann 29. október 1809. Hún hafði áður skilið við fyrri mann sinn, Claus Mohr, með sérlegu leyfi Jörundar þess sem kallaður var hundadagakonungur. Afkomendur þeirra hjóna mynda ættina sem við þau er kennd. Skábraut. Skábraut er beinn flötur sem er með horn minna en 90° á þyngdarsvið jarðar. Hægt er að nota skábraut til að auðvelda færslu af hlut um einhverja hæð þannig að í stað þess að lyfta hlutnum beint upp þá er honum ýtt eða hann dreginn upp skáflöt og þá er krafturnn sem þarf til að ýta/draga hlutinn minni á hverju augnabliki en annars. Samt er heildar vinnan framkvæmd sú sama ef talað eru um flöt sem hefur engann núning og meiri ef núningur er tekinn með. Eitt af því fyrsta sem eðlisfræðinemar læra er hvernig kraftur virkar á hlut sem settur er á skábraut. Myndin til hægri er skýringamynd sem sýnir hina mismunandi krafta sem virka á hlutinn. Það eru þrír kraftar sem eru að verki hér. Hægt er að skipta þyngdarkraftinum upp í tvo hluta, einn sem vegur upp á móti þverkraftinum og hefur stærð "m·g·cos(θ)" og annar sem vinnur samhliða skábrautinni og hefur stærð "m·g·sin(θ)". Hluturinn færist niður nema að núningskrafturinn sé stærri en "m·g·sin(θ)", þá stendur hluturinn í stað. Fleygur. Fleygur er verkfæri sem er notað til að aðskilja tvo hluti, honum er þá oft lamið niður á milli tveggja hluta með þungum hamri eða sleggju. Þannig fleygar hafa oft litla mótstöðu á skáhliðum sínum við aðra hluti þannig að þeir smjúgi mjúkt á milli hlutanna. Einnig er hér mikilvægt að ef fleygurinn er stuttur og breiður þá þarf mikinn kraft á hann til að aðskilja hluti en ef hann er langur og mjór þá þarf lítinn kraft á hann. Hinsvegar er hægt að nota fleyg sem stoppara, t.d. fyrir hurðir. Þá eru skáhliðar fleygsins með mikinn núning við yfirborðið sem hann er settur á þannig að hann hreyfist ekki þegar krafturinn af hlutnum sem hann á að halda kjurrum lendir á honum. Fleygur er ein af svokölluðu einföldu vélunum sex í eðlisfræði. Rafrýmd. Rafrýmd (oftast bara kölluð rýmd) segir til um hversu mikla hleðslu rafsvið getur geymt. Einingin fyrir rafrýmd er í SI kerfinu farad og er jafngildi þess að rafsvið með 1 farad 1 kúlomb af hleðslu fyrir hvert volt af spennu sem er sett yfir það. Þ.e. þar sem formula_2 er rýmd rafsviðsins, formula_3 er hleðslan í því og formula_4 er spennan yfir það. Þéttir. Hlutir sem hafa rafrýmd eru kallaðir þéttar. Þéttar koma í mörgum gerðum en algengasti er plötuþéttirinn sem samanstendur af tveim leiðurum aðskildir um "d" millimetra og hafa spennu V á milli sín, þá myndast rafsvið á milli platnanna og það rafsvið getur geymt Q mikið af rafhleðslu í sér og því hefur þéttirinn rýmd C eins og jafnan hér að ofan sýnir. Þessa jöfnu er hægt að rita fyrir svona plötuþétta sem þar sem "ϵ" er rafsvörunarstuðullinn og "A" er flatarmál platnanna í fermetrum. Þessi jafna breytist þó með lögun þéttisins. Rafhleðsla. Rafhleðsla er eiginleiki þeirra öreinda, sem mynda rafsvið og getur ýmist verið já- eða neikvæð. SI-mælieining er kúlomb, sem samsvarar um 6,24 x 1018 "grunnrafeiningum", sem er hleðsla stakra róteinda og rafeinda (með mismundandi formerkjum). Kvarkar eru smæstir öreinda og hafa 1/3 af hleðslu rót-/rafeindar, en þeir koma aldrei fyrir stakir í náttúrunni. Jöfnur Maxwells fjalla um rafhleðslur á hreyfingu og tengir saman raf- og segulsvið. Vignir Svavarsson. Vignir Svavarsson (fæddur 20. júní 1980) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með þýska liðinu Lemgo en lék áður með Haukum. Vignir lék með íslenska landsliðinu þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010 og þegar það vann silfurverðlaun á ólympíuleikunum árið 2008. Reykjavik Energy Invest. Reykjavik Energy Invest (eða REI) er viðskiptaþróunar- og fjárfestingararmur Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið sérhæfir sig í starfsemi tengdri virkjun á jarðhitaorku. REI var stofnað í mars 2007. Ákveðið var þann 4. október 2007 að sameina Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy, en síðar var horfið frá því eftir að meirihlutaskipti urðu í borgarstjórn Reykjavíkur. Upphaf REI. Grunnhugsunin að baki REI var að nýta sérþekkingu sem byggst hefur upp innan Orkuveitu Reykjavíkur á sviði Jarðvarmanýtingar á erlendum vettvangi. Orkuveitan var eigandi félagsins að fullu í fyrstu. Bjarni Ármannsson kom síðan inn í hluthafahóp REI í september 2007. Þá var tilkynnt um markmið félagsins, að afla 50 miljarða í hlutafé sem nota ætti í framkvæmdir og rannsóknir. Bjarni sjálfur lagði til 500 miljónir í félagið. Stefnt var að því að Orkuveitan yrði eigandi 40 prósenta hluta í félaginu. Deilur um sameininguna. Í byrjun október 2007 urðu málefni fyrirtækisins að miklu pólitísku bitbeini í borgarstjórn Reykjavíkur meðal meirihlutastjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Deilt var um hvort og hvenær Reykjavíkurborg ætti að selja hlut sinn í fyrirtækinu. Lyktaði þeim deilum með því að Framsóknarflokkur sleit stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og tók upp nýtt samstarf við Frjálslynda flokkinn, Vinstri Græna og Samfylkinguna. Vallelfting. Vallelfting (fræðiheiti: "Equisetum pratense") er elfting sem vex á skuggsælum stöðum í votum jarðvegi, t.d. í mýrum og við árbakka þar sem skógur eða klettar veita skugga. Hún er með langar og mjóar greinar sem greinast út frá dökkum samskeytum á stilknum sem verður 10-50 sm á hæð. Vallelfting inniheldur þíamínasa, hvata sem brýtur niður B1-vítamín og veldur því að hrá vallelfting getur virkað sem eitur. Þíamínasinn hverfur við suðu. Vallelfting er mikið notuð í te. Vallelfting er algeng um allt Ísland. Vopnadómur. Vopnadómur Magnúsar prúða, sýslumanns var dómur sem hann lét ganga 12. október 1581 á Þorskafjarðarþingi (í Patreksfirði í núverandi Barðastrandarsýslu) um það að allir bændur ættu að vera skyldir til að eiga vopn til að geta varið landið. Í vopnadómi er minnst á að sýslumenn hafi látið safna vopnum og brjóta fimm árum áður, en engar aðrar heimildir finnast um slíkt vopnabrot sem ýmsir hafa dregið í efa að hafi átt sér stað. Árið 1579 rændu sjóræningjar Eggerti Hannessyni, tengdaföður Magnúsar, á Bæ á Rauðasandi. Skýrsla Eggerts til konungs um ránið leiddi til þess að árið eftir sendi konungur vopn í hverja sýslu landsins: átta spjót og sex byssur. Þetta leiddi þó ekki til aukins vopnaburðar meðal Íslendinga nema hugsanlega tímabundið á Vestfjörðum. Talið er að vopnaeign hafi verið að mestu aflögð annars staðar á landinu um aldamótin 1600. Vopnaburður og vopnaeign Vestfirðinga kom síðar við sögu í Spánverjavígunum 1615, en fyrir þeim stóð Ari Magnússon sýslumaður í Ögri, sonur Magnúsar prúða. Vopnadómur er til prentaður í "Alþingisbókum Íslands", I. bindi. Björn Ingi Hrafnsson. Björn Ingi Hrafnsson (f. 5. ágúst 1973) er fyrrverandi formaður Íþróttafélags Reykjavíkur og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík. Foreldrar hans eru "Hrafn Björnsson" (f. 1945) og "Björk Gunnarsdóttir" (f. 1948). Hann er fæddur í Hveragerði og ólst þar upp, en einnig á Flateyri, Akranesi og í Reykjavík. Árið 2001 kvæntist Björn Ingi "Hólmfríði Rós Eyjólfsdóttur" hjúkrunarfræðingi (f. 1976) og eiga þau tvo syni, "Hrafn Ágúst" (f. 1999) og "Eyjólf Andra" (f. 2004). Björn Ingi er stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1993. Eftir það starfaði hann við fjölmiðla og víðar, og nam sagnfræði við Háskóla Íslands, án þess þó að ljúka prófi. Ferill. Björn var þingfréttaritari Morgunblaðsins til 2002, þegar hann gerðist skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, sem hann var til 2003. Árin 2002-2004 var hann varaformaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu. Sama ár tók hann sæti í miðstjórn SUF frá 2002, og 2003 varð hann aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra 2003-2004 en síðar forsætisráðherra 2004-2006. Árin 2003-2005 var Björn stjórnarformaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Kjörtímabilið 2003-2007 var Björn í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og var því varaþingmaður Jónínu Bjartmarz. Fyrir sveitarstjórnarkosningar 2006 bar hann sigurorð af Óskari Bergssyni í prófkjöri og náði kjöri sem eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, með 6% atkvæða. Myndaði hann borgarstjórnarmeirihluta með Sjálfstæðisflokknum, sem hélt til 11. október 2007, þegar hann sleit samstarfinu eftir harðar deilur um Orkuveitu Reykjavíkur, Geysi Green Energy og Reykjavik Energy Invest (sjá nánar: Deilur um Orkuveitu Reykjavíkur, október 2007). Meðan á þeirri samvinnu stóð var Björn formaður borgarráðs, varaforseti borgarstjórnar, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, stjórnarformaður Faxaflóahafna og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. 24. janúar 2008 sagði Björn af sér sem borgarfulltrúi og lét Óskari Bergssyni starfið eftir. Vikuna sem á undan var gengin var Björn harðlega gagnrýndur af samflokksmanninum Guðjóni Ólafi Jónssyni, fyrrverandi þingmanni, vegna fatakaupa fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Björn Ingi kvaðst í tilkynningu ekki lengur geta starfað undir slíkum kringumstæðum. Björn Ingi var ráðinn ritstjóri Markaðarins, viðskiptarits Fréttablaðsins, og yfirmaður viðskiptaumfjöllunar Stöðvar 2 í apríl 2008. Hann hætti síðar störfum hjá 365 miðlum, til að stofna vefritið Pressuna. Í maí 2010 var hann kjörinn formaður Íþróttafélags Reykjavíkur. Í dag er Björn Ingi útgefandi Pressan.is, Bleikt.is, Menn.is og Eyjan.is REI-málið. Deilur um sölu og kaup á orkufyrirtækinu Reykjavik Energy Invest (REI) sem stóð í október 2007 var nefnt REI-málið og leiddi til þess að borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins féll. Deilurnar snerust um Orkuveitu Reykjavíkur (OR), dótturfélag þess REI og félagið Geysir Green Energy (GGE), sem fjárfestingarfélagið FL Group og Glitnir banki hf. áttu meirihluta í. Til stóð að sameina REI og GGE, með það að markmiði að sameina krafta þeirra í útrás erlendis. Þann 1. október var haldinn stjórnarfundur í REI, þar sem ákveðnir voru kaupréttarsamningar og grunnur lagður að sameiningu við GGE. Áttu starfsmenn OR að fá að kaupa hlutabréf í REI áður en félagið yrði selt 569 skráðu sig fyrir kaupum áður en fresturinn rann út 10. október), en hópur manna sem þóttu sérlega mikilvægir fyrir fyrirtækin átti að fá að kaupa margra milljóna króna virði í bréfunum á lágu gengi. Menn eru ekki á einu máli um hvernig valið var í þann hóp, og er það einn ásteytingssteinninn í deilunum. Reiknað var með að eftir sölu og sameiningu mundu bréf hins nýja félags snarhækka í verði. Snarpar deilur hófust um þessar fyrirætlanir. Eftir samrunann við GGE, var áætlað að verðmæti REI yrði um 65 milljarðar króna, og samanstæði m.a. af fyrirtækinu Jarðborunum, 600 milljóna krónahlut í Enex, tæpum 48% hlut í Hitaveitu Suðurnesja (HS) (16,58% frá OR + 32% frá GGE), auk 4,6 milljarða í reiðufé frá OR og fleiru. Þá væri drjúgur hluti verðmætanna (giskað á 10-11 milljarða) fólginn í óefnislegum verðmætum, á borð við rannsóknarleyfi, viðskiptavild, verkefni sem þegar væru í gangi o.fl. Á minnisblaði forstjóra OR til borgarstjóra, dagsettu 7. október, kemur fram að miðað við sölugengi 3-4 gæti hlutur OR reiknast frá tæpum 25 milljörðum til rúmra 33 milljarða. Það má líta á 11. október sem ákveðin vatnaskil í málinu, þar sem borgarstjórn féll þann dag og ný var mynduð. Fundurinn 3. október. Að kvöldi 2. október var boðaður eigendafundur í OR sem átti að fara fram seinni partinn þann 3. október. Í fundarboði kom fram að REI yrði til umræðu, en dagskrá ekki kynnt að öðru leyti. Minnihlutinn mótmælti því á fundinum, að það væri ólöglega til hans boðað. Á fundi þessum var tilkynnt að REI og GGE yrðu sameinuð, og voru kaupréttarsamningarnir svo lagðir fram, og gerðar á þeim breytingar eftir athugasemdir, m.a. af hálfu minnihlutans. Vilhjálmur borgarstjóri sagðist seinna aldrei hafa séð neinn lista yfir þá starfsmenn og aðra, sem áttu að hafa kauprétt á sérstökum kjörum, en Guðmundur Þóroddsson forstjóri REI, og Svandís Svavarsdóttir oddviti Vinstri-grænna sögðu bæði að hann hefði verið lagður fram á þessum fundi, sem þau sátu öll þrjú. Þótt Vilhjálmur neitaði að hafa séð lista með nöfnum umræddra starfsmanna, sagði hann að Haukur Leósson, stjórnarformaður OR, hefði sagt sér „mjög rækilega“ að „ákveðnir starfsmenn REI fengju að fjárfesta í félaginu“. Svandís Svavarsdóttir sagðist hins vegar hafa fengið þann lista í hendurnar á eigendafundinum. Því svaraði Vilhjálmur, að þótt minnihlutinn í stjórn OR hefði fengið að sjá hann, þá hefði hann sjálfur ekki beðið um hann, og ætlaði sér ekki að sjá hann. Þó fór Vilhjálmur fram á það að ef einhverjir starfsmenn fengju kauprétt skyldu það ekki bara vera „lykilstarfsmenn“, heldur allir starfsmenn OR, á sömu kjörum. Á stjórnarfundi REI þann 6. október var samþykkt að bjóða þeim það. Undanþegnir voru Bjarni Ármannsson og Jón Diðrik Jónsson. Trúnaðarbrestur? Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, sagði ekkert óeðlilegt við kaupréttarsamningana; hann vildi binda hagsmuni hlutaðeigandi aðila við félagið og að „svona gerðust kaupin á eyrinni“. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri sætti gagnrýni úr borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, sem taldi hann hafa samið um málið án umboðs þeirra, en Vilhjálmur taldi hins vegar að þau hefðu farið á bak við sig þann 5. október með því að funda með Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformanni án þess að tala við sig fyrst. Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar OR og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagðist telja að það ætti ekki að selja hlut Reykjavíkurborgar í OR strax, heldur bíða með söluna. Eftir langan fund hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna þann 8. október, var tilkynnt að hlutur OR í REI yrði seldur og Hauki Leóssyni yrði vikið úr stjórn OR. Borgarfulltrúi tæki sæti hans í stjórninni, en Hjörleifur B. Kvaran yrði forstjóri. Björn Ingi var sem fyrr andvígur sölunni. Sama dag sagðist Vilhjálmur ekki vita um aðra kaupréttarsamninga en þann við Bjarna, en daginn eftir kvað Guðmundur Þóroddsson það koma sér á óvart. Vilhjálmur sagðist þá hafa vitað nákvæmlega um samning Bjarna, en ekki „nákvæmlega um aðra samninga“. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði að þótt borgin fengi 10 milljarða króna í sinn hlut, þá tapaði hún kannski öðrum fjörutíu milljörðum á því að selja strax. Björn Ingi Hrafnsson sagði Morgunblaðinu þann 9. október að það yrði „að ná lendingu í málinu“ milli flokkanna í meirihluta borgarstjórnar. á fundi borgarstjórnar þann 10. október bauð minnihlutinn Birni bandalag um að stöðva söluna á hlut OR í REI. Björn svaraði því ekki þá, en viðbrögð hans áttu eftir að koma í ljós síðar. Fleiri tjá sig um málið. OR átti 16,58% hlut í HS, sem hafði verið lagður inn í REI og stóð til að selja með fyrirtækinu. Aðrir stórir hluthafar í HS, og líka Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, sögðu að bæjarfélög þeirra ættu því að krefjast forkaupsréttar að hlutabréfum OR í REI þegar hún seldi hlut sinn, auk þess sem GGE hlyti að eiga kröfu um forkaupsrétt. Í Morgunblaðinu 11. október birtust þrjár yfirlýsingar, þar sem stjórn Heimdallar kvaðst „fagna þeirri sátt og samstöðu“ sem hefði náðst innan meirihluta borgarstjórnar um að stefna að sölu á hlut OR í REI (yfirlýsingin dagsett 8. október). Í ályktun Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík kváðust þeir telja það „afleita hugmynd“ að selja hlut OR strax, að fyrir því væru engar málefnalegar ástæður og að það væri „augljóst“ að verið væri að „breiða yfir trúnaðarbrest innan meirihluta borgarstjórnar“. Loks mótmælti bæjarmálaráð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Akranesi „ólýðræðislegum vinnubrögðum“ og kenndu flýtinum um að ekki gæfist ráðrúm til þeirra. Spurningar umboðsmanns Alþingis. Á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur þann 10. október var hart tekist á um málefni OR og REI. Borgarstjóri sagði „fulla einingu“ vera innan meirihlutans um að ljúka samrunaferli REI og GGE á 6-7 vikum, og fá síðan ráðgjöf um söluna á hlut OR í REI. Björn Ingi kvaðst telja það „óráð“ að selja strax. Dagur B. Eggertsson varaði við því að salan færi strax fram. Á fundinum kom fram að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefði sent eigendum OR tólf spurningar, aðallega um sameininguna Atburðarásin frá og með 11. október. Að morgni 11. október var haldinn leynilegur fundur á heimili tengdaforeldra Björns Inga Hrafnssonar, þangað sem mættu, auk hans, þau Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir, oddvitar Samfylkingar og VG. Fyrir hönd Frjálslynda flokksins og óháðra mælti Ólafur F. Magnússon. Á sama tíma bólaði ekkert á Birni á fundi með Sjálfstæðismönnum, sem hann hafði verið boðaður á í Höfða kl. 13. Áhyggjur Sjálfstæðismanna voru ekki ástæðulausar, því Björn Ingi og hinir flokkarnir voru þá enn á fundi og handsöluðu með sér samkomulag klukkan 14. Blaðamannafundurinn. Björn sagði Vilhjálmi frá stjórnarslitunum, og svo var boðað til blaðamannafundar í síðdeginu á bakka Reykjavíkurtjarnar. Þar var tilkynnt um að samstarfi Framsóknarflokks við Sjálfstæðisflokkinn væri lokið og að Björn Ingi mundi mynda nýjan meirihluta með borgarfulltrúum Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna, og hinni óháðu Margréti Sverrisdóttur. Voru Sjálfstæðismenn ósáttir við það og notuðu sumir stór orð til að lýsa vanþóknun sinni. Nýi meirihlutinn ákvað að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, yrði nýr borgarstjóri, Björn Ingi sinnti áfram formennsku í borgarráði, Margrét yrði forseti borgarstjórnar og Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri-grænna, yrði formaður sameiginlegs borgarstjórnarflokks nýs meirihluta og staðgengill borgarstjóra. Daginn eftir borgarstjórnarskiptin héldu Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri-græn hvert sinn fund í sínu flokksfélagi í borginni og fóru yfir stöðuna með flokksmönnum. Dagana á eftir fóru stjórnmálamenn, álitsgjafar, bloggarar og aðrir mikinn. Skömmuðu margir Björn Inga með stórum orðum fyrir svik eða spillingu, aðrir Vilhjálm fyrir vanrækslu eða spillingu, enn aðrir hina borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir trúnaðarbrest, og loks voru þeir sem skömmuðu nýja meirihlutann fyrir tækifærismennsku og málefnaleysi. Töldu margir að Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í R-listanum, hefði haft hönd í bagga með hvernig fór fyrir gamla meirihlutanum. Einkaréttarsamningur? Þann 13. október greindi "Morgunblaðið" frá því að OR hefði skuldbundið sig til þess að veita engum nema REI sérfræðiþjónustu um jarðhita, rannsóknir, markaðsmál og ýmsar áætlanir, samkvæmt þjónustusamningi til 20 ára sem undirritaður hefði verið þann 3. október. Fleiri hlunnindi átti REI að hljóta samkvæmt samningi þessum, einkum hvað snerti umsvif erlendis og aðgengi að sérfræðingum OR. Hjörleifur B. Kvaran sagði þjónustusamninginn vera grundvöllinn að þeim 10 milljörðum sem Orkuveitunni hefðu verið reiknaðir sem innlögðum í REI í óefnislegum verðmætum. Í fréttatilkynningu um samrunann þ. 3. október kom ekkert fram um þennan þjónustusamning, og flutti Ríkisútvarpið fyrstu fréttirnar af honum þann 12. október. Hjörleifur kvaðst ekki vita hvers vegna hans hefði ekki verið getið í fréttatilkynningunni, en að þeir sem voru á fundinum 3. október hefðu vitað af honum. Samningurinn hefði að vísu aðeins verið til á ensku þá. Sagði Hjörleifur að ef fundurinn 3. október yrði úrskurðaður ólögmætur, þá gilti það einnig um þennan samning. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði í viðtali að samningurinn hefði ekki verið ræddur á fundinum 3. október og væri auk þess mun víðtækari en sagt hefði verið. Þá sagði hann: „Ég held að ekki hafi margir stjórnarmenn gert sér grein fyrir að þetta væri einkaréttarsamningur til tuttugu ára sem útilokaði í raun Orkuveituna frá því að veita öðrum fyrirtækjum sérfræðiaðstoð á erlendri grundu án þess að fara í gegnum REI. Það er ekki í tillögunni að um sé að ræða einkaréttarsamning.“ Vilhjálmur sagði einnig að hann hefði ekki vitað að OR hefði heimilað REI að nota erlent nafn OR, Reykjavik Energy, erlendis. Hann sagðist ekki hafa lesið allt sem hann skrifaði undir, til þess treysti hann Birni Inga og Hauki Leóssyni, og svo starfsfólkinu sem sæi um málið fyrir hönd borgarinnar, en þetta orkaði „tvímælis“. Hann viðurkenndi fúslega að fundinn 3. október hefði mátt boða með meiri fyrirvara. Hann staðhæfði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið „í samstarfi af fullum heilindum“ og ekki rætt við aðra flokka á meðan um hugsanlega myndun nýs meirihluta, eins og Björn Ingi gerði. Í viðtalinu bar blaðamaður kaupréttarlistann undir Vilhjálm, þann sem var lagður fram á hinum afdrifaríka fundi 3. október. Hann sagði þá -- og vísaði í nýlegt minnisblað frá Hjörleifi B. Kvaran, sem hann hafði handbært -- að á þessum fundi hefði enginn fengið þennan lista nema Svandís Svavarsdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir. Aðrir hefðu ekki séð hann, því hann hefði ekki verið á dagskrá fundarins. Svandís hefði því farið með rangt mál í frétt á Visir.is, þegar hún hefði sagt hann ljúga því að hann hefði ekki séð listann, eins og hún leiðrétti síðan í borgarstjórn. Bjarni, Haukur og Hjörleifur sögðu, í greinargerð um atburðarásina, að Vilhjálmur hefði vitað um þjónustusamninginn heilum tíu dögum fyrir stjórnarfundinn, eða þann 23. september. Þá hafi þeir hist, Vilhjálmur, Haukur og Bjarni, á fundi heima hjá Vilhjálmi og farið yfir minnisblað sem hefði verið á íslensku, setið yfir því í nokkra klukkutíma „og það á ekki að leika nokkur vafi á því hvað var við átt,“ sagði Bjarni og bætti því við að hann hefði skilið eintak af blaðinu eftir hjá borgarstjóra. Vilhjálmur harðneitaði þessu hins vegar þegar það var borið undir hann. og sagði að sú lýsing á samningnum sem honum var sýnd 23. september hafi verið áþekk tillögunni á fundinum 3. október, og ekki verið kennt sem einkaréttarsamningur. Björn Ársæll Pétursson, fyrrum stjórnarformaður REI, greindi frá því að fyrstu hugmyndir um þjónustusamning OR og REI hefðu komið fram á fundi 23. ágúst, og snúist um uppsegjanlegan samning til 5-10 ára. Óuppsegjanlegur 20 ára samningur hafi aldrei verið á borðinu þá. Ógilding? Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði að þjónustusamningurinn milli REI og OR gerbreytti stöðunni, og að í ljósi hans kæmi til greina að hennar mati að ógilda samrunann, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 14. október. Svandís Svavarsdóttir og Margrét Sverrisdóttir tóku í sama streng. Bjarni Ármannsson stjórnarformaður REI og Hannes Smárason stjórnarformaður GGE sögðust hins vegar reikna með því að samruninn stæði. Bjarni sagði að annars mundu allir málsaðilar verða af tækifærum sem þá færu til spillis. 15. október var hluthafafundur í Hitaveitu Suðurnesja, þar sem samþykkt var að veita nýja borgarstjórnarmeirihlutanum svigrúm til að fara yfir málið, en vildi að hann mótaði sér samt stefnu sem fyrst. Árni Sigfússon sagði, fyrir hönd Reykjanesbæjar, að forkaupsréttur REI á hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS stæðist ekki samkomulag frá því í sumar. Sama dag þingfesti Héraðsdómur Reykjavíkur stefnu Svandísar Svavarsdóttur gegn Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hún vildi fá úrskurð um lögmæti eigendafundarins 3. október. Ragnar H. Hall sótti málið, en sagðist aðspurður ekki vita hvað það yrði lengi í meðferð; hann vonaði að það yrðu bara nokkrar vikur. Ef Svandís tapar málinu og borgarstjórn unir ekki dómnum, geta stjórnendur borgarinnar og OR boðað aðra eigendur REI til fundar og óskað eftir að samningnum verði breytt eða hann ógiltur vegna þess að forsendurnar fyrir honum séu brostnar, m.a. vegna hlutarins í hitaveitu Suðurnesja. Þann 16. október greindi svo Eftirlitsstofnun EFTA frá því að sér hefði borist kvörtun vegna málefna Orkuveitunnar, sem yrði tekin til gaumgæfilegrar skoðunar. Á fundi borgarstjórnar þann 16. október lagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fram tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að taka undir bókun Svandísar Svavarsdóttur á eigendafundi OR þann 3. október um lögmæti hans og þeirra ákvarðana sem voru teknar á honum um einkaréttarsamning og fleira. Í frétt Morgunblaðsins 30. janúar 2008 var sagt frá könnun sem Gallup Capacent gerði fyrir Creditinfo, um mat almennings á fyrirferð einstakra mála í fjölmiðlum. Guðlast á Íslandi. Guðlast er á Íslandi smán sem einhver viðhefur um helgisetningar trúarbragða eða goðmagna skráðs trúfélags og er slíkt ólöglegt skv. almennum hegningarlögum. Engin lög gilda um guðlast sem beinist að óskráðum trúfélögum sem deila ekki helgisetningum með þeim skráðu, t.d. Vísindakirkjunni. Lagastaða. Í takmörkunum tjáningarfrelsisins á Íslandi, og samkvæmt 125. grein, er guðlast bannað með lögum á Íslandi, og liggja við sektir eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Saga. Í seinni tíð eru guðlastsmál sjaldgæf. Árið 1983 var skauptímaritið Spegillinn ákært fyrir guðlast í 2. tölublaði sínu. Upplag blaðsins var gert upptækt að beiðni ríkislögreglustjóra, og ritstjórinn, Úlfar Þormóðsson, dæmdur. Árið 1988 flutti Útvarp Rót gabb-frétt þann 1. apríl, sem Pétur Sigurgeirsson biskup taldi vera guðlast. Hann kærði útvarpsstöðina til útvarpsréttarnefndar, en dró kæruna til baka eftir að Þóroddur Bjarnason útvarpsstjóri Útvarps Rótar baðst opinberlega afsökunar. Árið 1997 var gerð opinber rannsókn á einum þætti Spaugstofunnar eftir að Ólafur Skúlason biskup kvartaði bréflega til ríkissaksóknara, en ríkissaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru. Fyrr sama ár hafði Sjónvarpið hætt við að sýna kvikmynd Martins Scorsese, Síðasta freisting Krists, eftir kvörtun frá biskupi. Cixi keisaraekkja. Cixi keisaraekkja (29. nóvember 1835 – 15. nóvember 1908) var einráð í Kína frá 1861 til 1908. Hún var af ætt Manchu Yehe Nara. Jón skalli Eiríksson. Jón skalli Eiríksson var biskup á Hólum 1358 – 1390, eða í 32 ár. Hann var fyrsti biskup á Íslandi með páfaveitingu, sjá páfabiskupar. Jón skalli var Norðmaður eins og fyrirrennari hans. Hann hefur líklega verið fæddur á árabilinu 1310–1320. Ekki er vitað um ætt hans eða uppruna, en hann virðist hafa verið af áhrifamönnum kominn. Gottskálk Einarsson, bróðir hans, var forfaðir Hólabiskupanna Gottskálks Kenikssonar, Ólafs Rögnvaldssonar og Gottskálks Nikulássonar. Jón skalli hlaut biskupsvígslu til Garða á Grænlandi árið 1343, en fór aldrei þangað. Við fráfall Orms Áslákssonar árið 1356 fór Jón til Avignon til þess að fá páfaleyfi fyrir biskupsembætti á Hólum, og hlaut viðhlítandi skilríki með fulltingi Ólafs erkibiskups í Niðarósi. Hlaut hann síðan staðfestingu erkibiskups, sem lýst var í kór Niðarósdómkirkju. Hann kom út til Íslands árið 1358 og tók við Hólastað. Var honum fyrst vel tekið, en brátt varð hann fyrir andstöðu ýmissa presta, sem báru því við að hann hefði ekki bréf upp á embætti sitt. Árið 1361 afsögðu prestar í Eyjafirði og meginhluta Þingeyjarsýslu hlýðni við hann. Jón biskup bannfærði þessa presta, en þeir sungu messur sem áður. Jón biskup fór utan 1362, sat í Niðarósi um veturinn og kom aftur heim til Hóla sumarið 1363. Andstæðingar Jóns biskups héldu áfram þverúð sinni, þó að þeir hefðu misst foringja sinn, Þorstein Hallsson á Hrafnagili. Jón Skalli fór þá til Avignon 1369 og kom aftur sumarið 1370 með staðfestingu Úrbanusar 5. páfa á embættinu. Tóku prestar norðanlands hann þá í sátt. Skiptar skoðanir hafa verið á því af hverju þessi andstaða prestanna stafaði. Sumir telja að þeir hafi verið á móti Jóni biskupi af því að hann var útlendur eins og Ormur Ásláksson, sem hafði verið illa þokkaður. Einnig var hann Grænlandsbiskup og án fullra skilríkja fyrir embætti á Hólum. Aðrir telja að Jón skalli hafi skipt sér meira af fjármálum og stjórn kirkjustaða en menn sættu sig við. Óheil máldagabók Jóns skalla yfir kirkjur í Hólabiskupsdæmi er til í uppskrift frá 17. öld. Einnig eru elstu varðveittu ráðsmannsreikningar Hólastóls frá dögum hans, og bendir það til að hann hafi tekið fjármál biskupsstólsins föstum tökum. Bjarni Felixson. a>Bjarni Felixson eða Bjarni Fel (27. desember 1936) er íþróttafréttamaður á RÚV. Hann lék á sínum yngri árum knattspyrnu með KR og varð Íslandsmeistari með liðinu 1959, 1961, 1963, 1965 og 1968. Auk þess sem hann varð bikarmeistari með liðinu 1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966, og 1967. Bjarni lék 6 A-landsliðsleiki fyrir Íslenska landsliðið. Bjarni hefur um áratuga skeið lýst íþróttaviðburðum og hlaut fyrir störf sín heiðursskjöld frá KSÍ árið 2004. Þorgeirsfjörður. Þorgeirsfjörður er stuttur og grunnur fjörður norðan á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Hann byggðist á landmánsöld en síðustu bæir þar fóru í eyði árið 1944. Þar voru þrír bæir, prestssetrið á Þönglabakka, Hóll og Botn. Þorgeirsfjörður og næsti fjörður í austur, Hvalvatnsfjörður, kallast sameiginlega Fjörður (kvk.ft.). Úr Þorgeirsfirði má komast á þrjá vegu landleiðina, vestur til Keflavíkur yfir Hnjáfjall, austur til Hvalvatnsfjarðar yfir háls sunnan Nykurhöfða og suður upp úr Hóls- og Bakkadal, yfir fjallaskarð til Látrastrandar. Á Þönglabakka í Þorgeirsfirði er sæluhús, sem einnig þjónar sem gangnamannakofi. Þorgeirshöfði. Þorgeirshöfði er á milli Þorgeirsfjarðar og Hvalvatnsfjarðar í Suður-Þingeyjarsýslu. Undir vestanverðum höfðanum stóð bærinn á Þönglabakka, kirkjustaður Fjörðunga, sem fór í eyði árið 1944, þar sem nú stendur gangnamannakofi, en undir honum vestanverðum er eyðibýlið Arnareyri. Uppi á höfðanum er tjörn sem heitir Nykurtjörn, þar sem sagt var að væri nykur. Í henni drukknaði athafnamaðurinn Ísak Jónsson nálægt aldamótunum 1900, þótt hún nái fullorðnum manni varla nema í hné. Kirkjustaður. Kirkjustaður er sveitabær þar sem er kirkja. Kirkjustaðir eru í flestum sveitum Íslands og eru margir þeirra jafnframt prestssetur. Náttfaravíkur. Náttfaravíkur er lítil eyðibyggð við vestanverðan Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Víkurnar voru í byggð frá landnámsöld og fram á 20. öld. Í þeim voru þrjú býli, Vargsnes nyrst, Naustavík sunnar og Kotamýrar syðst. Á Kotadal, ofan í landi Kotamýra eru ennfremur óljósar tóftir sem nefnast Helgastaðir. Frá Náttfaravíkum er hægt að komast á tvenna vegu landleiðina, vestur á Flateyjardalsheiði yfir Almannaskarð og suður í Köldukinn annað hvort upp Kotadal og yfir Kotaskarð. Áður fyrr var hægt að vara fjörurnar suður í Bjargarkrók. Sú leið er með öllu ófær í dag þar sem mikið hefur gengið á fjörurnar og gengur sjórinn í dag alveg upp að bjarginu á löngum kafla. Uppruni nafnsins. Náttfari hefur sem sagt numið land í Náttfaravíkum en síðan einnig í Reykjadal, en verið rekin þaðan aftur ofan í Náttfaravíkur sem við hann eru kenndar, eða fyrst verið í Reykjadal og síðar fengið Náttfaravíkur. Nafn víkanna kann að vera seinni tíma skýring á örnefninu, en skammt fyrir sunnan Naustavík er klettur sem er mjög ljós að lit, og kann hann að hafa heitið Náttfari til forna, og víkurnar verið kenndar við hann. Naustavík. Naustavík er eyðibýli í Náttfaravíkum í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún var í byggð frá landnámsöld og fram á 20. öld. Þar stendur ennþá bæjarhúsið, þar sem ferðamenn og afkomendur síðustu ábúenda gista stundum. Eins og nafnið bendir til er þokkaleg höfn, frá náttúrunnar hendi, í fjörunni. Friðarhús. Friðarhús er félagsmiðstöð Samtaka hernaðarandstæðinga á Njálsgötu númer 87, á horni Snorrabrautar. Það opnaði snemma vetrar 2005. Félagið. Friðarhús er rekið af samnefndu einkahlutafélagi, sem fjöldi hernaðarandstæðinga og annarra velunnara eru í (208 í apríl 2007). Félagið var stofnað þann 30. mars 2004, í þeim tilgangi að Samtök hernaðarandstæðinga gætu komið sér upp þaki yfir höfuðið, þar sem halda mætti fundi, geyma eignir félagsins og fleira. Stofnfélagar voru 15 talsins. Félagið skrifaði undir kaupsamning á húseign sinni þann 19. ágúst 2005. Húsnæðið. Félagsaðstaða Friðarhúss er með sérinngangi, að hluta (~1/3) á jarðhæð og að hluta í hálfniðurgröfnum kjallara. Þar komast fyrir fundir, kvikmyndasýningar eða aðrar samkomur fyrir 60-100 manns. Fyrir utan aðstöðu til fundahalda er bóka- og skjalasafn SHA, lítið eldhús sem er m.a. notað í tengslum við fjáröflunarkvöldverði, skrifstofukompa, geymsla fyrir skilti og aðrar eigur. Gólfflötur húsnæðisins er 125 fermetrar. Á staðnum er salernisaðstaða fyrir fatlaða. Starfsemin. Í Friðarhúsi eru haldnir mánaðarlegir fjáröflunarkvöldverðir. Þess á milli eru málsverðir, kvikmyndasýningar, fyrirlestrar, fundir og aðrar samkomur. Fyrir sumum þeirra standa SHA, en einnig hafa aðrar grasrótarhreyfingar átt þar afdrep, svo sem Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Félagið Ísland-Palestína og ýmsir aðrir hópar sem tengjast meðal annars umhverfisvernd, friðarbaráttu, mannréttindum, sósíalisma, stjórnleysi og öðru. Klapparstígur. Klapparstígur er gata í austurbæ Reykjavíkur, sem liggur milli Skólavörðustígs og Skúlagötu. Þar eru bæði fyrirtæki og íbúðarhús. Saga. Klapparstígur var fyrsta gatan í Skuggahverfi. Íbúar í hverfinu fóru síðla árs 1877 fram á að lagður yrði vegur niður að Klapparvör, sem var mikilvægur útróðrarstaður. Lofuðu þeir vinnuframlagi við vegalagninguna og gekk bæjarstjórn að tilboðinu. Veturinn 1877 til 1878 var lagður stígur sem hlaut í fyrstu nafnið Skuggahverfisvegur. Um 1883 var farið að kalla götuna Klapparveg eða Klapparstíg, en það heiti er dregið af tómthúsbýlinu Klöpp. Í fyrstu náði Klapparstígur aðeins upp að Laugavegi (sem þá nefndist raunar Vegamótastígur), en árið 1882 var gatan lengd svo hún náði alla leið upp að Skólavörðustíg, líkt og nú er. Vindheimastígur er annað heiti á Klapparstíg, sem stundum var notað. Vísaði það til torfbæjarins Vindheima sem stóð við norðvesturenda götunnar, en var rifinn rétt eftir aldamótin 1900. Skúlagata var einnig í fyrstu kennd við Vindheima. Snorrabraut. Snorrabraut er gata í Reykjavík, tengibraut sem tengir saman stofnbrautina Sæbraut í norðri og og gatnamótin við Hringbraut, Gömlu-Hringbraut, Miklubraut og Bústaðaveg, þar sem áður var Miklatorg. Vestan við Snorrabraut er gamli Austurbærinn, en austan við hana eru Norðurmýri og Hlemmur. Hún er kennd við Snorra Sturluson. Snorrabraut var upphaflega hluti af Hringbraut, sem þá náði nokkurn veginn hálfhringinn utan um meginhluta byggðar í Reykjavík. Gamla-Hringbraut. Gamla-Hringbraut er gata í Reykjavík, sem áður tilheyrði hinni eiginlegu Hringbraut, frá Hljómskálagarðinum í vestri til Miklatorgs í austri. Þegar Hringbraut var færð til suðurs og stækkuð, varð þessi hluti eftir og var nafninu þá breytt. Hólatorg (torg). Hólatorg er torg í Grafarholti í Reykjavík, þar sem göturnar Ólafsgeisli, Þúsöld og Kristnibraut mætast. Það er kennt við Hóla í Hjaltadal. „Hólatorg“ mun vera eina götuheitið í Reykjavík sem er til á tveim stöðum, en samnefnd gata er til í vesturbæ Reykjavíkur. Hólatorg. Hólatorg er gata í Vesturbæ Reykjavíkur. Það byggðist upp úr lokum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fjögur einlyft íbúðarhús með alls 7 íbúðum standa norðan við það, númeruð 2-8, tvö úr timbri (í bárujárns-sveitserstíl, byggð 1919 og 1920) en tvö steinsteypt (í ný-barokkstíl, bæði byggð á árið 1928), en sunnan við það er Hólavallakirkjugarður. Frá austurenda Hólatorgs liggur Kirkjugarðsstígur í austur og Garðastræti í norður, en frá vesturenda þess liggur Sólvallagata í vestur og Ljósvallagata í suður. Gatan er tvístefnugata, með bílastæðum við norðurhliðina. Skipulagsreiturinn sem Hólatorg tilheyrir er verndað svæði í borgarskipulagi, en ekkert húsanna er verndað í sjálfu sér. Forskeytið „Hóla-“ er dregið af því að gatan liggur um gamla Hólavöll, en viðskeytið „-torg“, sem er ekki algengt götuheiti, er vegna þess að í upphafi stóð til að þar yrði eiginlegt torg, sem næði frá kirkjugarðinum og alveg upp að húsunum. Það varð þó úr að hið fyrirhugaða torg varð venjuleg gata, og hluti landsins sem upphaflega var hugsaður fyrir það varð að allstórum görðum fyrir framan (sunnan) húsin. „Hólatorg“ mun vera eina götuheitið í Reykjavík sem er til á tveim stöðum, en samnefnt torg er til í Grafarholti. Flateyjardalsheiði. Flateyjardalsheiði er heiðardalur á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, þar sem áður var nokkur byggð. Heiðin nær frá Fnjóskadal í suðri til Eyvindarár og Urðargils í norðri, en þar fyrir norðan er Flateyjardalur, sem heiðin dregur nafn sitt af. Áin Dalsá rennur um heiðina, en fjöll girða hana austan- og vestanmegin. Fjallgarðurinn vestan heiðarinnar heitir ekki neitt, en meðal fjalla austan hennar má nefna Víknafjöll (sem er farið um til að komast í Náttfaravíkur), Háu-Þóru, Lágu-Þóru, tvo Bræður, tvo Stráka, Siggu, Viggu og nyrst er fjall sem heitir Hágöngur. Vestan ósa Skjálfandafljóts í botni flóans er fjall sem heitir ýmist Bakrangi, Ógöngufjall eða Galti, eftir sjónarhorninu. Norðurmörk Flateyjardalsheiðar eru um Eyvindará vestan Dalsár en Urðargil austan hennar. Þar fyrir norðan var Flateyjarhreppur, en heiðin sjálf tilheyrði Hálshreppi og sóttu íbúarnir kirkju til Fnjóskadals, fyrir utan heimilismenn á Eyvindará, sem höfðu undanþágu til að sækja kirkju á Brettingsstöðum. Eftir allri heiðinni liggur vegur (F899) sem er vel fær jeppum og góðum fólksbílum. Kambsmýrar. Kambsmýrar eru eyðibýli á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þær voru í byggð til 1929. Grímsland (Flateyjardalsheiði). Grímsland er eyðibýli á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Það var í byggð til 1904. Ófeigsá. Ófeigsá er eyðibýli á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún var í byggð til 1870. Eyvindará. Eyvindará er eyðibýli á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún var í byggð til 1872. Bæjarstæðið er sunnan við samnefnda á, sem markar hreppaskil milli gamla Flateyjarhrepps og Hálshrepps, og var eini bær á Flateyjardalsheiði sem átti kirkjusókn að Brettingsstöðum eða Flatey, en ekki að Fnjóskadal. Vestari-Krókar. Vestari-Krókar eru eyðibýli á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir voru í byggð til 1935. Þúfa (Flateyjardalsheiði). Þúfa er eyðibýli á Flateyjardalsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún var í byggð til 1935. Miklatorg. Miklatorg var stórt hringtorg á gatnamótum Hringbrautar, Miklubrautar, Snorrabrautar, og Bústaðavegar í Reykjavík. Landspítalinn við Hringbraut var í nágrenni við torgið. Nú hefur torgið verið fjarlægt og í stað þess eru komin mislæg gatnamót. Urðargil. Urðargil er lítið gil sem markar austanverð suðurmörk Flateyjardals og austanverð norðurmörk Flateyjardalsheiðar í Suður-Þingeyjarsýslu. Hágöngur. Hágöngur eru nyrsta fjall í fjallgarðinum austan við Flateyjardalsheiði á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa í Suður-Þingeyjarsýslu. Undir fjallinu vestanverðu er eyðibýlið á Knarrareyri á Flateyjardal. Fnjóskadalur. Fnjóskadalur (stundum kallaður Hnjóskadalur áður fyrr) er mikill dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann dregur nafn af svokölluðum „fnjóskum“, sem eru „þurrir og feysknir trjábútar“. Dragáin Fnjóská rennur eftir honum. Í suðri endar hann í þrem eyðidölum, Bleiksmýrardal, Hjaltadal og Timburvalladal, en nyrst sveigir dalurinn til vesturs og heitir þar Dalsmynni. Um það rennur Fnjóská til sjávar í Eyjafirði. Norður af dalnum er Flateyjardalsheiði og norðan við hana Flateyjardalur. Vestan dalsins er Vaðlaheiði og vestan hennar er Svalbarðsströnd. Austan dalsins eru einnig fjöll, að norðan milli hans og Köldukinnar og að sunnan milli Fnjóskadals og Bárðardals. Þar á milli er Ljósavatnsskarð. Hringvegurinn liggur um Fnjóskadal og til vesturs til Svalbarðsstrandar um Víkurskarð, nokkru sunnan við Dalsmynni, en til austurs um Ljósavatnsskarð til Bárðardals. Áður lá vegurinn til Eyjafjarðar upp úr dalnum miðjum um Vaðlaheiði og nú er rætt um að gera jarðgöng undir heiðina. Bæir. Í dalnum eru margir bæir, og má þar meðal annarra nefna Steinkirkju, Þverá, Illugastaði, Végeirsstaði, Háls og Reyki. Skógar. Í Fnjóskadal er Vaglaskógur, einn stærsti upprunalegi skógur á Íslandi, en einnig eru þar Lundsskógur og Þórðarstaðaskógur. Jarðfræði. Dalurinn er grafinn af vatnsföllum, einkum Fnjóská og skriðjöklum á ísöld. Hann lá upphaflega beint norður og var þá Flateyjardalsheiði hluti af honum og Fnjóská rann til sjávar í utanverðan Sklálfanda. Með tímanum grófu ár og jöklar skarð í fjöllin þar sem Dalsmynni er nú og svo fór að lokum að Fnjóska fann sér þar farveg og tók að renna til Eyjafjarðar. Í ísaldarlok, fyrir um 12.000 árum síðan, stífluðu jöklar Dalsmynni og Ljósavatnsskarð og þá myndaðist mikið jökullón í dalnum, um 40 kílómetra langt, og má enn sjá móta fyrir strandlínum þess hátt í hlíðum fjallanna. Lónið hvarf þegar jöklarnir hopuðu. Jarðhiti er við Reyki og þaðan liggur hitaveita allt til Grenivíkur. Dagur B. Eggertsson. Dagur Bergþóruson Eggertsson (f. 19. júní 1972) er íslenskur stjórnmálamaður og læknir. Dagur er oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn og varaformaður Samfylkingarinnar. Hann gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík í hundrað daga, frá október 2007 til janúar 2008. Dagur hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur frá árinu 2002, 2002-2006 fyrir Reykjavíkurlistann en síðan fyrir Samfylkinguna. Hann sigraði prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í febrúar 2006. Hann skrifaði ævisögu Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Hún kom út í þremur bindum á árunum 1998-2000. Dagur tók við embætti borgarstjóra þann 16. október 2007, eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk. Björn Ingi Hrafnsson sagði skilið við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins 11. október 2007, en dagana á undan hafði verið misklíð innan meirihlutans um tilveru útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. Reykjavik Energy Invest. Meirihlutinn á bak við Dag sem borgarstjóra samanstóð af borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs, Framsóknarflokks og F-lista. 21. janúar 2008 tilkynntu Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, að þeir hefðu ákveðið að mynda saman meirihluta með Ólaf sem borgarstjóra. Meirihlutinn tók við völdum 24. janúar 2008 og lét Dagur þá af embætti borgarstjóra. Hafði hann þá setið í embætti í hundrað daga. Aðeins Árni Sigfússon hefur setið skemur í embætti borgarstjóra en Dagur. Dagur er nú formaður borgarráðs, í samstarfi Samfylkingarinnar og Besta flokksins. Lífdísill. Lífdísill (kallast einnig lífdísel eða biodísel) er lífeldsneyti, búið til úr lífrænum efnum, eða lífmassa. Þessi Lífmassi er allt það lífræna efni sem hægt að nýta til að búa til lífdísil, og kemur hráefnið oftast frá plöntum eða dýrum. Það sem allur lífdísill á sameiginlegt er að hann er allur kominn af fitu af einhverju tag. Olíur eru jú bara fitur sem eru fljótandi við herbergishitastig, og kallast þessar fitur þríglyseríð. Þess vegna er lífdísill endurnýjanlegur orkugjafi. Lífdísil er hægt að nota óblandaðan á brunavélar, en í dag er hann oftast blandaður við venjulega dísilolíu í ákveðnu hlutfalli. Þessar blöndur eru einkenndar með stafnum „B“, sem stendur fyrir biodiesel, og tölu, til dæmis B5, fyrir dísilolíu með 5% lífdísil blandað út í. Þegar búið er að blanda lífdísilnum út í venjulega dísilolíu er ekki lengur um lífdísil sem slíkan að ræða. Hann er skilgreindur sem alkóhól-ester úr fitusýrum unnum úr plöntu eða dýraafurðum. Framleiðsla. Lífdísill er framleiddur með aðferð sem kallast estrun (e. "transesterification"). Estrun er hvatað efnahvarf alkóhóls, oftast metanóls eða etanóls, og lífmassans sem á að framleiða dísilinn úr. Hráefnið sem notað er til framleiðslu lífdísils getur verið margs konar. Nota má margar gerðir af jurtaolíum, hvort sem þær eru nýjar eða notaðar, til dæmis repjuolía, sojabaunaolía, sólblómaolía, pálmaolía eða steikingarolía. Þá má nota fitu af dýrum eða tólg, og margs konar olíur úr fiskum, svo sem lýsi. Það er þó þannig að miklu meira er um að lífdísill er gerður úr jurtaolíu heldur en dýrafitu. Í Evrópu er mest um að repjuolía sé notuð en sojabaunaolía í Bandaríkjunum og eru þetta algengustu jurtaolíurnar notaðar til lífdísilframleiðslu. Annað algengasta hráefnið sem þarf til framleiðslunnar er alkóhól. Algengast af þeim er metanól en eins er hægt að nota etanól, ísóprópanól og bútýl. Áður en estrunin getur hafist þarf oft að forvinna hráefnið. Það getur verið af mismunandi gæðum og þarf nánast alltaf að forvinna úrgangsolíur og fitur ef þær eiga að vera nothæfar til lífdísilsframleiðslu. Þetta er gert til að minnka innihald frjálsra fitusýra og vatns, því þetta tvennt dregur verulega úr nýtni hvarfsins. Jurtaolía er samband þriggja fitusýra og einnar sameindar glýseróls. Við hvarfið losna fitusýrurnar frá glýserólinu og ein metanólsameind binst hverri þeirra í staðinn. Hvatinn sem þarf að nota til að láta hvarfið ganga hraðar er oft vítissódi (NaOH) þegar metanól er notað sem alkóhólið. Aðra hvata er einnig hægt að nota og geta það bæði verið sýru-hvatar og basa-hvatar. Afurðir hvarfsins eru auk lífdísils, glýseról og alkóhól. Þegar hvarfið er afstaðið hefst eftirvinnslan. Efnahvarfið er sjaldnast fullkomið svo í lífdísilnum geta hin og þessi óhreinindi orðið eftir. Glýserólið er eðlisþyngra þannig að það leggst á botninn á ílátinu, svo hægt er að tappa því undan. Til að losna við það sem gæti orðið eftir í lífdísilnum er hann hreinsaður með hreinu vatni og er það kallað vöskun. Með vöskun er hægt að losna við mest af glýserólínu en ekki algjörlega allt, svo það eina sem hægt er að gera í þessu er að ná sem mestri nýtni út úr hvarfinu. Svo má eima glýserólið og ná þannig allt að 30% af alkóhólinu sem notað var, til baka. Einkenni. Lífdísilolía er frábrugðin hefðbundinni dísilolíu á nokkra vegu. Það er munur á orkuinnihaldi, cetantölu og þeim hitastigum sem skipta máli í sambandi við eldsneyti, þó munurinn sé ekki alltaf mikill. Eðlisþyngd. Eðlisþyngd lífdísils er ívið hærri en jarðdísils. Fyrir lífdísil er hún í kringum 0,88g/cm3, en fyrir jarðdísil er hún í kringum 0,85g/cm3. Orkuinnihald. Orkuinnihald, eða varmagildi lífdísils er um það bil 37-39 MJ/kg, á meðan orkuinnihald venjulegrar dísilolíu er í kringum 43MJ/kg. Þetta segir okkur að við fáum ekki eins mikla orku út úr lífdísil eins og venjulegri jarðdísilolíu. Cetantala. Cetantala lífdísils er hærri en í venjulegri dísilolíu. Cetantala segir til um eiginleika olíunnar til sjálfsíkveiknunar. Að hún er hærri í lífdísil segir okkur að bruni hans verður betri og hreinni en bruni venjulegra jarðdísilolíu. Cetantala jarðdísilolíu er undir 50, en hún er venjulega yfir 50 fyrir lífdísil. Blossamark. Blossamark lífdísils er í kringum 130 °C, sem er töluvert hærra en venjulegrar dísilolíu, sem er í kringum 70 °C. Blossamark er það hitastig sem þarf til að kvikni í olíunni þegar eldur er borinn að henna, en slokknar aftur þegar eldurinn er fjarlægður. Þetta gerir það að verkum að lífdísill er töluvert öruggari en venjuleg dísilolía í umgengni. Notkun. Notkun á lífdísil fer vaxandi á heimsvísu. Hann er hægt að nota á allar dísilvélar, þó að í sumum tilfellum þurfi að leggjast í breytingar á eldsneytiskerfinu. Eins og er er ekki mælt með því að nota sterkari blöndu af lífdísil en B20. Bílaframleiðendur hafa gefið það út að það séu engar tryggingar fyrir því að það gangi áfallalaust. Lífdísill hefur nefnilega þau áhrif að hann mýkir og jafnvel brýtur niður sumar gerðir af plasti og gúmmíi, þannig að það gæti skemmt eldsneytiskerfa bíla. Þá er lífdísill ekki eins kuldaþolinn og venjuleg dísilolía. Hún storknar fyrr og gæti því stíflað síur eða skapað önnur vandræði. Þetta hefur verið til vandræða í sterkari blöndum en B20. Gerðar hafa verið rannsóknir á akstri bíla á B20 blöndu og hefur komið í ljós að það er í lagi að nota hana í flestum tilfellum. Notkun á lífdísilolíu á Íslandi er ekki mikil. Hún er þó seld á nokkrum bensínstöðvum landsins. N1 selur t.d. B5 olíu og sem er þá 95% venjuleg dísilolía og 5% lífdísill. Þetta er hlutfall sem margir, ef ekki flestir, bílaframleiðendur hafa sagt að sé óhætt að nota á bíla frá þeim án þess að eiga á hættu skemmdir eða að ábyrgð fyrnist. Kostir og gallar. Eins og allt annað hefur lífdísill sína kosti og galla. Eftirfarandi er í samanburði við hefðbundna dísilolíu. Kostir. Lífdísill er því ekki eiturefni og er töluvert umhverfisvænni en hefðbundinn jarðdísill Gallar. Einn af helstu ókostum lífdísils er að hann er jafnvel dýrari en hefðbundið jarðdísilolía. Blöndur að B20 geta þó verið á sambærilegu verði og jarðdísill. Þá þarf einnig töluvert landsvæði undir ræktun jurta sem hægt er að nota í framleiðsluna. Repja getur til að mynda skilað í kringum 1000 lítrum á hektara á ári. Aseton-peroxíð. Aseton-peroxíð, tríacetontríperoxíð (TATP), trisýklóacetonperoxíð (TCAP) eða acetontrísýklóperoxíð (ATCP) er öflugt sprengiefni. Richard Wolffenstein uppgötvaði efnið árið 1895. Hægt er að búa efnið til úr saltsýru, vetnisperoxíði og asetoni. TATP var notað við sprengjutilræði í neðanjarðarlestum í London 7. júlí 2005. Jonestown. Jonestown var lítið þorp í norðvestur hluta Gvæjana sem var reist af sértrúarsöfnuðinum Peoples Temple. Jonestown var stofnað á miðjum sjöunda áratugnum af leiðtoga safnaðarins, Jim Jones. Um 1000 manns bjuggu þar þegar mest var. Jonestown öðlaðist heimsathygli árið 1978 þegar um 900 safnaðarmeðlimir frömdu sjálfsmorð. Uppruni. The Peoples Temple var sértrúarstöfnuður sem var stofnaður í Indianapolis, Indiana, á miðjum fimmta áratugnum. Á sjötta áratugnum hafði fækkað í söfnuðinum og taldi hann ekki nema nokkur hundruð meðlimi. Söfnuðurinn var við það að leggjast niður þegar Jones tókst að koma á sambandi milli safnaðarins og samtakanna Disciples of Christ. Þetta nýja samband efldi mannorð Peoples Temple, jók meðlimafjöldann og um leið áhrif Jim Jones. Árið 1965 flutti Jones ásamt 80 meðlimum til Redwood dals í Mendocina sýslu, Kaliforníu, þar sem þau töldu sig vera hólpin ef kæmi til kjarnorkuárásar á Bandaríkin. Árið 1972 flutti Jones söfnuð sinn til San Francisco, Kaliforníu og opnaði fleiri kirkjur í Los Angeles, Kaliforníu. Í San Francisco breytti Jones pólitískri ímynd sinni, breyttist úr andstæðingi kommúnisma í sósíalista, ásamt því að hann tók að styðja efnilega pólitíska frambjóðendur munnlega. Jones var skipaður í borgarnefnd og veitti fjárstyrki til dagblaða á svæðinu með því markmiði að standa við fyrsta boðorðið. Jonee hóf góðgerðarstarfssemi með því markmiði einu að safna að sér liði fátækra. Eftir fjölda hneykslismála sem upp komu varðandi Peoples Temple og rannsóknir á skattsvikum forkólfa þess í San Francisco, hóf Jones að skipuleggja flutning safnaðarins á ný. Árið 1974 tók Jones á leigu um 15.4 km² frumskógarsvæði hjá ríkisstjórninni í Gvæjana. Meðlimir safnaðarins hófu framkvæmdir á Jonestown undir eftirliti eldri safnaðarmeðlima. Jones sneri aftur til Kaliforníu árið 1977 og hvatti alla meðlimi safnaðarins til að flytja til Jonestown, sem hann kallaði „Landbúnaðarverkefni Peoples Temple“. Árið 1977 hafði íbúabyggð í Jonestown verið um 50 manns en fjölgað í yfir 900 manns árið 1978. Stofnun Jonestown. Margir meðlimir safnaðarins trúðu því að Gvæjana, eins og Jones hafði lofað, yrði paradísi líkast. Vinna fór fram sex daga vikunnar, frá sjö á morgnana til sex á kvöldin og steig hitinn oft á tíðum upp í 38°. Samkvæmt sumum meðlimumum fengu flestir sem í þorpinu bjuggu lítið annað en hrísgrjón og baunir á meðan Jones borðaði egg, kjöt, ávexti, salöt og drykki sem hann geymdi í eigin ískáp. Líkamlegir kvillar eins og niðurgangur og hiti, herjaði á helming íbúa Jonestown í febrúar 1978. Ýmsum refsingum var beitt á meðlimi sem voru taldir eiga við alvarleg hegðunarvandamál að stríða. Aðferðinar voru meðal annars að loka þá inni í þröngum viðarkössum og voru börn neydd til að eyða nótt í brunni, stundum á haus. Meðlimir sem reyndu að flýja voru dópaðir upp þar til þeir voru ófærir um slíkt. Vopnaðir verðir vöktuðu svæðið dag og nótt til að þorpsbúar Jonestown viðhéldu tryggð sinni við Jones. Börn voru sett í samfélagsumönnun, áttu að ávarpa Jones sem „pabba“ og var einungis leyft að sjá foreldra sína í stuttan tíma á kvöldin. Einnig fullorðnir urðu að ávarpa Jones sem „faðir“ eða „pabbi“. Fjöldasjálfsmorðin sem síðar áttu eftir að gera Jonestown að heimsþekktu þorpi voru æfð á svokölluðum „hvítum nóttum“. Í eiðsvarinni yfirlýsingu lýsti flóttamaður einn frá Jonestown, Deborah Layton, hvernig æfingarnar fóru fram. "„Öllum, þar á meðal börnunum, var sagt að mynda röð. Þegar röðin gekk fram var okkur rétt lítið glas með rauðum vökva í til að drekka. Okkur var sagt að vökvinn innihéldi eitur og að við myndum deyja á næstu 45 mínútum. Við gerðum öll það sem okkur var sagt. Þegar það var komið að þeim tímapunkti sem það hefði tekið eitrið að virka, tilkynnti Jones okkur að þetta væri í raun ekki eitur, en að við höfðum staðist hollustuprófið. Hann aðvaraði okkur að það yrði ekki langt í það að það yrði nauðsyn fyrir okkur að falla fyrir eigin hendi.“" Rannsóknir. Þriðjudaginn 14. nóvember 1978, flaug þingmaðurinn Leo Ryan, demókrati frá San Francisco, til Gvæjana ásamt 18 manna sendinefnd. Sendinefndin samanstóð af embættismönnum, fjölmiðlafólki og meðlimi í hópi sem kallaði sig „áhyggjufullir ættingjar meðlima Peoples Temple“. Ryan og hópnum var falið að rannsaka ásakanir um brot á mannréttindum, óheiðarlega fangelsun, sviksamar eignaupptökur á bæði peningum og vegabréfum meðlima safnaðarins, æfingar á fjöldasjálfsmorðum og morð á 7 meðlimum sem höfðu reynt að komast undan Jonestown. Frá þeim tíma þegar Ryan og aðrir komu á miðnætti í Georgetown, höfuðborg Gvæjana, miðvikudaginn 15. nóvember, voru engin merki um það að hlutirnir myndu ganga greitt fyrir sig. Hótelherbergi sem höfðu verið pöntuð voru upptekin og varð hópurinn að finna annan samastað. Næstu daga neituðu lögfræðingar Jonestown að tala við Ryan og hóp hans um mál tengd Jonestown. Meðan á dvöl Ryans stóð, heimsótti hann höfuðstöðvar Peoples Temple í úthverfi Lamaha Gardens og talaði Ryan meðal annars við safnaðarmeðliminn Laura Johnston Kohl og fleiri sem sýndu honum höfuðstöðvarnar. Ryan bað um að fá að tala við Jim Jones en Sharon Amos, sem var æðsti safnaðarmeðlimurinn á svæðinu, sagði Ryan að það væri ekki möguleiki þar sem heimsókn hans hefði ekki verið tilkynnt með fyrirvara. Heimsókn Leo Ryan til Jonestown. Síðla morguns föstudagsins 17. nóvember, tilkynnti Ryan að hann myndi fara til Jonestown um 14:30, sama hvernig stundatöflu Jim Jones væri háttað. Hópurinn hélt til Jonestown nokkrum klukkutímum síðar og lentu á Port Kaituma flugvellinum sem var í 10 km fjarlægð frá Jonestown. Einungis Ryan og þremur öðrum úr hópi hans var upphaflega hleypt inn í Jonestown en afgangurinn af hópnum fékk að koma eftir sólsetur. Það var skýrt frá því seinna og staðfest með segulböndum sem fundust á staðnum, að Jones hafði æft safnaðarmeðlimi í Jonestown og sagt þeim hvernig ætti að taka á móti Ryan og láta líta þannig út að allir væru ánægðir með veru sína þar. Fyrsta kvöldið sem Ryan og hópur hans voru í heimsókn var haldin veisla og tónleikar honum til heiðurs. Meðlimir safnaðarins voru vandlega valdir af Jones til að fylgja ákveðnum aðilum úr hópi Ryans um svæðið. Sumir safnaðarmeðlimirnir voru óánægðir og litu á heimsókn Ryans sem vandræði sem hann hafði komið með að utan, á meðan aðrir sinntu sínum daglegu verkum. Tveir meðlimir safnaðarins, Vernon Gosney og Monica Bagby, gerðu tilraun í að láta vita að þau vildu komast burt frá staðnum. Gosney rétti blaðamanninum Don Harris blað sem á stóð „Vernon Gosney og Monica Bagby. Vinsamlegast hjálpið okkur að komast burt frá Jonestown.“ Þessa nótt gisti Ryan ásamt þremur úr sendinefndinni í Jonestown en öðrum í hópnum var sagt að þeir yrðu að finna sér annan samastað yfir nóttina. Þau fóru því til Port Kaituma og gistu á litlu kaffihúsi. Síðla morguns þann 18. nóvember, vaknaði Jim Jones og NBC fréttamennirnir réttu honum blaðið sem Vernon Gosney hafði látið þá fá. Jones brást illa við og sagði að þeir sem vildu fara myndu „ljúga“ og eyðileggja Jonestown. Jones og margir aðrir safnaðarmeðlimur litu á sig sem fjölskyldu sem hefði skyldu og rétt til þess að standa saman. Þá stigu tvær fjölskyldur fram og báðu um að verða fylgt út úr Jonestown með sendinefnd Ryans. Jones gaf þeim leyfi til þess að fara ásamt að láta þau fá peninga og vegabréf. Jones sagði einnig að þau væru ávallt velkomin aftur til Jonestown. Þetta kvöld voru langar rökræður á svæðinu. Jones hafði frétt að fjölskyldurnar hefðu yfirgefið svæðið fótgangandi og var í uppnámi vegna þessara atburða. Ofbeldi brýst út. Vegna þess að fleiri vildu yfirgefa Jonestown en gert hafði verið ráð fyrir og takmarkaðan sætafjölda í flugvélinni, ákvað Ryan að senda hóp á flugvöllinn, vera á svæðinu með þeim sem ekki kæmust með og bíða eftir öðru flugi. Safnaðarmeðlimurinn Don Sly (viðurnefni „Ujara“) réðst á Ryan með hníf, að fyrirskipun Jones, á meðan Jones sjálfur horfði á og kippti sér lítið upp við atvikið. Tveir menn drógu Sly af Ryan og í átökunum slasaðist Sly og blóð hans slettist yfir Ryan. Þetta var ein af mörgum skipunum Jones þennan dag þar sem hann hafði fengið hliðholla meðlimi til að hefja róttækar aðgerðir gegn sendinefndinni án þess að aðrir hliðhollir meðlimir vissu af. Þetta orsakaði mikla ringulreið meðal meðlima. Þrátt fyrir að þingmaðurinn hafi ekki slasast alvarlega, gerði hann sér grein fyrir að sendinefndin og aðrir væru í mikilli hættu. Stuttu áður en sendinefndin yfirgaf Jonestown heimtaði Larry Layton, hliðhollur meðlimur Peoples Temple, um að koma með. Þetta vakti grunsemdir hjá öðrum sem sagt höfðu skilið við Jones en Ryan og sendinefndin leiddu það hjá sér. Sendinefnd Ryans og 16 fyrrverandi meðlimir Peoples Temple yfirgáfu Jonestown og héldu til Port Kaituma flugvallarins, þar sem tvær flugvélar skyldu flytja hópinn á brott. Áður en fyrri vélin tók á loft, tók Larry Layton upp byssu sem hann hafði falið og byrjaði að skjóta á farþegana. Hann særði Monicu Bagby og Vernon Gosney en var afvopnaður af Dale Parks. Um sama leyti birtist pallbíll á flugvellinum, en í honum voru vopnaðir safnaðarmeðlimir og hófu að skjóta á sendinefndina og fyrrverandi meðlimi. Leo Ryan varð fyrir skoti og lést ásamt fjórum öðrum blaðamönnum. Nokkrar sekúndur af skothríðinni náðust á myndband af NBC myndatökumanninum Bob Brown, en vél hans hélt áfram að mynda eftir að hann hafði verið skotin til bana. Annarri flugvélinni tókst að hefja sig á loft og fljúga til Georgetown. Aðrir flúðu inn í frumskóginn sem umkringdi flugvöllinn. Það tók marga klukkutíma fyrir þá 10 sem höfðu lent í skotárásinni að safnast saman og eyddu þau nóttinni á kaffihúsi í Port Kaituma. Flugvél frá yfirvöldum Gvæjana kom til að flytja burt særða morgunin eftir. Fjöldamorð og sjálfsmorð. Það er nokkuð óljóst hvað gerðist í raun og veru í Jonestown að kvöldi 18. nóvember 1978. Fjölmiðlar hafa jafnan greint frá atvikinu sem fjöldasjálfsmorði en síðastliðin ár hafa komið upp hugtök eins og „morð-sjálfsmorð“ í tengslum við Jonestown. Þeir sem að trúa því að þetta hafi í raun og veru verið fjöldasjálfsmorð játa þó flestir að 287 börn hafi aldrei getað fallist á athafnirnar og voru þar af leiðandi myrt. Margir aðrir benda á sönnunargögn sem að sýna fram á það að allir 909 sem létust í Jonestown hafi í raun verið myrtir. Jim Jones kallaði meðlimi á fund í Jonestown snemma kvölds. Áður en fundurinn hófst voru aðstoðarmenn byrjaðir að fylla ker með ávaxtadrykk sem innihélt valíum, Chloral hydrate og að öllum líkindum blásýru. Þegar fólk hafði safnast saman á fundinn tilkynnti Jones þeim að einn meðlimur Peoples Temple sem komist hafði undan með sendinefndinni myndi hefja skothríð í flugvélinni sem myndi valda því að hún myndi brotlenda í frumskóginum. Hann fullyrti að ef einhverjir eftirlifendur yrðu myndu þeir valda söfnuðinum skaða, „þeir munu misþyrma börnunum okkar, þeir munu misþyrma fólkinu hérna og þeir munu misþyrma eldri borgurum. Við getum ekki sætt okkur við slíkt og það eina sem þarf að gera er að taka sopa og fara að sofa. Það er það sem dauðinn er, svefn.“ Áður en morð-sjálfsmorðin fóru fram, rökræddi Jones við að minnsta kosti einn meðlim sem mótmælti ákvörðuninni harðlega. 43 mínútna segulbandsupptaka var skilin eftir á svæðinu og á spólunni er allt sem fram fór. Börnunum var byrlað eitur fyrst og fjarlægðu starfsmenn börnin frá foreldrum sínum og létu þau standa í röð. Sumir foreldrar fóru með börnunum sínum. Eitrinu var sprautað í munn barnanna með plast sprautum. Sjónarvotturinn Stanley Clayton, sem aðstoðaði börnin er höfðu fengið eiturskammt, fullyrti að mörg börn höfðu veitt viðnám og þurfti að halda þeim niðri til að koma eitrinu í þau. Menn hafa notað þau rök að ástæðan fyrir að fullorðna fólkið í söfnuðinum hafi framið sjálfsmorð án mótmæla, hafi verið áfallið eftir að hafa séð á eftir 287 börnunum í dauðann. Samkvæmt Clayton var eitrið mjög virkt og olli því að fólk lést á innan við fimm mínútum eftir að hafa tekið það inn. Clayton segir einnig að eftir að fólk hafði fengið eiturskammtinn hafi þeim verið skipað að leggjast niður meðfram göngupöllum svæðisins. Á segulbandsupptökunni má heyra „öskur“ margra og „angistargrát“ (orð Jones), bæði frá konum og börnum. Eftirlifendur/sjónarvottar. Þrír aðrir meðlimur héldu því fram að þeim hafði verið úthlutað verkefni af Maria Katsaris, háttsettum meðlimi, og þar af leiðandi komist hjá dauðanum. Þetta voru bræðurnir Tim og Mike Carter (30 ára og 20 ára) og Mike Prokes (31 árs). Fengu þeir farangur sem innihélt hálfa milljón dollara ásamt skjölum og þeim sagt að færa Sovíeska sendiherranum í Georgetown sendinguna. Fljótlega eftir að hafa komist út af svæðinu fleygðu þeir peningunum og voru handteknir skömmu seinna. Tveir lögfræðingar Jonestown voru einnig staddir á svæðinu þegar byrjað var að gefa fólki eiturblönduna. Þeir náðu þó að tala til vopnaða verði og komust út af svæðinu og héldu á leið til Port Kaituma. Skýringin á dauða Jim Jones samkvæmt yfirvöldum í Gvæjana er sú að eftir að hafa lokið við að gefa öllum eiturblönduna, hafi nokkrir starfsmenn komið saman og skotið hvert annað í höfuðið með skammbyssu. Jim Jones. James Warren "Jim" Jones (13. maí 1931 – 18. nóvember 1978) var stofnandi sértrúarsafnaðarins Peoples Temple sem öðlaðist heimsathygli árið 1978 eftir að meira en 900 meðlimir safnaðarins frömdu sjálfsmorð. Peoples temple. Peoples Temple var sértrúarsöfnuður stofnaður árið 1955 af Jim Jones. Söfnuðurinn var byggður upp á framsæknum grundvallaratriðum eins og um sameiningu kynþátta en er í dag þekktastur fyrir fjöldasjálfsmorðin sem áttu sér stað í Jonestown árið 1978, þegar yfir 900 meðlimir safnaðarins frömdu sjálfsmorð. Fjárhús. Séð yfir fjárhús með gjafagrindum Fjárhús (stundum flokkuð niður í lambhús, ærhús, sauðhús og hrútakofa) eru gripahús þar sem bóndi hýsir sauðfé, einkum yfir vetrarmánuðina. Fjárhús eru misjöfn að stærð og lögun, en í þeim eru yfirleitt stórar krær þar sem féð er stúkað af, og meðfram þeim liggja garðar (eða gjafagrindur). Fjárhús með garða nefnast "garðahús" og fjárhús sem eru langt frá bæjarhúsum nefnast "beitarhús" en í slíkum húsum var fénu beitt jafnvel upp á hvern einasta dag. Fjárhús, beitarhús og garðahús eru oft notuð í fleirtölu, jafnvel þó aðeins einn bygging hýsi sauðféð. Talað er um að "taka fé á hús", þegar fé er rekið inn í fjárhús og haft þar yfir veturinn. Ásbjörn dettiás. Ásbjörn dettiás var Gunnbjarnarson, Ingjaldssonar. Hann var faðir Finnboga ramma, garps og vígamanns sem Finnboga saga ramma fjallar um. Hann var efnaður bóndi á Eyri á Flateyjardal. Hann var mágur Þorgeirs Ljósvetningagoða og sagt að hann hafi deilt með honum goðorði, en hann var kvæntur Þorgerði systur Þorgeirs, og segir Finnboga saga að hún hafi verið „kvenna vænst og skörungur mikill“, en um Ásbjörn segir hún að hann hafi verið maður „norrænn að ætt og hinna ágætustu manna“. Í Landnámu er Ásbjörn dettiás sagður sonur Eyvindar Loðinssonar, sem nam Flateyjardal en Finnboga saga segir Ásbjörn sjálfan hafa verið landnámsmann. Útburður. Útburður er það þegar barn, yfirleitt nýfætt, er borið út, þ.e. skilið eftir á víðavangi til þess að deyja. Áður fyrr urðu það stundum örlög óvelkominna barna að vera borin út, ekki síst þegar þau fæddust utan hjónabands og ekki mátti fréttast um fæðinguna til að forðast hneyksli. Börn sem komu undir í blóðskammarmálum voru líka gjarnan borin út. Barnaútburður tíðkaðist í heiðni, og við kristnitöku var það eitt sérákvæðanna að hann yrði áfram heimilaður, þótt það hafi verið tekið aftur á 11. öld. Barnaútburður en ein tegund dulsmála. Hjátrú tengdist útburði. Útburðir voru sagðir ganga aftur, stundum til að skaprauna mæðrum sínum, og útburðarvæl voru stundum sögð heyrast og þóttu ekki vera góðs viti. Allmargar íslenskar þjóðsögur fjalla um útburði, og er „Móðir mín í kví, kví“ líklega þeirra þekktust. Sifjaspell. Sifjaspell (blóðskömm eða frændsemisspell og stundum líka blóðskylda) eru samræði skyldmenna, til dæmis föður og dóttur, sonar og móður eða systkina. Á þeim hefur hvílt bannhelgi frá alda öðli, og tengist það eflaust því að ef of skyldir einstaklingar eignast saman afkvæmi eru stórauknar líkur á því að arfgengir sjúkdómar innan fjölskyldunnar erfist til afkvæmisins. Í kristnum lagaskilningi fyrri alda töldust hjón vera „eitt hold“, og taldist því t.d. samræði manns við mágkonu sína til sifjaspella, og var fólk stundum tekið af lífi fyrir þær sakir, en sifjaspell voru dauðasök samkvæmt stóradómi. Meðal annars vegna hinna hörðu viðurlaga var barnsburði stundum leynt, og barnið þá frekar borið út en að upp kæmist. Leirdalsheiði. Leirdalsheiði er heiðardalur á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Hún nær frá Höfðahverfi í suðri til Hvalvatnsfjarðar í norðri. Eftir allri heiðinni liggur jeppavegur (F839). Suður eftir heiðinni fellur á sem heitir Gljúfurá, en norður eftir henni á sem heitir Austurá. Vestan við heiðina eru fjöllin Syðstihnjúkur og Sveigsfjall, en handan við þau eru Trölladalur og Grenjárdalur. Norðar eru fjöllin Darri og Lútur. Austur af heiðinni er dalverpi sem heitir Leirdalur, og óslitinn fjallgarður suður frá honum, en norðar eru Hnausafjall og Bjarnarfjall. Þar sem áður stóð bærinn Gil er nú gangnamannakofi. Fyrir neðan hann fellur Gilsá í Austurá, og eftir það heitir áin Fjarðará. Bleiksmýrardalur. Bleiksmýrardalur er einn af þrem dölum sem ganga suður og upp úr Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Bleikur sá sem dalurinn er kenndur við var hestur sem tók þátt í síðasta hestaati sem sögur fara af á Íslandi. Í Bleiksmýrardal voru áður fyrr margir bæir, t.d Bleiksmýri, en nú eru þeir allir í eyði. Kaðalstaðir. Kaðalstaðir eru eyðibýli í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir eru kenndir við ána Köðlu, sem fellur úr Sandskarði milli Hnausafjalls og Bjarnarfjalls, framhjá bæjarstæðinu og úti í Hvalvatn fyrir neðan það. Á Kaðalstöðum var reyndur stórbúskapur í byrjun tuttugustu aldar, en gefist var upp eftir að snjóflóð sópaði fjárhúsinu í burtu. Kaðalstaðir fóru í eyði 1933. Hvalvatnsfjörður. Hvalvatnsfjörður er stuttur og grunnur fjörður yst á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Hann dregur nafn af Hvalvatni, lóni sem Fjarðará fellur í og er aðskilið frá firðinum sjálfum af malarkambi. Austan við fjörðinn gnæfa Hnausafjall og Bjarnarfjall, en vestan við hann eru fjöllin Darri, Lútur, og Þorgeirshöfði, sem skilur hann frá Þorgeirsfirði. Frá Hvalvatnsfirði er hægt að komast landveg eftir fjórum mismunandi leiðum: Suður Leirdalsheiði til Höfðahverfis (jeppavegur, F839), vestur yfir hálsinn milli Lúts og Þorgerishöfða til Þorgerisfjarðar og austur yfir Sandskarð eða norðaustur yfir skriður Bjarnarfjalls til Flateyjardals. "Rétt er að vara við því að síðasta leiðin er mjög varasöm fyrir ókunnuga." Arnareyri. Arnareyri er eyðibýli í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún fór í eyði árið 1934. Brekka (Hvalvatnsfirði). Brekka er eyðibýli í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún fór í eyði árið 1924. Gil (Hvalvatnsfirði). Gil er eyðibýli neðst á Leirdalsheiði eða efst í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Það fór í eyði árið 1899. Þar er nú gangnamannakofi. Kussungsstaðir. Kussungsstaðir eru eyðibýli í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir fór í eyði árið 1904. Þar bjuggu lengi Jóhannes Jónsson Reykjalín og Guðrún Sigríður Hallgrímsdóttir, en af þeim er Kussungsstaðaætt komin. Tindriðastaðir. Tindriðastaðir eru eyðibýli í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir voru síðasti bær í Hvalvatnsfirði sem fór í eyði, en það var árið 1944. Þverá (Hvalvatnsfirði). Þverá er eyðibýli í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún fór í eyði árið 1913. Friðarey. Hefðbundin prjónapeysa að hætti Friðareyinga. Friðarey, Fjárey eða Frjóey ("Fair Isle" á ensku) (-1,53°AL, 59,53°NB) er lítil eyja undan Skotlandi. Hún tilheyrir Norðureyjum, liggur miðja vegu milli Orkneyja og Hjaltlandseyja og er talin stjórnsýslulega með hinum síðarnefndu. Eyjan er 4,8 km að lengd og 2,4 km að breidd, alls 5,61 km² að flatarmáli. Hæsti punktur eyjarinnar heitir Varðhæð (Ward Hill) og er 217 metrar á hæð, en háir klettar girða vesturströndina. Norðurhluti hennar er grýttur og mýrlendur, svo að flestir hinna 69 íbúa (skv. manntali frá 2001) búa á suðurhelmingnum. Íbúunum hefur fækkað til muna, en þeir voru nálægt 400 um aldamótin 1900. Á eyjunni er skóli, en hvorki krár né veitingastaðir. Friðarey var fyrst byggð á bronsöld, þótt þar sé fátt landkosta fyrir utan gjöful fiskimið. Þar er fuglalíf mikið, og þykir eyjan vera með bestu stöðum í Evrópu til að skoða suma sjaldgæfa fugla. Fyrir utan fuglaskoðun er Friðarey einkum þekkt fyrir hannyrðir, sérstaklega prjónaskap. Tveir þriðju af rafmagninu sem eyjarskeggjar nota kemur frá vindmyllum. Snemma árs 2004 hlaut Fagurey viðurkenningu sem „Fair Trade-eyja“ fyrir sanngjarna viðskiptahætti. Á Varðhæð var byggð ratsjárstöð á árum Síðari heimsstyrjaldar, og sjást ennþá rústir hennar. Einnig eru sýnilegar leifarnar af Heinkel He 111 flugvél sem brotlenti þar. Árið 1970 fannst flakið af "El Gran Grifón", flaggskipi Flotans ósigrandi sem Spánverjar misstu þar árið 1588. Samgöngur. Í Lerwick á Hjaltlandseyjum er flugvöllur sem þjónar flugsamgöngum til Friðareyjar, en Loganair flýgur þangað tvisvar í viku frá maí til október. Ferjan „Good Shepherd IV“ („Góði hirðirinn IV“) siglir milli ennfremur Fagureyjar og Grútness. Limafjörður. Limafjörður (danska: "Limfjord") er grunnt sund sem aðskilur eyjuna Vendsyssel-Thy frá restinni af Jótlandi. Áður var það fjörður og náði ekki í gegnum skagann. Sundið tengir saman Norðursjó og Kattegat. Það er um 180 km langt og er mjög óreglulegt í laginu með mörgum flóum, þrengslum og eyjum. Dýpst er við Hvalpsund (um 24 metrar). Aðalhöfn er við Álaborg þar sem brú hefur verið byggð yfir fjörðinn. Einnig liggja bílagöng undir skurðinn sem aðalhraðbraut Danmerkur, E45, fer um. Álaborgarháskóli. Álaborgarháskóli (danska: Aalborg Universitet) var stofnaður árið 1974 og hét þangað til 1994 "Aalborg Universititscenter" (AUC). Háskólinn er í Álaborg en frá árinu 1995 hefur skólinn rekið útibú í Esbjerg og árið 2005 opnaði ný deild í Kaupmannahöfn. Háskólinn er sérstaklega þekktur fyrir að leggja áherslu á hópavinnu og lausnarleitarnám (enska: "problem based learning") við kennslu. Árið 2005 voru rúmlega 13.000 nemendur við skólann og um 2.000 starfsmenn. Esbjerg. Kort sem sýnir staðsetningu Esbjerg í Danmörku. Esbjerg er fimmti stærsti bær í Danmörku með 71.886 íbúa (2006) og er á suðvestur Jótlandi. Höfnin í Esbjerg var eitt sinn stærsta fiskihöfn Danmerkur og í dag er hún ennþá mikil driffjöður í bænum. Norðaustan við Esbjerg er flugvöllur Esbjerg. Lénsherra. Lénsherra eða lénsdrottinn var aðalsmaður eða þjóðhöfðingi (konungur eða keisari) sem var í aðstöðu til að veita undirmönnum sínum land eða aðra fjárhagslega aðstöðu að léni. Undirmennirnir tóku landið eða aðstöðuna formlega að láni ("léni") og var það því kallað "lén" og þiggjandinn lénsmaður. Að jafnaði fylgdu léninu skyldur og þá miðað við að tekjurnar nægðu til að standa undir þeim. Slíkt fyrirkomulag er kallað lénsskipulag eða "lénsskipan" ("lénsveldi"). Stundum er átt við jarðir eða landsvæði, stundum vald til héraðsstjórnar. Í síðara tilvikinu var stjórnsýsluþátturinn oftast kallaður "sýsla" (þ.e. löggæsla og héraðsstjórn), en fjárhagslegi þátturinn "lén" (þ.e. skattheimta á svæðinu og innheimta á öðrum tekjum lénsherrans). Heaven's Gate. Heaven's Gate var sértrúarsöfnuður sem var leiddur af Marshall Applewhite og Bonnie Nettles. Saga. Endalok safnaðarins voru ráðin þegar halastjarnan Hale-Bopp var uppgötvuð árið 1997. Applewhite náði að sannfæra 38 meðlimi safnaðarins í að fremja sjálfsmorð, þannig að sálir þeirra gætu komist um borð í þetta „geimskip“ sem hann trúðu að væri í felum bakvið halastjörnuna og geymdi Jesú Krist. Þessar skoðanir hafa fengið fólk til að halda því fram að söfnuðurinn hafi gengið út frá trú á fljúgandi furðuhluti. Hópurinn trúði því að jörðin væri í endurvinnslu, sem þýddi það að einu möguleikarnir á því að lifa af væri að yfirgefa hana eins fljótt og mögulegt væri. Hópurinn var formlega á móti sjálfsmorðum en þeir skildgreindu „sjálfsmorð“ þannig að það „gæfi þeim möguleika að komast á næsta stig þegar það myndi bjóðast“. Hópurinn var sannfærður um að mannslíkaminn væri einungis farartæki sem myndi hjálpa þeim á þessu ferðalagi. Uppruni. Heaven's Gate söfnuðurinn var stofnaður af Marshall Herff Applewhite og Bonnie Lu Truesdale Nettles kringum 1975. Þau héldu því fram að þau hefðu komið með geimskipi til jarðarinnar frá annarri vídd (stig fyrir ofan manninn) og myndu snúa aftur með leynilegri aðferð, sem að safnaðarmeðlimunum var kennd. Fylgismenn safnaðarins voru aldrei meiri en nokkur hundruð manns og missti söfnuðurinn fjölda fylgismenn eftir dauða Truesdale Nettles árið 1985. Hópurinn hélt fundi sína á hóteli við strönd Oregon áður en þau fluttu sig um set til Kaliforníu. Almennt er ekki mikið vitað um hvað hópurinn hafði fyrir stafni en þegar meðlimir gengu til liðs við söfnuðinn, seldu þeir oft á tíðum veraldlegar eigur sínar til að brjóta upp veraldlegt samband sitt við jörðina. Í mörg ár lifði hópurinn í einangrun í vestur hluta Bandaríkjanna. Söfnuðurinn hannaði einnig vefsíður, fyrir söfnuðinn sjálfan sem og fyrir aðra. Einn meðlimur safnaðarins, Thomas Nichols, var bróðir Star Trek leikkonunnar Nichelle Nichols. Fyrir sjálfsmorðin hjá söfnuðinum reyndi hann og ásamt öðrum meðlimum að fá hana til að dreifa skilaboðum til almennings frá hópnum. Dauði. Þann 26. mars, 1997, fundust 38 meðlimir safnaðarins, ásamt Marshall Applewhite, látnir í leiguhúsnæði í San Diego. Fjölmiðlafárið í kringum atburðinn var mikið og efldi það umræðuna um sértrúarsöfnuði og fjöldasjálfsmorð þeirra. Í undirbúningi sjálfsmorðsins drukku meðlimir sítrusaldinsafa til að hreinsa líkamann af óhreinindum. Sjálfsmorðin fóru þannig fram að meðlimir drukku vodka blandað með eiturefninu phenobarbital, ásamt því að plastpokum var vafið um höfuð meðlima til að flýta fyrir dauða þeirra. Allir meðlimir voru klæddir í samsvarandi svarta boli og íþróttabuxur, ásamt nýjum svarthvítum nikestrigaskóm og með armband um úlnliðinn með áletruninni „Heaven's Gate brottfararliðið“. Lénsmaður. Lénsmaður var maður sem þáði lén af lénsherra (oftast konungi eða keisara). Lénsmenn urðu þannig háðir lénsherranum, sem gat svipt þá léninu. Að jafnaði fylgdu ákveðnar skyldur og þá miðað við að tekjur af léninu nægðu til að standa undir þeim. Þetta fyrirkomulag er kallað lénsskipulag eða "lénsskipan" ("lénsveldi"). Í fornum norskum lögum var lén stundum kallað "veizla", þ.e. aðstaða sem konungur "veitti" stuðningsmönnum sínum, og lénsmaður þá stundum kallaður "veizlumaður" (lénsjörð = "veizlujörð"). Sá sem þáði land að léni af Noregskonungi, var kallaður "lendur maður" (ft. lendir menn). Það er dregið af sögninni "að "lenda" einhvern", þ.e. "að láta hann fá land (að léni)". Noregskonungar byggðu vald sitt talsvert á stétt lendra manna, með því að veita dyggustu stuðningsmönnum sínum helstu höfuðbólin. Þessi yfirstétt lendra manna hafði svo ákveðnar skyldur, t.d. við landvarnir, löggæslu, skattheimtu o.fl. Lendir menn voru einna æðstir í hirð Noregskonungs, og var aðeins jarl ofar í virðingarröð. Fyrst er getið um lenda menn á dögum Ólafs helga (d. 1030). Magnús lagabætir beitti sér fyrir lagabreytingu um 1276, þar sem titillinn "barón" var tekinn upp um lenda menn. Sonur Magnúsar, Hákon háleggur, lét svo leggja niður barónstitilinn árið 1308. Marshall Applewhite. Marshall Herff Applewhite Jr. (17. maí 1931 – 26. mars 1997) var stofnandi sértrúarsafnaðarins Heaven's Gate. Hann lést í fjöldasjálfsmorðum hópsins árið 1997. Sigurður Stefánsson. Sigurður Stefánsson (f. 27. mars 1744, d. 24. maí 1798) var biskup á Hólum frá 1789 til dauðadags, 1798, eða í 9 ár. Foreldrar Sigurðar voru Stefán Ólafsson prestur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd, og seinni kona hans Sigríður Sigurðardóttir frá Geitaskarði í Langadal. Sigurður var hálfbróðir Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, sem Stephensens-ættin er kennd við. Sigurður var tekinn í Hólaskóla 1758, varð stúdent þaðan vorið 1765. Fór utan sama ár, skráður í Kaupmannahafnarháskóla síðla hausts og tók guðfræðipróf þaðan vorið 1767. Hann varð konrektor eða aðstoðarskólameistari Hólaskóla 1768. Fékk Möðruvallaklaustursprestakall í Hörgárdal haustið 1773, og bjó í Stóra-Dunhaga; Helgafell vorið 1781 og varð um svipað leyti prófastur á Snæfellsnesi. Sigurður var kvaddur til að verða Hólabiskup 27. mars 1788. Fór hann til Kaupmannahafnar um haustið og var vígður Hólabiskup 10. maí 1789. Kom að Hólum samsumars og var biskup þar til æviloka, 1798. Hann var góður kennari og ástsæll, enda góðviljaður maður. Hann var fremur heilsuveill og var því ekki atkvæðamikill biskup. Framan af biskupstíð Sigurðar Stefánssonar lá prentun á Hólum niðri. Stafaði það bæði af bágbornu ástandi prentverksins, og einnig því að þá var komin samkeppni frá annarri prentsmiðju, fyrst í Hrappsey og síðan Leirárgörðum. Árið 1797 urðu þau umskipti að út komu fjórar bækur á Hólum, m.a. barnaspurningar í þýðingu Sigurðar biskups. Árið eftir kom 10. útgáfa "Vídalínspostillu", og loks minningarritið "Verdung Sigurðar Stefánssonar" (1799) eftir Þorkel Ólafsson dómkirkjuprest. Var það síðasta bók sem prentuð var á Hólum. Sigurður Stefánsson var síðasti biskup á Hólum. Árið 1801 (2. október) voru biskupsdæmin tvö sameinuð og varð Geir Vídalín þá biskup alls landsins. Sigurður hafði vígt Geir sem Skálholtsbiskup 30. júlí 1797, og fór sú athöfn fram í Hóladómkirkju. Aðsetur biskups Íslands var flutt til Reykjavíkur 1806. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar helstu skjalabækur úr embættistíð Sigurðar biskups. Í Hóladómkirkju var olíumálverk af Sigurði biskupi. Málverkið er nú í Þjóðminjasafni Íslands og eftirmynd þess á Hólum. Kona Sigurðar Stefánssonar (gift 1771) var Guðríður Halldórsdóttir (f. um 1739, d. 1820), dóttir Halldórs Pálssonar prests á Knappsstöðum í Fljótum. Þau voru barnlaus. Fólínsýra. Fólinsýra, fólat eða fólasín sem einnig er nefnt B9 vítamín er vatnsleysanlegt vítamín sem er mikilvægt við vöxt og myndun blóðfruma og frumuskiptingu. Nafnið er komið frá latneska orðinu "folium" sem merkir lauf. Mest er af fólinsýru í belgávöxtum, grænu grænmeti, lifur og vítamínbættu morgunkorni. Geymsluþol fólinsýru er lítið og fólinsýruinnihald matvæla minnkar hratt við geymslu. Fólínsýrubirgðir endast aðeins í líkamanum í nokkra mánuði. Saga fólínsýrurannsókna og framleiðslu. Í Bandaríkjunum er fólinsýru bætt í ýmis konar hveitiafurðir. Vísindamaðurinn Lucy Wills uppgötvaði fólín árið 1931 þegar hún var að rannsaka hvernig hægt væri að koma í veg fyrir blóðleysi hjá barnshafandi konum. Það kom í ljós að blóðleysi mátti lækna með geri úr bruggi. Það kom í ljós að það var vegna folats og það var svo fyrst unnið úr spínatblöðum árið 1941 og fyrst framleitt á efnafræðilegan hátt árið 1946. Fólínsýra og hjartasjúkdómar. Fólínsýra er nauðsynleg fyrir frumur í örum vexti eins og blóðfrumur í beinmerg. Ef neytt er of lítils af fólínsýru þá getur amínósýran homosysteín hækkað í blóði en há gildi hennar valda aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Folínsýra virðist minnka líkur á hjartaslagi. Fólínsýra og krabbamein. Fólín er mikilvægt við efnaskipti kjarnsýra og talið er að fólínskortur geti valdið skemmdum í kjarnsýrum sem geta leitt til krabbameins. Folín er mikilvægt fyrir frumur og vefi sem skipta sér ört. Krabbameinsfrumur skipta sér ört og lyf sem hafa áhrif á fólín efnaskipti líkamans eru notuð til í krabbameinsmeðferð. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að samband er milli neyslu fæðu sem inniheldur lítið fólín og aukinnar tíðni brjóstakrabbameins, briskrabbameins og ristilkrabbameins. Ekki er víst að um beint orsakasamband sé að ræða milli fæðu og sjúkdóms. Fólínsýra og þungun. Fólinsýra er mjög mikilvæg fyrir allar konur sem gætu orðið þungaðar. Rannsóknir hafa sýnt að mikil neysla barnshafandi kvenna á fólinsýru minnkar líkur á klofnum hrygg eða heilaleysu í fóstri. Í sumum ríkjum Bandaríkjanna er folínsýru bætt í hveiti. Lýsi. Lýsispillur Lýsi er olía unnin úr fljótandi fitu fisks og sjávarspendýra. Lýsi er einkum búið til úr lifur fisktegunda eins og þorsks, ufsa og hákarls en áður fyrr var það einnig gjarnan unnið úr hval og sel. Lýsi er auðugt af A-vítamínum og D-vítamínum og inniheldur fremur lítið af mettuðum fitusýrum en mikið af ómettuðum fitusýrum. Lýsi hefur lengi verið notað sem fæðubótarefni og lyf við hörgulsjúkdómum. Lýsi er notað sem hráefni í iðnaði í smjörlíkisgerð og sem dýrafóður og er þá lýsið gjarnan brætt úr heilum torfufiski eins og loðnu og síld. Lýsi inniheldur margar fitusýrur svo sem omega-3. Óðinsvé. Æskuheimili H.C. Andersens í Óðinsvéum. Óðinsvé (danska: "Odense") er þriðja stærsta borg Danmerkur og stærsta borg Fjóns. Árið 2006 töldust íbúar Óðinsvéa rúmlega 152,000 en þó er íbúafjöldi sveitarfélagsins Óðinsvéa um 186,745 (2007). Borgin liggur við Óðinsvéaá, sem er um það bil 3 kílómetra sunnan við Óðinsvéafjörð. Rithöfundurinn H.C. Andersen var fæddur og uppalinn í Óðinsvéum. Árið 1805, þegar H.C. Andersen fæddist, voru Óðinsvé annar stærsti bær í Danmörku með um 5.000 íbúa. H.C. Andersen gaf Óðinsvéum viðurnefnið "Litla Kaupmannahöfn". Kim Larsen, einn þekktasti tónlistarmaður Dana, er búsettur í Óðinsvéum. Silkeborg. Kort sem sýnir staðsetningu Silkeborgar í Danmörku. Silkeborg er bær á Mið-Jótlandi með 41.300 íbúa (2006). Bærinn er höfuðstaður Silkeborg sveitarfélagsins og liggur í mjög mishæðóttu landsvæði. Hirtshals. Hirtshals er fiskibær á Norður-Jótlandi með 6.475 íbúa (2006). Hirtshals er sérstaklega þekktur bær fyrir höfnina sína og var bærinn byggður út frá höfninni 1919 - 1931. Fiskiðnaður er stór hluti af bæjarlífinu ásamt ferðaþjónustu og sumarhúsaleigu. Skagen. Skagen (nefndur Vendilskagi á íslensku eða Vandilskagi) er bær í Vendilsýslu á Norður-Jótlandi og nyrsti bær Danmerkur. Íbúafjöldi í Skagen var 9.187 árið 2007.. Bærinn. Á Skagen er næsthæsti viti Danmerkur "Skagen Fyr" (eða "Det grå fyr") en þaðan er gott útsýni yfir næsta nágrenni. Bærinn er þekktur fyrir fiskihöfn sína og er mjög vinsæll áfangastaður ferðamanna. Þar er t.d. haldin hátíð á hverju ári, eða allt frá árinu 1971, sem nefnist Skagen festival og er fjölsótt hátíð. Endastöð fyrir "Skagebanen" er Skagen Station og var byggð 1919. Suður af Skagen er „Den tilsandede kirke“ og tanginn sem teygir sig upp af Vendilskaganum nefnist "Grenen" (Greinin), en hann aðskilur Skagerrak og Jótlandshaf (Kattegat). Á svæðinu i kringum Skagen er sérkennileg náttúra, sem ekki er að finna annars staðar í Danmörku. Hópur danskra málara – kallaðir "Skagamálararnir", þau P.S. Krøyer, Anna Ancher og Michael Ancher o.fl. - dáðust mjög að birtunni á þessum slóðum og fluttust þangað til að mála, en mörg verka þeirra er hægt að sjá á Skagens Museum. Liturinn á húsunum er sérstakur – og nefnist "skagengul" á dönsku ("skagagulur") – og hvítir kantar á þaksteininum þykja einkenna bæinn og nágrennið. Maður frá Skagen nefnist "skagbo" á dönsku (einnig stafsett „skawbo“), eða skagabúi. Árni Böðvarsson. Árni Böðvarsson (15. maí 1924 - 1. september 1992) var íslenskur málfræðingur og orðabókarritstjóri. Aðalstarf hans var ritstjórn á Orðabók menningarsjóðs. Ævi og störf. Árni var fæddur að Giljum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Hann var einn fimm barna Böðvars Böðvarsson og Gróu Bjarnadóttur sem bjuggu lengst af í Bolholti á Rangárvöllum. Hann las til stúdentsprófs utanskóla hjá séra Ragnari Ófeigssyni á Fellsmúla, og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1945. Árni lauk cand.mag prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1950 og prófi í uppeldisfræðum 1953 frá sama skóla. Hann var sendikennari í íslensku við Háskólana í Björgvin og Osló á árunum 1955-57 en stundaði jafnframt nám í norskri málsögu og norskum mállýskum við sömu háskóla. Hann var kennari við Kennarskóla Íslands, Háskóla Íslands, Húsmæðrakennaraskóla Íslands (síðar Hússtjórnarskóla Íslands) og fleiri skóla um árabil. Hann var kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð á árunum 1968-1984, og umsjónarmaður bókasafns skólans frá árinu 1970. Hann annaðist ýmsa útvarpsþætti í Ríkisútvarpinu, m.a. þáttinn Daglegt mál árum saman, og gegndi stöðu málfarsráðunautar við stofnunina frá árinu 1984 til æviloka. Hann var einnig ritstjóri innanhússblaðs Ríkisútvarpsins um málfar, Tungutaks. Árni var aðalritstjóri og höfundur Íslenskrar orðabókar handa skólum og almenningi, fyrstu orðabókar sinnar tegundar sem samin var á árunum 1957-63, og gefin út af Menningarsjóði árið 1963. Hann annaðist endurskoðun orðabókarinnar og aðra útgáfu hennar sem leit dagsins ljós árið 1983. Meðritstjóri þeirrar útgáfu var Ásgeir Bl. Magnússon. Árni annaðist útgáfu á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum I-VI, sem Jón Árnason safnaði, ásamt Bjarna Vilhjálmssyni, og komu þær út á árunum 1954-61. Hann var meðhöfundur Íslenzk-rússneskrar orðabókar (aðalhöfundur: Valerij P.Berkov, Leningrad) sem kom út í Moskvu 1962. Hann safnaði efni í viðauka að orðabók Sigfúsar Blöndals sem gefinn var út árið 1963. Árni var ritstjóri Íslenzk-esperanto orðabókar en hún kom út í Reykjavík 1965. Árni var einnig mikilvirkur í félagsstörfum ýmisskonar. Hann var formaður Félags íslenskra fræða 1957-62, ritari BHM 1960-64 og sat í stjórnum ýmissa annarra félaga um lengri eða skemmri tíma, m.a. Rangæingafélagsins í Rvík, Félags leiðsögumanna, Samtaka mígrenisjúklinga, Íslenska esperantosambandsins og MÍR. Al Gore. Albert „Al“ Arnold Gore (f. 31. mars 1948) var forsetaefni demókrata í forsetakosningunum árið 2000 sem voru einar umdeildustu kosningar í sögu Bandaríkjanna. Hann fékk hálfri milljón fleiri atkvæði en keppinautur hans, George W. Bush, en færri kjörmenn. Bandaríska kosningakerfið er flókið, en eftir að niðurstöðurnar höfðu velkst um í dómskerfinu úrskurðaði hæstiréttur að Bush væri sigurvegari og því forseti Bandaríkjanna. Árið 1965 innritaðist Gore til náms í ensku í Harvard College. Honum leiddist í því námi og eftir tvö ár skipti hann um námsbraut og hóf nám í stjórnmálafræði og lauk BA prófi með sóma í júní 1969. Eftir herþjónustu í nokkra mánuði í Víetnam stundaði hann nám í trúfræðum við Vanderbilt skólann og hóf síðar lögfræðinám þar, en hvarf frá því án prófs vegna framboðs síns í kosningum til fylkisþings Tennessee árið 1976. Gore gegnir stöðu forseta bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Current TV sem vann Emmy-verðlaunin fyrr á árinu fyrir framúrskarandi þróun á gagnvirku sjónvarpi. Hann er einnig stjórnarformaður í Generation Investment Management, í stjórn Apple tölvufyrirtækisins auk þess að vera óopinber ráðgjafi yfirstjórnenda Google og stjórnarformaður umhverfissamtakanna Alliance for Climate Protection. Verðlaunafé friðarverðlauna Nóbels sem kemur í hlut Gore mun að öllu leyti renna til samtakanna. Varaforsetinn fyrrverandi hefur löngum haft áhuga á umhverfismálum. Hann var einn þeirra sem kom Kyoto-bókuninni á og þrátt fyrir andstöðu Bandaríkjaþings skrifaði hann undir samninginn árið 1998, en Bandaríkin neituðu að skrifa undir samninginn árinu áður. Hann tilkynnti árið 2002 að hann myndi ekki keppa við Bush um forsetaembættið árið 2004 og gagnrýndi Bush fyrir stríðið í Írak. Joseph Paul Gaimard. Joseph Paul Gaimard (lithograph by Emile Lassalle) thumb Joseph Paul Gaimard (1796 - 1858) var franskur náttúruvísindamaður. Hann var ásamt Jean René Constant Quoy í leiðangri skipsins La Coquille milli 1826 til 1829. Hann stýrði vísindaleiðangri á Norðurslóðum árin 1835 til 1836. Árin 1835 og 1836 ferðaðist hann um Ísland, seinna sumarið stýrði hann vísindaleiðangri á vegum frönsku stjórnarinnar. Vísindarit hans "Voyage en Islande et au Groënland" voru gefin út í 9 bindum eftir heimkomuna. Jónas Hallgrímsson orti kvæði til Páls Gaimard árið 1839 þegar Páli var haldin veisla í Kaupmannahöfn við komu hans þangað. Árið 1838 stýrði hann vísindaleiðangri til Spitsbergen. Listi yfir doo-wop-tónlistarmenn. Þetta er listi yfir doo-wop-tónlistarmenn. Útsvar. Útsvar er skattur sem sveitarfélög á Íslandi innheimta af íbúum sínum. Útsvar leggst ofan á hinn almenna tekjuskatt sem einstaklingar greiða og er reiknað útfrá sama skattstofni og tekjuskatturinn. Útsvarið er greitt til þess sveitarfélags þar sem einstaklingurinn hafði lögheimili 31. desember á tekjuárinu. Lögaðilar greiða ekki útsvar. Árið 2009 má útsvarið vera á bilinu 11,24% til 13,28% og skulu sveitarstjórnir ákveða það á hverju ári fyrir 1. desember hvert útsvarshlutfallið skuli vera á næsta tekjuári. Á tekjuárinu 2007 notuðu 61 af 79 sveitarfélögum landsins hámarksútsvarshlutfall, 3 notuðu lágmarkshlutfallið og 15 voru einhvers staðar á milli. Kaffi Hljómalind. Kaffi Hljómalind var kaffihús sem fyrst var við Laugaveg 21, á horni Klapparstígs í Reykjavík, en flutti seinna upp á Laugaveg 23. Það var stofnað vorið 2005. Það var samvinnurekið á grundvelli hugmyndafræði sem heitir Framsækin nytjastefna (PROUT), en í því felst m.a. að starfsfólk og og eigendur eiga að vera nokkurn veginn sami hópurinn, og á því enginn að vera arðrændur og valdi innan fyrirtækisins á að vera dreift, auk þess sem 10% af tekjum af rekstrinum eiga að renna til góðra málefna. Kaffihúsið lagði sig fram um að það sem þar er á boðstólum uppfylli kröfur um lífræna ræktun og sanngjarna viðskiptahætti. Þar var hvorki boðið upp á áfengi, fisk- eða dýraafurðir (að undanskilinni lífrænni mjólk), lauk, hvítlauk né sveppi. Fyrir utan vanalegan kaffihúsarekstur hýsti Hljómalind tónleika og aðra viðburði, auk þess að framleigja kjallarann til félagsmiðstöðvarinnar Snarrótar á meðan hún var á Laugavegi 21. Geheimeráð. Geheimeráð er embættisaðalsnafnbót sem var úthlutað til háttsettra embættismanna frá tímum Kristjáns IV Danakonungs. Upphaflega var nafnbótin óopinber og fengin nánustu ráðgjöfum konungs, öðrum en ríkisráðinu. Á árunum 1670-1770 fengu þeir einir þessa nafnbót, sem voru í Leyndarráði konungs. Frá 1770-1808 var geheimeráð heiðursnafnbót af fyrsta flokki, sem veitti viðkomandi rétt til að láta ávarpa sig „yðar ágæti“. Jústitsráð. Jústitsráð var dönsk embættisaðalsnafnbót sem var úthlutað til dómara við Hæstarétt Danmerkur frá árinu 1661. Nafnbótin var af 3.-4. flokki aðalsnafnbóta. Með tímanum slaknaði á tengingu nafnbótarinnar við dómstólinn, og loks varð hún að almennri heiðursnafnbót. Jústitsráð lögðust af í kring um aldamótin 1900. Skarðsætt (Suður-Þingeyjarsýslu). Skarðsætt er ætt kennd við Skarð í Dalsmynni í Suður-Þingeyjarsýslu. Ættina mynda niðjar Jóhanns Bessasonar (1839 – 1912) bónda og smiðs og Sigurlaugar Einarsdóttur (1847 – 1927) húsfreyju þar. Jóhann var sonur Bessa Eiríkssonar (1804 – 1892) frá Steinkirkju í Fnjóskadal, bónda á Illugastöðum og Margrétar Jónsdóttur (1798 – 1871) frá Heiðarhúsum á Flateyjardalsheiði. Niðjar Eiríks Hallgrímssonar og konu hans Helgu Árnadóttur á Steinkirkju kallast Steinkirkjuætt og er Skarðsætt því undirgrein af henni. Sigurlaus var dóttir Einars Bjarnasonar (1809 – 1872) frá Fellsseli í Ljósavatnshreppi, bónda á Geirbjarnarstöðum í Þóroddsstaðasókn og Agötu Einarsdóttur (1812 – 1880) frá Naustavík. Afkomendur Jóhanns og Sigurlaugar. Jóhann og Sigurlaug áttu 13 börn sem upp komust, auk þriggja sem létust nýfædd. Kussungsstaðaætt. Kussungsstaðaætt er ætt kennd við Kussungsstaði í Hvalvatnsfirði í Suður-Þingeyjarsýslu. Ættina mynda niðjar Jóhannesar Jónssonar Reykjalín (1840 – 1915) frá Ríp í Hegranesi, bónda þar, og Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur (1849 – 1924) húsfreyju, en þau bjuggu áður á Kambsstöðum í Ljósavatnsskarði, á Þönglabakka í Þorgeirsfirði. Jóhannes var sonur sr. Jóns Jónssonar Reykjalín (1811-1892) frá Tungu á Svalbarðsströnd, bónda á Þönglabakka, og Sigríðar Jónsdóttur (1813 – 1903) húsfreyju frá Sjávarborg í Skagafirði. Guðrún var dóttir Hallgríms Ólafssonar (1817 – 1879) og Ingveldar Árnadóttur (f. 1816, flutti til Vesturheims 1882) frá Brúum í Aðaldal. Valgerður dóttir Jóhannesar og Guðrúnar var ættmóðir Lómatjarnarættar, sem telst því vera kvísl af Kussungsstaðaætt. Steinkirkjuætt. Steinkirkjuætt er ætt kennd við Steinkirkju í Illugastaðasókn í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Ættina mynda niðjar Eiríks Hallgrímssonar (1773 – 1843) bónda og Helgu Árnadóttur (1760 – 1850) húsfreyju þar. Eiríkur var sonur Hallgríms Jónssonar (1748 – 1789) bónda og Jórunnar Eiríksdóttur (1750 – 1834) húsfreyju, á Skarði í Dalsmynni. Helga var dóttir Árna Þorlákssonar (1731 – 1802) og Halldóru Pálsdóttur (1732 – 1812), sem keyptu Steinkirkju árið 1784, og hafa afkomendur þeirra búið þar síðan. Bessi sonur Eiríks og Helgu var faðir Jóhanns, ættföður Skarðsættar, sem telst því vera kvísl af Steinkirkjuætt. Blokhus. Blokhus er strandbær á Norður-Jótlandi og er mjög vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna ár hvert. Íbúar Blokhus voru 385 árið 2004. Hanstholm. Hanstholm er bær á Norður-Jótlandi. Íbúar Hanstholm voru 2.363 árið 2004. Höfnin í Hanstholm gegnir mikilvægu hlutverki fyrir íbúa bæjarins og er hún einnig ein af mikilvægustu höfnum vestur strandar Jótlands. Í Hanstholm er einnig að finna einn stærsta fiskmarkaðinn í Danmörku. Ferjan Smyril line kemur að höfn í Hanstholm en hún hefur einnig viðkomu í Bergen í Noregi, Þórshöfn í Færeyjum og á Seyðisfirði á Íslandi. Í gegnum tíðina hafa margir Íslendingar búið í Hanstholm, eins og víða annars staðar í Danmörku. Mikil útgerð er frá Hanstholm og hafa margir Íslendingar sem unnið hafa við sjávarútveg flust þangað og starfað á þeim vettvangi. Dæmi eru um að heilu bátarnir hafi verið mannaðir íslenskri áhöfn, eins og norski línubáturinn Aksla, sem gerður var út frá Hanstholm á árunum 1998 - 2001. Krydd. Krydd (stundum nefnt urtarkram - og að vissu leyti einnig smekkbætir - eldra orð er spíss'") er bragðbætandi efni sem einkum er notuð í mat, kökur og jafnvel sælgæti. Oftast er um að ræða jurtir (ber, rætur o.s.frv.) sem eru steyttar eða rifnar yfir rétti til að gera þá bragðmeiri eða lystaukandi. Réttir eru kryddaðir til smekkbætis. Bragðskarpt krydd er t.d. pipar eða eldpipar ("chilepipar"). Ókryddaður matur nefnist "óbreyttur matur". Í forníslensku var (bragðskarpt) krydd sem vekur (eða eykur) matarlystina nefnt "brýni". Pipar. Pipar (eða svartur pipar) (fræðiheiti: "Piper nigrum") er ber piparjurtar, klifurplöntu af piparætt. Jurtin gefur af sér ber sem eru þurrkuð og notuð heil eða möluð sem bragðsterkt krydd. Til er einnig "rauður pipar", "grænn pipar" og "hvítur pipar". Margar tegundir eru til af pipar til dæmis, hvítur pipar, svartur pipar, grænn pipar og eldpipar. Í þessari grein verður farið yfir hina ýmsu þætti pipars og lækningamátt hans, ásamt því að fjalla stuttlega um þessar tegundir sem taldar eru upp hér að ofan og dreypt á sögu piparsins. Piparkorn og pipar. Berjalaga ávöxtur piparplöntunnar ("piper nigrum") er klifurjurt skyld sambærilegum jurtum frá Jövu, Indlandi og Sundaeyjum. Litur piparkornanna fer frá því að vera rauður eða grænn í upphafi, í að vera brún fullþroskuð. Piparkornin eru nýtt af plöntunni á ýmsum þroskaskeiðum og gefa því af sér mismunandi tegundir pipars. Svartur pipar er í raun þurrkuð rauð piparkorn. Þau eru mjög sterk og beisk/römm. Í upphafi eru piparberin rauð og eru þurkkuð í sólarljósi, þar eru kornin geymd í viku þar til að berin eru orðin svört og krumpuð. En stundum eru berin sett í sjóðandi vatn áður en þau eru þurrkuð. Óþroskuð græn piparkorn eru seld þurrkuð eða í ediklegi og pækli og eru því ekki eins römm og svartur pipar og meiri ávaxtakeimur af þeim. Hvítur pipar er gerður úr fullþroskuðum ávöxtum piparplöntunnar, þar sem ytra hýði ávaxtanna hefur verið fjarlægt. Hvítur pipar: Undirbúningur á hvítum pipar er mjög frábrugðin svarta piparnum. Í því ferli eru sett rauð og appelsínugul ber í poka. Síðan er þessi poki settur undir kalt vatn í viku. Því næst eru berin tekin og til að ná þeim hvítum eru þau sett í hendurnar til að ná appelsínugula og rauða litnum af. Hvítur pipar er ekki eins kryddaður og svartur eða grænn pipar og hentar því vel til að krydda hvítar sósur. Grár pipar er samansettur úr hvítum og svörtum pipar. Eldpipar. Pipar er bæði sterkt krydd ásamt því að vera notaður í lækningarskyni. Piparinn er talinn geta verið sýkladrepandi, góður til að örva meltinguna, eykur blóðflæði, styrkir hjarta og æðakerfið. Þegar fólk er með gigt eða þursabit þá er gott að setja piparinn í bakstra og leggja á það svæði sem er aumt. Nafnið „pipar“ er einnig notað lauslega fyrir ýmiss önnur krydd og bragðbæta, eins og til dæmis „eldpipar“, papriku og chiliduft. Heill eða steyttur pipar. Pipar er ýmsit seldur sem heil piparkorn eða malaður. Piparkornin verða að vera heil í sér, þétt og með réttan lit. Steyttur/malaður pipar tapar fljótt bragði sínu og angan; því er það best að kaupa heil piparkorn og mala þau eða steyta sjálfur eftir þörfum. Sé pipar skoðaður í sögulegu samhengi, kemur í ljós að hann hefur verið eitthvert vinsælasta og mest útbreiddasta kryddið í heiminum. Pipar hefur verið notaður frá örófi alda í löndum eins og á Indlandi og í Kína. Alexander mikli kynnti piparinn fyrir Grikkjum. Rómverjar voru vanir að fá pipar til að þroskast með því að bæta einiberjum saman við hann. Apicius mælti jafnframt með því að notaður yrði pipar í sæta eftirrétti og það sem er enn merkilegra, þá mælti hann með því að pipar yrði notaður til að fela rotnunar og ýldu bragð af kjöti sem farið var að slá í. Þrátt fyrir að pipar hafi skipað mikilvægan sess í eldamennsku fyrr á öldum, var það enn frekar sjaldgæft og dýrt krydd og var allt oft notað sem gjaldmiðill til að greiða lausnargjöld eða skatta. Ferðalög hinna stóru landkönnuða áður fyrr voru fyrst og fremst farin í þeim tilgangi einum að tryggja öruggar kryddbirgðir. Valdabarátta á milli Venetia og Hollendinga um yfirráð á piparmörkuðum, entust allt til enda átjándu aldar. Í gegnum aldirnar varð notkun pipars svo vinsæl að farið var að blanda saman pipar og öðrum krydd tegundum. Þrátt fyrir að þráin eftir framandi kryddum hafi liðið af í lok Endurreisnartímabilsins, hélt pipar áfram að vera eftirlætiskrydd kokka í Vestur-Evrópu og varð á endanum farið að nota pipar til að vega upp á móti saltnotkun í ýmiss konar matargerð. Pipar í eldamennsku. Fjölmargir réttir draga nafn sitt af pipar: til dæmis hin franska piparsósa „poivrade sauce“, „steak au poivre“, hin þýska piparkaka „Pfefferkuchen“ og hinn hollenski réttur „piparpottur“. Í hvert sinn sem segir í uppskrift að bæta eigi kryddum „árstíðarinnar“ út í réttinn er átt við salt og pipar. Pipar er undirstaða í nánast öllum lostætum réttum, hvort sem um er að ræða heita eða kalda rétti. Heil piparkorn eru notuð í ýmiss konar soð og marineringu. Mulin piparkorn eru notuð í grillrétti, sérstaka hráfæðisrétti og nýmalaður pipar í salöt og eldaða rétti. Einn „umgangur“ með piparkvörninni gefur ferskt kryddað bragð, á meðan að „hnífsoddur“ af pipar gefur meira dempað bragð eins og í sósum og kássum. Græn piparkorn eru notuð í sérstökum tilfellum, eins og í réttinum „canard poéle“, fiskisúpum og avokadó salati. Lækningamáttur piparsins. Sagt er að pipar er hafi hinn ýmsa lækningamátt og er viðurkenndur að hafa þann kost. Piparinn á að vera þeim hæfileikum gæddur að auka matarlist ásamt því að aðstoða við ógleði. Á Indlandi er pipar notaður mikið í lækningaskyni. Þar í landi er piparinn gefinn nánast við öllu, til að mynda þeim sem eru lamaðir og alveg niður í tannverki. Í Austur-Afríku trúa menn að ef boðaður er pipar þá kemur viss líkamslykt sem fælir moskítóflugur á brott. Fyrir ofan himininn. Fyrir ofan himininn er önnur breiðskífa íslensku rokksveitarinnar Sign og kom hún út árið 2002. Platan var tekin upp í Rabbeyroad, hljóðveri í eigu Rafns Jónssonar föður tveggja meðlima Sign þeirra Ragnars Zolberg og Egils. Meðlimir Sign á þessum tíma og koma fram á plötunni eru Ragnar Sólberg Rafnsson (söngur, gítar, hljómborð og fleira), Baldvin Freyr (Gítar), Sigurður Ágúst (Bassi) og Egill Örn Rafnsson (Trommur). Frederikshavn. Frederikshavn er hafnarbær á Norður-Jótlandi með 23.636 íbúa (2006). Frederikshavn fékk nafn sitt frá Friðriki 6. konungi Danmerkur og fékk bærinn kaupstaðarréttindi árið 1818. Mikil umferð fer um höfnina í Frederikshavn og fara ferjur þaðan meðal annars til Læsø, Gautaborgar, Larvik og Osló. Af þessum sökum er blómlegt verslunarlíf í bænum. Mors. Kort sem sýnir staðsetningu Mors Mors eða Morsø er eyja í Limafirði milli Salling og Thy. Svæðið er 363,3 km² og íbúarfjöldi er 19.675 (2006). Mors tengist norð-vestur með Thy og suð-austur með Salling um Sallingsunds brúnna. Ferja gengur frá Thy frá Neessund og til Hanherred frá Feggesund. Höfuðbær Mors er Nykøbing. The Hope. The Hope er fjórða breiðskífa íslensku rokksveitarinnar Sign og kom hún út 12. nóvember 2007 á Íslandi. Mergkál. Mergkál (fræðiheiti: "Brassica oleracea var. acephala") er undirtegund af blaðrófu og ræktuð sem dýrafóður. Fóðurkáli hefur yfirleitt verið skipt í tvær tegundir og nefnt mergkál og smjörkál. Maðkur kálflugu getur ráðist á repju og mergkál í svo stórum stíl að uppskera verði lítil sem engin. Randers. Randers er bær á Austur-Jótlandi með 55.909 íbúa (2006), sem gerir Randers að sjötta stærsta bæ í Danmörku. Á Austur-Jótlandi er það einungis Aarhus sem hefur fleiri íbúa. Horsens. Kort sem sýnir staðsetningu Horsens í Danmörku. Horsens er bær á Austur-Jótlandi með 50.983 íbúa (2006). Vejle. Kort sem sýnir staðsetningu Vejle í Danmörku. Vejle er fjarðarbær austanvert á Suður-Jótlandi í Danmörku með 51.203 íbúa (2010). Billund. Kort sem sýnir staðsetningu Billund í Danmörku. Billund er smábær á suður-Jótlandi. Íbúafjöldinn er rúmlega 6.000 manns (6.070 árið 2004). Við bæinn er alþjóðaflugvöllur og þar eru einnig verksmiðjurnar sem framleiða hina heimsþekktu Lego-kubba. Á þeirra vegum er rekinn skemmtigarðurinn Legoland. Bærinn er um 30 km vestur frá Vejle og um 55 km austur frá Esbjerg. Halldór Halldórsson (málfræðingur). Halldór (Torfi Guðmundur) Halldórsson (13. júlí 1911 – 5. apríl 2000) var íslenskur málfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Ævi og störf. Halldór Halldórsson fæddist á Ísafirði árið 1911. Hann var sonur hjónanna Halldórs Bjarnasonar og Elísabetar Bjarnadóttur. Halldór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1932. Hann lauk magistersprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1938 og doktorsprófi frá sama skóla 1954. Halldór var íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri 1934–36 og 1938–51. Hann varð dósent við heimspekideild Háskóla Íslands 1951–57 og prófessor í íslensku nútíðarmáli frá 1957 til 1979 við sama skóla. Benjamin Britten. Edward Benjamin Britten (22. nóvember 1913 – 4. desember 1976) var breskt tónskáld, stjórnandi og píanóleikari. Kálfluga. Kálfluga (fræðiheiti: "Delia radicum") er tvívængja af blómsturflugnaætt og er skaðvaldur við grænmetisræktun, m.a. á Íslandi. Étur hún rótarháls káltegunda. Rannsóknir hafa sýnt að uppskerutap af völdum kálflugunnar er háð hitastigi sumarsins á undan. Kolding. Kort sem sýnir staðsetning Kolding í Danmörku Kolding er fjarðarbær og kaupstaður á austanverðu suður-Jótlandi í Danmörku. Íbúarfjöldi í Kolding er 55.045 (2006). Elsti hluti bæjarins liggur í dal og í norður og suður breiðir bærinn sig upp hliðar dalsins. Herning. Kort sem sýnir staðsetningu Herning í Danmörku. Herning er bær á mið-Jótlandi í Danmörku með 44.437 íbúa (2006) sem gerir bæinn að ellefta stærsta bæ danmerkur. Fredericia. Kort sem sýnir staðsetningu Fredericia í Danmörku Fredericia er bær á austanverðu suður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn liggur við stórabeltis brúnna og er íbúafjöldi 37.074 (2006). Fjón. Kort sem sýnir staðsetningu Fjóns í Danmörku Fjón (danska: "Fyn") er önnur stærsta eyja Danmerkur. Eyjan 2.984 km² og er íbúafjöldi 447.060 (2006). Höfin Umhverfis Fjón eru suður-Fjónska eyjarhafið, Litlabelti, Kattegat, Stórabelti og Lundborgarbeltið. Eyjarnar umhverfis Fjón eru Langeland, Thurø, Tåsinge, Æbelø, Ærø ásamt 90 öðrum smáeyjum. Hæsti punktur Fjóns er Frøbjerg Bavnehøj sem er 131 metri. Holstebro. Kort sem sýnir staðsetningu Holstebro í Danmörku Holstebro (~Holstaðarbrú) er bær á vestanverðu mið-Jótlandi í Danmörku með 32.000 íbúa (2007). Nafn bæjarins (Holstatbro) kemur fyrst fram í bréfi frá Thyge biskup í Ribe árið 1274. Ráðherrabústaðurinn. Ráðherrabústaðurinn sem oftast er kenndur við staðsetningu sína og nefndur "Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu" er sögufrægt hús í miðborg Reykjavíkur og stendur nákvæmlega við Tjarnargötu 32. Ráðherrabústaðurinn er gististaður fyrir erlenda þjóðhöfðingja, móttökustaður fyrir innlenda sem erlenda og sem fundarstaður ráðherra þegar mikið hefur legið við og menn viljað leggja áherslu á mikilvægi fundarefnisins. Saga hússins. Húsið stóð upphaflega á Flateyri. Það var norski hvalveiðimaðurinn Hans Ellefsen sem byggði það á Sólbakka á Flateyri 1892. Ellefsen hafði þá reist mikla hvalverksmiðju á Flateyri og var hún um tíma eitt af stærri fyrirtækjum landsins. En þegar hvalveiðar tóku að daprast um aldamótin 1900 gaf hann Hannesi Hafstein húsið, eða réttara sagt seldi honum það fyrir 5 kr. Hannes flutti það síðar suður til Reykjavíkur að Tjarnargötu 32 árið 1910 og var það bústaður forsætisráðherra allt fram yfir 1940, en síðasti forsætisráðherrann sem bjó þar var Hermann Jónasson. Thisted. Thisted (~Týsstaður) er hafnarbær á vestanverðu norður-Jótlandi við Limafjörð. Árið 2004 voru 12.886 íbúar í Thisted. Thisted fékk nafn sitt frá guðinum Týr (danska: "Tyr"). Ekki er vitað hvenær Thisted fékk kaupstaðarréttindi en talið er líklegt að það hafi gerst um árið 1500. Thisted brugghús er þekkt fyrir eðalbjóra og sérvörur eins og lífrænt ræktaðan bjór. Nyborg. Kort sem sýnir staðsetningu Nyborg í Danmörku Nyborg er kaupstaður á Fjón í Danmörku með 16.043 íbúa (2006). Bærinn liggur við Stórabelti og er tengdur við Sjáland um Stórabeltis brúnna. Skatval. Skatval er byggð í Stjørdal sveitarfélaginu í Nord-Trøndelag, Noregi. Íbúafjöldi Skatval er um 800 manns (2007). Guðmundur Steinsson. Guðmundur Steinsson (19. apríl 1925 – 15. júlí 1996) var einn helsti leikritahöfundur á Íslandi á ofanverðri 20. öld. Hann er þekktastur fyrir verk sín Stundarfriður og Sólarferð. Ævi Guðmundar. Guðmundur fæddist á Eyrarbakka. Hann ólst upp í Reykjavík og varð stúdent frá MR 1946. Næsta áratuginn dvaldi hann erlendis við nám og ferðalög og seinna var hann fararstjóri til Suðurlanda. Guðmundur kenndi í Iðnskólanum 1959-1965. Fyrsta skáldsaga hans, "Síld", kom út 1954 og "Maríumyndin" 1958. Eftir það sneri hann sér alfarið að leikritun og var eftir það mikilvirkur leikritahöfundur. Eiginkona Guðmundar Steinssonar var Kristbjörg Kjeld, leikkona. Viborg. Kort sem sýnir staðsetningu Viborg í Danmörku. Viborg er bær á Jótlandi í Danmörku og er einn af elstu bæjum Jótlands. Viborg er staðsett á Mið-Jótlandi og árið 2006 voru 34.114 íbúar með búsetu þar. Padborg. Padborg (þýska: "Pattburg") er danskur bær staðsettur við landamæri Danmerkur og Þýskalands. Íbúafjöldi Padborg er 4.534 (2006). Hadsund. Hadsund er borg í Danmörku með 5.519 íbúa (2011). Hún er í norðanverðum Mariager firði. Borgin er í sveitarfélaginu Mariagerfjord og tilheyrir Norður Jótlandi. Í dag er Hadsund næststærsta borg í Mariagerfjord, á eftir Hobro. Karup. Karup er bær á Mið-Jótlandi í Danmörku. Íbúafjöldi er 2.211 (2006) og er Karup staðsett í Viborg sveitarfélaginu. Salt (efnafræði). Salt er tegund efnasambands á formi kristals sem myndað er með jónatengjum og er auðleyst í vatni. Dæmi: borðsalt og sjávarsalt. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Fjórtán fyrstu lögin. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Fjórtán fyrstu lögin er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Velvet Revolver. Velvet Revolver er bandarísk rokkhljómsveit skipuð þremur fyrrverandi meðlimum Guns N' Roses, þeim Slash, Duff McKagan og Matt Sorum. Með þeim eru í Velvet Revolver þeir Scott Weiland, fyrrum söngvari Stone Temple Pilots, og gítarleikarinn Dave Kusner. Hljómsveitin var stofnuð árið 2002. Petsamoförin. Petsamoförin (eða Petsamóförin) var ferð strandferðaskipsins „Esju“ árið 1940 til Petsamó í Norður-Finnlandi að sækja þar 258 Íslendinga sem höfðu orðið innlyksa á meginlandi Evrópu vegna ófriðarins (þ.e. vegna seinni heimsstyrjaldarinnar). Mest voru það Íslendingar sem höfðu dvalist styttri eða lengri tíma í Kaupmannahöfn. Farþegar sem komu heim með „Esju“ úr þessari ferð eru venjulega kallaðir "petsamófarar". Bærinn sem áður hét Petsamo heitir í dag Pechenga og tilheyrir Rússlandi, en Sovétríkin tóku þetta landsvæði af Finnum í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Pechenga er við Norður-Íshafið um 50 km austan við Kirkenes í Noregi, en þangað nær Finnland ekki í dag. Ferðin heim. „Esjan“ lagði af stað frá Reykjavík til að sækja fólkið til Kaupmannahafnar þann 20. september eftir að bresk og þýsk hernaðaryfirvöld höfðu gefið henni fararleyfi. Fyrst var siglt með farþegana til Malmö í Svíþjóð og fóru þeir með lest þaðan norður alla Svíþjóð og Finnland en skipinu var siglt vestur og norður fyrir Noreg. Esjan var þó hertekin af þýskum herflugvélum á útleið og var skipað að sigla til Þrándheims þar sem hún var kyrrsett í fjóra daga. Þar komu tveir íslenskir sjómenn um borð. Þessi hertekning „Esjunnar“ lengdi leið hennar um 400 sjómílur. Hinn 5. október var lagt af stað heim frá Petsamó. Þrengsli voru mikil en farþegar skemmtu sér með hljóðfæraslætti, söng, upplestri og dansi og gáfu meðal annars út blað, sem þeir nefndu "Íshafspóstinn". Það var lesið upp í útvarpi skipsins. „Esjan“ hafði viðkomu í Kirkwall á Orkneyjum vegna afskipta bresks eftirlits og lengdi það för hennar enn meira en krókurinn til Þrándheims gerði áður. En til Reykjavíkur komst „Esjan“ að lokum, eða þann 15. október 1940. Flikruberg. Flikruberg (fræðiheiti: "ignimbrít") er oftast samset úr dasíti eða líparíti. Lýsing. Gráleitt eða ljósleitt á lit, en getur verið rauðleitt eftir oxun. Við ummyndun þá verður það grænleitt eða bleiklitað og sést það þá á útflöttum klessum sem eru 0,5-1 cm á þykkt. Millimassinn er fínkornóttur glermylsna. Uppruni og útbreiðsla. Þegar mikið af ísúrri eða súrri og gasríkri kviku safnast fyrir í kvikuhólfi undir megineldstöð getur kvikuþrýstingurinn orðið svo hár að kvikan brjóti sér leið upp á yfirborðið, annað hvort þannig að eldstöðin springi í loft upp eða stórir gígar spúi mikilli gjósku. Gosefnin æða stundum fram sem heit og hraðskreið gjóskuhlaup (gusthlaup) en þau verða til þegar hiti er ekki nægur til að viðhalda gosstróknum. Gosmökkurinn fellur þá saman og heit gosefni geysast fram á miklum hraða og eyða lífi því sem fyrir verður. Gosefnin í eldskýjunum ná að mynda hálfsambrætt þétt berg úr fíngerðum gjóskumassa þar sem innan um eru köntuð smábrot og útflattir gjósku- og bergmolar.Helstu fundarstaðir á Íslandi eru við Húsafell í Borgarfirði og í Berufirði. Árni Þórarinsson (biskup). Árni Þórarinsson (f. 19. ágúst 1741, d. 5. júlí 1787) var biskup á Hólum frá 1784 til dauðadags, 1787, eða í 3 ár. Foreldrar Árna voru Þórarinn Jónsson prestur í Hjarðarholti í Dölum, og kona hans Ástríður Magnúsdóttir frá Hvammi í Hvammssveit. Árni ólst upp í Hjarðarholti, en missti föður sinn 1752. Fór hann þá til föðursystur sinnar í Belgsholti, sem gift var Arnóri Jónssyni sýslumanni, og létu þau kenna honum undir skóla. Árni var tekinn í Skálholtsskóla 1758, varð stúdent þaðan vorið 1760. Fór utan ári síðar, skráður í Kaupmannahafnarháskóla í desember 1761. Lauk prófi í heimspeki 1763, varð baccalaureus 1764 og lauk embættisprófi í guðfræði haustið 1766. Hann kom heim sumarið 1767 og kenndi fyrst tvo vetur á Eyrarbakka. Hann varð prestur á Seltjarnarnesi 1769 og bjó á Lambastöðum. Varð prófastur í Kjalarnesþingi 1781, fékk síðan Odda á Rangárvöllum og fluttist þangað vorið 1782. Sama ár var hann boðaður utan til þess að verða biskup á Hólum, en fór ekki til Kaupmannahafnar fyrr en haustið 1783. Árni var vígður Hólabiskup 12. apríl 1784 og kom að Hólum samsumars. Hann var biskup þar til æviloka, 1787. Páll Eggert Ólason segir um hann: "Gáfu- og dugnaðarmaður mikill, en stórlyndur og eigi vinsæll, lengstum heilsutæpur." Árni mun hafa verið kominn með lungnatæringu þegar hann tók við sem biskup. Aðstæður gátu vart verið verri, þegar móðuharðindi stóðu sem hæst. Samt kom Árni ýmsu til leiðar. T.d. lét hann rífa Nýjahúsið á Hólum, frá tíð Guðbrands biskups, og reisa í þess stað tveggja hæða timburhús, sem þá var mikil nýjung á Íslandi. Var það í fyrstu kallað Stiftshúsið. Mynd af því er í ferðabók Hendersons. Engar bækur komu út á Hólum í biskupstíð Árna Þórarinssonar. Stafaði það bæði af harðindum og bágbornu ástandi prentverksins, og einnig því að þá var komin samkeppni frá prentsmiðjunni í Hrappsey. Árið 1800 kom út í Leirárgörðum útfararminning Árna Þórarinssonar. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Árna biskups. Til er steinprentuð mynd af Árna, og hékk eintak af henni fyrrum uppi í Hóladómkirkju. Slagelse. Kort sem sýnir staðsetningu Slagelse í Danmörku Slagelse (stundum kallaður Slagleysa á íslensku) er bær á suðvestur-Sjálandi í Danmörku og árið 2007 var íbúafjöldi bæjarins 31.914. Bærinn er sjöundi stærsti bær Sjálands og kemur nafn bæjarins frá gamla danska orðinu "slagh" sem þýðir „niðursokkin í landslagið“ og "else" sem er annað orð yfir „leysa“. Um það bil 7 km vestur frá Slagelse liggur Víkingaborgin Trelleborg. Björn Kristjánsson. Björn Kristjánsson (26. febrúar 1858 – 13. ágúst 1939) var fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins (eldri) í 7 mánuði árið 1917, þ.e.a.s. frá 4. janúar 1917 til 28. ágúst 1917. Sigurður Eggerz tók við honum sem fjármálaráðherra. Ævi Björns. Björn Kristjánsson fæddist á Hreiðurborg í Flóa. Hann flúði úr vinnumennsku austan úr Grímsnesi 16 ára gamall, vegna þess að hann bjó þar við slæman kost. Hann réð sig á skipsrúm í Þorlákshöfn og flytur svo á Seltjarnarnesið, og heillast þar af tónlist ("Leið hans lá oft framhjá húsi á Vesturgötu, þar sem leikið var á harmoníum. Þetta heillaði hann mest"), og lærir að leika á hljóðfæri. Hann lærði hér á Íslandi fyrst, og sigldi svo til framhaldsnáms til Kaupmannahafnar. Jafnframt því, og til að sjá fyrir sér, nam hann skósmíði og starfaði sem skósmiður á árunum 1876-1882. Hann dvaldist í Kaupmannahöfn, m. a. við tónfræðinám, 1878—1879 og 1882—1883. Björn var bókhaldari í Reykjavík 1883-1888 og síðan kaupmaður á árunum 1888-1910. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík 1903-1908 og sat á þingi í meira en 30 ár. Múskat (krydd). Múskat eða múskathneta er aldin samnefnds sígræns trés af múskatviðarætt sem er upprunnið á Mólúkkaeyjum í Indónesíu. Aldinið er gult, egglaga hýðisaldin um 20-30 mm langt og 15-18 mm breitt og vegur milli 5 til 10 gr þurrkað. Frækjarninn er umlukinn rauðgulu, sepóttu hýði (múskatblómi). Hnetan er rifin niður og notuð sem krydd. Leiðarlag. Leiðarlag er víðáttumikið og auðþekkjanlegt jarðlag sem nota má til viðmiðunar um aldur jarðlaga, t.d. við gerð jarðfræðikorta. Dæmi um leiðarlag eru flikrubergslög í blágrýtisstafla og gjóskulög í jarðvegi. Allrahanda. Allrahanda, negulpipar eða jamaíkupipar er krydd unnið úr óþroskuðum, þurrkuðum aldinum samnefnds trés af myrtuætt. Þurrkuð óþroskuð fræ eru ekki kryddblanda heldur þurrkaður ávöxtur af "Pimenta dioica" trénu. Fræin eru vanalega sólþurrkuð og við það verða þau brún og líta þá út eins og stór piparkorn. Kristófer Kólumbus flutti allrahanda kryddið til Spánar. Allrahanda var mikið notað fyrir seinni heimstyrjöldina en í styrjöldinni voru mörg trjánna höggvin niður og hefur framleiðslan aldrei komist aftur í fyrra horf. Helsta framleiðsluland allrahanda er Jamaíka en það er einnig framleitt í Gvatemala, Hondúras og Mexíkó. Allrahanda er vanalega selt sem þurrkuð ber eða malað í duft. Trelleborg (hringborg). Trelleborg er samheiti yfir þær hringlaga víkingaborgir sem fundist hafa í Danmörku frá víkingaöld. Trelleborgirnar heita eftir þeirri fyrstu sem fannst við Slagelse en hún var grafin upp á árunum 1936 - 1941. Karlakór Reykjavíkur - Íslensk þjóðlög. Karlakór Reykjavíkur - Íslensk þjóðlög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Hljóðritun fór fram í Háteigskirkju í Reykjavík fyrrihluta ársins 1973 undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Litmynd á framhlið plötuumslags tók Gunnar Hannesson. Aðrar myndir tók Óli Páll Kristjánsson. Aggersborg. Aggersborg er stærsta víkingaborgin í Danmörku og er staðsett í Hanherred við Aggersund, norðan við Limafjörðinn. Þrjú á palli - Icelandic folk songs. Þrjú á palli - Icelandic folk songs er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Hljóðritun fór fram í Roger Arhoff studio í Osló, Noregi. Útsetningar: Jón Sigurðsson. Fyrkat. Fyrkat við Hobro séð úr lofti. Fyrkat er hringborg frá víkingaöld og er af sömu tegund og hinar fimm Trelleborgir sem fundist hafa. Fyrkat er staðsett við Hobro á norður-Jótlandi. Trelleborg (Slagelse). Trelleborg er víkingaborg sem liggur í nágrenni Slagelse á Sjálandi. Vísindamenn hafa dagsett borgina til ársins 980 og var borgin að öllum líkindum notuð sem hernaðarvirki. Borgin var sterklega víggirt og gat rúmað mikið af fólki. Nonnebakken. Nonnebakken er víkingaborg sem fundist hefur í miðbæ Óðinsvé. Einungis hafa þó fundist leifar af borginni en engu að síður hafa fornleifafræðingar flokkað Nonnebakken undir eina af sjö Trelleborgunum sem fundist hafa í Danmörku og Svíþjóð. Hobro. Hobro er danskur kaupstaður sem liggur við botn Mariager Fjörðs á norðanverðu Jótlandi og var íbúafjöldi bæjarins 11.001 árið 2006. Um það bil 2 km vestur frá bænum liggur víkingaborgin Fyrkat, sem fornleifafræðingar hafa dagsett aftur til ársins 980. Rúnar Gunnarsson - Lagasmiður og söngvari. Rúnar Gunnarsson - Lagasmiður og söngvari er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Kaffibrúsakarlarnir - Kaffibrúsakarlarnir. Kaffibrúsakarlarnir - Kaffibrúsakarlarnir er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Næstved. Næstved er bær á suður-Sjálandi með 41.158 íbúa (2006), sem gerir bæinn að þriðja stærsta bæ Sjálands. Næstved er mikilvægur verslunar og iðnaðarbær og var kjörinn þriðji besti verslunarbær Danmerkur árið 2006. Næstved sveitarfélagið er með 78.446 íbúa (2005). Haderslev. Mynd sem sýnir staðsetningu Haderslev í Danmörku. Haderslev er bær á austanverðu Suður-Jótlandi í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins var 21.140 árið 2006. Frá 1. janúar 2007 hefur Haderslev verið höfuðbær í Haderslev sveitarfélaginu sem hefur 56.392 íbúa (2005). Skive. Kort sem sýnir staðsetningu Skive í Danmörku. Skive er danskur bær á norðanverðu Mið-Jótlandi. Íbúafjöldi í Skive var 20.572 árið 2006. Flest hús í bæjarkjarna Skive voru reist á árunum 1880 – 1914. Ringsted. Kort sem sýnir staðsetningu Ringsted í Danmörku. Ringsted er danskur bær staðsettur á Mið-Sjálandi. Íbúafjöldi bæjarins var 19.492 árið 2007. Sankti Bendts Kirkja liggur í miðbæ Ringsted. Ringsted er einnig nafn á bæ í Iowa fylki í Bandaríkjunum. Sá bær fékk nafn sitt árið 1885, þegar pósthús var þar sett á laggirnar af "John Larsen" en nafnið Ringsted var fæðingarstaður konu hans. Galdra–Loftur. Galdra–Loftur er leikrit frá 1915 eftir Jóhann Sigurjónsson sem byggir á samnefndri þjóðsögu um Loft Þorsteinsson, sem uppi var á 18. öld. Leikritið birtist sama ár á dönsku og heitir "Ønsket" eða „Óskin“ á þeirri tungu. Leikritið fjallar um skólapiltinn Loft sem fæst við galdur og barnar vinnukonu á staðnum. Til þess að bjarga eigin orðstír drepur hann vinnukonuna með galdri. Hann sækist í meiri galdrakunnáttu og í þeim tilgangi særir hann Gottskálk biskup grimma til þess að ná af honum galdrabókinni Rauðskinnu, sem mun gera hann enn öflugri. Loftur verður hins vegar vitfirrtur og deyr. Middelfart. Kort sem sýnir staðsetningu Middelfart í Danmörku. Middelfart er kaupstaður á Fjóni í Danmörku og var íbúafjöldinn 13.645 (árið 2006). Middelfart er á milli nýju Litlabeltisbrúar og gömlu brúarinnar. Hvalveiðar í Litlabeltinu. Allt frá miðöldum til loka 19. aldar voru hvalveiðar eða nánar tiltekið veiðar á hnísu stundaðar á þessu svæði. Með því að slá með greinum í vatnsyfirborðið ráku veiðimenn hnísur inn að ströndinni og þar voru dýrin drepin. Hvallýsi var notað til lýsingar bæði inni í húsum og í götulýsingar. Þegar rafmagnframleiðsla hófst var hvalalýsið ekki lengur mikilvæg verslunarvara. Veturinn 1854-1855 voru veiddar 1742 hnísur en annars var venjulegt að vetrarveiðar væru 700-800 dýr. Hnísuveiðarnar voru skipulagðar að fornri hefð sem þekktist allt frá 1593 og allt til 1899. Holbæk. Mynd sem sýnir staðsetningu Holbæk í Danmörku. Holbæk er danskur bær staðsettur á Norðvestur-Sjálandi, um það bil 60 km frá Kaupmannahöfn. Bærinn byggðist upp í kringum Holbæk-höll, sem var reist árið 1236 af Valdimari sigursæla. Í dag er bærinn nútímalegur sjálenskur bær með 25.987 íbúa (2007). Ikast. Ikast er danskur bær á Mið-Jótlandi. Íbúafjöldi bæjarins er 14.778 (2006). Sønderborg. Sønderborg er danskur bær á sunnanverðu Jótlandi. Íbúafjöldi bæjarins er 27.391 (2006) Miðþekjuæxli. Miðþekjuæxli er krabbamein í bandvefsþekju, himnu sem umlykur innri líffæri mannsins. Æxlið finnst einkum í brjósthimnu en einnig í lífhimnu og gollurshúsi. Orsakavaldur krabbameinsins er langoftast rakinn til asbest-mengunar. Búfjármark. Búfjármark er það kennimark á búfé nefnt sem getur verið: örmerki, frostmerki, brennimarki, plötumerki eða eyrnamark. Þetta er gert til að hægt sé að rekja búfé til eiganda og ætternis. Eyrnamark. Dæmi um eyrnamark; tvístýft aftan hægra, blaðstýft aftan vinstra Eyrnamark er tegund búfjármarks sem klippt er í eyra búfjár. Eyrnamörk skiptast í "yfirmark", sem skerðir eyrnabrodd, og "undirbenjar", sem skerða hliðar eyrans. Allar undirbenjar og sum yfirmörk geta verið ýmist að framan (ofan á) eða aftan (neðan á) á eyra. Þegar eyrnamörk eru lesin er byrjað að lesa yfirmark hægra eyra, þarnæst undirben framan á eyranu og loks undirben aftan á eyra. Eins er farið með vinstra eyra. Betelgás. Betelgás (fræðiheiti α Orionis) er björt, rauðleit stjarna (reginrisi) sem markar hægri öxl stjörnumerkisins Óríon. Hún var fyrsta stjarnan sem menn gátu mælt stærðina á með mikilli vissu fyrir utan Sólina. Þvermál Betelgásar er um 500 falt þvermál sólar og hún er um 14.000 sinnum bjartari. Betelgás er einnig öflug uppspretta innrauðrar geislunar. Jón Teitsson. Jón Teitsson (f. 8. ágúst 1716, d. 16. nóvember 1781) var biskup á Hólum frá 1780 til dauðadags, 1781, eða rúmlega 1 ár. Foreldrar Jóns voru Teitur Pálsson (d. 1728) prestur á Eyri í Skutulsfirði, og kona hans Ragnheiður Sigurðardóttir frá Holti í Önundarfirði. Jón ólst upp á Eyri í Skutulsfirði, en missti föður sinn 12 ára gamall. Hann lærði undir skóla hjá eftirmanni föður síns á Eyri, var tekinn í Skálholtsskóla 1733 og varð stúdent þaðan vorið 1735. Hann fékk Otradal 1740 og varð prófastur í Barðastrandarsýslu 1743, fékk síðan Gaulverjabæ í Flóa 1755 og varð prófastur í Árnesþingi 1775. Árið 1773 vísiteraði hann Snæfellsness- og Barðastrandarsýslur í forföllum Finns biskups tengdaföður síns. Árið 1779 var Jón boðaður utan til þess að verða Hólabiskup, fór til Kaupmannahafnar um haustið og var vígður biskup 7. maí 1780. Hann kom að Hólum í september 1780 og var biskup til æviloka, 1781, eða í rúmt ár. Sagt var að Jóni hefði verið óljúft að taka við biskupsembættinu, en tengsl hans við Finn biskup í Skálholti beindu athygli að honum. Páll Eggert Ólason segir um hann: "Hann var mikill vexti og rammur að afli, sem frændur hans, réttsýnn og ráðvandur, ekki talinn mjög lærður, stilltur og vinfastur, en hafði ekki mikla mannhylli, ekki viðfelldinn né rausnsamur, var vel efnum búinn." Nokkrar bækur komu út á Hólum í biskupstíð Jóns Teitssonar, þar á meðal "Tvennar húslestrar- og vikubænir" eftir sjálfan hann (Hólum 1781). Árið 1782 kom út á Hólum útfararminning Jóns Teitssonar. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Jóns biskups. Ekki er til mynd af Jóni Teitssyni. Sjöstjarnan KE 8. Forsíða Morgunblaðsins 23. febrúar 1973. Sjöstjarnan KE 8 var 100 tonna eikarbátur frá Keflavík sem fórst að því er talið er rétt fyrir utan suðurströnd Íslands árið 1973. Með bátnum fórust 10 manns og þar af voru 5 Íslendingar. Báturinn hafði verið að koma úr viðgerð í Færeyjum og þegar hann var staddur um 100 sjómílur aust-suðaustur af Dyrhólaey, tilkynnti skipstjóri bátsins, Engilbert Kolbeinsson, að leki væri komin að bátnum. Afar vont veður var á svæðinu og skip voru tafarlaust send á svæðið til hjálpar. Síðustu skilaboð frá Engilbert voru að allir úr áhöfninni væru komnir um borð í gúmmíbáta og hann væri einn eftir í skipinu og einungis tímaspursmál hvenær báturinn sykki. Ein umfangsmesta leit Íslandssögunnar á sjó fór fram næstu 10 daga en hvorki fannst tangur né tetur af bátnum fyrr en á síðasta degi leitar að leifar af gúmmíbjörgunarbáti fundust og var lík eins skipverjans bundið þar við. Greve Strand. Kort sem sýnir staðsetningu Greve Strand í Danmörku. Greve Strand er bær á Norður-Sjálandi í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins er 41.093 (2006) og er Greve Strand fjórði stærsti bær Sjálands. Helgi magri. Helgi magri Eyvindarson var íslenskur landnámsmaður, sem nam land í Eyjafirði. Hann var kristinn og bjó á Kristnesi. Faðir hans var Eyvindur austmaður Bjarnarson, fæddur á Gautlandi. Björn faðir Eyvindar deildi við Sigfast mág Sölvars Gautakonungs, brenndi hann inni og fór að því búnu til Noregs, fyrst til Gríms hersis en þá Öndótts kráku á Ögðum. Á sumrum fór Björn í vesturvíking. Móðir Eyvindar var Hlíf dóttir Hrólfs Ingjaldssonar Fróðasonar konungs. Kona Eyvindar var Rafarta dóttir Kjarvals Írakonungs. Önnur dóttir Kjarvals var Kormlöð móðir Þorgríms Grímólfssonar sem var aftur bróðursonur Álfs egðska. Sonur Þorgríms var Eyvindur faðir Össurar er átti Beru dóttur Egils Grímssonar. Björgu systur Helga átti Úlfur skjálgi Högnason. Helgi var fæddur á Írlandi. Eyvindur og Rafarta létu Helga í fóstur í Suðureyjum þegar hann var barn að aldri en þegar þau komu að sækja hann tveimur vetrum seinna hafði hann verið sveltur svo að þau þekktu hann ekki. Eftir það var hann kallaður Helgi magri. Hann varð virðingarmaður mikill er hann fullorðnaðist. Hann kvæntist Þórunni hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, og áttu þau mörg börn. Helgi hafði tekið kristni en var blendinn í trúnni og hét á Þór til sjófara og harðræða. Hann ákvað að fara til Íslands með konu sína og börn og nema þar land. Þegar hann sá til lands hét hann á Þór að vísa sér til lands og sigldi síðan norður um land og inn í Eyjafjörð og tók land á Árskógsströnd og var þar fyrsta veturinn. Um vorið sigldi hann svo innar í fjörðinn, kannaði héraðið og nam svo allan Eyjafjörð. Hann settist svo að á Kristnesi og bjó þar. Sagt er að áður en hann reisti bæ sinn hafi Þórunn kona hans orðið léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará og alið þar dóttur sem kölluð var Þorbjörg hólmasól. Þar sem landnám Helga var mjög stórt fengu margir landnámsmenn sem síðar komu land hjá honum, auk þess sem börn hans og aðrir ættingjar fengu hluta af landnámi hans. Synir hans voru Hrólfur á Gnúpufelli og Ingjaldur á Efri-Þverá en dætur hans voru Helga kona Auðuns rotins Þórólfssonar, Hlíf kona Þorgeirs Þórðarsonar, Þórhildur kona Auðólfs landnámsmanns í Öxnadal, Þóra kona Gunnars sonar Úlfljóts lögsögumanns, Ingunn kona Hámundar heljarskinns og Þorbjörg hólmasól kona Böðólfs Grímssonar. Køge. Mynd sem sýnir staðsetningu Køge í Danmörku. Køge er bær á Austur-Sjálandi í Danmörku og er íbúafjöldi bæjarins 34.476 (2006). Mörg stór fyrirtæki eru með höfuðstöðvar sínar í Køge, þar á meðal S, Codan Gummi og CP Kelco. Brønderslev. Brønderslev er bær á Norður-Jótlandi og er íbúafjöldi bæjarins 11.555 (2006). Ted Bundy. Theodore Robert „Ted“ Bundy (24. nóvember 1946 - 24. janúar 1989) er einn af alræmdustu raðmorðingjum í sögu Bandaríkjanna. Bundy nauðgaði og myrti tugi kvenna vítt um Bandaríkin á árunum 1974 til 1978. Eftir að hafa haldið fram sakleysi sínu í meira en áratug, játaði Bundy að lokum að hafa framið 30 morð. Engu að síður er raunverulegur fjöldi fórnarlamba á huldu. Venjulega nauðgaði Bundy fórnarlömbum sínum og myrti þau að lokum með barefli eða kyrkti. Bundy átti það einnig til að nauðga fórnarlömbum sínum eftir að hafa myrt þau. Í mótsögn við grimmd glæpa sinna, var Bundy oft lýst sem þokkafullum og vel menntuðum einstaklingi. Vinir og kunningjar mundu eftir Bundy sem myndarlegum manni og vel máli förnum. Ólafur Þ. Jónsson - Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslensk tónskáld. Ólafur Þ. Jónsson - Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslensk tónskáld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Hjørring. Hjørring er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins er 24.813 (2006). Ed Gein. Edward Theodore Gein (27. ágúst 1906 – 26. júlí 1984) var bandarískur raðmorðingi. Þrátt fyrir að einungis hafi tekist að sanna tvö morð á hann, öðlaðist hann mikla athygli vegna náriðilsháttar síns, en hann húðfletti einnig fórnarlömb sín og uppgrafin lík, skreytti heimili sitt með náum og sneið sér föt og áklæði úr húð fórnarlamba sinna. Þrátt fyrir að hann hafi verið náriðill, eru engar beinar sannanir fyrir því að hann hafi haft kynmök við lík. Auk dularfulls dauða bróður hans árið 1944, hurfu sex manneskjur frá Wisconsin bæjunum La Crosse og Plainfield frá árunum 1947 til 1957. 26. júlí 1984 lést Ed Gain úr hjartabilun á Geðsjúkrahúsi í Madison, Wisconsin. Grafreitur hans í Plainfield kirkjugarðinum varð fyrir sífelldum skemmdarverkum í áranna rás og stunduðu safnarar það að höggva hluta úr legsteini hans. Meirihluta legsteinsins var svo stolið árið 2000. Legsteinninn fannst aftur í júní 2001 nálægt Seattle og er um þessar mundir til sýnis á safni í Wautoma, Wisconsin. Thank God for Silence. Thank God For Silence er þriðja studioplata íslensku rokk-hljómsveitarinnar Sign. Platan kom út árið 2005. Freymóður Jóhannsson. Freymóður Jóhannsson (12. september 1895 – 3. mars 1973) var listmálari og dægurlagahöfundur. Hann er þekktastur undir dulnefninu "Tólfti september". Freymóður fæddist að Stærra-Árskógi á Árskógsströnd. Hann var einn af forsprökkum danslagakeppni SKT. Hann samdi mikið af dægurlögum á sínum tíma og t.d. lögin á hljómplötunni Vilhjálmur og Elly Vilhjálms - Lög Tólfta september. John Wayne Gacy. John Wayne Gacy (17. mars 1942 – 10. maí 1994) var bandarískur raðmorðingi. Hann var sakfelldur og tekinn af lífi fyrir nauðgun og morð á 33 drengjum en 29 þeirra hafði hann grafið undir húsinu þar sem hann bjó. Hinir fjórir fundust í nálægum ám, allt frá frá árinu 1972 og þar til hann var handtekinn árið 1978. John Wayne Gacy fékk viðurnefnið „morðtrúðurinn“, þar eð hann klæddist ávallt trúðabúningi og var með andlitsmálningu í mörgum veislum sem hann hélt fyrir vini og nágranna. Þar skemmti hann börnum undir viðurnefninu „Trúðurinn Pogo“. John Wayne Gacy komst í heimsmetabók Guinness fyrir lengsta dóm sem nokkur raðmorðingi hefur fengið, en hann var dæmdur í 21 samfellt lífstíðarfangelsi og hlaut 12 dauðadóma. Ferdinand Meldahl. Ferdinand Meldahl (16. mars 1827 – 3. febrúar 1908) var danskur arkitekt. Hann fæddist í Kaupmannahöfn og var sonur járnsmiðsins Henrich Joachim Meldahl. Hann vann snemma hjá föður sínum og lauk þar að auki sveinsprófi sem múrari. Hann fékk inni í Konunglegu dönsku listaakademíunni og lærði þar byggingarlist. Meðan hann var þar við nám hlaut hann ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir vinnu sína. Hann fór líka í ýmsar námsferðir, meðal annars til Þýskalands, Frakklands, Spánar, Hollands, Englands, Egyptalands og Sýrlands. Eftir að Meldahl hafði lokið námi sínu varð hann meðlimur í Listaakademíunni, árið 1857 og gengdi mikilvægu hlutverki við þróun skóla akademíunnar, þar sem hann hafði sjálfur lært. Frá 1863 var hann formaður skólaráðsins, ári síðar prófessor í byggingarlist og 1873-1890 var hann stjórnandi Akademíunnar. Frá árinu 1860 var Meldahl byggingaeftirlitsmaður og frá 1866 sat hann í borgarstjórn. Þar að auki hafði hann ýmis störf við ráðgjöf, dómstörf og nefndarsetur. Hann var nefndur Etatsráð (1867), hlaut Dannebrog-orðu (1874) og var gerður að hirðmanni (1892). Þar að auki hannaði hann fjölda herragarða, landsbyggðarkirkjur, íbúðarbyggingar og svo framvegis. Hann skrifaði einnig mikið um byggingarlist og aðra hluti tengda húsbyggingum. Meldahl, Ferdinand Haraldur 2. Danakonungur. Haraldur 2. (d. 1018) var sonur Sveins tjúguskeggs og fyrri konu hans, Gunnhildar, og konungur í Danmörku frá 1014 til 1018. Lítið er vitað um Harald 2., enda var konungstími hans ekki langur og má segja að yngri bróðir hans, Knútur ríki, hafi fengið alla athyglina. Þó er talið víst að þegar Sveinn tjúguskegg sigldi til Englands árið 1013 til að leggja það undir sig hafi hann gert eldri son sinn, Harald 2., að handhafa konungsvaldsins í sinni fjarveru. Þegar fréttir bárust af láti Sveins var Haraldur hylltur konungur. Ekkert er getið um konu hans eða börn og eftir lát hans var Knútur bróðir hans tekinn til konungs. Knútur ríki. Knútur ríki (danska: "Knud den Store"; fornenska: "Cnut se Micela"; norræna: "Knútr inn ríki"; enska: "Cnut the Great"; um 995 – 12. nóvember 1035) var sonur Sveins tjúguskeggs, konungur Danmerkur frá 1018 til 1035, konungur Englands frá 1016 til 1035 og konungur Noregs frá 1028 til 1035. Móðir Knúts var Gunnhildur af Póllandi, fyrri kona Sveins. Knútur fór í herferð til Englands með föður sínum árið 1013 og þar lést Sveinn árið eftir. Her Dana valdi Knút konung Englands en eldri bróðir hans, Haraldur 2., var tekinn til konungs í Danmörku. Enska ríkisráðið, sem hafði kjörið Svein konung eftir sigra hans árið áður, sætti sig ekki við Knút og kallaði þess í stað Aðalráð ráðlausa, fyrrverandi Englandskonung, heim úr útlegð. Knútur neyddist til að flýja til Danmerkur. Árið 1015 sneri hann þó aftur með fjölmennt lið. Hann var hylltur konungur í nokkrum héröðum. Aðalráður dó vorið 1016 en sonur hans, Játmundur járnsíða, gerði kröfu til valda. Þeir Játmundur og Knútur áttu í átökum um skeið en í október 1016 sömdu þeir um að skipta landinu og fékk Knútur allt land fyrir norðan ána Thames. Játmundur lést þó mánuði síðar og í janúar 1017 var Knútur tekinn til konungs yfir öllu Englandi. Hann gekk að eiga Emmu, ekkju Aðalráðs. Haraldur bróðir Knúts dó 1018 og hann sneri þá heim og var krýndur konungur Danmerkur. Árið 1028 lagði hann Noreg undir sig og setti barnungan son sinn, Svein, og móður hans, frilluna Alfífu, til að stýra ríkinu. Norðmenn gerðu þó uppreisn strax eftir lát Knúts, hröktu þau úr landi og fengu sjálfstæði að nýju. Alþekkt er sagan af Knúti þegar hann á að hafa sest í flæðarmálið og bannað öldunum að skola fætur sína og er hún oft túlkuð sem dæmi um mikilmennskubrjálæði eða jafnvel geðsýki konungs en önnur túlkun er að hann hafi viljað sýna þegnum sínum að enginn væri almáttugur nema Guð og ekki einu sinni hinn voldugasti konungur hefði hið minnsta yfir náttúruöflunum að segja. Börn Knúts og Emmu voru Hörða-Knútur og Gunnhildur, sem giftist þýska keisaranum Hinrik 3. Með Alfífu frillu sinni átti Knútur synina Svein Alfífuson og Harald hérafót. Basel. Basel (Boslaraborg eða Buslaraborg'") er þriðja stærsta borgin í Sviss með tæplega 170 þúsund íbúa. Hún er jafnframt höfuðborg kantónunnar Basel-Stadt, sem er minnsta kantónan í Sviss. Lega og lýsing. Basel liggur við Rínarfljót norðvestast í Sviss og á landamæri að Frakklandi og Þýskalandi. Svæðið er kallað Dreiländereck ("Þrílandahornið"). Næstu borgir eru Mulhouse í Frakklandi til norðvesturs (35 km), Freiburg í Þýskalandi til norðurs (70 km) og Zürich til suðausturs (85 km). Borgin sjálf er klofin í tvennt af Rín, sem rennur mitt í gegnum miðbæinn. við Rín er mikil fljótahöfn, þeirri einu í Sviss. Basel er miðstöð efna- og lyfjaiðnaðar í Sviss. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svartur bagall á hvítum grunni. Basel varð mjög snemma að biskupaborg og kom þetta merki upp þegar á 11. öld. Síðustu breytingar á merkinu voru gerðar 1384. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Basilea, sem merkir "leiðtogi" eða "konungur" á grísku. Með þessu er biskuparnir forðum meintir. Heitið kemur fyrst fram 237/238 e.Kr. Að öðru leyti eru menn ekki á eitt sáttir um uppruna heitisins. Borgin heitir Basel á þýsku, Basle á ensku og Bâle á frönsku. Upphaf. Það voru keltar (helvetar og rauríkar) sem reistu bæinn upphaflega er Caesar sigraði kelta í orrustunni við Bibracte 58 f.Kr. Skömmu síðar settust Rómverjar að í bænum og varð hann að rómverskri borg. En þegar Rómaveldi leið undir lok settust alemannar að í Basel. Strax á 7. öld varð Basel að biskupsdæmi og var fyrir vikið reist gríðarmikil dómkirkja á 11. öld. Árið 917 eyddu Ungverjar borginni. Meðal þeirra sem létust í árásinni var biskupinn sjálfur. 1032 var borgin innlimuð þýska ríkinu, en hún hafði áður tilheyrt Búrgúnd. 1225 var fyrsta brúin yfir Rín smíðuð. Við það myndaðist byggð á eystri Rínarbakkanum sem kallaðist Kleinbasel ("Litla Basel"). Hverfi þetta myndar eystri borgarhlutann í dag. Erfiðleikar. 1348 geysaði skæð pest í borginni. Í henni létust um helmingur borgarbúa. Þetta var þó aðeins upphafið á tímabili mikilla erfiðleika. Aðeins átta árum síðar varð borgin (og nærsveitir) fyrir öflugum jarðskjálfta, þeim mesta í Mið-Evrópu í sögu álfunnar. Fræðimenn telja að jarðskjálftinn hafi verið 6,7 á Richter en 10 á Mercalli-skala. Fáir ibúar létust af völdum skjálftans, þar sem minni skjálfti hafði orðið örlitlu fyrr og fólkið þyrpst úr húsum. En aðalskjálftinn olli bruna sem geysaði í Basel í heila átta daga samfleytt og eyðilagði það sem eftir var af borginni. Dómkirkjan stórskemmdist er þakið hrundi. Það tók mörg ár að endurreisa borgina. Árið 1376 dundu næstu ósköpin yfir. Leópold III hertogi af Habsborg keypti sér yfirráðaréttinn á Litlu Basel af biskupnum, sem var í fjárhagskröggum. Þetta létu íbúar Basel sér ekki lynda og gerðu uppreisn er Leópold var gestur í borginni. Hertoginn varð að flýja á bátskænu yfir Rín en 50 eðalmönnum var haldið föngnum af reiðum múgnum. Nokkrir létust, bæði af borgarbúum og af eðalmönnunum. Hertoginn varð æfarreiður og lét setja ríkisbann á borgina, sem þar með einangraðist frá umheiminum. Eftir að sættir tókust síðar á árinu milli aðila, lagði hertoginn afar harða skilmála á borgina, sem urðu til þess að efnahagurinn staðnaði í mörg ár. Það var ekki fyrr en hertoginn tapaði fyrir Svisslendingum í orrustunni við Sempach 1386 að borgin komst undan yfirráðum hans og tók vaxtarkipp. Nokkrum árum síðar, 1392, keyptu borgarbúar Litlu Basel til baka. Trúarórói. Basel á 15. öld. Fremst er Litla Basel á eystri Rínarbakkanum. 1431 var kirkjuþing kaþólsku kirkjunnar formlega sett í borginni, en það stóð yfir í mörg ár með hléum. Ástæðan fyrir því að Basel varð fyrir valinu var sú að kirkjan átti við innri átök að stríða og hafði klofnað. Tveir páfar voru við völd, sitt á hvorum staðnum, og börðust um yfirráðin í kirkjunni. Aðalumræðuefnið var ofangreindur ágreiningur, sem og hugsanleg sameining við rétttrúnaðarkirkjuna. Eugeníus IV páfi kallaði þingið saman, en störf þess voru honum ekki að skapi. Hann yfirgaf þingið og bannfærði alla fundarmenn. Fyrir vikið settu þeir hann af og kusu nýjan gagnpáfa, Felix V. Hann sat í Genf, Lausanne og í Basel en í Róm sat annar páfi. Felix gekk í sögubækurnar sem síðasti gagnpáfinn en kaþólska kirkjan sameinaðist aftur við afsögn hans. Basel er því ein af fáum páfaborgum norðan Alpa. Árið 1460 var háskólinn í borginni stofnaður af Píus II páfa, en hann er elsti háskólinn í Sviss. Þessu fylgdu miklir menningarstraumar með mönnum eins og Erasmusi frá Rotterdam, Paracelsus, Hans Holbein yngri og öðrum sem þar dvöldu um hríð. Í Sváfastríðinu 1499 börðust herir frá Basel með Svisslendingum gegn uppgangi Habsborgar. Til að tryggja hagsmuni sína og viðhalda lýðrétti sínum gekk Basel í svissneska sambandið 1501 og varð að elleftu kantónunni. Hér er verið að tala um borgina Basel og stórt hérað í kring. 1529 urðu siðaskiptin í borginni. Allir þeir sem ekki tóku við nýju trúnni, þar á meðal biskupinn, fluttu til Freiburg. Þannig varð biskupsstóllinn í Basel lagður niður. Nýrri tímar. Segja má að nútíminn héldi innreið sína í Basel með friðarsamkomulagi franska byltingarhersins við Prússland og Spán 1795 en þeir voru undirritaðir í Basel. Eftir byltinguna miklu í Frakklandi herjuðu Frakkar gegn ýmsum löndum í Evrópu. Með friðarsamkomulaginu var Frakkland aftur tekið upp sem viðurkennt stórveldi. Hins vegar var Basel aldrei hertekin af Frökkum á tímum Napoleons. Á Vínarfundinum 1815 fékk Basel aukið land. Íbúar nærsveita voru hins vegar ekki sáttir við yfirráð borgarinnar, sem ekki leitaðist við að sinna þörfum bænda og þorpa. Óánægjan var svo mikil að nærsveitarmenn söfnuðu liði og gengu til móts við borgarherinn. Í orrustunni við Hülftenschanz sigruðu nærsveitarmenn og splittuðu sig frá Basel sem eigin kantóna. Þessi aðgreiningur þýddi að borgin Basel-Stadt varð að langminnstu kantónu Sviss en Basel-Landschaft (nýja kantónan) er enn eigin kantóna í dag. 1844 keyrði fyrsta járnbrautin til Basel. Upp frá því risu margar verksmiðjur, þannig að Basel var oft kölluð verksmiðjuborgin ("Fabrikstadt"). Árið 1897 fór fyrsta heimsþing síonista fram að tilstuðlan Theordor Herzl. Alls fóru sjö þing síonista fram í Basel allt til 1905. Segja má að þessi þing hafi leitt til landnáms gyðinga í Palestínu og að lokum til stofnunar Ísraelsríkis, enda var það stefna þingsins að koma slíku í verk. Basel varð fyrir litlum áhrifum af heimstyrjöldunum. En 4. mars 1945 varð vörulestarstöðin í borginni fyrir loftárásum bandamanna af misgáningi. Skemmdir urðu ekki miklar og fáir létust. Árið 1953 var flugvöllurinn Basel Mulhouse Freiburg tekinn í noktun, en hann er fyrsti flugvöllur heims sem tvö sjálfstæði ríki reka sameiginlega (Frakkland og Sviss). Fjórum árum síðar, 1957, fóru fram mikil hátíðarhöld í Basel af tilefni 2000 ára afmælis borgarinnar. Árið 1966 fengu konur kosningarétt í Basel. Þremur árum síðar fór fram atkvæðagreiðsla um sameiningu Basel-Stadt og Basel-Landschaft. Íbúar borgarinnar samþykktu en nærsveitarmenn ekki. Því fór sameining ekki fram. Viðburðir. Ein af skrúðgöngunum í Basler Fasnacht Basler Fasnacht er þjóðhátíð borgarinnar. Hér er um stærsta karnevalið í Sviss að ræða. Hátíðin stendur yfir í þrjá daga og eru skrúðgöngu og gjörningar lokaðra hópa mest áberandi. Skrautbúningar hylja allan líkamann og eru mjög tilkomumiklir. Fjölskylduskrúðgöngur eru sér á bátinn. Einnig eru útisýningar alls konar og tónleikar. Gestir fá eingöngu stöðu áhorfenda en samfara hátíðinni er borðaður sérstakur matur á veitingastöðum borgarinnar. Byggingar og kennileiti. Ráðhúsið í Basel er eldrautt Neuchâtel. Neuchâtel er borg í Sviss og höfuðborg kantónunnar Neuchâtel. Borgin heitir Neuenburg ("Nýjaborg") á þýsku. Sion. Sion er borg í Sviss. Hún er í Wallis-fylkinu. Microsoft. Microsoft Corporation er bandarískt, fjölþjóðlegt tölvufyrirtæki sem stofnað var af Bill Gates og Paul Allen 4. apríl árið 1975. Það hefur ríflega 89 þúsund starfsmenn í 105 löndum. Microsoft hannar, þróar, framleiðir, styður og veitir leyfi á víðan hóp forrita fyrir tölvur. Það var stofnað 4. apríl 1975 af Bill Gates og Paul Allen í Albuquerque, í Nýju-Mexíkó. Microsoft Corporation heldur bækistöðvar sínar í Redmond í Washington-fylki. Þeirra mest seldu vörur eru Windows-stýrikerfin og Microsoft Office-pakkar. Microsoft selur líka önnur raftæki, s.s. Xbox. Microsoft vann með tölvuframleiðandanum IBM sem gerði Microsoft kleift að selja stýrikerfi með tölvunum þeirra sem kallaðist MS-DOS. Microsoft keypti reyndar stýrikerfið DOS, eða grunninn að því, vegna þess að þeir gátu ekki gert sitt eigið, þeir gerðu smá breytingar á því og skýrðu það MS-DOS. Microsoft stækkaði smá saman þangað til 25. júní 1981 þegar Microsoft varð að Microsoft Inc. Með því varð Bill Gates forstjóri og stjórnarformaður en Paul Allen varð aðstoðarforstjóri. Fljótlega gaf Microsoft út Word sem var fyrsta forritið sem gat sýnt texta sem skrifaður var inn í tölvu. Microsoft gaf út nýtt stýrikerfi 20. nóvember 1985 sem kallaðist Windows. Strax frá upphafi varð Microsoft ríkjandi á markaði fyrir einkatölvur vegna stýrikerfi síns. Þetta eina stýrikerfi varð svo vinsælt að það tók algjörlega yfir MacOS kerfið sem var gefið út árið áður. Hönnun Windows hófst strax í september 1981 þegar Chase Bishop hannaði stýrikerfið sem hann kallaði „Windows 1.0“. Það var þó ýmislegt að þessu kerfi eins og gefur að skilja með nýja vöru. Forritin sem komu með þessu stýrikerfi voru; reiknivél, dagatal, klukka, stjórnborð og skrifblokk. Í desember 1987 kom út Windows 2.0. Þetta stýrikerfi varð vinsælla en Windows 1.0 og hafði tekið nokkrum framförum líkt og Windows 3.0 gerði seinna meir. Það var síðan 24. ágúst 1995 þegar Windows 95 stýrikerfið var gefið út. Þetta stýrikerfi gat sjálfkrafa skynjað og sett upp utanaðkomandi forrit, kallað „plug and play“. Einnig hafði þetta kerfi fjölverkavinnslu sem fellst í því að gera marga hluti í einu þó svo að þeir tengist ekki neitt. Breytingarnar sem komu með Windows 95 gerbreyttu svokölluðu skrifborði (e. desktop) og gerði það eins og við þekkjum það í dag, bæði á OS og Microsoft stýrikerfi. Næsta stýrikerfi Microsoft var Windows 98 sem kom út 25. júní 1998 og á næstu árum komu viðbætur við það kerfi. Windows 2000 kom í febrúar árið 2000. Windows ME (Windows Millennium Edition) kom strax á eftir Windows 2000 í september 2000. Í Windows ME kerfinu hafði kjarninn í Windows 98 verið uppfærður og nokkrir hlutir úr Windows 2000. Með Windows ME kom „universal plug and play“ og „System restore“ þar sem notandinn getur sett tölvuna í stillingar aftur til fyrri tíma. Windows ME hefur þótt eitt versta stýrikerfi Windows aðallega vegna hægagangs og vandamála sem snúa að vélbúnaði. Jafnframt gáfu þeir út skýrikerfi sín í viðskiptaútgáfum líkt og Windows NT. Microsoft fór að sameina notenda- og viðskiptastýrikerfi sín og gáfu út stýrkerfið Windows XP í október 2001. Þetta stýrikerfi þeirra hlaut miklar vinsældir og þótti mjög gott kerfi. Kerfið var gefið út sem Windows XP Home og Windows XP Professional. Munurinn var sá að Professional kerfið hafði fleiri öryggismöguleika en Home útgáfan. Microsoft hannaði og setti á markað fyrstu spjaldtölvuna sem einmitt keyrði á Windows XP kerfinu. Sú spjaldtölva náði engum vinsældum. Það var svo ekki fyrr en í ársbyrjun 2007 að nýtt stýrikerfi kom frá Microsoft. Kerfið hlaut nafnið Windows Vista og hafði fjöldann allan af nýjum forritum. Útlit kerfisins var algjörlega endurhannað og miklar áherslur voru lagðar á öryggi. Árið 2009 kom síðan Windows 7 í bæði 32-bita og 64-bita útgáfu. Verkefnastikan (e. taskbar) var endurhönnuð og framfarir urðu í afköstum kerfisins. Nýjasta stýrikerfi Microsoft kom út 26. október 2012. Þetta kerfi er hannað fyrir einkatölvur (e. personal computer), spjaldtölvur (e. tablet) og snjallsíma (e. smart phones). Þessar breytingar hafa fengið misjafna dóma sérstaklega vegna snertiskjáseiginleika kerfisins sem þykir ekki virka vel í einkatölvum. Microsoft er einnig mjög þekkt fyrir skrifstofuhugbúnað sinn Microsoft Office og vafrann Internet Explorer. Niðarhólmur. Niðarhólmur (norska: "Munkholmen") er eyja fyrir utan Þrándheim í Noregi, úti fyrir mynni árinnar Nið. Knútur mikli konungur Dana, Engla og Norðmanna, lét reisa Benediktsklaustur í hólminum 1028, eða svo herma enskar heimildir. Konungur kom aldrei til Noregs, en stóð við hlið bænda og vildi með því styrkja stöðu sína gagnvart Ólafi konungi Haraldssyni. Rafstraumur. Rafstraumur eða einfaldlega straumur er færsla rafhleðsla, oftast óbundinna rafeinda í rafleiðara úr málmi, en einnig jóna í raflausn eða rafgasi, eða hola í hálfleiðara. SI-mælieining er amper. Rafstraumur er ýmist fastur, óbreyttur jafnstraumur, eða riðstraumur, þ.e. rafstraumur sem sveiflast reglulega með ákveðinni tíðni. Skilgreining. Meðalrafstraumur "I", sem fer gegnum svæði "A" á tíma "t" er þar sem J er rafstraumsþéttleiki og "Q" er rafhleðslan, sem fer um "S" á tímanum "t". Ef formula_2 fæst "augnabliksstraumur" formula_3 Rekhraði rafhleðsla. "n" er fjöldi hleðslubera á rúmmálseiningu, "A" er flöturinn sem hleðslurnar fara gegnum, Rekhraði rafeinda í málmleiðara er af stærðargráðunni mm/s. Rafstraumsþéttleiki. Skilgreina má rafstraumsþéttleika "J", þ.a. "J" = "nQv" og rafstraum "I" = "J A". Almennt, þá eru "J" og "v" vigrar og ef ρ = "n Q" er "hleðsluþéttleiki" þá er rafstraumsþéttleiki skilgreindur með J = ρ v. formula_4 Straumstefna. Óbundnnar rafeindir leiðara í föstu rafsviði (jafnstraumur) hliðrast frá bakskauti (-) að forskauti (+) leiðarans, en straumstefna er skilgreind í hina áttina, þ.e. frá forskauti að bakskauti. Í leiðara, sem ber "riðstraum", verður engin nettó hliðrun á rafeindum. Samband straums og spennu. Lögmál Ohms gefur samband rafstraums og -spennu í rafrás með því að skilgreina rafviðnám. Straumlögmál. Straumlögmálið segir að summa allra rafstrauma í hnútpunkti rafrásar sé núll. Samband rafstraums og segulsviðs: rafsegulsvið. Lögmál Amperes lýsir rafstraumi, sem ferilheildi segulsviðs umhverfis leiðarann, en lögmál Biot-Savarts lýsir segulsviðinu, sem myndast vegna rafstraums. Jöfnur Maxwells er kerfi jafna, sem lýsa rafsegulsviði. Rafspenna. Rafspenna (oftast kölluð spenna) er styrkur rafmagns. Í rafmagnsfræðum er oftast átt við mismun á styrk mættisins milli tveggja punkta í rafsviði, þar sem annar punkturinn er jörð, sem samkvæmt skilgreiningu hefur rafmætti núll. SI mælieining er volt, nefnd eftir ítalska eðlisfræðingnum Alessandro Volta. Stærðfræðileg skilgreining rafspennu: Styrkur rafmættis, eða sú vinna, sem þarf til að hliðra einingarrafhleðslu í rafsviði, frá punkti "b" til punkts "a", en það má setja fram með ferilheildinu Jafnspenna er föst í tíma, en riðspenna sveiflast reglulega milli tveggja útgilda. formula_2 Samband straums og spennu. Lögmál Ohms gefur samband rafspennu og -straums í rafrás með því að skilgreina rafviðnám. Spennulögmál. Spennulögmálið segir að summa allra spennugjafa rafrásar sé jöfn summu spennulfallanna. Jöfnur Maxwells. Jöfnur Maxwells gefa samband rafsegulsviðs og rafspennu. Háspenna. "Háspenna" kallast rafspenna sem er nægjanlega há til geta valdið skammhlaupi í lofti og er hættuleg mönnum og dýrum. Rafspenna á heimilum. Íslensk heimili nota 230 volta riðspennu, með sveiflutíðnina 50 rið, sem strangt tekið telst ekki "háspenna", en getur samt verið banvæn. Um raflagnir á heimilum og í fyrirtækjum gilda lög, sem ætlað er að koma í veg fyrir slys af völdum rafmagns. Carlo Maderno. Carlo Maderno (1556 – 30. janúar 1629) var svissneskur arkitekt frá Ticino sem er talinn vera upphafsmaður barokksins í byggingarlist. Hann hannaði framhliðar rómversku kirknanna Santa Susanna, Péturskirkjunnar og Sant'Andrea della Valle sem marka upphaf ítalska barokksins. Hann er af sumum talinn vera bróðir myndhöggvarans Stefano Maderno sem einnig var frá Ticino. Anna Frank. Annelies Marie „Anne“ Frank, gjarnan nefnd Anna Frank á íslensku (12. júní 1929 – mars 1945) er þekktust sem aðalpersóna í bókinni "Dagbók Önnu Frank". Anna Frank var stúlka af gyðingaættum, sem hélt dagbók meðan hún var í felum í Amsterdam, þegar Holland var hernumið af Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöld, ásamt fjölskyldu sinni og fjórum vinum. Dagbókin fannst eftir að Anna og fjölskylda hennar höfðu verið hneppt í fangabúðir nasista, þaðan sem eingöngu faðir hennar Otto Frank átti afturkvæmt. Anna var fædd í Frankfurt am Main í Þýskalandi og flutti ásamt fjölskyldu sinni til Amsterdam árið 1933, eftir að nasistarnir komust til valda í Þýskalandi. Þegar ofsókn nasista gegn gyðingum jókst, fór fjölskyldan í felur árið 1942 í leyniherbergjum undir súð í skrifstofubyggingu föður Önnu. Eftir tvö ár í felum var fjölskyldan svikin og flutt í útrýmingarbúðir. Sjö mánuðum eftir handtökuna lést Anna úr flekkusótt, einungis nokkrum dögum á undan systur sinni, Margot Frank. Otto Frank faðir hennar var eini eftirlifandi meðlimur fjölskyldunnar og sneri hann aftur til Amsterdam eftir að stríðinu lauk. Þar komst hann að því að dagbók hennar hafði verið varðveitt. Árið 1947 gaf hann dagbókina út undir nafninu „Het Achterhuis: Dagboekbrieven van 12 Juni 1942 – 1 Augustus 1944“. Safn af öðrum skrifum hennar voru gefin út árið 1949. Dagbók Önnu, sem hún fékk í þrettán ára afmælisgjöf, lýsir lífi hennar frá 12. júní 1942 til 1. ágúst 1944. Dagbókin var gefin út sem „Dagbók ungrar stúlku“ og að lokum þýdd úr frummálinu, hollensku, á önnur tungumál. Bókin varð ein sú mest lesna í heiminum. Faðir Önnu, Otto Frank var sakaður af um að hafa falsað dagbókina, einkum af afneitendum helfararinnar, en réttarrannsókn staðfesti að hún væri ósvikin. Otto hafði þó ritskoðað upprunalegu dagbókina áður en hún kom fyrst út. Dagbókin var fyrst gefin út óritskoðuð 7. nóvember 1986 af ANNE FRANK-Fonds í Basel, en bókin kom í fyrsta skiptið út óritskoðuð á íslensku árið 1999. Peter Paul Rubens. Sjálfsmynd með fyrstu eiginkonu sinni, Isabellu Brant, í laufskála, frá 1610. Peter Paul Rubens (28. júní 1577 – 30. maí 1640) var afkastamikill flæmskur listmálari á 17. öld og einn af helstu forvígismönnum barokksins í evrópskri myndlist. Hann er þekktastur fyrir íburðarmiklar altaristöflur, portrett, landslagsmyndir og söguleg málverk með allegóríum og myndefni úr goðsögum. Rubens rak verkstæði í Antwerpen og var sleginn til riddara bæði af Filippusi 2. Spánarkonungi og Karli 1. Englandskonungi. Hann var flæmskur málari frá Antwerpen (sem nú er í Belgíu). Rubens var auk þess að vera afkastamikill málari, nokkurs konar sendiherra og rak erindi þjóðhöfðingja um alla Evrópu. Hann fór til Ítalíu árið 1600 og var þar í 9 ár. Þar kynntist hann list endurreisnar og barokkmeistara eins og Caravaggio. Þegar hann sneri aftur gerði hann stórar altaristöflur í dómkirkjuna í Antwerpen. Fyrri kona hans var Isabella Brant en eftir dauða hennar gekk hann að eiga kornunga stúlku, Helenu Fourment, sem þá var aðeins 16 ára en hann 53 ára. Þær voru báðar fyrirsætur hjá honum en auk þess málaði hann kóngafólk um alla álfuna, m.a. mikla myndröð af Maríu Medici, Frakklandsdrottningu. Hann var sem fyrr segir afkastamikill málari og rak stórt verkstæði þar sem lærlingar unnu eftir skissum hans og hann sjálfur rak síðan smiðshöggið á verkið. Einkennandi fyrir stíl hans eru opnir og léttir pensildrættir. Myndir hans eru litfagrar og iða af lífsgleði og fjöri. Myndflöturinn er fylltur holdmiklum gyðjum og brosmildum englum sem dansa um leikandi hrynjanda. Meðal helstu verka hans eru: Altaristöflur í dómkirkjunni í Antwerpen, María í hásæti meðal dýrlinga (trúlofun heilagrar Katrínar), Rán dætra Leucipposar, Allegóría friðar, Myndaröð um líf Maríu Medici. Kendo. Kendō (剣道) er japönsk sjálfsvarnaríþrótt sem snýr að listinni að skylmast. Kendo er samsett úr "ken", sem þýðir sverð, og "do", sem þýðir leið eða vegur. Orðið táknar í beinni þýðingu "Leið sverðsins". Andlitsmynd. Andlitsmynd (einnig nefnt portrett eða mannamynd) er málverk eða ljósmynd af manni þar sem andlitið er þungamiðja verksins. Þannig er andlitið oftar en ekki í miðjum myndfletinum og myndin nær aðeins rétt niður fyrir axlir. Sjálfsmynd er mynd sem listamaðurinn gerir af sjálfum sér. Tónakvartettinn - Tónakvartettinn frá Húsavík. Tónakvartettinn - Tónakvartettinn frá Húsavík er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Ljósmynd á framhlið, sem er frá Húsavík tók Óli Páll Hanna Valdís - Tólf ný barnalög. Hanna Valdís - Tólf ný barnalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Tólf ný barnalög sem Hanna Valdís syngur, eru við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk. Ólafur Gaukur útsetti lögin. Hljóðritun: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Kristján Magnússon Verkstæði jólasveinanna - Barnaleikrit eftir Thorbjörn Egner. Verkstæði jólasveinanna - Barnaleikrit eftir Thorbjörn Egner er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytja leikarar við Þjóðleikhúsið "Verkstæði jólasveinanna" eftir Thorbjörn Egner. Leikstjóri er Baldvin Halldórsson og þýðandi er Hulda Valtýsdóttir. Myndina á framhlið plötuumslagsins gerði Halldór Pétursson. Lárus H. Bjarnason. Lárus Kristján Ingvaldur Hákonarson Bjarnason (f. í Flatey á Breiðafirði 27. mars 1866 – 30. desember 1934 í Reykjavík) var íslenskur sýslumaður, alþingismaður og forstöðumaður Lagaskólans. Hann kom við sögu í Skúlamálinu á Ísafirði (sjá Skúli Thoroddsen) og Bankafarganinu 1909-11. Lárus var settur bæjarfógeti og sýslumaður í Ísafjarðarsýslu 29. ágúst 1892 á tímum Skúlamála og hóf þar störf 1. september sama ár. Hann hafði áður verið settur málflutningsmaður við landsyfirréttinn 1. júlí 1891 frá 1. ágúst sama ár til 28. ágúst 1892. Hann var konungskjörinn alþingismaður á árunum 1900-1911 og þingmaður Reykvíkinga 1911-1914. Lárus var Heimastjórnarmaður. Hann var síðan forstöðumaður Lagaskólans meðan hann starfaði, eða frá 1908-1911. Hann var settur prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands 1911-1919. Síðast var hann hæstaréttardómari eða frá 1919-1931. Í spönsku veikinni, sem geysaði í Reykjavík haustuð 1918 var stofnsett neyðarnefnd, sem skipulagði hjálparstörf í bænum og var Lárus formaður hennar. Abbas mikli. Abbas mikli (persneska عباس‎ [æˈbːɔːs]; 27. janúar 1571 – 19. janúar 1629) var "sja" eða "keisari" í Safavídaríkinu í Persíu. Hann varð keisari árið 1588 eftir að hafa gert uppreisn gegn föður sínum, keisaranum Mohammed Khodabanda, og ríkti til dauðadags. Fyrstu ríkisár Abbas samdi hann um frið við Ottómana sem faðir hans hafði átt í stríði við og lét þeim eftir lönd í norður- og norðvesturhluta ríkisins. Eftir það gat hann tekist á við úsbeka og komið sér upp fastaher. Með aðstoð enska ævintýramannsins Robert Shirley bjó hann her sinn öflugum skotvopnum og réðist aftur gegn Ottómönum 1602. Hann náði fljótt aftur þeim löndum sem hann hafði áður látið þeim eftir og jók ríki sitt handan við ána Efrat. Hann barði niður uppreisn í Tbilisi með mikilli hörku og vann sigur á sameinuðum herjum Tyrkja og tatara 1618. 1622 tók hann eyjuna Hormús í Hormússundi frá Portúgölum með stuðningi Breta. Þegar Abbas lést náði ríki hans frá Tígris í vestri að Indusfljóti í austri. Sigurjón Ólafsson. Sigurjón Ólafsson (1908 – 1982) var íslenskur myndhöggvari. Hann stundaði nám hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara. Sigurjón lauk sveinsprófi í húsamálun frá Iðnskólanum í Reykjavík vorið 1927 og ári síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann hóf nám í Konunglegu Akademíunni. Námið sóttist honum vel og haustið 1930 hlaut hann gullverðlaun Akademíunnar fyrir styttu af "Verkamanni" sem nú er í eigu Listasafns Íslands og fyrir portrettið "Móðir mín" (1938) hlaut Sigurjón hin eftirsóttu Eckersberg-verðlaun. Þegar Sigurjón sneri heim að loknu stríði varð hann meðal brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi. Stærst verka hans er án efa lágmyndirnar á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar sem hann vann á árunum 1966-1969, en þekktari eru ef til vill "Öndvegissúlurnar" við Höfða, styttan af séra Friðrik við Lækjargötu, og "Íslandsmerki" á Hagatorgi. Í Laugarnesi þar sem Sigurjón bjó og hafði vinnustofu er núna Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og er Birgitta Spur ekkja Sigurjóns forstöðumaður safnsins. Sigríður E. Magnúsdóttir - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld. Sigríður E. Magnúsdóttir - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Fór hljóðritunin fram í stereo í Austurbæjarbiói og var unnin af Pétri Steingrímssyni. Undirleik sér Ólafur Vignir Albertsson um af sinni alkunnu smekkvísí. Haukur Morthens - 24 metsölulög. Haukur Morthens - 24 metsölulög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Pósthússtræti. Mannlíf á Pósthússtræti árið 1910. Pósthússtræti er gata í miðbæ Reykjavíkur sem teygir sig frá Kirkjustræti til suðurs að Geirsgötu til norðurs. Pósthússtrætið tekur nafn sitt af Pósthúsinu sem stendur á horni kenningargötu sinnar og Austurstrætis. Pólsk-litháíska samveldið. Pólsk-litháíska samveldið, líka þekkt sem Fyrsta lýðveldið eða Tvíþjóðaveldið (pólska: "Pierwsza Rzeczpospolita" eða "Rzeczpospolita Obojga Narodów"; litháíska: "Abiejų tautų respublika") var stórveldi í Evrópu á 17. öld. Það var þjóðveldi aðalsmanna sem byggði á hálfgerðu lénsskipulagi og var myndað með Lublinsambandinu 1. júlí 1569 þar sem Konungsríkið Pólland og Stórfurstadæmið Litháen sameinuðust í eitt ríki. Það varði í þessari mynd þar til því var skipt upp í þremur áföngum af Prússlandi, Rússlandi og ríki Habsborgara á síðari hluta 18. aldar. Árið 1795 var það ekki lengur til á landakortum. Samveldið var framhald á Pólsk-litháíska bandalaginu frá Krewo-konungssambandinu árið 1385 þar sem Jogaila, stórfursti af Litháen, og Jadwiga Póllandsdrottning, gengu í hjónaband. Pólsk-litháíska samveldið náði ekki aðeins yfir þau lönd sem í dag teljast til Póllands og Litháen, heldur einnig yfir Hvíta-Rússland og Lettland, stóran hluta þess sem í dag eru Eistland og Úkraína og hluta af því sem nú er vesturhluti Rússlands (Kalíníngrad og Smolensk). Biskupslaug í Hjaltadal. Biskupslaug í Hjaltadal er lítil hlaðin laug í landi Reykja innst í Hjaltadal, hringlaga með hellulagðan botn og voru frá fornu fari setpallar út úr vegghleðslunni. Þarna er sagt er að biskuparnir á Hólum hafi baðað sig á miðöldum, en um 10 kílómetra leið er frá Hólum að Reykjum. Svokölluð Vinnufólkslaug (Hjúalaug) var þar skammt frá, stærri en mun kaldari og óvistlegri. Biskupslaug er friðlýst. Odysseas Elytis. Lágmynd af Odysseas Elytis á Krít Odysseas Elytis (Gríska: Οδυσσέας Ελύτης) (2. nóvember 1911 – 18. mars 1996) var grískt skáld. Hann var einn helsti módernistinn í grískum nútímabókmenntum á fyrri hluta 20. aldar. Hann hét réttu nafni "Alepoudelis", en varð frægur undir dulnefninu "Elytis". Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1979. Tenglar. Elytis, Odysseas Beinverkir. Beinverkir eru óþægindi sem liggja út með öllum líkamanum. Þeim fylgir oft vægur sótthiti. Beinverkir eru samt ekki eiginlegir verkir í beinunum, heldur einhverskonar seyðingur sem leiðir um allan líkamann og liggur meðfram beinum. Oftast eru beinverkir fylgikvillar með kvefi, lumbru og höfuðverk. Í "Lækningabók séra Odds Oddsonar á Reynivöllum" eru beinverkir útskýrðir sem "Ossium dolor", og í orðabók Richards Cleasby sem "lassitudo febrilis dolorosa universalis". Vladimir Nabokov. Stytta af Nabokov í Montreaux. Vladimir Vladimirovich Nabokov (Rússneska: Влади́мир Влади́мирович Набо́ков) (22. apríl 1899 – 2. júlí 1977) var rússnesk-bandarískur rithöfundur og þýðandi. Nabokov fæddist í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Á heimili foreldra sinna lærði hann að tala rússnesku, frönsku og ensku, og ensku lærði hann að lesa og skrifa áður en hann nam rússnesku. Fyrstu tíu verk sín skrifaði hann aftur á móti á tungu föðurlands síns, þ.e.a.s. rússnesku. Nabokov fluttist með fjölskyldu sinni til Bretlands og var við nám við Cambridge-háskóla. Þaðan fluttist hann síðan til Berlínar, en flúði 1937 undan herdeildum Þýskalands til Parísar með konu sinni og tveimur börnum. Þaðan hélt hann til Bandaríkjanna árið 1940, og það var þar sem hann hlaut fyrst almenna viðurkenningu og frægð og var þá tekinn að skrifa á ensku. Frægasta skáldsaga hans er án efa Lolita sem út kom árið 1955. Nabokov var einnig frægur fiðrildasafnari og lagði ýmislegt nýtt til fiðrildafræðanna. Hann var einnig höfundur margra skákþrauta. Jónahlið. Jónahlið er prótín í himnum, einkum frumuhimnum, sem jónir flæða í gegnum; þetta hefur aftur áhrif á himnuspennu frumunnar, það er spennumun milli ytra og innra borðs hennar. Jónahlið eru ekki alltaf opin; sum jónahlið opnast frekar við tiltekna himnuspennu; önnur opnast eða lokast frekar ef tiltekið efni, svo sem taugaboðefni, binst hliðinu, o.s.frv. Jónahlið hleypa heldur ekki endilega öllum jónum í gegn; sum hlið hleypa til dæmis nær einungis katjónum, það er jónum með jákvæða rafhleðslu, í gegn, á meðan önnur eru jafnvel enn sértækari og leyfa til að mynda nær eingöngu flæði kalíumjóna. Spennuháð jónahlið gegna lykilhlutverki í boðspennu í taugafrumum. Matthías keisari. Matthías keisari (24. febrúar 1557 – 20. mars 1619) af ætt Habsborgara ríkti sem keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1612 til 1618, konungur Ungverjalands 1608 til 1619 og konungur Bæheims frá 1611 til 1617. Hann var þriðji sonur Maximilíans 2. og Maríu Spánarprinsessu og tók völdin af bróður sínum Rúdolf 2. Vindauga. Vindauga er í fyrstu aðeins op þar sem vindur leikur um. Nú er það oftast haft um baggagat, en það er op á hlöðu sem hey er látið fara inn um. Það getur einnig merkt loftræstingargat og jafnvel vatnsauga á vegg og einnig glugghús sem er það rými sem gluggaumgjörðin er fest í. Vindauga er einnig notað um loftrásarop út um eldhúsvegg þar sem reykur leitar út. Enska orðið "Window" á sér rætur í þessu orði, en vindauga á íslensku þýðir ekki "gluggi" á sama hátt og enska orðið. Þó er talað um vindaugu í slíkri merkingu ef glugginn er lítill eins og þetta dæmi sýnir: "gluggar eru vanalega engir, nema lítil vindaugu með rúðubroti í". Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson. Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Hljóðritun þessarar plötu fór fram í Háteigskirkju í Reykjavík fyrri hluta ársins 1974 undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmynd á framhlið tók Gunnar Hannesson í Kverkfjöllum. Super Mario Bros.. Super Mario Bros. er fyrsti Super Mario Bros. tölvuleikurinn. Hann kom út árið 1985 á NES (Nintendo Entertainment System). Christopher Marlowe. Christopher „Kit“ Marlowe (skírður 26. febrúar 1564 – 30. maí 1593) var enskt leikrita- og ljóðskáld og þýðandi á Elísarbetartímabilinu. Hann var besta skáld síns tíma, að undanskildum William Shakespeare sem hann hafði mjög mikil áhrif á. Marlowe er kunnur fyrir glæsilega meðferð sína á stakhendunni og fyrir ótímabært andlát sitt, en hann lést eftir hnífsstungu, aðeins 29 ára gamall. Frægustu verk hans eru Dr. Faustus ("The Tragical History of Doctor Faustus") og Gyðingurinn á Möltu ("The Jew of Malta)"). Lífey. Lífey (danska: "Livø") er dönsk eyja í Limafirði á Norður-Jótlandi. Eyjan er um 320 hektarar á stærð og hægt er að ferðast þangað með ferju frá 1. apríl til 1. september ár hvert. Eyjan hefur verið friðuð frá árinu 1977 en byggð hefur verið þar frá steinöld. Í dag er þó engin föst byggð á eyjunni og er þar aðeins ein gata með verslun og krá. Á eyjunni er hægt að fá bjórtegund sem er sérmerkt og ber nafnið Livøl. Sidney Nolan. Sir Sidney Robert Nolan (22. apríl, 1917 – 28. nóvember 1992) var einn af helstu listmálurum Ástralíu á ofanverðri 20. öld. Hann er þekktastur fyrir myndaröð sem hann málaði af Ned Kelly, hinum fræga ástralska útlaga ("bushranger"). Tenglar. Nolan, Sidney .za. .za er þjóðarlén Suður Afríku. .ly. .ly er þjóðarlén Líbýu. Ormur Ásláksson. Ormur Ásláksson var biskup á Hólum 1342 – 1356, eða í 14 ár. Ormur biskup var Norðmaður, sem hafði verið kórsbróðir í Stafangri. Lítið annað er vitað um uppruna hans. Hann var kjörinn biskup 1342 og vígður 1343, um leið og Jón skalli Eiríksson til Grænlands. Ormur kom til Íslands sumarið 1343, og brotnaði skipið við Þjórsársand. Ormur varð fljótt illa þokkaður af landsmönnum vegna fégræðgi, en hirti minna um andleg mál. Bændur norðanlands gerðu samtök gegn honum, og fór biskup utan 1345 til þess að styrkja stöðu sína. Kom hann út aftur ári síðar og braut þá skip við Melrakkasléttu. Enn fór hann utan 1347 og var þá í Noregi í 4 ár. Sumarið 1349 urðu þau tíðindi að svartidauði barst til Noregs. Geisaði pestin þar fram eftir ári 1350 og felldi meira en helming landsmanna. Einkum varð prestastéttin hart úti, en þeir Ormur Ásláksson og Jón skalli Eiríksson voru meðal fárra kirkjuhöfðingja sem lifðu pestina af. Ormur kom aftur til landsins 1351 með verndarbréf konungs, þar sem farið var hörðum orðum um andstöðu Norðlendinga og nokkrum þeirra stefnt utan á konungsfund. Átökin héldu samt áfram. Biskup bannfærði þá forsprakkana, sem hafði lítið að segja. Efldi hann flokk gegn þeim, náði nokkrum þeirra á sitt vald og hélt þeim föngnum, þar til þeir voru leystir út með fé. Sumarið 1353 komu út þeir sem stefnt hafði verið utan, og höfðu með sér bréf konungs, þar sem Ormi var boðið að virða fornan rétt þegnanna, og skipað að leysa þá úr banni. Taldi hann sér þá ekki lengur vært á Hólum, fór til Noregs 1354 og andaðist þar haustið 1356. "Var hann fáum harmdauði", segir í annál. Árið 1344 lét Ormur biskup taka upp bein Guðmundar góða og þvo þau fyrir jarteiknir, líklega til að geta aukið tekjur biskupsstólsins. Glæsilegt skrín var síðar gert undir beinin og er þess getið á Hólum skömmu fyrir siðaskipti. Savanna tríóið - Skemmtilegustu lög Savanna tríósins. Savanna tríóið - Skemmtilegustu lög Savanna tríósins er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Hönnun umslags: Björn Björnsson. Ljósmyndir á umslagi tók Troels Bendtsen og eru þær frá upptöku sjónvarpsins á "Bílavísum" í apríl 1974. Lögin hafa einnig komið út á kasettu. Savanna tríóið skipa: Þórir Baldursson,Troels Bendtsen og Björn Björnsson. Gnaeus Naevius. Gnaeus Naevius (um 270 – eftir 200 f.Kr.) var rómverskt leikskáld sem samdi bæði harmleiki og gamanleiki. Hann samdi einnig söguljóð. Lítið er vitað um ævi Naeviusar annað en að hann barðist í fyrsta púnverska stríðinu. Hann hóf að semja kvæði um 235 f.Kr. Hans er einkum minnst fyrir gamanleiki sína, sem byggðu margir á grískum fyrirmyndum. Á gamals aldri samdi hann söguljóðið "Púnverska stríðið" ("Bellum Punicum"). Naevius, Gnaeus Marcus Pacuvius. Marcus Pacuvius (220 – um 130 f.Kr.) var rómverskt harmleikjaskáld. Hann var frændi skáldsins Enníusar. Hann var þekktur sem Pacuvius "doctus" eða Pacuvius lærði. Cicero mat Pacuvius mikils og taldi hann meðal mestu harmleikjaskálda Rómverja. Pacuvius, Marcus Silius Italicus. Silius Italicus (fullu nafni Tiberius Catius Asconius Silius Italicus; um 26 – 101) var rómverskt skáld. Hann vakti snemma athygli sem hæfileikaríkur ræðumaður og síðar sem varkár stjórnmálamaður. Hann var ræðismaður árið sem Neró lést (68). Publius Papinius Statius. Publius Papinius Statius (um 45 – 96) var rómverskt skáld. Hann fæddist í Napólí á Ítalíu. Merkustu verk hans var söguljóðið "Þebukviða" og "Silvae". Statius vann að söguljóði um Akkilles á gamals aldri en entist ekki ævin til að ljúka kviðunni. Statius Aulus Persius Flaccus. Persius, fullu nafni Aulus Persius Flaccus, (34 – 62) var rómverskt skáld af etrúrskum ættum. Í kvæðum hans er að finna beitta ádeilu á samtímamenn Persiusar. Kvæði hans nutu mikilla vinsælda á miðöldum. Persius Borðsalt. Borðsalt eða matarsalt er verkað salt og er notað til að bragðbæta mat og drykki. Aðalefni þess (97-99%) er natríumklóríð (efnatákn NaCl), en það inniheldur oftast snefil af öðrum efnum, t.d. kalíumjoðíði (KI) og efnum sem hindra myndun kekkja. Bergsalt ("steinsalt") er unnið úr saltnámum víða í Evrópu, en sjávarsalt er unnið úr sjó. Joði er oft bætt í borðsalt en joðmagnið er misjafnt eftir markaðssvæðum og er tekið mið af því hve almennur joðskortur er á þeim svæðum þar sem selja á saltið. Sumstaðar er flúor og járni einnig bætt í borðsalt. Borðsalt er ýmist talið fínt eða gróft, eftir stærð saltkristalla. Flögusalt er gróft salt sem myndar flata, óreglulega kristalla. Sem dæmi um það má nefna Maldon-salt. Iðnaðarsalt. Aðeins um 17% af öllu því salti sem unnið er í heiminum er borðsalt, afgangurinn er iðnaðarsalt fer til iðnaðarframleiðslu af ýmsu tagi eða er notaður við hálkueyðingu. Í Evrópu er hlutfallið enn lægra en aðeins 3% af evrópskri saltframleiðslu er borðsalt. Gerðar eru mun strangari kröfur til hreinleika og efnainnihalds borðsalts en iðnaðarsalts og það er því mun dýrara. Saltmálið. Í janúar 2012 var upplýst í íslenskum fjölmiðlum að salt sem Ölgerðin og áður Danól hafði flutt inn að minnsta kosti frá 1998 og selt til fjölda fyrirtækja í matvælaiðnaði var ekki borðsalt, heldur iðnaðarsalt, sem ekki þarf að standast sömu kröfur og salt sem ætlað er til manneldis. Forsvarsmenn Ölgerðarinnar kváðust ekki hafa vitað að saltið væri ekki ætlað til neyslu. Þorskhöfði. Þorskhöfði (enska: "Cape Cod") er stór L-laga höfði sem tilheyrir Barnstable-sýslu í Massachusetts á austurströnd Bandaríkjanna. Þorskhöfðaskurðurinn skilur á milli höfðans og meginlandsins. Á Þorskhöfða eru margir smábæir og vinsælar baðstrendur. Sunnan við höfðann eru eyjarnar Nantucket og Martha's Vineyard. Þorskhöfði var önnur enska landnemabyggðin sem heppnaðist að koma upp á meginlandi Norður-Ameríku en þangað komu stofnendur Plymouth-nýlendunnar með skipinu "Mayflower" árið 1620. Keltar. Keltar eru fólk sem talar keltnesk tungumál og er frá Evrópu. Keltnesku löndin eru Írland, Skotland, Wales, Mön, Kornbretaland og Bretagne. Ljóstvistur. Ljóstvistur, ljósdíóða eða ljóstvískaut (enska "Light Emitting Diode", skammstafað "LED") er tvistur sem gefur frá sér veikt ljós þegar rafstraumur fer um hann. Ljóstvistar eru oftast notaðir sem gaumljós á rafmagnstækjum, en eru stundum notaðir, margir saman, sem ljósgjafar á heimilum, í sumarbústöðum, hjólhýsum og bílum. Ljóstvistar sem gefa frá sér innrautt ljós eru notaðir m.a. í fjarstýringum fyrir sjónvarp og hljómflutningstæki. Ryð. Járn sem hefur ryðgað í sundur Galvaníseruð girðing bundin saman með málmvír sem ekki hefur verið ryðvarinn Ryð og óhreinindi á málmplötu. Ryð er heiti yfir efnasamsetningu járns (Fe) og súrefnis (O) og verður til þegar jónir þessara efna tengjast saman. Ryð er stökkt efni sem molnar við hnjask. Það getur verið gult, rauðleitt, brúnleitt eða dökkt á lit. Hlutir úr járni eyðast smám saman vegna ryðs og eru því oft ryðvarðir eða húðaðir með einhverjum efnum til að hindra að súrefni komist að málminum. Ryðmyndun verður þegar óvarið járn kemst í snertingu við súrefni því þá streyma rafeindir frá járninu þannig að járnfrumeindirnar verða plúshlaðnar (Fe 2+ eða Fe 3+) en frumeindir súrefnisins (O2-) verða mínushlaðnar. Bakskautsvörn er notuð á skipum til að hamla gegn ryðmyndun. Ryðfrítt stál er stál sem hefur verið sérstaklega meðhöndlað til að verjast ryði. Skammhlaup. Tré veldur skammhlaupi í raflínu Skammhlaup er það nefnt þegar rafstraumur fer stystu leið frá rafleiðara til jarðar. Straumur í skammhlaupi getur orðið mun sterkari en hámarksstraumur sá sem raftæki eða -lagnir þola og þannig valdið ofhitnun og skemmdum á því. Til að koma í veg fyrir skammhlaup eru leiðarar varðir með einangrara og lagðir þannig að lágmarkslíkur séu á skammhlaupi. Ef skammhlaup verður í rafkerfi bygginga eða ökutækis á lekaliði eða var að rjúfa straumrásina án tafar til að minnka líkur á tjóni. Bræðivar brennur yfir við skammhlaup og rýfur þannig straumrásina, en skemmist varanlega og þarf því að endurnýja. Ef maður eða dýr veldur skammhlaupi með líkamanum eða hluta hans í háspennukerfi, getur hann hlotið alvarleg brunasár eða bana. Jörð (rafmagn). Jörð í rafmagnsfræði á við ákveðinn leiðara, sem hefur spennuna núll, miðað við aðra leiðara í tilteknu raftæki. Jörð í byggingum er tengd jörðu og "jarðtengingin" á að hafa litinn gult og grænt á víxl. Böðvar frá Hnífsdal. Böðvar Guðjónsson frá Hnífsdal (1906 - 1961) var rithöfundur, þýðandi og kennari. Hann skrifaði margar smásögur og drengjasögur. Nokkurs konar dulnefni hans var "Böðvar frá Hnífsdal". Stjórnarskrá Ítalíu. Stjórnarskrá Ítalíu (ítalska: "Costituzione della Repubblica Italiana") eru æðstu lög Ítalíu sem voru samþykkt af stjórnlagaþinginu 22. desember 1947. Kosið var á stjórnlagaþingið með almennum kosningum 2. júní 1946 um leið og haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um afnám konungdæmis. Stjórnarskráin tók formlega gildi 1. janúar 1948, einni öld eftir að Stofnlög Alberts ("Statuto Albertino") gengu í gildi, en þau voru sú stjórnarskrá sem ítalska konungdæmið byggðist á. Stjórnarskráin var samin af stjórnlagaþinginu sem á sátu aðallega kristilegir demókratar, jafnaðarmenn (m.a. róttæk öfl sem tekið höfðu þátt í ítölsku andspyrnuhreyfingunni) og frjálslyndir og ber stjórnarskráin þess merki að vera málamiðlun milli þeirra sem vildu alger skil frá stofnunum fasismans og konungdæmisins og þeirra sem vildu fara varlega í sakirnar. Einkenni á stjórnarskránni er andstaða við gerræði og upphafning á hugmyndinni um réttarríki sem ætlunin er að skapa með stjórnarskránni. Stjórnarskrá Ítalíu er nánast óbreytanleg en til þess að breyta henni þarf mikinn meirihluta á þingi og auk þess í mörgum tilfellum, þjóðaratkvæðagreiðslu. Henni hefur þó verið breytt nokkrum sinnum. Mógúlveldið. Mógúlveldið (persneska: سلطنت مغولی هند, Solṭanat Moġuli Hend; úrdú: مغلیہ سلطنت, Muġalīh Sulṭanat; eigið nafn: گوركانى, Gurkâni) var keisaradæmi í Suður-Asíu sem stóð frá 16. öld fram að miðri 19. öld. Á hátindi sínum, um aldamótin 1700, náði það yfir nær allan Indlandsskaga og hluta þess sem í dag er Afganistan. Blómaskeið Mógúlveldisins er venjulega talið ná frá því þegar Akbar mikli komst til valda 1556 þar til Aurangzeb lést árið 1707. Nafnið er dregið af persneska orðinu yfir mongóla. Stofnandi veldisins var Babur sem náði Kabúl á sitt vald árið 1504. Hann var afkomandi bæði Gengis Kan og Tímúrs og hann og menn hans aðhylltust íslam og höfðu tekið upp persneska siði og menningu. Mingveldið. Mingveldið (kínverska: 明朝; pinyin: "Míng Cháo") var ættarveldi sem ríkti yfir Kína frá 1368 til 1644. Mingveldið var síðasta keisaraættin sem tilheyrði hankínverjum. Það hófst með uppreisn gegn hinu mongólska Júanveldi og beið á endanum ósigur fyrir mansjúmönnum sem stofnuðu Kingveldið 1644 þótt Syðra Mingveldið héldi velli til 1662. Margir hópar hankínverja litu á Kingveldið sem erlend yfirráð og börðust fyrir endurreisn Mingveldisins. Mingveldið kom sér upp herflota og fastaher sem taldi milljón hermenn. Á hátindi ríkisins voru íbúar þess 160 milljónir. Tyrkjaveldi. Tyrkjaveldi, einnig nefnt Ottómanveldið eða Ósmanska ríkið, (ottómönsk tyrkneska: دولت عالیه عثمانیه "Devlet-i Âliye-yi Osmâniyye", tyrkneska: "Osmanlı Devleti" eða "Osmanlı İmparatorluğu") var stórveldi við botn Miðjarðarhafs sem stjórnað var af Tyrkjum. Á blómaskeiði sínu, undir lok 17. aldar, náði ríkið yfir hluta þriggja heimsálfa og innihélt Balkanskagann og suðausturhluta Evrópu, stærstan hluta Mið-Austurlanda og Norður-Afríku, frá Gíbraltarsundi í vestri til Kaspíahafs í austri og frá Austurríki í norðri til Sómalíu í suðri. Höfuðborg ríkisins var hin forna borg Konstantínópel í Evrópu eftir að soldáninn Memed sigursæli náði henni á sitt vald árið 1453. Rússneska keisaradæmið. Rússneska keisaradæmið (rússneska: "Царство Русское", frá 1721: "Pоссiйская Имперiя") var stórveldi í Evrópu og Asíu sem varð til þegar Ívan grimmi stórfursti af Moskvu ákvað að taka sér titilinn "царь" sem merkir keisari árið 1547. Ívan var fastur í sessi, hafði mikil völd gagnvart bojurunum og jók verulega við ríki sitt með því að leggja undir sig tatararíkin Kasan og Astrakan. Hann var fyrstur formlega krýndur „царь“ eða „keisari“ þótt faðir hans og afi hefðu báðir notað titilinn á undan honum, enda litu þeir á Moskvu sem arftaka Konstantínópel eftir fall Austrómverska keisaradæmisins, og sjálfa sig því sem arftaka rómversku keisaranna. Pétur mikli ákvað síðan 1721 að taka upp evrópska heitið „Pоссiйская Имперiя“ ("Rossijskaja Imperija") eftir að hann hafði gert ríkið að einveldi og lagt niður stofnanir bojarasamfélagsins. Borobudur. Pílagrímar hugleiða á efsta stalli hofsins. Borobudur er Mahayana búddahof frá níundu öld staðsett í miðhluta Jövu í Indónesíu. Hofið er byggt upp af sex ferhyrndum stöllum og þremur hringlaga og er skreytt með 2.672 lágmyndum og 504 búddhalíkneskjum. Aðalhelgidómurinn er við miðju efsta stallsins og kring um hann eru 72 búddalíkneski í bjöllulaga helgiturnum búddhatrúarmanna (stúpa). Talið er að Borobudur hafi verið yfirgefið á fjórtándu öld samfara hnignun ríkja búddatrúarmanna og útbreiðslu íslam í Java. Það var grafið aftur úr gleymsku árið 1814 fyrir tilstuðlan Thomas Raffles landstjóra Breta á Jövu og hefur frá þeim tíma verið varðveitt og viðhaldið. Borobudur er á heimsminjaskrá UNESCO. Það er ekki til skráð saga af hver byggði Borobudur eða hver var tilgangur hofsins. Talið er líklegt að Borobudur hafi verið reist um árið 800 á tímum Sailendra ríkisins í Jövu. Líklegt þykir að bygging hofsins hafi tekið 75 ár og verið fullgerð árið 825. Öldum saman lá Borobudur hofið falið undir lögum af eldfjallaösku og frumskógagróðri. Það er ráðgáta hvers vegna hofið var yfirgefið og ekki er vitað hvenær hætt var að nota það og pílagrímsferðir til þessu lögðust niður. Java var undir breskri stjórn árin 1811 til 1816. Landstjórinn Thomas Stamford Raffles hafði mikinn áhuga á sögu Java. Hann safnaði fornmunum og skráði hjá sér það sem innfæddir sögðu honum á ferðum hans um eyjuna. Á ferðalagi til Semarang árið 1814 var honum sagt frá stóru hofi sem kallað var Chandi Borobudur og staðsett var lengst inni í frumskógi nálægt þorpinu Bumisegoro. Hann sendi hollenskan verkfræðing H.C. Cornellius til að rannsaka málið. Cornellius og 200 starfsmenn hans unnu í tvo mánuði við að höggva niður tré og brenna niður gróður og flytja burt jarðveg til að afhjúpa hofið. Ekki var hægt að grafa öll líkneskin úr jörðu af hættu á því að þau eyðilegðust. Hollenski stjórnandi Kedu héraðsins Hartmann að nafni hélt áfram verki Cornelliusar og árið 1835 þá var allt hofið grafið úr jörðu. Það kom í ljós að aðal stúpan var tóm. Það fannst stór Buddha líkneski sem var eins stórt og eitt hundrað hinna búddhalíkneskjanna. Daglega skoða margir ferðamenn hofið. Þann 21. janúar árið 1985 skemmdust níu stúpur illa þegar níu sprengjur sprungu. Blindur bókstafstrúarmaður og múslimi Husein Ali Al Habsyie var árið 1991 dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa lagt á ráðin um sprengjutilræði, þar á meðal sprengjurnar í hofinu. Stúpa. Stúpa (eða hvolfhlað) er hvolflaga helgidómur (oft turnhýsi) í byggingarlist búddhatrúarmanna. Stúpur voru upprunalega gerðar úr leir og mold eða steinhlaðnar ofan á jarðveg eða múrstein. Í stúpu er grafhýsi sem geymir helga gripi. Hún er oft girt svalariði og efst er stöpull með eins konar regnhlíf. Við lát Gautama Búdda mun líkami hans hafa verið brenndur og askan grafin undir átta stúpum og tvær aðrar stúpur undir duft og grafker. Elsta þekkta stúpan er Dhamek stúpan í Sanchi á Indlandi og stærsta stúpan er Phra Pathom Chedi í Nakhon Pathom héraðinu í Tælandi en hún er 127 metra há. Sú stúpa sem mest er lagt í er minnisvarðinn í Borobudur frá 8. öld í Java í Indónesíu. Efri hringlaga pallur þess hofs er með raðir af bjöllulagar stúpum þar sem í eru Búddalíkneski sem tákna Arupajhana, svið formleysisins. Aðalstúpan er tóm og táknar fullkomnun uppljómunar. Hofið er skreytt með lágmyndum úr lífi Gautama Búdda. Borobudur er á heimsminjaskrá UNESCO og er talinn stærsti búddaminnivarðinn í heiminum. Stúpan þróaðist yfir í pagóðu þegar búddismi breiddist út til annarra Asíulanda. Pagóður eru breytilegar að gerð en geta einnig verið bjöllulaga og pýramídalaga. Það eru í dag ekki skörp skil á milli stúpu og pagóðu en venjulega er stúpa notað um búddahelgiskrín á Indlandi og Suðaustur-Asíu en pagóða um trúarlegar byggingar í Austur-Asíu, byggingar sem hægt er að ganga inn í. .cd. .cd er þjóðarlén Austur-Kongó. Majaveldið. Umfang af Majaveldið í Mið-Ameríku. Majaveldið var mésoamerísk siðmenning, með ritmál þess, list, byggingarlist og stærðfræðilegt og stjarnfræðilegt kerfi. Siðmenningin var í Mið-Ameríku hvar Suður-Mexíkó er í dag. Á toppi þess það var vasklegast samfélag heims. Tíu litlir negrastrákar. Titilsíða "Negrastrákanna" frá 1922 eftir Gunnar Egilsson með myndum eftir Mugg. "Tíu litlir negrastrákar" er heiti á vinsælli barnagælu sem samin var af bandaríska vísnaskáldinu Septimus Winner og fyrst gefin út árið 1868 undir heitinu "Ten Little Niggers". Nokkru síðar var þessu breytt í "Ten Little Injuns" eða "Ten Little Indians" og textanum breytt vegna þess hve niðrandi orðið "nigger" er í augum þeldökkra bandaríkjamanna. Engu að síður var lagið gefið út með upprunalegum titli í Bretlandi og þýtt þannig á fjölda tungumála. Til er fjöldinn allur af útgáfum vísunnar þar sem hinar ólánsömu söguhetjur eru t.d. rómverskir hermenn ("X roman soldiers"), hjólreiðamenn ("Ti små cyklister"), sjómenn ("Ten little sailor boys") og þar fram eftir götunum. Skáldsaga Agöthu Christie. Skáldsaga eftir Agöthu Christie með sama nafni kom út í Bretlandi árið 1938. Í Bandaríkjunum var titli bókarinnar hins vegar breytt í "And Then There Were None" og öllum tilvísunum í vísuna breytt samkvæmt "Ten Little Injuns" útgáfunni sem er miklu þekktari í Bandaríkjunum en hin upprunalega útgáfa sem þekkt er í Bretlandi. Leikrit sem byggir á sögunni og kvikmynd sem komu út árið 1945 notuðust bæði við titilinn "And Then There Were None" en síðari útgáfur leikritsins og aðrar bíómyndir hafa notast við "Ten Little Indians". Enskar útgáfur bókarinnar notuðust við upprunalega titilinn til 1985 þegar fyrsta endurútgáfan með bandaríska titlinum kom út í Bretlandi. Síðan þá er orðið algengast að notast við þann titil einnig í Bretlandi. Bókin fjallar um tíu manneskjur sem boðið er í heimsókn á eyju af herra og frú U.N. Owen. Manneskjurnar eiga það sameiginlegt að hafa allar orðið fólki að bana án þess að hægt sé að dæma þau fyrir það. Í herbergjum sínum finna þau öll eintak af vísunni "tíu litlir negrastrákar". Fólkið deyr svo á svipaðan hátt og strákarnir í vísunni hurfu. Þegar lögreglumenn koma og skoða eyjuna virðast þetta vera óleysanleg morðgáta þar sem ómögulegt er að komast óséður af eyjunni og þar er enginn nema líkin tíu. Málið hefðu þeir líklega aldrei leist ef morðingjanum hefði ekki fundist hann þurfa að monta sig af þessu afreki. Hann skrifaði flöskuskeyti. Íslenska þýðingin. Á Íslandi kom barnagælan fyrst út sem "Negrastrákarnir" í Reykjavík árið 1922 í þýðingu Gunnars Egilssonar með myndskreytingum eftir listamanninn Mugg sem var mágur Gunnars. Hún var síðan endurútgefin af Heimskringlu 1937, Lithoprent 1947 og 1955 og af Þjóðsögu árið 1975. Bókin var síðan endurútgefin af Skruddu árið 2007. Til er önnur þýðing úr þýsku eftir Loft Guðmundsson sem var fyrst gefin út árið 1948. Íslenska vísan er sungin við allt annað lag en upprunalega vísan við lag Winners. Íslensk þýðing á bók Agöthu Christie kom upphaflega út árið 1949 með titlinum "Blámannsey" en síðan í nýrri þýðingu hjá Skjaldborg 1992 undir titlinum "Tíu litlir negrastrákar". Gert var grín að útgáfunni í Áramótaskaupinu 2007. Hnúðsvanur. Hnúðsvanur (fræðiheiti "Cygnus olor") er algengur fugl af andaætt. Náttúruleg heimkynni hnúðsvana eru á tempruðum slóðum í Evrópu og Vestur-Asíu allt austur til strandhéraða Rússlands. Hnúðsvanir eru farfuglar á norðlægum slóðum. Hnúðsvanir eru oft hafðir til skrauts á tjörnum og vötnum og hafa afkomendur þannig fugla breiðst út í umhverfi sem ekki er náttúruleg heimkynni. Borgaryfirvöld í Hamborg gáfu Reykjavíkurborg nokkra hnúðsvani til að hafa á Tjörninni. Þeir urpu þar en þeim lynti illa við álftirnar og fækkaði jafnt og þétt og hvarf síðasti hnúðsvanurinn um 1977. Hnúðsvanur er þjóðarfugl Danmerkur. Fullorðnir fuglar eru frá 125-170 sm langir og vænghaf þeirra er 200-240 sm. Þeir geta orðið 1,2 m á hæð á landi. Karlfuglar eru stærri en kvenfuglar og goggur þeirra er stærri. Hnúðsvanur er meðal þyngstu fugla sem fljúga, karlfuglar eru að meðaltali 12 kg þungir og kvenfuglar 9 kg. Ungir fuglar líta öðruvísi út en fullorðnir. Goggur þeirra er svartur en ekki appelsínugulur og dúnninn er gráleitur. Hnúðsvanir verða hvítir við kynþroskaaldur. Hnúðsvanir verpa í stórum dyngjum sem þeir byggja í grunnu vatni við vatnsbakka. Þeir eru einkvænisfuglar og nota sama hreiður árum saman. Báðir foreldrar taka þátt í umönnun hreiðurs og unga. Hnúðsvanar halda sig í hópum og eru oft yfir 100 fuglar saman. Vanalega eru þessir hópar ungfuglar sem ekki hafa ennþá fundið maka. Hnúðsvanir hafa stöku sinnum flækst til Íslands. Hörmangarafélagið. Hörmangarafélagið var verslunarfélag í Kaupmannahöfn sem annaðist Íslandsverslun á árunum 1743-1758. Félagið var félag smákaupmanna í Kaupmannahöfn og fékk Íslandsverslunina í kjölfar útboðs. Örn Bárður Jónsson. Séra Örn Bárður Jónsson (f. 23. nóvember 1949 á Ísafirði) er sóknarprestur í Neskirkju í Reykjavík. Örn Bárður lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1984 og hefur stundað framhaldsnám í guðfræði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hann varð aðstoðarprestur í Garðasókn 1984 og sóknarprestur í Grindavík 1985. Árið 1990 varð hann verkefnisstjóri á Biskupsstofu og fræðslustjóri kirkjunnar frá 1995. Árið 1999 varð hann prestur í Neskirkju og var skipaður í það embætti 1. október 2002. Hann var ritari Kristnihátíðarnefndar 1993-1999 og afmælisnefndar vegna kristnitöku frá 1993. Séra Örn Bárður hefur skrifað fjölmargar greinar í dagblöð um þjóðfélagsmál, menningarmál og trúmál. Hann varð mjög umtalaður eftir að hann skrifaði smásöguna "Íslensk fjallasala h/f" en sagan birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1999. Sagan var myndskreytt og minnir aðalpersóna myndarinnar, sem og sögunnar, töluvert á Davíð Oddsson forsætisráðherra. Í framhaldi af því skrifaði Davíð biskupi bréf: "„Það er athyglivert að í kynningu á „smásögu“ þar sem forsætisráðherranum er lýst sem landráðamanni (manni sem selur fjallkonuna) og landsölumanni er gefið til kynna að sendingin sé á vegum fræðslustarfs kirkjunnar. Davíð Oddsson.“" Skömmu síðar síðar tilkynnti Karl Sigurbjörnsson biskup séra Erni Bárði að hann væri ekki lengur ritari Kristnihátíðarnefndar en forsætisráðherra sat í nefndinni. Svartsvanur. Svartsvanur (fræðiheiti "Cygnus atratus") er stór votlendisfugl af andaætt. Hann verpir aðallega í suðaustur og suðvestur héruðum Ástralíu. Svartsvanur er svartur á litinn með línu af hvítum flugfjöðrum við vængjabrúnir. Goggur þeirra er skærrauður en fölari fremst. Fætur og leggir eru grásvartir. Ungar eru grábrúnir. Fullorðinn svartsvanur er milli 1,1 og 1,4 metra að lengd og vegur allt að 9 kg. Vænghafið er milli 1,6 og 2 metrar þegar fuglinn er á flugi. Hálsinn er afar langur og boginn eins og bókstafurinn S. Talið er að fjöldi svartsvana í heiminum sé allt að 500.000 einstaklingar og tegundin sé ekki í útrýmingarhættu. Hvítar flugfjaðrir á svartsvani Svartsvanir eru algengir á votlendisvæðum í suðvestur og austur Ástralíu og nálægum eyjum. Kjörlendi svartsvana er ferskvatns- og saltvatnsvæði, mýrar og ár þar sem nóg fæðuframboð er og efni til hreiðurgerðar. Svartsvanir ferðast mikið um og ferðalög þeirra tengjast úrkomu og þurrki. Eins og margir vatnafuglar þá fella svartsvanir flugfjaðrir eftir að þeir hafa komið upp ungum og eru þeir þá ófleygir í einn mánuð. Á þeim tíma þá halda þeir oftast til á opnum stórum vötnum þar sem þeir eru öruggir. Áður en Maórar komu til Nýja-Sjálands var þar svartsvanategund sem virðist hafa dáið út vegna ofveiði. Árið 1864 var svartsvanur fluttur frá Ástralíu til Nýja-Sjálands sem skrautfugl á vötnum og hefur tegundin breiðst út og eru svartsvanur nú algengur fugl þar á stærri vötnum og strandsvæðum. Svartsvanir eru vinsælir skrautfuglar í Vestur-Evrópu, sérstaklega á Bretlandi. Svartsvanir hafa verið nær árlegir flækingar á Íslandi undanfarin ár. Þeir eru taldir eiga uppruna sinn að rekja til fuglagarða í Evrópu. Næturvaktin. Næturvaktin er sjónvarpsþáttur sem hóf göngu sína 2007. Þátturinn var sýndur á Stöð 2 á sunnudögum. Fyrsti þátturinn var frumsýndur 16. september og sá síðasti 9. desember. Sögusviðið er lítil bensínstöð á Laugaveginum á næturnar. Á bensínstöðinni ræður ríkjum hinn fertugi vaktstjóri Georg Bjarnfreðarson (Jón Gnarr). Georg er bitur maður sem hefur fimm háskólagráður og ákveðnar skoðanir á tilverunni. Undirmaður Georgs er Ólafur Ragnar (Pétur Jóhann Sigfússon), starfsmaður á plani og einfaldur og einlægur hnakki sem á einstaklega auðvelt með að koma sér í klandur. Utan næturvaktarinnar vinnar hann sem umboðsmaður hljómsveitarinnar "Sólin úr Sandgerði". Nýráðinn starfsmaður í þjálfun er fyrrverandi læknaneminn Daníel (Jörundur Ragnarsson) sem er búinn að slíta öllu sambandi við fjölskyldu og vini út af prófkvíða og þunglyndi. Næturvaktin vann tvenn Edduverðlaun árið 2007 í flokkunum „besta leikna sjónvarpsefnið“ og „vinsælasti sjónvarpsþátturinn“, en síðarnefndu verðlaunin voru valin með áhorfendakosningu. Dagvaktin. Haustið 2008 kom önnur þáttaröð sem bar nafnið "Dagvaktin". Hún var meðal annars tekin upp á Hótel Bjarkalundi í Reykhólasveit. Istorrent-málið. Í byrjun nóvember 2007 varð Næturvaktin, ásamt þáttunum "Tekinn" og "Stelpunum", aðalefni viðvörunar Stöðvar 2 til Istorrent vefsíðunnar, þar sem notendur gátu deilt gögnum sem almennt eru varin höfundarrétti. Stöð 2 vildi þá að allir þættir sem sjónvarpsstöðin hafði umráð yfir yrðu teknir af síðunni og hótuðu málshöfðun væri ekki farið að tilmælum þeirra. 10. nóvember 2007 gaf Svavar Kjarrval, stjórnandi Istorrent út lista yfir efni í dreifingarbanni á síðunni og var Næturvaktin á þeim lista, ásamt útgefnum þáttum af Tekinn, Stelpunum og verkum eftir Pál Óskar og Mugison. Hugsanleg endurgerð fyrir Bandaríkjamarkað. Bandaríska fyrirtækið Reveille Productions er í samningaviðræðum við framleiðendur Næturvaktarinnar um að endurgera þættina fyrir Bandaríkjamarkað. Mjóifjörður (Ísafjarðardjúpi). Mjóifjörður er fjörður á Vestfjörðum. Í þessum firði eru margir bæir sem að mestu eru komnir í eyði, en enn má sjá ummerki gamalla bæja. Verðbréf. Verðbréf er útgefið skjal sem er ávísun á verðmæti og hefur peningagildi miðað við t.d. gengi hlutabréfa fyrirtækis. Húsbréf. Húsbréf er skuldabréf með ríkisábyrgð og löngum afborgunartíma sem seljandi íbúðarhúsnæðis fær sem hluta greiðslu frá kaupanda fyrir milligöngu Íbúðalánasjóðs. Húsbréf voru gefin út frá árinu 1989 til ársins 2004 þegar Íbúðabréf tóku við. Vermut. Vermut (vermút, vermóður eða í hálfkæringi Vermundur) er áfengur drykkur úr hvítvíni, kryddaður með malurt og fleiri kryddjurtum. Voltakross. Voltakross er kross úr kopar- og sinkplötum með rökum dúk á milli og var borinn innan klæða sem lækningatæki gegn sjúkdómum. Var töluvert seldur í upphafi 20. aldar. og höfðu menn mismikla trú á honum. Slúður. Slúður eru ósannar sögusagnir, sem komið er á kreik til að hæðast að eða koma höggi á einhverja persónu eða tiltekna hópa þjóðfélagsins, gjarnan ráðamanna o.þ.h. Í gamni er stundum talað um "Gróu á Leiti" (eftir sögupersónunni og slúðurkerlinunni Gróu úr bókinni Pilti og stúlku), sem þá er kom slúðrinu af stað. Einnig er talað um "illar tungur" í sambandi við þá sem "slúðra". Gísli Magnússon (biskup). Gísli Magnússon (f. 12. september 1712, d. 8. mars 1779) var biskup á Hólum frá 1755 til dauðadags, 1779, eða í 24 ár. Foreldrar Gísla voru Magnús Markússon (d. 1733) prestur á Grenjaðarstað í Aðaldal, og kona hans Guðrún Oddsdóttir frá Reynistað. Gísli fæddist á Grenjaðarstað og ólst þar upp. Hann lærði undir skóla hjá síra Þorleifi Skaftasyni í Múla í Aðaldal, og varð stúdent frá honum 1731. Fór utan sama ár, skráður í Kaupmannahafnarháskóla síðla hausts, og lauk embættisprófi í guðfræði vorið 1734. Kom heim um sumarið. Hann var skólameistari í Skálholti 1737-1746, bjó fyrst að Miðfelli en síðan í Haukadal. Hann fékk Staðastað 1746 og varð um leið prófastur í Snæfellsnessýslu. Haustið 1754 fór Gísli til Kaupmannahafnar að konungsboði, og var vígður Hólabiskup 5. maí 1755. Hann kom að Hólum samsumars og var biskup til æviloka, 1779. Páll Eggert Ólason segir um Gísla: "Honum fór allt vel úr hendi, skólastjórn og kirkjustjórn;... Hann var og vel gefinn, góðmenni og örlátur, höfðinglegur og hraustmenni að afli. kennimaður ágætur." Það verk sem mun halda nafni Gísla lengst á lofti, er bygging steinkirkjunnar á Hólum, þ.e.a.s. þeirrar Hóladómkirkju sem nú prýðir staðinn (Gíslakirkju). Bygging kirkjunnar hófst sumarið 1757, og var kirkjan vígð 20. nóvember 1763. Byggingin var liður í endurreisnarstarfi dönsku stjórnarinnar hér. Um 74 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Gísla Magnússonar, en þó var lítið prentað þar á meðan á byggingu dómkirkjunnar stóð, og ekkert árin 1760-1763. Það taldist nýlunda að árið 1756 komu út tvær bækur með íslenskum fornsögum: "Ágætar fornmannasögur" og "Nokkrir margfróðir söguþættir". Einnig þýddur reyfari: "Þess svenska Gustav Landkrons og þess engelska Bertholds fábreytilegar Robinsons eður lífs og æfi sögur". Mæltist þetta misjafnlega fyrir og varð ekki framhald á. Gísli þýddi og lét prenta "Monita Catechetica" eftir J. J. Rambach (Hólum 1759). Árið 1779 kom út á Hólum útfararminning Gísla Magnússonar. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Gísla biskups, og margvísleg skjöl um byggingu dómkirkjunnar. Í Hóladómkirkju var málverk af Gísla Magnússyni, það er nú í Þjóðminjasafni Íslands, og eftirmynd þess á Hólum. Kona Gísla Magnússonar (gift 1736) var Ingibjörg Sigurðardóttir (f. um 1709, d. 1793) frá Geitaskarði í Langadal. Börn þeirra sem upp komust: Magnús Gíslason sýslumaður á Geitaskarði, Oddur Gíslason prestur á Miklabæ í Blönduhlíð og Kristín Gísladóttir, kona Hálfdanar Einarssonar skólameistara á Hólum. Bakskaut. Bakskaut, mínuskaut, neiskaut (frá neikvætt rafskaut) eða katóða (af enska "cathode") er rafskaut, sem rafeindir flæða frá, öfugt við forskautið, sem rafeindirnar flæða til. Straumstefnan er þó í hina áttina, þ.e. frá forskauti til bakskauts. Forskaut. Forskaut, plússkaut, jáskaut (frá jákvætt skaut) eða anóða (dregið úr ensku "anode") er rafskaut, sem rafeindir flæða til, öfugt við bakskautið, sem rafeindirnar flæða frá. Straumstefnan er þó í hina áttina, þ.e. frá forskauti til bakskauts. Sementsverksmiðjan. Sementsverksmiðjan ehf. er staðsett við Mánabraut á Akranesi. Verksmiðjan var reist á Akranesi á árunum 1956 – 1958 og tók til starfa síðla árs 1958. Sementverksmiðjan framleiðir og hefur stöðugt á boðstólum þrjár tegundir sements í 40 kg sekkjum, stórsekkjum (1.000 og 1.500 kg) og ósekkjað. Sagan. Verksmiðjan var reist á Akranesi á árunum 1956 - 1958 og tók til starfa síðla árs 1958. Allur vélbúnaður verksmiðjunnar var fenginn frá fyrirtækinu F. L. Smidth & Co A/S í Kaupmannahöfn. Bygging Sementsverksmiðju ríkisins ásamt góðri framleiðslu hennar hefur átt drjúgan þátt í að efla og auka varanlega mannvirkjagerð á Íslandi, svo sem húsbyggingar, hafnarmannvirki, vegi og ótal margt annað. Allt þettar hefur svo stuðlað að betra lífi og afkomuöryggi fólksins í landinu. Árið 1993 var Sementsverksmiðju ríkisins breytt í hlutafélag og heitir nú Sementsverksmiðjan ehf. Íslenskt sement ehf keypti svo verksmiðjuna af íslenska ríkinu í október árið 2003. Framleiðslan. thumb Framleiðslan byggist á votaðferð, en hráefnin eru skeljasandur úr Faxaflóa og líparít úr Hvalfirði. Framleiðslugeta verksmiðjunnar eru um 100 þúsund tonn af gjalli og 200 þúsund tonn af sementi á ári. Verksmiðjan framleiðir þrjár sementstegundir: Portlandsement, Hraðsement og Kraftsement. Sala á sementi hefur hrunið síðustu ár og var árið 2011 það lélegasta í sögu verksmiðjunnar og nam salan þá aðeins um 32 þúsund tonnum sem er um fjórðungur afkastageturnnar og tæpur þriðjungur af sementssölunni í eðlilegu árferði. Þegar mest var (árið 1975) var salan tæp 160 þúsund tonn en þá var mikil uppbygging á Þjórsársvæðinu. Fyrirtækið gerir sér von um að salan nálgist 40 þúsund tonn í ár. Síðustu ár hefur orðið mikill samdráttur í framleiðslu á sementi. Árið 2007 var metár þar sem framleidd voru 153 þúsund tonn af sementi. Hinsvegar voru einungis framleidd 38.700 tonn árið 2008. og árið 2011 voru framleidd 32.000 tonn sem er um fjórðungur afkastagetunnar. Árið 2012 hófst innflutningur á sementi frá Noregi í stað framleiðslu. Í Sementsverksmiðjunni störfuðu árið 2009 um 50 manns ásamt 90 afleiddum störfum. En í dag, árið 2012, eru einungis tólf stöðugildi. Vísindabyltingin. Titilsíða 2. útgáfu bókar Kópernikusar "De revolutionibus orbium coelestium" í Basel, 1566. Vísindabyltingin er tímabil í mannkynssögunni sem fyrst og fremst tengt við 16. og 17. öldina þar sem nýjar, byltingarkenndar hugmyndir komu fram og ný vitneskja í mörgum fræðigreinum varð til. Þar ber helst að nefna eðlisfræði, stjörnufræði, líffræði, læknisfræði og efnafræði hvar fornar skoðanir og lögmál tengd náttúruvísundum fengu að víkja fyrir nýjum, er lögðu grunninn að nútíma vísindum. Samkvæmt flestum málsmetandi mönnum hófst vísindabyltingin í Evrópu undir lok Endurreisnartímans og varði allt fram til loka 19. aldar er tímabil sem nefnist Upplýsingin hófst. Upphaf vísindabyltingarinnar má rekja til birtingar tveggja rita árið 1543 sem gjörbreyttu sýn manna á vísindi. Þau eru "De revolutionibus orbium coelestium" ("Um snúning himintunglana") eftir Nikulás Kópernikus og "De humani corporis fabrica" ("Um efni mannslíkamanns") eftir Andreas Vesalius. Árið 1939 setti heimspekingurinn og sagnfræðingurinn Alexandre Koyré fram hugtakið „vísindabyltingin“ til að lýsa þessu mikilvæga tímabili mannkynssögunnar. Með þessu heiti er lögð áhersla á þá miklu og öru þróun raunvísinda sem átti sér stað. Mikilvægi byltingarinnar. Vísindi miðalda voru mikilvægur grundvöllur nútímavísinda. Marxíski sagnfræðingurinn og vísindamaðurinn JD Bernal hélt því fram að „Endurreisnin leiddi til vísindabyltingar sem gerði fræðimönnum kleift að líta á heiminn í öðru ljósi. Trúarbrögð, hjátrú og ótti fengu að víkja fyrir rökfræðilegri þekkingu“. James Hannam viðurkennir að þrátt fyrir að flestir sagnfræðingar telji eitthvað byltingarkennd hafi átt sér stað á þessum tíma, þá sé hugtakið „vísindabylting“ of djúpt í árinni tekið og í raun eitt af þeim skaðvænlegu sögulegu hugtökum sem notuð séu án þess að það útskýri í raun og veru neitt. Unnt væri að kalla hvaða öld sem er frá þeirri tólftu til þeirrar tuttugustu byltingu í vísindum og að hugtakið geri í raun ekkert annað en renna styrkari stoðum undir þá rangtúlkun að ekkert markvert hafi átt sér stað fyrir daga Kóperníkusar í heimi vísindanna. Þrátt fyrir nokkuð ólík sjónarmið gagnvart sumum trúarskoðunum, héldust hinsvegar margir nafntogaðir vísindamenn vísindabyltingarinnar guðræknir um alla sína tíð. Þar á meðal voru Nikulás Kópernikus, Tycho Brahe, Johannes Kepler, Galileo Galilei, René Descartes, Isaac Newton og Gottfried Leibniz. Aldrei nokkurn tímann hafði áður átt sér stað eins hröð uppsöfnun þekkingar og átti sér stað á 18. öld. Þessi nýja tegund vísindalegrar athafnasemi kom þó aðeins fram í fáeinum löndum í Vestur-Evrópu og var einskorðuð við það litla svæði næstu tvöhundruð árin. (Frá 20. öld hefur vísindaleg þekking hins vegar samlagast um allan heim). Margir fræðimenn halda því fram að vísindabyltingin hafi ollið grundvallarbreytingu á heimsmynd manna, viðhorfi þeirra til vísindarannsókna og telja vísindabyltinguna þannig marka upphaf nútímavísinda. Aðrir fræðimenn kjósa að taka ekki eins djúpt í árinni en álíta vísindabyltinguna engu að síður sem grundvallarbreytingu á hugsunarhætti manna. Þá hafa einnig komið fram fræðimenn sem hafna alfarið því að einhvers konar vísindabylting hafi átt sér stað. Félagsfræðingurinn og sagnfræðingurinn Stephen Shaphin heldur því fram í bók sinni, Vísindabyltingin, að ekkert slíkt fyrirbæri hafi átt sér stað. Hann tekur þó fram að þótt margir takast á um réttmæti og raunverulega þýðingu hugtaksins sé það mikilvægt engu að síður til að túlka umfangsmiklar breytingar í heimi vísinda. Sumir fræðimenn halda fram þeirri skoðun að engin vísindabylting hafi orðið, í þeirri merkingu að um ákveðið tímabil hafi verið að ræða, heldur hafi þróun vísinda verið samfelld. Enn fremur telja sumir að vísindabyltingin, eins og hún er oftast skilgreind, miðist um of af því sem geriðst í Evrópu en horfi fram hjá þróun í vísindum í öðrum heimsálfum, þar á meðal í Indlandi og Kína. Guy Fawkes-nótt. Guy Fawkes-nótt er hátíð (en ekki opinber frídagur) sem haldin er að kvöldi 5. nóvember, aðallega í Bretlandi, en líka í ýmsum samveldislöndum. Hátíðin er haldin til að minnast hins misheppnaða Púðursamsæris þegar hópur kaþólskra samsærismanna, þar á meðal Guy Fawkes, hugðust sprengja Jakob 1. og breska þingið í loft upp með því að koma mörgum púðurtunnum fyrir í kjallara Westminsterhallar 5. nóvember 1605 sem þeir ætluðu svo að kveikja í við þingsetningu daginn eftir. Samsærið komst upp um kvöldið þegar Guy Fawkes var gripinn í kjallaranum og allir samsærismennirnir voru handteknir og teknir af lífi í kjölfarið. Á Guy Fawkes-nótt er venjan að skjóta upp flugeldum og kveikja í bálköstum þar sem brúða af Guy Fawkes er brennd. Fyrir fimmta nóvember gengu börn um með brúðuna og betluðu peninga („Penny for the Guy“) en slíkt er orðið sjaldgæft í seinni tíð. Henry Hudson. Henry Hudson (12. september 1571-1580 - 1611) var enskur landkönnuður. Hann fæddist í London og talið er að hann hafi unnið sig upp í stöðu skipstjóra en lítið er vitað um ævi hans til ársins 1607 þegar hann var ráðinn af Moskvufélaginu í Englandi til að finna norðausturleiðina til Kína. Hann sigldi í norður allt að 577 sjómílur sunnan við norðurpólinn þar sem hann sneri við og hélt aftur heim. Sumir telja að hann hafi uppgötvað Jan Mayen en engar heimildir eru til sem benda til þess. 1608 fór hann í aðra ferð og reyndi að sigla norður fyrir Rússland. Hann náði til Novaja Semlja en neyddist til að snúa við. Fyrir Hollenska Austur-Indíafélagið. Árið 1609 var Hudson ráðinn af Hollenska Austur-Indíafélaginu til að finna austurleið til Asíu á skipi félagsins "Halve Maen". Í þetta sinn varð hann að snúa við vegna hafíss áður en hann komst til Novaja Semlja. Hann hafði heyrt orðróm um siglingaleið í gegnum meginland Norður-Ameríku frá Jamestown og John Smith og ákvað því að freista þess að finna suðvesturleið. Hann náði Nýfundnalandi í byrjun júlí og kannaði meðal annars Chesapeake-flóa og Delaware-flóa á austurströndinni í leit að siglingaleið til Kyrrahafsins. Þá sigldi hann inn í flóann þar sem nú er höfnin í New York og sigldi upp Hudsonfljót inn í landið allt að Albany þar sem áin mjókkar. Á leiðinni verslaði hann við innfædda og átti þannig upphafið að hinni blómlegu skinnaverslun milli Hollendinga og indíána þar sem Nýja Amsterdam var síðar stofnuð. Fyrir Breska Austur-Indíafélagið. 1610 fékk Hudson fjármagn frá Virginíufélaginu og Breska Austur-Indíafélaginu til að leggja upp í nýja ferð á skipinu "Discovery" til að leita að norðvesturleið til Kína. Í þetta skipti sigldi hann norðar og kom til Íslands 11. maí og suðurodda Grænlands 4. júní. 25. júní kom skipið í Hudsonsund við norðurodda Labrador og 2. ágúst komu þeir í Hudsonflóa. Þar festist skipið í ís og áhöfnin bjó um sig í landi. Þegar ísa leysti um vorið hugðist Hudson halda áfram landkönnun en áhöfnin vildi snúa heim. Þetta leiddi til uppreisnar sem lyktaði með því að Hudson var, ásamt syni sínum og sjö öðrum, skilinn eftir á opnum báti á Hudsonflóa. Ekkert spurðist til þeirra eftir það. Hudson, Henry Hudson, Henry Blávik. Blávik á við dopplerhrif ljóss þegar bylgjulengd styttist (þ.e. ljósið sýnist blárra) vegna þess að ljósgjafinn nálgast athugandann. Andstaðan er rauðvik, sem er vel þekkt innan stjörnufræðinnar, en blávik má greina á fáeinum vetrarbrautum og stafar þá oftast af snúningi þeirra þ.a. að vart verður bláviks frá þeim hluta sem nálgast jörðu. Rauðvik. Rauðvik á við dopplerhrif ljóss þegar bylgjulengdin eykst (þ.e. ljósið virðist rauðara) vegna þess að ljósgjafinn fjarlægist athugandann. Í stjörnufræði má greina rauðvik fjarlægra geimfyrirbæra með því að bera litróf þeirra sama við litróf á jörðu, en rauðvik virðist aukast með fjarlægð geimfyrirbæris. Rauðvik geimfyrirbæra er skýrt með því að þau fjarlægjast hvert annað með hraða, sem vex með fjarlægðinni. Rauðvik fjarlægra vetrarbrauta er talið stafa af útþenslu alheims allt frá dögum miklahvells. Rauðvik getur einnig orðið á ljósi sem fer um þyngdarsvið massamikis geimfyrirbæri, t.d. svarthols. Rauðvik er andstaða bláviks. Ohmslögmál. Ohmslögmál eða lögmál Ohms er regla í rafmagnsfræði, sem segir að rafstraumur í rafrás sé í réttu hlutfalli við rafspennu. Ohmslögmál er kennt við Georg Ohm (1789-1854) og skilgreinir rafmótstöðu (rafviðnám) R rafrásar, sem hlutfall spennu U og straums I í rásinni, þ.e. Svartfugl (skáldsaga). Svartfugl er söguleg skáldsaga eftir Gunnar Gunnarsson, rithöfund, sem kom út á dönsku1929 í Kaupmannahöfn. Hún kom út 1938 í íslenskri þýðingu "Magnúsar Ásgeirssonar", en 1971 kom út íslensk þýðing höfundar. Verkið var einnig þýtt á hollensku, þýsku, sænsku og ítölsku. Verkið hlaut nær eingöngu jákvæða gagnrýni í Danmörku. Sögusviðið er Ísland við upphaf 19. aldar og byggir sagan á einu frægasta morðmáli Íslandssögunar, "morðunum á Sjöundá". Sagan er sögð frá sjónarhóli Eyjólfs kapelláns, eins af aðalpersónum sögunnar. Vindar og breytingar. Vindar og Breytingar er fyrsta breiðskífa íslensku rokksveitarinnar Sign og kom hún út árið 2001. Platan var tekin upp í Rabbeyroad, hljóðveri í eigu Rafns Jónssonar föður tveggja meðlima Sign þeirra Ragnars Zolberg og Egils. Arnar Grétarsson (tónlistarmaður). Arnar Grétarsson (Addi G/A.D.) er gítarleikari í íslensku rokkhljómsveitinni Sign. Arnar gekk til liðs við Sign árið 2004 eftir að Baldvin Freyr var rekinn úr sveitinni. Arnar er líka í hljómsveitunum Noise, Lizark og Nevolution. Egill Örn Rafnsson. Egill Örn Rafnsson er trommari íslensku rokkhljómsveitarinnar Noise. Egill ásamt Ragnari bróður sínum stofnaði Sign, en Egill hætti í Sign árið 2009 og seinna var boðið að spila með Noise Edduverðlaunin 2007. Veggspjald kvikmyndar Ragnars Bragasonar "Foreldrar". Edduverðlaunin 2007 eru afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar sem fór fram á Hótel Hilton Nordica, sunnudaginn 11. nóvember 2007. Aðalkynnar kvöldsins voru Þorsteinn Guðmundsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Þær breytingar urðu á verðlaunaflokkum að flokknum „Leikari/leikkona í aðalhlutverki“ var skipt í tvennt og þrír tilnefndir í hvorum flokknum „leikari í aðalhlutverki“ og „leikkona í aðalhlutverki“. Fyrir sjónvarpsefni var flokknum „sjónvarpsþáttur ársins“ skipt í „frétta- og/eða viðtalsþáttur“ ársins annars vegar og „menningar- og/eða lífstílsþáttur ársins“ sem ásamt flokknum „skemmtiþáttur ársins“ gera þrjá flokka fyrir sjónvarpsþætti í stað tveggja áður. Flokkurinn „myndataka og klipping“ sem hafði verið með árið 2005 var aftur tekinn upp. Alls voru því veitt verðlaun í sextán flokkum, auk heiðursverðlauna ÍKSA. Sigurmynd hátíðarinnar var kvikmyndin "Foreldrar" eftir Ragnar Bragason með sex verðlaun. Tvær myndir með tilvísun í Breiðavíkurmálið voru tilnefndar þetta árið, heimildarmyndin "Syndir feðranna" og kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur, "Veðramót". Tveir sjónvarpsþættir fengu verðlaun sem besti frétta-/viðtalsþáttur ársins; "Kompás" á Stöð 2 og "Út og suður" á RÚV. Egill Helgason var bæði valinn sjónvarpsmaður ársins og bókmenntaþáttur hans, "Kiljan", var valinn menningar-/lífstílsþáttur ársins. Tilnefningar og handhafar Edduverðlauna 2007. "Handhafar Edduverðlaunanna í hverjum flokki eru feitletraðir og gulllitaðir." Lak. Lak ("лакку маз" eða "лакку") er tungumál sem talað er í Rússlandi. Echo & the Bunnymen. Ian McCulloch á tónleikum 2006. Echo & the Bunnymen er ensk nýbylgjuhljómsveit sem var stofnuð í Liverpool árið 1978. Upprunalegir meðlimir hljómsveitarinnar voru söngvarinn Ian McCulloch, Will Sergeant gítarleikari og Les Pattinson bassaleikari. Upphaflega notuðust þeir við trommuheila en 1980 kom trommarinn Pete de Freitas í hans stað. Þeir komust fyrst á topp breska vinsældalistans árið 1983 með laginu „The Cutter“ af breiðskífunni "Porcupine" og næsta hljómplata þeirra, "Ocean Rain", sem kom út 1984 innihélt meðal annars smellinn „The Killing Moon“. Árið eftir gáfu þeir út safnplötu með lögum af smáskífum sveitarinnar "Songs to Learn & Sing" og "Echo & the Bunnymen" árið 1987. 1988 hætti McCulloch í sveitinni og árið eftir lést de Freitas í mótorhjólaslysi. Sergeant og Pattison fengu þá nýjan söngvara (Noel Burke), trommuleikara (Damon Reece) og hljómborðsleikara (Jake Brockman) til liðs við hljómsveitina og gáfu út hljómplötuna "Reverberation" árið 1990. Sú plata gekk illa og eftir útgáfuna hætti hljómsveitin störfum. McCulloch, Sergeant og Pattison komu síðan aftur saman árið 1997 og gáfu út plötuna "Evergreen" sem náði á topp 10 lista vinsældalistans. 1999 kom "What Are You Going to Do With Your Life?" út og Pattison hætti í hljómsveitinni. McCulloch og Sergeant hafa síðan haldið áfram að koma fram sem Echo & the Bunnymen og gefið út plöturnar "Flowers" (2001) og "Siberia" (2005). Spliff. Spliff var þýsk nýbylgjuhljómsveit sem starfaði frá 1979 til 1984. Hún var mynduð af Herwig Mitteregger (söngur, slagverk), Reinhold Heil (söngur, hljómborð), Bernhard Potschka (gítar) og Manfred Praeker (söngur, bassi). Þeir voru fyrrum meðlimir Nina-Hagen-Band sem þótti Nina Hagen vera farin að ráða of miklu. Þrír þeirra höfðu áður verið í hljómsveitinni Lokomotive Kreuzberg. 1981 gáfu þeir út plötuna "The Spliff Radio Show" og 1982 áttu þeir sumarsmellinn „Carbonara“ sem kom út á plötunni "85555". Sama ár kom út hljómplatan "Herzlichen Glückwunsch" sem innihélt smellinn „Das Blech“. Tveimur árum síðar gaf hljómsveitin út sína síðustu hljómplötu "Schwarz auf Weiß". Rafmótstaða. Rafmótstaða (oftast kölluð (raf)viðnám) er tregða rafleiðara við að flytja rafstraum og veldur spennufalli í rafrás. Er yfirleitt fasti í rafrásum, en er þó háð hita leiðarans. Orðið "viðnám" er líka notað um íhluti, sem valda rafmótstöðu í rafrás. Rafleiðni er umhverfa viðnáms og lýsir eiginleika hlutar við að flytja rafstraum. Skilgreining. Rafmótstaða í riðstraumsrás kallast samviðnám og er summa raun- og launviðnáms rásarinnar. Í jafnstraumsrás er launviðnám núll, þ.a. rafviðnám er eingönu raunviðnám. Ohmslögmál gefur samband rafspennu, "V", rafstraums "I" og rafmótstöðu "R" í rafrás með jöfnunni "V" = "IR". Ofurleiðari hefur enga rafmótstöðu. Mismunur. Mismunur er í algebru niðurstaða frádráttar tveggja talna, "a" og "b", þ.a. mismunurinn er talan |"a" - "b"|. Ekki skiptir því máli hvor talan er nefnd á undan, t.d. er mismunur talnanna 1 og 2 talan 1. Raflausn. Raflausn er lausn sem inniheldur frjálsar jónir og leiða því rafstraum. Algengar raflausnir eru vatnslausnir með söltum. Halldór Brynjólfsson. Halldór Brynjólfsson (f. 15. apríl 1692, d. 28. október 1752) var biskup á Hólum frá 1746 til dauðadags, 1752, eða í 6 ár. Foreldrar Halldórs voru Brynjólfur Ásmundsson lögréttumaður á Saurum í Helgafellssveit og Ingjaldshóli, og kona hans Vilborg Árnadóttir, dóttir Árna Kláussonar prests í Vestmannaeyjum. Halldór fæddist á Saurum og ólst upp þar og á Ingjaldshóli. Hann lærði í Hólaskóla og varð stúdent þaðan 1715. Fór utan sama ár, skráður í Kaupmannahafnarháskóla um haustið, og lauk embættisprófi í guðfræði vorið 1716. Hann kom heim um sumarið og fékk Útskála og þjónaði jafnframt Hvalsnesi. Fékk Staðastað 1736 og varð prófastur í Snæfellsnessýslu 1738. Árið 1739 lagði hann til að stofnaður yrði barnaskóli á Snæfellsnesi, sem haldið væri uppi með hlut af hverju skipi í sýslunni, en af því varð ekki. Haustið 1740 fór Halldór til Kaupmannahafnar til þess að reyna að fá Hólabiskupsdæmi, en tókst ekki, kom heim 1741. Sumarið 1745 var hann að boði konungs kvaddur utan, og var vígður Hólabiskup 25. mars 1746. Hann kom að Hólum um haustið og var biskup til æviloka, 1752. Halldór fékk hálsmein og krabbamein í tungu, fór utan haustið 1752 til þess að leita sér lækninga, en andaðist á Eyrarsundi. Hann var jarðsunginn frá Vorfrúarkirkju í Kaupmannahöfn. Páll Eggert Ólason segir um Halldór: "Dugnaðarmaður, en þó örlátur... talinn með lærðustu prestum, góður kennimaður og siðsamur; hann fékkst við lækningar, blóðtökur o.fl. meðan hann var prestur. Hann var hagmæltur." Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eru nokkrar stórlygisögur hafðar eftir Halldóri biskupi, sem benda á gamansamlega raupsemi. Um 60 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Halldórs Brynjólfssonar, þar af 7 alþingisbækur og 23 tilskipanir. Útgáfa tilskipana var nýjung, og þýddi Halldór sumar þeirra sjálfur. Þegar hann var í Kaupmannahöfn, 1740-1741, þýddi hann rit eftir Erik Pontoppidan: "Sannleiki guðhræðslunnar" (Kmh. 1741). Var þýðingin harðlega gagnrýnd og bókin oft kölluð "Rangi-Ponti". Þýddi einnig smárit eftir Hatton: "Lítið ágrip um þær fjórar species" (Hólum 1746). Lét endurprenta "Vísnabók" Guðbrands biskups (Hólum 1748). Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Halldórs Brynjólfssonar. Í Hóladómkirkju var málverk af Halldóri Brynjólfssyni, það er nú í Þjóðminjasafni Íslands, og eftirmynd þess á Hólum. Kona Halldórs Brynjólfssonar (gift 1725) var Þóra Björnsdóttir (f. 1725, d. 27. september 1767), dóttir Björns Thorlaciusar prófasts að Görðum á Álftanesi. Eftir andlát Halldórs biskups, fluttist Þóra að Reynistað og bjó þar við rausn til æviloka. Börn þeirra sem upp komust: Þórunn Halldórsdóttir (f. 1726) húsfreyja á Stóra-Núpi, Gróa Halldórsdóttir (f. um 1730), Elín Halldórsdóttir (f. um 1730), Páll Halldórsson (f._um 1735) klausturhaldari, seinast á Syðri-Ey á Skagaströnd, Þrúður Halldórsdóttir (f. 1736) húsfreyja í Fremri-Gufudal, Vilborg Halldórsdóttir (f. 1740) húsfreyja á Breiðabólstað í Ölfusi, Brynjólfur Halldórsson (f. um 1740) gullsmiður á Sauðá og víðar, Snæbjörn Halldórsson (f. um 1742) prestur í Grímstungum og víðar, Björn Thorlacius Halldórsson (f. 1743) kaupmaður á Húsavík, og Margrét Halldórsdóttir (f. 1746) prestsfrú í Odda. .vg. .vg er þjóðarlén Bresku Jómfrúaeyja en einnig hefur lénið verið notað af tölvuleikjafamleiðundum en þá á vg að skammstafa "„video game“" (tölvuleikur). .cf. .cf er þjóðarlén Mið-Afríkulýðveldisins. .cg. .cg er þjóðarlén Vestur-Kongó. .ch. .ch er þjóðarlén Sviss. .ci. .ci er þjóðarlén Fílabeinsstrandarinnar. .mt. .mt er þjóðarlén Möltu. Samsvörunarkenning um sannleikann. Samsvörunarkenning um sannleikann er hver sú kenning sem segir að sannleikur sé fólginn í samsvörun sannbera og sanngjöra; það er að segja að sannberinn komi heim og saman við eða endurspegli hvernig málum er háttað. Til eru ýmis afbrigði samsvörunarkenninga um sannleikann sem halda fram ólíkum sannberum, ólíkum sanngjörum eða ólíkri greiningu á því í hverju samsvörunin er fólgin. Sannberar eru gjarnan taldir vera setningar, fullyrðingar, staðhæfingar eða hugsanir. Sanngjörar eru gjarnan taldir vera staðreyndir, eða „staða mála“. Ninjaskjaldbökurnar. Ninjaskjaldbökurnar eða Teenage Mutant Ninja Turtles, "TMNT", („stökkbreyttu táninganinjaskjaldbökurnar“) eru fjórar stökkbreyttar skjaldbökur sem lærðu bardagalistina ninjutsu til sjálfsvarnar og berjast gegn glæpamönnum New York-borgar ásamt meistara sínum Splinter, sem er stökkbreytt rotta. Þær birtust fyrst í myndasögublöðum árið 1984 sem voru samin af Kevin Eastman og Peter Laird. Skjaldbökurnar voru skírðar í höfuðið á endurreisnarlistamönnunum Leonardo da Vinci, Raffaello Sanzio (Rafael), Michelangelo Buonarroti og Donato di Niccolò (Donatello). William Turner. Joseph Mallord William Turner (23. apríl 1775 – 19. desember 1851) var enskur listmálari. Turner fylgdi rómantísku stefnunni og málaði aðallega landslagsmyndir. Stíll hans var nokkuð frábrugðinn flestra annarra málara rómantísku stefnunnar og litið er á hann sem eins konar forsmekk að impressionismanum, og hafði hann áhrif á impressionista á borð við Claude Monet. Turner er frægur fyrir að mála ljós, t.d. sólsetur. Eitt þekktasta dæmið um þetta er málverkið "The Fighting Temeraire tugged to her last Berth to be broken up, 1838", þar sem hæfni Turners til að mála áhrif ljóssins sjást vel. Einnig málaði hann önnur náttúrufyrirbrigði (t.d. storm og þoku), hamfarir og slys (t.d. skipsskaða). Þekkt dæmi um málverk hans af skipbrotum er "The shipwreck of the Minotaur" sem byggt var á raunverulegum atburði. Turner var reyndar byrjaður á verkinu löngu áður en atburðurinn átti sér stað en nefndi málverkið eftir slysinu vegna þess hve umtalað það varð á Englandi. Turner ferðaðist víða um Evrópu til þess að læra og þróa list sína. Meðal annars ferðaðist hann til Frakklands og Ítalíu. Í Frakklandi lærði hann í Louvre safninu í París og á Ítalíu ferðaðist hann nokkrum sinnum til Feneyja, þar sem hann málaði mörg verk. Einnig ferðaðist hann til Rómar og málaði myndir af borginni, meðal annars verkið "Modern Rome – Campo Vaccino" sem árið 2010 varð dýrasta verk Turners er það seldist á uppboði á 29,7 milljón pund. Turner var umdeildur málari í sinni samtíð en vegur hans hefur farið vaxandi enda er hann nú á dögum einn virtasti málari Englands. Málverkið "The Fighting Temeraire" var árið 2005 valið besta málverk Bretlands í skoðanakönnun BBC. Moodswinger. Moodswinger er strengjahljóðfæri. Hann hefur oftast 12 strengi sem gerðir er úr stáli eða nikkel og stáli á þjóðlagagítörum og rafmagnsgítörum. Strengirnir eru venjulega stilltir í E-A-D-G-C-F-A#-D#-G#-C#-F#-B. Íslensk erfðagreining. DeCode eða Íslensk erfðagreining er íslenskt líftæknifyrirtæki sem var stofnað árið 1996. Kári Stefánsson er stjórnarformaður og forstjóri. Íslensk erfðagreining er líftæknifyrirtæki sem þróar lyf við mörgum alvarlegustu sjúkdómum samtímans eins og hjartaáföllum og blóðtappamyndun. Fyrirtækið notar erfðarannsóknir við þróun þessara lyfja, vísindamenn hafa einangrað fjölda erfðavísa sem eiga þátt í þessum sjúkdómum. Þannig komast þau að líffræðilegum orsökum þeirra og skilgreina lyf út frá því. Nú er unnið að lyfjum við hjartaáföllum, blóðtappamyndunum og astma. Íslensk erfðagreining hefur komið sér upp og gert aðgengilega Íslendingabók, gagnagrunn með ættfræðilegar upplýsingar um alla þá Íslendinga sem heimildir eru um. Íslensk erfðgreining býður upp á alhliða þjónustu við arfgerðagreiningar en arfgerðagreining er einn mikilvægasti liðurinn í kortlagningu meingena. Einnig er boðið upp á þrívíddargreiningu á formgerð prótína en með sérhæfðum hugbúnaði má hanna lyfjasambönd sem falla að virkniseti lyfjamarkanna eins og óskað er eftir að lyfin bindist. Lyfjaefnafræði er eitt af því sem Íslensk erfðagreining býður uppá en það eru rannsóknir allt frá fyrstu skrefum lyfjaþróunar að þróun ferla til að framleiða lyfjaefni í miklu magni fyrir klíniskar rannsóknir. Alhliða klínískar rannsóknir er annað sem þeir bjóða upp á en það er t.d. uppsetning og stjórnun á I-IV fasa klínískra lyfjarannsókna, lyfjaerfðafræðilegar rannsóknir og lyfjaefnagreining. Kynþáttahatur. Kynþáttahatur er að finna til andúðar á tilteknum hópi fólks sem skilgreindur er út frá kynþætti, þjóðerni eða ætterni. Kynþáttahatur liggur oft þjóðernisátökum til grundvallar. Tvístirni. Tvístirni með stórri og lítilli stjörnu. Tvístirni er stjörnukerfi sem inniheldur tvær stjörnur sem snúast hvor um aðra. Brautir þeirra eru sporbaugar með massamiðju stjarnanna í öðrum brennipunkti. Stærð og massi stjarnanna tveggja geta verið mjög ólík og er braut massameiri stjörnunnar ávallt styttri og fer hún hægar á braut sinni kringum massamiðjuna. Annar meðlimurinn getur verið svarthol eins og talið er vera í Cygnus X-1. Hvorri stjörnu er yfirleitt ekki gefið sér nafn nema einhverskonar vísindanafn. Til dæmis eru stjörnurnar tvær sem tilheyra Siríus nefndar Siríus A og Siríus B. Sú bjartari ber bókstafinn A og sú daufari B. Tvístirni er stundum skipt í 5 flokka og geta sum þeirra flokkast í fleiri en einn flokk. Þeir eru taldir upp hér á eftir. Sýndartvístirni. Sýndartvístirni eru tvær stjörnur sem virðast mjög nálægt hvorri annarri frá okkur séð og þegar fljótt er á litið vera tvístirni, en hafa engin eðlisfræðileg tengsl. Gott dæmi um sýndartvístirni eru stjörnurnar Mizar og Alcor í stjörnumerkinu Stórabirni, en þær er auðvelt að aðgreina með berum augum. Ef kíkt er á þær í litlum stjörnukíki kemur í ljós að Mizar er sjálf tvístirni. Sýnileg tvístirni. a> þar sem Síríus B sést greinilega neðarlega til vinstri. Einfaldasta gerðin af tvístirnum eru sýnileg tvístirni. Við sjáum þá báðar stjörnurnar og getum fylgst með þeim þegar þær hreyfast um sameiginlega massamiðju. Einn umferðartími getur verið frá einu ári til þúsunda ára. Því nær sem þær eru hvorri annarri, því styttri er umferðartíminn. Dæmi um sýnileg tvístirni eru Mizar, Albireo í Svaninum og Siríus í Stórahundi. Myrkvatvístirni. Myrkvatvístirni þar sem bláa stjarnan er bjartari. Fyrir neðan er ferill birtustigs kerfisins Við sjáum þvert á brautir sumra tvístirna. Þegar svo er myrkva stjörnurnar hvora aðra til skiptis með reglubundnum hætti. Þá dofnar birta kerfisins tímabundið. Í einum umferðarhring stjarnanna verða því tveir myrkvar, sem geta verið mismiklir, en eru þó alltaf jafn langir. Þegar bjartari stjarnan myrkvast (þarf ekki að myrkvast alveg því hún getur verið stærri) verður aðallágmark, en aukalágmark þegar daufari stjarnan fer aftur fyrir þá bjartari. Deildarmyrkvun er það þegar brautir stjarnanna eru ekki þvert á okkar sjónarhorn, en ná þó að myrkva hvora aðra að hluta. Eitt frægasta myrkvatvístirnið er stjarnan Algol í stjörnumerkinu Perseus. Hún er í raun þrístirni en A og B stjörnurnar mynda tvístirni. Umferðartími hvorrar stjörnu eru 2 dagar, 20 klst. og 49 mínútur og stendur hvor myrkvi yfir í um 10 klst. Birtumunur stjarnanna er svo mikill að við greinum engan birtumun nema með nákvæmum mælitækjum þegar aukalágmarkið stendur yfir. Hins vegar er mjög áberandi þegar aðallágmarkið stendur yfir, en þá fellur birtustig Algol úr 2,1 í 3,4. Mælitvístirni. Við sjáum stundum ekki aðra stjörnuna en hin sýnilega sýnir mælanlega hreyfingu á himinhvolfinu sem verður vegna þyngdaráhrifa frá hinni. Þannig vitum við að sumar stjörnur eru tvístirni án þess að sjá aðra stjörnuna. Litrófstvístirni. Litrófstvístirni eru ekki sjáanleg tvístirni en línur í litrófi stjörnu sveiflast með reglulegum hætti. Stundum sést aðeins litróf annarrar stjörnunnar en stundum beggja. Þessi litróf orsakast af dopplerhrifum í ljósi sem er afleiðing afstæðiskenningar Einsteins. formula_1 Þar sem formula_2 er bylgjulengd ljóss þess sem athugandinn sér þegar hann horfir á hlut sem er á leiðinni á móti honum en formula_3 er bylgjulengd þess ljóss sem hluturinn gefur frá sér. "v" er hraði stjörnunnar og "c" er ljóshraðinn. Þessi hlutur getur verið stjarna og er einmitt mikið notað í athugunum á tvístirnum. Með litrófinu er hægt að sjá hraða stjarnanna í áttina beint að eða frá jörðu. Surtur. Surtur er eldjötunn í Norrænni goðafræði. Hann kemur úr Múspellsheimi og í Ragnarökum ríður hann um jörðina ásamt Múspellssonum með glóandi sverði og brennir jörðina. Hann verður Frey að bana. Á Íslandi er hraunhellirinnn Surtshellir, lengsti hellir landsins, nefndur í höfuðið á honum. Pétur Nikulásson. Pétur Nikulásson var biskup á Hólum 1391 – 1411, eða í 20 ár. Pétur Nikulásson var danskur munkur af prédikarareglu og hafði starfað í páfagarði í Rómaborg. Ekki er vitað um ætt hans eða uppruna. Hann fékk páfaveitingu fyrir Hólabiskupsdæmi og tók biskupsvígslu í Róm. Sjá páfabiskupar. Pétur biskup kom til Íslands 1392, og virðist hafa verið einn af hinum betri útlendu biskupum hér. Árið 1391 gaf hann út skipan um kristnihald í Hólabiskupsdæmi, þar sem lagt var fyrir presta að kenna fólki kristileg fræði, m.a. boðorðin tíu. Hann hélt skóla á biskupssetrinu og vandaði val á kennurum. Um og upp úr 1394 vísiteraði hann allar kirkjur í biskupsdæminu og lét rita skrá yfir eignir þeirra. Þegar Vilchin Hinriksson tók við sem biskup í Skálholti, 1394, efndi hann til veislu sem var í minnum höfð, og var Pétur Hólabiskup meðal boðsgesta. Pétur er talinn hafa stýrt Hólabiskupsdæmi höfðinglega, líkt og Jón skalli forveri hans. Skömmu fyrir svartadauða, 1402, fór Pétur biskup utan og dvaldist erlendis það sem eftir var ævinnar. Fól hann þá umboðsmönnum sínum að vinna biskupsverk á Hólum. Hann dó 1410 eða 1411. Hinn 27. desember 1394 fauk Hóladómkirkja í stormviðri, "með svo undarlegum atburð að hvert tré brotnaði. Varð þar engu undan bjargað nema líkneskjum og helgum dómum". Lét Pétur þegar gera nýja kirkju, sem talið er að hafi að hluta staðið fram á daga Guðbrands biskups. Er þessi kirkja stundum kölluð Péturskirkja. Máldagabók Péturs Nikulássonar yfir kirkjur í Hólabiskupsdæmi er til í uppskrift frá 17. öld (Pétursmáldagar). Réttarheimild. Réttarheimildir eru þau viðmið sem viðurkennt er að nota eigi eða megi nota sem grundvöll undir réttarreglu. Vafi getur leikið á því hvað viðurkennt er sem réttarheimild og hefur það valdið ágreiningi meðal fræðimanna hvað rétt er sé viðurkenna. Réttarheimildir geta verið breytilegar eftir tíð og tímabilum. Er þannig gert ráð fyrir því að með breyttum tímum öðlist nýjar réttarheimildir viðurkenningu, en aðrar glati henni. Íslenskir fræðimenn hafa löngum leitast við að afmarka réttarheimildarhugtakið. Skilgreining Sigurðar Líndals. Með tilvísun í "gögn" er átt við hlutræn atriði, s.s. lög og dóma, sem vísa má til til stuðnings réttarreglu. Með tilvísun til "háttsemi" er átt við venju sem hefur skapast hefur á ákveðnu sviði og telst næginlega fastmótuð og viðurkennd til að unnt sé að leggja hana til grundvallar réttarreglu. Með tilvísun til "hugmynda" er svo vísað til viðmiða sem hafa ekki mótast til hlítar eins og meginreglna laga, eðlis máls og almennrar réttarvitundar. Orðasambandið "og hvaðeina annað" vísar til þess að í tímanna rás geti nýjar réttarheimildir komið til sögunnar. Skilgreiningin segir að réttarheimildir séu viðmið sem "nota skuli" eða "nota megi" sem stoð undir réttarreglu. Með þessu er vísað til hugmynda Sigurðar um það hvenær réttarheimildir eru "bindandi" og hvenær er "heimilt" (ekki bindandi) að nota þær. Um þetta atriði eru uppi nokkuð misjafnar skoðanir og raunar umdeilanlegt hvort að hægt sé að tala um eitthvað "val" í þessum efni. Máldagi. Máldagi er skjal, þar sem skráðar eru eignir kirkju og ýmis réttindi og tekjustofnar sem hún á að njóta. „Máldagi“ hefur einnig merkinguna „samningur“, og e.t.v. var máldagi kirkju upphaflega samningur um eignaskipti milli kirkjubóndans og kirkjunnar. Orðið "máldagi" var einkum notað í kaþólskri tíð. Umsjónarmönnum kirkna var skylt að láta skrá máldaga viðkomandi kirkju og halda honum við. Biskupar höfðu eftirlit með því að það væri gert. Einnig átti að lesa máldagann upp einu sinni á ári við fjölmenna messu. Elsti máldagi sem varðveittur er í frumriti er Reykjaholtsmáldagi, um eignir Reykholtskirkju í Borgarfirði. Elsti hluti hans er frá því um 1180. Hugsanlegt er að rithönd Snorra Sturlusonar sé á hluta máldagans. Sumir biskupar létu skrifa upp máldagasöfn allra kirkna í sínu biskupsdæmi. Meðal elstu máldagasafna eru Auðunarmáldagar, frá 1318, yfir Hólabiskupsdæmi, og Vilchinsmáldagar, frá því um 1397, yfir Skálholtsbiskupsdæmi. Þeir Auðunn rauði Hólabiskup og Vilchin Hinriksson Skálholtsbiskup létu taka saman þessi máldagasöfn. Íslensku kirkjumáldagarnir eiga sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu, og veita mjög mikilvæga yfirsýn um eignir og búnað íslenskra kirkna frá því á 12. öld og fram yfir siðaskipti. Hraunhellir. Hraunhellar eru hraunrásir neðan yfirborðs jarðar sem aðallega finnast í helluhraunum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir yfirborðinu. Þegar eldgosið rénar sjatnar í þessum farvegum og eftir standa langir hellar. Dæmi um slíka hella eru Surtshellir, Stefánshellir, Víðgelmir og Raufarhólshellir. Til þess að teljast vera hellir er gjarnan við það miðað að holrýmið nái a.m.k. 10 metrum að lengd en annars talað um skúta eða hraunskúta. Önnur holrými í hrauni sem oft eru einnig talin til hraunhella eru til dæmis gasbólur og gígar líkt og Þríhnúkagígur í Bláfjöllum. Robert Wodborn. Robert Wodborn var biskup á Hólum 1441, eða í nokkra mánuði. Robert Wodborn var enskur einsetumunkur af Ágústínusarreglu, sem fékk árið 1441 páfaveitingu fyrir biskupsembætti á Hólum. Sjá páfabiskupar. Talið er víst að Robert hafi aldrei til Íslands komið, og er því á mörkunum að hægt sé að telja hann meðal Hólabiskupa. Áslákur Bolt erkibiskup í Niðarósi nýtti sér ákvæði sem kirkjuþingið í Basel hafði veitt skömmu áður, greip fram fyrir hendur páfa og skipaði um 1442 Gottskálk Keniksson í embætti Hólabiskups, áður en Robert Wodborn náði að taka við embættinu. Var þá lokið afskiptum páfa af skipun biskupa á Hólum. Ekkert annað er vitað um uppruna Roberts Wodborn, né hvenær hann dó. Jón Bloxwich. Jón Bloxwich var biskup á Hólum 1435 – 1440, eða í 5 ár. Jón Bloxwich var enskur munkur af reglu Karmelíta og baccalaureus í guðfræði. Hann fékk árið 1435 páfaveitingu fyrir biskupsembætti á Hólum. Sjá páfabiskupar. Hann kom til Englands vorið 1436 og fór á fund konungsins, Hinriks VI. Hann fékk leyfi til að senda ensku Íslandskaupmennina til þess að rannsaka biskupsdæmið og gefa skýrslu um ástand þess árin 1436–1439. Jón Bloxwich kom aldrei hingað til lands og mun hafa misst biskupsdæmið af því að hann gat ekki greitt embættisgjöld sín í féhirslu páfa. Hann lét af embætti 1440 eða 1441. Lítið annað er vitað um uppruna Jóns Bloxwich, ekki heldur hvað um hann varð, eða hvenær hann dó. Liðamót. Liðamót kallast hreyfanlegar samtengingar beina. Utan um liðamót er bandvefshimna sem kallast liðpoki og í honum er liðvökvi sem smyr liðholið að innan. Vökvinn sér einnig um að flytja næringu til brjósksins á liðflötunum. Liðbönd tengjast svo beinhimnu aðliggjandi beina og takmarka hreyfingu, styðja og auðvelda hreyfinga liðanna. Prinsessan á bauninni. Prinsessan á bauninni í danska blómagarðinum Jespershus. Prinsessan á bauninni (danska: "Prindsessen paa Ærten"; "Prinsessen på ærten" skv. nútíma réttritun) er stutt ævintýri eftir H.C. Andersen. Í sögunni segir frá prinsi sem vildi giftast prinsessu en þótt enginn skortur væri á þeim fann hann eitthvað að þeim öllum, þær voru ekki alvöruprinsessur. Óveðurskvöld eitt kom svo ung stúlka sem sagðist vera prinsessa holdvot til hallarinnar og bað um næturgistingu. Drottningin ákvað að prófa hana með því að setja baun á botn rúmsins sem henni var ætlað að sofa í, ofan á hana tuttugu dýnur og þar ofan á tuttugu æðardúnsængur. Morguninn eftir var prinsessan spurð hvernig hún hefði sofið en hún sagði að sér hefði ekki komið blundur á brá þar sem hún hefði legið á einhverju hörðu og væri öll blá og marinn. Þá kættist prinsinn mjög, sagði að hún hlyti að vera alvöruprinsessa og giftist henni, en baunin var sett á safn. H.C. Andersen sagði sjálfur seinna að hann hefði heyrt þessa sögu þegar hann var barn. Gömul dönsk útgáfa er ekki þekkt en hins vegar er til sænsk saga um prinsessu sem lá á baunum og gæti hann hafa heyrt hana. Prinsessan á bauninni var eitt af fyrstu ævintýrunum sem Andersen skrifaði, snemma árs 1835, og hún kom út í bæklingi með þremur öðrum ævintýrum 8. maí það ár. Eldfærin. Eldfærin eftir H.C. Andersen. Dátinn hittir hundana. Eldfærin er ævintýri eftir H.C. Andersen. Þar segir frá dáta nokkrum sem gömul kerling sendi inn í holt tré að sækja fyrir sig eldfæri. Inni í trénu hitti hann fyrir þrjá hunda, hvern af öðrum, og hafði sá minnsti augu á við undirskálar, sá næsti augu á stærð við mylluhjól og sá þriðji augu á stærð við Sívalaturn. Þeir sátu á kistum fullum af peningum og fyllti dátinn alla vasa af gullpeningum úr kistu stærsta hundsins. Hann fann svo eldfærin og færði kerlingunni en þegar hún vildi ekki segja honum af hverju hún vildi fá þau afhöfðaði hann hana. Síðan fór hann til höfuðborgarinnar og lifði í vellystingum en þegar peningarnir voru búnir datt honum í hug að nota eldfærin og þá komu hundarnir og sóttu fyrir hann hvað sem hann vildi. Dátinn lét þá fyrst sækja meiri peninga en síðan langaði hann að sjá prinsessuna, sem var lokuð inni í turni sínum til að reyna að koma í veg fyrir að sá spádómur rættist að hún giftist ótignum manni. Hann lét hundana sækja sofandi prinsessuna nótt eftir nótt en þegar komst upp um hann var honum varpað í dýflissu og átti að taka hann af lífi. Á aftökupallinum fékk hann að kveikja sér í síðustu pípunni og þegar hann notaði eldfærin komu allir hundarnir, vörpuðu kóngi og drottningu og ráðgjöfum þeirra upp í loftið svo þau brotnuðu í mola þegar þau lentu en dátinn og prinsessan giftust og hundarnir sátu veisluna. H.C. Andersen byggði ævintýri sitt á gömlu skandinavísku ævintýri, þar sem hermaður notar töfrakerti til að kalla til sín járnmann sem uppfyllir óskir hans, en einnig eru augljós tengsl við söguna af "Aladdín" úr 1001 nótt. Einnig má finna tengsl við ævintýrin um "Hans og Grétu", "Rapunzel" og "Ali Baba". Eldfærin er eitt af elstu ævintýrum Andersens og komu fyrst út 8. maí 1835 í bæklingi með nokkrum öðrum ævintýrum, meðal annars "Prinsessunni á bauninni". Litla hafmeyjan. Litla hafmeyjan er ævintýri eftir danska rithöfundinn H.C. Andersen. Sagan fjallast um unga hafmeyju sem gengur að nafninu Ariel. Hún er dóttir Neptúnusar, sem er vel þekktur fyrir að vera konungur sjávarins. Einn dag, fékk Ariel klikkaða hugmynd, og sagði þá faðir sínum að henni langaði að skoða mennska heiminn. Hann vildi ekki hjálpa henni, svo hún fór í burtu, í leit að hjálp hjá einhverjum. Þá hittir hún Norn Sjávarsins, sem gefur henni eitthvað lyf sem myndi breyta Ariel í mennska stelpu. Ariel tekur lyfið, en í leiðinni, fær Nornin rödd hennar. Litla Hafmeyjan fer á þurrt land, því að hún gat ekki andað undir vatni eins of áður. Um leið er hún fundin, en ekki vissi hún að maðurinn sem að fann hana, og hjálpaði henni, var enginn annar en prinsinn. Þau enda á því að verða mjög ástfanginn af hvor öðru og giftast. Nýju fötin keisarans. Myndskreyting við ævintýrið eftir Vilhelm Pedersen. "Nýju fötin keisarans" (danska: "Kejserens nye Klæder") er ævintýri eftir danska skáldið og rithöfundinn H.C. Andersen sem fjallar um hégómlegan keisara sem lætur blekkjast af tveimur klæðskerum. Ævintýrið kom fyrst út í bókinni "Eventyr, fortalte for Børn" 1837. Litli ljóti andarunginn. "Litli ljóti andarunginn" (danska: "Den grimme Ælling") er ævintýri eftir danska skáldið og rithöfundinn H.C. Andersen um álftarunga sem klekst út í stokkandarhreiðri. Sagan kom fyrst út árið 1843 í bókinni "Nye Eventyr". Snædrottningin. Snædrottningin (danska: "Sneedronningen") er ævintýri eftir danska skáldið og rithöfundinn H.C. Andersen. Sagan er ein af lengstu sögum H.C. Andersens. Hún er í sjö köflum og kom fyrst út árið 1845. Litla stúlkan með eldspýturnar. "Litla stúlkan með eldspýturnar" (danska: "Den Lille Pige med Svovlstikkerne") er ævintýri eftir danska skáldið og rithöfundinn H.C. Andersen um fátæka stúlku sem deyr úr kulda þar sem hún selur eldspýtur á götum borgarinnar á gamlárskvöld. Sagan kom fyrst út árið 1845 í "Dansk Folkekalender". Hans klaufi. Hans klaufi er ævintýri eftir H.C. Andersen. Likoma. Likoma er eyja í Malaví-vatni sem tilheyrir Malaví. Hún er önnur tveggja eyja á vatninu, sem tilheyra Malaví, sem eru í byggð. Íbúafjöldi eyjunnar er um 9.000 en flatarmál hennar er alls 19 km². Á Likoma er flugbraut svo hægt er að komast þangað loftleiðina frá Lílongve en einnig gengur þangað gufuskip frá Nkhata-flóa. Aðalatvinnuvegir íbúanna eru fiskveiðar en einnig er þar stundaður landbúnaður í einhverju mæli. Þó eru mestöll matvæli flutt frá meginlandinu. Stærsta byggingin á Likoma er St. Péturskirkjan sem er steinhlaðin. Bygging hennar hófst árið 1903 og stóð fram til 1971. Graslendi einkennir náttúrufar eyjunnar og er kassava-gras stór hluti flórunnar. Þó vaxa þar einnig apabrauðstré og einstaka mangótré á strjáli. Garði. Garði er jata í fjárhúsi. Görðum er gjarnan komið fyrir á milli króa þannig að kindur geti komist að þeim hvoru megin sem er til að éta úr þeim hey. Kró. Kró er stía, yfirleitt ætluð sauðfé og inni í fjárhúsi. Bilið milli veggjar eða skilrúms og garðans sem fénu er gefið á kallast kró. Byrgi og kofar í verbúðum voru einnig oft kölluð krær (krór), svo og grjótgirðingar sem hlaðnar voru í ám og notaðar til að veiða lax. Bukoba. Bukoba er bær í norðvestur Tansaníu við vesturströnd Viktoríuvatns. Bærinn er höfuðstaður Kagera héraðs. Fólksfjöldinn er áætlaður 100.000 manns. Bukoba hefur lítinn flugvöll sem og ferju sem fer reglulega til Mwanza. Útstakkur. Útstakkur (Out Stack eða Oosta á ensku) er óbyggt sker sem er nyrsta fasta land Bretlandseyja og heyrir undir Skotland, nánar tiltekið undir Hjaltlandseyjar. Skerið er beint fyrir norðan Miklu-Flugey, um 3 km fyrir norðan Únst, og er hluti af Hermaness-friðlandinu. Útsker. Útsker eru eyjaklasi á Hjaltlandseyjum og heyra undir Skotland, um 6 km norð-austur af Hvalsey og eru austasta fasta land Skotlands, 320 km frá Noregi. Aðaleyjarnar eru Húsey og Brúarey (tengdar með brú síðan 1957), og Græney, allar smáar, og íbúarnir eru 76 talsins. Á eyjunum eru grunnskóli, minnsti gagnfræðaskóli Bretlands, tvær verslanir, fiskvinnsla, flugbraut og kirkja. Aðalatvinnuvegur er útgerð. Hvalsey (Hjaltlandseyjar). Hvalsey (Whalsay) er sjötta stærsta eyja Hjaltlandseyja og heyrir undir Skotland. Hún er frjósöm, frekar þéttbyggð og eru aðalatvinnuvegirnir útgerð og smábúskapur. Árið 1991 voru íbúarnir 797 talsins. Stærsta þorpið á Hvalsey heitir Symbister. Þar er höfn fyrir trillur og togara, og safn um sögu skreiðar- og saltfiskútflutnings frá dögum Hansasambandsins. Frá Symbister sigla tvær áætlunarferjur til Mainland, stærstu eyjar Hjaltlandseyja. Meðal annarra þorpa eru Clate, Isbister, Sandwick, Saltness, Challister, Marrister, North Park og Skaw, þar sem eru flugbraut og nyrsti 18 holu golfvöllur Bretlands. Yell. Yell eða Jell er ein Norðureyja, og er næststærst Hjaltlandseyja, 212 ferkílómetrar, og þar búa 957 manns. Ekki er vitað hvað nafn eyjarinnar þýðir, en talið er að það gæti verið komið úr tungumáli Pikta. Til forna kölluðu norrænir menn hana "Gjall", þar sem hún þykir berangursleg, en þar áður "Jala" eða "Jela" sem gæti hafa þýtt „hvíta eyja“, en strendur hennar eru áberandi hvítar af skeljasandi. Á eyjunni lifa sæotrar og fjöldi sjófugla. Ferjusamgöngur eru frá þorpinu Ulsta til Tófta á Mainland, og frá þorpinu Gutcher til Belmont á Únst og Oddsstaðar á Fetlar. Fleiri þorp eru á Yell: Búravogur, Mið-Yell, Cullivogur og Glúp. .mm. .mm er þjóðarlén Mjanmar. .ye. .ye er þjóðarlén Jemen. Kúfskel. Kúfskel eða kúskel (fræðiheiti: "Arctica islandica") er lindýr og skeldýr sem lifir í sjó í norðanverðu Norður-Atlantshafi í sand- og leirbotni. Kúfskel er grunnsævisdýr og er mestur fjöldi á dýpi sem er 5 m til 50 m en kúfskel hefur einnig fundist í fjöru og alveg niður í 2000 m dýpi. Vöxtur og þroski. Kúfskeljar verða kynþroska 5 - 6 sm á hæð og 20 - 25 ára gamlar. Kynþroski kúfskeljar virðist fara meira eftir stærð en aldri og fundist hafa kynþroska skeljar við Ísland sem aðeins eru 6 ára gamlar. Hjá flestum skeljum byrja svil og hrogn að þroskast í apríl-maí og eru flestar komnar með fullþroska kynkirtla í ágúst-september. Hrygning fer aðallega fram í október til nóvember. Vöxtur kúfskeljar er hægur, oftast aðeins brot úr millimetra á ári. Við 50 til 100 ára aldur er skelin orðin 8 til 10 sm að meðaltali. Lýsing. Kúfskelin er meðal stærstu skelja við Ísland og verður um 11 sm að lengd. Kúfskel er þykk og kúft, nefið snýr fram. Hún er fest saman með leðurkenndri himnu, hjör sem er aftan við nefið. Á ytra borði eru þéttir og óreglulegir vaxtabaugar. Kúfskel er hvít að innan og stundum með bleikum blæ. Ungar skeljar eru gljáandi og gulbrúnar á lit. Eldri skeljar eru mattar og geta verið gulbrúnar, grábrúnar eða svartbrúnar eftir því hvernig efni er í umhverfinu þeirra, skeljar sem lifa í sandi eru ljósari en þær sem lifa í leir. Lífshættir. Kúfskelin liggur niðurgrafin á sjávarbotni þannig skelröndin með inn og útstreymisopnum stendur nokkra millimetra upp úr. Skelin getur þó verið grafin meira niður alveg í 15 til 20 sm og virðist hún geta hætt að anda í nokkra daga. Fæða kúfskeljar er svifþörungar. Hún dælir sjó í gegnum sig. Fæðan fer inn um innstreymisop, inn undir möttul og út um útstreymisop. Fæðuagnir festast í slími á tálknum skeljanna og berast með bifhárum að munnopinu. Ýmsir fiskar svo sem ýsa og þorskur lifa á kúfskel, aðallega smáskel en steinbítur getur brotið og étið stórar skeljar. Langlífi og aldursgreining. Kúfskelin vex mjög hægt og er með langlífustu sjávardýrum. Aldursgreindar hafa verið skeljar við Ísland sem eru yfir 200 ára gamlar. Í október 2007 aldursgreindu vísindamenn við Bangor háskólann í Norður-Wales aldur kúfskeljar sem veidd var við Ísland og var aldur hennar talinn milli 404 til 410 ár með því að telja árhringina og var skelin þannig greind sem elsta dýr jarðarinnar. Kúskelin bætir við sig einu vaxtarlagi úr kalki á hverju ári. Þessi kalklög endurspegla ástand sjávar á hverju vaxtarári dýrsins og með því að rannsaka árhringina má fá upplýsingar um ástand sjávar, seltu og fæðuframboð. Kúskel er þannig mælistika á breytingar í hafinu. Árhringirnir sem myndast í skelinni í hjörinni eru m.a. byggðir upp úr súrefni og kolefni. Súrefnið tekur skelin upp úr sjónum eftir því hvað hann er heitur og með því að mæla það er hægt að segja til um hvaða hitastig var í sjónum á hverju ári. Kolefnið er að hluta til geislavirkt og því er hægt að nota það til að aldursgreina skelina. Þessi tvö frumefni, súrefni og kolefni og samsetning þeira segja til um ástandið í sjónum frá ári til árs og auk þess eru vaxtarlögin úr kalki misþykk eftir því hversu hagstæð skilyrðin eru í sjónum. Hagstæð skilyrði eru við Ísland til að rannsaka kúskeljar. Kúskeljar eru mjög algengar í sjónum við Ísland og gjóskulög sem falla á hafsbotninn fyrir norðan Ísland mynda eins konar tímamerki. Með því að tengja saman sögulegar heimildir um eldgos og gjóskulög á hafsbotni er hægt að aldursgreina set á hafsbotni. Til þess að geta aldursgreint dauðar kúskeljar þarf að þekkja sýndargaldur sjávar. Kúffiskveiðar og vinnsla. Kúffiskur er plægður upp úr sjávarbotninum með sérstökum kúfskeljaplógum sem dregnir eru eftir botninum. Kúfskelafli við Ísland var árið 2006 300 tonn. Byrjað var að plægja kúfskel við Ísland skömmu fyrir aldamótin 1900. Aflinn var fyrst eingöngu notaður í beitu. Kúffiskur geta valdið skelfiskofnæmi. Húðfletting. Húðfletting er oftast haft um þann verknað að fletta húð af manni til pyntingar eða refsingar. Þegar átt er við „húðflettingu“ dýra er talað um að flá eða "hamfletta" dýrið. Sögnin að "húðfletta" er ekki mikið notuð í eiginlegri merkingu, enda sjaldgæft að fólk sé húðflett, nema hér áður fyrr til refsingar, eins og t.d. segir í Nýja testamentinu: "Þeir munu hann húðfletta og lífláta". Og svo þetta dæmi úr sagnfræðiriti: "Landnemarnir pynduðu fanga sína og húðflettu þá". Aðallega er hún þó notuð í óeiginlegri merkingu. "Hann húðfletti borgarastéttina fyrir spillingu, valdagræðgi og nautnasýki." Elliheimili. Elliheimili (eða dvalarheimili eða heimili aldraðra) er dvalarstofnun fyrir aldrað fólk sem ekki getur annast sig sjálft eða er komið á þann aldur að það vilji geta notið vissrar þjónustu. Sum elliheimili bjóða upp á íbúðir með takmarkaðri þjónustu og eru ætluð fólki sem ekki er orðið örvasa og getur enn bjargað sér að hluta. Slík elliheimili henta líka þeim sem nálgast óðfluga ellilífeyrisaldurinn og óttast það sem efri árin bera í skauti sér og vill geta hringt á sjúkraliða sem bregst skjótt við ef eitthvað kemur upp á. Önnur elliheimili hafa fulla þjónustu, og oftast eru þau ætluð gömlu fólki sem flokkast sem hægversnandi langtímasjúklingar eða er afskipt, fátækt og/eða einstæðingar. Oftast er þá hverjum einstaklingi komið fyrir á sérherbergi, en stundum einnig með öðrum. Slík herbergi eru öll að vissu leyti eins. Til hliðar við rúmið er náttborð með skúffu og einhvers staðar í herberginu er lítill vaskur og spegill þar yfir. Slíkt herbergi minnir nokkuð á sjúkrahúsherbergi, nema að við bætist persónulegir munir dvalargesta, s.s. myndir af fjölskyldunni og/eða vinum. Inn af herberginu er oftast lítið salerni. Fláning. Fláning er það að fjarlægja húð ("skinn") af dýri með egghvössu áhaldi. Úr dýraskinnum er m.a. unninn fatnaður. "Hamfletting" er þegar skinn (eða para) er fjarlægt af dýrinu með hnífi eða egghvössu áhaldi. Smáfuglar, til dæmis rjúpur, eru oftast hamflettar en einnig er talað um að hamfletta sjávardýr með hvelju eins og til dæmis hvali eða rauðmaga. "Roðfletting" er fláning fisks. Hún er framkvæmd með því að smeygja hnífi undir roðið og draga um leið í það til að losa það frá fiskinum. Í frystihúsum er það oftast gert með roðflettivél. Roðflettingu má ekki rugla saman við flökun, það er að segja það að "flaka fisk", eða slægingu, það er að segja það að "slægja fisk". Bakstroka. Bakstroka er húðstroka á bak einhvers, og var notuð til pyntingar eða refsingar hér áður fyrr. Var bakstrokan oftast veitt með svipu eða reyr. Húðstrýking. Húðstrýking (eða húðstroka) er refsing fyrir afbrot, sem notuð var á miðöldum og fólst oftast í ílögum, þ.e.a.s. að hrökkva svipu yfir bak „fórnarlambinu“. Húðstrýking er einnig pyntingaraðferð til að ná einhverju upp úr „hinum seka“, eða notuð til að fullnægja kvalalosta. Fótstokkun. Fótstokkun er aðferð sem notuð var á miðöldum til að hindra fanga í að flýja. Fangar voru "fótstokkaðir" með því að setja "stokk" á fætur þeirra til refsingar eða til pyntingar á steglu. Brennimerking. Brennimerking er refsing sem var mikið notuð fyrr á öldum t.d. til að merkja þá sem uppvísir höfðu verið að þjófnaði eða öðrum glæpum. Þegar menn voru brennimerktir var glóðandi heitt járn með tákni stimplað á líkama hins seka, eða aðeins brenndur viss stafur (t.d. í andlit viðkomandi) til að merkja sem vændiskonu eða guðlastara eða fyrir aðra glæpsamlega lesti. Víða um heim eru nautgripir og hross brennimerkt til að merkja þá eiganda sínum. Þá er sauðfé að sama skapi brennimerkt á hornum. Oft er talað um að "brennimerkja einhvern" (þ.e.a.s koma óorði á einhvern) í óeiginlegri merkingu, t.d.: "Stjórn Egyptalands vildi brennimerkja hann með einhverju móti og kallaði hann „falsspámann“. " Svarðfletting. Svarðfletting er að flá höfuðleður af öðrum manni. Sumir indíánar "svarðflettu" óvini sína til að niðurlægja þá lifandi eða látna, eða til að hafa sem herfang eða sigurtákn.. The Great Northern Whalekill. The Great Northern Whalekill er 11 laga plata eftir hljómsveitinna Mínus sem kom út árið 2007. Vélhyggja. Vélhyggja er kenning í heimspeki um að öll náttúruleg fyrirbæri eigi sér efnislegar orsakir. Hægt er að bera það saman við andstæðuna lífhyggju, heimspekilega kenningu um að lífskraftar séu virkir í lífverum svo að ekki sé hægt að útskýra líf einungis með vélhyggju. Kenningin um vélhyggju skiptist í tvær gerðir sem báðar eru flokkaðar sem frumspeki, en ólíkar í umfangi og markmiðum. Hin fyrri er alheimskenning um náttúruna sem að flestu leyti hefur verið horfið frá en hin seinni er staðbundin kenning um mannverur og huga þeirra sem er í dag mjög umdeild. Jóakim, prins af Danmörku. Jóakim Danaprins (fæddur Joachim Holger Waldemar Christian 7. júní 1969) er yngri sonur Margrétar Danadrottningar. Friðrik Danakrónprins er eldri bróðir hans. Fjölskylda. Jóakim og Alexandra skildu árið 2004 en deila forræði með drengjunum. Þann 3. október 2007 tilkynnti danska hirðin að Jóakim hefði trúlofast kærustu sinni, franskri stúlku að nafni Marie Cavallier. Áætlað er að brúðkaupið muni fara fram um vorið 2008. Sofía Spánarprinsessa. Sofía Spánarprinsessa (fædd Sofía de Todos los Santos de Borbón y Ortiz, 29. apríl 2007), er yngri dóttir Felipe Spánarkrónprins og Letiziu krónprinsessu. Elsta barn þeirra hjóna er Leonor Spánarprinsessa. Sofía var skírð 15. júlí 2007 og voru guðforeldrar hennar Paloma Rocasolano móðuramma hennar, og Konstantin-Assen Búlgaríuprins. Máxima Hollandsdrottning. Máxima Hollandsdrottning (fædd Máxima Zorreguieta Cerruti 17. maí 1971) er eiginkona Vilhjálms Alexanders Hollandskonungs. Hún varð drottning Hollands 30. apríl 2013, þegar Beatrix drottning, móðir Vilhjálms, sagði af sér og Vilhjálmur tók við. Fjölskylda. Máxima er frá Argentínu. Hún er hagfræðingur að mennt og hafði starfað um árabil hjá alþjóðlegum fjárfestingafyrirtækjum. Þann 2. febrúar 2002 giftist hún Vilhjálmi og varð fyrir vikið krónprinsessa Hollands. Val Vilhjálms á eiginkonu var umdeilt þar sem upp komst að faðir Maximu hafði verið ráðherra í stjórnartíð forsetans Jorge Rafael Videla, einræðisherra. Seinna kom svo í ljós að faðir Maximu hefði engan þátt átt í hroðaverkunum sem fram fóru í tíð stjórnar Videla. Hún nýtur nú vinsælda í Hollandi. Hljómar - Hljómar. Hljómar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum í nóvember árið 1967. Stereo hljóðritun í Chappell Recording Studios, London. Yfirumsjón:Tony Russell. Önnur vinnsla svo sem skurður og pressun fór fram í Þýskalandi. Forsíða: Hilmar Helgason Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristján Magnússon. Heyrðu mig góða - texti. "Lag -texti: Gunnar Þórðarson - Ólafur Gaukur" Á sjó - Fjórtán sjómannalög. Á sjó - Fjórtán sjómannalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Ljósmynd á plötuumslagi tók Rafn Hafnfjörð. Hörður Torfason syngur eigin lög. Hörður Torfason syngur eigin lög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Ljósmyndir og útlit Björn Björnsson. Verkstæði jólasveinanna. Verkstæði jólasveinanna er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Á henni flytja leikarar við Þjóðleikhúsið "Verkstæði jólasveinanna" eftir Thorbjörn Egner. Leikstjóri er Baldvin Halldórsson og þýðandi Hulda Valtýsdóttir. Myndina á framhhð plötuumslagsins gerði Halldór Þétursson. Þuríður Sigurðardóttir - Fjórtán vinsæl lög. Þuríður Sigurðardóttir - Fjórtán vinsæl lög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Ljósmynd á plötuumslagi tók Jóhannes Long. O.T.. O.T. er skáldsaga eftir H.C. Andersen (1836). Kun en Spillemand. Kun en Spillemand er skáldsaga eftir H.C. Andersen (1837). URKÍ. URKÍ er skammstöfun sem stendur fyrir Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands. Ungmennadeildir Rauða kross Íslands og ungmennastarf innan deilda Rauða kross Íslands mynda með sér sérstakt landssamband sem nefnist Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands, skammstafað URKÍ. Formaður (frá 18. maí 2007) er Jón Þorsteinn Sigurðsson Sprengisandur. Sprengisandur (í sumum fornritum aðeins nefndur Sandur) er gróðursnauð og örfoka háslétta á miðhálendi Íslands. Suðurmörk Sprengisands miðast venjulega við Þjórsárver og norðanmörkin við Kiðagil, að austan teygir hann sig að rótum Tungnafellsjökuls og að Skjálfandafljóti, en að vestan að Þjórsá og þaðan norður með austurjaðri Hofsjökuls. Sprengisandur er ekki samfellt sandflæmi eða sandauðn þótt nafn hans gæti bent til þess. Grýttur jökulruðningur þekur stór flæmi en áreyrar og sandar eru meðfram ám. Þar eru einnig hraun, Tunguhraun, sem þekur allstórt svæði norðan Tungnafellsjökuls. Fjórðungsalda er móbergsfell á miðjum Sprengisandi og vestan undir því er Fjórðungsvatn, stærsta stöðuvatnið á svæðinu. Um Sprengisand liggur Sprengisandsleið, forn fjallvegur sem tengir Norðurland og Suðurland. Hinir þjóðkunnu söngtextar Á Sprengisandi eftir Grím Thomsen og Yfir kaldan eyðisand eftir Kristján Jónsson fjallaskáld gerast á Sprengisandi. Eiríksjökull. Eiríksjökull er móbergsstapi og jökull (jökulskjöldur) er rís austan Strúts sunnan Hallmundarhrauns og vestan Langjökuls. Hann er 1675 m á hæð og u.þ.b. 40 ferkílómetrar að flatarmáli, stærstur fjalla hér slíkrar gerðar. Sjálf gangan á jökulinn er dagsverk en hentugt er að ætla til þess þrjá daga að meðtöldum ferðum til og frá jöklinum. Ráðlegt er að leggja af stað snemma dags og hætta við ef veður eru ekki eins og best verður á kosið. Leiðin er vel fær en óvönum er bent á Ferðafélag Íslands. Filippus Belgíukonungur. Filippus ("Philippe Léopold Louis Marie") (f. 15. apríl 1960) er núverandi konungur Belgíu. Hann er frumburður Alberts Belgíukonungs og Pálu drottningu. Líf og fjölskylda. Filippus varð krúnuerfingi árið 1993 þegar föðurbróðir hans, Baldvin þáverandi konungur lést. Þá tók faðir Filippusar, Albert við konungdæminu. Þann 4. desember 1999 giftist Filippus aðalskonu að nafni Matthildur. Filippus tók við konungsveldinu árið 2013, þegar faðir hans sagði af sér. Katrín Amalía Hollandsprinsessa. Katrín Amalía Hollandsprinsessa ("Catharina Amalia Beatrix Carmen Victoria") (f. 7. desember 2003) er frumburður Vilhjálms Alexanders Hollandsprins og Maxímu Hollandsprinsessu. Föðuramma Katrínar er Beatrix drottning Skírn og daglegt líf. Katrín Amalía var skírð 12. júní 2004 og voru guðforeldrar hennar sex: föðurbróðir hennar Konstantínus Hollandsprins, Marc ter Haar, Herman Diederik Tjeenk Willink, Samantha van Welderen, og móðurbróðir hennar Martín Zorreguieta. Katrín Amalía býr með foreldrum sínum og yngri systrum sínum, Alexíu og Aríönnu í borginni Wassenaar, Hollandi. Alexía Hollandsprinsessa. Alexia Juliana Marcela Laurentien eða Alexía Hollandsprinsessa (fædd 26. júní 2005), er miðdóttir Vilhjálms Alexanders Hollandsprins og Máximu Hollandsprinsessu. Skírn og daglegt líf. Alexía var skírð 19. nóvember 2005 í Wassenaar. Guðforeldrar hennar eru Mathilde, hertogaynjan af Brabant, fröken Alexandra Jankovich de Jeszenice, föðurbróðir hennar Johan Friso Hollandsprins. Alexía býr með foreldrum sínum og systrum í Wassenaar Hollandi. Aríanna Hollandsprinsessa. Aríanna Hollandsprinsessa ("Ariane Wilhelmina Máxima Ines") (f. 10. apríl 2007). Hún er yngsta dóttir Vilhjálms Alexanders Hollandsprins og Máximu Hollandsprinsessu. Skírn og daglegt líf. Aríanna var skírð þann 20. október 2007. Guðforeldrar hennar eru Valeria Delger, móðursystir hennar Inés Zorreguieta, Vilhjálmur, erfðahertoginn af Lúxemborg, Tijo Baron Collot d´Escury og Anton Frilling. Aríanna býr með foreldrum sínum og systrum í Wassenaar Hollandi. Veðramót. "Veðramót" er íslensk kvikmynd frá árinu 2007. Hún er skrifuð og leikstýrð af Guðnýju Halldórsdóttur. Myndin hlaut 11 tilnefningar til Edduverðlaunanna 2007. Duggholufólkið. "Duggholufólkið" er íslensk kvikmynd frá árinu 2007. Hún er skrifuð og leikstýrð af Ara Kristinssyni. Reykjavik Whale Watching Massacre. "Reykjavík Whale Watching Massacre" (skammstafað "RWWM") er íslensk kvikmynd leikstýrð af Júlíus Kemp, en handritið skrifaði Sjón. Myndin verður frumsýnd haustið 2009. Brúðguminn. "Brúðguminn" er íslensk kvikmynd sem frumsýnd var í janúar árið 2008. Leikstjóri er Baltasar Kormákur sem skrifaði einnig handritið með Ólafi Egilssyni. Myndin byggir á leikriti Antons Tsjekovs, "Ívanov". Tökur fóru fram í Flatey á Breiðafirði. Myndin hlaut fjórtán tilnefningar (sem er met) og sjö verðlaun á Edduverðlaunaafhendingunni. Loðvík prins af Lúxemborg. Loðvík prins af Lúxemborg ("Louis Xavier Marie Guillaume") (f. 5. ágúst 1986) er þriðja barn Hinriks erkihertoga af Lúxemborg ogMaríu Teresu erkihertogaynju. Loðvík á fjögur systkini: Vilhjálm erfðahertoga, Felix prins, Alexöndru prinsessu og Sebastien prins. Fjölskylda. Þann 29. september 2006 giftist Loðvík kærustu sinni Tessy Antony (f. 1985) en þau höfðu eignast son þann 12. mars það sama ár. Við hjónabandið þurfti Loðvík að segja sig úr erfðalínunni að lúxemborgísku krúnunni en fékk að halda titlunum "prins af Lúxemborg" og "hans konunglega hátign". Kona hans og börn munu hins vegar ekki hafa neina titla, einungis eftirnafnið "de Nassau". Diary of a Circledrawer. "Diary of a Circledrawer" er íslensk kvikmynd sem frumsýnd verður árið 2009. Leikstjóri er Ólafur Jóhannesson. Steinn Jónsson. Steinn Jónsson (30. ágúst 1660 – 3. desember 1739) var biskup á Hólum frá 1711 til dauðadags, 1739, eða í rúm 28 ár. Foreldrar Steins voru Jón Þorgeirsson (um 1597–1674) prestur og skáld á Hjaltabakka við Blönduós, og kona hans Guðrún Steingrímsdóttir (um 1623–1690). Steinn Jónsson fæddist á Hjaltabakka og ólst þar upp. Hann var tekinn í Hólaskóla 1678 og varð stúdent þaðan 1683. Var síðan í þjónustu Solveigar Magnúsdóttur að Hólum í Eyjafirði. Fór utan 1686, skráður í Kaupmannahafnarháskóla um haustið og lauk prófi í guðfræði vorið 1688. Kom heim um sumarið og varð fyrst afleysingaprestur í Hítardal, síðan dómkirkjuprestur í Skálholti 1692; fékk Hítarnes 1693 og Setberg á Snæfellsnesi 1699. Haustið 1710 var Steinn kvaddur til Kaupmannahafnar til þess að taka við Hólabiskupsdæmi og var vígður Hólabiskup vorið 1711. Hann kom til landsins samsumars, var á Setbergi um veturinn, tók við Hólastól vorið 1712 og var biskup til æviloka, 1739. Páll Eggert Ólason segir um Stein: "Var vel gefinn maður og skáldmæltur, einnig á latínu..., valmenni en eigi skörungur mikill. Mikill vexti og rammur að afli." Um 70 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Steins Jónssonar. Mesta stórvirkið var Steinsbiblía, þriðja útgáfa biblíunnar á íslensku, prentuð á árunum 1728–1734. Af öðrum ritum má nefna frumútgáfu Vídalínspostillu, sem kom út í tveimur bindum 1718 og 1720. Steinn frumsamdi tvær bækur: "Dægrastytting" (Hólum 1719, 1727 og 1757), "Upprisusálmar" (Hólum 1726 og oft síðar), og átti hlut í fleiri bókum. Hann þýddi þrjár bækur eftir Johann Lassenius: "Anthropologia sacra" (Hólum 1716), "Tvennar sjö sinnum sjö hugvekjur" (Hólum 1727), og "Guðrækilegar vikubænir" (Hólum 1728). Einnig Rachlöv: "Tárapressa" (Hólum 1719), Obarius: "Mánaðasöngur" (Hólum 1727), o.fl. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar prestastefnubók, vísitasíubók og óheil bréfabók úr embættistíð Steins Jónssonar. Í Hóladómkirkju var málverk af Steini Jónssyni, það er nú í Þjóðminjasafni Íslands, og eftirmynd þess á Hólum. Legsteinn Steins biskups er sá stærsti í Hóladómkirkju. Kona Steins Jónssonar (gift 1694) var Valgerður Jónsdóttir (f. 1668, d. 12. febrúar 1751), dóttir séra Jóns Guðmundssonar á Staðarhrauni. Frú Valgerður var ólík manni sínum, stórlynd, örorð og óstillt í framgöngu. Börn þeirra sem upp komust: Jón Steinsson Bergmann (f. um 1696, d. 1719) læknir og skáld, Guðmundur Steinsson Bergmann (f. um 1698, d. 1723) skólameistari á Hólum, Jórunn Steinsdóttir (f. um 1699, d. 1775) átti fyrst Hannes Scheving sýslumann á Urðum í Svarfaðardal og Munkaþverá í Eyjafirði, síðar Stefán Einarsson prest í Laufási, Helga Steinsdóttir (f._um 1705, d. 1750) átti m.a. Einar Jónsson ráðsmann á Hólum, bjuggu seinast í Viðvík, Sigfús Steinsson Bergmann (f. um 1709, d. 1723). Bræðurnir tóku upp ættarnafnið Bergmann eftir Setbergi. Þeir dóu allir sviplega, Jón fargaði sér en þeir Guðmundur og Sigfús drukknuðu úti fyrir Reykjaströnd. Af dætrum Steins eru miklar ættir komnar. Játvarður prins, jarlinn af Wessex. Játvarður prins, jarlinn af Wessex ("Edward Antony Richard Louis") (f. 10. mars 1964) er yngsta barn Elísabetar Bretadrottningar og Filippusar hertoga af Edinborg. Líf og fjölskylda. Játvarður fæddist í Buckinghamhöll. Hann var skírður í Windsorkastala 2. maí 1964. Hann á þrjú eldri systkini, Karl, prinsinn af Wales, Önnu prinsessu og Andrés prins, hertogann af York. Þann 19. júní 1999 giftist Játvarður unnustu sinni Sophie Rhys-Jones og gaf drottningin parinu titlana "jarlinn og hertogaynjan af Wessex". Játvarður og Sophie eiga dótturina Lafði Louise Alice Elizabeth Mary sem er fædd árið 2003. Þann 17. desember 2007 eignuðust hjónin sitt annað barn, soninn James Alexander Philip Theo, sem gengur undir titlinum Severn vísigreifi. Kristján 1.. Kristján 1. (1426 - 21. maí 1481) var fyrsti konungurinn af Aldinborgarættinni. Hann var konungur Danmerkur frá 1448 til 1481, Noregs frá 1450 til 1481 og Svíþjóðar frá 1457 til 1464. Kristján var sonur Diðriks greifa af Aldinborg (Oldenburg) og konu hans Hedevig af Holstein, sem var afkomandi Eiríks klippings, Danakonungs á 14. öld. Kristófer af Bæjaralandi, konungur Danmerkur frá 1440, dó óvænt árið 1448. Hann var barnlaus og vandi að finna erfingja. Adolf hertoga af Slésvík, móðurbróður Kristjáns, var boðin kórónan en hann benti á systurson sinn og var hann valinn, meðal annars með því skilyrði að hann giftist ekkju Kristófers, Dórótheu drottningu, og að allar meiri háttar ákvarðanir þyrftu að fá samþykki ríkisráðsins. Norðmenn voru þó tregir til að samþykkja Kristján sem konung og Svíar vildu hann alls ekki, sprengdu Kalmarsambandið og völdu Karl Knútsson Bonde sem konung. Eftir átök við Svía um yfirráð yfir Noregi var Kristján krýndur konungur Noregs í Niðarósdómkirkju sumarið 1450 af Marcellusi Skálholtsbiskupi, en tveimur árum síðar fór Karl Knútsson í stríð við Dani og réðist á Skán. Stríðið stóð í fimm ár og veitti ýmsum betur en á endanum unnu Danir sigur, Kristján var krýndur konungur Svíþjóðar og Kalmarsambandið var endurreist. Marcellus Skálholtsbiskup, sem raunar kom aldrei til Íslands, var einn helsti ráðgjafi Kristjáns 1. á fyrsta áratug valdaferils hans. Marcellus var ævintýramaður sem tókst að koma sér í mjúkinn hjá konungi og fékk hann jafnvel til að velja sig sem erkibiskupsefni í Niðarósi en þau áform náðu þó ekki fram að ganga. Marcellus varð hins vegar kanslari og einn valdamesti maður Danmerkur og raunar Norðurlanda allra, þar til hann drukknaði 1460. Þegar Adolf hertogi af Slésvík dó barnlaus 1459 tókst Kristjáni að fá sig hylltan sem hertoga af Slésvík og greifa af Holstein en það kostaði mikið fé, auk þess sem hann þurfti að eiga í stríði við ýmsa aðra sem þóttust eiga tilkall til erfða og það varð honum dýrt. Hann neyddist til að hækka skatta og steypti sér í miklar skuldir. Nokkru síðar gerðu Svíar uppreisn og kölluðu Karl Knútsson aftur til valda. Kristján fór í stríð við Svía eftir lát Karls 1470 og reyndi að vinna ríkið að nýju en beið ósigur í orrustunni við Brunkebjerg 1471. Þegar frá leið tókst Kristjáni að greiða hluta af skuldum sínum og fá eftirgjöf á öðru og styrkja veldi sitt. Árið 1468 kallaði hann saman fyrsta stéttaþingið sem haldið var í Danmörku. Kristján 1. dó í Kaupmannahöfn 21. maí 1481 og er legstaður hans í Hróarskeldudómkirkju. Kona hans var sem fyrr segir Dóróthea af Brandenborg ((um 1430 - 10. nóvember 1495), ekkja Kristófers af Bæjaralandi, og áttu þau þrjú börn sem upp komust, Hans og Friðrik 1., sem báðir urðu konungar Danmerkur, og Margréti, sem giftist Jakob 3. Skotakonungi. Neftóbak. Neftóbak (eða snör eða snúss) er mulið tóbak sem tekið er í nefið. Talað var um að "taka í nefið", "snússa sig" eða að "stúta sig" þegar menn heltu neftóbaki upp í nef sér úr pontu. Snöff er fínkorna neftóbak sem bannað er á Íslandi. "Neftóbak" er líka þekkt sem "bagg" eða "ruddi". "Bagg" er nafn sem oftast er notast við þegar neftóbakið er safnað saman með því að þjappa í sprautu og sett í vör. Zetufall Riemanns. Zetufall Riemanns'", táknað með ζ("s"), er tvinngilt fall með tvinntölubreytu "s", sem skilgreint er á tvinntalnasléttunni, nema þar sem raunhluti breytunnar er einn. en mögulegt er að útvíkka það yfir alla tvinntalnasléttuna, þar sem Re("s") ≠ 1. Ofantalin framsetning Zetufallsins er sértilvik af Dirichlet-röð með "a'n" = 1. Útvíkkun á tvinntalnasléttunni. þar sem heildað er meðfram jákvæða hluta x-ássins, einu sinni umhverfis núllpunktinn, sem einnig rita á forminu Zetufallið sett fram með margfeldum Eulers. þar sem "p" er frumtala (prímtala). þar sem μ er Möbiusfallið. Zetufallið á tvinntalnasléttunni, þar sem Re("s") < 0. þar sem "Γ" táknar gammafallið. Afleiða zetufallsins. þar sem Λ táknar Mangoldtsfallið. Núllstöðvar zetufallsins. Zetufallið hefur engar núllstöðvar á hálfsléttunni Re("s") > 1, en á hálfsléttunni Re("s") náttúrleg tala. Aðrar núllstöðvar, sem eru óendanlega margar, liggja á borðanum 0 Ósönnuð tilgáta Riemanns segir að allar "áhugaverðar" núllstöðvar liggi á línunni Re("s") = ½. Tengsl zetufallsins við frumtölur. Talið er að zetufallið geti gefið mikilvægar upplýsingar um dreifingu frumtalna. Núllstöð. Núllstöð eða rót falls er í stærðfræði gildi fallsbreytu, sem gefur falli gildið núll. Núllstöð tvinngilds falls er þar sem stærð fallsins er núll, þ.e. þar sem bæði raunhluti og þverhluti fallsins eru núll. Almennt gildir að núllstöðvar falls "f"("x") eru fundnar með því að leysa jöfnuna "f"("x") = 0. Dæmi: fallið "x" - 1 hefur eina núllstöð, þ.e. "x" = 1, en núllstöðvar fallsins "sin" ("x") eru óendanlega margar, þ.e. "x" = "n" "π", þar sem "n" er heiltala. Tilgáta Riemann fjallar um núllstöðvar Zetufallsins. Almenna verslunarfélagið. Almenna verzlunarfjelagið (danska: "Det almindelige handelskompagni") var stærsta verslunarfélag í Kaupmannahöfn á 18. öld og rak meðal annars verslun í Afríku og Vestur-Indíum. Almenna verzlunarfjelagið sá um verslun á Íslandi frá 1764-1774 (sjá einokunarverslun). Rekstur félagsins gekk örðuglega, þótt verslun í Norðurhöfum skilaði hagnaði, og endaði með því að konungur keypti öll hlutabréf þess árið 1774. Þorrablót. Þorrablót er íslensk veisla sem haldin er á þorra (oft bóndadag) með þjóðlegum mat, drykk og siðum. Á uppruna sinn, eða endurvakningu, að rekja til 19. aldar. Minnst er á Þorrablót í fornum heimildum. Þorrablót til forna. Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur eða vættur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót. Ekki er vitað hvernig þeim var háttað en lýsingarnar benda þó til mikilla veisla og að menn hafa gert vel við sig í mat og drykk. Engar frásagnir eru í Íslendingasögum eða öðrum fornsögnum sem gerast á Íslandi. En orðið "Þorrablót" kemur fyrir í forneskjulegum þætti sem bæði er að finna í Orkneyinga sögu og á tvem stöðum í Flateyjarbók þar sem hann heitir "Hversu Noregr byggðist" og "Fundinn Noregur". Af þessari frásögn má ráða að nafn Þorra tengist miðjum vetri og þá skildi haldið blót. Einnig kemur fram nafn næsta mánaðar, Góu, dóttur Þorra (í mörgum frásögnum Gói). Þorrablót í dag. Þorrablótin lögðust svo af en um miðja tuttugustu öldina var farið að halda þorrablót á veitingastaðnum Naustinu í Reykjavík, þar sem fram var borinn „hefðbundinn“ íslenskur matur, súr, reyktur og/eða saltaður. Síðan hefur tíðkast að halda þorrablót einhvern tímann á þorra, oftast á vegum félaga og ýmissa samtaka. Kok. Kok er hluti af hálsi og öndunarvegi, staðsett í framhaldi af munni og nefi. Kokið er hluti af meltingarkerfi og öndunarfærum margra lífvera. Tunga. Tunga er stór vöðvi, eða öllu heldur átta tengdir vöðvar, í munni sem vinnur fæðu til að tyggja og gleypa. Yfirborð tungunnar er þakið bragðlaukum sem greina bragð. Áður var talið að bragðlaukarnir dreifðust misjafnt á tunguna þannig að ákveðnir hlutar hennar skynjuðu tiltekið bragð, þannig að tungubroddurinn skynjaði sætt bragð og aðrir hlutar tungunnar salt, beiskt og súrt bragð, en rannsóknir hafa leitt í ljós að svo er ekki, allir hlutar tungunnar skynja allar bragðtegundir. Tungan getur hreyfst á ýmsa vegu og þannig myndað hljóð og er því mikilvægt tæki í talmáli. Fjórir af vöðvunum átta sem mynda tunguna eru tengdir við bein og hlutverk þeirra er að breyta stöðu tungunnar í munninum. Hinir fjórir tengjast ekki beinum og hlutverk þeirra er að breyta lögun hennar. Stundum sést því haldið fram að tungan sé sterkasti vöðvi líkamanns en fyrir því er enginn fótur; hún er hins vegar sá hreyfanlegasti. Hljóðfræði og tungan. Í hljóðfræði er venja að skipta tungunni í þrjá til fjóra hluta þótt mörkin milli þeirra séu ekki fastákveðin. En venjulega er þeim skipt í: Tungubrodd, tungubak (sem gjarnan er skipt í framtungu og miðtungu) og svo tungurót. Litla gula hænan. "Litla gula hænan" er heiti á kennslubók í lestri sem Steingrímur Arason tók saman og kom fyrst út árið 1943. Fyrsta sagan í bókinni fjallar um litlu gulu hænuna og er það íslensk aðlögun að barnasögu og ævintýri sem í ensku er kennt við litlu rauðu hænuna. „Litla rauða hænan“ var lestrarbók fyrir börn gefin út í Bandaríkjunum af bókaforlaginu Little Golden Books í kringum 1940. Boðskapur sögunnar er að kenna börnum iðjusemi og dugnað. Söguþráðurinn er um hænu sem finnur fræ og biður önnur dýr um aðstoð til að planta því en ekkert dýranna verður við þeirri ósk. Þegar fræið þroskast biður hún um hjálp við uppskeruna, þreskingu, mölun og bakstur en enginn vill hjálpa henni. Síðan biður hún um hjálp við að borða fræið og þá bregður svo við að allir vilja hjálpa henni við það en hún ákveður að borða það ein og deila ekki afrakstri erfiðis síns með öðrum. Baðstofuhellir. Baðstofuhellir er íslenskur hellir við eyðibýlið Hella í Reynishverfi í Mýrdal. Þetta er manngerður hellir sem höggvinn hefur verið í mjúkan sandstein. Hellirinn var hluti af bæjarhúsunum á Hellum. Jón Steingrímsson eldklerkur bjó um tíma í hellinum og stækkaði hann meðan hann var þar. Það var veturinn 1755. Seinna var hellirinn notaður sem fjárhús. Hann tilheyrir nú jörðunni Görðum í Reynishverfi. Bóðólfshellir. Bóðólfshellir er íslenskur hellir við Búðahraun á Snæfellsnesi. Búðahellir. Búðahellir er íslenskur hellir við Búðarhraun í Snæfellsnesi. Vatnshellir. Vatnshellir er íslenskur hellir og vinsæll ferðamannastaður í Purkhólahrauni á Snæfellsnesi. Munni hans er í niðurfalli í hrauninu við þjóðveginn skammt austan Purkhóla. Frá niðurfallinu ganga álmur í gagnstæðar áttir. Byggt hefur verið yfir innganginn í aðalálmuna og henni lokað en einungis er hægt að fara í hellinn í fylgd leiðsögumanna sem starfa við hellinn. Hellirinn er djúpur og á tveimur hæðum. Tröppur liggja niður í hann og í honum er engin lýsing. Fólk sem kemur í hellinn fær leiðsögn, ljós og hjálma gegn gjaldi. Fjölbreytilegar hraunmyndanir eru í hellinum og segja má að hann hafi flest það til að bera sem prýða má hraunrásarhelli. Nafnið Vatnshellir er þannig til komið að þangað mátti sækja vatn þegar brunnar í nágrenninu voru að þrotum komnir. Íshellir. Íshellir er íslenskur hellir við Purkhólahraun í Snæfellsnesi. Holuborg. Holuborg er íslenskur hellir við Purkhólahraun í Snæfellsnesi. Vegamannahellir. Vegamannahellir er íslenskur hellir við Jökulháls í Snæfellsnesi. Sönghellir. Sönghellir er íslenskur hellir við Jökulháls í Snæfellsnesi. Eyvindarhola. Eyvindarhola er íslenskur hellir við Eysteinsdal í Snæfellsnesi. Fjósin. Fjósin er íslenskur hellir í Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Grjótagjá. Baðstaður Grótagjáar að sumri til. Grjótagjá er lítill hellir við Mývatn, en inni í hellinum er lághitavatn. Grjótagjá var vinsæll baðstaður á áttunda áratuginum þar til vatnið hitnaði það mikið að ekki var hægt að baða sig þar. Grótagjá opnaði þó aftur árið 2004 þegar hitastig vatnsins lækkaði aftur. Baðstaðurinn varð fyrst þekktur þegar að enskir stúdentar fundu op í gjánni þar sem hægt var að baða sig, árið 1938. Baðstaðurinn hefur þó tekið í sig hitabreytingar við gos í nærliggjandi gosstöð, Kröflu. Árið 1975-1980 voru þrenn eldgos í Kröflu. Á sama tímabili hækkaði hitastig vatnsins upp í 60 gráður, en Grótagjá situr á sprungubelti, á milli fleka Ameríku og Evrópu. Grótagjá opnaði síðar, árið 2004 aftur sem baðstaður. Í tengslum við fyrirhugaða Bjarnarflagvirkjun var magn joðíðs á baðstöðum Grótagjár mælt. Sú mæling sýndi að í október til desember mánuði fjórfaldast joðíð magn í vatninu. Í sömu rannsókn sést að vatnið var langan tíma að kólna frá eldgosunum frá Kötlu, og hitastig vatnsins fór ekki niður fyrir 45 gráður fyrr en á miðju ári 1992 á baðstað kvenna, og á árinu 1998 gerðist hið sama á baðstað karla. Grettishellir. Grettishellir er íslenskur hellir á Kili. Haugahellir. Haugahellir er íslenskur hellir á Hauga. Steingrímur Arason. Steingrímur Arason (fæddur 26. ágúst 1879, dáinn 13. júlí 1951) var íslenskur kennari. Hann stundaði gagnfræðanám við Möðruvallaskóla og síðan kennaranám í Flensborg og lauk kennaraprófi árið 1908. Einnig stundaði hann framhaldsnám við Teachers Collage í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum. Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalkennslustörf hans voru við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár. Hann var ritstjóri Unga Íslands og formaður Barnavinafélagsins Sumargjöf fyrstu 15 árin sem það félag starfaði. Æðahellir. Æðahellir er íslenskur hellir í Vestmannaeyjum. Þvottahellir. Þvottahellir er íslenskur hellir í Botnsdal í Hvalfirði. Hann er austan við svonefndan Gamlastekk í árgljúfri Botnsár. Í þessum helli var stundum í ótíð þurrkaður þvottur, segir í örnefnaskrá sem Þórmundur Erlingsson í Stóra-Botni skráði. Gallrás. Gallrás er ein eða margar rásir sem flytja gall. Gall er nauðsynlegt við meltingu fæðu og það er framleitt í lifrinni Ef gallrás er stífluð vegna krabbameins, gallsteina eða áverka og gall getur ekki borist til skeifugarnar þá safnast gallrauði (bilirubin) sem er virka efnið í galli fyrir í blóðinu. Þetta ástand er kallað gula og húð og augu verða gul vegna gallrauðans í blóði. Þessu getur fylgt mikill kláði. Í sumum tilvikum af gulu getur þvag orðið dökkt á lit en hægðir mun ljósari á lit en ella. Þetta stafar af því að gallrauði í blóðrásinni er skilinn út í þvagi af nýrum í stað þess að fara venjulega leið gegnum þarma. Briskrabbamein veldur því oft að gallrás stíflast þar sem krabbameinsæxlið er og veldur þannig gulu. Vangakirtill. Vangakirtill er munnvatnskirtill sem liggur aftan til í kinninni og nær að fremri hluta eyra. Kjálkabarðskirtill. Kjálkabarðskirtill er munnvatnskirtill sem liggur aftan til og innan við neðri kjálka. Kjálkabarðskirtill framleiðir 70% af munnvatni í mönnum. Tungudalskirtill. Tungudalskirtill er munnvatnskirtill sem liggur undir tungunni framan til. Endaþarmur. thumb Endaþarmur er síðasti hluti þarma og endar í endaþarmsopi. Endaþarmur mannsins er um 12 sm langur. Bjartur í Sumarhúsum. Bjartur í Sumarhúsum (Guðbjartur Jónsson) er skáldsagnapersóna í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness. Sagan hefst á því að Bjartur, sem hefur verið vinnumaður á stórbýlinu Útirauðsmýri í 18 ár og látið sig dreyma um að vera sjálfstæður fær tækifæri til þess þegar hann er keyptur til að taka að sér konu sem er þunguð eftir annan mann. Hann kaupir lítið, afskekkt kot, gefur því nafnið Sumarhús og flytur þangað með Rósu konu sína og nokkrar kindur. Bjartur er þver og sjálfstæður bóndi sem hugsar fyrst og fremst um kindurnar sínar og metur þær og sjálfstæðið meira en allt annað. Honum þykja kindurnar gefa sér sjálfstæði. Bjartur er einþykkur, hryssingslegur og ofbeldisfullur, fer illa með alla sína nánustu, hagar sér eins og einræðisherra og hugsar aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín. Eiginkonur Bjarts, fyrst Rósa og síðar Guðfinna, vija fá kú á bæinn til að geta fengið mjólkursopa á hverjum degi en það finnst Bjarti hinsvegar fásinna því „bölvuð beljan mundi éta allt heyið frá rollunum“, eins og hann segir. Hann berst alla ævi við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu en færir fyrir það miklar fórnir og í sögulok hefur hann tapað öllu og er á leið enn lengra inn í heiði, á enn aumara kot, með dauðveika fósturdóttur sína, Ástu Sóllilju, og börn hennar. Segja má að eftirfarandi tilvitnun í lokakaflann beri í sér kjarnann í sögunni: „Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu." Dausgörn. Skýringarmynd yfir meltingarveg í mönnum. Dausgörn er hluti af meltingafærum mannsins. Hún er lokahluti smáþarma. Ásgörn. Ásgörn ("jejunum") er slöngulaga líffæri í kviðarholi sem tengir saman skeifugörn ("duodenum") og dausgörn ("ileum"). Ásgörn er efri hluti smáþarma í meltingarveginum, og afmarkast frá skeifugörn að ofanverðu og dausgörn að neðanverðu. Ristill. Skýringarmynd yfir meltingarveg í mönnum. Ristill ("intestinum crassum") er líffæri sem er hluti af meltingarkerfi spendýra. Hann liggur eins og umgjörð utan um smáþarmana. Það sem kemur frá þörmum berst fyrst í botnristil og þaðan í risristil, síðan í þverristil og svo í fallristil. Í ristlinum frásogast vatn úr fæðunni. Í ristli eru saurgerlar sem nýta sér úrgangsefni og brjóta niður ýmis efni. Magi. Magi er hluti af meltingarkerfi einmaga dýra, hann er baunalaga vöðvaríkur sekkur sem getur þanist mjög út þegar fæða berst til hans og öflugir hringvöðvar eru við efra og neðra magaop. Í maganum eru kirtlar sem gefa frá sér magasafa og slím og fer þar fram efnamelting fæðunnar. Maginn liggur milli vélinda og skeifugarnar. Magi svipar til vinstur jórturdýra en þar fer einmitt fram efnamelting. Lækjargata. Lækjargata er gata í miðbæ Reykjavíkur og dregur nafn sitt af læk sem rann upphaflega „opinn“ meðfram allri götunni, þ.e.a.s. frá Tjörninni til sjávar. Lækjargata var upphaflega lítil gata, enda voru þar í fyrstu aðeins tvö hús. Hún var í þá daga kölluð "Heilagsandastræti". Nafngiftin kom til vegna þess að í öðru þessara húsa bjó Helgi Thordersen biskup og í hinu Ólafur Pálsson dómkirkjuprestur. Smám saman, þegar íbúafjöldinn í Reykjavík jókst, lengdist gatan suður með læknum alla leið að Tjörninni. Lækurinn. Á fyrstu árum Reykjavíkur rann lækurinn á milli steinhlaðinna bakka, en Lækjargata var þá eina „breiðgata“ miðbæjarins. Steinbrýr lágu yfir lækinn á þremur stöðum, þ.e. niður af Bankastræti, önnur frá Þingholti og sú þriðja niður undan Stöðlakoti. Þegar lækurinn var settur í bunustokk og farvegur hans fylltur, árið 1911, breikkaði gatan um helming. Lækjargata var kölluð „hin ilmandi slóð“ í hálfkæringi meðan lækurinn var opinn vegna þess fnyks sem lagði af honum, en í hann lágu mörg opin skolpræsi áður fyrr. Hljómsveitin Geysir - Geysir. Hljómsveitin Geysir - Geysir er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Birmingham. Birmingham (borið fram eða af íbúum borgarinnar) er borg í Vestur-Miðhéruðum á Englandi. Hún er þéttbyggðasta í English Core Cities-hópnum og er annar þéttbyggðasta borgin á Bretlandi. Þar búa um það bil 1.006.500 manns (árið 2006). Borgin er hluti stóra þéttbýlisins Vestur-Miðhéraðanna og þar búa um 2.284.093 manns (samkvæmt manntali ársins 2001). Í þessu þéttbýli eru nokkrar aðrar borgir, það er að segja: Solihull, Wolverhampton og borgirnar í Black Country. Borgin hefur orðstír fyrir að vera mjög efnuð á meðan á Iðnbyltinginni stendur. Hún var þekkt undir nöfnunum „verkstæði heimsins“ og „borg þúsunda starfsema“. Þó að Birmingham sé ekki lengur iðnaðarmiðstöð hefur hún þróast í þjóðlega viðskiptamiðstöð. Árið 2007 var hún nefnd af Cushman & Wakefield þriðja besta staðinn á Englandi fyrir fyrirtæki og tuttugasta og fyrsta besta borgin á Evrópu. València. Ciutat de les Arts i les Ciències València er borg á Spáni. Hún er þriðja stærsta borg landsins á eftir Madrid og Barcelona. Íbúafjöldi er 807.396 (2006) en á stórborgarsvæðinu búa rúmlega 1,2 milljónir. Sevilla. Sevilla (borið fram) er borg á Spáni. Sevilla er miðstöð menningar, lista og fjársýslu á Suður-Spáni. Hún er höfuðborg Andalúsíu og Sevilla-héraðs. Borgin liggur á sléttu við ána Guadalquivir. Íbúar borgarinnar voru 704.414 árið 2006 en á stórborgarsvæðinu býr rúmlega 1 milljón. Sevilla er fjórða stærsta borg Spánar. Reynir Jónasson - Leikur aftur 30 vinsæl lög. Reynir Jónasson - Leikur aftur 30 vinsæl lög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Á henni leikur Reynir Jónasson 30 vinsæl lög á harmoniku. Hljóðritun fór fram í stúdíói Albrechten í Kaupmannahöfn. Útsetningar gerði Ólafur Gaukur, sem jafnframt stjórnaði hljómsveitinni. Zaragoza. Áin Ebró rennur í gegnum Zaragoza Zaragoza eða Saragossa er borg á Spáni. Borgin liggur við ána Ebró. Hún er fimmta stærsta borg landsins með 660.895 íbúa (2006). Genúa. Genúa er borg á Norður-Ítalíu. Íbúar borgarinnar eru um 620.000 en á stórborgarsvæðinu búa um 890.000 manns. Dortmund. Dortmund næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með 580 þúsund íbúa og er jafnframt stærsta borgin í Ruhr-héraðinu. Lega. Dortmund liggur nær alveg miðsvæðis í sambandslandinu og er nokkurn vegin austasta borgin í Ruhr-héraðinu. Næstu borgir eru Bochum til austurs (10 km), Unna til austurs (10 km) og Hagen til suðurs (15 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Dortmund sýnir svartan örn á gulum eða gullnum fleti. Merki þetta var tekið upp á 13. öld er Dortmund varð að fríborg í ríkinu, en örninn merkir þýska ríkið. Orðsifjar. Skýringar á borgarheitinu eru nokkuð á reiki. Rithátturinn var Dortmunde 1222, Drutmunde 952, Trutmenni 927 og Throtmanni 890. Trut er sennilega afbökun á orðinu "dorp", sem merkir "þorp". Seinni hlutinn, "-manni", er ef til vill árheiti. Hún gæti einnig verið dregið af virkinu Mundi sem Karlamagnús lét reisa á staðnum. Á latínu heitir borgin Tremonia. Hansaborgin. Það var Karlamagnús sem stofnaði Dortmund sem virki í leiðangri sínum gegn söxum 775. Bærinn sjálfur kemur fyrst við skjöl 880. Næstu 250 ár komu gömlu keisararnir oft við í Dortmund og sátu þar í lengri eða skemmri tíma. Í tíð Hinriks V réðist Friðrik I greifi frá Schwarzenburg á Dortmund 1144 og eyddi bænum. Keisarinn Friðrik Barbarossa sat nokkru sinnum í Dortmund og hélt þar ríkisþing um miðja 12. öld. Hann var síðasti keisarinn sem hélt ríkisþing þar. 1232 eyddi stórbruni nær allri borginni. Eftir endurreisn hennar varð Dortmund að mikilli verslunarborg. Hún gekk í Hansasambandið og verslaði aðallega við London í Englandi og Bruges (Brügge) á Niðurlöndum (Belgíu í dag). Verslunin við London var svo mikil að Dortmund hélt Englandi á tímabili uppi meðan 100 ára stríðið geysaði milli Englands og Frakklands. Dortmund varð að einni ríkustu borg Evrópu á þessu tímabili. Það var ennfremur mikil lyftistöng fyrir borgina þegar keisarinn Lúðvík hinn bæríski veitti Dortmund fríborgarstatusinn 1332. Status þessi hélst allar götur til 1803. 1377 heimsótti Karl IV keisari borgina, en hann var síðasti keisari ríkisins sem til Dortmund kom. Bardaginn um Dortmund. Virkið Hörder Burg kom mikið við sögu í Dortmund-stríðinu Velgengni Dortmund var lengi flís í augu annarra borga og greifa. 1388 var myndað bandalag gegn Dortmund, en í því voru ekki eingöngu nágrannaborgir, heldur einnig greifar og biskupar lengra að. Í apríl var setið um borgina í því skyni að svelta borgarbúa. Einnig var skotið með frumstæðum fallbyssum yfir múrana. Borgarherinn svaraði fyrir sig og olli miklum skaða meðal fyrirsátursmanna. Einkennandi fyrir stríðið var skæruhernaður borgarbúa, sem opnuðu hliðin þegar minnst varði og réðust á fámenna hópa fyrirsátursmanna. Þessi hernaður reyndist drjúgur og voru slík úthlaup gerð 110 sinnum alls á einu ári. Bandalagið reyndi einnig að semja við borgina en borgarráðið hafnaði allri sátt. 10. júlí 1388 gerðu borgarbúar stórsókn með nýtísku fallbyssum. Við það kom mikill ótti í bandalagsliðið, þannig að umsátrið riðlaðist. Fyrir vikið gátu borgarbúar nýtt sér akrana fyrir utan borgarmúrana til að afla fæðu. Stríð þetta stóð yfir í hálft annað ár. Það endaði með því að Dortmund greiddi sig lausa og bandalagið leystist við það upp. Sigur Dortmunds í stríði þessu þótti einstakur og var talið mikið afrek. Í margar aldir eftir þetta naut borgin sigur síns og baðaði sig í frægðarljóma þess. Stríð þetta gekk í þýsku sögubækurnar sem Dortmunder Fehde ("Dortmund-stríðið"). Þrátt fyrir þetta var blómatími borgarinnar liðinn. Verslunin gekk til baka og borgin rambaði nokkrum sinnum á barmi gjaldþrots áður en hún dafnaði á ný. 1429 geysaði síðan svarti dauðinn í borginni og lést fjórðungur íbúanna. Siðaskipti og stríð. Dortmund í lok 16. aldar eða í upphafi 17. aldar 1523 barst lúterstrú til Dortmund. Í fyrstu var hún litin hornauga og fordæmd. En smátt og smátt skiptust borgarbúar í tvo hópa, þar til predikun nýju trúarinnar var leyfð 1533. Siðaskiptin gengu þó hægt fyrir sig. Í borginni störfuðu báðar stóru kirkjunnar hlið við hlið í lengri tíma. 1543 var stofnaður framhaldsskóli ("Archigymnasium") í borginni, en það var fyrsti skólinn þar sem ekki var starfræktur á vegum kirkjunnar. Skóli þessi varð brátt að þekktu menntasetri í ríkinu. Með tilkomu hans og trúfrelsisyfirlýsingu keisarans frá 1555 ("Augsburger Religionsfrieden") náði lúterska kirkjan yfirhöndinni í borginni. Í upphafi 30 ára stríðsins var borgin orðin lútersk með öllu. Hún reyndi að halda hlutleysi í stríðinu og bannaði borgarbúum að berjast sem leiguliðar. 1628 birtist hins vegar Tilly herforingi við borgardyrnar. Af mikilli diplómatískri snilld náði borgarráð að semja við hann um að þyrma borginni. Keisaraherinn sat hins vegar víða í nágrenninu og olli miklum skaða. Ári síðar krafðist Ferdinand II keisari að borgin gengi kaþólsku kirkjunni aftur á hönd. Borgin náði að tefja slíka framkvæmd fram á næsta ár, 1630, en þá gekk Gústaf Adolf II Svíakonungur á land í ríkinu og barðist með lúterstrúarmönnum. Þessi atburður veitti Dortmund hins vegar aðeins gálgafrest. 1632 var hún enn hlutlaus og lútersk er Gottfried Heinrich zu Pappenheim herforingi keisarahersins settist um borgina í júlí og lét skjóta á hana með fallbyssum. Þá féll borgin. Hluti keisarahersins dvaldi í Dortmund í heilt ár. Þá hertók landgreifinn Vilhjálmur frá Hessen borgina. Aftur sat keisaraherinn um borgina 1635-36 og skaut á hana í heila viku. Vilhjálmur yfirgaf þá Dortmund og við það féll borgin aftur í hendur kaþólikka. Efnahagurinn hrundi og borgin varð fátæk. Hún gat ekki greitt keisaranum stríðsskaðabæturnar sem hann lagði á hana. Þegar stríðinu lauk 1648 var borgin enn hersetin, fyrst af kaþólikkum, síðar af Svíum. Síðustu hermennirnir yfirgáfu borgina ekki fyrr en 1650, sem þá var í rústum. Aðeins 2.000 manns bjuggu þar og aðeins 300 hús stóðu uppi. Verslunin var hrunin. Dortmund var aðeins fátæk smáborg í ríkinu og var í meira en öld að jafna sig eftir efnahagsáfallið. Nýrri tímar. Frakkar marsera um götur Dortmund eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1803 voru Frakkar í héraðinu og leystu fríborgarstatus Dortmund upp. Hún varð þá hluti af furstadæminu Óraníu-Nassau. Þremur árum síðar innlimuðu Frakkar borgina. Eftir fall Napoleons ákvarðaði Vínarfundurinn að Dortmund skyldi tilheyra héraðinu Vestfalíu. Með tilkomu skipaskurðarins Dortmund – Ems 1899 upplifði borgin sitt annað blómaskeið, enda iðnbyltingin þá vel á veg komin. Borgin stækkaði mjög og fór íbúafjöldinn yfir 100 þús. fyrir aldamótin. Með innlimun nágrannabæja og sveitarfélaga í upphafi 20. aldar varð Dortmund að stórborg. Hún varð fyrir milum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Síðustu árásirnar voru gerðar 12. mars 1945. Það var mesta loftárás stríðsins á þýska borg og eyðilagðist um 70% borgarinnar. Bandaríkjamenn hertóku Dortmund 13. apríl og skiluðu henni til Breta, enda var hún á hernámssvæði þeirra. Í upphafi hreinsunarstarfsins kom til tals að byggja miðborgina ekki upp á ný, sökum þess hve skemmd hún var. En það var gert, enda varð Dortmund að mikilvægri iðnaðarborg eftir stríð. Eftirspurnin eftir stáli var mikil og brátt varð Dortmund að mestu iðnaðarborg Ruhr-héraðsins. Eftirsóknin minnkaði þó með tímanum, eftir því sem eftirspurnin eftir áli varð meiri. Iðnaðurinn minnkaði í lok aldarinnar og 2001 lokaði síðasta stálverksmiðjan í borginni. Viðburðir. Hæsta jólatré heims á jólamarkaði í Dortmund Alþjóðlegir menningardagar í Dortmund er ein mesta listahátíð Þýskalands. Hér er um röð viðburða að ræða, allt frá tónleikum, leiksýningum, götuleikum og fjölda annarra viðburða og sýninga. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1957 og er haldin annað hvert ár. Safnanótt (Dortmunder Museumsnacht) er annar stór menningarviðburður, en þá fara fram sýningar á um 60 stöðum í borginni. Þá eru á dagskrá sérstakir barnaviðburðir. Jólamarkaðurinn í Dortmund er einn sá stærsti í Þýskalandi með rúmlega 300 sölubásum. 3,6 milljónir manna sækja markaðinn heim. Einkennandi fyrir þennan jólamarkað er 45 metra hátt jólatré sem sett er saman úr 1.700 smærri barrtrjám. Markaðsstjórar kalla tréð hæsta jólatré heims. Tréð skartar 44 þús perur. Juicy Beats er eins dags tónlistarhátíð sem orðin er mjög vinsæl, bæði innanlands sem utan. Hér er mest megnis um raftónlist að ræða, en á seinni árum hafa aðrar jaðartónlistarstefnur einnig fengið að njóta sín. Rock in den Ruinen er önnur tónlistarhátíð helguð rokktónlist. Mayday er enn ein tónlistarhátíð helguð teknótónlist. Hún er haldin innandyra. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Borussia Dortmund. Það hefur sex sinnum orðið þýskur meistari, síðast 1966. Tvisvar bikarmeistari: 1965 gegn Alemannia Aachen og 1989 gegn Werder Bremen. Liðið varð einnig Evrópumeistari bikarhafa: 1966 (sigraði þá Liverpool). Það sigraði einnig í Meistaradeildinni 1997 (sigraði þá Juventus). Atli Eðvaldsson lék með félaginu 1979-81. Sex daga kappið er vinsæl hjólreiðakeppni sem fram fer á sex dögum. Hér er um liðakeppni að ræða og er keppt á innanhús brautum. Keppninni hefur verið hætt tímabundið í Dortmund. Essen. Essen er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með 579 þúsund íbúa. Hún er mikil iðnaðar- og háskólaborg. Lega. Essen liggur í miðju Ruhr-héraðinu, fyrir norðan árinnar Ruhr, og er umkringd öðrum borgum. Næstu borgir eru Gelsenkirchen fyrir norðan, Oberhausen fyrir vestan og Bochum fyrir austan. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Essen eru tveir ólíkir skildir, tengdir saman í bláhornunum. Sá vinstri er svarti ríkisörninn á gulum fleti. Sá hægri er gult sverð á bláum fleti. Efst trónir svo kóróna, sem merkir fustadæmið Essen. Örninn táknar þýska ríkið áður fyrr en sverðið er tákn fyrir Cosmas og Damian, helgir menn úr borginni sem höggnir voru fyrir trú sína. Merki þetta var tekið upp 1887. Orðsifjar. Elsta heiti borgarinnar er Astnithi sem dregið er úr trjátegundinni reyni (á þýsku: "Esche"). Rithátturinn hefur margbreyst í gegnum tíðina. Astnidum, Astanidum, Asbidi, Asnid, Assinde, Asnida, Assindia, Essendia, Esnede, Essende, Essend og loks Essen. Miðaldir. Matthildur abbadís ásamt bróður sínum Otto Á 9. öld var munkaklaustur stofnað á núverandi borgarstæði. Það mun hafa verið miðstöð fyrir kristniboð meðal saxa á svæðinu. 898 kemur Essen fyrst við skjöl og þá í sambandi við annað klaustur sem þjónaði sem nokkurs konar kvennaathvarf fyrir ógiftar mær en stjórnað af abbadís. Abbadísin var einnig stjórnandi byggðarinnar í kring, en slíkt var afar sjaldgæft í þýska ríkinu. Merkasta abbadísin var Matthildur, barnabarn Ottos I keisara. Hún safnaði og geymdi hina Gullnu Madonnu, sem er elsta Madonnustytta heims og er geymd í dómkirkjunni í Essen í dag. Eftir Matthildi tók Soffía við, dóttir Ottos II keisara. Í upphafi 13. aldar var Essen orðin að stórum bæ og fékk þá borgarréttindi. Samfara því voru varnarmúrar reistir. Á 14. öld kröfðust borgarbúar aukins sjálfstæðis og frelsis frá yfirráðum klaustursins. 1377 varð Karl IV keisari við óskum þeirra og gerði Essen fríborg í þýska ríkinu. 1450 opnaði fyrsta kolanáman en hún átti eftir að verða gríðarlega vikilvæg í iðnbyltingunni seinna. Siðaskipti og stríð. Essen 1647. Mynd eftir Matthäus Merian. 1563 urðu siðaskiptin í borginni. Þau gengu hægt fyrir sig og án mikils óróa. Abbadísin í klaustrinu var enn andlegur leiðtogi héraðsins, en fékk hvergi að gert. Um aldamótin 1600 var Essen orðin að vopnaframleiðsluborg. Þar voru smíðaðar byssur af ýmsum gerðum. Snemma í 30 ára stríðinu afréð abbadísin að kalla á spænskan her til að stöðva lútersku kirkjuna í borginni og koma kaþólskunni á aftur. Spánverjar komu 1623 og stjórnuðu borginni harðri hendi, þrátt fyrir áköf mótmæli borgarbúa. 1629 réðist hollenskur her á Spánverja og nær að frelsa borgina. Spánverjar hurfu á brott og abbadísin flúði til Kölnar, sem enn var kaþólsk. Tveimur árum seinna birtist abbadísin við borgardyr Essen með kaþólskum her frá Bæjaralandi og hertók borgina. Essen er í höndum kaþólikka út stríðið og nokkrum árum betur. Nýrri tímar. 1811 var fyrsta stáliðjan stofnuð og fær iðnbyltingin við það mikinn uppgang. Íbúum fjölgaði alla 19. öldina og fór íbúafjöldi borgarinnar yfir 100 þúsund 1896. Vegna hins mikla iðnaðar varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Þrátt fyrir það var hún ein mesta iðnaðarborg Þýskalands eftir stríð vegna eftirspurnar eftir stáli og unnum iðnaðarvörum. Eftir 1970 minnkaði eftirspurnin hins vegar mjög og var mörgum fyrirtækjum lokað. 1972 var háskólinn í borginni stofnaður. Íþróttir. Handbolti. Í borginni spilar handboltaliðið TUSEM Essen, sem er margfaldur þýskur meistari, bikarmeistari og Evrópumeistari. Sökum fjárhagserfiðleika var félagið sent niður í neðri deildir 2005, en hefur náð að vinna sig aftur upp í 1. deild. Nokkrir Íslendingar hafa leikir með liðinu: Alfreð Gíslason, Guðjón Valur Sigurðsson og Halldór Sigfússon. Maraþon. Í Essen er elsta Maraþonhlaup Þýskalands, svokallað Baldeneysee-Maraþon. Það var fyrst hlaupið 1963 og er þá hlaupið í kringum Baldeneyvatnið. Ruhr-Maraþonhlaupið fer fram í héraðinu og er Essen yfirleitt endastöð þess. Fótbolti. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Rot Weiss Essen, en það spilaði í efstu deild til 1977 og í neðri deildum eftir það. Svanhildur syngur fyrir börnin. Svanhildur syngur fyrir börnin er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Hljóðritun fór fram í Albrechtsens Tonestudio í Kaupmannahöfn. Útsrtningar og hljómsveitarstjórn var í höndum Ólafs Gauks. Plötuumslag gerði Ólafur Gaukur. Teikningu af Svanhildi gerði Einar G. Þórhallsson Stjórnarráðshúsið. Stjórnarráðshúsið er veglegt hús sem stendur við Lækjargötu í Reykjavík. Í því er forsætisráðuneytið til húsa. Forsaga hússins er sú að þann 20. mars 1759 gaf Danakonungur út úrskurð um að byggja þyrfti tugthús á Íslandi. Var það að undirlagi Skúla Magnússonar „fógeta“. Bygging hófst tveim árum seinna og var húsið tilbúið veturinn 1770-1. Hegningarhúsið, sem alvanalegt var að nefna "Múrinn", varð við það helsta tukthús Íslands. Fanga í hegningarhúsinu nýtti Skúli Magnússon sem vinnuafl fyrir Innréttingarnar. Í sömu mund var lagður skattur á fasteignir og kúgildi til fangahalds (Tukthústollurinn), og var óvinsæll meðal alþýðunnar. Tugthúsið var lagt niður árið 1816. Árið 1904 tók fyrsta íslenska ráðuneytið til starfa í húsinu, og síðar stjórnarráðið, sem húsið heitir eftir, 1918. Við Stjórnarráðshúsið var íslenskur þjóðfáni dreginn fyrst að hún. Ævintýri í Maraþaraborg - Barnasaga með söngvum. Ævintýri í Maraþaraborg - Barnasaga með söngvum er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1974. Samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis (Á ensku: "Convention for the Protection of Human Rights and Fundamental Freedoms"), betur þekktur sem Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE), er þjóðréttarsamningur sem undirritaður var af fulltrúum á ráðherrafundi Evrópuráðsins 4. nóvember 1950. Ísland undirritaði sáttmálann árið 1950. Hann var þó ekki formlega lögtekinn fyrr en árið 1994 í kjölfar tveggja dóma þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafði dæmt íslenska ríkinu í óhag og gagnrýnt íslenska löggjöf. Helg eru jól - Fjórtán jólalög. Helg eru jól - Fjórtán jólalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. The Selfish Gene. "The Selfish Gene", eða "Sjálfselska genið", er bók um erfðafræði frá árinu 1976 eftir breska líffræðinginn Richard Dawkins. Í bókinni hafnar Dawkins hefðbundnum skilningi almennings á þróunarkenningu Darwins um að hæfasti einstaklingurinn lifi af og setur fram eigin túlkun þess efnis að það sé hæfasta genið sem lifi af. Hann gengur jafnvel svo langt að segja að einstaklingurinn sé ekkert meira en tæki sem genið (eða genin) hafa búið til í þeim tilgangi einum að lifa af og fjölga sér inn í framtíðina. Hann bendir t.d. á þá staðreynd í bókinni að það eru til gen sem eru svo hæf í því að lifa af að þau hafa verið til í tugi milljóna ára og að maðurinn og heimilishundurinn hafi mörg þúsund gen sameiginleg þótt óratími sé liðinn frá því að dýrategundirnar skildust að í þróuninni. Gen lifi því miklu lengur en einstaklingar, hópar, kynþættir eða heilu ættbálkar dýra sem kunna að hafa orðið útdauð því genin lifi enn í öðrum dýrategundum. Genin séu því sjálfselsk í þeim skilningi að þeim er alveg sama hvort einstaklingurinn lifi eða deyi, og þau jafnvel stuðla að því að hann deyi, ef það eykur líkurnar á því að genið lifi af í öðrum einstaklingum sem auka kyn sitt og stuðla þannig að aukinni útbreiðslu gensins. Dawkins tekur fram í bókinni að genið sé ekki sjálfselskt í þeim skilningi að það sé hugsandi vera heldur sé sjálfselskan niðurstaðan úr þeirri þróun sem á sér stað í gegnum kynslóðirnar og genið hefur áhrif á. Sjálfsfórn. Hugmyndir sínar rökstyður Dawkins með því að grípa til hugtaksins sjálfsfórnar. Ef það sé hæfasti einstaklingurinn sem lifir af þá sé sjálfsfórn nánast ómöguleg því það gengur þvert á vilja einstaklingsins til að lifa af og fjölga sér. Sjálfsfórn sé hinsvegar eðlileg í heimi þar sem hæfasta genið lifi af því einstaklingur sé líklegur til að fórna sjálfum sér til þess að stuðla að því að hópur sem er erðafræðilega skyldur þeim einstaklingi lifi af. Með sjálfsfórninni stuðli einstaklingurinn að því að genin sem hann ber lifi af og fjölgi sér í öðrum einstaklingum. Sjálfsfórn í þessum skilningi þarf ekki endilega að þýða dauða einstaklings heldur getur einnig náð til hegðunar eins og þeirrar að sleppa því að makast, jafnvel um alla ævi, til þess að taka þátt í umönnun annarra einstaklinga, t.d. systkina. Í bókinni eru t.d. tekin dæmi af hópum systra sem í dýrum sem beita kynæxlun eru 75% erfðafræðilega skyldar hver annarri. Erfðafræðilegur skyldleiki foreldra og barna er hinsvegar aðeins 50%. Því sé sjálfsfórn líklegri í hópi systra en á milli foreldra og barna og í náttúrunni er hægt að finna fjölda slíkra dæma, t.d. hjá býflugum. Meme. Í bókinni setur Dawkins einnig fram hugtakið Meme, sem er samsetning af ensku orðunum memory og gene. Meme er hugmynd eða upplýsingaeining sem verður til hjá einum einstaklingi og dreifist síðan til annarra einstaklinga með svipuðum hætti eins og gen. Á æviskeiði hugmyndarinnar gengur hún í gegnum svipað ferli eins og gen, þ.e. hún verður til, dreifist frá einum einstaklings til annars, breytist, verður fyrir samkeppni og deyr út eða nær nánast algjörri útbreiðslu. Memið, einsog genið, kann einnig að verða fyrir breytingum þegar það fjölfaldast frá einum einstakling til annars, rétt eins og genið, þegar villur koma upp í afritun genamengisins við frumuskipti. Í seinni útgáfum bókarinnar bendir Dawkins einnig á tölvuvírusa sem dæmi um eitthvað sem hefur sömu sjálfsfjölgandi (e. self-replicating) eiginleika einsog genið og memið. Þrjú á palli ásamt Sólskinskórnum - Ný barnaljóð eftir Jónas Árnason. Þrjú á palli ásamt Sólskinskórnum - Ný barnaljóð eftir Jónas Árnason er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Hljóðritun annaðist Pétur Steingrímsson. Öll ljóðin á þessari plötu eru eftir Jónas Árnason. Þau eru gerð við írsk og skozk þjóðlög og þá einnig við amerísk barnalög. Útsetningar gerði Jón Sigurðsson, sem einnig leikur á bassa á plötunni. Ljósmynd á framhlið tók Helgi Sveinbjörnsson, en ljósmyndir á bakhlið tók Troels Bendtsen. Hljómar - Hljómar 1965-68. Hljómar - Hljómar 1965-68 er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Á henni flytja Hljómar frá Keflavík öll sín bestu lög. Lúðrasveit Reykjavíkur - Lúðrasveit Reykjavíkur og Guðmundur Jónsson. Lúðrasveit Reykjavíkur og Guðmundur Jónsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Stjórnandi: Páll P. Pálsson. Einsöngur: Guðmundur Jónsson. Fiðla: Þorvaldur Steingrímsson, Harmonika: Grettir Björnsson. Stjórnarskrá Bandaríkjanna. Fyrsta blaðsíðan úr stjórnarskrá Bandaríkjanna Stjórnarskrá Bandaríkjanna er æðsta lögskjal landsins og æðri lögum fylkjanna í Bandaríkjunum. Hún er rammi um skipulag bandarískra stjórnvalda og tengsl stjórnvalda við ríkin og ríkisborgara landsins. Stjórnarskráin skilgreinir þrískiptingu ríkisvalds og hverjir eiga að fara með hvaða hlutverk fyrir sig. Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, framkvæmdarvaldið er í höndum forsetans og dómsvaldið er hjá Hæstarétt. Þeir sem skrifuðu stjórnarskrána eru oftast nefndir feður stjórnarskrárinnar. Þessir aðilar voru pólitískir leiðtogar og skrifuðu undir sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna árið 1776 og heita þeir: Benjamin Franklin, George Washington, John Adams, Thomas Jefferson, John Jay, James Madison og Alexander Hamilton. Stjórnarskráin var samþykkt þann 17. september 1787 og staðfest 21. júní 1788 af níu ríkjum af þeim 13 sem mynduðu Bandaríkin á þeim tíma. Breytingar á stjórnarskránni hafa verið gerðar 27 sinnum og eru tíu fyrstu breytingarnar þekktar sem Réttindaskrá Bandaríkjanna,Bill of Rights‘‘ og þykja hvað merkastar. Upprunalega stjórnarskráin er 11 blaðsíður að lengd og er hún elsta stjórnarskrá í heiminum sem ennþá er í notkun. Upprunalega skjalið, sem var handskrifað af Jacob Shallus, er varðveitt í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna sem er í Washington DC. Stjórnarskráin – átök. Pólitískar deilur á milli stjórnmálahugmynda endurspeglast í stjórnarskránni. Deilan snýst um valdadreifingu á milli stærri og smærri ríkja, alríkisvald eða sterk ríki. Skiptar skoðanir voru á útfærslu með þrískiptinguna. Það varð síðan ofan á að fulltrúadeildin væri fulltrúi fólksins, öldungadeildin yrði í forsvari fyrir ríkin og forsetinn yrði kosinn af fulltrúum ríkjanna. Fjölmörg atriði voru ný í stjórnarskránni en önnur ekki. Það sem hafði hvað mestu áhrifin frá Evrópu voru skilgreiningar Montesquieu og hans áherslur á jafnvægi á milli þessara þriggja valdasviða. Höfundar stjórnarskrárinnar voru meðvitaðir um að breytingar væru þarfar ef hún ætti að geta haldið sér og vaxið með þjóðinni. Ólíkt mörgum öðrum stjórnarskrám er breytingum í bandarísku stjórnarskránni bætt við meginmál og er það gert þannig að nýi textinn komi ekki í staðinn fyrir þann sem er þar fyrir né breyti þeim texta sem fyrir er, heldur er bara viðbót. Sjö greinar Stjórnarskrárinnar. Fyrsta grein stjórnarskrárinnar lýsir því að bandaríska þingið sé tveggja deilda þing, fulltrúardeildin og öldungadeildin. Fjallað er um þau skilyrði sem þarf að fullnægja til að vera kosinn inn á þing til dæmis aldur og búsetu. Fulltrúadeildar þingmenn skulu hafa náð 25 ára aldri og vera Bandarískir ríkisborgarar, búsettir í því ríki sem þeir bjóða sig fram fyrir. Öldungadeildar þingmenn skulu vera að minnsta kosti 30 ára og hafa verið bandarískir ríkisborgarar í að minnsta kosti níu ár, þeir þurfa einnig að búa í því ríki sem þeir bjóði sig fram fyrir. Löggjafarvald skal vera á höndum þingsins bæði fulltrúardeildar og öldungadeildar. Í annarri grein er greint frá að framkvæmdarvaldið er í höndum forseta og kjörtímabil forseta eru fjögur ár og varaforseti situr sama tíma. Ef forsetinn getur ekki gegnt embætti sínu þá tekur varaforsetinn við. Hlutverk forseta er nokkur þar á meðal: yfirmaður herafla Bandaríkjanna, hann getur veitt lausnir og náðir en forseti getur ekki náðað sjálfan sig. Forseta er heimilt að skipa sendiherra, ráðherra og dómara hæstaréttar en það er gert með 3 samþykkti öldungaþingdeildarinnar. Til að lög fái gildi þarf forseti að skrifa undir. Í þriðju grein er fjallað um dómsvald, þar er tekið fram að Hæstiréttur Bandaríkjanna sé aðaldómsvald. Einnig að þingið geti búið til lægri dómstóla sem starfi innan ríkjanna en lúti lögum Hæstaréttar. Í greininni er skilgreindur rétturinn til réttarhalda með kviðdómi í sakamálum og að dómsvald skilgreini glæpi og hvaða refsingu skuli sæta. Í fjórðu grein er lýst sambandi á milli ríkja og framkvæmdavalds alríkisins. Tekið er fram að ríki hafi ekki rétt til að mismuna þegnum annarra ríkja. Þá er settur fram lagalegur grunnur að ferðafrelsi milli ríkjanna. Hér er tekið fram að taka megi við nýjum ríkjum. Þá er alríkinu skylt að tryggja hverju ríki sitt eigið löggjafar og framkvæmdavald ásamt því að vernda ríkin fyrir utanaðkomandi árásum. Í fimmtu grein er fjallað um breytingar á stjórnarskrá en til þess eru farnar þrjár leiðir. Í fyrsta lagi þarf þingið samþykki með 2/3 hluta atkvæða í báðum deildum þingsins og skal svo samþykkt af ríkjunum. Í annan stað mega ríkin með 2/3 hluta atkvæða fara fram á endurskoðun breytinganna sem send eru þinginu og svo aftur til ríkjanna til staðfestingar. Í þriðja lagi getur þingið farið fram á staðfestingu af sérstakri nefnd. Að lokum þurfa 4 hluti ríkjanna að samþykkja breytingar á stjórnarskrá svo þær taki gildi. Í sjöttu grein er tekið fram að lög bandaríkjanna, sáttmálar og lög gerð í þeirra nafni séu ávalt æðri lögum ríkjanna og að þau megi ekki stangast á. Hún tekur fram að allir löggjafar í alríki sem og ríkjum, embættismenn og dómarar sverji þess eið að styðja við lög stjórnarskrárinnar. Í sjöundu grein er tekið fram að stjórnarskráin taki gildi þegar 9 ríki hafi staðfest hana og að þá gildi hún aðeins um þau ríki sem staðfesti hana. Réttindaskráin. 27 breytingar hafa verið gerðar við stjórnarskrána en fyrstu 10 eru kallaðar Réttindaskrá,Bill of Rights‘‘. Breytingar 11 til 27. 17 síðari breytingarnar voru gerðar til viðbótar á Stjórnarskránni eftir að Réttindaskráin tók gildi. Þær breytingar stöfuðu af áframhaldandi viðleitni til að víkka út borgaralegt og stjórnmálalegt frelsi en margar þessara breytinga breyta litlu um undirstöðu og uppbyggingu stjórnvalda sem sett var í stjórnarskrána 1787. Þessar breytingar hafa verið gerðir frá árinu 1795 til ársins 1992. Af þeim er sú þrettánda hvað áhrifamest en þær fjalla um afnám þrælahalds í Bandaríkjunum. Aðeins sex breytingar af 33 hafa ekki náð í gegn. Gagnrýni á stjórnarskrána. Prófessor Larry Sabato hefur lagt til að gera þurfi breytingu á stjórnaskránni sem geri prófkjör forsetaframbjóðenda skilvirkari. Hann telur dræma þátttöku í prófkjörum vera að sökum þess hve snemma þau eru haldin og telur einnig ósanngjarnt að sum ríki hafi ávalt forskot á að halda þau. Þetta væri hægt að lagfæra með breytingum í stjórnarskránni. Prófessor Sanford Levinson hefur gagnrýnt stjórnarskrána fyrir að hafa engin úrræði reynist forseti vera óhæfur eða mikið veikur. Þá hefur Robert A. Dahl gagnrýnt stjórnarskrána fyrir að grafa undan lýðræði t.d. með því að notast við kjörmenn í forsetakosningum í stað raunfylgis. Gammafallið. sem sýnir tengsl gammafallsins við aðfeldi, en líta má á gammafallið sem útvíkkun aðfeldis yfir tvinntölurnar. sem gildir fyrir Re("z") > 1. Frumbyggjar Ástralíu. Frumbyggjar Ástralíu eru upphaflegir ábúendur og hinir raunverulegu uppgötvendur heimsálfunnar Ástralíu. Talið er að þeir hafi komið á litlum bátum frá Suðaustur-Asíu fyrir um 40.000 árum eða fyrr. Þá ríkti í Ástralíu annað loftslag og álfan leit allt öðruvísi út. Áður fyrr voru þeir kallaðir "Ástralíunegrar" en er nú aflagt enda álitið af mörgum vera niðrandi. Frumbyggjar Ástralíu eru fremur dökkir á hörund en þeir eru þó skyldari Evrópumönnum en Afríkumönnum. Alexandra Bretadrottning. Alexandra Bretadrottning (fædd "Alexandra Carolina Marie Charlotte Louise Julia"; f. 1. desember 1844 – 20. nóvember 1925) var var dóttir Kristjáns 9. Danakonungs og prinsessa í Danmörku. Hún giftist síðar "Alberti Játvarði" krónprins Bretlands, sem síðar varð Játvarður 7. og með því varð hún Alexandra Bretadrottning. Líf og fjölskylda. Alexandra Danaprinsessa eða Alix eins og hún var ávallt kölluð í fjölskyldunni, fæddist í Kaupmannahöfn árið 1844. Foreldrar hennar voru Kristján prins, seinna Kristján 9., og Louise af Hessen-Kassel. Alexandra dó árið 1925 í Sandringham eftir hjartaáfall. Hún er grafin við hlið eiginmanns síns í kapellu heilags Georgs í Windsorkastala. Sassanídar. Sassanídaveldið og leppríki þeirra árið 600 (skömmu fyrir innrás Araba). Sassanídar eða Sassanídaveldið er nafn yfir þriðju írönsku konungsættina eða aðra persnesku konungsættina. Þessi ætt stjórnaði Persíu í 425 ár, frá 226 til 651. Nafnið Sassanídar og Persar er notað jöfnum höndum. Þeir eru nefndir svo vegna forföður ættarinnar sem hét Sassan og var valdamikill klerkur í Persíu. Stjórn Sassanída hófst þegar Ardasjir 1., sem hafði haslað sér völl innan Persíu, sigraði parþneska konunginn Artabanus 4. og batt þar með enda á stjórn þeirra yfir Íran. Veldi Sassanída endaði árið 651 með innrás íslamskra araba. Ardashir tók sér titilinn shahanshah eða konung konunganna (keisara) og gerðu allir eftirmenn hans hið sama. Keisarinn réð yfir fjölda annarra kónga sem hver um sig réð hluta konungdæmisins. Keisararnir voru alls 30 á þessum 425 árum. Sassanídar voru að því leyti öðruvísi en fyrri persneskar stjórnir að þeir hættu að nota grísku eða latínu og tóku upp persnesku sem ríkismál og komu upp sterku miðstýrðu embættismannakerfi Saga. Erjur Parþa við Rómverja veiktu ríki þeirra svo mikið að það riðaði til falls. Árið 222 lýsti Ardasjir sjálfan sig konung yfir sýslunni Fars. Brátt þandi hann út ríki sitt, en það gat Artabanus Parþakonungur ekki liðið og ætlaði að bæla uppreisn Ardasjirs niður. Það fór ekki betur en svo að Ardashir felldi Artabanus, hertók höfuðborgina Ktesifon árið 226 og lét krýna sig konung yfir allri Persíu. Ardasjir ríkti í fimmtán ár og Persía blómstraði undir stjórn hans. Fyrstu fjögur ár stjórnar hans átti hann talsvert undir högg að sækja frá parþneskum konungi Armeníu, málaliðum Skýþa auk Rómverja frá vestri og Kúsjana frá austri. Ardasjir var harðskeyttur herforingi og náði að reka alla af höndum sér. Hann mótaði stefnu Sassanída og efldi innviði ríkisins, kom upp öflugri miðstjórn með fjölskipuðu embættismannakerfi í valdapýramída. Innan þessa kerfis máttu einungis innfæddir Persar starfa. Sjapur 1.. Árið 240 lagði Ardasjir niður völd og sonur hans Sjapur tók við völdum. Sjapur 1. gerðist voldugur herkonungur. Hann hélt austur og réðist á ríki Kúsjana og lagði undir sig mikinn hluta landa þeirra. Því næst snéri hann sér að Rómverjum. Hinn 19 ára rómverski keisari Gordíanus 3. sneri vörn í sókn og í fyrstu varð honum nokkuð ágengt. Samkvæmt rómverskum heimildum var Gordíanus veginn af eigin hermönnum en samkvæmt persneskum heimildum var hann veginn af Sjapur 1. Burtséð frá því hvernig hann dó þurfti næsti keisari, Philippus arabi, að ganga að smánarlegum samningi þar sem hann þurfti að borga Sassanídum 500 þúsund denara auk árlegra skatta. Síðar er Rómverjar stóðu ekki í skilum sendi Sjapur son sinn í refsileiðangur. Valeríanus keisari kom á móti með voldugan her en með svikum og bellibrögðum króaði Sjapur 1. Valeríanus, hershöfðingja hans og 70 þúsund manna lið inni í borginni Edessa. Sumar heimildir herma að Sjapur 1. hafi m.a. notað Valeríanus sem fótaskemil auk annarra niðurlæginga meðan hann var fangi Sjapurs. Sjapur var svo veginn af arabískum úlfaldasveitum sem sátu fyrir honum á leið sinni heim úr herferð um Sýrland árið 272. Shapur 2.. Árin eftir dauða Sjapurs 1. einkenndust af átökum um keisaratignina. Keisarar komu og fóru og fæstir sátu mikið lengur en 2-3 ár. Þegar Horsmid 2. dó árið 309 drap aðallinn alla þrjá syni hans og krýndi ófæddan son hjákonu hans konung. Fyrstu ár Sjapurs 2. stjórnuðu móðir hans og aðallinn ríkinu við góðan orðstír. Þegar Sjapur 2. hafði aldur til tók hann völdin af þeim og sýndi það fljótlega að hann var verkinu vaxinn. Sjapur ríkti til 379 og á þeim fimmtíu árum sem hann stjórnaði ríkinu stóð hann í linnulausum hernaði. Hann safnaði heilögum ritum sóróista og sameinaði öll ritin saman í eina bók, Avesda. Hann lagði blátt bann við kristni og ofsótti kristna sem vildu ekki snúast til ríkistrúarinnar. Undir stjórn Sjapurs stækkaði ríkið enn meira, varð enn ríkara og voldugra en það hafði verið áður. Algengt er að segja að undir stjórn hans hafi ríkt gullöld, þar sem mikil stöðugleiki hafi ríkt innan ríkisins þó stöðug stríð hafi geisað. Á öldinni eftir dauða Sjapurs 2. hnignaði ríkinu hægt og rólega. Seinni gullöld. Þegar Kavad 1. komst í annað skipti til valda árið 498 er talað um að seinni gullöld Sassanída hefjist. Þessi gullöld hélst tiltölulega óbreytt til 622 þegar mjög tók að halla undan fæti. Þetta tímabil einkenndist af miklum stöðugleika. Þrátt fyrir það stóðu yfir nær stanslaus stríð milli Persa og Rómverja sem Rómverjar reyndu eins og þeir best gátu að kaupa sig frá. Khosraú 1. sonur Kavads stóð í miklum endurbótum í stjórnartíð sinni. Hann endurbætti úrelt stjórnkerfi Sassanída og byggði upp sterkt net skattheimtu innan ríkis síns. Fall sassanísku ættarinnar. Khosraú 2. átti í miklum styrjöldum við Rómverja og til að byrja með naut hann mikillar velgengni. Fljótlega fór þó að koma þreyta í ríkið. Khosraú lagði hart að hermönnum sínum og jók skattbyrði borgaranna gífurlega. Spilling og óánægja blossaði upp og herinn var orðinn þreyttur. Gagnárásir Rómverja urðu kröftugri um leið og persneski herinn átti í sífellt meiri erfiðleikum með að verjast. Í miðju alls þessa dó Khosraú 2. og borgarastríð blossaði upp. Á næstu fjórum árum voru mannaskipti á valdastóli tíð og vantraust almennings á yfirstéttinni óx. Þegar Arabar innblásnir af hinni nýju Íslamstrú réðust á suðurhéruð Persíu náðu þeir ekki að halda uppi vörnum. Loksins þegar öflugur stjórnandi tók við 632 var það orðið of seint. Skaðinn var skeður. Árið 637 hertóku múslimarnir Ktesifon og keisarinn lagði á flótta. Árið 651 var Jasdegerd 3., síðasti konunga Sassanída myrtur af bónda sem stal veskinu hans. Menning. Rómverjar kölluðu Sassanída barbara en það var svo sannarlega rangnefni. Þeir voru hámenningarleg þjóð sem voru tæknilega framanlega. Rómverjar lærðu margt af þeim, m.a. um hernað. Þegar Sassanídar komust til valda, var markmið þeirra að endurreisa hið forna Persneska konungsveldi. Það var hægara sagt en gert þar sem yfir 500 ár voru liðin frá falli þess. Þegar til kastanna kom, voru þeir einfaldlega of illa upplýstir um menningu hins forna Persneska konungsveldis. Upp kom sambland af Parþneskri og fornu Persnesku menningunni. Auk þess voru sterk hellensk áhrif sem lifðu enn í landinu eftir sigra og hersetu herja Alexanders hins mikla. Konungar Sassanída voru málsvarar lista, menningar, heimspeki og tónlist var þeim hugfanginn. Lítið hefur varðveist af ritverkum þeirra, mest til þar sem herir múslima brenndu niður háskólann í Gundishapur og með honum allar helstu ritheimildir Sassanída. Helstu heimildir okkar um menningu þeirra finnast því aðallega í fornleifum. Fornir peningar, herbúnaðar, diskar og leirker hafa sagt okkur marga söguna. Sassanídum var margt til lista lagt. Þeir unnu ýmislegt úr málm, stunduðu leirkerasmíði, huggu höggmyndir, ófu silki og steyptu mósaík myndir. Arkitektúr Sassanída var blanda af Parþenskum og rómverskum arkitektúr. Byggingarstíl þeirra notuðu þeir til að sýna fram á stórleika sinn. Byggingarlist Parþa hafði einnig einkennst af stórum glæsilegum byggingum en Sassanídar fóru þó langt frammúr þeim varðandi stærð og yfirferð bygginga. Það sést hvað best á höllunum sem einvaldar Sassanída bjuggu í. Eitt frægasta dæmi um Sassaníska byggingarlist er hvelfing sem staðsett var í Ctesiphon. Hún var 40 m há og haf hennar 25 metrar. Þessi smíði hefur valdið undrun og lotningu æ síðan. Hallirnar voru skreyttar öllu því dýrasta og flottasta hins þekkta heims. Þar má helst nefna margra metra háar mósaíkmyndir og glæsileg málverk. Ýmsar íþróttir voru stundaðar innan konungsdæmisins og var Pólo þar einna vinsælust. Póló er íþrótt stunduð á hesti og er enn nokkuð vinsæl á Bretlandi og í gömlum nýlendum þess. Á fjórðu öld var þar stofnaður skólinn Gundishapur, ein helsta menntastofnun heimsins á miðöldum. Til Gundishapur streymdu nemendur og kennarar frá öllum heimshornum hins þekkta heims. Sassanídar höfðu mikil áhrif á Rómverska siðmenningu. Yfirbragð rómverska hersins varð fyrir áhrifum frá Persneskum hernaðaraðferðum. Í breyttu formi var einræðisstjórnininni í Róm viss stæling konunglegu hirðarinnar í Ctesiphon. Þaðan sóttu svo hirðir miðaldarevrópu hefðir sínar. Uppruni formleika Evrópskra erindreka má rekja rætur sínar til dimplómatískra samskipta Persa og Rómverja. Notkun þungbrynjaðs riddaraliðs og riddaramennska í evrópu á miðöldum má einnig rekja til Sassanída í gegnum rómverja. Stjórnarfar. Persía Sassanída var einveldi undir stjórn keisara. Efstur var keisarinn sem hafði úrslitavald og réði öllu sem hann vildi ráða. Síðan var landinu skipt í furstadæmi sem prinsar og aðrir aðilar úr sassanísku keisarafjölskyldunni ríktu yfir, en heyrðu beint undir stjórn keisarans. Undir keisaranum var ráð ýmsa fræðimanna sem hjálpuðu til við ákvarðanir og sáu um ýmis mál sem konungur hafði ekki áhuga á. Stjórnkerfi Sassanída einkenndist af þó nokkurri miðstýringu, metnaðarfullu borgaskipulagi, landbúnaðar- og tækniframþróunum. Keisaratignin gekk í erfðir og oftast tók elsti sonur keisara við völdum þegar keisarinn dó. Her. Her Sassanída var mjög vel skipulagður og agaður. Hershöfðingjar þeirra voru vel menntaðir í hernaðarfræðum og –skipulagi. Sassanída skrifuðu margar bækur um efni tengd hernaðarfræðum. Lítið eða ekkert af því hefur varðveist. Í persneska hernum voru menn af mörgum kynstofnum, bæði frá hertöknum löndum sem og málaliðar frá öðrum löndum. Burðarás Persahers var þungbrynjað riddaralið, sem innihélt persneska aðalsmenn sem höfðu verið þjálfaðir í það frá unga aldri. Auk þeirra voru léttbrynjaðari bogamenn á hestum. Innganga í þá sveit var flestum opin. Fótgangandi bogamenn og herfílar voru síðan notaðir til að auðvelda notkun riddaraliðsins, meðal annars með því að gera göt í fylkingar óvinarins. Persar höfðu einnig í her sínum léttbrynjaða fótgöngumenn og náðu frábærum árangri með notkun umsáturvopna í her sínum. Einnig eru dæmi fyrir því að þeir hafi notað þungbrynjaðri fótgönguliða við mjög góðan árangur. Trú. Ríkistrú Sassanída var sóróismi. Einnig stunduðu búddatrúar, gyðingar og kristnir trú sína í ríki Sassanída að mestu óáreittir, en það var samt mismunandi eftir konungum. Trú Sassanída var samt ólík því sem Avesta, höfuðtrúarrit sóróista, lagði út frá. Klerkar Sassanída breyttu trúnni til að hún þjónaði betur hagsmunum þeirra. Hverfell. Hverfell (eða Hverfjall) er fjall austan við Mývatn og vestan við Búrfellshraun í Skútustaðahreppi. Hverfell er eldgígur sem talinn er hafa myndast í öflugu en stuttu þeytigosi fyrir um 2500 árum. María Fjodorovna. María Feodorovna (fædd "Marie Sophie Frederikke Dagmar" Danmerkurprinsessa; f. 26. nóvember 1847, d. 13. október 1928) var keisaraynja Rússlands og miðdóttir Kristjáns 9. Danakonungs og Lovísu af Hessen-Kassel. Brúðkaup og fjölskylda. Alexander II dó árið 1894 og tók Nikulás, sonur þeirra hjóna, við krúnunni. Dagmar eða Maria eins og hún var þekkt í Rússlandi varð þá ekkjukeisaraynja. Árið 1918 varð rússneska byltingin og voru tveir af sonum Mariu myrtir. Georg V Bretlandskonungur sendi skip eftir móðursystur sinni og öðrum rússneskum ættingjum. Maria var í útlegð fyrst í Bretlandi en settist síðan að í Danmörku þar sem hún dó árið 1928. Hún var jarðsett í dómkirkjunni í Hróarskeldu, en í nóvember 2006 var hún grafin upp, flutt til Rússlands og grafin við hlið eiginmanns síns. Möbiusarfall. Möbiusarfallið er í talnafræði heiltölufall með myndmengið, táknað með formula_1. Mertensfallið er summa liða Möbiusfallsins, en bæði föllin eru mikilvæg við að mat á dreifingu frumtalna. Möbiusfallið kemur við sögu þegar finna skal umhverfu zetufalls Riemanns. Heims um ból. Heims um ból er frumortur jólasálmur eftir Sveinbjörn Egilsson. "Heims um ból" er þó oftast sunginn við sama lag og hið fræga jólakvæði "Stille Nacht! Heilige Nacht!" og því hefur sá misskilningur komið upp að "Heims um ból" sé þýðing, en svo er ekki. Hinn upprunnalegi "Stille Nacht" er eftir séra Joseph Mohr og lagið eftir organistan Franz Gruber og var hvortveggja samið árið 1818. Matthías Jochumsson þýddi sálminn á íslensku og heitir þýðing hans: "Hljóða nótt, heilaga nótt". En kvæði Sveinbjörns er þó lang oftast sungið við lag Franz Gruber eins og áður sagði. Björn Þorleifsson biskup. Björn Þorleifsson (f. 21. júní 1663, d. 13. júní 1710) var biskup á Hólum frá 1697 til dauðadags, 1710, eða í 13 ár. Foreldrar Björns voru Þorleifur Jónsson (um 1619–1690) prestur í Odda á Rangárvöllum, og kona hans Sigríður Björnsdóttir (um 1620–1688) frá Bæ á Rauðasandi. Björn Þorleifsson fæddist í Odda og ólst þar upp. Hann var tekinn í Skálholtsskóla 1679 og varð stúdent þaðan 1683. Fór utan 1684, skráður í Kaupmannahafnarháskóla um haustið og varð attestatus í guðfræði vorið 1686. Kom heim um sumarið með vonarbréf fyrir Odda. Vígðist 1687 aðstoðarprestur föður síns og tók við Odda 1690 eftir lát hans. Björn fór til Kaupmannahafnar haustið 1691 og sótti um Hólabiskupsdæmi eftir fráfall Jóns Vigfússonar, en Einar Þorsteinsson varð honum yfirsterkari. Að boði konungs var síra Björn vígður varabiskup 30. janúar 1692, og skyldi hljóta hvort biskupsdæmið er fyrr losnaði, og halda Odda á meðan. Varð magister að nafnbót vorið 1692 og kom heim um sumarið. Hann hélt síðan aðstoðarprest og gegndi sumum biskupsstörfum í veikindum Þórðar Þorlákssonar Skálholtsbiskups, einkum 1694 og 1696, stýrði t.d. prestastefnum og vígði presta. Tók við Hólastól 1697, eftir fráfall Einars Þorsteinssonar, og hélt til æviloka, 1710. Páll Eggert Ólason segir um Björn: "Var vel að sér, hneigður fyrir söng, kom á söng- og reikningskennslu í Hólaskóla, hélt þar fleiri nemendur á fullum styrk en hann var skyldur til.... Hann var veitull og gestrisinn og hélt sig mjög að höfðingjahætti, góðviljaður öllum. Mælskur vel og ritfær, en þó með nokkurri fordild, enda talinn tilgerðarsamur." Björn biskup stóð í bréfaskiptum við Árna Magnússon og veitti honum aðstoð við söfnun handrita. Þegar Björn tók við sem biskup á Hólum var eina prentsmiðja landsins í Skálholti, og var Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup þá nýfallinn frá. Sonur Þórðar, Brynjólfur Þórðarson Thorlacius sýslumaður á Hlíðarenda í Fljótshlíð, tók prentsmiðjuna til sín. Björn biskup samdi um kaup á henni 1703 og var hún flutt aftur norður að Hólum. Hófst prentun þar á ný haustið 1703. Um 20 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Björns Þorleifssonar. Meðal þeirra var Jónsbók, hin forna lögbók Íslendinga, sem kom í tveimur útgáfum, 1707 og 1709. Björn frumsamdi tvær bækur: "Fjórar iðrunarpredikanir" (Hólum 1705 og 1710) og "Heitdagspredikanir" (Hólum 1706). Orti erfiljóð á latínu eftir Gísla Magnússon sýslumann (Vísa-Gísla), sem prentað var í útfararminningu hans, Hólum 1704. Hann þýddi bók eftir A. Hjörring: "Veganesti guðsbarna" (Hólum 1706), og e.t.v. eitthvað fleira. Fékk ámæli fyrir breytingar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, sem prentaðir voru á Hólum 1704. Björn biskup var í fyrstu vel efnaður maður, en varð fyrir miklu tjóni þegar biskupsbaðstofan á Hólum brann 18. nóvember 1709, þá nýlega uppgerð. Brunnu þar bækur, silfurgripir o.fl. Beið efnahagur hans þá mikinn hnekki, en einnig er hann í sumum heimildum gagnrýndur fyrir eyðslusemi. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru vísitasíubók og prestastefnubók úr embættistíð Björns Þorleifssonar, en bréfabækur hans og tveggja fyrirrennara hans mun hafa brunnið 1709. Engin mynd eða málverk er til af Birni Þorleifssyni og ekki heldur legsteinn með grafskrift hans. Kona Björns Þorleifssonar (gift 1689) var Þrúður Þorsteinsdóttir (f. 13. desember 1666, d. 19. apríl 1738), dóttir Þorsteins Þorleifssonar sýslumanns á Víðivöllum í Blönduhlíð og konu hans Elínar Þorláksdóttur, dóttur Þorláks Skúlasonar Hólabiskups. Eftir lát manns síns fluttist Þrúður að Víðivöllum. Árið 1730 brá hún búi og fluttist suður að Hlíðarenda í Fljótshlíð og dó þar. Þau Björn og Þrúður voru barnlaus. Karlakór Reykjavíkur - Lög eftir Emil Thoroddsen og Björgvin Guðmundsson. Karlakór Reykjavíkur - Lög eftir Emil Thoroddsen og Björgvin Guðmundsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Hljóðritun fór fram í Háteigskirkju snemma árs 1975 undlr stjórn Péturs Steingrímssonar. Mynd á framhlið er af Emil Thoroddsen, en litmyndin er tekin af Gunnari Hannessyni. Eiður Gunnarsson - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld. Eiður Gunnarsson - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Á henni syngur Eiður Ágúst Gunnarsson, bassi fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar á píanó. Guðrún Á. Símonar og Guðmundur Jónsson - Guðrún Á. Símonar og Guðmundur Jónsson. Guðrún Á. Símonar og Guðmundur Jónsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Útsetningar og hljómsveitarstjórn: Ólafur Gaukur. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni hf. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Teikning á umslagi: Halldór Pétursson. Skagakvartettinn - Kátir voru karlar. Skagakvartettinn - Kátir voru karlar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaöur: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Ólafur Gaukur. Ljósmynd á framhlið umslags tók Kristján Magnússon. Hákon 7. Noregskonungur. Hákon 7. (Carl Danmerkurprins; fæddur Christian Frederik Carl Georg Valdemar Axel) (f. 3. ágúst 1872 – 21. september 1957) var fyrsti konungur Noregs eftir sambandsslitin við Svíþjóð árið1905. Hákon var sonur Friðriks 8. og Lovísu drottningar. Líf og fjölskylda. Hákon giftist þann 22. júlí 1896 Maud Bretaprinsessu, yngstu dóttur Alberts Játvarðs sem seinna varð Játvarður 7., og konu hans Alexöndru drottningar. Þau eignuðust einn son þann 2. júlí 1903 sem var skírður Alexander Edward Christian Frederik og varð Ólafur 5. Noregskonungur. Jóhann Magnús Bjarnason. Jóhann Magnús Bjarnason (24. maí 1866 – 8. september 1945) var íslenskur rithöfundur, skáld og kennari í Kanada. Jóhann var fæddur að Meðalnesi í Norður-Múlasýslu, en fluttist vestur um haf árið 1875. Hann dvaldist æskuár sín Markland, Halifaxfylki, í Nova Scotia. Æskuár hans urðu honum sú uppspretta sem hann notaði sér síðar meir þegar hann skrifaði fyrstu skáldsögu sína, Eiríkur Hansson (1899-1903). Þegar nýlendan í Markland leið undir lok árið 1882 fluttist hann til Winnipeg og þaðan til Nýja Íslands ("New Iceland"). Þar var hann lengi kennari. Hann skrifaði síðan meðfram kennslustörfum Brazilíufaranna (1905-1908) og Í Rauðárdalnum (1914-1922) ásamt fjölda smásagna, greina og ljóða. Reith fyrirlestrarnir. Reith fyrirlestrarnir eru árlegir útvarpsfyrirlestrar sem fluttir eru af forustumönnum hvers tíma, haldnir á vegum BBC og útvarpað á BBC Radio 4. Fyrsta fyrirlestrinum var útvarpað 1948. Þeir eru nefndir eftir fyrsta útvarpsstjóra BBC John Reith honum til heiðurs og er ætlað að vera upplífgandi og fræðandi. Grettir Björnsson - Grettir Björnsson - 1976. Grettir Björnsson - Grettir Björnsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Grettir Björnsson. Mertensfall. þar sem "M"("n") táknar summu "n" fyrstu liða Möbiusfallsins μ("k"). Tilgáta Mertens segir að tölugildi fallsins sé takmarkað af ferningsrótinni af "n", þ.e. en tilgátan var afsönnuð árið 1985. formula_3, Vítisenglar. Samkomustaður Vítisengla í New York Vítisenglar (enska: "Hells Angels") er samtök áhugafólks um vélhjól, og aka vanalega á Harley-Davidson vélhjólum. Félagsamtökin eru starfrækt í mörgum löndum, í Bandaríkjunum og Kanada eru þau skrásett sem fyrirtæki. Löggæsluyfirvöld víða um heim svo sem FBI hafa grun um að félagar samtakanna taki þátt í ólöglegri starfsemi svo sem ofbeldisverkum, vændi, peningaþvætti, sölu og dreifingu eiturlyfja og þýfis. Talsmenn samtakanna halda því fram að þeir séu fórnarlömb ofsókna á þann hátt að þó 1 % félaga taki þátt í ólöglegu athæfi þá séu hinir 99% látnir gjalda þess þó þeir séu löghlýðnir borgarar. Samtökin voru stofnuð árið 1948 í Fontana, Kaliforníu og fengu nafnið "Hells Angels" eftir 303 sprengjusveit í flugher Bandaríkjanna sem stofnuð var í byrjun seinni heimstyrjaldarinnar. Vítisenglar á Íslandi. Íslensk lögregluyfirvöld telja félagasamtökin skipulögð glæpasamtök og hafa nokkrum sinnum meinað norrænum vítisenglum að koma til Íslands. Lögregluyfirvöld telja að samtökin hyggist ná fótfestu hér á landi í gegnum vélhjólaklúbbinn Fáfni í Grindavík. För hóps norrænna Vítisengla til Íslands var stöðvuð í febrúar 2002. Talsmenn Fáfnis segja Vítisenglana þá hafa verið ferðamenn sem hugðu á ævintýraferð upp á Langjökul og skoða Gullfoss og Geysi og Bláa lónið. För átta norrænna Vítisengla var stöðvuð í nóvember 2007 er þeir hugðust sitja 11. ára afmælisfagnað Fáfnis í Reykjavík. Í Kanada eru litið á Vítisengla sem glæpasamtök. Róðukross. Róðukross frá aldamótum 15. og 16. aldar í St. Maríukikjunni í Toruń Róðukross er kross sem sýnir Jesú krossfestan og sker sig þannig frá venjulegum krossi. Róðukross er ein af helstu táknmyndum kristinnar trúar en er algengari á meðal kaþólikka en mótmælenda. Basar. Basar er á Íslandi ofast haft um útsölu eða markað á vörum til ágóða fyrir félag eða góðgerðastofnun. Basar getur þó líka átt við sölutorg eða borgarsvæði í Austurlöndum þar sem haldinn er markaður allan ársins hring, eins og t.d. Khan El-Khalili í Kaíró. Básar á Íslandi. Þegar fyrst var farið að halda básar á Íslandi, um miðja 19. öld, auglýsti "Þjóðólfur" ýringu fylgja: "Basar er eins konar bráðabirgðar-sölubúð, eða glysmarkaður fyrir ýmsa muni, sem menn safna saman áður með gjöfum, samskotum eða innkaupum, til að selja aftur og fá fé fyrir, sem þá er varið samkvæmt áður ákveðnu augnamiði". Tombóla. Tombóla er hlutavelta, oftast smá í sniðum og er oftast til styrktar einhverri góðgerðarstofnun. Hlutaveltan fer þannig fram að hlutir eru merktir og miðar með sömu tölum settir í ílát ásamt "núllmiðum". Að fá að draga miða kostar svo vissan pening, og annaðtveggja fær maður ekkert eða þann hlut sem er merktur sömu tölu og dregin var. Á Íslandi má oft sjá börn halda tombólu fyrir utan verslanir og eru þá oft að safna fyrir stofnanir eins og t.d. Rauða krossinn. Þegar tómbóla kom fyrst til Íslands, á sjöunda áratug 19. aldar útskýrði tímaritið "Þjóðólfur" tombólu þannig: "Tombólan er lukkuspil, vissir munir eru merktir tölum, og þær tölur aftur skrifaðar á miða; síðan eru miðarnir saman brotnir, og þeim blandað saman við óskrifaða miða. Síðan er allt látið í holar hjólöskjur með litlu rennuloki á, og þeim snúið alveg eins og hverfisteini, í milli þess sem menn draga miðana. Sá sem fær tóman miða, fær ekkert, en borgar þó fyrir að draga, t.d. 30 aura, en sá sem dregur tölu, hann fær þann hlut á tombóluborðinu, sem hefur sömu tölu og miðinn. Má þá nærri geta, að meðan t.d. sá fyrsti fær ekkert, dregur annar íleppa, þriðji þráðarspotta, fjórða kóngsdóttur o.s.frv." Lensport. Lensport er op á skipum sem staðsett er neðst á borðstokk (lunningu). Þau liggja nokkur meðfram öllu skipinu og út um það á vatn af þilfari að renna. Í stærstu veltum taka skip stundum inn á sig sjó inn um lensportin og veitir því út aftur ef allt er með felldu. Í grein í Morgunblaðinu 1962 sem fjallar um hvernig eigi að varast sjóslys, segir: "Skálkaðar lúgur, opin lensport, hæfileg ballest, skynsamleg hleðsla og varkár sigling er nauðsynleg varúðarráðstöfun til að koma í veg fyrir sjóslys". Ekki má rugla lensportum saman við lensingar eða neglugat. Efribyggð. Efribyggð er byggðarlag í Skagafirði, var áður í Lýtingsstaðahreppi. Efribyggð er ofan Neðribyggðar, undir Efribyggðarfjöllum. Bæir á Efribyggð í röð frá norðri til suðurs eru: Kolgröf, Álfgeirsvellir, Álfheimar, nýbýli úr Álfgeirsvöllum, Ytra-Vatn, Syðra-Vatn, Brekkukot (ekki í ábúð), Ytri-Mælifellsá og Mælifellsá. Efribyggðarvegur liggur eftir endilangri byggðinni. Landnámsmaðurinn Álfgeir nam Efribyggð og bjó á Álfgeirsvöllum. Norðurá í Skagafirði. Norðurá rennur eftir endilöngum Norðurárdal í Skagafirði og myndar víðáttumiklar eyrar á dalbotninum. Hún sameinast Héraðsvötnum neðan Flatatungu. Í hana falla margar þverár, sumar í hrikalegum giljum, og má nefna Kotá, Valagilsá, Horná, Heiðará, Grjótá, Króká, Stóralæk og Egilsá. Flatatunga. Flatatunga er bær á Kjálka í Akrahreppi. Tungan sem bærinn er kenndur við myndast milli Héraðsvatna og Norðurár. Flatatunga er landnámsjörð Tungu-Kára og gamalt stórbýli. Í Þórðar sögu hreðu er sagt frá skála sem Þórður smíðaði í Flatatungu og var löngum talið að Flatatungufjalirnar, útskornar fjalir frá 12. öld sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni Íslands, væru úr þeim skála. Aðrir hafa þó talið líklegra að þær séu úr kirkju, sennilega Hóladómkirkju. Aðeins örfáar fjalir hafa varðveist en þær eru hluti af stóru verki í býsönskum stíl sem sýndi dómsdag. Allmargar fjalir til viðbótar glötuðust er búrið í Flatatungu brann 1898. Flatatungufjalirnar þykja mjög merkar, enda eru þær líklega elstu myndir sinnar tegundar á Norðurlöndum, og hefur mikið verið skrifað um þær. Selma Jónsdóttir skrifaði doktorsritgerð sína, "Dómsdagurinn í Flatatungu" (1959), um fjalirnar, Kristján Eldjárn skrifaði um þær og Hörður Ágústsson skrifaði bókina "Dómsdagur og helgir menn á Hólum" (1989) um fjalirnar. Atlavík. Atlavík er vík í Lagarfljóti nálægt á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði. Hnýfill. Hnýfill (einnig nefnt kani eða kanni) er sá hluti bátsstefnis (oftast á seglbát) sem stendur upp fyrir borðstokkinn. Til er bæði "framhnýfill" og einnig "afturhnýfill". Þegar sjór ólgar og vont er í veðri getur framhnýfillinn stungist í kaf og báturinn tekið inn á sig. "Svíri" er hnýfill skips þar sem brandar og stál (sem er efsti hluti stafns eða skuts á stórskipum) koma saman efst og fremst á stafni. Stefni. Stefni (einnig kallað framstefni og stundum nef) er heiti á fremsta hluta skipsskrokks. Einnig er til "afturstefni", en það er skuturinn aftanverður (og þá oft í laginu eins og stefni). Stór (flutninga)skip hafa gjarnan perulaga stefni, s.k. "perustefni", sem minnkar eldsneytiseyðslu. Hvelja. Hvelja er „húð“ hvala og hrognkelsis. Undir hveljunni er ríkt spiklag og á henni er ekkert hreistur eins og á fiskum. Hvelja í þessari merkingu hefur þó ekkert með orðasambandið að "súpa hveljur" að gera. Hvelja í þeirri merkingu er marglytta, en þegar menn súpa hveljur þá er eins og þeir nái ekki andanum og séu að „drekka marglyttur“. Francois Rabelais. François Rabelais (fæddur kringum 1494, lést 9. apríl 1553) var franskur rithöfundur og læknir. Hann var munkur sem ungur maður, en tók seinna að nema læknisfræði og fornmálin. Hann er þekktastur fyrir bók sína Gargantúi og Pantagrúll sem kom út á íslensku í þýðingu Erlings E. Halldórssonar árið 1993. Andspyrna (hreyfing). Andspyrna er lauslegur hópur stjórnleysingja á Íslandi. Upphafsmaðurinn er Sigurður Harðarson, hjúkrunarfræðingur og pönk-söngvari, sem stofnaði vefsíðu Andspyrnu og bókasafn hennar. Engin skrá er haldin yfir meðlimi hópsins, en starfsemin felst í því að reka bókasafnið (sem er til húsa í en þar áður á ýmsum stöðum eins og Friðarhúsi, Kaffi Hljómalind og Tónlistarþróunarmiðstöðinni), selja bækur í distrói (bókamiðlun) Andspyrnu, þýða og gefa út bækur og bæklinga, sýna kvikmyndir og fleira. Melatorg. Melatorg er hringtorg í Reykjavík, þar sem Suðurgata sker Hringbraut. Við torgið stendur Þjóðminjasafn Íslands, og rétt við það eru Þjóðarbókhlaðan og Hólavallakirkjugarður. Suðurgata. Suðurgata er tengibraut í Reykjavík, sem liggur frá Túngötu í norðri til Skerjafjarðar í suðri, þar sem hún breytist í götuna Einarsnes. Við Suðurgötu eru Hólavallagarður og Stofnun Árna Magnússonar, auk þess sem segja má að Þjóðarbókhlaðan, Hótel Saga, Þjóðminjasafn Íslands og fleiri kennileiti standi við hana, þótt þau tilheyri öðrum götum. Hámarkshraði á Suðurgötu er 50 kílómetrar á klukkustund. Gatan er kennd við suðurátt vegna þess að hún liggur í suður frá gamla miðbænum, en áður en hún fékk þetta formlega nafn var hún kölluð ýmsum nöfnum, m.a. "Kirkjugarðsstræti" og var einnig nefnd "Kærleiksbraut" í hálfkæringi. Suðurhluti götunnar, sunnan Hringbrautar, hét upphaflega "Melavegur". Við Suðurgötu 2 stóð áður Dillonshús, eitt elsta hús Reykjavíkur. Þar er nú bílastæði. Túngata. Túngata er heiti á götu víða um land. Meðal bæja sem hafa Túngötu eru Vestmannaeyjabær, Reykjavík, Grenivík, Tálknafjörður, Patreksfjörður, Stöðvarfjörður, Sandgerði, Seyðisfjörður, Borgarnes, Álftanes, Siglufjörður, Eyrarbakki, Suðureyri, Reykjanesbær, Ísafjörður, Ólafsfjörður og Fáskrúðsfjörður. Í Reykjavík er Túngata kennd við Landakotstún. Hún liggur frá Suðurgötu í austri til Bræðraborgarstígs í vestri. Landakotskirkja, Landakotsskóli og Landakotsspítali standa við Túngötu, auk þess sem sendiráð Rússlands, Þýskalands og Frakklands eiga hvert sitt hús við hana. Hámarkshraði er 50 km/klst vestur að Hofsvallagötu en 30 km/klst þar fyrir vestan. Bræðraborgarstígur. Bræðraborgarstígur er gata í vesturbæ Reykjavíkur. Hann liggur milli Hringbrautar í suðri og Vesturgötu í norðri. Við hann er einkum íbúðarhúsnæði, sum húsin eru með þeim eldri í borginni. Gatan dregur nafn sitt af húsinu Bræðraborg (nú Bræðraborgarstígur 14), sem reist var af bræðrunum Bjarna og Sigurði Sigurðssyni frá Hæðarenda í Grímsnesi um 1880. Götuheitið kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1885. Ýmis bókaforlög hafa á síðari árum valið sér aðsetur á Bræðraborgarstíg. Bókaútgáfan Iðunn var á Bræðraborgarstíg 16 frá því um 1975-2000, Bjartur og Veröld eru nú á Bræðraborgarstíg 9 og Forlagið (JPV útgáfa, Mál og menning, Vaka-Helgafell og Iðunn) á Bræðraborgarstíg 7. Vesturgata. Vesturgata er gata í vesturbæ Reykjavíkur. Hún liggur frá Aðalstræti í austri til Ánanausta í vestri. Flest húsin við hana eru íbúðarhús, en þar eru einnig nokkur fyrirtæki. Hámarkshraði er 30 km/klst. Vesturgata heitir svo vegna þess að hún liggur í vesturátt frá miðbænum, en hét áður "Hlíðarhúsastígur", eftir kotinu Hlíðarhúsum sem forðum stóð við hana. Seinna hét hún "Læknisgata", sem kom til vegna húss sem landlæknir bjó í og stóð á Hlíðarhúsavelli (nú Ránargata 13). Læknisgötunafnið varð Vesturbæingum þó aldrei munntamt. Þeir kölluðu hana alltaf Hlíðarhúsastíg, eða "Stíginn", og Vesturgötu nafnið átti líka örðugt uppdráttar, því að langt fram yfir aldamótin 1900 töluðu menn um að fara "vestur á Stíg". Hofsvallagata. Hofsvallagata er tengibraut í vesturbæ og á Melunum í Reykjavík. Hún liggur frá Túngötu í norðaustri til Ægisíðu í suðvestri. Hámarkshraði á henni er 50 km/klst. Sundlaug Vesturbæjar er við Hofsvallagötu, einnig Melabúðin, og verkamannabústaðir og fleira íbúðarhúsnæði. Melarnir. Melarnir eru íbúðahverfi í Reykjavík. Þeir eru kenndir við meli sem voru þar áður en hverfið var byggt. Göturnar sem heyra undir Melina heita flestar „-melur“, svo sem Víðimelur, Reynimelur, Grenimelur og Hagamelur. Melaskóli þjónar grunnskólabörnum hverfisins. Austan við Birkimel er Þjóðarbókhlaðan, en þar sem hún stendur nú var áður Melavöllurinn. Höfðahverfi. Höfðahverfi er íslensk sveit, liggur að Eyjafirði en tilheyrir Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er kennt við Höfðann, sem stendur við fjörðinn og sést hvaðanæva að úr sveitinni. Þorpið Grenivík er í Höfðahverfi, og margir bóndabæir, svo sem Grýtubakki, Lómatjörn, Hléskógar og Höfði. Þengill mjögsiglandi nam þar land, segir Landnámabók, og er höfðinn kenndur við hann. Skotfélag Reykjavíkur. Skotfélag Reykjavíkur ("Reykjavig Skydeforening") var fyrsta íþróttafélag á Íslandi. Það var stofnað 1867. Skothúsvegur í miðbæ Reykjavík dregur nafn sitt af æfingahúsi þess. Æfingahús þeirra nefndu þeir "Reykjavig Skydeforenings Pavillon", en það gekk ávallt undir nafninu "Skothúsið". Tengill. Reykjavík Longyearbyen. Longyearbyen (eða Longyearbær) er aðal þéttbýlissvæðið á eyjaklasanum Svalbarða. Þar er einnig sýslumannssetur og höfuðstöð norskra yfirvalda á eyjunum. Bærinn er á eyjunni Spitsbergen, sem er stærsta eyjan í klasanum. Íbúar Longyearbyen eru um 2 000. Bærinn dregur nafn af John Munroe Longyear, sem var aðaleigandi bandarísks kolanámufélags. Jón Vilhjálmsson Craxton. Jón Vilhjálmsson Craxton (d. um 1440) var biskup á Hólum 1425 – 1435 og biskup í Skálholti 1435 - 1437. Jón Vilhjálmsson mun hafa verið enskur munkur, en Björn Þorsteinsson sagnfræðingur telur að hann hafi verið af norskum ættum og haft vald á norrænni tungu. Marteinn 5. páfi skipaði hann Hólabiskup 1425, og var hann vígður 1426 í kirkjunni Santa Maria sopra Minerva í Róm. Veitingargjaldið fyrir biskupsembættið var 240 flórínur, en auk þess þurfti biskup að inna af hendi árlegar greiðslur. Sjá páfabiskupar. Jón biskup kom til Íslands 1427, tók land í Hafnarfirði og reið með enskum fylgdarmönnum sínum til alþingis þar sem hann lagði fram embættisbréf sín. Norðlendingar tóku honum ekki vel og fór hann ekki norður að Hólum. Hann kom í Skálholt, þar sem var biskupslaust, vígði þar fjóra presta og nokkra djákna og sigldi aftur til Englands samsumars. Jón biskup kom aftur frá Englandi 1429, tók við Hólastól og söng biskupsmessu í ágúst. Árið 1431 kom enskt skip, Bartholomeus, í Skagafjörð, fóru skipverjar með ránum um sveitir þar til bændur risu upp og börðust við Englendinga við Mannskaðahól á Höfðaströnd. Féllu margir af Englendingum en hinir flýðu til Hóla á náðir biskups. Tók Jón biskup við þeim með þeim skilmálum að þeir gæfu Hóladómkirkju helminginn í skipi sínu og seldu biskupi hinn helminginn. Komust þeir úr landi undir vernd biskups, enda gætti hann hagsmuna Englendinga hér (sjá Enska öldin). Björn Þorsteinsson segir að Jón Vilhjálmsson hafi verið mikill embættismaður, lærður kirkjuhöfðingi og vel að sér í lögum. Hann lenti brátt í átökum við helstu klerka nyrðra, meðal þeirra voru Jón Pálsson Maríuskáld á Grenjaðarstað og Þorkell Guðbjartsson í Laufási og Múla í Aðaldal. Bannsöng biskup Jón Pálsson og tók af honum staðinn. Um 1432 tókst Jóni biskupi að lægja þessar deilur og koma á sæmilegri reglu, m.a. með stuðningi Lofts ríka Guttormssonar á Möðruvöllum. Hann mun hafa efnt til kórsbræðrasamkundu á Hólum, sem var með í ráðum við stjórn biskupsdæmisins. Jón biskup er talinn hafa stýrt Hólabiskupsdæmi höfðinglega. Hann hvarf af landi brott 1433 eða 1434. Hinn 5. janúar 1435 er Jón Vilhjálmsson staddur í Flórens og veitir Eugenius 4. páfi honum þar lausn frá biskupsstörfum á Hólum, og lætur hann fá Skálholt í staðinn, þar sem verið hafði biskupslaust. Jón mun hafa talist biskup þar í tvö ár, en kom þó ekki til Íslands. Hann kom til Englands vorið 1436 og lenti þar í fjárkröggum. Í desember 1436 er hann í Lundúnum og ganga þá tveir menn í ábyrgð fyrir skuldum hans. Hafði hann fengið leyfi konungsins, Hinriks VI, til þess að senda skip til Íslands að sækja varning til lúkningar skuldum sínum. Árið 1437 var annar maður skipaður Skálholtsbiskup að frumkvæði dansk-norsku stjórnarinnar, Gozewijn Comhaer. Voru þá úti draumar Jóns Vilhjálmssonar um að taka við því embætti. Dvaldist hann við þverrandi hag á Englandi og er talið að hann hafi andast þar um 1440. Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt bréfabók Jóns biskups Vilhjálmssonar, og er hún elsta bréfabók íslensk sem til er. Hún er í frumriti á skinni og er gagnmerk sagnfræðileg heimild. Bókin er að mestu með rithönd Jóns Egilssonar, sem var ritari Jóns biskups. Einar Þorsteinsson. Einar Þorsteinsson (f. 21. febrúar 1633, d. 9. október 1696) var biskup á Hólum frá 1692 til dauðadags, 1696, eða í rúm 4 ár. Foreldrar Einars voru Þorsteinn Tyrfingsson (um 1595–1645) prestur í Hvammi í Norðurárdal, og kona hans Jórunn Einarsdóttir (um 1600–1678) frá Melum í Melasveit. Einar Þorsteinsson fæddist í Hvammi í Norðurárdal og ólst þar upp. Hann lærði undir skóla hjá séra Þórði Jónssyni í Hítardal, var tekinn í Hólaskóla 1645 og varð stúdent þaðan 1649. Var síðan eitt ár djákni á Reynistað og tvö ár í þjónustu Henriks Bjelkes, fór með honum utan 1650. Skráður í Kaupmannahafnarháskóla í desember 1652 og varð attestatus í guðfræði vorið 1654. Kom heim um sumarið og varð heyrari (þ.e. kennari) í Hólaskóla í 2-3 ár og síðan skólameistari í þrjú ár. Fékk Múla í Aðaldal 1660 (tók við staðnum vorið 1662) og var prestur þar til 1692. Einar fór til Kaupmannahafnar haustið 1691 og fékk veitingu konungs fyrir biskupsdæminu. Vígður 13. mars 1692, kom heim um vorið og tók við Hólastól í lok júní. Páll Eggert Ólason segir um Einar: "Hann var talinn vel að sér í andlegum og veraldlegum efnum, glaðlyndur og gestrisinn, stjórnsamur og auðgaðist vel, en þó vel látinn." Engin prentsmiðja var á Hólum í tíð Einars Þorsteinssonar. Engin mynd eða málverk er til af Einari Þorsteinssyni, en legsteinn með grafskrift hans er í Hóladómkirkju. Einar Þorsteinsson var tvígiftur. Kona 1 (gift 1664): Ingibjörg Gísladóttir (f. um 1642, d. 8. júní 1695), dóttir Gísla Brynjólfssonar prests á Bergsstöðum í Svartárdal og konu hans Sesselju Grímsdóttur. Þau áttu 11 börn sem upp komust, meðal þeirra voru: Guðrún Einarsdóttir (1665–1752) kona Jóns Árnasonar biskups í Skálholti, Gísli eldri Einarsson (1666–1724) prestur í Múla eftir föður sinn, Guðríður Einarsdóttir (f. 1669) kona Jóns Jónssonar Thorlaciusar sýslumanns, Sigurður Einarsson (1673–1748) lögsagnari á Geitaskarði, Nikulás Einarsson (1673–1707) sýslumaður á Reynistað, Gísli yngri Einarsson (1678–1747) prestur á Auðkúlu í Svínadal, og sex önnur, þar af dóu fjögur úr stórubólu 1707. Kona 2 (gift 1696): Ragnheiður Jónsdóttir (1646 – 10. apríl 1715), dóttir Jóns Arasonar prests í Vatnsfirði og ekkja Gísla Þorlákssonar biskups. Einar dó tæpum mánuði eftir brúðkaupið. Þau Einar og Ragnheiður voru barnlaus. Fegurð. Fegurð er hugtak, sem á við upplifun athuganda á fyrirbæri, sem veldur ánægju- eða nautnatilfinningu, t.d. náttúrufyrirbæri, myndlistarverk, tónverk eða skáldverk. Fegurð er viðfangsefni fagurfræðinnar, félagsfræðinnar og félagssálfræði. Prentun. Prentun er það að þrykkja bleki (prentsvertu) í mynd leturs, mynda o.s.frv. og láta það koma fram, oftast á pappír. Madeleine McCann. Madeleine McCann (fædd 12. maí 2003 í Leicester) er stúlka sem hvarf af hótelherbergi 3. maí árið 2007 á Praia da Luz í Algarve, Portúgal, þá tæpra fjögurra ára gömul. Hún var þar ásamt foreldrum sínum og systkinum. Talið er fullvíst að henni hafi verið rænt meðan hún svaf í herbergi með systkinum sínum, sem eru tvíburar, en foreldrar þeirra höfðu skilið börnin eftir stutta stund meðan þau héldu niður á veitingastað nokkra tugi metra í burtu frá herberginu. Portúgalska lögreglan ásakaði foreldrana um að hafa myrt hana og lagði talsvert á sig til að reyna að sanna það, en án árangurs. Madeleine fundin? 28. júlí 2011 bárust fréttir frá Indlandi þess efnis að 8 ára stúlka hefði sést með franskri konu og belgískum karlmanni, sem fullyrða að þau séu foreldrar hennar. Fjöldi ferðamanna efaðist um það og taldi stúlkuna vera Madeleine. Lögregla var kölluð til og blóðsýni var tekið úr stúlkunni til DNA greiningar. Niðurstöðu er beðið. Sagnaritun. Sagnaritun er annars vegar sú iðja kölluð að safna sögum og varðveita með skriflegum hætti; hins vegar getur sagnaritun einnig verið það að skrifa sögu í skilningi sagnfræðinnar, það er að segja að setja saman upp heildstæða frásögn af atburðum upp úr heimildum, annaðhvort frumheimildum eða stoðheimildum. Söfnun frásagna. Sögurnar, sem sagnaritarar safna, hafa oft varðveist í munnlegri geymd, það er að segja gengið manna á millum í endursögn, oft yfir langt tímabil. Þær tengjast gjarnan ákveðnum landsvæðum og geta fjallað um þjóðtrú, atburði, gengið fólk, örnefni og svo framvegis. Einn best þekkti íslenski sagnaritarinn var Jón Árnason sem safnaði þjóðsögum sem oft hafa verið gefnar út undir nafninu Þjóðsögur Jóns Árnasonar, fyrst 1862. Rósa (Sjálfstætt fólk). Rósa er persóna í bókinni Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, og er hún fyrsta kona Bjarts í Sumarhúsum. Hún deyr við það að fæða dóttur sína Ástu Sólliju, sem hún hafði eignast með Ingólfi en Bjartur ól hana samt upp. Hún er talin vera með hjartveiki, og félagsfælni eftir því sem að líður á söguna. Hún felur sig þegar fólk kemur í heimsókn sérstaklega þegar Ingólfur er með í för. Heilsa hennar fer hrörnandi og hún sofnar mjög mikið á afskekktum stöðum, gæti það talið til þess að hún henti (gaf) ekki Gunnvör stein þegar hún fór þar frammhjá eða hvort að það væri Bjarti að kenna, vegna einræðisherravalds hans. Grímsstaðaholt. Grímsstaðaholt er hverfi í Reykjavík. Það er fyrir sunnan Melana og Hagana og vestan við Skerjafjörð og Reykjavíkuflugvöll. Fálkagata, Þrastargata, Smyrilsvegur og suðausturendi Hjarðarhaga teljast vera í Grímsstaðaholti, en á sjálfu holtinu er VR-III, hús verkfræði- og raunvísindanema í Háskóla Íslands. Holtið nefndist áður Móholt og dró nafn sitt af því að þar þurrkuðu Reykvíkingar mó sinn. Árið 1842 var fyrsta býlið reist á þessum slóðum. Þá kom Grímur Egilsson sér upp bæ og nefndi Grímsstaði. Stóð hann þar sem vesturendi Fálkagötu er nú. Varð það til þess að farið var að kenna holtið við býlið. Karl Gústaf Stefánsson. Karl Gústaf Stefánsson (eða Karl Gustaf Stefanson eða Karl G. Thorson eða Charles Thorson) (29. ágúst 1890 – 7. ágúst 1966) var íslensk-kanadískur skopmyndateiknari og starfaði lengi hjá Walt Disney. Hann myndskreytti einnig margar barnabækur. Karl var Vestur-Íslendingur, skírður "Karl Gústaf Stefánsson". Foreldrar hans voru Stefán Þórðarson (Stephen Thorson) Jónssonar frá Bryggju í Biskupstungum, sem flutti vestur um haf 1886, og Sigríður Þórarinsdóttir frá Ásakoti í Biskupstungum. Bróðir Charles var Joseph Thorson, fyrrverandi dómari, forseti hæstaréttar og ráðherra í Ottawa. Karl hóf störf hjá Walt Disney í Hollywood árið 1934. Hjá þeim vann hann að mörgum teiknimyndum, meðal annars að myndinni: Mjallhvít og dvergarnir sjö. Meðan hann starfaði hjá Walt Disney teiknaði hann margar „dýrapersónur“. Sú frægasta þeirra er Kalli kanína ("Bugs Bunny"). Karl starfaði einnig fyrir Metro Goldwyn Mayer, Warner Brothers o.fl. Á þessum árum skapaði Karl fleiri en 100 teiknimyndapersónur, m.a. fílinn "Elmer", tígrisdýrið "Tilly", Indíánadrenginn "Hiawstha" og elginn "Sniffles". Hólavallagarður. Hólavallagarður (oft kallaður "Suðurgötukirkjugarður" eða "Hólavallakirkjugarður") er stór kirkjugarður í vesturbæ Reykjavíkur. Fyrst var grafið í hann árið 1838 og er hann stærsti íslenski kirkjugarðurinn frá 19. öld. Hann tók við af kirkjugarði Víkurkirkju sem var þar sem nú er torg, oft nefnt fógetagarðurinn, á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Að honum liggja Suðurgata í austri, Hringbraut í suðri, Ljósvallagata í vestri og Hólatorg og Kirkjugarðsstígur í norðri. Elsti hlutinn er sá sem er næstur miðbænum, norðausturhornið. Nærri garðinum miðjum er klukknaport. Þegar búið var að úthluta öllum gröfum í garðinum árið 1932 tók Fossvogskirkjugarður við sem aðalkirkjugarður borgarinnar. Enn er þó stundum grafið í honum, í gamla fjölskyldugrafreiti sem hafa verið fráteknir lengi. Árið 2003 voru 28 grafnir þar, ýmist í kistum eða duftkerjum. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma sjá um garðinn. Hann þjónar einnig sem grenndarskógur fyrir Melaskóla. Legsteinar og krossar í garðinum eru eins fjölbreyttir og við má búast eftir tæpra tveggja alda notkun. Sumir steinarnir eru mjög stórir og veglegir, og bera menningarsögu Íslendinga vitni. Gróðurfar í garðinum er einnig fjölbreytt; þar er að finna á annað hundrað tegunda af jurtum og trjám, sem sýna m.a. hvað fólki hefur þótt við hæfi að gróðursetja á leiði fyrr á tíð. Má þar meðal annars finna mikið af greni, hlyn, björk og reyni, það elsta síðan á millistríðsárunum. Samkvæmt deiliskipulagi Reykjavíkurborgar frá 2003 fellur garðurinn undir hverfisvernd. Hún telst ekki vera formleg friðlýsing, en skoðast sem viljayfirlýsing borgaryfirvalda um að varðveita garðinn og að fara varlega við breytingar á honum. Fyrir utan tvær stækkanir á 19. og 20. öld, hefur garðinum lítið verið breytt. Um aldamótin 2000 voru megingangstígar hellulagðir og ljósker sett upp til viðbótar við nokkra ljósastaura sem þar voru fyrir. Krossar og grindverk úr járni setja svip sinn á garðinn, en hann mun vera einn fárra kirkjugarða í Evrópu þar sem slíkt var ekki tekið niður og brætt upp til hergagnaframleiðslu í stríðum 20. aldar. Múrinn sem umlykur Hólavallakirkjugarð þykir einnig merkur; hann er að hluta til hlaðinn en að hluta til steyptur. Lítið hefur verið hróflað við elsta hluta garðsins, og telst það ólíkt því sem gerist í öðrum gömlum norrænum kirkjugörðum, þar sem elstu hlutarnir eru gjarnan sléttaðir. Listfræðingurinn Björn Th. Björnsson kallaði Hólavallagarð „stærsta og elsta minjasafn“ Reykjavíkur í bókinni "Minningarmörk í Hólavallagarði" og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hefur tekið í sama streng. Hann er heimild um list- og táknfræði, persónusögu og ættfræði og stefnur í byggingarlist, minningarmörkum, garðyrkju og handverki. Lágmyndir af hinum látnu eru á þónokkrum legsteinum, margar þeirra eftir myndhöggvarana Einar Jónsson og Ríkarð Jónsson. Garðurinn var tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005. Gungnir. Gungnir nefndist geir Óðins. Nafnið merkir "hið skjálfandi spjót". Með því helgaði hann sér hina föllnu. Steinunn Kristín Þórðardóttir. Steinunn Kristín Þórðardóttir (Steinunn Kristin Thordardottir), fædd 9. apríl 1972 í Reykjavík, er framkvæmdastjóri Glitnis banka í London, og varamaður í stjórn Glitnir Bank ASA í Noregi og Glitnis sjóða á Íslandi. Hún situr einnig í framkvæmdastjórn Bresk-íslenska viðskiptaráðsins og er ennfremur í stjórn óháðu þróunar og mannúðarsamtakanna, ICEAID. Steinunn útskrifaðist með BA gráðu í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálum frá University of South Carolina 1995 og hlaut síðan MBA gráðu frá Thunderbird School of Global Management í Arizona 1999. Steinunn starfaði í eignastýringardeild Glitnis (þá Íslandsbanka) frá 1995-97 og síðan í alþjóðadeild bankans en fór síðan til starfa hjá Enron Corporation í Bandaríkjunum og Evrópu. Steinunn sneri aftur til Íslands 2001 og var ráðin á alþjóðasvið Glitnis (þá Íslandsbanka), og varð í ágúst 2003 forstöðumaður alþjóða lánveitinga. Í nóvember 2005 var Steinunn síðan útnefnd framkvæmdastjóri Gliltnis banka í Bretlandi og suður Evrópu, fyrst kvenna til að stýra íslenskri fjármálastofnun erlendis. Zac Efron. Zachary David Alexander Efron (f. 18. október 1987) er bandarískur leikari og söngvari. Hann byrjaði að leikferil sinn árið 2000 og varð þekktur meðal yngri áhorfenda eftir að hafa leikið í Disney Channel bíómyndinni "High School Musical" og Warner Bros sjónvarpsþáttunum "Summerland". Hann lék einnig í "Link Larkin" og í kvikmyndinni "Hairspray". Árið 2008 lék hann í "Seventeen" sem Miki O'Donnell, "Footloose" sem Ren McCormick og "High School Musical 3" sem Troy Bolton. Efron á í ástarsambandi við Vanessu Anne Hudgens. (síðast staðfest í september 2008 þar sem þau voru trúlofuð) Helgi M. Bergs. Helgi M. Bergs ("Helgi Már Helgason Bergs") (f. 21. maí 1945) er lektor við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Helgi er með meistarapróf í Hagfræði. Hann kennir viðskipta og hagfræði greinar og hefur gengt stöðu lektors frá árinu 1991. Helgi starfaði einnig á sínum tíma sem staðgengil deildarforseta viðskiptadeildar þegar hún var sér deild og var bæjarstjóri á Akureyri á árununum 1976 til 1986 eða í tvö og hálft kjörtímabil. Hefur hann hann einnig sett ýmis Íslandsmet og þá sérstaklega í svokölluðu fallstökki. Helga er mjög illa við Texas Instruments reiknivélar eftir að nemendur fóru að ná prófum hjá honum með tilkomu reiknivélanna. Ekki má rugla honum við Helga Þór Bergs sem gengdi stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka. Helgi gengdi störfum sem sérfræðingur hjá Fiskifélagi Íslands árunum 1974-1976 og sem framkvæmdarstjóri Kaffibrennslun Akureyrar hf. á árunum 1986-1990. Hot Chip. Hot Chip er ensk rafpopp-hljómsveit sem var stofnuð árið 2000. Hún hefur gefið út þrjár breiðskífur og er sú fjórða í bígerð. Saga. Hljómsveitin var stofnuð árið 2000 en þeir Alexis Taylor og Joe Goddard höfðu áður unnið saman. Árið 2003 skrifuðu þeir undir plötusamning við Moshi Moshi-útgáfufyrirtækið en áður hafði sveitin gefið út efni sitt sjálfstætt. Fyrsta platan, „Coming on Strong“, kom út ári seinna og hafist var handa við plötugerð að nýju. Þá skarst útgáfufyrirtækið DFA Records í leikinn og gáfu út fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar seint á árinu 2005. Árið eftir, 2006, kom út önnur breiðskífa Hot Chip, „The Warning“. Nú var sveitin komin á samning hjá EMI á Stóra-Bretlandi og hlaut nokkra hylli almennings sem og gagnrýnenda. Platan var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna sama ár og hlaut titilinn "breiðskífa ársins" hjá Mixmag. Tvö lög komust inn á Topp-40 vinsældalistann; „Over and Over“, sem vermdi sæti í mars 2006, og „And I was a Boy from School“, sem naut vinsælda í maí sama ár. "Over and Over" hlaut athygli fyrir tónlistarmyndbandið, sem var leikstýrt af Nima Nourivadeh, og var útnefnt sem besta smáskífa ársins 2006 af breska tónlistartímaritinu NME. Hot Chip hefur komið fram á tónlistarhátíðum á borð við Dour Festival, Glastonbury, Sónar, Benicassim, Electric Picnic, Bestival, Lovebox, Reading and Leeds Festivals, Summer Sundae festival, Big Day Out og Iceland Airwaves. Nýjasta afurð hljómsveitarinnar, breiðskífan „Made in the Dark“, kom út í febrúar 2008 en upphaflega átti hún að koma út 2007. Tvö lög af plötunni komu út á MySpace og það þriðja hefur einnig verið leikið á tónleikum. Fred Folsom. Fred Folsom (f. 1945) er bandarískur myndlistarmaður. Hann fæddist í Washington. Fred stundaði nám á árunum 1964-1967 í Pratt Institute í New York, en einnig í School of Visual Arts í sömu borg (1967). Árið 1969 stundaði hann nám í Corcoran School of Art í fæðingarborg sinni Washington. Fred hefur sérhæft sig í að mála neðanmálsfólk af miklu raunsæi (jafnvel ofurraunsæi). Tengill. Folsom, Fred Ljósvallagata. Ljósvallagata er íbúðagata í Vesturbænum í Reykjavík. Hún liggur frá mótum Sólvallagötu og Hólatorgs suður að Hringbraut og er Birkimelur hálfgert framhald hennar. Einstefna er í norðurátt og hámarkshraði 30 km/klst. Vestan við götuna eru allgömul fjölbýlishús í sambyggðri röð en austan hennar er vesturhlið Hólavallakirkjugarðs. Sólvallagata. Sólvallagata er íbúðagata í Vesturbænum í Reykjavík. Hún liggur frá Hólatorgi og Ljósvallagötu í suðaustri til Ánanausta í norðvestri. Hámarkshraði er 30 km/klst; hún er tvístefnugata vestur að Hofsvallagötu, einstefna er til norðvesturs frá Hofsvallagötu til Bræðraborgarstígs og einstefna í suðaustur milli Bræðraborgarstígs og Ánanausta. Við hana standa bæði einbýlishús, tvíbýlishús, raðhús og fjölbýlishús. Á horni Sólvallagötu og Framnesvegar stendur Vesturbæjarskóli. Ánanaust. Ánanaust er gata í Reykjavík. Þau liggja frá meðfram sjónum Hringbraut í suðvestri til Mýrargötu í norðaustri. Landmegin við götuna eru nokkur íbúðarhús og fyrirtæki, og sjávarmegin eru allstór skólpdælustöð, bensínstöð og ein móttökustöð Sorpu. Eins og Snorrabraut var gatan upphaflega hluti af Hringbraut. Skíðblaðnir. Skíðblaðnir er skip í Norrænni goðafræði í eigu Freys. Skíðblaðnir er best allra skipa og gert með mestum hagleik. Það er svo mikið, að allir æsir mega skipa það með vopnum og herbúnaði, og hefur byr, þegar segl er dregið, hvert er fara skal. En þá er eigi skal fara með það á sæ, má vefja það saman sem dúk og hafa í pungi sínum. Frá þessu segir í Skáldskaparmálum eftir Snorra Sturluson. Mýrargata. Mýrargata er gata í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún er sjálfstætt framhald á Geirsgötu og liggur frá Ægisgötu í austri, vestur meðfram Reykjavíkurhöfn til Ánanausta. Við hana eru nokkur íbúðarhús, en aðallega fyrirtæki. Stærsti slippurinn í Reykjavík var lengi rekinn þar norðan götunnar (við vesturhöfnina) og þar er einnig dreifingarstöð Íslandspósts fyrir Vesturbæ og miðbæ. Hámarkshraði er 50 km/klst og er gatan tvístefnugata. Fyrirætlanir eru uppi um að leggja Mýrargötu í stokk á kafla, rífa allmörg stór hús og byggja íbúðahverfi á svokölluðum Mýrargötureit. Séstvallagata. Séstvallagata er ímynduð gata í Vesturbænum í Reykjavík. Svo snemma sem á fjórða áratug 20.aldar voru göturnar Ljósvallagata, Sólvallagata og Ásvallagata og fleiri "„-vallagötur“" uppnefndar svo. Brávallagata kann aftur á móti að vera kveikjan að uppnefninu, en hún liggur á bak við Elliheimilið Grund og verkamannabústaðina og „sést“ því varla. Einnig voru til uppnefnin "Finnstvallagata" og "Ervallagata". Hagatorg. Hagatorg er hringtorg í Reykjavík og liggur þar sem Melarnir og Hagarnir mæta háskólasvæðinu. Að Hagatorgi liggja Birkimelur, Guðbrandsgata, Brynjólfsgata, Dunhagi, Fornhagi, Neshagi og Espimelur. Þótt hringtorg sé, er hringurinn nokkuð óreglulegur í laginu. Umhverfis torgið raða sér bensínstöð Skeljungs, Hótel Saga, Háskólabíó, Hagaskóli, Neskirkja, Melaskóli og eitt stórt fjölbýlishús. Auk þess eru nokkrar höggmyndir, m.a. stytta Ólafar Pálsdóttur, „Tónlistarmaðurinn“ af Erling Blöndal Bengtssyni sellóleikara. Hringtorgið sjálft er grasi vaxið. Gamli Vesturbærinn. Gamli Vesturbærinn er gróið hverfi í vestanverðri Reykjavík. Hann afmarkast af Hringbraut í suðri og Suðurgötu, Kirkjugarðsstíg og Garðastræti, Vesturgötu, Norðurstíg og Geirsgötu í austri, og strandlengjunni í vestri og norðri. Mörg af elstu húsum borgarinnar eru í gamla vesturbænum, og meðal helstu gatna má nefna Vesturgötu, Ægisgötu, Öldugötu, Stýrimannastíg, Hofsvallagötu, Sólvallagötu, Bræðraborgarstíg, Framnesveg og Ánanaust. Efst á Landakotshæðinni eru smágöturnar Hrannarstígur, Marargata og Unnarstígur. Eitt helsta einkenni gamla vesturbæjarins er Landakotstún -- með kirkju, skóla og spítala, sem voru öll stofnuð af Rómversk-kaþólsku kirkjunni og rekin af henni enn í dag, fyrir utan spítalann, sem ríkið tók yfir á tíunda áratugnum. Meðal annarra áberandi einkenna má nefna Hólavallakirkjugarð og vesturhöfn Reykjavíkurhafnar. Tveir barnaskólar eru nú í vesturbænum, Landakotsskóli sem áður var nefndur og Vesturbæjarskóli. Áður fyrr var Stýrimannaskólinn einnig þar, í miklu timburhúsi við suðurenda Stýrimannastígs, þar sem seinna var rekinn Gamli Vesturbæjarskólinn. Mikið er til ritað um mannlíf og sögu vesturbæjarins nú og áður. Má benda á bókina "Gvendur Jóns og ég" eftir Hendrik Ottósson, en hún geymir mikinn og lipurlega skrifaðan fróðleik um uppvöxt drengs í vesturbænum upp úr aldamótunum 1900. Kirkjugarðsstígur. Kirkjugarðsstígur er lítil, stutt og brött gata í vesturbæ Reykjavíkur. Eins og nafnið bendir til liggur hann að Hólavallakirkjugarði, nánar tiltekið norðanverðum, frá Suðurgötu í austri til gatnamóta Hólatorgs og Garðastrætis í vestri. Honum tilheyra 4 hús, númeruð 2-8, og eru öll gömul. Gatan er einstefna til vesturs og er hámarkshraði 30 km/klst. Garðastræti. Garðastræti er alllöng gata í vesturbæ Reykjavíkur. Það byrjar í norðri við Vesturgötu og liggur suður að Hólavallakirkjugarði og gatnamótum Hólatorgs og Kirkjugarðsstígs. Garðastræti markar austurmæri gamla vesturbæjarins, annars vegar við Grjótaþorp milli Vesturgötu og Túngötu, en hins vegar við hinn eiginlega miðbæ Reykjavíkur frá Túngötu og suður að kirkjugarðinum. Sendiráð Rússlands og Kanada standa við Garðastræti og sendiráð Kína á einnig hús þar. Þar eru einnig Hallveigarstaðir, hús Geðhjálpar og nokkur fyrirtæki. Nafn sitt dregur gatan af löngum túngörðum sem lágu meðfram henni vestaverðri fram á tuttugustu öld. Þeir afmörkuðu Hólavöll og Landakotstún á meðan landbúnaður var stunaður í kring um Reykjavík. Grjótaþorp. Grjótaþorp er hverfi í Reykjavík og telst vera fyrsta úthverfi hennar. Það afmarkast af Aðalstræti, Túngötu, Garðastræti, og Vesturgötu. Húsaskipan og lega gatna eru nokkuð óregluleg, enda náði bæjarskipulag Reykjavíkur ekki yfir Grjótaþorp fyrr en eftir að stór hluti þess var þegar byggður. Meðal sögufrægra húsa í Grjótaþorpi má telja Hlaðvarpann, Unuhús og hús Sögufélags. Í austurjaðri Grjótaþorpsins, við Aðalstræti, stóð auk þess kvikmynda- og samkomuhúsið Fjalakötturinn. Saga Grjótaþorpsins. Grjótaþorpið er nefnt eftir bæ sem nefndist Grjóti og var upphaflega hjáleiga frá Vík og er þannig talið í Jarðabókinni. Fyrir norðan bæinn var Grjótatún. Þegar farið var að byggja Dómkirkjuna, var grjótið til hennar rifið upp úr Grjótatúni og það ónýtt. Komu þar þá kálgarðar. Um miðbik 18. aldar var komið þarna bæjarhverfi sem nefndist Grjótaþorpið. Heimir Þorleifsson sagnfræðingur hefur sagt að Grjótaþorp sé fyrsta úthverfi Reykjavíkur. Það heyrði ekki beinlínis undir þorpið Reykjavík og byggðin þar er því sundurleitari og handahófskenndari en gamli bærinn almennt. Ekki má gleyma að nefna Vinaminni (Mjóstræti 3) meðal sögufrægra húsa í Grjótaþorpi. Þar rak Sigríður Einarsdóttir (sem reisti húsið), kona Eiríks Magnússonar bókavarðar, kvennaskóla veturinn 1891 til 1892. Síðar voru bæði Verslunarskólinn og Iðnskólinn settir á koppinn í þessu húsi. Fullyrðing Heimis Þorleifssonar sagnfræðings í þá veru að Grjótaþorp sé fyrsta úthverfi Reykjavíkur er nokkuð hæpin. Gæta ber þess að Grjótaþorp stendur aðeins steinsnar frá Innréttingum Skúla fógeta en þær teljast upphaf þéttbýlismyndunar í Reykjavík. Grjótaþorp er því frá fyrstu tíð hluti þess þorps, sem kennt er við landnámsjörð Ingólfs Arnarsonar. Hingað til hefur verið talað um Skuggahverfi, sem fyrsta úthverfi Reykjavíkur. Stílbrot. Stílbrot er þegar skyndilega er skipt um stíltegund. Oftast er það til lýta. Stundum eru stílbrot þó notuð af rithöfundum til að ná fram vissum áhrifum og jafnvel stugga við lesanda eða áheyranda. Til þess þarf töluverða færni. Aðalstræti. Aðalstræti er gata í miðbæ Reykjavíkur og er elsta og kannski sögufrægasta gata borgarinnar. Aðalstræti teygir sig frá mótum Túngötu og Suðurgötu í suðri til Vesturgötu til norðurs. Upp af Aðalstræti til vesturs gengur Grjótagata, Brattagata og Fischersund. Upprunalega í hinum danska Víkurbæ gekk Aðalstræti undir nöfnunum "Hovedgaden" eða "Adelgaden". Saga. Við Aðalstræti norðanvert eru elstu þekktu mannvistarleifar sem fundist hafa á Íslandi, rústir skála sem er talinn vera frá árabilinu 868-874 og þykir ekki ólíklegt að sé hin upprunalega Vík (eða Reykja-Vík) þar sem Ingólfur Arnarson nam land. Rústirnar voru grafnar upp veturinn 2001, og eru nú til sýnis almenningi í þar til gerðum kjallara. Gatan dregur nafn sitt af því að þegar hún var lögð var hún eina gata Reykjavíkur, en það var á átjándu öld þegar Innréttingarnar stóðu sem hæst, en líklegt má telja að troðningur hafi legið þarna frá alda öðli, frá bæjarhúsum Víkur og Víkurkirkju niður að sjónum, svo varla er hægt að tímasetja hvenær gatan varð eiginlega til. Gegnt Aðalstræti 12 var vatnsból forðum daga, og hefur þar verið settur upp vatnspóstur á nýjan leik til skrauts. Lega, hús og umhverfi. Núna nær Aðalstræti frá gatnamótum við Hafnarstræti og Vesturgötu í norðri, til Kirkjustrætis í suðri, og er einstefnugata í norður með hámarkshraða 30 km/klst. Fyrir vestan götuna eru tvö nýbyggð hótel, tvær nýlegar skrifstofubyggingar og þrjú afar gömul hús, Ísafoldarhúsið, Geysishúsið og Aðalstræti 10, sem er elsta hús Reykjavíkur. Vestur úr götunni liggja Gjótagata, Brattagata og Fischersund inn í Grjótaþorp og austur úr henni Veltusund austur með fram Ingólfstorgi og Austurvelli til Pósthússtrætis. Austan við götuna eru Ingólfstorg, eitt gamalt hús, eitt mjög stórt nýtt hús með fyrirtækjum, íbúðum og flokksskrifstofu Frjálslynda flokksins, og Fógetagarðurinn, þar sem áður lá Víkurkirkjugarður. Húsnúmer. Frá norðurenda Aðalstrætis, þar sem hún mætir Vesturgötu og Hafnarstræti, eru húsnúmer í Reykjavík talin. Er þá miðað við að séð frá þeim gatnamótum séu oddatöluhús vinstramegin við götu en hús með sléttum tölum hægra megin. Á sama hátt heitir Austurstræti svo vegna þess að það liggur í austur frá Aðalstræti, Vesturgata sömuleiðis í vestur og Suðurgata í suður (og reyndar örgatan Norðurstígur í norður). Ragnar H. Ragnar. Ragnar H. Ragnar (28. september 1898 – 24. desember 1987) var tónlistarkennari og skólastjóri í Tónlistarskóla Ísafjarðar í marga áratugi, organisti í kirkjunni og stjórnandi Sunnukórsins. Ragnar H. fæddist að Ljótsstöðum í Laxárdal í Suður-þingeyjarsýslu, sonur "Hjálmars Jónssonar" og "Áslaugar Torfadóttur". Hann brautskráðist úr Samvinnuskólanum 1920 og fluttist þá til Kanada og nam píanóleik í Winnipeg hjá Jónasi Pálssyni, píanóleikara og tónskáldi. Árið 1942 hélt hann aftur til Íslands sem bandarískur hermaður, og starfaði sem slíkur til ársins 1945. Á stríðsárunum stjórnaði hann kór frá Þingeyjarsýslu sem starfaði í Reykjavík. Á meðal kórmeðlima var verðandi kona hans, "Sigríður Jónsdóttir". Þau giftu sig 21. júlí 1945. Þau fluttust þá að "Görðum" í Norður-Dakóta, en þar bjuggu þau til ársins 1948. Þá fluttu þau til Ísafjarðar og þar var hann skólastjóri Tónlistarskólans til ársins 1984. Ósíris. Ósíris (fornegypska: Wsir "Úsir"; forngríska: Ὄσιρις "Osiris") var guð Forn-Egypta, drottnari dauðra og undirheima. Hann er oftast sýndur sem smurður faraó með græna húð og vafða fætur og kórónu með tveimur strútsfjöðrum. Eiginkona hans og systir er Ísis og með henni átti hann soninn Hórus eftir dauða sinn. Goðsögnin um Ósíris og Ísisi var miðlæg í fornegypskum trúarbrögðum. Samkvæmt goðsögninni var Ósíris drepinn af Set bróður sínum sem vildi ræna hann völdum. Ísis endurvakti hann svo til lífsins með töfrum og gat með honum soninn Hórus áður en hann lést á ný. Hórus sigraði síðan hinn illa Set. Ósíris tók yfir hlutverk Anúbis sem höfuðguð undirheima og verndari hinna látnu. Úmbertó 2.. Úmbertó 2. Ítalíukonungur (f. 15. september 1904 – 18. mars 1983) var síðasti konungur Ítalíu. Hann var sonur Viktors Emmanúels 3. Ítalíukonungs og konu hans, Elenu drottningar. Fjölskylda. Þann 8. janúar 1930 giftist Úmberto Maríu-José Belgíuprinsessu en hún var dóttir Alberts I Belgíukonungs. Þeim varð fjögurra barna auðið. Hjónaband Úmbertós og Mariu José var ekki hamingjusamt en hjónaband þeirra var skipulagt af foreldrum beggja. Þau skildu í útlegðinni. Hann var oft kallaður maíkonungurinn því hann ríkti einungis í rúman mánuð, eða frá 9. maí 1946 til 12. júní sama ár. Smjörklípuaðferðin. Smjörklípa er hugtak sem Davíð Oddsson kom í umferð og er notað yfir þá aðferð í opinberri umræðu að beina athyglinni frá eigin vandamálum eða athöfnum með því að benda á eitthvað annað bitastæðara. Hugtakið er rakið til Kastljósþáttar sem var þann 3. september 2006, en þar var Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri, spurður um aðferðir sem hefðu gagnast honum í pólitík. Hann sagði þá sögu af frænku sinni fyrir vestan sem hafði þann sið að klína smá smjörklípu á heimilsköttinn þegar þörf var á að halda honum uppteknum um smá tíma. Aðferðin er nátengd orðum Megasar: „Svo skal böl bæta að benda á annað verra“. Ágæta samantekt um uppruna þessarar notkunar orðsins smjörklípa má finna á bloggsíðunni Tungutak. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, þá þingmaður, notaði orðið í andsvari í ræðu á Alþingi 18. desember 2008. Eygló Harðardóttir velferðarráðherra, þá þingmaður, notaði orðið í andsvari í ræðu á Alþingi 25. maí 2009. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vísaði í orð Davíðs í ræðu á Alþingi í febrúar 2010. Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra, þá þingmaður, notaði þetta í ræðu 15. febrúar 2011 Ólöf Nordal, þá þingmaður sjálfstæðisflokksins notaði orðið í ræðu 13. apríl 2011 Vigdís Hauksdóttir, þingmaður framsóknarflokksins, notaði orðin "þvílík smjörklípa" í andsvari 21. febrúar 2012 Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, notaði orðin "stór smjörlklípa" í umræðum á Alþingi, 6. mars 2013 NFC Austur. NFC Austur eða NFC East er austur-riðill NFC-deildarinnar í NFL-deildinni, stofnuð 1970. Upp til ársins 2002 voru Arizona Cardinals í NFC austur-riðlinum, en þá voru þeir fluttir í NFC vestur-riðilinn. Samtals hafa liðin í austurriðli NFC deildarinnar komist 18 sinnum í úrslitaleikinn, Super Bowl, og 10 sinnum farið með sigur af hólmi, mest allra deilda. Vegna velgengis liða úr NFC austur-riðlinum er hann talin af mörgum, erfiðasti riðillinn í NFL. Meistarar í NFC Austur. Philadelphia Eagles er eina liðið í NFC austur-riðlinum sem hefur ekki unnið Super Bowl titil. Dallas Cowboys leiða með fimm, Redskins og Giants koma þar á eftir með þrjá. Jón Vigfússon. Jón Vigfússon (f. 15. september 1643, d. 30. júní 1690) var biskup á Hólum frá 1684 til dauðadags, 1690, eða í 6 ár. Foreldrar Jóns voru Vigfús Gíslason (um 1608–1647) sýslumaður á Stórólfshvoli, og kona hans Katrín Erlendsdóttir (um 1612–1693). Jón biskup var kallaður 'yngri', af því að hann átti bróður og alnafna, Jón Vigfússon eldri, sem var sýslumaður á Stórólfshvoli. Jón Vigfússon yngri fæddist á Stórólfshvoli og ólst þar upp. Hann var fjögurra ára þegar faðir hans dó. Var fyrst í Hólaskóla, en síðan tvö ár í Skálholtsskóla og varð stúdent þaðan 1663. Fór síðan utan, skráður í Kaupmannahafnarháskóla í október 1664. Varð baccalaureus í heimspeki vorið 1666. Kom til Íslands sama ár og varð sýslumaður í Þverárþingi (þ.e. Borgarfjarðar- og Mýrasýslu), bjó fyrst tvö ár í Hjörsey, síðan að Leirá. Var dæmdur frá sýslu 3. ágúst 1672 fyrir óleyfilega verslun. Fór utan árið eftir til að leita réttar síns og fékk öllum til mikillar furðu, vonarbréf fyrir Hólabiskupsdæmi 12. mars 1674, og magistersnafnbót frá kanslaranum, Pétri Griffenfeld. Orð lék á að hann hefði fengið biskupsembættið með mútum, enda var hann ekki prestlærður. Jón Vigfússon kom út og var að boði konungs vígður biskupsvígslu í Skálholti 23. ágúst 1674, af Brynjólfi Sveinssyni biskupi. Er talið að Brynjólfi hafi ekki verið það ljúft verk, svo sem sjá má af vígslutextanum sem hann valdi: „Hver sem ekki kemur inn í sauðahúsið gegnum dyrnar, sá er þjófur og morðingi!“ (Jóh. 10:1, orðalag úr Þorláksbiblíu). Jón var síðan varabiskup í 10 ár. Við fráfall Gísla biskups Þorlákssonar sumarið 1684, fór Jón norður til þess að taka við biskupsdæminu, en 16 helstu prestar þar andmæltu honum og var krafist rannsóknar. Jón tók samt við staðnum og tókst að koma á sáttum á alþingi 1687. Árið 1688 komu fram kærur frá kaupmönnum fyrir óleyfilega verslun hans. Vorið 1689 bauð konungur fyrirmönnum landsins að rannsaka kærurnar, og fór Jón þá utan til þess að tala máli sínu, en fékk enga áheyrn. Hann kom aftur til landsins vorið 1690, en andaðist skömmu síðar. Samt féll á hann þungur dómur á alþingi um sumarið, en Þórði syni hans tókst að fá dóminum hnekkt í hæstarétti í Kaupmannahöfn 1693. Páll Eggert Ólason segir um Jón: „Hann var hinn mesti búsýslu- og fjárgæslumaður, enda auðmaður mikill“, og Jón Espólín segir að hann hafi verið „skörulegur maður sýnum“. Jón biskup hefur greinilega haft mikið viðskiptavit, en hann galt þess að á þeim tíma var einokunarverslun við lýði og því var Íslendingum óheimilt að fást við verslun. Hann var oft kallaður "Bauka-Jón", af tóbaksbaukum sem hann hafði til sölu á Leirá. Þegar Jón Vigfússon kom að Hólum fékk hann prentsmiðjuna ekki afhenta, af því að fjölskylda Gísla Þorlákssonar leit á hana sem sína einkaeign. Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup fékk hana til umráða og var hún flutt suður í Skálholt 1685. Engin mynd eða málverk er til af Jóni Vigfússyni, en legsteinn með grafskrift hans og konu hans er í Hóladómkirkju. Kona Jóns Vigfússonar (gift 1668): Guðríður Þórðardóttir (f. um 1645, d. 1707), dóttir séra Þórðar Jónssonar í Hítardal og konu hans Helgu, dóttur Árna lögmanns Oddssonar. Guðríður „var lítil vexti og kvenleg... góð kona og merkileg að öllum hlutum“. Hún bjó seinast á Leirá og dó þar í stórubólu 1707. Af börnum Jóns og Guðríðar er mikil ættbogi kominn. Þjóðardeildin (NFL). Þjóðardeildin, National Football Conference eða NFC er önnur af tveimur stóru deildunum í NFL. Deildin var mynduð þegar NFL og AFL deildirnar runnu saman í eina árið 1970. Í deildinni eru fjórir riðlar sem hefur hver fjögur lið, alls 16 lið. Riðlarnir fjórir heita NFC Norður, -Suður, -Austur og -Vestur. Efstu liðin úr hverri deild komast upp í umspil, auk tveggja "wildcard" liða, en það eru lið sem hafa besta árangur þeirra liða sem ekki lentu í 1.sæti. Liðin í NFC eru eftirfarandi Eagles of Death Metal. Eagles of Death Metal (EoDM")er bandarísk bílskúrs-hjómsveit stofnuð af Jesse Huges og Josh Homme, forsprakka Queens of the stone age. Andstætt nafninu er hjómsveitin ekki death metal-band. Haft var eftir Huges í pólska tímaritinu "Teraz Rock" að vinur þeirra Lou hafi reynt að fá Homme til að líka við death metal. Hann lét hann hlusta á Vader og sagði hann að það hjómaði eins og 'Eagles dauðarokksins'. Seinna var það Homme sem kom að máli við Huges og sagði honum frá hugmynd sinni um að stofna hjómsveit sem spilaði tónlistarstefnu sem var blanda af The Eagles og death metal. Ameríkudeildin (NFL). Ameríkudeildin, American Football Conference eða AFC er önnur af tveimur stóru deildunum í NFL. Deildin var mynduð þegar NFL og AFL deildirnar runnu saman í eina árið 1970. NFC Norður. NFC Norður eða NFC North er norður-riðill NFC-deildarinnar í NFL-deildinni, stofnaður 1966. Frá árinu 1970-2001 hét deildin NFC Mið, en breytti um nafn 2002 í NFC Norður. Tampa Bay Buccaneers voru í deildinni til ársins 2002 en þá voru þeir fluttir í NFC Suður deildina. NFC Suður. NFC Suður eða NFC South er suður-riðill NFC-deildarinnar í NFL-deildinni, stofnaður 2002, eftir að liðum fjölgaði í NFL. Liðin sem eru í deildinni eru: Atlanta Falcons, Carolina Panthers, New Orleans Saints, og Tampa Bay Buccaneers. Fyrir tímabilið 2002 voru Buccaneers í AFC Vestur (1976) og NFC Mið (1977-2001), en hin þrjú vou í NFC Vestur. NFC Vestur. NFC Vestur eða NFC West er vestur-riðill NFC-deildarinnar í NFL-deildinni, stofnaður 1970. Í riðlinum hafa orðið fleiri breytingar á liðum en í öllum öðrum riðlum í NFL og hafa sjö mismunandi lið spilað í honum. New England Patriots. New England Patriots er lið í amerískum fótbolta frá Foxborough í Massachusetts. Liðið spilar í austur-riðli AFC deildarinnar, innan NFL. Eftir flutning frá Boston til Foxborough árið 1971 breyttu eigendur liðsins nafni þess úr Boston Patriots í New England Patriots. Foxborough er þó einungis nokkrum kílómetrum frá Boston. Upphaflega var New England Patriots í AFL deildinni, en eftir að AFL og NFL deildirnar sameinuðust spiluðu þeir í AFC East í NFL. Á árunum 2001 til 2004, urðu Patriots annað liðið (eftir Dallas Cowboys) í sögu NFL til að vinna þrjá Super Bowl titla á fjórum árum (Super Bowl XXXVI, XXXVIII, og XXXIX), og þeir urðu áttunda liðið sem náði að verja titil. Lemvig. Lemvig er bær á Vestur-Jótlandi í Danmörku. Bærinn liggur við vesturhluta Limafjarðar og kom nafn bæjarins fyrst fram í bréfi til konungs árið 1234. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1545. Íbúafjöldi Lemvig var 7.282 árið 2004. Lúðrasveit Þorlákshafnar. Lúðrasveit Þorlákshafnar var stofnuð árið 1984 af nokkrum hljóðfæraleikurum í Þorlákshöfn. Róbert Darling var fyrsti stjórnandi og hefur hann stjórnað sveitinni nánast óslitið síðan. Viðfangsefni lúðrasveitarinnar hafa verið fjölbreytt í gegnum árin. Hefðbundin verkefni eru spilamennska við hátíðahöld í Þorlákshöfn svo sem á 17. júní, á sjómannadaginn og fyrir jólin. Iva Zanicchi. Iva Zanicchi (f. 18. janúar 1940) er ítölsk söngkona. Bændabrúnka. Bændabrúnka er heiti á sólbrúnku sem einkennist af því að einstaklingurinn hefur roðnað á þeim stöðum sem stuttermabolur hefur ekki hulið. Hún dregur nafn sitt af bændum í útivinnu. Baróninn á Hvítárvöllum. Baróninn á Hvítárvöllum (eða Charles Gouldrée-Boilleau'") var barón frá Frakklandi sem kom hingað til Íslands í lok 19. aldar og hafði tölverð áhrif á bæjarlífið. Þórarinn Eldjárn hefur skrifað um hann bókina Baróninn. Charles kom til Íslands árið 1898 og ástæður þess að mörgu leyti huldar. Barónstígurinn í Reykjavík er nefndur eftir honum, en þar var Charles með stórt fjós, enda var hann töluverður forgöngumaður við búskap hér á landi. Í fjósi Barónsins er nú verslunin 10-11. Charles bjó síðan lengi búi sínu að Hvítárvöllum, en við Hvítárvelli er hann jafnan kenndur. Faðir Charles var franskur og hafði verið sendiherra Frakka í Líma í Perú, en móðir hans var dóttir öldungaráðsmanns í Bandaríkjunum. Charles lauk námi við Eton-skóla í Englandi. Hann var mikill málamaður og gat talað 7 tungumál þegar hann kom hingað, og íslensku lærði hann á ótrúlega stuttum tíma. Charles lék á selló ("hnéfiðlu") og hélt tvenna tónleika í Reykjavík. Hann keypti sér húsið að Laugarvegi 90.. Sojourner Truth. Póstkort sem Sojourner Truth seldi til að fjármagna ferðir sínar. Á kortinu stendur „Ég sel skuggann til að styrkja kjarnann“. Sojourner Truth (um 1797 – 1883), var andstæðingur þrælahalds og kvenfrelsiskona sem fæddist í þrældóm í kringum árið 1797 í Ulster sýslu, New York. Henni var gefið nafnið Isabelle, en árið 1843 tók hún upp nafnið Sojourner Truth. Fyrstu árin. Móðurmál Truths var hollenska, þar sem fyrstu eigendur hennar voru af hollenskum ættum. Þegar Truth var fjögurra ára gömul var hún tekin frá foreldrum sínum, sem nýlega höfðu verið frelsaðir þegar eigandi þeirra, Charles Hardenbergh, lést. Eftir það vann Truth á heimilum þriggja mismunandi eigenda. Hún eignaðist fimm börn í þrældómi með Thomas Jeffrey, samþræl sínum. Árið 1826 flúði Truth þrældóm, og skömmu seinna var sonur hennar seldur ólöglega til Alabama. Truth kærði þessa sölu, og fékk son sinn aftur sendan til New York. Árið 1827 bannaði New York fylki þrælahald, og ári seinna flutti hún til New York borgar. Truth vann sem heimilisþerna í New York borg og var meðlimur ýmissa trúarsafnaða. Truth var undir miklum áhrifum frá trúarkenningum Williams Millers, spámanni sem spáði endurkomu Krists árið 1843. 1. júní það ár fékk Truth vitrun frá hinum heilaga anda, og breytti nafni sínu úr Isabelle í Sojourner Truth, nafn sem merkir ferðaprédikari. Hún lagði af stað fótgangandi til annarra fylkja norðausturhluta Bandaríkjanna, og hélt ræður á fundum meðlima söfnuðs Millers. Í lok ársins, þegar heimsendi hafði ekki átt sér stað, leitaði Truth að nýjum stað til að eyða vetrinum. Upphaf réttindarbaráttunnar. Truth fann sér samanstað í Northampton Association of Education and Industry, hópi sem hafði verið stofnaður árið 1842 af andstæðingum þrælahalds. Meðan hún bjó með þessum hópi, byrjaði Truth að tala opinberlega gegn þrælahaldi. Truth kaus frekar að halda fyrirlestra á eigin vegum heldur en á stórum ráðstefnum gegn þrælahaldi. Hún taldi að þegar hún talaði persónulega um reynslu sína af þrælahaldi myndi hún auka skilning áheyrenda sinna á þrældómi. Á ferðum sínum um norðurríki Bandaríkjanna náði hún oft í áheyrendahópa með því að syngja. Truth hafði sterka rödd, var óvenjulega hávaxin (180 sm), og hún var talin afar kröftugur ræðumaður. Andstæðingar þrælahalds tóku hana upp á arma sína, og með hjálp eins þeirra, Olive Gilbert, skrifaði Truth ævisögu sína, árið 1850. Árið 1851 hélt Truth frægustu ræðu sína á ráðstefnu kvenfrelsissinna í Akron, Ohio. Þegar áhorfandi á ráðstefnunni hélt því fram að konur væru ekki jafnar karlmönnum því að karlmenn þyrftu að vernda þær og hjálpa þeim, stóð hún upp og sagði að í hennar lífi sem þræll hafi hún aldrei fengið hjálp karlmanna og spurði svo „and ain’t I a woman?“ Kvenfrelsi og afnám þrælahalds. „"Það er mikið talað um að blökkumenn fá réttindi sín, en ekkert talað um blökkukonur. Og ef blökkmenn fá réttindi sín, en blökkukonur ekki, þá sjáiði að blökkumenn munu vera meistarar kvennanna, og ástandið verður allt eins slæmt og það er í dag".“ Á sama tíma mótmælti hún kvenréttindakonunni Elizabeth Cady Stanton sem hótaði því að styðja ekki kosningarétt blökkumanna ef kosningaréttur kvenna fylgdi ekki með. Á ævi sinni hitti Truth og vann með helstu baráttumönnum kvenréttinda og réttindum blökkumanna, meðal annars Susan B. Anthony, Elizabeth Cady Stanton, Harriet Beecher Stowe, Amy Post, Frederick Douglass, William Lloyd Garrison og Abraham Lincoln. Sojourner Truth dó á heimili sínu í Battle Creek, Michigan þann 26. nóvember 1883, 86 ára gömul. Jóhann Helgason - Ég gleymi þér aldrei. Jóhann Helgason - Ég gleymi þér aldrei er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni syngur Jóhann Helgason dægurlög. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. síðari hluta febrúar og fyrri hluta marz 1976. Tæknimaður var Sigurður Árnason, sem jafnframt annaðist hljóðblöndun ásamt Jóhanni Helgasyni. Geronimo Stilton. Geronimo Stilton er persóna úr ítalskri barnabókaröð. Saga. Geronimo Stilton er fæddur í Músahöfn í Músítalíu. Hann lauk embættisprófi í músafræðum og meistaraprófi í nagdýrabókmenntum. Í rúmlega tuttugu ár hefur hann ritstýrt farsællega stærsta dagblaði Músahafnar, Músahafnarfréttum. Hann hefur að auki hlotið Bókmenntaverðlaun músabókasala fyrir rit sitt, Leyndardómurinn um horfna fjársjóðinn. Í frístundum sínum safnar Geronimo ostaskorpum frá 18. öld og spilar einnig golf. Hann veit fátt skemmtilegra en segja uppáhalds frænda sínum sögur, honum Benjamús. Það gerist oft að Geronimo lendir í háskalegum ævintýrum, þótt hann sé í eðli sínu afskaplega varkár. Það er þá jafnan systir hans, hún Tea, eða hinn maklausi frændi hans, Styrmir, sem lokka hann af stað. Benjamús litli er líka oft með í för. Öll þessi ævintýri skráir Geronimo í bækur sínar, sem nú eru orðnar vel þekktar. Bækur Geronimos. Geronimo Stilton hefur skrifað fjöldan allan af bókum um ævintýri sín með systur sinni Teu og frændum sínum, þeim Styrmi og Benjamús. Bækurnar eru upphaflega skrifaðar á ítölsku, en fjöldi þeirra hefur verið þýddur á önnur tungumál. Á Ítalíu er einnig hægt að nálgast fræðslu- og kennslubækur með Geronimo, og svo sérstakar bækur sem systir hans Tea hefur skrifað. Klamedía X. Klamedía X vann Rokkstokk keppnina árið 1998 og gaf út sína fyrstu plötu árið 1999. Sú plata heitir Pilsner fyrir kónginn. Dr. Jón Stefánsson. Dr. Jón Stefánsson (6. nóvember 1862 – 20. júlí 1952) var íslenskur heimsborgari, ævintýramaður og fræðimaður. Hans helsta athvarf í hálfa öld var á Breska safninu ("British Museum") í London. Jón var vel lesinn og umgengst marga fræga menn um dagana og sumum þeirra kynntist hann allvel. Hann kom heim til Íslands alkominn „hálfníræður unglingur“, eins og hann sagði í sjálfur í ævisögu sinni. Jón fæddist að Grund í Gundarfirði. Faðir hans var bóndi, "Stefán Jónsson", en móðir hans var "Jakobína Thorsteinsen", dóttir Árna Thorsteinsen, sýslumanns. Bræður Jóns voru "Stefán", sem varð læknir á Jótlandi, og "Óli Steinbach", sem var tannlæknir á Ísafirði. Systur Jóns voru "Kristensa", sem giftist Stefáni Kristjánssyni, skógarverði, og "Kristín", sem giftist Bertram Blount, efnafræðingi í London. Hálfbróðir hans að föður var Stefán Guðmundur Stefánsson, cand. juris., síðast amtsskattstjóri í Varde á Jótlandi. Haraldur Hamar Thorsteinsson. Haraldur Hamar Thorsteinsson (20. febrúar 1892 – 23. nóvember 1957) var rithöfundur og sonur Steingríms Thorsteinssonar. Stúdent í Reykjavík 1913. Stundaði nám í fagurfræði við háskólann í Kaupmannahöfn 1913-1914, og tók þá upp skáldanafnið "Hamar", en dvaldist síðan í Englandi, aðallega í London til 1929 og fékkst þá mest við ritstörf og skáldskap. Hann veiktist á þessum árum og varð að dvelja á sjúkrahúsi en fékk aldrei fulla heilsu. Haraldur átti heima í Reykjavík til æviloka. Hann dó af slysförum (umferðarslysi), ókvæntur. Meginlandsskorpa. Meginlandsskorpa er sá hluti jarðskorpunnar sem er undir meginlöndum jarðar. Hún er 20-70 km þykk, en hafsbotnsskorpan sem er undir úthöfunum er 6-7 km þykk. Meginlandsskorpan er eðlisléttari en hafsbotnsskorpan, eða 2,7 g/cm2. Um 40% jarðskorpunnar er meginlandsskorpa. Undir Íslandi er hafsbotnsskorpa en þó er talið hugsanlegt að meginlandsskorpa sem er í Jan Mayen-hryggnum teygi sig inn undir Austfirði. Alþýðubókin (1874). Alþýðubókin var lesbók handa alþýðu sem út kom árið 1874 og var verk Þórarins Böðvarssonar í Görðum. Bókin varð einhvers konar „allsherjar skóli“ íslenskrar alþýðu og var til á nærfellt hverjum bæ á Íslandi. Margir Íslendingar höfðu mestan sinn fróðleik úr þessari bók á þessum árum - ef ekki var skólanámi til að dreifa. Halldór Laxness gaf út bók 1929 sem hann nefndi í höfuðið á bók Þórarins, það er Alþýðubókin. Jónas Guðlaugsson. Jónas Guðlaugsson (27. ágúst 1887 – 15. apríl 1916) var íslenskt ljóðskáld, ritstjóri, blaðamaður og rithöfundur. Hann skrifaði í fyrstu ljóð á íslensku og gaf seinna út smásögur, skáldsögur og ljóð á dönsku. Hann skrifaði einnig greinar í norsk blöð, dönsk og sænsk. Uppvaxtarár. Jónas fæddist að Staðarhrauni í Mýrarsýslu, sonur séra "Guðlaugs Guðmundssonar" og "Margrétar Jónasdóttur". Jónas fór að heiman um tólf ára aldur og fór þá að búa sig undir skóla. Faðir hans gat ekki liðsinnt honum mikið vegna vaxandi ómegðar. Þrátt fyrir lítil peningaráð tókst Jónasi að komast í skóla og settist í Latínuskólann, þar var hann m.a. bekkjarbróðir Ásmundar Guðmundssonar biskups. Jónas lauk ekki stúdentsprófi og var ástæðan sú að öllum í bekk hans var vikið úr skóla vegna óspekta. Seinna var þeim gefinn kostur á að ljúka prófinu en ekki vildi Jónas þá þekkjast það boð. Þess í stað fór hann átján ára gamall að starfa við blaðamennsku og stjórnmál. Hann var um tíma ritsjóri Valsins á Ísafirði. Hann var ekki nema sextán ára þegar hann var orðinn áróðursmaður fyrir Landvarnarflokkinn. Jónas kvænist. Snemma ætlaði Jónas sér stóra hluti og hann taldi sig enga framtíð eiga á Íslandi og vildi komast til útlanda. Fyrst fór hann í ferðalag með móðurbróður sínum til Danmerkur, en það ferðalag reyndist honum afdrifaríkt. Á hóteli er þeir frændur gistu í ferðinni kynntist Jónas óvenjulega glæsilegri konu, "Thorborg Schójen" að nafni. Hún var dóttir yfirhershöfðingja Norðmanna. Ferðalag þeirra frænda hélt áfram og eftir að hafa starfað veturinn 1907-1908 sem blaðamaður við danska blaðið Social-Demokraten sneri Jónas heim til Íslands. Thorborg var ekki með öllu ósnortin af hinu unga skáldi, því hún hélt á eftir Jónasi til Íslands og þar lyktaði ævintýrinu svo, að sögn Jóhönnu systur Jónasar, að þau Jónas og Thorborg Schójen gengu í hjónaband og hófu búskap í Kirkjustræti 8 í Reykjavík. Þau Jónas og Thorborg eignuðust saman eina dóttur, "Áslaugu Margréti" (f. 1909). Þau urðu að koma henni í fóstur til Þórðar Thoroddsen læknis, vegna veikinda Thorborgar. Telpan dó á fyrsta ári úr lungnabólgu. Skilnaður. Nokkru eftir dauða dóttur þeirra fóru ungu hjónin til Noregs þar sem þau dvöldu um tíma í góðu yfirlæti hjá móður Thorborgar. Jónas skrifaði þar í blöð og orti kvæði og kynntist norskum skáldum sem urðu góðir vinir hans. En fátæktin plagaði þau. Þaðan fór Jónas með konu sinni til Kaupmannahafnar. Eftir að þau fluttust þangað þurfti Jónas að fara í ferðalag til Þýskalands. Á meðan hann var í Þýskalandi kynntist Thorborg sænskum barón af tignum ættum og giftist honum nokkru seinna og bjó á Skáni. Jónas vann fyrir nauðþurftum sínum sem blaðamaður hjá Politiken. Nokkru seinna lenti hann í illdeilum við Valtý Guðmundsson og lyktaði þeim deilum með því að Jónas missti stöðuna. Hann slóst í hóp hinna ungu upprennandi skálda sem hópuðust í kringum Jóhann Sigurjónsson. Ekki voru allir jafn hrifnir af Jónasi. Sagt er að Gunnar Gunnarsson hafi haft Jónas að fyrirmynd persónunnar "Davíðs Jónmundssonar" í Fjallkirkjunni. Um það eru deildar meiningar. Aðrir voru mjög hrifnir af Jónasi, þar á meðal Guðmundur G. Hagalín. Skáldafrægð. Jónasi tókst að að hasla sér völl í dönskum bókmenntum. Fyrsta bókin sem hann skrifaði á dönsku var ljóðabókin "Sange fra Nordhavet", sem kom út hjá Gyldendal haustið 1911. Viðtökur voru mjög góðar. Önnur ljóðabók Jónasar á dönsku var "Viddernes Poesi", og festi hún hann í sessi sem athyglisvert og efnilegt skáld. Auk frumsaminna verka þýddi hann "Fólkið við hafið", eftir Harry Söiberg og "Marie Grubbe" eftir J.P. Jacobsen á íslensku. Jónas var einnig afkastamikill greinahöfundur og skrifaði fyrir blöð í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Jónas kvænist á ný. Jónas kom síðast til Íslands árið 1911. Hann kvæntist í annað sinn árið 1912, þýskri konu af hollenskum ættum, "Marietje Ingenohl" og var hún sjúkraþjálfari að mennt. Eftir að Jónas kvæntist Marietje gaf hann út fjórar bækur: skáldsögurnar Solrun og hendes Bjelere og Monika, smásagnasafnið Bredefjordsfolk og ljóðabókina Sange fra de blaa Bjærge. Sögur Jónasar hlutu góðar viðtökur. Hann bjó síðustu æviár á Skagahóteli á Skagen (þ.e. Vendilskaga). Jónas eignaðist einn son með Marietje, "Sturla" hét hann og var lengi deildarstjóri við konunglega listastafnið í Haag. Sturla dó 1971, ókvæntur. Andlát. Jónas lést á Skagahóteli. Hann dó að morni dags, og var í þann veginn að flytjast til Kaupmannahafnar og voru kona hans og sonur farin á undan honum frá Vendilskaga. Um nóttina hafði Jónas unnið að því að pakka saman búslóð þeirra Marietje. Um morgunin fékk hann blóðspýting og dó. Þýskir læknar töldu að hann hefði fengið magablæðingu. Við dánarbeð hans sat "Mor Anni", sem rak Skagehótel. Andlátsorð hans samkvæmt henni voru: "Það er gott að deyja inn í sólina og vorið". Þá nefndi hann nafn konu sinnar og sonar og dó að svo mæltu. Fangabúðirnar við Guantanamo-flóa. Fangar við komu til Camp X-Ray í janúar 2002. Fangabúðirnar við Guantanamo-flóa eru fangabúðir við herstöðina við Guantánamo-flóa sem hafa verið í umsjá Joint Task Force Guantanamo frá árinu 2002. Búðunum er skipt í þrjú svæði: Camp Delta (sem Camp Echo er hluti af), Camp Iguana og Camp X-Ray (sem nú er búið að loka). Tilgangur búðanna er að einangra og yfirheyra meinta hryðjuverkamenn sem tengjast al-Qaeda eða Talíbönunum en þar er einnig fjölda manna haldið sem taldir eru saklausir en bíða þess að vera fluttir annað. Þeir sem fluttir eru til búðanna hafa verið skilgreindir af bandarískum yfirvöldum sem "óvinveittir bardagamenn" og þannig komist hjá því að veita þeim þá réttarstöðu sem þeim væri að öðrum kosti tryggð með Genfarsáttmálunum og bandarískum lögum. Niðurstaðan er því sú að bandaríska ríkisstjórnin hefur nær ótakmarkað vald yfir þessum mönnum og hefur þetta verið umdeilt umfjöllunarefni. Frá því að stríðið í Afghanistan hófst í lok árs 2001 hafa 775 fangar verið fluttir til Guantánamo-fangabúðanna, þar af hafa 420 verið látnir lausir. Um 335 fangar eru þar í dag, fimmtungur þeirra bíða þess að vera látnir lausir. Bandarísk yfirvöld hafa gefið það út að þau muni sleppa flestum en sækja á bilinu 60-80 til saka. Ussss. "Ussss" er íslensk kvikmynd frá árinu 2003. 1 apríll. "1 apríll" er íslensk kvikmynd eftir Hauk M. frá árinu 2003. Hún segir frá aprílhrekk sem fer úrskeiðis. Borgarstjórn Reykjavíkur. Borgarstjórn Reykjavíkur er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum. Borgarstjórn skipar borgarstjóra og skipar í nefndir á sínum vegum sem sjá um daglegan rekstur borgarinnar. Fulltrúar í borgarstjórn kallast borgarfulltrúar og eru fimmtán talsins. Kosið er til borgarstjórnar í almennum kosningum á fjögurra ára fresti, þannig ekki er hægt að kjósa aftur áður en kjörtímabil er liðið líkt og með Alþingi. Núverandi borgarstjórn. Frá 11. júní 2006 til 16. október 2007 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn meirihluta og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var borgarstjóri. Upp úr því samstarfi slitnaði haustið 2007 vegna deilna um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy. Frá 16. október 2007 til 24. janúar 2008 mynduðu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur meirihluta með Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Upp úr því samstarfi slitnaði hinn 24. janúar 2008 þegar Ólafur F. Magnússon myndaði meirihluta með sjálfstæðismönnum og settist sjálfur í stól borgarstjóra, en honum hafði fundist hlutur sinn í fyrra samstarfi heldur rýr. Ýmsir örðugleikar gerðu þó einnig vart við sig í því samstarfi og skoðanakannanir gáfu til kynna að nýi meirihlutinn missti sífellt fylgi. Síðsumars slitu sjálfstæðismenn svo samstarfinu og mynduðu nýjan meirihluta með framsóknarmanninum Óskari Bergssyni hinn 21. ágúst 2008, en þá varð Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, sá fjórði á kjörtímabilinu. Þjóðlegir lýðræðissinnar (Svíþjóð). Nationaldemokraterna ("Þjóðlegir lýðræðissinnar", "ND") er sænskur stjórnmálaflokkur stofnaður árið 2001 við klofning úr þjóðernissinnaflokknum Sverigedemokraterna. Þótti stofnendum ND gamli flokkurinn vera orðinn alltof frjálslyndur. Núverandi formaður er Marc Abramsson. Þó flokkurinn kalli sig lýðræðissinnaðan er hann andstæður þingræði og vestrænu lýðræðiskerfi. Hugmyndafræði þeirra snýst aðallega um kynþáttaaðskilnað og er aðalbaráttumálið að reka alla innflytjendur úr landi. Flokkurinn er sækir sér mjög fyrirmynd til þýskra þjóðernissinna á fyrri hluta síðustu aldar, meðal annars ganga þeir oft í hópum íklæddir einkennisbúningum. Flokkurinn hefur náið samband við ýmsa aðra flokka þjóðernissinna í Evrópu, t.d. Vlaams Belang í Belgíu, British National Party í Bretlandi og franska Front National. Í kosningunum árið 2006 fékk flokkurinn fulltrúa í tveimur sveitarstjórnum sunnan við höfuðborgina Stokkhólm, tvö sæti í Södertälje og eitt í Nykvarn. Klassísk japanska. er sú japanska sem notuð var frá árinu 794 til 1185, á Heiantímabilinu. Kanji-táknin í orðinu "chūko nihongo" eru "中" sem þýðir „miðja“, "古" sem þýðir „gamalt“ (saman getur "中古" þýtt „miðaldar-“ eða „notað“), og "日本語" sem þýðir „japanska“. Finngálkn. Finngálkn er furðusagnakvikindi, maður að ofan en dýr að neðan. Finngálkn er einnig haft um afkvæmi tófu og kattar. Innan risaeðlufræða er finngálkn einnig haft um hávaxna og hálslanga risaeðlu ("Brachiosaurus") sem var úr hópi graseðla. Jón Helgason (prófessor). Prófessor Jón Helgason (30. júní 1899 – 19. janúar 1986) var þýðandi, ljóðskáld og fræðimaður, sem og forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn. Jón fæddist á Rauðsgili í Hálsasveit, Borgarfirði. Eftir stúdentspróf í Reykjavík, lauk hann prófi í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann síðar varð prófessor um langt árabil og seinna forstöðumaður "Stofnunar Árna Magnússonar" í Kaupmannahöfn. Jón gaf út ljóðabókina "Úr landsuðri" árið 1939. Hann gef einnig út tvær ljóðabækur með þýðingum, sem og ófáar bækur um íslensk fræði. Örnefnafræði. Örnefnafræði kallast sú fræðigrein sem er undirgrein nafnfræðinnar og fæst við skýringar örnefna og hvernig þau tengjast sögu og menningu; en örnefni eru sérnöfn sem eiga við vissa einingu í landslagi eða landsvæði, eins og t.d. Hverfell, Reykjavík eða Hólahólar. Örnefni á Íslandi eru að flestu leyti mjög vel skjalfest, en löngum hefur farið fram vinna við að koma upp gagnagrunni. Um það sér "Örnefnastofnun Íslands". Eygló Harðardóttir (myndlistarmaður). Eygló Harðardóttir er íslenskur myndlistarmaður, fædd í Reykjavík 24. apríl 1964. Hún lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-87) og AKI - Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie í Hollandi (1987-90). Síðan hefur hún starfað í Reykjavík og haldið fjölda sýninga, bæði einkasýningar og samsýningar, á Íslandi en einnig í Póllandi, Þýskalandi og Tékklandi. Ríkharður H. Friðriksson. Ríkharður H. Friðriksson er íslenskur tónlistarmaður fæddur í Vestmannaeyjum 5. nóvember 1960. Hann er tónskáld og gítarleikari sem hefur sérhæft sig í raftónlist. Auk þess að starfa sjálfstætt er hann meðlimur í hljómsveitinni Icelandic Sound Company. Kjartan Valdemarsson. Kjartan Valdemarsson (f. 1967) er íslenskur djasspíanóleikari og tónskáld. Hann nam píanóleik við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar áður en hann hélt til Bandaríkjanna, þar sem hann stundaði nám við Berklee College of Music 1985-1989. Hann er kennari við Tónlistarskóla FIH, auk þess að starfa sem píanóleikari við Listdansskóla Íslands og Íslenska dansflokkinn. Kjartan hefur leikið með flestum íslenskum djasstónlistarmönnum og einnig spilað mikið af popptónlist, m.a. með hljómsveitinni Todmobile. Hann hefur starfað í leikhúsum og unnið mikið í hljóðverum, bæði sem hljómborðsleikari og upptökustjóri. Kjartan er einnig eftirsóttur útsetjari, en hann hefur gert mikið af útsetningum, m.a. fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur. Þá lék hann um tíma með einni af fremstu stórsveitum Svíþjóðar; Norbotten Big Band. Kjartan er afkastamikið tónskáld og hefur meðal annars gert tónlist fyrir sjónvarp, til dæmis fyrir Spaugstofuna og Áramótaskaupið. Wig Wam. Wig Wam er norsk glys-rokk-hljómsveit, stofnuð í Halden árið 2001. Hún tók þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2005 með lagið „In my dreams“. Lagið lenti í 9. sæti ásamt Danmörku. Falun Gong. Hópur fólks að iðka Falun Gong. Mótmælaaðgerðir Falun Gong árið 2004 í New York. Falun Gong eða Falun Dafa (法輪大法, "Fǎlún Dàfǎ") er andleg iðkun sem byggir á kerfi til hugleiðslu og andlegrar uppljómunar sem kynnt var opinberlega af Li Hongzhi árið 1992. Falun Gong kerfið inniheldur fimm íhugunaræfingar en leggur einnig áherslu á siðferði. Það siðferði grundvallast í ræktun dyggða í gegnum grunngildi iðkunarinnar: Sannleika, samkennd og umburðarlyndi (kínverska: 真, 善, 忍). Falun Gong er kennt við búddíska qigong-iðkun, þó að kenningar iðkunarinnar feli einnig í sér þætti fengna frá hefðum daóismans. Kenningar Falun Gong eru runnar upp úr búddisma, taóisma, siðakenningum Konfúsíusar og nýaldarhreyfingum. Fylgjendur Falun Gong gera sérstakar æfingar sem ætlaðar eru til þess að styrkja andlega þáttinn. Falun Gong hefur verið í sviðsljósinu frá 20. júlí árið 1999 en þá bannaði kínverski kommúnistaflokkurinn hreyfinguna. Ekki er þekkt hve margir fylgjendur Falun Gong eru. Falun Gong hreyfingin telur að það séu 100 milljónir fylgjenda. Fyrstu árin sem Li Hongzhi kynnti Falun Gong var það með velþóknan kínverskra yfirvalda og var talið að iðkunin væri heilsusamleg. Li hefur frá árinu 1995 kennt utan Kína. Málmey (Skagafirði). Málmey er eyja á Skagafirði, og skilur Málmeyjarsund á milli hennar og Þórðarhöfða. Hún er 7 km löng og 1 km á breidd en mjókkar til endanna. Hún er fremur láglend, einkum að sunnan, en hækkar því meir, sem norðar dregur og er hæst 156 m. Þar heitir Kaldbakur. Suðurendi hennar er klettastapi sem heitir Kringla. Eyjan kemur við sögu í Sturlungu því þangað fór Guðmundur Arason biskup með mönnum sínum þegar Tumi Sighvatsson hrakti hann frá Hólum og þaðan fóru svo menn hans til Hóla í janúar 1222 og drápu Tuma. Eyjan var lengst af í byggð, enda ágæt bújörð og örstutt á góð fiskimið. Helsta vandamálið var vatnsleysi en engin uppspretta er ofanjarðar en vatn fékkst úr brunni. Bærinn brann á Þorláksmessu 1950 ofan af 14 manns, þar af 10 börnum, og hefur Málmey verið í eyði síðan. Sagt er að álög séu á Málmey. Þar má enginn búa lengur en 20 ár. Aldrei má hestur koma þangð, því þá verður húsfreyjan brjáluð, segja sumir, en oftar er þó sagt að hún hverfi og þannig var um húsfreyjuna sem Hálfdan Narfason prestur á Felli reyndi að sækja í Hvanndalabjarg; hún hvarf tuttugustu jólanóttina sem hún bjó í eynni. Mýs þrífast þar ekki, hvað sem til þess kemur, og hestar hafa aldrei mátt vera þar. Nisan. Nísan (á hebresku: נִיסָן, "Nîsān"; úr akkadísku ', eða súmersku "nisag" „Fyrstu ávextirnir“, á arabísku, نيسان) er fyrsti mánuðurinn í hebreska tímatalinu. Nafnið kemur frá Babýlon; í Torah er mánuðurinn nefndur "Aviv", það er byggmánuðurinn, enda þroskast það á þeim árstíma við botn Miðjarðarhafs. Nisan er venjulega í mars eða apríl samkvæmt gregoríanska tímatalinu. Í Esterarbók í Tanakh er mánuðurinn nefndur Nisan. Hebreska almanakið. Mynd úr dagatali gyðinga frá miðöldum. Hebreska almanakið eða Ártal gyðinga (á hebresku הלוח העברי) er blanda af sólar og tunglári, mánuðirnir eru reiknaðir út frá gangi tungls en aðlögun er gerð til að það haldist í samsvörun við sólina og árstíðirnar. Upphaflega var þetta tímatal notað til allra þarfa ísraelsmanna. En allt frá því að gyðingar voru neyddir af rómverjum, á öldinni fyrir kristburð, til að nota júlíanska tímatalið til allra veraldlegra nota hefur það einungis verið notað til að reikna út hvenær trúarathafnir eigi að fara fram. Eftir stofnun Ísraels hefur þetta tímatal þó aftur komið í notkun samhliða því kristna. Tímasetning hebreska almanaksins miðast við að upphaf tímans og sköpun veraldar hafi átt sér stað 1 dag í mánuðinum Tishrei ár 1 sem samsvarar 7 október ár 3761 fyrir Krist. Þó eru trúarstefnur innan gyðingdóms sem telja upphaf heims einu ári seinna þ.e. ár 3760. Útreikningur almanaksins hefur farið fram á tvennan hátt. Fyrir ár 70 (eftir Krist), þegar seinna musterið í Jerúsalem var eyðilagt hófst nýr mánuður þegar sést hafði til nýs tungls. Eftir þann atburð dreifðust gyðingar um mörg lönd og og erfitt að halda reiður á sameiginlegum tíma á nýju tungli og var smám saman skapað kerfi sem reiknaði út hvenær nýr mánuður byrjaði. Sólarár og tunglár eru ekki jafn löng og munar um það bil ellefu dögum. Til að halda þeim nokkurn veginn jöfnum er hebreska almanakið bundið í 19 ára skeið, það er 235 tunglmánuði. Bætt er við einum tunglmánuði annað hvort eða þriðja hvort ár, samanlagt 7 sinnum á 19 árum. Páskahald gyðinga. Páskahátíð gyðinga sem er nefnd "Pesaḥ" á hebresku פֶּסַח([pèsaḥ]), einnig skrifað "Pesach", er ein af þremur meginhátíðum Gyðinga og er haldið upp á hana frá þeim 15. í mánuðinum nisán. Eigi má snerta venjulegan kornmat eða sýrðar brauðvörur meðan á hátíðinni stendur. Orðsifjar. Sjálft orðið "pesaḥ", sem er notað í íslensku í forminu páskar, kemur af hebreísku rótinni פסח P-S-Ḥ sem þýðir „fara framhjá“, „ganga yfir“. Upphaf páska. Samkvæmt söguhefð gyðinga eiga páskarnir uppruna í flóttanum frá Egyptalandi (Exodus) er Móses leiddi Ísraelsmenn út úr ánauðinni hjá faraó, gegnum Rauðahafið og eyðimörkina í átt til hins fyrirheitna lands eins og sagt er frá í Biblíunni í 12. kapítula 2. Mósebókar. Þar segir að Guð hafi sagt Móses að hann ætli að „fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað“ svo að faraó sleppti Gyðingum úr landi. Til þess að Guð gæti þekkt hvar Gyðingarnir bjuggu var þeim uppálagt að slátra lambi og ríða blóði þess á dyrastafi hýbýla sinna. Pesah (páskar) hefur í þessum texta verið þýtt sem „framhjáganga“ vegna þess að Drottinn hét: „Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland“. (וראיתי את־הדם ופסחתי עליכם [vərā’ītī et-haddām, ufāsaḥtī ʕălēxem] "„Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður“". (2. Mósebók 12:13) Hátíðin er haldin til áminningar um flóttann sem á að hafa gerst um 1300 árum fyrir Krist. Páskahátíðin. Páskahátíð gyðinga hefst við fyrsta fulla tungl eftir jafndægri á vori, oftast í apríl, og er haldin í sjö daga í Ísrael og í átta daga af gyðingum annars staðar. Einn snar þáttur í helgihaldinu eru matarréttir sem tákna ýmsa þætti í flóttanum úr ánauðinni í Egyptalandi. Ein af þeim er flatbrauð sem bakað er án þess að það hefi sig fyrst, það er að segja er ósýrt. Upphaf þessa er sagt vera að gyðingarnir þurftu að hafa svo mikinn hraða úr ánauðinni að enginn tími gafst til að láta brauðið hefa sig áður enn það var bakað. Fyrstu tvö kvöldin páskahátíðarinnar (í Ísrael einungis það fyrsta) er haldin helgimáltíð. Máltíðin hefst í formi kennslustundar fyrir börn, þar sem yngsti sonurinn á að spyrja föður sinn sem svarar og les úr Biblíunni. Á meðan snæða þeir nærverandi ýmsa smárétti eins og "haroset", blanda úr möluðum hnetum, eplum, víni og kanill sem táknar byggingarefnin það sem notað var í Egyptalandi og bitrar jurtir sem tákna þau bitru tár sem gyðingarnir grétu meðan á ánauðinni stóð. Í Ísrael halda gyðingar einungis páska í sjö daga og enda páska einum sólarhring fyrr en flestir aðrir gyðingar. Átta daga páskar hefjast og enda á eftirfarandi dögum (sjö daga páskar hefjast á sama degi og þeir átta). Samkvæmt Nýja testamentinu dó Jesús og endurreis frá dauðum meðan á páskahátíð gyðinga stóð, þess vegna halda kristnir menn hátíð sem nefnd er páskar þó svo að það sé af allt öðrum orsökum en páskahald gyðing. Páskar kristna og gyðinga fylgja ekki sömu tímareglu en eru oft á svipuðum tíma. Society for Neuroscience. Society for Neuroscience (SfN) er félag fræðimanna á sviði taugavísinda. SfN var stofnað árið 1969 og í því eru nú yfir 38.000 meðlimir (miðað við tölur frá 2007). SfN stendur árlega fyrir alþjóðlegri ráðstefnu sem sótt er heim af tugþúsundum vísindamanna hvaðanæva úr heiminum. Gilgamesh. Gilgamesh (súmerska: "Bilgamesh") var konungur í borginni Úrúk í Mesópótamíu. Samkvæmt listanum yfir súmerska konunga stjórnaði hann í tíð annarrar konungsættar (u.þ.b. 2700 til 2500 f.Kr.). Hann varð 123 ára gamall og var sonur viskugyðjunnar Nínsún og hálfguðsins Lugalbanda, og var því tveir þriðji guð og einn þriðji maður og þess vegna dauðlegur. Það er talið að Gilgamesh sé mikilvægastur konunga Súmera. Elísabet Erlingsdóttir - Eighteen Icelandic Folksongs. Elísabet Erlingsdóttir - Eighteen Icelandic Folksongs er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni syngur Elísabet Erlingsdóttir íslensk þjóðlög. Kristinn Gestsson pianóleikari annast undirleik. Hljóðritun fór fram í stereo hjá Ríkisútvarpinu, Reykjavík. Ljósmynd á framhlið (Cover photo) Bragi Hinriksson. Ragnar og Þuríður syngja lög Jónatans Ólafssonar. Ragnar og Þuríður syngja lög Jónatans Ólafssonar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni syngja Ragnar og Þuríður dægurlög eftir Jónatan Ólafsson. Útsetningar gerði Jón Sigurðsson, bassaleikari og stjórnaði hann jafnframt hljómsveitarundirleik. Er plata þessi tvímælalaust enn ein skrautfjöðrin í hans landskunna útsetjarahatt. Upptaka fór fram hjá Tóntækni h.f. undir stjórn Sigurðar Árnasonar. Mynd á framhlið tók Kristján Magnússon. Hárkolla. Nicolas de Vermont með hárkollu Hárkolla er eftirlíking af hári búin til úr mannshári, hrossahári, ull, fjöðrum eða gerviefnum. Hárkollur eru bornar á höfði til hátíðabrigða eða til að leyna skalla eða til að breyta um útlit. Hárkollur eru oft hluti af leikbúningum leikara og grímubúningum. Einnig eru þær sums staðar hluti af hefðbundnum embættisbúningi dómara. Hárkollur hafa verið notaðar öldum saman af margs konar menningarheimum. Þegar hárkollur urðu nauðsynlegur hluti af búningi karla af betri stéttum þá varð til öflug stétt hárkollugerðarmanna. Gildi hárkollugerðarmanna var stofnað í Frakklandi árið 1665. Hárkollur voru þá efnismiklar og flóknar að gerð og mjög þungar og dýrar í framleiðslu. Best þótti að búa til hárkollur úr hári manna en einnig var notast við hrosshár og geitahár. Á 18. öld tíðkaðist að púðra hárkollur til að fá fram hvítan og bleiktan litatón. Hárkollupúður var gert úr sterkju sem í var bætt ilmefnum. Stundum var hárkollupúður litað fjólublátt, blátt, bleikt eða gult en algengast var þó að það væri hvítt. Púðraðar hárkollur urðu hluti af búningi og notkun þeirra hélst allt til enda nítjándu aldar. Um 1780 varð tíska hjá ungum mönnnum að púðra og lýsa upp eigið hár og eftir 1790 duttu hárkollur og hárkollupúður úr tísku nema hjá eldri mönnum og konum við hirðina. Við frönsku hirðina í Versölum var á 18. öld tíska meðal kvenna að bera bátlaga stórar hárkollur. Þessar hárkollur urðu seinna á tímum frönsku byltingarinnar táknmynd fyrir hnignun og spillingu franska aðalsins. Ull. Ull eru hár sumra spendýra og myndar feld til að halda að þeim hita. Ull er einnig hugtak sem er haft um unna vöru en það er ull af sauðfé en einnig geitum, lamadýrum og angórukanínum. Vinnsla ullar á Íslandi. Ull er unnin þannig að kindur eru fyrst rúnar, og ullin síðan þvegin og þurrkuð. Því næst er hún kembd og spunnin. Gæði ullarinnar fer eftir lengd og fínleika þráðanna. Lengd þráðanna er frá 40-150 mm og fínleiki frá 15-30 mm. Vegna sérstakrar hárgerðar íslensku ullarinnar er auðvelt að útbúa úr henni fjölbreyttan fatnað, allt frá undirfatnaði til þykkra hlífðarfata en hún er hlý og veitir skjól í alls kyns veðrum og gegndi margþættu hlutverki í búskap. Ull var unnin að vetri til en fólk hófst ekki handa við vinnslu ullar fyrr en eftir sláturtíð. Í upphafi úrvinnslunnar var tog aðskilið frá þelinu en það kallaðist að taka ofan af ullinni. Því næst tæjaði fólk þelið, það er greiddi því í sundur, áður en það var sett í ullarkamba þar sem það var kembt svo vel að hvergi sást hnökri í kembunni. Úr kembunni var svo spunninn þráður, fyrst með snældu en síðar með rokk. Þráðurinn var ýmist notaður einspinna,tvinnaður eða þrinnaður. Ef þráðurinn átti að vera tvinnaður voru tvær fullar snældur settar í snældustól og þrjár snældur ef þráðurinn átti að vera þrinnaður. Þræðinum var síðan undið upp í hnykla eða á hesputré (viðartré). Togið sem tekið var ofan af ullinni var vel nýtt. Togið var spunnið ýmist á rokk eða halasnældu í mismunandi grófan þráð eftir notkun en togþráðurinn var venjulega þrinnaður. Togþráðurinn var til dæmis notaður til að verpa skinnskó, í snjósokka eða ytri sokka (togsokka) og einnig voru búin til úr honum hrognkelsanet. Togið á íslensku ullinni hefur fjölbreytilegt notagildi en það líkist mest hör eða líni. Til þess að hreinsa togið voru notaðir svokallaðir togkambar en í þeim var unnið það vandaðasta fyrir vefnað og útsaum. Sem dæmi má nefna fléttusaum (íslenska krosssauminn). Fyrr á öldum var allur klæðnaður heimilisfólks handsaumaður en togþráðurinn var notaður til þess að sauma hann. Þar má nefna skúfinn við skotthúfuna (sem er hluti af upphlut). Notagildi togsins var fjölbreytt og var það einnig notað í grófar rúmábreiður, segl á báta, í tjöld og vaðmál. Íslenska ullin hentar vel í listrænan vefnað, prjón og útsaum en allur vefnaður á Íslandi fram til loka 19. aldar byggðist eingöngu á ullinni. Peysufatavaðmálið var það vaðmál sem mest var vandað til. Vandasamt verk var að spinna í dúksvunturnar og að vinna peysufatasjöl. Ýmiss konar annar fatnaður var unninn úr íslensku vaðmáli, svo sem skrautföt, treflar og prjónapeysur fyrir karlmenn. Ullarþvottur á Íslandi. Fram yfir síðari heimsstyrjöld var mikill hluti íslenskrar ullar þveginn heima á bæjum. Við ullarverkun þurfti að safna keytu til ullarþvottar. Öllu þvagi sem til féll var safnað því lítið var fáanlegt af þvottaefnum en keytan þótti bæði betra þvottaefni og svo var hún ódýr. Þegar búið var að rýja féð voru mestu óhreinindin barin úr – kallað að berja ullina Ullin var vanalega þvegin við á eða læk á þurrum sumardegi. Tvenns konar aðferðum var beitt við ullarþvott. Önnur aðferðin var sú að ullin var þvæld sem fólst í því að vatn var hitað í stórum potti og keytu blandað við, 1/3 keyta og 2/3 vatn. Ullinni var síðan bætt út í pottinn og hún var þvæld fram og aftur í nokkra stund. Lögurinn í pottinum mátti ekki ofhitna, 40-45°C, vegna þess að þá bráðnaði sauðfitan of mikið úr ullinni og yrði verri til tóskapur. Næst var ullin sett á smágrind sem lögð var yfir pottinn. Þetta var gerst til þess að lögurinn sem rann úr ullinni tapaðist ekki heldur rynni beint aftur niður í pottinn. Ullin var því næst þvegin í sjó eða rennandi vatni og borin út á tún. Þegar þurrkur kom var ullin breidd til þerris. Önnur aðferð kallast var tunnu- eða stampaþvottur sem var algengari sérstaklega ef um mikla ull var að ræða. Lögurinn var látinn í stamp eða tunnu og ullin sett í löginn. Ullin var troðin niður með berum fótum eins þétt og hægt var. Sá sem tróð ullina þvældi hana í leiðinni með fótunum. Þegar öll ullin var komin í tunnuna var lokað fyrir hana svo hitinn héldist og látin standa svo í eina til tvær klukkustundir. Að því búnu var ullin tekin úr tunnunni og þvegin í sjó eða rennandi vatni. Ekki mátti taka nema lítið úr tunnunni í einu því þegar ullin kom í kalt vatn vildu óhreinindin festast í henni og hún varð stöm. Þegar búið var að þvo ullina var hún borin út á tún og þurrkuð. Þegar ullin var orðin þurr var hún flokkuð. Fyrst valin sú ull sem var mjög hvít og með mikið þel en úr henni átti að vinna nærföt. Síðan var öll mislit ull tekin frá en úr henni átti að vinna betri sokkaplögg og vettlinga, rendur í sokka, herðasjöl og hluti til skrauts. Ull sem var gul eða togmikil var notuð í grófari fatnað svo sem ytri föt þar sem efnið var ofið í vefstól. Flókar og úrgangsull var notuð til ýmissa þarfa svo sem í reipi og gjarðir. Þegar ullin var þvegin fóru allir í sín verstu föt því ullarþvottur þótti óþrifaleg vinna. Í sveitum var ullarþvottur aðallega í verkahring kvenna en umtalsverð vinna var við ullarþvott. Með flutningum fólks úr sveit í bæ á fyrri hluta 20. aldar dró úr ullarþvotti heima fyrir. Ullarþvottavélum var komið upp í klæðaverksmiðjunum Iðunni, Gefjun og Álafossi en oft þurfti að þvo aftur heimaþvegna ull þegar hún kom til vinnslu í ullarverksmiðjunum. Eiginleiki ullar. Eðliseiginleikar ullar gera hana togþolna og þjála. Þurr hiti feyskir ull. Hún harðnar við 100°C og við 130°C gulnar hún og molnar, kosturinn við hana er að hún brennur ekki. Áhrif raka og hita á ull eru sérstök. Raki og hiti gera ull þjála, sé þrýstingi beitt má móta hana. Hún geymist lengi óskemmd ef hitastig er eðlilegt og rakastig minna en 65%. Verði ull fyrir núningi þegar hún er blaut þófnar hún, því heitari sem hún er þeim mun meira þófnar hún. Ullin hleypur ekki en getur þæfst í vélþvotti og við hátt ph gildi. Hún er einnig frekar viðkvæm fyrir sól og brotnar fljótt niður í sólarljósi. Ullin þolir ekki þurrkara. Ullin hefur frá náttúrunnar hendi afar góða einangrunareiginleika og stafar það af þvi að þræðirnir eru liðaðir og loftrými er því mikið í þeim sem er mikilvægt fyrir vinnlu hennar og notkun. Liðirnir eru mestir í fínustu ullargerðum eins og loðbandi sem er bylgjað með mikilli fyllingu en minni í grófari ull líkt og kambgarni sem er slétt með lítilli fyllingu. Bylgjurnar auðvelda spuna á loðbandi en bandið verður fjaðurmagnaðra og ullarvörurnar léttari og hlýrri. Þessir eiginleikar ullar ásamt þjáll hennar valda því að fötin þola mikið hnjask án þess að á þeim sjáist. Ullarflíkur geta varið fólk gegn kulda jafnt sem hita. Til dæmis ver ull fólk á hásléttum Argentínu og Ástralíu gegn hita dagsins og kulda næturinnar. Ullarhár sauðfjár. Ullarhár sauðfjár er í fjórum lögum. Yst er þunn vatnsverjandi himna sem hlífir hárinu. Á himnunni eru lítil göt, hárið getur þannig tekið við raka eða losað sig við hann. Vegna þessa eigileika ullarinnar er ull þæginlegt hráefni í klæðnað. Undir himnunni er hreisturslag sem er flögumyndað, þessar flögur eru ein aðalskýringin á þófeiginleikum ullar. Þriðja lagið er hárkjarni sem er meginhluti hársins eða meira en 90% þess og er myndað af löngum snældulaga frumum og skýrir sú frumumyndun togþjálni ullar. Fjórða lagið má finna í grófum hárum en í þeim er oft mergur eða laus fylling af opnum, glúfum frumum. Þessi mergur rýir gæði ullar til iðnaðar. Ullarfita frá fitukirtlum smyr hárin og ver þau, mismikið eftir tegundum, en er nauðsynleg til þess að hægt sé að kemba hana. Íslensk ull. Munur er á ull eftir kyni og aldri fjár. Ullin er grófust á gömlum hrútum en lambsull fíngerðust. Munur getur einnig verðið á ull eftir því hvar ullin vex á sauðkindinni. Íslensku ullinni hefur verið skipt í fjóra flokka eftir eðli og eiginleikum. Ullarhárin skiptast í þelhár, toghár, hvítar illhærur og rauðgular illhærur. Þelhárin eru fínustu og stystu hár reyfisins og finnast í reyfinu innanverðu og mynda þar svokallaðan þelfót. Fín ull er betur fallin til iðnaðar en gróf ull. Í íslensku ullinni er um 88% af öllum hárum í reyfinu þelhár en vegna þess hve stutt þau eru og fín vega þau ekki nema um 50% af þunga reyfsins. Sumir fjárstofnar erlendis hafa nánast ekkert þel og til eru aðrir sem eru allt að því toglausir. Að fínleika jafnast íslensku þelhárin við merinóull en munur er á gildleika og lengd. Þelhárin í íslensku ullinni eru frábrugðin örðrum vegna þess að þau eru óreglulega liðuð. Til dæmis verður þelþráður úr íslenskri ull fyrirferðameiri en þráður úr jafn mörgum hárum af merinólull því hárin falla ekki þétt að hvort öðru í þræði. Þelhárin heldur einnig meira lofti og einangrar betrur en þráður úr merinóull. Íslensk lopapeysa. Ekki er langt síðan að íslenska lopapeysan kom fram á sjónarsviðið. Handprjónaðar lopapeysur urðu afskaplega vinsælar á seinni heimsstyrjaldarárunum en þá voru svokallaðir hringprjónar notaðir. Munstur á þessum lopapeysum byggðust aðallega á hefðbundnu norsku munstri en það er tvíbanda með beinum axlabekkjum. Lopapeysan með hringlaga axlabekkjunum er sköpunarverk íslenskra prjónakvenna á síðari hluta sjötta áratugar 20. aldar. Íslenska lopapeysan hefur orðið mjög vinsæl á meðal bæði þjóðarinnar og ferðamanna en vegna hennar opnuðust erlendir markaðir fyrir íslenskar vélprjónaðar vörur. Hönnun á prjónavörum hefur orðið sérstök atvinnugrein alveg síðan að prjónaiðnaður varð að útflutningsiðnaði og í dag eru nokkrir hönnuðir sem vinna við prjónaframleiðslu. Til að byrja með var íslenska lopapeysan eingöngu í íslensku sauðalitunum en með tímanum hafa litir og munstur þróast og alls konar útfærslur og snið hafa mótast hjá hinum ýmsu hönnuðum. Í þrjá áratugi hafa íslenskar lopapeysur verið prjónaðar af fjölda kvenna og eiga flestir Íslendingar slíkar peysur. Erlendir ferðamenn eru að sama skapi áfjáðir í að kaupa þær. Mest er prjónað af lopapeysum en einnig er vinsælt að prjóna sjöl, hyrnur, húfur, sokka og vettlinga.Íslenska lopapeysan átti stærstan þátt í því að opna markað fyrir íslenskar ullarvörur úti í hinum stóra heimi. Útflutningur. Mestan hluta Íslandssögunnar hefur ull verið ein helsta útflutningsvara Íslendinga. Á 17. öld var unnin ull aðalútflutningsvara Íslendinga. Smá saman dró úr útflutningi á unninni ull og á 19. öld var rúmlega helmingur af ull Íslendinga flutt óunnin út. Langt fram eftir 20. öldinni fór ullarframleiðsla fram á heimilum landsmanna en færðist að mestu leyti, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, í hendur ullarverksmiðja. Fólk prjónaði eða óf ýmsar flíkur og þæfði síðan flíkurnar til þess að þær entust betur. Framan af notaði fólk snældu við ullarframleiðslu en með tilkomu rokksins jókst framleiðslan enn frekar. Ullarframleiðsla tók stakkaskiptum með tilkomu fyrstu ullarvinnsluvélarinnar árið 1884. Landsmenn hættu hinsvegar ekki að prjóna og er prjónaskapur enn þann dag í dag tómstundaiðja hjá mörgum Íslendingum. Helstu vörurnar sem eru framleiddar á Íslandi og fluttar út eru prjónaðar lopapeysur. Ull á alþjóðlegum markaði. Ull var fyrsta varan sem verslað var með á alþjóðlegum markaði og er enn þann dag í mjög mikilvægur þáttur í landbúnaði margra landa. Alþjóðleg ullarframleiðsla er um 1,3 milljón tonn á ári. Rúmlega helmingur allrar alþjóðlegrar framleiðslu fer í fataiðnað. Í Ástralíu fer mesta ullarframleiðslan fram. Nýja Sjáland kemur á eftir Ástralíu en þeir framleiða mest af öllum í heiminum af kynblendinni ull. Kína er þriðji stærsti framleiðandi ullarinnar. Ull er seld á mismunandi hátt. Flestir fjárbændur hafa ekki nægilega mikið af ull til þess að geta selt hana beint til verslana eða vöruhúsa. Vöruhúsin vilja flokka ullina eftir gæðum og tegundum en til þess að það sé hægt þarf að hafa mikið magn af ull. Það eru fáir sem geta framleitt svo mikið af ull þannig að margir bændur í Bandaríkjunum sameina ullina sína til þess að geta markaðssett hana. Í þessari sameiginlegu ullarsölu er nægilegt magn af ull til að flokka hana eftir gæðum og tegundum. Í sumum vöruhúsum er ullin seld á uppboðum fyrir ákveðna kaupendur. Bein viðskipti með ull er þegar seljandinn selur ullina beint til endanlega kaupandans en ekki til ullar vöruhúsa eða annarra framleiðanda. Algengustu beinu viðskiptin eru þegar ull er seld beint til vefara og annars handverksfólks. Handverkfólk sem býr til föt eða aðra hluti úr ullinni vill hafa ullina sem hreinasta og lausa við alla mengun. Bændur verða að huga að þessum kröfum neytenda þegar þeir vinna með ullina. Jean-Baptiste Colbert. Jean-Baptiste Colbert (29. ágúst 1619 – 6. september 1683) var fjármálaráðherra Loðvíks 14. Frakkakonungs. Hann er talinn vera áhrifamesti merkanílistinn og jafnframt aðalfrumkvöðull þeirrar stefnu. Colbert efldi miðstýringu í efnahagsmálum og kom á opinberu efnahagseftirliti. Einnig endurbætti hann skattakerfið. Hann styrkti handiðnað, afnam tollamúra innanlands, samræmdi mynt, mál og vog og bætti samgöngur. Í hans tíð varð Frakkland eitt mesta flotaveldi heims og eignaðist ýmsar nýlendur í Ameríku. Stefna hans olli straumhvörfum í Evrópu en óhófsemi hirðarinnar í Frakklandi dró mjög úr árangri af henni heima fyrir. Lúdó og Stefán - Lúdó og Stefán. Lúdó og Stefán - Lúdó og Stefán er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni syngur Lúdó og Stefán dægurlög. Jón Sigurðsson útsetti og stjórnaði hljóðfæraleik við hljóðritun. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður var Sigurður Árnason, sem jafnframt annaðist hljóðblöndun ásamt Lúdó og Stefáni. Major League Baseball. Major League Baseball er efsta deildin í hafnarbolta í Bandaríkjunum. Í henni keppa 30 lið frá Bandaríkjunum og Kanada. Liðin í MLB. Í MLB deildinni hefst tímabilið fyrsta mánudag í apríl og endar seint í október. Svala Nielsen - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld. Svala Nielsen - Fjórtán sönglög eftir fjórtán tónskáld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni syngur Svala Nielsen íslensk sönglög. Jörundur Ragnarsson. Jörundur Ragnarsson (fæddur 1979) er íslenskur leikari sem útskrifaðist með B.F.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Hann hefur bæði leikið á sviði (Footloose, Lík í óskilum og Killer Joe) sem og í kvikmyndum. Fyrsta kvikmynd sem Jörundur lék í var Köld slóð sem Björn Br. Björnsson leikstýrði. Hann fékk svo hlutverk misþroska drengs í kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur Veðramót og fyrir það hlutverk fékk hann Edduverðlaun árið 2007. Haustið 2007 lék hann Daníel Sævarsson í Næturvaktinni, persónu sem hefur flosnað upp úr læknisfræði vegna prófkvíða og þunglyndis og tekið að sér starf á bensínstöð. Í framhaldi af velgengni þáttaraðarinnar lék hann einnig í Dagvaktinni og Fangavaktinni, sem síðar ólu frá sér, vegna vinsælda kvikmyndina Bjarnfreðarson. Hann lék einnig galdrakarl í Astrópíu. McFly. McFly er bresk popp-rock hljómsveit sem stofnuð var 2004. Hún er skipuð "Danny Jones", "Dougie Poynter", "Harry Judd" og "Tom Fletcher". Tom Fletcher (söngvari og gítarleikari) var góður vinur James Bourne úr strákahjómsveitini Busted. Tom fór fyrst í áheyrnaprufu til að komast inn í Busted en komst ekki inn, svo hann stofnaði sína eigin hljómsveit McFly en hljómsveitin dregur nafn sitt af aðalpersónu Back to the Future myndanna, Marty McFly, en þær eru uppáhaldsmyndir Tom. Tom stofnaði McFly með Danny Jones, (söngvari og gítarleikari). Síðan fundu þeir Harry Judd (trommuleikari) og Dougie Poynter (bassagítar), sem komu í prufu fyrir hjómsveitina. En frá því að bandið byrjaði hafa þeir verið góðir vinir Busted, enda Tom besti vinur James og svo var annar aðili Busted, Charlie Simpson, sem gekk i sama skóla og Harry Judd í Mcfly, svo það voru mikil tengsl þar á milli. Mcfly bættu met Bítlanna í að vera yngsta hljómsveitin til að ná smáskífu í fyrsta sæti á breska vinsældalistanum, Dougie var aðeins 15 ára þegar McFly byrjaði. Frá 2004 hafa McFly orðið sívinsælli með árunum. Fyrsta platan þeirra, Room On The 3rd Floor kom út 2004 svo kom Wonderland 2005, þriðja platan þeirra Motion In the Ocean kom 2006 og All the Greatest Hits kom 5. nóvember 2007. Nýjasta plata þeirra Radio: Active kom svo 2008. Þeir tóku hana upp í Ástralíu. Þeir fengu enskt dagblað, "The Mail on Sunday", til að setja eitt eintak í hvert blað til að fá fleiri til að hlusta á lögin þeirra, kannski þá sem höfðu ekki hugsað sér að hlusta á tónlistina þeirra áður. Þeir sem keyptu "The Mail on Sunday" fengu semsagt plötuna frítt og áður en platan kom í búðir. Strákarnir hafa líka verið duglegir við að gera sínar eigin útgáfur af frægum lögum. Þeir hafa einnig verið mjög duglegir við það að taka þátt í góðgerðarmálum. Mcfly lék í myndinni Just My Luck með þeim Lindsey Lohan og Chris Pine. Þar léku þeir sjálfa sig þar sem þeir voru að reyna að koma sér á framfæri í Bandaríkjunum. Þeir hafa líka birtst í mörgum sjónvarpsþáttum og í Miss World keppninni 2008 sungu þeir tvö af lögunum sínum og voru aðalhljómsveitin í keppninni. Þann 25.nóvember 2009 tilkynnti Tom á Twitter síðu sinni að Mcfly hefði verið að semja nýtt efni í samstarfi við tónlistarmanninn Taio Cruz og verið að semja fyrir stelpnahljómsveitina "The Saturdays". Þann 10.september 2010 tilkynntu þeir svo að nafnið á nýju plötunni yrði "Above the Noise". Í september 2010 hafði Mcfly átt 17 lög sem höfðu komist inná topp 20 vinsældarlistann, 7 lög sem höfðu náð fyrsta sætinu á breska vinsældarlistanum og 15 lög sem höfðu komist inná topp 10 listann. Mcfly hefur unnið til fjölda verðlauna frá því að þeir byrjuðu árið 2004 enda mjög vinsæl hljómsveit víða um heim og hefur selt meira en 8 milljón plötur. Mjónefur. Mjónefur (fræðiheiti: "Tachyglossus aculeatus") er spendýr sem finnst í Ástralíu þar sem það er algengasta upprunalega spendýrið og í strandhéruðum og hálendi Suður-Gíneu. Það er eitt af fjórum tegundum "echidna" og það eina sem er af tegund mjónefja ("Tachyglossus"). Ásamt þremur tegundum af Zaglossus og Platypus er það eitt af fimm tegundum nefdýra sem eru einu spendýrin sem verpa eggjum í stað þess að fæða lifandi unga. Mjónefur er þakinn feldi og broddum og hefur áberandi trýni og sérhæfða tungu sem það notar til að veiða ýmis skordýr. Lýsing. Mjónefur er vanalega 30 til 45 sentimetra á lengd, trýnið er 75 millimetra og dýrið vegur milli tvo og fimm kíló. Elizabeth Cady Stanton. Elizabeth Cady Stanton'", (12. nóvember 1815 – 26. október 1902 var bandarísk kvenréttindakona og einn af upphafsmönnum kvenfrelsisbaráttunnar á Vesturlöndum. Ólíkt mörgum öðrum í kvenréttindabaráttu 19. aldarinnar barðist Stanton fyrir meiru en bara kosningarétt kvenna. Stanton hafði einnig áhuga að bæta forræðisrétt kvenna, eignarétt þeirra, vinnurétt og stjórn kvenna á barneignum. Fyrstu árin. Stanton fæddist í Johnstown, New York þann 12. nóvember 1815. Foreldrar hennar voru Margaret Livingston og Daniel Cady, þingmaður og hæstaréttindadómari. Ólíkt mörgum konum á hennar tíma, fékk Stanton klassíska menntun í Johnstown Academy, þar sem hún lærði latínu, grísku og stærðfræði til sextán ára aldurs. Árið 1830 hóf Stanton nám í Troy Female Seminary, kvennaskóla stofnuðum af Emmu Willard. Árið 1840 giftist Stanton Henry Brewster Stanton, fréttamanni og baráttumanni gegn þrælahaldi. Stanton tók nafn eiginmanns síns við giftinguna, og skráði nafn sitt ávallt sem Elizabeth Cady Stanton eða E. Cady Stanton, en hún neitaði að svara Mrs. Henry B. Stanton. Hún hélt því fram að konur væru einstaklingar og sagði að „sú hefð að kalla konur frú Jón Þetta og frú Tómas Hitt, og blökkumenn Sambó og Zip Coon, er hefð sem byggist á þeirri hugmyndafræði að hvítir menn stjórni öllu“. Einnig neitaði Stanton að bindast manni sínum hefðbundnum kirkjuheitum. Hluti af kirkjulegri giftingu innifól heit brúðarinnar til mannsins að „elska, virða og hlýða“ honum. Stanton neitaði að „hlýða“ honum en í stað sór að koma fram við hann sem jafningja. Eftir hjónabandið hóf Henry Stanton lögfræðinám hjá föður Stantons. Árið 1843 fluttu hjónin til Boston, þar sem Stanton var virk í baráttunni gegn þrælahaldi, og starfaði með fólki eins og Louisa May Alcott, Frederick Douglass, Ralph Waldo Emerson, William Lloyd Garrison og Robert Lowell. Stanton og eiginmaður hennar eignuðust sjö börn milli 1842 og 1859. Hjónaband þeirra var ekki auðvelt. Henry Stanton, alveg eins og Daniel Cady, var á móti kvenfrelsi, og vegna vinnuskyldna og ferðalaga bjuggu hjónin lengur frá hvoru öðru heldur en saman. Bæði þóttu þó hjónin hjónabandið vera gott, og þau voru gift í 47 ár, þar til Henry Stanton lést árið 1887. Upphaf kvennabaráttunnar. Árið 1840 hitti Stanton Lucretiu Mott á alþjóðlegri ráðstefnu gegn þrælahaldi í London. Mott var kvekari, prestur og baráttukona gegn þrælahaldi. Konurnar tvær urðu vinir þegar þeim tveimur var neitað að taka þátt í ráðstefnunni, þrátt fyrir að Mott hafði verið valin opinber erindreki fyrir samfélag sitt í Bandaríkjunum. Eftir miklar umræður var konunum leyft að sitja ráðstefnuna á svæði sem var lokað af frá aðalsalnum, svo að karlarnir þyrftu ekki að horfa á þær. William Lloyd Garrison, sem mætti á ráðstefnuna eftir að atkvæðin voru talin, sat þar með þeim til að mótmæli þessari ákvörðun. Mott og hugmyndir hennar um kvenfrelsi höfðu mikil áhrif á Stanton. „"Ég fann fyrir óánægju með hlutverk konunnar sem eiginkona, húsmóðir, fóstra, og andlegur leiðbeinandi heimilisins. Þegar ég sá hvernig heimili leystust upp í skipulagsleysi án stöðugrar umsjónar kvenna, og þegar ég horfði á þreyttan, áhyggjufullan svip þessara kvenna, sá ég að eitthvað þyrfti að gerast til að bæta samfélagið, og þá sérstaklega hlut kvenna í því samfélagi. Reynsla mín úr Alþjóðlegu ráðstefnunni gegn þrælahaldi, allt sem ég hafði lesið um lögrétt kvenna, og kúgunina sem ég sá hvarvetna, allt þetta geystist um sálu mína, styrkt af minni eigin reynslu. Það var eins og öll náttúruöflin hefðu komið saman til að leiða mig áfram. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera og hvar ég ætti að byrja. Það eina sem ég vissi var að ég þyrfti að halda opinberan fund til að ræða um og mótmæla núverandi ástand."“ Árið 1848 skipulagði Stanton ásamt Mott og fleiri konum fyrstu bandarísku kvenfrelsisráðstefnuna, sem haldin var 19. og 20. júlí í Seneca Falls. Stanton skrifaði hina svokölluðu Afstöðuyfirlýsingu, sem hún las upp á ráðstefnunni. Þessi yfirlýsing var byggð á sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna, og lýsti því yfir að karlar og konur væru jafningjar. Stanton krafðist í þessari yfirlýsingu að konur fengju kosningarétt. Þessi yfirlýsing var samþykkt af gestum ráðstefnunnar, og átti stuðningur Fredericks Douglass mikinn þátt í þeirri samþykkt. Árið 1851 hitti Stanton Susan B. Anthony. Þær tvær urðu einn helsti drifkraftur kvenréttindabaráttunnar í Bandaríkjunum. Anthony var einhleyp og hafði tækifæri til að ferðast um Bandaríkin að tala um kvenréttindi, eitthvað sem Stanton var ekki í aðstöðu til að gera á þeim tíma. Stanton var betri rithöfundur og skrifaði margar af ræðum Anthony, en Anthony hélt utan um skipalag þessarar nýju hreyfingar. Smám saman fengu fleiri konur leiðtogahlutverk í hreyfingunni, meðal annars Lucy Stone og Matilda Joslyn Gage. Klofningur í kvennabaráttunni. Eftir bandarísku borgarastyrjöldina olli Stanton klofningi í kvenréttindabaráttunni, þegar hún og Susan B. Anthony neituðu að styðja breytingu á bandarísku stjórnarskránni til að gefa blökkumönnum kosningarétt. Stanton var mótfallin því að gefa svörtum karlmönnum kosningarétt þegar konum, hvort sem þær voru svartar eða hvítar, var enn neitað að kjósa. Stanton taldi að þar væri aðeins verið að fjölga karlkjósendum sem væru reiðubúnir til að neita konum um kosningarétt. Bæði Stanton og Anthony voru reiðar því að fyrrum stuðningsmenn þeirra og starfsfélagar í baráttunni gegn þrælahaldi neituðu að umorða fyrirhugaðar lagabreytingar svo að konur fengju kosningarétt ásamt blökkumönnum. Smám saman breyttust skrif Stantons og hún fór að sýna kynþáttafordóma, eitthvað sem hún hafði ekki sýnt áður. Til dæmis hélt hún því fram að Bandaríkin þyrftu á kvenkjósendum að halda, konum sem hefðu þann „auð, menntun og fágun“ til að vega upp á móti nýjum kjósendum, hvort sem þeir væru fyrrverandi þrælar eða innflytjendur, sem kæmu úr „fátækt, fáfræði og niðurlægingu“. Sagnfræðingar hafa reynt að afsaka þessar skoðanir Stantons með því að leggja áherslu á mikil vonbrigði Stantons með áhugaleysi afnámshreyfingarinnar um réttindi kvenna. En eitt er víst að skrif hennar urðu þess valdandi að margir stuðningsmenn hennar urðu henni afhuga, þar á meðal Frederick Douglass. Douglass taldi að hvítar konur væru þá þegar valdamiklar vegna tengsla þeirra við feður, eiginmenn og bræður, og að fyrrverandi þrælar ættu meiri rétt á kosningarétti til að bæta upp fyrir hræðilega meðferð á þeim á tímum þrælahalds. Douglass hélt því fram að blökkukonur myndu fá nægileg réttindi þegar blökkumenn, feður þeirra, eiginmenn og bræður, fengju kosningarétt. Því taldi Douglass að kosningaréttur blökkumanna væri mikið mikilvægari en kosningaréttur kvenna. Stanton var ósammála Douglass. Þrátt fyrir þá kynþáttafordóma sem hún sýndi stundum í skrifum sínum, trúði Stanton því að allir ættu að hafa kosningarétt, karlar og konur, hvítir og svartir. Hún taldi að Douglass væri ekki að tala fyrir hönd blökkukvenna, og að ef konur hefðu ekki kosningarétt, myndu blökkukonur vera dæmdar í „þrefaldan þrældóm“ þrælahalds, kyns og kynþáttar. Anthony, Olympia Brown og Frances Gage studdu Stanton í baráttu hennar fyrir kosningarétti fyrir alla, en aðrar konur yfirgáfu hreyfingu hennar. Lucy Stone, Elizabeth Blackwell og Julia Ward Howe voru mjög andfallnar þessari „allt eða ekkert“ hugmyndafræði Stantons. Árið 1869 hafði þessi umræða klofið kvennahreyfinguna, og tvær nýjar hreyfingar voru stofnaðar. Anthony og Stanton stofnuðu National Woman's Suffrage Association (NWSA) í maí 1869. Þessi hreyfing hafði það að sjónarmiði að berjast fyrir almennum kosningarétti, og studdi ýmsar hugmyndir sem þóttu mjög róttækar, eins og rétt kvenna til að skilja, rétt eiginkvenna til að neita eiginmanni sínum um kynlíf og rétt kvenna til að sitja í kviðdómi. Stone, Blackwell, og Howe stofnuðu American Woman's Suffrage Association (AWSA) í nóvember 1869. Þessi hreyfing studdi lagabreytingarnar sem gáfu blökkumönnum kosningarétt og hafði það að leiðarljósi að smám saman auka þennan rétt þar til konur hefðu rétt til að kjósa. Sojourner Truth, fyrrverandi þræll og kvenfrelsiskona, vann með Stanton og Anthony, sem og Matilda Gage. Þrátt fyrir tilraunir þeirra til að bæta fyrirhugaðar lagabreytingar var upphaflega lagagreinin samþykkt árið 1870, og blökkumenn fengu kosningarétt, en ekki konur. Síðustu árin. Á árunum eftir þessa baráttu hóf Stanton ásamt fleiri konum að berjast fyrir breytingum á túlkun laganna. Þær héldu því fram að stjórnarskráin hefði þegar gefið konum kosningarétt í lagagrein sem skilgreindi borgara sem „allar manneskjur sem eru fæddar í Bandaríkjunum eða hafa fengið bandarískan ríkisborgararétt“. Árið 1872 reyndi Anthony að greiða atkvæði, og 1880 reyndi Stanton hið sama. Hundruð annarra kvenna reyndi að kjósa að þessum árum í hinum ýmsu fylkjum Bandaríkjanna, án árangurs. Stanton skrifaði margar bækur sem voru mikilvægar fyrir kvenréttindabaráttuna í Bandaríkjunum. Árið 1881 kom út fyrsta bindið í verkinu "The History of Woman Suffrage". Þetta verk innihélt sögu kvennabaráttunnar ásamt skjölum og bréfum sem henni tengdist. Stanton, Anthony og Gage skrifuðu fyrstu þrjú bindin, en verkinu var ekki lokið fyrr en sjötta bindið, skrifað af Ida Harper, kom út árið 1922. Einnig gaf Stanton út "The Women's Bible" árið 1895, og sjálfsævisöguna "Eighty Years & More: Reminiscences 1815-1897" árið 1898. Árið 1868 stofnaði Stanton ásamt Anthony og Parker Pillsbury tímaritið "Revolution". Skrif Stantons og ferðalög um Bandaríkin á síðari árum hennar voru mikilvæg fyrir þróun kvennabaráttunnar. Hún stuðlaði að því að kosið var um kosningarétt kvenna í New York, Missouri og Kansas árið 1867 og í Michigan árið 1874. Hún reyndi að bjóða sig fram sem þingmaður árið 1868, og ýtti áfram lagagrein í stjórnarskrá New York fylkis sem gaf konum eignarrétt. Hún ferðast einnig mikið um Evrópu og árið 1888 hjálpaði hún til við stofnun International Council of Women. Árið 1890 sameinuðust loks kvennahreyfingarnar tvær í Bandaríkjunum í National American Woman Suffrage Association (NAWSA). Stanton var mjög mótfallin þessari sameiningu, þar sem hún taldi AWSA vera of íhaldssamt og kristilegt. Ólíkt flestum öðrum kvenfrelsiskonum á þessum tíma taldi Stanton að kristnar trúarsetningar héldu konum niðri og gerðu lítið úr framlagi þeirra til samfélagsins. Þrátt fyrir andstöðu hennar við hugmyndir AWSA varð Stanton fyrsti forseti NAWSA, en varð þó aldrei vinsæl meðal íhaldssamari meðlima samtakanna. Þann 18. janúar 1892 talaði Stanton, ásamt Anthony, Stone, og Isabellu Beecher Hooker í bandaríska þinginu um kosningarétt kvenna. Þar hélt Stanton eina af frægustu ræðum sínum, "Einsemd sálarinnar". Rétt eins og í Afstöðuyfirlýsingu sinni 45 árum fyrr hélt Stanton því fram að kvenfrelsi væri ekki bundið við kosningarétt kvenna heldur væri kvenfrelsi óaðskiljanlegt stöðu kvenna í samfélaginu. „"Einvera mannssálarinnar og nauðsyn þess að hver sem er getur geti treyst á eigin getu hlýtur að veita hverjum einstaklingi þann rétt til að kjósa eigið umhverfi. Besta ástæðan fyrir því að gefa konunni kost á æðri menntun, kost á að þróa hug sinn og líkama, kost á frelsi til að hugsa aðhafast eins og hún kýs helst; besta ástæðan fyrir því að veita henni algera lausn frá ánauð hefðar, ósjálfstæðis, hjátrúar, lausn frá bæklandi áhrifum óttans -- besta ástæðan fyrir kvenfrelsi er einveran og ábyrgð konunnar á eigin lífi. Þetta er tilefni þess að við biðjum um rödd fyrir konuna í stjórn þess lands sem hún býr í; að við biðjum um rödd í kirkjunni sem hún er beðin um að trúa á; að við biðjum um jafnrétti í samfélaginu þar sem hún er aðalþáttakandi; að við biðjum um stað í vinnulífinu, þar sem hún getur unnið fyrir sér. Við biðjum um þessi réttindi því að þetta er frumburðarréttur konunnar til fullveldis, því, sem einstaklingur, þá verður hún að geta reitt á sjálfa sig."“ Stanton dó í New York þann [26. október] [1902], næstum því tuttugu árum áður en konur fengu kosningarétt í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að Stanton fékk ekki að fara í reglulegan háskóla, fengu dætur hennar háskólamenntun. Stanton var ávallt mjög umdeild í kvennahreyfingunni vegna hugmyndir hennar um kirkjuna og áherslur hennar á atvinnuþáttöku kvenna og getnaðarvarnir. Kvenréttindakonur 20. aldarinnar litu því oft upp til Anthony sem stofnanda kvenréttindabaráttu Bandaríkjanna. Það var ekki fyrr en á síðustu áratugum 20. aldarinnar að Stanton tók sinn réttmæta stað í sögubókunum. Tenglar. Stanton, Elizabeth Cady Heimsmiðstöð Bahá'í trúarinnar. Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er staðsett í Haifa, Ísrael. Þar er bæði stjórnfarsleg og andleg miðja bahá'í heimsins. En æðsta stofnun bahá'í trúarinnar Allsherjarhús réttvísinnar er staðsett á Karmelfjalli og jafnframt eru tveir helgustu staðir bahá'í trúarinnar, grafhýsi Bábsins og Bahá'u'lláh, Staðsettir í grendinni. Í heimsmiðstöð bahá'ía starfa að jafnaði um 700 sjálfboðaliðar á hverjum tíma sem allir koma víðsvegar að úr heiminum. Keane. Keane (borið fram) er bresk píanórokkhljómsveit frá Battle í Austur-Sussex á Englandi. Hún var stofnuð árið 1994 sem The Lotus Eaters en árið 1997 var núverandi nafn tekið upp. Sveitina skipa þeir Tim-Rice Oxley (lagahöfundur, bassaleikari, píanóleikari), Tom Chaplin (söngvari) og Richard Hughes (trommari). Gítarleikarinn Dominic Scott yfirgaf hjómsveitina árið 2001. Keane er fræg fyrir að nota píanó sem aðal hljóðfæri í stað gítars og hefur þannig náð að skapa sér ákveðna sérstöðu gagnvart öðrum rokkhljómsveitum. Árið 2006 byrjuðu þeir að nota brenglað píanóhljóð og nokkrar gerðir hljóðgervla. Undanfarið hafa þeir notað hljóðfæri eins og banjó, fiðlur, saxófóna og kassagítar á ný. Fyrstu tvær breiðskífur hljómsveitarinnar, "Hopes and Fears" og "Under the Iron Sea", nutu mikilla vinsælda á Bretlandi og seldust mjög vel um allan heim. Fyrsta platan þeirra vann nokkur verðlaun og var söluhæsta plata Bretlands árið 2004. Önnur platan seldist í 222.000 eintökum fyrstu vikuna í júní 2006. Í maí 2008 kusu lesendur tímaritsins "Q" bæði plötuna "Hopes and Fears" (#13) og "Under the Iron Sea" (#8) á meðal þeirra bestu í sögu Bretlands. Keane, Bítlarnir, Oasis og Radiohead voru einu hljómsveitirnar sem höfðu tvær eða fleiri plötur í tuttugu efstu sætunum. Stofnun sveitarinnar. Bróðir Tims Rice-Oxley — sem heitir líka Tom — fæddist nokkrum mánuðum eftir fæðingu Toms Chaplin, sem fæddist þann 8. mars 1979. Tim og Tom urðu vinir, eins og móðar sínar. Fáðir Tom var skólastjóri Vinehall School í Robertsbridge (í eigu fjölskyldu Toms) í 25 ára. Þessi var skólinn sem allir þrír fóru í þangað til þeir voru 13 ára. Síðar fóru þeir í Tonbridge School, þar sem Tim og Dominic Scott hittust. Báðir þeirra komust að þeim líkaði vel við að spila tónlist (Tom hafði líka lært að spila þverflautu) en álitu ekki að þetta gæti verið starfsferill fyrir þá. Árið 1995, þegar Tim var að læra gráðu í fornfræði hjá háskólanum University College London, hann stofnaði rokkhljómsveit með Dominic, og bauð að Richard Hughes spilaði trommur. The Lotus Eaters byrjaði að spila tónlist af uppáhaldshljómsveitum meðlimanna, til dæmis U2, Oasis og The Beatles, og æfði heima. Árið 1997, bauð Chris Martin að Tim yrði meðlimur nýrrar hljómsveitar hans, Coldplay, þegar hann hlustaði á Tim að spila píanó um helgi í Virginia Water í Surrey. Hins vegar afþakkaði Tim af því hann vildi ekki skilja við The Lotus Eaters. Hann sagði hann væri að hugsa um að skilja við, en Keane væri nú þegar að byrja að spila og Coldplay vildi ekki hafa hljómborðsleikara. Vegna boðs Chriss varð Tom meðlimur í hljómsveitinni árið 1997, en Richard og Dominic voru upprunalega andstæðir. Tom varð söngvari hljómsveitarinnar og Tim varð kassagítarleikari. Þegar Tom gekk í hljómsveitinni breytist nafnið úr The Lotus Eaters í Cherry Keane, eftir vini móður Toms sem hann og Tim kynntust þegar þeir voru ungir. Hún passaði strákana og sagði að þeir ættu að fylgja draumunum sínum. Þegar hún dó sökum krabbameins ánafnaði hún fé handa fjölskyldu Toms. Tom sagði að hann notaði sum féð til að hjálpa hljómsveitinni. Bráðum eftir þessu styttist nafnið í Keane. Tom fór til Suður-Afríku í sumar ársins 1997 til að gerast sjálfboðaliði í eitt ár. Reynsla sem hann fékk þar endurspeglaði í hljómsveitinni seinna þegar Keane tók þátt í herferðinni Make Poverty History. Þegar hann kom aftur einu ári síðar í júlí 1998, Richard sagði „við höfum gigg eftir tíu dögum“ þegar þeir fóru til að sækja Tom frá flugvellinum. Með lögum að þeir höfðu skrifað þeir sjálfir á kránni Hope & Anchor í Islington þann 13. júlí 1998. Sama árið fór Tom í háskólanum í Edinborg til að læra gráðu í listasögu. Síðar gaf hann gráðuna sína upp á bátinn og flutti til Londons til þess að fylgja sívirkum tónlistarferli með vinum sínum. Eftir á þeir leikuðu í fyrstu, fóru þeir á ferðalagi um krána í London. Austur-Sussex. Austur-Sussex (e. "East Sussex") er sýsla á Suður-Englandi á Bretlandi. Höfuðborgin í Austur-Sussex er Lewes. Hopes and Fears. Hopes and Fears er fyrsta stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Keane og kom hún út árið 2004. Under the Iron Sea. Under the Iron Sea er önnur stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Keane og kom hún út árið 2006. Bedfordshire. Bedfordshire (skammstafað Beds) er sýsla á Austur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Bedfordshire er Bedford. Berkshire. Berkshire (skammstafað Berks) er sýsla á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Berkshire er Reading. Newcastle upon Tyne. Newcastle upon Tyne (almennt Newcastle og stundum nefnd Nýikastali á íslensku) er borg á Tyne and Wear (frb. "Tæn and Wír") á Norðaustur-Englandi. Hún er við Tyneá og var forðum höfuðborg Northumberlands. Borgin var stofnuð á tímum Rómaveldis sem "Pons Aelius". Íbúar næsta nágrennis Newcastle eru kallaðir "Geordies". Árið 2006 voru íbúar Newcastle 259.536 talsins. Tyne og Wear. Tyne og Wear á Englandi. Tyne og Wear er sýsla á Norðaustur-Englandi á Bretlandi. Borgin Newcastle upon Tyne er á sýslunni. Vax. Vax er vanalega notað um efni sem framleitt er af býflugum og þær nota til að byggja býflugnabú eða efni með svipaða eiginleika. Bragi Hlíðberg - Bragi Hlíðberg. Bragi Hlíðberg - Bragi Hlíðberg er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Bragi Hlíðberg. Sykursýki. Sykursýki (fræðiheiti "diabetes mellitus") er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af of háum blóðsykri sem stafar annaðhvort af of litlu magni insúlíns í blóði eða af óeðlilegri virkni insúlíns ásamt því að magn þess sé of lítið. Algengustu einkenni eru þorsti, tíð þvaglát og sjóntruflanir. Afbrigði af sykursýki. Tvö afbrigði eru til af sykursýki, týpur eitt og tvö. Týpa eitt orsakast vegna þess að svokallaðar beta frumur í briskirtli mannsins hætta að framleiða insúlín, enn í dag er óvitað hvers vegna þetta á sér stað. Meðferð við sykursýki týpu eitt er regluleg insúlín gjöf annaðhvort með sprautum, insúlín pennum eða insúlín dælum. Sykursýki tegund eitt er lífstíðar langur sjúkdómur en fólk með sykursýki getur lifað heilbrigðu löngu lífi nú til dags ef mataræði og lyfjagjöf er vel stjórnað. Týpa tvö fyrirfinnst í flestum tilfellum í eldra fólki en er þó farið að finnast í yngri kynslóðum með hækkandi tíðni offitu í heiminum. Meðferð við sykursýki tegund tvö er í byrjun oftast breytt mataræði og góð líkamleg hreyfing en þegar sjúkdómurinn er kominn lengra getur lyfjagjöf verið nauðsynleg. Tegund tvö af sykursýki orsakast oftast vegna offitu, hækkað magn kólesterols eða vegna annarra sjúkdóma svosem Cushing heilkennis. Skortstaða. Skortstaða (e. "short position") er aðferð sem menn nota í fjármálum til þess að hagnast á verðfalli verðbréfa eða annarra verðmæta til dæmis gjaldmiðla eða hrávara, með því að fá þau lánuð til sölu með það að markmiði að kaupa aftur ódýrara seinna og skila til lánveitanda. Sá sem tekur skortstöðu í eign á minna en ekki neitt í eign, það er að segja skuldar hana að fullu. Þeir aðilar sem taka þátt í skortstöðum með láni verðbréfa eru venjulega langtímafjárfestar sem hafa trú á verðhækkun til langs tíma en eru ekki að eltast við skammtímasveiflur. Lánveitandi fær greiðslu frá lántaka fyrir lán verðbréfanna. Skortsala (e. short selling) er þegar eign er fengin að láni og hún síðan seld í því augnamiði að kaupa hana aftur á lægra verði. Til að endurgreiða lánið þarf að kaupa eignina aftur. Skortsala er meðal annars notuð þegar veðjað er á að eign muni lækka í verði. Sá sem tekur skortstöðu getur þá keypt eignina á lægra verði en hann seldi hana á og hagnast þegar hann hefur losað sig úr skortstöðu. Þeir sem hafa tekið skortstöðu í einhverjum verðmætum er stundum sagðir hafa tekið „stöðu gegn“ þeim, það er að segja hafi trú á lækkun þeirra. Andstæðan við skortstöðu er gnóttstaða. Dæmi. Jón er þess fullviss að verð hlutabréfa í Vogun vinnur hf. sé við það að falla. Hann snýr sér til Sigurðar sem á hlutabréf í félaginu, fær 1000 hlutabréf að láni og greiðir Sigurði 50.000 krónur fyrir lánið. Jón selur strax bréfin sem á núverandi gengi eru að verðmæti 1.000.000 króna. Hlutabréfin falla um 20% og Jón kaupir þessi 1000 bréf aftur en núna greiðir hann aðeins 800 krónur fyrir bréfið eða samtals 800.000 krónur. Bréfunum skilar hann aftur til Sigurðar en mismuninum á sölu- og kaupverði, 200.000 krónum, heldur hann eftir. Hagnaður Jóns af viðskiptunum eru því 150.000 krónur. Alger skortstaða. Alger skortstaða (e. "naked short position") er það kallað þegar menn sleppa fyrsta skrefinu, þ.e. að fá hlutabréfin lánuð. Þá selur viðkomandi bréf í ákveðnu félagi strax á núverandi gengi, með loforði um að afhenda bréfin eftir til dæmis mánuð. Hann er þá ekki aðeins að veðja á verðfall bréfanna heldur einnig að hann geti eftir mánuð keypt bréfin til þess að standa við loforðið. Áhætta. Skortstaða er áhættusamur fjármálagerningur. Ef gengi hlutabréfa í félagi sem tekin er skortstaða í hækkar verður tap á gerningnum sem viðkomandi innleysir þegar hann kaupir bréfin til að afhenda þeim sem hann fékk þau lánuð hjá. Á hinn bóginn getur hagnaðurinn verið gífurlegur, sérstaklega á hlutabréfamörkuðum eða í félögum þar sem sveiflur eru miklar. Því eru það venjulega svokallaðir Vogunarsjóðir sem eru stórtækastir í skortstöðum. Sem dæmi um vel heppnaða skortstöðu má taka Northern Rock bankann í Bretlandi. Í febrúar 2007 var gengi hlutabréfa í bankanum 12,5 pund. Fjárfestar voru þá þegar farnir að spá verðfalli bréfanna vegna hugsanlegs lausafjárvanda í kjölfar tapaðra útlána til húseigenda í Bandaríkjunum. Í september 2007 féll gengið undir 2 pund. Talið er að allt að þriðjungur hlutafjár bankans hafi þá verið bundið í skortstöðum og hagnaður fjárfesta af þeim hafi verið meira en 1 milljarður punda. Í sumum löndum eru skortstöður bannaðar með lögum eða þeim settar strangar skorður. Þetta er meðal annars vegna þess að víðtækar skortstöður geta haft áhrif á verðmyndun hlutabréfa á markaði og ýkt verðsveiflur. Einnig er spurning um hversu siðlegt það er að vogunarsjóðir geti haft stórfelldan hag af því að ýta undir áhlaup á fyrirtæki í viðkvæmum rekstri, eins og banka. Það er ekki síst hættulegt á krepputímum, því að gjaldþrot eins mikilvægs fyrirtækis getur leitt til keðjuverkunar á markaði. Á Íslandi. Skortstöður eru ekki bannaðar á Íslandi, né þeim settar aðrar takmarkanir í lögum. Þrátt fyrir þetta er ekki vitað til þess að skortstöðum sé mikið beitt í íslensku fjármálalífi. Lífeyrissjóðum er ekki heimilt að taka þátt í skortstöðum vegna þeirra ströngu fjárfestingaheimilda sem þeim er gert að starfa eftir. Flest íslensk fjármálafyrirtæki taka ekki þátt í skortstöðum viðskiptavina sinna vegna áhættu þeim samfara. Í janúar 2008 tilkynnti Kauphöll Íslands að í undirbúningi væri að koma á fót lánamarkaði með verðbréf í því skyni að leiða saman aðila sem vilja lána verðbréf og þá sem vilja fá þau að láni. 4. desember 2007 ráðlagði Den Danske Bank viðskiptavinum sínum að taka stöðu gegn krónunni, það er að segja að veðja á gengislækkun íslensku krónunnar. Flogaveiki. Flogaveiki er sjúkdómur sem er samsafn einkenna sem stafa af óeðlilegum truflunum á rafboðum í heila sem valda því að líkamshreyfingar fólks verða óvenjulegar eða það sem í daglegu máli er kallað flog. Jón Ragnarsson - Uss, ekki hafa hátt. Jón Ragnarsson - Uss, ekki hafa hátt er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni flytur Jón Ragnarsson eigin lög og texta. MusicBrainz. MusicBrainz er ókeypis gagnagrunnur fyrir hljómplötur. Daniel Willard Fiske. Daniel Willard Fiske (11. nóvember 1831 – 17. september 1904) var bandarískur ritstjóri, fræðimaður og Íslands- og skákáhugamaður. Hann er frægastur hér á landi fyrir að hafa gefið Grimseyingum tafl og bókakost og hvatt skólapilta Lærða skólans í Reykjavík til að stofna með sér nýtt lestrarfélag, sem nefnt var eftir heimabæ Fiskes, Íþaka. Námsár og fyrstu störf. Fiske fæddist í Ellisburgh í New York-fylki. Hann las norrænu við háskólana í Kaupmannahöfn og Uppsölum, en hvarf að því loknu til New York árið 1852 og gerðist bókavörður við Astor-bókasafnið og gegndi þeirri stöðu í sjö ár. Árin 1859-1860 var hann aðalritari bandaríska landafræðifélagsins og á þeim árum skrifaði hann bók um fyrsta skákþingið í Bandaríkjunum og gaf síðan út, ásamt "Paul Morphy" fyrsta skáktímaritið þar í landi, "American Chess Monthly" (1857-1860). Árin 1861-1862 var Fiske aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna í Vínarborg, en 1864 gerðist hann ritstjóri "Syracuse Daily Journal" og var við það blað í tvö ár, og 1867 var hann ritsjóri blaðs sem heitir "Hartford Courant". En árið 1868 var hann gerður að prófessor í norrænum málum við Cornell-háskóla í Ithaca og jafnframt bókavörður við háskólabókasafnið. Fyrsta Íslandsferðin. Árið 1879 kom Fiske til Íslands og ferðaðist hér um. Síðan fór hann til Egyptalands og Ítalíu og kvæntist þar ríkri konu. Sagði hann af sér prófessorsembættinu við Cornellháskólann 1883 og settist að í Flórens á Ítalíu. Tók hann nú að gefa sig eingöngu við bókfræði. Hafði fjárhagur hans jafnan verið þröngur fram að þessu, en þó hafði hann þá þegar lagt hinn fyrsta grundvöll til hins mikla safns sín. Árið 1899 dvaldi hann lengi í Kaupmannahöfn til þess að fullkomna safn sitt af íslenskum bókum, og frá þeim tíma og til dánardægurs, lagði hann mesta áherslu á hið íslenska bókasafn sitt. Hann fékk síðar tvo Íslendinga, Halldór Hermannsson og Bjarna Jónsson síðar bankastjóra á Akureyri, til að aðstoða sig við að gera skrá yfir safn sitt, og unnu þeir hjá honum í heilt ár suður í Flórens. Sú skrá varð þó ekki fullgerð. Fiske gaf út viðauka við skrá um þær íslenskar bækur, sem eru í British Museum og prentaðar eru á Íslandi á árunum 1578-1844 ("Bibliographical Notices" 1, 4, 5 og 6). Skákáhugi og bókagjafir. Fiske var allra manna fróðastur um sögu skáklistarinnar og átti ágætt safn af skákritum. Það gaf hann Landsbókasafni Íslands árið 1900 (um 2.000 bindi) og jafnframt reyndi hann að vekja áhuga Íslendinga fyrir skák með því að gefa út skákrit á íslensku, Í uppnámi. Íslenskt skákrit, 1901-1902, kennslukver í skák og safn af skákþrautum. Fyrir áhrif hans voru stofnuð mörg taflfélög á Íslandi. Grímseyingar höfðu þá um langt skeið verið bestu skákmenn landsins, enda var skák aðaldægrastytting þeirra á vetrum. Þetta þótti Fiske afar merkilegt og sýndi hann Grímseyingum margan vott vináttu sinnar. Hann gaf þeim t.d. bókasafn og hann arfleiddi þá að 12.000 dollurum og stofnaði með þeim sjóð, sem verja skal eyjarskeggjum til menntunnar og til jarðabóta á eyjunni. Árið 1900 byrjaði Fiske á stóru ritverki um sögu skáklistarinnar á Íslandi og var fyrsta bindi þess nær fullprentað þegar hann dó, "Chess in Iceland and in Icelandic Litterature", Flórens 1905. Árið 1903, þegar hann var í Kaupmannahöfn, gaf hann út litla en góða handbók um Ísland, "Mimir, Icelandic Institutions with Adresses". Fiske-safnið í Cornell-háskólanum. Fiske arfleiddi Cornell-háskóla að öllum eigum sínum með því skilyrði að íslenska bókasafninu yrði um aldur og ævi haldið sérstöku, og að bókavörðurinn væri Íslendingur, stúdent frá Reykjavík, og að rentum af 43.000 dollara sjóði, sem hann stofnaði, væri varið til þess að launa bókavörð og kaupa íslenskar bækur, og enn fremur að 900 dollurum væri varið á ári til þess að gefa út rit, sem fjallar um Ísland og hið íslenska safn hans. Halldór Hermannsson sá um flutning á bókasafninu vestur um haf og varð síðan bókavörður þess. Vann hann ötullega við að auka það og fullkomna og gaf út merkar skrár um það. Willard Fiske safnaði fleiru en íslenskum bókum. Nátengt íslenska safninu er bókasafn hans um rúnir. Einnig dró hann saman eitt besta safn sem til er um ítölsku rithöfundana Dante Alighieri og Francesco Petrarca, og loks safn rita á retó-rómönsku. Þessi sérsöfn gaf hann einnig Cornell-háskóla og eru til sérskrár um þau. Hjörtur Þórðarson. Hjörtur Þórðarson ("Chester H. Thordarson") (1867 – 1945) var vestur-íslenskur rafmagnsverkfræðingur og uppfinningamaður. Hann fékk mörg einkaleyfi á sínum tíma, eins og til dæmis fyrir kveikispólum sem notaðar eru í bíla. Hann rak spennaverksmiðju í Chicago um 1930 sem hafði á að skipa 1500 – 1800 starfsmönnum. Hjörtur lét reisa sér veglegt sumarhús á Klettaeyju ("Rock Island") í Wisconsin í Bandaríkjunum. Það er núna í eigu "Wisconsin DNR" sem keypti húsið af erfingjum Hjartar árið 1965. Francis Bacon (listamaður). Francis Bacon (28. október 1909 – 28. apríl 1992) var írskur myndlistamaður og einn þekktasti listamaður 20. aldar. Hann er þekktastur fyrir martraðarkennd og grótesk málverk sín sem framfæra hina algjöru einsemd mannsins. Tenglar. Bacon, Francis Þrjú á palli - Tekið í blökkina. Þrjú á palli - Tekið í blökkina er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni flytja Þrjú á palli sjómannakvæði eftir Jónas Árnason við írsk þjóðlög. Blótsyrði. Blótsyrði (formælingar, bölv, ragn eða fúkyrði) eru orð sem í hverju tungumáli eru tengd við andskotann eða það sem nefna mætti „hið óhreina“ í náttúrunni eða fari manna. Lárus Pálsson leikari les ljóð. Lárus Pálsson leikari les ljóð er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni flytur Lárus Pálsson leikari ljóð eftir íslensk ljóðskáld. Einnig flytur Lárus þætti úr leikritunum um Hamlet danaprins og hinn norska Pétur Gaut. Sigurður Einarsson í Holti. Séra Sigurður Einarsson í Holti (29. október 1898 – 23. febrúar 1967) var íslenskur prestur, þingmaður og rithöfundur, ljóðskáld og mikilsvirkur þýðandi. Æska. Sigurður fæddist á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð. Foreldrar hans voru "Einar Sigurðsson" bóndi á Arngeirsstöðum, ættaður úr Landeyjum, og "María" kona hans, ættuð úr Fljótshlíð. Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum. Hann vann hörðum höndum til sjós og lands í æsku, en braust síðan til mennta af eigin rammleik, tók stúdentspróf utan skóla í Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1922. Fór í guðfræðideild Háskóla Íslands og brautskráðist þaðan 1926. Sama ár gerðist hann prestur í Flatey á Breiðafirði, og gegndi því embætti í tvö ár. Framhaldsnám. Árið 1928 sigldi séra Sigurður til framhaldsnáms við Hafnarháskóla og dvaldist þá erlendis um tveggja ára skeið. Og þaðan lá leið hans á ferðalagi til Finnlands, allt austur til Ladogavatns. Eftir heimkomuna 1930 réðist séra Sigurður sem fastur kennari við Kennaraskóla Íslands og hélt því starfi þar til hann varð, eftir hávaðasamar deilur, dósent í guðfræði við Háskóla Íslands 1937. Hann var einnig landskjörinn þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn frá 1934 til 1937. Hann lét af embætti sem dósent við Háskóla Íslands 1944 og gerðist næstu tvö árin skrifstofustjóri á Fræðslumálaskrifstofunni. Flutt að Holti. Árið 1946 fluttist hann svo búferlum úr höfuðstaðnum og gerðist sóknarprestur að Holti undir Eyjafjöllum. Því embætti gegndi hann til dauðadags. Sigurður var einnig tíðindamaður Ríkisútvarpsins frá 1931 til 1937, fréttastjóri sömu stofnunar frá 1937 til 1941 og átti sæti í útvarpsráði frá 1943 til 1947. Switch-setning. Í tölvuforritun, er Switch-setning skilyrðissetning notuð í flestum nútíma forritunarmálum (eins og C, C++, og Java). Tilgangur hennar er að leyfa gildi breytu eða segð að stjórna inningarröð forrita. Til eru setningar í öðrum forritunarmálum sem eru setningafræðilega öðruvísi en þjóna sama tilgangi hugtakslega og kallast þær case-setning eða select-setning. Dæmi. Eftirfarandi eru dæmi um notkun Switch-setningunar. Ekki má gleyma að hafa codice_1 þegar brjótast á út úr setningunni. Ef ekkert af case-setningunum tekur við skilyrðunum í switch() þá tekur codice_2 skilyrðið við, ef það er til staðar í forritinu, en því má þó sleppa. C#. notar staðlaða C-málfræði í setningunni og bætir við þeim eiginleika að nota „goto case“-setningu. Það er einnig hægt að nota strengi. Það er þó ekki leyfilegt að keyra alla setninguna í gegn þegar kóðinn er vistþýddur, því eru aðrar setningar notaðar (eins og codice_1 eða codice_4) til að koma í veg fyrir það. ATHUGIÐ: Tómar case-setningar þurfa ekki að notast við goto-setninguna. Þær leyfa ekki gegnumkeyrslu í Switch-setningunni. Meistarinn. "Meistarinn" er spurningaþáttur sem hefur verið á dagskrá Stöðvar 2 frá því í desember 2005. Stjórnandi er Logi Bergmann Eiðsson. Þátturinn byggir ekki á neinni sérstakri fyrirmynd en svipar til ýmissa vinsælla spurningaþátta s.s. "Viltu vinna milljón", sem Logi Bergmann sá áður um á Stöð 2. Árið 2006 sigraði verkfræðineminn Jónas Örn Helgason í keppninni og árið eftir menntskælingurinn Magnús Þorlákur Lúðvíksson. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa báðir getið sér gott orð í spurningakeppninni Gettu betur áður en þeir tóku þátt í Meistaranum. Fyrir jólin 2006 gaf Stöð 2 út samnefnt spurningaspil. Stelpurnar. "Stelpurnar" er íslensk gamanþáttaröð sem sýnd er á Stöð 2. Þættirnir byggja á stuttum sjálfstæðum grínatriðum (sketsum) líkt og "Svínasúpan" og "Fóstbræður". Þættirnir hófu göngu sína árið 2005. Þeir hafa tvisvar hlotið Edduverðlaunin sem leikið sjónvarpsefni ársins (2005 og 2006). Teikning. Teikning er myndlist sem notar teiknitól til að vinna á tvívíðan flöt. Verkfærin geta verið grafít blýantur, blekpenni, pensill, vaxlitur, viðarkol, kalk, pastellitur, túss eða griffill. Algengasti miðillinn er pappír þótt hægt sé að nota efni eins og pappa, plast, leður, striga eða borð. Skammtímateikningar má gera á töflu. Fönikískt stafróf. Fönikískt stafróf er abdsjad Fönikíumanna sem notað var um 1050 f.Kr. til að skrifa fönikíska tungumálið. Gríska stafrófið þróaðist út frá fönikíska stafrófinu. Leikfélag Akureyrar. Leikfélag Akureyrar var stofnað 19. apríl 1917. Upphaf sjónleikja á Akureyri má þó rekja allt aftur til ársins 1860. Núverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar er María Sigurðardóttir. Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhúsið á landsbyggðinni. The Benchwarmers. The Benchwarmers er bandarísk kvikmynd frá árinu 2006. Hún segir frá þremur körlum sem urðu fyrir einelti í skóla og vinna nú á vídeóleigu og við blaðburð. Þeir ákveða að æfa hafnarbolta og reyna að vinna bikarinn. Með aðalhlutverkin fara Rob Schneider, Jon Heder og David Spade. Helgi Hálfdanarson (þýðandi). Helgi Hálfdanarson (14. ágúst 1911 – 20. janúar 2009) var menntaður lyfjafræðingur og var lyfsali á Húsavík og í Reykjavík. Hann var helsti þýðandi Íslendinga á 20. öld og þýddi meðfram vinnu sinni öll leikrit William Shakespeare, gríska harmleiki eftir Æskýlos, Sófókles og Evripídes, Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen og mörg önnur þekkt leikrit í bundnu máli. Hann þýddi einnig Kóraninn og mikið af ljóðum frá Japan og Kína og töluvert frá Evrópu og víðar. Helgi skrifaði auk þess mikið um íslensk fræði og pistla í dagblöð og á mörg velheppnuð nýyrði í íslensku eins og t.d. „heilkenni“ ("syndrome"). Helgi Hálfdanarson var sonur séra Hálfdanar Guðjónssonar á Sauðárkróki en Guðjón, faðir hans, var bróðir Helga Hálfdanarsonar sálmaskálds. Helgi fékk Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun dagblaðanna, árið 1970 fyrir þýðingar sínar á William Shakespeare. Hann hafnaði þó verðlaununum á þeirri forsendu að hann hafði þá reglu að þiggja aldrei neina viðurkenningu af neinu tagi. Paul Bowles. Paul Frederic Bowles (30. desember 1910 – 18. nóvember 1999) var bandarískur rithöfundur, tónskáld og þýðandi. Einna frægastur er hann fyrir smásögur sínar, en einnig fyrir skáldsögu sína "The Sheltering Sky". Tenglar. Bowles, Paul Gunnar B. Guðmundsson. Gunnar B. á Edduverðlaununum 2007. Gunnar Björn Guðmundsson er íslenskur leikstjóri. Hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd var Astrópía sem frumsýnd var árið 2007. Gunnar leikstýrði áramótaskaupi Sjónvarps árin 2009, 2010, 2011 og 2012. Windows Live Messenger. Windows Live Messenger (WLM), er spjallforrit hannað af Microsoft fyrir Windows XP, Windows Server 2003, Windows Vista og Windows Mobile. Það kom fyrst á markaði þann 13. desember 2005 og er hluti af Windows Live-vörumerkinu. Nýjasta útgáfan er Windows Live Messenger 8.5 sem var gefið út þann 6. nóvember 2007. Til stendur að leggja Windows Live Messenger niður og sameina það við Skype. Miðmynd. Miðmynd þekkist á því að endingin "-st" (sem kallast miðmyndarending) bætist við germyndina (t.d. "Jón klæddist"). Á undan miðmyndarendingunni falla þó niður endingarnar "-ur", "-r" og "r-ð" Miðmynd segir frá því hvað gerandi/gerendur gerir/gera við eða fyrir sjálfan/sjálfa sig, t.d. hann leggst, þeir berjast. Fyrir kemur að germynd lítur út sem miðmynd, til dæmis þú stökkst út í lækinn. Til að greina á milli er hentugt að skipta um persónu eða tölu; þú stökkst út í lækinn - > ég stökk út í lækinn - sem leiðir í ljós germynd þar eð endingin -st verður að vera í öllum persónum í miðmynd. Frá fornmáli til nútímans. Miðmyndarendingin -st (-zt) í nýmáli er til orðin úr endingunni -sk í fornmáli en hún var komin af afturbeygða fornafninu sik (í nýíslensku sig). Í fyrstu persónu eintölu var endingin þó -mk, í fleirtölu -sk; síðar kom -sk í stað -mk í eintölu. Jón Helgason prófessor segir í bók sinni Handritaspjall að elstu handrit af íslandi, þau sem ætla má að skrifuð séu nálægt aldamótunum 1200 og þar á undan, hafi ýms skýr auðkenni sem greini þau frá öllum öðrum. Meðal þeirra auðkenna er þetta: „Miðmyndarending er -sk eða -sc) og munur á nafnhætti at iþrasc (iðrast) og hluttaksorði (hafa) iþratsc.“ Merkingareinkenni miðmyndar. Dr. Björn talaði einnig um helsta merkingareinkenni miðmyndar, þegar hann lýsti henni með þeim orðum sem að framan greinir. Honum var auðvitað kunnugt um að miðmyndin hefur einnig annars konar merkingu, þótt sjaldgæfari sé. Er þá fyrst til að taka hvað menn gera hvor við annan. Er þá sagt að miðmyndin hafi gagnvirka merkingu. Þá er ógetið hins þriðja. Miðmynd er stundum notuð í merkingu þolmyndar. Ef við segjum til dæmis, að hljóðið heyrist ekki eða hesturinn finnist ekki, þá meinum við að hljóðið „verði ekki heyrt“ og hesturinn „verði ekki fundinn.“ Hljóðið og hesturinn eru þarna „þolendur“ þess verknaðar sem um er að ræða. Enn getum við sagt með svipuðu tali: Dyrnar lokast, hurðin Eista. Eistu (fræðiheiti: "testis", ft. "testes") er kynkirtill karldýra. Hann er egglaga og er í kviðarholi á fósturskeiði og fyrsta hluta æviskeiðs en ratar svo niður um sérstaka rennu í pung. Eistað er samsettur pípukirtill og um hann hlykkjast sæðispípurnar. Í þeim verða sáðfrumurnar til og færast svo smám saman út í sérstakt geymsluhólf, aukaeistað. Liggur það ofan á eistanu. Þar myndast hluti sáðvökvans en einnig eyðast þar gamlar sáðfrumur skyldi aftöppun ekki verða með eðlilegum hætti. Helgi Hálfdanarson (sálmaskáld). Helgi Hálfdanarson, sálmaskáld, alþingismaður og lektor, fæddist í Eyjafirði 19. ágúst 1826 og lést í Reykjavík 2. janúar 1894. Foreldrar hans voru Hálfdan Einarsson (fæddur 1801, dáinn 1865) síðast prófastur á Eyri í Skutulsfirði og fyrri kona hans Álfheiður Jónsdóttir (fædd 1794, dáin 1833) prests í Möðrufelli. Helgi var kvæntur Þórhildi Tómasdóttir. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík 1848 og innritaðist í Háskólan í Kaupmannahöfn sama ár. Tók annað læridómspróf 1849, próf í kirkjufeðrafræði árið 1852 og guðfræðipróf árið 1854. Hann vann við kennslustörf í Reykjavík 1854–1855. Helgi varð vígður prestur í Kjalarnesþingum 1855 og sat að Hofi. Hann fékk síðar Garða á Álftanesi 1858. Árið 1867 var hann svo skipaður kennari við Prestaskólann. Helgi var svo skipaður forstöðumaður hans (lektor) árið 1885 og gegndi því embætti til æviloka. Hann var einnig formaður sálmabókanefndar frá 1878 til 1886 og þýddi sjálfur fjölda sálma meðal annars eftir Martein Lúther. Helgi var einnig alþingismaður Vestmannaeyja 1869 til 1876. Oktoberfest. Oktoberfest er árleg bjórhátíð haldin í München, höfuðborg Bæjaralands í Þýskalandi og er fjölmennasta hátíð í heimi. Oktoberfest hefur verið haldin síðan árið 1810. Hátíðin er haldin á svæði sem nefnist Theresienwiese í vesturhluta München. Ár hvert sækja yfir sex milljónir gestir hátíðina heim. Á Oktoberfest er bjórinn í háveigum hafður og fyrir hátíðina brugga brugghúsin í München sérstakan Oktoberfest-bjór sem inniheldur hærra áfengismagn en hin hefbundna framleiðsla. Theresienwiese daginn fyrir opnun árið 2006 Saga Oktoberfest. Svo kallaðar Oktoberfest-hátíðir voru algengar áður fyrr í Bæjaralandi og þjónuðu þær þeim tilgangi að tæma bjórgeymslurnar áður en nýtt bruggtímabil gengi í garð. Hin hefðbundna Oktoberfest í München var haldin í fyrsta skipti þann 17. október 1810. Í tilefni af brúðkaupi Ludwigs krónprins og Therese prinsessu þann 12. október 1810 var efnt til kappreiða á engi fyrir utan borgarmúra München. Eftir það var engið nefnt Theresienwiese. Til að gleðja múginn ákvað bæverska konungshirðin að endurtaka kappreiðarnar á sama stað og sama tíma að ári, og þar með skapaðist hefðin fyrir Oktoberfest. Þó nokkrum sinnum hefur reynst nauðsynlegt að hætta við Oktoberfest, ýmist vegna átaka eða farsótta. Árin sem hátíðin var ekki haldin voru: 1813 vegna Napóleonsstyrjaldanna, nokkur ár milli 1854 og 1873 vegna kólerufarsóttar, 1866 vegna prússnesk-austurríska stríðsins, 1870 vegna þýsk-franska stríðsins, 1914 til 1920 vegna heimstyrjaldarinnar fyrri, 1923/1924 vegna óðaverðbólgu og 1939 til 1948 vegna heimstyrjaldarinnar síðari. Svæðið. Oktoberfest 2003 að kvöldi til séð ofan úr Parísarhjólinu Svæðið þar sem Oktoberfest hátíðin fer fram heitir Theresienwiese og er í vesturhluta München. Svæðið er um 42 hektarar að stærð. Á svæðinu má finna 14 stór bjórtjöld, 15 smærri bjórtjöld auk þess sem stórt tívolí er á svæðinu. Stóru bjórtjöldin eru misstór, það minnsta hefur yfir um 6 þúsund sætum að ráða á meðan það stærsta hefur 12 þúsund sæti. Alls eru um 100 þúsund sæti í boði. Á Oktoberfest hátíðinni hafa einungis hin hefðbundnu München-brugghús leyfi til að selja bjór, en þau eru: Spaten-Franziskaner-Bräu, Augustiner, Paulaner, Hacker-Pschorr, Hofbräu og Löwenbräu. Eingöngu er hægt að kaupa bjórinn í svo kölluðum Maß einingum, þar sem 1 Maß samsvarar einum lítra. Dagsetningar og opnunartímar. Vegna algengs kulda í október hefur hátíðin verið látin hefjast í september síðan árið 1872. Opnunardagur hátíðarinnar er því ávallt fyrsti laugardagur eftir 15. september, og lokadagurinn er fyrsti sunnudagur október mánaðar. Vilji svo til að fyrsti sunnudagur október sé 1. eða 2. október, þá er hátíðin framlengd fram á 3. október, sem er þjóðhátíðardagur Þýskalands (Tag der Deutschen Einheit). Hátíðin er því 2 vikur og 3 helgar að lengd. Bjórtjöldin eru opin virka daga frá 10 að morgni til 23 að kvöldi. Um helgar er opið frá 9 til 23, nema á opnunardaginn, þá er fyrst byrjað að skenkja klukkan 12 á hádegi. Dagsetningar Oktoberfest frá 2008 til 2015 Lúðrasveit Vestmannaeyja. Lúðrasveit Vestmannaeyja er lúðrasveit sem starfrækt er í Vestmannaeyjum. Hún var stofnuð þann 22. mars 1939 af Oddgeiri Kristjánssyni tónskáldi. Núverandi stjórnandi hennar er Jarl Sigurgeirsson. Lúðrasveit Vestmannaeyja var útnefndur Bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2011. Hún hefur unnið ötullega að tónlistarstarfi í Vestmannaeyjum og eru meðlimir um 35 talsins. Stjórn Lúðrasveitar Vestmannaeyja 2011 skipuðu Ólafur Þ Snorrason, Hlíf Helga Káradóttir, Flóvent M Theodórsson, Stefán Sigurjónsson og Sóley Guðmundsdóttir. Háhraðalest. a> lestir á Waterloo brautarstöðinni í Lundúnum Háhraðalest er lest sem ferðast á töluvert meiri hraða heldur en hefðbundin lest. Ekki er til neinn einn staðall sem segir til hvenær lest flokkast undir það að vera háhraðalest. Samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins er lest flokkuð sem háhraðalest þegar hún ferðast á 200 km/klst eða hraðar en lestir í Bandaríkjunum flokkast sem háhraðalestir þegar þær ferðast á 145 km/klst eða hraðar. Háhraðalestir í sinni núverandi mynd eru upprunnar í Japan og ganga lestirnar þar í landi undir nafninu Shinkansen. Fyrsta Shinkansen lestin hóf starfsemi sýna árið 1964 og tengdi saman japönsku stórborgirnar Tókýó og Osaka. Hún ferðaðist á allt að 210 km/klst og var hraðinn seinna meir aukinn upp í 220 km/klst. Í dag eru lestirnar notaðar í löndum víðsvegar um heim og sem dæmi um lönd sem hafa háhraðalestir eru Taívan, Belgía, Frakkland og Bandaríkin. Leiðir sem eru ákjósanlegar fyrir háhraðalestir. Ekki er litið á háhraðalestir sem samgöngumáta sem leysir af bíla eða flugsamgöngur. Heldur er frekar litið á þær sem viðbót við hina tvo samgöngumátana. Þau svæði sem best henta til þess að leggja háhraðalest eru svæði á milli tveggja borga. Dæmi um slíkar lestir er lestin sem tengir saman japönsku stórborgirnar Tókýó og Osaka eða Eurostar sem tengir saman Lundúnir og París. Það má segja að bestu svæðin til þess að leggja lest séu vegalengdir sem eru of langar til þess að ferðast með bíl (eða eru ófærar með bíl), en of stuttar til þess að ferðast með flugvél. Aðrar leiðir þar sem háhraðalestir eru hentugar eru leiðir á stóra ferðamannastaði eins og frá París til Frönsku Alpana, skemmtigarða, ferðamannastaða við Miðjarðarhaf eða við strönd Atlantshafsins. Til eru lestir eins og norska lestin Flytoget sem tengir Gardermoen flugvöll við Osló, höfuðborg Noregs. Aðrar leiðir sem taldar eru ákjósanlegar eru leiðir notaðar til vöruflutninga. Eins og háhraðalest yfir Síberíu frá Sankti Pétursborg til Peking eða lest sem færi frá Ítalíu í gegnum Alpana til Þýskalands. Eins og með háhraðalestir fyrir borgara, þá myndi háhraðalest fyrir vöruflutninga ekki leysa af vöruflutninga með skipum, bílum eða flugvélum heldur aðeins vera valmöguleiki þar sem lestir væru hentugari heldur en hinir þrír möguleikarnir. Sem dæmi má taka að háhraðalest frá Sankti Pétursborg til Peking gæti flutt vörur frá Austurlöndum til Evrópu á aðeins þremur dögum á meðan það tæki vörur með skipi mánuði að komast á sama áfangastað (flugvél gæti aftur á móti flutt vörur sömu vegalengd á mun styttri tíma en lest). Robert Catesby. Robert Catesby (1573 – 18. nóvember 1605) var leiðtogi samsærismannanna í Púðursamsærinu í Englandi árið 1605 þegar þeir hugðust koma fyrir mörgum tunnum af byssupúðri í kjallara Westminster-hallar og sprengja þannig upp Breska þinghúsið við þingsetningu. Robert Catesby var úr strangtrúaðri kaþólskri fjölskyldu og faðir hans hafði oft setið í fangelsi vegna trúar sinnar. Catesby tók þátt í misheppnaðri tilraun Robert Devereux, jarlsins af Essex, til að steypa Elísabetu 1. af stóli árið 1601. Fyrir það var hann látinn sæta eignaupptöku og sektum. Þegar Púðursamsærið mistókst eftir að verðir komu að einum samsærismanna, Guy Fawkes, í kjallara Westminster, flúðu hinir samsærismennirnir til Midlands. Þar lést Catesby, í Holbeach House í Staffordskíri, í skotbardaga við lögreglumenn sem hugðust handtaka hann. Tækniháskóli München. Tækniháskólinn í München ("Technische Universität München", "TUM", "TU München") er eini tækniháskólinnn í Bæjaralandi. Hann er einn af stærstu tækniháskólunum í Þýskalandi og telst til virtustu háskóla Þýskalands. TUM var stofnaður 1868 fyrir tilskipan Ludwigs II. þáverandi konungs Bæjaralands. Nám. Aðalbygging TUM er í miðborg München, en þó nokkrar deildir skólans eru staðsettar í Garching (í útjaðri borgarinnar) og Freising (einnig í útjaðri borgarinnar). Samanburður við aðra háskóla. Árið 2007 var Tækniháskólinn í München talinn virtasti háskóli Þýskalands samkvæmt hinni árlegu FOCUS könnun. Skólagjöld. Frá og með sumarönninni 2007 hafa skólagjöld við Tækniháskólann í München verið 592 evrur á önn. Tilvísanir. Munchen Thomas Hardy. Thomas Hardy (2. júní 1840 – 11. janúar 1928) var enskur rithöfundur og ljóðskáld. Helstu skáldsögur hans gerast í Wessex-héraði, sem er að hálfu uppdiktað, og fjalla um persónur sem berjast við ástríður sínar og aðstæður. Hardy tók að skrifa ljóð á fimmtugsaldri, eftir að skáldsögur hans voru úthrópaðar af viktóríanskri samtíð hans. Tenglar. Hardy, Thomas Lostprophets. Lostrophets er velsk rokkhljómsveit stofnuð 1997. Hún hefur gefið út 3 breiðskífur og er kemur sú fjórða út 2008. Vegur. Vegur er leið sem liggur á milli tveggja staða og tengir þá saman. Vegir eru venjulega malbikaðir en til eru frumstæðari vegir eins og malarvegir eða slóðar sem aðeins eru færir jeppum. Vegir eru mikilvægir hluti af efnahags og samgöngukerfi landa. Sem dæmi um það má taka að í Evrópusambandinu eru 44% af öllum vörum flutt með vöruflutningabílum á vegum og 85% af borgurum, nota vegakerfið með bílum, strætó eða rútum. Vegakerfi eru mikilvægur hluti af samgöngukerfi borga og þurfa þau að vera vel skipulögð m.a. til þess að anna umferð á háannatímum. Gróðurkort. Gróðurkort er landakort sem sýna hvar land er gróið, hvers konar gróður er um að ræða og hversu þéttur hann er. Það sýnir einnig mismunandi landgerðir ógróins lands, s.s. mela, sanda, grjót, hraun o.s.frv.. Gróðurkort sýna einnig hvar gróður- og jarðvegseyðing á sér stað eða gæti verið yfirvofandi. Slík kort eru ómissandi við gróðurverndar- og landgræðsluáætlanir. Í byggð sýna kortin ræktað og ræktunarhæft land og á þau eru færð landamerki jarða og annarra eignarlanda. Hallgrímur Benediktsson. Hallgrímur Benediktsson (20. júlí 1885 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð – 26. febrúar 1954) var þjóðkunnur athafnamaður á sinni tíð, sat í bæjarstjórn Reykjavíkur, sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var frægur glímukappi. Frægasti sigur hans var þegar hann hafði betur í glímu við Jóhannes Jósefsson í konungsglímunni á Þingvöllum 1907. Þá var Hallgrímur í íslenska flokknum sem sýndi glímu á Ólympíuleikunum í Lundúnum 1908. Hann var faðir Geirs Hallgrímssonar, sem varð forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hallgrímur fæddist á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, sonur Benedikts smiðs og bónda á Refsstað og Rjúpnafelli í Vopnafirði. Faðir hans var sonur hins kunna glímumanns séra Jóns Þorsteinssonar í Reykjahlíð. Móðir Hallgríms var seinni kona Benedikts, "Guðrún Björnsdóttir", bónda á Stuðlum í Norðfirði. George Grosz. George Grosz (26. júlí 1893 – 6. júlí 1959) var þýskur listmálari. Hann var einn af meðlimum dadaista í Berlín og er þekktur fyrir málverk sín af hinu siðlausa borgarlífi í Berlín á milli stríða, aðallega á þriðja áratug 20. aldar. Tenglar. Grosz, George Jorge Luis Borges. Borges á hóteli í París 1969. Jorge Luis Borges (24. ágúst 1899 – 14. júní 1986) var argentínskur rithöfundur, skáld, þýðandi og bókasafnsvörður. Borges er þekktastur fyrir smásögur sínar og ljóð. Hann hafði mikinn áhuga enskum bókmenntum, þýskum og arabískum og einnig á íslenskum fornbókmenntum. Á efri árum kom hann nokkrum sinnum til Íslands. Hann lærði íslensku upp á eigin spýtur og þýddi "Gylfaginningu" Snorra Sturlusonar á spænsku í samstarfi við konu sína, Maríu Kodama. Á legsteini hans stendur: "Hann tekur sverðið Gram og leggur í meðal þeirra bert". (úr Völsunga sögu). Jorge Luis Borges er grafinn í Genf. Tenglar. Borges, Jorge Luis Sprengistjarna. Sprengistjarna er sólstjarna sem springur. Sólstjarna verður að sprengistjörnu þega hún hefur eytt öllu eldsneyti og tekur því að falla saman undan eigin þunga með þeim afleiðingum að ytri lögin þeytast út í geiminn af miklu afli, en eftir situr þéttur nifteindakjarni. Eru meðal mestu hamfara sem þekkjast í alheimi, en orkan sem losnar úr læðingi er það mikil að stjarnan verður jafn björt eða bjartari en vetrarbraut. Þyngri frumefni reikistjarnanna, t.d. járn á jörðu, myndaðist í sprengistjörnu. Sprengistjörnur eru fágætar og síðast sást til sprengistjörnu í Magellanskýinu árið 1987. Dick Cheney. Richard Bruce „Dick“ Cheney (fæddur 30. janúar 1941) var 46. varaforseti Bandaríkjanna. Áður en hann tók við embætti varaforseta hafði hann gegnt ýmsum störfum bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Cheney gengdi stjórnunarstöðum í Bandaríska orkufyrirtækinu Halliburton og var m.a. stórnarformaður fyrirtækisins um tíma. Hann var kjörinn sem þingmaður í Bandaríkjaþing fyrir Wyoming fylki. Hann var varnarmálaráðherra undir George H.W. Bush og Starfsmannastjóri Hvíta Húsins undir Gerald Ford. Cheney tók við varaforsetaembættinu þann 20. janúar 2001 af Al Gore en seinna kjörtímabili hans lauk 20. janúar 2009. .la. .la er þjóðarlén Laos. Skjaldarmerki Laos. Skjaldarmerki Laos samkvæmt stjórnarskrá landsins frá 1992 Skjaldarmerki Laos sýnir þjóðarmusterið Pha That Luang efst fyrir miðju. Þar fyrir neðan til vinstri er stífla sem tákn fyrir virkjunina í Nam Ngun, þar fyrir neðan malbikaður vegur og stíliseraður hrísgrjónaakur. Neðst er hluta af tannhjóli sem tákn iðnaðarins. Til vinstri er áletrað: "Friður, sjálfstæði, lýðræði" og til hægri: "Samstaða, framfarir" og neðst fyrir miðju: "Alþýðulýðveldið Laos". Allt merkið er umlukt þroskuðum hrísgrjónaöxum. Skjaldarmerkinu var breytt 1991. Tákn kommúnismans, rauða stjarnan og hamar og sigð voru tekin burt og í þess stað kom þjóðarmusterið Pha That Luang. Fáni Laos. Fáni Alþýðulýðveldisins Laos frá 1975 Fáni Konungsdæmisins Laos, 1952 - 1975 Fáni Laos sem franskrar nýlendu Fáni Laos var gerður að þjóðfána 2 desember, 1975. Sami fáni var notaður af hinni skammlífu stjórn hins sjálfstæða Laos 1945 og af Pathet Lao. Í fánanum eru þrjár lágréttar rendur, bláa miðröndin er tvöföld breidd rauðu randanna fyrir ofan og neðan. Í miðju er hvítur hringlaga flötur sem er 0.8 sinnum hæð bláu randarinnar. Hlutföll fánans er 2:3. Rauði liturinn táknar blóðið sem sjálfstæðisbaráttan kostaði og sá blái auð þjóðarinnar. Hvíti skjöldurinn táknar tunglið yfir fljótinu Mekong en einnig samstöðu landsins undir stjórn kommúnista. Frá 1952 þangað til að konungsstjórnin féll 1975 var fáni ríkisins rauður með þríhöfða hvítum fíl (guðinn Erawan) í miðju. Fyrir ofan fílinn er níu laga sólhlíf, en hann stendur á fimm þrepa palli. Hvítur fíll er algengt tákn konunga í Suðaustur-Asíu, höfuðin þrjú eru tákn hinna þriggja fornu konungsríkja í Laos, Vientiane, Luang Prabang, og Xiengkhoung. Níu laga sólhlíf er einnig konunglegt tákn sem kemur frá fjallinu Sumeru í heimsmynd búddhista. Pallurinn táknaði þau lög sem ríkið hvíldi á. Franska Indókína. Indókína árið 1886 Indókína árið 1954 Franska Indókína (á frönsku: "L'Indochine française") var nýlendur Frakklands í Indókína í Suðaustur-Asíu kallað, það náði yfir fjögur svokölluð verndarsvæði ("Tonkin, Annam, Kambódía" og "Laos") og eina formlega nýlendu ("Cochin China"). Höfuðborg Frönsku Indókína var Hanoi. Franska Indókína var stofnað 1887 og samanstóð af svæðunum Annam, Tonkin, Cochin China (sem mynda saman það sem nú er Víetnam) ásamt Kambódíu; Laos bættist við eftir stríð Frakka við Síam 1893. Þetta nýlendusamband stóð allt fram til 1954. Á verndarsvæðunum fjórum létu Frakkar formleg völd í hendur innlendra valdhafa sem voru keisarinn í Víetnam, konungur Kambódíu og konungurinn í Luang Prabang, en í raun söfnuðu þeir öllu valdi í sínar hendur og notuðu konungana sem leppa. Fyrsta alvarlega uppreisnartilraunin stóð yfir frá 1885 til 1895 undir forystu Phan Dinh Phung. Á fjórða áratugnum hóf Síam viðræður við Frakkland um að svæðum sem þeir töldu sig eiga rétt á yrði skilað. Í upphafi árs 1938 hafði Frakkland gengist inn á að afhenda Angkor Wat, Angkor Thom, Siam Reap, Siam Pang og nokkur fleiri svæði til Síam. Meðan beðið var eftir að skrifað yrði undir samninga hertóku Síamsmenn þessi svæði. Í september 1940 gaf Vichy-stjórnin í Frakklandi Japönum leyfi til að yfirtaka Tonkin. Japanir héldu franska stjórnkerfinu og létu Frakka áfram stjórna Franska Indókína. 9. mars 1945 ákváðu Japanir að leggja undir sig allt Indókína, þá hafði Þýskaland verið hrakið út úr Frakklandi og Bandaríkin í mikill sókn á Kyrrahafi. Japanir héldu völdum í Indókína þangað til ríkistjórn þeirra gafst upp í ágúst sama ár. Að heimstyrjöldinni lokinni afneituðu Frakkar samkomulaginu við Taíland frá 1938 og reyndu að ná aftur sömu stöðu og þeir höfðu haft fyrir stríð. En nú var staðan öll önnur, nýlendustefna átti ekki lengur upp á pallborðið í Indókína og nýir og sterkir pólitískir straumar voru farnir að hafa áhrif. Aðalkrafturinn var Viet Minh-hreyfingin, bandalag víetnamskra kommúnista og þjóðfrelsissinna undir forystu Ho Chi Minh. Meðan á heimsstyrjöldinni stóð hafði Bandaríkjastjórn veitt Viet Minh stuðning í baráttunni gegn Japan. Þegar Japanir gáfust upp náði Viet Minh völdunum í öllu Víetnam nema í borgunum í mars 1945. Bao Dai, keisari í Víetnam, sagði af sér og í hans stað tók Ho Chi Minh við embætti sem forseti og 2 september 1945 var Alþýðulýðveldið Víetnam stofnað. En fyrir lok septembermánaðar sama ár höfðu breskir og franskir herir í sameiningu náð völdum að nýju fyrir hönd Frakklands. Við tók margra ára stríð, það sem hefur verið nefnt fyrsta Indókínastriðið. Árið 1950 lýsti Ho Chi Minh að nýju yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Víetnam. Bardagar héldu áfram fram að mars 1954, þegar Viet Minh sigraði franska herinn við Dien Bien Phu. Sigur Viet Minh leiddi af sér skiptingu landsins í Alþýðulýðveldið Víetnam (Norður-Víetnam) undir stjórn Viet Minh og Lýðveldið Víetnam (Suður-Víetnam). Með þessu hurfu Frakkar frá Indókína en hins vegar jukust áhrif Bandaríkjanna. Skipting Víetnam í tvö ríki var staðfest á alþjóðaráðstefnu í Genf 1954. Á sömu ráðstefnu lýsti Frakkland því yfir að þeir gerðu ekki tilkall til neins lands í Indókína. Laos og Kambódía urðu einnig sjálfstæð ríki 1954. Nesklúbburinn. Nesklúbburinn (NK) er golfklúbbur með rúmlega 600 meðlimi á Seltjarnarnesi. Klúbburinn var stofnaður árið 1964 og hefur völlur klúbbsins verið staðsettur á Suðurnesi allt frá upphafi. Vellinum sjálfum var síðast breytt árið 1994, þegar 3 nýjar holur voru teknar í notkun. Sigursælustu kylfingar NK frá upphafi eru Jón Haukur Guðlaugsson, Ólafur Björn Loftsson og Loftur Ólafsson, en feðgarnir Loftur og Ólafur eru einu Íslandsmeistarar Nesklúbbsins. Báðir unnu þeir titilinn í Grafarholti og báðir á svipaðan hátt, með því að vinna upp forskot andstæðingsins á síðustu holum mótsins. Loftur vann sinn titil 1972 en Ólafur 2009. Landnemi. Landnemi er sá sem stofnar til búsetu á nýjum stað. Í lok 18. aldar og alla 19. öldina fluttust margir Íslendingar til vesturheims. Þar stofnuðu þeir til varanlegs búskapar sem ekki hafði verið þar áður og ræktuðu landið. Indíánar voru fyrir en voru eingöngu veiðimenn sem fluttu milli staða og höfðu enga fasta búsetu. Einnig er talað um það að þegar ný dýrategund eða gróður festir rætur þar sem tegundin hefur ekki verið fyrir, er talað um landnema. Raufarhólshellir. Raufarhólshellir er hraunhellir í Leitahrauni í Ölfusi og er í landareign Vindheima. Inngangur í Raufarhólshelli er um op sem myndast hefur við það að hluti af hraunþakinu hefur fallið niður. Kitimat. Kitimat er lítið þorp í norðvestur hluta Bresku Kólumbíu í Kanada. Kitimat blómstraði á sjötta áratug 20. aldar þegar þar var reist stífla og álver. Ragnar loðbrók. Ragnar Loðbrók var fæddur einhverntíma milli 750-794. Hann var sonur Sigurðar hrings danakonungs. Þegar hann varð fullveðja fékk hann skip og áhöfn frá föður sínum og fór í víking. Frægust er sögnin um það þegar hann réðst inn í París árið 845. Sú sögn er byggð á frönskum annálum sem greina frá innrás víkingahöfðingja að nafni Reginherus. Engin rök eru til fyrir því að Reginherus hafi verið Ragnar loðbrók, en því vilja margir trúa. Ragnar hefur að líkindum verið löngu dauður áður en sú árás á París var gerð. Kona Ragnars var Áslaug Kráka, dóttir Sigurðar Fáfnisbana. Íslendingabók segir að Ívar beinlausi, sonur hans, hafi drepið Eadmund hinn helga Englakonung. Húsráð. Húsráð eru ráð sem eru misvel til þess fallin að teljast til ráða. Sum húsráð eru þó þannig að þau eru reynsla kynslóðanna sem hafa fylgt ættum eða þjóðum mann fram af manni. Stundum er erfitt að gera upp á milli bábilju og raunverulegra ráða, því sum húsráð eru það furðuleg að þau teljast frekar til fyndni en annars. En stundum fer allt saman, ráð, fyndni og virkni. Allt fer það þó auðvitað eftir hverju ráði fyrir sig og raunverulegum afleiðingum þess. Medina. Medina er borg í Hejaz héraði í vestur hluta Saudí Arabíu. Medina er önnur heilagasta borg Íslams og geymir gröf Múhameðs spámanns. Upprunalega var Medina þekkt sem Yathrib en seinna var nafni borgarinnar breytt í Medina. Árið 2006 bjuggu 1,3 milljónir manna í Medina. Lífhvolf. Lífhvolf jarðarinnar er það svæði eða sá hluti af jörðinni og gufuhvolfi hennar sem líf þrífst á. Lífhvolfið samanstendur af hluta berghvolfs, það er að segja þeim hluta jarðskorpunnar sem líf finnst í, stórum hluta vatnshvolfs, þeim hluta hafa og vatna á jörðinni sem geyma líf og í þriðja lagi í neðstu lögum gufuhvolfsins, þar sem fuglar svífa um. Sólon Guðmundsson. Sólon Guðmundsson ("Sólon í Slúnkaríki") (6. ágúst 1860 – 14. október 1931) var verkamaður og furðuskáld á Ísafirði sem Þórbergur Þórðarson skrifaði um í "Íslenskum aðli". Sólon var einsetukarl og furðulegur í háttum og bær hans, Slúnkaríki, var mjög undarlegur útlits, en við hann var hann jafnan kenndur. Slúnkaríkið stóð neðan til í fjallshlíðinni fyrir ofan Krókinn á Ísafirði. Listasalur Ísfirðinga heitir eftir bæ Sólons, og nefnist Slúnkaríki, og er í Aðalstræti 22. Landsyfirréttur. Landsyfirréttur var hæsti dómstóll á Íslandi í 119 ár, eða frá 10. ágúst 1801 til 22. desember 1919. Þann 6. júní árið 1800 skipaði Danakonungur svo fyrir að Alþingi skyldi lagt niður. Þá tók landsyfirréttur í Reykjavík við hlutverki Lögréttu sem æðsti dómstóll Íslands. Með lögunum um Hæstarétt Íslands og að hann skyldi vera æðsti dómstóll landsins var landsyfirréttur lagður niður. Fyrsti dómstjóri Landsyfirréttar var Magnús Stephensen, en meðdómendur Benedikt Gröndal eldri og Ísleifur Einarsson. John Adams. John Adams (30. október 1735 – 4. júlí 1826) var bandarískur stjórnmálamaður. Adams var 1. varaforseti (1789 - 1797) og 2. forseti Bandaríkjanna (1797–1801). Hann var hallur undir frelsi og borgaraleg gildi og var stuðningsmaður sambandssinna. Adams var einn af forvígismönnum fyrir sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna og oft talinn einn áhrifamesti aðilinn hóp svokallaðra „landsfeðra“ Bandaríkjanna sem undirrituðu og sömdu sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776). Fjölskylda. John Adams var fæddur inn í látlausa fjölskyldu en hann fann snemma fyrir sterkum vilja til að viðhalda arfleifð forfeðra sinna sem voru meðal fyrstu hreintrúarsinna sem námu land í Bandaríkjunum fyrir miðja 17. öldina. Störf. Adams komst fyrst til metorða í stjórnmálum þegar hann mótmælti svokölluðum stimpillögum (1765) sem sett voru af breska þinginu án samráðs við bandaríska löggjafann. Adams var fulltrúi Massachusetts á fyrsta og öðru Meginlands þinginu árið 1774 og frá 1775 til 1776. Áhrif Adams á þingið voru mikil og sótti hann fram með kröfu um varanlegan aðskilnað frá Bretlandi allt frá upphafi þingferils síns. Adams sóttist eftir endurkosningu sem forseti í forsetakosningunum 1800 en tapaði naumlega fyrir Thomas Jefferson frambjóðanda repúblikana. Eftir það settist Adams í helgan stein þó áhrifa hans hafi gætt áfram gegnum ítarlega pistla sem hann iðulega skrifaði í dagblaðið "Boston Patriot". Adams lést á heimili sínu í Quincy þann 4. júlí 1826, 50 árum eftir að Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna tók gildi. Adams, John Adams, John James Monroe. James Monroe (28. apríl 1758 – 4. júlí 1831) var fimmti forseti Bandaríkjanna og gegndi því embætti frá 1817 til 1825. Monroe, James John Quincy Adams. John Quincy Adams (11. júlí 1767 – 23. febrúar 1848) var sjötti forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1825 til 1829. Hann var opinberlega andvígur þrælahaldi og færði rök fyrir því að ef til borgarastyrjaldar kæmi, þá gæti forsetinn lagt niður þrælahald. Adams, John Quincy Andrew Jackson. Andrew Jackson (15. mars 1767 – 8. júní 1845) var sjöundi forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1829 til 1837. Martin Van Buren. Martin Van Buren (5. desember 1782 – 24. júlí 1862) var áttundi forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1837 til 1841. Hann var einnig fyrsti forsetinn sem var ekki af enskum, írskum, velskum eða skoskum uppruna ásamt því að vera fyrsti forsetinn sem hafði ekki ensku að móðurmáli, en hann ólst upp hollensku mælandi. Van Buren, Martin William Henry Harrison. William Henry Harrison (9. febrúar 1773 – 4. apríl 1841) var níundi forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 4. mars 1841 til 4. apríl 1841. Þegar Harrison tók við embætti, 68 ára að aldri, var hann elsti maðurinn sem hafði tekið við embætti forseta og stóð það met í 140 ár eða þangað til Ronald Reagan varð forseti, 69 ára að aldri. Harrison lést eftir einungis 31 dag í embætti og er það styðsta tímabil sem nokkur forseti hefur þjónað í sögu Bandaríkjanna. Hann varð einnig fyrsti forsetinn til að deyja í embætti. Harrison, William Henry John Tyler. John Tyler, Jr. (29. mars 1790 – 18. janúar 1862) var tíundi forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1841 til 1845. Tyler var fyrsti forsetinn sem fæddist eftir að stjórnarskrá Bandaríkjanna tók gildi. John Tyler, Jr. hefur tvö eftirlifandi barnabörn. Tyler, John James K. Polk. James K. Polk (2. nóvember 1795 – 15. júní 1849) var 11. forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1845 til 1849. Hann lést einungis þremur mánuðum eftir að embætti sínu lauk árið 1849. Polk, James K. Zachary Taylor. Zachary Taylor (24. nóvember 1784 – 9. júlí 1850) var 12. forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1849 til 1850. Taylor hafði þjónað í bandaríkjaher í 40 ár áður en hann varð forseti og lést eftir einungis 16 mánuði í embætti. Taylor, Zachary Franklin Pierce. Franklin Pierce (23. nóvember 1804 – 8. október 1869) var bandarískur stjórnmálamaður og 14. forseti Bandaríkjana, en hann þjónaði því embætti frá 1853 til 1857. Hann er eini bandaríski forsetinn sem kemur frá New Hampshire og var fyrsti forsetinn sem fæddist á 19. öld. Með útliti sínu og viðkunnalega persónuleika aflaði hann sér margra vina en hann varð fyrir áföllum í einkalífinu og tók þar af leiðandi ákvarðanir í embætti sem voru harðlega gagnrýndar. Vegna þessa hefur Pierce verið talinn einn af verstu forsetum Bandaríkjanna. Pierce, Franklin James Buchanan. James Buchanan (23. apríl 1791 – 1. júní 1868) var 15. forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1857 til 1861. Hann er eini forsetinn sem komið hefur frá Pennsylvanía og eini forsetinn sem ekki hefur gifst. Buchanan, James Guðmundur Magnússon (f. 1873). Guðmundur Magnússon (12. febrúar 1873 – 18. nóvember 1918), þekktastur undir skáldaheitinu "Jón Trausti", var íslenskur rithöfundur. Þekktustu skáldsögur hans eru "Heiðarbýlið", "Anna frá Stóruborg" og "Halla", en auk þeirra skrifaði hann fjölmargar smásögur og styttri skáldsögur. Hann orti ljóðið "Íslandsvísur" („Ég vil elska mitt land“) árið 1901 sem séra Bjarni Þorsteinsson samdi lag við tveimur árum síðar. Jón Trausti lést úr spænsku veikinni árið 1918. Giorgio de Chirico. Giorgio de Chirico (10. júlí 1888 – 20. nóvember 1978) var grísk-ítalskur listmálari, fæddur í Volos, Grikklandi. Móðir hans var borin og barnfædd í Genúa og faðir hans sikileyskur. Asetýlsalisýlsýra. Asetýlsalisýlsýra (þekkt sem "magnýl" eða "aspirín") er lyf sem er notað til að minnka sótthita og við vægari verkjum, t.d. beinverkjum. Hefur einnig verið notuð gegn liðagigt og sem fyrirbyggjandi meðferð gegn hjartaáfalli. Er eitt algengasta læknislyf í heiminum og hefur verið það frá því það kom fyrst á markaðinn 1900 undir heitinu "Aspirín". Salisýlsýra finnst í nokkru magni í mjaðjurt og sumum plöntum af víðiætt, en verkun hennar var vel þekkt fyrr á öldum. Ofskammtar af lyfinu geta valdið hækkandi líkamshita og jafnvel öndunartruflunum. Aðrar aukaverkanir eru erting á magaslímhúð, sem veldur oft slæmum magaverk. Verkjalyfið parasetamól hefur því að miklu leyti tekið við sem algengasta verkjalyfið. Iðnó. Iðnaðarmannahúsið, oftast kallað Iðnó, er veitingahús og samkomuhús sem stendur við Vonarstræti 3 í miðbæ Reykjavíkur. Þar var Leikfélag Reykjavíkur lengi vel til húsa. Húsið var reist á landfyllingu í norðausturhorni Tjarnarinnar 1896. Leikfélag Reykjavíkur hóf starfsemi sína í Iðnó með frumsýningu á tveimur dönskum gamanleikjum 18. desember 1897 og hafði aðsetur í húsinu til ársins 1989 er það flutti í Borgarleikhúsið. Einar Pálsson trésmíðameistari teiknaði og byggði húsið. Einar sá einnig um byggingu á Búnaðarfélagshúsinu og Iðnskólanum gamla en þessi hús eru öll byggð í ný-klassískum stíl. Í tvo áratugi var rekinn húsmæðraskóli á efri hæð hússins. Húsið var um árabið helsta samkomuhús Reykjavíkur. Þar var heimastjórn fagnað 1.febrúar 1904, þar var veisla þegar danakonungur kom til Íslands og sýning á lifandi myndum hófst þar árið 1903. Það voru vinsælar revíusýningar í húsinu á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar. Salurinn rúmaði á fyrstu árunum 256 manns í sæti og voru tveir fremstu bekkirnir voru ætlaðir börnum og nefndir barna-bekkir. Eigendasaga hússins. Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur átti húsið til 1918 og seldi það þá dönskum bakarameistara Frantz Håkansson að nafni. Hann rak veitingasölu í Iðnó til 1929 en þá keypti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna húsið. Árið 1940 seldi Fulltrúaráðið húsið aftur hlutafélaginu Alþýðuhúsi Reykjavíkur. Sú sala var tilkomin vegna klofnings Alþýðuflokksins og mun hafa verið gjörningur til að hindra að húsið lenti í höndum pólítískra andstæðinga. Það urðu málaferli út af sölunni á Iðnó en Hæstiréttur dæmdi að hún skyldi standa óhögguð. Iðnó endurgert og glerskáli byggður og rifinn. Þegar Leikfélagið flutti úr Iðnó var allt óráðið um framtíð hússins. Alþýðuleikhúsið setti þar upp tvær leiksýningar, skömmu áður en það leið undir lok. Á sérstökum hátíðarfundi við vígslu Ráðhúsið í ráðhússins 1992 samþykkti borgarstjórn að kaupa Iðnó í félagi við nokkra aðila og gera húsið upp. Viðbyggingar frá 1930 og sjöunda áratugnum voru fjarlægðar og í staðinn var settur glerskáli með dökku gleri. Hann þótti ekki fara vel við húsið og var hann fjarlægður. Í maí 1998 tóku Leikfélag Íslands og Iðnó við Tjörnina tóku við lyklavöldum. Frá árinu hefur Iðnó ehf séð um rekstur á húsinu. Bannár. Bannár (bannárin eða vínbannið) nefnast tímabil í sögu þjóða, þegar bannað er að selja og neyta áfengis. Bannárin á Íslandi stóðu yfir í 20 ár (eða 7 ár eftir því hvernig á málið er litið). Algjört áfengisbann gekk í gildi árið 1915. Bannið tók til þess að framleiða og selja áfenga drykki. Sala léttra vína var þó leyfð aftur árið 1922 (Spánarvín), en áfengisbannið var síðan afnumið alveg 1935. Bjór sem hafði verið leyfður fyrir 1915 var þó ekki leyfður aftur á Íslandi fyrr en 1. mars 1989. Þjóðaratkvæðagreiðslur voru haldnar um áfengisbann 1908 og 1933. Áfengisauglýsingar voru bannaðar á Íslandi með lögum frá árinu 1928 meðan áfengisbannið var enn við gildi. Áfengisbanninu var svo aflétt 7 árum seinna, en auglýsingabannið hefur haldist síðan. Bannárin í Bandaríkjunum stóðu frá 1920 til 1933. Vínbannið á Íslandi. Fyrsta góðtemplarareglan á Íslandi var stofnuð á Akureyri í janúar 1884. Starfsemi reglurnar efldist smám saman um land allt og varð áhrifamikið afl í íslenskum stjórnmálum. Árið 1908 var gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort banna ætti sölu og neysla áfengis á Íslandi. Bannið var samþykkt með um 60% atkvæða. Alþingi þæfði málið nokkuð en samþykkti það árið eftir en lögin komu til framkvæmda í upphafi árs 1915. Andrew Johnson. Andrew Johnson (29. desember 1808 – 31. júlí 1875) var 17. forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1865 til 1869. Hann tók við embætti eftir morðið á Abraham Lincoln. Johnson, Andrew Pathet Lao. Pathet Lao var pólitísk hreyfing og skæruliðaher í Laos sem barðist frá 1949 fram til 1975, upphaflega við franska nýlenduveldið enn lengst af við hægrisinnaðar ríkisstjórnir studdar af Bandaríkjunum. Pathet Lao var var lögð niður sem hreyfing eftir að Alþýðulýðveldið Laos var stofnað 1975. Hreyfingin var ætíð undir stjórn kommúnista og var nátengd og í sumum tilvikum samofin víetnömsku hreyfingunni Viet Minh og kommúnistum í Norður-Víetnam. Valdataka Japana í Laos í mars 1945 klippti skyndilega á 50 ára sögu franska nýlenduveldisins. Án nokkurrar andspyrnu voru Frakkar í landinu lokaðir inni í fangabúðum og allt valdakerfið lagt í hendur Japönum. Þegar Japanir hurfu frá Laos í ágúst 1945 var yfirstéttin í landinu klofin í afstöðu sinni til endurkomu Frakka. Konungurinn, Sisavangvong, fagnaði endurkomunni en varakonungurinn, Phetsarath prins og bræður hans Souvanna Phouma og Souphanouvong voru algjörlega andstæðir. (Konungurinn sjálfur átti 11 konur og minnst 24 börn en prinsarnir þrír voru allir hálfbræður með sama föður, yngri bróðir konungs.) Bræðurnir síðarnefndu voru meðal leiðtoga í þjóðfrelsishreyfingunni Lao Issara ("Frjálst Laos"). Lao Issara lýsti landið sjálfstætt í ágúst 1945 og útnefndi nýja ríkisstjórn. En franska hernum tókst að berja sjálfstæðishreyfinguna niður að sinni, prinsarnir Phetsarath og Souvanna Phouma flúðu til Taílands en Souphanouvong til Víetnam. Sisavangvong var krýndur konungur yfir öllu Laos 1946 og fékk landið þá takmarkað sjálfstæði innan Franska samveldisins. Miklar deilur urðu innan Lao Issara um þetta takmarkaða sjálfstæði og það leiddi til til þess að hreyfingin klofnað 1949 og hvarf sem póltískur kraftur á næstu árum. Stærsti hluti Lao Issara myndaði ný samtök, Pathet Lao ("Landið Lao"), sem hóf vopnaða baráttu fyrir fullu sjálfstæði. Inngangur að einum af hellum þeim sem forysta Pathet Lao bjó í í fjöllunum nálægt Vieng Xai Sem formleg forysta fyrir sjálfstæðisbaráttuna var bráðabirgða ríkisstjórn undir forystu Souphanouvong valin á þingi Pathet Lao í Víetnam í ágúst 1950. Í stjórnina var meðal annarra valinn Kaysone Phomvihane sem síðar varð aðalráðamaður í Laos. Í raun stjórnuðu víetnamskir kommúnistar Pathet Lao að mestu, ekki síst gegnum Kommúnistaflokk Indókína sem stofnaður var 1930. Í þessum flokki voru liðsmenn frá Víetnam í algjörum meirihluta þó þar væru einnig meðlimir frá Laos og Kambódíu. Flokknum var skipt í þrjá landsflokka 1951 en Víetnamarnir héldu áfram að hafa tögl og haldir á hinum tveim, einkum þeim laoska sem nefndur var Alþýðuflokkur Laos. Frakkar buðu Laos fullt sjálfstæði 1953 en Pathet Lao áleit að konungsstjórnin mundi endast vera leppstjórn og höfnuðu tilboðinu. En prins Souvanna Phouma snéri aftur til Vientiane og tók sæti í konunglegu ríkisstjórninni. Um áramótin 1953 - 1954 gerði Pathet Lao með aðstoð Viet Minh mikla sókn inn í Laos og náðu stórum parti af norður og austurhluta landsins. Eftir ósigurinn í bardaganum við Dien Bien Phu í mars 1954 hófu Frakkar undanhald sitt frá Indókína. Í staðin hófu Bandaríkin að styðja þá krafta sem þeim þóttu helstir í baráttunni við kommúnismann. Meðal annars tóku þeir upp stuðning við konunglegu ríkisstjórnina í Vientiane ekki síst með vopnaaðstoð. Ráðstefnan í Genf 1954 gaf Laos fullt sjálfstæði en þar fannst engin lausn á því hvernig ætti að stjórna landinu. Prins Souvanna Phouma sem var hlutlaus í deilum Austurs og Vesturs og stjórnaði í Vientiane, í suðri var það prins Boun Oum (sem var af ætt konunga frá Champassak) sem réði yfir svæðinu í kring um Pakse, hann var hægrisinnaður og naut stuðnings Bandaríkjanna. Og í norðri réði Pathet Lao með stuðningi Víetnam og Kína. Ár 1959 lést konungurinn og við tók sonur hans Savang Vatthana. Næstu árin voru gerðar margar tilraunir til að skapa samsteypustjórnir konungssina og kommúnista. Souvanna Phoma varð forsætisráðherra 1956 og bróðir hans, Souphanouvong, varð ráðherra. En stjórninni var steypt af stóli 1958 af herliði með aðstoð Bandríkjanna. Bardagar hófust að nýju milli Pathet Lao og konunglega hersins. Það tókst að koma á tímabundum friði 1961 og ný hlutlaus stjórn tók við undir forystu Souvanna Phoma. Ný samsteypustjórn tók við 1962 en stóð í skamman tíma enda dróst Laos nú inn í hið vaxandi ófriðarástand í Víetnam. Þær hersveitir sem höfðu verið hingað til hlutlausar snérust flestar á sveif með Pathet Lao gegn þeim sem studdar voru af Taílandi og Bandaríkjunum. Næsti áratugur einkenndist af stanslausri borgarstyrjöld, valdaránum og öngþveiti. Laos dróst inn í Víetnamstríðið sem eiginlega ætti að heita seinna Indókínastríðið af fullum krafti. Segja má að landið hafi orðið leiksoppur stórveldanna, bandaríska CIA þjálfaði og launaði sveitir frá H'mong-fólkinu, taílenskir málaliðar börðust fyrir konungsstjórnina og Pathet Lao fékk stuðning frá Kína, Sovét og Víetnam. Meðan á Indókínastríðinu stóð var Laos í raun uppskipt í fjögur áhrifasvæði. Kína í norðri, Víetnamar meðfram Ho Chi Minh-stígnum í austri, Taílendingar í vestra hlutanum þar sem hersveitir hollar konungi réðu með stuðningi Bandaríkjanna og sveitir Rauðu Khmer-hreyfingarinnar héldu til í suðurhlutanum. Ekki síst vegna Ho Chi Minh-stígsins varð Laos fyrir óhemju sprengjuregni af höndum Bandaríkjanna og að nokkru leiti Taílands. Þrátt fyrir að bandaríkjaþing aldrei lýsti yfir stríð á hendur Laos og að starfsemin var ólögleg felldu bandarískar sprengjuflugvélar meira magni af sprengjum á árunum 1964 til 1973 yfir héruðunum Xieng Khuang, Sam Neua og Phong Saly í norðri og Saravan í suðri en allar sprengjur sem varpað var í seinni heimsstyrjöldinni af öllum stríðsaðilum. Samkvæmt skýrslum bandaríska flughersins fór hann í meira en 600 000 árásarferðir yfir Laos á þessum árum. Að meðaltali þýðir það að áttundu hverja mínútu, allan sólarhringinn, allt árið um hring var sprengjum varpað yfir landið. Óvíst er hversu margir dóu í þessum sprengjuárásum en sennileg ágiskun er að það hafi verið milli 300 000 og 400 000 manns. Þessum lofthernaði var haldið leyndum vegna þess að Genfarsáttmálinn frá 1962 bannaði erlendum her að starfa í Laos. Í raun var öll hernaðarstarfsemi Bandaríkjanna í Laos ólögleg vegna þess að bandaríkjaþing fjallaði aldrei um málið og allar þessar sprengjuárásir framkvæmdar í leyni fyrir þingi og fjölmiðlum. Í upphafi flugu bandarískir herflugmenn óeinkennisbúnir í flugvélum sem merktar voru konunglega laoeska hernum. En það var ekki bara bandaríkjaher sem rauf Genfarsáttmálan, bæði Kína og Víetnam höfðu hersveitir í Laos. Þegar Bandríkin hófu undanhald sitt frá Indókína 1973 tók Pathet Lao völdin í flestum héruðum landsins utan borganna. Samsteypustjórn var komið á 1973 en þegar Saigon féll 1975 flúðu flestir konungssinnar landið. Flestir fóru til Frakklands en allmargir til Bandaríkjanna og Taílands. Samtals flúðu um 300 000 manns frá Laos eftir valdatöku kommúnista. Pathet Lao tóku öll völd í landinu í maí en lét konunginn segja af sér og lýstu yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Laos í desember 1975. Hreyfingin Pathet Lao var lögð niður en við tók valdakerfi ríkisins og Byltingarflokkur Laoskrar alþýðu sem varð og er enn eini löglegi stjórnmálaflokkur landsins. Ulysses S. Grant. Ulysses S. Grant (27. apríl 1822 – 23. júlí 1885) var bandarískur hershöfðingi og 18. forseti Bandaríkjanna. Hann öðlaðist heimsfrægð fyrir að leiða „Sambandið“ í Bandaríska borgarastríðinu. Árið 1868 var Grant kosinn forseti Bandaríkjanna sem Repúblikani og þjónaði því embætti frá 1869 til 1877. Grant var fyrsti forsetinn í 40 ár sem þjónaði embættinu yfir tvö kjörtímabil en þá hafði Andrew Jackson setið í tvö kjörtímabil. Grant, Ulysses S. Ludwig-Maximilian-háskóli. Ludwig-Maximilian háskólinn ("Ludwig-Maximilian-Universität München", "LMU") er háskóli í München höfuðborg Bæjaralands. Hann var stofnaður árið 1472 af Hertoganum Ludwig der Reiche og kjörfurstanum Maximilian IV. Joseph. Munchen Hreyfitaugungahrörnun. Hreyfitaugungahrörnun, einnig kallað MND, (e. "Motor Neurone Disease") eða Hreyfitauga sjúkdómur er oft banvænn sjúkdómur sem herjar á hreyfitaugar líkamans, sem bera boð til vöðvanna. Sjúkdómurinn veldur máttleysi og lömun í höndum, fótum, munni, hálsi og fleiri líkamshlutum. Orsök MND er óþekkt. Eitthvað veldur því að boð berast ekki á milli hreyfitaugafruma og vöðvinn hreyfist því ekki samkvæmt vilja einstaklingsins. Hreyfitaugafrumurnar visna og deyja og vegna hreyfingarleysis rýrna vöðvarnir. MND byrjar yfirleitt á einu svæði hreyfitaugakerfisins og veldur dauða efri og neðri hreyfitaugunga á því svæði, sem gerir vöðvana sem þeir stjórna kraftminni og rýrari. Svo færist sjúkdómurinn yfir í annan vöðvahóp. Ómögulegt er að sjá fyrir á hvaða vöðvahóp sjúkdómurinn herjar næst því MND fylgir engu ákveðnu mynstri. Þó er algengt að ef sjúkdómurinn herjar t.d. á annan handlegginn þá er hinn handleggurinn líklega næstur í röðinni. MND ágerist yfirleitt hratt. Líftími sjúklinga eftir að þeir fá sjúkdóminn er yfirleitt eitt til sex ár en þó lifa sumir lengur, í allt að tíu ár. MND herjar aðeins á þá vöðva líkamans sem lúta viljastýrðum hreyfingum en ekki á vöðva svo sem hjarta, nýru, skynfæri og fleiri líffæri sem starfa óviljastýrt. MND hefur ekki áhrif á vitsmunalegan styrk sjúklingsins. Þegar sjúkdómurinn ágerist getur sjúklingurinn átt í auknum erfiðleikum með daglegar athafnir eins og að lyfta, bera, koma sér milli staða, tala, tyggja og kyngja. Undir lokin á sjúklingurinn erfitt með að anda, þar sem þindin verður máttlaus og getur ekki þanið út lungun eðlilega. Mismunandi tegundir MND. Til eru nokkrar tegundir af MND. Einkenni. Sum þessara einkenna er hægt að meðhöndla til að auka lífsgæði sjúklingsins. Einstaklingar með MND fá ekki allir sömu einkenni og fá ekki endilega öll ofangreind einkenni. Hvert einkenni fyrir sig getur einnig tengst öðrum sjúkdómum og því mikilvægt að útiloka aðra sjúkdóma. Greining. Ekki er til neitt próf sem getur staðfest hvort einstaklingur sé með MND. Sjúkdómsgreining er gerð með því að fylgjast með einkennunum í ákveðinn tíma og útiloka aðra sjúkdóma. Einkennin fara versnandi með tímanum. Tíðni. MND greinist hjá einum til tveimur af hverjum 100.000 íbúum á ári. Á hverjum tíma eru u.þ.b. sex manns með MND af hverja 100.000 íbúa. Á Íslandi eru því á bilinu 15-20 manns með MND á hverjum tíma og árlega greinast um það bil 5 manns á Íslandi með MND. Hverjir fá MND? MND getur byrjað hvenær sem er frá tuttugu ára aldri að níræðisaldri. Algengasti aldurinn er þó upp úr fimmtugu. Hjá 90-95% einstaklinga með MND er sjúkdómurinn tilfallandi, þ.e. ekki eru fleiri í fjölskyldunni með sjúkdóminn. Hjá 5-10% einstaklinga með MND eru fleiri í fjölskyldunni með sjúkdóminn og til eru ættgeng afbrigði af MND. Meðferð. Engin lækning er til við MND enn sem komið er en vonir standa til að hægt sé að þróa lyf sem geti hægt á gangi sjúkdómsins. Sjúklingar geta þó fengið lyf sem hjálpa gegn ákveðnum einkennum, svo sem vöðvakrömpum, stífleika, bráðum þvaglátum, ýktum hlátri eða gráti og geispa. Sjúklingum bjóðast einnig önnur meðferðarúrræði sem miða að því að auka lífsgæði og hjálpa sjúklingnum að vera sjálfstæðum eins lengi og hægt er. Carl von Linde. Carl Paul Gottfried von Linde (f. 11. júní 1842, d. 16. nóvember 1934) var þýskur verkfræðingur, uppfinningamaður og stofnandi fyrirtækisins Linde AG. Ferill. Linde lauk verkfræðiprófi frá Tækniháskólanum í Zürich árið 1864. Stuttu síðar flutti hann til München og gerðist prófessor við Tækniháskólann í München árið 1868. Árið 1871 birti Linde grein um bættar kæliaðferðir, sem fjölmörg brugghús höfðu mikinn áhuga á. Í kjölfarið hóf Linde að framleiða kælivélar sem seldar voru til brugghúsa um alla Evrópu. 1879 hætti Linde sem prófessor og stofnaði fyrirtæki utan um kælivélaframleiðsluna sína (í dag Linde AG) sem var leiðandi fyrirtæki í Evrópu á sviði kælitækni. Árið 1890 dró Linde sig út út rekstri fyrirtækis síns og tók 1892 aftur við stöðu prófessors við Tækniháskólann í München allt til ársins 1910. Árið 1895 tókst Linde að koma miklu magni lofts yfir á vökvaform með svo nefndri Linde-aðferð, en framleiðsla á gasi á vökvaformi er aðalstarfsemi Linde AG í dag. von Linde, Carl Paul Gottfried Sunderland. Sunderland er borg í Norðaustur-Englandi með um 284 þúsund íbúa. Áður voru miklar skipasmíðastöðvar í borginni, einhverjar þær stærstu í Bretlandi. Nú er þessi iðnaður liðinn undir lok. Í Sunderland er samnefnt knattspyrnufélag, það er að segja Sunderland A.F.C. Samtök atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins (SA) eru hagsmunasamtök íslenskra atvinnurekenda. Opinbert hlutverk þeirra er að skapa fyrirtækjum hagstæð skilyrði til vaxtar, þróunar og að bera arð. Innan samtakanna eru átta aðilarfélög sem samstanda af u.þ.b. 2.000 fyrirtækjum, bæði stórum og smáum. Innan þessara fyrirtækja starfar um helmingur íslenska vinnuaflsins. Aðstaða SA eru í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni í Reykjavík. Framkvæmdastjóri SA er Vilhjálmur Egilsson. Samtök atvinnulífsins reka einnig sérstaka skrifstofu í Brussel í Belgíu. Samtök atvinnulífsins eru aðal-samningsaðili samtaka launafólks í kjaraviðræðum. Family Guy. Family Guy eru bandarískir teiknimyndaþættir um óvanalega fjölskyldu í bænum Quahog á Rhode Island. Þættirnir eru sköpunarverk Seth MacFarlane og byrjaði framleiðsla á þáttunum árið 1999. Þeir eru gerðir fyrir Fox sjónvarpsstöðina. Family Guy var aflýst árið 2000 og aftur árið 2002, en mikil sala á DVD útgáfu þáttanna og endursýningar á sjónvarpsstöðinni Adult Swim, sannfærði Fox um að endurvekja þættina árið 2005. Family Guy er fyrsti þátturinn sem hefur verið endurvakinn á grundvelli DVD sölu. Choummaly Sayasone. Choummaly Sayasone (fæddur 6 mars, 1936 í Attapu-héraði í suður Laos) er forseti Alþýðulýðveldisins Laos og aðalritari (leiðtogi) kommúnistaflokks landsins, Byltingarflokks Laoskrar alþýðu. Þjóðþing Laos valdi hann til forsetaembættisins 8 júní 2006 en hann hafði þangað til gengt embætti varaforseta og varnarmálaráðherra. Hann tók við forsetaembættinu af Khamtai Siphandon. Byltingarflokkurinn er eini löglegi flokkurinn í landinu og 113 af 115 þingmönnum eru fulltrúar flokksins. Choummaly var einnig valinn eftirmaður Khamtai sem aðalritari flokksins á 8. flokksþinginu 21 mars 2006. Hann tók sæti í miðstjórn flokksins 2001. Choummaly er bóndasonur og gekk sem unglingur í lið með Pathet Lao. Hann tók þátt í vopnaðri baráttu kommúnista og vann sig smám saman upp. Hann varð fyrst umtalaður í opinberu samhengi árið 1975 þegar hann tók við embætti sem varayfirmaður herforingjaráðsins. Bouasone Bouphavanh. Bouasone Bouphavanh (fæddur 3. júní, 1954 í Saravan-héraði í suður Laos) er fyrrverandi forsætisráðherra Laos. Hann var valinn til embættis af Þjóðþingi Laos 8. júní 2006, um leið og ríkisstjórnin var öll stokkuð upp. Hann tók við embætti af Bounnhang Vorachith sem var valinn varaforseti. Bouasone hafði frá 2003 gegnt embætti varaforsætisráðherra. Bouasone lét af embæti sem forsætisráðherra 23 desember 2010 Bouasone er menntaður frá Sovétríkjunum og telst til hinnar nýju kynslóðar sem nú eru búnir að taka við forystu í Byltingarflokki Laoskrar alþýðu. Árið 1975 gegndi hann mikilvægu hlutverki sem stúdentaleiðtogi í Vientiane og skipulagði mótmælaaðgerðir gegn andstæðingum Pathet Lao. Gyðinga saga. "Gyðinga saga" er forníslensk saga um sögu Gyðinga frá dögum Alexanders mikla og fram yfir dauða Jesú Krists. Loks er sagan varðveitt heil eða í brotum í sextán pappírshandritum, þar af hafa þrjú textagildi. Texti allra handritanna er runninn frá sömu norrænu þýðingunni, en greina verður á milli tveggja gerða sögunnar: Lengri gerðar, í handritunum B og C, og styttri gerðar í hinum handritunum. „Þessa bók færði heinn heilagi Jerónímus prestur úr hebresku máli og í latínu. En úr latínu og í norrænu sneri Brandur prestur Jónsson, er síðan var biskup að Hólum, og svo "Alexandro magno" eftir boði virðulegs herra, herra Magnúsar konungs, sonar Hákonar konungs gamla.“ Af þessu má ráða að Brandur Jónsson, síðar biskup á Hólum, hafi samið "Gyðinga sögu", og þá líklega sem framhald af "Alexanders sögu". Óvíst er hvenær Brandur samdi söguna. Magnús lagabætir varð konungur 1257 og var krýndur 1261, og hafa því sumir talið söguna ritaða eftir 1257, eða jafnvel veturinn 1262-1263, þegar Brandur dvaldist í Noregi. Ekki er þó hægt að útiloka að sagan sé eldri. "Gyðinga saga" er samsteypa unnin upp úr mörgum heimildum. Fyrsti hlutinn, kaflar I-XXI, er aðallega þýðing eða endursögn á Fyrri Makkabeabók, sem er meðal apókrýfra rita Gamla testamentisins, en þó virðist þýðandinn einnig hafa stuðst við latneska Gyðinga sögu, "Antiquitates Judaicae", eftir Flavíus Josephus. Annar hlutinn, kaflar XXI-XXXII, er aðallega úr "Historia Scholastica" eftir Pétur Comestor. Þriðji hlutinn, kaflar XXXIII-XXXVIII, er saga Pontíusar Pílatusar og Júdasar Ískaríots, unnin upp úr "Historia apocrypha". Síðasti kaflinn, XXXIX, er úr ýmsum heimildum, m.a. "Historia Scholastica", og rekur sögu Gyðinga til ársins 44 e.Kr. Sumir fræðimenn, sem rannsakað hafa stíl sögunnar, hafa reynt að færa rök fyrir því að fleiri en einn þýðandi hafi komið að verkinu. Þannig hélt Gustav Storm því fram að Brandur Jónsson hefði aðeins þýtt fyrsta hlutann. Nýjustu rannsóknir benda þó til að sú tilgáta standist ekki, að ekkert mæli gegn því að sagan sé verk eins manns. Gyðinga saga er athyglisverð fyrir það að hún er með elstu tilraunum til að þýða einstök rit Biblíunnar á íslensku. Nokkur hluti biblíunnar er til í fornri íslenskri þýðingu, í safnriti sem kallast Stjórn. Gyðinga saga var fyrst gefin út árið 1881, af Guðmundi Þorlákssyni, sem 6. bindi í ritröð Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur. Árið 1995 gaf Stofnun Árna Magnússonar söguna út í nýrri fræðilegri útgáfu, sem Kirsten Wolf sá um. Souphanouvong. Prins Souphanouvong (fæddur 13. júlí 1909, lést 9. janúar 1995) var, ásamt hálfbróður sínum prinsinum Souvanna Phouma og prinsinum Boun Oum frá Champasak, hluti af "Prinsaþrenningunni" svo nefndu sem urðu eins konar tákn fyrir hinar þrjár stríðandi fylkingar í Laos frá 1945 til 1975, kommúnista, hlutlausa og konungssinna. Hann var einn aðalleiðtogi Pathet Lao og forseti Alþýðulýðveldisins Laos frá desember 1975 til ágúst 1991. Inngangur að helli þeim þar sem Souphanouvong bjó í tíu ár á meðan seinni Indókínastyrjöldin stóð sem hæst Souphanouvong var einn sona Bounkhong prins, en hann var síðastur varakonunga Luang Prabang. Andstætt eldri hálfbræðrum sínum tveim sem einnig urðu alþekktir, Souvanna Phouma og Phetsarath, var móðir hans, Mom Kham Ouane, ekki af aðalsættum. Faðir þeirra, Bounkhong prins eignaðist þrettán syni og þrettán dætur með ellefu eiginkonum. Souphanouvong var menntaður byggingarverkfræðingur frá Frakklandi og starfaði sem slíkur bæði í Laos og Víetnam, aðallega við brúarframkvæmdir. Hann var mikill málamaður og hafði gott vald á minnst átta tungumálum, þar á meðal latínu og grísku. Hann var kvæntur víetnömsku konunni Nguyen Thi Ky Nam og átti með henni tíu börn. Souphanouvong var einn af leiðtogum Lao Issara-hreyfingarinnar sem barðist fyrir sjálfstæði Laos frá Frakklandi. Hann flúði 1945 til Víetnam eftir að tilraun til að skapa sjálfstætt Laos hafði verið barinn niður. Þar kynntist hann Ho Chi Minh og varð fyrir miklum áhrifum af honum og hreyfingu kommúnista. Hann fékk viðurnefnið „rauði prinsinn“ og varð einn helsti leiðtogi og aðalfulltrúi út á við fyrir Pathet Lao-hreyfinguna og eftir valdatöku hennar varð hann fyrsti forseti Alþýðulýðveldisins. Souphanouvong hafði þó takmörkuð áhrif eftir valdatökuna, sá sem kom í hans stað sem leiðtogi var Kaysone Phomvihane sem fram að því hafði verið nánast óþekktur utan innsta kjarna kommúnista. Bertel Thorvaldsen. Bertel Thorvaldsen (19. nóvember 1770 – 24. mars 1844) var dansk-íslenskur myndhöggvari. Móðir Bertels var Karen Degnes kom frá vesturströnd Jótlands, Gottskálk Þorvaldsson faðir hans var ættaður frá Reynistað í Skagafirði. Hann hafði lært myndskurð hjá sjálfum formanni myndhöggvaragildisins í Kaupmannahöfn. Erfitt var fyrir hann að afla fjár með iðn sinni einni. En fyrst á tólfta ári fékk Bertel að hjálpa föður sínum við tréskurð. Hafði Bertel alltaf gaman af að teikna. Vinur föðurs hans benti á hæfileika hans og sannfærði Gottskálk og fékk Bertel að fara í listaskóla. Byrjaði ungur, í fríhendisteikningu í undirbúningsdeild Fagurlistaskólans í Kaupmannahöfn árið 1781. Fljótlega vann hann til verðlauna skólans, minni silvurverðlaun fyrir mótaða mynd árið 1787. Í skólanum hlaut hann síðan öll þau verðlaun sem hann gat fengið en þau mestu voru þó, stóru gullverðlaunin, árið 1793 fyrir lágmynd um efni úr Biblíunni. Þessum verðlaunum fylgdi utanfararstyrkur sem hann fékk þó ekki í hendur fyrr en nokkrum árum seinna. Í ágúst 1796 fer hann til Rómar, ásamt Hektor hundinum sínum, kveður foreldra sína sem hann sá aldrei aftur. Olli Lyytikäinen. Olli Lyytikäinen (1949 – 1987) var finnskur listmálari sem sýndi ótrúlega hæfileika ungur en drakk sig í hel á nokkrum árum. Ferill hans spannar ekki nema 17 ár. Listasafn Íslands hélt sýningu með verkum Olli árið 1990. Tenglar. Lyytikäinen, Olli Mynddiskur. Mynddiskur (enska "Digital Versatile Disc" eða "Digital Video Disc", skammstafað "DVD") er gagnadiskur sem er helst notaður til geymslu kvikmynda og tónlistar. Mynddiskur er jafn stór og geisladiskur en getur geymt sexfalt gagnamagn eða 4,7 gígabæti. Martinus Simson. Martinus Simson (eða M. Simson eða Marthinus Simson) (9. júní 1886 - 15. apríl 1974) var danskur fjölleikalistamaður sem settist að á Ísafirði og starfaði þar sem ljósmyndari, útvarpsvirki, myndhöggvari, heimspekingur og trjáræktandi. Simson fæddist í á Norður-Jótlandi og ólst upp á fátæku sveitaheimili til sautján ára aldurs. Þá fór hann að heiman og gerðist trúður, tannaflraunamaður og hugsanalesari í farandflokki fjölleikamanna. Árið 1913 kom hann til Íslands með sirkus sínum og heillaðist af landinu. 1914 kom hann aftur til landsins, ferðaðist um landið og leitaði sér að stað til að setjast þar að. En þegar hann kom til Ísafjarðar fannst honum hann vera kominn heim og settist þar að og bjó þar alla ævi. Hann fékk land til afnota í Tungudal við Skutulsfjörð sumarið 1925 og reisti sér þar sumarhús (Kornustaði) og hóf að rækta tré og aðrar plöntur sem síðar varð Simsonsgarður. Hann varð brautryðjandi í skógræktarmálum Ísfirðinga og með styrk frá Ísafjarðarkaupstað og Skógrækt ríksins plantaði hann 117 þúsund barrplöntum í Tungudal. (5. apríl 1994 féll snjóflóð í Tungudal og nær öll trén í garði hans brotnuðu eða lögðust á hliðina). Simson stundaði lengi smíði úrvarpstækja og kenndi, m.a. radíótækni um skeið við Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hann hafði þó ljósmyndaiðn að aðalstarfi, en lagði líka stund á listmálun, teikningu og höggmyndasmíð. En aðaláhugamál hans alla tíð voru andleg vísindi. Simson skrifaði t.d. heimspekirit í tveimur bindum (sem hann byggði að hluta á ritum Martinus Thomsen). Það var ritið: ', sem út kom í tveimur bindum (1945-1946). Árið 1965 kom einnig út bók hans: "Hugleiðingar um vaxtakerfið og hin skynsama óvita". Simson var kvæntur "Gerdu Simson" og áttu þau þrjú börn saman. Þegar hann kom fyrst til Íslands kynntist hann "Guðnýju Shödt" og eignaðist með henni eitt barn. Cassius Dio. Lucius Claudius Cassius Dio best þekktur sem Cassius Dio eða Dio Cassius (á forngrísku:) (f. um 150, d. um 235) var rómverskur sagnaritari og stjórnmálamaður. Cassius Dio samdi rit um sögu Rómaveldis sem spannaði 983 ára langt tímabil, frá komu Eneasar til Ítalíu til ársins 229. Ritið, sem var á grísku, var í 80 bókum og ritað á 22 ára löngum tíma. Bækur 36-54 (sem fjalla um árin 68 – 10 f.Kr.) eru varðveittar; útdrættir úr bókum 55-60 (9 f.Kr. – 46 e.Kr.) eru til og bækur 79-80 (217 – 220 e.Kr.) eru varðveittar að hluta. Hann samdi einnig rit um drauma og um borgarastríðin 193 – 197 en þau eru bæði glötuð. Gaius Sempronius Gracchus. Gaius Sempronius Gracchus (latína: CAIVS·SEMPRONIVS·TIBERII·FILIVS·PVBLII·NEPOS·GRACCVS) (153 f.Kr. – 121 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður. Hann var yngri bróðir stjórnmálamannsins Tiberiusar Gracchusar. Líkt og bróðir hans reyndi Gaius Gracchus að koma til leiðar ýmsum félagslegum umbótum í óþökk yfirstéttarinnar og leiddi það að endingu til dauða hans. Tengill. Sempronius Gracchus, Gaius Tiberius Sempronius Gracchus. Tiberius Sempronius Gracchus (latína: TIBERIVS·SEMPRONIVS·TIBERII·FILIVS·PVBLII·NEPOS·GRACCVS) (164 f.Kr. – 133 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og eldri bróðir stjórnmálamannsins Gaiusar Gracchusar. Líkt og bróðir hans síðar meir reyndi Tiberius Gracchus að koma til leiðar ýmsum félagslegum umbótum í óþökk ríkra landeigenda, yfirstéttarinnar og öldungaráðsins. Tilraunir hans til umbóta leiddu að endingu til dauða hans en hann var drepinn ásamt fylgjendum sínum af vopnuðu liði íhaldsmanna. Tengill. Sempronius Gracchus, Tiberius Elektra. Elektra (forngríska: Ηλέκτρα) var í grískri goðafræði dóttir Agamemnons konungs í Mýkenu og Klýtæmnestru. Elektra var fjarri Mýkenu er Agamemnon faðir hennar sneri aftur frá Trójustríðinu og var myrtur af Klýtæmnestru konu sinni og friðli hennar Ægisþosi. Elektra hjálpaði Órestesi bróður sínum að ná fram hefndum. Yrsa Sigurðardóttir. Vilborg Yrsa Sigurðardóttir (f. 24. ágúst 1963 í Reykjavík) er íslenskur rithöfundur. Hún er stúdent frá MR 1983 og byggingaverkfræðingur, en sendi frá sér sína fyrstu barnabók, "Þar lágu Danir í því", árið 1998. Á eftir komu barna-/unglingabækurnar "Við viljum jól í júlí" (1999), sem hlaut viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, "Barnapíubófinn, Búkolla og bókarránið" (2000), "B 10" (2001) og "Biobörn" (2003) sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin það ár. Fyrsta „fullorðinsbók“ Yrsu, spennusagan "Þriðja táknið", kom út árið 2005. Hún hlaut mjög góðar viðtökur og hefur verið þýdd á sjö tungumál. Eftir hana hafa komið út: "Sér grefur gröf" (2006), "Aska" (2007), "Auðnin" (2008), "Horfðu á mig" (2009), "Ég man þig" (2010), "Brakið" (2011) og "Kuldi" (2012). Bækur Yrsu hafa verið gefnar út á fjölda tungumála. Sameinaða danska gufuskipafélagið. Sameinaða danska gufuskipafélagið (eða Sameinaðafélagið) ("Det Forenede Dampskibs-Selskab ") er danskt skipafélag, og var um tíma eitt það stærsta í heimi. Það varð til við sameiningu nokkurra smárra skipafélaga. Í forsæti félagsins á fyrstu árum þess var Carl Frederik Tietgen. Sameinaðafélagið var stofnað 11. desember 1866 og stundaði í lok 19. aldar og upphafi þeirra 20stu siglingar með vörur til Íslands og sá um strandsiglingar um landið. Ekkert erlent félag var á sínum tíma eins mikið riðið við alla framþróun á Íslandi og Sameinaðafélagið. Það hélt uppi siglingum hingað frá því 1867, að undanskildum nokkrum árum sem danska stjórnin annaðist siglingar á skipinu Diana. Johan Ferdinand Aasberg. Johan Ferdinand Aasberg (19. júní 1858 - ?) var danskur skipstjóri sem sigldi hinum ýmsu skipum hins Sameinaða danska gufuskipafélags til og frá Danmörku og á strandsiglingum við Ísland. Aasberg fæddist í Stubbekjöbling í Danmörku. Hugur hans hneigðist snemma að sjómennsku og fór hann ungur í siglingar, fyrst sem háseti. Hann tók stýrimannapróf við "Bogö Navigationsskole" og að því loknu sigldi hann sem 2. og 1. stýrimaður á ýmsum seglskipum. Aasberg kom fyrst til Íslands árið 1882 með freigátunni "Sjælland". Árið 1883 gekk hann í þjónustu "Sameinaða danska gufuskipafélagsins". Hækkaði hann fljótt í tign og varð 2. stýrimaður 1885, 1. stýrimaður 1889 og skipstjóri1898. Íslandsferðir sínar hjá félaginu hóf Aasberg árið 1890 sem 1. stýrimaður á e.s. Laura. Árið 1898 fól félagið honum skipstjórn á e.s. Skálholt, sem annaðist strandferðir hér við land. Treysti félagið engum betur en honum til þess að stjórna þeim erfiðu siglingum. Þrem árum seinna varð hann skipstjóri á e.s. Laura, þá skipstjóri á e.s. Botnia árið 1909, og loks skipstjóri á hinu nýja e.s. Island, sem Sameinaða gufuskipafélagið lét byggja á stríðsárunum til Íslandsferða. Hóf það ferðir sínar hingað til lands seint á árinu 1915, og stjórnaði Aasbert því allt þangað til hann, árið 1923 varð að láta af skipstjórn fyrir aldurs sakir, 65 ára gamall. Fór hann allt í allt 233 ferðir hingað til lands. Flétta. a> ("Peltigera leucophlebia") er blaðflétta sem gjarnan vex í mólendi. Flétta er gróður sem samanstendur af sambýli svepps og grænþörungs og/eða blábakteríu. Fléttur eru algengar víða um heim en eru einkum áberandi á svæðum þar sem annar gróður á erfitt uppdráttar. Á Íslandi eru margar fléttutegundir einnig nefndar skófir, en ekki eru allar fléttur taldar til skófa. Á Íslandi finnast rúmlega 700 fléttutegundir. Svepphluti fléttunnar er ráðandi aðili sambýlisins og tekur fléttan heiti sitt af honum. Sveppurinn tilheyrir oftast asksveppum en þó eru nokkrar tegundir kólfsveppa sem mynda fléttur, en einu nafni er talað um fléttumyndandi sveppi. Hver fléttumyndandi sveppur myndar eina fléttutegund en sömu tegund grænþörungs eða blábakteríu má oft finna í sambýli við mismunandi tegundir fléttumyndandi sveppa. Fléttum er skipt í þrjá útlitshópa: Runnfléttur sem eru uppréttar og ekki með greinanlegan mun á efra og neðra borði, blaðfléttur sem eru blaðlaga og með greinanlegan mun á efra og neðra borði og hrúðurfléttur sem vaxa beint á undirlagi sínu og eru oft án nokkurs sérstaks neðra borðs. Bygging fléttna. Meginhluti fléttunnar er einn samfelldur vefur sem nefnist þal. Ytra byrði fléttuþalsins er úr sveppþráðum sem er þétt samofnir til að lágmarka vökvatap. Þar undir, í nokkru vari gegn útfjólublárri geislun sólarljóssins, er lag þörunga eða baktería innan um lausofnari sveppþræði. Innst er síðan lag sambýlingsfrírra sveppþráða sem geyma næringarefni og vatn.. Jón Helgason (stórkaupmaður). Jón Helgason (11. september 1884 – 4. janúar 1968) var íslenskur stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Á yngri árum sínum var hann annálaður glímukappi. Jón fæddist á Grund í Höfðahverfi í Suður-Þingaeyjarsýslu. Hann lærði skósmíði á Ísafirði og starfaði einnig inni í Djúpi. En úr Djúpinu lá leið hans aftur til Ísafjarðar og þaðan að tveimur árum liðnum til Akureyrar og Siglufjarðar, þar sem hann stundaði síldarvinnu og verslunarstörf fram undir tvítugsaldur. Jón tók þátt í Íslandsglímunni 1907 og var með 15 vinninga (jafn Fjalla-Bensa), en fyrir ofan þá voru aðeins Jóhannes Jósefsson og Emil Tómasson. Hann réðst í för með Jóhannesi Jósefssyni, er hann fór í víking við fjórða mann. Frá Íslandi héldu þeir fjórmenningar á brott í desembermánuði 1908, eftir að Jón hafði verið þátttakandi í grísk-rómverskri kappglímu í Bárunni í Reykjavík. Upp úr þessu fór Jón til Rússlands og kenndi m.a. lögreglunni í Odessu íslenska glímu. Þar giftist hann rússneskri aðalskonu sem hét "Olga Olsofijeff", en móðir hennar var frönsk greifadóttir, "de Gramond". Þegar Jón var búsettur í Pétursborg, var hann gerður að kennara í leikfimi og sundi við herforingjaskólann í borginni. Loks var hann skipaður í sex manna nefnd sem átti að hafa yfirumsjón með allri fimleikakennslu í ríki Rússakeisara. Jón var þegar hér var komið auðugur maður, en hann tapaði aleigu sinni í rússnesku byltingunni og kom snauður til Kaupmannahafnar árið 1920. Þar hóf hann sundkennslu, fór á verslunarnámskeið og sneri sér síðan að verslun og verksmiðjurekstri. Á skömmum tíma tókst honum að verða efnalega sjálfstæður að nýju, og var síðan meðal auðugustu Íslendinga í Danmörku. Í Danmörku kvæntist hann íslenskri konu, Kristínu Guðmundsdóttur, listmálara. Þau eignuðust einn son, Björn Jónsson, sem var viðskiptafræðingur. Hlíðarendakot. Hlíðarendakot er bær í Fljótshlíð. Þar ólst Þorsteinn Erlingsson upp. Ljóðið "Í Hlíðarendakoti" er ort af Þorsteini og er innblásið af æskuminningum hans þaðan. Punktur (rúmfræði). Punktur er í rúmfræði minnsta rúmfræðilega einingin og hefur enga lengd, ekkert þvermál og ekkert rúmmál. Önnur rúmfræðileg fyrirbæri, s.s. línur og sléttur eru samsett úr punktum. Oft er sagt sem svo að punktur sé "staður í rúminu". Axlar-Björn. Björn Pétursson, kallaður Axlar-Björn (d. 1596), var illmenni sem bjó að Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi seint á 16. öld og er líklega þekktasti fjöldamorðingi Íslands, þótt heimildum beri ekki saman um hve marga hann myrti. Glæpir og aftaka. Miklar þjóðsögur hafa gengið um Björn og illvirki hans og voru þær skráðar af séra Sveini Níelssyni en einnig er sagt frá honum og syni hans í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Margt er þar þó með miklum ólíkindablæ og ekkert er víst um Björn og glæpi hans nema það sem segir í tveimur Alþingisdómum frá 1596 og 1597, auk þess sem gera má ráð fyrir að það sem Björn Jónsson segir í Skarðsárannál sé ívið nær lagi en sagnir sem skráðar voru 250-300 árum eftir aftöku Axlar-Bjarnar, en Björn annálaritari var rúmlega tvítugur þegar nafni hans var tekinn af lífi. Hann segir að Björn hafi myrt níu manns en þjóðsögurnar segja að þeir hafi verið fjórtán eða átján. Þetta voru aðallega ferðamenn sem áttu leið hjá bæ hans og voru þeir rændir aleigu sinni og síðan drepnir, en suma drap Björn að sögn til að fela illvirki sín. Björn á Skarðsá segir að Axlar-Björn hafi grafið líkin í heygarði eða fjósi en þjóðsögur segja að hann hafi komið líkunum fyrir í tjörn einni skammt frá bænum. Björn var handtekinn 1596 og dæmdur og tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi þá um vorið. Samkvæmt Skarðsárannál og þjóðsögnunum var hann marinn á útlimum með sleggjum fyrir aftökuna og þegar búið var að hálshöggva hann var líkið höggvið sundur og stykkin fest upp á stengur. Slíkt var þó í ósamræmi við íslensk lög á þeim tíma og í Alþingisdómnum sama ár er sagt að hann hafi verið réttaður eftir lögmáli, svo óvíst er að nokkrar pyntingar hafi verið viðhafðar. Kona og afkomendur. Eiginkona Axlar-Bjarnar hét Þórdís Ólafsdóttir og Alþingisdómarnir tveir sem fyrr var getið snúast að mestu um örlög hennar; hún var grunuð um hlutdeild í glæpum manns síns eða að minnsta kosti vitorð. Samkvæmt dómnum frá 1597 var Kastian Bock sýslumanni falið að kanna „hvort hún væri nokkuð sökuð í þessum málum eður ei enn af nýju, og ef svo er, að nokkuð bevísist, að hún hafi sig í þeim vandræðum vafið..., þá dæmum vér henni refsing og straff eftir því prófi. En bevísist ekki upp á hana öðruvísi en nú hefir fram fyrir oss komið, þá kunnum vér henni ekki refsing að dæma." Líklega hefur ekkert sannast upp á Þórdísi því engar heimildir eru um að hún hafi verið tekin af lífi eða hlotið aðra refsingu Sonur þeirra Björns var Sveinn „skotti“ og samkvæmt þjóðsögunum fæddist hann ekki fyrr en eftir aftöku föður síns. Hann varð kunnur landshornaflakkari og illvirki og var hengdur árið 1648 fyrir að gera tilraun til að nauðga húsfreyju í Rauðsdal á Barðaströnd. Sonur hans hét Gísli og var kallaður hrókur. Hann virðist hafa erft óknyttaeðlið því að hann var hengdur rétt eins og faðir hans, samkvæmt annálum. Saga Björns hefur orðið ýmsum yrkisefni. Úlfar Þormóðsson skrifaði um hann sögulega skáldsögu, "Þrjár sólir svartar", árið 1988. Megas skrifaði skáldsögu sem hét "Björn og Sveinn eða Makleg málagjöld" þar sem þeir feðgar ferðast um undirheima Reykjavíkur nútímans. Hún kom út 1994. Og árið 2012 setti leikhópurinn Vesturport upp sýninguna "Axlar-Björn", sem byggð er á þjóðsögunum um Björn og konu hans. Jafna. Jafna er stærðfræðileg fullyrðing, sett fram með stærðfræðilegum táknum og a.m.k. einu "jafnaðarmerki" „=“. Dæmi: Jafna getur haft eina eða fleiri breytur og fasta, t.d. þar sem "a" og "b" eru fastar, en "x" og "y" breytur. Til að "leysa" jöfnu, þarf að finna öll gildi breytanna, sem "uppfylla" jöfnuna, þ.e. gefa sömu niðurstöðu báðum megin við jafnaðarmerkið. Þau gildi sem uppfylla jöfnu nefnast "lausn" jöfnunnar. Rökyrðingar eru einnig settar fram sem jöfnur, t.d. "A" = "B" eða "B" = "A", sem er jafngilt, þar sem "A" og "B" eru "rökbreytur". Til að uppfylla jöfnunan hér að ofan þá verða báðar rökbreyturnar "A" og "B" að vera sannar eða ósannar. Í mengjafræði táknar jafnaðarmerki að tvö mengi hafi sömu stök, eða séu bæði tómamengið. Aljafna eða samsemd er jafna sem alltaf er sönn, fyrir öll gildi breytanna, t.d. Táknið „:=:“ er stundum notað til að tákna aljöfnu. Til að ákvarða núllstöð falls "f"("x"), þarf að leysa jöfnuna "f"("x") = 0. Stærðfærði- og eðlisfræðilögmál eru oftast sett fram með jöfnum og efnahvörf eru sett fram með efnajöfnum ("efnaformúla"). Matt Groening. Matthew Abram Groening (fæddur 15. febrúar 1954 í Portland, Oregon) er bandarískur skopmyndateiknari og hefur meðal annars skapað teiknimyndirnar "Life in Hell", "Futurama" og "The Simpsons". John Travolta. John Joseph Travolta (fæddur 18. febrúar 1954) er bandarískur leikari, dansari og söngvari. Travolta skaust á stjörnuhimininn eftir kvikmyndirnar "Saturday Night Fever" og "Grease". Frægðarframi hans fór nokkuð dvínandi með árunum en með kvikmyndinni "Pulp Fiction" tókst Travolta að endurlífga frama sinn og hlaut meðal annars Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína í myndinni. John Candy. John Franklin Candy (31. október 1950 – 4. mars 1994) var kanadískur grínisti og leikari. Þrátt fyrir að flestar af kvikmyndum hans hafi verið gamanmyndir, eins og Planes, Trains, and Automobiles og Uncle Buck, lék hann einnig dramatísk hlutverk í kvikmyndum á borð við Only the Lonely, Cool Runnings og JFK. Candy lést í svefni þann 4. mars 1994 meðan tökum á myndinni Wagons East! stóð. Hann var 43 ára gamall og krufning leiddi í ljós að dánarorsök var hjartaáfall. Candy, John Kevin Spacey. Kevin Spacey (fæddur 26. júlí 1959) er bandarískur leikari (kvikmyndir og leikhús) og leikstjóri. Spacey ólst upp í Kaliforníu og hóf feril sinn sem leikari á sviði á níunda áratugnum áður en hann hlaut aukahlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Spacey skaust á stjörnuhimininn fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni The Usual Suspects árið 1995. Hann hefur einnig leikið í kvikmyndum á borð við Se7en, Pay It Forward, L.A. Confidential og hans nýjasta hlutverk í kvikmyndinni Superman Returns. Spacey, Kevin Horst Köhler. Horst Köhler (fæddur 22. febrúar 1943) var forseti Þýskalands frá 1. júlí 2004 - 31. maí 2010. Mario Party 8. Mario Party 8 er vinsæll leikur og er það 8. leikurinn í Mario Party seríunni. Mario Party 1-3 kom á Nintendo 64,4-7 á Nintendo Gamceube og nú 8. leikurinn á nýustu wii tölvuna. þessi leikur er eins konar borðspil og inniheldur fullt af minileikjum. Allt að fjórir geta spilað saman. Super smash bros. brawl. Super smash bros. brawl er þriðji leikurinn í hinni samnefndu slagsmálaseríu, en kemur leikurinn aðeins út á Wii tölvunni. í þessum leik munu verða en fleiri sögupersónur og fleiri borð til að berjast á. Þessi leikur inniheldur einnig persónur frá öðrum fyrirtækjum, og má nefna sem dæmi Solid Snake úr Metal Gear Solid leikjunum og Sonic úr ýmsum sonic leikjum. Í þessum leik er hægt að ráða hvernig skal spila leikinn og er hægt að spila hann á fjórum mismunandi leiðum með stýripinnum. Þessi leikur mun ekki þurfa neina hreyfingu, því þarna eru bara notaðir takkar. Aðrar persónur sem má nefna eru Mario (Super Mario) Link (Legend of Zelda) Pikachu (pokémon) og kirby (kirby's dream land). Story mode-ið í þessum leik hefur verið bætt mikið og hefur hver persóna sína sögu, en munu allir samt þurfa að berjast við hina illu Subspace emmisary. Final smash hefur einnig bæst í leikinn og það lýsir sér eins og aðal slagsmála-bragð, sem spilarar geta gert með því að ná "Smash Ball". Hægt er að spila leikinn á netinu eða "online", það gerir notandanum kleift að berjast við annað fólk í heiminum í sama bardaga. Djákninn á Myrká. Djákninn á Myrká er ein frægasta íslenska draugasagan og segir frá djákna einum að Myrká í Eyjafirði. Nafns hans er ekki getið en hann átti í tygjum við konu eina er Guðrún hét og kom hún frá Bægisá. Saga. Djákninn leiddi hest sinn inn í kirkjugarð og varð Guðrún vitni að því er hann opnaði gröf eina og varð afar skelkuð. Hún tekur þá til ráðs að grípa í klukkustrenginn en í sömu andrá var gripið í annan handlegg hennar. Það varð henni til happs þó að hún hafði einungis tíma til að fara í aðra hempuermina og gekk hempan í sundur um axlarsauminn á þeirri erminni. Það síðasta sem Guðrún sá var að djákninn steyptist ofan í gröfina opnu með hempuermina hennar og sópaðist moldin ofan í gröfina frá báðum hliðum. Djákninn sótti á Guðrúnu sömu nótt og í tvær vikur eftir þann atburð gat Guðrún aldrei verið ein og varð að vaka yfir henni. Galdramaður var fenginn er kom frá Skagafirði og brá hann á það ráð að bíða í felum eftir komu djáknans. Þegar djákninn kom loks, setti galdramaðurinn hann niður með særingum og velti stórum steini yfir hann og er djákninn sagður hvíla þar enn í dag. Woody Allen. Woody Allen (fæddur 1. desember 1935 sem Allen Stewart Königsberg) er bandarískur leikari og leikstjóri. Allen skrifar og leikstýrir eigin kvikmyndum og hefur leikið í meirihluta þeirra. Hann leitar innblásturs í bókmenntum, heimspeki, sálfræði, gyðingdómi, evrópskri kvikmyndagerð og New York borg, þar sem hann er fæddur og hefur starfað allt sitt líf. Tenglar. Allen, Woody Guðmundur Jónsson (söngvari). LP platan "Lax, lax, lax" frá 1969. Stór (Long Playing) plata með Einsöngvarakvartettinum frá 1972. LP plata með Lúðrasveit Reykjavíkur 1975. LP jólaplata með Guðrúnu Á. Símonar frá 1975. LP plata með Einsöngvarakvartettinum frá 1978. LP platan "Einsöngslög og óperuaríur" frá 1982. Guðmundur Jónsson (f. 10. maí 1920 í Reykjavík, d. 6. nóvember 2007) var einn fremsti óperusöngvari Íslands. Æviágrip. Foreldrar hans voru Halldóra Guðmundsdóttir frá Akranesi og Jón Þorvarðsson, kaupmaður í Reykjavík. Æska og uppvöxtur. Vísir, sunnudagur 3. júll 1977,bls.6 - Árni Þórarinsson Nám og frami. Alþýðublaðið Sunnudagur 17. febrúar 1945, bls.4-6 - Torolf Smith Söngvarinn. Starfsferil sinn hóf Guðmundur sem skrifstofumaður en að framhaldsnámi loknu í söng helgaði hann sig söngnum, söngkennslu og störfum á tónlistardeild Ríkisútvarpsins. Árið 1966 varð hann framkvæmdastjóri RÚV og gegndi því til ársins 1985. Guðmundur Jónsson hefur um áratuga skeið verið í hópi fremstu og vinsælustu óperusöngvara á Íslandi en hann hefur farið með á fjórða tug hlutverka í óperum og óperettum hjá Þjóðleikhúsinu og íslensku óperunni, þar á meðal titilhlutverk í fyrstu óperusýningu Þjóðleikhússins Rigoletto eftir Verdi 1951. Auk þess hefur hann farið með ótal önnur söng- og leikhlutverk á sviði og í útvarpi og tekið þátt í miklum fjölda tónleika, meðal annars með Karlakór Reykjavikur, innanlands og utan, með Sinfóniuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúskórnum, Söngfélaginu Hörpu og Söngsveitinni Fílharmóníu. Guðmundur kenndi við Söngskólann í Reykjavík um árabil. Musica, Marz 1950, 3. Árgangur, 2. Tölublað, bls.3-4 Tíminn líður. VÍSIR Laugardagur 10. maí 1980, bls.29. – ATA Þinghelgi. Þinghelgi vísar til þess að þingmenn eru undanþegnir lögsóknum eða setu í gæsluvarðhaldi og aðeins þingið getur svipt þá þessum rétti. Þinghelgin fellur niður þegar þingmaður missir kjörgengi, t.d. í kjölfar kosninga, og er þá hægt að höfða mál gegn honum. Súðavíkurkirkja. Súðavíkurkirkja er kirkja í Súðavík sem er bær við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi. Hún var vígð á páskunum 1963. Þessi kirkja hafði upphaflega verið byggð norður á Hesteyri í Sléttuhreppi árið 1899 og stóð þar í sex áratugi, en nokkru eftir að sóknin var öll komin í eyði var kirkjuhúsið tekið niður, flutt sjóveg yfir Djúpið til Súðavíkur og endurbyggt þar. Kirkjuyfirvöld gáfu leyfi sitt, gegn andmælum Hesteyringa, að rífa kirkjuna og byggja hana upp að nýju í Súðavík. Hesteyringar litu svo á að verið væri að ráðstafa kirkju þeirra í leyfisleysi, og spunnust um þetta miklar deilur í blöðum. Úrsmiður. Úrsmiður er iðnaðarmaður sem viðheldur og gerir við biluð úr og klukkur. Úrsmíði er lögvernduð iðngrein. Nám. Námið tekur 4 ár. Ekki er hægt að læra úrsmíði á Íslandi nema að hluta. Nemar eru á iðnsamningi hjá úrsmíðameistara en sækja bóklegt og verklegt nám í úrsmíðaskólum erlendis. Flestir íslenskir úrsmiðir hafa sótt nám á danska úrsmíðaskólann í Ringsted í Danmörku allt í allt 80 vikur. Góður úrsmiður þarf að hafa eftirfarandi til að bera: Góða sjón og nákvæm vinnubrögð, þar sem verkefnið sem unnið er með er oftar en ekki frekar smátt. Bart Simpson. Bartholomew,Bart" Jojo Simpson er skáldskapar-persóna í teiknimyndunum um Simpsonsfjölskylduna. Rödd hans kemur frá leikkonunni Nancy Cartwright. Bart er elsta barn Homer's og Marge og er bróðir Lisu og Maggie. Nafn hans er stafarugl á enska orðinu 'brat' sem þýðir óþekktarormur. Hann er eini fjölskyldumeðlimur Simpson-fjölskyldunnar sem er ekki skírður í höfuðuð á fjölskyldumeðlimum Matts Groenings. Viva La Bam. Viva La Bam er bandarískur raunveruleikaþáttur með Bam Margera í fararbroddi. Þátturinn æxlaðist út frá MTV þættinum Jackass, þar sem Margera og kunningjar hans komu fram. MTV. Höfuðstöðvar MTV í New York MTV (Music Television) er bandarísk sjónvarpsstöð með höfuðstöðvar sínar í New York borg. Stöðin hóf útsendingar þann 1. ágúst 1981 og var aðal markmið sjónvarpsstöðvarinnar að sýna tónlistar myndbönd. Í dag er MTV með fjölbreytta flóru af raunveruleikaþáttum og gamanþáttum, ásamt því að vera með sýningar á tónlistar myndböndum. Marge Simpson. Marjorie „Marge“ Simpson (fædd Bouvier) er skáldskapar-persóna í teiknimyndunum um Simpsonfjölskylduna og er með blátt langt hár. Leikkonan Julie Kavner ljáir Marge rödd sína. Marge er afar þolinmóð húsmoðir, stundum með vinnu, og eiginmaður hennar heitir Homer Simpson. Með honum á hún soninn Bart og dæturnar Lisu og Maggie. Nafn hennar er komið frá móður skapara þáttanna, Matt Groening. Systur hennar eru Patty Bouvier og Selma Bouvier Terwilliger McClure Hutz Stu Simpson og móðir og faðir eru Jacqueline og Clancy Bouvier. Lisa Simpson. Lisa Marie Simpson er skáldskapar-persóna í teiknimyndunum um Simpson-fjölskylduna. Yeardley Smith ljáir Lisu rödd sína. Lisa er án efa gáfaðasti fjölskyldu meðlimurinn og spilar á saxafón en Lisa nafnið kemur frá systur Matt Groening, skapara þáttanna. Hún er 8 ára og er í 2. bekk. Maggie Simpson. Margaret,Maggie" Simpson er skáldskapar-persóna úr teiknimyndunum um Simpson-fjölskylduna. Maggie er yngst af þremur systkinum og kemur minnst fram í þáttunum af þeim þremur. Þrátt fyrir það þá er hún aðallpersónan sem kemur oft til bjargar. Maggie er með gult hár eins og Lisa sem er eldri systir hennar. Maggie hefur aldrei talað en það hefur verið eitt þáttur þar sem hún segir "Daddy". Þríhyrningsójafna. Þríhyrningsójafna (stundum kölluð þríhyrningaójafnan'") er ójafna, sem segir að summa tveggja hliða þríhyrnings er stærri en lengd þriðju hliðarinnar. þar sem "x" og "y" geta verið rauntölur, tvinntölur eða vigrar. "d"("a","b") ≤ "d"("a", "c") + "d"("c","b"), þar sem "a", "b" og "c" eru stök í ("M","d"). Lögmál Hubbles. þar sem "v" er hraðinn í km/s, "D" fjarlægðin í megaparsek (Mpc) og "Ho" Heimsfastinn, sem er um 71 ± 4 (km/s)/Mpc. Rauðvik vetrarbrauta er talið stafa af úþenslu alheims allt frá dögum miklahvells. Ferhyrningur. Ferhyrningur er safnheiti yfir flöt með fjögur horn, m.ö.o. tvívíð rúmmynd með fjórum hornum með hornasummuna 360°. Rétthyrningur er ein tegund ferhyrnings, en öll fjögur horn hans eru 90°. Ekki má rugla ferhyrningi saman við ferning en ferningur er samt sem áður ferhyrningur, en ferningur ekki safnheiti yfir eitt né neitt, heldur viss tegund af ferhyrningi. Rétthyrningur. Rétthyrningur er ferhyrningur með öll fjögur horn 90°. Ferningur er rétthyrningur með jafnar hliðar. Beagle. Beagle eða bikkill er hundategund sem á uppruna sinn að rekja til Englands. Beagle hundar eru þefhundar og hafa í gegnum tíðina verið notaðir við veiðar á hérum, kanínum og refum. Einnig hefur tegundin verið notuð við fíkniefnaleit vegna afar góðs lyktarskyns. Beagle-hundar eru vinsæl gæludýr vegna stærðar sinnar, jafnlyndisskaps og þess að vera lausir við arfeng heilsuvandamál. Þrátt fyrir að Beagle tegundin hafi verið til í yfir 2000 ár, var nútíma tegundin þróuð í Bretlandi á 19. öld frá mörgum öðrum hundategundum. Meðalþyngd Beagle hunds er um 15 – 20 kg og líftími þeirra er miðaður við 13 ár. Forsetakosningar á Íslandi 1988. Forsetakosningar 1988 voru hinar íslensku forsetakosningar sem fóru fram þann 26. júní árið 1988 og enduðu með yfirburðasigri Vigdísar Finnbogadóttur. Kosningarnar vöktu athygli fyrir það að þetta var í fyrsta skipti sem mótframboð kom gegn sitjandi forseta. Árið 1956 hafði Pétur Hoffmann Salómonsson gefið til kynna að hann hygðist bjóða sig fram gegn Ásgeiri Ásgeirssyni, en hann dró það til baka. Sigrún Þorsteinsdóttir úr Flokki mannsins í Vestmannaeyjum var allþekkt úr ýmsum félagsmálum og hafði m.a. boðið sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum 1983 þegar Þorsteinn Pálsson var kjörinn formaður, en Friðrik Sophusson hlaut yfirburðakosningu í varaformannsembættið. Hún og stuðningsmenn hennar lögðu áherslu á þá hugmynd að forsetaembættið ætti að vera pólitískt virkt og forseti ætti að nýta heimild sína til að synja tilteknum lögum staðfestingar. Vigdís kaus að halda sig til hlés og reka ekki hefðbundna kosningabaráttu og stuðningsmenn Sigrúnar gagnrýndu hana fyrir að vilja ekki mæta Sigrúnu í kappræðum í sjónvarpi. Fyrstu kannanir sýndu um 98% fylgi forsetans. Á kjörskrá fyrir kosningarnar voru 174.732 og var kjörsókn 72%. Þyrla. Þyrla er loftfar með vélknúna spaða sem gera þyrlunni kleift að taka á loft og lenda lóðrétt, haldast kyrri á lofti og fljúga aftur á bak og áfram. Þyrlur hafa að minnsta kosti tvö sett af þyrluspöðum. Algengasta útfærslan er á þann veg að stórir láréttir spaðar á toppi þyrlunnar hefja hana til flugs og knúa hana áfram og á halanum eru láréttir minni spaðar sem vinna gegn tilheigingu búksins til að snúast með stærri spöðunum. Þyrlur eru mikið notaðar til björgunarstarfa, í hernaði og á svæðum þar sem fáir flugvellir eru. Eldri nöfn eru "kofti" og "þyrilvængja". The King of Queens. The King of Queens (eða Kóngur Queens) er bandarískur gamanþáttur sem var sýndur á árunum 1998 til 2007. Þátturinn var sýndur á CBS sjónvarpsstöðinni og myndaður við framleiðsluver Sony Pictures í Culver borg, Kaliforníu. Þátturinn segir frá hjónakornunum Doug og Carrie Heffernan (Kevin James og Leah Remini) sem búa í Queens, New York. Í kjallaranum hjá þeim býr faðir Carrie, Arthur Spooner (Jerry Stiller). Doug hefur að atvinnu að keyra út pakka hjá sendilsfyrirtækinu IPS og Carrie starfar sem ritari hjá lögfræðistofu. Arthur er hinsvegar komin á eftirlaun og fer reglulega í gönguferðir með Holly (Nicole Sullivan), sem hefur atvinnu á því að ganga með hunda. Vinir Doug eru Deacon Palmer (Victor Williams), Spence Olchin (Patton Oswalt) og frændi hans Danny Heffernan (Gary Valentine). Ráðuneyti Þorsteins Pálssonar. Ráðuneyti Þorsteins Pálssonar (stundum kallað "„Stjórnin sem sprakk í beinni“") sat frá júlí 1987 til september 1988 og var samsteypustjórn af Alþýðu-, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins. Ríksstjórnin sprakk í beinni útsendingu þann 17. september 1988. Pivot Stickfigure Animator. Pivot Stickfigure Animator er forrit sem hannað var af Peter Bone. Það gerir notendum kleift að búa til teiknimynd þar sem spítukarlar eru notaðir. Í forritinu er hægt að búa til sína eigin spýtukarla og hreyfimyndir með þeim eða notast við spýtukarla sem fylgja forritinu. Meðal annars er hægt er að vista myndirnar sem GIF og.piv myndir..piv myndir opnast sjálfkrafa í Pivot forritinu en GIF myndir er m.a. hægt að fella inní vefsíður vegna þess að margir vafrar styðja sniðið. Kevin James. Kevin George Knipfing (fæddur 26. apríl 1965) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Doug Heffernan í sjónvarpsþáttunum "The King of Queens". Tenglar. James, Kevin Leah Remini. Leah Remini (fædd 15. júní 1970) er bandarísk leikkona að ítölskum uppruna og er hún þekktust fyrir hlutverk sitt sem Carrie Heffernan í sjónvarpsþáttunum The King of Queens. Tenglar. Remini, Leah Jerry Stiller. Jerry Stiller (fæddur 8. júní 1927) er bandarískur leikari og þekktur fyrir hlutverk sín sem Frank Costanza, faðir George Costanza í sjónvarpsþáttunum Seinfeld og Arthur Spooner, faðir Carrie Heffernan í sjónvarpsþáttunum The King of Queens. Stiller er faðir leikarans Ben Stiller og leikkonunnar Amy Stiller. Stiller, Jerry Braindead. Braindead (Dead Alive, BNA) er hryllingsmynd eftir Peter Jackson. Hún sýnir atriði sem eru öft kölluð ógeðslegustu atriði kvikmyndaiðnaðarins. Myndin kom út árið 1992. Önnur mynd eftir Peter Jackson heitir Bad Taste. Kjúklingur. Kjúklingur er kjöt Nytjahænsnisinns. Matréttir úr kjöti þeirra kallast kjúklingur ef fuglinn er eldaður heill (stundum nefnt kjúlli í talmáli) eða kjúklingaréttir ef hann er matreiddur úr hlutum fuglsins, eins og læri eða bringu. Gæs. Gæsir (fræðiheiti "Anatidae") kallast fuglar af andaætt. Þær hafa verið verið haldnar sem húsdýr í margar aldir. Gæsir eru grasbítar. Dýrahringsmorðinginn. Dýrahringsmorðinginn var raðmorðingi sem drap fólk í Norður-Kaliforníu seint á 7. áratugnum. Ekki er enn búið að finna hver Zodiac er og er skýrlunni búið að loka síðan 2004. Hann senti lögreglu San Fransisco bréf þar sem þrjú á eftir að leysa. Morðin. Zodiac fullyrti að hafa drepið allt að því 37 manns, en rannsóknarlögreglumenn fullyrða að fórnarlömbin hafi verið níu en þar af voru tvö sem lifðu af. Arthur Leigh Allen. Arthur Leigh Allen var maðurinn sem talið er hafa verið Zodiac morðinginn. Hann komst nálægast því að vera morðinginn. Hann dó 1992, áður en hann var sakaður um morðin. Þegar spurt var hann um The Most Dangerous Game sagðist hann hafa lesið hana og það hafi haft áhrif á hann. Hann neitaði um morðin. Lögreglan fann ekki endanlega að Allen var Zodiac, þó hann hafi verið kynferðisafbrotamaður og vopn og sprengiefni fundust heima hjá honum 1991. Hvorki skrift né fingraför pössuðu saman, hann hafði ekki haft neitt samband við Zodiac. Ágúst Ólafur Ágústsson. Ágúst Ólafur Ágústsson (fæddur 10. mars 1977) lögfræðingur og hagfræðingur er fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður 2003-2009 og var varaformaður Samfylkingarinnar frá 2005 til 2009. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er fyrrverandi forseti Alþingis og fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra. Hún var þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hún var fyrst kjörin á þing 1995 fyrir Þjóðvaka. Gaoming. Gaoming (高明, Pinyin:Gāomíng) er sýsla í Guangdong fylki í Kína. Borgin Gaoming liggur vestur af Foshan borg, með 276.000 íbúa (2003) og er 967,4 km² að flatarmáli. Efnahagur. Gaoming er auðugt af Gulli, Kopar, Volfram og fleiri málmum. Landbúnaður og matvælaframleiðsla er stór þáttur í Gaoming og hvers konar iðnaður hefur vaxið gríðalega þar sem og annars staðar í Kína. Luiysi sturtuklefar og baðker sem mikið er selt á Íslandi eru framleitt í Gaoming. Stjórnsýsla. Valdastjórn Gaoming er í Foshan. Nágrannasýslur eru Gaoyao í norður, Xinxing í vestur, Heshan í suður, Nanhai og Sanshui í austur. Samgöngur. Gaoming er ekki vel í sveit sett með járnbrautarsamgöngur, en vegakerfið er mjög gott og skip geta siglt upp með á sem rennur til sjávar við Macau. Góð höfn er í ánni við Gaoming. Victor Williams. Victor L. Williams (fæddur 19. september 1970) er bandarískur leikari og þekktastur fyrir hlutverk sem sem Deacon Palmer, besti vinur Doug Heffernan's í gamanþáttunum The King of Queens. Williams, Victor L. Patton Oswalt. Patton Oswalt (fæddur 27. janúar 1969) er bandarískur leikari, raddleikari, uppistandari, handritshöfundur og rithöfundur sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Ratatouille, Robotomy og The King of Queens. Einkalíf. Oswalt fæddist í Portsmouth, Virginía en ólst einnig upp í Ohio og Kaliforníu. Stundaði hann nám í ensku við "College of William and Mary". Patton hefur verið giftur Michelle Eileen McNamara síðan 2005 og saman eiga þau eitt barn. Handritshöfundur. Fyrsta sjónvarpshandrit Owalts var árið 1994 fyrir "Small Doses". Hefur hann síðan þá skrifað handrit fyrir "Lottery", MADtv frá 1995-1997, "MTV Special: 'Dodgeball – A True Underdog Story, "The Comedians of Comedy" og "Human Giant". Rithöfundur. Oswalt skrifaði teiknimyndasöguna "JLA: Welcome to the Working Week" sem var gefin út af DC Comics árið 2003. Árið 2010 kom út önnur teiknimyndasaga eftir hann sem heitir "Serenity: Float Out" og var gefin út af Dark Horse Comics. Hefur hann einnig verið meðhöfundur að þremur bókum "The Overrated Book", "The Goon noir" og "The Rock Bible: Unholy Scripture for Fans & Bands". Árið 2011 gaf Oswalt út fyrstu bók sína sem heitir "Zombie Spaceship Wasteland". Uppistand. Oswalt byrjaði að koma fram sem uppistandari á seinni hluta níunda áratugarins eða í byrjun tíunda áratugarins. Umræðuefni uppistanda Oswalts teygir sig yfir fjölbreytt efni frá teiknimyndasögum og yfir í alvarleg samfélags vandmál bandaríkjanna. Árið 2004, gaf Oswalt út grínplötuna "Feelin' Kinda Patton" og síðan kom lengri óklippt útgáfa seinna á árinu sem hét "222 (Live & Uncut)". Gaf hann einnig út "No Reason to Complain" sama ár. Árið 2005, gaf Oswalt út í samstarfi við Zach Galifianakis lengri útgáfu af leikriti (Extended play) sem heitir "Patton vs. Alcohol vs. Zach vs. Patton" og má finna á tveimur safnverkum, "The Un & Only" og "The Good, the Bad and the Drugly". Þann 10. Júlí 2007, gaf Patton út sína aðra grínplötu sem heitir "Werewolves and Lollipops". Árið 2004, ferðaðist Oswalt um bandaríkin ásamt Zach Galifianakis, Brian Posehn og Maria Bamford til að sýna "Comedians of Comedy". Hópurinn kom fram á fámennum stöðum í stað dýra grínklúbba. Um haustið 2004 var ferðlagið tekið upp og gefið út sem heimildarmynd árið eftir. Á ferðlaginu komu fram þekktir gestauppistandarar á borð við Blaine Capatch, David Cross, Rob Gasper, Bobby Tisdale og Todd Barry. Árið 2004 var hluti af uppistandi Oswalts sýnt á sjónvarpsstöðinni Comedy Central í teiknimyndaþættinum "Shorties Watchin' Shorties". Oswalt kom einnig fram sem "lögfræðingur" í grínþættinum "Lewis Black's Root of All Evil" á sjónvarpstöðinni. Þann 28. febrúar, 2009, tók Oswalt upp þriðju gamanplötu sína sem var frumsýnd 23. ágúst 2009 á Comedy Central sem "Patton Oswalt: My Weakness is Strong" og var einnig gefið út á DVD á samatíma. Nýjasta gamanplata Oswalts, "Patton Oswalt: Finest Hour", var gefin út 19. september, 2011. Lengri og óklippta DVD útgáfan var gefin út í apríl 2012 nokkrum dögum eftir frumsýningu á Comedy Central. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Oswalt var árið 1994 í "Small Doses". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Seinfeld, "The Weird Al Show", "Crank Yankers", Kim Possible, American Dad, Dollhouse, Community, United States of Tara, Simpsonfjölskyldan, Two and a Half Men og Justified. Frá 1998-2007 lék Oswalt Spence Olchin í gamanþættinum The King of Queens. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Oswalt var árið 1995 í "Mind Control". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Magnolia, Zoolander, Calendar Girls, Ratatouille, The Informant, A Very Harold & Kumar 3D Christmas og Internet Troll with Patton Oswalt. Verðlaun og tilnefningar. Central Ohio Film Critics Assocication verðlaunin Los Angeles Film Critics Association verðlaunin National Society of Film Critics verðlaunin Palm Springs International Film Festival verðlaunin Santa Barbara International Film Festival verðlaunin Tenglar. Oswalt,Patton Gary Valentine. Gary Valentine (fæddur 22. nóvember 1961) er bandarískur leikari og grínisti. Valentine hét upphaflega Gary Joseph Knipfing og er bróðir leikarans Kevin James. Valentine er þekktastur fyrir hlutverk Danny Heffernan, frænda Doug's Heffernan í gamanþáttunum The King of Queens. Valentine, Gary Gísli Rúnar Jónsson - Algjör sveppur. Gísli Rúnar Jónsson - Dagur í lífi stráks er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni flytur Gísli Rúnar Jónsson eigið efni - Dagur í lífi stráks. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni hf., tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljómblöndun: Sigurður Árnason og Sigurður Rúnar Jónsson. Ljósmynd á framhlið umslags tók Studio 28 en teikningar á bakhlið gerði Gísli Rúnar. Vinir. "Friends" eða "Vinir" á íslensku er bandarískur grínþáttur sem er framleiddur af David Crane og Mörtu Kauffman, sem var frumsýndur á stöðinni NBC 22. september 1994. Þættirnir snerust um líf vinahóps á Manhattan í New York. Þættirnir voru framleiddir af Bright/Kauffman/Crane fyrirtækinu í samstarfi við Warner Bros. Crane og Kauffman byrjuðu að þróa "Friends" undir titlinum "Insomia Cafe" í nóvember 1993. Þau báru hugmyndina undir Bright, sem þau höfðu einu sinni unnið með, og saman gerðu þau sjö blaðsíðna uppkast handa NBC. Eftir nokkrar endurritanir og ýmsar breytingar var þátturinn loksins nefndur "Friends" og var frumsýndur á NBC á fimmtudegi kl. 8:30. Upptaka þáttanna fór fram í Warner Bros myndveri með áhorfendum í sal. Eftir tíu seríur á stöðinni var lokaþátturinn vel auglýstur á NBC og mikið umstang gert í kringum hann. Hann fór í loftið 6. maí 2004 og voru bandarísku áhorfendurnir 52,5 milljónir, sem varð til þess að þátturinn varð fjórði vinsælasti lokaþátturinn í sögu sjónvarps. "Friends" fékk misgóða gagnrýni þegar hann var sýndur en hann varð einn af vinsælustu þáttaröðum síns tíma. Á meðan hann var í gangi vann hann mikið af verðlaunum og var tilnefndur til 63 Emmy-verðlauna. Þáttunum gekk einnig vel í áhorfi og var alltaf á topp tíu listanum. "Friends" hafði mikil áhrif allt í kringum sig og Central Perk kaffihúsið hefur veitt mörgum innblástur. Þættirnir eru endursýndir um allan heim en hver sería hefur einnig verið gefin út á mynddiski. Eftir að þættirnir kláruðust fór þátturinn "Joey" í loftið og orðrómur um kvikmynd kom upp. Leikarar & persónur. Áður en aðalleikararnir fengu hlutverk í þáttunum höfðu þau öll leikið í sjónvarpi en voru ekki flokkuð sem sjónvarpsstjörnur. Á meðan þáttunum stóð urðu þau öll stjörnur. Þættirnir urðu þekktur fyrir frábæra aðalleikara sem urðu brátt vinir utan þáttanna. Leikararnir lögðu mikinn metnað í það að reyna að halda persónunum mjög eins, án einverra mikilla breytinga, og voru þættirnir sagðir vera fyrstu þættirnir með almennilegan samleikshóp. Leikararnir ákváðu að þeir færu allir í sama flokkinn í verðlaunum í staðinn fyrir að fara í einstaklingsverðlaun og báðu um að vera öll saman á fyrstu tímaritsforsíðunni eftir fyrstu þáttaröðina. Í upprunalegu samningunum fyrir fyrstu tvær seríurnar átti hver leikari að fá 1.600 dali fyrir hvern þátt. Árið 1996 hótaði leikhópurinn að fara í verkfall nema hann fengi launahækkun, sem varð til þess að hver leikari fékk 100.000 dali fyrir hvern þátt. Fyrir sjöttu seríuna var leikurunum boðið 250.000 dali fyrir hvern þátt. En þá fór hópurinn aftur í viðræður í apríl 2000 og bað um 750.000 dali fyrir þátt og í febrúar 2002 var launakrafan orðin 1.000.000 dala fyrir hvern þátt. Leikararnir urðu mjög góðir vinir við einn gestaleikarann, Tom Selleck, sem sagði að honum fyndist hann stundum skilinn útundan. Hópurinn hélt áfram að vera góðir vinir eftir að þættirnir hættu, sérstaklega Courtney og Jennifer, og varð Jennifer guðmóðir dóttur Courtney og Davids Arquette, Coco. Í „farewell“ bókinni frá Friends stendur að hópurinn sé orðin eins og fjölskylda. Kristín Lilliendahl - Jólaplata. Kristín Lilliendahl - Jólaplata er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni flytur Kristín Lillendahl jólalög. Kristinn Sigmarsson útsetti alla tónlist og stjórnaði hljómsveitarundirleik og kórsöng. Hann og félagar hans í hljómsveitinni Pónik sjá um hljóðfæraleik (og söng í nokkrum lögum. m a í "Jólasveinasöngnum"). Auk þess syngur Kirkjukór Neskirkju í tveimur lögum og allmargir hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands aðstoðar í nokkrum lögum. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun Sigurður Árnasson og Kristinn Sigmarsson. Ljósmynd á framhlið Stúdíó 26. Courteney Cox. Courteney Bass Cox (f. 15. júní 1964) er bandarísk leikkona. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Monica Geller í gamanþátaröðinni "Vinir" (e. "Friends"), Gale Weathers í hryllingsmyndunum "Scream" og Jules Cobb í gamanþáttaröðinni "Cougar Town", en hún fékk sína fyrstu Golden Globe tilnefningu fyrir hlutverkið. Cox hefur einnig leikið í þáttaröðinni "Dirt" sem framleidd var af Couqette Productions, framleiðslufyrirtæki í eigu hennar og þáverandi eiginmanns hennar, David Arquette. Æska. Courteney Cox ólst upp í úthverfi Birmingham, Mountain Brook í Alabama og er dóttir viðskiptamannsins Richard Lewis Cox (28. janúar 1931 - 3. september 2001) og eiginkonu hans, Courteney (áður Bass, síðar Copeland). Hún á tvær eldri systur, Virginu og Dottie, og einnig eldri bróðir, Richard Jr. Foreldrar hennar skildu árið 1974 og móðir hennar giftist viðskiptamanninum Hunter Copeland. Eftir að hafa útskrifast úr menntaskólanum í Mountain Brooke, fór Cox í Mount Vernon háskólann í Washington, D.C., en kláraði ekki arkitektanám sitt þar og ákvað heldur að láta reyna á það að verða leikkona og fyrirsæta. Fyrstu árin. Árið 1984 lék Cox í tónlistarmyndbandi við lag Bruce Springsteen, „Dancing in the Dark“, þar sem hún lék konu sem var dregin upp á svið til að dansa við Springsteen. Cox varð fyrsta manneskjan til að nota orðið „blæðingar“ í bandarísku sjónvarpi árið 1985 í auglýsingaherferð fyrir Tampax-túrtappa. Á fyrstu árum sjónvarpsferils síns lék hún m.a. í skammlífu þáttaröðinni "Misfit of Science" (1985), en hún fór einnig með aukahlutverk (1987-89) í sjónvarpsþáttaröðinni "Family Ties" þar sem hún lék Lauren Miller, kærustu Alex P. Keaton (Michael J. Fox). Fyrstu kvikmyndirnar sem hún lék í eru m.a. "Masters of the Universe" (1987) og ' (1988). Hún fór með hlutverk Jewel í myndinni "Mr. Destiny" árið 1990. Árið 1994, stuttu áður en hún byrjaði að leika í "Friends" lék Cox á móti Jim Carrey í kvikmyndinni ' og í "Seinfeld" þar sem hún fór með hlutverk kærustu Jerry sem hét Meryl. "Friends". Seinna árið 1994 var Cox beðin um að koma í áheyrnaprufu fyrir hlutverk Rachel Green í nýjum gamanþætti, "Friends", en hún var ráðin í hlutverk Monicu Geller í staðinn. Í fyrstu var hún frægasti meðlimur leikaraliðs nýja þáttarins, gekk Cox til liðs við Jennifer Aniston (Rachel Green), Lisu Kudrow (Phoebe Buffay), Matt LeBlanc (Joey Tribbiani), Matthew Perry (Chandler Bing) og David Schwimmer (Ross Geller), en hlutverkið átti eftir að verða hennar frægasta og voru gerðar 10 þáttaraðir, fram til 2004. Samkvæmt Heimsmetabók Guinnes (2005) er Cox (ásamt meðleikkonum sínum) hæst launaða sjónvarpsleikkona allra tíma, en hún fékk 1 milljón dollara í laun fyrir hvern þátt, síðustu tvær þáttaraðirnar af Friends. Milli þáttaraða fimm og sex giftist Cox leikaranum David Arquette, og breytti nafni sínu í Courteney Cox Arquette. Í gríni var eftirnafni Davids, Arquette, bætt fyrir aftan eftirnöfn allra leikaranna í þættinum "The One After Vegas". Þátturinn var einnig tileinkaður "Courteney og David, sem giftu sig" - sem var vísun í ákvörðun Monicu og Chandlers að giftast ekki í þættinum. Kvikmyndaferill. Á meðan Cox lék í "Friends" lék hún einnig í stóru Hollywood kvikmyndunum "Scream" (1996), "Scream 2" (1997) og "Scream 3" (2000) þar sem hún fór með hlutverk Gale Weathers. Hún hitti eiginmann sinn, David Arquette, sem lék ástmann hennar, Dwight "Dewey" Riley" í myndinni, á meðan tökur á fyrstu "Scream" myndinni stóðu yfir. Bæði Cox og Arquette endurtóku hlutverk sín úr Scream þríleiknum í kvikmyndnni "Scream 4" árið 2011. Myndin kom í kvikmyndahús þann 15. apríl 2011. Aðrar myndir sem hún hefur leikið í eru m.a. "The Runner", "3000 Miles to Graceland" og "The Shrink Is In". Seinni hluta árs 2003 framleiddu Cox og Arquette eina þáttaröð af raunveruleikaþættinum "Mix It Up". Lífstílsþátturinn, sem sýndur var á We cable-stöðinni, glímdi við lágar áhorfstölur og var ekki endurnýjaður fyrir aðra þáttaröð. Önnur vinna. Eftir hlutverk sitt í Friends, var Cox fyrsta val framleiðandans Marc Cherry við val á leikkonu í hlutverk Susan Mayer í "Aðþrengdum eiginkonum". Cox var hins vegar ekki laus þar sem hún var ólétt og fékk Teri Hatcher því hlutverkið. Nokkrum árum seinna skrifaði Cox undir samning við ABC-stöðina um að leika í sinni eigin þáttaröð. Eftir "Friends" lék Cox í óháðu kvikmyndinni "November" (2005) sem fór í fá kvikmyndahús; og lék einnig á móti Tim Allen í "Zoom". Hún talaði einnig inn á teiknimyndina "Barnyard". Árið 2007 lék Cox Lucy Spiller, ritstjóra slúðurblaðs, í þættinum "Dirt". Cox og eiginmaður hennar, David Arquette, voru aðalframleiðendur þáttaraðarinnar. Þáttaröðin endaði eftir aðra þáttaröðina árið 2008. Í júlí 2008 tilkynnti Entertainment Weekly að Cox hefði skrifað undir þriggja þátta samning við þáttaröðina "Nýgræðingar" (e. "Scrubs"). Í þriðja þættinum sagði hún við Dr. Cox að henni fyndist Cox "fáranlegt nafn", sem var vísun í hennar eigið nafn. Árið 2009 byrjaði Cox að leika í þáttunum "Cougar Town" sem sýndir eru á ABC stöðinni og fer hún með hlutverk nýlega fráskildrar fertugrar konu sem er í leit að nýjum ævintýrum. Sýningar á þriðju þáttaröðinni hófust í febrúar 2012 í Bandaríkjunum. Einkalíf. Cox hefur átt nokkra kærasta í gegnum tíðina, þ.á m. Ian Copeland, og hún átti í löngu sambandi við leikarann Michael Keaton á árunum 1989-1995. Cox átti einnig í ástarsambandi við söngvarann Adam Duritz í hljómsveitinni Counting Crows. Cox giftist leikaranum David Arquette þann 12. júní 1999. Þann 13. júní 2004 fæddi Cox dótturina Coco Riley Arquette. Jennifer Aniston er guðmóðir Coco. Þann 11. október 2010 var tilkynnt að Cox og Arquette væru skilin að borði og sæng, þó að þau haldi enn góðu sambandi, bæði sem vinir og vinnufélagar. Hvorugt þeirra hefur þó sótt um lögskilnað. Lisa Kudrow. Lisa Marie Diane Kudrow (fædd 30. júlí 1963) er bandarísk leikkona og þekktust fyrir hlutverk sitt sem Phoebe Buffay í gamanþáttunum Friends. Eftir Friends þáttaröðina, lék Kudrow Valerie Cherish, aðalpersónu þáttanna The Comeback er sýndir voru á HBO sjónvarpsstöðinni. Þátturinn lifði einungis af eina þáttaröð. Einkalíf. Kudrow átti á sínum tíma í sambandi við Conan O'Brien, þangað til hann flutti til New York til að stjórna spjallþætti sínum árið 1993. Þann 27. maí 1995, varð Kudrow fyrsti Friends meðlimurinn til að gifta sig þegar hún giftist Michel Stern. Þau eiga einn son, Julian Murray (fæddur 7. maí 1998). Matt LeBlanc. Matthew Steven LeBlanc (fæddur 25. júlí 1967) er bandarískur leikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Joey Tribbiani í gamanþáttunum Friends (1994 – 2004) og sem "Joey" í gamanþáttunum Joey (2004 – 2006). Matthew Perry. Matthew Langford Perry (fæddur 19. ágúst 1969) er kanadískur/bandarískur leikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Chandler Bing í gamanþáttunum Friends. Hann lék einnig persónuna Matt Albie í þáttunum Studio 60 on the Sunset Strip. David Schwimmer. David Lawrence Schwimmer (fæddur 2. nóvember 1966) er bandarískur leikari og leikstjóri. Hann öðlaðist frægð sína sem persónan Dr. Ross Geller í gamanþáttunum Friends. Ítölsk líra. Ítölsk líra (ítalska: "lira", fleirtala "lire") var gjaldmiðill Ítalíu frá 1861 til 2002. Fram að lokum Síðari heimsstyrjaldar skiptist hún í 100 hundraðshluta ("centesimi") en útgáfu slíkra senta var hætt þegar útgáfa hennar var aftur tekin upp eftir stríð. Ítalska líran var tengd evrunni árið 1999. Árið 2002 var síðan evran sjálf tekin upp sem gjaldmiðill og þá var gengið fest í 1 EUR = 1.936,27 ITL. Nafnið líra er dregið af latneska orðinu "libra" sem merkir vog. Líran var einnig gjaldmiðill hins skammlífa konungsríkis Ítalíu frá 1807 til 1814. Líra. Líra (táknað ₤, £ eða L) er nafn sem er notað yfir núverandi gjaldmiðil Tyrklands, Líbanons, Sýrlands og Jórdaníu og fyrrverandi gjaldmiðil fleiri landa sem skiptu henni flest út fyrir evru árið 2002. Lighthouse Family. Lighthouse Family var breskur dúett sem lék hæglætis tónlist („easy listening“) og var virkur frá miðjum tíunda áratugnum til ársins 2000. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993 í Newcastle á England. Stofnendur voru Tunde Baiyewu og Paul Tucker, en þeir hittust fyrst í háskóla. Frysta breiðskífa þeirra, "Ocean Drive" seldist í 1,6 miljónum eintaka í Bretlandi. Hljómsveitin lagði upp laupana áraið 2003 eftir að breiðskífan "Whatever Gets You Through the Day" kom út. Ocean Drive (Lighthouse Family breiðskífa). Ocean Drive er fyrsta stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Lighthouse Family og kom hún út árið 1996. Doctor Who. "Doctor Who" er vísindaskáldsögusjónvarpsþáttur sem er framleiddur af BBC. Þættirnir eru þeir langlífustu þegar kemur að gerð þátta sem ganga út á vísindaskáldskap og voru þeir fyrst framleiddir þremur árum áður en "Star Trek" hóf göngu sína. Alls hafa verið sýndir í breska sjónvarpinu 798 þættir en það er samanlögð tala gömlu þáttanna sem fyrst voru framleiddir á árunum 1963-1989 og nýju þáttanna sem framleiddir hafa verið frá árinu 2005. Þættirnir fjalla um „Doctorinn“ sem er tímaferðalangur (timelord) utan úr geimnum sem kemur til jarðar og verndar hana og aðrar plánetur og íbúa þeira í nútíð, framtíð og fortíð. Doctorinn getur bjargað sér frá dauða en við það breytist útilit hans og persónuleiki. Doctorinn fær oft með sér í för manneskjur frá jörðu til að ferðast með sér og skoða furður alheimsins. Tímavél og farartæki Doctorsins kallast Tardis. Tardis stendur fyrir „Time And Relative Dimension in Space“. Stóra barnaplatan - 24 bráðskemmtileg barnalög. Stóra barnaplatan - 24 bráðskemmtileg barnalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni syngja ýmsir 24 bráðskemmtileg barnalög. BBC. British Broadcasting Corporation yfirleitt skammstafað sem BBC er stærsta útsendingarfyrirtæki í heimi hvað varðar áhorfendur og tekjur. BBC er ríkisútvarp Bretlands og um 23.000 manns starfa hjá fyrirtækinu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Westminster í London. Reksturinn kostar um 4 milljarða breskra punda á ári. Aðaltilgangur fyrirtækisins er útsending í Bretlandi, Ermarsundseyjum og á Mön. BBC er sjálfstandandi ópinbert útsendingarfyrirtæki sem er rekið undir Royal Charter. Meginhluti fjárfestingar BBC kemur frá sjónvarpsgjaldi, sem allir í Bretlandi er eiga sjónvarps- eða útvarpstæki verða að borga. Hvert ár tilgreinir breska ríkisstjórnin þetta gjald, sem er samþykkt í breska þinginu. Fyrir utan Bretland hefur útvarpsstöðin BBC World Service verið sent út síðan hún var stofnuð undir nafninu „BBC Empire Service“ desember 1932. Hún er send út bæði beint og í öðrum útvarpsstöðum, auk þess er hún send út í sjónvarpi og á netinu. Þó að stöðin notir sömu aðstöður og bresku útvarpsstöðvarnar er hún ekki fjármögnuð eingöngu með sjónvarpsgjaldi heldur beinum styrkjum frá bresku ríkisstjórninni. Þessir styrkir eru aðsklinir sjónvarpsgjaldinu en að undanförnu lagt hefur verið fram að nokkur fjármögnun fyrir World Service ætti að koma frá því. Það er líka sérstakur framkvæmdastjóri hjá stöðinni. Auk þeirra tekna frá sjónvarpsgjaldi og styrkjum fyrir World Service fær BBC peninga frá verslunarfyrirtækinu sínu BBC Worldwide. Tilgangur fyrirtækisins er að selja sjónvarpsþætti, að gefa út tímarit eins og "Radio Times" og að gefa út bækur. BBC fær nánari tekjur frá fyrirtækinu BBC Studios and Post Production (áður hét BBC Resources Ltd) sem framleiðir sjónvarpsþætti. Saga. The BBC Year Book 1931 BBC var stofnað sem einkahlutafélag 18. október 1922 undir nafni British Broadcasting Company Ltd og var heimsins fyrsta ríkisútvarp. Þetta fyrirtæki var stofnað af hópi sex samskiptafyrirtækja: Marconi, Radio Communication Company, Metropolitan-Vickers, General Electric, Western Electric og British Thomson-Houston, til þess að senda út tilraunaútvarpssendinga. Fyrsta sendingin var 14. nóvember sama ár frá stöðinni 2LO í Marconi House í London. British Broadcasting Company Ltd var stofnað af British General Post Office (GPO). Þessu fyrirtæki var lokið 1. janúar 1927 og stofnað var nýtt almannafyrirtæki undir nafni British Broadcasting Corporation og því var gefið Royal Charter. BBC tekur fram að þeirra markmið er „að upplýsa, mennta og skemmta“, og er einkunnarorð sitt „Nation Shall Speak Peace Unto Nation“. Skjaldarmerki með örnum og ljónum var líka tekið í notkun þegar nýja fyrirtækið var stofnað. Sjónvarp. Skáletruðu stöðvar eru sendar út á hefðbundinn hátt, hinar eru stafrænar. Heimdallur (félag). Heimdallur er félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Félagið var stofnað 16. febrúar 1927 og er elsta svæðisfélag íslensks stjórnmálaflokks. Tæplega 7000 meðlimir eru í félaginu á aldrinum 15 til 35 ára. Skólahljómsveit Kópavogs - Skólahljómsveit Kópavogs. Skólahljómsveit Kópavogs - Skólahljómsveit Kópavogs er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni flytur Skólahljómsveit Kópavogslög leikin lög. Hljómsveitarstjóri: Björn Guðjónsson Guðjón Friðriksson. Guðjón Friðriksson (fæddur þann 9. mars 1945) er sagnfræðingur og rithöfundur frá Reykjavík. Ferill. Guðjón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965 og BA-prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1970. Hann var kennari í Gagnfræðaskólanum við Laugalæk 1970 - 1972 og íslenskukennari í Menntaskólanum á Ísafirði 1972 - 1975. Blaðamaður á Þjóðviljanum í Reykjavík 1976 - 1985, þar af ritstjóri Sunnudagsblaðs Þjóðviljans 1980 - 1984. Árið 1985 var Guðjón ráðinn af Reykjavíkurborg sem einn af ritstjórum Sögu Reykjavíkur og var í því starfi til 1991. Síðan hefur hann verið sjálfstætt starfandi rithöfundur og sagnfræðingur og liggja eftir hann fjölmörg ritverk. Starfandi í Reykjavíkurakademíunni frá 2001. Helstu félagsstörf. Í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1966 - 1967, menningarráði Ísafjarðar 1974 - 1975, stjórn Torfusamtakanna frá 1985, formaður þeirra 1987 - 1998, Minja og sögu frá 1988, Rithöfundasambands Íslands 1996 - 2002,Minjaverndar 1999 - 2000 og menningaráði Hannesarholts frá 2012. Vitrúvíski maðurinn. "Vitrúvíski maðurinn" er fræg pennateikning ásamt athugasemdum eftir Leonardo da Vinci. Hann teiknaði myndina árið 1492 eins og kemur fram í dagbókum hans. Nafnið dregur teikningin af því að hún er tilraun til að sýna fullkomin hlutföll mannslíkamans í tengslum við grunnform byggingarlistar eins og rætt er um í verkinu "De Architectura" eftir rómverska arkitektinn Vitrúvíus. Verkið er varðveitt í Listaakademíunni í Feneyjum. San Severo. San Severo er bær í sýslunni Foggia í Apúlíu á Suður-Ítalíu. Íbúafjöldi er um 56 þúsund. Bærinn var stofnaður á 11. öld og byggðist upp umhverfis kirkju sem Benediktínar frá klaustrinu á Montecassino reistu. Árið 1627 hrundi nær allur bærinn til grunna í jarðskjálfta og áttahundruð íbúar fórust. Enduruppbygging gekk hægt, meðal annars vegna farsótta, en bærinn var endurreistur í barokkstíl. Torremaggiore. Torremaggiore er bær í sýslunni Foggia í Apúlíu á Ítalíu. Íbúafjöldi er um sautján þúsund. Bærinn stendur á hæð, 169 metra yfir sjávarmáli. Hann er einkum frægur fyrir vín og ólífurækt. Hann er einnig frægur sem dánarstaður Friðriks 2. keisara árið 1250. 30. júlí 1627 hrundi bærinn næstum því til grunna í jarðskjálfta, líkt og nágrannabærinn San Severo. La Rochelle. Gamla höfnin í La Rochelle. La Rochelle er hafnarborg í Frakklandi og stendur við Biskajaflóa. Hún er höfuðstaður Charente-Maritime. Borgin er tengd við Réeyju um brú sem lokið var við að reisa árið 1988. Íbúafjöldi er tæp 80 þúsund. Borgin var stofnuð á 10. öld og varð mikilvæg höfn á 12. öld. 1137 fékk hún réttindi sem fríhöfn og sjálfstætt sveitarfélag. Til 15. aldar var La Rochelle stærsta höfnin á Atlantshafsströnd Frakklands. Á 16. öld tóku íbúar borgarinnar upp hugmyndir mótmælenda og borgin varð miðstöð fyrir húgenotta. Í Frönsku trúarbragðastyrjöldunum var setið um borgina en í valdatíð Hinriks 4. naut hún mikils frelsis. Eftir að Loðvík 13. tók við lenti borgin í andstöðu við konungsvaldið sem leiddi til nýs umsáturs undir stjórn Richelieu kardinála sem tókst að loka borgina af þar til hún gafst upp eftir fjórtán mánuði 1628. Í kjölfarið flúðu margir húgenottar frá borginni til Nýja heimsins. Sker. Sker er klettur nálægt yfirborði sjávar. Þau standa oft upp úr sjónum og sjást þá gjarnan vel, til dæmis þegar öldur brotna á þeim, en stundum eru þau undir yfirborðinu og kallast þá blindsker. Fóstbróðir. Fóstbróðir er sá sem hefur gengið í fóstbræðralag með öðrum manni. Þegar menn gengu í fóstbræðralag sóru þeir að hefna hvors annars ef hinn yrði drepinn. Því fylgdi sérstök athöfn að sverjast í fóstbræðralag. Ristu menn þá „jarðmen“ sem þeir gengu undir, þar sem þeir blönduðu blóði sínu. Fóstbræðralög koma mjög við sögu í Íslendingasögum, og eftir þeim að dæma þótti mikil skömm að því að efna ekki heit sitt um hefnd fyrir fóstbróður. Margar Íslendingasögur fjalla að miklu leyti um mannvíg þar sem fóstbræður koma við sögu. Gísli Súrsson hefndi t.d. fóstbróður síns Vésteins Vésteinssonar eftir að sá síðarnefndi var drepinn og í Laxdæla sögu gerist sá fáheyrði viðburður að Bolli Þorleiksson drepur Kjartan Ólafsson fóstbróður sinn. Reykjalínsætt. Reykjalínsætt er íslensk ætt kennd við Reykjahlíð í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu. Ættina mynda niðjar Jóns Jónssonar Reykjalín, sem var fæddur þar þann 4. mars 1787 og lést þann 7. ágúst 1857. Jón var sonur hjónanna Jóns Þorvarðarsonar (1763 – 1848) prests og Helgu Jónsdóttur (1761-1846). Jón Reykjalín var aðstoðarprestur í Glæsibæ í Kræklingahlíð í Eyjafirði frá 1810 til 1817 og sóknarprestur þar frá 1817 til 1824. Hann var síðan prestur á Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði og á Ríp í Hegranesi. Áður en hann hlaut prestsskap var hann bóndi í Tungu á Svalbarðsströnd og ræktaði þar kartöflur, fyrstur manna í Suður-Þingeyjarsýslu. Sigríður Snorradóttir (1772 – 1847) giftist Jóni 2. maí 1810. Hún var dóttir séra Snorra Björnssonar (1744 – 1807) á Hjaltastöðum í Skagafirði og Steinunnar Sigurðardóttur (1734 – 1808) konu hans. Þegar Sigríður dó kvæntist Jón aftur, Helgu Guðmundsdóttur (f. 1803) en þeim varð ekki barna auðið. Elsti sonur Jóns og Sigríðar, Jón, var faðir Jóhannesar Jónssonar Reykjalín sem Kussungsstaðaætt er komin af. Hún telst því vera kvísl af Reykjalínsætt. Þorgeirsboli. Þorgeirsboli nefnist þjóðsagnatengdur draugur og illvígur sem „Galdra-Geiri“ (Þorgeir Stefánsson, fæddur um 1716, látinn 1802) vakti upp með bróður sínum Kvæða-Stefáni og móðurbróður þeirra, Andrési Þorgeirssyni (f. 1699) nálægt miðri 18. öld, eftir því sem þjóðsögur herma. Draugurinn vakinn upp. Þorgeir er sagður hafa ákveðið að vekja drauginn upp til þess að senda hann til konu sem vildi ekki ganga að eiga hann. Fékk hann sér nýborinn nautkálf sem hann skar og fló aftur á malir og vakti hann svo upp með fjölkynngi. Í sárið, þar sem kálfurinn var fleginn, létu þeir „af átta hlutum, af lofti og af fugli, af manni og af hundi, af ketti og af mús og enn af sjókvikindum tveimur, svo níu voru náttúrur bola með nautseðlinu.“ Átti boli því að geta brugðið sér í allra þessara kvikinda líki og farið jafnt „loft sem lög og láð og komið fyrir sjónir í öllum þeim myndum sem í honum voru náttúrur og eftir því sem honum þóknaðist.“ Loks steypti Þorgeir sigurkufli af nýfæddu barni yfir drauginn, og átti hann þannig að verða svo gott sem ósigrandi. Aðrir segja að Þorgeir hafi notað flegið kálfshöfuð eða klauf af nauti, kveðið yfir galdra og magnað „með fjandans krafti“. Draugagangur af völdum Þorgeirsbola. Eftir að hafa látið drauginn gera út af við konuna sem ekki vildi eiga hann, hafði Þorgeir bola sér til fulltingis þegar honum fannst hann eiga sökótt við aðra, sem kom ekki sjaldan fyrir. Þorgeir kvæntist svo og hóf búskap á Végeirsstöðum í Fnjóskadal og seinna að Leifshúsum á Svalbarðsströnd, og þótti heimamönnum í báðum sveitum sem reimleikar fylgdu honum og börnum hans. Þóttust menn heyra í bolanum svo dimmt baul að jörð nötraði, og þegar hann sást þótti mönnum höfuðið vera flegið og blóðrisa og skrokkurinn allur líka, og húðin dragast á eftir honum svo að holdrosinn sneri út. Eftir því sem árin liðu þótti atgangurinn minnka, svo að á efri árum er Þorgeir sagður hafa magnað drauginn upp að nýju. Var bolanum kennt um veikindi, meiðsl og voveiflegan dauða fólks og búfénaðar. Þótti það jafnan fyrirboði válegra tíðinda þegar sást til Þorgeirsbola, en einnig var hann sagður fylgja ættmönnum Þorgeirs og afkomendum og gera vart við sig á bæjum áður en þá bar að garði. Þykjast sumir afkomendur hans hafa orðið varir við bola svo seint sem á tuttugustu öld. Sagt var að tveir aðrir draugar, Húsavíkur-Lalli og Eyjafjarðar-Skotta (sumir segja Hleiðrargarðs-Skotta) fylgdu Þorgeirsbola oft, og sætu þau þá á húðinni sem hann dró þá á eftir sér eins og sleða. Bragfræði. Bragfræði er sú undirgrein bókmenntafræði, sem fjallar um uppbyggingu "hefðbundins kveðskapar", svo sem dróttkvæða, Eddukvæða og rímnahátta og hefur verið hluti ljóðagerðar frá örófi alda. Íslensk bragfræði hefur strangar reglur um "ljóðstafi", hrynjandi og rím, auk þess hvernig skýra megi heiti og kenningar orða. "Skáldskaparmál" Snorra-Eddu fjallar m.a. um bragfræði. Ljóðstafir. Ljóðstafir skiptast í stuðla og höfuðstafi, og eru svipuð eða eins hljóð í upphafi atkvæða, sem eru endurtekin með reglulegu og taktföstu millibili til þess að tengja eina eða tvær ljóðlínur saman. Stuðlar geta verið einn eða tveir (fer eftir bragarhætti) og standa ávallt saman í línu, en höfuðstafur er ávallt einn og fylgir ýmist í næstu línu á eftir eða aftast í sömu línu (fer eftir bragarhætti). Sérhljóðar stuðla hver við annan og stundum líka við „j“ (einkum í fornum kveðskap) en samhljóðar stuðla saman (r-r, l-l o.s.frv.). Um orð sem byrja á „s“ gilda sérstakar reglur, og fer rétt stuðlasetning eftir hljóðunum sem á eftir koma þannig að orðin byrji á sams konar hljóðum. Þannig stuðlar orðið „strákur“ við „stelpa“ eða „starf“ en ekki við t.d. „slæpingi“ eða „skíði“. Sérreglur um s eru þær að sk- stuðlar eingöngu við sk-, sp- við sp- og st- við st-. Þetta kallast gnýstuðlar. Vegna mismunandi framburðar eftir landshlutum þykir mörgum rangt/ljótt að stuðla „hv-“ saman við „kv-“ þótt flestir beri hljóðin eins fram. Það fer eftir lengd ljóðlínu og hrynjandi hvar stuðlar eiga að vera. (Gömul vísa úr Höfðahverfi, höfundur óþekktur og beygir "Laufás" ekki skv. nútímavenju). Hrynjandi. Hrynjandi er taktur sem þarf að gæta að til þess að ljóð fylgi bragfræðireglum. Hrynjandi er vanalega talin í taktbilum sem kallast kveður sem geta verið „rísandi“ eða „hnígandi“ eftir því hvort áhersluatkvæði er fyrst eða síðast í viðkomandi kveðu. Fyrsta kveða í braglínu er kölluð hákveða, og svo skiptast á hákveður og lágkveður. Stundum kemur áherslulaus forliður á undan fyrstu kveðu. Kveður kallast tvíliður eða þríliður eftir atkvæðafjölda. Bragarháttur kveður á um hvernig hrynjandin á að vera og hvernig stuðlar og höfuðstafir raðast á kveður, en ávallt gildir að ekki má vera of langt á milli ljóðstafa, stuðlarnir mega ekki vera báðir í lágkveðu (í ferskeyttum háttum verður annar þeirra að vera í síðustu hákveðu) og höfuðstafur er alltaf í fyrstu hákveðu. Rím. Það er kallað að tvö orð rími þegar þau hljóma eins að hluta til, t.d. fiskur-diskur, hús-mús o.s.frv. Í fornum íslenskum kveðskap, t.d. dróttkvæðum, var rím ávallt innan línu (lárétt innrím) og var þá gjarnan hálfrím í oddatölulínu og heilrím í línum með sléttum tölum. Endarím í norrænum kveðskap er talið koma til sögunnar með Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar, sem er ort undir hrynhendum hætti. Rímuð orð enda oftast eins, en í innrími er nóg að áhersluatkvæði í orðunum rími. Það er kallað lóðrétt innrím þegar sama innrímið er í mörgum línum, t.d. í hringhendum hætti. Þegar eitt atkvæði rímar kallast það karlrím (kann-mann), þegar tvö atkvæði ríma kallast það kvenrím (kanna-manna) og þegar þrjú atkvæði ríma er það kallað veggjað rím (kannana-mannanna). Hálfrím eru hljóð sem hljóma svipað en ekki eins. Í sérhljóðshálfrími, sem er mun algengara í flestum íslenskum kveðskap, breytist sérhljóð (fiskur-fauskur, sverð-orð) en í samhljóðshálfrími, sem helst heyrist í vikivökum og þulum, breytast samhljóðar (fiskur-frystur, hoppa-hotta). Bragarhættir. Enginn hefur tölu á þeim bragarháttum sem fyrirfinnast í íslenskum kveðskap. Þó er hægt að flokka þá í yfir- og undirflokka. Til forna voru innrímuð dróttkvæði og órímuð Eddukvæði (svo sem ljóðaháttur og fornyrðislag) langalgengustu hættirnir, síðan bættist endarímuð hrynhenda við. Á miðöldum kom ferskeytlan fram, svo og braghenda og afhending. Óteljandi undirtegundir eru til af þessum háttum, með tilbrigðum í endarími, innrími og lengd á braglínum. Á síðmiðöldum komu einnig fram fleiri hættir, svo sem vikivakalag og ýmsir sálmahættir, og á rómantíska tímanum bættist við urmull fleiri hátta, flestra erlendra að uppruna, svo sem sonnetta, pentametur og hexametur. Á tuttugustu öld losnuðu bönd bragfræðinnar af íslenskum skáldum og menn fóru að yrkja þannig að þeir notuðu reglur bragfræðinnar eins og þeim sjálfum hentaði, eða alls ekki, t.d. Atómskáldin. Heiti og kenningar. Í bragfræði er heiti sama og samheiti og kenning er umorðun í tveim eða fleiri orðum, til þess að skáldið geti sagt það sem það vill segja og látið það lúta reglum um stuðlasetningu, hrynjandi og rím. Konungur getur til dæmis heitið herra, jöfur (það sem hann er) eða ríkir, ræsir eða stillir (það sem hann gerir). Gull getur til dæmis verið kennt sem jötna mál, eldur Rínar eða Kraka sáð, sem allt eru vísanir í goðsögur eða fornaldarsögur. Sanngjörn viðskipti. Sanngjarnir viðskiptahættir (Fair trade) eru hreyfing og hugmyndafræði sem byggjast á því að milliliðir taki sem minnst til sín af verðmæti vöru þegar verslað er með hana og að framleiðandinn eigi að fá sanngjarnan hlut af því verði sem neytandinn borgar. Jafnframt er reynt að láta framleiðsluna fara fram á eins sjálfbæran og umhverfisvænan máta og hægt er. Aðaláhersla hreyfingarinnar er á útflutning frá þróunarlöndum til þróaðra landa, að landbúnaðarafurðir og handverk komist til kaupenda þannig að sneitt sé hjá stórfyrirtækjum. Meðvitaða viðleitni til að koma á hnattrænu kerfi sanngjarnra viðskiptahátta má rekja til fimmta og sjötta áratugarins, þegar góðgerða- og hjálparstofnanir byrjuðu að þreifa fyrir sér með milligöngu um viðskipti án milliliða. Þótt sanngjörnum viðskiptaháttum sé ætlað að gera líf fólks bærilegra, eru þeir gagnrýndir bæði frá hægri og vinstri. Sumir hægrimenn gagnrýna þá fyrir að vera ein tegund niðurgreiðslu eða góðgerðastarfsemi sem hamli hagvexti og hindri eðlilegan vöxt eða þróum hagkerfisins. Sumir vinstrimenn gagnrýna kerfið fyrir að miða að yfirborðskenndum og ófullnægjandi lausnum í stað þess að ráðast á hagkerfið sem slík, sem sé hin eiginlega rót vandans. Í sanngjörnum viðskiptaháttum er miðað við nokkur grundvallaratriði: Að skapa tækifæri fyrir fólk sem hefur þau ekki; að viðskipta- og framleiðsluferlið sé gegnsætt; að framleiðendur séu sjálfstæðir; að sanngjarnt verð sé greitt fyrir vöruna; að jafnréttis kynjanna sé gætt; að framleiðslan fari fram við mannsæmandi skilyrði og að ekki sé gengið um of á umhverfið. Sanngjörn viðskipti eru vottuð af nokkrum áháðum alþjóðlegum samtökum: Fairtrade Labelling Organizations International (FLO), The International Fair Trade Association (IFTA), The Network of European Worldshops (NEWS), The European Fair Trade Association (EFTA) og samstarfsstofnun þessara fjögurra, FINE. Végeirsstaðir. Végeirsstaðir eru eyðibýli í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar bjó Þorgeir Stefánsson á 18. öld, sem vakti upp Þorgeirsboli að því er sagt er. Nöfn og nauðsynjar. "Nöfn og nauðsynjar" (e. "Naming and Necessity") er rit eftir bandaríska heimspekinginn Saul Kripke sem kom fyrst út árið 1980. Bókin er byggð á handriti af þremur fyrirlestrum sem lesnir voru í Princeton-háskóla árið 1970. Fyrsti fyrirlestur: 20. janúar 1970. Meginmarkmið Kripkes í fyrsta fyrirlestrinum var að útskýra og gagnrýna ríkjandi hugmyndir um hvernig nöfn virka. Um miðja 20. öldvar mikilvægasta kenningin um eðli nafna lýsingarhyggja um nöfn en það var kenning Gottlobs Frege sem Bertrand Russell hafði tekið upp. Stundum er kenningin nefnd „lýsingarhyggja Freges og Russells“. Ýmsir heimspekingar höfðu birt gagnrýni á kenninguna áður en Kripke flutti fyrirlestra sína, meðal annarra Ludwig Wittgenstein, John Searle og Peter Strawson. En Kripke taldi að mótrökunum sem birst höfðu hefði ekki tekist að benda á hinn raunverulega vanda við kenninguna. Annar fyrirlestur: 22. janúar 1970. Í öðrum fyrirlestrinum hugleiðir Kripke aftur lýsingarhyggju um tilvísun og færir rök fyrir sinni eigin kenningu um eðli tilvísunar. Fyrirlesturinn mótaði orsakahyggju um tilvísun. Þriðji fyrirlestur: 29. janúar 1970. Í þriðja fyrirlestrinum ræðir Kripke náttúrulegar tegundir og gerir greinarmun á þekkingarfræðilegri og frumspekilegri nauðsyn. Hann ræðir einnig tvíhyggjuvandann um líkama og sál í hugspeki. Mikilvægi. Í málspeki er "Nöfn og nauðsynjar" meðal mikilvægustu rita fyrr og síðar og í flokki með sígildum ritum Freges seint á 19. öld og Russells, Tarskis og Wittgensteins á fyrri hluta þeirrar 20.... "Nöfn og nauðsynjar" átti þátt í hinni víðtæku höfnun á því viðhorfi sem var svo vinsælt meðal mannamálsheimspekinga að heimspeki sé ekkert annað en málgreining. Heba. Heba (forngríska:) er í grískri goðafræði gyðja æskunnar. Hliðstæða hennar í rómverskri goðafræði er gyðjan Juventas. Heba er dóttir Seifs og Heru. Heba þjónaði guðunum til borðs á Ólympstindi og færði þeim guðaveigar. Síðar giftist hún Heraklesi. Arftaki hennar í þjónustu guðanna var tróverski prinsinn Ganýmedes. Björgvin Gíslason - Öræfarokk - 1977. Björgvin Gíslason - Öræfarokk er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni flytur Björgvin Gíslason gítarleikari ásamt félögum eigin lög við texta Albert Icefield. Útsetnnigar og stjórnun: Björgvin, Albert, Sigurður og Ásgeir. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Björgvin Gíslason. Plötupressun: Soundtek Inc, New York,USA. Alfreð Flóki gerði mynd á hljómplötuumslag. Hönnun umslags SG og Grafik hf. Prentun umslags Grafik hf. Apókrýf rit. Apókrýf rit eru rit af óvissum uppruna, eða rit sem eru ekki að fullu viðurkennd eða löggilt af kirkjunni. Þau nefndust áður fyrr stundum "ýkjuguðspjöll" á íslensku, en hafa einnig verið kallaðar "launbækur". Apokrýfur (einnig Apókrýfar bækur eða "Apókrýfískar bækur biblíunnar") eru utanbiblíurit; það er að segja rit sem standa nærri viðurkenndum bókum Biblíunnar en eru ekki tekin í tölu þeirra. Forngríska lýsingarorðið ἀπόκρυφος ("apokryfos") þýðir í raun „það sem dulið er.“ Í annan stað er stundum talað um apókrýf rit, þegar átt er við rit sem standa einhverju ritsafni nærri að efni og formi, en eru af einhverjum ástæðum ekki tekin með. Dæmi um apókrýf rit. Þegar gerður er skýr greinarmunur á viðurkenndum (kanónískum) og apókrýfum ritum, þá felur það í sér að hin fyrrnefndu séu viðurkennd eða löggilt sem leiðsögn í trúarlegum efnum. Það er þó engin trygging fyrir því að þau hafi sögulegt heimildargildi, né heldur að apókrýf rit hafi ekkert heimildargildi. Apókrýf rit Biblíunnar eru fjöldamörg, og hefur þeim fjölgað á síðustu áratugum, t.d. þegar Dauðahafshandritin fundust 1947–1956, og þegar Nag Hammadí handritin fundust í Egyptalandi árið 1945. Utan við skiptinguna í viðurkennd (kanónísk) og apókrýf rit, eru t.d. rit eins og Mormónsbók, sem er 19. aldar rit. Apókrýfar bækur Gamla testamentisins. Þessar bækur voru ekki hebresku biblíunni, en voru teknar með í grískri biblíuþýðingu sjötíumenninganna, Septuaginta (LXX) og eru þess vegna í Vúlgötu, latneskri þýðingu Bíblíunnar. Útgáfur. "Apókrýfar bækur Gamla testamentisins" voru í íslenskum útgáfum Biblíunnar frá 1584 til 1859 (nema 1813), en síðan voru þær felldar niður, af því að Hið breska og erlenda biblíufélag styrkti ekki biblíuútgáfur þar sem Apókrýfu bækurnar voru birtar. Árið 1931 komu "Apokrýfar bækur Gamla-Testamentisins" út í nýrri þýðingu og sérstakri útgáfu á vegum Hins íslenska biblíufélags. Árið 1994 komu "Apókrýfu bækurnar" enn út í nýrri þýðingu. Þýðandi þeirra var Árni Bergur Sigurbjörnsson í samvinnu við Jón Sveinbjörnsson og Guðrúnu Kvaran. Þær voru svo endurskoðaðar og teknar upp í Biblíuna 2007. Björgunarsveitin Ægir. Björgunarsveitin Ægir er björgunarsveit í Garði sem var stofnuð árið 1935. Framan af var sjóbjörgun aðalstarfsemi sveitarinnar vegna tíðra sjóslysa við Garðskaga og ströndina innan af honum. Síðan sveitin var stofnuð hefur sveitin bjargað fjölmörgum skipverjum af innlendum og erlendum skipum. Aldrei hafa orðið mannskaðar við þær aðgerðir. Virkir félagar í dag eru um 20 sem skipast í mismunandi flokka svo sem sjóflokk, landflokk, bílaflokk og fleira, jafnframt leggur sveitin til menn í áhöfn stærsta björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem staðsett er í Sandgerði, Hannes Þ. Hafstein. Helstu viðfangsefni sveitarinnar í dag eru leit og björgun við strendur Íslands, leit og björgun á landi, þátttakendur í skipulagi Almannavarna Ríkisins. Einnig tekur sveitin að sér ýmis verkefni vegna fjáraflana. Ein helsta fjáröflun Björgunarsveitarinnar Ægis er útleiga á geymslum fyrir tjaldvagna, fellihýsi og húsbíla, en sveitin hefur yfir að ráða góðu rými fyrir þá starfsemi. Tómasarguðspjall. Tómasarguðspjall er kennt við Tómas postula, og er meðal apókrýfra rita Biblíunnar, eða nánar tiltekið Nýja testamentisins. Einn merkasti handritafundur 20. aldar átti sér stað nærri bænum Nag Hammadi í Suður-Egyptalandi árið 1945. Á meðal papýrusrita sem þar litu dagsins ljós, var Tómasarguðspjall, en það er talið hafa verið hulið sjónum manna allt frá því á fjórðu öld. Í Tómasarguðspjalli er að finna orð Jesú sjálfs og þeirra sem þegar á fyrstu öld tóku að túlka þau í heimspekilega átt. Ritið er því talið geyma upprunalegustu hefðir, ýmis ummæli og dæmisögur sem eignaðar eru Jesú og eiga sér aðeins hliðstæður í elstu heimildum að baki guðspjalla Nýja testamentisins. Árið 2001 kom "Tómasarguðspjall" út í íslenskri þýðingu Jóns Ma. Ásgeirssonar, sem einnig ritar inngang og skýringar. Það er 50. Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Árið 2007 kom "Tómasarguðspjall" út í annað sinn í bók Jóns Ma. Ásgeirssonar og Þórðar Inga Guðjónssonar: "Frá Sýrlandi til Íslands. Arfur Tómasar postula". Þar er texti "Tómasarguðspjalls" endurskoðaður og skýringar styttar, en einnig eru í ritinu "Tómasarkver", í þýðingu Jóns, og "Tómas saga postula", hin forna íslenska þýðing, í útgáfu Þórðar. Í bókinni er ítarleg umfjöllun um ritin. Boun Oum. Prins Boun Oum (fæddur 12. desember 1912, dó 17. mars 1980) var sonur Ratsadanay síðasta konungs í Champasak. Boun Oum var erfðaprins í Champasak þegar konungdæmið þar var lagt niður 1946 þegar allt Laos varð að einu konungdæmi. Pólitískt var Boun Oum alltaf hægrisinnaður og eindreginn stuðningsmaður þess að Frakkland stjórnaði Laos. Hann hafði 15 000 manna herlið sem barðist við Japani og Lao Issara á árunum 1945 til 1947. Hann var forsætisráðherra í konunglegu ríkisstjórninni 1948 – 1950 og aftur 1960 – 1962. Eftir það snéri hann sér frá beinum afskiptum af stjórnmálum en fór að stunda ýmiskonar viðskipt með bækistöðvar í Pakse og Champasak. Hann hélt þó áfram að stjórna bakvið tjöldin þar til að Pathet Lao tók völdin í landinu 1975. Hann flúði þá til Frakklands og kom aldrei aftur til Laos. Phetsarath. Prins Phetsarath Rattanavongsa var forsætisráðherra Laos frá 1942 til 1945 og fyrsti og eini varakonungur í konungsríkinu Laos. Phetsarath var einn af leiðtogum Lao Issara-hreyfingarinnar sem barðist gegn yfirráðum Frakklands yfir Laos. Phetsarath fæddist 19 janúar 1890 í Luang Prabang, sonur Bounkhong varkonungs í Luang Prabang. Tveir yngri hálfbræður hans voru Souvanna Phouma og Souphanouvong. Phetsarath fór erlendis til náms, fyrst til Saigon og síðan til Parísar. Eftir að Frakkar höfðu náð undir sig Laos á nýtt 1946 flúði Phetsarath til Taílands og sneri ekki aftur fyrr en 1957. Eftir heimkomuna hafði hann eingin bein afskipti af stjórnmálum. Phetsarath lést 14 október 1959. Souvanna Phouma. Prins Souvanna PhoumaPrins Souvanna Phouma (7. október 1901 – 10. janúar 1984) var leiðtogi hinna hlutlausu í átökum vinstri og hægri í Laos á árunum 1945 til 1975. Hann var einnig mörgum sinnum forsætisráðherra í konunglegu ríkisstjórninni í Laos, 1951 – 1952, 1956 – 1958, 1960 og 1962 – 1975. Souvanna Phouma fæddist inn í varakonugsfjöldskylduna í Luang Prabang, hann var náfrændi Sisavangvong konungs Laos. Hann fékk franska menntun í Hanoi, Paris og Grenoble, þar útskrifaðist hann sem arkitekt og byggingaverkfræðingur. Souvanna Phouma, ásamt hálfbræðrum sínum tveim, Phetsarath (1891-1959) og Souphanouvong (1909-1995), hóf afskipti af stjórnmálum í lok seinni heimsstyrjaldarinnar þegar hreyfingin Lao Issara var stofnuð til að berjast gegn frönskum yfirráðum yfir Laos. Ráðherrastörf. Við kosningarnar 1951 vann flokkur Souvanna Phouma stórsigur og hann var gerður að forsætisráðherra. Eftir kosningarnar 1955 var Souvanna Phouma á ný valinn sem forsætisráðherra og hafði hann þjóðasátt sem sitt höfuðmál. Souvanna Phouma og Pathet Lao gerðu bandalag 1956 um að mynda „ríkisstjórn allrar þjóðarinnar“. Það var þó ekki fyrr en 1958 sem tveir fulltrúar Pathet Lao tóku sæti í ríkisstjórninni og var annar þeirra Souphanouvong. Þótti endurkoma Souvanna Phouma heldur slæmar fréttir í Bandaríkjunum. Í júní sama ár steyptu hægri menn stjórninni og skipaði konungur prins Boun Oum forsætisráðherra í staðinn. Hluti herliðs konungssinna hertóku Vientiane 1960 og kröfðust þess að landið yrði lýst hlutlaust. Souvanna Phouma var enn að nýju í forsæti ríkisstjórnarinnar og samdi við Souphanouvong fyrir hönd Pathet Lao. Í desember 1960 gerðu hersveitir úr konunglega hernum, að þessu sinnu undir stjórn hægrimanna, uppreysn og hertóku Vietiane. Souvanna Phouma ásamt fjölda stuðningsmanna flúði til svæða sem voru undir stjórn Pathet Lao. Mörg lönd, bæði þau sem voru undir stjórn kommúnista og eins hlutlaus eins og Indland studdu Souvanna Phouma sem réttmætannforsætisráðherra Laos. Bandaríkin og stuðningsríki þeirra studdu herstjórnina í Vientiane sem var formlega undir stjórn Boun Oum. Þegar John F. Kennedy varð forseti í Bandaríkjunum 1961 var tekin upp ný stefna gagnvart Loas. Var nú stefnan að Laos ætti að var hlutlaust land. Ný Gefarráðstefna var kölluð saman í maí 1961 og var þar enn samþykkt að Laos skildi vera hlutlaust. Í júní sama ár gerði prinsaþrenningin, Boun Oum, Souvanna Phouma og Souphanouvong samþykkt um að mynda samsteypustjórn. Nýja stjórnin tók ekki við völdum fyrr en í júlí 1962 með Souvanna Phouma sem forsætisráðherra. Stjórnsamstarfið einkenndist af miklum deilum og leystist stjórnin upp um mitt ár 1964. Dróst nú Laos af fullum krafti inn í Víetnamstríðið (sem eiginlega ætti að heita seinni Indókínastyrjöldin). Hægrisinnaðar hersveitir konungssinna réðu að mestu í Vientiane með aðstoð leynilegra bandarískra sveita. Souvanna Phouma sat samt áfram sem valdalítill forsætisráherra allt fram til 1975 þegar kommúnistar náðu völdum í öllu landinu. Souvanna Phouma lifði áfram í Laos til dauðadaga og var mildilega meðhöndlaður af hinum nýju valdhöfum miðað við marga aðra. Tímarit Máls og menningar. "Tímarits Máls og menningar" er bókmenntatímarit sem stofnað var í mars 1938 af Kristni E. Andréssyni, sem var einnig ritstjóri þess fyrstu 30 árin. Tímaritið var fyrst gefið út árið 1938 af bókaútgáfunni Heimskringlu, sem síðar varð Mál og menning. Upphaflega birti TMM fréttir af starfsemi Máls og menningar, auk ýmissa greina. Árið 1940 var ársritið Rauðir pennar, sem áður hafði fylgt frítt með TMM, sameinað TMM, og eftir það beindi tímaritið sjónum sínum að bókmenntum og bókmenntagagnrýni. "Tímarit máls og menningar" kemur út í fjórum tölublöðum ár hvert. Núverandi ritstjóri þess er Guðmundur Andri Thorsson sem tók við árið 2009. Vellankatla. Vellankatla er ferksvatnslind í Þingvallavatni. Þar streymir vatn upp úr helli neðan vatnsborðs við vatnsbakkann í Vatnsviki. Vatnsvik. Vatnsvik er vík sem gengur inn úr norðaustanverðu Þingvallavatni. Vatnsvik afmarkast af Nautatanga til vesturs og Davíðsgjá til austurs. Vatnsvik er stundum ranglega kallað Vatnsvík. Mál og menning. Mál og menning (MM) er útgáfufélag og bókaforlag sem var stofnað árið 1937. Verk margra þjóðþekktra íslenskra rithöfunda hafa verið gefin út af forlaginu. Þar á meðal má nefna Þórberg Þórðarson, Jóhannes úr Kötlum, Svövu Jakobsdóttur, Þórarin Eldjárn, Einar Kárason og marga aðra. Stofnun. Útgáfufélagið Mál og menning var stofnað 17. júní 1937 af bókaútgáfunni Heimskringlu, sem Kristinn E. Andrésson hafði stofnað 1934 ásamt Ragnari Jónssyni í Smára og fleirum, og Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda en í því voru meðal annars þeir Kristinn E. Andrésson, Halldór Laxness, Steinn Steinarr, Jóhannes úr Kötlum og Halldór Stefánsson. Árið 1944 keypti Kristinn Ragnar út úr Heimskringlu og innlimaði þá útgáfu í Mál og menningu en Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson fylgdu báðir Ragnari þegar hann stofnaði bókaútgáfuna Helgafell, þótt Halldór sæti raunar áfram í stjórn MM. Mál og menning var upphaflega bókaklúbbur sem fólk gekk í, greiddi áskriftargjald og fékk sendar bækur. Fyrstu útgáfubækurnar voru Vatnajökull eftir Niels Nielsen og þriðja hefti tímaritsins Rauðir pennar, sem Félag byltingarsinnaðra rithöfunda hafði gefið út frá 1935, en fyrsta skáldsagan, gefin út 1938, var "Móðirin" eftir Maxím Gorkí. Markmiðið var að gefa út góðar bækur á lágu verði. Töluvert var gefið út af þýddum bókum, svo og rit eldri íslenskra höfunda, en fremur fáar bækur eftir samtímahöfunda fyrstu árin. Á fyrstu sjö árunum urðu félagsmenn í MM á sjöunda þúsund. Fljótlega var stofnuð bókaverslun í tengslum við útgáfuna, Bókabúð Máls og menningar. Stjórnendur og stefna. Kristinn E. Andrésson var framkvæmdastjóri Máls og menningar frá stofnun 1937 til 1971 og setti mikinn svip á starfsemi félagsins allan þann tíma. Sigfús Daðason tók þá við og stýrði félaginu til 1973, þegar Þröstur Ólafsson tók við en Sigfús varð útgáfustjóri. Þorleifur Hauksson var útgáfustjóri 1976-1982 og síðan Þuríður Baxter. Þröstur var framkvæmdastjóri til 1980 og síðan Ólafur Ólafsson og Ólöf Eldjárn. Árið 1984 tók svo ný kynslóð við þegar Halldór Guðmundsson varð útgáfustjóri og Árni Einarsson framkvæmdastjóri og í tíð þeirra varð Mál og menning stærsta og öflugasta bókaútgáfa landsins. Félagið var lengi tengt við sósíalista á Íslandi og virðist hafa fengið fjárstyrki frá Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins. Forlagið hafði lengi aðsetur á Laugavegi 18, í húsi sem reist var þar 1970 og oft nefnt "Rúblan" vegna orðrómsins um „Rússagullið“. Sameiningarsaga. Þann 30. júní 2000 sameinaðist Mál og menning bókaforlaginu Vöku-Helgafell og Edda - miðlun og útgáfa var stofnuð. Hið nýja fyrirtæki flutti í stórhýsi við Suðurlandsbraut. Bækur voru þó áfram gefnar út undir nafni Máls og menningar og Vöku-Helgafells. Árið 2002 ráku fjárhagsvandræði Eddu til endurskipulagningar og endurfjármögnunar þar sem Björgólfur Guðmundsson kom inn í félagið með fleirum. Árið 2007 var svo útgáfuhluti Eddu seldur aftur eignarhaldsfélagi Máls og menningar og 1. október 2007 sameinuðust MM, Vaka-Helgafell og Iðunn, sem Edda hafði keypt nokkrum árum áður, bókaforlaginu JPV undir nafninu Forlagið. Bækur koma áfram út undir nafni Máls og menningar, svo og hinna forlaganna. Núverandi útgáfustjóri MM er Silja Aðalsteinsdóttir. Tímarit Máls og menningar er bókmenntatímarit sem hefur verið gefið út frá 1938, lengst af í tengslum við bókaútgáfuna. Núverandi ritstjóri er Guðmundur Andri Thorsson. JPV. JPV er bókaforlag, stofnað árið 2001 af Jóhanni Páli Valdimarssyni. Þann 1. október 2007 sameinaðist JPV bókaforlögunum Máli og menningu, Vöku-Helgafelli og Iðunni undir nafninu Forlagið. Bækur eru enn gefnar út undir merkjum forlaganna fjögurra, svo og undir merki Forlagsins. Vaka-Helgafell. Vaka-Helgafell er bókaforlag sem var stofnað 30. september 1985 þegar Bókaforlagið Vaka (stofnað 1981) keypti bókaforlagið Helgafell (stofnað 1942). Ólafur Ragnarsson, stofnandi og aðaleigandi Vöku, stýrði forlaginu alla tíð. 30. júní árið 2000 sameinaðist Vaka-Helgafell aðalsamkeppnisaðila sínum til margra ára Máli og menningu og stofnaði bókaforlagið Eddu - miðlun og útgáfu. Nýja forlagið hélt áfram að gefa út bækur með nöfnum bókaforlaganna tveggja. Árið 2003 keypti svo Edda bókaforlagið Iðunni. Eftir sameiningu útgáfuhluta Eddu og JPV gengu forlögin inn í nýtt forlag, Forlagið, sem var stofnað 1. október 2007. Þrátt fyrir sameininguna koma bækur enn út undir nafni Vöku-Helgafells og á meðal þeirra höfunda sem þar gefa út bækur sínar er söluhæsti rithöfundur þjóðarinnar, Arnaldur Indriðason, en allar hans bækur hafa komið út undir nafni forlagsins. Einnig er Vaka-Helgafell útgefandi verka Halldórs Laxness en fyrirrennarinn, Helgafell, gaf út bækur hans allt frá stofnun 1942. Annars gefur Vaka-Helgafell nú einkum út handbækur af ýmsu tagi, svo og barnabækur. Forlagið. Forlagið er bókaforlag sem varð til við sameiningu útgáfuhluta Eddu - miðlunar og útgáfu og JPV 1. október 2007. Forlagið gefur út bækur undir nöfnum JPV, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Iðunnar auk eigin nafns. Stjórn. Stjórn er forn norsk-íslensk þýðing á fyrsta hluta Biblíunnar eða Gamla testamentisins, frá Fyrstu Mósebók til loka Síðari konungabókar. Nafnið "Stjórn" hefur líklega ekki fylgt ritsafninu frá upphafi, heldur mun það vera frá 16. eða 17. öld. Merking orðsins er óviss, gæti þýtt "leiðarvísir", eða "stjórn guðs" á veröldinni, eða á Gyðingum. Einnig gæti orðið verið þýðing á "Liber regum" (sem er latína og merkir: Konungabók). Efni, þýðendur og uppruni. Textarnir í Stjórn eiga sér a.m.k. tvenns konar uppruna. Síðari hlutinn, frá og með Jósúabók til loka Konungabókanna, er þýðing á latnesku Biblíunni, Vúlgötu, líklega verk eins manns. Þýðingin er mjög góð, ekki orðrétt, en án verulegra úrfellinga eða breytinga. Hugsanlegt er að þýðingin sé unnin í Noregi, því að sums staðar er vísað til norskra aðstæðna. Málfarið bendir til að þýðingin sé frá 1220-1250. Í handritinu AM 226 fol. er "Jósúabók" í annarri gerð, þýdd eftir "Historia Scholastica" eftir Pétur Comestor. Í þessu handriti er einnig þýðing á 2. Mósebók 19 til 5. Mósebókar, gerð eftir Vúlgötu, og er í svipuðum stíl og framhaldið. Þetta er álíka góð þýðing, en styttir textann sums staðar verulega, einkum þar sem endurtekningar eru. Finnur Jónsson prófessor taldi að þessi hluti gæti verið úr sömu biblíuþýðingu og framhaldið, þ.e. frá 1220-1250, en Gustav Storm hélt því fram að þetta væri íslensk þýðing frá 14. öld, gerð til að fylla eyðu í textanum. Fyrsti hluti "Stjórnar", 1. Mósebók til 2. Mósebókar 18, á sér allt annan uppruna. Þar er texti Biblíunnar bútaður niður og síðan bætt við umfangsmiklum skýringum, sem sóttar eru í ýmsar heimildir. Má þar einkum nefna "Historia Scholastica" og "Speculum Historiale". Sjálfur texti Biblíunnar drukknar víða í skýringunum og hefði þetta orðið tröllaukið verk ef því hefði verið fram haldið. Finnur Jónsson telur að þeim mönnum sem settu saman Stjórnarhandritin á 14. öld, hafi þótt svo mikið til þessa verks koma, að þeir hafi tekið það fram yfir gömlu biblíuþýðinguna, sem fyrir vikið er glötuð að þessum hluta. Af þessu má ráða að Hákon háleggur hafi látið þýða þennan fyrsta hluta Stjórnar á þeim árum sem hann var konungur, þ.e. 1299-1319. Handrit. Öll handritin, sem eru íslensk, hafa verið veglegar, tveggja dálka skinnbækur frá 14. öld. Reynistaðarætt. Reynistaðarætt er íslensk ætt kennd við Reynistað í Skagafirði. Hana mynda niðjar Halldórs Vídalíns Bjarnasonar (1736 – 1801) klausturhaldara þar og Ragnheiðar Einarsdóttur (1742 – 1814) konu hans (gift 1759), og Málmfríðar Sighvatsdóttur (f. 1735, dáin fyrir 1801) barnsmóður hans. Halldór Vídalín Bjarnason var sonur Bjarna Halldórssonar (1703 – 1773) sýslumanns á Þingeyrum og Hólmfríðar Pálsdóttur Vídalín (1697 – 1736) konu hans, yngstur af fimm systkinum. Páll Vídalín lögmaður var móðurafi Halldórs, og telst því Reynistaðarætt vera kvísl af Vídalínsætt. Halldór gekk í skóla og var sagður „ritari góður“ en „eigi skarpur“ í árbókum Jóns Espólíns. Ragnheiður var skörungur og stóð fyrir búi þeirra hjóna. Börn Halldórs, Málfríðar og Ragnheiðar. Halldór og Ragnheiður áttu níu börn, þar af dóu tvö á fyrsta ári og tveir synir urðu ungir úti. Auk þess átti Halldór áður soninn Odd með Málfríði. Reynistaðarbræður og ættarbölvunin. Sumarið 1780 kom pest í fé á Norðurlandi og var allt skorið í Skagafirði. Um haustið sendi Halldór á Reynistað syni sína Einar og Bjarna, ásamt vinnumanninum Jóni Austmann og öðrum, sem Sigurður hét, suður yfir Kjöl til að kaupa fé. Þeir urðu allir úti í stórhríð á heimleiðinni, og þótti Björgu systur þeirra bræðra Bjarni bróðir sinn birtast sér í draumi og segja henni að þeir væru allir dauðir. Auk þess þótti henni hann segja sér að frá þessum degi mætti ekki gefa neinum dreng í ættinni nafnið Bjarni, og enginn karl mætti framar klæðast grænu né ríða bleikum hesti, en væri feigur ella. Um vorið fundust lík fylgdarmannanna tveggja í tjaldi við Beinhól, en bein bræðranna fundust ekki fyrr en árið 1845 í gjótu þar skammt frá. Fólk varð felmtri slegið vegna þessara atburða og lögðust mannaferðir um Kjöl af áratugina á eftir. Bölvunin var talin fylgja ættinni, og ýmsir voveiflegir atburðir taldir tengjast henni, og fram á þennan dag forðast sumir afkomendur Halldórs og Ragnheiðar að nefna syni sína Bjarna og karlar að klæðast grænu eða ríða bleikum hesti. Fjeldstedætt. Fjeldstedætt er íslensk ætt kennd við Fellsströnd í Dalasýslu. Hana mynda niðjar Vigfúsar Sigurðssonar Fjeldsted (1754-1804) og Karitasar Magnúsdóttur (1771-1855) konu hans. Vigfús Sigurðsson Fjeldsted var bóndi og gullsmiður í Galtardalstungu í Staðarfellssókn í Dalasýslu. Eftirnafnið tók hann upp þegar hann var við gullsmíðanám í Danmörku. Foreldrar hans voru Sigurður Vigfússon (fæddur 1727) og Solveig Sigurðardóttir (1732-1791). Steinunn Guðmundsdóttir (1728-1798) var fyrri kona hans, en þeim varð ekki barna auðið. Karitas Magnúsdóttir var dóttir Magnúsar Ketilssonar (1732-1803) sýslumanns í Búðardal á Skarðsströnd og Ragnhildar Eggertsdóttur (1740-1793) konu hans. Ragnhildur var af Skarðsætt og telst Fjeldstedætt því kvísl af henni. Eftir að Karitas varð ekkja giftist hún Páli Benediktssyni (1786-1843) og átti með honum fjögur börn sem öll dóu á fyrsta ári. Norðmannsætt. Norðmannsætt er íslensk ætt, rakin frá séra Jóni Jónssyni Norðmann (1820 – 1877) og Katrínu Jónsdóttur (1828 – 1889) konu hans. Jón Jónsson Norðmann var sonur Jóns Guðmundssonar frá Ásgerðarstöðum í Hörgárdal (1801 – 1866) og Margrétar Jónsdóttur frá Ytri-Bægisá á Þelamörk (1796 – 1872). Hann fæddist á Felli í Sléttuhlíð, nam guðfræði og var prestur á Miðgörðum í Grímsey frá 1846 til 1849 og á Barði í Fljótum í Skagafirði til dauðadags. Katrín Jónsdóttir var fædd í Brekku í Seyluhreppi í Skagafirði. Hún var dóttir séra Jóns Eiríkssonar (1798 – 1859) frá Djúpadal, prests í Brekku og á Undirfelli, og Bjargar Benediktsdóttur (1804 – 1866) frá Víðimýri. Katrín giftist Jóni Norðmann 17. júní 1851. Jón tók ættarnafnið upp þegar hann var við nám í Bessastaðaskóla. Þar voru fjórir skólapiltar sem báru nafnið Jón og voru Jónssynir, og voru hver úr sínum landsfjórðungi. Þeir voru aðgreindir með viðurnefnunum Norðmann, Austmann og Vestmann, en Sunnlendingurinn var kallaður Jón Jónsson. Ættfræði. Ættfræði (einnig kölluð ættvísi eða ættspeki og stundum „mannfræði“) er sú fræðigrein sem fjallar um skyldleika fólks, forfeður og afkomendur. Fræðigreinin er mjög forn og hefur meðal annars skipt máli vegna erfðaréttar, hefndarskyldu, göfgi og annars sem fólki þykir/þótti skipta máli. Nú til dags skiptir hún mjög miklu máli vegna rannsókna á erfðasjúkdómum. Ættfræði hefur stundum verið nefnd "móðir sagnfræðinnar". Í upphafsorðum Íslendingabókar, elsta sagnarits á íslensku, segir Ari fróði Þorgilsson að í frumdrögum bókarinnar hafi hann ritað „áttartölu ok konunga ævi“, og í lok bókarinnar er yfirlit þar sem Ari rekur ættir íslenskra biskupa, og einnig sína eigin ætt í þrítugasta og sjötta ættlið frá Yngva Tyrkjakonungi. "Niðjatöl" eru yfirlit yfir afkomendur fólks. "Áatöl" eru yfirlit yfir forfeður og formæður. "Ættartré" er myndræn uppsetning á ætt, þar sem fjölskyldur eru raktar yfir misjafnlega margar kynslóðir. Vídalínsætt. Vídalínsætt er íslensk ætt kennd við Víðidalstungu í Vestur-Húnavatnssýslu. Til hennar teljast niðjar Arngríms Jónssonar „lærða“ (1568–1648) og eiginkvenna hans tveggja, Sólveigar „kvennablóma“ Gunnarsdóttur (f. um 1570, d. 1627) og Sigríðar Bjarnadóttur (f. 1601). Rödd byltingarinnar. "Rödd byltingarinnar" var blað sem Baráttusamtökin fyrir stofnun kommúnistaflokks gáfu út í byrjun níunda áratugar 20. aldar. Galdra-Geiri. Þorgeir Stefánsson eða „Galdra-Geiri“ (1716 – 1802) var norðlenskur bóndi og galdramaður sem þekktastur er fyrir að hafa vakið upp drauginn Þorgeirsbola, sem við hann var kenndur, ásamt bróður sínum Kvæða-Stefáni og móðurbróður þeirra, Andrési Þorgeirssyni nálægt miðri 18. öld, eftir því sem þjóðsögur herma. Hann bjó lengi á Végeirsstöðum í Fnjóskadal en seinna á Leifshúsum á Svalbarðsströnd. Hlíðarhús. Hlíðarhús voru smábýli í Reykjavík og stóðu nálægt Vesturgötu samtímans, sem áður dró nafn sitt af þeim og hét Hlíðarhúsastígur. Sighvatur Bjarnason, fyrsti bankastjói Íslandsbanka og bæjarfulltrúi í Reykjavík ólst upp í Hlíðarhúsum. Landakotstún. Landakotstún er opið svæði í Reykjavík. Á vestanverðu túninu eru aðalbækistöðvar kaþólikka á Íslandi, Landakotskirkja með safnaðarheimili og íbúðum presta. Við túnið standa einnig Landakotsskóli, sem kirkjan rekur og Landakotsspítali, sem kirkjan stofnaði en er nú hluti af Landspítala. Sjálft túnið er grasi vaxið, með trjám og kjarri, og þar eru göngustígar og róluvöllur. Loks er bílastæði í norðausturhorni túnsins. Umhverfis það standa hús við Hávallagötu í suðri, Hólavallagötu í austri og Túngötu í norðri, en sú síðastnefnda er kennd við túnið. Áður fyrr stóð kotið Landakot á Landakotstúni, og dregur það nafn sitt af því. Umhverfis túnið voru túngarðar, sem Garðastræti heitir eftir, en þá náði túnið þangað austur. Safnaðarheimili. Safnaðarheimili er hús sem söfnuður rekur fyrir starfsemi sína. Þau standa yfirleitt í grennd við kirkjurnar sem viðkomandi söfnuðir tilheyra. Í safnaðarheimilum er yfirleitt aðstaða fyrir félagslíf safnaðarins, svo sem fundi eða basara. Geirsgata. Geirsgata er tengibraut í miðbæ Reykjavíkur. Hún liggur meðfram höfninni sunnanverðri og tengir Mýrargötu í vestri við Kalkofnsveg í austri. Hámarkshraði er 50 km/klst og hún er tvístefnugata. Kolaportið er við Geirsgötu. Kalkofnsvegur. Kalkofnsvegur er gata í Reykjavík. Hann tengir Geirsgötu í vestri við Sæbraut í austri. Hámarkshraði er 50 km/klst og akstur er heimill í báðar áttir. Vegurinn heitir eftir kalkbrennsluofni sem þar var forðum daga, en í slíkum ofnum var kalk brennt til sementsgerðar. Seðlabanki Íslands stendur við Kalkofnsveg. Sæbraut. Sæbraut er ein umferðarþyngsta stofnbraut Reykjavíkur. Hún liggur meðfram sjónum frá Kalkofnsvegi í vestri, austur meðfram standlengjunni, sveigir framhjá Laugarnesi og Sundahöfn suður til Miklubrautar, en þar skiptir hún um nafn og heitir Reykjanesbraut þaðan í suður. Gatan var lögð í kring um 1990. Milli hafnarinnar og Lauganess er Sæbraut er að miklu leyti lagður á landfyllingu. Skólavörðustígur. Mynd tekin niður Skólavörðustíg úr turni Hallgrímskirkju. Skólavörðustígur er gata í Reykjavík sem liggur frá Skólavörðuholti í suðaustri að mótum Laugavegar og Bankastrætis í norðvestri. Hann er kenndur við Skólavörðuna, sem Skólavörðuholt heitir líka eftir, sem stúdentar við Lærða skólann hlóðu nokkurn veginn þar sem nú er Hallgrímskirkja. Við götuna er fjöldi fyrirtækja og íbúða, auk gamals fangelsis. Hún er tvístefnugata milli Eiríksgötu og Bergstaðastrætis en einstefna niður/norðvestur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar/Bankastrætis. Hámarkshraðinn er 30 km/klst. Hallgrímskirkjuturn er eitt eftirtektarverðasta kennileiti Skólavörðustígs, en hann gnæfir í suðaustri. Kristnihald undir Jökli (bók). Kristnihald undir Jökli er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom út árið 1968. Hún segir frá Umba, umboðsmanni biskups, og sendiför hans vestur á Snæfellsnes til að kanna stöðu mála hjá Jóni Prímusi sem er hættur að sinna embættisverkum sínum, auk þess sem hjúskaparstaða hans er frekar óljós. Bjarni Bjarnason, rithöfundur, hefur sett fram þá kenningu að bók Bram Stoker, Drakúla, hafi haft mikil áhrif á Kristinhald undir Jökli. Kvikmyndin "Kristnihald undir Jökli", í leikstjörn Guðnýjar Halldórsdóttur var frumsýnd 1989. Seth MacFarlane. Seth Woodbury MacFarlane (fæddur 26. október 1973) er bandarískur kvikari, handritshöfundur, framleiðandi, leikari, grínisti, og raddleikari sem hlotið hefur tvö Emmy-verðlaun. Hann er þekktastur fyrir að hafa skapað teiknimyndirnar "Family Guy" og "American Dad!". Hann ljáir meðal annars eftirfarandi persónum rödd sína: Peter Griffin, Brian Griffin, Stewie Griffin, Tom Tucker, Glenn Quagmire, Stan Smith, og geimverunni Roger. Leópold 3. Belgíukonungur. Leópold III ("Léopold Philippe Charles Alberg Meinrad Hubertus Marie Miguel" (franska) eða "Leopold Filips Karel Albert Meinrad Hubertus Maria Miguel" (hollenska)) (3. nóvember 1901 – 25. september 1983) var konungur Belgíu frá 1934 til 1951. Loftfar. Loftfar er farartæki, sem ferðast um andrúmsloft jarðar. Getur verið "léttara en loft", eins og t.d. loftbelgur, eða "þyngra en loft" eins og flugvél. Flest loftför eru knúin áfram með hreyflum, en sviffluga og svifdreki nota uppstreymi til að haldast á lofti. Afleiða (stærðfræði). Afleiða er í stærðfræði fall, sem fæst við deildun á samfelldu, deildanlegu falli. Afleiða falls, er túlkuð sem hallatala ferilsins, sem fallið stikar. Ef fallið er fastafall er afleiðan núllfallið. Afleiða stofnfalls er fallið sjálft. Afleiða falls, m.t.t. tímabreytu, kallast "tímaafleiða". Ef tímaafleiða er núll er fallið sagt vera "stöðugt" eða "tímaóháð". Samfelldni er ekki nægjanlegt skilyrði fyrir því að fall sé deildanlegt, t.d. er algildisfallið ekki deildanlegt í núlli og Weierstrassfallið hvergi deildanlegt. Núllstöð afleiðu falls gefur punkta þar sem fall hefur útgildi, en núllstöð afleiðu afleiðunnar (önnur afleiða) gefur punkta þar sem fall hefur beygjuskil. Hlutafleiða er afleiða falls, sem er háð fleiri en einni breytistærð. Jafna, þar sem fyrir koma afleiður af háðu breytunni, nefnist deildajafna. Stofnfall. formula_3 sem jafngildir formula_4, þar sem "x" er breytistærðin, "C" er fasti og táknið ' stendur fyrir fyrstu afleiðu. Auðvelt er að finna stofnföll margliða og margra algengra fágaðara falla, t.d. hornafallanna, en stofnföll flestra falla, t.d. gammafallsins eru ýmist óþekkt eða ekki til. Í raun er um undantekningu að ræða ef fall á sér stofnfall, sem tákna má með samsetningu þekktra falla. formula_6 þar sem "C" er ótilgreindur fasti. formula_7 Ef fall á sér stofnfall þá felst heildun fallsins í að reikna "ákveðið heildi", sem er mismunur stofnfallsins í endapunktum bilsins. Adrastos frá Filippí. Adrastos frá Filippí (forngríska:Ἄδραστος ὁ Φιλιππεύς) (uppi á 4. – 3. öld f.Kr.) var aristótelískur heimspekingur og nemandi Aristótelesar. Satýros (heimspekingur). Satýros (forngríska: Σάτυρος) var aristótelískur heimspekingur sem var uppi á tímum Ptolemajosar IV Fílopators (um 210 f.Kr.) eða skömmu síðar. Hann ritaði ævisögur, meðal annarra Filipposar II og Demosþenesar sem fornir höfundar vísa oft til. Hann reit einnig um íbúa Alexandríu og bók "Um manngerðir" (Περὶ χαρακτήρων). Ævisaga Evripídesar eftir Satýros fannst í Oxyrhynchus í Egyptalandi næstum því í heilu lagi. Aristokles frá Messenu. Aristokles frá Messenu (uppi á 2. eða 3. öld f.Kr.) var aristótelískur heimspekingur sem gæti hafa verið kennari Alexanders frá Afrodísías. Rit hans um heimspeki virðist hafa sagt sögu heimspekinnar þar sem hann lýsti kenningum og viðhorfum ýmissa heimspekinga. Brot eru varðveitt úr verkinu í hjá Evsebíosi. Breinigerberg. Breinigerberg er þéttbýli í vesturhluta Þýskalands, u.þ.b. 15 km vestan við Aachen og 15 km austan hollensku landamæranna. Árið 2005 var mannfjöldi bæjarins um 971 manns. Þáttur (stærðfræði). Þáttur er í talnafræði heiltala, sem gengur upp í annari heiltölu, þannig að leifin er núll. Þættir eru fundnir með s.n. "þáttun". Talan einn gengur upp í öllum tölum og er því alltaf þáttur svo og talan sjálf, en það eru einu tölurnar sem ganga upp í frumtölum. Fyrir heiltölur, sem ekki eru frumtölur, telst talan sjálf yfirleitt ekki þáttur. Sérhverja heiltölu, sem ekki er frumtala, má því tákna sem margfeldi þátta, t.d. töluna 36 = 1*2*18 = 1*2*2*9 = 1*2*2*3*3 og þættina má síðan þátta þar til við höfum "frumtalnaþáttun" tölunnar. Einnig er talað um þáttun margliðu og er þá átt við þegar margliða er rituð sem margfeldi þátta í staðinn fyrir summu liða. Hannes Stephensen Bjarnason. Hannes Stephensen Bjarnason var íslenskur kaupmaður er verslaði á Bíldudal. Alexanders saga. Alexanders saga er forn íslensk saga um Alexander mikla, þýðing á söguljóði sem franska skáldið Philippus Gualterus orti á latínu um 1180. "Alexanders saga" er þýðing á söguljóðinu "Alexandreis", sem er kallað "Alexanderskviða" á íslensku. Halldór Laxness stuðlaði að því að hún kæmi fyrir almenningssjónir um miðjan fimmta áratug 20. aldar, enda mikill aðdáandi verksins. Um söguna. Almennt er talið að Brandur Jónsson biskup á Hólum 1263–1264 hafi þýtt Alexanderskviðu á íslensku, og má þar t.d. vísa til eftirmála Gyðinga sögu þar sem sagt er að Brandur hafi þýtt söguna. Brandur fékkst talsvert við kennslu, og var Alexanderskviða vinsælt kennsluefni í latínu á miðöldum. Talið er hugsanlegt að Brandur hafi þýtt söguna samhliða kennslunni, svipað og Sveinbjörn Egilsson gerði með Hómerskviður. Brandur tekur verk sitt sjálfstæðum tökum. Hann umritar söguljóð yfir í laust mál, sleppir formála frumritsins, einnig efniságripi í upphafi hverrar bókar o.fl. Einnig styttir hann þar sem ljóðmælandinn gerist langorður. Handrit Alexanders sögu. Í B-flokknum er texti sögunnar talsvert styttur, en söguþræðinum þó haldið að fullu. Í AM 226 fol. er skotið inn í söguna íslenskri þýðingu á bréfi Alexanders mikla til Aristótelesar um undur Indlands. Þetta bréf er aftan við söguna í síðasttalda handritinu. Tekinn. Tekinn er íslenskur sjónvarpsþáttur í anda Punk'd sem gengur út á það að hrekkja frægt fólk. Auðunn Blöndal sér um þáttinn. Hann byrjaði fyrst á sjónvarpsstöðinni Sirkus um haustið 2006 og svo kom Tekinn 2 sem er sýndur á Stöð 2. Gualterus. Gualterus – Philippus Gualterus – eða Walter frá Châtillon – var franskur rithöfundur og guðfræðingur á síðari hluta 12. aldar. Nafn hans er til í ótal myndum (latína: "Galterus" eða "Gualterus de Castellione", franska: "Gautier de Châtillon" eða "Gautier de Lille", enska: "Walter of Châtillon", o.s.frv. Orðrétt á íslensku: "Valtýr frá Kastala".) Hann var fæddur í Lille (Ryssel) í Norður-Frakklandi, líklega um 1135. Hann hlaut fyrst menntun hjá Stefáni frá Beauvais (Étienne de Garlande) fyrrum kanslara Frakklands, síðan í Parísarháskóla. Var um tíma klerkur við dómkirkjuna í Tournai (Doornik), nú í Belgíu. Kenndi sig oftast við staðinn Châtillon, þar sem hann var lærifaðir, stundum við fæðingarstað sinn Lille. Á stúdentsárum sínum samdi hann nokkur gamansöm kvæði (flakkaraljóð) á latínu sem síðar voru tekin upp í kvæðasafnið "Carmina Burana". Á sinni tíð var hans þó frekar minnst fyrir langt söguljóð á latínu, "Alexandreis – sive gesta Alexandri Magni", um Alexander mikla. Kviðan er samin undir sexliðahætti, eða hexametri, og er 5464 ljóðlínur, sem skiptast í 10 bækur. Höfundurinn tileinkaði kviðuna verndara sínum, Vilhjálmi, sem var erkibiskup í Reims 1175-1202, og er nafn erkibiskups í latneskri mynd falið í upphafsstöfum hinna 10 bóka kviðunnar: GUILLERMUS. Í formála segir höfundur að kviðan sé fimm ára verk sitt, og er talið að hún sé samin á árunum 1178-1182. Meðal fyrirmynda er Eneasarkviða eftir rómverska skáldið Virgil. Verk Gualterusar standa framarlega meðal latneskra bókmennta á miðöldum. Í Alexanderskviðu lætur hann skáldskapargildið ganga fyrir sögulegum staðreyndum og er tímatalið í talsverðum ruglingi, t.d. er Jesús Kristur þar krossfestur á dögum Alexanders mikla. Stafar þetta af því að Gualterus byggði verk sitt á ritum sem voru frekar skáldskapur en sagnfræði. "Alexandreis" var vinsæl lesning á dögum höfundarins og síðar, og hafði mikil áhrif á önnur skáld. Á okkar dögum er kviðan sjaldan lesin. Hún var þó þýdd á þýsku árið 1990 og á ensku 1992. "Alexandreis" eða "Alexanderskviða" barst hingað til Íslands og var talsvert notuð til kennslu. Brandur Jónsson, síðar biskup á Hólum, þýddi hana á íslensku, líklega á árabilinu 1250-1260. Kallast hún "Alexanders saga", enda er um lausamálsþýðingu að ræða, sem þykir afburða vel af hendi leyst. Ýmis kvæði í stíl við Alexanderskviðu, eða um svipuð efni, hafa verið eignuð Gualterusi, en með ófullnægjandi rökum. Hann samdi rit gegn gyðingdómi og ritgerð um heilaga þrenningu, og hann var e.t.v. höfundur ritsins "Moralium dogma philosophorum". Gualterus dó skömmu eftir 1200, e.t.v. í drepsótt 1201. American Dad! American Dad! eru bandarískir háðsádeilu-teiknimyndaþættir sem framleiddir eru af Underdog Productions og Fuzzy Door Productions fyrir 20th Century Fox. Höfundur þáttanna að hluta til er Seth MacFarlane, höfundur Family Guy þáttanna. Fyrsti þátturinn var sýndur í Bandaríkjunum þann 6. febrúar árið 2005. Þátturinn fylgist með lífi CIA fulltrúans Stan Smith og fjölskyldu hans. Söguþráður. Þátturinn fylgist með lífi CIA fulltrúans Stan Smith og fjölskyldu hans. Stan er oft að lenda í vandræðum út af tregi sinni og hvað hann trúir á. Francine reynir að stoppa hann oft en Hayley Smith (dóttirin) fer líka í það hlutverk sem 18 ára grænmetisétandi hippi. Steve er nörd sem gengur vel í skóla en illa með stelpur. Roger, geimveran í flestum skiptum reynir að hjálpa en oft gerir illt verra. King of the Hill. Aðalpersónur King of the Hill King of the Hill eru bandarískir teiknimyndaþættir skapaðir af Mike Judge og Greg Daniels fyrir FOX. Þættirnir hófu göngu sína árið 1997 og fjalla um úthverfa- fjölskyldu sem er stolt af Texas uppruna sínum. Þátturinn hefur verið einn af lengst gangandi sjónvarpsþáttum sem FOX sýnir og önnur lengsta teiknimyndaþáttaröð á eftir The Simpsons. Þátturinn var útnefndur sem einn af bestu sjónvarpsþáttum allra tíma af TIME tímaritinu. Mike Judge. Michael Craig Judge (fæddur 17. október 1962 í Guayaquil, Ekvador) er bandarískur kvikari, leikari, raddleikari, handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi. Hann er best þekktur fyrir sköpun sína á teiknimyndaþáttunum Beavis and Butt-head og King of the Hill. Hann leikstýrði og skrifaði handritið af kvikmyndunum Office Space, Idiocracy og Beavis and Butt-head Do America. Judge, Mike Torræð tala. Torræð tala er óræð tala sem ekki er algebruleg, þ.e. er ekki núllstöð margliðu, með ræða stuðla. Dæmi um torræðar tölur eru pí og e. Algebruleg tala. Algebruleg tala er hver sú tvinntala (þar undir falla náttúrulegar tölur, heilar tölur, ræðar tölur og rauntölur), sem getur verið núllstöð í margliðufalli með heiltölustuðlum. Tölur, sem ekki eru núllstöðvar í neinu slíku falli kallast torræðar (e. transcendental). Dæmi um algebrulegar tölur eru formula_1, formula_2 og allar tölur á forminu p+iq, þar sem p og q eru ræðar tölur og i er formula_3. Tvinntölurnar p+iq og p-iq eru lausnir annars stigs jafna á forminu x2 - (2p)x + (p2+q2) = 0. Dæmi um torræðar tölur eru pí og e, því að engar margliður með heiltölustuðlum hafa þær sem núllstöð. Takmarkað fall. fyrir öll "x" í formengi fallsins "f". Ef "M" = 0 þá er fallið "f" núllfallið. Fall er sagt "takmarkað að ofan" ef til er rauntala "M" þ.a. "f"("x") ≤ "M", en "takmarkað að neðan" ef "f"("x") ≥ "M" fyrir öll "x". Takmarkað fall þarf því bæði að vera takmarkað að ofan og -neðan, en fall sem er það ekki kallast "ótakmarkað fall". Takmarkað mengi. Takmarkað mengi er mengi, sem er "takmarkað" í einhverjum skilningi. Talnamengi er "takmarkað" ef að það er bæði "takmarkað að ofan" og "takmarkað að neðan". Talnamengi "S" er "takmarkað að ofan" ef til er tala "k", þ.a. "k" ≥ "x" fyrir öll "x" stök í "S". Slík tala "k" nefnist yfirtala mengisins "S". Talnamengi "S" er "takmarkað að neðan" ef til er tala "k", þ.a. "k" ≤ "x" fyrir öll "x" stök í "S". Slík tala "k" nefnist undirtala mengisins "S" Mengi í firðrúmi er takmarkað ef þvermál mengisins er endanlegt, sem má orða þannig að hlutmengi "S" firðrúmsins er takmarkað ef unnt er að finna kúlu "B", með endanlegan geisla "r", sem inniheldur "S". BCL-grunnklasasafnið. BCL-grunnklasasafnið (e. Base Class Library eða BCL) er staðlað klasasafn til taks fyrir öll forritunarmál í .NET Framework. Til þess að auðvelda starf forritara býður.NET upp á Grunnklasasafnið sem inniheldur mikið af algengum aðgerðum, eins og skráarlestur og -skrift, myndbirtun, gagnagrunnssamskipti og XML-skjalahandfjöllun. Það er mikið stærra en stöðluð klasasöfn í flestum öðrum forritunarmálum, þar á meðal C++, og hefur sambærilegt umfang og grunnklasasafn Java. Samsæri Watsons. Samsæri Watsons eða Prestasvikin var samsæri kaþólskra Englendinga sem snerist um að ræna Jakobi konungi og neyða hann til að afnema andkaþólska löggjöf í landinu. Það voru enskir Jesúítar, eins og Henry Garnet, sem komu upp um samsærismennina árið 1603 þar sem þeir óttuðust hefndaraðgerðir gegn kaþólikkum ef áætlunin mistækist. Kaþólsku prestarnir William Watson (sem var höfuðpaurinn) og William Clark ásamt George Brooke, voru hengdir og Jakob skipaði í kjölfarið öllum kaþólskum prestum að hafa sig á brott úr landinu snemma árið 1604. Uppgötvun samsærisins leiddi til þess að Maine-samsærið uppgötvaðist þar sem grunsemdir féllu á bróður George Brooke, Henry Brooke, í kjölfarið. Maine-samsærið. Maine-samsærið eða svikin í Maine (eftir franska héraðinu Maine) var samsæri enskra kaþólikka til að steypa Jakobi konungi af stóli og setja frænku hans Arbellu Stúart á hásætið í hans stað með aðstoð Spánverja. Meintur höfuðpaur samsærisins var Henry Brooke, barón af Cobham. Samsærið gekk út á það að bróðir Henrys, George Brooke átti að koma sér upp hersveit og ganga til London til að taka þar við stjórnartaumunum. Henry átti að sjá um samninga. Í ákærunni var því lýst yfir að Henry hefði átt í samskiptum við hirðina í Aremberg um að semja um stórar fjárupphæðir frá spænsku hirðinni. Hann átti að fara til Brussel og þaðan til Spánar, sækja féð og snúa aftur til Englands um Jersey þar sem Walter Raleigh var landstjóri. Raleigh og Cobham hygðust síðan skipta með sér fénu. Samsærið komst upp við yfirheyrslur fanga sem handteknir voru í tengslum við Samsæri Watsons 1603 og réttarhöldin yfir Raleigh fóru fram 17. nóvember það sama ár. Talið er að George hafi reynt að bæta stöðu sína með því að ákæra bróður sinn. Hann var þó tekinn af lífi ásamt öðrum samsærismönnum í Samsæri Watsons þegar árið 1603. Raleigh og Cobham voru báðir teknir af lífi fyrir þátt sinn í samsærinu mörgum árum síðar, eða 1618. .NET-umhverfið. .NET-umhverfið er hugbúnaðaríhlutur sem fylgir með Microsoft Windows-stýrikerfunum. Það hefur upp á að bjóða gríðarlega mikið af áðurkóðuðum lausnum sem koma til móts við þarfir í hugbúnaðargerð. Öll.NET-forritunarmál geta nýtt sér þessar lausnir í grunnklasasafni undir nafninu BCL-grunnklasasafnið. .NET er tilkomið vegna þess að Microsoft vildi einfalda forritunarskil við Windows. Windows API var orðið gamalt og óhlutbundið en.NET er hlutbundið. Það er smíðað með netið og dreifða vinnslu í huga og byggt ofan á Win32 API. Microsoft notar ekki endilega.NET í sinni forritun og er t.d. er Office pakkinn skrifaður í C. Visual Studio er að hluta til skrifað í.NET. Dæmi um fleiri forrit sem skrifuð eru að hluta eða af miklu leiti í.NET eru t.d. SharePoint, BixTalk Server og Paint.NET. Hugtök tengd.Net. CLR – Common Language Runtime – keyrsluumhverfið. IL / MSIL / CIL – forrit sem eru þýdd fyrir.NET eru ekki þýdd yfir á vélamál heldur á IL - intermediate language. JIT – "Just-in-time", IL - kóði er þýddur yfir á vélamál rétt áður en þarf að keyra hann – JIT þýðandinn sér um það. Assembly – getur táknað forrit, dll, component, etc. Inniheldur IL kóða, metadata.o.fl. CLS – Common Language Specification. Þó tungumál hafi ólíkan syntax verða þau að framfylgja CLS til að teljast.NET samhæfð. CTS – Common Type System. Þau tög sem öll.NET forritunarmál styðja. Heimildir. Daníel B. Sigurgeirsson (munnleg heimild, Janúar 2007). "Gluggakerfi I." Háskólinn í Reykjavík, Tölvunarfræðideild Húmanistaflokkurinn. Húmanistaflokkurinn (áður nefndur Flokkur mannsins til 1995) er íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður 25. júní 1984 en Húmanistaflokkar eru til víða um heim. Meðal yfirlýstra stefnumála er „að setja manngildi ofar auðgildi“. Fyrsti formaður flokksins var Júlíus Valdimarsson og að stofnun flokksins komu félagasamtökin Samhygð. Flokkurinn bauð fram í alþingiskosningum 1987, 1991, 1999 og 2013. Flokkurinn hefur einnig boðið fram til borgarstjórnar í Reykjavík árin 1986, 1990, 1998 og 2002. Flokkurinn stóð jafnframt að baki framboði Sigrúnar Þorsteinsdóttur til forseta Íslands árið 1988. Sigrún Þorsteinsdóttir. Sigrún Þorsteinsdóttir (f. 2. september 1941) var forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum 1988 en þá bauð hún sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur, sem var sitjandi forseti. Sigrún er fædd í Vestmannaeyjum og gekk þar í Sjálfstæðisflokkinn. Hún sagði sig seinna úr honum og gekk í Flokk mannsins og var í Landsráði hans. Í byrjun júní 1988, þegar leið að forsetakosningum, fór Sigrún fram á kappræður í sjónvarpssal vegna forsetakosninganna, en Vigdís hafnaði þeirri áskorun. Stuðningsmenn Sigrúnar sögðu viðhorf Vigdísar andlýðræðislegt. Vigdís hélt því fram að þar sem þær hefðu báðar fallist á að flytja hvor um sig 10 mínútna ávarp í sjónvarpi þann 23. júní, þá teldi hún að þessi ávörp væru til þess fallin að koma málstað beggja frambjóðenda til skila og ekki væri frekari þörf á að þær kæmu persónulega fram í sjónarpi. Ekkert varð af kappræðunum. Samtök Græningja lýstu yfir stuðningi við forsetaframboð Sigrúnar þann 12. júní. Þeir hvöttu og alla umhverfisverndar- og friðarsinna til að stuðla að kosningu hennar. Helgríma. Helgríma eða dánargríma er afsteypa af andliti látins manns. Slátrunartæki. Orðið "helgríma" er einnig haft um tæki sem var áður notað við slátrun búfjár (sérstaklega sauðkinda). Slík helgríma var úr leðri og stóð breiður pinni út úr henni miðri. Henni var komið fyrir á höfði kindarinnar og pinninn síðan rekinn inn í hauskúpuna með sleggju. Döðluplóma. Döðluplómur á tré í Japan. Döðluplóma eða persimónía er ætur ávöxtur persimóníutrjáa. Orðið "persimmon" á rætur sínar að rekja til Cree-indíánanna í Norður-Ameríku og þýðir „þurrkaður ávöxtur“. Döðluplómur vaxa víða og eru yfirleitt gull til dökkrauðar á litinn og á bilinu 1,5-9 cm í þvermál. Döðluplómur innihalda töluvert af þrúgusykri, prótíni og nýtast í efna- og læknisfræðilegum tilgangi. Paul Pierce. Paul Pierce (f. 13. október 1977) er skotbakvörður sem spilar fyrir Boston Celtics í NBA deildinni. Paul Pierce kom í deildina árið 1998 nr 10 í nýliða valinu, Árið 2008 var hann valinn mikilvægasti leikmaður úrslitana þar sem að Celtics urðu Meistarar Grunnklasasafn. Grunnklasasafn er safn klasa sem mynda grunneiningu hlutbundins forritunarmáls. Iðulega er þar að finna klasa sem hafa samband við helstu grunneiningar tölvunnar, svo sem úttak/inntak, netsamskipti og fleira. Meðalaldur. Meðalaldur er samanlagður aldur þýðis (t.d. þjóðar), deilt með fjölda þeirra sem í þýðinu eru. Meðalaldur tiltekins hóps manna er ekki skilgreining á meðalævi, heldur meðaltal af aldri einstaklinga sem eru á lífi. Með öðrum orðum eru aldurstölurnar lagðar saman og deilt í með fjöldanum. Meðalævi er hins vegar tala sem lýsir því hversu gamlir menn verða að meðaltali. Meðalaldur getur breyst án þess að meðalævi breytist, til dæmis ef hlutfall fæðinga er að breytast. En yfirleitt hefur meðalævi þó mest áhrif á meðalaldur. Hólaskóli (1106-1802). Hólaskóli var skóli sem var á biskupssetrinu á Hólum í Hjaltadal frá því snemma á 12. öld og til vors 1802, þó ekki óslitið. Hann var ásamt Skálholtsskóla helsta menntastofnun þjóðarinnar. Hlutverk hans var alla tíð fyrst og fremst að mennta menn til að gegna prestsembættum en fyrir suma var hann einnig undirbúningur undir framhaldsnám erlendis. Upphafsár Hólaskóla. Fyrsti Hólabiskupinn, Jón Ögmundsson, var vel menntaður, hafði alist upp hjá Ísleifi biskupi Gissurarsyni og lært hjá honum, og hann stofnaði fljótlega skóla á Hólum – líklega um 1108 þótt oftast sé skólinn talinn hafa verið stofnaður 1106 þegar Jón var vígður. Skólinn var reistur í vestur frá kirkjudyrum og var hin vandaðasta smíð. Fyrsti skólameistarinn var Gísli Finnason frá Gautlandi og kenndi hann latínu. Biskup launaði honum vel og hann var lengi við skólann. Annar kennari við skólann var frakkneskur, Ríkinni prestur, og kenndi hann söng og versagjörð. Hann var, eins og segir í Jóns sögu helga, „svo glöggur í sönglist og minnugur, að hann kunni utanbókar allan söng á tólf mánuðum, bæði í dagtíðum og óttusöngum, með öruggri hljóðasetning og tónagrein.” Fjöldi merkra manna stundaði nám í skóla Jóns helga og þar var einnig stúlka sem hét Ingunn Arnórsdóttir af ætt Ásbirninga, afasystir Kolbeins Tumasonar. „Var hún engum annarra síðri í bókmenntum, og kenndi mörgum grammaticam, og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir”. Slitrótt skólastarf. Víst er að skóli var á Hólum á meðan Jón lifði, til 1121, og líklegt að eftirmenn hans til 1203 hafi haldið við einhvers konar skóla, enda voru þeir margir mjög vel menntaðir sjálfir. Í tíð Guðmundar Arasonar hefur skólahald sennilega verið slitrótt, enda biskup sjálfur oft fjarverandi, brottrækur af staðnum eða erlendis. 1218 setti hann þó skóla á Hólum og hét skólameistarinn Þórður ufsi, en ekki leið á löngu þar til Arnór Tumason kom með mikið lið og rak biskup og allt hans lið í burtu, þar á meðal skólameistarann og sveinana. Næstu biskupar voru erlendir og óvíst að þeir hafi haldið skóla en í tíð Jörundar Þorsteinssonar var skóli á Hólum og var Óblauður Hallvarðsson þá skólameistari um tíma og svo Lárentíus Kálfsson, síðar biskup. Eftirmaður Jörundar, Auðunn rauði, hélt líka skóla, og eins Lárentínus þegar hann varð biskup. Skólameistarar sem vitað er um á þeim árum voru Egill Eyjólfsson, síðar biskup, séra Jón Koðránsson og séra Ólafur Hjaltason. Séra Valþjófur kenndi söng á dögum Lárentíusar biskups. Egill Eyjólfsson biskup hélt líka skóla en Norðmennirnir Ormur Ásláksson og Jón skalli Eiríksson gerðu það ekki. Daninn Pétur Nikulásson hafði skóla og stýrði honum Böðvar djákni og seinna Hans nokkur, "doctor decretorum". Eftir Svartadauða getur ekkert um skóla á Hólum og raunar varla fyrr en um siðaskipti; er alls óvíst að nokkurt eiginlegt skólahald hafi verið þótt biskupar hafi stundum tekið ungmenni og kennt þeim prestsverk og messusöng. Þeir voru þó ekki allir vel menntaðir sjálfir og Jón Arason mun til dæmis ekki hafa kunnað mikið í latínu. Hólaskóli í lútherskum sið. Árið 1552 skipaði konungur Páli Hvítfeld höfuðsmanni að koma hér á latínuskólum, bæði í Skálholti og á Hólum. Skyldi setja vel lærðan og guðhræddan skólameistara yfir hvorn skóla, svo og heyrara (kennara). 24 piltar voru í hvorum skóla um sig fyrst eftir siðbreytingu og skyldu þeir fá góðan mat og drykk eftir landsvenju, vaðmál til fata og hverjir tveir piltar saman rekkjuvoð annaðhvert ár. Eitt atriði var þó í fyrirmælum konungs sem Íslendingar treystu sér ekki til að fara eftir en það var að veita skólapiltum öl daglega. Skólinn átti líka að vera bæði vetur og sumar en eftir því var aldrei farið. Og á dögum Steins Jónssonar og Björns Þorleifssonar Hólabiskupa var svo þröngt í búi á biskupssetrinu að oft þurfti að slíta skóla um miðjan vetur og senda piltana heim því ekki var til nægur matur til að endast veturinn. Eftir því sem leið á 18. öldina varð hagur skólans æ verri og árið 1799 skipaði konungur nefnd sem átti að gera tillögur um úrbætur. Allir voru sammála um að flytja skólann frá Hólum en sumir vildu færa hann til Akureyrar og hafa áfram tvo latínuskóla í landinu. Það varð þó ofan á að leggja skólann niður og sameina hann Hólavallarskóla, og var það gert 1802. Skömmu síðar flutti skólinn til Bessastaða. Síðustu Hólaskólamenn. Síðustu stúdentarnir voru útskrifaðir 20. maí 1802. Þeir voru þessir: Hallgrímur Scheving, kennari á Bessastöðum, Ólafur Þorleifsson, prestur á Kvíabekk, Hallgrímur Jónsson, djákni á Þingeyrum, Páll Erlendsson prestur á Brúarlandi og Baldvin Þorsteinsson, prestur á Upsum. Skólameistarar Hólaskóla eftir siðaskipti. Lengst af voru flestir skólameistararnir ungir - stundum kornungir - menntamenn af góðum ættum, oft nátengdir biskupunum, sem voru að bíða eftir að fá góð embætti. Þeir gegndu því sjaldnast starfinu nema örfá ár. Femínismi. a>borg í Bandaríkjununm í ágúst 1970 við upphaf "annarrar bylgju" femínisma. Femínismi eða kvenfrelsisstefna er samheiti yfir ýmsar pólitískar og hugmyndafræðilegar stefnur, þar sem sóst er eftir og barist fyrir jafnrétti kynjanna. Meðal þess sem greinir á eru mismunandi skoðanir á því hvað ójafnrétti er, hvernig það lýsir sér og hvernig skuli unnið gegn því. Meðal algengra baráttumála femínista eru barátta fyrir jöfnum launum karla og kvenna, barátta gegn mansali, vændi, útlitsdýrkun og svonefndri „klámvæðingu“ samfélagsins, barátta fyrir rétti til fóstureyðinga og rétti kvenna til menntunar, atvinnu og annarra tækifæra til jafns við karla og barátta fyrir jöfnum áhrifum kynjanna í stjórnmálum og viðskiptum. Tvær grunnhugmyndir femínsimans. Margir angar hafa sprottið út frá femínisma. Allir þessir angar eiga það þó sameiginlegt að byggja á annarri tveggja grunnhugmynda femínsmans. Þessar tvær grunnhugmyndir hafa ekki vakið jafn mikla umræðu alls staðar í heiminum en í Svíþjóð hefur umræðan um femínsima mjög tekið mið af þessum tveimur ólíku sjónarmiðum. Annars vegar er um að ræða þá afstöðu að kynin séu ólík með áherslu á líffræðilegan mun kynjanna. Hins vegar þá afstöðu að konur og karlar séu sama tegund, burtséð frá hinum augljósa líffræðilega mun kynjanna. Áhersla á líffræðilegan mun kynjanna. Þetta sjónarmið femínisma tekur mið af þeim líffræðilega mun sem er á kynjunum. Hér er gengið út frá því að konur og karlar séu séu í eðli sínu ólík. Á þeim sé líffræðilegur munur sem að gerir þau mjög ólík og hefur gífurlega félagslega þýðingu. Mannskepnan er mótuð af skiptingu vinnunnar í því samfélagi sem hún lifir í, uppeldi og kynferði. Konur eru því mótaðar af því hlutverki sínu að fæða börn. Þær sinna því öðrum störfum en mennirnir og hafa því aðra reynslu en þeir. Þær gefa hins vegar jafn mikið af sér til samfélagsins og eru þar af leiðandi jafn mikils virði og karlarnir. Aðalpunkturinn hér er því að ná jafnrétti með því að hífa náttúrulega eiginleika konunnar upp á sama stall eiginleika karla. Þær vekja athygli á kynjamuninum því að þær vilja halda honum. Mikil áhersla er hér á móðurhlutverkið. Áhersla á að konur og karlar séu eins. Þetta sjónarmið femínsimans gengur út á að konur og karlar séu í grundvallaratriðum eins, fyrir utan hinn augljósa líffræðilega mun. Þessi munur er álitinn lítilvægur. Hér er litið svo á að sá munur sem að er á kynjunum í samfélaginu sé félagslega skapaður og þar með menningarbundinn. Áherslan hér er því á umhverfið í stað líffræðinnar. Kynin eiga því að njóta sömu tækifæra í lífinu og vera jöfn á öllum stigum samfélagsins. Hér er þess vegna ekki tekið tillit til sameiginlegrar reynslu kvenna. Femínismahreyfingar sem byggja á því sjónarmiði að konur og karlar séu eins eru ríkjandi í dag. Hins vegar byggði til dæmis Kvennalistinn á Íslandi á sjónarmiðinu um líffræðilegan mun kynjanna þegar hann var og hét. Fyrsta bylgjan. Fyrsta bylgjan miðar við nítjándu öld og fyrstu ár eða áratugi þeirrar tuttugustu. Hún hófst með baráttu gegn nauðungarhjónaböndum, að eiginkonan (og börnin) væri skoðuð sem eign eiginmannsins og þróaðist yfir í baráttu fyrir kosningarétti, jöfnum erfðarétti og öðrum pólitískum réttindum. Á Vesturlöndum skilaði þessi bylgja miklum framförum og er nærtækt að nefna kosningaréttinn og önnur lagaleg réttindi í því samhengi. Fyrsta bylgjan á Íslandi. Seint á 19. öld var Bríet Bjarnhéðinsdóttir áberandi sem leiðtogi íslenskrar kvenréttindabaráttu. Undir hennar forystu efndu konur til kvennaframboða og náðu góðum árangri í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Um sama leyti var Kvenréttindafélag Íslands stofnað. Jafnframt því að brjótast til réttinda í stjórnmálum gerðu konur sig gildandi í líknarstarfi og þótt það teljist ekki beint til réttindabaráttu hefur það líklega aukið veg þeirra félagslega. Fyrsta konan sem komst á Alþingi var Ingibjörg H. Bjarnason árið 1922. Auður Auðuns lauk fyrst íslenskra kvenna lögfræðinámi á Íslandi árið 1929 og sat fyrst íslenskra kvenna sem borgarstjóri Reykjavíkur árið 1959 - 1960 ásamt Geir Hallgrímssyni. Önnur bylgjan. Önnur bylgja femínismans hófst á fyrri hluta sjöunda áratugarins og varði frameftir níunda áratugnum. Hún hélst mjög í hendur við almenna pólitíska vakningu meðal ungs fólks, bæði vinstriróttækni og hugsjónir hippanna. Á þessum árum urðu margar undirtegundir femínismans til í andstöðu við frjálslynda, borgaralega femínismann. Önnur bylgjan á Íslandi. Á Íslandi eru mest áberandi einkenni annarrar bylgjunnar líklega annars vegar Rauðsokkahreyfingin á 8. áratugnum, sem gekk hart fram í margvíslegri gagnrýni á ríkjandi viðhorf karlaveldisins og hins vegar Kvennalistinn á 9. áratugnum, sem bauð fram í kosningum, náði nokkrum konum á þing og setti um leið þrýsting á aðra flokka að fjölga konum á sínum framboðslistum. Árangurinn varð sá að auka mjög vægi kvenna í stjórnmálum miðað við það sem áður var. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat sem þingkona Kvennalistans 1991-94. Þriðja bylgjan. Þriðja bylgja femínismans hófst á tíunda áratugnum og stendur enn yfir. Hún reis sem eins konar svar við því sem annarri bylgjunni hafði ekki tekist. Í henni ríkir andúð á eðlishyggju, hún er fjölmenningarlegri en fyrri bylgjurnar tvær, beinir kastljósi sínu meira að kynferðisofbeldi, mansali og staðalmyndum og er borgaralegri en rauðsokkuhreyfingin á sjöunda áratugnum. Þriðja bylgjan á Íslandi. Á Íslandi er Femínistafélag Íslands líklega það þekktasta við þriðju bylgjuna. Það hefur aftur tekið femínisma á dagskrá í umræðunni, bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum, barist gegn vændi, klámi, mansali, útlitsdýrkun og fleiru sem femínistar álíta einkenni karlaveldis eða kvennakúgunar. Þá hefur barátta gegn kynbundnum launamun verið ofarlega á baugi, og hafa stéttarfélögin tekið þátt í henni. Þessu tengist líka að Háskóli Íslands hóf kennslu í kynjafræði. Oudenaarde. Oudenaarde (franska: "Audenarde") er sveitarfélag í Austur-Flæmingjalandi í Belgíu. Ráðhús í Oudenaarde í Belgíu Konunglegu fjöldamorðin í Nepal. a> þar sem fjöldamorðin áttu sér stað. Nú er verið að breyta höllinni í safn. Konunglegu fjöldamorðin í Nepal voru fjöldamorð á konungsfjölskyldu Nepals sem áttu sér stað laugardaginn 11. júní 2001 í konungshöllinni Narayanhity, sem var opinber bústaður nepölsku konungsstjórnarinnar þar til konungdæmið var afnumið árið 2008. Atburðarás. Samkvæmt hinni opinberu útgáfu hafði Dipendra krónprins af Nepal drukkið ótæpilega mikið áfengi og hegðað sér ósæmilega í viðurvist gesta sem varð til þess að faðir hans, konungurinn Birendra, skipaði honum að yfirgefa veisluna. Dipendra var fylgt í herbergi sitt af bróður sínum Nirajan prins og frænda sínum, Paras prins. Klukkustund síðar sneri Dipendra aftur til veislunnar vopnaður árásarriffli og skaut einu skoti upp í loftið áður en hann beindi byssunni í átt að föður sínum, Birendra konungi og skaut hann. Nokkrum sekúndum seinna skaut hann eina af frænkum sínum og frændi hans, Dhirendra prins, var skotinn í brjóstið af stuttu færi eftir að hafa reynt að stoppa Dipendra. Á meðan á blóðbaðinu stóð hlaut Paras væg meiðsli og náði að bjarga að minnsta kosti þremur viðstöddum, þar á meðal tveimur börnum með því að draga sófa yfir þau. Á meðan á fjöldamorðunum stóð hljóp Dipendra inn og út úr herberginu og skaut skotum í hvert sinn. Móðir hans, Aiswarya drottning, sem kom inn í herbergið þegar fyrstu skotin fóru að heyrast, sneri snögglega aftur út í leit að hjálp. Hún og bróðir, Nirajan, mættu honum í garði hallarinnar og voru bæði skotin til bana. Eftir þetta hélt Dipendra áleiðis að lítilli brú sem náði yfir læk sem rann í gegnum konungshöllina og skaut sjálfan sig. Eftirmál. Dipendra, sem þá var í dái, var lýstur konungur, en hann lést síðan 4. júní 2001. Gyanendra af Nepal var lýstur ríkisstjóri á meðan Dipendra var í dái en hann tók síðan við krúnunni eftir dauða hans. Meðan Dipendra var enn á lífi hélt Gyanendra því fram að dauði fólksins hefði verið „slys“, en seinna sagði hann að þetta hafi verið vegna „lagalegra og þingbundinna hindrana“. Vegna þess að samkvæmt stjórnarskránni og hefð var ekki hægt að ásaka Dipendra um fjöldamorð meðan hann var á lífi. Tveggja manna nefnd sem yfirheyrði meira en hundrað manns, meðal annars sjónarvotta, verði og starfsfólk, leiddi í ljós að Dipendra framdi morðin. Samt sem áður hefur fjöldi samsæriskenninga komið fram sem segja annað, en án nokkurra sannana. Jörundur Guðmundsson - Jörundur slær í gegn. Jörundur Guðmundsson - Jörundur slær í gegn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni flytur Jörundur Guðmundsson gamanmál. Allt efni á plötunni er eftir Spóa, nema þar sem annars er getið — þ.e.a.s. nr. 2 á hlið A og nr. 1 og 4 á hlið B. Ólafur Gaukur útsetti og stjórnaði undirleik i nr. 2 á hlið A og nr. 1 og 4 á hlið B. Hljóðritun tónlistar fór fram í Tóntækni h.f. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Allt annað efni var hljóðritað í Útvarpssal að viðstöddum áhorfendum. Tæknimaður: Þórir Steingrímsson. Ljósmynd á framhlið umslags: Mótíf - Jóhannes Long. Hönnun umslags: SG og Grafík. Prentun: Grafík. Háskólakórinn. Háskólakórinn (áður "Kór Háskóla Íslands") er blandaður kór, sem stofnaður var árið 1972. Hann hefur frá upphafi sungið við helstu athafnir Háskóla Íslands, en hefur einnig farið víða um heim og kynnt íslenska tónlist. Fyrsta ferðin var til Skotlands 1977 og síðan hafa mörg lönd verið heimsótt, allt frá Sovétríkjunum til Suður-Spánar. Vorið 2012 er stefnt á tónleikaferðalag um Austurríki, Slóvakíu og Ungverjaland. Háskólakórinn hefur komið fram á þónokkrum upptökum. Fyrstar komu vinyl plöturnar "Háskólakórinn" 1983 og Sóleyjarkvæði 1985. Þremur árum síðar kom út tvöfaldur geisladiskur með tónlist Árna Harðarsonar við Disneyrímur Þórarins Eldjárns sem þá um veturinn höfðu verið fluttar sem kabarett á sviði Tjarnarbíós. Í tilefni af 35 ára afmælinu kom svo út diskur "Í hendi þinni" 2006 með íslenskum lögum meðal annars eftir Atla Heimi Sveinsson, Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Jón Ásgeirsson. Á þeim diski er lagið "Vísindin efla alla dáð" eftir Arnþrúði Lilju Þorbjörnsdóttur við kvæði Jónasar Hallgrímsssonar sem valið var lag Háskóla Íslands árið 2000 og kórinn hefur flutt við brautskráningar og ýmis önnur tækifæri. Haustið 2011 gaf kórinn svo út geisladiskinn Álfavísur þar sem upptökur frá síðustu þremur árum áður er að finna, eða síðan Gunnsteinn Ólafsson tók við stjórn hans. Diskurinn er einnig gefinn út í tengslum við 40 ára starfsafmæli kórsins. Meðal stjórnenda kórsins í gegnum tíðina má nefna Rut Magnússon, sem var fyrsti stjórnandi Háskólakórsins, Hjálmar H. Ragnarsson, Árna Harðarson, Ferenc Utassy, Egil Gunnarsson, Hákon Leifsson og nú Gunnstein Ólafsson. Meðlimir kórsins eru á bilinu 50 – 70 og er meðalaldur kórfélaga 23 ár. Háskólakórinn tekur sér árlega fyrir hendur eitt stórt tónverk, og flutti haustið 2007 hið stórbrotna verk Messa í C-dúr eftir Ludwig van Beethoven ásamt "Ungfóníunni" (þ.e. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins) og haustið 2008 söng kórinn Messías eftir Händel. Haustið 2009 tók kórinn aftur upp samstarf við Ungfóníuna og flutt var 9. sinfónía Beethovens, Óðurinn til gleðinnar í Langholtskirkju. Þetta mun hafa verið fyrsta skiptið sem ungt fólk á Íslandi flytur þetta verk. Vorið 2011 flutti kórinn svo verkið Carmina Burana ásamt Ungfóníu. Hjallerup. Hjallerup er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins er 3.449 og liggur bærinn í Brønderslev sveitarfélaginu. Bærinn er þekktur fyrir sinn árlega „Hjallerup markað“. Taastrup. Taastrup er bær á austanverðu Sjálandi í Danmörku. Taastrup ásamt samliggjandi byggð telur 31.461 íbúa (2007). Adam Sandler. Adam Richard Sandler (fæddur 9. september 1966) er bandarískur grínisti, leikari, tónlistarmaður, handritshöfundur og kvikmyndaleikstjóri. Eftir að hafa öðlast frægð í Saturday Night Live þáttunum, sneri Sandler sér að kvikmyndum og má þar nefna Billy Madison (1995), Happy Gilmore (1996), Big Daddy (1999). Sandler, Adam Richard Mucc. Mucc er japönsk rokkhljómsveit stofnuð 1997. Seinfeld. Seinfeld voru bandarískir gamanþættir sem voru sýndir á NBC sjónvarpsstöðinni frá 5. júlí 1989 til 14. maí 1998. Höfundar Seinfeld-þáttanna voru þeir Larry David og Jerry Seinfeld. Sá síðarnefndi lék eitt aðalhlutverkanna í þáttunum, persónu sem var alnafni hans sjálfs, þ.e.a.s. Jerry Seinfeld. Þættirnir fjölluðu um hann og vini hans í New York borg, en þeir voru þau George Louis Costanza (Jason Alexander), Elaine Marie Benes (Julia Louis-Dreyfus) og Cosmo Kramer (Michael Richards). Larry David. Lawrence Gene David (fæddur 2. júlí 1947 í Brooklyn, New York) er leikari, handritshöfundur, grínisti, framleiðandi og kvikmyndaframleiðandi. Hann skapaði meðal annars þáttaröðina Seinfeld ásamt Jerry Seinfeld. Einnig á hann heiðurinn að þáttaröðinni Curb Your Enthusiasm, sem er sýnd á HBO sjónvarpsstöðinni. David, Lawrence Gene Jerry Seinfeld. Jerome Seinfeld (fæddur 29. apríl 1954 í New York) er bandarískur uppistandari, leikari og handritshöfundur. Hann er þekktastur fyrir að leika útgáfu af sjálfum sér í þáttaröðunum Seinfeld, sem sýndir voru á árunum 1989 til 1998. Seinfeld, Jerome Seinfeld, Jerome Jason Alexander. Jason Alexander (fæddur sem Jason Scott Greenspan þann 23. september 1959) er bandarískur leikari og er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem George Costanza í þáttunum Seinfeld. Tenglar. Alexander, Jason Julia Louis-Dreyfus. Julia Scarlett Elizabeth Louis-Dreyfus (fædd 13. janúar 1961) er bandarísk leikkona og þekktust fyrir hlutverk sitt sem Elaine Benes í þáttaröðinni Seinfeld. Louis-Dreyfus, Julia Scarlett Elizabeth Michael Richards. Michael Anthony Richards (fæddur 24. júlí 1949) er bandarískur uppistandari og leikari. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Cosmo Kramer í þáttunum Seinfeld. Richards, Michael Anthony Richards, Michael Anthony Nýgræðingar. Nýgræðingar (á ensku: "Scrubs") er bandarískur gamanþáttur sem hóf göngu sína 2. október 2001 á NBC sjónvarpsstöðinni. Þátturinn var skapaður af Bill Lawrance og framleiddur af Touchstone Television. Þátturinn fjallar um starfs- og einkalíf margra aðila er starfa á Sacred Heart sjúkrahúsinu. Zach Braff. Zachary Israel Braff (fæddur 6. apríl 1975) er bandarískur leikari, leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi. Hann er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem J.D. í NBC þáttaröðinni Scrubs. Braff,Zachary Israel Sarah Chalke. Sarah Chalke (fædd 27. ágúst 1976 í Ottawa, Kanada) er kanadísk leikkona og þekktust fyrir hlutverk sitt sem Dr. Elliot Reid í NBC sjónvarpsþáttunum Scrubs. Chalke, Sarah Donald Faison. Donald Adeosun Faison (fæddur 22. júní 1974 í New York) er leikari af nígerískum ættum og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Christopher Turk í NBC sjónvarpsþáttunum Scrubs. Faison, Donald Adeosun Neil Flynn. Neil Richard Flynn (fæddur 13. nóvember 1960) er bandarískur leikari og er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem húsvörðurinn í NBC sjónvarpsþáttunum Scrubs. Flynn, Neil Richard Ken Jenkins. Ken Jenkins (fæddur 28. ágúst 1940) er bandarískur leikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Bob Kelso í NBC sjónvarpsþáttunum Scrubs. Jenkins, Ken John C. McGinley. John C. McGinley (fæddur John Christopher McGinley 3. ágúst, 1959) er bandarískur leikari, framleiðandi, handritshöfundur sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Scrubs, Office Space og Platoon. Einkalíf. McGinley fæddist í New York-borg en ólst upp í Millburn, New Jersey og er af írskum uppruna. Stundaði hann nám í leiklist við"Syracuse háskólann" og útskrifaðist síðan með MFA gráðu í leiklist við "Tisch School of the Arts" frá New York-háskólanum. McGinley er talsmaður bandarísku Downs-heilkennis samtakanna ("National Down Syndrome Society") en sonur hans Max er með Downs-heilkennið. McGinley var giftur Lauren Lambert frá 1997-2001 saman áttu þau eitt barn. Hefur verið giftur Nichole Kessler síðan 2007 og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Fyrsta leikhúshlutverk McGinley var árið 1984 í "The Ballad of Soapy Smith". Hefur hann síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Florida Crackers" og "Requiem for a Heavyweight". Hefur síðan í desember verið hluti af "Glengarry Glen Ross" þar sem hann leikur á móti Al Pacino og Richard Schiff. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk McGinley var árið 1985 í þættinum "Another World". Hefur hann síðan þá kom fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Frasier, The Practice, "The Nightmare Room", "Clone High", Justice League,Robot Chicken og Burn Notice. Frá 2001-2010 lék McGinley lækninn Perry Cox í lækna-gamanþættinum Scrubs. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk McGinley var árið 1986 í "Sweet Liberty" en sama ár fékk hann hlutverk í stríðsmyndinni Platoon þar sem hann lék liðþjálfann O´Neill á móti Charlie Sheen, Tom Berenger og Willem Dafoe. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Talk Radio, Born on the Fourth of July, Point Break, Born to Be Wild, Nixon, The Rock, Any Given Sunday, Identity, Wild Hogs og American Crude. Tenglar. McGinley, John C. Judy Reyes. Judy Reyes (fædd 5. nóvember 1967 í Bronx, New York) er leikkona af dóminísku bergi brotin og þekktust fyrir hlutverk sitt sem Carla Espinosa hjúkrunarkona í NBC sjónvarpsþáttunum Scrubs. Reyes, Judy Two and a Half Men. "Two and a Half Men" er bandarískur gamanþáttur sem var frumsýndur á CBS stöðinni mánudaginn 22. september 2003 klukkan hálf tíu. Charlie Sheen, Jon Cryer og Angus T. Jones fara með aðalhlutverkin. Þann 18. mars 2009 endurnýjaði CBS samninginn sem hljóðaði upp á að gera þrjár þáttaraðir í viðbót við þær sex sem komnar voru og verða því alls framleiddar níu þáttaraðir. Söguþráður. Aðalpersónur Two and a Half Men Þátturinn er um steftónskáldið Charlie, bróður hans Alan sem og son hans Jake sem er tíu ára þegar þættirnir hefjast. Frjáslegum lifnaðarhætti Charlies er snúið á hvolf þegar mágkona hans hendir bróður hans út eitt kvöldið og vill skilja við hann. Þá fer Alan til bróður síns og biður hann um að fá að gista í nokkra daga á meðan hann greiðir úr hlutunum. Alan flytur inn til Charlie, jafnvel þó að Charlie sé algjörlega á móti því, og sonur Alans býr hjá þeim um helgar. Chris Farley. Christopher Crosby Farley (15. febrúar 1964 – 18. desember 1997) var bandarískur leikari og grínisti. Hann öðlaðist frægð sína með leik í þáttunum Saturday Night Live og lék meðal annars í kvikmyndum á borð við Tommy Boy, Black Sheep og Beverly Hills Ninja. Farley lést úr ofneyslu eiturlyfja árið 1997. Farley, Christopher Crosby Veðkall. Veðkall (e. "margin call") er það kallað þegar sá sem veitir lán til verðbréfakaupa með veði í verðbréfunum sjálfum, þarf að kalla eftir auknum tryggingum fyrir láninu vegna þess að hin undirliggjandi eign, þe. verðbréfin, hafa fallið í verði. Í svona samningum er gjarnan gert ráð fyrir því að veðhlutfallið sé allt að 150% af upphæð lánsins og ef það fer niður fyrir 125% þurfi lántaki að afla aukinna trygginga. Ef lántaki getur ekki aflað aukinna trygginga getur lánveitandi gripið til þvingaðrar sölu, þ.e. selt hina undirliggjandi eign og gert upp lánssamninginn með söluandvirðinu. Veðsetningar og kaup á verðbréfum af þessu tagi eru oft kallaðir framvirkir samningar. Dæmi. Jón á hlutabréf í fyrirtækinu A hf að markaðsvirði 1 milljón. Hann vill gjarnan,gíra upp" þessa eign sína með framvirkum samning um kaup á hlutabréfum í fyrirtækinu B hf uppá 2 milljónir. Hann setur hlutabréfin í A hf. að veði svo og hlutina í B hf. Veðið er því uppá 3 milljónir fyrir láni uppá 2 milljónir, þ.e. veðhlutfallið er 150%. Nú fellur verð hlutabréfa í A og B hf. um 30%, þ.e. markaðsvirðið er orðið 2,1 milljónir. Veðhlutfallið er aðeins 105% og Jón má fara að eiga von á veðkalli fá lánveitanda sínum. Á Íslandi. Frá 10. október 2007 og framtil 27. nóvember 2007 féll verð hlutabréfa í íslensku kauphöllinni um næstum 21%. Talið er að íslensku bankarnir hafi í kjölfarið þurft að eiga u.þ.b. 600 veðköll og að á þeim tíma hafi allt að þriðjungur hlutabréfa verið veðsettur. Listi yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða. Þetta er listi yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða sem gefin er út í árlegum skýrslum Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1993. Vísitalan um þróun lífsgæða (VÞL) ber saman lífslíkur, læsi, menntun og lífsgæði landa um allan heim. Hún er notuð sem staðall til að tákna vellíðan, sérstaklega velferð barna. Hún er notuð til að greina hvort land sé þróað, þróunarland eða vanþróað og einnig til að mæla þau áhrif sem að efnahagsstefna hefur á lífsgæði. Vísitalan var þróuð árið 1990 af pakistanska hagfræðingnum Mahbub ul Haq og indverska hagfræðingnum Amartya Sen. Löndunum er hér skipt í þrjá flokka eftir VÞL-gildi þeirra: hátt, miðlungs og lágt. Hátt VÞL-gildi. !rowspan=2 width="75px" | VÞL2005 (útgefið 2007) ! width="75px" | gögn frá 2005 (gefin út 2007) ! width="75px" | Breyting miðað við gögn frá 2004 (gefin út 2006) Tengt efni. Vísitala um þróun lífsgæða Humrar. Humrar eru ætt krabbadýra af ættbálki skjaldkrabba. Humarinn er mönnum mikilvægur sem skelfiskur. Leturhumar er sú humartegund sem veiðist hér við land. Kolkrabbi. Kolkrabbar eru smokkar af ættbálki ("Octopoda"). Kolkrabbar eru með átta arma sem á eru ótalmargar sogskálar. Þeir lifa víða í úthöfum jarðar, en eru sérstaklega algengir við kóralrif. Til eru um það bil 300 tegundir kolkrabba. Smokkfiskur. Smokkfiskur (einnig nefndur smokkur, halafiskur eða höfuðfætingur'") er tíarma lindýr af ættbálki smokka ("Decapoda"). Hann lifir í sjó mjög víða, og sprautar bleki ef hann er áreittur. Guðmundur G. Hagalín, rithöfundur, nefndi smokkfiskinn "hinn þorskhættulega blekbullara sjávarins". Smokkfiskur var mikið notaður til beitu hér áður fyrr og þá nefndur "beitusmokkur". Búrhvalur og grindin nærist mikið á smokkfiski. Fágað fall. Fágað fall er raungilt fall, sem setja má fram með veldaröð, sem er a.m.k. samleitin innan tiltekins samleitnibils. Fáguð föll eru óendanlega oft deildanleg og eru í raun Taylorröð fallsins í nágrenni tiltekins punkts. Fáguð föll, sem skigreind eru á hlutmengi tvinntalnasléttunnar, kallast tvinnfáguð föll og eru þau samletin innan s.n. samleitnigeisla. Tvinnfágað fall, skilgreint á allri tvinntalnasléttunni, nefnist heilt fall. Dæmi um fáguð föll: margliða, hornafall, veldisfall og logri. Hillerød. Hillerød er bær á Norður-Sjálandi í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins var 29.382 árið 2007. Nykøbing Mors. Nykøbing Mors er stærsti bær á eyjunni Mors á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1299 og er íbúafjöldi 9.357 (2006). Nibe. Nibe er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn liggur við Limafjörð og tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu. Íbúafjöldi bæjarins er 4.632 (2006). Storvorde. Storvorde er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og er íbúafjöldi bæjarins um 2.500 manns. Vodskov. Vodskov er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og er um 11 km norðaustan við Álaborg. Íbúafjöldi bæjarins er 4.371 (2007). Vestbjerg. Vestbjerg er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og liggur um 10 – 12 km norðan frá Álaborg. Íbúafjöldi bæjarins er um 3.000 manns. Vaarst. Vaarst er lítill bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og liggur um 16 km suður frá Álaborg. Íbúafjöldi bæjarins er um 800 manns. Hals. Hals er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Hægt er að taka ferju frá bænum yfir Limafjörðinn til bæjarins Egense sem liggur sunnanmegin við fjörðinn. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og er íbúafjöldi bæjarins 2.479 (2006). Ulsted. Ulsted er lítill bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og er íbúafjöldi bæjarins 1.088 (2005). Kongerslev. Kongerslev er bær á Norður-Jótlandi í Danmörku. Bærinn tilheyrir Álaborgar sveitarfélaginu og er íbúafjöldi bæjarins 1.315 (2006). Ebeltoft. Ebeltoft er bær á suðaustur hluta Jótlands í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins er 5.694 (2004). Kalundborg. Kalundborg er danskur kaupstaður á norðvestur Sjálandi. Íbúafjöldi bæjarins er 16.360 (2007) en áður fyrr hét bærinn Kallundborg. Ribe. Rípar (danska: "Ribe") eru bær á suðvestra Jótlandi í Danmörku og tilheyrir hann Sveitarfélaginu Esbjerg. Íbúafjöldi bæjarins er 7.990 (2004) Litlabelti. Litlabelti er mjótt sund sem liggur á milli Fjóns og Jótlands. Mesta dýpt sundsins er um 75 metrar og er það því dýpra en Stórabelti. Tvær brýr liggja yfir sundið, Gamla Litlabeltisbrú sem byggð var á árunum 1929 – 1935 og Nýja Litlabeltisbrú sem var byggð á árunum 1965 – 1970. Stórabelti. Stórabelti er sundið á milli Sjálands og Fjóns í Danmörku. Mesta dýpt sundsins er um 60 metrar. Yfir sundið liggur Stórabeltisbrúin, frá Korsør á Sjálandi til Nyborg á Fjóni með viðkomu á Sprogø, sem er smáeyja í miðju sundinu. Stórabelti er stærsta og mikilvægasta sundið af þeim þremur sem tengja Kattegat við Eystrasalt, hin eru Eyrasund og Litlabelti. Nysted. Nysted er bær á suðaustur horni Lálands í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins er 1.381 (2004). Skanderborg. Skanderborg er danskur kaupstaður á Austur-Jótlandi. Íbúafjöldi bæjarins er 13.423 (2006). Sæby. Sæby er danskur hafnarbær austanvert á Norður-Jótlandi í Danmörku. Íbúafjöldi bæjarins er 8.392 (2006) Þemakort. Þemakorti hefur gjarnan verið líkt við bók sem fjallar um eitt ákveðið viðfangsefni. Á þeim er reyt að gera viðfangsefninu sem ítarlegust skil. þessi kort þurfa reyndar að búa yfir ákveðnum grunnupplýsingum sem geta verið breytilegar eftir því hvaða viðfangsefni er til umfjöllunar hverju sinni. Möguleikar á viðfangsefnum þemakorta eru nánast óendanlegir. Vér mótmælum allir. „Vér mótmælum allir“ eru fræg íslensk mótmæli sem kennd eru við Jón Sigurðsson, mælt á þjóðfundi árið 1851 sem Danska stjórnin boðaði til í Reykjavík þann 9. ágúst. Danska stjórnin lagði fram frumvarp og ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun þar sem réttindi Íslendinga væru nær engin og lítið tillit tekið til óska þeirra. Þá lögðu hinir íslensku fulltrúar fram annað frumvarp að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Konungsfulltrúanum líkaði ekki við frumvarp Jóns og ákvað hann að leysa fundinn upp í nafni konungs. Þegar fundinum var slitið mótmælti Jón Sigurðsson lögleysu fulltrúa Danakonungs en flestir fundarmenn risu úr sætum og mæltu flestir einum rómi „Vér mótmælum allir!“ og er það einn mikilvægasti atburður í baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Sjálfstæðisbaráttan einkenndist af þjóðernisvitund Íslendinga og hugmyndum um glæsta fortíð. Jón Sigurðsson grípur fram í. 8. ágúst boðaði forseti til fundar um hádegi daginn eftir, en þá mundi konungsfulltrúi bera fram erindi nokkurt við fundarmenn. Fundur þessi, einn hinn sögulegasti í þingsögu Íslendinga, hófst á tilsettum tíma 9. ágúst. Tók Trampe þá til máls og var allþungorður í garð fundarmanna og þó einkum stjórnlaganefndarinnar. Kvað hann málum nú í óvænt efni komið, en tilgangslaust væri að halda slíku áfram og myndi hann því slíta fundinum þá þegar. "„Og lýsi ég því yfir, í nafni konungs...“" Jón Sigurðsson grípur fram í: "„Má ég biðja mér hljóðs, til að forsvara aðgerðir nefndarinnar og þingsins?“" Páll Melsted: "„Nei.“" Jón Sigurðsson: "„Þá mótmæli ég þessari aðferð...“" Um leið og Trampe og forseti Páll Melsted viku frá sætum sínum, mælti Trampe: "„Ég vona, að þingmenn hafi heyrt, að ég hef slitið fundinum í nafni konungs.“" Jón Sigurðsson: "„Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“" Þá risu þingmenn upp og mæltu nálega í einu hljóði: "„Vér mótmælum allir.“" Bersi Skáld-Torfuson. Bersi Skáld-Torfuson (d. 1030) var íslenskt skáld úr Miðfirði. Hann fæddist á bæ sem hét Torfustaðir og var kenndur við móður hans, Skáld-Torfu. Frá honum segir í Ólafs sögu helga og Grettis sögu. Bersi gekk í þjónustu Sveins jarls Hákonarsonar og var hirðskáld hans. Eftir Nesjaorustu, sem fram fór 25. mars 1016, komst hann á vald Ólafs konungs Haraldssonar (Ólafs digra) og varð hirðskáld hans. Hjá Ólafi komst hann í kynni við Sighvat Þórðarson skáld og gekk síðar með honum til Rómabogar árið 1030. Um haustið á leiðinni heim hittu þeir norræna menn í Mundíufjöllum sem sögðu þeim lát Ólafs að Stiklastöðum um sumarið. Þá sneri Bersi við og gekk aftur til Rómaborgar, og segir sagan að þegar hann kom þangað aftur, hafi hann gengið inn í Péturskirkjuna og sprungið þar af harmi, og sé hann grafinn að þeirri kirkju. Czesław Miłosz. Czesław Miłosz (30. júní 1911 – 14. ágúst 2004) var pólskt skáld, rithöfundur og þýðandi. Czesław Miłosz fæddist í Šateiniai (Pólska: "Szetejnie") í Litáen, en hann leit alla tíð á sig sem pólskt skáld. Hann sagði þó eitt sinn í viðtali: "Ég er Litái sem var ekki gefið að vera Litái". Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1980. Czesław Miłosz var virkur í andspyrnuhreyfingunni gegn Þjóðverjum í Seinni heimsstyrjöldinni, en kaus að setjast að í Bandaríkjunum á sjötta áratug 20. aldar, og kenndi lengi vel við háskólann í Berkeley. Uppgjöri sínu við kommúnismann lýsir Miłosz í bókinni Hugsun í ánauð. Miłosz er talinn hafa náð mestum árangri í ljóðagerð, en hann var einnig atkvæðamikill ritgerðahöfundur og þýðandi. Meðal þess helsta á þýðingasviðinu sem liggur eftir hann er Jobsbók á pólsku, en biblíuefni og klassísk minni eru áberandi í skáldskap hans. Tenglar. Miłosz, Czesław Miłosz, Czesław Keltneskar þjóðir. Keltnesku þjóðirnar eru 6 þjóðir og þjóðarbrot sem tala keltnesk tungumál og búa á stöðum sem keltar rekja uppruna sinn til. Roland Schimmelpfennig. Roland Schimmelpfennig (fæddur 1967 í Göttingen í Þýskalandi) er þýskur leikritahöfundur. Hann lærði leikstjórn í Otto Falkenberg-leiklistarskólanum í München og hefur starfað sem aðstoðarleikstjóri, leikstjóri og dramatúrgur. Fyrsta leikrit hans er frá árinu 1996. Leikrit hans, "Arabíska nóttin", var flutt í Útvarpsleikhúsinu og leikrit hans "Konan áður" var sett upp á smíðaverkstæði Þjóðleikhússins haustið 2007. Konan áður var frumflutt í Burgtheater í Vínarborg haustið 2004. Reynir Oddsson. Reynir Oddsson (f. 12. ágúst 1936) er íslenskur ljósmyndari. Hann var einnig frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð og var langt á undan sinni samtíð þegar hann skrifaði, framleiddi og leikstýrði sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd Morðsaga. Júlíus Kemp. Júlíus Kemp (f. 2. desember 1967) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur framleitt fjölda mynda fyrir kvikmyndafyrirtækið Kvikmyndafélag Íslands og leikstýrt þrem kvikmyndum, Veggfóðri, 810551 og Reykjavik Whale Watching Massacre. Appelsínusafi. Appelsínusafi er ávaxtasafi sem kreistur er úr appelsínum. Helsti útflytjandi appelsínusafa í heiminum eru Bandaríkin, og þar á eftir Argentína. Pentagon. Pentagon (e. "The Pentagon") er höfuðstöðvar af Varnarmálastofnunar Bandaríkjanna í Arlington, Virginíu í Bandaríkjunum. Byggingin er tákn varnar og hers í Bandaríkjunum. George Bergstrom hannaði bygginguna. Hafist var handa við að reisa hana árið 1941 en byggingin var tekin í notkun árið 1943. Pentagon er stærsta skrifstofubygging í heimi. Um það bil 26.000 starfsmenn vinna þar. Árið 2001 flaug flugvél á eina hlið byggingarinnar í hryðjuverkunum 11. september 2001. Álasund. Álasund (norska: "Ålesund") er borg á vesturströnd Noregs. Íbúafjöldi Álasunds er 41.774 (2007). Lillehammer. Lillehammer er norskur bær og er íbúafjöldi bæjarins 25.689 (2007). Lillehammer hélt 17. vetrarólympíuleikana 1994. Árnýöld. Árnýöld er heiti sem sagnfræðingar nota stundum yfir ákveðið tímabil í sögu Vestur-Evrópu og fyrstu evrópsku nýlendnanna og nær yfir tvær aldir frá lokum miðalda fram að iðnbyltingunni. Þetta tímabil einkennist af síauknu mikilvægi raunvísinda, uppgangi fyrstu kapítalísku hagkerfanna og þjóðríkishugmynda. Tímabilið nær yfir endurreisnina, siðbreytinguna og upphaf upplýsingarinnar. Lok tímabilsins eru yfirleitt miðuð við frönsku byltinguna 1789 eða upphaf iðnbyltingarinnar um aldamótin 1800. Kirkja heilagrar Súsönnu. Kirkja heilagrar Súsönnu (ítalska: "Santa Susanna") er kirkja sem stendur á Kvirinalhæð í Róm og er kennd við heilaga Súsönnu frá árinu 565. Hús sem þjónaði því hlutverki að vera fundarstaður kristinna var reist á þessum stað árið 280. Sagt er að húsið hafi opinberlega orðið að kirkju árið 330 í valdatíð Konstantínusar 1. Sergíus 1. páfi lét gera við kirkjuna á 7. öld en 796 lét Leó 3. páfi endurbyggja hana frá grunni. Framhlið kirkjunnar var fyrsta verkefnið sem svissneski arkitektinn Carlo Maderno fékk í eigin nafni í Róm. Hann lauk við framhliðina árið 1603 en hún hafði mikil áhrif á barokkið í byggingarlist. Framhliðin þótti takast svo vel að Páll 5. páfi fékk Maderno til að ljúka við kirkjuskipið og hanna framhlið Péturskirkjunnar. Orfeus (ópera). Formálinn úr fyrstu prentútgáfu óperunnar frá 1609. "Orfeus" (ítalska: "L'Orfeo, favola in musica") er eitt af fyrstu verkunum sem kallað er ópera. Tónlistin var samin af Claudio Monteverdi við texta Alessandro Striggio fyrir kjötkveðjuhátíð í Mantúu og fyrst sett á svið 24. febrúar árið 1607. Hún var fyrst gefin út á prenti í Feneyjum 1609. Óperan byggist á grísku goðsögunni um Orfeus og Evridís. Hún er í fimm þáttum með formála. Klemens 8.. Klemens 8. (24. febrúar 1536 – 3. mars 1605) sem hét upphaflega Ippolito Brandini, var páfi frá 30. janúar 1592 til dauðadags. Hann fæddist í Fano í Marke en fjölskylda hans var frá Flórens. Hann varð kardináli 1585 og var sendur sem legáti til Póllands þar sem hann átti hlut í því að fá Maximilían 3. erkihertoga látinn lausan en hann var í haldi Pólverja eftir misheppnaða tilraun til að taka völdin eftir lát Stefáns Báthory. Hann var kjörinn páfi eftir lát Innósentíusar 9. 1591 sem málamiðlun milli óska Filippusar 2. og ítölsku kardinálanna. 1593 tók Hinrik 4. af Navarra upp kaþólska trú til að geta gerst konungur Frakklands. 1595 leysti Klemens hann undan öllum syndum, gagnstætt óskum Filippusar. Á móti aðstoðaði Hinrik Klemens við að bæta hertogadæminu Ferrara við lönd kirkjunnar þegar Alfons 2. hertogi af Ferrara lést barnlaus 1597. 1597 setti hann upp ráðið "Congregatio de Auxiliis" til að kveða úr um deilu dóminíkana og jesúíta um hlutverk frjáls vilja gagnvart ómótstæðilegri náð og lauk með því að fordæma áherslu molinisma á frjálsan vilja. Árið eftir, eða 1598, hafði Klemens milligöngu um sáttagerð, Friðsarsamninginn í Vervins, milli Hinriks og Filippusar, sem fól í sér að Filippus kallaði hersveitir sínar burt frá Frakklandi. 1600 var hátíðarár og þrjár milljónir pílagríma komu til Rómar. Það ár staðfesti Klemens dauðadóm yfir Giordano Bruno sem var brenndur á báli 17. febrúar. Fimm árum síðar lést Klemens úr þvagsýrugigt sem hrjáði hann á efri árum. Hans var einkum minnst fyrir stjórnkænsku sína og þá hörku sem hann sýndi sakamönnum og gyðingum. Leó 11.. Leó 11. (2. júní 1535 – 27. apríl 1605) hét upphaflega Alessandro Ottaviano de' Medici og var kjörinn páfi 1. apríl 1605 þá nærri sjötugur að aldri. Strax eftir krýninguna veiktist hann og lést tæpum mánuði síðar. Hann var því kallaður „eldingarpáfinn“ ("Papa Lampo"). Hann fæddist í Flórens, sonur Francescu Salviati sem var dóttir Lucreziu de'Medici, eldri dóttur Lorenzos hins mikilfenglega. Hann var skipaður prestur af Kosímó 1. stórhertoga sem gerði hann að sendimanni sínum við hirð Píusar 5. Gregoríus 13. skipaði hann biskup í Pistoia 1573, erkibiskup í Flórens 1574 og kardinála 1583. 1596 sendi Klemens 8. hann til Frakklands til hirðar Mariu de'Medici. Kjör hans 1605 var tryggt með bandalagi ítölsku og frönsku kardinálanna og stutt af Hinriki 4. Frakkakonungi gegn óskum Filippusar 3. Spánarkonungs. Regnhlíf. Regnhlíf er hringlaga vatnsheldur dúkur á pjáturgrind sem fella má saman niður að (krók)skafti og er haldið yfir höfði til að verjast regni. Sumar tegundir regnhlífa er einnig hægt að nota, þegar þær eru ekki að hlífa eiganda sínum fyrir regni, sem göngustaf. Gerningaveður. Gerningaveður er óveður sem (fjölkunnugur) maður hefur "gert á einhvern" sem er á sjó og á að valda drukknun viðkomandi. Talað var einnig um að "gera einhverjum gerningaveður" eða "gera gerningaveður að einhverjum". Gerningaveður er þó oftast haft í merkingunni fárviðri. Sinclair Lewis. Sinclair Lewis (7. febrúar 1885 – 10. janúar 1951) var bandarískur rithöfundur sem skrifaði jöfnum höndum skáldsögur, smásögur og leikrit. Lewis var alltaf nálægt kviku hins bandaríska þjóðfélags í verkum sínum, gagnrýndi það ísmeygilega og hið kapítalíska gildismat, ásamt því að framfæra sterkar kvenpersónur. Árið 1930 varð Sinclair Lewis fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að hljóta Bókmenntaverðlaun Nóbels. Sinclair Lewis fæddist í Sauk Centre, Minnesota, var skírður "Harry Sinclair Lewis" og hóf á unga aldri að lesa bækur og halda dagbók. Hann reyndi að flýja að heiman 13 ára og verða trommuleikari í spænsk-amaríska stríðinu, en án árangurs. Hann hóf þá að skrifa ljóð og seinna rómantískar sögur. Hann reis þó fyrst til metorða eftir útkomu fyrstu alvöru bókar sinnar, Main Street sem kom út 1920, en hún seldist miklu betur en hinar söluvænlegu bækur, sem hann hafði áður skrifað. Á þeim árum seldi hann jafnvel Jack London söguþræði fyrir lágar upphæðir, en þeir höfðu kynnst þegar Sinclair tók viðtal við hann. Bók Sinclair Lewis, "Main Street", fjallar um "Carol Milford", konu sem flytur eftir giftingu með eiginmanni sínum í smábæ í Bandaríkjunum og reynir að hefja sig upp yfir uppvask og staðalímyndir. Bókin varð strax hreinasta útgáfuundur, og seldist eins og heitar lummur. Þekktasta bók hans ásamt Main Street, var Babbitt sem kom út tveimur árum seinna, eða 1922. Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Einarssonar árið 1943 ("Babbitt"). Sinclair Lewis sem lengi hafði hallaði sér að flöskunni, lést í Rómaborg 1951. Tenglar. Lewis, Sinclair Selma Lagerlöf. Selma Ottilia Lovisa Lagerlöf (20. nóvember 1858 – 16. mars 1940) var sænskur rithöfundur. Hún var fyrsta konan sem var tekin inn í Sænsku Akademíuna ("Svenska Akademien") og fyrsta konan sem hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels, en hún tók við þeim árið 1909. Hún var auk þess fyrsti Svíinn sem þessi verðlaun hlaut. Selma fæddist í Mårbacka í Vermalandi. Hún var veik í æsku, en hafði gaman af að lesa og ákvað ung að verða rithöfundur. Hún starfaði lengi sem kennari, en eftir að hafa sigrað verðlaunasamkeppni í tímaritinu Idun tók hún að skrifa skáldsögu í fullri lengd. Það var Gösta Berlings saga sem út kom 1891. Bókin fékk misjafnar undirtektir, en telst nú til klassískra sænskra bókmennta. Frægust bóka hennar er þó Nilli Hólmgeirsson og ævintýraför hans um Svíþjóð ("Nils Holgerssons underbara resa genom Sverige") sem út kom á árunum 1906-1907. Bókin átti í fyrstu aðeins að vera dulin landafræðikennsla sem aðalpersónan Nilli rammar inn með sögu sinni og ferðalagi um Svíþjóð á baki gæsa. En bókin var þýdd á fjölda tungumála og lesin víða. Meðal annarra frægra verka Selmu mætti nefna Jerúsalem (útg. 1901-1902), sem hún skrifaði eftir að hafa ferðast um Miðausturlönd með vinkonu sinni, Sophie Elkan. Auk þess mætti nefna bók hennar ("Kejsarn av Portugallien") sem Björn Bjarnason þýddi og kom út hér á landi 1918. Sú bók segir af bónda í Vermalandi sem tekur að trúa því eftir að dóttir hans fer að heiman að hann sé Portugalskeisari. Rithöfundurinn P.O. Enquist hefur haldið því fram að bókin sé í raun dulbúin uppreisnarsaga hennar sjálfrar gegn föður sínum, en faðir hennar var á móti að hún færi í framhaldsnám, en hún fór samt. Sköpunarkveikja þeirrar bókar hefur einnig verið sögð vera samviskubit hennar vegna aðgerðarleysis hennar á yngri árum þegar faðir hennar barðist við skuldir og alkólisma, en hið síðarnefnda dró hann til dauða. Tenglar. Lagerlöf, Selma Ólafur Sveinsson. Ólafur Sveinsson er íslenskur kvikmyndaleikstjóri og er búsettur í Berlín. Ólafur hefur numið nám í almennri bókmenntafræði og heimspeki við Háskóla Íslands og útskrifaðist af leikstjórnarbraut frá Deutsche Film- und Fernsehakademie Berlin (þýska kvikmynda- og sjónvarpsakademían í Berlín) haustið 1998. Hlemmur (kvikmynd). Hlemmur er íslensk heimildarmynd sem kom út árið 2001 í leikstjórn Ólafs Sveinssonar. Myndin fjallar um ógæfufólk í Reykjavík sem eyðir flestum sínum stundum á stoppistöðinni Hlemmur. Hljómsveitin Sigur Rós sá um tónlistina fyrir kvikmyndina. Mótmælandi Íslands (kvikmynd). Mótmælandi Íslands er íslensk heimildarmynd í leikstjórn Þóru Fjeldsted og Jón Karls Helgasonar. Myndir segir frá Helga Hóseassyni sem er virkur mótmælandi varðandi allskyns málefni á Íslandi. Hann hefur stundað sín óvenjulegu mótmæli í áratugi og vanalega með útbúning á skrautlegum skiltum sem hann ráfar svo þögull með á Langholtsvegi. Helgi komst í fréttirnar á áttunda áratug síðustu aldar þegar hann sletti skyri yfir þingmenn er voru á leið inn á Alþingi. Ben Stiller. Benjamin Edward Stiller (fæddur 30. nóvember 1965) er bandarískur leikari, grínisti, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri. Hann er sonur leikarans Jerry Stiller og Anne Meara en þau eru bæði þaulreynd í kvikmyndaiðnaðinum. Sjá einnig. Stiller, Benjamin Edward Rutherford B. Hayes. Rutherford Birchard Hayes (4. október 1822 – 17. janúar 1893) var bandarískur stjórnmálamaður, lögfræðingur, hershöfðingi og 19. forseti Bandaríkjanna. Hann þjónaði því embætti frá árinu 1877 til 1881. Hayes var kjörinn forseti með eins atkvæða mun í umdeildum kosningum árið 1876. Hayes, Rutherford Birchard James Garfield. James Abram Garfield (19. nóvember 1831 – 19. september 1881) var hershöfðingi í Bandaríkjaher og 20. forseti Bandaríkjanna. Hann gegndi því embætti frá 4. mars 1881 til 19. september 1881. Ferill. Garfield var af velskum ættum og fæddist í bjálkakofa í Ohio. Þegar hann var á öðru ári lést faðir hans og var hann alinn upp af móður sinni, systrum hennar og frænda sínum. Hann var framúrskarandi námsmaður og stundaði nám við Williams College í Williamstown í Massachusetts. Hann stundaði kennslustörf um skeið en lærði síðan lögfræði og starfaði sem lögmaður frá 1860. Nokkru fyrr hóf hann þátttöku í stjórnmálum og var kjörinn á ríkisþing Ohio fyrir repúblikana 1859. Hann gekk í herinn þegar borgarastyrjöldin hófst og hlaut þar skjótan frama. Á meðan styrjöldin stóð var hann kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þingið kom ekki saman fyrr en alllöngu síðar og hann hélt áfram herþjónustu um skeið og var á þeim tíma gerður að hershöfðingja. Hann sagði þó af sér þegar hann settist á þing í desember 1863. Hann var svo endurkjörinn þingmaður á tveggja ára fresti, síðast 1878. Árið 1880 var Garfield kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Ohio en náði aldrei að setjast í öldungadeildina því þegar ekki tókst á flokksþingi repúblikana að ná fram niðurstöðu um forsetaframbjóðanda var leitað til Garfields og varð úr að hann bauð sig fram. Andstæðingur hans var demókratinn Winfield Scott Hancock. Rúmlega níu milljónir manna greiddu atkvæði og fékk Garfield aðeins um 1900 fleiri atkvæði en Hancock en hins vegar 214 kjörmenn móti 155. Banatilræði og dauði. Garfield náði ekki að setja mark sitt á forsetaembættið því að hann hafði aðeins verið í embætti tæpa fjóra mánuði þegar hann var skotinn tveimur skotum á járnbrautarstöð í Washington DC þann 2. júlí 1881. Tilræðismaðurinn var Charles J. Guiteau, geðsjúkur lögfræðingur sem hafði hvað eftir annað sótt um ýmis opinber embætti en verið hafnað. Önnur kúlan straukst við handlegg Garfields en hin sat föst í brjóstholinu og fannst ekki. Garfield lá rúmfastur í Hvíta húsinu í tvo mánuði, sífellt verr haldinn vegna sýkinga út frá skotsárinu og mistaka læknanna sem meðhöndluðu hann. Reynt var að flytja hann í sumarhús við ströndina honum til heilsubótar en allt kom fyrir ekki. Hann fékk blóðeitrun og svæsna lungnabólgu sem leiddi að lokum til þess að hann lést úr hjartabilun þann 19. september. Varaforsetinn, Chester A. Arthur, tók þegar við embættinu. Morðingi Garfields, Guiteau, var dæmdur til dauða og hengdur 30. júní 1882. Kona Garfields var Lucretia Rudolph (19. apríl 1832 – 14. mars 1918). Þau áttu fimm börn sem náðu fullorðinsaldri. Garfield, James Abram Chester A. Arthur. Chester Alan Arthur (5. október 1829 – 18. nóvember 1886) var bandarískur stjórnmálamaður og 21. forseti bandaríkjanna. Hann þjónaði því embætti frá 1881 til 1885. Arthur, Chester Alan Grover Cleveland. Stephen Grover Cleveland (18. mars 1837 – 24. júní 1908) var 22. og 24. forseti bandaríkjanna. Hann þjónaði því embætti frá 1885 til 1889 og aftur frá 1893 – 1897. Cleveland, Stephan Grover Bil (stærðfræði). Bil eða talnabil er hugtak í stærðfræðinni sem vísar til samhangandi hlutmengis rauntalnaássins, sem afmarkast af tveimur endapunktum eða jaðarpunktum bilanna. Bil geta verið lokuð, opin eða "hálfopin/-lokuð". "Hálfbil" eru opin eða hálfopin bil, þar sem annar endapunktanna er óendanlegur (∞). Þannig bil eru hálflínur. Líta má á rauntalnaásinn R, sem opið bil með báða endapunkta óendanlega, þ.e. R:=]-∞,+∞[. (Sjá einnig útvíkkaði rauntalnaásinn.) Bil á tímaásnum kallast tímabil. Framsetning bila. Talnabilið á milli formula_1 og formula_2 þar sem tölurnar formula_1 og formula_2 eru báðar taldar með er oft táknað sem formula_5 þar sem tölurnar tvær kallast endapunktar talnabilsins. ISO-ritháttur. þar sem formula_10, formula_11 og formula_12 tákna tómt mengi og formula_13 táknar mengið formula_14. Annar ritháttur. þar sem formula_19, formula_20 og formula_21 tákna tómt mengi og formula_13 táknar mengið formula_14. Benjamin Harrison. Benjamin Harrison (20. ágúst 1833 – 13. mars 1901) var 23. forseti bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1889 til 1893. Hann er til dagsins í dag sá eini forseti sem komið hefur frá Indiana. Harrison, Benjamin Þorláksbiblía. Þorláksbiblía er önnur heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð á Hólum í Hjaltadal og kennd við Þorlák Skúlason biskup þar. Á varðveittum eintökum má bæði sjá titilblöð með ártalinu 1637 og 1644, mun hið fyrra gert við upphaf prentunar og hið síðara þegar prentun bókarinnar var lokið. Árið 1634 var hálf öld frá því að Guðbrandsbiblía kom út. Var þá orðinn skortur á biblíum, bæði í kirkjum og meðal efnamanna, sem vildu eignast eintak. Þorlákur Skúlason biskup á Hólum fór þá að undirbúa aðra útgáfu. Kristján 4. Danakonungur gaf út bréf 22. apríl 1635, þar sem allar sóknarkirkjur á Íslandi voru skyldaðar til að leggja fram einn ríkisdal til verksins, auk þess sem konungur lagði fram 200 ríkisdali og afgjald af jörðinni Núpufelli í Eyjafirði, til að greiða prenturum laun. Við undirbúning útgáfunnar lagði Þorlákur Guðbrandsbiblíu til grundvallar, en sumstaðar var orðum umskipt eða greinum, eftir danskri Biblíu, og Biblíu Lúthers, „eftir því sem eg hefi meint fyrir Guði hentugast og réttast vera, svo sem gjör má sjá ef textarnir eru saman bornir“, segir Þorlákur. Þetta mun vera ástæða þess að Þorláksbiblía hefur þótt bera nokkur merki danskrar tungu. "Þorláksbiblía" er vegleg bók, í sama broti og fyrirrennari hennar (folio), en þó er heldur minna lagt í útlit og frágang. T.d. eru aðeins fjórar myndir í bókinni, á móti 30 í Guðbrandsbiblíu. Upphafsstafir kafla og annað skraut er að mestu fengið úr Guðbrandsbiblíu. Eitt hafði Þorláksbiblía þó fram yfir: Þar er í fyrsta sinn notuð tölumerkt versaskipting, en í Guðbrandsbiblíu voru aðeins kaflarnir tölusettir. Eins og fyrr er sagt mun prentun Þorláksbiblíu hafa tekið 7 ár, með nokkrum hléum, því að fleiri bækur voru prentaðar á Hólum á því tímabili. Óvíst er hvert upplag bókarinnar var, í ungum heimildum er það sagt 1.000 eintök, en líklegra er að það hafi verið svipað og upplag Guðbrandsbiblíu, um 500 eintök, því að Þorláksbiblía er nú talin fágætari. Páll 5.. Páll 5. (17. september 1552 – 28. janúar 1621) hét upphaflega Camillo Borghese og varð páfi 16. maí 1605 til dauðadags. Hann var af hinni frægu Borghese-ætt sem var upprunalega frá Siena en hafði skömmu áður flust til Rómar. Hann hóf feril sinn sem lögfræðingur með próf frá háskólunum í Perugia og Padúu. 1596 gerði Klemens 8. hann að kardinála og yfirdjákna (biskupsfulltrúa) Rómar. Þegar Leó 11. lést í apríl 1605 varð Borghese kardináli fyrir valinu þar sem hann þótti hlutlausari en ýmsir augljósari kostir eins og kardinálarnir Roberto Bellamino og Cesare Baronio. Hans fyrsta verk var að senda þá biskupa sem héldu til í Róm til biskupsdæma sinna þar sem Kirkjuþingið í Trentó hafði kveðið á um að biskupar skyldu búa í biskupsdæmi sínu. Hann stofnaði einnig Banka heilags anda sem starfaði til 1992 þegar hann sameinaðist Rómarbanka. Árið 1606 komu upp harðar deilur milli Feneyja og páfadóms út af tveimur prestum sem hafði verið stungið í fangelsi í Feneyjum. Páll krafðist þess að þeir yrðu framseldir í hendur kirkjunnar þar sem hún ætti dómsvald yfir þeim en Feneyjar neituðu. Páll bannfærði þá stjórn borgarinnar og setti bann á alla borgina. Allir kirkjunnar menn í Feneyjum, fyrir utan jesúíta, kapúsína og þeatína, stóðu þá með borginni og messur voru áfram sungnar og hátíðir kirkjunnar haldnar með miklum glæsibrag. Í mars 1607 náðist samkomulag fyrir milligöngu Frakka og Spánverja. Páll sendi Jakobi 1. hamingjuóskir þegar hann varð konungur 1606 en bréfið barst þremur árum of seint. Hann ræddi um Púðursamsærið í bréfinu og bað Jakob um að láta ekki saklausa kaþólska þegna hans líða fyrir glæpi fárra. Bréfið stoðaði lítt málstað kaþólskra í Englandi þar sem fólk var þegar sannfært um að útsendarar páfa hefðu tengst samsærinu. Árið 1615 tók Páll páfi á móti japanska sendimanninum Hasekura Tsunenaga sem óskaði eftir áheyrn varðandi verslunarsamning milli Japans og Mexíkó og að páfi sendi kristna trúboða til Japan. Nokkrum árum síðar leiddi þetta til þess að kristni var útrýmt í Japan af Tokugawa Hidetada með því að kristnum japönum var gert að ganga opinberlega af trúnni eða deyja. Páll hitti Galileo Galilei árið 1616 eftir að Bellamino hafði hvatt Galileo til að verja ekki sólmiðjukenningu Kópernikusar, sem kom ekki í veg fyrir að hann gæti rætt um hana sem tilgátu. Smjörbolla. Smjörbolla er blanda af hveiti og feiti sem notuð er sem grunnur fyrir sósur, eggjafrauð, súpur og pottrétti. Algeng feiti er smjör, jurtaolía og mör. Smjörbolla er grunnurinn í þremur af fimm grunnsósum franskrar matargerðar. Smjörbolla er gerð með því að bræða feitina í potti og þeyta svo jafn miklu magni af hveiti út í með þeytara þar til allt er blandað saman og engir kekkir finnast. Blandan er soðin áfram til að leysa hveitið örugglega upp í feitinni. Þegar hún hefur soðið vissan tíma tekur hún á sig dekkri lit þar sem hveitið tekur að brúnast. Þetta er notað til að fá réttan lit á brúnar sósur. Þegar smjörbollan er orðin á litinn eins og til stóð er hún þynnt smám saman með mjólk, soði eða öðrum vökva, þar til réttri þykkt er náð. Notkun á mjöli til að þykkja sósur er að minnsta kosti þekkt frá tímum Rómaveldis. Hin eiginlega smjörbolla á hugsanlega uppruna sinn í Sauce Robert, sósu sem var vinsæl með kjötréttum í Frakklandi á 16. og 17. öld. Listi yfir páfa. Ljósmynd af marmaraplötu í Péturskirkjunni í Róm þar sem nöfn páfa eru upptalin Listi yfir páfa kaþólsku kirkjunnar frá upphafi til dagsins í dag. 2. öld. 6. Hl. Alexander I 105 - 115. 7. Hl. Sixtus 115 - 125. 8. Hl. Telesfórus 126 - 137. 9. Hl. Hygníus 136 - 140. 10. Hl. Píus I 140 - 155. 11. Hl. Anísetus 155 - 166. 12. Hl. Soterus 166 - 175. 13. Hl. Elevþeríus 175 - 189. 14. Hl. Viktor I 189 - 199. 15. Hl. Sefirínus 199 - 217. 3. öld. 16. Hl. Kalixtus I 217 - 222. 17. Hl. Úrbanus 222 - 230. 18. Hl. Pontíanus 21. júlí 230 - 28. september 235. 19. Hl. Anþeros 21. nóvember 235 - 3. janúar 236. 20. Hl. Fabíanus 10. janúar 236 - 20. janúar 250. 21. Hl. Kornelíus mars 251 - júní 253. 22. Hl. Lúsíus 25. júní 253 - 5. mars 254. 23. Hl. Stefán 12. maí 254 - 2. ágúst 257. 24. Hl. Sixtus II 30. ágúst 257 - 6. ágúst 258. 25. Hl. Díonýsíus 22. júlí 259 - 26. desember 268. 26. Hl. Felix I 5. janúar 269 - 30. desember 274. 27. Hl. Evtýsíanus 4. janúar 275 - 7. desember 283 28. Hl. Gajus 17. desember 283 - 22. apríl 296. 29. Hl. Marcellínus 30. júní 296 - 25. október 304. 4. öld. 30. Hl. Marcellus I 27. maí 308 - 16. janúar 309. 31. Hl. Eusebíus 18. apríl 309- 17. ágúst 309. 32. Hl. Miltíades 2. júlí 311 - 11. janúar 314. 33. Hl. Silvester I 31. janúar 314 - 31. desember 335. 34. Hl. Markús 18. janúar 336 - 7. október 336. 35. Hl. Júlíus I 6. febrúar 337 - 12. apríl 352. 36. Hl. Líberíus 17. maí 352- 24. september 366. 37. Hl. Damasus I 1. október 366 - 11. desember 384. 38. Hl. Sirikíus 15.,22. eða 29. desember 384 - 26. nóvember 399. 39. Hl. Anastasíus 27. nóvember 399 - 19. desember 401. 5. öld. 40. Hl. Innocensíus 22. desember 401 - 12. mars 417. 41. Hl. Sosimus 18. mars 417 - 26. desember 418. 42. Hl. Bonifasíus I 28- 29. desember 418 - 4. september 422. 43. Hl. Selestínus I 10. september 422 - 27. júlí 432. 44. Hl. Sixtus III 31. júlí 432 - 19. ágúst 440. 45. Hl. Leó I mikli 29. september 440 - 10. nóvember 461. 46. Hl. Hilarus 19. nóvember 461 - 29. febrúar 468. 47. Hl. Simplicíus 3. mars 468 - 10. mars 483. 48. Hl. Felix III 13. mars 483 - 1. mars 492. 49. Hl. Gelasíus 1. mars 492 - 21. nóvember 496. 50. Anastasíus II 24. nóvember 496 - 19. ágúst 498. 51. Hl. Symmakus 22. nóvember 498 - 19. ágúst 514. 6. öld. 52. Hl. Hormidas 20. júlí 514 - 6. ágúst 523. 53. Hl. Jóhannes I 13. ágúst 523 - 18. maí 526. 54. Hl. Felix IV 12. júlí 526 - 22. september 530. 55. Bonifasíus II 22. september 530 - 17. október 532. 56. Jóhannes II 2. janúar 533 - 8. maí 535. (Merkúrus). 57. Hl. Agapitus I 13. maí 535 - 22. apríl 536. 58. Hl. Silveríus 1. júní 536 - 11. nóvember 537. 59. Vigilíus 29. mars 537 - 7. júní 555. 60. Pelagíus I 16. apríl 556 - 4. mars 561. 61. Jóhannes III 17. júlí 561 - 13. júlí 574. 62. Benedikt I 2. júní 575 - 30. júlí 579. 63. Pelagíus II 26. nóvember 579 - 7. febrúar 590. 64. Hl. Gregoríus I mikli 3. september 590 - 12. mars 604. 7. öld. 65. Sabiníanus 13. september 604 - 22. febrúar 606. 66. Bonifasíus III 19. febrúar 607 - 12. nóvember 607. 67. Hl. Bonifasíus IV 25. ágúst 608 - 8. maí 615. 68. Hl. Deusdedit eða Adeódatus 19. október 615 - 8. nóvember 618. 69. Bonifasíus V 23. desember 619 - 25. október 625. 70. Honóríus 27. október 625 - 12. október 638. 71. Severínus 28. maí 640 - 2. ágúst 640. 72. Jóhannes IV 24. desember 640 - 12. október 642. 73. Theódór I 24. nóvember 642 - 14. maí 649. 74. Hl. Marteinn I júlí 649 - 16. september 655. 75. Hl. Evgeníus I 10. ágúst 654 - 2. júní 657. 76. Hl. Vitalíanus 30. júlí 657 - 27. janúar 672. 77. Adeódatus II 11. apríl 672 - 17. júní 676. 78. Dónus 2. nóvember 676 - 11. apríl 678. 79. Hl. Agaþó 27. júní 678 - 10. janúar 681. 80. Hl. Leó II 17. ágúst 682 - 3. júlí 683. 81. Hl. Benedikt II 26. júní 684 - 8. maí 685. 82. Jóhannes V 23. júlí 685 - 2. ágúst 686. 83. Cónan 21. október 686 - 21. september 687. 84. Hl. Sergíus 15. desember 687 - 8. september 701. 8. öld. 85. Jóhannes VI 30. október 701 - 11. janúar 705. 86. Jóhannes VII 1. mars 705 - 18. október 707. 87. Sisinníus 15. janúar 708 - 4. febrúar 708. 88. Konstantínus 25. mars 708 - 9. apríl 715. 89. Hl. Gregoríus II 19. maí 715 - 11. febrúar 731. 90. Hl. Gregoríus III 18. mars 731 - nóvember 741. 91. Hl. Sakarías 10. desember 741 - 22. mars 752. --. Stefán (II) mars 752. - Var kosinn páfi en dó áður en hann var vígður. Var tekin út af lista yfir páfa 1961. 92. Stefán II 26. mars 752 - 26. apríl 757. 93. Hl. Páll I 29. maí 757 - 28. júní 767. 94. Stefán III 7. ágúst 768 - 24. janúar 772. 95. Hadríanus I 9. febrúar 772 - 25. desember 795. 96. Hl. Leó III 27. desember 795 - 12. júní 816. 9. öld. 97. Stefán IV 22. júní 816 - 24. janúar 817. 98. Hl. Paskalis I 25. janúar 817 - 11. febrúar 824. 99. Evgeníus II febrúar - maí 824 - ágúst 827. 100. Valentínus ágúst 827 - september 827. 101. Gregoríus IV 827 - janúar 844. 102. Sergíus II janúar 844 - 27. janúar 847. 103. Hl. Leó IV 10. apríl 847 - 17. júlí 855. 104. Benedikt III 29. september 855 - 17. apríl 858. 105. Hl. Nikulás I mikli 24. apríl 858 - 13. nóvember 867. 106. Hadríanus II 14. desember 867 - 14. desember 872. 107. Jóhannes VIII 14. desember 872 - 16. desember 882. 108. Marínus I 16. desember 882 - 15. maí 884. 109. Hl. Hadríanus III 17. maí 884 - september 885. 110. Stefán V september 885 - 14. september 891. 111. Formósus 6. október 891 - 4. apríl 896. 112. Bonifasíus VI apríl 896 - apríl 896. 113. Stefán VI maí 896 - ágúst 897. 114. Rómanus ágúst 897 - nóvember 897. 115. Theódór II desember 897 - desember 897. 116. Jóhannes IX janúar 898 - janúar 900. 10. öld. 117. Benedikt IV janúar - febrúar 900 - júlí 903. 118. Leó V júlí 903 - september 903. 119. Sergíus III 29. janúar 904 - 14. apríl 911. 120. Anastasíus III apríl 911 - júní 913. 121. Landónus júlí 913 - febrúar 914. 122. Jóhannes X mars 914 - maí 928. 123. Leó VI maí 928 - desember 928. 124. Stefán VII desember 928 - febrúar 931. 125. Jóhannes XI febrúar - mars 931 - desember 935. 126. Leó VII 3. janúar 936 - 13. júlí 939. 127. Stéfán VIII 14. júlí 939 - október 942. 128. Marínus II 30. október 942 - maí 946. 129. Agapítus II 10. maí 946 - desember 955. 130. Jóhannes XII 16. desember 955 - 14. maí 964. 131. Leó VIII 6. desember 963 - 1. mars 965. 132. Benedikt V 22. maí 964 - 4. júlí 966. 133. Jóhannes XIII 1. október 965 - 6. september 972. 134. Benedikt VI 19. janúar 973 - júní 974. 135. Benedikt VII október 974 - 10. ágúst 983. 136. Jóhannes XIV desember 983 - 20. ágúst 984. (Pietro Canepanova). 137. Jóhannes XV ágúst 985 - mars 996. 138. Gregoríus V 3. maí 996 - 18. febrúar 999. (Brunone dei duchi di Carinzia). 139. Silvester II 2. apríl 999 - 12. maí 1003. (Gerberto). 11. öld. 140. Jóhannes XVII júní 1003 - desember 1003. (Siccone). 141. Jóhannes XVIII janúar 1004 - júlí 1009. (Fasano). 142. Sergíus IV 13. júlí 1009 - 12. maí 1012. (Pietro). 143. Benedikt VIII 18. maí 1012 - 9. apríl 1024. (Teofilatto dei conti di Tuscolo). 144. Jóhannes XIX maí 1024 - 1032. (Romano dei conti di Tuscolo). 145. Benedikt IX 1032 - 1044. (Teofilatto dei conti di Tuscolo). 146. Silvester III 20. janúar 1045 - 10. febrúar 1045. (Giovanni). 147. Benedikt IX 10. apríl 1045 - 1. maí 1045. (Teofilatto dei conti di Tuscolo) 148. Gregoríus VI 5. maí 1045 - 20. desember 1046. (Giovanni Graziano). 149. Klemens II 25. desember 1046 - 9. október 1047. (Suidger, lénsherra Morsleben og Hornburg). 150. Benedikt IX 8. nóvember 1047 - 17. júlí 1048. (Teofilatto dei conti di Tuscolo) 151. Damasus II 17. júlí 1048 - 9. ágúst 1048. (Poppone). 152. Hl. Leó IX 12. febrúar 1049 - 19. apríl 1054. (Bruno). 153. Viktor II 16. apríl 1055 - 28. júlí 1057. (Gebhard). 154. Stefán IX 3. ágúst 1057 - 29. mars 1058. (Federico dei duchi di Lorena). 155. Nikulás II 24. júní 1059 - 27. júlí 1061. (Gerardo). 156. Alexander II 1. október 1061 - 21. apríl 1073. (Anselmo da Baggio). 157. Hl. Gregoríus VII 30. júní 1073 - 25. maí 1085. (Hildebrand). 158. Hl. Viktor III 24. maí 1086 - 6. september 1087. (Dauferio). 159. Hl. Úrbanus II 12. mars 1088 - 29. júlí 1099. (Ottó di Lagery). 160. Paskalis II 14. ágúst 1099 - 21. janúar 1118. (Raniero). 12. öld. 161. Gelasíus II 10. mars 1118 - 28. janúar 1119. (Giovanni Caetani). 162. Kalixtus II 9. febrúar 1119 - 13. desember 1124. (Guido di Borgana). 163. Honóríus II 21. desember 1124 - 13. febrúar 1130. (Lamberto). 164. Innocensíus II 23. febrúar 1130 - 24. september 1143. (Gregorio Papareschi). 165. Selestínus II 3. október 1143 - 8. mars 1144. (Guido). 166. Lúsíus II 12. mars 1144 - 15. febrúar 1144. (Gerardo Caccianemici). 167. Hl. Evgeníus III 18. febrúar 1145 - 8. júlí 1153. (Bernardo forse dei Paganelli di Montemagno). 168. Anastasíus IV 12. júlí 1153 - 3. desember 1154. (Corrado). 169. Hadríanus IV 5. desember 1154 - 1. september 1159. (Nikulás Breakspear). 170. Alexander III 20. september 1159 - 30. ágúst 1181. (Rolando Bandinelli). 171. Lúsíus III 6. september 1181 - 25. september 1185. (Ubaldo Allucingoli). 172. Úrbanus III 1. desember 1185 - 20. október 1187. (Uberto Crivelli). 173. Gregoríus VIII 25. október 1187 - 17. desember 1187. (Alberto de Morra). 174. Klemens III 20. desember 1187 - mars 1191. (Paolo Scolari). 175. Selestínus III 14. apríl 1191 - 8. janúar 1198. (Giacinto Bobone). 176. Innocensíus III 22. febrúar 1198 - 16. júlí 1216. (Lotario dei conti di Segni). 13. öld. 177. Honóríus III 24. júlí 1216 - 18. mars 1227. (Cencio Savelli). 178. Gregoríus IX 21. mars 1227 - 22. ágúst 1244. (Ugolino dei conti di Segni). 179. Selestínus IV 28. október 1241 - 10. nóvember 1241. (Goffredo Castiglioni). 180. Innocensíus IV 28. júní 1243 - 7. desember 1254. (Sinibaldo Fieschi). 181. Alexander IV 20. desember 1254 - 25. maí 1261. (Rinaldo dei Signore de Ienne). 182. Úrbanus IV 4. september 1261 - 2. október 1264. (Giacomo Pantaléon). 183. Klemens IV 15. febrúar 1265 - 29. nóvember 1268. (Guido Fulcodi). 184. Hl. Gregoríus X 27. mars 1272 - 10. janúar 1276. (Tedaldo Visconti). 185. Hl. Innocensíus V 22. febrúar 1276 - 22. júní 1276. (Pietro di Tarantasia). 186. Hadríanus V 11. júlí 1276 - 18. ágúst 1276. (Ottobono Fieschi). 187. Jóhannes XXI 20. september 1276 - 20. maí 1277. (Pietro Luliani). 188. Nikulás III 26. desember 1277 - 22. ágúst 1280. (Giovanni Gaetano Orsini). 189. Marteinn IV 23. mars 1281 - 28. mars 1285. (Simone de Brion). 190. Honóríus IV 20. maí 1285 - 3. apríl 1287. (Giacomo Savelli). 191. Nikulás IV 22. febrúar 1288 - 4. apríl 1292. (Girolamo Masci). 192. Hl. Selestínus V 29. ágúst 1294 - 13. desember 1294. (Pietro del Murrone). 193. Bonifasíus VIII 23. janúar 1295 - 11. október 1303. (Benedetto Caetani). 14. öld. 194. Hl. Benedikt XI 27. október 1303 - 7. júlí 1304. (Niccoló Boccasini). 195. Klemens V 14. nóvember 1305 - 20. apríl 1316. (Bertrando de Got). 196. Jóhannes XXII 5. september 1316 - 4. desember 1334. (Giacomo Duése). 197. Benedikt XII 8. janúar 1335 - 25. apríl 1342. (Giacomo Fournier). 198. Klemens VI 19. maí 1342 - 6. desember 1352. (Pietro Roger). 199. Innocensíus VI 30. desember 1352 - 12. september 1362. (Stefano Aubert). 200. Hl. Úrbanus V 6. nóvember 1362 - 19. desember 1370. (Guglielmo de Grimoard). 201. Gregoríus XI 5. janúar 1371 - 26. mars 1378. (Pietro Roger de Beaufort). 202. Úrbanus VI 18. apríl 1378 - 15. október 1389. (Bartolomeo Prignano). 203. Bonifasíus IX 9. nóvember 1389 - 1. október 1404. (Pietro Tomacelli). 204. Innocensíus VII 11. nóvember 1404 - 6. nóvember 1406. (Cosma Migliorati). 205. Gregoríus XII 19. desember 1406 - 4. júlí 1415. (Angelo Correr). 15. öld. 206. Marteinn V 21. nóvember 1417 - 20. febrúar 1431. (Oddone Colonna). 207. Evgeníus IV 11. mars 1431 - 23. febrúar 1447. (Gabriele Condulmer). 208. Nikulás V 19. mars 1447 - 24. mars 1455. (Tommaso Parentucelli). 209. Kalixtus III 20. apríl 1455 - 6. ágúst 1458. (Alonso de Borja). 210. Píus II 3. september 1458 - 14. ágúst 1464. (Enea Silvio Piccolomini). 211. Páll II 16. september 1464 - 26. júlí 1471. (Pietro Barbo). 212. Sixtus IV 25. ágúst 1471 - 12. ágúst 1484. (Fransesco della Rovere). 213. Innocensíus VIII 12. september 1484 - 25. júlí 1492. (Giovanni Battista Cibo). 214. Alexander VI 26. ágúst 1492 - 18. ágúst 1503. (Rodrigo Borgia). 16. öld. 215. Píus III 8. október 1503 - 18. október 1503. (Francesco Todeschini-Piccolomini). 216. Júlíus II 26. nóvember 1503 - 21. febrúar 1513. (Giuliano della Rovere). 217. Leó X 19. mars 1513 - 1. desember 1521. (Giovanni de’Medici). 218. Hadríanus VI 31. ágúst 1522 - 14. september 1523. (Adriano Florensz). 219. Klemens VII 26. nóvember 1523 - 25. september 1534. (Giulio de’Medici). 220. Páll III 3. nóvember 1534 - 10. nóvember 1549. (Alessandro Farnese). 221. Júlíus III 22. febrúar 1550 - 23. mars 1555. (Giovanni Maria Ciocchi del Monte). 222. Marcellus II 10. apríl 1555 - 1. maí 1555. (Marcello Cervini). 223. Páll IV 26. maí 1555 - 18. ágúst 1559. (Gian Pietro Carafa). 224. Píus IV 6. janúar 1560 - 9. desember 1565. (Giovanni Angelo de’Medici). 225. Hl. Píus V 17. janúar 1566 - 1. maí 1572. (Antonio (Michele) Ghislieri). 226. Gregoríus XIII 25. maí 1572 - 10. apríl 1585. (Ugo Boncompagni). 227. Sixtus V 1. maí 1585 - 27. ágúst 1590. (Felice Peretti). 228. Úrbanus VII 15. september 1590 - 27. september 1590. (Giambattista Castagna). 229. Gregoríus XIV 8. desember 1590 - 16. október 1591. (Niccoló Sfondrati). 230. Innocensíus IX 3. nóvember 1591 - 30. desember 1591. (Giovanni Antonio Facchinetti). 231. Klemens VIII 9. febrúar 1592 - 3. mars 1605. (Ippolito Aldobrandini). Menningartengsl Albaníu og Íslands. Menningartengsl Albaníu og Íslands (MAÍ) voru grasrótarsamtök sem störfuðu á Íslandi frá 1967 til 1991. Eins og nafnið bendir til höfðu þau á stefnuskrá sinni að efla menningarleg tengsl milli Íslendinga og Albana, auk þess að kynna fyrir Íslendingum þær hugmyndir sem voru ríkjandi í Albaníu á þeim tíma. Félagið gaf eitthvað út af efni, þar á meðal ritið "Heimsvaldastefnan og byltingin" (árið 1986) eftir forseta Albana, Enver Hoxha (1908-1985). Þegar Flokkur vinnunnar missti pólitísk tök á Albaníu árið 1991 þótti ekki lengur ástæða til að halda Albaníufélaginu starfandi, og var það því lagt niður. Biblíuvers. Biblíuvers er minnsta eining, eða grunneining, við skiptingu á texta Biblíunnar. Tölusetning biblíuversa eða ritningargreina, var fundin upp á fyrri hluta 16. aldar. Ítalskur munkur af reglu dóminíkana, "Santes Pagninus" (1470-1541), notaði fyrstur svipað kerfi við útgáfu Biblíu sem kom út í Lyon í Frakklandi 1527-1528, en kerfi hans náði ekki útbreiðslu. "Robert Estienne" (1503-1559), nafntogaður prentari í París, gaf út Nýja testamenti árið 1551, þar sem í fyrsta skipti var innleitt það kerfi við tölusetningu biblíuversa, sem nú er notað. Árið 1553 gaf hann út heila Biblíu með tölusettum versum, og var kerfi hans almennt tekið upp á næstu áratugum. Í fyrstu útgáfu Biblíunnar á íslensku, Guðbrandsbiblíu (1584), er aðeins tölusett kaflaskipting, en í næstu útgáfu, Þorláksbiblíu (1644) er einnig tölusett versaskipting, og í öllum íslenskum útgáfum Biblíunnar upp frá því. Mikil þægindi þykja að því að geta vísað til tölusettra ritningargreina, t.d. Lúk. 17:21, sem merkir: Lúkasarguðspjall, 17. kapítuli, 21. vers. Nokkur ruglingur er á því hvaða skammstafanir eru notaðar, en ætti þó sjaldan að valda misskilningi, t.d. Lúk. 17:21, eða Lk 17,21. Aspergerheilkenni. Asperger er heilkenni sem er flokkað með einhverfu. Heilkennið var uppgötvað af austurrískum sálfræðingi að nafni Hans Asperger og aðaleinkenni þess eru skortur á hæfni til félagslegra samskipta, sérkennileg áhugamál og áráttukennd hegðun, tilbreytingarlaus talandi, sérkennilegt málfar, léleg líkamstjáning og klunnalegar hreyfingar og göngulag. Gagnauga (vefsíða). Gagnauga.is var íslenskt vefrit sem var sett á laggirnar á haustdögum árið 2003. Það fjallaði mest um alþjóðastjórnmál á gagnrýninn hátt. „Róttæka margmiðlunartjaldið“. Aðdragandinn var sá að hópur fólks fékk leyfi borgaryfirvalda í Reykjavík til þess að setja upp tjald fyrir Menningarnótt sumarið 2003, við suðvesturhorn Tjarnarinnar, þar sem sýndar voru kvikmyndir og dreift fræðsluefni. Dagskráin var fjölbreytt, en flestar myndanna voru gagnrýnar heimildarmyndir um hryðjuverk, bankakerfið, utanríkisstefnu Bandaríkjanna og fleira. Tjaldið fékk að standa fram á haust, en var tekið niður þegar veðrið var orðið of kalt. Sama haust var haldið áfram að sýna sömu myndir, og fleiri. Þær sýningar fóru sumar fram í MÍR-salnum á Vatnsstíg, í Odda, á Nelly's Cafe við Bankastræti og í samstarfi við Fróða, félag sagnfræðinema í Árnagarði. Vefsíðan opnar — deilur. Um haustið 2003 opnaði vefsetrið Gagnauga. Þar var einkum lögð áhersla á þrennt: (1) Að birta greinar sem flestar voru skrifaðar af aðstandendum síðunnar, en sumar þýddar; (2) að vísa á fréttir sem aðstandendum þóttu merkilegar en fá ónóga umfjöllun í fjölmiðlum; (3) að kynna kvikmyndasýningar og aðra starfsemi Gagnauga, fyrir utan sjálfa síðuna. Nýjar greinar birtust reglulega fyrstu mánuðina og nýjar fréttir birtust nokkrum sinnum í viku. Snemma árs 2004 birtist þýdd grein, þar sem komu fram efasemdir um að Helförin hefði átt sér stað með þeim hætti sem almennt er álitið. Hún vakti mikla athygli, og voru ekki allir hrifnir. DV birti ritstjórnargrein, þar sem hart var deilt á helfararefasemdir af því tagi sem Gagnauga hafði birt. Stefán Þorgrímsson, einn aðstandenda síðunnar, svaraði ritstjórnargreininni í kjallarapistli. 2004 – 2006. Þótt helfarargreinin hefði loðað við orðstír síðunnar, hélt hún áfram að birta greinar um fjölmiðla, lýðræði, álitamál varðandi 11. september 2001 og margt fleira. Haustið 2004 áttu margir af aðstandendum Gagnauga, ásamt fleirum, frumkvæði að því að félagsmiðstöðin Snarrót var stofnuð. Hún var fyrst til húsa að Garðastræti 2, en flutti seinna í kjallara Laugavegar 21, þar sem Kaffi Hljómalind var þá til húsa. Í Snarrót hélt Gagnauga fjölda kvikmyndasýninga, þar á meðal nokkrar kvikmyndahátíðir. Þar var einnig komið upp safni bóka, blaða og myndbanda og -diska til afnota og láns fyrir áhugasama. Ennfremur voru keyptar inn bækur og boðnar til sölu. Fundir og fyrirlestrar. Gagnauga hélt sjálft, og tók þátt í að halda, allmarga fundi og fyrirlestra. Í því skyni flutti Gagnauga m.a. inn Barrie Zwicker (árið 2005) og Michel Chossudovsky (árið 2006). Endurkoma Gagnauga. Gagnauga opnaði aftur í byrjun ágúst 2010 með nokkuð nýjum útfærslum og mannskap. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar er fyrsta bók sem prentuð var á íslenska tungu. Prentun bókarinnar lauk 12. apríl 1540 í Hróarskeldu, Danmörku. Bókin er um 330 blöð og í litlu broti eða 8vo (sjá). Ekki er vitað hve mörg eintök voru prentuð en talið er líklegt að Oddur hafi ætlað sérhverjum presti á Íslandi eintak. Biblían 1981. Biblían 1981 var að hluta ný þýðing á ritum Biblíunnar. Þetta var raunar bráðabirgðaútgáfa, enda var þar aðeins um að ræða nýja þýðingu á guðspjöllunum og Postulasögunni. Önnur rit Nýja testamentisins frá 1912 voru endurskoðuð og nokkrar umbætur gerðar á sömu þýðingu Gamla testamentisins. Biblía 21. aldar. Biblía 21. aldar er ný heildarþýðing Biblíunnar á íslensku, sem kom út 19. október 2007. JPV útgáfa gaf hana út fyrir hönd Hins íslenska biblíufélags. Saga. Undirbúningur útgáfunnar hófst árið 1986, þegar Hið íslenska biblíufélag fékk dr. Sigurð Örn Steingrímsson og dr. Þóri Kr. Þórðarson til að gera tilraunaþýðingu á Jónasarbók og Rutarbók, og var dr. Guðrún Kvaran fengin til að vinna með þeim sem málfarsráðunautur. Verkinu lauk vorið 1988. Haustið 1990 var gerður samstarsfssamningur milli "Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands" og Hins íslenska biblíufélags um að þýða að nýju Gamla testamentið, og komu á næstu árum út 9 kynningarhefti með þýðingu á öllum ritum þess. Aðalþýðandi var dr. Sigurður Örn Steingrímsson, en einnig komu að verkinu Jón Gunnarsson lektor, séra Árni Bergur Sigurbjörnsson, Þórir Kr. Þórðarson prófessor og Gunnlaugur A. Jónsson prófessor. Skipuð var nefnd til að fara yfir textana fyrir hönd Biblíufélagsins. Í nefndinni voru upphaflega Þórir Kr. Þórðarson (formaður), Árni Bergur Sigurbjörnsson, séra Gunnar Kristjánsson, Gunnlaugur A. Jónsson og Guðrún Kvaran, sem var fulltrúi Íslenskrar málnefndar. Síðar dró Þórir Kr. Þórðarson sig úr nefndinni; varð Guðrún Kvaran þá formaður og einnig kom séra Sigurður Pálsson inn í nefndina. Í Biblíunni 2007 er birt þýðing á Apókrýfum bókum Gamla testamentisins, sem ekki höfðu verið í íslenskum biblíuútgáfum frá 1859. Var þar notuð þýðing Árna Bergs Sigurbjörnssonar frá 1994, nokkuð endurskoðuð. Haustið 2001 var ákveðið að endurskoða og endurþýða texta Nýja testamentisins frá 1981, og í þýðingarnefnd voru þau kosin Jón Sveinbjörnsson (aðalþýðandi), Árni Bergur Sigurbjörnsson og Guðrún Kvaran. Árið 2003 kom Einar Sigurbjörnsson í nefndina í veikindum Árna Bergs. Ákveðið var að líta einkum til þeirra rita sem ekki höfðu verið þýdd 1981. Þýtt var úr frummálunum, en einnig stuðst við eldri biblíuþýðingar íslenskar og nýlegar erlendar þýðingar Biblíunnar. Nefndunum var gert að þýða textann á vandað og aðgengilegt nútímamál, en hafa samt hliðsjón af íslenskri hefð í biblíumáli. Í fyrsta sinn var reynt að koma á málfari beggja kynja. Þannig er oftast sett systkin í stað bræður, ef verið er að ávarpa blandaðan hóp, en þess er þó getið neðanmáls hvað stendur í frumtexta. Í Biblíunni 2007 er einnig ítarefni: nokkur kort, stutt greinargerð framan við öll rit Biblíunnar, skrá um mikilvæga ritningarstaði, yfirlit um tímatal og orðaskýringar. Fyrsta prentun Biblíunnar 2007 er í tvenns konar broti. Stærra brotið er hægt að fá í svörtu rexinbandi eða rauðu flauelsbandi. Minna brotið fæst í svörtu, rauðu eða hvítu bandi. Safavídaríkið. Safavídaríkið (persneska: صفویان; aserbaídsjanska: "Səfəvi") var íranskt sjítaveldi af aserskum og kúrdískum uppruna sem ríkti yfir í Persíu frá 1501/1502 til 1722. Á tímum Safavídaríkisins náði Persía mestri stærð frá falli Sassanídaríkisins árið 651. Safavídarnir gerðu tólfungaútgáfu sjía íslam að opinberum trúarbrögðum í ríkinu. Reyrgresi. Reyrgresi (fræðiheiti: "Hierochloë odorata") er ilmandi grastegund sem vex í graslendi á láglendi um alla Evrasíu og Norður-Ameríku. Blöðin eru breið og gljáandi. Lyktin kemur í ljós við þurrkun og þurrkað reyrgresi er notað til að setja góða lykt í hýbýli manna og hirslur. Það er einnig algengt í náttúrulækningum og sem krydd í áfengi. Reyrgresi vex á láglendi um allt Ísland. Ilmreyr. Ilmreyr (fræðiheiti: "Anthoxanthum odoratum") er gras sem vex um alla Evrasíu. Þurrkuð grös gefa frá sé r einkennandi ilm og bragð. Hann blómstrar snemma á vorin. Ilmreyr er mjög algengur um allt Ísland á láglendi. Aðventukrans. Aðventukrans er krans, oftast gerður úr grenigreinum með fjögur kerti (aðventukerti), sem komið er fyrir á hring (krans) eða í röð og oftast skreytt með barrgreinum. Kertin eru fyrir hvern sunnudag í aðventunni og kveikt er á þeim á þeim dögum þannig að fyrsta sunnudag í aðventu er kveikt á fyrsta kertinu, annan sunnudag í aðventu á fyrsta og öðru kertinu o.s.frv. Aðventukransar eru algengir í kristnum löndum bæði í kirkjum og á heimilum. Hugsanlega hafa þeir verið til allt frá því á miðöldum en nútímaaðventukransar hafa breiðst út frá Þýskalandi frá því seint á 19. öld. Í Austurkirkjunni eru stundum notaðir aðventukransar með sex kertum þar sem aðventan hjá þeim er lengri en í Vesturkirkjunni. Blóðberg. Blóðberg (fræðiheiti: "Thymus praecox") er lítil sígræn fjölær þófaplanta, af sömu ættkvísl og timian, sem vex í þurru mólendi, holtum og sandi um alla Evrópu. Blóðberg er nýtt sem sígræn þekja í garða og í matargerð sem krydd. Á Íslandi er blóðberg ("ssp. arcticus") mjög algengt um allt land og finnst bæði á láglendi og í fjöllum allt upp í þúsund metra hæð. Stórveldistími Svíþjóðar. Svíaveldi á hátindi sínum eftir friðarsamningana í Hróarskeldu 1658. Rauða svæðið er Svíþjóð fyrir 1561, svæði sem Svíar lögðu undir sig eru sýnd með öðrum litum. Stórveldistími Svíþjóðar er tímabil í sögu Svíþjóðar sem nær frá 1611 til 1718 þegar Svíþjóð gerðist stórveldi í Evrópu. Á undan stórveldistímanum kemur Fyrra Vasatímabilið (1521–1611) og eftir að því lauk tók Frelsistími Svíþjóðar (1719–1772) við. Upphaf stórveldistímans má rekja til tilrauna Karls hertoga til að tryggja hagsmuni Svíþjóðar og Finnlands með því að tryggja og leggja undir sig landsvæði við Eystrasaltið í upphafi 17. aldar. Við þetta lenti Svíum saman við Rússneska keisaradæmið, Pólsk-litháíska samveldið og Dansk-norska ríkið. Hinn eiginlegi stórveldistími miðast oftast við það þegar Gústaf 2. Adolf, elsti sonur Karls hertoga, tók við völdum árið 1611. Gústaf tókst að vinna lönd af Rússum og Pólverjum þannig að Eystrasalt var á góðri leið með að verða sænskt haf. 1630 tók hann þátt í Þrjátíu ára stríðinu og eftir lát hans 1632 héldu Svíar áfram að leika stórt hlutverk á meginlandi Evrópu og tókst þar að auki að vinna mikilvæga sigra á Dönum 1645, 1658 og 1679. Með þeim tókst að afla ríkinu náttúrulegra landamæra við Eyrarsund og vinna héruð í Noregi. Endalok stórveldistímans urðu vegna eflingar Rússlands í valdatíð Péturs mikla. Til uppgjörs kom í Norðurlandaófriðnum mikla 1700–1721 og endalok tímabilsins eru höfð við lát Karls 12. árið 1718. Endanleiki. Endanleiki í stærðfræði á við "endanlega" stærð, þ.e. stærð sem er ekki óendanleg. Um endanlegu stærðina "x" gildir að ||"x"|| staðal, eða tölugildi ef stærðin er í mengi rauntalna. Athuga ber að allar tölur eru endanlegar, þ.a. orðið "endanleg tala" er tvítekning, en er stundum notað til að leggja áherslu á að stærðir geta orðið óendanlegar í einhverjum skilningi. Hins vegar er notast við útvíkkaða rauntalnaásinn í örsmæðareikningi, því þar geta stærðir orðið óendanlegar. Ívan Túrgenjev. Ívan Túrgenjev (eða Ivan Sergeyevich Turgenev) (rússneska: "Иван Сергеевич Тургенев") (9. nóvember 1818 – 3. september 1883) var rússneskur rithöfundur. Túrgenjev var talinn fremstur rússneskra raunsæishöfunda meðan hann lifði, en hann hefur síðan fallið í skuggann af Leó Tolstoj og Fjodor Dostojevskíj. Ívan Túrgenjev var þó brautryðjandi á ýmsum sviðum, og var fyrsti rússneski höfundurinn sem varð þekktur í Evrópu. Skáldsaga hans, Feður og synir, sem kom út 1862 er álitin eitt af öndvegisritum heimsbókmenntanna. Árið 2007 komu út á íslensku "Fjórar sögur" í nýjum þýðingum hjá Hávallaútgáfunni. Tenglar. Túrgenjev, Ívan Miðstýring. Miðstýring er stjórnarfar eða stjórnskipulag þar sem allflestar ákvarðanir eru teknar í einni valdastofnun eða valdaklíku (t.d. í ríki eða fyrirtæki o.s.frv.). Í huga margra er miðstýring merki um yfirgang eða lélegt lýðræði, og margir líta á hana sem andstæðu jafnaðar og/eða frelsis. Hungursneyð. Fórnarlömb hungursneyðar í Rússlandi 1921. Hungursneyð er samfélagskreppa þar sem stór hluti íbúa er vannærður og hungurdauði vex mikið. Fyrr á öldum kom hungursneyð reglulega upp um allan heim og þrátt fyrir tækniþróun síðustu alda hefur hungursneyð oft komið upp síðustu ár, einkum í þriðja heiminum. Hungursneyð stafar gjarnan af uppskerubresti, þurrkum, kuldum, farsóttum, styrjöldum eða slæmum efnahagsákvörðunum. Talið er að um sjötíu milljónir manna hafi látist vegna hungursneyðar á 20. öld. Ahmad al-Mansur. Ahmad al-Mansur Saadi (arabíska: أحمد المنصور السعدي) nefndur "Adh-dhahbîy" - „hinn gullni“ (1549 – 20. ágúst 1603) var soldán Marokkó frá 1578 til dauðadags. Hann var af Saadi-ættinni sem ríkti yfir Marokkó frá 1554 til 1627. Hann tók við völdum af bróður sínum þegar sá síðarnefndi lést í orrustunni við Alcácer Quibir þar sem Saadi-ættin vann yfirburðasigur á her Portúgala. Hann gat sér mikið orð í orrustunni og tók við fjölda portúgalskra stríðsfanga sem hann gat selt fyrir lausnargjald. Sá auður sem sigurinn færði soldáninum var nýttur til að reisa El Badi-höllina í Marrakesh. Al-Mansur þurfti dýrt net útsendara, bandamanna og njósnara til að halda í skefjum bæði Tyrkjaveldi, Spáni og Portúgal sem öll höfðu augastað á Marokkó. Til að komast yfir örugga gulluppsprettu sendi hann því her yfir Saharaeyðimörkina 16. október 1590 til að leggja Songhæveldið undir Marokkó. Her hans vann úrslitasigur í orrustunni við Tondibi 13. mars 1591 þar sem skotvopn gerðu útslagið. Eftir það fóru mennirnir ránshendi um borgirnar Gao, Djenné og Timbúktú og fengu mikið herfang gulls. Hins vegar varð þessi árás til þess að Saharaverslunin lagðist nánast af og miðstjórnarvaldið hrundi í Vestur-Afríku. Marokkó átti í erfiðleikum með að halda stjórn á borgunum og árásin varð því dýrari en ávinningnum nam til lengri tíma litið. Saadi-ættin missti stjórn borganna fljótlega eftir lát al-Mansurs. Eftir lát al-Mansurs tókust tveir synir hans á um völdin; Zidan Abu Mali sem ríkti yfir Marrakesh og Abou Fares Abdallah sem ríkti í Fes. Veldaröð. Veldaröð er röð þar sem breytistærðin kemur fyrir í síhækkandi jákvæðu heiltöluveldi í hverjum lið. Fáguð föll eru sett fram með samleitnum veldaröðum og því eru veldaraðir geysimikilvægar í fallafræði og tvinnfallafræði, t.d. má setja hornaföllin fram með veldaröðum. Dæmi um veldaraðir. Taylorröð er ákveðin gerð veldaraðar, sem lýsir falli í nágrenni tiltekins punkts. Síkjabrúða. Síkjabrúða (fræðiheiti: "Callitriche hamulata") er vatnajurt sem vex á kafi í grunnu vatni. Blöðin eru mjó og jafnbreið (striklaga) og blómin eru í öxlum blaðanna. Hún er algeng í Norður-Evrópu. Síkjabrúða er notuð sem skrautjurt í fiskabúr. Á Íslandi finnst síkjabrúða í vötnum á láglendi um allt land. Valréttarsamningur. Valréttarsamningur (e. option) er ein tegund afleiða þar sem einn aðili hefur gert samning við annan um möguleikann á því að eiga viðskipti um einverja tiltekna undirliggjandi eign á ákveðnum degi í framtíðinni, eða á ákveðnu tímabili, við fyrirfram ákveðnu verði. Valréttarsamningurinn er afleiða vegna þess að verðmæti valréttarsamningsins er háð verðmæti hinnar undirliggjandi eignar á þeim degi sem viðskiptin geta átt sér stað. Valréttarsamningar eru stundum kallaðir vilnanir. Valréttarsamningar er svo kallaðir vegna þess að annar aðilinn að samningnum getur valið hvort hann nýtir sér réttinn til þess að eiga viðskiptin eða ekki. Í því tilviki að valréttarsamningurinn er um kauprétt (e. call option) er valrétturinn í höndum þess sem kaupir, en í því tilviki að um sölurétt (e. put option) er að ræða er valrétturinn í höndum þess sem selur. Sá sem á réttinn þarf yfirleitt að greiða hinum fyrir eða uppfylla einhverja aðra skyldu t.d. að vinna hjá viðkomandi yfir eitthvert tímabil einsog tíðkast þegar gerðir eru kaupréttarsamningar við starfsmenn. Dæmi um kauprétt. Hugsum okkur 1. janúar hafi Jón og Guðrún samið um að Guðrún hafi rétt til, en ekki skyldu, að kaupa af Jóni hlutabréf í Hlut hf. að nafnvirði 1 milljón króna þann 1. júlí á genginu 5, þ.e. borga fimm krónur fyrir hverja krónu nafnverðs og þar með 5 milljónir fyrir öll hlutabréfin. Ef markaðsverð bréfa í Hlut hf. er hærra en 5 þann 1. júlí þá er þetta verðmætur samningur fyrir Guðrúnu. Ef gengið er til dæmis 5,5 þennan dag þá er samningurinn (5,5-5)*1.000.000 eða 500.000 króna virði. 500.000 krónur eru munurinn á því sem Guðrún þarf að greiða Jóni fyrir að kaupa bréfin af honum samkvæmt samningnum þann 1. júlí og því sem hún hefði þurft að borga ef hún hefði keypt bréfin á markaðsverði af öðrum. Ef gengið hefði hins vegar orðið lægra en 5, til dæmis 4, þá hefði samningurinn verið einskis virði því að það hefði ekki borgað sig fyrir Guðrúnu að nýta hann. Stundum er sagt að sá sem hefur keypt sölurétt hafi tekið,stöðu með“ hinni undirliggjandi eign, þ.e. hafi trú á að hún hækki í verði. Dæmi um sölurétt. Ari og Birna gætu til dæmis samið um að Ari hafi rétt en ekki skyldu til að selja Birnu 1 milljón evra fyrir krónur 1. nóvember næstkomandi á genginu 90, það er 90 krónur fyrir hverja evru. Ef gengi evrunnar er lægra en 90 þennan dag, þá er samningurinn einhvers virði fyrir Ara. Ef gengið er til dæmis 80 þá er samningurinn 10 milljóna króna virði fyrir Ara og hann mun vilja nýta hann. Ef gengið er hærra en 90 þennan dag þá er samningurinn einskis virði fyrir Ara og hann nýtir hann ekki. Ari þarf væntanlega að greiða Birnu eitthvað fyrir að selja Ara söluréttinn. Sumir valréttir eru þannig að ekki er kveðið á um réttinn til að eiga viðskipti á tilteknum degi heldur á ákveðnu tímabili. Til dæmis gæti verið samið um rétt til að kaupa 1.000 hluti í IBM á genginu 100 dalir á hlut hvenær sem er næstu þrjá mánuði. Stundum er sagt að sá sem hefur keypt kauprétt hafi tekið,stöðu gegn“ hinni undirliggjandi eign, þ.e. hafi trú á að hún lækki í verði. Önnur leið til þess að taka stöðu gegn einhverjum verðmætum er að taka svokallaða skortstöðu í þeim. Vörn gegn áhættu. Valréttarsamninga er hægt að nýta í margvíslegum tilgangi, t.d. sem vörn gegn áhættu. Hugsum okkur til dæmis fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi sem er með útgjöld í krónum en tekjur í evrum. Það gefur út verðskrá í evrum að vori og selur þjónustu yfir sumarið. Þegar sumarið er gert upp að hausti þarf það að greiða starfsmönnum og birgjum í krónum með evrunum sem það fékk. Ef gengi evrunnar gagnvart krónu lækkar á þessum tíma (þ.e. gengi krónunnar styrkist) þá verður fyrirtækið fyrir gengistapi. Ef tekjurnar eru til dæmis 1 milljón evra og gengi evrunnar lækkar úr 90, því sem fyrirtækið gerði ráð fyrir, í 80, þá verða tekjur þess í krónum 10 milljónum lægri en gert var ráð fyrir. Hægt væri að verja sig gegn þessu með því til dæmis að kaupa af banka að vori sölurétt á milljón evrum á tilteknu gengi að hausti. Þá væri sölurétturinn vörn gegn gengisáhættu. Gallinn við vörnina er að hún getur verið dýr en það fer þó eftir því hvaða verði samið er um. Þannig er réttur til að selja á 90 dýrari en réttur til að selja á 80 enda sá síðari allt að 10 milljónum króna verðmætari þegar upp er staðið. Ef gengið er 70 þegar upp ef staðið þá er rétturinn til að selja hverja evru á 90 krónur 20 milljóna króna virði en rétturinn til að selja á 80 einungis 10 milljóna króna virði. Söluréttur á evru hefur þann eiginleika að verja einungis gegn óhagstæðum sveiflum (gengislækkun evrunnar) en fyrirtækið myndi njóta gengishækkunar evrunnar til fulls og þá ekki nýta söluréttinn. Ódýrara kann að vera fyrir fyrirtækið að gera framvirkan samning um sölu á evru en þá ver það sig fyrir gengislækkun en nýtur ekki gengishækkunar. Kaupréttarsamningur. Kaupréttarsamningur er valréttarsamningur sem er ein tegund afleiða. Söluréttarsamningur. Söluéttarsamningur er valréttarsamningur sem er ein tegund afleiða. Framvirkur samningur. Framvirkir samningar er ein tegund afleiða þar sem einn aðili hefur gert samning við annan um skylduna til þess að eiga viðskipti um einverja tiltekna undirliggjandi eign á ákveðnum degi í framtíðinni við fyrirfram ákveðnu verði Framvirkir samningar eru öðruvísi en valréttarsamningar að því leiti að þeir kveða á um skyldu til að eiga viðskipti en ekki valið um það hvort af viðskiptinum verði eða ekki. Dæmi. Halldór og Inga semja um það 1. júlí að þann 31. desember muni Halldór selja Ingu bréf fyrir 100.000 krónur að nafnvirði í Íslandsbanka á genginu 10, það er fyrir 1 milljón króna. Verðmæti slíks samnings fer eftir því hvernig markaðsvirðið þróast. Ef gengið er hærra en 10 þann 31. desember þá hefur samningurinn jákvætt virði fyrir Ingu á þeim degi en neikvætt fyrir Halldór. Halldór verður þó að standa við samninginn, ólíkt því sem ætti við ef Halldór hefði keypt sölurétt á bréfin af Ingu, þá myndi hann ekki nýta söluréttinn ef gengið á markaði væri hærra en 10. Vörn gegn áhættu. Framvirka samninga er hægt að nýta sem vörn gegn áhættu. Hugsum okkur til dæmis fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi sem er með útgjöld í krónum en tekjur í evrum. Það gefur út verðskrá í evrum að vori og selur þjónustu yfir sumarið. Þegar sumarið er gert upp að hausti þarf það að greiða starfsmönnum og birgjum í krónum með evrunum sem það fékk. Ef gengi evrunnar gagnvart krónu lækkar á þessum tíma(þ.e. gengi krónunnar styrkist) þá verður fyrirtækið fyrir gengistapi. Ef tekjurnar eru til dæmis 1 milljón evra og gengi evrunnar lækkar úr 90, því sem fyrirtækið gerði ráð fyrir, í 80, þá verða tekjur þess í krónum 10 milljónum lægri en gert var ráð fyrir. Hægt væri að verja sig gegn þessu með því til dæmis að gera framvirkan samning við banka að vori um sölu á milljón evrum á tilteknu gengi að hausti. Þá væri framvirki samningurinn vörn gegn gengisáhættu. Gallinn við vörnina er að hún getur verið dýr en það fer þó eftir því hvaða verði samið er um. Þannig er samningur um sölu á 90 dýrari en samningur um sölu á 80 enda sá síðari allt að 10 milljónum króna verðmætari þegar upp er staðið. Ef gengið er 70 þegar upp ef staðið þá er samningur um sölu evru á 90 krónur 20 milljóna króna virði en samningur um sölu á 80 einungis 10 milljóna króna virði. Framvirkur samningur um sölu á evru ver fyrirtækið gegn gengisfalli evrunnar en það nýtur ekki gengishækkunar. Ef fyritækið vildi eiga möguleika á því gæti það gert valréttarsamning um sölu á evru. Belgjurtabálkur. Belgjurtabálkur (fræðiheiti: "Fabales") er ættbálkur tvíkímblöðunga. Ertublómaætt er þriðja stærsta ætt jurta í heimi þannig að hinar ættirnar leggja lítið til líffræðilegs fjölbreytileika þessa ættbálks. Í Cronquist-kerfinu er ertublómaætt eina ættin í þessum ættbálki. A. Paul Weber. A. Paul Weber (eða Andreas Paul Weber) (1893 – 1980) var þýskur grafíklistamaður. Hann fæddist í Arnstadt, Thüringen. Á tímum nasista var Weber í Jung-Wandervogel sem var félagsskapur sem var alfarið á móti stefnu Hitlers. Hann myndskreytti margar bækur og blöð á þessum tímum, en var fangelsaður fyrir að vera viðriðin þennan félagsskap frá júlí fram í desember 1937. Eftir seinni heimsstyrjöldina hélt hann þjóðfélagslegri gagnrýni sinni áfram, beindi spjótum sínum að pólitík, hernaðarstefnu, umhverfismengun, grimmd, læknavísindum og stækum öfgasinnum íþróttanna. Weber lést 87 ára í Schretstaken, litlu þorpi nálægt Ratzeburg, þar sem hann hafði búið síðan 1936. Tenglar. Weber, Paul Bruce Goff. Bruce Alonzo Goff (8. júní 1904 – 4. ágúst 1982) var bandrískur arkitekt. Bruce Goff fæddist í Alton, Kansas. Goff var undrabarn og varð lærlingur í Rush, Endacott and Rush í Tulsa, Oklahoma, þegar hann var aðeins 12 ára. Frægustu byggingarnar sem hann teiknaði eru Bavinger House í Norman, Oklahoma, Ruth VanSickle Ford House í Aurora, Illinois, Colmorgan House íGlenview, Illinois, og Pavilion for Japanese Art við Los Angeles County Museum of Art. Helsta verk hans Joe D. Price House and Studio í Bartlesville, Oklahoma, eyðilagðist í eldi af völdum brennuvargs árið 1996. Goff, Bruce Alonzo Hlutabréf. Hlutabréf eru ávísun á ákveðinn eignarhlut í hlutafélagi. Mismunandi réttindi geta fylgt hlutabréfinu en algengast er að það veitir eiganda þess rétt til þess mæta á og taka þátt í kosningum á aðalfundi félagsins, taka við arði frá félaginu og selja hlutabréfið eða eignarhlutinn til þriðja aðila. Hlutabréf eru ein tegund verðbréfa. Hlutabréf eru gefin út á ákveðnu nafnverði, oft ein króna á hvern hlut. Ef hlutabréfin eru skráð í opinberum kauphöllum er gjarnan talað um,skráð hlutabréf" en við skráningu verður til opinbert gengi á hlutum í félaginu og auðveldar það eigendum hlutabréfa að eiga viðskipti með bréfin. Nafnvirði allra útgefinna hlutabréfa í hlutafélagi er kallað hlutafé félagsins en hlutafé félagsins margfaldað með gengi í kauphöll er kallað markaðsvirði félagsins. Margvíslegar takmarkanir á meðferð hluta í hlutafélagi geta verið í samþykktum félagsins, t.d. um forkaupsrétt annarra eigenda að hlutum. Ungmennafélagið Hvöt (Blönduósi). Ungmennafélagið Hvöt var stofnað 1924 og er staðsett á Blönduósi. Knattspyrna meistaraflokks hefur verið stunduð þar í tugi ára, mestmegnis hefur liðið spilað í neðstu deild Íslandsmótsins en árið 1987 komst liðið upp um deild í fyrsta skiptið þegar Hvöt varð 4. deildarmeistari, en sú gleði lifði einungis í eitt ár því liðið féll um deild jafnóðum árið eftir. Það var svo ekki fyrr en eftir 20 tilraunir eða árið 2007 að Hvöt komst aftur í 2. deild. Heimaleikir Hvatar fara fram á Blönduósvelli sem er í hjarta bæjarins. Hvöt hefur að vísu ekki alltaf spilað sína heimaleiki á Blönduósi en í 1-2 ár lék það á Bakkakotsvelli, íþróttasvæði Vorboðans sem er skammt norður af Blönduósi við bæinn Bakkakot. Ástæðan fyrir þessu er að á Blönduósi var malarvöllur harður og Umf. Vorboðinn byggði upp íþróttasvæði sitt með grasvelli. Hvatarmenn fengu afnot af vellinum þangað til Blöndósvöllur var tyrfður árið 1994. Nýlenska. Nýlenska (enska: "Newspeak") er tungumál í staðleysuskáldsögunni "1984" eftir George Orwell og á í því þjóðfélagi sem hún lýsir að koma í staðinn fyrir gamlensku ("Oldspeak"), þ.e. venjulega enska tungu. Nýlenska á að hafa orðfæð að takmarki til að ydda tungumálið að hugsun flokksins, eyða blæbrigðum orða og koma þannig algjörlega í veg fyrir að menn geti upphugsað glæpi (sbr.: hugsanaglæpi). Skammstafanir eru algengar í nýlensku, veigrunarorð (skrauthvarfaheiti) sem og afmáning orða eins og uppreisn og frelsi. Bjarni Halldórsson á Þingeyrum. Bjarni Halldórsson (1703 (?) – 1773) var sýslumaður í Húnavatnssýslu. Bjarni bjó fyrst í Víðidalstungu (nú í Vestur-Húnavatnssýslu) en seinna, og lengst af, á Þingeyrum (nú í Austur-Húnavatnssýslu), sem hann er gjarnan kenndur við. Heimildum ber ekki saman um fæðingarár Bjarna, en ættfræðivefurinn Íslendingabók segir hann fæddan 1703. Sagt var að það væri „eigi kotunga færi“ að verjast ágengni hans. Áar, mágar og niðjar. Bjarni var sonur Halldórs Árnasonar, prests á Húsafelli (1672-1736) og Halldóru Illugadóttur konu hans (1678-1751). Hann var kvæntur Hólmfríði Pálsdóttur Vídalín (1697-1736), dóttur Páls lögmanns Vídalín (1667-1727) og Þorbjargar Magnúsdóttur konu hans (1667)-1737) og eru niðjar þeirra, sem eru margir, því af Vídalínsætt. Bjarni var elstur sjö systkina; hin voru: Sigvaldi (1706-1756), Ingibjörg (1706), Illugi (1711-1770), Þorgerður (1712), Guðmundur (1715(?)-1784) og Sigurður (1715(?)). 1. Páll Vídalín (1727 - 1760), stúdent. Lærði í Kaupmannahöfn og Leipzig – „hann tók vanstyrk mikin í skapsmunum“ og sagt var að hann hefði hengt sig í hálsklút sínum. 2. Ástríður (1729 - 1802) var „fastræk og undarleg í skapi, stórlynd og þó kaldlynd.“ Hún gat barn við ættlitlum manni sem hét Erlendur Sigurðsson, og sárnaði Bjarna föður hennar það. Gifti hann hana Halldóri sýslumanni Jakobssyni „er unni henni allmikið þó hún væri honum ætíð ill“ og bjuggu þau að Felli í Kollafirði. 3. Jón (f. 1730), dó úr skyrbjúgi tæpra 20 vetra gamall. 4. Þorbjörg (1735-1819, giftist Jóni vísilögmanni Ólafssyni og bjuggu þau í Víðidalstungu. 5. Halldór Vídalín (1736 - 1801) – „þótti miklu óvitrari bróður sínum“ og „þokti hann ei mikill að manni“. Bjarni útvegaði honum kvonfang, Ragnheiði dóttur Einars prests á Söndum í Miðfirði. Segir Runólfur M. Olsen að „kendi vinnukona honum barn á brúðkaupsdegi og kallaði hann af brúðarbekk“. Halldór lærði í skóla en þótti „ekki skarpur þótt góður ritari væri.“ Hann fékk umboð fyrir klaustrinu á Reynistað 1768. Þau Ragnheiður eignuðust mörg börn, þeirra á meðal bræðurna Bjarna og Einar sem betur eru þekktir sem Reynistaðarbræður, en Halldór faðir þeirra er ættfaðir Reynistaðarættar. Halldór dó árið 1800. Ragnheiður tók við umboðinu eftir mann sinn og er einasta kona sem vitað er til að hafi haft umboð fyrir klaustri á Íslandi. Sagt er að hún hafi tekið „fásinnu eigi alllitla“ að síðustu. Eftir að Hólmfríður dó 1736 giftist Bjarni ekki aftur heldur hafði „ráðskonur“ upp frá því, sem margar voru bendlaðar við að eiga vingott við hann. Ferill Bjarna. Bjarni þótti ágætur námsmaður. Hann var við Skálholtsskóla 1716-1720 og Kaupmannahafnarháskóla 1721-1722, þaðan sem hann lauk embættisprófi í guðfræði. Þegar hann kom heim fékk hann vígslu sem prestur og fékk starf sem rektor í Skálholtsskóla á meðan hann beið eftir að fá brauð til að þjóna. Því starfi gegndi hann í 5 ár. Í Skálholti dvaldi þá Hólmfríður Pálsdóttir Vídalín, sem var aðeins eldri en hann, og „bar oft saman fundum þeirra Bjarna.“ Svo fór að hún varð þunguð eftir þessa „fundi“. Þegar Páll faðir hennar tók sótt og lagðist banalegu á Alþingi sumarið 1727, fór hún til að vera hjá honum síðustu stundirnar. Þegar hann sá að hún - ógift - var kasólétt, varð honum að orði: „Guð hjálpi mér! Hvernig ertu??“. Voru það hans seinustu orð, er menn heyrðu. Ekki löngu seinna kvæntist Bjarni Hólmfríði, en svo skammt leið frá brúðkaupinu þar til sonurinn Páll fæddist, að Bjarni var sviptur hempunni og rektorsembættinu. Þau fluttu svo að Víðidalstungu í Húnavatnssýslu og hófu þar búskap. Embættisveiting og helstu málaferli. Árið 1728 var Jóhann Christopher Gottrup dæmdur frá embætti sýslumanns Húnavatnssýslu vegna þess að hann átti ekki fyrir 60 ríkisdala sekt, og Bjarni fékk konungsveitingu fyrir henni í mars árið eftir. Johann var áfram klausturhaldari á Þingeyrum, og hófust óðar deilur milli gamla sýslumannsins og þess nýja. Til að byrja með klagaði Jóhann Bjarna fyrir þings- og réttarvanrækslu og stefndi honum til lögþings vegna þess. Málinu var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum. Með bréfi dagsettu 26. apríl 1738 var Bjarna síðan formlega veitt umboð fyrir Þingeyraklaustri. Fluttist Bjarni að Þingeyrum, gerðist ríkur maður og bjó þar til dauðadags. Aðfararmálið. Guðmundur Sigurðsson á Ingjaldshóli tók við Snæfellsnesssýslu eftir Jóhann og Stapaumboði líka. Hann „lýsti til álagsskuldar til Ingjaldshólskirkju“ hjá Jóhanni og var Ormur sýslumaður Daðason settur dómari í málinu. Bjarni tók lögtaki fjármuni hjá Jóhanni upp í skuldina en Jóhann kærði dóm Orms til Alþingis 1740, þar sem málinu var vísað frá. Jóhann var fjarverandi þegar lögtakið var gert. Hann reyndi að heimta féð aftur „en Bjarni vildi ei laust láta“. Kærði Jóhann Bjarna fyrir ólöglegt lögtak og var Grímur Grímsson á Giljá setudómari í héraði. Hann dæmdi Bjarna sekan um ólögmætt lögtak en Bjarni áfrýjaði dómnum og þann 16. júlí 1744 dæmdi Sveinn Sölvason lögmaður dóm Gríms ógildan á Alþingi. Aftur á móti skyldi Jóhann gjalda Bjarna 4 rd. Croner „fyrir óþarfa málsýfing“. Samningsmálið. 27. júlí 1740 sömdu Jóhann og Bjarni um að þeir væru sáttir um öll sín kærumál. Var þó mælt að Bjarni ætti eftir að hefna sín á Jóhanni, enda fór svo að honum fannst Bjarni halda samninginn slælega er á leið og ásakaði hann meðal annars um að torvelda sér að fá til sín vinnufólk. Stefndi Jóhann því Bjarna og er þessa meinta sáttarofsmáls meðal annars getið á sjálfdæmismálinu (sjá að neðan). Bjarni brást við með því að stefna Jóhanni fyrir „skammaryrði við sig í Höfðakaupstað og krafði Jóhann meðal anars dæmdan ærulausan; tók þá Jóhan að gjörast hávær og tala fram í ræðu Bjarna“ og lét sér ekki segjast þótt rétturinn áminnti hann. Grímur Grímsson var settur dómari í málinu og dæmdi Jóhanni í vil, en Bjarni áfrýjaði og fór svo að Sveinn lögmaður ógilti dóm Gríms og dæmdi Jóhann til að greiða Bjarna miskabætur og málskostnað vegna óþarfa málsýfinga. Sjálfdæmismálið. Bjarni stefndi Jóhanni fyrir meiðyrði sumarið 1740. Jóhann gat ekki mætt til dóms og baðst afsökunar á því skriflega. Fór Jóhann síðan til Þingeyra þann 11. janúar árið eftir og bauð Bjarna sættir og sjálfdæmi. Dæmdi Bjarni sjálfum sér óhemju upphæð - 60 ríkisdali - í skaðabætur og gerði Jóhann auk þess útlægan úr héraðinu. Jóhann var að vonum óánægður með þessi málalok og stefndi Bjarna til lögþings 1741 „að framleggja þar úrskurðinn í frumriti en Bjarni skoraðist undan að framleggja skjöl móti sjálfum sér“. Á Alþingi dæmdi Ormur Daðason í málinu og skyldaði hann Bjarna til að leggja fram skjölin og er hann hafði gert það staðfesti Ormur dóm hans „hvað fjárútlátum af hendi Jóhans viðvék“. Þessu áfrýjaði Jóhann. Á Sveinsstaðaþingi í júní 1743 höfðaði Jóhann annað mál á hendur Bjarna vegna sjálfdæmisins og þá dæmdi Grímur Grímsson í málinu, sektaði Bjarna og ógilti sjálfdæmið. Bjarni áfrýjaði þessum dómi og á lögþingi 1744 staðfesti Sveinn lögmaður fjársekt Jóhanns aftur en ítrekaði að útlegðardómurinn væri ógildur. Reikningsmálið. Jóhann hélt því fram að hann ætti í fórum Bjarna 73 ríkisdali og 45 skildinga en Bjarni tók fyrir það. Stefndi Jóhann honum því og dæmdi Grímur – sem enn var setudómari – að Bjarni skyldi greiða Jóhanni 35 ríkisdali. Sveinn Sölvason ógilti þann dóm á Alþingi árið eftir. Kýrmálið. Á Tittlingastöðum átti Jóhann „svartskjöldótt[a] vesælings baulu“ sem Bjarni tók lögtaki upp í skuldir. Skúli Magnússon, þá sýslumaður Skagfirðinga, var settur dómari í málinu en var andvígur Bjarna. Hann þingaði þrem sinnum í málinu og dæmdi að lokum Bjarna til að greiða 40 lóð silfurs í „ofríkisbætr“ – auk þess sem hann átti að skila kúnni. 1742 kom málið á Alþingi og Ormur Daðason, sem dæmdi í málinu, úrskurðaði að á Alþingi árið eftir skyldi Bjarni leggja fram gögn í málinu. Mótmælti Bjarni því að Ormur skyldi dæma í málinu en ekki Sveinn Sölvason, sem þá var nýkominn frá Danmörku með varalögmannsbréf upp á vasann, og hefði að öllu jöfnu átt að dæma það. Þóttist Ormur hafa leyfi Beckers lögmanns til að dæma málið og kvað sér ekki skylt að víkja sæti fyrir Sveini. Deildi Bjarni nú hart við Skúla og Jóhann og flækti málin og vafði til að tefja fyrir. Eftir að hafa fengi sérstakt leyfi amtmanns til að dæma í málinu sektaði Ormur loks Bjarna eftir að hafa staðfest dóm Skúla. Jóhann þurfti einnig að punga út. Vitnisburðarmálið. Jóhann sakaði Bjarna um falskan vitnisburð í Tittlingastaðakýrmálinu og bar á hann að hafa samið vitnisburðinn undir nöfnum annarra manna. Grímur þingaði í málinu sem setudómari og dæmdi vitnisburðarbréf Bjarna ógilt og sektaði hann. Bjarni áfrýjaði. Kaupmannamálið. Árið 1743 vildi Jóhann Gottrup taka að sér mál fyrir kaupmanninn í Stykkishólmi fyrir rétti að Staðarbakka í Helgafellssveit. Halldór Jónsson á Saurum lagði fram ákæruskjal gegn Jóhanni og mælti gegn máli hans. Guðmundur sýslumaður Sigurðsson, sem áður er getið, vísaði öllu málinu frá og stefndi Jóhann þeim þá til Alþingis 1744. Bjarni Halldórsson tók að sér mál þeirra. Á Alþingi krafðist Jóhann úrskurðar í málinu en Sveinn Sölvason dæmdi að hann hefði aldrei haft rétt til að flytja það hvort sem er og vísaði því þess vegna frá. Æruleysismálið. Æruleysismálið var sjálfstætt framhald Vitnisburðarmálsins. Bjarni stefndi Jóhanni vegna illyrða um sig á þingi á Sveinsstöðum í september 1744. Jóhann mætti ekki fyrir réttinn heldur sendi bréf í staðinn þar sem hann kvað meint illyrði hafa verið sögð á Alþingi og þess vegna heyrði þetta mál undir lögréttudóm en ekki héraðsdóm. Enn fremur sagðist hann ekki komast fyrir réttinn þar sem hann væri að sinna erindum á vegum konugs og væri því löglega afsakaður og mótmælti því auk þess, að Grímur væri setudómari. Bjarni leit hins vegar svo á að það ætti samt að dæmast í málinu og lagði meira að segja fram lögmannsdóm þar að lútandi, auk þess sem hann dró í efa að þessi erindi á vegum konungs sem Jóhann væri að sinna væru mjög brýn – ef þau væru yfir höfuð á vegum konungs – og þar með hvort Jóhann væri í raun réttri löglega afsakaður. Grímur samsinnti því að málið skyldi dæmast í héraði. Lagði Bjarni nú fram kæruskjal sitt þar sem til voru tíndar ærumeiðingar þær sem Jóhann átti að hafa sagt og dæmdi Grímur Jóhann í tveggja hundraða sekt í löndum til Bjarna auk 8 ríkisdala, en 3 ríkisdali skyldi hann greiða konungi og málskostnað, 30 álnir, ofan á þetta allt, og skyldi greiðast fyrir næstu fardaga. Málið fór fyrir Alþingi 1745 og þar mótmælti Jóhann því að orð hans hefðu verið ærumeiðandi. Lögþingið dæmdi hann lygara og fjölmælismann og sektaði hann. Elínarmálið. Árið 1741 urðu mál milli Skúla Magnússonar og Bjarna sem sýslumanna; hafði kona að nafni Elín Jónsdóttir komið að Kálfárdal í Húnavatnssýslu – ef til vill til að sækja um vist – en Bjarni rekið hana burt úr héraðinu sem flakkara. Þar sem hún hraktist til Skagafjarðar tók Skúli að sér að sækja málið og var Bjarni sakfelldur og látinn borga málskostnað og sekt. Dómari var Ormur Daðason. Þegar málaferlin milli Jóhanns Gottrup og Bjarna stóðu sem hæst setti Lafrenz amtmaður Bjarna frá embætti árið 1741, um stundarsakir. Þeir voru litlir velvildarmenn. Bjarni kvaðst óðar mundu áfrýja þeim úrskurði og halda til Danmerkur fyrir hæstarétt – og það gerði hann. Þeir Jóhann og Bjarni sigldu báðir utan sama haust - en ekki fyrr en Bjarni hafði fengið Jóhann sektaðan í héraði fyrir illyrði. Stefnir dauðum manni. Í fjarveru Bjarna sat Grímur Grímsson sýsluna. Þeir Jóhann komu heim árið eftir og reið þá Bjarni til Alþingis þar sem málin töfðust enn og hélt hann því aftur utan 1743 og kom heim 1744. Kom þá maður til hans og sagði honum lát Orms Daðasonar. Varð Bjarna að orði: „Þar fór góður lagamaður, karl minn!“ – og gaf hann manninum ríkisdal áður en hann fór, en sú var ekki venja hans. Annar maður hafði dáið að Bjarna fjarverandi, en það var Lafrenz amtmaður, þá orðinn aldraður og heilsulaus og var hann grafinn að Bessastöðum. Fór Bjarni að gröf hans og stefndi honum dauðum með þrem stefnum. Bjarna var loks veitt Húnavatnssýsla aftur árið 1745 og þótti þetta ærinn sigur hjá honum. Sótti hann þá Grím og Jóhann sem ákafast fyrir aðför að sér, en þeir sóttu hann á móti. Ónýtti um síðir Sveinn Sölvason dóm Gríms um fésekt frá Sveinsstaðaþingi 2 árum fyrr og rengdi sókn Jóhanns – sem var byggð á sekt sem hafði verið dæmd samkvæmt úreltum taxta. Loks stefndi Bjarni Jóhanni fyrir sakfellinguna í Sjálfdæmismálinu og hafði af honum 120 rd. auk 50 rd. í málskostnað. Að því er virðist til að ergja Jóhann enn meira tók Bjarni að sér að verja Guðmund sýslumann á Ingjaldshóli er Jóhann vildi sækja hann til saka fyrir meiðyrði. Eftir 1745 er ekki getið frekari málaferla Jóhanns og Bjarna. Konungur veitti Jóhanni æruna aftur með bréfi árið 1746 – en af einhverjum ástæðum virðist Jóhann hafa afþakkað og „gjördist hann sídan allvesæll“ – eyddist honum nú mjög fé og fór hann á vonarvöl. Jóhann lést 1757 „úr gulusótt og anari vesælt“. Mál gegn Skúla Magnússyni. Sumarið 1746 kom frá Danmörku Halldór Brynjólfsson, nývígður Hólabiskup, og tók við embætti sínu. Skúli Magnússon sýslumaður á Ökrum, svili Halldórs, hafði verið ráðsmaður Hólastaðar á meðan þar var biskupslaust. Var Halldór ekki sáttur við viðskilnað hans og reyndi að hefja málssókn gegn honum en hún rann út í sandinn þar sem allir sem til voru kvaddir voru á einu máli um að staðurinn hefði hagnast á ráðsmennsku Skúla en ekki tapað. Þeir Guðni Sigurðsson og Bjarni Halldórsson sýslumenn fyldu Halldóri að málum – „því Guðni var vinur biskups, en Bjarni lítill vin Skúla“. Um jólin sama ár og biskup kom heim eignaðist Þóra kona hans barn – um 6 mánuðum eftir heimkomuna. Þótti mönnum meðgangan stutt, og ekki einsýnt um faðernið. Löngu síðar komst sú saga á kreik að vingott hefði verið með Skúla sýslumanni og Þóru og hann kynni að hafa verið faðirinn en sú frásögn hefur verið hrakin, meðal annars í Íslenzkum æviskrám, enda var biskupsfrúin enn vestur á Staðarstað þegar hún varð þunguð og kom ekki að Hólum fyrr en um haustið. Tunnumálið. Skúli Magnússon áttist við Pétur Oveson kaupmann á Hofsósi, og bar hann þeim sökum að hafa drýgt mjöl sitt með mold (!) og dæmdi auk þess járn kaupmanns ógilt. Í málaferlum kaupmanns við Skúla bauð Bjarni kaupmanni aðstoð sína og fékk varið mjölið þótt járndómurinn stæði. Í svonefndu geldfjármáli milli Skúla og Péturs kaupmanns hafði Jón sýslumaður Benediktsson á Rauðuskriðu í Þingeyjarsýslu dæmt dóm sem nú var kærður en Bjarni tók það að sér og vann það. Í kjölfar þess máls hófst sú mikla rimma er Skúli átti seinna eftir að lenda í við Höndlunarfélagið. Síðustu „gleðir“ á Íslandi. Eftir frásögn Þorsteins prófasts Péturssonar á Staðarbakka að dæma, virðist Bjarni hafa verið gleðimaður. Þorsteinn segir hann hafa haldið jólagleðir á Þingeyrum þrjú ár í röð – 1755, 1756 og 1757. Ekki finnst Þorsteini þess háttar veisluhöld guðleg þar sem um þessar mundir var harðæri á Norðurlandi með mannfelli. Sé mark tekið á frásögn Þorsteins prófasts – sem Ólafur Davíðsson og Jón Árnason telja ekki alls kostar áreiðanlega, enda hluta af áróðursriti gegn vikivökum – gekk upp hálf tunna af brennivíni í einni gleðinni, sem stóð í heila viku. Jafnframt telja Ólafur og Jón að þetta hafi verið síðustu vikivakar sem haldnir voru á Norðurlöndum. Indriði Einarsson segir brennivínið sem drukkið var á vikivakanum 1757 ekki hafa numið hálftunnu heldur einni og hálfri tunnu. Nítján óskilgetin börn komu undir á síðustu gleðinni. Efri ár, andlát og útför. Árið 1760 var Jóni Ólafssyni varalögmanni falið að semja Íslendingum endurbætta lögbók fyrir 1764. Bjarni Halldórsson átti að vera honum innan handar, og settist Jón því að á Þingeyrum. Fór svo að hann gerðist tengdasonur Bjarna, giftist Þorbjörgu dóttur hans og bjuggu þau í Víðidalstungu. Bjarni hélt sig vel í mat og drykk og varð mjög feitur með aldrinum - Jón Espólín segir að hann hafi „verit ellstr ok mikilhæfastr syslumanna hér á landi um hríd, ok audugr; hann var yfir sjötugt, ok hafdi legit í kör fyrir þýngsla sakir med elliburdum seinast.“ Árið 1765 var hann orðinn svo þungur á sér að hann varð að ráða sér lögsagnara, og varð fyrir valinu Arngrímur Jónsson, sonur Jóns lögsagnara á Núpi. Bjarni lést nóttina eftir þrettánda 1773, klukkan 4 að morgni. Hafði hann áður beðið um að ekki yrði skírt í höfuðið á sér. Jón Espólín telur að hann hafi „fengid fall af sænginni ádur“ en hann dó. Sumir sögðu að griðkona hefði gengið framhjá rekkjunni, Bjarni seilst eftir henni og oltið við það fram úr. Einnig var sagt að hann hefði kafnað í eigin spiki, en ekki eru til krufningarskýrslur til að staðfesta það. Veturinn 1772-3 var aftakaharður og jörð stokkfreðin. Tóku menn þó gröf fyrir sýslumanninn, og vegna aðstæðna varð hún í minna lagi. Þegar verið var að láta kistuna síga ofan í gröfina missti einn líkmanna takið á henni, svo hún steyptist ofan í með höfðagaflinn á undan. Veður var vont - „staklegt illviðri“ - og var því ákveðið að láta gott heita og moka bara yfir. Hann stendur því líklega á haus í gröf sinni fram á þennan dag. Eftirmál og eftirmæli. Eins og oft er um ríka menn, urðu deilur miklar milli erfingjanna að honum dauðum. Halldór sonur hans og Jón tengdasonur vildu m.a. gera Ástríði dóttur hans arflausa vegna barneignar hennar með Erlendi og gengu arfskiptin illa. Þurfti að lokum að fá utankomandi menn til að skera úr með gerðardómi. Jón vísilögmaður hafði forgöngu um að pantaður yrði veglegur legsteinn frá útlöndum á leiði Bjarna. Þegar steinninn var nýkominn til landsins dó Jón, og ekki höfðu aðrir erfingjar framtakssemi til að setja hann á sinn stað. Mun hann hafa endað sem gangstéttarhella eða þrepskjöldur framan við kaupmannsbúðina í Höfðakaupstað – (nú Skagaströnd). Grafskrift Bjarna og líkræðan sem haldin var yfir honum voru prentuð að undirlagi Ástríðar dóttur hans í Kaupmannahöfn með æviminningu hans árið 1777. Flestir þeir sem hafa ritað um Bjarna hafa nokkurra lína eftirmæli um hann. Ber þeim saman að mestu leyti um að hann hafi lítið verið syrgður af nágrönnum sínum, enda hafi þeir fremur óttast hann en elskað. Hann hafi verið héraðsríkur og jafnvel ágjarn en jafnframt höfðingi og vel að sér um lög og fleira. Hann var sagður góður búmaður. Indriði Einarsson, sem var sonardóttursonarsonur Bjarna, taldi ofbeldi hafa komið inn í ætt sína frá honum. Hann lýsir samskiptum Bjarna við samsveitunga sína, leiguliða klaustursins, einokunarkaupmennina í Húnaþingi og fleiri sem svo að Bjarni hafi ætíð verið í hlutverki „hamarsins“ en þeir sem hann áttist við í hlutverki „steðjans“. Þorsteinn prófastur Pétursson á Staðarbakka lýsir því í riti sínu "Manducus" að hann hafi ekki verið við „alþýðuskap, en rausnarmaður hinn mesti og höfðíngi í héraði.“ Ritstörf. Í eitt skiptið sem Bjarni var í Danmörku að reka réttar síns samdi hann ritgerð að nafni „Hundrað silfurs“ og var hún prentuð á latínu aftan við Kristnisögu (í Kaupmannahöfn 1773). Einnig liggja eftir hann nokkrar lögbókarskýringar og eitt kvæði mun til eftir hann á latínu. Einar á Mælifelli segir á Fræðimannatali sínu að Bjarni hafi ritað annál fyrir árin 1650-1772. Hannes Þorsteinsson kveðst ekki hafa séð annálinn, og telur hann glataðan. Hnútaletur. Hnútaletur var skrifmál sem Inkarnir notuðust við þar sem núna er Perú. Var það aðallega notað til að senda skilaboð milli manna. Hnútaletur var einnig notað í Kína í fornöld. Joe Biden. Joseph Robinette Biden, Jr (fæddur 20. nóvember 1942) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Wilmington í Delaware fylki. Hann er 47. og núverandi varaforseti Bandaríkjanna. Biden var áður öldungadeildarþingmaður í efri deild bandaríska þingsins fyrir heimafylki sitt. Hann sóttist eftir tilnefningu demókrata sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 1988 og forsetakosningunum árið 2008 en hætti við bæði framboðin eftir slakt gengi. Þann 23. ágúst 2008 tilkynnti Barack Obama að Biden yrði varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum. Biden, Joe Hillary Clinton. Hillary Diane Rodham Clinton (f. 26. október 1947) er bandarískur stjórnmálamaður, fædd í Chicago í Illinois fylki. Hún er utanríkisráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama en var áður ríkisstjórafrú í Arkansas fylki (1979-1981), forsetafrú Bandaríkjanna (1993-2000) og öldungardeildarþingmaður í efri deild bandaríska þingsins fyrir New York fylki (2001-2009). Hún sóttist eftir tilnefningu demókrata sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 2008 en beið lægri hlut fyrir keppinaut sínum, Barack Obama. Hillary er fyrsta konan sem talin er hafa átt raunhæfan möguleika á að verða forsetaframbjóðandi eða jafnvel forseti Bandaríkjanna. Hún er gift Bill Clinton sem var forseti Bandaríkjanna á árunum 1993-2001. Hillary Clinton er einnig metsöluhöfundur bókanna "Living History" (2003) og "It Takes A Village" (1996). Æska og Nám. Hillary Diane Rodham fæddist 26. október 1947 í Chicago, Illinois í Bandaríkjunum. Foreldar hennar Hugh Ellsworth Rodham og móðir hennar Dorothy Emma Howell fluttu til Park Ridge sem er úthverfi í Illinois þegar Hillary var þriggja ára gömul. Hillary er elst þriggja systkina en bræður hennar heita Hugh og Tony. Hún gekk í grunnsskóla í Park Ridge og síðar gekk hún í Maine East menntaskólann (e. Maine East High School) þar sem hún tók þátt í nemendaráðinu og skólablaðinu en á loka gagnfræðiárinu fluttist hún yfir í Maine South menntaskólann (e. Maine South High School) þar sem hún útskrifaðist árið 1965. Sama ár byrjaði Hillary í Wellesley háskólanum (e. Wellesley College) þar sem hún útskrifaðist með aðal áherslu á stjórnmálafræði. Hillary innritaði sig í Yale Laga Háskólann (e. Yale Law School). Árið 1971 kynntist hún Bill Clinton núverandi eignmanni sínum, en hann stundaði einnig laganám við sama skóla. Árið 1973 útskrifaðist hún með lögfræðigráðu frá Yale Háskólanum. Árin í Arkansas. Árið 1974 tók Hillary ákvörðun um að elta Bill Clinton til Fayetteville í Arkansas þar sem hann var að kenna lögfræði í háskólanum í Arkansas (e. University of Arkansas) og í framboði til sætis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Arkansas. Þar gerðist hún ein af tveimur kvennkyns lögfræðikennurum í sama háskóla og Bill þar sem hún kenndi afbrotafræði og varð fyrsti framkvæmdarstjóri lögfræði- hjálparstofnun skólans. Bill og Hillary giftu sig með lítilli athöfn 11. Október 1975.Hillary og Bill Clinton giftu sig með lítilli athöfn 11.10.1975. Hún ákvað að taka ekki upp nafn eiginmanns síns og halda atvinnulífinu aðskildnu frá persónulega lífinu sínu. Bill tapaði framboði sínu til fulltrúadeildarinnar en var kosin dómsmálaráðherra Arkansas árið 1976 sem gerði það að verkum að hjónin fluttu til höfuðborgar Arkansas, Little Rock. Þar byrjaði hún að vinna hjá virðulegri lögfræðistofu sem hét Rose Law Firm, ásamt því að vinna sjálfboðavinnu fyrir málstað barna. Árið 1978 var eiginmaður hennar kosin fylkisstjóri Arkansas sem gerði Hillary að ríkisfrú Arkansas (1979-1981 og svo aftur 1983-1992) þar sem eiginmaður hennar skipaði hana sem formann yfir heilbrigðisráðgjafanefnd landsbyggðarinnar í Arkansas (e. Rural Health Advisory Committee) þar sem hún tryggði aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustu fátaktækari svæða ríkisins. Árið 1979 varð Hillary fyrsta konan til að gerast meðeigandi í Rose lögfræðistofunni sem hún starfaði hjá. Frá árunum 1978 þar til Bill var gerður að forseta Bandaríkjanna var Hillary ávalt tekjuhæst á heimilinu. Árið 1980 eignuðust svo Hillary og Bill sitt fyrsta og eina barn, Chelsea Clinton. Forsetafrú Bandaríkjanna (1993-2000). Bill og Hillary Clinton árið 1997 Hillary Clinton var forsetafrú Bandaríkjanna á árunum 1993-2000 eftir að eiginmaður hennar, Bill Clinton, var vígður í embætti forseta Bandaríkjanna í janúar 1993. Hún var fyrsta forsetafrúin sem hafði framhaldsmenntun úr háskóla, hún var einnig fyrsta forsetafrúin til að hafa átt sinn eigin starfsframa þar til hún fluttist í Hvíta Húsið (e. White House) ásamt því að vera fyrst til að eignast skrifstofu í Vesturálmu Hvíta Hússins og aðra í Austurálmunni. Hillary er sögð hafa verið mjög áhrifarík forsetafrú en hún spilaði mikilvægt hlutverk í opinberum stefnumálum. Bill Clinton er sagður hafða leitað til hennar með ýmis mál og fegið álit hennar en hún er sögð ekki alltaf verið sammála eiginmanni sínum um ýmis málefni. Sem forsetafrú sá hún um að tryggja fjárframlög til að varðveita og laga sögulega minjar og svæði tengd bandarískri sögu, hún gerði ýmsar breytingar á garði Hvíta Hússins. Hún var með yfirumsjón yfir lagfæringum og endurbyggingu ýmsa mikilvæga sögulegra herbergja innan veggja Hvíta Hússins, hún hélt líka ýmsar glæsilegar veislur. Hillary fylgdi eiginmanni sínum í opinberar heimsóknir til ýmsa landa, þessar ferðir hennar gáfu henni mikla innsýn og reynslu inn í það starf sem hún kom seinna til með að taka að sér sem utanríkiráðherra Bandaríkjanna. Endurbætur í heilbrigðiskerfinu (e. Health Care Reform). Stuttu eftir að Bill Clinton tók við stöðu forseta Bandaríkjanna, kom hann á fót vinnuhóp (e. Task Force on National Health Care Reform) til að vinna að bættu heilbrygðisfrumvarpi fyrir bandarísku þjóðina. Hann skipaði Hillary Clinton yfir þessum vinnuhóp en sú ákvörðun kom mörgum á óvart og var deilt hart hvort að forsetafrú mætti samkvæmt lögum vera yfir slíkum vinnuhópi. Þessar endurbætur voru ekki lausar við gagnrýni en andstæðingar töldu þessar endurbætur meðal annarrs innihalda mikla skriffinnsku og takmarkað val almennings á þjónustu. Í ágúst 1994 féll heilbrigðisfrumvarpið á þinginu. Það var ekki fyrr en árið 2008 að þingið tók aftur upp umræðuna um nýtt heilbrigðisfrumvarp, í þetta skipti lagði Obama stjórnin fram nýtt heilbrigðisfrumvarp. Monica Lewinsky Skandallinn. Árið 1998 komast það upp að Bill Clinton átti í kynferðislegu sambandi við ungan lærling Hvíta Hússins, konu að nafni Monica Lewinsky. Fyrst þegar málið komst upp neitaði Bill ásökunum og Hillary sagði í viðtali um þetta mál, að um samsæri væri að ræða frá hægri öfgamönnum sem nýjasta samsærið í röð margra frá pólitískum andstæðingum þeirra. Síðar baðst hún afsökunar á fyrri ummælum sínum þar sem í ljós kom að eiginmaður hennar hafi ekki verið að segja sannleikann og hafði í raun og veru átt í kynferðislegu sambandi við Lewinsky. Hillary tilkynnti í ljósi þessara atburða að hún hygðist þrátt fyrir það sem undan hefði gengið,að halda í hjónabandið. Margar skoðanir voru uppi um ákvörðun forsetafrúarinnar, margir litu aðdáunar augum á styrk hennar og framkomu þegar persónuleg málefni hennar voru gerð opinber, aðrir litu á hana sem fórnalamb og enn aðrir gagnrýndu hana fyrir að vera um set í dauðu hjónabandi þar sem þau töldu hana hugsa einungis um sinn eigin pólitíska frama. Framboð til Öldungadeildar Bandaríkjaþings. Í júlí árið 1999 tilkynnti Hillary Clinton að hún hygðist bjóða sig fram sem öldungadeildarþingmaður fyrir New York fylki í kosningunum árið 2000. Í kjölfar þessarar tilkynningar varð hún fyrsta forsetafrú Bandaríkjanna til að vera frambjóðandi í öldungadeildarkosningum. Hillary hafði það að markmiði fyrir kosningarnar að draga úr atvinnuleysi með því að hvetja til nýsköpunar og búa til skattalegan hvata fyrir fyrirtæki að fjárfesta í innviðum samfélagsins. Markmið hennar var að skapa um 200 þúsund störf á sex ára tímabili, vildi hún þá einblína á að efla heilbrigðis og menntakerfið. Sama ár og hún tilkynnti um framboð sitt, fjárfesti hún í húsi í Chappaqua, í New York fylki en hún var meðal annars gagnrýnd fyrir að bjóða sig fram í New York fylki þar sem hún hafði aldrei verið búsett þar eða tekið þátt í pólitískum málum innan fylkisins. Hillary Clinton vann kosningarnar 7. nóvember árið 2000 fyrir hönd Demókrataflokkurinn|demókrata með 55 prósent atkvæða á móti Rick Lazio framjóðenda repúblika með 43 prósent atkvæða. Hillary var vígð í embætti öldungadeildaþingmanns 3. janúar 2001 og í kjölfar þess var hún fyrsta fyrrum forsetafrú til að sitja sem öldungadeildaþingmaður. Árið 2006 var hún endurkjörinn á þing með 61 prósenti atkvæða á móti 31. Öldungadeildaþingmaður fyrir New York fylki (2001-2009). Clinton lét lítið fyrir sér fara fyrst um sinn og vann hörðum höndum að byggja upp samband milli þingmanna beggja flokka. Í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001 vann Clinton hörðum höndum að finna fjármagna til að bæta varnaröryggi New York fylkis ásamt uppbyggingu svæðisins sem varð fyrir árás. Hún tók einnig virkan þátt í að rannsaka hvaða heilsufars afleiðingar urðu í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar 2001. Clinton studdi innrás Bandaríkjanna inn í Afganistan. Forsetaframboð Hillary Clinton árið 2008. Í janúar árið 2007 tilkynnti Hillary Clinton að hún hygðist bjóða sig fram í forkosningar demókrata í baráttu um forseta tilnefningu demókrata. Mótframbjóðendur hennar og helstu keppinautar í sama flokki voru Barack Obama, þingmaður frá Illinois og John Edwards fyrrum þingmaður frá Norður Carólínu (e. North Caroline). Lengi vel benti margt til þess að Clinton yrði forsetaefni demókrata. Í lok október fór að síga á fylgni Clinton og fylgni Barack Obama fór að aukast. Hillary tapaði framboði sínu naumlega fyrir mótframbjóðenda sínum Barack Obama. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hillary Clinton fundar með Mahmud Abbas, Benjamin Netanyahu og George Mitchell, sérlegum sáttasemjara 2 september 2010. Ný kjörinn forseti, Barack Obama bauð Clinton stöðu sem utanríkisráðherra, rúmri viku eftir kjör hans til forseta. Þessi ákvörðun forsetans kom mörgum á óvart. Clinton hafnaði fyrst stöðunni með þeim ummælum „Ó nei! Það viltu ekki“ en eftir frekari íhugun og fund með Obama ákvað hún að þiggja stöðuna. Í desember árið 2008 tilkynnti Barack Obama að Hillary tæki við sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 21. janúar 2009 var hún vígð inn í embætti sem 67. utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hillary Clinton var fyrsta fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna til að þjóna í ríkistjórn forseta Bandaríkjanna. Clinton lét lítið fyrir sér fara fyrstu mánuðina og vann hörðum höndum að því að læra tökin á nýja starfinu, hún hitti alla núlifandi fyrrum utanríkisráðherra til að fá betri sýn á stöðuna sem hún gegnir. Markmið Clintons er að efla utanríkisráðuneytið til muna og fór hún fram á hærra fjárframlag til stofnunarinnar ásamt því að stækka hlutverk þess í alþjóða hagkerfinu. Hún kallaði einnig eftir aukinni þörf á bættri bandarískri diplóma nærveru í heiminum, þá sértaklega í Írak. Í febrúar 2009 fór Clinton í sína fyrstu vinnuferð sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ferðinni var heitið til Japan, Indónesíu, Suður Kóreu og Kína. Clinton endaði síðan viðburðaríkt ár með því að vera viðstödd UNCCC (e. United Nations Climate Change Conference) ráðstefnuna í Kaupmannahöfn þar sem hún setti fram á seinustu stundu nýja upphæð af þróunaraðstoð til að hjálpa þróunarríkjunum að vinna með áhrifum hlýnun jarðar. Árið 2010 byrjaði Clinton á að heimsækja Asíska- Kyrrahafssvæðið (e. Asia-Pacific region) en vegna jarðskjálftans á Haítí varð sú ferð stutt þar sem hún gerði sér strax ferð til hamfarasvæðisins þar sem hún fór á fund forseta Haítí, René Préval þar sem þau meðal annars ræddu um að koma Bandaríkjamönnum á Haítí í burtu og hjálparaðgerðir. Tilvísanir. Clinton, Hillary Clinton, Hillary Christopher Dodd. Christopher John Dodd (f. 27. maí 1944) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Willimantic í Conneticut fylki. Hann starfar sem öldungardeildarþingmaður í efri deild bandaríska þingsins fyrir heimafylki sitt. Dodd sóttist eftir tilnefningu Demókrata sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 2008 en hætti kosningabaráttu sinni eftir Iowa forkosningarnar. Dodd, Christopher John Edwards. Johnny Reid „John“ Edwards (f. 10. júní 1953) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Seneca í Suður-Karólínufylki. Hann var öldungardeildarþingmaður í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Norður-Karólínufylki á árunum 1999-2005. Edwards sóttist eftir útnefningu Demókrata sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum 2004 og 2008 og var varaforsetaefni John Kerry árið 2004. Edwards, John Mike Gravel. Maurice Robert „Mike“ Gravel (f. 13. maí 1930) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Springfield í Massachusetts fylki. Hann gengdi starfi öldungardeildarþingmanns í efri deild bandaríska þingsins fyrir Alaska fylki frá árunum 1969-1981. Hann sóttist eftir tilnefningu Demókrata sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 2008. Gravel, Mike Dennis Kucinich. Dennis John Kucinich (f. 8. október 1946) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Cleveland í Ohio fylki. Hann gegnir starfi þingmanns í neðri deild bandaríska þingsins fyrir heimafylki sitt. Hann sóttist eftir tilnefningu Demókrata sem forsetaframbjóðandi í Bandarísku forsetakosningunum árið 2004 og 2008. Kucinich gegndi embætti borgarstjóra Cleveland borgar á árunum 1977-1979. Hann var aðeins 31 árs að aldri þegar hann gegndi þessu embætti og var á þeim tíma yngsti borgarstjóri sem hafði farið með völd í Bandarískri stórborg. Borgarstjóratíð hans var mjög róstursöm og eitt mesta átakamálið var þegar Kucinich neitaði að einkavæða orkufyrirtæki borgarinnar, Cleveland Public Power. Kucinich, Dennis John H. Cox. John Herman Cox (f. 15. júlí 1955) er bandarískur lögfræðingur fæddur í Chicago í Illinoisfylki. Hann sóttist eftir tilnefningu repúblikana sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 2008. Hann sagði fjölmiðlum þó sjálfur að hann væri að nota framboð sitt til þess að koma boðskap sínum á framfæri trúði því ekki sjálfur að hann muni vinna tilnefninguna. Hann hætti kosningabaráttu sinni í desember, 2007. Cox, John H. Rudy Giuliani. Rudolph William Louis „Rudy“ Giuliani (f. 28. maí 1944) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Brooklyn í New York fylki. Hann gegndi stöðu borgarstjóra New York borgar á árunum 1994-2001. Giuliani sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hætti eftir slakt gengi í forkosningunum í Flórída. Hann gaf í kjölfarið þá yfirlýsingu að hann myndi styðja John McCain. Giuliani, Rudy Mike Huckabee. Michael Dale „Mike“ Huckabee (f. 24. ágúst 1955) er bandarískur stjórnmálamaður fæddur í Hope í Arkansasfylki. Hann gegndi stöðu ríkisstjóra Arkansas frá árunum 1996 til 2007. Huckabee sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hætti kosningabaráttu sinni 4. mars, 2008. Huckabee, Mike Duncan Hunter. Duncan Hunter er bandarískur stjórnmálamaður, frá Kaliforníufylki. Hann starfar sem þingmaður í neðri deild bandaríska þingsins og sækist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008. Hunter, Duncan Alan Keyes. Alan Keyes (f. 7. ágúst 1950) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Long Island í New York fylki. Hann hefur gegnt ýmsum störfum í bandaríska stjórnkerfinu m.a. í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Hann sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hlaut ekki stöðuna. Hann bauð því fram sjálfstætt.. Keyes, Alan John McCain. John Sidney McCain III (f.29. ágúst 1936) á yfirráðasvæði Bandaríkjanna meðfram skipaskurðinum í Panama var forsetaframbjóðandi repúblikana í forsetakosningunum 2008 og öldungardeildarþingmaður fyrir Arizona fylki. Hann beið lægri hlut fyrir Barack Obama, frambjóðanda Demókrata. McCain var í bandaríska sjóhernum þegar Bandaríkjamenn tóku þátt í Víetnamstríðinu. Í stríðinu var hann tekinn sem stríðsfangi og þurfti að þola hryllilegar pyntingar. McCain var kjörinn þingmaður í öldungadeildinni árið 1986. Hann gaf kost á sér til embættis forseta Bandaríkjanna árið 2000 en varð undir í forkosningaslag fyrir George W. Bush, sem var síðar kjörinn forseti. John McCain hlaut útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins 4. mars 2008 - með sigri í Texas, Vermont, Rhode Island og Ohio náði hann lágmarkinu, 1.191 þingfulltrúa. Í lok ágúst 2008 tilnefndi hann Söruh Palin sem varaforsetaefni sitt. Hefði McCain náð kjöri væri hann elsti maður til að setjast í embætti forseta Bandaríkjanna, þá orðinn 72 ára gamall. McCain, John Ron Paul. Ronald Ernest „Ron“ Paul (f. 20. ágúst 1935) er bandarískur stjórnmálamaður. Paul, sem er repúblíkani situr í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir 14. kjördæmi Texas. Paul sóttist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins fyrir kosningarnar 2008 og kosningarnar 2012. Sonur hans Rand Paul bar sigur úr býtum í kosningunum 2. nóvember 2010 sem öldungadeildarþingmaður Kentucky. Paul sem er menntaður læknir hóf fyrst afskipti af stjórnmálum þegar hann bauð sig fram til þings fyrir 22. kjördæmi Texas 1974. Paul tapaði þá fyrir demokratanum Robert Casey, sem hafði verið þingmaður kjördæmisins síðan 1959. Eftir að Casey lét af þingstörfum 1976 sigraði Paul sérstakar aukakosningar til að fylla sætið þar til næsta þing kæmi saman í janúar 1977. Paul tapaði kosningunum í nóvember 1977 naumlega en bar sigur úr býtum 1980 og 1982. Paul var fyrsti repúblíkaninn sem náði kjöri í þessu kjördæmi. Í kosningunum 1984 bauð Paul sig fram til Öldungadeildarinnar fyrir Texas en beið lægri hlut fyrir Phil Gramm í prófkjöri Repúblíkanaflokksins. Eftirmaður Paul sem þingmaður 22. kjördæmis Texas var Tom DeLay, sem síðar varð þingflokksformaður Repúblíkana í fulltrúadeildinni. Eftir ósigurinn sneri Paul sér aftur að læknisstörfum. Í forsetakosningunum 1988 bauð Paul sig fram sem fulltrúi Frjálshyggjuflokksins. Paul sagði að tilgangur framboðsins hefði ekki endilega verið að sigra, heldur frekar að vekja athygli á hugmyndum frjálshyggjumanna, sérstaklega meðal ungs fólks. Árið 1996 bauð Paul sig fram til 14. þingsætis Texas sem fulltrúi Repúblíkanaflokksins og bar sigur úr býtum. Paul tók þátt í prófkjöri Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2008 og kom mörgum á óvart fyrir það að afla sér mikils stuðnings í gegnum grasrótarsamtök og á internetinu. Hann er einn af tveimur repúblikönum sem eru að reyna fá tilnefningu repúblikana fyrir forsetaframboð árið 2012. Paul, Ron Paul, Ron Mitt Romney. Willard Mitt Romney (f. 12. mars 1947) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Detroit í Michiganfylki. Hann gegndi áður starfi ríkisstjóra Massachusettsfylkis. Hann sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hætti kosningabaráttu sinni 7. febrúar 2008 eftir að hafa tapað baráttunni um tilnefningu repúblikanaflokksins fyrir John McCain. Hann var forsetaframbjóðandi repúblikanaflokksins í kosningabaráttunni 2012, gegn sitjandi forseta Barack Obama, en tapaði fyrir honum. Æska og menntun. Mitt Romney fæddist í Detroit þann 12. mars 1947. Hann er sonur George Romney fyrrum ríkisstjóra Michigan og Lenore Romney. Hann giftist konu sinni, Ann Romney árið 1969 og saman eiga þau fimm börn. Romney útskrifaðist með BA gráðu í Ensku frá Brigham Young Háskóla árið 1971, hann úskrifaðist svo með heiðri með sameinaða meistara gráðu í lögfræði og -viðskiptum frá Harvard háskóla árið 1975. Romney er mormónatrúar og er meðlimur kirkjunnar Church of Jesus Christ of Latter-day Saints. Viðskiptaferill. Mitt Romney hefur víðtæka reynslu úr viðskiptaheiminum. Hann byrjaði sama ár og hann útskrifaðist úr Harvard sem ráðgjafi hjá Boston Consulting Group. Frá árinu 1977 hefur hann gegnt ýmsum störfum fyrir Bain & Company og systur fyrirtæki þess Bain Capital, þar á meða sem forstjóri þeirra beggja. Romney náði þjóðarathygli í Bandaríkjunum þegar hann tók við sem stjórnandi vetrarólympíuleikanna í Salt Lake, þar nýtti hann sér viðskiptaþekkingu sína í bland við politíska hæfni. Romney og hans fólk hefur haldið því fram að sökum þeirrar viðskiptareynslu sem hann hefur, þá sé hann rétti maðurinn til að leiða Bandaríkin út úr kreppunni. Stjórnmálaferill. Romney var kosinn ríkisstjóri Massachusetts-ríkis árið 2003. Á kjörtímabili hans sem ríkisstjóri Massachusetts náði hann að ná tökum á gríðarlegum ríkishalla sem var um þrír milljarðar Bandaríkjadala. Hann gerði einnig gríðarlegar breytingar á heilbrigðiskerfi Massachusetts í anda þess sem að Barack Obama er að innleiða á landsvísu í dag. Eftir að Romney hafði setið eitt kjörtímabil sem ríkisstjóri hafnaði hann því að halda áfram sem ríkisstjóri en fór þess í stað að huga frekar að framboði sínu til forseta Bandaríkjanna. Árið 2008 fór hann fram í forkosningum repúblikana en laut í lægra haldi fyrir John McCain, þingmanni frá Arizona-fylki. Romney var þó óþreyttur við að vekja á sér athygli og hélt möguleikum opnum fyrir áframhaldandi baráttu sinni að útnefningu Repúblikana sem Forsetaefni þeirra. Það var svo í júní árið 2011 sem að Romney tilkynnti um þátttöku sína í forkosningum repúblikana fyrir forsetakosningar árið 2012. Í þetta sinn þótti Romney strax vera frekar sigurstranglegur frambjóðandi. Romney hefur verið óþreyttur við að gagnrýna stefnu Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Hann hefur tileinkað sér stefnu Repúblikanaflokksins í skattamálum, efnahag og stríðinu gegn hryðjuverkum. Gagnrýnendur Romney hafa því verið duglegir við að ásaka hann um að breyta sífellt um skoðanir og vera ósamkvæmur sjálfum sér í skoðunum. Romney hefur verið tvísaga í ýmsum málefnum svo sem fóstureyðingum, sem hann er einlægur andstæðingur við og einnig á endurbótum á heilbrigðiskerfinu. Hann hefur gagnrýnt þær breytingar sem að Obama hefur innleitt jafnvel þó að hann hafi sjálfur sett á samskonar breytingar í Massachusetts-ríki sem ríkisstjóri þess fylkis. Þegar stutt var eftir af forkosningum repúblikana var Romney svo gott sem búinn að tryggja sér útnefningu þeirra. Romney hóf því strax mikla sókn að Obama í júlí árið 2012 og hófst mikil orrahríð þeirra á milli. Herferð Obama setti á stað mikla rægingarherferð gegn Romney þar sem ásakanir um það að Romney hafi verið við stjórnvölin hjá fyrirtæki sínu Bain Capital til ársins 2001 en ekki til 1999 eins og Romney hafði ávallt haldið fram. Á sama tími fóru að birtast fréttir um ýmsar hreyfingar hjá Bain Capital þar sem fyrirtækið var að fjárfesta í fyrirtækjum sem höfðu haft það að leiðarljósi að flytja út störf bandarískra fyrirtækja. Herferð Obama gegn Romney ásamt þessum fréttum um athafnir Bain Capital voru mikið högg á kosningabaráttu Romney. En Romney var þó snöggur til og svaraði fyrir sig að bragði þar sem hann ásakaði Obama um að hafa meiri hag af því að þóknast þeim sem studdu hann fjárhagslega heldur en að vinna fyrir almenning í Bandaríkjunum. Þetta var þó aðeins byrjunin af gríðarlegri baráttu þeirra á milli. Snemma ágústmánaðar tilkynnti Romney svo um varaforsetaefni sitt. Fyrir valinu varð öldungadeildarþingmaður að nafni Paul Ryan frá Wisconsin-ríki. Ryan, sem er íhaldsmaður, er formaður fjárlaganefndar. Strax í framhaldinu af tilnefningu Ryan, þar sem vangaveltur um varaforsetaefni endaði, fór fjölmiðlaathyglin að snúast meira um Ryan frekar en Romney. Mitt Romney varð endanlega útnefndur sem forsetaframbjóðandi repúblikana 28. ágúst árið 2012 þar sem hann fékk 2061 atkvæði kjörbærra manna og kvenna á landsfundi Repúblikanaflokksins sem haldinn var í Tampa, Flórída. Það var nærri helmingi meira en til þurfti eða 1144 atkvæði. Á meðan landsfundinum stóð fengu þeir Romney og Ryan mikin stuðning frá samflokksmönnum sínum þar sem meðal annars John McCain, fyrrum andstæðingur Romney, hafði þau orð upp að engum manni væri eins vel treystandi í dag eins og Romney. Romney komst í fyrirsagnir helstu dagblaðanna eftir fyrstu kappræðurnar milli hans og Obama snemma í október. Þar hélt hann uppi sterkum málflutningi og fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í þeim og fékk því mikið fylgi með sér. Næstu tvær kappræður fóru þó ekki eins vel fyrir Romney þar sem Obama kallaði hann út fyrir að vera lygara eða fara frjálslega með sannleikann. Mitt Romney tapaði svo kosningabaráttunni fyrir Barack Obama, hann viðurkenndi ósigur sinn opinberlega þann 7. nóvember 2012. Tenglar. Romney, Mitt Romney, Mitt Tom Tancredo. Thomas Gerard Tancredo (f. 20. desember 1945) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Denver í Coloradofylki. Hann gegnir starfi þingmanns í neðri deild bandaríska þingsins fyrir Coloradofylki. Tancredo sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008. Hann tilkynnti á afmælisdegi sínum 20. desember 2007 að hann myndi hætta kosningabaráttu sinni. Tancredo, Tom Fred Thompson. Fred Dalton Thompson (f. 19. ágúst 1942) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Sheffield í Alabamafylki. Hann gegndi áður starfi öldungardeildarþingmanns í efri deild bandaríska þingsins fyrir Tennessee fylki. Hann sóttist eftir tilnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hætti kosningabaráttu sinni 22. janúar 2008. Fred Thompson er einnig þekktur sem leikari og hefur m.a. leikið í sjónvarpsþáttunum Law & Order. Thompson, Fred Hvítabandið. Hvítabandið er kvenfélag sem heldur úti líknarfélagi og er með aðstöðu við Skólavörðustíg 31 í Reykjavík. Hvítabandið var fyrst rekið sem sjúkrahús með aðstöðu til aðgerða, en er núna geðdeild. Hvítabandið var stofnað 17. febrúar 1895 og varð til að bandarískri fyrirmynd. Undir sama þaki. "Undir sama þaki" voru sex leiknir íslenskir gamanþættir sem sýndir voru í sjónvarpinu haustið 1977. Handrit að þáttunum voru skrifuð af Birni Björnssyni, Hrafni Gunnlaugssyni og Agli Eðvarðssyni. Leikstjóri var Hrafn Gunnlaugsson. Þættirnir byggðu á danskri fyrirmynd, þáttunum "Húsið á Kristjánshöfn" í leikstjórn Eriks Balling, sem notið höfðu fádæma vinsælda í danska ríkissjónvarpinu. Hver þáttur var sjálfstæð saga en sögurnar tengdust með því að persónurnar voru allar íbúar sama fjölbýlishúss. Meðal leikara voru Bessi Bjarnason, Guðrún Gísladóttir, Þórhallur Sigurðsson, Bríet Héðinsdóttir, Arnar Jónsson, Björg Jónsdóttir og Elfa Gísladóttir. Þættirnir voru sendir út á besta tíma á laugardögum strax eftir fréttir og veðurfregnir og endursýndir á miðvikudögum. Þættir úr félagsheimili. "Þættir úr félagsheimili" voru sex íslenskir sjónvarpsþættir sem sýndir voru í sjónvarpinu haustið 1982. Í raun voru þetta sjónvarpsleikrit eftir sex ólíka höfunda en sögusviðið var félagsheimili í litlu plássi úti á landi. Leikstjórn allra þáttanna var í höndum Hrafns Gunnlaugssonar. Nokkrir leikaranna léku sín hlutverk í öllum þáttunum en aðrir léku aðeins í einum þætti. Meðal leikara voru Flosi Ólafsson, Steindór Hjörleifsson, Edda Björgvinsdóttir, Gísli Rúnar Jónsson, Sigurveig Jónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson og Sigurður Sigurjónsson. Þættirnir voru sýndir á laugardagskvöldum. Þættirnir fengu heldur slæma dóma gagnrýnenda og voru meira að segja nefndir í umræðum á alþingi sem dæmi um slæma dagskrárgerð í Ríkissjónvarpinu. Einkum var það sú mynd sem þeir brugðu upp af landsbyggðarfólki sem fór fyrir brjóstið á áhorfendum. Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" voru fjórir heimildaþættir eftir Baldur Hermannsson um sögu Íslands sem voru sýndir í Ríkissjónvarpinu sumarið 1993. Þættirnir voru gríðarlega umdeildir þar sem þeir settu fram þá hugmynd að ofuráhersla á landbúnað og hagsmuni bændasamfélagsins hafi staðið í vegi framfara á Íslandi öldum saman. Jólabókaflóðið. Jólabókaflóðið er sú bókaútgáfa nefnd á Íslandi sem fer fram tveimur mánuðum fyrir jól. Hefð er fyrir því að gefa út marga titla í kringum jólin til að stíla inn á markaðinn sem þá myndast þar sem Íslendingar gefa oft bækur í jólagjöf. Bill Richardson. William Blaine „Bill“ Richardson III (f. 15. nóvember 1947) er bandarískur stjórnmálamaður, fæddur í Pasadena í Kaliforníufylki. Hann er núverandi fylkisstjóri í New Mexico fylki. Hann sóttist eftir tilnefningu Demókrata sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 2008 en hætti kosningabáráttu sinni eftir slæmt gengi í forkosningum í Iowa og New Hampshire Richardsson, Bill Taylorröð. Taylorröð er veldaröð, sem lýsir falli í nágrenni punkts, kennd við Brook Taylor. Taylorraðir eru geysimikilvægar í (tvinn)fallafræði. Framsetning. þar sem "T"("x") er Taylorröð fallsins "f"("x") í punktinun "a". Ef Taylorröðin er samleitin innan samleitnigeisla "r">0 og jöfn fallinu, þar sem |"x"-"a"|fágað fall. Fall, með Taylorröð, sem er samleitin á allri tvinntalnasléttunni nefnist heilt fall. Jóhann Svarfdælingur. Jóhann Svarfdælingur (einnig nefndur Jóhann risi) (hét fullu nafni Jóhann Kristinn Pétursson) (9. febrúar 1913 – 26. nóvember 1984) var stærsti Íslendingur sem sögur fara af. Við fæðingu vó Jóhann 18 merkur og var hann þriðja barn foreldra sinna af níu systkinum. Jóhann var 2,34 metrar á hæð þegar hann mældist hæstur og vó þá 163 kg. Ævi og störf. Jóhann Svarfdælingur og Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands. Jóhann flutti frá Íslandi árið 1935, ferðaðist víða um heim og vann meðal annars við að sýna sig í fjölleikahúsum í Norðurlöndunum. Jóhann festist í Kaupmannahöfn þegar seinni heimsstyrjöld dundi yfir og komst að lokum til Íslands árið 1945. Eftir að hafa ferðast um Ísland við að sýna kvikmyndir, flutti Jóhann til Bandaríkjanna árið 1948 og bjó þar til ársins 1982. Jóhann landaði nokkrum kvikmyndahlutverkum í Bandaríkjunum og lék meðal annars í kvikmynd sem skartaði Gary Busey og Jodie Foster. Þá kom hann fram í eigin persónu í heimildarmynd árið 1981 og þar var hann titlaður hæsti maður heims. Þegar Jóhann kom í síðasta sinn til Íslands, settist hann að á Dalvík og bjó þar til dauðadags. Jóhann lést árið 1984, þá 71 árs að aldri. Herbergi hefur verið tileinkað Jóhanni á byggðasafninu Hvoli á Dalvík og hefur það meðal annars að geyma hans persónulegu muni. Mayflower. "Mayflower" var enskt seglskip sem einkum er frægt fyrir að hafa siglt með 102 enska púrítana til Nýja heimsins árið 1620 þar sem þeir stofnuðu Plymouth-nýlenduna innan við Þorskhöfða. Þetta var fyrsta enska nýlendan í Nýja Englandi. Québecborg. Québecborg (franska: "Ville de Québec" eða einfaldlega "Québec") er höfuðstaður kanadíska fylkisins Québec og önnur stærsta borg fylkisins á eftir Montreal. Borgin var stofnuð af Samuel de Champlain 3. júlí 1608 á stað þar sem Jacques Cartier hafði áður reist virki árið 1535 nærri búðum írókesa á bugðu við Lawrencefljót sem rennur úr Vötnunum miklu. Ryūnosuke Akutagawa. Ryūnosuke Akutagawa (芥川 龍之介); (1. mars 1892 – 24. júlí 1927) var japanskur rithöfundur. Litið er á hann sem "föður japönsku smásögunnar", en hann var þekktur fyrir frábæran stíl og hversu fínt auga hann hafði fyrir smáatriðum. Sögur hans fjölluðu margar um svartari hliðar mannlegs eðlis. Tenglar. Akutagawa, Ryunosuke Sögn. a> er dæmi um sögulega persónu sem er viðfangsefni fjölda sagna. Sögn er frásögn sem segir frá sögulegum viðburðum og atvikum og bæði sögumaður og áheyrendur upplifa sem raunsanna þótt hún byggist oftast nær á hefðbundnum sagnaminnum. Kraftaverk og aðrir yfirnáttúrulegir atburðir sem eiga sér stað í sögnum eru þannig settir fram sem eitthvað sem raunverulega á að hafa gerst, ólíkt því sem gerist í ævintýrum. Sögutími sagna er mjög mismunandi. Þannig segja fornsagnir frá atburðum sem gerðust fyrir langa löngu, eins og dýrlingasagnir, sagnir um Artúr konung, William Tell og Hróa Hött, meðan samtímasagnir segja frá nýliðnum atburðum og nafngreindu fólki sem áheyrendur hafa jafnvel þekkt eða þekkja til. Flökkusagnir eru sögur sem ferðast milli staða og breytast eftir nýju samhengi. Dæmi um nútímaflökkusagnir eru sagan um köngulóna í jukkunni og köttinn í örbylgjuofninum, sem eru algengar víða um heim en birtast í ólíkum myndum. Sterk sögn. Sterkar sagnir eru sagnir sem hafa mismunandi sérhljóð í kennimyndum sínum og leggjast eftir því í ákveðnar raðir. Kallast það hljóðskipti, og hefur hver hljóðskiptaröð sína raðtölu til aðgreiningar. Myndun sterkra sagna er sameiginlegur indóevrópskur arfur og þær eru því mun eldri en germönsku veiku sagnirnar en myndun þeirra er ekki lengur virk. Sterkar sagnir eru margar hverjar taldar erfiðari viðureignar en veikar sagnir. Dæmi: Flá - "fló" - "flógum" - "fleginn". Því er það að margar sagnir hafa veikst (þ.e. fengið veika beygingu). Ein af þeim er sögnin að flá. Hún er nú orðið eiginlega bæði veik og sterk. Flestir segja núorðið: "flá" - "fláði" - "fláð", en margir þó "flegið", því að lýsingarháttur þátíðar er stöðugri en ýmsar aðrar myndir sagnarinnar. 6. röð. Sagnirnar að ala, fara og kala fara t.d. eftir 6. röð, sem mjög er auðkennd, því að þar skiptst á sérhljóðin a og ó. Aðaltengingar. Aðaltengingar eru samtengingar sem eru oftast notaðar til að tengja saman einstök orð, setningarliði, tvær hliðstæðar aðalsetningar eða tvær eða fleiri aukasetningar. Aukatengingar. Aukatengingar eru margir flokkar samtenginga sem standa fremst í aukasetningu eins og að í setningunni ‚"hún sagði að hún hefði misst af bílnum"‘. Aukatengingar eru notaðar til að tengja aukasetningar við aðrar setningar. Þær standa alltaf fremst í setningu. Skipting. Auktengingar skiptast í tvo flokka (falltengingar og atvikstengingar og fer skiptingin eftir því hvort þær séu notaðar til að tengja fallsetningar eða atvikssetningar saman. Kleina. Kleina er lítil snúin kaka steikt í feiti (til dæmis tólg) og hefur lengi verið vinsælt kaffibrauð á Íslandi. Kleinur eru skornar út með kleinujárni ("kleinuskera"). Fyrrum steiktu menn stundum kleinur í lýsi, en það var sjaldgæft. Strangt til tekið er rangt að tala um að "baka kleinur" þar sem þær eru ekki bakaðar heldur steiktar. Kaffibrauðið kleina er ættað frá Danmörku en þar er það jóla-bakkelsi. Nafnið „kleina“ er íslenskun danska nafnsins „klejne“, sem er dregið frá danska lýsingarorðinu „klejn“ sem merkir grannur, mjór eða pervisaleg/ur. Tvöföld neitun. Tvöföld neitun er þegar einhverju er neitað tvisvar sinnum til þess að fá út jákvæða merkingu. Forsetningarliður. Forsetningarliður er forsetning ásamt fallorðinu (eða þeim fallorðum sem forsetningin stýrir fallinu á). Forsetningar standa oftast á undan viðkomandi fallorðum. Hlutverk þeirra er til dæmis að kveða nánar á um ýmislegt (oft staðsetningar) auk þess sem þær stýra falli. Forsetningarliðir mynda merkingarheild og verða ekki slitnir í sundur þótt orðaröðin breytist ("hann kemur í dag" ↔ "í dag kemur hann"). Stundum gerist það að forsetning hætti að stýra falli (missi fallorð sitt). Þá er sagt að hún hætti að vera forsetning og verði að atviksorði. Kexverksmiðjan Frón. Kexverksmiðjan Frón er íslensk kexverksmiðja sem m.a. býr til matarkex, elsta kex landsins. Hjá Frón starfa um 40 manns og undanfarin ár hefur verksmiðjan framleitt yfir 700 tonn af kexi árlega. Fyrirtækið var stofnað 12. júní árið 1926 og árið 1999 var verksmiðjan keypt af Íslensk Ameríska. Fylliliður. Fylliliður er hugtak í setningarfræði sem notað er um þá liði sem fylgja aðalorði setningarliðs. Fylliliður getur verið fallorð og stjórnar aðalorðið þá falli hans. Sama gildir um andlög sagna. Hugtak sem nær yfir liði sem fylgja aðalorði setningarliðs. Ef fylliliður er fallorð (Nl) stjórnar aðalorðið falli hans. Andlög sagna teljast fylliliðir þeirra og það gera líka aðrir liðir sem so. krefjast að fylgi þeim, t.d. Fl og Al. Fs. taka með sér fylliliði og stjórna falli á þeim og það geta lo. einnig gert og jafnvel no. Hún spurði margs [NL er f. með sögn] Hún spurði um margt [Fl með so.] Hann er líkur Jóni [Nl með lo.] Hann er hræddur við hunda [Fl með lo.] Andlag. Andlag er fallorð (eða fallsetning, fallháttur og bein ræða) sem stendur alltaf í aukafalli (þolfalli, þágufalli eða eignarfalli) og stýrist af sagnorði (ekki bara umsögn). Andlagið er þolandinn í setningunni og táknar því þann sem verður fyrir því sem umsögnin segir. Sagnir geta tekið með sér andlag þótt þær séu ekki í persónuhætti (umsagnir). Aukaandlag. Orðin það og hitt kallast aukaandlag ef þau standa með aðalandlagi sem er fallsetning eða fallháttur. Ora (matvælaframleiðandi). Ora er íslenskur matvælaframleiðandi sem m.a. framleiðir Ora grænar baunir. Ora var stofnað árið 1952 til þess að selja niðursoðnar fiskafurðir. Nafnið Ora er latína og þýðir strönd en þar er einmitt vísað til hafsins og þeirra afurða sem fyrirtækið framleiðir. Ora selur bæði vörur á íslenskum markaði og erlendis. Cambridge. Cambridge (borið fram) er borg í Cambridgeshire á Englandi og hún er 80 km norðnorðaustur frá Lundúnum. Árið 2001 var fólksfjöldinn 108.863 (þar á meðal 22.153 námsmenn). Hún er þekkt fyrir Cambridge-háskóla sem er annar elsti háskóli í enskumælandi landi á eftir Oxford-háskóla. Hinar frægu byggingar Rannsóknarstofa Cavendish, Kapella King's College og Bókasafn Cambridge-Háskóla má finna í borginni. Borgin er staðsett í miðju Silicon Fen, sem er líkt við Silicon Valley í Bandaríkjunum. Cam áin rennur um borgina. Hún er vinaborg Heidelberg í Þýskalandi og Szeged í Ungverjalandi. Cambridgeshire. Cambridgeshire (skammstafað Cambs) er sýsla á Austur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Cambridgeshire er Cambridge. Oxfordshire. Oxfordshire (skammstafað Oxon) er sýsla á Suður-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Oxfordshire er Oxford. Wighteyja. Wighteyja (e. "Isle of Wight") er bretlandseyja og sýsla í Ermarsundi út fyrir ströndu Suður-Englands. Solentshaf aðskilur Wighteyja frá meginlandinu. Eyjan hefur verið vinsæl síðan Viktoríuöld sem sumardvalarstaður. Árið 2001 var fjólksfjöldinn 132.731. Höfuðborg Wighteyju er Cowes. Syllingar. Syllingar (eða Scillyeyjar; á ensku: Scilly Isles) er eyjaklasi sem er hluti af Bretlandi og er staðsettur úti fyrir suðvestur-strönd Englands, nálægt Cornwall. Sex eyjar Syllinga eru byggðar, en auk þeirra eru fjölmargar smáeyja. Eyjaklasin er u.þ.b. 45 km frá Land's End, sem er vestasti oddi Suður-Bretlands. Helvetica. Helvetica er steinskriftarleturgerð sem svissneski myndhönnuðurinn Max Miedinger hannaði árið 1957 við Haas-letursmiðjuna. Hún var hönnuð til að keppa við stafagerðina Akzidenz Grotesk. Nafnið er komið af latnesku nafni Sviss, "Confederatio Helvetica". Árið 2007 kom heimildamyndin "Helvetica" út. Mannætt. Mannætt (fræðiheiti: "Hominidae") er ein af ættunum í ættbálki prímata. Í henni eru sjö tegundir og þar á meðal maðurinn ("homo sapiens"). Sigurður Thorlacius. Sigurður Thorlacius (4. júlí 1900 – 17. ágúst 1945) var skólastjóri og fyrsti formaður BSRB. Einingarsamtök kommúnista (ml). Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar) var maóísk stjórnmálahreyfing sem starfaði frá byrjun áttunda áratugs tuttugustu aldar fram undir miðjan þann níunda. Upphaf hennar má finna meðal íslenskra námsmanna í Noregi á árunum fyrir og eftir 1970. Þá gekk þar yfir mikil róttæknibylgja og var þungamiðja hennar maóistasamtökin. Þetta voru þá sterkustu maóistasamtök í Evrópu. Þegar norskmenntuðu maóistarnir fóru að snúa aftur til Íslands gengu þeir til að byrja með í Fylkinguna með það fyrir augum að gera hana að maóistasamtökum. Það reyndist erfiðara en þeir höfðu haldið. Aðrir námsmenn sem höfðu gengið trotskíismanum á hönd við nám t.d. í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi hófu einnig skipulagt starf í Fylkingunni. Barátta þessara tveggja strauma endaði með því að maóistarnir yfirgáfu samtökin 1973 og stofnuðu sín eigin samtök undir nafninu "Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar"). Samtökin urðu þó mun þekktari undir skammstöfuninni EIK(ml). Mikil áhersla var lögð á fræðinám með námshringjum og útgáfu á ýmsum bæklingum um fræðikenninguna. Fyrir utan að halda áfram baráttu við Fylkingartrotskíistana og Alþýðubandalagið voru deilur við hin aðal maóistasamtökin KSML mikilvægur þáttur í starfi samtakanna. EIK (ml) valdi, andstætt við KSML, að vinna með og innan breiðari samtaka t.d. Víetnamhreyfingarinnar, kvennahreyfingarinnar, samtaka herstöðvaandstæðinga og verkalýðsfélaga. Tókst samtökunum um tíma að ná talsverðu fylgi í menntaskólum og háskólanum. Upp úr 1975 fór að halla undan fyrir EIK (ml), ýmsar ástæður voru fyrir því, sú mikilvægasta kannski að róttæknibylgjan á vesturlöndum var farin að fjara út. Deilur og vopnuð átök kínverskra og víetnamskra kommúnista áttu stóran þátt í því að slökkva á eldhuga margra róttæklinga. Deilur Kínverja og Albana um réttu línuna 1978, þegar Kína kom á stjórnmálasambandi við Bandaríkin, splundraði að lokum alþjóðhreyfingu maóista. Svo var komið 1979 að það sem eftir var af EIK (ml) og KFÍ-ml (eins og KSML hétu þá) var sameinað í ein samtök sem kölluð voru Kommúnistasamtökin (KS). Þau voru endanlega lögð niður 1985. Málgagn EIK (ml) var tímaritið Verkalýðsblaðið (1975-1985). Formaður miðstjórnar EIK (m-l) var alla tíð Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur. Íslensku jólasveinarnir. Íslensku jólasveinarnir eru jólavættir af tröllakyni og voru upphaflega hafðir til að hræða börn dagana fyrir jól. Foreldrar þeirra eru Grýla og Leppalúði og er Jólakötturinn húsdýrið þeirra. Upprunalega voru þeir ekkert í líkingu við alþjóðlega jólasveininn eins og hann birtist í dag, síðskeggjaður, klæddur rauðum fötum og gefandi krökkum gjafir. En á 20. öldinni runnu þeir smámsaman saman við hann með tímanum og í dag eru þeir ekki sömu tröllin eins og þeim er upphaflega lýst. Hugmyndir um útlit jólasveinanna hefur verið breytilegt. Í fyrstu eru þeir taldir tröllum líkir, síðar í mannsmynd, en stórir, ljótir og luralegir. Má telja líklegt að myndir Tryggva Magnússonar við jólsveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum endurspegli nokkuð hugmyndir manna um þá á þessu síðasta skeiði. Upp úr aldamótum 1900 taka þeir hinsvegar smám saman að fá æ meiri svip af fyrirmynd hins alþjóðlega jólasveins, heilögum Nikulási, bæði hvað snertir útlit, klæðaburð og innræti. Þeir verða vinir barnanna, færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja sögur sem þeir hefðu aldrei gert hér áður fyrr. Mun kaupmannastéttin beint eða óbeint hafa stuðlað mjög að þessu með því að nota þá í jólaauglýsingum að erlendri fyrirmynd. Þessi þróun hófst fyrst í bæjum, en miklu síðar í sveitum. Uppruni íslensku jólasveinanna. Heimildir frá 18. öld benda til þess að þeir hafi verið notaðir til að hræða börn til hlýðni, líkt og óvætturin Grýla. Í Tilskipun um húsagann á Íslandi frá 1746 segir að nú skuli "„sá heimskulegi vani, sem hér og þar skal hafa verið brúkanlegur í landinu, að hræða börn með jólasveinum eða vofum aldeilis vera afskaffaður“". Það er ekki fyrr en líða tekur á 19. öld sem jólasveinarnir taka eilítið að mildast. Þá taka menn að efast um, að þeir séu börn Grýlu, og þeir eru ekki lengur taldir mannætur, en þó bæði hrekkjóttur og þjófóttir eins og sum nöfn þeirra benda til. Eimdir sumstaðar eftir af þeim skilningi langt fram á 20. öld. Þetta er því eldri heimild en Þjóðsögur Jóns Árnasonar frá 1862 um töluna 13, en bæði þar og í síðari heimildum er annars mjög misjafnt, hversu margir þeir virðast taldir oftast þó 9 eða 13. Hversu margir jólasveinarnir voru taldir var einnig misjafnt eftir landshlutum. Nöfn íslensku jólasveinanna. "Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Faldafeykir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir." Jón Árnason gat sem kunnugt er ekki birt nema um það bil helming þess efnis, sem honum hafði borist, í fyrstu útgáfu þjóðsagnanna, og af nöfnum jólasveina valdi hann til þess romsuna frá síra Páli Jónssyni, sem af þeim sökum hafa síðan yfirleitt verið talin hin einu réttu jólasveinanöfn. Tvö þessara nafna, "Giljagaur" og "Stekkjarstaur", koma fyrir í fyrrnefndu Grýlukvæði frá 18. öld, en þar eru þeir ekki kallaðir jólasveinar. Giljagaur er þar sagður vera bróðir Grýlu, og Stekkjarstaur er einungis sagður vera einn af "Grýlu hyski" og "grimmur við unga sveina". "Pottasleikir, Gluggagægir og Gáttaþefur," en auk þeirra hefur hann þessi nöfn: "Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora." Þessi nöfn sáust ekki á prenti fyrr en í riti Jóns Norðmanns, Allrahanda árið 1946. "Tífill eða Tífall, Tútur, Baggi, Lútur eða Hnútur, Rauður, Redda, Steingrímur, Sledda, Bjálminn eða Bjálfinn sjálfur, Bjálmans eða Bjálfans barnið, Lækjaræsir, Litli-Pungur, Örvadrumbur." Hin runan hefur í stað þriggja síðustu nafnanna þessi nöfn: "Bitahængir, Froðusleikir, Syrjusleikir." Loks er fjórtánda nafnið, hinn alkunni "Gluggagægir". Þessi nöfn sáust samt ekki á prenti fyrr en í hinni nýju útgáfu Þjóðsagna Jóns Árnasonar árið 1958 (III:284-285). Orðið jólasveinn gerir ótvírætt ráð fyrir að þessir náungar séu karlkyns. Samt koma fyrir nöfn sem virðast eiga við kvenkyns verur. Í gamalli þulu úr Steingrímsfirði eru bæði "Redda" og "Sledda", og í þjóðarsál Ríkisútvarpsins í desember árið 1990 uppgötvuðust tvær vestfirskar jólakellingar, "Flotsokka" úr Dýrafirði og "Flotnös" úr Önundarfirði. Báðar stálu floti fyrir jólin, önnur í sokk, sem einhver hafði ekki lokið við að prjóna, en hin í nösina á sér. Algengast er í þjóðsögum að telja þá sveina annaðhvort 9 eða 13. En alltaf komu þeir hver á eftir öðrum, einn á dag og sá síðasti á aðfangadag. Síðan hurfu þeir einn á eftir öðrum aftur til fjalla, sá fyrsti á jóladag. Líklega hefur talan 13 fest sig í sessi sökum þess að þá fór sá síðasti til fjalla á síðasta degi jóla, þrettándanum. Jólasveinar Jóhannesar úr Kötlum. Heimferð Íslensku jólasveinanna eftir Aðfangadag, samkvæmt kvæði Jóhannesar úr Kötlum, Jólasveinarnir. Jóhannes notar sömu nöfnin og birtust í þjóðsögunum 70 árum áður, þó með þeirri undantekningu, að hann setur "Hurðaskelli" í staðinn fyrir "Faldafeyki", og þannig hafa hin hálfopinberu jólasveinanöfn verið þekktust síðan. Jóhannes notar líka afbrigðið "Pottaskefill" fyrir "Pottasleiki", og auk þess notar hann afbrigðið "Skyrjarmur" fyrir "Skyrgám". Hvorugt þessara afbrigða hefur þó náð fótfestu í jólatilstandinu. Þessi afbrigði benda hinsvegar til þess, að Jóhannes hafi ekki endilega haft Þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir framan sig, þegar hann orti vísurnar, heldur farið eftir því, sem hann lærði ungur vestur í Dölum. Og því kynnu þeir síra Páll á Myrká að hafa lært þuluna á sömu slóðum. Hrafninn. "Hrafninn" er söguljóð eftir Edgar Allan Poe sem kom fyrst út 29. janúar árið 1845 í dagblaðinu New York Evening Mirror. Kvæðið fjallar um hrafn sem heimsækir mann sem syrgir ástkonu sína. Maðurinn er ljóðmælandi en hrafninn, sem fær sér sæti á brjóstmynd af Aþenu, krunkar „Nevermore“ í lok hvers erindis. Saga Hrafnsins. Á endanum tókst Poe að selja Hrafninn fyrir 10 dollara og þótti geypihátt verð. Hann var nú, eftir allt, sem á undan var gengið, búinn að glata trúnni á ágæti kvæðiðisins og það til þeirra muna, að hann setti dulnefnið Quarles undir það í stað nafns síns. En aldrei hefur nokkuð kvæði vakið aðra eins athygli á svo skömmum tíma. Allur hinn enskumælandi heimur las það með hrifningu. Gekkst Poe þá að sjálfsögðu við faðerni kvæðisins, og eftir það var nafn hans prentað undir því. Íslenskar þýðingar. Til eru að minnsta kosti fimm þýðingar kvæðisins á íslensku. Sú sem er langþekktust er þýðing Einars Benediktssonar sem kom út á prenti 1892, en einnig eru til þýðingar kvæðisins eftir Matthías Jochumsson, Þorstein frá Hamri, Pál V.G. Kolka og Jochum Eggertsson. Arial. Arial er steinskriftarleturgerð sem er seld með Microsoft Windows, öðrum Microsoft-tölvuforritum, Mac OS X frá Apple Inc og ýmsum tölvuprenturum PostScript. Robin Nicholas og Patricia Saunders hönnuðu stafagerðina árið 1982 fyrir Monotype Typography. Hreinn Benediktsson. Hreinn BenediktssonHreinn Benediktsson (10. október 1928 – 7. janúar 2005) var íslenskur málfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Ævi og störf. Hreinn var fæddur að Stöð í Stöðvarfirði í Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Benedikt Guttormsson, kaupfélagsstjóri þar, og k.h. Fríða Hallgrímsdóttir Austmann. Hann ólst upp á Eskifirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1946. Hreinn stundaði nám við Háskólana í Osló og París 1947-54 og lauk Magistersprófi í samanburðarmálfræði með latínu og hljóðfræði sem aukagreinar í Osló 1954. Hann stundaði framhaldsnám við háskólana í Freiburg, Kiel og Harvardháskóla og varði þar doktorsritgerð vorið 1958. Hún fjallaði um sérhljóðakerfi íslenskrar tungu að fornu og þróun þess fram á 14. öld. Hann var kennari við M.A. 1946 og sendikennari við háskólana í Björgvin og Osló veturinn 1954-55. Hann var skipaður prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands 18. október 1958, og gegndi þeirri stöðu allt til ársins 1998 er hann hætti störfum fyrir aldurs sakir. Hreinn var gistiprófessor við Háskólann í Kiel sumarið 1968 og við Texasháskóla í Austin vormisserið 1973. Hann flutti fjölda fyrirlestra við erlenda háskóla s.s. í Bergen, Osló, Kaupmannahöfn, Lundi, Stokkhólmi, Umeå, Helsinki, Kiel, Edingborg og Oxford. Hreinn gekkst fyrir fyrstu alþjóðaráðstefnunni um norræn og almenn málvísindi í Háskóla Íslands sumarið 1969. Hann var einn af stofnendum Norræna málfræðingafélagsins (Nordic Association of Linguists) 1976 og varaforseti þess til 1981. Hreinn var aðalhvatamaður að stofnun Rannsóknastofnunar í norrænum málvísindum (forveri Málvísindastofnunar Háskólans) og forstöðumaður hennar 1972-74. Hreinn var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslands 1963 og ritari þess 1966-69. Hann var forseti heimspekideildar H.Í. 1963-65, sat í stjórnarnefnd Handritastofnunar Íslands 1962-70, í stjórn Orðabókar háskólans 1966-83 og hugvísindadeildar Vísindasjóðs 1966-70 og 1982-86. Hnýðingur. Hnýðingur eða blettahnýðir (fræðiheiti: "Lagenorhynchus albirostris") er sjávarspendýr af ætt höfrunga og undirættbálk tannhvala. Hnýðingur er náskyldur leiftri ("Lagenorhynchus acutus"), en en er talsvert stærri og frábrugðinn í litamynstri. Lýsing. Hnýðingar er meðal stærstu höfrunga, þeir eru 1,1-1,2 m við fæðingu og verða fullvaxin dýr um 3 metra löng og vega 250 - 370 kílógrömm. Lítill munur er stærð kynjanna en kýrnar eru þó heldur minni en tarfarnir. Hvalurinn er fremur gildvaxinn miðað við aðra höfrunga en samt mjög rennilegur. Latneska heiti hnýðinga, "albirostris", vísar til hinnar hvítu trjónu. Hún er stutt en fremur gild og ennið fremur lágt. Hornið er stórt og aftursveigt. Skrokkurinn er misjafn á lit en yfirleitt svartur eða dökkgrár en kviðurinn hvítur eða ljósgrár. Útbreiðsla og hegðun. Útbreiðsla hnýðings er um norðanvert Norður-Atlantshaf og norður í Norður-Íshaf. Sunnanmörk eru um það bil við landamæri Bandaríkjanna og Kanada i vestri og Norður-Frakkland í austri, í norðri allt að Nuuk á vestur strönd Grænlands og austanvegin norður fyrir Scoresbysund og allt norðaustur til Svalbarða. Hnýðingur er mun algengari við strendur Evrópu en við Norður-Ameríku. Hnýðingar halda sig yfirleitt á grunnsævi þó svo að þá megi oft sjá í stórum hópum á úthafssvæðum. Hnýðingar eru langalgengasta tegund höfrunga við strendur Íslands. Þeir sjást við suðvesturströnd Íslands einkum frá því í júní og fram í ágúst. Þéttleiki hnýðinga í Faxaflóa á sumrin tengist útbreiðslu sandsílis. Fæðuöflun hnýðinga er að mestu óþekkt, þær fáeinu rannsóknir sem hafa farið fram benda til þessa að ýmsar tegundir þorskfiska sé aðaluppistaða en einnig smokkfiskur, síld og loðna Hnýðingar halda sig oftast í fremur litlum hópum, um eða innan við tíu dýr. Það kemur þó oft fyrir að stærri hópar sjáist, allt að 1500 dýr. Algengt er að hnýðingar elti skip og báta og syndi um stund í bógöldunni. Þeir stökkva gjarna og þá oft nánast lóðrétt upp úr sjónum. Hnýðingar, eins og aðrar höfrungategundir, gefa frá sér ýmis hljóð til samskipta. Hljóð hnýðinga hafa hærra tíðnisvið en hjá nokkurri annarri höfrungategund. Veiðar og fjöldi. Ekkert er vitað um heildarstofnstærð hnýðings á útbreiðslusvæðinu. Við talningu Hafrannsóknarstofnunar á stórhvölum hafa minni hvalir einnig verið taldir og gögn þaðan benda til að fjöldi hnýðinga við Ísland nemi að minnsta kosti nokkrum tugum þúsunda. Nokkuð var um veiðar á hnýðing við Ísland á öldum áður. Einkum virðast veiðarnar hafa farið fram þegar dýrin urðu innlyksa í hafís og voru þau þó skutluð og dregin upp á ísinn. Árið 1894 er t.d. getið um að 20-30 hnýðinga hafi rekið á land í Furufirði Þeir hafa einnig verið veiddir í minna mæli á hafi úti með byssum, skutlum og í net. Tokugawa Ieyasu. Tokugawa Ieyasu (japanska: 徳川 家康; 31. janúar 1543 – 1. júní 1616) var stofnandi og fyrsti sjógun Tokugawa-veldisins sem ríkti yfir Japan í næstum þrjár aldir, frá lokum Sengoku-tímabilsins um 1600 til Meiji-endurreisnarinnar 1868. Ieyasu tók völdin árið 1600, var skipaður sjógun árið 1603, sagði af sér 1605 en hélt áfram um valdataumana til dauðadags. Ieyasu var sonur daimyos og hófst til valda í Onin-borgarastyrjöldinni. Undir lok tímabilsins náði hann samkomulagi við Toyotomi Hideyoshi sem tókst í framhaldinu að leggja allt landið undir sig. Þegar Hideyoshi lést 18. september 1598 tók barnungur sonur hans, Toyotomi Hideyori, við völdum, en stjórn landsins var í höndum ráðs fimm öldunga þar sem sá valdamesti var Ieyasu. Hann gerði bandalög við þá daimyo sem voru andsnúnir Hideyoshi og þegar einn hinna öldunganna lést réðist hann á Ósakakastala þar sem Hideyori dvaldist, og lagði hann undir sig með hervaldi 1599. Við þetta þjöppuðu hinir þrír öldungarnir sér saman gegn Ieyasu sem sigraði her þeirra í orrustunni við Sekigahara 15. september 1600 og varð við það einvaldur í öllu landinu. Þremur árum síðar fékk hann titilinn sjógun eða herstjóri frá Go-Yozei keisara. Tveimur árum síðar sagði hann af sér og sonur hans, Tokugawa Hidetada, tók við. Ieyasu hélt samt áfram um stjórnartaumana. Síðasta andstaðan við hann kom frá Hideyori, syni Hideyoshis, sem bjó enn í Ósakakastala og safnaði um sig stuðningsmönnum sem voru andsnúnir Tokugawa-veldinu. Til uppgjörs kom í umsátrinu um Ósaka 1614-1615 sem lauk með sigri Tokugawa og dauða Hideyori. Tokugawa Hidetada. Tokugawa Hidetada (japanska: 徳川 秀忠; 2. maí 1579 – 14. mars 1632) var annar sjógun Tokugawa-veldisins og ríkti frá 1605 þar til hann sagði af sér árið 1623. Hann var þriðji sonur Tokugawa Ieyasu, fyrsta sjóguns Tokugawa-veldisins. Hann tók við af föður sínum þar sem elsti sonur Ieyasus, Tokugawa Nobuyasu, hafði verið tekinn af lífi vegna gruns um samsæri gegn föður þeirra og annar sonur hans var ættleiddur af Toyotomi Hideyoshi þegar hann var ungabarn. Hidetada átti þannig að taka þátt í orrustunni við Sekigahara árið 1600 þar sem hann stjórnaði sextán þúsund manna her, en þeir lentu í átökum við Sanada-ættina og náðu því ekki til orrustunnar í tíma. Samband feðganna beið mikinn hnekki við þetta en Ieyasu sagði þó af sér og lét syni sínum embætti sjóguns eftir árið 1605 en hélt eftir öllum raunverulegum völdum. Við afsögn föður síns varð Hidetada höfuð ættarveldisins. Hann giftist Oeyo af Oda-ættinni og átti tvo syni, Tokugawa Iemitsu og Tokugawa Tadanaga, og tvær dætur, Sen prinsessu og Masako. Í andstöðu við vilja föður síns gifti hann Sen dóttur sína Toyotomi Hideyori sem átti harma að hefna gegn Tokugawa-ættinni. Þegar kom að uppgjöri milli þeirra leiddi Hidetada ásamt föður sínum umsátur um Ósakakastala sem lyktaði með lífláti Hideyoris. Eftir lát Ieyasus 1616 tók Hidetada fyrst við stjórnartaumunum fyrir alvöru. Hann styrkti Tokugawa-ættina enn í sessi með því að gifta dóttur sína, Masako, keisaranum Go-Mizunoo. Dóttir þeirra tók síðar við keisaratign í Japan sem Meishō keisaraynja. Líkt og faðir hans sagði Hidetada af sér 1623 og lét syni sínum, Tokugawa Iemitsu, sjógunstitilinn eftir en hélt samt eftir raunverulegum völdum. Á þeim tíma hóf hann skipulegar ofsóknir gegn kristnum mönnum og kristni í Japan með því að neyða kristna lénsherra til að taka líf sitt, banna kristnar bækur og skipa öllum kristnum mönnum að láta af trú sinni opinberlega eða deyja ella. Wanli. Wanli (4. september 1563 – 18. ágúst 1620) var keisari Mingveldisins í Kína frá 1572 til dauðadags. Hann var sonur Longqing keisara og hét upphaflega Zhu Yijun. Wanli var sá keisari Mingveldisins sem lengst sat í embætti. Í valdatíð hans hnignaði stjórn Mingveldisins. Fyrstu ríkisár Wanlis var stjórn landsins í höndum Zhang Juzheng sem var hæfur stjórnandi og landið blómstraði. Eftir lát Zhangs 1582 tók Wanli sjálfur við stjórninni og afturkallaði sumar af umbótum Zhangs. Þessi ár tókst hann á við þrjár styrjaldir sem hann sigraði allar. Sú fyrsta var stríð við Mongóla sem var hrundið. Önnur styrjöldin var við Japani sem réðust á Kóreuskagann undir stjórn Toyotomi Hideyoshi. Að síðustu tókst honum að bæla niður uppreisn Yang Yin Long. Eftir 1600 hætti keisarinn að taka eins mikinn þátt í stjórnun ríkisins og stóð jafnvel í vegi fyrir ákvarðanatöku. Á þessum tíma gerðu mansjúmenn uppreisn undir stjórn herforingjans Nurhaci. (). () er þriðja plata Sigur Rósar. Texta og titilslaus plata. Fékk góða dóma og seldist vel. Náði m.a. að komast upp í 52. sæti á The American Billboard Chart. Platan er á 76 sæti áratugalista Rolling Stone. Jórunn Viðar. Jórunn Viðar (f. 7. desember 1918) er íslenskt tónskáld. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík, dóttir hjónanna Einars (1887 - 1923) og Katrínar Viðar (1895 - 1989). Drífa Viðar (1920-1971) var systir hennar. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1937. Sama ár sigldi hún til Þýskalands, þar sem hún nam tónsmiðar við Tónlistarakademíuna í Berlín í tvo vetur, en sneri heim til Íslands í júlímánuði 1939. Hún giftist Lárusi Fjeldsted (1918 - 1985), þá laganema, síðar forstjóra í Reykjavík og eignuðust þau þrjú börn: Lárus (f. 1942), forstjóri í Reykjavík; Katrínu, lækni og alþingismann (f. 1946) og Lovísu (f. 1951), sellóleikara. Árin 1943-1946 dvöldu Jórunn og Lárus með syni sínum í New York, þar sem hann leitaði sér lækninga og rak fyrirtæki eftir það, en hún lagði stund á frekara nám í tónsmíðum við Julliard-skólann þar í borg. Þegar þau fluttu heim eignuðust þau dætur sínar tvær og Jórunn stundaði tónsmíðar, auk þess að vera einleikari og undirleikari á píanó. Hún samdi tónlistina við kvikmyndina Síðasta bæinn í dalnum, og hefur samið fjölda annarra tónverka, oft við gamla eða nýja texta eftir ýmsa höfunda. Í tónsmíðum sínum hefur Jórunn sótt mikið í íslenskan tónlistararf, bæði sem innblástur og við útsetningar á íslenskum þjóðlögum. Hún var mjög lengi eina konan í Tónskáldafélagi Íslands. Meðal þekktra verka Jórunnar eru jólalögin "Jól" og "Það á að gefa börnum brauð", "Kall sat undir kletti", "Únglíngurinn í skóginum" við texta Halldórs Laxness og ballettinn "Eldur". Alþingiskosningar 1844. Alþingiskosningar 1844 voru fyrstu alþingiskosningar á Íslandi eða m.ö.o. Alþingi var endurreist sem ráðgjafarþing með "Tilskipun um stiptun sjerlegrar ráðgefandi samkomu fyrir Ísland, er á að nefnast Alþingi". Niðurstöður. Á þinginu 1845 tóku sæti sjö konungskjörnir þingmenn og tuttugu kjördæmakjörnir. Bjarni Thorsteinsson var forseti Alþingis. Kirkjustræti. Kirkjustræti er gata í miborg Reykjavíkur sem teygir sig frá Pósthússtræti í austri til Aðalstrætis í vestri. Við hana stendur Alþingishúsið og Dómkirkjan. Kirkjustræti hét fyrst "Kirkjustígur", þá "Kirkjubrú" og loks Kirkjustræti. Listi yfir borgir á Bretlandi. Þetta er listi yfir borgir á Bretlandi. Einvaldur Bretlands veitir borgarréttindi. Borgarréttindi eru ekki veitt sjálfkrafa með hliðsjón af fólksfjölda einum saman. Cardiff. Cardiff (velska: "Caerdydd") er höfuðborg Wales á Bretlandi. Hún er stærsta borg í Wales og er í Glamorgansýslu. Cardiff var stofnuð árið 1905 og árið 1955 varð hún höfuðborg Wales. Árið 2006 bjuggu 317.500 manns í Cardiff. Í Cardiff er töluverð sjónvarpsþáttagerð, þar eru t.d. Doctor Who og Torchwood teknir upp. Á 19. öld var Cardiff lítill bær. Þá hófst kolanámugröftur og bærinn stækkaði og varð að þeirri borg sem hún er í dag. Norður-Írland. Norður-Írland er land í Evrópu og eitt af fjórum löndum sem tilheyra Bretlandi. Landið er á Norðaustur-Írlandi. York. York (stundum nefnd Jórvík á íslensku) er borg í Norður-Yorkshire í Englandi. Hún hefur lengst af tilveru sinnar verið höfuðborg, fyrst rómverska hluta Englands, en síðar konungsríkjanna Norðymbralands (engilsaxa), Jórvíkur (víkinga) og nú síðast Yorkshire. Mikil saga og menning einkenna borgina. Íbúar eru rétt tæplega 200 þús. Lega og lýsing. York liggur við samflæði ánna Ouse og Foss norðarlega í Englandi. Næstu stærri borgir eru Leeds til suðvesturs (35 km), Hull til suðausturs (50 km) og Sheffield til suðurs (70 km). Norðursjór er um 50 km til austurs og Pennínafjöll steinsnar til vesturs. London er í um 300 km til suðurs. Á tímum Rómverja var nágrenni borgarinnar mýrlent. Á seinni öldum eru flóð í ánni Ouse algeng, enda mikið flatlendi allt í kring. Því hafa varnargarðar verið settir upp meðfram ánni, ásamt lokum og göngum í ána Foss til að lágmarka flóð. Síðasta stórflóðið átti sér stað árið 2000 og kom borgin illa úr því. Orðsifjar. Á tímum Rómverja hét borgin Eboracum. Ekki hefur tekist svo öruggt sé að skýra heitið, enda upprunnið í keltnesku. Ekki er ólíklegt að það sé dregið af trjátegundinni ýviði. Það voru engilsaxar sem tóku heitið hljóðfræðilega upp og breyttu því í Eoforwic á 7. öld. Fyrri hluti heitisins merkir "göltur". Þegar Danir hertóku borgina 866 kölluðu þeir borgina Jórvík. Þannig er hún enn gjarnan kölluð á íslensku í dag. Heitið styttist hins vegar í ensku og kemur fram í ýmsum myndum, s.s. Yerk, Yourke, Yarke og loks York, en síðastnefnda heitið kom fyrst fram á 13. öld. Skjaldarmerki og fáni. Fáninn og skjaldarmerkið sýna bæði Georgskrossinn, þ.e. rauður kross á hvítum grunni. Í rauða krossinum eru fimm gyllt ljón, en þau tákna hinn mikla stuðning borgarinnar við enska konunginn. Þannig var skjöldurinn óbreyttur allt til 18. aldar, en þá var þremur hlutum bætt við. Sverði og veldissprota sem liggja í kross bak við skjöldinn, og svo rauð húfa efst. Hlutir þessir eiga rætur að rekja til þess að Ríkharður III stofnaði til embættis borgarstjóra í York og gaf honum forláta sverð 1387 og húfu 1393. Auk þess veitti hann borgarstjóranum leyfi til að eiga veldissprota. Rómverjar. Rómverskur varnarveggur. Grunnur virkisins er einnig frá tímum Rómverja, en samskeytin að síðari tíma hlutans sjást greinilega. York var stofnuð af Rómverjum árið 71 e.Kr. og var í upphafi herstöð. Þeir reistu virki, en í herstöðinni bjuggu 6 þús manns. Virkið er horfið í dag, en grunnur þess og nokkrir útveggir finnast undir dómkirkjunni. Nokkrir keisarar komu við í York og dvöldu þar um hríð, s.s. Hadríanus, Septimius Severus og Konstantíus Chloris. Septimíus Severus gerði York að höfuðborg skattlandsins Britannia Inferior. Konstantínus Chloris lést í borginni árið 306. Þegar í stað lýsti herdeildin í York son hans, Konstantínus (síðar kallaður hinn mikli), sem hinn nýja keisara. Í kringum árið 400 yfirgáfu Rómverjar borgina, enda voru landfræðilegar aðstæður í kringum borgina orðnar erfiðar sökum flóða. Auk þess lágu pólitískar ástæður fyrir því að Rómverjar yfirgáfu svæðið. Norðymbraland. Englar frá meginlandinu settust að á svæðinu eftir brotthvarf Rómverja á 5. öld. Fáar fornminjar finnast í borginni í dag sem staðfestir tilveru þeirra þar. Sumir fræðimenn trúa því að þeir hafi ekki sest að í borginni fyrr en síðar. Það var ekki fyrr en í upphafi 7. aldar að Edwin, englakonungur af Norðymbralandi, reyndi var að afstýra flóðum í ánni Ouse við York. Hann tók kristni í York og skírðist árið 627. Upp úr því settist hann að í York, sem þar með varð að höfuðborg englaríkisins Deira. Deira breyttist í konungsríkið Norðymbraland við sameiningu við konungsríkið Bernicia og var York áfram höfðuborg nýja ríkisins. Á 8. öld var biskupsdæmi stofnað í York og varð það að erkibiskupsdæmi 735. Fyrsta dómkirkjan var reist, en hún hvarf fyrir nýrri kirkju sem í voru 30 ölturu. Einnig varð York að mistöð menntunar er skóli og bókasafn voru stofnuð síðla á 8. öld. Viðskipti efldust við aðra hluta Englands, en einnig við Frakkland, Niðurlönd og Rínarlönd. Egill Skallagrímsson stendur frammi fyrir Eirík blóðöxi og Gunnhildi drottningu Danalög. Árið 866 ruddust víkingar inn í landið. Víkingaher undir stjórn Ívars og Hálfdans, sona Ragnars loðbróks, réðist á York 1. nóvember það ár. Þar var konungslaust í bili, svo að þeir tóku borgina nær vandræðalaust. Tveir englaprinsar, sem höfðu verið að berjast um konungstignina, sameinuðu nú krafta sína og lögðu af stað gegn víkingum. Í orrustu 21. mars 867 féllu prinsarnir, en víkingar styrktu stöðu sína. Þeir stofnuðu eigið ríki, kallað Jórvík (síðar Danalög), sem var að mestu leyti stjórnað frá York. Ríkið var þó ekki sérlega langlíft, því 954 náði Játráður (Eadred) Englandskonungur að hrekja Eirík blóðöxi frá York og innlima Jórvík. "Ítarefni:" Konungar í Jórvík Síðmiðaldir. Gamla húsaröðin við The Shambles reis á 14. öld Þegar Vilhjálmur sigursæli tók England 1066, hófst mótmælaalda í ýmsum borgum í norðurhluta Englands, einnig í York. Næstu árin fór Vilhjálmur því í herferðir norður og lagði heilu byggðarlögin í rúst. Grimmdarverk þessi gengu í sögubækurnar sem Grimmdarverk norðursins (Harrying of the North). York kom einnig illa út úr því, en Vilhjálmur hafði skipað jarl til að stjórna þar fyrir sig, sem síðar gekk til liðs við uppreisnarmenn. Eftir grimmdarverkin setti Vilhjálmur normannajarl í York, Alain Le Roux, sem kom skikkan á hlutina í héraðinu. Hann lét reisa tvo nýja kastala í York, einn sitthvoru megin við Ouse. Jarlarnir þar voru handgengir Englandskonungi næstu áratugina. York varð að mikilvægri verslunarborg. Jarlarnir buðu gyðinga velkoma þangað, enda klókir fjármálamenn. 1190 tók sig múgur manna saman í borginni og ofsóttu gyðinga grimmilega. Hinir síðarnefndu sóttu hæli í einum kastalanum. Múgurinn kveikti hins vegar í honum og brunnu þar allir gyðingar inni. Þeir fluttu aftur til York á næstu árum og voru ekki reknir endanlega burt fyrr en 1290 þegar öllum gyðingum í Englandi var gert að yfirgefa landið. York óx mikið á síðmiðöldum. Borgin hlaut varnarmúra og tugi nýrra kirkna. 12 þeirra standa enn í dag og eru 8 þeirra enn í notkun. Borgarastríð. Guy Fawkes handtekin í púðursamsærinu. Fawkes fæddist og ólst upp í York, en hann var einn fárra kaþólikka sem héldu messur í leyni. Á tímum Hinriks VIII á fyrri hluta 16. aldar var kaþólska kirkjan bönnuð í landinu. Þá voru allar kaþólskar innréttingar lagðar niður í York. Öll klaustur voru lokuð og kirkjunum breytt í anglískar kirkjur. Þó náði lítill kaþólskur söfnuður að lifa að þessa tíma, en kaþólikkar hittust í laumi. Einn þeirra var Guy Fawkes, sem síðar reyndi að sprengja upp þinghúsið í London 1605 í púðursamsærinu. Eftir missætti Karls I og þingsins í London 1642, flutti Karl til York og stjórnaði ríkinu þaðan í hálft ár. York er því ein af fáum borgum sem skarta þann heiður að hafa verið höfuðborg Englands. Þegar enska borgarastríðið hófst á sama ári stóð York með konungi. Tveimur árum síðar birtist þingherinn undir stjórn Lord Fairfax og settist um borgina. Umsátið hófst 22. apríl 1644 og stóð í rúma tvo mánuði. Þegar hjálparher á leið til York tapaði í orrustu á leiðinni (orrustan við Marsdon Moor), þótti sýnt að engin leið væri að bjarga borginni. Konungsinnar gáfust því upp og hófu að semja við herinn fyrir utan. Fairfax leyfði öllum hermönnum hliðhollir konungi að yfirgefa York í griðum 16. júlí. Eftir það hertók Fairfax borgina og gerði þingið hann að landstjóra þar. Það má segja honum til hróss að honum tókst að hemja her sinn, sem framdi engin ódæðisverk í borginni. Fólk og kirkjur var látið í friði og brátt komst lífið í borginni aftur í vanagang. Innan við tveimur áratugum síðar var York orðin þriðja stærsta borgin í Englandi, á eftir London og Norwich. Nýrri tímar. York óx hægt næstu aldir. Iðnbyltingin náði ekki að hafa eins mikil áhrif á borgina eins og nágrannaborgirnar Sheffield og Leeds, sem urðu að stórum iðnaðarborgum. Engin kol voru á nálægum svæðum. Áin Ouse grynnkaði og var ekki skipgeng, en borgin fékk járnbrautartengingu 1839. Stærstu vinnuveitendur voru járnbrautarfélagið og súkkulaðiverksmiðjan Rowntree‘s Cocoa Works (sem síðar gekk upp í Nestlé). York var þó mikið menningarsetur og margir auðugir menn settust þar að. Mannfjöldatölur frá 19. öld sýna að íbúafjölgun var ekki nema 10 þús manns að meðaltali hvern áratug. Hann var 30 þús 1821 og 90 þús 1901. Borgin var ekki skotmark Þjóðverja í heimstyrjöldinni síðari, en varð þó fyrir hörðum loftárásum 29. apríl 1942 sem hluti af herferð Þjóðverja sem kallast Baedeker Blitz. Bretar höfðu nokkru áður gert loftárásir á Lübeck og því ákváðu Þjóðverjar að eyðileggja nokkrar menningarborgir í Englandi til að hefna sín. Ásamt York urðu borgirnar Exeter, Bath, Norwich og Canterbury fyrir ásásum. Í York létust 92 manns. Miklar skemmdir urðu í miðborginni. Árið 1963 var háskóli stofnaður í borginni. Mikil flóð urðu í ánni Ouse árið 2000 en þá flæddi í 300 hús. Í dag einkennir mikil ferðamennska borgina. Hin sögulega miðborg var friðuð 1968, víkingasafnið opnaði 1984 og York var kjörin ferðamannaborg Evrópu fyrir 2007. Viðburðir. York Mystery Plays er alþýðuleiksýning sem haldin er utandyra á fjögurra ára fresti. Leikhátíð þessi var haldin í York frá 14. öld til 1570 og svo endurvakin 1951. Í sýningunni koma fram hin ýmsu handverksgild sem hafa verið í borginni í gegnum aldirnar. Oftast er sýningin sett upp í rústum Maríuklaustursins, en einnig er farið um götur borgarinnar á skrautvögnum. Leikarar á sýningunni er áhugafólk. Breska leikkonan Judy Dench tók þátt í leikunum þegar hún var stúlka. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er York City, sem leikur í neðri deildum. Stærsti árangur félagsins er sigur í bikarkeppni neðri deilda 2012 og úrslit í sömu keppni 2009. Liðið státar sig einnig af því að hafa sigrað Manchester United 3-0 í deildarbikarleik 1996. Í rúgbý eru fjögur lið frá York, þrjú áhugalið og eitt atvinnumannalið, York Wasps (eða vespurnar). York Racecourse er heiti á veðreiðum í borginni, en þær eru með þeim bestu í norðurhluta Englands. Veðreiðarnar fóru fyrst fram 1731 og dregur að þúsundir manna hvaðanæfa að í dag. Ebor Festival heitir þriggja daga veðreiðahátíð sem fram fer árlega í ágúst. Í York fór meistarakeppnin í snóker fram 2001/02, 2006/07, 2011/12 og 2012/13. Frægustu börn borgarinnar. Leikkonan Judy Dench er frá York Sextán. Sextán er náttúruleg tala og grunntala sextánundakerfis, táknuð með tveimur tölustöfum, einum og sex í tugakerfi, sem "16", en "10" í sextánundakerfi. Talan á undan 16 er 15 og talan á eftir er 17. 17 (tala). 17 er náttúruleg tala. Talan á undan 17 er 16 og talan á eftir er 18. Crash Bandicoot. Crash Bandicoot er verkvangs-tölvuleikur sem kom út í Bandaríkjunum árið 1996 hjá Naughty Dog. Hann fylgir Crash Bandicoot í gegnum ævintýri til að sigra hinn illa Dr. Neo Cortex. IPv6. Internet Protocol version 6 (IPv6), einnig nefndur IPng við upphaf þróunarvinnu, er næsta kynslóð af IP staðlinum sem hefur verið notaður í tölvunetum síðan árið 1980. IPv6 er fyrst og fremst ætlaður sem útvíkkun á IPv4 (oftast nefndur IP) og standa vonir til að hann muni smátt og smátt taka við af IPv4 á internetinu á næstu árum. IP liggur á 3. lagi OSI-líkansins svokallaða. Ritvenja IPv6 talna. Það að talan endi á tveim tvípunktum þýðir að öftustu bitarnir eru allir 0. Uppbygging IPv6 talna. Markminnstu (lengst til hægri) 64-bitarnir í IPv6 tölu eru ætlaðir einstökum tækjum. Ekki er ætlast til þess að þeim bitum sé skipt í undirnet og eru undirnet því að minnsta kosti 64-bita stór (leyfa fræðilega 1,8*1019 tæki). Augljóst er að ekki er hagkvæmt að hafa svo mörg tæki á einu undirneti (netlagi 2) enda eru yfirleitt ekki mikið fleiri en 1000 tæki á slíkum netum. Þetta kristallar eina af stærstu breytingunum frá fyrri staðli, en ætlast er til að tæki ákveði sjálf hverjir þessir 64 bitar eru. Þeir eru gjarnan ákvarðaðir út frá EUI-64 vistfangi tækis, sem aftur er ákvarðað út frá MAC vistfangi netkorts í flestum tilvikum. Einnig getur tæki ákveðið að markminnstu bitar IP-tölu sinnar séu slembnir. Af þessum orsökum rúmast í raun töluvert færri tæki innan IPv6 kerfisins en reikna mætti út með 2128 enda eru engar líkur á að allir bitar innan undirnets séu nokkurn tímann notaðir. Þeir 16 markmeiri bitar sem eru fyrir ofan tækistöluna ákvarða undirnet. Lokst ákvarða markmestu bitarnir yfirnet. Eins og er byrja allar IPv6-tölur sem úthlutað er á bitunum 001. Þetta þýðir að fremsti stafurinn í öllum slíkum tölum verður annað hvort 2 (0010)2 eða 3 (0011)2. Annars konar tegundir (með mismunandi markmestu bita) eru einnig til, svosem tölur sem bundnar eru við tengilag (e. link local) (FE80::/10), fjölvarpstölur (FF00::/8) og staðbundnar tölur (e. site local) (FC00::/7). Upptaka IPv6. Hæglega hefur gengið að fá internettengda aðila til að taka upp IPv6 og þá aðallega bæði vegna kostnaðar og vegna þess að ennþá vantar töluvert upp á að hugbúnaður styðji IPv6. Þó þarf í flestum tilvikum tiltölulega litla fyrirhöfn til að breyta forritum þannig að þau styðji staðalinn en á meðan að fleiri hafa ekki tekið hann upp er lítill þrýstingur á hugbúnaðarfyrirtæki að breyta forritum sínum og er þá komið upp vandamál á borð við það hvort kom fyrr, hænan eða eggið. Þó er búið að setja á stofn IPv6 internetbakbein sem öllum (þ.m.t. einstaklingum) er frjálst að tengjast við. Í þeim tilvikum sem internetþjónustuaðili býður ekki upp á IPv6 stuðning (sem er í langflestum tilvikum þegar þetta er ritað) er hægt að pakka IPv6 pökkum innan í IPv4 pakka og senda þá í gegnum svokölluð göng (e. tunnel) inn á IPv6 internetið. Þetta er allt hægt með fríum hugbúnaði Ljóst er að helsta hvötin til að taka upp IPv6 er sífellt versnandi skortur á IPv4 tölum. Spár eru um að slíkar tölur verði uppurnar á bilinu 2010-2020 en ljóst er að þegar slíkt gerist verður bráð nauðsyn á að flýta upptöku IPv6. Bæti. Bæti eða tölvustafur er gagnaeining notuð í tölvum sem stendur fyrir staf eða hluta stafs. Bæti samanstendur almennt af átta bitum. Stærð bætis er samt breytilegt eftir vélbúnaði og því var einingin áttund (eða átta bita bæti) fundin upp sem samanstendur ávalt af átta bitum þar sem hver biti hefur gildið 0 eða 1 — sérhver áttund getur því tekið 256 mismunandi gildi (t.d. eina heiltölu á bilinu 0-255). Bæti eru yfirleitt táknuð með hástafnum B. Sem dæmi eru (u.þ.b.) milljón bæti gjarnan táknuð sem 1 MB. Ein undanteknin er þó á þessari reglu, og er hún sú að 1 kílóbæti er gjarnan táknað með kb. Bæti eru gjarnan notuð til að tákna stærð gagnageymsla á meðan að bitar (sem táknaðir eru með litlu b-i, dæmi: 1 Mb) eru gjarnan notaðir til að tákna hraða nettenginga. Þetta veldur gjarnan ruglingi. 8Gb. Það þarf því nettengingu sem býður upp á 8 Mbás (Mb/s) til að hala niður skrá sem er 1MB að stærð á einni sekúndu. Einnig margfaldar hvert forskeyti í tölvuheiminum tölu um 1024, ólíkt því sem venjan er þar sem hvert forskeyti margfaldar tölu upp um 1000. Gagnastærð á gagnageymslum. Framleiðendur harðra diska hafa jafnan ruglað viðskiptavini sína með því að nota ekki þetta kerfi. Hjá þeim hefur 1MB í gegnum tíðina táknað 1 milljón bæta og hafa þeir þannig blekkt viðskiptavini sína til að kaupa tæki með minni minnisgetu en þeir töldu sig vera að kaupa. Þetta mun þó hugsanlega breytast eftir að dómur sem féll árið 2007 í máli gegn einum stærsta harðdiskaframleiðanda í heimi (Seagate) þar sem þeir voru dæmdir til að greiða skaðabætur fyrir að hafa viljandi ruglað viðskiptavini sína með þessum hætti. Mekong. Kort yfir Mekong-svæðiðMekong er eitt af mestu fljótum í heimi. Það er talið vera í ellefta sæta hvað lengd varðar og 12. ef vatnsmagn er reiknað (ber fram um 475 km³ af vatni á ári). Áætluð lengd er 4880 km, og aðrennslissvæði er um 810,000 km². Upptök eru á tíbetska hálendinu, það rennur suður í gegnum Yunnan-hérað í Kína, Burma, Taíland, Laos, Kambódíu og Víetnam. Gífurlegur munur er á vatnsmagni fljótsins eftir árstíma og gerir það ásamt fossum og gljúfrum mjög erfitt til siglinga á sumum svæðum þó svo að það sé afar mikilvæg samgönguleið á öðrum. Nöfn. Mekong heitir á tíbetönsku "Dza-chu"; (扎曲; skrifað með Pīnyīn: Zā Qū), á kínversku 澜沧江/瀾滄江 "Láncāng Jiāng" („Umhleypingafljótið“) eða 湄公河 "Méigōng hé"; á burmísku "Mae Khaung"; á taílensku og laoesku แม่น้ำโขง "Mae Nam Khong" ("Mae Nam" þýðir „Móðir vatnana“), og einnig "Maekong"; á khmer "Mékôngk" eða "Tonle Thom" („Vatnið mikla“); á víetnömsku "Sông Lớn" („Stóra fljótið“), "Sông Cửu Long" („Fljót drekanna níu“) og einnig "Sông Mê Kông" („Langa drekafljótið“). Evrópska nafnið Mekong er sennilegast dregið af taílensk-laoska nafninu Mékôngk eða kínveska Méigōng. Farvegur. Bátar á Mekong-fljót í norður Laos. Árósar Mekong-fljóts séðir utan úr geymi í febrúar 1996 (suðurátt sýr upp) Eins og gefur að skilja eru margir lækir sem telja má sem upphaf Mekong. Samkvæmt kínverskum jarðfræðingum ber að telja Lasagongma uppsprettuna sem upphaf fljótsins, þessi uppspretta er í fjallinu Guozongmucha í 5224 metra hæð. Fjall þetta liggur í kínverska héraðinu Qinghai sem áður var hluti af Tíbet. Úr uppsprettunni rennur áin Zayaqu. Franski jarð og mannfræðingurinn Michel Piessel, sem hafði tekið þátt í mörgum leiðöngrum á þessu svæði, hafði áður ályktað að upphaf fljótsins væri árin Zanaqu sem kemur upp í Rupsa-La dalnum (sem er vestar en Guozongmucha og liggur á 4975 metra hæð). Af þessum ástæðum ber útreikningum á lengd fljótsins ekki saman, er það talið allt frá 4350 til 4909 km. Um það bil helmingur af lengd fljótsins rennur í gegnum Kína (2198 km, heitir það "Dza Chu" á tíbetönsku en sá hluti sem rennur í gegnum Kína er kallaður "Lancang" (澜沧江) (einnig stafað Láncāng Jiāng) á kínversku (sem þýðir um það bil „umhleypingafljótið“). Megnið af leiðinni rennur fljótið í djúpum gljúfrum og það er í einungis um 500 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem það rennur suður úr Kína þó fjöllin umhverfis séu í mörg þúsund metra hæð. Fljótið í heild sinni heitir "Meigong" á kínversku (湄公河 eða Méigōng Hé). Fljótið myndar landamæri Burma og Laos næstu 200 km. Þar sem landmærin enda sameinast áin Ruak Mekongfljóti. Þar skilur einnig á milli þess sem nefnt er Efri og Neðri Mekong. Ferjustaður á Mekong-fljóti í norður Laos Fljótið myndar síðan landamæri Laos og Taílands í um 80 km áður en það rennur um skeið einungis inni í Laos. Fljótið heitir "Maè Nam Khong" ("móðir vatnana") (แม่น้ำโขง) bæði á laosku og taílensku. Þar sem það rennur inni í Laos einkennist það af gljúfrum og flúðum. Fyrir sunnan borgina Luang Prabang breiðir það mjög úr sér og er allt að 4 km á breidd og 10 metra djúpt. Þar fyrir sunnan myndar fljótið að nýju landamæri Laos og Taílands og á bökkum þess stendur meðal annars Vientiane, höfuðborg Laos. Syðst í Laos rennur það að nýju nokkurn spöl inn í Laos. Þar syðst er Si Phan Don ("fjögur þúsund eyja") svæðið og Khone fossarnir rétt norðan við landmæri Kambódíu. Á þessu svæði má meðal annars sjá hina annars afar sjaldgæfu Irrawaddy höfrunga ("Orcaella brevirostris"). Í Kambódíu er fljótið ýmist nefnt "Mékôngk" eða "Tonle Thom" ("stóra fljótið"). Sambor -flúðirnar norðan við borgina Kratie í norðaustur Kambódíu er síðast hindrunin fyrir siglingar á fljótinu. Við höfðuborgina Phnom Penh sameinast Mekong við fljótið Tonle Sap. Skammt sunnan við Phnom Penh skiptist fljótið í tvær nokkrun vegin jafn vatnsmiklar kvíslar, suðurfljótið er nefnt Bassac en það nyrðra heldur nafninu Mekong. Báðar kvíslarnar mynda sameiginlega Mekong-óseyrarnar í Víetnam. Á víetnömsku er fljótið í heild sinni nefnt "Mê Kông". Sá hluti sem rennur í gegnum Víetnam heitir oftast "Sông Cửu Long" ("fljót drekanna níu"), en meginkvíslin sem í Kambodíu er nefnd Mekong heitir hér "Tiền Giang" ("framáin") og sú sem nefnd er Bassac heitir "Hậu Giang" ("bakáin"). En fljótið rennur út í Suður-Kínahaf í níu kvíslum og er víetnamska nafnið dregið af því. Um 90 milljónir manna byggja Mekong-svæðið, það er að segja Yunnan hérað í Kína, Burma, Laos, Taíland, Kambódía og Víetnam. Aðalatvinnuvegur og lifibrauð er hrísgrjónaræktum og hrísgrjónaakrar þekja um 140,000 km² á þessu svæði. Gífurlegur fjöldi hrísgrjónaafbrigða eru ræktuð hér, greind hafa verið um 40 000 á Mekongsvæðinu. Norður-Yorkshire. Norður-Yorkshire (e. "North Yorkshire") er sýsla á Norðvestur-Englandi á Bretlandi. Hún er stærsta sýsla á Englandi og er 8.654 km² að flatarmáli. Árið 2006 var íbúafjöldinn 1.061.300. Höfuðborg sýslunnar er York. Endanlegt mengi. Endanlegt mengi er mengi með endanlegan fjölda staka, þ.e. fjöldatala mengisins er náttúrleg tala. Tómamengið hefur fjöldatölu núll, en telst endanlegt mengi. Teljanlegt mengi þarf ekki að vera endanlegt, t.d. er mengi náttúrlegra talna teljanlegt, en óendanlegt mengi. Samleitni. Samleitni er grundvallarhugtak í örsmæðareikningi, mengjafræði og (tvinn)fallafræði. Talað er um samleitni runa annars vegar og raða hins vegar. Samleitni runa. Runa ("an") er samleitin ef liðir rununnar, "an" nálgast endanlega tölu "M" (markgildi), eins vel og vera vill, eftir því sem liðvísirinn "n" vex, þ.e. ef fyrir sérhverja rauntölu ε > 0 er til náttúrleg tala "N" þ.a. |"an" -"M" | < ε fyrir öll "n"≥"N". Runa, sem ekki er samleitin, kallast "ósamleitin runa". Samleitni raða. Röð "S" telst samleitin með markgildi "M" ef runa af hlutsummum raðarinnar (hlutsummuruna) ("Sn") er samleitin með markgildi "M". Röð, sem ekki er samleitin, kallast "ósamleitin röð". Samleitnar raðir gegna lykilhutverki í fallafræði, en fáguð föll eru skilgreind með röðum sem eru samleitnar innan ákveðins samleitnigeisla. Alsamleitni er sterkara skilyrði fyrir samleitni og á við um fallarunur. Umhverfa. Umhverfa, margföldunarumhverfa eða margföldunarandhverfa fyrir töluna "x" er sú tala 1/"x" eða "x"−1 sem þarf að margfalda "x" með til að fá út margföldunarhlutleysuna 1 sem er skilgreind fyir öll gildi af "x" nema "x"=0. Margföldunarandhverfa brotsins "a"/"b" er "b"/"a" og umhverfa rauntölu er 1 deilt með tölunni. Umhverfa tölunar "5" er því 1/"5". Umhverfa er andhverfa margföldunar. Umhverfuröð er röð þar sem liðirnir eru umhverfur liðvísanna. Ferillinn sem umhverfa myndar kallast breiðbogi or er eitt keilusniðanna. Koltur. Séð til Kolturs frá Straumey. Koltur er lítil eyja í Færeyjum, sunnan og vestan við Straumey. Allur norðurhluti eyjarinnar er eitt fjall sem heitir "Kolturshamar" eða "Uppi á Oyggj" og er 478 metra hátt en suðurhlutinn er langur og fremur láglendur tangi. Koltur og Hestur voru áður eitt sveitarfélag en eru nú í sveitarfélaginu Þórshöfn. Koltur er aðeins 2,3 km² að stærð og hefur frá fornu fari aðeins verið ein bújörð, kóngsjörðin Koltur, en hún var þó tvískipt á seinni árum og kallaðist upprunalegi bærinn þá "Heimi í Húsi" en hinn "Norðuri í Gerðum" og á síðari árum "Koltursgarður". Um tíma var raunar fjórbýlt í Koltri og þá voru íbúar 40-50 talsins. Lengi framan af 20. öld bjuggu tvær ættir í eynni, sín á hvorum bæ, og töluðust ekki við. Ástæðuna vissi enginn utanaðkomandi og sagt er að á endanum hafi fólkið sjálft ekki vitað hvers vegna. Báðar fjölskyldurnar yfirgáfu eyna seint á 9. áratugnum. Hún var í eyði 1989-1994 og eftir það hefur aldrei búið þar nema ein fjölskylda. Þar hefur verið stunduð sauðfjár- og nautgriparækt. Samkvæmt manntali 1. janúar 2011 er nú enginn talinn heimilisfastur í Koltri. Búið hefur verið á Koltursgarði frá því eyjan byggðist að nýju en upprunalegi bærinn, Heimi í Húsi, hefur verið byggður upp á vegum Føroya Forngripafelags og á þar að varðveita dæmigert gamalt færeyskt góðbýli. Tvær kvikmyndir hafa verið teknar upp þar, myndin Barbara og íslenska kvikmyndin Dansinn, sem gerð er eftir sögu Williams Heinesen. Engar reglulegar ferjusiglingar eru til eyjarinnar en bátar fara þangað á sumrin frá Straumey og reglulegt þyrluflug hefur verið þangað allt árið. Gleði (veisla). Gleði (fleirtalan er gleðir) var ákveðin tegund af veislum sem haldnar voru á Íslandi frá miðöldum og fram á 18. öld, oft um jól. Voru gleðirnar stundum kallaðar vikivakar, eftir samnefndum dansi sem þar var gjarnan stiginn. Vanalegast fóru gleðir þannig fram, að höfðingjar buðu öðrum höfðingjum og sveitungum sínum heim, og veittu ótæpilega af mat og (áfengum) drykk. Gleðir gátu staðið dögum saman. Yfirvöld fengu snemma ímugust á þeim, þar sem þeim fylgdi ekki bara drykkjuskapur heldur einnig kynferðislegt lauslæti. Oft kom fjöldi óskilgetinna barna undir í einni og sömu gleðinni, með tilheyrandi vandræðum. Frægasta gleði sem haldin var var líklega sú sem kennd var við bæinn Jörfa í Haukadal. Gleðir þessar voru bannaðar með dómi á 18. öld. Þær síðustu hélt sýslumaðurinn Bjarni Halldórsson á Þingeyrum á jólum 1755, 1756 og 1757. Það er gleði af þessu tagi sem átt er við þegar sungið er "„Hinstu nótt um heilög jól höldum álfagleði“" - það er að segja, álfaveislu. Jörfi (Dalasýslu). Jörfi (eða Jörvi) er bær í Haukadal í Dalasýslu. Hann er þekktur fyrir veislur þær eða „gleðir“ sem voru haldnar þar að minnsta kosti frá 17. öld og fram á þá 18. Jörvagleði var haldin á krossmessu á hausti (14. september) og hefur verið einhvers konar töðugjöld, því heyskap var lokið og kaupafólk oft farið að huga að vistaskiptum. Þar voru dansaðir vikivakar og stundaðir ýmsir leikir. Önnur sambærileg samkoma var Staðarfellsgleði, sem haldin var á Staðarfelli í Dölum um nýár. Þessar samkomur voru þyrnir í augum yfirvalda, enda fór miklum sögum af lauslæti og gjálfífi á þeim. Björn Jónsson sýslumaður á Staðarfelli afskipaði Staðarfellsgleði 1695. Hann bannaði reyndar Jörfagleði líka en hún virðist þó hafa haldið áfram fram yfir aldamót en þegar Jón Magnússon, bróðir Árna handritasafnara, varð sýslumaður Dalamanna 1708 bannaði hann hana og bar fyrir sig, auk lausungarinnar, Stórubólu sem þá gekk enn um landið. Gleðin var ekki endurvakin en orðið jörfagleði hefur síðan verið haft um ýmiss konar óheftar skemmtanir. Fyrir ofan bæinn á Jörfa er fjallið Jörfahnjúkur. Umhverfuröð. formula_1 Hlutsummur umhverfuraðarinnar kallast þýðar tölur, táknaðar með "Hn". Donald Tusk. Donald Franciszek Tusk (fæddur 22. apríl 1957 í Gdańsk) er formaður Platforma Obywatelska og forsætisráðherra Póllands frá 16. nóvember 2007. Tusk, Donald Eyjabækurnar. Eyjabækurnar er safntitill á þremur bókum eftir Einar Kárason. Fyrst af Eyjabókunum kom út árið 1983 og hét Þar sem djöflaeyjan rís, svo kom Gulleyjan (1985) og síðan Fyrirheitna landið (1989). Lambakregða. Lambakregða er sjúkdómur sem leggst á ung lömb. Fullorðið fé getur verið smitberar. Helstu einkenni sjúkdómsins er að lömbin verða dauf og fylgja mæðrum sínum illa. Þá mæðast þau fljótt við áreynslu. Orsök veikinnar er hægfara lungnabólga af völdum sýkla sem eru ekki ósvipaðir lungnapestarsýklum en þó eru einnig aðrir sýklar sem valda veikinni. Sum lömb ná sér fljótt en önnur sýna enn veikina eftir að þau koma úr sumarhögum. Þau hósta og hafa gráleitt slím í vitum. Sjúkdómur þessi dregur lömbin þó sjaldan til dauða en aftur á móti verða þau rýr og næm gegn öðrum sjúkdómum. Með tvíbólusetningu árlega með þrívirku bóluefni er hægt að draga úr sjúkdóminum þar sem hann er algengur og jafnvel koma í veg fyrir hann þar sem hann er ei landlægur. Takmörkuð runa. Takmörkuð runa er runa þar sem sérhver liður rununnar er endanleg tala. Runan ("an") er sögð takmörkuð ef til er rauntala "M", þ.a. |"an"| ≤ "M" fyrir öll "n". Runa, sem ekki er takmörkuð, kallast "ótakmörkuð runa". Broddskita. Broddskita er væg mjólkursótt í unglambi sem veldur skitu sem er gul á litin og af henni leggur mikinn óþef. Hér áður fyrr olli hún töluverðum lambadauða, enda var hætt við að greri fyrir þar er skitan tærði oft endaþarmsopið og sárin greru saman. Kallast slík lamb "belgskitið" því skitan hleðst í belg aftan á lambinu. Kvikmyndir.is. Forsíða kvikmynda.is nýlega eftir endurhönnun veturinn 2007. Kvikmyndir.is er íslenskur kvikmyndavefur, sem stofnaður var árið 1997 en var ekki opnaður fyrr en ári síðar, í maí 1998. Á vefnum er hægt að finna upplýsingar um sýningartíma, senda og lesa kvikmyndagagnrýni, lesa fréttir úr kvikmyndageiranum og horfa á sýnishorn úr væntanlegum myndum. Einnig er á vefnum gagnagrunnur þar sem hægt er fletta upp upplýsingum um kvikmyndir, leikara og leikstjóra. Johannes Erhardt Böggild. Johannes Erhardt Böggild (28. mars 1878 – 23. nóvember 1929) var fyrsti sendiherra Dana hér á landi. Faðir hans var "Börge Thorlacius Böggild", bankastjóri, sem kominn var af íslenskum ættum í móðurkyn. Þegar Sambandslögin voru gengin í gildi og Danir áttu að skipa sendiherra hér, varð Böggild fyrir valinu. Hann var þá aðalkonsúll þeirra í London. Böggild kom hingað í ágúst 1919 og tók þá við embætti sínu. Var hann svo hér í rúm fjögur ár, en þá var hann gerður að sendiherra í Kanada og fluttist þangað 1924. Hann fékk Stórriddarakross Fálkaorðunnar árið 1921. Spænska borgarastyrjöldin. Pólskir sjálfboðaliðar sverja lýðveldinu hollustu. Spænska borgarastyrjöldin var borgarastyrjöld háð á Spáni, sem stóð frá 1936 til 1939. Tildrög hennar voru þau, að lýðræðislega kjörin, vinstrisinnuð ríkisstjórn lýðveldisins Spánar vildi framkvæma þjóðfélagsbreytingar í samræmi við stefnu sína, en falangistar neituðu að sætta sig við þær, svo herforingjar sem voru á þeirra bandi hófu uppreisn. Ríkisstjórnin naut einkum stuðnings verkamanna í borgum, sósíaldemókrata, kommúnista, anarkista og Baska, en uppreisnarmenn nutu einkum stuðnings hersins, kirkjunnar og landeigenda. Stríðið varði í þrjú ár, og gekk á ýmsu. Vesturveldin — Bretland, Frakkland og Bandaríkin — settu vopnasölubann á Spán, og töldu síst þörf á því að senda meira af vopnum til lands sem þegar logaði í ófriði. Öxulveldin Þýskaland og Ítalía studdu hins vegar uppreisn falangista, enda verulegur skyldleiki þeirra við þýska nasismann og ítalska fasismann. Sovétríkin studdu lýðveldið eftir atvikum, en höfðu hvorki tök á að blanda sér beint í stríðið né að veita lýðveldissinnum nægan stuðning til þess að vinna það. Mikill fjöldi manna frá öðrum löndum tók samt þátt í Spánarstríðinu sem sjálfboðaliðar, oftast með her lýðveldisins. Þjóðverjar og Júgóslavar áttu flesta fulltrúa, en Frakkar, Bretar, Bandaríkjamenn, Albanir, Ítalar og fleiri líka. Þeir sem komu frá löndum þar sem fasismi ríkti börðust oft í óþökk yfirvalda í heimalandinu, og áttu stundum vandræði yfir höfði sér þegar þeir sneru heim. Nokkrir Íslendingar tóku þátt í Spánarstríðinu. Árið 1939 lauk styrjöldinni með algerum sigri falangista. Foringi þeirra, Fransisco Franco, varð einræðisherra yfir Spáni og ríkti til dauðadags. Frá því lýðveldissinnar töpuðu stríðinu, hafa mismunandi fylkingar þeirra kennt hver annarri um, ekki síst annars vegar anarkistar og kommúnistar, en hins vegar stalínistar og trotskíistar. Þúsund og ein nótt. Myndskreyting úr persneskri 19. aldar útgáfu "Þúsund og einnar nætur". "Þúsund og ein nótt" (arabíska: كتاب ألف ليلة وليلة - kitāb 'alf laylah wa-laylah; persneska: هزار و یک شب - ḥezār-o yak šab) er safn af sögum frá ýmsum höfundum og úr ýmsum ritum. Sögurnar eiga rætur að rekja til Arabíu, Indlands, Persíu, Egyptalands og Sýrlands meðal annars, allt frá fornöld til miðalda. Talið er að safnið sjálft megi rekja til 8. eða 9. aldar. Safnið er til í mörgum útgáfum en allar eiga þær það sameiginlegt að innihalda rammafrásögn um konunginn Sjarjar og konu hans Sjerasade. Sumar af sögunum eru síðan sjálfar rammafrásagnir. Fjöldi sagnanna (eða nóttanna) er líka misjafn eftir útgáfum. Þekktustu sögurnar úr sagnasafninu eru sögurnar af Alí Baba, Aladdín og Sindbað sæfara. Útgáfur. "Þúsund og ein nótt" kom fyrst út í íslenskri þýðingu Steingríms Thorsteinssonar árið 1857. Þráðormar. Þráðormar (fræðiheiti: "Nematoda") kallast alls 80 þúsund tegundir hryggleysingja sem ýmist lifa í jarðvegi og vatni eða sem sníklar á dýrum og plöntum (15 þús. tegundir). Þráðormar valda ormaveiki í mörgum búfjártegundum. Skemmtiþáttur. Skemmtiþáttur er í dagskrárgerð útvarps- eða sjónvarpsþáttur sem inniheldur blandað skemmtiefni, tónlistaratriði, grínatriði, dansatriði, sjónvarpsleiki og þar fram eftir götunum, með þáttarstjórnanda sem leiðir þáttinn áfram og kynnir atriðin. Skemmtiþættir eiga rætur sínar að rekja til blandaðrar skemmtidagskrár í leikhúsum (kabarett, revía, "music hall" og "vaudeville"). Dæmi um heimsfræga skemmtiþætti eru bandarísku sjónvarpsþættirnir Ed Sullivan Show og Saturday Night Live, en þetta form hefur þó verið á undanhaldi í bandarísku sjónvarpi undanfarinn áratug. Í mörgum Evrópulöndum er löng hefð fyrir því að sýna skemmtiþátt á besta tíma á föstudags- eða laugardagskvöldum. Á Íslandi hafa skemmtiþættir verið framleiddir af Ríkissjónvarpinu og sýndir á laugardagskvöldum nánast frá stofnun en slík þáttagerð hefur oftast verið bundin við haustdagskrána. Dæmi um íslenska skemmtiþætti eru Á tali hjá Hemma Gunn, Milli himins og jarðar og Laugardagslögin. Doði. Doði (doðasótt eða bráðadoði) er efnaskiptasjúkdómur sem leggst á spendýr, oftast kýr en einnig ær, í byrjun mjaltaskeiðs og í kringum burð. Við byrjum mjólkurframleiðslu lækkar hlutfall kalks í blóði hratt svo mikil röskun verður á allri líkamsstarfsemi og getur leitt til dauða. Orsakir. Á síðustu vikum meðgöngu eykst þörf fyrir kalsíum, fosfór, magnesíum og kalí mikið. Þó að það sé nóg af þessum efnum í fóðrinu ganga skepnurnar á eigin forða, sem er eðlilegt upp að vissu marki, en beinin eru steinefnaforðabúr líkamans. Hætta á doða skapast einkum ef áðurnefnd steinefni vantar í fóðrið en einnig getur streita, fóðurbreytingar, óregluleg fóðrun, fjárrag og veðurbreytingar átt sök í sjúkdómnum. Líkur á sjúkdómnum aukast með hækkandi aldir, óalgengt að kvígur fái doða, og ef fóstrin eru mörg, t.d. tvö eða fleiri lömb í ánni. Algengast er að ær fái doða fyrir burð; kýr um og eftir hann. Einnig hefur komið fyrir að hrútar hafi fengið doða og tengist það þá engan veginn mjólkurframleiðslu eða meðgöngu. Einkenni. Doðaveikar kýr og kindur eru þróttlausar og óstyrkar til gangs. Eyrun verða köld sem og granirnar. Það hægist á allri líkamsstarfsemi og þá sérstaklega á hjartslætti. Þær þembast upp, leggja höfuð aftur með síðu. Loks missa þær meðvitund og drepast fljótt ef ekkert er að gert. Lækning. Með því að sprauta kalki, sérstaklega bórkalki, undir húð á 2-3 stöðum hækkar kalkinnihaldið í blóði svo sjúklingurinn ætti að ná sér fljótt. Of stór kalkskammtur getur valdið hjartabilun en of lítill skammtur gerir lítið gagn. Júgurbólga. Sé langvinn júgurbólga ekki meðhöndluð getur júgurhlutinn dottið af eins og gerist hér Júgurbólga kallast bólga og sýking í mjólkurkirtlum spendýra. Hún er algeng í kúm, ám en fyrirfinnst einnig í hryssum. Sýklar valda oftast júgurbólgu en einnig getur erting á slímhúð spena og högg valdið henni. Júgurbólga er meðhöndluð með lyfjum í spena, vöðva, æð eða um munn. Orsök. Sýklar sem lifa í umhverfi spendýra valda júgurbólgunni nær alltaf. Þó koma önnur umhverfisáhrif s.s. spenastig (áverkar á spena), högg á júgur, kuldi, mjólkurþrýstingur og annað áreiti (rangar mjaltir svo sem tómmjaltir, sogsveiflur í mjaltavélum og fleira) til greina og magna bólguna upp eða koma henni af stað. Bakteríur sem valda júgurbólgu. Bakteríur sem valda júgurbólgu eru ýmist smitandi eða bakteríur sem lifa almennt í umhverfinu og geta valdið júgurbólgu. Algengasti sýkillinn sem veldur júgurbólgu á Íslandi er Staphylococcus aureus. Hann, ásamt Streptococcus agalactia og Streptococcus dysgalactia, eru svokallaðir smitandi júgurbólgusýklar. Til þeirra teljast einnig Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar (stytt í CNS eða KNS). Þeir lifa á slímhúð manna og dýra og berast á milli með skítugum hlutum á borð við þvottaklúta, föt og hendur. Umhverfisbakteríur á borð við saurgerla (Escherichia coli, Streptococcus uberis, Streptococcus faecalis og fleiri) valda einnig júgurbólgu berist þeir inn í spena og júgur. Þessar bakteríur lifa í þörmum og saur. Þeir berast milli einstaklinga á sama hátt og hinir smitandi. Einkenni. Við ofurbráða, sýnilega júgurbólgu sýkist sjúklingurinn á fáum klukkustundum, fær hita og er almennt slappur. Frumutalan rýkur upp. Há frumutala getur bent til langvarandi júgurbólgu en með henni verða breytingar á júgri og mjólk yfir langan tíma. Júgur sem hefur haft langvarandi júgurbólgu í langan tíma hefur bólguþrimla og -hnúta auk þess sem kýrin eða ærin mjólkar minna. Dulin júgurbólga getur ýmist verið bráð eða langvarandi. Sé hún bráð getur hún gosið upp án þess að nokkuð finnist að við næstu mjaltir nema að frumutala hefur rokið upp. Þannig getur frumutalan rokkað upp og niður. Við bráða júgurbólgu í ám heltist ærin á þeim afturfæti sem nær er bólgna júgrinu og líkamshiti hennar hækkar. Þannig mjólkar hún minna svo lömbin svelta. Júgrið stækkar og verður hart viðkomu. Í framhaldinu getur komið í það drep svo kirtillinn fellur allur af. Langvinn júgurbólga hefur mun ógreinilegri einkenni, þ.e. mjólkurmyndun minnkar og frumutala hækkar. Oftast eru lömb þessara áa lélegri en önnur. McDonald's. McDonald's Plaza, þar sem aðalstöðvar fyrirtækisins eru McDonald's Corporation () er bandarískur skyndibitastaður. Hann er stærsta hamborgarakeðja í heimi og þjónar um það bil 47 milljónum viðskiptavina á hverjum degi. Það eru um það bil 31.000 McDonald's veitingastaðir um allan heim. Einu sinni var McDonald's stærsta skyndibitakeðja í heimi en núna eru fyrirtækin Yum! Brands (sem á KFC, Taco Bell og fleiri) og Subway stærri. Margir veitingastaðir fyritækisins eru reknir undir sérleyfi. Einkum selur McDonald's hamborgara, ostborgara, kjúkling, franskar, morgunmat, gos, mjólkurhristing og eftirrétti. Fyrirtækið var stofnað árið 1940 af Dick og Mac McDonald þegar þeir opnuðu fyrsta McDonald's veitingastaðinn í San Bernardino, Kaliforníu, Bandaríkjunum. McDonald's á Íslandi. McDonald's við Suðurlandsbraut fyrir lokun. Á Íslandi hafa fjórir McDonald's veitingastaðir verið opnaðir; við Suðurlandsbraut, í Kringlunni, hjá Smáratorgi og í Hressingarskálanum við Austurstræti. McDonald's við Suðurlandsbraut var sá fyrsti sem opnaði á Íslandi. Hann var opnaður af þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, árið 1993. 26. október 2009 tilkynnti rekstraraðili McDonald's á Íslandi Lyst ehf. að vegna falls krónunnar væri orðið erfitt um aðföng erlendis frá og því verið ákveðið að hætta rekstri undir merkjum McDonald's-leyfisins frá og með 1. nóvember. Fyrirtækið mun áfram reka hamborgarastaði undir nafninu Metro. Kóngakerti. Kóngakerti (eða kóngaljós) er þríarma kerti (sett í samband við vitringana þrjá) og var hér áður fyrr oft steypt um jólin. Þau voru búin til þannig, að tveir ljósgarnsspottar voru hnýttir nokkuð fyrir ofan miðju kertisraks og látnir ganga á ská upp í steypuprikið sitt hvoru megin við miðrakið og síðan var steypt. Mynduðust þá tveir armar út frá meginstofni kertisins. Stigbreyting. Stigbreyting er hugtak í málfræði. Sum orð, nánast eingöngu lýsingarorð og atviksorð, stigbreytast og geta þá komið fyrir í frumstigi, miðstigi og efsta stigi. Stigbreytingu skal ekki rugla saman við fallbeygingu. Strikið tilstrik (n-strik, strik sem er jafnbreytt bókstafinum "n") er notað við upptalningu beygingarmynda. Stigbreyting lýsingarorða. Flest lýsingarorð stigbreytast, en orðmyndir geta myndast eftir frumstigi, miðstigi og efsta stigi. Stigbreytingin sjálf nefnist regluleg er ef stigin eru mynduð af sama stofni, dæmi um það er orðið "ríkur" sem stibreytist "rík"ur – "rík"ari – "rík"astur þar sem stofninn er "rík-". Miðstigið myndast af því að bæta við stofninn "-ar-" eða "-r-" og þar fyrir aftan endingum veikrar beygingar lýsingarorða. Á efsta stigi eru tilsvarandi viðskeyti "-ast-" eða "-st-" og þar fyrir aftan koma annaðhvort endingar sterkrar eða veikrar beygingar lýsingarorða. Stundum verða hljóðavíxl í stofni lýsingarorða sem stigbreytast reglulega en dæmi um það er lýsingarorðið "stór" (stigbreyting "stór" - "stær"ri - "stær"stur) og lýsingarorðið "djúpur" (stigbreyting "djúp"ur – "dýp"ri – "dýp"stur"). Stigbreytingin er óregluleg ef miðstig og efsta stig myndast af öðrum stofni en frumstig eins og lýsingarorðið "illur" (stigbreyting "illur" – "verri" – "verstur". Nokkur lýsingarorð beygjast í föllum og kynjum en ekki í stigum. Efsta stig. Efsta stig eða sjaldan hástig er hæsta stigið í stigbreytingu. Miðstig (málfræði). Miðstig er miðstigið í stigbreytingu. Í íslensku. Í íslensku er hægt að mynda miðstig með því að segja "en" eða setja það orð sem eitthvað er eitthvað meira en í þágufall. Í latínu. Í latínu er "quam" notað eða sviptifallið. Frumstig. Frumstig er fyrsta stig stigbreytingar, og einnig form lýsingarorða og atviksorða þaðan sem miðstigið og efsta stigið er myndað. Frumstig í ensku. Í ensku er lýsingarorðið "good" (góður) óreglulegt frumstig, og er miðstigið af því "better" (betri) og efsta stigið "best" (bestur). Frumstig í frönsku. Í frönsku er lýsingarorðið "bon" (góður) óreglulegt frumstig, og er miðstigið af því "meilleur" (betri) og efsta stigið "le meilleur" (bestur). Frumstig í íslensku. Í íslensku er lýsingarorðið "góður" óreglulegt frumstig, og er miðstigið af því "betri" og efsta stigið "bestur". Frumstig í latínu. Í latínu er lýsingarorðið "bonus" (góður) óreglulegt frumstig, og er miðstigið af því "melior" (betri) og efsta stigið "optimus" (bestur). Frumstig í spænsku. Í spænsku er lýsingarorðið "bueno" (góður) óreglulegt frumstig, og er miðstigið af því "mejor" (betri) og efsta stigið "el mejor" (bestur). Listi yfir erlendar ferðabækur um Ísland. Þetta er listi yfir ferðabækur og bækur erlendra höfunda sem fjalla um Ísland. Flokkað er eftir öldum og raðað eftir ættarnafni höfundar, ekki titli bókar. Þjóðerni höfundar haft í sviga. Birtustig. Birtustig stjörnu er mælikvarði á því hversu björt hún er. Hægt er að mæla sýndarbirtustig og reyndarbirtustig þeirra. Því lægri tala því bjartara er fyrirbærið. Skalinn hefur ekki einingu svo sem dæmi má nefna segjum við að sýndarbirtustig Deneb er um 1,2. Þróun. Um 150 f.kr. útbjó Hipparkos, grískur stjörnufræðingur, birtustiga þar sem hann raðaði stjörnunum eftir birtu í 6 flokka, frá flokki 1 og upp í 6. Þær stjörnur sem voru í flokki 1 voru bjartastar og þær daufustu í flokki 6. Þegar menn fóru að hefja mælingar á því ljósmagni sem stjörnur geisluðu frá sér komust þeir að því að stjörnur í birtuflokki 1 eri hér um bil 100 sinnum bjartari en þær í birtuflokki 6 skv. flokkun Hipparkosar. Því var ákveðið að halda áfram að nota þetta kerfi og ákvarða það þannig að ef ljósmagn hundraðfaldast, þá lækkar birtustigið um 5. Þetta þýðir að ef birtustig lækkar um 1 þá eykst ljósmagnið 2,512 sinnum. (formula_1) Sýndarbirtustig. Sýndarbirtustig mælir birtu stjarna frá okkur séð. Menn komust að því að það voru nokkrar stjörnur töluvert bjartari en þær sem Hipparkos flokkaði í flokk 1 svo þeir þurftu að setja nokkrar stjörnur í flokkinn 0 og jafnvel -1. Með nákvæmum mælitækjum hafa menn gefið stjörnum birtustig með nákvæmni upp á hundraðshluta. Sem dæmi má nefna Siríus, björtustu stjörnuna (fyrir utan Sólina), en hún hefur sýndarbirtustigið -1,46. Sólin hefur sýndarbirtustigið -26,72. Reyndarbirtustig. Reyndarbirtustig stjarna er þannig ákvarðað að við ímyndum okkur að stjarnan sé í 10 pc (32,6 ljósár) fjarlægð frá okkur og mælum þá sýndarbirtustig hennar. Deneb í Svaninum hefur sýndarbirtustig 1,2 en er í um 1000 pc fjarlægð og hefur mun meiri raunbirtu eða -8,73. Hins vegar er Vega í Hörpunni í um 7,7 pc fjarlægð frá okkur og hefur sýndarbirtustigið 0,0 svo reyndarbirtustigið er minna eða um 0,6. Boris Godúnov. Boris Fjodorovitsj Godúnov (rússneska: "Бори́с Фёдорович Годуно́в"; um 1551 – 13. apríl 1605) var stjórnandi Rússlands í reynd eftir lát Ívans grimma frá 1584 til 1598 og síðan fyrsti Rússakeisari sem ekki var af Rúriksætt frá 1598 til 1605. Við lok valdatíma hans hófust rósturtímarnir í Rússlandi. Boris Godúnov var af frægri ætt tatara. Hann hóf feril sinn við hirð Ívans grimma og varð opritsjinik eða meðlimur í hinum illræmdu vopnuðu sveitum keisarans árið 1571. 1580 valdi keisarinn systur Godúnovs, Írene, sem kvonfang sonar síns, Fjodors. Vegna slæmrar geðheilsu Fjodors skipaði Ívan á dánarbeðinu ráð ríkisstjóra sem átti að stjórna fyrir son hans. Ráðið var skipað Godúnov, Fjodor Rómanov og Vasilíj Sjúiskíj. Fremstur þeirra var Fjodor Rómanov, en þegar hann lést í ágúst 1584 varð Godúnov hæstráðandi í landinu. 1591 lést yngri sonur Ívans, Dmitríj Ívanóvitsj, við grunsamlegar kringumstæður. Móðir hans, Maríja Nagaja, kenndi Godúnov um en rannsóknarnefnd undir stjórn Vailíjs Sjúiskíjs úrskurðaði að drengurinn (þá tíu ára) hefði fallið fyrir eigin hendi. Stjórn Godúnovs var fremur friðsæl, ef undan er skilið Sænsk-rússneska stríðið (1590-1595) þar sem hann náði að vinna lönd við Eystrasalt frá Svíum. Hann kom einnig á vistarbandi rússneskra bænda 1587. Þegar Fjodor keisari lést barnlaus árið 1598 var Godúnov kjörinn keisari af rússneska stéttaþinginu 21. febrúar. Fyrstu árin var hann vinsæll stjórnandi en eftir því sem lengra leið á valdatíma hans varð hann hræddari við samkeppni um völdin frá öðrum bojurum og hóf að ofsækja voldugustu fjölskyldurnar. Einkum varð Rómanovættin fyrir barðinu á þessum ofsóknum. Þetta aflaði honum margra óvina og eftir að hann lést leið ekki á löngu þar til sonur hans og eftirmaður, Fjodor 2., var myrtur. Fjodor 2.. Fjodor 2. (rússneska: "Фёдор II Борисович"; 1589 – 20. júní 1605) var Rússakeisari á rósturtímunum í Rússlandi, sonur og eftirmaður Boris Godúnovs. Móðir hans var dóttir hins illræmda Maljúta Skúratovs, eins leiðtoga lögreglusveita Ívans grimma. Honum var snemma ætlað að taka við stjórn landsins af föður sínum og hlaut því bestu fáanlegu menntun og þjálfun í stjórnmálum. Hann teiknaði m.a. elsta Rússlandskort sem vitað er um eftir Rússa. Þegar Godúnov lést eftir veikindi var hann kjörinn keisari 13. apríl 1605, sextán ára gamall. Þótt faðir hans hefði gert sitt besta til að raða traustum mönnum í kringum son sinn urðu óvinir hans honum yfirsterkari og þegar hinn falski Dimitríj 1. (sem þóttist sonur Ívans grimma) krafðist afsagnar hans á Rauða torginu í Moskvu réðust nokkrir bojarar, andsnúnir Godúnov, inn í Kreml og tóku hann og móður hans höndum 1. júní. 20. júní tók Dimitríj við völdum og mánuði síðar var Fjodor kyrktur til bana í íbúð sinni ásamt móður sinni. Sagt er að það hafi þurft fjóra menn til að yfirbuga hann. Krímkanatið. Krímkanatið (krímtatarska: "Qırım Hanlığı", قريم خانلغى‎; pólska: Chanat Krymski - Khanat Krymsky; rússneska: Крымское ханство - Krymskoye khanstvo; úkraínska: Кримське ханство - Kryms'ke khanstvo; tyrkneska: Kırım Hanlığı) var ríki Krímtatara sem stóð frá 1441 til 1783. Það var langlífast þeirra ríkja sem urðu til við upplausn Gullnu hirðarinnar. Nokkrar ættir krímtatara undir stjórn Hacı Giray klufu sig frá Gullnu hirðinni með stuðningi Stórfurstadæmisins Litháen og stofnuðu sjálfstætt ríki á Krímskaga við Svartahaf. Fljótlega eftir lát Hacı Giray lenti ríkið á áhrifasvæði Tyrkjaveldis og allir nýir kanar þurftu samþykki Tyrkjasoldáns. Ottómanar komu þó fram við Krímtatara fremur sem bandamenn en undirsáta. Hátindi sínum náði ríkið undir stjórn Devlet 1. Giray sem tókst að koma í veg fyrir fyrirætlanir Ottómana um að grafa skipaskurð milli Volgu og Don. Hann barðist gegn Rússum í átökum um yfirráð yfir tatarahéruðunum Kasan og Astrakan og rændi Moskvu 1571. Aðeins ári síðar beið hann síðan mikinn ósigur gegn Rússum í orrustunni við Molodi. Krímkanatinu tók að hnigna á sama tíma og Tyrkjaveldi hnignaði. Riddaralið krímtatara úreltist eftir því sem herir helstu samkeppnisríkja, Rússa og Pólverja, væddust nútímaskotvopnum. Kalmikar settust að nálægt ósum Volgu á fyrri helmingi 17. aldar og eftir að þeir gerðust bandamenn Rússa tóku þeir þátt í herförum þeirra gegn krímtöturum. Herfarir Rússa í Rússnesk-tyrkneska stríðinu 1735-1739 og Rússnesk-tyrkneska stríðinu 1768-1774 gerðu þeim kleift að kljúfa Krímkanatið frá Tyrkjaveldi og gera það að áhrifasvæði Rússa. 8. apríl 1783 innlimaði Katrín mikla Krímkanatið í Rússneska keisaradæmið og síðasti kaninn Şahin Giray leitaði hælis í Tyrkjaveldi 1787. Zidan Abu Maali. Mawlay Zidan Abu Maali eða Zaidan el-Nasir var soldán Marokkó frá 1603 til 1627 (bróðir hans ríkti yfir Fes til 1613). Hann var sonur Ahmad al-Mansur. Höfuðborg hans var í Marrakech. Fyrstu ríkisár Zidans stóð hann í borgarastyrjöld við bróður sinn um yfirráð yfir landinu. Vegna styrjaldarinnar lét hann einhvern tíma flytja allt bókasafn sitt á skip til að koma því undan, en skipstjórinn sigldi með það til Spánar þar sem það er varðveitt í El Escorial-höllinni. 1610 gerðu Zidan og Mórits af Nassá fríverslunarsamning milli Marokkó og Hollands og bandalag gegn Spánverjum og sjóræningjum úr Barbaríinu fyrir milligöngu kaupmannsins Samuels Pallache. Samningurinn gerði Zidan kleyft að kaupa vopn og skip frá Hollandi. Mórits af Nassá. Mórits af Nassá (hollenska: "Maurits van Nassau"; 14. nóvember 1567 – 23. apríl 1625) Óraníufursti, var sonur Vilhjálms þögla og Önnu frá Saxlandi. Hann tók við sem staðarhaldari fljótlega eftir lát föður síns 1584 eftir að konungar Englands og Frakklands höfðu hafnað titlinum. Hann gat sér brátt gott orð sem herforingi í uppreisninni gegn Spáni (Áttatíu ára stríðinu). 1609 undirritaði lögmaðurinn ("landsadvokaat") Johan van Oldenbarnevelt Tólf ára vopnahléð við Spán gegn ráði Móritsar. 1618 nýtti Mórits sér deilur kalvínista og arminista til að dæma van Oldenbarnevelt til dauða. 1621 hófst stríðið að nýju og Spánverjar náðu góðum árangri. Þegar Mórits lést 1625 stóð umsátrið um Breda yfir, en Mórits hafði unnið þá borg frá Spánverjum árið 1590. Yngri bróðir hans, Friðrik af Óraníu, tók við af honum. Filippus 3. Spánarkonungur. Filippus 3. Spánarkonungur eða Filippus 2. konungur Portúgals (spænska: "Felipe III"; portúgalska: "Filipe II"; 14. apríl 1578 – 31. mars 1621) var konungur Spánar og Portúgals frá 1598 til dauðadags. Hann var sonur Filippusar 2. og Önnu frá Austurríki. Hann giftist árið 1599 Margréti frá Styrju, systur Ferdinands 2. keisara. Filippus 3. tók lítinn þátt í stjórnun ríkisins sem var í höndum Lerma hertoga. Spænsku Niðurlönd heyrðu undir systur hans, Ísabellu. Jafnræði var milli uppreisnarhéraðanna í norðri (Hollands) og spænsku héraðanna í suðri sem leiddi til stríðsþreytu og undirritun tólf ára vopnahlés árið 1609. Vopnahléð fól í reynd í sér viðurkenningu á sjálfstæði Hollands og markaði upphafið á landvinningum Hollendinga í Karíbahafi og Austur-Indíum. 1604 gerðu Spánn og England með sér bandalag með Lundúnasáttmálanum sem var grundvöllur fyrir bætt samskipti landanna og aukna verslun milli þeirra. 1618 sendi Filippus hersveitir undir stjórn Ambrosio Spinola til að aðstoða mág sinn gegn uppreisnarmönnum í Bæheimi. Gísli Einarsson. Gísli Einarsson (um 1621 – 1688) var skólameistari í Skálholti og fyrstur til að vera skipaður kennari í stærðfræði og stjörnufræði við íslenskan skóla. Gísli lærði stærðfræði og stjörnufræði við Kaupmannahafnarháskóla 1644-1649. Rétt áður en hann hélt til Íslands að námi loknu var hann fenginn til að reikna út hið árlega stjörnualmanak fyrir Danmörku, verk sem venjulega var aðeins falið kennurum háskólans og þeirra bestu nemendum. Stjörnualmanakið er það eina sem enn er til af verkum Gísla en lýsingar hans á halastjörnu 1652 voru teknar upp í lýsingu Peder Hansen Resens. Gísli varð heyrari í Skálholti eftir heimkomuna og rektor 1651-1661. Hann fór illa með áfengi og lenti í hneykslismálum vegna ryskinga. Brynjólfur Sveinsson biskup hjálpaði honum á ýmsa lund og hélt verndarhendi yfir honum. 1661 gerðist hann prestur að Helgafelli sem hann hélt til dauðadags. Gísli Magnússon (sýslumaður). Gísli Magnússon eða Vísi-Gísli (1621 – 4. júní 1696) var sýslumaður og frumkvöðull í búnaðarfræði á Íslandi. Hann var sonur Magnúsar Björnssonar lögmanns og Guðrúnar Gísladóttur. Hann lærði í Hólaskóla og síðan í Kaupmannahafnarháskóla. Hann stundaði nám í Hollandi frá 1543-1646 og dvaldist einnig í Englandi um tíma. Hann varð sýslumaður í Múlaþingi að hluta 1649 og fékk Skriðuklaustur þar sem hann bjó. 1653 flutti hann að Hlíðarenda í Fljótshlíð og varð sýslumaður í Rangárþingi 1659. Jafnframt embættisverkum stundaði hann ýmis vísindastörf. Á Hlíðarenda gerði hann meðal annars tilraunir með kornrækt og var fyrstur manna til að rækta ýmsar matjurtir á Íslandi. Vitað er að hann hafði áhuga á að reyna kartöflurækt og í bréfi frá 1670 biður hann Björn son sinn, sem þá var við nám í Kaupmannahöfn, um að senda sér kartöflur til útsæðis en ekki er vitað til þess að neitt hafi orðið úr kartöfluræktunartilraunum hjá honum. Árið 1686 flutti hann til dóttur sinnar og tengdasonar í Skálholti þar sem hann lést tíu árum síðar úr steinsótt. Kona Gísla var Þrúður dóttir Þorleifs sýslumanns á Hlíðarenda, Magnússonar prúða. Á meðal barna þeirra voru Guðríður, kona Þórðar Þorlákssonar biskups í Skálholti og Björn sýslumaður í Bæ á Rauðasandi. Hann dó tæplega þrítugur en Guðrún Eggertsdóttir ekkja hans bjó í Bæ um langan aldur og var nafnkunn. Páll Björnsson. Páll Björnsson (1621 – 23. október 1706) var prófastur í Selárdal á Vestfjörðum. Hann var sonur Björns Magnússonar sýslumanns á Bæ á Rauðasandi og Helgu dóttur Arngríms lærða. Hann varð stúdent frá Hólaskóla 1641 og lærði við Kaupmannahafnarháskóla til 1644 þegar hann sneri aftur til Íslands. Eftir heimkomuna var hann einn vetur skólameistari við Hólaskóla en fékk Selárdal árið eftir sem hann hélt til æviloka. Brátt varð hann einnig prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi. Hann giftist 1646 Helgu Halldórsdóttur. Hann var talinn með lærðustu mönnum á Íslandi á sínum tíma, kunni bæði grísku og hebresku, mikill ræðuskörungur og búmaður, auk þess sem hann gerði út marga smábáta og skútur. Um áramótin 1668-1669 veiktist Helga af ókennilegum sjúkdómi og lá veik fram á sumarið. Á sama tíma kom mikill draugagangur yfir bæinn þannig að fólk þurfti að flýja staðinn um tíma. Helga benti á Jón Leifsson sem orsök vandræðanna. Hann var snarlega dæmdur fyrir galdur af Eggerti Björnssyni sýslumanni, hálfbróður Páls, og brenndur á báli. Fleiri galdramál fylgdu í kjölfarið. Selárdalsmál stóðu til 1683 og kostuðu sjö manns lífið. Síðasta brennan varð til þess að þaðan í frá voru allir líflátsdómar sendir til staðfestingar í Kaupmannahöfn, en eftir það var enginn brenndur á báli fyrir galdur. Páll skrifaði og þýddi mikið af guðfræðiritum og skrifaði biblíuskýringar. 1674 skrifaði hann "Kennimark Kölska" ("Character Bestiæ") sem fjallaði um djöflatrú. Umsátrið um Kinsale. Höfnin í Kinsale í dag. Umsátrið um Kinsale var orrusta milli enskra hersveita og írskra uppreisnarmanna með stuðningi frá spænskum hersveitum sem átti sér stað við Kinsale í suðurhluta Írlands. Umsátrið stóð í þrjá mánuði, frá 2. október 1601 til 3. janúar 1602. Það var síðasta skrefið í því að leggja Írland undir Englandskonung og hápunktur Uppreisnar Tyrones sem stóð frá 1594 til 1604. Uppgjöf Íra og spænskra bandamanna þeirra gegn umsátursher Englendinga olli því að Englendingar gátu brotið á bak aftur síðustu leifar andspyrnu gegn yfirráðum þeirra á Írlandi, þar með talið ættflokkakerfið. Einn leiðtoga uppreisnarmanna, Hugh O'Neill, jarl af Tyrone, sneri aftur til Ulster eftir tapið og flýði þaðan til Spánar ásamt nokkrum ættarhöfðingjum 1607 (Jarlaflóttinn). Þetta gerði Englendingum kleyft að gera land þeirra upptækt og búa til Ulsterplantekruna sem þeir byggðu mótmælendum frá Skotlandi. Bárujárn (klæðning). Bárujárn er plötujárn sem er aðallega notað á þök og skemmur, en hefur einnig verið notað hér á landi til að klæða hús. Bárujárn er fest með þaksaumi í hábárur járnsins. Saga bárujárns á Íslandi. Fyrsta bárujárnið fluttist hingað til lands einhvern tímann á árunum 1870-1880. Það var Slimmons-verslunin sem flutti það inn, og í upphafi var það bæði þykkt og þungt og plöturnar um 3 metrar á lengd. Voru þá mikil vandkvæði á því að sníða það eins og þurfti. Fyrsta húsið sem það var lagt á var húsið í Krísuvíkurnámum um 1870, en það hús var síðar rifið og flutt þaðan 1872. Fyrsta húsið í Reykjavík sem það var sett á, var hús Geirs Zoëga kaupmanns og útgerðarmanns við Vesturgötu í Reykjavík (Sjóbúð), en það var galvaniserað bárujárn sem hann klæddi útúrbyggingu hjá sér með. 1876 lagði svo W. Ó. Breiðfjörð bárujárn á húsþak og hliðar hús síns. En bárujárnið fór þó ekki að verða almennt fyrr en eftir 1880 og almennt var það ekki lagt á húsveggi fyrr en eftir 1890.Bárujárn einkennandi mjög íslensk timburhús fram til 1935 eða þar til steinsteypa tók við sem helsta byggingarefni. Menn þóttust hafa himin höndum tekið þegar bárujárnið var komið, og breiddist það út um allt land á fáum árum. Kostir þess voru augljósir, en „gallirnir“ komu síðar í ljós. Ekki var laust við að það vefðist fyrir mönnum, hvernig skyldi negla það á þökin. Þannig var um hús á Sauðarkróki 1894. Þar var neglt í lágbárurnar á járninu svo að þakið var hriplekt, þangað til plötunum var snúið við og þær festar í hábáru. Í upphafi reyndu jafnvel sumir að tyrfa yfir bárujárnsþök til hlýinda. Almazán. Almazán er sveitarfélag í sýslunni Soria í héraðinu Kastilíu og León á Spáni. Íbúar eru tæp 6.000. Gaddjökull. Gaddjökull er jökull, sem ekki bráðnar af á sumrin, eða þar sem hiti helst ávallt neðan frostmarks vatns. Hiti þíðjökuls er við frostmark vatns. Labbrabbtæki. Labbrabbtæki (enska: "walkie-talkie") er fyrirferðarlítil og þráðlaus talstöð sem notuð er til samskipta. Sum labbrabbtæki eru með móðurstöð. Buckinghamshire. Buckinghamshire (skammstafað Bucks) er sýsla á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborgin í Buckinghamshire er Aylesbury. Cheshire. Cheshire er sýsla á Norðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Cheshire er Chester. Cumbria. Cumbria (stundum kölluð Kumbaraland) er sýsla á Norðvestur-Englandi á Bretlandi, við landamæri Skotlands. Derbyshire. Derbyshire er sýsla í Austur-Miðhéruðum Englands á Bretlandi. Höfuðborg Derbyshire er Derby. Dorset. Dorset er sýsla á Suðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Dorset er Dorchester. Durham-sýsla. Durham-sýsla (e. "County Durham") er sýsla á Norðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Durham-sýslu er Durham. Austur-Yorkshire. Austur-Yorkshire (e. "East Riding of Yorkshire") er sýsla á Norðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Austur-Yorkshire er Beverley. Gloucestershire. Gloucestershire (borið fram) er sýsla á Suðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Gloucestershire er Gloucester. Hampshire. Hampshire (skammstafað Hants) er sýsla á Suður-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Hampshire er Winchester. Herefordshire. Herefordshire er sýsla á Vestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Herefordshire er Hereford. Hertfordshire. Hertfordshire (skammstafað Herts) er sýsla á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Hertfordshire er Hertford. Lancashire. Lancashire (skammstafað Lancs) er sýsla á Norðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Lancashire er Lancaster. Leicestershire. Leicestershire (skammstafað Leics) er sýsla á Mið-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Leicestershire er Leicester. Lincolnshire. Lincolnshire er sýsla á Austur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Lincolnshire er Lincoln. Lundúnaborg. Lundúnaborg (e. "City of London") er sýsla á stóru Lundúnarsvæðinu á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Englendingar kalla venjulega Lundúnaborg „Borgina“ eða „Fermíluna“ (e. "The Square Mile"). Norfolk. Norfolk (bókstaflega "Norðurfólk") er sýsla á Austur-Anglíu á Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Norfolk er Norwich. Northamptonshire. Northamptonshire (skammstafað Northants eða N’hants) er sýsla á Mið-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Northamptonshire er Northampton. Norðymbraland. Norðymbraland eða Norðhumbraland (e. "Northumberland", borið fram) er sýsla á Norðaustur-Englandi á Bretlandi við landamæri Skotlands. Hún liggur að sýslunum Cumbriu í vestri, Durham-sýslu í suðri og Tyne og Wear í suðaustri. Ströndin við Norðursjóinn er næstum 128 km að lengd. Newcastle upon Tyne var áður höfuðstaður sýslunnar en eftir að sýslan Tyne og Wear var mynduð árið 1974 hefur sýsluráðið haft aðsetur í Morpeth. Alwnick gerir einnig tilkall til þess að vera höfuðstaður sýslunnar. Á miðöldum var Norðymbraland konungsríki undir stjórn Játvins konungs og taldist til Sjökonungaríkisins. Þar sem sýslan liggur að landamærum Skotlands hafa margar orrustur verið háðar á svæðinu. Stór landflæmi eru núna þjóðgarðar. Nottinghamshire. Nottinghamshire er sýsla á Mið-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Nottinghamshire er Nottingham. Skírisskógur er í Nottinghamshire. Rutland. Rutland er sýsla á Mið-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Rutlands er Oakham. Shropshire. Shropshire er sýsla á Vestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Shropshire er Shrewsbury. Somerset. Somerset er sýsla á Suðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Somerset er Taunton. Staffordshire. Staffordshire er sýsla á Miðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Staffordshire er Stafford. Stórborgarsvæðið Manchester. Stórborgarsvæðið Manchester (e. "Greater Manchester") er sýsla á Norðvestur-Englandi á Bretlandi. Árið 2007 var íbúafjöldinn 2,25 milljóna. Borgin Manchester er í sýslunni. Suður-Yorkshire. Suður-Yorkshire (e. "South Yorkshire") er sýsla á Norður-Englandi á Bretlandi. Sheffield er stærsta borgin í sýslunni. Suffolk. Suffolk (bókstaflega "Suðurfólk") er sýsla á Austur-Anglíu á Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Suffolk er Ipswich. Surrey. Surrey er sýsla á Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Surrey er Guildford. Vestur-Miðhéruð (sýsla). Vestur-Miðhéruð (e. "West Midlands") er sýsla á Miðvestur-Englandi á Bretlandi. Birmingham er stærsta borgin í sýslunni. Vestur-Sussex. Vestur-Sussex (e. "West Sussex") er sýsla á Suður-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Vestur-Sussex er Chichester. Vestur-Yorkshire. Vestur-Yorkshire (e. "West Yorkshire") er sýsla á Norður-Englandi á Bretlandi. Mac OS X v10.5. Mac OS X 10.5 "Leopard" er sjötta útgáfa Mac OS X stýrikerfsins frá Apple. Stýrikerfið er aðeins fyrir Mac tölvur. Fyrri útgáfa stýrikerfisins var kölluð Tiger. Leopard var gefin út 26. október 2007. Samkvæmt Apple hefur Leopard 300 breytingar frá Tiger. Apple seinkaði útgáfu stýrikerfisins, í júní 2005 sagði Steve Jobs, framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, að Leopard myndi vera gefið út í lok ársins 2006 eða snemma 2007. Ári seinna var því breytt í vor 2007 en 12. apríl 2007 sögðu Apple að því yrði frestað fram í október 2007 vegna iPhone. Vélbúnaðarkröfur. Leopard var ekki gefið út í mismunandi útgáfum fyrir mismunandi örgjörva heldur útgáf sem keyrir bæði á PowerPC og Intel örgjörvum. Leopard hættir stuðningi á hægum G4 tölvum og öllum G3 tölvum. Warwickshire. Warwickshire (skammstafað Warks eða Warwicks) er sýsla á Mið-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Warwickshire er Warwick. Wiltshire. Wiltshire (skammstafað Wilts) er sýsla á Suðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Wiltshire er Trowbridge. Worcestershire. Worcestershire (skammstafað Worcs) er sýsla á Suðvestur-Englandi á Bretlandi. Höfuðborg Worcestershire er Worcester. Mænuskaðastofnun Íslands. Mænuskaðastofnun Íslands er sjálfseignarstofnun íslenska ríkisins sem var stofnuð í lok árs 2007. Tilgangur félagsins er að stuðla að lækningu á mænuskaða með öllum tiltækum ráðum. Stofnendur eru Auður Guðjónsdóttir og Hrafnhildur Guðfinna Thoroddsen, Seltjarnarnesbær, FL-Group, Exista og heilbrigðis- og trygginga­málaráðuneytið. Heinz Fischer. Heinz Fischer (f. 9 oktober 1938 i Graz, Austurriki) er forseti Austurríkis (2004 -). Fischer, Heinz Austur-Anglía. Austur Anglía er skagi á Austur-Englandi nær yfir Norfolk og Suffolk og hluti af Cambridgeshire og Essex. Sigmundur 3.. Sigmundur 3. Vasa (pólska: "Zygmunt III Waza"; 20. júní 1566 – 30. apríl 1632) var konungur Pólsk-litháíska samveldisins frá 1587 til dauðadags, og Svíakonungur frá 1592 þar til honum var steypt af stóli 1599. Hann var sonur Jóhanns 3. Svíakonungur og fyrri eiginkonu hans, Katarínu Jagiellonku og fæddist á Grípshólmi þar sem foreldrar hans voru í fangelsi Eiríks 14.. Móðir hans var dóttir Sigmundar gamla, Póllandskonungs, og eiginkonu hans Bona Sforza. Hún ól son sinn upp í kaþólskri trú. Við lát Stefáns Báthory 1587 var Sigmundur kjörinn konungur á stéttaþinginu en Maximilían 3. erkihertogi af Austurríki kom einnig til greina. Sigmundur tryggði kjör sitt með því að halda þegar til Póllands og ganga að kröfugerð ríkisráðsins. Þegar Maximilían reyndi að grípa inn í með valdi voru stuðningsmenn hans sigraðir í orrustunni við Byczyna 24. janúar 1588 og Maximilían sjálfur tekinn höndum. Hann var leystur úr haldi fyrir tilstuðlan Páls 5. páfa og afsalaði sér tilkalli til krúnunnar 1589. Við lát föður Sigmundar, Jóhanns 3., stóð hann næstur í erfðaröðinni og var krýndur konungur Svíþjóðar 1592. Við það gengu samveldið og Svíþjóð í konungssamband. Sigmundi var þó gert markvisst erfitt fyrir í Svíþjóð þar sem hann var kaþólskur, og föðurbróðir hans, Karl hertogi, vann gegn honum. Að lokum var hann settur af og Karl varð hæstráðandi í Svíþjóð og síðar konungur. Sigmundur reyndi þó áfram að halda fram rétti sínum til konungdóms í Svíþjóð sem leiddi til styrjalda milli landanna. Önnur mikilvæg átök í valdatíð hans var Pólsk-rússneska styrjöldin (1605-1618) þegar Pólverjar reyndu að nýta sér rósturtímana í Rússlandi til að vinna lönd af Rússum. Þetta jók á spennu milli ríkjanna sem kom sér illa fyrir Pólverja síðar. Negus. Negus (eþíópíska: "nigūś", amharíska: "nigūs"; sbr. tígrinja: "negāš") er titill konungs (og stundum undirkonungs) í Eþíópíu og Erítreu. Eþíópíukeisari var titlaður "nəgusä nägäst" sem merkir „konungur konunganna“. Chelmsford. Chelmsford er bær og höfuðborg sýslunnar Essex á Austur-Englandi. Hún er 48,5 km norðaustan við Charing Cross í London. Chelmsford er í miðju Essexog hefur verið höfuðborg sýslunnar síðan árið 1215. Árið 1999 var áttahundruð ára afmæli Chelmsfords. Dómkirkjan í Chelmsford er næstminnsta dómkirkja Englands á eftir Dómkirkjunni í Derby. Hún var byggð 15. og 16. öld og var þá sóknarkirkjan af Chelmsford að miðaldasið. Biskupsdæmið nær yfir alla Essex-sýslu og hluta af Austur-London. Árið 2001 var íbúatala 157.748. Og Embla sæta frænka mín er nú flutt þangað. Jakob Eþíópíukeisari. Jakob Eþíópíukeisari (Ge'ez ያዕቆብ "yāʿiqōb", amharíska: "yā'iqōb"; 1590 – 10. mars 1607) var Eþíópíukeisari með konungsnafnið Malik Sagad 2. frá 1597 til 1603 og aftur 1604 til 1606. Jakob Eþíópíukeisari var af Salómonsætt, elsti sonur Sarsa Dengel keisara. Sarsa Dengel ætlaðist til að frændi hans, Za Dengel, tæki við af honum en fyrir bænastað eiginkonu sinnar, Maryam Sena, valdi hann Jakob sem varð keisari sjö ára gamall. Hinir sem áttu mögulegt tilkall til krúnunnar voru sendir í útlegð, Za Dengel til fjallanna umhverfis Tanavatn og Susenyos til oromoa. Stjórn ríkisins var í höndum hertogans Antenatewos. Sex árum eftir valdatöku Jakobs lenti honum saman við Antenatewos og setti Za Sellase í hans stað. Za Sellase velti þá Jakobi úr sessi og gerði Za Dengel að keisara í hans stað. Þegar Za Dengel tók kaþólska trú snerist Za Sellase gegn honum og gerði uppreisn. Za Dengel féll í bardaga við her Za Sellase 24. október 1604 og Jakob varð aftur keisari. Skömmu síðar hélt Susenyos norður á bóginn með her Oromoa gegn Za Sellase. Hann mætti her hans í Begemder og stráfelldi hann en Za Sellase flúði til búða Jakobs. Viðbrögð keisarans leiddu svo til þess að Za Sellase hljópst undan merkjum og gekk til liðs við Susenyos. Herir Jakobs og Susenyosar mættust svo í orrustunni við Gol í Gojjam þar sem Jakob féll. Colchester. Colchester er bær og stærsta byggðarlag í úthverfi Colchester í Essex á Austur-Englandi. Fólksfjöldin er 104.390. Hann er elsti bær Bretlands og þar er elsti markaður á Bretlandi. Bærinn var stofnaður fyrir innrás Rómverja árið 43 en varð síðan höfuðborg rómverska skattlandsins Britanníu. Normanski kastalinn í Colchester var byggður á 11. öld og er helstu sögulegu minjar bæjarins í dag. Bærinn er 90 km norðaustur af London. A12-aðalvegurinn tengir Chelmsford og London. Pípukragi. Pípukragi (eða rúkragi) er stífaður kragi í þéttum fellingum (pípum) sem var í tísku meðal aðalsfólks og borgara í Evrópu á 16. og 17. öld. Pípukraginn er upprunalega frá Spáni og komst í tísku á síðari hluta 16. aldar. Í upphafi Barokktímans minnkaði notkun hans umtalsvert, en hélt þó áfram vinsældum sínum í Hollandi og sem hluti af hátíðarbúningum og prestskrúða í norðurhluta Þýskalands og í Danmörku. Pípukraginn er enn hluti af prestskrúða sums staðar í löndum mótmælenda, s.s. á Íslandi. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. Lexicon Islandico-Latino-Danicum (sem er latína fyrir: "Íslensk–latnesk–dönsk orðabók") er fjöltyngd orðabók gefin út á Íslandi eftir Björn Halldórsson með latneskum og dönskum þýðingum. Björn vann að bókinni í 15 ár samfleytt og árið 1786 sendi hann hana til Kaupmannahafnar til prentunar. Orðabókin var hinsvegar fyrst gefin út árið 1814 af Rasmusi Kristjáni Rask, og hafði ritið þá verið endurbætt. Í bókinni eru um 30 þúsund flettiorð sem eru flest almennur orðaforði 18. aldar. Þess vegna hefur bókin mikið gildi fyrir sögu íslensks orðaforða. Orðabókin var gefin út aftur árið 1992 og sá Jón Aðalsteinn Jónsson um útgáfuna. Glock 18. Glock 18 er alsjálfvirk skammbyssa framleidd af austurríska vopnafyrirtækinu Glock. Er mjög lík hálfsjálfvirku gerðinni Glock 17, t.d. er hlauplengdin hin sama. Hlauplengd er 186 millimetrar og þyngdin (óhlaðin) er 620 grömm. Til eru fjórar stærðir af magasín, en það minnsta tekur 17 skot, en hin stærri 19, 31 og 33 skot. Capoeira. Capoeira er brasilískur bardagadans, upprunalega kominn frá afrískum sebradansi kallaður „NiGolo“. Hann var dansaður á nýlendutímabilinu í Brasilíu af þrælum frá Afríku og í honum eru hreyfingar sem eiga mikið sameiginlegt með fimleikum. Capoeira er leikinn við annan Capoeirista í hring „Roda“ með tilheyrandi tónlist og söngvum. Middlesex. Middlesex er sögufræg sýsla á Suðaustur-Englandi. Fram að árinu 1965 stækkaði stórborgarsvæði Lundúna svo að það náði yfir þorra sýslunnar. Nafnið er dregið af "Middleseaxan" frá árið 704 sem táknar „Mið-Saxar“. Sýslan innlimaði Lundúnaborg og Westminster. Lundúnaborgin hefur notið sjálfstjórnar síðan 13. öld. Í dag er skiptist Middlesex í allmörg úthverfi Lundúna. Bamir Topi. Bamir Myrteza Topi (f. 24. apríl, 1957 í Tírana) er og hefur verið forseti Albaníu frá 24. júlí, 2007. Ár kartöflunnar. Ár kartöflunnar er árið 2008 samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 22. desember 2005, en sama ár er líka Ár hreinlætis. Ár kartöflunnar er haldið til að vekja athygli á mikilvægi kartaflna í mataræði og mataröryggi. Á ári kartöflunnar verða nákvæmlega 250 ár liðin frá því Friedrich Wilhelm Hastfer ræktaði fyrstu kartöflurnar á Íslandi, á Bessastöðum sumarið 1758. Marija Šerifović. Marija Šerifović (serbnesk-kýrillíska: Марија Шерифовић, fædd 14. nóvember 1984 í Kragujevac) er serbnesk söngkona og sigurvegari söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2007. Breiðskífur. Fyrsta breiðskífa Mariju var "Naj, najbolja" („Hið allra besta“) sem kom út árið 2003. Lagið „Znaj da znam“ („Þú ættir að vita að ég veit“) en lagið samdi Darko Dimitrov. Sumarið 2005 gaf Marija út smáskífuna "Agonija" sem var ábreiða (e. "cover") af lagi Despina Vandi, "Olo lipis". Önnur breiðskífa söngkonunar nefnist "Bez ljubavi" („Án ástar“) og kom út 2006. Snemma árs 2007 kom önnur smáskífa hennar út og nefnist Bez tebe („Án þín“). 28. júní 2007 kom safnaplatan „Marija Serifovic: Molitva - The best of“ út. Tónlistarhátíðir. Á Budva-tónlistarhátíðinni árið 2003 söng Marica lagið "Gorka čokolada" („Biturt súkkulaði“) sem, eins og Znaj da znam, var ú smiðju Darko Dimitrov. Ári seinna kom hún á ný fram á hátíðinni en þá með lagið "Bol do ludila" („Særir fram í vitfirringu“) og sigraði þar með keppnina. Lagið komst einnig í efsta sæti vinsældalista þar í landi. Árið 2005 lenti lag Mariju "Ponuda" í 18. sæti í undankeppni Serbíu og Svartfjallalands fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Sama ár tók hún þátt í útvarpshátíð Serbíu og sigraði með laginu "U nedelju" („Á sunnudag“). Hún hlaut einnig verðlaun fyrir besta sönginn. Tónleikar. Marija hélt fyrstu tónleika sína 21. febrúar 2007 í Belgrad fyrir um 4.000 áhorfendur. Beovizija og söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöva 2007. Marija sigraði "Beovizija", undankeppni Serbíu fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 8. mars 2007 en hún söng lagið "Molitva" („Bæn“). Hún varð því fyrsti keppandi Serbíu í Eurovision. Hún komst í gegnum undankeppnina í Helsinki og sigraði úrslitakeppnina með Þýskaland og Úkraínu sem 2. og 3. sæti. Westminster. Westminster (stundum kallað Vestmusteri eða Vestmystur á íslensku) er svæði í miðborg Londons inni í Westminsterborg. Westminsterhöllin er í svæðinu sem er aðsetur breska þingsins. Einnig eru Buckinghamhöll, Whitehall og Konungsdómsalur í Westminster. Stærri hluti af West End-hverfinu er í svæðinu. Westminster er suðvestan á Lundúnaborg og er 0,8 km suðvestan á Charing Cross. Árið 2001 var fjólksfjöldi 181.279 manns. Kaldársel. Kaldársel er austan við Hafnarfjörð í nágrenni Helgafells. Þar rennur Kaldá sem staðurin heitir eftir. Þar eru sumarbúðir KFUK Sumarbúðirnar í Kaldárseli eru í hrauninu ofan við Hafnarfjörð. Þar er fjöldi hella sem vert er að skoða. Hjá Kaldárseli rennur Kaldá sem gefur staðnum skemmtilegan svip og tækifæri til að vaða á hlýjum dögum eða sigla litlum duggum. Í næsta nágrenni við Kaldársel eru spennandi staðir, svo sem vinin Valaból, eldstöðin Búrfell, móbergsfjallið Helgafell, ýmsir hellar, skóglendi og önnur útivistarsvæði sem gaman er að skoða. Skálinn í Kaldárseli er tvískiptur. Í vestari hluta er eldhús, matsalur, salernisaðstaða, tveir svefnsalir, auk þriggja minni herbergja. Í austari hluta er íþróttasalur, tómstundaherbergi, kvöldvökusalur, svefnsalur, tvö svefnherbergi, salernisaðstaða og geymslur. Elsti hluti skálans er frá 1925 en tvisvar hefur verið byggt við hann. Sýsla. Sýsla er stjórnsýslueining innan lands. Í Evrópu voru sýslur yfirleitt lönd sem voru undir dómsvaldi jarls. Sjá einnig. Sýslur á Íslandi Sigurður Pálsson (sóknarprestur). Séra Sigurður Pálsson (8. júlí 1901 – 13. júlí 1987) var fyrsti sóknarprestur í nýrri Selfosskirkju árið 1956. Hann var einnig vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi 1966 – 1983. Sigurður fæddist í Haukatungu í Hnappadal, í Kolbeinsstaðahreppi. Leeds. Leeds er borg í Vestur-Yorkshire á Englandi við Aire ánna. Hún er fjórða þéttbyggðasta borg á Bretlandi. Árið 2001 var fólksfjöldi Leeds 443.247. Fólksfjöldinn með öllum úthverfum Leeds er 747.939. Hún er ein af átta stærstu borgum Englands. Á miðöldum var Leeds markaðsbær með landbúnaðarvörur og á Túdorsöld var Leeds orðin að verslunarbæ. Í iðnbyltingunni breyttist Leeds úr bæ í borg og Leeds öðlaðist borgarréttindi árið 1893. Í byrjun tuttugustu aldar hafði efnahagsleg og félagsleg staða borgarinnar breyst verulega við uppbyggingu á akademískum stofnunum eins og Leeds-háskóla. St Albans. St Albans er borg í Hertfordshire 22 km norður af Lundúnum. Fjólksfjöldi er 64.038. "Verulamium" er rómönsk borg nálæg St Albans. Hún var kölluð "Verlamchester" eftir að Rómverjar fóru burt. Nafnið er dregið af Sankti Alban sem var afhöftt í borgum. Fyrir utan miðborgina er St Albans einkum úthverfaborg. Fasteignaverð er mun hærra en annars staðar á Bretlandi. Krabbar. Krabbar eru liðdýr í ættinni Brachyura, með liðskiptan líkama. Krabbar lifa í bæði fersku vatni og í sjó og anda með tálknum. Einbúakrabbi, bogkrabbi, humar og rækja eru fáein kunnuleg dýr úr hópi krabbadýra. Fáeinar tegundir krabba halda sig á þurrulandi en anda eigi síður með tálknum. Krabbar hafa sterkar gripklær að framan og nota þær til að verja sig og éta. Ólafur Stephensen. Ólafur Stephensen ("Ólafur Stefánsson") (3. maí 1731 – 11. nóvember 1812) var stiftamtmaður á Íslandi á árunum 1790 til 1806. Ólafur var fæddur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd og voru foreldrar hans Stefán Ólafsson prestur þar og fyrri kona hans, Ragnheiður Magnúsdóttir frá Espihóli. Hann fór í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan 1751, sigldi síðan og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1754. Hann var fyrst bókhaldari við Innréttingarnar en árið 1756 var hann settur varalögmaður norðan og vestan. Síðar varð hann aðstoðarmaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns og tók við embættinu er hann andaðist 1766. Þegar landinu var skipt í tvö ömt 1770 varð Ólafur amtmaður í Norður- og Austuramti. Árið 1783 fékk hann lausn frá embætti af því að hann vildi ekki flytja norður í land eins og ætlast var til og var Stefán Þórarinsson skipaður í staðinn. En þegar suður- og vesturamtinu var skipt í tvennt 1787 varð Ólafur amtmaður í vesturamtinu og 14. apríl 1790 varð hann jafnframt stiftamtmaður. 1793 hafði hann amtaskipti og var skiptur yfir suðuramtið. Hann fékk lausn frá embættum sínum 1806 en fékk að búa áfram endurgjaldslaust í Viðey, þar sem hann var þá. Fyrst hafði hann búið á Leirá í Leirársveit, síðan á Bessastöðum, Elliðavatni, í Sviðholti og á Innra-Hólmi. Ólafur var ættfaðir Stefánunga og þótti mörgum nóg um veldi þeirra feðga og tengdamanna þeirra. Árið 1792 kom út í Kaupmannahöfn bókin "Ærefrygt. Liste over Hr. Stiftamtmand Oluf Stephensens Familie i Island. Allene de beregnede som sidde i publiqve Embeder 1791". Höfundur var Halldór Jakobsson, fyrrum sýslumaður í Strandasýslu en þetta rit fjallaði um hve valdamiklir Stefánungar væru í íslensku samfélagi og hélt fram að ættin einokaði opinber embætti á Íslandi. Þegar bókin kom út var Ólafur Stefánsson stiftamtmaður og settur amtmaður í Suðuramti og skipaður amtmaður í Vesturamti. Í Norður- og austuramti sat systursonur hans Stefán Þórarinsson. Biskupinn á Hólum, Sigurður Stefánsson, var hálfbróðir Ólafs og Hannes Finnsson Skálholtsbiskup var tengdasonur Ólafs. Þegar Skúli Magnússon var leystur frá embætti 1793 þá var í hans stað settur Magnús Stephensen (f. 1762) sonur Ólafs. Kona Ólafs var Sigríður Magnúsdóttir (13. nóvember 1734-29. nóvember 1807), dóttir Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Þórunnar Guðmundsdóttur konu hans. Börn þeirra voru Magnús Stephensen dómstjóri, Þórunn kona Hannesar Finnssonar biskups, Stefán Stephensen amtmaður, Björn Stephensen dómsmálaritari í yfirréttinum og Ragnheiður kona Jónasar Schevings sýslumanns. Jarðarför Ólafs. Ólafur andaðist í Viðey og var jarðsunginn þar 26. nóvember. Ekki voru við útför hans aðrir en börn hans og barnabörn, prestarnir Brynjólfur Sigurðsson dómkirkjuprestur í Seli og Árni Helgason á Reynivöllum og líkmenn. Í "Árbókum Reykjavíkur" stendur þetta: "Þótti mörgum það kynleg ráðstöfun, þar sem í hlut átti sá, er allra Íslendinga hafði orðið æðstur að mannvirðingum". Björn Gunnlaugsson. Björn Gunnlaugsson (28. september 1788 – 17. mars 1876) var landmælingamaður og höfundur stjörnufræðirita. Hann starfaði þó mestan hluta ævinnar sem kennari, fyrst við Bessastaðaskóla, en fluttist með skólanum til Reykjavíkur og varð síðar yfirkennari. Fyrri kona Bjarnar var Ragnheiði Bjarnadóttur, ekkja Jóns adjunkts Jónssonar, sem fórst með póstskipi undir Svörtuloftum 1817. Þeirra sonur og stjúpsonur Björns var Bjarni Jónsson rektor. En dóttir þeirra Ragnheiðar og Bjarnar var frú Ólöf, kona Jens rektors Sigurðssonar. Ragnheiður lést 1834. Seinni kona Bjarnar var Guðlaug Aradóttir, ekkja Þórðar stúdents Bjarnasonar. Þeim Birni og Guðlaugu varð ekki barna auðið, er á legg kæmust. Guðlaug lést árið 1873. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn vann Björn til tveggja gullpeninga og var meðal annars aðstoðarmaður Heinrich Christian Schumacher, hins þýska stjörnufræðings, á Holtsetalandi í tvö ár. Heilög Lúsía. Heilög Lúsía (venjulega talin hafa verið uppi um 283-304) var kristin stúlka af ríku fólki frá Sírakúsu (ítalska: "Siracusa") á Sikley. Heilög Lúsía lét lífið í píslarvætti og er verndardýrðlingur blindra. Dagur heilagrar Lúsíu, Lúsíumessa, er 13. desember. Heilög Lúsía naut talsverðrar helgi um Norðurlönd og á Íslandi, segir í Sögu Daganna, eftir Árna Björnsson. Aðfaranótt Lúsíumessu var fram á 18. öld talin lengsta nótt ársins. Lúsíumessa lagðist af um siðaskipti á norðurslóðum, en Lúsía lifði áfram í þjóðtrú í Svíþjóð og Noregi. Lúsíuhátíðir hafa komið við sögu hér á landi frá því um 1930 í sænskum búningi, en hefur þó aukist mest á síðustu 15 árum eða svo. Annus horribilis. "Annus horribilis" er latneskt orðatiltæki sem þýðir „hræðilegt ár“. Það er andstæða "annus mirabilis" sem þýðir „dásamlegt ár“. Preston. Preston er borg í Lancashire á Norðvestur-Englandi við Ribble ána. Hún öðlaðist borgarréttindi árið 2002 og varð fimmtugasta borg Bretlands. Preston er á sama borgarsvæði með Chorley og Leyland. Var fólksfjöldi borgarsvæðis 335.000 árið 2001. Um það bil 103.000 manns búa í miðbænum. Preston er hluti af lofthjúpsjarðariðnaði með tveimur verksmiðjum BAE Systems. Vatnaskógur. Vatnaskógur er æskulýðsmiðstöð KFUM við Eyrarvatn í Svínadal í Hvalfjarðarsveit. Þar eru sumarbúðir. Vindáshlíð. Vindáshlíð er sumarbúðir KFUK í Kjósinni, staðsett um 45 km frá Reykjavík. Þar hefur verið sumarbúðastarf fyrir stúlkur frá árinu 1947. Þar er nú rekið starf allt árið og þangað koma um 900 stúlkur á aldrinum 8-16 ára í sumarbúðir á tímabilinu júní-ágúst ár hvert. Húsakostur er góður og staðurinn státar af íþróttahúsi, og aðalmiðstöð með eldhúsi, skála og samkomusölum og loks fallegri 130 ára gamalli kirkju, Hallgrímskirkju í Kjós, sem flutt var þangað frá Saurbæ í Hvalfirði árið 1957 og endurvígð árið 1959. Kirkjan þjónar nú starfi KFUM og KFUK á Íslandi og er friðuð síðan 1991. Fríkirkjan í Hafnarfirði. Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði er evangelísk- lúterskur söfnuður og starfar á sama kenningargrundvelli og Þjóðkirkja Íslands. Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður á Sumardaginn fyrsta árið 1913 kirkja verið í Hafnarfirði um aldir. Sr. Einar Eyjólfsson hefur þjónað frá árinu 1984 og ásamt honum sr. Sigríður Kristín Helgadóttir frá haustdögum 2000. Garnaslagurinn. Garnaslagurinn voru ryskingar milli verkfallsmanna og lögreglu í Reykjavík, þann 11. desember 1930. Garnaslagurinn kom til vegna deilu Verkakvennafélagsins Framsóknar og Sambands Íslenskra samvinnufélaga vegna kauplækkunar í Garnahreinsunarstöð SÍS við Rauðarárstíg í Reykjavík. Kom til harðra ryskinga milli lögreglu og verkfallsmanna, sem nutu aðstoðar félaga í Dagsbrún og ASÍ. Deilunni lauk þremur vikum síðar með þvi að SÍS viðurkenndi kauptaxta verkakvenna. Einar Eyjólfsson. Séra Einar Eyjólfsson (fæddur 26. nóvember 1958) er prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Einar vígðist til starfa við Fríkirkjuna haustið 1984. Caspar David Friedrich. Caspar David Friedrich (5. september 1774 – 7. maí 1840) var þýskur listmálari sem var einn helsti fulltrúi rómantísku stefnunar þýsku. Friedrich fæddist í borginni Greifswald sem þá var hluti af Sænsku Pommern, en hann telst samt sem áður til þýskra málara. Friedrich flutti til Dresden 1798, og var þar til æviloka. Hann var vinur Goethe og Novalis. Einnig vinur hans Philipp Otto Runge, þeir vildu báðir eitthvað nýtt og komu með nýjunga í málaralistina. Eitt hans fyrsta stóra verk var „Cross in the Mountains„ eða Tetschen Altar, 1807-1808. Tenglar. Friedrich, Caspar David Reykjavíkurbiblía. Reykjavíkurbiblía, 1859, er sjöunda heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Reykjavík, í Prentsmiðju Íslands, sem þá var í eigu Einars Þórðarsonar. Á titilblaði stendur: "BIBLÍA, það er öll Heilög ritning, út gefin að tilhlutun hins íslenzka biblíufélags. 6. útgáfa." (Réttara 7. útgáfa). Í "Reykjavíkurbiblíu" er texti "Viðeyjarbiblíu" (1841) prentaður nánast óbreyttur. Þarna eru Apókrýfar bækur Gamla testamentisins prentaðar í síðasta sinn í íslenskum biblíum um langt skeið. Þær voru aftur teknar upp í Biblíu 21. aldar, sem kom út 2007. Mjög var til útgáfunnar vandað, bókin er í stærra broti en "Viðeyjarbiblían", prentuð með gotnesku letri eins og allar fyrri biblíuútgáfur íslenskar, og er Reykjavíkurbiblían með því síðasta sem prentað var með því letri hér á landi. Er eins og menn hafi veigrað sér við að breyta þeirri hefð að prenta Biblíur með gotnesku letri, þó að latínuletur væri þá almennt notað á íslenskar bækur. Varðveittar biblíur eru yfirleitt í alskinnsbandi og gyllt á kjöl. "Reykjavíkurbiblían" var gefin út í 2.000 eintökum og kostaði óbundið eintak 3 ríkisdali og 48 skildinga. Brem-sur-Mer. Brem-sur-Mer er borg í vesturhluta Frakklands. Fólksfjöldi árið 1999 var 2054 og heildarflatarmálið borgarinnar er 15,85 km². Íbúar borgarinnar eru kallaðir "Bremois". Viðeyjarbiblía. Viðeyjarbiblía, 1841, er sjötta heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Viðey á Sundum, í prentsmiðju Ólafs Stephensens. Á titilblaði stendur: "Biblía, Það er: Heilög ritning. Í 5ta sinni útgéfin, á ný yfirskoðuð og leiðrétt, að tilhlutun ens íslenska Biblíu-félags." (Er í raun 6. útgáfa) Á fyrri hluta 19. aldar fór af stað vakning um málrækt, sem náði inn á svið kirkjunnar. Hið íslenska biblíufélag var stofnað 1815, og vildu forráðamenn þess sníða af Biblíunni dönskuskotið málfar og þýða nákvæmar eftir frumtextunum, en þekking á þeim hafði aukist mikið. Um 1818 var byrjað að endurskoða Nýja testamentið og kom það út í tveimur hlutum í Viðey 1825 og 1827. Geir Vídalín biskup var meðal þýðenda, ásamt kennurum Bessastaðaskóla og fleirum. Árið 1827 var ákveðið að endurskoða Gamla testamentið. Að því stóðu Árni Helgason prestur í Görðum, og kennarar á Bessastöðum, einkum Sveinbjörn Egilsson. Biblían kom svo út í Viðey árið 1841. Dómur sögunnar er að þarna hafi margt verið afar fagurlega þýtt, enda skáld að verki. Einkum þykir Sveinbjörn Egilsson hafa unnið gott verk, en hann þýddi "Aðra Mósebók", "Esajas" (= Jesaja), "Ezekíel", "Daníel", alla hina minni spámenn (frá "Hósea" til "Malakí") og "Opinberun Jóhannesar", alls 17 rit. Er hann sagður hafa þýtt úr frummálunum, hebresku og grísku. Alþýðlegur blær var á orðavali í anda Fjölnismanna. Fræðimenn eru sammála um að "Viðeyjarbiblía" sé mikil framför frá útgáfunum í Kaupmannahöfn 1747 og 1813. "Viðeyjarbiblían" telst vera fyrsta nýþýðing Biblíunnar á íslensku, þ.e. þar sem textinn er endurþýddur í heild sinni. Vandað var til útgáfunnar, bókin er í stærra broti en "Grútarbiblían", prentuð með gotnesku letri, eins og aðrar bækur Viðeyjarprentsmiðju. Varðveittar biblíur eru yfirleitt í alskinnsbandi og stundum gyllt á kjöl. "Viðeyjarbiblía" var gefin út í 1.400 eintökum og kostaði hvert eintak 4 ríkisdali og 48 skildinga. Manntjón. Manntjón er hugtak sem er notað þegar talað er um fjölda dáinna (og stundum einnig særðra) vegna t.d. náttúruhamfara, hungursneyðar, stríðs, slysa eða af völdum hryðjuverka. Manntjón á þannig bæði við um fjölda látinna af „náttúrulegum“ orsökum og af mannavöldum, en mannfall á yfirleitt aðeins um fjölda látinna af mannavöldum. Tikrit. Tikrit (تكريت, Tikrīt) er bær í Írak, 140km norðvestan við Bagdad, á bökkum árinnar Tígris. Áætlaður íbúafjöldi árið 2002 var tæp 30 þúsund. Bærinn er höfuðstaður stjórnsýsluumdæmisins Salah ad-Din. Tikrit er frægastur fyrir að vera fæðingarstaður Saladíns (um 1138) og Saddams Hussein (1937). Salzburg. Salzburg er borg í Austurríki og höfuðborg samnefnds sambandslands. Miðborgin er þekkt fyrir barokkbyggingar og var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Hún er einnig þekkt sem fæðingarborg tónskáldsins Mozarts. Íbúar eru 149 þús og er Salzburg þar með fjórða stærsta borg Austurríkis. Lega og lýsing. Salzburg liggur við ána Salzach nokkuð norðarlega í Austurríki. Miðborgin liggur mitt á milli fimm hæða. Á einni þeirra gnæfir kastalinn Hohensalzburg. Vestri borgarmörkin nema við Bæjaraland en Alparnir eru aðeins steinsnar til suðurs. Næstu stærri borgir eru Passau í Þýskalandi til norðurs (120 km), München í Þýskalandi til vesturs (145 km), Innsbruck til suðvesturs (160 km) og Linz til norðausturs (135 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Salzburg stórt hvítt borgarvirki með gullin þök á rauðum grunni. Í forgrunni stendur borgarhlið opið. Borgarvirkið merkir kastalann Hohensalzburg. Merkið kom fyrst fram 1249, en hefur breyst örlítið í gegnum tíðina. Rómverjar. Í upphafi bjuggu keltar á svæðinu. 15 f.Kr. tóku Rómverjar svæðið allt og þvinguðu íbúana til að setjast að milli hæðanna fimm þar sem nú er miðborg Salzburg. Þar var stofnaður bær sem hlaut heitið Iuvavum. Kládíus keisari veitti borgarbúum þegnrétt árið 45. Iuvavum varð að einni mikilvægustu borg í rómverska skattlandinu Noricum. Germanir eyddu borginni árið 171 og var hún ekki endurreist fyrr en í tíð Septímíusar Severusar keisara um aldamótin 200. Árið 241 eyddu alemannar borginni að nýju. Borgin blómstraði þó aftur í tíð Díókletíanusar og Konstantínusar mikla. Við fall Rómaveldis fluttu flestir rómverskir og keltneskir íbúar á brott. Árið 488 skipaði gotaleiðtoginn Odoaker restinum að yfirgefa borgina. Miðaldaborgin. Seint á 5. öld var klaustur reist á staðnum. Árið 696 gaf bæríski hertoginn Theodo II biskupinum Rúpert gömlu rómverjaborgina sem nokkurs konar kristniboðsmiðstöð og skömmu síðar varð Salzburg að biskupssetri. Árið 755 kom Salzburg fyrst við skjöl. Brátt varð borgin að erkibiskupsdæmi. Í aldalöngum átökum milli páfa og keisara stóð Salzburg ávallt með páfa og studdi því gagnkonung þýska ríkisins. Því var mikill rígur milli erkibiskups og keisara. Steininn tók úr er Konráður I erkibiskup settist í biskupsstólinn í Salzburg án aðkomu keisara. Friðrik Barbarossa setti því ríkisbann á borgina 1166. Konráður hafði þar að auki stutt Alexander páfa III í stað gagnpáfans sem keisari hafði tilnefnt. Aðeins tveimur árum síðar lét Friðrik keisari brenna borgina til kaldra kola í refsingarskyni. Í brunanum eyðilagðist dómkirkjan og 6 aðrar kirkjur. Á 13. öld varð erkibiskupinn orðinn að veraldlegum fursta á stóru landsvæði í Bæjaralandi. Hins vegar leysti biskupinn sig frá áhrifum hertoganna í Bæjaralandi. Þetta var hægt þar sem ríkulegar saltnámur (hvíta gullið) voru víða í landi Salzburg. Salzburg sem sjálfstætt ríki. 1322 börðust íbúar Salzburg með Habsborgurum gegn bæjurum. Skömmu síðar leysti Salzburg sig úr lögum við Bæjaraland og varð að sjálfstæðu ríki innan þýska ríkisins. Seint á 15. öld veitti Friðrik III keisari borginni rétt til að skipa eigin borgarstjóra. Þetta féll ekki í kramið hjá erkibiskupinum, sem taldi sig vera ríkjandi fursta. 1511 bauð Bernhard von Rohr erkibiskup borgarráðinu ásamt borgarstjóra í veislu í höllinni sinni. Þar voru þeir allir handteknir og settir í dýflissu. Meðan þeir dúsuðu þar voru þeir neyddir til að afsala sér öllum réttindum til stjórnunar í borginni. Sá réttur fór til Bernhards erkibiskups. Í bændastríðinu 1525 hleyptu íbúar Salzburg bændum inn í borgina og litu á þá sem samherja gegn yfirráðum erkibiskups, sem varð að flýja í kastala sinn (Hohensalzburg). Bændaherinn sat um kastalann í marga mánuði, en náðu ekki að vinna hann. Áður en árið var liðið var búið að semja um vopnahlé. Engin siðaskipti urðu í landi Salzburg, hvorki í borginni né í nærsveitum. Að vísu tóku margir nýju trúnni og hún predikuð í einni kirkjunni. En öllum siðaskiptamönnum var vísað úr landi. Þannig hélst borgin og landið rammkaþólskt. Sökum mikilla erja um salt og tolla milli Salzburg og Bæjaralands, hertók erkibiskupinn Wolf Dietrich von Raitenau borgina Berchtesgaden 1611. Sem svar við þessu réðust bæjarar inn í Salzburg og hertóku borgina. Þeir settu erkibiskupinn af og skipuðu nýjan mann, Markus Sittikus. Hann stofnaði skóla 1617 sem varð að háskóla fimm árum síðar. Frakkar og Austurríki. Salzburg kom ekki við sögu í 30 ára stríðinu. Borgin seldi salt eins og áður og dafnaði vel. Fram að upphafi 19. aldar voru margar merkar byggingar reistar, ekki síst kirkjur. Þegar Frakkar hertóku landið í upphafi 19. aldar breyttist ýmislegt. Þeir lögðu erkibiskupsdæmið niður og sameinuðu landið Salzburg ítalska héraðinu Toscana, en þar réði stórhertoginn Ferdinand III ríkjum. 1805 var Salzburg og Berchtesgaden hins vegar sameinað keisaradæminu Austurríki. Þetta féll ekki í kramið hjá Napoleon. 1810 sameinaði hann Salzburg og Berchtesgaden Bæjaralandi. Eftir fall Napoleons varð Salzburg hins vegar austurrísk á ný, meðan Berchtesgaden var áfram bærísk borg. Landið Salzburg var leyst upp og var skipt upp í hin og þessi héruð. Þetta þýddi að Salzburg, hin mikla stjórnarborg erkibiskupanna, varð að frekar afskekktri borg í Austurríki. 1850 var landið Salzburg búið til á ný og varð að hertogadæmi með eigin stjórn innan keisaradæmis Austurríkis. Stjórnin sat hins vegar í borginni Linz í Efra Austurríki. 1860 var byrjað á að rífa niður alla borgarmúra til að vinna meira byggingaland. Samtímis var áin Salzach sett í fastari farveg til að þurrka upp jarðveg og minnka flóðahættu. Á sama ári hlaut Salzburg járnbrautartengingu á línunni München-Vín. Nýrri tímar. 1919, ári eftir lok heimstyrjaldarinnar fyrri, var haldin kosning um tilveru lands Salzburg. Niðurstaðan var sú að búið var til lýðveldi innan Austurríkis. En aðeins tveimur árum seinna var haldin önnur kosning. Þá vildu meirihluti íbúanna tilheyra Þýskalandi. Á þeim tíma var Weimar-lýðveldið við lýði. En sigurþjóðirnar komu í veg fyrir sameininguna. Salzburg var því áfram austurrísk. Mikill straumur ferðamanna sótti borgina heim og var hann látlaus allt til 1934, er Austurríki varð að fasistaríki til skamms tíma. 1935 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Salzburg. Flatarmál borgarinnar fór því úr tæp 9 km2 í tæp 25 km2. Að sama skapi fjölgaði íbúum úr 40 þús í 63 þús. Önnur stækkun átti sér stað 1939, en þá fór íbúafjöldinn í 77 þús. Eftir innlimun Austurríkis í Þýskaland Hitlers fóru fram sömu gyðingaofsóknir í Salzburg og annars staðar. Bækur voru brenndar, bænahús gyðinga var brennt og gyðingar fluttir burt. 1944 og 1945 varð Salzburg fyrir 15 loftárásum bandamanna, aðallega Bandaríkjamanna. Þær áttu fyrst og fremst að eyðileggja járnbrautarkerfið, þar sem iðnaður var lítill í borginni. Í árásunum létust 550 manns og 7.600 íbúðir eyðilögðust. Miðborgin varð fyrir miklum skemmdum, þar á meðal dómkirkjan og Mozarthúsið. Rétt fyrir stríðslok fengu herforingjarnir Gustav Adolf Scheel og Hans Lepperdinger þá skipun að verja borgina til hinsta manns gegn herjum bandamanna. Þeir óhlýðnuðust þessum skipunum til að hlífa borginni fyrir frekari skemmdum. Lepperdinger tók friðsamlega á móti Bandaríkjamönnum 4. maí 1945 og afhenti þeim borgina bardagalaust. Salzburg var á bandaríska hernámssvæðinu til 1955 og var jafnframt höfuðstöðvar bandaríska setuliðsins. Endurreist miðborgarinnar gekk hægt. 1959 var aftur hægt að halda messur í dómkirkjunni. 1962 tók háskólinn til starfa á ný. Síðan þá hefur borgin notið þess að vera vinsæl ferðamannaborg, enda þekkt fyrir mikla fegurð og sem heimaborg tónskáldsins Mozarts. 1996 var miðborgin öll sett á heimsminjaskrá UNESCO. Tónlist. Tónlistarlíf Salzburg snýst að miklu leyti um Mozart Fjórir stórir tónlistarviðburðir fara fram árlega í Salzburg. Íþróttir. Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er FC Red Bull Salzburg sem 6 sinnum hefur orðið austurrískur meistari (síðast 2010) og komst einu sinni í úrslit Evrópukeppninnar 1994 (tapaði þá fyrir Inter Milan). Í íshokkí eru bæði karla- og kvennaliðið í efstu deild. Kvennaliðið varð austurrískur meistari 2006. Austurríska ruðningsdeildin var stofnuð 1984 og sigraði þá Salzburg Lions fyrsta keppnisárið. Maraþonhlaup fer fram í Salzburg síðan 2004. Samfara því fer fram hálfmaraþon, boðmaraþon, 10 km hlaup og 5 km hlaup. Salzburg sótti um vetrarólympíuleikana 2010 og aftur 2014, en varð í hvorugt skiptið fyrir valinu. Byggingar og kennileiti. Hohensalzburg er eitt mesta kastalavirki Evrópu Gregoríus 15.. Gregoríus 15. (9. janúar 1554 – 8. júlí 1623) hét upphaflega Alessandro Ludovisi og var páfi frá 9. febrúar 1621 til dauðadags. Alessandro var sonur Pompeo Ludovisi greifa í Bologna. Hann lærði í jesúítaskólanum "Collegio Romano" í Róm og síðan í Bologna-háskóla til að fá gráðu bæði í kirkjurétti og rómarrétti. Hann hóf feril sinn sem lögmaður í þjónustu páfa í Róm. 1612 skipaði Páll 5. páfi hann erkibiskup í Bologna. 1616 var hann sendimaður páfa í Savoja sem sáttasemjari milli Karls Emmanúels 1. hertoga og Filippusar 3. vegna deilna um yfirráð yfir Montferrat. Sama ár var hann gerður að kardinála og fimm árum síðar var hann kjörinn páfi eftir lát Páls. Þegar Gregoríus settist í hásæti páfa var hann 67 ára gamall og skipaði þegar frænda sinn, Ludovico Ludovisi, kardinála þótt hann væri einungis 25 ára, og gerði hann að aðstoðarmanni sínum. Öðrum ættmennum sínum tryggði hann einnig stöður og titla, bæði með beinum skipunum og með því að hafa milligöngu um hjónabönd þeirra. Gregoríus hafði lítil afskipti af stjórnmálum í Evrópu, utan að styrkja Ferdinand 2. keisara gegn mótmælendum og Sigmund 3. gegn Tyrkjaveldi með fjármunum. Hann sendi frá sér síðustu tilskipun páfa gegn göldrum þar sem allar refsingar voru mildaðar og dauðarefsing bundin við þá sem gert höfðu samning við djöfulinn eða framið morð með göldrum. Loðvík 13.. Loðvík 13. (27. september 1601 – 14. maí 1643) Frakkakonungur, eða Loðvík 2. konungur Navarra, kallaður Loðvík réttláti, var konungur Frakklands og Navarra frá 1610 til dauðadags. Hann var elsti sonur Hinriks 4. og Mariu de'Medici. Loðvík komst til valda eftir morðið á föður hans aðeins átta ára gamall. Móðir hans fór með stjórn ríkisins fyrir hann þar til hann varð lögforráða þrettán ára gamall, en hélt áfram í valdataumana þar til Loðvík tók völdin í sínar hendur fimmtán ára gamall, og rak hana í útlegð um leið og hann lét myrða helsta ráðgjafa hennar, Concino Concini. Helsti ráðgjafi Loðvíks var Richelieu kardináli og undir þeirra stjórn hurfu Frakkar frá stuðningi við Habsborgara og Spán, en afturkölluðu jafnframt þau pólitísku réttindi sem húgenottar höfðu fengið í valdatíð Hinriks. Richelieu skipaði Frakklandi við hlið mótmælenda í Þrjátíu ára stríðinu og veitti bæði Kristjáni 4. og Gústaf 2. Adolf fjárstyrk til að hindra framsókn Habsborgara og varðveita valdajafnvægið á meginlandi Evrópu. Loðvík 13. lést úr steinsótt, ári eftir Richelieu kardinála. Tjingveldið. Tjingveldið (kínverska: 清朝, "Qīng cháo"; mansjúmál: 12px "Daicing gurunð"; mongólska: "Манж Чин Улс") einnig kallað Mansjúveldið var síðasta keisaraættin sem ríkti yfir Kína frá 1644 til 1911. Keisaraættin kom frá mansjúættbálkinum Aisin Gioro í Mansjúríu og hóf að leggja Kína undir sig 1644. Mansjúmenn gerðu uppreisn gegn hinu ríkjandi Mingveldi undir stjórn Nurhacis 1616 og lýstu yfir stofnun Síðara Jinveldisins. 1636 breyttu þeir nafninu í Tjingveldið og 1644 lögðu þeir Peking undir sig. Þeir náðu fullum yfirráðum yfir Kína 1683 en hankínverjar (sem eru meirihluti íbúa Kína) litu alla tíð á Tjingveldið sem erlend yfirráð. Tjingveldinu tók að hnigna hratt eftir miðja 19. öld, ekki síst vegna þrýstings frá evrópsku nýlenduveldunum og Japan. Keisaraveldið var lagt niður í kjölfar Xinhai-byltingarinnar og keisaraekkjan Longyu sagði af sér fyrir hönd síðasta keisarans Puyi 12. febrúar 1912. Philippe de Champaigne. Philippe de Champaigne (26. maí 1602 – 12. ágúst 1674) var barokkmálari af franska skólanum. Hann fæddist í Brussel og lærði hjá Jacques Fouquières. 1621 flutti hann til Parísar þar sem hann vann við skreytingar í Lúxemborgarhöll ásamt Nicolas Poussin undir stjórn Nicolas Duchesne. Síðar vann hann fyrir Mariu de'Medici og Richelieu kardinála. Síðar á ævinni varð hann fyrir áhrifum frá jansenisma. Eftir að lömuð dóttir hans læknaðist fyrir kraftaverk í nunnuklaustrinu Port-Royal, málaði hann eitt frægasta verk sitt "Ex Voto de 1662" sem sýnir dóttur hans með abbadísinni Cathérine-Agnès Arnauld. Maria de'Medici. Maria de'Medici (26. apríl 1575 – 3. júlí 1642) var drottning í Frakklandi þar sem hún var kölluð Marie de Médicis. Hún var önnur eiginkona Hinriks 4. Frakkakonungs og móðir Loðvíks 13. Maria var dóttir Frans 1. stórhertoga í Toskana og Jóhönnu frá Austurríki. Hún giftist Hinriki árið 1600 eftir að hjónaband hans og Margot drottningar var ógilt. Elsti sonur hennar, Loðvík, fæddist í Fontainebleau-höll ári síðar. Hjónabandið var ekki farsælt. Maria átti í átökum við hjákonur Hinriks, en fékk því jafnframt framgengt að Margot drottningu var hleypt aftur til Frakklands. Hún sýndi lítinn áhuga á stjórnmálum meðan Hinrik var á lífi og þegar hann var myrtur og hún varð ríkisstjóri fyrir barnungan son sinn, varð hún háð hirðmey sinni Leonoru Dori og ítölskum eigimanni hennar, Concino Concini. Í utanríkismálum hvarf hún frá hinni hefðbundnu andstöðu Frakklands við Spán enda sjálf af ætt Habsborgara og gekk frá því að börn hennar giftust meðlimum spænsku konungsfjölskyldunnar. Stærsta verkefni hennar var bygging Lúxemborgarhallar sem hófst 1615 samkvæmt teikningum Salomons de Brosse. Peter Paul Rubens var hirðmálari hennar. Stefna og stjórnunarhættir þeirra Concinis voru óvinsælir meðal hirðarinnar. Hún var neydd af franska háaðlinum til að kalla saman franska stéttaþingið 1614-1615 í síðasta sinn fram að frönsku byltingunni. Þar kom fram biskupinn Richelieu sem ákafur talsmaður forréttinda kirkjunnar. 1616 gerði hún hann að æðstaráði í ríkisstjórn sinni og ráðgjafa sínum við hlið Concinis. 1617 gerði Charles de Luynes hallarbyltingu og fékk hinn fimmtán ára gamla Loðvík 13. til að taka stjórnina í eigin hendur. Loðvík lét myrða Concini og setti móður sína í stofufangelsi í Blois-höll í Loire-dal. Richelieu var einnig rekinn í útlegð. Tveimur árum síðar slapp hún og tók þátt í tilraun til hallarbyltingar undir stjórn bróður Loðvíks, Gaston hertoga af Orléans. Sveitir Loðvíks brutu byltinguna auðveldlega á bak aftur, en í kjölfarið sættust þau fyrir milligöngu Richelieus sem tók sæti de Luynes við hlið konungs eftir 1621. Maria reyndi þá að koma Richelieu frá völdum og misheppnuð tilraun hennar og annarra óvina kardinálans til að fá konung til að segja honum upp störfum árið 1630 var kölluð Dagur flónanna. Eftir það var hún aftur rekin í útlegð til Compiègne þaðan sem hún flúði til Brussel 1631 og Amsterdam 1638 þar sem henni var tekið með kostum og kynjum. Litið var á heimsókn hennar sem óopinbera viðurkenningu á sjálfstæði Hollands. Hún lést að lokum í Köln árið 1642. Compiègne. Compiègne er bær í stjórnsýsluumdæminu Oise í Picardie-héraði í Norður-Frakklandi. Bærinn stendur við Oise-fljót. Íbúar eru um 40 þúsund. Leonora Dori. Leonora Dori, kölluð "Galigaï" (19. maí 1568 – 8. júlí 1617) var hirðmey Mariu de'Medici, fyrst meðan hún var hertogadóttir í Flórens og síðar drottning Frakklands. Fjölskylda hennar var þjónustufólk Medicifjölskyldunnar og móðir hennar var brjóstmóðir Mariu. Leonora og Maria voru æskuvinkonur og þegar Maria giftist Hinriki 4. og flutti til Parísar aldamótaárið 1600, fylgdi Leonora henni sem hirðmey. 1601 giftist Leonora ítalska ævintýramanninum Concino Concini, lágt settum aðalsmanni frá Arezzo sem einnig var við hirð Mariu. Eftir að Maria varð landstjóri fyrir hönd sonar síns eftir morðið á Hinrik 1610 óx vegur Concinis hratt og hann varð Frakklandsmarskálkur og markgreifi af Ancre. Þau söfnuðu miklum auði og með sölu á titlum og stöðum við hirðina og með því að taka Ítali fram yfir franska aðalinn öfluðu þau sér fljótt valdamikilla óvina. Brátt leiddi Charles de Luynes hallarbyltingu gegn Mariu og Concini og Loðvík 13., þá fimmtán ára, tók stjórnina í sínar hendur. Hann lét myrða Concini 26. apríl 1617 og í kjölfarið var Leonora handtekin og ásökuð um galdra. Eftir stutta dvöl í Bastillunni var hún hálshöggvin og lík hennar brennt. Púðursamsærið. Púðursamsærið var samsæri um að drepa Jakob 1. Englandskonung og þingheim með því að sprengja Westminsterhöllina í loft upp með 36 tunnum af byssupúðri sem samsærismenn komu fyrir í kjallaranum undir þingsalnum í byrjun nóvember 1605. Sprengingin átti að verða við þingsetningu 5. nóvember. Eftir sprenginguna ætluðu samsærismennirnir sér að ræna börnum konungs og koma af stað byltingu í Midlands. Púðursamsærið kom í kjölfar Samsæris Watsons og Maine-samsærisins 1603. Aðalástæðan fyrir þeim var sú að kaþólskir Englendingar vildu steypa Jakobi af stóli þar sem hann hafði ekki tekið aftur andkaþólska löggjöf sem Elísabet 1. hafði komið á líkt og vonir höfðu staðið til, þar sem hann var sonur Maríu Stúart. Foringi samsærisins var Robert Catesby en undirbúningur og framkvæmd sprengingarinnar var í höndum Guy Fawkes sem tókst að fela 36 tunnur af byssupúðri undir eldiviðarstafla í kjallara Westminster. Hefðu tunnurnar sprungið hefði stærstur hluti hallarinnar að öllum líkindum hrunið. Upp komst um samsærið þar sem einn samsærismanna skrifaði mági sínum William Parker, Monteagle lávarði, viðvörunarbréf 26. október sem hann lét í hendur ríkisritarans, Robert Cecil, jarli af Salisbury. Samsærismennirnir fréttu af þessu en ákváðu að halda áfram eftir að Fawkes hafði skoðað kjallarann og komist að því að allt var óhreyft. Kvöldið 4. nóvember fór hópur varðmanna í kjallarann vegna bréfsins. Þar fundu þeir Guy Fawkes með knippi af kveikiþráðum, eldspýtur og vasaúr. Fawkes gekkst strax við öllu saman. Hann var fluttur til Tower of London þar sem hann var pyntaður til sagna. Aðrir samsærismenn voru gripnir á flótta í Midlands. Catesby lést í skotbardaga við menn sýslumanns í Holbeach House í Staffordskíri 8. nóvember. Púðursamsærisins er enn minnst í Bretlandi með bálköstum og flugeldum á Guy Fawkes-nótt, 5. nóvember hvert ár. Eppingskógur. Eppingskógur er skóglendissvæði á suðaustur Englandi, á mörkum Stór-Lundúnasvæðisins og Essex. Hann myndaðist eftir síðustu ísöld um það bil 8000 f.Kr. Hann er 24 km² (6.000 ekrur) að flatarmáli og inniheldur graslendi, heiðar, ár, fen og tjarnir. Skógurinn teygir sig milli Forest Gate í suðri og Epping í norðri. Hann er um það bil 18 km á lengdina frá norðri til suðurs og um það bil 4 km á vídd. Skógurinn er við fjallshrygg minni dala áanna Ley og Roding. Jarðvegssamsetningin er ekki hentug fyrir landbúnað. Skírisskógur. Skírisskógur (enska: "Sherwood Forest") er skógur í eigu bresku krúnunnar í Nottinghamshire á Englandi. Hann er frægur sem sögusvið þjóðsögunnar um Hróa hött. Á þessu svæði hefur verið skógur síðan síðustu ísöld en í dag er aðeins eftir 4,23 km² umhverfis þorpið Edwinstowe. Árið 1969 var skógurinn opnaður sem sveitagarður. Um það bil 500.000 ferðamenn heimsækja skóginn á ári hverju. Ferðamönnum hefur farið fjölgandi síðan sjónvarpsþættirnir "Hrói höttur" voru sýndir á BBC árið 2006. Hraungerðiskirkja. Hraungerðiskirkja er kirkja í Hraungerðisprestakalli í Flóahreppi. Hún var byggð árið 1902. Um kirkju í Hraungerði var fyrst getið í skrá Páls biskups frá um 1200. Var hún þá prestslaus. Hún var síðar helguð Pétri postula. Meginland Evrópu. Meginland Evrópu er heimsálfan Evrópa án allra eyja. Á Bretlandi er hugtakið notað um Evrópu án Bretlands, Manar, Írlands, Færeyja og Íslands. Á Norðurlöndum er venjulega átt við Evrópu án Bretlands, Írlands og Norðurlandanna. Kornbresk kjötbaka. Kornbresk kjötbaka (enska: "Cornish pasty", korníska: "pasti", "hoggan") er bökutegund frá sýslunni Cornwall í Englandi. Bakan er yfirleitt fyllt með kjöti, kartöflum og laukum. Hráefnin eru sett inn í bökuna áður en brauðdeigið er bakað. Bakan er hringur sem er brotinn saman til að mynda hálfhring. Brúninni er þá lokað saman. Má heita "kornbresk" kjötbaka aðeins ef notuð eru hefðbundin hráefni. Orðið "pasty" er borði fram /ˈpæsti/ á ensku. Upphaflega voru slíkar bökur gerðar fyrir kolnámuverkamenn sem munu ekki hafa komið upp á yfirborð jarðar til að borða hádegisverð. Fiskur og franskar. Fiskur og franskar (ensku: "fish and chips" eða "fish 'n' chips") er breskur skyndibitaréttur sem samanstendur af djúpsteiktum fiski, sem er fyrst velt upp úr soppu og brauðraspi og djúpsteiktum kartöflum. Ýsa og þorskur eru þær fisktegundir sem helst eru notaðar, en stundum ufsi, skarkoli, rækjur, steinbítur eða jafnvel skata. Víða á Bretlandi má finna smástaði sem selja réttinn. Bretar kalla þá "chippies". Fiskur og franskar eru líka vinsælt fæði í löndum sem voru í Breska heimsveldinu á 19. öld, eins og í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og hlutum af Norður-Ameríku. Einnig hefur rétturinn verið vinsæll á Færeyjum síðan hernám Breta í seinni heimsstyrjöldinni. Saga. Á Bretlandi varð fiskur og franskar vinsæll réttur hjá verkalýðsstéttum þegar togveiðar Breta hófust á Norðursjó á síðari hluta 19. aldar. Árið 1860 var opnaður fyrsti "fisk og franska"-veitingastaðurinn í London. Það gerði Joseph Malin gyðingur sem steikti fisk „að hætti gyðinga“ og seldi hann með frönskum. Djúpsteiktir franskar (e. "chips") urðu til á Bretlandi um það bil á sama tíma. Í Oxford English Dictionary stendur að elsta notkun orðsins „chips“ í merkingunni franskar sé í bókinni "A Tale of Two Cities" eftir Charles Dickens (gefin út árið 1851): „Husky chips of potatoes, fried with some reluctant drops of oil“. Veitingastaðir sem selja fisk og franskar (sem í ensku slangurmáli er nefnd "chippy" eða "chipper") urðu til í Bretlandi. Í fyrstu voru eldhúsin mjög frumstæð, og innihéldu stóran suðupott sem fylltur var af floti. Veitingastaðir þessar gáfu frá sér sterka lykt sem var talin óþægileg á sínum tíma og staðirnir höfðu yfir sér lágstéttarbrag. Smánarbletturinn tengdur veitingastöðunum hvarf í seinni heimsstyrjöldinni. Steiking. Upprunalega var kúa- eða svínafeiti notuð til steikingar, en nú á dögum eru jurtaolíur notaðar víða. Nokkrir smástaðir í Norður-Englandi og Skotlandi nota ennþá kúafeiti. Flestir smástaðir sem selja réttin í Norður-Írlandi nota kúafeiti. Notkun kúafeiti hefur áhrif á bragði réttarins. Svínafeiti er líka ennþá notuð á sumum smástöðum. Á Bretlandi er sú feiti sem eftir er er stundum notuð til að framleiða lífdísil. Þykktar franskar. Franskarnar sem seldar eru Bretlandi eru yfirleitt þykkari en þær sem fást í öðrum heimshlutum og þess vegna innihalda þær minni feiti. Feitin nær ekki djúpt inn í kartöflurnar á meðan steikingu stendur og svo því stærra yfirborðsflatarmálið er því minni feiti drekkur kartflan í sig og það tekur lengril að steikja þær en þynnri franskarnar sem fást víða annarsstaðar. Soppa. Yfirleitt er notuð einföld soppa úr vatni og hveiti, en stundum er bætt smá matarsóda og ediki við hana svo að loftbólur myndist. Stundum er bjór eða mjólk bætt við í staðinn fyrir vatnið. Bjórinn innihedlur koltvísýring sem gefur soppunni léttari samsetningu og gerir hana appelsínugula á litinn. Einföld bjórsoppa samanstendur af tveggja hluta hveiti og þriggja hluta bjór. Bjórtegundin sem er notuð breytir bragði soppunar: sumum finnst betur að nota lager og öðrum stout eða bitter. Alkóhól í bjórnum gufar upp þegar fiskurinn er steiktur. Fisktegund. Á Bretlandseyjum og Írlandi eru ýsa og þorskur þær helstu fisktegundir sem notaðar eru, en smástaðirnir mega selja alls konar bolfiska, eins og ufsa, rauðsprettu, skötu eða deplaháfa. Á sumum svæðum í Suðvestur- og Norðaustur-Englandi og í meginhluta af Skotlandi er ýsa helsta fisktegundin sem notuð er. Á svæði í Vestur-Yorkshire, milli bæjanna Bradford, Halifax og Keighley, selja flestir smástaðir aðeins ýsu og enginn notar þorsk. Í Norður-Írland eru ýsa, rauðspretta og lýsa oftast bornar fram. Verslanir sem selja fisk og franska í Devon og Cornwall nota oftast ufsa af því hann er ódýrasti fiskurinn sem þar er veiddur. Á sumum smástöðum má finna smá hrognabollur sem kost í staðinn fyrir heilan fisk. Í Ástralíu er borðaður kyrrahafsþorskur eða „flake“, þ.e. kjöt af ýmsum tegundum af smáháfum. Deplaháfur er líka stundum notaður í Bretlandi. Meðlæti. Í Bretlandi er boðið ókeypis upp á salt og edik sem er notað til að krydda fiskinn og franskarnar. Einnig er notað maltedik eða laukedik (sem er það edik sem notað er til að pækla lauka). Fiskur og franskar er yfirleitt borinn fram með stöppuðum gulertum (e. "mushy peas"). Oft fást heilar smágúrkur og laukar í pækli á þeim stöðum sem selja réttinn. Með frönskum er borðuð tómatsósa og stundum majónes. Á fiskinn má setja tartarsósu. Za Dengel. Za Dengel (d. 24. október 1604) var Eþíópíukeisari sem Asnaf Sagad 2. 1603 til 1604. Hann var bróðursonur Sarsa Dengel keisara sem ætlaðist til þess að hann tæki við embættinu, en þess í stað var Jakob sonur Sarsa Dengels gerður að keisara 1597. Za Dengel var sendur í útlegð á eynni Daq á Tanavatni. Hann flúði þaðan til Gojjam. Þegar Za Sellase varð ráðgjafi Jakobs notaði hann tækifærið og setti Jakob af og gerði Za Dengel að keisara. Za Sellase ætlaðist aldrei til þess að Za Dengel yrði annað en leppur en hann boðaði jesúítann Pedro Páez til hirðarinnar í Dankaz og tók kaþólska trú. Við þetta fékk hann Za Sellase upp á móti sér. Hann skipulagði uppreisn gegn keisaranum og hugðist koma Jakobi aftur á valdastól. Za Dengel fór með her sinn gegn honum en þurfti að láta í lægra haldi, þrátt fyrir aðstoð 200 portúgalskra skytta. Memeð 3.. Memeð 3. (ottómantyrkneska: محمد ثالث "Meḥmed-i sālis", tyrkneska: "III.Mehmet"; 26. maí, 1566 – 22. desember, 1603) var Tyrkjasoldán eftir föður sinn Múrað 3. frá 1595 til dauðadags. Hann varð einkum frægur fyrir að láta drepa 27 bræður og hálfbræður sína og tuttugu systur til að tryggja sig í sessi. Hann lét móður sinni, Safiye, eftir stjórn ríkisins. Helsti viðburður valdatíðar hans var langa styrjöldin gegn Austurríki, Transylvaníu, Vallakíu og Moldavíu. Ferdinand 2. keisari. Ferdinand 2. (9. júlí 1578 – 15. febrúar 1637) af ætt Habsborgara, ríkti sem keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1619 til dauðadags. Áður var hann erkihertogi af Styrju, konungur Bæheims og konungur Ungverjalands. Hann var eindreginn kaþólikki og barði niður mótmælendatrú í ríki sínu. Þegar Matthías keisari valdi hann sem eftirmann sinn 1618 vildi háaðallinn í Bæheimi ekki staðfesta kjör Ferdinands þótt hefð væri fyrir því að Habsborgarar væru konungar í Bæheimi og kusu Friðrik 5. kjörfursta í Pfalz í staðinn. Þetta atvik leiddi til þess að Þrjátíu ára stríðið hófst á því að Ferdinand lagði Bæheim undir sig með hervaldi. Þegar Matthías lést 1619 tók Ferdinand við sem keisari hins Heilaga rómverska ríkis. Eftir að hann lagði Bæheim undir sig með stuðningi Kaþólska bandalagsins undir stjórn Maximilíans 1. kjörfursta í Bæjaralandi, hóf hann umfangsmiklar trúarhreinsanir í Bæheimi og Austurríki og neyddi mótmælendur til að taka kaþólska trú. Þegar Danir réðust með her inn í Þýskaland til varnar mótmælendum réði Ferdinand tékkneska athafnamanninn Albrecht von Wallenstein sem hershöfðingja og fékk hann til að koma sér upp her. Wallenstein, ásamt her Kaþólska bandalagsins undir stjórn Tillys greifa, gersigraði mótmælendur í nokkrum orrustum. Ferdinand gaf þá út Endurheimtartilskipunina 1629 sem kvað á um að allar eigur kaþólsku kirkjunnar frá því fyrir Passáfriðinn 1552 skyldu endurheimtar. Þessi löggjöf varð til þess að Gústaf 2. Adolf Svíakonungur ákvað að skerast í leikinn og halda með her inn í Þýskaland til varnar mótmælendum 1630. Svíar náðu undraverðum árangri og sóttu alla leið inn í Bæjaraland. Tilly var drepinn en Wallenstein hélt með her gegn þeim og tókst að reka þá frá Bæjaralandi. Gústaf Adolf var drepinn í einni af orrustum Svía en sænski herinn hélt áfram að herja gegn Ferdinand og Kaþólska bandalaginu. Wallenstein hóf viðræður við þá um frið en var þá myrtur að ósk keisarans vegna ótta við að hann myndi svíkja málstaðinn. Elsti sonur keisarans, Ferdinand Ungverjalandskonungur, tók við stjórn hersins og vann afgerandi sigur á Svíum í orrustunni við Nördlingen. Ósigur sænska hersins gerði þó ekki út um herfarir sænskra herstjóra í Þýskalandi og varð til þess að Frakkar ákváðu að hefja bein afskipti af styrjöldinni. Stríðið hélt því áfram og Þýskaland var nánast rústir einar þegar Ferdinand dó. Aflagssögn. Aflagssögn (eða "deponens"sögn) er sögn sem hefur merkingu sem er í germynd, en tekur á sig form annara sagnmynda, oftast form miðmyndar eða þolmyndar. Óregluleg sögn. Óreglulegar sagnir eru ólíkt reglulegum sögnum þær sagnir sem fallan utan hefðbundinna sagnbeyginga þess tungumáls sem þær eru í. Hvaða sagnir teljast til óreglulegra sagna fer mjög eftir tungumálinu. Í ensku eru sterk beygðar sagnir taldar óreglulegar, á meðan í fornensku eru þær taldar reglulegar. Fjöldi óreglulegra sagna í mismunandi tungumálum. Á meðan hugtakið „óregluleg sögn“ er torskilgreint þá ætti taflan að neðan að sýna hve mikið þetta fyrirbæri fer eftir tungumálum. Scripta historica Islandorum. Scripta historica Islandorum (latína: Sagnfræðirit Íslendinga) er ritröð í 12 bindum, sem Hið Konunglega norræna fornfræðafélag gaf út á árunum 1828-1846. Fornfræðafélagið gaf fyrst út 12 binda ritröð, sem kölluð var Fornmanna sögur, og birtist hún á árunum 1825-1837. Þar voru einkum prentaðar Noregskonunga sögur og rit tengd þeim, eins og Jómsvíkinga saga og Knýtlinga saga. Var textinn birtur á frummálinu, íslensku. Í lokabindinu voru skrár og ítarefni. Fornfræðafélagið leit á sig sem samnorrænt og alþjóðlegt félag, og því var ákveðið að þýða "Fornmannasögurnar" bæði á dönsku og latínu til þess að kynna ritin fyrir hinum menntaða heimi. Danska útgáfan heitir "Oldnordiske sagaer", og sú latneska "Scripta historica Islandorum, de rebus gestis veterum borealium". Báðar eru í 12 bindum eins og Fornmannasögurnar. Sveinbjörn Egilsson síðar rektor, þýddi textabindin, 11 að tölu, á latínu, og þótti þýðingin afburða vel gerð. Grímur Thomsen þýddi 12. bindið á latínu. Glock 17. Glock 17 er hálfsjálfvirk skammbyssa framleidd af austurríska vopnafyrirtækinu Glock. Glock 17 var hönnuð í kringum árið 1980 fyrir austurríska herinn. Árið 1988 byrjaði sænski herinn að nota hana. Notað er 9 x 19 mm skot í hana, en til eru öðruvísi tegundir af Glock 17 sem nota öðruvísi tegundir af skotum, t.d: 10mm og.45 ACP (Automatic Colt Pistol). Það magasín sem oftast er notað, komast 17 skot í, ef notuð eru 9mm skot. Lengd byssunnar er 186 millimetrar og þyngdin er 625 grömm. Glock 17 er mikið notuð af lögreglu og hermönnum í Evrópu og einnig í Asíu. Glock 17 er notuð af: Víkingasveitinni (íslenska sérsveitin), Karhuryhmä (finnska sérsveitin), lögreglunni í Hong Kong, austurríska hernum, hollenska hernum, malasíska hernum, norska hernum og Beredskapstroppen (norska sérsveitin), sænska hernum, breskum sérsveitum og af mörgum öðrum. Glock 18 er alsjálfvirk, en er að öðru leyti nánast eins og Glock 17. Fornmanna sögur. Fornmanna sögur, er ritröð í 12 bindum, sem Hið konunglega norræna fornfræðafélag gaf út á árunum 1825-1837. Þar voru einkum prentaðar Noregskonunga sögur og rit tengd þeim, eins og Jómsvíkinga saga og Knýtlinga saga. Var textinn birtur á frummálinu, íslensku. Í lokabindinu voru skrár og ítarefni. Fornfræðafélagið leit á sig sem samnorrænt og alþjóðlegt félag, og því var ákveðið að þýða "Fornmanna sögurnar" bæði á dönsku og latínu til þess að kynna ritin fyrir hinum menntaða heimi. Danska útgáfan heitir "Oldnordiske sagaer", og sú latneska "Scripta historica Islandorum, de rebus gestis veterum borealium". Báðar eru í 12 bindum eins og Fornmanna sögurnar. Carl Christian Rafn, ritari Fornfræðafélagsins og driffjöðrin í starfi þess, átti frumkvæði að útgáfunni, en sjálft útgáfustarfið var að miklu leyti unnið af Íslendingum. Hreysiköttur. Hreysiköttur (einnig stundum nefndur stóra vesla) (fræðiheiti "Mustela erminea") er lítið rándýr af marðarætt. Hann lifir á norðlægum slóðum á barrskóga- og túndrusvæðum. Hann er víðast hvar á norðlægum slóðum í tempraða beltinu til heimskautasvæða í Evrópu, Asíu, Kanada og BNA. Hann var fluttur til Nýja-Sjálands til að minnka fjölda kanína en er talið meindýr þar vegna þess að hann étur egg og unga innfæddra fugla og er hreysiköttur talinn meginástæða fyrir hnignun og útrýmingu margra fuglategunda þar. Hreysiköttur er næturdýr en er stundum á ferli á daginn. Hreysikettir er 17-33 sm á lengd. Karldýr eru oftast um helmingi lengri en kvendýr. Þeir eru langir og grannvaxnir með stutta fótleggi, stutt og kringlótt eyru, stór svört augu og löng veiðihár. Á veturna er feldur þeirra hvítur, á sumrin er feldur þeirra ljósbrúnn. Hreysikattaskinn var var eftirsótt verslunarvara og táknmynd konunga. Vetrarfeldur hreysikatta var talinn merki um hreinleika eða meydóm og var mjög eftirsóttur meðal annars í skikkjur og bryddingar. Feldirnir voru saumaðir saman til að fá mynstur af svörtum deplum. Hreysikettir éta skordýr, kanínur, nagdýr eins og mýs og rottur og önnur lítil spendýr, fugla og unga og stundum fiska og slöngur. Þeir geta drepið bráð sem er stærri en þeir sjálfir. Refir og úlfar veiða hreysiketti. Hreysiköttur markar sér svæði og ver það fyrir öðrum dýrum, sérstaklega öðrum karldýrum. Á svæðinu eru oftast nokkur greni. Hann er oftast einn á ferð nema við mökun og þegar móðir er með stálpaða unga. Regluleg sögn. Regluleg sögn er hver sú sögn sem hefur sagnbeygingu sem fylgir hefðbundinni beygingu tungumálsins sem hún tilheyrir. Sögn sem ekki beygist svona kallst óregluleg sögn. Mannanafnanefnd. Mannanafnanefnd er íslensk nefnd sem ákveður og samþykkir íslensk mannanöfn. Nefndin er skipuð þremur mönnum af innanríkisráðherra Íslands til fjögurra ára í senn. Heimspekideild Háskóla Íslands tilnefnir eina manneskju í nefndina, lagadeild Háskóla Íslands eina og Íslensk málnefnd eina. Úrskurðum hennar er ekki hægt að skjóta til æðra stjórnvalds. Nefndin hittist reglulega til að afgreiða umsóknir um mannanöfn, en þau nöfn sem Mannanafnanefnd samþykkir verða að lúta íslenskum málfræðireglum um stafsetningu og endingu. Hins vegar eru sum nöfn sem hafa verið leyfð sökum hefðar. Mest er heimilt að bera þrjú eiginnöfn. Leyfð íslensk nöfn sem innihalda ‚th‘. Dígrafið ‚th‘ er afar sjaldgæft í íslensku og því fá nöfn sem hafa verið leyfð af mannanafnanefnd. Laugarnes. Laugarnes er landsvæði í Reykjavík sem telst til Laugardalsins. Fyrstu heimildir um Laugarnes koma fyrir í Njálu. Þórarinn ragabróðir, sem átti og bjó í Laugarnesi, var bróðir Glúms, annars manns Hallgerðar langbrókar, en eftir víg Glúms skiptu þau á jörðum og varð Hallgerður þá eigandi að Laugarnesi. Þar bjó hún síðustu æviár sín og segir Njála að hún sé grafin þar. Kastljós (fréttaskýringaþáttur). "Kastljós" var fréttaskýringaþáttur sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins frá 1974 til 1998. Hann hóf göngu sína sem fréttaskýringaþáttur um innlendar fréttir árið 1974 og tók þá við af þætti sem nefndist "Landshorn". Þátturinn var um fjörutíu mínútna langur, í umsjón fréttastofunnar og sýndur á föstudögum á besta tíma. Umsjónarmenn voru mismunandi fréttamenn í hvert skipti. Annar þáttur á miðvikudögum fjallaði þá um erlendar fréttir. 1980 var þáttunum tveimur slegið saman í eitt Kastljós á föstudögum í umsjón tveggja stjórnenda. 1987 var þættinum aftur breytt í fréttaskýringaþátt um innlend málefni stutt skeið. 1988 hét þátturinn "Kastljós á sunnudegi" og 1990 "Kastljós á þriðjudegi" eftir breyttum útsendingartíma en 1992 var þátturinn aftur fluttur á besta tíma á föstudegi. 1993 var Kastljós tekið af dagskrá um skeið þegar dægurmálaþátturinn Dagsljós hóf göngu sína. Sjá einnig Kastljós (dægurmálaþáttur) Ssangyongtaekwon. SsangYongTaekwon eru vinasamtök Taekwondo-félaga á Íslandi og víðar sem fylgja sömu grunnreglum og hugmyndum við kennslu og iðkun Taekwondo. Félögin hafa sameiginlegar prófkröfur og iðkendur geta tekið próf í hverju sem er af félögunum þarsem samtökin nota þá tækni sem Kukkiwon gefa út hverju sinni. Master Sigursteinn Snorrason hefur meistaragráðu og kennsluréttindi frá Kukkiwon (2. ágúst 2002) og sér um útfærslu og framkvæmd á tækni félaganna. Hann sér einnig um beltapróf félaganna. Grundvallarhugsun. Samstarf félaga sem byggist á víðsýni og vilja til að kynnast nýjum hugmyndum og aðferðum. Félögin eru opin fyrir nýjum straumum og stefnum í Taekwondo, sem og í öðrum bardagalistum. Þannig þroska iðkendur félaganna sjálfan sig og þróa Taekwondo áfram. Hlutverk meistara og yfirkennara ásamt dan-ráði er að halda utan um þessa þróun og tryggja að hún sé ávallt fram á við. SsangYongTaeKwon er á engan hátt viðriðin starfsemi TKÍ, ETU eða WTF á annan hátt en sem einstök félög. Markmið. Markmið SsangYongTaeKwon er að byggja upp Taekwondo á Íslandi og að bæta menntun og starfsumhverfi kennara. Auk þess beita samtökin sér fyrir sameiginlegum hagsmunum, eins og; aðstöðu félaga, keppnisaðstöðu og –reglum, sameiginlegum æfingabúðum, samskiptum við utanaðkomandi aðila og annað sem viðkemur skipulagi og framgöngu Taekwondo-mála á Íslandi. SsangYongTaeKwon er stjórnað af dan-ráði sem skipað er fimm dan-beltum úr félögunum. Dan-gráður kjósa samkvæmt sinni dan-gráðu, (1 atkvæði fyrir 1. dan, 2 fyrir 2. dan o.s.frv.) í stjórn ráðsins sem kosið er í einu sinni á ári. Ráðið skiptir með sér verkum og skipar í nefndir eins og þurfa þykir. SsangYongTaeKwon er öllum opið og opið fyrir öllum. Merking SsangYongTaeKwon táknsins. Tvö D tákna andstæður sem koma saman til að mynda heild. Í þessu tilviki umgjörðina utan um SsangYongTaeKwon-nafnið. Undirstaða heildarinnar er tómur bikar, myndlíking fyrir það að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og áherslum. Ef þessar andstæður ná saman með undirstöðunni mynda þau hamar, sbr. hamar Þórs. Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis. "Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis" (latína "Orðabók um skáldamál hinnar fornu tungu norðursins") er tvítyngd orðabók rituð af Sveinbirni Egilssyni þar sem uppflettiorð og dæmi eru á íslensku og allar skýringar á latínu. Bókin var gefin út af Fornfræðafélaginu í Kaupmannahöfn árið 1860 og var stórvirki á sinni tíð, þegar aðeins lítill hluti hinna fornu heimildarrita hafði verið gefin út í fullnægjandi útgáfum. Um leið olli orðabókin straumhvörfum í rannsóknum á fornum íslenskum kveðskap. Á grundvelli þessarar útgáfu endurskoðaði Finnur "Lexicon poeticum" frá grunni, og gaf hann út á vegum Fornfræðafélagsins á árunum 1913–1916. Í þeirri útgáfu eru uppflettiorð og dæmi á íslensku og allar skýringar á dönsku. Bókin kom í annarri útgáfu 1931, og ljósprentuð 1966. Sumir hafa talið það fræðilegt örlæti hjá Finni að gefa bókina út undir nafni Sveinbjarnar Egilssonar, því að bókin í þeirri mynd sé verk Finns. Hins vegar er hugmyndin að bókinni og allt skipulag hennar komið frá Sveinbirni, auk þess sem Finnur hefur viljað minnast brautryðjandans með þessum hætti. I Am Legend (kvikmynd). "I Am Legend" er bandarísk kvikmynd frá árinu 2007. Með aðalhlutverk fer Will Smith. Gaulverjabæjarfundur. Gaulverjabæjarfundur er silfursjóður frá víkingaöld, sem fannst 1930 við jarðrask í kirkjugarði í Gaulverjabæ í Flóa, Árnessýslu. Í sjóðnum voru 360 silfurpeningar, arabískir, þýskir, danskir, sænskir, enskir og írskir. Elstu peningarnir voru slegnir um 870 en hinir yngstu um 1010. Talið er að sjóðurinn hafi verið falinn snemma á 11. öld. Tala (málfræði). Tala er í málfræði hugtak sem gefur til kynna fjölda. Í íslensku skiptist hugtakið „tala“ í eintölu og fleirtölu, og eitt sinn í tvítölu. Málfræði talna. Mörg tungumál hafa málfræðilegar tölur, sem er viðfang sérstakra orða og breytir framburði þeirra og merkingu. Dæmi er um eintölu, tvítölu og fleirtölu í íslensku. Sálfræðingar hafa gert (frekar vafasamar) kannannir á sameiginlegu gáfnafari heilla þjóða með tilliti til þess hversu háar málfræðilegar tölur eru til: Sum tungumál þekkja „einn“ og „margir“, önnur „einn“, „tveir“ og „margir“, og svo framvegis. Þáskildagatíð. Þáskildagatíð er orðasambandið "„mundi hafa...“" sem er samsett af munu í viðtengingarhætti þátíðar, hafa í nafnhætti og svo bætist aðalsögnin (t.d. fljúga) við og er í lýsingarhætti þátíðar, og yrði þá "mundi hafa flogið...". Þáskildagatíð var áður fyrr talin vera tíðbeygingarmynd í málfræði. Stundum er sagt að einhver "tali í þáskildagatíð" og þá er átt við að viðkomandi sé að ræða um það sem hefði getað gerst en varð ekki. Þeir sem tala (eða skrifa) um pólitík eða sagnfræði í þáskildagatíð eru því að ræða (eða skrifa) um eitthvað sem hefði getað gerst, en gerðist ekki. Eldbjargarmessa. Eldbjargarmessa er 7. janúar, en þá skyldi slökkva jólaeldinn og jólaboðsgestir ríða frá garði. Sá dagur var einnig á 13. og 14. öld kallaður "affaradagur jóla", og enn eldra heiti er "eldsdagur jóla". 7. janúar gengur einnig undir heitinu Knútsdagur. Aukafall. Aukafall kallast öll föll önnur en nefnifall (í íslensku föllin þolfall, þágufall og eignarfall), og fara orð í aukaföll fylgi þau áhrifssögnum, forsetningum eða öðrum fallvöldum. Til er ákveðin nefnifallssýki (sjá þágufallssýki) sem lýsir sér í því að aukaföll detta út; dæmi: „Við ætlum bara að fara í KB-banki.“ Framsöguháttur. Framsöguháttur flokkast undir hætti sagna (nánar til tekið persónuhátt). Framsöguhátturinn lætur oftast í ljós hlutlausa frásögn, beinar fullyrðingar (hvort sem þær eru sannar eða ósannar) og beinar spurningar („ég "fer" á morgun“, „"ferðu" á morgun?“). Framsöguháttur er til í persónum, tölum, tíðum og myndum. Viðtengingarháttur. Viðtengingarháttur sem kallast "coniunctivus" á latínu er sagnháttur sem flokkast undir persónuhátt. Notkun viðtengingarháttar er tekin að minnka í mörgum tungumálum og í sumum tungumálum er hann hartnær horfinn nema í orðtökum. Viðtengingarhátturinn hefur dáið í flestum germönskum málum fyrir utan íslensku og þýsku, sem hafa hvort um sig byrjað að nota viðtengingarháttinn í óbeinni ræðu og er horfinn úr ensku fyrir utan einstaka orðmyndir eins og "were". Viðtengingarháttur í íslensku. Viðtengingarháttur er einn af þremur persónuháttum í íslensku sem lætur í ljós ósk, vafa, skoðun, eitthvað skilyrðisbundið eða óraunverulegt. Viðtengingarhátturinn er algengari í aukasetningum en aðalsetningum í íslensku. Viðteningarháttur í íslensku er kominn frá viðtengingarhætti og óskhætti í frumindóevrópsku (FIE). Viðtengingarháttur er algengur í aukasetningum og óbeinni ræðu. Viðteningarháttur í aðalsetningum. Merkingarmunur framsöguháttar og viðteningarháttar kemur skýrast fram í aðalsetningum. Áhyggjur varðandi viðtengingarháttinn. Hildur Ýr Ísberg hefur rannsakað breytingar viðteningarháttsins á milli kynslóða sem hluta af B.A.-verkefni við Háskóla Íslands og segir að ungt fólk noti viðtengingarháttinn mun minna en eldri kynslóðir. Unga fólkið notaði framsöguhátt nútíðar í stað viðtengingarhátts þátíðar og þá sérstaklega varðandi sterkar óreglulegar sagnir. Lýsingarháttur þátíðar. Lýsingarháttur þátíðar er fallháttur (einn af háttum sagna) og lýsir oft einhverju sem er lokið. Hann gegnir líku hlutverki og lýsingarorð og er stundum nefndur lýsingarorð þolandans vegna þess að oftast á hann við eitthvað sem einhver verður fyrir (til dæmis: „hann var "skammaður"“, „hún var "lamin"“). Lýsingarháttur þátíðar í íslensku. Lýsingarháttur þátíðar er notaður með sögnunum „hafa“, „vera“, „verða“ (hún hafði sofið, hann er valinn, hann verður sóttur). Lýsingarháttur þátíðar kemur einnig oft fyrir með sögnunum „geta“, „eiga“ og „fá“; til dæmis „ég get "farið"“, „hann fær engu "ráðið"“, „þú átt það "skilið"“. Stundum er orði, orðstofni eða forskeytið aukið framan við lýsingarhátt þátíðar; til dæmis „útsofinn“, „alfarnir“, „ókomnir“ og ætti þá að greina hann sem lýsingarorð. Lýsingarháttur þátíðar er eini fallhátturinn í íslensku sem getur fengið ólíkar endingar eftir kynjum (ekki persónum). Endingar. Lýsingarháttur þátíðar endar á "-ð", "-d", "-t" eða "-inn/-in", "-ður", "-dur", "-tur" og fær endingar eftir kynjum og tölum eins og lýsingarorð, einn fallhátta (brennt barn forðast eldinn, enginn verður óbarinn biskup, hann er kominn). Frumlag. Frumlag er hugtak í málfræði. Frumlag er fallorð, fallsetning, fallháttur eða bein ræða sem stendur alltaf í nefnifalli, og gerir það sem sögnin segir. Frumlag er gerandinn í setningunni- þ.e.a.s. frumlag táknar þann sem gerir (er eða verður) það sem umsögnin segir. Auðvelt er að finna frumlagið með því að spyrja „hver gerði“ það sem sögnin segir. Ópersónuleg frumlög. Frumlög ópersónulegra sagna eru aldrei í nefnifalli og skiptast í tvo hópa; aukafallsfrumlög og gervifrumlagið „það“ (einnig leppur eða aukaliður). Dæmi um gervifrumlag er orðið „það“ í setningunni „það snjóaði lítið í vetur“ en þegar gervifrumlaginu er slepp kallast það frumlagseyða: „nú snjóar lítið“. Lech Kaczyński. Lech Aleksander Kaczyński (fæddur 18. júní 1949 í Varsjá, dáinn 10. apríl 2010 í Smolensk í Rússlandi) var forseti Póllands frá 23. desember 2005 til 10. apríl 2010 þegar hann lést í flugslysi ásamt eiginkonu sinni og 95 öðrum, sem margir hverjir voru háttsettir í her Póllands. Erindi þeirra til Rússlands var að taka þátt í minningarathöfn vegna fjöldamorða Rússa á pólskum liðsforingjum í Katynskógi í seinni heimsstyrjöldinni. Jarosław Kaczyński. Jarosław Aleksander Kaczyński (fæddur 18. júní 1949 í Varsjá) er formaður Prawo i Sprawiedliwość og var forsætisráðherra Póllands frá 14. júlí 2006 til 16. nóvember 2007. Umsögn. Umsögn er í málfræði, sögn í persónuhætti. Umsögn er vanalega aðalsögn setningarinnar og er hún höfðuð sagnliðarins í setningunni. Umsögn getur verið samsett úr einni eða fleiri hjálparsögnum og höfði (aðalsögn). Umsögnin segir einnig hvað frumlagið og andlagið fá, gera, verða að þola og svo framvegis. Tengisögn. Tengisögn er í málfræði orð notað til að tengja saman frumlag setningar við umsögnina. Tengisögn er stundum (en þó ekki alltaf) sögn. Núþáleg sögn. Núþálegar sagnir eru aðeins ellefu sagnorð; "eiga, mega, unna, kunna, knega, muna, munu, skulu, vilja, vita og þurfa." Í stað þátíðar í annarri kennimynd hafa þær nútíð. Núþálegar sagnir heita svo vegna þess að nútíð núþálegra sagna er mynduð með hljóðskiptum, eða á svipaðan hátt og þátíð sterkra sagna. Nafnháttarmerkið er ekki notað á undan núþálegu sögnunum „munu“ og „skulu“ og heldur ekki notað á eftir núþálegu sögnunum „munu“, „skulu“, „mega“ og „vilja“ (til dæmis er nafnháttarmerkið ekki notað á eftir sögninni að vilja í dæminu „ég vil borða kjúkling“). Sögnin að knega þýðir að "geta, megna, vera einhvers umkominn". Kennimynd. Kennimynd eru frumhlutar sagnorða sem aðrar beygingarmyndir eru dregnar af og sú mynd sem oft er gefin upp í orðabókum. Afleiddar myndir eru dregnar af kennimyndum sagnorða. Af fyrstu kennimynd eru nútíðarmyndir sagnarinnar dregnar. Af þriðju kennimynd sterkra sagna og núþálegra sagna er til dæmis dreginn viðtengingarháttur þátíðar. Hús verslunarinnar. Hús verslunarinnar er bygging nálægt Kringlunni og við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík þar sem ýmis félög tengd viðskiptum á Íslandi hafa verið með rekstur. FÍS (Félag íslenskra stórkaupmanna), VR (Verslunarmannafélag Reykjavíkur) og Viðskiptaráð Íslands eru þar til húsa. Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin 1976 og fyrstu skrifstofurnar teknar í notkun sumarið 1982 Skammt frá Húsi verslunarinnar eru Kringlan og Borgarleikhúsið. Friðrik V (veitingastaður). Friðrik V var veitingastaður á Akureyri, síðast til húsa í Kaupvangsstræti 6, gegnt Hótel KEA, en var áður í Strandgötu. Staðurinn var opnaður þann 25. júlí 2001 og var í eigu Friðriks Vals Karlssonar, sem jafnframt var yfirkokkur, og konu hans, Arnrúnar Magnúsdóttur. Staðurinn var þekktur fyrir að fylgja svokallaðri „Slow Food“ stefnu við matreiðslu og notaðist fyrst og fremst við ferskt hráefni af Eyjafjarðarsvæðinu. Árið 2006 var staðurinn valinn á lista Slow Food yfir 100 áhugaverðustu svæðisbundnu veitingastaði í heimi og var hann eini staðurinn á Íslandi sem hafði leyfi til að kenna sig við Slow Food og nota merki samtakanna. Veitingastaðnum var lokað 3. mars 2010. Forsetakosningar á Íslandi 2008. Enginn mótframbjóðandi bauð sig fram gegn Ólafi Ragnari 2008. Forsetakosningar á Íslandi 2008 fór fram þann 28. júní 2008, en enginn bauð sig fram gegn þáverandi forseta Ólafi Ragnari Grímssyni sem var því sjálfkjörinn og hóf sitt fjórða kjörtímabil. Í nýársávarpi forseta 1. janúar 2008 gaf Ólafur Ragnar kost á sér til endurkjörs sem forseti Íslands. Ástþór Magnússon sem bauð sig fram í forsetakosningunum 1996 og 2004 hélt blaðamannafund í janúar 2008 þar sem hann gaf ekki upp hvort að hann sæktist sjálfur eftir embættinu en bauðst til þess að greiða kostnað vegna forsetakosninga úr eigin vasa ef af yrði. Hann lýsti því svo yfir í apríl að hann hygðist ekki bjóða sig fram. Ekki kom til kosninga svo Ólafur Ragnar Grímsson var settur í settur í embætti forseta Íslands í fjórða sinn við hátíðlega athöfn 1. ágúst 2008. Næstu forsetakosningar verða haldnar árið 2012. Hey, Johnny! "Hey Johnny!" er fyrsta breiðskífa Mínus. Hún var tekin upp og framleidd í október 1999 af Jón Skugga í Stúdíó Grjótnáman. Lagalisti. Öll lög samin og flutt af Mínus. Guðni úr Klink syngur með á "Kolkrabbinn". Bíafra. Kort af ríkinu Bíafra í júní 1967. Bíafra var skammlíft ríki sem klauf sig frá Nígeríu árið 1967. Landið varð til eftir misheppnaða tilraun til valdaráns sem framkvæmd var af herforingjum frá igboþjóðflokkinum sem bjó í austurhluta landsins. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar fylgdu ofsóknir og fjöldamorð á igbomönnum. Undirofurstinn Chukwuemeka Odumegwu Ojukwu lýsti þá yfir sjálfstæði héraðsins. Landið dró nafn sitt af því að það var við Bíafraflóa. Nígería brást við með því að senda herlið á staðinn og niðurstaðan var blóðug borgarastyrjöld. Mörg lönd studdu Bíafra með vopnabúnaði þótt aðeins Gabon, Haítí, Fílabeinsströndin, Tansanía og Sambía veittu landinu formlega viðurkenningu. Bretland og Sovétríkin studdu hins vegar Nígeríu. Eftir þriggja ára styrjöld var efnahagur ríkisins hruninn og hungursneyð vofði yfir. 1970 flúði Ojukwu og Nígería innlimaði svæðið að nýju. Nígería hafði bannað Rauða krossinum að starfa í Nígeríu 1969 en lét undan vegna mikillar gagnrýni erlendis frá. Áætlað er að ein milljón manna hafi látist í kjölfar borgarastyrjaldarinnar vegna sjúkdóma og hungurs. Geiger-teljari. Geiger-teljari (eða Geiger-nemi) er geislanæmt mælitæki sem metur styrkleika geislunar í andrúmsloftinu. Þegar Geiger-teljarinn nemur geislavirka frumeind gefur mælirinn frá sér mörg stutt hátíðni píp og því örar sem geislunin er meiri. Auk þess sem styrkstikan þokast ofar á geislakvarðanum. 18 (tala). "Nú em eg svo gamall sem á grönum má sjá, átján barna faðir í álfheimum, og hef eg þó aldrei séð svo langan gaur í svo lítilli grýtu." Krossfiskar. Krossfiskar eða sæstjörnur (fræðiheiti "Asteroidea") eru dýr sem tilheyra fylkingu skrápdýra en innan þeirrar fylkingar eru meðal annars ígulker, sæstjörnur og sæbjúgu. Flestir krossfiskar eru afræningjar og veiða botnföst dýr eða ýmis hægfara dýr svo sem ostrur og skeljar. Það eru um 1.800 þekktar núlifandi tegundir krossfiska og þær finnast í öllum höfum heimsins. Uppbygging. Krossfiskar hafa tvo maga. Annar maginn er fyrir meltingu en hinn getur verið utan á krossfiskinum og umlukið og melt bráðina. Þetta gerir krossfiski kleift að veiða bráð sem er mun stærri en munnur dýrsins gæti gleypt. Armar krossfisksins geta vaxið aftur og nýr krossfiskur getur orðið til úr einum armi. Krossfiskar hafa vanalega fimm arma en þeir geta verið fleiri eða færri. Fjölgun. Krossfiskur getur fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Einstakir krossfiskar eru annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Frjóvgun verður utan líkamans og bæði kardýr og kvendýr leysa kynfrumur sínar út í umhverfið. Frjóvguð fóstur verða svo hluti af dýrasvifi. Sumar tegundir krossfiska fjölga sér með skiptingu, oftast þannig að hluti af armi dettur af og þroskast í annan krossfisk. Armur krossfisks getur ekki þroskast í annan einstakling nema hluti af miðhring krossfisksins fylgi með. Slow Food. Slow Food (eða hægfæði (stundum nefnd hægfæðishreyfingin) eru alþjóðleg samtök áhugafólks um mat og umhverfisvernd sem stofnuð voru á Ítalíu árið 1986. Samtökin voru stofnuð til höfuðs skyndibitamenningunni og til verndar staðbundnum mat og matreiðsluvenjum, bragðgæðum og þeim dýrum og plöntum sem liggja þessu til grundvallar. Áherslan hefur einnig beinst að því að koma á samskiptum á milli allra sem vilja vinna að heilbrigðri matvælaframleiðslu og efla meðal annars tengsl neytenda á Vesturlöndum við smáframleiðendur í þriðja heiminum gegnum tengslanetið Í samtökunum eru nú meira en 100.000 meðlimir í 132 löndum. Samtökin vinna að markmiðum sínum meðal annars með því að uppfræða almenning um mat, matarvenjur og matvælaframleiðslu, berjast gegn notkun skordýraeiturs, vinna að fjölbreytni í ræktun dýra og plantna og styðja við smáframleiðendur sem nota hefðbundnar aðferðir og lífræna ræktun. Samtökin reka einnig fræbanka. Aðalskrifstofa samtakanna eru í bænum Bra, sem er nálægt Tórínó á Norður-Ítalíu. Annaðhvert ár standa samtökin að geysistórri alþjóðlegri matvælasýningu í Tórínó, Salone del Gusto, þar sem áhersla er á að kynna framleiðslu smábænda og smáframleiðenda frá yfir 100 löndum en verksmiðjubúskap og fjöldaframleiðslu er úthýst. Jafnframt er umfangsmikil fræðslustarfsemi í tengslum við sýninguna og þar hefur meðal annars íslenskt skyr verið kynnt. Ísland. Slow Food hefur verið starfandi á Íslandi frá 2001, þegar deildin Slow Food Reykjavík Convivium var stofnað. Núverandi formaður (2009) er Dominique Plédel Jónsson. Samtökin hafa tilnefnt íslensku geitina á „bragðörk“ Slow Food sem dýrategund í útrýmingarhættu sem ber að vernda vegna þeirra afurða sem hún getur gefið af sér. Rúnar Marvinsson er einn upphafsmaður að Slow Food eldamennsku á Íslandi. Hann eldaði í slow food stíl á gömlu Hótel Búðum og svo síðar á veitingastað sínum Við Tjörnina. Nokkrir íslenskir veitingastaðir hafa starfað í anda Slow Food, þar á meðal Lónkot í Skagafirði, Halastjarna í Öxnadal og Friðrik V á Akureyri. Friðrik V var þó eini íslenski veitingastaðurinn sem hafði, meðan hann starfaði, rétt til að kenna sig við Slow Food og nota auðkenni samtakanna, enda var veitingastaðurinn valinn á lista samtakanna yfir 100 áhugaverðustu svæðisbundnu veitingastaði í heimi árið 2006. Stórkrossi. Stórkrossi (fræðiheiti: "Asterias rubens") er stjörnulaga fimmarma krossfiskur. Hann er oftast 10 til 15 sm í þvermál en getur orðið allt að 40 sm. Stórkrossi er rándýr sem lifir sjávarbotni. Fæða hans er ýmis botndýr eins og samlokum og kuðungum. Heimkynni hans er í austanverðu Norður-Atlantshafi. Hann finnst allt í kringum Ísland. Hann er algengur á grunnsævi. Við æxlast losar stórkrossi hrogn og svil út í sjó og til að frjóvgun verði þá þurfa bæði karl- og kvendýr að losa kynfrumur á sama tíma. Það gerist á vorin þegar blómi svifþörunga er í hámarki. Frjóvguðu eggin eru sviflæg og berast með straumum í tvo til þrjá mánuði. Lirfan tekur breytingum á þeim tíma og sest svo að á botninum og fær útlit foreldra sinna. Þegar stórkrossi hefur verið tvö ár á botninum þá getur hann verið 6 sm í þvermál. Stórkrossi lifir í sjö til átta ár. Ef stórkrossi missir arm þá getur annar vaxið í staðinn. Bra. Bra er bær í sýslunni Cuneo í Fjallalandi á Ítalíu um 50km sunnan við Tórínó. Íbúar eru tæp 30 þúsund. Bærinn er meðal annars þekktur sem höfuðstöðvar „Slow Food“-hreyfingarinnar. Á milli Bra og hinnar fornu borgar Pollenzo er Pollenzo-kastali sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Santiago de Compostela. Dómkirkjan í Santiago de Compostela. Santiago de Compostela (íslenska: "Heilagur Jakob frá Compostela") er höfuðstaður Galisíu á Norðvestur-Spáni. Dómkirkjan í Santiago de Compostela var mikilvæg endastöð á pílagrímaleiðinni Vegur heilags Jakobs á miðöldum. Fjallaland. Fjallaland (fjallalenska: "Piemont"; ítalska: "Piemonte"; franska: "Piémont") er hérað á Ítalíu. Það þekur 25.399 km² og íbúar eru um 4,4 milljónir. Höfuðstaður héraðsins er Tórínó. Héraðið dregur nafn sitt af því að það liggur við rætur Alpafjalla sem afmarka það á þrjá vegu. Það á landamæri að Frakklandi, Sviss og ítölsku héruðunum Langbarðalandi, Lígúríu og Ágústudal. Héraðið varð hluti af Savoja árið 1046 og þegar greifadæmið varð að hertogadæmi árið 1416 var Tórínó gerð að höfuðborg. Þegar hertoginn af Savoja varð konungur Sardiníu varð Tórínó höfuðborg Konungsríkisins Sardiníu. Þar hófst síðan sameining Ítalíu 1859. Íþróttafélag Hafnarfjarðar. Íþróttafélag Hafnarfjarðar, skammstafað ÍH, er íslenskt íþróttafélag í Hafnarfirði. Það var stofnað árið 1983. Til að byrja með var félagið stofnað utan um handknattleiksdeild félagsins. Síðar eða árið 1996 var stofnaður meistaraflokkur í knattspyrnu og hóf félagið þáttöku í 3. deild. Eftir nokkura ára baráttu náði félagið sumarið 2006 að vinna sig upp í 2 deild þar sem félagið er í dag. Handknattleiksdeild félagsins var endurvakinn fyrir tímabilið 2013-2014. Hafnarfjörður Hafnarfjörður Evangelísk-lúthersk kirkja. Hin evangelíska lútherska kirkja er kirkjudeild sem stundar og boðar þá grein kristinnar trúar sem Marteinn Lúther stofnaði og er kennd við hann og boðun fagnaðarerindisins (evangelíon). Kennilega greinir hún sig frá öðrum kirkjudeildum með Ágsborgarjátningunni (frá 1530), höfuðjátningu lútherskra manna.. Evangelískt-lútherskar kirkjur eru oft undir ríkisvaldinu, og kallast þá þjóðkirkjur. Íslenska þjóðkirkjan er langstærsta evangelísk-lútherska kirkjan á Íslandi. Nokkur minni trúfélög eru einnig evangelísk-lúthersk, stærst þeirra Fríkirkjan í Reykjavík og Fríkirkjan í Hafnarfirði. Vígslubiskup. Vígslubiskup er það embætti innan Íslensku þjóðkirkjunnar og sambærilegra kirkna sem er næst fyrir neðan biskup og næst fyrir ofan prófast. Á Íslandi eru tveir vígslubiskupar, og situr annar á Hólum í Hjaltadal í Skagafirði og hinn í Skálholti í Biskupstungum. Stofnað var til vígslubiskupsembættanna samkvæmt stjórnarfrumvarpi sem samþykkt var á Alþingi 1909. Danakonungur hafði ákveðið með tilskipun 1787 að biskupar á Íslandi skyldu vígja hvorn annan en þyrftu ekki lengur að sækja sér vígslu til Danmerkur eins og verið hafði um aldir (nema hvað Bauka-Jón Vigfússon hafði verið vígður af Brynjólfi Sveinssyni Skálholtsbiskupi í Skálholti árið 1674). Samkvæmt þessari tilskipun vígði Sigurður Stefánsson Hólabiskup Geir Vídalín til embættis Skálholtsbiskups á Hólum 30. júlí 1797 en hann var eini biskupinn sem hlaut vígslu samkvæmt tilskipuninni því þegar Sigurður biskup lést ári síðar var ákveðið að sameina biskupsembættin. Þegar biskupinn var aðeins einn var ekki lengur hægt að fara að tilskipuninni og voru því eftirmenn Geirs allir vígðir í Danmörku, allt þar til Hallgrímur Sveinsson sagði af sér biskupsembætti haustið 1908 og vígði sjálfur eftirmann sinn, Þórhall Bjarnason, í Dómkirkjunni í Reykjavík. Í framhaldi af því lagði Jón Þorkelsson fram tillögu um stofnun tveggja vígslubiskupaembætta og skyldu þeir hafa það embætti að vígja biskupa, svo og presta í forföllum biskups. Vígslubiskupar hljóta biskupsvígslu þegar þeir eru settir í embætti og ef vígslubiskup er síðan kjörinn biskup þarf hann ekki að fá vígslu að nýju, er aðeins settur í embætti. Upphaflega voru mörk vígslubiskupsdæmanna þau sömu og gömlu biskupsdæmanna en þeim hefur nú verið breytt til að jafna stærð biskupsdæmanna. Ennfremur var ákveðið með lögum 1990 að vígslubiskuparnir skyldu sitja á gömlu biskupssetrunum og vera sóknarprestar þar. Visual Basic.NET. Visual Basic.NET (VB.NET) er forritunarmál hannað af Microsoft. JScript. JScript er Microsoft-útgáfan af JavaScript. Jólatré. Jólatré eru skrauttré, sem eru notuð á jólunum. Hvít-, blá- og rauðgreni eru gjarnan notuð sem jólatré en einnig norðmannsþinur. Þann 21. desember árið 1952 var kveikt á stóru jólatréi á Austurvelli, sem var gjöf frá Óslóarbúum til Reykvíkinga og hefur það verið fastur siður árlega síðan. Hið konunglega norræna fornfræðafélag. Hið konunglega norræna fornfræðafélag, eða Fornfræðafélagið (sem á dönsku heitir "Det kongelige Nordiske Oldskriftselskab"), var stofnað 28. janúar 1825, á afmælisdegi konungsins, Friðriks 6. Markmið félagsins var að gefa út íslenskar fornbókmenntir, og auka þekkingu á fornri sögu og menningu Norðurlanda. Félagið hét fyrst "Hið norræna fornfræðafélag", en varð "konunglegt" með konungsbréfi 9. maí 1828. Í undirbúningsnefnd um stofnun félagsins voru Carl Christian Rafn, Gísli Brynjólfsson eldri, Sveinbjörn Egilsson og Þorgeir Guðmundsson. Formaður fyrstu þrjú árin var Rasmus Kristján Rask, með honum í stjórn voru m.a. Josef N. B. Abrahamson varaformaður og Carl Christian Rafn ritari. Í útgáfunefnd voru sömu menn og verið höfðu í undirbúningsnefndinni, en við fráfall Gísla Brynjólfssonar, 1827, tók Þorsteinn Helgason sæti í nefndinni. Árið 1828 gekk Rask úr stjórn; tók Abrahamson þá við formennsku og Finnur Magnússon við varaformennsku. Vann hann mikið fyrir félagið meðan kraftar hans entust (d. 1847). Segja má að í fyrstu hafi félagið verið hálf íslenskt. Íslendingar tóku mikinn þátt í stofnun þess og útgáfustarfi, markmið félagsins var fyrst og fremst að gefa út íslensk fornrit, og lög félagsins voru bæði á íslensku og dönsku og var íslenski textinn prentaður á undan hinum danska. Árið 1831 komu upp alvarlegar deilur í félaginu milli Rafns og nokkurra Íslendinga sem unnið höfðu að útgáfum þess, einkum Þorgeirs Guðmundssonar og Þorsteins Helgasonar. Var Baldvin Einarsson leiðtogi Íslendinganna, sem töldu að Danirnir, einkum Rafn, eignuðu sér heiðurinn af öllu því sem gert var. Einnig er hugsanlegt að ágreiningur um stefnu félagsins hafi legið að baki. Rafn hafði árið áður verið skipaður í Fornminjanefndina, og beindist áhugi hans síðan æ meir að danskri fornleifafræði, eins og t.d. kom fram í tímaritum félagsins. Blandaðist Rask inn í þessar deilur, sem ollu miklum sárindum á báða bóga. Finnur Magnússon reyndi að lægja þessar öldur, en stóð þegar á reyndi með þeim Rafni og Rask. Sveinbjörn Egilsson leiddi deilurnar að mestu hjá sér, enda var hann þá fluttur til Íslands. Þrátt fyrir búsetu sína þar var hann lengst af einn dýrmætasti starfsmaður félagsins, bæði við útgáfustörf og þýðingar á latínu. Rafn var ritari félagsins meðan hans naut við. Hafði hann einstaka hæfileika til að vinna félaginu brautargengi, skrifaði þjóðhöfðingjum, aðalsmönnum og auðmönnum víðsvegar um Evrópu og fékk þá til að leggja fram fé til starfseminnar. Hann ávaxtaði þetta fé vel og varð félagið með tímanum stórauðugt. Ekki má gleyma framlagi einstaklinga. Þegar "Fornmanna sögurnar" komu út, gerðust um 1.000 Íslendingar áskrifendur, meðal þeirra fjöldi bænda og vinnufólks um allt land. Digrir sjóðir Fornfræðafélagsins freistuðu danskra fornleifafræðinga, og fór svo að þeir yfirtóku félagið. Hefur það síðan lítið komið að útgáfu íslenskra fornrita. Félagið er enn starfandi. Það gefur út tímaritið Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, sem hefur einkum birt greinar um fornleifafræði. Þjóðhöfðingi Danmerkur er forseti félagsins, nú drottningin, Margrét Þórhildur. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie. Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie – (af Íslendingum stundum kallaðar Árbækur Fornfræðafélagsins) – er danskt tímarit um fornleifafræði, gefið út af Fornfræðafélaginu í Kaupmannahöfn. Tímaritið er nú málgagn danskra fornleifafræðinga. Fornminjanefndin eða Oldsagskommissionen (stofnuð 1807) gaf út tímaritið "Antiqvariske Annaler" 1812-1827 (í fjórum bindum), sem telja má undanfara "Árbókanna", þó að útgefandinn sé annar. Þar var lýst þekktum og nýfundnum fornminjum, og safnauka "Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager" (sem síðar varð "Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn"). Þegar Carl Christian Rafn féll frá, 1864, urðu nokkur þáttaskil í þessari útgáfu. Á fyrstu áratugum tímaritsins birtust þar margar greinar, sem fjalla frekar um sagnfræði en fornleifafræði. Einnig er þar talsvert af greinum um íslenskt efni. Keilir (fjall). Keilir er móbergsfjall á Reykjanesskaga. Fjallið hefur myndast á ísöld við gos undir jökli án þess að gosið næði upp úr. Hæð Keilis er um 379 metrar yfir sjó. Keilir er keilulaga og sést víða að, þegar ekið er í suðurátt eftir Suðurgötu í Reykjavík er Keilir beint fyrir augum. Hann er auðþekktur vegna lögunar sinnar. Sjómenn hafa löngum haft Keili sem mið og er hann til dæmis notaður þegar siglt er inn Hamarssund á leið inn til Sandgerðis. Af Keili er mikil og falleg útsýn og er auðveld ganga á fjallið að norðaustanverðu. Fagradalsfjall. Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi. Þann 3. maí 1943 fórst herflugvél Bandaríkjahers á Fagradalsfjalli. Fjórtán manns létust en einn komst lífs af. Meðal hinna látnu var Frank Maxwell Andrews en hann var afar háttsettur í bandarískra hernum og heimildir segja að hann hafi átt að stýra innrásinni í Normandí í Evrópu. Eftirmaður hans í hernum var Eisenhower sem síðar varð forseti Bandaríkjanna. Flugvélin mun hafa ætlað að lenda á flugvellinum í Kaldaðarnesi. Ion Iliescu. Ion Iliescu (fæddur 3. mars 1930) er rúmenskur stjórnmálamaður. Iliescu, Ion Alek Wek. Alek Wek (fædd í Wau 16. apríl 1977) er súdönsk fyrirsæta. Orsakarsögn. Orsakasögn er hugtak í málvísindum sem veldur eða þvingar einhvern til að framkvæma eitthvað eða vera í einhverri stöðu. Orsakasagnir í íslensku. Orsakasagnir í íslensku kallast veikar sagnir sem myndaðar eru af annarri kennimynd (ég naut, ég slapp) sterkra sagna. Varast skal það að veikar sagnir hafa aðeins þrjár kennymyndir: 1. Nafnháttur 2. Framsöguháttur 4. Lýsingarháttur Þátíðar. Kennifall (málfræði). Kenniföll eru þau föll sem gefin eru upp í orðabókum. Í íslensku. Kenniföllin í íslensku samanstanda af nefnifalli eintölu (nf. et.) og eignarfalli eintölu (ef. et.) og nefnifall fleirtölu (nf. ft.). Í latínu. Kenniföllin í latínu samanstanda af nefnifalli eintölu (nf. et.) og eignarfalli eintölu (ef. et.). Setningarfræði. Setningafræði (eða orðskipunarfræði) er undirgrein innan málfræðinnar sem fæst við gerð setninga og setningarliða. Í hverri fullkominni setningu eru tveir meginhlutar; frumlag (það sem eitthvað er sagt um) og umsögn (það sem sagt er um frumlagið). Aðrir setningarhlutar eru sagnfylling, andlag, einkunn og viðlag. Mynd. Mynd er hlutur, oft tvívíður, sem líkist umfangsefninu, oft hlutur eða manneskja. Þorfinnur Guðnason. Þorfinnur Guðnason (fæddur 4. mars 1959 í Hafnarfriði) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður, sem þekktastur er fyrir gerð heimildamynda. Lauk stúdentsprófi frá FB 1983 og BA-prófi í kvikmyndagerð frá California College of Arts and Crafts 1988. Verk Þorfinns. Hlaut Menningarverðlaun DV 1994 fyrir Húseyjarmyndina. Hlaut Edduna fyrir Lalla Johns árið 2002 Afstapahraun. Afstapahraun er apalhraun á Reykjanesskaga. Hraunið hefur runnið frá eldgígum sem eru vestan undir Trölladyngju og þaðan til norðurs alveg í sjó fram í Vatnsleysuvík á Vatnsleysuströnd. Við suðurenda hraunsins eru Höskuldarvellir, sem eru grasi gróið flatlendi, eitt hið stærsta á Reykjanesskaganum. Við norðurendann hefur verið brotið af hrauninu vegna lagningar Reykjanesbrautar, sem liggur þar á milli hrauns og sjávar. Heildarlengd hraunsins er um 10 kílómetrar. Indriði Einarsson. Indriði Einarsson (29. apríl 1851 – 1939) var frumherji í íslenskri leikritagerð og menntaður hagfræðingur. Indriði var við ófá tækifæri gestur Jóns Sigurðssonar á heimili hans í Kaupmannahöfn. Frægustu leikverk hans eru Nýjársnóttin (útg. 1907), Dansinn í Hruna og Hellismenn. Indriði þýddi einnig Vetrarævintýri eftir William Shakespeare (óútgefið leikhandrit) og Víkingana á Hálogalandi, eftir Henrik Ibsen (en leikritið þýddi hann með Eggert Ó. Briem) (útg. 1892). Hann kom að stofnun Leikfélags Reykjavíkur árið 1897. Árið 1936 gaf hann út endurminningar sínar, sem nefndust: "Sjeð og lifað: endurminningar". Hann lést þremur árum síðar. Indriði var fyrsti Íslendingur sem lauk prófi í hagfræði og var endurskoðandi landsreikninganna um langt skeið, uns hann gerðist skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann var þingmaður Vestmanneyinga frá 1890 til 1891. Indriði var giftur Mörtu Guðjohnsen og átti með henni fjórar dætur: Guðrúnu, Eufemíu, Emilíu, Guðrúnu, Mörtu, Láru og Ingibjörgu; og tvo syni, Einar og Gunnar, sem tóku upp eftirnafnið Viðar. Einar lést ungur að árum. Gunnar Viðar varð bankastjóri Landsbanka Íslands. Ingibjörg giftist Ólafi Thors, sem varð forsætisráðherra Íslands. Flateyjarannáll. Flateyjarannáll er annáll sem var skrifaður fyrir Jón Hákonarson, stórbónda, í Víðdalstungu. Flateyjarannáll er talinn ein traustasta heimildin um stóratburði á 14. öld. Örlygsstaðabardagi. Örlygsstaðabardagi er fjölmennasta orrusta sem háð hefur verið á Íslandi. Hún fór fram við eyðibýlið Örlygsstaði í landi Víðivalla í Blönduhlíð í Skagafirði þann 21. ágúst 1238. Frá Örlygsstaðabardaga segir í Sturlungu, og er frásögnin í þeim hluta hennar sem Sturla Þórðarson lögmaður og sagnaritari skrifar, en hann var viðstaddur bardagann og barðist í liði frændmenna sinna, Sturlunga. Í Örlygsstaðabardaga áttust við Sturlungar annars vegar, undir forystu feðganna Sighvatar á Grund og Sturlu sonar hans, en andstæðingarnir voru þeir Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi Arnórsson. Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að Kolbeini unga á Flugumýri, þar sem hann bjó, en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir í Blönduhlíð og við Vallalaug nokkra daga en á meðan safnaði Kolbeinn liði um Skagafjörð og Húnaþing en Gissur Þorvaldsson kom með mikið lið að sunnan. Liðsmunur var allmikill, því þeir Gissur og Kolbeinn, sem Sturlunga kallar oftast „sunnanmenn“, höfðu allt að 1700 manns, en þeir feðgar trúlega nálægt 1300. Erfitt er þó að fullyrða um þessar tölur. Sunnanmenn komu austur yfir Héraðsvötn og tókst að koma Sturlungum að óvörum, svo að þeir hörfuðu undan í ofboði og bjuggu um sig í gerðinu á Örlygsstöðum, sem var ekki gott vígi, enda mun orrustan ekki hafa staðið lengi og fljótt brast flótti í lið Sturlunga. Alls féllu 49 úr þeirra liði en aðeins sjö af mönnum Kolbeins og Gissurar. Á meðal þeirra sem féllu voru feðgarnir Sighvatur og Sturla, svo og Markús Sighvatsson. Kolbeinn og Þórður krókur Sighvatssynir komust í kirkju á Miklabæ en voru teknir þaðan og höggnir en Tumi Sighvatsson yngri komst einn bræðranna undan ásamt hópi manna upp í Miðsitjuskarð og þaðan yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Sturla Þórðarson komst einnig í kirkjuna en fékk grið og einnig aðrir sem þar voru, að Sturlusonum, tveimur sonum Hrafns Sveinbjarnarsonar og tveimur mönnum öðrum undanskildum. Selárdalur. Selárdalur er næstvestastur Ketildala í Arnarfirði. Selárdalur var eitt af höfuðbólum Vestfjarða. Selárdalsprestakall var áður fyrr talið með betri prestaköllum landsins, með því að Stóra-Laugardalssókn sem náði yfir allan Tálknafjörð var annexía frá Selárdal. Einn af Selárdalsprestum varð síðar biskup, en það var Gísli Jónsson, sem var prestur í Selárdal frá 1547-1557. Séra Gísli varð biskup í Skálholti eftir Marteinn biskup Einarsson. Frægir ábúendur í Selárdal eru t.d. Bárður svarti Atlason (afi Hrafns Sveinbjarnarsonar), Páll Björnsson, Gísli á Uppsölum, Hannibal Valdimarsson og Samúel Jónsson, sem kallaður hefur verið "listamaðurinn með barnshjartað". Þar fæddist Jón Þorláksson á Bægisá. Síðasti bærinn, Neðribær, fór í eyði 2010. Sérnafn. Sérnöfn eru nafnorð skrifuð með stórum upphafsstaf og eru heiti manna, dýra, staða, hluta eða annarra fyrirbæra. Sérnöfn bæta sjaldnast við sig greini. Sum orð eru hinsvegar bæði sérnöfn og samnöfn, ef nöfn eiga sér hliðstæðu á meðal hluta eða fyrirbæra (t.d. "Dagur", "Sóley", "Bolli", "Máni"). Einu sérnöfnin sem ekki eru rituð með stórum staf eru heiti djöfulsins. Öll hans heiti eru rituð með litlum staf. Samnafn. Samnöfn er stór hluti nafnorða, en samnöfn eru sameiginleg heiti á hlutum og fyrirbærum hvort sem þau eru snertanleg eða ekki. Samnöfn má þekkja á því að bæta við sig greini. Samnöfn skiptast niður í "hlutaheiti" (t.d. "hestur", "setinn", "litur"), "hugmyndaheiti" (t.d. "virðing", "reiði", "ást") og "safnheiti", þ.e. orð sem tákna heild eða safn hluta (t.d. "hveiti", "korn", "mergð"). Viðurnefni. Viðurnefni eru hugtök eða orð sem notuð eru til að lýsa hlutum, stöðum eða fólki. Viðurnefni sem skeytt er fyrir aftan. Flest viðurnefni falla í þennan flokk og eru þau rituð með litlum staf (ólíkt viðurnefnum sem skeytt er fyrir framan sérnafn). Undantekning á þessari reglu er hinsvegar ef viðurnefnið er sérnafn, þá er það skrifað með stórum staf. Viðurnefni sem skeytt er fyrir framan. Viðurnefnum má skeyta fyrir framan sérnöfn til að gera frekari grein fyrir sérnafninu. David Duchovny. David William Duchovny (fæddur 7. ágúst 1960 í New York) er bandarískur leikari og leikstjóri. Duchovny, David Skinnerbúr. Skinnerbúr er búr sem er oftast notað á tilraunastofu til að rannsaka hegðun dýra. B. F. Skinner bjó til fyrsta slíka búrið á meðan hann var nemandi í Harvard háskóla í kringum 1930. Það er bæði notað til að rannsaka virka skilyrðingu sem og klassíska skilyrðingu. Gerð. Búrið sjálft er eins konar kassi, oft gegnsær, sem er nógu stór til að dýrið sem á að rannsaka komist auðveldlega fyrir í því. Tilraunadýrin eru oftast fuglar, rottur eða mýs. Búrin eru oft höfð í herbergjum sem eru hljóðheld. Skinnerbúr eru með að minnsta kosti einum eða fleiri "rofum" sem nema þegar dýrið í búrinu ýtir á hann. Ef dýrið í búrinu er rotta, sem dæmi, er rofinn yfirleitt stöng, en ef fugl er í búrinu er rofinn gjarnan flötur sem fuglinn getur goggað í. Rofarnir eru svo tengdir í skráningartæki, sem er gjarnan tölva eða annað tæki, en skráningartækið skráir þegar ýtt á þá. Rofarnir eru þannig úr garði gerðir að ýta verður með vissum krafti á þá til að þeir sendi frá sér boð til skráningartækisins. Annað einkenni skinnerbúra er að hægt er að birta áreiti inni í búrinu. Áreitið getur verið ljós, hljóð, myndir (t.d. á LCD-skjá), matur, vatn eða hvað eina. Búrin geta líka verið með gólfi sem er gert úr eins konar neti, sem má leiða rafmagn í. Í sumum löndum, þar á meðal á Íslandi, þarf leyfi yfirvalda til að gefa dýrum raflost. Vegna einfaldleika síns og vegna þess að umhverfi dýrsins er stjórnað má nota það til að gera tilraunir. Margs konar atferli og nám dýra má rannsaka í búrum sem þessum. Skinnerbúrið var og er mikið notað við rannsóknir. Það gerði mönnum kleift að rannsaka svörun (t.d. ýta á stöng) sem sérstaka breytu sem væri undir stjórn annarrar breytu (áreitis). Þetta gerði Skinner kleift að rannsaka hegðun dýranna og þróa kenningar sínar um atferli. Rétt er að benda á að jafnvel þó að það sé ótvíræður kostur að skráning á atferli í búrum sem þessum séu mjög hlutlægar og nákvæmar, þá verða smáatriði útundan í þessum mælingum. Skinner sjálfur skrifaði um þetta vandamál við allar mælingar á hegðun - sem sagt óháð búrinu sem slíku. Hann benti á að það er ekki hægt að einangra hegðun og smáatriði verða útundan í mælingum. Hann nefndi sem dæmi fugl sem fengi mat þegar hann færði höfuðið fyrir ofan vissa hæðarlínu; dýrið myndi vissulega gera það oftar og það mætti mæla með einhverjum hætti, en í leiðinni er ekki mælt hvernig önnur hegðun breytist (t.d. önnur hegðun minnkar, eða hvernig dýrið sveigir höfuð sitt frekar en áður). Skinner benti jafnframt á að þetta væri ekki endilega stórt vandamál. Japanar. eða Japanir (sjá mismunandi rithætti) eru þjóðarhópur sem kennir sig við japanska menningu, forfeður eða ætterni. Í dag eru um 130 milljón manns af japönskum uppruna, og þeim eru um 127 milljónir sem eiga heima í Japan. La Niña. La Niña, einnig ritað La Nina, (er spænska og þýðir stúlkubarnið) er veður- og haffræðilegt fyrirbæri, sem á við lægri sjávarhita en 0,5° af meðalhita í austurhluta kyrrahafs í hitabeltinu. Myndar ásamt El Niño suðurhafs(hita)sveiflur (enska "El Nino Southern Oscillation", skammstafað "ENSO") á suðurhveli jarðar, sem hefur mikil áhrif á veðurfar um allan heim. El Niño. a>. Lítil blöndun við kaldari sjó á meira dýpi eykur hlýnunina. El Niño (El Nino eða El Ninjo) er bilkvæmt veður- og vatnsfræðilegt fyrirbæri í austurhluta Kyrrahafsins á hitabeltisvæðinu og á við hærri sjávarhita en 0,5° af meðalhita þess. Það kemur venjulega upp fjórða eða sjötta hvert ár, og venjulega rétt eftir jól, en af því mun nafnið dregið: "El Ninjo", sem þýðir barnið, og er þá átt við jólabarnið. El Ninjo stendur venjulega í 12 til 17 mánuði, en stundum lengur og stundum skemur, allt eftir styrkleika. Á síðustu 15 árum hefur orðið skemmra milli þeirra. Aðaleinkenni El Ninjo er að á mjóu belti sem liggur við miðbaug í Kyrrahafi verður yfirborðssjórinn óvenju hlýr, jafnvel alla leið frá Indónesíu austur að Perú, Ekvador og nyrstu svæðum Síle. Þetta belti getur orðið einar 15 miljónir ferkílómetra, helmingi stærra en Bandaríkin og hlýnunin getur num 1-3 gráðum. Mest af árinu er ríkjandi suðaustan staðvindur við vesturströnd Suður-Ameríku. Hann stendur því nokkuð af landi og hrekur sjóinn til vesturs. Afleiðingin er að við ströndina verður uppstreymi af köldum sjó. Það dælir næringaefnum upp á yfirborðið, þörungar blómstra og miljónir smádýra þrífast á þeim. Þessi hagstæðu tímabil með tilölulega svölum sjó við Suður-Ameríku eru oftast lengri en þau hlýju. Að því kemur þó að austanáttin gefur sig við ströndina og sjórinn hlýnar lítið eitt. Vegna hlýnunarinnar fer loftþrýstingurinn að lækka á þessu hafsvæði, rétt eins og hlýnun lands á sumardegi lækkar þrýstinginn og fer að soga hafgoluna inn yfir landið. Í framhaldinu sogast loft og sjór vestan af Kyrrahafi og uppstreymi sjávarins við ströndina minnkar. Það veldur enn meiri sjávarhlýnun. Eitt leiðir annað og herðir framvinduna. Eftir hálft eða eitt ár hafa áhrifin náð hámarki. Þá er hitinn vestur á Kyrrhafinu við miðbaug orðinn svo hár að þar hefur þrýstingurinn lækkað og austanvindarnir leita þangað á ný með eðlilegum hætti. El Nino myndar ásamt La Niña suðurhafs(hita)sveiflur (enska "El Nino Southern Oscillation", skammstafað "ENSO") á suðurhveli jarðar, sem hefur mikil áhrif á veðurfar um allan heim. Jarðefnaeldsneyti. Jarðefnaeldsneyti er eldsneyti sem er unnið úr kolvetnum og fyrirfinnst í efsta hluta jarðskorpunnar. Dæmi um jarðefnaeldsneyti eru kol og hráolía. Atacama. Atacama er eyðimörk í Chile og Perú í Suður Ameríku og er um 1.000 km löng. Hólavatn. Hólavatn er sumarbúðir KFUM og KFUK við innanverðan Eyjafjörð á Norðurlandi. Steinsbiblía. Steinsbiblía er þriðja heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð á Hólum í Hjaltadal og kennd við Stein Jónsson biskup þar. Prentun biblíunnar hófst árið 1728, og það ártal er á titilblaði, en prentuninni lauk ekki fyrr en 1734. Undirbúningur útgáfunnar hófst um 1720, en erfitt var þá orðið að fá biblíur og þær dýrar. Árið 1723 fékk Steinn biskup leyfi Friðriks 4. Danakonungs til að láta prenta biblíuna, og þar með skipun um „að semja nýja útleggingu eftir þeirri nýjustu dönsku trúboðara biblíu, er þá var til.“ Til þess að hlýðnast fyrirmælum konungs, endurskoðaði Steinn textann, og notaðist við danska biblíu, e.t.v. útgáfu frá 1647, en einnig er hugsanlegt að þýsk útgáfa hafi verið notuð í bland. Hafa sumir haldið því fram að málið á Steinsbiblíu sé „stórkostlega spillt“ frá því sem áður hafði verið, óíslenskulegt og fullt af dönskuslettum. Það er þó e.t.v. ofsagt, t.d. er Nýja testamentið þar mun betur þýtt en Gamla testamentið. Er það rakið til áhrifa Jóns biskups Vídalíns, en hann hafði um 1710 lokið við að þýða Nýja testamentið úr grísku. Einnig er hugsanlegt að Steinn hafi stuðst við verk Páls Björnssonar í Selárdal, en hann mun um 1680 hafa þýtt nokkur rit biblíunnar úr frumálunum, grísku og hebresku. "Steinsbiblía" er í lítið eitt minna broti en Guðbrandsbiblía og Þorláksbiblía, og er því nokkru þykkari en þær. Hún var prentuð tvídálka, sem var breyting frá fyrri útgáfum. Steinsbiblía er fyrirrennurum sínum síðri að öllum frágangi. Formálar Lúthers, sem verið höfðu í fyrri biblíum, voru nú felldir niður. Prentun "Steinsbiblíu" mun hafa tekið 6 ár, með nokkrum hléum, því að fleiri bækur voru prentaðar á Hólum á því tímabili. Óvíst er hvert upplag bókarinnar var, e.t.v. 1.000 eintök. Biblían kostaði nýútkomin 7 ríkisdali. Waysenhússbiblía. Waysenhússbiblía — eða Vajsenhússbiblía — er fjórða heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Kaupmannahöfn 1747. Biblían er jafnan kennd við prentstað sinn, Hina konunglegu uppeldisstofnun (eða munaðarleysingjahælið, Waysenhúsið), sem árið 1727 hafði fengið einkarétt á útgáfu Biblíunnar í Danaveldi. Halldór Brynjólfsson, sem varð biskup á Hólum 1746, hafði byrjað að þýða Nýja testamentið úr dönsku, og var ráðgert að gefa það út. Ludvig Harboe, fyrrum biskup á Hólum, var fenginn til ráðuneytis, og lagði hann til við trúarútbreiðsluráðið, að heppilegast væri að Biblían yrði prentuð í heilu líki handa Íslendingum. Var Jón Þorkelsson aðstoðarmaður Harboes, ráðinn til að hafa umsjón með verkinu. Hætt var við að nota þýðingu Halldórs, sem náði aðeins fram í Postulasöguna. Í staðinn var Þorláksbiblía lögð til grundvallar, en einhverjar lagfæringar gerðar á textanum. Vorið 1746 hófst undirbúningur að útgáfu Nýja testamentisins, og var ákveðið að gefa það út í örlitlu broti, duodecimo eða tólfblaða broti. Útgáfan var ætluð fátæklingum og öðrum, enda slíkt brot við almennings hæfi. Kom bókin út haustið 1746 og kostaði óinnbundin hálfan ríkisdal. Samhliða var unnið að prentun Nýja testamentisins, sem átti að nota í Biblíuna, og var það í stærra broti, svokölluðu fjórblöðungsbroti, sem er svipað og A4. Síðan var tekið til við Gamla testamentið, og kom Biblían út í október 1747. Bókin var 1.742 blaðsíður og miðaðist frágangur við að þetta væri alþýðuútgáfa. Upplag "Waysenhússbiblíu" var 1.000 eintök. Útgáfan var að nokkru niðurgreidd með framlagi sem lagt var á allar kirkjur á Íslandi. Biblían kostaði óinnbundin 1 ríkisdal, en innbundin með spennslum 2½ ríkisdal. Þetta var ekki hátt verð miðað við fyrri Biblíuútgáfur, enda hafði markmiðið verið að gefa alþýðunni kost á að eignast Heilaga ritningu. Þessar útgáfur bættu úr brýnni þörf, en dugðu þó skammt. Árið 1750 var Nýja testamentið endurprentað í 2.000 eintökum, í sama broti og áður. Til þess að stuðla enn frekar að útbreiðslu ritningarinnar, beitti danskur kaupmaður, Laurenz Stistrup, sér fyrir því að úthlutað var til fátæks fólks um 600 Biblíum og 1.700 Nýja testamentum. Jaðarrokk. Jaðarrokk (einnig öðruvísi rokk eða óháð rokk, e. "alternative rock") er tónlistarstefna sem þróaðist út frá neðanjarðarsenunni snemma á níunda áratug síðustu aldar. Stefnan á mjög oft við um listamenn sem náðu meginstraums vinsældum þrátt fyrir að hafa verið partur af neðanjarðarsenunni lengi. Jaðarrokk varð þó ekki vinsælt fyrr en snemma á tíunda áratugnum í kjölfarið af velgengni hljómsveita eins og Nirvana, Alice in Chains og The Smashing Pumpkins. Á þeim tíma einkenndist stefnan mikið af trufluðum djúpum gítartónum, dynjandi bassalínum, þéttum trommum og yfirleitt nokkuð þungbærum söng, svo ekki sé minnst á það hve þung umfjöllunarefni laganna voru oftast nær. Jaðarrokk er þó virkilega víð skilgreining á tónlist. Það er í raun regnhlífarhugtak yfir allt sem passar ekki inni í aðrar stefnur, allt frá háværu, pönkuðu gruggi yfir í léttvægt sjálfstætt rokk nærri-því popp. Dæmigerð hljóðfæri eru rafmangsgítar, rafmangsbassi, trommur, söngur og stundum hljómborð. Í jaðarrokki má gæta áhrifa aðallega frá nýbylgjutónlist, bresku pönkstefnu áttunda áratugarins, síð-pönki og harðkjarnapönki. Einnig má sjá áhrif frá hljómsveitum eins og The Velvet Underground og The Silver Apples sem tróndu á toppnum á sjöunda áratug síðustu aldar. Merking orðsins. Upphaflega var jaðarrokk nafn yfir stefnuna sem þeir listamenn eða hljómsveitir sem voru ekki partur af meginstraumi tónlistarheimsins fluttu. Annað hvort voru þessar sveitir ekki með samning eða með samning við sjálfstætt starfandi plötufyrirtæki (e. "independent record label"). Þaðan kemur heitið „indie“, Bretar kölluðu jaðarrokk „indie“ en Bandaríkjamenn „alternative“. Orðið „alternative“ er enn við lýði og er víðasta skilgreiningin á jaðarrokki. En „indie“ er hins vegar nú á dögum orðið að heiti á mun þrengra skilgreindri stefnu sem heyrir undir jaðarrokk og byggist í raun á sömu grunnhugmyndafræði og jaðarrokk gerði upphaflega. Að vera sjálfstæður og óháður, af því dregst nafnið sjálfstætt rokk. Saga og áhrifavaldar. Tónlistarlega séð má glögglega sjá að mikil áhrif má rekja aftur til síðari hluta sjöunda áratugarins. Hljómsveitir eins og Velvet Underground og Iggy and the Stooges hafa án efa haft sitt að segja um hljóm jaðarrokksins í heild sinni. Þessar hljómsveitir, sem og fleiri voru jaðar tónlistarmenn síns tíma þó að ekki hafi enn verið búið að finna nafn á stefnuna sem þessar hljómsveitir þykja almennt tilheyra nú til dags. Tónlistarmenn áttunda áratugarins voru mjög duglegir að þróa þessa tegund tónlistar aðeins lengra. Meðal þeirra má nefna T-Rex, David Bowie, Kraftwerk og New York Dolls. Tvímælalaust má hinsvegar segja að pönkið í lok sama áratugar hafi átt mestan þátt í að færa stefnuna í réttan farveg. Bandarísku plötufyrirtækin SST Records, Twin/Tone Records, Touch & Go Record og Dischord records voru aðal drifkraftarnir á bak við það að færa jaðarrokksenuna úr harðkjarna pönkinu og meira yfir í rokk undir lok áratugarins. Hljómsveitir voru hægt og hægt að brjótast út úr uppskriftum sinnar skilgreindu stefnu og fóru að prófa sig áfram. Meðal þeirra má nefna helstu áhrifavalda þessa tíma The Replacements og Hüsker Dü. Báðar þessar hljómsveitir hófu feril sinn undir stefnunni pönk rokk en færðu sig svo hægt og rólega yfir í melódískari hljóm sem síðar meir átti eftir að vera einkennandi fyrir pop pönk. Þó að listamenn stefnunnar á þessum tiltekna áratug hafi ekki endilega selt plötur í trukkahlössum höfðu þeir töluverð áhrif á flest alla þá rokk tónlist sem eftir á kom og sköpuðu grunninn fyrir komandi kynslóð tónlistarmanna Nútíma jaðarrokk. Jaðarrokk í sinni nútímamynd er talið hafa komið fyrst fram á sjónarsviðið á níunda áratugnum þar sem umbylting varð í tónlist á formi svokallaðra háskóla útvarpsstöðva. Nemendur sáu alfarið um að velja efni og senda það út. DJ-ar háskólastöðvanna voru þekktir fyrir að taka ástfóstri við neðanjarðartónlist sem þeir uppgötvuðu oftast nær í litlum klúbbum, og áttu þar með virkilega stóran þátt í velgengni margra tónlistarmanna sem var ákaflega mikiðvægt fyrir það sem eftir kom. Stöðvarnar spiluðu mikið af hljómsveitum eins og Pixies, Dinosaur Jr., Throwing Muses og einnig efni eftir erlenda tónlistarmenn og þá aðallega Breta. Vegna þessa sess stöðvanna í skólalífi nemanda hlaut stefnan viðeigandi nafnið háskólarokk (e. "college rock"). Háskólarokkhefur þó, rétt eins og sjálfstætt rokk, þróast út í að vera ein af undirstefnum jaðarrokksins og hefur yfirleitt talsvert poppaðari tón en upprunalega var. Í lok áratugarins var jaðarrokk eða, eins og það hét á þessum tíma, háskólarokk orðið töluvert sýnilegra í meginstraums tónlist og höfðu nokkrar hljómsveitir eins og t.d. R.E.M, Jane’s Addiction og fleiri komist á samning hjá stórum plötufyrirtækjum. Jaðarrokkið á líka MTV mikið að þakka, en þátturinn "120 Minutes" sem var sýndur var seint á níunda áratugnum hjálpaði neðanjarðartónlist að auka vinsældir sínar. Hápunktur jaðarrokks. Tíundi áratugur seinustu aldar var samt án efa áratugur jaðarrokksins. Hljómsveitir eins og Nirvana, The Smashing Pumpkins, Alice in Chains og Sonic Youth réðu ríkjum á fyrri hluta áratugarins. Gruggið varð skyndilega aðal málið eftir útkomur platnanna Nevermind með Nirvana, Ten með Pearl Jam og Badmotorfinger með Soundgarden árið 1991. Plötufyrirtæki stukku til og fóru að slást um grugg- og jaðarrokkara, útvarpsstöðvar fóru að spila rokk í mun meira mæli en áður. Hið hefðbundna jaðarrokk var örlítið í farþegasætinu þegar að grugginu kom en náði engu að síður einnig gríðarlegum vinsældum. Hliðargreinarnar sem sprungu út frá stefnunni voru óteljandi og margar hljómsveitir prófuðu sig áfram í mörgum þeirra, frekar en að halda sig bara við eina. Meðal þeirra hljómsveita má helst nefna The Smashing Pumpkins. Red Hot Chili Peppers og Radiohead. Um miðbik áratugarins, í kjörfarið af sjokkerandi sjálfsvígi Kurt Cobain, forsprakka Nirvana, dvínuðu vinsældir jaðarrokksins og flestra undirstefna hennar all svakalega og gellupopp tók við kyndlinum sem vinsælasta stefnan. Eftir þetta áfall virtust flestar hljómsveitir missa móðinn og hættu ýmist eða fóru í pásu á nokkurra ára skeiði þar á eftir. T.d. Nirvana vegna sjálfsvígs Kurt Cobain. Trommari Nirvana, Dave Grohl gafst þó ekki upp á tónlistinni og stofnaði hljómsveitina Foo Fighters sem er enn þann dag í dag eins vinsælasta hljómsveit jaðarrokksins. The Smashing Pumpkins hættu í sinni upprunalegu mynd árið 1999 vegna ótrúlegs ósættis og leiðinda innbyrðis, sem náðu þó að gera eina af áhrifaríkustu plötum sínum Adore (1998) áður en bassaleikarinn, D’arcy Wretzky, yfirgaf sveitina endanlega. Aðrar hljómsveitir sem hlutu sömu örlög eru t.d. Soundgarden, Alice in Chains, Rage Against the Machine og Hole. Grugg. Grugg (e. "grunge") var tvímælalaust ríkjandi undirstefna jaðarrokksins á tíunda áratugnum í Bandaríkjunum Það kom fyrst fram snemma á níunda áratugnum í Seattle. Sú borg var virkilega einangruð, tónlistarlega séð. Lítið var um að hljómsveitir kæmu við það á tónleikaferðalögum og olli það því að Seattle búar voru sér á báti og smátt og smátt þróaðist stefna sem var staðbundin við þessa einu borg. Hljómsveitirnar sem þróuðu hljóminn voru t.d. Green River, Mudhoney og Soundgarden. Þær sveitir, þessar upprunalegu grugg, voru mun harðari en þær sem síðar komu. Nirvana, Stone Temple Pilots og Pearl Jam voru meðal þeirra síðarnefndu. Tónlistin þeirra var töluvert melódískari og auðveldari í hlustun. Þessir eiginleikar hafa eflaust orðið til þess að gruggið varð jafn stórt og raun ber vitni. Nirvana voru vafalaust konungarnir, þar sem önnur plata þeirra, "Nevermind" (1991) er oft talin hafa verið ábyrg fyrir því að koma stefnunni inn í meginstrauminn. Stefnan var í heild sinni virkilega öðruvísi rokk, ákaflega skítug, sóðaleg og kærulaus. Gruggið dró innblástur sinn frá þungarokki og pönki. Gítarlínurnar voru leiddar beint út frá metal sjötta áratugarins en flest allt annað var fengið frá pönki, það er söngstíllinn og oft takturinn. Hljómsveitir eins og The Stooges og Black Sabbath eru oft taldar eiga stóran þátt í að mynda afgerandi hljóm gruggsins. Britpop. Britpop er eiginlega akkúrat hinum megin á skalanum við grugg, tónlistarlega séð, en var engu að síður vinsæl undirstefna jaðarrokksins á sama tíma, nema bara í Bretlandi. Britpop var, og er enn þann dag í dag, virkilega innblásið af The Beatles, The Kinks og öðrum hljómsveitum úr Bresku innrásinni, sem og glysrokki og pönk-rokki. Britpop er mjög melódísk stefna, einkennist mikið af ákveðnum gítarlínum og léttvægum takti og oftar en ekki breskum hreim. Britpop átti upphaf sitt í Bretlandi, í kringum Camden svæðið í London, snemma á tíunda áratugnum, á sama tíma og Nirvana voru að skjótast upp á stjörnuhimininn. Stefnan var upp á sitt besta um miðbik tíunda áratugarins, eða um það leyti sem Kurt Cobain féll fyrir eigin hendi. Tvær hljómsveitir eru oftast nefndar í kringum stefnuna, Blur og Oasis. Blur, leidd af Damon Albarn, var stofnuð árið 1989, tvemur árum á undan Oasis sem er nú á dögum frekar þekkt fyrir stormasamt samband bræðranna Liam og Noel Gallagher, fremur en tónlistarlegs framlags. Þessar tvær sveitir áttu eftir að móta breska rokksögu einungis nokkrum árum síðar í britpopstríðinu fræga, þar sem þessar tvær hljómsveitir áttu eftir að skipta öllu Bretlandi í tvennt um miðlínuna. Blur átti sinn heimavöll sunnan við en Oasis fyrir norðan. Tíska. Tískan í kringum jaðarrokkið varð mjög afgerandi á tíunda áratugnum, það snerist mikið um að hafna litríkri og útpældri tísku þess níunda. Pönktískan frá áttunda áratugnum var mikið endurnýtt. Rifnar gallabuxur, leðurjakkar, skítugir stuttermabolir, afbrigðilega litað hár og lítil umhirða skeggs urðu vinsæl. Líkamsgatanir og húðflúr urðu einnig algengari meðal almennings. Hljómsveitir sem spila öðruvísi rokk. Listinn er raðaður eftir áratugum og alls ekki tæmandi. Karl Sigurbjörnsson. Karl Sigurbjörnsson (f. 5. febrúar 1947) var biskup Íslands. Hann er sonur Sigurbjörns Einarssonar, fyrrverandi biskups Íslands. Áður en hann varð biskup þjónaði hann sem sóknarprestur í Hallgrímssókn í Reykjavík. Ritstíll. Ritstíll er yfirbragð og gangverk skrifaðs texta, og með því einnig innri hrynjandi og samræmi orðanotkunar og innihalds, setningaskipunar og hugsunar. Ritstíll er oft litaður af tíðarandanum og talmáli hvers tíma. Góður stílisti þjálfar ólíka ritstíla (þ.e. hermir og lærir), beygir þá undir sig, rétt eins og hann stækkar í sífellu orðaforða sinn og finnur hverju orði réttan stað í texta. Í mörgum tilfellum hefur góður stílisti einnig náð að tengja efni sitt og um leið persónuleika sinn við orðin og nær þannig oft betur í gegn til lesandans og getur því skapað raunverulegar tilfinningar í huga hans. Höfundar um ritstíl. Aðrir höfundar hafa reynt að láta orðin gufa upp í huga lesandans eins og Willa Cather, höfundur skáldsögunnar, "Hún Antónía mín", en hún sagði eitt sinn: „Ég vil ekki að nokkur maður sem lesi bækur mínar hugsi um ritstíl. Ég vil að lesandinn verði eitt með sögunni“. Hinn franski Voltaire, höfundur "Birtings," hafði mjög einfalda skoðun á stíl og hvað gerði hann góðan. Hann skrifaði einu sinni: „Allur stíll sem ekki er leiðinlegur er góður stíll“. Í bók Ólafs Ragnarssonar, "Til fundar við skáldið", spyr Ólafur Halldór Laxness hvort hann velti frásagnarhætti bókarinnar fyrir sér áður en hann fer að skrifa og hvort stíllinn komi af sjálfu sér. Laxness svaraði: „Það getur verið snúið að finna réttan tón í upphafi verks og þar með í hvaða stíl er best að skrifa ákveðna bók. Stundum detta menn ofan ofan á heppilegan stílsmáta bara eins og í ógáti, jafnvel afskaplega góðan, skemmtilegan, upphefjandi eða furðulegan stíl dálitla stund og getur verkað vel á lesarann. En svo er kúnstin að halda stílnum - ef hann á þá við efnið. Þetta tvennt, efni og stíll, þarf að fallast í faðma.“ Jahangir. Jahangir (persneska: نور الدین جهانگیر "Nuruddin Salim Jahangir"; 31. ágúst 1569 – 28. október 1627) var Mógúlkeisari frá 1605 til dauðadags. Nafnið "Jahangir" merkir „alheimsdrottnari“ á persnesku og "Nuruddin" eða "Nur al-Din" merkir „ljós trúarinnar“ á arabísku. Jahangir var elsti sonur Akbars mikla og fæddist í Sikri í nágrenni höfuðborgarinnar Agra. Síðar flutti hann hirð sína til Sikri. Hann fékk bestu menntun sem völ var á og var tólf ára gamall gerður að hershöfðingja og árið 1585 giftist hann fyrstu eiginkonu sinni. 1599 gerði Jahangir uppreisn gegn föður sínum og náði að leggja hásætið undir sig átta dögum eftir lát Akbars, 3. nóvember 1605. Um leið þurfti hann að verjast uppreisn sonar síns, Khusrau Mirza, og lét taka hann til fanga og blinda hann 1606. 1611 giftist hann tuttugustu og síðustu eiginkonu sinni, Nur Jahan, sem varð frægasta keisaraynja í sögu Mógúlveldisins og hinn raunverulegi valdhafi. Vallakía. Vallakía sem hluti af Rúmeníu. Vallakía er sögulegt hérað í Rúmeníu, norðan við Dóná og sunnan við Suður-Karpatafjöll. Vallakía var gerð að furstadæmi á 14. öld af Basarab 1. eftir uppreisn gegn Karli 1. Ungverjalandskonungi. 1415 gerðist Vallakía undirsáti Tyrkjaveldis og var það oftast allt fram á 19. öld. 1862 gekk Vallakía í samband við Moldavíu til að mynda Rúmeníu. Moldavía. Moldavía (rúmenska: "Moldova") er sögulegt hérað í Suðaustur-Evrópu sem nær frá Karpatafjöllum (landamærum Transylvaníu) að ánni Dnjestr við landamæri Moldóvu og Úkraínu. Helmingur héraðsins er nú hluti Rúmeníu og helmingur sjálfstæða ríkið Moldóva. Lítill hluti þess í norðvestri er hluti af Úkraínu. Héraðið var sjálfstætt furstadæmi frá 14. öld til 1859 en gerðist skattland Tyrkjaveldis á 16. öld. 1812 innlimaði Rússaveldi austurhluta furstadæmisins með Búkarestsamningnum sem batt endi á Rússnesk-tyrkneska stríðið (1806-1812). Þessi hluti var kallaður Bessarabía um tíma en er nú að stærstum hluta sjálfstæða ríkið Moldóva. Norðausturhluti héraðsins var síðan innlimaður í ríki Habsborgara og er nú að hluta í Úkraínu, en vesturhlutinn var áfram sjálfstætt furstadæmi sem myndaði Rúmeníu árið 1869 ásamt Vallakíu. Rafiðnaðarsamband Íslands. Rafiðnaðarsamband Íslands (skammstafað "RSÍ") er landssamband stéttarfélaga rafiðnaðarmanna, stofnað 11. nóvember 1970. Stofnfélög voru: "Félag íslenskra rafvirkja", "Félag rafiðnaðarmanna á Suðurlandi", "Rafiðnaðarmannafélag Suðurnesja", "Rafvirkjafélag Akureyrar" og "Félag útvarpsvirkja". Sambandið er starfsgreinasamband og aðili að ASÍ, en félagar eru allir launþegar, sem starfa í rafiðnaðargeiranum, hvort sem þeir hafa löggilt sveinspróf eða ekki. Formaður og framkvæmdastjóri er Guðmundur Gunnarsson. Starfsemi sambandsins felst í að gæta hagsmuna félagsmanna og fjölskyldna þeirra, bæði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Páll S. Árdal. Páll S. Árdal (27. júní 1924 – 2003) var íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki. Hann var sérfræðingur um heimspeki skoska heimspekingsins Davids Hume. Páll lauk doktorsgráðu í heimspeki frá Háskólanum í Edinborg árið 1961. Síðar kenndi hann heimspeki við Queen's University í Kingston í Ontario í Kanada. Rit hans "Passions and Value in Hume's Treatise" sem kom út árið 1966 var brautryðjendaverk um siðfræði Davids Hume. Páll var stofnfélagi í félagasamtökunum The Hume Society, samtaka áhugafólks um heimspeki Humes. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands Kristmann Guðmundsson. Kristmann Guðmundsson (23. október 1901 – 20. nóvember 1983) var íslenskur rithöfundur sem var aðallega frægur fyrir rómantískar skáldsögur sínar. Sjónbaugshnit. Sjónbaugshnit eru hnit himinfyrirbæris miðað við sjóndeildarhring ("sjónbaug") athuganda í himinhvolfshnitakerfi. Hnit eru gefin með stjörnuhæð (enska "altitude" eða "elevation") og áttarhorni ("azimuth"). Eru háð athugunarstað og tíma. Miðbaugshnit. Miðbaugshnit eru hnit himinfyrirbæris miðað við miðbaug himins í himinhvolfshnitakerfi. Hnit eru gefin með stjörnubreidd (enska "declination") og tímahorni (enska "right asencion" eða "hour angle"). Eru óháð athugunarstað og breytist lítið með tíma þar sem miðað er við vorpunkt himins sem færist innan við mínútu á ári. Gunnar Harðarson. Gunnar Ágúst Harðarson (f. 1954) er íslenskur heimspekingur og dósent í heimspeki við Háskóla Íslands. Oldsagskommissionen. Oldsagskommissionen ("Den kongelige Commission til Oldsagers Opbevaring") – á íslensku: Fornminjanefndin'", ("Nefndin til varðveislu fornminja" eða "Hin konunglega nefnd til viðurhalds fornaldarleifa") – var skipuð að konungsboði 22. maí 1807. Verkefni nefndarinnar voru margvísleg, einkum að tryggja varðveislu mikilvægra minja frá fyrri tíð og taka í sína vörslu forngripi sem kynnu að finnast. Söfn nefndarinnar ("Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager", öðru nafni "Oldnordisk Museum"), urðu síðar stofninn að Þjóðminjasafni Dana. Rasmus Nyerup átti frumkvæðið að skipun nefndarinnar, en hann hafði árið 1805 bent á að margar sögulegar minjar á æskuslóðum hans við þorpið Nyrup á Fjóni, hefðu horfið síðan hann var barn. Eitt af fyrstu verkefnum nefndarinnar var að senda 12 prentaðar spurningar til allra presta í Danmörku, til þess að fá yfirlit yfir fornminjar í landinu. Á grundvelli svarbréfa sem bárust, voru um 200 fornminjar friðaðar á árunum 1809-1811. Árið 1809 var danski spurningalistinn sendur til presta á Íslandi, en sú sending virðist hafa misfarist, a.m.k. barst aðeins svar frá Hofi í Vopnafirði. Í árslok 1816 var Finnur Magnússon skipaður í nefndina, auk þess sem Christian Jürgensen Thomsen kom í stað Rasmusar Nyerups sem ritari. Fór nefndin þá að sinna meira íslenskum málum. Lagði hún til að 10 fornminjar á Íslandi yrðu friðaðar, og sendi Kansellíið tilskipun um það til amtmanna á Íslandi, 19. apríl 1817. Meðal minja í þessari fyrstu friðun fornminja á Íslandi, var Borgarvirki, Snorralaug í Reykholti, dómhringur á Þórsnesi á Snæfellsnesi og 7 rúnasteinar. Vorið 1817 voru sendir spurningalistar á íslensku til allra presta á Íslandi, og bárust á næstu árum fjöldamörg svör, sem gefa athyglisvert yfirlit um fornminjar í landinu. Fyrstu skýrslurnar bárust haustið 1817 og þær síðustu 1823. Árið 1983 gaf Stofnun Árna Magnússonar út svörin sem nefndin hafði safnað: "Frásögur um fornaldarleifar", 1-2. Sveinbjörn Rafnsson sá um útgáfuna. Skýrslur presta til nefndarinnar voru mikilvæg fyrirmynd þegar Hið íslenska bókmenntafélag réðist í það í árið 1839 að fá presta til að taka saman sóknalýsingar, en þær áttu að verða stofn að nýrri Íslandslýsingu. "Fornminjanefndin" gaf út tímaritið "Antiqvariske Annaler" 1812-1827 (í fjórum bindum). Þar var lýst þekktum og nýfundnum fornminjum, og safnauka "Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager". Telja má þetta tímarit undanfara Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie. Með lagabreytingu árið 1849 urðu konunglegu söfnin eign danska ríkisins. Var "Fornminjanefndin" þá lögð niður. Ilpunktur. Ilpunktur (eða lágpunktur himins) er sá punktur himins, sem er beint fyrir neðan athuganda (með stjörnuhæð -90°). Gagnstæður punktur nefnist hvirfilpunktur, en báðir punktarnir eru á hábaugi. Stjörnuhæð. Stjörnuhæð (enska "altitude" eða "elevation") er hæð himinfyrirbæris miðað við sjóndeildarhring (sjónbaug). Er því háð athugunarstað og tíma. Sjónbaugshnit himintungla eru gefin sem stjörnuhæð og áttarhorn. Hvirfilpunktur er með stjörnuhæð +90°, en ilpunktur með stjörnuhæð -90°. Stjörnubreidd. Stjörnubreidd (enska "declination"), táknuð með δ, er breiddargráða himinfyrirbæris miðað við miðbaug hinins. Er óháð athugunarstað og tíma, ef um skemmri tímabil er að ræða. Stjörnubreidd er mæld jákvæð fyrir norðan miðbaug, en neikvæð fyrir sunnan. Miðbaugshnit himintungla eru gefin sem stjörnubreidd og tímahorn. Tímahorn. Tímahorn (enska "right ascension", skammstafað "RA"), táknað með α, er lengdargráða himinfyrirbæris miðað við vorpunkt, mæld jákvæð í klukkustundum í austurátt frá vorpunkti. Miðbaugshnit himintungla eru gefin sem stjörnubreidd og tímahorn. Vorpunktur. Vorpunktur nefnist staðsetning sólar miðað við fastastjörnur á himninum á vorjafndægri. Tímahorn miðast við vorpunkt. Er annar af skurðpunktum miðbaugs himins og sólbaugs, hinn nefnist haustpunktur. Haustpunktur. Haustpunktur nefnist staðsetning sólar miðað við fastastjörnur á himninum á haustjafndægri. Er annar af skurðpunktum miðbaugs himins og sólbaugs, hinn nefnist vorpunktur. Fossvogskirkjugarður. Fossvogskirkjugarður er kirkjugarður innst norðan megin við Fossvoginn upp við Öskjuhlíð. Hann tók við af Hólavallagarði á 4. áratug 20. aldar sem aðalkirkjugarður Reykjavíkur. Hann er um 28 hektarar að stærð. Fyrsti maðurinn sem var grafinn þar var Gunnar Hinriksson vefari 2. september 1932. 1948 var Fossvogskirkja vígð sem grafarkirkja fyrir Fossvogskirkjugarð. Fossvogskirkja. Fossvogskirkja er grafarkirkja við Fossvogskirkjugarð norðan megin við Fossvoginn við rætur Öskjuhlíðar. Hún var teiknuð af Sigurði Guðmundssyni og vígð 31. júlí 1948. Fossvogur. Fossvogur er um tveggja kílómetra langur vogur sem gengur til austurs inn úr Skerjafirði. Norðan megin við voginn eru Nauthólsvík og Öskjuhlíð í Reykjavík, en sunnan megin er norðurströnd Kársness í Kópavogi. Fossvogsdalur gengur inn frá voginum og um hann rennur lækur sem fellur í litlum flúðafossi niður í sjó og af honum er talið að dalurinn og vogurinn dragi nafn sitt. Fossvogshverfi er í Fossvogsdal (Reykjavíkurmegin) inn af Fossvogi. Bæjarmörk Reykjavíkur og Kópavogs liggja frá mynni Fossvogslækjar í norðvestur og svo um miðjan voginn til vesturs. Náttúra og dýralíf. Fossvogurinn séður frá Nauthólfsvík inn vogin yfir á Kársnesið, Kópavogsmegin. Í forgrunni má sjá hvernig fjaran norðanmegin er blönduð af leirum og hnullungum en sunnanmegin nær byggðin alveg niður á fjörukambinn og þar er hrein hnullungafjara. Fossvogurinn er í skjóli fyrir hafátt og því gætir þar sjaldan sjáfarágangs. Í honum eru bæði þangvaxin hnullungafjara, aðallega sunnan megin, Kársnesmegin og um sjö hektara fínkornóttar leirur fyrir botni hanns sem myndast hefur við framburð lækjarins ásamt lífrænum leyfum í sjónum. Eins grefur sjórinn stöðugt úr Fossvogsbakkanum sem er í botni hanns og norðan megin og milur hann niður í fjörunni. Vogurinn er grunnur og kemur þangfjarann og leiran alveg úr kafi á stórstraumsfjöru. Bæði leiran og þangið er ríkt af smádýrum svo vogurinn er kjörlendi fyrir margar tegundir fugla. Eins er ylur í læknum sem gerir það að verkum að ósinn leggur sjaldnast á vetrum. Af smádýrum er mest um burstaorma eins sandmaðk á leirunum, eins leiruþrefil, fjölþrefil, lónaþrefil, mottumaðk og roðamaðk. Aðrir algengir hryggleysingjar á leirunni eru marflær, sandskel, smyrslingur og hrukkudúlda. Í hnullunga og þangfjörunni eru mest áberandi klapparþang, klóþang og bóluþang. Þangið myndar kjörlendi fyrir ýmis smádýr sem fuglar eru sólgnir í eins og snigla, samlokur og krabbadýr. Þar ber mest á sniglum eins og klettadoppu, þangdoppu, fjörudoppu og nákuðungi. Eins samlokur eins og krækling, smádýr eins og þangfló, þanglús og flekkulús og krabbadýrum eins og hrúðurkörlum. Af stærri dýrum eru það bogkrabbi, hrognkelsaseiði og sprettfiskur. Allt eru þetta smádýr sem vaðfuglar eins og tjaldur, tildra, sandlóa, sendlingur og heiðlóa eru sólgnir í og er töluvert af þeim í fjörunni. Eins sundfuglar eins og stokkendur, æður og álftir, sem og mávategundir eins og hettumávur og kríur. Árið 2012 var hluti Fossvogs og Kópavogs (það er vogurinn) friðlýst sem búsvæðavernd. Friðlýsta svæði skiptist í tvo hluta, annars vegar eru 39 hektarar í Kópavogi og hinsvegar 24 hektarar í Fossvogi, alls um 63 hektarar. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki við ströndina, í fjöru og á grunnsævi, þar sem megi finna afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Þá er einnig markmið að vernda útivistar-og fræðslugildi svæðisins. Fossvogsbakkar. Svæðið við ströndina norðanmegin í Fossvoginum, frá Nauthólsvík inn í botn vogsins að læknum, nefnast Fossvogsbakkar og eru þar merkileg jarðlög, svokölluð Fossvogslög, með steinrunnum skeljum og fleiri dýraleifum frá ísaldarlokum. Ennþá lifa margar þessara tegunda við Ísland í dag og þar á meðal í Fossvoginum, sem dæmi til dæmis smyrslingur, hallloka, beitukóngur, hrúðurkarlar, svo ætla má að á þeim tíma sem þau mynduðust hafi verið svipað hitastig og nú er. Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Gamla bíó. Gamla bíó er fyrrverandi kvikmyndahús og núverandi óperuhús sem stendur við Ingólfsstræti í miðborg Reykjavíkur. Húsið var reist yfir starfsemi „gamla bíós“, Reykjavíkur Biograftheater, af Peter Petersen árið 1927 og tók við af Fjalakettinum. Petersen innréttaði íbúð fyrir sjálfan sig á efri hæð hússins. Fyrsta kvikmyndin sem var sýnd þar var "Ben Húr" með Ramon Novarro í aðalhlutverki 2. ágúst 1927. Upphaflega tók salurinn 602 í sæti en það minnkaði í 479 þegar húsinu var breytt og sviðið stækkað til að mæta þörfum óperunnar. Húsið var rekið sem kvikmyndahús til ársins 1980 þegar Íslenska óperan keypti það undir óperusýningar. Fyrsta óperan sem var frumsýnd í húsinu var "Sígaunabaróninn" eftir Johann Strauss 9. janúar 1982. Húsið hefur oft hýst leiksýningar og tónleika auk óperusýninga. Akmeð 1.. Akmeð 1. (ottómönsk tyrkneska: احمد اول "Aḥmed-i evvel", tyrkneska: I.Ahmet; 18. apríl 1590 – 22. nóvember 1617) var Tyrkjasoldán frá 1603 til dauðadags. Hann tók við af föður sínum Memeð 3. aðeins þrettán ára gamall. Upphaf valdatíðar hans markaðist af ósigrum Tyrkja í styrjöldum við Habsborgara annars vegar og Persaveldi hins vegar sem kostuðu Tyrkjaveldi hið árlega gjald frá Austurríki og Georgíu og Aserbaídsjan. Akmeð er þekktastur fyrir byggingu Bláu moskunnar í Istanbúl sem var reist á árunum 1609 til 1616. Hann lést úr taugaveiki 1617. Dimítríj 1.. Falski Dimítríj 1. (rússneska: Лжедмитрий, "Lsjedmitrij"; d. 17. maí 1606) var Rússakeisari frá 21. júlí 1605 til dauðadags. Hann var einn af þremur mönnum sem þóttust vera yngsti sonur Ívans grimma, Dimítríj krónprins, sem átti að hafa sloppið eftir morðtilraun 1591. Hann kom fyrst fram hjá Job patríarka í Moskvu en Boris Godúnov skipaði svo fyrir að hann skyldi tekinn höndum og yfirheyrður. Þá flúði hann til Litháen. Nokkrir pólskir aðalsmenn ákváðu þá að styðja hann gegn Boris. Í mars 1604 veitti Sigmundur 3. honum viðtöku í Kraká en lofaði honum ekki beinum stuðningi. Hann tók upp kaþólska trú til að tryggja sér stuðning valdamikilla jesúíta og fékk sendimann páfa, Rangoni, til að styðja kröfu sína. 1604 kom Dimítríj sér upp her með hermönnum nokkurra stuðningsmanna sinna innan Pólsk-litháíska samveldisins og óvinir Godúnovs bættust í lið hans, þar á meðal kósakkar úr suðri. Þeim lenti tvisvar saman við her keisarans og höfðu sigur í fyrra skiptið en biðu afgerandi ósigur í seinna skiptið. Það sem bjargaði málstað Dimítríjs í það skiptið voru fréttirnar um lát Boriss (13. apríl 1605). Her keisarans gekk þá í lið með Dimítríj og hann náði völdum af hinum nýkrýnda keisara Fjodor 2. 20. júní. Job patríarki í Moskvu neitaði að viðurkenna hann sem keisara og var sendur í útlegð. Utanríkisstefna Dimítríjs fólst í bandalagi við Pólsk-litháíska samveldið og páfann í Róm. 8. maí 1606 giftist hann hinni pólsku Marynu Mniszech sem var kaþólsk og gekk ekki í réttrúnaðarkirkjuna í tilefni af giftingunni eins og hefð var fyrir. Við þetta reiddist kirkjan og stór hluti bojaranna einnig sem fylktu sér þá bak við Vasilíj Sjúiskíj. 17. maí 1606, tveimur vikum eftir brúðkaupið, réðust samsærismenn inn í Kreml. Dimítríj reyndi að flýja út um glugga en fótbrotnaði við fallið. Einn af samsærismönnunum skaut hann til bana þar sem hann lá. Lík hans var brennt og öskunni að sögn skotið úr fallbyssu í átt að Póllandi. Axel Revold. Axel Julius Revold (fæddur í Álasundi 21. desember 1887, látinn í Bærum 1962) var norskur myndlistarmaður. Menntun. Revold menntaði sig við Statens Tegneskole í Kristjaníu (Ósló) á árunum 1906 til 1908. Þá lærði hann hjá Henri Matisse í París (1908-1910) og kom sýndi fyrst á sýningu haustið 1910. Revold var undir áhrifum landslagsins í norður-Noregi sem blandaðist kúbisma svo hann flokkaðist undir módernisma. Freskutímabilið. Axel Revold var einn af upphafsmönnum svokallaðs „freskutímabils“ í norskri list ásamt þeim Per Krogh og Alf Rolfsen. Freskurnar í Bergen Børs voru málaðar 1921-1923. Ásamt Per Krogh málaði hann einnig veggi Háskólabókasafnsins í Ósló árið 1933. Þá málaði hann freskur í ráðhúsi Óslóar 1950. Annað. Hann rak eigin myndlistarskóla og varð prófessor við Statens Kunstakademi árin 1925-1946). Hann var forsprakki þess að stofna listamannahús í Svolvær og verk hans, "Fiskevær i Lofoten", var á norska 5-kr seðlinum á árabilinu 1955-1963. Orrustan við Salamis. Orrustan við Salamis (Forngríska:), var sjóorrusta milli Grikkja og Persa í Persastríðunum. Orrustan var háð í september árið 480 f.Kr. í þröngu sundi milli eyjunnar Salamis og Píreus, hafnarborgar Aþenu. Undir stjórn aþenska stjórnmálamannsins og herforingjans Þemistóklesar tókst Grikkjum að nýta sér þröngt sundið til þess að sigra mun stærri flota Persa, sem gat ekki nýtt sér liðsmuninn. Þar með var innrás Xerxesar I hrundið aftur. Sigur Grikkja var vendipunktur í stríðinu og leiddi að endingu til ósigurs Persa. Orrustan við Farsalos. Orrustan við Farsalos var orrusta háð milli andstæðra fylkinga í í rómverska borgarastríðinu. Orrustan var háð við Farsalos á Grikklandi þann 9. ágúst árið 48 f.Kr. Áttust þar við annars vegar her Gaiusar Juliusar Caesars og hins vegar her Pompeiusar og öldungaráðsins. Sigur Caesars bætti mjög stöðu hans. Pompeius flúði til Egyptalands að orrustunni lokinni en var ráðinn af dögum við komuna til landsins. Orrustan við Filippí. Orrustan við Filippí var lokaorrusta milli þrístjóraveldisins síðara (Marcusar Antoniusar Octavianusar og Marcusar Aemiliusar Lepidusar) annars vegar og hers morðingja Júlíusar Caesars hins vegar undir stjórn þeirra Marcusar Juniusar Brutusar og Gaiusar Cassiusar Longinusar. Orrustan var háð árið 42 f.Kr. við Filippí í Makedóníu. Henni lauk með sigri þrístjóraveldisins. Sólbaugur. Sólbaugur (lat. "linea ecliptica", en. "ecliptic") nefnist ferill sólar á himni yfir eitt ár miðað við fastastjörnur. Skurðpunktar miðbaugs himins og sólbaugs eru vorpunktur og haustpunktur. Sólbaugshnit. Sólbaugshnit eru hnit himinfyrirbæris miðað við sólbaug í himinhvolfshnitakerfi. Hnit eru gefin með "breidd miðað við sólbaug", táknuð með β og "lengd miðað við vorpunkt", táknuð með denoted λ. Áttarhorn. Áttarhorn (enska "azimuth") er horn himinfyrirbæris mælt á sjónbaug frá norðurskauti himins. Sjónbaugshnit himintungla eru gefin sem stjörnuhæð og áttarhorn. Himinn. Himinn, hvelfing eða festing er sá hluti geimsins og gufuhvolfsins, sem er sýnilegur frá jörðu. Á himni má sjá himinfyrirbæri og sýnileg veðurfyrirbæri ofan sjóndeildarhrings. Í trúarbrögðum er himinn oft dvalarstaður guða og annarra guðlegra vætta. Sjóndeildarhringur. Sjóndeildarhringur eða sjónbaugur er ímyndaður hringur, sem skilur að himin og yfirborð jarðar. Christian Jürgensen Thomsen. Christian Jürgensen Thomsen (29. desember 1788 – 21. maí 1865) var danskur fornleifafræðingur og safnamaður. Hann fæddist í Kaupmannahöfn og var búsettur þar. Foreldrar hans voru Christian Thomsen, virtur og vel stæður stórkaupmaður, og Hedevig Margretha, fædd Jürgensen, sem var af kaupmannsætt. Þau áttu 6 syni og var C. J. Thomsen þeirra elstur. Að ósk föður síns fór hann ungur að fást við skrifstofu- og verslunarstörf í fyrirtæki fjölskyldunnar. Hann hafði þó meiri áhuga á ýmsu öðru, safnaði m.a. mynt og listaverkum (koparstungum), sem leiddi til þess að hann kynntist nokkrum af fremstu safnamönnum Danmerkur. Þetta var þó í fyrstu einungis áhugamál, sem hann fékkst við í frístundum. Hinn 11. des. 1816 tók Thomsen við af Rasmus Nyerup sem ritari í "Nefndinni til varðveislu fornminja" (Oldsagskommissionen). Hafði Nyerup gert sér grein fyrir hvað í manninum bjó. Tók Thomsen við umsjón með söfnum nefndarinnar ("Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager", öðru nafni "Oldnordisk Museum"), enduskipulagði þau og kom því til leiðar árið 1819 að þau voru opnuð almenningi. Söfnin voru fyrst á lofti Þrenningarkirkju, bak við Sívalaturn, voru flutt árið 1832 í Kristjánsborgarhöll, og loks árið 1853 í núverandi húsnæði í Prinsens Palæ. Þessi söfn urðu síðar kjarninn í Þjóðminjasafni Dana ("Nationalmuseet"), sem stofnað var 1892. C. J. Thomsen átti hugmyndina að því að skipta forsögu mannsins í þrjú tímabil: steinöld, bronsöld og járnöld. Þessi þrískipting hefur síðan orðið grundvöllur fornleifarannsókna í Evrópu og víðar. Thomsen setti þessa hugmynd fram á prenti í ritinu "Ledetraad til nordisk Oldkyndighed" (1836), en hann hafði þegar um 1825 komist að þessari niðurstöðu og sett forngripasafnið upp með þá skiptingu í huga. C. J. Thomsen var sjálfmenntaður á sviði fornleifafræði. Hann hafði mikla hæfileika til að safna og skipuleggja og sjá meginlínur í því sem áður hafði virst algjör óreiða. Hann lét ekki eftir sig mörg ritverk, en naut sín best í að sýna söfnin og útskýra á ljóslifandi hátt sögu forngripanna og hlutverk þeirra. Átti hann mikinn þátt í að vekja áhuga meðal almennings á fortíð þjóðarinnar. Hann var ólaunaður til 1832, fékk þá stöðu sem „safnvörður“. Þegar "Fornminjanefndin" var lögð niður 1849, varð Thomsen loks formlega forstöðumaður safnsins, en J. J. A. Worsaae tók að mestu við umsjón með þjóðminjavörslunni. Thomsen hafði eitt sinn séð umtalsvert safn af grænlenskum munum í Vínarborg. Heimkominn gerði hann konunginum grein fyrir því að ekki væri við hæfi að ekkert slíkt safn væri í Danmörku. Varð það til þess að hafist var handa við að stofna þjóðfræðisafn, sem opnað var 1849. Thomsen var sjálfur ástríðufullur myntsafnari og dró saman mikið safn – um 27.000 eintök. Hann arfleiddi Myntdeildina (Møntkabinettet) í Rósenborgarhöll að myntsafni sínu. Safnið nýtti sér 114 danskar myntir, sem vantaði þar, en afgangurinn var seldur á uppboði. Thomsen var forstöðumaður Myntdeildarinnar frá 1842. Finnur Magnússon var skipaður í "Fornminjanefndina" um svipað leyti og Thomsen varð ritari (1816), og tókst með þeim náið samstarf. Thomsen var formlega tekinn í nefndina um 1827. Hafa þeir eflaust miðlað hvor öðrum af þekkingu sinni. Meðal þeirra sem stóðu við dánarbeð Finns, 1847, var C. J. Thomsen. Heimildir. Thomsen, Christian Jürgensen Thomsen, Christian Jürgensen Rasmus Nyerup. Rasmus Nyerup (12. mars 1759 – 28. júní 1829) var danskur sagnfræðingur, málvísindamaður og bókavörður. Hann fæddist í þorpinu Nyrup á Fjóni og dó í Kaupmannahöfn. Rasmus Nyerup var stúdent frá Lærða skólanum í Óðinsvéum 1776, með ágætiseinkunn. Fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók próf í heimspeki og guðfræði 1779-1780. Varð bókavörður við safn Peter Friderich Suhm, sem var hálfopinbert rannsóknarbókasafn. Þar sökkti hann sér niður í gögn danskra sagnfræðinga og gaf út bækur með efni þaðan. Starfaði um tíma við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn, og frá 1796 við Háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn, varð forstöðumaður þess 1803. Árið 1796 var Nyerup skipaður prófessor í bókmenntasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1807 varð Rasmus Nyerup ritari í "Nefndinni til varðveislu fornminja", (Oldsagskommissionen), sem hafði m.a. það verkefni að safna skýrslum um fornminjar frá prestum í Danmörku. Í árslok 1816 tók Christian Jürgensen Thomsen við af honum sem ritari nefndarinnar, samkvæmt tillögu Nyerups, sem gerði sér grein fyrir hvað í manninum bjó. Nyerup var einnig helsti stuðningsmaður og verndari Rasmusar Kristjáns Rasks. Virðist hann hafa haft næmt auga fyrir hæfileikum ungra manna sem hann kynntist. Nyerup var fulltrúi upplýsingarinnar í Danmörku, og koma þau viðhorf fram í rannsóknum hans. Útgefin rit. Rasmus Nyerup samdi og gaf út fjölda bóka um sagnfræði, bókmenntasögu og menningarsögu, m.a. tveggja binda ævisögu Kristjáns 4. (1816). Hann var einnig með þeim fyrstu til að draga upp heildarmynd af danskri bókmenntasögu. Benazir Bhutto. Benazir Bhutto (fædd 21. júní 1953, látin 27. desember 2007) var pakistanskur stjórnmálamaður. Hún varð fyrsti kvenforsætisráðherra í múslimsku landi árið 1988 og var síðar kosin aftur árið 1993. Í bæði skiptin var hún sett af af þáverandi forsetum eftir ásakanir um spillingu. Hún lést eftir skotárás og sprengjutilræði í Rawalpindi þar sem hún var að ávarpa stuðningsmenn sína. Bhutto flutti til Kúveit í sjálfskipaða útlegð frá 1999 þar til hún sneri heim til Pakistans að nýju 18. október 2007. Benazir Bhutto var elsta dóttir Zulfikar Ali Bhutto, sem var forseti og síðar forsætisráðherra Pakistans. Zulfikar Ali Bhutto. Zulfikar Ali Bhutto (IPA: zʊlfɪkɑɽ ɑli botɔ) f. 5. janúar 1928, d. 4. apríl 1979, var pakistanskur stjórnmálamaður. Hann var forseti Pakistans árin 1971 til 1973 og svo forsætisráðherra 1973 til 1977. Hann stofnaði Þjóðarflokk Pakistans, (Pakistan People's Party (PPP)), sem er einn af áhrifamestu stjórnmálaflokkum í landinu. Zulfikar Ali Bhutto var tekinn af lífi með hengingu eftir mjög umdeild réttarhöld, þar sem hann var sakaður um að hafa fyrirskipað morð á pólitískum andstæðingi. Grunur lék á að réttarhöldunum hefði verið stjórnað á bak við tjöldin og að Muhammad Zia-ul-Haq hershöfðingi hefði haldið þar um taumana. Í Pakistan er Bhutto oft kallaður Shaheed Zulfikar Ali Bhutto, en orðið shaheed þýðir píslarvottur. Eftir að hann var tekinn af lífi varð ekkja hans, Nusrat Bhutto, í forsvari fyrir Þjóðarflokk Pakistans og svo síðar dóttir þeirra, Benazir Bhutto. Kronecker δ. formula_1 Bein ræða. Bein ræða (latína: "ōrātiō rēcta", þýska: "direkte Rede") er það nefnt í skrifuðum texta, þegar t.d. persóna í sögu tekur til máls og haft er orðrétt eftir henni, eða þegar vitnað er orðrétt í viðmælanda í viðtölum án útskýringa höfundar. Oft er bein ræða höfð innan gæsalappa í texta, en það er þó ekki einhlítt. Andstæða beinnar ræðu er óbein ræða. Freysteinn Gunnarsson lýsir beinni ræðu í bók sinni: „Ágrip af setningafræði og greinarmerkjafræði“ og segir þar: „"Algengt er í ræðu og riti að taka upp það, sem annar hefur sagt, hugsað eða skrifað. Þau orð sem öðrum eru þannig lögð í munn, kallast bein ræða."“ Og svo segir hann: „"Setja skal tilvitunarmerki á undan og eftir beinni ræðu og öðrum orðréttum tilvitnunum".“ Bein ræða í skáldsögum. Bein ræða er oft sögð lýsa persónum milliliðalaust, persónan talar eins og hún sé viðstödd, meðan óbein ræða getur verið blönduð hugmyndum höfundarins. Florian Coulmas, hinn þýski prófessor, segir í ritgerð sinni "Reported speech: Some general issues", að Það má því segja að bein ræða er öllu nær eiginlegri persónu þess sem orðin segir, en óbeina ræðan getur verið allavega, allt eftir því hvað höfundur ætlar sér. Sigurður Nordal telur það ósögulegt og þreytandi þegar "höfundar rekja efnið úr löngum umræðum í óbeinni ræðu". Það mætti þó bæta því við að allt fer það eftir því hvernig höfundur vinnur úr efni sínu, og að hvaða marki hann stefnir. Höfundar íslendingasagna eru t.d. sagðir beita beinni ræðu til að flækja ekki skoðunum sínum saman við söguna, og þá helst til að lýsa innræti persóna sinna án útskýringa. Snarræði, vit og dómgreind kemur fram í orðum þeirra, eða meinlokur og veilur í hugsun. Höfundar þeirra láta svo persónur sínar oft gjalda orða sinna. Bein ræða í upplestri. Í upplestri verður að greina muninn á beinni og óbeinni ræðu. Auðveldast er að lesari komi slíkum greinarmun til hlustenda sinna á beinni og óbeinni ræðu með því, að velja sér þægilegan raddstyrk til venjulegs lesturs, en lyfta röddinni aðeins í hærri tónhæð, þegar hann les beina ræðu. Þegar beinu ræðunni er lokið hverfur lesari svo aftur til fyrri eðlilegrar tónhæðar eða raddstyrks. Með þessum hætti skynjar hlustandinn þegar, að hér hefur einhver tekið til máls í frásögninni. Dæmi. Hér er „hvað hann væri að smíða“ óbein ræða. Í óbeinni ræðu getur persóna, tala, tíð og háttur breyst en að öðru leyti miðast óbeina ræðan við beinu ræðuna, t.d. hvað orðfæri snertir. Í frásögninni getur sögumaður þó skotið inn eigin hugleiðingum. Þegar spurnarsetningu er snúið í óbeina ræðu eins og dæminu að ofan er talað um óbeina spurnarsetningu. Ef beina ræðan er ekki spurnarsetning breytist hún að jafnaði í skýringarsetningu. Vasilíj Sjúiskíj. Vasilíj Sjúiskíj eða Vasilíj 4. (22. september 1552 – 12. september 1612) var Rússakeisari frá 1606 til 1610 á rósturtímunum í sögu Rússlands. Hann var afkomandi furstanna í Neðri Hólmgarði og einn af leiðtogum bojaranna í valdatíð Fjodors og Godúnovs og það var hann sem leiddi rannsóknarnefnd sem Godúnov sendi til að rannsaka lát yngsta sonar Ívans grimma, Dimítríj krónprins, 1591. Sjúiskíj úrskurðaði að hann hefði látist af slysförum en sá orðrómur gekk fjöllum hærra að Godúnov hefði látið myrða hann. Orðrómur um að Dimítríj hefði sloppið undan morðingjum sínum leiddi til þess að fram komu þrír falskir Dimítríjar (Dimítríj 1., Dimítríj 2. og Dimítríj 3.). Þegar sonur Godúnovs, Fjodor 2., komst til valda gekk Sjúiskíj á bak orða sinna og gekk til liðs við Dimítríj. Hann samþykkti að þessi Dimítríj væri sá rétti þrátt fyrir að hafa áður úrskurðað hann látinn. Síðar var Sjúiskíj leiðtogi samsærisins gegn Dimítríj sem leiddi til dauða hans 1606. Áhangendur Sjúiskíjs lýstu hann þá keisara 19. maí 1606 en enginn viðurkenndi hann sem slíkan. Hann ríkti þrátt fyrir það til 19. júlí 1610 en var í reynd valdalaus. Hann gaf lönd eftir við Svía í skiptum fyrir bandalag, en Sigmundur 3. leit á sænskt-rússneskt hernaðarbandalag sem ógnun og sagði Rússlandi formlega stríð á hendur. Eftir sigur í orrustunni við Klusjino héldu pólskar hersveitir, undir stjórn Stanisław Żółkiewski höfuðsmanns, inn í Moskvu og lýstu son Sigmundar, Vladislás, keisara. Żółkiewski flutti Sjúiskíj með sér aftur til Póllands sem fanga og þar lést hann í Gostynin nærri Varsjá. Kaplamjólk. Kaplamjólk kallast sú mjólk sem kemur úr júgri hryssna. Efnasamsetning hennar er mun líkari brjóstamjólk heldur en t.d. kúamjólk, þó er sú síðarnefnda meira notuð til manneldis vegna þess hve kýr geta mjólkað meira en hryssur. Bréf um siðfræði til Luciliusar. Bréf um siðfræði til Luciliusar (latína: Epistulae morales ad Lucilium) er safn 124 bréfa eftir rómverska heimspekinginn Lucius Annaeus Senecu. Bréfin samdi Seneca undir lok ævinnar. Vitað er að einhver bréf eru glötuð. Bréfin hefjast öll á orðunum "Seneca suo Lucilio salutem" (Seneca heilsar Luciliusi sínum) og enda á orðinu "Vale" (Kveðja). Í bréfunum veitir Seneca Luciliusi ýmsar ráðleggingar um hvernig hann skuli lifa lífinu og verða betri stóumaður. Óvíst er hvort Lucilius var raunveruleg persóna eða uppfinning Senecu. Auk þess að vera heimild um stóíska heimspeki eru bréfin ómetanleg heimild um daglegt líf í Rómaveldi á 1. öld. Rennín. Rennín er meltingarensím sem myndast í vinstur jórturdýra. Það hjálpar til við niðurbrot á mjólkurpróteinum. Það er mjög virkt í ungviði en virknin minnkar eftir því sem gripurinn eldist (þar sem hann hættir að nærast eingöngu á mjólk). Yōzei annar. Yōzei annar (japanska: 後陽成天皇 "Go-Yōzei-tennō"; 31. desember 1572 – 25. september 1617) var Japanskeisari frá 17. desember 1586 til 9. maí 1611. Valdatíð hans nær yfir lok Azuchi-Monoyama-tímabilsins og upphaf Jedótímabilsins. Hann gerði Tokugawa Ieyasu að sjógun 1603 sem markar upphaf Jedótímabilsins. Þórarinn Guðmundsson. Þórarinn Guðmundsson (27. mars 1896 – 25. júní 1979) var íslenskur fiðluleikari og tónskáld. Þórarinn var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í fiðluleik við erlendan skóla, en árið 1913 lauk hann prófi frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og stundaði síðar framhaldsnám í Þýskalandi. Þórarinn kenndi fiðluleik um langt skeið en hann var fyrsti formaður og stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur 1921. Árið 1930 varð hann starfsmaður Ríkisútvarpsins og var lengi stjórnandi hljómsveitar þess. Hann stofnaði Félag Íslenskra tónlistarmanna árið 1939 og var formaður þess fyrstu árin. Síðustu starfsár sín lék Þórarinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands eða þar til hann náði eftirlaunaaldri. Hagnýtt siðfræði. Hagnýtt siðfræði er undirgrein heimspekilegrar siðfræði þar sem almennari eða sértækari kenningar siðfræðinnar, svo sem leikslokasiðfræði eða skyldusiðfræði, hafa verið hagnýttar í glímunni við tiltekin raunveruleg siðferðisvandamál. Í hagnýttri siðfræði fer gjarnan fram greining á þeim hagsmunum sem máli skipta hverju sinni. Meðal álitamála sem fjallað er um í hagnýttri siðfræði má nefna spurningar um fóstureyðingar, líknardauða, heilbrigðisþjónustu, persónuvernd og upplýst samþykki, meðferð á dýrum og réttindi þeirra og svo framvegis. Mjaltaskeið. Mjaltaskeið eða mjólkurskeið kallast tímabilið frá burði spendýrs fram að geldstöðu, eða sá tími sem afkvæmið nærist á mjólk móðurinnar. Mjaltaskeið sumra dýrategunda, sérstaklega kúa, hefur verið brenglað til að mæta þörfum manna. Þar ber sérstaklega að nefna Jerseykýr sem bera á meira en ársfresti vegna þess hve burðarsjúkdómar er algengir. Jürgen Habermas. Jürgen Habermas (borið fram ˈjʏʁgən ˈhaːbɐmaːs; fæddur 18. júní 1929 í Düsseldorf í Þýskalandi) er þýskur heimspekingur og félagsfræðingur. Hann er ásamt Karl-Otto Apel frumkvöðull hins nýja Frankfurtarskóla. Hann hefur tekið virkan þátt í fræðilegum og pólitískum umræðum um áratuga skeið. Þekking og hagsmunir. Árið 1968 kom út heimspekirit eftir Habermas sem nefnist "Þekking og hagsmunir" (þ. Erkenntnis und Interesse). Þar segir Habermas að þekkingarmótandi hagsmunir séu skilyrði fyrir möguleikanum á þremur gerðum vísinda. Þessir hagsmunir virka sumpart eins og formin í kenningu Kants sem skapa skilyrði fyrir möguleika á þekkingu. Þannig hafi hagsmunirnir forskilvitlega stöðu (e. transcendental status). Til þess að menn geti yfirleitt þrifist og leitað þekkingar verða þeir að geta fullnægt þörfum sínum fyrir næringu, húsaskjól og svo framvegis. Menn hafa hag af því að fullnægja þessum frumþörfum en þeir verða að vinna til að svo megi verða. Þessa hagsmuni nefnir Habermas „tæknilega þekkingarhagsmuni“ (þ. technische Erkenntnisinteresse). Þeir geri náttúruvísindin möguleg. Það þýðir ekki að hann telji þau vísindi ambátt tækninnar heldur að rökgerð vísindakenninga sé stofnskyld rökgerð tæknilegra athafna. Lögmálsskýring í náttúrvísindum hefur rökgerðina „ef X gerist þá gerist Y líka“, tæknileg athöfn hefur formgerðina „ef ég geri X þá get ég orsakað Y“. Að vinna er að breyta með tæknilegum hætti. Og er við stundum náttúruvísindi sjáum við heiminn frá sjónarhorni vinnu og tæknilegra þekkingarhagsmuna og getum ekki annað, þetta sjónarhorn gerir náttúruvísindin (og sum félagsvísindi) möguleg. Ekki er nóg að vinna einn og sér til að fullnægja frumþörfum sínum, menn verða að geta unnið saman. Án boðskipta er engin samvinna, án boðskipta ekkert sjálf. Sjálfið er boðskiptakyns, að hugsa er að tala við sig sjálfan, stunda boðskipti við sjálfan sig. Og börn sem alist hafa upp án mannlegra samskipta eru sem dýr, hafa ekkert sjálf. Án sjálfs erum við ekki menn, því höfum við (sem menn) hag af boðskiptum. Burðarás vinnunar er tækniskynsemi, hyggindi sem í hag koma, burðarás boðskipta er sættir, við getum ekki stundað boðskipti nema að vera að minnsta kosti sammála um merkingu táknanna sem notuð eru. Forsenda allrar samræðu er sú að við viðurkennum í reynd rétt hvers manns til að tala og séum í reynd sammála um ákveðnar leikreglur um samræður. Þannig tengjast boðskipti siðferðinu. Habermas tekur undir þá staðhæfingu Hans-Georgs Gadamers að það að túlka texta sé eins og að taka þátt í samræðu. Og meginstarf hugsvísindamannsins felst í textatúlkun. Öll túlkun lýtur lögmálum samræðunnar sem aftur eru siðtengd. Hagsmunir manna af boðskiptum marka hugvísindum bás. Þá hagsmuni nefnir Habermas „virka þekkingarhagsmuni“ (þ. praktische Erkenntnisinteresse). Hið siðtengda við textatúlkun gerir að verkum að hugvísindi geta aldrei verið algerlega hlutlaus um siðferði. Auk þess getur textatúlkun breytt þeim sem túlkar um leið og túlkun hans breytir textanum. Lestur á Konungasögum Snorra Sturlusonar skóp norska þjóðernisvitund, breytti íbúum Noregs í Norðmenn. Um leið túlkuðu þeir Konungasögurnar með öðrum hætti en samtímamenn Snorra, hin eina rétt túlkun er ekki til (þetta hefur Habermas frá Gadamer). Habermas talar um „frelsandi vísindi“ sem hafi hagsmuni okkar af sjálfræði að leiðarljósi. Hann talar um „þekkingarhagsmuni af frelsun“ (þ. emanzipatorische Erkenntnisinteresse). Þau beita orsakaskýringum en með öðrum hætti en náttúruvísindin. Þekking á lögmálum sem stjórna samfélögum geta leitt til þess að lögmálin missi mátt sinn, hverfi. Kona sem innhverft hefur mynd karlrembusamfélagsins af konum og er hreinræktuð undirlægja getur losað sig við undirlægjuháttinn ef hún uppgötvar að karlrembumyndin af konum er ekki náttúrulögmál. Sannleikurinn getur frelsað konuna úr fjötrum karlrembusamfélagsins. En hvaða vísindi eru frelsandi? Marxismi, rétt skilinn, og sálgreining, rétt skilin. Habermas hefur verið hljóður um þessa kenningu í nærfellt fjóra áratugi enda er hún í langsóttasta lagi. Rökræða og siðferði. Öllu meiri veigur er í hinni svonefndu rökræðusiðferði (þ. Diskursethik) sem Habermas þróaði í félagi við Karl-Otto Apel. Samkvæmt henni eru viðurkenning á einhvers konar siðaboðum byggð í inn í formgerð rökræðna. Við getum ekki rökrætt nema það sé reglan en ekki undantekningin að við séum sannferðug, lítum á okkur sjálf og viðmælanda sem sjálfráða verur og svo framvegis. Ef við beittum stöðugt orsakaskýringum á öllu sem við og viðmælendur okkar segja þá hættir samræðan að vera samræða og verður einræða, jafnvel rugl. Þannig virðum við í reynd sjálfræði okkar sjálfra og annarra með því að taka þátt í rökræðum. Þessar meginreglur rökræðunnar eru byggðar inn í rökgerð samræðna, við getum ekki talað saman í gríni nema að hægt sé að rökstyðja að við séum að grínast. Rökstuðningur vísar til rökræðu, ekki er hægt að rökstyðja neitt án þess að geta varið rökstuðning í rökræðu. Sem sagt, samræðan hefur reglur rökræðunnar að forsendu. Og eins og áður segir er hugsunin samræðukyns, því getum við ekki flúið samræðuna og siðaboð hennar nema með því að hætta að vera menn. Habermas telur að grundvöllur siðferðisins séu sættir um siðaboð sem til verði í krafti opinnar og óþvingaðrar samræðu frjálsra, sjálfráðra manna sem hafa fullkomna yfirsýn yfir alla kosti. Líkurnar á því að slíkt muni verða eru hverfandi en virkar sem reglugefandi hugmynd (þ. regulative idee). Í stuttu máli segir Habermas að siðferðið byggi á tveimur meginboðum. Í fyrsta lagi grunnboði rökræðunnar (D): „Siðaboð getur aðeins gert kröfu til að teljast réttmætt siðaboð svo fremi allir sem mögulega mun varða siðaboðið geti sammælst um réttmæti þess í virkri rökræðu.“ Hitt meginboðið er alhæfingarrgelan (U). Sérhvert réttmætt siðaboð verður að fullnægja eftirfarandi skilyrði: að beinar og óbeinar afleiðingar fyrir hag einstaklinga sem fyrirsjáanlegar eru verði siðaboðinu allmennt fylgt séu viðanandi fyrir þessa einstaklinga og að þeirra mati betra en ef annað siðaboð væri gert að allmennri reglu. Síðari ár. Habermas hefur lagt gjörva hönd á margt síðustu árin, þróað nýja kenningu um lýðræðið, tekið þátt í umræðum um trúarbrögð og framtíð Evrópusambandsins. Hann hefur losað sig við róttækni æskuáranna og er í dag eindreginn Evrópusinni og jafnaðarmaður. Tenglar. Habermas, Jürgen Habermas, Jürgen Habermas, Jürgen Habermas, Jürgen Frumutala. Frumutala er mæling á fjölda frumna í mjólk, mæld í þúsund frumum í millilítra. Þessar frumur eru aflóga júgurfrumur sem og hvít blóðkorn (þau eru helmingur frumna í mjólk úr heilbrigðu júgra). Frumutala getur verið ágætis mælikvarði á júgurheilbrigði því við júgurbólgu hækkar frumutalan gjarnan. Þá hækkar hún með hærri aldri gripsins og há er hún einnig í geldmjólk og broddmjólk. Eðlileg frumutala? Eðlileg frumutala er mjög misjöfn milli gripa. Þannig geta sumir gripir haldið sinni frumutölu undir 100 þúsund mörg mjaltaskeið í röð á meðan aðrir gripir hækka sig jafnt og þétt með aldrinum. Eðlilega er frumutalan í broddi og geldmjólk mjög há, því þá eru varnir júgurs styrktar vegna þess hve álagið er meira. Þá getur frumutala hækkað með gangmáli (útvötnunaráhrifa gætir allt gangmálið nema þegar kýrin beiðir (og mjólkar þá minna)) og með óvönduðum vinnubrögðum við mjaltir (svo sem tómmjaltir, skemmdir á slímhúð í spenum). Fyrst við júgurbólgu getur frumutalan hækkað svo milljónum skipti. Mæling. Tvær aðferðir eru algengastar við talningu á frumum í mjólk. Annars vegar er það skálaprófið ("California mastitis test", CMT) og hins vegar mælir sem litar frumurnar með sérstöku litarefni. Skálaprófið getur bóndinn framkvæmt sjálfur, það er ódýrt og auðvelt er að nota það til að ákvarða mun milli ólíkra spena á sömu kúnni. Það er þó ekki mjög nákvæmt, heldur er hægt að ákvarða nokkurn veginn ± 100 þúsund frumur í hverju sýni. Frumuteljarinn er þó með nákvæmni upp á 1000 frumur í hverjum millilítra. Gjarnan eru tekin mánaðarlega, eða jafnvel hálfsmánaðarlega sýni úr hverri kú og þau send til rannsóknar á rannsóknarstofu. Þá fást einnig upplýsingar um efnainnihald mjólkurinnar í hverri kú. Sýni eru tekin úr mjólkurtanki og þau greind. Þannig fæst verðlagsgrunnur mjólkurinnar sem greidd er til bóndans. Sé ekki passað upp á að hræra vel í tankinum fyrir sýnatöku getur frumutala orðið nokkuð há því fitan sest ofan á mjólkina og frumurnar fylgja henni. Það eru því færri frumur neðst í óhrærðri mjólk. Susenyos. Susenyos (1572 – 7. september 1632) var Eþíópíukeisari frá 1606 til dauðadags. Hann var sonur Fasilídesar prins, eins af barnabörnum Davíðs 2. Hópur oromóa tók hann og föður hans höndum þegar hann var drengur og héldu þeim í eitt ár. Þeim var bjargað af Assebo greifa og eftir það ólst hann upp hjá Admas Mogasa, drottningu, sem var móðir Sarsa Dengel keisara. Susenyos var talinn eiga tilkall til krúnunnar þegar synir Sarsa Dengels tóku við. Eftir lát Za Dengels var hann lýstur keisari en þurfti að berjast fyrir hásætinu gegn Jakobi. Hann varð keisari eftir að hafa sigrast á fyrst Za Sellase og síðan Jakobi í orrustunni við Gol 1607. Hann var krýndur í Axúm 18. mars 1608. Susenyos sýndi áhuga á trúboðsstarfi jesúítans Pedro Páez og gaf því undir fótinn að taka upp kaþólska trú þar sem hann vonaðist eftir herstyrk frá Portúgal og Spáni gegn oromóum sem sóttu fram í suðri. Hann gaf jesúítum jarðir, meðal annars í höfuðborginni Gorgora á norðurströnd Tanavatns, en þrátt fyrir bréfaskipti við Filippus 3. kom aldrei neinn her. Þrátt fyrir þetta tók Susenyos upp kaþólska trú 1622 en skömmu síðar lést hinn hófsami og umburðarlyndi Pedro Páez og í stað hans kom Alfonso Mendez sem reyndist hafa mun minni skilning á siðum Eþíópíumanna. Mendez hóf þegar umbótastarf, lýsti því yfir að Róm væri höfuð kirkjunnar og bannaði eþíópíska tímatalið. Nokkrum dögum eftir að hann tók við embætti 1626 hófust óeirðir og uppreisnir. Eftir nokkur blóðug átök lét Susenyos eftir og gaf þegnum sínum frelsi til að fylgja þeim sið sem þeir vildu og endurreisti þar með eþíópísku kirkjuna. 1632 sagði Susenyos af sér og lét syni sínum Fasilídes völdin eftir. Refasmári. Refasmári eða lúserna (fræðiheiti: "Medicago sativa") er fjölær belgjurt af ertublómaætt sem gjarnan er ræktuð sem fóður fyrir nautgripi, hross, sauðfé og geitur. Það er auðverkanlegt sem hey. Refasmári gerir kröfur um djúpan jarðveg þar sem rótakerfið getur teygt sig í allt að 4,5 metra dýpt. Ofanjarðar verður hann gjarnan metershár og endist í 3 til 12 ár í túni, allt eftir veðurfari. Eins og aðrar belgjurtir lifir refasmári í samlífi með rótarbakteríum sem binda köfnunarefni úr andrúmsloftinu og nýtist það plöntunni til vaxtar. Algengt er að "Sinorhizobium meliloti" lifi á rótum refasmára. Refasmári er mest ræktaður í Bandaríkjunum en stærstu ræktunarsvæðin eru Kalifornía, Suður-Dakóta og Wisconsin. Spírur refasmára eru ætar og bera hnetukeim. Þær eru notaðar í salöt og á samlokur. Álagablettur. Álagablettur er samkvæmt íslenskri þjóðtrú tiltekið svæði sem á hvílir einhverskonar helgi, og ef helgin er rofin þá gerist einhver óskundi. Mikið af álagablettum er í sambandi við huldufólk, álfa og álfabyggð. Oftast eru álagabletttir þannig, að þar má ekki slá eða valda einhverju raski. Sjógun. Sjógun (japanska: 将軍, "shōgun") er söguleg yfirmannsstaða í her í Japan. Titillinn útleggst sem „herstjóri“ á íslensku og jafngildir ítalska titlinum "generalissimo" sem stundum er notaður í Evrópu yfir hershöfðingja með mikil pólitísk völd. Sjógun er styttri útgáfa af "sei-i taishōgun" (征夷大将軍:せいいたいしょうぐん) „mikill hershöfðingi sem sigrar villimennina í austri“ sem var titill hæstráðanda landsins á ýmsum tímum í sögu Japans og leið undir lok þegar Tokugawa Yoshinobu lét Meiji keisara titilinn eftir árið 1867. Upphaflega var staðan veitt herforingjum í herförum gegn emisjum í austurhluta Japan sem vildu ekki beygja sig undir miðstjórnarvaldið í Kýótó á Heiantímabilinu. Titillinn var tímabundinn og var á endanum lagður niður þegar búið var að leggja allt landið undir miðstjórnina. Sjógunstjórnin (japanska: "bakufu") var tekin upp á Kamakuratímabilinu þegar Minamotoættin náði völdum við hirð keisarans. Magnesía við Meander. Magnesía við Meander () var grísk fornaldarborg á Anatólíuskaganum (núverandi Tyrklandi). Magnesía við Meander stóð ekki langt frá þar sem nú er borgin Germencik, eða nánar tiltekið á veginum á milli Ortaklar og Söke, nálægt þorpinu Tekin. Tvö málmefni eru kenndi við borgina, seguljárnsteinn ("magnetite") og magnesín ("magnesíum"). Basil Zaharoff. Sir Basil Zaharoff (6. október 1849 – 27. nóvember 1936) (fæddur: "Basileios Zacharias") var grískur fjármálaspekúlant sem varð ríkur á olíu- og vopnasölu. Hann fæddist í Mughla í Litlu-Asíu, en þó hann væri fæddur í Tyrklandi, leit hann alltaf á sig sem Grikkja. Fyrstu persónu skotleikur. Fyrstu persónu skotleikur er skotleikur þar sem spilarinn sér leikjaheiminn frá sjónarhorni leikjapersónunnar. Fyrstu persónu skotleikir hafa verið mjög vinsælir frá því að byltingarkenndir leikir eins og Wolfenstein 3D og Doom komu út. Þeir hafa einnig verið þeir leikir sem hvað mest hafa notast við þrívíddargrafík og netspilun og hafa þess vegna verið stór hvati fyrir tækniframfarir í heimilistölvum og í tölvuleikjagerð. Fyrstu persónu skotleikurinn var sú gerð tölvuleikja sem átti hvað mestan þátt í því að draga úr vinsældum ævintýraleikja sem fram að þeim tíma voru meðal vinsælustu gerða tölvuleikja. Catalão. Kort sem sýnir Catalão innan Goiás Catalão er stórborg í Goiás-fylki í Brasilíu með yfir 75.000 íbúa. Severus Snape. Severus Snape er persóna í Harry Potter-bókunum eftir J.K. Rowling. Hann kennir töfradrykkja- og seiðagerð við Hogwarts-skóla. Saga. Severus Snape á að vera fæddur 1960 og vera jafnaldri foreldra Harrys (James og Lily). Þegar hann kom í Hogwarts, 1971, var hann flokkaður í Slytherin-heimavistina og varð vinur krakka sem urðu þekktir dráparar seinna meir. Þegar hann útskrifaðist úr Hogwarts, 1978, gerðist hann drápari. Nokkrum árum síðar var Snape að hlera viðtal Dumbledores við Sybil Trelawney þegar Trelawney spáði fyrir um örlög Harry Potter og Voldemort. Þegar hún var hálfnuð komst upp um hann og honum hent út. Samt sem áður kom hann öllu sem hann heyrði til Voldemorts sem varð til þess að Voldemort fór að leita uppi Harry og foreldra hans. Severus Snape er lýst i bókunum sem háum og grönnum með mikið arnarnef og fitugt hár. Hann er með svört köld augu, föla húð og ójafnar gular tennur. Hann klæðist ávallt svörtu og hefur gjarnan verið uppnefndur sem leðurblaka vegna svörtu skikkjana. Snape var óvinur James Potter (föðurs Harry) og var svo sannarlega ekki góður við Harry þegar Harry fór í Hogwarts-skóla galdra og seiða. Snape í Hogwartsskóla. Snape kenndi töfradrykkjagerð á fyrstu fimm árum Harrys í Hogwartsskóla. En á sjötta ári Harrys var hann settur í stöðu kennara í vörnum gegn myrkru öflunum en Horace Slughorn prófessor kom í hanns stað sem töfradrykkjakennari. Þegar Harry átti að vera á sjöunda árinu sínu í Hogwartsskóla en hætti þar og byrjaði að leita að helkrossum til að drepa Voldemort var Snape gerður skólameistari skólans og Alecto og Amycus Carrow komu í stöðu kennara í vörnum gegn yrkru öflunum og muggafræði. Þótt að Snape hafi virðst vera djöfullinn í holdi klæddur hefur hann verndað Harry öll árin hans í Hogwarts vegna sektarkenndar og eftirsjár eftir að hafa leitt Voldemort að heimili Lily Evans sem hann elskaði síðan að hann leit hana fyrst augum. Einnig hefur hann njósnað fyrir Albus Dumbledore um aðgerðir Voldemorts síðan að Potter hjónin voru myrt. Jafnvel þótt Snape hafi drepið Dumbledore var það vegna skipunar Dumbledore eftir að Dumbledore komst að því að hann ætti aðeins nokkra mánuði eftir ólifaða. Draco Malfoy hafði fengið óvænta skipun frá Voldemort um að drepa Dumbledore og Dumbledore vildi hlífa sálu Draco við slíku ódæði og skipaði því Snape að myrða sig í stað Draco. Þetta vissi Dumbledore að myndi veita Snape ákveðið traust hjá Voldemort sem hafði byrjað að efast um þjón sinn síðustu ár. Dauði. Í lok sjöundu bókar er Snape svo drepinn af snáknum Nagini, eftir skipun Voldemorts, vegna þess að Voldemort vildi komast yfir hinn gríðarlega kröftuga sprota Dumbledores, Yllisprotann, sem var talinn öfugasti sproti sem geður hefur verið, en taldi að hann gæti ekki notið galdramáttar sprotans fyllilega vegna Snapes, því hann varð sannur húsbóndi sprotans með því að drepa fyrrverandi eiganda hans, eða svo taldi Voldemort. Seinna í sögunni kemur hins vegar í ljós að þar sem Draco Malfoy afvopnaði Dumbledore áður en Snape drap hann, varð Malfoy húsbóndi sprotans. Í "Harry Potter og blendingsprinsinn" segir hann Harry og félögum að hann sé blendingsprinsinn en þau komust að blendingsprinsinum þegar Harry fékk lánaða bók sem var eign Snapes. Æskuárin. Snape var blendingur, átti muggaföður (Tobias Snape) of norn sem móður (Eleen Prince). Pabbi hans og mamma hafa verið mjög óhamingjusöm hjón síðan mamma Snapes sagði pappa hans að hún væri norn. Tobias Snape tók því mjög illa og talaði aðeins við konuna sína í rifrildum. Snape var svo got sem munaðarleysingi því að mamma hans og pabbi voru alltaf að rífast og töluðu bara við hann í máltíðum. Snape átti hræðilega barnæsku enn fann sér heimili í Hogwartsskóla. Þegar Snape var á sínum yngri árum átti hann hema á Spunaslóð í Englandi, götunni sem var við hliðina á götunni sem Lily og Petunia Evans áttu heima. Snape var mjög hrifinn af Lily en þoldi ekki Petuniu. En það var á leikvelli nálægt húsinu hans þar sem hann hitti Lily Evans í fyrsta skipti og síðan þá hafði hann elskað hana til dauðadags. Verndari Snapes var alla tíð hind, því hann elskaði Lily Evans svo ákaflega heitt en verndari hennar var einnig hind. Carl Christian Rafn. Carl Christian Rafn (16. janúar 1795 – 20. október 1864) var danskur fornfræðingur og útgefandi fræðirita. Hann átti stóran þátt í að draga athygli umheimsins að íslenskum fornbókmenntum og sögu Norðurlanda á fyrri tíð. M.a. kom hann rækilega á framfæri þeirri vitneskju að norrænir menn hefðu fundið Ameríku löngu á undan Kólumbusi. C. C. Rafn var meðal stofnenda Fornfræðafélagsins, átti sæti í Árnanefnd ("Den Arnamagnæanske Kommission") og Fornminjanefndinni ("Oldsagskommissionen"). Æviágrip. Carl Christian Rafn fæddist 1795 á Brahesborg á Fjóni. Faðir hans, Christian Rafn, rak mjólkurbú; móðir hans hét Christiane, fædd Kiølbye. Hann brautskráðist frá dómkirkjuskólanum í Óðinsvéum 1814 og hóf nám í Kaupmannahafnarháskóla. Þar komu skarpar námsgáfur hans í ljós, og eftir aðeins 1½ árs nám lauk hann embættisprófi í lögfræði með góðri einkunn, og einnig prófi sem liðsforingi (1816). Eftir að hafa gegnt herþjónustu á Fjóni varð hann, 1820, kennari í latínu og málfræði við landherskóla í Kaupmannahöfn. Þessar greinar voru þó ekki aðal áhugamál Rafns. Strax á skólaárunum hafði hann lagt stund á íslensku, líkt og „sveitungi“ hans Rasmus Kristján Rask. Árið 1818 stofnaði Rafn stiftsbókasafn í Reykjavík (nú Landsbókasafn Íslands); árið 1827 átti hann þátt í að stofna svipað safn í Þórshöfn í Færeyjum (Føroya landsbókasavn), og 1829 annað í Nuuk á Grænlandi (Nunatta Atuagaateqarfia); loks stofnaði hann herbókasafn og lestrarfélag í Óðinsvéum. Á árunum 1821–1823 var Rafn aðstoðarmaður við Árnasafn og varð þar handgenginn íslenskum handritum. Hóf hann þar útgáfu á Fornaldar sögum ("Nordiske Kæmpehistorier (eller mythiske og romantiske Sagaer), efter islandske Haandskrifter fordanskede", 3 bindi, 1821-1826), en vildi um leið virkja fleiri menn við slíka útgáfu. Í því skyni tók hann höndum saman við nokkra unga Íslendinga um að stofna félag til að gefa út og kynna íslensk fornrit. Fyrsta verkefni félagsins var að gefa út Fornmanna sögur, og var árið 1824 til kynningar dreift sýnishorni eða bráðabirgðaútgáfu af "Jómsvíkinga sögu" á frummálinu, íslensku. Tókst að afla fjölda áskrifenda, m.a. um 1000 á Íslandi. Einnig þýddi Rafn söguna á dönsku og gaf hana út 1824. Hið konunglega norræna fornfræðafélag var svo stofnað á afmælisdegi konungs, 28. janúar 1825, með það að markmiði að gefa út og rannsaka íslensk fornrit, og varpa ljósi á tungumál, minjar og sögu Norðurlanda að fornu, og efla þannig áhuga á fortíð föðurlandsins. Fyrsti formaður félagsins var Rasmus Rask. Hinn 9. maí 1828 fékk félagið nafnbótina „konunglegt“, og um leið varð Josef Abrahamson formaður félagsins, en hann hafði náin tengsl við konunginn, Friðrik 6. Frá 1829 fékk félagið árlegt 600 kr. framlag frá danska ríkinu. Rafn var frá upphafi ritari félagsins, og lagði brátt svo mikla vinnu í það starf að hann hætti kennslu 1826; um leið varð hann prófessor að nafnbót. Mikil starfsorka hans og næmt auga fyrir fjármálum og rekstri fengu hér tækifæri til að blómstra, einkum þar sem félagsmönnum fjölgaði hratt og fjárframlög jukust að sama skapi. Félagið náði að teygja anga sína um allan heim, sem engin dæmi voru um áður. Rafn sá um umfangsmiklar bréfaskriftir, ávaxtaði fjármuni félagsins, þýddi og gaf út rit, ritstýrði tímaritum félagsins og kom stöðugt á nýjum samböndum og fjárhagslegum bakhjörlum. Með framlögum einstaklinga og félaga var stofnaður fastur sjóður til að gefa út íslensk handrit og efla rannsóknir á fornöld Norðurlanda. Árið 1846 var sjóðurinn orðinn 92.000 kr. og þegar Rafn féll frá, 170.000 kr., sem var mikið fé. Rafn átti verulegan þátt í umfangsmiklu útgáfustarfi Fornfræðafélagsins. Hann tók þátt í útgáfunni á "Fornmanna sögum" (12 bindi, 1825-1837) og þýddi a.m.k. fyrstu þrjú bindin á dönsku. Hann gaf út "Fornaldarsögur Norðurlanda", 1-3 (1829-1830) og þýddi þær á dönsku: "Nordiske Fortidssagaer", 1-3 (1829-1830). Það vakti mikla athygli erlendis, einkum í Ameríku, þegar hið mikla og glæsilega verk, "Antiqvitates Americanæ", kom út 1837. Þar var safnað saman öllum fornum heimildum um ferðir norrænna manna til Ameríku, og þeim fylgt úr hlaði með ítarlegum ritgerðum, skýringum og fallegum ritsýnum úr handritunum. Samsvarandi verk, sem einnig vakti mikla athygli, var "Antiquités Russes, d'aprés les monuments historiques des Islandais et des anciens Scandinaves" (2 bindi, 1850-1858). Þá tók Rafn einhvern þátt í útgáfunni á hinu gagnlega ritsafni, "Grønlands historiske Mindesmærker" (3 bindi, 1838-1845), þó að Finnur Magnússon hafi átt þar mestan þátt. Einnig má nefna "Oldtidsminder fra Østen; Antiquités de l'Orient" (1856). Almennt er viðurkennt að þessi verk áttu mikinn þátt í að beina athygli umheimsins að sögu og bókmenntum Norðurlanda að fornu. Árið 1830 var Rafn skipaður í Fornminjanefndina ("Den kongelige Kommission for Oldsagers Opbevaring"), og sá þar öran vöxt forngripasafnsins, undir stjórn Christian Jürgensen Thomsen. Nefndin hafði gefið út "Antiqvariske Annaler", en þeirri útgáfu lauk 1827. Nú vantaði vettvang eða málgagn fyrir fornleifarannsóknir í Danaveldi. Rafn beitti sér þá fyrir því að Fornfræðafélagið víkkaði út verksvið sitt og sinnti einnig rannsóknum á dönskum forngripum og söguminjum. Félagið hóf þá útgáfu á nýju tímariti, "Nordisk Tidsskrift for Oldkyndighed" (1832-1836), og í framhaldi af því "Annaler for nordisk Oldkyndighed og Historie" (1836-1863) og "Antiquarisk Tidsskrift" (1843-1863). Til kynningar erlendis voru mikilvægustu greinarnar þýddar og birtar í "Mémoires de la Société des Antiquaires du Nord" (1836-1860). Rafn stofnaði sögulegt og fornleifafræðilegt bóka- og skjalasafn við "Oldnordisk Museum". Einnig ameríska deild með forngripum og þjóðfræðilegu efni. Með starfi sínu náði Rafn að koma á nánu samstarfi vísindamanna víðs vegar að úr heiminum, sem varð einnig til þess að erlend fræðirit (og þekking) urðu aðgengileg dönskum fræðimönnum og bókasöfnum. Með ferðum til útlanda og óþreytandi bréfaskriftum náði hann persónulegu sambandi við marga erlenda vísinda- og safnamenn. Árið 1830 var Rafn skipaður í Árnanefnd ("Kommissionen for den Arnamagnæanske Stiftelse"), 1836 varð hann félagi í Det kongelige danske Selskab for Fædrelandets Historie, 1861 kaus Fornfræðafélagið hann ritara til lífstíðar; 1859 varð hann konferensráð. Erlendis hlaut hann margvíslegan sóma, hann varð heiðursdoktor í sagnfræði og lögfræði, og félagi í fjölda erlendra vísindafélaga og stofnana. Rafn andaðist 20. október 1864, 69 ára gamall. Hann giftist, 1826, Johanne Catharine Kiølbye, dóttur Christians Kiølbye tollvarðar; hún dó 17. maí 1878. Fornfræðafélagið lét setja minningarstein úr graníti á leiði hans í Assistents kirkjugarði í Kaupmannahöfn. Steinninn var í fornum stíl með rúnaáletrun. Tímarit (ritstjórn). Sjá einnig: Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie Tenglar. Rafn, Carl Christian Rafn, Carl Christian Rafn, Carl Christian Sean Kingston. Kisean Anderson (fæddur 3. febrúar 1990), þekktastur undir listamannsnafninu Sean Kingston er jamaísk-bandarískur tónlistarmaður. Saga. Sean Kingston er fæddur í Bandaríkjunum en ólst upp í Kingston, höfuðborg Jamaíku. Tónlistarmaðurinn Buju Banton, fjölskylduvinur, leiðbeindi Kingston um tónlistariðnaðinn. Sumarið 2005 gaf hann út lagið „Beautiful girls“. Bassalína lagsins er út laginu „Stand by me“ sem Ben E. King gaf út árið 1961. Lagið komst í efsta sæti bandaríska Billboard-vinsældalistann og einnig breska smáskífulistann. Jafnframt gaf hann út lagið „Me love“ sem er byggt á lagi Led Zeppelin, „D'yer mak'er“ (af "Houses of the Holy"). Me love komst í efstu sæti ástralska og kanadíska vinsældarlistanna. Í október 2007 var Sean Kingston upphitunaratriði á tónleikum Gwen Stefani í tónleikaferð hennar. Margrét Lára Viðarsdóttir. Margrét Lára Viðarsdóttir (f. 25. júlí 1986) er íslensk knattspyrnukona, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún leikur nú með Kristianstads DFF. Hún hlaut útnefningu Samtaka íþróttafréttamanna sem Íþróttamaður ársins 2007. Þágufallssýki. Þágufallssýki eða þágufallshneigð – (eða méranir sem hlýst af því að nota persónufornafnið "mér" í stað "mig") – nefnist sú tilhneiging í íslensku að hafa orð í þágufalli sem á að vera í öðru falli samkvæmt íslenskum beygingahefðum. Sagnir sem taka með sér nefnifall eða þolfall eiga því samkvæmt málhefðinni ekki að stýra þágufalli. Uppruni. Orðið "þágufallssýki" kemur fyrst fyrir í grein eftir Helga Pjeturss í Vísi 1929: „Hvergi hefi eg séð minst á ískyggilega málspillingu, sem er þó orðin svo mögnuð að hún gerir vart við sig hjá vel ritfærum mönnum. Málspillingu þessa mætti kalla þágufallssýki (dativitis), því að hún lýsir sér þannig, að menn nota mjög þágufall orða þar sem á að vera þolfall.“ Nútíma málfræðingar kjósa þó fremur að nota orðið þágufallshneigð, þar sem það er ekki eins gildishlaðið og þágufallssýki. „Um hina hvimleiðu „þágufallssýki“ er það að segja, að hún mun ekki vera sér-vestfirzkt fyrirbæri. Þegar ég var að alast upp notuðu Vestfirðingar ekki þágufall ranglega svo að ég muni, nema í tveim samböndum. Þeir sögðu: „Ég þori því ekki,“ og „ég vil taka því fram.“ Þágufallssýkinni kynntist ég fyrst á Suðurlandi, en nú er hún víst orðin eins og landafjandi um allar byggðir og þorpagrundir, og mér dreymir og henni langar jafnt í dagblöðunum eins og á götum Reykjavíkur, Ísafjarðar og Siglufjarðar.“ Útbreiðsla þágufallshneigðar á Íslandi. Þágufallshneigð er útbreidd meðal Íslendinga og hafa nær öll 11 ára börn á Íslandi einhverja þágufallshneigð, eða um 90%. Hún er samt fátíðari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, en algengust mældist hún á Austfjörðum samkvæmt könnun sem gerð var haustið 2001. Í þeirri könnun var úrtakshópurinn um 900 ellefu ára börn um land allt. Þetta er aukning samanborið við síðustu tvo áratugi. Ástæðan fyrir því að minna er um þágufallshneigð á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu kann að vera sú að þar er menntunarstig hærra en úti á landi en könnunin leiddi í ljós fylgni á milli þágufallshneigðar og menntunar móður. Aðeins 14,9% ellefu ára barna sögðu „ég hlakka til“, en alls notuðu um 41,4% barnanna þolfall með sögninni og sögðu „mig hlakkar til“. Nokkru fleiri, eða um 43,2%, notuðu þágufall og sögðu „mér hlakkar til“. Lúdó og Stefán - Lúdó og Stefán 1977. Lúdó og Stefán - Lúdó og Stefán 1977 er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni syngur Lúdó og Stefán dægurlög. Jón Sigurðsson útsetti og stjórnaði hljóðfæraleik við hljóðritun. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður var Sigurður Árnason, sem jafnframt annaðist hljóðblöndun ásamt Lúdó og Stefáni. Hljómsveitina skipa: Elfar Berg, píanó; Hans Kragh, trommur. Berti Möller, bassi, gítar, söngur. Stefán Jónsson syngur. Auk þess leikur Þorleifur Gíslason allar saxófónsólóar og blásturs- og strengja-hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands aðstoða í allmörgum lögum. Jón Sigurbjörnsson - Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenska höfunda. Jón Sigurbjörnsson - Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenska höfunda er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni syngur Jón Sigurbjörnsson íslensk sönglög. Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari annast undirleik. Stuðull (stærðfræði). Stuðull er í stærðfræði föst tala, sem er margfeldi breytu í stæðu, runum, röðum og jöfnum. Stuðull er aldrei háður liðvísum né breytum. þar sem tölurnar "a" eru stuðlar, en "x" eru breytur. Innan eðlisfræði er einnig talað um stuðla, en þá er jafnan átt við eðlisfræðilegan fasta. Stuðlar eru einnig notaðir í efnafræði til að stilla efnajöfnur. Logri. Aðferðin við að finna logra, með grunn "a", tölunnar "x" er jafngilt því að finna hvert veldi tölunnar "a" þarf að vera til að fá út "x". "Náttúrlegur logri", táknað með "ln", er reiknaður með grunntölunni "e" en "tugalogri" (venjulegur lygri), með grunntölunni 10. Margfeldi, kvóti, veldi og rót. Logri af margfeldi er jafn summu logra þeirra talna sem eru margfaldaðar saman, logri kvóta er jafn mismuni logra deilistofns kvótans og logra deili kvótans, logri af "n"-ta veldi tölu er "n" margfaldað með logra tölunnar sjálfrar og logri "n"-tu rótar tölu er logri tölunnar deilt með "n", eftirfarandi gildir fyrir allar tegundir lografalla. Eiginleikar lograns. Aðeins er hægt að taka logra af jákvæðri tölu því grunnur lograns er alltaf jákvæð tala og sama í hvaða veldi þú setur jákvæða tölu, aldrei er hægt að fá neikvæða tölu út. Áður en tölvur komu til var logri með grunntölu "a" reiknaður með því að leggja saman óendanlegar raðir með ákveðinni nákvæmni. Þetta gerði reikning með logra afskaplega langann og leiðinlegan svo brugðið var á það ráð að búa til langar töflur sem innihéldu útreiknuð gildi fyrir algengustu grunntölurnar. Vegna reiknireglna 1 og 3 hér að ofan þurfti aðeins að reikna þannig töflur upp að fyrsta tugi. Tökum dæmi: til að reikna út log(123) var það skrifað sem þar sem log10(100) = 2 og því þurfti aðeins að leita eftir log10(1.23) í töflunni. Silfurkórinn - Hvít jól. Silfurkórinn - Hvít jól er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni syngur Silfurkórinn syrpur af jólalögum. Ögur. Ögur er stórbýli og kirkjustaður í Ögurvík í Ísafjarðardjúpi. Þar var þingstaður Ögurhrepps og frá 15. til 17. aldar bjó þar hvert stórmennið á fætur öðru. Má þar helst nefna Björn Guðnason sýslumann, Magnús Jónsson (prúða) sýslumann og síðar Ara son hans, Björn Markússon og Erlend Ólafsson málafylgjumann. Fyrsta rafstöð á sveitaheimili við Djúp var reist í Ögri 1928. Í Ögurnesi var verstöð og þurrabúðir héldust þar allt fram á 20. öld. Þá var þar lengi landssíma- og póstafgreiðsla, sem og læknissetur frá 1932 til 1951. Þar er einnig Ögurkirkja reist 1859. Jónas Þórir - Sveitin milli sanda. Jónas Þórir - Sveitin milli sanda er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni leikur Jónas Þórir íslensk dægurlög. Jónas Þórir leikur á Baldwin-orgel, Baldwin syntha-sound og Yamaha flygil. Kristján Þórarinsson leikur á rafmagns- og kassagítara. Guðjón B. Hilmarsson leikur á trommur. Sigurður Árnason leikur á rafmagnsbassa í "Gvendur á eyrinni". Jónas Þórir Dagbjartsson leikur á fiðlu í "Stúlkan mín" og "Ég leitaði blárra blóma". Upptakan fór fram hjá Tóntækni h.f. síðari hluta ársins 1977. Upptöku annaðist Sigurður Árnason. Ljósmynd á framhlið: Jóhannes Long Dilkur. Dilkur er lamb (þá dilklamb) og jafnvel folald eða kálfur sem sýgur móður sína, en dilkur er þó langsamlega oftast haft um dilklamb, það er lamb að hausti. Merkingar. Móðir dilka er oft nefnd "dilksuga" þar sem hún er sogin af dilk. Orðsifjar. Orðið „dilkur“ er gamalt í málinu og merkti það upprunalega ungviði búfjár (og ekki skipti máli hvort um var að ræða afkvæmi sauðfjár, hrossa, svína eða nautgripa) sem gengur með móður sinni og á orðsifjafræði orðsins „dilkur“ á rætur sínar að rekja til latínu. Margar samsvaranir eru til í gannmálum og hin ævaforna rót "di-" sem fyrirfinnst í orðinu "dilkur" geymir merkinguna „að sjúga“; samanber danska orðið "die", sænska orðið "dia" (að vera á brjósti). Orðið er skylt latnesku sögninni "felare" (sem þýðir að „sjúga“), "femina" (sem þýðir „kona“) og einkum orðinu "filius" og "filia" (sem þýða „sonur“ og „dóttir“ í þessari röð) eða eiginlega brjóstmylkingar. Veldisfall. Veldisfall eða vísisfall er fall, þar sem breytistærðin kemur fyrir sem veldi grunntölu. Skilgreining. sem sýnir að veldisfallið er andhverfa lograns. Tvinntölur. Sérhverja tvinntölu "z" má rita með sniðinu: "z" = "r e' i φ", þar sem "r" táknar lengdina, "i" er þvereining en "φ" er hornið sem "z" myndar við raunás. Ungmennafélagið Hvöt (Grímsnesi). Ungmennafélagið Hvöt í Grímsnesi var stofnað 22. desember 1907. Það er aðildarfélag að Héraðssambandinu Skarphéðni á Suðurlandi og jafnframt elsta félag þess. Fyrsti formaður félagsins var Páll Bjarnason en í stjórninni voru einnig þeir Björgvin Magnússon frá Klausturhólum (ritari) og Jón Gunnlaugsson frá Kiðjabergi (gjaldkeri). Bjarni Björnsson. Bjarni Björnsson (5. maí 1890 – 26. febrúar 1942) var íslenskur leikari sem starfaði með Leikfélagi Reykjavíkur, lék á sviði í Kaupmannahöfn, í Íslendingabyggðum í vesturheimi og í kvikmyndum í Hollywood. Hann var fyrsti íslenski kvikmyndaleikarinn og fyrsti leikarinn sem gerði leiklistina að ævistarfi. Bernskuár. Bjarni fæddist að Álftatungu á Mýrum. Þegar hann var þriggja ára gamall brá faðir hans búi og fluttist vestur um haf ásamt konu sinni og þremur elstu börnum þeirra hjóna. Móðurbróðir Bjarna, Markús Bjarnason, skólastjóri Stýrimannaskólans, tók Bjarna í fóstur og ólst hann upp á heimili Markúsar til fimmtán ára aldurs. Þá siglid hann til Kaupmannahafnar til náms á málaraskóla. Stúdentaárin í Kaupmannahöfn. Bjarni hafði ekki verið lengi í Kaupmannahöfn þegar hann komst í félag við unga danska leikara sem héldu leiksýningar upp á eigin spýtur í stóra salnum á "Hotel Kongen av Danmark". Gerðist Bjarni leikari með þeim, og lék einnig í stúdenta-revíum og nokkur smáhlutverk í Dagmar-leikhúsinu. Í Reykjavík. Bjarni kom aftur heim árið 1910 og fékk þá nokkurn starfa hjá Leikfélagi Reykjavíkur, lék m.a. Bergkónginn í Systrunum á Kinnarhvoli og Sherlock Holmes í samnefndu leikriti. Hann hafði brennandi áhuga á leiklist og vildi gera hana að ævistarfi, en þess var þá enginn kostur eins og á stóð. Þá tók hann það ráð að halda skemmtanir fyrir eigin reikning og skemmti hann þar með eftirhermum og gamanvísum, en fyrir þessar skemmtanir sínar varð hann þjóðfrægur maður. Var framkoma hans ávallt prúðmannleg og skop hans um náungann græskulaust. Nordisk Film. Eftir tveggja ára dvöl heima réðst Bjarni enn til utanferðar og gekk hann nú í þjónustu Nordisk film sem þá var starfandi í Kaupmannahöfn og helsta kvikmyndafélag Norðurlanda. Þessar myndir voru sýndar hér á landi og þótti það talsverður viðburður þegar fyrsti íslenski kvikmyndaleikarinn sást á hvíta tjaldinu. Ameríka. Þegar ófriðurinn skall á 1914 varð Nordisk film að hætta störfum og hvarf Bjarni þá heim aftur, en hafði skamma viðdvöl. Lagði hann nú leið sína til Ameríku, þar sem kvikmyndaiðnaðurinn stóð með miklum blóma á ófriðarárunum. Þar dvaldist hann í þrettán ár og vann þar ýmist að málarastörfum eða sem kvikmyndaleikari hjá ýmsum félögum. Skemmtanir hélt hann auk þess í byggðum Vestur-Íslendinga og þar lék hann ásamt frú Stefaníu Guðmundsdóttur leikonu, þegar hún fór leikför sína vestur um haf. Í Hollywood lék Bjarni t.d. Sendiherrann frá Montenegro í kvikmynd Erich von Stroheims: "The Wedding March" (1928). Alþingisárið kom Bjarni alkominn heim aftur. Þá voru talmyndirnar komnar til sögunnar og útlendingum sem unnu í kvikmyndaiðnaðinum var sagt upp í þúsundatali. Meðal þeirra var Bjarni, fyrsti íslenski kvikmyndaleikarinn og fyrsti íslendingurinn sem gerði leiklistina að ævistarfi sínu. Kominn til Reykjavíkur á ný. Síðustu árin lék Bjarni talsvert með Leikfélagi Reykjavíkur og þar lék hann sitt síðasta hlutverk, hreppstjórann í leikritinu Gullna hliðið. Eftir heimkomuna gekk Bjarni að eiga heitkonu sína, "Torfhildi Dalhoff", eða árið 1930. Eignuðust þau hjón tvær dætur, Katrínu og Björgu. Ungmennafélagið Hvöt (Tungusveit). Ungmennafélagið Hvöt er ungmennafélag í Tungusveit. Það gaf út blaðið "Hvöt" á árunum 1931 til 1944 en lestrarfundir héldust allt til ársins 1956. Edwin Hubble. Edwin Hubble (20. nóvember 1889 – 28. september 1953) var bandarískur stjörnufræðingur. Hubble-geimsjónaukinn er nefndur eftir honum. Tenglar. Hubble, Edwin E (stærðfræðilegur fasti). "e" er í stærðfræði mikilvægur torræður fasti og grunntala náttúrlega lograns. Er stundum nefndur Eulersfasti til heiðurs Leonhard Euler. Reikna má gildi fastans með veldaröðinni sem með 20 aukastöfum er: 2,71828 18284 59045 23536... Tvinntölur og samsemd Eulers. "e" er merkilegt fyrir tvinntölur því að veldi við veldisstofn "e" og þvertala fyrir veldisvísin liggja á einingahringi tvinnsléttun, hringurinn með geisla 1 sem rennur um 1, i, -1, og -i. Grunntala. Grunntala eða stofn er sú tala, sem hafin er í veldi, t.d. ef talan "a" er grunntala og "n" veldisvísir þá er það ritað "a n". Talnakerfi nota ákveðna grunntölu, t.d. er talan 10 grunntala tugakerfis, en 2 er grunntala tvíundarkerfis. Eulersfasti, "e" er grunntala veldisfallsins og náttúrlega lograns. Henri Vernes. Charles-Henri Dewisme, best þekktur undir höfundarnafninu Henri Vernes (f. 16. október 1918) er belgískur rithöfundur sem hefur skrifað fjöldann allan af vísindaskáldsögum og ævintýrabókum. Hann hefur einnig skrifað sögur fyrir myndasögur og teiknimyndir. Hann er þekktastur fyrir bækurnar um Bob Moran. Vernes, Henri Rasmus Kristján Rask. Rasmus Kristján Rask eða Rasmus Christian Rask (22. nóvember 1787 – 14. nóvember 1832) var danskur málfræðingur, einn af fremstu málvísindamönnum 19. aldar. Hann fæddist í Brændekilde á Fjóni og dó í Kaupmannahöfn. Líklega eru fá dæmi um að erlendur maður hafi haft jafn mikla þýðingu fyrir mál og menningu annarrar þjóðar eins og Rasmus Kristján Rask fyrir Íslendinga. Æviágrip. Foreldrar Rasks voru fremur fátækir en komu honum þó í Lærða skólann í Óðinsvéum, þar sem hann fyrir tilviljun komst í kynni við íslensku. Fljótt komu í ljós óvenjulegir hæfileikar hans á sviði tungumála, sem vöktu athygli kennara hans. Eftir að hann hafði fengið í verðlaun hina glæsilegu Heimskringluútgáfu Gerhards Schönings, sem var með danskri og latneskri þýðingu, sökkti hann sér niður í hana og útbjó handa sjálfum sér íslenska málfræði og íslensk-danska orðabók. Þó að Rask rannsakaði um ævina tugi tungumála, stóð íslenskan ávallt hjarta hans næst, ekki aðeins vegna málvísindalegs gildis, heldur fannst honum hin íslensku rit blása sér í brjóst karlmennsku og stórhug. Hann hóf nám í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla, 1807, en sinnti því lítið, því að tungumálin áttu hug hans allan. Rask bjó löngum við fremur kröpp kjör, en átti einnig góða stuðningsmenn sem gerðu sér grein fyrir hæfileikum hans, t.d. Rasmus Nyerup. Árið 1811 birti Rask "Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske Sprog", sem vakti mikla athygli fyrir nýstárlega sýn á málfræði. Forráðamenn Árnasafns í Kaupmannahöfn fengu augastað á þessum unga manni, og réðu hann til að búa til prentunar orðabók Björns Halldórssonar, "Lexicon Islandico-Latino-Danicum" (þ.e. íslensk orðabók með latneskum og dönskum þýðingum) (1814). Ferð til Íslands. Sumarið 1813 rættist sá draumur Rasks að heimsækja Ísland, og þar dvaldist hann árin 1813–1815. Náði hann þar fullkomnum tökum á íslensku og kynnti sér bókmenntir og þjóðlíf landsmanna. Þar lauk hann við höfuðrit sitt, "Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse", sem sent var til Kaupmannahafnar 1814, sem framlag í verðlaunasamkeppni Vísindafélagsins danska. Það kom út í Kaupmannahöfn 1818, og í endurskoðaðri gerð í Stokkhólmi sama ár. Segja má að þetta rit hafi lagt grunninn að nútíma samanburðarmálfræði. Eldri málfræðingar höfðu dregið ályktanir um skyldleika tungumála út frá einstökum orðum, sem svipaði saman. Rask benti á að þetta væru oft tökuorð, og segðu því ekkert um uppruna tungumálsins. Í staðinn bar hann saman málfræðilegar hliðstæður, og sýndi t.d. fram á germönsku hljóðfærsluna, (t.d. latína: "homo" > íslenska: "gumi"). Hún er stundum kölluð lögmál Rasks og Grimms, eftir Rask og Þjóðverjanum Jacob Grimm, sem fjallaði um hana á prenti 1822. Í Íslandsförinni sannfærðist Rask um að hamla þyrfti gegn dönskum áhrifum á íslenska tungu og efla íslenskt menningarlíf. Eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar beitti hann sér fyrir því að Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað (1816), og varð hann fyrsti forseti þess. Hnattreisa. Í október 1816 lagði Rask af stað í málfræðilega og bókmenntalega rannsóknarferð, með stuðningi konungs og fleiri aðila. Var ætlunin að hann kynnti sér austurlandamál, til þess að fá betri hugmyndir um uppruna norrænna mála. Einnig átti hann að safna handritum fyrir bókasöfnin í Kaupmannahöfn. Rask fór fyrst til Stokkhólms, þar sem hann var tæp tvö ár, hélt fyrirlestra um íslenska tungu og gaf út nokkur rit, m.a. sænska útgáfu af höfuðriti sínu, einnig Sæmundar-Eddu og Snorra-Eddu á frummálinu, og "Angelsaksisk sproglære" (1818). Frá Stokkhólmi hélt hann til Finnlands, og áfram til Pétursborgar (1819). Frá Rússlandi lagði hann upp í austurlandaferðina, fór til Persíu og var um tíma í Tabriz, Teheran, Persepolis og Shiraz. Á sex vikum tókst honum að ná þeim tökum á persnesku að hann gat talað hana auðveldlega. Árið 1820 fór hann til Bombay (Mumbai) á Indlandi, og skrifaði þar grein: „A Dissertation on the Authenticity of the Zend Language“ ("Trans. Lit. Soc. of Bombay", vol. iii). Frá Bombay hélt hann um Kalkútta (Kolkata), Madras (Chennai) og dönsku nýlenduna Trankebar (Tharangambadi), til Ceylon (nú Srí Lanka). Þar skrifaði hann ritgerðina: „A Dissertation respecting the best Method of expressing the Sounds of the Indian Languages in European Characters“ í "Transactions of the Literary and Agricultural Society of Colombo". Einnig "Singalesisk skriftlære", (Colombo 1821). Rask sneri aftur til Kaupmannahafnar í maí 1823, og hafði með sér fjölda austurlenskra handrita, á persnesku, palí, singalesísku og fleiri tungumálum, sem afhent voru Konungsbókhlöðu og Háskólabókasafni. Rannsóknir á síðari árum hafa sýnt að þessi handrit eru valin af mikilli þekkingu. Árið 1822 hafði Rask náð góðum tökum á 25 tungumálum og mállýskum, og er sagður hafa rannsakað að einhverju marki annan eins fjölda. Endurkoman heim. Austurlandaferðin reyndist Rask erfið, og kom hann þaðan fársjúkur maður. Hann náði sér þó að nokkru og birti á næstu árum allmörg rit, sem jafnast þó ekki á við hans fyrri verk. Meðal þeirra eru: "Spænsk málfræði" (1824), "Frísnesk málfræði" (1825) o.fl. Hann hafði einnig hönd í bagga með enskri þýðingu á riti sínu, "Anglo-Saxon Grammar", sem Benjamin Thorpe sá um (1830). Árið 1825 tók Rask þátt í að stofna Hið konunglega norræna fornfræðafélag og var formaður þess fyrstu þrjú árin. Dróst hann þar inn í deilur við Íslendinga, 1831, sem lögðust þungt á hann, enda var heilsu hans þá farið að hraka. Rask dó 14. nóvember 1832. Legsteinn. "Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur en týn þó eigi að heldur þinni tungu." Tenglar. Rask, Rasmus Kristján Rask, Rasmus Kristján Rask, Rasmus Kristján Vínlandskortið. Vínlandskortið er landakort sem fannst árið 1957. Kortið er um 35 cm á breidd og 48 cm á hæð og er það skrifað á bókfell, sem talið er fullvíst að sé frá 15. öld. Kortið sjálft er hins vegar talið falsað af sumum sérfræðingum m.a. vegna rannsókna á efnainnihaldi bleksins. Vínlandskortið fannst bundið inn í handritið "Historia Tartarorum" um sögu Tartara. Það handrit er talið ófalsað og fjallar um sögu og siði Mongóla og virðist vera eldri útgáfa af minningum ítalans Giovanni da Pian del Carpine. Carpine skrifaði seinna aðra lengri sögu af ferðum sínum. Vínlandskortið fannst árið 1957 (þremur árum áður en minjar um norræna menn fundust í L'Anse aux Meadows) og var boðið Yale háskólanum til kaups, en háskólinn hafði ekki bolmagn til kaupanna. Paul Mellon keypti þá kortið og ánafnaði til Yale eftir að tveir safnstjórar við British Museum og einn bókasafnsfræðingur við Yale höfðu úrskurðað um trúverðugleika þess. Rannsókn þeirra á kortinu varð að vera leynileg að ósk Mellons og höfðu þremenningarnir því ekki möguleika á að kalla til sérfræðinga. Laugardælakirkja. Laugardælakirkja er kirkja að Laugardælum í Hraungerðishreppi (nú Flóahreppi). Hún var vígð 1965. Kirkjan er steinsteypt og alls 300 fermetrar að flatarmáli. Í henni er pípuorgel og kirkjubekkirnir rúma 70 manns í sæti. Bjarni Pálsson, byggingarfulltrúi á Selfossi,teiknaði kirkjuna, en hann teiknaði einnig Selfosskirkju. Sigfús Kristinsson byggingameistari sá um smíði kirkjunnar. Kaþólskar kirkjur að Laugardælum voru helgaðar Guði, Maríu mey og heilagri Agötu. Kirkjan tilheyrir Hraungerðisprestakalli. Kirkjan komst í fréttirnar í janúar 2008, þegar Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák, var jarðsettur þar í kyrrþey. Giorgos Seferis. Giorgos Seferis (gríska: "Γιώργος Σεφέρης") (13. mars 1900 – 20. september 1971) var grískt ljóðskáld sem starfaði einnig sem sendiherra Grikklands. Hann var sendiherra í Bretlandi á árunum 1957-1962. Árið 1963 hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Seferis, sem var dulnefni, var eilítil umbreyting á ættarnafni hans, "Seferiadis" ("Σεφεριάδης"). Tenglar. Seferis, Giorgos J. J. A. Worsaae. J. J. A. Worsaae – (eða Jens Jacob Asmussen Worsaae) – (14. mars 1821 – 15. ágúst 1885), danskur fornleifafræðingur, sagnfræðingur og safnamaður. Einn af fremstu fornleifafræðingum Dana. Æviágrip (brot). Hann fæddist í Vejle á Jótlandi, og fékk strax á ungaaldri áhuga á sögu og fornleifafræði. Worsaae vann mikinn vísindalegan sigur þegar hann, 23 ára, gekk á hólm við Finn Magnússon, einn þekktasta fornfræðing eldri kynslóðarinnar, og sýndi fram á að túlkun hans á „rúnum“, sem kenndar voru við Rúnamó í Blekinge í Svíþjóð, ætti ekki við rök að styðjast. „Risturnar“ í Rúnamó höfðu oft verið rannsakaðar, án árangurs. Loks hafði Finni Magnússyni tekist að lesa úr þeim vísu undir fornyrðislagi, og byggði hann verk sitt á teikningu sem jarðfræðingurinn Johan Georg Forchhammer hafði gert. Um þetta birti Finnur mikið rit: "Runamo og runerne" (1841), sem fjallar reyndar um margt fleira en Rúnamó. Worsaae fór nokkrar rannsóknarferðir á staðinn og lét gera nákvæmar teikningar af ristunum, sem voru gjörólíkar teikningunum sem Finnur hafði farið eftir. Þar með var ljóst að forsendan fyrir túlkun Finns var brostin, og risturnar augljós náttúrusmíð. Worsaae birti þessar niðurstöður í ritinu "Runamo og Braavalleslaget" (1844), sem er mjög læsilegt. Þrátt fyrir hina hörðu fræðilegu gagnrýni, tókst Worsaae að setja efnið fram með fullri virðingu fyrir hinum velmetnu fræðimönnum sem hann réðist á, auk þess sem efnið var svo vel fram sett að hann vann flesta strax á sitt band. Árið 2006 kom út aðgengilegt rit um þetta efni eftir Knud Kjems: "Runamo. Skriften der kom og gik". Hinn 22. desember 1847, þegar Worsaae var aðeins 26 ára, var honum falin umsjón með þjóðminjavörslunni í Danmörku. Þetta var ný staða við hliðina á Christian Jürgensen Thomsen, sem var forstöðumaður "Oldnordisk Museum". Worsaae var einnig skipaður í Fornminjanefndina, sem var reyndar lögð niður 1849, og eftir það höfðu þeir Thomsen og Worsaae umsjón með öllum fornminjum í Danmörku. Heimildir. Worsaae, Jens Jacob Asmussen Worsaae, Jens Jacob Asmussen Konungur ljónanna. "Konungur ljónanna" (enska: "The Lion King") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Pictures. Myndin var frumsýnd þann 24. júní 1994. Kvikmyndin var þrítugasta og önnur kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Roger Allers og Rob Minkoff. Framleiðandinn er Don Hahn. Handritshöfundar voru Irene Mecchi, Jonathan Roberts og Linda Woolverton. Tónlistin í myndinni er eftir Tim Rice og Elton John. Árið 1998 og 2004 voru gerðar framhaldsmyndir, "Konungur ljónanna 2" og "Konungur ljónanna 3", sem voru aðeins dreift á mynddiski. Skrudda (bókaútgáfa). Skrudda er bókaútgáfa, sem var stofnuð af Ívari Gissurarsyni og Steingrími Steinþórssyni árið 2003. Céline Dion. Céline Marie Claudette Dion (fædd 30. mars, 1968) er kanadísk söngkona, textahöfundur og leikkona. Hún fæddist í stórri fátækri fjölskyldu í Charlemagne í Quebec. Céline kom fram sem unglingastjarna í hinum frönskumælandi heimi eftir að umboðsmaðurinn hennar og framtíðar eiginmaður René Angélil veðsetti hús sitt til að fjármagna fyrstu plötu hennar. Saga. Árið 1990 gaf hún út á ensku plötuna "Unison". Hún kom sér á fót sem raunhæfur popp-listamaður í Norður Ameríku og öðrum enskumælandi svæðum í heiminum. Céline öðlaðist fyrst alþjóðlegra viðurkenningar á níundar áratugarins eftir að hún vann Yamaha World Popular Song Festival árið 1982 og eftir að hún vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1988. Eftir fjölda franskar platna snemma á níunda áratugarsins, gerði hún samning við Sony Records árið 1986. Með hjálp frá eiginmanninum sínum afrekaði hún velgengi á heimsvísu með nokkrum enskum og frönskum plötum, og hún endaði áratuginn sem einn frægasti listamaðurinn í popptónlist. En 1999, á toppi frægðarinnar, ákvað hún að eignast fjölskyldu og eyða tíma með eiginmanni sínum sem hafði greinst með krabbamein. Hún sneri aftur til tónlistarinnar 2002 og gerði 4 ára samning um að hún myndi koma fram á hverri nóttu í 5-stjörnu leikhúsi Colosseum á Caesars Palace í Las Vegas. Tónlist Celine hefur verið undir áhrifum úr ýmsum áttum frá poppi Soul og rokki til gospel og klassískar tónlistar, og þó að tónlist hennar hafi oft fengið misjafna dóma gagnrýnenda, þá hafa þeir alltaf lagt lof á kraftmikla rödd hennar og hrósað henni fyrir tæknilega beytingu hennar. 2004 eftir að plötusalan hefði farið í meira enn 175 milljónir, var hún viðstödd Choprad Diamond Award frá World Music Awards sýningu fyrir að vera söluhæsti kvennkyns listamaður í heiminum. Í Apríl 2007 tilkynnti Sony BMG það að Celine Dion hafði selt meira enn 200 milljónir platna á heimsvísu. Barnæska og fystu tónlistar skrefin. Frammistaða Celine á Yamaha World Popular Song Festival varð til þess að hún vann til gullverðlauna fyrir að vera topp söngvari. Hún er yngst 14 barna Adhémar Dion og Thérése Tanguay, Celine Dion var alin upp sem Rómverks kalþósk á bláfátæku, en að hennar eigin sögn, hamingjuríku heimili í Charlemange. Tónlist hafði alltaf verið hluti af fjölskyldulífinu þegar hún ólst upp syngjandi með syskinum sínum á píanó foreldranna sem var kallað ´Le Vieux Baril. Frá ungra aldri hafði Celine dreymt um að verða söngvari. Í viðtali við tímaritið People 1994 sagði hún " Ég sakna fjölskylu minnar og heimilsins míns, en ég sé ekki eftir unglingsárunum. Ég hafði einn draum: Ég vildi verða söngvari." Við 12 ára aldur, Celine vann með mömmu sinni og bróður sínum Jacques til að skrifa fyrsta sönginn "Ce n´était qu´un réve" (Þetta var aðeins draumur). Bróðir hennar Michel sendi upptökuna til tónlistarumboðsmannsins René Angélil, en nafn hans hafði hann séð á bakhlið Ginette Reno plötu. René táraðist þegar hann heyrði rödd Celine og ákvað að gera hana að stjörnu. Hann veðsetti heimilið sitt til að fjármagna fyrstu plötu hennar La Voix du bon Dieu (leikur að orðum " rödd Guðs/vegur til Guðs," 1981), Sem náði fyrsta sæti og gerði Celine stjörnu strax í Quebec. Vinsældir hennar breyddist út til aðra staði í heiminum þegar hún kláraði Yamaha World Popular Song Festival í Tokyo í Japan árið 1982 og vann tónlistarverðlaunin topp frammistaða og vann verðlaun fyrir besta sönginn með Tellement j´ai d´amour pour toi (Ég hef svo mikla ást til þín) 1983 auk þess að verða fyrsti kandíski listamaðurinn til að fá gullplötu í frakklandi fyrir lagið "D´amour ou d´amitié" (af ást eða af vináttu). Celine hafði einning unnið nokkur verðlaun hjá Félix Awards meðal annars fyrir bestu kvenkyns frammistöðuna og sem nýliði ársins. Hún náði enn frekari vinsældum í Evrópu, Asíu og Ástralíu þegar hún keppti fyrir hönd Sviss Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1988 með lagið "Ne partez pas sans moi" (Ekki fara án mín) og vann keppni í Dublin, Írlandi. Þó létu vinsældir í Bandaríkjunum á sér standa, að hluta til vegna þess hún var frönskumælandi listamaður. Við 18 ára aldur eftir að hafa séð frammistöðu Michael Jackson, Celine sagði við Réne að hún vildi verða stjarna eins og Micheal. Þrátt fyrir fullvissu hans á hæfileikum hennar Réne áttaði sig á að hennar ímynd þyrfti að breytast til þess að hann gæti markaðsett hana á heimsvísu. Celine þurfti að hverfa af sviðsljósinu í nokkra mánuði á meðan að hún færi í líkamlega yfirhamlingu og var send til École Berlitz School til að lagfæra ensku hennar árið 1989. Þetta markaði byrjunar á hennar enskumælandi tónlistarferil. Í samræmi við þátt á VH-1 Á Bakvið Tónlistina, hún lærði að tala ensku bara í 3 mánuði 1990-1992: Brotist til frægðar. Ári eftir að hún hafði lært ensku, Celine gerði sína frumraun inní enskumælandi markað með Unison 1990 hún naut hjálpar margar tónlistarmanna meðal annars voru Vito Luprano og kanadíski framleiðandinn David Foster Platan var að stórum hluta undir áhrifum níunda áratugar mjúku rokki og fann sem snöggvast sinn sess í fullorðnu auglýsingaútvarpi. Unison hitti á réttu strengina hjá gagngrýnandum Jim Faber hjá Entertainment Weekly sem skrifaði að rödd Celine væri "bragðmikil" og að hún hefði aldrei þurft að gera tilraun til "stíls sem var hjá henni." Stephen Erlewine hjá All Music Guide tilkynnti það að " sem fín fáguð Amerísk frumraun" Einstök lög frá plötunni meðal annars (If There Was) Any Other Way The Last To Know Unisonog Where Does My Heart Beat Now mið takts mjúks rokk ballöðu góð notkun af rafmagnsgítar Sem seinna var hennar fyrsta einstaka til að setja framm á U.S Billboard Hot 100 sem náði á númer 4 á listann. Platan staðfesti Celine sem rísandi stjörnu í Bandaríkjunum og um mið Evrópu og í Asíu. 1991 Celine var einnig einsöngvari í Voices That Care, Til heiður til Ameríska hermanna í Persaflóastríðinu. Celine raunverlegu alþjóðleg tímamótaskref komu þegar hún söng dúett með Peabo Bryson á tiltillaginu um Disney teiknimyndinni Fríða og Dýrið 1991 Söngurinn markaði tónlistarstíl sem Celine átti eftir að notfæra sér í frammtíðinni: umfangsmikil, klassískar áhrifar ballöðuar með mjúku hljóðfæranotkun. Sló í gegn hjá bæði gagngrýendum og auglýsingaútvarpi, Söngurinn náði í 2. sæti á bandaríska topp 10 listanum, og vann til Academy Award fyrir besta sönginn og Grammy-verðlaun fyrir besta popp frammistöðunna með dúett eða hljómsveit með raddir. "Fríða og Dýrið" varð seinna plata Celine 1992 sem var líkt og hennar frumraun með steka rokk áhrif í samblandi við soul og klassískar tónlist. Óborgaðar til velgegni sem byrjaði með einstökum lögum og samstarfi hennar við David og Diane Warren Platan var vel tekið eins og Unison. Önnur einstök lög sem afrekuðu hægfara velgegni voru meðal annars If You Asked Me To (Lag sem Patti LaBelle söng í myndinni Licence to Kill) sem náði á 4 sæti á U.S Billboard Hot 100 lagið með litblæ af gospel Love Can Move Mountains og Nothing Broken But My Heart Eins og með Celine að á snemma af útgáfunni, Platan hafði yfirtónað af ást. Flugmóðurskip. Fjögur flugmóðurskip frá síðari hluta 20. aldar. Flugmóðurskip er herskip sem er hannað fyrir flugtak og oftast einnig lendingu herflugvéla. Flugmóðurskip virkar þannig eins og fljótandi flugbraut og gerir það mögulegt fyrir sjóher að styðja aðgerðir flughers langt frá höfuðstöðvum. Fyrstu flugmóðurskipin voru litlir viðarprammar sem fluttu mannaða loftbelgi sem voru notaðir til eftirlits úr lofti. Nútímaflugmóðurskip eru hins vegar risastór kjarnorkuknúin skip sem bera tugi flugvéla og þyrla. Suður-Kákasus. Suður-Kákasus er suðurhluti heimshlutans Kákasus, milli Evrópu og Asíu, sem nær frá Kákasusfjöllum í norðri að landamærum Tyrklands og Írans í suðri, og frá Svartahafi í vestri að Kaspíahafi í austri. Svæðið er kallað "Закавказье" ("Sakavkasje") á rússnesku sem merkir „sunnan Kákasusfjalla“. Innan svæðisins er öll Armenía og meirihluti Georgíu og Aserbaídsjans. Í þessum heimshluta eru umdeildu héruðin Abkasía og Suður-Ossetía í Georgíu, og Nagornó-Karabak í Aserbaídsjan. Flóttamaður. Flóttamannahugtakið hefur verið víkkað út með starfsreglum samningsins frá 1967 til að ná einnig yfir þá sem flýja heimaland sitt vegna stríðsátaka eða annars ofbeldis. Sá sem sækist eftir hæli sem flóttamaður er skilgreindur sem hælisleitandi. Hugtakið var skilgreint vegna þess fjölda fólks sem flúði Austur-Evrópu í kjölfar Síðari heimsstyrjaldar. Sú alþjóðastofnun sem helst kemur að málefnum flóttamanna er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem taldi 28,4 milljónir flóttamanna í heiminum í upphafi árs 2006. Það var þá það minnsta sem verið hafði frá 1980. Józef Piłsudski. Józef Klemens Piłsudski (5. desember 1867 – 12. maí 1935) var pólskur stjórnmálamaður, hermarskálkur, ríkisstjóri (1918 - 1922) og einræðisherra (1926 - 1935) yfir öðru pólska lýðveldinu auk þess að vera yfir her landsins. Hann var af aðalsfjölskyldu með rætur aftur til Stórfurstadæmisins Litháens og Pólsk-litháíska samveldisins. Frá miðri Fyrri heimsstyrjöld til dauðadags hafði hann mikil áhrif á ríkisstjórn Póllands og utanríkisstefnu. Hann var lykilmaður í því að Pólland fékk sjálfstæði árið 1918, 123 árum eftir að Pólsk-litháíska samveldið var þurrkað út af landakortum. Hann var upphaflega meðlimur í pólska sósíalistaflokknum og leit á Rússneska keisaradæmið sem helstu fyrirstöðuna fyrir endurreisn Pólsk-litháíska samveldisins. Hann bjó til Pólsku sveitirnar sem börðust með Austurrísk-ungverska keisaradæminu og Þýska keisaradæminu til að tryggja ósigur Rússlands. Seinna meir dró hann stuðning sinn við Miðveldin til baka og hóf samstarf við Bandamenn. Eftir heimsstyrjöldina stjórnaði hann her Pólverja í Pólsk-sovéska stríðinu 1919 til 1921 og frá nóvember 1918, þegar Pólland fékk sjálfstæði, til 1922 var hann ríkisstjóri. 1923 náðu höfuðandstæðingar Piłsudskis í lýðræðislega þjóðernisflokknum undirtökunum í ríkisstjórn Póllands og hann dró sig í hlé. Eftir Maíbyltinguna 1926 sneri hann aftur og varð í reynd einræðisherra. Til dauðadags hafði hann fyrst og fremst afskipti af málefnum hersins og utanríkismálum, en hugðist jafnframt minnka áhrif stjórnmálamanna (sem hann taldi spillta) og styrkja herinn. Meðferð hans á pólitískum andstæðingum vakti harða gagnrýni frá helstu bandalagslöndum Póllands. Eftir lát hans tók Edward Rydz-Śmigły við, í samræmi við hinstu óskir Piłsudskis, og stjórnin varð enn gerræðislegri. Piłsudski, Józef Klemens Piłsudski, Józef Klemens Piłsudski, Józef Klemens Piłsudski, Józef Klemens L'Anse aux Meadows. Kort sem sýnir hugsanlega siglingaleið frá Bröttuhlíð á Grænlandi til L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. L'Anse aux Meadows er staður á norðurodda eyjunnar Nýfundnalands í Kanada. Þar fundust um 1960 minjar norrænnar byggðar frá víkingatíma. Norsku fornleifafræðingarnir Helge Ingstad og Anne Stine Ingstad grófu rústirnar upp, og rituðu tveggja binda verk um niðurstöðurnar. Ekki er hægt að fullyrða hvort staðurinn er Vínland, sem sagt er frá í fornritum. L'Anse aux Meadows er eini staðurinn í Norður-Ameríku, utan Grænlands, þar sem víkingaminjar af þessu tagi hafa fundist. Eru þær vitnisburður um ferðir og búsetu Evrópubúa í Nýja heiminum mörg hundruð árum fyrir ferðir Kristófers Kólumbusar. L'Anse aux Meadows er á heimsminjaskrá UNESCO. Kryddsíld (sjónvarpsþáttur). "Kryddsíld" er viðtalsþáttur sem sendur er út á Stöð 2 um hver áramót (gamlársdag) og er í umsjón fréttastofu stöðvarinnar. Í þáttinn mæta stjórnmálamenn saman og svara spurningum fréttamanns stöðvarinnar. Yfirleitt er þátturinn á fremur léttum nótum þar sem farið er yfir helstu hitamál stjórnmálanna á liðnu ári. Þátturinn hóf göngu sína á útvarpsstöðinni Bylgjunni áramótin 1990 en frá 1992 var hann sendur út í sjónvarpinu. Árið 2008 varð að ljúka útsendingu vegna aðgerða mótmælenda, sem t.d. brenndu sundur kapal sem lá frá útsendingarbíl inn á Hótel Borg. Nafnið. Heiti þáttarins má rekja til misskilnings sem kom fyrst fram í smágrein í Morgunblaðinu 13. janúar 1981 (sjá) þar sem tekin var upp frétt úr Berlingske Tidende um að forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, og Margréti Þórhildi Danadrottningu, hefði verið boðið í "krydsild". "Krydsild" er í dönsku bein þýðing á enska orðinu "crossfire" sem merkir „skothríð úr báðum áttum“ og er notað yfir viðtöl þar sem tveir eða fleiri viðmælendur eru spurðir „í kross“ af blaðamanni eða -mönnum. Í greininni í Morgunblaðinu hafði blaðamaður, sem ekki var sleipur í dönsku, skilið það þannig að þjóðhöfðingjunum hefði verið boðið í „kryddsíldarveislu“. Mistökin urðu frægt dæmi um meinlega þýðingarvillu í dagblöðum. Orðið „kryddsíld“ er stundum notað yfir sams konar viðtalsþætti á öðrum stöðvum og í íslenskri umfjöllun um slíka þætti erlendis. Kryddsíld. Sænskt jólahlaðborð með nokkrar ólíkar gerðir af kryddsíld. Kryddsíld, marineruð síld eða niðurlögð síld eru bitar af síldarflökum sem lagðir eru hráir í edik með salti og ýmsu kryddi og látnir verkast þannig. Hún er gjarnan borðuð með grófu brauði eða rúgbrauði. Flugeldar. Flugeldar (eða rakettur) eru þrýstiknúin blys sem skotið er á loft til skrauts eða til að gefa merki (sbr. "neyðarblys"). Flugeldar eru aðallega framleiddir í Kína, en voru uppgötvaðir á Indlandi. Flugelda er fyrst getið í rituðum heimildum kringum árið 1200, en í upphafi voru þeir notaðir til að fæla burt illa anda og til að biðja guðina um gæfu og hamingju. Helsti söluaðili flugelda á Íslandi eru björgunarsveitarnar, en líka íþróttafélög. Önnur félög og einkaaðilar hafa á síðustu árum einnig látið til sín taka í þessum geira. Sauðlauksdalskirkja. Sauðlauksdalskirkja er kirkja í Sauðlauksdal við sunnanverðan Patreksfjörð. Kirkjan var byggð árið 1860, hugsanlega af Niels Björnssyni· Turni kirkjunnar var bætt á síðar, eða á árunum 1901-2. Í Sauðlauksdal voru bænhús og sóknarkirkja allt frá 1512. Katólskar kirkjur þar voru helgaðar Maríu guðsmóður og öllum heilögum, sérstaklega Þorláki biskupi helga. Sauðlauksdalskirkjan var útkirkja frá Saurbæ á Rauðasandi en varð prestssetur 1724. Útkirkjur Sauðlauksdals eru Bæjarkirkja og Breiðuvíkurkirkja og frá 1970 í Haga og á Brjánslæk. Patreksfjarðarprestakall hefur þjónað kirkjunum frá 1964. Ábæjarkirkja. Ábæjarkirkja er kirkja á eyðibýlinu Ábæ í Austurdal í Skagafirði. Kirkjan var byggð 1922 en bærinn hefur verið í eyði síðan 1941. Kirkjan, sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins, er lítil, steinsteypt og var efni í hana flutt úr Skagafirði en viðurinn í kirkjuna sem áður var á Ábæ og byggð var 1842 var fluttur frá Akureyri inn í Leyningsdal í Eyjafirði) og fluttur yfir Nýjabæjarfjall á sleðum sem dregnir voru af mönnumþ Þótti það afrek því erfitt er að komast niður af fjallinu með æki vegna þess hve bratt það er, þótt lestarferðir væru iðulega farnar þar yfir. Kirkjunni var fyrrum þjónað frá Goðdölum en 1907 var hún lögð til Mælifellsprestakalls og er þar alltaf ein messa á ári, á sunnudegi um verslunarmannahelgi. Þá koma oft yfir 100 manns í guðsþjónustu og er svo messukaffi veitt að Merkigili, sem fór í eyði 1997 er Helgi Jónsson hrapaði til bana í gilinu, en hann hafði þá verið eina sóknarbarn Ábæjarsóknar í allmörg ár. Systkini Helga gáfu kirkjunni skírnarfont til minningar um hann og er hann smíðaður úr birkitré sem óx í gili Austari-Jökulsár. Austurdalur. Austurdalur er dalur í uppsveitum Skagafjarðar. Um hann rennur Austari-Jökulsá, önnur upptakakvísla Héraðsvatna. Eina búseta í dalnum er að Bústöðum en kirkja er að Ábæ. Landafræði. Austari-Jökulsá setur svip sinn á allt umhverfið, þar sem hún rennur heldur vestan við miðjan dal, þó dalurinn sé nokkuð þröngur. Innst í dalnum rennur hún á eyrum, en þegar kemur niður að Skatastöðum myndar hún alldjúpt gljúfur sem hún kastast um alla leið niður þar sem hún sameinast Vestari-Jökulsá og sama mynda þær Héraðsvötn. Víða í þessu gljúfri eru birkihríslur og eru þar stundaðar eru flúðasiglingar. Milli Skatastaða og Bústaða, en báðir bæirnir eru vestan ár, er brú yfir ánna, oft kölluð Monikubrú eftir skörungnum Moniku á Merkigili. Nokkrar þverár renna í Jökulsá, eiga þær flestar upptök sín í Nýjabæjarfjalli sem skilur dalinn frá inndölum Eyjafjarðar. Eru þetta meðal annars Ábæjará, Tinná, Hvíta, Fossá og fleiri. Hið hrikalega Merkigil nyrst í dalnum var lengi vel helsti farartálmi fyrir fólk í austanverðum dalnum þegar það ferðaðist í kaupstað í Skagafirði. Upp úr því að sunnanverðu er einstigi fyrir klettasnös eina svo ekki var hægt að flytja ullarlestar til verslunar í Skagafirði heldur fóru lestarferðir yfir Nýjabæjarfjallið til Eyjafjarðar. Var þá komið niður í Leyningsdal og ullin seld á Akureyri. Þegar bæjarhúsin að Merkigili voru byggð var allt efni í þau flutt á hestum yfir gilið og sáu dæturnar 7 um það. Árið 1997 beið Helgi Jónsson, síðasti bóndi á Merkigili, bana í gilinu er hann hrapaði þar á leið til fundar við nágranna sinn sem beið hans handan gilsins. Þjóðskáldið Bólu-Hjálmar reisti sér nýbýli í dalnum sem hann nefndi Nýjabæ og bjó þar um skeið. Jurtalíf í dalnum er fjölbreytt og hann nokkuð gróinn upp í hlíðar. Í Fögruhlíð er náttúrulegur birki- og víðiskógur þar sem hæstu trén eru um 6 metra há. Í giljum og áreyrum vex hvönn og eyrarrós. Bæir. Í austanverðum dalnum voru bæir á borð við Merkigil, Ábæ, Nýjabæ, Tinnársel og Hildarsel. Í dalnum vestanverðum eru Bústaðir og Skatastaðir. Tálknafjarðarkirkja. Tálknafjarðarkirkja er kirkja á Tálknafirði. Fyrsta skóflustunga að henni var tekin 2000 og var hún vígð 5. maí 2002. Kirkjan stendur á Þinghól og sést víða að úr bænum og nágrenni. Cleveland Browns. Cleveland Browns er lið í amerískum fótbolta frá Cleveland, Ohio. Þeir leika í norður riðli AFC deildarinnar, innan NFL. Fyrstu árin sín um sinn spiluðu þeir í All-America Football Conference en fóru yfir í NFL árið 1950 eftir að AAFC hætti störfum. Þeir unnu alla fjóra titla AAFC og kláruðu eitt tímabil ósigraðir. Þeir hafa unnið fjóra NFL titla, alla áður en Super Bowl leikurinn kom til sögunnar. Orkuleiðrétt mjólk. Orkuleiðrétt mjólk, skammstafað OLM'", kallast mælimjólk sem hefur verið leiðrétt fyrir fitu- og próteininnihaldi. Orkuleiðrétt mjólk er því sú mjólk sem hefur ákveðið orkuinnihald, eða 750 kílókaloríur í kílógrammi. Notuð er sérstök reikniaðferð til að umreikna mælimjólk með uppgefin efnainnihöld yfir í OLM. Reikniaðferðir. formula_1 formula_2 Munurinn á formúlunum lýsir muninum á efnainnihalda íslenskrar og danskrar mjólkur. Íslenska aðferðin, sem fengin er að hluta frá Noregi, tekur tillit til þess hve mikil mjólk fæst úr hverri kú (fastinn "l") en sú danska gerir það ekki. Fastinn "p" merkir próteinhlutfall mjólkur en fastinn "f" er fituhlutfall. Notkun. Útreikningar á orkuleiðréttri mjólk eru notaðir við ákvarðanir á fóðurþörfum mjólkurkúa. Ulric Neisser. Ulric Neisser (fæddur 8. desember 1928 í Kiel í Þýskalandi) er bandarískur sálfræðingur sem hefur meðal annars stundað rannsóknir innan hugfræði. Neisser flutti til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni árið 1931. Hann lauk bachelors-gráðu í Harvard árið 1950, seinna mastersgráðu í Swarthmore-háskóla og árið 1956 doktorsgráðu frá Harvard. Hann hefur kennt við Cornell háskóla, Brandeis og Emory. Neisser hefur haft töluverð áhrif innan hugfræði með rannsóknum sínum og skrifum. Sumir telja að bók hans, "Hugfræði" ("Cognitive Psychology"), hafi haft mikil áhrif í þá veru að menn fóru að einbeita sér að hugfræði. Anna og skapsveiflurnar. Anna og skapsveiflurnar er tölvuteiknuð mynd eftir íslenska þrívíddarhönnunarfyrirtækið CAOZ. Myndin er í leikjstórn Gunnars Karlssonar, sem einnig er útlisthönnuður myndarinnar. Handritið er byggt á sögu eftir Sjón. Margir þekktir einstaklingar sáu um talsetningu og þar á meðal má nefna Terry Jones, Björk og Damon Albarn. CAOZ. CAOZ er íslenskt þrívíddarhönnunarfyrirtæki sem fengist hefur bæði við tölvuteiknaðar myndir og auglýsingagerð. Meðal þeirra mynda sem fyrirtækið hefur framleitt eru myndirnar Litla lirfan ljóta og Anna og skapsveiflurnar. Caoz er um þessar mundir að vinna að myndinni Hetjur Valhallar - Þór byggða á sögum um þrumuguðinn Þór í norrænni goðafræði. Myndin sem áætlað er að komi út árið 2011 verður þeirra fyrsta mynd í fullri lengd. Dallas Cowboys. Dallas Cowboys er lið í amerískum fótbolta frá úthverfi Dallas í Texas. Þeir leika í Austur riðli Þjóðardeildarinnarar. Liðið var stofnað árið 1960 þegar NFL deildin var stækkuð. Liðið hefur unnið flesta Super Bowl titla, 5, ásamt San Francisco og Pittsburgh. Ægisif. Ægisif, stundum kölluð Sófíukirkjan, (gríska: Hagía Sófia, Ἁγία Σοφία "„Kirkja heilagrar visku“") er fyrrum patríarka-basilíka í Istanbúl, en henni var breytt í mosku árið 1453. Hún var byggð af Jústiníanusi, merkasta keisara Miklagarðs. Ægisif hefur verið safn síðan 1935. Kirkjan er talin vera hátindur býsantískrar byggingarlistar og er fræg fyrir risavaxna og áberandi þakhvelfingu og bænaturnana. Ægisif, sem var byggð á árunum 532 til 537 e.Kr., var stærsta dómkirkja í heimi í hartnær þúsund ár, eða þar til dómkirkjan í Sevilla á Spáni var reist árið 1520. Tjáningarfrelsi á Íslandi. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Ákvæðið var sett í stjórnarskrána í núverandi mynd með lögum nr. 97 28. júní 1995. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða. Þetta ákvæði var einnig nánast eins í fyrri stjórnarskrám Íslands (54. gr. í stjórnarskránni frá 1874 og 68. gr. í stjórnarskránni frá 1920.) Takmarkanir á tjáningarfrelsi. Hér eru settar fram lagagreinar þær er setja skorður á tjáningarfrelsi. Almenn hegningarlög () setja fjölmargar takmarkanir á tjáningafrelsi. Skv. Kassandra. Ajax rænir Kassöndru, mynd á skál frá 550 fyrir Krist Ajax og Cassandra eftir Solomon Joseph Solomon, 1886. Kassandra er í grískri goðafræði dóttir konungsins Príamosar í Tróju og drottingarinnar Hekabe. Fegurð hennar heillaði guðinn Appollon þannig að hann gaf henni forspárgáfu en þegar hún hafnaði ástum hans þá lagði Appollon á hana þau álög að enginn skyldi trúa spádómum hennar. Kassandra sá fyrir fall og eyðileggingu Trójuborgar og varaði Trójumenn við Trójuhestinum, hún sá fyrir dauða Agamemnons og sínar eigin raunir og dauða en hún gat engu breytt. Eftir Trójustríðið leitaði hún hælis í musteri Aþenu og þar var henni nauðgað af Ajax. Hún var tekin til fanga og gerð að hjákonu Agamemnons í Mýkenu. Trójuhestur. Trójuhestur var risastór tréhestur, holur að innan, sem Grikkir smíðuðu í Trójustríðinu. Grískir hermenn drógu hestinn með leynd að borgarhlið Tróju og földu sig inni í honum. Trójumenn drógu hestinn inn fyrir borgarmúrana og um nóttina læddust grísku hermennirnir út úr hestinum, opnuðu borgarhliðin og lögðu undir sig borgina. Brúnaðar kartöflur. Brúnaðar kartöflur er kartöfluréttur þar sem kartöflurnar eru soðnar og síðan er sykur bræddur á pönnu ásamt smjöri eða smjörlíki, kartöflurnar settar út í og velt upp úr sykurbráðinni. Íslendingar bera fram brúnaðar kartöflur með ýmsum veisluréttum, svo sem lamba- og svínasteik, t.d. á jólum. Rétturinn er líklega upprunninn í Danmörku og er í erlendum uppflettiritum um mat yfirleitt talinn danskur sérréttur. Gillette Stadium. Gillette Stadium er heimavöllur New England Patriots í NFL deildinni og New England Revolution í MLS. Leikvangurinn er í Foxborough, Massachusetts, rétt fyrir utan Boston og opnaði árið 2002. Hann kom í staðinn fyrir Foxboro Stadium. Völlurinn tekur 68,756 manns í sæti og er í eigu Robert Kraft athafnamanns frá Massachusetts, en hann á einnig Patriots og Revolution. Karlakór Reykjavíkur. Karlakór Reykjavíkur er íslenskur karlakór stofnaður í Reykjavík 3. janúar 1926. Varaforseti Bandaríkjanna. Varaforseti Bandaríkjanna er efstur á lista embættismanna, sem tekur við forsetaembættinu, ef forseti Bandaríkjanna deyr, segir af sér eða er á einhvern annan hátt leystur frá störfum. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um, að varaforsetinn sé einnig forseti öldungardeildar Bandaríkjaþings og megi greiða oddaatkvæði ef atkvæðagreiðsla fellur á jöfnu. Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti beitti þessu valdi sínu átta sinnum á valdatíma sínum, 2001 - 2009. Núverandi varaforseti Bandaríkjanna er Joe Biden, en hann hefur enn ekki þurft að greiða oddaatkvæði. Kjörgengi. Tólfta stjórnarskrárbreyting bandarísku stjórnarskrárinnar segir, að varaforseti verði að uppfylla sömu skilyrði og forseti, þ.e. að vera 35 ára, að vera fæddur bandarískur ríkisborgari og að hafa búið síðustu 14 árin í Bandaríkjunum, til að vera kjörgengur. Kjörtímabil varaforsetans er hið sama og forsetans. Þeir sverja embættiseið sama dag, varaforsetinn fyrst og síðan forsetinn. Samkvæmt stjórnarskránni er forsetanum óheimilt að sitja lengur en tvö kjörtímabil. Engar slíkar reglur gilda um varaforsetann; hann má sitja eins lengi og hann kýs, eða hefur fylgi til. Hlutverk og skyldur. Formleg völd og hlutverk varaforseta Bandaríkjanna eru ekki mikil. Um þau segir í stjórnarskrá, að auk þess að taka við forsetaembætti við fráfall eða afsögn forsetans, þá sé hann forseti öldungardeildar þingsins. Sem forseti öldungardeildarinnar hefur varaforsetinn einkum tvö hlutverk: Annars vegar að greiða oddaatkvæði, ef demókratar og repúblikanar greiða akvæði að jöfnu (50-50) og hinsvegar að hafa umsjón með og staðfesta talningu atkvæða sem kjörmenn hafa greitt í forsetakosningum. Auk þessa, er varaforsetinn yfirmaður NASA og situr í stjórn Smithsonian stofnunarinnar. Óformegt vald varaforsetans ræðst fyrst og fremst af sambandi hans við forsetann. Hann er náinn ráðgjafi forsetans og getur því haft töluverð áhrif á gang mála. Hann er oft talsmaður út á við og talar þá fyrir ríkisstjórn landsins. Dick Cheney var til dæmis einn af nánustu ráðgjöfum George Bush forseta og Al Gore var mikilvægur ráðgjafi Bill Clinton þegar sá síðarnefndi var forseti, 1993 – 2001, og voru það einkum utanríkismál og umhverfismál, þar sem Clinton reiddi sig á ráðgjöf hans. Þar sem bandaríski forsetinn er bæði þjóðhöfðingi og æðsti maður ríkisstjórnarinnar lenda oft viðhafnarverk tengd því fyrrnefnda á varaforsetanum. Hann mætir gjarnan í jarðarfarir annarra þjóðhöfðingja fyrir hönd forsetans, hittir háttsetta erlenda embættismenn, þjóðhöfðingja og fleira. Á seinni tímum hefur í auknum mæli verið farið að líta á embættið sem stökkpall til framboðs í forsetaembættið. Í 13 forsetakosningum á milli 1956 og 2004, var í níu tilfellum annar frambjóðandinn sitjandi forseti, en í fjórum sitjandi varaforseti (1960, 1968, 1988 og 2000). Fyrrverandi varaforsetar voru tvisvar á þessum tíma í framboði, Walter Mondale 1984 og árið 1968, þegar Richard Nixon keppti við sitjandi varaforseta, Hubert Humphrey. Síðan 1974 hefur varaforsetinn ásamt fjölskyldu sinni haft eigin embættisbústað til umráða, er nefnist á ensku Number One Observatory Circle í Washington D.C.. Franskar kartöflur. Franskar kartöflur eru kartöflur sem hafa verið skornar í strimla og djúpsteiktar. Flestar heimildir benda til að franskar kartöflur hafi fyrst verið matreiddar á landsvæði sem nú tilheyrir Belgíu. Aðrar halda því fram að þær hafi fyrst komið fram á Spáni og sá siður að djúpsteikja þær hafi síðan flust til þess hluta Niðurlanda sem þá var undir spænskri stjórn. McDonald's skyndibitakeðjan hefur átt stóran þátt í því að gera franskar kartöflur vinsælar út um allan heim. McDonalds gerði á sínum tíma samning við fyrirtækið J.R. Simplot sem hafði fundið upp aðferð til þess að snöggfrysta franskar kartöflur. Áður höfðu franskar kartöflur verið skrældar og skornar niður á staðnum, en með uppfinningu Simplot fyrirtækisins mátti skera niður starfsmanna-kostnað og stytta afgreiðslutímann. Tugakerfi. Tugakerfið er talnakerfi með grunntöluna tíu. "Tugatala" er staðsetningartáknkerfi, sem notar 10 tákn: 0, 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9. Sextánundakerfi. Sextánundakerfi eða sextándakerfi (enska "Hexadecimal system") er talnakerfi með grunntöluna sextán. "Sextánundatala" er staðsetningartáknkerfi, sem notar sextán tákn: 0, 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, A, B, C, D, E, F. Sextánundakerfi er mikið notað í forritun, vegna þess hve auðvelt er að vinna með tvíundatölur samhliða sextánundakerfinu, þar sem að hverjir fjórir bitar samsvara einum tölustaf í sextánundakerfinu. Til dæmis má rita töluna 79 sem rituð er með tvíundakerfinu 01001111 sem 4F í sextánundarkerfinu (0100 = 4 og 1111 = F). Hins vegar er aðeins flóknara að breyta sextánundakerfistölu í tugatölu. Til dæmis er FF í sextándarkerfinu reiknað þannig: F*16 + F eða 15*16 + 15 = 255 í tugakerfinu og AB í sextandundarkerfi verður A*16 + B eða 10*16 + 11 = 171 í tugakerfi. Sextánundakerfið er oft kallað „hex“, sem er stytting á enska orðinu „hexadecimal“. Orðið hex þýðir 6 á grísku, og deca þýðir tíu. Þannig merkir "hexa-deci-mal" einfaldlega „eins og sextán“. CCP. CCP er íslenskur tölvuleikjaframleiðandi sem þróaði netleikinn EVE Online og sér nú um rekstur hans. Fyrirtækið var stofnað árið 1997 og 11. nóvember 2006 var tilkynnt að CCP myndi sameinast bandaríska fyrirtækinu White Wolf. Skammstöfunin CCP stendur fyrir Crowd Control Productions. Seglbretti. Seglbretti er tveggja til fimm metra langt sjóbretti með einu segli. Mastrið er úr léttu plastefni og er fest við brettið með kúlufestingu sem getur snúist í allar áttir. Seglbrettamaðurinn getur því hallað og snúið seglinu að vild með höndunum um leið og hann stjórnar brettinu með fótunum. Það sameinar því suma kosti brimbretta og seglbáta í einu siglingatæki. Sylt. Sylt (danska: "Sild"; frísneska: "Söl`", þýska: "Sylt") er eyja í Norður-Þýskalandi og tilheyrir Norðurfrísnesku eyjunum. Landafræði. Sylt liggur í Norðursjó úti fyrir strönd Suður-Slésvíkur í Norður-Fríslandi alveg við landamæri Þýskalands og Danmerkur. Hún er hluti af Norðurfrísnesku eyjunum, norðan við Föhr og sunnan við dönsku eyjuna Rømø. Eyjan er löng og mjó og tengist meginlandinu um mjótt manngert eiði. Það heitir "Hindenburgdamm" og er notað af járnbraut. Sylt var einu sinni hluti meginlandsins en hefur smám saman sokkið vegna ágangs sjávar. Nyrsti hluti eyjarinnar er jafnframt nyrsti tangi Þýskalands. Þar er bærinn List, sem er nyrsti bær Þýskalands. Á Sylt eru nokkrir bæir sem dreifast um eyjuna. Þeirra helstur er Westerland, en þar búa 9 þúsund manns. Westerland er jafnframt höfuðstaður Sylt. Þar eru góðar baðstrendur, enda lifa bæjarbúar að mestu á ferðamennsku. Nokkrir bæjanna, svo sem Kampen, hafa þróast í það að vera sumarhúsasvæði fyrir ríka fólkið í Þýskalandi. Íbúar Sylt eru að staðaldri 21 þúsund, en yfir sumarleyfistímann margfaldast sá fjöldi. Saga. Hús með stráþökum á Sylt Sylt var upphaflega dönsk eyja, enda var Slésvík danskt hertogadæmi. Eyjan var áföst meginlandinu allt til 1361, en þá braut sjórinn af landinu í miklu stormflóði. 1864 hertók Bismarck Slésvík í prússnesk-danska stríðinu og varð eyjan þá þýsk. 1927 var hafist handa við að tengja eyjuna við meginlandið á ný með þröngu eiði sem fékk heitið "Hindenburgdamm". Á eiðið var lögð járnbrautarlína og ganga lestir reglulega í eyjuna. Ekki er hægt að aka á bíl út í Sylt. Þeir sem vilja taka bíl með út í eyna, verða að setja hann á þartilgerða járnbrautarvagna og taka lestina. Eingöngu er hægt að hlaða vagnana í Hamborg, fyrir utan Westerland, þrátt fyrir að lestin stoppi á nokkrum stöðum þar á milli. Elizabeth (New Jersey). Elizabeth er borg í Unionsýslu, New Jersey í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi er rúm 120 þúsund sem gerir hana að fjórðu stærstu borg fylkisins. Borgin er höfuðstaður sýslunnar. Elizabeth var stofnuð árið 1664 af enskum landnemum og var nefnd í höfuðið á eiginkonu George Carteret lávarðar sem var einn af eigendum Karólínuumdæmisins. Robby Naish. Robby Naish á heimsmeistaramótinu í seglbrettasiglingum á Sylt í Þýskalandi. Robby Naish (f. 23. apríl 1963 í La Jolla, Kaliforníu) er einn af þeim fyrstu sem náð hefur alþjóðlegri frægð fyrir afrek í seglbrettasiglingum. Hann varð fyrsti heimsmeistarinn í seglbrettasiglingum þrettán ára gamall og hefur unnið fjölda heimsmeistaratitla síðan þá, bæði í seglbrettasiglingum og flugdrekasiglingum. Naish, Robby Wayne Gretzky. Wayne Gretzky (f. 26. janúar 1961) er kanadískur fyrrum íshokkíleikmaður. Gretzky hefur oft verið nefndur „besti íshokkíleikmaður allra tíma“ af íþróttablaðamönnum. Hann lék með liðinu Edmonton Oilers 1979 til 1988 og vann með þeim Stanleybikarinn fjórum sinnum. Hann er eini íshokkíleikmaðurinn sem hefur náð að skora yfir 200 stig á einni leiktíð (nokkuð sem honum tókst að gera fjórum sinnum á ferlinum). Gretzky, Wayne Bakaðar kartöflur. Bakaðar kartöflur er kartöfluréttur sem felst í því að kartöflu, helst stórri og mjölmikilli, er pakkað inn í álpappír og umslegin kartaflan síðan hituð í ofni eða á grilli. Þegar búið er að baka kartöfluna er álpappírinn opnaður að hluta, skorið gat á kartöfluna og innvolsið borðað með skeið. Vanalega er smjör, feiti eða sósa sett inn í kartöfluna til lystauka. Stórbaugur. Stórbaugur er hringur á kúlufleti, með sama geisla og kúlan. Stysta vegalengd milli tveggja punkta á kúlufleti mælist á stórbaug. Allir lengdarbaugar eru stórbaugar, en af breiddarbaugum er aðeins miðbaugur er stórbaugur. Miðbaugur himins. Miðbaugur himins nefnist ofanvarp miðbaugs jarðar á himinkúluna. Himintungl, sem eru beint ofan miðbaugs, eru því á miðbaugi himins og hafa stjörnubreidd núll. Skuðrpunktar miðbaugs himins og sólbaugs nefnast vorpunktur og haustpunktur. .cm. .cm er þjóðarlén Kamerún. .cn. .cn er þjóðarlén Alþýðulýðveldisins Kína. .cr. .cr er þjóðarlén Kosta Ríka. .cu. .cu er þjóðarlén Kúbu. .cv. .cv er þjóðarlén Grænhöfðaeyja. .cx. .cx er þjóðarlén Jólaeyju. .cy. .cy er þjóðarlén Kýpur. .ec. .ec er þjóðarlén Ekvador. .eh. .eh er þjóðarlén Vestur Sahara. .er. .er er þjóðarlén Erítreu. .eu. .eu er lén Evrópusambandsins. .gb. .gb er þjóðarlén Bretlands. .gd. .gd er þjóðarlén Grenada. .gf. .gf er þjóðarlén Frönsku Gvæjana. .gh. .gh er þjóðarlén Gana. .gi. .gi er þjóðarlén Gíbraltar. .gn. .gn er þjóðarlén Gíneu. .gp. .gp er þjóðarlén Gvadelúp. .gs. .gs er þjóðarlén Suður-Georgíu og Suður-Samlokueyja. .gt. .gt er þjóðarlén Gvatemala. .gu. .gu er þjóðarlén Gvam. .gw. .gw er þjóðarlén Gínea-Bissá. .gy. .gy er þjóðarlén Gvæjana. .il. .il er þjóðarlén Ísrael. .im. .im er þjóðarlén Manar. .io. .io er þjóðarlén Bresku Indlandshafseyja. .ir. .ir er þjóðarlén Íran. .lb. .lb er þjóðarlén Líbanon. .lc. .lc er þjóðarlén Sankti Lúsíu. .li. .li er þjóðarlén Lichtenstein. .lk. .lk er þjóðarlén Sri Lanka. .lt. .lt er þjóðarlén Litháen. .lu. .lu er þjóðarlén Lúxemborgar. .ma. .ma er þjóðarlén Marokkó. .md. .md er þjóðarlén Moldavíu. .mg. .mg er þjóðarlén Madagaskar. .mo. .mo er þjóðarlén Makaó. .mp. .mp er þjóðarlén Norður Maríanaeyja. .ms. .ms er þjóðarlén Montserrat. .mu. .mu er þjóðarlén Máritíus. .mx. .mx er þjóðarlén Mexíkó. .mz. .mz er þjóðarlén Mósambík. Langreyður. Langreyður (fræðiheiti: "Balaenoptera physalus") er sjávarspendýr sem tilheyrir undirættbálk skíðishvala. Langreyður er næststærst allra hvala og næststærsta núlifandi dýrategund, aðeins steypireyður er stærri. Lýsing. Fullvaxin langreyður er 18 til 22 m á lengd og vegur 40 til 70 tonn. Hún er löng og rennileg með stóran haus og mjókkar aftur. Munnvik ná aftur fyrir augu og undir neðri skolti hennar eru reglulegar húðfellingar (rengi). Í munninum hanga um 600 til 700 hornplötur (skíði) úr efri skolti. Skíðin eru svart- og hvítrákótt. Langreyður er dökkgrá á baki og næstum hvít á kvið. Elsta langreyður sem aldursgreind hefur verið við Ísland er 94 ára. Það er hægt að aldursgreina langreyðar á fjölda bauga í vaxkenndum töppum í eyrum. Lifnaðarhættir. Langreyður kemur til Íslands í árlegum fæðugöngum sunnan úr höfum. Hún fer að sjást suðvestan lands í maí og er fjöldi hennar mestur við landið í lok júní. Langreyður heldur sig vanalega við landgrunnsbrúnina vestan við landið og færir sig smám saman norður með fram brúninni. Aðalfæða hér við land er svifkrabbadýr einkum ljósátan náttlampi. Langreyður étur einnig uppsjávarfisk, loðnu og sílategundir. Langreyður dvelur á Íslandsmiðum fram í október og heldur þá til vetrarstöðvanna. Mökun langreyða fer fram á óþekktum vetrarstöðvum í sunnanverðu Norður-Atlantshafi. Burður fer fram eftir 11 mánaða meðgöngu. Kálfurinn fylgir kúnni í 6 til 7 mánuði. Langreyður eignast kálf annað hvert ár. Talið er að langreyðastofninn við Ísland, Grænland og Jan Mayen sé 19 þúsund dýr. Veiðar á langreyði. Á 19. öld var langreyður stundum veidd af hvalveiðibátum en þá var ekki til staðar veiðitækni til að elta hvali sem fara svona hratt yfir og halda sig á opnu hafi. Á seinni hluta 19. aldar varð tæknibylting í hvalveiðum með tilkomu vélknúinna skipa og sprengiskutuls og þannig var hægt að veiða hraðskreiðari hvalategundir eins og reyðarhvalina langreyði og steypireyði. Þessar tegundir urðu þá aðalnytjategundirnar og ofveiði var mikil. Talið er að um 750.000 langreyðar hafi verið veiddar á hvalveiðistöðvum við Suðurskautslandið á milli 1904 og 1975 og einungis um 3000 langreyðar eru taldar halda sig á suðurhvelinu í dag. Hvalalýsi var þá notað í ljósmeti sem lýsti upp götur í borgum. Norðmenn reistu hvalstöðvar á Íslandi upp úr 1880 á Vestfjörðum og síðar á Austurlandi. Hvalveiðarnar við Ísland voru í hámarki árið 1902 en þá komu 1300 hvalir á land og voru 30 skip við veiðarnar. Vegna þessarar veiði fækkaði hval stórlega og um 1910 samþykkti Alþingi lög um bann við veiðum og vinnslu á stórhvölum innan íslenskrar lögsögu og árið 1916 hættu allar hvalstöðvar við Ísland rekstri. Norðmenn veiddu stórhveli við Ísland á litlum hvalveiðibátum og hvalurinn var unninn í verksmiðjuskipum sem héldu sig utan landhelgi sem var á þessum tíma þrjár mílur. Árið 1933 var hvalveiðibanni við Ísland aflétt og árið 1935 tók til starfa hvalveiðistöð á Suðureyri við Tálknafjörð sem starfaði þar til seinni heimsstyrjöldin skall á. Árið 1948 tók til starfa hvalveiðistöð í Hvalfirði og starfaði hún til 1985 þegar hvalveiðistöðvun Alþjóðahvalveiðiráðsins gekk í gildi. Á árunum 1948 til 1985 voru veiddar við Ísland að jafnaði 240 langreyðar á ári. Veiðar á langreyði og sandreyði voru stundaðar í vísindaskyni 1986 til 1989. Árið 2006 hófust aftur veiðar á langreyði hér við land. Árið 2009 veiddu Íslendingar 125 langreyður, og 148 dýr árið 2010. Langreyður á lista IUCN yfir tegundir í útrýmingarhættu, en það helgast eingöngu af slæmu ástandi stofnsins við Suðurskautið. Ástand langreyðarstofna í Norður Atlantshafi er mun betra og fjöldi langreyða við Ísland í dag nálægt því sem var fyrir tíma hvalveiða. Robert Hooke. Robert Hooke (f. 18. júlí 1635, d. 3. mars 1703) var breskur eðlis- og efnafræðingur. Faðir hans var "John Hooke", umsjónamaður "Allraheilagakirkju í Freshwater" á Wighteyju. Robert átti þrjá bræður sem allir urðu að prestum. Er Robert sat við nám sitt fékk hann mikla höfuðverki og kom þetta í veg fyrir að hann gæti sótt nám með sama hætti og bræður hans. Foreldrar hans óttuðust að hann yrði ekki langlífur og leyfðu honum að haga námi sínu eftir eigin hentisemi. Átta ára gamall hélt hann til Christ Church við Oxford. Þar kynntist hann Robert Boyle. Árið 1662 var Hooke skipaður umsjónamaður tilrauna fyrir Hið Konunglega félag. Meðal uppgötvanna Hookes var Lögmál Hookes um fjaðurmagn. Árið 1662 gaf Hooke út bókina "Micrographia" með skissum eftir hann af því sem hann hafði athugað með aðstoð smásjár. Bókin varð vinsæl og seldist vel frá byrjun. Í bókinni lýsir Hooke í fyrsta skiptið frumu og er enska heitið "cell" komið til vegna þess að honum þótti lögum og útlit frumunnar minna á herbergi munka í klaustrum, "cellula". Sama ár og bók hans kom út tók hann stöðu prófessors í rúmfræði við Gresham-háskóla. Hooke var helsti aðstoðarmaður hins fræga arkitekts Christopher Wren og átti þátt í hönnun Monument, Hinnar konunglegu athugunarstöð við Greenwich, Bethlem-sjúkrahússins o.fl. Robert dó árið 1703, 68 ára að aldri. Hallgerður Gísladóttir. Hallgerður Gísladóttir (f. í Seldal í Norðfjarðarhreppi 28. september 1952, d. í Reykjavík. 1. febrúar 2007) var íslenskur sagnfræðingur og þjóðfræðingur. Foreldrar hennar voru Gísli Friðriksson bóndi í Seldal og Sigrún Dagbjartsdóttir húsfreyja. Hallgerður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974, nam mannfræði og sögu við Manitóbaháskóla í Winnipeg í Kanada 1974-75, tók B.A. próf í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1981 og lauk þaðan cand. mag prófi 1991. Hallgerður starfaði lengst af við þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands, varð deildarstjóri hennar 1995 og síðar fagstjóri þjóðháttasafns. Sérgrein hennar var íslensk matargerð og hefðir henni tengdar. Árið 1999 kom út bók hennar, "Íslensk matarhefð". Bókin er aðalrit Hallgerðar og hlaut viðurkenningu Hagþenkis og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þegar hún kom út. Hallgerður sá um fjölmarga þætti í útvarpi og sjónvarpi um matarhætti og skyld efni. Hún stundaði einnig rannsóknir á manngerðum hellum og skrifaði ásamt Árna Hjartarsyni og Guðmundi J. Guðmundssyni bók um manngerða hella 1983. Hallgerður var ljóðskáld og birti verk sín í tímaritum en sendi einnig frá sér ljóðabók árið 2004. Eiginmaður Hallgerðar var Árni Hjartarson jarðfræðingur. Þau eignuðust þrjú börn, Sigríði (1975-1997), Guðlaug Jón (1979) og Eldjárn (1983). Manngerðir hellar á Íslandi. Manngerðir hellar eru göng eða hvelfingar sem menn hafa holað í hart eða hálfhart berg. Á Suðurlandi allt frá Ölfusi og austur í Mýrdal eru manngerðir hellar víða á bæjum. Vitað er um meira en 170 hella á þessum slóðum og eru sumir þeirra ævagamlir. Í öðrum landshlutum eru manngerðir hellar nánast óþekktir. Hellarnir voru jafnan taldir til hlunninda, enda traustari og viðhaldsbetri hús en þau sem hlaðin voru úr torfi og grjóti. Til eru hellar sem gegna sínu gamla hlutverki enn í dag sem fjárhús, hlöður eða geymslur, en víðast hafa þeir lotið í lægra haldi fyrir járnbentri steinsteypu nútímans. Þegar hætt er að nota þá hnignar þeim ört eins og öðrum byggingum sem svo fer um. Nú eru síðustu forvöð eru að skoða og rannsaka marga þessara hella. Oftar en ekki er aldur þeirra gleymdur og nafn byggingameistarans týnt, aðeins er vitað, að hellarnir hafa gegnt hlutverki sínu um mannsaldra. Umdeildar kenningar hafa verið settar fram um tengsl þeirra við dvöl papa á landinu fyrir landnám norrænna manna. Blæja dulúðar hvílir því yfir hellunum. Í mörgum þeirra eru gamlar veggjaristur, fangamörk, ártöl, krossmörk, búmerki og jafnvel rúnir. Þekktustu manngerðir hellar á Íslandi eru Hellnahellir í Landsveit, Ægissíðuhellar við Rangá og Rútshellir undir Eyjafjöllum. Fenway Park. Fenway Park er heimavöllur Boston Red Sox, hafnaboltafélags sem leikur í MLB. Leikvangurinn er elstur allra í MLB deildinni, en hann opnaði árið 1912 og hefur verið heimavöllur Red Sox frá upphafi. Á vellinum hafa verið haldnar 9 World Series keppnir; árin 1912, 1915, 1916, 1918, 1946, 1975, 1986, 2004 og 2007. Boston Red Sox hafa unnið 7 World Series keppnir, síðast árið 2007. Uppselt hefur verið á hvern einasta heimaleik Red Sox frá 15. maí árið 2003. Árið 2008 varð uppselt á 456. leikinn í röð og þar með var sett nýtt met í bandarískum hafnabolta. .nf. .nf er þjóðarlén Norfolkeyju. .nc. .nc er þjóðarlén Nýju-Kaledóníu. .ne. .ne er þjóðarlén Níger. .ni. .ni er þjóðarlén Níkaragva. .np. .np er þjóðarlén Nepal. .nu. .nu er þjóðarlén Niue. .nz. .nz er þjóðarlén Nýja Sjálands. .om. .om er þjóðarlén Óman. .pa. .pa er þjóðarlén Panama. .pf. .pf er þjóðarlén Frönsku Pólýnesíu. .pg. .pg er þjóðarlén Papúa Nýju-Gíneu. .pm. .pm er þjóðarlén Sankti Pierre og Miquelon. .pn. .pn er þjóðarlén Pitcairn. .pr. .pr er þjóðarlén Púertó Ríkó. .ps. .ps er lén Heimastjórnarsvæðis Palestínumanna. .pt. .pt er þjóðarlén Portúgals. .py. .py er þjóðarlén Paragvæ. .qa. .qa er þjóðarlén Katar. .re. .re er þjóðarlén Réunion. .rw. .rw er þjóðarlén Rúanda. .sa. .sa er þjóðarlén Sádí Arabíu. .sd. .sd er þjóðarlén Súdan. .sg. .sg er þjóðarlén Singapúr. .sh. .sh er þjóðarlén Sankti-Helenu. .sj. .sj er þjóðarlén Svalbarða og Jan Mayen. .sn. .sn er þjóðarlén Senegal. .sr. .sr er þjóðarlén Súrínam. .st. .st er þjóðarlén Saó Tóme og Prinsípe. .sv. .sv er þjóðarlén El Salvador. Hellnahellir. Hellnahellir á Landi er mestur allra manngerðra hella á landinu. Hann er grafinn í mjúkan sandstein og er nálægt 50 m langur og bæði hár og víður. Hellirinn greinist í þrjá hluta, Heyhelli, Gamlahelli og Göngin. Veggjaristur og fornar hleðslur eru í hellinum. Bærinn Hellar (eða Hellur), þar sem hellirinn er, tekur nafn sitt af manngerðum hellum enda er ekki öðrum hellum til að dreifa á þeim slóðum. Ekki er þó víst að hann heiti eftir Hellnahelli sjálfum. Á Hellum eru tveir aðrir hellar uppistandandi, Lambhellir og Hestahellir. Allir eru hellarnir gamlir og stórir og með góðum forskálum. Í hlaðvarpanum fyrir framan bæinn á Hellum eru tvær lautir sem nefndar eru Kirkjur og eru það augljóslega leifar af hellum sem hafa hrunið. Fátt er vitað um aldur þessa mikla hellis en ljóst er þó að hann hefur orðið til á löngum tíma og á sér a.m.k. þrjú byggingarstig. Veggjaristur í honum segja ekki mikið um aldurinn en sýna þó að hann er a.m.k. frá 17.öld. Sagnir um að hann hafi orðið fyrir tjóni í jarðskjálfta um 1600 benda til enn hærri aldurs. Freistandi er að álykta að bærinn heiti eftir hellinum eða elstu hlutum hans. Sé svo er hellirinn eldri en frá 1332 því bæjarnafnið kemur fyrir í bréfi frá því ári. Raunar er ekkert sem mælir gegn því að hann sé eldri, jafnvel frá landnámsöld. Því hefur verið haldið fram að hann kunni að vera enn eldri og gerður af pöpum fyrir landnám norrænna manna en það er þó ólíklegt. Mombasa. Mombasa er önnur stærsta borgin í Kenýa á eftir Naíróbí. Hún stendur á Mombasaeyju við strönd Indlandshafs í suðurhluta landsins. Íbúar borgarinnar eru rúmlega 700 þúsund talsins. Kilindinihöfn er mikilvæg höfn sem var opnuð 1896 þegar vinna hófst við Úgandajárnbrautina sem liggur frá Mombasa til Úganda. Mombasaflugvöllur er alþjóðlegur flugvöllur. Boston Celtics. Boston Celtics er atvinnumannalið í körfubolta frá Boston, Massachusetts. Þeir spila í NBA deildinni í Bandaríkjunum. Alls hefur liðið unnið 17 NBA titla, flest allra liða, en átta þeirra unnu þeir í röð árin 1959-1966. Liðið vann titilinn í fyrsta skipti í 22 ár árið 2008. Hvanndalabræður. Hvanndalabræður voru þeir Bjarni, Jón og Einar Tómassynir frá Hvanndölum. Bjarni var þeirra elstur, 28 ára gamall, Einar yngstur, tæplega tvítugur. Þeir urðu landsfrægir eftir rannsóknarferð sína til Kolbeinseyjar árið 1616. Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum fékk þá til fararinnar. Tilgangur hennar var að mæla stærð eyjarinnar og afla upplýsinga um þau hlunnindi sem af henni mætti hafa. Hvanndalir eru lítil dalskora milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar. Þar var aðeins einn bær, afar afskekktur. Í Hvanndölum var búið frá því snemma á öldum en lítið er vitað um ábúendur. Í byrjun 17. aldar bjó þar maður að nafni Tómas Gunnlaugsson, faðir þeirra Hvanndalabræðra. Ekkert er vitað um ættir hans eða nafn húsfreyju. Hann lést af slysförum í Hvanndölum 1615. Bjarni drukknaði á Skagafirði 1617, árið eftir Kolbeinseyjarför. Helsta heimild um frægðarför Hvanndalabræðra er kvæðið eftir sr. Jón Einarsson í Stærra-Árskógi. Verslunarbankinn. Verslunarbankinn var íslenskur banki í einkaeigu (hlutafélag) sem var stofnaður 4. febrúar 1961. Bankinn var í raun stofnaður utanum rekstur Verzlunarsparisjóðsins sem hafði verið stofnaður 1956 og var orðinn stærsti sparisjóður landsins. Hann var stofnaður af Verslunarráði, Félagi íslenskra stórkaupmanna og Sambandi smásöluverslana. 3. janúar 1990 sameinaðist Verslunarbankinn Útvegsbankanum og Iðnaðarbankanum og myndaði Íslandsbanka „hinn síðari“. Papar. Papar voru samkvæmt íslenskum sagnariturum, írskir/skotskur einsetumenn eða munkar sem settust að í eyjum og útskerjum Atlantshafsins og á Íslandi áður en að landið byggðist norrænum mönnum. Frægasta heimild um veru þeirra á Íslandi er Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar. Talið er að Papar hafi verið á Íslandi fyrir landnám og verið þá aðeins nokkra mánuði í einu, frá febrúar til ágúst. Papar nefndu eyjuna Thule í sumum ritum sínum og þykir það líklegt að þeir hafi átt við Ísland, þeir sögðu Thule vera eyjuna þar sem að bjart er allan sólarhringinn að sumri en dimmt allan sólarhringinn um vetur. Íslendingabók er áreiðanlegasta heimildin um heimsóknir Papa til Íslands. Papar eru sagðir hafa yfirgefið Ísland vegna þess að norrænir menn settust hér að „því at þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn“ eins og segir í Íslendingabók eftir Ara Fróða. Þessir Papar hafa þá yfirgefið Ísland og farið til annara útskerja eða eyja. En enn þá hafa ekki fundist neinar fornleifar sem að benda til um heimsóknir þessara írsku munka svo að það er fátt við að styðjast nema sannleiksgildi Íslendingabókar. Nokkur örnefni, einkum suðaustanlands, tengjast pöpum, til dæmis Papey, Papós og Papbýli. Svo er kross í Heimakletti í Vestmannaeyjum sem talinn er papakross. Hreinlæti. Hreinlæti er það að vera hreinlátur, sem er að þvo eigin líkama með sápu, þrífa fatnað sinn og í kringum sig með þar til gerðum amboðum. Venjulega er hreinlæti til að koma í veg fyrir myndun sýkla eða óværu (s.s. lús í hári) og til að auka vellíðan. Flakkari (förumaður). Flakkari (eða förumaður) er maður sem ferðast milli staða, hvort sem er til ferðalaga, eða vegna þess að viðkomandi á hvergi heima og er á vergangi. Flakkarar settu töluverðan svip á íslenskt þjóðlíf, allt frá landnámi að upphafi 20. aldar. Íslenskir flakkarar (oft sveitaómagar) voru oft kvæðamenn eða góðir upplesarar á kvöldvökum eða unnu fyrir sér með ýmsum hætti, allt eftir því hvað þeir þurftu að gera til að fá gistingu og fæði. Flakkarar voru stundum nefndir "landshornaflakkarar" eða "landshornasirklar", "reikunarmenn", "slangarar" eða "slattarar". Einnig tíðkuðust heitin "umferðarkarl" og "brautingi". Knut Hamsun. Knut Hamsun (fæddur: "Knud Pedersen") (4. ágúst 1859 - 19. febrúar 1952) var norskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1920. Hann hafði mikil áhrif á Norðurlöndum, Rússlandi og víðar með einföldum, en áhrifamiklum ritstíl sínum. Hamsun er frægastur fyrir bækur sínar: Gróður jarðar, Pan og Sult. Tenglar. Hamsun, Knut Varúlfur. Varúlfur (einnig nefnt vargúlfur eða upphaflega mynd orðsins verúlfur) er þjóðsagnavera. Orðið merkir bókstaflega mannúlfur og á við mann, sem getur brugðið sér í úlfslíki eða haft hamskipti að sér óviljandi og þá oft vegna einhvers konar álaga. Varúlfar eru algengt minni í bókmenntum og kvikmyndum. .tc. .tc er þjóðarlén Turks- og Caicoseyja. .td. .td er þjóðarlén Tsjad. .tf. .tf er þjóðarlén Frönsku suðlægu landsvæðanna. .tk. .tk er þjóðarlén Tókelá. .tl. .tl er þjóðarlén Austur-Tímor. .tn. .tn er þjóðarlén Túnis. .to. .to er þjóðarlén Tonga. .tp. .tp er þjóðarlén Austur-Tímor. Það er enn í notkun þótt opinbera þjóðarlénið fyrir Austur-Tímor hafi orðið .tl þegar landið fékk sjálfstæði 2002..tl var þó ekki notað af neinum fram til ársins 2005. .tw. .tw er þjóðarlén Lýðveldisins Kína (Tævan). Höggmyndalist. Höggmyndalist er sú listgrein að höggva (hlutbundna eða óhlutbundna) mynd úr steini eða öðru hörðu efni, gera t.d. líkan úr marmara eða styttu úr bronsi. Áður en orðið "myndhöggvari" var myndað í íslensku, voru þeir sem stunduðu höggmyndalist stundum nefndir "bíldhöggvarar" og var það orð myndað að danskri fyrirmynd. Bíldhöggvari var þó oftast haft um myndskera, þ.e.a.s. þá sem fást við útskurð mynda. Höggmyndalist er einnig nefnt skúlptúr (af latínu "sculptura") eða plastísk list. Það er að segja listaverk sköpuð í þrívídd. Þjórsárhraunið mikla. Þjórsárhraunið mikla er hér sýnt í rauðum lit þar sem það sést á yfirborði. Á Veiðivatnsavæðinu er það hulið yngri hraunum (Kort eftir Guðmund Kjartansson, jarðfræðing) Þjórsárhraunið mikla er stærsta hraun á Íslandi bæði að flatarmáli og rúmmáli og stærsta hraun sem vitað er um að komið hafi upp í einu gosi á jörðinni á nútíma (þ.e. frá lokum síðasta jökulskeiðs fyrir um 11500 árum). Það tilheyrir flokki hrauna sem nefnast Tungnárhraun. Hraunið kom upp í eldstöðvum á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8600 árum (um 6600 f. Kr.). Eldstöðvarnar eru horfnar undir yngri gosmyndanir og á um 70 km löngum kafla niður með Tungná og Þjórsá er hraunið nær alstaðar hulið yngri hraunum. Gloppubrún á Landi myndar framjaðar þessa yngra hraunaflæmis en þar fyrir neðan þekur Þjórsárhraunið miklar víðáttur í Landsveit og Gnúpverjahreppi, á Skeiðum og í Flóa. Þjórsá og Hvítá/Ölfusá streyma niður með jöðrum hraunsins að austan og vestan. Þjórsárhraunið myndar ströndina milli Þjórsár- og Ölfusárósa. Sjór virðist hafa staðið 15 m lægra er hraunið rann en hann gerir nú. Við hækkandi sjávarborð hefur sjórinn flætt inn yfir hraunjaðarinn sem nú liggur neðansjávar mörg hundruð metra úti fyrir ströndinni. Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri standa á Þjórsárhrauni. Þykkt þess er víða 15-20 m og um 40 m þar sem það er þykkast. Flatarmálið er áætlað um 970 km² og rúmtakið um 25 km³. Þjórsárhraunið er gert úr dílabasalti þar sem stórir ljósir feldspatdílar sitja í dökkum fínkorna grunnmassa. Kevin Garnett. Kevin Maurice Garnett (f. 19. maí 1976 í Mauldin, Suður Karólínu) er bandarískur körfuknattleiksmaður sem spilar fyrir Boston Celtics í NBA deildinni. Hann er 2,11 metra hár kraftframherji. Hann lék með Minnesota Timberwolves árin 1995-2007 en var skipt til Boston Celtics sumarið 2007. Tenglar. Garnett, Kevin Proppé. Ætt Proppé á Íslandi er kennd við ættföðurinn Claus Eggert Dietrich Proppé (f. 24. júlí 1839, d. 14. september 1898). Claus Eggert Dietrich Proppé fæddist í Neumünster, Holstein í Þýskalandi. Foreldrar hans voru Carl Heinrich Proppe gestgjafi í Neumünster og kona hans Dorothea Proppe, fædd Reese. Claus Eggert Dietrich Proppé nam bakaraiðn í Kiel og lauk þar sveinsprófi 5. apríl 1858. Eftir að hafa lokið námi vann hann við iðn sína í Flensborg, Eutin og Hamborg þar til 1868. Eftir að til Íslands kom vann hann fyrstu sjö árin í Bernhöftsbakaríi í Reykjavík, en flutti til Hafnarfjarðar 1875 og stofnaði þar Havnefjords-bageri, oftast nefnt Proppé-bakarí, í félagi við Knudtzonsverslun. Síðar keypti hann hlut Knudtzons og rak brauðgerðarhúsið í eigin nafni til dauðadags. Proppé-bakarí stóð á Hamarskotsmöl, nánar tiltekið á þáverandi sjávarkambi rétt neðan og sunnan við þann stað þar sem Hafnafjarðarkirkja stendur nú og stuttu vestar á kambinum en gömlu húsin sem nú hýsa Fjörukránna. Claus Eggert Dietrich Proppé var einn af stofnendum Sparisjóðs Álftaneshrepps 27. nóvember 1875, sem varð Sparisjóðurinn í Hafnarfirði þann 15. janúar 1884, og var hann einn af níu ábyrgðarmönnum sparisjóðsins þar til hann lést. Hann kvæntist Helgu Jónsdóttur 15. desember 1875. Claus Eggert Dietrich Proppé lést um aldur fram í september 1898. Hafði hann þá búið á Íslandi í 30 ár. Grundaskóli. Grundaskóli er annar tveggja grunnskóla á Akranesi. Hinn skólinn er Brekkubæjarskóli Saga. Grundaskóli var stofnaður árið 1982 og hefur verið einsetinn frá árinu 2001. Námsgreinar. Í Grundaskóla er mikil áhersla lögð á list- og verkgreinar. Nemendur fá jafnan að velja hvað þeir taka sér fyrir hendur á hverri önn. Umferðarfræðsla. Þann 28. september 2005 undirrituðu Guðbjartur Hannesson þáverandi skólastjóri og Karl Ragnarsson, forstjóri Umferðarstofu samtarfssamning milli Grundaskóla og Umferðarstofu um að Grundaskóli tæki að sér hlutverk móðurskóla í umferðarfræðslu og staðfesti Sturla Böðvarsson þáverandi samgönguráðherra umræddann samning. Samningurinn var svo endurnýjaður þann 11. ágúst 2006 og gerður var samningur við Brekkuskóla á Akureyri, Flóaskóla í Flóahreppi í Árnessýslu og Grunnskóla Reyðarfjarðar um samstarf þess efnis að vinna að eflingu umferðarfræðslu í grunnskólum landsins. Í júni 2007 bættist Grunnskóli Seltjarnarness í hóp leiðtogaskólanna. Í febrúar árið 2006, opnaði vefurinn. Samkvæmt samningi sem Umferðarstofa, Námsgagnastofnun og Grundaskóli gerðu með sér, mun Umferðarstofa hýsa vefinn og sjá um öll tæknitengd mál, en Grundaskóli vinnur að efnisöflun og námsefnisgerð og Námsgagnastofnun annast ritstjórn efnisins. Viðurkenningar. Grundaskóli var fyrstur grunnskóla á Íslandi sem fékk Íslensku menntaverðlaunin. Brekkubæjarskóli. Brekkubæjarskóli er annar tveggja grunnskóla á Akranesi. Hinn skólinn er Grundaskóli. Saga. Brekkubæjarskóli hét lengi vel "Barnaskólinn á Akranesi". Í nokkur ár hét hann "Grunnskólinn á Akranesi", en þegar grunnskólar staðarins urðu tveir árið 1982 var skólinn nefndur Brekkubæjarskóli sem dregur nafn sitt af bænum sem áður stóð þar sem skólinn er nú staðsettur. Barnaskólinn á Akranesi tók til starfa haustið 1880 í nýju skólahúsi við götu sem dró nafn sitt af því, Skólabraut. Skólinn flutti í stærra hús við sömu götu árið 1912 og þar var hann til 1950, þann 19. nóvember það ár fluttist skólinn í núverandi húsnæði sem síðan hefur verið byggt við þrisvar sinnum. Næstu árin eftir að fjölbrautarskóli var stofnaður og Gagnfræðaskólinn á Akranesi lagður niður árið 1977, bættust þrír árgangar við í Brekkubæjarskóla og hefur hann síðan þá verið heildstæður grunnskóli með tíu árganga, þ.e. 1. til 10. bekk. Brekkubæjarskóli hefur verið einsetinn frá 2001, þ.e. allir nemendur hefja skóladag kl. 8 að morgni og hver bekkjardeild hefur sína stofu. Árið 2004 tók til starfa mötuneyti fyrir nemendur þar sem boðið er upp á heita máltíð í hádeginu. Kartöflubjalla. Kartöflubjalla (eða kólóradóbjalla) (fræðiheiti: "Leptinotarsa decemlineata") er bjalla sem er skaðvaldur á kartöfluökrum. Lýsing. Bjallan er sporöskjulaga og kúpt, um 10 mm löng og 7 mm breið með rauðgult höfuð og hálsskjöld og gula skjaldvængi með svarta flekki og svartar langrendur. Lirfan er í fyrstu dökkrauð en verður síðan gul með svarta flekki. Lífshættir. Kartöflubjalla liggur í vetrardvala djúpt í jörðu (25–40 sm) og vaknar til lífs á vorin eftir rigningar og þegar jarðvegshiti hefur náð 14 °C hita á því dýpi sem bjallan lá í dvala. Bjallan makast og kvendýrin verpa. Eggin klekjast út á 4-10 dögum. Lirfurnar ná fullum vexti á 15 dögum og grafa sig þá niður í jörðina og púpa sig. Bjöllur skríða svo úr púpum að 8-15 dögum liðnum. Útbreiðsla. Colorado potato beetle in Hédervár, Hungary Uppruni kartöflubjöllu (gult) og kartöflu (grænt) og útbreiðslusvæði bjöllunnar (appelsínugult) Upprunaleg heimkynni bjöllunnar eru í Suður-Ameríku og vestanverðri Norður-Ameríku en þaðan hefur hún dreifst austur eftir álfunni og borist til Evrópu í kringum aldamótin 1900. Hún hefur fundist á öllum Norðurlöndunum og í Bretlandi en hefur ekki náð þar fótfestu. Kartöflubjöllur á Íslandi. Kartöflubjöllur hafa þrisvar fundist á Íslandi. Sú fyrsta fannst í Reykjavíkurhöfn í júlí 1966, sú næsta á Seltjarnarnesi í júlí 1997 og sú síðasta í Reykjavík í maí 2006. Aðstæður til útbreiðslu virðast ekki vera hagstæðar fyrir kartöflubjöllu í Norður-Evrópu og Bretlandi. Dreifibréfsmálið. Dreifibréfsmálið (eða sjaldnar dreifibréfamálið) er atburður sem átti sér stað á Íslandi í síðari heimsstyrjöld eða 5. janúar árið 1941. Undanfari málsins var sá að Dagsbrúnarmenn voru í verkfalli og breskir hermenn gengu í störf þeirra. Þá fjölrituðu nokkrir Dagsbrúnarmenn bréf, þar sem þeir útskýrðu sjónarmið sín og var þeim dreift til breskra hermanna og í því voru þeir hvattir til að ganga ekki í störf Íslendinga sem voru í verkfalli. Breska stjórnin taldi hvatt til uppreisnar í bréfinu, fangelsaði sjö menn og afhenti þá íslenskum yfirvöldum að kröfu ríkisstjórnarinnar. Fjórir þeirra voru dæmdir í 4-15 mánaða fangelsi. Nokkrum mánuðum síðar handtók breska herstjórnin alla þrjá blaðamenn Þjóðviljans, Einar Olgeirsson, Sigfús Sigurhjartarson og Sigurð Guðmundsson, og bannaði útgáfu blaðsins (bannið stóð í eitt ár). Mennirnir voru fluttir til Bretlands og haldið þar í fangelsi fram á sumarið. Rauðar íslenskar. Rauðar íslenskar eru yrki af kartöflum sem algengt er í ræktun á Íslandi. Þær þykja bragðgóðar og hafa mikið þurrefnainnihald. Þær eru viðkvæmar fyrir kartöflumyglu. Talið er að rauðar íslenskar séu komnar frá kartöflum sem Björn Halldórsson í Sauðlauksdal setti niður árið 1760 og séu sama yrki og gömul norsk og sænsk t.d. "Gammel svensk röd". 1936 til 1942 vann Ólafur Jónsson ráðunautur að því að velja úr íslenskum rauðum til að jafna stærð og þyngd og var sá stofn kallaður Ólafsrauðar. Skrúðgarður. Skrúðgarður eða lystigarður er (stór) almenningsgarður með ýmiss konar plöntum, gangstígum o.fl. þar sem njóta má gróðurs og útiveru. Frægir skrúðgarðar á Íslandi eru t.d. Skrúður, garður Sigtyggs Guðlaugssonar á Núpi í Dýrafirði, garður Guðbjargar í Múlakoti og elsti trjágarðurinn á Íslandi sem er á Skriðu í Hörgárdal. Aðrir frægir skrúðgarðar hér á landi eru Hljómskálagarðurinn við Tjörnina í Reykjavík, garðurinn bakvið Alþingishúsið (Alþingishúsgarðurinn), Hellisgerði (skrúðgarður Hafnfirðinga) og Lystigarður Akureyrar. Mælieining. Mælieining er sú eining sem hefur verið kvörðuð af (ókunnum) upphafsmanni hennar eða eftir útlim, sbr. alin, eða með öðrum hætti, s.s. metrinn sem er einn tíumiljónasti hluti fjarlægðarinnar frá Norðurpólnum til miðjarðarlínunnar. Mælieiningar geta verið lengdareining (t.d. kílómetri, sjómíla og parsek) og þyngdareining (t.d. kíló, vætt og mörk), rúmmálseining (t.d. lítri, mörk og teningsmál), flatarmálseining (t.d. fermetri, ekra og eyrisvöllur) eða verðmætiseining (t.d. króna, evra og dollari). Eyrisvöllur. Eyrisvöllur er gömul mælieining, svonefnt vallarmál. Fyrst merkti eyrisvöllur 1/6 úr alvelli, 1055 2/3 ferfaðmar, um 2611 m². En seinna tók eyrisvöllur að merkja eina dagsláttu, 30 x 30 faðmar, 3409 m². Winchelsea. Sjóvarnargarðar við suðurströndina nálægt Winchelsea. Winchelsea er lítill bær í Austur-Sussex, Englandi, á suðurströndinni milli High Weald og Romney Marsh. Íbúar eru tæp 600 talsins. Uppreisn. Uppreisn (eða uppreist) er í almennum skilningi þegar fólk neitar að viðurkenna ríkjandi yfirvald og hefur samblástur gegn því. Uppreisn getur spannað allt frá borgaralegri óhlýðni að skipulegum tilraunum til að kollvarpa ríkjandi öflum með valdi. Hugtakið er oft notað um skipulega andspyrnu gegn ríkjandi stjórn hvort sem það er ríkisstjórn, skipsstjórn, herstjórn eða annars konar stjórn. Öldungadeild Bandaríkjaþings. Öldungadeild Bandaríkjaþings (enska: "United States Senate") er efri deild Bandaríkjaþings, en neðri deild þess er fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Löggjafarvaldinu er skipt milli þessara þingdeilda, og til þess að lög teljist gild, þarf samþykki beggja deilda. Engar aðrar stofnanir í Bandaríkjunum hafa löggjafarvald, en þingið getur veitt öðrum stofnunum heimildir til setninga reglugerða. Þingdeildirnar starfa í sitthvorri álmunni í þinghúsinu í Washington. Í öldungadeildinni sitja tveir fulltrúar frá hverju fylki Bandaríkjanna, óháð stærð ríkisins, en í fulltrúadeildinni fer fjöldi fulltrúa eftir stærð hvers ríkis. Þingmenn. Þingmenn öldungadeildarinnar eru 100 talsins og hefur hver og einn þar eitt atkvæði. Til samanburðar eru þingmenn fulltrúadeildarinnar um 435 talsins, þar sem hver hefur um 700.000 kjósenda að baki sér. Varaforseti Bandaríkjanna er deildarforseti en er ekki sjálfur öldungadeildarþingmaður og tekur ekki þátt í löggjafarstarfinu nema til að leysa úr jafntefli, ef ekki er hægt að mynda meirihluta. Í fjarveru hans sinnir varaforseti öldungadeildar Bandaríkjaþings starfi hans. Núverandi forseti öldungadeildarinnar er Joe Biden. Sögulegur bakgrunnur. Fyrirmynd öldungadeildar Bandaríkjaþings er Rómverska öldungaráðið, en nafnið (enska: "senate"), er einmitt dregið af latneska orðinu "senatus", sem þýðir öldungaráð. Þegar Bandaríkjamenn hlutu sjálfstæði árið 1776, var hugmyndin á bakvið stjórnskipan landsins sú að ríkin skyldu vera fullvalda, en yfir þeim öllum væri alríkisstjórn. Í fyrstu var einungis ein þingdeild starfandi í landinu og kaus þá löggjafarþing hvers ríkis þingmenn. Þessu var breytt árið 1787, þegar 17. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna var breytt og ákveðið var að þingdeildir Bandaríkjanna skyldu verða tvær. Kosningar til beggja deildanna voru þá færðar frá löggjafarþingum ríkjanna í hendur þegna, sem fengu þá rétt til að kjósa til öldungadeildarinnar og fulltrúadeildarinnar, í beinni kosningu. Sem ákveðin málamiðlun var ákveðið að hafa tvær þingdeildir, til að mæta kröfum þeirra sem töldu að þar sem ríkin væru fullvalda hvert fyrir sig, ætti að gæta jafnræðis fulltrúa þeirra og þeirra sem töldu að löggjafarvaldið ætti að gæta hagsmuna allra þegna Bandríkjanna. Ennfremur var talið að með því að hafa tvær þingdeildir, myndi temprun valds vera tryggð, þar sem samþykki beggja þingdeilda þarf til að frumvörp verði að lögum. Þannig gæti önnur deildin, fulltrúadeildin, verið fulltrúi þegna, þar sem beinar kosningar fara fram í einmenningskjördæmum. Hin deildin, öldungadeildin væri fulltrúi ríkjanna, og myndu öll ríkin fá jafnmarga fulltrúa til þess að tryggja að ekki yrði vegið að fullveldi smærri ríkja. Nefndir. Í öldungadeildinni eru starfandi 20 fastanefndir, 68 undirnefndir og fjórir samstarfsnefndir. Þá eru sérstakar nefndir sem ætlað er fara í gegnum umsóknir til forsetaframboðs, sem og sérstakar nefndir sem sjá um að rannsaka ásakanir um misferli. Fastanefndir hafa almennt umboð til löggjafarvalds á sínu sviði, en undirnefndirnar sjá um sérstök málasvið fyrir starfsnefndirnar. Það er svo hlutverk samstarfsnefnda að hafa yfirumsjón og sjá um daglegan rekstur. Formenn og meirihluti nefndarmanna í öllum nefndum eru fulltrúar þess þingflokks sem hefur meirihluta hverju sinni. Þegar þingmenn hafa borið upp frumvörp, eru þau send í nefnd. Þúsundum frumvarpa og samþykkta er vísað til nefnda á hverju tveggja ára þingi. Einungis hluti þeirra er tekinn til skoðunar og settur á dagskrá öldungadeildarinnar, þau frumvörp sem fá ekki umfjöllun í nefndunum eru sjaldnast tekin til frekari skoðunar af þinginu. Sérstök völd þingsins. Öldungadeildin þarf að samþykkja eða hafna öllum alþjóðasamningum sem framkvæmdavaldið hefur gert. Ennfremur er það hlutverk öldungadeildarinnar að staðfesta skipanir ráðherra, dómara og hershöfðingja. Ef embættismenn eru ákærðir fyrir brot í starfi (enska: "impeachment"), gegnir öldungadeildin hlutverki dómstóls. Öldungadeildin getur ekki stofnað til löggjafar hvað varðar skattheimtu, fulltrúadeildin fer ein með það vald. Þó getur öldungadeildin gert breytingar á skattafrumvörpum sem koma frá fulltrúadeildinni. Það hefur heldur ekki tíðkast að öldungadeildin leggi fram frumvörp um útgjöld alríkisfjár, það hefur að vísu komið fyrir, en þar sem fulltrúadeildin lítur svo á að það sé ekki málaflokkur öldungadeildarinnar, hefur hún ekki tekið slík frumvörp til umræðu. Þá hefur öldungadeildin ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hæfniskröfur öldungadeildaþingmanna. Til þess að geta boðið sig fram til öldungadeildarinnar þarf viðkomandi að hafa náð 38 ára aldri, hafa verið bandarískir ríkisborgarar í að lágmarki 9 ár og vera með lögheimili í þeim ríkjum þar sem þeir bjóða sig fram. Kosningar og kjörtímabil. Kosningar til öldungadeildarinnar fara fram á tveggja ára fresti en öldungadeildarþingmenn eru þó kosnir til sex ára í senn. Í hverjum kosningum er einungis einn þriðji hluti þingmanna í kjöri. Þegar þingið hóf störf upprunalega, sat einn hópur þingmanna á þingi í tvö ár, annar í fjögur og þriðji hópurinn í sex ár. Upp frá því hefur svo bæst nokkurn veginn jafnt í hvern hóp. Síðustu kosningar fóru fram í nóvember 2008 en næstu kosningar til öldungadeildar fara fram í nóvember 2010. Meirihluti og minnihluti. Í Bandaríkjunum er tveggja flokka kerfi, og deila demókrataflokkurinn og repúblikanaflokkurinn sætum í báðum þingdeildum. Í öldungadeild eru demókratar í núverandi meirihluta öldungadeildarinnar, demókratar hafa alls 57 þingmenn og repúblikanar hafa 41 þingmenn. Tveir þingmenn öldungadeildarinnar eru óháðir. Lýðveldishátíðin 1944. Lýðveldishátíðin var hátíð sem haldin var á Þingvöllum 17. júní 1944. Alþingi hélt þar sérstakan þingfund og lýsti forseti sameinaðs Alþingis yfir gildistöku nýrrar stjórnarskrár þar sem Ísland var lýst lýðveldi. Daginn áður hafði þingið samþykkt að fella úr gildi Sambandslögin frá 1918 í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. og 23. maí sama ár. Við sama tækifæri voru samþykkt lög um fána Íslands og skjaldarmerki Íslands. Lýðveldishátíðin. Lýðveldishátíðin getur átt við um tvær hátíðir sem haldnar hafa verið á Íslandi. Frits Thaulow. Frits Thaulow (1847 – 5. nóvember 1906) var norskur listmálari sem var einn af þekktustu listamönnum Noregs á 19. öld. Hann varð fyrir áhrifum frá frönsku impressjónistunum og verk hans voru sýnd á sýningunni Salon de Paris. Thaulow, Frits Alþingishátíðin. Alþingishátíðin var hátíð sem haldin var á Þingvöllum á Íslandi árið 1930 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Hátíðin var formlega sett af Kristjáni 10. 26. júní og var slitið 28. júní. Hátíðin fór fram í sérstökum tjöldum á Þingvöllum. Alþingishátíðin var merkileg fyrir margra hluta sakir, þótt í raun væri aðeins um minningarhátíð að ræða. Þar voru t.d. fyrst notuð íslensku sýslumerkin sem voru teiknuð sérstaklega fyrir hátíðarskrúðgöngu. Daginn fyrir setninguna, eða 25. júní, var sett norrænt stúdentamót með móttökuathöfn í Gamla bíó og átta Vestur-Íslendingar voru gerðir að heiðursdoktorum við Háskóla Íslands, þeirra á meðal Vilhjálmur Stefánsson. Danir skiluðu Valþjófsstaðahurðinni í tilefni að Alþingishátíðinni. Tvær myndlistarsýningar. Meðal þeirra mörgu viðburða sem efnt var til í tilefni hátíðarinnar var myndlistarsýning í sérstökum skála sem var reistur við Austurvöll milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis þar sem Listamannaskálinn reis síðar. Þeir sem þar sýndu voru Ásmundur Sveinsson, Ríkarður Jónsson, Einar Jónsson, Ásgrímur Jónsson, Guðmundur Einarsson, Finnur Jónsson, Eggert Laxdal, Jón Stefánsson, Jóhannes Kjarval, Gunnlaugur Blöndal, Jón Þorleifsson, Sveinn Þórarinsson, Karen Þórarinsson, Júlíana Sveinsdóttir og Þorvaldur Skúlason sem var yngstur þessara listamanna. Margir yngri listamenn fengu ekki að sýna á sýningunni og brugðust við með því að stofna Félag óháðra listamanna og efna til sýningar í gömlu Landakotskirkju sem þá var íþróttahús ÍR. Þeir listamenn sem þar sýndu voru Snorri Arinbjarnar, Gunnlaugur Scheving, Jón Engilberts, Eyjólfur J. Eyfells, Freymóður Jóhannsson, Höskuldur Björnsson, Ásgeir Bjarnþórsson, Magnús Á. Árnason, Kristinn Pétursson, Kristján Magnússon og Eggert Guðmundsson. Listamannadeilan. Listamannadeilan var deila menntamálaráðs, undir forystu Jónasar Jónssonar frá Hriflu og íslenskra myndlistarmanna sem átti sér stað 1941-1942. Deilan náði hámarki þegar Jónas setti upp „háðungarsýningu“ á verkum nokkurra listamanna í búðarglugga Gefjunar í Aðalstræti í Reykjavík 26. apríl 1942. Ávarpið. Aðdragandi deilunnar var að fjórtán myndlistarmenn sendu Alþingi um mitt ár 1941 kvörtun vegna listaverkakaupa menntamálaráðs fyrir íslenska ríkið og hvöttu til þess að í ráðinu sæti einhver sem hefði sérþekkingu á myndlist. Listamennirnir voru ósáttir við þá afstöðu ráðsins að kaupa einungis frásagnarlist með þjóðlegu myndefni en sniðganga verk mikils meirihluta menntaðra myndlistarmanna. Ávarpið var birt í Morgunblaðinu 7. maí. Undir það skrifuðu Þorvaldur Skúlason, Ásgrímur Jónsson, Finnur Jónsson, Ásmundur Sveinsson, Gunnlaugur Scheving, Jón Engilberts, Sveinn Þórarinsson, Jón Þorleifsson, Marteinn Guðmundsson, Jóhann Briem, Jóhannes Kjarval, Kristín Jónsdóttir, Karen Þórarinsson og Nína Tryggvadóttir. Menntamálaráð brást skjótt við með svari 20. maí þar sem það réttlætti listaverkakaup sín og listamenn svöruðu aftur 22. maí. Ekki bætti úr skák að árið 1941 keypti ráðið ekkert verk af íslenskum myndlistarmönnum og bar við fjárskorti, og auk þess báru reikningar þess með sér að einungis einn þriðji þess fjár sem ráðinu hefði verið fenginn til kaupanna hefði verið nýttur til þeirra frá stofnun ráðsins 1928. Tímagreinarnar. Í upphafi árs 1942 birti Jónas Jónsson greinaröðina „Skáld og hagyrðingar“ í Tímanum þar sem hann lýsti skoðunum sínum á myndlist, kallaði tiltekna myndlistarmenn „klessumálara“ og sakaði þá um að reyna að blekkja fólk til að halda að það sem þeir væru að fást við væri list. Við þessum greinum brást Bandalag íslenskra listamanna hart með nýju ávarpi til Alþingis 16. apríl. Gefjunarsýningarnar. Þann 26. apríl lét Jónas upp á sitt einsdæmi setja upp sýningu í búðarglugga verslunarinnar Gefjunar í Aðalstræti í Reykjavík. Sýningin innihélt verkin "Þorgeirsboli" eftir Jón Stefánsson, "Hjörtur Snorrason" eftir Gunnlaug Scheving, "Kona" eftir Jóhann Briem, "Í sjávarþorpi" eftir Jón Engilberts og "Við höfnina" og "Blá kanna" eftir Þorvald Skúlason. Sýningunni var ætlað að draga dár að verkum listamannanna eins og berlega kom fram í grein eftir Jónas sem birtist í Tímanum daginn eftir opnunina og bar titilinn „Er þetta það sem koma skal?“. Sýningin minnti óneitanlega á myndlistarsýninguna "Entartete Kunst" sem nasistar efndu til árið 1937 og viðbrögðin létu heldur ekki á sér standa með blaðaskrifum manna á borð við Sigurð Nordal prófessor og Stein Steinarr. 2. maí var sýningin tekin niður og önnur sett upp, að þessu sinni á verkum sem væru til eftirbreytni. Þar voru verk eftir Sigurð Guðmundsson og Þórarinn B. Þorláksson, Ríkarð Jónsson, Gunnlaug Blöndal, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval og Jón Stefánsson, sem einnig hafði átt eftirminnilegasta verkið á fyrri sýningunni, "Þorgeirsbola". Listamannaskálinn. Árið 1942 hafði Bandalag íslenskra listamanna staðið í ströngu í deilunni. Um vorið hafði það breytt um skipulag og var nú samsett úr þremur aðildarfélögum (myndlistarmanna, rithöfunda og tónskálda). Um haustið hélt bandalagið „listamannaþing“ að tillögu Páls Ísólfssonar. Í október voru Alþingiskosningar haldnar og í kjölfarið var skipt um menn í menntamálaráði. Formaður var Valtýr Stefánsson sem hafði gagnrýnt fyrri ákvarðanir ráðsins í blaðagreinum. Bandalagið ákvað í framhaldi af þinginu að ráðast í að byggja sýningarskála listamanna sem átti að taka á tilfinnanlegum skorti á sýningarhúsnæði í borginni. Úthlutað var lóð við hlið Alþingishússins, milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis. Byggingu skálans, sem síðar gekk alltf undir nafninu Listamannaskálinn, lauk snemma árs 1943, meðal annars fyrir fé sem safnaðist með happdrætti sem myndlistarmenn efndu til þar sem verk þeirra voru verðlaun. Amt. Amt er dönsk stjórnsýslueining sem var við lýði á Íslandi frá árinu 1684 til ársins 1904. Æðsti embættismaður í amti var amtmaður og var Ísland eitt amt í Konungsríkinu Danmörku á tímabilinu 1684-1770. Því var síðan skipt niður í tvö ömt Suður- og Vesturamt og Norður- og Austuramt árið 1770. Árið 1787 var Suður- og Vesturamt síðan klofið niður í Suðuramt og Vesturamt en þau voru seinna sameinuð aftur árið 1872 með tilkomu embættis landshöfðingja. Amtskipanin var lögð af árið 1904 þegar Íslendingar fengu heimastjórn. Listamannaskálinn. Listamannaskálinn var sýningarskáli í Kirkjustræti sem var reistur af Félagi íslenskra myndlistarmanna árið 1943 fyrir söfnunar- og gjafafé. Hann var reistur sem bráðabirgðahúsnæði á lóð sem íslenska ríkið úthlutaði félaginu við hliðina á Alþingishúsinu milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis við Austurvöll í Reykjavík. Skálinn var fyrsta sýningarhúsnæðið á Íslandi sem var sérstaklega reist fyrir myndlistarsýningar. Fyrsta sýningin sem þar var haldin var yfirlitssýning félagsins í apríl 1943. Hann var rifinn árið 1968, sama ár og framkvæmdir hófust við Kjarvalsstaði, og þótti þá mjög úr sér genginn. Á lóðinni stendur nú Skálinn, viðbygging við Alþingishúsið sem var reist árið 2002. Amtmaður. Amtmaður var æðsti embættismaður í amti, stjórnsýslueiningu sem var við lýði á Íslandi frá árinu 1684 til ársins 1904. Amtmaður heyrði undir stiftamtmann á tímabilinu 1684-1872 og undir landshöfðingja á tímabilinu 1872-1904. Embætti amtmanns var lagt af þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904. Amtmaður átti að vera búfastur á Íslandi og hafa umsjón með löggæslu, dómsmálum og kirkjumálum í fjarvist stiftamtmanns og eftirlit með veraldlegum embætismönnum. Sá sem fyrstur var skipaður í þetta embætti var Christian Müller, danskur maður, og varð hann áður langt leið illa þokkaður af landsmönnum fyrir þjösnaskap og embættisglöp. Yfirstjórn allra landsmála eftir upptöku amtmannsembættis var í Kaupmannahöfn og lágu fjármálin og atvinnumálin oftast undir Rentukammerið sem kallað var, en dómsmál og landsstjórnarmál undir Kansellíið og gengu svo þaðan til konungs. Var þetta mikil breyting, því að áður hafði höfuðsmaðurinn einn haft allan veg og vanda af landsstjórninni og staðið beinlínis undir konungi. Alþingi Íslendinga fór upp frá þessu síhnignandi, og lögum og réttarfari var breytt á ýmsa lund eftir útlenskri fyrirmynd, en konungur tók sjálfur að skipa biskupa og lögmenn í embætti, sem áður höfðu vanalega verið kosnir af landsmönnum, og voru þetta allt saman afleiðingar af einveldinu. Holdsveikraspítali. Holdsveikraspítali var sjúkrahús eða aðhlynningarstofnun fyrir þá sem þjáðust af holdsveiki. Saga holdsveikraspítala á Íslandi. Á Íslandi voru stofnaðir fjórir holdsveikraspítalar hér með konungsbréfi árið 1652. Var einn á Hörgslandi á Síðu fyrir Austfirðingafjórðung, annar í Klausturhólum í Grímsnesi fyrir Sunnlendingafjórðung, þriðji var holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit fyrir Vestfirðingafjórðung og sá fjórði að Möðrufelli í Eyjafirði fyrir Norðlendingafjórðung. Þetta voru að vísu aldrei spítalar nema að nafninu til, því engir læknar voru til að líta eftir þeim og ekkert hjúkrunarlið. Biskup og lögmaður höfðu fyrst yfirumsjón með þeim, hver í sínu stifti, réðu þangað ráðsmenn, sem fengu ábúð á spítalajörðunum og tóku að sér að sjá sjúklingum fyrir nauðsynjum þeirra og gera grein fyrir tekjum og útgjöldum stofnananna. Í bólusóttinni miklu árið 1707 dóu flestir holdsveikissjúklingar á Íslandi og var fátt um slíka sjúklinga næstu áratugina. Þannig segir Eggert Ólafsson frá því að árið 1765 hafi aðeins verið 2 sjúklingar í Hörgslandsspítala, og um mörg undanfarin ár hafi verið einn og tveir sjúklingar í Möðrufellsspítala. Þegar hann ferðaðist hér hafði spítalinn í Klausturhólum verið fluttur að Kaldaðarnesi. Holdveikraspítalinn í Laugarnesi. "Aðalgrein": Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi Í Laugarnesi var starfræktur holdsveikraspítali á árunum 1898-1943. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi­ og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi. Holdsveikraspítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi um 237 verið holdsveikir á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota. Spítalabyggingin brann til grunna 7. apríl 1943. Hernámsliðið hafði þá yfirtekið spítalann. Þeir fáu holdsveikisjúklingar sem enn voru á landinu höfðu nokkru áður verið fluttir á Kópavogshæli. Stiftamtmaður. Stiftamtmaður (eða stiftbefalingsmaður) var æðsti fulltrúi Danakonungs á Íslandi á árunum 1684- 1872 ásamt því að vera æðsti handhafi framkvæmdarvalds á Íslandi. Stiftamtmaður sat í Kaupmannahöfn alveg þangað til ársins 1770 en þá sat hann á Íslandi. Á árunum 1770-1787 var hann einnig amtmaður í Suður- og Vesturamti en þegar því var skipt í tvö ömt árið 1787 var hann eingöngu amtmaður í Suðuramti ásamt því að vera Stiftamtmaður. Stiftamtmannsembættið var lagt niður árið 1872 og embætti landshöfðingja kom í staðinn. Amtmannsembættin voru hins vegar ekki lögð niður fyrr en með heimastjórninni 1904. Fyrsti stiftamtmaður á Íslandi var Ulrik Christian Gyldenløve, launsonur Kristjáns 5. Hann var aðeins 5 ára þegar hann tók við embættinu. Stiftamtmaður átti að hafa aðalumsjón með landsstjórninni og eftirlit með dómsmálum og kirkjumálum. Stiftamtmaður fékk ákveðin laun, en hafði ekki landið á leigu, eins og tíðkaðist hafði um hirðstjóra og höfuðsmenn. Nokkrum árum síðar, eða árið 1688, var skipaður hér amtmaður, en hann átti að vera búfastur á Íslandi. .ug. .ug er þjóðarlén Úganda. .us. .us er þjóðarlén Bandaríkjana. .uy. .uy er þjóðarlén Úrúgvæ. .va. .va er lén Vatíkansins. .vc. .vc er þjóðarlén Sankti Vinsent og Grenadíneyja. .ve. .ve er þjóðarlén Venesúela. .vi. .vi er þjóðarlén Bandarísku Jómfrúaeyja. .vn. .vi er þjóðarlén Víetnam. .wf. .wf er þjóðarlén Wallis- og Fútúnaeyja. .ws. .ws er þjóðarlén Samóaeyja. .yt. .yt er þjóðarlén Mayotte. .yu. .yu var þjóðarlén Júgóslavíu. Papar (hljómsveit). Papar er íslensk hljómsveit sem hefur starfað í um 20 ár. .zr. .zr er fyrrum þjóðarlén Saír sem var endurnefnt Austur-Kongó ("Democratic Republic of the Congo") árið 1997. .cd er nú þjóðarlén Austur-Kongó. .um. .um er þjóðarlén fyrir Smáeyjar Bandaríkjanna en er ekki í notkun. Axel Oxenstierna. Axel Gustafsson Oxenstierna (16. júní 1583 – 28. ágúst 1654) greifi af Suðurmæri, var sænskur stjórnmálamaður. Hann varð ráðherra í leyndarráðinu 1609 og var ríkiskanslari Svíþjóðar frá 1612 til dauðadags. Hann var aðalráðgjafi Gústafs Adolfs og Kristínar Svíadrottningar. Oxenstierna lék mikilvægt hlutverk í Þrjátíu ára stríðinu og var skipaður landstjóri í Prússlandi þegar Svíar lögðu það undir sig. Hann lagði einnig grunninn að sænskri stjórnsýslu og er talinn ein af áhrifamestu persónum sænskrar sögu. Skötufjörður. Skötufjörður er 16 km langur eyðifjörður sem liggur til suðurs út frá Ísafjarðardjúpi miðju, milli Skarðseyrar og Hvítaness í Súðavíkurhreppi. Beggja vegna fjarðarins eru brattar, stöllóttar klettahlíðar, Eyrarhlíð að vestan og Fossahlíð að austan. Þær þóttu báðar illar yfirferðar, einkum Fossahlíð. Inn af firðinum liggur Skötufjarðarheiði fram á Glámuhálendið. Við mynni fjarðarins, úti fyrir Hvítanesi, er eyjan Vigur. Aðeins einn bær er í byggð, Hvítanes. Um 1950 voru þessir átta bæir í byggð í Skötufirði: Hvítanes, Litlibær, Eyri, kleifar, Borg, Kálfavík, Hjallar og Skarð en árið 1969 lögðust fjórir bæir í eyði. Vindmylla. Vindmylla er mylla sem er knúin áfram af vindinum með blöðum sem fest eru á snúningsás. Vindmyllur hafa verið notaðar til að mala korn og dæla vatni frá miðöldum fram á okkar daga. Nú til dags er algengt að nota vind til framleiðslu rafmagns með vindrafölum. Spjót. Spjót er lag- og kastvopn sem notað er í hernaði og til veiða. Spjót eru langt skaft (venjulega úr viði) með yddum enda eða oddi úr tinnu eða málmi. Spjót voru algengustu vopnin frá því á bronsöld þar til nútímaskotvopn komu til sögunnar. Nashyrningur. Nashyrningur (fræðiheiti: "Rhinocerotidae") er ætt hófdýra sem telur aðeins fimm núlifandi tegundir. Tvær af þessum tegundum lifa í Afríku og þrjár í Suður-Asíu. Þrjár af þessum tegundum eru í alvarlegri útrýmingarhættu og ein er í útrýmingarhættu. Nashyrningar eru stórar jurtaætur og verða allt að tonn að þyngd. Þeir eru með mjög þykka húð (1-1,5 sm að þykkt) tiltölulega lítinn heila og stórt horn á nefinu. Ólíkt öðrum hófdýrum eru nashyrningar ekki með tennur í framgómi og treysta því aðeins á öfluga jaxla til að mala fæðuna. Nashyrningar hafa góða heyrn og lyktarskyn en lélega sjón. Þeir ná um sextíu ára aldri. Vesturfarar. Vesturfarar voru Íslendingar sem héldu til Brasilíu, Kanada og Bandaríkjanna á ofanverðri 19. öld og stóðu fólksflutningarnir allt fram að fyrri heimstyrjöld eða frá 1870 til 1914. Mestir voru þeir þó á ofanverðri 19. öld. Ástæður fólksflutninganna voru margvíslegar, oftast voru þær fjárhagslegar, veðurfarslegar og tengdust skort á landrými (eða vistarbandinu), óánægja með gang sjálfstæðisbaráttunnar og stundum einnig ævintýraþrá. Eldgos í Öskju þann 29. mars 1875 hafði einnig mikið að segja, enda lagðist aska og ryk yfir stóran hluta norðausturhluta Ísland. Talið er að heildarfjöldi vesturfara hafi verið 15-20.000. Vesturfaraskrá telur um 14.000 nöfn sem að mestu eru tekin af farþegalistum skipa, en hún er ekki tæmandi. Brim hf.. Brim hf. (e. BrimSeaFood) er íslenskt útgerðar- og fiskverkunarfyrirtæki. Árið 2006 störfuðum rúmlega 300 manns hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið segist hafa aflaheimildir sem nema um 25.000 þorskígildum í hinum ýmsu fisktegundum. Fyrirtækið var stofnað 1998 af feðgunum Kristjáni Guðmundssyni, Hjálmari Kristjánssyni og Guðmundi Kristjánssyni sem gerðu út frá Rifi á Snæfellsnesi. Árið 2004 keypti fyrirtækið Útgerðarfélag Akureyrar fyrir níu milljarða af Eimskipafélagi Íslands. Fyrirtækið hét áður Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. en nafninu var breytt í Brim árið 2005. Sighvatur Þórðarson. Ólafur digri réttir Sighvati sverð að skáldalaunum. Sighvatur Þórðarson (995 – um 1047) var íslenskt skáld. Faðir hans hét Þórður Sigvaldaskáld og var hann með Ólafi digra Haraldssyni í víkingaferðum. Sighvatur var fóstraður við Apavatn, og er sagður hafa fengið skáldíþrótt sína með því að borða höfuð viskufiska úr vatninu í bernsku. Hann var eitt helsta skáld Íslendinga á 11. öld og er meira varðveitt af kveðskap hans en nokkurs annars samtímaskálds. Sighvatur gerðist hirðskáld og höfuðskáld Ólafs konungs Haraldssonar og var jafnframt stallari hans. Hann var þó ekki í orrustunni á Stiklarstöðum með konungi því þá hafði hann farið í suðurgöngu til Rómar og var á heimleið þegar hann frétti fall konungs. Hann var einnig um tíma hirðskáld Knúts ríka, Magnúsar góða og Önundar Svíakonungs. Flest varðveitra kvæða hans eru lofkvæði sem róma dáðir konunganna. Elstar eru "Víkingavísur", líklega ortar um 1015, þar sem sagt er frá víkingaferli Ólafs konungs fram til þess tíma. Í kjölfarið komu "Nesjavísur", þar sem Sighvatur lýsir sjóorrustu milli Ólafs og Sveins Hákonarsonar árið 1016 en Nesjaorrusta skipti sköpum í baráttu Ólafs til að komast í hásætið í Noregi. Samkvæmt því sem segir í Heimskringlu var það Sighvatur sem valdi Magnúsi góða nafn og kom þar með Magnúsarnafninu inn í norræna nafnahefð. Móðir drengsins, frilla Ólafs konungs, ól hann að næturlagi og var honum ekki hugað líf, svo ákveðið var að skíra hann strax, en konungur var sofandi. Sighvatur taldi áhættuminna að velja barninu nafn en vekja konung og var drengurinn skírður. Þegar Ólafur vaknaði brást hann reiður við og spurði: „Hví léstu sveininn Magnús heita? Ekki er það vort ættnafn.“ Sighvatur svaraði þá: „Eg hét hann eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi eg mann bestan í heimi.“ Þetta svar dugði til að sefa reiði konungsins. Um Sighvat er það sagt að hann var ekki hraðmæltur maður í sundurlausum orðum, en skáldskapur var honum svo tiltækur, að hann mælti af tungu fram svo sem annað mál. Einna þekktasta kvæði hans er Bersöglisvísur, sem ortar voru sem áminning til Magnúsar konungs góða þegar hann hafði nýtekið við konungdómi og þótti fara offari gegn þegnunum. Konungur hlýddi á ráðleggingar hans og breytti um stefnu. Dervisar. Dervisar (tyrkneska: "Abdal") eru félagar í múhameðsku bræðralagi af ætt súfisma; þeir iðka undirgefni, fátækt og sjálfsafneitun og ferðast um með söng og dansi. Þeir reyna að komast í persónulegt samband við Guð og ein aðalaðferð þeirra til þess er einskonar sveifludans. Í þessum dansi, snúast þeir í endalausa hringi eins hratt og þeir geta í takt við trúarlega arabíska tónlist um leið og þeir endurtaka nafn Allah í sífellu. Vatnshlot. Vatnshlot (enska: "body of water") er viss eining af vatni, oft afmörkuð sem t.d. allt það vatn sem er að finna í einu vatni, s.s. Mývatni. Hugtakið vatnshlot er oftast notað um mikið magn af vatni, en getur þó einnig tekið til grunnvatns, tjarna og mýrarvatns. Vatn sem rennur í ám og fljótum t.d. er þó ekki hægt að fella undir vatnshlot, þar eð erfitt er að afmarka það. Ofvöndun. Ofvöndun (eða of(leið)rétting) er það þegar menn vanda mál sitt um of og gera málvillur í þeirri trú að þeir séu að vanda málfar sitt. Stígvél. Stígvél er skór sem hylur bæði fótinn og ökklann og nær stundum upp að hnjám eða jafnvel nára. Flest stígvél eru með hæl sem er aðgreindur frá sólanum. Stígvél eru oftast úr leðri eða gúmmíi en geta verið úr ýmsum efnum. Stígvél þjóna því hlutverki að hlífa fætinum við vatni, leðju og snjó. Á meðal heita á stígvélum má nefna barnastígvél, dömustígvél, hermannastígvél, klofstígvél, reiðstígvél, sjóstígvél, vaðstígvél, veiðistígvél og rosabullur. Stígvélaði kötturinn er þekktur fyrir að ganga aldrei í öðru en stígvélum. Orðsifjafræði. Orðið „stígvél“ er alþýðuskýring sem kemur frá miðlágþýska orðinu "stevel" eða danska orðinu "støvle"; en breyttist í "stígvél" vegna þess að talið var að orðið væri dregið af sögninni „að stíga“ og nafnorðinu „vél“. Esjan. Esja (oftast með greini, Esjan) er fjall á Kjalarnesi, sem nú er innan borgarmarka Reykjavíkur, og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Útsýni til fjallsins hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu, og til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum í fjallinu. Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Esja er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi. Hæsti kambur á Esju miðri, séð úr Reykjavík, heitir "Kerhólakambur". Nafnið „Esja“. Í Kjalnesinga sögu er talað um bæinn "Esjuberg" þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni "Esja" hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkur að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“. Beinabúr. Beinabúr (beinaklefi eða beinahús) (latína: "ossuarium") er sérstök bygging, neðanjarðarhús, herbergi eða jafnvel kistill beina (oftast) frá miðöldum, þar sem höfuðkúpur og bein látinna manna eru geymd. Oft eru beinabúrin í kirkjukjöllurum eða á öðrum vígðum stöðum, og hafa bein verið flutt þangað úr yfirfullum kirkjugarði (eða kirkjugörðum). Spilakassaleikur. Spilakassaleikur er tölvuleikur sem er spilaður í spilakassa. Spilakassaleikir voru eitt sinn meðal vinsælustu gerðum tölvuleikja. Til voru svokallaðir spilakassasalir sem buðu upp á marga spilakassa þar sem notandinn gat valið á milli. Þessir leikir voru margir með mun betri grafík en venjuleg tölva eða leikjatölva gat boðið upp á. En með tímanum urðu bæði tölvur og leikjatölvur öflugari og öflugari og smám saman féllu spilakassarnir í skuggann á þessum nýju tölvum. Á endanum gátu þær boðið upp á betri grafík og lengri spilunartíma fyrir minni pening og við þetta gátu spilakassarnir ekki keppt. Sem dæmi um íslenskan spilakassasal má nefna Leiktækjasalinn Fredda. Bandalag íslenskra listamanna. Bandalag íslenskra listamanna er bandalag fjórtán aðildarfélaga listamanna á Íslandi. Forseti bandalagsins er Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri. Bandalagið var stofnað af rithöfundum, tónskáldum og myndlistarmönnum á Hótel Heklu 6. september 1928. Hlutverk þess er að hafa áhrif á stefnumótun í menningarmálum og vera jafnframt hagsmunasamtök listamanna. Rithöfundasamband Íslands. Rithöfundasambandið er stéttarfélag rithöfunda á Íslandi sem var upphaflega stofnað árið 1957 sem bandalag tveggja rithöfundafélaga; Rithöfundafélags Íslands og Félags íslenskra rithöfunda. Félag íslenskra rithöfunda var klofningsfélag, stofnað 1945 vegna ágreinings innan Rithöfundafélagsins og félögin tvö skiptust lengi vel eftir pólitískum átakalínum. Við stofnun sambandsins tók það við aðild félaganna að Bandalagi íslenskra listamanna. Árið 1974 var gamla Rithöfundasambandið lagt niður og nýtt stofnað sem eitt stéttarfélag íslenskra rithöfunda um leið og Rithöfundafélagið var lagt niður. Félag íslenskra rithöfunda var þó ekki lagt niður og hélt áfram einhverri starfsemi þótt það kæmi ekki lengur fram sem stéttarfélag og félagar þess væru einnig félagar í sambandinu. 1982 lá við nýjum klofningi þegar félagar í FÍR lýstu því yfir að þeir teldu fram hjá sér gengið við úthlutanir Launasjóðs rithöfunda. Sambandið hefur frá 1997 aðsetur í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, í Reykjavík. Félag íslenskra rithöfunda. Félag íslenskra rithöfunda var stéttarfélag „lýðræðissinnaðra íslenskra rithöfunda“ sem varð til úr klofningi á aðalfundi Rithöfundafélags Íslands 18. mars 1945. Formannskosning lá fyrir og hafði fráfarandi formaður, Friðrik Á. Brekkan, lagt til að Guðmundur G. Hagalín tæki við af sér. Kosningin fór hins vegar þannig að Halldór Stefánsson var kosinn með fimmtán atkvæðum gegn tíu. Guðmundur og ellefu aðrir lásu þá upp yfirlýsingu á fundinum þar sem þeir sögðu sig úr félaginu. Þetta voru, auk Guðmundar, Friðrik Brekkan, Kristmann Guðmundsson, Gunnar M. Magnús, Kjartan J. Gíslason, Sigurður Helgason, Ármann Kr. Einarsson, Þórir Bergsson, Óskar Aðalsteinn Guðjónsson, Davíð Stefánsson, Elínborg Lárusdóttir og Jakob Thorarensen. Þau stofnuðu síðan Félag íslenskra rithöfunda 29. apríl og gáfu út safnritið "Dynskóga" síðar sama ár. Aðrir kunnir félagar í FÍR urðu síðar m.a. Gunnar Dal, Helgi Sæmundsson, Matthías Johannessen og Indriði G. Þorsteinsson Rithöfundasambandið. 1957 keypti félagið bókmenntatímaritið "Eimreiðina" og gaf út til 1975. Sama ár var Rithöfundasamband Íslands stofnað sem samstarfsvettvangur félaganna tveggja og aðili að Bandalagi íslenskra listamanna fyrir þeirra hönd. Félögin sameinuðust um að fordæma dómana yfir Andrej Sinjavskíj og Júlíj Daníelj 1968 og áttu samstarf um samningu ýmissa ályktana Rithöfundasambandsins um hagsmunamál rithöfunda. Brokkgeng sameining. Frá 1972 var farið að ræða sameiningu félaganna tveggja, ekki síst vegna almennrar óánægju með kjaramál íslenskra rithöfunda sem voru bágborin miðað við kjör rithöfunda annars staðar á Norðurlöndunum. Ekki gekk það þó þrautalaust og upp komu miklar deilur í tengslum við meiðyrðamál sem nokkrir af forsvarsmönnum Varins lands höfðuðu gegn Þjóðviljanum 1974. Meðal þeirra sem höfðu sig í frammi í Þjóðviljanum var Sigurður A. Magnússon, formaður Rithöfundasambandsins. 1974 var gamla Rithöfundasambandið leyst upp og Rithöfundafélag Íslands lagt niður um leið og nýtt Rithöfundasamband var stofnað á Norrænu rithöfundaþingi í Norræna húsinu 12. apríl. Félag íslenskra rithöfunda ákvað þó að leggja sjálft sig ekki niður, þótt félagar þess væru nú flestir einnig félagar í hinu nýja sambandi. Deilur um launasjóðinn. Eftir að Rithöfundasambandið varð að einu stéttarfélagi rithöfunda 1974 urðu enn deilur vegna Launasjóðs rithöfunda árið 1982 þar sem félagar í FÍR töldu skipulega fram hjá sér gengið og að margir rithöfundar hefðu sagt sig úr sambandinu vegna þessa. Sambandið væri því í raun klofið. Formaður rithöfundasambandsins, Njörður P. Njarðvík, sagði þá að FÍR hefði engan samningsrétt fyrir hönd rithöfunda. 1991 til 1997 veitti félagið bókmenntaverðlaunin Davíðspennann (kenndan við Davíð Stefánsson) árlega á afmæli skáldsins 21. janúar. Keisaraserkur. Keisaraserkur (eða keisarasveppur) (fræðiheiti: "Amanita caesarea") er ætisveppur af ættkvísl reifasveppa sem inniheldur einnig hinn baneitraða grænserk. Nafnið er sagt stafa af því að hann hafi verið uppáhald rómversku keisaranna. Hann er eftirsóttur matsveppur og þykir mjög bragðgóður, en margt sveppatínslufólk forðast engu að síður alla ættkvíslina "Amanita" vegna þess hve margir baneitraðir sveppir tilheyra henni. Keisaraserkur er með appelsínugulan hatt og gulan staf og fanir. Hann situr oft í slíðrinu sem eru leifar af reifunum sem hylja allan sveppinn á yngra stigi. Stafurinn er uppmjór. Gróin eru hvít. Hann vex aðallega í eikarskógum sem eru blandaðir barrtrjám. Stefán Th. Jónsson. Stefán Th. Jónsson (fæddur Stefán Þorvaldur Jónsson) (12. október 1865 – 7. apríl 1937) var útgerðarmaður, kaupmaður og bæjarfógeti á Seyðisfirði. Stéfán stóð einnig að því að reisa mörg glæsilegustu hús Seyðisfjarðar. Ættir, nám og fyrstu störf. Stefán fæddist á Kóngsparti í Sandvík í Norðfjarðarhreppi. Foreldrar hans voru "Jón Þorvaldsson" bóndi þar og kona hans "Gróa Eyjólfsdóttir", ættuð frá Þernunesi við Reyðarfjörð. Árið 1880 flutti fjölskyldan að Stóra-Steinsvaði í Hjaltastaðaþinghá og bjó þar í ár, en síðan á Fornastekk við Seyðisfjörð. Árið 1882 hóf Stefán verslunarnám í Norskubúð, sem hét "Det Norske Komagnies Handel" fullu nafni, en var kölluð Norskubúð. Tveimur árum síðar sigldi hann til Noregs með aleiguna, 315 krónur. Hann dvaldi í Stafangri í tvö ár við úrsmíðanám og lauk sveinsprófi í þeirri iðn. Heim kominn 1886 settist Stefán aftur að á Fornastekk á Seyðisfirði, þar sem hann stundaði í fyrstu úrsmíðar og fór þá þegar að versla með klukkur og gjafavörur. Tveimur árum síðar var Stefán kominn í hreppsnefnd. Árið 1890 var hann hvortveggja orðinn oddviti og hreppstjóri og sama ár átti hann þátt í stofnun Sparisjóðs Seyðisfjarðar og var í stjórn hans. Útgerðarfélagið Bjólfur. Þátttaka Stefáns í útgerð hófst 1898 með því að hann var meðal þeirra sem stofnuðu Fiskveiðifélagið Garðar á Seyðisfirði. En sú útgerð leið undir lok um aldamótin 1900. Í ársbyrjun 1904 keypti Stefán í félagi við Sigurð Jónsson 31 feta langan, opinn mótorbát, sem jafnframt var fyrsti mótorbátur Austfirðinga. Báturinn hét Bjólfur eins og útgerðarfélagið. Enn voru færðar út kvíarnar 1905 þegar Stefán hóf bátasmíði í félagi við Friðrik Gíslason úrsmið. Pantanir bárust í nokkra báta og reyndust vel. Í fyrstu voru bátarnir smíðaðir undir beru lofti, en næsta skref var bátasmiðja; þaðan var fyrsti báturinn sjósettur í janúar 1906. Árið 1911 átti Stefán sjö mótorbáta, hlut í gufuskipi, fiskverkunarhúsin Liverpool og Evanger ásamt hafskipabryggjum, fjögur lifrarbræðsluhús, hálft nótalag, bátasmiðju, fjölda geymsla og útihúsa, en þar að auki íbúðarhúsin Nóatún, Stefánshús og Stefánsbúð. Blaðaútgáfa. Í samvinnu við Sigurd Johansen stofnaði Stefán til útgáfu á blaðinu Bjarka, en jafnframt var byggt hús fyrir prentsmiðju með íbúð fyrir ritstjórann, sem var skáldið Þorsteinn Erlingsson. Þorsteinn Gíslason varð meðritstjóri aldamótaárið og tók einn við ritstjórninni, en blaðið var haldið úti í fjögur ár til viðbótar. Það var síðan allöngu síðar, árið 1919, að Stefán réðst í nýjan blaðaslag; nú ásamt Eyjólfi Jónssyni og Jóni Jónssyni bónda í Firði. Þá hófst útgáfa Austurlands undir ritstjórn Guðmundar G. Hagalín. Fyrsta blaðið kom út 1. janúar 1920, en á nýju sumri 1922 hætti blaðið að koma út og tók við blaðið Austanfari, sem síðar hét Hæsir og kom út til 1930. The Swinging Blue Jeans. The Swinging Blue Jeans var bresk bíthljómsveit sem er þekktust fyrir Chan Romero-smellinn „Hippy Hippy Shake“ frá 1963. Hljómsveitin var stofnuð 1959 í Liverpool af Ray Ennis, Ralph Ellis, Les Braid, Paul Moss og Norman Kuhlke sem "Blue Genes". Þeir komu fram á tónleikum með Bítlunum, Gerry and the Pacemakers, The Searchers og The Merseybeats. Beðsveppir. Beðsveppir eða himnusveppir (fræðiheiti: "Hymenomycetes") eru flokkur kólfsveppa sem inniheldur ættbálkana hattsveppi ("Agaricales"), pípusveppi ("Boletales") og hneflubálk ("Russulales"). Það sem einkennir beðsveppi er að gróbeðurinn er opinn eða aðeins hulinn þunnri himnu. Áður var þetta flokkunarfræðilegur hópur en nú er hann talinn innihalda ólíkar fylkingar. Dægurblekill. Dægurblekill (fræðiheiti: "Coprinus ephemeroides") er agnarlítill blekill með fínlegan staf og aflangan hatt, 1-5 mm, sem er gáraður á hliðunum og með gráum flösum. Dægurblekill er eina blekilstegundin sem er með kraga á stafnum. Hann vex á hrossataði og kúaskít. Á Íslandi er dægurblekill algengur um allt land. Fellingablekill. Fellingablekill (fræðiheiti: "Coprinus plicatile") er smávaxinn blekill með 1-2sm þunnan gulbrúnan hatt með áberandi fellingum á hliðunum. Hatturinn gránar með aldrinum. Stafurinn verður 4-8sm langur, hvítur eða brúnleitur. Fellingablekill vex í skóglendi og graslendi. Á Íslandi er fellingablekill ekki algengur og hefur aðeins fundist á Norður- og Austurlandi. Mýrablekill. Mýrablekill (fræðiheiti: "Coprinus martinii") er agnarlítill blekill sem vex í rökum jarðvegi í fjalllendi. Hatturinn er grár með fellingum og þakinn grárri flösu. Grasblekill. Grasblekill (fræðiheiti: "Coprinus friesii") er agnarsmár blekill sem vex á grasflötum. stafurinn er fíngerður og hatturinn fyrst hvítur en gránar við þroska. Bleklar. Bleklar (fræðiheiti: "Coprinus") eru ættkvísl hattsveppa með fanir sem meltast til að leysa gróin. Við þetta breytast fanirnar í svartan þykkan vökva sem ættkvíslin dregur nafn sitt af. Sveppahatturinn er yfirleitt ílangur og þunnur með fellingum eða flösum. Stafurinn er grannur og brotnar auðveldlega. Bleklar lifa á lífrænum úrgangi eða í mjög næringarríkum jarðvegi. Nokkrar tegundir af þessari ættkvísl eru ætar en sumar, líkt og slöttblekill ("Coprinus atramentarius"), er varasamt að borða með áfengi þar sem þeir innihalda efni sem virkar líkt og antabus og kemur í veg fyrir niðurbrot áfengis í lifrinni. Helsti ætisveppurinn af þessari tegund er ullblekill sem er algengur í túnum. Hann þykir mjög ljúffengur en blekast á nokkrum klukkutímum eftir tínslu og þarf því að elda strax. Slöttblekill. Slöttblekill (fræðiheiti: "Coprinus atramentarius") er fremur stór blekill sem áður fyrr var notaður við framleiðslu á bleki. Hann er einna þekktastur bleksveppanna, ásamt ullblekli. Hatturinn verður 3-6sm í þvermál og er grábrúnn að lit með óreglulegar fellingar á jaðrinum (áður en hann tekur að blekast). Stafurinn verður 8-18sm að lengd, samlitur hattinum og verður fljótt holur að innan. Slöttblekill kemur upp í klösum í graslendi um allt norðurhvel jarðar. Hann inniheldur efni sem virkar svipað og antabus og veldur því eitrun ef áfengis er neytt með. Einkennin eru roði í andliti, ógleði, uppköst, lasleiki og hraður hjartsláttur. Þau koma fram frá 20 mínútum að 2 tímum eftir neyslu og vara í viku. Káldrjóli. Káldrjóli (fræðiheiti: "Typhula variabilis") er algengur drjóli sem dregur nafn sitt af því að hann vex á kálblöðum. Hann vex raunar á ýmsum jurtaleifum, t.d. gulrótarblöðum, og myndar dökka „drjóla“ sem liggja í dvala yfir veturinn. Suðuramt. Suðuramt var íslenskt amt sem varð til árið 1787 þegar Suður- og Vesturamt var klofið niður í Suðuramt og Vesturamt. Ömtin tvö voru síðan sameinuð á ný árið 1872 með tilkomu embættis landshöfðingja. Stórsveppir. Stórsveppir (latína: "Macrofungi") eru sveppir sem mynda svo stór aldin utanum gróbeðinn sinn að þau sjást auðveldlega með berum augum, öfugt við s-k smásveppi, sem telja t.d. myglusveppi og fúasveppi. Þetta eru t.d. flestir hattsveppir en líka margir aðrir sveppir. Stórsveppir er hugtak sem notað er til hægðarauka en hefur ekki flokkunarfræðilega merkingu. Smásveppir. a>") er asksveppur sem er jafnframt dæmi um smásvepp. Smásveppir eru sveppir sem ekki mynda stórt aldin utanum gróbeð sinn eins og stórsveppir gera. Yfirlit Náttúrufræðistofnunar yfir íslenska smásveppi skilgreinir smásveppi sem slímsveppi, eggsveppi, kytrusveppi, oksveppi, asksveppi sem ekki mynda fléttur, vankynssveppi, ryðsveppi, lyngrauðusveppi og sótsveppi. Hneflur. Hneflur eða Hnefasveppir (fræðiheiti: "Russula") er stór ættkvísl hattsveppa sem telur um 750 tegundir um allan heim. Hneflur eru venjulega algengar, fremur stórar og í björtum litum, sem gerir þær að einni auðþekkjanlegustu ættkvíslinni meðal sveppafræðinga og sveppasafnara. Einkenni hnefla eru hvítt til gulbrúnt gróprent, brothættar lausstafa fanir og engar leifar af himnu á stafnum. Glætingar eru skyld ættkvísl og hafa svipaða eiginleika, en gefa frá sér mjólkurlitan vökva þegar fanirnar eru brotnar. Hold þessara sveppa er einkennandi stökkt og brotnar líkt og epli. Þótt fremur auðvelt sé að greina hvort sveppur tilheyri þessari ættkvísl eða ekki, þá getur verið mjög erfitt að greina milli tegunda hnefla. Flestar hneflur eru ætar, en sumar eru óætar og nokkrar eitraðar. Dundee. Dundee (gelíska: Dùn Dèagh) er fjórða stærsta borg Skotlands með um það bil 143.000 íbúa. Árið 1971 náði íbúafjöldinn í Dundee hámarki, 182.000 manns, og hefur þeim fækkað talsvert síðastliðin 38 ár. Á Dundee svæðinu búa um 170.000 manns, þar eru bæirnir: Monifieth, Birkhill, Invergowrie og auðvitað Dundee. Borgin er norðan við Tay-fjörðinn (Firth of Tay). Nú á tímum er Dundee kölluð "City of Discovery" á ensku, til þess að minna á skipið RSS «Discovery», sem landkönnuðurinn Robert Falcon Scott fór á til Suðurskautslandsins, en það var smíðað í Dundee og er til sýnis í bænum. Við höfnina í Dundee hafa fundist minjar um mannvist frá steinöld. Árið 1191 gaf Vilhjálmur 1. Skotakonungur út bréf, þar sem hann mælti svo fyrir að Dundee skyldi vera „borg“, þ.e. víggirtur verslunarstaður. Árið 1991 var haldið upp á 800 ára afmæli borgarinnar. Horft suður yfir Dundee og Tay-fjörðinn. Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið (skammstafað FME) er íslensk ríkisstofnun sem starfar sem eftirlitsstofnun eftir lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki. Eftirlitsskyldiraðilar á fjármálamarkaði eru viðskiptabankar, sparisjóðir, vátryggingafélög, vátryggingamiðlanir, lánafyrirtæki (fjárfestingarbankar og greiðslukortafyrirtæki), verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða og lífeyrissjóðir, auk annarra aðila sem heimild hafa til að taka á móti innlánum. Núverandi forstjóri þess er Gunnar Þ. Andersen, en hann tók við af Jónasi Fr Jónssyni. Fyrsti forstjóri fjármálaeftirlitsins var Páll Gunnar Pálsson, sonur Páls Péturssonar frá Höllustöðum, alþingismanns. Hann var forstjóri á árunum 1999 til 2005. FME hefur einnig eftirlit með Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og húsbréfadeild Bankahrunið. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2007 kom fram að efla ætti FME. Þann 6. október 2008 var tilkynnt að FME yrðu veittar miklar heimildir til að hlutast til um íslenskar fjármálastofnanir. Strax morguninn eftir greip FME inn í rekstur Landsbankans. Kristjón Kormákur Guðjónsson. Kristjón Kormákur GuðjónssonKristjón Kormákur Guðjónsson (fæddur 4. febrúar 1976) er íslenskur rithöfundur. Hann hefur meðal annars fengist við skáldsöguskrif, blaðamennsku og handritaskrif. Eftir hann liggja nokkrar skáldsögur. Sú fyrsta, "Óskaslóðin", kom út þegar hann var aðeins 21 árs gamall. Árið 2005 kom út skáldsagan "Frægasti maður í heimi". Í henni tókst Kristjón með nýstárlegum hætti á við skáldsöguformið út frá forsendum raunveruleikasjónvarpsins, sem tröllriðið hafði heiminum um nokkurt skeið. Nálgun Kristjóns fólst í því að láta aðalpersónu sögunnar, Tómas Jónsson, skrifast á við raunverulegar persónur úr samtímanum. Árið 2008 kom hjá Vestfirska forlaginu út bókin "Strandamenn í blíðu og stríðu" með 100 gamansögum að vestan. Kristjón er búsettur á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni og fjórum dætrum. Vesturamt. Vesturamt var íslenskt amt sem varð til árið 1787 þegar Suður- og Vesturamt var klofið niður í Suðuramt og Vesturamt. Ömtin tvö voru síðan sameinuð á ný árið 1872 með tilkomu embættis landshöfðingja. Bólstraberg. Bólstraberg er hraun sem myndast við gos djúpt undir vatni þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Þegar kvika kemur upp á yfirborðið springur hún ekki vegna þrýstingsins en yfirborðið snöggstorknar og þunn svört glerhúð myndast á hrauninu. Kvikan myndar þá nokkurs konar bolta eða „kodda“, nánast kúlulaga, til að lágmarka yfirborð kvikunnar og um leið verður lágmarkskæling í kvikunni. Við kólnun hraunsins myndast stuðlar í bólstrunum og liggja þeir þvert á kólnunarflötinn, frá miðjunni út í yfirborðið. Bólstraberg getur myndast í neðansjávargosi, í gosi í stöðuvatni eða í gosi undir jökli. Berry. Saga á Íslandi. Mannanafnanefnd var gerð beiðni um að eiginnafnið Berry væri tekið til greina og fært á mannanafnaskrá en var því hafnað þann 18. desember 2001 á grundvelli þess að það taldi ekki uppfylli lagaákvæði um mannanöfn. Sjá einnig Mannanöfnum hafnað af Mannanafnanefnd. Listi yfir nöfn sem mannanafnanefnd hefur hafnað. Sótt hefur verið um viðurkenningu á mörgum íslenskum mannanöfnum, sem mannanafnanefnd hefur hafnað. Fyrir neðan er listi með nokkrum þeirra. (ath. listinn er ekki tæmandi) Nöfnum hafnað 2001. Þann 18. desember 2001 var haldinn fundur í Mannanafnanefnd. Fundinn sátu Andri Árnason (formaður), Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir. Kvartilaskipti. Kvartilaskipti sjást hér vel á hreyfimynd. Kvartilaskipti nefnast breytingar á útliti Tunglsins á einum tunglmánuði, sem er um 29,53 dagar. Helmingur af yfirborði Tunglsins er ávallt upplýstur (nema þegar Jörðin skyggir á það í tunglmyrkva) en nærhlið Tunglsins er breytilegt athuganda á Jörðinni vegna breytilegrar afstöðu Jarðar, Sólar og Tunglsins. Það er sem sagt ekki Jörðin sem skyggir á Tunglið að jafnaði heldur sér athugandi á jörðinni mismikið af upplýstu hlið Tunglsins. Upphaf tunglmánaðar er með nýju Tungli, þá sést nærhlið þess ekki (nærhlið er sú hlið sem snýr að athuganda). Fyrsta kvartil er þegar mjó sigðlaga rönd byrjar að sjást hægra megin, þá er talað um "sigðmána". Hún vex til vinstri þar til helmingur nærhliðar er upplýstur og þá er talað um "hálft vaxandi" Tungl. Annað kvartil er svo þegar meira en helmingur yfirborðsins er upplýstur og skugginn er vinstra megin, þá er talað um vaxandi "gleiðmána". Þegar skugginn vinstra megin er alveg horfinn og allt yfirborð nærhliðar er upplýst er talað um "fullt tungl". Þriðja kvartil er svo þegar sigðlaga skuggi byrjar að vaxa hægra megin, allt þar til helmingur nærhliðar er upplýstur og þá er talað um "hálft minnkandi" Tungl. Í fjórða kvartili vex skugginn svo áfram frá hægri þar til hann þekur alla nærhliðina og aftur er komið nýtt Tungl. Lundúnabiblía. Lundúnabiblía, 1866, er áttunda heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku. Á titilblaði stendur: "BIBLÍA, það er Heilög ritning. Endurskoðuð útgáfa. Prentuð í prentsmiðju Spottiswoodes í Lundúnum, á kostnað Hins breska og erlenda biblíufélags." Undirbúningur útgáfunnar hófst árið 1861. Hið íslenska biblíufélag fékk þá dr. Pétur Pétursson, síðar biskup, og Sigurð Melsteð, sem báðir voru prestaskólakennarar, til „að laga og endurbæta hina íslensku útleggingu á Nýja testamentinu“. Sama ár kom fulltrúi Hins breska og erlenda biblíufélags til Íslands (Isaac Sharp), og bauð fram styrk til að gefa út Nýja testamentið, svo hægt væri að selja það vægu verði. Þeir Pétur og Sigurður endurskoðuðu Nýja testamentið og hluta af Gamla testamentinu (Davíðssálma og nokkrar af spámannabókunum). Nýja testamentið kom svo út í Oxford árið 1863, í 10.000 eintökum, prentað með latínuletri, en áður hafði gotneskt letur verið allsráðandi í biblíuútgáfum hér á landi. Upplagið komst ekki til Íslands fyrr en árið 1864. Biblían kom öll út í Lundúnum 1866, einnig með latínuletri í fyrsta sinn. Nýja testamentið var þá uppselt og var það endurprentað í Oxford sama ár. Alls hafði verið breytt um 4.000 - 5.000 biblíuversum frá síðustu útgáfu. Um þessa Biblíuútgáfu spunnust hatrammar deilur milli tveggja manna sem báðir störfuðu á Englandi. Þetta voru þeir Guðbrandur Vigfússon í Oxford og Eiríkur Magnússon í Cambridge, og varð úr ævilangur fjandskapur milli þeirra. Þetta virðist gerast við hverja nýja Biblíuútgáfu, mismikið að vísu. Brot "Lundúnabiblíunnar" er minna en Reykjavíkurbiblíu. Upplag er ekki þekkt. Jarðgas. Jarðgas er gas sem er samansett að meginhluta til úr metani, önnur efni í jarðgasi geta verið etan, própan, bútan og pentan ásamt fleirum gösum. Jarðgas er litlaust, formlaust og lyktarlaust gas í sínu hreinasta formi. Það er brennanlegt og gefur mikla orku þegar því er brennt. Ólíkt jarðefnaeldsneyti þá hefur jarðgas hreinan bruna og setur mikið minna af skaðlegum aukaafurðum út í loftið. Jarðgas er talið til jarðefnaeldsneytis rétt eins og kol og olía. Það finnst oftast undir yfirborði jarðar og þar sem metangas er svo létt leitar það upp á yfirborð jarðar ef það kemst í gegnum glufur og lekt berg. En það getur lokast inni vegna ólekra og þungra jarðlaga. Jarðgas er aðallega samsett úr metani en getur einnig innihaldið etan, própan, bútan og pentan. Samsetning gassins getur verið breytileg. Metan er í kringum 70-90% og jarðgas er sagt vera þurrt þegar það er nánast bara metan þar sem algengustu kolvatnsefnin hafa verið tekin í burtu. Skreppur seiðkarl. Skreppur seiðkarl (enska: "Catweazle") voru sjónvarpsþættir fyrir börn framleiddir af London Weekend Television og sýndir á ITV í Bretlandi árið 1970. Á Íslandi voru þættirnir sýndir á Ríkissjónvarpinu árið eftir. Þættirnir fjölluðu um fremur seinheppinn galdrakarl frá 11. öld sem óvart ferðast áfram í tíma til ársins 1970. Vökulögin. Vökulögin voru íslensk lög sett voru árið 1921 sem tryggðu íslenskum sjómönnum sex tíma hvíld á sólarhring. Vökulögin er eitt fyrsta dæmið um réttindi sem áunnist hafa vegna verkalýðsbaráttu. Coot. a> sem fékkst við hafrannsóknir á skipinu sumarið 1906 "Coot" (enska: „blesönd“) var fyrsti togari Íslendinga. Togarinn var smíðaður í Glasgow árið 1892 af William Hamilton & Co. Hann kom til hafnar í Hafnarfirði þann 6. mars árið 1905. Sex Íslendingar, þar á meðal Björn Kristjánsson og Einar Þorgilsson kaupmenn, keyptu hann frá Aberdeen í Skotlandi af Silver City Steam Trawling Company fyrir hlutafélag sitt, Fiskveiðahlutafélag Faxaflóa. Hluti eigenda var úr Hafnarfirði en hluti úr Reykjavík og voru stjórnarfundir haldnir þar þótt skipið gerði út frá Hafnarfirði. Skipið var frá upphafi búið til botnvörpuveiða og þrjár botnvörpur fylgdu því til landsins. Fyrsti skipstjóri skipsins var Indriði Gottsveinsson sem líka var einn eigenda þess, vélstjórar voru tveir, einn enskur og hinn danskur, og matsveinn var danskur, en áhöfnin var að öðru leyti skipuð Íslendingum. Skipið var 98 fet á lengd, 154 brúttótonn og búið 225 hestafla gufuvél. Útgerð skipsins þótti gefast vel og varð hvatning til að bæta við togaraflotann. Þann 14. desember 1908 sigldi "Coot" frá Reykjavík til Hafnarfjarðar með skipið "Kópanes" í eftirdragi, en það var í eigu P.J. Thorsteinsson & Co.. Þegar skipin komu í mynni Hafnarfjarðar slitnaði "Kópanesið" aftur úr "Coot" og taugin flæktist í skrúfu togarans. Bæði skipin hröktust þá undan vindi og strönduðu á Keilisnesi. Áhafnir beggja skipanna björguðust en skipin sjálf eyðilögðust. 365 miðlar. 365 miðlar er stærsta fjölmiðlafyrirtæki Íslands; þjónustufyrirtæki á sviði blaðaútgáfu, sjónvarps- og útvarpsreksturs og vefmiðlunar. Fyrirtækið rekur sex sjónvarpsstöðvar (fyrir utan + og extra stöðvar), þar á meðal Stöð 2, elstu og stærstu áskriftarstöð landsins; sex útvarpsstöðvar, þar á meðal Bylgjuna, stærstu og elstu einkareknu útvarpsstöð landsins; Fréttablaðið, útbreiddasta dagblað landsins og verðlaunavefinn Vísi. Eignarhald. Stærsti eigandi A hluta í 365 miðlum er Ingibjörg Pálmadóttir sem á 89,7% hlut bæði beint og í gegn um félögin Moon Capital S.á.r.l., ML 102 ehf. og IP Studium ehf.. Ingibjörg Pálmadóttir er einnig stærsti eigandi B hluta í 365 miðlum en hún á 99,99% hlut í gegn um félagið Moon Capital S.á.r.l.. Nafnabreyting sjónvarpsstöðva 2008. Stór nafnabreyting varð á sjónvarpsstöðvum 365 miðla 13. mars 2008 en þá urðu allar sjónvarpsstöðvar kenndar við Stöð 2 ásamt frekara auðkenni. Þannig fékk Sýn nafnið Stöð 2 Sport, Sýn 2 varð Stöð 2 Sport 2, Sirkus varð Stöð 2 Extra, Fjölvarpið (Endurkast erlendra sjónvarpsstöðva) fékk nafnið Stöð 2 Fjölvarp en Stöð 2 Bíó hélt sínu nafni. Vildarklúbburinn M12 fékk einnig nýtt nafn, Stöð 2 Vild. Sjónvarpsstöðvar. Stöð 2, var sett á laggirnar árið 1986 og er elsta og stærsta áskriftarsjónvarpsstöð landsins í einkaeigu. Stöð 2 sendir út afþreyingarefni allan sólarhringinn. Stöð 2 Sport er vinsæl íþróttasjónvarpsstöð, sú eina sinnar tegundar á Íslandi, þar sem meðal annars má finna beinar útsendingar frá öllum helstu íþróttaviðburðum heims. Stöð 2 Extra er afþreyingarstöð sem fylgir með áskrift að Stöð 2, rétt eins og Stöð 2 Bíó sem er kvikmyndastöð sem sýnir kvikmyndir allan sólarhringinn. Nova Tíví er tónlistarstöð sem sýnir tónlistarmyndbönd allan sólarhringinn. Þá endurvarpa 365 miðlar einnig erlendum sjónvarpsstöðvum um Stöð 2 Fjölvarp sem nær til rúmlega 90% landsmanna. 365 miðlar voru með Fréttastöðina Nýja Fréttastöðin eða NFS frá Október 2005 til September 2006 Útvarpsstöðvar. Bylgjan var stofnuð árið 1986 og er elsta og vinsælasta einkarekna útvarpsstöð landsins. FM957 leikur vinsælustu tónlistina fyrir yngri hlustendur. X-ið leggur höfuðáherslu á rokktónlist. Létt Bylgjan leikur þægilega og áheyrilega tónlist. Gull Bylgjan leikur tónlist frá gullaldartíma rokksins og 7. áratug síðustu aldar. Prentmiðlar. Fréttablaðið er dagblað í frídreifingu. Blaðið hóf göngu sína árið 2001 og er útbreiddasta og mest lesna dagblað landsins. Þá eru gefin út með Fréttablaðinu ýmis sérblöð ásamt vikulegum blaðhlutum, þ.á.m. Markaðurinn. Vefmiðlar. Vísir er öflugur frétta- og afþreyingarmiðill með fjölbreyttar þjónustur og efnistök. Vefurinn er með einstaka stöðu á markaðnum þar sem á honum er hægt að sjá það besta sem verður til á öllum öðrum miðlum 365. Bæði úr sjónvarpi, útvarpi og prenti. Þá rekur vefurinn einnig öfluga fréttastofu samhliða Stöð 2. Bollagötumálið. Bollagötumálið var deila með málaferlum, á árunum 1983-1984. Deilan snerist um íbúð á Bollagötu, arf eftir látinn mann, sem málið dregur nafn sitt af. Á Þorláksmessu árið 1982 lést fullorðin ekkja í Reykjavík. Í dánarbúinu fannst erfðaskrá mannsins hennar, rituð 1961. Þau höfðu kynnst og hafið hjúskap 1962 en hann látist 1964. Hún sat svo í óskiptu búi þangað til hún dó sjálf. Í erfðaskránni ánafnaði maðurinn Sósíalistaflokknum íbúð sína á Bollagötu í Reykjavík, með því skilyrði að þar yrði sett upp menningar- og fræðslusetur um marx-lenínisma. Ef flokkurinn væri ekki lengur til þegar búinu yrði skipt (sem var raunin), þá skyldi íbúðin renna til þeirrar stjórnmálahreyfingar sem væri lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Ef slík hreyfing fyndist ekki skyldi nefnd fulltrúa úr samstöðufélögum sósíalískra landa ráðstafa eigninni í samræmi við vinstri-róttæk sjónarmið. Til viðbótar erfðaskránni fundust nokkur mismunandi drög að breytingum á henni, en engum þeirra hafði verið þinglýst. Þar sem vinstri-róttæka bylgjan á áttunda áratugnum var að mestu leyti yfirstaðin, gerðu aðeins ein samtök tilkall til arfsins -- Baráttusamtökin fyrir stofnun kommúnistaflokks (BSK). Vináttufélag Íslands og Víetnam (VÍV) fór í mál við BSK, ásamt Menningarfélagi Íslands og Kína (MÍK). Atli Gíslason sótti málið fyrir VÍV og MÍK, en Ragnar Aðalsteinsson varði það fyrir hönd BSK. Krafa VÍV og MÍK var að eini lögerfingi konunnar fengi íbúðina við Bollagötu, en til vara að VÍV og MÍK yrði falið að ráðstafa henni. Málið var tekið fyrir snemma árs 1983 og dómur var kveðinn upp snemma árs 1984, eða um ári síðar. Kröfu BSK til arfsins var vísað frá, og lögerfingjanum dæmd íbúðin. Hann var föðurbróðir hinnar látnu konu, var um nírætt, og svo vildi til að hann lést í sömu viku og dómsuppkvaðningin var hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómnum var ekki áfrýjað. Erfðaskrá. Erfðaskrá er skjal, gjarnan formlegt og staðfest af þar til bærum yfirvöldum, þar sem maður tilgreinir hvernig ráðstafa skuli eignum hans að sér látnum. Þegar menn deyja og hafa gert erfðaskrá er vanalega farið eftir þeim þegar dánarbú eru gerð upp og arfi skipt milli erfingja. Melrakkaslétta. Melrakkaslétta (eða Slétta) er skagi milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar, í Norður-Þingeyjarsýslu á Íslandi. Eins og nafnið ber með sér er hún mjög flatlend. Á henni eru tvö þorp, Kópasker og Raufarhöfn. Garðar Thór Cortes. Garðar Thór Cortes (f. 2. maí 1974) er íslenskur leikari fæddur í Reykjavík og tenórsöngvari. Hann er sonur Garðars Cortes tenórsöngvara og enskrar móður Krystyna. Tenór. Tenór er eitt af fimm raddsviðum karlkyns söngvara. Oft er miðað við að það spanni hið minnsta frá C3 til A4 hjá kórsöngvara, en upp í C5 (eða hærra) hjá óperusöngvara. Sólarorka. Helmingur af sólarorkunni sem nær til andrúmslofts jarðar nær yfirborði jarðar. Ef sólarhlöður með nýtni upp á 8% fylltu út í svörtu svæðin, væri hægt að uppfylla alla orkuþörf heimsins. Það þyrfti þó að geyma orkuna fram á nótt eða senda orku til þess hluta jarðarinnar þar sem væri dimmt. Sólarorka er orka frá sólinni. Þessi orka er á formi hitageisla og ljóss. Sólin hefur sent þessa orku frá sér i milljarða ára. Þessi orka hefur verið notuð frá fornöld og er alltaf að þróast til hins betra. Orkan sem berst til jarðar frá sólu á einni klukkustund nemur árlegri heildarorkuþörf alls mannkyns. Orkan í sólarljósinu er í raun uppspretta flestra annarra orkugjafa jarðar. Sólarorka er drifkrafturinn í veðrakerfum jarðarinnar og því er vind- og vatnsorka í raun tilkomin vegna hennar. Það sama gildir um orku sem mynduð er við brennslu trjáa og plantna því orkan sem þar losnar er sólarorkan sem plönturnar beisluðu við uppvöxt sinn. Einnig á þetta við um olíu, kol og gas, þessir orkugjafar myndast á milljónum ára úr jurtaleifum og því fyrir tilstilli sólar. Það þarf ekki að vera heiðskýrt til þess að fá orku út úr sólarsellu en rétt staðsetning hefur mikil áhrif á nýtni hennar. Vandamál við sólarsellur hér á landi er að orkuframleiðslan er óörugg, þ.e. háð veðri og árstíðum. Stofnkostnaður er því frekar hár miðað við orkugetu. Einnig eru góð rafhlaða mjög dýr og hafa í augnablikinu stuttan endingartíma vegna mikils álags. Sólarorka er umhverfisvæn og endurnýjanleg orka. Einingarnar eru sjálfstæðar og auðvelt að færa og bæta við. Orkuframleiðslan er hljóðlát og veldur ekki röskun á landslagi. Rafhlaða getur geymt orkuna og framkvæmdin er ódýr miðað við að tengja rafmagnslínur langar leiðir. Einnig er lítill sem enginn rekstrarkostnaður. Það er ekkert á móti því að sólarorkuvirkjun verði miklu meiri en hún er í dag nema að það þarf að framleiða tækin og lækka kostnaðinn. Orka frá sólinni. Sólin sendir frá sér geislunarorku og það er ekkert sem truflar það fyrr enn að geislarnir ná andrúmslofti jarðar. Efsta lag andrúmsloftsins tekur við 1367 W/m2 af sólarorku eða 176 petavött. Þessi talar lækkar þegar geislarnir ferðast lengra inn í andrúmsloftið. Það gerist vegna þess að gös draga að sér eitthvað af orkunni en einnig breyta geislarnir um stefnu þegar þeir lenda á litlum sameindum. Aðeins helmingur geislanna nær yfirborði jarðar og væri hægt að nýta í virkjun. Á yfirborði jarðar, á hádegi, við miðbaug, í heiðskýru veðri, mælist sólarorka um 1000 W/m2. Þessi tala lækkar á hærri breiddargráðum. Við miðbaug koma sólargeislarnir beint inn og þá er minnst tap. Sólargeislarnir koma ekki lóðrétt inn að yfirborði jarðar heldur meira á ská. Yfir 38° breiddargráðu er útgeislun jarðarinnar meiri en geislun sem kemur frá sólinni. Þetta er öfugt suður og norður frá miðbaug að 38°. Sólarorkan getur orðið meiri en 1000 W/m2, ef speglun sólarljóss bætist við, til dæmis að það speglist á vatni. Hér á norðurhveli jarðar er mest sólargeislun á sumrin vegna þess að þá er okkar hluti jarðarinnar næstur sólu (vegna halla jarðar), sem þýðir meiri sól. Það verður að snúa sólarsöfnurum að sólargeislunum eftir árstíðum. Á sumrin geta þau verið næstum því lárétt en á veturna þurfa þau að vera næstum því lóðrétt. Eftir því sem sólin er lægri á himninum þurfa sólargeislarnir að fara í gegnum meira andrúmsloft, sem þýðir að geislarnir hafa meiri möguleika á að dreifast. cosθz = sinδ sinφ + cosδ cosφ cosω cosψ =(cosθz sinφ – sinδ)/sinθz cosφ Þar sem δ er horn lækkunar sólar, π er talan pí, dn er dagur númer, θ er hvirfilpunktur, φ er breiddargráða virkjunarinnar, ω er horn sólarstundu (breytist um 15°/tíma og er núll á hádegi), ψ er áttarhorn. Bein notkun sólarorku. Hús geta verið hönnuð til þess að nýta sólarorku beint, t.d. til hitunar og lýsingar. Það er hægt að safna sólarorku með speglum til þess að framleiða rafmagn með hita, kallast það hitaorka. Einnig er hægt að nota sólarsellur til þess að nýta sólargeisla og framleiða með því sólarraforku. Óbein notkun sólarorku. Orkuframleiðslu, eins og vindorka, vatnsafl, líforka og ölduorku er hægt að rekja til sólarorku. Sólar varmaorka. Þegar flestir hugsa um sólar varmaorku þá eru þeir að hugsa um vatnshitara á þökum bygginga. Þessi safnsvæði á þökum húsa eru látin snúa þannig að sem mest sólarljós skíni á þau. Það eru þrjú lög í svona safnsvæði, efsta lagið er gler eða plast og neðsta einangrun, það í miðjunni er venjulega stálplata umlukin koparrörum sem vatn getur runnið um og þannig hitnað ef sólin skín. Heita vatnið rennur svo í gegnum stóran vatnstank, sem er vel einangraður. Í honum er einnig raftæki til þess að hita vatnið upp á veturna. Heita vatnið af safnsvæðinu er látið hita vatnið fyrir húsið upp. Þetta er lokað kerfi. Í Norður-Evrópu, þar sem þetta kerfi er mjög vinsælt, þurfa safnsvæðin að standast frostveður og því er oft sett óeitraður frostlögur í rörin. Á svæðum þar sem sjaldan eða aldrei er frost er allt í lagi að hafa allt kerfið utan dyra. Einnig eru safnsvæðin oft minni vegna meira sólargeislunar (nýtni). Virk sólarhitun. Í virka sólarhitun er notaður sólarsafnari til þess að virkja orkuna. Þessi safnari sem venjulega er festur á þak byggingar safnar sólargeislum. Þetta er ekki flókið kerfi. Hitinn er undir 100 °C og notaður til þess að hita vatn fyrir heimili og sundlaugar. Það væri hægt að búa til sólar vatnshitara með því að setja vatnsfötu við glugga sem sólin skín inn um og þannig er eiginlega hægt að segja að þróunin hafi byrjað í Bandaríkjunum. Í byrjun 20. aldarinnar seldi William J. Bailey í Kaliforníu vatnshitara sem voru einangraðir og því hægt að fá heita vatnið til að endast yfir nóttina líka. Framskriðið hægði þó á sér á þriðja áratug aldarinnar vegna þess að jarðgas varð ódýrara. Notkun í Flórída hófst einnig í byrjun 20. aldarinnar og stóð alveg fram á sjötta áratuginn þegar hún lagðist næstum því af vegna lágs jarðefnaeldsneytisverðs. Það var ekki fyrr en að verð á jarðefnaeldsneyti hækkaði á áttunda áratugnum að notkun sólarsafnara jókst aftur. Árið 2001 voru að minnsta kosti 57 miljón fermetrar af sólarsöfnurum í notkun. Dæmi um sólarsafnara eru vatnshitarar á þökum húsa. Þeir eru af þremur gerðum: án glers sem efsta lags, kerfi sem hitar vatn og kerfi sem hitar loft. Einnig eru til safnarar sem eru bognir og nýta sér brennipunkt geisla til þess að hita upp vatn að gufumarki. Þeir safna þá brennipunktum í línu eða einn punkt. Vandamál við þessa vatnshitara er að þeir eru venjulega festir á húsþök og því erfitt að viðhalda þeim en þeir eru venjulega gerðir mjög sterkir, sem þýðir að það þarf minna viðhald og það er jú kostur. Varmavélar fyrir sólarorku. Varmavélar fyrir sólarorku er viðbót á virku sólarhituninni, en samt flóknara kerfi sem nær nógan hita til þess að virkja gufuvélar til þess að framleiða rafmagn. Það finnast margar gerðir en 90% sólarraforku af þessari gerð kemur frá einu orkuveri í Mohave eyðimörkinni í Kaliforníu. Þróun þessara varmavéla hefur verið frekar lítil og líkjast vélarnar í dag mikið þeim sem voru notaðar fyrir 100 árum. Sagan segir að Arkímedes hafi notað pússaða bronsskildi grískra hermanna til þess að beina ljósgeislum að og kveikja í skipi Rómverja. Notast er við íhvolfa spegla til þess að safna sólargeislum í einn brennipunkt. Hitinn sem myndast er nógur til þess að upp komi suða, gufa myndast og hægt er að framleiða rafmagn. Þessir speglar verða að fylgja sólinni til þess að brennipunkturinn sé alltaf á réttum stað. Til þess að framleiða mikið rafmagn með þessari gerð eru speglar settir upp í raðir á mjög stórum svæðum. Ef notaðir eru íhvolfir speglar þá safna þeir brennipunktum í miðju spegilsins en ef notaðir eru flatir speglar senda þeir brennipunktinn í átt að sólarturni. Óvirk sólarhitun. Hægt er að safna sólargeislum beint inn í mannvirki til þess að minnka orkuna sem fer í að hita það upp. Þessi kerfi nýta oftast hringstreymi lofts til þess að dreifa orkunni, þá þarf ekki dælur eða viftur og kerfið er oft hluti af mannvirkinu. Ef hús eru með stóra glugga með góðu gleri í er hægt að kalla það sólarsafnara. Hægt er að rekja þessa notkun á sólarorku til Rómaveldis þar sem rómverjar notuðu gler til þess að loka gluggum á baðhúsum sínum. Þegar Rómaveldi féll lagðist notkun stórra glerglugga niður í yfir 1000 ár. Einnig er hægt að hanna mannvirki svo þau hafi litla orkuþörf og einnig litla hitunarþörf. Við svona hönnun er hægt að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti og minnka kostnað. Það þarf að einangra húsin vel, hafa stóra glugga í suður og þykka veggi eins og steypu eða múrsteina. Hitaveita hússins þarf að vera nýtin. Minna notuð herbergi eru höfð norðan til í húsinu. Skuggi frá öðrum húsum og trjám á að vera sem minnstur. Einnig væri hægt að bæta við gróðurhúsi. Hliðarverkun við stóra glugga og flæði ljóss inn í hýbýli fólks er að það ætti að draga úr vetrarþunglyndi fólks þar sem maðurinn þarf á sólarljósi að halda allt árið. Einnig væri hægt að nefna notkun dagsbirtu, sem þýðir að það þarf ekki að nota tilbúið ljós eins mikið. Hægt er að hanna hús með sem flestum gluggum, stórum gluggum eða löngum gluggum sem gefur birtu á stærra svæði innandyra. Við allar þessar aðferðir þarf að taka tillit til aðstæðna og hugsa um hvaða umhverfisþættir koma inn á hverjum stað fyrir sig. Ef geyma ætti heitt vatn frá sumri til vetrar þyrfti gríðarstóran geymslutank á stærð við sjálft húsið. Sjálft safnsvæðið þyrfti að vera mjög stórt. Þetta myndi vera mjög dýrt í framkvæmd og ekki víst hversu langan tíma þarf til þess að þetta borgi sig. Ef margir vatnshitarar eru settir saman á stórt svæði og hitinn notaður fyrir nærliggjandi byggingar gæti uppsetning borgað sig. Kostnaður við uppsetningu sólarsellu er frekar hár miðað við uppsetningu annarra endurnýjanlegra orkugjafa, en verðið hefur lækkað á seinustu árum vegna aukinnar þróunar og aukningu í notkun. Sólar raforka. Sólarsella, eða sólarhlaða eins og hún er stundum kölluð, er næstum eingöngu úr kísil, sem er annað algengasta efnið í jarðskorpunni. Það eru engir hlutir sem hreyfast í sólarsellunni og ætti hún tæknilega séð að geta starfað að eilífu án þess að eyðileggjast. Útkoman úr sellunni er raforka. Uppfinningarmaður sólarsellunnar var Edmond Bequerel, sem lýsti árið 1839 tilraun sinni með rafhlöðu. Hann komst að því að ef silfurplötur í rafhlöðunni fengu á sig sólarljós jókst spennan í henni. Nokkrar gerðir komu á eftir þessari uppgötvun, en nýtni þeirra var öll undir 1%. Á sjötta áratugnum kom tímamótaskref í þróun núverandi sólarsellu. Vísindamenn hjá Bell Telephone Laboratories voru að skoða áhrif ljóss á hálfleiðara. Hálfleiðarar eru málmleysingjar eins og german og kísill, sem hafa eiginleika sem líkjast eiginleikum leiðara, lítið viðnám, en einnig eiginleika sem líkjast eiginleikum þétta, stoppa næstum alveg rafstraum. Nokkrum árum áður hafði smárinn(transistor) verið fundinn upp. Hann er úr kísil en hann er mengað með bór eða fosfór. Sólarsellan samanstendur af samskeytum milli tveggja þunna laga af ólíkum hálfleiðurum, jákvæðum og neikvæðum. Báðir hálfleiðararnir eru úr kísil en jákvæði hlutinn er mengaður með smá bór sem veldur ákveðinni vöntun á lausum rafeindum og neikvæði hlutinn er mengað með örlitlum fosfór sem gefur umframmagn af lausum rafeindum. Samskeytin gera það kleyft að mynda það rafsvið sem nauðsynlegt er fyrir straummyndun en það þarf utanaðkomandi áreiti til þess að hleðslur færist til í sellunni. Ljóseind kemur inn í jákvæðu-neikvæðu samskeytin. Hún gefur rafeindunum orku og getur komið þeim á hærra orkusvið. Við þetta ferli verða rafeindirnar frjálsari í ferðum og geta því leitt rafstraum. Að þær fari upp á hærra orkusvið gefur eftir svæði og það eykur einnig leiðnimöguleika og hreyfanleika. Hámarksnýtni sólarsella er 35% en nýtnin er oftast á milli 10% og 15%. Einkristallaðar kísil sellur voru langmest notaðar þangað til nýlega. Vinnslu ferlið á þessum sellum er mjög dýrt og langt. Fjölkristallaðar kísil sellur hafa aðeins verið notaðar í um 20 ár. Framleiðsla á þessum sellum er ódýrari og tekur minni tíma og er því betur samkeppnishæfari en einkristölluðu sellurnar. Sólarsellur eru notaðar á ýmsum stöðum, til dæmis í stöðumæla, siglingabaujur og fjarmælingar á veðri eða umferð. Einnig eru þær oft á þökum húsa og framleiða þá rafmagn fyrir heimilið. Þá er sniðugt að vera með vatnshitara líka og framleiða alla sitt rafmagn og heitt vatn sjálfur. Sólarorkuver af þessari gerð eru oft sett á land þar sem fyrir er röskun á umhverfi, til dæmis í kringum hraðbrautir eða lestarteina. Notkun á Íslandi. Sólarorka til rafmagnsframleiðslu er frekar lítið notuð hér á landi. Veðurstofa Íslands mælir sólarstundir og sólarstyrk á nokkrum stöðum á landinu. Það þarf að kortleggja betur aðstæður á Íslandi. Fjölmargir eru farnir að selja sólarsellur og þá sérstaklega fyrir hjólhýsamarkaðinn. Sú sala hefur stóraukist síðustu árin. Það eru aðallega sumarhúsa- og hjólhýsaeigendur sem nýta sér sólarorku. Í Sesseljuhúsi umhverfissetri, á Sólheimum í Grímsnesi, er fræðslusetur um umhverfismál og sýningar um sjálfbærar byggingar. Þar er verið að koma fyrir stærstu sólarsellusamstæðu á Íslandi, 16 sólarsellum sem hver er 140 W og alls 2,24 kW. Ef miðað er við nýtingarhlutfallið 9% af fullum afköstum ætti hún að framleiða á einu ári: 9% * 365 dagar/ári * 24 klst/dag * 2,24 kW = 1766 kWh. Eigendur hússins hafa reiknað út að ísskápurinn í húsinu eyði 142 kWh á ári og þessi raforkuframleiðsla gæti því séð 12 slíkum ísskápum fyrir rafmagn í heilt ár. Gela. GelaGela er stærsta borg Sikileyjar og fimmta stærsta borg Ítalíu. Í janúar 2006 voru íbúar borgarinnar 77.261. Vindorka. Vindorka er sú hreyfiorka sem vindur hefur í sér. Lengi hefur maðurinn reynt að beisla þessa orku og hafa vindmyllur reynst bestu tækin til þess hingað til. Í dag er vindmylla notuð til að knýja túrbínu sem síðan framleiðir rafmagn.Vindorka er vistvæn orkuframleiðsla og endurnýjanleg. Við enda ársins 2008 var uppsett afl vindorku um 121,19 GW og voru Bandaríkin stærsti framleiðandinn með 25,17 GW. Þýskaland kom þar á eftir með 23,8 GW. Saga. Löngu fyrir fæðingu Krists var fólk farið að nota vindorku til að sigla bátum í Egyptalandi. Segl bátana fönguðu orkuna í vindinum til þess að knýja þá áfram. Fyrstu myllurnar voru hannaðar í Persíu um 500 - 900 til þess að mala korn og flytja vatn frá einum stað til annars. Eftir 1200 varð aukning í notkunarmöguleikum og voru þær notaðar til þess að knýja ýmsan vélbúnað svo sem sagir, dælur og mulningsvélar. Upp úr aldamótunum 1900 jókst notagildi þeirra en þá meira, þegar það var farið að framleiða rafmagn með þeim. Þetta voru allt litlar myllur sem framleiddu 1-3 kW á sveitabæjum. Það var svo árið 1931 að Rússar komu fram með eina stóra 100 kW vindmyllu sem framleiddi um 100 MWh/ári. Bandaríkjamenn reistu stærstu myllu á þessum tíma í Vermont 1941. Þetta var 1,25 MW Smith-Putman mylla. Hún var ekki lengi í rekstri vegna bilana. Þróun á vindmyllum hélt svo áfram eftir seinni Heimsstyrjöldina. Þá komu Danir fram með 200 kW Gedstar myllu sem var þriggja blaða og gaf þetta tóninn fyrir þróun danska vindmylluiðnaðarins. Á þessum tíma komu Þjóðverjar fram með tveggja blaða Hutter myllu, sem einnig átti eftir að hafa áhrif á þeirra þróun á vindmyllum. Framþróunin varð ekki neitt gríðarleg á þessum tíma þar sem önnur og vel þekkt orkutækni var notuð til framleiðslu rafmagns. Voru það olíu og kolakynntar gufuaflstöðvar og kjarnorkuver.Það var svo ekki fyrr en á árunum eftir 1990 að það varð stór stökk í þróun og framleiðslu á vindmyllum. Kom það í kjölfar umræða um umhverfismál. Vegna aukinnar loftmengunar, útblæstri gróðurhúsaloftegunda og ósoneyðandi efna. Framtíð vindorku. Ef það er horft á þann vöxt sem hefur átt sér stað í heiminum á framleiðslu rafmagns með vindorku, má búast við því að aukningin haldi áfram á komandi árum. Fleiri og fleiri ríkisstjórnir sjá hag í því að beisla vindorkuna og hafa markað stefnu sína í þá átt. Vindmyllur. Vindorkustöðvum er skipt niður í þrennt. Tegundir vindmylla er í meginatriðum skipt í tvær gerðir. Þriggja blaða myllan er algengust í dag. Hún er samsett úr þremur megin hlutum; Turni, vélarhúsi og mylluspöðum. Í myllunni er aflvél sem í eru spaðar, gír og rafall. Framleiðsla hefst við vindhraða sem er 4 m/s og við 15 m/s nær hún fullum afköstum. Þeim heldur hún upp í 25 m/s. Þegar þeim hraða er náð aftengir hún sig og tengist ekki aftur fyrr en við 20 m/s. Til þess að finna hagkvæmustu staðsetningu fyrir vindmyllurnar er stuðst við vindatlas. Þeir hafa verið gerðir með rannsóknum vindhraða og vindstefnu á tilteknum stöðum. Kostir. Vindorka býður upp á marga kosti sem skýra hvers vegna hún er sá orkumiðill sem vex sem hvað hraðast í heiminum. Vindorka mengar ekki loftið eins og orkuver sem brenna kolum, gasi eða olíu við framleiðslu rafmagns. Það myndast ekki þær lofttegundir sem valda góðurhúsaáhrifum eða súru regni. Það skapast ekki hætta á mengunarslysum við flutning aflgjafans til orkuvera. Orkugjafinn er ókeypis, byggingartími stuttur og auðvelt að stækka vindorkuverið án mikillar fyrirhafnar. Vindorkan er endurnýjanlegur orkugjafi sem rennur ekki til þurrðar. Gallar. Helstu vankantar á því að nota vindorku er að vindurinn er óstöðugur og blæs ekki alltaf þegar þörf er á raforkunni. Það er ekki hægt að geyma hana í stórum stíl og grípa til hennar síðar. Staðsetning vindorkuvera er oftast í mikilli fjarlægð frá borgum og þarf þá að flytja raforkuna um langan veg með tilheyrandi uppbyggingu raflína. Umhverfisáhrif. Framleiðsla rafmagns með vindorku er hrein, hún mengar ekki andrúmsloftið. þó eru aðrir þættir sem hafa áhrif á umhverfið og þá sem í því eru. Hávaði. Hljóðstyrkur sem kemur frá vindmyllum þegar spaðarnir snúast er um það bil 49 decibel í 200 metra fjarlægð og er það samsvarandi léttri bílaumferð í 30 metra fjarlægð. Hávaðinn eykst svo eftir því sem fleiri myllur eru á svæðinu. En verður þó ekki miklu hærri en venjulegt umhverfishljóð ef það er staðið í 300 metra fjarlægð. Landnotkun. Hafa þarf í huga breytingar á núverandi og framtíðarnotkun lands áður en vindmyllur eru settar upp. Við framleiðslu á rafmagni eru settar niður margar myllur á eitt svæði. Myllurnar teka ekki nema 2-3% af svæðinu sem þær standa á. þannig er hægt að samnýta svæðið og vera með beitarlönd eða kornrækt á því. Fuglalíf. Áhrif á fuglalíf af völdum vindmylla eru frekar lítil miðað við annað sem fyrlgir búsetu manna, svo sem kettir, byggingar og bílar. Tölur frá Bandaríkjunum sýna að 1 milljarður fugla deyr árlega við það að fljúga beint á byggingar og allt upp í 80 milljónir deyja við það að lenda á bílum. Áætlað er að í Bandaríkjunum sé fugladauði af völdum vindmylla á bilinu 0,01-0,02% af öllum fugladauða af manna völdum. Gufuvél. Gufuvél er vél sem notast við yfirþrýsting á gasi, yfirleitt vatnsgufu, til að þenja út ákveðið rúmmál og er hreyfing á því rúmmáli síðan notað til að framkvæma einhverja vinnu, t.d. að knýja túrbínu til framleiðslu á rafmagni. Elstu minjar um gufuvél eru frá 1. öld í Egyptalandi þar sem Heron frá Alexandríu bjó til eimsnældu sem snéri öxli lítils snúningshjóls. Ekki varð frekari þróun á gufuvélinni þangað til á 16. öld þegar Taqi al-Din, arabískur heimspekingur, verkfræðingur og stjörnufræðingur í Egyptalandi bjó til gufuvél sem snéri steikarteini. James Watt betrumbætti gufuvélina, en er stundum ranglega sagður hafa fundið hana upp. Upphaf iðnbyltingar er oft sögð markast af gufuvél Watts. Bristol-saurkvarðinn. Bristol-saurkvarðinn er flokkun á lögun mannsaurs eftir að hann hefur hægt sér. Lögun saurs er breytileg eftir þeim tíma sem hann ver í ristilnum. Bristol-saurkvarðinn skiptist í sjö ólíkar gerðir þar sem fyrsta og önnur er harðlífi og sjötta og sjöunda flokkast sem niðurgangur. Fastastjörnuár. Fastastjörnuár sá tími sem það tekur jörðina að ferðast einn hring um sólina miðað við fastastjörnur. Þetta eru u.þ.b. 365.2564 meðalsólahringar. Upplýsingatækni. Þróun fjarskiptakerfa hefur haft mikil áhrif á upplýsingatækni á síðustu áratugum. Upplýsingatækni (UT eða UTN) er sú aðferð að velja sem besta tækni til að vinna með gögn. Með þessari skilgreiningu er hægt að segja að upplýsingatækni hafi verið til síðan að maðurinn fór að geyma gögn. Í dag er þó aðalega átt við rafræn samskipti og geymslu á gögnum, til þess eru notaðar tölvur og annar rafrænn búnaður. Himinhvolfshnitakerfi. Himinhvolfshnitakerfi eru þau hnitakerfi sem notuð eru til að staðsetja fyrirbæri á himinhvolfinu og samsvara hnatthnitakerfum sem lýsa staðsetningu á jörðu. Himinhvolfið er ímynduð kúluskel sammiðja jörðinni í mikilli fjarlægð. Nokkur mismunandi hnitakerfi eru notuð en algengast er miðbaugskerfið. Kúluhornafræði kemur að miklum notum við útreikninga þó hún sé ekki nauðsynleg fyrir grundvallarskilning á hnitakerfunum. Áður fyrr var skilningur á þessum hnitakerfum gríðarlega mikilvægur sjóförum til þess að reikna út staðsetningu og fjarlægðir. Helstu hugtök. Hér sést á sjóndeildarhringur (local horizon), hvirfilpunktur (zenith), ilpunktur (nadir) og suður- og norðurpóll himinhvelsins. Rauða línan gefur til kynna hvernig sjónbaugslengd er fundinn, talið er í gráðum frá norðri í austur. Græna línan er hluti af stórbaug sem er hornréttur á sjóndeildarhringinn og fer í gegnum stjörnunna og hvirfilpunktinn, hún gefur til kynna breidd eða hæð stjörnunnar. Sjóndeildarhringur er ímyndaður stórbaugur á himinhvolfinu sem skilur að jörðina og himininn. Þá er átt við sannan sjóndeildarhring, þ.e. menn verða að ímynda sér að engin fjöll skerði sýn þeirra. Þetta er grundvöllur sjónbaugskerfisins og af því ljóst að staðsetning athugandans skiptir máli. Það geta fylgt því töluverðir reikningar að færa hnit stjörnu á milli staða, sérstaklega ef um mismunandi tíma athugunar er að ræða. Hvirfilpunktur (e. "z'"enith") er sá punktur sem er beint fyrir ofan athugandan, beint fyrir neðan hann er svo ilpunktur (e. "n'"adir"). Staðsetning er gefin með lengd og breidd eins og í hnatthnitakerfi, en í stað breiddar er stundum talað um hæð. Hnitin eru gefin í gráðum eða klukkustundum eftir því hvaða kerfi er notað, en það er auðvelt að breyta á milli. Í einni klukkustund eru fimmtán gráður (360°/24 = 15°). Miðbaugur himins (sem sést ekki á mynd) er stórbaugur á himinhvelinu sem er samsíða miðbaug jarðar. Hann afmarkar þann flöt sem liggur til grundvallar miðbaugskerfisins. Í miðbaugskerfinu er ekki talið frá norðri heldur vorpunkti himins til austurs. Hæðin eða miðbaugsbreiddin er stórbaugur sem er hornréttur á miðbaug himins og fer í gegnum stjörnunna og norðurpunkt himins. Norður- og suðurpunktar himins samsvara norður- og suðurpól jarðar, þ.e. ef lína er dregin í gegnum póla jarðar skerast þeir himinkúluna í norður- og suðurpunkti himins. TCP. TCP eða TCP-samskiptareglur (skammstöfun á enska "Transmission Control Protocol") er einn af grundvallar samskiptastöðlum Internetsins. TCP tilheyrir fjórða lagi OSI lagaskiptingarinnar sem nefnist flutningslagið ("transport layer"). Hlutverk TCP-staðalsins er að þjónusta þau lög fyrir ofan hann (aðalega "application layer") til þess að flytja gögn yfir netkerfi. TCP-staðallinn nýtir sér síðan þjónustur IP-samkiptarstaðalsins sem er í netlaginu (e. networklayer). Það eru margir kostir við TCP-staðallinn en hann býður upp á þjónustur sem hraðaflæðisstjórnun (enska "flow control"), teppustjórnun (enska "congestion control") og villufrían gagnaflutning (enska "error free data transfer"). UDP-staðallinn sem er sambærilegur við TCP býður ekki upp á þessar þjónustur. Hugbúnaðarhönnuður sem kýs að nota UDP getur valið ef hann vill og telur þörf á, útfært einhverjar af þjónustunum sem TCP býður upp á í forritalaginu. Schwarzschild-geisli. Schwarzschild-geisli er einginleiki massa og gefur mörk fyrir því hvenær hann verður það mikill að ef honum yrði þjappað saman í kúlu, sem væri með geisla að stærð "Schwarzschild-geisla" massans, þá heldur massinn áfram að þjappast og verður að lokum að þyngdarsérstæðu. Þetta er einmitt það sem talið er að gerist við myndun svarthols. þar sem "G" er þyngdarfastinn, "m" massi og "c" ljóshraði. sem þýðir að til að jörðin félli saman í þyngdarsérstæðu þyrfti hún að þjappast saman í kúlu með um 9 mm geisla. Loftþrýstingur. Loftþrýstingur (fyrrum nefndur "loftvægi") er þrýstingur andrúmsloftsins, mældur með loftvog. Algengar mælieininginar eru: millíbar, hektópaskal og loftþyngd (atm). Staðalþrýstingur við yfirborð jarðar er 1013,25 hPa. Októberbyltingin. Áhlaupið á Vetrarhöllina í Sankti Pétursborg. Októberbyltingin var bylting í Rússlandi árið 1917. Hún er kölluð svo vegna þess að hún fór fram í október skv. júlíanska tímatalinu sem þá var í gildi í Rússlandi en samkvæmt gregoríska tímatalinu var dagsetninginn 7. nóvember, og er miðað við þann dag þegar byltingarinnar er minnst. Októberbyltingin var vopnuð uppreisn í Petrograd (núna Sankti Pétursborg) og kom í kjölfar Febrúarbyltingarinnar sem hafði gerst sama ár. Októberbyltingin steypti af stóli rússnesku bráðabirgðastjórninn og færði völdin í hendur ráða sem var stjórnað af bolsévikum. Í kjölfar byltingarinnar kom fram nýtt stjórnarkerfi byggt á nýjum hugmyndum sem leiddi af sér stofnun Sovíetríkjanna. Forsaga. Um miðja 19. öld náði Rússaveldi undir forystu zarins fullri stærð en þá tilheyrðu Finnar, Eistar, Lettar, Litháar, Pólverjar og Úkraínumenn ríkinu til vesturs og í austurátt réð zarinn yfir allri Síberíu, strandhéruðunum við Kyrrahafið sem fengin voru frá Kína, Kákasus, Alaska og landsvæðum í Mið-Asíu. Á aðeins þremur öldum hafði Rússaveldið dreift úr sér frá landsvæðunum í kringum Moskvu og orðið að stærsta ríki heims og stimplað sig í sögunni sem heimsveldi. Þrátt fyrir stærð var staða Rússa sem heimsveldi ekki byggð á nægilega sterkum grunni og kom það best fram í Krímstríðinu 1854-1856 þegar þeir tókust á við stórveldi Vestur-Evrópu, Bretland og Frakkland, og biðu ósigur. Gagnrýnisraddir heima fyrir vildu rekja ósigurinn til vanþróun Rússlands á öllum sviðum og í kjölfarið var hafist handa við verulegar breytingar og umbætur í Rússlandi. Bar þá hæst umbætur á efnahagslífi, samfélagsháttum, skólamálum og aflagningu bændaánauðarinnar sem varð til þess að ýta undir iðnvæðingu en þrátt fyrir það mátti enn heyra óánægjuraddir meðal ungra menntamanna. Meðal þeirra sem þóttu umbætur keisarastjórnarinnar of litlar mátti finna menntamenn sem höfðu stundað nám í Vestur-Evrópu og tileinkað sér frjálslyndar og sósíalískar hugmyndir og þó nokkrir trúðu því að með fræðslu gætu rússneskir bændur byggt upp sósíalískt samfélag. Þessi hugmyndafræði náði hámarki 1881 þegar hópur anarkista myrti Alexander keisara 2 í sprengjutilræði í von um að hvetja til uppreisnar gegn zarstjórninni. Morðið hafði þveröfug áhrif og í stað uppreisnar uppskáru tilræðismenn lögregluríki þar sem leynilögregla zarsins ógnaði öllum lýðræðissinnum og frjálslyndum öflum. Þrátt fyrir tilraunir zarsins til að kveða niður óánægjuraddir skall á bylting í Rússlandi árið 1905 en upphaf hennar var kröfuganga þar sem krafist var verðlækkunar á matvælum en verð hafði hækkað eftir ósigur Rússa gegn Japönum sama ár. Byltingin árið 1905 er oftar en ekki kölluð lokaæfing fyrir byltinguna 1917. Byltingarárið 1917. Árið 1917 er mest litað af tveimur byltingum, febrúarbyltingunni og októberbyltingunni, en landið hefði beðið mikla hnekki af stríðsrekstri í fyrri heimstyrjöldinni og óánægjuraddir urðu sífellt háværari og fengu hljómgrunn meðal vaxandi flokks bolsévika sem gerði í því að magna þær upp. Þær náðu svo hámarki þegar röð verkfalla skall á í janúar og febrúar þess árs en á þeim tíma voru meira en 650 þúsund verkamenn víðsvegar um landið búnir að leggja niður vinnu. Um miðjan febrúar tók síðan ástandið að þróast og 26. febrúar breyttist þetta í vopnaða byltingu gegn zarstjórninni þar sem verkamenn og hermenn tóku höndum saman og snérust gegn stjórn landsins. Í kjölfarið brást Dúman við og myndaði bráðabirgðastjórn sem krafðist afsagnar keisarans og varð Nikulás 2. við kröfu þeirra 2. mars 1917 og við tóku tvær ráðandi hreyfingar uppreisnarsinna undir stjórn bráðabirgðarstjórnarinnar. Þrátt fyrir að zarveldinu hafði verið kollvarpað voru ekki öll vandamál Rússa leyst enda var stríðið í vestri enn í fullum gangi og bág kjör bændastéttarinnar urðu að sívaxandi vandamáli. Verkföll voru enn tíð eftir fall zarsins og mikil spenna myndaðist milli bolsévika og stjórnar landsins sem síðar náði hámarki í júlí 1917 þegar tví-stjórn landsins leystist upp (bráðabirgða stjórnin tók alfarið við stjórnartaumunum) og skotið var á friðsamleg mótmæli stuðningsmanna bolsévika, bylting virtist óhjákvæmileg. Sú varð raunin. Þann 10. október 1917 samþykkti miðstjórn bolsévika með 19 atkvæðum gegn 2 undirbúning fyrir vopnaða byltingu í Rússlandi. Það var síðan 25. október að öllum undirbúningi var lokið og vopnuð bylting varð að veruleika. Byltingunni lauk síðan þegar sveitir bolsévika tóku Vetrarhöllina nóttina eftir. Októberbyltingin. Eftir að miðstjórn bolsévika ákvað 10. október 1917 að nú væri tími fyrir vopnaða byltingu í Rússlandi gekk undirbúningur byltingarinnar mjög fljótt fyrir sig en hann hófst með stofnun hernaðarráðs byltingarsinna. Þetta nýskipaða herráð hóf svo samstarf með miðstjórn bolsévika að skipuleggja og finna þá sem voru viljugir að taka upp vopn með þeim gegn stjórn landsins. Byltingin sjálf hófst síðan 25. október klukkan 1:25 eftir miðnætti í Petrograd (St. Pétursborg) þegar sveitir bolsévika skipaðar sjóliðum, rauðliðum og hermönnum tóku yfir aðalpósthúsið. Klukkan 2:00 tóku sjóliðar og hermenn úr Izmailov herdeildinni yfir Eystrasaltsstöðina og 6. varadeild herverkfræðinga yfir Nikolayev stöðina. Á sama tíma sendi herráð bolsévika fulltrúa í orkuver borgarinnar og samþykkt var að taka rafmagnið af byggingum stjórnarinnar. Klukkan 3:00 tók Keksgol herdeildin yfir aðalsímstöðina og skar á símalínur stjórnarinnar. Klukkan 3:30 lagði Aurora niður akkeri við Nikolayev brúna og undirbjó landgöngu átta þúsund sjóliða frá Helsingfors, Kronstadt og Revel inn í höfuðborgina. Um sex leytið tóku rauðliðar, hermenn og sjóliðar banka í eigu ríksins og skrifstofur aðal dagblaða borgarinnar. Klukkutíma síðar tóku þeir hallarbrúna til að leyfa tundurspillum frá Helsingfors að taka sér stöðu í Hebu gegnt Vetrarhöllinni. Að morgni 25. október höfðu sveitir byltingarsinna mest alla borgina undir sinni stjórn og flestar aðalleiðirnar inn í borgina. Það var síðan klukkan 10 sama morgun að Vladimir Lenín lýsti yfir algjörum sigri byltingarsinna og því að stjórninn væri fallinn. Um 11 leytið skaut Aurora púðurskoti sem merki um allsherjar áhlaup á Vetrarhöllina síðasta vígi bráðabirgða stjórnarinnar. Klukkan 1:50 að morgni 26.október féll Vetrarhöllin án átaka og bráðabirgðastjórnin var handtekin. Útkoman. Októberbyltingin árið 1917 hafði í för með sér nýtt ríki byggt á nýjum hugmyndum og var strax farið í róttækar breytingar á stjórn landsins þar sem gamla kerfið var skipulagt rifið niður. Nýja kerfið byggðist á ráðum (soviet= rússneska yfir ráð) sem unnu saman með stórum samtökum vinnandi manna til dæmis verkalýðsfélögum. Aðalvaldhafinn var svo Rússneska þing ráðanna. Þessar breytingar voru settar á aðeins nokkrum mánuðum eftir októberbyltinguna. Tímatal. Öll tímatöl sem hér koma fram eru aðlöguð að júlíska tímatalinu en Rússar höfðu á þessum tíma ekki skipt yfir í gregoríska tímatalið sem er víðast notað í dag. Stalínismi. Ljósmynd af Stalín frá 1936 Stalínismi er pólitísk og fræðileg stefna sem er kennd við Jósef Stalín og þykir einkenna stjórnartíð hans og ritstörf. Nafngiftin er komin frá Leon Trotsky, andstæðingi Stalíns, og er oftast notuð í neikvæðri merkingu, nánar tiltekið að stalínismi sé stefna sterkrar valdstjórnar, lítillar virðingar fyrir mannréttindum, flokkseinræðis, umfangsmikils og spillts skrifræðis, áætlunarbúskapar og efnahagsstefnu og stjórnkerfi með sósíalísk einkenni, í það minnsta á yfirborðinu. Stalín sjálfur sagðist fylgja marx-lenínískri stefnu (eða einfaldlega sósíalískri eða kommúnískri) í pólitískum athöfnum sínum. Líkt og með trotskíisma, eru menn ekki á eitt sáttir um hvað er rétt og rangt eða hvað þessi orð þýða nákvæmlega, en það þekkist líka að stuðningsmenn eða aðdáendur Stalíns taki orðið og noti það stoltir til að lýsa sjálfum sér. Framan af stjórnartíð Stalíns, beittu Sovétríkin Þriðja alþjóðasambandinu fyrir sig til þess að boða og útbreiða stefnu sína. Trotskíismi. Trotskíismi er pólitísk og fræðileg stefna sem er kennd við Lev Trotskíj og þykir einkenna stjórnmálastarf hans og ritstörf. Nafngiftin er upphaflega komin frá Lenín, en hefur mest verið notuð af andstæðingum Trotskíjs og er oftast notuð af þeim í neikvæðri merkingu, þótt jákvæð eða hlutlaus merking sé algeng líka. Trotskíj og fylgismenn hans kölluðu/kalla stefnu sína oftast marxisma eða lenínisma, eða þá einfaldlega sósíalisma eða kommúnisma. Það sem einkennir trotskíisma er m.a. sterk alþjóðahyggja, kenningin um stöðuga byltingu og hörð gagnrýni á þau fræði og stjórnmál sem einkenndu Jósef Stalín, og eftirmenn hans -- hvort sem litið er á Nikíta Khrústséff eða Maó Zedong. Líkt og með stalínisma, eru menn ekki á eitt sáttir um hvað er rétt og rangt eða hvað þessi orð þýða nákvæmlega. Hreyfingar kommúnista hafa oft klofnað vegna deilna trotskíista við andstæðinga sína. Stærsta og frægasta dæmið er kannski þegar Trotskíj stofnaði Fjórða alþjóðasambandið, sem svar við Þriðja alþjóðasambandinu sem tengdist Stalín og Sovétstjórninni. Slésvík-Holtsetaland. Slésvík-Holtsetaland (háþýska: "Schleswig-Holstein", lágþýska: "Sleswig-Holsteen", frísneska: "Slaswik-Holstiinj", danska: "Slesvig-Holsten") er sambandsland í Þýskalandi norður af Hamborg ("Hamburg") og liggur á milli Norðursjávar og Eystrasalts. Íbúar eru 2,8 milljónir. Höfuðstaður sambandlandsins er Kíl ("Kiel"). Lega og lýsing. Slésvík-Holtsetaland er nyrsta sambandsríki Þýskalands og er eina sambandsríkið sem á strandlengju bæði að Norðursjó og Eystrasalti. Það liggur að Mecklenborg-Vorpommern að austan, Neðra-Saxlandi að sunnan og Hamborg að sunnan. Auk þess á það landamæri að Danmörku að norðan. Með 15.763 km² er Slésvík-Holtsetaland næstminnsta sambandsríki Þýskalands sem ekki er borgríki. Aðeins Saarland er minna. Það er mjög láglent og víða skógi vaxið. Mörg stöðuvötn er að finna í ríkinu. Ströndin við Norðursjó er hluti af Vaðhafinu. Þar eru Norðurfrísnesku eyjarnar. Ströndin við Eystrasalt er vogskorin. Þar eru nokkrir firðir, þeir einu í Þýskalandi (t.d. Schlei og Flensburger Förde). Orðsifjar. Schleswig er nefnt eftir samnefndri hafnarborg við Eystrasalt. Orðið er samsett úr "Schles" og "wig". "Schles" merkir fjörðinn Schlei og "wig" merkir vík eða bær. Schlei sjálft merkir óhreint vatn (sbr. "slím" og "slý" á íslensku). Merkingin er því "bærinn við fjörðinn Schlei". Holtsetaland hét upphaflega "Holzsassen", sem merkir "Holtsetar" ("skógarbúar"). Holzsassen breytist í "Holtsaten", svo í "Holsten" og loks í "Holstein". Orðið hefur ekkert með stein (þ.e. steina að gera). Athyglisvert er að íslenska heitið, Holtsetaland, kemst þvi sem næst að vera upprunalegt heiti svæðisins. Upphaf. Upphaflega bjuggu germanskir þjóðflokkar á svæðinu, aðallega englar, en einnig jótar og frísar. Á tímum þjóðflutninganna miklu á 5. öld fluttu margir englar til Englands og sameinuðust þar aðfluttum söxum (þeir mynduðu þar engilsaxa). Þetta varð til þess að margir jótar (upphaflega í Jótlandi) fluttu sig sunnar í héraðið. Á víkingatímanum stofnuðu þeir bæin Heiðabú (á þýsku: "Haithabu", á dönsku: "Hedeby") við fjörðinn Schlei rétt sunnan við borgina Schleswig. Sótt hefur verið um að setja víkingabæinn Heiðabú á heimsminjaskrá UNESCO. Víkingar lögðu auk þess Danavirki til varnar söxum. Karlamagnús hernam suðurhluta svæðisins (nokkurn veginn Holtsetaland), en eftirlét víkingum norðursvæðið. Árið 811 gerðu Karlamagnús og víkingar samkomulag um að áin Egða ("Eider") skyldi vera landamæri milli ríkis Karls og Danaríkis. Þessi landamæri héldust allt til 1864, er Prússar hertóku Slésvík af Dönum. Áin myndaði því einnig landamerki milli Slésvíkur og Holtsetalands. Togstreita milli Dani og þýska ríkisins. Danir reyndu hins vegar að hertaka Holtsetaland, en Valdimar II Danakonungur tapaði hins vegar í orrustunni við Bornhöved 1227. Á næstu öldum tókst greifunum í Holtsetalandi (Schauenburg-ættinni) að eigna sér lönd og skika í Slésvík. Á 14. öld má segja að héruðin bæði hafi myndað eina heild, þó að Slésvík hafi tilheyrt dönsku krúnunni, en Holtsetaland þýska ríkinu. Eftir 1250 var uppgangstími Hansasambandsins. Við það varð hafnarborgin Lübeck meðal mikilvægustu borga Norður-Evrópu. 1460 dó Schauenburg-ættin út í Holtsetalandi. Aðalsmenn í báðum héruðunum kusu því Kristján I Danakonung sem nýja furstann sinn, enda var hann nákominn frændi síðasta fursta Schauenburg-ættarinnar. Samkomulag um þetta náðist í borginni Ribe á Jótlandi. Slésvík og Holtsetaland ættu að vera ein heild um ókomna tíð. Kristján átti ekki að ríkja sem konungur yfir svæðinu, heldur sem hertogi. Holtsetaland breyttist í kjölfarið af því úr greifadæmi i hertogadæmi. Í lénsskipulaginu var Danakonungur lénsherra Slésvíkur, en þýski keisarinn var þó áfram lénsherra Holtsetalands. Stjórnkerfið var í höndum Danakonunga, en skatturinn fór til keisarans. Siðaskiptin í hertogadæmunum tveimur komu frá Danmörku, ekki frá þýska ríkinu. Það var Kristján III sem skipaði fyrir um nýja siðinn 1542 með prestinum Johannes Bugenhagen. 1544 braut Kristján III Ribesamkomulagið með því að skipta Slésvík-Holtsetalandi í tvö ný lén, eitt fyrir sitthvorn hálfbróður sinn. Þannig mynduðust Gottorf-svæðið við Norðursjó og Hadersleben-svæðið við Eystrasalt. 30 ára stríðið. Stríðið mikla hófst 1618, en hvorki Slésvík né Holtsetaland voru þátttakendur til að byrja með. Það var ekki fyrr en 1625 að héruðin drógust inn í stríðið er Kristján IV Danakonungur ákvað að taka þátt í hildarleiknum. 1626 tapaði hann hins vegar í orrustu gegn Tilly, einum af herforingjum Wallensteins. Wallenstein sjálfur elti Danakonung norður eftir Slésvík-Holtsetalandi og hertók Jótland. Þar með voru Danir úr leik í stríðinu. Friðarsamningar þess eðlis voru undirritaðir í Lübeck. Prússastríðið. Kort á ensku sem sýnir skiptingu Slésvíkur Á miðri 19. öld varð mikil þjóðarvakning meðal íbúa Slésvíkur-Holtsetalands, eins og annars staðar. Í marsbyltingunni í Kíl 1848 kröfðust þýskumælandi íbúar héraðsins sameiningu við þýska ríkið. Friðrik VII Danakonungur var þar að auki barnlaus og næsti erfingi hertogadæmanna var Christian August, samkvæmt þýskum rétti. En samkvæmt dönskum rétti máttu konur hins vegar erfa lönd og því héldu Danir yfirrétti sínum yfir hertogadæmunum. Þýskir íbúar svæðisins tóku því málin í sínar hendur og gerðu uppreisn gegn Dönum, en töpuðu í orrustunni við Idstedt (nálægt Flensborg). 1864 var Bismarck orðinn kanslari Prússaveldis. Hann setti Dönum úrslitakosti um lausn á deilunni um hertogadæmin. Þar sem Danir sýndu enga tilhneigingu til að leita lausna, sögðu Prússar og Austurríkismenn Dönum stríð á hendur. Í orrustunni við Dybbøl syðst á Jótlandi biðu Danir ósigur gegn sameinuðu liði Prússa og Austurríkismanna. Í framhaldið hernámu Prússar Slésvík, en Austurríkismenn hernámu Holtsetaland. 1867 urðu bæði héruðin prússnesk. Tæknilega séð var vandamálið þó enn ekki leyst. Deila landanna hélt áfram næstu áratugina. Við tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri var aftur sest að samningsborðinu og rætt um héruðin, sérstaklega þó Slésvík. Niðurstaðan var sú að Þjóðverjar skiluðu norðurhluta Slésvíkur til Danmerkur. Aðeins suðurhlutinn fékk að haldast þýskur. Landamæri ríkjanna voru sett rétt norðan við borgina Flensborg og þannig standa þau enn í dag. Nýrri saga. Í heimstyrjöldinni síðari urðu aðeins fáeinar borgir fyrir loftárásum bandamanna. Lübeck skemmdist nokkuð, en Kíl var nær gjöreyðilögð, enda mikilvæg herskipahöfn Þjóðverja. Við lok stríðsins var Slésvík-Holtsetaland hluti af breska hernámssvæðinu. 1947 kom fyrsta þing svæðisins saman. Höfuðborgin varð Kíl. 1949 varð Slésvík-Holtsetaland hluti af nýstofnuðu Sambandsríki Þýskalands. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Slésvíkur-Holtsetalands er gerður úr þremur láréttum röndum: Blátt, hvítt, rautt. Litirnir voru teknir úr skjaldarmerkinu og var fáni þessi í fyrsta sinn notaður af þýskum alþýðuher sem reyndi að brjótast undan danskri yfirstjórn 1840. 1949 varð þessi fáni viðurkenndur fáni hins nýstofnaða sambandsríkis. Skjaldarmerkið er skipt í tvennt. Til vinstri eru bláu ljónin frá Slésvík, en til hægri er hvíta netlulaufið frá Holtsetalandi. Títóismi. Josip Broz Tito árið 1971 Títóismi er pólitísk stefna sem er ein grein sósíalisma, kennd við Tító marskálk (1892-1980) og þykir einkum einkenna stjórnartíð hans í Júgóslavíu (1945-1980). Nafngiftin er notuð til aðgreiningar frá öðrum sósíalistum, en títóistar sjálfir kalla sig yfirleitt bara sósíalista. Ólíkt flestum öðrum löndum Austur-Evrópu, þá tókst Júgóslövum að sigra hernámslið Þjóðverja án mikillar aðstoðar Rauða hersins við lok Síðari heimsstyrjaldar. Árið 1945 var Júgóslavía því á valdi skæruliða sem flestir aðhylltust kommúnískar eða sósíalískar hugmyndir og lutu forystu Títós. Þeir voru því ekki bundnir af vilja Stalíns og Sovétmanna eins og flest hin löndin. Skömmu eftir stríð kom til vinslita milli Stalíns og Títós, sem vildi að Júgóslavía færi sínar eigin leiðir til þess að framkvæma sósíalismann. Það er þessi júgóslavneska leið, sem er gjarnan kennd við Tító sjálfan. Til aðgreiningar frá öðrum greinum sósíalisma, þá felur títóismi í sér sterk syndikalísk áhrif — það er að segja, að verksmiðjur og aðrar einingar hagkerfisins eru að miklu leyti undir stjórn verkamanna sjálfra, verkalýðshreyfingin hefur meira sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu heldur en t.d. við stalíníska eða maóíska stjórnarhætti og áætlunarbúskapurinn er ekki eins umfangsmikill, heldur gefur ákveðið rúm fyrir markað. Þar sem Júgóslavía var fjölþjóðlegt sambandsríki, má líta á hvort tveggja sem einkenni á títóismanum líka: Áherslur á að þjóðarbrot hafi verulega sjálfstjórn hvert í sínu fylki, og að allir eigi að vera jafnir fyrir ríkinu, óháð þjóðerni, og fylkin myndi ríkið í sameiningu. Auk þess nutu Júgóslavar mun meiri réttinda en flestir aðrir íbúar Austur-Evrópu, til dæmis hvað snerti ferðafrelsi og prentfrelsi. Eftir vinslitin við Stalín, fylgdi Júgóslavía að mestu hlutleysisstefnu í utanríkismálum, eftir því sem hægt var í Kalda stríðinu. Tító stofnaði Samband hlutlausra ríkja ásamt Gamal Abdel Nasser, forseta Egyptalands, Jawaharlal Nehru, forseta Indlands og Sukarno, forseta Indónesíu. Austur-evrópsku ríkin sniðgengu Júgóslava að miklu leyti, og því beindust utanríkisviðskipti þeirra að mestu leyti til Vestur-Evrópu. Tító og stjórn hans nutu vinsælda heima fyrir, þar sem honum tókst að láta þjóðarbrot Júgóslavíu halda friðinn að mestu leyti, og halda uppi mun betri almennum lífskjörum en í hinum sósíalísku löndnum — þótt Júgóslavía hafi fjármagnað þau að miklu leyti með erlendum lánum, og þannig safnað skuldum sem seinna urðu þung byrði. Austurblokkin deildi þó hart á Tító. Enver Hoxha, forseti Albaníu, gagnrýndi hann sérstaklega mikið, í ræðu og riti. Maóismi. Maóismi er pólitísk og fræðileg stefna sem er kennd við Maó Zedong (1893-1976) og þykir einkenna fræðistörf hans, stjórnmálabaráttu og stjórnartíð í Kína. Maóismi er ein grein sósíalisma og kommúnisma og þegar maóistar kalla sig ekki kommúnista, kalla þeir sig oftast marx-lenínista og líta svo á að Maó hafi byggt á kenningum Marx, Engels, Leníns og Stalíns en þróað þær áfram og upp á nýtt og hærra stig. Því eru aðrir sósíalistar ekki sammála, og er hörð (og gagnkvæm) gagnrýni milli maóista og stalínista, trotskíista og fleiri fylkinga. Það sem aðgreinir maóisma frá öðrum kvíslum kommúnismans er meðal annars mun meiri trú og áhersla á byltingarsinnað hlutverk smábænda og annarra vinnandi stétta til sveita, kenningin um stöðugar mótsetningar (öfugt við hefðbundna díalektík sem aðrir marxistar aðhyllast) og kenningin um heimana þrjá. Flestir aðrir kommúnistar hafna þessum hugmyndum. Auk þeirra einkennast maóískir stjórnarhættir gjarnan af mikilli leiðtogadýrkun, lítilli virðingu fyrir mannréttindum, stjórnarandstöðu eða hugmyndum í andstöðu við hugmyndir stjórnarinnar. Þar við bætast flokkseinræði og náin tengsl stjórnvalda og verkalýðshreyfingar. Formleg vinslit urðu milli Maós og Sovétmanna eftir að Nikíta Khrústséff flutti leyniræðuna um Stalín árið 1956. Sá pólitíski ágreiningur, sem stundum nálgaðist bein átök, varð líka til þess að kenningarnar þróuðust hvor í sína átt: Maóismi þróaðist frá því að vera einfaldlega „sósíalismi að hætti Kínverja“ yfir í að verða sjálfstæð undirtegund sósíalisma, á meðan Sovétstjórnin hvarf meira og meira frá stalínískum stjórnarháttum. Maóismi í dag. Þorp undir stjórn maóista í Nepal Í Alþýðulýðveldinu Kína hefur opinber leiðtogadýrkun á Maó farið mjög minnkandi frá því hann dó. Stjórnvöld segjast þó enn fara eftir stefnunni sem hann mótaði, þótt deilt sé um efndirnar. Svipað á við í Víetnam, þar sem ríkjandi flokkur sótti upphaflega mikið til Maós en hefur horfið frá stefnu hans. Í Norður-Kóreu er Juche hin ríkjandi hugmyndafræði, og sækir töluvert mikið í smiðju Maós líka. Í mörgum löndum, einkum í Mið- og Suður-Asíu, eru starfandi stjórnmála- og skæruliðahreyfingar sem margar kenna sig við Maó. Sumar þeirra kalla sig beinlínist maóista, öfugt við það sem maóistar hafa gert lengst af. Sem dæmi um þetta má nefna Kommúnistaflokk Nepals (maóista), sem eru mjög umsvifamiklir þar í landi, og Kommúnistaflokk Indlands (maóista), sem hafa barist í áratugi og vinna smám saman á. Utan Asíu starfa margar maóískar hreyfingar, flestar litlar, en í Perú urðu maóískir skæruliðar mjög sterkir og komust nærri því að taka öll völd í landinu í uppreisn sem hófst árið 1980. Þegar stjórnvöld höfðu hendur í hári Abimaels Guzman formanns, þá brast samstaðan. Að nafninu til stendur uppreisnin enn, en hreyfingin er klofin og fylkingarnar tvær litlar. Maóismi á Íslandi. Í vinstri-róttæknibylgjunni sem hófst í lok sjöunda áratugarins á Vesturlöndum og náði til Íslands í upphafi þess áttunda, náðu maóískar hugmyndir nokkru fylgi meðal róttækra Íslendinga. Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar) -- yfirleitt kölluð EIK (m-l) -- voru stærsta hreyfingin. Þau voru lögð niður nálægt upphafi níunda áratugarins. Tata Nano. Tata Nano er borgarbíll framleiddur af indverska bílaframleiðandanum Tata Motors. Ódýrasta útgáfa af bílnum mun kosta 1700€ eða 157,149 íslenskar krónur, sem gerir Nano að ódýrasta fjöldaframleidda bíl í heimi. Tata Motors stefnir að því að framleiða 250.000 eintök á ári til að byrja með. Heyskapur. Heyskapur kallast sá tími þegar bændur slá grasið á túnum sínum og verka sem hey. Gjarnan eru tún slegin tvisvar, eða oftar. Kallast þá fyrra skiptið "fyrrisláttur", og afurð hans "hey", en seinna skiptið (og þau sem eftir koma) "seinnisláttur". Afurð seinnisláttar kallast "há". Kotstrandarkirkja. Kotstrandarkirkja er kirkja að Kotströnd í Ölfusi. Hún var byggð 1909 og vígð þann 14. nóvember eftir að ákveðið var að leggja niður kirkjurnar að Reykjum og Arnarbæli. Kotstrandarkirkja hefur verið útkirkja frá Hveragerði frá 1940 en þangað til sat presturinn að Arnarbæli og þjónaði Hjalla-, Selvogs- og Kotstrandarkirkju. Hvergerðingar sóttu kirkju að Kotströnd þar til þeirra kirkja var fullbúin. Kirkjugarðurinn að Kotströnd markast af hlöðnum steinvegg á tvo vegu. Hann þjónar einnig Hveragerðiskirkju. Araniko. Araniko (upphaflega Balabahu, fæddur 1243, látinn í Kína 1306) var frægur arkitekt frá Nepal sem einnig var þekktur fyrir mynd- og högglist sína. Nafn hans þýðir á kínversku "kvenlegt andlit", en hann líktist einmitt konu. Araniko fæddist mögulega í Patan og var af Newar-þjóðarbrotinu. Um 12 ára aldur fór hann til Kína í boði Kublai Khan keisara en þar átti hann að reisa búddamusteri. Byggingarlist hans sést einn þann dag í dag, svo sem í Peking. Hann vann svo vel að Kínakeisari sjálfur vildi leggja fyrir hann próf. Hann skyldi laga koparstyttu af Sung keisara. Eftir viðgerðina var styttan svo fullkomin að jafnvel færustu listamenn landsins dáðust af handbragðinu. Araniko kynnti nepalska byggingarlist í Tíbet, Indókína og víðar. Hann bjó í Kína fram að dauðdaga. Blindrafélagið. Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi er félagasamtök blindra og sjónskertra á Íslandi. Félagsmenn eru um 500 talsins. Félagið var stofnað 19. ágúst 1939. Hlutverk félagsins er að veita umsagnir til hins opinbera um hvert það mál sem lýtur að hagsmunum blindra og sjónskertra. Blindrafélagið býður einnig upp á námskeið og kynningar í skólum, fyrirtækjum og hjá samtökum. Félagið aðstoðar félagsmenn með atvinnuleit og umsóknarferlið. Það skipuleggur námskeið og margvíslegt tómstundarstarf. Blindrafélagið gefur í hverri viku út hljóðdiskinn "Valdar greinar" þar sem er að finna upplestar greinar úr íslenskum blöðum. Útgáfa "Valdra greina" hófst árið 1976. Félagið rekur Blindravinnustofuna þar sem blindir og sjónskertir vinna ýmis störf. Cope2. Cope2 standandi fyrir framan plagatið sem hann gerði fyrir Time Magazine. Fernando Carlo eða þekktur sem Cope2 (south Bronx, New York) er graffiti listamaður (graffari) og kemur frá south Bronx þó að hann sé þekktur um allan heim, fékk hann ekki neina viðurkenningu í graffiti heiminum þangað til í miðjum 90's áratugnum hann hefur málað síðan 1978, og hann hefur fengið alþjóðlegt kredit fyrir verkin sín. Hann og hans krú (crew) "Kings Destroy" (Upphaflega "Kids Destroy" en núna Kings Destroy, Killa Dawgs, Keeping dollars eða einfaldlega "KD") eru aðalatriðin í graffiti myndinni "Kings Destroy". Cope2 hefur verið einn af aðal skotmark New York City Vandal Squad (Skemmdarvarga lögreglan) og hefur verið handtekin fyrir skemmdarverk, þjófnað og eiturlyfja sölu. Handtakan leiddi til þess að hann gaf út 272 blaðsíðna bók um graffiti verkin hans "Cope2 True Legend". Cope2 byrjaði að skrifa graffiti í kringum 1980, frændi hans Chico 80 kynnti honum graffiti og það var mikið um það í fjölskyldunni hans. Hann bjó til sitt eigið krú kallað "Kids Destroy"(krakkar skemma) og svo breytti hann því í "Kings Destroy"(kóngar skemma) þegar hann varð kóngur yfir 4 línunnar. Sumar af upphafsauglýsinga málverkum cope's hafa verið seld á uppboði fyrir $1000 dollara fyrir hvert málverk. Hann hefur tildæmis gert listaverk fyrir forsíður heimasíðna Boogie Down Productions með titlum eins og "Sex And Violence"(Kynlíf og Ofbeldi). Á árinu 2006 kom cope2 fram í tölvuleiknum hans Mark Ecko's "Mark Ecko's Getting Up: Contents Under Pressure." Sem einn af "Graffiti Goðsögnunum", í leiknum tekur karakterinn þinn mynd af verki eftir cope2, rétt áður en cope2 birtist sjálfur og kennir karakterinum að bomba(graffa) á lestir. Áður en leikurinn var gefinn út, kallaði cope2 á réttarmann Peter Vallone Jr., til að kvarta útaf því að það var hætt við almennings atvik fyrir titillin. Atburðurinn var skipulagður af Mark Ecko, kallaður fyrir spray málningu á lestar vögnum í götu partýi til að halda upp á graffiti og hip hop siðmenningu. Það er vitað að Peter Vallone Jr. hafi sagt að hann tæki ábyrgð á því að fá leyfi fyrir atburðinum. Vallone kallar cope2 "punkara." Það er sagt að þetta hafi vakið áhuga hjá Time Magazine á listamanninum. Leyfi fyrir atburðinum var síðar endurtekið þeger dómari Jed S. Rakoff í Federal District Court í Manhattan breytti fyrri reglu um málfrelsi. Time Magazine borguðu Cope2 $20,000 dollara til að gera plagat auglýsingu í SoHo stræti sem er í Manhattan, New York í Houston og Wooster. Auglýsingin er full af graffiti bombum og textinn segir "Post-Modernism? Neo-Expressionism? Just Vandalism? Time. Know why" Cope2 hefur gert skó fyrir Converse undir "Chuck Taylor All-Stars" og nýlega kom listaverk á vegg eftir hann í bíomyndinni "Shrek hinn þriðji." Cope2 er þekktasti Wild Style graffari í öllum heiminum og er líka þekktur fyrir bubblu stafina sína en bubblustafirnir voru gerðir af graffiti listamanninum Cap. Cope2 hefur einnig komið fram á nokkrum veggjum í Gta:IV. Goðsögnin sjálf hefur nýlega komið fram marg oft í myndini step up 3D sem var sýnd hér í kvikmynda húsum nýlega. Svarfaðardalur. Svarfaðardalur-Skíðadalur, Árgerðisbrú fremst, Gljúfurárjökull innst í dal. Svarfaðardalur er stór og þéttbýll dalur sem liggur milli hárra fjalla inn frá Dalvík við Eyjafjörð að vestan. Hann tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Um 10 km frá sjó klofnar hann. Eystri dalurinn nefnist Skíðadalur og hann heldur meginstefnu dalsins til suðvesturs en hinn dalurinn heldur Svarfaðardalsnafninu, hann sveigir mjög til vesturs og er oft kallaður Svarfaðardalur fram. Fjölmargir afdalir ganga út frá aðaldölunum. Smájöklar eru víða í þessum dölum. Stærsti jökullinn er Gljúfurárjökull sem er fyrir botni Skíðadals og blasir við úr byggð. Fjöllin eru mikil og brött og margir tindar á bilinu 1000-1400 m á hæð. Hæstu fjöllin eru upp af Skíðadal, hæstur er Dýjafjallshnjúkur 1456 m. Svarfaðardalsá rennur eftir dalnum. Hún á innstu upptök sín á Heljardalsheiði en safnar að sér vatni úr fjölda þveráa og lækja. Stærst þessara áa er Skíðadalsá. Fjölmargar gönguleiðir og fornir fjallvegir liggja úr Svarfaðardal og Skíðadal til næstu byggðarlaga. Þekktasti fjallvegurinn er Heljardalsheiði. Um hana lá hin forn þjóðleið til Hóla í Hjaltadal. Í Svarfaðardal voru fjórir kirkjustaðir, Vellir, Tjörn, Urðir og Upsir. Barna- og unglingaskóli var á Húsabakka 1956-2004. Þar er nú samkomuhús sveitarinnar en það heitir Rimar. Sundskáli Svarfdæla er upp undir fjallshlíðinni ofan við Húsabakka. Hann var reistur 1929 og er talinn ein elsta yfirbyggða sundlaug landsins. Volgar lindir eru í Laugahlíð ofan við Sundskálann og úr einni þeirra fékk hann vatn. Seinna var borað eftir vatni og vatn leitt þaðan til skálans. Hitaveita er í neðanverðum dalnum en heitt vatn fæst úr borholum á Hamri í Svarfaðardal og á Árskógsströnd. Friðland Svarfdæla nær frá sjó við Dalvík og spannar flatann dalbotninn inn fyrir Húsabakka. Þar er mikið og fjölskrúðugt fuglalíf. Menning. Norðurslóð er héraðsfréttablað Svarfdæla. Hún hóf göngu sína í október 1977 og er eitt elsta héraðsfréttablað landsins sem kemur út að staðaldri. Héraðshátíðin nefnist Svarfdælskur mars og er haldin í mars ár hvert. Þetta er menningarhátíð þar sem ýmislegt er til gamans gert, svo sem að keppa að heimsmeistaratitli í og dansa Svarfdælskan mars. Brús er sérstætt spil sem hefur lengi verið spilað í dalnum og er raunar þekkt víðar en hvergi hefur það lifað jafn góðu lífi og þar. Svarfaðardalur fram, þ.e. innri hluti Svarfaðardals, Hnjótafjall fyrir miðju. Sagan. Samkvæmt Landnámu er dalurinn kenndur við Þorstein svörfuð sem bjó á Grund. Hann var þó ekki sá fyrsti sem settist að í dalnum því Ljótólfur goði á Hofi og menn hans voru komnir á undan honum. Svarfaðardalur er víða nefndur í fornum sögum og þar gerðust Svarfdæla saga og Valla-Ljóts saga. Þorleifs þáttur jarlaskálds og Hreiðars þáttur heimska fjalla einnig um Svarfdælinga. Í Svarfaðardal hafa fundist all mörg kuml frá heiðnum sið þar á meðal tveir kumlateigar með mörgum kumlum. Annar í Láginni á Dalvík og hinn á Arnarholti í landi Ytragarðshorns. Svarfaðardalur var allur einn hreppur fram í ársbyrjun 1946 en þá var honum skipt í Svarfaðardalshrepp og Dalvíkurhrepp. Dalvík fékk kaupstaðarréttindi 22. apríl 1974. Hrepparnir voru svo sameinaðir á ný ásamt með Árskógshreppi þann 7. júní 1998 og mynda nú Dalvíkurbyggð. Jarðfræði Svarfaðardals. Berggrunnur byggðarlagsins er að mestu gerður úr fornum blágrýtishraunum sem mynda gríðarþykkan lagskiptan jarðlagastafla. Milli hraunlaganna eru setlög sem gerð eru úr gömlum jarðvegi sem safnast hefur á hraunin milli gosa, einnig má sums staðar finna sand- og malarkennd setlög sem ættuð eru frá ám og vötnum. Jarðlagastaflanum hallar lítillega til suðurs. Hann er 10 – 12 milljón ára gamall.Víða standa berggangar nær hornrétt á jarðlögin en þeir eru aðfærsluæðar fornra eldstöðva. Þykkur og mikill berggangur sker sig upp í gegn um Stólinn á mótum Svarfaðardals og Skíðadals, Hálfdánarhurð í Ólafsfjarðarmúla er einnig berggangur. Eftir að eldvirkni lauk á svæðinu fyrir um 10 milljónum ára grófst Eyjafjörður og þverdalir hans ofan í jarðlagastaflann fyrir atbeina vatns og vinda og þegar ísöldin skall á fullkomnuðu jöklar landslagsmótunina. Jökulgarðar frá lokum síðasta kuldaskeiðs, fyrir um 10.000 árum, setja víða svip sinn á landið. Hólsrípillinn er eitt fallegasta dæmið um slíka garða en hann er ruddur upp af jökli sem eitt sinn gekk í sjó úr Karlsárdal. Berghlaupsurðir eru einnig áberandi víða í fjallahlíðum og má þar nefna Upsann ofan Dalvíkur, hólana neðan við Hofsskál í Svarfaðardal og Hvarfið í mynni Skíðadals. Sveitarfélagið er á virku jarðskjálftasvæði og árlega verða menn varir við jarðskjálfta sem flestir eiga upptök sín á Grímseyjarsundi. Dalvíkurskjálftinn 1934 er öflugasti skjálftinn sem vitað er um að riðið hafi yfir svæðið en hann var um 6,2. stig á Richter. Upptök hans voru milli Dalvíkur og Hríseyjar. Enya. Eithne Patricia Ní Bhraonáin, þekktust sem Enya, (fædd 17. maí 1961) er írsk popp- og nýaldarsöngkona. Önglabrjótsnef. Önglabrjótsnef er vestasti endi Reykjaness í Gullbringusýslu. Tjörn í Svarfaðardal. Tjörn er kirkjustaður í Svarfaðardal. Bærinn stendur að vestanverðu í dalnum um 5 km innan við Dalvík. Þórarinn Kr. Eldjárn lét reisa núverandi íbúðarhús 1931. Tjarnartjörn er lítið og grunnt stöðuvatn á flatlendinu neðan við bæinn. Tjörnin er innan Friðlands Svarfdæla sem teygir sig allt til strandar. Þar er mikið fuglalíf. Tjörn er með stærri jörðum í Svarfaðardal og að líkindum landnámsjörð þótt bæjarins sé ekki getið í Landnámu. Þar hafa verið stundaðar úrkomumnælingar á vegum Veðurstofunnar frá árinu 1970. Í hlíðinni ofan við Tjörn eru volgrur og í framhaldi af þeim er jarðhitinn í Laugahlíð þar sem Sundskáli Svarfdæla fær vatn sitt. Kristján Eldjárn forseti fæddist á Tjörn 1916 og ólst þar upp. Sönghópurinn Tjarnarkvartettinn var kenndur við Tjörn í Svarfaðardal. Tjarnarkirkja. Kirkja hefur líklega verið reist á Tjörn fljótlega eftir að kristni var lögleidd í landinu. Hennar er þó ekki getið með beinum hætti í heimildum fyrr en í Auðunarmáldaga frá 1318. Þar segir að kirkjan sé helguð Maríu guðsmóður, Mikjáli erkiengli, Jóhannesi skírara og Andrési postula. Kirkjan átti þá hálft heimalandið, Ingvarastaðaland og hólminn Örgumleiða. Á 16. öld er Tjörn orðin beneficium, þ.e. öll komin í eigu kirkjunnar og þannig hélst þar til sr. Kristján Eldjárn Þórarinsson (1843-1917) keypti jörðina árið 1915. Sr. Kristján var síðasti prestur á Tjörn. Í Svarfaðardal voru lengi fjórar sóknir en þrír prestar því Urðakirkja var annexía frá Tjörn. Upsasókn var síðan lögð undir Tjarnarprest 1859 en 1917 var Tjarnarprestakall með sínum þremur sóknum sameinað Vallaprestakalli. Eftir að prestssetrið var flutt frá Völlum 1969 hefur Tjarnarkirkju verið þjónað af frá Dalvík. Tjarnarsókn nær frá Steindyrum að Ytraholti. Núverandi kirkja var reist 1892. Hún er úr timbri á hlöðnum grunni og tekur 60-70 manns í sæti. Í henni eru steindir gluggar teiknaðir af Valgerði Hafstað listmálara. Kirkjugarður er umhverfis kirkjuna. Kirkjan skemmdist nokkuð í Kirkjurokinu svokallaða, miklu óveðri sem gekk yfir landið þann 20. september árið 1900. Þá eyðilögðust kirkjurnar á Urðum og Upsum og Vallakirkja varð fyrir skemmdum. Tjarnarkirkja snaraðist á grunni sínum og hallaðist mjög til norðurs en járnkrókar miklir, sem héldu timburverkinu við hlaðinn grunninn, vörnuðu því að verr færi. Nokkru eftir fárviðrið gerði hvassviðri af norðri sem færði hana til á grunninum og rétti hana að mestu við á ný. Mörgum þóttu þetta stórmerki. Gert var við kirkjuna eftir þetta og m.a. voru útbúin á hana járnstög sem lengi settu skemmtilegan svip á bygginguna og minntu á hið mikla fárviðri sem hún hafði staðið af sér. Kirkjan stóð einnig af sér Dalvíkurskjálftann 1934 en þó urðu skemmdir á grunni hennar. Páll Jónsson í Viðvík. Páll Jónsson (27. ágúst 1812 – 8. desember 1889) var prestur og sálmaskáld. Hann var fæddur í Hvítadal í Saurbæ í Dalasýslu. Eftir guðfræðinám í Kaupmannahöfn var hann aðstoðarprestur á Myrká í Hörgárdal í Eyjafirði frá 1841 – 1846 og prestur þar frá 1846 – 1858. Eftir það var hann prestur á Völlum í Svarfaðardal frá 1856 – 1878 og síðan í Viðvík í Viðvíkursveit í Skagafirði frá 1878 – 1886. Leynimýri. Leynimýri er svæði í suðaustanverðri Öskjuhlíð í Reykjavík, rétt norðan við Fossvogskirkjugarð og Vesturhlíðarskóla. Þar var forðum samnefnt kot eða erfðafestuland með túnskika. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar hafði hernámsliðið miklar sprengiefnageymslur í landi Leynimýrar. Hótel Winston. Hótel Winston var hótel við Nauthólsvík í Reykjavík reist af breska hernum árið 1942 til 44 í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Það var úr 3 braggasamstæðum, 8, 2 og 2, eða samtals 12 bröggum, með allt að 100 herbergjum, stærri og smærri, auk 28 snyrti- og hreinlætisherbergja. Veitingasalur og stór setustofa voru einnig á Hótel Winston. Hótelrekstur var í húsnæðinu í um það bil einn áratug eða frá því það var reist til 1951. Gekk hann þó á þeim tíma undir fleiri nöfnum en Hótel Winston eins og Transit Camp, Hótel Ritz og Flugvallarhótelið í Reykjavík. Saga hótelsins. Upphaflega var formlegt heiti þess "Transit Camp". Sagt er að Winston Churchill hafi heimsótt hótelið þegar hann kom í dagsferð til Reykjavíkur árið 1941 og var það því nefnt Hotel Winston í höfuðið á honum en þetta er líklega flökkusaga enda húsnæðið sem þar er nú byggt ári síðar. Svo virðist sem hótelið hafi verið með stærri gististöðum landsins en svo segir um það þegar Breski herinn kvaddi landið: „Hinn 23. Apríl 1946 kvaddi breski flugherinn í fjölmennu skilnaðarhófi að Hótel Winston (sem var að sumra sögn "stærsta gistihús landsins") við flugvöllinn í Reykjavík“ Eftir að Breski herinn fór tók flugvallarstjórnin við rekstri hótelsins og hélt nafninu Hotel Winston. Voru margir ósáttir við að erlendu nafni hótelsins væri haldið en flugvallastjórn upplýsti að um það hafði hún gert samning við Breta. Auglýsti síðan flugmálstjórn þann 1.ágúst 1946: „Hotel Winston á Reykjavíkurflugvellinum mun frá og með 1. ágúst n. k. veita gistingu og selja veitingar til allra innlendra og erlendra flugfarþega, sem til Reykjavíkur koma.“ En þá var Reykjavíkurflugvöllur millilandaflugvöllur Íslands og því þessi þjónustubygging einskonar andlit landsins fyrir erlenda gesti þess. Hótelreksturinn gekk þó brösuglega og illa gekk að halda húsakynnunum við. Lýstu sem dæmi Norskir blaðamenn dvöl sinni þar í mars 1947: „Þeir sögðu að það væri sú ógeðslegasta vistarvera, sem þeir hefðu nokkru sinni fyrir hitt og bættu því við, að ef þeir hefðu vitað áður en þeir fóru, að þeir ættu að gista á slíkum stað, þá hefðu þeir aldrei farið hingað. Það lak inn á þá í rúmunum og þeir voru blautir. Allt var eftir þessu. Ég held að betra sé að hafa ekkert hótel en svona hótel og þess verður að krefjast að það sé lagt niður tafarlaust.“ Nánari lýsing á aðbúnaðinum og húsakynnunum birtist svo í Morgunblaðinu 30 mars 1947: „Það hefir kanski einhverjum þótt fengur í að fá þessa kofa á flugvöllunum, sem byggðir voru til bráðabirgða í styrjöldinni, en það mun koma á daginn, að þeir verða okkur dýrir í rekstri og kanski ennþá dýrari, en þó ráðist hefði vorið í að byggja sæmilega mannabústaði og skrifstofubyggingar, sem nauðsynlegt er á hverjum flugvelli. 10 þús. kr. kola- reikningur á mán. Norðurlandamennirnir, sem bjuggu að Hótel Winston á Reykjavíkurflugvellinum á dögunum kvörtuðu sáran er heim kom yfir kulda og vosbúð. Það lak inn á þá í rúmunum og þeir hríðskulfu þótt þeir klæddu sig í yfirhafnir sínar áður en þeir gengu til sængur á kvöldin. Og þeir, sem þekkja Winston og aðbúnaðinn þar vita að þetta eru engar ýkjur. Það eru 68 herbergi í þessu gistihúsi, ef svo skyldi kalla og hvert og eitt einasta hriplekur. En ekki vantar að reynt sje að hita upp gistihúsið, því undanfarna tvo mánuði hefir kolareikningurinn í Winston verið 10—11 þús. kr. á hverjum mánuði. Og það er ekki nóg, að reynt sje að hita upp með kolakyndingu, því stöðugt eru 30—40 rafmagnsofnar í notkun, en ekkert dugar samt. Flestar raflagnir í Winston hóteli munu vera ólöglegar að okkar reglugerðum.“ „Flugráðinu hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa lokað Hótel Winston á Reykjavíkurflugvelli. En sannleikurinn er sá, að með þeirri ráðstöfun var gert þarfa verk, sem ekki mátti dragast öllu lengur. Winston hótelið var engum til sóma, en landinu oft til skammar, er þangað komu útlendingar og fengu þar illan beina, eða engan, eins og stundum kom fyrir. Hjer er ekki verið að áfellast sjerstaklega þá, sem stjórnuðu gistihúsinu eða starfsfólkið, því engum var betur ljóst, en sumum stjórnendum þar hve fyrirkomulagið allt var brjálað í rekstri þessa veitinga- og gistihúss. Það var oft köld aðkoma fyrir flugferðafólk að koma í þetta gistihús. Flugvjelar fara og koma eins og kunnugt er á öllum tímum sólarhrings og veitingahús á flugvöllum verða að vera við því búin að geta tekið á móti gestum hvenær sem er. En ekki á Winston. Það kom fyrir, að farþegar, sem leituðu þangað um fótaferðatíma hittu ekki fyrir annað fólk en ræstingakonur. Önnur óregla var á Winston, sem ekki verður rakin hjer. En margar ljótar sögur mætti segja, þótt sumar sjeu varla prenthæfar. Hitt er svo rjettmæt aðfinnsla, að það er ekki hægt að una við það til lengdar, að ekki skuli vera veitinga- og gistihús í sambandi við flugvöll höfuðstaðarins. Það bar við á dögunum, að hingað kom sænsk flugvjel að morgni dags og þurfti að bíða nokkuð eftir afgreiðslu. Farþegarnir þurftu að fara úr vjelinni og urðu að hírast i skítugum og köldum bröggum, án þess að þeir gætu fengið svo mikið sem kaffisopa. Eitt slíkt atvik getur gert okkur mikið tjón og veldur álitsmissi. Nei, gistihús verður að opna á ný á flugvellinum og mun Flugráðið og hafa það í hyggju, þar sem það hefur auglýst Winston til leigu.“ Agnar Kofoed-Hansen flugvallarstjóri svaraði því til „að sú landkynning, sem gistihús þetta hafi rekið með tilveru sinni, hafi siður en svo verið Íslandi og Íslendingum í hag, því að gistihúsið hafi verið til skammar. Rekstur þess hafi í alla staði verið langt frá því, sem æskilegt hefði verið. Hefði flugráðið talið sjálfsagt að loka gistihúsinu, uns búið væri að taka ákvörðun um, hvernig rekstri þess og ýmislegs annars í sambandi við flugmál, sem nú er í deiglunni,væri best hagað í framtíðinni.“ Eysteinn Jónsson menntamálaráðherra gaf í sameinuðu þingi þann 19. nóvember 1947 ítarlega skýrslu um rekstur flugmála og upplýsti ráðherrann, „að í tíð fyrrverandi stjórnar hefði verið rekið sérstakt hótel á Reykjavíkurvellinum á kostnað ríkissjóðs, Hótel Winston. Þessi hótelrekstur var lagður niður í sumar, og var þá tapið á rekstrinum á tímabilinu frá 1. maí 1946 til 1. júlí 1947 orðið 165 þús. kr., auk þess, sem endurbætur á húsakynnum hótelsins höfðu kostað 401 þús. Vera má þó, að hallinn reynist meiri, því að reikningsuppgjörinu er enn ekki lokið. Hótelið hefir nú verið leigt út og mun ríkið því ekki verða lengur fyrir halla af rekstri þess.“ Hótelið var síðan um stutt skeið leigt til einkaaðila undir hótelrekstur og var þá meðal annars kallað "Hótel Ritz". Þetta var eina hótelið við Reykjavíkurflugvöll á 5. áratugnum og var mikið sótt af farþegum í innanlandsferðum auk þess sem það rak matstofu fyrir starfsfólk flugvallarins um tíma. Reksturinn gekk þó erfiðlega enda millilandaflugið komið til Keflavíkurflugvallar þar sem nýtt flugvallarhótel, "Hótel Keflavík", tók til starfa 1949. Ferðaskrifstofa ríkisins tók við rekstri hótelsins 1948 sem eftir það var kallað "Flugvallarhótelið". Undir lok 5. áratugarins var vinsælt að halda þar dansleiki og aðra mannfagnaði. Eftir að Ferðaskrifstofan tók við rekstri hótelsins var það líka notað sem gististaður fyrir íslenska ríkið þegar með þurfti. Þannig gistu þar til dæmis skipbrotsmenn af þremur skipum 1949 og 1950 og eins landbúnaðarverkafólk frá Þýskalandi sem kom til að vinna á íslenskum bæjum. Eftir að frárennsli frá hótelinu var bætt 1949 varð vinsælt að stunda sjósund í Nauthólsvík. Þá var sett upp búningsklefa- og sturtuaðstaða í hótelinu fyrir sjóbaðsfólkið. Reksturinn var Ferðaskrifstofunni erfiður enda var hún hálfneydd til að taka hann að sér. Árið 1951 baðst hún undan rekstri hótelsins sem hætti skömmu síðar. Kaplaskjól. Kaplaskjól er svæði vestast í Reykjavík, sem nær nokkurn veginn yfir svæðið þar sem nú liggja göturnar Sörlaskjól og Faxaskjól. Kaplaskjólsvegur heitir eftir Kaplaskjóli, þar sem hann liggur þangað frá Hringbraut. Nafnið mun vera dregið af því að í Kaplaskjóli hafi verið hlaðnir garðar til að veita útigangshrossum skjól, en orðið "kapall" merkir hryssa eða hestur. Eiðssker. Eiðssker (eða Eiðissker) er sker úti fyrir Eiðsgranda, vestast í Reykjavík. Bráðræðisholt. Bráðræðisholt er holt í vesturborg Reykjavíkur og nafnið er einnig notað um byggðina sem þar er -- sem eru nokkurn veginn norðvesturhluti Grandavegar, Lágholtsvegur, Álagrandi og Bárugrandi. Garðavegur. Garðavegur var gata í Reykjavík. Hann lá frá mótum Fálkagötu og Smyrilsvegar í suðvestur (þar sem austurendi Tómasarhaga er nú) og náði langleiðina út að sjó, rétt norðan við Lambhól. Nafnið er dregið af kotinu Görðum, sem stóð við hlið Þormóðsstaða. Þormóðsstaðavegur. Þormóðsstaðavegur var gata í vestanverðri Reykjavík. Hann náði hér um bil frá núverandi gatnamótum Suðurgötu og Eggertsgötu í suðvestur til Þormóðsstaða. Vegstúfurinn sem liggur frá mótum Ægisíðu og Starhaga niður að Þormóðsstöðum og Lambhóli er það eina sem eftir er af Þormóðsstaðavegi, og teljast þau tvö hús standa við hann. Kolasund. Kolasund var lítil gata í miðbæ Reykjavíkur. Það var vestan við Útvegsbankahúsið (þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur er nú) og lá milli Austurstrætis og Hafnarstrætis. Það hvarf þegar bygging sú var byggð, sem nú stendur milli Héraðsdóms og Pósthússins. Lóugata. Lóugata var gata á Grímsstaðaholti í vestanverðri Reykjavík. Hún lá í vestur frá þáverandi Melavegi, samsíða Þrastargötu sem þá lá einnig í vestur, og enduðu báðar í Smyrilsvegi. Þrastargata. Þrastargata er stutt botnlangagata á Grímsstaðaholti í vestanverðri Reykjavík, og liggur suður úr austurenda Hjarðarhaga. Þegar hún var lögð lá hún hins vegar í vestur frá þáverandi Melavegi, samsíða Lóugötu, og enduðu þá báðar í Smyrilsvegi. Súlugata. Súlugata var gata í vestanverðri Reykjavík. Hún lá í vestur frá mótum Arnargötu og Fálkagötu og niður að sjó, eða þar sem nú heitir Dunhagi, sunnan Fálkagötu. Flugskálavegur. Flugskálavegur var gata í austanverðri Reykjavík. Hann var norðan við Laugarás og lá norður frá Kleppsvegi að flughöfn fyrir sjóflugvélar, sem var við Viðeyjarsund. Seljavallalaug. Seljavallalaug er 25 metra friðuð útisundlaug á Íslandi fremst í Laugarárgili undir Austur-Eyjafjallasveit. Laugin er ein elsta sundlaug á Íslandi og var fyrst hlaðin með grjóti árið 1923 og svo steypt ári seinna. Seljavallalaug er skammt frá bænum Seljavöllum. Hvatamaður að hleðslu hennar var Björn Andrésson í Berjaneskoti sem fékk Ungmennafélagið Eyfelling til liðs við sig við verkið. Hafin var sundkennsla í lauginni, sem hluti af skyldunámi, árið 1927, sama ár og slíkt nám hófst í Vestmannaeyjum. Laugin er um 25 metrar á lengd og 10 á breidd og var stærsta sundlaug á Íslandi þar til árið 1936. Árið 1990 var byggð ný laug um 2 km utar í dalnum, en enn má fólk fara í gömlu laugina sér að kostnaðarlausu en á eigin ábyrgð. Laugin er hreinsuð einu sinni á sumri. Fram að því er hún einatt þakin þykku slýi sem kallar á aðgát. Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 fylltist Seljavallalaug af ösku. Snemmsumars 2011 kom saman hópur sjálfboðaliða til að hreinsa laugina með skóflum og gröfum. Brákarsund. Brákarsund var götutroðningur í austanverðri Reykjavík. Hún náði frá Langholtsvegi austur undir Kleppsvík, nokkru sunnan og austan við Holtaveg. Nú til dags er göngustígur þar sem áður var vesturendi Brákarsunds, sá göngustígur nær frá gatnamótum Langholtsvegar og Álfheima austur að Sæbraut. Samkvæmt heitir stígurinn ennþá Brákarsund. Við endann á stígnum er leikskólinn Brákarborg. Þvottalaugavegur. Þvottalaugavegur var gata í Reykjavík, sem náði nokkurn veginn frá núverandi gatnamótum Reykjavegar austur að þvottalaugunum í Laugardal. Í austur frá þvottalaugunum lá Engjavegur (sem náði þá suðaustur til Ferjuvogs), og það sem er eftir af Þvottalaugavegi í dag er nú annars vegar hluti af Engjavegi, hins vegar göngustígur sem skv. ber enn nafnið Þvottalaugavegur. Mjóumýrarvegur. Mjóumýrarvegur var gata í austanverðri Reykjavík. Hún byrjaði þar sem Seljalandsvegur endaði, skammt austan við þar sem Kringlan er nú. Þaðan lá hún í suðsuðaustur og endaði í gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitirbrautar (sem þá hét Háaleitisvegur), yfir þar sem nú eru Ofanleiti og Efstaleiti og þar sem Útvarpshúsið stendur. Klifvegur. Klifvegur var gata í suðaustanverðri Reykjavík. Hún náði frá gatnamótum Bústaðavegar, Háaleitisbrautar (sem þá hét Háaleitisvegur) og Mjóumýrarvegar, suður að Fossvogsvegi. Í dag er syðsti endi götunnar ennþá til með sama nafni, en næstum því öll gatan var látin víkja þegar Borgarspítalinn var byggður. Krossamýrarvegur. Krossamýrarvegur var götuheiti í Reykjavík. Hún náði frá Mosfellssveitarvegi, sem í dag heitir Vesturlandsvegur, norður í átt að Ártúnshöfða. Götunafnið breyttist í Breiðhöfði þegar Höfðarnir voru skipulagðir. Rauðarárvík. Rauðarárvík er vík í ströndinni norðan við Hlemm í Reykjavík, þar norðan við norðurenda Snorrabrautar. Áður en Sæbraut var lögð, með mikilli landfyllingu, stóð hún undir nafni sem vík, en í dag sést varla móta fyrir henni nema fólk viti af henni. Hún er þó merkt inn á sum götukort, t.d. í símaskránni. Víkin dró nafn sitt af ánni sem í hana féll, rétt eins og Rauðarárstígur gerir. Áin -- Rauðará -- sem er reyndar bara lækur -- rennur úr Norðurmýri en er nú í ræsi. Sogamýri. Sogamýri er svæði í Reykjavík, milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar, austan við Skeiðarvog. Eins og nafnið bendir til, er hún mýrlend. Áður fyrr var mýrin mun stærri, og var þá samfelldur fláki suður til Sogavegar og vestur undir Grensásveg. Vatnsmýri. Vatnsmýri er svæði í Reykjavík, sem er fyrir austan Melana og Grímsstaðaholt, sunnan Tjörnina, vestan Öskjuhlíðar og norðan Nauthólsvíkur. Sjálf mýrin er að miklu leyti horfin undir Reykjavíkurflugvöll og aðra byggð, en þó er enn töluvert eftir af henni. Töluverður fjöldi fugla verpir þar, og er varplandið friðað á þeim tímum ársins sem varp stendur yfir. Vatnið í Tjörninni er að miklu leyti komið úr Vatnsmýrinni. Upp úr Síðari heimsstyrjöld var tívolí vestast í henni. Í og við Vatnsmýrina eru Norræna húsið, höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar og Háskóli Íslands. Framtíðaráform. Ef flugvöllurinn verður lagður niður eða fluttur, mun mikið byggingarland losna þar sem hann er núna. Áætlanir um skipulag svæðisins eru ekki tilbúnar, en almennt er búist við því að nýtt íbúðahverfi verði byggt á svæðinu, og er það stundum kallað 102 Reykjavík. Til þess að skapa samkeppni um hönnun á skipulagi svæðisins hefur Reykjavíkurborg efnt til verðlaunakeppni og opnað vefsíðuna til þess að auglýsa hana. Búið er að úthluta Háskólanum í Reykjavík land nálægt Nauthólsvík og er bygging húsnæðis fyrir hann hafin. Þá hefur Listaháskóla Íslands verið úthlutað lóð sunnan við Öskju. Lágholtstangi. Lágholtstangi er lítill tangi í vestanverðri Reykjavík, fyrir norðan Lágholtsveg og norðurenda Hringbrautar. Kolbeinshaus. Kolbeinshaus var klettur við mynni Reykjavíkurhafnar, fyrir norðan hornið á Ingólfsstræti og Skúlagötu. Hann hvarf undir landfyllingu þegar Sæbraut var lögð. Hólmarnir. Hólmarnir eru sker í sjónum norðan og vestan við Örfirisey í Reykjavík, eða miðja vegu milli hafnarinnar og Akureyjar. Selsker. Selsker eru skerkollar vestan við Örfirisey í Reykjavík. Skarfaklettur. Skarfaklettur var sker á Viðeyjarsundi í Reykjavík, um 400 metra norðvestan við Köllunarklett. Vegna landfyllinga við Sundahöfn er kletturinn núna landfastur og er nálægt Skarfagarði. Skarfasker. Skarfasker eða Litli-Skarfaklettur er sker á Viðeyjarsundi í Reykjavík. Utan við það er bauja sem vísar skipum inn fyrir Laugarnes, um sundið inn til Sundahafnar og annað. Harpa strandar. Skerið komst í fréttir 10. september 2005 þegar skemmtibáturinn "Harpa" lenti á því á mikilli ferð og tvennt fórst. Skipstjóri bátsins og eigandi, Jónas Garðarsson, þáverandi formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, var í kjölfarið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa verið valdur að dauða þeirra með stórfelldri vanrækslu í skipstjórnarstarfi. Ísfélagið við Faxaflóa. Ísfélagið við Faxaflóa var fyrsta íshúsið í Reykjavík. Það var stofnað 5. nóvember 1894. Í þessu fyrsta alvöru íshúsi Íslendinga voru engar vélar, heldur var geymslugetan fengin með því að blanda saman ís og snjó og salti á vetrum. Ísinn var fenginn af Tjörninni í Reykjavík, og nefndist ístaka. Upphaf Ísfélagsins. Sumarið 1894 var Tryggvi Gunnarsson (lengi kaupstjóri Gránufélagsins), þá bankastjóri Landsbankans, orðinn mjög áfram um að koma upp íshúsi í Reykjavík. Hann var þá formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og hafði þá nýlega fengið bréf frá Ísak Jónssyni um þetta framfaramál, en hann hafði kynnst rekstri íshúsa við Winnipegvatn í Kanada. Verslunarmannafélagið hafði beitt sér fyrir því að C.F. Drechsel sjóliðsforingi héldi fyrirlestur í Reykjavík í júlí þetta sumar. Þar talaði hann um tilraun að flytja nýjan fisk í ís frá Reykjavík til hafna erlendis. Á fundi hjá félaginu 15. september þá um haustið hélt Tryggvi erindi um „klakageymsluhús“. Hann taldi Reykjavík vera á eftir öðrum kaupstöðum í ýmsum greinum. Hann hvatti menn til að koma upp íshúsi og voru fundarmenn því hlynntir, t.d. Helgi Helgason kaupmaður og Halldór Jónsson bankagjaldkeri. Matthías Jóhannessen kaupmaður vildi fara varlega í sakirnar. Kosin var nefnd til að fylgja málinu eftir og sátu í henni auk Tryggva Guðbrandur Finnbogason konsúll, Matthías Jóhannessen, Björn Jónsson ritstjóri og Helgi Helgason. Á fundi félagsins 22. september var nefndin komin með tillögur sínar. Hún lagði til að ísgeymsluhús yrði komið upp, stofnfé yrði 8-10.000 kr, en Landsbankinn væri tilbúinn að leggja fram helminginn. Hinn helminginn skyldi koma frá einstaklingum sem keyptu 50 kr. hlutabréf. Einnig var lagt til að húsið yrði reist á stakkstæði Christens Zimsens, sem var á lóð Hafnarstrætis 23. Hafist var handa þetta sama haust. Fundarmenn lýstu áhuga sínum á málinu og nefndinni var falið að ganga frá stofnun. Í boðsbréfi frá nefndinni var félagið nefnt: "„Klakageymslu- og fiskifélag Reykjavíkur"“. Á stofnfundi 5. nóvember 1894 fékk félagið heitið "Ísfélagið við Faxaflóa". Ístaka á Tjörninni. Ístaka á Tjörninni fór fram í Reykjavík frá því fyrir aldamótin 1900 og fram á fjórða áratug 20. aldar. Margir verkamenn fengu vinnu þegar ís var tekinn og fluttur í íshús á sleðum. Veturinn 1919 og 1920 voru teknir um 11.000 rúmmetrar af ís á Tjörninni og var ísinn notaður í íshúsin í Reykjavík (Ísfélagið við Faxaflóa, Herðubreið ofl) og til að ísa fisk fyrir siglingar með glænýjan fisk til Bretlands. Bæjarsjóður Reykjavíkur hafði af þessu nokkrar tekjur. Stutt lýsing á ístöku. Ístakan fór þannig fram, að ísinn var höggvinn og síðan sprengdur frá ísbrúninni með járnkörlum. Tveir menn stóðu þá á ísbrúninni og drógu jakana upp með miklum ístöngum. Íshellunum var svo raðað á sleða sem hestar drógu að geymslum íshúsa. Súrt regn. Áhrif súrs regns á skóglendi. Súrt regn er rigning eða önnur tegund úrkomu sem er hefur hátt sýrustig. Hún hefur slæm áhrif á plöntur, sjávardýr og byggingar. Menn valda oftast súru regni, útblástursefni á borð við brennistein og köfnunarefni leysast upp í vatni með öðrum efnum og til verður sýra. Nýgráða. Nýgráða er mælieining horna, sem er úr heilum hring, þ.e.a.s. að í hverjum hring séu 400 nýgráður. Nýgráður komu til vegna tengsla við tugakerfið en eru samt lítið notaðar. Algengara er að notast við bogagráður, sem eru af heilum hring. Kostir. Hver fjórðungur hrings er 100 nýgráður, sem auðveldar bæði skilning og reikning. Örnefnastofnun Íslands. Örnefnastofnun Íslands er íslensk stofnun sem hefur það hlutverk að safna íslenskum örnefnum og að skrá og varðveita þau á aðgengilegan hátt. Listi yfir íslenskar stofnanir. Íslenskar stofnanir eru stofnanir sem eru á Íslandi. Dæmi. Stofnanir Viðar Eggertsson. Viðar Eggertsson (f. 18. júní 1954) leikstjóri og verkefnisstjóri leiklistar í Ríkisútvarpinu. Viðar hefur starfað sem leikstjóri og leikari jöfnum höndum síðan hann útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1976. Hann á að baki yfir 50 verk á sviði sem leikstjóri. Hefur auk þess leikstýrt fyrir útvarp og sjónvarp. Stofnaði einn elsta starfandi sjálfstæða leikhópinn á Íslandi, EGG-leikhúsið, 1981. Viðar hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir leikstjórn og/eða leik og verið boðið með sýningar sínar víða um lönd. Farið í námsferðir í aðrar álfur. Starfað sem leikari á Írlandi og sem leikstjóri í Færeyjum. Leikið í hartnær 70 leikverkum á sviði, auk þessa í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Menntun. Stundaði nám við Leiklistarskóli SÁL 1972-1975 og lauk því við Leiklistarskóla Íslands 1976. Hefur sótt fjölda námskeiða í leik, leikstjórn, útvarpsþáttagerð og fleiru, heima og erlendis. Farið í náms- og kynnisferðir til ýmissa landa. Stundaði ársnám við Endurmenntun HÍ í Verkefnisstjórn - leiðtogaþjálfun. Önnur störf í leikhúsi. Skrifað nokkrar leikgerðir fyrir svið og útvarp. Ritstjóri leikskráa fyrir Alþýðuleikhúsið, EGG-leikhúsið og Leikfélag Akureyrar. Gert leikmyndir fyrir sumar sýningar sínar í áhugaleikhúsum, sem og fyrir Alþýðuleikhúsið og EGG-leikhúsið. Aðaldriffjöður EGG-leikhússins frá stofnun þess 1981. Leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá vori 1993 til ársloka 1995. Ráðinn þá sem leikhússtjóri hjá Leikfélag Reykjavíkur og sinnti því í nokkrar vikur. Stundakennari við Leiklistarskóla Íslands, Leiklistardeild LHÍ og Leiklistarskóla Bandalagsins. Önnur starfsreynsla. Höfundur ótal útvarpspátta fyrir Ríkisútvarpið. Höfundur greina og viðtala fyrir dagblöð og tímarit. Stundakennari í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Ýmis störf til sjós og lands á yngri árum. Balthasar Bekker. Balthasar Bekker (f. 20. mars 1634, d. 11. júní 1698), var hollenskur heimspekingur og guðfræðingur sem gagnrýndi hjátrú í skrifum sínum. Skrif hans áttu þátt að því að ofsóknum á hendur meintum nornum var hætt um þetta leyti. Balthasar fæddist í Metslawier (nú Dongeradeel) og var sonur þýsks prests frá Bielefeld. Balthasar stundaði nám í Groningen, þar sem Jacob Alting kenndi honum, og Franeker. Balthasar varð rektor latínuskóla árið 1657 og var skipaður prestur í Oosterlittens (nú Littenseradiel), þar hóf hann þau nýmæli að predika á sunnudagseftirmiðdögum. Balthasar las Descartes af miklum áhuga og skrifaði bækur undir áhrifum hans þar sem hann m.a. lofaði (aukið) skoðanafrelsi. Í bók hans "De Philosophia Cartesiana" færir hann rök fyrir því að guðfræði og heimspeki séu aðskilin fræði og að ekki sé hægt að útskýra gang náttúrunnar út frá helgiritum frekar en hægt sé að draga ályktanir um helgirit með því að skoða náttúruna. Árið 1683 ferðaðist Balthasar á tveimur mánuðum til London, Cambridge og Oxford á Englandi og einni til Parísar í Frakklandi og Leuven. Þekktasta rit Balthasars er "Die Betooverde Wereld" (1691), sem kom út á ensku undir heitinu "The World Bewitched" (1695), sem mætti útleggja á íslensku sem Heimurinn í álögum. Í bókinni réðist hann að þeirri hjátrú að ætla meintum nornum yfirnáttúrulega krafta, s.s. göldrum og að illir andar eða djöfullinn gæti tekið sér bólstað í hugum fólks. Það sem meira er þá dró hann í efa tilvist djöfulsins. Bókin hafði mikil áhrif og er talin vera undanfari þeirra verka sem einkenndu Upplýsinguna. Balthasar var sakaður um guðlast og réttað var yfir honum fyrir guðleysi. Bókin var sums staðar bönnuð en þó ekki í Amsterdam. Balthasar dó í Amsterdam 64 ára að aldri. Tengill. Bekker, Balthasar Jørgen Ditlev Trampe. Jørgen Ditlev Trampe (5. maí 1807 – 5. mars 1868), almennt nefndur Trampe greifi var danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi í áratug, frá 1850 til 1860. Stiftamtmaður á Íslandi. Trampe var fæddur í Korsør í Danmörku. Foreldrar hans voru greifahjónin Frederik Christopher Just Gerhard von Trampe og Conradine Cecilie, fædd Haag. Frændi hans var Frederik Christopher Trampe, sem var stiftamtmaður á Íslandi 1806-1810. Trampe var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 1850 og kom til landsins 29. apríl. Hann er sagður hafa verið glaðlyndur, mannblendinn og viðmótsgóður og var því í fyrstu vinsæll meðal Íslendinga, ekki síst eftir að hann tók upp þann sið að láta rita embættisbréf sín á íslensku, en áður höfðu öll slík bréf verið skrifuð á dönsku. Þótti þetta svo merkilegt, að Bókmenntafélagið kaus Trampe sama ár og hann tók við embætti sem heiðursfélaga sinn í virðingar- og viðurkenningarskyni. Hann lagði líka stund á íslenskunám og gerði sér líka far um að kynnast landi og þjóð og ferðaðist víða um Suður- og Vesturland fyrsta sumar sitt í embætti. Þá kom hann meðal annars á Þingvallafundinn 1850. Væntu því margir góðs af störfum hans en fljótlega kastaðist þó í kekki milli hans og ýmissa leiðtoga Íslendinga, enda var Trampe fyrst og fremst konunghollur embættismaður og tók embætti sitt alvarlega. Þjóðfundurinn. Óvinsælasta verk Trampe og það sem hann er helst þekktur fyrir á Íslandi var að slíta Þjóðfundinum 1851 þegar ljóst var að frumvarp sem hann hafði lagt fram sem fulltrúi konungs um að Ísland yrði innlimað í Danmörku yrði fellt. Hafði Trampe fyrirfram búist við að leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar yrðu sér erfiðir og það svo að 4. mars 1851 hafði hann skrifað danska innanríkisráðueytinu og farið fram á að danskir hermenn yrðu sendir til Reykjavíkur til að halda uppi lögum og reglu. Danskt herskip var sent til landsins og jafnframt fékk Trampe fyrirmæli um að fresta þjóðfundinum eða slíta honum ef honum þætti þess við þurfa, eins og hann líka gerði. Trampe var áfram stiftamtmaður á Íslandi til 1860 en verulega dró úr vinsældum hans við þá atburði sem urðu á þjóðfundinum. Hann var síðan skipaður amtmaður í Ringkøbing á Jótlandi og gegndi því embætti til dauðadags 1868. Fjölskylda. Kona hans (gift 1835) var Christiane Adolphine Siersted (1813—1887). Einn sonur þeirra, Christian, giftist Áróru, yngstu dóttur Þórðar Sveinbjörnssonar háyfirdómara. Tenglar. Trampe, Jørgen Ditlev Naomi Novik. Naomi Novik (f. 30. apríl 1973 í New York) er bandarískur rithöfundur sem er fræg fyrir Temeraire-bókaröðina, hjásögubækur sem gerast í Napóleonsstyrjöldunum þar sem drekar eru til og notaðir í flughernaði. Fimm bækur hafa komið út frá 2006. Novik, Naomi Hvíthákarl. Hvíthákarl eða hvítháfur (fræðiheiti: "Carcharodon carcharias") er afar stór hákarl af hámeraætt. Hann finnst nálægt ströndum flestra helstu úthafa. Hann getur orðið 6 metra langur og vegið allt að 2.250 kíló. Hvíthákarl er stærsti ránfiskur í heimi. Hann er í útrýmingarhættu. Útbreiðsla og búsvæði. Hvíthákarlar lifa í næstum öllum heimshöfum þar sem meðalhitinn er milli 12 og 24° C en eru flestir við suðurströnd Ástralíu, við strendur Suður-Afríku, Kalíforníu, við Guadalupe eyjar í Mexíkó og að hluta í Miðjarðarhafi og Adríahafi. Hvíthákarl er uppsjávarfiskur en lífshættir hans hafa aðallega verið rannsakaðir og ferðir hans skráðar nálægt ströndum þar sem hann er í nánd við bráð eins og loðseli, sæljón, hvali, aðra hákarla og stórvaxnar beinfiskategundir. Hann telst úthafsfiskur og finnst frá yfirborð sjávar niður á 1280 m dýpi en heldur sig oftast nálægt sjávaryfirborði. Hvíthákarlar eru taldir eiga sök á 33–50% af hákarlaárásum á fólk. Talið er að tæplega ein af hverjum tíu árásum hvíthákarla sé banvæn. Útlit og líkamsbygging. Hvíthákarlar eru ljósir á kvið með og gráir á baki. Eins og margar hákarlategundir hafa þeir tennur fyrir aftan aðaltennurnar þannig þegar tennur brotna þá endurnýjast þær fljótt. Lífshlaup. Hvíthákarlar gjóta tveimur upp í fjórtán lifandi ungum sem geta verið allt að 1,5 metra langir. Eggin þroskast inn í líkama kvendýrsins og nýklaktir ungar nærast á öðrum eggjum og systkinum sínum. Í hákörlum er engin legkaka. Eftir got synda ungarnir burt frá móður sinni og hefja strax ránlífi. Kúlombskraftur. Hér "k" kúlombsfastinn sem áður var nefndur, "Q1" og "Q2" hvora hleðsluna og "r" er fjarðlægðinn á milli þeirra. Að lokum er þarna stefnuvigur fyrir kraftinn. Ef ögnin er á hreyfingu í rafsviði þá verkar á hana s.k. Lorentzkraftur. Loïe Fuller. Loïe Fuller (15. janúar 1862 – 1. janúar 1928) var bandarískur listdansari, frumkvöðull á sviði nútímadans og sviðslýsingar. Hún hóf feril sinn sem búrleskuleikkona og dansari. Hún þróaði sinn eigin stíl með frjálsum dansi í efnismiklum klæðum úr silki sem lýst voru upp með litaðri lýsingu sem hún hannaði sjálf. Hún sló í gegn með sýningar sínar í Evrópu þar sem hún kom fram reglulega í tónleikasalnum Folies Bergère. Dansar hennar voru eitt af því sem hafði áhrif á Art Nouveau-hreyfinguna en hún var líka virk meðal annarra listamanna og vísindamanna í París þar sem hún bjó til dauðadags. Hún átti nokkur skráð einkaleyfi fyrir lithlaup og ljómandi sölt til notkunar á búninga og í lýsingu. Kunoy. Kunoy (íslenska: Konuey) er eyja í Færeyjum, á milli Kalseyjar og Borðeyjar. Eyjan er 35,5 km² að flatarmáli og er nú tengd með landfyllingu við Borðey en áður gekk ferja á milli. Kunoy er hálendasta eyja Færeyja og þar er afar lítið undirlendi. Hæsta fjallið á eyjunni heitir Kúvingafjall og er 830 metra hátt. Nyrst á eynni er Kunoyarnakkur (820 m) en norðurhlið fjallsins er standberg, næstum lóðrétt upp úr sjó, en á nágrannaeynni Vidoy er Enniberg, sem rís 754 metra alveg lóðrétt og er hæsta lóðrétta standberg heims. Tvær byggðir eru nú á Kunoy: Kunoy (89 íbúar 1. janúar 2009) og Haraldssund (76 íbúar). Á milli þeirra eru jarðgöng sem opnuð voru 1988. Þriðja byggðin var áður á eynni, Skarð, en hún fór í eyði eftir að sjö menn (allir karlmenn í byggðinni að frátöldum sjötugum öldungi og fjórtán ára unglingi) fórust á sjó á aðfangadag árið 1913. Ekkjurnar ákváðu að flytja til Haraldssunds og Skarð lagðist í eyði. Þaðan var skáldið og skólastjórinn Símun av Skarði, (f. 1872, d. 1942) en hann var fluttur til Þórshafnar þegar slysið varð. Hann er þekktur fyrir að hafa samið þjóðsöng Færeyja, Tú alfagra land mítt. Sandoy. Sandoy (íslenska: Sandey) er eyja í Færeyjum, sunnan við Straumey. Eyjan er 125 km² að stærð. Hún er flatlendust stærri eyjanna í Færeyjum og þar hefur hvergi þurft að gera jarðgöng milli byggða. Hún hefur nafn sitt af sandströndum sem þar eru sumstaðar. Íbúar Sandeyjar voru 1303 þann 1. janúar 2011, litlu færri en um aldamót, en 1985 voru þar tæplega 1700 íbúar. Stærsta þorpið á eynni er Sandur og þar eru tæplega 660 íbúar en aðrar byggðir eru Dalur, Húsavík, Skarvanes, Skálavík og Skopun. Fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur eyjarskeggja en þar er einnig stunduð töluverð sauðfjárrækt. Frystihús í eigu Sandoy Seafood eru bæði á Sandi og í Skopun. Ferja gengur á milli Sandeyar og Straumeyjar og styttist siglingin verulega þegar ferjuhöfnin Gamlarætt syðst á Straumey var tekin í notkun 1992 en áður sigldi ferjan til Þórshafnar. Einnig gengur ferja frá Sandi til Skúfeyjar. Rætt hefur verið um að gera neðansjávargöng á milli Sandeyjar og Straumeyjar og yrðu þau um 12 kílómetra löng. Skúvoy. Skúvoy er eyja í Færeyjum sunnan og vestan við Sandey. Eyjan er 10 km² að stærð og þar er aðeins eitt þorp, samnefnt eynni. Þann 1. janúar 2011 voru íbúar þar 37 og hefur fækkað jafnt og þétt frá aldamótum en árið 2000 voru íbúar eyarinnar 78. Skúfeyjarþorp er austan til á eynni og þar er ferjubryggja og smábátahöfn en bátarnir eru dregnir á land að vetrarlagi. Brimasamt er við eyna og þar var áður erfið lending. Í eynni er kirkja og lítill skóli en hann er ekki starfræktur eins og er því engin börn á skólaaldri búa í eynni að staðaldri. Sagt er að á 14. öld hafi Svarti dauði drepið alla íbúa eyjarinnar nema eina konu að nafni Rannvá. Húsið sem hún á að hafa búið í stendur enn. Á 17. öld er sagt að allir Skúfeyingar hafi dáið í farsótt og enginn lifað eftir. Vestast á eynni er 392 m lóðrétt standberg sem heitir Knúkur. Þar suður af er annað fjall, aðeins einum metra lægra, sem heitir Heyggjurinn mikli. Á þessum fjöllum eru þó engir tindar, heldur er Skúfey hæst vestast og hallar jafnt niður til austurs. Mikil langvíubyggð var á eynni vestanverðri og árið 1954 var talið að þar verptu um 2 milljónir para en nú eru aðeins nokkur þúsund fuglar eftir og á ofveiði stóran þátt í því. Austan og suðaustan á eynni er mikið um lunda og inni á eynni er mikið kríuvarp. Á eynni er líka mikið um skúm og af honum tekur hún nafn. Þótt Skúfey sé lítil og fámenn er hennar oft getið í heimildum og ekki síst í Færeyinga sögu því þar bjuggu bræðurnir Beinir og Brestir og síðan Sigmundur Brestisson, sem sagt er að hafi kristnað Færeyjar og látið reisa fyrstu kirkjuna í eynni. Þegar óvinir Sigmundar réðust að honum á Skúfey og reyndu að brenna hann inni steypti hann sér í sjóinn ásamt tveimur öðrum og freistaði þess að synda til Sandeyjar. Sigmundur einn komst aðra leið en var drepinn í fjörunni á Sandey af svikulum bónda. Minnisvarði um Sigmund er í Skúfey. Stóra Dímun. Stóra Dímun er eyja í Færeyjum. Eyjan er 2.5 km² að stærð og umgirt bröttum hömrum á alla vegu. Hún er talin einna minnst aðgengileg allra byggðra eyja í Evrópu. Aðeins er unnt að lenda við hana í kyrru veðri. Uppganga er aðeins möguleg á einum stað og er alls ekki hættulaus. En frá 1985 hefur flugfélagið Atlantic Airways flogið þyrlu til eyjarinnar þrisvar í viku með vörur og farþega. Íbúarnir voru átta 1. janúar 2010 og bjuggu allir á eina bóndabænum á eynni, Dímun. Núverandi bóndi er sjöundi ættliður sömu fjölskyldu sem þar býr. Stóra-Dímun tilheyrir nú sveitarfélaginu Skúvoy og hefur aldrei verið sjálfstætt sveitarfélag vegna fámennis. Dímun hefur þó alltaf verið álitið gott býli, bæði til sauðfjárbúskapar og ekki síður vegna mikillar fuglatekju en árlega verpa um 130.000 sjófuglapör á eynni. Síðasti geirfuglinn í Færeyjum sást í eynni 1808. Byggð hefur verið á Stóra Dímun síðan á landnámsöld og í Færeyinga sögu segir frá því að bræðurnir Brestir og Beinir Sigmundssynir, sem bjuggu á Skúvoy, áttu annað bú á Stóra Dímun og voru drepnir þar. Sigmundur Brestisson hefndi þeirra síðar. Eyjan var háskalegur bústaður og menn hröpuðu oft í björgunum, ýmist við fæðuöflun eða í uppgöngunni, og frá því í byrjun 19. aldar þar til snemma á 20. öld er vitað um 17 menn sem létu þannig lífið. Einn þeirra var sóknarpresturinn, sem hrapaði til bana þegar hann var að fara niður í bát sinn eftir messu í eynni 1874. Kirkja var í eynni fram til 1922 en var þá lögð af og er nú rústir einar. Réttur er settur. "Réttur er settur" var sjónvarpsþáttur sem var á dagskrá Ríkissjónvarpsins frá 1967 til 1976. Í þáttunum settu laganemar við Háskóla Íslands á svið og léku dómsmál. Þættirnir voru unnir í samvinnu sjónvarpsins og Orators, félags laganema. Svínoy. Póstbáturinn siglir að Svíneyjareiði vestanverðu. Þorpið er hinum megin á eiðinu. Svínoy (íslenska: "Svíney") er eyja í Færeyjum. Hún er ein Norðureyja og er næstaustasta eyja Færeyja, aðeins Fugley, sem er næst fyrir norðan hana, nær lengra í austur. Eyjan er 27,1 km² að stærð. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Havnartindur og er 587 metra hár. Sagt er að nafnið sé komið til af því að svín hafi synt þangað frá annarri eyju en engar heimildir eru til um svínarækt á eynni. Svíney hefur verið byggð frá landnámsöld því stórbóndans Svíneyjar-Bjarna er getið í Færeyinga sögu. Aðeins ein byggð er á eynni og heitir einnig Svínoy. Þar voru 37 íbúar 1. janúar 2011 en voru 74 árið 2005. Íbúarnir lifa flestir á fiskveiðum og landbúnaði og þar er stórt kúabú. Höfn var gerð á eynni skömmu fyrir síðustu aldamót. Póstbátur siglir til eyjarinnar og einnig er flogið þangað reglulega með þyrlu en eyjan þykir afskekkt og atvinnulíf fábreytt. Skóli var á eynni en þar er nú ekkert barn á skólaaldri og hefur hann því verið lagður niður. Svíney var áður sjálfstætt sveitarfélag en hefur verið hluti af sveitarfélaginu Klakksvík frá 1. janúar 2008. Víkur ganga inn í Svínoy frá austri og vestri og skipta henni í tvennt en á milli þeirra er Svínoyareiði. Suðurhlutinn er stærri og hálendari en norðurhlutinn. Þorpið Svínoy er við víkina að austanverðu, sem heitir Svínoyjarvík, en þegar veður leyfir lendir póstbáturinn við bryggju í víkinni vestan á eynni til að spara sér allanga siglingu. Þegar Svíney festist. Gömul þjóðsaga er að Svíney hafi áður flotið um hafið og eru svipaðar sögur raunar sagðar um sumar af hinum eyjunum. Hún kom í ljós öðru hverju en sást sjaldan því hún bar oftast með sér þoku sem huldi hana. Í Viðareiði á Viðey var til gylta en enginn göltur en þó gaut gyltan grísum á hverju ári og þótti undarlegt. Einhverjir þóttust þó muna að gyltan hyrfi stundum sjónum en kæmi jafnan aftur. Einu sinni hélt gyltan af stað þvert yfir eyna en kona nokkur elti hana og batt lyklakippu í hala hennar. Gyltan steypti sér út í só og synti burt. Nokkru síðar sáu menn á Viðareið eyju birtast. Þeir flýttu sér í báta og gátu nú gengið á land, því að um leið og gyltan bar járn á eyna festist hún og þokan hvarf - og þarna hefur hún legið síðan. Fúlatjörn. Fúlatjörn var tjörn eða lón í norðaustanverðri Reykjavík, við sjávarborðið vestan við Kirkjusand, þar sem Borgartún og Kringlumýrarbraut mætast núna. Þegar Borgartún var fyrst lagt, lá það að hluta á brú yfir Fúlutjörn. Á meðan Kringlumýri var eiginleg mýri, þá rann lækur eða framræsluskurður úr henni og endaði norður í Fúlutjörn. Rauðarárholt. Rauðarárholt er holt í Reykjavík. Á því standa m.a. hús Kennaraháskóla Íslands, Sjómannaskólans og Háteigskirkju. Yfir það og utan í því liggja göturnar Langahlíð, Háteigsvegur, Stórholt, Skipholt o.fl. Þar sem það er hæst nær það 49 m hæð yfir sjávarmáli. Þar eru vatnsgeymar sem nú eru niðurgrafnir. Viðoy. Séð yfir til Hvannasunds á Viðoy frá Borðoy. Viðoy (íslenska: Viðey) er nyrsta eyja Færeyja og er norðaustan við Borðoy og nú tengd henni með landfyllingu. Eyjan er 41 km² og íbúarnir rúmlega 600. Nafnið Viðoy er dregið af rekaviði sem berst að austurströnd eyjarinnar frá Síberíu. Á Viðoy eru tvær byggðir, Hvannasund (260 íbúar 1. janúar 2009) á suðausturströndinni og Viðareiði (351 íbúi) á norðausturströnd eyjarinnar. Í Viðareiði eru kirkjan og prestssetrið þar sem aðalpersónan í skáldsögunni "Barbara" eftir Jørgen Frantz Jacobsen átti heima. Fjöllin á eynni eru há og torfær. Hæst þeirra er Villingdalafjall (841 m). Nyrst á eynni er Enniberg, standberg 755 metra lóðrétt í sjó, hæsta lóðrétta standberg Evrópu og kannski alls heimsins. Hægt er að komast þangað fótgangandi frá Viðareiði. Á föstudaginn langa, 23. apríl 1943, flaug bresk Catalina-sjóflugvél á fjallshlíð við Viðvíksrók. Allir um borð, átta manns, fórust. Enn má sjá leifar af flakinu í fjallshlíðinni. Kringlumýri. Kringlumýri er svæði í Reykjavík, sem nú er þekktast fyrir verslanamiðstöðina Kringluna sem þar stendur. Hún var eiginlegt mýrlendi fram á tuttugustu öld, og náði þá yfir megnið af svæðinu milli Grensáss og Rauðarárholts. Mýrin var ræst fram nálægt miðri öldinni (skurðurinn/lækurinn rann norður í Fúlutjörn), og byggðist á síðari hluta hennar. Kringlan og Kringlumýrarbraut draga nafn sitt af henni. Eiðstjörn. Eiðstjörn var tjörn vestast í Reykjavík, nokkurn veginn þar sem Skeljagrandi er nú. Ketilbjörn gamli. Ketilbjörn gamli Ketilsson var landnámsmaður sem kom til Íslands frá Noregi á skipi sem hét Elliði. Hann var úr Naumudal, sonur Æsu, systur Hákonar Grjótgarðssonar Hlaðajarls, að því er segir í Sturlungu. Í Landnámabók segir að Ketilbjörn hafi komið til landsins þegar land var víða byggt með sjó og lent skipi sínu, "Elliða", í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Helga kona Ketilbjarnar var dóttir Þórðar skeggja, landnámsmanns á Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og höfðu þau vetursetu hjá honum fyrsta veturinn. Um vorið hélt Ketilbjörn í könnunarleiðangur austur yfir Mosfellsheiði. Hann reisti sér skála þar sem síðan heitir Skálabrekka við Þingvallavatn og þegar hann hélt áfram austur er hann sagður hafa misst öxi sína í þá á sem síðan er kölluð Öxará. Landnáma segir frá því að Ketilbjörn og félagar hans veiddu nokkrar silungsreyðar í Þingvallavatni, en gleymdu þeim undir hlíðum þess fjalls sem síðan er kallað Reyðarbarmur og er suðvestast í Kálfstindum. Ketilbjörn nam síðan Grímsnes allt, Laugardal og hluta af Biskupstungum. Hann bjó á Mosfelli í Grímsnesi og lifði nógu lengi til að fá viðurnefnið „gamli“. Í Landnámu segir að hann hafi verið svo auðugur að lausafé að hann hafi sagt sonum sínum að láta gera þvertré úr silfri í hof sem þeir létu smíða, en þegar þeir vildu það ekki hafi hann tekið silfrið og ekið því á tveimur uxum með aðstoð þrælsins Haka og ambáttarinnar Bótar upp á Mosfell og grafið það þar, en síðan drepið þrælinn og ambáttina, enda hefur silfrið aldrei fundist. Ketilbjörn og Helga voru mjög kynsæl og áttu fjölda barna og á meðal afkomenda þeirra voru fyrstu menntamenn Íslendinga sem sögur fara af. Teitur sonur þeirra byggði fyrstur bæ í Skálholti. Hann var faðir Gissurar hvíta. Tveir tengdasynir þeirra fengu land hjá þeim, þeir Ásgeir Úlfsson, sem fékk Hlíðarlönd og bjó í Hlíð og Eilífur auðgi Önundarson, sem fékk Höfðalönd og bjó í Höfða. Elliðaárdalur. Elliðaárdalur er dalur í Reykjavík, sem nær frá Elliðavatni, vestur og norður að Elliðavogi. Hann dregur nafn sitt af Elliðaám, sem um hann renna. Elliðavogshraun þekur dalbotninn. Austan og norðan við dalinn eru hverfin Árbær og Höfðar, en sunnan og vestan við hann eru Heimar, Sogamýri, Fossvogur og Breiðholt. Elliðaárvogur. Elliðaárvogur er vogur í austanverðri Reykjavík, milli Ártúnshöfða og Gelgjutanga. Í hann falla Elliðaár. Gelgjutangi. Gelgjutangi er lítið nes í austanverðri Reykjavík, norðan og vestan við Elliðaárvog og austan við Kleppsmýrarveg. Þar var Landssmiðjan lengi með aðsetur. Ártúnshöfði. Ártúnshöfði er höfði í austanverðri Reykjavík, milli Elliðaárvogs og Grafarvogs. Grafarlækur (Grafarvogi). Grafarlækur er lítill lækur sem fellur úr Grafarholti vestur í Grafarvog austarlega í Reykjavík. Öll þessi örnefni eru dregin af bænum Gröf, sem stóð við lækinn en er nú í eyði. Hólmar (Skerjafirði). Hólmar eru sker á Skerjafirði, um það bil miðja vegu milli Álftaness og Skildinganess og nokkru fyrir austan Löngusker. Löngusker. Löngusker eru allstór sker vestarlega í Skerjafirði í Reykjavík, eða beint fyrir norðan Álftanes. Skerin eru áberandi þegar lágsjávað er en hverfa nær alveg í stórstraumsflóðum. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga árið 2006 var eitt af stefnumálum lista Framsóknarmanna að ná þjóðarsátt um að Reykjavíkurflugvelli yrði fundinn endanlegur samastaður á landfyllingu á Lönguskerjum. Skúlahóll. Skúlahóll er hæsti hóll Viðeyjar á Kollafirði undan ströndum Reykjavíkur, suðaustan við Viðeyjarstofu. Hann er 32 m hár og er kenndur við Skúla Magnússon landfógeta. Kvennagönguhólar. Kvennagönguhólar eru hólar í sunnanverðri Viðey á Kollafirði undan ströndum Reykjavíkur. Skrauthóll. Skrauthóll er hóll í Viðey á Kollafirði undan ströndum Reykjavíkur. Hann er vestan við Viðeyjarstofu. Viðeyjarstofa. Viðeyjarstofa er stórt, gamalt steinhús í Viðey á Kollafirði. Hún er elsta hús Reykjavíkur og jafnframt elsta steinhús Íslands, byggð á árunum 1753-1755 sem embættisbústaður fyrir Skúla Magnússon landfógeta. Upphaflega átti húsið einnig að vera bústaður stiftamtmanns en af því varð þó ekki. Arkitekt Viðeyjarstofu var Daninn Nicolai Eigtved, sem meðal annars teiknaði Amalienborg í Kaupmannahöfn. Við hlið hússins stendur Viðeyjarkirkja, sem Skúli lét reisa nokkrum árum síðar. Íslenska ríkið gaf Reykjavíkurborg Viðeyjarstofu árið 1986 á 200 ára afmæli borgarinnar og voru þá gerðar umtalsverðar endurbætur á húsinu og breytingar til að það gæti nýst sem veitingahús. Arkitekt breytinganna var Þorsteinn Gunnarsson. Engeyjarrif. Engeyjarrif eða Engeyjarboði er langt og mjótt rif sem liggur í sveig suður úr Engey á Kollafirði, undan ströndum Reykjavíkur. Rifið kemur ekki upp nema á háfjöru en oft er hægt að sjá sjó brjóta á því. Stór ljósbauja beint gegnt innsiglingunni í Reykjavíkurhöfn markar enda rifsins. Viðeyjarsund. Viðeyjarsund er sundið milli Viðeyjar á Kollafirði og Laugarness. Sundkappar synda stundum yfir það, og þykir það hraustlega gert. Sjálft sundið er um 20 metra djúpt þar sem það er dýpst og það er nokkuð þungur straumur í því, svo að það hefur komið fyrir að fólk drukkni þar. Nú til dags hefur sundið þrengst mjög vegna landfyllinga í kring um Sundahöfn. Eiðsvík. Eiðsvík er vík sem er milli Viðeyjar, Gufuness og Geldinganess í Reykjavík. Hún er víðast hvar 10-20 m djúp og er kennd við eiðið sem tengir Geldinganes við land. Gufunes. Kort af söguslóðum í Gufunesi Gufunes er allstórt nes austarlega í Reykjavík, milli Elliðaárvogs og Eiðsvíkur. Þar var til skamms tíma rekin áburðarverksmiðja, og þar var einnig stór sorphaugur sem var notaður í fyllingu út á sjó, (undir Gufunes túninu). Hannes Hafliðason, skipstjóri og bæjarfulltrúi í Reykjavík fæddist í Gufunesi. Geldinganes. Geldinganes er allstórt nes eða eyja í Reykjavík fyrir norðan Eiðisvík og liggur að hluta til samsíða Viðey. Norðan við Geldinganes er Þerney. Geldinganes er tengt landi með eiði sem nú er ökufært, en var áður fyrr aðeins fært á fjöru. Geldinganes er óbyggt, en þar voru á sínum tíma geldsauðir aldir fyrir fálkarækt þá sem fór fram á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi. Þessi geldsauðir áttu að verða fálkunum fóður þegar þeir voru fluttir utan. Er nafnið þannig tilkomið. Seinna áttu menn lengi hagagöngu hrossa á Geldingarnesi og átti t.d. Hestamannafélagið Fákur slíka hagagöngu þar á þriðja áratug 20. aldar. Síðar var þar lengi skotæfingasvæði, en nú hefur verið opnuð þar grjótnáma, og hafa verið teknar úr henni þúsundir tonna af grjóti. Í fyllingu tímans stendur til að á nesinu verði byggt íbúðahverfi fyrir yfir 15.000 manns. 2,20 km². Köllunarklettur. Köllunarklettur er allstór, dökkmóleitur og þversprunginn klettur sem gnæfir yfir Sundahöfn, yfir gatnamótum Sundagarða og Vatnagarða. Kletturinn dregur nafn sitt af því að þaðan var kallað eftir bát frá Viðey. Áður en landfyllingar voru gerðar vegna hafnarinnar, stóð hann fram í sjó. Köllunarklettsvegur heitir eftir honum. Í febrúar 1949 strandaði olíuskipið Glam við Köllunarklett. Það lá við akkeri í Laugarnesi og var verið að dæla olíu í geyma Olíuverslunar Íslands þar þegar skipið slitnaði upp í ofsaroki og rak til lands og skemmdist. Dráttarbátur frá Hull í Bretlandi var fenginn til að draga skipið til Cardiff en svo fór að skipið slitnaði frá dráttarbátnum og fórst við Reykjanes 28. febrúar 1949. Bauja. Bauja er dufl eða flotholt sem er oftast notað til merkinga á sjó. Algengustu baujurnar eru með ljósi á, sem er vanalega fest þannig að hún fljóti á ákveðnum stað á sjónum og geti gefið sæfarendum merki um t.d. blindsker, grynningar eða siglingaleiðir. Margar aðrar tegundir eru til líka, t.d. baujur með veifum eða fánamerkjum, lífbaujur sem kastað er til fólks sem hefur dottið fyrir borð til að hjálpa því að halda sér á floti, samskiptabaujur sem kafbátar nota stundum eða mælingabaujur til að mæla t.d. veðurskilyrði eða hafskilyrði. Þá eru til baujur sem geta numið sónar-bylgjur og þannig t.d. fylgst með kafbátum. Stundum nota kafarar baujur til að sýna hvar þeir eru staddir, og þær eru líka notaðar við veiðar til að sýna t.d. hvar humargildra liggur. Einnig eru til festarbaujur, sem halda köplum eða keðjum tiltækum fyrir skip undan landi. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. __STATICREDIRECT__ Mikki Mús. Mikki Mús er teiknimynda-og myndasögupersóna sem kom fyrst fram í teiknimynd Walt Disney, "Plane Crazy" frá 15. maí 1928. Hann er talandi svört mús með einkennandi kringlótt hvítt andlit og kringlótt svört eyru sem gengur upprétt og var upphaflega í rauðum stuttbuxum með alsvört augu. Útlit hans var endurskoðað eftir að Andrés Önd tók fram úr honum í vinsældum 1938 og hann fékk hvítu í augun og betri föt. Í teiknimyndum kemur hann oft fram með Andrési, Guffa og hundinum Plútó en í myndasögunum er hann oftast aðeins með Guffa, Plútó, Mínu Mús, Svarta Pétri og Klörubellu þar sem Disney hefur í áratugi lagt áherslu á að halda Andabæ, söguheimi Andrésar andar, aðskildum frá söguheimi Mikka og Guffa. Mikki Mús er með tvö svört, stór eyru. Andrés er vinur hans Mikka en Guffi er sá besti. Kærastan hans heitir Mína Mús. Músahús Mikka (Mickey Mouse Clubhouse) þar sem Mikki, Mína, Guffi og Plútó ásamt Andrési og Andresínu kom við sögu, er vinsæll þáttur í barnaefni nú á tímum. Þar lenda þau í miklum ævintýrum þar sem þau þurfa að leysa ýmsar þrautir ásamt „Dúlla“ sem er einhvers konar tækjageymsla sem geymir amboðin sem þau þurfa að nota hverju sinni. Guðmundur Sigurjónsson. Guðmundur Sigurjónsson (f. 25. september 1947) er íslenskur lögfræðingur og stórmeistari í skák. Hann náði stórmeistaratitli 13. janúar 1975 næstur á eftir Friðriki Ólafssyni sem varð fyrsti stórmeistari Íslendinga 1958. Wham-O. Wham-O Inc. er leikfangaframleiðandi í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Fyrirtækið var stofnað 1948 og er frægt fyrir að hafa sett nokkur fræg leikföng á markað, eins og húlahopphringinn og frisbeediskinn. Fyrirtækið er nú í eigu kínversks fyrirtækis, Cornerstone Overseas Investment Limited. Þekkingarstjórnun. Þekkingarstjórnun felst í að hagnýta á skipulegan hátt innri þekkingu skipulagsheildar. Innri þekking er bæði skráð t.d. í skipulögðu skjalakerfi og óskráð hjá starfsmönnum sjálfum. Þekkingarstjórnun hefur verið kennd sem háskólagrein frá 1995. Fyrirtæki sem nýta þekkingarstjórnun hagnýta þætti úr upplýsingatækni og starfsmannastjórnun. Grútarbiblía. Grútarbiblía eða Hendersonsbiblía, 1813, er fimmta heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Kaupmannahöfn. Í byrjun 19. aldar var orðið illmögulegt að komast yfir Biblíur og Nýja testamenti á Íslandi, enda rúm hálf öld frá síðustu útgáfum. Grímur Thorkelín leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn kom þessu á framfæri við nýstofnað Biblíufélag á Fjóni og Holtsetalandi, sem ákvað að bæta úr þessu. Árið 1805 kom skoskur maður, Ebenezer Henderson, til Kaupmannahafnar, en hann hafði tekið vígslu til kristniboðs á Indlandi. Hann gafst brátt upp á að bíða eftir skipsrúmi til Indlands, og hóf í staðinn kirkjulegt starf í Danmörku. Komst hann brátt að fyrrgreindum áformum um að láta prenta Nýja testamentið handa Íslendingum, og sendi skýrslu um málið til Edinborgar, og barst hún m.a. til Hins breska og erlenda Biblíufélags í Lundúnum. Félagið bauðst til að kosta 3.000 eintök. Voru því prentuð 5.000 eintök af Nýja testamentinu og var verkinu lokið 1807. Tókst að senda um 2.000 eintök hingað til lands áður en styrjöld milli Dana og Englendinga braust út, 1807. Afgangurinn lá í Kaupmannahöfn í fimm ár. Um 3.000 bækur voru ætlaðar til gjafa, hitt átti að seljast á fjögur mörk. Hið breska og erlenda Biblíufélag ákvað að veita einnig fé til að undirbúa og prenta nýja útgáfu Biblíunnar. Var Grímur Thorkelín ráðinn til að hafa umsjón með útgáfunni, og fór hann eftir Waysenhússbiblíu. Prentun hófst, en vegna ófriðarins 1807 þurfti að hætta í miðju kafi, og neyddust þeir Henderson og John Paterson aðstoðarmaður hans til að flýja til Svíþjóðar. Í ágústmánuði 1812 fékk Henderson leyfi konungs til að snúa aftur, og var honum falið að sjá til þess að verkinu yrði lokið og koma bókunum á áfangastað. Eftir ýmsa erfiðleika tókst að ljúka prentun Biblíunnar í árslok 1813. Upplagið var 5.000 eintök. Brot bókarinnar var minna en áður hafði tíðkast, þ.e. áttblöðungsbrot (octavo), enda átti bókin að vera eins ódýr og hægt væri. Nú stóð í fyrsta sinn á titilblaði að Biblían væri þýdd á „íslensku“, en áður hafði staðið að útlagt væri á „norrænu“, ef tungumáls var á annað borð getið. Í þessari útgáfu voru formálar Lúthers felldir niður, og einnig Apókrýfar bækur Gamla testamentisins, vegna kalvínskra áhrifa þeirra sem styrktu útgáfuna. Grútarbiblían er jafnan talin allra lélegasta Biblíuútgáfa okkar fyrr og síðar, bæði hið ytra sem innra. Þrátt fyrir það varð hún þjóðinni afar dýrmæt sending og var tekið fagnandi. Rataði Biblían eða Nýja testamentið nú inn á flest heimili í landinu og var lesin upp til agna. Eru heil eintök nú sjaldséð. Kemur það m.a. til af því að margir kenndu börnum að lesa á Nýja testamentið. Þessi fimmta útgáfa Biblíunnar á íslensku er ýmist kölluð "Grútarbiblían" eða "Hendersonsbiblían". Fyrra nafnið er þannig til komið, að Harmljóðin eru í þessari útgáfu kölluð „Harmagrútur Jeremiæ“, í stað „Harmagrátur Jeremiæ“. Orðið „Harmagrútur“ kemur nokkrum sinnum fyrir, bæði í fyrirsögn og síðutitlum, og er því ekki hrein prentvilla. Ebenezer Henderson, trúboðinn ungi, fór til Íslands með upplag hins langþráða Guðs orðs, og kom til Reykjavíkur 15. júlí sama ár. Ferðaðist hann síðan um landið og gaf og seldi Biblíur og Nýja testamenti. Ritaði hann um ferðir sínar merka Ferðabók í tveimur bindum, sem kom út í Edinborg 1818 (önnur útgáfa 1819). Hún kom út á íslensku 1957 undir heitinu "Ferðabók – frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík", Snæbjörn Jónsson þýddi. Biblía 20. aldar. Biblía 20. aldar eða Biblían 1908-1914'", er níunda heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku. Farið var að vinna að henni vegna þeirrar gagnrýni sem Lundúnabiblían hafði fengið. Biblíufélagið og Haraldur Níelsson. Hið íslenska biblíufélag ákvað árið 1887 að hefja endurskoðun Ritningarinnar, og þá einkum Gamla testamentisins. Þetta dróst þó til 1897, en þá kom frá námi í Kaupmannahöfn hálærður guðfræðingur, Haraldur Níelsson, sem talinn var henta vel til að vinna verkið. Þriggja manna nefnd hafði umsjón með verkinu, Hallgrímur Sveinsson biskup, Þórhallur Bjarnarson lektor við Prestaskólann og Steingrímur Thorsteinsson skáld og yfirkennari við latínuskólann. Hallgrímur var einnig forseti Hins íslenska biblíufélags. Upphaf þýðingarstarfsins. Vorið 1899 var Haraldur búinn að þýða tvær fyrstu Mósebækurnar og hálfnaður með þá þriðju. Fór hann þá utan og lagði stund á hebresku og Gamla testamentisfræði í Kaupmannahöfn, Cambridge og Þýskalandi. Kom hann heim ári seinna og tók þá þráðinn upp aftur. Árið 1903 fékk hann Gísla Skúlason guðfræðikandídat sér til aðstoðar. Gísli þýddi Króníkubækurnar, megnið af Davíðssálmum og aðstoðaði við þýðingu Konungabókanna og Samúelsbókar. Hinn 22. apríl 1907 var þýðingu Gamla testamentisins lokið, og hafði þýðingarnefndin þá haldið 321 fund. Að þýðingu Nýja testamentisins starfaði önnur nefnd: Þórhallur Bjarnarson, Jón Helgason síðar biskup og Eiríkur Briem, þá allir kennarar við Prestaskólann. Hófust þeir handa haustið 1899, og þegar Nýja testamentið fór í prentun, 1906, höfðu þeir haldið 183 fundi. Upplagið var 5.000 eintök. Deilur og útgáfa. Á árunum 1899-1902 voru gefin út nokkur sýnishorn þýðingarinnar, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu. Athugasemdir voru fljótlega gerðar, einkum um Nýja testamentið. Spunnust af þessu mikil skrif og þungorð, eins og oft vill verða með nýjar Biblíuþýðingar. Farið var yfir athugasemdirnar og kom Biblían svo út árið 1908. Þetta telst önnur nýþýðing Biblíunnar á íslensku, þar sem textinn er endurþýddur í heild sinni. Er hún sögð hafa þegið mikið frá Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar og Guðbrandsbiblíu. Fyrsta nýþýðingin var Viðeyjarbiblía 1841. Viðtökur nýju þýðingarinnar. Þegar Biblían kom á markað, 1909, fékk hún blendnar viðtökur. Eiríkur Magnússon í Cambridge gat ekki leynt hrifningu sinni, en aðrir fundu útgáfunni ýmislegt til foráttu. Þótti í þýðingunni gæta áhrifa frjálslyndrar nýguðfræði, sem Haraldur Níelsson tengdist sterkum böndum. Einkum hnutu menn um „Jahve“-heitið í Gamla testamentinu, en Haraldur benti á að Jahve væri sérnafn. Voru kvartanir lagðar fyrir Hið breska og erlenda biblíufélag, sem fór fram á nokkrar breytingar. Á Íslandi var ákveðið að ganga lengra í endurskoðun textans, einkum hvað Nýja testamentið snerti. Endurskoðuð útgáfa var svo prentuð í Lundúnum 1912. En ennþá var „Jahve“ inni. Það var ekki fyrr en Biblían kom í vasabroti 1914, að „Drottinn“ tók sæti hans. Sú útgáfa var endurprentuð margsinnis, síðast 1978. Þessi saga hefur vakið spurningar um hvort líta beri á útgáfuna 1908 sem bráðabirgðaútgáfu, og hvort þetta verði að teljast þrjár útgáfur, 1908, 1912 og 1914. En yfirleitt er þó litið á þetta sem eina heild, eða þróun að ákveðnu marki, því að meginhluti textans er hinn sami, þrátt fyrir breytingar hér og þar. Skúmhöttur. Skúmhöttur er fjallstindur á milli Loðmundarfjarðar og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu. Hann er 868 metra hár. Skúmhöttur er úr líparíti, eða ljósgrýti, og er því bjartur yfirlitum. Fyrri liður nafnsins, „skúm“, getur þýtt ryk, dimma (húm) eða hula (skán), og vísar kannski til þess að á tindinum er dökkt líparítlag. En líklegra er þó að nafnið sé til komið vegna þess að stundum leika þokuhnoðrar um tindinn, og hylja hann sjónum, og er þá eins og fjallið sé með „myrkrahatt“. Frá Skúmhetti ganga þrír Skúmhattardalir, einn norður til Borgarfjarðar eystri, annar austur til Húsavíkur og sá þriðji suðvestur til Hraundals í Loðmundarfirði. Vestan við Skúmhött er Skúmhattarskarð, áður fáfarin gönguleið til Borgarfjarðar. Suður af Skúmhetti er eyðibýlið Seljamýri í Loðmundarfirði, og á sú jörð land norður á Skúmhött. Leiklistarskóli SÁL. Leiklistarskóli SÁL var stofnaður af ungu fólki árið 1972 sem hafði áhuga á að fullgildur leiklistarskóli yrði starfræktur á Íslandi og hafði myndað samtökin „SÁL“ sem er skammstöfun fyrir „Samtök áhugafóks um leiklistarnám“. Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið höfðu rekið hvort sinn leiklistarskóla en lagt þá niður, Leikfélagið útskrifaði síðustu nemendur sína 1969 og Þjóðleikhúsið 1971. Skólarnir voru lagðir niður til að leggja áherslu á að ríkið stæði að rekstri fullgilds leiklistarskóla. Þegar ekkert bólaði á ríkisleiklistarskóla fór SÁL af stað með leiklistarskóla þar sem var unnið eftir þeirri hugmyndafræði sem leiklistarskólar voru reknir eftir á hinum norðurlöndunum, hvað varðar stundaskrá og námsgreinar. Fyrsti árgangurinn hóf nám 1972 og næstu tvo ár hófu nám sitt hvor árgangurinn. Meðal nýjunga sem voru á námsskrá SÁL-skólans var hópefli og að skólinn var algjörlega óháður öðrum leiklistarstofnunum. Þá var stefnt á að námið tæki þrjú ár og að því loknu rækju útskriftarnemar nemendaleikhús í eitt ár. Margar af þeim tilraunum sem SÁL-skólinn gerði voru teknar upp í Leiklistarskóla Íslands þegar hann var stofnaður 1975. Þá voru tveir elstu árgangar SÁL-skólans teknir inn í heilu lagi inn í hinn nýja skóla og flestir af yngsta árganginum. Flestir kennarar hins nýja Leiklistarskóla Íslands voru úr kennaraliði SÁL-skólans. Nemendaleikhús varð sjálfsagður endapunktur á námi í leiklist á Íslandi. Leiklistarskóli Íslands varð síðan að leiklistardeild Listaháskóla Íslands, þegar hún var stofnuð. Hnúðkál. Hnúðkál (fræðiheiti: "Brassica oleracea" var. "gongylodes") er ræktunarafbrigði garðakáls. Hnúðkál er tvíær jurt sem safnar forða efst í stöngulinn á fyrsta árinu og myndar þannig ætan ofanjarðarhnúð sem blöðin standa út úr. Hnúðurinn er borðaður bæði hrár og soðinn. Vorlaukur. Vorlaukur er heiti sem er notað á ýmsar tegundir lauka ("Allium") sem eiga það sameiginlegt að vera með lítinn og mjóan hnúð og græn safarík blöð. Slíkir laukar hafa yfirleitt mildara bragð og eru því notaðir í salöt (bæði hnúðurinn og blöðin) og ýmsa aðra matargerð sem grænn laukur. Orðið er þannig oft notað almennt yfir ferskan, óþroskaðan lauk (ýmsar tegundir) sem tíndur er á vorin. Í Bandaríkjunum og Kanada er orðið "scallion" eða "green onion" yfirleitt notað um ófullþroska hnattlauka ("Allium cepa") og það virðist einnig vera algengasta orðanotkunin í Danmörku. Á Bretlandseyjum, Þýskalandi og Frakklandi er hins vegar algengara að nota orðið yfir pípulauk ("Allium fistulosum"). Hábaugur. Hábaugur er stórbaugur í himinhvolfshnitakerfi, sem liggur um norður- og suðurskaut himins, hvirfilpunkt og ilpunkt. Himinhnöttur er sagður í hágöngu, þegar hann er á hábaug. South Central-býlið. Einn bændanna á South Central-býlinu. South Central-býlið eða South Central-matjurtagarðarnir voru matjurtagarðar í þéttbýli við East 41st Street og South Alameda Street í atvinnuhverfi í borgarhlutanum Suður-Los Angeles (áður "South Central") í Los Angeles í Kaliforníu. Svæðið var 5,6 hektarar að stærð og talið einn stærsti matjurtagarður í þéttbýli í öllum Bandaríkjunum. Lóðin var tekin eignarnámi af borginni árið 1986 í þeim tilgangi að reisa þar sorpbrennsluvirkjun en hætt var við verkefnið vegna andstöðu íbúa borgarhlutans sem börðust fyrir fleiri almenningsgörðum í hverfinu. 1994 seldi borgin L.A. Harbor Department svæðið og þeir gáfu L.A. Regional Foodbank, sjálfseignarstofnun sem stóð fyrir dreifingu matvæla, leyfi til að nýta það undir matjurtagarða. Um 350 fjölskyldur nýttu garðana og ræktuðu þar nytjajurtir. Árið 2001 hóf Ralph Horowitz, einn eigenda Alameda-Barbara-fjárfestingarfélagsins, sem hafði verið stærsti eigandi lóðarinnar fyrir eignarnámið, málsókn á hendur borginni fyrir samningsrof þar sem forsendur eignarnámsins höfðu brostið. Tveimur árum síðar var gerð dómsátt milli aðila þannig að Horowitz keypti landið fyrir lítið eitt hærri upphæð en borgin hafði greitt í bætur á sínum tíma. Skömmu síðar hætti L.A. Regional Foodbank verkefninu, en bændurnir sem staðið höfðu fyrir ræktuninni mynduðu þá með sér samtök og mótmæltu sölunni. Þeir hófu síðan að sækja málið fyrir dómstólum þegar Horowitz sendi þeim lokunartilkynningu árið 2004. Í kjölfarið fylgdu mótmæli sem vöktu mikla athygli. Bændurnir töpuðu málinu fyrir dómstólum sem dæmdu eignarhald Horowitz löglegt. Sumarið 2006 voru mótmælendur reknir burt af lóðinni og öryggisvörður settur um hana um leið og vinnuvélar hófust handa við að ryðja svæðið. Sérsveit ríkislögreglustjóra. Sérsveit ríkislögreglustjóra (stundum kölluð Víkingasveitin) er vopnuð sérsveit Íslensku lögreglunnar, sem hefur m.a. hlotið þjálfun til að fást við aðstæður sem gætu komið upp við hryðjuverk. Sérsveitin hefur stækkað undanfarin ár, en telur nú 42 sérsveitarmenn, og nálgast það að vera jafn fjölmenn og finnska sérsveitin, Karhuryhmä, sem hefur um 70 sérsveitarmenn á sínum snærum. Ríkislögreglustjóri hefur gefið það út að sérsveitin verði full mönnuð með 52 sérsveitarmönnum. Saga. Sérsveitin var stofnuð þann 19. óktóber 1982, þegar fyrstu sérsveitarmennirnir luku æfingum með norsku sérsveitinni, sem er stundum kölluð "Delta". Það voru margar ástæður fyrir stofnun sérsveitarinnar íslensku, t.d. sú að árið 1976 lenti þota sem hafði verið rænt á Keflavíkurflugvelli, og notuðu flugræningjarnir skotvopn gegn óvopnaðri lögreglu. Talið var ljóst að íslenska lögreglan þurfti á vopnaðri sérsveit að halda til að bregðast við slíkum aðstæðum. Sérsveitarmennirnir hafa aldrei þurft að beita vopnum sínum á móti glæpamönnum og eru afar stoltir af þeirri staðreynd. Árið 2003 ákvað Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, að fjölga í sérsveitinni. Sérsveitin var einungis með starfsstöð hjá ríkislögreglustjóra þar til þessi breyting átti sér stað en þá var tveimur starfsstöðum bætt við, hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli og hjá lögreglunni á Akureyri. Eftir sameiningu lögregluembættanna í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli þann 1. janúar 2007 varð til embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum og hefur nú sérsveitin starfsstöð þar. Verkefni. Sérsveitin sinnir fjölmörgum verkefnum á ári hverju. Sérsveitin kemur t.d. að þjálfun lögreglumanna hjá hinum ýmsu lögregluembættum landsins sem og sérstakri þjálfun og fræðslu hjá Lögregluskóla ríkisins. Sérsveitin sinnir viðbótarlöggæslu við embættin þar sem hún hefur starfsstöð, þ.e.a.s. á Höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Sérsveitin aðstoðar einnig öll lögregluembættin á landinu, t.d. þegar handtaka þarf hættulega eða vopnaða aðila. Sérsveitin sinnir einnig vopnaðri gæslu þegar erlendir þjóðhöfðingjar koma hingað til lands. Richard Swinburne. Richard Swinburne (f. 26. desember 1934) er breskur heimspekingur. Hann er þekktastur fyrir rit um trúarheimspeki. Í bókinni "The Existence of God" reynir hann að verja hönnunarrökin fyrir tilvist Guðs. Hann hefur einnig skrifað um þekkingarfræði og hugspeki. Helstu rit. Swineburn, Richard Swineburn, Richard Swineburn, Richard Gústaf 6. Adólf. Gústaf 6. Adólf (Oscar Fredrik Wilhelm Olaf Gustaf Adolf, fæddur 11. nóvember 1882, dáinn 15. september 1973) var konungur Svíþjóðar frá 1950 til dánardags. Hann var af Bernadotte-ætt, elsti sonur Gústafs 5. og konu hans Viktoríu af Baden. Kjörorð Gústafs 6. var: "Plikten framför allt" (Skyldan öllu æðri). Gústaf Adólf var 67 ára þegar faðir hans dó og hann tók við konungdæminu. Hann var vinsæll meðal þegna sinna, þótti lítillátur og fremur óformlegur í framgöngu. Hann var vel menntaður og talaði mörg tungumál. Hann var mikill áhugamaður um fornleifafræði og tók þátt í fornleifarannsóknum í Kína, Grikklandi, Kóreu og á Ítalíu. Einnig var hann heiðursmeðlimur í bresku akademíunni. Hins vegar var hann lítill áhugamaður um stjórnmál og var fyrsti sænski konungurinn frá 1772 sem nær ekkert beitti áhrifum sínum á stjórn ríkisins. Fjölskylda. Þar sem Gústaf Adolf erfðaprins lést á meðan faðir hans og afi lifðu var það sonarsonur Gústaf 6., Karl 16. Gústaf, sem erfði krúnuna eftir afa sinn. Gústaf 6. var einnig afi Margrétar Danadrottningar. Norður- og suðurskaut himins. Norður- og suðurskaut himins eru þeir punktar á himinhvelfingunni þar sem hún skarast við möndulstefnu jarðar. Skautin eru því tvö, norðurskaut og suðurskaut. Miðbaugur himins er lína á himinhvelfingunni sem liggur 90° frá báðum skautunum og hábaugur liggur um bæði skaut himins. Ferðasaga. Ferðasaga er saga af ferð höfundar sögunnar um tiltekið landsvæði eða land og kynni hans af menningu og þjóð þess. Ferðasaga getur verið stutt, álíka löng og smásaga eða öllu lengri og er þá oftast gefin út sem ferðabók. Ferðabók getur þó vissulega innihaldið margar ferðasögur eftir marga höfunda, eða aðeins einn. Ferðabók er ekki það sama og ferðahandbók sem er upplýsingarit um það hvar og hvernig hægt sé að fá gistingu og hvernig hægt sé að finna bestu eða ódýrustu matsölustaðina á viðkomandi stað. Allt getur þetta tvinnast saman, ferðasaga og upplýsingar, og fer eftir tilgangi höfundar með verki sínu. Ferðamaður. Ferðamaður (í óvirðingartón stundum nefndur túristi eða túrhestur) er maður sem er á ferðalagi eða er á leiðinni eitthvert. Ferðamaður er oftast maður sem hefur tekið sér ferð á hendur til að kynnast öðru landi eða landsvæði, en getur einnig verið maður sem hvergi festir rætur. Pol Pot. Pol Pot Saloth Sar, betur þekktur sem Pol Pot, var fæddur 19. maí 1928 og dó 15. apríl 1998. Hann var leiðtogi Rauðu khmeranna í Kambódíu frá 1963 til 1979 og er þekktastur fyrir dauða óhemjumargs fólks í stjórnartíð sinni, sem var frá 1975 til 1979. Rauðu khmerarnir reyndu að framfylgja sýn sinni um eins konar samyrkjuvæðingu, en meðal þess sem hún átti að fela í sér var að borgarbúar flyttu út í sveitir og ynnu þar við landbúnað eða í betrunarvinnu. Þeir töldu sig geta byrjað siðmenninguna upp á nýtt og tóku því upp tímatal sem átti að hefjast með valdatíð þeirra. Sú valdatíð var ekki löng, en því mannskæðari. Þrælkunarvinna, vannæring, hrun í heilbrigðiskerfinu og beinar aftökur kostuðu á bilinu 750.000 - 1.700.000 manns lífið (sumir segja á bilinu 300.000 til 3.000.000) -- í landi sem hafði 14 milljónir íbúa árið 2006. Meðal þeirra sem voru ofsóttir voru menntamenn og aðrir „borgaralegir óvinir“, sem taldir voru hættulegir og andsnúnir umbreytingunum. Árið 1979 réðust Víetnamar inn í Kambódíu og komu Rauðu khmerunum frá völdum. Pol Pot slapp undan réttvísinni og flúði inn í frumskóg, þar sem hann bjó, í haldi annarra rauðra khmera sem höfðu steypt honum frá völdum innan hreyfingarinnar, þar til hann bar beinin 72 ára að aldri, af náttúrlegum ástæðum að því er sagt var. Uppruni. Pol Pot var af sæmilega vel stæðu fólki kominn, og af kambódískum og kínverskum ættum, í Kambódíu, sem þá var frönsk nýlenda. Hann gekk í kaþólskan skóla í Phnom Penh sem barn, en komst til náms í París í Frakklandi eftir stríð. Þar lagði hann stund á rafmagnsfræði frá 1949 til 1953. Í Frakklandi komst hann í samband við víetnamska þjóðfrelsissinna og andheimsvaldastefnu franska kommúnistaflokksins, sem höfðaði mjög til hans. Snýr heim. Hann stóð sig ekki vel í skóla, og eftir að hafa fallið í þrígang sneri hann heim til Kambódíu í ársbyrjun 1953. Þar tók hann það að sér fyrir félag sína sem enn voru í Frakklandi, að meta ýmsa uppreisnarhópa. Sá sem honum leist best á hét Khmer Viet Minh og var nátengdur Norður-Víetnam. Hann klofnaði árið 1954 og héldu allir Víetnamarnir aftur til Víetnams, ásamt nokkrum fjölda Kambódíumanna sem Víetnamar hugðust beita fyrir sig í frelsisstríði Kambódíu seinna meir. Hinn hópurinn, sem Pol Pot var í, varð eftir í Kambódíu. Kambódía fékk sjálfstæði árið 1954. Stjórnmálaflokkarnir glímdu um völdin, en konungurinn, Norodom Sihanouk, tefldi þeim hverjum gegn öðrum — deildi og drottnaði. Hann beitti her og lögreglu til að bæla niður stjórnmálaöfl sem honum þóttu of öfgafull. Eftir kosningasvindl 1955 misstu margir vinstrimenn vonina um valdatöku eftir friðsömum og lýðræðislegum leiðum. Kommúnistaflokkurinn taldi sig þó ekki nógu sterkan til að geta hafið skæruhernað eða uppreisn. Á þessum tíma var Pol Pot tengiliður Demókrataflokksins og Pracheachon-flokksins við neðanjarðarhreyfingu kommúnista. Kemst til metorða innan flokksins. Sumarið 1962 átti að halda þingkosningar, og í ársbyrjun voru helstu lykilmenn Pracheachon teknir fastir og útgáfa flokksins stöðvuð. Í júlí 1962 var ritari kommúnistaflokksins, Tou Samouth, svo handtekinn, og var drepinn meðan hann var í varðhaldi. Þar með var Pol Pot raunverulegur leiðtogi flokksins, og árið eftir var hann valinn ritari meiðnefndar hans. Þá var hann kominn í felur, því hann var eftirlýstur vegna stjórnmálastarfs síns. Hann leitaði til Norður-Víetnams eftir hæli og stuðningi. Árið 1964 fékk Pol Pot Norður-Víetnamana til að hjálpa sér að koma upp bækistöðvum í Kambódíu. Síðan kom miðnefndin saman og gaf út yfirlýsingu þar sem hún kallaði eftir vopnaðri baráttu gegn ríkisstjórninni. Í yfirlýsingunni var lögð áhersla á að landið yrði „óháð“ öðrum löndum, sem má skilja sem sterka þjóðernisstefnu. Á meðan þróuðu Rauðu khmerarnir hugmyndafræði sína í bækistöðvunum við víetnömsku landamærin: Þeir sögðu skilið við marxískar hugmyndir og lýstu smábændur hina „sönnu“ vinnandi öreigastétt og hjarta byltingarinnar. Auk þess tileinkaði flokkurinn sér þætti úr Theravada-búddisma. Enginn miðnefndarmanna kom úr stétt verkalýðs, heldur voru þeir allir uppaldir í hálf-lénsku bændasamfélagi. Það kann að skýra áherslur þeirra. Eftir ofsóknir af hálfu konungsins árið 1965, óx hreyfing khmeranna hratt, og fékk liðsauka frá mörgum, einkum úr menntastétt, sem flúðu borgirnar til að ganga til liðs við þá. Í apríl sama ár fór Pol Pot til N-Víetnam til að fá samþykki fyrir því að hefja beina uppreisn. Víetnamar neituðu að styðja hana, vegna samninga sinna við Kambódíustjórn. Þegar Pol Pot sneri aftur árið eftir, kallaði hann saman flokksfund sem tók ýmsar mikilvægar ákvarðanir. Meðal annars var nafninu breytt í Kommúnistaflokk Kampútseu (Kampútsea er annað nafn á Kambódíu). Einnig voru gerðar áætlanir um boðleiðir og svæðisbundinn undirbúning byltingarinnar. Snemma árs 1966 brutust út átök milli smábænda og stjórnvalda vegna hrísgrjónaverðs. Khmerarnir voru óviðbúnir, en átökin drógust á langinn svo þeir gátu á endanum nýtt sér þau. Aðdragandi uppreisnarinnar. Snemma árs 1967 ákvað Pol Pot að hefja uppreisnins, sama hvort Víetnamar samþykktu að veita henni virkan stuðning eða ekki. Hún hófst svo með árás á herstöð þann 18. janúar 1968. Það var í Battambang-héraði, sem hafði verið einn helsti vettvangur undangenginna átaka. Árásinni var hrundið, en khmerarnir tóku mikið magn vopna sem herfang, og notuðu þau svo til að stökkva lögreglunni á flótta frá þorpum. Sumarið 1968 byrjaði Pol Pot að breyta flokksskipulaginu frá sameiginlegri stjórn yfir í sterka leiðtogastjórn. Hann kom sér m.a. upp sérstökum vistarverum í bækistöðinni og sínum eigin lífvörðum. Hreyfingin hafði ekki fleiri en 1500 óbreytta hermenn, en voru studdir margfalt meiri fjölda þorpsbúa, og þótt þeir væru illa vopnum búnir gátu þeir samt háð stríð í tólf af nítján héröðum landsins. Þeir tóku nýja stefnu í áróðri, og hættu að tjá andstöðu sína við konunginn sem slíkan, heldur beindu þeir spjótum sínum í staðinn að hægrisinnuðum stjórnmálaöflum. Í janúar 1970 var Sihanouk konungur staddur erlendis og skipaði ríkisstjórn sinni að sviðsetja mótmæli gegn Víetnömum. Þau fóru úr böndunum, og var m.a. sendiráðum bæði N-Víetnam og S-Víetnam rústað af mótmælendum. Konungurinn fordæmdi þá mótmælin og kenndi ónafngreindum „öflum“ um að hafa verið á bak við þau. Þessi vanhugsaða leikflétta fékk ríkisstjórnina og þjóðþingið til að ákveða að setja konunginn af valdastóli. Samstarfi við Norður-Víetnama var rift í kjölfarið. Phạm Văn Đồng fór fyrir hönd N-Víetnama og átti fund við Sihanouk í Kína, þar sem hann féllst á að mynda bandalag við khmerana. Á sama tíma sömdu þeir við Pol Pot um að þiggja aðstoð N-Víetnama og vinna með konunginum. Þegar Pol Pot kom aftur til Kambódíu í maí 1970, færðist uppreisnin mjög í aukana. Í millitíðinni höfðu norður-víetnamskir hermenn ráðist á kambódíska hermenn og lagt stóran hluta landsins undir sig áður en þeir voru hraktir til baka. Í október 1970 gaf miðnefndin út ályktun um að Kambódía skyldi verða fullkomlega óháð öðrum löndum og að Víet Minh hefðu svikið kambódíska kommúnista á sjötta áratugnum. Hún markar upphaf and-víetnamskrar stefnu sem átti eftir að einkenna stjórnartíð Pol Pot þegar hann seinna náði völdum. Það voru samt áfram norður-víetnamskir hermenn og suður-víetnamskir skæruliðar sem sáu um mestalla baráttuna við kambódísk stjórnvöld. Rauðu khmerarnir störfuðu næstum því eins og þeim til aðstoðar. Pol Pot nýtti tækifærið og fjölgaði í liði sínu, auk þess sem þjálfun og hugmyndafræðilegt uppeldi fengu meira vægi en verið hafði. Nýir liðsmenn voru teknir inn óháð uppruna sínum, en khmerarnir höfnuðu samt stúdentum (menntamönnum) og millistéttarbændum -- þótt forystumennirnir væru reyndar næstum allir úr þessum stéttum. Þeir eftirsóttustu voru fátækir smábændur. Uppreisnin vinnur sigra. Snemma árs 1972 fór Pol Pot um landið, þá hluta sem voru á valdi khmeranna og Víetnama, og hafði umsjón með 35.000 manna fastaher með 100.000 manna varaliði sem var að taka á sig mynd. Þeir fengu 5 milljón dollara styrk frá Kína á ári, til vopnakaupa og komu sér auk þess upp óháðum tekjum með gúmmíplantekrum. Jafnframt byrjuðu þeir að „jafna“ fólkið á yfirráðasvæði sínu: Allir bændur skyldu hafa yfir jafnstórum landskika að ráða; aukin áhersla var lögð á aga og samræmi; skartgripir voru bannaðir; þjóðernisminnihlutahópar (eins og Cham-þjóðin) voru látnir aðlagast kambódískri menningu, t.d. í klæðaburði o.fl. Almennt séð komu þessar aðgerðir sér vel fyrir fátæka bændur, en illa fyrir aðra, t.d. flóttamenn úr borgum. Árið 1972 byrjuðu Víetnamar að draga lið sitt út úr átökunum við Kambódíustjórn. Pol Pot sendi út yfirlýsingu í maí 1973, þess efnis að einkaeign væri bönnuð og öll þorp skyldu skipulögð í sameignarkommúnum. Her khmeranna vann á. Á miðjum regntímanum árið 1973 gerðu þeir stórt áhlaup á Phnom Penh, sem stjórnarherinn hratt með miklu mannfalli hjá khmerum. En um mitt árið réðu þeir um tveim þriðju landsins og hálfum íbúafjöldanum. Þegar Víetnamar áttuðu sig á hvað þeir voru orðnir voldugir fóru þeir að koma meira fram við Pol Pot eins og jafningja. Síðla árs 1973 ákvað Pol Pot að hefja það sem kalla má umsátur um höfuðborgina. Lokað var fyrir aðdrætti og náið var fylgst með öllum sem vildu fara út úr henni. Khmerarnir litu á umsátrið öðrum þræði sem nokkurs konar sóttkví, þar sem borgarbúarnir væru spilltir og gætu „smitað“ sveitafólk. Á sama tíma hófu þeir hreinsanir á yfirráðasvæðum sínum. Fyrrverandi embættismenn voru teknir fyrir, og einnig allir sem höfðu menntun, og margir lokaðir inni í þar til byggðum fangelsum. Cham-fólk gerði uppreisnartilraun til að reyna að verjast. Hún var bæld niður með mikilli hörku. Þegar Rauðu khmerarnir höfðu tekið bæinn Kratie árið 1971, hafði þeim brugðið við að sjá hvað lífið þar var fljótt að fara í sama farveg og hafði verið -- það er að segja, að hverfa frá sósíalísku skipulagi. Eftir ýmsar tilraunir ákváðu þeir því að tæma borgirnar; reka borgarbúana út í sveitir og láta þá vinna þar á ökrum. Pol Pot skrifaði á þeim tíma: „Ef við færum allar þessar fórnir, og auðvaldið er samt áfram við völd, hver er þá tilgangurinn með byltingunni?“ Fjöldi fólks var rekinn frá Kratie og frá Kompong Cham árið 1973, og árið eftir rýmdu þeir Oudong, umtalsvert stærri borg. Á sama tíma hlaut stjórn Rauðu khmeranna viðurkenningu 63 af ríkjum heims, og munaði mjóu að hún tæki sæti Kambódíu hjá Sameinuðu þjóðunum. Sigur í sjónmáli. Í september 1974 kallaði Pol Pot miðnefnd flokksins saman og kynnti henni hugmyndir sínar fyrir næstu skref baráttunnar. Í fyrsta lagi vildi hann rýma borgirnar fljótlega eftir sigurinn, sem nálgaðist. Í öðru lagi skyldu peningar verða teknir úr umferð. Loks skyldu vítækar hreinsanir eiga sér stað. Fyrr á árinu hafði háttsettur maður innan flokksins, að nafni Prasith, verið hreinsaður úr honum -- með því að fara með hann út í skóg og skjóta hann, án þess að gefa honum neitt tækifæri til að verja mál sitt. Eftir það var fjöldi annarra hreinsaður með ýmsum hætti -- og flestir áttu það sameiginlegt að vera af thaílensku bergi brotnir. Í janúar 1975 bjuggu Rauðu khmerarnir sig undir lokaatlögu gegn ríkisstjórninni. Á blaðamannafundi í Beijing kynnti bandamaður þeirra, Sihanouk konungur, sérstakan „dauðalista“ Pol Pots — með nöfnum þeirra sem yrðu teknir af lífi eftir sigurinn. Það voru 23 nöfn, þar á meðal allir æðstu leiðtogar ríkisstjórnarinnar og hersins. Nú kom líka samkeppnin milli Víetnamanna og Kambódíumannanna aftur upp á yfirborðið; Norður-Víetnömum var mikið kappsmál að vinna Saigon áður en Rauðu khmerarnir ynnu Phnom Penh, og töfðu meira að segja vopnasendingar til Khmeranna í því skyni. Í september 1975 skipaði ríkisstjórnin nýtt ríkisráð, sem hún fól að semja við Rauðu khmerana um uppgjöf. Fyrir ráðinu fór Sak Sutsakhan, sem var tvímenningur við Nuon Chea, aðstoðarritara khmeranna. Viðbrögð Pol Pot voru þau að bæta öllum í ríkisráðinu við dauðalistann sinn. Loks féll ríkisstjórnin og lagði niður vopn þann 17. september 1975. Hin lýðræðislega Kampútsea. Rauðu khmerarnir tóku Phnom Penh þann 17. apríl 1975. Ný ríkisstjórn var mynduð og nafni landsins breytt: Hin lýðræðislega Kampútsea skyldi það heita. Sihanouk konungur var aftur settur á hásætið, þótt hann væri valdalaus. Skipað var fyrir, að Phnom Penh skyldi rýmd í snatri, ásamt öðrum stærri borgum. Sú skýring var gefin að von væri á loftárásum frá Bandaríkjamönnum. Þótt rýming borga hafi staðið yfir í mörg ár, var Phnom Penh svo miklu stærri að það gerbreytti aðstæðum og erfiðara var að hýsa, fæða og klæða þennan mikla fjölda borgarbúa til sveita. Þar sem verkalýður í borgum — sem marxistar telja vera byltingaraflið — var frekar fámennur í Kambódíu, tóku Rauðu khmerarnir þá maóísku stefnu upp, að líta á fátæka bændur sem undirstöðu byltingarinnar. Þess vegna sáu þeir lífið til sveita í miklum ljóma og vildu að þannig skyldu allir lifa. Ofsóknir hófust gegn búddamunkum, fólki með vestræna menntun (fyrir utan flokksforystuna), fólki með menntun almennt, fólki með tengsl við Vesturlönd eða Víetnam, fólki sem leit út fyrir að vera menntað - t.d. sem notaði gleraugu, gegn fötluðum og lömuðum og gegn minnihlutahópum, t.d. fólki sem var ættað frá Kína, Laos eða Víetnam. Sumir voru lokaðir inn í hinum alræmdu S-21 búðum til yfirheyrslu, sem gjarnan fól í sér pyntingar, aðrir voru einfaldlega teknir af lífi. Margir þeirra voru ásakaðir um að vinna fyrir CIA, KGB eða Víetnam. Talið er að um 17.000 manns hafi mátt dúsa í S-21, en aðeins er vitað um 12 sem lifðu dvölina af. Mannfall. Árið 1976 voru landsmenn flokkaðir í (a) fólk með full réttindi, (b) fólk sem hafði von um að öðlast full réttindi og (c) ómaga. Þeir síðastnefndu voru kallaðir svo vegna þess að þeir höfðu flestir verið settir niður á sveitirnar eftir að hafa verið reknir frá borgunum. Þeim síðastnefndu voru skammtaðar tvær skálar af hrísgrjónasúpu á dag, svo þeir voru við hungurmörk. Í ríkisútvarpinu tilkynntu khmerarnir að aðeins þyrfti tvær milljónir fólks til að manna landið eins og þeir sáu það fyrir sér. Annarra yrði ekki saknað. Þegar fólk var tekið af lífi var það oft látið taka sína eigin gröf fyrst, og síðan ráðinn bani með bareflum til þess að spara kúlur. Ofsóknir gegn minnihlutahópum færðust líka í vöxt: Öll trúarbrögð voru bönnuð og minnihlutahópum var tvístrað og bannað að stunda menningu sína. Khmerarnir neituðu að þiggja neyðaraðstoð, og varð það síst til þess að bæta ástandið. Reynt var að gera sem flest sameiginlega: Sameignarskipulagi var komið á, skólar voru reknir með samvinnuskipulagi, börn voru alin upp sameiginlega og máltíðir voru etnar sameiginlega. Stjórn Pol Pot var mjög vör um sig og umbar enga andstöðu. Fólk var metið sem andstæðingar eftir útliti sínu eða stöðu. Þúsundir stjórnmálamanna og embættismanna týndu lífi. Phnom Penh breyttist í draugaborg, á meðan fólk til sveita byrjaði að stráfalla vegna hungurs, sótta og beinna aftaka. Það er deilt um hversu margir létu lífið í borgarastríðinu, hreinsununum eða seinna vegna innrásar Víetnama. Þeir eru til sem segja 300.000 hafa dáið, en varfærnislegar ágiskanir eru frá 750.000 upp í rúmlega 1½ milljón. Tvær til þrjár milljónir heyrast líka nefndar. Eftir á var haft eftir Pol Pot sjálfum að 800.000 hefðu látist, og hann var ekki líklegur til að ýkja fjöldann. Hugmyndafræðin. Pol Pot tileinkaði sér blöndu af ýmsum róttækum hugmyndum, sem hann kallaði „Anka-kenninguna“. Hún var aðlöguð að þjóðernishyggju khmera-þjóðarinnar. Hann sá fyrir sér þjóðfélag jafningja sem lifðu á frumstæðum landbúnaði og taldi að alla nútímatækni bæri að banna, nema þá sem flokksforystan hefði beinlínis leyft. Með því að snúa aftur til jarðyrkju, átti fólkið að „hreinsast“ sem heild og verða grundvöllur fyrir kommúnískt þjóðfélag sem á endanum gæti aftur tekið nútímatækni í þjónustu sína. Hann skipaði Kambódíu í sveit með Kína í alþjóðastjórnmálum, en það var frekar af praktískum ástæðum: Keppinauturinn Víetnam var í bandalagi við Sovétríkin, svo bandalag við Kína var gagnlegt mótvægi fyrir Kambódíumenn. Árið 1976 hætti Sihanouk sem konungur. Mönnum ber ekki saman um hvort hann ákvað sjálfur að hætta eða var látinn gera það, en hann hélt áfram að þjóna stjórnvöldum, m.a. með því að tala máli þeirra fyrir Sameinuðu þjóðunum þegar Víetnam réðst inn. Pol Pot gerðist forsætisráðherra, en Khieu Samphan varð forseti. Í desember 1976 lýsti Pol Pot því yfir við aðra leiðtoga landsins, að Víetnamar skyldu skoðast sem óvinir. Varnir við landamærin voru styrktar og fólki sem stjórnvöld treystu ekki skipað að flytja lengra inn í landið. Þessar aðgerðir voru viðbrögð við ályktun á fjórðu ráðstefnu Kommúnistaflokks Víetnams, um „sérstakt samband“ Víetnams við Kambódíu og Laos og „hlutverk“ Víetnams í uppbyggingu og vörnum landanna tveggja. Átök við Víetnam. Samskiptin við Víetnama fóru versnandi á árinu 1977. Í byrjun árs svöruðu Kambódíumenn þreifingum á landamærunum, svo skærur hlutust af. Þeir reyndu að semja, en það gekk illa og átökin jukust. Þann 30. apríl hélt kambódíski herinn yfir landamærin til Víetnam, studdur af stórskotaliði. Þetta kann að hafa verið ætlað sem ógnun, en vakti í staðinn reiði landsmanna og stjórnvalda í garð Rauðu khmeranna. Í maí gerði víetnamski flugherinn loftárásir á Kambódíu. Eftir að hafa þvingað Laos í „vináttubandalag“ í júlí, þá fengu Víetnamar mjög umfangsmikil völd í landinu og Kambódíumenn bjuggust við að vera næstir í röðinni. Yfirmenn í hernum byrjuðu að segja undirmönnum sínum að vera við öllu búnir. Kambódíumenn bjuggust til þess að hertaka hluta af Víetnam, sem áður höfðu verið hlutar af Kambódíu, ef til stríðs kæmi - einkum héraðið Khmer Krom, þar sem íbúarnir börðust fyrir sjálfstæði undan Víetnam. Í september 1977 réðst allstór herdeild frá Kambódíu inn í Víetnam og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Víetnamar sögðu yfir 1.000 manns hafa fallið eða særst. Þrem dögum seinna lýsti Pol Pot því fyrst yfir opinberlega að Kommúnistaflokkur Kampútseu væri kominn upp á yfirborðið og að landið væri kommúnistaríki. Í desember þóttust Víetnamar ekki eiga aðra kosti en að svara fyrir sig, og sendu 50.000 manna her inn í Kambódíu. Innrásinni var hrundið. Víetnamar hétu því að snúa aftur, með tilstyrk Sovétmanna. Þeir höfðu ætlað innrásinni að fara lágt, en Pol Pot nýtti sér sigurinn í áróðursskyni til þess að láta andstæðinginn lít út fyrir að vera veikari en hann var. Víetnamar reyndu að fá Kínverja til að þrýsta á Kambódíumenn, en þegar þeir neituðu, og eftir aðra misheppnaða lotu af samningaviðræðum, komust Víetnamar að þeirri niðurstöðu að þeir yrðu að búa sig undir stórt stríð. Stjórnin fellur. Síðla árs 1978 réðust Víetnamar inn í Kambódíu með það fyrir augum að steypa stjórn Rauðu khmeranna. Á undan höfðu gengið hótanir og heitingar, svo Víetnamar sögðust vera í sjálfsvörn. Þó varð fljótlega ljóst að Víetnamar ætluðu sér meiri og lengri áhrif í landinu en þeir létu uppi. Kambódíski herinn tapaði, stjórnin féll og Pol Pot flýði til landamæra Thaílands. Í janúar 1979 komu Víetnamar upp nýrri ríkisstjórn undir Heng Samrin. Sú stjórn samanstóð að mestu af Rauðum khmerum sem höfðu flúið land undan hreinsunum og ofsóknum. Á meðan endurskipulagði Pol Pot lið sitt á landamærasvæðunum. Herforingjastjórnin í Thaílandi umbar umsvif Khmeranna, og notaði þá sem nokkurs konar stuðara til að halda víetnamska hernum frá landamærunum. Loks tókst Pol Pot að koma upp kröftugum sveitum á nýjan leik, með stuðningi Kínverja — sem háðu sitt eigið stríð við Víetnama um sömu mundir. Á komandi árum reyndi Víetnamar að halda afgangnum af liði Pol Pot í skefjum, en reyndu ekki að eyða þeim. Þeir gátu nefnilega nýtt sér ógnina af þeim til að réttlæta áframhaldandi hersetu í Kambódíu. Þó héldu Rauðu khmerarnir áfram sæti sínu hjá Sameinuðu þjóðunum, því Vesturveldin vildu ekki fallast á að viðurkenna leppstjórn Víetnama í Kambódíu, og þar með stjórn kommúnista í Víetnam sjálfu. Eftirleikurinn. Bandaríkjastjórn var andvíg innrás Víetnama í Kambódíu og studdu tvær andspyrnuhreyfingar þar á níunda áratugnum. Þær mynduðu bandalag við Rauðu khmerana, þrátt fyrir mjög ólíkar hugmyndir. Bandalagið var kallað Samsteypustjórn lýðræðislegrar Kampútseu. Rauðu khmerarnir nutu ennþá stuðnings Kínverja, og gagnrýnendur Bandaríkjastjórnar sögðu hana veita þeim óbeinan stuðning með því að styðja bandamenn þeirra, fyrir utan að leyfa þeim að halda sæti sínu við Sameinuðu þjóðirnar. Í desember 1984 gerðu Víetnamar stórt áhlaup á búðir Rauðu khmeranna og hinna uppreisnarhópanna, sem urðu fyrir þungum skakkaföllum. Pol Pot flúði þá til Thaílands og bjó þar í sex ár. Bækistöðva hans var gætt af thaílenskum sérsveitarmönnum. Hann sagði sig opinberlega úr flokknum 1985, en hélt áfram að vera burðarásinn í honum og í and-víetnömsku andspyrnuhreyfingunni þótt daglegur rekstur hreyfingarinnar væri í höndum félaga hans, Son Sen. Árið 1986 fæddist honum dóttirin Sitha. Árin 1986-1988 dvaldi hann löngum í Kína, þar sem hann sótti sér lækningar vegna krabbameins. Víetnamar hurfu frá Kambódíu árið 1989 og Rauðu khmerarnir komu sér upp nýjum bækistöðvum í landinu, vestan við thaílensku landamærin. Pol Pot sneri líka aftur, og neitaði að taka þátt í samningaviðræðum eða friðarferli, heldur hét því þess í stað að halda vopnaðri baráttu áfram gegn nýju ríkisstjórninni. Þeir litu svo á að forsætisráðherrann, Hun Sen, ætlaði sér hreint ekki að deila völdunum, hvað þá að afsala sér þeim. Rauðu khmerarnir héldu stjórnarhernum í skefjum til 1996, en þá fór að bera á liðhlaupi. Þar sem hreyfingin í heild vildi ekki semja um frið, þá tók ríkisstjórnin þá stefnu að semja við einstaklinga eða hópa innan hennar í staðinn. Árið 1995 fékk Pol Pot heilablóðfall, og lamaðist í vinstri helmingi líkamans. Þann 10. júní 1997 fyrirskipaði Pol Pot að Son Sen skyldi tekinn af lífi fyrir samningaviðleitni við stjórnvöld. Það var gert, og ellefu fjölskyldumeðlimir hans voru drepnir í leiðinni. Pol Pot neitaði að hafa gefið skipanir um þetta, en flúði til annarra bækistöðva, þar sem hann var handtekinn seinna af Ta Mok, einum af foringjum Rauðu khmeranna. Í nóvember 1997 voru haldin sýndarréttarhöld þar sem hann var dæmdur í ævilangt stofufangelsi fyrir dauða Son Sen. Dauði. Aðfararnótt 15. apríl 1998 kom tilkynning um að Rauðu khmerarnir hefðu samþykkt að afhenda alþjóðlegum stríðsglæpadómstól Pol Pot. Hins vegar hefði hann andast í svefni síðar sömu nótt, á meðan hann beið þess að verða fluttur annað. Ta Mok hélt því fram að hjartað hefði gefið sig, en líkið var brennt áður en yfirvöld fengu að kryfja það eða skoða. Grunur leikur því á að hann hafi svipt sig lífi. Karhuryhmä. Karhuryhmä (íslenska: Bjarnarsveitin) er hin vopnaða sérsveit finnsku lögreglunnar, séræfð í hryðjuverkaaðstæðum sem gætu komið upp. Sérsveitarmennirnir voru um það bil 70 árið 2006. Höfuðstöðvarnar eru staðsettar í Helsinki. Saga. Sérsveitin var stofnuð árið 1972 rétt eftir Blóðbaðið í München, til að stöðva hryðjuverk í Finnlandi. Edgar Savisaar. Edgar Savisaar (f. 31. maí 1950) er núverandi borgarstjóri Tallinn sem er höfuðborg Eistlands Savisaar, Edgar Heilt fall. Heilt fall er fágað fall, sem skilgreint er á allri tvinntalnasléttunni, þ.e. veldaröð fallsins hefur óendanlegan samleitnigeisla. Dæmi: margliður og veldisfallið eru heil föll, en ekki logrinn né ferningsrótin. Fótgöngulið. Ítalskar skyttur ("bersaglieri") með reiðhjól bundin við bakið. Mynd tekin fyrir 1911. Fótgöngulið er safnheiti yfir hermenn sem berjast fótgangandi, eins og nafnið bendir til. Til forna var fótgöngulið vanalega búið vopnum og verjum til að berjast í návígi, svo sem sverðum, spjótum, kylfum eða öðrum eggvopnum, lagvopnum eða bareflum, auk skjalda og herklæða eftir atvikum. Bogmenn töldust ekki til fótgönguliðs. Í nútímahernaði nota nánast allir hermenn handbær skotvopn og því eru fótgöngulið og skyttur runnin saman í eina tegund hermanna, sem er vanalega einfaldlega nefnd fótgöngulið. Riddaralið. Riddaralið er samheiti yfir hermenn sem berjast á hestbaki, oftast með eggvopnum eða lagvopnum, þótt það geti haft flestar tegundir vopna. Riddarar voru léttvopnaðir, oft með öxum og bogum þangað til menn uppgötvuðu ístaðið. Með því urðu þeir mun stöðugri í söðli, gátu klæðst þyngri herklæðum og farið að nota skriðþunga hestsins sjálfs til þess að auka áhrifin af lensum og öðrum spjótum. Ístöð voru þekkt á Indlandi frá 6. öld f.o.t. og bárust til Rómarveldis um árið 200. Næstu aldirnar varð riddaralið í ýmsum myndum veigameiri og veigameiri þáttur í hernaði. Þungvopnað lensulið, ríðandi stóðhestum, var kjarninn í evrópskum miðaldaherjum. Á meðan notuðu arabískir herir merar og beittu frekar sverðum og liðugri baráttuaðferðum. Mongólskir herir notuðu boglið á hestbaki, búið sterkum hornbogum. Riddaralið urðu úrelt þegar hernaður varð vélvæddur og bílar, bifhjól og ýmis brynvarin farartæki leystu hestana af hólmi. Síðustu stóru orrustur í Evrópu, þar sem riddaraliði var beitt, voru í Síðari heimsstyrjöld, þar sem Pólverjar tefldu fram riddaraliði gegn skriðdrekum bæði Þjóðverja og Rússa og biðu afhroð. Riddaralið í nútímanum. Þó að notkun hesta í hernaði hafi að mestu verið lögð niður eftir Seinni heimstyrjöldina er hugtakið riddaralið ennþá oft notað yfir herflokka sem byggjast á brynvörðum vélum eða þyrlum. Lofthernaður. Lofthernaður er samheiti yfir þann hernað sem er háður með fljúgandi farartækjum, og er þá yfirleitt átt við þyrlur, sprengjuflugvélar, orrustuflugvélar og eldflaugar. Auk þess getur flutningaflugvélum verið beitt í hernaðarskyni, svo og loftbelgjum, svifdrekum og jafnvel flugdrekum. Oftast á orðið þó við í þrengri skilningi, það er að vélum sé ganga fyrir eigin vélarafli sé beitt beinlínis til þess að berjast. Bernardo Pasquini. Bernardo Pasquini (7. desember 1638 – 22. nóvember 1711) var ítalskt tónskáld sem fékkst við óperu og kirkjutónlist. Hann fæddist í Toskana og lærði hjá Antonio Cesti og Loreto Vittori. Hann hélt ungur til Rómar og réðist þar í þjónustu Giambattista Borghese en varð síðar organisti við kirkjuna Santa Maria Maggiore. Hann varð einn af skjólstæðingum Kristínar Svíadrottningar og samdi henni til heiðurs óperuna "Dov'è amore è pietà" árið 1679. Hljóðskrár. Pasquini, Bernardo Eiríkur í Vogsósum. Séra Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638 – 1716) var íslenskur prestur og þjóðsagnapersóna. Hann var sonur Magnúsar Eiríkssonar lögréttumanns í Njarðvík og Guðrúnar Jónsdóttur frá Reykjavík. Hann ólst upp og lærði hjá Jóni Daðasyni presti í Arnarbæli, frægum galdramanni, og virðist við það hafa fengið á sig galdraorð sem loddi við hann síðan. 1668 varð hann aðstoðarprestur Jóns en fékk Selvogskirkju 1677 og hélt til dauðadags. Hann var húsmaður að Vogsósum í Selvogi og lést þar. Eiríkur Magnússon. Eiríkur Magnússon (1. febrúar 1833 – 24. janúar 1913) var lengst af ævi sinnar bókavörður í Cambridge, Englandi, og mikilvirkur þýðandi á fornsögum Íslendinga ásamt William Morris. Hann var meðal stofnenda The Viking Society í London. Grafík (hljómsveit). Grafík var íslensk hljómsveit sem starfaði á árunum 1981 til 1988. Hljómsveitin var stofnuð á Ísafirði. Upphaflega voru meðlimir Rafn Jónsson trommuleikari, Örn Jónsson bassaleikari, Rúnar Þórisson gítarleikari, Vilberg Viggósson hljómborðsleikari og Ólafur Guðmundsson söngvari. 1983 kom Helgi Björnsson leikari inn sem söngvari í stað Ólafs og 1987 tók Andrea Gylfadóttir við af Helga. Árið 1985 tók Hjörtur Howser við sem hljómborðsleikari. Rafn og Rúnar höfðu áður leikið í Haukum og þeir ásamt Erni og Vilberg voru líka í hljómsveitinni Ýr á 8. áratugnum. Meðal þekktustu laga hljómsveitarinnar eru „Vídeó“ frá 1981 og „Húsið og ég“ og „Þúsund sinnum segðu já“ af plötunni "Get ég tekið cjéns" frá 1984 og „Presley“ af plötunni "Leyndarmál" frá 1987. Árið 2011 kom út heimildarmynd um hljómsveitina, "Stansað dansað öskrað", eftir Bjarna Grímsson og Frosta Runólfsson. Okotsk. Kort af Okotsk frá 1737. Okotsk (rússneska: Охо́тск) er bær við mynni Okotafljóts við Okotskhaf á Kyrrahafsströnd Rússlands. Bærinn var fyrsta byggð Rússa við Kyrrahafið. Hann var upphaflega reistur sem vetrarbækistöðvar kósakka undir stjórn Semjons Sjelkovnikovs árið 1643 en kósakkarnir höfðu fyrst komið þangað fjórum árum fyrr. Íbúafjöldi hefur minnkað mikið frá falli Sovétríkjanna og var áætlaður um 5.500 árið 2004. Davíðspenninn. Davíðspenninn voru íslensk bókmenntaverðlaun kennd við Davíð Stefánsson frá Fagraskógi sem Félag íslenskra rithöfunda veitti á árunum frá 1991 til 1997 á afmælisdegi skáldsins 21. janúar. Hjörtur Eldjárn Þórarinsson. Hjörtur E. Þórarinsson, bókarkápa ævisögunnar. Hjörtur Friðrik Eldjárn Þórarinsson, bóndi á Tjörn í Svarfaðardal (f. á Tjörn 24. febrúar 1920, d. 1. apríl 1996). Foreldrar: Þórarinn Kristjánsson Eldjárn hreppstjóri og bóndi og Sigrún Sigurhjartardóttir húsfreyja á Tjörn. Stúdent frá MA 1940. BSc-próf í búvísindum frá Edinborgarháskóla 1944. Ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og Sambandi nautgriparæktarfélaga Eyjafjarðar 1945-1950. Bóndi á Tjörn frá 1950. Kvæntist 17. maí 1948: Sigríði Hafstað (f. 19. janúar 1927) dóttur hjónanna Árna Hafstað og Ingibjargar Sigurðardóttur frá Vík í Skagafirði. Börn þeirra: Árni (1949), Þórarinn (1950), Ingibjörg (1952), Sigrún (1952), Steinunn (1954), Kristján Eldjárn (1956) og Hjörleifur (1960). Félagsmál. Tjörn í Svarfaðardal í mars 2008. Eggvopn. Eggvopn er vopn til að höggva með, t.d. öxi, sax, kesja, höggsverð eða sveðja. Loreto Vittori. Loreto Vittori (16. janúar 1604 – 23. apríl 1670) var ítalskt skáld og tónskáld og einn af fyrstu geldu söngvurunum á Ítalíu. Hann var uppgötvaður í Spóletó af biskupnum Maffeo Barberini (sem síðar varð Úrbanus 8. páfi) sem tók hann með sér til Rómar. Þar lærði hann hjá Giovanni Bernardino Nanino og Francesco Soriano. Hann söng í Sixtínsku kapellunni frá 1622 til dauðadags. 1639 skrifaði hann óperuna "La Galatea" sem var enduruppgötvuð árið 2005. Að auki samdi hann þrjár óratoríur "Sant'Ignazio di Loyola", "Sant'Irene" (1644) og "La pellegrina costante" (1647), aðra veraldlega óperu "La fiera di Palestrina" og safn af einsöngvum. Hann samdi einnig ævisögulegt kvæði "La Troja rapita" 1662. Vittori, Loreto Vittori, Loreto Vittori, Loreto Edvard Munch. Edvard Munch (12. desember 1863 – 23. janúar 1944) var norskur listmálari af skóla symbolista ("táknsæisstefnu"), og einn af upphafsmönnum expressjónismans ("tjástefnunnar"). Ópið er eitt frægasta málverk eftir Munch. Tenglar. Munch, Edvard Herklæði. Herklæði eru þau klæði sem menn klæðast í bardaga, bæði til hlífðar og til að auðvelda mönnum að beita sér við erfðar kringumstæður. Það var þó ekki alltaf raunin, enda gömul herklæði oft þung og illmeðfærileg, en hlífðu þeim mun betur. Gömul heiti yfir herklæði eru: "gerðar", "götvar", "herfóra" (eða "herfórur") og "harneskja" (eða "herneskja"), en einnig "mundur" og "tygi". Sum þessara orða voru þó einnig höfð um herútbúnað í heild sinni. Herklæði til forna. Herklæði hafa lengi tíðkast, og hafa í upphafi að mestu verið úr leðri. Þegar fram liðu stundir urðu herklæðin flóknari þegar menn þurftu að verjast örvum, stungum eða höggum. Þá varð algengt að menn notuðu herklæði úr járni, t.d. í hringabrynjur, spangabrynjur og pansara o.s.frv. Á miðöldum voru bæði riddarar og hestar þeirra í herklæðum og hefur mönnum talist svo til að járnið sem fóru í herklæði beggja hafi getað verið svo mikið sem 90 kg að þyngd. Nútíma herklæði. Nú til dags eru komin herklæði úr keramik, kevlar og fleiri efnum sem eru bæði léttari og sterkari en eldri efni. Þau eru gerð til að verjast byssukúlum og sprengjubrotum og öðrum hættum sem steðjar að hermönnum í nútíma hernaði, og þannig útbúin að hermaðurinn geti haldið bardaganum áfram, og því gert ráð fyrir hengjum til að festa við vatnsbrúsa og vösum til að geyma þar matarbita til að seðja sárasta hungrið. Bogmaður. Bogmenn eru sú tegund hermanna sem er vopnuð bogum eða lásbogum. Eftir að skotvopn með púðri urðu algeng hefur notkun bogmanna í hernaði horfið og verður því talað um þá hér í þátíð. Bogmenn voru vanalega fótgangandi og stillt upp í öruggri fjarlægt frá andstæðingunum, þaðan sem þeir gátu látið örvum rigna yfir þá áður en fótgöngulið lagði til atlögu. Mongólar, Tyrkir og nokkrar aðrar austrænar þjóðir notuðu aftur á móti bogliða á hestbaki, og á allt annan hátt en aðrir. Þegar herklæði urði sterkari og betri, minnkuðu áhrifin af bogliðum, þar sem venjulegur bogi er sjaldan nógu sterkur til að drífa í gegn um góða brynju og lásbogar eru of tímafrekir í notkun til að geta komið í staðinn, þótt þeir séu miklu sterkari. Þetta breyttist með langboganum, sem Englendingar notuðu í Orrustunni við Agincourt með góðum árangri. Burðarmálsdauði. Burðarmálsdauði (skammstöfun: BNM) er dauði fósturs eða nýfædds ungbarns. Alþjóða heilbrigðisstofnunin skilgreinir burðarmálsdauða sem "„dauða sem á sér stað seint á meðgöngu (22 vikur eða yfir), í fæðingu og allt að viku eftir fæðingu“". Sáld (áhald). Sáld (einnig nefnt sigti eða harpa) er áhald til að sigta mjöl, gull eða annað, þegar þarf að skilja eitthvað frá öðru. Sáld er oftast með (vír)neti eða götum til að skilja eitt frá öðru, t.d. vökva frá föstu efni. Sögnin að "sælda" er komin af orðinu sáld, en sú sögn er t.d. notuð í orðatiltækinu "eiga (eða hafa) eitthvað saman við einhvern að sælda". Draumalist. Draumalist er list byggð á efni sem fengið er úr draumum eða notar draumlíkingar. Kumar. Kumar er best þekkti klæðskiptingur Singapúr. Hann stundar ýmsa klúbba í heimalandi sínu, þar á meðal "Boom Boom Room" og "Gold Dust". Klæðskiptingur. Skoðun sálgreinanda á athöfn klæðskiptinga er að hún sé góð og gild, nema hún taki að trufla tilveru klæðskiptingsins; það er þó alltaf erfitt greina sjálfa klæðskiptihvötina, enda er hún mjög persónubundin. Klæðskiptingur (eða transa) er einstaklingur sem klæðist fötum sem almennt eru viðtekin klæðnaður gagnstæða kynsins, eins og t.d. karl sem klæðist háhæluðum skóm og kjól, eða kona sem klæðir sig í jakkaföt með karlmannssniði og notast við pípu sem fylgihlut. Akureyrarflugvöllur. Akureyrarflugvöllur er einnar brautar alþjóðlegur flugvöllur staðsettur á leirunum við ósa Eyjafjarðarár á Akureyri á Íslandi. Flugfélag Íslands og Norlandair fljúga þaðan á nokkra staði innanlands. Flugfélagið Mýflug hefur flugvöllinn sem miðstöð fyrir leiguflug. Framkvæmdir við byggingu vallarins hófust í júlí 1951. Völlurinn var tekinn í notkun í desember 1955 sem malarvöllur og var malbikaður 1967. 2. desember 1961 var flugstöðvarbyggingin á flugvelinum opnuð. Flugstöðvarbyggingin var rúmlega 3000 fermetrar með aðstöðu bæði fyrir innanlandsflug og millilandaflug. Egilsstaðaflugvöllur. Egilsstaðaflugvöllur er einnar brautar flugvöllur staðsettur á Egilsstöðum á Íslandi. Flugfélag Íslands flýgur þaðan til Reykjavíkur og Akureyrar og Iceland Express til Kaupmannahafnar frá og með sumrinu 2007. Listi yfir flugvelli á Íslandi. Listi yfir flugvelli á Íslandi, röðuðum eftir staðsetningu. Loðmundarfjörður. Loðmundarfjörður er fjörður norðarlega á Austfjörðum, á milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri. Norðan við Loðmundarfjörð er Húsavík. Loðmundarfjörður er í eyði, en þar eru hreindýr og búfjár á beit. Áður fyrr var Loðmundarfjörður sérstakt sveitarfélag, Loðmundarfjarðarhreppur, en var sameinaður Borgarfjarðarhreppi 1. janúar 1973. Helstu kennileiti og fjallvegir. Loðmundarfjörður er fremur stuttur og snýr sem næst í austur-vestur. Hann er umgirtur fjöllum, sem torvelda samgöngur. Helstu fjöll eru: Að sunnanverðu Rjúpnafell ytra og innra, Gunnhildur og Árnastaðfjall. Fyrir fjarðarbotni, milli Bárðarstaðadals og Hraundals, eru Herfell, Miðfell og Karlfell (Kallfell). Að norðanverðu eru: Kerlingarfjall, Skúmhöttur, Bungufell og Skælingur. Yst er Álftavíkurfjall. Eitt mesta berghlaup á Íslandi, Loðmundarskriður eða Stakkahlíðarhraun, er í firðinum. Sæmilegur jeppavegur er frá Borgarfirði um Húsavíkurheiði og Nesháls til Loðmundarfjarðar. Fornir fjallvegir og gönguleiðir eru: Kækjuskörð til Borgarfjarðar, Tó að Gilsárteigi í Eiðaþinghá, Árnastaðaskörð og Hjálmárdalsheiði til Seyðisfjarðar. Býli í Loðmundarfirði. Byggðin í Loðmundarfirði skiptist um Fjarðará í Suðurbyggð og Norðurbyggð. Örnefni benda til að í fornöld hafi býlið Hof verið á milli Sævarenda og Árnastaða. Saga og menning. Í Loðmundarfirði hefur þýski listmálarinn Bernd Koberling dvalist allmörg sumur og málað þar sérstæðar myndir, einkum vatnslitaverk. Keflavíkurganga. Keflavíkurgöngur voru mótmælaaðgerðir sem Samtök hernámsandstæðinga og síðar Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu fyrir í baráttu sinni gegn veru bandaríska setuliðsins á Íslandi á árabilinu 1951 til 2006. Margar þeirra voru með mestu fjöldaaðgerðum 20. aldar á Íslandi. Fyrsta Keflavíkurgangan var gengin 19. júní 1960. Keflavíkurgöngur fóru þannig fram að þátttakendur héldu snemma að morgni að hliðum herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Þar var haldinn stuttur upphafsfundur en síðan var gengið undir fánum og kröfuspjöldum til Reykjavíkur, hátt í 50 km leið. Jafnt og þétt fjölgaði í göngunni eftir því sem nær dró Reykjavík. Stuttir fundir voru haldnir á hvíldarstöðum á leiðinni, oft í Kúagerði og Straumsvík. Aðgerðirnar enduðu svo með fjöldafundi í miðborginni, oftast á Lækjartorgi. Ýmis félagasamtök hernáms- og herstöðvaandstæðinga (þar á meðal Samtök herstöðvaandstæðinga) stóðu fyrir samanlagt ellefu Keflavíkurgöngum. Sögusýning sem tengist Keflavíkurgöngum var opnuð í Þjóðarbókhlöðunni 30. mars 2010 á fimmtugasta afmælisári fyrstu göngunnar. Þar vargreint frá hverri göngu fyrir sig í máli og myndum og sýnd kröfuspjöld, borðar og merki sem tengjast aðgerðunum hverju sinni. Einnig var þar sýnt mikið af útgefnu efni, blöðum, bókum, hljómplötum og diskum. Keflavíkurgöngur. Fagnandi herstöðvaandstæðingar eftir brottför setuliðsins haustið 2006 Lárpera. Lárpera eða avókadó (fræðiheiti: "Persea americana") (Nahuatl "Aguacatl": agua-kah-tl) er ávöxtur af lárperutré sem er upprunnið í Mexíkó. Það er blómplanta af ættinni Lauraceae. Tréð ber egglaga ávöxt sem kallast lárpera. Lárpera hefur verið ræktuð í mörg árþúsund. Lárperutré verða 20 m og laufblöðin verða 12–25 sm löng. Perulega ávöxturinn er flokkuður sem ber en hann er 7 til 20 sm langur og vegur frá 100 til 1000 grömm og í honum er fræ sem er 5 - 6,4 sm langt. Venjulega vaxa um 120 lárperur árlega á hverju lárperutré. Í ræktun þá er uppskera að meðaltali 7 tonn á hektara á ári en er sums staðar 20 tonn á hektara. Sum kvæmi af lárperutrjám þola frost, þau harðgerustu allt að -6 C°, en þó aðeins í stuttan tíma. Itzehoe. Itzehoe er bær í sambandslandinu Slésvík-Holtsetalandi í N-Þýskalandi. Íbúar bæjarins er um 33.300 (2004). Bærinn er höfuðstaður Kreis(héraðs) Steinburg. Bærinn liggur vid ánna Stör, sem er skipaleið að Saxelfi, 51 km norðvestan við Hamborg og 24 km norðan við Glückstadt. Sögulegar byggingar bæjarins eru meðal annars, Sankti Laurentiikirkjan frá 12. öld, hið sögufræga ráðhús, og eru elstu hlutar þess frá árinu 1695, Klosterhof og leifar af Cistercienserklaustri, sem byggt var árið 1256. Ásmundur Sveinsson. Ásmundur Sveinsson (20. maí 1893 – 9. desember 1982) var íslenskur myndhöggvari sem er frægastur fyrir einföld formhrein fígúratív og abstrakt verk sem mörg hafa verið stækkuð mikið og steypt sem minnismerki. Meðal verka hans má nefna "Sonatorrek" við Borg á Mýrum og "Sæmund á selnum" við Háskóla Íslands. Ásmundur lærði upphaflega tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni. 1919 fór hann til Kaupmannahafnar og þaðan til Stokkhólms þar sem hann nam höggmyndalist í sex ár við Listaakademíuna. Eftir útskrift þaðan flutti hann til Parísar þar sem hann lærði hjá Charles Despiau. Hann flutti aftur til Íslands 1929 og hóf að búa til höggmyndir af fólki við störf með einfölduðum formum ("Járnsmiðurinn", "Þvottakonan" og "Vatnsberinn" t.d.). Smám saman þróaðist list hans út í hreinar abstrakt eða kúbískar myndir. 1933 lét hann reisa hús við Freyjugötu eftir eigin teikningum í Bauhausstíl. Það hús er nú kallað Ásmundarsalur og er í eigu Listasafns ASÍ. 1942 hóf hann svo byggingu húsanna við Sigtún þar sem Ásmundarsafn er núna til húsa en hann ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkasafni sínu og húsunum áður en hann lést. MacBook Air. MacBook Air er fartölva frá Apple, sem kynnt var 15. janúar 2008. Tölvan er 0,41 til 1,93 cm að þykkt og var þynnsta fartölva heims þegar hún kom á markað. Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina. Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina (enska "The Hitchhiker's Guide to the Galaxy" skammstafað HHGTTG, eða H2G2) eftir Douglas Adams var upphaflega útvarpsleikrit sem sent var út af BBC í Bretlandi. Í dag hafa verið gefnar út fimm bækur, sjónvarpsþættir, tölvuleikur, hljómplata, tvö leikrit og kvikmynd var frumsýnd í maí 2005. Þó allar þessar útgáfur fjalli um sama söguþráðinn þá er mikill munur á sögunum og eru þær oft í algerri þversögn við aðrar útgáfur. Eina undantekningin á þessu er að upptaka af fyrstu útvarpsseríuna sem gefin var út sem hljómplata var eftir sama handriti og með næstum því sömu leikurum og útvarpsserían. Bækurnar eru oft kallaðar þríleikur í fimm hlutum og njóta gríðarlegra vinsælda í heiminum í dag. Vinsældirnar má að hluta til rekja til furðulegra aðstæðna og persóna og mjög svarts húmors. Saga útvarpsþáttanna. Fyrsta Hitchhiker's Guide to the Galaxy útvarpsleikritið var frumflutt árið 1978 á BBC Radio 4. Þótt þessi sería hafi lítið verið kynnt og send út seint á miðvikudagskvöldum þá fékk hún mjög góðar viðtökur. Var hún oft endurflutt og seinna gefin út á hljómplötu. Adams hefur alla tíð þakkað Peter Jones, sem ljáði "bókinni" rödd sína, hinar gífurlegu vinsældir sem útvarpsseríurnar hafa notið, en samband þeirra var það náið að þegar Jones lést árið 2000 tók Adams að sér að sjá um þátt sem BBC gerði til minningar um hann. Vegna vinsælda fyrstu seríunnar ákvað Douglas Adams að gefa hana út í bókarformi og kom hún út árið 1979. Næsta útvarpssería kom út árið 1980 og var búin til bók úr þeirri seríu líka. Eftir það var framleiðslu útvarpsþáttanna hætt og hélt sagan áfram og komu út nokkrar bækur í viðbót. Íslensk þýðing "Kristjáns Kristmannssonar" kom út hjá bókaútgáfunni Bjargi árið 1999. Sjónvarpsþættirnir. Vegna vinsælda bókanna og útvarpsseríanna var gefin út sjónvarpssería árið 1981 og tóku flestir leikarar útvarpsþáttanna þátt í gerð þeirra. Miðað við tækni í kvikmyndaheiminum árið 1981 þóttu sjónvarpsþættirnir vera meistarasmíði. Bækurnar. Fjallar um atburði úr fyrstu fjórum útvarpsþáttunum. Fjallar um ca. helminginn af annarri útvarpsseríunni (7. til 12. þáttur) og endar svo á efni úr 5. og 6. þætti. Douglas Adams gaf líka út smásögu sem kallast "Young Zaphod plays it safe" en efni þeirrar smásögu tengist ekki mikið efninu í þríleiknum. Útvarpsseríur þrjú til fimm. Seint á árinu 2003 var þriðja útvarpsserían framleidd af Above the Title Productions fyrir BBC Radio 4 og hún flutt í september og október 2004. Fjórða og fimmta serían voru síðan fluttar í maí og júní 2005. Þessar seríur komu svo út á geisladiskum fljótlega eftir frumflutninginn í útvarpi. Voru þessar seríur unnar upp úr þriðju, fjórðu og fimmtu bókinni af leikstjóranum Dirk Maggs. Hafði hann hugsað sér að gera það í góðri samvinnu við Douglas Adams en hann dó árið 2001 áður en þeir gátu unnið að handritunum. Mörg atriði í handritunum eru samt sem áður komin beint frá Douglas og fékk hann meira að segja að leika Agrajag í þessum seríum. Þessar seríur eru næstum því að öllu leyti beint upp úr bókunum Life, the Universe and Everything, So Long, and Thanks For All the Fish og Mostly Harmless þrátt fyrir að þriðja bókin Life, the Universe... byrji þar sem fyrsta útvarpsserían endaði. Það þýðir að það er eins og önnur útvarpsserían gerðist aldrei og er í góðu samhengi við þá staðreynd að útgáfur af sögunni eru aldrei í góðu samhengi við hverja aðra. Nokkur veginn sömu aðalleikarar og voru í fyrstu tveimur seríunum léku í nýju seríunum fyrir utan Peter Jones (Bókin) og Richard Vernon (Slartibartfast). William Franklyn og Richard Griffiths (sem leikur einnig í kvikmyndinni) koma í stað þeirra og Jane Horrocks leikur Fenchurch og Samantha Béart leikur Random. Þess má geta að Douglas Adams leikur (handan grafar) hlutverk vansælu framhaldlífsverunnar og margfalt fórnarlamb Arthur Dent, Agrajag. Þá leikur Sandra Dickinson Triciu McMillan, en hún lék "alter ego"-ið Trillian í sjónvarpsþáttaröðinni. Kvikmyndin. Eftir að hafa flakkað á milli kvikmyndavera og ýmissa leikstjóra í tvo áratugi var sagan loksins gefin út í kvikmyndaformi með Martin Freeman sem Arthur, Mos Def sem Ford, Sam Rockwell sem Beeblebrox og Zooey Deschanel sem Trillian, með Alan Rickman sem Marvin og Stephen Fry sem Bókin. Kvikmyndin fer mjög langt frá öðrum útgáfum af sögunni. Ástarþríhyrningur á milli Arthur, Zaphod og Trillian leikur mjög stórt hlutverk og heimsóknir til Vogsphere og Vitlvodle VI bætast við. Eins og fyrsta bókin þá fjallar kvikmyndin um atburði úr fyrstu fjórum útvarpsþáttunum. Heimildir. Douglas Adams at The BBC, a celebration of the author's life and work; BBC Audiobooks; 2004 Skriðjökull. Skriðjökull (eða aurjökull, falljökull eða hlaupjökull) er hluti af jökli sem rennur út úr meginjöklinum. Skriðjöklar einkennast af af framrennsli íssins og sprungnu yfirborði. Flestir skriðjöklar renna aðeins nokkur hundruð metra á ári. Dæmi eru þó um að óstöðugri skriðjöklar renni allt að nokkrum kílómetra. Skriðjöklar myna s.k. jökulrákir á klöppum, sem þeir skríða yfir. Beredskapstroppen. Beredskapstroppen eða svokölluð Delta er hin vopnaða sérsveit norsku lögreglunnar, séræfð í hryðjuverkaaðstæðum sem gætu komið upp. Höfuðstöðvar þeirra eru staðsettar í Ósló. Sérsveitin eyðir 50 % af tíma sínum í æfingar og þeir eyða hinum 50 % af tíma sínum sem venjulegir lögregluþjónar í Ósló. Sérsveitin hefur um það bil 70 sérsveitarmenn. Víkingasveitin (íslenska sérsveitin) æfir oft með þeirri norsku. Á árinu 2007 voru sérsveitirnar tvær með miklar æfingar hér á Íslandi. Æfingarmyndböndin voru sýnd á Ríkisútvarpinu. Urðakirkja. Urðakirkja er kirkjan að Urðum Svarfaðardal sem var byggð 1902 en gamla kirkjan hafði fokið í Kirkjurokinu haustið 1900 og brotnað í spón. Hún er turnlaus og í svipuðum byggingarstíl og hinar kirkjur dalsins, á Tjörn og Völlum. Urðakirkja var bændakirkja og það var Sigurhjörtur Jóhannesson bóndi á Urðum sem lét reisa kirkjuna og kostaði allmiklu til hennar. Í henni er altaristafla eftir Arngrím málara frá Gullbringu. Gamall kirkjugarður er við kirkjuna en nýrri garður er á hæð upp af kirkjunni ofan þjóðvegar. Urðasókn nær yfir allan innsta hluta dalsins. Kirkja hefur lengi verið á Urðum, annexía frá Tjörn. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990. Urðir. Urðir er bær og kirkjustaður í Svarfaðardal. Urðasókn nær yfir allan innsta hluta dalsins. Bærinn heitir eftir berghlaupsurðum í hlíðinni fyrir ofan staðinn og setja þær mikinn svip á landslagið. Urðir er landnámsjörð og í Landnámu er getið um Þorvarð á Urðum. Hann er þó ekki nefndur í Svarfdælu enda fátt sagt frá Urðamönnum í þeirri sögu. Kirkja hefur lengi verið á Urðum, annexía frá Tjörn. Hennar er getið í Auðunarmáldaga frá 1318. Jörðin hefur lengst af verið í bændaeign og var höfðingjasetur fyrr á öldum. Þorsteinn Eyjólfsson hirðstjóri og lögmaður bjó á Urðum á seinnihluta 14. aldar og síðan Arnfinnur sonur hans, sem einnig var hirðstjóri. Urðir komu mjög við sögu í deilum Jóns Sigmundssonar lögmanns, sem þá hafði umráð yfir staðnum, og Gottskálks biskups grimma. Þeim lauk með því að biskup sölsaði jörðina undir Hólastól um 1508. Guðbrandur biskup, dóttursonur Jóns náði eignunum aftur undan stólnum og hafði umráð yfir staðnum meðan hann lifði og afkomendur hans lengi síðan. Urðabjörg og berghlaupsurðirnar sem bærinn á Urðum heitir eftir. Urðakirkja var byggð 1902 en gamla kirkjan fauk af grunni í Kirkjurokinu haustið 1900 og brotnað í spón. Hún er turnlaus og í svipuðum byggingarstíl og hinar kirkjur dalsins, á Tjörn og Völlum. Í henni er altaristafla eftir Arngrím málara frá Gullbringu. Stjórnmálamaðurinn Sigfús Sigurhjartarson fæddist á Urðum árið 1902. GSG 9. Grenzschutzgruppe 9 (GSG 9) er vopnuð þýsk sérsveit séræfð í hryðjuverkaaðstæðum sem gætu komið upp. GSG 9 er sögð vera ein af bestu sérsveitum í heimi, með um 500 – 1000 sérsveitarmenn. Höfuðstöðvar sérsveitarinnar eru staðsettar í Bonn. Saga. Blóðbaðið í München árið 1972 hafði mikil áhrif á þýsku lögregluna, hún bjóst alls ekki við svona aðstæðum, svo átti hún engar séræfðar sérsveitir. Einu ári eftir var GSG 9 stofnuð þann 17. apríl, 1973 til að stöðva hryðjuverk, gíslingar og margt annað. Það frægasta verkefni sem GSG 9 hefur unnið við var árið 1977 þegar fjórir palestínskir hryðjuverkamenn rændu Boeing 737 þotu með 86 farþega og heimtuðu að þýska lögreglan myndi sleppa Red Army Fraction hryðjuverkamönnum sem þeir voru með í haldi. Hryðjuverkamennirnir tóku flugmannin af lífi og tóku við stýri. Þeir flugu til nokkurra staða í miðausturlöndum og lentu í Mogadishu, Sómalíu og beðu eftir að mönnunum væri sleppt úr haldi. Sérsveitarmenn GSG 9 og bresku SAS fundu þotuna, ruddust inn í hana og frelsuðu gíslana, með þeim afleiðingum að þrír af fjórum hryðjuverkamönnunum voru drepnir og einn var alvarlega særður. Síðan særðist líka einn flugmaður og einn sérsveitarmaður GSG 9. Margir hrósuðu sérsveitinni fyrir gott og fagmannslegt verk. Frá árinu 1972 til 2003 hefur GSG 9 unnið við 1500 verkefni og aðeins 5 skotum hefur verið skotið. Brynjúlfur Jónsson. Brynjúlfur Jónsson (Brynjúlfur frá Minna-Núpi) (26. september 1838 – 16. maí 1914) var íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og heimspekingur. Brynjúlfur var frá Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi og var elstur af sjö systkinum. Hann ólst upp í fátækt og naut engrar skólagöngu nema hvað þegar hann var 17 ára var hann í hálfan mánuð hjá presti til að læra svolítið í dönsku, reikningi og skrift. Sama ár fór hann á vetrarvertíð og var við útróðra á vetrum til þrítugs þrátt fyrir bága heilsu. Á vorin reri hann í Reykjavík og komst þar í kynni við ýmsa menntamenn sem útveguðu honum bækur, svo að hann gat lært dönsku og lesið sér til um málfræði, náttúrusögu, landafræði og margt annað sem hann hafði áhuga á. Um þrítugt veiktist Brynjúlfur illa og gat ekki unnið líkamlega vinnu eftir það en hann stundaði barnakennslu og fékk síðar launað staf hjá Fornleifafélaginu, en Sigurður Guðmundsson málari hafði vakið áhuga hans á fornleifum. Um leið hélt hann stöðugt áfram að lesa sér til og fræðast og tókst að verða vel læs á sænsku, þýsku og ensku auk dönskunnar. Hann skráði líka margar þjóðsögur fyrir Jón Árnason, orti töluvert gaf út þrjár ljóðabækur, en er þekktastur fyrir bók sína um Þuríði formannn og Kambsránið og heimspekirit sem hann hóf að skrifa eftir sextugt og nefndi: "Saga hugsunar minnar: um sjálfan mig og tilveruna" (útg. 1997). Talið er að þetta sé fyrsta tilraun Íslendings til að setja fram og rökstyðja eigin heimspeki í lausu máli og á íslensku. Brynjólfur kvæntist ekki en eignaðist einn son, Dag Brynjúlfsson hreppstjóra í Gaulverjabæ. Lausasnjóflóð. Lausasnjóflóð er ásamt flekaflóði önnur tveggja gerða snjóflóða. Lausasnjóflóð á sér stað þegar lausasnjór rennur af stað í halla undan egin þyngd og fer að vinda upp á sig. Ólíkt flekaflóði byrja lausasnjóflóð á einum ákveðnum punkti, þau breikka þaðan og fallbraut flóðsins verður dropalaga. Lausaflóð sem nær nægum skriðþunga kann jafnvel að renna niður á jafnsléttu. Senditæki. Senditæki er tæki sem sendir frá sér boð, oftast í formi útvarpsbylgja. Snjóflóðaýlir. Snjóflóðaýlir (eða snjóflóðaýla) er útvarpssenditæki ætlað til að finna fólk og aðra hluti sem hafa grafist í snjóflóði. Ýlar sem flamleiddir eru í dag senda út og taka á móti á 457 kHz. Baulárvallavatn. Baulárvallarvatn er stöðuvatn á Snæfellsnesi, inn af Dufgusdal. Vatnið er um 1,6 ferkílómetrar að stærð og 47 metra djúpt, þar sem það er dýpst. Vatnið er í um 193 metra hæð yfir sjávarmáli og er í því urriði, enda telst það vera gott veiðivatn. Í vatnið rennur Vatnaá, Moldargilsá, Baulá, Draugagilsá og Rauðsteinalækur. Úr því rennur Straumfjarðará, sem er fræg fyrir góða laxveiði. Áður fyrr var vatnið einkum þekkt fyrir skrýmsli sem þar voru talin vera. Býlið Baulárvellir, sem stóð við Baulá sunnan vatnsins fór í eyði 1864 en er þekktast fyrir Baulárvallaundur þau sem þar urðu 1838. Þjóðsaga. Til er þjóðsaga sem segir frá atburðunum við Baulárvallavatn sem leiddu til þess að bærinn Baulárvellir lagðist í eyði. Dómkirkjan í Hróarskeldu. Dómkirkjan í Hróarskeldu var reist úr rauðum múrsteini á ofanverðri 12. öld. Byggingin er samtvinnun á rómverskum stíl og gotneskum. Lýsing dómkirkjunnar. Dómkirkjan í Hróarskeldu er næstlengsta kirkja í Danmörku - kirkjuskipið er 84 m á lengd og upp í hvelfingar hennar eru 24 m, en turnspírurnar mun hærri. Innst í kirkjuskipinu er kórinn - aðskilinn frá útveggjum með súlnagöngum. Hann er tvískiptur, og nefnist fremri hlutinn "kórsbræðra"- eða "kanúkakórinn". Þar eru raðir af stólum með veggjum fram, 44 að tölu, og eru þeir kallaðir "munkastólar". Yfir sætunum er Biblían útskorin í myndum, 22 á hvorum vegg, að sunnanverðu Gamla testamentið - á norðanveggnum það nýja. Undir gólfi dómkirkjunnar hafa fundist leifar af grunni eldri kirkju. Lee Radziwill. Caroline Lee Bouvier Canfield Radziwiłł Ross (fædd 3. mars 1933 í Southampton, New York) er bandarísk yfirstéttarkona sem starfar sem stjórnandi í almennatengslafyrirtæki. Hún reyndi fyrir sér sem leikkona en fékk afar slæma dóma og hætti eftir nokkrar tilraunir. Hún er yngri systir Jacqueline Kennedy Onassis. Lee Radziwill hefur verið gift þrisvar sinnum. Fyrsti eiginmaður hennar var "Michael Temple Canfield", sem var sagður óskilgetinn sonur Georgs prins, hertogans af Kent. Þau giftu sig í April 1953 og skildu árið 1959. Sama ár 19. mars giftist hún pólskum prinsi Stanisław Albrecht Radziwiłł. Þau eiga soninn, Anthony Radziwill, og dóttirina Anna Christina Radziwill. Þau skildu árið 1974. Árið 1978 var Lee trúlofuð hóteleigandanum "Newton Cope", en fimm mínútum áður en brúðkaupið átti að fara fram, var það blásið af. 23. september 1988 giftist hún bandaríska kvikmyndaleikstjóranum Herbert Ross. Þau skildu árið 2001, rétt áður en hann lést. Sigurjón Sighvatsson. Sigurjón Sighvatsson (f. 15. júní 1952 í Reykjavík) er íslenskur kvikmyndaframleiðandi og athafnamaður. Hann hefur framleitt yfir 30 kvikmyndir og sjónvarpsefni. Sigurjón útskrifaðist með B.A.-gráðu í ensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hann fékk Fulbright-styrk til þess að fara í framhaldsnám við Háskólann í Suður Kaliforníu þaðan sem hann lauk mastersgráðu í listum. Rúgbrauð. Rúgbrauð er brauð sem bakað er úr rúgmjöli, annaðhvort eintómu eða blönduðu öðru mjöli, oftast hveiti eða heilhveiti. Hérlendis er seytt rúgbrauð algengast. Það er dökkbrúnt, þétt og nokkuð sætt brauð sem oftast er bakað í lokuðu íláti í ofni við vægan hita í langan tíma, oft yfir nótt. Hverabrauð er rúgbrauð sem er grafið í heitan jarðveg á hverasvæði og látið vera þar uns það er bakað. Bernd Koberling. Bernd Koberling (f. 1938 í Berlín) er þýskur listmálari, einn af „nýju villingunum“ (Neuen Wilden), sem Þjóðverjar kalla svo. Hann starfaði fyrst sem kokkur 1955-1958, stundaði nám í "Hochschule für Bildende Künste" í Berlín 1958-1960. Námsdvöl á Englandi 1961-1963. Var styrkþegi "Villa Massimo" í Róm 1969-1970, og dvaldist síðan í Köln til 1974. Á árunum 1976-1981 var hann gestafyrirlesari í listaháskólum í Hamborg, Düsseldorf og Berlín. Hann var prófessor í "Hochschule für bildende Künste" í Hamborg 1981-1988, og frá 1988 í "Hochschule der Künste" í Berlín. Hefur flutt fyrirlestra um vatnslitamálun í Listaháskóla Íslands. Árið 1961 varð hann félagi í "Vision-hópnum", ásamt málaranum Karl Horst Hödicke. Bernd Koberling býr og starfar í Berlín, en er yfirleitt á sumrin í Loðmundarfirði. Árið 1959 hóf Bernd Koberling að ferðast um norðurslóðir á sumrin, fyrst um sænska hluta Lapplands og Norður-Noreg. Stundaði hann m.a. lax- og silungsveiðar, en náttúrufar og þjóðlíf þessara héraða veitti honum einnig innblástur í list sinni. Í Þýskalandi kynntist hann listamanninum Dieter Roth, sem giftur var íslenskri konu, og fór með honum til Íslands, m.a. til Loðmundarfjarðar. Hann heillaðist svo af staðnum, að hann hefur verið þar á hverju sumri frá 1977. Þar málar hann aðallega vatnslitamyndir. Í Berlín hefur hann málað stærri myndir í svipuðum stíl, á sérmeðhöndlaðar álplötur, með aðferð sem hann hefur sjálfur þróað. Bernd Koberling hefur haldið fjölda einkasýninga, m.a. hér á landi. Einnig tekið þátt í fjölda samsýninga, m.a. í Skaftfelli, menningarmiðstöðinni á Seyðisfirði. Tenglar. Koberling, Bernd Pokékúla. Pokékúla (japanska モンスターボール, "monsutā bōru" frá ensku "monster ball"; ‚skrímslakúla‘) er hnöttóttur búnaður sem Pokémon-þjálfarar nota til að fanga villt Pokémon-skrímsli og geyma í Pokémon tölvuleikjunum og anime-þáttunum. Þegar Pokékúla kemst í tæri við Pokémon-skrímsli breytist það í orku sem sogast inn í kúluna sem lokar skrímslið inni. Villt Pókemon-skrímsli geta streist gegn kúlunni og sloppið en skrímsli sem búið er að veikja eiga erfiðara með það. Margar tegundir Pokékúlna fyrirfinnast í Pokémon-heiminum en sú algengasta er hálfrauð og -hvít. Hinrik 8.. Hinrik 8., konungur Englands og lávarður Írlands. Hinrik 8. (28. júní 1491 – 28. janúar 1547) var konungur Englands á árunum 1509 til 1547 og lávarður Írlands og síðar konungur Írlands. Hann er einna helst frægur fyrir að hafa verið giftur sex sinnum og að hafa stofnað ensku biskupakirkjuna. Hinrik var sonur Hinriks 7. Englandskonungs og Elísabetar af York. Þrjú af börnum Hinriks urðu þjóðhöfðingjar Englands; Játvarður 6., María 1. og Elísabet 1.. Hinrik var fæddur árið 1491 og átti einn eldri bróður, eina eldri systur og eina yngri systur. Bróðir Hinriks, Arthúr, átti að verða erfingi ensku krúnunnar en hann dó skyndilega árið 1502 og því varð Hinrik erfingi. Hann giftist einnig eiginkonu Arthúrs, Katrínu af Aragon. Með Katrínu átti Hinrik dóttur, Maríu, sem síðar varð Englandsdrottning. Hinrik reyndi síðar að fá páfa til þess að ógilda hjónabandið við Katrínu þar sem hann vildi giftast annari konu, Anne Boleyn, en það vildi páfinn ekki gera. Afleiðing þessara deilna varð sú að Hinrik sleit tengsl ensku kirkjunnar við páfann og gerðist sjálfur höfuð kirkjunnar. Hann giftist svo Anne Boleyn og eignaðist með henni dóttur sem skírð var Elísabet. Árið 1536 var Anne Boleyn tekin af lífi eftir ásakanir um framhjáhald. Nokkrum dögum síðar giftist Hinrik Jane Seymour. Þau eignuðust soninn Játvarð en Seymour lést árið 1537. Fjórða kona Hinriks var Anne af Cleves sem hann kvæntist árið 1540 en það hjónaband entist aðeins í nokkra mánuði og var dæmt ógilt. Sama ár kvæntist Hinrik Catherine Howard. Árið eftir fóru af stað sögur um framhjáhald Catherine sem hún játaði og var því tekin af lífi árið 1542. Hinrik kvæntist sinni síðustu eiginkonu árið 1543, Catherine Parr, sem hann var giftur þar til hann lést árið 1547. Játvarður, sonur hans og Jane Seymour, tók við krúnunni af Hinrik, sem Játvarður 6. englandskonungur. Stamford Bridge. Stamford Bridge er heimavöllur enska knattspyrnuliðsins Chelsea í Hammersmith og Fulham, London. Völlurinn tekur 41.837 manns í sæti. Hann var opnaður 28. apríl 1877. Craven Cottage. Craven Cottage er leikvangur enska knattspyrnuliðsins Fulham. Leikvangurinn er með þeim elstu á Englandi. Árin 2002-2004 var leikvangurinn stækkaður, lið fulham spilaði þá heimaleiki sína á Loftus Road. Völlurinn er staðsettur á Stevenage Road við ánna Thames í London. Stytta af Fulham-goðsögninni Johnny Haynes, fyrir utan leikvanginn. Villa Park. Villa Park er heimavöllur Aston Villa í Birmingham. Völlurinn tekur 43.300 manns í sæti og er staðsettur við Trinity Road í Birmingham. Áhorfendametið er 76588 manns en það gerðist í mars 1946 þegar Aston Villa tók á móti Derby. Völlurinn er 105 metrar á lengd og 69 metrar á breidd. Ewood Park. Ewood Park er heimavöllur Blackburn Rovers. Hamarsfjörður. Hamarsfjörður er grunnur fjörður eða lón í Suður-Múlasýslu, hann liggur á milli Melrakkness og Búlandsness. Fyrir sunnan fjörðinn er Álftafjörður en Berufjörður að austan. Fyrir utan Álftafjörð og Hamarsfjörð liggur sandrif og lokar það fjörðunum. Inn af firðinum liggur Hamarsdalur, og í fjörðinn rennur Hamarsá. Sögufrægir staðir í Hamarsfirði. Bragðavellir er bær í Hamarsfirði í Djúpavogshreppi. Þar fannst elsti peningur sem fundist hefur á Íslandi en það er rómverskur koparpeningur sem sleginn var í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu á árunum 270-75 e. Kr. Hann fannst í húsarústum á Bragðavöllum í Hamarsfirði árið 1933 en 1905 hafði fundist þar annar rómverskur peningur, lítillega yngri, frá 276-82 e. Kr., sem sleginn var í Róm. Í hvorugt skiptið var gerð nein fornleifarannsókn á staðnum þannig að erfitt er að segja mikið um af hverju þessir peningar lágu þarna. Af öðrum gripum sem fundust á Bragðavöllum má þó ætla að rústirnar séu miklu yngri en peningarnir, frá víkingaöld eða síðar. Fræðimönnum hefur orðið mjög tíðrætt um þessa peninga og hefur verið stungið upp á að þeir sýni að Rómverjar hafi komið hingað, að peningarnir hafi komið með Pöpum eða að þeir hafi komið með norrænum mönnum á víkingaöld. Djáknadys er steinhrúga rétt neðan við þjóðveginn í Hamarsfirði. Sagt er að Djákninn á Hamri og presturinn á Hálsi hafi hist þar og ósætti komið upp milli þeirra sem endaði með því að þeir drápu hvorn annan. Þeir eiga að vera dysjaðir þar og þeir sem aka þar framhjá í fyrsta skipti eiga að henda steini í dysina til þess að ferðalagið verði óhappalaust. Valtýskambur er steinkambur í Hamarsfirði. Maður að nafni Valtýr var dæmdur til dauða fyrir sauðaþjófnað en fékk tækifæri til að bjarga lífi sínu með því að standa á haus fremst á Valtýskambi meðan á messutíma stóð. Það tókst honum og fékk að launum líf sitt. Strýta er eyðibýli í Hamarsfirði. Þar fæddust listamennirnir Ríkarður Jónsson myndhöggvari og Finnur Jónsson listmálari. Safn Ríkarðs Jónssonar er til húsa í Löngubúð. Búlandsnes. Búlandsnes er nes á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Á því norðanverðu (eða austanverðu, eins og innfæddir segja) liggur þorpið Djúpivogur. Á nesinu rís fjallið Búlandstindur og undir honum lítið dalverpi, Búlandsdalur. Hinrik 7.. Hinrik 7, konungar Englands og lávarður af Írlandi. Hinrik 7. (28. janúar 1457 – 21. apríl 1509), var konungur Englands og lávarður af Írlandi á árunum 1485 – 1509. Hann var fyrsti konungurinn af Tudorættinni. Hinrik var sonur Edmund Tudor og lafði Margrétar Beaufort, sem var aðeins þrettán ára þegar hún fæddi einkason sinn og þá þegar orðin ekkja því að Edmund, sem var stuðningsmaður Hinriks 6. af Lancaster-ætt, dó í fangelsi tveimur mánuðum fyrir fæðingu hans. Hinrik ólst að mestu leyti upp hjá föðurfjölskyldu sinni í Wales og þegar Játvarður 4. af York-ættinni varð konungur árið 1471, flúði Hinrik til Frakklands þar sem hann var að mestu leyti næstu fjórtán árin. Árið 1485 sneri Hinrik aftur til Englands en þá var Ríkharður 3. af York-ættinni, bróðir Játvarðar 4., konungur Englands. Hinrik batt enda á Rósastríðið þegar hann varð konungur eftir að hafa sigrað her Ríkharðs 3. í bardaganum við Bosworth þar sem Ríkharður féll. Hinrik giftist Elísabetu af York dóttur Játvarðs 4. árið 1486. Með hjónabandinu má segja að ættirnar tvær hafi verið sameinaðar og þar með dró mjög úr líkum á frekari átökum. Elsti sonur þeirra, Arthúr, fæddist árið 1486 og fékk hann titilinn prinsinn af Wales þar sem hann átti að taka við krúnunni af föður sínum. Arthúr dó hins vegar skyndilega árið 1502 og því varð næstelsti sonur Hinriks, sem einnig hét Hinrik, erfingi krúnunnar. Hinrik vildi halda góðum tengslum við Spán, sem þá var að sameinast í eitt ríki, og í því skyni hafði hann gift Arthúr son sinn Katrínu af Aragóníu. Eftir lát Arthúrs vildi hann viðhalda þessum tengslum og eftir lát Arthúrs fékk hann leyfisbréf frá Júlíusi II páfa fyrir giftingu Katrínar og Hinriks sonar síns, en slíkt hjónaband var annars óheimilt samkvæmt reglum kaþólsku kirkjunnar. Og eftir að Elísabet kona Hinriks lést af barnsförum 1503 fékk hann einnig undanþágu til að giftast Katrínu sjálfur ef honum sýndist svo. Þá höfðu reyndar aðstæður breyst á Spáni og Hinrik fékk bakþanka og sló ákvörðunum um giftingu Katrínar á frest, enda var Hinrik prins aðeins tólf ára. Sjálfur hafði Hinrik 7. einhvern hug á að giftast aftur og sendi meðal annars fulltrúa sína til Napólí árið 1505 til að meta Jóhönnu ekkjudrottningu þar sem hugsanlega drottningu Englands en ekkert varð þó úr neinu og Hinrik dó úr berklum 21. apríl 1509. Tæpum tveimur mánuðum síðar giftust Hinrik 8. og Katrín. Listi yfir þjóðhöfðingja Englands. Þetta er listi yfir þjóðhöfðingja Englands. Sá fyrsti sem notaði nafnbótina "Englandskonungur" var Offa af Mersíu árið 774 þó svo að listar hefjist oftast á Egbert af Wessex árið 829. Nafnbótin var notuð til ársins 1707 þegar Bretland varð til. Mersíuætt. "Offa var konungur Mersíu síðan 757. Hann var öflugasti konungurinn fyrir formlega sameiningu Englands. Veldi hans hvarf þó úr sögunni við lát hans." Wessexætt. "Yfirleitt hefur listinn hafist á Egbert konungi af Wessex sem var fyrstur konunga til að hafa lénsdrottinsstöðu yfir Englandi öllu. Hann sigraði Mersíumenn og varð Bretwalda árið 829. Varanleg eining náðist árið 927 undir Aðalsteini." Danmerkurætt. "England féll undir stjórn danskra konunga eftir ríkisár Aðalráðs ráðlausa. Sumir þeirra, en ekki allir, voru einnig konungar Danmerkur. Wessexætt (aftur). "Gömlu Vestur-Saxarnir náðu völdum aftur, en Játvarður góði, sem seinna var tekinn í dýrlingatölu, var trúrri Normandí en Englandi. Normandíætt. "Eftir Normannainnrásina notuðu konungarnir númer með nafni sínu líkt og Frakkar. Þó voru viðurnefni enn í notkun." Plantagenetætt. "Fyrstu Plantagenetarnir stýrðu mörgum landsvæðum í Frakklandi og litu ekki á England sem heimaland sitt fyrr en eftir að Jóhann landlausi tapaði flestum frönsku eignunum. Ættin var lengi við völd og er henni oftast skipt í þrjár greinar." Túdorætt. "Túdorarnir voru að hluta ættaðir frá Wales. Árið 1536 var Wales að fullu innlimað í England ríkið og hafði þá verið undir stjórn Englands síðan 1284. Þegar Hinrik 8. klauf ensku kirkjuna frá Rómversk-kaþólsku kirkjunni varð konungurinn æðsti yfirmaður Biskupakirkjunnar. Titill Elísabetar 1. varð þannig Supreme Governor of the Church of England." Stuartar. "Eftir að Elísabet 1. dó án erfingja varð Jakob (James) 6. Sotlandskonungur (sonur Maríu Stuart) jafnframt konungur Englands undir heitinu Jakob (James) 1. Árið 1604 tók hann upp titilinn Konungur Stóra-Bretlands." Samveldi. "Enginn konungur var við völd frá 1649, þegar Karl 1. var tekinn af lífi, til 1660, þegar Karl 2. tók við völdum. Á þessum tíma fóru eftirtaldir með æðstu völd:" Stuartar (aftur). "Þó svo að einveldi kæmist á aftur 1660 náðist ekki stöðugleiki fyrr en 1688, þegar þingið samþykkti að það gæti kosið hvern sem því sýndist til konungs." "England og Skotland gengu í ríkjasamband með Sambandslögunum 1707, en hvort um sig hélt þó lögum sínum og ýmsu fleiru. Framhald af þessum lista er að finna í Listi yfir þjóðhöfðingja Bretlands." Heimildir. England Ríkharður 3. Englandskonungur. Ríharður 3. konungur Englands og lávarður Írlands. Ríkharður 3. (2. október 1452 – 22. ágúst 1485) var konungur Englands frá 1483 til 1485. Ríkharður var síðasti konungur Englands af York-ættinni. Ríkharður var sonur Ríkharðs Plantagenet, 3ja hertoga af York og Cecily Neville. Hann var einnig bróðir Játvarðs 4. englandskonungs. Ríkharður var tryggur stuðningsmaður Játvarðs meðan hann var konungur og varð ríkur og valdamikill í hans valdatíð. Þegar Játvarður 4. lést árið 1483 voru synir hans tveir á undan Ríkharði í röðinni um að erfa krúnuna. Sá eldri var 12 ára og tók við krúnunni sem Játvarður 5.. Játvarður var hins vegar fljótlega tekinn til fanga og læstur inni í Tower of London ásamt 9 ára bróður sínum, Ríkharði af Shrewsbury, 1. hertoganum af York. Fljótlega var því lýst yfir að drengirnir væru ekki lögmætir erfingjar krúnunnar og Ríkharður 3. varð konungur Englands. Ekkert spurðist til drengjanna tveggja eftir þetta og eru örlög þeirra ráðgáta enn í dag, þó svo að flestir telji að Ríkharður hafi látið taka þá af lífi. Ríkharður var giftur Anne Neville en hún dó árið 1485 og átti Ríkharður þá engan lögmætan erfingja, því sonur þeirra hafði dáið árið áður. Sama ár mætti Ríkharður Hinrik Tudor í bardaganum við Bosworth þar sem nokkrir af hershöfðingjum Ríkharðs sviku hann og gengu í lið með Hinriki. Útkoma bardagans var sú að her Ríkharðs beið ósigur og hann sjálfur lést. Hinrik varð þá krýndur konungur sem Hinrik 7. Aikido. Aikido er japönsk bardagalist stofnuð af Morihei Ueshiba, oft kallaður O-sensei (Hinn mikli kennari, en sensei þýðir kennari á japönsku og „o-“ er virðingarforskeyti). Ekki er lögð áhersla á árásir heldur er markmiðið að nota árás andstæðingsins gegn honum. Köst og lásar skipa höfuðsess í aikido. Biskupastríðin. Biskupastríðin (latína: "Bellum Episcopale") voru tvenn vopnuð átök milli Karls 1. og skoskra sáttmálamanna 1638 og 1640 sem áttu þátt í því að hrinda Ensku borgarastyrjöldinni og Þríríkjastríðunum af stað. Aðdragandi. Í kjölfar skosku siðbótarinnar 1560 voru áfram deildar meiningar um það hvernig stjórn skosku ríkiskirkjunnar skyldi háttað og tvær fylkingar komu fram sem studdu öldungakirkju annars vegar, þar sem kirkjuráð stjórnar kirkjunni, og biskupakirkju hins vegar, þar sem biskupar stjórna kirkjunni. Róttækir kirkjumenn hneigðust fremur að fyrri stefnunni en konungur að þeirri síðari. Jakob 6. Skotakonungur lýsti því yfir að enginn biskup væri það sama og enginn konungur og við upphaf 17. aldar fullmannaði hann stöður biskupa innan skosku kirkjunnar. Við það fékk kirkjan nánast nákvæmlega sömu stjórn og hún hafði haft fyrir siðaskiptin þótt hún væri nú kalvínísk hvað kenningu varðaði. Biskupar konungs voru ekki síður ógnun við skoska aðalinn sem taldi sig hafa mátt þola síminnkandi áhrif, einkum eftir að Jakob flutti til London og gerðist konungur Englands 1603. Karl 1. bætti svo um betur á 4. áratugnum með því að skipa biskupa í leyndarráð sitt og embætti innan skoska framkvæmdavaldsins. Alvarleg kreppa kom þó ekki upp fyrr en Karl 1. ákvað að láta skosku kirkjuna taka upp nýja bænabók árið 1637 sem var í anda ensku biskupakirkjunnar (raunar gegn ráði helstu biskupa) án nokkurs samráðs. Í kjölfarið tóku öldungakirkjumenn höndum saman við aðalinn og gerðu með sér Þjóðarsáttmálann í febrúar 1638 þar sem allri kirkjuskipan Karls var hafnað. Sáttmálamenn ráku síðan alla biskupana á kirkjuþingi í Glasgow í nóvember sama ár. Skoska kirkjan var þar með orðin öldungakirkja. Karl krafðist þess að ákvarðanir þingsins yrðu dregnar til baka en sáttmálamenn neituðu. Fyrsta biskupastríðið (1639). Karl hafði stjórnað Englandi án enska þingsins í ellefu ár og átti því erfitt með að blása til styrjaldar gegn Skotum þar sem stríðsskattur á íbúa landsins hefði krafist samþykkis þingsins. Boðun nýs þings var hins vegar áhættusöm vegna opinnar andstöðu við stefnumál hans. Hann reyndi því þess í stað að mynda bandalag gegn sáttmálamönnum og safna saman því liði sem hann gat með þeim hætti. Andstaða við sáttmálamenn var mest í hálöndunum og Aberdeenskíri undir stjórn markgreifans af Huntley og við það bættust írskar hersveitir. Herförin var illa skipulögð og hermennirnir voru illa þjálfaðir og illa búnir, flutningur með skipum var vandkvæðum bundinn og bækistöðvar illa vistaðar. Huntley beið ósigur fyrir Montrose í orrustunni um Dee-brú, eina alvarlega bardaga stríðsins, og þar með var megninu af andstöðunni við sáttmálamenn innan Skotlands lokið. Karl kom til Berwick með her sinn í lok maí. Vistir voru af skornum skammti og sjúkdómar höfðu komið upp. Þegar veðrið tók að versna vantaði skjól og engin tré voru í nágrenninu sem hægt væri að nota til að byggja kofa úr. Hætta var á bólusóttarfaraldri. Hinum megin við landamærin var skoski herinn litlu betur settur en hvorugur herinn vildi taka af skarið til að hefja orrustu. Því var samningaleiðin eina færa leiðin. Friðarsáttmálinn í Berwick. Karli varð ljóst að leiðangurinn var mistök þegar hann frétti að ekki væri von á herstyrk frá Írlandi og enskir aðalsmenn sögðu við hann að hann yrði að boða þingið ef hann hygðist halda uppi hernaði gegn Skotum. Hann ákvað því að taka boði Skota um samningaviðræður. Friðarviðræður hófust 11. júní og sex Skotar og sex Englendingar mættust í búðum konungs til að ræða skilmála. Brátt birtist Karl sjálfur og bauð nýtt þing til að ákveða kirkjuskipanina. Báðir samþykktu að leysa upp her sinn og halda brott. Karl neitaði að vísu að samþykkja ákvarðanir kirkjuþingsins í Glasgow, en samþykkti að boða nýtt kirkjuþing í Edinborg 20. ágúst og nýtt löggjafarþing stuttu síðar. Friðarsáttmálinn var undirritaður 18. júní. Uppreisnin fest í sessi. Líkt og við var búist staðfesti kirkjuþingið í Edinborg allar ákvarðanir þingsins í Glasgow, þar með að embætti biskupa væru lögð niður, og bætti um betur með því að banna öllum kirkjunnar mönnum að taka við veraldlegum embættum. Skipan biskupa var ekki aðeins dæmd röng framkvæmd heldur einnig gagnstæð lögmáli guðs. Með því lýsti skoska kirkjan því yfir að enska biskupakirkjan væri í raun andstæð ritningunni. Löggjafarþingið sem kom saman skömmu síðar staðfesti síðan þessar ákvarðanir allar og buðu þar með einveldi konungs birginn. Með þessu var Karl kominn í ómögulega stöðu. Hann gat ekki ríkt sem þingbundinn konungur í einu ríki en sem einvaldur í hinum tveimur. Sérstaklega gilti þetta um England þar sem bæði var hefð og vilji fyrir þingbundinni konungsstjórn. Annað biskupastríðið (1640). Karl hóf því strax að leggja á ráðin um nýja herför gegn Skotum. Hann boðaði til sín frá Írlandi William Wentworth, 2. jarl af Strafford sem gerðist hægri hönd hans ásamt William Laud erkibiskup af Kantaraborg. Karl var með í höndunum bréf frá Skotum til Loðvíks 13. þar sem þeir báðu hann um að hafa milligöngu um sáttagerð við konung. Karl og Strafford voru sannfærðir um að enska þingið myndi líta á þetta bréf sem landráð. Skamma þingið sem boðað var í apríl 1640 hunsaði hins vegar bréfið og studdi ekki frekari stríð gegn Skotum. Eftir þrjár vikur var það leyst upp og Karl stóð verr að vígi á eftir. Þessir atburðir sannfærðu sáttmálamenn enn frekar um að Karl hefði ekki stuðning Englendinga og boðuðu því stéttaþing, án konungsumboðs. Þingið skipaði framkvæmdanefnd til að sjá um landvarnir. Skoski herinn safnaðist saman við landamærin þegar leið á sumarið en konungur var í London og safnaði til sín því liði sem hann gat. 17. ágúst hélt skoski herinn yfir landamærin öllum að óvörum og gersigraði sveitir konungs í orrustunni við Newburn og hertóku síðan Newcastle. Með því var síðara biskupastríðinu í raun lokið. Friðarviðræður hófust í Ripon 2. október. Skotar kröfðust þess að enska þingið kæmi að samningnum þar sem þeir gætu ekki lengur treyst konungi. Bráðabirgðasamningur fól í sér að Skotar fengu greiddan kostnað 850 sterlingspund á dag og héldu áfram norðurhéruðum Englands þar til endanlegur samningur yrði gerður í London. Langa þingið og sáttmálamenn komu í kjölfarið saman til viðræðna 3. nóvember. Viðræðum lauk með samningi sem konungur staðfesti í ágúst 1641. Karl samþykkti að draga til baka allar yfirlýsingar sínar gegn sáttmálamönnum og staðfesta ákvarðanir kirkjuþingsins í Edinborg. Stríðsskaðabætur hljóðuðu upp á 300.000 pund og skoski herinn dró sig til baka frá norðurhéruðunum við fyrstu greiðslu. Yfirborðsflatarmál. Yfirborðsflatarmál er flatarmál "sýnilegra" hliða rúmfræðilegs hlutar. Einfaldasta dæmið er yfirborðsflatarmál stjarfs ferhyrnings þar sem hliðarlengd og -breidd eru margfölduð saman. SI eining flatarmáls er "m²". Yfirborð kúlu er fundið með formúlunni "4πr²" þar sem "r" er radíus. Pereat. Pereat (stundum með viðskeyttum greini; Pereatið) er heiti á atviki, s.k. afhrópi, sem átti sér stað í Reykjavík 17. janúar 1850. Skólasveinar Lærða skólans gerðu hróp að rektor skólans, Sveinbirni Egilssyni, skáldi. Upphaflega var um að ræða deilur um bindindi í skólanum, en Sveinbjörn Egilsson vildi þvinga pilta til þess að vera í bindindisfélagi. Eftir skammaræðu sem Sveinbjörn Egilsson hélt yfir þeim í hátíðasalnum Lærða Skólans, ákvaðu þeir að stökkva vestur á Mela undir forystu Arnljóts Ólafssonar. Þaðan fóru þeir að húsi rektors við Austurstræti og síðan við flest hús í bænum og hrópuðu: "Pereat", sem er latína og útleggst "„niður með hann“". Þetta fannst Sveinbirni óásættanlegt og vildi auðvitað láta reka þá, sem hann taldi sekasta, en stiftsyfirvöld vildu ekki leyfa honum það. Hann ákvað þá að sigla til Kaupmannahafnar og fékk skólayfirvöld þar til liðs við sig. Skólaárið var þá dæmt ógilt og engir brautskráðir um vorið árið 1850. Þessi atburður hafði mjög mikil áhrif á félagslífið í skólanum, enda var það drepið í dróma í hálfan annan áratug. Einn forsprakka uppátækisins, Steingrímur Thorsteinsson, varð síðar rektor við Lærða skólann. Árið áður átti Norðurreið Skagfirðinga sér stað, en þá gerði hópur bænda frá Skagafirði aðsúg að Grími Jónssyni amtmanni á Möðruvöllum í Hörgárdal. Um orðið Pereat. Pereat þýðir orðrétt: "Farist (hann)!" Það er viðtengingarháttur nútíðar af latneska sagnorðinu "pĕrĕō". Þessi afhrópun er venjulega þýdd á íslensku sem "Niður með hann". Enska sögnin "perish" á rætur sínar í þessu sama orði. Heimildir. H, Þorleifsson (Reykjavík. 2003). „Frá einveldi til Lýðveldis“. Setning (setningafræði). Setning er hugtak í setningarfræði. Setning er orðasamband sem verður að innihalda eina sögn (ósamsetta eða samsetta). Margar setningar geta verið í hverri málsgrein, og tengjast setningarnar saman með samtengingu eða kommu. Setningar skiptast í aðalsetningar og aukasetningar. Aðalsetning. Aðalsetning er tegund af setningu og hugtak í setningafræði. Aðalsetning er annaðhvort fremst í málsgrein eða tengd við aðra setningu með aðaltengingu. Einnig fleyguðu tengingarnar, þ.e.a.s. samsettar samtengingar; t.d. „hvorki né“ og „bæði og“. Allar aðrar samtengingar eru aukatengingar. Aukasetning. Aukasetning er hugtak í setningarfræði, og tegund af setningu. Aukasetning hefst oftast á aukatengingu (allar aðrar samtengingar en aðaltengingar). Aðaltenging. Aðaltengingar annaðhvort tengja saman tvær aðalsetningar (aðalsetning + aðaltenging + aðalsetning) eða tengja saman samhliða aukasetningar (aðalsetning + aukatenging + aukasetning + aðaltenging + aukasetning). Aðaltengingar geta einnig tengt saman liði innan setningar. Aukatenging. Aukatengingar tengja saman aðal- og aukasetningu (aðalsetn. + aukat. + aukasetn.) eða tengja saman ósamhliða aukasetningar (aðalsetn. + aukat. + aukasetn. + aukat. + aukasetn.). Málsgrein. Málsgrein (einnig nefnt setningasamstæða) er hugtak í setningarfræði. Málsgrein getur verið ein setning eða nokkrar setningar og nær hún frá stórum upphafsstaf og að punkti, dæmi: „Ég kem þegar þú hringir.“. Margar setningar geta verið í hverri málsgrein, og tengjast setningarnar saman með samtengingu eða kommu. Sagnfylling. Sagnfylling er hugtak í setningarfræði. Sagnfylling er fallorð í nefnifalli sem stendur með áhrifslausri sögn. Sagnfylling útskýrir frumlagið nánar. Sagnfylling er eins og andlag fyrir utan það að andlag er ávallt í aukafalli þ.e.a.s. þolfalli, þágufalli eða eignarfalli og sagnfylling alltaf í aðalfalli (nefnifalli). Einkunn. Einkunn er fallorð sem stendur með öðru fallorði og lýsir því nánar. Einkunn myndar eina heild með fallorðinu. Einkunn getur staðið í öllum föllum (nefnifalli, þolfalli, þágufalli og í eignarfalli). Ef einkunn stendur í eignarfalli kallast hún eignarfallseinkunn. Eignarfallseinkunn. Eignarfallseinkunn er einkunn í eignarfalli (nafnorð í eignarfalli sem stendur með öðru nafnorði). Eignarfallseinkunn stendur á eftir nafnorðinu sem hún einkennir eins og eignarfornafn. Atviksliður. Atviksliður er tegund setningarliðs. Atviksliður er hvert einstakt atviksorð. Tengiliður. Tengiliður er hugtak í setningarfræði. Tengiliður er sérhver samtenging. Skilgreining. Aukatenging og það sem henni fylgir er stundum nefnd tengiliður. Orðið tengiliður er stundum einnig notað um hvers konar samtengingar þegar greint er í setningarliði (setningarhluta) Andheiti. Andheiti er orð sem hefur andstæða merkingu einhvers orðs, eins og "heitt" og "kalt"; "feitur" og "grannur"; og "fram" og "aftur". Tungumál hafa oft leiðir til þess að búa til andheiti, íslenska bætir til dæmis við ó- fyrir framan orð. "Óheppni" er andheiti "heppni" og "óþægur" er andheiti orðsins "þægur". Sambeyging. Sambeyging eða fallasamræmi kallast það að beygja saman nafnorð og lýsingarorð sem eina heild. Ef samnafn fer á undan sérnafni til skýringar er sérnafnið almennt beygt líka nema sérnafnið sé "fleiryrt" (samanstandi af fleira en einu orði). Aðalorð. Til aðalorða heyra fjórir setningarhlutar; frumlag, umsögn, andlag og sagnfylling. Kjarni hverrar setningar er umsögnin. Hún lagar sig í persónu og tölu að frumlaginu í setningunni. Frumlag og umsögn geta myndað sjálfstæða setningu ein og sér eins og sýnt er í dæmunum hér að ofan. Umsögnin tekur gjarnan með sér fallorð, annað hvort í nefnifalli eða aukafalli (þf., þgf., ef.). Yfirleitt er það svo að um andlag er að ræða ef fallorðið sem kemur á eftir sögninni er í aukafalli en sagnfyllingu ef fallorðið er í nefnifalli. Frá þessu eru þó undantekningar. Fylgiorð. Til fylgiorða teljast hliðstæð einkunn, fallstýrð einkunn (eignarfallseinkunn), viðurlag og sagnfylling með andlagi. Ensímtækni ehf.. Ensímtækni ehf. er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum á ensímum unnum úr sjávarlífverum. Ein helsta vara fyrirtækisins er PENZIM húðáburður en fyrirtækið býður upp á vörur frá ýmsum löndum Evrópu og nýlega Bandaríkjunum. Vörur sem fyrirtækið býður upp á snúa yfirleitt að snyrtivörum og vörum sem hafa læknandi áhrif. Fyrirtækið var stofnað af Jóni Braga Bjarnasyni prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands ásamt nokkrum öðrum. Bragi framleiðir snyrtivörur undir merkinu Dr. Bragi og notar í þær virk ensmím úr sjávarfangi. Í tilraun hjá veirurannsóknastofu í London kom það í ljós að ensímblanda þróuð af fyrirtækinu drepur fuglaflensuveiru af H5N1 stofni í 99% tilvika. Blandan drepur veiruna á innan við 5 mínútum, án þess að skaða heilbrigðar frumur. Játvarður 4.. Játvarður 4. konungur Englands og lávarður Írlands. Játvarður 4. (28. apríl 1442 – 9. apríl 1483) var konungur Englands frá 1461 til 1470 og svo aftur frá 1471 til 1483. Hann var djarfur og snjall herstjórnandi og tapaði aldrei orrustu. Játvarður var að mörgu leyti hæfur konungur þótt hann þætti stundum sýna dómgreindarbrest og naut mikill vinsælda meðal þegna sinna. Hann er sagður hafa verið hávaxnastur allra enskra konunga, 1,93 m á hæð, og hraustlegur og íþróttamannslegur á yngri árum en þreknaði mjög með aldrinum. Rósastríðin. Játvarður var af York-ættinni, elsti sonur Ríkharðs Plantagenet, 3. hertoga af York. og konu hans Cecily Neville, og bróðir Ríkharðs 3., sem síðar varð konungur Englands. Ríkharður hertogi var leiðtogi York-ættarinnar í Rósastríðunum og barðist um ensku krúnuna við Hinrik 6., sem var af Lancaster-ættinni. Hann féll í orrustunni við Wakefield daginn fyrir gamlársdag 1460. Játvarður tók við leiðtogahlutverkinu og náði um vorið völdum með hjálp frænda síns, Richard Neville, 16. jarlsins af Warwick. Þeir náðu London í sínar hendur á meðan Hinrik og drottning hans, Margrét af Anjou, sem var hinn raunverulegi stjórnandi Lancaster-manna, voru í Norður-Englandi. Játvarður var lýstur konungur 4. mars 1461, tæplega nítján ára að aldri, og krýndur um sumarið, eftir að þeir Warwick höfðu unnið stórsigur á Lancaster-mönnum. Hjónaband og ósætti við Warwick. Játvarður var mikill kvennamaður og átti margar hjákonur en 1464 giftist hann á laun ekkju, Elísabet Woodville, sem tengdist Lancaster-ætt. Hún var nokkrum árum eldri en konungur en sögð fegursta kona Englands. Ástæðan fyrir leyndinni var að konungur vissi að hertoginn af Warwick, helsti ráðgjafi hans, yrði ekki ánægður, enda hafði hann haft í hyggju að láta konung giftast einhverri evrópskri prinsessu til að styrkja pólitísk tengsl. Warwick varð þó að sætta sig við orðinn hlut en brátt fjölgaði mjög ættmennum drottningar við hirðina og systkini hennar, sem voru fjölmörg, giftust inn í ýmsar helstu valdaættir landsins. Warwick var ekki ánægður með að ættmenni drottningar hefðu áhrif á konunginn og gerði því uppreisn gegn honum ásamt bróður Játvarðs, Georg hertoga af Clarence. Her þeirra og her konungsins mættust í bardaganum við Edgecote Moor árið 1469, þar sem her Játvarðs beið ósigur og var hann tekinn til fanga skömmu síðar. Richard af Warwick ætlaði sér að stjórna í nafni Játvarðs en hafði ekki nægan stuðnings til þess og sættist því við konunginn um stundar sakir. Árið 1470 gerðu þó Richard og Georg af Clarence aftur uppreisn sem mistókst og í kjölfarið flúðu þeir til Frakklands. Þar ákváðu þeir að ganga í lið með Hinriki 6. - eða öllu heldur Margréti drottningu - og fengu einnig liðsinni Loðvíks 11. Frakkakonungs. Um haustið tókst þeim að velta Játvarði úr stóli og endurreistu Hinrik 6. sem konung Englands þótt öll völd væru í raun í höndum tvímenninganna. Játvarður flúði til Frakklands og leitaði hælis hjá Karli djarfa, hertoga af Búrgund, sem giftur var systur hans, en snéri aftur árið eftir og gekk bróðir hans, Georg af Clarence, þá í lið með honum. Játvarður mætti svo herjum Lancaster-ættarinnar í nokkrum bardögum og sigraði þá, í einum bardaganna féll Richard af Warwick. Lokabardaginn var svo orrustan við Tewkesbury 4. maí 1471 og þar féll Játvarður af Westminster, einkasonur Hinriks 6. Stuttu síðar dó Hinrik 6. í Lundúnaturni og var sagður hafa dáið úr harmi en líklegt er talið að Játvarður hafi látið koma honum fyrir kattarnef. Síðustu æviár og dauði. Friður ríkti innanlands í Englandi síðustu tólf ríkisstjórnarár Játvarðar en heilsu hans fór hrakandi og um páskana árið 1483 veiktist hann svo illa að ljóst var að hann væri dauðvona. Af tíu börnum þeirra Elizabeth voru sjö á lífi, þar af tveir synir, Játvarður, sem var tólf ára, og Ríkharður hertogi af York, sem var tæplega tíu ára. Játvarður útnefndi Ríkharð hertoga af Gloucester, yngsta bróður sinn, sem tilsjónarmann með hinum verðandi konungi og dó síðan. Ríkharður hertogi var fljótur að senda bróðursyni sína í Lundúnaturn, fá þá lýsta óskilgetna og sjálfan sig konung, en til prinsanna ungu hefur ekki spurst síðan. Dætur Játvarðar og Elísabetar sem upp komust voru Elísabet af York, sem giftist Hinrik 7. og varð Englandsdrottning; Cecily, sem á barnsaldri var trúlofuð Jakobi 4. Skotakonungi og síðar Alexander hertoga af Albany, föðurbróður hans; Anne, sem giftist Thomas Howard, hertoga af Norfolk og föðurbróður Önnu Boleyn; Catherine, sem á barnsaldri var trúlofuð Jóhanni af Aragóníu, einkasyni Ferdinands og Ísabellu, og Bridget, sem varð nunna. Játvarður átti einnig nokkur óskilgetin börn með hjákonum sínum. Játvarður 5.. Játvarður 5. ásamt bróður sínum eftir að þeir voru lokaðir inni í Tower of London. Játvarður 5. (4. nóvember 1470 – 1483) var konungur Englands í um tvo mánuði árið 1483. Játvarður var sonur Játvarðs 4. og tók við sem konungur Englands þegar faðir hans lést, 9. apríl 1483, en hann var þá aðeins 12 ára gamall. Játvarður var aldrei krýndur konungur því hann var, ásamt 9 ára bróður sínum, Ríkharði af Shrewsbury, 1. hertoganum af York, lokaður inni í Tower of London skömmu eftir að hafa tekið við krúnunni. Bræðurnir sáust aldrei á lífi, svo vitað sé, eftir að hafa verið lokaðir inni og talið er líklegt að Ríkharður 3. hafi látið taka þá af lífi. Ríkharður var föðurbróðir þeirra og 22. júní 1483 lýsti hann því yfir að hann myndi taka við krúnunni þar sem drengirnir væru ólögmætir erfingjar Játvarðs 4. Frjáls vilji. Frjáls vilji er sú hugmynd að (sumar) lífverur stjórni eigin hegðun, að ákvarðanataka þeirra sé ekki nauðsynlega háð lögmálum náttúrunnar heldur ráði hvernig þær bregðist við ytra áreiti. Áhangendur þessarar hugmyndar kenna sig við frjálshyggju en þeir sem álíta að öll hegðun sé háð áreiti og kringumstæðum aðhyllast löghyggju. Dalvíkurskjálftinn. Dalvíkurskjálftinn var mikill jarðskjálfti sem reið yfir Dalvík og byggðarlögin þar í kring laugardaginn 2. júní 1934. Hann er mesti skjálfti sem vitað er um að hafi orðið á þessum slóðum. Fyrsti og mesti kippurinn kom kl. 12.42. Upptök hans eru talin hafa verið mjög skammt frá þorpinu, hugsanlega á sjávarbotni milli Hríseyjar og lands, um 1 km austur af Dalvík. Stærðin var 6,2-6,3 á Richter kvarða. Hann fannst um allt Norðurland en tjón varð einungis á Dalvík og í næsta nágrenni, það er að segja í utanverðum Svarfaðardal, Árskógsströnd og í Hrísey. Skjálftinn jafnaði fjölmörg hús við jörðu og olli skemmdum á flestum mannvirkjum á svæðinu. Þrátt fyrir eyðilegginguna varð ekki manntjón og allir sluppu óskaddaðir líkamlega úr hamförunum. Stór hluti Dalvíkinga hélt til í tjöldum og bráðabirgðaskýlum lengi sumars á meðan lagfæringar stóðu yfir. Eftir skjálftann hófst mikið endurreisnarstarf og var fjöldi rammgerðra steinhúsa byggður á Dalvík og nágrenni næstu árin sem leystu af hólmi meira eða minna laskaða torfbæi. Á Byggðasafninu á Hvoli er sérsýning um Dalvíkurskjálftann. Aþena (gyðja). Stytta af Aþenu frá 1. eða 2. öld. Aþena var í grískri goðafræði gyðja viskunar og hernaðarkænsku. Hún var dóttir Seifs og Metisar og var ein af Ólympsguðunum tólf. Fylgigoð hennar er Níke. Helstu einkenni hennar eru herklæði, skjöldur og ugla. Fjarnám. Fjarnám er nám sem hægt er að stunda án þess að mæta í formlegar kennslustundir í skóla eða skólastofu. Misjafnt er eftir skólum og skólastigum hvernig fjarnám er skipulagt hér á landi en á framhaldsskólastigi er algengt að nemendur og kennarar hittist lítið og jafnvel ekkert en á háskólastigi er algengara að fjarnemar komi í skólann 2-3 á önn í 2-3 daga eða lengur. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem vilja stunda nám án þess að gera miklar breytingar á eigin lífi, t.d. búa út á landi, en að sama skapi getur fjarnám verið erfiðara en hefðbundið nám þar sem það krest mikils sjálfsaga og þrautseigju að stunda nám án reglubundinnar samveru með kennara og samnemendum. Nokkrir íslenskir háskólar og framhaldsskólar bjóða upp á fjarnám eins og Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík auk framhaldsskólanna Verkmenntaskólans á Akureyri, Fjölbrautaskólans við Ármúla og Verslunarskóla Íslands, svo dæmi séu tekin. 950. 950 er ár á 10. öldinni. Riðstraumur. Riðstraumur er rafstraumur þar sem stefna straumsins breytist reglulega með ákveðinni tíðni, ólíkt jafnstraumi. Þessi gerð af straumi flytur ekki hleðslu frá A til B heldur er frekar sagt að hún flytji spennu því hleðslurnar eru að sveiflast fram og til baka og viðhalda því spennunni á leiðslunni en í jafnstraumi þá flytjast hleðslurnar frá einum stað til annars og minnka því spennuna á milli staða þangað til engin spenna er á milli A og B og því engin rafstraumur. Í riðstraumsrás sveiflast rafspenna með rafstrauminum og kallast hún því riðspenna. Rafmótstaða í riðstraumsrás nefnist samviðnám eða sýndarviðnám. 960. 960 er ár á 10. öldinni. Gunnbjarnarsker. Gunnbjarnarsker var land sem Gunnbjörn Úlfsson fann um árið 900. Það er oft talið að það hafi verið Grænland. Jafnstraumur. Jafnstraumur er rafstraumur þar sem rafhleðsla flyst á milli tveggja póla sem hafa mismunandi spennu ólíkt riðstraumi þar sem rafhleðslan flyst ekki. Jákvæð hleðsla flyst frá þeim pól sem er með hærri spennu yfir á þann sem er með lægri spennu og öfugt með neikvæða hleðslu. Í jafnstraumsrás er rafspenna föst og kallast hún því jafnspenna. Launviðnám í jafnstraumsrás er núll. Þjóðhildur Jörundardóttir. Þjóðhildur Jörundardóttir (10. og 11. öld) var kona Eiríks rauða. Þau bjuggu á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni í Haukadal í Dölum og var Þjóðhildur dóttir Jörundar Úlfssonar og Þorbjargar knarrarbringu. Þjóðhildur fluttist með Eiríki rauða og föruneyti til Grænlands um árið 985. Þegar kristni barst til Grænlands tók hún kristna trú og lét reisa kirkju, sem nefndist Þjóðhildarkirkja, og hefur haldið nafni hennar á lofti. Eiríkur og Þjóðhildur voru foreldrar Leifs heppna. Magnari. Magnari er aðferð eða tæki sem eykur styrk merkis, þannig að aðrir eiginleikar merkisins breytis sem minnst. Merkið er bylgja, t.d. rafstraumur eða ljós og magnarinn eykur þá sveifluvídd, þ.e afl merkisins, án þess að breyta bylgjuforminu að ráði. þar sem X er "innmerki", Y "útmerki" og ω er horntíðni merkisins. Fullkominn magnari myndi aðeins auka afl bylgjunnar, án þess að breyta henni á nokkurn annan hátt og væri því "línulegur", þ.e. útmerkið yrði því nákvæm eftirmynd af innmerkinu. Enginn raunverulegur magnari er fullkomlega línulegur og hefur því "bjögun", sem er þó hverfandi tíðnisviði bestu magnaranna. Allir raunverulegir magnarar hafa "suð", sem er óreglulegt, veikt útmerki Y, þegar innmerki X er núll. Rafeindamagnari. Grundvallareiningar eru: "formagnari", "aflmagnara", "sía" og "aflgjafi". Eru flokkaðir í A, B, AB, C eða D, eftir þeirri aðferð sem notuð er við að magna merkið. Röntgengeislun. Röntgenmynd af hönd eiginkonu Röntgens. Röntgengeislun er jónandi rafsegulgeislun með bylgjulengd á bilinu 10 til 0,01 nanómetra. Nefnd eftir Wilhelm Conrad Röntgen sem fyrstur rannsakaði hana og uppgötvaði 8. nóvember árið 1895. Ljósmyndir teknar með röntgengeislum eru nefndar "röntgenmyndir" og eru mikið notaðar við sjúkdómsgreiningu. Á spítölunum sjá geislafræðingnar um röntgenmyndatökur. Raffræðilegur geislaskammtur er mældur í einingunni "röntgen" og táknuð með R og er sá geislaskammtur af röntgen- eða gammageislum sem myndar einingarskammt af já- og neikvæðum jónum í hverju kílógrammi af lofti. Doktorsritgerð. Doktorsritgerð er ítarleg lokaritgerð eða safn nokkurra ritgerða, sem samdar eru af doktorsnema undir handleiðslu prófessors og lagðar fram til doktorsprófs. Doktorsnemi ver loks ritgerð sína í svokallaðri doktorsvörn og hlýtur "doktorsnafnbót" að lokinni árangursríkri doktorsvörn. Saga doktorsritgerðarinnar á Íslandi. Björg Þorláksdóttir Blöndal varð þann 17. júní 1926 fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi er hún varði doktorsritgerð sína við Sorbonne-háskóla í París. Þann 16. janúar árið 1960 varði kona (Selma Jónsdóttir listfræðingur) doktorsritgerð sína í fyrsta skiptið á Íslandi við Háskóla Íslands. Íslenska Kristskirkjan. Íslenska Kristskirkjan er lútherskur fríkirkjusöfnuður, viðurkennt skráð trúfélag og veitir meðlimum sínum alla almenna kirkjulega þjónustu svo sem skírn, fermingu, hjónavígslur og útfarir. Söfnuðurinn á bakgrunn sinn í samtökunum Ungt fólk með hlutverk, sem störfuðu í 21 ár sem leikmnannahreyfing innan þjóðkirkjunnar. Íslenska Kristskirkjan var stofnuð 4. október 1997. Prestur safnaðarins er Friðrik Schram. Kenningargrundvöllur kirkjunnar er hinn sami og annarra lútherskra safnaða. Lögð er áherslu á endurlausnarverk Jesú Krists og þá fyrirgefningu sem fólki hlotnast fyrir trúna á hann og að allir menn verði að eignast lifandi trú. Lögð er áhersla á mikilvægi Biblíunnar sem heilagrar ritningar og að í henni birti (opinberi) Guð okkur syndugum mönnum vilja sinn og sýni okkur leiðina til hjálpræðis og helgunar í daglegu lífi. Við trúum því að Biblían sem innblásin af Heilögum anda og þannig einsök sem Orð Guðs og æðsta viðmiðun í öllu er varðar trú og breytni. Áhersla er lögð á verk Heilags anda og mikilvægi náðargjafa hans eins og þeim er lýst í Nýja testamentinu. Guðsþjónustur og samkomur. Frá 1. september til 30. maí eru guðsþjónustur á sunnudögum kl. 11:00. Þar er fræðsla fyrir börn og fullorðna. Börnunum er skipt í þrjá aldurshópa og fá þau fræðslu við sitt hæfi á meðan fullorðnir fá sína fræðslu. Einu sinni í mánuði er heilög kvöldmáltíð. Samkomur eru alla sunnudaga kl. 20:00, allt árið um kring, með léttri tónlist, fyrirbæn og lifandi predikun. Fyrirkomulag á guðsþjónustum og samkomum kirkjunnar er frjálslegra en fólk er yfirleitt vant í þjóðkirkjunni. Prestur okkar klæðist ekki hempu. En á hátíðum og við sérstakar athafnir og tækifæri svo sem heilaga kvöldmáltíð, skírn, fermingar, hjónavígslur og útfarir klæðist hann ölbu (hvítri skikkju) og stólu. Tónlistin í krikjunni er nútímaleg og fólk hvatt til að njóta þess sem fram fer, lofa Guð í einlægni og eins og því er eðlilegt, t.d. með því að standa upp undir lofgjörðinni. Ræður eru blátt áfram og lausar við skúrðmælgi og miða að því að fólk skilji boðskapinn og geti hagnýtt sér hann í daglegu lífi. Barna- og unglingastarf. Mikið er lagt upp úr góðri fræðslu og uppbyggingu fyrir börn og unglinga. UNIK er heiti á unglingastarfi Íslensku Kristskirkjunnar en öll föstudagskvöld eru samkomur fyrir ungt fólk í kirkjunni kl. 19:30. Unga fólkið hittist reglulega einu sinni í viku í heimahópum, þar sem þau eiga samfélag og uppfræðast um kristindóminn, lífið og tilveruna. Barnastarf kirkjunnar er mjög öflugt og ber heitið Lofgjörðarland, en á sunnudagsmorgnum er fræðsla við hæfi hvers aldurshóps, með leikjum, kennslu og gleði. Annað starf. Söfnuðurinn stendur fyrir ýmsum námskeiðum svo sem Alfanámskeiðum, hjónanámskeiðum, bænanámskeiðum og fleiri fræðslustundum. Einnig er veitt fjölskylduráðgjöf, sálgæsla og fyrirbænir. Fólki er gefinn kostur á að taka þátt í starfi heimahópa sem hittast reglulega í heimahúsum og eiga þar samfélag saman. Staðsetning Íslensku Kristskirkjunnar. Íslenska Kristskirkjan er til húsa að Fossaleyni 14 í Grafarvogi. Þar er kirkjusalurinn og skrifstofa safnaðarins, en hún er opin frá þriðjudegi til föstudags frá klukkan 13:00 til 17:00 Íslensk Ameríska. Íslensk Ameríska verslunarfélagið ehf. er íslensk heildsala sem var stofnuð 15. apríl 1960 af Bert Hanson. Íslensk Ameríska á nú Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna. Auk þess á fyrirtækið hluti í ýmsum fyrirtækjum, s.s. Öskju. Hjá Íslensk Ameríska og fyrirtækjum í eigu þess starfa nú um 400 manns og ársvelta nemur um 5400 milljónum. Alþjóða skáksambandið. Alþjóða skáksambandið (franska "Fédération Internationale des Échecs", skammstafað FIDE), er alþjóðlegt samband skáksambanda, setur alþjóðlegar skákreglur, reiknar og skráir skákstig skákmanna og skipuleggur heimsmeistarakeppni í skák. Stofnað í París í Frakklandi 24. júlí 1924. Forseti er "Kirsan Ilyumzhinov", sem jafnframt er forseti Kalmikyu, sjálfstjórnarhéraðs í Rússlandi. Bourgogne. Bourgogne (oftast Búrgund á íslensku en Búrgúndí er líking af enska heitinu) er eitt af 26 héruðum Frakklands. Það dregur nafn sitt af búrgundum en hluti þess er hið gamla hertogadæmi Búrgunda. Hið gamla greifadæmi Búrgunda er núna hluti af héraðinu Franche-Comté. Bourgogne er þannig stærra en hertogadæmið en minna en það svæði sem hertogarnir af Búrgund réðu yfir. Hundraðshöfðingi. Maður í búningi hundraðshöfðingja (með einkennandi fjaðraskúf á hjálminum) í sögusviðsetningu í Bourgogne, Frakklandi. Hundraðshöfðingi (latína: "centuriō"; gríska: εκατόνταρχος, "hekatontarkos") var herforingi í rómverska hernum eftir umbætur Maríusar árið 107 f.Kr. Þeir drógu heiti sitt af því að upphaflega var stærð sveitarinnar sem þeir stjórnuðu um hundrað menn, en eftir umbætur Maríusar töldu þær yfirleitt 80 menn. Þetta var minnsta eining í rómverskri herdeild. Innan herdeildarinnar höfðu hundraðshöfðingjarnir ólík ábyrgðarsvið. Flestir hundraðshöfðingjar komu úr röðum plebeia. Norður- og Austuramt. Norður- og Austuramt var íslenskt amt sem varð til 15. maí 1770 þegar Íslandi var skipt niður í tvö ömt. Suður- og Vesturamt og Norður- og Austuramt. Amtið var lagt af árið 1904 þegar Íslendingar fengu heimastjórn. Þjóðargrafreiturinn. Þjóðargrafreiturinn. Legsteinar Jónasar og Einars eru næst kirkjunni. Þann 16. nóvember 1946 voru svo bein Jónasar Hallgrímssonar grafin í reitnum að frumkvæði Þingvallanefndar og Jónasar frá Hriflu. Síðan þá hefur enginn verið grafinn í grafreitnum og hugmyndin um „þjóðargrafreit“ því í raun orðið að engu þótt ýmsir hafi orðið til þess að stinga upp á breyttri sýn á hlutverk grafreitsins. Hugsanlega hefur vandræðagangurinn í kringum Beinamálið og aðkoma Jónasar frá Hriflu orðið til þess að skapa honum visst óorð. Haustið 1959 ritaði Félag íslenskra myndlistarmanna Þingvallanefnd bréf þar sem lagt var til að höggmyndin "Víkingurinn" eftir Sigurjón Ólafsson yrði sett upp í grafreitnum til minningar um ónefnd skáld og höfunda fornsagnanna. Það var ekki gert. Í ágúst 2007 sýndi Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður, ljósmyndaverkið "Morgunn á Þingvöllum" á sýningu í Ketilshúsinu á Akureyri þar sem þrjár fyrirsætur sitja fyrir í bikiní á steininum yfir beinum Jónasar. Verkið vakti þó fyrst almenna athygli þegar það var notað sem mynd á plötuumslagi á breiðskífu Megasar og Senuþjófanna "Hold er mold". Eftir lát bandaríska skákmeistarans Bobby Fischer í janúar 2008 kom upp sú hugmynd hjá stuðningsmannahópi hans að hann yrði grafinn í Þjóðargrafreitnum. Í tengslum við þá umræðu skrifaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni „Frá því ég varð formaður Þingvallanefndar árið 1992 hefur ekki verið rætt, hvort taka eigi nýja gröf í þjóðargrafreitnum. Ríkir þegjandi samkomulag um, að grafreiturinn fái að hvíla í friði.“ Þórarinn Kr. Eldjárn. Þórarinn Kristjánsson Eldjárn (f. 26. maí 1886, d. 4. ágúst 1968) bóndi og hreppstjóri á Tjörn í Svarfaðardal. Hann var sonur séra Kristjáns Eldjárns Þórarinssonar prests á Tjörn og Petrínu Soffíu Hjörleifsdóttur. Þórarinn ólst upp á Tjörn en varð gagnfræðingur frá Akureyri 1905 og nam síðan við lýðháskólann á Voss í Noregi veturinn 1907-1908. Hann sótti kennananámskeið við Kennaraskóla Íslands 1909. Var síðan kennari og skólastjóri í Svarfaðardal 1909-1955. Hann tók við búi af föður sínum á Tjörn 1913 og bjó þar til 1959, síðustu árin í sambýli við Hjört son sinn, sem síðan tók við allri jörðinni. Kona hans var Sigrún Sigurhjartardóttir frá Urðum í Svarfaðardal (f. 2. ágúst 1888, d. 5. febrúar 1959). Í fulltrúaráði Samvinnutrygginga og Andvöku 1947-1960 Múspellsheimur. Múspellsheimur (eða Múspell) er í norrænni goðafræði hinn heiti frumheimur fyrir sunnan Ginnungagap. Múspellsheimur var suðurhluti eldheims, þar bjuggu eldjötnar, hinir svonefndu "múspells synir" (eða "múspells lýður"), sem eru samherjar Surts í Ragnarökum. Samkvæmt Snorra-Eddu var Múspellsheimur til löngu áður en jörðin var sköpuð, og var heimur ljóss og hita, gerður í suðurhelmingi Ginnungagaps. Leiðin þangað var vörðuð eldi og hana komst enginn nema sá sem var af þeim heimi. Þar sat jötuninn Surtur til landvarnar og hafði logandi sverð í hendi. Boulogne-sur-Mer. Palais de Justice í Boulogne-sur-Mer. Boulogne-sur-Mer er borg í norðurhluta Frakklands í umdæminu Pas-de-Calais. Íbúar eru um 45 þúsund en um 135 þúsund búa í borginni og næsta nágrenni. Upphaflega hét borgin "Bononia" (líkt og ítalska borgin Bologna) og fékk nafn sitt af keltneska orðinu "bona" sem merkir „byggð“ eða „bær“. Borgin var aðalhöfnin sem tengdi Bretland við meginlandið á tímum Rómaveldis. Hjartaáfall. Hjartaáfall eða hjartaslag er alvarlegt sjúkdómsástand hjartans, sem getur valdið dauða. Verður vegna þess að hjartavöðvi fær ekki nægjanlega mikið blóð og lýsir sér m.a. með brjóstverk, mæði og yfirliði. Helsta orsök hjartaáfalls er þrenging í kransæð (kransæðastífla) og er þá ósjaldan um blóðsega að ræða. Teygni. Teygni eða verðteygni er mælikvarði á það hvaða áhrif verðbreytingar á vöru eða þjónustu hafa á eftirspurn eftir henni. Teygni vara eða þjónustu er mismunandi. Almennt er talið að teygni nauðsynjavara sé lítil, þ.e. verðbreyting hefur lítil áhrif á eftispurn, en teygni vara sem almenningur getur frekar neitað sér um sé meiri. Þ.a.l. er teygni er sögð mikil ef lítil verðbreyting hefur mikil áhrif á eftirspurn. formula_1 Ef teygni er minni en 1 er hún sögð lítil, en ef hún er 1 eða hærri er hún sögð mikil. Dæmi. Verð á bensíni hjá Shell á Íslandi lækkar úr 124 kr á lítrann og í 123 kr á lítrann. formula_2 Þar sem bensín er flokað sem nauðsynjavara má álykta að eftirspurnin breytist ekki. formula_3 formula_4 Doktor. Doktor, skammstafað dr. eða Dr., er nafnbót, sem nemandi á háskólastigi hlýtur eftir að hann hefur lokið við og varið doktorsritgerð sína. Orðið "doktor" á einnig við þann, sem hlotið hefur doktorsnafnbót. Mosfell (Grímsnesi). Vegurinn upp að kirkjunni að Mosfelli í júní 2008 Mosfell er fell sunnan Apavatns og rétt norðan Skálholts. Sunnan undir Mosfellinu er kirkjustaðurinn Mosfell en þar bjó Ketilbjörn gamli sem nam Grímsnesið allt. Hann átti ógrynni silfurs. Synir hans vildu ekki hlíða skipunum karls, svo hann tók tvo uxa og létt þá draga silfrið upp á fjallið. Þar lét hann ambátt og þræl grafa silfrið og fela. Ketilbjörn drap svo þau bæði svo engin er til frásagnar um hvar silfrið mikla er að finna. Á Mosfelli er timburkirkja, Mosfellskirkja, sem var reist 1848. Hún er friðuð og á ýmsa góða gripi. Hlöðufell. Hlöðufell er rismikill móbergsstapi í Árnessýslu. Hlöðufell er norðan Laugarvatns og sunnan Langjökuls. Norðan í Hlöðufellinu er sísnævi. Toppurinn er hömrum girtur og víða ekki aðgengilegur. Suðvestan undir Hlöðufellinu eru Hlöðuvellir og þar er skáli Ferðafélags Íslands. Upp af húsinu er hamragil og þar um er ein af fáum gönguleiðum sem er fær á Hlöðufellið. Af Hlöðufellinu er mjög gott útsýni til allra átta. Austan við Hlöðufellið er hellirinn Jörundur en hann var friðlýstur 1985. Sunnan undir Hlöðufellinu er Rótarsandur og þar á Brúará upptök sín. Er það sérstök náttúrusmíð þar sem vatnið fossar út úr gljúfurveggjunum. Piltur og stúlka. Piltur og stúlka: dálítil frásaga var brautryðjendaskáldsaga eftir Jón Thoroddsen eldri. Hún er rómantísk og raunsönn saga sem gerist á 19. öld. Hún er oft talin fyrsta íslenska skáldsagan sem var gefin út á Íslandi, en kom hún út árið 1850. Leikrit. Afabarn Jóns Thoroddsens, tónskáldið Emil Thoroddsen færði þessa sögu í leikbúning og samdi tónlist við verkið (eins og lagið við Sortna þú ský). Listi yfir friðlýst svæði á Íslandi. Friðlýst svæði á Íslandi skiptast í þjóðgarða, friðlönd, náttúruvætti og fólkvanga. Friðlýst svæði á íslandi eru alls 96 talsins, og spanna 9.506 ferkílómetra. Heimild. Friðlýst svæði á Íslandi Almennt ár. Almennt ár er 365 daga almanaksár og því ekki hlaupár, í almennara skilningi er það ár án innskots. Spaði (verkfæri). Spaði er garðverkfæri sem svipar til skóflu sem ætlað er til að grafa upp og fjarlægja jarðveg. Mosfellskirkja (Grímsnesi). Mosfellskirkja er kirkja að Mosfelli í Grímsnes- og Grafninshreppi. Hún var byggð árið 1848 og endurvígð 15. júlí 1979 eftir endurbætur. Í kirkjunni er predikunarstóll eftir Ámunda Jónsson en ýmis listaverk í kirkjunni eru eftir Ófeig í Heiðarbæ. Útkirkjur voru í Miðdal, á Stóru-Borg, að Búrfelli og á Úlfljótsvatni. Skrúfa Arkímedesar. Skrúfa Arkímedesar er dæla, sem notuð er til að flytja vatn í áveituskurði. Þetta er ein af fjölmörgum uppfinningum, sem eignaðar eru Arkímedesi. Nútildags er skrúfa Arkímedesar venjulega nefnd "snigilskrúfa" þ.e.a.s. þegar þessi tækni er notuð í iðnaði. Snigilbor. Snigilbor er gormlaga bor notaður til að grafa upp fast efni eða vökva (sjá skrúfu Arkímedesar) Ólafur F. Magnússon. Ólafur Friðrik Magnússon (f. 3. ágúst 1952 á Akureyri) er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. Hann gegndi embættinu í 210 daga, frá 24. janúar til 21. ágúst 2008. Ólafur lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1978 og sérfræðinámi í heimilislækningum 1984 frá háskóla í Svíþjóð. Stjórnmálaferill. Ólafur starfaði í borgarstjórn í tvo áratugi, 1990-2010, fyrst sem varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en 1998 var hann kjörinn einn af aðalborgarfulltrúum flokksins. Árið 2001 urðu árekstrar á milli Ólafs og annarra flokksmanna í umhverfismálum en hann var andvígur virkjana- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi. Á landsfundi flokksins í október bar hann upp tillögu um að hætt yrði við framkvæmdir við Kárahnjúka og að tryggt yrði að orkuauðlindir lentu ekki í höndum einkaaðila. Tillagan hlaut mjög dræmar undirtektir og var Ólafur við þetta tækifæri kallaður „hryðjuverkamaður“. Í desember sagði hann sig úr Sjálfstæðisflokknum og sat út kjörtímabilið sem óháður borgarfulltrúi. Ólafur var kjörinn borgarfulltrúi af lista Frjálslyndra og óháðra (F-listanum) í sveitarstjórnarkosningum 2002 og aftur 2006. F-listinn hafði þá sérstöðu að vera alfarið á móti flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri. Eftir kosningarnar 2006 tóku við skammvinnar meirihlutaviðræður Ólafs við fyrrverandi samherja sína í Sjálfstæðisflokknum en þær báru ekki árangur.. Ólafur var í veikindaleyfi haustið 2007 þegar svokallað REI-mál kom upp og sprengdi þáverandi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðismanna. Fyrsti varamaður F-listans, Margrét Sverrisdóttir, myndaði þá nýjan meirihluta með Framsókn, Samfylkingu og Vinstri-grænum. Ólafur sneri aftur í desember og tók þá við embætti forseta borgarstjórnar af Margréti. Athygli vakti að hann var látinn skila læknisvottorði við endurkomuna enda sjaldgæft að þess sé krafist af kjörnum fulltrúum. Þann 21. janúar 2008 tilkynnti Ólafur ásamt borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að þeir hefðu náð saman um myndun nýs meirihluta. Ólafur sagði ástæðuna fyrir slitum gamla meirihlutans þá að F-listinn hefði átt erfitt með að koma sínum áherslumálum að í fjögurra flokka samstarfinu. Stefnumál hins nýja meirihluta eru m.a. að varðveita „19. aldar götumynd“ í miðborginni og festa flugvöllinn í sessi í aðalskipulagi og taka enga ákvörðun um flutning hans á kjörtímabilinu. Ólafur var kjörinn borgarstjóri á fundi borgarstjórnar 24. janúar 2008 við hávær mótmæli áhorfenda. Gera þurfti hlé á fundinum vegna látanna á meðan áhorfendapallar voru rýmdir.. Áætlað var að Ólafur yrði borgarstjóri þangað til 22. mars 2009 og að þá myndi Hanna Birna Kristjánsdóttir leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, taka við. Deilur milli aðila urðu til þess að sjálfstæðismenn slitu meirihlutasamstarfinu við Ólaf og F-listann 14. ágúst 2008, eftir 203 daga við völd. Við borgarstjórnarkosningarnar 2010 leiddi Ólafur H-lista, framboðs um heiðarleika. Það fékk 668 atkvæði eða um 1,1%. Hann náði því ekki endurkjöri. El Cid. Rodrigo (eða Ruy) Diaz de Vivar (um 1044 – 10. júlí 1099), kunnastur sem El Cid Campeador, var kastilískur aðalsmaður og pólitískur leiðtogi. Hann hóf þátttöku í endurheimt Spánar við hlið Sanchos 2. konungs Kastilíu og síðan Alfons 4. en sá síðarnefndi dæmdi hann í útlegð 1080 fyrir að hafa ráðist inn í Granada án leyfis. Hann gekk þá í þjónustu konungsins af Saragossa, Al-Mu'tamin. 1087 gekk hann aftur í þjónustu Alfons og og lagði síðar borgina Valensíu undir sig með her sem í voru bæði Márar og kristnir menn. Dóttursonur El Cid, García Ramírez, endurreisti konungsríkið Navarra árið 1134 og varð konungur þar. John og Lorena Bobbitt. John Wayne Bobbitt (fæddur 23. mars 1967) og Lorena Leonor Bobbitt (fædd Gallo 1970) voru hjón sem komust í fréttirnar árið 1993 vegna þess að Lerona hafði tekið sig til og skorið getnaðarliminn undan John Wayne með búrsaxi. Lystigarður. Lystigarður er almenningsgarður ætlaður til afþreyingar, oft staðsettur í eða við þéttbýli. Lystigarðar eru aðgreindir frá öðrum almenningsgörðum með því að þar er aðstaða til skemmtana, s.s. tónleikapallar, tónleikahús, leiktæki o.fl.. Dæmi um lystigarð á Íslandi er Hljómskálagarðurinn í Reykjavík. Samviðnám. Samviðnám er rafmótstaða í rafrás sem ber riðstraum. SI-mælieining er óm. Í riðstraumsrás er fasamunur á rafstraumi og -spennu eins og má sjá á sveiflusjá. Graf af straumi- og spennu sýnir að ferlar þeirra falla ekki saman eins og þeir munu gera ef rásin bæri jafnstraum. Á myndinni hér til hægri má sjá að sú efri er með strauminn örlítið á undan spennunni en sú neðri sýnir straum örlítið á eftir spennunni. þar sem formula_3 er spennuútslag (toppspenna), formula_4 er fasamunurinn og "j" þvertala. þar sem raunhlutinn er formula_6 er raunviðnám og þverhlutinn launviðnám formula_7. Fasamunurinn stýrist þannig í raun af launviðnáminu, sem er núll þegar um jafnstraum er að ræða. The New York Times. Forsíða "The New York Times" frá 29. ágúst 1914. "The New York Times" er dagblað gefið út í New York-borg í Bandaríkjunum og dreift um allan heim. Blaðið er í eigu The New York Times Company sem gefur út fimmtán önnur dagblöð, þar á meðal "International Herald Tribune" og "The Boston Globe". Blaðið er stærsta borgarblað Bandaríkjanna. Það var stofnað 18. september 1851 og hét þá "New-York Daily Times" en skipti yfir í núverandi nafn sex árum síðar. Span. Span eða sjálfspan er hlutfallið á milli segulflæðis og þess rafstraums sem myndar segulflæðið. Þegar straumur "I" er í lokaðri rafrás og fer í hringi (eins og í spanspólu) þá spanar straumurinn upp segulflæði formula_1 innan hringsins og spanið, táknað með "L" er þá SI-mælieining er henry, skammstöfuð, "H". Kókómjólk. Kókómjólk er íslenskur mjólkurdrykkur með kakóbragði framleiddur af mjólkursamsölunni. "Klói" er kötturinn utan á fernunum og slagorð hans er "þú færð kraft úr kókómjólk". Guernsey (nautgripakyn). Guernsey er nautgripakyn ættað frá eynni Guernsey á Ermarsundi. Kynið var ræktað til mjólkurframleiðslu og allir gripir eru rauðir og rauðskjöldóttir. Mjólk. Guernsey-mjólk er þekkt um heim allan. Hún inniheldur mikið af beta karóteni og er því gulari á litinn en önnur mjólk. Talið er að betakaróten í mjólk minnki líkur á sumum tegundum krabbamein. Fituhlutfall mjólkurinn er um 5% en hún inniheldur einnig mikið prótein, eða 3,7% að jafnaði. Meðal ársnyt Guernsey-kúa er um 6.000 lítrar á árskú. Uppruni. Eins og nafnið gefur til kynna var Guernsey ræktað á Ermarsundseynni Guernsey. Kynið er talið eiga ættir sínar að rekja til Frakklands, sérstaklega Isigny- og Froment du Léon-kynjanna. Guernsey var fyrst á skráð sem eigið kyn upp úr 1700 og árið 1789 voru sett lög sem bönnuðu innflutning annarra kynja en það var gert til að varðveita sérstöðu Guernsey. Þrátt fyrir þetta voru nokkrir gripir frá Alderney teknir inn í stofninn. Útflutningur á lífgripum og sæði var hluti af tekjum eyjaskeggja og á fyrri hluta 21. aldar voru stórar hjarðir fluttar til Bandaríkjanna. Í dag er kynið vel þekkt á Bretlands-eyjum, Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Stærð. Kýrin vegar um 450-500 kg á fæti, sem er nokkuð þyngra en Jersey-kýr gera. Nautin vega um 600-700 kg. Guernsey-kýr eru rómaðar í mjólkurframleiðslu meðal annars vegna þess hve mikið þær mjólka, vegna lágs hlutfalls burðarvandamála og endingar. Pelastikk. Pelastikk er einfaldur hnútur notaður til að mynda lykkju á endanum á reipi. Hengingarhnútur. Hengingarhnútur er rennihnútur þekktur fyrir notkun við hengingar. Francis Joyon. Francis Joyon (f. 28. maí 1956) er franskur siglingamaður sem á núverandi met í siglingu einmenningsbáts kringum hnöttinn. Metið setti hann með því að sigla á 100 feta þríbytnunni "IDEC II" umhverfis jörðina frá 23. nóvember 2007 til 20. janúar 2008 eða á 57 dögum, 13 klukkustundum, 34 mínútum og 6 sekúndum. Hann bætti þannig fyrra met Ellen MacArthur um þrettán daga. Joyon hafði áður sett metið (sem Ellen bætti) árið 2004 með 90 feta þríbytnunni "IDEC", en sú hringferð tók 72 daga og 22 tíma. Tenglar. Joyon, Francis Ellen MacArthur. Ellen MacArthur (f. 8. júlí 1976) er ensk siglingakona frá þorpinu Whatstandwell í Derbyshire. Hún er þekktust fyrir að hafa sett met í siglingu einsömul umhverfis jörðina 7. febrúar 2005 á 71 degi, 14 tímum, 18 mínútum og 33 sekúndum á 75 feta þríbytnunni "Castorama". Hún bætti þannig fyrra met Francis Joyon frá árinu áður um einn dag og átta og hálfan tíma. Joyon sló síðan met hennar aftur árið 2008. Ellen á núverandi heimsmet í siglingu einsömul yfir Atlantshafið frá austri til vesturs á kjölbát frá því hún sigldi "Kingfisher" frá Plymouth til Newport á Rhode Island á 14 dögum, 23 tímum og 11 mínútum. Hún á líka núverandi kvennamet í siglingu yfir Atlantshafið frá vestri til austurs með því að sigla "B&Q/Castorama" frá Ambrose Light í New York-flóa til Lizard Point í Cornwall á 7 dögum, 3 tímum og 50 mínútum. Tenglar. MacArthur, Ellen Siglingafélagið Ýmir. a>n Optimist. 10 bátar af þessari gerð eru í eigu félagsins. Siglingafélagið Ýmir er siglingafélag í Kópavogi með aðstöðu á Kársnesi. Það var stofnað 4. mars 1971. Það heldur reglulega siglinganámskeið og stendur fyrir keppnum. Saga. Eftir stjórnarkjör fóru fram umræður um framtíð og markmið félagsins. “Ákveðið var að koma saman á þriggja vikna fresti og hafa þá ýmislegt til skemmtunar.” Settur var á fót hugmyndabanki m.a., um nafn á hið nýstofnaða félag. Margt fleira var rætt og sett í hendur stjórnar til frekari vinnslu. Fundinum lauk síðan með að sýndar voru tvær kvikmyndir: önnur frá siglingaklúbbi við Garelock í Skotlandi og hin frá ferð Æskulýðsráða Kópavogs og Reykjavíkur 1967. Bátakostur félagsins var í upphafi: “Lánsbátur frá Æskulýðsráði, 1 seglbátur, og trillubátur sem hafði verið breytt í seglbát”. Fljótlega hófu félagsmenn smíði nýrra báta og voru fyrstu fjórir bátarnir af tegundinni “International Fireball” smíðaðir veturinn 1971-72 og voru þeir teknir í notkun þá um sumarið. Eitt af verkum fyrstu stjórnar var að setja félaginu lög. Fyrstu lög félagsins voru því samþykkt 1972 og fólu þau í sér markmið og hvernig skyldi unnið að framgangi þeirra. Aðal markmið félagsins var skilgreint svo í 2. grein: “Markmið félagsins er að starfa að siglingum sem íþrótt”. Hvernig þessu markmiði skyldi náð er lýst í 3. grein: “Markmiði sínu hyggst félagið ná með því að veita félögum þess aðstöðu til smíða á bátum og geymslu á þeim. Einnig skal félagið beita sér fyriri bættri siglingaaðstöðu”. Félagið eignaðist fljótlega eftir stofnun þess skemmu og fékk leyfi til að setja hana niður við hliðina á Kópaneshúsinu við Vesturvör þar sem Æskulýðsráð Kópavogs rak siglingastarfsemi sína. Þessi skemma var notuð undir smíðar og sem báta- og mastursgeymsla næstu 30 árin. Þó skemman væri ekki glæsileg nýttist hún félögum Ýmis vel. Þar sinntu félagar viðhaldi á bátum sínum og á árunum 1974-76 var smíðaður þar 25 feta kjölbátur sem hlaut nafnið “Skýjaborg”, nafngift sem kanski var lýsandi dæmi um hugmyndir manna og viðhorf til siglingaíþróttarinnar á upphafsárum hennar. Auk þess að skapa félagsmönnum aðstöðu til smíða og geymslu á bátum sínum vann félagið jafnframt að framgangi siglinga sem viðurkendrar íþróttagreinar. Það gerði félagið með því að gerast aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings, UMSK og þar með löglegur aðili að stofnun Siglingasmanbands Ísland, SÍL sem stofnað var 25. október 1973, og var það 15 sérsamband ÍSÍ. Félagar Ýmis hafa allar götur síðan verið virkir þátttakendur í starfi og stefnumótun SÍL. Á 5. ára afmæli félagsins 1976 hefur félögum fjölgað úr 14 í 76, bátum félagsmanna fjölgað og þeir stækkað með tilkomu kjölbáta. Í fréttatilkynningu segir svo: “Félagsmenn eiga báta sína sjálfir og eru nú á vegum félagsins eftirtaldir bátar: 1 Cresent, 2 Flipper og 8 Fireball seglbátar. 2 25 feta Quarter Tonner, 1 27 feta Vega og 1 38 feta Ohlson”. 1977 hófst bygging á félagsaðstöðu Ýmis. Leyfi fékkst til að staðsetja húsið til bráðabirgða fyrir ofan skemmuna. Bygging hússins tók mörg ár enda fjármagn af skornum skammti og húsið alfarið byggt í sjálfboðavinnu. Húsið var tekið almenna notkun 1986. Upphaflega var gert ráð fyrir sturtuaðstöðu en þegar sturtu- og búningsaðstaða fékkst í húsi Kópaness var hætt við þá fyrirætlun og húsið nýtt til funda og kennslu. Mikill uppgangur var á þessum upphafsárum og fjölgaði þátttakendum og bátum ört. Kænum fjölgaði ört og tegundaflóran varð fjölbreyttari. Optimist, Topper og Mirror fyrir yngri hópinn, Laser, Wayfarer, 470, 505, Finn og Star fyrir þá eldri. Einnig voru flutt inn mót og smíðaðir voru nokkrir Micro 18, PB63 og Tur 84 kjölbátar auk þess sem siglingar á seglbrettum bættust við. Þessi fjölgun báta kallaði á bætta aðstöðu og lögðust félagsmenn á eitt við að bæta hana. Kjölbátamenn fengu leyfi fyrir og byggðu bryggjustúf með landgangi og flotbryggju, skipulögðu og lögðu út legufæri, lýsing á svæðinu var bætt og kænumenn byggðu stoðvegg á milli SVK og skemmunnar. Þá hófu kjölbátamenn einnig að halda reglulega fræðslu og skemmtifundi mánaðarlega yfir vetrartímann. Það starf vatt upp á sig og úr varð að 1982 var stofnað Kjölbátasmband Íslands, KBÍ. Á sama tíma tóku nokkrir siglingamenn sig til og gáfu út fræðsluritið “Regluboðinn”, en eins og nafnið gaf til kynna var meginefnið umfjöllun um kappsiglingareglur og skýringar á þeim en einnig flutu með greinar um tækni og stillingar á seglum og reiða. “Fyrsta alvörusiglingakeppnin hér á landi fór fram á Fossvoginum um helgina”. Svona hljóðaði frétt í “Dagblaðinu” að afloknu Íslandsmeistaramóti á Fireball og Flipper helgina 21–22 ágúst 1976. Hvort það var satt og rétt skal látið liggja milli hluta, en víst er að mikil gróska var að hefjast í íþróttaiðkun siglingamanna. Farið var að halda reglulegar kjölbátakeppnir og í mörg ár var fimmtudagskeppni fastur liður hjá kænumönnum auk annarra móta. Til að sinna keppnisstjórn og öryggisgæslu festi Ýmir kaup á 17 feta Avon harðbotna slöngubáti 1980. Félagið fékk styrki til kaupanna meðal annars frá Dómsmálaráðuneytinu og SÍL. Skilyrði ráðuneytisins var að lögreglan hefði aðgang að bátnum, en framlag SÍL var til útbreiðslu og sem leiga vegna notkunar starfsmanns sambandsins sem í nokkur sumur sá um keppnisstjórn. Mikil þátttaka var og Skerjafjörðurinn iðulega þakinn seglum. Félagar Ýmis voru iðnir við kolann og tíðir gestir á verðlaunapalli bæði á kænum, og kjölbáum sem og brettum. Einnig hafa félagsmenn tekið þátt í fjölda erlendra móta meðal annars tvennum Ólympíuleikum. Félagsmenn hafa einnig hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir íþróttaiðkun. Eftir því sem tíminn leið, iðkendum fjölgaði og bátar stækkuðu varð krafan um bætta aðstöðu sífellt háværari. Krafan um höfn með flotbryggjum, rýmra uppsátur auk aðstöðu til viðhalds og viðgerða stærri báta Kynnti félagið meðal annars hugmyndir Gunnlaugs Jónassonar sem gert hafði teikningar og líkan að höfn og aðstöðu fyrir Ými auk bryggjuhúsa. Þess má til gamans geta að þessi bryggjuhús voru nánast eins og þau sem nú standa við Hafnarbraut ofan Kópavogshafnar. Því miður töluðu félagsmenn fyrir daufum eyrum bæjaryfirvalda og þvi var það að þegar flotbryggja var tekin í notkun í Reykjavíkurhöfn 1989 leystu flestir kjölbátar landfestar og sigldu á brott. Þetta var mikil blóðtaka fyrir félagið, því þó flestir hafi haldið tryggð við félagið og keppt fyrir þess hönd næstu árin þá fækkaði þeim og sá kraftur sem hafði einkennt félagsstarfið dvínaði. Til að halda starfseminni gangandi tók Ýmir við rekstri Kópaness og vildi með því stuðla að viðgangi íþróttarinnar í Kópavogi. Sú starfsemi gekk ágætlega til að byrja með en sífelt dró úr fjárframlögum og að endingu varð félagið að gefa þessa starfsemi frá sér. Félagið keypti um svipað leyti tvo 26 feta kjölbáta af Secret 26 gerð. Var tilgangurinn sá að laða kjölbátaáhugamenn að félaginu, stunda kennslu og þjálfun og einnig átti að nota bátana við tvíliðamót. Þetta starf gekk vel í upphafi og lögðu margir félagsmenn á sig mikla sjálfboðavinnu. Aðstöðuleysi og fámenni varð þó til þess að draga kraftinn úr starfinu smátt og smátt þó bátarnir væru notaðir áfram af félögum og við barnastarf. 1997 var sett á fót aðstöðunefnd sem falið var það hlutverk að kanna skilgreina og vinna að markvissri áætlun um framtíðaraðstöðu Siglingafélagsins Ýmis. Hlutverk nefndarinnar breytist síðan og verður hún í frammhaldinu að byggingarnefnd. Það verður sjálfsagt ekki á neinn hallað að halda því fram að potturinn og pannan í því starfi sem hér var sett af stað og það sem á eftir fylgdi var Margrét Björnsdóttir. Það var svo árið 2000 að hugmynd kviknaði að byggingu hafnarhverfis með aðstöðu fyrir Siglingafélagið Ými við Fossvog. Hugmyndinni var komið á framfæri við Byggingarfélag Gunnars og Gylfa sem tóku henni vel og ásamt Björgun í samstarfi við Björn Ólafs arkitekt hófust handa við undirbúning og kynningu hugmyndarinnar. Fékk hún samþykki bæjarstjórnar og var hafist handa við uppfyllinguna. Vegna framkvæmda var öll starfsemi í lausu lofti og staðan 2006 erfið. Því var gripið til þess ráðs að færa félagsheimilið út í Kópavoghöfn og halda starfinu þar áfram á meðan á framkvæmdum stæði. Samstarf byggingarnefndar og arkitekts hófst 2007 þar sem farið var yfir þau atriði sem vörðuðu þarfir Ýmis. Þegar niðurstaða lá fyrir og hönnun lauk var ekki eftir neinu að bíða með að hefja framkvæmdir. Fyrsta skóflustungan að nýrri aðstöðu Ýmis var tekin 6. júní 2008. Unnið var að byggingu húss og frágangi á lóð næsta árið. Gamla félagsheimilið var selt 2009 og svo var það stóra stundin. 25. júlí 2009 sigldu kjölbátar inn Skerjafjörðinn þöndum seglum í siglingakeppni, gesti dreif að og við hátíðlega athöfn fór fram formleg afhending nýrrar og glæsilegrar aðstöðu. Langþráður draumur var orðinn að veruleika, Siglingafélagið Ýmir hafði fengið fast aðsetur að Naustavör 20. Tenglar. Siglingafélög Snarfari. Snarfari, félag sportbátaeigenda í Reykjavík er siglingafélag í Reykjavík með aðstöðu í Elliðavogi. Það var stofnað 18. september 1975. Tenglar. Siglingafélög Siglingaklúbburinn Þytur. Siglingaklúbburinn Þytur er siglingafélag í Hafnarfirði með aðstöðu í Hafnarfjarðarhöfn. Félagið var stofnað 19. apríl 1975 af nokkrum hafnfirskum áhugamönnum um siglingar og er í eigu félagsmanna klúbbsins. Saga. Aðdragandinn að stofnun klúbbsins var sá að árið 1971 hafði sjóskátaklúbbur á vegum skátafélagsins Hraunbúa tekið til starfa, auk þess sem æskulýðsráð Hafnarfjarðar hleypti af stokkunum siglingaklúbbi fyrir unglinga á sama tíma. Þessir klúbbar störfuðu áfram og urðu síðan uppistaðan í Siglingaklúbbnum Þyt, sem er alhliða siglingaklúbbur fyrir alla aldurshópa. Fyrsta sumarið fór starfsemin fram í Hafnafjarðarhöfn, við slæmar aðstæður, en að ósk bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Garðabæ var síðan komið upp sameiginlegri aðstöðu fyrir Þyt og Siglingaklúbbinn Vog í Garðabæ, í Arnarvogi. Fyrstu árin snerist starfsemin að mestu um framkvæmdir í Arnarvogi og lögðu klúbbfélagar fram mikla vinnu við bátasmíðar og viðgerðir á bátum. Þau sumur sem klúbburinn starfaði í Arnarvogi var haldið uppi öflugu barnastarfi bæði fyrir félagsmenn og æskulýðshópa frá vinnuskólum og íþróttanámskeiðum bæjanna. Einnig var efnt til siglingasýninga og tóku klúbbfélagar einnig þátt í ýmsum mótum. Árið 1979 hafði dofnað mjög yfir áhuga Hafnfirðinga á að stunda siglingar á Arnarvogi og samþykkti stjórn Þyts þá um haustið að segja upp samstarfssamningnum við Vog og óska eftir að eignum klúbbanna yrði skipt. Eftir að eignaskiptin höfðu farið fram vorið 1980 flutti Þytur starfsemi sína til Hafnarfjarðar, í hús hafnarstjórnar við Óseyrarbraut, þar sem reist var 480 fermetra girðing við sjóinn og hófst starfsemin þar í júní 1980. Mikið líf færðist nú í starfsemi klúbbsins og fjölgaði félagsmönnum til muna. Þarna starfaði klúbburinn svo næstu árin þar til hann varð að víkja vegna hafnarframkvæmda, en fékk enga aðstöðu í staðinn. Aðstöðuleysið var aljört í nokkur ár og reyndu félagar eftir megni að nýta sér erfiðar aðstæður í smábátahöfninni til siglinga. Á 20 ára afmæli félagsins árið 1995 fékk félagið vilyrði frá bæjaryfirvöldum um lóð sunnan við Drafnarslipp og hófust framkvæmdir þar vorið 1998. Þar var byggt um 350 fermetra húsnæði, sem er bæði bátaskýli og félagsaðstaða, auk þess sem gert er ráð fyrir bryggju og uppsátri í höfninni í tengslum við húsnæðið. Húsið var tekið í notkun árið 1999, en er ekki fullbúið. Rekstur húsnæðis er í höndum Þyts, með rekstrarsaming við Hafnarfjarðarbæ. Tenglar. Siglingafélög Nökkvi (félag). Nökkvi - Félag siglingarmanna á Akureyri er siglingafélag á Akureyri. Það var stofnað 11. september 1963 og hét þá "Sjóferðafélag Akureyrar". Tenglar. Siglingafélög Áttuhnútur. Áttuhnútur eða flæmskur hnútur er hnútur sem er mikilvægur bæði í siglingum og klettaklifri. Kjölbátasamband Íslands. Kjölbátasamband Íslands er félag eigenda seglskúta á Íslandi. Það var stofnað árið 1982 til að sinna hagsmunamálum kjölbátaeigenda og vinna að útbreiðslu siglingaíþróttarinnar. Félagið hefur haldið reglulega fræðslufundi um ýmis mál er varða siglingar á seglskútum og staðið fyrir Ljósanæturkeppninni frá 2006 en þá er siglt frá Reykjavík til Reykjanesbæjar daginn fyrir Ljósanótt. Tenglar. Siglingafélög Siglingasamband Íslands. Siglingasamband Íslands (skammstafað SÍL) er samband siglingafélaga á Íslandi stofnað 25. október árið 1973 af siglingafélögunum í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Sambandið er aðili að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Alþjóða siglingasambandinu, Alþjóða kajaksambandinu og Alþjóða róðrasambandinu. Sambandið hefur yfirumsjón með landsmótum í siglingum, sem eru um tólf talsins á hverju ári, eftirlit með reglum um mótahald og keppnisreglum og útvegun forgjafar fyrir blandaðar siglingakeppnir. Siglingasambandið heldur árlegt siglingaþing þar sem fulltrúar félaganna koma saman og ákveða reglur um mót og stigagjöf, mótaskrá næsta sumars o.fl. Heimildir. Siglingafélög Alþjóða siglingasambandið. Alþjóða siglingasambandið (enska: "International Sailing Federation" - skammstafað "ISAF") er æðsta yfirvald í siglingaíþróttum, einkum keppnum á jullum, kjölbátum, seglbrettum og keppnum með fjarstýrðum seglbátum. Aðilar að sambandinu eru siglingasambönd hinna ýmsu landa. Sambandið var stofnað árið 1996 upp úr Alþjóða kappsiglingasambandinu. Það stendur fyrir keppnum í siglingum á Sumarólympíuleikunum og Heimsmeistaramót Alþjóða siglingasambandsins á fjögurra ára fresti (það fyrsta var haldið árið 2003). Þríbytna. Þríbytna er skip með skrokk í miðju og tvö flotholt á útleggjurum sem styðja við hann sitt hvorum megin. Hönnunin er byggð á pólýnesískum kanóum. Miðað við hefðbundin seglskip ristir þríbytnan grynnra, ryður minna frá sér og getur borið stærri segl vegna aukins stöðugleika. Algengara er að þríbytnur stingist á endann en að þær fari á hliðina. Þríbytna getur því siglt í grynnra vatni og meiri vindi en hefðbundin skúta. Á móti kemur að þríbytnur eru óþjálli í vendingum. Kjölfesta. Kjölfesta eða ballest er notuð í skipum til að skapa mótvægi við hliðarátakið sem kemur á skipsskrokkinn. Ef ónóg kjölfesta er í skipinu hættir því til að halla svo hætta er á að því hvolfi. Kjölfestan er yfirleitt úr ódýrum efnum, steinum, múrsteinum eða stálblokkum, sem eru fjarlægð þegar skipið er fermt. Í nútímaflutningaskipum eru kjölfestutankar fylltir með vatni til að skapa kjölfestu. Sígildar sögur með myndum. Sígildar sögur með myndum (en oftast stytt í Sígildar sögur) voru myndasögutímarit byggðar á hinum ýmsu heimsbókmenntum Vesturlanda. Einnig voru aðrar frægar sögur gefnar út með sama hætti. Nokkur tölublöð úr ritröðinni voru þýdd á íslensku. Fyrst voru gefin út 26 tölublöð árið 1956-1957, síðan 23 tölublöð á árunum 1987-1989. Ritröðin hófst árið 1941 hjá útgefandanum Elliot Publishing. Sögurnar hafa síðan verið gefnar út hjá ýmsum útgáfufyrirtækjum. Fyrirtækið First Comics gaf þær út í byrjun tíunda áratugarins, Jack Lake Productions árið 2003 og síðast Papercutz árið 2007. Brynjulf Bergslien. Myndhöggvarinn Brynjulf Bergslien (1830-1898) bjó til styttur af fjölda þekktra samtímamanna hans. Brynjulf Larsen Bergslien (11. nóvember 1830 í Voss, 18. september 1898) var norskur myndhöggvari og bróðir málarans Knut Bergslien. Þekktasta verk Brynjulf Bergslien er styttan af Karli Jóhanni við Hallargarðinn í Osló. Fleiri styttur eftir hann prýða höfuðborg Noregs, m.a. styttur af ljóðskáldinu Henrik Wergeland í Studenterlunden-garðinum, leikaranum Johannes Brun við Bankplassen og Peter Chr. Asbjørnsen við St. Hanshaugen-garðinum. Meðal nemenda Bergslien voru myndhöggvararnir Wilhelm Robert Rasmussen (1879-1965) og Gustav Vigeland (1869-1943). Hann var jarðsettur í Vår Frelsers Gravlund í Osló. Árið 1901 var gata í Homansbyen-hverfinu í Osló skírð eftir honum, Bergsliens gate. Brynjulf þekkti Jón Sigurðsson og gerði brjóstmynd af honum. Listi yfir leiki barna. Fornir eða horfnir spilaleikir. Barnaleikir Barnaleikir Höfrungahlaup. Höfrungahlaup er leikur sem fer þannig fram að tveir eða fleiri standa hálfbognir, og sá aftasti stekkur yfir þá hverjum á fætur öðrum. Hann leggur báða lófa á bak þess sem er fyrir framan hann og stekkur yfir (með fæturna útglennta) og þannig koll af kolli þar til hann er fremstur. Þá hallar hann sig fram og beygir sig í hnjánum og sá sem er aftastur tekur sig til og stekkur yfir alla sem taka þátt og þannig koll af kolli. Gleðiganga. Gleðiganga (eða Gay pride ganga) er árleg skrúðganga sem fer fram sem hluti af Gay pride hreyfingunni í borgum víðsvegar um heim, þó ekki á sama tíma. Hún fer t.d. fram sem hluti af Hinsegin dögum í Reykjavík. Gay Pride skrúðgangan hefur stundum verið nefnd Hýra halarófan í hálfkæringi. Vatnspelastikk. Vatnspelastikk (enska: water bowline) er lykkjuhnútur sem ætlaður er til notkunar við blautar aðstæður þar sem aðrir hnútar kunna að renna eða festast. Hann er afbrigði af pelastikki og hnýttur eins fyrir utan byrjunarlykkjuna. Fallin spýta. Fallin spýta er leikur barna sem fer þannig fram að einn úr hópnum er valinn til að bíða hjá spýtu sem er stillt upp við vegg eða eitthvað annað. Hann byrjar á því að telja upp að tuttugu. Allir aðrir þátttakendur hlaupa í burtu og fela sig. Markmiðið er að finna alla sem földu sig. Ef hann sér einhvern, hleypur hann að spýtunni og kallar "fallin spýta fyrir Jóni/Gunnu, einn, tveir, þrír" og er þá viðkomandi úr leik. Þeir sem földu sig reyna aftur á móti að komast að spýtunni á undan þeim sem leitar og ef einhverjum tekst það kastar hann spýtunni upp í loftið og kallar: "fallin spýta fyrir öllum" og með því frelsar hann alla. Hnútur. Hnútur er aðferð til að festa eða tryggja línulaga efni, t.d. reipi eða spotta með því að flétta það saman eftir ákveðnu mynstri. Óshlíðarvegur. Óshlíðarvegur er vegur á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, sem er oft varasamur í hálku eða á vetrum. Sífelld hætta er á grjóthruni allan ársins hring og á vetrum geta fallið þar snjóflóð. Óshlíðarvegur var opnaður 1949 og fyrstu bifreið um veginn keyrði Sigurður Bjarnason alþingismaður en farþegar hans voru Hannibal Valdimarsson og Einar Guðfinnsson meðal annarra. Óshlíðarvegur var einn af Ó-vegum á Íslandi. Óshlíðarvegur hefur nú verið aflagður og vegatenging milli Hnífsdals og Bolungarvíkur er í gegnum Óshlíðargöng. Félag íslenskra rafvirkja. Félag íslenskra rafvirkja er stéttarfélag rafvirkja, rafvélavirkja og rafveituvirkja. Félagið er stærsta aðildarfélag Rafiðnaðarsambands Íslands, með 1.700 félagsmenn. Félagið var stofnað 4. júní 1926. Það var við stofnun stéttarfélag rafvirkja í Reykjavík og hét Rafmagnsvirkjafélag Reykjavíkur. Hallgrímur Bachmann ljósameistari Leikfélags Reykjavíkur var fyrsti formaður félagsins. Á aðalfundi félagsins 1943 er nafni félagsins breytt í Félag íslenskra rafvirkja (FÍR), þar sem félagssvæði þess var orðið landið allt. FÍR var aðalstofnaðili Rafiðnaðarsambands Íslands. Guðmundur Gunnarsson. Guðmundur Gunnarsson (f. í Reykjavík 29. október 1945) er fyrrverandi formaður Rafiðnsamband Íslands (RSÍ) Foreldrar Guðmundar eru Gunnar Guðmundsson rafvirkjameistari og Hallfríður Guðmundsdóttir. Guðmundur tók sveinspróf í rafvirkjun 1966. Hann brautskráðist sem rafiðnfræðingur frá Tækniskóla Íslands 1969. Guðmundur hóf kennslu við Kennaraháskóla Íslands 1978 og var formaður Rafiðnaðarsambands Íslands frá 1993. Hann var varaborgarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1994 – 1998, miðstjórnarmaður í Alþýðusambandi Íslands frá 1994 og formaður í Norræna rafiðnaðarsambandinu 1994 – 1996 og 2004 – 2006. Guðmundur hefur samið fjölda kennslubóka fyrir rafiðnaðarmenn í stýringum auk margs konar annarra ritstarfa. Hann er faðir Bjarkar Guðmundsdóttur tónlistarmanns. Sólarkross. thumb Sólarkross er jafnarma kross sem er inn í miðjum hring og er með elstu krossum sem til eru. Finna má ýmsar útgáfur af honum allt frá nýsteinöld. Mígreni. Mígreni (dregið af gríska orðinu "hemicrania" sem merkir „hálft höfuðið“) er sérstök tegund höfuðverkja sem hrjáir allt að 5% fólks og er algengari hjá konum en körlum. Verkjaköstin byrja yfirleitt í æsku eða á yngri árum en sjaldan eftir 35 ára aldur. Lýsing. Mígreni er skilgreint sem verkjaköst er standa venjulega yfir í 6-24 klst. Þeim fylgir oft ljósfælni og auk þess fá flestir ógleði og uppköst. Ýmislegt í daglegu lífi getur stuðlað að mígrenikasti og að sama skapi er hægt að draga úr tíðni með viðeigandi ráðstöfunum. Hins vegar er margt á huldu um orsakir mígrenis þó að líklegast sé að sjúkdómurinn tengist bæði truflunum í starfi slagæða og tauga í höfðinu. Lyfjameðferð skilar oft nokkrum árangri. Ýmislegt getur stuðlað að mígrenikasti og má þar nefna þreytu, áfengi, tíðablæðingar og hungur. Hjá sumum einstaklingum virðist óþol fyrir vissum fæðutegundum geta framkallað mígrenikast og er þá oftast nefnt súkkulaði, ostur, skelfiskur, rauðvín, kúamjólk og hveiti. Margir geta fækkað köstum og gert þau vægari með því að stunda heilbrigt líferni, læra af reynslunni og forðast það sem framkallar köst eða gerir þau verri. Mjög margir þurfa kröftugri meðferð og þá er hægt að grípa til sérstakra mígrenilyfja sem innihalda ergotamín (til dæmis lyfið Cafergot) eða súmatriptan (lyfið Imigran). Ergotamín hefur verið notað áratugum saman en súmatriptan einungis í fáein ár. Bæði þessi lyf verka svipað og taugaboðefnið serótónín, þau draga saman æðar og getur það haft í för með sér ýmis konar aukaverkanir. Súmatriptan hefur þó oftast færri og vægari aukaverkanir en ergotamín. Ekki er þó ástæða fyrir þá sem nota ergotamín með góðum árangri og án aukaverkana að skipta yfir á súmatriptan, sem þar að auki er margfalt dýrara lyf. Á undan mígrenikasti fá sumir foreinkenni, stundum nefnd „ára“, sem oftast eru á formi sjóntruflana. Þessi foreinkenni standa venjulega yfir í 5-30 mínútur. Verkurinn er um allt höfuðið eða bara öðru megin og hjá sama einstaklingi getur hann færst til eða verið alltaf sömu megin. Verkurinn er yfirleitt mjög sár, stöðugur eða með æðaslætti, og gerir sjúklinginn ófæran til vinnu. Flestir þeir sem haldnir eru mígreni fá kast sjaldnar en einu sinni í mánuði. Oftast er fullnægjandi fyrir þessa sjúklinga að grípa til venjulegra verkjalyfja eða sérstakra mígrenilyfja þegar þeir fá kast eða finna að verkjakast er í aðsigi. Mikilvægt er að taka lyfin eins fljótt og kostur er og það hjálpar einnig mörgum ef þeir geta lagst útaf í myrkvuðu herbergi. Venjuleg verkjalyf sem fást án lyfseðils eru ýmis lyf sem innihalda acetýlsalisýlsýru, paracetamól eða íbúprófen og best er ef slík lyf duga. Fólk með mígreni er tveimur til þremur sinnum líklegra til að fá heilablóðfall en þeir sem þjást ekki af kvillanum. Tíðni. Mígreni er algengur sjúkdómur sem mun snerta 12-28 % fólks á einhverjum tíma á lífsleiðinni. Orsakir. Orsakir mígrenis eru ekki enn þekktar að fullu. Flest bendir þó til að um sé að ræða truflun á starfsemi slagæða sem liggja til heila og heilahimna. Við foreinkenni verður þrenging á þessum æðum en síðan mikil útvíkkun með auknu blóðrennsli og þá kemur verkurinn. Nýlegar rannsóknir hafa þó leitt í ljós að þetta er ekki alveg svona einfalt, heldur er einnig um að ræða truflun á taugastarfsemi. Augu manna hafa beinst að taugaboðefninu serótóníni (einnig nefnt 5-hýdroxýtrýptamín eða 5-HT) en sum þeirra lyfja sem gagnast best við mígrenikasti hafa svipuð áhrif í líkamanum og serótónín. Enn vantar þó mikið á að við skiljum þetta nógu vel. Ljóst er að erfðir leika stórt hlutverk í þessum sjúkdómi. Hafa rannsóknir á tvíburum gefið til kynna að 60 - 70 % ábyrgðarinnar megi leggja á þær. Mígreni getur verið vegna þess að líkaminn framleiðir ekki nóg af vissum efnavökum eða hormónum. Hjarðkvæði. "Hjarðkvæði" (á latínu "Bucolica", einnig þekkt sem "Eclogae") er fyrsta ljóðabók rómverska skáldsins Virgils. Kvæðin voru samin á árunum 42-39 f.Kr. Í bókinni eru alls tíu kvæði og eru samtals 829 ljóðlínur undir sexliðahætti. "Hjarðkvæðin" eru sveitasælukveðskapur að hætti gríska skáldsins Þeókrítosar. Búnaðarbálkur. "Búnaðarbálkur" (Latína: "Georgica") er kvæði í fjórum bókum eftir rómverska skáldið Virgil, sem samið var á árunum 37-29 f.Kr. Að forminu til er kvæðið fræðslukvæði um sveitalífið og sækir að því leyti innblástur til Hesíódosar, Aratosar, Níkandrosar, Lucretiusar og fleiri skálda. Alls er kvæðið 2188 ljóðlínur undir sexliðahætti. Fyrstu tvær bækurnar fjalla einkum um akuryrkju, þriðja bók um nautgriparækt og annan búfénað og fjórða bók um býflugnabúskap. Fræðimenn eru ekki á einu máli um túlkun kvæðisins en flestir eru sammála um að kvæðið fjalli að verulegu leyti um mannlegt samfélag, ekki síst sá hluti fjórðu bókar sem lýsir samfélagi býflugnanna. Í kvæðinu eru nokkrar tilvísanir til Octavíanusar Ágústusar en kvæðið er tileinkað Maecenasi, vini Ágústusar og stuðningsmanni Virgils. Virgill og Maecenas eru sagðir hafa lesið kvæðið fyrir Ágústus er hann lá veikur sumarið 29 f.Kr. „"Tíminn flýgur"“ (latína: „tempus fugit“) kemur fyrst fyrir í 284. erindi þriðju bókar Búnaðarbálks, en orðrétt stóð þar: "Sed fugit interea fugit irreparabile tempus", sem mætti þýða sem „en hann flýr á meðan, óbætanlegur tíminn flýr“. Ljósbogi. Ljósbogi (eða rafbogi) er rafgas, sem myndast í lofti milli tveggja rafskauta, þegar rafspennan er nægjanlega há til þes að loftið milli skautanna verður leiðandi. Þá flytjast jónir milli skautanna og loftið hitnar það mikið að það lýsir. Ljósbogi er m.a. notaður við rafsuðu, en var einnig áður notaður við sendingu loftskeyta. Klaufaveiki. Klaufaveiki (eða fætla) er helti í nautgripum vegna bólgu í klaufum. Klaufaveiki er algengt nafn á klaufabólgu í nautgripum og sauðfé, án tillits til þess, hvar bólgan er í klaufunum, eða af hverju hún stafar. Klaufaveiki í þessari merkingu er þó ofast haft um það þegar húðin milli klaufanna og í klaufhvarfinu sýkist af afrifum og sárum, sem bólga hleypur í og veldur því að nautgripurinn haltrar. En sú klaufaveiki sem venjulega er nefnd fullu nafni Gin- og klaufaveiki er annar sjúkdómur og öllu alvarlegri. Zíonismi. Zíonismi (einnig ritað síonismi) er stefna í stjórnmálum, sem telur að gyðingar eigi rétt á eigin landi, "Fyrirheitna landinu". Stefnan er afbrigði þjóðernishyggju og á sér djúpar rætur í gyðingdómi. Zíonisma óx fiskur um hrygg eftir útkomu bókar ungverska blaðamannnsins Theodor Herzl, "Gyðingaríkið", árið 1896. Eftir stofnun Ísraelsríks 1948 hafa fylgjendur stefnunnar stutt ríkið. Fylgjendur stefnunnar eru andvígir því að gyðingar samlagist öðrum þjóðum og telja að gyðingar um víða veröld eigi að snúa til Ísrael til að komast undan mismunun vegna gyðingahaturs. Árið 1903 kom út í Rússlandi rit að nafni Reglur öldunganna í Zíon. Það var þýtt á ótal tungumál og hlaut mikla útbreiðslu. Ritið lýsir áætlunum gyðinga til að ná heimsyfirráðum og er falsað. Því var tekið sem ófölsuðu af nasistum í Þýskalandi sem og víðar, til að mynda í Bandaríkjunum þar sem bílaframleiðandinn Henry Ford dreifði hálfri milljón eintaka um Bandaríkjunum á þriðja áratugnum. Ritið ól mjög á kenningum um heimsyfirráðastefnu gyðinga. Eftir helförina naut stefnan mikillar hylli á vesturlöndum, ekki síst í BNA, sem eiga sterk tengsl við Ísraelsríki, bæði efnahagsleg og stjórnmálaleg. Stefnan nýtur þó lítillar hylli í íslamsríkjum og er víða fordæmd þar. Eftir ólgu í Palestínu síðustu áratugi 20. aldar hefur gagnrýni Vesturlanda á zíonisma aukist og telja gagnrýnendur zíonisma vera heimsvaldastefnu, byggða á kynþáttahyggju. Stundum í sögunni hefur andúð á zíonisma verið óaðgreinanleg frá gyðingahatri. Carl Richard Unger. Carl Richard Unger. Úr "Skilling-Magazin" 1867. Carl Richard Unger (f. 2. júlí 1817, d. 30. nóvember 1897) var norskur málfræðingur og textafræðingur, prófessor við Háskólann í Kristjaníu, nú í Ósló. Æviágrip. C. R. Unger fæddist í Kristjaníu og ólst þar upp að mestu. Foreldrar hans voru Johan Carl Jonassen Unger (1757–1840) og síðari kona hans Anne Marie Wetlesen (1777–1864). Unger varð stúdent 1835 og hóf nám í málfræði, en lauk aldrei embættisprófi vegna lélegrar frammistöðu í stærðfræði. Hann varð styrkþegi við Háskólann í Kristjaníu 1841, og fór fyrst til Kaupmannahafnar til þess að rannsaka forn handrit. Komst hann brátt að því að prentaðar útgáfur voru oft ónákvæmar og gáfu villandi upplýsingar um orðmyndir og texta handritanna. Gerði hann þá nákvæmar uppskriftir af mörgum handritum. Á árunum 1843–1845 var hann í París og London til þess að rannsaka og skrifa upp handrit sem til voru í fornum norsk-íslenskum þýðingum. Vorið 1845 hóf Unger að flytja fyrirlestra við Háskólann í Kristjaníu. Árið 1851 varð hann lektor í germanskri og rómanskri málfræði og prófessor 1862. Hann hélt einkum fyrirlestra um málfræði norrænna mála, handritalestur og textafræði. Á löngum kennsluferli brúaði hann bilið milli frumherjanna í norrænum fræðum í Noregi og þeirra sem tóku við og voru virkir fram um miðja 20. öld. Unger hóf um 1841 undirbúning að fornnorskri (og forníslenskri) orðabók, en þegar hann komst að því að Johan Fritzner væri kominn vel á veg með slíkt verk, afhenti hann honum gögn sín og veitti honum leiðsögn. Þegar Fritzner varð svo frá að hverfa, á bls. 384 í þriðja bindi verks síns: "Ordbog over det gamle norske Sprog" 1–3 (1886–1896), tók Unger við og lauk útgáfunni. Árið 1861 stofnaði Unger "Det norske Oldskriftselskab" ("Norska fornritafélagið"), ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum, svo sem Rudolf Keyser, P. A. Munch, Sophus Bugge, Oluf Rygh o.fl. Margar af textaútgáfum Ungers voru á vegum þess félags, en aðrar voru boðsrit á vegum Háskólans í Kristjaníu. Hann varð félagi í Konunglega norska vísindafélaginu frá 1853, í Vísindafélaginu í Kristjaníu frá stofnun þess 1857, og í ýmsum erlendum fræðafélögum. Unger sagði af sér prófessorsembætti vorið 1897; nokkrum mánuðum síðar var hann allur. Hann var ógiftur. Helstu útgáfur. Með tímanum varð Unger svo handgenginn máli handritanna, að hann réðist í að þýða á „fornnorsku“ nokkra kafla úr "Þiðriks sögu", sem glatast höfðu úr norsku handriti sögunnar, en voru varðveittir í fornsænskri þýðingu. Tengill. Unger, Carl Richard Sjálfstæðisflokkur Púertó Ríkó. Sjálfstæðisflokkur Púertó Ríkó (spænska: "Partido Independentista Puertorriqueño") er stjórnmálaflokkur sem berst fyrir sjálfstæði Púertó Ríkó frá Bandaríkjunum. Flokkurinn var stofnaður 20. október 1946. Vilhjálmur Tell. Stytta af Vilhjálmi og syni hans (ca. 1900) Vilhjálmur Tell er goðsagnakennd hetja sem átti að hafa lifað í kantónunni Uri í Sviss við byrjun 14. aldar. Það má deila um það hvort hann hafi verið til eða ekki. Goðsögnin um Villhjálm Tell. Keisarar af Habsborgarætt voru á sínum tíma að reyna að sölsa undir sig Uri. Lénsherran Í bænum Altdorf, sem hét Hermann Gessler, lét reisa stöng með húfu á sem allir voru skyldugir að hneigja sig fyrir. Vilhjálmur Tell neitaði að hneigja sig fyrir stönginni og var handtekinn fyrir vikið. Refsing hans var ákveðin og var hann var neyddur til þess að skjóta af lásboga á epli sem sett hafði verið á höfuð sonar hans. Ef hann neitaði þá yrðu þeir báðir teknir af lífi, en ef hann hitti marks þá yrði honum gefið frelsi. Vilhjálmur lét þetta yfir sig ganga, spennti lásbogann og hafði aðra örina í örvamæli sínum til öryggis. Hann miðar nú vel og skaut og klauf eplið á höfði sonar síns. Þegar þetta var afstaðið spurði Gessler Vilhjálm hvað hann hefði ætlað sér að gera með seinni örina. Vilhjálmur svaraði þá að ef hann hefði misst marks og drepið son sinn þá hefði hann notað hana til þess að drepa Gessler sjálfan. Gessler reiddist við þessi orð og lét handtaka Vilhjálm, binda og fara með hann í kastala sinn í Küssnacht. Vilhjálmur náði þó að flýja þegar verið var að flytja hann þangað og fór í eigin erindagjörðum til Küssnacht og skaut Kessler með síðari örinni. Samkvæmt goðsögninni var þessi ögrun Vilhjálms Tells kveikjan að uppreisn sem leiddi síðan til þess að ríkið Sviss var stofnað. Sérsveit. Sérsveit er hópur af séræfðum lögreglumönnum eða hermönnum, sem hlotið hafa þjálfun til að fást við vopnaða glæpamenn, þ.á m. hryðjuverkamenn. Sérsveitarmenn eru vopnaðir hríðskotabyssum, skammbyssum, hríðskotarifflum, hnífum og sprengjum til að nota gegn glæpamönnum, sem gætu veitt mótspyrnu. Lögreglusérsveitir eru þjálfaðar til að fást við hættulega glæpamenn og hryðjuverkamenn, en hersérsveitir eru þjálfaðar til þess að vera í stríði. Ein vopnuð sérsveit er á Íslandi: Víkingasveitin Heath Ledger. Heath Ledger (fæddur Heathcliff Andrew Ledger í Perth í Ástralíu 4. apríl 1979, dáinn í New York-borg 22. janúar 2008) var ástralskur kvikmyndaleikari. Hann var þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndunum Brokeback Mountain og The Dark Knight. Ledger, Heath Heckler & Koch MP5. Heckler & Koch MP5 A3 Heckler & Koch MP5 SD3 með innbygðum hljóðdeyfi Heckler & Koch MP5 er þýsk hríðskotabyssa sem var hönnuð á sjötta áratugnum af skotvopnafyrirtækinu Heckler & Koch. Til eru um 30 tegundir af MP5 byssum, t.d. MP5 A5, MP5 K, MP5 SD3 og MP5 A4, en upprunalega tegundin er MP5 A1. Þau skot sem oftast eru notuð í byssuna eru 9 × 19 mm NATO skot, og komast yfirleitt 15 – 30 þannig skot í magasínin. "MP5" er skammstöfun á þýsku fyrir "Maschinenpistole 5". Nú tímum eru yfir 40 lönd sem nota MP5 í sérsveitum sínum, einnig Ísland. MP5 byssur eru framleiddar í nokkrum löndum fyrir utan Þýskaland, með leyfi, t.d. Grikklandi, Íran, Mexíkó, Pakistan, Súdan, Tyrklandi og Bretlandi. Landhelgisgæsla Íslands og Víkingasveitin nota til dæmis MP5 byssur. Brian Epstein. Brian Epstein (19. september 1934 – 27. ágúst 1967) enskur athafnamaður sem er þekktastur fyrir að hafa verið umboðsmaður Bítlanna. Hann var einnig umboðsmaður annarra tónlistarmanna eins og Gerry & The Pacemakers, Billy J. Kramer og The Dakotas, og Cilla Black. Epstein greiddi fyrir fyrsta hljómplötusamningi Bítlanna með því að láta taka upp prufu í Decca-hljóðverinu og fá með því Parlophone, lítið merki í eigu EMI, til að gefa þá út árið 1962. Brian Epstein lést úr of stórum skammti eiturlyfja á heimili sínu í London 1967. Epstein, Brian Alþjóðaflugmálastofnunin. Alþjóðaflugmálastofnunin (enska "International Civil Aviation Organization", skammstafað ICAO) er aljóðleg stofnun innan Sameinuðu þjóðanna, sem vinnur að því að auðvelda flugsamgöngur milli aðildarríkja og stuðlar að auknu flugöryggi. Stofnuð 4 apríl 1947. Höfuðstöðvar eru í Montreal í Kanada. Óskipulagður vöxtur þéttbýlis. Úthverfi í Calgary, Alberta, Canada Óskipulagður vöxtur þéttbýlis kallast það þegar borg og úthverfi hennar dreifast yfir áður óbyggt land, oft sveitir. Þessi hverfi einkennast af lágum þéttleika byggðar og miklum fjölda af einbýlishúsum, þar sem íbúarnir ferðast með bíl til vinnu. Desíbel. Desíbel, skammstafað dB, er tíundi hluti einingarlausu stærðarinnar Bel, sem er lograkvarði notaður til að mæla hlutfallslegan styrk, oftast afl. Er ekki SI-mælieining. "Bel-kvarðinn" er kenndur við Alexander Graham Bell. Venjan er að gefa aflhlutfall á Bel-kvarða sem desíbel. Skilgreining: Einingin desíbel er 10-faldur logrinn af tilteknu hlutfalli, t.d. afli útmerkis "P"út og afli innmerkis "P"inn þar sem "G" er mögnunin. Tvöföldun í afli samsvarar því u.þ.b. 3 dB, fjórföldun 6 dB o.s.frv. Klaufir. Klaufir eru fremstu tær klaufdýra og samsvara þriðja og fjórða fingri mannshandar. Þær eru gerðar úr þófa sem er hulinn hyrni. Dýr sem eru með klaufir eru t.d. nautgripir, sauðkindur og hjartardýr. Tréblásturshljóðfæri. Tréblásturshljóðfæri er fjölskylda blásturshljóðfæra með munnstykki úr tré. Inn í munnstykkinu er reyrblað sem titrar þegar blásið er í hljóðfærið og þannig myndast hljóð. Bonn. Útsýni yfir Bonn og Rínarfljót Bonn er stórborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 312 þúsund íbúa. Borgin var höfuðborg Vestur-Þýskalands frá 1949 til sameiningar Þýskalands, er Berlín tók við því hlutverki á ný. Lega. Bonn liggur við Rínarfljót, langt sunnan við Ruhr-héraðið. Næstu borgir eru Köln til norðurs (20 km), Aachen til vesturs (50 km) og Koblenz til suðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bonn er tvískipt. Fyrir neðan er gullið ljón á rauðum fleti. Fyrir ofan er svartur kross á hvítum fleti. Krossinn er tákn fyrir kjörbiskupana í Köln sem áttu sér aðsetur í Bonn. Ljónið er gamalt tákn fyrir dómsstig borgarinnar. Orðsifjar. Borgin hét Castra Bonensia á tímum Rómverja. Það heiti er ekki að fullu skírt. Talið er að það komi úr keltnesku. Ef til vill er nafnið dregið af keltneska orðinu "bona", sem merkir "virki". Eftir það breyttist nafnið í Bunna, síðan Bonna og loks Bonn. Upphaf. Upphaf Bonn má rekja til germansks þorps sem stóð við bakka Rínarfljóts. Um 11. f.Kr. reistu Rómverjar hervirki nálægt þorpinu og kölluðu Castra Bonensia. Í virkinu voru nokkur þúsund hermenn og virtust þeir hafa lifað í sátt og samlyndi við germani. Rómverjar yfirgáfu svæðið ekki fyrr en á miðri 4. öld e.Kr. Eftir það bjuggu germanir einir á svæðinu. Bærinn mun hafa staðið þar áfram. Elstu leifar kristinnar kirkju finnast frá miðri 6. öld. 1244 voru miklir borgarmúrar reistir umhverfis Bonn og má ætla að þá hafi hún hlotið borgarréttindi í þýska ríkinu. Borg kjörfursta. 1288 ákvað kjörfurstinn í Köln (þ.e. biskupinn þar í borg) að gera Bonn að öðru aðsetri sínu, en aðeins eru um 20 km milli þessara borga. Siðaskiptin fóru aldrei fram í Bonn. Kaþólska kirkjan hélst sterk, enda í föstum höndum kjörbiskupanna í Köln. 1587 var kjörbiskupinn Gebhard frá Waldburg leystur af með skömm þar sem hann hafði meðtekið lúterstrú. Til að hefna sín réðist hann með her manna á Bonn og lagði hana í rúst. Borgin var endurreist og var þá einnig reistur kastali mikill fyrir kjörfurstann, sem ýmist sat í Köln eða Bonn. Í 30 ára stríðinu reyndist ekki unnt að hertaka Bonn, sökum góðra borgarmúra. En herir frá Hollandi, Svíþjóð og öðrum svæðum þýska ríkisins voru oftar en ekki í nánd og eyðilögðu nærsveitir. En í 9 ára stríðinu sátu Frakkar um borgina og skutu á hana með fallbyssum í fleiri mánuði, uns borgarbúar gáfust upp. Frakkar héldu borginni ekki nema í skamman tíma. 1703 var enn setið um borgina í spænska erfðastríðinu. Enn voru það Frakkar sem skutu á borgina en innan hennar voru keisaraher og Hollendingar sem reyndu að verjast. Borgin féll eftir nokkra mánuði en Frakkar héldu á brott skömmu seinna. Seinni tímar. Frakkar gróðursettu friðartréð á aðaltorgi borgarinnar 1786 stofnaði kjörfurstinn Maximilian Franz háskóla í borginni, sem var skammlífur. Aðeins átta árum síðar hertóku Frakkar Bonn og lokuðu háskólanum á ný. 1801 var Bonn innlimuð Frakklandi. Eftir fall Napoleons úrskurðaði Vínarfundurinn að Bonn skyldi verða prússnesk. 1818 var háskólinn stofnaður á ný en hét nú Friedrich-Wilhelms-Universität til heiðurs konungi Prússlands. Háskólinn mótaði borgina mjög næstu misseri en Bonn var að öðru leyti eingöngu jaðarborg í Prússlandi. Í heimstyrjöldinni síðari slapp Bonn í fyrstu við loftárásir. En frá og með haustinu 1944 til vors 1945 varð borgin fyrir nokkrum loftárásum og eyðilagðist um 30% hennar. Bandamenn hertóku borgina 9. mars 1945 bardagalaust og var hún í breska hernámssvæðinu. Strax ári síðar klufu Bretar Rínarlandið í tvö lönd. Bonn varð þá að hluta Norðurrín-Vestfalíu. 1949 var sambandslýðveldi Þýskalands stofnað. Bonn sótti um þann heiður að verða höfuðborg þessa nýja lands (Vestur-Þýskalands), ásamt borgum eins og Frankfurt, Kassel og Stuttgart. Eftir að síðarnefndu tveimur borgum var hafnað, varð Bonn fyrir valinu, þar sem hún var töluvert minna skemmd en Frankfurt. Bonn varð því höfuðborg Vestur-Þýskalands í rúm 40 ár en 1991 var ákveðið að flytja höfuðborgina aftur til Berlínar eftir sameiningu Þýskalands. Ferlið tók átta ár. Forsetinn flutti til Berlínar 1994, sambandsráðið 1996 og síðan þingið 1999. Árið 2006 fluttu mörg aðildarfélög Sameinuðu þjóðanna í tóm ráðuneytishúsin. Viðburðir. Beethovenfest Bonn er heiti á tónlistarhátíð í Bonn helguð Ludwig van Beethoven, frægasta barni borgarinnar. Hátíðin fer fram árlega í september og stendur yfir í 3-4 vikur. Á þessum tíma fara um 70 tónleikar á ýmsum stöðum í borginni og koma ýmsar hljómsveitir og tónlistarmenn fram. Samfara þessu fer fram hæfileikakeppni fyrir unga píanóleikara úr öllum heiminum sem kallast "Beethoven Competition". Klangwelle Bonn er heiti á ljósahátíð í borginni. Hér er um litaðar vatnssúlur að ræða, en vatnið er dælt með 45 pumpum í um 800 slöngum. Vatnið framleiðir litamyndir sem eru allt að 30 metra háar. Myndirnar fá aukna dýpt með ljóskösturum, ekki ólíkt lasersýningu. Þessu samfara er spiluð tónlist, bæði klassísk og popptónlist. Hátíð þessi fer fram í nokkur kvöld í september og október og sækja um 100 þúsund manns hátíðina heim. Karneval fer fram í Bonn, eins og í flestum öðrum borgum við Rín. Skrúðhátíðin hefst ávallt þann 11.11. (11. nóvember), kl. 11.11. Hér er um skrúðgöngur að ræða með skrúðvagna og skrúðklæði. Auk þess er hátíðin einnig haldin innandyra. Franck Cammas. Franck Cammas (f. 22. september 1972) er franskur siglingamaður sem hefur margoft unnið heimsmeistarakeppni fjölbytnusamtakanna Ocean Racing Multihull Association frá árinu 2000 með þríbytnunum "Groupama", "Groupama 2" og "Groupama 3". Hann hefur þrisvar orðið í fyrsta sæti í keppni á Kaffileiðinni frá Le Havre í Frakklandi til Salvador de Bahia í Brasilíu og lenti í fimmta sæti á Rommleiðinni frá Saint-Malo í Frakklandi til Pointe-à-Pitre á Guadeloupe árið 2006. Hann á auk þess núverandi met í siglingu með áhöfn yfir Norður-Atlantshafið frá vestri til austurs, 4 dagar, 3 klukkutímar, 57 mínútur og 54 sekúndur, sem hann setti árið 2007. 24. janúar 2008 lagði hann upp á sérsmíðuðu þríbytnunni "Groupama 3" til að reyna að setja met í siglingu með áhöfn umhverfis jörðina (Jules Verne-verðlaunin). Tilrauninni lauk við strendur Nýja Sjálands rétt fyrir miðnætti 17. febrúar þegar annað flotholtið brotnaði frá hléborðsmegin í 30 hnúta vindi (um 15 m/s eða sjö vindstig) með þeim afleiðingum að báturinn fór snögglega á hliðina. Allri áhöfninni, tíu manns, var bjargað af kilinum af þyrlubjörgunarsveit frá Nýja Sjálandi. Árið 2010 tókst honum loks að bæta met Bruno Peyron frá 2005 um tvo daga með þríbytnunni "Groupama 3". Það met var svo slegið af Loïck Peyron snemma árs 2012. Sama ár, eða 2010, sigraði Cammas Route du Rhum-keppnina milli Frakklands og Gvadelúp. Hann sigldi yfir Atlantshafið á "Groupama 3" á níu dögum og þremur tímum. Hann sigraði eina stærstu siglingakeppni heims, Volvo Ocean Race, 2011/12 sem skipstjóri á "Groupama 4" sem er einbytna af Open 70-gerð. Tenglar. Cammas, Franck Skógrækt ríkisins. Skógrækt ríkisins er íslensk ríkisstofnun sem vinnur að þróun skógræktar á Íslandi. Skógrækt ríkisins er þekkingar-, þróunar- og þjónustuaðili sem vinnur með og fyrir stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila að rannsóknum, þróun, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar. Stofnunin er í forsvari fyrir Íslands hönd í erlendu samstarfi á sviði skógræktar. Yfirmaður skógræktarinnar er "skógræktarstjóri Íslands". Skógrækt ríkisins var stofnuð með lögum árið 1907 og heyrði upphaflega undir ráðherra Íslands. Árið 1940 var hún flutt undir landbúnaðarráðuneytið og síðar undir umhverfisráðuneytið. Árið 1990 var aðalskrifstofa stofnunarinnar flutt frá Reykjavík til Egilsstaða. Bruno Peyron. Bruno Peyron (f. 10. nóvember 1955) er franskur siglingamaður sem hefur þrisvar sett met í að sigla kringum jörðina með áhöfn (Jules Verne-verðlaunin). Síðasta met sitt, sem var 50 dagar, 16 tímar og 20 mínútur, setti hann á tvíbytnunni "Orange II" 16. mars árið 2005 og bætti þar með fyrra met Olivier de Kersauson um þrettán daga. Árið 2010 bætti Franck Cammas þetta met um rúmlega tvo daga en bróðir Brunos Loïck Peyron bætti svo það met um aðra tvo daga árið 2012. Peyron, Bruno Pointe-à-Pitre. Pointe-à-Pitre er stærsta borgin í franska eyjaklasanum Guadeloupe í Karíbahafinu með um 20 þúsund íbúa. Í bænum er alþjóðaflugvöllur og stór höfn sem er sérstaklega vinsæl hjá siglingafólki. Stuart Christie. Stuart Christie (f. 10. júlí 1946 í Glasgow) er skoskur anarkisti og rithöfundur. Hann gerðist anarkisti ungur að aldri og gekk í Anarkistabandalagið 1962, þá 16 ára gamall. Hann er frægastur fyrir tilræði við Francisco Franco árið 1964 en hann var handtekinn á Spáni með sprengiefni í farteskinu. Hann slapp naumlega við hálsjárnið vegna alþjóðlegs þrýstings og fyrir atbeini frægra manna á borð við Bertrand Russell og Jean-Paul Sartre. Hann gaf út sjálfsævisögu 2004 sem heitir "Granny Made me an Anarchist" þar sem þessum atburðum er lýst. Hálsjárn. Hálsjárn notað til aftöku í fangelsi á Filipseyjum. Hálsjárn (spænska: "garrote") er tæki notað til aftöku. Það var helst notað á Spáni þar til stjórnartíð Fransisco Franco lauk. Hálsjárnið er hert utan um hálsinn með sveif þar til sá sakfelldi kafnar. Sérstök útgáfa af þessu tæki kom fram í James Bond myndinni "The World Is Not Enough" þar sem hálsinn var skorðaður af með hálsjárninu og járnbolta var þrýst á barkann. Francisco Franco. Francisco Paulino Hermenegildo Teódulo Franco y Bahamonde (4. desember 1892 - 20. nóvember 1975) betur þekktur sem Francisco Franco var einræðisherra á Spáni á árunum 1936/39 til 1975. Spænska borgarastyrjöldin hófst með uppreisn sem hann leiddi, og lauk árið 1939 með sigri Francos og manna hans, sem nefndir voru falangistar. Íslenskar orkurannsóknir. Íslenskar orkurannsóknir (skammstafað ÍSOR) er rannsóknastofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Stofnunin vinnur að verkefnum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála. Hún starfar á samkeppnismarkaði og aflar sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum. Starfsmenn eru yfir 80 talsins. Aðalskrifstofa er í Reykjavík en auk þess er rekið útibú á Akureyri. Sérfræðingar ÍSOR hafa stundað rannsóknir víða um heim einkum á sviði jarðhitarannsókna og ráðgjafar. JHVH. Hebresku stafirnir (lesnir frá hægri til vinstri י (J) ה (H) ו (V) ה (H), eða JHVH JHVH (hebreska יהוה) er nafn Guðs eins og það er skráð á hebresku í frumtextum Biblíunnar. Í guðfræði er er þessi hebreska bókstafasamsetning (יהוה) nefnd "tetragrammaton" (úr grísku τετραγράμματον, sett saman úr tetra, fjórir, og gramma, stafur) „"fjórstefuninn" og er þá umskrifun fyrir Guð vegna þess að nafn hans er of heilagt eða hættulegt að nefna. Á íslensku er JHVH oftast umskrifað sem Jahve eða Jehóva (einnig Jahveh og Jehóvah). Í hebreska letrinu eru sérhljóðarnir ekki skrifaðir og trúaðir gyðingar hafa aldrei borið fram nafnið JHVH upphátt vegna heilagleika þess og er því erfitt að vita hver framburðurinn hefur verið, enda verið mikið umdeilt meðal fræðimanna og leikmanna. Þegar gyðingar lesa úr Hebresku biblíunni bæta þeir samhljóðum við יהוה svo úr verður „Adonai“ (= „Drottinn minn“). Í "Sjötíumannaþýðingunni" (elstu grísku þýðingu Gamla testamentisins) og "Vúlgötunni" (latneskri þýðingu Hýerónýmusar) er orðið „drottinn“ (κύριος annars vegar og "dominus" hins vegar) notað. Í Hebresku biblíunni (sem samsvarar Gamla testamentinu hjá kristnum mönnum), kemur nafnið JHVH fyrir í fyrst skipti í Fyrstu Mósebók 2:4. Þegar Móses spyr um nafn Guðs fékk hann þetta svar: „Ég er sá sem ég er.“ (Önnur Mósebók 3:14,) Nafn Guðs er nefnt 6828 sinnum í hebreska frumtexta hebresku biblíunnar (og Gamla testamentisins) Fáar nútímaþýðingar á Biblíunni nota sérstakt nafn á Guð (svo sem Jahve eða Jehóva). Þess í stað eru notaðir titlar sem „drottinn“ eða „herra“. Vottar Jehóva álíta að Biblían hafi verið fölsuð og útúrsnúin allt frá elstu þýðingunum á grísku. Þeir hafa því gert eigin þýðingar á mörg mál en ekki á íslensku enn. Einn mikilvægur munur á Biblíuútgáfum Votta Jehóva og annarra er að þar er nafnið Jehóva (eða samsvarandi) notað þar sem á hebresku stendur JHVH. Gamlatestamennitsfræðingar hafa nú sýnt fram á að orðið Jehóva hafi í raun orðið til fyrir slysni. Vegna þess að ekki mátti nefna nafn drottins upphátt var í hebreskum biblíum orðinu "YHWH ("JHVH) blandað saman við orðið "Adonai", sem þýðir í raun guð. Fólk átti þá að segja guð ("Adonai") frekar en að lesa upphátt hið heilaga nafn hans, JHVH. Síðari kynslóðir Gyðinga tóku uppá því að að lesa upphátt þessa samanblöndu frekar en að segja "Adonai" og varð þá til nafnið Jehóva (Yehowah) sem er þó ekki eiginnafn guðs gamla testamentisins. Á íslensku hefur guð Biblíunnar haft mörg samheiti. Þau eru t.d.: Andlangs herra, Alfaðir, Drottinn, Englakóngur, Faðir (t.d. mildur Faðir hæða), Himnafaðir, Himnasjóli og Javi (íslensk útgáfa af Jahve). Sauðaþjófur. Sauðaþjófur er sá sem stelur sauðum, rekur í sína afrétt og/eða merkir sér með sínu eyrnamarki. Oft var um fátæka menn að ræða sem fóru um að nóttu til, helst er rökkur færðist í vöxt síðsumars, og eltu sauði og leiddu heim til bæjar síns í húminu. Næstu daga var svo borðað nýtt kjöt og slátur. Útigangsmenn áttu til að verða sauðaþjófar, og eru til frægar sögur af slíkum þjófnaði. En einnig var um græðgi venjulegra manna að ræða. Í desember 1681 var t.d. stórtækur sauðaþjófur á ferð á Melum í Hrútafirði. Þá var 50 kindum stolið af bóndanum þar, Jóni Auðunssyni. Sauðaþjófurinn kom víðar við og í sömu ferð rændi hann á fleiri bæjum í innanverðum Hrútafirði, þetta 10-12 sauðum á hverjum bæ. Sumstaðar á Íslandi var því trúað, að ef unglingar söfnuðu hagalögðum, vofði sú hætta yfir, að þeir yrðu sauðaþjófar. Lawrence Millman. Lawrence Millman er bandrískur rithöfundur og ferðasagnahöfundur frá Cambridge, Massachusetts. Lawrence Millman hefur dvalist á Íslandi og skrifaði bók um Færeyjar, Hjaltlandseyjar og veru sína hér á landi sem hét. Hann er kunnur í Bandaríkjunum fyrir skáldsöguna "Hero Jesse" (1982) sem vakti mikla athygli. Bók hans um Írland: "Our Like Will Not Be There Again", hlaut PEN-verðlaunin árið 1977. Ljóð hans og sögur hafa birst í nokkrum helstu bókmenntatímaritum í Bandaríkjunum. Hann gaf út bók með sögum Ínúíta sem hét "A Kayak Full of Ghosts", og var þýdd á íslensku og nefndist í þýðingu Sigfúss Bjartmarssonar: "Drekkhlaðinn kajak af draugum". Tenglar. Millman, Lawrence Kristján Eldjárn Þórarinsson. Kristján Eldjárn Þórarinsson (f. 31. maí 1843, d. 16. september 1917), sonur sr. Þórarins Kristjánssonar prófasts í Vatnsfirði og konu hans Ingibjargar Helgadóttur alþingismanns frá Vogi á Mýrum. Kristján ólst að nokkru upp hjá afa sínum sr. Kristjáni Þorsteinssyni sem prestur var bæði á Tjörn og Völlum í Svarfaðardal. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík 1869 og kandídat frá Prestaskólanum 1871. Meðal bekkjarbræðra hans í Reykjavík voru Kristján Jónsson fjallaskáld, Jón Ólafsson (ritstjóri) og sr. Valdimar Briem. Sér þess staði í kveðskap þeirra allra. Strax að námi loknu vígðist Kristján til Staðar í Grindavík. Árið 1878 fékk hann Tjörn í Svarfaðardal og var þá kominn á æskuslóðir sínar og sat þar til dauðadags. Sr. Kristján var vinsæll prestur í söfnuði sínum og hrókur alls fagnaðar á mannamótum, sögumaður góður og heppinn læknir. Hann var síðasti prestur á Tjörn en staðurinn var lagður af sem prestssetur að honum gengnum. Kona sr. Kristjáns var Petrína Soffía Hjörleifsdóttir (f. 29. mars 1850, d. 9. mars 1916). Sr. Hjörleifur Guttormsson faðir hennar hafði verið prestur á Skinnastað en á efri árum sínum flutti hann í Svarfaðardal og þjónaði Tjörn um árabil. Hann fór síðan í Velli en Petrína Soffía varð þá eftir á Tjörn og giftist nýja prestinum þar. Þau systkinin tóku upp ættarnafnið Eldjárn árið 1918. Segulflæði. Segulflæði er mælikvarði á flæði segulsviðs, oftast táknað með gríska bókstafnum Φ (lesið "fí"). SI-mælieining er veber, táknuð með "Wb". Skilgreining. sem segir að jafn mikið segulflæði fer inn um flötinn og út úr honum, þ.a."seguleinskaut" finnast ekki. Span er segulflæði gegnum spanspólu, deilt með rafstrauminn, sem um spóluna fer. Mindanao. Mindanao er önnur stærsta eyja Filippseyja. Hún er 36.906 fermílur að stærð. Eyjan er mjög fjöllótt og eru eldgígar þar margir. Mindanao tilheyrir einum af þremur eyjaklösum í landinu, hinir eru Luzon og Visajas. Eyjan var áður þekkt sem "Gran Molucas" or "Great Mollucas". Veber (SI-mælieining). Veber (þýska "weber") er SI-mælieining segulflæðis, táknuð með Wb. Nefnd í höfuðið á þýska eðlisfræðingnum Wilhelm Eduard Weber (1804-1891). Eitt veber er það segulflæði, sem breytist á hverri sekúndu, þ.a. spennufallið verði eitt volt, þ.e. 1 Wb = 1 V s = 1 T m2. Eldri mælieining segulflæðis er maxwell, táknuð með "Mx", en 1 Wb = 108Mx. Walther. Carl Walther GmbH Sportwaffen eða Walther, er þýskt skotvopnafyrirtæki sem er yfir 100 ára gamalt og hefur búið til þekktar skammbyssur síðan þeir byrjuðu að framleiða þær, t.d. var skammbyssan hans James Bond í eldri myndunum Walther PPK (PPK) og í nýju myndunum er það Walther P99 (P99). Saga. Fyrirtækið var stofnað árið 1886 af Carl Walther. Upprunalega bjó fyrirtækið aðeins til riffla, þangað til elsti sonur Carl Walthers, Fritz Walther tók við fyrirtækinu og byrjaði að búa til skammbyssur, árið 1908. Árið 1929 byrjaði fyrirtækið að búa til skammbyssuna PPK, sem er skammstöfun á þýsku fyrir "Polizeipistole Kriminalmodell" og þýðir lögregluskammbyssa. Síðan byrjaði fyrirtækið að framleiða fleiri PPK á árinu 1931. Walther P38 (P38), framleidd 1939, var skammbyssa sem mikið var notuð af nasistum í seinni heimstyrjöldinni. Upprunalega fyrirtækið var stofnað í litlum bæ að nafni Zella-Mehlis, en eyðilagðist í seinni heimstyrjöldinni. Árið 1953 var gert nýtt Walther fyrirtæki í Ulm, sem er borg í Þýskalandi, og árið 1993 var annað gert, í borg að nafni Arnsberg. Þegar Fritz Walther dó í desember 1966, tók sonur hans Karl-Heinz við fyrirtækinu og er enn þá núverandi stjóri þess. Skotvopn. Listi yfir skotvopn framleidd af Walther Sportwaffen. Rifflar. Walther býr líka til einhverja hnífa. Henry (SI-mælieining). Henry er SI-mælieining spans, táknuð með H. Nefnd í höfuðið á bandarískum vísindamanni "Joseph Henry" (1797-1878). Jafngildir spani því, sem veldur spennufallinu einu volti í rafrás, þegar rafstraumurinn breytist um einn amper á sekúndu, þ.e. 1 H = 1 Vs/A = Wb/A. Isambard Kingdom Brunel. Isambard Kingdom Brunel (9. apríl 1806 – 15. september 1859) var enskur verkfræðingur. Er hann þekktastur fyrir að hafa verið einn helsti hugmyndasmiðurinn að Great Western-járnbrautinni og mörgum frægustu gufuskipum síns tíma, eins og t.d. SS "Great Britain" sem var fyrsta skrúfuknúna skipið. Hann vann að verkfræðiþætti margra mikilvægra brúa sem áttu eftir að gjörbylta almenningssamgöngum og nútíma verkfræði. Hann átti margar byltingakenndar nýjungar í verkfræðinni eins og t.d. þegar hann vann að fyrstu göngunum sem lágu undir skipgengnar ár. Brunel var slæmur heilsu í mörg ár. Hann átti við nýrnavandamál að stríða og 53 ára fékk hann heilablóðfall. Hann reykti 40 vindla á hverjum degi og svaf aðeins fjóra klukkustundir á sólarhring. Walther P38. Walther P38 er þýsk hálfsjálvirk skammbyssa framleidd af skotvopnafyrirtækinu Walther Sportwaffen og var mikið notuð af nasistum í seinni heimstyrjöldinni. Árið 1938 tók þýski herinn ákvörðun um að hafa P38 sem hliðarvopn þeirra, en framleiðsla skammbyssunnar hófst ekki fyrr en árið 1939. Skammbyssan notar 9 x 19 mm skot, og er pláss fyrir 8 skot í magasíni byssunnar. Til eru 5 gerðir af þessari skammbyssu, og þær eru: P38 (sem er aðalgerðin), P1, P4, P38K og P38 SD. Hvanneyrarkirkja. Hvanneyrarkirkja er friðuð kirkja að Hvanneyri í Borgarfirði, byggð árið 1905. Kirkjan er í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands, en hún var byggð af Vesturamtinu eftir að sú gamla, sem byggð var 1893, fauk árið 1902 og lenti á þeim stað þar sem núverandi kirkja stendur norðan kirkjugarðs. Þá eignaðist Bændaskólinn kirkjuna fyrst söfnuðurinn hafði ekki viljað reisa nýja kirkju á sínum tíma. Kirkjan er gerð úr bárujárnsklæddu timbri og er hún skreytt að innan af Grétu Björnsson. Brynjólfur Þórðarson listmálari málaði altaristöflu kirkjunnar árið 1923. Útkirkjur Hvanneyrarkirkju eru Lundarkirkja í Lundarreykjadal, Bæjarkirkja í Bæjarsveit og Fitjakirkja í Skorradal. Walther PPK. Walther PPK er þýsk hálfsjálfvirk skammbyssa framleidd af skotvopnafyrirtækinu Walther Sportwaffen. PPK er skammstöfun á þýsku fyrir "Polizeipistole Kriminalmodell", sem þýðir lögregluskammbyssa. Hún var nefnilega framleidd fyrir þýsku lögregluna árið 1929, en var samt eitthvað í notkun hjá þýska hernum í seinni heimstyrjöldinni. Adolf Hitler skaut sig í hausinn með PPK þegar hann frétti að hann væri sigraður. Walther PPK var skammbyssan hans James Bond í eldri myndum. Í myndinni "The world is not enough" frá 1999 byrjaði James Bond að nota nútímalegri útgáfu af byssunni, Walther P99. Walther P99. Walther P99 er þýsk hálfsjálfvirk skammbyssa framleidd af skotvopnafyrirtækinu Walther Sportwaffen, byrjað var að framleiða hana árið 1997. Skammbyssan er 180 mm að lengd og er 630 grömm að þyngd. Walther P99 er skammbyssan sem njósnari hennar hátignar,James Bond notar í nýjustu kvikmyndum sínum, frá og með myndinni The world is not enough. Launviðnám. Launviðnám er þverhluti samviðnáms, táknaður með "X". SI-mælieining er óm. Myndast í rafrásum, sem bera riðstraum og getur verið vegna rafrýmdar, táknuð með "XC", eða spans, táknað "XL". Launviðnám rafrásar er þá táknað með "X" = "XC" + "XL", þar sem Samviðnám, "Z" má þá skrifa sem "Z" = "R" + "jX" = "R" + "j"("XC" + "XL"), þar sem "R" er raunviðnám rásarinnar og "j" þvertala. Launviðnám í jafnstraumsrás er núll, þ.a. "Z" = "R". Bezt í heimi. „Best í heimi“ (eða oft „Ísland- bezt í heimi“) er íslenskur frasi sem er oft notaður af Íslendingum í hálfkæringi eða sem þjóðremba. Inniheldur frasinn bókstafinn ‚z‘ þrátt fyrir að hann hafi verið lagður úr gildi í september 1973. Farad. Farad er SI-mælieingin fyrir rafrýmd, táknuð með F. Nefnd í höfuðið á breska eðlisfræðingnum Michael Faraday. Jafngildir einingunni kúlomb á volt, þ.e. 1 F = 1C/V = 1 As/V. Sexhleypa. Sexhleypa (enska: "revolver") er skammbyssa með 6 skota snúningsmagasíni (oftast) og á uppruna sinn í Bandaríkjunum á 19. öld. Samuel Colt er sagður hafa hannað upprunalegu sexhleypuna árið 1835, en til var öðruvísi byssa sem var búin til árið 1830 og var mjög lík sexhleypunni og var nefnd Pepper-box. Þetta var lítil byssa með einhvers konar snúningsmagasíni. Elstu skotvopnin sem líkjast sexhleypum eru frá því um 1680. Slík vopn eru til sýnis í Tower of London. Hafragrautur. Tegundir hafragrauts. Hafragrautur er oftast gerður þannig að valsaðir hafrar (hafragrjón) eru settir út í vatn í hlutföllunum 1:2 (1 bolli hafrar á móti 2 bollum af vatni), hitað að suðu og grauturinn látinn sjóða við meðalhita í 1-2 mínútur en síðan saltaður og tekinn af hitanum. Á Íslandi fór hafragrautur að tíðkast seint á 19. öld, þegar innflutningur á höfrum til landsins jókst mikið, og var hann mjög algengur morgunmatur alla 20. öld og er enn þótt ýmsar tegundir af morgunkorni og fleira hafi að nokkru leyti ýtt honum til hliðar. Hiiumaa. Hiiumaa (þýska og sænska: "Dagö"), eða Dagey á íslensku, er næststærsta eyjan við Eistland og er 989 km² að stærð. Hún liggur í Eystrasalti. Á eyjunni er bærinn Kärdla með um 3.500 íbúa. Rudolf Keyser. (Jakob) Rudolf Keyser (f. 1. janúar 1803, d. 9. október 1864) var norskur sagnfræðingur og prófessor við Háskólann í Kristjaníu. Æviágrip. Rudolf Keyser fæddist í Kristjaníu, nú Ósló. Faðir hans var Johan Michael Keyser, síðar biskup; móðir Kirstine Margaretha Vangensteen. Keyser hóf nám í guðfræði 1820, en brátt kom í ljós að hann hafði meiri áhuga á sagnfræði, og þá einkum sögu Noregs. Árið 1825 fékk hann styrk til að fara í námsför til Íslands. Þar var hann í tvö ár og lærði íslensku, bæði talmál þeirra tíma og einnig ritmálið forna. Kynntist hann þá mörgum Íslendingum, m.a. Sveinbirni Egilssyni, og teiknaði af honum mynd. Eftir að Keyser kom aftur heim, 1827, fékk hann stöðu sem dósent við Háskólann í Kristjaníu, og átti að flytja þar fyrirlestra um sögu föðurlandsins, tungumálið forna og minjar frá fyrri tíð. Var það í fyrsta skipti að fornnorska (íslenska) varð kennslugrein þar. Það var þó sagnfræðin sem Keyser fékkst einkum við. Vegna kunnáttu sinnar í fornmálinu lagði hann grunninn að sagnfræðirannsóknum sem byggðar voru á skrifuðum heimildum frá stórveldistíma Noregs. Árið 1829 varð hann lektor og árið 1837 prófessor við Háskólann, uns hann lét af störfum 1862. Árið 1833 átti hann frumkvæði að því að hafin var útgáfa á fyrsta sagnfræðitímariti Norðmanna: "Samlinger til det norske folks sprog og historie". Árið 1830 lagði norska Stórþingið fram fé til að gefa út hin fornu lög og réttarbætur Noregs. Keyser tók við verkinu 1834 og vann að því mörg ár, með besta nemanda sínum Peter Andreas Munch, að skrifa upp handrit í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Á árunum 1846–1849 komu svo út fyrstu þrjú bindin (af fimm): "Norges gamle love inntil 1387". Verkið sker sig úr fyrir óvenjulega vísindalega nákvæmni, jafnvel á nútímamælikvarða, og er útgáfan enn í fullu gildi, þó að gotneskt letur lagatextanna sé ekki aðgengilegt. Þarna kom fram sterkasta hlið Keysers sem sagnfræðings, að leggja strangt fræðilegt mat á fornar heimildir. Keyser hafði ekki jafn gott lag á því að miðla þekkingu sinni og niðurstöðum í aðgengilegum yfirlitsritum. Margt af því tagi setti hann einungis fram í fyrirlestrum, sem voru ekki gefnir út fyrr en eftir hans dag. Hann var vinsæll fyrirlesari, bæði í Háskólanum og utan hans. Keyser ólst upp í umhverfi sem lagði mikla áherslu á sjálfstæði Noregs, og gætir þess í skrifum hans. Hann setti t.d. fram þá tilgátu að Noregur og Norður-Svíþjóð hefðu byggst fólki, sem kom úr norðri og austri, en Danmörk og Suður-Svíþjóð fólki sem kom úr suðaustri, frá Þýskalandi. Þessi kenning var þó byggð á fremur veikum grunni. Eitt mikilvægasta framlag Keysers var að hann sýndi ótvírætt fram á að Norðmenn hefðu verið forn menningarþjóð og stýrt voldugu ríki, en slík viðhorf voru alls ekki sjálfgefin hjá smáþjóðum Evrópu á þeim tíma. Taldi hann að hnignun Noregs eftir 1320 mætti rekja til þess að konungsvaldið hefði lent í höndum Dana, með stuðningi afla (m.a. innan kirkjunnar), sem voru ekki nógu þjóðholl. Meðal danskra sagnfræðinga vöktu þessi viðhorf litla hrifningu, sem töluðu um þau, í háði, sem „norska skólann í sagnfræði“. Frá 1829 hafði Keyser umsjón með forngripasafni Háskólans, "Universitetets oldsaksamling", og lét opna það stúdentum og öllum almenningi. Rudolf Keyser giftist ekki, en helgaði allt líf sitt sagnfræðirannsóknum. Tenglar. Keyser, Rudolf Keyser, Rudolf Johan Fritzner. Johan Fritzner (f. 9. apríl 1812, d. 10. desember 1893) var norskur prestur og höfundur orðabóka. Æviágrip. Johan Fritzner fæddist á bænum Myren á Askey við Björgvin. Foreldrar: Werner Andreas Fritzner (1777–1863) tollvörður og kona hans Cecilie Cathrine Christie (1784–1827). Hann gekk í skóla í Björgvin, þar sem faðir hans fékk stöðu sem yfirtollvörður. Hann hóf nám í Háskólanum í Kristjaníu, 16 ára gamall, og nam þar guðfræði, þó að áhugamál hans allt frá æskuárum væru á sviði málfræði og sögu. Á háskólaárunum beindist áhugi hans að norrænum málum og sögu Noregs, einkum menningarsögu. Fór hann þá þegar að skrifa upp og safna efni til síðari nota. Á vorin og haustin fór hann fótgangandi milli Kristjaníu og Björgvinjar, og notaði þá tækifærið til að safna slíku efni: Hann lýsti þjóðháttum, skráði þjóðsögur og ævintýri, og lýsti sérkennum alþýðumálsins á hverjum stað. Hann komst snemma á þá skoðun að norsku mállýskurnar væru eðlileg þróun frá fornmálinu, sem hann hafði kynnst í hinum fornu norsk-íslensku bókmenntum. Fritzner tók embættispróf í guðfræði 1832, og var síðan tvö og hálft ár í Kristjaníu til þess að geta sinnt áhugamálum sínum. En hann fékk enga stöðu þar og þáði því kennarastarf við Dómkirkjuskólann í Björgvin, 1835. Í frístundum sínum sökkti hann sér niður í athuganir á hinu forna tungumáli Norðmanna. Hann safnaði einnig gömlum skinnbréfum, sem þá voru enn til á stöku stað. Eftir þrjú ár í Björgvin varð Fritzner sóknarprestur í Vadsø í Finnmörku. Aðalástæðan var sú að hann vildi kynna sér þar samísku og finnsku meðal innfæddra. Rasmus Kristján Rask hafði haldið því fram, að málfarsleg áhrif í Noregi væru fyrst og fremst frá samísku yfir í norsku, en Fritzner var kominn á þá skoðun að því væri öfugt farið. Vorið 1839 tók Fritzner við prestakallinu og sinnti hinu nýja starfi sínu strax af miklum áhuga. Þegar hann hafði náð tökum á tungumálinu fór hann að predika yfir Sömum og Kvenum á samísku og finnsku. Fyrsta ritsmíð sem Fritzner lét prenta (1845) var einmitt um samísku; gagnrýni á rit eftir Nils Vibe Stockfleth: "Grammatikk i det lappiske Sprog". Fritzner varð prófastur í Austur-Finnmörku 1841. Árið 1845 varð Fritzner sóknarprestur í Lier í Buskerud héraði, skammt frá Kristjaníu (Osló), og 1848 í Vanse í Vestur-Agðafylki, sem er nokkru fjær. Hann fór til Kristjaníu eins oft og hann gat, til þess að halda tengslum við vísindamenn þar og kynnast nýjum. Þetta varð til þess að margir háskólamenn fengu vitneskju um hvað þessi lærði prestur var að fást við. Þeir hvöttu Fritzner til að fullvinna orðasöfn sín, með það að markmiði að gefa út orðabók. Árið 1860 hóf hann að búa orðabókina undir prentun og kom fyrsta heftið út í Kristjaníu haustið 1862. Um sama leyti flutti hann sig um set og varð sóknarprestur í Tjølling á Vestfold, sem var mun nær Kristjaníu. Fyrstu útgáfu orðabókarinnar var lokið 1867: "Ordbog over det gamle norske Sprog" (eitt bindi). Hún var þá besta hjálpartækið fyrir þá sem vildu rannsaka mál hinna fornu norsk-íslensku bókmennta, einkum í lausu máli. Fritzner var ljóst að orðabókin var frumsmíð og að auka þyrfti við hana og gefa hana út aftur. Hann sagði því af sér prestsembætti 1877, 65 ára gamall, til þess að geta helgað sig tveimur stórvirkjum, þ.e.a.s. nýrri útgáfu af orðabókinni, og útgáfu á hinu umfangsmikla safni sínu af þjóðfræðilegu og menningarsögulegu efni. Sama ár veitti ríkisstjórnin honum 3.600 króna eftirlaun. Árið 1878 fluttist hann til Kristjaníu og hófst strax handa við verkið. Að jafnaði vann hann óslitið frá því klukkan 5–6 að morgni til 3–4 síðdegis, snæddi þá í faðmi fjölskyldunnar, og hélt svo yfirleitt áfram fram á kvöld. Fyrsta hefti orðabókarinnar kom út 1883, og næstu hefti komu með stuttu millibili. Verkið óx mjög í höndum hans, því að hann leitaðist við að taka allt það með sem honum virtist geta komið að gagni. Fyrsta bindi var lokið 1885, og öðru bindi 1891, þegar Fritzner var kominn á 80. aldursár. Hann hélt þó áfram verki sínu til 1893, þegar byrjað var að prenta 24. hefti orðabókarinnar. Þá fann hann að minnið var farið að gefa sig og að hann yrði að gefa verkið frá sér. Bað hann prófessor Sophus Bugge og tvo aðra vini sína að útvega hæfan mann til að halda verkinu áfram. Tók Carl Richard Unger þá að sér að búa til prentunar það sem eftir var af orðabókinni, og var henni lokið 1896. Fritzner var tekinn í Vísindafélagið í Kristjaníu 1864, og í Konunglega danska vísindafélagið 1888. Hann varð heiðursdoktor við Kaupmannahafnarháskóla 1879. Johan Fritzner dó 10. desember 1893, nær 82 ára gamall, eftir stutta sjúkdómslegu. Hann giftist 1839, Anne Christine Qvale (8. apríl 1816 – 17. desember 1896); foreldrar hennar voru Andreas Qvale (1779–1820) sóknarprestur og Friderike Christianne Dithlevine Heltzen (1777–1820). Nánar um Orðabók Fritzners. Árið 1972 kom út viðaukabindi við orðabókina (4. bindi), eftir Finn Hødnebø, með leiðréttingum og viðaukum. Orðabók Fritzners hefur allt til þessa dags verið mikilvægasta hjálpartækið við rannsóknir á lausamáli hinna fornu norsk-íslensku bókmennta. Útskýringar Fritzners eru nákvæmar og studdar ítarlegum tilvitnunum í umrædd rit. Í sumum tilfellum varpa skýringarnar ljósi á menningarsöguna, eins og tíðkast í alfræðiorðabókum. Nú er hafin útgáfa á Orðabók Árnanefndar, eða Ordbog over det norrøne prosasprog, sem ætlað er að leysa Orðabók Fritzners af hólmi. Ghawar. Ghawar er stærsta olíulind jarðar, hún er staðsett í austurhluta Sádí Arabíu nálægt Persaflóa. Olíulindirnar eru í u.þ.b. 100 km suð-vestur af Dhahran í austurhluta landsins. Ghawar er um 30 km að lengd og 280 km á breidd eða 8400 km². Líkt og aðrar olíulindir Sádí-Arabíu er Ghawar í eigu ríkisfyrirtækisins Saudi Aramco sem einnig vinnur olíuna. Sádí-Arabíska ríkisstjórnin lætur litlar upplýsingar í té um Ghawar enda er hún helsta náttúruauðlind landsins. Olían var uppgötvuð árið 1948 og framleiðsla, eða dæling upp úr jörðu, hennar hófst árið 1951. Því er haldið fram að hámarksframleiðslugetu olíulindarinnar hafi verið náð árið 2005 en því er hafnað af starfsmönnum Saudi Aramco. Desert Eagle. Desert Eagle er hálfsjálfvirk skammbyssa, framleidd á níunda áratugnum af Israel Military Industries, sem er skotvopnafyrirtæki frá Ísrael. Desert Eagle er stærsta skammbyssa í heimi, 260 mm að lengd og er 1,5 kíló að þyngd. Hún er stundum kölluð "Hand Cannon" á ensku, sem þýðir handfallbyssa, því að hún getur skotið .50 caliber skotum. Desert Eagle getur notað 5 tegundir af skotum.50 Action Express, .41 Magnum, .44 Magnum, .440 Cor-bon og .357 Magnum. Alec Guinness. Alec GuinnessAlec Guinness (fæddur 2. apríl 1914, látinn 5. ágúst 2000) var breskur leikari sem meðal annars lék í Stjörnustríði. Vallarheiði. Vallarheiði er hverfi í Reykjanesbæ á Suðurnesjum. Hverfið samanstendur af húsum sem áður tilheyrðu bandaríska varnarliðinu fyrir brottför þess. Nafni svæðisins var breytt í apríl 2009 í Ásbrú. George Orwell. Eric Arthur Blair (25. júní 1903 – 21. janúar 1950), betur þekktur undir höfundarheitinu George Orwell, var enskur rithöfundur og blaðamaður. Þekktustu ritverk hans eru "Dýrabær" og "Nítján hundruð áttatíu og fjögur" sem gagnrýndu alræðisstefnu og sérstaklega stalínisma. Ævi. Orwell fæddist á Indlandi, þar sem faðir hans var lágt settur starfsmaður bresku nýlendustjórnarinnar. Móðir hans fór með hann til Englands þegar hann var eins árs og hann ólst upp í Henley-on-Thames með móður sinni og systrum. Föður sinn sá hann ekki aftur fyrr en 1912, að undanskilinni einni snöggri heimsókn. Átta ára að aldri var hann sendur í heimavistarskólann St. Cyprians. Þar leið honum ekki vel. Hann skrifaði seinna minningar sínar frá skólaárunum, "Such, Such Were the Days", en bókin var ekki gefin út fyrr en eftir lát hans og þá var flestum nöfnum breytt til að draga úr líkum á málssókn fyrir meiðyrði. Flestir ævisagnaritarar Orwells telja þó að frásagnir hans af skólalífinu og líðan hans séu ýktar og gefi ekki rétta mynd af raunveruleikanum. Hann fékk skólavist í Eton og skólastyrk en hafði ekki efni á háskólanámi. Þess í stað fékk hann stöðu í bresku nýlendulögreglunni og var sendur til Burma, þar sem hann var frá 1922-1927. Þá hafði hann einsett sér að gerast rithöfundur, sagði upp starfi sínu og settist að í London. Þar ákvað hann að kynna sér líf og kjör fátæklinga og utangarðsmanna, klæddist tötrum og duldi uppruna sinn og menntun. Seinna flutti hann til Parísar og lifði þar bóhemlífi, starfaði sem blaðamaður en einnig við uppþvott og fleira. Reynslu sína nýtti hann meðal annars í bókinni "Down and Out in Paris and London". Bókin kom út í ársbyrjun 1933 og var vel tekið. Næstu árin gaf Orwell út nokkrar bækur en starfaði einnig við kennslu og bóksölu. Hann gekk að eiga Eileen O'Shaughnessy sumarið 1936. Skömmu síðar hófst spænska borgarastyrjöldin og í árslok ákvað Orwell að fara til Spánar og berjast með lýðveldissinnum. Kona hans fór þangað einnig nokkru síðar. Vorið 1937 var hann skotinn í hálsinn af leyniskyttu og munaði litlu að það yrði bani hans. Hann bjargaðist þó en var dæmdur óhæfur til herþjónustu. Þau hjónin sneru heim til Englands um sumarið en Orwell var heilsuveill. Næstu ár starfaði hann við ritdóma og greinaskrif, svo og hjá BBC, en vorið 1944 lauk hann við "Dýrabæ" ("Animal Farm"). Bókin fékkst ekki gefin út strax því að Bretar vildu ekki styggja Sovétmenn, bandamenn sína. Hún var þó gefin út skömmu eftir stríðslok, í ágúst 1945. Eileen kona Orwells gekkst undir skurðaðgerð 29. mars 1945 og dó á skurðarborðinu, fáeinum mánuðum eftir að þau höfðu ættleitt ungan dreng. Næstu ár dvaldist Orwell öðru hverju á eynni Jura á Suðureyjum og það var að mestu leyti þar sem hann skrifaði "Nítján hundruð áttatíu og fjögur". Heilsa hans fór þó síversnandi og hann reyndist kominn með berkla. Bókin kom út í júní 1949 og hlaut þegar mjög góðar viðtökur. Orwell var lagður inn á sjúkrahús um haustið og átti ekki afturkvæmt þaðan. Þann 13. október giftist hann á sjúkrabeði ungri konu, Soniu Bronwell, sem hann hafði þekkt um nokkurra ára skeið, og 21. janúar lést hann. Stjórnmál. Skoðanir Orwells á stjórnmálum breyttust eftir því sem leið á ævina en alltaf fylgdi hann þó vinstri stefnu. Þjóðfélagsgagnrýni er megininntak bóka hans en hann ræðst ýmist á borgaraleg gildi eða sósíalista og alræðisvald. Dvöl hans í Burma gerði hann að andstæðingi heimsvaldastefnu. Á Spáni varð hann sannfærður sósíalisti en jafnframt and-stalínisti. Hann barðist gegn gyðingahatri en var um leið and-zíonisti. Knattspyrnudeild Þróttar. Knattspyrnudeild Þróttar fer með rekstur og skipulag meistaraflokka Þróttar í knattspyrnu og yngri flokka félagsins. Meistaraflokkur karla. Þróttur sendi fyrst lið til þátttöku á Íslandsmóti árið 1953 og hefur ætíð gert það síðan. Íslandsmót (engin deildaskipting) 1953-1954 1. deild 1955 2. deild 1956-1958 3. deild 1989-1990 Úrvalsdeild 1998 2. deildarmeistari 1958, 1963, 1965, 1975, 1977 og 1982. 3. deildarmeistari 1990 1. deildarmeistari 1997 Árangur 1990-2007. C. Deild 1990 1. sæti Sigurður Hallvarðsson markahæstur með 17 mörk í 17 leikjum. B. Deild 1991 6. sæti Sigurður Hallvarðsson markahæstur með 6 mörk í 17 leikjum. B. Deild 1992 5. Sæti Sigfús Kárason markahæstur með 6 mörk í 9 leikjum. B. Deild 1993 6. sæti Ingvar Ólason markahæstur með 10 mörk í 17 leikjum. B. Deild 1994 4. Sæti Páll Einarsson markahæstur með 5 mörk í 18 leikjum. B. Deild 1995 6. sæti Óskar Óskarsson markahæstur með 7 mörk í 11 leikjum. B. Deild 1996 3. sæti Heiðar Helguson markahæstur með 9 mörk í 15 leikjum. B. Deild 1997 1. Sæti Einar Örn Birgisson markahæstur með 10 mörk í 17 leikjum. A. Deild 1998 9. sæti Tómas Ingi Tómasson markahæstur með 14 mörk í 18 leikjum. B. Deild 1999 8. sæti Hreinn Hringsson markahæstur með 10 mörk í 18 leikjum. B. Deild 2000 7. sæti Páll Einarsson markahæstur með 9 mörk í 18 leikjum. B. Deild 2001 3. sæti Brynjar Sverrisson markahæstur með 9 mörk 17 leikjum. B. Deild 2002 2. sæti Brynjar Sverrisson markahæstur með 11 mörk í 13 leikjum. A. Deild 2003 9. sæti Björgólfur Takefusa markahæstur með 10 mörk í 17 leikjum. B. Deild 2004 2. sæti Páll Einarsson markahæstur með 9 mörk í 18 leikjum. A. Deild 2005 10. sæti Páll Einarsson markahæstur með 5 mörk í 18 leikjum. B. Deild 2006 4. sæti Halldór Hilmisson markahæstur með 5 mörk. B. Deild 2007 2. sæti Hjörtur Hjartarsson markahæstur með 18 mörk í 21 leikjum. A. Deild 2008 10. sæti Hjörtur Hjartarsson markahæstur A. Deild 2009 11. sæti Haukur Páll Sigurðsson markahæstur Leikjahæstu leikmenn Þróttar í efstu deild. Jóhann Hreiðarsson 95 Páll Ólafsson 83 Daði Harðarsson 80 Markahæstu leikmenn Þróttar í efstu deild. Sören Hermansen 10 Spanspóla. Spanspóla (oftast nefnd "spóla") er íhlutur í rafrás, sem er notaður til að mynda launviðnám. Spólan er yfirleitt vindingur af vír sem er ofinn oft um ás sinn þannig að þegar straumur fer í gegnum spóluna þá myndast span "L" og þá verður sambandið á milli spennu og straums skv. jöfnunni Ron Lewin. Denis Ronald „Ron“ Lewin (f. 1920, d. 1985) er enskur fyrrum atvinnumaður og þjálfari í knattspyrnu. Hann lék 191 deildarleiki m.a. með liðunum Fulham og Chesterfield á Englandi. Sem þjálfari hefur hann m.a. þjálfað norska landsliðið, Cheltenham, Newcastle, Everton, Walsall. Lewin þjálfaði auk þess KR og Þrótt Reykjavík. Auk þess hefur hann komið að þjálfun í Hollandi og Kuwait. Þjálfun á Íslandi. Lewin kom fyrst að þjálfun á Íslandi þegar hann aðstoði KR árið 1967. Lewin þjálfaði svo KR-inga keppnistímabilið 1976. Árið 1980 var hann ráðinn til Þróttar. Skap hans komst þá stundum í fréttir eins og þegar Morgunblaðið vitnaði í Lewin í fyrirsögn um leik Þróttar og Breiðabliks 29. júlí 1980. Málstilvik voru þau að Harry Hill, leikmaður Þróttar, klappaði Helga Bendtsson eftir návígi þeirra í leiknum. Mun Lewin þá hafa sagt: "Ekki klappa honum, sparkaði í hann". Var það mat blaðamanns að lið Þróttar kæmi ekki til með að vinna leiki, meðan þjálfari liðsins leggði meiri áherslu á að sparka í andstæðinga liðsins fremur en boltann. Spennubreytir. Þriggja fasa spennubreytir á staur. Spennubreytir eða straumbreytir, oft kallaður spennir, er raftæki sem notar riðstraum til að mynda span í rafrás, sem síðan er notað til að mynda rafspennu í annari rafrás. Þannig flyst orka milli rafrása, sem vinna á misjafnri spennu, t.d. er algengt að raftækjum fylgi spennubreytir, sem lækkar netspennuna, 230 volt í 9 eða 12 volt, sem raftækið vinnur með. Reynt er að hanna spennubreyta þ.a. sem minnst af orkunni tapist sem varmi. Simonyi Gabor. Simonyi Gabor var ungverskur frjálsíþrótta þjálfari. Gabor starfaði lengi að þjálfun hjá ÍR. Á árunum 1963-1964 þjálfaði hann meistaraflokk Þróttar í knattspyrnu. Streptókokkar. Streptókokkar (keðjukokkur eða keðjuhnettla) eru ættkvísl kúlulaga Gram-jákvæðra gerla. Þeir vaxa í keðjum vegna þess hvernig þeir skipta sér. Streptókokkasýkingar valda hálsbólgu, heilahimnubólgu, júgurbólgu, lungnabólgu, hjartaþelsbólgu og fleirum sýkingum. Ættkvíslin er fremur stór og telur 107 tegundir og undirtegundir. Meðal þekktustu tegunda má nefna "S. bovis", "S. faecalis", "S. thermophilus" og "S. pneumoniae". Þess má geta að "S. viridans" telst ekki lengur gilt nafn og tilheyra "„viridans“" streptókokkar nú tegundinni "S. oralis". Vellir. Vellir í Svarfaðardal, mynd tekin í mars 2008. Vellir er bær, kirkjustaður og áður prestssetur í Svarfaðardal. Bærinn er austan megin Svarfaðardalsár en handan árinnar er kirkjustaðurinn Tjörn. Upp af Völlum rís Vallafjall um 1000 m hátt en inn af því er Messuhnjúkur og Rimar, hæsta fjall við utanverðan Svarfaðardal, yfir 1300 m hátt. Vellir hafa löngum verið meðal helstu jarða í dalnum og oft einskonar miðstöð sveitarinnar enda var hreppurinn fyrrum nefndur eftir staðnum og kallaðist Vallahreppur. Þar var komið upp símstöð þegar landssímastrengur var lagður um Norðurland 1907 en þá var hann lagður um Svarfaðardal og vestur um Heljardalsheiði. Vellir eru að öllum líkindum landnámsjörð og nafn bæjarins kemur fyrir í fornsögum. Þar bjó Valla-Ljótur Ljótólfsson, en hann var sonur Ljótólfs goða á Hofi. Valla-Ljóts saga segir frá deilum hans við Guðmund ríka á Möðruvöllum. Guðmundur góði Arason var prestur á Völlum áður en hann varð biskup á Hólum. Af öðrum Vallaprestum má nefna annálaritarann Eyjólf Jónsson (1670-1745) höfund Vallaannáls, Pál Jónsson (1812-1889) sálmaskáld (sem samdi t.d. Ó Jesú bróðir besti) og sr. Stefán Snævarr en hann var síðasti prestur sem sat á Völlum. Þegar hann flutti til Dalvíkur 1967 lögðust Vellir af sem prestssetur. Núverandi eigendur og ábúendur á Völlum eru Hrafnhildur Ingimarsdóttir og Bjarni Óskarsson sem oft er kenndur við veitingahúsakeðjuna Nings, Bjarni í Nings. Vallakirkja var byggð árið 1861 og er því elsta kirkjan í Svarfaðardal og Dalvíkurbyggð. Sláturfélag Suðurlands. Sláturfélag Suðurlands (skammstafað sem SS) er íslenskt sláturfélag. Var það stofnað við Þjórsárbrú þann 28. janúar árið 1907 af 565 stofnendum. Ein þekktasta vara fyrirtækisins eru SS-pylsur. Helsti stofnandi var Tómas Tómasson sem hafði lært slátrun í Kaupmannahöfn og var fyrsti faglærði slátrarinn á Íslandi. Sláturfélagið reisti nýtískulegt sláturhús við Lindargötu í Reykjavík við stofnun. Árið 1913 byggði félagið frystihús með kælibúnaði til kjötgeymslu og var það fyrsta slíka frystihús til kjötgeymslu með vélbúnaði á landinu. Utanlegsfóstur. Utanlegsfóstur kallast það þegar egg kvendýrs frjóvgast utan við legið, þ.e. innan kviðarhols, á eggjastokkum, leghálsi eða eggjaleiðara. Þetta gerist vegna þess að bil er milli eggjaleiðarans og eggjastokks og er egginu ætluð för með bifhárum niður í eggjaleiðarann. Helmingur utanlegsfóstra eyðast sjálfkrafa á meðan önnur þarf að taka með fóstureyðingu og skurðaðgerð. Vallakirkja. Vallakirkja er kirkja að Völlum í Svarfaðardal. Hún var byggð árið 1861 og er því elsta kirkjan í Svarfaðardal og Dalvíkurbyggð. Hún er úr timbri og turnlaus eins og hinar gömlu kirkjur dalsins. Kirkjugarðurinn er umhverfis kirkjuna. Núverandi prestur er Magnús Gamalíel Gunnarsson. Vallakirkju má ekki rugla saman við Valakirkju hjá Ingólfsfjalli. Framan við Vallakirkju er allmikið klukknaport sem jafnframt er sáluhlið að kirkjugarðinum. Klukknaportið var reist þegar gamall brottfluttur Svarfdælingur, Soffanías Þorkelsson frá Hofsá, gaf klukku eina mikla til kirkjunnar. Þetta var stærsta kirkjuklukka landsins og vóg nærri tvö tonn. Það var of mikill þungi fyrir hina öldnu kirkju svo að brugðið var á það ráð að reisa sérstaka byggingu fyrir klukkuna, sem er turn eða klukknaport yfir sáluhliðinu. Árið 1996 stóðu yfir gagngerar endurbætur á Vallakirkju. Var því verki að mestu lokið og búið að koma flestum kirkjumunum fyrir á sínum stað þegar kviknaði í henni og brann hún svo lá við gereyðileggingu. Ýmsir töldu að þar með væri lokið sögu Valla sem kirkjustaðar. Svo fór þó ekki því fjársöfnun var sett af stað og kirkjan síðan endurbyggð út í hörgul og var hin nýja kirkja vígð árið 2000. Markaður. Markaður er vettvangur þar sem vöruskipti fara fram þó ekki sé endilega um eiginlegan stað að ræða. Á markaði geta menn skoðað framboð og eftirspurn vöru, eigna og þjónustu. Réttarbót. Réttarbót (ft. réttarbætur), eru lög eða lagagreinar, sem konungar gáfu út sem viðauka við gildandi lögbækur. Hér á Íslandi voru flestar réttarbætur miðaðar við Jónsbók, og eru þær oft teknar upp í Jónsbókarhandrit sem viðaukar aftan við lögbókina. Réttarbætur voru yfirleitt í formi innsiglaðs bréfs (konungsbréfs) til þegnanna. Þau voru lesin upp á Alþingi og hlutu þar með lagagildi. Oft voru réttarbætur settar að ósk Alþingis, til þess að leysa úr málum eða aðstæðum sem "Jónsbók" hafði ekki nógu skýr ákvæði um. Þjófræði. Þjófræði (enska: "kleptocracy") er stjórnarfar ríkisstjórna sem hyglar auði þjóðarinnar til valdastéttarinnar á kostnað alþýðunnar. Þjófræðissinnar skapa oft verkefni í opinberum málaflokkum og láta auðinn af þeim renna beint í eigin vasa. Náttskuggaætt. Náttskuggaætt eða kartöfluætt (fræðiheiti: "Solanaceae") er ætt dulfrævinga sem margir eru ætir en sumir eitraðir (og sumir bæði með eitraða og æta hluta). Margar jurtir af þessari ætt eru hagnýttar af mönnum og eru mikilvægt hráefni í matargerð, sem krydd og í lyfjagerð. Margar jurtir af þessari ætt innihalda aftur á móti mikið magn af beiskjuefnum sem geta haft eitrunaráhrif á menn og dýr, allt frá minniháttar óþægindum að því að vera banvæn í litlum skömmtum. Blóm jurta af náttskuggaætt eru venjulega keilulaga eða trektlaga með fimm samvaxin krónublöð. Laufin eru stakstæð, oft með loðið yfirborð. Rafiðnaðarfélag Norðurlands. Rafiðnaðarfélag Norðurlands var stofnað 16. júlí 1937 en hét þá Rafvirkjafélag Akureyrar. Félagið er stéttarfélag rafvirkja, rafvélavirkja og rafveituvirkja með 150 félagsmenn. Nafni félagsins var breytt í Rafiðnaðarfélag Norðurlands á aðalfundi þess árið 2000. Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru átta markmið sem 189 aðildarlönd Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt að reyna að ná fyrir árið 2015. Markmiðin voru skilgreind í Þúsaldaryfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og samþykkt á Þúsaldarráðstefnunni árið 2000. Sætar kartöflur. Sætar kartöflur (fræðiheiti: "Ipomoea batatas") eru fjölær jurt sem gefur af sér hnýðisávexti sem nefndir eru sætar kartöflur. Þær eru notaðar með mjög svipuðum hætti og venjulegar kartöflur, en eru öllu sætari á bragðið. Forræði. Forræði eða hegemónía (úr ensku "hegemony" sem kemur úr forngríska orðinu ἡγεμονία (hēgemonia) sem þýðir „veldi“ eða „forusta“) kallast það þegar eitt ríki býr yfir forræði grannríkja þess. Kommúnistaflokkur Íslands (m-l). Kommúnistaflokkur Íslands (marxistarnir-lenínistarnir) (sem voru þekktari sem KFÍ m-l) var stjórnmálahreyfing sem starfaði frá byrjun áttunda áratugs tuttugustu aldar fram undir miðjan níunda áratuginn. Þau áttu upptök hjá íslenskum námsmönnum í Gautaborg í Svíþjóð á árunum kring um 1970. Þeir höfðu þar tengst maóistasamtökum þeim sem nefnd voru, hópurinn kallaði sig upphaflega ýmist "Gautaborgarhópinn" eða "Kommúnistahreyfingin marxistarnir-lenínistarnir" (KHML). Formleg samtök voru stofnuð 1972 og voru þá nefnd "Kommúnistasamtökin marxistarnir-lenínistarnir" (sem varð þekktara sem KSML). Lögð var mikil áhersla á að nema fræðikenninguna og beita henni á íslenskan veruleika. Undir kjörorðinu "s"tétt gegn stétt" var sérlega reynt að skilgreina hvaða þjóðfélagshópar væru byltingarsinnaðir í eðli sínu. Var Jósef Stalín einkum hampað sem fyrirmynd og pólitískum leiðtoga. Starf samtakana fyrstu árin einkenndist mjög af viðleitni til að halda pólitísku línunni hreinni með ströngum aga og afneituðu þau öllu samstarfi við aðra aðila svo sem innan samtaka herstöðvaandstæðinga eða verkalýðsfélaga. KSML lagði þess vegna mikla áherslu að berjast gegn Alþýðubandalaginu en þó sérlega EIK (m-l) og Fylkingunni. KSML bauð einu sinni fram í Alþingiskosningum, árið 1974, en fengu einungis 121 atkvæði. Þrátt fyrir það þótti félagsmönnum að samtökunum hafði svo vaxið fiskur um hrygg að ákveðið var 1975 að breyta honum í lenínískan flokk og var hann nefndur "Kommúnistaflokkur Íslands marxistarnir-lenínistarnir". Þrátt fyrir þetta fór mjög að fækka í flokknum á næstu árum og gengu allmargir fyrrverandi félagar þess í stað í EIK (ml). Þessi tvö samtök voru svo sameinuð 1979 í Kommúnistasamtökunum (KS), en við sameininguna hættu margir félagar beggja samtakanna starfi. KS voru lögð niður árið 1985. Málgagn KSML og KFÍ-ml var tímaritið Stéttabaráttan. Geisladiskur. Geisladiskur (á ensku "Compact Disc", skammstafað "CD") er gagnadiskur, sem einkum er notaður til að geyma tónlist. Diskurinn er jafnstór að flatarmáli og mynddiskur (einnig kallaður DVD), en getur að hámarki geymt um 780 megabæt, sem er um það bil einn sjötti af því gagnamagni sem eldri mynddiskar geta geymt. Geislanum sem les geisladiska er miðað undir geisladiskinn, og hann les diskinn frá miðju og út að brún. Slysavarnafélag Íslands. Slysavarnafélag Íslands var stofnað 29. janúar 1928. Félaginu var ætlað það hlutverk að draga úr slysum á sjó og koma upp búnaði til björgunar. Á stofnfundinum gengu 200 manns í félagið. Lögð var áhersla á að félagið yrði þverpólitískt. Saga félagsins. Aðdragandi að stofnun SVFÍ var nokkuð langur en á þessum tíma var ekki óalgengt að tugir sjómanna létu lífið í sjóslysum á ári hverju. Í kjölfar strands Jóns forseta við Stafnes aðfaranótt 27. febrúar 1928, þar sem 15 manns fórust en 10 var bjargað við erfiðar aðstæður, hófst stofnun slysavarnadeilda víðsvegar um landið. Fyrsta slysavarnadeildin var Sigurvon í Sandgerði. Ásamt stofnun slysavarnadeilda beitti Slysavarnafélagið sér fyrir útbreiðslu svokallaðra fluglínutækja til slysavarnadeildanna um landið, en fluglínutæki eru sérhæfður búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum. Fyrsta björgun með fluglínutækjum var þegar Slysavarnadeildinni Þorbirni í Grindavík auðnaðist sú mikla gæfa að bjarga 38 manna áhöfn franska síðutogarans Cap Fagnet frá Fécamp, sem strandaði í slæmu veðri við bæinn Hraun, austan Grindavíkur, aðfaranótt 24. mars 1931. Slysavarnadeildin Þorbjörn hafði verið stofnuð röskum 5 mánuðum áður eða þann 2. nóvember 1930. Síðan þá hefur þessari einu slysavarnadeild og björgunarsveit hennar tekist að bjarga 205 sjómönnum með fluglínutækjum úr strönduðum skipum, en samtals eiga 232 sjómenn þessari einu slysavarnadeild líf sitt að launa. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjum og íslenskum slysavarnadeildum og björgunarsveitum líf sitt að launa. Björgunarskip. Slysavarnafélag Íslands beitti sér einnig fyrir kaupum á björgunarbátum og -skipum. Fyrsti björgunarbátur félagsins kom til landsins í apríl 1929 og var nefndur Þorsteinn, eftir Þorsteini Þorsteinssyni skipstjóra sem gaf félaginu andvirði bátsins. Þorsteinn, sem var keyptur notaður af hinu konunglega breska björgunarbátafélagi Royal National Lifeboat Institution (RNLI), var fyrst um sinn staðsettur í Reykjavík en var síðar komið fyrir í Sandgerði. Síðar var hann að nýju staðsettur í Reykjavík uns hann varð fyrir skemmdum og í kjölfarið tekinn úr notkun. Þorsteinn er varðveittur í Sandgerði. Árið 1937 kom til landsins björgunarskútan Sæbjörg sem sérsmíðuð var fyrir félagið. Sæbjörgu var síðar breytt og hún stækkuð og leigði íslenska ríkið og Landhelgisgæslan hana sem björgunar- og varðskip til ársins 1965. Árið 1950 fékk félagið afhenta aðra björgunarskútu sem fékk nafnið María Júlía. Hluti af andvirði hennar var greiddur af Björgunarskútusjóði Vestfjarða. Þriðju björgunarskútuna fékk félagið árið 1956 sem fékk nafnið Albert. Hluti af andvirði hennar var greiddur af Björgunarskútusjóði Norðurlands. Bæði María Júlía og Albert voru leigð til íslenska ríkisins og gerð út af Landhelgisgæslunni sem björgunar- og varðskip. Árið 1956 kom einnig til landsins nýr og fullkominn björgunarbátur sem staðsettur var í Reykjavík. Báturinn var nefndur Gísli J. Johnsen í höfuðið á Gísla J. Johnsen stórkaupmanni sem gaf félaginu andvirði bátsins. Árið 1989 keypti félagið notað björgunarskip af RNLI sem leysti Gísla J. Johnsen af hólmi og fékk það nafnið Henry A. Hálfdanarson. Árið 1993 keypti félagið notað björgunarskip af þýska slysavarnafélaginu og staðsetti í Sandgerði. Árið 1996 keypti félagið notuð björgunarskip af hollenska slysavarnafélaginu og staðsetti á Neskaupstað, Raufarhöfn og á Rifi og árið 1997 voru enn keypt notuð skip af Þjóðverjum og staðsett á Siglufirði og Ísafirði. Öll þessi skip hafa verið tekin úr notkun. Í dag eru gerð út 14 björgunarskip allt í kringum landið auk fjölmargra minni björgunarbáta og hefur félagið alla tíð notið velvilja og stuðnings landsmanna til kaupa og reksturs þeirra. Flest núverandi björgunarskipa eru af svokallaðri ARUN gerð og keypt af Konunglega breska björgunarbátafélaginu RNLI. Fyrsta slíka skipið var staðsett í Grindavík árið 1998 og fékk það nafnið Oddur V. Gíslason, eftir hinum kunna presti sem þjónaði á Stað í Grindavík á seinni hluta 19. aldar, en hann var frumkvöðull slysavarna á Íslandi. Fyrsta þyrlan. Árið 1947 stóð Slysavarnafélagið fyrir innflutningi á þyrlu til kynningar sem mögulegu björgunartæki. Röskum tveimur áratugum síðar, eða árið 1968, keyptu Slysavarnafélagið og íslenska ríkið saman fyrstu þyrluna, TF-EIR. Tilkynningaskyldan. Árið 1968 fól ríkið Slysavarnafélaginu að koma á fót og reka Tilkynningaskyldu íslenskra skipa. Mikil umræða hafði verið árin þar á undan um mikilvægi slíkrar þjónustu og höfðu Vestmannaeyingar verið með vísi af einhvers konar tilkynningaskyldu fyrir sína báta. Það var þó ekki fyrr en síldarbáturinn Stígandi fórst djúpt norður í höfum í ágúst mánuði árið 1967 að málið komst á rekspöl. Á þessum tíma voru engar markvissar upplýsingar um ferðir skipa. Þó var vitað að Stígandi væri á landleið. Þegar skipið skilaði sér ekki til lands var farið að óttast um að og fljótlega hófst mikil leit. Rétt tæpum fimm sólarhringum eftir slysið fannst áhöfn skipsins á reki í björgunarbátum. Er þetta lengsti tími sem íslenskir sjómenn hafa þurft að dvelja í björgunarbátum svo vitað sé. Samhliða Tilkynningaskyldunni rak Slysavarnafélagið björgunarmiðstöð sem stjórnaði leit og björgun á hafinu. Slysavarnafélagið sá um rekstur Tilkynningaskyldunnar til ársins 2004 þegar hún varð hluti af vaktstöð siglinga en vaktstöðin er nú hluti af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Önnur verkefni. Árið 1985 stofnaði Slysavarnafélagið Slysavarnaskóla sjómanna sem heldur úti kennslu í öryggismálum sjómanna. Slysavarnafélag Íslands hefur verið frumkvöðull að ýmsum stórum þáttum í björgunar- og öryggismálum og hefur ætíð látið til sín taka á þeim vettvangi. Má þar meðal annars nefna þætti eins og "Slys í landbúnaði" og "Vörn fyrir börn". Oftast þurfti félagið að bera kostnað af þessum verkefnum fyrstu árin en síðar fór íslenska ríkið að taka þátt í rekstrarkostnaði þeirra. 2. október 1999 sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg - landssamband björgunarsveita í ein slysavarna- og björgunarsamtök; Slysavarnafélagið Landsbjörg. Yara. Yara International ASA er norskur áburðarframleiðandi og fyrrverandi dótturfyrirtæki Norsk hydro. Fyrirækið skiptist í tvo hluta; Hydro Agri og Hydro Gas & Chemicals. Það hefur verið skráð á norska hlutabréfamarkaðinn frá 25. mars 2004. Norska ríkið á stærstan hlut í félaginu, eða 36,2% af hlutabréfum. Í maí 2007 keypti Yara 30,05% í finnska áburðarsalanu Kemira GrowHow og hyggst kaupa fyrirtækið að fullu. Yara sérhæfir sig í að framleiða úrefni, ammoníak og nítröt fyrir tilbúinn einkorna áburð. Skurðgoðið með skarð í eyra. "Skurðgoðið með skarð í eyra" eða "L'Oreille Cassée" (Brotna eyrað) eins og hún heitir á frummálinu, er myndasögubók eftir belgíska teiknarann Hergé og hluti af myndasöguseríum hans Ævintýri Tinna (Les Aventures de Tintin) og er sjötta bókin. Bókin var fyrst gefin út 1937 og svo gefin út í lit 1943. Bókin var gefin út árið 1975 á Íslandi í þýðingu Lofts Guðmundssonar. Söguþráður. Skurðgoði einu er stolið úr þjóðfræðisafninu í bænum sem Tinni býr í. Tinni er einn blaðamannanna sem rannsakar málið. Daginn eftir er skurðgoðinu skilað með nafnlausu bréfi sem segir ástæðuna fyrir stuldinum hafa verið veðmál. Skurðgoðið var í eign Arúmba-indjánaflokksins í Suður-Ameríku. Tinni les bók um þá og kemst að því að skurðgoðið var með skarð í hægra eyranu en því sem var skilað var með bæði eyrun ósködduð. Tinni fréttir síðan af tréskurðarmanni að nafni Balthasar sem var myrtur. Tinna grunar að hann tengist málinu og fer heim til Balthasars. Hann kemst að því að Balthasar var greinilega myrtur og sá eini sem getur sagt honum hver myrti hann er páfagaukur Balthasars. En því miður hafði suður-amerískur maður fengið hann. En Tinni finnur hvar hann á heima og laumast þangað. Suður-Ameríkubúinn (sem heitir Ramón), ásamt félaga sínum, Alfonso Peres, ætla líka að nota páfagaukinn til að finna út hver myrti Balthasar. Páfagaukurinn endurtekur hinstu orð eiganda síns: "Ródrígó Tortilla! Þú myrðir mig!" Þeir komast að því að Tortilla er á leið til Suður-Ameríkuríkisins San Theodóros með skipinu Ljónafossi. Þeir ferðast með skipinu og finna Tortilla og myrða hann. Tinni hafði líka komist um borð og lætur handtaka þá. Tinna kemst að því að skurðgoðið sem þeir fengu hjá Tortilla var falsað. En Ramón og Peres eru kunningjar herforingja í Los Dópíkos og hann kennir Tinna um hryðjuverk og er Tinni handtekinn og skráður í aftöku um dögun. En þegar aftakan á að hefjast verður bylting og Alkasar hershöfðingi steypir einræðisherranum Tapíóka. Hann gerir Tinna að aðstoðarliðsforingja sínum. Sem aðstoðarliðsforingi hafnar Tinni samning olíufélags vegna stríðs, og ráða þeir launmorðingjann Pabló til að drepa Tinna. Peres og Ramón eru enn á kreiki og vilja koma Tinna fyrir kattanef. Ramón og Pabló reyna drepa Tinna sama kvöldið, og vita ekki hvor um annan. Báðum mistekst og Ramón sleppur og Tinni sýnir Pabló vægð. Ramón og Peres komast að því að skurðgoðið sem Tortilla var með var falsað og ræna Tinna, því þeir halda að Tinni viti hvar rétta skurðgoðið er og Tinni lýgur því að það sé um borð í Ljónafossi og tekst síðan að handtaka þá. Olíufélagið falsar gögn um að Tinni sé að hjálpa Nuevo Rico, óvinaborg Las Dópíkos, og Alkasar lætur dæma hann til dauða. En Pabló bjargar Tinna og honum tekst að flýja. Tinna lendir í frumskógum Suður-Ameríku nálægt Arúmba-indjánunum og hittir landkönnuðinn Ridgewell sem týndist en býr í raun með Arúmba-indjánunum. Tinni kemst að því að Arúmba-indjánarnir gáfu landkönnuðinum Walker skurðgoð að gjöf en túlkurinn Lópes stal töfrademanti í eigu Arúmbana og faldi hann í skurðgoðinu. Arúmba-idjánarnir komust að þessu og drápu nær alla leiðangursmennina en Walker komst undan með skurðgoðið en vissi ekki af demantinum. Tinni heldur síðan áfram að leita að rétta skurðgoðinu en hittir Peres og Ramón, sem hafa komist að því að Ljónafoss sökk og vita að Tinni laug. Tinna tekst handsama þá og heldur heim. Heima finnur Tinni þúsundir eftirlíkinga af skurðgoðinu í búð í eigu bróður Balthasars sem fékk frummyndina frá honum. Hann segir Tinna að hann hafi selt ameríska milljónamæringnum, Samúel Gullfæti, frummyndina. Tinni kemst að því sá er um borð í skemmtiferðaskipi og fer um borð og finnur skurðgoðið. En Peres og Ramón eru líka um borð og komast að því að Gullfótur væri með frummyndina. Mennirnir slást um skurðgoðið og falla með demantinum útbyrðis en aðeins Tinni finnst. Peres, Ramón og demanturinn hurfu eins og jörðin hefði gleypt þá. Tinni skilar svo skurðgoðinu á þjóðfræðisafnið. Heimsviðskiptaráðstefnan í Davos. Heimsviðskiptaráðstefnan í Davos er árleg ráðstefna Alþjóðlegu efnahagstofnunarinnar. Þar hittist áhrifafólk á sviðum viðskipta og stjórnmála ásamt fræðimönnum og blaðamönnum árlega í Svissneska bænum Davos og ræða félagsleg og efnahagsleg vandamál heimsins. Fjórir Íslendingar sóttu ráðstefnuna árið 2008 en það voru þeir Jón Sigurðsson forstjóri Össurar, Björgólfur Thor Björgólfsson, Ólafur Elíasson og Jón S. von Tetzchner. Lestarsamgöngur. Lestarsamgöngur er gerð samganga notaðar að flytja farþega og farm um borð lestarökutækja á járnbrautum. Járnbrautir hafa yfirleitt tvo teina gerða úr stáli sem byggjast á þverbitum. Vegalengdin á milli teina er kölluð mál. Járnbrautarteinarnir eru byggðir á kjölfestum eða steinsteypu. Akurblessun. Akurblessun (þýska: "Ackersegen") er kartöfluyrki sem var þróað í Þýskalandi út frá yrkjunum Hindenburg og Allerfrüheste Gelbe árið 1929. Yrkið var mjög útbreitt þar til á 7. áratugnum og var meðal annars flutt inn til Íslands. Þetta yrki er í meðallagi mygluþolið. Kartaflan er okkurgul á hýðið, hnöttótt eða egglaga, með fremur grunn augu og ljósgult, mjölmikið kjöt. Kartöflumygla. Kartöflumygla (fræðiheiti: "Phytophthora infestans") er eggsveppur sem leggst á kartöflur og veldur rotnun á bæði grösum og hnýðum (í mismiklum mæli eftir kartöfluafbrigðum). Kartöflumyglan olli víðtækum uppskerubresti og hungursneyð í Evrópu um miðja 19. öld. Myglan getur líka lagst á aðrar jurtir af náttskuggaætt, s.s. tómata. Merki um kartöflumyglu á laufi. Myglan smitast með gróum sem sitja á sýktum hnýðum yfir veturinn (sérstaklega þeim sem skilin eru eftir í jörðu frá síðasta ári), á laufum í safnhaugum og geta einnig borist víða með vindinum. Þegar hiti er yfir 10°C og rakastig yfir 75% breiðir myglan mjög hratt úr sér og leggjur allt kartöflubeðið fljótlega undir sig. Fyrstu einkenni kartöflumyglu eru svartir blettir á blaðendum og stönglum. Fljótlega falla kartöflugrösin alveg. Kartöflumygla kemur enn upp með reglulegu millibili. Sveppaeitur er notað fyrirbyggjandi til að koma í veg fyrir smit þegar smithætta er. Algengt var að nota Metalaxyl en myglan hefur sýnt að hún myndar þol gegn því ef það er notað eitt og sér. Hægt er að fyrirbyggja mygluna með því að hreykja mold upp að stönglunum og lengja þannig leiðina sem myglan þarf að fara til að komast í laufin. Einnig er hægt að eyða grösunum, t.d. með jurtaeitri eða brennisteinssýru, tveimur vikum fyrir uppskeru. Gullauga. Gullauga (norska: "Gullauge") er kartöfluyrki sem er aðallega ræktað í Norður-Noregi og á Íslandi. Hún er með gulan leiðsluvef sem kemur fram sem gulur hringur þegar kartaflan er skorin í tvennt. Gullaugakartöflur eru fremur smáar, gular, hnöttóttar eða egglaga, með miðlungsdjúp rauðleit augu (sem þær draga nafn sitt af). Kjötið er mjölmikið með tiltölulega hátt þurrefnisinnihald. Þær eru með gott þol gegn Fusarium-rotnun en lítið þol gegn kartöflumyglu. Gullaugakartöflur bárust líklega til Norður-Noregs með sænskum farandverkamönnum um aldamótin 1900. Á Íslandi voru þær fyrst ræktaðar af Klemenz Kristjánssyni tilraunastjóra á Sámstöðum í Fljótshlíð árið 1931 og bar hann þeim vel söguna. Þær hafa notið mikillar hylli á Íslandi, einkum vegna bragðsins. Til er úrval úr gullauga með rautt hýði sem kallað er „rautt gullauga“ (eða „Helga“ á Íslandi). Fyrir utan litinn á hýðinu er þetta afbrigði eins og venjulegt gullauga. Tenerífe. Tenerífe er stærst Kanaríeyja við strönd Vestur-Afríku í Atlantshafinu. Höfuðstaður eyjarinnar er Santa Cruz de Tenerife. Tenerife er fjölmennasta eyja Kanaríeyja, íbúar hennar eru 899.833 (2009), sem gerir það fjölmennasta eyjan í eyjaklasanum og á Spáni. Eyjan er þekkt fyrir að vera á það eldfjall Teide (hæsta fjall Spánar í Atlantic Ocean eyjar og þriðja stærsta eldfjall í heimi þar sem Bas þess), heimsminjaskrá UNESCO. Þriðja stærsta borg Kanaríeyjanna er San Cristóbal de La Laguna (heimsminjaskrá UNESCO) á eyjunni Tenerífe. Antwerpen. Antwerpen (franska: "Anvers") er stærsta og fjölmennasta borgin í Belgíu með tæplega 470 þús íbúa. Hún er jafnframt höfuðborg samnefnds héraðs. Á 16. öld var Antwerpen ríkasta verslunarborg heims og komu þangað hundruðir skipa daglega. Hún er enn í dag ein mesta hafnarborg Evrópu og mesta verslunarborg demanta í heimi. Nokkrar byggingar í gömlu miðborginni eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. Antwerpen liggur nær nyrst í Belgíu, við fljótið Schelde, sem rennur út í Norðursjó um fjörðinn Westerschelde. Næstu stærri borgir eru Turnhout til austurs (45 km), Brussel til suðurs (50 km), Gent til suðvesturs (50 km) og Breda í Hollandi til norðvesturs (55 km). Hollensku landamærin eru beint við norðurjaðar borgarinnar. Í Antwerpen er ein stærsta og umsvifamesta höfn Evrópu og liggur hún sitthvoru megin við Schelde fyrir norðan borgina. Til að komast til sjávar verða skip að sigla um skipastiga til Westerschelde í Hollandi. Orðsifjar. Heitið kemur úr þýsku og er dregið af orðunum "an de warp", sem merkir "við hólmana". Hólmarnir voru eiginlega litlar manngerðar smáeyjar á fljótinu Schelde sem fólk bjó á. Upphaf. Á tímum Rómverja mun þorp hafa legið nálægt núverandi borgarstæði. Á 4. öld settust frankar að á staðnum og stofnuðu bæinn við suðurbakka árinnar Schelde. Bærinn óx hratt og hlaut brátt virkisgarð. Það var heilagur Amand frá Maastricht sem kristnaði héraðið og bæinn á 7. öld. Árið 726 kom borgin fyrst við skjöl. 836 sigldu víkingar upp Schelde og gerðu strandhögg við bæinn og brenndu hann niður. Á 9. öld, eftir fráfall Karlamagnúsar, varð áin Schelde landamæri Frakklands og þýska ríkisins, og lá Antwerpen þá rétt innan þýska ríkisins. Borgin og landið í kring varð að markgreifadæmi og tilheyrði hertogadæminu Brabant. 1291 hlaut Antwerpen borgarréttindi, sem brátt varð að stórborg. 1430 erfði fyrst Búrgund borgina, en 1477 Habsborg. Gullöldin. Efnahagur borgarinnar snerist um höfnina og verslun með klæði. Þegar höfnin í Brugge lokaðist, var öll erlend verslun flutt til Antwerpen að auki. Eftir fund Ameríku varð borgin helsta sykurhöfn Evrópu. Hundruðir skipa sigldu inn eða út höfnina á degi hverjum, hlaðin ýmsum vörum, sem dreifðar voru um alla norðanverða álfuna. Silfur frá Ameríku, krydd frá Asíu og alls konar aðrar vörur streymdu í gegnum höfnina. Mikið bankakerfi myndaðist við efnahaginn, sem stóð Medici-ættinni í Mílanó og Fugger-ættinni í Ágsborg lítið eftir. Á 16. öld var Antwerpen ríkasta borg heims og næststærsta borg Evrópu norðan Alpa. Talið er að á þeirri öld hafi um 40% af öllum viðskiptum heims með vefnaði farið fram í borginni. Spænska heiftin. Spænskir hermenn drepa íbúa Antwerpen 1576 1566 hófst umrót siðaskipta í borginni. Siðaskiptin sem slík ollu litlum breytingum á verslun borgarinnar, en þau urðu til þess að Niðurlönd hófu uppreisn gegn Spánverjum (Habsborg) sem Antwerpen studdi. Það leiddi til þess að öll verslun við Spánverja lagðist af. 1575 lýsti Spánn sig gjaldþrota og gat ekki greitt hermönnum laun. 4. nóvember 1576 réðist spænskur her inn í Antwerpen í þeim tilgangi að ræna hana í stað þess að bíða launagreiðslna. En þegar uppi var staðið var herinn heila þrjá daga í borginni. Hermennirnir rændi öllu sem hönd festi á, drápu allt að 10 þús íbúa borgarinnar, brenndu niður heil 800 byggingar og ollu gríðarlegum skaða. Atburður þessi gekk í sögubækurnar sem Spænska heiftin (Spaanse Furie) og varð til þess að jafnvel kaþólikkar gengu í lið með uppreisnarmönnum í Hollandi. Efnahagslega náði Antwerpen sér aldrei á strik á ný. Hin mikla verslun borgarinnar fluttist að mestu til Amsterdam. Á hinn bóginn varð Antwerpen miðstöð uppreisnarmanna gegn spænskum yfirráðum næsta áratuginn, eða þar til Alessandro Farnese, nýi spænski landstjórinn, settist um borgina 1585. Eftir stutt umsátur féll borgin og hertóku Spánverjar hana öðru sinni. Í friðarsamningum 30 ára stríðsins 1648, sem einnig voru friðarsamningar Hollands og Spánar, var kveðið svo á um að loka Schelde (þ.e. Westerschelde) fyrir allri umferð skipa. Þetta þýddi endanlegan niðurgang Antwerpens sem hafnarborg næstu 200 árin. Frakkar og belgíska uppreisnin. 1796 hertóku Frakkar Niðurlönd og var suðurhluti þeirra innlimaður Frakklandi. Antwerpen var því til skamms tíma frönsk borg meðan Napoleons naut við. Frakkar mynduðu reyndar núverandi hérað í kringum Antwerpen og varð borgin þá í fyrsta sinn héraðshöfuðborg, sem hún er enn. Þrátt fyrir það viðhélst fátækt í borginni. Íbúum hafði fækkað niður í 40 þús. Napoleon sá Antwerpen fyrir sér sem mikilvæga hafnarborg og reyndi að stækka höfnina og leyfa siglingar um Westerschelde. En siglingatímabilið stóð of stutt yfir til að efnahagurinn kæmist í gang að einhverju ráði. 1830 gerðu Belgar uppreisn gegn Hollendingum og lýstu yfir sjálfstæði. Belgískir uppreisnarmenn hertóku Antwerpen og héldu henni þegar konungsríkið Belgía var stofnað. Því varð borgin belgísk, en ekki hollensk. Hollendingar héldu að vísu virkinu í borginni í tvö ár, en urðu að lokum að gefast upp og hverfa frá. Ný gullöld. Belgískir hermenn verja Antwerpen í heimstyrjöldinni fyrri 1863 opnuðu Hollendingar fyrir siglingar um Westerschelde. Í kjölfarið upplifði Antwerpen nýtt blómaskeið, enda var höfnin stækkuð og samfelldur friður ríkti það sem eftir lifði 19. aldar. Með aukinni verslun, ásamt umrótum iðnbyltingarinnar, varð Antwerpen á ný að auðugri heimsborg. 1885 og 1894 voru heimssýningar haldnar þar í borg, sem milljónir manna sóttu heim. Einnig var fyrsta HM í fimleikum haldið í borginni árið 1903. Eftir hið mikla viðnám í borginni Liege í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri 1914 gegn þýska innrásarliðinu, hörfaði belgíski herinn til Antwerpen, ásamt ríkisstjórn landsins. Þjóðverjar gerðu umsátur um borgina og í 11 daga var hart barist. Að lokum flúði ríkisstjórnin og herinn úr borginni, ásamt um einni milljón Belga. Flestir fóru til Hollands. Síðustu belgísku hermennirnir yfirgáfu borgina 8. október 1914. Daginn eftir hertóku Þjóðverjar borgina og héldu henni til stríðsloka í nóvember 1918. Borgin náði sér fljótt eftir stríð. Til marks um það voru sumarólympíuleikarnir haldnir þar í borg 1920 og enn önnur heimssýning 1930. Seinna stríð og nútími. Hluti af höfninni í Antwerpen Þjóðverjar hertóku Antwerpen aftur í maí 1940, að þessu sinni nær bardagalaust. Sökum hernaðarmikilvægis hennar, t.d. vegna hafnarinnar og iðnaðarins, gerðu bandamenn ítrekaðar loftárásir á borgina. Þær hörðustu voru gerðar 5. apríl 1943, en þá létust um 2000 manns. Í september 1944 náðu Bretar að frelsa borgina. Sökum þess að höfnin reyndist óskemmd, varð hún að mikilvægri birgðastöð fyrir heri bandamanna. Á hinn bóginn gerðu nú Þjóðverjar loftárásir á Antwerpen, aðallega með flugskeytum, allt frá október 1944 til mars 1945. 1200 flugskeyti hæfðu borgina á þessum tíma. Í þessum árásum létust allt að 7000 manns. Flugskeytin voru svo fljót að ekki var hægt að vara við þeim. Þau lentu víða í borginni, íbúum oftast að óvörum. Time Magazine í New York kallaði borgina "The City of Sudden Death" ("Borg hins óvænta dauða"). Á hinn bóginn slapp höfnin aftur við allar meiriháttar skemmdir. Eftir stríð var höfnin í Antwerpen enn stækkuð. Hún var á þessum tíma þegar orðin stærsta borg landsins. Frá Antwerpen er hægt að sigla um skurði víða um landið, t.d. til fljótsins Maas. Í upphafi 21. aldar var höfnin sú sjötta stærsta í heimi hvað umsvif varðar. Antwerpen er einnig mikið stórveldi á efnahagssviðinu. Hún er mesta viðskiptaborg með demöntum, en til skamms tíma voru um 80% allra demanta heims seldir þar í borg. Ein 1.600 fyrirtæki sem versla með demönta eru staðsett í borginni einni saman. Nokkrar byggingar í miðborg Antwerpen eru á heimsminjaskrá UNESCO. Viðburðir. Sinksenfoor er heiti á skemmtigarði sem tvisvar á ári setur upp leiktjöld í borginni. Þar er boðið upp á 150 mismunandi skemmtiatriði og er garðurinn því einn sá stærsti í Belgíu. Antwerp Pride er hátíð samkynhneigðra í borginni og er hún haldin árlega í júní. Rubensmarkt heitir flóamarkaður í borginni sem helgar sig 17. öldinni. Verslunarfólk er klætt gömlum búningum og fötum eins og þau voru á 17. öld, á tímum málarans Rubens sem starfaði lengi í borginni. Íþróttir. Antwerpen er Ólympíuborg. Þar voru sumarleikarnir haldnir 1920. Engir keppendur voru sendir frá Íslandi, en nokkrir Íslendingar kepptu fyrir hönd annarra þjóða. WTA Antwerpen er tenniskeppni í borginni sem haldin var innanhús árlega frá 2002 til 2009. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Beerschot AC, sem hét Germinal Beerschot til 2011, sem aftur varð til við samruna Germinal Ekeren og Beerschot VAC árið 1999. Félögin hafa hvert fyrir sig landað titlum, en síðasti titillinn var sigur í bikarkeppninni 2005. Með félaginu lék Íslendingurinn Jón Guðni Fjóluson leiktíðina 2011-12. Vinabæir. Peter Paul Rubens bjó og starfaði í Antwerpen. Sjálfsmynd ásamt eiginkonu sinni. Blettaveiki. Blettaveiki (fræðiheiti: "Alternaria solani") er asksveppur sem veldur sýkingu í tómötum og kartöflum. Hún veldur því að dökkleit sár myndast á grösunum sem stækka og verða svartir dauðir blettir sem enda með því að drepa jurtina. Hægt er að vinna gegn þessum sjúkdómi með sveppaeitri, með því að gæta að nægum loftskiptum í garðinum, skiptiræktun, þannig að jurtir af náttskuggaætt eru aðeins ræktaðar þrjú ár í röð á sama stað og með því að velja blettaveikiþolin afbrigði. Bintje. "Bintje" er kartöfluyrki sem er eitt það algengasta í Evrópu og það algengasta í Frakklandi og Belgíu. "Bintje" er notað í hinar frægu belgísku frönsku kartöflur en henta annars í alla matargerð, ekki síst sem bakaðar kartöflur vegna stærðarinnar. "Bintje"-yrkið var upphaflega ræktað af hollenska grasafræðingnum Kornelis Lieuwes de Vries árið 1905 úr yrkjunum Munstersen og Fransen. 1910 var hún sett í almenna sölu. "Bintje"-kartöflur eru ljósgular á hýðið með gult þétt kjöt. Þær eru fremur stórar og egglaga, með grunn augu. Þær eru mjög viðkvæmar fyrir kartöflumyglu og hafa lítið frostþol. Krossinn. Krossinn – kristið samfélag er íslenskt trúfélag, sem á rætur að rekja til Hvítasunnukirkjunnar, stofnað 12. ágúst 1979. Krossinn er til húsa að Hlíðasmára í Kópavogi. Almennar safnaðarsamkomur eru haldnar þrisvar á viku; á sunnudögum kl. 16:30, þriðjudögum kl. 20:00 og á laugardögum kl. 20:30. Að auki eru reglulegar bænastundir á miðvikudögum kl. 19:30. Forstöðumaður Krossins er Sigurbjörg Gunnarsdóttir, en hún tók við af föður sínum Gunnari Þorsteinssyni árið 2010. Saga Krossins. Félagið Krossinn var stofnað árið 1979, en fékk löggildingu trúfélags árið 1982. Söfnuðurinn hefur alla tíð komið saman í Kópavogi. Fyrst um sinn var hann staðsettur í Auðbrekku 34 en er nú staðsettur í Hlíðasmára 5-7 í Kópavogi. Rætur Krossins liggja í Hvítasunnukirkjunni, en fyrsti forstöðumaður Krossins, Gunnar Þorsteinsson tilheyrði þeim söfnuði áður en Krossinn var stofnaður. Trúarjátning. Grunnur að trúarjátningu Krossins er sú trú safnaðarmeðlima (þó ekki sé gerð krafa um þessa trú við skráningu í söfnuðinn) að Biblían sé innblásið Orð Guðs. Þetta byggir söfnuðurinn meðal annars á 16. versi í 3. kafla 2. Tímóteusarbréfs, en þar bendir Páll postuli Tímóteusi samverkamanni sínum á að sérhver ritning sé innblásin af Guði. Frá Biblíunni fær söfnuðurinn svo aðrar játningar sínar, sem eru í megin atriðum hefðbundnar kristnar kenningar, svo sem um guðdómleika Jesú Krists og endurfæðingu mannsins fyrir trú á Jesú. Sú kenning sem er hvað helst í andstöðu við kenningar Þjóðkirkjunnar er kenningin um niðurdýfingarskírn trúaðra (í Jesú nafni) í stað skírnar ungbarna (í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda). Skipulag. Skipulag safnaðarins er þannig að safnaðarfundur kýs sér forstöðumann og fimm manna stjórn (forstöðumaður auk fjögurra annarra sitja í stjórninni), auk eins varamanns. Forstöðumaður safnaðarins sér um daglegt skipulag eftir samþykktum stjórnarinnar. Almennar samkomur. Almennar samkomur eru á sunnudögum kl. 16:30 og á þriðjudögum kl. 20:00. Umsjón með samkomunum hefur forstöðumaður, en hann útdeilir verkefnum. Tónlistarstarfið sér þá almennt um lofgjörðina, Tekmar tæknideildin sér um hljóðblöndun, upptökur og Netútsendingar og forstöðumaður predikar eða fær aðra til þess. Púlsinn ungmennastarf. Ungmennasamkomur eru haldnar á laugardögum kl. 20:30, en bænastundir ungmenna eru á fimmtudögum kl. 20:00. Utan almennra samkomutíma keppast ungmennin við að hittast og skemmta sér saman. Barnastarf. Barnastarf Krossins fer fram á meðan á predikun stendur á sunnudögum. Þar fá börnin kennslu um líf og starf Jesú og annarra persóna úr Biblíunni og fræðslu um bæn og lestur Biblíunnar. Til aðstoðar við kennsluna er nýjasta tækni nýtt í bland við þekktar aðferðir, svo sem brúðuleikhús, leiki og fleira. Bubbi, sem er nokkurskonar lukkudýr barnastarfsins tekur þátt í söng og kennslu starfsins. Tónlistarstarf. Á samkomum spilar hljómsveit Krossins blöndu af gospel, rokki og rólegri lögum. Tilgangur starfsins er að hvetja, uppörva og þjálfa þá sem Guð hefur kallað í tónlistarþjónustu í ágæti, næmni, auðmýkt og einnig styrk. Tekmar. Tekmar, tæknideild Krossins, vinnur metnaðarfullt starf. Deildin hefur umsjón með vefsíðunni krossinn.is og vefhönnun sem því fylgir. Einnig sér Tekmar um alla tæknivinnslu, viðbætur og þróun heimasíðunnar, hljóð-, hreyfimynda- og myndvinnslu fyrir síðuna og því að koma áður unnu efni út á Netið, á heimasíðu Krossins, Facebook síðu kirkjunnar, Youtube.com og Vimeo.com. Verslun. Í safnaðarheimilinu er rekin lítil verslun með kristilegar bækur og geisladiska, auk kaffisölu. Ágóði af versluninni fer til góðra málefna. Margmiðlun. Krossinn hefur unnið mikið magn af margmiðlunarefni með tónlist og predikunum af miklum metnaði. Hluti efnisins hefur verið unninn fyrir sjónvarpsstöðina Omega og útvarpsstöðina Lindin. Nesvogur. Nesvogur (hét til forna "Mjóifjörður") er vogur í Helgafellssveit í Snæfellsnessýslu. Listi yfir íþróttafélög í Kópavogi. Þetta er listi yfir íþróttafélög í Kópavogi. Listi yfir íþróttamannvirki í Kópavogi. Þetta er listi yfir íþróttamannvirki í Kópavogi. Listi yfir menntastofnanir í Kópavogi. Þetta er listi yfir menntastofnanir í Kópavogi. Rótarflókasveppur. Rótarflókasveppur (fræðiheiti: "Rhizoctonia solani"; kynjað stig: "Thanatephorus cucumeris") er kólfsveppur sem ræðst á jurtir. Hann sækir í margar tegundir og er útbreiddur um allan heim. Hann er einn af þeim sveppum sem veldur svartrót (sýkingu í græðlingum). Rótarflókasveppur er mjög algengur í kartöflurækt á Íslandi og er það talið vera vegna þess hve sáðskipti eru lítið stunduð. Doré (kartöfluyrki). Doré er kartöfluyrki sem var þróað í Hollandi 1939 með blöndunni "Eersteling" x ["Record" x ("Bravo" x "Alpha")] og sett á markað 1947. "Doré" er fljótvaxið yrki sem gefur af sér stórar, hnöttóttar, gular kartöflur sem eru mjölmiklar og þykja bragðgóðar, með hátt þurrefnisinnihald. Augun eru mjög grunn. King Edward. "King Edward" er kartöfluyrki frá Bretlandi sem var sett á markað fyrst árið 1902 og er blanda yrkjanna "Magnum Bonum" og "Beauty of Hebron". Kartaflan er gul með rauðum flekkjum en kjötið er ljósgult eða hvítt. Hún er ávöl og þétt í sér. Hún tekur auðveldlega á sig græna slikju og þarf því að hylja vel eftir upptöku. Mandla (kartöfluyrki). Mandla (sænska: "Mandel") er kartöfluyrki sem er þekktast í Svíþjóð þar sem hún var valin til ræktunar á 19. öld vegna hve kuldaþolin hún er. Venjulega er mandla hvít en til er afbrigði („blá mandla“) með bláleitum flekkjum. Hún dregur nafn sitt af því að hún er egglaga og flöt og minnir þannig dálítið á möndlu. Hún er einkum þekkt í Norður-Svíþjóð þar sem hún þykir ómissandi í ýmsa hefðbundna rétti eins og súrsíld og pitepalt. Hún er með hátt þurrefnisinnihald en gefur bæði fremur lítið af sér og hefur lítið þol gegn ýmsum kartöflusjúkdómum. Mjöður. Mjöður er heiti á áfengu öli sem er unnið úr hunangi og vatni eða jafnvel úr kryddjurtum og áluðu korni (byggi). Mjöður er forn drykkur og hefur líklega fylgt mannkyninu frá örófi alda. Mikið er til af heimildum um tilvist mjaðar frá fornöld, sérstaklega hjá forngrikkjum, en trúlega er drykkurinn mun eldri. Mjöður er hugsanlega eldri en bæði bjór og vín. Orðsifjar. Orðið mjöður, og samsverandi orð, kemur fyrir í fjölmörgum málum. Það nær ekki aðeins til flestra indógermanskra mála, heldur ýmissa fleiri. Talið er, að mjöður sé í hópi hinna elztu áfengu drykkja. Menn hugðu, að hann hefði guðdómlegan kraft, sem hlotnaðist þeim, er hans neyttu. Í hinni helgu bók Indverja Rigveda, sem er talin eiga rætur mörg hundruð árum fyrir Kristsburð, eru Krisna og Indra kallaðir "mádhaua", þ.e. „hinir hunangbornu", og tákn þeirra var býflugan. Talið er, að mjöður sé eldri drykkur en vín í Miðjarðarhafslöndum. Og það er víðar en á Indlandi, sem mjöður kemur við sögu í goðafræðinni. Í sanskrít kemur fyrir madhu („hunang, sætur drykkur"). Sumir orðsifjafræðingar telja, að orðið hafi borist inn í finnsk-úgrísk mál og einnig í kínversku og japönsku. Sennheiser. Sennheiser electronic GmbH & Co. KG er þýskt fyrirtæki stofnað árið 1945 sem framleiðir hljóðnema, heyrnartól og annan hljóðbúnað bæði fyrir almenning og atvinnumenn. Höfuðstöðvar Sennheiser eru í Wedemark í Þýskalandi (skammt frá Hannover) en höfuðstöðvar fyrirtækisins í Bandaríkjunum eru í Old Lyme í Connecticut. Saga Sennheiser. Fritz Sennheiser og sjö verkfræðingar við háskólann í Hannover stofnuðu Sennheiser 1. júní árið 1945, fáeinum vikum eftir að stríðinu lauk í Evrópu, á rannsóknarstofu sem nefndist Labor W (nefnd eftir þorpinu Wennebostel, þangað sem hún hafði verið flutt sökum stríðsins). Fyrsta varan sem fyrirtækið þróaði var voltmælir. Labor W hóf framleiðslu á hljóðnemum árið 1946. Árið 1955 störfuðu hjá fyrirtækinu 250 manns. Nafni Labor W var breytt í Sennheiser electronic árið 1958. Fyrirtækið var gert að einkahlutafélagi (KG) árið 1973. Framleiðsla á þráðlausum hljóðnemum hófst árið 1982. Sama ár tók Jörg Sennheiser við stjórn fyrirtækisins af föður sínum Fritz Sennheiser. Fyrirtækið. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 1670 starfsmenn, um 60% þeirra í Þýskalandi. Sennheiser rekur verksmiðjur í Burgdorf í Þýskalandi, Tullamore á Írlandi (frá 1990) og Albuquerque í New Mexico í Bandaríkjunum (frá 1991). Árið 2003 tóku Sennheiser electronic og William Demant Holding Group höndum saman um stofnun Sennheiser Communications A/S í Danmörku með það að markmiði að þróa og framleiða fjarskiptatæki. Þróunarstarf Sennheiser er að mestu unnið í Þýskalandi og Palo Alto í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Fyrirtækið rekur verslanir á Bretlandi, í Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Danmörku, Indlandi, Singapúr, Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum auk Þýskalands. Meðal dótturfyrirtækja eru Georg Neumann GmbH, sem framleiðir hljóðnema, og Klein + Hummel, sem framleiðir hátalara og annan hljóðbúnað fyrir fyrirtæki. Velta fyrirtækisins árið 2006 nam 300 milljónum evra. Eratosþenes. Eratosþenes (fæddur 276 f.Kr. í núverandi Lýbíu, dáinn 194 f.Kr. í Alexandríu) var grískur stjörnufræðingur og stærðfræðingur, sem reiknaði ummál jarðar og fjarlægð jarðar til sólar. Hann uppgötvaði að nota mætti hlaupár til að jafna tímatal og var fyrstur manna til að nota hugtakið "landfræði" ("„geografi“"). Eratosþenes lærði í ýmsum háskólum fyrir botni Miðjarðarhafs, meðal annars í Alexandríu og Aþenu. Hann starfaði í háskólabókasafni í Alexandríu sem bókavörður. Sáldur Eratosþenesar (eða "Sigti Eratosþenesar") er enn talið gagnlegt í talnafræði við að finna prímtölur. Í riti Níkomedesar (f. um 280 f.Kr.) hefur sáldur Eratosþenesar varðveist allan þennan tíma, en ritið heitir: "Inngangur að reikningslist". Christian C. A. Lange. Christian C. A. Lange (fullt nafn Christian Christoph Andreas Lange) (f. 13. ágúst 1810 í Bærum, d. 10. maí 1861 í Kristjaníu) var norskur sagnfræðingur og ríkisskjalavörður. Christian C. A. Lange missti föður sinn tveggja ára gamall og ólst upp í mikilli fátækt, en komst þó til mennta í Dómkirkjuskólanum í Kristjaníu. Hann hóf nám í guðfræði 1827, en komst brátt undir verndarvæng frænda síns, Rudolfs Keysers, sem síðar varð prófessor í sagnfræði. Ásamt þeim P. A. Munch og C. R. Unger, áttu þeir Keyser og Lange eftir að mynda kjarnann í þeim kraftmikla hópi sagnfræðinga sem lagði grunninn að faglegum sagnfræðirannsóknum í Noregi. Christian Lange tók embættispróf í guðfræði 1833, og starfaði fyrst við kennslu, m.a. í norskri sögu og landafræði. Þegar Henrik Wergeland féll frá, 1845, var Lange skipaður ríkisskjalavörður, og gegndi því embætti til æviloka, 1861. Átti hann stóran þátt í að endurskipuleggja Norska ríkisskjalasafnið, sem stofnað hafði verið 1818. Hann tók þátt í samningum við Dani, sem lauk með samkomulagi 13. september 1851, um að mikilvæg skjöl um sögu Noregs yrðu afhent úr dönskum söfnum. Þeir Christian Lange og Carl Richard Unger unnu ásamt fleirum skipulega að því að leita uppi skinnblöð úr miðaldahandritum, sem leyndust víða í gömlu bókbandi í Ríkisskjalasafninu. Kom í ljós að á fyrri hluta 17. aldar höfðu embættismenn víða um Noreg rifið niður gömul handrit og notað blöðin í band utan um skjalabækur sínar. Þessi skinnblöð gefa dýrmæta sýn inn í norsk-íslenska bókmenningu á miðöldum. Lange átti frumkvæði að ýmsum fræðilegum verkefnum, tímaritum og félögum á sviði sagnfræðirannsókna. Árið 1847 hóf hann ásamt Carl Richard Unger, útgáfu á Norska fornbréfasafninu, "Diplomatarium Norvegicum", og átti þátt í útgáfu fyrstu fimm bindanna. Hann gaf út 2. bindi af "Norske Samlinger", og fyrsta bindi af "Norske Rigsregistranter 1523-1660". Einnig átti hann þátt í "Norsk Forfatter-lexikon 1814-1856". Auk heimildaútgáfu samdi Lange eitt umtalsvert sagnfræðirit, um "Norsku klaustrin á miðöldum". Verkið var byggt á eigin heimildavinnu og ferðum um Noreg og Evrópu. Í Ósló er gata sem ber nafn hans, Langes gate. Christian Lange giftist 1836, Maren Kristine Breda (1816-1894). Meðal afkomenda þeirra var Christian Lous Lange (1869-1938), sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1921, og Halvard Lange (1902-1970), utanríkisráðherra Noregs. Blálandsdrottning. Blálandsdrottning eða "Edzell Blue" er best þekkta afbrigðið af bláum kartöflum. Það er þekkt frá 19. öld en var fyrst skráð árið 1915 í Bretlandi. Það heitir eftir þorpinu Edzell í Skotlandi. Blálandsdrottning er hnöttótt með djúp augu og ljóst mjölmikið kjöt og springur auðveldlega við suðu. Hún hefur lítið þol gegn kartöflumyglu. Eyvindur (kartöfluyrki). Eyvindur eða "Kerr's Pink" er kartöfluyrki sem er algengt á Bretlandseyjum og er oft kallað „írska kartaflan“ þótt það hafi verið búið til í Skotlandi árið 1907 með blöndun yrkjanna Fortyfold og Smith's Early. Árið 2002 var þessi kartafla önnur mest ræktaða kartaflan á Írlandi eða fjórðungur af heildaruppskerunni. Eyvindur er með einkennandi bleikt hýði og djúp augu. Kjötið er ljósgult og mjölmikið. Kartöflurnar eru stórar og yrkið gefur mikið af sér en hefur jafnframt lítið þol gegn kartöflumyglu. Bátakartöflur. Bátakartöflur eru kartöflur sem hafa verið skornar í bátlaga fleyga með hýði og djúpsteiktar, pönnusteiktar eða bakaðar í ofni. Stundum eru þær kryddaðar fyrir steikingu til að þær fái stökka húð. Þær eru bornar fram sem smáréttur eða snakk eða sem meðlæti með hamborgurum eða steikum. Þær eru fyrst og fremst þekktar sem kráarmatur eða skyndibiti og minna á franskar kartöflur (sem eru afhýddar og djúpsteiktar kartöflustangir). Dillkartöflur. Dillkartöflur eru smáar kartöflur afhýddar og soðnar og síðan kryddaðar með dilli, smjöri og sítrónusafa. Þessi réttur er þekktastur í Svíþjóð þar sem dillkartöflur eru hefðbundið meðlæti með kryddsíld og öðrum fiskréttum. Kartöflupasta. Kartöflupasta eða "gnocchi" (framb. /'ɲɔkki/; et: "gnocco") eru litlar soðbollur gerðar úr kartöflum sem eru stappaðar saman við hveiti og mótaðar í litlar kúlur eða skeljar. Til eru ýmsar útgáfur af kartöflupasta, þar sem kúlurnar eru t.d. stærri, eggjum bætt í og brauðrasp eða maísmjöl notað í stað hveitis. Kartöflupasta er upprunnið í Langbarðalandi á Endurreisnartímanum fljótlega eftir að fyrstu kartöflurnar komu til Evrópu. Kartöflupasta er kennt við pasta af því það er matreitt á svipaðan hátt. Kartöflupasta er svipað í suðu og ferskt pasta og er hægt að miða við að það sé fullsoðið þegar flestar bollurnar hafa flotið upp á yfirborðið. Kartöflusáta. Kartöflusáta eða rösti er hefðbundinn svissneskur kartöfluréttur. Upphaflega var þetta morgunmatur bænda í kantónunni Bern. Rösti er gert með því að rífa kartöflur á rifjárni, setja þær saman í sátur eða klatta og steikja með feiti á pönnu eða á bökunarplötu í ofni. Stundum er bætt út í söxuðum lauk, kryddi, osti eða beikoni. Kálygla. Kálygla (fræðiheiti: "Agrotis segetum") er ygla sem er algeng í Evrópu. Það sem einkennir þessar yglur eru ljósir afturvængirnir sem eru hvítir hjá karldýrum og ljósgráir hjá kvendýrum. Lirfa kályglunnar er grá á lit og lifir á rótum og stönglum margra jurtategunda. Kályglan er þannig skaðvaldur í grænmetis- og kornrækt. Kartöfluflögur. Kartöfluflögur, flögur eða snakk kallast örþunnt sneiddar kartöflur steiktar þar til þær verða stökkar og bornar fram sem lystauki, meðlæti eða snakk. Kartöfluflögur eru gjarnan fjöldaframleiddar og seldar í pokum eða dósum. Samkvæmt einni sögu voru kartöfluflögur fundnar upp af bandaríska kokknum George Crum 24. ágúst 1853, en minnst er á svipaða rétti í eldri matreiðslubókum. Microsoft Silverlight. Microsoft Silverlight er íforrit fyrir vafra sem gerir vefforritum kleift að notast við hreyfimyndir, vigurteikningar og hljóð. Silverlight er þróað af Microsoft og er ætlað að etja kappi við íforrit á borð við Adobe Flash, Adobe Shockwave, Java FX og Apple Quicktime. Jöfnur Maxwells. Jöfnur Maxwells eru mikilvægustu jöfnur innan rafsegulfræðinnar, fyrst settar fram af James Clerk Maxwell 1861. Hafnarstræti (Reykjavík). Hafnarstræti er gata í miðbæ Reykjavíkur sem teygir sig frá Aðalstræti að Lækjargötu. Útsvar (sjónvarpsþáttur). Útsvar er sjónvarpsþáttur á RÚV þar sem 24 sveitarfélög keppa sín á milli í spurningaleik. Þættirnir hófu göngu sína 14. september 2007. Umsjónarmenn eru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur B. Guðnason. Sólanín. Sólanín er samheiti yfir glýkóalkalóíðana "alfa-sólanín" og "alfa-kakónín" en þá er meðal annars að finna í aldinum kartaflna og annara jurta af náttskuggaætt. Efnin nýtast sem náttúruleg eiturefni og varna kartöfluna gegn ákveðnum sjúkdómum. Kartöflur sem hafa fengið á sig græna slikju hafa myndað sólanín í hýði sínu. Ljóðaháttur. Ljóðaháttur (að fornu: ljóðaháttr) er bragarháttur sem sjá má í sumum Eddukvæðum, t.d. Hávamálum. Einnig í Sólarljóðum. Í vísum undir Ljóðahætti eru yfirleitt sex vísuorð eða hendingar (línur), og er fyrri helmingur vísunnar (1.-3. hending) eins að bragformi og sá seinni (4.-6. hending). Stuðlasetning bindur fyrstu tvær hendingarnar saman, síðan eru tveir stuðlar í þeirri þriðju, sbr. feitletrun. Þetta er svo endurtekið í seinni helmingi vísunnar. Í ljóðahætti er ekkert rím, hvorki innrím né endarím. Hending. Hending er sjálfstæð lína í kvæði eða vísu, þ.e. braglína eða vísuorð. Hending getur haft fleiri merkingar, sbr. orðabækur. Raunviðnám. Raunviðnám er raunhluti samviðnáms, táknaður með "R". SI-mælieining er óm. Ef rafrás ber jafnstraum er launviðnám núll og rafmótstaða jöfn raunviðnámi. Hlutafélag. Hlutafélag er félag sem stofnað er í kringum fyrirtæki. Einkenni félagaformsins eru að félagið telst lögaðili sem er aðskildur frá eigendum sínum (hluthöfum) og hluthafar bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins umfram það fé sem þeir lögðu inn í upphafi. Í samþykktum hlutafélags er hlutafé þess skilgreint og skiptist það niður í hluti sem dreifast á eigendur. Hlutabréf er ávísun á hlut í félagi og má yfirleitt framselja, t.d. í kauphöllum ef félagið er skráð á markað. Hluthafafundur fer með æðsta vald innan hlutafélags og tekur allar meiriháttar ákvarðanir sem varða félagið. Hluthafafundur velur einnig stjórn sem getur tekið aðrar ákvarðanir. Stjórnarformaður fer fyrir stjórninni og stýrir fundum hennar. Framkvæmdastjóri er æðsti starfsmaður hlutafélagsins (stjórnarmenn teljast ekki til starfsmanna), hann er valinn af stjórninni og stýrir daglegum rekstri félagsins. Opinbert hlutafélag. Tilgangurinn með innleiðingu opinberra hlutafélaga í lög var samkvæmt frumvarpi sá að bæta aðgengi almennings og annarra að upplýsingum um hlutafélög sem hið opinbera á að öllu leyti. Reyndin hefur þó verið sú eftir innleiðingu félagaformsins að það hefur mest verið notað þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í opinber hlutfélög. Þeirri breytingu fylgir m.a. að stjórnsýslulög, lög um upplýsingaskyldu og lög um réttindi opinbera starfsmanna hætta að gilda um viðkomandi stofnun. Þetta hefur skapað nokkrar deilur, t.d. þegar Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi. Fylgismenn þessara umbreytinga segja þær auka sveigjanleika í rekstri viðkomandi stofnanna en andstæðingar segja að þær geti bitnað á réttindum starfsmanna og minnkað gegnsæi í rekstrinum. Bakkynjurnar. "Bakkynjurnar" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Hann var fyrst settur á svið að Evripídesi látnum á Dýonýsosarhátíðinni árið 405 f.Kr. og vann fyrstu verðlaun. Órestes (Evripídes). "Órestes" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Hann var fyrst settur á svið árið 408 f.Kr. Harmleikurinn segir frá Órestesi eftir að hann hafði myrt móður sína Klýtæmnestru til að hefna föður síns Agamemnons. Fönikíukonur. "Fönikíukonur" eða "Fönikíumeyjar" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið segir frá borgarastríðinu í Þebu en dregur nafn sitt af kórnum, sem er hópur fönikískra kvenna á leið sinni til Delfí. Meyjar í nauðum (Evripídes). "Meyjar í nauðum" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Hann var fyrst settur á svið árið 423 f.Kr. Herakles (Evripídes). "Herakles" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið segir frá Heraklesi sem í bræði sinni drepur bæði konu sína og börn. Börn Heraklesar (Evripídes). "Börn Heraklesar" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið segir frá börnum Heraklesar er þau leita verndar frá Evrýsþeifi. Leikritið var samið um 430 f.Kr. Kýklópurinn (Evripídes). "Kýklópurinn" er bukkaleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið er eini varðveitti bukkaleikurinn (satýrleikurinn) frá fornöld. Jón (Evripídes). "Jón" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið segir frá Jóni í leit sinni að uppruna sínum. Leikritið var samið á árunum 414 – 412 f.Kr. Ifigeneia í Táris. "Ifigeneia í Táris" er harmleikur eftir forngríska skáldið Evripídes. Leikritið segir frá Órestesi, sem er á flótta undan refsinornunum fyrir að hafa myrt móður sína til að hefna föður síns, og komu hans til Táris þar sem hann hittir fyrir Ifigeneiu systur sína sem hann hélt að væri látin. Rhesos (Evripídes). "Rhesos" er harmleikur sem er eignaður forngríska skáldinu Evripídesi. Fræðimenn eru ekki á einu máli um hvort verkið er réttilega eignað Evripídesi. Beretta 92. Beretta 92 er ítölsk hálfsjálfvirk skammbyssa, framleidd af skotvopnafyrirtækinu Beretta á áttunda áratugnum. Skammbyssan var hönnuð árið 1972, en var fyrst framleidd árið 1975 – 1976 í 5000 eintökum. Lengd byssunar er 217 mm og þyngdin er 950 g. Til eru nokkrar gerðir af Beretta 92, t.d. Beretta 96, Beretta M9, Beretta 98 og Beretta 92G (PAMAS-G1), sem er frönsk gerð af Beretta 92, og er hliðarvopn franska hersins. Beretta M9 varð hliðarvopn bandaríska hersins árið 1985. Gerð 92 og M9 notar 9 x 19 mm skot, og komast yfirleitt kringum 15 þannig skot í magasín byssunar. Gerð 96 notar .40 S&W skot, og gerð 98 notar 9x21mm IMI skot. Beretta skammbyssur eru notaðar af 13 löndum. Barnadauði. Barnadauði er vísitala, sem metur meðalfjölda þeirra barna í tilteknu ríki, sem deyja áður en þau ná fimm ára aldri. Hinu langþráða takmarki að fá barnadauða undir 10 milljónir á ári hefur verið náð. Er þetta í fyrsta skipti sem barnadauði hefur mælst undir einni milljón frá því að byrjað var að halda utan um tölfræðina. 15 af þeim 20 ríkjum heims þar sem barnadauði er mestur á fyrstu 28 dögum eftir fæðingu eru að finna í Afríku. Helstu orsakirnar eru taldar sýkingar, fyrirburður og köfnun. Þá eru HIV-veiran og niðurgangssýki orsakavaldar í þessu samhengi. Barnadauði er mestur í Líberíu þar sem hann er um 66 dauðsföll á hver þúsund börn. Koma Fílabeinsströndin og Síerra Leóne næst. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (eða MFÍK) eru íslensk grasrótarsamtök sem samanstanda að mestu leyti af konum, eins og nafnið bendir til. Samtökin voru stofnuð árið 1951 og meðal helstu baráttumála eru alheimsfriður og afvopnun, frelsi smáríkja gegn allri ágengni stórvelda, hlutleysi Íslands í hernaðarátökum, herlaust Ísland, almenn mannréttindi, jafnrétti, vinátta og samvinna kvenna í öllum löndum heims, réttindi og vernd bara og ýmisleg menningarmál. Formaður félagsins er María S. Gunnarsdóttir. Samtökin eru deild í Alþjóðasambandi lýðræðissinnaðra kvenna og eru óháð öllum stjórnmálaflokkum og hlutlaus um trúmál. Þau hafa aðsetur í Reykjavík. Orðabók. Orðabók er bók sem inniheldur lista af orði ákveðins tungumáls (lang oftast í stafrófsröð) sem hefur upplýsingar um merkingu, framburð, orðsifjafræði (sjá orðsifjabækur), beygðar myndir o.s.fv. Nafnorð eru oftast gefin upp með kenniföllum, og sagnorð oft gefin upp með kennimyndum þeirra. Stofn (málfræði). Stofn kallast sá hluti orðs sem ekki breytist í beygingu. Stofn nafnorða. Stofn nafnorða má finna með því að sjá hvaða hluti orðsins er eins í öllum föllum. (Stofn sterka nafnorða finnst í þolfalli eintölu) Stofn veikra nafnorða finns með því að taka sérhljóðann frá nf et Hjá sumum nafnorðum er "-r" stofnlægt í endingu orðs (t.d. veður > veðri). Stofn lýsingarorða. Stofn lýsingarorða má finna með því að setja orðið í kvenkyn nefnifall eintölu. Stofn sagnorða. Það er einfaldast að finna stofn sagnorða með því að skoða orðið í stýfðum boðhætti- þ.e.a.s. boðháttur án persónuendinga (til dæmis "gef" fyrir "gefa", "sel" fyrir "selja" og "send" fyrir "senda"). Hann er oftast eins og nafnháttur að frádregnu "-a" eða "-ja". Í veikum sögnum, sem beygjast eftir fjórða flokki (eins og "baka", "kalla", "skrifa"), er stafurinn "a" hluti af stofninum. Stofninn af veiku sögninni "baka" er "baka", stofn sagnarinnar "kalla" er "kalla" og stofn sagnarinnar skrifa er "skrifa". Stafurinn "a" helst í boðhætti, til dæmis baka þú, kalla þú. Óregluleg stigbreyting. Óregluleg stigbreyting er stigbreyting þar sem miðstigið (t.d. "verri") og efsta stigið ("verstur") er myndað af öðrum stofni en frumstig ("illur"). Sjálfstæðar og ósjálfstæðar sagnir. Sjálfstæðar sagnir eru sagnir sem segja einar og sér það sem segja þarf. Ef sagnir þurfa hinsvegar önnur orð með sér til þess að hafa sjálfstæða merkingu þá eru þær ósjálfstæðar. Ósjálfstæðar og áhrifslausar sagnir eru svo veikar og merkingarlausar að þær verða að taka með sér einhver orð til að gefa þeim merkingu. Orðin sem þær taka með sér eru oftast fallorð (og þau eru kölluð sagnfyllingar af því að þau fylla merkingu sagnanna). Þetta eru sagnir eins og "vera", "verða", "heita", "þykja", "teljast", "nefnast", "kallast" og svo framvegis. Áhrifssögn. Áhrifssagnir eru sagnorð sem taka með sér andlag (þ.e.a.s. þolanda). Áhrifssagnir stýra falli og er andlagið þess vegna alltaf í aukafalli (þ.e. þolfalli, þágufalli eða eignarfalli). Í málfræði margra tungumála er sögn talin áhrifssögn ef hún stýrir beinu andlagi í þolfalli en ekki ef hún stýrir einungis óbeinu andlagi í öðrum aukaföllum. Margar sagnir geta verið ýmist áhrifssagnir eða áhrifslausar. Sögn sem ekki stýrir falli er áhrifslaus. Blönduð beyging. Blönduð beyging er hugtak í málfræði. Paul Gauguin. Eugène Henri Paul Gauguin (7. júní 1848 í París – 8. maí 1903 í Atuona) var franskur listmálari og post-impressíónisti, sem þekktur var fyrir málverk af polýnesískum konum á Tahíti. Gauguin, Paul Hlutafleiða. Hlutafleiða er afleiða falls, sem háð er fleiri en einni breytistærð. Þegar reiknuð er hlutafleiða falls, m.t.t. tiltekinnar breytu, er fallið deildað m.t.t. breytunnar, sem um ræðir, eins og hinar breyturnar væru fastar. Ritháttur. Fyrir föll, sem ekki eru fáguð, getur skipt máli í hvaða röð blandaðar hlutafleiður eru reiknaðar, því þarf að gera ráð fyrir að "f"xy ≠ "f"yx. Stigull mættis er vigur þar sem hnitin eru allar fyrstu hlutafleiður mættisins. Jafna, þar sem koma fyrir hlutafleiður af "háðu" breytunum, nefnist hlutafleiðujafna. Beretta. Beretta (ítalska: "Fabbrica d'Armi Pietro Beretta S.p.A.") er ítalskur skotvopnaframleiðandi sem sérhæfir sig í handskotvopnum. Beretta-byssur eru notaðar af lögreglu, her og almenningi um allan heim. Fyrirtækið var stofnað af byssusmiðnum Bartolomeo Beretta í Gardone Val Trompia (Langbarðalandi) árið 1526 vegna vopnasendingar til Feneyja. Það hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi. Taktur. 4/4 er takttegund sem þýðir að það eru fjórar fjórðapartsnótur (ta) í hverjum takti. Galdur. Galdrar eru yfirnáttúruleg fyrirbæri, sem sumir kalla list, sem hægt sé að læra eins og sjónhverfingar töframanns, til dæmis spilagaldur eða að draga kanínu upp úr hatti. Hugtakið "galdur" er andstætt vísindum. Þeir sem trúa á galdra fullyrða það að ekki sé allt með rökrænum eða útskýranlegum hætti sem stangast algjörlega á við vísindin. Göldrótt fólk á miðöldum var hins vegar talið hættulegt af því að galdrar voru ekki alltaf að hinu góða. Margir töldu að þar væri djöfullinn sjálfur með í ráðum. (Sjá miðalda euhemerisma) Því voru þeir brenndir lifandi á báli sem sannað þótti að höfðu einhvern tímann framkvæmt galdur. Svarti galdur þótti hins vegar alvestur og hlaut þar einhver eða eitthvað skaða af. Skrifaðar voru heilu bækurnar með galdraþulum, stöfum, plöntum og hlutum sem menn þurftu til að framkvæma galdurinn og fólk trúði statt og stöðugt á. Kastrupflugvöllur. Kaupmannahafnarflugvöllur, oftast kallaður Kastrupflugvöllur, er alþjóðaflugvöllur í Kaupmannahöfn, Danmörku. Hann var lagður 1925 og er stærsti flugvöllur Danmerkur. Flugvöllurinn er staðsettur á eynni Amager, 8 kílómetrum sunnan við miðborg Kaupmannahafnar og 24 kílómetrum vestan við miðborg Malmö sem er hinum megin við Eyrarsundsbrúnna. Flugvöllurinn er einn af þremur miðstöðvum Scandinavian Airlines og er einnig miðstöð fyrir Cimber Sterling, Thomas Cook Airlines Scandinavia og Norwegian Air Shuttle. 60 flugfélög eru með áætlunarflug til flugvallarins og hann þjónar 62.000 farþegum á dag. Flugvöllurinn er rekinn af Københavns Lufthavne A/S sem einnig á flugvöllinn í Hróarskeldu. Saga vallarinns. Völlurinn var vígður 20. apríl 1925 með grasilögðum flugbrautum og fimm árum síðar, 1930 byrjaði fyrsta flugfélagið SAS áætlunarflug frá flugvellinum. Á næsta áratug, fjórða áratugnum sexfaldaðist árlegur farþegafjöldi upp í 72.000. Flugvöllurinn var orðinn of lítill og því var flugvöllurinn stækkaður í apríl 1939. Það var gert með því að malbika flughlaðið, fjölga flugbrautum og byggja nýja flugstöðvarbyggingu. Um vorið 1941 var fyrsta flugbrautin steinsteypt. Flugbrautin var 1.400 metra löng og 65 metra breið. Í kjölfarið 1946 varð flugvöllurinn viðurkenndur alþjóðaflugvöllur. Lestartenging við flugvöllinn opnaði 1. júlí 2000. Flugfélög og áfangastaðir. Flugvöllurinn hefur fjögur flughlið. Flughlið 1 er notað fyrir innanlandsflug. Um flughlið 2 og 3 fer alþjóðaflug og þær deila tollafgreiðslu og töskusal. Fjórða flughliðið, CPH Go var opnað 31 október 2010 og er sérstaklega ætlað fyrir lággjaldaflugfélög. Podgorica. Podgorica (serbneska: "Подгорица") er höfuðborg Svartfjallalands og er stærsta borgin í landinu. Íbúar borgarinnar eru um 140.000 manns, en í öllu sveitarfélaginu búa um 170.000 manns. Stærð sveitarfélagsins er 1.441 km². Borgarstjórinn heitir Miomir Mugoša og hefur verið borgarstjóri Podgorica síðan árið 2000. Nafnið "Gorica" í Podgorica er serbneska, og þýðir „lítið fjall“, út af borgin stendur á 44 metrum að hæð yfir sjávarmáli. Kastrup. Kastrup er hverfi í Kaupmannahöfn. Það er á austurströnd eyjunnar Amager í sveitarfélaginu Tårnby. Sid Vicious. John Simon Ritchie, betur þekktur sem Sid Vicious (10. maí 1957 – 2. febrúar 1979) var breskur pönktónlistarmaður, bassaleikari hljómsveitarinnar Sex Pistols og söngvari. Hann lést úr ofneyslu heróíns þar sem hann beið réttarhalda vegna morðsins á fyrrum unnustu hans Nancy Spungen í New York-borg. Vicious, Sid Vicious, Sid Anatole France. Anatole France ("François-Anatole Thibault") (16. apríl 1844 – 12. október 1924) var franskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1921. Á íslensku hafa birst eftir hann nokkrar smásögur og skáldsagan Uppreisn englanna ("La révolte des anges") sem Magnús Ásgeirsson þýddi. Tenglar. France, Anatole Glock. Glock GmbH er austurrískt skotvopnafyrirtæki, stofnað árið 1963 af Gaston Glock. Nú á tímum býr Glock til 35 gerðir af skammbyssum og 2 gerðir af hnífum. Glock skammbyssur eru heimsfrægar og eru víða notaðar í herjum og sérsveitum. Einnig notar íslenska sérsveitin (Víkingasveitin) og Íslenska Friðargæslan Glock skammbyssur. Saga. Glock var stofnað árið 1963 af austurrískum verk-/tæknifræðingi "Gaston Glock". Fyrirtækið framleiddi í fyrstu hnífa, verkfæri, plastmagasín og æfingarhandsprengjur, en hóf ekki framleiðslu á skotvopnum fyrr en árið 1970 þegar þeir settu á markað vélbyssubelti. Fyrsta skammbyssan, Glock 17, sem fyrirtækið bjó til, var hönnuð á fyrri hluta níunda áratugarins og var að hluta til úr plastefni, sem þá var nýung í skammbyssum. Samstarfsmaður stofnandans, Gaston Glocks reyndi að ráða hann af dögunum og réð til verkanarins flugumann. Í árásinni 1999 hlaut Gaston þung höfuðhögg, en tókst að verjast með berum höndum og flýja af vettvangi. Tilræðismennirnir hlutu þunga fangelsisdóma í kjölfarið. Skammbyssur. Listi yfir skammbyssur framleiddar af Glock. Steyr TMP. Steyr TMP er hríðskotabyssa, framleidd af austurríska skotovopnafyrirtækinu Steyr Mannlicher. Hún notar 9x19mm Parabellum skot og komast 15 – 30 þannig skot í magasín byssunar. Hún er 282 mm að lengd og er 1,3 kg að þyngd (óhlaðin). TMP er skammstöfun á ensku fyrir "Tactical Machine Pistol", og á þýsku fyrir "Tactische Maschinen Pistole". Hama. Hama er borg í Sýrlandi. Hún er höfuðstaður héraðsins Hama og er vestarlega í miðju héraðinu. Hama er fimmta stærsta borg Sýrlands með um 410.000 íbúa. Gabriel Metsu. Gabriel Metsu (1629 í Leiden – 24. október 1667 í Amsterdam) var hollenskur listmálari. Metsu, Gabriel Íris Grönfeldt. Íris Inga Grönfeldt (fædd 8. febrúar 1963 í Borgarnesi) er íslensk íþróttakona og íþróttafrumhönnuður og ólympíufari. Systir Írisar er Svafa Grönfeldt rektor HR og fyrrverandi aðstoðar-forstjóri Actavis. Skrúfa. Skrúfa er járnhlutur með spírallaga skrúfgangi, og höfuð skrúfunnar er stærra en skrúfgangurinn. Skrúfur eru notaðar til að festa hluti, og eru oft reknar, negldar eða skrúfaðar í við oft með skrúfjárni. Kynlaus æxlun. Kynlaus æxlun er tegund æxlunar sem hefur hvorki í för með sér rýriskiptingu, fækkun fjöldi litningapara í frumu né frjóvgun. Kynlaus æxlun þarf aðeins einn foreldra. Helstu munurinn á kynlausri æxlun og kynæxlun er sú að við kynæxlun makast einstaklingar af gagnkvæmu kyni þar sem karlkynið myndar sáðfrumur og kvendýrið egg en í kynlausri æxlun fjölgar lífvera sér sjálf án aðstoðar einstaklings af hinu kininu. Nokkur afbrigði af kynlausri æxlun þekkjast eins og skipting, knappskot, gróæxlun og vaxtaræxlun. Kynæxlun. Kynæxlun er tegund æxlunar sem krefst tveggja einstaklinga, annars af karlkyni og hins af kvenkyni. Felst ferlið í meiginatriðum í því að sáðfruma frá karlkyns einstaklingnum frjóvgar eggfrumu frá kvenkyns einstaklingnum. Við samruna erfðaefnis kynfrumanna verður eggið að okfrumu sem er fyrsta fruma nýs einstaklings. Helsti munurinn á kynlausri æxlun og kynæxlun er sá að við kynæxlun makast einstaklingar af gagnkvæmu kyni þar sem karlkynið myndar sáðfrumur og kvendýrið egg, en í kynlausri æxlun fjölgar lífvera sér sjálf án aðstoðar einstaklings af hinu kyninu. Þveiti. Þveiti (eða veising) er heiti á mikilvægu ferli sem stuðlar að því að losa úrgangsefni úr líkama lífvera, hvort sem úrgangsefnin myndast við efnaskipti eða hafa safnast saman í líkamanum af öðrum orsökum. Heilbrigður líkami þveitir öllum úrgangsefnum og ónauðsynlegum efnum úr líkamanum. Helstu þveitislíffæri líkamans eru nýrun, lungun, svitakirtlar og meltingarvegurinn. Heiðarskóli. Heiðarskóli er grunnskóli í Reykjanesbæ, sem hefur verið starfræktur frá árinu 1998. Vistmenning. Dæmi um hönnun á húsum í Hollandi sem nota efnivið sem til er á staðnum og sem ekki veldur mengun Vistmenning er aðferð eða sýn við hönnun á samfélögum manna, sérstaklega hvað varðar lífræna ræktun sem hermir eftir skipulagi og tengslum í náttúrulegum vistkerfum. Í slíkri hönnun er lögð áhersla á umhverfisvernd og skynsamlega nýtingu auðlinda og mannvirkja, endurnýtingu, orkusparandi tækni og aðgerðir til að draga úr mengun. Vistmenning er hönnunarstefna sem í upphafi snerist aðeins um sjálfbæra jarðrækt en fór fljótlega að fjalla um allar hliðar mannvistar, þar á meðal skipulag, arkitektúr og iðnað. Uppruna hugtaksins má rekja til bókarinnar "Permaculture One" eftir áströlsku vísindamennina Bill Mollison og David Holmgren árið 1978. Meðal áhrifavalda þeirra má nefna Toyohiko Kagawa, Stewart Brand, Ruth Stout og Masanobu Fukuoka, með áherslur sínar á garðyrkju án erfiðis, skógaryrkju (ræktun fjölærra matjurta í stað einærra) og ræktun jarðvegs (matjurtaræktun sem eykur næringargildi moldarinnar, en ekki öfugt). Lögmál Gauss. Lögmál Gauss er mikilvægt lögmál í stærðfræði og eðlisfræði, kennt við Carl Friedrich Gauss. Fjallar um flæði vigursviðs í þremur rúmvíddum. Stærðfræðileg framsetning. þar sem n er (ytri) þverill flatarins "S". Lögmál Greens er samsvarandi lögmál í tveimur rúmvíddum. Lögmál Greens. Lögmál Greens er mikilvægt lögmál í stærðfræði og eðlisfræði, sem á við samband flatarheildis og ferilheildis í tveimur rúmvíddum. Stærðfræðileg framsetning. Flatarheildi sundurleitni vigursviðs F'"=("P"("x","y"),Q("x","y")), þ.e. div F, á fleti D er jafnt, ferilheildi af þverþætti vigursins F á jaðri D. Vigurinn n'"=("dy", -"dx") er þverill jaðars "D". þar sem "dA" er flatareining og "C" er jaðar "D". Lögmál Gauss er samsvarandi lögmál í þremur rúmvíddum. Heckler & Koch G3. Heckler & Koch G3 er hríðskotariffill framleiddur af þýska skotvopnafyrirtækinu Heckler & Koch á sjötta áratugnum. Hann notar 7.62mm skot og komast í kringum 20 þannig skot á magasínin. Lengd byssunar er 1.025 mm og þyngdin er í kringum 5 kg. Heckler & Koch G3 er í notkun hjá 41 landi, einnig Íslandi. Landhelgisgæsla Íslands og Íslenska friðargæslan notar G3 byssur. Semíramis. a> á ítalskri myndskreytingu frá 18. öld. Semíramis var goðsöguleg drottning í Assýríu sem var frá Sýrlandi og átti að hafa gifst sagnkonunginum Nínusi, stofnanda borgarinnar Níneve. Í armenskum goðsögum varð hún ástfangin af armenska konunginum Ara hinum fagra. Hann vildi ekki eiga hana sem varð til þess að hún hélt með her til Armeníu með þeim afleiðingum að Ara var drepinn í orrustunni. Margar kenningar eru til um sögulega fyrirmynd Semíramisar og hún er stundum kennd við Sjammuramat, hina babýlónsku drottningu Sjamsi-Adads 5. Assýríukonungs sem ríkti í þrjú ár eftir lát hans 811-808 f.Kr.. Emilia Plater. Emilia Plater (13. nóvember 1806 – 23. desember 1831) var uppreisnarkona frá Vilnius sem barðist í Nóvemberuppreisninni gegn Rússneska keisaradæminu og er þjóðhetja í Póllandi, Hvíta-Rússlandi og Litháen. Hún var af aðalsfjölskyldu af vestfölskum uppruna. Foreldrar hennar létust þegar hún var ung og hún var því alin upp af ættingjum í Līksna þar sem Lettland er nú. Þegar Nóvemberuppreisnin hófst ákvað hún að mynda uppreisnarflokk í Litháen þar sem uppreisnin hafði ekki náð fótfestu fyrr. 1831 var herflokkurinn tekinn í her Dezydery Chłapowski sem ráðlagði henni að láta af stjórn flokksins sem hún hafnaði. Hún hélt því foringjastöðu sinni og varð í kjölfarið höfuðsmaður. Eftir ósigur pólsku sveitanna hélt Chłapowski með herinn til Prússlands en hún neitaði að hörfa og reyndi að brjótast gegnum skógana frá Litháen til Varsjár. Á leiðinni veiktist hún og lést og er grafin í þorpinu Kapčiamiestis í Litháen. Plater, Emilia Qin Shi Huang. Qin Shi Huang (kínverska: 秦始皇, pinyin: Qín Shǐ Huáng, Wade-Giles: Ch'in Shih-huang) (259 f.Kr. – 10. september 210 f.Kr.) var konungur Kinríkisins frá 247 f.Kr. til 221 f.Kr. og síðan yfir sameinuðu Kína sem fyrsti keisari Kinveldisins til dauðadags. Hann er þekktastur fyrir að hafa fyrstur sameinað Kína í eitt ríki og fyrir að hafa tekið upp löghyggju. Eftir að hafa sameinað landið undir eina stjórn hóf hann ýmis risaverkefni eins og að reisa fyrirrennara Kínamúrsins og grafhýsi á stærð við borg sem var gætt af 8000 manna leirher og gríðarlegt vegakerfi, verkefni sem kostuðu mörg mannslíf. Hann bannaði konfúsíusisma og lét grafa marga fylgismenn hans lifandi og brenna bækur þeirra. Hans er því ekki síður minnst sem harðstjóra. Ho Chi Minh. Hồ Chí Minh (framb.) (19. maí, 1890 – 2. september, 1969) var víetnamskur byltingarmaður sem varð síðar forsætisráðherra (1946-1955) og forseti (1946-1969) í Norður-Víetnam. Hann var leiðtogi sjálfstæðishreyfingarinnar Viet Minh frá 1941 og stofnaði Alþýðulýðveldið Víetnam 1945. Hann vann sigur á Franska sambandinu í orrustunni við Dien Bien Phu 1954 og var leiðtogi norðurvíetnamska hersins í Víetnamstríðinu til dauðadags. Fyrrum höfuðborg Suður-Víetnams, Sægon, var nefnd Ho Chi Minh-borg honum til heiðurs 1976. Skjaldarglíma Ármanns. Glímufélagið Ármann var stofnað 15. desember 1888 og árið eftir stóð félagið fyrir kappglímu, Ármannsglímunni, sem haldin var 12 sinnum til og með árinu 1907. Í ársbyrjun 1908 var verðlaunagripur, Ármannsskjöldurinn, gefinn til kappglímunnar, og skildi hann veittur til heiðurs mesta glímumanni Reykjavíkur. Í umtali fór glímumótið að draga nafn af verðlaunagripnum og kallast Skjaldarglíma Ármanns. Síðan 1908 hefur verið keppt um gripinn árlega utan 5 ár um heimsstyrjöldina fyrri, og því um 92. Skjaldarglímu Ármanns að ræða, sem fram fór 8. febrúar 2004. Jafnframt telst það mót 104. Ármannsglíman frá 1889.Aðalstofnendur Ármanns voru:Pétur Jónsson blikksmiður og séra Helgi Hjálmarsson, frá Vogum í Mývatnsveit. Í þau 92 skipti, sem keppt hefur verið um Ármannsskjöldinn hafa Ármenningar unnið 42 sinnum, Kr-ingar 23, UMFR maður 8 sinnum, félagar í UV (Ungmennafélagið Víkverji) í 16 skipti, ÍK maður 2 sinnum og félagi í Umf Vöku 1 sinni. Alls hafa 36 glímumenn orðið Skjaldarhafar í þessi 92 skipti. Þeir, sem oftast hafa unnið Skjaldarglímu Ármanns eru: 1. Pétur Eyþórsson, UV/KR/Ármann, 10 sinnum. 2.Ólafur H. Ólafsson, KR, 9 sinnum. 3. Ármann J. Lárusson, UMFR, 8 sinnum. 4. Sigtryggur Sigurðsson, KR, 7 sinnum. 4.-5. Sigurjón Pétursson, Á, 6 sinnum. 4.-5. Ingibergur J. Sigurðsson, Á + UV, 6 sinnum. 6.-8. Lárus Salómonsson, Á, 4 sinnum. 6.-8. Guðm. Ágústsson, Umf Vöku + Á, 4 sinnum. 6-8. Í gegnum tíðina hefur meðal glímumanna heiðurstitillinn Skjaldarhafi Ármanns og að bera Ármannsskjöldinn gengið næst því að verða Glímukóngur Íslands og hlotnast Grettisbeltið til varðveislu til næstu Íslandsglímu. Hér á eftir fer skrá um alla sigurvegara í Ármannsglímunni frá 1889, sem jafnframt eru Skjaldarhafar frá 1908. Rétt er að vekja athygli á, að sigurvegari í 102. Ármannsglímunni 2002 varð Ólafur Oddur Sigurðsson, HSK, og í 2. sæti Arngeir Friðriksson, HSÞ, en þeir kepptu sem gestir. Vinningaflesti Reykvíkingurinn, Ingibergur J. Sigurðsson, UV, varð í þriðja sæti og hlaut titilinn Skjaldarhafi Ármanns samkvæmt reglum um Ármannsskjöldinn. Einnig fylgir í stuttu máli saga Ármannsskjaldarins, hvaða glímumenn hafa unnið hann til eignar og gefendur skjaldarinns. Sigurvegarar í Ármannsglímunni og Skjaldarhafar Ármanns 1908 Ármannsskjöldurinn gefinn. Mótið fór að draga nafn af skildinum. 1950 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1953 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1954 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1955 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1956 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1958 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1959 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1960 Ármann J Lárusson Umf. Rvíkur 1999 Pétur Eyþórsson Umf.Víkverji 2001 Pétur Eyþórsson Umf. Víkverji 2003 Pétur Eyþórsson UV 2004 Pétur Eyþórsson UV 2005 Pétur Eyþórsson KR 2006 Pétur Eyþórsson KR 2007 Pétur Eyþórsson KR Alls hafa 42 glímumenn orðið sigurvegarar í Ármannsglímunni frá 1889 og af þeim hafa 36 borið heiðurstitilinn Skjaldarhafi frá 1908. 2. skjöldur: Sigurjón Pétursson, 1914-1915, 1920. 3. skjöldur: Sigurður Thorarensen, 1928, 1930-1931 6. skjöldur: Ármann J. Lárusson, 1953-1955 7. skjöldur: Ármann J. Lárusson, 1958-1960 12. skjöldur: Ólafur H. Ólafsson, 1985-1987 13. skjöldur: Ólafur H. Ólafsson, 1988-1990 14. skjöldur: Ingibergur J. Sigurðsson, 1994-1995, 1997-1998, 2000 15. skjöldur: Pétur Eyþórsson, 1999, 2001, 2003-2005 16. skjöldur: Pétur Eyþórsson, 2006-2007 Félagið mun sjálft hafa kostað gerð fyrstu skjaldanna beint eða með samskotum. Líkur benda til að Eggert Kristjánsson hafi gefið 6., 7. og 8. skjöldinn. Hörður Gunnarsson gaf 9., 10. og 11. skjöldinn og þeir Hörður og Sveinn Guðmundsson gáfu 12., 13. og 14. skjöldinn sameiginlega. Hörður Gunnarsson gaf 15. og 16. skjöldinn, sem byrjað var að keppa um 2001 Lev Trotskíj. Lev Trotskíj (rússneska:, "Ljev Davidovitsj Trotskíj") upphaflega nefndur Ljev Davidovitsj Bronstein (rússneska: Лeв Давидович Бронштéйн) (7. nóvember 1879 – 21. ágúst, 1940), var úkraínskur bolsévíki, byltingarmaður og marxískur kenningasmiður af gyðingaættum. Hann var áhrifamikill stjórnmálamaður á fyrstu árum Sovétríkjanna, fyrst sem utanríkisráðherra í sovésku ráðstjórninni og síðan sem stofnandi og herstjóri Rauða hersins og hermálaráðherra. Eftir að hafa leitt hina misheppnuðu Vinstri andstöðu við valdatöku Stalíns og aukið skrifræði í Sovétríkjunum á 3. áratugnum var hann rekinn úr sovéska kommúnistaflokknum og rekinn úr landi við upphaf Hreinsananna miklu. Í útlegðinni reyndi hann að stjórna sósíalísku andófi gegn Sovétstjórninni, safnaði fylgismönnum (sem eru kenndir við hann og kallaðir trotskíistar) en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann var loks myrtur af útsendara Stalíns á heimili vinkonu sinnar og ástkonu, listakonunnar Fridu Kahlo, í Mexíkóborg árið 1940. Yngri ár. Ljev Davidovitsj Bronstein fæddist í Yanovka í Úkraínu árið 1879. Hann var sonur bóndans David Bronstein og konu hans Önnu Bronstein sem voru bændur af gyðingaættum. Árið 1896 flutti hann til Nikolayer og komst í kynni við hóp róttækra byltingarsinna. Eftir að hafa lesið mikið magn pólitískra bókmennta tók hann afstöðu gegn hryðjuverkum, sagði sig úr hópnum og snéri sér að kenningum Karl Marx. Hann stundaði nám við háskólann í Odessa um hríð en hætti fljótlega til að geta helgað sig pólitískum störfum. Árið 1897 var Ljev meðstofnandi Suðurrússnenska Verkalýðsfélagsins og starfsemi þess fólst meðal annars í að hvetja verkamenn til að rísa upp gegn valdinu og hefja stéttarbaráttu. Fyrir slíkan áróður var hann handtekinn ári seinna og dæmdur í fjögurra og hálfs árs útlegð í Síberíu. Ljev tókst að flýja úr útlegðinni eftir tveggja ára dvöl í Síberíu á fölskum passa undir nafninu Trotskíj, sem hann var þekktur undir framan af. Þá hafði hann þegar heyrt getið um marxistann Vladimir Ulyanov (Lenín), sem var búsettur í London og tók því stefnuna þangað til að komast á fund við hann. Í London kynntust þeir fljótlega og Trotskíj hóf ritstörf á blaðinu "Iskra" eða "Neistinn" sem Lenín gaf út í þeim tilgangi að sameina rússneska marxista og hvetja þá til aðgerða. Trotskíj og Lenín söfnuðu að sér mörgum fylgismönnum og stefndi Lenín að því að sameina þá mörgu sósíalístísku hópa sem til voru á þeim tíma í einn flokk. En þeir höfðu ólíkar hugsjónir varðandi þá byltingu sem var markmið beggja. Trotskíj þótti Lenín of upptekinn af því að ná algjöru valdi í flokknum og sagði sig úr honum árið 1903. Sjálfur aðhylltist Trotskíj sósialisma með lýðræðislegra ívafi en Lenín. Margir sem voru honum sammála slitu sig einnig úr flokknum. Þá greindist flokkurinn í tvær fylkingar: bolshevika („meirihlutamenn“) sem voru fylgendur Leníns og menshevika („minnihlutamenn“) sem aðhylltust lýðræðislegan sósialisma. Sú hugmynd að mynda samstarf við frjálslyndu borgarastéttina í byltingunni varð fljótlega vinsæl meðal menshevika en Trotskíj var á móti henni. Hann sagði sig loks úr hópi menshevika árið 1904 og lýsti sig óflokksbundinn sósialdemókrata. Árið 1905 ríkti mikil óánægja í Rússlandi vegna þeirra hörmunga sem stríð Rússa gegn Japönum olli. Mikill byltingarandi og verkföll riðu yfir landið og út frá þeim átökum mynduðust verkalýðsráð, sovét, um allt Rússland. Trotskíj snéri aftur til Rússlands um leið og honum bárust fréttirnar og var hann valinn formaður sovétsins í Petrograd. Þessi fyrstu átök Rússnensku byltingarinnar voru þó fljótlega barin niður að ríkisvaldinu. Trotskíj var handtekinn ásamt öðrum meðlimum sovétsins og sendur til Síberíu árið 1807, en í þetta skiptið tókst honum að flýja í upphafi ferðarinnar. Á tímanum sem hann dvaldi í fangelsi þar til dómur var úrskurðaður, náði hann að skrifa ritið "Árangur og framhorfur" þar sem hann setti fyrst fram kenningu sína um hina varanlegu byltingu. Næstu ár var hann aðallega búsettur í Austurríki og Balkan þar sem hann skrifaði greinar í sósíalístíska miðla og ritstýrði blaðinu Pravda. Hlutverk í rússnensku byltingunni. Árið 1917 hófst Febrúarbyltingin í Rússlandi sem varð keisaranum loks að falli. Trotskíj var staðsettur í New York þegar fréttirnar bárust og dreif sig um leið til Rússlands. Þá hafði ný bráðarbirgðaríkisstjórn þegar verið mynduð en hún var, að áliti almennings, ófær um að leysa vandamál þjóðarinnar, það er að segja að koma á friði, stöðva hungursneyðina og færa bændum jarðir. Sovétin voru enn til samhliða ríkisstjórninni og í þetta skiptið náðu Lenín og Trotskíj samkomulagi um stjórn þeirra. Það var markmið þeirra beggja að færa byltinguna á næsta stig, sem fólst í því að verkalýðurinn tæki völdin í sínar hendur. Þá gerðist Trotskíj bolshevíki og var valinn í æðstu stjórn flokksins (Central Committee) og einnig gerður formaður sovétsins í Petrograd á ný. Þar skipulagði hann uppreisn og valdatöku verkalýðsins sem gekk vel fyrir sig. Aðrar slíkar aðgerðir fylgdu í kjölfarið um allt Rússland og gekk sú bylting undir nafninu Októberbyltingin. Hún var fremur óblóðug því bolshevíkar nutu gríðarlegs stuðnings meðal landsmanna. Þegar öll völd voru komin í hendur bolshevíka hófu þeir myndun nýrrar ríkisstjórnar og var Trotskíj fyrst valinn sem utanríkisráðherra og síðan stríðskommisar. Hlutverk hans fólst þá meðal annars í að byggja upp rauða herinn frá grunni. Auk þess unnu Lenín og Trotskíj hörðum höndum að alþjóðlegri byltingu sósialista, því þeir töldu að kommúnismi gæti aðeins gengið á alþjólegum grundvelli og gæti ómögulega staðið undir sér í einu afmörkuðu landi. Þeir stofnuðu alþjóðlegan kommúnistaflokk í von um að fleiri lönd myndu fylgja Rússlandi. Það reyndist þó erfitt fyrir marxista annars staðar að ná sama árangri því þeir voru of fáir og óreyndir. Þetta leiddi til þess að sósíalisminn og byltingin einöngruðust í Rússlandi þar sem verkamannastéttin var þegar komin í þrot og margir látnir vegna styrjalda og hungursneyðar. Það var mikil þörf í landinu fyrir hámenntað fólk til að byggja upp efnahaginn en Rússar voru almennt illa menntaðir og margir ólæsir. Mikill hluti hámenntaðs fólks, sem fékk ábyrgðarstöður í hinu nýja sósialístiska samfélagi, var af borgarastétt. Margir hverjir höfðu gegnt embættisstörfum fyrir keisarann og voru almennt á móti byltingunni. Þetta leiddi til þess að Sovétríkin urðu ekki eins lýðræðisleg og ætlast hafði verið til í upphafi. Barátta gegn Stalín. Lenín lést árið 1924. Hann hafði óskað þess að samvinnustjórn myndi taka við í flokknum eftir dauða sinn en hafði þó lýst því yfir í erfðaskrá sinni að Ljev Trotskíj væri einn af hæfustu mönnum flokksins. Margir voru andvígir hugmyndum um samvinnustjórn og meðal þeirra var Jósef Stalín, sem var hátt settur í flokknum og sóttist eftir völdum. Trotskíj var hans helsti keppinautur um völd, því almenningur áleit hann vera eftirmann Leníns. Því faldi Stalín erfðaskrá Leníns, gróf upp ýmis gömul ágreiningsmál á milli Leníns og Trotskíj og byrjaði markvisst að grafa undan trúverðugleika Trotskíj til að ryðja honum úr vegi sínum. Sovétríkin voru þá þegar orðin að skrifstofuveldi. Lenín hafði viðurkennt það áður en hann dó og haldið því fram að það væru ekki kommúnistarnir sem stjórnuðu ríkinu, heldur ríkið sem stjórnaði kommúnistunum. Enginn kunni betur á kerfið en Stalín og notfærði hann sér það óspart til þess að útrýma andstæðingum sínum. Trotskíj hélt enn í hugmyndir sínar og Leníns um hina alþjóðlegu byltingu og vildi vinna að alvöru sósíalístísku lýðræði. Árið 1927 hafði Stalín náð meirihluta í flokknum og fjarlægði hann þá Trotskíj úr öllum embættum. Ári seinna var hann svo sendur í útlegð til Alma Ata við Mongólsku landamærin og þaðan til Tyrklands árið 1929. Það sem eftir var ævinnar fylgdist Trotskíj grannt með þróuninni í Rússlandi. Hann hélt fyrirlestra, skrifaði bækur um Sovétríkin og safnaði að sér fylgismönnum. Nefna má rit hans "Byltingin svikin" þar sem hann fjallar um tilkomu skriffinnsku og einræðis í Sovétríkjunum og hvernig skrifstofuveldið hindraði myndun lýðræðislegs sósíalisma. Stjórn Stalíns byggðist á hugmyndum hans um “sósíalisma í einu landi” og vann í raun gegn sósíalístískum byltingum í öðrum löndum, til að raska ekki því valdajafnvægi sem ríkti og var í hennar hag. Trotskíj taldi hins vegar að ef lýðræðislegur sósíalismi kæmist ekki á í Sovétsríkjunum, þá myndi „sósíalismi í einu landi“ ekki standa undir sér, skrifstofuveldið myndi hrynja og kapítalismi tæki við aftur. Ofsóknir og morð. Þrátt fyrir að vera útlægur úr Sovétríkjunum var Trotskíj ennþá ógn gagnvart Stalín. Hann átti stóran hóp alþjóðlegra fylgismanna, svokallaða trotskíista. Eftir að hafa búið í bæði Frakklandi og Noregi ásamt konu sinni fékk Trotskíj pólitískt hæli í Mexíkó. Þar bjó hann fyrst hjá listamönnunum og hjónunum Diego Rivera og Fridu Kahlo. Hann átti í ástarsambandi við Fridu en hjónaband hennar og Diego var afar frjálslynt og óhefðbundið. Árið 1939 flutti hann síðan til Avenida Viena skammt frá heimili Rivera. Þann 20. ágúst 1940 var hann myrtur á heimili sínu af útsendara Stalíns, Ramon Mercader. Hann hafði unnið traust Trotskíjs og beðið hann um að fara yfir nokkur skjöl fyrir sig á skrifstofu sinni. Þar dró hann upp ísexi og rak hana í höfuð Trotskíjs, honum að óvörum. Trotskíj lést þó ekki þegar af sárum sínum og náði hann að veita Mercader nokkra mótstöðu. Lífverðir hans komu og börðu Mercader nánast til dauða en Trotskíj bað þá að þyrma honum svo hægt væri að yfirheyra hann. Trotskíj lést af sárum sínum daginn eftir. Ríkisstjórn Stalíns afneitaði allri ábyrgð á andláti Trotskíj og Mercader var dæmdur í 20 ára fangelsisvist, sem var hámarksdómur samkvæmt Mexíkóskum lögum. Tenglar. Trotskíj, Lev Tímúr. Stytta af Tímúr í Úsbekistan. Tímúr eða Timur-i lang (tsjagataíska: تیمور - "Tēmōr", "járn") (1336 – 19. febrúar 1405) var túrkmenskur herstjóri sem lagði undir sig stóra hluta Mið-Asíu og stofnaði Tímúrveldið. Stofnandi Mógúlveldisins, Babúr, var afkomandi hans. Hann var af mongólskum hirðingjaættbálki, Barlas, sem tekið hafði upp tyrkíska tungu og siði. Hann sóttist eftir endurreisn Mongólaveldisins sem hafði brotnað upp í mörg minni ríki á 13. öld. Tímúr var líka kunnugur persneskri menningu og í flestum þeim löndum sem hann lagði undir sig var persneska stjórnsýslumál. Hann hóf feril sinn sem leiðtogi í herförum kansins af Tsjagataí í Transoxaníu. Frá 1369 var hann emír í Samarkand sem varð síðar miðstöð veldis hans sem byggðist á yfirráðum yfir Silkiveginum. Með herförum sínum lagði hann undir sig Armeníu, Hindústan (Indlandi), Sýrlandi og Mesópótamíu. Veldi hans leystist að miklu leyti upp eftir lát hans, en afkomendur hans ríktu áfram í Samarkand. Einn þessara afkomenda stofnaði síðar Mógúlveldið á Indlandi. Klerkaveldi. Klerkaveldi, guðveldi eða guðveldisstjórn er tegund stjórnarfars þar sem stjórnin er í höndum kirkju eða klerkaráðs sem stjórna í nafni einhverra æðri máttarvalda. Slíkt stjórnarfar stjórnar oftast samkvæmt guðslögum. Í dag eru það fyrst og fremst tvö ríki sem sögð eru búa við klerkaveldi: Vatíkanið, þar sem páfinn er þjóðhöfðingi en þar sem löggjöf er í meginatriðum sú sama og á Ítalíu, og Íran þar sem klerkaráð undir forystu æðstaklerks eru samkvæmt stjórnarskrá Írans sett yfir lýðræðislega kjörna fulltrúa, forseta og þing. Spilaspá. Spilaspá er það þegar spámaður eða spákona, eða einhver sem telur sig búa yfir spádómshæfileikum, leggur spil á borð og les í þau. Oftast er spáð fyrir framtíðinni, um ástir og barneignir; ferðalög og fjárhag. Spilaspá er af sama meiði og lófalestur og bolla- og kristalskúluspár. Læsi. Graf sem sýnir minnkandi ólæsi á heimsmælikvarða frá árunum 1970 til 2015. Læsi kallast það að geta skrifað, lesið eða að tala tungumál. Þetta hugtak er oftast notað í því samhengi að geta lesið og skrifað nógu vel til að tjá sig almennilega eða nógu vel til þess að viðkomandi geti tjáð sig og skilið hugmyndir bóklærðra einstaklinga sem og látið eitthvað af hendi rakna sjálfur. Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna eða UNESCO hefur gefið eftirfarandi skilgreiningu; „Læsi er hæfileikinn til að bera kennsl á, skilja, túlka, skapa og tjá sig með því að nota prentað eða ritað efni um mismunandi samhengi. Læsi tengist áframhaldandi lærdómi til að leyfa einstaklingi að uppfylla markmið sín, að þroska og leggja stund við þekkingu og hæfni sína og að taka betur þátt í samfélaginu í heild sinni.“ Öndunarfæri. Öndunarfærin eru eitt af líffærakerfum mannsins sem og annarra spendýra. Þau vinna súrefni úr andrúmslofti og koma því í blóðrásina en taka einnig við úrgangslofttegundum og losar þær úr líkamanum. Öndunarfærum ólíkra dýrahópa er hægt að skipta í fjóra meginflokka; líkamsyfirborð (t.d. svampdýr og liðormar), tálkn (fiskar, froskar), loftgöng (t.d. skordýr) og lungu (spendýr). Lungnabólga. Lungnabólga er smitsjúkdómur og bólga í lungnavef og er orsakavaldur hennar örverur (veirur, bakteríur, sveppir og sníkjudýr) eða ertandi eiturefni.Lungnabólga er, eins og nafnið gefur til kynna bólga í lungunum, eða lungnavefnum, Það sem er algengast að orsaka sjúkdóminn eru örverur, t.d. veirur, bakteríur, sveppir, bakteríur og sníkjudýr, einnig getur orsökin verið innöndun á eitruðum gastegungum. En spurningin er hvernig örverurnar orsaka sjúkdóminn. Tökum sem dæmi, gerilveiru, hún festir sig við geril frumu og spýtir erfðaefni sínu í hana, svo myndast fleiri gerilveirur úr erfðaefninu og brjótast á endanum út, svo hópast þær saman, fjölga sér og ráðast á fleiri frumur. En inní gerast hlutirnir, þar taka veirurnar völdin og gerillinn fer að framleiða orku til að fjölga veirunum en hættir að sinna lífverunni sem hann er í. Þannig fær maður lungnabólgu og marga, marga aðra sjúkdóma. Svo smitast sjúkdómurinn líka, það gerist langoftast með andrúmslofti (úðasmiti), veirurnar geta ekki smitast með heitu blóði og fólk með lungnabólgu er oftast of veikburða til að kasta upp. Helstu einkenni lungnabólgu eru: Veirusýking áður en lungnabólgan kemur fram, sjúklingur fær snögga hrolli, háan hita, verk í brjóst og þurran hósta. Einum til tvemur sólarhringum síðar fylgir hóstanum ælukast en uppgangurinn getur verið rauður eða grænn, grænn vegna slíms og rauður vegna blóðs. Einnig getur sjuklingurinn fengið frunsur við munnin sem bendir til skertrar starfsemi ónæmiskerfisins. Sjúklingurinn andar einnig oft ört og grunnt sem segir til um það að hvoru megin lungnabólgan er. Ef sjúklingurinn er gamlingi þá getur hann oft orðið ruglaður um hvenær og hvar hann er. Þeir sem eru líklegastir til að fá lungna bólgu eru: Fólk sem hefur misst miltað, veikt roskið fólk, fólk sem þjáist af alkóhólistar og með skert ónæmiskerfi. Læknar greina sjúkdóminn oft með hrákasýni og til frekari greiningar er tekinn lungnamynd. Hvernig læknirinn læknar sjúkdóminn er hins vegar önnur saga. Það er vanalega gert með sýklalyfinu Pensillíni en hvaða áhrif hefur Pensillín á gerilveirunni sem skapaði öll þessi læti? Lungnabólgan hefur dregið marga fræga til dauða eins og Carl Sagan, René Descartes, William Styron og Bernie Mac Leggöng. Leggöng, skeið eða slíður kallast hluti æxlunarfæra kvendýra sem eru göng sem liggja frá leghálsi og ná út úr líkamanum hjá legkökuspendýrum og pokadýrum, en hjá kvenkyns fuglum, nefdýrum og skriðdýrum tengjast leggöngin frá legi að gotraufinni ("cloaca"). Leggöngin eru gerð út sléttum (hvítum) vöðvavef og taka þátt í æxlun, fæðingu og gangmáli. Getnaðarlimur karldýrs fer aldrei lengra en inn í skeið en þaðan berst sæði inn fyrir legháls með vöðvasamdráttum. Við fæðingu afkvæmis víkka leggöngin út vegna áhrifa oxytósíns. Monty Python. Monty Python var breskur grínhópur. Þeir skrifuðu og léku í "Monty Python's Flying Circus" þáttunum og skrifuðu einnig og léku í þónokkrum grínmyndum eins og "Monty Python and the Holy Grail" og "The Life of Brian". Meðlimir hópsins voru John Cleese, Graham Chapman, Eric Idle, Terry Jones, Michael Palin og Terry Gilliam. Upphaf. Terry Jones og Michael Palin kynntust fyrst þegar þeir voru við nám við Oxford-háskóla á meðan John Cleese og Graham Chapman kynntust þegar þeir voru við nám við Cambridge-háskóla, þar sem þeir voru báðir meðlimir í Footlights grínhópnum. Eric Idle stundaði einnig nám við Cambridge ásamt því að vera meðlimur í Footlights en hóf nám einu ári seinna en Cleese og Chapman. Eftir nám fóru þeir allir að skrifa og leika í sjónvarpsþáttum. Fyrsti þátturinn þar sem allir Monty Python meðlimirnir að Terry Gilliam undandskildum komu fram í var "The Frost Report" með David Frost. Terry Gilliam sem fæddist í Bandaríkjunum kynntist síðan þeim Idle, Jones og Palin þegar hann gerði stuttar teiknimyndir fyrir þáttinn "Do Not Adjust Your Set". Á þessu tímabili frá því að þeir koma nær allir saman við "The Frost Report", vinna þeir að ýmsum verkefnum, oft tveir eða fleiri saman þangað til að þeir byrja að vinna að "Monty Python's Flying Circus". Monty Python. Fyrsti þátturinn af "Monty Python's Flying Circus" var tekinn upp 7. september 1969 og fór í loftið 5. október sama ár á bresku sjónvarpsstöðinni BBC. John Cleese hætti eftir þriðju þáttaröð. Honum fannst hann vera að endurtaka sig og einnig fannst honum sífellt erfiðara að vinna með Graham Chapman sem á þeim tíma var alkahólisti. Þeir meðlimir sem eftir voru gerðu eina þáttaröð til viðbótar áður en hætt var við framleiðslu á þáttunum árið 1974 en allt í allt tóku þeir upp fjórar þáttaraðir sem innihéldu 45 þætti. Þáttaröðin hafur haft nær ómæld óhrif á breska grínista líkt og grínista um heim allan. Þættirnir voru fyrst sýndir í Bandaríkjunum árið 1975 á PBS sjónvarpsstöðinni KERA í Dallas og í kjölfarið á því voru þeir síðan sýndir á PBS stöðvum um öll Bandaríkin. Þeir öðluðust fljótlega dyggan aðdáendahóp sem gerði þeim kleift að vinna að verkefnum saman eftir að hætt var að framleiða þættina. Python hópurinn gerði tvær myndir meðan á töku þáttanna stóð. Myndin "And Now for Something Completely Different" var gefin út árið 1971 og hugsuð fyrir Bandaríkjamarkað. Myndin var samansafn af atriðum úr fyrstu tveim þáttaröðunum, teknum upp á nýtt fyrir mjög lítinn pening. Á milli þriðju og fjórðu þáttaraðar gerðu þeir síðan myndina "Monty Python and the Holy Grail" þar sem er gert er grín af sögunum um Arthúr konung og riddara hringborðsins. Eftir þættina. Eftir að gerð þáttana var lokið fóru meðlimir Python hver í sína áttina en unnu líka oft að verkefnum saman eins og áður. Þeir gerðu tvær kvikmyndir í fullri lengd undir Monty Python nafninu. Eftir að tökum á þáttunum lauk gerðu þeir myndina "Monty Python's Life of Brian". Myndin var gefin út árið 1975 og gerir grín að messíasardýrkun. Síðasta mynd þeirra var síðan myndin "Monty Python's The Meaning of Life" sem var gefin var út árið 1983 en myndin er samansafn af atriðum byggð á ævi mannsins frá getnaði til dauða. Einn meðlimur hópsins Graham Chapman greindist með krabbamein í nóvember 1988 og lést af völdum þess 4. október 1989. Afrískur svartviður. Afrískur svartviður (fræðiheiti: "Dalbergia melanoxylon") er dulfrævingur af ertublómaætt. Afrískur svartviður vex á þurru landi í Afríku, frá Senegal austur til Erítreu suður til Suður-Afríku. Tréin eru á bilinu 4-15 metra há með gráum berki. Viðurinn telst ekki sem íbenviður. Grímur Jónsson Thorkelín. Grímur Jónsson Thorkelín (8. október 1752 – 4. mars 1829) var íslenskur sagnfræðingur og embættismaður, sem starfaði lengst af í Danmörku. Hann var prófessor að nafnbót við Háskólann í Kaupmannahöfn, og leyndarskjalavörður í 38 ár. Uppvöxtur og fyrstu starfsár. Faðir Gríms Thorkelíns var Jón Teitsson (1728-1758) fálkafangari og hermaður í lífverði Danakonungs, sonur Teits Arasonar sýslumanns á Reykhólum. Móðir Gríms var Elín Einarsdóttir (um 1725-1779), dóttir Einars Magnússonar sýslumanns á Bæ í Hrútafirði og Broddanesi. Grímur var laungetinn. Hann kenndi sig síðar við Ara Þorkelsson, langafa sinn í föðurætt (þ.e. Thorkelín). Grímur fæddist á Bæ og ólst að hluta upp hjá móðurfólki sínu á Sveinsstöðum utan Ennis á Snæfellsnesi og í Ljárskógum í Dölum. Hóf nám í Skálholtsskóla 1765, fór utan 1770, var tekinn í Frúarskóla í Kaupmannahöfn og varð stúdent þaðan 1773. Fór þá í háskólann og lauk prófi í lögfræði 1776. Hann lagði stund á norræna fornfræði og varð aðstoðarmaður í Leyndarskjalasafni konungs 1780. Varð prófessor að nafnbót 1784. Englandsförin 1786–1791. Árið 1786 hlaut Grímur styrk til að ferðast til Englands, Írlands og Skotlands, til þess m.a. að leita heimilda um samskipti Dana og Englendinga á fyrri öldum. Meðal þess sem hann rannsakaði þar var hið fornenska handrit Bjólfskviðu, sem varðveitt er í British Library, áður British Museum. Hann skrifaði handritið upp og réði mann til að gera aðra uppskrift. Hann hafði uppskriftirnar með sér til Danmerkur og eru þær nú í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn (NKS 512 og 513 4to). Handrit "Bjólfskviðu" hafði lent í eldsvoða 1731, og sviðnuðu þá spássíurnar og skemmdust. Jaðrar blaðanna molnuðu síðan af á 19. og 20. öld, alveg inn í texta. Uppskriftir Gríms Thorkelíns eru mikilvæg heimild um texta kviðunnar, því að með þeim má fylla í flestar eyður í handritinu, bæði stafi og orð, sem væru glötuð ef uppskriftanna nyti ekki við. Uppskriftir Thorkelíns hafa verið gefnar út ljósprentaðar (Kemp Malone (útg.): "The Thorkelin Transcripts of Beowulf", Copenhagen 1951. "Early English Manuscripts in Facsimile", I). Grímur dvaldist á Englandi, Skotlandi og Írlandi frá 1786 til 1791, nýtti þar tímann vel og kynntist fjölda áhrifamanna. Varð hann mikils metinn og var boðið að verða einn af forstöðumönnum Britsh Museum, en hann hafnaði því. Hann varð doktor í lögfræði við háskólann í St. Andrews í Skotlandi 1788. Útgáfa Bjólfskviðu, trúnaðarstörf o.fl.. Grímur Thorkelín fór til Danmerkur vorið 1791. Hann hafði verið skipaður leyndarskjalavörður, þ.e. yfirmaður Leyndarskjalasafnsins 11. janúar 1791, og gegndi því embætti til æviloka, 1829. Hann er kunnastur fyrir sagnfræðirannsóknir og útgáfu heimilda, en samdi ekki mörg verk sjálfur, nema inngangsritgerðir að útgáfum sínum. Grímur vann lengi að því að undirbúa útgáfu Bjólfskviðu, en verkið var ekki auðvelt því að flest hjálpargögn vantaði til að lesa fornensku. Það var ekki fyrr en árið 1815 að bókin kom út, með fjárhagslegum stuðningi vinar Gríms, Johans Bülows aðalsmanns. Þetta var fyrsta útgáfa kviðunnar, og var frumtextinn birtur á fornensku, ásamt þýðingu á latínu. Grími var ljóst að ýmsar misfellur voru á útgáfunni, en vonaðist samt til að hún yrði honum vegsauki. Skömmu eftir að bókin kom út birti danska skáldið N. F. S. Grundtvig harðskeytta gagnrýni á útgáfuna, og spannst af því hörð ritdeila með þeim Grími, sem þó endaði skaplega, þegar Grundtvig viðurkenndi að hann hefði gengið of langt. Grundtvig hóf að undirbúa danska þýðingu Bjólfskviðu, en gerði sér brátt ljóst að auðveldara var að gagnrýna einstök atriði, heldur en að leysa verkefnið í heild. Það varð honum til happs að árið 1815 kom Rasmus Kristján Rask frá Íslandi. Fékk Grundtvig hann til að fara með sér yfir meginhluta kviðunnar, og í framhaldinu samdi Rask og gaf út "Angelsaksisk sproglære", 1817. Aðstoð Rasks og fornenska málfræðin auðvelduðu Grundtvig að leysa verkefnið, og kom danska þýðingin út 1820, með stuðningi Bülows: "Bjowufs Drape". Segja má að þessar tvær bækur, frumútgáfa Gríms Thorkelíns 1815, og þýðing Grundtvigs 1820, hafi lagt grunninn að síðari rannsóknum á Bjólfskviðu, og eru útgáfur, þýðingar og ritsmíðar um kviðuna nú orðnar nær óteljandi. Grími voru falin margvísleg trúnaðarstörf og honum hlotnuðust ýmsar nafnbætur. Hann var ritari Árnanefndar frá 1777 til æviloka, og var skipaður 1799 í skóla- og dómsmálanefnd, sem vann m.a. tillögur um að flytja biskupsstóla og skóla til Reykjavíkur. Hann var meðal stofnenda Lærdómslistafélagsins 1779. Hann varð jústitsráð 1794, etatsráð 1810, riddari af Dannebrog 1811 og konferensráð 1828. Hann varð meðlimur Vísindafélagsins danska 1791. Grímur var trygglyndur maður og vinfastur og studdi landa sína í Kaupmannahöfn. Hann var höfðingjadjarfur og hafði einstakt lag á að vingast við menn á æðstu stöðum; virðist hafa hrifið menn með gáfum, víðtækri þekkingu og persónutöfrum. Grímur Thorkelín er almennt talinn meðal helstu brautryðjenda í norrænum og germönskum fræðum. Ferð hans til Englands 1786-1791 átti mikinn þátt í að endurvekja áhuga á fornenskri sögu og bókmenntum, bæði af hálfu sagnfræðinga og frumkvöðla rómantísku stefnunnar. Grímur kvæntist 1792, Gunhild Cecilie Hvidsteen (d. 1824), bruggaraekkju, fædd Dybe. Þau eignuðust 6 börn sem öll ílentust í Danmörku. Tenglar. Thorkelín, Grímur Jónsson Thorkelín, Grímur Jónsson Thorkelín, Grímur Jónsson Lykilorð (bók). Lykilorð (handbók fyrir daglegan biblíulestur) er íslensk útgáfa af Herrnhuter Losungen sem hefur komið út í Þýskalandi í hartnær tvær aldir. Hefðin er rakin aftur til þess að Nikolaus Ludwig von Zinzendorf kynnti vers dagsins fyrir bræðrasöfnuðinum í Herrnhut 3. maí 1728. Ný bók kemur út á hverju ári og má finna í henni biblíuvers dagsins, annars vegar úr Gamla Testamentinu og hins vegar úr Nýja Testamentinu auk fleiri kirkjulegra eða trúarlegra texta úr menningarheimi hverjar útgáfu fyrir sig. Afríkanska: Teksboek van die Broederkerk Amerísk enska: Daily Texts of the Moravian Church – Daily Watchwords Ítalska: Letture Quotidiane Bibliche dei fratelli moravi; Un giorno, una parola Guðbrandur Vigfússon. Guðbrandur Vigfússon (13. mars 1827 - 31. janúar 1889) var íslenskur málfræðingur og textafræðingur, einn af fremstu norrænufræðingum 19. aldar. Starfaði lengst í Oxford á Englandi. Æviágrip. Foreldrar hans voru Vigfús Gíslason (1798-1867) gullsmiður í Galtardal á Fellsströnd, og kona hans Halldóra Gísladóttir (1793-1866) frá Breiðabólstað á Skógarströnd, sonardóttir Ólafs Gíslasonar biskups í Skálholti. Guðbrandur var tekinn í Bessastaðaskóla 1844, stúdent úr Reykjavíkurskóla 1849. Fór sama ár í Kaupmannahafnarháskóla og lagði þar stund á málfræði, einkum íslensk fræði, en tók ekki próf. Guðbrandur var styrkþegi Árnasafns 1856-1866 og var í stjórn Nýrra félagsrita 1858-1864. Hann var í Noregi 1854 og Þýskalandi 1859, og skrifaði fróðlegar frásagnir af þeim ferðum (sjá "Ný félagsrit" 1855 og 1860). Sú fyrrnefnda var gefin út á norsku árið 1990. Árið 1864 fluttist Guðbrandur til Englands, var fyrst tvö ár í Lundúnum, en fluttist svo til Oxford 1866, og bjó þar til æviloka. Fyrsta áratuginn á Englandi vann Guðbrandur að útgáfu á Íslensk-enskri orðabók, sem kennd er við hann og Richard Cleasby, en Konráð Gíslason hafði einnig unnið talsvert að undirbúningi hennar í Kaupmannahöfn. Bókin kom út í heftum á árunum 1869-1874, og var því lokið á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Þessi orðabók hefur í meira en öld verið mikilvægasta hjálpartæki enskumælandi manna við nám í íslensku. Í framhaldi af orðabókinni gaf hann út "Icelandic Prose Reader", 1879. Eftir að vinnu við orðabókina lauk fékkst Guðbrandur við kennslu og fræðistörf. Um tíma var hagur hans fremur þröngur, en árið 1884 varð hann kennari (reader) í norrænum fræðum við Háskólann í Oxford og hélt þeirri stöðu til dauðadags. Þar kynntist hann ýmsum þekktum menntamönnum, sem hrifust af lærdómi hans. Hann var talsverður málamaður og talaði góða ensku með sterkum íslenskum hreim. Eftir Guðbrand liggur geysimikið í ritstörfum, einkum fornritaútgáfur. Hann var óvenju hugmyndaríkur og snjall textafræðingur. Traustustu verk hans eru frá árunum í Kaupmannahöfn, þar sem hann starfaði mikið með Jóni Sigurðssyni. Þó að dvölin á Englandi væri að mörgu leyti örvandi fyrir hann, þá galt hann þess að þar var hann fjarri frumheimildum þeirra rita sem hann fékkst við. Treysti hann þá oft á sitt ótrúlega minni, og ýmsar uppskriftir sem hann hafði gert þegar hann vann á Árnasafni. Gætir þess mest í síðustu ritum hans, einkum "Origines Islandicae", sem gefið var út að honum látnum, og hefur ekki verið fulllokið frá hans hendi. Meðal þess sem Guðbrandur vann að í Oxford voru "Orkneyinga saga" og "Hákonar saga", sem hann gaf út í hinu þekkta heimildasafni um sögu Bretlandseyja: Rolls series. Með þeim fylgdu "Saga Magnúsar Eyjajarls" og brot úr "Sögu Magnúsar lagabætis". Þessi rit voru einnig birt í enskri þýðingu George Webbe Dasents. Alls voru þetta fjögur bindi, sem komu út á árunum 1887-1894. Einnig gaf hann út "Sturlunga sögu" í tveimur bindum, og er í inngangsritgerð hans að þeirri útgáfu mjög gott yfirlit um íslenskar fornbókmenntir og varðveislusögu þeirra, ritað af mikilli innlifun. Guðbrandur varð M.A. 1871, heiðursfélagi Vísindafélagsins í München 1873, heiðursdoktor við Uppsalaháskóla 1877, riddari af Dannebrog 1885 og heiðursfélagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1887. Guðbrandur var ókvæntur og barnlaus. Hann var bróðir Sigurðar Vigfússonar fornfræðings. Rit (úrval). Árið 1989 var gefin út bók til að minnast 100 ára ártíðar Guðbrands: "Úr Dölum til Dala. Guðbrandur Vigfússon centenary essays". Ritstjórar Rory McTurk og Andrew Wawn. Gábor Talmácsi. Gábor Talmácsi (f. 28. maí 1981) er ungverskur atvinnumaður í vélhjólakappakstri. Hann er núverandi MotoGP heimsmeistari í 125 kúbika flokki. Buddy Holly. Charles Hardin Holley, betur þekktur sem Buddy Holly (7. september 1936 – 3. febrúar 1959) var bandarískur söngvari og lagahöfundur og einn af frumkvöðlum rokksins. Hann sló fyrst í gegn með laginu „That'll Be the Day“ sem hann tók upp með hljómsveit sinni The Crickets árið 1957 (árið áður hafði hann tekið lagið upp fyrir Decca en það hafði ekki náð hylli). Hann var þekktur fyrir sérkennilegan „hikstandi“ söngstíl í lögum eins og „That'll Be the Day“, „Peggy Sue“ og „Not Fade Away“. Hann lést í flugslys þann 3 febrúar árið 1959, einu og hálfu ári eftir að hann sló í gegn. Með í flugvélinni voru þeir Ritchie Valens og The Big Bopper. Holly, Buddy Ritchie Valens. Ricardo Steven Valenzuela, betur þekktur sem Ritchie Valens (13. maí 1941 – 3. febrúar 1959) var bandarískur söngvari og einn af frumkvöðlum rokksins. Ferill hans stóð aðeins í átta mánuði en hann lést í flugslysi ásamt Buddy Holly og The Big Bopper. Frægustu lög hans eru „La Bamba“ og „Donna“. Valens, Ritchie The Big Bopper. Jiles Perry (J.P.) Richardson, Jr., þekktastur sem The Big Bopper (24. október 1930 – 3. febrúar 1959) var bandarískur plötusnúður og einn af frumkvöðlum rokksins. Hann er þekktastur fyrir lagið „Chantilly Lace“ sem hann söng árið 1958. Hann fórst í flugslysi ásamt Buddy Holly og Ritchie Valens. Lykilorð. Lykilorð (einnig kallað leyniorð eða aðgangsorð í tölvunarfræðilegu samhengi) er leynilegt orð eða röð stafa notað til að fá aðgang að einhverju. Verður að halda lykilorði leyndu frá þeim sem er ekki veitt aðgang. Oft eru lykilorð í raun og veru ekki "orð", frekar röð stafa sem er alveg erfitt að giska á, eins og æskilegt er. Sum lykilorð samanstanda af nokkrum orðum og þá eru „lykilfrasar“. Önnur lykilorð eins og leyninúmer samanstanda eingöngu af tölustöfum. Venjulega er lykilorð stutt og auðvelt að muna eftir og slá inn í tölvu. Lykilorð hafa verið notuð síðan forna tíma til að takmarka aðgang að byggingum og byggðum. Varðmaður væri staddur við sérstakt svæði og veitti aðgang þeim sem þekktu lykilorðið. Nú á dögum eru lykilorð notuð ásamt notandanöfnum við innskráningu til að fá aðgang að meðal annars stýrikerfum, farsímum og hraðbönkum. Tölvunotandi þurfi lykilorð til margra nota: til að skrá inn í tölvuna, ná í tölvupóst frá netþjónum, opna forrit, tengja gagnagrunnum og tölvunetum, nota ákveðnar vefsíður eða jafnvel lesa dagblöð. Þó að lykilorð séu notuð víða í daglegu lífi eru ókostarnir þeirra nokkrir: auðvelt er að giska á, stela eða gleyma þeim. Þar sem mikið öryggi þarf eru lykilorð oft notuð ásamt öðrum upplýsingum til að fá aðgang að einhverju kerfi, til dæmis hjá sumum netbönkum þarf að slá inn auðkennisnúmer með lykilorðinu. Sum fyrirtæki og skólar biðja tölvunotendurna sína um að breyta lykilorðum á reglulegu millibili, t.d. á þriggja mánuða fresti. Oft eru reglur um lengd lykilorða og af hverjum stöfum þau mega samanstanda. Dagurinn þegar tónlistin dó. Minnisvarði um Buddy Holly á staðnum þar sem flugvélin hrapaði. „Dagurinn þegar tónlistin dó“ (upprunalega "The Day the Music Died") er það sem Don McLean kallaði 3. febrúar 1959 í laginu „American Pie“ árið 1971. Þann dag létust í flugslysi þrír af frumkvöðlum rokksins, Buddy Holly, Ritchie Valens og The Big Bopper, ásamt flugmanninum Roger Peterson, þegar eins hreyfils Beechcraft Bonanza-flugvél þeirra hrapaði á maísakur nokkrum mínútum eftir að hún tók á loft frá flugvellinum í Mason City í Iowa. Icelandic Folk Songs - Kristín Ólafsdóttir - Atli Heimir Sveinsson. Icelandic Folk Songs - Kristín Ólafsdóttir - Atli Heimir Sveinsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni syngur Kristín Ólafsdóttir íslensk þjóðlög. Undirleik undir stjórn Atla Heimis Sveinssonar annast hljómlistarmenn úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, mismunandi stórar hljómsveitareiningar í hverju lagi. Auk þess leikur Örn Arason á gítar í nokkrum lögum. Upptakan fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður Sigurður Árnason, sem einnig annaðist hljóð-blöndun ásamt Atla Heimi. Ljósmynd á framhlið: Bragi Hinriksson Lögmál Kelvin-Stokes. Lögmál Kelvin-Stokes er lögmál í stærðfræði og eðlisfræði, sem fjallar um tengsl rótar vigurs og ferilheildis í þrívíðu rúmi. Kennt við William Thomson Kelvin og George Gabriel Stokes. Sava. Sava er 945 km löng þverá Dónár sem á upptök sín nálægt rótum Júlíönsku alpanna í Slóveníu og rennur í gegnum Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu og sameinast loks Dóná við Belgrad í Serbíu. Vatnasvæði Sava nær yfir 95.719 km². Árupptök Sava er þar sem árnar Sava Dolinka (45 km löng) og "Sava Bohinjka" (31 km) mætast á milli bæjanna Lesce og Radovljica í Norður-Slóveníu. Sava telst til vatnasvæðis Svartahafsins þar sem hún er þverá Dónár. Hún er næst-lengsta þverá Dónár á eftir Tisa. Á tímum Júgóslavíu rann áin innan landamæra þess en í dag rennur hún í gegnum landamæri fjögurra landa. Árupptök. Upptök Sava Dolinka eru við Nadiža-lækinn í Planica-dalnum við Zadnja Ponca-fjall í 1.222 metra hæð yfir sjávarmáli nálægt ítölsku landamærunum. Sava Dolinka rennur neðanjarðar á um 5 km kafla en brýst fram á yfirborðið og er þar nefnd Zelenci nálægt Kranjska Gora. Þá rennur hún í gegnum bæina Kranjska Gora, Gozd Martuljek, Jesenice, nálægt Bled og Lesce. Áin er virkjuð á nokkrum stöðum, ein slík vatnaflsvirkjun heitir Moste (22,5 MW) og er í Žirovnica. Styttri áin Sava Bohinjka er 31 km löng og á upptök sín við Komarča-fjallshrygginn í 805 metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnssvæði árinnar er Triglav Árdalurinn og heitir hún Savica ("litla Sava") fram að árósum hennar við Bohinjvatn. Samnefnd 3 MW virkjun er staðsett við Ukanc-gljúfur. Sava Bohinjka mætir Sava Dolinka nálægt bænum Radovljica. Landafræði. Vatnasvæði Sava nær yfir 95.719 km², hluti þess svæðis er Norður-Albanía. Áin er mjög djúp á köflum, 25-30 m nálægt bæjunum Hrtkovci og Bosut í Serbíu. Meðalrennsli við Zagreb í Króatíu er 255 rúmmetrar á sekúndu (m³/s), en nær 1.722 m³/s nálægt Belgrad í Serbíu. Í Serbíu hafaf skapast nokkrar eyjur í ánni sem nefndar eru "ada", t.d. Ada Ciganlija, sem er 2.7 km², í Belgrad. Með byggingu þriggja brúa milli eyjunnar og Belgrad skapaðist manngert stöðuvatn sem nefnt er "Sava-vatn" eða "Belgradhafið". Áætlað er að hægt sé að leysa úr læðingi mikla stöðuorku vatnsrennslis í Sövu með byggingu vatnsaflsvirkjana. Slíkt hefur þó ekki verið gert í miklum mæli fyrr en nýlega. Áætlað er að hægt sé að vinna 3,2 (4,7 að þverám samanlögðum) GW úr Sövu (til samanburðar er Kárahnjúkavirkjun 690 MW). Vatnsaflsvirkjunin "Medvode" (17.8 MW) er staðsett skammt frá Ljubljana. Verið er að byggja fleiri virkjanir. Rennsli Sövu er ekki stjórnað á löngum köflum árinnar og veldur það flóðum. Posavina (Savadalur) er um 5 þúsund km² frjótt landsvæði sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir þessu. Í október 1964 flæddi Sava yfir bakka sína í Zagreb sem olli tjóni og miklu mannfalli. Þá voru hærri flóðgarðar byggðir. Árið 1981 og í apríl 2006 flæddi Sava yfir bakka sína í Belgrad og þurfti að kalla til herinn til aðstoðar. Þverár. Hægri þverár í Slóveníu: Sora, Ljubljanica, Mirna og Krka; í Króatíu: Kupa og Sunja; við landamæri Króatíu og Bosníu: Una; í Bosníu: Vrbaška, Vrbas, Ukrina, Bosna, Brka, Tinja, Lukovac og Dašnica; við landamæri Bosníu og Serbíu: Drína; í Serbíu: Jerez, Kolubara og Topčiderska reka. Vinstri þverár: í Slóveníu: Kokra, Kamniška Bistrica og Savinja; við landamæri Króatíu og Bosníu: Sotla/Sutla; í Króatíu: Lonja and Orljava; í Serbíu: Bosut. Byggðir. Sava tengir saman höfuðborgir þriggja ríkja á Balkanskaganum: Ljubljana í Slóveníu, Zagreb í Króatíu og Belgrad í Serbíu. Þótt Ljubljana hafi upphaflega byggð við Ljubljanicu, þverá Sövu, þá hefur borgin stækkað og teljast Črnuče og Zalog, sem áður voru litlir sveitabæir við Sövu, til úthverfa hennar í dag. Í Zagreb og Belgrad skiptir áin borginni í ný og gömul hverfi. Sunnan við Ljubljana renndur Sava í gegnum Litija og iðnaðarsvæðið við Zasavje þ.m.t. borginar Zagorje ob Savi, Trbovlje og Hrastnik, áfram fram hjá Zidani Most og Radeče, Sevnica, Krško, Brežice og Čatež. Rétt handan við landamæri Slóveníu og Króatíu liggur höfuðborg Króatíu, Zagreb. Sunnan við úthverfi Zagreb rennur Sava í gegnum Sisak og Jasenovac áður en að landamærunum við Serbíu kemur. Alveg við þau landamæri er fjöldi byggða (Gradiška/Stara Gradiška, Srbac/Davor, Bosanski Kobaš/Slavonski Kobaš, Bosanski Brod/Slavonski Brod, Bosanski Šamac/Slavonski Šamac, Orašje/Županja og Brčko/Gunja) þar sem bæði Serbar og Bosníubúar búa saman. Þegar Sava nálgást Belgrad rennur hún í gegnum úthverfi Belgrad: Zabrežje, Obrenovac, Umka og Ostružnica áður en hún sameinast Dóná. Lögmál Faradays. Lögmál Faradays er lögmál í rafmagnsfræði, sem segir að span í spanspólu, sé jafnt og tímabreyting segulflæðis margfaldað með fjölda vafninga, þ.e. þar sem E er rafsvið og B segulstyrkur. sem er það form sem lögmálið birtist í jöfnum Maxwells Ungbarnadauði. Ungbarnadauði er dauði barns á fyrsta aldursári. Tíðni ungbarnadauða er miðuð við fjölda látinna barna 12 mánaða og yngri á hver 1000 börn sem fæðast lifandi. Algengasta orsök ungbarnadauða í heiminum er lungnabólga. Tíðni ungbarnadauða í heiminum. Hér að neðan eru tveir listar yfir tíðni ungbarnadauða í heiminum. Annar byggir á upplýsingum frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna en hinn byggir á upplýsingum úr ritinu "The World Factbook" sem bandaríska leyniþjónustan CIA gefur út. Sjö kraftmiklar kristallskúlur. Sjö kraftmiklar kristallskúlur (á frummálinu: "Les sept boules de cristal" sem þýðir „kristalskúlurnar sjö“) er þrettánda myndasagan í Tinnabókaflokknum eftir belgíska myndasöguhöfundinn Hergé. Hún er fyrri hluti framhaldssögu þar sem síðari hlutinn er "Fangarnir í sólhofinu". Sagan birtist í dagblaðinu "Le Soir" á árunum 1943-1944 á meðan nasistar réðu yfir Belgíu í seinni heimsstyrjöldinni en birtingu hennar var frestað við frelsun Belgíu, haustið 1944, þegar Hergé, ásamt öðru starfsfólki blaðsins, sætti rannsókn fyrir að hafa starfað með hernámsliðinu. Sagan hélt síðan áfram sem "Fangarnir í sólholfinu" í hinu nýstofnaða tímariti "Le journal de Tintin" árið 1946. Hún kom út á bók í Belgíu árið 1948. Bókin kom út 1974 á Íslandi í þýðingu Lofts Guðmundssonar. Söguþráður. Sagan hefst þar sem Tinni situr í lest að lesa um að leiðangursstjóri frægs leiðangurs í Andesfjöllum, Sanders Harðhnútur, fannst í dái heima hjá sér. Farþegi í lestinni segir þetta munu koma fyrir hina meðlimi leiðangursins eins og gerðist fyrir fornleifafræðingana sem opnuðu grafhýsi Tútankamons. Tinni heldur síðan til Mylluseturs til að heilsa upp á Kolbein kaftein. Kolbeinn biður Tinna að koma með sér á sýningu í listahöllinni. Þar sér Tinni að Alkasar hershöfðingi er einn af skemmtikröftunum. Í einu atriði dáleiðir frægur fakír aðstoðarkonu sína, frú Jamilla, svo hún geti svarað hverju sem er. Hann spyr hana hvort ein konan sé gift, og Jamilla játar svo en segir að maður hennar, sem er ljósmyndari nýkominn frá fjarlægu landi, þjáist af dularfullum sjúkdómi og líður svo yfir hana. Síðan kemur tilkynning til konunnar um að hún eigi að fara heim því maður hennar, Flóki, sé veikur. Tinni segir kafteininum að Flóki var ljósmyndari Sanders Harðhnútsleiðangursins. Því næst hitta þeir Alkasar, sem kallar sig Ramon Zorate og hefur suður-amerískann indjána sem aðstoðarmann. Alkasar segir Tinna að Tapíóka náði völdum og hrakti hann úr landi. Daginn eftir heimsækja Skaftarnir Tinna og sýna honum að brot úr kristallskúlum sem fundust við hlið Sanders Harðhnúts og Flóka. Læknar telja að þær hafi innihaldið svefnlyf. En áður en Tinna og Sköftunum tekst að vara fleiri meðlimi við falla þrír aðrir meðlimir; Dr. Laufi, monsjör Cantonneau og magister Markús, í dá. Þá er bara tveir meðlimir eftir: dr. Hornklofi og prófessor Fimbull Fismann. Skaftönum mistekst að vernda Hornklofa, svo þá stendur bara Fismann einn eftir. Tinni fer að tala við Kolbein um þetta og þá segist Vandráður vera vinur Fimbuls og bíður þeim með sér að hitta hann. Fimbull gleðst komu Vandráðar og sýnir þeim inkamúmíuna Raskar Kapak, þrumuguðinn, sem þeir komu með úr leiðangrinum. En hitinn sprengir tvö dekk hjá Kolbeini þannig að Tinni og félagar verða að gista hjá Fimbuli. Um kvöldið verður heljarinsþrumuveður. Tinni les þýðingu Fimbuls á rúnum sem fundust í grafhýsi múmíunnar sem segir frá sjö hvítum útlendingum sem taka lík Inkans og munu gjalda fyrir. Skyndilega slær eldingu niður stromp Fimbuls og kemur niður sem eldkúla og eyðir múmíunni. Aðeins skart hennar situr eftir. Samkvæmt spádómnum átti þetta að gerast áður en að hefnd Raskars Kapaks gengi upp. Um nóttina dreymir Tinna, Kolbein og Vandráð sömu martröðina: Raskar Kapak laumast að þeim og kastar riasastórri kristallskúlu. Allt í einu byrjar Tobbi að spangóla fyrir framan svefnherbergi Fimbuls. Tinni, Kolbeinn og lögreglufulltrúinn, sem sá um að gæta hússins, brjóta upp hurðina og finna kristallsbrot á gólfinu og Fimbul í dái. Þeir athuga alla glugga í húsinu og Tinni uppgötvar að skart múmíunnar er horfið. Tinni finnur líka kaðal sem rennur niður gegnum strompinn. Þeir finna árásarmanninn í skóginum og særa hann, en hann sleppur. Næsta dag virðist Fimbull sjá ofsjónir á nokkurra tíma fresti. Vandráður spyr um Fimbul en misheyrir og heldur að hann hafir farið í boltaleik í garðinum. Á göngu sinni finnur Vandráður armband múmíunnar og setur það á sig. Síðan skilar Vandráður sér ekki og Tinni og Kolbeinn leita hans. Tinni finnur verksummerki áfloga og skilur að Vandráði hafi verið rænt. Þeir finna þrjótana en þeir sleppa. Þeir lýsa eftir bílnum en finna hann yfirgefinn í skógi. Næsta dag segja Skaftarnir Tinna að heimsækja sjúkrahúsið þar sem vísindamennirnir sjö liggja og sýnir læknirinn honum að þeir sjá allir ofsjónir á sama tíma. Tinni heimsækir Kolbein sem fær boð frá lögreglunni um að bíll mannræningjanna fannst í hafnarborginni Saint-Nazaire. Í Saint-Nazaire kemur Tinni skyndilega auga á Alkasar. Hann segir Tinna að Síkító, aðstoðarmaður sinn hvarf fyrir nokkrum dögum og hann sjálfur væri á leið til San Theódoros. Hann segir Tinna að Síkító hafi verið ekta Inki. Tinni og Kolbeinn fara svo til La Rochelle til að spyrja vin Kolbeins um málið. En komast að því að hann lagði úr höfn. Vonlitlir ganga Tinni og Kolbeinn um La Rochelle og sparkar Kolbeinn í gamlann hatt og undir honum var múrsteinn. Þeir komast að því að þetta er hattur Vandráðar og spyrja prakkarana hvar þeir fundu hattinn. Þeir segjast hafi fundið hann við bryggju nr. 17. Tinni og Kolbeinn komast að því að eina skipið sem var við bryggju 17 daginn sem Vandráður hvarf var fraktskipið Pakakama sem var á leið til Kallaó í Perú (land Inkanna). Tinna grunar að Vandráður sé um borð og halda þeir félagar til Perú til að bjarga honum. Fangarnir í sólhofinu. "Fangarnir í sólhofinu" (á frummálinu "Le temple du soleil" eða „sólhofið“) er fjórtánda bókin í myndasöguflokknum Ævintýri Tinna eftir belgíska myndasöguhöfundinn Hergé. Bókin er framhald af "Sjö kraftmiklum kristallskúlum". Hún var fyrsta Tinnasagan sem birtist í tímaritinu "Le journal de Tintin" 1946 en "Sjö kraftmiklar kristallskúlur" hafði áður birst sem framhaldssaga í dagblaðinu "Le Soir" 1943-1944. Hún kom fyrst út á bók árið 1949. Hún kom út árið 1974 á íslensku í þýðingu Lofts Guðmundssonar. Söguþráður. Tinni og Kolbeinn kafteinn eru komnir til Kallaó í Perú til þess að taka á móti fraktskipinu "Pakakama". Vandráði prófessor var rænt í fyrri sögunni og Tinna grunar að honum sé haldið um borð í "Pakakama". Interpól bað Skafta og Skapta að aðstoða lögregluforingjann í Kallaó. En skyndilega dregur "Pakakama" fána að húni sem tilkynnir að hættulegur smitsjúkdómur er um borð í skipinu. Tinni trúir þessu ekki og laumast um borð og finnur Vandráð. Hann kemst að því að honum var rænt fyrir að setja á sig armband inkans Raskars Kapaks og á að gjalda fyrir það með lífi sínu. Tinna tekst að sleppa og segir Kolbeini að hafa samband við lögreglu á meðan hann fylgist með mannræningjunum. Kolbeinn hringir í Skaftana. Þegar þeir koma í fjöruna þar sem Tinni beið finna þeir hann hvergi. Þeir skipta liði og Kolbeinn hittir Tinna sem elti mannræningjana og komst að því að þeir væru á leið til fjallabæjarins Jaúga með lest. Tinni og Kolbeinn taka lestina en Tinni uppgötvar að það er búið að aftengja vagninn þeirra og þeir stökkva út. Á endanum koma þeir til Jaúga en lögregluforinginn þar vill engu svara þeim þegar þeir spyrja um Vandráð og það sama gildir um íbúa bæjarins. Á meðan hann er að spyrja fólk, sér Tinni tvo menn níðast á ungum appelsínusala. Tinni reynir að stöðva þá og þeir ráðast á hann, en Tinni og Tobbi sigra þá. Tinni kemst þá að því að appelsínusalinn er horfinn. Skyndilega heyrir hann í ungum strák sem felur sig á bak við vegg sem segir Tinna að hitta sig við brú Inkans við sólsetur. Eftir það hittir hann miðaldra indjána sem segir honum að hætta að leita að vini sínum, en Tinni segist ekki munu gera það. Þá gefur indjáninn Tinna verndargrip og segir að hann geti bjargað honum úr háska. Tinni og Kolbeinn hitta unga strákinn við brúna sem reynist vera ungi appelsínusalinn. Hann segist heita Zorrínó og segir að inkarnir hafi farið með Vandráð í sólhofið og segist að hann ætla að leiða þá þangað. Leiðin liggur yfir snæviþakin fjöll og gegnum raka frumskóga. Þeir eru stöðugt eltir af njósnurum inka og Kolbeinn á í basli með dýralífið. Þegar þeir fara yfir foss dettur Tinni inn í hann. Hann kallar til Kolbeins og Zorrínós og segir þeim að koma. Hann hefur fundið þar leyniinngang að sólhofinu. Þeir brjótast inn í það og eru handsamaðir. Tinni lætur Zorrínó fá verndargripinn. Þegar þeir standa fyrir framan syni sólarinnar, leiðtoga inkanna, segir hann að þeir munu verða brenndir á bálkesti með Vandráði. Tinni segir Zorrínó að sýna honum medalíuna. Indjáninn sem gaf Tinna hana kemur fram og reynist vera æðsti prestur sólarinnar. Hann segist hafa gefið Tinna verndargripinn þegar hann verndaði Zorrínó. Sonur sólarinnar hlífir Zorrino en leyfir Tinna og Kolbeini að velja daginn sem þeir verða brenndir. Á meðan þeir eru í fangelsi finnur Tinni dagblað sem Kolbeinn ætlaði að henda og hrópar upp himinlifandi. Tinni segir Kolbeini að treysta og sér og segja ekkert. Tinni segir syni sólarinnar hvaða dag þeir skuli brenndir því það sé afmælisdagur Kolbeins. Þann dag er þeim svo stillt upp á bálköst ásamt Vandráði. Tinni talar þá hátt við sólguðinn og segir honum að hafna fórninni með því að hylja andlit sitt og kemur þá sólmyrkvi. Tinni segir syni sólarinnar að hann láti sólina koma aftur ef hann láti sig og vini sína lausa og veki vísindamennina sjö úr dáinu. Hann lofar því og sólmyrkvinn hverfur. Tinni segir Kolbeini að dagsetningin með sólmyrkvanum hafi verið dagblaðinu. Tinni, Kolbeinn og Vamdráður fá að fara og vísindamennirir vakna úr dásvefninum. Zorrínó ákveður að vera hjá inkunum og Tinni og félagar halda heim og lofa að segja engum hvar sólhofið er. Casterman. Casterman er belgískt forlag sem sérhæfir sig í myndasögum og barnabókum. Það er staðsett í Tournai, Belgíu. Fyrirtækið var stofnað árið 1780. Árið 1934 yfirtók Casterman útgáfufyrirtækið Le Petit Vingtième sem staðið hafði að útgáfu fyrstu þriggja bókanna í flokknum um "Ævintýri Tinna". Casterman hefur líka gefið út aðra myndasöguhöfunda eins og t.d. Jacques Martin ("Ævintýri Alexar"), François Craenhals ("Hin fjögur fræknu" m.m.) og C. & V. Hansen ("Rasmus klumpur"). Húni II. Húni II er 130 tonna eikarbátur, smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963. Í dag hefur Iðnaðarsafnið á Akureyri bátinn til umráða en Hollvinir Húna II sjá um reksturinn. Alls voru smíðaðir yfir 100 eikarbátar á Íslandi á árunum 1940 til 1970. Húni II er eini báturinn óbreyttur af þessari stærð sem nú er til á Íslandi. Húni II var gerður út til fiskveiða í 30 ár og er áætlað að samanlögð veiði hafi verið 32.000 tonn. Árið 1994 var hann tekinn af skipaskrá og ákvörðun tekin um að eyða honum á næstu áramótabrennu. Hugsjónarfólkið Þorvaldur Skaftason og Erna Sigurbjörnsdóttir höfðu hug á að eignast bátinn til að varðveita sögulegar minjar um skipasmíðar á Íslandi og gengu í málið. Húni II var skráður aftur á skipaskrá 1995 og í nokkur ár gerður út sem hvalaskoðunarbátur, fyrst frá Skagaströnd en síðar frá Hafnarfirði. Haustið 2001 höfðu verið farnar 440 ferðir í hvalaskoðun og aðrar skemmtiferðir. Patricia Hearst. Patricia Campbell Hearst (f. 20. febrúar 1954) er erfingi að bandarísku fjölmiðlaveldi, leikkona, fórnarlamb mannráns og dæmdur bankaræningi. Patricia er barnabarn fjölmiðlamannsins William Randolph Hearst og varð fræg árið 1974 þegar henni var rænt af Symbion Liberation Army (SLA). Hún gekk síðar til liðs við þá. Patricia var handsömuð árið 1975 eftir að hún tók þátt í bankaráni ásamt öðrum SLA meðlimum. Hún var dæmd til að dvelja 7 ár í fangelsi. Jimmy Carter, þáverandi forseta Bandaríkjanna, aflétti þó fangelsisdóminum eftir að Patricia hafði afplánað 22 mánuði af dómnum. Á síðasta degi sínum í forsetastóli veitti Bill Clinton henni sakaruppgjöf, þ.e. þann 20. janúar 2001. William Randolph Hearst. William Randolph Hearst (29. apríl 1863 – 14. ágúst 1951) var bandarískur fjölmiðlamaður. Meðal fjölmiðla sem hann átti voru "The San Francisco Examiner", "The New York Journal" seinna nefnt "The New York Journal American", "New York Evening Journal" sem seinna sameinaðist "The New York Journal American", "Los Angeles Examiner", "Washington Herald", "New York Daily Mirror" og mörg fleiri. Einnig stundaði hann útgáfu af tímaritum og þeirra frægust eru tímarit eins og tímaritin "National Geographic" og "Cosmopolitan". Kulborði og hléborði. Kulborði og hléborði (og atviksorðin kulborðs og hléborðs) eru hugtök sem eru notuð í siglingum. Þau eiga við um hliðar skips eftir því hvernig það snýr við vindi. Kulborðið er sú hlið sem er áveðurs (snýr upp í vindinn) og hléborðið sú hlið sem er hlémegin (snýr undan vindi). Kulborði og hléborði eru því breytilegir eftir því hvernig vindur blæs, öfugt við stjórnborða og bakborða sem eiga alltaf við um sömu (hægri og vinstri) hlið skipsins séð frá skut að stafni. Kulborði og hléborði skipta máli í siglingum seglskipa. Í Alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó frá 1972 er kveðið á um að sú skúta sem er hléborðs eigi alltaf réttinn þegar báðar beita á sama borð þar sem sú sem er kulborðs hefur meiri möguleika á að stýra (og afstýra árekstri) því hún hefur alltaf vindinn í seglin en getur aftur tekið vindinn úr seglum hinnar. Þessi regla gildir líka í siglingakeppnum. Hléborðseyjar og Kulborðseyjar í Antillaeyjaklasanum í Karíbahafinu heita svo þar sem ríkjandi staðvindar blása frá suðri til norðurs og því eru nyrðri eyjarnar hléborðs og syðri eyjarnar kulborðs. Stríð Sovétmanna í Afganistan. Sovéskar hersveitir á leið úr Afganistan árið 1988. Stríð Sovétmanna í Afganistan var níu ára langt stríð sem hófst með innrás Sovétmanna í Afganistan til að styðja baráttu marxista sem voru við völd gegn andspyrnuhreyfingu íslamskra bókstafstrúarmönnum sem háðu heilagt stríð gegn yfirvöldum. Andspyrnuhreyfingin naut stuðnings ýmissa aðila, meðal annars bandarísku leyniþjónustunnar CIA, Sádi-Arabíu, Pakistans og annarra múslímaríkja. Stríðið varð leppstríð í kalda stríðinu, þar sem Bandaríkin og Sovétríkin tókust á með óbeinum hætti í gegnum átök í öðrum ríkjum. 40. herdeild sovéska hersins hélt inni í Afganistan þann 25. desember 1979 en síðustu hersveitir Sovétmanna yfirgáfu landið þann 15. maí 1988 og stríðinu lauk 15. febrúar 1989. Stríði Sovétmanna í Afganistan hefur oft verið líkt við stríð Bandaríkjamanna í Víetnam, vegna mikils kostnaðar beggja stórveldanna og árangursleysis hernaðarins. Áætlað er að um 15 þúsund Sovéskir hermenn hafi látið lífið og um ein milljón Afgana, óbreyttir borgarar og andspyrnumenn, auk þess sem 5,5 milljónir hafi misst heimili sín. Tilvist. Tilvist er það sem fullyrt er með sögninni „að vera til“. Sögnin er málfræðileg umsögn en heimspekingar hafa lengi deilt um hvort hún er einnig rökfræðileg umsögn. Sumir heimspekingar hafa haldið því fram að sögnin eigni frumlaginu "eitthvað" sem kallast „tilvist“, þannig að í setningunni „fjögurra laufa smári er til“ eigni umsögnin fjörurra laufa smára tilvist. Þess ber að gæta að hér er ekki verið að eigna frumlaginu "eiginleika" en flestir heimspekingar eftir Immanuel Kant hafa fallist á að tilvist sé ekki eiginleiki. Aðrir heimspekingar hafna því að tilvist sé rökfræðileg umsögn. Þeir halda því fram að tilvist sé einungis það sem sögnin „að vera til“ fullyrðir en að allar staðhæfingar sem innihalda umsögnina sé hægt að umorða þannig að þær innihaldi ekki umsögnina. Til dæmis gæti setningin „fjögurra laufa smári er til“ verið rökgreind í staðhæfinguna „sumir smárar hafa fjögur lauf“ þar sem sögnin „hafa“ eignar sumum smárum þann eiginleika að hafa fjögur lauf. Þess ber að gæta að með því er ekki sagt að sögnin „að vera til“ eigni hlutum þann eiginleika að vera til, heldur einhvern annan eiginleika, í þessu tilviki að hafa fjögur lauf. Spurningin um hvers eðlis tilvist er er gömul í heimspeki og margir heimspekingar hafa glímt við hana, frá Herakleitosi, Parmenídesi, Platoni, Aristótelesi og Plótínosi, til Avicenna, Tómasar frá Aquino, Scotuss, Davids Hume, Immanuels Kant til Bertrands Russell, Willards van Orman Quine, Sauls Kripke og margra annarra. Vöggudauði. Vöggudauði er óútskýranlegur dauði barns á fyrsta aldursári. Richard Diebenkorn. Richard Clifford Diebenkorn, Jr. (22. apríl 1922 – 30. mars 1993) var velmetinn bandarískur listmálari. Diebenkorn fæddist í Portland, Oregon, en fluttist tveggja ára gamall til San Francisco í Kaliforníu með foreldrum sínum. Árið 1940 stundaði hann nám við Stanford háskóla. Í fyrstu málaði hann myndir í frásagnarstíl sem höfðu líkingu af verkum Edwards Hopper, en á fimmta og sjötta ártugnum bjó hann víðsvegar um Bandaríkin, t.d. í New York, smábænum Woodstock, New York-fylki, Albuquerque, Nýju Mexíkó, Urbana, Illinois og Berkeley, Kalifórníu og þróaði með sér stíl abstrakt-expressjónista, og varð seinna meir einn helsti liðsoddur þeirra á Vesturströndinni. Uetersen. Uetersen (IPA: yːtɐzən) er borg í Þýskalandi með 17.865 íbúa (30. júní 2006). Borgin er staðsett í sambandslandinu Slésvíkur-Holsetalandi í Þýskalandi. Hún liggur við ána Pinnau Nebenfljót da Saxelfur andspænis Hamburg (30 km). Ragnheiður Jónsdóttir Ream. Ragnheiður Jónsdóttir Ream (1917 – 1977) var íslensk myndlistarkona. Ragnheiður var dóttir Jóns Halldórssonar söngstjóra, og konu hans, Sigríðar Bogadóttur. Í byrjun seinni heimsstyrjaldar hélt Ragnheiður til Bandaríkjanna. Samskipta henni vestur um haf var m.a. Louise Matthíasdóttir sem var á leið til myndlistarnáms í New York. Það var þó aðeins merkileg tilviljun því Ragnheiður var ekkert farin að huga að myndlist þegar hér var komið sögu. Hún vann í íslenska sendiráðinu í Washington, og kynntist mannsefni sínu í þeirri borg, "Donald Forest Ream", eðlisfræðingi. Ragnheiður fór fyrst að fikta við að mála komin yfir þrítugt, og leiðin lá í kvöldskóla og síðan í dagskóla áhugamanna í tvö ár. Þá var svo komið, að hún ákvað að innritast í Listadeild American University í Washington þar sem hún var við nám næstu fimm árin (1954-1959). Frá fyrstu sýningu Ragnheiðar hérlendis og til andláts hennar liðu einungis tíu ár. Einkasýningar hennar urðu þrjár og þar af ein stór í Norræna húsinu, - þá var hún þátttakandi í sumarsýningu Norræna hússins 1976. Hún var og þátttakandi í fimm Haustsýningum FÍM og sumarsýningu Myndlistarhússins á Miklatúni 1973. Þá var henni boðið að vera með í sýningu "„8 islandske kunstnere“," í Björgvin, Kiruna og Luleå árið 1975. Helstu áhrifavaldar í list hennar voru þeir Mark Rothko og Richard Diebenkorn. Jan Matejko. Jan Matejko (24. júní 1838 – 1. nóvember 1893 í Kraká) var pólskur listmálari. Matejko, Jan Stanisław Wyspiański. Stanisław Wyspiański (15. janúar 1869 – 28. nóvember 1907) var pólskur listmálari sem lést árið 1907 í Kraká. Wyspiański, Stanisław Erfurt. Erfurt er höfuðborg Þýringalands (Thüringen). Tilvist borgarinnar er fyrst skjalfest í bréfi frá Bonifatíusi biskupi til Zakaríasar páfa árið 742 eftir Kristsburð en Erfurt kemst fyrir alvöru á landakortið þegar Karl mikli ákveður að gera Erfurt að aðalverslunarstað fyrir þræla og vörur. Menning og áhugaverðar byggingar. Péturskirkja stendur á Péturshæð. Byrjað var á byggingu þessarar tignarlegu kirkju árið 1103 og er hún fyrsta rómanska byggingin sem byggð er í þessum hluta Þýskalands, Thüringen. Árið 1392 stofnuðu íbúarnir Háskólann í Erfurt sem er fyrsti háskólinn í Þýskalandi sem bauð nám við allar deildirnar fjórar (die artistische, medizinische, Ýmsar byggingar sem standa enn þann dag í dag bera þess merki að saga borgarinnar er stórbrotin. Þannig minnir til dæmis lítil hallarbygging á Péturshæð sem var byggð í lok sautjándu aldar á þá staðreynd að frá árinu 1664 tilheyrði Erfurt Mainzerhéraði eftir að Johann Philipp von Schönborn, erkibiskup í Mainz hertók borgina það ár en frægari varð borgin fyrir tilstilli Christians Reichards sem bjó í Erfurt 1685-1775. Framlag hans til landslagsarkitektúrs gerði borgina fræga, sérílagi þar sem honum tókst að koma upp miklu safni af fræjum. Stjórnmál. Frá árinu 1802 tilheyrði Erfurt Prússum en frá 1807 var borgin undir franskri stjórn (domaine resèrvé á l’empereur). 1814 voru Prússar aftur komnir með völdin í sínar hendur í Erfurt og nú var gerður mikill múr utan um Erfurt að slíkt hafði varla sést í Þýskalandi áður. 1816 var háskólinn svo lagður niður, 1847 tengdist Erfurt lestarkerfinu og 1873 var tekin ákvörðun um að hætta að loka inngöngum í borgina (hliðunum á múrnum) og eftir það tók borgin að stækka verulega. Árið 1933 náðu þjóðernisjafnaðarmenn völdum í borginni. Í framhaldi af þeirri valdayfirtöku tekur við saga þjáningar og sorgar fyrir Erfurtbúa. Sú saga nær hámarki í Erfurt með miklum sprengiárásum á borgina á árunum 1944 og 1945 þar sem margar sögulega mikilvægar byggingar stórskemmast eða eyðileggjast. 12. apríl 1945 eru íbúarnir svo loksins frelsaðir undan oki stríðsins, en sú áskorun sem uppbygging eftir stríð er, lega borgarinnar í austurhluta Þýskalands og pólítískt ósætti milli þjóðanna sem sameinuðust um að binda endi á seinni heimstyrjöldina setur mark sitt á borgina næstu áratugina. Það er ekki fyrr en 30. maí 1990 sem lýðræðislega kjörin borgarstjórn tekur aftur sæti eftir 57 ára hlé á lýðræðislegum kosningum. 1991 er Erfurt orðin höfuðborg Þýringalands og 1994 opnar háskólinn á ný. Þekktar persónur. Á árunum 1501 til 1508 og 1509 til 1511 bjó Marteinn Lúther í Erfurt. Fyrst sem stúdent en svo sem munkur og háskólakennari. Árið 1808 mættust Napoleon Bonaparte og Johann Wolfgang von Goethe á ráðstefnu fursta (,Vous êtes un homme!”) í Erfurt. Sundurleitni. Sundurleitni er fall í vigurgreiningu, sem lýsir vigursviði, táknað með "div". Stærðfræðileg skilgreining. Vigursvið með sundurleitni núll hefur enga "uppsprettu". Lausaleiksbarn. Lausaleiksbarn kallast barn sem getið er utan hjónabands, en lausaleiksbörn kallast einnig laungetin eða óskilgetin börn. Rót (virki). Rót er vigursvið, sem venslað er öðru vigursviði, táknað með "rot" eða "curl". Getur einnig átt við virkjann, sem notaður er til að reikna umrætt vigursvið. Stærðfræðileg skilgreining. Vigursvið með "rót" núll nefnist rótlaust vigusvið. Nova. Nova er íslenskt símfyrirtæki sem sérhæfir sig í þriðju kynslóðar (3G) farsíma- og netþjónustu sem hóf störf 1. desember 2007. Eigandi Nova er alþjóðlega fjárfestingafélagið Novator. Fyrirtækið rekur fimm verslanir, í Lágmúla, Smáralind, Glérártorgi á Akureyri og tvær í Kringlunni ásamt því að reka vefverslun á. Í lok árs 2011 voru notendur orðnir 100.000 þúsund. 3G. Vodafone og Nova sömdu um samnýtingu farsímakerfa hvors annars og hafa stjórnir félaganna þegar samþykkt samning þess efnis. Samningurinn felur í sér að Vodafone fær aðgang að nýju dreifikerfi Nova fyrir þriðju kynslóð farsíma (3G) og Nova fær aðgang að GSM farsímakerfi Vodafone. Auglýsingar. Fyrirtækið hefur beitt heldur nýstárlegri aðferð til þess að auglýsa sig. Starfsfólk þess hefur farið í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu og kynnt þjónustuna fyrir öðrum farþegum. Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri Nova telur að þetta „[stytti] ferðina og farþegar geta lært eitthvað nýtt á leiðinni“. Ummál jarðar. Ummál jarðar kallast fjarlægðin utan um jörðina. Saga ummáls jarðar. Á þriðju öld fyrir Krist tókst Eratosþenesi að reikna ummál jarðarinnar með nokkuð góðri nákvæmni. Aðferðina sem hann beitti má skýra með meðfylgjandi mynd. Eratosþenes vissi að á hádegi um hásumar falla ljósgeislar frá sólinni beint ofan í brunn í borginni Syene við Níl. Sólin er því beint yfir henni á þessum tíma. Með því að mæla hversu löngum skugga sólin varpar einhvers staðar annars staðar á sama tíma og vita fjarlægðina milli þessara tveggja staða gat hann reiknað ummál jarðar. Hér eru þó ýmis ljón í veginum. Í fyrsta lagi voru engar nákvæmar klukkur til á tímum Eratosþenesar. Því gat hann ekki stillt klukku í Syene og farið með hana annað. Þetta er þó nauðsynlegt því að hann þarf að mæla lengd skuggans þegar sólin er í hádegisstað í Syene. Eratosþenes komst framhjá þessu vandamáli með því að geta sér þess til að borgin Alexandría væri á sama lengdarbaug og Syene. Þá er sólin í hádegisstað í þessum tveimur borgum á sama tíma. Þessi nálgun stenst ágætlega. Næsta vandamál var að meta fjarlægðina milli Syene og Alexandríu. Án allrar mælitækni er besta aðferðin til að meta fjarlægðir sú að ganga þær og líklega voru þær fjarlægðarmælingar sem Eratosþenes notaði gerðar með þeirri aðferð. Í öllu falli mat hann fjarlægðina milli Syene og Alexandríu vera 5.000 grísk skeið, en sú lengdareining var miðuð við íþróttavelli Forn-Grikkja. Loks mældi hann hornið milli sólarljóss og lóðréttrar stangar í Alexandríu með því að mæla hlutfallið milli hæðar og lengdar skugga sem sólin varpaði í hádegisstað um hásumar. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hornið svaraði til eins fimmtugasta af heilum hring. Þannig fékk hann út að fjarlægðin milli Syene og Alexandríu væri einn fimmtugasti af ummáli jarðar, það er að ummál jarðar væri 50 * 5.000 skeið = 250.000 skeið. Þegar meta á gæði þessarar mælingar Eratosþenesar þurfum við að vita lengd skeiðsins. Það var hins vegar ekki vel stöðluð eining því að lengd íþróttavalla gat legið á bilinu 150 til 220 metrar. Líklegt er þó að skeiðið sem Eratosþenes notaði hafi verið 185 metrar og samkvæmt því hefur honum reiknast ummál jarðar vera um 46.000.000 metrar. Þessi tala er um 15% stærri en raunverulegt gildi en engu að síður verður að telja mælingu Eratosþenesar afar góða miðað við þau mælitæki sem honum stóðu til boða. Ungmennafélagið Neisti (Djúpavogi). Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi var stofnað árið 1919. Félagið var eins og önnur ungmennafélög stofnað í kringum almenna félagsstarfsemi, ekki endilega íþróttir. Neistinn var hús á Djúpavogi þar sem starfsemin var lengi vel hýst en þar voru haldnar margar skemmtanir. Félagið rekur nú íþróttastarfsemi á Djúpavogi sem hefur verið grundvöllur fyrir félagslífi á staðnum. Stundaðar eru æfingar í fótbolta, sundi og frjálsum íþróttum. Meistaraflokksliði hefur verið haldið úti samfleytt í átta ár. Svampdýr. Svampdýr (fræðiheiti: "Porifera") eru hryggleysingjar. Þau lifa í sjónum og voru áður fyrr þurrkuð upp og notuð í svampa. Svampdýrin eru elstu fjölfrumungar sem búa á jörðinni og talið er að þau hafi orðið til fyrir um 580 milljónum ára. Líkamsgerð svampdýra er mjög einföld og lifnaðarhættir þeirra eru það líka. Svampdýr lifa í vatni og eru föst við undirlagið og færast ekkert nema þau séu borin burt með sterkum straumum. Langflestar tegundir svampdýra lifa í sjó, en sumar lifa í stöðuvötnum og straumvatni. Svampdýr hafa fullt af litlum opum á yfirborðinu. Sjórinn sem streymir inn um þau ber með sér ýmis fæðuagnir og súrefni inn í holrýmið innst inni í svampdýrinu. Síðan taka frumur svampdýrsins það til sín og láta frá sér úrgangsefni og koltvíoxíð. Svo fer sjórinn aftur út um stór op, svokölluð útstreymisop. Frumur svampdýra eru sérstakar af því að hver þeirra starfar sér og algjörlega óháð öðrum frumum með lítilli eða engri samhæfingu. Frumur svampdýra mynda því enga vefi sem er ólíkt öllum öðrum fjölfrumungum því frumur þeirra mynda allar vefi. því eru þetta einu fjölfrumadýrin sem ekki mynda eiginlega vefi. Reyndar er hægt að lýsa svampdýri sem klasa af frumum sem búa saman. Þó laðast frumur svampdýra að hvor annari á einhvern fuðulegan hátt. Það má sanna þetta með því að þrýsta svampdýrinu saman og eftir nokkrar klukkustundir er svampdýrið aftur komið í upprunalega mynd. Ekkert annað dýr getur endurbyggt líkama sinn á þennan hátt. Svampdýr fjölga sér annað hvort með kynæxlun eða kynlausri æxlun. Í kynæxlun fer samruni eggfrumu og sáðfumu þannig fram að eggfrumur myndast í einu svampdýri og sáðfrumur í öðru. Síðan losna frumurnar út úr dýrunum og frjóvgun fer fram í vatninu utan þeirra. Af eggfrumunni sem hefur nú verið frjóvguð vex nýtt svampdýr. Kynlaus æxlun felst í því að partur losnar af svampdýrinu og breytist í nýtt dýr. Laplacevirki. formula_3 Jafna Laplace er jafnan Δ φ = 0, sem er gífurega mikilvæg í stærðfræðilegri eðlisfræði, en lausnirnar nefnast þýð föll. Lofttæmi. Lofttæmi, lofttómt rúm, tóm eða vakúm er hugtak í eðlisfræði, sem á við rými sem ekki inniheldur neitt efni né rafsegulgeislun og hefði loftþrýsting 0 Pa. Útgeimurinn, milli stjarnanna, kemst næst því að vera lofttæmi, þó að þar megi finna stöku frumeindir, bakgrunnsgeislun og ljós frá geimfyrirbærum, en þrýstingur er um 1 fPa (femtópaskal). Mest a lofttæmi sem næst á jörðu er um 10 pPa eða 10.000 faldur þrýstingurinn í útgeimnum. FARICE-1. Leið FARICE-1 sæstrengsins."Rautt stendur fyrir neðansjávar" "blátt stendur fyrir landlínu". FARICE–1 er sæstrengur sem tengir saman Ísland, Færeyjar og Skotland. Íslenskir hluthafar eiga 80% hlut í strengnum á meðan Færeyskir hluthafar eiga 20% hlut. Hluthafar í strengnum eru E-Farice, Faroese Telecom og f ásamt fleiri aðilum bæði í Færeyjum og á Íslandi. Strengurinn fór í notkun í mars árið 2004 og tók við af CANTAT–3 sæstrengnum sem í dag er notaður sem varastrengur fyrir Færeyjar og Ísland. Æð. Æð er hluti af blóðrásarkerfinu sem flytur blóð um líkamann. Æðum er skipt í slagæðar, bláæðar og háræðar. Sjálfsævisaga. Sjálfsævisaga eða æviminningar er ævisaga þar sem höfundurinn er umfjöllunarefnið. Matthías Jochumsson ritaði sjálfsævisögu („Sögukaflar af sjálfum mér“), en í kaflanum „Þriðja útförin mín“ segir hann frá yrkingu Lofsöngsins. Staðarfall. Staðarfall er fall í málfræði sem á við um dvöl á (einhverjum) stað. Meðal tungumála sem hafa staðarfall má nefna latínu, sem á elsta stigi málsins hafði sérstakt staðarfall ("locativus"), þótt það hafi síðar horfið að mestu úr málinu. Þá tók staðarsviptifall ("ablativus loci") við hlutverki staðarfallsins. Eigi að síður eru eintaka leifar eftir að stafarfalli í klassískri latínu, t.d.: "domi" (heima), "humi" (á jörðinni) og "ruri" (uppi í sveit). Í öðrum málum hefur þágufall tekið yfir notkun staðarfallsins, t.d. í forngrísku og íslensku. Í íslensku er staðarfall ekki til en í þess stað er notað staðarþágufall þar sem forsetningum í eða á er sleppt og staðarnafnið er þess í stað notað í þágufalli. Það er t.d. notað í póstfangi, upphafi bréfa og niðurlagi skjala. Hér er Suðurgata höfð í staðarfalli, sem og Hafnarfjörður. Staðarþágufall. en ekki Langholtsvegur er það staðarþágufall. Það mun einnig flokkast undir staðarþágufall, þegar talað er um það að "leita einhvers dyrum og dyngjum" í merkingunni að leita alstaðar. En ekki: Þingvellir, logn... eins og tíðkast núna. Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, taldi staðarþágufallið bæri með sér meiri ræktarsemi við þjóðararfinn en nefnifallið. Samhverfa. Samhverfa er mikilvægt hugtak, sem hefur margvíslega merkingu innan vísinda, en á almennt við að mögulegt sé að spegla tiltekið fyrirbæri. Fyrirbæri sem ekki er unnt að spegla kallast "ósamhverf". Málfræði. Sum orð, setningar, bókstafa-, talna- eða táknarunur má spegla á þann hátt að þau verð eins hvort sem lesið er áfram eða afturábak, t.d. Stærðfræði. Samhverfa gegnir mikilvægu hlutverki innan stærðfræðinna, því hún leyfir einföldun og alhæfingar, t.d. Eðlisfræði. Eðlisfræðin leyfir alhæfingar, sem byggjast á samhverfu, t.d. Efnafræði. Efnafræðin fallar m.a. samhverfu sameinda og efnahvarfa, t.d. Ólafía Einarsdóttir. Ólafía Einarsdóttir (fædd í Reykjavík þann 28. júlí árið 1924) er doktor í tímatalsaðferðum í fornum íslenskum heimildum. Foreldrar hennar voru Einar Þorkelsson og Ólafía Guðmundsdóttir. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944 og hóf eftir það nám í fornleifafræði í London og lauk því 1948. Að því búnu stundaði hún sagnfræðinám við háskólann í Lundi í Svíþjóð og lauk því 1951. Síðar lauk hún prófi í miðaldasögu við sama háskóla og starfaði þar sem vísindalegur aðstoðarmaður til 1960. Hún var aðjúnkt við háskólann í Kaupmannahöfn og síðar dósent í Lundi. Doktorsritgerð Ólafíu nefnist "Studier í kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning" og varði hún hana í Lundi árið 1964. Þar fjallar hún meðal annars um tímasetningu kristnitökunnar á Íslandi og rennir stoðum undir þá kenningu sína að sá atburður hafi í raun gerst árið 999 en ekki árið 1000 eins og oftast er talið. Einn. Einn er minnsta og mikilvægasta náttúrlega talan, táknuð með tölustafnum "1". Sumir telja reyndar núll vera minnstu náttúrlegu töluna. Næsta náttúrlega talan er 2. Táknar "einingu", þ.e. stakan hlut og við talning er alltaf byrjað á einum, en síðan bætist talan einn við hverja nýja einingu sem talin er. Er hlutleysa margföldunar og veldis og sem nefnari við deilingu. Er minnsta ferningstalan. Talan einn er táknuð með I í rómverska talnakerfinu. Framsetning með óendanlegu tugabroti. Mögulegt er að setja töluna "einn" fram með óendanlegu tugabroti, t.d. "1,000...", eða "0,999...". Með brotum. Ein ástæða fyrir því að óendanlegir aukastafnir eru nauðsynleg viðbót við endanlega aukastafi er til þess að túlka brot. Með því að nota deilingu með mörgum skrefum, þá verður einföld deiling heiltalna eins og 1⁄3 að aukastöfum sem endurtaka sig 0.333…, en hérna endurtaka aukastafnir sig að endalausu. Þessir aukastafir veita hæglega sönnun fyrir því að 0.999… = 1. Það að margfalda 3 með 0.333… lætur alla þristana verða að níum. Þar af leiðir er 0.333… sinnum 3 það sama og 0.999…. 3 × 1⁄3 er 1, þannig formula_2. Annað form þessarar sönnunnar margfaldar 1/9 = 0.111… með 9. Fyrst báðar jöfnurnar eru sannar og venslaðar gegnvirkt hlýtur 0.999… að jafngilda 1. Eins, 3/3 = 1, og 3/3 = 0.999…. Þannig, 0.999… hlítur að jafngilda 1. Að ráðskast smá með tölustafina. Þegar tala er táknuð með aukastöfum er margfölduð með 10 þá breytast tölustafirnir en komman færist eitt sæti til hægri. Þess vegna jafngildir 10 × 0.999… = 9.999…, sem er 9 meira en hin upprunalega tala. Til að sjá þetta skýrar má hugsa sér að draga 0.999… frá 9.999…. Mismunurinn er nákvæmlega 9. Loka skrefið notast við algebru. Hér köllum við töluna með aukastafina (0.999…) "c". Þá hljóta 10"c" − "c" að vera 9. Þetta eru sömu 9"c" = 9. Ef við deilum báðum megin með 9 þá fáum við sönnunina: "c" = 1. Ef við ritum þetta sem röð jafna fáum við; Níu. Níu er níunda náttúrlega talan, táknuð með tölustafnum "9" í tugakerfinu. Er stærsta talan, sem táknuð er með einum tölustaf í tugakerfinu, en 8 er sú næst stærsta. Talan níu er táknuð með IX í rómverska talnakerfinu. Tylftakerfi. Tylftakerfi er talnakerfi með grunntöluna 12. Tylftarkerfið lifir enn góðu lífi, t.d. er töluleg uppbygging klukkunnar og tímatal byggt á því, en 24 (2*12) klukkustundir eru í sólarhring og 12 mánuðir í ári. Í íslensku til forna gat hundrað táknað tólf tugi ("120"), en einnig var talað um "stórt hundrað" eða "tólfrætt hundrað". Tylft (enska "dozen") er enn algeng magneining í enskumælandi löndum. Áttundakerfi. Áttundakerfi er talnakerfi með grunntöluna átta. Notuð eru táknin 0, 1, 2, 3, 4, 5, 6 og 7. "Áttund" á við ákveðið tónbil. Kreppan mikla. Mannfjöldi fyrir utan American Union Bank. Kreppan mikla var heimskreppa í viðskiptum og efnahagslífi sem skall á haustið 1929. Hún hófst í Bandaríkjunum, og er oftast miðað við að upptök hennar megi rekja til 29. október, 1929, þegar verðbréf féllu niður úr öllu valdi. Sá dagur hefur verið nefndur "svarti þriðjudagurinn". Margar þjóðir brugðust við með því að leggja á innflutningstolla til að vernda eigið atvinnulíf og auk þess var algengt að tekin væri upp jafnvirðisverslun milli landa. Það þýddi að ekki var leyft að flytja inn vörur nema jafnmikið væri keypt á móti af framleiðsluvörum heimamanna. Mikill viðsnúningur varð í hagkerfum flestra iðnaðarlanda þegar seinni heimsstyrjöldin skall á árið 1939 og ríkisstjórnir þeirra gripu inn í hagkerfi þeirra til þess að geta stýrt framleiðslu hergagna. Þróuð lönd sem þróunarlönd liðu vegna kreppunnar. Alþjóðaviðskipti minnkuðu, tekjur einstaklinga drógust saman og þar með skatttekjur, verðlagning og hagnaður. Sér í lagi átti það við um borgir og svæði þar sem þungaiðnaður var aðalatvinnugrein. Uppbygging og hagvöxtur staðnaði nær alveg í földa landa. Landbúnaður dróst saman vegna þess að verðið sem fékkst fyrir uppskeruna lækkaði um 60-80%. Framboð dróst því saman og þau svæði þar sem lítið framboð var á annarri atvinnu áttu erfiðast uppdráttar. Þróunin varð mismunandi eftir löndum. Í Bandaríkjunum varð til hið blandaða hagkerfi eftir að tillögur breska hagfræðingsins John Maynard Keynes um opinberar framkvæmdir voru samþykktar af Franklin Roosevelt, forseta. Í Þýskalandi komst Adolf Hitler til valda, byggði upp her og hóf seinni heimsstyrjöldina. Áhrif á Íslandi. Árið eftir að kreppan skall á í Bandaríkjunum varð hennar vart í íslensku efnahagslífi en þá varð mikið verðfall á íslenskum útflutningsvörum og innflutningstollar erlendis ollu auk þess margháttuðum vandræðum. Atvinnuleysi jókst mikið og voru mörg hundruð Reykvíkingar atvinnulausir á veturna. Til að koma í veg fyrir vannæringu og hungur meðal hinna atvinnulausu settu söfnuðurnir í Reykjavík upp súpueldhús og gáfu þeim sem verst voru staddir mat. Þróun mannsins. Þróun mannsins er líffræðileg þróun sem hefur leitt til þess að maðurinn kom fram sem sérstök tegund fremdardýra. Þróunarsagan er viðfangsefni vísindarannsókna sem reyna að skýra þessa þróun. Rannsóknir á þróun mannsins eru viðfangsefni margra vísindagreina, s.s. líkamsmannfræði, málfræði og erfðafræði. Hugtakið „maður“ í þessu samhengi á við um tegundir innan ættkvíslarinnar "Homo", en fjallar líka um aðrar tegundir í hópnum "Hominini" eins og t.d. austurapa ("Australopithecus afarensis"). Lincoln (fjárkyn). Lincoln er fjárkyn upprunalega ræktað í Lincoln-skíri á Englandi. Ræktun þess hófst í á 19. öld og í það var blandað Border Leicester-blóði til að betrumbæta kjöteiginleika kynsins. Einkenni. Lincoln-kynið er stundum kallað „stærsta fjárkyn í heimi“ enda eru hrútarnir milli 110 og 160 kg að þyngd, ærnar litlu minni, eða 90 til 115 kg. Byggingin er þétt og það sterklegt, þó það geti verið nokkuð háleitt þegar það er nýrúið. Ull Lincoln-kinda er mikil og þétt. Lokkarnir eru krullaðir og sumir gripir eru hærðir allt niður fyrir framfótarhné og hækla. Ullarlokkarnir verða 20 til 40 sm langir og skiptist ullin nokkuð í miðju um hrygginn. Ær af Lincoln-kyni eiga það til að verða full feitar og þá lækkar frjósemin hjá þeim umtalsvert. Kindurnar eru allar hvítar. Indusdalsmenningin. Indusdalsmenningin (um 3300 – 1700 f.Kr., í blóma 2600 – 1900 f.Kr.) var fornt menningarsvæði sem byggðist upp meðfram Indusfljótinu og Ghaggar-Hakra fljótinu í Pakistan og Norðvestur-Indlandi og teygði sig inn í vestanvert Balókistan. Blómaskeið menningarinnar er oft kallað Harappa-menningin, eftir borginni Harappa sem var fyrsta borg Indusdalsmenningarinnar sem grafin var upp úr jörðu. Fornleifafræðingar hafa unnið að því að grafa upp brogarrústir Indusdalsmenningarinnar frá því á 3. áratug 20. aldar. Niðursöllun í fáránleika. Niðursöllun í fáránleika (á latínu "reductio ad absurdum" eða "reductio ad impossibile") eða óbein sönnun er gerð röksemdafærslu þar sem gengið er út frá staðhæfingu röksemdafærslunnar vegna og sýnt fram á að hún leiði til fráleitrar niðurstöðu eða mótsagnar; þá er staðhæfingunni hafnað og ályktað að gagnstæð staðhæfing sé sönn. Niðursöllun í fáránleika byggir á mótsagnarlögmálinu — það er að segja þeirri forsendu að það sé ómögulegt að staðhæfing og neitun hennar séu samtímis sannar — og lögmálinu um annað tveggja — það er að segja þeirri forsendu að annaðhvort staðhæfing eða neitun hennar hljóti að vera sönn. Heitið á röksemdafærslunni er komið úr grísku: ἡ εἰς ἄτοπον ἀπαγωγή ("hē eis átopon apagōgḗ"), sem merkir orðrétt „leiðsla til staðleysu“. Það kemur oft fyrir í ritum Aristótelesar. Áttatíu ára stríðið. Áttatíu ára stríðið eða Hollenska uppreisnin 1568 til 1648 var uppreisn sautján sýslna í Niðurlöndum gegn yfirráðum Spánarkonungs af ætt Habsborgara sem leiddi til klofnings þeirra í tvö ríki: Spænsku Niðurlönd (hluti þeirra varð síðar Belgía en hluti gekk til Frakklands) og Lýðveldið Holland (sem síðar varð Konungsríkið Holland). Uppreisnin blossaði upp vegna óánægju með aukna skattlagningu og ofsókna á hendur mótmælendum sem einkenndi fyrstu ríkisár Filippusar 2. Spánarkonungs, en hann tók við völdum eftir lát hins flæmskfædda Karls 5. árið 1558. Vandræðin hófust fyrir alvöru þegar hópur kalvínista réðist inn í kirkju í Hondschoote og eyðilagði helgimyndir. Þetta breiddist út um landið og bæjarstjórnirnar létu yfirleitt undir höfuð leggjast að refsa fyrir myndbrotin. Hópur aðalsmanna undirritaði bænaskjal sem þeir afhentu landstjóranum, Margréti af Parma þar sem þeir óskuðu eftir að konungur virti það frelsi sem Niðurlönd höfðu notið í valdatíð Karls. Járnhertoginn. Til að takast á við ástandið sendi Filippus inn herlið undir stjórn Fernando Álvarez de Toledo hertoga sem kom til Brussel 22. ágúst 1567. Hertoginn leit á sig sem fulltrúa Filippusar og gekk þannig alveg framhjá landstjóranum sem leiddi til afsagnar hennar. Hann lét meðal annars taka greifanna Philip de Montmorency og Lamoral af lífi fyrir að hafa sýnt mótmælendum linkind. Fyrir þetta hlaut hann viðurnefnið „járnhertoginn“. Þessar aðgerðir ollu almennri hneykslan og virkuðu eins og olía á eld. Vilhjálmur þögli af Óraníu var þá staðarhaldari í sýslunum Hollandi, Sjálandi og Utrecht og áhrifamestur þeirra sem höfðu undirritað bænaskjalið. Hann hafði flúið til landa föður eiginkonu sinnar í Saxlandi til að komast hjá handtöku. Allar eigur hans í Niðurlöndum voru gerðar upptækar. Innrás Vilhjálms. 1568 sneri hann aftur til Niðurlanda ásamt bræðrum sínum með málaliðaher til að reyna að hrekja Fernando hertoga burt frá Brussel. Hann leit ekki á þetta sem uppreisn gegn konungi, heldur fremur sem leið til að ná aftur sáttum, þar sem hertoginn var gríðarlega óvinsæll. Fyrsta orrustan var orrustan við Rínardal 23. apríl 1568. Þar unnu Spánverjar sigur. Brátt var Vilhjálmur orðinn uppiskroppa með fé til að halda herförinni áfram og hún rann því út í sandinn. Hann var þó orðinn leiðtogi uppreisnarinnar, sem sá eini af niðurlenska aðlinum sem gat með góðu móti athafnað sig. Eitt af því sem hann gerði var að gefa út sóræningjaleyfi til skipa sem réðust á spænsk skip á Norðursjó. Hópur niðurlenskra skipstjóra sem kölluðu sig Sjóbetlara, tóku því upp sjórán og notuðu enskar hafnir sem bækistöðvar. Þeir nutu þess meðal annars að spænski flotinn átti þá í átökum við Tyrkjaveldi í Miðjarðarhafinu og gat lítið beitt sér á Norðursjó. Uppreisnin blossar upp aftur. Um 1570 hafði Spánverjum tekist að brjóta uppreisnina á bak aftur nánast um öll Niðurlönd. 1571 ákvað hertoginn að leggja á nýjan 10% söluskatt (tíunda hvern pening), og 1572 ákvað Elísabet 1. að reka Sjóbetlarana úr enskum höfnum til að friða Spánarkonung. Betlararnir hertóku þá, öllum að óvörum, bæinn Brielle, 1. apríl. Þessu var tekið sem táknrænum sigri og varð til þess að uppreisnin hófst aftur. Flestar borgir í Hollandi og Sjálandi lýstu nú yfir stuðningi við uppreisnina. Undantekningar frá þessu voru borgirnar Amsterdam og Middelburg sem voru áfram trúar konungi til 1578. Nú komu líka upp deilur milli hinna róttæku kalvínista, sem vildu berjast gegn hinum kaþólska konungi og gera öll Niðurlönd mótmælendatrúar og þeirra sem vildu halda tryggð við konung en tryggja hefðbundin réttindi Niðurlanda. Vilhjálmur neyddist smátt og smátt til að taka undir hin róttækari sjónarmið kalvínista. Hann tók sjálfur kalvínstrú 1573. Friðarsamkomulagið í Ghent. Þar sem honum hafði mistekist að berja uppreisnina niður var járnhertoginn kallaður heim 1573 og Luis de Requesens sendur til að reyna hófsamari aðferðir gegn uppreisnarmönnum. Honum tókst þó ekki að gera friðarsamkomulag fyrir dauða sinn 1576. Spánn hafði neyðst til að lýsa yfir gjaldþroti árið áður og nú tóku spænsku atvinnuhermennirnir að gera uppþot þar sem þeim hafði ekki verið greitt. Í nóvember 1576 réðust uppreisnarhermenn á Antwerpen, drápu 8.000 íbúa og rændu borgina. Þetta atvik herti uppreisnarmennina enn í afstöðu sinni. Sýslurnar sautján gerðu með sér Friðarsamkomulagið í Ghent þar sem þær bundust sáttum um trúarlegt umburðarlyndi og að berjast sameinaðar gegn uppreisnarhermönnum en héldu áfram trúnaði við Filippus að nafninu til. Atrechtsambandið og Utrechtsambandið. Kort sem sýnir mörkin milli Atrechtsambandsins og Utrechtsambandsins. Filippus sendi nýjan landstjóra, Alessandro Farnese, hertoga af Parma og Piacenza, 1578. Hertoganum tókst að fá syðri sýslurnar í Vallóníu, til að undirrita Atrechtsambandið í janúar 1579 þar sem þær lýstu yfir trúnaði við Filippus. Þetta þýddi endalok samstarfs sýslnanna og skömmu síðar fékk Vilhjálmur því til leiðar að sýslurnar Holland, Sjáland, Utrecht, Guelders og Groningen gerðu með sér Utrechtsambandið 23. janúar. Niðurlönd voru því klofin í tvennt. Höfnunareiðurinn. Norðursýslurnar hófu nú að leita að öðrum konungi í stað Filippusar. Fyrst buðu þær Elísabetu Englandsdrottningu titilinn en hún hafnaði. Sýslurnar gerðu þá franska aðalsmanninum François af Anjou sama tilboð og hann tók því með því skilyrði að sýslurnar segðu sig úr lögum við Filippus fyrst. Þær gáfu þá út Höfnunareiðinn 1581 þar sem því var lýst yfir að Filippus hefði ekki haldið trúnað við Niðurlönd og gæti því ekki lengur talist réttmætur konungur. Anjou kom til norðursýslnanna sem konungur en fékk lítil völd frá stéttaþinginu sem vantreysti honum. Hann reyndi án árangurs að styrkja stöðu sína með hervaldi og sneri eftir það aftur heim 1583. Elísabetu var nú aftur boðin konungstign en hún hafnaði og stéttaþingið ákvað því að stjórna sem lýðveldi þess í stað. Fall Antwerpen. Strax eftir höfnunareiðinn sendi Filippus herlið til að taka norðursýslurnar aftur. Undir stjórn Farneses tókst þessu liði að leggja undir sig stærstan hluta sýslnanna Flandurs og Brabant og 1585 féll stærsta borg Niðurlanda, Antwerpen, í hendur honum eftir langt umsátur. Stór hluti íbúa borgarinnar flúði þá til norðurs. Í reynd voru þá orðin til tvö ríki: kalvínskt lýðveldi í norðri og kaþólskt konungsríki í suðri. Vilhjálmur þögli, sem Filippus hafði lýst útlægan í mars 1580, var myrtur af konungssinnanum Balthasar Gérard 10. júlí 1584. Sonur hans Mórits af Óraníu tók þá við hlutverki uppreisnarleiðtoga. Herfarir hans næstu árin afmörkuðu landamærin milli ríkjanna tveggja. Öskudagur. Öskudagur er í vestrænni kristni fyrsti dagur lönguföstu sem hefst 7. viku fyrir páska og getur hann verið á bilinu 4. febrúar til 10. mars. Dagurinn hefur lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu og nafnið á rætur í þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag og oft til þess notaður sérstakur vöndur. Líka þekkist sá siður að smyrja ösku á enni kirkjugesta. Á mörgum stöðum í Biblíunni táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og askan minnir fólk á forgengileikann og hreinsar það af syndum sínum. Öskudagur á Íslandi. Sú venja að hengja Öskudagspoka á fólk hefur nær alveg horfið en virðist vera að sækja smámsaman í sig veðrið að nýju. Hér eru nýjir Öskudagspokar saumaðir 2011 af meðlimum samtakanna "Sóley og félagar" sem hafa staðið fyrir Öskudagspoka saumi og sölu undanfarin ár. Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld og leiða má líkum að því að það sé enn eldra. Dagurinn gegnir þar sama hlutverki hér og í öðrum kaþólskum sið í Evrópu. Langafasta átti að vera tími íhugunar og góðrar breytni auk föstunnar sem á Íslandi takmarkaðist yfirleitt við kjötmeti en gat einnig náð til fiskvöru og mjólkurafurða. Ef langt var gengið var fastað upp á vatn og brauð. Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og nánast horfið hér á landi við siðaskiptin hélt fólk áfram að gera sér dagamun síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Bolludagur sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum seint á 19. öld og þá tíðkaðist víða um landið að ganga í skrúðgöngu í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að ganga í skrúðgöngu og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar upp fyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan smámsaman aftur verið að breiðast út á ný. Önnur venja fluttist frá öskudegi til bolludags sem var það flengja með vendi og hlaut vöndurinn við það nafnið bolluvöndur. Vöndurinn virðist kominn frá þeirri hefð að dreifa ösku með vendi yfir safnaðargesti í kirkjum á öskudag í kaþólskum sið og guðhræddir menn flengdu sjálfa sig með vendi í iðrunarskyni. Við siðaskiptin fluttust flengingarnar yfir á aðra sem skemmtun og börn tóku þær að sér á bolludaginn hér á Íslandi. Sú hefð tengd öskudeginum sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi er að hengja öskupoka á fólk. Líklega má rekja upphaf þess til kaþólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið. Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld en er mögulega eldri. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum þannig að konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Síðar breyttist siðurinn þannig að fyrst og fremst börn hengdu öskudagspoka á aðra og þá sérstaklega fullorðna og lykilatriði var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því. Innihald pokans breyttist líka og gátu þeir verið með litlum gjöfum eða miðum. Þessi siður hefur þó nær alveg horfið og við tekið sá siður að börn gangi í grímubúningum í búðir og fyrirtæki og syngi til að fá sælgæti litlar gjafir eða annað góðgæti. Svipar sá siður til bandarísku hrekkjavöku hefðarinnar. Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi. Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi er skráð trúfélag á Íslandi undir heitinu "Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík" en fullt nafn safnaðarins er "Söfnuður heilags Nikulásar úr Moskvupatríarkatinu í Reykjavík". Samkvæmt voru 475 einstaklingar skráðir í söfnuðinn þann 1. janúar 2012. Bakgrunnur þeirra er úr rétttrúnaðarhefðinni frá Rússlandi, Georgíu, Búlgaríu, Eistlandi, Litháen, Lettlandi, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Slóvakíu, Rúmeníu, Póllandi og Bandaríkjunum auk þess sem nokkrir Íslendingar tilheyra söfnuðinum. Príor safnaðarins er Timothy (Timur) Zolotuskiy og hefur söfnuðurinn aðstöðu við Sólvallagötu 10, 101 Reykjavík, 'fjölskylduhúsinu' eins og príor safnaðarins talar um húsið. Það er opið daglega en á hverjum laugardegi er kvöldguðsþjónusta klukkan 18:00 og boðið upp á samræðuhóp í framhaldinu. Á sunnudögum sem og öðrum hátíðisdögum er messa með heilagri liturgíu klukkan 10:00. Þá er sakramenti játninganna veitt á laugardögum að lokinni kvöldguðsþjónustu og á sunnudögum fyrir messu. Söfnuðurinn starfar öðru hvoru að verkefnum með Alþjóðahúsi og hefur staðið fyrir rússneskum menningardögum svo dæmi séu nefnd. Heimild. Pétur Björgvin Þorsteinsson (2007/3). Sögulega séð eiga rússneska og íslenska kirkjan margt sameiginlegt - Viðtal við Timur Zolotuskiy, prest rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi. Í "Bjarmi", bls. 26-30. Raunhluti. Raunhluti er annar hluti tvinntölu, "z" táknaður með formula_3 eða þar sem formula_5 er samoki "z". Þverhluti. þar sem formula_3 er samoki "z". Fjöleignarhús. Fjöleignarhús er hús, sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign, sem bæði getur verið allra og sumra. Fjölbýlishús er fjöleignarhús með mörgum íbúðum en fjöleignarhús geta einnig skipst niður í minni einingar atvinnuhúsnæðis, t.d. verslunar eða iðnaðarhúsnæði. Blokk er fjöleignarhús með mörgum íbúðum og á fjórum eða fleiri hæðum. Kjalfell ehf. Kjalfell ehf er þjónustufyrirtæki á Blönduósi sem skiptist í tvo megin hluta, dekkjaverkstæði og tölvuþjónustu. Í húsnæði fyrirtækisins að Efstubraut 2 á Blönduósi er að finna dekkjaverkstæði, smurþjónustu, kerrusmíði og sprautuverkstæði. Í leiguhúsnæði að Húnabraut 19 á Blönduósi er að finna verslun og tölvuþjónustu. Saga. Það var snemma árs 2005 að bræðurnir Rúnar og Kristján sem báðir eru fæddir og uppaldir Blönduósingar en búsettir í Reykjavík og Akureyri fóru að sá í fyrirtækjarekstur á Blönduósi. Í júní byrjun sama ár var svo fyrirtækið Kjalfell ehf var stofnað og með í för voru Ásgeir Blöndal og Bryndís Bragadóttir. Haustið 2007 eignuðust svo Rúnar og Kristján fyrirtækið að fullu þegar þeir keyptu hlut hinna stofnfélaganna. 17.ágúst 2005 hófst svo starfsemin opinberlega eftir að húsnæðið að Efstubraut 2 hafði verið breytt og sniðið að kröfum nýrrar starfsemi. Í upphafi var Kjalfell einungis hjólbarðaverkstæði, smurstöð og tölvuþjónusta, og öll starfsemin var til húsa að Efstubraut 2 en í febrúar 2006 fluttist tölvuþjónustan að Húnabraut 19 og þá opnaði tölvutengda verslunin. Fljótlega fór Kjalfell ehf út í að smíða vélsleðakerrur og svo ýmis fjölnota kerrur og tölvuþjónustan opnaði verslun. Áramótin 2007-8 var gengið frá kaupum á húsnæði við hliðina á verkstæðinu að Efstubraut og þar opnar sprautuverkstæði á fyrri hluta ársins 2008. Af hverju Kjalfell ? Nafnið Kjalfell var ákveðið eftir helgarferð með fjölskyldunni á Áfangafelli. Kjalfell er um 900m hátt fell á milli Langjökuls og Hofsjökuls, 7 km vestan við Kjalveg og 10km sunnan við Hveravelli (N64 46.621 W19 32.007). Áður en Kjalfells nafnið var ákveðið var reynt til þrautar að finna nafn á fyrirtækið sem lýsti starfsemi þess. Vetrarólympíuleikarnir 1936. Vetrarólympíuleikarnir 1936 voru settir 6. febrúar 1936 í bænum Garmisch-Partenkirchen í Bæjaralandi. Sumarólympíuleikarnir 1936 voru líka haldnir í Þýskalandi þetta ár í Berlín. Vetrarólympíuleikarnir 1968. Vetrarólympíuleikarnir 1968 voru 10. vetrarólympíuleikarnir sem haldnir voru í bænum Grenoble í Frakklandi. Noregur vann flest verðlaun. Þetta voru fyrstu leikarnir þar sem Alþjóðaólympíunefndin leyfði Austur- og Vestur-Þýskalandi að keppa sitt í hvoru lagi, og líka fyrstu leikarnir þar sem nefndin krafðist lyfjaprófana og prófana til að ákvarða kynferði. Alfred Jolson. Alfred Jolson (18. júní 1928 – 21. mars 1994) var bandarískur prestur rómversk-kaþólsku kirkjunnar og biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi frá 1988 til dauðadags. Í skýrslu rannsóknarnefndar um kynferðisglæpi séra Ágústs George og fleiri við Landakotsskóla, sem út kom 2. nóvember 2012, kom fram að biskupi hafði oftar en einu sinni verið greint frá ásökunum um barnaníð af hendi séra Georges en hann kosið að gera ekkert í málinu. Garmisch-Partenkirchen. Garmisch-Partenkirchen er markaðsbær í Bæjaralandi í héraðinu Oberbayern syðst í Þýskalandi nálægt landamærum Austurríkis. Vetrarólympíuleikarnir 1936 voru haldnir í Garmisch-Partenkirchen. Grenoble. Ljósmynd af Grenoble frá 2002. Grenoble er borg í Suðaustur-Frakklandi, við rætur Alpafjalla þar sem árnar Drac og Isère mætast í héraðinu Rhône-Alpes. Grenoble er höfuðstaður Isèreumdæmis. Íbúafjöldi árið 1999 var um 153 þúsund. Vetrarólympíuleikarnir 1968 voru haldnir í Grenoble. Píus 11.. Pius 11. (31. maí 1857 – 10. febrúar 1939), hét réttu nafni Ambrogio Damiano Achille Ratti og var páfi frá 6. febrúar 1922 og þjóðhöfðingi í Vatíkaninu frá 1929 til dauðadags. Hann gerði Lateransamningana við ríkisstjórn Ítalíu í valdatíð Mussolinis sem fólu í sér gagnkvæma viðurkenningu ríkjanna tveggja með því að ítalska ríkið viðurkenndi yfirráð kaþólsku kirkjunnar yfir hluta Rómar og kaþólska kirkjan lét á móti eftir tilkall sitt til landa Páfaríkisins. Lögmál Amperes. Lögmál Ampères (oftast skrifað: lögmál Amperes) er lögmál í rafmagnsfræði, kennt við André-Marie Ampère, sem segir að ferilheildi snertilþáttar segulsviðs, eftir lokuðum ferli er jafnt þeim rafstraumi, sem fer um flötinn, sem ferillinn markar. Stærðfræðileg skilgreining. þar sem H er segulsviðsstyrkur, "I" er rafstraumurinn og "C" lokaður ferill. þar sem J er rafstraumsþéttleiki, þ.a. þar B er notað til að tákna segulsvið, en B = μ0H, þar sem μ0 er segulsvörunarstuðull. Lögmál Biot-Savarts lýsir segulsviði, sem myndast vegna rafstraums. Jöfnur Maxwells setja fram lögmál Ampers með viðbót Maxwells. Viðbót Maxwells. þar sem JD er straumþéttleiki hliðrunarstraums, E er rafsviðsstyrkur með D = ε E og rafsvörunarstuðullinn er ε = ε0 εr. Símens. Símens (þýska "siemens") er SI-mælieining fyrir rafleiðni, táknuð með "S". Nefnd í höfuðið á þýksum athafna- og uppfinnigamanni Ernst Werner von Siemens (1816-1896). Jafngildi umhverfu óms, þ.e. 1 S = Ω-1. (Mælieiningin var áður kölluð "mho", sem er "ohm" lesið afturábak.) Lífsleikni. Lífsleikni (oft skammstafað sem LKN) er námsgrein sem á að veita börnum og ungmennum fróðleik um ýmislegt í lífinu sem ekki er fjallað um í hefðbundnum námsgreinum, gera þau leikin í að lifa lífinu, kenna þeim listina að lifa. Lífsleikni felur í sér víðtæka nálgun á fjölbreyttu efni þar sem aldur og þroski nemenda skiptir megin máli í efnisvali og efnistökum. Lífsleikni kom inn í aðalnámskrá grunnskóla árið 1999 en áður hafði þetta fag verið kennt í framhaldsskólum. Á seinni árum hefur lífsleikni einnig verið á dagskrá leikskóla. Ferja. Ferja er bátur eða skip sem flytur (ferjar) farþega og stundum farartæki þeirra yfir höf eða vötn. Ferjur eru líka notaðar til að flytja farm (yfirleitt í flutningabílum en líka gámum) og jafnvel járnbrautarvagna. Flestar ferjur ganga fram og til baka eftir ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram gefinni áætlun. Ferjur sem flytja standandi farþega styttri leiðir milli margra áfangastaða eins og í Feneyjum eru stundum kallaðar áætlunarbátar. Hanveldið. Kort sem sýnir útbreiðslu Hanveldisins 87 f.Kr. Hanveldið (hefðbundin kínverska: 漢朝; einfölduð kínverska: 汉朝; pinyin: Hàn Cháo; Wade-Giles: Han Ch'ao; 206 f.Kr. - 220 e.Kr.) var keisaraveldi sem fylgdi á eftir Kinveldinu og kom á undan Konungsríkjunum þremur í Kína. Hanveldið var ættarveldi stofnað af Liu Bang af hinni valdamiklu Liu-ætt. Til þessa dags talar meirihluti Kínverja um sig sem Han-kínverja. Á tímum Hanveldisins varð Kína konfúsískt ríki og landbúnaður, verslun og iðnaður blómstraði. Íbúafjöldi ríkisins náði yfir 55 milljónir. Um leið náðu áhrif ríkisins til Kóreu, Mongólíu, Víetnam, Japans og Mið-Asíu. Á tímum Hanveldisins varð Silkivegurinn til þar sem kínverskt silki var flutt vestur á bóginn. Tímabil Hanveldisins skiptist í tvennt: Fyrra Hanveldið eða Vestur-Hanveldið með höfuðborg í Chang'an (204 f.Kr. - 24 e.Kr.) og Síðara Hanveldið eða Austur-Hanveldið með höfuðborg í Luoyang (25 - 220 e.Kr.). Hrun Hanveldisins stafaði af ýmsum þáttum, ekki síst slæmum aðbúnaði bænda og miklum völdum landeigenda, ásamt útbreiðslu taóisma sem boðaði jafnrétti. Á endanum hrundi miðstjórnin og einstakir stríðsherrar tóku völdin í sínar hendur. Eftir 220 söfnuðust völdin á þrjú konungsríki Cao Wei, Shu Han og Sun Wu. Seljúkveldið. Seljúkveldið var súnnímúslímskt ríki ógústyrkja sem náði yfir gríðarmikið svæði í Vestur-Asíu, frá Hindu Kush til austurhluta Anatólíu og frá Mið-Asíu til Persaflóa, en kjarnasvæði Seljúktyrkja var við Aralvatn. Seljúkveldið kom mjög við sögu krossferðanna á 11. og 12. öld. Seljúkveldið var stofnað af Toğrül Beg, syni Seljúks, árið 1037 og stóð til 1194 þegar Kórasmíska ríkið sigraði síðasta Seljúksoldáninn Toğrül 3.. Seljúktyrkir. Seljúkprins á höggmynd frá 12. eða 13. öld. Seljúktyrkir (tyrkneska: "Selçuklular"; persneska: سلجوقيان "Ṣaljūqīyān"; arabíska: سلجوق "Saljūq", eða السلاجقة "al-Salājiqa") voru tyrkískt súnnímúslímskt ættarveldi undir áhrifum frá persneskri menningu sem ríkti yfir hlutum Mið-Asíu og hluta Mið-Austurlanda frá 11. öld til 14. aldar. Þeir stofnuðu Seljúkveldið sem náði á hátindi sínum frá Anatólíu til Púnjab og var höfuðandstæðingur krossfaranna í Fyrstu krossferðinni. Seljúktyrkir voru að uppruna bandalag tyrkískra ættbálka í Mið-Asíu (ógústyrkja) sem síðar tóku upp persneska siði og tungumál. Sex. Sex er sjötta náttúrlega talan, táknuð með tölustafnum "6" í tugakerfinu. Er margfeldi tveggja minnstu frumtalnanna, 2 og 3 og jafnframt minnsta fullkomna talan. Sex er hálf tylft. Talan sex er táknuð sem VI í rómverska talnakerfinu. Vindhani. Vindhani (einnig nefndur veðurviti eða vindör) er tæki sem sýnir vindátt. Nafn sitt dregur það af því að áður fyrr var slíkur útbúnaður oft mynd af hana sem snerist á ás eftir vindi og hafður á þaki húsa eða stöng. Undir hananum sem snýst er oft fastur kross sem vísar á höfuðáttirnar fjórar. Á seglbátum eru vindhanar eru oft litlar örvar úr léttum málmi eða plasti sem eru fest á mjóan pinna sem kemur upp úr mastrinu. Í stað kross sem sýnir höfuðáttirnar eru tveir pinnar sem mynda V og snúa aftur. Þeir eiga að sýna hámarksbeitingu seglanna upp í vindinn. Óformleg merking orðsins "vindhani" er einhver sem er óstöðugur eða hverflyndur í framkomu og hátterni. Skylmingar. Skylmingar voru upphaflega safnheiti yfir allar bardaga eða hernað, hvort sem menn tækjust á með fangbrögðum eða börðust með öxum, spjótum, skálmum, sverðum eða hvaða því vopni sem berjast mætti með. Í dag er orðið skylmingar aðallega notað um Ólympískar skylmingar. Ólympískar skylmingar. Ólympískar skylmingar eru íþrótt, þar sem tveir keppendur eigast við með bitlausum eftirlíkingum af sverðum og reyna að skora stig með því að koma höggi eða lagi á andstæðinginn. Nútíma ólympískar skylmingar greinast í skylmingar með höggsverði, lagsverði og stungusverði. Skylmingar eiga sér ævafornar rætur og í Egyptalandi hinu forna voru til skylmingaskólar. Færni í skylmingum var lífsnauðsyn hverjum stríðsmanni allt þar til skotvopn tóku við af eggvopnum sem handvopn í stríði. Skylmingar þróuðust sem list og íþrótt með nýjum sverðum og nýjum verjum. Nútímaskylmingar rekja uppruna sinn til Endurreisnarinnar þegar sverð voru ekki lengur undirstöðuvopn í stríði en þess mun vinsælli sem fylgihlutur í tísku aðalsmanna og borgara og vopn fyrir einvígi. Skylmingaskólar gengu nú út á að mennta aðalsmenn og borgara í listinni að heyja einvígi með mjóum og löngum stungusverðum. Slík menntun varð hluti af undirstöðumenntun hástéttanna. Eftir því sem ríkisvaldið efldist tóku að gilda reglur um einvígi sem áttu að koma í veg fyrir dauðsföll, eins og sú regla að einvíginu væri lokið við fyrsta sár. Mörg lönd lögðu blátt bann við einvígjum, eins og t.d. á Íslandi, en það var gjarnan virt að vettugi. Upphaf ólympískra skylminga má rekja til fyrstu ólympíuleika nútímans árið 1896. Með því hlutu skylmingar almenna viðurkenningu sem íþróttagrein. Eftir margra ára deilur milli ítalska og franska skólans í skylmingum var Alþjóða skylmingasambandið stofnað 1913 og ákvað sameiginlegar keppnisreglur. Rafræn skráningartæki voru tekin í notkun 1934 sem auðvelduðu starf dómara til mikilla muna. Skylmingar til forna. Elsta skylmingahandrit sem varðveitt er í Evrópu kallast MS I.33 og er varðveitt í Bretlandi. Það er talið ritað af þýskum munkum á 13. öld og fjallar um hvernig barist er með buklara og sverði. En skylmingar með buklara og sverði voru nýleg list á 13. öld og m.a. er sagt í Íslendinga sögu frá þýskum málaliða Snorra Sturlusonar, Herburt að nafni, sem snjallastur var í þeirri hernaðarlist. Ljóst er þó að á Sturlungaöld var einnig barist með stórum skjöldum ásamt buklurum, en þessar eldri aðferðir voru nokkuð frábrugðnar þeirri nýju með buklurunum. Þessi bardagalist var vinsæl meðal borgara löngu eftir henni var útrýmt af vígvöllum, en hinn smái buklari úreltist eftir því sem lásbogum og öðrum handskotvopnum fjölgaði. Eftir því sem líður á hámiðaldir fjölgar skylmingahandritunum og skiptast þau gróflega í Suður þýska hefð, og Norður ítalska. Sú þýska virðist hafa verið ríkjandi í Norður Evrópu, en hún er iðulega kennd við Bæverjan Jóhannes Liechtenhauer sem fæddist á miðri 14.öld. Hann er sagður hafa ferðast um alla Mið Evrópu og lært skylmingaaðferðir þær sem voru þá stundaðar. Mikill fjöldi er til af handritum lærisveina hans og í þeim er fjallað um notkun allra helstu vopna miðalda og fangbragða. Þar má meðal annars finna öll brögð íslensku glímunnar eins og hún er stunduð í dag utan tveggja husanlega: ristarbragðs og krækju. Meðal helstu höfunda skylmingahandrita eru: Hans Talhoffer, Hanko Döbringer, Sigmund Ringeck og fleiri. Skylmingar í austurvegi. Í Japan hafa varðveist fjöldi skylmingaaðferða. Sú helsta þeirra er kölluð kendo en þar takast menn á með sverðseftirlíkingum úr bambusstöfum. Viktor Arnar Ingólfsson. Viktor Arnar Ingólfsson (f. 12. apríl 1955 á Akureyri) er íslenskur spennusagnahöfundur og byggingartæknifræðingur. Viktor Arnar býr í Reykjavík. Bækur hans hafa þýddar á tékknesku, hollensku, ensku og þýsku. Enska borgarastyrjöldin. Enska borgarastyrjöldin var röð vopnaðra átaka milli fylgismanna enska þingsins og fylgismanna konungs í Englandi 1642 til 1651. Fyrsta (1642-1646) og annað (1648-1649) borgarastríðið börðust stuðningsmenn Karls 1. við her Langa þingsins, en í þriðja borgarastríðinu (1649-1651) börðust stuðningsmenn Karls 2. við Afgangsþingið. Borgarastyrjöldinni lyktaði með sigri þingsins í orrustunni við Worcester 3. september 1651. Afleiðingar borgarastyrjaldarinnar voru þær að Karl 1. var settur af og hálshöggvinn og sonur hans, Karl 2., hrakinn í útlegð. Í stað konungs tók Enska samveldið við 1649 til 1653 og síðan verndarríkið 1653 til 1659 sem var í raun einræði Olivers Cromwell. Einokun ensku biskupakirkjunnar á trúarlífi í landinu lauk, og sigurvegararnir styrktu enn í sessi yfirtöku mótmælenda á Írlandi. Borgarastyrjöldin festi í sessi þá hugmynd að breskir konungar gætu ekki ríkt án stuðnings þingsins (þingbundin konungsstjórn) þótt það væri ekki formlega staðfest fyrr en með dýrlegu byltingunni síðar á 17. öld. Ólíkt öðrum enskum borgarastyrjöldum, sem snerust fyrst og fremst um það hver skyldi verða konungur, snerist enska borgarastyrjöldin öðrum þræði um tegund stjórnarfars. Sumir sagnfræðingar vilja því nota hugtakið „enska byltingin“ um ensku borgarastyrjöldina. Graz. Graz er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Steiermark. Með 261 þús íbúa er Graz næststærsta borgin í Austurríki. Í borginni er háskóli. Miðborgin og Eggenberg-kastali eru á heimsminjaskrá UNESCO. Síðan í mars 2011 er Graz UNESCO City of Design. Lega og lýsing. Graz liggur við ána Mur sunnarlega í Austurríki í frekar þröngu dalverpi. Fjöll umliggja borgina á þrjá vegu, sem liggur því mjög ílöng í norður/suðurstefnu meðfram Mur. Slóvensku landamærin eru aðeins 40 km fyrir sunnan. Næstu stærri borgir eru Maribor í Slóveníu til suðurs (50 km), Klagenfurt til suðvesturs (130 km) og Vín til norðausturs (190 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Graz er hvítt pardusdýr á grænum grunni. Á höfðinu situr gullkóróna. Pardusdýrið er tilkomið 1315, en á því ári fór aðallinn frá Steiermark í herför með Ottokar II konungi Bæheims til að berjast við Ungverja. Merki Ottokars var hvítt pardusdýr á grænum grunni. Merkið er einnig skjaldarmerki Steiermark, fyrir utan rauðu eldtungurnar og gullkórónuna. Orðsifjar. Borgin dregur heiti sitt af slavneska orðinu gradec, sem merkir "lítið virki". Þegar þýskumælandi fólk settist þar að var hljóðmyndinni breytt í Gratz, en síðar í Graz. Upphaf. Það voru slavar sem fyrstir reistu virki á staðnum, en héraðið var þá strjálbýlt. Þeir voru kristnaðir af bæjurum og frönkum á 7. öld, en seinna gengu þeir upp í mannhafi Karlamagnúsar. Á 10. öld réðust Ungverjar inn í héraðið. Þegar þeir voru endanlega sigraðir 955, stóð Bæjaraland fyrir germönsku landnámi í og við Graz. Næstu áratugi réðu hinar og þessar ættir yfir bænum. Graz kemur fyrst við skjöl á árinu 1128/29 að talið er. Bærinn var þá lítill, ekki meira en þorp. En 1160 eignast Ottokar III frá Bæjaralandi héraðið og bæinn. Við það myndaðist veglegur markaður í Graz. 1233 fær bærinn sína fyrstu múra. 1379 eignast Habsborgarar Graz. Þeir reistu sér veglegt aðsetur þar og stjórnuðu þaðan héraðinu í kring. Bærinn varð því að nokkurs konar höfuðborg héraðsins í kring, en það náði yfir mestan hluta Steiermark, hluta Kärnten og nyrstu hluta Ítalíu og Slóveníu. Skólar. Þegar árið 1573 var stofnaður latínuskóli í Graz. Tólf árum síðar stofnaði erkihertoginn Karl II háskóla þar í borg og ári síðar voru skólarnir sameinaðir. Annar skóli var stofnaður á 16. öld af siðaskiptamönnum, nokkurn veginn sem mótvægi við kaþólska háskólann. Stjörnufræðingurinn Johannes Kepler kenndi við þann skóla 1594-1600. Sökum tíðra innrása Tyrkja (osmana) í héraðið á 17. öld fluttu allir Habsborgarar og stjórnkerfi þeirra til Vínar. Tyrkir náðu hins vegar ekki að vinna Graz. Franski tíminn. Klukkuturninn sem íbúar Graz fengu að bjarga er einkennismerki borgarinnar í dag 10. apríl 1797 hertóku Frakkar Graz. Tveimur dögum síðar birtist Napleon sjálfur í borginni og dvaldi þar í tvo daga. Frakkar stóðu stutt við að þessu sinni, en hertóku Graz á nýjan leik 14. nóvember 1805. Að þessu sinni voru Frakkar í nokkra mánuði í borginni áður en þeir héldu áfram. 1809 hertóku Frakkar Graz í þriðja sinn. Króatískar hersveitir birtust skömmu síðar og hófu skærur á hendur Frökkum. Friður komst á í júlí 1809, en Frakkar ákváðu að sprengja virkið í borginni. Áður fengu íbúar Graz að bjarga klukkuturninn (með bjöllum) og klukkuturninn (með úri) úr virkinu fyrir tæplega 3.000 gyllini. Síðari turninn er einkennisbygging Graz enn í dag. Virkið var síðan sprengt, en Frakkar yfirgáfu borgina 4. janúar 1810. Eftir það tók borgin að blómstra. Iðnaður komst á um miðja 19. öld. Graz varð að miðstöð samgangna í norður-suðurátt, en einnig til Ungverjalands, Slóveníu og Ítalíu. Í borginni var stofnaður tækniskóli og sett var á laggirnar bókasafn. Nýrri tímar. Eftir heimstyrjöldina fyrri var samið í Graz um stofnun lýðveldis í Austurríki, án aðkomu keisarans í Vín. Lýðveldið var stofnað 12. nóvember 1918 og tilkynnt hátíðlega af svölum leikhússins af sósíaldemókratanum Ludwig Oberzaucher. Í maí á næsta ári fóru fyrstu borgarstjórnarkosningar fram í Graz. Vinzenz Muchitsch varð borgarstjóri og sat hann til 1934, er Austurríki varð fasistaríki til skamms tíma. 1938 tóku nasistar við völdum eftir innlimun Austurríkis í Þýskaland. Stór hluti borgarbúa marseraði eftir aðalgötunum með hakakrossfána, þar á meðal meginþorri stúdentanna. Hitler sjálfur sótti borgina heim 3.-4. apríl 1938 og lét hilla sig úr opnum bíl. Graz var fyrsta borgin sem Hitler sótti heim í ferð sinni um Austurríki þennan mánuð. Svo mikill var fögnuðurinn í Graz að Hitler veitti borginni sæmdarheitið "Borg rísandi fólksins" ("Stadt der Volkserhebung"). Áður en árið var liðið var búið að flytja alla gyðinga burt úr Graz. Í heimstyrjöldinni sem fylgdi varð Graz fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. Alls létust 1788 manns í þeim og um 16% húsanna eyðilögðust. Miðborgin slapp hins vegar að mestu við skemmdir. 1945 hertóku Sovétmenn borgina, en Bretar tóku við henni um sumarið. Graz var á breska hernámssvæðinu til 1955. Á því ári varð Austurríki lýðveldi á ný. Graz var höfuðborg sambandslandsins Steiermark og varð að nokkurs konar hliði fyrir suðaustasta hluta landsins. 1999 var miðborgin sett á heimsminjaskrá UNESCO. 2001 varð Graz að mannréttindaborg Evrópu, 2003 að menningarhöfuðborg Evrópu. Íþróttir. Tvö stór knattspyrnufélög eru í Graz: SK Sturm Graz og Grazer AK. Sturm Graz hefur þrisvar orðið austurrískur meistari (1998, 1999 og 2011) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2010). Í alþjóðlegri knattspyrnu komst félagið í fjórðungsúrslit í Evrópukeppni bikarhafa (1976) og í Evrópukeppni félagsliða (1984). Grazer AK hefur einu sinni orðið austurrískur meistari (2004) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2004). Í íshokkí leikur liðið EC Graz 99ers í efstu deild. Í ruðningi leikur Turek Graz Giants einnig í efstu deild. Maraþonhlaupið í Graz er árlegur viðburður síðan 1994 og fer fram í október. Samfara því er einnig hlaupið hálfmaraþon (Hervis Halbmarathon) og 9,6 km hlaup (Puma City Run). Byggingar og kennileiti. Miðborg Graz var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1999 sökum heillegs gamals borgarkjarna, þar sem hægt er að lesa byggingasöguna í gegnum tíðina einkar vel. Langflestar þekktar byggingar eru í miðborginni. Linz. Linz er borg í Austurríki og höfuðstaður sambandslandsins Efra Austurríkis. Hún er jafnframt þriðja stærsta borg landsins með 189 þús íbúa (aðeins Vín og Graz eru stærri). Lega og lýsing. Linz liggur við Dóná á Dónársléttunni miklu í norðurhluta landsins, þar sem áin Traun mundar í Dóná. Borgin liggur fyrir norðan Alpafjöll, en fyrir sunnan Bæheimsskóg. Næstu stærri borgir eru Passau í Þýskalandi til norðvesturs (75 km), St. Pölten til austurs (130 km) og Salzburg til suðvesturs (130 km). Tékknesku landamærin eru 30 km til norðurs. Tvær hafnir eru í borginni sem báðar ganga út frá Dóná. Reyndar er Linz stærsta hafnarborg Austurríkis. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Linz sýnir hvítt borgarvirki, sem merkir Linz. Fyrir neðan eru þrjár hvítar bylgjaðar línur, sem merkja Dóná. Bakgrunnurinn er rauður, en hvítt og rautt eru litir Austurríkis. Í miðju borgarvirkisins er fáni Austurríkis í skjaldarformi. Elstu hlutar skjaldarmerkisins eru frá 1242, en bylgjurnar koma fyrst fyrir 1288. Orðsifjar. Upphaflega hét bærinn Lentos á keltnesku, en það þýðir "beygja". Meint er beygja í Dóná, en einmitt í Linz rennur fljótið í stórum boga. Rómverjar tóku heitið nær óbreytt upp og kölluðu staðinn Lentia. Í gegnum aldirnar breyttist Lentia fyrst í Linze og loks í Linz. Upphaf og miðaldir. Það voru keltar sem upphaflega bjuggu á svæðinu. Síðan tóku Rómverjar við, en þeir reistu virki í Linz. Á 2. öld e.Kr. brenndu markómannar virkið nokkrum sinnum niður. Árið 799 kom þýska heitið Linz fyrst við skjöl. Næstu aldir tilheyrði bærinn hertogunum í Bæjaralandi. Þegar Austurríki varð að hertogadæmi, stjórnaði Babenberg-ættin héraðinu og borginni. Mikilvæg tekjulind voru tollar af siglingum um Dóná. 1335 eignuðust Habsborgarar borgina. Þeir bjuggu gjarnan í Linz. Þegar Habsborgarar urðu keisarar í þýska ríkinu, varð Linz höfuðborg ríkisins 1489-1493, en Friðrik III keisari hafði aðalaðsetur sitt þar. 1457 var landsþing haldið í Linz, en það var annað landsþing Austurríkis. 1497 veitti Maximilian I keisari leyfi til að reisa brú yfir Dóná, en Dónárbrúin í Linz var einungis þriðja brúin yfir Dóná í Austurríki (á eftir brúnum í Vín og Krems). Siðaskipti og stríð. Siðaskiptin fóru fram í Linz snemma á 16. öld. En í gagnsiðaskiptum kaþólsku kirkjunnar árið 1600 varð borgin rammkaþólsk á ný. Þetta leysi trúarbragðastríð úr læðingu í héraðinu. Í bændauppreisninni sem fylgdi, sat bændaher um Linz í níu vikur, en hún stóðst raunina. Á þessum óróatíma var þýski stjörnufræðingurinn Johannes Kepler kennari við kaþólska skólann (1612-1626). Linz slapp við eyðileggingu 30 ára stríðsins. 1672 var fyrsta vefnaðarverksmiðja Austurríkis reist í Linz, en hún var um tíma langstærsti vinnuveitandinn í borginni. Þar störfuðu allt að 50 þús manns þegar mest lét. 1741 var Linz hertekin af bærískum og síðar frönskum herjum í austurríska erfðastríðinu. 15. ágúst 1800 varð stórbruni í Linz. Í honum eyðilögðust tugir húsa, ekki síst í miðborginni. Jafnvel gamla keisarahöllin stórskemmdist. 1809 varð mikil orrusta milli bandamanna og Frakka í Napoleonsstríðunum við Linz. Þar unnu Frakkar, en sökum flóða í ánum Dóná og Traun, drukknuðu margir hermenn úr báðum fylkingum. Það var ekki fyrr en eftir fall Napoleons að byrjað var að reisa víggirðingar umhverfið Linz. Nýrri tímar. Á byltingarárinu 1848 fengu íbúar Austurríkis aukin réttindi. Mál- og prentfrelsi komst á. Víða voru stofnaðir borgaralegir herir, þar á meðal í Linz. Þar í borg gengu 1.600 manns í borgaraherinn. Herinn var leystur upp 1851, eftir aðeins þriggja ára tilveru. Þá hófst stutt tímabil einveldis í Austurríki. Iðnvæðingin hófst í Linz upp úr miðri 19. öldinni. Reyndar var búið að koma upp hestajárnbraut milli Linz og Budweis í Bæheimi 1832, en það var fyrsta járnbraut Evrópu. Linz fékk hins vegar ekki eiginlega járnbraut með eimreið fyrr en 1861. Stærsta iðnfyrirtækið var stofnað 1840, en það var skipasmíðastöð (Linzer Schiffswerft). Áður en heimstyrjöldin fyrri braust út gekk Adolf Hitler í skóla í Linz. Hún var nokkurs konar seinni heimaborg hans. Á fyrstu árum gekk honum vel í skóla, en að síðustu hafði hann eingöngu áhuga á landafræði og sögu. Foreldrar hans hvíla í kirkjugarði í borginni. 1923 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Linz, sem þar með varð með stærri borgum Austurríkis. 20. öldin. 1934 geysaði stutt borgarastríð í Linz, er heimavarnarliðið krafðist þess að fá að leita að vopnum hjá sósíaldemókrötum í Hotel Schiff. Hinir síðarnefndu hófu þá að verja sig með vopnum. Hitler sneri aftur til Linz 15. mars 1938, en þar í borg undirritaði hans sameiningarskjal Þýskalands og Austurríkis. Þar hélt hann einnig þrumuræðu frammi fyrir íbúunum. Við sameininguna varð Linz að mikilli iðnaðarborg. Ný íbúðahverfi risu fyrir vinnufólk. Hitler lét reisa margar nýjar skrautbyggingar í Linz, enda var það ætlun hans að búa í borginni síðustu æviár sín. Borgin átti að vera stærsta lista- og málverkasafn heims. En lítið varð úr þeim áætlunum sökum ógæfu í heimstyrjöldinni síðari. Innan borgarmarkanna voru settar upp þrennar fangabúðir sem nokkurs konar útlager fyrir útrýmingarbúðirnar Mauthausen. Fyrstu loftárásir bandamanna á Linz hófust 1944, en alls varð borgin fyrir 22 árásum. Í þeim létust tæplega 1.700 manns. Eftir stríð var Linz í bandaríska hernámshlutanum til 1955. 1966 var háskóli stofnaður í borginni, sem í dag er kennd við Johannes Kepler. Á 8. áratugnum risu margar byggingar í Linz sem ekki pössuðu við arkítektúr borgarinnar. Þær kallast í dag byggingarsyndir (Bausünden). Á sama tíma var gert mikið átak í borginni að losna við iðnaðar- og stálímynd borgarinnar. Fyrir vikið er Linz ein hreinasta borg Austurríkis í dag. Mikil menning er í borginni og var Linz kjörin ein af menningarborgum Evrópu 2009. Viðburðir. Ljósadýrð við Klangwolke. Í bakgrunni sér í tónlistarhúsið Brucknerhaus. Klangwolke ("Tónaský") er árleg tónlistarhátíð í borginni. Hún skiptist í þrennt. Í upphafi er nútímatónlist, samfara sjónleikjum, lasersjón, flugeldum og þess háttar. Í öðru lagi er spiluð klassísk tónlist og í þriðja lagi tónlist fyrir börn. Klangwolke er útihátíð. Til þess að allir geti heyrt eru hátalar með samtals 250 þús vött notaðir. Hátíðin fer fram í septemberbyrjun. Pflasterspektakel er útihátíð listamanna og fer fram í júlí. Á hátíðinni troða upp alls konar götulistamenn, sirkussýningarmenn, trúðar og aðrir álíka listamenn. Viðburðir fara fram á 40 stöðum í borginni og eru þátttakendur um 600 frá 40 mismunandi löndum. Um 200-250 þús gestir sækja hátíðina heim árlega. Crossing Europe er kvikmyndahátíð í Linz sem fer fram árlega í apríl. Sýndar eru kvikmyndir víða að, sérstaklega myndir sem fjalla um þjóðfélag, æsku og tónlist. Veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina hverju sinni. Einnig eru útlendir leikstjórar heiðraðir. Oftar en ekki eru tónleikar í tengslum við hátíðina. Árið 2010 féllu tónleikar bandarísku söngkonunnar Lydia Lynch niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Urfahrener Markt (einnig nefnt Urfix) er langstærsta hátíð borgarinnar Linz með um hálfa milljón gesti. Hér er um markaðs- og skemmtihátíð að ræða. Hátíðin hófst 1817 með leyfi keisarans Frans I og var í upphafi útimarkaður fyrir alls konar vörur. Með tímanum bættust skemmtiatriði við og nú er svo komið að stærðar rússíbanar og leiktæki þekja meirihluta sýningarsvæðisins. Innsbruck. Innsbruck er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Tírol. Íbúar eru 120 þúsund og er Innsbruck því fimmta stærsta borg Austurríkis. Borgin er mikill skíðabær og eru vetraríþróttir mjög áberandi þar. Lega og lýsing. Innsbruck liggur við ána Inn í Ölpunum og liggur í Inndalnum. Fjöll einskorða borgina á tvenna vegu. Að norðan eru það Karwendelfjöllin sem ná inn til Þýskalands. Nokkur góð skíðasvæði eru í kringum Innsbruck. Næstu stærri borgir eru Bolzano á Ítalíu til suðurs (115 km), München í Þýskalandi til norðurs (145 km) og Salzburg til norðausturs (170 km). Svissnesku landamærin eru 160 km til vesturs. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Innsbruck sýnir tvo brúarsporða og göngugólf með fjórtán plönkum. Bakgrunnurinn er rauður. Hér er um gömlu brúna yfir Inn að ræða. Oddar brúarsporðana eiga að tákna öldu- og ísbrjótana. Brúin sjálf er frá miðri 12. öld en brúin sem skjaldarmerki og innsigli kom fyrst fram 1267. Núverandi form er frá 1325 en núverandi litir eru frá 1547. Eftir síðasta ártal hefur merkinu ekki verið breytt. Orðsifjar. Innsbruck merkir "brúin yfir Inn" (-bruck = "brú", sbr. Brücke á þýsku í dag). Upphaf. Endurnýjuð brú yfir ána Inn Á tímum Rómverja var þjóðvegur lagður frá Verona til Ágsborgar um Brennerskarð. Til að tryggja öryggi vegfarenda, var reist herstöð þar sem í dag er Innsbruck. Um 600 e.Kr. var virki þetta eyðilagt af germönum. Innsbruck myndaðist ekki sem þorp fyrr en 1133 er greifarnir af Andechs í Bæjaralandi stofnuðu þar markað og reistu brú yfir ána Inn. Heitið Innsbruck kom fyrst við skjöl 1187. Bærinn hlaut borgarréttindi fyrir 1205 (nákvæm dagsetning ókunn) og lifðu borgarbúar mikið á tollum, enda var Innsbruck á fjölfarinni leið frá Ítalíu til Bæjaralands. Leiðin í gegnum Brennerskarð var þá meðal bestu reiðvega í Ölpunum á þeim tíma. Greifaaðsetur. Innsbruck 1495. Málverk eftir Albrecht Dürer. 1420 gerði hertoginn Friðrik IV Innsbruck að aðsetri sínu og risu við það margar þekktar byggingar. Síðla á 15. öld dvaldi Maximilian, keisari þýska ríkisins, oft í Innsbruck. Við það risu enn fleiri merkar byggingar. Þar á meðal vopnahúsið, sem var meðal þeirra merkustu í Evrópu. Siðaskiptin náðu sér ekki á strik í Innsbruck. Kaþólska kirkjan hélst sterk og fengu jesúítar að stofna Latínuskóla þar í borg 1562 en hann er elsti framhaldsskóli vesturhluta Austurríkis. 1665 dó tírólska lína Habsborgarættarinnar út. Við það varð Innsbruck ekki lengur greifaaðsetur og breyttist borgarlífið mikið í kjölfarið. Höfuðborg héraðsins Tírol var Merano, sem þá tilheyrði Habsborgarveldinu. Árið 1669 stofnaði Leopold I keisari háskóla í Innsbruck. Honum var tvisvar lokað næstu aldir en í bæði skiptin opnaður á ný. Nýrri tímar. 1849 tók Innsbruck aftur við af Merano sem höfuðborg Tírols. 1858 fékk borgin járnbrautartengingu á línunni Kufstein – München. Níu árum síðar var keyrði járnbraut í fyrsta sinn yfir Brennerskarð til suðurs. Í kjölfarið varð Innsbruck að vinsælli ferðamannaborg, enda náttúrufegurð mikil í fjöllunum. 1918 hertóku Ítalir borgina eftir tap Þýskalands og Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri og héldu henni í sex ár. Í heimstyrjöldinni síðari gerðu bandamenn 22 sinnum loftárásir á Innsbruck. Í stríðslok 1945 var Innsbruck ein af fáum austurrísku borgum sem gáfust bardagalaust upp fyrir bandamönnum. Það var bandarísk herdeild sem hertók borgina 3. maí. Um sumarið tóku Frakkar við, enda lá borgin á franska hernámssvæðinu. 1955 varð Austurríki aftur lýðveldi og hurfu Frakkar þá úr borginni. Innsbruck varð aftur að höfuðborg Tírols. Tvisvar eftir þetta hefur Innsbruck verið vettvangur vetrarólympíuleikanna, fyrst 1964 og svo 1976. Árið 1988 sótti Jóhannes Páll páfi II borgina heim. Íþróttir. Innsbruck er mikil skíðaborg. Síðan 1952 fer þar eitt helsta skíðastökkmót Evrópu fram. 1964 og 1976 fóru vetrarólympíuleikarnir fram í borginni. 2012 fara þar fram vetrarólympíuleikar unglinga. Í borginni fór fram HM í íshokkí 2005. Ein mesta snjóbrettakeppni Evrópu, Air & Style, er haldin árlega í Innsbruck síðan 1993. Af öðrum íþróttum má nefna að í Innsbruck fór fram EM í blaki 2011 (ásamt Vín, Prag og Liberec), HM í ruðningi (ásamt Vín og Graz) og var ásamt öðrum borgum þátttakandi í EM í knattspyrnu 2008 og EM í handbolta 2010. Af félagsíþróttum er fótbolti, handbolti og ruðningur mjög fyrirferðamiklar í borginni. Byggingar og kennileiti. Sigurboginn er eitt helsta kennileiti Innsbruck Vegir liggja til allra átta. „Vegir liggja til allra átta“ (upphaflega „79 af stöðinni“) er íslenskt dægurlag eftir Sigfús Halldórsson við texta eftir Indriða G. Þorsteinsson. Lagið var samið fyrir kvikmyndina "79 af stöðinni" eftir samnefndri skáldsögu Indriða sem kom út 1955 og hafði notið mikilla vinsælda. Guðlaugur Rósinkranz Þjóðleikhússtjóri tók fljótlega að skrifa kvikmyndahandrit eftir sögunni og íslenska fyrirtækið Edda Film stóð að gerð myndarinnar sem var leikstýrt af danska leikstjóranum Erik Balling. Guðlaugur fékk Sigfús og Indriða til að semja lagið og textann fyrir myndina. Samkvæmt Indriða hafði Guðlaugur fengið þá hugmynd að myndin yrði að hafa eftirminnilegt lag, líkt og myndirnar "Casablanca" og "Brúin yfir Kwai". Jón Sigurðsson, tónlistarmaður, útsetti lagið og í einu atriði hennar sést Ellý Vilhjálms syngja það á balli á Hótel Borg. Í laginu er langt gítarmillispil sem Ólafur Gaukur Þórhallsson lék og sumir segja vera fyrsta gítarsóló íslenskrar tónlistarsögu. Lagið varð umsvifalaust gríðarlega vinsælt. Það kom út á smáskífu ásamt laginu „Lítill fugl“ 1963, ári eftir að kvikmyndin var frumsýnd, undir heitinu „79 af stöðinni“, en í síðari útgáfum var nafninu breytt í „Vegir liggja til allra átta“. Þetta var önnur plata Ellýjar. Sigfús Halldórsson. Sigfús Halldórsson (7. september 1920 – 21. desember 1996) var íslenskur leiktjaldahönnuður, tónskáld og dægurlagahöfundur. Meðal frægustu laga hans eru „Dagný“, „Tondeleyó“, „Litla flugan“ og „Vegir liggja til allra átta“, sem hann samdi fyrir kvikmyndina 79 af stöðinni. Sigfús stundaði nám í málaralist og leiktjaldamálun og lauk prófi í þeirri grein frá þekktum listaskóla í London árið 1945. Sigfús starfaði sem bankamaður í Reykjavík og var einnig teiknikennari um árabil. Hann hélt margar myndlistasýningar bæði hér á landi og í útlöndum. Sigfús samdi allan fjöldann af sönglögum, söng og spilaði inn á hljómplötur og samdi einnig tónlist fyrir leikhús og kvikmynd. Þangprjónn. Þangprjónn (fræðiheiti: "Syngnathus typhle") er útlendur fiskur af sænálaætt. Bókmerki. Bókmerki er á íslensku bæði haft um flúrað merki (eða límmiða) sem eigandi bókar (t.d. bókasafn) festir á bækur sínar, svonefnt "ex libris". En bókmerki er einnig haft um spjald eða miða til að leggja inn í bók til að merkja þann stað þar sem lestrinum lauk síðast. Ansgar. Ansgar (8. september 801 – 3. febrúar 865) var munkur, trúboði og erkibiskup í Hamborg-Brimum, sem þá var einnig biskupsstóll Norðurlanda. Ansgar, sem nefndur hefur verið "postuli Norðurlanda", var einn af þeim fyrstu, ásamt Englendingnum Willibrord, sem hóf kristniboð í Danmörku. Hann hafði einnig töluverða þýðingu fyrir útbreiðslu kristni í Svíþjóð. CANTAT-3. Leið og lendingarstaðir CANTAT-3 sæstrengsins CANTAT-3 er þriðji sæstrengurinn sem lagður var á milli Kanada og Evrópu. Hann hefur verið í notkun síðan árið 1994 og var flutningsgeta hans þá 2 x 2,5 s á milli Kanada og Evrópu. Strengurinn tengist bæði Íslandi og Færeyjum og var lengi aðal sæstrengur landana beggja áður en FARICE-1 strengurinn var tekinn í notkun árið 2004. Strengurinn er rekinn af Indverska fyrirtækinu Teleglobe. Hestamannafélagið Fákur. Hestamannafélagið Fákur er félag hestamanna í Reykjavík. Það var stofnað 24. apríl 1922. Núverandi formaður þess er Bjarni Finnsson. Reaction Engines A2. Reaction Engines A2 eða A2 er hönnun á flugvél, teiknuð af breska fyrirtækinu Reaction Engines limited sem getur ferðast á fimmföldum hljóðhraða (Mach 5). Flugvélin er hönnuð með það í huga að fljúga frá alþjóðaflugvellinum í Brussel á Mach 0,9 út yfir Norður-Atlantshaf, auka þar hraðan upp í Mach 5 yfir Norðurpólnum, fljúga yfir Kyrrahaf og þaðan til Ástralíu á aðeins 4,6 klukkustundum. Miðaverð ætti að vera svipað og á miðum á vildarfarrými í öðrum flugvélum. Hönnunin er nú í skoðun hjá LAPCAT, verkefni hjá Evrópusambandinu sem skoðar möguleikann á því að byggja flugvél sem getur flogið á Mach 4-8 frá Brussel til Sydney. Reaction Engines Limited segja að vélin gæti verið fullkláruð innan 25 ára ef markaður er fyrir hana. Öskupoki. Öskupoki er lítill poki sem er fylltur af ösku, og upp af honum er bandspotti og við hann festur lítill krókur. Allt fram á síðustu áratugi 20. aldar léku börn sér að því að búa til öskupoka og krækja öskupokum aftan í fólk á öskudegi. Öskupokana átti helst að hengja aftan í einhvern án þess að viðkomandi tæki eftir því. Hér áður fyrr voru öskupokar oft fagurlega saumaðir og skreyttir, til dæmis með hjörtum. Var málað á þá mynstur eða þeir sniðnir spaða- eða tígullaga. Sumstaðar var það þannig að stúlkur settu ösku í pokana, en strákarnir steina. Síðustu áratugina sem þessi siður tíðkaðist voru pokarnir þó yfirleitt tómir. Öskupokasiðurinn er nú að mestu horfinn og hefur vikið fyrir grímubúningum og búðarsöng. Ein ástæða þess að pokarnir hurfu var sú að títuprjónarnir sem notaðir voru í krókinn voru gerðir úr harðari málmi en áður hafði verið svo að erfitt eða ómögulegt var að beygja þá. Að hengja öskupoka á fólk á þessum degi virðist hafa verið alíslenskur siður. Eina útlenda dæmið um einhvers konar „öskupoka“, sem fundist hefur, er frá Danmörku og kemur fyrir hjá sagnfræðingnum Troels-Lund í verki hans "Dagligt liv i Norden", en það er í þá veru að menn hafi slegið hvern annan með öskupokum, en ekki hengt þá hver á annan. Fjaðraherfi. Fjaðraherfi er herfi með S-laga tinda sem brjóta niður torf og aðra köggla við jarðvinnslu. Þegar ekið er á tilteknum hraða, sem gefinn er upp hjá framleiðanda, kemur titringur á tindana (fjaðrirnar) sem nýtist til að brjóta niður misfellur í flagi. Það samanstendur einnig af litlu jöfnunarborði og litlum jarðvalta aftast til að slétta sáðbeðið. Tindarnir eru að mismunandi gerðum og stífleika og er hægt að stjórna innfallshorni þeirra eftir því hvernig á að vinna jarðveginn. Þau vinna fyrir eigin þyngd, þ.e. þau eru tengd á þrítengisbeisli dráttarvélarinnar. Aflþörf frá dráttarvél er misjöfn milli jarðvegstegunda en algeng regla er að það þurfi 10 kW á hvern metra vinnslubreiddar. Hnífaherfi. Hnífaherfi eða Hankmóherfi er herfi með hnífásum sem byggðir eru á grind. Það er oftast tengt á þrítengisbeisli dráttarvélar en vinnsla þess er best á nokkrum ökuhraða. Þannig henta þau best á fínvinnslu á myldum jarðvegi. Þannig henta þau ekki á seigan jarðveg s.s. mýrajarðveg þar sem hnífarnir eiga erfitt með að ganga ofan í yfirborðið. Vetrarólympíuleikarnir 1984. Vetrarólympíuleikarniar 1984 voru 14. vetrarólympíuleikarnir sem voru haldnir í Sarajevó í Júgóslavíu. Þetta voru fyrstu vetrarólympíuleikarnir sem haldnir voru í sósíalísku ríki. Vetrarólympíuleikarnir 2002. Vetrarólympíuleikarnir 2002 voru 19. vetrarólympíuleikarnir. Þeir voru haldnir í Salt Lake City í Bandaríkjunum. Kennslufræði menningararfs. Kennslufræði menningararfs (Kulturarvspædagogik) er samheiti yfir allt ferli þekkingar/náms/kennslu, sem tekur til efnislegra og óefnislegra menningarleifa. Notað sem hugtak fyrir þá kennslufræðilegu vinnu sem fer fram innan listgreina, hjá minjasöfnum, skjalasöfnum og í öðru umhverfi menningararfsins. Menningararfurinn birtist í umhverfinu, hlutum, skjölum og myndum. Kennslufræði menningarumhverfis. Kennslufræði menningarumhverfis (Kulturmiljøpædagogik) fjallar um nám/kennslu, sem stundað í eða tengist menningarumhverfi eins og fornleifasvæðum, menningarsögulegum byggingum og stóru byggingar- og menningarlandslagi. Það sem maður sér, heyrir og skynjar hefur mikla þýðingu fyrir það sem lærist, auk þess að hægt er að staðhæfa að það var einmitt hér sem eitthvað gerðist. Kennslufræði minjasafna. Kennslufræði minjasafna (Museumspædagogik) lýtur að kennslu sem notar söfn og safnmuni sem kennslutæki. Innlifun og skapandi vinnuferlar eru dæmigerðir þættir í námsferlinu þar sem hugsanir og hugarflug gestsins er virkjað til þess að sýna hvernig aðstæður gætu hafa verið. Kennslufræði skjalasafna. Kennslufræði skjalasafna (Arkivpædagogik) fjallar um kennslu sem fram fer í skjalasafni. Skjöl og skjalaflokkar eru þau kennslutæki sem byggt er á. Heimildirnar tala beint til gestsins og geta því svarað spurningum hans milliliðalaust. Uppgötvunargleði og áðreiðanleiki eru einkennandi þættir í námsferlinu. Kennslufræði lista. Kennslufræði lista (Kunstpædagogik) er kennsla með það markmið að auka skilning á listum. Hugtakið er oft notað í tengslum við listmenntun og kennslu í fagurfræði. Getur einnig verið kennsla sem nýtir listir og myndir til að auka þekkingu og skilning safngesta. Samræða, sköpunargleði og túlkun þátttakenda eru áberandi þættir í námsferlinu. Norræn miðstöð fyrir kennslufræði menningararfs. Norræn miðstöð fyrir kennslufræði menningararfs (sænsku: "Nordiskt Centrum för Kulturarvspedagogik" skammstafað sem NCK'") er norrænt þróunarverkefni sem hefur það markmið að efla símenntun byggða á starfsemi minjasafna, skjalasafna, listasafna og annars menningarumhverfis. NCK þjónar sem starfsvettvangur fyrir virka og áhugasama aðila á sviði menningararfsmiðlunar. Með fundum, miðlun reynslu og námskeiðum þróast kennslufræði menningararfsins og eflir stöðu sína innan símenntunar. Með því að standa fyrir menntunar- og rannsóknarstarfi samhæfir NCK listir og menningararf innan kennslufræðanna. NCK þróar fræðilega og aðferðafræðilega þekkingarmyndun innan kennslufræða skjalasafna, menningarumhverfis, lista og minjasafna. NCK hefur aðsetur í Östersund í Svíþjóð og er rekið sem þverfaglegt verkefni af Minjasafni Jamtaléns ("Jamtli, Jämtlands läns museum"), Félagsskjalasafni Jamtaléns ("Föreningsarkivet i Jämtlands län") og Skjalasafni Östersunds ("Landsarkivet i Östersund"). Skiptingar Póllands. Þrjár skiptingar Póllands á 18. öld. Skiptingar Póllands vísa til skiptinga landa Pólsk-litháíska samveldisins milli Rússlands, Prússlands og Austurríkis 5. ágúst 1772, 23. janúar 1793 og 24. október 1795. Eftir þessar skiptingar var samveldið ekki lengur til á landakortum. Garðar Olgeirsson - Meira fjör. Garðar Olgeirsson - Meira fjör er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni leikur Garðar Olgeirsson lög á harmoniku. Upptaka, hljóðblöndun og frágangur var unninn af Garðari Olgeirssyni, Hljóðrita og Pétri Steingrímssyni. Ljósmynd á framhlið tók Halldór Gestsson Kirkjusundrungin. a> í Konstantínópel árið 381. Viðbætur þess við Níkeujátninguna voru ein af orsökum klofningsins 1054. Kirkjusundrungin var klofningur sem átti sér stað árið 1054 innan kirkjunnar. Við klofninginn urðu til rómversk-kaþólska kirkjan undir páfanum í Róm, og rétttrúnaðarkirkjan undir patríarkanum í Konstantínópel. Sundrungin var niðurstaða aldalangra deilna milli biskupanna í Róm og Konstantínópel um lögsögu þeirra, þar sem biskup Rómar (páfinn) hélt því fram að biskupinn í Konstantínópel væri undirmaður hans, og líka (en í mun minna mæli) deilna um guðfræðileg efni, svo sem Filioque-setninguna í Níkeujátningunni. Kirkjurnar tvær skiptust málfræðilega, guðfræðilega, pólitískt og landfræðilega og sundrungin varð varanleg. Tilraunir voru gerðar til að sameina kirkjurnar aftur 1274 (Annað kirkjuþingið í Lyon) og 1439 (Kirkjuþingið í Basel) en í bæði skiptin hafnaði réttrúnaðarkirkjan sameiningunni. Mankala. Mankala (arabíska: منقلة‎, "manqalä") er flokkur borðspila sem líka eru kölluð sáðspil eða telja og grípa. Þekktustu afbrigðin á Vesturlöndum eru kalaha, oware, sungka og bao. Elstu minjar um leik af þessu tagi eru frá tímum Konungsríkisins Aksúm frá 6. eða 7. öld. Leikurinn hefur svipaða stöðu í Afríku og sums staðar í Asíu eins og skák á Vesturlöndum og í Mið-Austurlöndum. Áhöfn. Áhöfn er hópur fólks sem starfar saman um borð í skipi, kafbáti, flugvél eða öðru loftfari. Notkun flókinna farartækja þarfnast nokkurra starfsmanna sem taka að sér sérhæfð verkefni og þannig hefur hver áhafnarmeðlimur skilgreint hlutverk um borð. Stundum er áhöfn skips kölluð skipshöfn. Damm. Damm er borðspil sem er leikið á skákborði með 8x8 reitum (12 skífur) eða á borði með 10x10 reitum (15 skífur) sem skiptast á hvítir og svartir. Aðeins annar hver reitur (aðeins einn litur) er notaður í spilinu. Takmarkið er að ná öllum skífum andstæðingsins af borðinu með því að hoppa yfir þær á ská. Þessir grallaraspóar. Þessir grallaraspóar (enska: "Those Scurvy Rascals") er bresk tölvuteiknuð 26 þátta sjónvarpsþáttaröð fyrir börn. Hún var frumsýnd á sjónvarpsstöðinni Nickelodeon UK í maí 2005. Þáttaröðin hefur verið sýnd í Ríkissjónvarpinu frá 2007. Blaðamennska. Fréttastofa NBC sjónvarpsstöðvarinnar í Washington. Blaðamennska eða fréttamennska er fag sem gengur út á að safna, skrifa og miðla fréttum og öðrum upplýsingum um samtímaatburði. Blaðamennska er starfssvið innan fjölmiðla og sá sem hana stundar nefnist blaðamaður eða fréttamaður. Blaðamenn starfa á ýmsum fjölmiðlum s.s. dagblöðum, útvarpi, sjónvarpi, netmiðlum, sem fjölmiðlafulltrúar fyrirtækja og á fleiri stöðum. Blaðamennska er kennd sem fag í háskólum og sérstökum blaðamannaskólum. Fló á skinni. "Fló á skinni" er leikrit (svefnherbergisfarsi) eftir franska leikskáldið Georges Feydeau frá 1907. BBC sýndi uppfærslu á verkinu í sjónvarpi 7. júní 1967 þar sem Anthony Hopkins kom í fyrsta sinn fram í sjónvarpi í hlutverki Etienne Plucheux. Kvikmynd varð gerð eftir leikritinu árið 1968 í leikstjórn Jacques Charon. Leikritið var fyrst sett upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur og leikstjórn Jóns Sigurbjörnssonar fyrir jólin árið 1972. Verkið naut mikilla vinsælda og gekk lengi. 1990 var það aftur tekið til sýninga hjá leikfélaginu með sama leikstjóra og var þriðja leikritið sem var sett upp í hinu nýja Borgarleikhúsi (á eftir "Höll sumarlandsins" og "Ljósi heimsins"). Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit tók það til sýninga 1999. 2008 tók Leikfélag Akureyrar verkið til sýninga í nýrri þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Toggenburg. Skipting St. Gallen með "Grafschaft Toggenburg" í miðið Toggenburg er dalur í St. Gallen-kantónu í Sviss. Um hann rennur áin Thur. Toggenburg (geitakyn). Toggenburg er geitakyn upprunalega ræktað í Toggenburg í Sviss. Geiturnar eru meðalstórar en mjólkin er fitulítil, oft um 2-3%. Geiturnar hafa nokkuð ólíka liti, allt frá skjannahvítum að kampavínslit. Þá eru margar botnóttar og kolóttar. Hvít einkenni sjást á fótum og höfði. Þær eru ýmist hyrndar eða kollóttar. Rússneska borgarastyrjöldin. Auglýsing fyrir sjálfboðaliðaherinn sem barðist gegn bolsévikum í borgarastyrjöldinni. Rússneska borgarastyrjöldin var borgarastyrjöld í Rússlandi 1918 til 1922 þar sem átök stóðu milli rauðliða, undir stjórn Vladimírs Lenín, sem höfðu komist til valda eftir Októberbyltinguna 1917 og hvítliða undir stjórn ýmissa stríðsherra sem áttu það sameiginlegt að vera andsnúnir stjórn kommúnista. Hvítliðar fengu stuðning frá ýmsum erlendum ríkjum. Borgarastyrjöldinni lyktaði með sigri rauðliða sem stofnuðu í kjölfarið Sovétríkin. Meðganga. Mynd af þungaðri konu, sem er langt komin í meðgöngunni. Meðganga er það ferli þegar kona er með einn eða fleiri lifandi fósturvísa eða fóstur í legi sínu. Meðganga er oftast 38 vikur frá getnaði, þ.e. um það bil 40 vikum frá síðustu blæðingum, en henni lýkur með fæðingu barns, stundum með keisaraskurði. Mögulegt er að stöðva meðgöngu og framkalla fósturlát með fóstureyðingu, en stundum lýkur meðgöngu með fósturláti af ókunnum ástæðum, líklega vegna þess að fóstur þroskast ekki eðlilega. Fæðingarfræði er grein innan læknisfræði, sem fæst við rannsóknir á meðgöngu. Kona á meðgönguskeiði, þ.e. sem gengur með barni, kallast "ólétt", "þunguð", "barnshafandi", "ófrísk" eða "vanfær". Þegar kona er komin langt á leið í meðgöngunni kallast hún "kasólétt" eða "kasbomm" (sem nota bæði forskeytið "kas-" sem vísar til "hrúgu" eða "kasar" sem er fiskihrúga). Kynferði. a> fyrir kynin tvö kona (t.v.) og karl (t.h.). Kynferði á við um muninn á milli karls og konu. Kynferði felur í sér ákveðinn samfélagslegan mun sem gerður er á kynjunum og vísar til ólíkra kynhlutverka og ólíkrar kynhegðunar. Kynvitund er síðan sjálfsvitund einstaklings sem tengist öðru hvoru kyninu, þ.e. hvort einstaklingur upplifir sig sem karl eða konu óháð líffræðilegu kyni. Stundum er talað um þriðja kynið með vísan til einstaklinga sem upplifa sig hvorki sem karla né konur heldur eitthvað annað. Heimsfriður. Heimsfriður er hugsjónin um frelsi, frið og hamingju hjá öllum mönnum. Það er hugmynd um framtíð þar sem stríð og annað ofbeldi er ekki til. Friðarhugsjónin er meginstefið í stefnu margra friðarhreyfinga, mannréttindasamtaka og stjórnmálaflokka. Margir leiðtogar heimsins hafa lýst því yfir sem markmiði sínu að koma á heimsfriði. Eiginmaður. Eiginmaður (eða eiginbóndi) er karlkyns aðili í hjónabandi. Karlmaður sem giftist verður eiginmaður við giftingu, og er rétt fyrir og eftir athöfnina nefndur "brúðgumi" og konan, ef einhver, "brúður". Í skáldamáli var eiginmaður stundum nefndur" faðmbyggir" eða "spúsi", en hið síðarnefnda er stundum notað sem gæluyrði yfir eiginmann. Eiginmaður sem einhverjum hefur verið þröngvað til að giftast nefnist "nauðmaður". Eiginkona. Eiginkona (í eldri íslensku eignarkona, ektakvinna eða ektavíf) er kvenkyns aðili í hjónabandi. Kona sem giftist verður eiginkona við giftingu, en er rétt fyrir og eftir athöfnina nefnd "brúður" og karlmaðurinn, ef einhver, "brúðgumi". Bíðandi eiginkona var nefnd "biðkván" í forníslensku, og í skáldamáli var eiginkona stundum nefnd "eyrarúna", "inna" og "spúsa". Hið síðastnefnda er oft notað enn þann dag í dag. Meðvitund. Meðvitund er það ástand að vera var við sína eigin tilvist, tilfinningar, hugsanir, skynja umhverfi sitt og svo framvegis. Meðvitund er mikið rannsökuð af hugspeki, sálfræði, taugavísindum og hugfræði. Almennt séð felur meðvitund í sér að vera vakandi og bregðast við áreiti frá umhverfinu (sjá þó drauma) og andstæða hennar er að vera sofandi eða í dauðadái. Geðshræring. Geðshræring er flókin viðbrögð við taugaboðum sem stafa af innra eða ytra áreiti. Geðshræringar geta verið ýmist jákvæðar (gleði, hamingja) eða neikvæðar (reiði, sorg) eða hvorugt (undrun). Geðshræringar tengjast tiltekinni hegðun (til dæmis hlátur eða grátur), innri reynslu og tilhneigingu, líkamlegri örvun, námi og virkni taugakerfisins. Geðshræringar þjóna því hlutverki að túlka reynslu og hafa því mikið að segja fyrir nám og eru líka mikilvægur þáttur í samskiptum. Tilfinningar eru huglæg upplifun geðshræringa. Hamingja. Hamingja, sæla eða lukka er tilfinning fyrir gleði, ánægju og velferð. Hamingja er flókin tilfinning sem erfitt er að festa hendur á. Hugtakið er samt mikilvægt í heimspeki, sálfræði og í trúarbrögðum auk þess sem markaðsrannsóknir ganga oft út á að reyna að meta hvað það er sem gerir fólk hamingjusamt. Hatur. Hatur er orð sem lýsir sterkri andúðartilfinningu í garð einhvers, sem og fordómum gegn ákveðnum hópi fólks, eins og kynþáttahatur er dæmi um. Depurð. Depurð eða hryggð er skap sem felur í sér tilfinningu fyrir missi, sorg, þunglyndi. Þegar fólk er dapurt er það oft hæglátt, orkulítið og heldur sig til hlés. Hugsun. Hugsun er hugrænt ferli sem gerir verum kleift að gera sér eftirmynd af umheiminum og takast á við hann með skilvirkum hætti samkvæmt sínum markmiðum, áætlunum, tilgangi og löngunum. Skyld hugtök eru skilningur, skynjun, meðvitund, hugmynd og ímyndun. Framburður. Framburður er það hvernig orð eru sögð (borin fram) í töluðu máli, venjulega með vísun til hljóðfræðinnar og hljóðkerfis hvers tungumáls. Framburður getur verið mismunandi milli hópa málhafa í tilteknu tungumáli. Í íslensku má nefna sem dæmi um staðbundinn framburð bæði norðlenskan framburð og skaftfellskan einhljóðaframburð. Gó. Gó er borðspil sem tveir spila. Það er kallað "wéiqí" á kínversku (hefðbundin kínverska: 圍棋; einfölduð kínverska: 围棋), "igo" (囲碁) eða "go" (碁) á japönsku, og "baduk" á kóresku (hangúl: 바둑). Spilið á uppruna sinn í Kína löngu áður en elstu ritheimildir á 5. öld f.Kr. geta þess. Það er vinsælast í Austur-Asíu, en hefur á síðari árum notið nokkurra vinsælda annars staðar líka. Gó er þekkt fyrir að vera taktískt flókið spil þrátt fyrir einfaldar reglur. Bardagaíþrótt. Bardagaíþrótt er íþrótt þar sem tveir eða fleiri keppa í bardaga í návígi samkvæmt tilteknum keppnisreglum ýmist með eða án vopna. Dæmi um bardagaíþróttir eru hnefaleikar, glíma, sjálfsvarnaríþróttir og skylmingar. Veisla. Veisla, teiti, samkvæmi eða gleðskapur (líka partí eða partý) er mannfögnuður sem getur verið af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum. Orðið á við um mannfagnaði þar sem lítill hópur fólks kemur saman til að skemmta sér á litlu afmörkuðu svæði, ólíkt hátíð þar sem mannfjöldi kemur saman af einhverju tilefni. Dæmi um veislur eru til dæmis afmælisveislur, skírnarveislur, matarboð, kveðjuveislur og erfidrykkjur. Lag. Lag er tónlistarverk sem byggir á samspili hljóðs og þagnar. Reynsla. Reynsla er þekking og hæfni sem fengin er með því að reyna ákveðna hluti. Húmanismi. Húmanismi er afstaða í námi, heimspeki eða heimsmynd þar sem höfuðáhersla er lögð á manninn. Hugtakið húmanismi er torrætt og hefur verið notað í margvíslegum skilningi, það er þó algengast að það sé notað í eftirfarandi skilningi: (1) fornmenntastefnu tengda Ítölsku endurreisninni (sjá Húmanismi endurreisnarinnar), sem lagði áherslu á grískar og rómverskar bókmenntir, mælskulist og heimspeki sem góða uppeldis- og kennslustefnu (sjá Humanitas). Þessi skilningur á húmanisma er ekki í mótstöðu við skipulögð trúarbrögð. Ennfremur er í nútímalegum skilningi átt við menningartengda sögulega starfsemi í víðari skilningi (en einvörðungu gríska og rómverska menningu) með húmanisma. Í öðrum skilningi (2) er átt við veraldlega hugmyndafræði í anda Upplýsingarinnar sem leggur áherslu á skynsemi, siðfræði og réttlæti og hafnar yfirnáttúrulegu eða trúarlegu dogma sem grunninn að góðu siðferði. Þessi seinni skilningur hefur leitt af sér því sem kalla má veraldlegan húmanisma. Þennan veraldlega skilning má rekja til frumgyðistrúar og hreyfingun mótsnúnum kirkjunni í kjölfar Upplýsingarinnar og ýmsar hreyfingar á 19. öld s.s. pósitívisma sem byggðu á vísindum. Geimkönnun. Geimkönnun kallast það að nota stjörnufræði og geimtækni til að kanna geiminn. Könnun á geiminum er framin af annaðhvort mönnum eða vélmennum. Þar sem stjörnufræði kallast það að athuga geiminn frá Jörðinni og hefur verið stunduð frá ómunatíð var geimkönnun aftur á móti gerð að raunveruleika á 20. öld með þróun stórra og hagkvæmra geimflauga. Almennar ástæður sem lagðar eru fram fyrir könnun geimsins eru m.a. framþróun vísindarannsókna, samvinna milli þjóða og sköpun aðstöðumuna miðað við önnur lönd. Mikil samkeppni hefur verið milli þjóða á leiðinni til könnunar geimsins, t.d. á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Kalda stríðinu. Fyrsta tímabilinu í könnun geimsins fylgdi Geimferðakapphlaupið, þar sem fyrirnefndu lönd kepptu við hvorn annan. Spútnik 1, það fyrsta geimfar sett á braut um jörðu, var skotið í geiminn af Sovétríkjunum 4. október 1957. Það fyrsta geimfarið sem lendi á Tunglið var bandaríska geimskipið Apollo 11, sem lendi þar 20. júlí 1969. Sovétríkin náðu mörgum tímamótum fyrst, t.d. sú fyrsta lifandi vera á braut um jörðu, það fyrsta geimflug með menn um borð (Júrí Gagarín um borð í Vostok 1) árið 1961, sú fyrsta geimganga (Aleksei Leonov) árið 1965, sú fyrsta lending á annan himnihnött (Lúna 9) árið 1966 og sú fyrsta geimstöð (Saljút 1) árið 1971. Eftir fyrstu tuttugu ár í könnun geimsins var byrjað á þroún endurnýtanlegra geimfara eins og Space Shuttle. Nýtt samvinnu- í stað fyrir samkeppnistímabil fygldi þessum árum, og verkefni eins og Alþjóðlega geimstöðin hófust. Frá tíunda áratugnum varð til mikill áhugi á geimferðamennsku og þróun einkageimgeira. Árið 2003 sendi Alþýðulýðveldið Kína mann upp í geiminn og Evrópusambandið, Japan og Indland hafa öll staðfest að þau ætli að senda fleiri menn upp í geiminn. Bandaríkin sögðust ætla að senda geimfar aftur til Tunglsins fram að 2018 og síðar annað til Mars. Hæfni. Hæfni er eiginleiki sem þróast með þekkingu og reynslu. Tilfinning. a> eru notaðir til að tjá tilfinningar. Tilfinning er meðvituð huglæg upplifun geðshræringar eða snertingar. Fransk-prússneska stríðið. Otto von Bismarck og Napoleon 3. eftir orrustuna við Sedan. Fransk-prússneska stríðið (19. júlí 1870 – 10. maí 1871) var stríð milli Frakklands og Prússlands, sem naut fulltingis annarra þýskra ríkja. Afgerandi sigur Prússlands leiddi til sameiningar þýsku ríkjanna í Þýska keisaraveldið undir Vilhjálmi 1. keisara. Það leiddi einnig til falls Napoleons 3. og stofnunar lýðveldisins. Í friðarsáttmálanum var kveðið á um að Prússland fengi Alsace-Lorraine héruðin en þau tilheyrðu Þýskalandi þar til eftir fyrri heimsstyrjöldina. Yfirburðir prússneska hersins urðu fljótt ljósir og stöfuðu meðal annars af notkun járnbrauta og nýtískulegs stórskotaliðs. Prússar unnu nokkra auðvelda sigra í Austur-Frakklandi og í orrustunni við Sedan þann 2. september 1870 handsömuðu þeir Napoleon 3. ásamt öllum her sínum. Þetta batt þó ekki endi á stíðið, því lýðveldi var stofnað í París tveimur dögum síðar og mótspyrna Frakka hélt áfram. Eftir fimm mánaða langt stríð unnu prússneskar og þýskar hersveitir franskar hersveitir í röð bardaga í Norður-Frakklandi og í kjölfar umsáturs um borgina féll París í hendur Prússa þann 28. janúar 1871. Tíu dögum síðar var stofnun Þýska keisaraveldisins. Friðarsáttmáli var undirritaður í Frankfurt þann 10. maí 1871. Handknattleikssamband Íslands. Handknattleikssamband Íslands, eða HSÍ er samband sem heldur utan um handknattleiksiðkun á Íslandi. Sambandið var stofnað 11. júní 1957. Formaður sambandsins er Guðmundur B. Ólafsson og framkvæmdarstjóri þess er Einar Þorvarðarson. Sambandið heldur úti deildakeppni í handknattleik, bikarkeppni karla, bikarkeppni kvenna og deildabikar. Úrvalsdeild karla í handknattleik. Olís deild karla er efsta deild karla í handknattleik á Íslandi og er hún rekin af Handknattleikssambandi Íslands. Keppnin hefur farið fram árlega síðan 1940. Valur hefur sigrað oftast allra liða eða 21 sinni. Þrándheimur. Þrándheimur (norska: "Trondheim": Suðursamíska "Tråante") er þriðja stærsta borg og sveitarfélag Noregs, með um 160.000 íbúa. Sveitarfélagið er staðsett í Suður-Þrændalags fylki, sem er í miðju Noregs. Íbúar sveitarfélagsins eru 160.000, en íbúar borgarinnar eru um það bil 150.000. Árið 1963 sameinuðust sveitarfélögin Byneset, Leinstrand, Strinda og Tiller með Þrándheimi. Þrándheimur var áður kallaður Niðarós, sem eitt sinn var höfuðborg Noregs og einnig Íslands, þegar norðmenn réðu yfir því. Leifur Eiríksson bjó í Þrándheimi í kringum árið 1000. Mikill eldur varð í Þrándheimi árið 1651, og eyðilagði bruninn 90 % af allri borginni. Árið 1681 var hún endurbyggð. Suður-Þrændalög. Suður-Þrændalög (norska: "Sør-Trøndelag") er fylki í miðju Noregs, 18.848 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 283.000. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Þrándheimur, með um 160.000 íbúa. Þrándheimur er einnig þriðja stærsta borg Noregs. Fylkið er í landshlutanum Þrændalög. Hagaskóli. Hagaskóli er grunnskóli í vesturbæ Reykjavíkur. Skólinn tók til starfa í hluta núverandi húsnæðis 1. október 1958. Skólinn tók við starfi þess skóla sem áður nefndist Gagnfræðaskólinn við Hringbraut og var að Hringbraut 121. Sá skóli tók til starfa 1. október 1949. Hagaskóli var byggður í áföngum 1956 – 1963 og svo aftur veturinn 1988 – 1989 en þá var byggð ný álma meðfram Dunhaga með 7 kennslustofum. Þröngt hefur verið í skólanum alla tíð. Vesturbærinn byggðist hratt á 6. og 7. áratugnum og um 240 nemenda árgangar bættust árlega við. Við það að Miðbæjarskólinn var lagður niður og skólahverfið stækkaði þurfti skólinn að vera tvísetinn og kennt fram undir kvöld. Nemendafjöldi fór þá yfir 850. Fólksfjöldi í hverfinu minnkaði þegar byggðin í Reykjavík teygðist austur á bóginn og hægt var að afnema tvísetningu skólans 1976. Skólahverfi Hagaskóla er allur Vesturbærinn frá Reykjavíkurflugvelli og Lækjargötu út að Seltjarnarnesi. Auk heimafólks hafa jafnan verið allmargir nemendur utan hverfis í skólanum en verulega hefur verið þrengt að möguleikum nemenda utan Reykjavíkur að sækja skóla þar eftir að grunnskólarnir færðust yfir til sveitarfélaga. Nemendum fækkaði nokkuð undir aldarmótin og komu 170 manns inn í hverjum árgangi á þeim tíma þeim hefur þó smámsaman fjölgað eftir það. Ýmsir þjóðþekktir einstaklingar hafa stundað nám við skólann og má þar nema sem dæmi Boga Ágústsson fréttamann og Pál Óskar söngvara Bouveteyja. Bouveteyja (norska: "Bouvetøya", einnig sögulega þekkt sem Liverpooleyja ellegar Lindsayeyja) er óbyggð sub-antarktísk eldvirk eyja í Suður-Atlantshafi, suð-suðvestur af Góðrarvonarhöfða (Suður-Afríku). Hún er hjálenda Noregs, en er ekki hluti af Suðurskautsbandalaginu, þar sem eyjan er norðan breiddarbaugsins sem Suðurskautsbandalagið takmarkast við. Landafræði. Bouveteyja er staðsett á hnitpunktunum 54°26′ S 3°24′ A. Hún er 49 km², og eru 93% af þeim 49 km² (45,57 km²) hulin ís sem hylur suður- og austurströndina. Bouveteyja er afskekktasta eyja í heiminum. Næsta fasta land er Land Maud drottningar, Suðurskautslandinu, sem er fjær en 1.600 km (1.000 mílur) suður og einnig óbyggt. Á eyjunni eru engar hafnir, aðeins skipalægi úti á sjó, og er hún þess vegna illaðgengileg. Öldugangur við eyjuna hefur skapað mjög bratta strönd. Auðveldast er að komast að eyjunni með þyrlu frá skipi í grennd. Jöklarnir mynda þykkt íslag sem fellur af háum klettum ofan í sjóinn eða ofan á svartar strandir með eldfjallasandi. Strandlengjan (29,6 km (18,4 mílur)) er oft umkringd hafís. Hæsti punktur eyjunnar nefnist "Olavtoppen", og er 780  m (2,559  fet) yfir sjávarmáli. Hraunbreiða á vesturströnd eyjarinnar, sem birtist á milli áranna 1955 og 1958, hefur nýst sem varpstaður fugla. Vegna slæmra veðurskilyrða og ísilagðrar jarðar, vaxa aðeins fléttur og mosar á eyjunni. Selir, sjófuglar og mörgæsir eru eina dýralífið. Þrátt fyrir að vera óbyggð, hefur Bouveteyja þjóðarlénið .bv, en það hefur þó aldrei verið notað. Lítill hópur útvarpsamatöra hafa ferðast á þennan afskekkta stað (kallmerki notuð hér byrja á "3Y"). Það er ekkert landsnúmer eða svæðisnúmer, og ekkert símasamband (fyrir utan gervihnattasamband, en það er ekkert sem er uppsett). Það er ekkert póstnúmer og engin póstþjónusta. Skip sem koma að Bouveteyju teljast innan UTC Z tímabeltisins. Það eru norsk lög sem segja að tími á norskum hjálendum eigi að vera UTC+1, nema á ákveðnum hluta árs eða DST (Daylight saving time). Þetta þýðir að lögbundni tíminn á Bouveteyju er UTC+1, líkt og Jan Mayen sem er staðsett í UTC-1 tímasvæðinu, en lýtur þó sömu lögum og Bouvet eyja og er í UTC+1. Saga. Bouvet eyja var fundin þann 1. janúar árið 1739 af Jean-Baptiste Charles Bouvet de Lozier, sem stjórnaði frönsku skipunum "Aigle" og "Marie". Hann skráði þó ekki stöðu eyjarinnar rétt, heldur 8 gráðum austar. Bouvet sigldi ekki í kringum fund sinn, svo að þá var enn óljóst hvort þetta væri eyja eða hluti af heimsálfu. Árið 1772 hélt kapteinn James Cook frá Suður-Afríku í sendiför til þess að finna eyjuna, en þegar hann kom að hnitunum 54°S, 11°E þar sem Bouvet hafði sagst hafa séð eyjuna, var ekkert að sjá. Cook gerði ráð fyrir að Bouvet hefði ruglast á hafísjaka og eyju, og hætti við leitina. Eyjan var ekki séð aftur fyrr en árið 1808, þegar James Lindsay sá hana, kapteinn Enderby Company-hvalveiðiskipsins "Snow Swan". Þrátt fyrir að hafa ekki fest land þar varð hann fyrsti maðurinn til þess að staðsetja eyjuna rétt. Á þessum tíma var oft talað um eyjuna sem Lindsay eyju, enda þótti ekki alveg víst að þetta væri sama eyjan og Bouvet hafði séð. Það var í desember árið 1822 sem fólk gekk á eyjunni í fyrsta sinn, en þá lenti kapteinninn Benjamin Morrell selveiðibátnum "Wasp" á eyjunnu í leit að sel. Hann fan nokkra seli og veiddi fyrir skinnið. Þann 10. desember árið 1825 lenti kapteinn Norris, skipstjóri Enderby Company-hvalveiðiskipanna "Sprightly" og "Lively" á eyjunni, og nefndi hana "Liverpooleyju", og gaf Bresku krúnunni. Aftur var ekki vitað hvort þetta væri sama eyja og fundist hafði fyrr á þessum slóðum. Hann sagðist einnig hafa séð aðra eyju nálægt, sem hann nefndi Thompsoneyju. Engar leifar eru eftir af þessari eyju. Árið 1898 kom skip þýsku "Valdivia"-sendifararinnar sem Carl Chun stýrði að eyjunni en lenti ekki. Fyrsta langa seta á eyjunni var árið 1927, þegar hin norska áhöfn skipsins "Norvegia" dvaldist á eyjunni í um það bil mánuð, og á þessari dvöl byggist tilkall leiðtoga áhafnarinnar, Lars Christensen, á eyjunni fyrir hönd Noreg, en Norðmenn nefndu eyjuna Bouveteyju (Bouvetøya). Eyjan var innlimuð í Noregsríki þann 1. desember árið 1927 með konunglegri tilskipun þann 23. janúar árið 1928, og varð Bouveteyja varð þá norsk hjálenda. Árið eftir dró Stóra-Bretland til baka tilkall sitt til eyjunnar. Árið 1930 voru samþykkt lög í norska þinginu um að eyjan yrði hjálenda sem lyti valdi Noregs, en væri ekki hluti af ríkinu sjálfu. Árið 1964 fannst björgunarbátur á eyjunni, ásamt fleiri þarfaþingum; en því miður voru farþegar björgunarbátsins horfnir. Árið 1971 voru Bouveteyja og landhelgi hennar gerð að náttúruverndarsvæði. Á árunum milli 1950 og 1960 sýndi Suður-Afríku því áhuga að koma þar fyrir veðurathugunarstöð, en aðstæður voru taldar of óöruggar. Eyjan er enn óbyggð, en fjarstýrð veðurathugunarstöð var byggð þar árið 1977 af Norðmönnum. Þann 19. október árið 2007 tilkynntu norskir pólskoðunarmenn að gervihnattarmyndir sýndu ekki lengur upplýsingastöðina sem byggð var á eyjunni árið 1994. Talið er að stöðin hafi fokið út á sjó. Jarðskjálfti á svæðinu sem varð árið 2006 á að hafa veikt grunn stöðinnar, og gert hana auðveldari bráð fyrir öflugan vind á svæðinu. Bouveteyja í skáldskap. Eyjan kemur fyrir í myndinni "Alien vs. Predator" sem frumsýnd var árið 2004, þar sem þeir nota norska nafnið Bouvetøya. Í einni gerð myndarinnar er þó bent á eyjuna á gervihnattarmynd á u.þ.b. sama stað og Eyja Péturs I. Bláhegri. Bláhegri (fræðiheiti: "Ardea herodias") er vaðfugl af hegraætt. Hann er algengur í Norður- og Mið-Ameríku, í Vestur-Indíum og á Galapagoseyjum. Bláhegri er stærsti ameríski hegrinn. Hann er 91-137cm á lengd frá gogg að stéli og með 180cm vænghaf. Hann vegur 2,2-3,6kg. Hann er aðallega blágrár að lit með svartar flugfjaðrir, rauðbrún læri og rauðbrúnar og svartar rendur á síðunum. Höfuðið er ljósara og andlitið næstum hvítt og svart fjaðraskraut sem liggur frá augunum og aftur á hnakka. Goggurinn er gulur en verður appelsínugulur í stutta stund við upphaf fengitímans. Gulrófa. Gulrófa (eða rófa) (fræðiheiti: "Brassica napobrassica" eða "Brassica napus" var. napobrassica) er rótarávöxtur sem upphaflega var kynblendingur hvítkáls og næpu. Lauf rófunnar eru vel æt en sjaldan nýtt. Gulrófan er stundum kölluð „appelsína norðursins“ vegna hins háa C-vítamíns-innihalds hennar. Saga. Gulrófan er upprunnin í Norður-Evrópu og barst frá Svíþjóð til Bretlands og Norður-Ameríku þar sem hún er líka þekkt sem „Svíi“ ("Swede") eða „sænsk næpa“ ("Swedish turnip"). Á Íslandi er hennar fyrst getið í ræktun í byrjun 19. aldar. Hún fékk á sig slæmt orð sem neyðarfæða „gulrófuveturinn“ ("Steckrübenwinter") 1916-1917 í Þýskalandi þar sem bæði korn- og kartöfluuppskeran höfðu brugðist vegna stríðsins og margar fjölskyldur þurftu að lifa nánast eingöngu á gulrófum. Matreiðsla. Gulrófur eru góðar hráar en algengast er þó að nýta þær soðnar í grænmetismauk (oft blandað við aðra rótarávexti) eða súpur eins og t.d. rófustöppu og íslenska kjötsúpu. Blöndal. Blöndal er næst algengasta ættarnafnið á Íslandi. Orðabók Blöndals. Orðabók Blöndals er íslensk-dönsk orðabók, útgefin á árunum 1920-1924. Höfundar hennar voru hjónin Sigfús Blöndal og Björg C. Þorláksson, en þrátt fyrir það er hún alltaf nefnd "Orðabók Blöndals" eða Blöndalsbókin. Aðrir aðstoðarmenn hjónana voru Jón Ófeigsson og Holger Wiehe. Vinna við orðabókina hófst árið 1904 og í henni eru flest þau orð sem notuð voru í íslenskri tungu frá því um árið 1800. Orðabók Blöndals er enn þann dag í dag víðfeðmasta orðabók sem út hefur komið og inniheldur útskýringar á íslenskum orðum, orðatiltækjum og málsháttum. Orðabók Blöndals er ekki hægt að nota sem stafsetningaorðabók, því nú gilda aðrar reglur um stafsetningu en þegar hún var samin. Auk þess tilgreinir Blöndal oft mismunandi rithátt og fer þá eftir þeim bókum, sem orðteknar hafa verið, en þær geta vitanlega staðið á ólíku stigi að þessu leyti. Norwich City F.C.. Norwich City Football Club (einnig þekktir sem Kanarífuglarnir) er enskt knattspyrnufélag staðsett í Norwich, Norfolk. Norwich eru nú í Ensku úrvalsdeildinni. (enska deildarpýramídans). Þeir voru meðal stofnenda ensku úrvalsdeildarinnar núverandi á árunum 1991 til 1992, og spiluðu í þeirri deild fyrstu þrjú árin og snéru svo aftur eina leiktíð á árunum 2004 til 2005. Þeir komust upp í ensku efstu deildina árið 1972, og hafa spilað samtals 18 leiktíðir í efstu deild, lengsta samfellda tímabilið varði í 9 ár. Norwich hafa unnið enska deildarbikarinn tvisvar, annarsvegar árið 1962 og hinsvegar árið 1985. Félagið var stofnað þann 17. júní árið 1902. Síðan árið 1935, hafa Norwich leikið leiki sína á Carrow Road og hafa verið erkióvinir austur-anglíska nágrananna Ipswich Town, sem að þeir hafa keppt í austur-anglíska-leiknum 134 sinnum, og hafa borið sigur úr býtum 51 sinni frá árinu 1902. Stuðningsmannalagið "On The Ball, City" er sagt vera elsta fótboltalag í hinum enskumælandi heimi. Roger Munby. Roger Munby er stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Norwich City F.C. sem leikur í ensku meistaradeildinni. Munby varð stjórnarmaður í maímánuði árið 1996 og hafði einnig verið það á milli janúarmánaðar 1986 þangað til í septembermánuði. Han tók við stjórnarformannsstöðunni af Bob Cooper árið 2002. Rogaland. Rogaland er fylki í suðvestur Noregi, 9.378 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 412.000. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Stafangur, með um 117.500 íbúa, sem er nærrum því jafn margir og íbúar Reykjavíkur, þar sem búa 500 manns fleiri. Stafangur er einnig fjórða stærsta borg Noregs. Fylkið er í landshlutanum Vesturland. Klauflax. Klauflax er feluorð yfir kjöt af klaufdýri, og var notað á föstunni meðan ekki mátti borða kjöt. Nína Sæmundsson. Nína Sæmundsson (fædd Jónína Sæmundsdóttir í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð 1892, dáin í Reykjavík 1965) var íslenskur myndlistarmaður, sem starfaði lengst af í Bandaríkjunum. Nína nam við hina "Konuglegu dönsku listaakademíu" í Charlottenborgarhöll undir leiðsögn Julius Schultz og Einar Ultzon-Frank. Þekktust er hún fyrir höggmyndir sínar, þ.á m. "Sofandi drengur", "Móðurást", "Afrekshugur", sem stendur yfir aðalanddyri Waldorf-Astoria hótelsins við Park Avenue í New York. Höggmynd hennar, "Hafmeyjan", sem var á Tjörninni í Reykjavík, var sprengd í loft upp á nýársdag 1960. Nína helgaði sig málaralist síðustu æviár sín. Árið 2004 færði Ríkey Ríkarðsdóttir, myndlistarkona og náfrænka Nínu, Listasafni Reykjavíkur að gjöf 11 höggmyndir eftir Nínu. Nínu er stundum ruglað saman við nöfnu sína, Nínu Tryggvadóttur, myndlistarkonu. Nína var trúlofuð Gunnari Thorsteinssyni, bróður myndlistarmannsins Muggs, þegar hann lést árið 1921 langt fyrir aldur fram. Gunnlaugur Scheving. Nokkrar af myndum Gunnlaugs Scheving hanga uppi í útvarpshúsinu við Efstaleiti. Hér má sjá í bakgrunni eina mynda hans Gunnlaugur Óskar Scheving (8. júní 1904 – 9. september 1972) var íslenskur myndlistarmaður og einn þekktasti listmálari Íslendinga á 20. öld. Gunnlaugur stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn. Gunnlaugur ólst upp á Seyðisfirði. Úrsmiðurinn þar átti ensk littímarit með myndum, hann kenndi Gunnlaugi ensku og dáðist Gunnlaugur mjög að myndunum. Foreldrar Gunnlaugs sendu hann 5 ára gamlan í fóstur á Unaósi og síðar Seyðisfirði. Sextán ára sneri hann aftur til Reykjavíkur til að vinna á Morgunblaðinu hjá frænda sínum, ritstjóranum og skáldinu Þorsteini Gíslasyni. Gunnlaugur lærði teikningu hjá Einari Jónssyni og er meðal fyrstu nemenda Muggs í skólanum við Hellusund. Árið 1923 fór hann til Kaupmannahafnar, reyndar með viðkomu í Eyjum, Austfjörðum, Leith (við Edinborgh) og Osló. Hann nam við listaakademíuna þar en á meðan hann bjó sig undir inngöngu bjó hann í húsnæði Nínu Sæmundsson sem þá var á Ítalíu. Hann fékk enga sumarvinnu í Danmörku og vann því við kolauppskipun heima. Eftir sumarið hafði hann ekki efni á að snúa aftur og þar sem hann fær engan styrk hann er heima til 1925. Hann var í Akademíinu til 1930. Verk hans, Bassabáturinn, var í öndvegi Landakotssýningarinnar 1930. Hún er máluð miðað við gullinsnið. Gunnlaugur málaði um tíma á Þingvöllum með Jóni Engilberts og Eggert Guðmundssyni. Hann flutti eftir það á Seyðisfjörð en hélt sýningar í Reykjavík. Á þessum tíma var dyggasti stuðningsmaður Gunnlaugs járnsmiðurinn Markús Ívarsson sem lét listaverkakaup framar öðrum þörfum sínum. Gunnlaugur giftist Grete Linck, samnemanda úr listnámi í Kaupmannahöfn og héldu þau sýningar saman. Gunnlaugur dvaldi hjá Sigvalda Kaldalóns í Grindavík um 1940 og málaði þá margar sjávarmynda sinna. Hann bjó einnig hjá Ragnari Ásgeirssyni ráðunauti við Laugarvatn. Hann gerði myndir um Landnámið fyrir lýðveldishátíðina úr lituðum pappír. Þær myndir sýna m.a. Hrafna-Flóka, Ingólf og Hjörleif og öndvegissúlurnar. Auk þess að myndskreyta Njálu myndskreytti hann Gretlu og var fyrirmynd hans norsk skreyting Heimskringlu. Heimildir. Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, I (1964) eftir Björn Th. Björnsson Málmfræði. Málmfræði er sú grein efnafræðinnar sem rannsakar eiginleika málmkenndra frumefna og málmblendur. Málmfræði hefur verið stunduð frá byrjun bronsaldarinnar má segja því þá lærðu menn að blanda saman tini og kopar til að mynda málmblenduna brons. Í dag er hún aðallega stunduð til að læra að búa til nýjar og ódýrar málmblöndur sem vinna betur en þær málmblöndur sem við þekkjum í dag. Örtækni. Örtækni (stundum líka kölluð "nanótækni") er breitt svið innan tæknigeirans sem hefur það að markmiði að hann og þróa tæki til að vinna með efni á nanó stærðarskalanum, venjulega á bilinu 1 til 100 nm. Einnig fellur það undir örtækni að þróa smátæki með því að stýra efninu á nanó stærðarskalanum. Mikil von er bundin við þessa tækni innan læknavísindanna með því að hanna betri tæki sem geta skoðað líkamann án þess að valda óþarfa skaða á heilbrigðri starfsemi líkamans. Útgáfur af Windows Vista. Windows Vista kemur í sex útgáfum, Windows Vista Starter, Windows Vista Home Basic, Windows Vista Home Premium, Windows Vista Business, Windows Vista Enterprise og Windows Vista Ultimate. Allar útgáfur nema "Windows Vista Starter" styðja bæði 32-bit(x86) og 64-bit(x64) Windows Vista Starter. Mjög líkt Windows XP Starter Edition verður þessi útgáfa fyrir lönd eins og Brasilíu, Kólumbíu, Indland, Taíland, Indónesíu og Filippseyjar, aðallega til að bjóða löglegar útgáfur til að fólk steli ekki öðrum útgáfum. Hún er ekki fáanleg í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu eða Ástralíu. Windows Vista Home Basic. Mjög líkt Windows XP Home Edition er Home Basic fyrir notendur sem þurfa ekki margmiðlun heima og er þessi útgáfa ódýr. Windows Aero þemað fylgir ekki þessari útgáfu. 64-bita Home Basic styður allt að 8 GB af vinnsluminni og verður stutt til ársins 2012. Windows Vista Home Premium. Þessi útgáfa inniheldur alla eiginleika frá Home Basic og fleira, til dæmis HDTV stuðning. Þessi útgáfa er sambærileg Windows XP Media Center Edition. Windows Aero fylgir með þessari útgáfu. Windows Vista Business. Þessi útgáfa er sambærileg Windows XP Professional og Windows XP Tablet PC Edition. Henni er beint að minni fyrirtækjamarkaði. Hún inniheldur alla eiginleika Home Premium nema Windows Media Center og allt sem því fylgir. Hún inniheldur í staðinn eiginleika sérstaklega ætlaða fyrirtækjum. Windows Vista Enterprise. Þessi útgáfa er aðeins fyrir fyrirtæki. Enterprise er sér hannað fyrir stærri fyrirtæki og aðeins fáanlegt fyrir þá sem eru í hópi "Microsoft's Forrits Triggingu". Hún er með alla eiginleika Windows Vista Business og nokkra til viðbótar. Windows Vista Ultimate. Þessi útgáfa inniheldur alla eiginleika úr Home Premium og Enterprise útgáfunum og fleira. Meðal annars hreyfanlegan bakgrunn á skjáborðið. Garrí Kasparov. Garrí Kasparov (f. 13. apríl 1963) er rússneskur skákmeistari og stjórnmálamaður. Garrí varð yngsti skákmeistari sögunnar þegar hann varð FIDE meistari árið 1985 og hélt titlinum til ársins 1993 þegar upp komu ósætti milli hans og stjórnar FIDE sem leiddi til þess að hann og Nigel Short stofnuðu annað skáksamband sem kallaðist atvinnu skáksambandið. Árið 2007 ætlaði Kasparov að bjóða sig fram til forsetakosninganna í Rússlandi sem framboðsaðili stjórnmálasamtakanna Hið Annað Rússland, en náði ekki að skrá inn framboð sitt áður en framboðsfresturinn rann út. Þriðja ríkið. Þýskaland árið 1939 eftir innlimun Bæheims, Mæra og Austurríkis. Þriðja ríkið (stundum kallað Þýskaland Hitlers eða Þýskaland nasismans'") var Þýskaland undir flokksræði nasista og leiðtoga þeirra Adolfs Hitlers 1933 til 1945. „Þriðja“ vísar til þess að Þýska keisaraveldið var „annað ríkið“ og hið Heilaga rómverska ríki „fyrsta ríkið“. Þýskaland undir stjórn nasista rak útþenslustefnu í nafni kenningarinnar um landrými ("Lebensraum") og ofsóttu gyðinga og önnur þjóðarbrot innan ríkisins á grundvelli hugmynda um arískan uppruna Þjóðverja og nauðsyn þess að viðhalda eða endurheimta „hreinleika“ kynþáttarins. Í nafni þessara hugsjóna stunduðu Þjóðverjar árásargjarna utanríkisstefnu og lögðu nágrannalönd sín undir sig með hervaldi á fyrstu árum Síðari heimsstyrjaldarinnar. Bæði í Þýskalandi og hinum hernumdu löndum var stunduð skipuleg einangrun og fjöldamorð á gyðingum, sígaunum, stríðsföngum, fötluðum, samkynhneigðum og fleiri hópum sem taldir voru ógnun við hinn aríska kynþátt. Morð á gyðingum voru svo víðtæk, kerfisbundin og skilvirk að þau eru nefnd helförin. Þriðja ríkið náði hátindi sínum á fyrstu árum styrjaldarinnar og Þýskaland varð stórveldi innan Evrópu um 1940. Eftir ósigur Þjóðverja í Síðari heimsstyrjöldinni var Þýskaland og stór hluti Evrópu í rúst og landinu var skipt í tvö ríki: Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland, sem saman náðu yfir mun minna landsvæði en Þýskaland hafði náð yfir fyrir styrjöldina. Prússland leið formlega undir lok sem sérstakt fylki. Þýsku ríkin tvö sameinuðust svo árið 1990. Feluorð. Feluorð (eða nóaorð) er orð notað í stað bannorðs, og tengist oft hjátrú, þ.e.a.s. að nefna ekki það sem um er rætt réttu nafni til að forðast að eitthvað fari öðruvísi en ætlað var. Refaskyttur nefna t.d. refinn oft "lágfótu" til að refurinn „hafi ekki pata“ af hvað skyttan ætlar sér. Þá má líka nefna fjölbreytni íslenskunnar um hákarlsheiti, og eru sum þau orð bannorð eða feluorð, sem algengt var í sambandi við sjómennsku. Bannheldi og feluorð skipa þó mun meira rúm í færeysku en íslensku. Orðið "nóa" í nóaorð er ættað úr Kyrrahafseyjum og merkir: "óguðlegur". Nafnavíti. Nafnavíti (eða nafnvíti) er orð, eitt eða fleiri, sem ekki má nefna og er oftast haft um það sem ekki má nefna á sjó. Orðið "stökkull" er haft um hval sem eltir skip til að granda þeim. Það er þó einnig haft núorðið um tannhval, en hér er átt við hið fyrrnefnda. Dulnefni. Dulnefni (gríska: "pseudonym") (stundum einnig nefnt gervinafn og í vissum tilfellum skáldanafn, höfundarnafn eða listamannsnafn) er felunafn, oft nafn sem rithöfundur eða annar listamaður tekur sér og notar við verk sín til að dyljast eða skera sig úr fjöldanum. Æxlunarfæri. Mynd sem útskýrir æxlunarfæri kvenna. Mynd sem sýnir æxlunarfæri karla. Æxlunarfæri eru líffærakerfi í lífverum sem notast við kynæxlun. Þvagrás. Þvagrásin er rör sem tengir þvagblöðruna við ytri hluta líkamans. Er hún notuð til að bera þvag út fyrir líkamann, og hjá körlum er hún hluti af æxlunarfærunum þar sem hún er notuð til að flytja sæði. Káputapír. Káputapírinn er eitt af fjórum dýrum af tapíraætt og það stærsta í ættinni, og það eina sem á heimkynni sín í Asíu. Káputapírinn er styggur einfari sem lifir í fenjaskógum. Hann er vel syndur og forðar sér út í vatn þegar hætta steðjar að. Eftirlætisfæða káputapírs eru vatnaplöntur, en hann gerir sér líka að góðu lauf, brum og aldin ýmissa landplantna. Smáratorg 3. Smáratorg 3 er háhýsi í Smáranum, Kópavogi. Veisluturninn er á efstu hæð turnsins. Byggingin skiptist í tvo hluta, láréttan grunn sem verður nýtt sem verslunarhúsnæði og háhýsið sjálft sem verður að mestu nýtt sem skrifstofuhúsnæði. Byggingin er 78 metrar að hæð, 20 hæðir og var kostnaður í upphafi talinn vera 2,3 milljarðar króna. Smáratorg 3 var hönnuð af Arkís. Pólitískur fangi. Pólitískur fangi er persóna sem er haldið föngum gegn vilja sínum vegna stjórnmálaskoðanna sinna. Nelson Mandela er t.d. eitt hið frægasta dæmi um pólitískan fanga, einnig Aung San Suu Kyi í Mjanmar. Amnesty International og önnur mannréttindasamtök berjast fyrir frelsi slíkra fanga. Brekkukotsannáll (kvikmynd). Brekkukotsannáll er kvikmynd bygð á samnefndri sögu eftir Halldór Laxness sem einnig lék agnarsmátt hlutverk í myndinni. Myndin var fyrst sýnd í sjónvarpinu 11. febrúar 1973. Leikstjóri myndarinnar var þýski leikstjórinn Rolf Hädrich. Boris Szulzinger. Boris Szulzinger er belgískur höfundur, leikstjóri og framleiðandi. Hann er vel þekktur fyrir kvikmyndina "The Lonely Killers" (1972) og ' (1975, leikstýrði með Picha). Kvikmyndirnar sem að hann hefur gefið út. ... einnig kölluð "Jungle Burger" (UK) ... einnig kölluð "Shame of the Jungle" (USA) ... einnig kölluð "Tarzoon: Shame of the Jungle" (USA) ... einnig kölluð "The Lonely Killers" ... einnig kölluð "Love Under Age" (USA) ... einnig kölluð "Nathalie After Love" Johan Friberg Da Cruz. Johan Friberg Da Cruz (fæddur 4. júní árið 1986) er sænskur knattspyrnumaður. Núverandi lið hans er GAIS. Eldri bróðir hans, Bobbie, spilar einnig með sama félagsliði. Klagenfurt. Klagenfurt er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Kärnten. Borgin er miðstöð ferðamennsku í suðurhluta Austurríkis. Lega og lýsing. Klagenfurt liggur við austurenda stöðuvatnsins Wörthersee syðst í Austurríki. Borgin liggur í fjalladal í 450 m hæð. Næstu borgir eru Villach til vesturs (20 km), Ljubljana í Slóveníu til suðurs (85 km) og Graz til norðausturs (130 km). Árnar Glan og Gurk renna í gegnum Klagenfurt. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítan varðturn á rauðum grunni. Fyrir framan er grænn dreki. Turninn er merki borgarinnar, en drekinn stendur fyrir þjóðsöguna um uppruna borgarinnar. Drekinn kom fyrst fyrir á 16. öld, en síðustu breytingar á merkinu voru gerðar á 20. öld. Orðsifjar. Mjög merkileg saga liggur að baki heitisins Klagenfurt, en það er upphaflega rómanskt. 3. júlí 2007 ákvað borgarráð að lengja heiti borgarinnar í Klagenfurt am Wörthersee. Breytingin var samþykkt í sambandsþingi Kärnten og tók gildi 1. febrúar 2008. Þjóðsaga. Lindwurm-brunnurinn minnir á þjóðsöguna um uppruna borgarinnar Til er þjóðsaga um uppruna borgarinnar. Í mýri við austurenda Wörthersee bjó dreki nokkur sem gerði sér far um að éta þær manneskjur sem voguðu sér að nálgast mýrina. Til að ráða niðurlögum drekans var reistur turn. Við hann var fest keðja með króki, en á krókinn var settur dauður uxi. Þegar drekinn nældi sér í uxann, festist hann við krókinn. Eftir það var hann barinn til bana af íbúunum í kring. Turninn varð síðan að miðborg Klagenfurt. Upphaf. Á 13. öld ríkti Spanheimer-ættin yfir svæðinu og hvatti fólk til að setjast að við austurbakka Wörthersee. Hertoganir Hermann og Bernhard af Spanheim gilda sem stofnendur Klagenfurt. Hermann reisti bæinn á mýrinni við Wörthersee, en þar flæddi gjarnan inn í bæinn. Bernhard færði því bæinn aðeins austar árið 1246, þar sem miðborgin stendur í dag. 1252 fékk Klagenfurt almenn borgarréttindi. Brátt fékk nýja borgin virki og borgarmúra. Hins vegar var íbúatalan nokkuð lág næstu aldir. Blómatími. Maximilian keisari veitir gildum borgarinnar frístatus. Veggmynd eftir Josef Ferdinand Fromiller. 1514 eyddi stórbruni nær gjörvallri borginni. Til að auðvelda uppbyggingu borgarinnar á ný veitti Maximilian keisari gildum borgarinnar gjafabréf, þ.e. þeim var veitt uppgjöf allra skatta og skyldna. Auk þess var myntsláttan færð frá St. Veit til Klagenfurt 1529, en hún reyndist borginni mikil lyftistöng. 1527 var lokið við að búa til lítinn skipaskurð frá borginni til bakka Wörthersee, Lendkanal. Með honum stórjókst verslun og varð Klagenfurt að mikilvægum áfangastað á verslunarleið til vesturs. Til austurs lágu árnar Glan og Gurk. Í kjölfarið óx Klagenfurt mikið og varð brátt að fjölmennasta bæ í Kärnten. Siðaskipti og gagnsiðaskipti. Siðaskiptin gengu í garð í Klagenfurt á fyrri hluta 16. aldar. Um miðja öldina var nánast öll borgin lútersk. Habsborgararnir voru hins vegar enn kaþólskir og rétt fyrir aldamótin 1600 var hafist handa við að umbreyta trúnni á ný. Gagnsiðaskiptin fóru fram með miklu valdi. Íbúar Klagenfurt voru gefnir þeir kostir að snúa til kaþólskrar trúar á ný eða yfirgefa landið. Lúterskar bækur voru brenndar og lúterskum kirkjum lokað (eða breytt í kaþólskar kirkjur). Harðast gengu Jesúítar fram. Snemma á 17. öld var öll borgin orðin rammkaþólsk á ný. 19. öldin. 1797 hertóku Frakkar Klagenfurt og aftur 1805-1809. Ekki kom til átaka í borginni, en Frakkar rifu niður borgarmúrana. Fyrir vikið myndaðist rýmra byggingapláss. Fátækt ríkti þó næstu áratugina. 1848 varð Kärnten myndað og varð Klagenfurt höfuðborg þess. Héraðsþing var sett í borginni. 1863 fékk Klagenfurt járnbrautartengingu, en við það óx borgin mjög. Iðnvæðingin fór þó rólega af stað. Þess í stað var landbúnaður nærsveita styrktur með áveitum. Iðnaður hélst takmarkaður. Til dæmis hafnaði borgarráð rafmagnsvæðingu borgarinnar árið 1896. Rafmagn komst ekki á í Klagenfurt fyrr en 1903 eftir miklar kappræður og samningsþóf. 20. öldin. Í fyrri heimstyrjöldinni lá Klagenfurt ekki langt frá bardagasvæðum við ítölsku landamærin. Þúsundir austurrískra hermanna fóru um borgina. Í stríðslok hertóku júgóslavneskar hersveitir borgina, en rétt áður hafði héraðsþingið í Klagenfurt flutt sig um set til bæjarins Spittal og síðar til St. Veit. Í júní 1919 urðu Júgóslavar að hverfa frá borginni á ný. Í almennri atkvæðagreiðslu 10. október 1920 kusu íbúar borgarinnar áframhaldandi tilveru í Austurríki, frekar en að sameinast Júgóslavíu. Við innlimun Austurríkis í Þýskaland 1938 urðu miklar breytingar í borginni. Austur-Tíról var sett undir stjórn Klagenfurts, sem og hlutar Slóveníu. Öll dagblöð voru bönnuð. Torgið Neuer Platz fékk heitið Adolf Hitler Platz og önnur torg hlutu heiti annarra háttsettra nasista. Nærliggjandi bæir voru sameinaðir Klagenfurt, sem þar með óx talsvert. Íbúar fóru úr 30 þús í 50 þús. Nær allir gyðingar borgarinnar voru fluttir brott þótt fáir væru (1934 voru þeir 269). Þeir voru aðeins 9 árið 1951. Frá 1945 til 1955 var Klagenfurt á breska hernámssvæðinu. Það var ekki fyrr en með brotthvarf breskra hermanna að borgin tók að dafna á ný. 1955 var fyrsta háhýsið reist. 1961 myndaðist fyrsta göngugatan í miðborginni, sú fyrsta í Austurríki. Skólar voru reistir. Í Klagenfurt er framhaldsskóli fyrir slóvenska minnihlutann. Háskóli var stofnaður í borginni 1970. Byggingar og kennileiti. Dómkirkjan í Klagenfurt stendur við torgið Neuer Platz Aberffrwd. Aberffrwd er þorp í Monmouthhéraði í Wales. Þorpið liggur við ána Usk rétt fyrir utan A40-veginn. Fjölmiðill. Fjölmiðill er miðill sem ætlaður er miklum fjölda fólks til afnota, lesturs eða áhorfs. Hugtakið varð til á 3. áratug 20. aldar vegna tilkomu útvarpsþáttagerðar, en fram að því var útvarpið fyrst og fremst notað sem samskiptatæki milli einstaklinga. Nokkru áður var farið að fjöldaframleiða dagblöð og tímarit í gríðarstórum upplögum með nýrri prenttækni. Hugtakið er oft skilgreint með vísun í tilkomu fjöldasamfélaga sem sumir menntamenn (t.d. Frankfurtarskólinn) töluðu um sem einkenni iðnvæðingarinnar í upphafi aldarinnar og einkenndust að þeirra mati af einangrun einstaklinga og skorti á félagslegum tengslum og samfélagsvitund, sem gerði fólk berskjaldað fyrir auglýsingum og áróðri í fjölmiðlum. Umræður um áhrif fjölmiðla og rannsóknir á þeim hafa verið áberandi frá upphafi 20. aldar. Stundum er talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið, við hlið dómsvaldsins, framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins með vísun til hlutverks þeirra sem einnar af stoðum lýðræðisins. Carta marina. Carta marina (latína: "Sjávarkort") er fyrsta landakortið af Norðurlöndum sem bæði sýnir nokkurn veginn eðlilega staðfræði og inniheldur staðarnöfn. Svíinn Olaus Magnus vann að kortagerðinni í Rómaborg í meira en 12 ár í sambandi við bók sína Historia de gentibus septentrionalibus ("Saga norrænna þjóða"). Carta marina var prentað 1539 í Feneyjum með stuttri lýsingu landanna á latínu, þýsku og ítölsku. Ritsími. Ritsími (áður fyrr kallað fréttaþráður'") er tæki til skeytasendingar (t.d. með morsmerkjum eða fjarritun ("telex")) eftir þráðum með aðstoð rafstraums. Sjónritsíminn. Upphaflega fóru skeytasendingarnar fram með því að mynda merki efst á svonefndum boðturni sem sást frá næsta boðturni. Þar báknuðu menn sömu skilaboðum að þeim næsta (þ.e. hermdu eftir skilaboðunum) og þannig koll af kolli þar til merkið náði áfangastað sínum. Fyrsta heilstæða kerfið sem þannig starfaði var sjónritsími Claude Chappe í Frakklandi sem starfaði frá 1792 til 1846. Morse ritsíminn. Í upphafi 19. aldar fundu menn upp ritsímasendingar um rafmagnsvír. Fyrsta rafknúna ritsímakerfið sem komst í almenna notkun var ritsímalína meðfram járnbrautarkerfi Great Western Railway í Bretlandi árið 1839. 1837 þróaði Samuel F. B. Morse sams konar kerfi í Bandaríkjunum og aðstoðarmaður hans, Alfred Vail, þróaði Morse-stafrófið. Tækið sem menn morsuðu skilaboðin á nefndist sendilykill ("Telegraph key") og tækið sem tók við þeim ritsímatæki (eða "Morseapparat"). Síðasta áratug 19. aldar sýndu Nikola Tesla og fleiri fram á kosti loftskeytakerfis (þráðlauss ritsíma). Slík kerfi voru fljótlega tekin í notkun um borð í skipum. Ritsíminn kom til Íslands með samningi sem Hannes Hafstein gerði við Stóra norræna ritsímafélagið en í honum fólst lagning sæstrengs frá Danmörku. Hópur bænda mótmælti þessum samningi með hópreið til Reykjavíkur, en þeir töldu ráðlegra að taka tilboði frá Marconi-félaginu í London (fyrir milligöngu Einars Benediktssonar) um uppsetningu loftskeytakerfis, enda það tilboð miklu ódýrara en það danska. Villanueva de Azoague. Villanueva de Azoague er bær staðsettur í Zamora-héraði á Spáni. Samkvæmt heimildum INE stofnunarinnar á Spáni bjuggu þar 315 íbúar árið 2004. Viasat History. Viasat History er skandinavísk sjónvarpsstöð sem sýnir fræðsluþætti um sögu, menningu og samfélagið. Persaflóasamstarfsráðið. Persaflóasamstarfsráðið (á arabísku مجلس التعاون لدول الخليج الفارسی) er alþjóðastofnun sex arabaríkja við Persaflóa. Samstarfið innan stofnunarinnar lýtur aðallega að efnahagslegum þáttum s.s. milliríkjaviðskiptum. Þann 1. janúar 2008 var sameiginlegur markaður aðildarríkjanna opnaður. Áætlað er að þetta muni verða til þess að auka viðskipti landanna á milli. Ennfremur stendur til að innan ráðsins verði tekinn upp sjálfstæður gjaldmiðill. Stofnunin var sett á laggirnar 25. maí 1981 að frumkvæði Barein, Kúveit, Óman, Katar, Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Samningur milli þessara landa sem kvað á um efnahagslega samvinnu þeirra á milli var undirritaður 11. nóvember sama ár í Ríad, höfuðborg Sádí-Arabíu. Ekki eru öll lönd við Persaflóann aðildarríki að ráðinu, Íran og Írak eru útundan auk Jemen sem gerir sér vonir um að fá inngöngu á næstu árum. Bla Bla. "Bla bla" er bók um stórfurðulegar staðreyndir um allt milli himins og jarðar. Undirtitill bókarinnar á kápu er "600 ótrúlega gagnslausar staðreyndir til að segja frá þegar þú hefur ekkert að tala um." Bla Bla - Fræga fólkið. "Bla Bla - Fræga fólkið" er bók sem kom út árið 2007 og er um aðskiljanlegastu efni er varða fræga fólkið. Bókin segir frá einu og öðru sem fáir vita um stjörnurnar, en hafa gaman af að komast að. Heimsendir. Heimsendir (einnig nefnt heimsslit eða heimshvörf) er lok veraldar, eyðing jarðar og alls sem lifir. Varast ber að rugla saman heimsenda og heimsendi. Bakrödd. Bakrödd er söngvari sem syngur samstíga aðalsöngvaranum. Culver Field. Culver Field er fyrrum hafnaboltavöllur staðsettur í Rochester í New York-borg. Culver Field stendur við norðurhorn University-götu og Culver-götu. Hann var heimavöllur Rochester Broncos liðsins frá 1886 þangað til hann brann árið 1892. Völlurinn var endurbyggður fyrir leiktíðina 1898 og var þá orðinn heimavöllur liðsins Rochester Beau Brummels í áratug. Árið 1906 féll hægri áhorfendapallur vallarins, margir meiddust og leiddi það til margra lögsókna. Eftir leiktíðina árið 1907 eignaðist Gleason Works völlinn og breyttu í iðjuver sem stendur enn þann dag í dag á svæðinu. Rochester Broncos. Rochester Broncos var stuttlíft hafnaboltalið og spilaði aðeins eina leiktíð árið 1890. Þeir enduðu í 5. sæti í deildinni með stigahlutfallið 63-63. Heimaleikir liðsins voru spilaðir á Culver Field. Googolplex. Googolplex er talan 1010100 eða talan einn og googol fjöldi núlla þar á eftir. Tilurð nafnsins. Milton Sutto, 9 ára drengur og frændi stærðfræðingsins Edwards Kasner fann upp á nafninu Googol yfir töluna 10100 og svo Googolplex sem heiti á tölu sem væri „"einn, og á eftir væri skrifuð núll þar til maður yrði þreyttur"“. Kasner ákvað að skilgreina þyrfti þá tölu því „"mismunandi menn yrði þreyttir eftir mismunandi langan tíma"“ og það gengi ekki að láta afreksmenn í íþróttum „"vera betri stærðfræðinga en Albert Einstein bara því þeir hefðu meira úthald"“. Mývatnsöræfi. Mývatnsöræfi er landsvæði austan Mývatns, milli vatnsins og Jökulsár á Fjöllum, og nær yfir stóran hluta Ódáðahrauns, sem er eign Reykjahlíðar við Mývatn. Mývatnsöræfi eru flatlend, og þar skiptast á hraun, móbergsfell og gígar. Þar er m.a. fjöllin: Búrfell, Skólamannafjöll, Jörundur, Eilífur, Herðubreið og Herðubreiðarfjöll. Koolyanobbing. Koolyanobbing er bær staðsettur 54 kílómetra norð-norðaustur af bænum Southern Cross í Vestur-Ástralíu. Járnóxíð er unnið úr jörðinni þar af Portman Ltd, og er svo flutt með lest til Esperance í Vestur-Ástralíu til iðnaðar. WA Salt Supply vinna salt úr Deborahvatni sem fer svo með járnbraut til Kwinana í Vestur-Ástralíu. Mercury-verðlaunin. Mercury-verðlaunin (e. "Mercury Prize", áður "Mercury Music Prize") eru tónlistarverðlaun sem veitt eru árlega fyrir bestu plötuna í Bretlandi og Norður-Írlandi. Landvinningamaður. Landvinningamaður var blanda ævintýramanns og hermanns sem reyndi að ná yfirráðum á tilteknu byggðu landsvæði í nafni Spánarkonungs en fyrst og fremst að eigin frumkvæði. Landvinningamenn unnu oft lönd sem sá heimur sem þeir komu frá hafði takmarkaða vitneskju um. Þeir sóttust yfirleitt eftir landstjóratign frá konungi í krafti þess að hafa lagt svæðið undir hann. Hugtakið "landvinningamaður" má ekki rugla saman við landkönnuð, þó að landvinningamenn hafi oft verið landkönnuðir um leið. Hugtakið er nánast eingöngu notað um spænska leiðangursforingja sem lögðu undir sig stór svæði í Mið- og Suður-Ameríku á 16. og 17. öld, en stundum líka um hliðstæður þeirra. Þannig er orðið stundum notað um t.d. norsku ævintýramennina sem stofnuðu Land Eiríks rauða á Grænlandi í byrjun 20. aldar. Diego de Almagro. Diego de Almagro (fæddur ~1475, látinn í Cuzco í Perú 8. júlí 1538) var spænskur landvinningamaður sem talinn er að hafi verið fyrsti Evrópubúinn til að kanna Chile. Quechua. Quechua er tungumál talað í Suður-Ameríku af um 10,4 milljónum manna. Kasmadalur. Kasmadalur er dalur 320 km norður af Líma í Perú. Nefnifallssýki. Nefnifallssýki nefnist sú tilhneiging að beygja ekki orð vegna þess að það er nafn fyritækis eða vefsíðu. Max Beckmann. Max Beckmann (12. febrúar 1884 – 28. desember 1950) var þýskur listmálari, teiknari, mótlistamaður og rithöfundur. Hann er venjulega flokkaður sem expressjónisti, en hann afneitaði bæði hugtakinu og hreyfingunni. Tenglar. Beckmann, Max Beckmann, Max Salka Valka. Salka Valka er skáldsaga eftir Halldór Laxness. Fyrri hlutinn, sem nefndist "Þú vínviður hreini", kom út árið 1931, og seinni, "Fuglinn í fjörunni", árið eftir, 1932. Bókin hefur eftir það komið út undir heitinu Salka Valka. Bækurnar segja uppvaxtarsögu Salvarar Valgerðar Jónsdóttur, sem er kölluð Salka Valka af móður sinni, Sigurlínu. Þú vínviður hreini. Við upphaf fyrstu bókar koma þær mæðgur til Óseyrar við Axlarfjörð, lítils sjávarpláss þar sem kaupmaðurinn Jóhann Bogesen ræður ríkjum. Upphaflega ætluðu mæðgurnar lengra suður en komust ekki lengra vegna veikinda Sigurlínar og fátæktar. Fyrst þegar þær koma til Óseyrar hafa þær engan samastað, þeim er vísað á Hjálpræðishersins þar sem þær hitta fyrir Steinþór Steinsson. Steinþór er ræfilslegur drykkjumaður sem leiðir mæðgurnar til gamalla hjóna, Eyjólfs sem er blindur og Steinunnar konu hans. Á bæ þeirra, Mararbúð, fá þær að vera. Í kjölfarið barnar Steinþór Sigurlínu sem eignast veiklulegan son en Steinþór yfirgefur þær mæðgurnar og heldur burt á báti. Stofn (líffræði). Stofn er hópur lífvera af sömu tegund sem lifa á afmörkuðu svæði. Í hverju vistkerfi komast þær lífverur helst af sem hafa lagað sig best að umhverfi sínu. Fótboltastríðið. Fótboltastríðið var stríð milli El Salvador og Hondúras í júlí 1969. Réttindalaust farandverkafólk hafði streymt frá El Salvador til Hondúras og magnaði það upp spennu í samskiptum ríkjanna sem braust út í vopnuðum átökum eftir knattspyrnulandsleik milli ríkjanna tveggja í riðli fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1970. Kylfustríðið. Kylfustríðið var bændauppreisn sem hófst í Austurbotni 1596 í Finnlandi vegna harðsjórnar Claes Eriksson Fleming, en hún var barin niður af mikilli hörku. Kylfustríðinu lauk 1597. Tata Motors. Tata Motors Limited er stærsti bílaframleiðandi Indlands, stofnað árið 1945. Fyrirtækið er hluti af Tata Group og er með höfuðstöðvar í Mumbai. Á lista Alþjóðasamtaka bílaframleiðanda árið 2007 er Tata 21. stærsti bílaframleiðandi í heiminum. Tata setti bíl sinn Tata Nano á markað 10. janúar 2008 en hann hefur vakið athygli fyrir að vera ódýrasti bíll sem framleiddur er, en áætlað verð er um 160þús ÍSK. Fyrri hluta árs 2008 hefur fyrirtækið verið í viðræðum við bílaframleiðandann Ford um kaup á þeirri deild sem sér um framleiðslu á Land Rover og Jagúar. Einar Gunnarsson. Einar Gunnarsson stofnaði Vísi árið 1910, og var hann eigandi og ritstjóri. Höfði. Höfði er hús í Borgartúni í Reykjavík byggt 1909, Franski konsúllinn Jean-Paul Brillouin átti upprunalega aðsetur þar. Íslandsfundurinn á milli Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjev átti sér stað þar 1986. Fáni Bandaríkjanna og fáni Sovétríkjanna hanga þar til minnis um fundinn. Í ágúst 1991 komu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna til fundar í Höfða, en þá var sjálfstæðisbarátta ríkjanna á loka stigi. Hittust þeir í Höfða ásamt Jóni Baldvin Hannibalssyni, þáverandi utanríkisráðherra og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Á þessum fundi í Höfða viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrstir allra þjóða. Finnmörk. Finnmörk (norska: "Finnmark", norðursamíska: "Finnmárkku fylkkagielda") er stærsta og nyrsta fylki Noregs, 48.649 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 72.000. Stærsti bærinn í fylkinu er Alta, með um 17.000 íbúa. Höfuðstaður fylkisins er Vadsø, með um 6000 íbúa. Í Finnmörku er helsta byggð samískumælenda í Noregi og eru opinber skilti í fylkinu bæði á norsku og norðursamísku og einnig er opinber þjónusta á báðum málunum. Þing Sama situr í Karasjok. Nafnið Finnmörk er fornt og þýðir "Samaskógur" en Samar voru kallaðir Finnar í Noregi fyrr á öldum. Samar voru frumbyggjar í Finnmörku og er þess oft getið í konunugasögum og Íslendingasögum að norskir menn fóru í her- eða verslunarleiðangra til Finnmerkur. Á 13. öld fóru þeir að setjast þar að og Hákon háleggur lét reisa virki í Vargey (Vardø) til að verja Finnmörk gegn ásókn úr austri. Norrænir menn eru nú meirihluti íbúanna. Finnmörk varð sérstakt lén undir nafninu Vardøhuslén, sem varð Vardøhusamt árið 1660. Árið 1787 breyttist nafnið í Finnmerkuramt og árið 1919 í Finnmerkurfylki. Gljúfrasteinn. Gljúfrasteinn er hús efst í Mosfellsdalnum við ána Köldukvísl. Húsið var heimili Halldórs Laxness og fjölskyldu hans í meira en hálfa öld en hýsir nú safn um skáldið. Húsið var byggt árið 1945 af Halldóri Laxness og konu hans Auði Sveinsdóttur. Arkitekt hússins var Ágúst Pálsson og Birta Fróðadóttir hannaði innréttingarnar. Halldór valdi staðsetningu hússins en það er reist á æskuslóðum hans rétt hjá Laxnesi. Nafn hússins er dregið af stórum steini í nágrenninu sem kallaður var Gljúfrasteinn en um þann stein skrifaði Halldór smásöguna „Steinninn minn helgi“ 19 ára að aldri. Stofan á Gljúfrasteini er viðarklædd og hljómburðurinn í stofunni er mjög góður. Halldór og Auður héldu tónleika á heimili sínu til margra ára og þar komu fram margir þekktir tónlistarmenn, bæði innlendir og erlendir. Oft spiluðu þar tónlistarmenn frá Ráðstjórnarríkjunum en Halldór var formaður MÍR í nokkur ár á 6. áratugnum. Sovéskir listamenn nýttu sér oft heimsóknir sínar til Íslands sem stökkpall yfir til Vesturlanda. Halldór naut mikillar virðingar erlendis, ekki síst eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1955. Þegar opinberir gestir komu til landsins var þeim oft boðið í heimsókn á Gljúfrastein. Sem dæmi má nefna að bæði Gústaf VI Adólf Svíakonungur og sonarsonur hans Karl XVI Gústaf heimsóttu Gljúfrastein, árin 1957 og 1987. Halldór lést árið 1998 en Auður bjó áfram á Gljúfrasteini til ársins 2002. Þá keypti íslenska ríkið Gljúfrastein og listaverkin en Auður gaf allt innbú hússins. Í september 2004 var húsið opnað sem safnið Gljúfrasteinn - hús skáldsins eftir viðhald og hefur verið opið gestum síðan þá. Húsið er í nánast upprunalegu ástandi og í því má finna ýmsa áhugaverða muni úr eigu Halldórs og Auðar, til að mynda allt bókasafn Halldórs. Á Gljúfrasteini má einnig finna listaverk eftir helstu listamenn tuttugustu aldarinnar, listamenn á borð við Jóhannes Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur, Svavar Guðnason, Karl Kvaran og Ásmund Sveinsson. Einnig er hægt að sjá þar verk eftir danska málarann og myndhöggvarann Asger Jorn og norska málarann Jakob Weidemann. Nonnahús. Nonnahús er hús við Aðalstræti 54 á Akureyri þekkt fyrir að vera hús Jóns Sveinssonar. Jón skrifaði þar röð barnabóka um strákinn Nonna. Í húsinu er nú safn sem inniheldur 19. aldar húsgögn og greinar eftir höfundinn. Sogn og Firðafylki. Sogn og Firðafylki (norska: "Sogn og Fjordane") er fylki í Vestur-Noregi, 18.623 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 106.000. Stærsti bærinn í fylkinu er Førde með um 8800 íbúa. Höfuðstaður fylkisins er Leikanger, með um 2500 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Vesturland. Hörðaland. Hörðaland (norska: "Hordaland") er fylki í vestur Noregi, 15.460 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 462.000. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Björgvin (norska: Bergen), með um 250.000 íbúa. Björgvin er einnig næst stærsta borg Noregs. Fylkið er í landshlutanum Vesturland. Hringrás vatns. Nokkur orð úr ensku snöruð yfir á íslensku (ath er til umfjöllunar hjá prófessor) Condensation = Þétting (t.d. í þoku) Deposition = Úrfellingum (úr gufu í fast form án þess að verða að vökva) Runoff = Ofanflæði (vatn sem ekki fer ofan í jarðveg) Infiltration = Innflæði (vatn sem fer ofan í jarðveg) Percolation = Sigtun, niðurflæði (í gegnum jarðveg niður í grunnvatn) Sublimation = Upplausn (úr föstu formi í gufu, án þess að verða að vökva) Eðlisþungir hafstaumar mynda hluta af hringrás vatns Höfin þekja um 70% af yfirborði jarðar. landaskript (landfræði), vatnaskipt og siglingafræði úr 1728 "Cyclopaedia". Vatn jarðarinnar er alltaf á hreyfingu. Umfjöllun um hringrás vatnsins á jörðinni hlýtur að lýsa hreyfingum þess í láði, lofti og legi. Þessum viðstöðulausu hreyfingum við yfirborð jarðskorpunnar og neðstu lögum gufuhvolfsins. Þar sem hringrás vatns er réttnefni, þá er engin byrjun eða endir á hringferlinum. Vatnið hefur þann eiginleika við náttúrulegar aðstæður yfirborðs jarðar að skipta um fasa. Vatn sem vökvi, ís og gufa fyrirfinnst á mismunandi stöðum í hringrás vatnsins. Breytingar úr einum fasa í annan gerast á augnablikshraða og ná einnig yfir milljónir ára. Magn vatns á jörðinni er nokkuð stöðugt; einstaka vatnssameindir sleppa frá jörðinni á meðan aðrar koma til jarðarinnar á ógnarhraða. Hringrás. Ferlið sem nefnist hringrás vatns (eða vatnafarshringurinn) lýsir geymslu og hreyfingu á vatni í og á milli lífhvolfs, lofthvolfs, jarðhvolfs og vatnshvolfs. Vatn fyrirfinnst í andrúmslofti, höfum, stöðuvötnum, ám, jarðvegi, jöklum, snjóbreiðum og í grunnvatnsgeymum. Vatn hreyfist með ýmsum háttum; uppgufun, þétting, úrkoma, úrfellingu, ofanflæði, innflæði, sigtun, upplausn, plöntuöndun, bráðnun og grunnvatnsflæði eru dæmi um færslu hætti. Mest uppgufun er úr höfunum, og 91% af þeirri uppgufun skilar sér aftur í höfin beint úr andrúmsloftinu með úrkomu. Árleg velta vatns í aðrúmslofti er fimmhundruð sjötíu og sjö þúsund rúmkílómetrar af vatni, tæplega þrettán prósent þess er uppgufun frá landmassa jarðar. Ofankoma á landmassa jarðar eru tæp tuttugu og eitt prósent, eða um það bil sjö prósentustigum meira en uppgufun, sem skýrir hversvegna við höfum ár og grunnvatnsflæði. Flæði grunnvatn til sjávar er talið vera um tvöþúsund og eitthundrað rúmkílómetrar á ári. Hringrás vatns er lýsing á vatnsbúskap jarðar, þar sem vatn, í föstum-, fljótandi- og gasham, flyst milli vatnshvolfs og gufuhvolfs jarðar. Átta þrep uppgufunar og ofankomu úr Hringrás vatns í náttúrunni fyrir grunnskóla Guðbjartur Kristófersson skýrir vatnhvolf jarðar sem ósamfellt lag af vatni á yfirborði jarðar. Hann telur til þess allt yfirborðsvatn í stöðuvötnum og höfum eða jarðvegi og berggrunni bæði frosið og fljótandi, auk vatnsgufu í gufuhvolfinu. Uppruni vatns á jörðinni. Ýmsir hafa velt fyrir sér uppruna vatns á jörðinni Vatn getur hafi komist á yfirborð jarðar með gosgufum úr eldgosum frá iðrum jarðar. Sem dæmi má nefna að í Skaftáreldum árið 1783 komu upp um 15 km³ af kviku. Ætla má að um 200 tonn af vatni hafi losnað í þessum eldsumbrotum. Einnig er hægt að gera ráð fyrir því að vatn hafi borist til jarðar með halastjörnum. Flestar halastjörnur eiga uppruna sinn í Oort skýinu og í Kuipar beltinu sem er rétt fyrir utan sporbaug Neptúnusar. Loftsteinar geta flutt mikið af ís með sér auk koldíoxíðs og metans. Fyrir um 4 - 4,5 milljörðum ára varð jörðin fyrir tíðum árekstrum loftsteina. Þyngdarafl jarðarinnar var á þeim tíma nægilega mikið til þess að halda einhverju af því vatni sem barst með þessum lofsteinum. Það eru um 1400 milljónir rúmkílómetra af vatni á jörðinni Aðeins lítill hluti af öllu vatni á jörðinni er ferskvatn eða um 2,6%. Vatnið stoppar misjafnlega langt við á þessum fimm stöðum. Vatn andrúmsloftsins endurnýjar sig algjörlega á aðeins átta dögum. Regn, stormar, skýjafar, veður eru allt þættir vatnafars adrúmsloftsins. Höf. Talið er að um það bil helmingur þess vatns sem er í höfunum í dag hafi komið úr iðrum jarðar með gufum og eldgosum, og rignt svo niður í höfin. Hinn helmingurinn af vatni hafanna er talinn hafa komið frá halastjörnum sem rigndi á jörðina í stórum stíl. Vatnsmagn hafanna hefur staðið nær óbreytt síðustu fjögur þúsund milljón ár. Eðlisþungir hafstaumar renna hægt eftir sjávarbotninum, Djúpsjávarsjór myndast og leggur af stað meðfram hafsbotninum suðvestan við Ísland og milli Íslands og Svalbarða. Slíkt gerist einnig í flóum Suðurskautsinns suður af Atlantshafi og suður af Nýja-Sjálandi. Miðdýpissjór myndast og sekkur austan og vestan við suðurodda Suður-Ameríku, í miðju Atlantshafi miðja vegu milli Nýfundnalands og Spánar, rétt fyrir utan Gíbraltar-sundið og við austasta hluta Rússlands. Uppstreymi er svo að finna við vesturhluta Afríku og Ameríku, syðst í Atlantshafi og við miðbaug í Kyrrahafi. Þessi þrýstingsmunur knýr áfram djúpsjávarhafstrauma vatnshringrásarinnar. Hávingull. Hávingull (fræðiheiti: "Festuca pratensis") er vingull sem vex gjarnan í þurrum, sand- eða leirblendnum jarðvegi. Hann nær 30 til 100 sentimetra hæð og er mikið notaður sem beitar- eða fóðurjurt. Vendée. Kort sem sýnir staðsetningu Vendée Vendée er frönsk sýsla ("département") í héraðinu Pays-de-la-Loire í Vestur-frakklandi við Atlantshafið. Höfuðstaður héraðsins er La Roche-sur-Yon. Íbúar eru um 600 þúsund. Álafoss. Álafoss er foss í ánni Varmá í Mosfellsbær á Íslandi. Samnefnd ullarverksmiðja hefur verið rekin við fossin síðan 1896 þegar Björn Þorláksson (1854-1904) bóndi á Varmá flutti inn vélar til að vinna ullina og notaði til þess vatnsorku úr fossinum, verksmiðjan átti stóran þátt í stofnun og vexti byggðar í Mosfellsbæ en hún var upphaflega tóvinnsla. Gekk tóvinnslan kaupum og sölum þar til að bræðurnir Einar Pétursson og Sigurjón Pétursson á Álafossi (1888-1955) eignuðust ráðandi hlut og fóru í framleiðslu á hinum ýmsu ullarvörum. Hljómsveitin Sigur Rós á þar upptökuheimili undir nafninu Sundlaugin sem var vígð 28. mars 1934 sundlaug. Seinni heimstyrjöldin stöðvaði allar framkvæmdir á viðbyggingum árið 1940. Þess má geta að Sundlauginn var byggð af Sigurjóni Péturssyni á Álafossi en hann rak íþróttaskóla fyrir börn á sumrin á árunum 1928 að seinni heimstyrjöld. Hinu megin á árbakkanum stendur Þrúðvangur en það var mötuneyti og íveruhús barnanna. Efndi Sigurjón til Fánadaga til að fjármagna byggingu Sundhallarinnar eins og hún var kölluð. Johan Bülow. Johan Bülow (29. júlí 1751 – 22. janúar 1828), oftast kenndur við herragarðinn Sanderumgaard á Fjóni, hirðmarskálkur og aðstoðarmaður krónprinsins, Friðriks 6. Styrktarmaður vísinda og lista. Johan Bülow fæddist í Nýborg á Fjóni. Foreldrar hans voru af aðalsættum, en frekar fátæk. Tveggja ára gamall stóð hann uppi foreldralaus og fór þá til skyldmenna. Hann hlaut menntun í Sórey á Sjálandi (Sorø ridderlige Akademi). Hann gekk snemma í herinn, náði þar skjótum frama og varð liðsforingi í konunglega lífverðinum 1772. Árið 1773 varð hann sérstakur tilsjónarmaður krónprinsins, Friðriks 6., sem þá var 5 ára, og hafði umsjón með menntun hans og uppeldi. Þegar prinsinn var 16 ára, 1784, tók hann í raun við stjórnartaumunum, vegna veikinda föður síns. Varð Johan Bülow þá mjög áhrifamikill vegna náinna tengsla sinna við krónprinsinn. Hann varð hirðmarskálkur árið 1784. Johan Bülow féll í ónáð hjá krónprinsinum árið 1793 og var neyddur til að segja af sér og yfirgefa Kaupmannahöfn. Fluttist hann þá til Sanderumgaard, sem hann hafði keypt á æskuslóðum sínum á Fjóni, og bjó þar til æviloka. Krónprinsinn sakaði hann um að hafa haft tengsl við menn sem unnu gegn ríkisstjórninni, en raunveruleg ástæða mun hafa verið sú að prinsinum þótti hann afskiptasamur og vildi hafa frjálsari hendur í einkalífi og við stjórn ríkisins. Bülow gerðist eftir þetta mikill stuðningsmaður vísinda og lista. Er talið að hann hafi varið a.m.k. 41.000 ríkisdölum af eigin fé til þeirra mála. Hefur hann í gamni stundum verið kallaður Carlsbergsjóður sinnar tíðar. Framlög hans skiptu því meira máli, af því að þau ár sem hann var hvað stórtækastur við styrkveitingar voru kreppuár í dönsku samfélagi. Meðal vina Johans Bülows var Grímur Jónsson Thorkelín. Þegar Bülow var í valdaaðstöðu við hirðina hafði hann milligöngu um ýmsa fyrirgreiðslu við Grím, m.a. styrki til Englandsfarar 1786–1791. Vinátta þeirra hélst eftir að Bülow féll í ónáð, og studdi hann Grím við undirbúning og útgáfu Bjólfskviðu, 1815, alls um 1.800 ríkisdali. Einnig studdi hann N. F. S. Grundtvig til að þýða kviðuna á dönsku og gefa hana út, 1820. Bülow veitti Finni Magnússyni styrk til fornritarannsókna eftir að hann kom til Kaupmannahafnar 1812. Loks má nefna að hann veitti Rasmusi Kristjáni Rask 2.000 ríkisdala styrk 1816–1817, sem gerði honum kleift að leggja í austurlandaför sína. Bülow varð heiðursfélagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi 1818, og hann var fyrsti heiðursfélagi Fornfræðafélagsins 1825. Konungurinn tók Bülow smám saman í sátt á árunum 1808-1822. Hlaut hann eftir það ýmsa heiðurstitla og eftirlaun til æviloka. Johan Bülow giftist 1885 auðugri konu, Else Marie Bülow, fædd Hoppe. Þau eignuðust eina dóttur sem dó ung. Heimildir. Bülow, Johan Akonkagúa. Akonkagúa er hæsta fjall Ameríku og einnig hæsta fjallið utan Asíu. Það er 6.962 metra hátt og er í Argentínu, rétt við landamæri Chile. Mapuche-menn. Mapuche-menn eru innfæddir íbúar í mið- og suður-Chile auk suður-Argentínu. Mapuche-menn töluðu upphaflega mapudungun en nú tala flestir spænsku. Frumbyggjar Ameríku. Frumbyggjar Ameríku (oft kallaðir indíánar) eru hópar fólks af ýmsu þjóðarbroti og afkomendur þeirra, sem bjuggu í Ameríku áður en Evrópubúar komu þangað fyrst. Straumlögmál. Straumlögmálið, eða Straumlögmál Kirchhoffs, er lögmál í rafmagnsfræði, sem segir að summa rafstrauma í sérhverjum punkti rafrásar sé núll, þ.e. að straumur, sem streymir að hnútpunkti í rafrás, sé jafn þeim straumi sem frá honum fer, eða formula_1. Straumstefnan inn í hnútinum er skilgreind sem jákvæð, en stefnan út úr punktinum sem neikvæð. Skv. lögmálinu gildir því fyrir myndina hér til hægri:formula_2 formula_3 formula_4 formula_5 formula_6 formula_7 formula_2 => formula_9 [A] Heimildir. Ralph J. Smith: "Circuits, Devices, And Systems. Third Edition (1973)." Spennulögmál. Spennulögmálið, einnig kallað Spennulögmál Kirchhoffs, er lögmál í rafmagnsfræði, sem segir að rafspennan umhverfis lokaða lykkju í rafrás sé núll þ.e.a.s. formula_1. Þessa setningu má umorða þannig: Summa spennugjafa rásarinnar er jöfn summu spennufallanna yfir viðnámin. formula_2 Hér merkir formula_3 spennuna í b m.t.t. spennunnar í a. Sé formula_4 jákvæð þá er b á hærrispennu en a. Auðvelt að sannreyna þetta með AVO-mæli. Sé lögmálinu beitt á rásina hér að ofan og förum frá punkti a í gegnum b-c-d-e og aftur yfir í a fæst: formula_5 Mínus er settur á formula_6 vegna þess að plús merkið á myndinni segir að punktur b sé á hærri spennu en c þ.e.a.s. formula_7 = - formula_6 Athugið að hægt er að fara í gegnum rásina í hvora áttina sem er og velja hvaða punkt sem er sem upphafspunkt. Niðurstaðan verður eftir sem áður hin sama. formula_9 [V] formula_10 [V] formula_11 [V] formula_12 [V] formula_5 => formula_14 [V] Heimild. Ralph J. Smith: "Circuits, Devices, And Systems. Third Edition (1973)" Grindhvalir. Grindhvalir (eða grind, en einnig nefnd marsvín) er ættkvísl tannhvala af höfrungaætt og er mjög algengur við Íslandsstrendur. Grindhvalirnir eru í aðalatriðum líkir höfrungum, en mun stærri og höfuðsvipurinn allur annar. Ennið er mjög kúpt og snjáldrið mjög stutt og ekki afmarkað frá enninu. Hallatala. Hallatala er mælikvaðir á halla (bratta) ferils í tilteknum punkti. Nánar tiltekið er hallatala bratti snertils ferilsins í punktinum. Skilgreining. Hallatala ferils fallsins "f"("x") í punkti "p" er fyrsta afleiða fallsins í punktinum "p", þ.e. "f" ' ("p"). M.ö.o. þá lýsir afleiðan halla ferils í sérhverjum punkti. Ef við köllum hallatölu línu h þá er jafna línu þar sem k er fasti: y = hx + k. Samsíða línur hafa augljóslega sömu hallatölu en um hallatölur tveggja hornréttra lína gildir að margfeldi þeirra jafngildir -1. Föll úr föstum (eins og t.d. formula_1) hefur hallatölu núll, vegna þess að gildi þeirra breytist ekki. Árþúsund. Árþúsund eða þúsöld (einnig kallað stóröld, aldatugur eða tíöld) er tímabil sem nær yfir 1000 ár. Saga orðsins. Orðið "árþúsund" er ekki ýkja gamalt í íslensku, og talið að íslendingar hafi fengið það að láni úr dönsku ("årtusind") um miðja 19. öld. Tveimur árum fyrir aldamótin 2000 hófst óopinber leit að íslensku orði sem gæti verið þýðing á enska orðinu "millenium". Í greinaþætti Gísla Jónssonar, sem nefndist "Íslenskt mál", og birtist í Morgunblaðinu í mörg ár, komu fram orðin þúsöld, en einnig "tíöld", "aldatugur" og "stóröld". Helgi Hálfdánarson stakk upp á orðinu "stóröld", og var Gísli hrifnastur af því orði af þeim sem fram höfðu komið. En þúsöld virtist hafa vinningin, enda var það almennt notað. Orðið árþúsund er þó enn sem komið það orð sem flestir kannast við sem orð yfir þúsund ár. Orðið þúsöld. Orðið þúsöld er mjög ungt í málinu, og fer í raun ekki að sjást á prenti fyrr en árið 1999, og þá sem þýðing á enska orðinu "millenium". Forskeytið þús- eins og í þúsund, þýðir í raun "eitthvað stórt", og er líklega skylt orðinu þjós = kjötflykki. Þannig merkir orðið þúsund: "stóra hundraðið". Þúsöld þýðir því "stóra öldin", þ.e.a.s. 1000 ár. Listi yfir þjóðhöfðingja Bretlands. Þetta er listi yfir þjóðhöfðingja Stóra-Bretlands. Konungsríkið Stóra-Bretland var myndað 1. maí 1707 þegar konungsríkið England og konungsríkið Skotland sameinuðust. Konungsríkið Írland bættist við 1. janúar 1801 og varð þá til "hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Írlands". Suður-Írland gekk úr sambandinu 6. desember 1922 og nafnið varð "hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands" 12. apríl 1927. Stuartar. "England og Skotland gengu í ríkjasamband með sameiningarsamningi 1. maí 1707, en hvort um sig hélt þó lögum sínum og ýmsu fleiru." Hanoverætt. "Hanoverætt tók við bresku krúnunni eftir lát Önnu í samræmi við erfðalögin sem breska þingið setti árið 1701. Saxe-Coburg-Gothaætt. "Enda þótt Játvarður 7. væri sonur og erfingi Viktoríu, tók hann ættarnafn föður síns og þess vegna er talinn að hafa byrjað nýja ætt." Windsorætt. "Ættarnafnið „Windsor“ var tekið í notkun árið 1917 í fyrra heimsstyrjöldinni. Nafninu var breytt úr Saxe-Coburg-Gotha vegna andúðar á Þýskalandi og öllu sem þýskt var. Afkomendur Elísabetar 2. munu teljast til Windsorættarinnar (þótt ættarnafnið ætti að réttu lagi að vera Mountbatten-Windsor) samkvæmt konunglegri yfirlýsingu." Sjá einnig. Bretland konungar Söngvar Satans. "Söngvar Satans" er bók eftir höfundinn Salman Rushdie. Bókin kom út árið 1988 og olli miklu fjaðrafoki innan íslamstrúar vegna þess hvernig mynd var dregin upp af Múhameð spámanni og var hann dæmdur til dauða (fatva) af efsta klerki í Íran, Ruholla Khomeini fyrir þessi skrif. Krabbinn með gylltu klærnar. "Krabbinn með gylltu klærnar" (heitir á frummálinu "Le crab aux pinces d'or") er níunda bókin í Tinna-teiknimyndaflokknum, Ævintýri Tinna. Hún var samin af belgíska teiknaranum Hergé. Í bókinni kynnist Tinni fyrst vini sínum Kolbeini kafteini. "Krabbinn með gylltu klærnar" er fyrsta sagan sem Hergé gaf út eftir innrás nasista í Belgíu 1940. Fyrir innrásina var hann byrjaður að gefa út söguna "Svarta gullið" í aukablaði dagblaðsins "Le Vingtième Siècle" fyrir börn: "Le Petit Vingtième". Í þeirri sögu er aðalóvinurinn þýskur hermdarverkamaður, dr. Müller. Nasistar lokuðu skrifstofum blaðsins og Hergé varð atvinnulaus. Hann fékk vinnu hjá dagblaðinu "Le Soir" sem fékk að halda áfram útgáfu, og varð ritstjóri aukablaðs þess fyrir börn, "Le Soir Jeunesse". Þar byrjaði hann á "Krabbinn með gylltu klærnar" í október árið 1940 og forðaðist markvisst pólitískt viðkvæm málefni af ótta við Gestapó. Sagan birtist í dagblaðinu, tvær heilsíður í hverri viku, þar til útgáfu aukablaðsins var hætt í september 1941 vegna pappírsskorts. Sagan hélt þó áfram eftir stutt hlé sem teiknimyndasyrpa (ein lína í senn) í aðalblaðinu, "Le Soir", sem neyddi Hergé til að endurskoða skipulag frásagnarinnar. Þessi svart-hvíta frumútgáfa sögunnar kom út á bók árið 1941 en fyrir nýja útgáfu í lit árið 1943 var sagan teiknuð algerlega upp á nýtt. Bókin kom fyrst út í íslenskri þýðingu Lofts Guðmundssonar hjá Fjölva árið 1973. Söguþráður. Þegar Tinni og Tobbi eru gönguferð fer Tobbi að róta í rusli festir trýnið í tómri krabbakjötsdós með rifið umslag. Tinni losar Tobba og hendir dósinni í ruslið. Seinna hittir hann Skaftana sem eru rannsaka mál um falsaða peninga. Þeir biðja hann um aðstoð. Tinni finnur eigur eins drukknaðs manns og af þeim eru nokkrir falsaðir peningar og miði sem virðist hafa komið af sömu krabbadós og Tinni henti. Hann reynir að finna hana en hún er horfin. Hann fær að halda miðanum og sér að nafnið "Karaboudjan" er skrifað aftan á hann. Skyndilega öskrar kona húsvarðarins og Tinni flýtir sér til hennar. Hún segir honum að einhver Japani hafi ætlað að færa honum bréf en var svo rænt. Næsta morgun hringja Skaftarnir í Tinna og segja honum að drukknaði maðurinn hét Herbert Dawes og var háseti á fluttningsskipinu Karaboudjan. Tinni fer um borð með Sköftunum og ákveður að skoða skipið á meðan Skaftarnir tala við Hörð stýrimann. Tinni er rotaður og síðan keflaður og Sköftunum er sagt að Tinni hafi farið í land á undan þeim. Skipið leggur úr höfn og Tinna tekst að sleppa með hjálp Tobba. Hann felur sig í lestinni og kemst að því að áhöfnin er að smygla heróíni í krabbadósunum. Tinni reynar að sleppa úr lestinni og klifrar upp í káetu skipstjórans Kolbeins sem er blindfullur (Hörður hellti Kolbein fullan svo þeir gætu smyglað eiturlyfunum). Tinni fær Kolbein í lið með sér. Tinna tekst að senda loftskeyti um eiturlyfin og saman sleppa Tinni og Kolbeinn frá Karaboudjan í björgunarbáti. Á siglungunni ræðst flugvél að þeim en þeim tekst að handsama flugmennina og ákveða að fljúga henni til Spánar. En Kolbeinn finnur viskíflösku og verður fullur og rotar Tinna sem veldur því að flugvélin brotlendir í miðri Sahara-eyðimörkinni. Flugmennirnir flýja og Tinn, Tobbi og Kolbein halda áfram en falla í yfirlið út af hitanum. Björgunarsveit frá eyðirmerkurvirki einu bjargar þeim. Í virkinu segja þeir virkisstjóranum sögu sína en heyra svo í útvarpinu að Karaboudjan sökk. Tinni og Kolbeinn trúa því ekki og ákveða að halda til Bagghar. Í Bagghar ákveða félagarnir að spyrja hafnaryfirvöldin um Karaboudjan. En á leiðinni þangað sér Tinni Hörð og eltir hann en verður aðskila við Kolbein. Tinni týnir Herði og ákveður að finna kafteininn. Á meðan lendir Kolbeinn í basli með lögregluna í Bagghar þegar hann sér Karaboudjan í höfn Bagghars undir nafninu Djebel Amilah. Einn af mönnum Harðar sér Kolbein og Hörður skipar þeim að ræna honum. Tinna tekst ekki að bjarga Kolbeini en hittir Skaftana. Þeir segja Tinna að þeir hafi fengið loftskeytið og flogið til Bagghar en áhöfn Karaboudjan neitaði að það væru eiturlyf um borð. Tinni segir þeim frá krabbadósunum og þeir komast að því að dósirnar eru seldar af kaupsýslumanninum Ómari Ben Salad. Tinni fær Skaftana að tala Ben Salad á meðan hann leitar að Herði. Eftir að hafa loksins fundið hann eltir Tinni Hörð að verslun einni. Tobba tekst að lokka búðareigandann í burtu og Tinna laumast í vínkjallarann og finnur leynidyr í tómri víntunnu. Tinni finnur Kolbein og tekst að frelsa hann en skothríð hefst og Tinni og Kolbeinn lokast inn í litlu herbergi fullu af vínflöskum. Í skotbardaganum brotna flöskurnar og Tinni og Kolbeinn verða ölvaðir af vínandanum. En Kolbeinn í ölvunarreiðiskasti tekst að rota alla menn Harðar og eltir svo Hörð. Á meðan fóru Skaftarnir á fund Ómars Bens Salads og ákæra hann um eiturlyfjasmygl. Þegar að Ben Saæad mótmælir þessu, hleypur Hörður út um leynidyr í höll Bens Salads og í látunum rotast Ben Salad. Tinni (sem tókst að losna við ölvunina eftir höfuðhögg) kemst að því að Ben Salad sé foringi smyglaranna. En Herði tekst að komast undan á stolnum hraðbáti og Tinni veitir eftirför og tekst að handsama Hörð. Eftir það finnur lögreglan Japanann, sem var rænt, í lestinni á Djebel Amilah (Karaboudjan). Hann segir Tinna að heiti Bunji Kuraki og vinni fyrir rannsóknarlögregluna í Yokohama í Japan. Hann segir Herbert Dawes hafi undir áhrifum áfengis ætlað að bjóða honum eiturlyf en mætti aldrei til fundar við sig. Hann segir að hann hafi beðið Dawes um nafnið á skipinu og að Dawes hafi skrifað það á krabbadósarmiðann. Síðan drap áhöfnin á Karaboudjan Dawes og lét það líta út sem slys. Karaki ætlaði að vara Tinna við en var rænt. Eftir smyglhringnum er komið á bak við lás og slá eru Tinni og Kolbeinn gerðir að hetjum. Kolbeinn heitir því að hætta að drekka. Annað. Söguþráður kvikmyndarinnar ' er að hluta byggður á efni bókarinnar. Leyndarskjalavörður. Leyndarskjalavörður – (danska: gehejmearkivar) – var embættistitill yfirmanns Leyndarskjalasafnisins í Kaupmannahöfn. Þetta var bæði virðulegt og ábyrgðarmikið embætti, sem framan af fól m.a. í sér skjalagerð, en að meginhluta var um skjalavörslu að ræða. Árið 1883 var Leyndarskjalasafninu stjórnað af Adolf Ditlev Jørgensen sem einnig veitti Skjalasafni konungsríkisins (Kongerigets arkiv, stofnað 1861) forstöðu. Þegar Ríkisskjalasafnið var stofnað, 1889, tók hann við embætti ríkisskjalavarðar (sem samsvarar embætti þjóðskjalavarðar hér á landi). Myllusetur. a> í Frakklandi var fyrirmyndin að Myllusetri. Myllusetur (franska: "Le château de Moulinsart") er sveitasetur Kolbeins kafteins í myndasögubókunum "Ævintýri Tinna" eftir Hergé. Höllin var teiknuð eftir Cheverny-höll í Frakklandi og nafnið er dregið af nafni belgíska þorpsins Sart-Moulin. Myllusetur kemur fyrst fyrir í bókinni "Leyndardómur Einhyrningsins" sem heimili bræðranna og forngripasalanna Þrastar og Starra. Í lok framhaldsbókarinnar "Fjársjóður Rögnvaldar rauða" kaupir Vandráður prófessor höllina fyrir kafteininn og á endanum finna þeir fjársjóðinn falinn í kjallara hallarinnar. Í síðari bókum kemur Myllusetrið fyrir sem bækistöð Kolbeins og Tinna og sagan "Vandræði Valíu Veinólínó" gerist nær öll í höllinni. Leyndarskjalasafnið. Leyndarskjalasafnið í Kaupmannahöfn – (danska: Gehejmearkivet) – var á einveldistímanum skjalasafn konungs og danska ríkisins. Upphaf Leyndarskjalasafnsins má rekja til ársins 1582, en þá voru gömul skjalasöfn flutt frá aðsetrum Danakonunga í Vordingborg og Kalundborg, og sameinuð skjalasafninu í Slotinu í Kaupmannahöfn, sem stóð þar sem Kristjánsborgarhöll er nú. Þessi söfn urðu kjarninn í Leyndarskjalasafninu. Vegna endurbyggingar Slotsins var Leyndarskjalasafnið flutt í Rósenborgarhöll um 1700, en fékk svo eigin byggingu á Slotshólmanum (Hallarhólmanum) árið 1720. Einveldistímanum í Danmörku lauk 1848. Nokkru síðar, eða 1861, var stofnað annað skjalasafn fyrir nýju stjórnardeildirnar í Kaupmannahöfn, "Skjalasafn konungsríkisins". Þessi tvö skjalasöfn fengu sameiginlega yfirstjórn 1883, og voru svo formlega sameinuð árið 1889, þegar Ríkisskjalasafnið var stofnað. Varð Leyndarskjalasafnið þá að sérstakri deild þar, 1. deild og Skjalasafn konungsríkisins að 2. deild þess. Nafnið vísar til þeirrar leyndar, eða trúnaðar, sem átti að ríkja um æðstu stjórn ríkisins. Sjá einnig um. Yfirmaður Leyndarskjalasafnsins hafði embættisheitið leyndarskjalavörður – "gehejmearkivar". Bregenz. Bregenz er borg í Austurríki og jafnframt höfuðborg sambandslandsins Vorarlberg. Borgin er þekkt fyrir óperusýningar á sérsmíðuðu leiksviði á Bodenvatni. Lega og lýsing. Bregenz er hafnarborg við austasta enda Bodenvatns, nær vestast í Austurríki. Rínarfljót rennur í Bodensee aðeins 3 km fyrir vestan borgina. Svissnesku landamærin eru 5 km til vesturs, en þau þýsku 3 km til norðurs. Næstu stærri borgir eru Dornbirn til suðurs (10 km), Lindau í Þýskalandi til norðvesturs (10 km) og St. Gallen í Sviss til vesturs (30 km). Til Liechtenstein eru 20 km. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bregenz er skinnklætt með hreysikattaskinni, en fyrir miðju eru þrjú hreysikattaskott. Merkið er eitt fárra skjaldarmerkja sem er að öllu leyti litlaust. Merkið var veitt borginni 1529 af Ferdinand konungi (síðar keisara) og var gamli ættarskjöldur greifanna af Bregenz. Hins vegar er álitið að gamli skjöldurinn hafi verið af íkorna, en ekki hreysiketti. Orðsifjar. Bregenz hét upphaflega Brigantion á tímum kelta. Það heiti er annað hvort dregið af keltnesku gyðjunni Brigantia eða af orðinu "briga", sem merkir "þorpið við vatnið". Rómverjar breytti heitinu lítilsháttar í Brigantium, en eftir fall Rómaveldis afbakaðist heitið smátt og smátt í Bregenz. Upphaf. Það voru keltar sem fyrst reistu bæinn um 500 f.Kr. Þar með er Bregenz með elstu borgum Austurríkis. Rómverjar hertóku héraðið 15 f.Kr. og reistu stóra borg. Þar var einnig rómversk herdeild staðsett, sem og vatnafloti á Bodenvatni. Árið 233 og aftur 259/260 eyddu alemannar borginni. Rómverjar endurreistu hana þó og settu upp mikil varnarvirki umhverfis hana. Reist voru hafnarmannvirki fyrir flotann sem enn eru að hluta til staðar. Gratíanus keisari sótti borgina heim 377. Eftir fall Rómaveldis hófu alemannar að nema land í héraðinu og í borginni. Með öldunum grotnuðu rómversku byggingarnar niður og nýjar risu. Á 7. öld störfuðu írsku trúboðarnir Kolumban og Gallus í borginni. Miðaldir. Bregenz 1650. Mynd eftir Matthäus Merian. Bregenz var lengi vel hluti af Bæjaralandi, en greifarnir af Bregenz stjórnuðu borginni. Ekki er vitað hvenær borgin hlaut miðaldaborgarréttindi, en 1330 veitti keisarinn Lúðvík hinn bæríski borginni markaðsréttindi. Bregenz lenti óvart í Appenzell-stríðinu í Sviss. Íbúar Appenzell reyndu að losa við yfirráð biskupanna í St. Gallen og herjuðu á landsvæðin í kring. 1404 herjuðu þeir á Bregenz og lögðu allt í eyði utan borgarmúranna. Borgin sjálf hélt þó velli. Í september 1407 voru þeir aftur á ferðinni og settust um Bregenz í nokkra mánuði og herjuðu grimmt á borgina, sem enn hélt velli. Í janúar á næsta ári mætti her frá Habsborgurum á staðinn. Í orrustunni við Bregenz sigruðu Habsborgarar og björguðu þar með borginni. 1451 keyptu Habsborgarar helming af yfirráðum Bregenz í nærsveitum. Eftir að Montfort-ættin sem þar réði ríkjum dó út 1523 var Bregenz að öllu leyti eign Habsborgar, og þar með Austurríkis. Frakkar. 1646 hertók sameinaður her frá Frakklandi og Svíþjóð borgina í 30 ára stríðinu. Hann hvarf þó á næsta ári, en Svíar sprengdu þó kastalavirkið Hohenbregenz áður. Frakkar voru aftur á ferð 1704 í spænska erfðastríðinu og sátu um borgina, en náðu ekki að vinna hana. Enn voru Frakkar á ferð í héraðinu 1799 og hertóku Bregenz. 1805 var borgin innlimuð Bæjaralandi. Íbúarnir voru mjög á móti Frökkum og gengu margir í landherinn. 29. maí 1809 börðust borgarbúar og aðrir íbúar Vorarlberg við Frakka við Hohenems og sigruðu þá glæsilega. Napoleon sjálfur stjórnaði sínum mönnum í síðari orrustum og náði taki á héraðinu á ný. Fyrir vikið var stór bærískur her látinn gæta Bregenz. Á Vínarfundinum gerðu Bæjarar ekkert tilkall til Bregens, sem varð aftur austurrísk, ásamt Vorarlberg. Nýrri tímar. 1861 var sambandslandið Vorarlberg formlega stofnað. Bregenz varð að höfuðborg þess og var þá kosinn landstjórn. Þó var æðsta dómskerfið enn í Innsbruck. Algjör aðskilnaður varð ekki fyrr en 1919, er Austurríki varð að lýðveldi. Á því ári kusu íbúar aðskilnað við Austurríki og sóttu um inngöngu í Sviss. Meðan 80% atkvæða féllu með aðskilnaðinum í Vorarlberg, þá kusu í Bregenz fleiri að halda við Austurríki. Ekkert varð þó af sameiningu við Sviss. Þegar Austurríki var innlimað Þýskalandi 1938, var sambandslandið leyst upp. Bregenz varð þá að venjulegri borg í ríkinu. 1. maí 1945 hertóku Frakkar borgina, en Vorarlberg var í franska hernámssvæðinu til 1955. Þrátt fyrir það var Vorarlberg stofnað sem sambandsríki á ný 1945 og varð Bregenz aftur að höfuðborg þess. Viðburðir. Verið er að reisa leiksvið fyrir óperuna Aida Bregenzer Festspiele er heiti á menningarhátíð í júlí og ágúst. Um 80 atriði eru þá á dagskrá. Hápunktur hátíðarinnar er óperusýning á sviði sem reist er á Bodenvatni, en hið tröllaukna leiksvið er það stærsta í heimi. Árið 2008 var sviðið notað fyrir nokkrar upptökur á James Bond myndinni Quantum of Solace. Íþróttir. "Maraþon hinna þriggja landa" við Bodenvatn er árlegt Maraþonhlaup sem haldið er í október. Hlaupið er meðfram Bodenvatni í öllum þrem löndum sem að vatninu liggja: Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Lokamarkið er ávallt Bregenz. Einnig er hlaupið hálfmaraþon, boðmaraþon og léttganga (Nordic Walking). Sankt Pölten. St. Pölten er borg í Austurríki og höfuðborg sambandslandsins Neðra Austurríkis.Íbúar eru tæp 52 þús. St. Pölten gerir tilkall til að vera elsta borgin í Austurríki, en þetta er ákaflega umdeilt. Lega og lýsing. St. Pölten er mjög austarlega í Austurríki og rétt vestan við Vín. Borgin liggur við norðurjaðar Alpafjalla og steinsnar fyrir sunnan Dóná. Áin Traisen rennur í gegnum borgina, sem hefur risið meðfram rennsli hennar. Því er St. Pölten mjög ílöng í norður/suður stefnu. Mikið landbúnaðarsvæði er allt í kring. Næstu stærri borgir eru Krems an der Donau til norðurs (30 km), Vín til austurs (60 km), Wiener Neustadt til suðausturs (85 km) og Linz til vesturs (120 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki St. Pölten er tvískiptur skjöldur. Til hægri er silfurlitaður úlfur á bláum fleti. Tungan er rauð og reðurinn gulur. Úlfurinn er tákn biskupsdæmisins í Passau, en hann hélt áður fyrr á bagli sem nú er horfinn úr merkinu. Til vinstri eru þrjár láréttar rendur: Hvít, rauð og hvít. Litirnir eru litir Habsborgarættarinnar og Austurríkis, nema hvað þeim hefur verið raðað öfugt upp. Skjaldarmerki þetta var veitt borginni 3. nóvember 1538 af Ferdinand III konungi (síðar keisara) og hefur lítið breyst síðan. Orðsifjar. St. Pölten dregur nafn sitt af heilögum Hyppolítus frá Róm sem lifði á 3. öld e.Kr. Á germönsku var dýrlingurinn kallaður St. Pilt, sem síðar breyttist í St. Pölten. Upphaf. Munkaklaustrið 1653. Áfast klaustrinu til hægri er Maríukirkjan, núverandi dómkirkja St. Pölten. Á tímum Rómverja stóð borgin Cetium á núverandi borgarstæði St. Pölten. Á 5. öld missti borgin hins vegar vægi sökum samkeppni nágrannaborga og hvarf loks úr rituðum heimildum. St. Pölten kom fyrst við skjöl árið 799 en var bara smábær næstu aldir. 1081 var munkaklaustur stofnað þar, en biskuparnir í Passau réðu yfir landsvæðinu. 1159 hlaut St. Pölten borgarréttindi af Konráði biskupi frá Passau. Þar með er St. Pölten ein elsta borg Austurríkis ásamt Vín og Enns. Þetta er þó umdeilt. Íbúar á þessum árum voru ekki nema um 4.000 allt fram á miðja 19. öld. Biskuparnir í Passau réðu borginni allt til 15. aldar, er Mattías Corvinus konungur Ungverjalands hlaut borgina að léni. St. Pölten var að mikilvægri herstöð fyrir konung í baráttu sinni gegn Friðrik III keisara í Vín. Ungverjar voru hins vegar hraktir í burtu og krafðist Maximilian I keisari þá borgarinnar í herfang 1491. Síðan þá hefur St. Pölten verið austurrísk. Tyrkir réðust tvisvar inn í Austurríki, 1529 og 1683. Í bæði skiptin réðust þeir á St. Pölten, en borgin náði að verjast. Nýrri tímar. Á 18. öld voru fleiri klaustur stofnuð í borginni og urðu þau 6 í allt. 1785 var biskupsstóllinn færður úr Wiener Neustadt til St. Pölten, sem við það varð að einu mesta vígi kaþólsku kirkjunnar í Austurríki. Á þeim tíma voru íbúar enn tæp 4.000. 11. nóvember 1805 sótti Napoleon St. Pölten heim. 1809 var hún hernumin af Frökkum, sem voru þar með herdeild. 1858 hlaut St. Pölten járnbrautartengingu. Í framhaldi af því hófst iðnvæðing borgarinnar, sem brátt varð að iðnaðarborg. Íbúum fjölgaði í fyrsta skipti að ráði síðan á 14. öld. 1869 voru þeir orðnir 14 þús. Þungaiðnaður festi einnig rætur. En í heimskreppunni á fjórða áratugnum varð gífurlegt atvinnuleysi í St. Pölten. Þetta leystist ekki að ráði fyrr en með innlimun Austurríkis í Þýskaland. Þá var mörgum verksmiðjum breytt fyrir hergagnaframleiðslu. Fyrir vikið varð St. Pölten fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari, þrátt fyrir smæðina. Tæp 40% borgarinnar eyðilagðist. Frá stríðslokum til 1955 var St. Pölten á sovéska hernámssvæðinu. Höfuðborg. 1920 var sambandslandið Vín stofnað, er höfuðborgin splittaði sig frá Neðra Austurríki. Höfuðborg Neðra Austurríkis var hins áfram Vín næstu áratugi. En 1986 var ákveðið að Neðra Austurríki skyldi hljóta eigin höfuðborg. Íbúar fengu sjálfir að velja milli hinna ýmsu borga og hlaut St. Pölten flest atkvæði (45%). 10. júlí 1986 var St. Pölten því að höfuðborg Neðra Austurríkis og er hún yngsta sambandshöfuðborg landsins. Viðburðir. St. Pölten er þekkt fyrir ýmsa tónlistarviðburði. Þrjár stærstu tónlistarhátíðirnar eru Nuke Musikfestival, Lovely Days og Frequency. Eisenstadt. Eisenstadt (ungverska: Kismarton; króatíska: Željezno) er höfuðborg sambandslandsins Burgenland í Austurríki. Íbúar eru aðeins 12 þúsund talsins. Lega og lýsing. Eisenstadt liggur mjög austarlega í Austurríki, rétt vestan við Neusiedler See og aðeins steinsnar frá ungversku landamærunum. Næstu borgir eru Sopron í Ungverjalandi til suðurs (20 km), Wiener Neustadt til vesturs (30 km), Vín til norðurs (50 km) og Bratislava í Slóvakíu til norðausturs (70 km). Eisenstadt liggur að öðru leyti við rætur Leithafjalla sem teygja sig frá Alpafjöllum til Slóvakíu. Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið sýnir svartan örn sitjandi á hvítum borgarturni. Bakgrunnurinn er rauður. Mitt í erninum eru stafirnir FIII en þeir standa fyrir Ferdinand III, erkihertoga af Austurríki og keisari þýska ríkisins á 17. öld. Örninn er merki þýska ríkisins en borgarturninn vísar til Esterházy-kastalans, sem um aldir var aðsetur ríkjandi greifa í Eisenstadt, og er eitt þeirra borgarvirkja sem Burgenland er nefnt eftir. Orðsifjar. Eisenstadt merkir "Járnborgin". Hún hét upphaflega Castrum Ferrum, sem merkir það sama á latnesku. Járn stendur hérna í merkingunni "óvinnanlegt virki" ("sterkt virki") og hefur ekkert með málminn að gera. Ungverjar kölluðu borgina Kismarton, sem merkir "Litli Marteinn" (Kis = "lítill", Marton = "Marteinn"). Þannig heitir hún enn í dag á ungversku. Söguágrip. Tónskáldið Joseph Haydn starfaði í þrjá áratugi í Eisenstadt Árið 1264 kom Eisenstadt fyrst við skjöl og var þá ungversk. 1373 eignaðist Kanizsai-ættin frá Ungverjalandi borgina. Þá var reist mikill borgarmúr og vatnavirki. Eftir það flutti þýskumælandi fólk þangað og 1445 keypti hertoginn Albrecht VI borgina. Næstu 150 árin var borgin því í þýskum höndum. Tyrkir (osmanir) eyddu borginni 1529 og aftur 1532 á leið sinni til Vínar. Seinna á 16. öld eignaðist Esterházy-ættin frá Ungverjalandi borgina, sem þó var enn undir yfirstjórn keisarans í Vín. 1648, árið sem 30 ára stríðinu lauk, keyptu íbúar sig lausan undan öllum yfirráðum. Eisenstadt varð að fríborg. Verðið var 16 þúsund gyllini og 3.000 fötur af víni. Esterházy-ættin stjórnaði borginni með miklum glans. Borgarvirkinu var umbreytt í kastala, sem jafnvel María Teresía sótti heim. Um miðja 18. öldina starfaði tónskáldið Joseph Haydn sem hljómsveitarstjóri í kastalanum. 1897 hlaut Eisenstadt járnbrautartengingu við ungverska járnbrautarkerfið. Við tapið í heimstyrjöldinni fyrri 1918 leystist Esterházy-ættin upp og við tók nokkra ára þræta um eign á borginni, enda gerðu bæði Austurríki og Ungverjaland tilkall til hennar. Árið 1919 var samþykkt að borgin skyldi tilheyra Austurríki, enda nýbúið að stofna sambandslandið Burgenland, en það kom ekki til framkvæmda fyrr en 1921. Í fyrstu var Ödenburg höfuðborg Burgenlands, en hún þótti of lítil fyrir hlutverkið. 1925 var ákveðið að flytja þingið til Eisenstadt og hefur hún verið höfuðborg Burgenlands síðan, fyrir utan nasistatímann 1938-1945 er Hitler leysti Burgenland upp. 1945 hertóku Sovétmenn Eisenstadt og var hún í sovéska hernámshlutanum allt til 1955. Viðburðir. Haydn-hátíðin er haldin árlega í Eisenstadt, enda starfaði tónskáldið Joseph Haydn þar í borg í um þrjá áratugi. Hátíðin fer fram á 90 stöðum í borginni en þungamiðjan er Esterházy-kastalinn, þar sem Haydn sjálfur starfaði. Samfara hátíðinni og tónleikunum fer einnig fram tónlistarkeppni í strengjum og píanó. Hátíð hinna þúsund vína (Fest der 1000 Weine) er vínhátíð í borginni, það stærsta í Burgenland. Það hefur verið haldið síðan 1964 og er tíu daga að lengd. Á hátíðinni er aðallega borið fram vín frá Burgenland og samfara því eru ýmsir tónlistarviðburðir. Ávallt er það kona sem kynnir vínin hverju sinni og er hún kölluð víndrottningin (Weinköningin). Songveldið. Songveldið (kínverska: 宋朝; pinyin: Sòng Cháo; Wade-Giles: Sung Ch'ao) var ættarveldi sem ríkti yfir Kína frá 960 til 1279. Songveldið kom upp í kjölfar tímabilsins sem er kennt við Fimm konungsættir og tíu konungsríki. Songveldið var fyrsta kínverska miðstjórnarvaldið sem gaf út peningaseðla. Á 10. öld tvöfaldaðist íbúafjöldi landsins vegna aukinnar hrísgrjónaframleiðslu með nýjum fljótsprottnum afbrigðum frá Suðaustur-Asíu. Aukin framleiðni og meiri umframframleiðsla leiddi til efnahagslegrar byltingar og nýjar aðferðir í hernaði voru þróaðar með notkun byssupúðurs. Songveldinu er skipt í tvö tímabil: Norður-Songveldið (kínverska: 北宋, 960–1127) með höfuðborg í Bianjing (nú Kaifeng); og Suður-Songveldið (kínverska: 南宋, 1127–1279) eftir að Songveldið missti stjórn norðurhluta landsins í hendur Jinveldisins. 1234 lögðu Mongólar Jinveldið undir sig og 1279 lögðu þeir undir sig síðustu leifar Songveldisins eftir tveggja áratuga styrjöld. Tangveldið. Tangveldið (kínverska: 唐朝; pinyin: Táng Cháo; mið-kínverska: dhɑng) var ættarveldi sem ríkti yfir Kína frá 618 til 907 á eftir Suiveldinu og á undan tímabili fimm konungsætta og tíu konungsríkja. Það var stofnað af Li-ættinni (李) sem hrifsaði til sín völdin eftir að Suiveldinu hafði hnignað. Höfuðborg ríkisins var í Chang'an (nú Xi'an). Hin mannskæða An Shi-uppreisn 755 til 763 veikti miðstjórnarvaldið mikið og Huang Chao-uppreisnin 875 til 884 greiddi miðstjórninni högg sem henni tókst ekki að ná sér eftir. Ríkið leystist upp og í norðrinu tók við tímabil þar sem fimm konungsættir ríktu næstu 50 árinu en í suðrinu urðu til tíu sjálfstæð konungsríki. Júanveldið. Júanveldið (kínverska: 元朝; pinyin: Yuáncháo; mongólska: Их Юань улс) var mongólskt ættarveldi sem ríkti yfir Kína frá 1271 til 1368 á eftir Songveldinu og á undan Mingveldinu. Það var stofnað af Kúblaí Kan, barnabarni Gengis Kan, stofnanda Mongólaveldisins í Asíu. Að nafninu til ríkti Kúblaí Kan líka yfir allri Norður-Asíu allt til Rússlands þar sem hann hafði erft stórkanstitilinn, en í reynd viðurkenndi aðeins eitt af hinum kanötunum yfirráð hans. Eftirmenn hans reyndu ekki að taka upp stórkanstitilinn og kölluðu sig keisara í Kína. Smám saman misstu Júankeisararnir völdin yfir héruðum sínum í Mongólíu og misstu um leið áhrif í Kína. Á endanum féll veldi þeirra þegar nokkrir hirðmenn gerðu hallarbyltingu og gerðu Zhu Yuanzhang að fyrsta keisara Mingveldisins. Spænski rannsóknarrétturinn. Spænski rannsóknarrétturinn var rannsóknarréttur stofnaður á Spáni árið 1478 af Ferdinand og Ísabellu með leyfi frá Sixtusi 4. páfa til að viðhalda kaþólskum rétttrúnaði í ríkjum þeirra. Hann átti sér rætur í ýmsum rannsóknarréttum sem stofnaðir höfðu verið af kirkjunni á miðöldum til að berjast gegn villutrú. Spænski rannsóknarrétturinn var undir beinni stjórn Spánarkonungs. Hann var ekki formlega lagður niður fyrr en árið 1834. Rétturinn hafði aðeins lögsögu yfir kristnu fólki, en þar sem gyðingum og márum var vísað úr landi 1492 og 1502 náði lögsaga réttarins í reynd yfir alla íbúa Spánar. Tilgangurinn með stofnun rannsóknarréttarins var að styrkja konungshjónin í sessi og bæla niður pólitíska andstöðu. Ferdinand beitti Sixtus páfa þrýstingi með því að hóta að draga hersveitir sínar til baka í stríðinu gegn Tyrkjaveldi. Síðar reyndi Sixtus að banna rannsóknarréttinn en neyddist til að draga það til baka. Rannsóknarrétturinn var undir stjórn konungs en fylgdi kirkjurétti sem settur var af Vatíkaninu. Á 16. öld fékkst rannsóknarrétturinn aðallega við baráttu gegn villutrú og varð á tímum gagnsiðbótarinnar tæki til að berjast gegn mótmælendum á öllum svæðum undir spænskri stjórn. Refsingar gátu verið allt frá fjársektum til aftöku með brennu. Yfirheyrslur voru nákvæmlega skrásettar og pyntingum var beitt til að knýja fram játningu. Áætlað er að um 2000 manns hafi verið líflátnir í kjölfar dóma rannsóknarréttarins. Rannsóknarrétturinn bar einnig ábyrgð á því að taka saman lista yfir bannaðar bækur og sjá um förgun þeirra. Rannsóknarrétturinn dæmdi fólk einnig fyrir hjátrú, galdra, samkynhneigð og (í upphafi 19. aldar) fyrir aðild að félögum frímúrara. Wind Point-viti. Wind Point-viti (enska: "Wind Point Lighthouse" eða "Wind Point Light Station") er viti við norðurenda hafnarinnar í Racine við Michigan-vatn í Wisconsin. Michiganvatn. Michiganvatn er eitt af Vötnunum miklu í Norður-Ameríku og það eina af þeim sem er allt innan landamæra Bandaríkjanna. Það er staðsett í fylkjunum Wisconsin, Illinois, Indiana og Michigan. Orðið "Michigan" átti upphaflega aðeins við vatnið sjálft og er talið koma úr máli ojibweindíána þar sem það merkir „stórt vatn“. Tólf milljónir manna búa við vatnið og þar eru meðal annars borgirnar Chicago og Milwaukee. Amadou Toumani Touré. Amadou Toumani Touré (f. 4. nóvember 1948) er forseti Malí. Hann leiddi byltingu gegn fyrrum herforingjastjórn landsins undir stjórn Moussa Traoré árið 1991 og lét borgaralegri stjórn eftir völdin ári síðar. Hann vann síðan forsetakosningarnar 2002 og var endurkjörinn 2007. Vestfirskur einhljóðaframburður. Vestfirskur einhljóðaframburður er það nefnt þegar einhljóð er borið fram á undan ng eð nk þar sem aðrir bera fram tvíhljóð. Þetta er mest áberandi í dæmum með "a" og "ö." Langur (með tvíhljóðaframburði lesið: lángur), töng (með tvíhljóðaframburði lesið: taung) Modibo Sidibé. Modibo Sidibé (f. 7. nóvember 1952) er forsætisráðherra Malí síðan í september 2007. Hann var áður lögregluforingi en var ráðuneytisstjóri undir ýmsum ráðherrum frá 1986 þar til hann varð heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Alpha Oumar Konaré 1993. Hann varð utanríkisráðherra árið 1997 og síðan forsetaritari (með stöðu ráðherra) þegar Amadou Toumani Touré var kjörinn forseti 2002. Touré skipaði hann forsætisráðherra 2007. Senegalfljót. Senegalfljót er 1790km langt fljót í Vestur-Afríku sem myndar landamæri Senegal og Máritaníu. Fljótið hefst við Bafoulabé í Malí þar sem árnar Semefé og Bafing renna saman og rennur út í Atlantshafið við strönd Senegal. Mótmæli. Mótmæli er aðferð manna til að lýsa yfir óánægju sinni með stjórnarfar (t.d. ríkisstjórnar eða ríkjablokka), stöðu mála eða tiltekin atburð. Á mótmælum láta mótmælendur skoðanir sínar sjást og heyrast, knýja á um breytingar og reyna að hafa áhrif á almenningsálitið. Mótmæli geta verið friðsamleg, en einnig stympingar við lögreglu, en einnig mjög ofbeldiskennd, jafnvel svo að sumir láta lífið. Sumir sem vilja sýna samstöðu með því sem mótmælt er, gerast stundum and-mótmælendur, og mótmæla þeim sem mótmæla. Ellegar reyna hleypa mótmælafundinum upp til að koma óorði á mótmælendur. Ganaveldið. Kort sem sýnir Ganaveldið á hátindi sínum. Ganaveldið var konungsríki í Vestur-Afríku þar sem nú eru vesturhluti Malí, suðausturhluti Máritaníu og austurhluti Senegal. Ganaveldið stóð frá því um 750 til 1076. Það blómstraði einkum vegna Saharaverslunarinnar með gull, salt og þræla. Það féll að lokum eftir fimm ára styrjöld við Almoravída frá Marokkó sem ásældust verslunina og blésu því til heilags stríðs gegn Gana. Höfuðborgin, Koumbi Saleh, féll í hendur Abu-Bakr Ibn-Umar árið 1076. Wind Point. Wind Point og staðsetning þess innan Wisconsin. Wind Point er þorp í Racine sýslu í Wisconsin, Bandaríkjunum Malíveldið. Malíveldið var konungsríki mandinka á bökkum Nígerfljóts í Vestur-Afríku. Það stóð frá um 1235 til um 1610. Ríkið var stofnað af Sundiata Keita. Það varð þekkt um allan heim fyrir ríkidæmi sitt, einkum eftir pílagrímsferð mansans Musa 1. til Mekka árið 1324 sem er sögð hafa valdið almennu verðfalli á gulli. Grunnurinn að auði Malíveldisins var Saharaverslunin með gull, salt og þræla. Franska Súdan. Franska Súdan (franska: "Soudan") var frönsk nýlenda í Frönsku Vestur-Afríku sem var til á tveimur aðskildum tímabilum: fyrst frá 1890 til 1899 og síðan frá 1920 til 1960. Nýlendan fékk sjálfstæði og varð ríkið Malí 22. september árið 1960 eftir að hafa um stutt skeið myndað sambandsríki með Senegal. Franska Vestur-Afríka. a> svæðisins samsvöruðu þó ekki að fullu núverandi landamærum. Franska Vestur-Afríka (franska: "Afrique occidentale française, AOF") var sambandsríki átta franskra nýlendna í Vestur-Afríku: Máritaníu, Senegal, Franska Súdan (nú Malí), Frönsku Gíneu (nú Gínea), Fílabeinsströndinni, Níger, Efri Volta (nú Búrkína Fasó) og Dahómey (nú Benín). Sambandið var myndað 1895 og var lagt niður eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1958. Heilagur andi. Heilagur andi er andi Guðs, eins og segir í biblíunni og hluti heilagrar þrenningar. Hans er fyrst getið í 1. Mósebók 1. kafla og 2. versi. Þar segir að jörðin hafi verið auð og tóm og að andi Guðs hafi svifið yfir vötnunum. Andi Guðs kemur síðan til sögunnar mjög reglulega gegnum alla biblíuna. Síðast er hann nefndur í loka kafla biblíunnar eða í Opinberunarbók Jóhannesar 22. kafla og 17. versi þar sem andinn og brúðurin eru að kalla menn og konur til fylgis við Jesú. Gamla testamentið. Í gamla Gamla testamentinu kom andi Guðs yfir einn og einn einstakling í einu og þá í einhverjum ákveðnum tilgangi. Nýja testamentið. Samkvæmt biblíunni varð María móðir Jesú þunguð af heilögum anda. Engill sagði henni að heilagur andi myndi koma yfir hana og kraftur hins hæsta yfirskyggja hana og þess vegna myndi barnið verða kallað heilagt og vera sonur Guðs. Þegar Jesús tók skírn, í ánni Jórdan, steig heilagur andi yfir hann í líkamlegri mynd eins og dúfa. Þessum atburði fylgdi einnig rödd af himni. Jesús sagði við lærisveina sína að það væri þeim til góðs að hann færi því þá myndi faðir hans senda þeim andann heilaga. Hann sagði að þeir myndu öðlast kraft er heilagur andi kæmi yfir þá og að þeir myndu verða vottar hans allt til endimarka jarðarinnar. Hvítasunnudagur. Fjörutíu dögum eftir upprisu Jesú, eða á hvítasunnudag, varð síðan úthelling heilags anda og rættist þá það sem Jesús hafði talað. Í Nýja testamentinu kemur fram að eftir að heilögum anda var úthellt á hvítasunnudag hafi hverjum þeim er tók við Jesú staðið til boða að fyllast heilögum anda og að svo muni verða allt til enda veraldar. Yayi Boni. Yayi Boni sver embættiseið 2006. Yayi Boni (f. 1952) er núverandi forseti Benín. Hann tók við embætti 6. apríl 2006 eftir að hafa sigrað kosningar í apríl sama ár. Boni er menntaður hagfræðingur og var aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Vestur-Afríkuríkja og síðar forstjóri Vesturafríska þróunarbankans. Skíðadalur. Klængshóll innsti bær í Skíðadal. Upp af bænum rís fjallið Hestur. Til hægri er Kvarnárdalshnjúkur. Skíðadalur er strjálbýll dalur sem skerst inn í fjallendi Tröllaskagans inn af Svarfaðardal við Eyjafjörð. Skíðadalur er í beinu framhaldi af aðaldalnum með stefnu til suðurs en innri hluti Svarfaðardals sveigir mjög til vesturs. Dalirnir klofna um hið svipmikla fjall Stól um 10 km frá sjó. Miklir og fornir berghlaupshólar sem nefnast Hvarfið liggja í mynni dalsins. Inn frá Skíðadal ganga margir afdalir inn milli hárra og hrikalegra fjalla. Innst í Skíðadal og afdölum hans er Sveinsstaðaafrétt. Gljúfurárjökull virðist vera fyrir botni Skíðadals eins og hann blasir við frá Dalvík en Skíðadalur nær lengra vestur inn á hálendið. Jökullinn er um 2 km þar sem hann er breiðastur og myndar hann nokkurs konar þríhyrning sem endar neðst í brattri skriðjökultotu sem nær nokkuð niður fyrir snjólínu, þ.e. 550 m hæð. Hæsta fjall við Skíðadal er Dýjafjallshnjúkur og er hann talinn hæsti tindur á fjalllendi því sem er vestan Hörgár- og Öxnadals, 1456 m hár. Aðrir háir tindar við Skíðadal eru meðal annars Vörðufell (1321 m), Blástakkur (1325 m), Steingrímur (1312 m) og Grjótárdalshnjúkur (1384 m). Gjarnan er talað um Stólinn sem einkennisfjall sveitarinnar. Hæsti hluti Stólsins ber nafnið Kerling (1212 m) og þaðan sést norður í Dumbshaf, til Dalvíkur sem og til allra byggðra býla í sveitinni. Ásgrímur Jónsson málaði allmargar stórar landslagsmyndir í Skíðadal á efri árum sínum. Deilireglur. Deilireglur eru flýti- eða hjálparaðgerðir t.a. kanna hvort tala sé deilanleg með annarri tölu, þannig að leifin verði núll, án þess að framkvæma deilinguna sjálfa. Hér verður einungis tekið fyrir tugakerfi fyrir tölur frá 1 til 15, en allar tölur ganga upp í tölunni núll. Nota má deilatöflu til að finna "deila" talna. Rök fyrir deilanleika með 2 til 6. 2 Hugsum okkur tveggja sæta tölu TE (E fyrir tölustafinn í einingasæti og T fyrir tölustafinn í tugasæti). Þá gildir 10*T + E = 2*5*T + E. Nú er ljóst að 2 gengur upp í fyrri liðinn og því er talan TE aðeins deilanleg með 2 ef 2 gengur upp í E, síðasta tölustafinn. 3 Hugsum okkur tveggja sæta tölu TE. Þá gildir 10*T + E = 9*T + (T + E). Hér er ljóst að 3 gengur upp í fyrri liðinn þ.e. 9*T og því er talan aðeins deilanleg með 3 ef 3 gengur upp í (T +E), sem er þversumma tölunnar TE. Þetta er hægt að útvíkka fyrir stærri tölur. t.d. fjagra tölustafa tölur ÞHTE (Þ = tölustafur í þúsundasæti, H = tölustafur í hundraðasæti, og T = tölustafur í tugasæti, E = einingasæti). Við fáum þá: 1000*Þ + 100*H + 10*T + E = (999*Þ + 99*H + 9*T) + (Þ + H + T + E). Talan 3 gengur upp í fyrri svigann þ.e. (999*Þ + 99*H + 9*T) og þar sem (Þ + H + T + E) er þversumman þá gengur talan 3 aðeins upp í töluna ef hún gengur upp í þversummuna. 1000*Þ + 100*H + 10*T + E = (4*250*Þ + 4*25*H) + (10*T + E). Nú gengur 4 upp í fyrri svigann, þ.e. (4*250*Þ + 4*25*H), því þarf 4 að ganga upp í seinni svigann, þ.e. (10*T + E) sem er talan TE til að ganga upp í töluna ÞHTE. 5 Hugsum okkur tveggja stafa tölu TE, þá gildir 10*T + E = 5*2*T + E. Þar sem 5 gengur upp í fyrri liðinn, þá þarf 5 að ganga upp í seinni liðinn, E, sem þýðir að E verður að vera annað hvort 0 eða 5 til að talan 5 gangi upp í töluna TE. 6 Þar sem 2 og 3 eru frumþættir tölunnar 6, þá eru allar tölur sem hafa þessa frumþætti deilanlegar með 6. Stofnenska. Stofnenska (enska: "Basic English") er einfaldað form enskrar tungu. Stofnenskan inniheldur aðeins um 850 orð og útskýrir hugtök meira og minna með skilgreiningum, þ.e. notast við einföld orð til að útskýra flókna hluti. Stofnenska var hugverk Charles Kay Ogden. Orðið "Basic" í Basic English er skammstöfun og stendur fyrir "British American Scientific International Commercial" (Bresk-, amerísk-, vísindaleg-, alþjóða-, verslunar-)-enska. Hanna Birna Kristjánsdóttir. Hanna Birna Kristjánsdóttir (f. 12. október 1966) er innanríkisráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. Hanna er fædd og uppalin í Hafnarfirði. Hún lauk verslunarskólaprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1984 og stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1986. Hún lauk prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1991 og M.Sc. prófi í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Háskólanum í Edinborg 1993. Hanna Birna var starfsmaður Öryggismálanefndar 1990-1991, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu 1994-1995 og framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna 1995-1999. Á árunum 1999-2006 var Hanna Birna aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna var borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 2002-2013 og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 2008-2013. Hún var forseti borgarstjórnar á árunum 2006-2008. Hanna Birna var kjörin borgarstjóri 21. ágúst 2008 og tók við embættinu af Ólafi Friðriki Magnússyni. Hún lét af embætti að loknum kosningunum 2010 þegar Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta og Jón Gnarr varð borgarstjóri. Hanna Birna var kjörin forseti borgarstjórnar í júní 2010 með 15 samhljóða atkvæðum. Með því var tryggt sögulegt samstarf minnihlutans við meirihluta borgarstjórnar. Samstarfið stóð í tíu mánuði, en Hanna Birna sagði af sér forsetaembættinu í apríl 2011 vegna málefnaágreinings við meirihlutann. Hún sóttist eftir fyrsta sætinu í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar 2013. Hún sigraði með miklum yfirburðum og leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 var hún kjörin varaformaður með 95% atkvæða. Að loknum alþingiskosningum varð hún 1. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður. Hanna Birna tók við embætti innanríkisráðherra 23. maí 2013. Samoki. Samoki í stærðfræði er tvinntala, formula_2, sem vensluð er ákveðinni tvinntölu, "z" á þann hátt að þverhlutinn er neikvæður þverhluti hinnar tvinntölunnar, en raunhlutinn er sá sami. Sigfús Daðason. Sigfús Daðason (20. maí 1928 – 12. desember 1996) var íslenskt ljóðskáld. Sigfús lauk námi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1951, sama ár og fyrsta ljóðabók hans kom út, "Ljóð". Hann hélt til Parísar, þar sem hann lagði stund á latínu og bókmenntafræði og lauk þar námi árið 1959. Hann var meðritstjóri Tímarits Máls og menningar frá árinu 1962-76 og framkvæmdastjóri bókaútgáfu Máls og menningar frá 1971-76. Þá starfrækti hann eigið forlag, Ljóðhús. Hann kenndi við Háskóla Íslands. Sigfús lést á Landspítalanum 12. desember árið 1996. Thor Jensen. Thor Philip Axel Jensen (f. 3. desember 1863 í Danmörku, d. 12. september 1947) var danskur athafnamaður sem fluttist ungur til Íslands og varð þjóðþekktur fyrir umsvif sín á fyrri hluta 20. aldar. Útgerðarfélag hans Kveldúlfur hf. var það stærsta á Íslandi á millistríðsárunum. Synir hans urðu þjóðþekktir sömuleiðis, Ólafur Thors var forsætisráðherra Íslands og Thor Thors var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Eiginkona Björgólfs Guðmundssonar, Þóra Hallgrímsson, er barnabarn Thors Jensens, rétt eins og Thor Vilhjálmsson rithöfundur. Thor er því langafi Guðmundar Andra Thorssonar, ritstjóra og rithöfundar og íslenska athafnamannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar. Ævi. Faðir Thors, Ole Jensen, var byggingameistari. Thor átti 11 systkyni og fjórar hálf-systur. Thor gekk vel í námi sínu en þegar hann náði átta ára aldri féll faðir hans frá. Tveimur árum seinna var hann sendur í heimavistarskóla í Kaupmannahöfn sem tók við börnum sem misst höfðu annað eða bæði foreldrið og kenndi þeim endurgjaldslaust. Að náminu loknu, þegar Thor var kominn á fermingaraldur, var hann sendur til Borðeyrar fyrir tilstilli skólastjórans sem þekkti til íslensks kaupmanns sem starfaði þar. Thor aðlagaðist fljótt að Íslandi, las Íslendingasögurnar og lærði íslensku. Til Borðeyrar fluttist ekkja ásamt tveimur börnum, strák og stelpu. Stúlkan hét Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir og með þeim Thor tókust ástir sem entust í yfir 60 ár. Þau eignuðust saman 12 börn: Camillu 20. apríl 1887, Richard 29. apríl 1888, Kjartan 26. apríl 1890, Ólaf 19. janúar 1892, Hauk 21. mars 1896, Kristínu 16. febrúar 1899, Kristjönu 23. júlí 1900, Margréti Þorbjörgu 22. apríl 1902, Thor 26. nóvember 1903, Lorentz 4. júlí 1904, Louise Andreu 24. ágúst 1906 og Louis Hilmar 7. júlí 1908. Thor og Margrét fluttust til Akraness þar sem Thor stofnaði verslun. Fyrst um sinn gekk reksturinn vel en í kringum aldamótin 1900 varð Thor gjaldþrota eftir að skip með vörum hans fórust á leið sinni. Thor fluttist þá ásamt fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar þar sem þau bjuggu uns Thor kom aftur undir sig fótunum og stofnaði verslun á ný í Reykjavík. Vitað mál var að Thor væri röskur maður og „[t]veir af öflugustu útvegsbændum á Seltjarnarnesi, Guðmundur Einarsson í Nesi og Þórður Jónasson í Ráðagerði sögðust skyldu kaupa af honum útgerðarvörur ef hann byði þær á samkeppnishæfu verði.“ Guðmundur þessi veitti honum afnot af húsnæði sínu á horni Austurstrætis og Veltusunds og báðir bændurnir skrifuðu víxil upp á 500 kr. til þess að koma fyrirtækinu á laggirnar. Verslunina nefndi hann "Godthaab"-verzlunina eftir Godthaabsvegi í Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Rekstur verslunarinnar gekk vel og Thor varð á stuttum tíma einn ríkasti maður á Íslandi. Þá byggði hann sér veglegt hús að Fríkirkjuvegi 11 við Tjörnina. Thor kom að stofnun Miljónafélagsins árið 1907 og sá um kaup á og tók þátt í hönnun á Jóni forseta, fyrsta togara Íslendinga. Hann var einn af forystumönnum um stofnun Eimskipafélags Íslands en var ekki kosinn í stjórn sökum uppruna síns og var hann því fráhverfur Eimskipafélaginu síðan. Á efri árum réðst Thor í að gera Korpúlfsstaði að stærsta mjólkurbúi Íslands. Til þessa lagði hann mikið fjármagn og tókst honum ætlunarverk sitt. Thor lést að nóttu til eftir að blætt hafði inn á heila hans. Af virðingu við hann höfðu fjöldamörg fyrirtæki lokað daginn sem jarðarför hans fór fram, 18. september. Norðurland eystra. Kort af Íslandi sem sýnir Norðurland eystra litað rautt. Norðurland eystra er hérað sem nær yfir austurhluta Norðurlands. Það var upphaflega skilgreint sem eitt af átta kjördæmum Íslands árið 1959 og náði yfir Eyjafjarðarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu ásamt með kaupstöðunum Akureyri, Ólafsfirði, Dalvík og Húsavík. Sjá grein um Norðurlandskjördæmi eystra varðandi úrslit alþingiskosninga í kjördæminu. Með breyttri kjördæmaskipan sem fyrst var kosið eftir 2003 var Norðurlandskjördæmi eystra sameinað Austurlandskjördæmi til að mynda Norðausturkjördæmi. 1992 var Héraðsdómur Norðurlands eystra stofnaður með aðsetur á Akureyri. Norðurland eystra er eitt af átta héruðum sem Hagstofa Íslands notar við framsetningu á ýmsum talnagögnum, t.d. um íbúafjölda. Árið 2007 var héraðið stækkað bæði til austurs og vesturs eftir sameiningu sveitarfélaga yfir mörk þess. Siglufjörður sameinaðist Ólafsfirði og sameinað sveitarfélag þeirra, Fjallabyggð, telst nú til Norðurlands eystra. Sömu sögu er að segja af Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi sem sameinuðust í Langanesbyggð. 1. desember 2007 bjuggu 28.797 á Norðurlandi eystra, þar af 17.073 á Akureyri. Aðrir stærri bæir eru Húsavík, Dalvík Siglufjörður og Ólafsfjörður. Skáldagáfa. Skáldagáfa er skynbragð og geta rithöfunda til að koma anda sínum áfram, þ.e.a.s. að kveikja úr skáldskap sínum líf í huga lesenda (eða njótenda) og sem hrærir við þeim með þeim hætti sem efni stóðu til. Skáldagáfa á bæði við um bundið mál eða óbundið (þ.e.a.s. tungumálið, hvernig sem það er notað). Skiptar skoðanir eru um hvað skáldagáfan sé. Aldous Huxley hélt því t.d. fram að skáldagáfan fælist í getu höfundarins til að skrifa milli lína. Raðhverfa. Raðhverfa (eða anagram) er umröðun orðs, nafns eða setningar þannig að efniviðurinn fái nýja merkingu. Íslenska orðið "gaman" getur með raðhverfingu orðið sögnin að "magna". Raðhverfing er ekki mikið stunduð á íslensku, en er vinsæl íþrótt í sumum tungumálum. Orðið anagram er komið af nýgríska orðinu "αναγραμμαμτισμος" anagrammatismos, sem er komið af sögninni "αναγραμμαμτιζειν" anagrammatizein, þ.e. „að umraða orðum í nýtt orð“. Íslenska orðið raðhverfa er hugsað á sama hátt. Stöfunum er raðað upp á nýtt og hverfast þannig í nýtt orð. Að vissu leyti mætti segja að orðið "rass" sé nokkurskonar raðhverfa. Upphaflega orðið yfir bakhlutann í íslensku var "ars", (sbr. í ensku: "arse"), en til að „fela“ orðið eða mýkja, þá var stöfunum umraðað og farið að segja rass. Þetta er þó að vissu leyti sambland raðhverfu og veigrunar. Meðlag. Meðlag (eða barnsmeðlag og í eldra lagamáli forlagseyrir) er framfærslustyrkur með barni og kemur til vegna þess að foreldrar eru ekki í sambúð, og er greiddur af því foreldri sem ekki er með barnið (eða börnin) á sinni framfærslu. Meðlag er oftast greitt af föður til móður. Ríkissjóður ábyrgist "meðlagsgreiðslur", en innheimtir þær af "meðlagsgreiðanda". Orðalag. Hér áður fyrr var talað um "skot", en það var til forna framlag foreldris til barns eftir skilnað foreldranna. Enn er talað um að "gefa með barni". Meðlag er stundum í gamni kallað "folatollur" eða "leikutollur". Rafsvörunarstuðull. Rafsvörunarstuðull er stuðull táknaður með ε, sem er hlutfallið milli rafsviðanna E og D, þ.e. D = ε E. Rafsvörunarstuðull fyrir lofttæmi er táknaður með ε0. Kemur við sögu í jöfnum Maxwells. Segulsvörunarstuðull. Segulsvörunarstuðull er stuðull, táknaður með μ, sem er hlutfall milli segulsviðanna H og B, þ.a. B = μ H. Segulsvörunarstuðull lofttæmis er táknaður með μ0. Kemur við sögu í jöfnum Maxwells. Skilgreining. μ0 = 4π×10−7 N·A−2. Rafsvörunarstuðull lofttæmis, ε0 er skilgreindur út frá segulsvöruanrstuðli og ljóshraða. Jónas Jónasson. Jónas Jónasson (fæddur 3. maí 1931 í Reykjavík) (dáinn 22. nóvember 2011 í Reykjavík) var tónlistarmaður, kennari, sjónvarpsmaður, fréttaþulur hjá RÚV og leikritshöfundur. Jónas lést af völdum krabbameins. Svo skal böl bæta. "Svo skal böl bæta" er skáldsaga eftir Oddnýju Guðmundsdóttur sem kom út árið 1943, útgefin af Víkingsútgáfunni. Ritdómur. Magnús Ásgeirsson skrifaði ritdóm um bókina í tímaritið Helgafell, og segir þar að bókin sé frumsmíð, en segir svo að bókin sé Farkennari. Farkennari er kennari í farskóla, maður sem annast farkennslu, en slíkir kennarar fóru oft á milli bæja til að kenna tímabundið í fjarlægum sveitum. Jóhannes úr Kötlum var á sínum tíma farkennari og kenndi þá m.a. Steini Steinarr. Oddný Guðmundsdóttir. Oddný Guðmundsdóttir (15. febrúar 1908 – 1985) var farkennari og rithöfundur. Hún var frá Hóli á Langanesi. Árið 1939 kom Oddný heim eftir að hafa stundað nám í Svíþjóð. En á yngri árum hafði hún dvalist við nám og störf á Norðurlöndunum og í Sviss. Oddný Guðmundsdóttir var vel máli farin og ágætur rithöfundur. Oddný var farkennari í þrjátíu ár. Hún kenndi á Vestfjarðarkjálkanum í þrettán vetur, fjögur ár á Snæfellsnesi, tvö í Borgarfirði og eitt ár í Dalasýslu. Hún kenndi svo í skemmri tíma en skólaárið spannar í Húnavatnssýslu, Eyjafirði, Tjörnesi, Breiðdalsvík og fleiri stöðum. Hún skrifaði einnig nokkrar bækur og þar að meðal: "Svo skal böl bæta" árið 1943, "Veltiár" árið 1947, "Tveir júnídagar" árið 1949 og ritaði auk þess smásögur í blöð og tímarit og vann að þýðingum. Árið 1978 tók Erlingur Davíðsson viðtal við hana fyrir bókaflokkinn "Aldnir hafa orðið". Þá var Oddný sjötug. Þegar Erlingur settist niður við eldhúsborðið heima hjá henni til að hefja viðtalið, tók hann eftir því að það var engin kaffikanna á borðinu. Þá sagði hún að hún hafi aldrei átt kaffikönnu en þætti samt kaffisopinn góður. Hún hafi heldur ekki átt karlmann og sakni þess ekki neitt. En í staðinn fyrir að segja frá atvikum og ævintýrum af langri ævi sinni þá tók hún sérstakt mál til meðferðar, sem hún nefnir: "Segðu okkur sögu". Þá sögu er hægt að lesa í "Aldnir hafa orðið" (8. bindi). Oddný fór allar sínar ferðir á reiðhjóli hvort sem það var fara á milli bæja eða milli landshluta. Þótti henni ekki mikið mál að skreppa norðan frá Langanesi og suður til Reykjavíkur á reiðhjóli sínu. Fjögur sveitarfélög á Grænlandi. Tenglar. Kujalleq, sveitarfélag á suður Grænlandi Qaasuitsup, sveitarfélag á norð vestur Grænlandi Qeqqata, sveitarfélag á mið vestur Grænlandi Sermersooq, sveitarfélag á suðvestur og suðausturhluta Grænlands. Sparisjóðsvöllur. Knattspyrnuvöllurinn í Sandgerði ber nafn Sparisjóðsins, en samstarfssamningur þess efnis var undirritaður vorið 2007, og ber völlurinn því nafnið Sparisjóðsvöllurinn. Reynir Sandgerði, sem spilar á vellinum, var fyrst íslenskra knattspyrnuliða til að hafa knattspyrnuvöll sem ber nafn fyrirtækis. Annar Sparisjóðsvöllur er á Suðurnesjum en hann er staðsettur í Keflavík og ber nafnið Sparisjóðsvöllurinn í Keflavík, en þetta nafn hlaut völlurinn í febrúar 2008. Seigja. Seigja er eiginleiki kvikefna (vökva), sem lýsir andófi (viðnámi) þeirra við ytri kröftum, sem verka á efnið. Oftast er notast við aflfræðilega seigju, táknaða með μ og hreyfifræðilega seigju, táknaða með ν. Skilgreining. þar sem "u" er hraðinn í x-stefnu. Þessi skilgreining er oftast eignuð Isaac Newton. þar sem ρ er eðlismassi vökvans. Hugo Chávez. Hugo Rafael Chávez Frías (28. júlí 1954 – 5. mars 2013), þekktastur sem Hugo Chávez, var forseti Venesúelu. Chávez, Hugo Gullinsnið. Gullinsnið er ákveðið hlutfall tveggja talna, þ.a. hlutfallið milli summu stærðanna og stærri tölunnar er jafnt hlutfallinu milli stærðana. Þetta hlutfall þykir einstaklega fallegt og er oftast táknað með gríska bókstafnum formula_1 (Fí) sem er fyrsti stafurinn í nafni gríska myndhöggvarans og stærðfræðingsins Feidíasar, sem byggði höggmyndir sínar á gullinsniði um 500 árum f.Kr. Í stærðfræði og listum er oft talað um gullinsnið. formula_2 formula_3 Myndrænt má lýsa gullinsniði þannig að ef línu (a+b) er skipt í tvo hluta (a og b) og hlutfall lengri hlutans (a) á móti styttri hlutanum (b) er það sama og hlutfall línunar allrar (a+b) á móti stærri hlutanum (a). Þá höfum við hlutfall sem kallað er gullinsnið Útreikningar. Tvær jákvæðar stærðir formula_4 og formula_5 eru sagðar vera í gullinsniði ef formula_2 Þessi jafna skilgreinir formula_1 með ótvíræðum hætti. Hægri hlið jöfnunnar sýnir að formula_8,sem með innsetningu í vinstri hlið jöfnunnar gefur formula_9 Deilum í gegnum jöfnuna með formula_5 og fáum formula_11 formula_13 Eina jákvæða lausnin á þessari annars stigs jöfnu er formula_3 Hlutfall tveggja samliggjandi Fibonaccitalna nálgast gullinsnið, þ.e. "F"n+1/"F"n → φ, þegar "n" vex. Landssamband íslenskra útvegsmanna. Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) eru hagsmunasamtök útvegsmanna á Íslandi og eiga allir meðlimir svæðisbundins útvegsmannafélags, sem er meðlimur í LÍÚ, aðild að félaginu. Félagið er aðildarfélag Samtaka atvinnulífsins og eru því allir meðlimir LÍÚ félagar í Samtökum atvinnulífsins. Um miðbik 20. aldar og allt fram undir lok hennar var íslenskur sjávarútvegur undirstaða íslensks atvinnulífs. Þá var það hlutverk LÍÚ að vera samningsaðili fyrir hönd þeirra sem gerðu út veiðibáta, bæði til sjómanna sem og stjórnvalda. Þótt sjávarútvegur sé ekki jafn mikilvægur og það var áður fyrr er LÍÚ enn mikilvæg samtök. Saga. LÍÚ var stofnað af 50 útgerðarmönnum á fundi í Reykjavík þann 17. janúar 1939. Alþingismennirnir Jóhann Þ. Jósefsson og Sigurður Kristjánsson og útgerðarmaðurinn Elías Þorsteinsson frá Keflavík höfðu verið fengnir til þess að undirbúa stofnunina. Áður var búið að stofna Útvegsbændafélag Vestmannaeyja og Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda. LÍÚ var stofnað svo að hagsmunum útgerðarmanna um land allt gæti verið gætt af einu og sama félaginu. Árið 1944 kom upp hagsmunadeila milli þeirra útgerðarmanna sem gerðu út togara annars vegar og smábáta hins vegar. Þá var sambandinu skipti í tvær deildir eftir þessu. Haustið 1945 var innkaupadeild LÍÚ sem hafði því hlutverki að gegna að útvega aðildarfélögum veiðarfæri sem erfitt var að nálgast á meðan seinni heimsstyrjöldin geysaði. Innkaupsdeildin var rekin allt til 1993 þegar hún var lögð niður vegna mikillar samkeppni. Á tímabilinu 1944 til 1960 voru mikil samskipti milli LÍÚ og íslenskra stjórnvalda. Það var vegna þess að íslenska krónan var rangt skráð og því þurfti "uppbóta- og millifærslukerfi" til þess að jafna dæmið. Viðreisnarstjórnin afnam þetta fyrirkomulag með því að skrá raunvirði krónunnar frá og með 1960. Árið 1961 var Verðlagsráð sjávarútvegsins stofnað því samningar höfðu tekist árið áður um að sjómenn fengju til sín hluta af aflaverðmæti og annar kostnaður við útgerð sem áður hafði lent á þeim felldur niður. Í ráðið voru skipaðir aðilar frá útgerðarmönnum, sjómönnum og fiskverkurum auk þess sem ríkið kom einum að. Þetta fyrirkomulag var lagt af 1992. Newark (New Jersey). Newark er stærsta borgin í New Jersey í Bandaríkjunum. Íbúar borgarinnar voru rúmlega 281 þúsund árið 2006 og var þar með 64. stærsta borg Bandaríkjanna. Borgin var stofnuð árið 1693 sem bæjarfélag en hlaut borgarréttindi þann 11. apríl 1836. Newark liggur um 8 km vestan Manhattan-eyju og rúmlega 3 km norðan Staten Island. Borginni er skipt í fimm svæði eða borgarhluta: Norður-hlutann, Suður-hlutann, Vestur-hlutann, Austur-hlutann og Mið-hlutann. Höfn borgarinnar er ein af meginhöfum stórborgarsvæðis New York-borgar. Borginni þjónar Newark Liberty International Airport, sem er einn af þremur meginflugvöllum stórborgarsvæðisins og elstur þeirra. Jersey City (New Jersey). Jersey City er borg í Hudson-sýslu í New Jersey í Bandaríkjunum. Íbúarfjöldi borgarinnar var áætlaður 240.055 árið 2000 og borgin var því næst stærsta borg fylkisins. Íbúafjöldi árið 2006 var áætlaður 241.791 og borgin því 73. stærsta borg Bandaríkjanna. Jersey City liggur á vesturbakka Hudson-flóa andspænis syðri hluta Manhattan-eyju í New York-borg og er hluti af stórborgarsvæði New York-borgar. Borgin er mikilvæg iðnaðar- og verslunarborg. Afbygging. Afbygging (franska: "déconstruction") er túlkunaraðferð í heimspeki, bókmenntarýni og félagsfræði þar sem leitast er við að raska gefnum undirstöðum í rótgrónum fræðum, s.s. bókmenntum og vestrænni heimspeki, og draga fram mótsagnir og skapa nýjar tengingar. Hugtakið mótaði Jacques Derrida á fimmta áratug 20. aldar. Norðurland vestra. Kort af Íslandi sem sýnir Norðurland vestra litað rautt. Norðurland vestra er hérað sem nær yfir vesturhluta Norðurlands. Það var upphaflega skilgreint sem eitt af átta kjördæmum Íslands árið 1959 og náði yfir Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu ásamt með kaupstöðunum Sauðárkróki og Siglufirði. Sjá grein um Norðurlandskjördæmi vestra varðandi úrslit alþingiskosninga í kjördæminu. Með breyttri kjördæmaskipan sem fyrst var kosið eftir 2003 var Norðurlandskjördæmi vestra sameinað Vesturlandskjördæmi og Vestfjarðakjördæmi til að mynda Norðvesturkjördæmi. 1992 var Héraðsdómur Norðurlands vestra stofnaður með aðsetur á Sauðárkróki. Norðurland vestra er eitt af átta héruðum sem Hagstofa Íslands notar við framsetningu á ýmsum talnagögnum, t.d. um íbúafjölda. Árið 2007 minnkaði héraðið þegar Siglufjörður sameinaðist Ólafsfirði. Sameinað sveitarfélag þeirra, Fjallabyggð, telst nú til Norðurlands eystra. 1. desember 2007 bjuggu 7.359 á Norðurlandi vestra, þar af 2.555 á Sauðárkróki. Aðrir stærri bæir eru Blönduós, Hvammstangi og Skagaströnd. Trenton (New Jersey). Trenton er höfuðborg New Jersey-fylkis í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi borgarinnar var 84.639 árið 2005. Trenton varð höfuðborg New Jersey þann 25. nóvember árið 1790. Í borginni er Ríkisfangelsi New Jersey sem hýsir hættulegustu glæpamenn fylkisins. Einsaga. Einsaga (enska: "microhistory") er hugtak í sagnfræði og felst í því að nálgast viðfangsefni mankynssögunnar á nýjan hátt. Í stað þess að einbeita sér að formlegum stofnunum samfélagsins og einstaka mönnum sem taldir eru hafa haft mikil áhrif á framgöngu sögunnar skoðar einsagan hvar einstaklingurinn stóð í þessu stóra gangvirki. Einsagan hefur beint sjónum sínum að einstaklingum sem hafa yfirleitt ekki átt upp á pallborðið hjá sagnfræðingum, og þá er helst litið til skrifa alþýðumanna og -kvenna sem skildu einhverra hluta vegna eftir sig heimildir um líf sitt og hugsanir. Tvíblöðungur (prentun). Tvíblöðungur (eða fólíó) er í prentverki örk í bók eða handriti sem er í arkarbroti. Orðið fólíó er beygingarmynd af latneska orðinu „"folium"“ sem þýðir blað, og er haft um örk sem brotin er einu sinni. Er það því kallað tvíblöðungur á íslensku. Tjara. Tjara er svartur (eða svartbrúnn) slímkenndur vökvi, og svotil fljótandi við herbergishita. Tjara var upphaflega unnin með þurreimingu á viði, og var þá aðallega notuð fura og grenitré. Tjara er notuð m.a. til varnar gegn fúa, og voru skip, hús og brúarstólpar oft tjargaðir hér áður fyrr. "Koltjara" er unnin með þurreimingu úr kolum, en "hrátjara", öðru nafni "viðartjara", fæst með sama hætti úr trjávið. Í riti einu stendur að koltjara hrindi frá sér vætu, "því hún er ágæt á neðanjarðar steinveggi og á tré er hún einnig notuð, þótt á það sé oftast heppilegra að nota viðartjöru (hrátjöru)". Ef tjara er soðin til vissrar þykktar og herslu, þá kallast hún bik. Seigja tjöru er um það bil 100 miljarð sinnum meiri en vatns. Framtíðarsýn. Framtíðarsýn er það þegar maðurinn reynir að ímynda sér á vissum tímapunkti hvernig framtíðin muni verða, hvernig umhorfs verði þá í efnahagslegu tilliti, pólitísku eða tæknilegu. Framtíðasýn er mikilvægur hluti af vísindaskáldsögum, sbr. t.d. Karel Čapek og H. G. Wells. Framtíðarsýn er sérlega vinsælt hugtak í munni stjórnmálamanna, enda er það verkefni þeirra að framtíðin verði betri en hún er núna, hvernig sem staðan er. Einnig lýsir það þeirri braut sem flokkur hans hefur markað sér. Denis Feeney. Denis C. Feeney (fæddur 16. október 1955) er nýsjálenskur fornfræðingur, prófessor í fornfræði og Giger-prófessor í latínu við Princeton-háskóla. Feeney lauk B.A.-prófi frá Háskólanum í Auckland á Nýja Sjálandi árið 1976 og D.Phil.-gráðu frá Oxford-háskóla árið 1982. Doktorsverkefni hans fjallaði um 1. bók "Púnverjastríðsins" eftir Silius Italicus og var unnið undir leiðsögn R.G.M. Nisbet. Feeney kenndi m.a. við Edinborgarháskóla, Háskólann í Bristol, Wisconsin-háskóla í Madison og Oxford-háskóla áður en hann tók við stöðu sinni við Princeton-háskóla. Bók Feeneys "The Gods in Epic" hafði mikil áhrif á hugmyndir manna um tengslin milli bókmennta og trúarbragða í Rómaveldi. Bækur. Feeney, Denis Frederick Ahl. Frederick M. Ahl (fæddur 1941) er bandarískur fornfræðingur og prófessor í fornfræði og bókmenntafræði við Cornell-háskóla. Í bók sinni "Sophocles' Oedipus" (1991) færir Ahl rök fyrir því að í leikriti Sófóklesar sé Ödípús ekki í raun sekur um að hafa banað föður sínum og kvænst móður sinni. Niðurstaða Ödípúsar um eigin sekt er strangt tekið ekki staðfest af því sem fram kemur í leikritinu sjálfu, en áheyrendur hafi gert ráð fyrir sekt hans vegna þess sem þeir vissu um goðsöguna um Ödípús. Bækur. Ahl, Frederick Kapphlaupið um Afríku. Franskt kort af Afríku frá því um 1898 sýnir tilkall Evrópuþjóða til landsvæðis í Afríku. Landsvæði undir breskum yfirráðum er gult, undir frönskum yfirráðum er bleikt, undir belgískum yfirráðum er appelsínugult, undir þýskum yfirráðum er grænt, undir portúgölskum yfirráðum er fjólublátt. Eþíópía (sjálfstæð) er brún. Kapphlaupið um Afríku var fólgið í síauknu tilkalli Evrópuþjóða til landsvæða í Afríku á síðari hluta nýlendutímans eða á tímabilinu frá 1880 til upphafs fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1914. Stríð Sovétríkjanna og Póllands. Hermenn í skotgröf í orrustunni við Niemen. Stríð Sovétríkjanna og Póllands (febrúar 1919 – mars 1921) var stríð milli Rússlands og Sovéska sósíalíska lýðveldisins Úkraínu annars vegar og Póllands og Alþýðulýðveldisins Úkraínu hins vegar. Stríðið var afleiðing árekstra í útþenslustefnu ríkjanna. Pólland reyndi að tryggja sér landsvæði sem það hafði tapað seint á 18. öld. Sovétríkin stefnu á að halda yfirráðum yfir þessu sama landsvæði sem hafði tilheyrt Rússneska keisaradæminu fram að fyrri heimsstyrjöldinni. Bæði ríkin lýstu yfir sigri í stríðinu. Landamæri Rússlands og Póllands höfðu ekki verið skilgreind í Versalasamningunum og ýmsir atburðir undir lok styrjaldarinnar og í kjölfar hennar ógnuðu stöðugleika í Austur-Evrópu: Rússneska byltingin 1917 og hrun Rússneska, Þýska og Austurríska keisaraveldisins; Borgarastríðið í Rússlandi; brotthvarf miðveldanna frá austurvígstöðvunum; og tilraunir Úkraínu og Hvíta-Rússlands til að öðlast sjálfstæði. Józef Piłsudski, leiðtogi Pólverja, taldi að rétti tíminn væri til þess að færa út landamæri Póllands í austurátt svo langt sem hægt væri og þanning mætti varna gegn uppgangi þýskrar og rússneskrar heimsveldisstefnu. Lenín leit aftur á móti á Pólland sem brúna sem Rauði herinn yrði að fara yfir til að geta komið kommúnistum í Þýskalandi til hjálpar og öðrum byltingaröflum í Vestur-Evrópu. Undir árslok 1919 hafði pólskum hersveitum tekist að ná yfirráðum yfir stórum hluta að Vestur-Úkraínu. Bolsévikar höfðu á sama tíma náð yfirhöndinni í borgarastríðinu í Rússlandi. Vorið 1920 náu sovéskar hersveitir að brjóta á bak aftur pólska herinn og hrekja hann alla leið aftur til höfuðborgarinnar Varsjár. Í Vestur-Evrópu vaknaði ótti við sovéskar hersveitir sem nálguðust óðum landamæri Þýskalands. Um mitt sumarið var útlið fyrir að Varsjá myndi falla en um miðjan ágúst höfðu pólskar hersveitir betur í Orrustunni um Varsjá og sneru vörn í sókn. Þá hófu Sovétmenn friðarumleitanir og stríðinu laik með vopnahléi sem tók gildi í október 1920. Friðarsamningarnir, Riga-sáttmálinn, var undirritaður 18. mars 1921 en þar var kveðið á um skiptingu landsvæðisins sem deilt var um. Fred Dretske. Fred I. Dretske (fæddur 1932) er heimspekingur sem er einkum þekktur fyrir framlag sitt í þekkingarfræði, hugspeki og athafnafræði. Dretske lauk doktorsgráðu frá Háskólanum í Minnesota. Dretske kenndi um árabil við Wisconsin-háskóla í Madison og síðar við Stanford-háskóla. Hann tók við prófessorsstöðu í heimspeki við Duke-háskóla árið 1999. Dretske hefur haldið fram úthyggja um hugann og reynir víða í skrifum sínum að sýna að með sjálfskoðun læri maður minna um eigin huga en búast mætti við. Dretske hlaut Jean Nicod-verðlaunin árið 1994. Tenglar. Dretske, Fred Dretske, Fred Alræði. Alræði er tegund stjórnarfars þar sem ríkisvaldið hefur afskipti af flestum eða öllum þáttum mannlífsins, bæði í opinberu lífi og einkalífi. Einræðisríki eru gjarnan alræðisríki en alræðisríki þurfa ekki öll að vera einræðisríki. Tirol. Tirol er sambandsland í Austurríki. Upphaflega var Tirol mun stærra en það er í dag, en við tap Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri fengu Ítalir suðurhelming héraðsins. Hið austurríska Tirol er því eingöngu norðurhluti hins gamla héraðs. Íbúar þar eru 710 þúsund og er höfuðborgin Innsbruck. Tirol er ákaflega fjalllent og fagurt hérað. Lega og lýsing. Með rúmlega 12 þús km2 er Tirol þriðja stærsta sambandsland Austurríkis. Það skiptist í tvennt. Norðurtirol er stærri og nær frá Vorarlberg í vestri til Salzburg í austri. Fyrir norðan er Þýskaland en fyrir sunnan er Ítalía. Austurtirol er minni og er svæðið lokað af af Salzburg í norðri, Kärnten í austri og Ítalíu í suðri. Af öllum sambandslöndum Austurríkis er Tirol með lengstu landamærin að öðrum ríkjum. Tirol er ákaflega fjalllent, enda teygja Alpafjöllin sig eftir endilöngu sambandslandinu. Þeim er reyndar skipt upp í minni fjallgarða, svo sem Karwendelfjöll, Wettersteingebirge, Lechtaler Alpen, Dólómítana, Ötztaler Alpen og fleiri. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Tirol er rauður örn á hvítum grunni. Örninn er með gular klær og vængrendur. Fyrir ofan er lárviðarkrans. Örninn hefur verið merki Tirol síðan á 13. öld og kom fyrst fram 1205. Lárberjakransinn minnir á frelsisstríð Tirol á tímum Napoleons. Rauður og hvítur eru litir Habsborgarættarinnar, sem og Austurríkis. Síðustu breytingar voru gerðar 1918 en þá klofnaði Tirol í tvö héruð. Fáninn er líkur Austurríska fánanum, hvít rönd að ofan og rauð að neðan. Þetta eru litir Habsborgarættarinnar, sem og Austurríkis. Söguágrip. Tirol í heild sinni. Dökki liturinn tilheyrir Ítalíu. Ljósi liturinn tilheyrir Austurríki. Norðurtirol er í kringum Innsbruck. Austurtirol er í kringum Lienz. Snemma á miðöldum tilheyrði Tirol Bæjaralandi, en þá var Tirol enn sameinað og náði niður á Pósléttuna á Ítalíu. Habsborgarar eignuðust landið á 14. öld. Sumir keisarar og konungar þýska ríkisins höfðu aðsetur í Innsbruck, sem alla tíð hefur verið helsta borgin í Tirol. Þegar Napoleon hertók svæðið, gaf hann konungsríkinu Bæjaralandi svæðið árið 1805. Íbúar Tirol voru mjög ósáttir og 1809 gerðu þeir uppreisn undir stjórn Andreas Hofer. Keisarinn í Vín studdi uppreisnina til að byrja með. Uppreisnin mistókst og voru leiðtogar hennar teknir af lífi. Eftir fall Napoleons var Tirol í heild sinni eign Austurríkis. 1861 splittaði Vorarlberg sig úr Tirol og myndaði eigið hérað. Eftir tap Þýskalands og Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri 1918 sóttu Ítalir fast eftir því að eignast Tirol. Á friðarráðstefnunni í St. Germain 1919 var ákveðið að skipta Tirol í tvennt. Norðurtirol og Austurtirol voru áfram í Austurríki og urðu að eigið sambandslandi. Suðurtirol varð ítalskt. Þegar Hitler og Mussolini gerðu með sér friðarsamninga var ákveðið að leyfa 70 þúsund íbúum Suðurtirols að flytja til Norðurtirols árið 1940. Sumir sneri til baka eftir tapið í heimstyrjöldinni síðari. Þann 3. maí 1945 hertóku bandamenn héraðið. Norðurtirol var á franska hernámssvæðinu en Austurtirol var á breska hernámssvæðinu. Stjórnmálalega séð voru héruðin sameinuð á ný 1947. Þegar Austurríki hlaut sjálfstæði á ný 1955 varð Tirol að sambandslandi. Árin á eftir voru einkennandi fyrir mikinn efnahagsvöxt, enda var Tirol ákaflega vinsælt meðal ferðamanna. Ferðamennska er enn í dag einn mikilvægasti atvinnuvegur sambandslandsins. Kirkja Grundtvigs. Kirkja Grundtvigs er kirkja á Bispebjerg í Kaupmannahöfn reist til minningar um prestinn og alþýðufræðarann Nikolai Frederik Severin Grundtvig (1783-1872). Hún var vígð 8. september 1940. Henni má ekki rugla saman við Grundtvigskirkju í Esbjerg á Jótlandi sem var vígð árið 1969. Robert Indiana. Robert Indiana (f. Robert Clark, 13. september 1928) er bandarískur myndlistarmaður sem einkum tengist popplistastefnunni. Hann er þekktastur fyrir verk sem hann kallar „höggmyndaljóð“; stutt orð eins og „EAT“, „HUG“ og „LOVE“ sem eru sett upp með breiðu letri í einfalda táknmynd. Indiana, Robert Joseph Smith. Joseph Smith, Jr., teikning gerð af Charles William Carter, 1886. Joseph Smith (fæddur 23. desember 1805 í Sharon í Vermont-fylki í Bandaríkjunum, dáinn 27. júní 1844 í Carthafe í Illinois-fylki) er meginspámaður og stofnandi mormónasafnaðarins - Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Joseph Smith fæddist inn í mjög fátæka fjölskyldu, fimmta barnið af ellefu. Vegna fátæktar fékk Joseph litla skólagöngu, nánast eingöngu að lesa og skrifa og einfaldan reikning. Hann og fjölskyldan lögðu hins vegar mikla áherslu á lestur Biblíunnar. Fjölskyldan flutti fáum árum eftir fæðingu Josephs til borgarinnar Palmyra í New York-fylki. Þar gekk yfir mikil kristin vakningaralda og fjölmargir söfnuðir tókust á um hina réttu kenningu. Jospeh varð fyrir miklum áhrifum af þessu en gat ekki valið á milli kenninganna. Samkvæmt sögu mormóna birtust þeir Guð og Jesús Joseph Smith árið 1820, en þá var hann 14 ára. Jesús sagði Joseph að hann ætti ekki að ganga í neinn þá starfandi söfnuð heldur ætti að axla það verkefni að endurreisa hina raunverulegu kirkju Jesús Krists. Joseph sagði fjölskyldu sinn frá tíðindunum og fékk stuðning hennar. Söfnuðirnir í nágrenninu tóku boðskapnum hins vegar mjög fjandsamlega eins og gefur að skilja. Þremur árum seinna, segir sagan, var Joseph Smith heimsóttur af englinum Moroni sem sagð honum meðal annars að hann mundi finna og þýða heilaga bók ritaða á gullplötur. Bókin væri ritsafn fornra spámanna í Ameríku. Smith vildi þegar finna plöturnar en Moroni ráðlagi honum að bíða um stund. Árið 1827 náði Smith í plöturnar sem hann hafði fundið í Cumorah hæðinni í Manchester, New York-fylki. Joseph Smith þýddi plöturnar á þremur mánuðum og nefndi bókina sem þar var að finna "Book of Mormon" eða Mormónsbók eftir Mormón, einum aðalspámanni bókarinnar. Að lokinni þýðingu afhenti Smith englinum Moroni plöturnar aftur. Bókin var fyrst gefin út 1830. Sama ár stofnaði Smith "Kirkju Krists" sem hefur verið nefnd "Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu" frá árinu 1836. Joseph Smith fékk fjölmargar vitranir og opinberanir á æfinni og skrifaði um þær, hann gerði einnig ýmsar þýðingar meðal annars hluta af Biblíunni. Ritverk hans hafa verið gefin út sem Kenning og sáttmálar og Hin dýrmæta perla. Framámönnum annarra safnaða var mjög uppsigað við Joseph Smith og hann var handtekinn meir en þrjátíu sinnum og ásakaður fyrir ýmis afbrot en aldrei sakfelldur. Hann var að lokum myrtur 38 ára gamall. Joseph og bróðir hans Hyrum voru skotnir 27. júní 1844 af 150 manna lýð sem réðist inn í fangelsi í Illinois þar sem þeir sátu ákærðir fyrir uppþot og siðleysi. Í mormónakirkjunni voru 26 000 safnaðarmeðlimir við andlát Joseph Smiths. Kvikefni. Kvikefni er efni, sem er þeirrar gerðar að það aflagast samfellt við skerspennu, hversu lág sem hún er. Getur átt við vöva, gas, rafgas eða efni sem hvorki eru vökvar né þéttefni. Jöfnur Navier-Stokes og samfelldnifjafnan eru notuð til að lýsa hreyfingu kvikefna. Seigja er eiginleiki kvikefna og lýsir andófi þeirra gegn ytir kröftum. Roy Lichtenstein. Roy Lichtenstein (27. október 1923 – 29. september 1997 í New York-borg) var bandarískur myndlistarmaður sem einkum tengist popplistastefnunni. Lichtenstein, Roy Slotið. Slotið í Kaupmannahöfn, mynd frá 1698 eftir Carl Otto. Slotið í Kaupmannahöfn eða Kaupinhafnarslot var konungshöllin í Kaupmannahöfn frá því Kristófer af Bæjaralandi ákvað að gera borgina að höfuðborg þar til það var rifið 1731 til að rýma fyrir Kristjánsborgarhöll. Slotið var reist á Slotshóminum eða Hallarhólminum þar sem Virki Absalóns hafði áður staðið, en það var brotið niður að undirlagi Hansasambandsins árið 1369 eftir friðarsamninga sem gerðir höfðu verið. Undirstöður Slotsins eru undir aðalálmu Kristjánsborgarhallar, og voru grafnar upp, þegar Kristjánsborg var endurbyggð í byrjun 20. aldar. Rústirnar eru til sýnis fyrir ferðamenn. Saga Slotsins. Ekki er vitað með vissu hvenær Slotið var byggt, en þess er getið skömmu eftir að gamla virkið var brotið niður. Það varð aðsetur konungs þegar Kristófer af Bayern fluttist til Kaupmannahafnar árið 1443. Þá hófust menn handa við að breyta og bæta við, til þess að fá meira pláss, en Slotið var þó lengi innan við gamla, hringlaga virkisvegginn, sem hafði verið umhverfis virki Absalóns, og var um 50 m í þvermál. Utan við vegginn var síki, eða skurður. Á þessum bletti bjó kóngurinn með fjölskyldu sinni og hirð, en með tímanum bættust við byggingar utan múranna, svo sem varðturn og tollbúð. Smám saman var Slotinu breytt með viðbyggingum, svalagöngum, turnum og öðru. Kristján 1. lét reisa samkomusal sem kallaður var "Riddarasalurinn" eða "Danssalurinn", en var þó ekki fullgerður fyrr en 1503, af Jóhanni eða Hans Danakonungi. Fyrsta umtalsverða breytingin var gerð í tíð Kristjáns 3., sem lét reisa nokkrar byggingar utan við virkisskurðinn. Þá var reist kirkja á hólminum, stjórnarbyggingar, brú og hafnarmannvirki fyrir flotann. Þegar Kristján 4. var krýndur 1596, hélt hann upp á það með því að hækka turninn við innganginn og setja á hann spíru. Þessi turn var kallaður Bláturn, og er best þekktur sem fangelsi. Annars var Slotinu ekki breytt mikið á þessu tímabili. Það átti hins vegar frekar við um umhverfi þess, þar sem ráðist var í miklar landfyllingar, hólmarnir tengdir saman og ýmsar byggingar reistar. Frá þeim tíma eru Kristjánshöfn, Kauphöllin eða Börsinn og Týhúsið. Friðrik 3. hélt þessu starfi áfram, og lét reisa hesthús og konunglegt bókasafn. Um 1700 lét Friðrik 4. endurbyggja Slotið. Virkisskurðurinn var fylltur og jafnaður, og nýr grunnur Slotsins, sem hafði verið með ótal skotum og útbyggingum, var lagður í reglulegan fimmhyrning. Síðan voru álmurnar byggðar umhverfis Slotsgarðinn, sem varð við þetta leiðinlega dimmur og skuggsæll. Brátt kom í ljós að undirstöðurnar voru ekki nógu vandaðar, og fóru þær að síga og sprungur að koma í veggina. Eftirmaður Friðriks, Kristján 6., ákvað um 1730 að rífa Slotið til grunna og byggja alveg nýja höll, hina fyrstu Kristjánsborgarhöll. Steiermark. Kort sem sýnir Steiermark í Austurríki. Steiermark er eitt af sambandslöndum Austurríkis og er að mestu leyti í Ölpunum. Höfuðstaður þess er Graz og íbúar eru um 1.206.123 (2007) talsins. Aðrir helstu bæir eru Leoben, Kapfenberg, Bruck an der Mur, Knittelfeld og Köflach. Steiermark er gjarna skipt í Efri-Steiermark (þýska: Obersteiermark), það er að segja norður- og norðvesturhlutann, en þar eru sveitarfélögin Liezen, Murau, Judenburg, Knittelfeld, Leoben, Bruck an der Mur og Mürzzuschlag; Vestur-Steiermark (þýska: Weststeiermark), sem er vestan við Graz, en til þess teljast Voitsberg, Deutschlandsberg og vesturhluti sveitarfélagsins Leibnitz; og Austur-Steiermark (þýska: Oststeiermark), sem er svæðið austan Graz. Sveitarfélögin þar eru Weiz, Hartberg, Feldbach, Fürstenfeld og Radkersburg. Syðsti hluti Steiermark, sem nú tilheyrir Slóveníu, kallaðist Neðri-Steiermark (þýska: Untersteiermark) og það nafn er raunar enn stundum notað en Slóvenar kalla héraðið Štajerska. Stærsti samdeilir. Stærsti samdeildir eða stærsti sameiginlegi deilir (skammstafað sem ssd) tveggja náttúrulegra talna er stærsta tala sem gengur upp í báðar tölurnar. Einfaldast er að finna stæsta samdeili með því að frumþátta báðar tölurnar, finna hvaða frumþættir eru sameiginlegir báðum tölunum og margfalda þá saman. Þá er stærsti samdeilir fundinn. Stærsti samdeilir náttúrulegu talnanna formula_1 og formula_2 er táknaður með formula_3, og ef stærsti samdeilir þeirra er formula_4 þ.e. formula_5 teljast tölurnar ósamþátta og eiga þær þá enga sameiginlega frumþætti. Dæmi. Finnum formula_6. Byrjum á að frumþátta: formula_7 og formula_8. Sameiginlegu frumþættirnir eru formula_9 og formula_9 en formula_11. Þá er formula_12 Þær tölur og aðeins þær tölur sem ganga upp í formula_3 ganga upp í báðar tölurnar formula_1 og formula_2. Minnsta samfeldi tveggja náttúrulegra talna er minnsta talan sem báðar tölurnar ganga upp í. Minnsta samfeldi náttúrulegu talnanna a og b er táknað með formula_16 Einfalt er að finna minnsta samfeldi. Tölurnar tvær eru raktar í frumþætti. Þá er búin til ný tala sem er margfeldi allra frumþátta úr tölunum tveimur, þó þannig að ef sami þáttur kemur fyrir í báðum tölum kemur hann aðeins einu sinni fyrir í nýju tölunni. Nýja talan er minnsta samfeldið. Ef formula_1 og formula_2 eru náttúrulegar tölur þá gildir að margfeldi minnsta samfeldis og stærsta samdeilis er jafnt margfeldi formula_1 og formula_2, þ.e. formula_21. Þetta verður augljóst þegar haft er í huga hvernig stærsti samdeilir og minnsta samfeldi eru búin til úr frumþáttum talnanna formula_1 og formula_2. Í formula_24 eru allir þættir talnanna tveggja, en þeir sem eru sameiginlegir koma bara einu sinni fyrir. Í formula_3 eru sameiginlegu frumþættirnir og margfeldi formula_3 og formula_24 inniheldur því alla frumþætti talnanna formula_1 og formula_2 og tvo af hverjum sameiginlegum þætti. Margfeldi formula_3 og formula_24 er því margfeldi allra frumþátta talnanna tveggja sem er það sama og margfeldi talnanna sjálfra. Minnsta samfeldi. Minnsta samfeldi tveggja náttúrlegra talna er minnsta talan sem báðar tölurnar ganga upp í. Minnsta samfeldi náttúrlegu talnanna a og b er táknað með msf(a,b). Einfalt er að finna minnsta samfeldi. Tölurnar tvær eru raktar í frumþætti (sjá frumþáttun). Þá er búin til ný tala sem er margfeldi allra frumþátta úr tölunum tveimur, þó þannig að ef sami þáttur kemur fyrir í báðum tölum kemur hann aðeins einu sinni fyrir í nýju tölunni. Nýja talan er minnsta samfeldið. Ef a og b eru náttúrlegar tölur þá gildir að margfeldi minnsta samfeldis og stærsta samdeilis er jafnt margfeldi a og b, þ.e. ssd(a,b) ∙ msf(a,b) = a ∙ b Þetta verður augljóst þegar haft er í huga hvernig stærsti samdeilir og minnsta samfeldi eru búin til úr frumþáttum talnanna a og b. Í msf(a,b) eru allir þættir talnanna tveggja, en þeir sem eru sameiginlegir koma bara einu sinni fyrir. Í ssd(a,b) eru sameiginlegu frumþættirnir og margfeldi ssd(a,b) og msf(a,b) inniheldur því alla frumþætti talnanna a og b og tvo af hverjum sameiginlegum þætti. Margfeldi ssd(a,b) og msf(a,b) er því margfeldi allra frumþátta talnanna tveggja sem er það sama og margfeldi talnanna sjálfra. Míníbridds. Míní bridds er einfölduð útgáfa af spilinu Bridds (oft skrifað bridge) sem er eitt útbreiddasta og vinsælasta spil sem þekkist í dag. Minibridds var fundið upp í Hollandi í þeim tilgangi að kenna skólabörnum að spila bridds. Fljótlega varð það þó ljóst að míníbridds var tilvalið til að kenna í bridds fyrir alla aldurshópa enda getur spilið verið flókið að læra. Ástæða þess að bridds þykir æskilegt til kennslu í grunnskólum er það þykir góð þjálfun í stærðfræðikunnáttu, samskipti og rökfræði nemenda. Hægt er að auka erfiðleikastigið jafnt og þétt við kennslu og þar sem ein höndin (spil eins spilarans) eru sýnileg öllum þá býður það upp á mikla möguleika í að reikna út líkur á að spil hinna séu með ákveðnum hætti til að ákvarða bestu spilaleiðir. Reglur. Spilið er spilað þannig að fjórir spilarar sitja við borðið og eru þeir sem sitja andspænis hvorum öðrum eru par. Pörin eru oft kölluð Norður/Suður og Austur/Vestur og sitja þá í viðeigandi áttum. Spilararnir skiptast á að gefa og gefa þeir hverjum spilara 13 spil. Næst telja spilarar punktana sína þannig að ás telur sem 4 punktar, Kóngur 3, Drottning 2 og Gosi 1. Spilararnir segja síðan upphátt hversu marga punkta þeir hafa á hendi. Það spilapar sem hefur samanlagt fleiri punkta ráða því hvað er spilað. Þ.e. þeir ákvarða hvaða litur, ef einhver er tromp. Það fer þannig fram að sá í parinu sem hefur fleiri punkta spilar spilið en hinn leggur spilin sín á borðið þannig að allir sjái. Sá spilari tekur ekki meiri þátt í spilinu og kallast blindur. Oft er þó heppilegt þegar um börn er að ræða að sá gangi aftur fyrir félaga sinn og hjálpi honum við ákvarðanatökur. Sá sem spilar kallast sagnhafi og ber saman spilin sín og samherja síns til að ákvarða heppilegan tromplit (hér er miðað við að samanlagður fjöldi spila í litnum sé a.m.k. átta). Hann getur líka ákveðið að enginn litur sé tromp og þá er spilað Grand. Hann þarf líka að ákvarða hversu marga slagi hann ætlar sér að taka. Hinir tveir spilararnir spila í vörn og eiga að reyna að hnekkja spilinu fyrir sagnhafa með því að koma í veg fyrir að hann nái þeim slögum sem hann sagðist ætla að ná. Stigagjöf. Stigagjöf er þannig háttað að sagnhafi (og félagi hans, blindur) fá stig fyrir hvern slag umfram 6 sem þeir taka ef þeir standa við sögnina. Mismunandi er hvað fæst fyrir hvern slag eftir því hvaða litur er tromp eða hvort spilað er Grand. Ef spilað er í láglitum formula_1/formula_2 eru gefin 20 stig fyrir hvern slag umfram 6. Ef spilað er í hálitum formula_3/formula_4 eru gefin 30 stig fyrir hvern slag umfram 6. Ef spilað er í grandi er gefið 40 stig fyrir sjöunda slag og 30 stig fyrir hvern slag umfram það. gröndum þarf að fá a.m.k. 9 slagi hálitum formula_3/formula_4 þarf að fá a.m.k. 10 slagi láglitum formula_1/formula_2 þarf að fá a.m.k. 11 slagi Ultimate Frisbee. a>i - Úrslitaleikur Bandaríkjanna og Ástralíu Ultimate Frisbí (stundum stafað Ultimate Frisbee) er leikur þar sem tvö lið leika á stórum leikvelli og eru sjö leikmenn í hvoru liði. Svifdiskurinn gengur milli leikmanna með köstum og það lið skorar mark sem tekst að kasta flugdiskinum til samherja sem staddur er á endasvæðinu (þ.e. marksvæðinu). Leikmenn mega hlaupa um völlinn, nema þegar þeir halda á flugdiskinum. Ultimate er hraður leikur sem byggir á mikill samkeppni og þar sem samvinna leikmanna er lykilatriði. Markmið leiksins. Ultimate er spilað með tveimur 7 manna liðum (5 ef spilað er innanhúss) og einum flugdisk (frisbí). Leikvöllurinn er 100 x 37m en ef innanhúss er það handboltavöllur. Í sitthvorum enda leiksvæðis er svo kallað endasvæði sem er 18m (6m innanhúss). Frákast. Í upphafi leiks og eftir að stig hefur verið skorað standa bæði liðin á marklínu endasvæðis. Liðið sem skoraði síðasta stig kastar diskinum. Hitt liðið fær umráð disksins þar sem hann lendir og verður þar með að sóknarliðinu. Að skora stig. Stig er skorað þegar sóknarliðinu tekst að grípa diskinn inni á endasvæði varnarliðsins. Stigið er aðeins gilt ef það var leikmaður sóknarliðsins sem kastaði disknum. Liðið sem fyrst skorar 19 stig með minnst 2 stiga mun sigrar, annars það lið sem fyrst skorar 21 stig. Við 10 stiga skor er tekinn 10 mín. hálfleikur. Innan- og utan vallar. Diskur telst innan vallar ef hann er gripinn inni á leikvellinum. Hliðarlínur og endalínur teljast utan vallar. Þannig verður sóknarleikmaður einnig að grípa diskinn innan endasvæðis án þess að snerta nokkra línu til þess að það teljist sem skorað stig. Að spila disknum. Leikmaður sem heldur á disknum getur spilað (kastað) honum í hvaða átt sem er. Það verður hann að gera innan tíu sekúndna og stendur varnarmaður á móti honum og telur upp í tíu. Það er bannað að ganga með diskinn. Diskurinn fer til hins liðsins. Varnarliðið fær yfirráð disksins þegar tekst að grípa inní kast sóknarliðsins, t.d. vegna þess að diskurinn hefur snert jörðina, er gripinn eða sleginn niður af varnarliðinu ellegar er gripinn utan vallar. Þá verður varnarliðið að sóknarliði. Innáskiptingar leikmanna. Eftir að stig hefur verið skorað mega bæði lið skipta inn og út eins mörgum leikmönnum og þá lystir. Engin snerting. Ultimate er íþrótt þar sem er ekki líkamssnerting á milli liða. Það er bannað. Villur. Þegar villa er gerð skal leikmaður kalla “VILLA”. Allir leikmenn verða strax að standa kyrrir þar sem þeir eru staddir og leikur stöðvast. Þannig á að reyna að hefja leik aftur eins og engin villa hefði verið gerð. Ef leikmenn geta ekki komið sér saman um niðurstöðu skal disknum skilað til þess sem var síðast með diskinn og leikurinn heldur áfram þaðan. Enginn dómari. Hinn sanni íþróttaandi er mjög mikilvægur hluti allra flugdiskaíþrótta. Eins og í öðrum flugdiskaíþróttum er Ultimate spilað án dómara. Leikmenn sjálfir bera ábyrgð á framvindu leiksins. Verkfæri. Verkfæri (eða amboð) er áhald eða tæki til að vinna með og auðvelda þannig verkið sem fyrir liggur. Verkfæri eru oft æði sérhæfð, en einföldustu verkfæri eru oft aldagömul, s.s. hamarinn og öxin. Slík verkfæri er hægt að nota til ólíkustu verka. En önnur verkfæri eru öllu sérhæfðari eins og t.d. skrúfjárnið og yddarinn. Verkfæri spara oft tíma og minnka oft líkamlega áreynslu, eins og t.d. járnkarlinn og kúbeinið. Verkfæri sem notuð eru í eldhúsi eru oft nefnd "eldhús"- eða "búsáhöld". Mína Mús. Mína Mús (fullt nafn Mínerva Mús) er skálduð teiknimyndapersóna eftir Walt Disney. Hún er svört mús með svört, kringlótt eyru sem standa upp í loftið. Hún gengur í kjól og í háhæluðum skóm. Hún er með slaufu á hausnum sem getur verið í öllum mögulegum litum. Kærasti hennar heitir Mikki Mús Hún kemur oftast fram ásamt honum og öðrum persónum í Músabæ. Hún kom fyrst fram á sama tíma og Mikki í teiknimyndinni "Plane Crazy" 15. maí 1928. Ábendingarorð. Ábendingarorð eru orð sem hafa þann eiginleika að merking þeirra ræðast af því hvar þau eru sögð, hver segir þau og hvenær. Merking þeirra fer semsagt eftir samhengi og aðstæðum. Dæmi um ábendingarorð eru "núna", "hérna", "hér", "ég", "þú", "hún", "hann", "þetta", "í gær", "á morgun" og "reyndar". Frisbígolf. Frisbígolf eða folf er íþrótt sem fer fram á svipaðan hátt og venjulegt golf, en í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn svifdiska (frisbídiska). Þessi íþrótt varð til á áttunda áratug 20. aldar og á það sameiginlegt með venjulegu golfi að reynt er að ljúka hverri braut í sem fæstum köstum. Frisbídisknum er kastað frá teigsvæði í átt að skotmarki. Markið getur verið mismunandi en oftast er um að ræða sérsmíðaðar körfur sem grípa diskinn. Leikmenn taka hvert kast frá þeim stað þar sem síðasti diskur lenti. Lendingarstaðurinn er merktur með sérstöku merki (litlum diski eða öðrum golfdiski) og ekki má stíga fram fyrir merkið þegar kastað er að nýju. Hæðir, hólar, tré og fleira sem finna má út um allan völlinn eru leikmönnum áskorun og hindrun í tilraunum þeirra við að koma disknum í körfuna. Loks endar „púttið“ í körfunni og þeirri holu er þá lokið. Diskar. Golfdiskar eru að jafnaði minni og þyngri en hefðbundnir svifdiskar sem ætlunin er að grípa. Diskarnir eru venjulega milli 150 og 180 grömm að þyngd og 8-9 tommur (20-23cm) í þvermál. Þeir skiptast í drævera, púttera og miðlungsdiska. Dræverar eru þyngstir og drífa lengst, miðlungsdiskar eru nákvæmari en dræverar en drífa styttra og pútterar eru léttastir og nákvæmastir en jafnframt hægastir. Diskarnir eru líka ólíkir hvað varðar form, grip, sveigjanleika og endingu. Mörk. Upphaflega voru mörkin í frisbígolfi svert járnrör yfir öðru járnröri sem glumdi í þegar diskurinn lenti á þeim. 1975 hannaði Ed Headrick körfuna sem er algengasta markið í dag. Hún er með keðjum og körfu fyrir neðan til að grípa diskinn. Flötin er allt svæðið innan 10 metra frá marki. Þar er bannað að stökkva til að fylgja eftir skoti. Teigar. Teigar eru afmörkuð svæði, yfirleitt 6x8fet (2x2,5m) að stærð, sem marka upphaf hverrar brautar. Þeir þurfa að gefa stöðugt undirlag fyrir fyrsta kastið. Teigar eru gerðir úr þjappaðri mold eða möl, timbri, steypu eða gúmmímottum. Þór (skip). Varðskipið "Þór" (I) (einnig nefndur "Gamli Þór") var fyrsta varðskip Landhelgisgæslu Íslands. Skipið var upprunalega smíðað sem togari, árið 1899. Árið 1920 keypti Björgunarfélag Vestmannaeyja skipið og notaði það til fiskveiðieftirlits og björgunarstarfa. Rekstur Björgunarfélagsins gekk illa og árið 1926 ákvað Ríkissjóður að kaupa skipið. Með kaupum þess var Landhelgisgæsla Íslands stofnuð. Fyrstu árin var skipið vopnað tveim 57 mm fallbyssum, sem síðar voru skipt út fyrir eina 47 mm fallbyssu. "Þór" strandaði við Húnaflóa árið 1929. Í kjölfarið var ákveðið að kaupa nýtt varðskip í stað þess. Nafngift skipsins er sótt í norræna goðafræði. Þór II (skip). Varðskipið "Þór" II (einnig nefnt "Mið-Þór") var eitt af varðskipum Landhelgisgæslu Íslands. Skipið var upphaflega smíðað sem togari í Þýskalandi árið 1922. Eftir strand Gamla Þórs á Húnaflóa árið 1929, var Þór II keyptur 1930 frá Þýskalandi. Á tímum seinni heimstyrjaldar var skipinu breytt og notað til fiskflutninga. Skipið var selt árið 1946. Þór III (skip). Varðskipið "Þór" III (einnig nefnt Nýi-"Þór") var varðskip í eigu Landhelgisgæslu Íslands. Í þjónustu Landhelgisgæslunnar. Skipið var smíðað í Danmörku árið 1951 fyrir Landhelgisgæsluna. Skipið var smíðað úr stáli, alls 920 tonn. Lengd þess var 55,9 m og breidd 9,5 m. Skipið var búið tveim 57 mm fallbyssum. "Þór" III var flaggskip Landhelgisgæslunar um árabil og tók þátt í öllum Þorskastríðum Íslendinga og Breta. Skipið var endurbætt árið 1972, en þær endurbætur fólust meðal annars í nýrri yfirbyggingu og endurnýjun á vélabúnaði skipsins. Skólaskipið "Sæbjörg". Árið 1982 var skipið selt Slysavarnarfélagi Íslands og notað sem þjálfunar og skólaskip fyrir Slysavarnarskóla sjómanna. Nafni skipsins var þá breytt í "Sæbjörgu". Eftir að nýtt skip var fengið til að leysa það af hólmi 1998 hefur það verið í einkaeigu. Um tíma var það málað gylltum lit og voru uppi hugmyndir um að gera það út sem fljótandi diskótek. Framtíð þess er enn í nokkurri óvissu. Ægir (skip). Varðskipið "Ægir" I var varðskip Landhelgisgæslu Íslands. Skipið var keypt til landsins árið 1929. "Ægir" var fyrsta skip Íslendinga sem búið var aðalvél sem gekk fyrir dísilolíu. Aðalvélar skipsins framleiddu um 1300 hestöfl sem gat framkallað ganghraða upp á 18 sjómílur. Árið 1968 kom til landsins nýtt varðskip sem hlaut einnig nafnið "Ægir". Við komuna var eldri "Ægir" seldur úr landi. Lögmál Daltons. Lögmál Daltons er lögmál í efnafræði, kennt við breska efnafræðinginn "John Dalton" (1766-1844), sem segir að þrýstingur gasblöndu, sé jafn summu hlutþrýstings þeirra lofttegunda, sem mynda gasblönduna, ef gefið er að ekkert efnahvarf verði milli lofttegundanna. Framsetning. þar sem formula_2 tákna hlutþrýsting hverrar gastegundar. Emerson, Lake & Palmer. Emerson, Lake & Palmer (skammstafað ELP) er bresk hljómsveit stofnuð 1970 af þeim Keith Emerson (hljómborð), Greg Lake (gítar og bassi) og Carl Palmer (trommur). Saga. Árið 1968 byrjuðu Keith og Greg að spila saman og tóku þeir að sér nokkur gig en seinna ákváðu þeir að eina sem vantaði var trommari og þeir leituðu til meðal annars: Mitch Mitchell sem var í Jimi Hendrix Experience, en hann neitaði því en bennti Hendrix á þetta. Þannig að þeir réðu Carl Palmer. Eftir þetta vildi Hendrix komast inní þessa hljómsveit og Keith og Greg ætluðu að hugsa málið en þegar að breskir fjölmiðlar komust að þessu varð allt brjálað og þeir skrifuðu greinar um „ofurhljómsveitina“ Hendrix, Emerson, Lake and Palmer eða "HELP". En stuttu eftir þetta lést Jimi og þá var lokaniðurstaðan tríóið ELP. Eftir fjögur ár voru þeir búnir að gefa út sex fyrstu plötur sínar og var aðal smellurinn af þessum sex var „Lucky Man“ sem kom út á þeirra fyrstu plötu: "Emerson, Lake and Palmer" og stuttu eftir að sú plata kom út spiluðu þeir á Wighteyjuhátíðinni 1970. Árið 1971 komu þeir með plötuna "Tarkus" en var þar að finna smellinn Tarkus sem er sannkallað tónverk enda er það rúmar tuttugu mínúta. Sama ár gáfu þeir út mest seldu plötuna sína hingað til "Pictures at an Exhibition" sem var tekin upp á tónleikum í Newcastle en þar eru þeir að endurgera þetta þekkta verk eftir Modest Mussorgsky og samdi Greg allan textann við þetta verk. Á þessu tímaskeiði voru þeir byrjaðir að spila progressive rock og symphonic rock. Árið 1972 gáfu þeir út plötuna "Trilogy" en sú plata sló vel í gegn og náði hún "Pictures at an Exhibition" í sölu og varð mest selda platan þeirra og er hún það en í dag og er það aðallega vegna lagsins „From the Beginning“. Síðan árið eftir þá fengu þeir samning hjá plötufirirtækinu Manticore Records og gáfu þeir út plötuna "Brain Salad Surgery" með þeim og er þetta þekktasta plata þeirra í dag og er það líka H.R. Giger að þakka því að hann hannaði myndina utan á plötuna og er mikið hægt að pæla í henni en ELP fengu einnig hjálp frá Peter Sinfield sem samdi nokkra texta á þessari plötu. Svo árið 1974 spiluðu þeir á California Jam tónleikunum ásamt t.d. Deep Purple og fleirum en var upptakan með þeim sýnd í beinni útsendingu um öll Bandaríkin og er þetta talið vera stórt skref þessarar hljómsveitar þar. Þegar að þeir komu á svið voru þeir alveg brjálaðir og greip það marga að það voru læti fljúgandi hljóðfæri hér og þar og þetta virtist grípa mest áhorfendur t.d. þá kveikti Keith eitt sinn í 4 milljóna flygli á sviði og kláraði síðan sóló á meðan hann brann. En næstu þrjú árin gáfu þeir ekki út neina plötur en voru bara að spila á gigum með sinfoníum og bara einir en svo árið 1977 gáfu þeir út tvískipta plötu sem nefndist "Works, Vol. 1" og "Vol. 2" en var það síðan gáfu þeir út eina plötu árið 1978 sem ber heitið "Love Beach" en var það síðasta platan sem þeir gáfu út áður en þeir fóru í pásu frá 1978 til 1992. Árið 1985 byrjuðu Keith og Greg á nýrri ELP og höfðu þeir Cozy Powell sem trommara því að Carl Palmer hafnaði þeim að byrja aftur en stóð þetta band aðeins í eitt ár en þá fóru Greg og Keith í hljómsveitina 3 með Robert Berry sem voru bara mistök því að þessi hljómsveit náði engri frægð. En síðan 1992 féllust allir meðlimir á það að koma með endurfund og gáfu þeir út plötuna "Black Moon" sem sló í gegn enda fyrsta plata eftir fjórtán ára pásu. En eftir það gáfu þeir út tvær „beinar“ plötur en síðan komu þeir með stúdíóplötuna "In the Hot Seat" árið 1994 og síðan gáfu þeir út eina stúdíóplötu í viðbót sem nefnist "I Believe In Father Christmas" og kom út árið 1995 en svo eftir það starfaði hljómsveitin í þrjú ár og voru þeir bara að spila á tónleikum og héldu áfram að ráða sinfoníur til að spila með sér en síðan hætti hljómsveitin árið 1998 og fóru allir meðlimir að spila sóló og eru þeir ennþá að því. Lögmál Boyles. Lögmál Boyles er lögmál í efnafræði, nefnt eftir írska efnafræðinginn Robert Boyle (1627 – 1691), sem segir að margfeldi þrýstings og rúmmáls gass í lokuðu íláti sé fasti. Framsetning. þar sem tölurnar 1 og 2 tákna kerfið fyrir og eftir breytingu á annað hvort rúmmáli eða þrýstingi. Margfeldi. Margfeldi er niðurstaða margföldunar, sett fram þannig að þættir er aðskildir með "margföldunarmerki". Dæmi: Margfeldi talnanna 2, 3 og 5 er "30" og setja má það fram með formula_1. Lögmál Gay-Lussac. Lögmál Gay-Lussac er lögmál í efnafræði, nefnt eftir franska efnafræðingnum "Joseph Louis Gay-Lussac" (1778-1850), sem segir að þrýstingur gass í lokuðu íláti sé í réttu hlutfalli við hita gassins. Framsetning. þar sem tölurnar 1 og 2 tákna kerfið fyrir og eftir breytingu á annað hvort hita eða þrýstingi. Haukur Morthens. Hawaii-kvartettinn 1948. Á myndinni eru Hilmar Skagfield (hawaii-gítar), Ólafur Máríusson (gítar), Haukur Morthens (söngur), Eyþór Þorláksson (gítar) og Hallur Símonarsson (kontrabassi). Orion Quintet í upptökusal RÚV með Hauki Morthens 1956. Á myndinni eru Sigurður Guðmundsson (píanó), Andrés Ingólfsson (alto-sax), Sigurbjörn Ingþórsson (kontrabassi), Guðjón Ingi Sigurðsson (trommur), Haukur Morthens (söngur) og Eyþór Þorláksson (gítar). Haukur Morthens - Fjögurra laga plata 1957-8 Haukur Morthens - Faxafón NO 101 Haukur Morthens - Faxafón NO 102 Haukur Morthens - Tilhugalíf 1981 Gústav Haukur Morthens (17. maí 1924 – 13. október 1992) var íslenskur söngvari. Hann var einn frægasti söngvari á Íslandi á seinni hluta 20. aldar. Haukur Morthens var föðurbróðir Bubba Morthens. Æviágrip. Haukur Morthens fæddist við Þórsgötu í Reykjavík, sonur Edvards Morthens, norsks manns og Rósu Guðbrandsdóttur ættaðri úr Landssveit. Haukur var 11 ára þegar hann kom fyrst fram með Drengjakór Reykjavíkur á söngskemmtan í Nýja bíó og söng einsöng. Svo liðu árin, Haukur þroskaðist sem og feimnin sem átti tök í honum. Í Alþýðuprentsmiðjunni þar sem hann var við nám, þá 18 ára, voru tvær stúlkur sem voru að undirbúa skemmtun fyrir Alþýðuflokkinn. Þær voru ólmar að fá þennan unga og glæsilega mann til að syngja á skemmtuninni enda höfðu fregnir borist um hæfileika hans. Haukur var tregur til enda feiminn en gat vart neitað svo fögrum meyjum og sló til. Þar með var teningunum kastað og þegar Haukur Morthens hóf feril sinn 19 ára með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar eignaðist þjóðin einn sinn frægasta, ástsælasta og þekktasta dægurlagasöngvara fyrr og síðar. Upphafið. Blaðamenn Þjóðviljans (MR og ph) gómuðu Hauk á förnum vegi árið 1976 og áttu við hann tal. Vinsældalistinn 1959. Poppskríbentinn Benedikt Viggósson skrifaði um tónlist í vikuritið Fálkann. Í nóvember árið 1959 tók hann púlsinn á íslenska vinsældarlistunum. Tónlistarferill. Hljómsveitarstjórar sóttust eftir að fá Hauk til að syngja með hljómsveitum sínum því hann var trygging fyrir vinsældum og fullu húsi. Árið 1962 stofnaði hann eigin hljómsveit og var ráðinn til að skemmta í hinum nýja og glæsilega skemmtistað Klúbbnum við Borgartún. Þaðan lá leiðin vítt um lönd og næstu þrjátíu ár söng Haukur sig inn í hug og hjörtu Íslendinga sem Dana og Rússa ýmist sem gestasöngvari með erlendum hljómsveitum eða með eigin hljómsveit. Haukur Morthens syngur. Fyrsta stóra platan með Hauki kom út á vegum Fálkans 1963. Þetta var sextán laga plata með áður útgefnum lögum á 78 snúninga plötum og litlum 45 snúninga. Um plötuna skrifaði Svavar Gests í Morgunblaðið 15. september 1963 og sagði meðal annars þetta. Hátíð í bæ. Jólaplatan "Hátíð í bæ" kom út hjá Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur fyrir jólin 1964. Þetta er fyrsta stóra (LP) jólaplata sem kemur út á íslensku. Alþýðublaðið skrifaði um plötuna 17. desember 1964. Nú er Gyða á gulum kjól. Rétt fyrir jólin 1978 kom þriðja stóra platan frá Hauki og nefndist hún "Nú er Gyða á gulum kjól". Blaðamaður Vísis hitti Hauk að því tilefni og vildi fræðast um gerð plötunnar. Lítið brölt. Þegar platan "Lítið brölt" kom út árið 1980 skrifaði tónlistargagnrýnandi Dagblaðsins, Eyjólfur Melsted um plötuna. Jólaboð. Árið 1981 ræddi blaðamaður helgarpóstsins, Páll Pálsson við Hauk um nýustu plötuna sem var jólaplata unnin með drengjunum í Mezzoforte. Þriggja diska safn. Árið 2008 kom út þriggja diska safn með Hauki Morthens á vegum Senu. Einn af umsjónarmönnum með þeirri útgáfu var Trausti Jónsson veðurfæðingur sem sagði meðal annars þetta um Hauk og hljómplötuútgáfu í fylgibæklingi. Lagið "Ég skal bíða þín" er á þessum safndiskum: http://www.youtube.com/watch?v=0VS5eL8pBlU Lagið "Fyrir átta árum" er á þessum safndiskum: http://www.youtube.com/watch?v=l5_03ub6-48 Faxafón. Haukur Morthens stofnaði eigin hljómplötuútgáfu árið 1964 og nefndi "Faxafón". Á lífskeiði útgáfunnar komu út fimm plötur með Hauki, tvær 45 snúninga og þrjár LP plötur auk kasetta og CD. Blaðamenn Þjóðviljans (MR og ph) ræddu við Hauk um útgáfuna árið 1976. RUV. http://verslun.ruv.is/verslun/?p=skoda_voru&intCatId=65&vorunumer=20208 Lögmál Avogadrosar. "Sama rúmmál kjörgass við sama þrýsting og hita inniheldur ávallt sama fjölda einda." Þetta þýðir að fjöldi sameinda í tilteknu rúmmáli lofttegundar er óháð stærð eða massa gassameindanna þegar litið er á hana sem kjörgas. Raungös svo sem vetni eða nitur hegða sér í reynd ekki nákvæmlega eins og kjörgas, en yfirleitt mjög nálægt því. Framsetning. Í reynd er jafnan að ofan augljós og á við um öll einsleit efni, bæði lofttegundir og vökva. Auðvelt er að leiða hana út og var gert ráð fyrir að hún gilti áður en Avogadro kom með sitt framlag. Mikilvægasta afleiðing lögmáls Avogadrosar er eftirfarandi: Kjörgasfastinn hefur sama gildi fyrir allar lofttegundir. Þetta þýðir að fastinn hefur sama gildi fyrir allar lofttegundir, óháð stærð eða massa sameinda þeirra. Þessi fullyrðing er ekki augljós. Áratugir liðu þar til tókst að sanna hana á grundvelli kvikfræði lofttegunda. Eitt mól kjörgass tekur 22,4 lítra (dm3) við staðalaðstæður. Oft er vísað til þessa rúmmáls sem mólrúmmáls kjörgass. Raungös víkja mismikið frá þessu gildi. Fjöldi sameinda í einu móli er kallaður Avogadrosartala, u.þ.b. 6,022×1023 eindir per mól. Lögmál Avogadrosar og samsetta gaslögmálið mynda í sameiningu kjörgaslögmálið. Arngrímur Gíslason málari. Arngrímur Gíslason og Þórunn Hjörleifsdóttir. Myndin er tekin af Önnu Schiöth á Akureyri líklega um 1885. (Hluti af stærri mynd) Gullbringa í Svarfaðardal, Arngrímsstofa næst. Arngrímur Gíslason málari (f. 8. janúar 1829 að Skörðum í Reykjahverfi, d. 21. febrúar 1887 í Gullbringu í Svarfaðardal) var íslenskur málari og tónlistarmaður. Foreldrar hans voru Gísli Gíslason (Skarða-Gísli) og fyrri kona hans Guðrún Guðmundsdóttir húsráðendur á Skörðum. Arngrímur ólst upp á Skörðum. Giftist 13. maí 1853 Margréti Magnúsdóttur saumakonu á Akureyri (f. 25. maí 1813, d. 9. maí 1868). Þau hjón bjuggu síðan í húsmennsku á ýmsum stöðum í S-Þingeyjarsýslu. Kynntist Þórunni Hjörleifsdóttur frá Skinnastað og eignaðist með henni dóttur utan hjónabands 1866. Eignaðist aðra dóttur milli kvenna 1875 með ungri ekkju frá Halldórsstöðum í Laxárdal, Sigríði Þórarinsdóttur, en ekki giftist hann henni. Giftist í annað sinn 16. okt. 1876 og nú Þórunni Hjörleifsdóttur barnsmóður sinni og settist að í Svarfaðardal. Fyrst var hann á Tjörn, síðan á Völlum en að lokum í Gullbringu. Í Gullbringu reisti hann sér málarastofu við bæinn sem enn stendur og kallast Arngrímsstofa. Sundmaður og bókbindari. Arngrímur lærði snemma sund sem þá var fáum lagið og var talinn með allra bestu sundmönnum. Íþróttina mun hann líklega hafa lært með sjálfsnámi og aðstoð bókarinnar Sundreglur Nachtgalls sem Jónas Hallgrímsson þýddi. Hann kenndi sund víða um Norðurland á árabilinu 1850-1885 og var meðal brautryðjenda á því sviði. Hann nam rennismíði í Reykjavík um 1850, en fékkst lítið við þá iðn, þó eru til renndir smíðisgripir eftir hann. Arngrímur lærði bókband af föður sínum og stundaði síðan nám í bókbandi hjá Grími Laxdal bókbindara á Akureyri 1852-1853 og fékk þar sveinsbréf. Hann fékkst síðan við bókband um árabil með öðrum viðfangsefnum sínum og þótti frábær handverksmaður. Meðan hann var búsettur í Þingeyjarsýslu var hann jafnan titlaður bókbindari. Enn eru til bækur bundnar af honum sem sanna að hann var listahagur á þessu sviði. Hann skrifaði síðar leiðbeiningar um bókband, Bókbandsreglur, sem til eru í afriti á Landsbókasafni-Háskólabókasafni. Tónlistarmaður. Upp úr miðri 19. öld urðu straumhvörf í tónlistarmenningu Þingeyinga. Þá ruddi fiðlan sér til rúms hérlendis. Jón Jónsson frá Vogum í Mývatnssveit, Voga-Jón, lærði fiðluleik í Kaupmannahöfn samhliða trésmíðanámi þar. Af honum lærði Arngrímur tónfræði og hljóðfæraleik en auk fiðlunnar lék hann á flautu. Arngrímur spilaði mikið á samkomum og mannamótum upp frá því og stundaði einnig tónlistarkennslu. Til eru allmörg nótnahandrit og lagasöfn með hendi Arngríms og ljóst er að hann hefur verið ein aðaldriffjöðrin í þeirri bylgju tónlistar og hljóðfæraleiks sem hófst í Þingeyjarsýslum á seinni hluta 19. aldar og breiddist þaðan út um landið. Hann þótti einnig kvæðamaður góður og í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar er ein stemma höfð eftir honum. Málari. Altaristaflan í Stykkishólmskirkju. Jesús birtist Maríu Magðalenu. „Af alþýðumálurum á síðari helmingi 19. aldar er í raun og veru aðeins einn maður sem verðskuldar listamannsnafn, en það er Arngrímur Gíslason frá Skörðum í Reykjahverfi.“ (Björn Th. Björnsson 1964: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, 1. bindi, bls. 51-54). Vitað er um 10 altaristöflur sem Arngrímur málaði. Tvær af þeim hafa glatast en átta eru enn í kirkjum. Þórunn ljósmóðir. Þórunn Hjörleifsdóttir f. 15. sept. 1844 á Galtastöðum í Hróarstungu, d. 8. nóv. 1918 á Dalvík. Flutti með foreldrum sínum sr. Hjörleifi Guttormssyni og Guðlaugu Björnsdóttur konu hans að Skinnastað og ólst þar upp að mestu. Kynntist ung Arngrími Gíslasyni er hann vann við að mála og fegra kirkjuna á Skinnastað sumarið 1863 og eignaðist dóttur með honum í lausaleik. Giftist 3. júlí 1869 Þórarni snikkara Stefánssyni á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal en hann lést réttu ári síðar, 2. júlí 1870. Börn þeirra voru Sigurbjörn sem dó í æsku og Guðlaug Þórunn sem upp komst. Þórunn fluttist frá Skjöldólfsstöðum 1871 til föður síns sem þá var kominn að Tjörn í Svarfaðardal. Þar giftist hún síðan æskuást sinni, Arngrími málara, sem fyrr segir. Þórunni er lýst svo: „...hún var sterk og hugdjörf kona, gædd lífsgleði og trúartrausti og góðvild og kærleika til alls og allra. Hún hafði líknarhendur eins og móðir hennar, lærði ljósmóðurfræði og gerðist yfirsetukona eins og hún og gegndi því starfi í Svarfaðardal við mikla tiltrú og vinsældir.“ (Kristján Eldjárn 1983. Arngrímur málari. bls. 27). Avogadrosartala. Avogadrosartala er fjöldi einda í einu móli. Hún er mikilvægur fasti í efnafræði, oftast táknaður með "N"A eða "N"0 og er kennd við ítalska vísindamanninn "Amedeo Avogadro" (1776-1856). Pétur J. Thorsteinsson (sendiherra). Pétur Jens Thorsteinsson (7. nóvember 1917 - 12. apríl 1995) var íslenskur sendiherra og forsetaframbjóðandi. Pétur var fæddur í Reykjavík og útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1937. Hann hóf síðan nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fór í lögfræði sem framhaldsnám. Hann varð stundakennari í Kvennaskólanum í Reykjavík áður en hann gerðist aðstoðarmaður í Utanríkisráðuneytinu. Hann var sendiherra og sendiráðsritari í fjölmörgum löndum og má þar nefna Sovétríkin, Ungverjaland, fyrrum Júgóslavíu, Þýskaland, Grikkland, Belgíu, Frakkland, Argentínu, Kanada, Brasilíu, Mexíkó, Pakistan, Japan, Írak, Kína, Túnis, Indónesíu, Kóreu, Bangladesh og Kúbu. Einnig starfaði hann fyrir ýmis alþjóðleg samtök eins og NATO, OECD, UNESCO og fleiri. Hann sat í mörgum ráðum og nefndum innanlands og má þar nefna hina íslensku fálkaorðunefnd. Einnig skrifaði hann bækur og greinar um utanríkismál og þýddi t.a.m. rússneska leikritið "Mávurinn" eftir Anton Tsékov á íslensku. Hann bauð sig fram til forseta 1980 en beið ósigur fyrir Vigdísi Finnbogadóttur. Hann var dóttursonur Péturs Jens Þorsteinssonar Thorsteinssonar athafnamanns. Luiz Inácio Lula da Silva. Luiz Inácio Lula da Silva (fæddur 27. október 1945), þekktastur sem Lula da Silva, er 35. forseti Brasilíu (2003 - 2011). Lula da Silva, Luís Inácio Lula da Silva, Luís Inácio Fernando Henrique Cardoso. Fernando Henrique Cardoso (fæddur 18. júní 1931), best þekktur sem Fernando Henrique eða FHC, gegndi embætti 34. forseta Brasilíu frá 1. janúar 1995 til 1. janúar 2003. Úllen dúllen doff. Þessi íslenska romsa hefur þá sérstöðu að ekki er talið úr með því að benda heldur kreppa allir hnefana og rétta fram hendurnar. Viðkomandi sem telur úr slær með krepptum hnefanum á alla hnefana um leið og hann fer með romsuna, og sá hnefi sem hann slær á síðast er lagður fyrir aftan bak. Svona er haldið áfram þangað til aðeins einn hnefi er eftir. „Úllen dúllen doff“ hefur nokkra sérstöðu hvað þetta varðar, en í öðrum romsum er látið nægja að benda. Á öðrum tungumálum. Höfundar bókarinnar "Svenska folklekar och dansar" segja að þessi romsa sé einnig þekkt í Þýskalandi og að orðin hafi líklega afbakast af latnesku töluorðunum "unum" sem merkir „eitt“, "duo" sem merkir „tveir“, og "quinque" sem merkir „fimm“. Orðið "unum" á þá að hafa orðið að „úllen“, "duo" að „dúllen“ og "quinque" að „kikke“, þetta getur verið rétt þótt undarlegt má það teljast að sleppt hafi verið „þremur“ og „fjórum“ eða "tres" og "quattuor" en í stað þeirra er orðið „doff“. Brian Eno. Brian Eno (fæddur Brian Peter George St. John le Baptiste de la Salle Eno 15. maí 1948 í Woodbridge í Suffolk) er breskur rokk- og raftónlistarmaður, þekktastur sem meðlimur Roxy Music, fyrir samstarf sitt með David Bowie og U2. Einnig fyrir frumkvöðlastarf sitt innan raftónlistar, enda ávallt kallaður afi hinnar svokallaðrar "ambient"-stefnu. Hlutafé. Hlutafé er samtala nafnvirðis allra útgefinna hlutabréfa í hlutafélagi. Hlutafé félags margfaldað með gengi í kauphöll er kallað markaðsvirði félagsins. Atti katti nóa. Atti katti nóa íslensk vísa. Texti lagsins er nokkur ráðgáta en lagið sem textinn er sunginn við er Gamli Nói eftir Carl Michael Bellman (1740-1795) sem heitir "Gubben Noak" á frummálinu. Textinn. Textinn barst til Íslands með skátahreyfingunni á 6. áratuginum og varð vinsæll eftir að Rannveig og Krummi höfðu flutt hann í Stundinni okkar og var síðar gefinn út á hljómplötu árið 1967. Í bókinni stendur svo "Von der Eskimos" (sem er þýska og þýðir „frá Eskimóum“) fyrir ofan sönginn, og fyrir neðan hann stendur "Geschichte einier Eskimo-Familie, die auf Walfang geht" (þýska: „saga af Eskimóafjölskyldu sem fer á hvalveiðar“). Þetta minnir á þá sögusögn að textinn sé á grænlensku, en ekkert hefur fengist staðfest í þeim málum. Ruth Rugaard gefur upp hreyfingar með söngnum () og segir hún að söngurinn fjalli um indverskan fiskimann sem fer á bát sínum að veiða. Á eru hreyfingar gefnar upp með textanum og stendur að hann fjalli um fiskveiðar en ekkert er gefið upp um uppruna hans. Það er þess vegna ráðgáta hvaðan upprunalegi textinn „Atti katti nóa“ er kominn. Siðaskiptin. Siðaskiptin voru trúskipti sem áttu sér stað í nokkrum kristnum löndum Evrópu á 16. öld frá kaþólskri trú til mótmælendatrúar af einhverju tagi. Upphaf siðaskiptanna er miðað við það þegar Marteinn Lúther festi skjal með 95 greinum á kirkjudyrnar á hallarkirkju Wittenbergkastala 31. október 1517. Lúther vildi siðbót innan kirkjunnar og barðist meðal annars gegn sölu aflátsbréfa sem notuð var til að fjármagna framkvæmdir í Róm. Aðrir siðbótarmenn eins og Ulrich Zwingli og Jóhann Kalvín fylgdu fordæmi Lúthers. Þeir réðust gegn mörgum af grundvallarkenningum kaþólsku kirkjunnar eins og trúnni á hreinsunareldinn, sérdæmingu, tilbeiðslu Maríu og trúna á milligöngu dýrlinga, flest sakramentin, kröfunni um skírlífi kirkjunnar þjóna og vald páfa. Helstu siðbótarhreyfingarnar sem fram komu á þessum tíma voru lútherstrú, reformerta kirkjan/kalvínismi/öldungakirkjan og anabaptistar. Ensku siðaskiptin voru sérstök atburðarás í Englandi á sama tíma sem leiddi til stofnunar ensku biskupakirkjunnar sem er kennilega nauðalík kaþólsku kirkjunni, enda tilgangur hennar fyrst og fremst sá að gera Englandskonung höfuð kirkjunnar í stað páfa. Siðaskiptahreyfingin leiddi til uppreisna bænda og borgara víða í Þýskalandi, Frakklandi og Sviss gegn kirkjuvaldinu. Siðbótarhreyfingin tengdist þannig róttækum pólitískum hugmyndum um jafnrétti og andstöðu við yfirvaldið. Aðrir siðbótarmenn, eins og Lúther, fordæmdu þessar uppreisnir og studdu yfirvaldið (vildu t.d. halda í stétt biskupa innan mótmælendakirkjunnar). Margir þýskir furstar tóku siðbótarhreyfingunni fagnandi og konungar Danmerkur og Svíþjóðar tóku upp mótmælendatrú í ríkjum sínum. Siðaskiptin leiddu til fjölda trúarbragðastyrjalda í Evrópu, en þau náðu hátindi sínum í Þrjátíu ára stríðinu 1618-1648. Viðbrögð kaþólsku kirkjunnar við siðaskiptunum voru gagnsiðbótin. Tengt efni. Siðaskiptin á Íslandi Sjálfstæði nýlendnanna. Kort sem sýnir nýlendur Vesturveldanna árið 1945. Sjálfstæði nýlendnanna á við um endalok heimsvaldastefnunnar og sjálfstæði nýlendna Vesturlanda í Asíu og Afríku eftir lok Síðari heimsstyrjaldar. Fyrstu löndin sem fengu sjálfstæði voru Indland og Pakistan 1947. Flestar afrísku nýlendurnar fengu sjálfstæði á 6. og 7. áratugnum. Enn eru leifar heimsveldanna dreifðar um allan heim en þeim fer óðum fækkandi. Síðustu hafnir Bretlands og Portúgals í Kína, Hong Kong og Maká, urðu kínversk yfirráðasvæði 1997 og 1999. Sjálfstæðisyfirlýsing Ísraels. Sjálfstæðisyfirlýsing Ísraels (hebreska: הכרזת העצמאות‎, "Hakhrazat HaAtzma'ut") er frá 14. maí 1948, sama dag og umboðsstjórn Breta í Palestínu rann út. Með sjálfstæðisyfirlýsingunni var lýst yfir stofnun nýs ríkis, Ísraels, á hluta þess svæðis sem umboðsstjórnin hafði náð til og á þeim svæðum sem hin fornu konungsríki gyðinga, Ísraelsríki, Júda og Júdea, höfðu náð yfir. Bandaríkin viðurkenndu hið nýja ríki aðeins ellefu mínútum eftir yfirlýsinguna, og í kjölfarið einnig Íran, Gvatemala, Níkaragva og Úrúgvæ. Sovétríkin viðurkenndu hið nýja ríki 17. maí og í kjölfarið einnig Pólland, Tékkóslóvakía, Írland og Suður-Afríka. Um leið og yfirlýsingin var gefin réðust herir Egyptalands, Írak, Transjórdaníu og Sýrlands, ásamt hersveitum frá Jemen og Sádí-Arabíu, inn á svæðið. Stríðið var kallað Stríð Ísraels og araba 1948. Fjárhættuspil. Fjárhættuspil er tegund leikja þar sem tveir eða fleiri aðilar veðja ákveðinni upphæð á hvernig ákveðinn atburður muni fara. Sem dæmi um slíkt veðmál þá gætu tveir aðilar veðjað um það hvor muni sigra KR eða Fram, í næsta leik liðanna. Hægt er að veðja upp á næstum hvað sem er, úrslit í íþróttaleikjum eða sigurvegara í kosningum eða raunveruleikaþáttum. Hægt er að veðja á næstum hvaða íþrótt sem er og sumar íþróttir eins og veðreiðar ganga nær eingöngu út á það að veðja peningum á sigurvegarann. Gríðarlegur fjöldi af fjárhættuspilum er til í heiminum og það er mismunandi eftir menningarsvæði hvaða tegund er vinsælust. Af vinsælum afbrigðum má nefna teningaspil, póker, rúllettu og Bingó. Hægt er að spila fjárhættuspil í spilavítum, spilakössum, upp á eigin spýtur og á netinu við aðra spilara. Mismunandi er eftir löndum hvort fjárhættuspil séu lögleg eða hvaða gerð af fjárhættuspilum sé lögleg. Fjárhættuspil geta einnig leitt til spilafíknar sem getur haft slæm áhrif á einstaklinga, bæði andlega og fjárhagslega. Saga Sovétríkjanna 1985-1991. Saga Sovétríkjanna 1985-1991 er saga upplausnar og hruns Sovétríkjanna og endaloka Kalda stríðsins. Hún hófst með því að Mikhaíl Gorbatsjev varð aðalritari sovéska kommúnistaflokksins 11. mars 1985 og lauk með stofnun Rússneska sambandsríkisins í desember árið 1991 eftir misheppnað valdarán harðlínumanna í Kreml sem stefnt var gegn umbótum stjórnar Gorbatsjevs ("Perestrojka") og opnunar landsins út á við ("Glasnost"). Stofnun Þýskalands. Kort sem sýnir Þýska ríkið frá stofnun þess fram að lokum fyrri heimsstyrjaldar. Stofnun Þýskalands var sameining nokkurra þýskumælandi ríkja í eitt ríki 18. janúar 1871 að undirlagi prússneska „járnkanslarans“ Otto von Bismarck. Þetta var því upphaf þess lands sem í dag nefnist Þýskaland, þótt landfræðilega hafi Þýska ríkið verið öllu stærra þar sem Prússland náði þá yfir alla suðurströnd Eystrasalts (Pommern, Vestur-Prússland og Austur-Prússland) og Silesíu. Sameiningin varð til upp úr Norðurþýska bandalaginu sem var arftaki Þýska bandalagsins undir forsæti Austurríkiskeisara. Við stofnunina varð Vilhjálmur 1. Prússakonungur Vilhjálmur 1. Þýskalandskeisari. Sameining Þýskalands. Sameining Þýskalands (þýska: "Deutsche Wiedervereinigung") átti sér stað 3. október 1990 þegar land sem áður heyrði undir ríkið Austur-Þýskaland var innlimað í Vestur-Þýskaland og ríkin tvö þannig aftur sameinuð í eitt Þýskaland, 41 ári eftir að þau höfðu formlega verið búin til úr hernámssvæðum Bandamanna og Sovétmanna í kjölfar ósigurs Þriðja ríkisins í Síðari heimsstyrjöldini. Sameiningin fór þannig fram að austurþýsku fylkin fimm; Brandenburg, Mecklenburg-Vorpommern, Saxland, Saxland-Anhalt, Thüringen og (nýsameinuð) Berlín, kusu að ganga í þýska sambandsríkið samkvæmt grein 23 í stjórnarskrá Vestur-Þýskalands. Austur-Þýskaland var því ekki formlega sameinað við Vestur-Þýskaland sem ein heild. Íranska byltingin. Heimkoma Khomeinis eftir fjórtán ára útlegð 1. febrúar 1979. Íranska byltingin (persneska: انقلاب اسلامی, "Enghelābe Eslāmi") var bylting sem breytti stjórnarfari í Íran úr keisaradæmi undir stjórn Íranskeisara Mohammad Reza Pahlavi, í íslamskt lýðveldi undir stjórn æðstaklerksins Ruhollah Khomeini. Hún hófst með uppþotum í janúar 1978 og lauk með samþykkt nýrrar stjórnarskrár sem kom á klerkaveldi í desember 1979. Sr. Hjörleifur Guttormsson. a> en hann var tengdasonur Hjörleifs. Hjörleifur Guttormsson (f. 31. maí 1807 á Hofi í Vopnafirði, d. 1. ágúst 1887 á Lóni í Kelduhverfi) var prestur víða á norðurlandi um miðja 19. öld. Foreldrar Hjörleifs voru sr. Guttormur Þorsteinsson sem lengi var prestur á Hofi og kona hans Oddný Guttormsdóttir. Hjörleifur varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1832. Hann var vinur og skólabróðir Jónasar Hallgrímssonar sem orti um hann furðulegar vísur "„Hjörleifs reiði ríður mér á slig“..." Hjörleifur hlaut prestvígslu 8. júní 1835 og gerðist aðstoðarprestur sr. Björns Vigfússonar í Kirkjubæ í Hróarstungu og gekk sama ár að eiga Guðlaugu dóttur hans. Eftir fjögur ár í Kirkjubæ fluttu þau á Galtastaði ytri og bjuggu þar í 10 ár en í ársbyrjun 1849 var Hjörleifi veittur Skinnastaður í Axarfirði. Þar þjónaði hann í 21 ár, eða til 1870. Síðustu sjö árin embættaði hann einnig á Garði í Kelduhverfi. Eftir þetta flutti hann með skyldulið sitt í Svarfaðardal. Hann var prestur á Tjörn til 1878 en flutti sig þá yfir í Velli og sat þar þangað til hann hætti prestsskap 1884. Sr. Hjörleifur þótti glaðvær maður og jafnlyndur, gestrisinn og vinsæll, kennimaður sæmilegur. Maddama Guðlaug var fædd á Eiðum 1813. Hún var sögð gáfuð rausnarkona, læknir góður og var fræg ljósmóðir. Mest orð fór þó af tónlistargáfum hennar og söngrödd og þótti það lengi koma fram í afkomendum hennar. Hún lést á Tjörn 26. október 1875. Harðstjórn. Harðstjórn er stjórnarfyrirkomulag sem felur í sér þéttriðið net einstaklinga sem ræður ríkjum með algerum pólitískum yfirráðum. Hin forna skilgreining á harðstjórn er yfirráð eins manns, sem nefndur er "harðstjóri", og hefur alla valdatauma í hendi sér og allir aðrir lúta valdi hans en hann gætir sinna eigin hagsmuna fremur en hagsmuna heildarinnar. Harðstjórn er í raun hið fyrsta stjórnarform þegar einhvers konar ríkisvald og siðmenning kemst á. Faróar eru ágætt dæmi um fyrri tíma harðstjóra. Rússneska byltingin 1917. Rússneska byltingin 1917 er afdrifaríkur atburður á 20. öld og er í raun heiti yfir nokkrar misstórar byltingar, þar sem sú stærsta var gerð 1917. Alexander II rússlandskeisari batt enda á Krímstíðið þegar hann komst til valda og gerði úrbætur til að færa land í nútímalegra horf. Alexander III sonur hans dró til baka margar af úrbótum föður síns sem olli mikilla óánægju meðal Rússa. Nikulás II, síðasti keisari Rússlands, komst til valda árið 1894. Rússar töpuðu stríði gegn Japönum og leiddi til mótmæla, en fyrsta uppreisnin í Rússlandi var árið 1905 og er oft kölluð „blóðugi sunnudagurinn“. Lenín var einn af leiðtogum uppreisnarinnar en hann hafði kynnt sér kommúnisma Karls Marx. Febrúarbyltingin var árið 1917 en þá gengust hersveitir keisarans til liðs við mótmælendurna og Nikulás II sagði af sér. Við tók svokölluð bráðabirgðastjórn. Keisarafjölskyldan var send til Síberíu í stofufangelsi. Bráðabirgðastjórnin vildi halda áfram þátttöku Rússlands í heimsstyrjöldinni og jókst fylgi bolsévika því um megn. Októberbyltingin var einnig 1917 og ákváðu þá bolsévikar að hirða valdið af bráðabirgðastjórninni. Eftir að bolsévikar náðu valdi gerðu þeir friðarsamning við Þjóðverja árið 1918. Svokallaðir hvítliðar sem samanstóðu af gagnbyltingarmönnum bolsévika og bandamönnum herjuðu á Ékaternínburg til að bjarga keisarafjölskyldunni frá bolsévikum. Keisarafjölskyldan var tekin af lífi sumarið 1918 með fyrirskipun frá bolsévikum. Borgarastyrjöldin stóð í þrjú ár eftir það og lauk með sigri bolsévika. Sovétríkin voru svo stofnuð í enda styrjaldarinnar og Lenín var fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna. Aðdragandinn. Alexander II rússlandskeisari batt enda á Krímstríðið eftir að hann tók við af föður sínum 1855. Eftir ósigur Rússlands í stríðinu sá Alexander II Rússakeisari hvað þjóð hans var langt á eftir öðrum Evrópuríkjum. Með því að aflétta ánauð bænda, endurskipurleggja stjórnkerfið, ýta undir framfarir iðnaðar og samgangna ásamt því að umbæta herinn færði hann Rússland til nútímans. Alexander II var myrtur af meðlimum leynifélagsins Narodnya Volya. Sonur hans Alexander III tók við af honum og dróg til baka margt af því sem faðir hans hafði breytt. Það leiddi til fyrstu stóru byltingarinnar í Rússlandi. Nikulás II tók við af Alexander III árið 1894 og lofaði hann þjóð sinni réttarbótum. Sama ár og Nikulás tók við gekk Rússland í lið bandamanna í fyrr heimsstyrjöldinni. Nikulás stóð ekki við loforð sitt en þær lestir sem höfðu flutt matvæli og eldsneyti til iðnaðarborganna voru nú nýttar undir herflutninga og vopnaflutninga til vígstöðva þeirra í stríðinu. Eftir ósigur Rússlands gegn Japönum um frekarar landssvæði varð uppreisn í landinu, þá stofnaði ríkisstjórnin Dúmuna sem var landþing. Dúmuna skipuðu mest megnis íhaldssamir velmektarmenn svo ekki var miklu breytt fyrir almúgann. Fyrsta alvarlega byltingin í Rússlandi var 22. janúar 1905 og er oft kölluð blóðugi sunnudagurinn. Í þeirri uppreisn gerðu um 200 þúsund manns áhlaup á Vetrarhöllina í Pétursborg. Föðurbróðir Nikulásar skipaði hersveitum að skjóta á lýðinn og varð það um 100 manns að bana. Vladímír Lenín var einn af leiðtogum þessarar uppreisnar en hann hafði kynnt sér rit Karls Marx um kommúnisma en eftir að byltingin hafði verið bæld niður var hann sendur í útlegð. Lenín sneri þó heim árið 1917 þegar febrúarbyltingin hófst. Febrúarbyltingin. Á kvennadaginn 23. febrúar (8. mars) 1917 hófu konur í St. Pétursborg verkfall. Hermenn voru sendir til Pétursborgar til þess að bæla niður mótmælin en hluti þeirra gengu til liðs með mótmælendum. Mótmælin gerðu það að verkum að Nikulás II sagði af sér í mars eftir aðeins fimm daga uppreisn og Grigorij Lvov tók við eftir að bróðir Nikulásar neitaði að taka við krúnunni. Tvenns konar stjórn réði ríkjum í Rússlandi eftir fráfall keisarans. Annars vegar bráðabirgðastjórn og sovétin sem voru undir stjórn sósíaldemókrata. Sovétmenn voru aðallega hermenn og verkamenn. Eftir að Nikulás Rússakeisari hafði sagt af sér var hann og fjölskylda hans sett í stofufangelsi í Alexandershöllinni í Pétursborg. Bráðabirgðastjórnin ætlaði að senda þau til Englands en sovétin stöðvuðu þá ráðagerð og var keisarafjölskyldan því send til Tobolsk í Síberíu. Fljótlega varð Aleksandr Kerenskij úr þjóðbyltingarflokknum leiðtogi bráðabirgðastjórnarinnar frá júlí 1917. Bráðabirgastjórnin vildi halda áfram í stríðinu þrátt fyrir vaxandi andstöðu gegn því, enda var markmið byltingarinnar að enda stríðið. Þessi ákvörðum stjórnarinnar varð til þess að vægi rótækra sósíaldemókrata, betur þekktir sem Bolsévikar, jókst. Leiðtogi bolsévika var Vladimír Lenín. Októberbyltingin. Októberbyltingin hófst í Tallin þann 23. október 1917 (5. nóv) en 25. október í Pétursborg. Nýja stjórnin var skipuð af alþýðufulltrúum. Nýja stjórnin hækkaði laun, kom á átta stunda vinnutíma og þjóðnýtti banka. Bolsévikar ákváðu að taka völdin með vopnaðri byltingu og hertóku helstu staði Pétursborgar. Þeir gerðu áhlaup á Vetrarhöllina þar sem aðsetur bráðabirgðastjórnarinnar var. Lenín stofnaði fyrstu ríkisstjórn verkamannaráða eftir að bolsévikar sviptu Aleksandr Kerenskij og stjórn hans völdin. Bolsévikar gerðu friðarsamning við Þjóðverja þann 3. mars 1918. Við þennan samning fékk Þýskaland yfirráð yfir ýmsum ríkjum sem tilheyrðu Rússlandi. Bolsévikar höfðu stuðning víðs vegar um landið, enda bannaði Lenín andstöðuflokka í landinu. Gerð var sérstök lögreglusveit, Téka, sem sá um að tryggja einræðisvald bolsévika. Gagnbyltingamenn, sósíalistar og lýðræðisinnar, ásamt Bretum, Frökkum og Bandaríkjamönnum gerðu herlið sem kallaðist hvítliðar til að berjast gegn bolsévikum/rauðliðum. Keisarafjölskyldan var flutt til Ékaternínburg í Síberíu í maí 1918. Hvítliðar undir stjórn Alexanders V. Koltsjaks sóttu grimmt á borgina en talið er að hvítliðar hafi ætlað að frelsa fjölskylduna. Hvítliðar hertóku Ékaternínburg með hjálp frá tékkneskum hersveitum. Aðfaranótt 17. júlí 1918 var keisarafjölskyldan myrt af leyniþjónustumanni, Jakov Júrovskíj, frá Tomsk. Aftökuna fyrirskipaði annaðhvort ríkisstjórnin í Ékaternínburg eða miðstjórnin í Moskvu. Ættingjar keisarans voru ekki óhultir en tíu þeirra voru myrtir af byltingamönnum og talið er að 35 hafi flúið frá Rússlandi. Stofnun Sovétríkjanna. Á árunum 1918 til 1921 var blóðug borgarastyrjöld í Rússlandi á milli hvítliða og rauðliða. Borgarastyrjöldinni lauk með sigri rauðliða þrátt fyrir hjálp bandamanna. Árið 1922 voru svo Sovétríkin stofnuð sem ríkissamband Rússlands, Hvíta-Rússlands, Úkraínu og Kákasusríkjasambandsins, samanstendur af Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu. Lenín var fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna en Sovétríkin er fyrsta ríkið þar sem kommúnistar komust til valda. Upplýsingin. Upplýsingin eða upplýsingaröldin var tímabil mikilla breytinga í Evrópu og Bandaríkjunum í vísindalegum vinnubrögðum og hugsun sem hófst seint á 17. öld í kjölfar vísindabyltingarinnar á síðmiðöldum. Upplýsingin stóð í um eina öld, eða til ársins 1800, en eftir hana tók rómantíkin við. Nafnið vísar til þess að á undan höfðu hinar "myrku miðaldir" gengið og þær nýju hugmyndir og uppgötvanir sem komu fram á þessu tímabili sviptu hulunni af mörgu því sem áður hafði verið manninum óskiljanlegt. Upplýsingin var því tímabil mikillar þekkingaröflunnar mannsins. Þessi þekking var tilkominn vegna þess að maðurinn notaði í auknum mæli vísindaleg vinnubrögð byggð á skynsemi og raunhyggju frekar en trú á yfirnáttúruleg öfl eða aðrar bábiljur. Hin kristna kirkja varð fyrir aukinni gagnrýni eftir að hin nýju vísindi og vinnubrögð gáfu af sér veraldlega heimssýn. Upplýsingin átti helstu upptök sín í Vestur-Evrópu: Frakklandi, Bretlandi, og Þýskalandi og víðar. Hún bar um alla Evrópu og hafði víðtæk áhrif á samfélagið og tækniþróun. Hagfræðingurinn Adam Smith var helsti boðberi Skosku upplýsingarinnar og telst faðir nútíma hagfræði. Það tímabil sem af mörgum er álitið hafa komið á milli miðalda og Upplýsingarinnar sem nefnt er Endurreisnin má með nokkurri einföldun segja að hafi frekar haft áhrif á menningarlíf, svo sem með því að upphefja á ný svokölluð klassísk verk Forn-Grikkja. Leiðandi einstaklingar þess tímabils voru m.a. Ítalarnir Leonardo Da Vinci og Dante. Sem bein eða óbein afleiðing þessara hugmyndastefna sem Upplýsingin markaði má nefna sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna árið 1776 og frönsku byltinguna árið 1789. Upplýsingin á Íslandi. "Grein: Upplýsingin á Íslandi" Upplýsingar. Bókstafurinn „i“ á bláum fleti er algengt tákn fyrir upplýsingar. Upplýsingar eru afrakstur söfnunar, útfærslu, breytinga og skipulags gagna þannig að þau hafi áhrif á þekkingu einhvers viðtakanda. Upplýsingar eru þannig stundum sagðar vera sú merking sem maðurinn gefur gögnum og hafa með það að gera í hvaða samhengi gögnin koma fyrir, hvernig þau eru táknuð með skiljanlegum hætti, og hver merking þeirra er í huga viðtakandans. Upplýsingar eru eiginleikar boða í samskiptum. Í upplýsingafræði eru upplýsingar skilgreindar sem staða kerfis. Magn upplýsinga sem staðan felur í sér fer eftir því hversu margar aðrar stöður kerfisins eru mögulegar. Aðferð upplýsingafræðinnar til að mæla magn upplýsinga í skilaboðum var sett fram í ritgerð Claude Shannon, „A Mathematical Theory of Communication“. Fjarskipti. Fjarskipti eru sending merkja um langan veg með hjálp fjarskiptakerfis. Tilgangurinn með fjarskiptum er að eiga samskipti yfir miklar fjarlægðir. Áður fyrr voru fjarskipti útfærð með reykmerkjum, trommum, fánum, vitum eða speglum. Í nútímanum fela fjarskipti í sér notkun rafknúinna senditækja og viðtækja eins og síma, sjónvarps, útvarps og tölva. Frumkvöðlar á sviði rafrænna fjarskipta eru t.d. Alexander Graham Bell, Guglielmo Marconi og John Logie Baird. Iðnaður. Iðnaður er sá hluti efnahagslífsins sem framleiðir vörur og veitir þjónustu. Iðnaður eins og við þekkjum hann í dag varð til í iðnbyltingunni á 19. öld. Það má skipta iðnaði niður í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn eru greinar þar sem náttúruauðlindum er breytt í vörur eins og námuvinnsla, skógarhögg og landbúnaður. Annar hlutinn eru greinar þar sem hráefnum er breytt í vörur eins og bílaiðnaður og stáliðnaður. Þriðji hlutinn eru þjónustugreinar eins og verslun og bankastarfssemi. Fjórði hlutinn er síðan rannsóknir, hönnun og þróun sem leitt geta til breytinga og tækniframfara. Þróunarlönd hafa oftast efnahag, byggðan meir á fyrsta og öðrum hluta, á meðan meiri áhersla er lögð á á þriðja og fjórða hlutann í iðnvæddum löndum heldur en í þróunarlöndum. Samskipti. Samskipti eru ferli sem gera lífverum kleift að skiptast á upplýsingum með ýmsum aðferðum. Samskipti fela venjulega í sér endurgjöf (eru samhverf) en orðið er líka notað um fjölmiðlun eins og útvarpsútsendingar þar sem endurgjöfin er í besta falli óbein, og líka kerfi þar sem töf er á endurgjöf eða þar sem sendandi og viðtakandi nota ólík samskiptakerfi, tækni, tíma og aðferðir (ósamhverf samskipti). Sumir höfundar vilja meina að samskipti feli í sér vilja, þ.e. endurgjöfin þarf að byggja á íbyggni, og útiloki þannig samskipti annarra en manna. Annars konar skipti á upplýsingum er réttara að kalla boðskipti samkvæmt þessu. Aðrir höfundar vilja meina að samskipti meðal manna og samskipti annarra lífvera séu stigsmunur en ekki eðlismunur og hægt sé að skoða hvort tveggja með sömu aðferðum. Tækniveldi. Tækniveldi (enska: "technocracy") er stjórnarfyrirkomulag þar sem sérfróðir menn og vísindamenn fara með völd. Atvinna. Atvinna er samningur sem gerður er milli tveggja aðila, þar sem einn er atvinnurekandinn og hinn er starfsmaður. Fjármál. Í fjármálum er lagt nám við það hvernig einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir safna, úthluta og nota peningaauðlindir. Mahabarata. "Mahabarata" ("Devanagari": महाभारत}, er eitt af hinum tveimur stóru hetjuljóðum á sanskrít í sögu forn Indlands. Hitt nefnist "Rāmāyaṇa". Listi yfir mismunandi rithátt íslenskra orða. Ath. að ef lýsingin er of flókin eða of margbrotin er vísað í beygingarlýsinguna, og aðeins tæpt á möguleikunum. Það skal líka taka fram að flest það sem hér kemur fram er fengið úr "Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls", af heimasíðu OH, nema annað sé tekið fram.. Regnbogi. Regnbogi (einnig kallaður friðarbogi) er ljósfræðilegt og veðurfræðilegt fyrirbæri sem orsakast þegar litróf birtist á himninum á meðan sólin skín á vætu í andrúmslofti jarðar. Hann er marglitur með rauðan að utanverðu og fjólubláan að innanverðu. Sjaldnar má sjá daufari regnboga með litina í öfugri röð. Á Íslandi sjást regnbogar oft við fossa. Berghlaup. Vatndalshólar, eitt stærsta berghlaup landsins Berghlaup er jarðfræðilegt hugtak sem notað er bæði um atburð og jarðmyndun. Ólafur Jónsson hefur að líkindum búið orðið til um þá tegund skriðufalla sem hann fjallar um í bók sinni Berghlaup, en hún kom út 1976. Þar skilgreinir hann orðið með tilvísun til erlendu orðanna „rock slide“ (enska) og „Bergstürz“ (þýska). Samkvæmt "Orðabók HÍ" er elsta heimild um orðið í bók Hjartar E. Þórarinssonar um Svarfaðardal og er þar notað í sömu merkingu og hjá Ólafi síðar enda eru líkur á að Hjörtur hafi fengið orðið hjá honum. Skilgreiningin er þó fyllri en hjá Ólafi. Berghlaup eru algeng víða um land. Stærstu og þekktustu berghlaup á Íslandi eru Vatnsdalshólar, Loðmundarskriður, Hraun í Öxnadal. Náttúruhamfarir. Eldgos getur leitt til mikilla náttúruhamfara. Náttúruhamfarir er náttúrumyndun sem hefur miklar og slæmar afleiðingar einkum fyrir mannlegt samfélag en einnig dýralíf. Náttúruhamfarir geta til að mynda verið afleiðingar jarðskjálfta, eldgoss, flóðbylgja, snjóflóða, hitabylgja, hvirfilbyls og óveðurs. Í náttúruhamförum getur orðið mikið manntjón eða fjárhagslegt tjón. Flóð. Flóð er það kallað þegar vatn flæðir yfir víðáttumikið land, sem venjulega er þurrt. Flóðbylgja er há hafalda, sem gengur langt inn á land og veldur flóði. Flóðbylgjur og flóð valda árlega miklu tjóni, spilla landi og eyða örkum, bústofni og mannslífum. Brasídas. Brasídas (forngríska: "Βρασίδας") (d. 422 f.Kr.) var spartverskur herforingi í Pelópsskagastríðinu. Hann lést í orrustunni við Amfipólis árið 422 f.Kr. en fráfall hans og aþenska stjórnmálamannsins Kleons, sem einnig féll í sömu orrustu, greiddu götuna fyrir friðarsamningum Níkíasar ári síðar. Flóðbylgja. Flóðbylgja er röð bylgja sem verða til þegar vatn (t.d. sjór) er snögglega fært úr stað. Flóðbylgjur geta verið af ýmsum stærðum og afar afstætt hvað menn kalla því nafni. Mestu flóðbylgjur sem verða á heimshöfunum nefnast "tsunami" á alþjóðlegum vettvangi. Orðið tsunami er komið úr japönsku, bein þýðing á því er hafnarbylgja. Tsunami-flóðbylgjur eru orkuríkar bylgjur sem borist geta langar leiðir um höf eða vötn og valdið tjóni fjarri upprunastað sínum. Slíkar bylgjur geta risið af völdum loftsteina, jarðskjálfta, eldsumbrota, neðansjávarsprenginga, skriðufalla, snjóflóða og á fleiri vegu (skjálftaflóðbylgja, eldgosaflóðbylgja, skriðuflóðbylgja, snjóflóðaflóðbylgja o.s.frv.). Carl Gustav Hempel. Carl Gustav Hempel (8. janúar 1905 – 9. nóvember 1997) var þýskur vísindaheimspekingur og einn helsti málsvari rökfræðilegrar raunhyggju á 20. öld. Hann er einkum frægur fyrir kenningu sína um að eðli vísindalegra skýringa byggi á afleiðslu þar sem að minnsta kosti ein forsendan er staðhæfing um náttúrulögmál. Kenningin var talin meginviðmið á 6. og 7. áratug 20. aldar. Æviágrip. Carl Gustav Hempel fæddist í Oranienburg í Þýskalandi þann 8. janúar 1905. Hann nam stærðfræði, eðlisfræði og heimspeki við háskólana Göttingen, Heidelberg og Berlín. Í Göttingen kynntist hann David Hilbert og þótti mikið koma til tilraunar hans til þess að smætta alla stærðfræði í hreina rökfræði. Hempel kynntist Rudolf Carnap á ráðstefnu um vísindaheimspeki í Berlín árið 1929 og varð í kjölfarið meðlimur í Berlínarhringnum. Hann lauk doktorsgráðu sinni frá Berlínarháskóla árið 1934 en lokaverkefni hans fjallaði um líkindafræði. Sama ár flutti hann frá Þýskalandi vegna uppgangs nasismans þar í landi. Hempel flutti til Belgíu og naut til þess hjálpar Pauls Oppenheim, sem samdi með honum ritið "Der Typusbegriff im Lichte der neuen Logik" sem kom út árið 1936. Árið 1937 flutti Hempel til Bandaríkjanna og tók við stöðu aðstoðarmanns Carnaps við Háskólann í Chicago. Hann kenndi síðar við City College of New York (1939 – 1948), Yale-háskóla (1948 – 1955) og Princeton-háskóla þar sem hann var starfsfélagi Thomasar Kuhn. Hempel kenndi í Princeton þar til hann fór á eftirlaun árið 1964. Hann varði tveimur árum (1964 – 1966) við Hebreska háskólann í Jerúsalem. Árið 1977 tók hann við prófessorsstöðu í heimspeki við Háskólann í Pittsburgh og kenndi þar til ársins 1985. Hempel lést í Princeton í New Jersey í Bandaríkjunum árið 1997. Árið 2005 var nefnd eftir honum gata í Oranienburg í Þýskalandi, Carl-Gustav-Hempel-Straße. Vísindaleg skýring. Eitt aðalviðfangsefni vísindaheimspekinnar er að greina vísindi frá annars konar kenningum og finna út hvað geri eina rannsókn eða kenningu vísindalega en aðra ekki. Hvað er vísindaleg útskýring á tilteknum hlut eða atburði? Carl Hempel er hvað þekktastur fyrir atlögu sína til þess að greina hvað vísindaleg skýring feli í sér og hvaða einkenni hún þurfi að hafa til þess að hún geti talist vísindaleg. Í ritinu "Studies in the Logic of Explanation" frá árinu 1948 setur Carl Hempel ásamt Paul Oppenheim fram kenningu um lögmál vísindalegrar skýringar. Samkvæmt kenningunni sem gengur undir nafninu Yfirgripslögmálið, hefur vísindaleg skýring einfaldlega sömu einkenni og röksemdarfærsla eða afleiðsla. Vísindaleg skýring væri svar við svokölluðum „af hverju“-spurningum, sem leitast við að finna orsakaskýringu á því af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Dæmi um þannig spurningu væri af hverju sykur blandist vatni. Vísindaleg skýring er rökrétt samband milli tveggja staðhæfinga og í raun afleiðsla staðhæfingar. Svarið við spurningunni er þá aðleiðsla þess að sykur leysist upp í vatni og er vísindaleg skýring. Hempel taldi að með því að finna hvaða einkenni vísindaleg skýring hefði, þá gætum við sagt til um hvað við gætum kallað vísindalega skýringu. Til að svara spurningunni af hverju sykur leysist upp í vatni verðum við því að byrja á setja fram rökleiðslu sem leiðir að þeirri staðreynd að sykur leysist upp í vatni sem inniheldur forsendur fyrir sannindum fullyrðingarinnar. Til þess að geta búið til kerfislægt líkan af vísindalegri skýringu taldi Hempel að hún yrði að halda óhagganleg náttúrulögmál, einhverja fasta breytu sem væri alltaf eins. Samkvæmt kenningu Hempel er skýring visindaleg ef hún uppfyllir þrjú atriði. Forsendurnar þurfa að vera leiða að niðurstöðunni, forsendurnar þurfa að vera sannar og síðan þurfa þær að innihalda að minnsta kosti eitt náttúrulögmál. Dæmi um náttúrulögmál er þyngdarlögmálið sem er eitt af grundvallarlögmálum eins og það lögmál að málmar leiða rafmagn. Hempel taldi því að ef að eitthvað væri afleiðing náttúrulögmáls hlyti það að vera satt. Vísindaleg útskýring innihéldi náttúrulögmál ásamt tilteknu atviki eða staðreynd sem væri breytileg eftir hverju dæmi fyrir sig. Samkvæmt Hempel var fleira sem einkenndi Yfirgripslögmálið, það er að maður gæti tekið þessar forsendur og notað til að spá fyrir um atburðinn. Náttúrulögmálið ásamt hinum forsendunum geti því verið notað til þess að spá fyrir um ákveðinn atburð eða staðreynd. Tenglar. Hempel, Carl Gustav Hempel, Carl Gustav Hempel, Carl Gustav Thomas Samuel Kuhn. Thomas Samuel Kuhn (18. júlí 1922 – 17. júní 1996) var bandarískur vísindaheimspekingur og vísindasagnfræðingur. Æviágrip. Thomas Samuel Kuhn fæddist í Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum þann 18. júlí árið 1922. Foreldrar hans hans voru Samuel L. Kuhn, iðnaðarverkfræðingur, og Minette Stroock Kuhn. Kuhn lauk B.A.-gráðu sinni í eðlisfræði frá Harvard-háskóla árið 1943 og meistara- og doktorsgráðu í eðlisfræði árin 1946 og 1949. Hann kenndi vísindasögu við Harvard-háskóla frá 1948 til 1956 að frumkvæði rektos skólans, James Conant. Kuhn yfirgaf Harvard til þess að taka við stöðu við Kaliforníuháskóla í Berkeley þar sem hann kenndi bæði við heimspeki- og sagnfræðideild. Hann hlaut stöðu prófessors í vísindasögu árið 1961. Á árunum í Berkeley samdi hann og gaf út (1962) þekktasta og áhrifamesta rit sitt "Gerð vísindabyltinga". Árið 1964 tók hann við stöðu M. Taylor Pyne-prófessors í vísindaheimspeki og -sögu við Princeton-háskóla þar sem hann kenndi til ársins 1979 en þá þáði hann stöðu Laurance S. Rockefeller-prófessors í heimspeki við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) og kenndi þar til ársins 1991. Hann var greindur með krabbamein árið 1994 og lést þann 17. júní tveimur árum síðar. Kuhn var tvígiftur, fyrst Kathryn Muhs (og átti með henni þrjú börn) og síðar Jehane Barton (Jahane R. Kuhn). Kuhn var útnefndur Guggenheim-félagi árið 1954 og hlaut George Sarton-orðuna árið 1982 auk þess sem hann var sæmdur fjölmörgum heiðursdoktorsnafnbótum. Hugmyndafræði í vísindaheimspeki. Thomas Kuhn var ólíkur öðrum vísindaheimspekingum á þann hátt að hann var ekki formlega menntaður í heimspeki heldur var hann menntaður eðlisfræðingur. Sennilega hafði það áhrif á hversu byltingarkenndar hugmyndir hans voru. Hans er einna helst minnst fyrir það að koma fram með þá hugmynd að vísindi þróuðust á þann hátt að þau færu í gegnum um ferli sem hann kallaði ímyndarhliðrun eða viðmiðaskipti (e. paradigm shift) í stað þess að þróast á línulegann og samfelldann máta. Hann sagði að örsjaldan yrðu svokallaðar vísindarlegar byltingar, dæmi þess konar gæti verið til dæmis sólmiðjukenningin og afstæðiskenningin. Undir venjulegum kringumstæðum þá væru vísindamenn þó að stunda venjuleg vísindi (e. normal science) þar sem unnið væri eftir ákveðnum viðmiðum eða ramma og fyrri kenningar bættar. Tenglar. Kuhn, Thomas S. Kuhn, Thomas S. Einhyggja. Einhyggja er hugtak í frumspeki sem er notað til að lýsa sérhverri kenningu sem kveður á um að einungis eitthvað eitt sé til, annaðhvort ein verund eða ein tegund verunda. Fyrrnefndu hugmyndina má nefna einhyggju um fjölda verunda en síðarnefndu hugmyndina má nefna einhyggju um tegundir verunda. Einhyggja er andstæð tvíhyggju, sem kveður á um að til séu tvær tegundir verunda, og fjölhyggju, sem kemur á um að til séu margar verundir (fjölhyggja um fjölda verunda) eða margar tegundir verunda (fjölhyggja um tegundir verunda). Einhyggja um tegundir verunda. Fyrstu vestrænu heimspekingarnir, hinir svokölluðu jónísku náttúruspekingar, voru einhyggjumenn en þeir töldu að allt sem væri til væri á endanum úr einu og sama frumefninu, það er að segja að einungis ein tegund verunda væri til. Þales taldi að frumefni og uppspretta alls væri vatn, Anaxímandros að það væri eiginleikalaust frumefni sem hann nefndi ómælið ("to apeiron") og Anaxímenes að það væri loft. Einhyggja þeirra er andstæð kenningum fjölhyggjumannana sem voru að störfum tveimur kynslóðum síðar, þ.e. þeirra Empedóklesar, sem hafði þá kenningu að til væri fjögur frumefni eða rætur (vatn, eldur, loft og jarðefni) auk frumkraftanna tveggja ástar og haturs; Demókrítosar, sem hafði þá kenningu að til væru atóm og tóm; og Anaxagórasar, sem hafði þá kenningu að til væru óendanlega mörg samkynja efni (frumefni) og ósamkynja efni (efnablöndur) auk hugar. Í kenningum fjölhyggjumannanna var gert ráð fyrir mörgum tegundum verunda, annaðhvort mörgum tegundum efna eða bæði efnislegra og óefnislegra verunda. Af svipuðum meiði er nútíma efnishyggja sem kveður á um að allt sem til er sé efnislegt. Slík efnishyggja er andstæð tvíhyggju í anda franska heimspekingsins Renés Descartes sem kveður á um að auk efnislegra hluta sé einnig til sál eða andi eða óefnislegur og sjálfstæður hugur. Hughyggja, það er að segja sú kenning að allt sem er til sé óefnislegt, er einnig einhyggja um tegundir verunda. Írski heimspekingurinn George Berkeley var hug- og einhyggjumaður af þessu tagi. Einhyggja um fjölda verunda. Forngríski heimspekingurinn Parmenídes hafði kenningu um að allt væri eitt, Veran, og að allt annað væri óraunverulegt og ekki til. Einhyggja af þessu tagi lýsti Bertrand Russell þannig að „hvaðeina sem ekki er allt er ekkert.“ Einhyggja um fjölda verunda er andstæð fjölhyggju um fjöla verunda. Þess ber þó að gæta að fjölhyggja um fjölda verunda getur vel verið einhyggja um tegundir verunda. Þannig er nútíma efnishyggja einhyggja um tegundir verunda, af því að hún kveður á um að einungis séu til efnislegar verundir, en er yfirleitt ekki einhyggja um fjölda verunda, af því að fæstir nútíma efnishyggjumenn halda því fram að einungis sé til ein efnisleg verund. Söguspeki. Söguspeki eða heimspeki sögunnar er undirgrein heimspekinnar sem fæst við mannkynssöguna og heimspekilegar undirstöður sagnfræðinnar. Söguspekin spyr meðal annars spurninga um þýðingu mannkynssögunnar og eðli hennar, til dæmis um markhyggju í mannkynssögunni. Söguspeki ætti ekki að rugla saman við heimspekisögu, sem fjallar um sögu heimspekinnar. Réttarheimspeki. Réttarheimspeki er sameiginleg undirgrein heimspekinnar og lögfræðinnar, sem fjallar um eðli og heimspekilegar undirstöður laga og lagasetningar. Í réttarheimspeki er meðal annars spurt hvort til sé náttúruréttur eða náttúruleg réttindi, sem menn hafa óháð lagasetningu, eða hvort allur réttur sé settur réttur, þ.e. ákveðinn með lagasetningu og háður henni. Réttarheimspekingar spyrja einnig hvert sambandið er milli lagasetningar og siðferðis, um eðli og réttlætingu refsingar og hvernig lög "ættu" að vera. Réttarheimspeki er náskyld siðfræði og stjórnspeki. Nánast allar hliðar réttarheimspekinnar eiga rætur að rekja til grískrar heimspeki, einkum rita forngríska heimspekingsin Platons og til stóuspekinnar. Meðal annarra mikilvægra hugsuða úr sögu réttarheimspekinnar má nefna Aristóteles, Tómas af Aquino, Thomas Hobbes, Hugo Grotius, John Locke, Jeremy Bentham, John Austin, Georg Jellinek, Lon L. Fuller, H.L.A. Hart, Hans Kelsen, John Rawls, Joseph Raz, Leslie Green og Ronald Dworkin Fyrirbærafræði. Fyrirbærafræði er heimspekistefna og -hefð sem átti vinsældum að fagna á meginlandi Evrópu um miðja 20. öld. Fyrirbærafræðin var einkum mótuð af þýsku hugsuðunum Edmund Husserl og Martin Heidegger. Husserl skilgreindi fyrirbærafræðina sem „huglæga rannsókn á eðli vitundarinnar eins og hún birtist í upplifun 1. persónu“. Heidegger taldi að Husserl hefði sést yfir grundvallaratriði bæði frumlags og viðfangs reynslunnar (sem hann kallaði „veru“ þeirra) og víkkaði fyrirbærafræðina út þannig að hún fengist einnig við skilning og upplifun manna á Verunni sjálfri og gerði fyrirbærafræðina þannig að aðferðafræði í verufræði. Fyrirbærafræðin hafði áhrif á þróun tilvistarspekinnar í Frakklandi, til að mynda hjá höfundum á borð við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir. Skýstrokkur. Skýstrokkur, skýstrókur eða hvirfilbylur er ofsalegt, hættulegt óveður. Hann samanstendur af loftdálki sem nær alveg niður að yfirborði jarðar og skúraskýi, eða stundum bólstraskýi. Skýstrokkar eru til í allskonar stærðum en eru oftast í lögun trektar þar sem mjórri endi skýstrokksins snýr niður og er oft umkringdur af ryki og rusli. Í flestum skýstrokkum er vindhraði milli um það bil 64 km/klst. og 177 km/klst.. Þeir eru yfirleitt um 75m að breidd og geta farið nokkra kílómetra áður en þeir eyðast. Sumir skýstrokkar eru með vindhraða yfir 480km/klst., eru yfir 1,6km að breidd og geta farið nokkur hundruð kílómetra áður en þeir eyðast. Skýstrokkar hafa sést í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu. Samt sem áður gerast flestir skýstrokkar í svokallaða Tornado Alley í Bandaríkjunum en þeir geta gerst hvar sem er í Norður-Ameríku. Þeir líka gerast stundum í Suður- og Austur-Asíu, á Filippseyjum, í austanverðri Suður-Ameríku, sunnanverðri Afríku, norðvestanverðri og suðaustanverðrí Evrópu, vestanverðri og suðaustanverðri Ástralíu, og Nýja-Sjálandi. Skilgreiningar. Samkvæmt Veðurstofu Íslands er skilgreining á skýstrokki vindsveipur með „þvermál 100m eða meira vindhraði allt að 100m/s“. Vindsveipur með þvermál 10m eða meira og vindhraði allt að 50m/s heitir sandstrokkur eða vatnsstrokkur, og sveipur með þvermál 1m eða meira og vindhraði allt að 10m/s er ryksveipur. Skýstrokkar á Íslandi. Árið 2007 gerðist lítill sandstrokkur á Skeiðarársandi. Kuhn (fyrirtæki). Kuhn er franskt fyrirtæki sem framleiðir landbúnaðartæki s.s. heyvinnutæki, plóga og áburðardreifara. Saga. Fyrirtækið var stofnað af Joseph Kuhn árið 1828. Hann framleiddi þá lóð og vogir en árið 1864 fluttist hann til Severne til að framleiða landbúnaðartæki. Reksturinn gekk vel á fyrri hluta 20. aldar en svo dró úr krafti fyrirtækisins í skugga seinni heimsstyrjaldar. Þegar henni lauk komst reksturinn á fullt skrið að nýju. Ári seinni gekk Kuhn inn í viðskiptasamband með svissnesku fyrirtækið og 1949 hafði Kuhn ráðandi markaðshlutdeild á franska markaðnum. Á 8. áratug 20. aldar hóf fyrirtækið að selja tæki sín um alla Evrópu. Á 9. áratugnum var tekið upp flókið þróunarferli sem öllu tæki fóru í gegnum og þetta kerfi bar ávöxt 1990 þegar fyrirtækið hlaut gullverðlaun á SIMA-sýningunni í París fyrir vendiplógur sinn. Tveimur árum síðar fékk sláttuvél með 5 metra vinnslubreidd gullverðlaun á sömu sýningu. Árið 2002 tók Kuhn yfir bandaríska fyrirtækinu Knight en það var þá leiðandi í fóðurvögnum og -blöndurum en áður hafði Kuhn einmitt fjárfest Audrea S.A. Í dag er verksmiðja í Broadhead í Wisconsin-fylki fyrir Kuhn-Knight fóðurvagna. Kevin Federline. Kevin Federline (fæddur 21. desember 1978 í Fresno-sýslu í Los Angeles) er bandarískur dansari og rappari. Að auki er hann fyrrverandi eiginmaður og barnsfaðir Britneyjar Spears. Vorarlberg. Vorarlberg er vestasta sambandsland Austurríkis, það næstminnsta. Aðeins Vín er minna. Sökum mikilla fjalla í landinu er Vorarlberg næstfámennasta sambandslandið. Aðeins Burgenland er fámennara. Vorarlberg sker sig um margt frá öðrum sambandslöndum Austurríkis. Þar er t.d. töluð öðruvísi mállýska. Höfuðborgin er Bregenz. Lega og lýsing. Vorarlberg liggur við austurenda Bodenvatns og teygir sig inn í nokkra Alpadali. Eina eiginlega undirlendi er Rínardalurinn áður en Rín rennur í Bodenvatn, en fljótið myndar náttúruleg landamæri að Sviss. Að öðru leyti er héraðið mjög hálent. Hæsta fjallið er Piz Buin með 3.312 m. Lítið svæði, Kleinwalsertal í norðurhluta sambandslandsins, er eingöngu aðgengilegt frá Þýskalandi sökum hárra fjalla. Vorarlberg liggur aðeins að einu öðru sambandslandi Austurríkis, Tírol að austan. Fyrir norðan er Bæjaraland, fyrir vestan er St. Gallen í Sviss, fyrir suðvestan er Liechtenstein og fyrir sunnan er Graubünden í Sviss. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Vorarlbergs samanstendur af tveimur láréttum röndum, rauðri að ofan og hvítri að neðan (öfugt við pólska fánann). Fánar sambandslandanna Víns og Salzburg er nákvæmlega eins. Þar sem íbúar Vorarlbergs telja sig oft ekki vera ekta Austurríkismenn, nota þeir gjarnan þennan fána í stað austurríska fánann. Til aðgreiningar nota opinberar stofnanir oft þjónustufánann, sem er með lítið skjaldarmerki fyrir miðju. Skjaldarmerkið er nokkurs konar kirkjufáni, þ.e. rauður refill með þremur afleggjurum niður úr. Afleggjarinn í miðjunni nær lengra niður en hinir. Bakgrunnurinn er silfurgrár. Merki þetta er runnið undan rifjum greifanna af Montfort sem réðu ríkjum á svæðinu áður fyrr. Greifaættin dó út 1787 og var þá annað merki notað. Þegar Austurríki varð lýðveldi 1918 var merkið formlega tekið í notkun aftur. Orðsifjar. Heitið er dregið af fjallaskarðinu Arlberg. Séð frá Sviss, sem var hluti af Habsborgarveldinu, lá svæðið fyrir framan Arlberg, en "fyrir framan" heitir "vor" á þýsku. Vorarlberg er því svæðið sem liggur fyrir framan skarðið. Heiti þetta er formlega notað fyrir fjallasvæðið síðan á miðri 18. öld. Upphaf. Schattenburg við Feldkirch var höfuðvígi Montfort-ættarinnar Eftir fall Rómaveldis settust alemannar að á svæðinu, öfugt við afganginn af Austurríki þar sem Bæjarar settust að. Lengi vel stjórnuðu greifarnir af Montfort héraðinu, en síðan um miðja 14. öld var héraðið undir beinni stjórn Habsborgarættarinnar. Siðaskiptin gengu aldrei í garð í héraðinu, þar sem ströng lög gegn nýju trúnni voru í gildi. Ekki varð héraðið heldur fyrir miklum áhrifum 30 ára stríðsins, þó að Svíar hertækju Bregenz til skamms tíma. Frakkar. 1799 hertóku Frakkar Sviss og réðust austur inn í Vorarlberg. Þeir voru hins vegar sigraðir í orrustunni við Tosters við Feldkirch. Á næsta ári voru Frakkar aftur á ferð og náðu að hertaka Bregenz og Feldkirch. Þeir hurfu þó á braut við friðarsamningana í Campoformio í febrúar 1801. Þegar Napoleon sigraði í Þríkeisaraorrustunni 1805 varð Austurríki að láta mikil landsvæði af hendi. Vorarlberg og Tírol voru þá innlimuð Bæjaralandi. Það kom til framkvæmda í mars 1806. Við fall Napoleons varð Vorarlberg sett aftur til Austurríkis, án Allgäu sem enn er þýskt svæði í dag. Hins vegar var Vorarlberg hluti af Tírol. Nýrri tímar. Á byltingarárinu 1848 kröfðust íbúar Vorarlbergs aukinna réttinda, s.s. prentfrelsis, kosninga og að slíta tengsl við Tírol. Þess í stað jók keisari Austurríkis völd sín og stjórnaði með alræði næstu ár. Það var ekki fyrr en 1861 sem Vorarlberg var formlega stofnað sem eigið hérað innan keisararíkisins. Höfuðborgin varð Bregenz. Iðnbyltingin komst ekki á fyrr en á 8. áratug 19. aldar, en þá upphófst víða mikill vefnaður. Járnbrautir voru lagðar til borga og 1872 keyrði fyrsta fjallalestin milli staða. Eftir tap Þýskalands og Austurríkis í heimstyrjöldinni fyrri hófst mikil umræða í Vorarlberg um framtíð héraðsins. 11. maí 1919 fór fram íbúakosning um sameingingu við Sviss. 80% manna kusu með sameiningunni og í framhaldi af því sótti Vorarlberg um inngöngu sem ný kantóna í Sviss. Jafnvel í Sviss var vel tekið í hugmyndinni. Til þess kom þó ekki og eru menn ekki á eitt sáttir um orsök þess. 1934 varð borgarastyrjöld í Austurríki og var Vorarlberg eina sambandslandið sem hélt friðinn. 12. mars 1938 tóku nasistar völdin í Vorarlberg við sameiningu Þýskalands og Austurríkis. Héraðið var sameinað Tírol og stjórnað frá Innsbruck. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði varð héraðið aðeins fyrir fáeinum loftárásum bandamanna. 1. maí réðust Frakkar inn í héraðið og viku síðar var héraðið allt undir stjórn þeirra. Eftirstríðsárin. Í september 1945 var Vorarlberg stofnað á ný sem hérað. Þótt það væri í franska hernámssvæðinu, fengu íbúar að kjósa sér landstjórn og ráða sér sjálfir. Íbúarnir tóku franska hernum yfirleitt vel. Fjármagn var þó af skornum skammti, þannig að svissnesk fyrirtæki aðstoðuðu við uppbygginguna. Þetta varð til þess að uppbygging í héraðinu varð hraðari í Vorarlberg en annars staðar í Austurríki. Aðalatvinnuvegur var enn vefnaður, en 1951 störfuðu helmingur atvinnufærra manna í þeim geira. 1955 yfirgáfu Frakkar héraðið er Austurríki varð lýðveldi á ný. 1972 var í fyrsta sinn haldin Bodensee-ráðstefnan með þátttöku Vorarlbergs og allra héraða í Þýskalandi og Sviss sem að Bodensee liggja, um samvinnu á ýmsum sviðum. Á 9. áratugnum hrundi vefnaðurinn í Vorarlberg, en við tók málmiðnaður, rafeindaiðnaður og matvælaframleiðsla. Ferðamennska er einnig orðin mjög ríkur þáttur í atvinnulífi fólks, ekki síst í fjöllunum. Vorarlberg þykir meðal allra sterkustu efnahagskerfa Evrópu. Annie Oliv. Annie Oliv (f. 1988 í Jönköping) er fyrirsæta og menntuð í klassískum hnéfiðluleik. Hún var kosin "Ungfrú Svíþjóð 2007" (Miss World Sweden). Hún tekur þátt í Evróvisjón 2008. Liberec. Liberec (þýska: "Reichenberg") er borg í Tékklandi. Íbúar borgarinnar eru um 105 þúsund talsins. Hraun í Öxnadal. Drangafjall og Hraundrangi fyrir ofan Hraun í Öxnadal Hraun er bær í Öxnadal. Bærinn heitir eftir berghlaupsurðinni miklu sem fallið hefur úr Drangafjalli og þvert yfir dalinn. Ofan bæjarins gnæfir Hraundrangi við himinn. Jónas Hallgrímsson skáld fæddist á Hrauni. Innan og ofan við Hraun er Vatnsdalur og í honum er Hraunsvatn í um 490 m y.s. Það er 50-60 m djúpt og þar er góð silungsveiði. Sr. Hallgrímur Þorsteinsson, faðir Jónasar, drukknaði í vatninu árið 1816 þegar hann var þar við veiðar. Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf. á jörðina og rekur þar ýmsa starfsemi. Á Hrauni hefur verið komið upp minningarstofu um Jónas þar sem brugðið er upp myndum úr ævi hans og lýst áhrifum hans á íslenska menningu og sögu. Þar hefur einnig verið innréttuð íbúð fyrir skáld, rithöfunda og fræðimenn og opnaður fólkvangur og útivistarsvæði fyrir almenning. Veggfóður. Veggfóður er efni sem er límt á veggi innanhúss til að hylja þá og skreyta. Veggfóður er venjulega selt í upprúlluðum ströngum og límt beint á vegginn með veggfóðurslími. Listi yfir forna rithætti íslenskra orða. Þetta er listi yfir forna rithætti sem sum íslensk orð hafa, sem voru notaðir í fornnorsku. Miðmyndarendingin. Miðmyndarendingin sem nú er "-st" var áður "-zt" eða "-sk". Sjá einnig miðmyndarenginuna eins og hún var í forníslensku. Heimildir. Fornir rithættir íslenskra orða Listi yfir ferjur í strandsiglingum á Íslandi. Þetta er listi yfir ferjur í strandsiglingum Íslandi. Slönguvaður. a> snarað með slönguvað á ródeó. Snara eða slönguvaður (einnig ritað sem slöngvivaður) er band eða kaðall til að snara eitthvað, t.d. veiðidýr eða sérstaklega uppalið dýr á landbúnaðarleikjum eins og t.d. ródeó. Slönguvaður hefur stundum einnig verið nefndur "kastlykkja". Jón Steingrímsson. Jón Steingrímsson (fæddur á Þverá í Blönduhlíð 10. september 1728 – dáinn á Prestbakka á Síðu 11. ágúst 1791), kallaður eldklerkur, var prestur, læknir og náttúrufræðingur. Þjónaði á Prestbakka (við Kirkjubæjarklaustur) á tímum Skaftárelda og síðar móðuharðinda. Hann er einn af boðberum íslensku upplýsingarinnar. Foreldrar Jóns voru Steingrímur Jónsson og Sigríður Hjálmarsdóttir. Faðir Jóns dó þegar hann var á tíunda ári og þar sem móðir hans var efnalítil voru litlar líkur á að drengurinn kæmist til mennta en þegar Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson Thorcillius fóru um landið, meðal annars til að kanna menntun, vakti Jón athygli þeirra vegna kunnáttu sinnar og eftir inntökupróf vorið 1744 var hann tekinn inn í Hólaskóla og tóku þeir Harboe og Jón Þorkelsson að sér að greiða skólagjöld fyrir hann fyrsta veturinn en síðan fékk hann skólaölmusu. Jón lauk stúdentsprófi 1750 og varð síðan djákni og ráðsmaður á Reynistað. Þar giftist hann 1753 ekkju Jóns Vigfússonar klausturhaldara á Reynistað, Þórunni Hannesdóttur Scheving (1718 - 1784), dótturdóttur Steins Jónssonar biskups. Þau fluttu að Frostastöðum í Blönduhlíð sama ár. Þau eignuðust saman fimm dætur, Sigríði, Jórunni, Guðnýju, Katrínu og Helgu, en Þórunn átti líka þrjú börn úr fyrra hjónabandi, Vigfús, Karitas og Jón. Þau ólust upp hjá Jóni og móður sinni og átti Jón eftir að reynast þeim erfiður síðar. Þórunn átti jarðir suður í Mýrdal og ákváðu þau að flytja þangað. Haustið 1755 flutti Jón að Hellum í Reynishverfi og bjó þar í helli ásamt bróður sínum um veturinn en eiginkona hans kom ekki fyrr en vorið eftir þar sem hún átti von á barni. Á leiðinni suður urðu þeir bræður vitni að upphafi Kötlugossins 1755, sem var mesta Kötlugos á sögulegum tíma. Þá hefur hann líklega fengið áhuga á eldgosum og hann skráði meðal annars sögu Kötlugosa frá landnámi til 1311. Jón bjó á Hellnum í fimm ár og búnaðist vel, var formaður á árabát og þótti fiskinn. Hann var svo vígður til prests, fyrst í Sólheimaþingum og bjó á Felli og árið 1778 fékk hann Kirkjubæjarklaustursprestakall og bjó á Prestbakka á Síðu. Um leið varð hann prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu. Á Prestbakka var hann þegar Skaftáreldar hófust árið 1783 og flúði aldrei þaðan, heldur var allan tímann í miðju hörmunganna og eru rit hans helstu heimildir um eldana, en hann skrifaði strax skýrslur um ástandið og árið 1788 samdi hann yfirlitsritið "Fullkomið skrif um Síðueld", sem yfirleitt er kallað Eldritið. Jón varð frægur fyrir "eldmessu" sína (20. júlí 1783), sem talin var hafa valdið því að hraunstraumur stöðvaðist áður en hann eyddi byggð og mjög fór að draga úr gosi. Þórunn kona Jóns dó árið 1784 og 1787 kvæntist hann seinni konu sinni, Margréti Sigurðardóttur, en þau voru barnlaus. Jón Steingrímsson var starfandi prestur allt til æviloka árið 1791. Hann skrifaði ævisögu sína sem þó var ekki ætluð til útgáfu, heldur var hún hugsuð fyrir dætur hans og afkomendur þeirra og er að hluta varnarrit og merk heimild um 18. öld. Litlu munaði að hún glataðist því að systursonur hans fékk ritið lánað með því skilyrði að hann brenndi það þegar hann hefði lokið lestrinum en það stóð hann ekki við og því varðveittist ævisagan. Hún var fyrst gefin út 1913 og hefur komið í nokkrum útgáfum síðan. Jón var vel menntaður og hafði áhuga á mörgu, meðal annars á læknisfræði og stundaði lækningar, skar meðal annars æxli af manni, og skildi eftir sig handrit að lækningabókum. Hann var líka áhugasamur um framfarir í landbúnaði og var verðlaunaður af konungi fyrir garðhleðslu. Kapellan á Kirkjubæjarklaustri, sem var vígð árið 1974, er helguð minningu Jóns. Norðurland (fylki í Noregi). Norðurland (norska: "Nordland", norðursamíska: " Nordlándda fylkkasuohkan") er fylki í norður Noregi, 38.456 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 235.000. Nordland er næst stærsta fylkið í ferkílómetrum á landinu, eftir Finnmörku. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Bodø, með um 45.000 íbúa. Næst stærsti jökull Noregs, Svartisen, næst stærsta vatn Noregs, Røssvatnet, og næst dýpsti fjörður Noregs, Tysfjord, er allt staðsett í fylkinu. Fylkið er í landshlutanum Norður-Noregur. Norðurheimskautsbaugurinn liggur í gegnum fylkið. Bodø. Bodø (íslenska: "Boðvin", lulesamíska: "Bådåddjå") er sveitarfélag í norska fylkinu Nordland, og er staðsett rétt fyrir norðan norðurheimskautsbauginn. Sveitarfélagið Bodø er 1.308 km² að stærð, og íbúarnir eru um það bil 45.500. Bodø er höfuðstaður og stærsta borgin í fylkinu. Í seinni heimstyrjöldinni eyðilagði þýski flugherinn, Luftwaffe, meira en helminginn af öllum bænum. Þá misstu 3.500 manns heimili sín og 15 létust. Þessi atburður gerðist 27. maí, árið 1940. Á þeim tíma var íbúafjöldi bæjarins 6.000. Þórarinn Kristjánsson í Vatnsfirði. Sr. Þórarinn Kristjánsson prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp var fæddur á Þönglabakka í Fjörðum 8. nóvember 1816 en dó í Vatnsfirði 10. september 1883. Foreldrar hans voru sr. Kristján Þorsteinsson og fyrsta kona hans Þorbjörg Þórarinsdóttir. Þórarinn varð stúdent frá Bessastöðum 1838. Hann varð aðstoðarprestur föður síns 1842 sem þá þjónaði Bægisá í Hörgárdal en fluttist með honum að Tjörn í Svarfaðardal strax árið eftir og síðan að Völlum 1846. Hann hóf sjálfstæðan prestsskap árið eftir þegar hann fluttist að Stað í Hrútafirði. Þaðan fór hann að Prestbakka og var þar á árunum 1850-1867. Þá fór hann að Reykholti í Borgarfirði og þjónaði þar 1867-1872 en flutti að lokum vestur í Vatnsfjörð og sat þar til æviloka. Þórarinn þótti merkisklerkur, búmaður góður og var lengi prófastur við Ísafjarðardjúp. Hann sat Þjóðfundinn 1851 sem þjóðkjörinn fulltrúi Strandasýslu, þótti nokkuð konunghollur og hlaut dannebrogsorðuna nokkru síðar. Kona hans var Ingibjörg Helgadóttir fædd 21. október 1817 í Vogi á Mýrum en dáin 6. júní 1896 í Rauðanesi á Mýrum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis oftast stytt í skammstöfunina SPRON (enska: Reykjavik Savings Bank) er íslenskur banki. Hann rekur níu útibú, öll eru þau á höfuðborgarsvæðinu. Á fyrsta ársfjórðungi 2008 tapaði SPRON 8,8 milljörðum kr. eftir skatta. Þetta var tilkynnt eftir að hlutabréfaverð, m.a. í Exista, fyrirtæki sem er í krosseignarhaldi hjá SPRON, höfðu fallið frá áramótum. Þá hófust umræður við Kaupþing banka um hugsanlega sameiningu. Talið er að krosseignarhaldið á Exista gæti flækt fyrir sameiningunni. Náströnd. Náströnd er staður í norræni goðafræði þar sem Níðhöggur sýgur lík látinna manna. Á Náströnd er salur með veggjum fléttuðum úr ormahryggjum og ormahöfuð blása þar eitri. Eigið fé. Eigið fé (e. owners equity) fyrirtækis, er skilgreint sem heildareignir að frádregnum skuldum skv. bókhaldi fyrirtækisins. Eigið fé fyrirtækis er stundum kallað bókfært virði þess. Eigið fé má einnig setja fram sem samtölu hlutafjár fyrirtækisins og óráðstafaðs hagnaðar frá fyrri árum að frádregnum hlutabréfum sem fyrirtækið kann að eiga í sjálfu sér. Neikvætt eigið fé, þ.e. ef skuldir eru hærri en bókfært virði eigna, er vísbending um það að fyrirtækið sé í raun gjaldþrota. Narvik. Narvik (íslenska: "Narvík", norðursamíska: "Áhkkánjárga") er sveitarfélag í norska fylkinu Nordland. Sveitarfélagið Narvik er 2.023 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 18.500. Sveitarfélagið er staðsett 220 km norðan við norðurheimskautsbauginn, og er eitt af nyrstu bæjum Noregs. Eiginfjárhlutfall. Eiginfjárhlutfall er hlutfallið á milli eigin fjár fyrirtækis og bókfærðs virðis eigna þess. formula_1 Eiginfjárhlutfallið segir einnig til um það að hve miklu leyti fyrirtækið hefur skuldsett sig. formula_2 Hátt eiginfjárhlutfall er vísbending um það að fyrirtækið eigi vel fyrir skuldum sínum og hafi fjármagnað sig með hagnaði fyrri ára og hlutafé frekar en skuldasöfnun. Ávöxtun. Ávöxtun í viðskiptum vísar til verðmætaaukningar fjármagns yfir ákveðið tímabil, oftast sett fram í prósentum á ársgrundvelli. Ef 1000 krónur eru settar inn á vaxtaberandi reikning núna eru orðnar 1100 krónur eftir 1 ár hefur ávöxtunin verið 10% á ársgrundvelli. Ávöxtun er því einnig mælikvarði á hlutfallslegan hagnað af fjárfestingunni. Tromsfylki. Tromsfylki (norska: "Troms fylke", norðursamíska: "Romssa fylkkasuohkan") er fylki í norður Noregi, 25,877 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 155.000. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Tromsø, með um 65.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Norður-Noregur. Mæri og Raumsdalur. Mæri og Raumsdalur (norska: "Møre og Romsdal") er fylki í vestur Noregi, 15,121 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 246.000. Stærsta borgin í fylkinu er Ålesund, með um 41.000 íbúa, og höfuðstaður fylkisins er Molde, sem hefur um það bil 25.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Vesturland. Nova Scotia. Nova Scotia eða Nýja-Skotland (framburður [ˌnoʊvəˈskoʊʃə]); skosk gelíska: "Alba Nuadh"; franska: "Nouvelle-Écosse") er fylki í Kanada og er staðsett syðst á austurströnd þess. Höfuðborg Nýja-Skotlands heitir Halifax. Nýja-Skotland er annað smæsta hérað Kanada, 55.284 km² að flatarmáli. Íbúafjöldinn er 934.782 (2007), og er það því í fjórða sæti yfir þau hérað landsins þar sem fæstir búa, en engu að síður hið næstþéttbýlasta. Landvættur. Landvættur er verndarandi lands, vera sem heldur vörð um landið. Á Íslandi voru taldir vera fjóru landvættir, einn fyrir hvern fjórðung: Griðungur (Vestfirðir), Gammur (Norðurland), Dreki (Austfirðir) og Bergrisi (Suðurland). Landvættir þessir prýða skjaldarmerki Íslands. Skorradalsvatn. Skorradalsvatn er stöðuvatn í Skorradal í Borgarfirði um 16 km langt, 60 m á dýpt þar sem hún er mest og um 1 km þar sem það er breiðast og spannar það mestan hluta dalsins. Í vatninu er silungsveiði. Fitjá fellur í Skorradalsvatn úr Eiríksvatni og Andakílsá fellur úr Skorradalsvatni. Við vatnið er töluverð sumarbústaðabyggð. Flugdreki. Flugdreki er leikfang til að láta svífa upp í háloftinn. Við flugdrekann er fest girni sem vefst af kefli og á því heldur sá sem stjórnar flugdrekanum og gefur eftir eða vefur girninu aftur upp á keflið, allt eftir því hvernig hann vill beita flugdrekanum á lofti. Einföldustu flugdrekarnir eru krosslaga stífur (stoðtré) sem halda úti léttu (silki)segli sem lyftir drekanum frá jörðu. Drekar þessir eru oftast með hala, langa borða eða annað efni, sem oftar en ekki eru skreyttir með borðaslaufum. Flugdrekar geta þó verið öllu flóknari og íburðarmeiri en svo. Fræg er tilraun Benjamíns Franklins árið 1752 þegar hann sannaði að rafmagn væri í eldingunni með hjálp flugdreka. Hér áður fyrr þýddi flugdreki í raun fljúgandi dreki af kyni skrímsla, og þannig er orðið notað í Guðbrandsbíblíu: "Nöðrur og glóandi flugdrekar". Undarlegar loftsjónir sem minntu á dreka nefndu menn einnig flugdreka. Lítil eðlutegund nefnd "Draco volans" á latínu, hefur einnig verið nefnd flugdreki á íslensku. Norður-Þrændalög. Norður-Þrændalög (norska: "Nord-Trøndelag") er fylki í miðju Noregs, 22,412 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 130.000. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Steinkjer, með um 21.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Þrændalög. Savage Garden. Savage Garden var áströlsk hljómsveit stofnuð 1994 sem naut vinsældar milli 1997 og 2000. Flamenco. Flamenco er tónlistarstefna sem varð til og þróast að mestu leyti í Andalúsíu á Spáni, á tímabilinu á milli 18. og 20. aldar. Linda Evangelista. Linda Evangelista er kanadísk fyrirsæta. Hún var fædd í St. Catharines í Ontario 10. maí 1965. Evangelista, Linda Alain Robbe-Grillet. Alain Robbe-Grillet (18. ágúst 1922 – 18. febrúar 2008) var franskur rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann er, ásamt Nathalie Sarraute, Michel Butor og Claude Simon, einn af upphafsmönnum nýju skáldsögunnar sem gerði uppreisn gegn lögmálum hinnar hefðbundnu skáldsögu sem þau töldu að tilheyrði 19. öldinni. Robbe-Grillet skrifaði skáldsögur þar sem frásögnin var ekki til staðar og sagan byggð á hreinum yfirborðslýsingum á bæði persónum og umhverfi. Hann byggir upp spennu í verkunum með því að lýsa sömu aðstæðum eða sama umhverfi aftur og aftur með litlum breytingum. Í gegnum lýsingarnar fær lesandinn tilfinningu fyrir einhvers konar rofi, t.d. vísbendingu um glæp. Robbe-Grillet hóf feril í kvikmyndum með handriti fyrir kvikmynd Alain Resnais, "Síðasta ár í Marienbad" (1961) sem er ein af þekktustu kvikmyndum frönsku nýbylgjunnar á 7. áratugnum. Í kjölfarið leikstýrði Robbe-Grillet einum sjö myndum sjálfur. Robbe-Grillet, Alain Gisele Bündchen. Gisele Caroline Bündchen (fædd 20. júlí 1980 í Horizontina í Rio Grande do Sul) er brasilísk fyrirsæta. Tilvísanir. Bündchen, Gisele Franska nýbylgjan. Franska nýbylgjan (franska: "Nouvelle Vague") er heiti á hreyfingu í franskri kvikmyndagerð á 6. og 7. áratug 20. aldar sem var að hluta til undir áhrifum frá ítalska nýraunsæinu. Það sem einkenndi frönsku nýbylgjuna var höfnun á hefðbundnum frásagnaraðferðum kvikmyndarinnar og meðvituð brot á þeim reglum sem gilt höfðu í kvikmyndagerð fram að því (t.d. að leikarinn mætti ekki horfa beint í vélina og reglur um lengd milli klippinga). Margir af þekktustu leikstjórum frönsku nýbylgjunnar, s.s. Jean-Luc Godard, François Truffaut, Éric Rohmer, Claude Chabrol og Jacques Rivette, störfuðu sem gagnrýnendur fyrir tímaritið "Cahiers du cinéma". Þeir litu á kvikmyndina sem höfundarverk með ákveðin höfundareinkenni, á sama hátt og skáldsagan. Pottbrauð. Pottbrauð (pottkaka eða drymbi) er (seytt) rúgbrauð bakað í eða undir potti, oft í hlóðum við glóð. Áður en eldavélar komu, voru rúgbrauðin bökuð undir pottinum. Það krafðist mikillar kunnáttu og nákvæmni ef vel átti að takast, þ.e. að hafa glóðina jafna um pottinn og byrgja hann síðan á þann veg, að ekki gæti dregið úr hitanum á einum stað frekar en öðrum. Ekkert súrdeig var haft í pottbrauðin, en oft bleytt í þeim með mysu eða sýrublöndu í stað vatns, og bökuð svo rauðseydd, og voru þá lin og ilmandi. Skriðsund. 100 metra skriðsund karla á evrópumótinu í sundi 2006 Skriðsund (yfirhandarsund eða krol) er sundtegund sem felst í því að handleggir eru réttir fram á víxl með vissri sveiflu og samtímis ganga fætur upp og niður á víxl. Að öllu jöfnu er andað í 3 - 5 hverju taki. Skriðsund er algengasta keppnisgreinin í sundi. Það er einnig hraðskreiðasta sundaðferðin og er það að öllum líkindum ástæðan fyrir nafngiftinni. Á ensku nefnist keppnisgreinin "free style" sem þýðir frjáls aðferð. Það er því nánast ómögulegt að gera ógilt, til þess þarf keppandinn að þjófstarta, ganga á botninum eða snúa of snemma án þess að snerta bakkann. Þrátt fyrir þetta synda allir nokkurn vegin eins í keppnis-skriðsundi. Valshamar. Valshamar er klettsstapi í Eilífsdal í vesturhlíð Þórnýartinds. Kletturinn er vinsælt klifursvæði enda auðgengilegur frá höfuðborgarsvæðinu. Fellibylur. Fellibylur (fellistormur eða felliveður) er sérlega kröpp lægð sem myndast í hitabeltinu og fær kraft sinn úr uppstreymi lofts í kringum stormaugað. Mikið af raka þéttist í uppstreyminu og skilar við það varmaorku sem nýtist við að knýja vindinn. Í öðrum heimshlutum eru ýmis orð notuð um fellibyli. T.d. nefnast fellibyljir austurlanda fjær "týfónar". Fellibyljir valda oft mjög miklu tjóni. Orðaruglingur. Varast ber að rugla saman fellibyl, fárviðri, hvirfilbyl og skýstrokkum. Fárviðiri er þegar vindur nær 32 m/s (eða 12 vindstigum). Enska orðið yfir 12 vindstig er "hurricane", en það er einnig notað yfir fellibyli, en þeir eiga alltaf uppruna sinn í hitabeltinu. Í ensku er orðinu "tropical" (hitabeltis-) bætt framan við þannig að "tropical hurricane" er fellibylur. Stundum er "hurricane" þýtt sem hvirfilvindur eða hvirfilbylur. Þessi þýðing þykir afar óheppileg (þó hún sé ekki í sjálfu sér röng) vegna þess að hún leiðir til ruglings við annað og gjörsamlega óskylt veðurfyrirbrigði - skýstrokkinn. Skýstrokkur er það sem á ensku nefnist "tornado" (stundum "twister"). Skýstrokkar eru mjög litlir um sig, oftast nokkrir tugir eða fáein hundruð metra í þvermál og eru oftast fylgifiskar veðraskila og þrumuveðra, sem slíkum skilum fylgja. Svo vill til að skýstrokkar eru mjög algengir í Bandaríkjunum og einkum þó á "sléttunum miklu". Þar koma fellibylir hins vegar aldrei í heilu lagi. Marargata. Marargata liggur frá austri til vesturs á milli Hrannarstígs og Unnarstígs efst á Landakotshæðinni í Vesturbæ Reykjavíkur. Agyness Deyn. Agyness Deyn (fædd 16. febrúar 1983 í Littleborough) er ensk fyrirsæta. Deyn, Agyness Akurshús. Akershus eða Akurshús-fylki er fylki í suðaustur Noregi, 4.918 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 518.000. Akershus er næstfjölmennasta fylki Noregs á eftir Ósló. Akershus er eina norska fylkið þar sem stjórnsýslan er í öðru fylki, þ.e. Ósló. Höfuðstaðurinn er því Ósló, með um 560.000 íbúa. Stærsta borgin í fylkinu er Bærum, með um 108.000 íbúa. Akershus deilir landamærum með fylkjunum Buskerud í vestri, Upplöndum í norðri, Heiðmörk í austri, Austfold í suðri og Ósló. Auk þess nær fylkið að sænsku landamærunum á stuttum kafla í austri. Fylkið er í landshlutanum Austurlandi. Saga. Fylkið var nefnt eftir virkinu Akershús. Akershús-lén varð til á 16. öld, og var talsvert stærra en núverandi Akershús-fylki. Akershús varð "amt" árið 1662. Árið 1685 var Buskerud skilið frá og varð sérstakt amt. Árið 1768 voru Heiðmörk og Upplönd skilin frá og gerð að sérstöku amti (Opplandenes-amt), og 1842 var Kristjanía (Ósló) skilin frá Akershús-amti. Árið 1919 var amtinu breytt í fylki ("fylke"). "Akershus" er nefnt eftir virkinu Akershús, sem var byggt árið 1299 til að verja höfuðborgina Ósló, gegn sjóræningjum eða öðrum sem vildu ráðast á borgina. Akershús var kennt við býlið "Aker" = Akur, og "hús", þ.e. höllina innan virkismúranna. Elstu fornminjar í Akershúsfylki eru frá steinöld, um 9500 ára gamlar. Rakne-haugurinn við Ullinsakur er einn stærsti haugur Norðurlanda, um 90 metrar í þvermál og 15 metra hár. Hann var gerður um 500 e.Kr. Sveitarfélög. Sveitarfélögin í fylkinu eru 22. Það fjölmennasta er Bærum. Stef. Stef er ákveðið mynstur í tónlist sem er sífellt endurtekið. Oxfam. Oxfam International er bandalag 13 samtaka í yfir 100 löndum vinna að því að hjálpa fátækum og þeim sem líða óréttlæti. Neskaffi. Neskaffi er tegund af skyndikaffis, sem framleitt er af fyrirtækinu "Nestlé" undir vöruheitinu "Nescafé". Orðið er myndað úr vöruheitinu en er oft notað sem samheiti yfir skyndikaffi. Falkenberg. Tollbroen, byggð á árunum 1756 - 1761 Falkenberg er borg í Svíþjóð. Íbúar Falkenberg eru rúmlega 19.000 (2005). Sveitarfélagið hefur um 40.000 íbúa. Listi yfir fangelsi á Íslandi. Þetta er listi yfir fangelsi á Íslandi. Sigurður Þórarinsson. a>, sem reis úr hafi 1963. Sigurður skrifaði m.a. bók um Surtseyjargosið. Sigurður Þórarinsson (8. janúar 1912 – 8. febrúar 1983) var íslenskur náttúrufræðingur, landfræðingur, jarðfræðingur, eldfjallafræðingur og jöklafræðingur, prófessor við Háskóla Íslands og vísnaskáld. Hann var brautryðjandi á sviði gjóskulagafræði, og vann mikilvægar rannsóknir á fleiri sviðum jarðfræðinnar, einkum í eldfjallafræði og jöklafræði, bæði á Íslandi og erlendis. Æviágrip. Sigurður fæddist á Hofi í Vopnafirði en ólst upp á Teigi í sömu sveit. Hann lauk stúdentsprófi frá MA vorið 1931. Síðan tók hann doktorspróf við Stokkhólmsháskóla árið 1944, og hóf þá merkan feril sem vísindamaður. Hann var prófessor í landafræði og jarðfræði við Háskóla Íslands. Hann var fjölhæfur maður sem var jafnvígur á jarðfræði, landmótunarfræði, jöklafræði og loftslagsfræði, og náði að gera gjóskulagarannsóknir að mikilvægum þætti í fornleifafræði. Hann lét einnig til sín taka í náttúruverndarmálum. Sigurður varð bráðkvaddur í Reykjavík árið 1983. Skömmu síðar ákváðu Alþjóðasamtök um eldfjallafræði (International Association of Volcanology and Chemistry of the Earth's Interior (IAVCEI)) að heiðra minningu hans með því að kenna æðstu viðurkenningu samtakanna við hann: Heiðursmerki Sigurðar Þórarinssonar. Félagsmál. Sigurður lét til sín taka í félagsmálum. Hann var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags 1947-1949 og aftur 1957 og var ritstjóri Náttúrufræðingsins 1952-1953, hann var í Jöklarannsóknarfélaginu, í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar Náttúruverndarráði, formaður Jarðfræðafélagsins 1966-1968 og forseti Ferðafélags Íslands 1976-1977. Sigurður Þórarinsson samdi marga vinsæla söngtexta, svo sem "Þórsmerkurljóð", "Vorkvöld í Reykjavík" og "Að lífið sé skjálfandi lítið gras". Hann þýddi einnig marga texta eftir sænska skáldið Carl Michael Bellman og gaf út bók um hann. Á efri árum tók hann nokkurn þátt í starfsemi Vísnavina. George Patrick Leonard Walker. George Patrick Leonard Walker (George P. L. Walker) (2. mars 1926 – 17. janúar 2005) var enskur jarðfræðingur sem sérhæfði sig í eldfjallafræði og steindafræði. Hann vann merkar rannsóknir á jarðfræði Austurlands. Walker fæddist í London. Hann lauk meistaraprófi frá Háskólanum í Belfast á Norður-Írlandi 1949, og varð doktor frá Háskólanum í Leeds 1956. Hann kenndi við Imperial College í London 1951-1978. Á árunum 1955-1965 kortlagði Walker jarðlög víða á Austur- og Suðausturlandi, ásamt nemendum sínum. Hann birti um þær rannsóknir margar ritgerðir, m.a. um jarðfræði Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar, Breiðdals, Álftafjarðar og Þingmúla í Skriðdal. Hann skrifaði einnig vísindaritgerðir um landmótun, samsetta bergganga, flikruberg og geislasteinabelti á Austurlandi, og almennt um íslenska jarðfræði og landrek. Walker sótti Ísland heim nokkrum sinnum síðar, t.d. 1973, 1980, 1988 og a.m.k. einu sinni eftir 1990. Með rannsóknum sínum sýndi Walker fram á að berggrunnur Austurlands sé myndaður af eldvirkni, sem bundin var við megineldstöðvar, á sama hátt og enn má sjá á eldvirkum svæðum hér á landi. Walker kynnti hér nýjar og gagnlegar aðferðir við að rekja saman jarðlög af sama aldri milli staða. Einnig taldi hann að myndun hraunlagastaflans og innskota hafi gerst nokkuð samfellt í tíma í tengslum við landrek út frá gosbeltinu og sig jarðskorpunnar þar, en eldri hugmyndir höfðu gert ráð fyrir afmörkuðum hrinum gosvirkni og höggunar til skiptis. Fyrsta eldgos sem Walker sá var Surtseyjargosið 1963–1967, og beindist áhugi hans þá að virkum eldfjöllum. Síðari rannsóknir Walkers voru einkum á Azoreyjum, Ítalíu, Kanaríeyjum, Nýja-Sjálandi, Indónesíu og Hawaii. Árið 1978 þáði hann rannsóknarstöðu á Nýja-Sjálandi, varð síðan í ársbyrjun 1981 prófessor í eldfjallafræði við Háskólann á Hawaii, en lét af störfum sökum aldurs 1996 og fluttist aftur til London. Walker hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar, m.a. Íslensku fálkaorðuna 1980, og Heiðursmerki Sigurðar Þórarinssonar 1989, sem Alþjóðasamtök um eldfjallafræði (IAVCEI) veita. Hann var bréfafélagi í Vísindafélagi Íslendinga. Á vegum Alþjóðasamtaka um eldfjallafræði er verðlaunasjóður, sem veitir George Walker verðlaunin. Þau eru veitt á fjögurra ára fresti eldfjallafræðingum sem hafa nýlega tekið doktorspróf, fyrst 2004. Þann 23. ágúst 2008 var stofnað jarðfræðisetur á Breiðdalsvík í minningu George P. L. Walkers. Þar er aðstaða til fræðaiðkunar í gamla Kaupfélagshúsinu, elsta húsi þorpsins (frá 1906). Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur, fyrrum nemandi Walkers, átti hugmyndina að setrinu, og hefur í samstarfi við ekkju og dóttur Walkers, farið yfir gögn, ljósmyndir og muni sem varðveitt eru í setrinu. Í júní 2006 var haldin ráðstefna í Reykholti í minningu George Walkers og framlags hans til jarðvísinda. Ráðstefnuritið heitir: "Studies in Volcanology. The Legacy of George Walker", London 2009, 409 bls. Bæði íslenskir og erlendir jarðvísindamenn eiga greinar í ritinu. Heiðursmerki Sigurðar Þórarinssonar. Heiðursmerki eða Heiðurspeningur Sigurðar Þórarinssonar – (Thorarinsson medal) – er viðurkenning, sem Alþjóðasamtök um eldfjallafræði (IAVCEI) veita fyrir frábært framlag á sviði almennrar eldfjallafræði, og er æðsta viðurkenning sem samtökin veita. Hún er kennd við íslenska jarðfræðinginn og eldfjallafræðinginn Sigurð Þórarinsson (1912–1983). Stefnt er að því að veita þessa viðurkenningu á fjögurra ára fresti. Geðsjúkdómur. Geðsjúkdómur (áður kallað geðveiki) er hugtak, sem er notað til að vísa til alvarlegra geðraskana, þ.e. truflana í andlegu lífi einstaklings, sem einkennast af ranghugmyndum, ofskynjunum og skertu veruleikaskyni og veldur vanlíðan eða afbrigðilegri hegðun, jafnvel fötlun. Algengir geðsjúkdómar eru geðhvarfasýki og geðklofi, hugsýki og persónuleikaröskun. Sérfræðinga greinir á hvort flokka beri geðraskanir sem sjúkdóma en það viðhorf nýtur mikillar hylli. Orsakir alvarlegra geðraskana geta verið líffræði- eða lífeðlisfræðilegar. Uppeldi, umhverfi og persónuleiki geta skipt máli en einnig erfðafræðilegir þættir. Til dæmis er vitað að geðhvarfasýki er að miklu leyti arfgengur sjúkdómur sem á sér líffræðilegar orsakir enda þótt genin sem valda sjúkdómnum séu enn óþekkt. Sömu sögu er að segja um geðklofa. Lungnakrabbamein. Lungnakrabbamein er sjúkdómur þar sem frumur skipta sér óstjórnandi í lungnavef. Orsakir lungnakrabbameins. Talið er að 90% tilvika lungnakrabbameins megi rekja til reykinga. Einnig geta eiturefni í umhverfi svo sem asbest og radon aukið áhættu á að fá slíkt krabbamein. Einstaklingar virðast misnæmir fyrir krabbameinsvaldandi áhrifum tóbaksreyks og fá um 16% reykingamanna lungnakrabbamein. Einkenni lungnakrabbameins. Hósti er algengasta fyrsta einkenni lungnakrabbameins en næst koma andnauð, brjóstverkur og blóðhósti. Einnig er þyngdartap, verkir í beinum, klumbun, hiti, slappleiki, holæðarheilkenni, kyngingarörðugleikar og öng- og soghljóð. Gerðir lungnakrabbameins. Fjórar helstu vefjagerðir lungnakrabbameins eru smáfrumukrabbamein, flöguþekjukrabbamein, kirtilmyndandi krabbamein og stórfrumukrabbamein. Meðferð og lækning. Árangur af meðferð lungnakrabbameins er takmarkaður og eru fimm ára lífslíkur aðeins um 15%. Ástæðan er talin sú að flest tilvik greinast ekki fyrr en sjúkdómurinn er útbreiddur og of seint að beita læknandi meðferð. Útbreiðsla lungnakrabbameins á Íslandi. Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið á Íslandi, á eftir blöðruhálskirtilkrabbameini hjá körlum og brjóstakrabbameini hjá konum. Lungnakrabbamein er það krabbamein sem dregur flesta til dauða. Á árinu 2006 létust 123 einstaklingar úr lungnakrabbameini en það er fleiri en samanlagður fjöldi þeirra sem létust úr brjóstakrabbameini, blöðruhálskirtilkrabbameini og ristilkrabbameini það ár. Skráningar hófust á Íslandi á tíðni lungnakrabbameins árið 1955. Nýgengi lungnakrabbameins meðal karla og kvenna á Íslandi er óvenjulega jafnt og er nýgengi lungnakrabbameins meðal kvenna á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum. Skýringin er talin útbreiðsla reykinga um og upp úr síðustu heimsstyrjöld. Ríkislögreglustjórinn. Ríkislögreglustjórinn stýrir lögreglunni á Íslandi í umboði dómsmálaráðherra. Embættið var stofnað með nýjum lögreglulögum sem tóku gildi 1. júlí 1997. Um leið var Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður og verkefnum hennar skipt á milli ríkislögreglustjóra og annara lögreglustjóra í staðbundnum umdæmum. Ríkislögreglustjóri fer með ýmis stjórnsýsluverkefni sem varða löggæsluna í landinu, er tengiliður lögreglustjóra og dómsmálaráðherra, veitir lögreglustjórum stuðning og stýrir viðamiklum lögregluaðgerðum sem krefjast samstarfs margra lögregluliða. Ríkislögreglustjóri stjórnar einnig almannavörnum. Á vegum embættisins starfa m.a. sérstök efnahagsbrotadeild sem rannsakar efnahags- og skattabrot, alþjóðadeild sem annast alþjóðleg samskipti og rannsóknar- og greiningardeild sem rannsakar og metur hættu á hryðjuverkum og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Á vegum ríkislögreglustjóra er einnig starfandi vopnuð sérsveit. Gjóskulagafræði. Gjóskulagafræði, eða gjóskutímatal, er aðferð sem notar gjóskulag úr ákveðnu eldgosi, sem tímaviðmiðun í jarðfræði, fornleifafræði eða loftslagsfræði. Sérhvert eldgos hefur ákveðin efnafræðileg séreinkenni, sem greina má í gjóskunni, og er því með efnagreiningu hægt að sjá úr hvaða eldstöð og jafnvel úr hvaða eldgosi gjóskan er komin. Hins vegar verður að tímasetja gjóskulögin með öðrum aðferðum. Helstu kostir þessarar aðferðar eru að tiltölulega auðvelt er að greina gjóskulögin í setlögum, og að þau hafa fallið á sama tíma á mjög stóru svæði. Þetta þýðir að öskulögin geta verið nákvæmur tímamælir sem má nota til að staðfesta eða styðja aðrar aðferðir við tímasetningu, og tengja saman í samræmt tímatal setlagasnið af stóru svæði og við mismunandi aðstæður. Helstu ókostir gjóskutímatals eru að það er takmarkað við svæði þar sem er umtalsverð eldvirkni. Einnig getur efnasamsetning gjóskunnar breyst með tímanum, og er þá erfiðara að staðfesta upprunann. Loks þarf nákvæma efnagreiningu á gjóskunni, til þess að greina úr hvaða eldgosi hún er. Helstu eldfjöll, sem hafa verið miðpunktur gjóskulagarannsókna, eru Hekla, Vesúvíus og Santorini. Minni eldgos geta einnig skilið eftir sig öskulög í jarðlögum, t.d. Hayes-eldfjallið sem hefur skilið eftir sig sex áberandi gjóskulög í grennd við Anchorage í Alaska. Sum öskulög ná yfir gríðarstórt svæði, t.d. öskulag sem greinst hefur í botnseti Saksunarvatns í Færeyjum, og víðar í Norður-Evrópu. Upphafsmaður gjóskulagarannsókna var Sigurður Þórarinsson, sem í doktorsritgerð sinni 1944, rannsakaði gjóskulög úr Heklu, einkum í Þjórsárdal og nágrenni. Sigurður gerði gjóskulagafræði að alþjóðlegri fræðigrein og tók upp nafnið „tefra“ um loftborin föst gosefni, en orðið fann hann í fornu latnesku riti eftir Plinius yngra. Í seinni tíð hefur Guðrún Larsen, jarðfræðingur við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, fengist mikið við gjóskulagarannsóknir, sem hafa m.a. varpað ljósi á gossögu Veiðivatna og Kötlu. Ný tækni við efnagreiningu örsmárra öskusýna hefur á síðari árum opnað nýjar víddir í þessum rannsóknum. Einnig hafa kjarnaboranir í gegnum Grænlandsjökul gert mönnum kleift að tímasetja af nokkurri nákvæmni söguleg og forsöguleg stórgos á Íslandi. Eftir 1995, þróaði C. S. M. Turney og aðrir tækni til að greina gjóskulög sem eru ekki sýnileg berum augum, og hefur hún aukið mjög notagildi gjóskulagarannsókna. Þessi tækni byggist á mismunandi eðlismassa smásærra gjóskukorna og setsins sem þau leynast í. Þannig hefur t.d. tekist að rekja öskulag (Vedde-öskulagið), sem fundist hefur á Bretlandi, í Svíþjóð, Hollandi, Soppensee í Sviss og á tveimur stöðum við Kirjálaeiði hjá Sankti Pétursborg. Ákæra. Ákæra er formleg ásökun um afbrot sem gefin er út af ákæruvaldi og birt fyrir sakborningi. Birting ákæru markar upphaf sakamáls fyrir dómi og kemur í kjölfar rannsóknar lögreglu á meintu broti. Misjafnt er eftir löndum hverjir fara með ákæruvald en yfirleitt eru það sérstakir saksóknarar eða lögreglustjórar. Almennt er reglan sú að lögregla og ákæruvald á að rannsaka og ákæra að eigin frumkvæði vegna brota sem þau komast á snoðir um en stundum er ákæra vegna vægari brota háð því að brotaþoli kæri brotið til lögreglu. Stefna er hliðstæða ákæru í einkamálum. Hernaðarbandalag. Hernaðarbandalag (eða hernaðarblökk) er bandalag um hermál og sameiginlegan hernað til sóknar eða varnar. NATO er dæmi um hernaðarbandalag. Leppríki. Leppríki eða fylgiríki er ríki sem er að nafninu til sjálfstætt en lýtur öðru ríki (einkum um forystu í utanríkismálum). Mandsjúkó er dæmi um leppríki, en það varð til við innrás Japans í Mansjúríu 1931, og laut því að flestu Japans. Vasaættin. Vasaættin var konungsætt sem ríkti yfir Svíþjóð 1523 til 1654 og Pólsk-litháíska samveldinu 1587 til 1668. Ættin var að uppruna aðalsætt frá Upplöndum. Konungar og drottningar Svíþjóðar. Vasaættin komst til valda þegar Gustav Eriksson, einn af leiðtogum uppreisnarinnar gegn Kristjáni 2., var krýndur konungur. Faðir hans, Erik Johansson (Vasa), hafði verið drepinn af Kristjáni í Stokkhólmsvígunum. Valdatíma Vasaættarinnar í Svíþjóð lauk þegar Kristín Svíadrottning sagði af sér og snerist til kaþólskrar trúar. Hún lét frænda sínum Karli 10. af Pfalzættinni eftir hásætið. Konungar Póllands. Vasaættin komst til valda í Pólsk-litháíska samveldinu í gegnum erfðir. Jóhann 3. giftist Katrínu Jagiellonku, dóttur Sigmundar gamla, Póllandskonungs og systur Sigmundar 2. Þegar hann lést án karlkyns erfingja 1589 fékk Sigmundur krúnuna. Það kom hins vegar í veg fyrir að honum tækist að taka völdin í Svíþjóð eftir föður sinn þremur árum síðar og föðurbróðir hans, Karl hertogi, var því í reynd hæstráðandi í Svíþjóð, þar til Sigmundur gaf eftir tilkall sitt til sænsku krúnunnar árið 1600. Þegar Jóhann sagði af sér og gekk í jesúítaklaustur í Frakklandi eftir „Flóðið mikla“ kaus pólski aðallinn Michał Korybut Wiśniowiecki sem konung. Lögregla. Lögregla er stofnun á vegum framkvæmdavalds sem hefur það hlutverk að gæta að almannaöryggi og halda upp lögum og reglu og rétt til þess að beita valdi í því skyni. Löggæslustofnanir hafa yfirleitt bæði forvarnarhlutverk með því að fækka og koma í veg fyrir afbrot og einnig rannsóknarhlutverk með því að rannsaka afbrot þannig að unnt sé að höfða sakamál fyrir dómstólum og refsa hinum brotlegu. Framleiðsla. Framleiðsla er það þegar hráefni er breytt í fullunna vöru með vinnu og framleiðslutækjum. Framleiðsla getur átt við allt frá handverki að hátækni. Fjöldaframleiðsla er framleiðsla á miklu magni vöru (framleiðslu í stórum stíl) með því að notast við skipulagt framleiðslukerfi og fer fram í verksmiðju. Fötlun. Fötlun er varanlegt líkamlegt eða andlegt ástand einstaklings, sem veldur því að hann getur ekki beitt sér til fulls. Dæmi um fötlun: Blinda, lesblinda, heyrnarleysi, geðklofi og þunglyndi. Hreyfihömlun er tegund fötlunar, sem stafar af lömun eða vansköpun á hluta líkamans, en sumir hreyfihamlaðir nota hjólastóla til að fara styttri vegalengdir. Blinda. Blinda er ástand þar sem sjón skortir vegna orsaka af lífeðlis- eða taugafræðilegum toga. Heilsa. Heilsa er samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnuninnar (WHO) ekki einungis fólgin í að vera sjúkdómalaus heldur í almennri velferð einstaklings bæði líkamlegri, andlegri og félagslegri. Morgan County (Vestur-Virginía). Morgan er sýsla í austurhluta Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi sýslunnar var 16.337 árið 2006. Sýslan er 593 km² að flatarmáli. Sýslan dregur nafn sitt af Daniel Morgan. Sveitarfélög. Morgan Svifdiskur. thumb Svifdiskur eða frisbí (stundum stafað frisbee) er disklaga leikfang úr plasti, með rúnnaða brún, og um 20 til 25 cm að þvermáli. Lögun disksins er vængsnið í þverskurði sem veldur því að hann getur flogið með því að lyfta sér þegar hann snýst áfram í loftinu. Að kasta og grípa frisbeediska er bæði tómstundagaman og hluti margra mismunandi flugdiskaíþróttagreina. Á markaðnum eru margar tegundir flugdiska. Saga. Elsti þekkti disklaga hluturinn sem kastað var er "chakram", sem notað var sem vopn í Indlandi til forna. Nú á dögum hafa flugdiskar verið notaðir í tómstundum. Leirdúfur sem notaðar eru til leirdúfuskotfimi, og sem eru nánast eins í lögun og flugdiskar, voru hannaðar á 19. öld. Seinna urðu til flugdiskar sem eru sérstaklega hannaðir og framleiddir til sölu. Í Bridgeport, Connecticut í Bandaríkjunum framleiddi "The Frisbie Pie"-fyrirtækið bökur og seldu þær til margra háskóla á Nýja Englandi. Svangir háskólastúdentar uppgötvuðu fljótt að þeir gátu kastað á milli sín og gripið tóm bökumótin og varð það þeim til skemmtunar um langa hríð. Árið 1946 teiknaði "Walter Frederick Morrison" uppdrátt að diski sem hann kallaði "Whirlo-Way", og var það fyrsti svifdiskurinn úr plasti sem framleiddur var sem söluvara. Hann var ekki sérlega vinsæll. Árið 1955 framleiddi Morrison nýjan svifdisk úr plasti sem kallaður var "Pluto Platter". Reyndi hann með því að höfða til aukinna vinsælda fljúgandi furðuhluta (UFO) meðal bandarísks almennings. Pluto Platter-hönnunin varð svo grunnurinn að hönnun seinni svifdiska. Árið 1957 hóf Wham-O fyrirtækið framleiðslu á uppgötvun Morrisons og var hún markaðssett með nafninu Frisbee. Árið eftir var Morrison úthlutað bandarísku vörumerki ("US Design Patent 183.626") vegna svifdiska sinna. Taóismi. Taóismi (eða daóismi eftir því hvaða umritunarkerfi er notað) eru kíversk heimspeki og trúarbrögð sem byggja á kenningum Laó Tse frá 4. öld f.Kr. og hinu mikla verki hans "Bókinni um veginn" ("Tao Te Ching") sem er ljóðasafn með 81 ljóði sem lýsa heimspeki hans. Taóismi er ein af þremur stærstu trúarbrögðum Kína, ásamt konfúsíusisma og búddisma. Berkeley County (Vestur-Virginía). Berkeley er sýsla í austurhluta Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi sýslunnar var 97.534 árið 2006. Sýslan er 834 km² að flatarmáli. Sýslan dregur nafn sitt af Norborne Berkeley, 4th Baron Botetourt. Sveitarfélög. Berkeley Helgidagur. Helgidagur er dagur sem á hvílir helgi þar sem hann hefur sérstaka merkingu í einhverjum trúarbrögðum og er þannig oftast einnig frídagur í samfélagi þeirra sem aðhyllast þau trúarbrögð. Helgidagar geta þó verið mun fleiri en lögboðnir frídagar. Hátíð. Hátíð er mannfagnaður þar sem fjöldi manns kemur saman til að fagna af einhverju tilefni, ólíkt veislu þar sem lítill hópur kemur saman. Hátíðir eru gjarnan utandyra og geta tekið marga daga. Dæmi um hátíðir eru trúarhátíðir, þjóðhátíðir, kvikmyndahátíðir, listahátíðir, tónlistarhátíðir og íþróttahátíðir. Pétur J. Thorsteinsson. Pétur Jens Thorsteinsson (fæddur 1845 og dáinn 1929) var athafnarmaður á Bíldudal á Vestfjörðum og einn ríkasti maður Íslands á sínum tíma. Hann átti verslun og stundaði þilskipaútgerð. Hann stofnaði Milljónarfélagið í Viðey ásamt Thor Jensen en félagið varð að lokum gjaldþrota. Hann átti fjölda barna, þar á meðal listamanninn Guðmund „Mugg“ Thorsteinsson og knattspyrnumennina Samúel, Gunnar og Friðþjóf. Kristján Þorsteinsson. Sr. Kristján Þorsteinsson (fæddur á Brúum í Grenjaðarstaðahverfi 14. febrúar 1780, lést á Völlum í Svarfaðardal 7. júlí 1859) var íslenskur prestur. Hann var sonur sr. Þorsteins Hallgrímssonar prests í Stærra-Árskógi og fyrri konu hans Jórunnar Lárusdóttur Scheving frá Urðum. Kristján varð stúdent 1805 og hóf kennimannsferil sinn sem djákni á Grenjaðarstað 1806-1809 og gerðist síðan aðstoðarprestur í Stærra-Árskógi 1809-1810. Árið 1810 fór hann til Grímseyjar, en eyjan þótti eitt rýrasta brauð á Íslandi í þann tíð, þar þjónaði hann til 1812 en flutti þá í land og settist á Þönglabakka í Fjörðum, sem þótti ef eitthvað var heldur síðra brauð en Grímsey. Fjörðum þjónaði Kristján fram til 1820 þá fékk hann Glæsibæ og var þar til 1838, fór þá að Bægisá og var til 1843, þá á Tjörn í Svarfaðardal og var þar til 1846 og að lokum í Velli sem hann þjónaði til æviloka. Kristján þótti gáfnadrjúgur, mælskur vel, dugnaðarbóndi, greiðasamur, gestrisinn og fordildarlaus kennimaður. Hann var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Þorbjörg Þórarinsdóttir frá Múla í Aðaldal, f. 19. júlí 1786 á Myrká, d. 19. júlí 1846 á Völlum. Önnur kona Þorbjörg Bergsdóttir (1807-1851) frá Eyvindarstöðum í Sölvadal. Þriðja kona Guðrún Sigfúsdóttir (1812-1864). Hún var 32 árum yngri en brúðguminn, sem var 72 ára er hann kvæntist henni. Kristján var einn fjögurra bræðra sem allir voru prestar við Eyjafjörð á fyrstu áratugum 19. aldar, þetta voru auk hans sr. Hallgrímur á Hrauni faðir Jónasar, sr. Stefán á Völlum faðir Skafta Tímóteusar og sr. Baldvin á Upsum faðir Hans Baldvinssonar Jefferson County (Vestur-Virginía). Jefferson er sýsla í austurhluta Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi sýslunnar var 50.443 árið 2006. Sýslan er 549 km² að flatarmáli. Sýslan dregur nafn sitt af Thomas Jefferson, forseti Bandaríkjanna frá 1801 til 1809. Sveitarfélög. Jefferson Knattspyrnudeild KA. Knattspyrnudeild Knattspyrnufélags Akureyrar var stofnuð árið 1928 og sér um knattspyrnuiðkun innan félagsins. Meistaraflokkur karla. Bjarni Jóhannsson er þjálfari meistaraflokks karla. Pétur Ólafsson er yfirþjálfari allra flokka knattspyrnudeildar KA. Leikmenn. KA KA Útvistun. Útvistun er hugtak í viðskiptum sem á við um það þegar fyrirtæki ákveður að semja við undirverktaka um að taka að sér hluta af framleiðslu fyrirtækisins eða þjónustu, sem fyrirtækið sá áður um sjálft. Dæmi um útvistun er fyrirtæki, sem hannar og framleiðir íþróttaskó, sem semur við þrjá mismunandi undirverktaka, þar sem einn framleiðir skóna, annar skóreimarnar og hinn þriðji skókassana, undir vörumerki fyrirtækisins, sem selur vöruna. Útvistun er yfirleitt ætlað að lækka framleiðslukostnað fyrirtækja með því að láta öðru fyrirtæki sem býr yfir meiri sérhæfingu, þekkingu, eða hefur betri aðgang að ódýru menntuðu starfsfólki, eftir framleiðsluna. Útvistun milli landa er drifin áfram af tilhneigingu fyrirtækja í ríkum iðnvæddum löndum til að flytja störf sem gefa minna af sér út til fátækari ríkja, en halda eftir störfum sem gefa meira af sér. Berklar. Berklar (áður kallaðir "tæring") er lífshættulegur sjúkdómur sem smitast á milli manna í gegnum andrúmsloftið. Þeir hafa valdið fjölda dauðsfalla um allan heim. Algengasti orsakavaldurinn eru bakteríur af tegundinni "Mycobacterium tuberculosis". Fyrir hálfri öld síðan komu fram fyrstu lyfin við sjúkdómnum en áður en lyfin komu til sögunnar notaðist fólk við aðrar aðferðir til að lækna berklana. Berklafaraldurinn stóð í hámarki á Íslandi um 1900 en þá var hann farinn að minnka í öðrum nágrannalöndum. Til eru tvær tegundir af berklasýklum sem verka á menn og eru álíka skæðir. Það eru hinn venjulegi berklasýkill ("M. tuberculosis") og svo önnur tegund ("M. bovis") sem einkum leggst á nautgripi en menn geta einnig smitast af (og stundum líka af fuglaberklum ("M. avium")). Auk þeirra eru til undirtegundir, sem eru á ýmsan hátt afbrigðilegir, bæði í ræktun og hegðun í tilraunadýrum. Geta sumir þeirra valdið sýkingu hjá mönnum og dýrum en sýkingin er yfirleitt vægari og eru þessir sýklar því engan veginn eins skæðir fyrir menn. Þessar afbrigðulegu undirtegundir hafa færst í aukana á síðari árum og er sú kenning til að sumir þeirra að minnsta kosti hafi komið fram eftir að lyf fundust við berklaveiki. Almennt um berkla. Berklar er lífshættulegur smitsjúkdómur sem smitast á milli manna um öndunarfæri. Meinvaldurinn er baktería sem kemst inn í líkamann við öndun, hún berst svo með blóðrás úr öndunarfærunum um líkamann. Berklasýkilinn hreiðrar svo um sig í nýrum, beinum eða miðtaugakerfi. Algengast er að þeir valdi sjúkdómi í lungunum, þar eru vaxtarskilyrðin góð, aðallega í lungnatoppnum. Berklar smitast aðallega með hósta, þá dreifast berklasýklarnir um loftið og því erfitt að forðast smit. Ef berklasjúklingur hóstar á markaðstorgi getur heilbrigður einstaklingur samt smitast þó liðið hafa þrjár klukkustundir á milli. Berklarnir eru samt ekki mjög smitandi til dæmis miðað við flensur, smithættan er meiri eftir því sem samskipti við sjúklinginn eru nánari. Heilbrigt líferni, hreinlæti og hreysti er mjög mikilvægt fyrir einstaklinga að búa yfir til að verjast bakteríunni. Þeir verða sjaldan varir við nokkuð þó þeir hafi andað að sér berklabakteríunni. Auk þess smitar þetta fólk ekki út frá sér en til þess að geta smitað aðra þarf maður að vera orðinn sjúkur af berklum. Í kringum 1800 bjó fólk þröngt, í lélegum húsum og við óþrifnað sem varð til þess að berklaveikin breiddist hratt út. Lækningar við berklum. Áður en lyfin komu til sögunnar var öðrum aðferðum beitt til að reyna að sigrast á sjúkdómnum. Ein aðferðin, blásning, virkaði þannig að lofti var blásið inn í brjósthol sjúklings til þess að fá lungað til að falla saman. Þeir sjúklingar sem þessi aðferð var notuð á, voru með berklaígerð og berklaholur á lunga. Þessi aðferð var árangursrík og jukust batahorfur sjúklinga um mun. Brennsla er önnur aðferð sem var notuð. Samvextirnir voru brenndir með rafmagnsbrennslu. Þegar engin önnur aðferð virkaði og ekki var hægt að nota blásningu, sem var yfirleitt fyrsti kostur, var höggning notuð, oftast vegna þess að sjúklingar höfðu þá fengið brjósthimnubólgu. Þá voru efstu rifbeinin fjarðlægð úr sjúklingnum, stundum sex til átta rifbein, og féll þá brjóstkassinn. Tilgangurinn með höggningu var sá sami og hinna aðferðanna, þ.e. að berklaholan lokaðist. Algengustu lyfin við berklum eru isoniazid og rifampin. Þegar stofnar af berklabakteríunni eru ónæmir fyrir þessum lyfjum, kallast þeir fjölónæmir. Ef um slíkt smit er að ræða, kostar það að minnsta kosti 100 sinnum meira að lækna það heldur en ef hægt væri að nota hefðbundin lyf. Venjuleg meðferð tekur um sex mánuði og kostar um 2000 kr. en það kostar meira en milljón að lækna einstakling sem er smitaður af fjölónæmri berklabakteríu og tekur það um tvö ár. Engin lyf voru til við meðhöndlun berkla, fyrr en fyrir um það bil hálfri öld síðan. Þetta ástand, að lyf vanti, er að verða til á ný með tilkomu fjölónæmra berklabaktería. Þessir stofnar hafa myndast þegar sjúklingar með berkla hafa byrjað að taka venjuleg lyf en ekki klárað lyfjakúrinn. Þá fer af stað baktería sem er ónæm fyrir viðkomandi lyfi. Þýski sálfræðingurinn Robert Koch uppgötvaði berklasýkilinn fyrstur manna árið 1882. Hann sýndi fram á að hinar ýmsu myndir berkla eins og afmyndanir beina, húð-, kirtla- og lungnaberklar, var allt af völdum sama sýkilsins. Selman A. Waksman prófessor uppgötvaði fyrsta lyfið við berklum sem hann kallaði „streptómycín“. Hann hafði mikinn áhuga á að rannsaka sveppi og jarðvegsræktanir. Hann hafði fylgst með mismunandi örverum í jarðveginum, og með rannsóknum sínum komst hann að því hve sjaldan hann fann sjúkdómsframkallandi örverur í jarðveginum. Hann hugsaði að þær þrifust ekki þar vegna annara örvera í jarðveginum sem tortímdu þeim. Þetta leiddi til þess að fólk fór að éta jarðveg í trú um það að það væri gott berklalyf. Lækningatilraunir voru gerðar með streptómycín en það var ung dóttir samverkamanns Waksmans, Eva. Hún var með heilahimnabólgu sem stafaði af berklasýkli. Læknar töldu að sjúkdómurinn væri ekki læknanlegur svo þeir prófuðu að gefa Evu nýja lyfið sem var enn á tilraunastigi. Henni var gefin innstunga af streptómycíni í mænugöng daglega í fjóra mánuði. Þeir tóku strax eftir breytingum á henni og leit hún út fyrir að vera á batavegi, svo smám saman hurfu einkenni sjúkdómsins þar til að lokum var greinilegt að fyrsta tilfelli af heilahimnabólgu í sögunni hafði verið læknað með fúkalyfi. Þetta leiddi til þess að Waksman uppgötvaði sitt fyrsta fúkalyf, sem hann kallaði actínomycín, árið 1940. Lyfið var eitrað svo hægt væri að nota það gegn sjúkdómnum í mönnum en hann taldi að síðar gæti hann fundið upp fúkalyf sem yrði minna eitrað. Árið 1952 vann Waksman svo Nóbelsverðlaunin fyrir afrek sín. Berklar á Íslandi. Berklar hafa að öllum líkindum komið til Íslands á landnámsöld en þeir tóku ekki að breiðast út fyrr en um aldamótin 1900. Helsta ástæða þess eru breytingar á búháttum. Byggð byrjaði að þéttast, litlir þorpskjarnar tóku að myndast og með auknum samgöngum jukust líkurnar á smiti. Berklafaraldurinn kom seint til Íslands miðað við nágrannalöndin og á meðan berklar jukust hér á landi voru þeir farnir að minnka annars staðar. Dánarhlutfall berklasjúklinga á Íslandi var eitt það hæsta í Evrópu. Berklar voru algengasta dánarorsök Reykvíkinga á árunum 1911 – 1925, þeir ollu um fimmtungi allra dauðsfalla á landsvísu. Guðmundur Björnsson, þáverandi héraðslæknir í Reykjavík, átti frumkvæðið að baráttu gegn berklaveiki með því að þýða og gefa út danskan bækling „Um berklasótt“ árið 1898. Þetta var í fyrsta sinn sem leitast var við að fræða almenning á Íslandi um útbreiðsluhætti berkla og varnir gegn sjúkdóminum. Áður hafði almenningur verið með öllu ókunnugt um smithættu og leiðir sjúkdómsins og heilu fjölskyldurnar sýktust og létust. Guðmundur safnaði saman liði til að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga á Íslandi. 13. nóvember 1906 var stofnfundur svokallaðs Heilsuhælisfélags og innan tveggja ára frá félagsstofnun hófst frekari undirbúningur verkefnisins og var ákveðið að byggja hælið á Vífilsstöðum. Sumarið 1909 var hafist handa og ákváðu menn að hugsa stórt, hælið átti að verða stærsta sjúkrastofnun Íslands. Það tók aðeins 18 mánuði að byggja húsið og 5. september 1910 tók hælið til starfa með rúm fyrir 80 sjúklinga. Húsið var fullbúið öllum tækjum og húsgögnum. Síðar var svo hælið stækkað og sjúkrarúmum fjölgað, þegar mest var voru um 200 sjúklingar á hælinu. Fyrstu árin eftir að hælið var stofnað þekktust engin lyf við berklum. Meðferð sjúklingana voru þá útiloft, kjarngóð fæða og hvíld með hæfilegri hreyfingu. Berklasjúk börn fengu ekki að ganga í skóla með heilbrigðum börnum vegna smithættu, þá var rekin sérstök barnadeild við Hælið sem og skóli. Árið 1952 kom öflugasta lyfið í baráttunni, Isonazid. Með réttri blöndu lyfjanna var fyrst hægt að lækna alla berkla. Þegar árangursríkar lyfjameðferðir og bættur aðbúnaður og húsakynni almennings kom til, leiddi það smám saman til þess að ekki var lengur þörf á berklasjúkrahúsi. Þá var Heilsuhælinu fundið nýtt hlutverk og fékk nýtt nafn — Vífilsstaðaspítali. Í dag er Ísland í hópi landa með lægstu tíðni berklasmits. Kynsjúkdómur. a> sem varar við hættunni á kynsjúkdómum. Kynsjúkdómur eða samræðissjúkdómur er sjúkdómur sem smitast við kynmök, en sumir kynsjúkdómar geta smitast við fæðingu, brjóstagjöf og lyfjaneyslu í æð. Offita. Skuggamyndir af þremur mönnum; heilbrigðum, of þungum og of feitum. Offita er líkamlegt ástand spendýra, þar sem fituvefur er hlutfallslega umfangsmeiri, en að meðaltali fyrir tegundina. Offita eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og ótímabærum dauða. Hjá mönnum er miðaði við líkamsþyngdarstuðul (ensk skammstöfun "BMI"), þ.a. ef hann er stærri en 30 telst einstaklingurinn "of feitur" (þ.e. haldinn "offitu"). Skáldskapur. Skáldskapur eru sögur sem eru ekki fyllilega sannleikanum samkvæmar heldur eru ímyndaðar. Skáldskapur kemur fyrir í frásagnarlistum eins og til dæmis bókmenntum, dansi og leik en orðið er líka stundum notað í merkingunni bull eða lygi. Skáldagáfan, hæfileikinn til að skálda upp atburði, aðstæður og persónur sem eiga sér ekki samsvörun í raunveruleikanum, er einn af grundvallarþáttum menningar og eitt af því sem einkennir mannlegt eðli. Talað er um að einhver taki sér skáldaleyfi þegar hann með segir frá einhverju sem á sér enga stoð eða afbakar raunveruleikann vísvitandi. Skáldskapur er þannig list þar sem áheyrendur eða áhorfendur gangast meðvitað inn á forsendur ímyndaðs heims. Hefðbundin indversk tónlist. Hefðbundin indversk tónlist er hin hefðbundna tónlist frá Indlandi sem er lýst í elstu ritum Hindúa (Vedaritunum). Eitt þeirra, "Samaveda", lýsir tónlistinni ítarlega. Tónlistin var upprunalega hugleiðslutæki þar sem ólík form þessara stefja er talið hafa áhrif á ólíkar sjökrur. Afþreying. Afþreying eða skemmtun kallast það þegar fólk nýtir tíma sinn til að næra líkama eða sál sína. Tómstundagaman er hluti af skemmtun eða hvíld. Janez Drnovšek. Janez Drnovšek (fæddur 17. maí 1950 í Celje, lést 23. febrúar 2008 í Zaplana) var forseti sameinaðrar Júgóslavíu, forsætisráðherra og forseti Slóveníu. Joshua Lederberg. Joshua Lederberg (fæddur 23. maí 1925, lést 2. febrúar 2008) var bandarískur líffræðingur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1958 fyrir að uppgötva tengiæxlun í "E. coli" og aðrar rannsóknir er varða uppbyggingu og endurröðun erfðaefnis í bakteríum. Heimildir. Lederberg, Joshua Lederberg, Joshua Frumorkugjafi. Frumorkugjafi allra lífvera er sólin. Plöntur beisla orku sólarinnar og nýta hana til þess að framleða fæðuefni. Sum dýr nærast á plöntum og hagnýta sér þannig þá orku sem plönturnar beisluðu og bundu í fæðuefnum sínum. Önnur dýr lifa síðan á plöntuætunum. Með þessu móti berst orka sem komin er frá sólu milli lífvera. Nauðþurftir lífvera. Nauðþurftir lífvera eru orka, fæða, vatn og súrefni, þær þurfa að eiga sér heimkynni og þeim verður að vera kleift að halda líkamshita sínum innan ákveðinna marka. Marhnútur. Marhnútur (en einnig marsi, marsadóni, mörúlfur eða púi og sumsstaðar flyðru(s)kyllir) (fræðiheiti: "Myoxocephalus scorpius") er tiltöllulega algengur fiskur í Norðursjó og við Íslands- og Grænlandsstrendur og allt norður til Svalbarða. Marhnútur er oftast brúnleitur og flekkóttur og geta flekkir hans verið gulir, rauðir, grænir eða bleikir og fellur hann því vel saman við sjávarbotninn. Marhnúturinn getur orðið allt milli 40 til 60 sentímetra langur. Á sumrum lifir marhnúturinn á grunnsævi, en á vetrum nokkuð dýpra. Marhnúturinn makast að vetri til og hrygnir rauðgulum eggjum í klösum milli sjávargróðurs. Á haus og tálknalokum eru margir hvassir broddar, og meðan á mökun stendur gefa broddar hængsins frá sér eitur. Marhnútur hefur stóran kjaft og þykkar varir. Bolurinn er þykkastur rétt aftan við höfuð og mjókkar aftur. Marhnútur hefur tvo, fremur háa bakugga og raufarugga undir stirtlu sem er svipaður að stærð og aftari bakugginn. Eyruggar eru stórir og kviðuggar langir en mjóir. Sporður er allstór og bogadreginn að aftan. Eldflugur. Eldflugur (blysbjöllur eða ljósormar) eru ætt skordýra af ættbálki bjallna sem gefur frá sér ljós. Einstaklingar í þessari ætt nota ljósið á kvöldin til að hæna að maka eða til veiða. Það eru fleiri en 2.000 tegundir blysbjallna í tempraða og hitabeltinu. Flestar tegundirnar halda sig við votlendi eða röku skógarlandslagi þar sem lirfur þeirra hafa af nógu að taka. Galisía. Galisía (eða Jakobsland) er spænskt sjálfsstjórnarhérað á Norðvestur-Spáni, norðan Portúgals. Galisía er 29,574 ferkílómetrar og íbúar héraðsins voru um 2.780.000 árið 2008. Héraðið, sem fékk sjálfstjórn árið 1981, skiptist í sýslurnar A Coruña, Lugo, Ourense and Pontevedra. Höfuðstaðurinn er Santiago de Compostela í A Coruña-sýslu en fjölmennasti bærinn er Vigo í Pontevedra-sýslu. Opinber tungumál í Galisíu eru tvö, spænska og galisíska, sem er skyld portúgölsku. Konungsríki var stofnað í Galisíu árið 395. Vísigotar náðu því á sitt vald seinna en Márar náðu aldrei eiginlegum völdum þar og Alfonso 1. Astúríukonungur rak þá burt árið 739 og innlimaði um leið Galisíu í ríki sitt. Síðar varð það hluti af konungsríkinu Kastilíu og Leon en naut þó stundum nokkurrar sjálfstjórnar. Galisíubúar lifðu löngum af landbúnaði og fiskveiðum og sumir höfðu einnig góðar tekjur af þjónustu við pílagríma eftir að pílagrímsferðir að gröf heilags Jakobs í Santiago de Compostela hófust á 9. öld. Á 20. öld varð mikil iðnaðaruppbygging í héraðinu, þar eru meðal annars bílaverksmiðjur og vefnaðariðnaður. Í bænum Arteixo í A Coruña-sýslu eru höfuðstöðvar Inditex, stærstu vefnaðarvörukeðju Evrópu og þeirrar næststærstu í heimi en þekktasta vörumerki keðjunnar er Zara. Höfuðstöðvar spænsks sjávarútvegs eru í Vigo og þar hefur CFCA, Eftirlitsstofnun ESB með fiskveiðum, aðsetur sitt. Námavinnsla. Námavinnsla felst í því að sækja verðmæt steinefni eða önnur jarðefni úr iðrum jarðar eða af yfirborði hennar (t.d. malarnám). Á meðal efna sem unnin eru með námavinnslu eru báxít, kol, kopar, gull, silfur, demantar, járn, eðalmálmar, blý, kalksteinn, nikkel, fosföt, jarðsalt, tin og úran. Flest efni sem ekki eru annaðhvort ræktuð í landbúnaði eða framleidd á rannsóknarstofum eða verksmiðjum eru sótt með námavinnslu. Margfætlur. Margfætlur eru flokkur liðdýra af undirfylkingu fjölfætla. Einkenni margfætla er eitt par fóta á líkamshluta auk eitraða klóa fremst á líkamanum enda eru öll dýr í flokknum rándýr sem er óalgengt. Uppbygging. Margfætlur eru yfirleitt grábrúnar með brún og rauð litbrigði, tegundir sem lifa í hellum eða neðanjarðar skortir oft litarefni og tegundir af scolopendromorphaættbálknum sem lifa í hitabeltinu eru oft með áberanti varnarliti. Þúsundfætlur. Þúsundfætlur eru flokkur liðdýra af undirfylkingu fjölfætla. Þúsundfætlur eru með tvö pör fóta á hvern lið nema á liðnum beint fyrir aftan hausinn sem engir útlimir eru á, og næstu liðum þar á eftir sem aðeins eru með eitt par fóta. Þúsundfætlur eru hægfara grotætur ólíkt margfætlum í systurflokk sínum sem eru eitruð rándýr. Örvera. Örvera er lífvera sem er smásæ (þ.e. ekki sýnileg með berum augum). Örverufræði er sú vísindagrein sem rannsakar örverur. Til örvera teljast allir dreifkjörnungar (gerlar og fyrnur), auk frumdýra, gersveppa og ýmissa annarra smásærra heilkjörnunga. Fjölfætlur. Fjölfætlur eru undirfylking liðdýra sem inniheldur m.a. margfætlur og þúsundfætlur. Rotnun. a> millibili. Myndirnar spanna sex sólarhringa Rotnun (eða sundrun) er niðurbrot lífrænna efna (lífvera) af m.a. völdum rotvera, sem eru ófrumbjarga lífverur sem lifa á dauðum leifum annarra lífvera (gerlar og sveppir), ö.n. sundrendur. Rómafólk. Rómafólk, Rómanar eða Rómanir (fyrrum kallaðir "Sígaunar" en þykir núorðið niðrandi orð) er þjóðflokkur, sem talinn er hafa tekið sig upp frá Indlandi. Fyrst fara sögur af Rómafólki í Evrópu á árunum 835 e.Kr. til ársins 1000. Ekki er ósennilegt að þeir hafi dvalist á Grikklandi á þessum árum, en þar voru þeir nefndir "Atzincani" og almennt taldir galdramenn og þjófar. Á 13. og 14. öld dreifðust þeir um svæðið á milli Pelópsskaga og Dónár. Undir lok 14. aldar setjast þeir að í Vestur-Evrópu og koma eftir tveimur leiðum, annars vegar meðfram ströndum Miðjarðarhafsins og hins vegar þvert yfir Mið-Evrópu. Þeir settust að í Ungverjalandi á 14. öld og ekki leið á löngu þar til sett voru lög um að þeir skyldu vera handteknir og hnepptir í þrældóm. Til Þýskalands komu þeir sem pílagrímar á flótta undan Tyrkjum og höfðu meðferðis griðabréf undirrituð af konungum og aðalsmönnum, en ekki voru þetta fjölmennir hópar. Kakkalakkar. "Blaberus giganteus" Kakkalakkar (fræðiheiti: "Blattodea") er ættbálkur skordýra og er algengt meindýr í húsum. Til eru ýmsar tegundir kakkalakka eins og til dæmis grænlandsklakki ("Panchlora peruana"), austræni kakkalakki ("Blatta orientalis"), litli (þýski) kakkalakki ("Phyllodromia germanica"), stóri (ameríski) kakkalakki ("Periplaneta americana") og suðræni kakkalakki ("Periplenata australiasis"). Hvítahaf. Hvítahaf (sem í fornu máli íslensku var nefnt Gandvík) (rússneska: Бе́лое мо́ре, finnska: "Vienanmeri") er vogur suður úr Barentshafi á norðvesturströnd Rússlands. Hinn mikilvæga hafnarborg Erkengilsborg stendur við Hvítahaf. Löndin í kringum Hvítahaf voru til forna nefnd "Bjarmaland". Loðmundarskriður. Loðmundarskriður, öðru nafni Stakkahlíðarhraun í Loðmundarfirði er eitt af stærstu berghlaupum á Íslandi. Loðmundarskriður eiga upptök sín í víðri brotskál utan í fjöllunum Skúmhetti og Bungufelli. Þar hefur mikil bergfylla losnað og hrunið niður hlíðarnar og síðan skriðið á miklum hraða niður á láglendið. Sá hluti urðarinnar sem lengst komst hefur farið þvert yfir dalinn fyrir botni fjarðarins, fyrir utan bæinn Stakkahlíð. Berghlaupsurðin stíflaði bæði Hrauná, sem kemur úr Hraundal, og Fjarðará. Innan urðarinnar mynduðust stöðuvötn sem nú eru að mestu horfin. Hlauplengd Loðmundarskriðna er 5,6 km. Fallhæðin er úr 700 m og að sjávarmáli. Flatarmál hlaupsins er um 8,0 km². Í skriðunum finnst perlusteinn sem er glerkennt afbrigði af líparíti. Vatn sem bundið er í berginu veldur því að það þenst út við hitun og myndar glerfroðu sem svipar til vikurs. Þaninn perlusteinn nefnist perlít og er víða notaður sem einangrunarefni í húsum. Um 1960 voru gerðar allmiklar athuganir á perlusteininum í Loðmundarskriðum með tilliti til útflutnings en aldrei varð neitt úr þeim áætlunum. Aldur hlaupsins. Loðmundarskriður eru unglegar og gætu jafnvel verið frá sögulegum tíma. Þær eru kenndar við Loðmund hinn gamla sem nam Loðmundarfjörð. Í Landnámu er frásögn af skriðunni. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Þegar hann nálgaðist Ísland varpaði hann öndvegissúlum sínum fyrir borð og kvaðst mundu setjast þar að sem þær ræki á land. Síðan sigldi hann inn á Loðmundarfjörð og bjó þar hinn fyrsta vetur. Vorið eftir frétti hann af öndvegissúlum sínum sem borist höfðu á land undir Eyjafjöllum. Hann yfirgaf því Loðmundarfjörð með allt sitt en er hann sigldi út fjörðinn lagðist hann undir feld og fór með særingar. „En er hann hafði skamma hríð legið, varð gnýr mikill; þá sjá menn, að skriða mikil hljóp á bæ þann, er Loðmundur hafði búið á“. Ljóst er á þessari frásögn að landnámuritari, eða heimildamenn hans, töldu að mikil skriða hefði fallið í Loðmundarfirði á landnámstíð. Grindhvalur. Grindhvalur eða marsvín (fræðiheiti: "Globicephala melas", einnig nefndur "Globicephala melaena"), er allstór tannhvalur af ættkvísl grindhvala ("Globicephala"). Í ættkvíslinni er ein önnur tegund, flipahvalur ("Globicephala macrorhynchus"), en hún lifir í hlýrri sjó í belti umhverfis jörðina milli 50°N og 40°N. Lýsing. Grindhvalurinn er sívalur um búkinn, gildastur framan við miðju en mjókkar til beggja enda. Hausinn er stuttur en hátt og kúpt enni sem skagar fram yfir stutt trýnið, í hvorum skolti eru 8-13 tennur. Hornið er aftur sveigt og framan við miðju á bakinu. Bægslin eru löng og mjó, lengd þeirra getur verið allt að 30% af heildarlengd dýrsins. Talsverður stærðarmunur er á kynjunum, kýrnar er 4,3 til 5,1 metrar á lengd og allt að 900 kg á þyngd. Tarfarnir eru 5,5 til 6,2 metrar og verða allt að 1700 kg. Kálfarnir fæðast dökkgráir og yngri hvalir geta haft misdökka flekki. Fullorðin dýr eru svört eða dökkbrún fyrir utan að hvalurinn hefur hvítan blett á bringunni fyrir framan bægslin. Útbreiðsla og hegðun. Grindhvalir skiptast í tvær undirtegundir, "Globicephala melas melas" sem finnst á tempruðum og köldtempruðum svæðum á Norður-Atlantshafi og "Globicephala melas edwardii", sem lifir allt í kringum Suðurskautslandið. Norður-Atlantshafsstofninn heldur til á úthöfum á vetrum en fylgir smokkfiskum upp að landgrunninu á sumrin. Fæðan er einkum smokkfiskar en grindhvalurinn étur einnig fiska. Grindhvalurinn er eindregið hópdýr, í hverri hjörð geta verið allt frá nokkrum dýrum uppi í mörg þúsund. Algengt er að grindhvalahópar blandist öðrum hvölum, sérstaklega höfrungum. Grindhvalir synda iðulega í hópum á land upp, hvað þessu veldur er óþekkt. Samstaða hópsins er svo sterk að þegar fremri hluti hans hefur hlaupið á land fylgja þeir sem utar eru beint í opin dauðan. Veiðar og fjöldi. Skipulagðar veiðar á grindhval hafa ekki verið stundaðar á Íslandi en strandaðir hvalir hafa verið nýttir í aldaraðir. Áður var gjarnan reynt að reka hvalina á land þegar til þeirra sást. í Færeyjum er hins vegar löng hefð fyrir grindhvalaveiðum og fylgir hún nákvæmum reglum, allt frá því hverig boð berast um grind og hvernig skipta eigi aflanum milli sveitarfélaga. Til eru skrár yfir veiðar Færeyingar allt aftur til 1584 og sýna þær að veiðarnar hafa sveiflast frá 800 til 2000 dýrum á ári. Við Nýfundnalandi hafa verið stundaðar umfangsmiklar veiðar á grindhval á seinnihluta 20. aldar og virðast þær hafa gengið mjög á stofninn á því svæði. Umfangsmikil talning var gerð á grindhvölum í Norðaustur-Atlantshafi 1989 og sýndu þær að stofnfjöldin var um 780 þúsund dýr. Stofnstærð á Norðvestur-Atlantshafi og á suðurhveli er hins vegar óþekkt. Tiger I. Tiger I skriðdreki í Túnis 1943. Tiger I eða Panzerkampfwagen VI Ausführung H (skammst. PzKpfw VI Ausf. H) og frá mars 1943 Panzerkampfwagen VI Ausführung E (skammst. PzKpfw VI Ausf. E) var þýskur skriðdreki í seinni heimsstyrjöldinni. Tiger I skriðdrekinn var tekinn í notkun síðla árs 1942 og var í notkun fram að uppgjöf Þjóðverja í maí 1945. Ferdinand Porsche gaf skriðdrekanum gælunafnið Tiger en hann var síðar nefndur Tiger I til aðgreiningar frá Tiger II skriðdrekanum. Tenglar. fallbissa: 1 × 8,8 cm KwK 36 L/56 vélbissur: 2 × 7,92 mm Maschinengewehr 34. skot4800 vél: Maybach HL230 P45 (V-12 bensín) 700 PS (690,4 hestafla, 514,8 kW) Tiger II. Tiger II skriðdreki sumarið 1944. Tiger II eða Panzerkampfwagen VI Ausf. B var þýskur skriðdreki í seinni heimsstyrjöldinni. Skriðdrekinn var stundum nefndur Königstiger á þýsku og King Tiger eða Royal Tiger af bandamönnum. Tíska. Tíska kallast vinsældabylgja í menningu, hvort sem hún er innan fatnaðar, tónlistar, byggingalistar eða útlits. Hinar ólíku tegundir tvinnast gjarnan saman. Tíska skiptist í tímabil eftir því hvaða form er vinsælt hverju sinni. Markverð tímabil síðustu aldar eru til dæmis hippa-tímabilið, diskó-tímabilið eða Bítla-tímabilið. Símun av Skarði. Símun av Skarði (3. maí 1872 – 9. október 1942) var færeyskt skáld, stjórnmálamaður og kennari. Hann var fæddur á Kunoy, í byggðinni Skarði, sem nú er komin í eyði. Hann útskrifaðist frá kennaraskóla Færeyja árið 1896 og stundaði síðan nám við lýðháskólann í Askov í Danmörku og Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Hann stofnaði ásamt vini sínum Rasmus Rasmussen Føroya Fólkaháskúli (íslenska: "Lýðháskóli Færeyja") í Klakksvík 1899 og var það fyrsti skólinn þar sem kennsla fór fram á færeysku. Þar starfaði hann sem skólastjóri frá 1899-1942 en flutti skólann til Þórshafnar 1909. Þeir Rasmus börðust ákaft fyrir því að færeyska skyldi notuð, bæði í skólum og sem opinbert mál í Færeyjum en það varð þó ekki fyrr en 1938. Símun var mikill áhugamaður um sjálfstjórnarmál Færeyinga og var þingmaður fyrir Sjálvstýrisflokkinn frá 1906-1914. Þekktasta skáldverk hans er þjóðsöngur Færeyja Mítt alfagra land. Hann skrifaði mikið í blöð og þýddi ýmsar bækur á færeysku, þar á meðal Víga-Glúms sögu og skáldsöguna "Ströndin blá" eftir Kristmann Guðmundsson. Kona Símunar var Sanna Jacobsen. Börn þeirra voru málvísindamaðurinn Jóhannes av Skarði og kvenréttindakonan Sigríð av Skarði Joensen. Dótturdóttir hennar er Sólrun, kona Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. Geðvirk lyf. Geðvirk lyf eru lyf, sem hafa tímabundin áhrif á hugarástand notandands og getur bæði átt við geðlyf, sem notuð eru til lækninga, eða fíkniefni og ofskynjunarlyf. Alþjóðasamtök um eldfjallafræði. Alþjóðasamtök um eldfjallafræði og efnafræði innri hluta jarðar, eða IAVCEI – ("Interational Association of Volcanology and the Chemistry of the Earth's Interior") – eru samtök sem fylgjast með og móta alþjóðlegar áherslur í rannsóknum í eldfjallafræði, leitast við að draga úr hættu af völdum eldgosa, og stuðla að rannsóknum í skyldum greinum, svo sem jarðefnafræði, steindafræði og bergfræði eldstöðva, og hvernig bergkvika myndast í efri hluta möttulsins og leitar upp um jarðskorpuna. IAVCEI er stjórnað af framkvæmdastjórn, sem kosin er til fjögurra ára í senn. Stjórnin mótar stefnu samtakanna og kemur henni í framkvæmd með starfi allmargra nefnda og vinnuhópa. Saga. Alþjóðasamband um jarðmælingar og jarðeðlisfræði, eða IUGG – ("International Union of Geodesy and Geophysics") – var stofnað árið 1919. IUGG skiptist í átta samtök, og er IAVCEI eitt þeirra. "Alþjóðasamtök um eldfjallafræði" (IAV) voru stofnuð 1919, og voru þau fyrirrennari IAVCEI. Samþykktir og reglugerðir IAV voru staðfestar í Helsinki 1960 og voru endurskoðaðar í Zürich 1967 og í Canberra 1979. 'Chemistry of the Earth's Interior' (CEI) var bætt við nafnið árið 1967 til samræmis við systursamtökin: Alþjóðasamtök um jarðskjálftafræði og eðlisfræði innviða jarðar, eða IASPEI – ("International Association of Seismology and the Physics of the Earth's Interior"). Markmið samtakanna. Aðild að IAVCEI var lengst af bundin við vísindafélög. Árið 1996 var einstaklingum gert kleift að gerast félagar í IAVCEI. Þing samtakanna í Reykjavík 2008. Samtökin héldu allsherjarþing í Reykjavík 17.-22. ágúst 2008. Tæplega 1.000 manns frá 50 þjóðlöndum sóttu þingið. Um 1.300 fræðileg framlög voru kynnt, sem skiptust í 700 erindi og 600 veggspjöld. Meðal þriggja nýrra heiðursfélaga, sem þar voru kynntir, var dr. Haraldur Sigurðsson, fyrrum prófessor í eldfjallafræði við Háskólann í Rhode Island, Bandaríkjunum. Eftirtaldir aðilar sáu um undirbúning þingsins: Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, Guðrún Larsen jarðfræðingur og Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Tímarit IAVCEI. "Bulletin of Volcanology" er tímarit samtakanna, og kemur það út átta sinnum á ári. (Eldra nafn: "Bulletin Volcanologique"). Tímaritið kom fyrst út 1922. Geðlyf. Geðlyf eru lögleg geðvirk lyf, notuð til þess að hafa áhrif á virkni heilans og taugakerfisins. Sum geðlyf geta valdið fíkn og eru einnig notuð ólöglega sem fíkniefni. Aðeins læknir, með gilt lækningaleyfi, má ávísa geðlyfjum, sem fást gegn framvísun lyfseðlis í lyfjaverslun. Rússneska byltingin (aðgreining). Ef ár byltingarinnar er ekki tilgreint er venjulega átt við annaðhvort rússnesku byltinguna 1917 eða októberbyltinguna sérstaklega. Aftur á móti er nær ávallt vísað til byltingarinnar 1905 með ártali og febrúarbyltingarinnar með mánaðarheitinu. Mikines. Sámal Elias Frederik Joensen-Mikines (fæddur í Mykinesi 23. febrúar 1906, dáinn í Kaupmannahöfn 21. september 1979) var færeyskur myndlistarmaður og frægasti listmálari Færeyinga. Reyndar telst Mikines faðir færeyskrar myndlistar. Myndlist lærði hann við Akademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1928 til 1932. Upp frá því helgaði hann myndlistinni krafta sína. Að námi loknu snéri Mikines heim til Færeyja og bjó þá ýmist á Mykinesi eða Þórshöfn, en einnig í Kaupmannahöfn. Heimaslóðanna vitjaði hann nánast á hverju sumri og viðaði að sér efni í list sína. Á sjöunda áratugi 20. aldar sótti hann einnig myndefni til Borgundarhólms. Verk Mikines eru í norrænum anda expressonismans. Forgengileiki mannlegrar tilveru og stórbrotin náttúra, með manninn sem hluta hennar eru algeng viðfangsefni í verkum hans. Árið 2006 gaf forlag Einars Matthíassonar, Nesútgáfan, út vandað listaverkarit með myndum eftir Mikines. Textinn er eftir Aðalstein Ingólfsson. Jáeind. Jáeind (áður kölluð pósitróna) er öreind, sem flokkast sem létteind og hefur alla sömu eiginleika rafeindar nema jákvæða rafhleðslu í stað neikvæðarar eins og rafeindin hefur. Jáiend er því andeind rafeindarinnar og öfugt. Luis Buñuel. Luis Buñuel (22. febrúar 1900 – 29. júlí 1983) var frægur spænskur kvikmyndagerðarmaður, og af mörgum talinn einhver mikilvægasti leikstjóri kvikmyndasögunnar. Hann starfaði aðallega í Frakklandi og Mexíkó en einnig í heimalandi sínu og Bandaríkjunum. Buñuel giftist franskri konu, Jeanne Rucar í París árið 1934, þau voru gift fram á dauðadag Buñuels 1983, tæplega hálfri öld síðar. Þau eignuðust tvo syni Rafael og Juan Luis Buñuel. Ævi. Luis fæddist í smábænum Calanda í Aragon-fylki í austurhluta Spánar. Hann kom úr sæmilega vel stæðri fjölskyldu. Foreldrar hans voru Leonardo Buñuel og María Portolés. Hann átti tvo bræður; "Alfonso" og "Leonardo" og fjórar systur; "Alicia", "Concepción", "Margarita" og "María". Luis hlaut strangt uppeldi að hætti jesúíta í Colegio del Salvador í Zaragoza, en var síðan rekin úr skóla. Þá hélt hann til Madridar þar sem hann hóf háskólanám í náttúruvísindum og landbúnaðarfræðum. Hann breytti því síðar í verkfræði og loks heimspeki. Á meðal þeirra nemenda sem hann kynntist var málarinn Salvador Dalí og skáldið Federico García Lorca og tókust góð vinasambönd með þeim. Árið 1925 fluttist hann um set og hélt til Parísar og hóf vinnu við samtök sem hétu "International Society of Intellectual Cooperation". Þar komst hann í kynni við leikstjórana Jean Epstein sem veitti honum vinnu sem aðstoðarmaður sinn við gerð tveggja kvikmynda; "Mauprat" (1926) og "La Chute de la maison Usher" (1928) og Mario Naplas sem réði hann sem aðstoðarleikstjóra við gerð "La Sirène des Tropiques" (1927). Kvikmyndaferill. Luis hóf eigin kvikmyndaferil með gerð stuttmyndarinnar "Andalúsíuhundurinn" ("Un chien andalou", 1929), sem hann skrifaði og leikstýrði í samvinnu við vin sinn Salvador Dalí. Myndin er ein sú þekktasta sem kennd er við súrrealisma og nýtur vinsælda enn þann dag í dag. Þeir hófu að skrifa saman kvikmynd í fullri lengd en vegna ósættis þeirra á milli leikstýrði Luis myndinni einsamall. Myndin, sem heitir "L'Âge d'or" eða "Gullöldin", er samansafn óreiðukenndra stuttra frásagna og hlaut mjög blendnar viðtökur. Þegar hún var sýnd í París brást hópur hægrisinnaðra manna, er kenndir voru við föðurlandið, við með því að kasta bleki á sýningartjaldið, ráðast að öðrum sýningargestum og brjóta og eyðileggja listaverk eftir súrrealista sem voru til sýnis í andyri bíósins. Myndin var tekin úr sýningu og var t.a.m. ekki sýnd opinberlega í Bandaríkjunum fyrr en 1979. Luis sneri aftur til síns heima og leikstýrði eins konar heimildarmynd, ' ("Land án brauðs", 1933), sem sagði frá lífi fátækra bænda í Las Hurdes-sýslu á Norður-Spáni. Myndin var umdeild á Spáni, og var bönnuð í þrjú ár, enda sýndi hún býflugur stinga asna til dauða, en Luis hafði fyrirskipað að hann skyldi þakinn hunangi fyrir tökurnar. Næsta verkefni hans var einnig í formi heimildarmyndar, "España 1936" og segir frá tildrögum Spænsku borgarastyrjaldarinnar. Í Bandaríkjunum. Að Spænsku borgarastyrjöldinni lokinni var Luis gerður útlægur og því fór hann til Bandaríkjanna. Hann settist að í Hollywood þar sem hann fékk fljótt vinnu við að framleiða endurgerðir á myndum sem höfðu verið vinsælar í Bandaríkjunum á öðru tungumáli til útflutnings. Fljótlega var þó fallið frá því að endurgera myndir og þess í stað tekið að talsetja þær. Þá flutti Luis til New York þar sem hann fékk starf við Museum of Modern Art (MOMA) þar sem hann vann m.a. við að klippa útgáfu á heimildarmynd Leni Riefenstahl, "Triumph of the Will", sem fjallar um Adolf Hitler. Hann var svo rekinn frá MOMA að því að sagt er eftir að Francis Spellman, erkibiskup New York, heimsótti forstöðukonu safnsins, Iris Barry. Luis hélt þá aftur til Hollywood þar sem hann starfaði við talsetningu hjá Warner Brothers-kvikmyndaverinu á árnum 1942-46. Í Mexíkó. Luis fluttist til Mexíkó árið 1946 og hlaut mexíkóskan borgararétt árið 1949. Þar hóf hann að vinna að eigin kvikmyndum á ný. Fyrsta mynd hans þar í samvinnu við framleiðandann Oscar Dancigers, "Gran Casino", leit dagsins ljós sama ár. Buñuel fannst víst ekki mikið til myndarinnar koma sjálfum. Næsta mynd þeirra sem hét "El Gran Cavalera" með hinum þekkta mexíkóska leikara Fernando Soler kom út 1949 og hlaut góðar viðtökur. Buñuel fullyrti sjálfur að hann hefði lært mikið á tæknilegu hlið þess að vinna kvikmyndir við gerð þeirrar myndar. Í ljósi velgengni myndarinnar veitti Dancigers Buñuel fullkomið frelsi við gerð næstu myndar sinnar. Útkoman varð "Los Olvidados" (1950), mynd sem sagði sögu barna í fátækrahverfum Mexíkóborgar. Myndin fékk verðlaun sem besta myndin á Cannes-kvikmyndahátíðinni og Buñuel fékk verðlaun fyrir bestu leikstjórn. Fyrir vikið varð Buñuel heimsþekktur, nú var nýr meistari kominn fram á sjónarsviðið. Árið 2003 var upprunalegt eintak filmu myndarinnar samþykkt sem hluti af Minni heimsins-verkefninu (e. "Memory of the World Program") á vegum UNESCO. Árið 1960 bauð Franco, einræðisherra Spánar, Buñuel að koma aftur til síns heima og búa til kvikmynd. Ástæðan var sú að Franco vildi milda ímynd sína og virðast menningalega þenkjandi. Útkoman varð kvikmyndin "Viridiana", mynd sem segir sögu réttsýnnar konu sem fyrir sakir örlaganna brotnar undan ranglæti heimsins. Í myndinni kemur fram, að margir telja, dulin gagnrýni á kirkjuna. Í það minnsta fordæmdi Vatíkanið myndina, hún var bönnuð í mörg ár á Spáni og ekki var Franco skemmt. Í Frakklandi. Á sjötta áratuginum fluttist Buñuel til Frakklands. Þar hóf hann samstarf við framleiðandann Serge Silberman og rithöfundinn Jean-Claude Carrière og saman gerðu þeir með vinsælli og þekktustu myndirnar á ferli hans. "Le Journal d'une femme de chambre" (1964), útfærslu á skáldsögu eftir Octave Mirbeau, "Belle de Jour" (1967) og "Cet obscur objet du désir" (1977). Sú síðastnefnda var síðasta mynd Buñuels en þá var hann orðinn 77 ára gamall og næsta heyrnarlaus. Þá skrifaði hann sjálfsævisöguna "Mon Dernier Soupir" (1982) saman með Carrière, sem hafði unnið með honum í rúman áratug. Luis Buñuel lést af völdum skorpulifurs í Mexíkóborg þann 29. júlí 1983. Tenglar. Buñuel, Luis Ferdinand Porsche. Ferdinand Porsche (borið fram ˈpɔʁʃə, 3. september 1875 – 30. janúar 1951) var austurrískur bifvélaverkfræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa hannað upprunalega útgáfu Volkswagen bjöllunnar og vinnu við þróun þýsku skriðdrekanna Tiger I, Tiger II og Elefant sem voru í notkun í seinni heimsstyrjöldinni. Adolf Hitler heiðraði Porsche árið 1937 og sæmdi hann þá Þýsku verðlaununum fyrir vísindi og fræði, sem voru meðal sjaldgæfustu verðlauna í Þriðja ríkinu. Bifreiðaframleiðandinn Porsche er nefndur eftir syni Ferdinands Porsche, Ferry Porsche. Upphaflega byggði hönnun bifreiðanna að miklu leyti á hönnun Volkswagen bjöllunnar. Burgenland. Burgenland (burgenlandkróatíska: Gradišće; ungverska: Felsőőrvidék, Őrvidék eða Lajtabánság) er yngsta og fámennasta sambandsland Austurríkis, myndað 1921. Það er jafnframt austasti hluti Austurríkis. Höfuðborgin er Eisenstadt. Í Burgenland er töluð þýska, ungverska og burgenlandkróatíska. Lega og lýsing. Burgenland er mjó landræma austast í landinu, sem nær frá Neusiedler See í norðri og suður til slóvensku landamæranna. Gjörvöll austurhliðin snýr að Ungverjalandi. Í norðvestri er Neðra Austurríki og í suðvestri er Steiermark. Sambandslandið er afar fámennt. Þar eru eingar stærri borgir. Stærsta borgin er höfuðborgin sjálf með aðeins 12 þús íbúa. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Burgenland sýnir rauðan örn á gulum bakgrunni. Fyrir framan örninn er minni skjöldur. Örninn er tákn greifanna af Mattersdorf-Forchtenstein, en minni skjöldurinn tákn greifanna af Güssing-Bernstein. Segja má að skjaldarmerkið vísi til sameiningu landsvæðisins í norðri og í suðri. Merkið var formlega tekið upp 1922, eftir stofnun Burgenlands. Fáninn samanstendur af tveimur láréttum röndum, rauðri að ofan og gulri að neðan. Litirnir voru einfaldlega teknir úr skjaldarmerkinu. Orðsifjar. Burgenland heitir eftir þremur borgarvirkjum sem Ungverjar réðu til að stjórna héraðinu: Wieselburg (Moson), Ödenburg (Sopron) og Eisenburg (Vas). Austurríki gerði auk þess tilkall til fjórða borgarvirkisins og því var stungið uppá að sambandslandið héti Vierburgenland ("Fjórborgaland"). Þegar sýnt þótti að fjórða borgarvirkið myndi haldast í Ungverjalandi var stungið upp á Dreiburgenland ("Þríborgaland"). 1919 var stungið uppá Burgenland og var það samþykkt 1921. Söguágrip. Vegaskilti á þýsku og ungversku Síðan Habsborgarar erfðu krúnu Ungverjalands 1526 hafa bæði Ungverjar og þýskumælandi fólk búið í héraðinu. Tyrkir (osmanir) rústuðu stórum svæðum þess meðan þeir sátu um Vín 1683, en eftir að Tyrkir yfirgáfu landið settist fólk að á svæðinu sem talaði mismunandi tungumál, en þó voru ívið fleiri þýskumælandi. Síðla á 19. öld hóf ungverska stjórnin í Búdapest að flytja Ungverja inn á svæði þar sem þeir voru í minnihluta, til að geta gert tilkall til stærra svæða. 1907 var ungversku fólki í Burgenland bannað að tala önnur tungumál en ungversku. Þetta leiddi til mikillar spennu við þýskumælandi íbúa héraðsins. 1918 tapaði Austurríki (og Þýskaland) í heimstyrjöldinni fyrri og leystist þá konungssambandið milli Austurríkis og Ungverjalands upp. Bæði löndin gerðu tilkall til héraðsins Burgenland. 1919 ákváðu bandamenn að þýskumælandi hluti Vestur-Ungverjalands skyldi sameinast Austurríki. Eftir nokkra tregðu réðist austurríski herinn inn í Burgenland 1921 og hertók svæðið. Í desember fór fram aðkvæðagreiðsla íbúanna um sameiningu við Austurríki eða Ungverjaland. Flestir hreppirnir kusu sameiningu við Austurríki, en aðeins fáeinir við Ungverjaland. Þessi niðurstaða var látin gilda, þannig að meirihluti Burgenland var formlega sameinað Austurríki og varð að eigið sambandslandi. Í upphafi var gert ráð fyrir að borgin Ödenburg (Sopron) yrði höfuðborg. En borgin kaus sameiningu við Ungverjaland og því varð smáborgin Bad Sauerbrunn höfuðborg til bráðabirgða. 1922 kom þing sambandslandsins saman í fyrsta sinn og 1926 ákvað þingið að flytja til Eisenstadt. Burgenland var leyst upp sem sambandsland við sameiningu við Þýskaland Hitlers 1938 og sameinað Steiermark. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari hertóku Sovétmenn Burgenland. Þeir endurstofnuðu Burgenland sem sambandsland og var það hluti af sovéska hernámssvæðinu til 1955. 1956 flúðu tugþúsundir Ungverja til Burgenland eftir misheppnaða byltingu gegn kommúnismanum. Eftir það voru gjörvöll austurlandamæri Burgenlands hluti af járntjaldinu milli austurs og vestur allt til 1989. 27. júní það ár lét Austurríki opna landamærin og flúðu þá þúsundir Austur-Þjóðverjar um Ungverjaland til Austurríkis. Í dag er Burgenland enn langfámennasta sambandsland Austurríkis. Þar er, auk þýsku, ungverska viðurkennt tungumál, sem og burgenlandkróatíska. Neðra Austurríki. Kort sem sýnir Neðra Austurríki í Austurríki. Neðra Austurríki (þýska: "Niederösterreich") er nyrsta og stærsta sambandsland Austurríkis. Það er að mestu leyti staðsett í dal í Ölpunum. Markverð fljót í Neðra Austurríki eru Dóná, Enns, March og Thaya. Höfuðstaður þess er Sankt Pölten og íbúar eru um 1.597.606 (2008) talsins. Aðrir markverðir bæir eru Wiener Neustadt, Baden, Klosterneuburg, Krems, Amstetten, Mödling, Melk og Lilienfeld. Efra Austurríki. Kort sem sýnir Efra Austurríki í Austurríki. Efra Austurríki (þýska: "Oberösterreich") er syðsta sambandsland Austurríkis. Það er að mestu leyti staðsett í dal í Ölpunum. Höfuðstaður þess er Linz og íbúar eru um 1.408.670 (2008) talsins. Aðrir markverðir bæir eru Wels, Steyr, Traun og Leonding. Salzburg (fylki). Kort sem sýnir Salzburg í Austurríki. Salzburg er syðsta sambandsland Austurríkis. Það er að mestu leyti staðsett í dal í Ölpunum. Höfuðstaður þess er Salzburg og íbúar eru um 531 þúsund talsins. Aðrir markverðir bæir eru Hallein og Saalfelden. Leifturstríð. Leifturstríð (þýsku: "Blitzkrieg") er árásarstríð, sem byggir á samhæfðum loft- og landhernaði þar sem vélknúnum brynvörðum ökutækjum er beitt til að ná hraðri framsókn og halda frumkvæðinu þannig að andstæðingurinn nái ekki að skipuleggja varnir með viðunandi hætti. Leifturstríð var þróað á 4. áratug 20. aldar og var beitt á árangursríkan hátt af Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni. Hugmyndin varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar augljóst var orðið að skotgrafahernaður væri ólíklegur til árangurs. Aðferðum leifturstíðs er enn beitt. Áhrifa leifturstríðsins varð sérstaklega vart í innrásum Þjóðverja í Vestur-Evrópu, t.d. Frakkland, Holland og Belgíu, og á upphafsstigi innrásarinnar í Rússland. Sóróismi. a> er eitt af helstu táknum sóróisma. Sóróismi er heimspeki og trúarbrögð sem byggja á kenningum sem eignaðar eru spámanninum Sóróaster eða Saraþústra. Masdaismi er trú á guðinn Ahúra Masda sem Sóróaster boðaði. Sóróismi var eitt sinn ríkjandi trúarbrögð á Íranssvæðinu en vék fyrir íslam á miðöldum. Iðkendur eru nú um tvær milljónir, aðallega í Íran og á Indlandi. Sjóorrusta. Sjóorrusta er orrusta sem háð er á sjó, en jafn vel á stöðuvatni eða fljóti. Flotar herja berjast með herskipum í sjóorustum, en kafbátar og flugvélar flugmóðurskipa geta einnig tekið þátt í orrustunni. Eftir seinni heimsstyrjöldina hafa sjóorustur verið fáaar, ef frá eru talin átök á sjó í Falklandseyjastríðinu. Meðal allra mestu sjóorustum er sú sem fram fór við Filippseyjar árið 1944 og nefnist orustan á Filipseyjahafi. Áttust þar við 166 bandarísk skip og 65 japönsk. Bandaríkin misstu 6 skip, Japanir 26. Mannskæðasta sjóorrusta við Ísland er orrustan á Grænlandshafi, þar sem orrustubeitiskipinu HMS Hood var sökkt. Vedaritin. Vedaritin eða vedurnar (sanskrít: वेद "véda" „vit“) eru stórt textasafn frá Indlandi hinu forna. Vedaritin eru elstu bókmenntir á sanskrít og elstu helgirit hindúa. Samkvæmt hindúatrúnni eru vedaritin "apauruṣeya" ("ekki af mannavöldum"), en uppruni innihalds þeirra með öllu óþekktur. Önnur trúarbrögð sem eiga rætur sínar að rekja til hindúatrúarinnar, eins og búddismi, jaínismi og síkismi, halda því hins vegar fram að þótt ritin byggi á andlegri visku þá sé uppruni þeirra ekki endilega guðlegur. Vedaritin eru talin hafa orðið til á vedatímabilinu í sögu Indlands. Aldur þessa tímabilsins er óljós, en talið er að því hafi lokið um 500 f.Kr. Talið er að vedaritin hafi varðveist í munnlegri geymd þar til fyrstu textasöfnin voru tekin saman eftir að ritöld hófst á 2. öld f.Kr. Elstu handrit vedaritanna sem varðveist hafa eru frá 11. öld. Sundknattleikur. Sundknattleikur er hópíþrótt sem fer fram í sundlaug. Sex keppendur eru í liði auk eins markvarðar. Keppendurnir reyna að skora mörk hjá andstæðingnum með bolta sem þeir henda og slá á milli. Keppendur mega ekki nota báðar hendur til að grípa eða slá. Þeir mega ekki snerta botninn með fótunum þannig að þeir þurfa að synda eða troða marvaðann alla sóknina. Markverðir mega nota báðar hendur og snerta botninn. Talmúd. Talmúd er eitt helstu helgirita gyðingdóms. Ritið er í formi samræðna sem fara rabbínum á milli, og er fjallað um lög Gyðinga, siðareglur þeirra, siði og sögu. Heyrn. Heyrn er getan til þess að greina hljóð með eyrunum. Heyrnartæki eru hjálpartæki ætluð þeim sem eru með skerta heyrn. Heyrnarleysi er fötlun, þar sem sá heyrnarlausi greinir varla eða ekki hljóð. Jóga. Jóga (Sanskrít: योग, "Yoga") er tegund fornra andlegra æfinga sem eiga uppruna sinn á Indlandi. Hjartasjúkdómur. Hjartasjúkdómur er hugtak notað yfir margar tegundir sjúkdóma sem tengjast hjartanu. Hjartasjúkdómar voru helstu dauðaorsakir í Bandaríkjunum árið 2007. Kólera. Kólera er smitandi garnasýking sem bakterían "Vibrio cholerae" veldur. Kólerufaraldur braust út í Kaupmannahöfn árið 1853 og létust um 5000 manns. Tannlækningar. Tannlækningar er akademísk fræðigrein sem felur í sér að meta, greina, veita forvörn og/eða meðferð (hvort sem hún feli í sér aðgerð eða ekki) sjúkdóma eða aðra kvillasem tengjast tönnunum. Strildi. Strildi (fræðiheiti: "Estrildidae") er ætt spörfugla. Blóðkreppusótt. Blóðkreppusótt (einnig nefnd blóðfallssótt og blóðsótt) er algeng og alvarleg tegund niðurgangs þar sem blóð sést í saurnum. Einnig fylgjast krampar í görnunum oft að. Leirkeragerð. Leirkeragerð kallast það þegar keramíkhlutir eru gerðir af leirkerasmiðum. Tófú. Tófu er hleypt sojamjólk sem framleidd er úr sojabauninni. Tófu er undirstöðurþáttur í matargerð víða í Austurlöndum fjær. Bragðskyn. Bragðskynið er getan til þess að skynja bragð. Lyktarskynfæri. Lyktarskynfæri eru skynfærin sem eru notuð til að nema lykt. Flest spen- og skriðdýr hafa tvenns konar lyktarskynfæri. Sálartónlist. Sálartónlist er tónlistarstefna skyld gospel tónlist og R&B. Hún varð til seint á fimmta áratug 20. aldar og var vinsæl fram á byrjun sjötta áratugar í Bandaríkjunum. Hún varð til út frá rokktónlist en hélt sama takti og sveiflum og eru í blús. En í byrjun sjötta áratugarins blandaðist fönk í stefnuna. Söngvarar voru flestir dökkir á hörund og höfðu sungið gospell áður fyrr. Tónlistarstefnan var mismunandi eftir stöðum. Í New York var sálartólistinn öðruvísi heldur en í Flórída. Má nefna eins og í New York, Philadelphia og Chicago var hljómurinn mýkri og líkari gospel, hins vegar í suðurhluta Bandaríkjanna var hljómurinn hrárri og kaldar raddir. En allt undir sama flokki, sem var afar vinsæll hjá svertingjum og náði hátt á vinsældalistum. Þegar áttundi áratugurinn leið hjá byrjaði sálartónlist að sundrast og klofna. Þá byrjuðu sálarsöngvarar að leita í aðrar stefnur og blanda þeim saman, eins og fönki og diskó, og það var meira danstaktur í þeim lögum en áður var. Á níunda og tíunda áratugunum bættist við eins konar hip-hop og mörg hundruð söngvarar bættu rappi inn í lögunum sínum, sem varð vinsælt á 21. öldinni. Tilgangur. Sálartónlist var mikilvæg stefna fyrir blökkumenn því á þeim tíma áttu þeir mjög erfitt eins og sagan segir og flestir vita en þeir notuðu sálartónlistina til þess að mótmæla og láta í sér heyra. Af því að engir hvítir menn hlustuðu á sálartónlist var erfitt að láta heyra í sér með þeim hætti þó það náðist á endanum. Það eru til mörg fræg lög sem fjalla um báráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. Þessi stefna breytti viðhorfi hvíta fólksins til svartra og jók jákvæðni í þeirra garð. Sálartónlist var ekki síst vinsæl hjá hörundsdökkum unglingum og mikið leikin teitum. Sálartónlist var síðar eins og rokktónlist, sem þá hafði svipuð áhrif: báðar stefnur hentuðu vel til að dansa við og fyrir persónulega útrás. Þessu fylgdi mikil hrifning unglinga, pólitísk og frelsisbárátta. Sálartónlist og blús hafa margt sameiginlegt, söngvarinn var aðal málið en fyrirkomulagið var miklu mikilvægara hjá sálartónlistinni. Suður-sálartónlist. Suður-sálartónlist er eftirnafn af klassískum hrynjandi og blús eins og hann var spilaður á 7. og og snemma á 8. áratugnum og er enn spilaður í dag, mest þó í Bandaríkjunum. Sálartónlist hefur sínar eigin stjörnur og eigin áhorfendur og sína smelli. Suður-sálartónlist rekur rætur sínar frá rokki, poppi og mörgum öðrum áhrifavöldum. Hún er ekki einfaldlega „blús“, sem er oft ruglað saman hana. Hann er mun dansminni og fær einstakan blæ, sem finnst ekki í öðrum stefnum. Oftast er það bara kallað R&B og nær langt í því unirflokki. „Suður“ þýðir ekki að tónlistin komi frá Suðurríkjunum, þó mest af henni komi þaðan. Það þýðir að það er líklegast til að vera vel metið og ná vinsældum þar, meðal annars í samfélagi svartra manna. Þeir kalla þetta suður-sálartónlist vegna þess að „suður“ er þar sem ástarlífið er, þar sem allt hefst, þangað má rekja allt upphafið. Suðrið er staðurinn sem gefur manni möguleika á að snerta líf fólks. Sömu sögu er að segja um Chicago Soul. Sálartónlist frá Detroit. Í Detroit blandaðist popp við sálartónlistina og hafði djúpan gospellblæ. Það var Motown sem kom út þá og byrjaði markaður sálartónlistar að blómstra. Margir af bestu söngröddum og textahöfundum tónlistarstefnunnar voru uppi á þeim tíma. En þessi undirflokkur var meira til að höfða til hvíta fólksins svo það voru grípandi lög og örlítil áhrif frá suður-sálartónlist. Einnig voru áhrif frá gospelltónlist þar sem það kemur aðaltexti og svo svörun. textarnir höfðuðu til unglinga, því oftast var fjallað um hverdagslíf þeirra. Motown var síðan uppgötvað af Berry Gordy Jr. sem var útgáfufyrirtæki. Það var staðsett í Detroit í Michigan þann 14. apríl 1960. Nafnið er tengt Detroit-stefnunni og þýðir það sama nema í öðrum orðum. Það voru bara svartir söngvarar sem fóru í samstarf við þau og allir í sálar-stefnunni. En fyrirtækið kom sér ekki framfæri fyrr en það náði fyrsta laginu á topplistann „Shop Around“ með Mable Jogn og Eddie Holland og Mary Wells. Fyrsta lagið var algjört stuð-lag „Money“ (1960) skrifað af Berry Gordy. Sálartónlist frá Memphis. Þessi flokkur er ekki það sama og suður-sálartónlist þótt margt sé mjög líkt þeim flokki. Sálartónlist frá Memphis hefur meiri stíll. En ólíkt annarri sálartónlist tengist hún ekki poppinu. En um leið er hún ljúf en ekki eins og létt önnur sálartónlist því hún hefur funky ívaf. Al Green er helsti söngvari þessa flokks. Hann var að störfum á sjöunda áratugnum og náði miklum vinsældum þá. Sálartónlist frá Chicago. Í Chicago var sálartónlist uppi á sitt besta á fimmta áratugnum og hún er mjög lík suðursálartónlist sem hafði mikið áhrif á gospell tónlistina. Það sem gerir þennan flokk einstakan er að það eru bjartari hljómar og „sætari“. Einsöngvarar fóru meira í poppið og höfðu sterkar raddir. Oft var sálartónlist frá Chicago kölluð „ljúf sál“. Áhrif. Þótt sálartónlist sé ekki nákvæmlega eins og hún var þegar hún kom fyrst út þá hefur hún sömu áhrif og áður. Því má þakka nokkrum söngvurum sem héldu henni uppi. Meðal annarra sem hafa verið undir áhrifum frá sömu stefnu má nefna: Whitney Houston, Anita Baker, Aretha Franklin. Þótt sálartónlist höfðaði mest til þeirra svörtu voru líka hvítir söngvarar undir áhrifum frá sálartónlist eins og má nefna Taylor Hicks, George Michael og Amy Winehouse. Nýja öldin. Sálartónlistin nú á dögum er bara popptónlist sem hefur sveiflur sálartónlistar og eitthvað frá gömlu árunum. Það er enginn svöngvari sem spilar bara sálartónlist en það eru margir sem eru undir áhrifum hennar og þróa hana áfram. Usher og Alicia Keys eru talin hafa mestu áhrif þeirra sem eru nú í bransanum en þau hafa afar frumleg viðhorf og eru ekki alveg undir steríutýpuformið. Sálartónlistar söngvarar þurfa verða að vera með mjög sterka rödd og geta náð þessum djúpum blæ í textunum sínum. Þrátt fyrr allar þær breytingar sem hafa verið gerðar er alltaf verk nýrrar kynslóðar að halda áfram með tónlistina og ekki láta hana deyja út. Sagt er að sálartónlist nú til dags sé sterkari núna en nokkru sinni áður. Kotra. Kotra er borðspil ætlað tveimur leikmönnum, þar sem hvor leikmaðurinn hreyfir litla kubba eftir teningskasti. Sá leikmaður sem nær öllum sínum kubbum af borðinu vinnur. Spilastokkur. Spilastokkur er safn 52 jafn stórra spjalda, sem kallast "spil" og sem auðveldlega komast fyrir í lófa manns. Hvert spil er merkt með sérstöku tákni öðru megin en er með sams konar bakhlið og hin spilin. Spilastokkur er notaður í ýmsum leikjum, sem einnig kallast "spil". Spilastokkurinn er uppruninn í Kína til forna og kom til Evrópu á seinni hluta 14. aldar. Háfleikur. Háfleikur er íþrótt sem leikin er með prikum með neti á endanum. Takmark leiksins er að fleygja gúmmíbolta í markið. Leikinn má leika innandyra sem og utandyra. Þegar leikurinn er leikinn utandyra er hann leikinn á grasvelli eða á gervigrasi. Háfleikur var sýningargrein á Ólympíuleikunum 1928, 1932 og 1948 en fullgild keppnisgrein á leikunum árið 1904 og 1908. Þjóðlagatónlist. Þjóðlagatónlist er tegund tónlistar sem hefur rætur í menningu og sögu þjóðar. Almenn skoðun á því hvað þjóðlagatónlist er hefur breyst mikið með tímanum. Í sinni ströngustu merkingu er þetta tónlist sem byggist upp á hefð, þá hefur hún verið samin og farið niður um kynslóðir. Efni laganna fór eftir því hvaðan þú komst, hverjar hefðirnar eru þar, siðirnir, sagan og þjóðfræðin. Stundum voru þetta lög um betra líf en þekktist þar sem þú bjóst og seinna bættist í efnislega hlutann að semja texta við lögin sem mótmæli. Einkenni. Það er ekki auðvelt að finna einkenni þjóðlaga og eru þau illa skiljanleg. Þegar lag er samið og flutt í fyrsta sinn er það verk þess flytjanda sem fór með það en um leið og aðrir læra það og syngja getur lagið endurmótast mikið. Það sem maður getur einkennt vel er þó söngstíllinn. Ameríski þjóðlagafræðimaðurinn Alan Lomax skipti stílnum niður í þrennt: evrasíska stílinn og gamla og nýja evrópska stílinn. Evrasíski stíllinn, sem fannst einkum í Suður-Evrópu og einnig í pörtum af Bretlandi & Írlandi, var spenntur og skreyttur stíll og byggðist langoftast í kringum einsöngva. Gamli evrópski stíllinn, sem hægt er að finna víða í Mið-, Vestur- og Norður-Evrópu, er mun rólegri en evrasíski stíllinn og er oft byggður upp í kringum hópsöngva þar sem raddirnar blandast vel saman. Nútíma evrópski stíllinn sem er aðallega að finna í Vestur-Evrópu er hægt að segja að sé blanda af þeim báðum. Hljóðfærin sem notuð voru í þjóðlagatónlist er hægt að skipta niður í fjóra flokka. Fyrsti hópurinn, sem samanstendur af afar einföldum hljóðfærum, þau eru til dæmis hristur, flautur með og án fingrahola, lauf, beinflautur og margt margt fleira. Annar hópurinn samanstendur af hljóðfærum sem voru tekin til Evrópu eða Ameríku frá óevrópskum menningarheimum og breyttust. Til dæmis banjóið og klukknaspilið frá Afríku. Þriðji hópurinn sýnir okkur hljóðfæri sem spruttu uppúr þorpsmenningum og gott dæmi um það er einskonar fiðla sem var búin til úr tréskó í Norðvestur-Þýskalandi. Fjórði og sennilega mikilvægasti hópurinn samanstendur af hljóðfærum frá vinsælum tónlistarstefnum eins og klassískri tónlist og popptónlist. Þeim hópi tilheyrir þá fiðlan, bassa víólan, klarínett, gítar og fleira. Uppruni. Það er erfitt að rekja uppruna þjóðlagatónlistarinnar vegna þess að alla tónlist, óháð stefnu hennar, er hægt að rekja aftur til þjóðlaga þar sem að þannig byrjaði þetta, og allt sem gerðist eftir hana er einfaldlega þróun út frá henni. Tónlistarmennirnir Louis Armstrong og Big Bill Broonzy hafa báðir sagt: "„All music is folk music. I ain‘t never heard a horse sing a song.“" Uppruni hennar leynist einhversstaðar í fortíðinni, en þróun hennar hefur verið mótuð af áhrifum frá mörgum menningarheimum út um allan heim, og þó svo að hver einasta menning hafi sína eigin gerð þjóðlagatónlistar, þá höfðu þau öll áhrif á það hvernig stefnan lítur út í dag. Ameríka. Þjóðlagatónlist reis mikið í Bandaríkjunum á árunum 1920-1940. Þetta voru erfiðir tímar. Kreppan stóð á, fólk átti í miklum erfiðleikum með að fá vinnu þar sem aðstæðurnar voru ásættanlegar og fleira eins og barnaþrælkunarlögin setti þungan brag á samfélagið. Þar kom þjóðlagatónlistin inn, þar sem fólk gat komið orði sínu fram með tónlistinni og mótmælt með henni. Vinnufólk og þjóðlagasöngvarar hópuðust í kirkjum og sölum og sungu þessi lög til að sýna fram á samstöðu og hjálpuðu hvort öðru á þessum erfiðu tímum. Joe Hill átti stóran þátt í þessum mótmælum. Hann fæddist 7. október 1879 og var aktívisti, textasmiður og meðlimur hóps iðnaðarverkamanna í heiminum(Industrial Workers of the World). Joe Hill samdi texta við gömul þjóðlög með tilliti til samfélagsins, kreppunnar og mótmælum. Þessi lög urðu að aðal mótmælasöngvum verkfallsfólks og mótmælenda. Hill var seinna fundinn sekur fyrir morð og var dæmdur til dauða, það er þó mikið efast um aðild hans að morðinu og því var eini raunverulegi glæpurinn hans að vera meðlimur IWW. Fall hlutabréfamarkaðsins og erfiðir tímar sem fylgdu sáu uppsprettu söngvara á borð við Woody Guthrie, Jimmie Rodgers og Pete Seger sem einnig, eins og Hill, notuðu þjóðlagatónlistina sem mótmæli fyrir almenning. Næstu stóru öldurnar í tónlistinni voru svipaðar en þar má telja baráttu borgaralegra réttinda, mótmæli á inngöngu Bandaríkjanna í Víetnam stríðið og stríðið í Mið-Austurlöndunum. Fimmti, sjötti og sjöundi áratugurinn var mikil sundlaug stórkostlegra listamanna. Þar má nefna menn eins og Joan Baez, Bob Dylan, Phil Ochs, Tim Buckley, Bill Spence og Tom Baxton, sem allir fetuðu einnig í þau fótspor að skrifa mótmælitexta við lögin sín. Bob dylan var sennilega áhrifamesti tónlistarmaður stefnunnar og átti mestallan þátt í því að koma tónlistinni á framfæri almennings með því að fá mikla útvarpsspilun og um miðjan sjöunda áratuginn var stefnan orðin það vinsæl að þættir tileinkaðir henni voru sýndir í sjónvarpi víða, og það ýtti verulega undir aðdáendahóp tónlistarinnar. Kanada. Á meðan þjóðlagatónlistin blómstraði og óx í Bandaríkjunum gerði hún það sama í Kanada. Þaðan spruttu upp tónlistarmenn eins og Gordon Lightfoot, Leonard Cohen, Joni Mitchell og margir fleiri. Bretland. Þjóðlagatónlist í Englandi á sér langa sögu, og mörg einstök svæði í landinu eiga þeirra eigin hefðbundna þjóðlagastíl og hefðir sem hafa lifað í gegnum árin, þó svo að þeirra stíll sé ekki þekktur eða vinsæll utan þess svæðis. Við upphaf tuttugustu aldar var þjóðlagatónlist í Bretlandi uppfull af léttum klassískum listamönnum, sem fengu sínar vinsældir með uppgötvun útvarpsins. Eftir seinni heimsstyrjöldina breyttist þetta þó. Rómantískari stíll tónlistarinnar varð mjög vinsæll. Á sjöunda áratugnum varð til svokallað „electric folk“ í stefnunni þar sem fólk notaðist við hljóðfæri eins og rafmagnsgítarinn við tónlistina. Þessi undirstefna og pólitískur aktívismi í þjóðlagatónlist olli uppnámi í Bretlandi. Hinsvegar dofnuðu vinsældir stefnunnar ekki heldur, þvert á móti hækkuðu vinsældirnar jafnt og þétt upp að fyrri hluta áttunda áratugsins, þegar aðrar stefnur urðu gífurlega vinsælar, eins og diskó. Á níunda áratugnum endurvöktust vinsældir í tónlistinni sem samanstóð af pönk rokki og pólitískum mótmælum. Þessi gerð stefnunnar nýtur enn þann dag í dag mikillar vinsældar en þó ekki nærri eins mikillar og á sjötta og sjöunda áratuginum. Bob Dylan. Bob Dylan fæddist 24. maí 1941 í Duluth, Minnesota. Hann er amerískur söngvari, lagasmiður, höfundur, ljóðskáld og málari, og verið stór goðsögn í tónlistarsögunni í um fimm áratugi. Hans vinsælustu lög eru allt frá sjöunda áratugnum. Mörg af hans lögum eins og til dæmis "„Blowin‘ in the Wind“" og "„The Times They are a-Changin“" urðu að þjóðsöngvum hreyfinga borgaralegs réttar. Politík, samfélagið, heimspeki og bókmenntir eru helstu áhrifavaldar texta hans, sérstaklega á fyrri árum. Honum hefur mikið verið verðlaunað fyrir skrif sín og söng, og hann hefur fengið bæði Grammy, Golden Globe og Academy Awards verðlaun Bob Dylan er enn í dag að láta til sín taka en platan hans „Modern Times“, sem kom út 9. ágúst 2006, komst í fyrsta sæti á Ameríska plötulistanum og var valin plata ársins af Rolling Stone. Ani Difranco. Ani Difranco fæddist 23. september 1970. Hún er þekkt fyrir að vera mjög hugmyndaríkur listamaður, en hún hefur gefið út yfir tuttugu plötur, og er hún einnig víða þekkt sem feminísk táknmynd. Hún fékk mikil lof frá helstu tónlistartímaritum eftir að hún sagði við öll útgáfufyrirtæki að hún skildi gefa út tónlistina sína á hennar eigin fórsemdum, en ekki að gera þetta að einhverri merkjavöru. "Rolling Stone" kallaði hana "„fiercely independent“" All music guide sagði hana vera "„inspirational“" og "The New York Times" kallaði hana "„the ultimate do it yourself songwriter“". Woody Guthrie. Woody Guthrie fæddist 14. júlí árið 1912 í Okemah, Oklahoma. Faðir hans kenndi vestræn lög, indverska söngva og skoska þjóðlagatónlist og hafði mikil áhrif á Woody. Hann átti erfitt fjölskyldulíf og æsku í Oklahoma þar sem eldri systir hans dó af slysförum, fjölskyldan lenti í miklum efnahagsvandræðum og seinna missti hann móður sína, sem einnig hafði gífurleg áhrif á hann. Guthrie einblíndi á tónlist sem talaði fyrir þá sem minna máttu sín og þá sem áttu í erfiðleikum á þessum erfiðu tímum. Meðal hans frægustu lögum eru "„I Ain‘t got No home“, „Goin‘ Djown the Road Feelin‘ Bad“, Talking Dust Bowl Blues“" og fleira. Í seinni hluta fimmta áratugs var hann greindur með mjög sjaldgæfan taugasjúkdóm, „Huntington‘s Chorea“, hrörnunarsjúkdómur sem myndi á endanum ræna hann mættinum og heilsunni. Vegna sjúikdómsins var framkoma hans bæði á sviði og af því mjög ofbeldisfull og óreiðumikil, sem myndaði streitu í hans einka-og atvinnulífi. Síva. Síva (framburður:; Sanskrít: शिव) er einn af höfuðgoðum hindúisma. Síva er álitinn æðsta goðið innan shaívisma, en í öðrum hlutum hindúisma er hann talinn eitt af hinum fimm holdgervingum hins guðlega. Hitasótt. Hitasótt (sótthiti, seyðingshiti eða ólgusótt) (fræðiheiti: "febris") er ótilgreind veiki með háum hita (sjúkdómshita). Hitasótt kemur til vegna þess að líkaminn er sýktur og er að reyna vinna bug á sýkingu. Líkamshiti telst vera hitasótt þegar líkamshitinn fer upp fyrir 38 gráður á Celsíus. Hitasótt var áður fyrr nefnd riðusótt. Háþrýstingur. Háþrýstingur er það kallað þegar blóðþrýstingurinn fer yfir 130 mmHg. Sojamjólk. a> sojamjólk í dós og glasi. Sojamjólk er drykkur sem unninn úr sojabaunum og á uppruna sinn að rekja til Kína. Tófu er framleitt úr sojamjólk hliðstætt og ostur er framleiddur úr mjólk. Kúrkúma. Kúrkúma, túrmerik eða gullinrót er planta af engifersætt sem vex á Indlandi og víðar. Kúrkúma er austurlenskt krydd með sterkum gulum lit. Kúrkúma eða gurkemeje er í raun jarðstöngul plöntu (Curcumea longa). Hún er beisk á bragðið; líkist engiferplöntu en er með lengri blöðum; rótarstilkar þeirra eru notaðir og unnið er úr þeim litarduft sem er notað í karrí og fleiri kryddblöndur, t.d. í paprikuduft til að gefa lit. Kryddið, sem hefur verið ræktað í a.m.k tvö þúsund ár í Asíu, er þurrkað og malað og notað í karríblöndur og marga indverska og norður-afríska rétti og gefur þeim sterkan lit. Hins vegar þarf að gæta að það bletti ekki fatnað. Stundum er túrmerik, sem er eitthvert ódýrasta krydd í heimi, notað í staðinn fyrir saffran, sem er hið dýrasta, enda er ilmurinn svipaður, en bragðið er allt annað og í mörgum tilvikum er alls ekki hægt að nota túrmerik, einkum þar sem bragðið á að vera milt og fíngert. Túrmerik er nær alltaf selt sem duft, enda erfitt að mala það heima. Það geymist ekki sérlega vel malað, þ.e ekki hvað bragðgæði varðar, en litunareiginleikunum heldur það mjög vel; hins vegar er lítil hætta á að það sé svikið þar sem það er svo ódýrt. Kryddið er ekki aðeins notað í mat, heldur einnig til að lita vefnað, þótt tilbúin litarefni hafi að mestu komið í stað þess á síðari árum. Túrmerik og þar með einnig karrí er mjög viðkvæmt fyrir sólarljósi og því ætti að geyma það á dimmum stað. Mykjuflugur. Mykjuflugur (skítflugur eða skarnflugur) (fræðiheiti: "Scathophagidae") er lítil ætt flugna. Nafn þeirra er ekki réttnefni nema fyrir nokkrar tegundir ættarinnar, þekktust af þeim "S. stercoraria" sem er ein algengasta flugan á norðurhveli jarðar. Jói og risaferskjan (kvikmynd). "Jói og risaferskjan" (enska: "James and the Giant Peach") er bandarísk fantasí-ævintýra kvikmynd, sem Walt Disney Pictures frumsýndi þann 12. apríl 1996. Myndin er byggir á samnefndri skáldsögu eftir Roald Dahl. Kvikmyndin var leikstýrð var af Henry Selick. Framleiðandinn var Tim Burton. Handritshöfundar voru Steven Bloom, Karey Kirkpatrick og Jonathan Roberts. Tónlistin í myndinni er eftir Randy Newman. Rósakál. Rósakál (fræðiheiti: "Brassica oleracea") er kál af krossblómaætt.er ræktað til þess að nytja brumknappana (oft 2.5 - 4cm í þvermál) sem líkjast dvergvöxnu kálhöfði. Rósaká er hollustumatur og notað sem grænmeti með ýmsum réttum. Skott. Skott er aftasti hluti hryggdýrs og er í beinu framhaldi af rófubeini þess. Hundar, mýs, kettir og refir eru með skott. Dindill er stutt „skott“ sauðkinda eða sela. Tagl er stertur á hrossi með tilheyrandi hárskúf. Hali er „rófa“ einkum á nautgripum, einnig ösnum, músum, rottum og ljónum o.fl. Stél er afturhluti fugls. Fiskar eru með sporð. Rósmarín. Rósmarín, sædögg eða stranddögg (fræðiheiti: "Rosmarinus officinalis") er ilmandi sígrænn runni af varablómaætt sem vex víða við Miðjarðarhaf og eru blöðin notuð sem krydd, fersk eða þurrkuð. Hreinsun. Hreinsun í iðnaði er það ferli að fjarlægja óæskileg aukaefni úr tilteknu efni til þess að gera það hæfara til að gegna hlutverki sínu. Oft felst þetta í því að búa til nýtanlega afurð úr hrárri náttúruauðlind. Til dæmis má nefna hráolíu, hún er yfirleitt brennanleg beint úr jörðinni en brennur illa og skilur eftir skít og aukaefni sem stíflar vélar. Með hreinsun í olíuhreinsunarstöð er hægt að breyta hráolíunni í afurðir á borð við bensín eða díselolíu sem henta betur. Hreinsun fer gjarnan fram með eimingu eða með hjálp leysiefna. Nástaða. Nástaða er það þegar sömu orðin (eða samskonar orðhlutar) standa þétt saman í texta og virka sem "ofklifun". Endurtekningar í texta geta verið stílbragð, en oftast er nástaða lýti á texta. Hægt er að forðast nástöðuna, t.d. með skipulagðri notkun fornafna og samheita. Höfuðstóll. Höfuðstóll er fjárhæð láns eða kröfu sem vextir eru reiknaðir af ef einhverjir eru. Höfuðstóll er yfirleitt greiddur til baka með afborgunum yfir skilgreindan tíma (sjá þó kúlulán). Ef lán eru verðtryggð breytist höfuðstóllinn í samræmi við almennar verðbreytingar (hækkar með verðbólgu) eins og þær eru mældar með vísitölu. Hrossagaukur. Hrossagaukur(eða mýrarskítur, mýrifugl, mýriskítur, mýrisnípa, mýrispói eða mýrispýta) (fræðiheiti: "Gallinago gallinago") er fugl af snípuætt. Heimkynni hrossagauksins eru mýrar, fen, túndrur og votir hagar á Íslandi, Færeyjum, norður-Evrópu og Rússlandi. Hrossagaukurinn gerir hreiður sitt á huldum stað á jörðinni. Hrossagaukurinn er mósvartur ofan með ryðlitum langröndum, grár á bringu og ljós á kviði, goggurinn langur og þykkri í endann. Hrossagaukurinn "„hneggjar“", en hljóðið myndast milli stélfjaðra fuglsins á flugi, og myndast þegar fuglinn tekur dýfur í loftinu. Um hneggið. Skömmu eftir aldamótin 1800 hófst deila á Íslandi um það hvernig hrossagaukurinn hneggjaði. Fram til þess tíma héldu menn að hneggið væri raddhljóð. En þá komu þýskir vísindamenn fram með þá kenningu að hrossagaukurinn hneggi með flugfjöðrunum. Þessari kenningu var síðan hrundið þegar færðar voru sönnur á að gaukurinn hneggjaði með stélfjöðrunum, þ.e. að loftstraumur lendi á milli stélfjaðra og þannig myndist hljóðið. Snípur. Snípur er lítill sepi sem er hluti kynfæra kvenkyns spendýra. Strætisvagnar Akureyrar. Strætisvagnar Akureyrar er fyrirtæki sem sér um almenningssamgöngur á Akureyri fyrir hönd Akureyrarbæjar. Frá og með 2007 voru ferðir með vögnunum gerðar gjaldfrjálsar. Í frétt á mbl.is kemur fram að farþegum hafi fjölgað um rúm 60% eftir þetta, eða úr 640 í þriðju viku ársins 2006 í að meðaltali 1020 um sama leiti 2007. Holtavörðuheiði. Holtavörðuheiði er heiði á norð-vesturlandi Íslands og samnefndur fjallvegur, sem fer yfir hana þvera, og nær heiðin frá Borgarfirði yfir í Hrútafjörð. Heiðin er ásamt Vatnsskarði og Öxnadalsheiði stór heiði á þjóðvegi 1 á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Efsti bær í Norðurárdal sunnan undir heiðinni var Fornihvammur, þar var gisti- og veitingastaður um skeið. En efsti bær að norðanverðu er Grænumýrartunga sem nú er í eyði. Geirólfsgnúpur. Geirólfsgnúpur er nyrsti hluti Strandasýslu Geirólfsgnúpur er fjall (433 m) sem gengur fram í sjó á milli í og Sigluvíkur sunnan Reykjafjarðar. Milli þessara víkna er svo lágur háls á bak við fjallið sem nefnist ýmist Sigluvíkurháls (um 210 m) eða Skjaldarvíkurháls. Úr þessu skarði er kjörið að ganga á Geirólfsgnúp. Fegursta útsýni er allt norður til Hornbjargs og suður til Drangaskarða. Í Landnámu er sagt frá því að Geirólfur landnámsmaður hafi brotið skip sitt undir núpnum og sest þar að. Yst á nesoddanum er drangur sem kallaður er Biskup og áður fyrr var talað um að fara fyrir Biskup þegar siglt var fyrir núpinn. Neðan hans er sker sem líkist helst atgeir og hefur því verið nefnt Geirhólmi. Þar eru merki milli Ísafjarðarsýslna og Strandasýslu. Ingólfsfjörður. Ingólfsfjörður er u.þ.b. 8 km langur og 1,5 km breiður fjörður á Ströndum. Fjörðurinn er á milli nesjanna Munaðarness sem er sunnan við hann og aðskilur hann frá Norðurfirði, og Seljaness sem er norðan fjarðarins og aðskilur hann frá Ófeigsfirði. Ingólfsfjörður er langur og brattar hlíðar á báða vegu. Samkvæmt Landnámabók er fjörðurinn kenndur við sinn fyrsta ábúanda, Ingólf Herröðarson. Bræður hans, Eyvindur og Ófeigur, námu nálæga firði. Faðir þeirra, Herröður hvítaský, var líflátinn að skipan Haraldar konungs. Álöf dóttir Ingólfs var gift Eiríki snöru sem nam land frá Ingólfsfirði til Veiðileysu en bjó í Trékyllisvík. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók brutu Austmenn skip sitt þar en gerðu úr hræinu nýtt skip er kallað var Trékyllir og á víkin að draga nafn af því. Eggert Ólafsson segir frá því í Ferðabók sinni að þegar hann kom í Ingólfsfjörð hafi íbúarnir orðið hræddir og hlaupið burtu en bóndinn hafði þá ekki í 16 ár farið í kaupstað en fengið járn og aðra nauðsynjavöru úr Trékyllisvík. Ófeigsfjörður. Ófeigsfjörður er fjörður í Strandasýslu, á milli Ingólfsfjarðar að sunnan og Eyvindarfjarðar að norðan. Fjörðurinn er kenndur við Ófeig Herröðarson landnámsmann, bróður Eyvindar og Ingólfs, sona Herröðar hvítaskýs. Fjörðurinn er nú í eyði og er þar einungis sumarábúð afkomenda Ófeigsfjarðarbænda en húsum er haldið vel við á staðnum. Í firðinum endar vegurinn norður Strandir en úr Ingólfsfirði er þó einungis sumarslóði og þarf að sæta sjávarföllum til að aka hann. Um fjörðinn liggur hin vinsæla gönguleið um Hornstrandir. Tvær stórar ár renna í fjörðinn en það eru Húsá og Hvalá. Til stendur að virkja Hvalá en hún er mesta vatnsfall Vestfjarða. Í Hvalá er Hvalárfoss sem er slæðufoss og einn af fallegri fossum á Vestfjörðum. Það eru fremur fáir sem hafa séð fossinn þar sem vegurinn endar á hlaðinu á bænum í Ófeigsfirði. Það mun vera hægt að aka yfir Húsá á vaði og fara eftir slóða út ströndina að Hvalárfossi. Ekki er þó ráðlegt að fara þetta einbíla. Í Húsá er einnig slæðufoss sem sést vel af sjó af Húnaflóa og var fossinn fyrrum notaður sem mið af sjófarendum. Norðurfjörður. Norðurfjörður er fjörður á Ströndum sem er norðan við Trékyllisvík en sunnan við Ingólfsfjörð. Á nyrðri strönd fjarðarins er Krossnes og þar er heit sundlaug í flæðarmálinu. Í Norðurfirði eru flest hús komin í eyði en eitthvað er um sumarhús á svæðinu og er rekin lítil verslun á sumrin fyrir þessa byggð. Úr firðinum liggur akvegur til norðvesturs í gegnum Meladal yfir í Ingólfsfjörð en þaðan liggur slóði yfir í Ófeigsfjörð. Er sá vegur einungis jeppafær enda að miklu leyti keyrt í fjörunni. Í Norðurfirði rekur Ferðafélag Íslands skála að Valgeirsstöðum. Þar eru skálaverðir á sumrin til að þjónusta ferðamenn. Sumarið 2010 hóf Urðartindur ehf. að bjóða upp á gistingu í tveimur smáhýsum auk tjaldsvæðis. Sumarið 2012 var hlöðunni í Norðurfirði breytt þar sem á efri hæðinni eru fjögur tveggja manna herbergi og á neðri hæðinni góð aðstaða fyrir tjaldgesti og annað ferðafólk, með salerni og sætum fyrir allt að 80 manns. Yfir Norðurfirði rísa Kálfatindar (646m) og Krossnesfjall. Þinghúsið í Berlín. Þinghúsið í Berlín var byggt á árunum 1884-1894 undir þingmenn keisaratímans, en hýsir nú sameinað þing Þýskalands. Þegar húsið var byggt réð heimsvaldastefna keisaratímabilsins í Þýskalandi. Henni fylgdi síðan heimsstyrjöld, og síðan uppreisn. Þýsku lýðveldi, oftast kennt við borgina Weimar, var lýst yfir í þinghúsinu 1918 en fór út um þúfur fimmtán árum seinna þegar Adolf Hitler komst til valda. Nasistatímanum lauk þegar Sovétmenn drógu rauða fánann að húni á rústum þinghússins í lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Bonn var frá endalokum seinna stríðs höfuðborg Vestur-Þýskalands og þar hafði þing og ríkisstjórn aðsetur eftir sameiningu þýsku ríkjanna. Það var hins vegar á tröppum þinghússins í Berlín sem sameiningu þjóðverja í eina þjóð á nýjan leik var lýst yfir 3. október 1990. Lyfjaofgjöf. Lyfjaofjöf er hugtak notað um það þegar sjúklingur er á of mörgum lyfjum í einu eða ef fleiri lyf eru notuð heldur en þörf er á. Ekki má rugla hugtakinu saman við fjöllyfjameðferð, en undir sumum kringumstæðum eins og í lyfjameðferð við alnæmi þarf að nota fleiri lyf en í hefðbundinni lyfjameðferð. Lyfjaofgjöf veldur hærri kostnaði og sjúklingurinn þarf að glíma við fleiri aukaverkanir heldur en ella. Lyfjaofgjöf er algengust meðal eldri borgara. Aukaverkanir og víxlverkanir. Öll lyf hafa mögulegar aukaverkanir þannig að með hverju lyfi sem sjúklingur er látinn taka aukalega eykst hættan á aukaverkunum. Mörg lyf hafa geta einnig haft víxlerkanir þegar þau eru notuð ásamt öðrum lyfjum. Þannig að þegar nýju lyfi er bætt við lyfjakúr þá eykst hættan á víxlverkunum veldisvaxandi. Læknar og lyfjafræðingar reyna að forðast það að skrifa upp á lyf sem hafa víxlverkandi áhrif. Casablanca. Casablanca (spænska sem þýðir "hvíta húsið"; arabíska: الدار البيضاء) er borg í vesturhluta Marokkó sem stendur við Atlantshafið. Einum kennt - öðrum bent. Einum kennt – öðrum bent er stutt ritgerð eftir Þórberg Þórðarson og var fyrst prentuð í tímritinu Helgafelli árið 1944. Hún var síðan endurprentuð í Ritgerðir 1924-1959 og aftur í bókinni Einum kennt – öðrum bent (tuttugu ritgerðir og bréf 1925-1970) sem Mál og menning gaf út árið 1971. íslensku. Með þessari bók breytti Þórbergur að mörgu leyti íslenskri fagurfræði á stíl. Inngangur. "Einum kennt - öðrum bent" er ritgerð sem skrifuð er sem nokkurskonar kennslurit fyrir rithöfunda og alla sem skrifa íslenskt mál. Megintilgangur hennar var sá að leiðbeina Íslendingum að bæta ritstíl sinn og auka skipulag og vandvirkni við ritun hugverka sinna. Í bókinni koma fyrir hugtök sem eru notuð enn þann dag í dag þegar kenndur er íslenskur stíll. Þau eru: skalli, uppskafning, lágkúra (og "lágkúra og uppskafning") og ruglandi. Þau eru rædd hér fyrir neðan. Þórbergur gerir því ekki lítið úr Hornstrendingabók, heldur er með þessu riti að sýna fram á að allir geti gert betur, jafnvel þeir sem telja sig vera vel ritfæra, og hefur þar einnig sjálfan sig í huga - eins og fram kemur í lokaorðum ritgerðarinnar. Skallar. Skalla í ritum telur Þórbergur vera slæm vinnubrögð, skort á nákvæmni og skilningi. Hann segir það ærinn ljóð á slíku riti, „þóað það sé ekki hugsað sem héraðssaga, að þar er mjög fáum verkefnum gerð svo greinileg skil, að ekki þyrfti að vinna þau upp að nýju, ef skrifuð yrði saga Hornstranda eða Norður-Ísafjarðarsýslu. Víða stafa þessir skallar í frásögninni ekki af sniði bókarinnar, því síður heimildarþurrð, heldur af skorti höfundarins á nákvæmni og skilningi á verki því, sem hann hefur tekizt á hendur.“ Uppskafning. Uppskafning telur Þórbergur vera það einkenni höfunda að hafa tekið inn á sig vissa tegund módernisma (hinna síðustu ára). „Þessa tegund „módernismanna“, sem orðið hefur höfundi Hornstrendingabókar að fótakefli, hef ég kallað "uppskafningu". Það er kvenkynsorð og beygist eins og kerling. Uppskafning getur birzt í ýmiskonar myndum. Þingeyska uppskafningin, sem er að mestu af þjóðlegum rótum runnin (er þó kannski að einhverju leyti áhrif frá norsku), er t.d. mjög ólík þeirri uppskafningu, er hér um ræðir og er úr útlendum toga spunnin. En einkenni allrar uppskafningar í rithætti er hofróðulegt tildur og tilgerð, skrúf og skrumskælingar, í hugsun, orðavali og samtengingu orða.“ Dæmi um uppskafningu. Þórbergur gerir síðan nokkuð veður út af óþarfa tepruskap í orðanoktun, og þar á meðal orðið tjáning, sem hann segir að Guðmundur Kamban hafi innleitt. Hann nefnir líka orðið "fjarrænn" (sem þá var farið að nota yfir rómantík) og leggur ríka áherslu á að menn ofnoti ekki eða noti orð og orðasambönd í röngum eða afkáralegum merkingum. Lágkúra. (Hafa ber í huga hér að Þórbergur er að tala um samtíma sinn, en hver nútími á sínar tuggur sem ber að varast, eða nota með nýjum hætti). Þórbergur nefnir þó að lágkúruna megi nota sem stílbragð eða listbragði eins og hann nefnir það. Lágkúra og uppskafning. Í Hornstrendingabók gerist allvíða þau fyrirbæri, að lágkúra og uppskafning líkamnast í sama orði eða sömu klausu, málsgrein eða setningu. Slíkur skapnaður er ekki sérlega densilegur á að líta. Í dæmunum hér á eftir er lágkúran einkennd með "skáletri", uppskafningin með breiðletri og lágkúra og uppskafning í sama orði með UPPHAFSSTÖFUM. Ruglandi. Ruglandin lýsir sér í margskonar veikleika eða blindu í hugsun, svosem ósönnum staðhæfingum, gölluðum skilgreiningum, bágbornum röksemdaleiðslum, kjánalegum skoðunum, röngum frásögnum o.s.frv., o.s.frv. Það er kvenkynsorð og beygingarlaust eins og hrynjandi og verðandi. Allir þeir, sem ritað mál lesa með svolítilli íhugun, munu hafa veitt því undri athygli, að stundum er sem ský eður myrkva dragi alltíeinu fyrir vitsmuni höfunda, svoað líkja mætti hugsanagangi þeirra við rugl í manni, sem hlotið hefur skyndilega blæðingu á heilann. Orsakir þessara sálarformyrkvana geta verið margvíslegar. Þartil má nefna vanþekkingu og einnig þá tegund vitsmunaskorts, sem kalla mætti "skynsemisheimsku". Niðurlag. Þórbergur nefnir einnig í lokin stílgerð höfunda og segir: "Ég er þeirrar skoðunar í dag einsog fyrir tuttugu árum, að mál og stíll þarfnist uppyngingaraðgerðar öðruhverju, til þess að hið ritaða orð staðni ekki og kalkist. [..] En við slíkar tilraunir ættu þeir jafnframt að kosta kapps um að beita „skynsamlegu viti“ og smekkvísi og ástunda að gera sér þess glöggva grein, hvort hin nýja sköpun hefur tekist sæmilega, eða hvort hún hefur farið í handaskolum, og kasta henni þá fyrir borð sem misheppnuðu og gagnslausu verki. Ekkert er rithöfundi hættulegra en forherðing gegn staðreyndum. Hún er frysting sálarlífsins og upphaf hins andlega dauða." Eyvindarfjörður. Eyvindarjörður er lítill fjörður á Ströndum sem liggur á milli Ófeigsfjarðar fyrir sunnan og Drangavíkur fyrir norðan. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók er fjörðurinn kenndur við landnámsmanninn Eyvind Herröðarson, en bræður hans, Ingólfur og Ófeigur, námu land í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Einn bær var áður í firðinum eða við mynni hans, undir Drangavíkurfjalli, en hann er löngu farinn í eyði. Í fjörðinn fellur Eyvindarfjarðará og er göngubrú yfir hana. Árið 1787 strandaði verslunarskipið Fortuna rétt fyrir utan fjörðinn og fórst öll áhöfnin. Af því strandi urðu allmikil eftirmál því ýmsum varningi af skipinu skolaði á land og átti Halldór Jakobsson, sýslumaður Strandamanna, að hafa umsjón með björgun þess og sölu en svo vildi til að á meðal strandgóssins var töluvert af brennivíni og urðu björgunarmenn fljótt ölvaðir og sýslumaður ofurölvi. Sumt af því sem bjargaðist grotnaði niður en annað hirti Halldór sýslumaður sjálfur eða seldi á óauglýstu uppboði á strandstað á lágu verði. Honum var síðar vikið úr embætti vegna þessa máls. Drangavík. Drangavík er lítill fjörður norðan við Eyvindarfjörð og sunnan við Bjarnafjörð. Þar var áður búið og lagðist eina býlið þar í eyði árið 1947 en bæjarhús standa þar ennþá en eru að hruni komin. Við austanverða víkina standa hin margfrægu Drangaskörð í sjó fram. Opinn aðgangur. Opinn aðgangur er opinn, ókeypis aðgangur á netinu að heildartexta vísindagreina og námsbóka. Aðallega er talað um opinn aðgang í tengslum við útgáfu ritrýndra vísindagreina. Grein sem gefin er út í opnum aðgangi hefur sérstakan fyrirvara þar sem hver sem er, hvar sem er í heiminum, fær leyfi til að lesa greinina, afrita hana og dreifa henni. Opinn aðgangur er opinber stefna kennara og starfsmanna þekktra menntastofnana eins og Harvardháskóla og MIT. Ein af röksemdum að baki opins aðgangs fyrir opinberar menntastofnanir er að rekstur þeirra sé greiddur af skattfé almennra borgara því sé eðlilegt að aðgangur sé opinn. Samtök tækniháskóla í Finnlandi hafa mótað með sér stefnu um opinn aðgang að öllum lokaritgerðum nema og rannsóknum starfsmanna. John Houghton prófessor við Victoriaháskóla í Ástralíu komst að þeirri niðurstöðu í rannsókn sinni að það væri hagkvæmt að auka opinn aðgang að vísindagreinum. Árið 2010 opnaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samvinnu við fjölda evrópskra háskóla varðveislusafnið OpenAIRE. Til eru tvær meginleiðir að opnum aðgangi: safnvistun og opin útgáfa. Helsti munurinn á opinni útgáfu og eigin safnvistun er að í opinni útgáfu eru greinarnar oftast ritrýndar. Safnvistun. Eigin safnvistun (einnig kölluð „græna leiðin“) felur í sér að höfundur gerir efni sitt aðgengilegt á netinu, venjulega með því að koma því fyrir á varðveislusafni tiltekinnar stofnunar, eins og t.d. háskólabókasafni, eða með því að senda hana í miðlægt varðveislusafn á viðkomandi sviði, t.d. PubMed fyrir greinar í læknisfræði eða arXiv fyrir eðlisfræði, burt séð frá því hvort hann gefur grein sína út í hefðbundnu tímariti eða ekki. Í slíkum söfnum er oft að finna fjölbreytt efni, drög að vísindagreinum, kennsluefni, gögn í gagnagrunnum eða á skrám, og jafnvel hljóð eða myndbandsskrár. Opin útgáfa. Opin útgáfa (einnig kölluð „gullna leiðin“) felur í sér að höfundur gefur greinina út í tímariti í opnum aðgangi sem gerir allar greinar sem það gefur út strax aðgengilegar í opnum aðgangi á netinu. Um 10% af þeim 25.000 ritrýndu tímaritum sem þekkt eru eru gefin út í opnum aðgangi. Af þeim 10.000 ritrýndu tímaritum sem eru í skrá EPrints yfir útgáfustefnu tímarita eru 90% fylgjandi safnvistun í varðveislusöfnum. 62% styðja safnvistun á ritrýndu eintaki (eftir prentun) en 29% styðja safnvistun fyrir prentun. Í rannsókn sem gerð var árið 2009 var áætlað að 20,4% af ritrýndum fræðigreinum væru í opnum aðgangi. Opinn aðgangur á Íslandi. Frá árinu 2006 hefur Háskólinn á Akureyri gefið út veftímaritið "Nordicum-Mediterraneum" í opnum aðgangi. Ári seinna hóf Háskólinn á Bifröst að gefa út "Bifröst Journal of Social Science" á ensku. Í stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2011-2016 kemur fram að móta eigi stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum. Skemman.is er rafrænt varðveislusafn Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Listaháskóla Íslands sem geymir lokaverkefni nemenda og rannsóknarrit kennara og fræðimanna. Sumt af því efni er í opnum aðgangi en Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn sem rekur vefinn styður opinn aðgang. Dopplerhrif. Dopplerhrif eða Dopplerfærsla er breyting á tíðni og bylgjulengd hljóð- eða ljósgjafa á hreyfingu, eins og þau eru numin af athuganda. Nota má dopplerhrif til að reikna út hraða þess sem nálgast eða fjarlægist athuganda. Dopplerhrif eru nefnd í höfuðið á Christian Doppler. Gljúfurárjökull. Gljúfurárjökull í botni Gljúfurárdals, Heiðinnamannafjall t.v., Almenningsfjall t.h. Í forgrunni er hópur gangnamanna í Sveinsstaðaafrétt á leið til smölunar. Gljúfurárjökull er einn af fjölmörgum daljöklum á Tröllaskaga. Hann blasir við frá Dalvík og úr Svarfaðardal og virðist vera fyrir botni Skíðadals. Svo er þó ekki heldur er hann í botni lítils afdals sem Gljúfurárdalur heitir. Eftir honum fellur lítil jökulá, Gljúfurá, í djúpu klettagili til Skíðadalsár. Gljúfurárjökull er um 3 km2 að flatarmáli. Fyrir miðjum jöklinum er hár klettahnjúkur sem Blekkill nefnist og er um 1240 m hár. Vestan við hann er Almenningsfjall, sem er upp undir 1400 m hátt, en Heiðinnamannafjall liggur að honum að austan. Skriðjökulstunga gengur frá safnsvæði jökulsins við Blekkilinn og niður í dalbotninn. Þar eru miklar jökulurðir og jökulgarðar sem bera vitni um stærð jökulsins á umliðnum öldum. Um aldamótin 1900 virðist hann hafa náð mörg hundruð metrum lengra niður í dalinn en hann gerir nú. Gljúfurárjökull hefur talsvert verið rannsakaður og hefur verið vinsæll viðkomustaður hjá breskum námsmannaleiðöngrum en þar hafa stúdentar í náttúrufræðum öðlast reynslu í útilífi og rannsóknum. Á Íslandi hófust jöklamælingar upp úr 1930. Ýmsir jöklar hafa verið mældir reglulega síðan en aðrir óreglulega. Fyrsta mæling á Gljúfurárjökli var gerð 1939. Reglulegar mælingar hófust síðan 1952. Mælingar sýna að frá 1939 til 1977 hopaði Gljúfurárjökull ár frá ári með þeirri einu undantekningu að á hafísárunum 1969 og 1970 gekk hann fram um örfáa metra. Árið 1977 hafði hann hopað rúma 400 m en þá snérist þróunin við og jökullinn tók að ganga fram á ný. Upp úr 1990 hafði jökultungan lengst um 150 m en þá hófst nýtt hörfunarskeið sem hefur staðið óslitið síðan. Þetta er mjög í samræmi við það sem hefur verið að gerast við sambærilega jökla annars staðar á landinu. Únítarismi. Únítarismi er sú trú að persónuleiki Guðs sé einfaldur en ekki þrefaldur eins og kenningin um heilaga þrenningu gerir ráð fyrir. Únítarar líta á trú sína sem hina upprunalegu kristni. Þeir líta á Jesús sem spámann fremur en holdgerving Guðs á jörðu en trúa þó á kenningar hans eins og aðrir kristnir. Bæði í manntalinu 1880 og 1901 eru únítarar fjölmennasti trúflokkurinn utan Þjóðkirkjunnar. Matthías Jochumsson var hallur undir únítarisma. Karrí. Karrí sem er ómissandi í marga austurlenska rétti. Karrí er kryddblanda. Velnjulega inniheldur (gult) karrí meðal annars kúrkúma (sem gefur gula litinn), pipar, hvítlauk, engifer og kóríander. Karrí er indversk kryddblanda sem löguð er heima og þá hver með eigin samsetningu. Karrí í matargerð. Karrí er almennt hugtak sem hinn vestræni heimur notar um fjölda rétta sem koma upprunalega frá Indlandi, Pakistan, Bangladesh, Shri Lanka, Tælandi eða úr matarhefðum annarra suðaustur-asískra þjóða. Það sem einkennir allt karrí er samansafn hinna ýmsu kryddjurta en yfirleitt inniheldur það ferskan eða þurrkaðan chili eða cayenne pipar. Í hinni upphaflegu hefðbundnu matargerð er nákvæmt val kryddjurta hvers réttar spurning um þjóðbundna, svæðabundna eða trúarlega hefð og að einhverju leyti hvað tíðkast meðal fjölskyldna. Slíkir réttir eru kallaðir ákveðnum nöfnum sem gefa meðal annars innihald og eldunaraðferð þeirra til kynna. Samkvæmt hefðinni eru kryddin bæði notaðar heilar og malaðar, eldaðar og hráar, og þeim getur verið bætt út í á ólíkum tímum ferlisins til að ná fram mismunandi útkomu. Hið svo kallaða „karrí duft“ sem inniheldur tilbúna kryddblöndu er að stórum hluta til vestræn hugmynd sem nær allt aftur til 18. aldar. Almennt er talið að slíkar blöndur hafi upprunalega verið útbúnar af indverskum kaupmönnum til að selja meðlimum bresku nýlendu stjórnarinnar og herjum þeirra sem á leið aftur til Englands. Karrí réttir innahalda ýmist kjöt eða fisk annað hvort eitt og sér eða í bland við grænmeti. Einnig geta þeir verið grænmetisréttir sérstaklega meðal þeirra sem ekki borða kjöt eða sjávarfang af trúarlegum ástæðum. Karrí getur bæði verið „blautt“ eða „þurrt“. Blautt karrí inniheldur mikið magn af sósu sem er búin til úr jógúrt, kókosmjólk, legume purée(dal) eða krafti. Þurrt karrí er er eldað í mjög litlum vökva sem er látinn gufa upp og eftir sitja hin hráefnin umlukin kryddblöndunni. Sauðfjárbúskapur. Sauðfjárbúskapur er búskapur með sauðfé. Þjóðsaga. Þjóðsaga er saga sem á sér litla stoð í raunveruleikanum og hefur gengið frá manni til manns í langan tíma. Þjóðsögur eru oft sagðar vera sagnaefni milli manna, litaðar af aldarfari, þrám og ótta almennings og bera oftar en ekki keim af búháttum og málfari þess tíma og stundum einnig málsniði þess sem skráði þær. Villach. Villach er borg í Austurríki og jafnframt næststærsta borgin í sambandslandinu Kärnten. Lega og lýsing. Villach liggur við ána Drau við vesturbakka Ossiacher See nær syðst í Austurríki. Landamærin að Slóveníu eru 8 km suður af borginni. Hið þekkta stöðuvatn Wörthersee er aðeins 10 km til austurs. Næstu stærri borgir eru Klagenfurt til austurs (40 km), Ljubljana í Slóveníu til suðausturs (100 km) og Udine á Ítalíu til suðvesturs (120 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Villach sýnir svartan arnarfót sem hvílir á svörtum steini. Bakgrunnurinn er gulur. Ekki er vitað um tilurð merkisins, en það þykir líklegt að hér sé um aðalsmerki að ræða. Arnarfóturinn er sláandi líkur merki Finkenstein-ættarinnar sem bjó við Faaker See þar skammt frá. Elstu heimildir um merkið er á skjali frá 12. apríl 1240. Síðustu breytingar á því voru gerðar 1965. Orðsifjar. Villach er nefnd eftir italska mannanafninu Villaco. Á ítölsku heitir borgin Villaco. Á slóvensku heitir borgin hins vegar Beljak. Söguágrip. Villach myndaðist sem þorp á 9. öld. Árið 1007 varð Villach eign biskupsdæmisins í Bamberg í Bæjaralandi. Sú tilhögun hélst allt til 1759. 1060 hlaut Villach markaðsréttindi og í framhaldi af því óx hún upp í því að verða að borg. Ekki er vitað hvenær hún fékk borgarréttindi, en það hefur gerst í síðasta lagi 1240. 25. janúar 1348 varð jarðskjálfti á svæðinu og stórskemmdist borgin. Við tilkomu siðaskiptanna varð Villach að miðstöð siðaskiptamanna í Kärnten. Hins vegar var lúterska kirkjan útrýmd á svæðinu í gagnsiðaskiptum kaþólsku kirkjunnar árið 1600. 1759 keypti María Teresía keisaraynja allar eignir biskupsdæmisins Bamberg í Austurríki. Villach varð því að austurrískri borg. Hún kemur lítið við sögu eftir það. Meðan heimstyrjöldin fyrri geysaði var austurrískur her með aðstöðu í borginni. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari varð Villach fyrir gífurlegum skemmdum. Árásirnar voru 37 og voru alls 42.500 sprengjum varpað á borgina. 85% allra bygginga í borginni eyðilögðust. Aðeins Wiener Neustadt skemmdist meira í stríðinu. 1973 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Villach, sem við það náði núverandi stærð. Viðburðir. Harley Davidson dagar í European Bike Week Byggingar og kennileiti. Sökum þess að Villach var nær gjöreyðilögð í loftárásum seinna stríðs, eru fáar gamlar byggingar í borginni. Djúpavík. Djúpavík er lítið þorp í innanverðum Reykjarfirði og var ein af þremur verslunarstöðum í firðinum ásamt Kúvíkum og Gjögri. Djúpavík var áður fyrr stór síldarverstöð og stendur síldarvinnsluhúsið þar ennþá en öll vinnsla er hætt. Í dag er rekið hótel þar í gamla kvennabragganum. Nafnið Djúpavík er beygt þannig að forliðurinn beygist ekki þar sem víkin er (talin) kennd við djúpin (hk.) á firðinum fyrir utan en ekki dýpið í víkinni sjálfri. Kúvíkur. Kúvíkur var lítið þorp í utanverðum Reykjarfirði. Þorpið var eini verslunarstaðurinn á Ströndum þangað til Borðeyri við Hrútafjörð varð löggiltur verslunarstaður 1846. Verslun og búseta lögðust af í Kúvíkum á 20. öld þegar síldarævintýrið í Djúpavík byrjaði og fluttist öll verslun þangað á þeim tíma. Wels. Wels er bær í fylkinu Efra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 59 þúsund. Þorvaldur Ásvaldsson. Þorvaldur Ásvaldsson var landnámsmaður á Hornströndum. Hann og sonur hans, Eiríkur rauði urðu sekir um víg á Jaðri í Noregi. Þeir fóru þá til Íslands og nam Þorvaldur land og bjó á Dröngum í Drangavík. Eftir dauða hans flutti Eiríkur sig suður í Haukadal. Þorvaldur var sonur Ásvalds Úlfssonar, Öxna-Þórissonar. Önundur tréfótur. Önundur tréfótur Ófeigsson var landnámsmaður á Ströndum, nam land frá Kleifum til Ófæru og bjó í Kaldbak. Hann var einn andstæðinga Haraldar hárfagra þegar hann var að leggja Noreg undir sig, missti fót sinn í orrustunni í Hafursfirði og gekk við tréfót eftir það. Hann komst til Suðureyja og var þar um tíma en sigldi síðan til Íslands og nam þar land og bjó til æviloka. „Hann hefir fræknastur verið og fimastur einfættur maður á Íslandi,“ segir í Grettis sögu. Fyrri kona Önundar var Æsa dóttir landnámsmannsins Ófeigs grettis og voru synir þeirra Ófeigur grettir og Þorgeir flöskubakur. Síðari kona Önundar var Þórdís Þorgrímsdóttir frá Gnúpi í Miðfirði og var sonur þeirra Þorgrímur hærukollur sem var faðir Ámundar föður Grettis sterka. Eftir lát Önundar giftist Þórdís Auðuni skökli Bjarnarsyni landnámsmanni í Víðidal og var sonur þeirra Ásgeir bóndi á Ásgeirsá í Víðidal. Lisbet Palme. Lisbet Palme, fullt nafn: Anna Lisbet Christina Palme (f. 14. mars, 1931) er ekkja Olofs Palme, fyrirverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sem var myrtur árið 1986 í Stokkhólmi. Hún og Olof voru skotin með 357. sexhleypu á leiðinni úr kvikmyndahúsi. Hún fékk skot í öxlina og lifði það af, en hann fékk skot í bakið og dó. Sá grunaði hét Christer Pettersson, Lisbet sagðist þekkja hann og lét handtaka hann í desember 1988. Hann fékk lífstíðardóm í fangelsi, en dó í september árið 2004 af völdum heilablæðinga. Þjarkafræði. Þjarkafræði eða þjarkatækni er fræðigrein sem fjallar um vélmenni (þjarka), hönnun þeirra, uppbyggingu og framleiðslu. Hún tekur fyrir efnisuppbyggingu þeirra jafnt sem forritun. Þjarkafræðingar kallast þeir sem leggja stund á greinina. Engilsaxar. Engilsaxar voru fólk sem bjó á suðvestur Stóra-Bretlandi á 5. öld til hernáms Bretlands árið 1066. Þeir töluðu germanskar mállýskur og voru afkomendur þriggja germanskra ættflokka: Englar og Jótar frá Jótlandi, og Saxar frá Neðra-Saxlandi. Englarnir komu hugsanlega frá Angeln til að búa á Bretlandi, og yfirgáfu föðurland sitt. Kvikmyndaver. Kvikmyndaver er verksmiðja, sem framleiðir kvikmyndir. Broadway. Brodway er heiti breiðstræta í nokkrum stórborgum Bandaríkjanna, en þekktasta breiðstrætið er án efa á Manhattan í New York-borg. Broadway-leikhús. Broadway-leikhús er notað um 39 leikhús sem staðsett eru á og í kringum Broadway breiðgötuna á Manhattan í New York-borg. Kvikmyndaverin. Kvikmyndaverin eru þar sem kvikmyndir voru framleiddar og gefnar út í Hollywood frá því um 1920 til 1950. Gamelan. Gamelan er tegund tónlistarsamkomu í Indónesíu þar sem spilað er á mörg hljóðfæri, eins og Sílófóna, trommur og gong. Ryþmablús. Ryþmablús eða taktur og tregi (e. "rhythm and blues" eða skammstafað sem "R&B") er tónlistarstefna sem sameinar jazz, gospel og blús. Ryþmablús var þróað meðal blökkumanna í Bandaríkjunum. Tónlistarstefnan er upprunnin á fimmta áratugnum en hún hafði verið að þróast síðan á fjórða áratugnum. Markhópur ryþmablús var fyrst og fremst blökkumenn í Bandaríkjunum, en tónlistin hreif síðar kynslóðir af öllum kynþáttum og uppruna um nánast allan heim. Upphaflega var ryþmablús byggð af minni tónlistarmönnum sem bættu djassi, gospel og blús í lögin sín. Tónlist þeirra var undir sterkum áhrifum frá djass og "stökk tónlist" og ennfremur gospel og blökkumanna bebop. Á sjötta áratugnum fékk klassískt ryþmablús einkenni sitt með því að færa sig yfir á aðrar tónlistarstefnur, svo sem djass og rokk (rokk og ról) og má segja að það hafi verið þróað sem ákveðið viðskiptaform inn í sjálft rokkið. Ryþmablús er sífellt að breytast og þróast og er enn vinsælt tjáningarform í menningu blökkumanna í Bandaríkjunum og samfélögum svarta nánast hvar sem er í heiminum. Uppruni nafnsins. Ryþmablús heitið kom upp á fimmta áratugnum í staðin fyrir hugtakið kynþáttar tónlist, sem var talið niðrandi. Jerry Wexler bjó til hugtakið þegar hann var að vinna hjá Billboard Magazine. Á áttunda áratugnum var skammstöfunin R&B síðan nánast eingöngu notuð sem samheiti þessarar tónlistarstefnu. Saga. Flæði blökkumanna í Bandaríkjunum til Chicago, Detroit, New York, Los Angeles og víðar á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldarinnar skapaði nýja markaði fyrir djass, blús og sambærilega tónlist. Undanfari ryþmablús kom úr djass og blús heimum, sem voru að byrja að koma saman á fjórðaáratugnum. Söngvarinn og píanóleikarinn Leroy Carr var fyrstur af Delta blús söngvurum til að blanda jazz áhrifum og “urban” stíl inn í blúsinn. Frá byrjun fjórða áratugarins þar til að hann dó árið 1935, var hann einn af áhrifamestu manneskjunum í blúsheiminum. Louis Jordan var hins vegar mikilvægasti jazz tónlistamaðurinn í að þróa ryþmablús. Hann er sagður nánast hafa búið til "stökk blús." Eins og svo mikið af tónlist frá fimmta áratugnum, kom stökk blús úr “swing big” bandinu hans Count Basie. Jordan umbreytti “big bandinu” sínu Basie í lítinn hóp útsettra hljóðfæra, með glensi og gríni. Jordan réð ríkjum á topplistunum í tónlist snemma á fimmta áratugnum. Jordan tók upp sína tónlist hjá Decca útgáfufyrirtækinu. Nýju ryþmablús flytjendur á fimmta áratugnum komu flestir frá nýjum sjálfstæðum útgáfufyrirtækjunum. Mikið af þessum fyrirtækjum voru staðsett í í New York og Los Angeles. Hvert fyrirtæki átti ákveðinn hlut í þróun ryþmablús hljóðsins. Útgáfufyrirtækið Savoy, var eitt af mikilvægustu sjálfstæðu fyrirtækjunum. Savoy var stofnað 1942 af Herman Lubinsky, frá Newark, New Jersey. Savoy var eitt af fáum útgáfufyrirtækjum sem sérhæfði sig í megin tónlistarstílum blökkumanna á fimmta áratugnum, bebop og ryþmablús. Los Angeles var á þessum árum miðstöð fyrir upptöku takts og blús. Fyrsta fræga ryþmablús lagið var "I wonder", sem var tekið upp af Private Cecil Gant í kjallarastúdíó og gefið út árið 1944 af Gilt Edge Records, sem var skammlíft útgáfufyrirtæki í Los Angeles. Þegar "I wonder" fór á topp Billboard vinsældarlistans, þá byrjaði fjöldi útgáfufyrirtækja að gefa út Leroy Carr-blús stíl sem Gant hafði gert vinsælann. Farsælast þeirra var Modern Records, sem náði bestum árangri með T-Bone Walker. Aladdin útgáfufyrirtækið gerði samning við Charles Brown, sem leiddi djass-poppið. Swingtime tók upp Lowell Fulson, sem setti saman “smooth” LA hljóð undir áhrifum frá T-Bone Walker gítar stílnum og Charles Brown söngvara og píanóleikara sem síðar þróaði sinn eigin byltingarkennda stíl. Tvö mikilvægustu sjálfstæðu útgáfufyrirtækin frá Los Angeles eftir heimstýrjöldina síðari voru Imperial og Specialty. Imperial var stofnað af framleiðandanum Lew Chudd árið 1945 og átti stóran þátt í uppbyggingu ryþmablús og breytti m.a. ásjónu þess þegar hann flutti hæfileika leit sína frá Los Angeles til New Orleans og gerði samning með Fats Domino. Domino hafði örlítið af þessum “smooth LA” stíl, en hann hafði einnig sterka orku eins og Big Joe Turner. Imperial gerði einnig samning við aðra New Orleans ryþmablús flytjendur eins og Smiley Lewis og Guitar Slim. Domino var einn af fyrstu ryþmablús listamönnum sem var undir áhrifum kántrý tónlistar hvítra manna. Tónlistar sagnfræðingar benda á hvíta söngvara eins og Elvis Presley og Carl Perkins sem frumkvöðla rokksins, en raunverulega voru það Domino og síðar Chuck Berry sem voru frumkvöðlarnir. Önnur Los Angeles útgáfufyrirtæki byrjuðu að leita til New Orleans eftir nýjum hæfileikaríkum listamönnum. Aladdin gerði samning við Shirley og Lee, sem áttu mörg fræg lög á sjötta áratugnum. Art Rupe frá Specialty KimiRecords útgáfufyrirtæknu í Los Angeles náði mestum árangri í New Orleans. Rupe, sem byrjaði hjá Specialty árið 1946, hafði þróað lítið útgáfufyrirtæki, sem upphaflega gerði samninga við stökk blús hljómsveitir eins og Joe Liggins og Honeydrippers, sem og fyrrum Swingtime listamanninn Percy Mayfield. Mayfield var söngvari sem fylgdi Los Angeles stílnum og hann er álitinn einn af bestu lagasmiðum þessarar aldar. Á sjötta áratugnum fór klassískt ryþmablús út fyrir sitt tónlistarsvið og yfir á aðrar tónlistarstefnur, svo sem djass og rokk og ról. Þetta var sterkur taktbundinn stíll sem flæddi yfir í hefðbundna blús tónlist sem á rætur að rekja til New Orleans. Fyrsta hljóðritun Mayfield fyrir Specialty kom út árið 1950 og var "Please Send Me Someone to Love." Specialty átti marga góða smelli eins og t.d. "The Things I Used to Do” með Guitar Slim (ásamt Ray Charles) sem kom út árið 1954. En mikilvægasti flytjandi þeirra var þó Little Richard. Richard hafði gert nokkur fræg lög fyrir Peacock útgáfufyrirtækið í Houston, sem var í eigu Don Robey, einn af fáum svörtu athafnamönnunum í ryþmablús. Með Specialty þróaði Richard nýjan öfgafullan stíl sem var kenndur við hann. Fyrsta smáskífa hans, "Tutti Frutti," kom út árið 1955, þetta lag var einn af mikilvægustu þáttum í sameiningu ryþmablús og rokksins. Árið 1947 stofnaði Ahmet Ertegun Atlantic Record í New York City, en hann var mikill djass aðdáandi og sonur tyrkneska diplómata. Þetta færði geirann mikið yfir til New York City. Árið 1953 kom Jerry Wexler inn í fyrirtækið og hann ásamt Ertegun léku lykilhlutverk í að koma ryþmablús á framfæri. Þeir kynntu til leiks margar af aðal söngkonum ryþmablús þess tíma eins og Ruth Brown og Lavern Baker. Þeir fengu líka Ray Charles í Atlantic, sem hafði verð að líkja eftir Charles Brown og hjálpuðu honum að finna nýja stefnu sem myndi seinna þróast í sál tónlist. Wexler og Ertegun unnu mjög náið með Clyde McPhatter og Chuck Willis sem báðir voru mikilvægir í árangri ryþmablús á sjötta áratugnum. King Records í Cincinnati, Ohio, the Chess og Vee Jay fyrirtæki í Chicago, og Duke/Peacock Records í Houston, Texas, léku einnig mikilvæg hlutverki í útbreiðslu ryþmablús. Einn af mikilvægustu eiginleikum ryþmablús kom fram þegar hópar byrjuðu að raddsetja í stíl sem varð þekktur sem doo-wop. Sonny Til og Orioles tóku forystu og nutu landshylli með ryþmablús smellinum "It's Too Soon To Know" árið 1948. Þegar rokkið varð vinsælt á sjötta áratugnum má segja að það hafi byrjað með hvítum söngvurum að syngja lög eftir ryþmablús flytjendur. Þá var lítill greinarmunur gerður á milli rokks og ryþmablús. Á þessum tímapunkti, voru topp ryþmablús flytjendur eins og Chuck Berry og Fats Domino taldir vera rokk stjörnur of voru af sama sess og hvítir tónlistarmenn á borð við Bill Haley og Elvis Presley. Það var svo ekki fyrr en með tilkomu Motown fyrirbærisins og Memphis sál hljóðinu á sjöunda áratugnum (hópar eins og Supremes, The Temptations, Aretha Franklin, Otis Redding) að aftur var hægt að greina stíl blökkumanna frá rokkinu með því að kalla það ryþmablús. Nútíma ryþmablús. Á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum komu fram nýir stílar af ryþmablús, þar á meðal fönk og diskó. Á níunda áratugnum vara hugtakið R&B skilgreint sem stíll samtíma blökkumanna í Bandaríkjunum og var um að ræða tónlist sem sameinaði þætti frá sál, fönk og popp tónlist, sem er upprunnin eftir diskó þemað fjaraði út. Á seinni hluta níunda áratugarins varð hip hop og rapp betur skilgreint og mörg lög notuði upptökur af klassískum ryþmablús lögum. Michael Jackson gaf út plötuna Thriller árið 1982 og varð hún mest selda plata allra tíma. Þar mátti finna leifar af diskó tímabilinu sem hafði veruleg áhrif á nútíma ryþmablús tónlist. Aðrir söngvarar og sönghópar eins og Patti Labelle, Luther Vandross, Prince og New Edition tóku tónlistarheiminn yfir með þessum nýja stíl af ryþmablús. Gladys Knight, Melba Moore og Whitney Houston mótuðu einnig ryþmablús menninguna á níunda áratugnum, og sá stíll naut meiri vinsælda sem tónlistarhefð á tíunda áratugnum. Á þeim áratug tóku ryþmablús raularar eins og Keith Sweat, LeVert, Guy, Jodeci, BellBivDeVoe, ryþmablús ástarlög á annað stig. Fleiri listamenn eins og til dæmis Mariah Carey, Brian McKnight, TLC, R. Kelly, Mary J. Blige og Boyz II Men kveiktu einnig áhuga á ný á klassíkri sál tónlist og raddsettum lögum. Afleiðingin af þessari fjölbreyttu tegund af tónlist var sú að það spruttu upp fullt af nýjum undirstefnum eins og New Jack Swing, Hip-hop sál og ný sál. Ryþmablús er sífellt að breytast og mun halda áfram að þróast og vera vinsæll tjáningarmáti fyrir ameríska blökkumenn og samfélög blökkumanna víðast hvar í heiminum. Skemmtun. Skemmtun er athafnasemi sem hefur þann tilgang að veita áhorfendum ánægju og afslöppun. Tómstundagaman. Tómstundagaman, tómstundargaman eða frítími er tími sem ekki er eytt í vinnu eða önnur verkefni. Stjörnuspeki. Stjörnuspeki eða stjörnuspáfræði er hópur kerfa, hefða og skoðana þar sem staðsetning stjarnfræðilegra fyrirbæra og tengdar upplýsingar eru notaðar til að skilja, túlka og flokka upplýsingar um persónuleika og margt annað. Stjörnuspeki er talin til gervivísinda. Bábinn. Siyyid Alí Muḥammad (20. október 1819 – 9. júlí 1859) er upphafsmaður bábisma. Þann 23. maí árið 1844 í borginni Shíráz í Persíu tilkynnti ungur maður, þekktur sem Bábinn, að boðberi Guðs, sem allar þjóðir jarðarinnar höfðu vænst, kæmi innan skamms. Titillinn Bábinn merkir „Hliðið“. Þó að hann væri sjálfur flytjandi sjálfstæðrar opinberunar frá Guði, lýsti Bábinn því yfir að tilgangur hans væri að undirbúa mannkynið fyrir þennan mikla atburð. Skjótar og villimannlegar ofsóknir, sem voru runnar undan rifjum hinnar valdamiklu múslimsku klerkastéttar, fylgdu í kjölfar þessarar yfirlýsingar. Bábinn var handtekinn, húðstrýktur, fangelsaður og loks tekinn af lífi 9. júlí árið 1850 á almenningstorgi í Tabrízborg. Um það bil 20.000 fylgjendur hans týndu lífinu í hverju blóðbaðinu á fætur öðru um alla Persíu. Líkamsleifar Bábsins hvíla í tignarlegri byggingu með gullnu hvolfþaki. Helgidómurinn er umlukinn fallegum görðum og þaðan sér út á Haifaflóann. Bahá'u'lláh. Bahá'u'lláh (sem þýðir „dýrð guðs“) (12. nóvember 1817 – 29. maí, 1892) var upphafsmaður og stofnandi bahá'í trúarinnar. Bhagavad Gita. Bhagavad Gita er texti ritaður á sanskrít úr "Bhishma Parva" frá hetjukvæðinu Mahabharata sem samanstendur af 700 versum. Brama. Brama er í hindúatrú guð (deva) sköpunar og einn af Trimurti. Dornbirn. Dornbirn er bær í fylkinu Vorarlberg í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 45 þúsund. Græningi. Græningi (fræðiheiti: "Vireo olivaceus") er smávaxinn söngfugl sem á heimkynni sín í Norður- og Suður-Ameríku. Sést hefur til hans á flækingi á Bretlandseyjum og á Íslandi. Bramíni. Bramíni er hugtak í hindúisma. Bramíni er óbreytanlegur, óendanlegur raunveruleiki sem er grundvöllur alls efnis, orku, tíma og rúms. Upanishad. Upanishad eru álitnir hluti Vedaritanna og þar af leiðandi hluti af megin ritunum hindúismans. Heimspeki, hugleiðsla og náttúra Guðs er rædd í Upanishad. Urðu til á bilinu 750-500 f.Kr. Þau sýna þróun frá goðsagnakenndri heimsmynd Veda-bókanna til flóknari speki. Dulspeki um helgisiði og stöðu mannsins í heiminum. Hneigð til meinlætalifnaðar, strangs sjálfsaga og sjálfsafneitunar, íhugunar og háttbundinna fórna. Hugmyndir Indverja beindust síður að skapara heimsins en að sífellt endurtekinni hringrás hans. Vedanta. Vedanta er andleg hefð og skóli heimspekis byggt á kenningum Upanishad og er í því fjallað, eins og í handritunum, um sjálf-uppgötvun. Visnjú. Visnjú er hin æðsta vera,"Guð" eða hinn "Æðsti veruleiki" fyrir þá sem fylgja Vaishnavisma og holdgerving Bramíni í Hindúisma. Súfismi. Súfismi er af fylgismömnum skilgreint sem dulhyggjuarmur íslams eða með öðrum orðum dulspeki tengd íslam. Fylgjendur eru nefndir "súfar" eða dervisar. Jaínismi. Hakakrossinn er eitt af helgustu táknum jaínisma. Jaínismi er ein elstu trúarbrögð sem til eru í heiminum. Það er trú og heimspeki sem á rætur að rekja til Indlands. Á 6. og 5. öld f.Kr. mynduðust borgir að nýju á Indlandi. Þetta var tími mikillar grósku um alla Evrasíu: gríska heimspekinga, spámanna Gyðinga, Zaraþústra í Persíu. Á Indlandi komu fram trúarhreyfingar sem afneituðu ýmsu í brahmanisma. Merkastar þeirra á heimssögulega vísu var jainatrú og búddatrú. Í kjölfar þeirra kom svo hindúatrú sem er skyldast brahmantrú. Lykilmaður í jainisma var Vardhaman Mahavira sem var uppi um 520 f.Kr. Hann gerðist meinlætamaður og betlandi förumaður. Féllst á kenningar brahmisma um karma og endurholdgun en leiddi inn á nýjar brautir. Allir hlutir hefðu sál fjötraða í efni sínu og hefði hún myndast fyrir tilstuðlan karma. En sér hver sál hefði sín takmörk. Meinlætamaðurinn gæti með þjáningum sínum losað nokkuð af því sem karma hefði myndað í honum og stigið þannig upp til frelsunar. Allt líf var talið vera heilagt, ekkert mátti deyða. Lifnaður í nekt, föstum og grænmetisáti. Helstu rit jaina skráð um 300 f.Kr. og var blómatími jaina á tímum Maryska ríkisins á Indlandi 322-188 f.Kr. Sjintóismi. er þjóðartrú Japans. Shinto er fjölgyðistrú sem felur í sér dýrkun, anda. Beinvængjur. Beinvængjur (fræðiheiti: "Orthoptera") eru ættbálkur útvængja sem hefur tvö pör af vængjum. Þær eru meðal þeirra dýra sem undirgangast ófullkomna myndbreytingu á vaxtarskeiði sínu. Nanak. Guru Nanak Dev (fæddur í Nankana Sahib, Punjab, (sem gengur nú undir nafninu Pakistan) þann 15. apríl 1469 – 7. maí 1539, Kartarpur, Punjab, Indlandi), var upphafsmaður síkisma. Vúdú. Vúdú er trúarleg hefð sem er upprunnin í Vestur-Afríku. Saraþústra. Saraþústra var persneskur spámaður og trúarlegt skáld. Andleg viðleitni. Andleg viðleitni í þröngri skilgreiningu, fjallar um hluti andans. Andlegir hlutir eru þeir sem víkja að hinsta eðli mannsins, en ekki bara efnislegum og líffræðilegum verum. Mjógirni. Skýringarmynd yfir meltingarveg í mönnum. Mjógirni, smágirni eða smáþarmur er í líffræði sá hluti meltingarkerfisins á milli magans og digurgirnisins. Þar fer meginþorri meltingarinnar fram. Plzeň. Plzeň eða Pilsen er borg í Tékklandi. Íbúar borgarinnar eru um 163 þúsund talsins. Borgin sjálf er 138 ferkílómetrar að stærð. Líkamsvitund. Líkamsmeðvitund er hæfileikinn til að sem nema snertingu eða þrýsting, hitastig, sársauka (undir það flokkast kláði og kitl) sem og stöðu- og hreyfiskyn, hreyfing og andlitsgrettur. Ófullkomin myndbreyting. Ófullkomin myndbreyting lýsir þroskunarskeiði sumra skordýra sem fara aðeins í gegnum egg og gyðluform áður en þau verða fullvaxta skordýr. Vöxtur þeirra einkennist af stigvaxandi breytingum enda fara þau ekki í gegnum púpuskeið eins og skordýr sem undirgangast fullkomna myndbreytingu. Fullkomin myndbreyting. Fullkomin myndbreyting lýsir þroskunarskeiði skordýra af innvængjuyfirættbálki sem fara í gegnum fóstur, lirfu og púpuform áður en þau verða fullvaxta skordýr. Heitið vísar til þess að ólíkt skordýrum sem undirgangast ófullkomna myndbreytingu líkist lirfa skordýrs sem undirgengst fullkomna mynbreytingu fullvaxta einstaklingi ekki á nokkurn hátt. Háttvísir broddborgarar. Háttvísir broddborgarar (franska: "Le charme discret de la bourgeoisie") er frönsk kvikmynd frá 1972 eftir spænska leikstjórann Luis Buñuel. Myndin er gerð í súrrealískum stíl og er söguþráðurinn gjarnan túlkaður sem árás á smáborgaralegan lifnaðarhátt. Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem besta erlenda kvikmyndin. Söguþráður. Myndin segir frá vinahópi sem samanstendur af tveimur pörum og einstæðum manni. Við fyrstu sýn virðist sem að um sé að ræða ofurvenjulegt miðstéttarfólk í Frakklandi. Við upphaf myndarinnar eru Thévenot-hjónin ásamt Don Rafael Acosta, sendiherra hins ímyndaða Latnesk Ameríska lands Lýðveldisins Miranda, á leið til Sénéchal-hjónanna í kvöldmatarboð. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema hvað þegar til Sénéchal-hjónanna er komið kemur á daginn að Alice er ein heima og átti ekki von á gestum. Það hefur því orðið misskilningur því hún átti von á gestunum annað kvöld. Don Rafael þvertekur hins vegar fyrir það því hann sjálfur var búinn að gera ráðstafanir fyrir það kvöld. Afgangur myndarinnar fjallar svo um tilraunir þessa fólks til þess að hittast og snæða saman sem ávallt misheppnast. Vogvængjur. Vogvængjur (fræðiheiti: "Odonata") er ættbálkur skordýra sem deilast í tvo undirættbálka, drekaflugur ("Anisoptera") og meyjarflugur ("Zygoptera"), einnig nefndar "glermeyjar". Þær eru mjög stór skordýr, sem einkennast af stórum augum og að hafa tvö pör af löngum glærum vængjum með þéttriðnu æðaneti. Í hvíld halda drekaflugur vængjunum láréttum út frá bolnum en glermeyjar leggja þá saman lárétt aftur bolinn. Annar munur á drekaflugum og glermeyjum er sá að á drekaflugum er munur á fram- og afturvængjum en þeir eru nánast eins á glermeyjum. Vogvængjur eru ásamt dægurflugum annar tveggja eftirlifandi ættbálka í "Palaeoptera" innflokknum. Svartrotta. Svartrotta (fræðiheiti: "Rattus rattus") er tengund rottna með langt skott sem á uppruna sinn í hitabelti Asíu og dreyfðist til Austurlanda nær á tímum Rómverja og til Evrópu á 16. öld og þaðan með Evrópubúum um allan heim. Sundhöll Reykjavíkur. Sundhöllin í Reykjavík er íslensk innanhússundlaug við Barónstíg í Reykjavík. Sundhöllin var vígð 23. mars 1937 og var byggð fyrir 650 þúsund krónur. Það var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins sem teiknaði bygginguna. Ólafur Kalstað Þorvarðsson varð árið 1936 fyrsti forstjóri Sundhallarinnar. Brigitte Bardot. Brigitte Bardot (bʁiʒit baʁˈdo) (28. september 1934) er frönsk leikkona, fyrrverandi tískusýningarstúlka, ljósmyndafyrirsæta og söngvari og kyntákn á 6. og 7. áratug 20. aldar. Hún er ákafur dýraverndarsinni og hefur barist fyrir því að selveiðar verði bannaðar. Hún hefur verið tilnefnd til BAFTA-verðlaunanna og var í hópi 100 kvikmyndaleikkvenna sem "Empire magazine" tilnefndi sem heitustu kyntáknin í kvikmyndasögunni. Eftir að hún hætti kvikmyndaleik á áttunda áratug síðustu aldar hóf hún að starfa í þágu dýraverndar og gerir það enn. Á 10. áratugnum hóf hún að ræða pólitísk málefni eins og innflytjendamál og íslam í Frakklandi og samkynhneigð. Hún hefur verið gift fjórum mönnum. Fyrsti maður hennar var Roger Vadim (1952-1957), annar var Jacques Charrier (1959-1962), sá þriðji Gunter Sachs (1966-1969) og loks Bernard d'Ormale frá 1992. Jimmy Ruffin. Jimmy Ruffin (fæddur 7. maí 1939 í Collinsville í Mississippi) er bandarískur sálar-söngvari og eldri bróðir David Ruffin (úr The Temptations). Árið 1966 sló hann í gegn með laginu „What becomes of the brokenhearted“ en vegna ósætta við Berry Gordy, forstjórn Motown-útgáfunnar, kom næsta lag Ruffin einungis út í Ástralíu. Þá gáfu þeir bræður, Jimmy og David, út ábreiðu af „Stand by me“, lagi Ben E. King. Aðrir smellir Jimmy Ruffin eru t.d. „I've passed this way before“, „Gonna give her all the love I've got“, „Don't you miss me a little bit baby“, „I'll say forever my love“, „It's wonderful to be loved by you“ og „Tell me what you want“. Breiðskífur. Allar breiðskífurnar eru gefnar út af Tamla Motown Label í Bretlandi. Dýrasvif. a> ("Euphausia superba") er dæmi um dýrasvif. Dýrasvif er ófrumbjarga (stundum grotætur) svif sem á heimkynni sín í höfum, sjó og ferskvatni. Sumt dýrasvif er of lítið til að sjást með berum augum þó mest af því er stærra en svo. Mikil dýrafána telst til svifsins, oft lifa tegundir fyrsta skeiðið sitt sem svif. Margar tegundir fiska og krabbadýra byrja ævi sína sem egg og lirfur og eru því svif í takmarkaðan tíma og breytast svo þegar þær komast á fullorðinsár. Einnig nærast ungir krossfiskar, samlokur, ormar og önnur botndýr sem svif áður en þau komast í rétt umhverfi sem fullorðin dýr. Sum dýr eru alla ævina sem svifdýr en kallast þá alsvif holoplankton. Smákrabbadýr eru mjög algeng í svifinu. Meðal tegunda sem falla undir smákrabbadýr eru krabbaflær sem eru lítil dýr og eru í útliti eins og hrísgrjón. Rauðátan er líklega algengasta krabbaflóin hér við land en svo er einnig ljósátan, hún er ekki eins algeng en hún er stærri. Þessar átur eru ein af undirstöðum fæðukeðjunnar í sjónum. Sölpur (Salps) eru möttuldýr sem svipar mikið til botnfastra möttuldýra t.d. sea squirt en eru sviflæg. Þær geta fjölgað sér hratt við réttar aðstæður og kallast sulta ef þetta lendir í nót hjá sjómönnum. Ben E. King. Ben E. King (fæddur Benjamin Earl Nelson 28. september 1938 í Henderson í Suður-Karólínu) er bandarískur söngvari þekktastur fyrir lag sitt „Stand by me“ sem kom út árið 1961. Ferill. Árið 1958 gekk Nelson í doo-wop-sveitina The Five Crowns. Seinna sama ár rak umboðsmaður The Drifters liðsmenn sína og fékk meðlimi The Five Crowns í hljómsveitina. Nelson tók þátt í að skrifa fyrsta smell hljómsveitarinnar, „There goes my baby“ (1959), auk þess sem hann söng aðalrödd í lögum á borð við „Save the last dance for me“, „Dance with me“, „This magic moment“, „I count the tears“ og „Lovely winds“. Kom hann þá fram undir skírnarnafni sínu. Ben E. King hljóðritaði einungis 10 lög með The Drifters, þar á meðal lagið „Temptation“ sem kom ekki út á smáskífu. Árið 1960 yfirgaf hann sveitina og tók þá upp listamannsnafn sitt. Hann var með samning við Atlantic Records og fyrsta lag hans var „Spanish Harlem“ (1961). Næsta lag var „Stand by me“ en það skrifaði hann ásamt þeim Jerry Leiber og Mike Stoller. Plötur Kings héldu áfram að toppa vinsældalista allt til ársins 1964 þegar breskar popphljómsveitir hófu innreið sína. Sumarið 1963 gaf hann út lagið „I (who have nothing)“ en síðar meir hefur það meðal annars verið endurgert af listamönnum á borð við John Lennon, Shirley Bassey, Tom Jones, Sylvester James, U2 og Bruce Springsteen. Aðrar smelli átti hann einnig, s.s. „What is soul?“ (1967), „Supernatural Thing, part 1“ (1975) og endurgerði svo „Stand by me“ árið 1986. Komst lagið þá aftur í toppsæti vinsældalista um allan heim. Nú orðið rekur hann eigin góðgerðarstofnun, Stand by me Foundation. Úthafssvæði. Mynd sem sýnir lög úthafsvæðis Tólg. Tólg er hörð fita af nautgripum eða sauðfé. Áður fyrr bjuggu menn til kerti úr tólg, en þau eru sjaldgæf nú til dags vegna þess að þau þykja ósa meira og lykta verr en önnur kerti. Bráðin tólg er höfð til matar, vanalega til að steikja eða djúpsteikja t.d. franskar kartöflur eða kleinur, eða þá hellt út á t.d. siginn fisk eða kæsta skötu. Tólg geymist vel við stofuhita, en þránar ef loft kemst að henni. Fyrir tíð nútíma niðursuðu var bráðinni tólg oft hellt yfir nýsoðið kjötmeti til að það geymdist betur. Hörð fita. Fita er kölluð hörð ef hún samanstendur einkum af mettuðum fitusýrum. Hörð fita er vanalega í föstu formi við stofuhita, öfugt við t.d. lýsi og aðrar olíur. Hún kemur einkum úr dýraríkinu. Kæsing. Kæsing er verkunaraðferð (gerjun) sem er notuð á skötu og hákarl til að gera þau æt, en báðar tegundir eru brjóskfiskar og nota þvagefni og trímetýlamín "N"-oxíð til að viðhalda osmósuþrýstingi í blóði á sama róli og í sjóvatni. Þessi efni eru því til staðar í nægilega háum styrk í holdi dýranna til að vera eitruð fyrir menn. Við kæsingu fer af stað gerjun af völdum gerla sem framleiða ensím sem brjóta efnin niður í ammóníak (og svolítið vetni), en það er rokgjarnt og rýkur því að mestu úr kösinni þannig að vefurinn sem eftir er verður ætur. Sagnorðið "að kæsa" er skylt germönskum orðum fyrir ost, cheese á ensku, kaas á hollensku og Käse á þýsku, en lyktin af kæstum mat er ekki ósvipuð lyktinn af sterkum osti. Þrái. Þránun er það sem gerist þegar ómettaðar fitusýrur (matarolía eða fita) komast í snertingu við súrefni loftsins og oxast, því þránar fita með miklu magni af ómettuðum fitusýrum auðveldlega. Við það verður feitmeti gjarnan óætt. Til að verjast þráa er þráavarnarefnum (E-vítamín) stundum bætt út í mat. Mygla. Mygla er sveppagróður sem tekur sér bólfestu í mat og öðrum lífrænum efnum. Oftast þykir myglaður matur ókræsilegur, en sumar tegundir matar eru vísvitandi látnar mygla, einkum ostar. Penisillín er unnið út myglu. Áhrif myglu á heilsu fólks. Áhrif myglusveppa innanhúss á fólk eru mismunandi eftir því hvaða sveppi er um að ræða. Fólki með öndunarvegssjúkdóma eins og ofnæmi eða astma, fólki með bælt ónæmiskerfi og ungum börnum eða gömlu fólki, er hættast við að veikjast við að komast í snertingu við myglu. Áhrifa getur gætt á húð sem roði, kláði og útbrot. Astmasjúklingum getur elnað sóttin og í sumum tilfellum geta sveppir valdið astma. Myglan getur valdið ofnæmiskvefi sem svipar til einkenna frjóofnæmis eða kvefs og lýsir sér sem erting í hálsi, hæsi og hósti. Ofnæmislungnabólga er eitt af því sem myglusveppir geta valdið og lýsir sér í miklum andþyngslum og öndunarerfiðleikum. Önnur einkenni sem geta fylgt því að komast í snertingu við myglusveppi eru þreyta, höfuðverkur, hiti, vöðvaverkir, blóðnasir, að eiga erfitt með að einbeita sér, að eiga erfitt með að muna og geðsveiflur. Ekki er vitað hvað það er sem veldur þessum síðastnefndu einkennum. Sumir sveppir geta sýkt fólk og vaxið í og á líkömum manna og valdið sjúkdómum, en það er þó mjög sjaldgæft. Sveppaeiturefni eru aukaafurðir nauðsynlegrar starfsemi ýmissa sveppa. Framleiðsla þessara efna hjá myglusveppum er mjög tegundabundin og fer mikið til eftir því á hvaða efnum þeir vaxa, sem þýðir að sveppur sem vex á vegg innanhúss framleiðir önnur efni á veggnum en þegar hann er tekinn og ræktaður á æti í tilraunarstofu. Umhverfisaðstæður eru ekki eina breytan því aðrir sveppir sem vaxa á veggnum hafa áhrif á þá efnablöndu sem sveppurinn framleiðir. Sveppaeiturefnin gufa ekki upp er líklegt að þau berist í lungu manna en sannað er að sveppaeiturefni bæla niður ónæmiskerfi á nokkra mismunandi vegu og ætti því alltaf að gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra að menn verði fyrir eitrunum séu þær sveppategundir sem framleiða sveppaeiturefni til staðar. Ef lítið er um loftskipti í húsum getur það valdið því að loftraki hækkar og óæskileg efni stíga upp í loftið og sitja þar áfram í stað þess að þynnast út eins og gerist ef loftskipti í húsum eru eðlileg. Raki innanhúss er ekki nýtt vandamál en þess er getið í Biblíunni að ekki eigi að búa eða starfa í húsnæði sem raki er í. Erfitt hefur reynst að sanna hvað það er við nákvæmlega við langvarandi búsetu í í röku húsnæði sem hefur áhrif á fólk. Rannsóknum á sveppum innahúss var hrint af stað eftir að ungabörn í Cleveland í Ohio-fylki í Bandaríkjunum veiktust skyndilega með alvarlegar blæðingar í lungum. Alls voru þetta 37 börn sem veiktust á fimm árum og af þeim dóu tólf. Þegar heimili barnanna voru könnuð kom í ljós að þau höfðu öll orðið fyrir vatnstjóni og fundust sveppurinn "Stachybotrys chartarum" og fleiri sveppir loftbornir í húsunum. Á síðustu tíu til tólf árum hafa hafa margir þættir verið rannsakaðir og er hægt nú að skýra ýmsa þætti þeirra neikvæðu áhrifa á heilsu fólks sem orsakast af rökum híbýlum. Enn er óljóst hversu mikið þarf til að valda einstaka áhrifum. Nauðsynlegt er að hreinsa myglusveppinn út úr húsinu eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir frekari vöxt. Það skiptir ekki máli hvaða tegundir sveppa er um að ræða því að mygla og þær aðstæður sem gera henni kleift að vaxa innadyra getur haft áhrif og verið heilsuspillandi fyrir fólk. Mikið eignatjón getur orsakast af völdum myglusvepps. Muni sem gerðir eru úr gljúpum efnum eins og viður, loftplötur, einangrun, veggjaeiningar, bækur og fleira er oft ekki hægt að hreinsa og þarf því að farga. Best er að henda öllum efnum sem eru úr gljúpu efni, þó að hægt sé að hreinsa áklæði og fatnað, til að forðast það að sveppurinn komi upp aftur. Þó er hægt að bjarga sumum hlutum. Yfirleitt er hægt að þrífa efni sem hafa þétt yfirborð eins og málmar, gler og hörð plastefni með sérstökum hreinsiefnum til að hreinsa myglusveppinn. Kleinuhringur. Kleinuhringur (ft. "kleinuhringir" eða "kleinuhringar", sjá mismunandi rithátt) er sætt djúpsteikt deig. Hið íslenska nafn fyrir kleinuhring kemur af því að þeir líta út eins og hringlaga kleinur. Kalíníngrad. Kalíníngrad er rússnesk borg við Eystrasalt. Borgin og samnefnt hérað í kring liggja milli Litháens og Póllands en eru aðskilin frá öðrum hlutum Rússlands af Eystrasaltslöndunum og Hvíta-Rússlandi. Borgin, sem lengst af hét Königsberg, var stofnuð á miðöldum af Þýsku riddurunum, var prússnesk fram til sameiningar Þýskalands árið 1871 og eftir það þýsk fram til loka Síðari heimsstyrjaldar, en var þá hertekin af Rauða hernum og hefur verið undir yfirráðum Sovétmanna, síðar Rússa, æ síðan. Hún var endurnefnd árið 1946 eftir Mikhaíl Kalínín (1875 - 1946), forseta Æðstaráðs Sovétríkjanna, sem lést það ár. Emperor. Emperor er norsk black metal hljómsveit frá Tromsø og Bergen, hún var stofnuð árið 1991 og hætti árið 2001, en meðlimir hljómsveitarinnar söfnuðust saman árið 2005 og byrjuðu að spila aftur. Dróttkvæði. Dróttkvæði er önnur helsta skáldskapargrein fornnorrænu við hlið eddukvæða, yfirleitt undir dróttkvæðum hætti. Dróttkvæði innihalda oft lof um konunga eða höfðingja. Orðsifjar. Upphaflega merkti dróttkvæði kvæði sem hirðskáld flutti konungi. Orðið "drótt" er gamalt orð og merkir hirð sem var bætt fyrir framan orðið kvæði. Bera má það saman við orðin "drottinn" (sem var áður "dróttinn") og merkti konungur eða æðsti maður hirðarinnar og "drottning" (áður "dróttning") sem merkti æðsta kona hirðarinnar. Austfold. Austfold (norska: "Østfold") er fylki í suðaustur Noregi sunnan við fylkið Akershus, 4,182 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 265.000. Höfuðstaðurinn í fylkinu er Sarpsborg með um 50.000 íbúa. Stærsta borgin í fylkinu er Fredrikstad, með um 71.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Austurland. Efnishyggja. Efnishyggja er hver sú heimspekikenning sem kveður á um að hvaðeina sem er til sé efnislegt eða eigi sér efnislegar orsakir. Efnishyggja er einhyggja um tegundir verunda því samkvæmt kenningunni er einungis ein gerð hluta til, það er að segja efnislegir hlutir. Efnishyggja er því andstæð tvíhyggju og hughyggju. Á ensku er stundum gerður greinarmunur á þeirri efnishyggju sem nefnd er „materialism“ annars vegar og hins vegar „physicalism“ en hvort tveggja kallast á íslensku efnishyggja. Þýski heimspekingurinn Otto Neurath smíðaði orðið „physicalism“ á fyrri hluta 20. aldar. Efnishyggju af því tagi fylgja verufræðilegar skuldbindingar nútíma eðlisfræði. Með öðrum orðum kveður slík efnishyggja á um að einungis það sé til sem nútíma eðlisfræði lýsir, en það er ekki einungis efni heldur einnig orka og tímarúm, ýmsir kraftar og svo framvegis. Í daglegu tali er efnishyggja einnig notað til að gefa til kynna að einhverjum sé of annt um veraldlegar eigur sínar. Erwin Schrödinger. Erwin Rudolf Josef Alexander Schrödinger (12. ágúst 1887 – 4. janúar 1961) var austurrískur – írskur eðlisfræðingur auk þess sem hann var „stærðfræðilegur“ líffræðingur. Hann er þekktur fyrir framlag sitt til skammtaeðlisfræðinnar og oft er hann talinn með í hópi þeirra hugsuða á bak við skammtafræði, auk Einstein og Heisenberg. Einkum er hann þekktur fyrir Schrödinger-jöfnuna en fyrir hana hlaut hann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1933. Hann er einnig þekktur fyrir kött Schrödingers, fræga hugsunartilraun sem hann lagði til eftir bréfaskipti við vin sinn, Albert Einstein. Tenglar. Schrödinger, Erwin Schrödinger, Erwin Giordano Bruno. Giordano Bruno (1548 – 17. febrúar 1600) var ítalskur heimspekingur, stjarnfræðingur og prestur. Bruno hélt því meðal annars fram að tími og rúm væru óendanleg. Rannsóknarréttur kaþólsku kirkjunnar taldi að Bruno hefði gerst sekur um villutrú, m.a. fyrir að hafa haft rangar skoðanir um heilaga þrenningu og holdgervingu krists, fyrir að hafa hafnað meyfæðingunni og hafa trúað á endurfæðingu sálna. Fyrir vikið var hann brenndur á bálkesti þann 17. febrúar árið 1600 á Campo di Fiori í Róm. Hann er stundum talinn fyrsti píslarvottur vísindanna. Bruno, Giordano Bruno, Giordano Bruno, Giordano Avicenna. Avicenna eða Ibn Sīnā (980 – 1037) var íranskur heimspekingur og fjölfræðingur, sem fékkst meðal annars við rökfræði, stærðfræði, stjörnufræði, gullgerðarlist, náttúruvísindi, sálfræði og læknisfræði. Hann var merkasti heimspekingur síns tíma. Avicenna samdi tæplega 450 ritgerðir um ýmis efni og hafa um 240 þeirra varðveist. Flestar fjalla um heimspeki og læknislist. Avicenna var undir miklum áhrifum frá gríska heimspekingnum Aristótelesi en hafði sjálfu gríðarleg áhrif á íslamska heimspeki. Alexander von Humboldt. Friedrich Wilhelm Heinrich Alexander Freiherr von Humboldt (14. september 1769 – 6. maí 1859) var prússneskur náttúruvísindamaður og landkönnuður. Hann var yngri bróðir heimspekingsins, málvísindamannsins og stjórnmálamannsins Wilhelms von Humboldt (1767-1835). Tenglar. Humboldt, Alexander von Humboldt, Alexander von Humboldt, Alexander von Meyjarhofið í Aþenu. Meyjarhofið (forngríska:) í Aþenu er grískt hof helgað verndara borgarinnar, viskugyðjunni Aþenu. Hofið var byggt á seinni hluta 5. aldar f.Kr. og stendur á Akrópólishæð í miðborg Aþenu. Hofið, sem er byggt í dórískum stíl, er án efa þekktasta gríska mannvirkið frá fornöld. Uppruni. Meyjarhofið var byggt í stað eldra hofs sem var einnig helgað viskugyðjunni en fórst í innrás Persa í Persastríðunum árið 480 f.Kr. Árið 447 f.Kr. hóf síðan arkitektinn Iktínos endurreisn hofsins. Helsti aðstoðarmaður hans við verkið var arkitektinn Kallíkrates, sem gerði meðal annars Nike-hofið, líka á Akrópólishæðinni. Saman sáu þeir um hönnun hofsins, sem er gert í hreinum dórískum stíl. Feidías sá um skreytingarnar á hofinu og stjórnmálamaðurinn Períkles hafði yfirumsjón með verkinu. Hofið var byggt á árunum 447 - 432 f.Kr. og það þótti rísa svo hratt, að menn höfðu orð á að sjálf gyðjan hefði veitt þeim aðstoð. Seinni tíma. Meyjarhofið stóð heilt og nothæft í rúmlega 2000 ár. Um tíma var fjáhirsla Deleyska sjóbandalagsins í hofinu. Á 6. öld var hofið gert að kristinni kirkju og helgað Maríu guðsmóður. Eftir innrás Tyrkja um miðja 15. öld var hofið gert að mosku og bænaturn var settur þar inn, sem var þó seinna rifinn. Árið 1687 sátu feneysk herskip um Aþenuborg og komst flotinn að því að Tyrkirnir geymdu púðrið sitt í hofinu. Því skutu þeir á geymsluna, en fallbyssukúlurnar rufu þakið og kveiktu í púðrinu með þeim afleiðingum að stór sprenging varð í hofinu sem olli óbætanlegum skaða. Eftir að Ítalir unnu borgina reyndu þeir að ræna líkneskjum og lágmyndum af hofinu en margir verkamennirnir misstu myndirnar niður og brutu þær. Um 1800 fékk sendiherra Breta, Elgin lávarður, leyfi Tyrkjastjórnar til að flytja hluta af höggmyndunum til Bretlands til betri varðvörslu. Hann tók burt 12 líkneski og 15 millifleti sem nú njóta sín á British Museum í London. Á þeim tíma voru enskir höggmyndasérfræðingar sem ráðlögðu forstöðumönnum safnsins frá því að kaupa fornleifarnar, en Elgin tókst að sannfæra þá. Á aðeins áratug frá kaupunum tvöfaldaðist verðmæti þeirra og í dag þykja þessir munir ómetanlegir. Lýsing. Innra hofinu var skipt í tvennt. Annar hlutinn var minni en hinn en þar var höfð fjárgeymsla og skjalasafn Deyleyska sjóborgarsambandsins í töluverðan tíma. Hið stærra var helgidómur Aþenu með 12 metra háu líkneski hennar, en það var eftir Feidías og var úr fílabeini og gulli. Þetta mikla líkneski er því miður löngu glatað. Í vesturendanum fyrir aftan líkneskið mikla var sérstakt herbergi ætlað kvenprestum gyðjunnar og nefndi hann það ‚herbergi meyjanna‘. Síðan hefur nafnið, Parþenon eða Meyjarhofið, fest við það. Herbergið var skreytt súlum í jónískum stíl. Hofið er gert úr hvítum marmara sem kom úr Pentelíkosfjalli sem er nálægt Aþenuborg, sem er blandað járnögnum sem gæða það mjúkri slikju. Hofið er rétthyrnt, 58 m á lengd, 26 m á breidd og 17 m á hæð, með átta súlum á skammhliðum og sautján á langhliðum (ef endasúlurnar eru taldar með). Innan súlnanna var hlaðinn gluggalaus veggur, sem telst vera sjálft hofið. Þar að leiðandi var afar dimmt innan í því og var því lýst upp með kyndlum. Innan í hofinu voru svo tvær súlur á tveimur hæðum til þess að styðja undir þakið. Súlurnar voru allar hlaðnar upp af kringlóttum hellubjörgum. Uppbyggingin. Hofið einkennist af ströngum og ákveðnum hlutföllum og miðast við þvermál súlnanna. Í byggingunni notuðu Forn-Grikkir ýmis brögð til þess að blekkja augað. Allar láréttar línur á grunninum og yfirbyggingunni svigna upp á við í átt að miðju. Ef þetta hefði ekki verið gert myndu lóðréttu línurnar sýnast svigna niður í miðju, súlurnar sýnast því grennri í miðjunni heldur en neðst og hornsúlurnar virka grennri en hinar og hallast út á við. Myndfletirnir voru ekki gerðir rétthyrndir, heldur þannig að þeir myndu sýnast rétthyrndir frá jörðinni. Þessar sjónhvervingar sýna hvað menn á þessum tíma hafa verið vel að sér í stærðfræði og verkfræði. Iktínos notaðist ekki við steinlím til að festa ferstrendar steinblokkirnar saman, heldur voru þær fullkomlega höggnar til og heflaðar að nánast sást móta fyrir samskeytunum. Þetta var gert það nákvæmlega að hver einn og einasti flötur var gerður rennisléttur og hellurnar féllu fullkomlega saman. Í þakinu voru marmarahellur sem voru nógu gegnsæjar að þær hleyptu lítilli birtu inn í hofið. Að innan var það skreytt með smágerðu flúri. Ýmsir hlutar hofsins voru málaðir í skærum litum. Marmarinn var þveginn upp úr blöndu af saffrani og mjólk. Þrírákafletirnir voru málaðir bláir. Lágmyndaræmann hafði bláan grunn en millifletirnir rauðir. Skreytingar. Millifletir hofsins (metópur) voru alls 92 og voru rismyndir höggnar þar. Helsta þema myndanna var stríð Grikkja og Trójumanna, Grikkja og skjaldmeyja, Lapíþa og kentára, jötna og guða. Á göflum hofsins voru svo hópar styttna í gífurlegri stærð. Meðfram efstu brún allra útveggja hofsins, inni í súlnagöngunum liggur víðfræg myndræma (frísa). Hún er 133 m að lengd og sýnir skrúðgöngu fólk frá Attíku að færa Aþenu fórnargjafir á hátíðisdegi panaþenísku leikanna. Hluti skrúðgöngunnar fer eftir vestur- og norðurhliðinni en önnur eftir suðurhliðinni. Svo mætist skrúðgangan á austurstafninum frammi fyrir gyðunni. Þar býður Aþena Seifi og öðrum Ólymposguðum að þiggja hluta af gjöfum sínum. Fyrir neðan guðina á þeim gafli eru svo dyrnar á hofinu. Skrúðgangan hefur alls kyns persónur. Þar sjást riddarar á fákum, aðalsfólk akandi á vögnum og almenningurinn fótgangandi. Fallegar konur og öldungar bera smjörviðargreinar, aðrir bera vínkrukkur á öxlunum og blásarar leika á hljóðpípur. Sagt hefur verið að sjaldan hafi menn og dýr verið sæmdir svo fágaðri list, en lágmyndirnar eru þó ekki nema 6 cm á breidd. Því hefur verið fleygt að Feidías hafi gert mistök með því að setja þetta meistaraverk svona hátt uppi, því það var ekki hægt að skoða það nógu vel séð frá jörðu. Ávaxtasafi. Ávaxtasafi eða einfaldlega safi er vökvi sem fyrirfinnst náttúrulega í ávöxtum og grænmeti. Safinn er svo gerður að drykk með því að kreista hann í vélum eða í höndunum. Nef. Nef er líffæri á höfði hryggdýra, sem hýsir nasirnar sem, ásamt munni, eru notaðar til öndunar, en í nefi er einnig lyktarskyn. Umferðarlög. Umferðarlög eru safn þeirra laga og reglugerða sem umferð vélknúinna ökutækja, reiðhjóla og gangandi vegfarenda á opinberum vegum ber að fylgja. Umferðarlög hafa með það að gera hver akstursstefnan er, hver á réttinn, notkun umferðarmerkja o.s.frv. Ökuljós. Ökuljós eru ljós sem venjulega eru fest framaná ökutæki eins og bíl, vélhjól og reiðhjól til að lýsa veginn upp þegar skyggni er lítið vegna myrkurs eða úrkomu. Öryggisbelti. Öryggisbelti eru belti sem eiga að koma í veg fyrir að eitthvað (t.d. maður, dýr eða hlutur) slasist (t.d. með því að falla) eða kastast burt. Beltin eru fest við örugga festingu á stöðugan hlut. Ólafsfjarðargöng. Ólafsfjarðargöng eða Múlagöng eru 3,4 km einbreið veggöng gegn um Ólafsfjarðarmúla sem voru tekin í notkun í desember 1990 og vígð 1. mars 1991. Þau leystu af hólmi Múlaveginn, ótryggan veg fyrir Múlann og tengja saman Dalvík og Ólafsfjörð yst á Tröllaskaga. Skömmu fyrir opnun Ólafsfjarðarganga samþykkti Alþingi að ráðast í gerð jarðganga sem myndu tengja Siglufjörð og Ólafsfjörð. Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hófust árið 2006. Ermarsundsgöngin. Ermarsundsgöngin (enska: "Channel Tunnel", "Chunnel" eða "Eurotunnel"; franska: "le tunnel sous la Manche") eru 50,450 km járnbrautargöng undir Ermarsundinu á Dover-sundi sem tengja saman Folkestone í Kent á Englandi og Coquelles nálæg Calais á Frakklandi. „Göngin“ hafa þrjú aðgreind göng: tvö einbreið göng 7,6 m að þvermáli og ein þjónustugöng 4,8 m að þvermáli á milli. Þau voru stórverk og höfðu mörg þjófstört, engu að síður var verkinu lokið árið 1994. Ermarsundsgöngin eru önnur stærstu járnbrautargöng í heimi á eftir Seikan-göngunum í Japan. Ferrol. Ferrol er hafnarborg á Norðvestur-Spáni. Þar er mikilvæg skipasmíðastöð. Frelsisstyttan. Frelsisstyttan (enska: opinberlega "Liberty Enlightening the World", yfirleitt "Statue of Liberty"; franska: "La liberté éclairant le monde") er stór stytta sem Frakkland gaf Bandaríkjunum árið 1886. Styttan stendur á Liberty-eyju í eigu New York-borgar en New Jersey megin í New York-höfn og býður ferðamenn, innflytjendur og aðra velkomna. Styttan er úr kopar og er öll þakin spanskgrænu. Hún var vígð þann 20. október 1886 í tilefni af aldarafmæli Bandaríkjanna. Frédéric Bartholdi hannaði styttuna og Gustave Eiffel (hönnuður Eiffelturnsins) hannaði burðarvirki hennar. Doutzen Kroes. Doutzen Kroes (fædd í Eastermar 23. janúar 1985) er hollensk fyrirsæta. Kroes, Doutzen Empire State-byggingin. Empire State-byggingin er 102-hæða skýjakljúfur í New York-borg í New York á gatnamótum Fimmta breiðstrætis og Vestur 34. götu. Nafnið er dregið af viðurnefni New York fylkis. Hún var hæsta bygginging heims í rúm fjörutíu ári frá 1931 til 1972 þegar var turnarnir í World Trade Center voru kláraðir. Eftir hryðjuverkin 11. september 2001 varð Empire State-byggingin hæsti skýjakljúfur New York-borgar á ný. Hönnuninn er Art Déco-stíll og var hönnuður Gregory Johnson. Geoffrey Chaucer. Geoffrey Chaucer (um 1343 – 25. október 1400) var enskt skáld, heimspekingur og hirðmaður. Hann er þekktastur fyrir sagnasafnið "Kantaraborgarsögur" sem varðveist hefur að hluta. Chaucer er stundum kallaður faðir enskunnar þar sem hann var sá fyrsti sem sýndi fram á að enskt alþýðumál væri jafngott bókmenntamál og franska, latína og anglónormanska sem þá voru ríkjandi ritmál í Englandi. Chaucer notaðist við enskt talmál þess tíma, þ.e.a.s. miðensku sem hafði þróast út frá engilsaxnesku. Staða hans gagnvart enskunni er því hliðstæð við stöðu Dante Alighieri gagnvart ítölskunni hundrað árum fyrr. Ævi. Chaucer fæddist í London um 1343, en ekki er vitað nákvæmlega um fæðingarstað og tíma. Bæði faðir hans og afi voru víngerðarmenn í London af ætt kaupmanna frá Ipswitch. Ættarnafnið er dregið af franska orðinu "chausseur" sem merkir „skósmiður“. 1324 var föður hans, John Chaucer, tólf ára gömlum, rænt af frænku sinni, en hún vildi gifta hann dóttur sinni til að ná að halda fasteign í Ipswitch. Frænkunni var varpað í fangelsi fyrir þetta og gert að greiða 250 punda sekt, sem bendir til þess að fjölskyldan hafi verið vel stæð millistéttarfjölskylda eða jafnvel yfirstétt. John giftist þess í stað Agnesi Copton, sem erfði árið 1349 miklar eignir, þar á meðal 24 verslanir í London, frá frænda sínum Hamo de Copton sem sagður er myntsláttumaður í Lundúnaturni. Hundrað ára stríðið. Lítið er vitað um æsku Chaucers, en ævi hans er þó vel skrásett miðað við samtíðarmenn hans, William Langland og Perluskáldið. Til eru fimm hundruð frumheimildir af ýmsu tagi sem greina frá athöfnum hans. Nafn hans kemur fyrst fyrir árið 1357 í húsreikningum Elizabeth de Burgh sem var greifynja af Ulster, en hann hafði fengið þjónsstöðu hjá henni í gegnum sambönd föður síns. Hann vann einnig sem hirðmaður, erindreki og opinber starfsmaður, auk þess að starfa fyrir konung með því að safna brotajárni og skrá það. Við upphaf Hundrað ára stríðsins 1359 réðist Játvarður 3. inn í Frakkland og Chaucer ferðaðist þangað með prinsinum Lionel frá Antwerpen, eiginmanni greifynjunnar, sem hluti af innrásarhernum. 1360 var hann tekinn höndum í umsátrinu um Rheims og varð stríðsfangi. Játvarður greiddi sjálfur 16 pund upp í lausnargjald fyrir hann og Chaucer var leystur úr haldi. Eftir það var hann kallaður „fanginn“. Eftir þetta ríkir nokkur óvissa um ferðir Chaucers, en hann virðist hafa ferðast um Frakkland, Spán og Flandur sem sendiboði konungs og hugsanlega farið í pílagrímsferð til Santiago de Compostela. Árið 1366 giftist hann Philippu Roet, hirðmey Filippíu af Hainault, drottningar Játvarðs 3., og systur Katherine Swynford sem síðar (um 1396) giftist vini og stuðningsmanni Chaucers, prinsinum Jóhanni frá Ghent. Ekki er vitað hversu mörg börn Chaucer og Philippa eignuðust en yfirleitt er talað um þrjú eða fjögur. Sonur hans, Thomas Chaucer, hlaut mikinn frama, var yfirbryti fjögurra konunga, konunglegur sendimaður í Frakklandi og þingforseti neðri deildar enska þingsins. Barnabarnabarn Thomasar Chaucers, Jóhann de la Pole, jarl af Lincoln, var erfingi krúnunnar eftir Ríkharð 3. áður en honum var steypt af stóli. Önnur börn Chaucers voru (líklega) Elizabeth Chaucer, sem gerðist nunna, Agnes, sem var viðstödd krýningu Hinriks 4., og Lewis Chaucer. Talið er að Chaucer hafi lært lögfræði við Inner Temple í London um þetta sama leyti, þótt ekki sé til óyggjandi staðfesting á því. Hann er skráður herbergisþjónn ("valet"), þegn ("yeoman") eða skutulsveinn ("esquire") við hirð Játvarðs 3. 20. júní 1367, sem gat þýtt hin ýmsustu störf. Hann fór erlendis nokkrum sinnum og 1368 kann hann að hafa verið við brúðkaup Lionels frá Antwerpen og Violante, dóttur Galeazzo 2. Visconti, hertoga í Mílanó. Tveir aðrir frægir bókmenntamenn voru viðstaddir brúðkaupið, Francesco Petrarca og Jean Froissart. Um þetta leyti er talið að Chaucer hafi samið "Bók hertogafrúarinnar" til heiðurs Blanche af Lancaster, eiginkonu Jóhanns frá Ghent sem lést 1369. Ferðir til Ítalíu og ritstörf. Árið eftir tók Chaucer þátt í herför til Picardie og heimsótti í framhaldinu borgríkin Genúa og Flórens árið 1373. Talið er að í þeirri ferð hafi hann komist í kynni við ítalska ljóðagerð sem hann nýtti sér síðar, bæði bragfræðilega og efnislega. Önnur ferð sem hann fór árið 1377 er hins vegar sveipuð óvissu. Síðari heimildir gefa til kynna að hún hafi verið sendiför með Jean Froissart til að skipuleggja hjónaband krónprinsins Ríkharðs og franskrar prinsessu, sem hefði þýtt endalok Hundrað ára stríðsins. Ef þetta var takmark ferðarinnar er ljóst að það mistókst. 1378 sendi Játvarður Chaucer sem leynilegan sendiboða til hallar Viscontis og til að hitta enska málaliðann John Hawkwood í Mílanó. Chaucer byggði persónu „riddarans“ í "Kantaraborgarsögum" á Hawkwood, en lýsingar Chaucers á honum eru nákvæmar lýsingar á því hvernig 14. aldar málaliði hefur litið út en ekki byggðar á kunnuglegum minnum úr riddarasögum. Vísbending um að ritstörf hans hafi verið mikils metin var þegar Játvarður veitti Chaucer „gallon af víni daglega það sem eftir er æfinnar“ fyrir eitthvað ótilgreint verk. Þetta voru óvenjuleg verklaun, en þau voru veitt á degi heilags Georgs 1374 þegar venja var að verðlauna listamenn. Hugsanlegt er að Chaucer hafi um þetta leyti, mögulega fyrir ljóð sín, verið orðinn eins konar hirðskáld. Hann tók út þessi laun sín þar til Ríkharður 2. komst til valda en eftir það var þeim breytt í peningaframlag 18. apríl 1378. Fjármálastjóri við tollinn. Chaucer hlaut umtalsverða stöðu sem fjármálastjóri við tollheimtuna við höfnina í London og hóf störf þar 8. júní 1374. Þessu starfi sinnti hann í tólf ár, sem var óvenjulangur tími í stöðu af þessu tagi á þeim tíma. Lítið er vitað um ævi hans næstu tíu árin en talið er að hann hafi skrifað eða byrjað á flestum frægustu verkum sínum á þessum tíma. Hann kemur fyrir í dómskjölum 4. maí 1380 í tengslum við "raptus" (nauðgun eða mannrán) Ceciliu Chaumpaigne, en málið virðist hafa fengið skjóta lausn og enginn blettur fallið á nafn hans vegna þess. Ekki er vitað hvort Chaucer var í London á tímum bændauppreisnarinnar 1381. Chaucer virðist hafa flutt til Kent meðan hann gegndi starfi fjármálastjóra og var skipaður friðdómari þar þegar hætta var á innrás frá Frakklandi. Talið er að hann hafi byrjað að skrifa "Kantaraborgarsögur" snemma á 9. áratugnum (Pílagrímaleiðin sem persónur hans fylgja á leið sinni til Kantaraborgar liggur gegnum Kent). Hann settist líka á enska þingið fyrir Kent árið 1386. Eftir það ár er ekki lengur minnst á eiginkonu Chaucers, Philippu, í heimildum og talið að hún hafi látist 1387. Hann lifði af umrótið í kringum Áfrýjunarlávarðana þrátt fyrir að hann þekkti marga af þeim sem voru teknir af lífi vegna málsins. Framkvæmdaeftirlitsmaður og skógarvörður. 12. júlí 1389 var Chaucer skipaður framkvæmdaeftirlitsmaður konungs, eins konar yfirverkstjóri sem skipulagði öll byggingarverkefni á vegum konungsvaldsins. Engin meiriháttar verk hófust á hans tíma, en hann sá um viðgerðir á Westminster-höll, kapellu heilags Georgs í Windsor-höll, hélt áfram að byggja hafnarbakkann við Lundúnaturn og reisti palla fyrir burtreiðar árið 1390. Þetta var erfitt starf en vel borgað. Hann fékk tvo skildinga á dag, þrisvar sinnum meira en sem fjármálastjóri. Heimildir greina frá því að hann hafi verið rændur og hugsanlega særður þar sem hann var við vinnu sína í september árið 1390 og tæpu ári síðar, 17. júní 1391, hætti hann. Næstum samstundis, eða 22. júní, tók hann við starfi aðstoðarskógarvarðar við konungsskógi við North Petherton í Somerset. Þetta var ekki róleg staða, þar sem viðhald var snar þáttur í starfinu, og það voru nokkur tækifæri til að skapa hagnað. Talið er að Chaucer hafi hætt vinnu við "Kantaraborgarsögur" undir lok aldarinnar. Andlát. a> sem þekkti hann, svo hún fer líklega nærri sanni. Skömmu eftir að stuðningsmanni hans, Ríkharði 2., var steypt af stóli 1399 hverfur Chaucer úr heimildum. Talið er að hann hafi látist af óþekktum orsökum 25. október 1400 en það eru engar öruggar heimildir fyrir þeirri dagsetningu þar sem hún var höggvin í grafhýsi hans sem var reist meira en öld eftir dauða hans. Terry Jones hefur varpað fram þeirri hugmynd að hann hafi verið myrtur af óvinum Ríkharðs, jafnvel að undirlagi Hinriks 4., en engar heimildir styðja þá fullyrðingu. Þegar Hinrik tók við völdum staðfesti hann þau framlög sem Ríkharður hafði veitt Chaucer en í kvæðinu „Chaucer kvartar við pyngju sína“ ("Complaint of Chaucer to His Purse") gefur hann í skyn að hann hafi ekki fengið greitt. Síðast er minnst á Chaucer í samtímaheimildum frá 5. júní 1400 þegar hann fékk greidda einhverja peninga sem hann átti inni. Hann var jarðsettur í Westminster Abbey eins og hann átti rétt á sem starfsmaður konungs og vegna þess að húsið sem hann hafði tekið á leigu 29. desember 1399 var í eigu kirkjunnar. Árið 1556 voru jarðneskar leifar hans fluttar í íburðarmeira grafhýsi. Hann var fyrsti höfundurinn sem var grafinn í Skáldahorninu í kirkjunni. Verk. Geoffrey Chaucer er oft nefndur sem upphafsmaður bókmennta á ensku. Engilsaxneskar bókmenntir höfðu áður blómstrað á Englandi en sú þróun stöðvaðist þegar normannar hernámu landið 1066. Eftir það varð franska (eða franska mállýskan anglónormannska nánar tiltekið) tungumál yfirstéttarinnar. Enskan fór fyrst að njóta einhverrar virðingar á 14. öld og Chaucer var með þeim fyrstu til að nota eigið móðurmál sem bókmenntamál. Verk hans byggja greinilega á eldri fyrirmyndum úr fornaldarbókmenntum og frönskum og ítölskum bókmenntum, en innihalda engu að síður nýjungar, bæði í stíl, bragfræði og efni, sem áttu eftir að mynda undirstöðu fyrir enskar bókmenntir í kjölfarið. Venjulega er ritferli Chaucers skipt í þrjú tímabil: fyrstu verk hans eru kölluð „frönsku“ verkin og þau sem hann skrifaði eftir 1372 „ítölsku“ verkin. "Kantaraborgarsögur" skrifaði hann að megninu til eftir 1390 á „enska“ tímabilinu. Franska tímabilið (til 1372). Talið er að fyrsta verk Chaucers sé, "Romaunt of the Rose", ensk þýðing á franska ljóðabálknum "Roman de la Rose" sem var eitt áhrifamesta ritverk miðalda. Þýðingin hefur aðeins varðveist að hluta og ekki er ljóst hvort Chaucer hafi tekist að ljúka henni. Prentaða útgáfan frá 1532 skiptist í þrjá hluta sem eru málfræðilega mjög ólíkir. Einungis fyrsti hlutinn (línur 1-1705) er eignaður Chaucer með nokkurri vissu, en með annan hlutann ríkir nokkur vafi og talið er öruggt að þriðji hlutinn sé ekki eftir hann. Frá "Romaunt of the Rose" tók Chaucer upp ýmis efnistök, sérstaklega notkun drauma sem rammafrásagnar. Verkið "ABC" frá sama tíma er líka þýðing úr frönsku á lofkvæði Guillaume de Deguillevilles um Maríu guðsmóður. Nafnið er dregið af upphafsstöfum fyrstu þriggja hendinganna í kvæðinu. "Bók hertogafrúarinnar" er fyrsta kvæðið sem er eftir Chaucer sjálfan. Það er tileinkað Blanche af Lancaster, eiginkonu Jóhanns frá Ghent, sem lést árið 1368. Sagt er að kvæðið hafi verið samið fyrir minningarathöfn sem prinsinn vildi halda konu sinni á hverju ári. Þetta er draumkvæði að franskri fyrirmynd sem notar allegóríu til að lýsa sorg ekkilsins. Aúm. Atkvæðið Om (einnig Aúm, Devanagari: ॐ,Malayalam: ഓം, Telugu: ಓಂ, Tamil: ஒம், Kínverska: 唵) er heilagt í Hindúisma. Það kemur fram í upphafi og við lok allra hindúa- og jainabæna. Einnig nota búddatrúarmenn táknið og þá aðallega í Tíbet. Om er talið sett saman úr þremur hljóðum, a-ú-m. Merking orðsins er mjög umdeild og er ítarlega fjallað um það í Upanishadritunum, einkum í Taittiriya, Chandogya og Mandukya Upanishad. Margir heimspekingar hindúa segja atkvæðið fyrsta hljóð veraldarinnar og að það feli í sér kjarna sannrar visku. Sumir segja að Om komi af rótinni av- úr sanskrít og merki „það sem verndar“. Aðrir segja að hljóðin þrjú sem Om samanstandi af tákni guðlega þrenningu (trimurti), a sem stendur fyrir Brahma, u fyrir Vishnu og m fyrir Mahadev sem er annað nafn Shiva. Þá er einnig talið að hljóð þess tákni heimana þrjá: jörð loft og himin. Enn aðrir segja að það tákni kjarna vedaritanna þriggja: Rigveda, Yajurveda og Samaveda. Skýjakljúfur. Skýjakljúfur er mjög há bygging, sem virðist teygja sig upp til himins, og þar til kemur nafnið, þ.e. bygging sem virðist "kljúfa skýin". Opinber skilgreining á hugtakinu skýjakljúfur er ekki til, og oftast er það smekksatriði hvað menn nefna skýjakljúf eða einungis háhýsi. Skýjaklúfar eru reistir úr stáli, járnbentri steinsteypu og graníti og umslegnar gleri. Fram á 19. öld voru sex hæða byggingar mjög sjaldgæfar þar eð lyftan var ekki enn fundin upp og vatnsþrýstingur var ónógur til að leiða vatn upp yfir 50 metra. Kyoto. ' er borg sem er hluti af aðaleyju Japans. Kýótósáttmálinn er kenndur við borgina. Íbúafjöldi Kyoto-borgar er um 1,5 milljónir. Tom De Mul. Tom De Mul (fæddur 4. mars 1986 í Kapellen) er belgískur knattspyrnumaður. Hann leikur með Sevilla FC á Spáni en lék áður með AFC Ajax í Amsterdam. Pýramídarnir í Gísa. Pýramídarnir í Gisa eru greftrunarsvæði í útjöðrum Kaíró í Egyptalandi. Pýramídarnir eru 8 km inni í landi frá borginni Gísa við Níl. Pýramídarnir eru þrír: Pýramídinn mikli í Gísa, Khafre-pýramídinn og Menkaure-pýramídinn, til viðbótar fjölmargar litlar byggingar. Pýramídinn mikli í Gísa er eitt af sjö undrum veraldar og það eina sem er til í dag. Sfinxinn í Gíza er í eystri hluta svæðisins. Sangria. Sangria er áfengur drykkur upprunalega frá Spáni. Hann er gerður úr víni, oftast rauðvíni, ávöxtum og stundum sætuefni. Nafn drykksins er dregið af spænska orðinu "sangra" sem merkir blóð. Drykkurinn er oft veittur kaldur í heitu veðri. Sfinxinn í Gíza. Sfinxinn í Gíza er stytta af ljóni með mannshöfuð á Gizasléttunni í Egyptalandi á vesturbakka Nílar, nálægt Kaíró. Styttan er sú stærsta í heiminum, sem höggvin er úr heilli kalklöpp, en hún er 73,5 m á breidd og 20 m á hæð. Egyptalandsfræðingar telja faraóinn Kafra hafa látið höggva hana á 3. árþúsund f.Kr. í Egyptalandi hinu forna eða um svipað leyti og Pýramídarnir miklu voru byggðir. Veðrun á styttunni gefur vísbendingar um að hún kunni að vera mun miklu eldri, en jafn vel frá 10. árþusund f.Kr. Walvis Bay. Walvis Bay (afrikaans: "Walvisbaai", þýska: "Walfischbucht" eða "Walfischbai" sem merkir „Hvalabugt“) er hafnarborg í Namibíu. Íbúafjöldi er 65 þúsund manns. Óbundið mál. Óbundið mál er texti sem er ekki í bundnu máli, það er að segja ekki undir neinum bragarhætti. Óbundið mál líkist mæltu máli mun meira en bundið mál. Raftónlist. Raftónlist er tónlist leikin á rafhljóðfæri eða önnur hljóðfæri notast við rafmagn, t.d. hljóðgervlum. Samkæmt þessari skilgreiningu er hægt að spila raftónlist á rafmagnsgítar, þá að hann flokkist ekki til rafhlóðfæra. Raftónlist einkennist af tærum rafhljóðum sem hægt er að framkalla með tæki eins og þeremín, hljóðgervla og tölvu. Raftónlist hefur margar fjölbreytanlegar undirstefnur, allt frá hughrifatónlist til nútíma dægurónlist. Það skiftir í rauninni ekki máli hvernig tónlistinn er bara það að hún innihaldi rafhljóð og sé spiluð að mestu leyti með raftækjum. Flest raftónlist er danstónlist sem einkennist af taktföstum 4/4 trommutöktum sem auðvelt er að dansa við. Meðal algengra tónlistarstefna má nefna house-tónlist, teknó-tónlist, trance-tónlist, dubstep, electro-tónlist, breakbeat og drum and bass. Hljóðfæri. Hljóðfæri sem er mest notað í raftónlist nú til dags er fyrst og fremst tölva, síðan eru til alls konar aukabúnaður til þess að auðvelda listamanninum að stjórna tónlistinni. Áður fyrr notuðu raftónlistar menn hljóðgervla, hljómborð, trommuheila og alls konar effekta til þess að spila sína tónlist og gat búnaður oft verið mjög fyrirferðamikill. Listamaðurinn býr til trommutaktinn með því að slá inn taktinn eða velja innitalinn takt í trommuheilanum. Síðan er hægt að breyta og stýra hraða trommutaktsins og nota effekta til þess að breyta hljóðinu. Hljóðgervillinn virkar eins og píanó nema hvað að listamaðurinn getur stjórnað hljóðbylgjunum, breytt hljóðinu og búið til eigið hljóð. Í rafónlist er ekki mikið sungið og er því felst raftónlist hljóðfæratónlist (e. Instrumental music). Það hefur verið vinsælt að nota mikið af effektum ef notast er við söngur í raftónlist til þess að söngurinn verði sem mest eins og vélmenni. Raftæki og þróun. Raftónlist varð til með tilkomu þeremínsins sem var fundið upp árið 1919. Það gerði rússnenskur vísindamaður að nafni Léon Theremin þegar hann ar að rannsaka útvörp og útvarpsbylgjur á mismunandi tíðnum. Þeremín er eina hljóðfærið sem byggist á því að hljóðfæraleikarinn snerti ekki hljóðfærið. Tæknin hefur farið mikið framm síðan þá og hefur raftónlist farið samhliða tækninni í framför. Árið 1928 var Trautonium fyrst búið til. Hljóðfærið var meðal annars notað til þess að herma eftir bjöllu og gong, það var ekki með neinum nótum og var notaður viðnámsvír og málmplata til þess að framkalla hljóðin. Hammond orgelið er byggt út frá Trautionium en Hammondið líktist frekar píanói og gat maður spilað á nótur. Fyrstu hljómgervlarnir komu út upp úr 1950 voru svo kallaðir eininga hljómgervlar þar sem snúrur eru notaðir til þess að búa til farveg hljóðbygja og þannig búa til hljóð. Í byrjun áttundaáratugarins voru mikil framför í hljóðgervlum, Moog gaf út Mini-Mog árið 1970 sem var fyrsti fjöldaframleiddi hljóðgervillinn sem var ákjósanlega ódýr og ekki eins fyrirferðamikill og eldri hljóðgerlvar. Mini-mog varð strax gífurlega vinsæll og margar vinsælar hljómsveitir hafa notað hljóðgervilinn í upptökum sínum, þar á meðal; Abba, Kraftwerk, Radiohead og Michael Jackson. Bassahljóðgervlar og trommuheilar urðu gífurlega vinsælir upp úr 1980 og voru þeir notaðir mikið í danstónlist. Dæmi um vinæslan bassahljóðgervill er Roland TB-303 og dæmi um vinsælan trommuheila eru Roland TR-808 og Roland TR-909. Síðan þá hafa hljóðgervlar og trommuheila orðið meira stafrænni og þróaðri. Tónlistarhugbúnaður. Í dag eru ýmis tónlistarforrit, tónlistarhugbúnaður eða hljóðvinnsluforrit sem gera notendum kleift að búa til tónlist á skipulagðan og einfaldan máta. Listamenn geta keypt og niðurhalið öllum vinsælustu hljóðgerlvum og trommuheilum beint í tölvuna og notað þá líkt og gert var fyrir nokkurum áratugum Fyrirtækið Soundstream bjó til fyrsta hljóðvinnslu forritið árið 1978, fyrirtækið kallaði forritið "The Digital Editing System" en það var ekki fyrr en seint á níunda áratuginum sem hugbúnaður í tölvum gátu ráðið við stafræna hljóðvinnslu. Tónlistarskóli Kópavogs. Tónlistarskóli Kópavogs bíður upp á nám í tölvutónlist. Tónverið í skólanum er elsta starfandi tónver landsins og þar er mjög góð aðstaða. Markmið með náminu er að þjálfa nemendur í að nota tölvu sem aðalhljóðfæri. Nemendur útskirfast með framhaldsnám í tölvutónlist að námi loknu. Íslensk raftónlist. Íslensk raftónlist er afskaplega fjölbreytt og mjög vinsæl. Það sem einkennir íslenska raftónlist er það hveru mikið undirstefnunar blandast saman og listamenn og hljómsveitir taka innblástur frá mörgum stefnum og straumum. Vinæsælir raftónlistarmenn og hljósveitir eru meðal annarrs: Björk, Bloodgroup, Berndsen, FM Belfast, Ghostigital, GusGus Samaris, Steed Lord og Sykur. Sónar hátíðinn. Sónar hátíðin er raftónlistarhátið og sú stærsta sinnar tegundar sem er haldinn á hverju ári í Barcelona á Spáni en einnig er valið aðra staði í heiminum til þess að halda hátíðina. Sónar var einnig haldinn í Hörpu í ferbrúar 2013 og komu þar fram fjölmargir listamenn, íslenskir og erlendir. Dæmi um íslenska tónlistarmenn sem komu fram eru: Bloodgroup GusGus, Mugison, Ólafur Arnalds, Retro Stefson og Sísý Ey. Kraftwerk. Kraftwerk er þýsk hljómsveit sem stofnuð var árið 1970 af Ralf Hütter og Florian Schneider-Esleben. Hljómsveitinn tók stóran þátt í því að gera raftónlist vinsæla og margir raftónlistarmenn hafa fengið innblástur frá tónlistinni þeirra. Þeir eru taldnir ákveðnir frumkvöðlar í raftónlist, þeir voru með fyrstu hljómsveitunum að notast eingöngu við hljóðgervla og tölvur til þess að spila tónlistina sína. Kraftwerk mun spila á Iceland Airwaves tónlistarhátiðinni í Reykjavík í haust. Daphne Oram. Oramics Vélinn hennar Daphne Oram Daphne Oram (31. desember 1925 – 5. janúar 2003) er bresk raftónlistarmaður. Hún fann upp Oramics tæknina árið 1957 en sú tækni felst í því að teikna hljóðbylgjur niður á blað. Hún var fyrsti framkvæmdarstjóri BBC Radiophonic Workshop stúdíósins Jarðgöng. Jarðgöng eru yfirleitt manngerður gangur sem liggur neðanjarðar. Göng eru oftast grafin til að auðvelda samgöngur milli staða. Jarðgöng eru yfirleitt hönnuð fyrir umferð gangandi vegfarenda, ökutækja (veggöng) og járnbrautarlesta (lestargöng). Jarðgöng eru líka grafin til að veita vatni milli staða eins og við Kárahnjúkavirkjun þar sem valið var að grafa göng í stað skurða til að minnka umhverfisáhrif virkjunarinnar. I. M. Pei. Ieoh Ming Pei (貝聿銘) (f. 26. apríl 1917), þekktastur sem I. M. Pei, er kínversk-bandarískur arkitekt sem er talinn einn af síðustu meisturum módernískrar byggingarlistar. Hann vinnur með abstrakt form gerð úr steini, steypu, gleri og stáli. Hann er höfundur Louvre-pýramídans í París. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er ein af fimm helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna (S.þ.), þar hafa öll aðildarríki jafnan rétt. Hlutverk allsherjarþingsins, sem er skilgreint í kafla fjögur í Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, er að: ákveða fjárútlát fyrir S.þ., kjósa hina tíu meðlimi Öryggisráðsins sem ekki hafa fastasæti, fara yfir skýrslur frá öðrum undirstofnunum S.þ. og samþykkja ályktanir. Allsherjarþingið kemur saman einu sinni á ári. Þingið hefst þriðja þriðjudag í september og varir fram í desember. Sérstök þing er hægt að halda á öðrum tímum ársins og neyðarfundi eftir því sem þörf krefur. Þinginu stýrir forseti, sem kosinn er af aðildarríkjunum á ný á hverju ári, eða aðalritari S.þ. Þegar kemur að "þýðingarmiklum málum", það er málum sem varða: heimsfrið og öryggi, kosningu til öryggisráðsins, kosning meðlima í efnahags- og félagsmálaráðið, inntaka nýrra meðlima í S.þ, afnám til bráðabirgða á réttindum og sérréttindum, sem fylgja þátttöku, brottrekstur meðlima og mál varðandi fjárhagsáætlanir þarf ⅔ hluta atkvæða til samþykkis tillögu. Eins og áður hefur komið fram hefur hvert aðildarríki eitt atkvæði. Í öðrum málum nægir meirihluti. Jangtse. Jangtse (eða Bláá) er lengsta fljót Asíu og þriðja lengsta fljót í heimi á eftir Nílarfljóti í Afríku og Amazonfljótinu í Suður-Ameríku. Fljótið er um 6300 km langt. Fljótið er stundum talið skipta Kína í norður- og suðurhluta. Stærsta stífla veraldar, Þriggja gljúfra stíflan er í Jangtse fljótinu. Ganges. Ganges er stórfljót á Indlandi. Fljótið er 2510 km langt, það á upptök sín í Himalajafjöllum óg rennur í Bengalflóa. Laser. Laser er ein af vinsælustu kænum heims og er m.a. keppt á henni á Ólympíu­leikunum. Báturinn hentar ágætlega fyrir unglinga eftir að þeir eru orðnir of gamlir til að sigla Optimist-kænum, þá sérstaklega vegna þess að hægt er að setja á hann þrjú mismunandi segl allt eftir þyngd, aldri og getu þess sem siglir honum. Seglin þrjú eru standard-segl, radial-segl og 4,7-segl. Laser er líkt og Optimist aðeins með einu segli og aðeins ætlaður fyrir einn einstakling, en báturinn er um 4,21 m að lengd og vegur 60 kíló án seglabúnaðar. Laser varð Ólympíubátur fyrir Sumarleikana 1996. Upphaflega var aðeins keppt í karlaflokki en 2008 var keppt í kvennaflokki á laser með minni radial-seglum. Á Íslandi hefur verið keppt í Laser-flokki í kænukeppnum frá árinu 1980. Hafsteinn Ægir Geirsson keppti í þessum flokki fyrir Íslands hönd á Sumarleikunum 2000 og 2004 og lenti þar í 42. og 40. sæti. Segull. Járnsvarf raðast upp samsíða segulsviðslínum umhverfis sísegul. Segull er hlutur með "segulmagn", þ.e. sem myndar segulsvið. Segull hefur tvö skaut, "norður"- og "suðurskaut", sem hafa þá eiginleika að ólík skaut tveggja segla dragast hvort að öðru, en eins skaut hrinda hvort öðru frá sér. Sísegull er hlutur úr segulmögnuðu efni, sem heldur segulmagni sínu lengi. Rafsegull er spanspóla, gjarnan með járnkjarna, sem myndar segulsvið þegar rafstraumur fer um hana. Rafsegulfræði fjallar um víxlverkun segulsviðs og rafsviðs. Styrkur seguls ræðst af styrk segulsviðsins, sem hann myndar, og er mældur með SI-mælieiningunni tesla. Indusfljót. Indusfljót er lengsta og mikilvægasta fljót í Pakistan. Upptök þess eru skammt frá Mansarovar-vatni á hásléttu Tíbets. Fljótið er 3180 km langt. Naguib Mahfouz. Naguib Mahfouz (11. desember 1911 í Kaíró í Egyptalandi – 30. ágúst 2006 í Kaíró í Egyptalandi) var egypskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1988. Mahfouz var undir miklum áhrifum frá Marcel Proust, Franz Kafka og James Joyce. Mahfouz, Naguib Omar Khayyam. Ghiyās od-Dīn Abul-Fatah Omār ibn Ibrāhīm Khayyām Nishābūrī (farsí: غیاث الدین ابو الفتح عمر بن ابراهیم خیام نیشابوری) eða Omar Khayyam (18. maí 1048 – 4. desember 1131) var persneskt skáld, stærðfræðingur, stjarnfræðingur og heimspekingur. Rubaiyat er þekkt safn ljóða eignuð Omari. Marxismi. Marxismi er hugmyndafræði sem tekur yfir stjórnmál, heimspeki, söguspeki, hagfræði og fleiri svið og fræðigreinar. Fræðikenningin er kennd við Karl Marx (1818 - 1883), sem setti hana fram sem nokkuð heillega kenningu ásamt vini sínum og samstarfsmanni Friedrich Engels (1820 - 1895) á nítjándu öld. Rætur marxismans eru nokkrar, og greinar hans sömuleiðis. „Enska“ hagfræðihliðin. Pólitísk hagfræði, sem sækir einkum mikið til enska hagfræðingsins David Ricardo. Hún fjallar um framleiðslutengsl, auðmagn, gildisauka og samþjöppun eigna; „Frönsku“ stjórnmálin. Sósíalismi, sem sækir mikið til franskra brautryðjenda (svo sem Henri de Saint-Simon, Pierre-Joseph Proudhon og Louis Blanc). Hann snýst um stéttabaráttu og stefnir að valdatöku verkalýðsins í byltingu, þar á eftir alræði öreiganna og, í fyllingu tímans, stéttlausu þjóðfélagi; „Þýska“ heimspekin. Díalektísk efnishyggja, sem Marx setti saman úr díalektík að hætti Hegels og efnishyggju að hætti Feuerbachs. Hún fjallar um áhrif náttúrulegra fyrirbæra hvert á annað og að hið efnislega eða hlutlæga sé undirstaða hins andlega eða huglæga. Hliðargrein díalektískrar efnishyggju er söguleg efnishyggja Helstu rit. Karl Marx og Friedrich Engels skrifuðu fjölda bóka og greina, og ritsafn þeirra nemur tugum binda. Sum skrifin hafa eðlilega haft meiri áhrif en önnur, og eru nokkrar áhrifamestu bækurnar þessar: "Kommúnistaávarpið", "Auðmagnið", "Díalektík náttúrunnar", "Anti-Dühring", "Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins", "Átjándi Brumaire Loðvíks Napóleons" og "Þýska hugmyndafræðin". Greinar marxisma. Fljótlega eftir að Marx og Engels voru látnir, fór fylgismenn þeirra að greina á um hver hin rétta túlkun pólitísks marxisma væri. Annað alþjóðasambandið gerðist í fyrstu fráhverft beinni byltingu, en áleit að ná mætti sama árangri með baráttu á þingi og í öðrum borgaralegum stofnunum. Það klofnaði þegar byltingarsinnar sögðu skilið við það á árum Fyrri heimsstyrjaldar, vegna afstöðu til stríðsins og byltingarinnar í Rússlandi. Lenín tók upp merki byltingarsinnaðs marxisma og jók við kenningar Marx, meðal annars með kenningunni um heimsvaldastefnu, í samnefndu riti sínu. Eftir dauða Leníns urðu Stalín og Trotskí leiðandi hvor í sínum hópi, þar sem aðal bitbeinið var hvort Stalín og bolsévíkar væru á réttri leið um stjórn Sovétríkjanna. Enn klofnaði hreyfingin þegar vinslit urðu með Stalín og Tító og kuldi milli Stalíns og Maós, og eftir að Khrústséff hélt leyniræðu sína og uppskar fyrir vikið fordæmingu Maós og Envers Hoxha, sem einnig urðu ósáttir. Ástæður þessara vinslita voru oftast pólitískar, en hugmyndafræðin fylgdi þeim (sem rímar við þá skoðun díalektískrar efnishyggju að hið hlutlæga sé grundvöllur hins huglæga...). Marxísk fræði hafa haft mikil áhrif á önnur svið en bein opinber stjórnmál. Má þar einkum nefna söguskoðunina, sem markar söguspeki margra sagnfræðinga, og heimspekina, sem styður lífsviðhorf efnishyggjumanna. Þá eru marxísk áhrif (mis)sterk innan margra annarra fræðigreina, til dæmis bókmenntafræði, kynjafræði, hagfræði og auðvitað stjórnmálafræði. Gagnrýni á marxisma. Þar sem marxismi setur fram harða og byltingarsinnaða gagnrýni á ríkjandi skipulag hagkerfisins og samfélagsins, hefur hann mætt mótspyrnu frá fyrstu tíð og er mjög umdeildur enn í dag. Gagnrýnin kemur bæði frá vinstri (anarkistum) og hægri (íhaldsmönnum, frjálshyggjumönnum, sósíaldemókrötum, trúuðum og fleirum). Anarkísk gagnrýni á marxisma. Anarkistar gagnrýna marxista aðallega fyrir að boða að verkalýðurinn eigi að taka völdin í samfélaginu, frekar en að valdabygging samfélagsins verði einfaldlega leyst upp eða lögð niður. Báðar stefnur eru samdóma um að stefna að stéttlausu samfélagi, en anarkistar hafna því að alræði öreiganna sé óhjákvæmilegt millistig. Saka þeir marxista oft um stjórnlyndi, sem þeir álíta að hafi einkennt þær ríkisstjórnir sem hingað til hafa kennt sig við marxisma. Marxista greinir á um umræddar ríkisstjórnir: Sumir telja þær hafa gert það sem var nauðsynlegt, aðrir að þær hafi ekki haft sósíalískt eða marxískt inntak í alvörunni, enn aðrir að þær hafi spillst vegna ýmissa innri og ytri kringumstæðna. Íhaldssöm gagnrýni á marxisma. Íhaldsmenn gagnrýna einkum að marxistar vilji afnema gömul og gróin gildi og samfélagslegar stofnanir og festi sem þeir telja vera nauðsynleg eða, í það minnsta, til bóta fyrir samfélagið. Þau festi sem marxistar telja að þurfi að hverfa úr sögunni, álíta þeir að séu stofnanavædd forréttindi ríkjandi stéttar, til dæmis ríkisvaldið, einkaeignarrétturinn og fjölskyldan í þeirri mynd sem þessar samfélagsstofnanir eru nú. Frjálshyggjugagnrýni á marxisma. Frjálshyggjumenn gagnrýna marxista bæði fyrir að boða afnám kapítalismans, sem þeir telja að sé mannkyninu til hagsbóta, og fyrir stjórnlyndi, með svipuðum rökum og anarkistar. Sósíaldemókratísk gagnrýni á marxisma. Jafnaðarmenn gagnrýna marxista fyrir að telja byltingu nauðsynlega, og álíta sjálfir að hægt sé að sætta kapítalískt hagkerfi við hag almennings og þær sættir geri byltingu óþarfa og byltingarstefnu því óþarfa öfgastefnu. Margir marxistar telja hins vegar að byltingarógn hafi gert jafnaðarstefnu að skárri kosti í augum ríkjandi stéttar, sem hafi keypt frið við vinnandi stéttir Vesturlanda með arði af heimsvaldastefnu í öðrum heimshlutum. Velferðarþjóðfélag, þar sem það er við lýði, sé tímabundið millibilsástand, og að fyrr eða síðar slái aftur í brýnu milli eignastéttarinnar og vinnandi stétta. Trúarleg gagnrýni á marxisma. Trúarhreyfingar gagnrýna marxisma einkum fyrir þá ströngu efnishyggju sem hann byggist meðal annars á. Fólk sem trúir á æðri máttarvöld eða önnur yfirnáttúrleg öfl fælist heimsmynd sem hafnar slíku, og telur hana ekki vita á gott. Sósíalistafélagið. Sósíalistafélagið er íslenskt félag sem var stofnað árið 1994, með það fyrir augum að safna þráðum íslensks sósíalisma að nýju eftir hrun Sovétríkjanna, og stofna nýjan íslenskan sósíalistaflokk. Það var virkt í nokkur ár, hélt m.a. „Rauðan fyrsta maí“ í samvinnu við fleiri félög að kvöldi 1. maí í nokkur ár og efndi einnig til funda um sósíalisma og fleiri málefni. Það er ennþá til, en hefur verið óvirkt í mörg ár. Formaður þess er Þorvaldur Þorvaldsson. Ernst Haeckel. Ernst Heinrich Philipp August Haeckel (16. febrúar 1834 – 9. ágúst 1919) var þýskur líffræðingur, náttúruvísindamaður, eðlisfræðingur, heimspekingur, prófessor og listamaður. Hann uppgötvaði og skráði þúsundir dýrategunda. Haeckel var öflugur málsvari kenninga Charles Darwin í Þýskalandi. Haeckel, Ernst Haeckel, Ernst Haeckel, Ernst Vöðvi. Vöðvi er vefur í stoðkerfi líkamans sem getur dregist saman gerir limum kleyft að hreyfa sig. Vöðvar skiptast í þrjá flokka; sléttan vöðvavef, þverrákóttan vöðvavef og hjartavöðva. Vövar tengjast beinum með sinum. Taugakerfið stjórnar hreyfingu vöðvanna með því að hreyfitaugar bera boð til þeirra. Vöðvi er gerður úr vöðvaþráðum. Vöðvi getur bara togað í bein, ekki ýtt því, vess vegna eru alltaf að minnsta kosti tveir vöðvar á hverjum liðamótum. Í vöðva er líka notað köfnunarefni, sem er lofttegund meðal annars í andrúmsloftinu. Breska konungsveldið. Elísabet Bretadrottning er núverandi drottning breska konungsveldisins. Breska konungsveldið eða breska krúnan er stjórnkerfi þar sem konungur Bretlands er þjóðhöfðingi Bretlands og hjálenda þess. Samkvæmt breskri hefð er krúnan uppspretta framkvæmda-, dóms- og löggjafarvalds. Í reynd er krúnan háð lýðræðislega kjörnum fulltrúum á breska þinginu. Konungur Bretlands er líka höfuð ensku biskupakirkjunnar og þjóðhöfðingi í fimmtán ríkjum breska samveldisins. Mustafa Ahmed al-Hawsawi. Mustafa Ahmed al-Hawsawi (arabíska: مصطفى الحوساوي, f. 5. ágúst 1968) er meðlimur íslömsku hryðjuverkasamatakann al-Kaída og sá sem skipulagði og fjármagnaði hryðjuverkin 11. september 2001. Al-Hawsawi var handtekinn í Pakistan 1. mars 2003 og sagður hafa verið fluttur í Bagram-herstöðina í Afganistan, en það hefur ekki fengist staðfest af yfirmönnum Bandaríkjahers. Al-Hawsawi var, ásamt Khalid Shaikh Mohammed, eitt þriggja vitna sem verjendur Zacarias Moussaoui óskuðu eftir til yfirheyrslu í réttarhöldunum yfir honum, en bandaríska alríkisstjórnin neitaði því með tilvísun til þjóðaröryggis. Khalid Sheikh Mohammed. Khalid Sheikh Mohammed (arabíska: خالد شيخ محمد; f. 1. mars 1964 eða 14. apríl 1965) er fangi Bandaríkjanna vegna gruns um aðild að hryðjuverkunum 11. september 2001. Hann var ákærður 11. febrúar 2008 fyrir stríðsglæpi og fjöldamorð. Hann var meðlimur í íslömsku hryðjuverkasamtökunum Al-Kaída og er í skýrslu 11. september-nefndarinnar sagður vera „aðalskipuleggjandi árásanna 11. september“. Hann var handtekinn í Rawalpindi í Pakistan 1. mars 2003. Alþjóðasamband um jarðmælingar og jarðeðlisfræði. Alþjóðasamband um jarðmælingar og jarðeðlisfræði, eða IUGG – ("International Union of Geodesy and Geophysics") – er sjálfstætt samband vísindasamtaka sem helga sig (eðlisfræðilegum) rannsóknum á jörðinni og nánasta umhverfi hennar, og leitast við að nýta þá þekkingu sem aflast í þágu mannlegs samfélags. Sambandið var stofnað árið 1919. Meðal verkefna sem sambandið fæst við eru náttúruauðlindir í jarðskorpunni, umhverfisvernd og hvernig draga má úr áhrifum náttúruhamfara. Með tilkomu geimferða hefur sambandið farið að sinna samanburðarrannsóknum á tunglinu og reikistjörnunum. Rúmlega 100 lönd og um 60 alþjóðasamtök eru aðilar að sambandinu eða dóttursamtökum þess. Á fjögurra ára fresti efnir sambandið til 5-10.000 manna 'allsherjarþings', sem stendur í hálfan mánuð. Þar er fundað um einstök fagsvið og kosið í ráð, sem fer með æðstu stjórn sambandsins á milli þinga. Í ráðinu eru 1-3 fulltrúar frá hverju aðildarlandi. Fulltrúi Íslands, frá 2007, er Árni Snorrason, þá forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar, nú forstjóri Veðurstofu Íslands. Forseti sambandsins, frá 2007, er Tom Beer frá Ástralíu. Garðahlynur. Garðahlynur (fræðiheiti: "Acer pseudoplatanus") er stórvaxið lauftré af ættkvísl Hlyna ("Acer") sem vex víða í fjalllendi Suður-Evrópu. Hann getur náð 30 til 40 metra hæð og 500 ára aldri. Lýsing. Garðahlynur kýs rakann, frjósamann og kalkríkann jarðveg en rótarkerfi hans er djúpstætt og næringarfrekt. Hann kýs sólríka og skjólgóða staði en getur þó komist á legg í hálfskugga. Hann er viðkvæmur gagnvart haustkali og vex best þar sem haust eru löng og mild. Hann verður salt- og vindþolinn með aldrinum auk þess sem hann þolir mengun allvel og því algengt götutré og prýði í stórborgum. Laufblöðin eru stór, dökkgræn með rauðan blaðstilk. Þau eru fimmsepótt á hjartalaga grunni og alls um 8 til 15 sentímetra á lengd og breidd. Haustlitur trésins er gulur til appelsínugulur þó rauð blöð sjáist inn á milli. Tréð blómstrar fyrir laufgun og eru blómin 8 til 10 sm langir klasar sem hanga niður. Þau eru gulgræn á lit. Garðahlynur setur fræ um 6 mánuðum eftir frjóvgun. Fræin eru tvö og tvö saman, umlukin hnot. Vængirnir mynda 60 til 90° horn og eru 1 til 3 sm á lengd. Notkun. Í heimkynnum sínum sáir garðahlynur sér sjálfur og getur sprottið á ótrúlegustu stöðum, t.d. í þakrennum. Honum er fjölgað með fræjum en ræktunarafbriðgi eru einnig grædd á önnur tré. Tréð er nýtt sem timburtré t.d. á Nýja-Sjálandi og Norður-Ameríku og er viðurinn nýttur til hljóðfæragerðar (sérstaklega í fiðlur), sem parket og í húsgögn. Þá er það talið illgresi í sumum hlutum Ástralíu. Milan Kundera. Milan Kundera (fæddur 1. apríl 1929 í Brno, Tékkóslóvakíu) er tékkneskur rithöfundur sem hefur verið búsettur í Frakklandi frá 1975. Æviágrip. Faðir hans var þekktur píanóleikari í heimalandi sínu, ekki síst vegna þess að hann fór ótroðnar slóðir sem píanóleikari og var iðinn við að kynna og leika verk eftir nútímatónskáld, einkum eitt merkasta tónskáld Tékka á 20. öld, Leoš Janáček. Kundera gekk árið 1945 í Ungliðahreyfingu tékkneska kommúnistaflokksins, en var rekinn úr flokknum þremur árum síðar, árið 1948, aðeins nítján ára að aldri. Um svipað leyti sendi hann frá sér sína fyrstu bók, ljóðabók sem nefnist "Maðurinn, þessi mikli garður". Árið 1957 sendi hann frá sér aðra ljóðabók og þá síðustu sem hann hefur skrifað fram til þessa, "Eintöl". Strax í þeirri bók byrjar hann að glíma við viðfangsefni sem eiga eftir að koma fyrir aftur og aftur í bókum hans: hann veltir fyrir sér spurningum um orð manna og athafnir, gerir stólpagrín að ástinni og kynlífinu og þykir strax þá ansi berorður og frakkur. Í byrjun sjöunda áratugarins skrifar hann svo nokkrar smásögur sem hann birti í þremur smáritum á árunum 1963 til 1968 og voru sjö þeirra síðan gefnar út árið 1969 undir titlinum "Hlálegar ástir". Hann var þó ekki alveg búinn að snúa baki við ljóðlistinni því hann þýddi heilmikið safn ljóða eftir franska skáldjöfurinn Guillaume Apollinaire og fylgdi því úr hlaði með ritgerð um þetta höfuðskáld Frakka á öldinni. Um 1960 fór Kundera að kenna kvikmyndahandritagerð við Kvikmyndastofnunina í Prag, en hann hafði áður verið við nám þar og átti sinn þátt í tékkneska vorinu í kvikmyndagerð. Meðal nemenda hans á þessum tíma var kvikmyndaleikstjórinn Miloš Forman (Gaukshreiðrið, Amadeus, Larry Flint). Hann fékkst einnig við að skrifa leikrit og í aprílmánuði árið 1962 frumsýndi framsækið leikhús í Prag, Svalaleikhúsið, leikrit hans, "Eigendur lyklanna". Meðan á Vorinu í Prag stóð var Kundera einn þeirra sem vildi endurbæta kommúnismann og ljá honum "mannlega ásýnd" eins og það var kallað, en það mætti harðri andstöðu meðal íhaldsmanna innan tékkneska kommúnistaflokksins og allt sprakk í loft upp á fjórðu ráðstefnu tékkneska rithöfundasambandsins árið 1967. Sama ár hófst hinn eiginlegi ferill hans sem skáldsagnahöfundar þegar hann sendi frá sér skáldsöguna "Brandarinn". Sagan er í senn lítil, falleg ástarsaga og saga tékknesku þjóðarinnar frá 1948 til 1964. Brandarinn varð feykivinsæll í Tékkóslóvakíu á sínum tíma og hefur með tímanum orðið einn af samnefnurum þess sem kallað hefur verið Vorið í Prag og raunar gott betur, því hún er sú skáldsagna hans sem hefur náð hvað mestri útbreiðslu í heiminum, ef skáldsagan "Óbærilegur léttleiki tilverunnar" er undanskilin. Eins og áður segir var Kundera rekinn úr Kommúnistaflokknum árið 1948 en hann gekk aftur í hann í upphafi sjöunda áratugarins þegar ógnartími Stalíns var liðinn hjá. En hann rakst illa flokki eins og fyrri daginn og var aftur rekinn úr flokknum árið 1970, tveimur árum eftir innrás Rússa, sem komu afturhaldssömustu kommúnistunum til aðstoðar, eins og frægt er orðið, og gerðu Tékkóslóvakíu að leppríki sínu. Kundera var rekinn úr starfi sínu við Kvikmyndastofnunina, bækur hans voru bannaðar, fjarlægðar úr öllum bókasöfnum og nafn hans máð út úr öllum ritum um tékkneskar bókmenntir. Yfirvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir að hann héldi áfram að skrifa, en hann þrjóskaðist við og tókst að fá næstu bók sína, "Lífið er annars staðar", þýdda á frönsku og hún birtist fyrst í París árið 1973. Hann var þá orðinn nokkuð þekktur í Frakklandi. "Brandarinn" hafði komið þar út árið 1969 með formála eins þekktasta og áhrifamesta rithöfundar Frakka um þær mundir, súrrealistans Louis Aragons. Árið 1975 bauðst Kundera að taka að sér kennslu við háskólann í Rennes í Bretagnehéraði í Frakklandi vestanverðu. Nokkrum mánuðum eftir að hann kom til Frakklands, 1976, sendi hann frá sér sína þriðju skáldsögu, "Kveðjuvalsinn", og þremur árum síðar kom "Bókin um hlátur og gleymsku út", en hún varð til þess að tékknesk stjórnvöld sviptu hann hinu tékkneska þjóðerni sínu árið 1980. Hann hlaut franskan ríksborgararétt árið 1981 þegar François Mitterrand varð forseti Frakklands. Sama ár kom leikritið "Jakob og meistarinn", hylling til Denis Diderot út. Árið 1984 kom út hans frægasta bók, "Óbærilegur léttleiki tilverunnar", tveimur árum síðar, eða 1986, kom út ritgerðasafnið "List skáldsögunnar", skáldsagan "Ódauðleikinn" 1990, ritgerðasafnið "Svikin við erfðaskrár" 1993, skáldsagan "Með hægð" 1995 og skáldsagan "Óljós mörk" 1997, en sú bók kom fyrst í heiminum út hérlendis. Nýjasta skáldsaga hans, "Fáfræðin", kom út á íslensku haustið 2000. Eftir það hefur hann sent frá sér tvö ritgerðasöfn um skáldskap, tónlist og myndlist, "Tjöldin", árið 2005 og "Kynni" í lok mars 2009. Allar skáldsögur hans og flestar ritgerðir hafa komið út á íslensku í þýðingu Friðriks Rafnssonar. Kundera býr nú ásamt konu sinni, Veru, í París. Hann kenndi til skamms tíma við Ecole des Hautes Études en Sciences Sociales þar sem hann fjallaði um skáldsöguna í Mið-Evrópu og samband tónlistarinnar og skáldsögunnar, þessara tveggja sérevrópsku listforma. Hann hætti því hins vegar fyrir nokkrum árum og sinnir nú alfarið ritstörfum. Verðlaun. Kundera hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir ritverk sín, m.a. Medicis-verðlaunin árið 1973 fyrir skáldsöguna "Lífið er annars staðar", Jerúsalemverðlaunin í árið 1985 fyrir skáldsöguna "Óbærilegur léttleiki tilverunnar", Aujourd‘hui verðlaunin árið 1993 fyrir ritgerðasafnið Svikin við erfðaskrárnar, Herderverðlaunin árið 2000 og Grand prix frönsku akademíunnar árið 2001 fyrir höfundarverk sitt í heild. Hann hlaut hin virtu Heimsverðlaun Simone og Cino del Duca stofnunarinnar þann 10. júní 2009 og voru þau afhent við hátíðlega athöfn í Frönsku akademíunni í París. Kundera var gerður að heiðursborgara í fæðingarborg sinni, Brno í Tékklandi, haustið 2009. Tenging við Ísland. Kunderahjónin hafa komið nokkrum sinnum til Íslands og hafa mikið dálæti á landinu. Ísland kemur fyrir í nokkrum bóka Kundera: "Kveðjuvalsinum" (minnst á laxveiðar á Íslandi), "Bókinni um hlátur og gleymsku" (minnst á einvígi Fishers og Spasskís í Reykjavík), "Svikunum við erfðaskrárnar" (vangaveltur út frá orðinu fjölskylda, gönguferð um gamla kirkjugarðinn í Reykjavík), "Fáfræðinni" (orðið söknuður, heimþrá og beinamál Jónasar koma þar m.a. við sögu), í "Tjöldunum" (fjallað nokkuð um Íslendingasögurnar) og í þeirri nýjustu, "Kynnum", er kafli um skáldsöguna "Svaninn" eftir Guðberg Bergsson. Auk þess skrifaði hann formála að bók um Kristján Davíðsson listmálara sem Listasafn Íslands gaf út í tilefni af yfirlitssýningu á níræðisafmæli listamannsins (2008). Tenglar. Kundera, Milan Kundera, Milan Kundera, Milan Endurskoðunarstefna. Endurskoðunarstefna í sagnfræði telur ríkjandi söguskoðun ranga og vill skoða og túlka söguna upp á nýtt til að leiðrétta skekkjuna. Stefan Zweig. Stefan Zweig (28. nóvember 1881 í Vín, Austurríki - 22. febrúar 1942 í Petrópolis, Brasilía) var austurrískur rithöfundur. Hann er einna þekktastur á Íslandi fyrir smásöguna "Manntafl" og sjálfsævisöguna "Veröld sem var" (Die Welt von gestern). Tenglar. Zweig, Stefan Brigham Young. Ljósmynd af Brigham Young, tekinn um 1866 Brigham Young (fæddist 1. júní 1801 í Vermont í Bandaríkjunum, dó 29. ágúst 1877 í Salt Lake City í Utah) var annar spámaður og leiðtogi Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, sem þekktari eru sem mormónar. Young stofnaði borgina Salt Lake City og fjölda annarra bæja í Utah-fylki og öðrum fylkjum þar í kring. Hann hefur oft verið nefndur "hinn ameríski Móses" eða "mormóna Móses" vegna hlutverks síns í landnámi mormóna á svæði í Mexíkó sem seinna varð bandarískt og síðar fylkið Utah. Young fæddist í fátækri bóndafjölskyldu í Vermont-fylki og vann sem ungur maður sem smiður. Hann varð meþódisti 1824 en snérist til mormónatrúar 1830 þegar hann hafði lesið hina nýútkomnu Mormónsbók. Hann var skírður mormóni 1832 og hélt þá til Kanada sem trúboði. Þegar fyrsta kona hans lést 1834 settist hann að í mormónanýlendunni í Kirtland í Ohio. Young var heittrúaður og virkur í hinni nýju trú. Hann var gerður að postula og varð einn af "quorum", "Tólfpostulasveitinni" (sem stjórna kirkjunni) 1835. Hann fór sem trúboði til Englands á árunum 1840 til 1841 og í kjölfar þess flutti fjölmennur hópur sem hafði kynnst trúnni í gegnum Young til Bandaríkjanna. Það svæði í norðurhluta Mexíkó sem Bandaríkin náðu undir sig 1848. Það má þekkja Utah-fylki á vatninu Great Salt Lake. Gadsden-kaupin 1853 eru sýnd með gulum lit Eftir að Joseph Smith, fyrsti spámaður og stofnandi kirkjunnar, hafði verið myrtur 1844 tók Young við forystu safnaðarins. Mormónar urðu fyrir miklum ofsóknum á þessum tíma og það varð til þess að þeir komust a þeirri niðurstöðu að þeim væri ólíft í austurhluta Bandaríkjanna. Brigham Young fékk þá vitrun um að fyrirheitna landið væri að finna inn í því svæði sem þá var í norðurhluta Mexíkó. Eftir mikla erfiðleikaferð komu fyrstu mormónalandnemarnir á áfangastað í Salt Lake dalnum 24. júlí 1847 og höfðu þá verið á ferð frá apríl 1846. Appelsíngula línan sýnir það svæði sem mormónar vildu gera að fylkinu "Deseret", ljósbleiki liturinn sýnir það svæði sem var gert að Yfirráðasvæðinu Utah 1851 Bandaríkin lögðu undir sig norðurhluta Mexíkó 1848 og þar með það svæði þar sem mormónar höfðu sest að. Young óskaði eftir því við bandarísk yfirvöld að það yrði gert að sjálfstæðu fylki sem kallað yrði "Deseret". Það var þó ekki úr en hins vegar var stofnað Yfirráðasvæðið Utah (Utah Territory) og Young var gerður svæðisstjóri og hafði hann með því bæði andleg og veraldleg völd á svæðinu. Rúmlega 100 000 mormónar fluttu á svæðið fram að andláti Young 1877, meðal annars nokkur hundruð íslendingar. Hundruð bæjarsamfélög uxu upp, til dæmis Spanish Fork, fyrsta nýlenda íslendinga í Ameríku. Brigham Young lifði í fjölkvæni, hann var kvæntur 51 konu og átti 56 börn með 16 af þeim. Jean Anthelme Brillat-Savarin. Titilsíðan á "Eðli bragðsins" í útgáfu frá 1848. Jean Anthelme Brillat-Savarin (1. apríl 1755 – 2. febrúar 1826) var franskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem er þó þekktastur sem lífsnautnamaður og matmaður. Ævi. Brillat-Savarin fæddist inn í lögfræðingafjölskyldu í bænum Belley í Ain þar sem áin Rhône skildi milli Frakklands og Savoja. Hann lærði lögfræði, efnafræði og læknisfræði í Dijon og gerðist eftir það lögmaður í heimabæ sínum. Þegar Franska byltingin hófst árið 1789 var hann sendur sem fulltrúi á franska stéttaþingið sem fljótlega breyttist í franska stjórnlagaþingið þar sem hann aflaði sér nokkurrar frægðar, aðallega fyrir ræðu til varnar dauðarefsingu. Útlegð. Þegar stjórnlagaþingið var leyst upp sneri hann aftur heim og hélt áfram lögmannsstörfum. Þegar ógnarstjórnin hófst var lausnargjald sett til höfuðs honum þar sem hann var gírondíni og hann leitaði hælis í Sviss sem pólitískur flóttamaður. Síðar flutti hann til Hollands og enn síðar til nýstofnaðra Bandaríkjanna. Þar dvaldi hann í þrjú ár í Boston, New York, Philadelphiu og Hartford og lifði á frönskukennslu og fiðlukennslu. Um tíma var hann fyrsta fiðla í Park Theatre í New York-borg. Dómarastörf í Frakklandi. Hann sneri aftur til Frakklands 1797 á tímum stjórnarnefndarinnar til að gerast ritari hershöfðingjans Charles Pierre François Augereau í Rínarhernum en fékk skyndilega stöðu sem dómari við hæstarétt. Hann gegndi þeirri stöðu til dauðadags. Hann tók síðara ættarnafn sitt upp eftir frænku sinni sem hét Savarin þegar hún arfleiddi hann að öllum auðæfum sínum með því skilyrði að hann tæki upp nafn hennar. Hann giftist aldrei. Ritverk. Brillat-Savarin gaf út nokkur rit um lögfræði og hagfræði en frægasta rit hans er "Physiologie du goût" („Eðli bragðsins“) sem kom út 1825, aðeins tveimur mánuðum fyrir lát hans. Fullur titill er "Physiologie du Goût, ou Méditations de Gastronomie Transcendante; ouvrage théorique, historique et à l'ordre du jour, dédié aux Gastronomes parisiens, par un Professeur, membre de plusieurs sociétés littéraires et savantes". Michael Collins (byltingarleiðtogi). Michael John („Mick“) Collins (16. október 1890 – 22. ágúst 1922) var írskur byltingarleiðtogi, Fjármálaráðherra við Fyrsta Dáil 1919, stjórnaði leyniþjónustu ÍRA og átti stóran þátt í því að semja við bresku ríkisstjórnina fyrir hönd Íra um ensk-írska sáttmálann sem umboðsmaður heimastjórnar Írlands. Hann var yfirhershöfðingi írska hersins þegar að hann lést. Michael Collins (Mícheál Seán Ó Coileáin) var skotinn til bana í fyrirsát í Béal nam Bláth í Cork á Írlandi í ágúst 1922, hann var 32 ára að aldri. Heimildir. Collins, Michael ASP.NET. ASP.NET er vefforritunarumhverfi hannað og markaðsett af Microsoft, sem forritarar geta notað til þess að smíða kraftmiklar vefsíður, vefforit og vefþjónustur. Það var fyrst gefið út í janúar 2002 með útgáfu 1.0 af .NET-umhverfinu, og er arftaki Active Server Pages (ASP) tækninar. ASP.NET er byggt á Common Language Runtime (CLR), sem gerir forriturum kleift að skrifa ASP.NET kóða með hvaða .NET-máli sem er. Saga. Eftir að Internet Information Services 4.0 kom út árið 1997, hóf Microsoft að rannsaka möguleika á nýju vefforritunarlíkani sem myndi leysa algengar kvartanir varðandi Active Server Pages, sérstaklega hvað varðaði aðskilnað á framsetningu og efni og eiginleikan að skrifa „hreinan“ kóða. Mark Anders, framkvæmdastjóri IIS-hópsins, og Scott Guthrie, sem hafði gengið til liðs við Microsoft eftir að hafa útskrifast frá Duke University árið 1997, voru settir í að ákveða hverning líkanið myndi líta út. Upphafshönnunin var þróuð á tveimur mánuðum af Anders og Guthrie, og Guthrie kóðaði frummyndirnar um jólahátíðirnar 1997. Frummyndinn var kölluð „XSP“; Guthrie útskýrði í viðtal árið 2007 að, „Fólk myndi alltaf spyrja hvað X-ið stæði fyrir. Á þeim tíma stóð það í raun ekki fyrir neitt. XML byrjaði á því; XSTL byrjaði á því. Allt sem var svalt virtist byrja á X, svo það var það sem við kölluðum það upphaflega“. Upphafsþróunin á XSP var gerð með notkun Java, en stuttu síðar var ákveðið að byggja nýja verkvanginn ofan á Common Language Runtime (CLR) í staðinn. Guthrie lýsti þeirri ákvörðun sem „stórri áhættu“, þar sem að velgengni nýja vefþróunarverkvangsins ylti á velgengni CLR, sem eins og XSP, var enn á grunnstigi þróunar, enda var XSP-teymið fyrsta teymið hjá Microsoft til að miða við CLR. Síður. ASP.NET síður, opinberlega þekktar sem „vefeyðublöð“, eru aðaleiningar í hugbúnaðarþróun. Vefeyðublöð eru geymd í skrám með ASPX-viðbót; í forritunartæknimáli, hýsa þessar skrár yfirleitt kyrrstætt (X)HTML ívaf, og einnig ívaf sem skilgreinir miðilsmegin Web Controls og User Controls þar sem hönnuðurinn setur allt nauðsynlega kyrrstæða og breytilega efnið á síðuna. Til viðbótar má setja breytilegan kóða sem keyrir miðilsmegin á síðu innan í bálk sem er svipað og í annarri vefforritunartækni svo sem PHP, JSP og ASP, en almennt er mælt á mót slíku að frátöldu þegar gagnabinding á sér stað en hún krefst fleiri kalla þegar síðan er birt. Max Planck. Max Karl Ernst Ludwig Planck (23. apríl 1858 – 4. október 1947) var þýskur eðlisfræðingur. Hann er talinn braytryðjandi í skammtaeðlisfræði og þar með einn af mikilvægustu eðlisfræðingum 20. aldar. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1918. Tenglar. Planck, Max Ramayana. Ramayana er fornt indverskt söguljóð, skrifað á sanskrít. Talið er að skáldið Valmiki hafi samið kvæðið sem er mjög mikilvægt bókmenntum hindúa. Ramayana hafði mikil áhrif á síðari tíma kveðskap á sanskrít og indverska menningu. Pieter Brueghel eldri. Pieter Brueghel eldri, sjálfsmynd frá því um 1565. Pieter Bruegel eldri (um 1525 – 9. september 1569) var hollenskur myndlistarmaður og prentari, þekktur fyrir landslagsmyndir sínar og myndir af sveitalífi. Árið 1559 hætti hann að rita nafn sitt með 'h' og ritaði það æ síðan "Bruegel". Tenglar. Brueghel, Pieter Gullgerðarlist. Gullgerðarlist (eða alkemía (úr arabísku: "al-kimia")) var athugun á eðli efna. Gullgerðarmenn ("alkemistar") kepptust meðal annars við að umbreyta óæðri efnum í gull og finna lífselixír. Upphaf gullgerðarlistarinnar má rekja aftur til fornaldar, en helstu gullgerðarmenn voru upp á 16. og 17. öld, en tilraun manna til að búa til gull, hélst þó alveg fram á 19. öld. Gullgerðarmenn voru að vissu leyti fyrirrennarar nútíma efnafræðinga. Matvælaöryggi. Matvælaöryggi eða fæðuöryggi er staða þar sem fólk lifir ekki við hungur eða þarf að óttast svelti. Um allan heim lifa um 852 milljónir manna við stöðugt hungur vegna sárafátæktar; en allt að tveir milljarðar þurfa að þola matarskort við og við vegna mismikillar fátæktar, samkvæmt tölum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2003. Beint samband er milli neyslu matvæla og fátæktar. Fjölskyldur sem eiga nægileg úrræði til að sleppa við sárustu fátækt þurfa sjaldan að þola langvarandi hungur, á meðan fátækar fjölskyldur þurfa ekki aðeins að þjást vegna stöðugs hungurs, heldur eru líka sá hluti íbúanna sem er í mestri hættu vegna tímabundins matarskorts og hungursneyðar. Sveinsstaðaafrétt. a> til vinstri, Almenningsfjall fyrir miðju. Sveinsstaðaafrétt nefnist afrétt Svarfdælinga. Hún er innst í Skíðadal og afdölum hans þar. Bæði sauðfé og hestar og jafnvel geldneyti ganga þar til beitar að sumarlagi. Ólíkt því sem gerist á Suðurlandi og víðar er nafnorðið "afrétt" í kvenkyni í munni Svarfdælinga. Sveinsstaðaafrétt er smöluð á hverju hausti af Gangnamannafélaginu svokallaða. Yfirleitt er farið þrisvar, þ.e. í fyrstu og aðrar göngur og eftirleit. Ein eða tvær vikur líða venjulega milli fyrstu og annarra gangna. Farið er í fyrstu göngur í byrjun september. Það er mun fyrr en áður var, þegar farið var í göngur í kring um 20. september. Í eftirleit er farið eftir ástæðum seint að hausti. Sveinsstaðaafrétt skiptist í nokkur gangnasvæði. Þau eru Litlidalur, Almenningur, Austurtungur, Vesturtungur (Austur- og Vestur-Stafnstungur), Vesturárdalur og Krosshólsfjall. Á síðustu árum hafa Holárdalur, Gljúfurárdalur og Kóngsstaðadalur bæst við umdæmi Gangnamannafélagsins, en þessi svæði tilheyra þó ekki hinni eiginlegu Sveinsstaðaafrétt. Göngur. Göngur taka ekki langan tíma miðað við það sem sums staðar er. Á móti kemur að fjöllin eru brött og há, sum yfir 1400 m. Á fyrsta degi taka menn til nesti og koma hrossum fram í Skíðadal. Á öðrum degi er smalað og féð rekið í girðingu við Stekkjarhús sem er sæluhús gangnamanna. Það stendur þar sem áður var stekkur frá Krosshóli. Þar er einnig hesthús. Á þriðja degi er safnið rekið á Tungurétt, skilarétt Svarfdælinga, sem er í tungunni á mótum Svarfaðardals og Skíðadals. Þar er dregið í sundur, drukkið kaffi í Tunguseli, skála Kvenfélagsins Tilraunar, sungið og pelum lyft. Þá er oft glatt á hjalla. Eftir það reka bændur fé sitt heim eða aka því, sem er mun algengara. Að kvöldi er dansleikur, gangnaball, í hinu fornfræga samkomuhúsi á Höfða í Svarfaðardal. Gangnaforingjar. Fyrirliði gangnamanna í Sveinsstaðaafrétt kallast gangnaforingi. Steingrímur Eiðsson (1915-1976), bóndi á Ingvörum var gangnaforingi um langan aldur. Árni Veigar Steingrímsson (1943-2009) sonur hans tók við af honum, seinna varð Eiður Steingrímsson, bróðir hans, gangnaforingi en núverandi gangnaforingi er Karl Heiðar Friðriksson frá Grund, nú bóndi í Brekku. Krosshólshlátur. Gangnamenn við við Stekkjarhús í 1. göngum 2008. Misheyrn. Misheyrn er það þegar manni misheyrist eitthvað sem einhver segir. Misheyrnir geta við vissar aðstæður valdið alvarlegum misskilningi, en eru þó oftast efni hinna ýmsu gamansagna. Mjög algengt er að mönnum misheyrist hendingar í dægurlagatextum. Nick Leeson. Nick Leeson (f. 25. febrúar 1967) er fyrrum verðbréfasali. Eftirlitslaus verslun hans með afleiður leiddi til hruns elsta fjárfestingabanka Bretlands, Barings-banka, árið 1995. Barings-banki. Barings-banki í London var elsti fjárfestingabanki Bretlands þar til hann hrundi árið 1995 eftir að einn af starfsmönnum bankans, Nick Leeson, tapaði 827 milljónum sterlingspunda með áhættufjárfestingum, aðallega framvirkum samningum. Bankinn var stofnaður árið 1762 af sir Francis Baring. Íslandshaf. Íslandshaf einnig kallað Dumbshaf er hafsvæði norður af Íslandi, sem markast af Grænlandssundi í vestri, Grænlandshafi í norðri og Noregshafi í austri. Hafið er sjaldan merkt á landakort, enda er tilvist þess ekki viðurkennd af öllum þjóðum. Höfin þrjú, Grænlandshaf, Íslandshaf og Noregshaf kallas saman Norðurhöf. Dumbshaf, sem nú er betur þekkt sem Norður-Íshaf, tekur nafn sitt af Dumbi konungi. Í upphafi Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá því að Dumbur sé faðir Bárðar. Svo er sagt um Dumb konung," að hann væri kominn af risakyni í föðurætt sína, en það fólk var vænna og stærra en annað fólk", en að móðir hans hafi verið af tröllaættum. Mósaík. Mósaík er mynd sem er sett saman úr litlum mislitum flísum (úr steini, gleri eða brenndum leir), sem mynda eina heild. Mósaík á íslensku. Íslenskir höfundar hafa margir reynt að finna íslenskt heiti yfir mósaík, en ekkert eitt hefur haft sigur yfir önnur. Á meðal þeirra orða sem komið hafa upp má til dæmis nefna orð eins og: "steinfella" (eða "steinfellumynd"), "steinglit" (eða "steinglitsmynd"), "flögumynd" eða "glerungsmynd". Jón Trausti rithöfundur kallaði mósaík "steintiglaleggingu" er hann skrifaði um mósaíkverkin í Grünes Gewölbe þegar hann ferðaðist um Þýskaland árið 1905. Thor Vilhjálmsson nefndi mósaík "litagnamynd" í bók sinni "Hvað er San Marino?" Hlynir. Hlynir (fræðiheiti: "Acer") er ættkvísl trjáa af sápuberjaætt. Vínarterta. Sjö laga vínarterta með sveskjufyllingu. Vínarterta er lagkaka (randalín) úr nokkrum þunnum botnum úr hnoðuðu deigi, með sultu milli laga. Tertan var vinsælt kaffibrauð á Íslandi seint á 19. öld og barst þá vestur um haf og er enn þjóðlegt kaffibrauð meðal Vestur-Íslendinga. Upphaflega var yfirleitt sveskjufylling í henni og hún hefur haldið sér vestanhafs en þegar rabarbararæktun varð útbreidd um og eftir aldamótin 1900 varð rabarbarasulta algengasta fyllingin hérlendis. Í elstu íslensku uppskriftunum eru kökurnar yfirleitt kringlóttar en seinna voru þær oftast ferhyrndar. Vínartertur bárust hingað frá Danmörku á 19. öld en eru trúlega upprunnar í Vínarborg, þar eru áþekkar margra laga tertur vel þekktar. Orðið vínarterta fékk um aldamótin 2000 inni í kanadískri útgáfu orðabókar Oxford útgáfunnar. Í frétt í vesturíslenska blaðinu Lögberg Heimskringla segir að orðið vínarterta hafi nú loksins fengið verðugan sess í bókasöfnum heimila Íslendingabyggðanna þar sem það sé nú meðal 2000 kanadískra orða í þessari fyrstu útgáfu orðabókarinnar. Orðaókin skilgreinir vínartertu sem meðalstóra og hringlaga köku, gerða úr nokkrum lögum með sveskjufyllingu. Ritstjórinn segir orðið hafa unnið sér svo fastan sess í málinu, m.a. í skrifum íslensk-kanadísku rithöfundanna W.D. Valgardsson og David Arnason, að rétt sé að taka það upp í orðabók. Halastjarna Halleys. Halastjarna Halleys (oftast kölluð Halley) er þekkt halastjarna, kennd við enska stjörnufræðinginn sir Edmond Halley (1656-1742), sem fylgdist með henni þegar hún var í sólnánd árið 1682. Hún gengur á ílangri braut um sólu sem nær út fyrir braut Neptúnusar og inn fyrir braut Venusar með umferðartímann um 76 ár. Síðast kom Halley í sólnánd og varð sýnileg með berum augum frá jörðu árið 1986. Endmund Halley veitti því athygli að halastjarna með áþekka braut virtist hafa birst nokkuð reglulega á um 76 ára fresti, sem sé 1531, 1607 og 1682. Halley taldi að um sömu halastjörnu gæti verið að ræða og spáði endurkomu hennar árið 1758, sem gekk eftir. Hluti af Bayeux-reflinum, einu frægasta listaverki miðalda, sem segir sögu Vilhjálms bastarðar. Fólkið t.v. bendir á halastjörnuna efst fyrir miðju. Þar stendur ISTI MIRANT STELLA eða "Þau dást að stjörnunni", en stjarnan var heillamerki Vilhjálms Halley í íslenskum annálum. Í fornum annálum má rekja heimsóknir Halleys á þriðja þúsund ár aftur í tímann. Í kínverskum annálum er hennar getið árið 240 f. Kr og hugsanlega árið 467 f. Kr. Í íslenskum heimildum er oftlega getið um halastjörnur og oftar en ekki reynt að tengja þær stórtíðindum. Hér á eftir verða tekin nokkur dæmi um skrif í gömlum heimildum um Halley. 1066. Halastjörnu Halleys er í fyrsta sinn getið íslenskum annálum árið 1066. Frásögnin gæti verið byggð á innlendum heimildum þótt ritöld hafi ekki verið gengin í garð á Íslandi á þeim tíma. Eins líklegt er þó að heimildirnar séu enskar enda gerðust þau stórtíðindi sem halastjarnan átti að boða á Englandi. Frásögnin er ákaflega stuttaraleg en dæmigerð fyrir símskeytastíl annálanna og hljóðar svo: "Sén cometa á páskum". " Árið 1066 féllu tveir herkonungar á Bretlandi, Haraldur harðráði við Stanford brú og Haraldur Guðinason í orustunni við Hastings þegar Vilhjálmur bastarður braust til valda. Vilhjálmur hafði strax litið svo á að halastjarnan væri sinn heillaboði og taldi hana tákn þess að ákveðið ríki óskaði sér nýs konungs. Á hinum fræga Bayeux-refli, sem ofinn var til heiðurs Vilhjálmi bastarði, eru myndir af fólki sem stendur og bendir á halastjörnuna en til hliðar sést Haraldur konungur eins og að hrökklast úr hásæti sínu. a> þar sem Betlehemsstjarnan er sýnd sem halastjarna, líklega halastjarna Halleys. 1301. "Cometa var sén af kaupmönnum í hafi um Mikjálsmessuskeið. Sýndist þeim hún meiri og dökkvari en aðrar stjörnur og var kleppur niður og fór hún hvern aftan er þeir sáu hana öfugt frá landnorðri til norðurs. Item fyrir sunnan land var sén cometa hálfan mánuð nær veturnáttum". Það er athyglisvert að sjá lýsingu kaupmannanna á Halley 1301. Þeir hafa fylgst vel með stjörnuhimninum á siglingu sinni milli Íslands og Evrópu og tekið eftir öfugri hreyfingu halastjörnunnar miðað við gang reikistjarnanna. Öfugur gangur er einmitt eitt af einkennum Halleys. Stjarnan sem sást "fyrir sunnan land" (þ.e. á Suðurlandi) er augljóslega einnig Halley. Mikjálsmessa er 29. september en veturnætur eru um 21. október. Samkvæmt erlendum heimildum veittu menn stjörnunni athygli strax þann 1. sept. og gátu síðan fylgst með henni í 60 daga. Björtust varð hún 23. sept. og náði þá birtustiginu 1-2. Edmund Halley. Malverk eftir Thomas Murray frá um 1687 1456. Árið 1456 varð halastjarna Halleys örlagavaldur í evrópskri sögu þótt hennar finnist ekki getið í íslenskum skrifum. Þremur árum fyrr höfðu tyrkir hernumið Konstantínópel og nú geystist Múhameð II. soldán inn í Evrópu allt til Belgrad. Ef mótstaðan þar brysti þýddi það óstöðvandi sókn tyrkja vestur álfuna. Nóttina 8. júní urðu teikn á himnum, þar birtist stjarna með hala og var sem dreki ásýndum. Hún virtist stefna á skarðan mánann sem óð í skýjum. Þetta var guðleg bending sem vart varð misskilin. Stjarnan ógnaði hálfmánanum, tákni Múhameðs. Það var blásið í herlúðra meðal hinna kristnu herja en tyrkir létu undan síga enda var forlagadómurinn þeim jafn auðsær og öðrum. 1835. Jónas Hallgrímsson skrifaði um Halley í Fjölni 1835: "Von er á halastjörnu á árinu... Snemma í ágúst á hún að vera í nauts-merkinu, nálægt sjöstjörnunum. Þaðan færist hún norður á við og sýnist fara hraðast í október þann 5ta, 6ta og 7da. Í þeim mánuði fer hún í gegn um vagninn og þann 11ta á hún að vera í krónunni rétt hjá björtu-stjörnu (gemma coronæ); Þá er hún á Íslandi að sjá í norðvestri seint á kvöldin... Prófessor Úrsín gerir ekki ráð fyrir að hún verði mjög fögur í þetta sinn eða geti jafnast á við þá sem sást 1811; enda var sú stjarna voðaleg og mun vera öllum í minni sem muna til sín þá". 1910. "Ísafold hafa borist margar, miklar og ferlegar sögur af hræðslu fólks hér í bænum við halastjörnuna. Fólk á að vera lagst í rúmið vegna hræðslu, selja af sér spjarirnar o.s. frv. af því að það býst við heimsenda. Það mun því ekki vanþörf á að brína það rækilega fyrir öllum, að það eru ekkert annað en verstu bágbiljur, að oss geti stafað nokkur hin minnsta hætta af halastjörnunni. Þeir sem annað segja fara með fjarstæður og vitleysu". (Ísafold 4. maí 1910 bls. 103). Halastjarnan kemur við sögu í Grafarþögn, bók Arnaldar Indriðasonar, en þar segir frá fólki sem trúði því að heimsendir væri í nánd og hélt villta veislu í tanki Gasstöðvarinnar við Hlemm, en hann var í byggingu 1910. Sú frásögn er byggð á sönnum heimildum. 1986. Vel var fylgst með Halley þegar hún kom árið 1986. Þá olli hún mönnum nokkrum vonbrigðum því hún var daufari en margir höfðu vonað. Jökulskeið. Jökulskeið nefnast þau tímabil á ísöld þegar hitastig kólnar og jöklar breiða úr sér. Talið er að síðasta jökulskeiði hafi lokið fyrir 10-15 þúsund árum síðan, um það leyti sem Hólósen-tímabilið hófst. Náttfari. Náttfari var maður sem kom til Íslands með Garðari Svavarssyni, sem Landnáma segir að hafi verið sænskur að ætt og annar í röð þeirra norrænu manna sem sigldu til landsins, næstur á eftir Naddoði. Í Hauksbók segir að Náttfari hafi verið þræll en samkvæmt öðrum handritum Landnámu virðist hann hafa verið frjálsborinn maður. Garðar á að hafa komið til Íslands upp úr miðri 9. öld og haft vetursetu á Húsavík. „Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt“, segir í Landnámabók. Náttfari varð því eftir þegar Garðar sigldi frá landinu. Hann settist að í Reykjadal, eignaði sér dalinn og „hafði merkt á viðum“, segir Landnáma. Þegar Eyvindur Þorsteinsson kom til landsins löngu síðar rak hann Náttfara burt en sagði honum að hann mætti eiga Náttfaravík, yst við Skjálfandaflóa vestanverðan. Þar settist Náttfari að. Hann hefur þá líklega verið kominn á efri ár og búinn að vera einn í landnámi sínu áratugum saman með þrælnum og ambáttinni. Náttfara er einnig getið í upphafi Reykdæla sögu: „Náttfari sá, er Garðari hafði út fylgt, hafði eignat sér áðr Reykjadal, ok markat til á viði, hversu vítt hann skyldi eiga; enn er Eyvindr fann hann, gerði hann honum tvá kosti, at hann skyldi eiga Náttfaravík, eða alls ekki. Þangat fór Náttfari.“ Sumarið 1970 var Náttfara minnst á Húsavík, þegar Þingeyingar héldu upp á 1100 ára afmæli búsetu hans, fjórum árum áður en aðrir landsmenn héldu upp á afmæli landnáms Ingólfs Arnarsonar, Jarðgöng á Íslandi. Þetta er listi yfir jarðgöng á Íslandi. Mögulegar viðbætur gerðar fyrir núverandi göng, byggð fyrir 2000. Rætt hefur verið um möguleika til aukningar á afkastagetu flestra eldri ganga. Helstu framtíðaráform eða möguleikar í jarðgangamálum. Hér eru teknir saman framtíðarmöguleikar af jarðgangaáætlun frá 2000, samgönguáætlun 2007-2018 og svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins 2001-2024. Athugasemdir gerðar við leiðir frá jarðgangaáætlun. Heimildir. * Langstökk. Langstökk er grein frjálsra íþrótta þar sem reynt er að stökkva eins langt út í langstökksgrifju og hægt er með tilhlaupi eftir hlaupabraut. Uppstökkið fer fram af stökkplanka langstökkvarinn stekkur af. Á fremri hluta stökkplankans er leir. Ef markar fyrir snertingu í leirinn er stökkið ógilt. Segóvía. Segóvía er borg á Spáni og höfuðstaður samnefndrar sýslu í Kastilíu-León. Hún er um klukkutíma akstur norðan við Madrid. Íbúar sveitarfélagsins eru um 55 þúsund. Kristján Harðarson. Kristján Þór Harðarson (f. 28. júlí 1964) er íslenskur frjálsíþróttamaður sem keppti fyrir Ármann. Hann setti íslandsmet í langstökki 3. mars 1984 sem stóð í tíu ár (7,79 metra). Hann keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum 1984 og lenti þar í 22. sæti - stökk 7,09 metra. Rodney King. Rodney Glen King (fæddur þann 2. apríl 1965 í Kaliforníu - 17. júní 2012) var svartur leigubílsstjóri sem var stoppaður af meðlimum lögreglunnar í Los Angeles (Laurence Powell, Timothy Wind, Theodore Briseno og Stacey Koon) árið 1991, eftir að hafa keyrt of hratt. Var atvikið tekið upp á myndband af George Holliday, og var það sýnt um allan heim. Á myndbandinu sáust lögreglumennirnir fjórir lemja Glen King í sífellu á meðan 4-6 aðrir stóðu aðgerðarlausir hjá. Var þetta uppspretta óeirðanna í Los Angeles. Óeirðirnar í Los Angeles. Óeirðirnar í Los Angeles áttu sér upptök sín þann 29. apríl 1992 þegar hinir fjóru lögreglumenn sem sáust berja hinn svarta leigubílsstjóra Rodney King voru sýknaðir. Þúsundir af reiðum þeldökkum Bandaríkjamönnum söfnuðust saman og hófu óeirðirnar sem stóðu í sex daga. Allt í allt létust 53 manns í óeirðunum, 2000 manns slösuðust og yfir 10.000 manns voru handteknir. Tröllastakkur. Tröllastakkur (fræðiheiti: "Pedicularis flammea") er blóm sem vex í votlendi á hálendi á norðurslóðum. Tröllastakkur er fremur algengur í rökum jarðvegi á hálendi Íslands, aðallega á norðanverðu landinu. Dúfur. Dúfur (fræðiheiti: "Columbidae") er ætt af dúfnafuglaættbálki. Ættin telur um 300 tegundir. Bogi (byggingarlist). Bogi er bogadregin byggingareining sem getur borið uppi mikinn þunga. Bogar voru mikið notaðir í byggingarlist ekki síst meðal Rómverja og er enn víða notaður vegna burðarþols síns. Eineygði kötturinn Kisi. Eineygði kötturinn Kisi er myndasögupersóna eftir Hugleik Dagsson. Fimm Kisabækur hafa komið út frá 2006. Kisi er hvítur fress sem býr í Öskjuhlíðinni í Reykjavík. Kisi er manngert dýr líkt og Andrés önd eða Villi spæta. Hann er viðkvæmur hrekkleysingi sem lætur þó skína í tennurnar þegar honum er ofboðið. Hann elskar "Gilmore Girls" og músakjöt með vindaloo-sósu. Kata og Skúli. Bestu vinir Kisa eru Kata kanína og Skúli skjaldbaka. Kata er grunnhyggin og lauslát pæja sem nýtur þess að drekka rauðvín og skemmta sér. Hún er einnig afar fær dansari. Skúli er dópsali og er sjálfur háður kannabisreykingum. Hann býr yfir snilligáfu í efnafræði og er mjög hugvitsamur. Atómstöðin (skáldsaga). Atómstöðin er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom út að morgni 22. mars árið 1948 og seldist upp hjá forlaginu samdægurs. Var hún mjög umdeild við útgáfu enda snerti hún á mörgum hitamálum sem voru í íslensku samfélagi á þeim tíma. Halldór sjálfur leit ekki á Atómstöðina sem eina af sínum betri bókum, heldur sem „innlegg í pólitískt hitamál og kannski viss gagnrýni á losarabrag og siðferðisbrest í kjölfar styrjaldarinnar“. Söguþráður. Bókin segir frá bóndadótturinni Uglu að norðan sem kemur til Reykjavíkur til að læra á orgel. Hún ræður sig í vist hjá þingmanninum og heildsalanum Búa Árland og lærir hjá Organistanum. Stafafura. Stafafura (fræðiheiti: "Pinus contorta") er sígræn jurt af þallarætt. Tegundin kemur upprunalega frá Norður-Ameríku, s.s. Kanada og Alaska en vex allt suður til Kaliforníu. Lýsing. Stafafura er fljótvaxin og harðger, þolir vel salt og kelur lítið. Hún sáir sér auðveldlega. Hún gerir ekki miklar kröfur til jarðvegarins, enda getur hún vaxið í bergurð. Þó vex hún best í hlýjum, nokkuð þurrum og næringarríkum móajarðvegi. Hún er sólelsk en þolir vel hálfskugga. Henni er einnig hætt við snjóbroti vegna þess hve greinar hennar eru gildar. Tréð getur orðið 30 40 metra hátt í heimkynnum sínum, þó getur deilitegundin "ssp. murrayana" oft náð 50 metra hæð. Stafafura er tveggjanála-fura og eru tvær nálar í hverju pari. Þær eru gjarnan örlítið snúnar, um 3 til 7 sentímetrar á lengd. Könglarnir eru að sama skapi 3 til 7 sentímetrar og þurfa sumir hverjir að komast í blússandi hita (s.s. í skógareldum) til að opnast og sleppa fræjum sínum. Á ungum trjám er krónan keilulaga en verður oft egglaga með hvelfdum toppi. Börkurinn er grár til grábrúnn og alsettur flögum sem geta verið allt að 2,5 mm þykkar. Brumin eru rauðbrún, umlukin harpixi. Stafafura blómgast í júní, könglarnir hanga á trjánum í 2 til 3 ár. Notkun. Stafafura er vinsælt skógræktartré og er alla jafna notuð sem jólatré. Það er þó talið illgresi í sumum hlutum Nýja-Sjálands. Smjörsýra (eiturlyf). Smjörsýra ("gamma hydroxybutyrate" eða GHB) er sljóvgandi efni. Var það upprunalega þróað sem svæfingarlyf. Óeirðirnar á Austurvelli 1949. Átök fyrir framan Alþingishúsið. Gluggar hússins hafa verið brotnir og hvítliði í mannþvögunni er með kylfu sína reidda á lofti. Óeirðirnar á Austurvelli eða Slagurinn á Austurvelli voru óeirðir, sem urðu á Austurvelli miðvikudaginn 30. mars 1949, þegar samþykkt var þingsályktunartillaga um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið (NATÓ). Andstæðingar inngöngunnar, stuðningsmenn hennar og aðrir almennir borgarar flykktust á Austurvöll til að sjá hvað verða vildi, en sumir andstæðinganna létu grjóti, eggjum og mold rigna yfir Alþingishúsið. Lögregla ákvað að dreifa mannfjöldanum með því að varpa táragasi á hann. Varalið lögreglunnar var kallað út og voru varaliðarnir með breska hermannahjálma og armbindi, ýmist hvít eða í fánalitunum, sem einkenni. Þessi átök milli andstæðinga tillögunnar annars vegar og lögreglu, varaliðis hennar og stuðningsmanna tillögunnar hins vegar urðu mestu óeirðir sem orðið hafa á Íslandi. Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa atburði á Austurvelli og er ekki auðvelt að skera úr um sannleiksgildi frásagna og niðurstaðna. Sagnfræðingurinn Þór Whitehead hefur meðal annars haldið því fram að beinlínis hafi verið stefnt að valdaráni sósíalista með þessum aðgerðum. Aðrir, meðal annars Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, hafa hafnað þessari túlkun. Aðdragandi. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar var Ísland hernumið, fyrst af Bretum 1940 og svo síðar tóku Bandaríkjamenn við. Áður en seinni heimstyrjöldinni lauk lýstu Íslendingar yfir sjálfstæði frá Dönum. Eftir stríð gerðu Íslendingar Keflavíkursamninginn við Bandaríkjamenn um að herinn myndi fara en starfsmenn einkafyrirtækis myndu aðstoða við rekstur alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Frá seinnihluta árs 1948 var unnið að því að byggja út þau varnarsamtök sem nefnd voru "Brussel-samningurinn" og stofnuð voru 17. mars 1948. Aðildarlönd voru Belgía, Holland, Lúxemborg, Frakkland og Bretland. Voru þessi samtök vegna aukinnar streitu í samskiptum austur og vesturs eftir yfirlýsingu Churchills um "Járntjaldið" sem skipti Evrópu í tvennt og valdatöku kommúnista í Tékkóslóvakíu í febrúar 1948. Þótti fljótlega ljóst að þessi samtök yrðu tannlaus ef Bandaríkin væru ekki aðili að þeim. Upp úr áramótunum 1948-49 fóru ráðamenn á Íslandi að undirbúa þátttöku landsins í væntanlegum varnarsamtökum. Andstæðingar, sósíalistar og aðrir sem kölluðu sig þjóðvarnarmenn, voru ekki seinir að láta í ljósi andstöðu sína. Fylgismenn og stuðningsmenn héldu fjölmenna fundi um málið. Þann 21. mars lýsti ríksstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar því yfir að hún væri reiðubúin að gera Ísland að einu stofnríki hins nýja bandalags sem formlega átti að stofna 4. apríl sama ár. Við það mögnuðust andstæðingar hugmyndarinnar. Voru haldnir margir fjöldafundir og Þjóðviljinn, málgagn Sósíalistaflokksins, hafði stór orð um landráð og nauðsyn harðrar andstöðu og krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Yfirvöldum og sérlega framámönnum Sjálfstæðisflokksins þótti hér mikil hætta á ferðum og tóku að undirbúa varnaraðgerðir, meðal annars með símahlerunum. Atburðarás. Ætlunin var að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar þann 29. mars en þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman á Austurvelli um daginn og lenti í hreinum bardaga milli lögreglu og unglinga var þingfundi frestað. Höfðu þá meðal annars 14 rúður verið brotnar á framhlið þinghússins. Daginn eftir var mikill viðbúnaður, voru lögreglumenn vopnaðir táragasi viðbúnir inni í þinghúsinu og þar að auki 85 (aðrar heimildir segja 50) manna hópur sem kallaðir höfðu verið út sem varalögregla. Voru allir varalögreglumenn félagar í Heimdalli, ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Einnig voru um þúsund menn inni í og í kringum þinghúsið þangað kallaðir til varnar án þess að fá varalögreglustöðu. Þar að auki hvöttu formenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins (meðal annars með áskorun í útvarpinu) „friðsama borgara“ að safnast við Alþingishúsið. Verkamannafélagið Dagsbrún og Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna höfðu boðað til útifundar við Miðbæjarskólann til að mótmæla aðild að hernaðarbandalaginu og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Að fundinum loknum héldu fundarmenn með kröfur sínar í átt að Alþingi þar sem fyrir voru lögregla og aðrir almennir borgarar. Áætlað er að á Austurvelli hafi þá verið á bilinu 8 - 10 þúsund manns. Hófust fljótlega stympingar manna á milli. Eftir að fréttir bárust um að þingfundi væri lokið og að Alþingi hefði samþykkt aðild Íslands að NATÓ mögnuðust átökin. 37 þingmenn voru með frumvarpinu, allir 20 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, 11 þingmenn Framsóknarflokksins og sex þingmenn Alþýðuflokksins. Allir tíu þingmenn Sósíalistaflokksins voru á móti og þar að auki tveir þingmenn Alþýðuflokksins og einn þingmaður Framsóknarflokksins. Tveir framsóknarþingmenn greiddu ekki atkvæði. Keyrði þá allt um þverbak þegar þingmenn leituðu útgöngu og urðu úr mikil slagsmál og grjótkast að húsinu og voru flestar rúður brotnar og skrámuðust ýmsir inn í þingsal. Varalið lögreglunnar hafði farið á undan með kylfur á loft og átti í vök að verjast. Kom þá svonefnd „gassveit“ lögreglunnar út úr Alþingishúsinu og hóf að dreifa táragasi og tæmdist Austurvöllur fljótlega. Alls þurftu 12 manns að fara á Landspítalann og voru nokkrir alvarlega slasaðir þar á meðal fimm lögregluþjónar og unglingur sem hafði slasast illa á auga af táragassprengju. Viðbrögð dagblaða. Skrif dagblaðanna í kjölfar atburðanna gefa hugmynd um þær andstæður sem ríktu í íslenskum stjórnmálum á þessum árum. Sósíalistar álitu ákvörðun Alþingis vera hrein landráð, sem framin hafi verið "„í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu“". Þjóðviljinn sagði „vitstola hvítlíða“ hafa gengið berserksgang og kölluðu þá sem samþykktu aðild að NATO Bandaríkjaleppa. Morgunblaðið, Vísir, Tíminn og Alþýðublaðið töluðu um árás kommúnista og að "„óður kommúnistaskríll hefði ætt um Austurvöll“". Afleiðingar. Alls voru 25 karlmenn kærðir fyrir þátttöku í óeirðunum, þrír voru sýknaðir. Þyngstu dómarnir voru tveir árs langir fangelsisdómar og alls voru sjö sviptir kjörgengi og kosningarétti. Tveir fengu fésekt. Allir dómar Héraðsdóms voru staðfestir nema dómurinn yfir Stefni Ólafssyni sem var þyngdur um fjóra mánuði úr þremur mánuðum í sjö mánuði. Pólitískt meginmál. Þó að Alþingi hafi afgreitt tillöguna og átökum á Austurvelli væri lokið var ekki þar með lokið baráttunni um veru Íslands í NATÓ og dvöl bandaríska setuliðsins sem nátengdist því. Þetta átti eftir að verða eitt af helstu deilumálum í íslenskum stjórnmálum næstu fimm áratugina. Andstæðingarnir stofnuðu meðal annars Þjóðvarnarflokkinn og Samtök hernámsandstæðinga og fylgjendur Varðberg, félag ungra áhugamanna um vestræna samvinnu og Samtök um vestræna samvinnu. Leirufjörður. Leirufjörður er fjörður í Jökulfjörðum á Vestfjörðum. Leirufjörður er ekki hluti af Hornstrandafriðlandinu og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Landeigandi lagði veg í óleyfi í fjörðinn frá Snæfjallaströnd, en sá vegur er nú lokaður fyrir umferð. Skriðjökullinn Drangajökull teygir sig niður í fjörðinn, en hann hopaði mjög á 19. öld. Skógrækt er í Leirufirði. Körfuvíðir. Körfuvíðir (fræðiheiti: "Salix viminalis") er víðitegund upprunalega úr Evrópu og vesturhluta Asíu. Hann nær oft 3 til 6 metra hæð í heimkynnum sínu enda er vaxtahraðinn mikill. Börkurinn er grágrænn og greinarnar langar. Blöðin eru löng. Nafn sitt dregur hann af því að greinar hans hafa verið notaðar til að búa til körfur en einnig er hann ræktaður til eldiviðar, s.s. í Svíþjóð. Körfuvíðir á Íslandi. Um 1910 var farið að rækta afbrigði í görðum á Íslandi afbrigði af körfuvíði sem kallað var Vesturbæjarvíðir. Sú tegund barst einmitt með tágakörfum til Íslands. Annað afbrigði af körfuvíði Þingvíðir var gróðursett í Alþingisgarðinum og barst þaðan víða og af var ræktað mikið frá 1940 til 1963 en þau tré féllu í páskahreti 1963. Hljómar. Hljómar voru rokkhljómsveit af Suðurnesjunum, stofnuð 5. október árið 1963 og starfaði í sex ár, eða til ársins 1969. Hljómar voru ein vinsælasta hljómsveit Íslands á ofanverðri20. öld, og með henni hóf bítlamenningin innreið sína á Íslandi fyrir alvöru. Hljómsveitin Hljómar var stofnuð af yngstu meðlimum hljómsveitar Guðmundar Ingólfssonar, Gunnari Þórðarsyni gítarleikara, Einari Júlíussyni og Erlingi Björnssyni. Þeir fengu til liðs við sig trommarann Eggert Kristinsson og Rúnar Júlíusson sem lék á bassa. Hljómsveitin lék fyrst í Krossinum í Ytri-Njarðvík en sló í gegn á landsvísu eftir tónleika í Háskólabíói 4. mars 1964. Hljómar voru fyrsta íslenska bítlahljómsveitin sem náði almennum vinsældum. Hljómsveitin starfaði með nokkrum mannabreytingum til 1969 þegar hún leystist upp. Nokkrir meðlimir hennar tóku þátt í stofnun Trúbrots 1969. Hljómar léku árið 1966 í kvikmyndinni Umbarumbamba, sem hét "Sveitaball" á íslensku. Gefin var út samnefnd plata í Bretlandi með Thor´s Hammer, en svo nefndu Hljómar sig utan landsteinanna. Plata þessi varð síðar mjög eftirsótt af söfnurum. Vatnafræði. Vatn þekur um 70% af yfirborði jarðar en er einnig bæði í jörðinni og í lofthjúpnum. Vatnafræði (eða vatnsfræði) (enska: "hydrology", gríska: "Yδωρ, hudōr", „vatn“; og "λόγος, logos", „fræði“) eru fræði er varða vatnið á jarðarkúlunni, ástand þess og hringrás, eðlis- og efnafræðilega eiginleika, áhrif þess á umhverfið og áhrif umhverfisins á það. Vatnafræðin er nátengd ýmsum greinum náttúruvísinda og teygir sig langt inn á svið veðurfræði, jöklafræði og jarðfræði. Kjarni hennar felst í þekkingu á afrennsli vatnsins af þurrlendi ofanjarðar og neðan og tengsl þessa rennslis við veðurfar og jarðfræði. Vatnafræðinni má skipta niður í undirgreinar, yfirborðsvatnafræði (surface hydrology), jarðvatnsfræði (geohydrology) og vatnajarðfræði (hydrogeology). Þeir sem stunda vatnafræði nefnast vatnafræðingar. "Yfirborðsvatnafræði" (surface hydrology) snýst um mælingar á fallvötnum, stöðuvötnum og afrennslisháttum og eiginleikum yfirborðsvatns almennt. Einnig um flóð, flóðaspár og flóðavarnir og fleira. "Jarðvatnsfræði" beinist að rannsóknum á jarðvatni, bæði heitu og köldu, einkum eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum þess. "Vatnajarðfræði" (hydrogeology) er all hliðstæð jarðvatnsfræðinni en þar er megináherslan þó lögð á jarðfræðina og hún skoðuð með tilliti til hegðunar vatnsins. Vatnajarðfræði er millistig milli vatnafræði og jarðfræði. Allir þeir síbreytilegu þættir sem framangreindar greinar spanna eru einu nafni nefndir vatnafar. „Vatnafar (hydrological conditions)“ er hugtak sem notað er um almenna eiginleika og hegðun ferskvatns bæði ofanjarðar og neðan og gagnkvæmt samspil þess við umhverfið. Orðið gefur til kynna síbreytilegt ástand og er hliðstætt orðinu veðurfar. Í ensku er ekkert eitt orð til yfir hugtakið en hydrologiocal conditions er oft notað. Úr sögu vatnafræðinnar. Þótt vatnafræðin sé tiltölulega ung fræðigrein á hún sér rætur aftur í grárri forneskju. Mannskepnan er háð vatninu, eðli þess og hegðun hefur því alltaf verið henni umhugsunarefni. Fyrstu menningarþjóðir sögunnar Mesópótamíumenn, Súmerar og Egyptar grundvölluðu ríki sín á bökkum stórfljóta og áttu allt sitt undir þekkingu á eðli þeirra og duttlungum. Í ritum grískra og rómverskra heimspekinga eru víða tilgátur um uppruna lindavatns og grunnvatns. Hinir eldri heimspekingar Grikkja, svo sem Þales og Platon gerðu ráð fyrir að lindavatn væri ættað úr sjó sem flæddi um göng djúpt í jörðu, inn undir fjöllin, hreinsaðist þar og stigi upp í vellandi lindum. Aristóteles áleit að loft kæmist inn í dimma og svala hella, þéttist þar í sagga og vatn og streymdi þaðan að uppsprettulindum. Rómverski arkítektinn Vitrúvíus setti fyrstur manna fram ákveðna hugmynd um að grunnvatnið væri regn og snær að uppruna. Hann hélt því fram að fjöllin fengju á sig mun meiri úrkomu en láglendið, vatn sigi í jörðina, rynni langar leiðir neðanjarðar og kæmi fram í lindum við rætur þeirra. Þessu var þó almennt hafnað þar til á 17. eða 18. öld. Norrænar þjóðir höfðu sínar hugmyndir um eðli grunnvatnsins. Í Prologus Snorra-Eddu er þess getið að norrænum mönnum heiðnum var ýmis náttúra jarðarinnar hugleikin. „"Þat var eitt eðli, at jörðin var grafin í hám fjallatindum ok spratt þar vatn upp ok þurfti þar eigi lengra at grafa til vatns en í djúpum dölum; svá er ok dýr ok fuglar at jamlangt er til blóðs í höfði ok fótum"“. Af þessu og ýmsu öðru drógu fornmenn þá ályktun „... at jörðin væri kvik ok hefði líf með nökkrum hætti, ok vissu þeir at hon var furðuliga gömul at aldartali ok máttug í eðli; hon fæddi oll kvikvendi ok hon eignaðist allt þat er dó; fyrir þá sök gáfu þeir henni nafn ok tölðu ætt sína til hennar“. Allar miðaldir voru hugmyndir manna mjög á reiki um uppruna grunnvatns og linda en hin almennt viðtekna skoðun var þó sú forngríska kenning að um einhverskonar hringrás væri að ræða frá sjó, um jörð, upp í lindir á yfirborði og í sjó á ný. Því var trúað að rigningarvatnið væri ekki nógu mikið til að viðhalda stöðugu rennsli fallvatna og þar að auki að jörðin væri svo þétt að regnvatn næði ekki að síga nema mjög grunnt í hana. Á 17. öld færðist mjög í aukana að menn beittu mælingum við allar náttúrurannsóknir. Fransmaðurinn Pierre Perrault (1608-1680) framkvæmdi um árabil mælingar á úrkomu og árrennsli á ofanverðu vatnasvæði Signu. Árið 1674 birti hann þær niðurstöður sínar, að það vatn sem félli á vatnasviðið væri sex sinnum meira en það vatn sem rynni af því með ánni. Þar með vísaði hann á bug þeirri gömlu grísku kenningu, að úrkoman dygði ekki til viðhalds vatnsföllum. Enski stjörnufræðingurinn og náttúruvísindamaðurinn Edmund Halley birti 1693 niðurstöður rannsókna sinna á uppgufun. Þar sýndi hann meðal annars fram á að uppgufun vatns úr sjó væri næg til að fæða af sér allt straumvatn, ofan jarðar sem neðan. Á 19. öld var lagður grunnur að nútímajarðfræði og þar með vatnafræði, hreyfingum grunnvatnsins og eðli. Fer nú að fjölga mjög þeim nöfnum sem koma við sögu vatnafræðinnar. Franskur verkfræðingur og vatnsveitustjóri í Dijon, Henry Darcy (1803-1858) að nafni, rannsakaði streymi gegn um sand og fann sambandið milli þrýstimunar og vökvastreymis í gropnu efni. Þetta samband er kallað Darcys lögmál. Það var sett fram árið 1856 og þykir mörgum sem upp úr því hafi vatnajarðfræðin tekið að marka sér sess sem sjálfstæð fræðigrein. Þessi nálega 250 ára gamla flokkun Eggerts og Bjarna á vatninu hefur staðist tímans tönn furðanlega. Hún er grundvöllurinn að þeirri flokkun sem við höldum enn í dag. Um aldamótin 1900 hafði vatnafræðin haslað sér völl sem sjálfstæð vísindagrein. Fyrst í stað var mest áhersla lögð á yfirborðsvatnafræði, mælingar á vötnum og vatnsföllum og athuganir á eiginleikum þeirra. En rannsóknir á grunnvatni sigldu strax í kjölfarið. Fyrstu raunverulegu vatnamælingarnar hérlendis voru gerðar sumarið 1881. Það var norskur jarðfræðingur, Amund Helland, sem stóð að þeim. Hann hafði mikinn áhuga á jöklum og jökulrofi og mældi allar ár sem koma frá Vatnajökli og athugaði aurburð þeirra. Um aldamótin 1900 tóku menn að huga að raforkuframleiðslu og beislun vatnsfalla í því skyni. Samfara því voru gerðar allmargar rennslismælingar. Elliðaárnar voru t.d. mældar 1894. Reglulegar vatnamælingar hófust 1919 og voru í umsjá Vegamálastjóra en 1947 tók Raforkumálastjóri við þeim og síðan Orkustofnun. Fyrst í stað voru einungis gerðar stakar rennslismælingar en seinna voru settir upp kvarðar og lesið reglulega af þeim milli mælinga. Síritandi vatnshæðarmælar komu til sögunnar um 1950 og nú munu á þriðja hundrað síritandi mæla vera í ám, vötnum og borholum um allt land (Sigurjón Rist 1990). Guðmundur Kjartansson (1909-1972) lagði grunninn að flokkun íslenskra vatnsfalla með grein sinni, Vatnsfallstegundir; í Náttúrufræðingnum 1945. Flokkun ánna í jökulár, dragár og lindár hefur reynst bæði eðlileg og nytsöm. Þetta er þó séríslensk flokkun og á vart við annars staðar. Dyngjugos. Dyngjugos er eldgos í dyngju. Á Íslandi hefur ekki orðið slíkt gos frá því skömmu eftir síðustu ísöld. Garðakornblóm. Garðakornblóm (eða akurprýði) (fræðiheiti: "Centaurea cyanus") er einær jurt af körfublómaætt sem á heimkynni sín í Evrópu. Romm handa Rósalind. "Romm handa Rósalind" er sjónvarpsleikrit eftir Jökul Jakobsson. Það er fyrsta íslenska leikritið sem sett var sérstaklega upp fyrir sjónvarp og var sent út í Ríkisútvarpinu 4. mars 1968. Leikstjóri var Gísli Halldórsson og Andrés Indriðason stjórnaði upptökunni. Leikarar voru Þorsteinn Ö. Stephensen (skósmiðurinn), Anna Kristín Arngrímsdóttir (Rósalind) og Nína Sveinsdóttir (kona skósmiðsins). Leikritið var tekið upp 7. og 8. febrúar þetta ár. Verkið gerist á verkstæði skósmiðs þar sem gamall skósmiður staupar sig á rommi og gefur Rósalind, fatlaðri stúlku sem býr í nágrenninu, með sér meðan þau ræða um líf sitt. Stórmeistari (skák). Stórmeistari í skák er skákmaður, sem náð hefur þremur stórmeistaraáföngum og a.m.k. 2500 alþjóðlegum skákstigum (FIDE-stig). Íslenskir stórmeistarar í skák í tímaröð. Bobby Fischer, fyrrum heimsmeistari í skák, fékk íslenskan ríkisborgararétt 2005 og bjó á Íslandi síðustu æviár sín. Með góðum vilja má kalla hann "íslenskan stórmeistara í skák", þó hann hafi aldrei teflt kappskák sem Íslendingur. Þess má einnig geta að Fischer hlaut stórmeistaratitilinn sama ár og Friðrik Ólafsson (1958), þá aðeins 15 ára gamall, en hann var þá sá yngsti í heiminum, sem hlotið hafði stórmeistaratitil. Friðrik Ólafsson. Friðrik Ólafsson lögfræðingur (26. janúar 1935) er fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák og sá íslenskur skákmanna sem mestum frama hefur náð í skákinni, t.d. er hann eini íslenski skákmaðurinn sem lagt hefur að velli Bobby Fischer (tvisvar sinnum). Hann var um tíma forseti alþjóðaskáksambandsins ("FIDE"). Ólafssonar afbrigðið. Í nimzóindverskri vörn er lína sem nefnd er Ólafssonar afbrigðið eftir Friðriki. Um er að ræða línu í Rubenstein afbrigði og kemur hún upp eftir leikina: 1.d4 Rf6 2.c4 e6 3.Rc3 Bb4 4.e3 O-O 5.Bd3 d5 6.Rf3 c5 7.O-O dxc4 8.Bxc4 b6 9.De2 Bb7 10.Hd1 Dc8. B1-vítamín. B1-vítamín eða þíamín er eitt B-vítamínanna. Það örvar blóðrásina og er nauðsynlegt fyrir starfsemi taugakerfisins. Einnig er það gott fyrir uppbyggingu vöðva og hefur góð áhrif á heilastarfsemina. Það tekur þátt í efnaskiptum kolvetna og er einnig mikilvægt fyrir meltingu próteina og fitu. B1-vítamín er helst að finna í aspas, brokkolí, hnetum, plómum, haframjöli, hveitklíði og mörgum kornvörum. Listi yfir smádýr sem fjallað er um í Dulin veröld. Eftirfarandi er listi yfir smádýr sem fjallað er um í bókinni Dulin veröld auk fræðiheita þeirra og tengla í greinar á nokkrum öðrum tungumálum. Aðalumfjallanir. Þessar tegundir eiga sér allar aðalumfjöllun ásamt mynd og skýringarmynd, þ.e. ekki er bara minnst á þær til hliðar í texta. Bárðar saga Snæfellsáss. Bárðar saga Snæfellsáss er Íslendingasaga sem er rituð í ýkjustíl. Hún segir frá Bárði Dumbssyni af ætt bergbúa. Bárður flýr Noreg og sest að sunnan undir Snæfellsjökli í óbyggðum og með tröllum á Íslandi og í Noregi. Í enda sögunnar gengur hann í jökulinn og gerist landvættur. Bárðar saga Snæfellsáss er landvætta- og tröllasaga sem gerist á landnámsöld. Hún er líklega rituð á fyrra hluta 14. aldar eftir Landnámu, örnefnum og þjóðsögnum. Rúmlega eitt blað úr sögunni er varðveitt í Vatnshyrnu, en að öðru leyti er sá texti til í eftirritum hennar. Seinni hluti sögunnar (11-22 kafli) hefur stundum verið nefndur "Gests saga Bárðarsonar", enda telja sumir þann hluta saminn síðar og af öðrum höfundi. Ask. Ask er bær á Askøy á Hörðaland í Noregi. Force India. Force India er formúlulið í eigu indverska milljarðamæringsins Vijay Mallya eftir hann keypti Spyker F1. Liðið mun keppa í sinni fyrstu keppni í Ástralíu 2008. Ökumenn liðsins eru Giancarlo Fisichella og Adrian Sutil. Gerðuberg (Reykjavík). Gerðuberg er menningarmiðstöð og félagsmiðstöð við Gerðuberg í Efra Breiðholti í Reykjavík. Það opnaði 4. mars árið 1983. Miðstöðin er með funda- og ráðstefnusali og kennslustofur þar sem haldin eru námskeið auk þess sem Borgarbókasafn Reykjavíkur er með útibú þar. Flæðigos. Flæðigos er eldgos þar sem nær eingöngu myndast hraun, en gjóskuframleiðsla er óveruleg. Hraunin eru fremur slétt, rákuð og nefnast helluhraun, og eru úr basalti. Sóleyjarkvæði. Sóleyjarkvæði eftir Jóhannes úr Kötlum kom fyrst út á bók 1952. Kvæðið var ort í andrúmslofti sárra tilfinninga vegna inngöngu Íslands í NATÓ árið 1949, herstöðvasamningsins við Bandaríkin og komu bandarísks setuliðs til Íslands 1951. Í kvæðinu segir frá Sóleyju sólufegri og baráttu hennar við að reyna að vekja menn og vætti Íslands til dáða gegn skuggaöflum vígtóla og hernaðar, sem stungið hafa riddarann hennar prúða með svefnþorni svo hún fær ekki vakið hann. Skáldið vefur í ljóðin stef úr þjóðkvæðum og stemmum frá eldri tíð og auk þess eru ótal vísanir til sögulegra viðburða í samtímanum og eitruð pólitísk skeyti. Pétur Pálsson samdi lög við Sóleyjarkvæði og að lokum varð úr því heildstætt tónverk. Á sama hátt og ljóðskáldið notfærði Pétur sér galdur þjóðlagsins og minni úr rímnalögun og þulum. Lög og ljóð fallast því í faðma og hafa yfir sér undursamlega þjóðlegan blæ. Verkið var frumflutt á vegum Samtaka hernámsandstæðinga vorið 1965 og vakti þegar mikla athygli. Það var síðan tekið upp og gefið út á hljómplötu 1967 af Æskulýðsfylkingunni. Það var endurútgefið af Fylkingunni 1973 en í nýju albúmi og veglegra en frumútgáfan var í. Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu svo fyrir 3. útgáfunni 2001 og þá á geisladiski. Háskólakórinn tók verkið til meðferðar undir stjórn Árna Harðarsonar, flutti það á tónleikum og gaf það síðan út á plötu 1985. Sóleyjarkvæði tilheyrir mikilli bókmenntaarfleifð sem varð til í baráttu gegn bandarískum herstöðvum á Íslandi á síðari hluta 20. aldar og ef til vill það verk sem hæst ber. Forsíða bæklings með geisladisknum Sóleyjarkvæði sem SHA gáfu út 2001 Sprengigos. Sprengigos er eldgos sem lýsir sér í því að eldstöð gýs nær eingöngu gosgufum og gjósku sem þeytast upp úr gígnum. Vikur og annað frauðgrýti verður til við sprengigos. "Þeytigos" eru sprengigos sem verða þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn. Sprengigos stafa aðallega af skyndilegri losun reikulla efna, einkum vatns, úr kvikunni við lágan þrýsting. Ágætt samanburðardæmi úr daglega lífinu er þegar tappi er tekinn af gosflösku, en þá losnar koltvíildi (CO2) úr vatnslausninni og hún freyðir. Sé flaskan hrist gerist þetta ennþá hraðar og mikill þrýstingur myndast, því 500-faldur rúmmálsmunur er á CO2 í vatnslausn og CO2 sem gasi: 1 millilítri í lausn verður hálfur lítri af gasi. Bergbráð djúpt í jörðu getur innihaldið allt frá 0,5% upp í 4-5% af vatni í lausn, en þegar bráðin rís og þrýstingurinn lækkar (tappinn tekinn af flöskunni) losnar vatnið úr bráðinni og hún freyðir. Þarna verður rúmmálsmunurinn milli vatns í lausn og sem gufu ennþá meiri vegna hitaþenslunnar eða um 5000-faldur. Þess vegna skiptir það miklu hve hratt bráðin rís upp gosrásina. Rísi bráðin hægt losnar vatnið rólega úr henni og sleppur út í andrúmsloftið en hraunkvikan rennur sína leið eftir yfirborði jarðar (hraungos). Rísi hún hratt verður ferlið með hraða sprengingar og hraunslettur og gufa þeytast hátt í loft upp (sprengigos). Askja gaus árið 1875 geigvænlegu sprengigosi. Troðgos. Troðgos er hraungos sem lýsir sér með því að bergkvikan er það seig að hún hrúgast upp yfir gosopinu en breiðist ekki mikið úr sér. Fjallið Baula í Borgarfirði er dæmi um hraun sem hefur runnið í troðgosi og orðið að keilulaga fjalli. John Milton. John Milton (9. desember 1608 – 8. nóvember 1674) var enskt skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir kvæði sitt "Paradísarmissi". Milton var lengi hampað sem höfuðskáldi Englendinga en vinsældir hans dvínuðu nokkuð um miðja 20. öld en nýtur enn mikilla vinsælda. Milton hafði mikil áhrif á John Keats, Alexander Pope, William Wordsworth og Percy Shelley svo fáeinir séu nefndir. Tenglar. Milton, John Milton, John Áróður. Áróður er skilaboð sem er ætlað að hafa áhrif á og skoðanir og hegðun stórra hópa fólks. Í stað þess að setja upplýsingar fram á óhlutdrægan máta er framsetningu upplýsinga í áróðri beinlínis ætlað að hafa áhrif á viðtakandann. Áhrifaríkur áróður er oft sannleikanum samkvæmur en í áróðri getur framsetning einnig verið villandi og upplýsingar rangar. Áróður, agitation og propaganda. Orðið áróður þýddi upphaflega það að róa á skipi, eða róðrarkvöð leiguliða gamalla stóls- og konungsjarða. Stundum líka ásókn eftir einhverju. Nú er orðið aðallega notað í merkingunni: „umtal eða skrif til að fá menn til að taka afstöðu með eða móti einhverju eða einhverjum, málafylgja, fortölur“. Aróður var talið til nýyrða árið 1953. Þá kom út bókin "Nýyrði I" í ritstjórn Sveins Bergsveinssonar. Þar segir: „áróður: propaganda, agitation. Samheiti: útbreiðslustarfsemi. Helstu samsetningar: áróðursaðferð, áróðursbragð, áróðursmaður, í áróðurs skyni, áróðursstarfsemi, áróðurstæki; gagnáróður, flokksáróður, stjórnmálaáróður, utanflokks- og innanflokksáróður.“ Af þessu má sjá að áróður er látinn standa jafnt fyrir agitation og propaganda, enda er „í áróðurs skyni" annarstaðar þýtt á dönsku sem „i propagandaøjemed“. Í "Nudansk ordbog" (8. útg. 1989) er agitation útskýrt þannig: „...kraftig virken for en sag: partiet drev en pågående agitation blandt arbejderne propaganda:... benævnelse på en katolsk institution; den moderne betydning forst í 19. árhundrede: agitation for en idé." Í frönsku er sagt: "Faire de l'agitation" og þýtt á íslensku í frönsk-íslensku orðabókinni sem: „að vera með pólitískan áróður“. Í ensk-íslensku orðabókinni (með alfræðilegu ívafi) er 3. merking "agitation": „áróður, umræður til framdráttar baráttumáli“. Það er því erfitt að greina mun á hugtökunum í íslensku, en hann er fyrir hendi. Job. Satan lætur síðan allt mögulegt yfir Job ganga, en aldrei átelur Job guð sinn eða gefur upp á bátinn. Loks, eftir nokkuð marga harma, snýr guð við högum hans og eftir það lifir Job glaður á ný í "hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði. Og [hann] dó gamall og saddur lífdaga". Sögulegur tími. Sögulegur tími er sá hluti mannkynssögunnar sem ritaðar heimildir eru til um. Mannkynssögunni er skipt í "sögulegan tíma" og "forsögulegan tíma". Skilin þar á milli miðast við upphaf ritaðra heimilda, sem komu ekki fram á sama tíma alls staðar. Því hefst sögulegur tími ekki alls staðar samtímis. Elstu ritaðar heimildir, fleygrúnir, eru frá Súmer, eða Mesópótamíu, frá því 3000-3500 f.Kr., sem kallast fornöld. Á Íslandi hefst sögulegur tími við landnám Íslands. Að vísu eru ekki til ritaðar samtímaheimildir um landnámið, en greint er frá því í fornum ritum, t.d. Landnámabók og Íslendingabók, sem skráðar eru 200-250 árum eftir landnámið. Þær eru samt taldar geyma all áreiðanlegar sagnir frá landnámsöld. Javier Bardem. Javier Ángel Encinas Bardem (f. 1. mars 1969) er spænskur leikari sem er þekktastur fyrir leik sinn í enskumælandi myndum eins og "Before Night Falls" og "No Country for Old Men" en í hinni síðarnefndu leikur hann "Anton Chigurh" og hlaut Óskarinn sem karlleikari í aukahlutverki fyrir frammistöðu sína. Heimir Ólafur Hjartarson. Heimir Ólafur Hjartarson er bassaleikari og bakraddasöngvari íslensku rokkhljómsveitarinnar Sign. Heimir hefur verið með þeim frá 2007. Hann var áður í hljómsveitinni Nevolution. Dulin veröld. Dulin veröld: smádýr á íslandi (ISBN 9979-772-16-6) er bók um smádýr á Íslandi eftir Guðmund Haldórsson skordýrafræðing, Odd Sigurðsson jarðfræðing og Erling Ólafsson skordýrafræðing. Hún var gefin út af Mál og mynd árið 2002 og Orkuveita Reykjavíkur styrkti útgáfuna. Bókin fjallar um smádýr í lífríki Íslands með aðaláherslu á þau sem fyrirfinnast í Elliðárdalnum í Reykjavík. Andop. Andop er op hlið líkama sumra dýra sem gera þeim kleift að draga andann. Gyðla. Gyðla er ungviði skordýrs sem undirgengst ófullkomna myndbreytingu. Ungviði skordýra sem undirgangast fullkomna myndbreytingu kallast hinsvegar lirfur. Varppípa. Varppípa er líffæri á sumum liðdýrum sem þau nota til verpa eggjum. Kvenfluga blaðvespa er t.d. með sagtennta varppípu, sker raufar í plöntuhluta og verpir eggjunum þar. Talíbanar. a> í Afganistan í júlí árið 2001. Talíbanar (pastúnska: طالبان - "ṭālibān") eru súnní íslömsk og pastúnsk þjóðernishreyfing sem ríkti yfir stærstum hluta Afganistans frá 1996 til 2001. Hreyfingin er upprunnin í ættbálkahéruðum Pakistans við landamæri Pakistans og Afganistans. Þeir eiga nú í skæruhernaði við ríkisstjórn Afganistans, herlið NATO sem stendur í Enduring Freedom-aðgerðinni, og Alþjóðlega friðargæsluliðið í Afganistan. Talibanar komu fram á sjónarsviðið þegar Sovétríkin drógu hersveitir sínar frá Afganistan. Talið er að hreyfingin hafi sprottið upp úr trúboðsskólum sem styrktir voru fjárhagslega frá Sádi-Arabíu. Járntjaldið. Járntjaldið var heiti notað um hugmyndafræðileg, sálræn og oft efnisleg „landamæri“, sem skiptu Evrópu í tvennt frá lokum síðari heimsstyrjaldar 1945 til u.þ.b.1991. Hugtakið hafði áður verið notað af ýmsum höfundum, þar á meðal af Ethel Snowden í bókinni "Through Bolshevik Russia" frá 1920. Nasistaleiðtoginn Joseph Goebbels var fyrstur til að vísa til þess að „járntjald“ kæmi yfir Evrópu eftir heimsstyrjöldina í stefnuyfirlýsingu sem hann gaf út í þýska tímaritinu "Das Reich" í febrúar 1945. Hugtakið varð fyrst almennt eftir að Winston Churchill notaði það í „Járntjaldsræðunni“ 5. mars 1946. Járntjaldið skipti Evrópu í „Austur-Evrópu“, sem taldi Sovétríkin og önnur Varsjárbandalagslönd, og „Vestur-Evrópu“ sem taldi þau Evrópulönd sem voru aðilar að NATO. Hugtakið „Mið-Evrópa“ hvarf nánast úr umræðunni á sama tíma. Feathertop-fjall. Feathertop-fjall er annað hæsta fjall ástralska fylkisins Victoriu. Það er 1.922 metra hátt. Nafnið „Fjaðratindur“ er dregið af því að snjór situr eftir í lautum í fjallshlíðinni á vorin og líkist fjöðrum. Sefætt. Sefætt (fræðiheiti: "Juncaceae") er ætt hálfgrasa í grasbálki. Alls telur ættin 8 ættkvíslir og meira en 400 tegundir, sem hafa heimkynni sín allt frá norðurskauti suður undir miðbaug. Þau vaxa í næringarsnauðum jarðvegi, oft í votlendi þó það sé ekki algilt. Blöðin eru stakstæð og stráið sívalt og holt að innan. Sef hafa slétt, hárlaus blöð en hærur hafa slétt en hærð blöð. Atlantis. a> 1669. Á kortinu er suður upp. Atlantis er eyja úr heimi þjóðsögunnar sem óhægt er að staðsetja á landakorti. Hún á að hafa sokkið í sæ 9600 árum fyrir Krist. Menn hafa þó löngum reynt að staðsetja eyjuna. Í "Tímajosi" eftir Platon kemur sagan af Atlantis fyrir í fyrsta sinn og sömuleiðis í ókláruðu verki hans "Krítías". Þar er Atlantis kúgandi ríki á vestanverðu Miðjarðarhafi sem á í stríði við Aþenu. Hugmyndina um að Atlantis hafi verið einhvers konar fyrirmyndarríki má ef til vill rekja til rits Francis Bacons "Hið nýja Atlantis".en sumir halda að hún hafi verið staðsett nákvæmlega í Atlantshafinu. Naðurtunga. Naðurtunga (fræðiheiti: "Ophioglossum azoricum") er byrkningur af naðurtungnaætt. Hún hefur 1 til 3 blöð út frá uppréttum jarðstöngli. Blaðka þeirra er lensulaga eða oddbaugótt, 2 til 4 sentimetrar á lengd og 5 til 15 millimetrar á breidd. Gróhirslur naðurtungu er að finna í þéttum röðum eftir endilöngu axi plöntunnar. Naðurtunga á kjörlendi sitt í volgum jarðvegi, s.s. á laugarbökkum eða leirflögum. Hún vex við Atlantshaf, s.s. á Grænlandi, Asóreyjum, Frakklandi, Bretlandi og Ísland (þar sem hún er mjög sjaldgæf). Klóelfting. Klóelfting (fræðiheiti: "Equisetum arvense") er elfting. Hún hefur gárótta, sívala og liðskipta stöngla sem hafa liðskiptar, kransstæðar greinar. Hún þekkist á því að neðsti liður hverrar greinar er mun lengri en stöngulslíðrið, þetta á þó ekki við um greinarnar á neðstu stöngulliðunum. Gróöxin, sem kallast "skollafætur", "skollafingur" eða "góubeitlar", vaxa snemma á vorin, löngu áður en elftingin sjálf sést. Þau eru blaðgrænulaus, ljósmóleit með svörtum slíðrum og falla eftir gróþroskun. Klóelfting nær 20 til 40 sentímetra hæð og vex gjarnan á röskuðum svæðum, í görðum, vegköntum, mólendi og skógarbotnum. Annað. Klóelfting hefur 216 litninga (108 pör) sem er fimm sinnum meira en maðurinn sem hefur 46 litninga. Fjalldalafífill. Fjalldalafífill (fræðiheiti: "Geum rivale") er jurt af rósaætt sem ber bleik slútandi blóm, 1,5 til 2 sentímetrar í þvermál. Bikarblöð þeirra eru rauð og hærð. Stöngulblöðin eru þrískipt og hafa tennta flipa og axlablöð við blaðfót. Fjalldalafífill hefur gildan jarðstöngul. Jurtin nær 25 til 40 sentímetra hæð og vex gjarnan í mólendi og öðru grasigefnu landi í Norður-Ameríku, Evrópu (fyrir utan svæðið við Miðjarðarhaf) auk mið-Asíu. Heinrich Böll. Heinrich Böll (21. desember 1917 – 16. júlí 1985) var þýskur rithöfundur, leikritahöfundur og höfundur útvarps- og sjónvarpsþátta. Heinrich Böll hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1972. Böll festi sig ekki við neinar ákveðnar stefnur eða greinar innan bókmenntanna. Öll hans verk eiga það þó sameiginlegt að fást við hinn mannlega þátt lífsins. Kreditkort. Kreditkort (eða krítarkort) er rafrænt greiðslukort sem rennt er í gegnum (eða stungið í örgjörvaposa) posa hjá seljanda og þannig skuldfærast upphæðir á reikning kaupanda hjá kortafyrirtæki sem sér um greiðslu til seljanda. Karate. Karate (japanska: 空手, orðrétt: „tóm hönd“) er austurasísk sjálfsvarnaríþrótt sem á rætur sínar að rekja til Japans, Okinawa og Ryukyu-eyja og á endanum til kínversks kenpo og kung fu. Í karate eru veitt högg bæði með krepptum hnefa og opinni hendi og spörk auk þess sem olnbogar og hné eru eru notuð til að koma höggi á andstæðinginn. Karate er vinsæl keppnisíþrótt víða um heim. Mörg afbrigði eru til. Meðal þeirra vinsælustu eru Shotokan karate, Goju-ryu karate, Wado-ryu karate og Kyokushin kaikan. Tígris. Tígris er annað tveggja fljóta sem afmarka Mesópótamíu (orðrétt: landið milli fljótanna) en hitt er Efrat. Tígris er austara fljótið. Það á upptök sín í fjöllum Tyrklands og rennur í gegnum Írak út í Persaflóa. Harro Magnussen. Harro Magnussen (1861 – 1908) var þýskur myndhöggvari, fæddur í Hamborg í Þýskalandi. Hann var sonur Christians Carls Magnussen, listmálara, sem var sonur prófessors Finns Magnússonar. Harro stundaði nám í lista-akademíunni í Munchen, en varð síðar nemandi Begas í Berlín. Hann starfaði síðar í þjónustu Vilhjálms keisara. Karachi. Karachi stærsta borg Pakistans og ein af stærstu borgum heims. Hún var áður höfuðborg landsins og er enn miðstöð menningar og verslunar og stærsta höfn landsins. Meðal innfæddra er hún þekkt sem „borg ljósanna“ (روشنين جو شهر). Íbúar borgarinnar eru tæplega 14,7 milljónir (2008). Höfuðverkur. Höfuðverkur er verkur í höfði. Stundum er orsökina að finna í hálsi eða baki eða nefi. Höfuðverkur er langoftast óverulegur og ekki til marks um alvarlegt ástand. Algengas ástæður höfuðverkjar eru streita, vökvatap og mígreni, lágur blóðsykur og kinnholsbólga. Alvarlegri ástæður höfuðverkjar eru heilahimnubólga, heilabólga, alvarlegur háþrýstingur og æðgúll eða æxli í heila. Heimsfaraldur. Heimsfaraldur (einnig "útbreidd farsótt") er farsótt sem nær mjög mikilli útbreiðslu, jafnvel í öllum heimsálfum. Meðal þekktra heimsfaraldra má nefna svarta dauða sem átti upptök sín í Asíu en geisaði einnig í Evrópu á 14. öld og dró 20-30 milljónir manna til dauða; og spænsku veikina sem fyrst varð vart í mars 1918 í Kansas í Bandaríkjunum og dró 25 milljónir manna til dauða á fyrstu sem mánuðunum. Mænusótt. Mænusótt (e. polio), einnig nefnd mænuveiki og lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veirusýkingar sem berst manna á milli einkum með saurgerlum sem komast í snertingu við munninn og meltingarveg, t.d. í gegnum mengað vatn eða gegnum einhverja aðra millileið. Um 90% þeirra sem smitast af mænusótt eru einkennalausir en ef veiran berst í blóðrásina getur hinn smitaði sýnt ýmis einkenni. Í innan við 1% tilvika berst veiran í miðtaugakerfið og herjar þá á og skaðar hreyfitaugunga og leiðir til lömunar. Algengast er að mænan bíði skaða. Jakob Heine greindi lömunarveiki fyrstur árið 1840. Karl Landsteiner uppgötvaði veiruna sem veldur veikinni, poliovirus, árið 1908. Dr. Hilary Koprowski var fyrstur manna til að þróa mótefni við veirunni, Jonas Salk þróaði annað mótefni árið 1952 og Albert Sabin árið 1962 en bólusetning hefur komið í veg fyrir mörg hundruð þúsund dauðsföll. Meðal einkenna er ljósfælni og stífleiki í hálsi. Listi yfir fjölmennustu borgir heims. Eftirfarandi er listi yfir fjölmennustu borgir heims miðað við íbúafjölda innan borgarmarka. Íbúafjöldinn er ekki miðaður við stórborgarsvæði hverrar borgar. Sjá lista yfir fjölmennustu þéttbýlissvæði heims og lista yfir fjölmennustu stórborgarsvæði heims. Stafafell í Lóni. Stafafell í Lóni er kirkjustaður í Lóni milli Eystrahorns og Vestrahorns í Austur-Skaftafellssýslu. Þar er nú gistiheimili og miðstöð fyrir útivist, en vinsælar gönguleiðir liggja frá Stafafelli upp í Lónsöræfi. Fryst matvæli. Gangur með frostvöru í stórmarkaði. Fryst matvæli eða frostvara eru matvæli sem geymd eru með frystingu. Frysting er algeng aðferð við varðveislu matvæla sem hægir á niðurbroti matvæla og gerir þau ólífvænleg fyrir bakteríur með því að breyta því vatni sem þau innihalda í ís. Hannes Sigurðsson. Hannes Þorsteinn Sigurðsson (f. 10. apríl 1983 í Reykjavík) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann er fyrirliði Viking FK í Stafangri í Noregi. Hann var áður leikmaður FH, Stoke City F.C., Brøndby IF og nú með Viking. Varalið lögreglunnar. Varalið lögreglu eða varalögregla eru sveitir manna sem kallaðir eru til að aðstoða lögreglu í sérstökum tilvikum. Þessar sveitir geta verið hvoru tveggja, vopnaðar eða óvopnaðar og geta samanstaðið af sjálfboðaliðum eða meðlimum í lögreglunni. Ísland. Í lögreglulögum frá 1940 til 1996 var ríkislögreglustjóra heimilað, með samþykki dómsmálaráðherra, að við sérstakar aðstæður bæta við varalögreglumönnum til að gæta öryggis. Þessi lög voru notuð nokkrum sinnum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Sem einkenni höfði varaliðslögreglan svartmálaða breska hermannahjálma. Var máluð hvít stjarna framan á hjálmana og stafirnir "VL" fyrir neðan. Fyrir utan það var lögunum einungis beitt í tvö skipti. Var annað þann 30. mars 1949 þegar mikil átök urðu á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið vegna ákvörðunnar Alþingis um inngöngu Íslands í NATÓ. Þá var varalið lögreglunnar kallað út og voru varaliðarnir með breska hermannahjálma og armbindi, ýmist hvít eða í fánalitunum, sem einkenni. Í þessu varaliði voru einungis félagar í Verði, stúdentafélagi Sjálfstæðisflokksins og Heimdalli, ungliðahreyfingu sama flokks. Seinna skiptið sem varaliðið var kallað út til að aðstoða lögregluna í Reykjavík, var um mánaðamótin maí-júní 1973 þegar forsetarnir Richard Nixon og Georges Pompidou funduðu á Kjarvalsstöðum. Þetta varaliðið var í dökkbláum samfestingum með dökkbláar bátahúfur sem í var lögreglustjarna. Eldri varalið. Saga varaliðs íslenskrar lögreglu er þó mun eldri. Árið 1855 var stofnuð varalögregla sem átti að aðstoða Reykjavíkurlögregluna þegar bruna bæri að höndum í bænum. Varalið var kallað út til að aðstoða lögregluna við konungskomurnar 1921, 1926 og 1936. Einnig var varalið lögreglunnar kallað út í nóvember 1921 vegna átaka um rússneskan dreng í Suðurgötu 14, sem hér var á vegum Ólafs Friðrikssonar. Í samband við sjómannaverkfall í Reykjavík í júní 1923 var varalið og lögregla notuð til að berja niður verkfallsmenn. 
Sérstök Þingvallalögregla varaliðsmanna var stofnuð í sambandi við Alþingishátíðina 1930. Í þessari lögreglu voru 100 menn, sem áttu að sjá um alla löggæslu á staðnum og aðstoða hátíðargesti. Listi yfir fjölmennustu stórborgarsvæði heims. Eftirfarani er listi yfir fjölmennustu stórborgarsvæði heims. Spurningin um hverjar eru stærstu borgir heims er flókin vegna þess að oft er óljóst hvernig á að skilgreina borg; miðað er við margar ólikar skilgreiningar en auk þess er vandséð að skilgreiningar passi alltaf við aðstæður á hverjum stað. Hér er miðað við stórborgarsvæði, sem felur ekki einungis í sér íbúafjölda innan borgarmarka heldur allan íbúafjöldann á einu og sama atvinnusvæðinu. Á listanum er miðað við fólksfjöldatölur frá árinu 2003. Listinn felur í sér túlkun á staðreyndum. Barbara Meier. Barbara Meier (fædd 25. júlí 1986 í Amberg í Þýskalandi) er þýsk fyrirsæta. Heimildir. Meier, Barbara Heidi Klum. Heidi Klum (fædd 1. júní 1973 í Bergisch Gladbach í Þýskalandi) er þýsk fyrirsæta. Klum, Heidi Koparstunga. Koparstunga (eða eirstunga'") er aðferð við gerð grafíkmynda þar sem myndin er grafin í koparplötu og síðan þrykkt á pappír ("koparstungupappír"), og er ekki ólíkt verklagi við gerð ætingar. Þessi prentaðferð fellur undir það sem kallað hefur verið lægðaprent. Austur-Agðir. Austur-Agðir (norska: "Aust-Agder") er fylki í suður Noregi, 9.157 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 106.000. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Arendal, með um 40.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Suðurland. Þelamörk. Þelamörk (norska: "Telemark") er fylki í suður Noregi. Fylkið er 15.299 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 166.000. Höfuðstaður fylkisins og stærsta borgin er Skien, með um 85.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Austurland. Yfirmynntur vatnakarpi. Yfirmynntur vatnakarpi (fræðiheiti: "Pseudorasbora parva") er fiskur af ætt vatnakarpa. Hann er upprunninn í Asíu en var fluttur til Rúmeníu sem skrautfiskur í garðtjarnir á 7. áratug 20. aldar. Þaðan komst hann út í Dóná og þar með allt vatnakerfi Evrópu þar sem hann er nú álitinn innrásartegund. Hann ber með sér sníkjudýr sem eru ekki skaðleg honum sjálfum en ráðast á aðra fiska, eins og t.d. vatnabláma ("Leucaspius delineatus"). Söngvakeppni sjónvarpsins. Söngvakeppni sjónvarpsins er íslenska undankeppnin fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Söngvakeppnin er framleidd af RÚV. Mismikið hefur verið gert úr keppninni og misjafn háttur hafður á valinu. Stundum hefur ein dómnefnd, eða dómnefndir verið látin velja úr sigurlagið, stundum hafa atkvæði áhorfenda verið látin ráða og stundum blanda af þessu tvennu. Í sex skipti var ekki keppni heldur valdi RÚV úr innsendum lögum og þrjú þau efstu voru kynnt í þættinum. Söngvakeppnin var fyrst haldin 7. mars 1981, fimm árum áður en Ísland tók fyrst þátt í evrópsku keppninni. Listi yfir lönd eftir tíðni sjálfsmorða. Heimskort sem sýnir tíðni sjálfsmorða á hverja 100.000 íbúa. Eftirfarandi er listi yfir tíðni sjálfsmorða eftir löndum. Miðað er við tölur frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO). Fjöldi sjálfsmorða hvors kyns er miðaður við heildarfjölda íbúa af því kyni (t.d. fjölda karla í hverju landi deilt í fjölda sjálfsmorða karla). Heildartíðni sjálfsmorða er miðuð við heildarfjölda sjálfsmorða í hverju landi en er ekki meðaltal af sjálfsmorðum karla og kvenna enda er hlutfall karla og kvenna ekki alveg jafnt í hverju landi. Ártalið gefur til kynna hvenær nýjustu tölur lágu fyrir um tíðni sjálfsmorða í hverju landi fyrir sig. Í sumum löndum eru upplýsingar um sjálfsmorð afar óáreiðanlegar (einkum í Afríku og Miðausturlöndum) auk þess sem þær eru misgamlar. Það ber að hafa í huga þegar listinn er notaður. Luís de Camões. Luís Vaz de Camões (um 1524 – 10. júní 1580) er höfuðskáld Portúgala. Hann samdi þónokkuð af lýrískum kveðskap bæði á portúgölsku og spænsku og leikritum en er þekktastur fyrir söguljóð sitt "Lusiadas". Tilvísanir. Camoes, Luis Vaz Abu Nuwas. Abu-Nuwas al-Hasan ben Hani al-Hakami (750 – 810) þekktastur sem Abu-Nuwas (á arabísku:ابونواس), var þekkt arabískt skáld. Hann fæddist í Ahvaz í Persíu og var af persneskum og arabískum ættum. Hann er almennt talinn merkasta skáldið á klassískri arabísku en orðspor hans hvílir einkum á drykkjusöngvum sem hann orti og kvæðum um sveinaástir. Símastaur. Símastaur eða rafmagnsstaur er einfaldur staur eða stöng sem heldur uppi símavír eða lágspennurafmagnsvír. Tilgangur slíkra staura er að koma í veg fyrir skammhlaup og halda vírunum ofan við umferð á yfirborðinu. Háspennuvírum er haldið uppi með stórum rafmagnsmöstrum. Fylki Noregs. Listi yfir fylki Noregs, eftir mannfjölda. Noregi er skipt í 19 hluta sem kallast fylki (norska: "fylke"). Fylkin voru kölluð "amt", þangað til árið 1918, þegar nafnið "amt" var breytt í "fylke". Noregur Hamamatsu. Hamamatsu (浜松市, "Hamamatsu-shi") er borg í Shizuoka-umdæmi í héraðinu Chūbu á suðurströnd japanska meginlandsins Honshū. Íbúar eru rúmlega 800 þúsund. Borgin er einkum þekkt sem iðnaðarborg, sérstaklega fyrir framleiðslu á hljóðfærum og vélhjólum. Lífbúr. Lífbúr er venjulega ílát eða lokað svæði úr gleri eða fínu gegnsæju neti þar sem dýr og jurtir eru ræktuð sem skraut, til skemmtunar eða vegna rannsókna. Oft er mikil vinna lögð í að líkja eftir því vistkerfi sem tegundirnar búa við í náttúrunni og sérstakur tækjabúnaður notaður til að líkja eftir hitastigi, rakastigi og lýsingu. Fiskabúr. Fiskabúr er lífbúr með að minnsta kosti eina gegnsæja hlið þar sem fiskar og aðrar vatnategundir eru ræktaðar. Fiskabúr eru aðallega fyrir ræktun fiska, en önnur vatnadýr, eins og froskdýr, sniglar, sjávarspendýr og vatnaplöntur eru oft höfð með. Í sjávardýrasöfnum eru oft gríðarstór fiskabúr sem geta haldið yfir milljón lítrum af vatni. Mumiy Troll. Mumiy Troll ("Му́мий Тро́лль", IPA: [ˈmumʲij ˈtrɔlʲ]) er rússnesk rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1981 í Vladivostok. Hljómsveitin hefur meðal annars tekið þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2001. Forsprakki hennar er Ilia Lagoutenko. Heimsmeistaramót. Heimsmeistaramót er yfirleitt aðalkeppnin í tiltekinni íþrótt þannig að sigurvegari á heimsmeistaramóti telst formlega vera besta þjóðin, liðið eða einstaklingurinn í íþróttinni í heimi. Sumar íþróttir eru með heimsbikarmót eða ekkert „heimsmót“ af neinu tagi en heimsmeistarar mæta þess í stað áskorendum um titilinn sem ávinna sér rétt til áskorunar með því að safna stigum í ákveðnum keppnum. Þetta á t.d. bæði við um atvinnuhnefaleika og skák. Steindepla. Steindepla (fræðiheiti: "Veronica fruticans") er depla af græðisúruætt. Hún ber dökkblá blóm og vex í giljum, melum, móum og klettum. Lýsing. Blómin eru 1 sm í þvermál og eru fá blóm í hverjum klasa. Krónublöðin eru 4, samvaxin að neðan og misstór. Þau eru dökkblá að lit, með hvítu neðst og rauðu belti. Í hverju blómi eru tveir fræflar með hvíta frjóhnappa, frævan hefur langan stíl. Blöð steindeplu eru oddbaugótt með stuttum randhárum. Platan nær 6 til 8 sentímetra hæð. Fjalladepla. Fjalladepla (fræðiheiti: "Veronica alpina") er depla af græðisúruætt. Lýsing. Blóm fjalladeplu eru 3 til 5 mm í þvermál og standa á stuttum leggjum í klasa. Þau eru dökkblá að lit en bikarblöðin eru dökk-blágræn með hvítum randhárum. Í hverju blómi eru tvær fræflar og ein fræva. Aldin fjalladeplu eru 4 til 6 mm að lengd, sýlt í annan endann og hefur stuttan stíl. Stöngullinn er alsettur oddbaugóttum, sljótenntum blöðum. Fjalladepla vex, eins og nafnið gefur til kynna, í fjallshlíðum, snjódældum og lækjardrögum til fjalla. Kvef. Veirur valda kvefpestum (mynd af RH-veirunni). Kvef er bráðsmitandi, en meinlaus veirusjúkdómur sem veldur óþægindum og bólgum í öndunarfærum manna, einkum í nefi og háls, en jafn vel einnig í ennisholum og augum. Kvefi valda einkum picornaveirur og coronaveirur. Algeng einkenni kvefs eru nefrennsli, stíflað nef, særindi í hálsi, hósti og hnerri. Stundum einnig þreyta, máttleysi, höfuðverkur og lystarleysi. Hiti og beinverkir eru venjulega til marks um flensu. Einkenni kvefs hverfa á um einni viku en geta varað í tvær vikur. Engin lyf eru til gegn kvefi og bólusetning við kvefi er ekki til. Eftir að maður hefur fengið kvefpest af völdum eins afbrigðis þeirrar veiru sem veldur fær maður hana þó ekki aftur. Mikilvæg forvörn gegn kvefi er handþvottur. Lækjadepla. Lækjadepla (fræðiheiti: "Veronica serphyllifolia") er depla af græðisúruætt. Lýsing. Blóm lækjadeplu eru ljósblá, í löngum, gisnum klasa. Þau eru 3 til 5 mm í þvermál og bikarblöðin eru græn og snubbótt. Fræflarnir eru tveir í hverju blómi og frævan hefur einn stíl sem verður að öfughjartalaga aldini. Blöðin eru gagnstæð og gisin á stönglinum. Þá eru þau sporbaugótt eða egglensulaga, með stuttan stilk eða stilklaus. Jurtin öll er 10 til 20 sentímetra há og vex meðfram lækjasytrum, í skurðum eða í deigu graslendi. Petra Němcová. Petra Němcová (fædd 24. júní 1979 í Karviná í Tékklandi) er tékknesk fyrirsæta. Němcová, Petra Völudepla. Völudepla (fræðiheiti: "Veronica chamaedrys") er depla af græðisúruætt. Hún er mjög sjaldgæfur slæðingur á Ísland en vex víða á Norðurlöndum. Lýsing. Blöð völudeplu eru egglaga, gróftennt um 1,5 til 3 sentímetrar á lengd. Þau sitja gangstætt á hærðum stilknum. Claudia Schiffer. Claudia Schiffer (fædd 25. ágúst 1970 í Rheinberg í Þýskalandi) er þýsk fyrirsæta. Heimildir. Schiffer, Claudia Shizuoka. Shizuoka (静岡市, "Shizuoka-shi") er borg í Shizuoka-umdæmi í Japan. Íbúar eru rúmlega 700 þúsund. Shizuoka-umdæmi. Shizuoka-umdæmi (静岡県, "Shizuoka-ken") er umdæmi í Japan í héraðinu Chūbu á Honshū. Íslandsbanki (eldri). Íslandsbanki (eldri) var íslenskur banki, stofnaður 1904, aðallega með dönsku hlutafé að frumkvæði Alexanders Warburg og Ludvigs Arntzen. Bankinn var aðaluppspretta fjármagns fyrir vélvæðingu íslensks sjávarútvegs í upphafi aldarinnar. 7. mars 1930 tók Útvegsbankinn starfsemi bankans yfir. Fyrsti bankastjóri Íslandsbanka var Sighvatur Bjarnason. Fyrsta orrustan um Sægon. Fyrsta orrustan um Sægon var orrusta milli sameinaðra fylkinga norður-víetnamska hersins og þjóðfrelsisfylkingarinnar (einnig þekkt sem "Víet Cong") gegn suður-víetnamska hernum og bandaríkjaher í Tet-sókninni 1968. Mikilvægur þáttur í sókninni var vel skipulögð árás á höfuðborg Suður-Víetnams, Sægon, frá öllum áttum samtímis 30. janúar. Fljótlega kom í ljós að árásin hafði mistekist en skærur héldu áfram í Sægon til 7. mars. Sarah Bernhardt. Sarah Bernhardt (22. október 1844 – 26. mars 1923) var frönsk leikkona sem hefur oft verið nefnd „frægasta leikkona í heimi“. Hún hóf feril sinn sem leikkona árið 1862 sem nemi við franska kómedíuleikhúsið í París. Henni gekk þó ekki vel í fyrstu og hætti og gerðist fylgdarkona árið 1865. Á 8. áratugnum varð hún fræg fyrir frammistöðu sína í leikhúsum Evrópu og varð brátt eftirsótt bæði þar og í New York-borg. Hún var einkum fræg fyrir alvarleg dramatísk hlutverk og fékk viðurnefnið „hin guðdómlega Sarah“. Hinn virti matreiðslu meistari August Escoffier nefndi rétt úr jarðaberjum og ananas henni til heiðurs. Marx-bræður. Marx-bræður; Chico, Harpo, Groucho, Gummo og Zeppo, voru hópur skemmtikrafta sem allir voru bræður og komu saman fram í revíum, leikhúsum, kvikmyndum og sjónvarpi frá 1912 fram á 6. áratuginn. Þeir komu upphaflega fram og þróuðu sviðspersónur sínar í óperuhúsinu í Nacogdoches í Texas og á 3. áratugnum voru þeir orðnir vinsælasta gamanatriðið í leikhúsum Bandaríkjanna. Um 1930 hófu þeir gerð gamanmynda sem byggðu á sviðsatriðum þeirra fyrir Paramount. 1933 fóru þeir frá Paramount og skömmu síðar hófu þeir samstarf við Metro-Goldwyn-Mayer. Skömmu fyrir útgáfu myndarinnar "The Big Store" 1941 tilkynntu þeir að þeir væru hættir. Þeir gerðu þó tvær myndir saman síðar 1946 og 1949 fyrir United Artists. Donatello. Donatello (fullt nafn Donato di Niccolò di Betto Bardi; um 1386 – 13. desember 1466) var myndhöggvari og listmálari frá Flórens á endurreisnartímanum. Hann var einn af fyrstu endurreisnarmyndhöggvurunum og stytta hans af Davíð er talin fyrsta styttan frá því í fornöld sem sýnir nakinn líkama. Alfons Mucha. Alfons Maria Mucha (24. júlí 1860 – 14. júlí 1939) var tékkneskur myndlistamaður og skreytilistamaður. Hann málaði í Art Nouveau-stíl og varð heimsþekktur fyrir veggspjöld sín af leikkonunni Söru Bernhardt í París í upphafi 20. aldar. Federico Fellini. Federico Fellini (20. janúar 1920 – 31. október 1993) var ítalskur kvikmyndaleikstjóri. Hann er einn af áhrifamestu og virtustu leikstjórum 20. aldar. Hann hóf leikstjórnarferil sinn með kvikmyndinni "Luci del varietà" 1950 sem hann leikstýrði ásamt Alberto Lattuada í anda ítalska nýraunsæisins, en fyrsta myndin sem hann leikstýrði einn var "Lo sceicco bianco" 1952. Eftir 1960, eftir gerð kvikmyndarinnar "La dolce vita", hvarf hann frá nýraunsæinu og fór að gera listrænar kvikmyndir þar sem draumar, ímyndanir og minningar blandast saman, oft á ærslafullan hátt, en sem halda í sama gagnrýna tón og nýraunsæið. Fellini fékk fjórum sinnum Óskarsverðlaun fyrir bestu erlendu kvikmyndina, en það var fyrir kvikmyndirnar "La strada" (1954), "Le notti di Cabiria" (1957), "8½" (1963) og "Amarcord" (1973). Love Is In The Air. "Love Is In The Air" er íslensk heimildarmynd frá árinu 2004. Leikstjóri er Ragnar Bragason. Myndin fjallar um leikferð leikhópsins Vesturports til London til að setja upp sýninguna "Rómeó og Júlía". Rubén Darío. Félix Rubén García Sarmiento (18. janúar 1867 – 6. febrúar 1916) var blaðamaður og skáld frá Níkaragva sem notaði skáldanafnið Rubén Darío. Hann er kallaður „faðir módernismans“ í spænskum bókmenntum þar sem hann var fyrstur til að yrkja á spænsku í anda nýrra tíma í ljóðagerð. Heimspeki 16. aldar. Heimspeki 16. aldar markar lok heimspeki endurreisnartímans og er undanfari að heimspeki 17. aldar og þar með að upphafi nútímaheimspeki. Yfirlit. Heimspeki tímabilsins einkenndist meðal annars af miklum deilum um ágæti fornra kenninga, svo sem kenninga Platons og Aristótelesar en hvor tveggja átti sér bæði öfluga málsvara og andmælendur. Andmælendur voru gjarnan brautryðjendur og þátttakendur í vísindabyltingunni, líkt og Francis Bacon og Galileo Galilei. Kristin guðfræði varð einnig tilefni til heimspekilegrar deilu en þeir Marteinn Lúther og Desiderius Erasmus deildu um frelsi viljans með hliðsjón af kristnum hugmyndum um forsjón guðs. Á sama tíma kynntust Vestur-Evrópubúar á ný ritum forngríska efahyggjumannsins Sextosar Empeirikosar en þau höfðu mikil áhrif í gegnum höfunda á borð við Michel de Montaigne og Francisco Sanches og átti mikinn þátt í að gera þekkingarfræðina að undirstöðugrein heimspekinnar í stað frumspekinnar sem hafði áður skipað þann sess. Giacomo Puccini. Giacomo Antonio Domenico Michele Secondo Maria Puccini (22. desember 1858 – 29. nóvember 1924) var ítalskt tónskáld sem er frægur fyrir óperur sínar, eins og "La Bohéme", "Tosca" og "Madama Butterfly" sem eru meðal þeirra ópera sem oftast eru settar upp. Mörg af lögum hans, eins og t.d. „Nessun dorma“ úr "Turandot", hafa orðið heimsþekkt. Heimspeki 15. aldar. Heimspeki 15. aldar markar lok miðaldaheimspekinnar og upphaf heimspeki endurreisnartímans. Yfirlit. Heimspeki tímabilsins dró dám af endurnýjuðum kynnum Vestur-Evrópubúa af forngrískri heimspeki. Mestrar hylli nutu Platon, Plótínos og Aristóteles en meðal annarra höfunda sem mikið voru lesnir má nefna Plútarkos og latnesku höfundana Cicero og Senecu yngri. Hjólferill. Hjólferill (cýklóða) er sá ferill sem fastur punktur á hring þræðir þegar hringurinn veltur eftir beinni línu án þess að renna til. Þetta er fræg tegund veltiferils þar sem ferillinn er lausn á vandamáli sem Johann Bernoulli setti fram 1696 er nefnist Brachistochrone vandamálið. Lýsing á ferlinum. Q er miðja hrings, P er punkturinn sem myndar ferilinn og A er skurðpunktur hrings og x-ás. Látum "Q" vera miðju hjólsins og radíus þess "r". Köllum fastan punkt á hjólinu "P" og látum "A" vera skurðpunkt hjólsins og línunnar á hverjum tíma. Hornið formula_1 köllum við θ. θr gefur x-hnit miðju hjólsins og er jafnframt fjarlægðin frá A til (0,0). Ferillinn er diffranlegur alls staðar nema í broddunum þar sem ferillinn snertir línuna (x-ásinn). Þetta má auðveldlega sjá með því að diffra hvora jöfnuna fyrir sig í punktinum (2πr,0), það gefur núll. Bogamál. Bogamál ferilsins má finna með því að finna lengdina á fyrstu afleiðu vigurfallsins og heilda hana. Þegar hjólið veltur einn hring (2π) fer P eftir hjólferil sem er nákvæmlega "8r" að lengd (þar sem "r" er radíus hjólsins). Vestfold. Vestfold er fylki í suðaustur Noregi, 2.224 km² að stærð, og er næstminnsta fylki Noregs í ferkílómetrum á eftir Ósló, sem er 454 km² að stærð. Íbúar fylkisins eru um það bil 226.000. Höfuðstaðurinn í fylkinu er Tønsberg, með um 38.000 íbúa. Stærsta borgin í fylkinu er Sandefjord, með um 42.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Austurland. Kaupang, sem er gamall bær frá víkingaöld er sagður vera fyrsti bærinn í Noregi, þó að Tønsberg sé elsti bær Noregs sem stendur ennþá. Íbyggni. Íbyggni er það einkenni hugsana og orða að vera um eitthvað, standa fyrir eða tákna eitthvað, þ.e. eiga sér viðfang. Hugtakið er notað til að lýsa tengslum hugar og heims. Það varð fyrst til í skólaspeki en var síðan kynnt til sögunnar á ný á 19. öld af austurríska heimspekingnum Franz Brentano í ritinu "Sálfræði frá raunvísindalegu sjónarhorni" (1874). Fornmenn höfðu ekki hugtakið "íbyggni" en veltu eigi að síður einnig fyrir sér tengslum hugar og heims. Í hugspeki er ekki einungis talað um íbyggni orða og hugsana sem þau standa fyrir heldur einnig íbyggin viðhorf. Það eru viðhorf sem eiga sér staðhæfingu sem viðfang. Dæmi um íbyggin viðhorf eru trú, efi, von og ótti sem öll beinast að inntaki staðhæfingar. Ef staðhæfingin er t.d. „Það snjóar“ eru ólík viðhorf til þeirrar staðhæfingar fólgin í því að vona að það snjói, að efa að það snjói og svo framvegis. Heiðmörk (fylki í Noregi). Heiðmörk (norska: "Hedmark") er fylki í austur Noregi, 27.397 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 190.000. Höfuðstaðurinn í fylkinu er Hamar, með um 28.000 íbúa. Stærsta borgin í fylkinu er Ringsaker, með um 32.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Austurland. Vestur-Agðir. Vestur-Agðir (norska: "Vest-Agder") er syðsta fylki Noregs, 7.276 km² og íbúarnir eru um það bil 165.000 íbúar. Höfuðstaðurinn og stærsta borgin í fylkinu er Kristiansand, með um 78.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Suðurland. Markhyggja. Markhyggja er sú hugmynd að endanleg útskýring á orsökum fyrirbæris, atburðar eða athafnar verði að hafa skírskotun til tilgangs eða ætlunar, það er að segja vísa til þess marks sem stefnt var að. Taka má dæmi af líffræðilegri útskýringu á þróun lífveru, t.d. hunds. Markhyggjuskýring á öflugu þefskyni hundsins myndi vísa til þess hvaða tilgangi þefskynið þjónar hjá hundinum. Þróunarkenning Darwins og nútíma líffræði hafna markhyggju og útskýra öflugt þefskyn hunda fremur þannig að hundar hafi öflugt þefskyn af því að þeir eru afkomendur einstaklinga sem höfðu sömu eiginleika; og þeir eru afkomendur þessara einstaklinga af því að við þáverandi aðstæður voru lífslíkur einstaklinga með öflugt þefskyn betri en hinna. Hugmyndir um vithönnun eru markhyggjuhugmyndir. Upplönd. Upplönd (norska: "Oppland") er fylki í miðju Noregs, 25.192 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 183.000. Höfuðstaðurinn í fylkinu er Lillehammer, með um 26.000 íbúa. Stærsta borgin í fylkinu er Gjøvik, með um 28.000 íbúa. Fylkið er í landshlutanum Suðurland. Hæsta fjall Noregs og norðurlandanna, Galdhøpiggen, er staðsett í fylkinu. Staðallíkan. Staðallíkanið er líkan í nútímaeðlisfræði, sem lýsir öreindum og þeim kröftum, sem verka á þær eða þá krafta sem þær bera samkvæmt skammtasviðskenningu. Helsti ókostur staðallíkansins er að það skýrir ekki þyngdarafl. Öreindirnar skiptast gróflega í tvo hópa, fermíeindir, með hálftöluspuna og bóseindir ("bósónur") með heiltöluspuna. Minnstu fermíeindirnar, sem ekki virðast samsettar úr öðrum smærri eindum, eru létteindir og kvarkar. Hver kjarneind ("þungeind"), sem samsett er úr þremur kvörkum, myndar ásamt rafeindum ("létteind") frumeindir, sem eru bygginareiningar efnis. Miðeindir ("mesónur") eru samsettar úr pörum kvarka og andkvarka. Nokkrar bóseindir miðla kröftum: ljóseindir ("fótónur") rafsegulkrafti, kvarðabóseindir veika kjarnakraftinum, en límeindir þeim sterka. Margar öreindir, t.d. raf- og róteind, hafa rafhleðslu, en ekki nifteind, fiseind né ljóseind. Létteindir. Eru efnisminnstu öreindirnar, en jafn vel er talið að fiseindir hafi engan massa. Massi raf- og jáeindar er 511 keV/c2. Kvarkar. Eru byggingareiningar efnis og mynda kjarneindir, sem ásamt rafeindum mynda efni. Sterkeindir eru samsettar úr kvörkum og hafa sterka víxlverkun. Þungeindir. Eru sterkeindir samsettar úr þremur kvörkum, t.d. róteind (p) og nifteind (n), sem eru myndaðar úr upp- „u“ og niður-kvörkum „d“ þ.a. p=uud og n=udd. Massi kjarneindanna er um 940 MeV/c2. Kratfmiðlandi eindir. Sex bóseindir ("kraftmiðlarar") miðla frumkröftunum fjórum: Rafsegulkrafti, veika- og sterka kajarnakraftinum og þyngdarkraftinum. Higgs-bóseindin gegnir lykilhlutverki í staðallíkaninu, en hefur þrátt fyrir mikla leit ekki fundist enn. Vonir eru bundnar við að finna hana í tilraunum með Stóra sterkeindahraðalinn. Miðeindir. Eru sterkeindir samsettar úr pörum kvarka og andkvarka. Samar. Samar (fyrrum kallaðir "Lappar", en það orð þykir nú niðrandi) er þjóðflokkur sem byggir Samaland ("Sápmi") sem spannar yfir norðurhluta Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og hluta af Kólaskaga í Rússlandi. Heiti. Samar nefndust áður fyrr "Lappar". Orðið er sennilega af finnskum uppruna samanber finnsku orðin "lappalainen" (Sami) og "Lappi" (Lappland). Frumþýðing orðsins er hins vegar óþekkt þó ekki vanti ágiskanir. Elsta rituð heimild um notkun orðsins Lappi er á sænsku handriti frá 1596. Saxo Grammaticus notar orðið "lapfenni" í handriti frá 13. öld til að aðskilja þá hópa sem bjuggu við strönd (sem hann nefndi "piscifenni") eða inni í landi. Flestir Samar álíta orðið Lappi vera niðurlægjandi og vilja ekki að það sé notað um þá. Í íslenskum fornritum er ekki talað um "lappa" en hins vegar um "finna" ("finnr") meðal annars í Landnámubók, Haralds sögu hins hárfagra, Ynglinga sögu og Örvar-Odds sögu. Flestir fræðimenn eru sammála um að þar sé átt við Sama. Rómverski fræðimaðurinn Tacitus skrifaði árið 98 um fólk á nyrsta hveli sem hann nefndi "fenni" á latínu, á sama hátt ritaði býsanski fræðimaðurinn Prokopios um árið 150 á grísku um "φίννοι" ("finnoi"), er álit flestra að þeir hafi átt þar við Sama þó sumir fræðimenn vilji draga það í efa og álíta þá skrifa um þann þjóðflokk sem á nútíma íslensku eru nefndir Finnar. Einnig eru fleiri miðaldaheimildir um "Skriðfinna" ("scridefinnas", "scritofinni", "scricfinni") (sem einnig er notað af Prokopios, "σκριϑίφινοι", sem samheiti fyrir "finnoi") en að öllum líkindum voru Samar fyrstir til að nota skíði (að skríða). Orðið sami er komið úr samísku þar sem það er "same", "sapme", "saemie" eða "sabme" í eintölu eftir mállýsku (í fleirtölu "sameh" eða "samek"). Samar eru afkomendur hirðingja sem hafa lifað í Skandinavíu í þúsundir ára og smám saman verið hraktir norðar eftir því sem byggðin þéttist að sunnan. Langflestir samar hafa tekið sér fasta búsetu og blandast Norðurlandabúum en margir stunda þó ennþá hreindýrabúskap. Hann er stundaður svipað og íslenskur sauðfjárbúskapur. Hreindýrunum er sleppt inn á heiðarnar á vorin og á haustin er þeim smalað saman og dregið sundur í réttum. Hreindýrabændur fara óhindrað á milli landamæra Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Á meðan karlarnir gæta hjarðarinnar býr fjölskyldan við nútímaþægindi og er með fasta búsetu. Áður flökkuðu fjölskyldurnar allar saman með hreindýrahjörðunum. Þá höfðu flestir sérstakar sumarbúðir og voru svo á öðrum stað á veturna. Í dag stunda margir samar fiskveiðar og sumir vinna við búskap eða hafa aðra hefðbundna atvinnu. Fáni. Fáni Sama hefur hring sem táknar ekki aðeins töfratrommu (runebom) heldur einnig sólina og tunglið, sólarhluti hringsins er rauður að lit en mánahlutinn blár. Í bakgrunni eru einkennislitir Sama: rauður, grænn, gulur og blár. Valið á sólinni kemur úr ljóði Anders Fjellner þar sem Samarnir eru kynntir sem synir og dætur sólarinnar. Wenzel Müller. Wenzel Müller (1759 eða 1767 – 3. ágúst 1835) var austurrískt tónskáld og tónlistarstjóri. Hann samdi nokkur þekkt söngvaspil og óperur á þýsku. Systirin frá Prag. "Systirin frá Prag" (þýska: "Die Schwester von Prag") er söngvaspil eftir austurríska tónskáldið Wenzel Müller sem kom fyrst út 11. mars 1797. Akademían. Kort af Aþenu til forna Akademían var skóli og fræðasetur í Aþenu sem heimspekingurinn Platon stofnaði um 385 f.Kr. Stofnunin var rekin áfram eftir dag Platons allt til ársins 529 e.Kr. en var þá lokað af Justinianusi I. Saga. Sögu Akademínnar má skipta í þrjú tímabil: gömlu Akademíuna, mið-Akademíuna og nýju Akademíuna. Gamla Akademían. Helstu hugsuðir gömlu Akademíunnar voru fyrrum samstarfsmenn Platons en þeir tóku við stjórn skólans að honum látnum: Spevsippos, frændi Platons, var fyrsti forstöðumaður skólans að frænda sínum látnum og stýrði honum til ársins 339 f.Kr. Þá tók Xenókrates við stjórn skólans til ársins 314 f.Kr. Pólemon tók við af honum og stýrði skólanum til ársins 269 f.Kr. en þá tók Krates við stjórninni og stýrði skólanum til ársins 266 f.Kr. Meðal annarra heimspekinga sem störfuðu við gömlu Akademíuna má nefna Aristóteles, Evdoxos, Herakleides frá Pontos, Krantor og Filippos frá Ópús. Allir þessir hugsuðir voru sammála Platoni um margt en sumir þeirra geta þó ekki talist platonistar nema í víðum skilningi (til dæmis Aristóteles). Spevsippos og Xenókrates reyndu báðir að tvinna saman pýþagóríska talnaspeki og ýmsar hliðar á heimspeki Platons. Mið-Akademían. Árið 266 f.Kr. varð Arkesilás forstöðumaður Akademíunnar. Þá breyttust áherslur skólans mjög og hann varð efahyggjuskóli. Mörgum af samræðum Platons, einkum þeim elstu, lýkur án neinnar niðurstöðu. Akademísku efahyggjumennirnir töldu að hér væri að finna kjarnann í heimspeki Platons: í raun væri ekki hægt að komast að niðurstöðu um neitt. Þetta skeið skólans er nefnt mið-Akademían. Það einkenndist fyrst og fremst af deilum við stóumenn, þar sem Arkesilás og fylgjendur hans gagnrýndu stóíska þekkingarfræði, sem lýsti því hvernig öðlast mætti óhagganlega þekkingu. Arkesilás færði rök fyrir því að samkvæmt kenningum stóumanna væri ekki hægt að vita neitt en sjálfur tók hann aldrei undir forsendur þeirra og hélt engum fram sjálfur. Lakýdes, Evandros, Telekles og Hegesínos fylgdu í kjölfar Arkesilásar sem stjórnendur Akademíunnar. Nýja Akademían. Tímabil nýju Akademíunnar hófst árið 155 f.Kr. þegar Karneades varð skólastjóri. Nýja Akademían var enn efahyggjuskóli en þó var áherslumunur á afstöðu Arkesilásar og Karneadesar; samkvæmt sumum túlkunum (þegar í fornöld) hélt Karneades fram einhvers konar sennileikahyggju, sem leyfði að eitthvað þætti sennilegt þótt möguleikanum á fullvissu (og þar með eiginlegri þekkingu) væri ætíð hafnað. Kleitomakkos tók við af Karneadesi og Fílon frá Larissu tók við af honum. Þá tók við Antíokkos frá Askalon, sem að endingu beindi Akademíunni frá efahyggjunni en akademísk efahyggja hafði þá þegar mildast mjög og orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki. Fílon og Antíokkos voru síðustu akademísku heimspekingarnir sem störfuðu innan Akademíunnar sem stofnunar. Telekles. Telekles (forngríska: Τηλεκλῆς) var forngrískur heimspekingur, nemandi og eftirmaður Lakýdesar. Hann stjórnaði Akademíunni ásamt Evandrosi. Þeir höfðu séð um daglegan rekstur skólans síðustu ár Lakýdesar vegna veikinda hans og héldu því áfram að honum látnum án þess að hafa verið formlega kjörnir yfirmenn skólans. Þegar Telekles lést um 167 f.Kr. var skólinn í hondum Evandrosar í nokkur ár. Ekkert er vitað um kenningar eða ritverk Teleklesar. Persar (leikrit). "Persar" ("Πέρσαι") er harmleikur eftir forngríska leikskáldið Æskýlos. Það er elsta varðveitta leikritið. Það er eina varðveitta gríska leikritið sem fjallar um samtímaatburði en leikritið, sem var sett á svið árið 472 f.Kr., fjallar um innrás Persa í Grikkland átta árum áður. Leikritið vann til fyrstu verðlauna í leikritakeppni á Dýonýsosarleikunum í Aþenu. Sjö gegn Þebu. "Sjö gegn Þebu" er harmleikur eftir forngríska leikskáldið Æskýlos. Leikritið byggir á goðsögu um sögu Þebu og fjallar um baráttu bræðranna Pólýneikesar og Eteóklesar, sona Ödípúsar og Jóköstu, um völdin. Þeir höfðu ákveðið að skiptast á að fara með völdin en þegar Eteókles neitaði að leggja niður völdin að sínum tíma loknum safnaði Pólýneikes liði meðal óvina borgarinnar og lagði til atlögu. Evripídes segir sömu sögu í leikritinu "Fönikíukonur" en leikrit Sófóklesar "Antígóna" gerist í framhaldi af sögunni um sjö gegn Þebu. Prómeþeifur bundinn. "Prómeþeifur bundinn" er forngrískur harmleikur eignaður skáldinu Æskýlosi. Flestir fræðimenn nú um mundir telja að leikritið sé ranglega eignað honum og hafi verið samið á síðari hluta 5. aldar f.Kr. Leikritið byggir á goðsögninni um Prómeþeif, títana sem Seifur refsaði fyrir að hafa stolið eldinum og gefið mönnum. Meyjar í nauðum (Æskýlos). "Meyjar í nauðum" er harmleikur eftir forngríska leikskáldið Æskýlos. Það er næstelsta varðveitta leikrit Æskýlosar. "Meyjar í nauðum" var fyrsta leikritið í þríleik en hin tvö eru glötuð. Þau hétu "Egyptar" og "Dætur Danás". Agamemnon (Æskýlos). "Agamemnon" er harmleikur eftir forngríska leikskáldið Æskýlos. Það er fyrsta leikritið í þríleiknum "Óresteia", sem er eini varðveitti þríleikurinn frá fornöld. Hin leikritin í þríleiknum eru "Sáttarfórn" og "Hollvættir". Leikritið segir frá Agamenoni, konungi í Mýkenu sem kemur heim að loknu Trójustríðinu en er myrtur við heimkomuna af komu sinni Klýtæmnestru. Tokugawa-ættin. Tokugawa-ættin (徳川氏, "Tokugawa-shi") var valdamikil "daimyo"-ætt í Japan frá miðöldum til loka Sengokutímabilsins á 19. öld. Ættin var grein af Minamoto-ættinni, afkomendur keisarans Seiwa (850-880). Sáttarfórn. "Sáttarfórn" eða "Dreypifórnfærendur" er harmleikur eftir forngríska leikskáldið Æskýlos. Það er annað leikritið í þríleiknum "Óresteia", sem er eini varðveitti þríleikurinn frá fornöld. Leikritið segir frá fundum systkinanna Órestesar og Elektru og áformum þeirra um hefndir fyrir föðurmorðið. Hollvættir. "Hollvættir" eða "Refsinornir" er harmleikur eftir forngríska leikskáldið Æskýlos. Það er þriðja leikritið í þríleiknum "Óresteia", sem er eini varðveitti þríleikurinn frá fornöld. Leikritið segir frá því hvernig refsinornirnar elta Órestes fyrir að myrða móður sína, Klýtæmnestru, til að hefna fyrir morðið á Agamenoni föður sínum. Refsinornirnar elta Órestes til Aþenuborgar þar sem gyðjan Aþena skerst í leikinn. Hún setur upp dómsmál og skipar tólf manna kviðdóm. Apollon tekur að sér að verja Órestes en nornirnar sækja málið fyrir Klýtæmnestru. Þegar atkvæði í málinu reynast jöfn sannfærir Aþena refsinornirnar um að fallast á ákvörðun hennar. Í kjölfarið endurnefnir hún nornirnar hollvætti. Sálin hans Jóns míns (þjóðsaga). Sálin hans Jóns míns er íslensk þjóðsaga sem Davíð Stefánsson skáld samdi leikritið "Gullna hliðið" um. Loðvík Filippus. Loðvík Filippus (6. október 1773 – 26. ágúst 1850) var síðasti konungur Frakklands frá 1830 til 1848 sem var kallað júlíríkið. Helgi Ólafsson. Helgi Ólafsson (fæddur í Vestmannaeyjum 15. ágúst 1956) er íslenskur stórmeistari í skák, síðan 1985 og skólastjóri Skákskólans. Hann hefur orðið Íslandsmeistari 6 sinnum. Hákonar saga Hákonarsonar. Hákonar saga Hákonarsonar (eða Hákonar saga gamla) er ævisaga Hákonar gamla Noregskonungs, og jafnframt saga Noregs á þeim árum sem hann fór með völd. Hákonar saga er varðveitt í mörgum handritum, sem bendir til að hún hafi verið vinsælt rit. Hún er í raun og veru framhald af Böglunga sögum. Höfundur "Hákonar sögu" var Sturla Þórðarson sagnaritari. Sturla var var leiðtogi Sturlunga um það leyti sem Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd, 1262, og hafði hann fallið í ónáð hjá Hákoni gamla. Sturla fór þá til Noregs til þess að freista þess að sættast við konung. Þegar þangað kom var Hákon í herför í Orkneyjum, og fór Sturla þá á fund sonar hans, Magnúsar lagabætis. Magnús konungur tók Sturlu kuldalega, en Sturlu tókst að vinna hylli hans, sjá "Sturlu þátt" í Sturlunga sögu. Þegar fregnir bárust til Noregs af fráfalli Hákonar, haustið 1263, fékk Magnús Sturlu til að setja saman sögu föður síns. Þetta var að mörgu leyti vandasamt verk, því að í sögunni er m.a. sagt frá valdabaráttu Hákonar og Skúla jarls, en ekkja Hákonar og móðir Magnúsar var dóttir Skúla; hún var þá enn á lífi. Sturla styðst bæði við frásögn greinargóðra manna, og einnig ýmis skjöl og bréf. Stundum verður sagan smásmugulega nákvæm, en oft tekst höfundinum nokkuð upp, svo sem þegar hann segir frá æskuárum konungs, krýningu hans o.fl. Sturla gerir sér títt um að lýsa ýmiss konar ytri viðhöfn, sem hefur greinilega verið í hávegum höfð við hirðina. "Hákonar saga" er mikilvægasta heimildin um sögu Noregs frá 1217, þegar Hákon gamli komst til valda, til 1263, þegar hann andaðist. Í sögunni er einnig nokkuð sagt frá atburðum á Íslandi og í öðrum löndum þar sem Hákon átti ítök. Sturla skreytir söguna með eigin kveðskap um Hákon, sem hann hefur líklega ætlað að flytja honum ef fundum þeirra hefði borið saman. Maríuvendlingur. Maríuvendlingur (fræðiheiti: "Gentiana tenella") er einær jurt af maríuvandarætt. Lýsing. Stönglar maríuvendlings eru oftast greindir neðst, dökkir að lit. Krónublöð eru bláleit eða fjólublá og er krónan fjórdeild. Í hverju blómi eru 4 til 5 fræflar og ein fræva. Aldin maríuvendlings er sívalt með aflangt hýði sem klofnar að ofanverðu við þroska. Blöðin eru gagnstæð, oddbaugótt og oft blámenguð. Jurtin nær 3 til 12 sentímetra hæð og vex gjarnan á grónum lækjar- og árfarvegum s.s. í innsveitum og á hálendum svæðum. Rolls series. Rolls Series, opinber titill: "The Chronicles and Memorials of Great Britain and Ireland during the Middle Ages", er mikið safn frumheimilda og fornra sagnfræðirita um sögu Bretlandseyja og Írlands. Þessi rit voru gefin út á seinni helmingi 19. aldar, nánar tiltekið 1858–1896. Alls eru í ritröðinni 99 verk, sem fylla 255 bindi. Íslensk rit í Rolls Series. Nokkur íslensk rit komu út í þessari ritröð. Öll snerta þau á einhvern hátt sögu Bretlandseyja. Víkurkirkja (Reykjavík). Víkurkirkja var kirkja í Reykjavík, líklega frá upphafi kristni á Íslandi þar til Dómkirkjan í Reykjavík var vígð 1796. Elstu heimildir sem nefna kirkjuna eru kirknatal Páls Jónssonar frá um 1200 og elsti máldagi hennar er frá 1379. Kirkjan var torfkirkja sem stóð í Kvosinni á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis í miðjum kirkjugarðinum gegnt Víkurbænum. Víkurkirkja var öldum saman sóknarkirkja Reykvíkinga. Árið 1785 var ákveðið að reisa nýja dómkirkju í Reykjavík eftir að Suðurlandsskjálfti 1784 hafði valdið skemmdum á Skálholtskirkju. Upphaflega stóð til að byggja nýju kirkjuna utanum þá gömlu, en þegar farið var að grafa í garðinn komu í ljós grafir fólks sem hafði látist úr bólusótt. Jón Sveinsson landlæknir lagðist þá mjög gegn því að garðinum yrði frekar raskað og dómkirkjunni var fundinn staður austar og nær Tjörninni. Nýja kirkjan var vígð 1796 en gamli kirkjugarðurinn var notaður áfram þar til Suðurgötukirkjugarður var tekinn í notkun 1839. Árið 1883 var fékk Schierbeck landlæknir kirkjugarðinum breytt í skrúðgarð og hóf þar trjárækt fyrstur manna í Reykjavík. Garðurinn hefur nokkrum sinnum verið endurskipulagður og hann er nú nær allur hellulagður. Þar stendur stytta af Skúla Magnússyni eftir Guðmund frá Miðdal sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur gaf borginni 1954. Ruud van Nistelrooy. Ruud van Nistelrooy (fæddur 1. júlí 1976 í Oss) er hollenskur knattspyrnumaður og er sóknarmaður sem leikur með Hamburg Í Þýskalandi. Hólmfríður Karlsdóttir. Hólmfríður „Hófí“ Karlsdóttir (fædd 3. júní 1963) er íslensk fegurðardrottning. Hún vann keppnina Ungfrú heimur í Lundúnum þann 14. nóvember 1985. Hof í Svarfaðardal. Hof í Svarfaðardal. Vallafjall í baksýn Hof í Svarfaðardal hefur frá alda öðli verið eitt af höfuðbólum dalsins. Bærinn stendur austan Svarfaðardalsár um 6 km frá sjó. Þar er rekinn blandaður búskapur. Túnið er stórt og gott og beitiland mikið til fjalls. Sunnan við bæinn fellur Hofsá til Svarfaðardalsár en hún kemur úr Hofsdal, sem skerst inn á milli fjallanna ofan við Hof. Í ánni er hár foss, Goðafoss, sem sést vel frá vegi. Í hlíðinni ofan við Hof er Hofsskál en neðan við hana er falleg og regluleg berghlaupsurð, Hofshólar. Þar ofan við gnæfir Messuhnjúkur við himinn og inn af honum eru Rimar, hæsta fjall við utanverðan Svarfaðardal. Ljótólfur goði Alreksson var samkvæmt Landnámu og Svarfdæla sögu fyrsti landnámsmaður í Svarfaðardal. Dalurinn er þó kenndur við annan landnámsmann, Þorstein svörfuð á Grund skv. Landnámu. Ljótólfur reisti bæ sinn að Hofi en landnám hans náði um austanverðan dalinn. Sonur hans var Valla-Ljótur sem sérstök saga er til af. Gísli Jónsson íslenskufræðingur og kennari var fæddur og upp alinn á Hofi. Grund í Svarfaðardal. Grund í Svarfaðardal. Grundargil er í hliðinni ofan bæjarins. Hnjúkarnir sem ber við himinn eru Brennihnjúkur, Litlihnjúkur og Digrihnjúkur. Nykurtjörn er neðanundir Digrahnjúk. Grund í Svarfaðardal er ein af stærri bújörðunum í dalnum. Bærinn í miðri sveit, vestan Svarfaðardalsár, um 6 km frá strönd gegnt Hofi. Barnaskóli Svarfdælinga stóð lengi í túnfætinum á Grund innan og neðan við bæinn og þar var líka samkomuhús sveitarinnar. Utan við Grund er Grundarlækur. Hann kemur úr miklu skriðugili í fjallinu, Grundargili. Úr þessu gili hafa oft komið miklar aurskriður sem hafa valdið tjóni á túnum á Grund og næsta bæ, Brekku, og tekið sundur þjóðveginn um dalinn. Skriðurnar eiga upptök sín í vatnshlaupum sem koma úr Nykurtjörn, litlu vatni í um 700 m hæð í fjallinu ofan við Grund. Grund er landnámsjörð, að því er sagt er í Svarfdæla sögu, þar bjó Þorsteinn svörfuður. Grundar er víða getið í fornum heimildum. Tumi hinn yngri, sonur Sighvats Sturlusonar, fékk jörðina til ábúðar og þar var Halldóra móðir hans fyrst eftir ósigur Sturlunga í Örlygsstaðabardaga. Þorsteinn Eyjólfsson lögmaður á Urðum átti Grund á seinni hluta 14. aldar og kallaði hana sína bestu jörð Norðanlands. Jón Arason biskup eignaðist jörðina og gaf Þórunni dóttur sinni hana 1541. Eftir aftöku biskups og sona hans í Skálholti 1550 kúguðu valdsmenn konungs jörðina af henni og eftir það taldist hún konungsjörð allt fram á 20. öld. Goethe-háskóli í Frankfurt. Goethe-háskóli (þýska: "Goethe-Universität Frankfurt am Main"; enska: "Goethe University Frankfurt"), eða Háskólinn í Frankfurt, er háskóli í Frankfurt am Main, stærstu borg Hessens. Frankfurt Heiðarvíga saga. Heiðarvíga saga er ein Íslendingasagnanna og er talin vera ein hin elsta þeirra. Þar segir frá afkomendum Egils Skallagrímssonar og langvarandi deilum og átökum Borgfirðinga og Húnvetninga, sem náðu hámarki í bardaga á heiðinni Tvídægru, en af honum dregur sagan nafn. Hún hefur stundum verið kölluð "Víga-Styrs saga og Heiðarvíga". Sagan er illa varðveitt. Á 17. öld virðist hún aðeins hafa verið til í einu skinnhandriti og barst það til Svíþjóðar 1683. Fyrri hluta sögunnar fékk Árni Magnússon prófessor svo lánaðan, en 12 blaðsíður urðu eftir í Svíþjóð. Fyrri hlutinn brann svo í brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728. Jón Ólafsson úr Grunnavík, aðstoðarmaður Árna Magnússonar, hafði skrifað söguna upp á pappír nokkrum mánuðum fyrir brunann. Pappírshandritið brann einnig en Jón skrifaði svo fyrri hluta sögunnar upp eftir minni. Þess vegna hefst sagan nú á setningunni „Atli stóð í dyrum úti og var hann veginn af manni nokkrum“, en Jón mundi ekki hver Atli þessi var eða hvernig hann tengdist efni sögunnar að öðru leyti. Eitt blað hafði þó vantað í skinnhandritið þegar sagan var seld til Svíþjóðar, og var það talið að fullu glatað en kom í leitirnar í handritasafni Landsbókasafnsins um miðja 20. öld. Var það komið norðan úr Öxnadal. Í sögunni kemur fyrir setningin „þar launaði ég þér lambið gráa“, sem unglingurinn Gestur Þórhallason sagði þegar hann drap Víga-Styr, sem hafði vegið Þórhalla föður Gests og boðið honum grátt hrútlamb í föðurbætur. Er þaðan komið orðtakið „að launa einhverjum lambið gráa“. Bruninn í Kaupmannahöfn árið 1728. Byggingar sem brunnu eru sýndar gular á þessu korti frá árinu 1728, gert af Joachim Hassing. Kaupmannahafnarbruninn eða bruninn í Kaupmannahöfn árið 1728 er mesti eldsvoði í sögu Íslands og Kaupmannahafnar. Eldurinn hófst þann 20. október 1728, um kvöldið, og geisaði fram að morgni 23. októbers. Eldurinn lagði u.þ.b. 28% borgarinnar í rúst. Fjöldi húsa brann til grunna eins og Þrenningarkirkjan við Sívalaturn. Mikill hluti bókasafns Árna Magnússonar, fornfræðings og bókasafnara, fórst í eldinum, en megninu af skinnhandritum tókst að bjarga. Miðmyndarsögn. Miðmyndarsögn eru sagnir sem aðeins eru til í miðmynd. Afturbeygðar sagnir. Afturvirkar sagnir eða afturbeygðar sagnir ("reflexive") hafa þá merkingu að gerandinn og þolandinn eru sá og hinn sami. Hægt er að umskrifa sagnirnar með því að bæta við afturbeygða fornafninu "sér", "sig" eða "sín". Gagnvirkar sagnir. Gagnvirkar sagnir ("reciprocal") innihalda sagnir sem hægt er að umskrifa með germynd saman við óákveðna fornafnið „hvorn annan“. Þolmynd miðmyndar. Þomynd miðmyndar ("passive") er þriðji flokkurinn, og merkja orð í þessum flokki að verða fyrir barðinu á viðkomandi aðgerð; þ.e.a.s. að „vera“ + lýsingarháttur þátíðar (fermdur, eyddur). Setning þar sem umsögnin er í þolmynd kallast þolmyndarsetning. Inkóatívar sagnir. Inkóatívar sagnir ("inchoative") er síðasti flokkurinn. Þessar sagnir fela í sér ferli í átt að einhverju ástandi. Þetta er líkt þriðja flokki; en munurinn er samt mikilvægur. Ferlið í þessum flokki er miklu hægara og felur frekar í sér markvissa stefnu í átt að einhverju. Hægt er að umrita þetta með sagnorðinu að "verða" + lýsingarorði. Konungasögur. Konungasögur eru ævisögur norrænna konunga, skrifaðar á 12. og 13. öld, flestar á Íslandi, en nokkrar í Noregi. Flestar fjalla þær um Noregskonunga, nokkrar um Danakonunga. Í eftirfarandi skrá er konungasögum raðað í tímaröð eftir því sem unnt er, en einhverjum áratugum getur skeikað. Þátttökulýðræði. Þátttökulýðræði er tegund lýðræðis sem leggur talsverða áherslu á þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Þátttökukenningar komu fram á sjöunda áratug síðustu aldar sem gagnrýnin umræða í stjórnmálafræðinni. Skilningur þátttökusinna á lýðræði grundvallast að mörgu leyti á gömlu lýðræðishugmyndunum. Áhersla er lögð á að mikilvæg forsenda þess að hægt sé að tala um lýðræði sé sú, að þátttaka einstaklingsins sé fyrr hendi í þeim ákvörðunum sem snerta eigið líf hans. Flúrljós. Flúrljós er ljósgjafi, sem myndar ljós með rafeindum, sem dynja á gas-sameindum, undir lágum þrýstingi inn í glerpípu. Flúrpípur, sem eru venjulega, langar og grannar gler pípur (ljósaperur), innihalda kvika-silfurs-gufu og argon-gas, þegar rafmagn fer genum pípurnar hefur það þau áhrif að kvika-silfurs-gufan gefur frá sér útfjólubláa geisla, sem við getum ekki greint með auganu þess vegna er pípan húðuð að innan með sérsökum efnum sem kallast Ljómefni. Ljómefnið örvast fyrir tilstilli útfjólubláa ljóssins og gefa þá frá sér sýnilegt ljós. Litur flúrperunnar ræðst af gerð þess ljómefnis sem hún er húðuð með. Flúrljós er "kalt"-ljós sem krefst mikið minni orku en glóðarljós. Þess vegna er ending flúrperu um 10.000 klst en glóperu 1.000 klst Tengt efni. "Heimildir: fengar ú "ORKU Almenn Náttúruvísindi" og "Lifandi Vísindi - Bók 2007" Airbus A380. Airbus A380 er tveggja hæða, fjögurra hreyfla breiðþota, sú stærsta í heiminum. Hún flaug í fyrsta sinn 27. apríl 2005. Blóðregn (veðurfræði). Blóðregn er rauðleit rigning. Sennilegasta skýringin á blóðregni er sú, að það séu rauðir þörungar sem valda rauða lit rigningarinnar. Miklar og þéttar torfur geta stundum verið í sjónum af slíkum örsmáum rauðum þörungum. Sennilega sogar skýstrokkur upp í sig þessum þörungum og svo fellur rautt regn, blóðregn. Nykurtjörn. Nykurtjörn í Svarfaðardal. Brennihnjúkur t.v., Litlihnjúkur t.h., Útburðarhraun er fyrir enda tjarnarinnar. Grundarlækur fellur úr tjörninni hjá hestunum. Nykurtjörn í Svarfaðardal er lítið stöðuvatn í 660 m y.s. í fjallinu fyrir ofan Grund. Hún er 150 x 500 m að stærð eða nálægt 7,5 hekturum. Dýpst hefur hún mælst 18 m. Útfall hennar er um lækjarós sunnarlega á vesturbakkanum. Ósinn er þó oftast þurr nema í snjóleysingum og vætutíð. Þetta eru efstu upptök Grundarlækjar. Ofan við Nykurtjörn eru háhnjúkar fjallsins Digrihnjúkur, Litlihnjúkur og Brennihnjúkur, 1100-1200 m háir. Neðan undir hnjúkunum er breiður stallur í fjallinu með fjölda smátjarna og polla. Nykurtjörn er þeirra langmest en þar eru líka Lómatjörn og Hólmatjörn. Ofan við Nykurtjörn og suður frá henni eru hamrar miklir og stallar þar uppi yfir, sem Nykurstallar heita. Sunnan tjarnarinnar er Útburðarhraun, stórgrýtisurð mikil og ill yfirferðar, en norðan hennar smágrýttari urðarhólar. Hrafnabjörg eru skammt neðan Nykurtjarnar og bera nafn með rentu, dökk ásýndum og vinsæll varpstaður hrafna. Neðan undir þeim eru víðáttumiklar mýrar, Hrafnabjargaflatir og síðan Grundarhausar, grónir urðarhólar með fjölmörgum giljum stórum og smáum. Grundargil er þeirra mest og um það fellur Grundarlækur. Stikuð gönguleið er upp að Nykurtjörn sem hefst við bæinn Steindyr. Skriðuföll. Úr Grundargili hafa komið gríðarmiklar skriður og valdið tjóni á túnum og vegum. Strax í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712 er minnst á skriður þessar. Þar segir um Grund: „Hætt er bænum fyrir því hræðilega skriðufalli sem túnið hefur eyðilagt og sýnist líklegt að þessi skaði eyðileggi jörðina um síðir.“ Nykurtjarnar og Grundarlækjar er síðan getið í öllum helstu ritum um Ísland frá 18. og 19. öld, t.d. í Ferðabók Eggerts og Bjarna, Ferðabók Ólavíusar og Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen. Fyrr á öldum töldu menn að nykurinn í tjörninni væri valdur að skriðunum. Sagt var að á vorin kæmi í hann svo mikill galsi að hann ólmaðist um tjörnina þannig að vatnið flæddi í boðaföllum út yfir bakkana og færi svo í flóðbylgju niður Grundargil með tilheyrandi grjótflugi og aurburði. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er greint frá nykrinum í Nykurtjörn. Hin náttúrufræðilega skýring á skriðunum er sú að snjóskafl mikill getur safnast fyrir við útfall tjarnarinnar á vetrum þegar lækurinn er þurr. Í leysingum á vorin stíflar skaflinn afrennslið svo það hækkar jafnt og þétt í tjörninni. Þar kemur að lokum að vatnið brýst í gegn um skaflinn og flóðbylgja fer niður Grundarlæk, rífur með sér urð og jarðveg á leið sinni og ber niður á láglendið. Á 19. öld höfðu skriðuföllin sorfið svo fast að túninu á Grund að jörðin lagðist í eyði um árabil. Hún byggðist síðan upp aftur og á síðustu áratugum hafa menn komið í veg fyrir skriðurnar með því að grafa sundur skaflinn áður en snjóleysingar hefjast á fjöllum. Hreisturvængjur. Hreisturvængjur (fræðiheiti: "Lepidoptera") er einn tegundaríkasti ættbálkur skordýraflokksins, hann inniheldur m.a. fiðrildi, mölflugur og skútufiðrildi. Dægurflugur. Dægurflugur eða maíflugur (fræðiheiti: "Ephemeroptera") er ættbálkur skordýra. Dægurflugur eru vatnaskordýr sem vaxa í eitt ár í gyðluformi í ferskvatni og lifa eftir það í mjög stuttann tíma sem fullvaxta skordýr eða allt frá hálftíma að nokkrum dögum. Dægurflugur eru ásamt vogvængjum annar tveggja eftirlifandi ættbálka í "Palaeoptera" innflokknum. Kvenkyn. Kvenkyn er það kyn eða sá hluti lífveru sem framleiðir egg, sem við kynæxlun sameinast sáðfrumu úr karlkyns lífveru. Kvenkyns lífvera getur ekki fjölgað sér með kynæxlun án karlkyns lífveru, en sumar lífverur fjölga sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Karlkyn. Karlkyn er það kyn lífveru sem framleiðir sáðfrumur eða karlkyns kynfrumur. Við æxlun sameinast sáðfruman eggi úr kvenkyns lífveru. Karlkyns lífvera getur ekki fjölgað sér með kynæxlun án kvenkyns lífveru, en sumar lífverur fjölga sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Hjálparsögn. Hjálparsögn eða hjálparsagnorð er hugtak í málfræði sem notar er til að lýsa sögnum. Ef tvær sagnir standa saman í setningu og mynda heild þá er önnur sögnin kölluð aðalsögn en hin hjálparsögn. Hlutverk hjálparsagna. Hjálparsagnir eins og nafnið gefur til kynna, hjálpa aðalsögninni að útskýra eitthvað; eins og til dæmis tíma. Hjálparsagnir geta aldrei staðið einar án aðalsagnar. Hjálparsagnir þurfa ekki alltaf að standa við hlið aðalsagna og oft er fleiri en ein hjálparsögn notuð. Hjálparsagnir bera ekki sjálfstæða merkingu. Nokkrar algengar íslenskar hjálparsagnir eru; "hafa", "vera", "verða" og "munu". Dæmi. Í eftirfarandi dæmum eru feitletruðu sagnirnar hjálparsagnir; Óeiginlegar hjálparsagnir. Óeiginlegar hjálparsagnir eru lítið notaðar nútildags, en þær voru fyrrum notaðar til þess að mynda samsetta nútíð eða þátíð. Við það missa þær venjulega merkingu sína. Algengt var að hafa óeiginlegar hjálparsagnir í gömlum kveðskap, og eimdi lengi eftir af því. Taldist stundum tækilegur kostur að grípa til þeirra ef rím eða hrynjandi þótti krefjast þess. "Vinna", "ráða", "nema" og "gera" voru tíðar sem óeiginlegar hjálparsagnir. Aðalsögn. Aðalsögn er hugtak í málfræði sem lýsir tegund af sagnorðum. Ef aðeins er ein sögn í setningu þá er sú sögn kölluð aðalsögn. Hinsvegar þegar tvær sagnir standa saman og mynd merkingarlega heild er ein sögnin kölluð aðalsögn en hin kölluð hjálparsögn. Aðalsögn getur staðið ein án hjálparsagnar; ólíkt hjálparsögnum sem geta ekki staðið einar án aðalsagnar. Palaeoptera. "Palaeoptera" er innflokkur skordýra sem teljast til vængbera. Dýr í honum einkennast af vængjum sem þau geta ekki lagt yfir afturbolinn ólíkt dýrum í systurinnflokknum "Neoptera". "Palaeoptera" hefur átt minni velgengni að fagna en "Neoptera" og inniheldur aðeins tvo eftirlifandi ættbálka, vogvængjur og dægurflugur. Vængirnir á vogvængjunum eru standa út frá hliðunum þegar þær eru ekki á flugi en dægurflugur leggja vængina saman yfir líkamanum í hvíld. Suðurfirðir. Suðurfirðir er samheiti á nokkrum fjörðum sem ganga inn úr Arnarfirði. Þeir eru Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Landslag í Suðurfjörðum er mjög vestfirskt, há basaltfjöll og brattar hlíðar í sjó fram og helsta undirlendi í fjarðarbotnum. Þar er hins vegar víða mjög gróðursælt og birkiskógar með ívafi reynis í fleiri fjörðum, sérlega í Geirþjófsfirði og Norðdal í Trostansfirði. Bæirnir í fjörðunum, ásamt Bíldudal, voru sérstakt sveitarfélag sem hét Suðurfjarðahreppur fram að 1987 þegar það sameinaðist Ketildalahrepp og mynduðu þeir í sameiningu Bíldudalshrepp. Árið 1994 sameinaðist hann Barðastrandahrepp, Rauðasandshrepp og Patrekshrepp í sveitarfélagið Vesturbyggð. Búið var á 15 bæjum, þar af tveim tvíbýlum, fram undir miðja 20. öld. Nú er einungis búið á tveim, Fossi og Dufansdal. Eina þéttbýlissvæðið í Arnarfirði er Bíldudalur, þar búa nú um um 300 manns. Bíldudalur er gamall verslunarstaður allt frá einokunartímanum og þar hafa miklir athafnamenn sett sitt mark á staðinn, m.a. Ólafur Thorlacius (1761-1815) og Pétur J. Thorsteinsson (1854-1929). Í kaþólskri tíð var bænahús á Bíldudal og hálfkirkja frá 14. öld en hún var lögð niður 1670. Kirkja Suðurfjarða var í Otradal fram á tuttugustu öld en 1906 var vígð kirkja á Bíldudal. Í Langaneshlíðum, norðan við Geirþjófsfjörð, var bærinn Steinanes. Í Geirþjófsfirði voru bæirnir Krosseyri, Langibotn og Sperðlahlíð. Í Trostansfirði (sem ævilega var nefndur "Trosnasfjörður" af seinni tíma Arnfirðingum) einn samnefndur bær. Í Reykjafirði var samnefnt tvíbýli. Í Fossfirði bæirnir Foss og Dufansdalur. Þar norðan við var Otradalur. Í Bíldudalsvogi voru, fyrir utan þorpið, bæirnir Litlaeyri og Hóll. Norðan við Bíldudalsvogin var bærinn Auðihrísdalur. Landnám. í Landnámabók er sagt að Ketill ilbreiður Þorbjarnarson hafi numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals. Ketill ílengdist þó ekki í Arnarfjarðardölum heldur fór að Berufirði hjá Reykjanesi en skildi eftir sig nafnið Ketildalir. Ánn rauðfeldur Grímsson bjó einn vetur í Dufansdal en Dufan leysingi hans bjó þar eftir. Ánn er sagður hafa gert bú á Eyri, það getur annað hvort verið þar sem nú heitir Hrafnseyri í Arnarfirði eða þar sem nú er þorpið á Bíldudal. Geirþjófur Valþjófsson er sagður hafa numið í Arnarfirði, Fossfjörð, Reykjarfjörð, Trostansfjörð, Geirþjófsfjörð og bjó hann í Geirþjófsfirði. Jarðhumla. Jarðhumla (fræðiheiti: "Bombus terrestris") er algengasta hunangsflugutegundin í Evrópu. Tegundin einkennist af afturbol sem er hvítur í endann. Drottningin er 2–2.7 cm löng en þernan 1½–2 cm. Jarðhumlur geta ratað heim í bú sitt úr allt að 13 km fjarlægð. Ólympískur þríhyrningur. Ólympískur þríhyrningur er siglingaleið sem algengt er að nota í siglingakeppnum á kænum, einkum landskeppnum og á Ólympíuleikunum. Ólympískum þríhyrningi er ætlað að gefa siglingafólkinu færi á að sýna getu sína í öllum helstu vindáttum, beitivindi, hliðarvindi, lens o.s.frv. Þannig er fyrst sigldur þríhyrningur, síðan pulsa og loks beinn leggur, alltaf með baujurnar á bakborða. Fyrsti og síðasti leggurinn eru upp í vindinn. Venjulega er þríhyrningurinn jafnhliða. Kostur við þríhyrningslaga braut er að hægt er að haga hornum þríhyrningsins eftir aðstæðum og búa þannig til fjöldann allan af mismunandi brautum. Að auki eru til ýmis afbrigði af ólympískum þríhyrningi s.s. tvöfaldur (þrefaldur o.s.frv.) þríhyrningur, afbrigði þar sem ráslína og marklína eru sama línan o.s.frv. Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík. Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík (skammstöfun: FBSR) er íslensk björgunarsveit með aðsetur á flugvallarvegi við Reykjarvíkurflugvöll. FBSR 4. Verður skipt út áramótin 2010/2011 FBSR 5. Verður skipt út áramótin 2009/2010 Rafsegulkraftur. Rafsegulkraftur er langdrægur kraftur, sem rafsegulsvið ber milli rafhlaðinna agna, til dæmis rafeinda og róteinda. Rafhleðslur, með sama formerki, hrinda hvor annarri frá sér, en gagnstæðar hleðslur dragast hvor að annari. Rafsegulkraftur heldur rafeindum á brautum umhverfis frumeindakjarnann þannig að frumeindir haldast stöðugar og geta myndað sameindir, en án hans væru engar frumeindir og ekkert efni. Rafsegulfræðin fjallar um rafsegulkraftinn. Geirþjófsfjörður. Séð niður í Geirþjófsfjörð af fjallveginum yfir Dynjandisheiði, Bíldudalur í fjarska Geirþjófsfjörður er einn af Suðurfjörðum í Arnarfirði, langur og mjór fjörður, um 10 km frá Ófærunesi þar sem hann mætir Trostansfirði (frá Kópanesi ysti í Arnarfirði og inn í fjarðarbotn í Geirþjófsfirði eru um 40 km). Há fjöll liggja að firðinum á báða bóga og brattar hlíðar niður í sjó. Helsta undirlendi er í fjarðarbotninum en þó fremur lítið. Enginn bílvegur liggur í fjörðinn en vegurinn um Dynjandisheiði milli Vatnsfjarðar og Dynjanda í Arnarfirði liggur ofan við botn fjarðarins og blasir hann við af heiðinni. Þrír bæir voru í firðinum og eru allir nú í eyði, þar að auki var bærinn Steinanes utar í hlíðum Langaness. Þar stenda enn rústir af steinsteyptu húsi. Norðan við fjörðinn var jörðin Krosseyri á sérkennilegum tanga sem myndast af andstæðum straumum, annars vegar innan úr Geirþjófsfirði og hinn utan frá Arnarfirði. Þar stendur enn steypt íbúðarhús. Sagnir herma að sjávarskrímsli hafi sést síðast hér á landi í fjöru á Krosseyri. Sunnan við fjörðinn var Sperðlahlíð. Þar má sjá tóftir eftir bústaðs- og gripahús enda var þar búið í torfhúsi þangað til jörðin fór í eyði á fjóra áratug tuttugustu aldar. Innst í firðinum og stærsta jörðin var Langibotn þar sem Geirþjófur Valþjófsson landnámsmaður er talinn hafa búið og Auðarbær þar sem kona útlagans Gísla Súrssonar bjó í útlegð hans. Dalurinn upp af botni Geirþjófsfjarðar einkennist af allmiklum birkiskógi með ívafi af reyni. Hluti hans var afgirtur og friðaður um 1930 og hófst þá gróðursetning barrtrjáa af ýmsum tegundum og var því haldið áfram fram á áttunda áratuginn. Hafa sumar tegundir tekið vel við sig, sérlega furur, og eru þar nokkur væn tré. Þegar Langibotn fór í eyði 1969 komst hann í eigu Skógræktar ríkisins, síðar Landgræðslusjóðs. Þar stendur enn íbuðarhús úr timbri, upphaflega flutt til Siglufjarðar af norskum hvalveiðimönnum um 1840 en til Geirþjófsfjarðar um 1880. Gísla saga Súrssonar. Geirþjófsfjörður er eitt meginsögusvið Gísla sögu Súrssonar og hefur það verið lifandi söguhefð í Arnarfirði að hún hafi þar átt sér stað í raun. Meðal annars má sjá rústir nálægt bæjaránni sem sagðar eru vera af bæ Auðar, konu Gísla. Einnig hafa fundist tóftir sunnan við ánna sem taldar eru hafi verið fylgsni Gísla. Samkvæmt sögunni var Gísli veiginn á klettinum Einhamri þar sem hann varist liðsmönnum Eyjólfs gráa. Í samband við Alþingishátíðina 1930 var höggvin í Einhamar minning um Gísla Súrsson og Auði Vésteinsdóttur. Sterkeind. Sterkeind er samheiti yfir þungeindir og miðeindir. Þær eru líklega samsettar úr kvörkum og haldið saman af sterka kjarnakraftinum. Stóri sterkeindahraðallinn í CERN var smíðaður til þess að gefa betri innsýn inn í byggingu sterkeinda. Létteind. Létteind er heiti á níu minnstu öreindunum, sem hafa allar hálftöluspuna og flokkast því sem fermíeindir. Þær eru rafeind, mýeind og táeind auk andeinda ásamt tilsvarandi fiseindum, sem hugsanlega hafa engan massa. Rafeindir ásamt kjarneindum mynda efni. Þungeind. Þungeind er massamikil eind, samsett úr þremur kvörkum. Eru fermíeindir með sterka víxlverkun. Kjarneindir eru þungeindir, sem ásamt rafeindum mynda efni. Péturskirkjan. Péturskirkjan mikla (eða Basilíka heilags Péturs; latína: "Basilica Sancti Petri"; ítalska: "Basilica di San Pietro in Vaticano") er basilíka páfans í Vatíkaninu í Róm. Hún var reist á rústum eldri kirkju sem hafði verið byggð á staðnum þar sem talið var að gröf heilags Péturs væri. Sú kirkja var byggð af Konstantínusi mikla milli 326 og 333. Undir lok 15. aldar lá fyrir að kirkjan var mikið skemmd og upp kom sú hugmynd að reisa alveg nýja kirkju. Bygging núverandi kirkju hófst í tíð Júlíusar 2. 1506 og lauk í tíð Úrbanusar 8. 1626. Kirkjan skipar sérstakan sess hjá kaþólskum, bæði sem dómkirkja páfans, og þar með höfuðkirkja alls kristindóms, og eins sem grafarkirkja heilags Péturs og nánast allra páfa eftir hans dag. Kirkjan er mikilvægur áfangastaður pílagríma. Rushmore-fjall. Rushmore-fjall er granítfjall nálægt Keystone í Suður-Dakóta. Í fjallið hefur verið höggvið risavaxið minnismerki, sem sýnir 18 metra há andlit fjögurra fyrrum forseta Bandaríkjanna: George Washington (1732-1799), Thomas Jefferson (1743-1826), Theodore Roosevelt (1858-1919) og Abraham Lincoln (1809-1865). Upphaflega átti verkefnið að auka ferðamennsku í Black Hills-fjallgarðinum í Suður-Dakóta. Verkið hófst árið 1927 og því lauk 1941. Einyrt samtenging. Einyrt samtenging er samtenging sem samanstendur af einu orði. Samanber fleiryrta samtengingu sem samanstendur af tveimur eða fleiri orðum. Burj Khalifa. Burj Khalifa borinn saman við nokkur vel þekkt mannvirki. Burj Khalifa (áður þekktur sem Burj Dubai, "Dúbæturninn") er risavaxinn skýjakljúfur í Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Turninn er hæsta mannvirki heims, 828 m. Framkvæmdir hófust 21. september 2004 og turninn var opnaður 4. janúar 2010. Fleiryrt samtenging. Fleiryrt samtenging eða fleyguð samtenging er samtenging sem samanstendur af tveimur eða fleiri orðum. Samanber einyrta samtengingu sem samanstendur aðeins af einu orði. Kvikmyndahátíðin í Cannes. Kvikyndahátíðin í Cannes (franska: "le Festival de Cannes") er ein af elstu og virtustu kvikmyndahátíðum heims. Hátíðin var stofnuð árið 1939. Hún er haldin árlega, oftast í maí, í ráðstefnuhöllinni Palais des Festivals et des Congrès í Cannes í Suður-Frakklandi. Eftirsóttust þeirra mörgu verðlauna sem veitt eru á hátíðinni eru gullpálminn fyrir bestu kvikmyndina á hátíðinni. Nightwish. Nightwish er finnsk symphonic power metal hljómsveit og var stofnuð árið 1996. Árið 1996 gaf Nightwish út disk sem heitir Angels Fall First, Oceanborn árið 1998–1999, Wishmaster árið 2000, Over the Hills and Far Away árið 2001, Century Child árið 2002–2003, Once árið 2004–2005, End of an Era árið 2005–2006, Eftir upptökur í Hartwall Areena (Helsinki) í október árið 2005, ákvöddu þeir í hljómsveiti að það væri best að halda áfram án Törju Turunen og tjáðu sig í opnu bréf eftir tónleika og eftir það sett á heimasíðu þeirra. Þeir fundu sér nýja söngkonu, Anette Olzon. Orrustan við Hemmingstedt. Orrustan við Hemmingstedt var háð þann 17. febrúar árið 1500 við þorpið Hemmingstedt í Þéttmerski. Þar réðu heimamenn niðurlögum innrásarhers Hans Danakonungs og bandamanna hans, Holtseta og málaliða frá Niðurlöndum. Sigurinn tryggði Þéttmerski áframhaldandi sjálfstæði og var eitt af því sem stuðlaði að falli Kalmarsambandsins. Bændalýðveldið Þéttmerski. Árið 1319 höfðu bændur í Þéttmerski orðið sigursælir í uppreisn gegn lénsherrum sínum og stofnað lýðveldi. Að nafninu til játaði það erkibiskupnum af Brimum hollustu sína, en var í reyndinni sjálfstætt. Stjórnsýsluumdæmi lýðveldisins voru kirkjusóknir Þéttmerskis, og sameiginlegum málum var ráðið til lykta á árlegu þingi sem fulltrúar 48 málsmetandi fjölskyldna sátu. Þar sem lýðveldinu stóð stöðug ógn af hertoganum af Steinburg og öðrum aðalsmönnum, kom það á fót tiltölulega öflugu heimavarnarliði sem samanstóð af öllum vopnfærum karlmönnnum í héraðinu. Þéttmerskir vörðust nokkrum innrásum nágranna sinna og héldu þannig sjálfstæði sínu, allt til ársins 1559. Hans Danakonungur safnar liði. Hans, konungur Kalmarsambandsins, sem einnig var hertogi í Holtsetalandi, braut á bak aftur uppreisn í Svíþjóð skömmu fyrir aldamótin 1500. Til þess naut hann fulltingis málahers sem hafði aðsetur í Niðurlöndum og gekk undir nafninu Svarti vörðurinn ("Schwarze Garde" á þýsku). Höfuðsmaður þeirra var prússneskur junkari að nafni Schlentz, og sérhæfði Svarti vörðurinn sig í því að bæla niður uppreisnargjarna bændur og barðist víða um Norður-Evrópu, meðal annars á Fríslandi og á Norðurlöndum. Málaliðarnir voru af ýmsu þjóðerni, meðal annars Þjóðverjar, Spánverjar og Hollendingar. Eftir að þeir höfðu reynst konungi vel í að vinna Stokkhólm aftur á sitt vald, ákvað Hans að nota hina dýru málaliða til hins ítrasta og beindi athygli sinni að Þéttmerski. Hann safnaði liði meðal bænda á Jótlandi og fékk auk þess greifa og hertoga í Holtsetalandi og riddara hvaðanæva að frá Norður-Þýskalandi til liðs við sig. Þessi her taldi alls milli 10.000 og 12.000 menn. Þar af voru 4000 atvinnuhermenn (fótgönguliðar) úr Svarta verðinum, á að giska 2000 riddarar, flestir þýskir, um 5000 fótgönguliðar, flestir Jótar og Holtsetar. Auk þessa bjó her konungs yfir allmiklu stórskotaliði með um 1000 mönnum og hafði fjölda trússvagna, ekki bara til að flytja birgðir fyrir herinn heldur ekki síður til að flytja fyrirhugað herfang í burtu. Þessum her var stefnt til Þéttmerskis í ársbyrjun árið 1500 og bjuggust menn við auðveldum sigri, en talið var að vopnfærir karlar í Þéttmerski væru ekki fleiri en kannski 6000 ef allt var talið. Innrásin. Herinn hélt inn í héraðið og stefndi fyrst til höfuðstaðar þess, Meldorf. Þar varð fátt um varnir, og fóru hermennirnir og málaliðarnir ránshendi um þorpið með ránum, drápum, nauðgunum og eldi. Flestir þorpsbúar komust undan á flótta, en þeir sem ekki komust undan urðu hart úti. Fall og örlög Meldorf spurðist hratt út um héraðið og bændur Þéttmerskis hittust á neyðarfundi. Vildu þeir í fyrstu flestir gefast upp fyrir ofureflinu, en eldhugi að nafni Wulf Isebrand, aðfluttur frá Hollandi, mælti fyrir almennu herútkalli og að menn snerust til varnar. Hans sjónarmið varð ofan á, og var nú sent út neyðarkall og allir sem gátu bjuggu sig undir átök. Á meðan luku innrásarmenn sér af í Meldorf. Herferðin var dýr, og því vildi Hans fyrir alla muni drífa hana af. Bandamenn hans töldu aðstæður ekki henta til að halda strax áfram og vildu bíða eftir að veðrið batnaði, en Hans fékk að ráða. Veður var válynt, hlákuslydda og fjúk, vegir illfærir fyrir fallbyssuvagna og trússvagna. Menn Hans voru það sigurvissir að þeir sendu ekki marga njósnara á undan sér. Einn þeirra féll í hendur heimamönnum, sem píndu hann til sagna og fengu að vita að hernum yrði næst stefnt til Hemmingstedt. Vörnin. Um leið og heimamenn urðu þess áskynja að Hemmingstedt væri næsta skotmark, bjuggust þeir til að mæta fjendum sínum þar. Þeir höfðu lítið lið -- sumir segja ekki meira en 300 menn, en rétt tala hleypur líklega á einhverjum þúsundum. Þeir byrjuðu á að rjúfa upphækkaðan veginn sem þeir vissu að herinn mundi ferðast eftir. Sín megin hlóðu þeir upp skans og uppi á honum stilltu þeir upp nokkrum fallbyssum sem þeir áttu. Þeir grófu gildrur og síki í akrana í kring, og því næst rufu þeir skarð í flóðgarðana sem héldu öldum Norðursjávar í skefjum, svo sjór flæddi yfir vígvöllinn og hann breyttist í eina samfellda for. Þannig tryggðu þeir að óvinaherinn mundi lenda í „flöskuhálsi“ og gæti ekki fylkt liði né nýtt sér hinn gríðarlega aflsmun. Wulf Isebrand var höfuðsmaður varnarliðsins. Sér til halds og trausts hétu þeir á dísina Telse og Maríu mey (heróp þeirra var „Help, Maria milde“, „Hjálp, milda María“ á frísnesku). Svarti vörðurinn fór fremstur, næst kom riddaraliðið, eftir það fótgönguliðið, en stórskotaliðið og trússvagnarnir festust að mestu leyti í aurnum á veginum og komu að litlu gagni. Þar sem vegurinn einn var fær, fór hinn stóri her eftir honum í langri halarófu, svo þegar Svarti vörðurinn kom að skansi heimamanna var bakvarðasveitin ennþá í Meldorf, sem liggur ekki langt frá Hemmingstedt. Þéttmerskir höfðu þétta slyddu í bakið, svo árásarmenn höfðu vindinn í fangið og skyggnið var slæmt fyrir þá. Svarti vörðurinn réðst beint til atlögu með brugðna branda og heróp sitt á vörum sér: „Wahr Di, Buer, de Gaar de kummt!“ (frísneska fyrir „Varið ykkur, bændur, hér kemur Vörðurinn!“). Þéttmerskir hrundu fyrsta áhlaupi þeirra á skansinn, einnig öðru áhlaupi og þegar þeir hrundu því þriðja hófu þeir gagnsókn og sneru líka herópinu við: „Warr Di, Garr, de Buer de kummt!“ -- „Varið ykkur, Verðir, hér koma bændurnir!“ Orrustan var hörð og miskunnarlaus og engir fangar voru teknir. Þótt kalt væri í veðri fóru sumir heimamanna úr stígvélum og herklæðum og notuðu löng spjót sín til að fara um akrana í kring á stangastökki og gátu þannig umkringt og skotið á árásarherinn, sem kom litlum vörnum við. Flótti brast á lið Svarta varðarins og á æsilegum flóttanum duttu margir riddaranna af baki, ofan í forina og drukknuðu þar sem þeir komust ekki upp úr henni. Aðrir voru drepnir þar sem þeir lágu. Sjálfur Hans konungur komst naumlega undan á flótta og missti um 7000 menn fallna (flestir drukknuðu) og um 1500 særða, eða meirihluta hers síns. Mannfall heimamanna er ekki þekkt. Þéttmerskir tóku mikið herfang, bæði fallstykki og önnur vopn, hesta, vagna og fleira -- auk þess sem þeir tóku gunnfána Danakonungs, sem var sagður vera hinn upphaflegi Dannebrog-fáni sem átti að hafa fallið af himnum ofan í orrustu í Eistlandi löngu fyrr. Fáninn var hengdur upp í kirkjunni í Meldorf, en glataðist síðar (auk þess sem heimildir eru misvísandi). Hóllinn sem skansinn var hlaðinn á, og vígvöllurinn allt um kring, fékk nafnið Dusenddüwelswarf -- Þúsunddjöflahæð -- og heitir enn. Þessi algeri ósigur Hans konungs sló felmtri á aðalinn í Evrópu, þar sem bændaher hafði sannað sig í orrustu gegn atvinnuhermönnum og aðalbornu riddaraliði. Hann varð konungi einnig pólitískur og persónulegur álitshnekkir, og jók óvinum hans innan Kalmarsambandsins kjark til að halda áfram baráttunni gegn honum, sem leiddi á endanum til þess að Svíar sögðu sig úr sambandinu. Þjóðsögur og arfleifð. Eins og nærri má geta spunnust miklar þjóðsögur um þennan frækna sigur Þéttmerska á ofureflinu. Meðal annars var sagt að dísin Telse hefði birst þeim á skansinum og barist með þeim. Einnig er sagt að eiginkona Wulf Isebrand sjálfs hafi verið komin á steypirinn, og strax eftir orrustuna hafi Isebrand fengið þá frétt að honum væri fæddur sonur. Glæst saga Þéttmerskis varð vinsælt yrkisefni. Þegar þjóðernisvakning nítjándu aldar blossaði upp, varð þessi saga innblástur fyrir sterka þjóðerniskennd í Þéttmerski og varð stuðningur við nasista snemma mjög mikill og sterkur í héraðinu. Árið 1900, er 400 ár voru liðin frá orrustunni, var gríðarstórt minnismerki reist til minningar um hana, og stendur enn. Árið 2000, á 500 ára afmælinu, var sýningarskáli fyrir ferðamenn opnaður við hliðina á minnismerkinu, þar sem saga lýðveldisins og sjálf orrustan eru raktar, og hægt að skoða líkan af vígvellinum. Í bæjum og þorpum Þéttmerskis eru enn í dag götur og torg kennd við hetjur orrustunnar, einkum Wulf Isebrand sjálfan og dísina Telse. Orrustan um Hemmingstedt er talin skólabókardæmi um þekkingu og hugvitssamlega notkun á landsvæði í herstjórnarlist. Þéttmerski. Þéttmerski ("Dithmarschen") er hérað í fylkinu Slésvík-Holtsetalandi í Norður-Þýskalandi. Það afmarkast af Norðursjó og ánum Saxelfi og Egðu. Húsmargfætla. Húsmargfætla (fræðiheiti: "Scutigera coleoptrata") er gul-grá margfætla af "Scutigeromorpha" ættbálki. Húsmargfætlan er skordýraæta sem nærist m.a. á minni kóngulóm, veggjalúsum, termítum, kakkalökkum, silfurskottum, maurum og klafhölum. Hún drepur bráðina með eitruðu biti. Vegna afráns á skordýrum er hún vinsæll lífrænn meindýraeyðir. Kennifall (mengjafræði). Kennifall mengis formula_1, táknað með χ, er ósamfellt fall, sem tekur gildið einn ef stak "x" í formenginu formula_2 er einnig stak í formula_1, en tekur annars gildið núll. Hljóðvarp. Hljóðvarp kallast það þegar sérhljóð í áhersluatkvæði breytist fyrir áhrif annars sérhljóðs sem kallast hljóðvarpsvaldur. Í íslensku hafa a-hljóðvarp, u-hljóðvarp og i-hljóðvarp öll verið virk á einhverjum tímapunkti. A-hljóðvarp. A-hljóðvarpið er elsta hljóðvarpið sem til er og það kemur mjög sjaldan fram í íslensku. Í a-hljóðvarpi verður sérhljóðinn "i" að "e". Hér er hljóðvarpsvaldurinn "a". Stafurinn "a" togar í rótarsérhljóðið "i" og færir það svo það er nær myndunarstað a-hljóðsins og breytir því "i" í "e". U-hljóðvarp. U-hljóðvarp er mjög algengt hljóðvarp í íslensku. Í því verður hljóðið "a" að hljóðinu "ö" eða "u". Áður fyrr verkaði u-hljóðvarpið einnig þannig að "i" varð að "y". I-hljóðvarp. I-hljóðvarp er algengasta hljóðvarpið í íslensku. Hljóðvarpsvaldurinn er "i" en "i" hverfur eftir að hafa fært rótarhljóðið nær myndunarstað sínum. Düsseldorf. Düsseldorf er höfuðborg þýska sambandslandsins Norðurrín-Vestfalíu. Hún er fjórða stærsta borgin í sambandslandinu með 584 þúsund íbúa og liggur í Ruhr-héraðinu. Lega. Düsseldorf er hafnarborg við Rín, gegnt borginni Neuss, og liggur við suðvesturenda Ruhr-héraðsins. Næstu borgir (utan Neuss) eru Duisburg til norðurs (20 km), Mönchengladbach til vesturs (20 km), Wuppertal til austurs (25 km) og Köln til suðurs (25 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Düsseldorfs er rautt ljón sem snýr til vinstri og heldur á bláu akkeri. Ljónið skartar blárri kórónu. Allt þetta er á hvítum grunni. Upprunalegt merki borgarinnar er akkerið og vísar til siglinga á Rín. Ljónið er tákn hertoganna frá Bergisch Land. Þessi tvö tákn (ljónið og akkerið) sameinuðust á miðri 18. öld en núverandi merki var hannað og samþykkt 1938. Orðsifjar. Borgin dregur nafn sitt af ánni Dussel, sem rennur í Rínarfljót í borginni. Dussel hét upphaflega Tussale, sem merkir "árniður". Upphaflega hét borgin Dusseldorp, sem merkir "Bærinn við ána Dussel". Upphaf. 1135 kemur þorpið Dusseldorp fyrst við skjöl sem Friðrik Barbarossa keisari sendi frá sér. Það er þá eitt af mörgum þorpum á svæðinu. Düsseldorf var þá lítill fiskibær við Rín. 1189 varð bærinn hluti af greifadæminu Berg (Bergisch Land). 1288 varð stórorrustan við Worringen. Þar leiddu saman hesta sína erkibiskupinn frá Köln og fylgismenn hans gegn Adolf V af Berg og fylgismenn hans. Erkibiskup reyndi að þenja út yfirráð sín, en beið ósigur í orrustunni. Adolf hélt greifadæmi sínu og veitti Düsseldorf borgarréttindi eftir sigurinn. Borgin dafnaði hins vegar hægt, sökum mikillar samkeppni við nálægar borgir, eins og Neuss og Köln. 1380 varð Vilhjálmur greifi af Berg að fursta og flutti aðsetur sitt í kjölfarið til Düsseldorf. Frakkar. Düsseldorf 1647. Mynd eftir Matthäus Merian 1614 hertók Spánverjinn og hershöfðinginn Ambrosio Spinola, sem var á vegum keisarans, borgina, en þá hafði greifalínan dáið út. Eftir það varð hún hluti af greifadæminu Pfalz-Neuburg. Í spænska erfðastríðinu 1702 eyddu Frakkar nágrannaborgina Kaiserswerth, en létu Düsseldorf í friði. Frakkar hertóku borgina 1757 í 7 ára stríðinu. Frakkar voru aftur á ferð 1795 og héldu þeir borginni til 1801. Þeir mynduðu stórhertogadæmið Berg með Düsseldorf að höfuðborg. Stórhertogar voru fyrst Joachim Murat hershöfðingi, síðan Napoleon sjálfur og loks bróðursonur Napoleons, Napoleon Louis Bonaparte. Þetta stórhertogadæmi hélst við til falls Napoleons 1814. Þá voru prússar búnir að hertaka hertogadæmið. Ári seinna ákvarðaði Vínarfundinn að borgin og hertogadæmið skyldu tilheyra Prússlandi. Við það missti Düsseldorf status sinn sem höfuðborg sem hún hafði haft í rúm 400 ár. Nýrri tímar. Í Düsseldorf er veðurfar svo milt að þar vaxa pálmatré í dag Düsseldorf byrjaði ekki að vaxa og dafna fyrr en með iðnbyltingunni. Sérlega mikilvæg var Rínarhöfnin, sem lögð var 1831, og járnbrautartengingin sem komið var á 1838. 1850 voru fyrstu stáliðjurnar starfræktar. Borgin þandist úr og fór íbúafjöldi borgarinnar yfir 100 þús 1884. Næstu 20 árin tvölfaldaðist þessi tala og rúmlega það. Düsseldorf var þá orðin að leiðandi iðnaðarborg í prússneska ríkinu. Í heimstyrjöldinni fyrri var stór hluti iðnaðarins breytt í vopnaframleiðslu. Eftir tap Þjóðverja í stríðinu kom til uppreisnar í borginni. Fram á mitt ár 1919 var ástandið líkt borgarastyrjöld. Borgarráð flúði, en margir framámenn borgarinnar voru teknir í gíslingu. Bylting þessi átti að leiða til umbóta eins og gert var í Rússlandi 1917. Ástandið batnaði ekki fyrr en 1921 er Frakkar og Belgar hertóku borgina. Tveimur árum seinna hertóku Frakkar nánast allt Ruhr-héraðið sem nokkurs konar stríðsskaðabætur. Var þá Düsseldorf í höndum Frakka til 1925. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum, enda mikilvæg iðnaðarborg. Helmingur allra húsa eyðilagðist og 90% allra húsa hlutu skemmdir. Allar brýr yfir Rín eyðilögðust. Frá og með 28. febrúar 1945 lét bandarískur landher sprengjum rigna yfir borgina í sjö heilar vikur áður en hann hertók borgina nánast bardagalaust. Þá hafði íbúafjöldinn minnkað um helming. Bandaríkjamenn skiluðu borginni til Breta, enda var hún á breska hernámssvæðinu. Við endurreisn borgarinnar varð hún aftur að iðnaðarborg, en einnig að miðstöð þjónustu og verslunar. Hún varð að einni stærstu borg Þýskalands. Íbúafjöldinn náði hámarki 1962 er hann fór í rúm 700 þús. Síðan þá hefur hann dalað talsvert. 1965 var háskólinn í borginni stofnaður. Borgin dafnaði svo vel að hún er í dag ein af tveimur stórborgum Þýskalands sem er skuldlaus (hin er Dresden). Íþróttir. Fortuna Düsseldorf leikur heimaleiki sína í Esprit Arena Félagið DEG Metro Stars er eitt allra besta íshokkílið Þýskalands. Það er margfaldur þýskur meistari og 2006 komst félagið í úrslitaleik í HM félagsliða. Á heimavelli þeirra fara gjarnan fram alþjóðlegir leikir. Hann hefur einnig verið vettvangur HM í íshokkí Kvennaliðið DJK Agon 08 Düsseldorf er besta félagslið kvenna í körfubolta í Þýskalandi. Á 9. áratugnum var liðið níu sinnum meistari í röð, og hefur orðið meistari nokkrum sinnum síðar. Félagið komst tvisvar í úrslitaleik í HM félagsliða (1983 og 1986). Elsta ruðningslið Þýskalands er Düsseldorfer Panther, sem er sexfaldur þýskur meistari, en það er oftar en nokkurt annað ruðningslið. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Fortuna Düsseldorf, sem varð þýskur meistari 1933 og bikarmeistari 1979 og 1980. Atli Eðvaldsson og Pétur Ormslev léku báðir með félaginu 1981-85. Á seinni árum leikur liðið í neðri deildum. Heimavöllur félagsins, Rheinstadion, er gjarnan notaður í landsleiki. Eitt árangursríkasta íþróttalið borgarinnar er borðtennisfélagið Borussia Düsseldorf. Það er margaldur þýskur meistari, bikarmeistari og Evrópumeistari. Á HM félagsliða hefur félagið best náð 3. sæti. Árlega fer alþjóðlegt Evrópumót unglinga í borðtennis (Kids Open) fram í Düsseldorf. Mót þetta hefur verið haldið í 20 ár í Düsseldorf og eru þátttakendur um 1.500. Árlega fer fram Maraþonhlaup í Düsseldorf í maímánuði. Á hlaupadegi er þá öll borgin í uppnámi, bæði út af viðburðinum og vegna umferðar. Hlaupið hefur farið fram árlega síðan 2003. Byggingar og kennileiti. Lambertuskirkjan er með skakkan turn Malaga. Malaga er hafnarborg í Andalúsíu á Suður-Spáni. Íbúar borgarinnar voru 561.250 árið 2007 en um helmingi fleiri búa á stórborgarsvæðinu. Malaga er fimmta stærsta borg Spánar. Sheffield. Sheffield er borg í Suður-Yorkshire í Englandi. Borgin dregur nafn sitt af ánni Sheaf sem rennur í gegnum borgina. Íbúar borgarinnar voru rúmlega 525 þúsund árið 2006. Hún er fjórða stærsta borg Bretlands. Toulouse. Toulouse er borg í Suðvestur-Frakklandi við bakka Garonne-fljóts, miðja vegu milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs. Toulouse er fjórða stærsta borg Frakklands með 435 þúsund íbúa innan borgarmarkanna en rúmlega 1,1 milljón býr á stórborgarsvæðinu. Toulouse er ein af miðstöðvum flugvélaiðnaðarins í Evrópu en í borginni eru meðal annars höfuðstöðvar flugvélaframleiðandans Airbus, Thales Alenia Space sem er stærsti gervihnattaframleiðandi Evrópu og Geimferðamiðstöðin í Toulouse. Menntun. Toulouse-háskóli er einn af elstu háskólum heims, stofnaður árið 1229. Hann er þriðji stærsti háskóli landsins. Nice. Nice er borg í Suður-Frakklandi við Miðjarðarhafið, milli Marseille í Frakklandi og Genóa á Ítalíu. Borgin er fimmta stærsta borg Frakklands með rúmlega 347 þúsund íbúa innan borgarmarkanna (2004) en tæp 1,2 milljón manns búa á stórborgarsvæðinu. Vatnsdæla saga. Vatnsdæla saga er fornsaga sem telst til Íslendingasagna. Sagan er ættarsaga Vatnsdæla hefst í Noregi og segir frá Ingimundar gamla landnámi hans í Vatnsdal, þar sem hann gerist ættarhöfðingi dalsins. Sagan fylgir svo næstu afkomendum hans til um 900 fram til dauða Þorkels kröflu í upphafi 11. aldar. Sagan er talin rituð um 1270 og líklega í Þingeyraklaustri eins og fleiri merk handrit. Nantes. Nantes er borg í Vestur-Frakklandi. Borgin er áttunda stærsta borg landsins með rúmlega 280 þúsund íbúa innan borgarmarka (2005) og um 790 þúsund á stórborgarsvæðinu (2007). Jacksonville. Jacksonville er stærsta borgin í Flórída í Bandaríkjunum og 12. stærsta borg landsins. Í borginni búa tæplega 800 þúsund manns en um 1,2 milljónir manna búa á stórborgarsvæðinu. Columbus (Ohio). Columbus er höfuðborg og stærsta borg Ohio-ríkis í Bandaríkjunum. Hún er jafnframt 15. stærsta borg landsins. Borgin var stofnuð árið 1812 og varð höfuðborg ríkisins fjórum árum síðar. Stóra skordýrabók Fjölva. Stóra skordýrabók Fjölva er alfræðirit um skordýr þýtt af Þorsteini Thorarensen upp úr "The Pictorial Encyclopedia of Insects" eftir V. J. Stanek. Bókin var útgefin 1974 af Bókaútfáfunni Fjölva í samstarfi við Artia-bókaútgáfuna í Prag og var prentuð í Tékkóslóvakíu. Cleveland (Ohio). Cleveland er borg í Ohio-ríki í Bandaríkjunum. Íbúar borgarinnar eru rúmlega 444 þúsund, en eru um það bil 2.2 milljónir á stærra svæðinu. Borgin var stofnuð árið 1796. Klofning. Klofning er hugtak í málfræði og er notað um þá hljóðbreytingu þegar sérhljóðið "e" klofnar í "ja" (a-klofning) eða "jö" (u-klofning). Klofning er algengari í norrænum málum en öðrum germönskum. Orðin "sjaldan" og "seldom" eru t.d. samstofna en í íslensku hefur "sjaldan" klofnað úr "seldan". Miðeind. Miðeind er eind samsett úr pari kvarka og andkvarka og flokkast því til sterkeinda. Hafa heiltöluspuna og eru því bóseindir og hafa auk þess sterka víxlverkun. Sumar miðeindir hafa rafhleðslu. Þekktastar eru π-miðeindir. Nykur. Nykur er þjóðsagnavera sem líkist mjög hesti, og er oftast steingrár eða apalgrár að lit. Aðaleinkenni nykursins eru þau að hófarnir snúa aftur og hófskeggin fram, öfugt við það sem er á eðlilegum hesti. Nykurinn má heldur ekki heyra nafn sitt nefnt, þá rýkur hann í vatnið aftur. Nykrar eiga sér hliðstæðu í þjóðtrú nágrannalanda, t.d. Noregs og Orkneyja. Hin ýmsu nöfn nykursins. Nykur en nefndur ýmsum nöfnum á íslensku s.s "nennir", "nóni", "vatnaskratti" eða "kumbur". Hann er einnig stundum nefndur "vatnahestur", þó það sé oftast haft um flóðhest eða venjulegan hest sem er þeim eiginleikum búinn að vera traustur að vaða straumhörð vatnsföll. Þjóðtrúin. Nykur er samkvæmt þjóðtrúnni bæði að finna í ám og stöðuvötnum og jafnvel sjó. Þegar sprungur koma í ísa á stöðuvötnum að vetri til verða stundum dunur miklar, þá er sagt að "nykurinn hneggi". Nykurinn reynir gjarnan að tæla menn á bak sér. Þeir sem fara á bak sitja þar fastir með einhverjum hætti en nykurinn hleypur óðar að vatninu þar sem hann á sér óðal og steypir sér á kaf og drekkir þem sem á honum situr. Hann þolir ekki að heyra nafn sitt nefnt, en heyri hann það tekur hann viðbragð og hleypur í vatnið. Það hefur borið við að hann hafi fyljað merar af hestakyni. Það einkennir alla þá hesta sem eru undan nykri að þeir leggjast niður ef þeim er riðið eða þeir bera bagga yfir vatnsfall sem vætir kvið þeirra. Fjölmörg örnefni tengd nykrinum eru til um land allt, s.s. Nykurtjörn, Nykurvatn, Nykurpyttur og mörg fleiri. Biblían. Í biblíu 20. aldar, nánar til tekið í Job 40.15-24 í Gamla testamentinu, er talað um nykur. Það er einhverskonar tilraun til að þýða hið hebreska orð, behemot, sem notað er í ýmsum erlendum þýðingum. Það hefur verið túlkað sem hinar ýmsu skepnur meðal fræðinga, allt frá flóðhesti, krókódíl, vatnavísundi og fornfíli, og sumir hafa jafnvel viljað meina að behemot hafi verið risaeðla. Ferfætlingar. Ferfætlingar (fræðiheiti: "Tetrapoda") er yfirflokkur hryggdýra með fjóra fætur eða aðra álíka útlimi. Froskdýr, skriðdýr, risaeðlur, fuglar, og spendýr teljast öll til ferfætlinga, jafnvel slöngur teljast til flokksins sökum uppruna. Allir ferfætlingar eru komnir af holduggum ("Sarcopterygii") sem skriðu á land á devontímabilinu. Hrafnkels saga Freysgoða. Fyrsta síðan úr einu af helstu Hrafnkötluhandritunum, ÁM. 156, fol., frá 17. öld. Hrafnkels saga Freysgoða (eða Hrafnkatla) er Íslendingasaga og er frægust allra Austfirðinga sagna. Um Hrafnkels sögu hefur verið meir og betur skrifað en aðrar Íslendinga sögur, að Njálu einni undanskilinni. Einar Pálsson hefur til dæmis skrifað um hana bókina: "Heiðinn siður og Hrafnkels saga", sem kom út árið 1988. Boðskapur Hrafnkels sögu. Sámur velur lífið, og þar við situr, hann fær enga eftir það til að reyna rétta hlut sinn, og „[f]ékk hann aldrei uppreist móti Hrafnkeli, meðan hann lifði.“ Söluturninn á Lækjartorgi. Söluturninn við Lækjargötu (sem áður fyrr var nefndur Söluturninn á Lækjartorgi) er áttstrendur blaðsöluturn í Reykjavík. Eftir þessum turni eru sjoppur á Íslandi kallaðar söluturnar. Hann var reistur á Lækjartorgi fyrir konungskomuna árið 1907. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði húsið. Ekki er vitað hver byggingameistari þess var, en húsið er talið vera mjög vel byggt. Fyrsti eigandi söluturnsins var Einar Gunnarsson ritstjóri. Gaf hann m.a. út upplýsingabækling sem nefndist: Reykjavíkurvasaker. Meðal annarra eiganda turnsins má nefna Svein Gunnarsson frá Mælifellsá. Ýmis skilyrði voru sett fyrir rekstri söluturnsins í upphafi og skyldi þar vera sendisveinamiðstöð, talsími fyrir almenning og sala á frímerkjum og bréfspjöldum, aðgöngumiðum að skemmtunum, en engin sala önnur. Leyfistíminn fyrir söluturninn á Lækjartorgi var tíu ár. Og árið 1917 voru eigendur hans því beðnir um að fjarlægja hann. Að lokum fór svo að turninn var fluttur á lóð Stjórnarráðsins við Arnarhól 1918. Enda þótt turninum hafi nú verið fundinn varanlegur staður, var framtíð hans ótrygg enn um sinn. Turninn var fluttur árið 1919 á lóð stjórnarráðsins við Arnarhól og var þar í 50 ár á horni Kalkofnsvegar og Hverfisgötu. Turninn stóð á því horni í rúma hálfa öld. Árið 1972 afsalaði Ólafur Sveinsson borgarjóði Reykjavíkur turninn sem var fluttur var á Árbæjarsafn vorið 1973 og þar var hann geymdur þar næstu þrjú árin. Að forgöngu Elínar Pálmadóttur var turninn endurbyggður árin 1977-78 af Trésmiðju byggingadeildar. Yfirsmiður var Magnús Björnsson. Turninn stóð síðan í nokkur ár á Lækjartorgi, en honum var síðan fundinn staður hjá Miðbæjarskólanum. Eitt af kosningaloforðum Besta flokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík 2010 var að flytja turninn aftur á sinn stað á Lækjartorg. Póstkort. Póstkort eða kort (sem áður fyrr var nefnt bréfspjald) er kort sem senda má umslagslaust í pósti. Venjulega er mynd af borgarhluta eða landslagi að framan, eða mynd af einhverju sem gleðja á viðtakandann, en bakhliðin venjulega tvískipt, þ.e. fyrir textann sem sendandi semur sjálfur og hægra megin við textaplássið er pláss fyrir heimilisfang viðtakanda. 2010 komu á markað hjá Íslandspósti "Póstkortin mín", þar sem fólk getur sett sína eigin mynd á póstkort. Sístaða. Sístaða (eða ofstöður) er ástand sem skapast þegar holdris hjaðnar ekki innan 4 klst. þrátt fyrir skort á líkamlegri- og sálrænni örvun. Sístaða reðurs veldur blóðþurrð með tilheyrandi skaða fyrir æðarnar í getnaðarliminum sem getur skaðað getu hans til holdriss til langs tíma og jafnvel valdið getuleysi. Alvarlega tilfelli geta svo valdið drepi í holdi. Standpína. Mynd sem sýnir aukið holdris getnaðarlims Standpína (eða holdris eða stinning) er reðurspenna, eða m.ö.o. það að manni rís hold. Einnig er talað um að "vera með hann beinharðan", og að "einhverjum beinstendur" og gömul íslensk sögn um það að fá standpínu var að "mastra". Jólakort. Danskt jólakort frá 1919 teiknað af Carl Røgind Jólakort eru (einbrotin) póstkort, sem send eru vinum og ættingjum fyrir jól og innihalda jóla- og nýárskveðju. Jólakort eru oftast send með pósti í frímerktu umslagi. Hátíðarkveðjur, sem svipar til jólakorta, eru einnig sendar með tölvupósti. Heilakúpudýr. Heilakúpudýr (fræðiheiti: "Craniata") er óröðuð fylking seildýra sem inniheldur undirfylkingarnar hryggdýr og slímála auk einnnösunga. Til fylkingarinnar teljast dýr með heilakúpu eins og nafnið gefur til kynna. Fylkingin er tilturulega ný en áður fyrr var til siðs að flokka slímála og einnösunga (sem steinsugur teljast m.a. til) sem hryggdýr en þau dýr skortir hryggjaliði. Einkenni. Heilakúpudýr eru þau seildýr sem eru með höfuð, þ.e. ekki möttuldýr eða tálknmunnar. Þar á meðal slímála sem eru með brjóskkennda heilakúpu og tennur úr hornefninu keratín. Höfuð heilakúpudýra samanstendur af heilakúpu og í flestum tilfellum kjálkum auk augna og annara skynfæra. Fingrarím. Fingrarím (eða handrím) (latína: "dactylismus ecclesiasticus") er aðferð til að reikna dagatal, finna tunglkomur, hátíðisdaga o.þ.h. með því að telja á fingrum sér. Árni Óla segir á einum stað í "Grúsk, greinar um þjóðleg fræði": "Fingrarímið [..] var [lengi vel eina] almanak Íslendinga". Orðsifjafræði. Latneska heitið "dactylismus ecclesiasticus" er samansett af nafnorðinu "dactylismus" sem er komið af orðinu "dactylus" („fingur“) sem kom sjálft úr gríska orðinu δάκτυλος (dáktylos) að viðbættu viðskeytinu "-ism" og svo lýsingarorð "ecclesiasticus" („klerklegur“, „kirkjulegur“, „kirkju-“, „að því er varðar kirkjuna“). Dæmi um fingrarímsaðferð. Með því að rekja sig eftir hnúum beggja handa má finna út hversu margir dagar eru í hverjum mánuði fyrir sig. Þannig þýðir hnúi litlafingurs á vinstri hönd janúar (hæð og þar með 31 dagur) en næsta bil febrúar sem hefur 28 daga (29 í hlaupári). Þannig skiptast á "langir" og "stuttir" mánuðir fram í júlí-ágúst þar sem handaskil koma en mánuðurnir hafa hvor um sig 31 dag. Kjálkadýr. Kjálkadýr eru dýr í innfylkingu hryggdýra sem eru með kjálka áfastan heilakúpunni. Til fylkingarinnar teljast öll eftirlifandi hryggdýr nema steinsugur ("Hyperoartia") og slímálar ("Myxini"). Fornlífsöld. Meginlönd jarðar snemma á fornlífsöld Fornlífsöld er fyrsta öldin á aldabilinu tímabil sýnilegs lífs. Fornlífsöld hófst fyrir um 542 milljón árum og lauk fyrir 241 milljón árum síðan (ICS, 2004) og skiptist í 6 tímabil sem eru frá elsta til yngsta: kambríumtímabilið, ordóvisíumtímabilið, sílúrtímabilið, devontímabilið, kolatímabilið og permtímabilið Tímabil sýnilegs lífs. Tímabil sýnilegs lífs er núverandi aldabil í jarðsögunni. Því er skipt í aldirnar fornlífsöld, miðlífsöld og nýlífsöld. Miðlífsöld. Barrtré og risaeðlur voru ríkjandi jurtir og dýr á miðlífsöld Miðlífsöld er önnur öldin á aldabilinu tímabil sýnilegs lífs. Miðlífsöld hófst fyrir um 251 milljón árum og lauk fyrir 180 milljón árum síðan. Hún skiptist í 3 jarðsöguleg tímabil: trías (251,0 Má. til 199,6 Má.), júra (199,6 Má. til 145,5 Má.) og krít (145,5 Má. til 65,5 Má.). Nýlífsöld. Spendýr urðu ríkjandi landdýr á nýlífsöld Nýlífsöld er þriðja og núverandi öldin á aldabilinu tímabil sýnilegs lífs. Nýlífsöld hófst fyrir 65,5 milljón árum við útrýmingu risaeðlanna. Öldin skiptist í tvö jarðsöguleg tímabil: tertíertímabilið (þriðja tímabilið) og kvartertímabilið (fjórða tímabilið) sem nær til okkar daga. Kyrrahafsslímáll. Kyrrahafsslímáll (fræðiheiti: "Eptatretus stouti") er slímáll með heimkynni við botn kyrrahafsins allt frá rökkursvæðinu niður í undirdjúpin (sjá úthafssvæði). Páskaleikur. Páskaleikur er elsta tegund helgileikja af hinum kristna meiði og varð til á miðöldum sem hluti af Páskunum. Páskaleikur er leikinn til að rifja upp frásöguna af pínu, dauða og upprisu Jesú Krists. Að vissu leyti má líta á myndina Passía Krists ("The Passion of the Christ"), sem Mel Gibson leikstýrði, sem nokkurskonar páskaleik. Söguöld. Söguöld er tímabil í Íslandssögunni sem nær yfir sögutíma þess hluta Íslendingasagnanna sem gerist á Íslandi eða frá landnámi Íslands til um 1050. Stundum er söguöld aðgreind frá landnámsöld og látin ná frá stofnun alþingis 930. Þá er oft talað um „landnáms- og söguöld“ í einu lagi með vísun til forsögulegs tíma í sögu Íslands, þ.e. tímabilsins áður en samtímaritheimildir komu til. Eptatretus. "Eptatretus" er ættkvísl slímála. Helguvík. Helguvík er vík á Reykjanesskaganum, skammt norðan við Keflavík í Reykjanesbæ. Þar er stórskipahöfn, loðnubræðsla, loðnuflokkunarstöð, sementssala, steypustöð og malbikunarstöð auk sorpeyðingarstöðvar. Norðurál hefur uppi áform um að reisa álver þar. Álbræðsla. Álbræðsla er vinnsla áls úr súráli, oftast með rafgreiningaraðferð Hall-Héroult. Til þess að vinna súrál þarf fyrst að vinna báxíð með Bayer aðferðinni. Þar sem rafgreiningaraðferð er notuð þarf mikið og stöðugt framboð af rafmagni. Af þessum sökum eru álver oftar en ekki staðsett nálægt orkuverum, oft vatnsaflsvirkjunum, og nálægt uppskipunarhöfn svo hægt sé að flytja til þeirra súrál. Einnösungar. Einnösungar (fræðiheiti: "Cephalaspidomorphi") er forn óröðuð fylking vankjálka sem inniheldur að mestu útdauðar tegundir. Fylkinging inniheldur mögulega steinsugur og of svo er hefur hún verið uppi frá sílúrtímabilinu á fornlífsöld en ekki devontímabilinu sem er næsta tímabil þar á eftir. Blástjarna. Blástjarna (fræðiheiti: "Lomatogonium rotatum") er einær jurt af maríuvandarætt sem ber ljósblá blóm. Blástjarnan vex í deiglendi, einkum til heiða. Lýsing. Krónan er fimmdeild, um 9 til 15 millimetrar í þvermál. Bikarinn er klofinn og er með fimm mjóum flipum sem eru álíka langir og krónublöðin. Þá eru fræflarnir 5 talsins en frævan stór og bláleit. Stöngull blástjörnu er dökkfjólublár og hárlaus. Jurtin öll nær 8 til 18 sentímetra hæð og vex í grónu landi, s.s. á áreyrum. Gleym-mér-ei. Gleym-mér-ei, kærminni eða kattarauga (fræðiheiti: "Myosotis arvensis") er jurtkennd, einær jurt af munablómaætt sem ber lítil, heiðblá blóm. Lýsing. Blómin eru 4 til 5 mm í þvermál, heiðblá með gul- eða hvítleitar skellur við blómginið. Bikarinn er fimmdeildur með hvít krókhár. Í hverju blómi eru 5 fræflar sem eru lokaðir inni í krónupípunni. Blöðin eru stakstæð og lensulaga, um 5 til 7 mm á breidd. Stöngull, blöð og blóm eru alsett hvítum hárum. Plantan getur náð 10 til 30 sentímetra hæð og vex í högum og móum, sérstaklega í nálægð við þéttbýli eða byggð ból. Annað. Hárin á plöntunni valda því að hún loðir vel við föt eins og til dæmis prjónaðar peysur og flís. Þetta er vinsælt hjá börnum. Blávingull. Blávingull (fræðiheiti: "Festuca vivipara") er puntgras af grasaætt. Puntur hans er stuttur, um 2 til 5 sentímetrar og er einkennandi blaðgróinn. Smáöxin eru brúnleit eða fjólublá. Blöðin eru stutt og í þéttum toppum. Hæð grassins er 10 til 40 sentímetrar og vex það gjarnan í melum, flögum eða mólendi. Hann er algengur um allt Ísland. Innvængjur. Innvængjur (fræðiheiti: "Endopterygota") er yfirættbálkur skordýra sem er sá eini í dýraríkinu sem undirgengst fullkomna myndbreytingu. Yfirættbálkur þessi er einn fjölbreyttasti yfirættbálkur skordýra með minnst 680.000 tegundir í 11 ættbálkum. Innvængjur eru ásamt útvængjum annar yfirflokkurinn í "Neoptera" innflokknum, útvængjur undirgangast ófullkomna myndbreytingu ólíkt innvængjum sem þróa vængina innra með sér á lirfustiginu. Átta. Átta er áttunda náttúrlega talan, táknuð með tölustafnum "8" í tugakerfinu. Er stærsta slétta talan, sem táknuð er með einum tölustaf í tugakerfinu og sú næst stærsta slíkra talna, en níu er stærst. Er grunntala áttundakerfis. Talan átta er táknuð með VIII í rómverska talnakerfinu. Tveir. Tveir er næst minnsta náttúrlega talan (einn er minnst) og minnsta frumtalan, táknuð með tölustafnum "2" í tugakerfi. Næsta náttúrlega talan er 3. Er grunntala tvíundarkerfis. Tvær eins eða venslaðar einingar kallast "par", t.d. "sokkapar", "hnífapar", "kærustupar" o.fl. Talan tveir er táknuð með II í rómverska talnakerfinu. C Sharp 3.0. Nafnlausar týpur ("Anonymous Types"). Nafnlausar týpur eru ekki skilgreindar sem ákveðnir klasar. Þegar þú býrð til nafnlausa týpu mun þýðandinn búa til klasa fyrir þig. Nafnlaus týpa erfir beint frá object. Innihaldið í nafnlausu týpunni er röð af les/skrif eiginleikum (property) þar sem þýðandinn sér um að frumstilla nafnlausu breyturnar. Hlut frumstillir ("Object Initializer"). Í C# 2.0 þegar það þurftir að búa til hlut og setja stöðu á hann varða að fjölbinda (overload) smiðinn og setja breyturnar úr smiðnum. Í C# 3.0 er hægt að gera þetta á nýjan hátt. Óbeinar fylkis týpur ("Implicitly Typed Arrays"). Óbeinar fylkis týpu framsemsetningar eru gerðar með því að þeir liðir sem eru í fylkinu eru ályktaðir út frá þeim liðum sem eru í fylkinu. var a = new; // int var b = new; // double var c = new; // string var d = new; // Error Viðbótaraðgerðir ("Extenstion Methods"). Hægt er að bæta við aðgerðum við aðra klasa, eins og að bæta við string týpuna aðgerð. Strengja týpan er í System.dll og þú hefur ekki aðgang þar inn að kóða en hægt er að skilgreina viðbótaraðgerð þar inn. Aðgerðin eða fallið verður að vera skilgreint sem static fall í static klasa. Lambda-framsetning ("Lambda Expressions"). Lamda-framsetning er hnitmiðuð framsetning til að skrifa nafnlausar aðgerðir sem geta innihaldið segðir og staðhæfingar. Allar lambda segðir nota virkjann =>. Vinstra megin eru skilgreindar þær breytur sem eru notaðar í inntaki og á hægri hlið er framsetningin eða skilgreining á aðgerðinni. Fyrirspurnarframsetning ("Query expressions"). Núna er hægt að nota fyrirspurnir svipaðar og eru í vensluðum gagnagrunnum eins og SQL og XQuery, málið er kallað Language Integrated Query eða (LINQ). Eitt af aðalmarkmiðum C# 3.0 var einmitt að auðvelda vinnu með gögn og að nálgast gagnagruna á auðveldari hátt. Þetta dæmi prentar lista af öllum vörum sem eru uppseldar. Fyrirspurnin velur hvert stak úr vörulistanum þar sem "UnitsInStock" er jafnt og 0. Hvíldarmassi. Hvíldarmassi er massi hlutar eða agnar, sem mælist kyrr í tregðukerfi. Skilgreining. þar sem "c" er ljóshraði. Samkvæmt almennu afstæðiskenningunni er ofantalin stærð óbreyta milli tregðukerfa. Neoptera. "Neoptera" er innflokkur skordýra sem teljast til vængbera. Öll dýr í honum hafa vængi eða hafa misst þá í þróun sinni, og ólíkt vængberum í systurflokknum "Palaeoptera" geta þau lagt vængina yfir afturbolinn. Flokkurinn skiptist í innvængjur sem undirgangast fullkomna myndbreytingu og útvængjur sem undirgangast aðeins ófullkomna myndbreytingu. Sterki kjarnakraftur. Sterki kjarnakraftur er annar kjarnakraftanna, sem halda frumeindakjarna saman, þ.e. krafturinn sem verkar milli kjarneindanna í kjarnanum. Kraftinum er miðlað af límeindum og verkar aðeins mjög skamma vegalengd öfugt við þyngdar- og rafseglulkraft sem eru langdrægir. Veiki kjarnakraftur er hinn kjarnakrafturinn, sem veldur betasundrun. Veiki kjarnakraftur. Veiki kjarnakraftur er annar kjarnakraftanna, sem verkar á sumar öreindir og veldur betasundrun nokkurra frumeindakjarna. Kraftinum er miðlað af W og Z-bóseindum. Hefur áhrif á fiseindir, hlaðnar létteindir og kvarka. Sterki kjarnakraftur er hinn kjarnakraftanna, sem heldur saman frumeindakjarnanum. Útvængjur. Útvængjur (fræðiheiti: "Exopterygota") er yfirættbálkur skordýra sem flokkast til vængbera. Yfirættbálkur þessi er fjölbreyttur með minnst 130.000 tegundir í 15 ættbálkum. Útvængur eru ásamt innvængjum annar yfirflokkurinn í "Neoptera" innflokknum, þær undirgangast ófullkomna myndbreytingu, ólíkt innvængjum sem þróa vængina innra með sér á lirfustiginu. Frumkraftur. Frumkraftur er heiti fjögurra krafta, sem valda víxlverkun milli öreinda. Í staðallíkaninu bera kraftmiðlarar frumkraftana. Víxlverkun. Víxlverkun er það þegar tveir eða fleiri hlutir hafa áhrif hvor á annan. Hafsbotnsskorpa. Hafsbotnsskorpan kallast jarðskorpa á hafsbotni en hún verður til við eldgos á úthafshryggjunum eða úr innskotsbergi. Síðan dreifist hún út frá hryggjunum til beggja átta og eyðist að lokum á flekamótum. Vestmannsvatn. Vestmannsvatn er stöðuvatn á mörkum Reykjadals og Aðaldals í Suður-Þingeyjarsýslu. Á bakka vatnsins er Kirkjumiðstöðin við Vestmannsvatn og þar rekur þjóðkirkjan sumarbúðir. Vatnið, sem er 2,4 km² að stærð og mest 10 m djúpt en víðast hvar mun grynnra, er varpstaður flórgoðans og er friðlýst. Reykjadalsá rennur í vatnið úr suðri en úr því rennur svo aftur Eyvindarlækur til Laxár. Vestmannsvatn séð frá Vegi 845. Álver. Álver eru verksmiðjur þar sem rafgreining áls fer fram. Rafgreiningin fer fram í kerskálum, í fjölda kerja sem gerð eru úr kolefnum og eru með stálhúð. Á botninn safnast heitt, fljótandi, ál sem er tappað af með reglulegu millibili. Álið má alls ekki kólna og harðna þar því viðgerð á kerjunum er kostnaðarsöm. Helsingjabotn. a>shafinu, Helsingjabotn er í efri hægri horninu. Helsingjabotn nefnist nyrsti hluti Eystrasaltsins. Það er hafsvæðið á milli austurstrandar Svíþjóðar og vesturstrandar Finnlands. Við syðri endann liggja Álandseyjar. Vængberar. Vængberar (fræðiheiti: "Pterygota") er undirflokkur skordýraflokksins sem inniheldur vængjuð skordýr og þau skordýr sem voru vængjuð eitt sinn á þróunarskeiði sínu, nær öll skordýr teljast til þessa undirflokks. Fáni Sameinuðu þjóðanna. Fáni Sameinuðu þjóðanna er kort af jörðinni með norðurpól í miðju, til þess að gefa til kynna að miðja jarðarinnar sé afstæð. Blár bakgrunnur merkir himinninn sem fólk um alla veröld sjá sömu augun. Umhverfis eru vafnar ólífugreinum,sem eru friðartákn ásamt hvíta litnum af jörðinni og greininni. Þessaloniki. Þessaloniki (gríska: Θεσσαλονίκη) eða Saloníka er stærsta borg í Grikklandi á eftir Aþenu og er höfuðborg Makedóníu, stærsta héraðs landsins. Árið 2001 var íbúafjöldinn 363.987. Þessaloníki er önnur efnahags-, iðnaðar-, viðskipta- og stjórnmálamiðja Grikklands. Eurobandið. Eurobandið er íslensk hljómsveit sem sett var saman í mars 2006. Söngvarar hennar eru Friðrik Ómar Hjörleifsson og Regína Ósk Óskarsdóttir. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2008 með laginu "This is my life". Þau enduðu í 14. sæti af 25, hlutu 64 stig. Í desember 2008 var Eurobandið tilnefnt til 7 verðlauna af vefsíðunni ESCtoday.com; sem besta lag ársins, flytjandi ársins, besta europopp-lagið, besta hljómsveit eða dúett, besti söngur hljómsveitar eða dúetts, fyrir besta myndbandið og besta klæðaburð. AFS. AFS Arrival Camp í Linz í Austurríki 2006 AFS eða Alþjóðleg fræðsla og samskipti eru alþjóðleg fræðslusamtök sem veita unglingum á aldrinum 15-18 kost á skiptinámi í öðrum löndum. Samtökin starfa nú í yfir 50 þjóðlöndum í öllum heimsálfum. Saga AFS. AFS voru stofnuð 1915 af A. Piatt Andrew, prófessor í þjóðhagfræði við Harvard-háskóla. Samtökin hétu áður American Field Service og voru samtök sjúkrabílstjóra sem störfuðu m.a. á vegum bandamanna í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Eftir fyrra stríð hófu samtökin að styrkja nemendur til náms í Frakklandi og 1946 var komið á fót skiptinemaarmi samtakanna. Ári síðar komu fyrstu skiptinemarnir frá ýmsum þjóðlöndum til náms í Bandaríkjunum. Síðan hafa samtökin þróast í að vera alfarið skiptinemasamtök og eru nú þau umfangsmestu sinnar tegundar í heiminum. AFS á Íslandi. AFS hóf starfsemi á Íslandi 1957, en það ár héldu fyrstu átta íslensku skiptinemarnir til Bandaríkjanna. Starfsemi félagsins hefur vaxið jafnt og þétt síðan þá og sendir AFS á Íslandi nú árlega út 120-160 skiptinema og tekur á móti 40-50 erlendum nemum. Félagið er með höfuðstöðvar á Ingólfsstræti í Reykjavík en sérstakar deildir starfa á vegum þess á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Klara Ósk Elíasdóttir. Klara Ósk Elíasdóttir (f. 27. nóvember 1985) er íslensk söngkona og meðlimur í stúlknabandinu Nylon. Æska. Klara Ósk fæddist í Svíþjóð og bjó þar þangað til hún var þriggja ára gömul og flutti þá í Hafnarfjörðinn. Allt grunnskólanám Klöru átti sér stað í Hvaleyrarskóla. Þaðan fór hún í Verzlunarskóla Íslands. Klara var aðeins átta ára gömul þegar hún ákvað að verða söngkona og var ekki nema ellefu ára þegar hún söng lag inn á plötu með öllum fremstu söngvörum Íslands. Hún lék einnig lítið hlutverk í söngleiknum Bugsy Malone. Á næstu árum tók hún þátt í söngkeppnum þar sem hún hafnaði oft í verðlaunasæti. Klara stundaði þá söng í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Wiener Neustadt. Wiener Neustadt er borg í Austurríki í sambandslandinu Neðra Austurríki. Borgin liggur örskammt frá Vín og er með 41 þúsund íbúa. Lega og lýsing. Wiener Neustadt liggur nær austast í Austurríki við norðausturjaðar Alpafjalla, aðeins 15 km frá ungversku landamærunum. Hún er allra syðsti hluti stórborgarsvæðis Vínar. Næstu stærri borgir eru Eisenstadt til austurs (30 km), Sopron í Ungverjalandi til austurs (40 km), Vín til norðurs (50 km) og St. Pölten til norðvesturs (90 km). Upphaf. Wiener Neustadt var sérstaklega stofnuð af Leopold V, hertoga af Babenberg. 1194 tókst honum að handsama Ríkharð ljónshjarta þegar sá síðarnefndi var á heimleið úr krossferð og krafðist hás lausnargjalds. Fyrir þetta lausnargjald stofnaði Leopold nýja borg sem hlaut nafnið Wiener Neustadt. Framkvæmdir hófust 1195, einmitt er Leopold hertogi lést. Ástæðan fyrir stofnun borgarinnar var að mynda varnarvirki gegn innrás Ungverja. Því voru allar götur hornréttar á hverjar aðra. Borgarmúrar voru strax reistir og voru fimm metra háir. Einn turn var á hverju horni og eitt borgarhlið á hverri hlið. Strax í upphafi hlaut Wiener Neustadt borgarréttindi. En á 15. öld notaði Friðrik III keisari borgina sem aukaaðsetur (ásamt Linz og Graz), sem við það upplifði mikið blómaskeið. Sonur Friðriks, Maximilian I keisari, notaði Wiener Neustadt einnig sem aðsetur og hvílir í dómkirkjunni þar. 1469 varð borgin að biskupssetri og sátu biskupar þar til 1785, en þá var biskupsstóllinn færður til St. Pölten. Ungverjar, undir forystu Mattías Corvinus, sátu um Wiener Neustadt 1485. Borgin varðist vel og féll ekki fyrr en eftir tveggja ára umsátur. Maximilian keisari tókst hins vegar að endurvinna borgina 1490. Maximilian var síðasti keisarinn sem hafði aðsetur í Wiener Neustadt. Borgin varðist vel gegn Tyrkjum 1529 og 1683 og stóðst áhlaup þeirra. Iðnvæðing. Herskólinn sem María Teresía stofnaði er enn starfræktur María Teresía stofnaði herskóla í borginni 1751 sem hóf starfsemi ári síðar. Skólinn er enn starfræktur í dag og er því elsti herskóli heims sem enn er starfræktur. 1768 skemmdust mörg hús við jarðskjálfta. Kastalavirkið, gamla aðsetur keisaranna, skemmdist talsvert og var ekki að öllu leyti endurbyggt. Þegar biskupsstólinn var færður til St. Pölten 1785 tæmdust margar byggingar. Þær voru notaðar fyrir handiðnir en þær mynduðu grunninn fyrir iðnvæðingu borgarinnar. Í upphafi var það eingöngu vefnaður en á 19. öld bættust pappírsverksmiðja, sykurframleiðsla og keramikverksmiðja við. 1834 kviknaði í gripahúsum við suðurjaðar borgarinnar. Vindur magnaði eldinn sem breiddist hratt út. Fyrir rest brunnu 500 hús til kaldra kola. 47 manns biðu bana. Þetta voru verstu hamfarir borgarinnar fram að heimstyrjöldinni síðari. Uppbyggingin fór strax í gang aftur, enda var iðnaður orðinn mikill í borginni. Hann jókst enn 1841 þegar borgin fékk járnbrautartengingu. Strax ári síðar var járnbrautarverksmiðja stofnuð í Wiener Neustadt. Brátt varð borgin sú næststærsta í Neðra Austurríki, á eftir Vín. 1909 var flugbraut lögð við borgina. Þar framkvæmdu ýmsir frumkvöðlar í flugi tilraunir, enda var flugbrautin fyrsta opinbera flugbraut Austurríkis. Hún er enn í dag stærsta náttúrulega flugbraut Evrópu. 7. júní 1912 varð sprenging í púðurgeymslu nálægt herstöðinni. Sjö manns biðu bana og olli sprengingin skemmdum á herstöðinni, járnbrautarverksmiðjunni og nokkur flugskýli. Heimstyrjaldir. Messerschmidt-flugvél, en þær voru framleiddar í Wiener Neustadt Í heimstyrjöldinni fyrri voru verksmiðjur í Wiener Neustadt notaðar fyrir hergagnaframleiðslu. Eftir tapið í stríðinu hrundi iðnaðurinn. Mikil kreppa og atvinnuleysi tók við í borginni. Það breyttist ekki fyrr en við innlimun Austurríkis í Þýskaland 1938. Þá fór hergagnaiðnaðurinn af stað aftur. Í borginni voru aðallega smíðaðar flugvélar. Til dæmis var fjórðungur allra Messerschmitt flugvéla smíðaður þar en einnig A4-flugskeyti. Þar af leiðandi varð Wiener Neustadt fyrir gífurlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. 50 þús sprengjur eyðilögðu alla borgina. Af þrjú þúsund byggingum stóðu aðeins átján eftir þegar stríðinu lauk. Wiener Neustadt var því sú austurríska borg sem eyðilagðist hvað mest í stríðinu. Nútími. 1945 hertóku Sovétmenn borgina, sem var á sovéska hernámssvæðinu. Strax var hafist handa við enduruppbyggingu borgarinnar, sem nánast var lokið 1955 þegar Austurríki hlaut sjálfstæði á ný. Síðan þá er borgin mikil iðnaðarborg. Framhaldsskólar voru stofnaðir þar og er Wiener Neustadt mesta skólaborg í Neðra Austurríki. Býflugnabú. Býkúpa (eða býflugnabú eða býflugnastokkur'") er bú býflugunnar sem hún býr sér til úr tréni og býþétti ("propolis"). Í býkúpunni fer fram hunangsframleiðsla og þar fjölgar býdrottningin sér með mörgum druntum (þ.e. karlkyns býflugum) og viðheldur þannig stofninum. Hunangskakan í búinu nefnist "hunangsseimur" og hólfin "koppar" (eða "stúkur") sem eru hvortveggja forðabúr og notaðir sem fósturstofur. Býþétti. Býþétti (eða troðvax) er seigt, límkennt efni sem býflugur nota til viðgerða í býkúpu sinni; að mestu ýmsir harpeisar sem býflugurnar safna úr brumhlífum trjáa og annarra plantna. Þær blanda í harpeisana ensímum sem verja býflugunum gegn gerlum og sveppum. Býþétti hefur m.a. verið notað sem hollustuefni vegna sýklaeyðandi áhrifa. Þrír. Þrír er þriðja náttúrlega talan og næst minnsta frumtalan, táknuð með tölustafnum "3" í tugakerfi. Þrjár einingar kallast "þrenna". Er heilög tala í kristni. Talan þrír er táknuð með III í rómverska talnakerfinu. Fjórir. Fjórir er fjórða náttúrlega talan og næst minnsta ferningstalan (einn er minnst) táknuð með tölustafnum "4" í tugakerfi. Fjórar eins einingar kallast "ferna". Er óheillatala í Kína því framburðurinn líkist orðinu "dauði". Talan fjórir er táknuð með IV eða IIII í rómverska talnakerfinu. Fimm. Fimm er fimmta náttúrlega talan og þriðja minnsta frumtalan, táknuð með tölustafnum "5" í tugakerfi. Er hálfur tugur. Allar tölur í tugakerfi, sem hafa fimm sem þátt enda annað hvort á tölustafnum 0 eða 5. Talan fimm er táknuð með V í rómverska talnakerfinu. Sjö. Sjö er sjöunda náttúrlega talan, táknuð með tölustafnum "7" í tugakerfi. Er stærsta frumtalan, sem tákna má með einum tölustaf í tugakerfi. Er heilög tala í kristni. Talan sjö er táknuð með VII í rómverska talnakerfinu. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2008. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2008 fór fram í Beogradska Arena í Belgrad í Serbíu. Undanúrslit voru haldin dagana 20. og 22. maí en úrslitin fóru fram þann 24. maí. Úrslit. Úrslitin fara fram 24. maí 2008. Neðanmálsgreinar. 2008 Tugur. Tugur er tölunafnorð sem á við töluna tíu, táknaða með tölustöfunum einum og núlli, "10", sem jafnframt er grunntala tugakerfisins og tugalograns. Talan tíu er táknuð með X í rómverskum tölustöfum. Tylft. Tylft er tölunafnorð sem á við töluna tólf, sem táknuð er með tölustöfunum einum og tveimur, "12". Tólf er grunntala tylftakerfis. Talan tólf er táknuð með XII í rómverskum tölustöfum. Hundrað. Hundrað eða hundruð er tölunafnorð sem á við tug tuga, sem er táknað með tölustöfunum einum og núlli, "100" í tugakerfi. Eldri merking gat einnig verið "stórt hundrað", sem er tylft tuga eða talan "120". Tímabilið hundrað ár kallast öld. Enn önnur merking orðsins var verðeining. Sérstaklega tíðkaðist lengi að meta dýrleika jarða á þann hátt. Talan hundrað er táknuð með C í rómverskum tölustöfum. Steyr. Steyr er bær í fylkinu Efra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2005 var 39 þúsund. Í bænum eru framleidd skotvopn og landbúnaðartæki með heiti bæjarins. Tannhljóðsviðskeyti. Tannhljóðsviðskeyti er beygingarviðskeyti með eitt af stöfunum "ð", "d" eða "t" sem bætist við veikar sagnir í þátíð. Þátíð veikra sagna myndast með tannhljóðsviðskeytum og endar önnur kennimynd veikra sagna (1. p et. í þt.) á "-aði", "-ði", "-di" eða "-ti";. Hljóðskipti. Hljóðskipti kallast það þegar tiltekin sérhljóð skiptast á í stofni orðs eftir ákveðnum reglum. Sterkar sagnir. Hljóðskipti eru mjög algeng í sagnbeygingu, sem sést ef skoðaðar eru kennimyndir sterkra sagna. Fimmtíu. Fimmtíu eru fimm tugir eða hálft hundrað, táknað með tölustöfunum fimm og núll, "50" í tugakerfi. Þeir sem eru fimmtíu ára gamlir er sagðir "fimmtugir" (tölulýsingarorð). Talan fimmtíu er táknuð með L í rómverskum tölustöfum. Fimmhundruð. Fimmhundruð eru fimm hundruð eða hálft þúsund, táknuð með tölustöfunum fimm og núll, "500" í tugakerfi. Talan fimmhundruð er táknuð með D í rómverskum tölustöfum. 100% Nylon. 100% Nylon er fyrsta plata stúlknasveitarinnar Nylon en hún kom út 28. október 2004. Platan hefur að geyma 11 lög bæði gömul og ný. Feldkirch. Feldkirch er bær í fylkinu Vorarlberg í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 31 þúsund. Amazon.com. Amazon.com, Inc. () er bandarískt vefverslunarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Seattle í Washington. Það var eitt af fyrstu fyrirtækjum til að selja vörur á Internetinu og var táknmynd í netfyrirtækjaloftbólunni árið 1999. Það skilaði fyrst hagnaði árið 2003. Fyrirtækið var stofnað árið 1994 af Jeff Bezos, og hóf rekstur árið 1995. Í byrjun seldi Amazon.com bara bækur en skömmu síðar byrjaði það að selja myndbönd, mynddiska, geisladiska, MP3, forrit, tölvuleiki, raftæki, fatnað, húsgögn, mat, leikföng og meira. Amazon markaðssetur og selur "Kindle" lestölvuna. Amazon.com hefur aðgreindar netverslanir í Kanada, Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Kína (Joyo.com) og Japan. Frjáls þjóð. "Frjáls þjóð" var pólitískt vikublað sem kom út frá 1952 til 1968. Það hafði sem aðalstefnu að spyrna við auknum bandarískum áhrifum á íslenska menningu og tungu. Útvarps- og sjónvarpssendingar bandarísku herstöðvarinnar í Keflavík, hið síðarnefnda oftast kallað "kanasjónvarpið", þóttu sérlega hættulegar í þessu samhengi. Blaðið studdi því sterklega kröfuna að Ísland segði sig úr NATO og að bandaríski herinn hyrfi úr landi. Frjáls þjóð gagnrýndi Sósíalistaflokkinn fyrir að fylgja Sovétríkjunum í einu og öllu. Í Alþingiskosningunum 1967 studdi blaðið sérframboð Hannibals Valdimarssonar, en hann var þá enn formaður kosningabandalagsins Alþýðubandalagið. Ritstjórar og eigendur Frjálsar þjóðar studdu Þjóðvarnarflokk Íslands frá stofnun hans 1953. Bergur Sigurbjörnsson, ritstjóri blaðsins frá 1952 til 1954 og aftur 1967, var alþingismaður Þjóðvarnarflokksins frá 1953 til 1956. Tveir aðrir af ritstjórum blaðsins, Ragnar Arnalds árið 1960 og Jón Baldvin Hannibalsson 1964-1967, urðu einnig alþingismenn þó það væri fyrir aðra flokka. Sennileikametill. Í tölfræði er sennileikametill fall sem metur sennilegt gildi á tilteknum stika, gefið tiltekin gögn. Dæmi um algenga sennileikametla eru formúlur sem gefa meðaltal og staðalfrávik. Formleg framsetning. Látum formula_1 vera úrtak úr líkindadreifingu formula_2 sem er skilgreint upp að vigri óþekktra gilda, formula_3. Þá er formula_4 sennileikametill fyrir formula_3 og mat okkar á gildi þess, formula_6 er formula_7. Dæmi. Látum formula_1 vera mælingar af fjölda mínútna sem viðskiptavinir veitingahúss þurfa að bíða eftir matnum sínum frá því að þeir panta hann. Við getum gert ráð fyrir því að gögnin séu Poissondreifð, formula_9 en við vitum ekki hver stikinn formula_10 er. Við viljum því smíða sennileikametil fyrir formula_10. Við vitum að dreififall Poisson dreifingar er Tommy. Tommy er fjórða breiðskífa bresku rokkhljómsveitarinnar The Who. Hún var sú fyrri af tveimur rokkóperum sem The Who gerði, en sú seinni var Quadrophenia. Platan var að mestu leyti samin af aðallagahöfundi hljómsveitarinnar, Pete Townshend, en bassaleikarinn John Entwistle samdi tvö laganna og eitt laganna var útsetning The Who á lagi blústónlistarmannsins Sonny Boy Williamson II. Lagalisti. Lögin eru öll eftir Pete Townshend, ef annað er ekki tekið sérstaklega fram. Maquiladora. Maquiladora eða maquila er verksmiðja í Mið-Ameríku þangað sem hráefni er flutt tollfrjálst inn og unnið er úr því og fullunnin varan flutt út tollfrjálst á ný, oftast til sama lands og hráefnið kom frá. Í seinni tíð hafa sambærileg svæði, sem nefnd eru fríiðnaðarsvæði, sprottið upp víða um heim. Aðstæðurnar í þessum maquiladora-verksmiðjum eru oftast slæmar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að eigendur reyna að koma í veg fyrir myndun verkalýðssamtaka, vegna eðlis vinnunnar - einhæf og einföld færibandavinna - eru það oftast ungar konur sem ráðast til vinnu í nokkra mánuði í senn. Oft er ekki gætt að heilsu starfsfólks og önnur réttindi fótum troðin. Orðsifjar. Orðið "maquiladora" er úr spænsku, sem töluð er í Mið-Ameríku, og vísar annað hvort til þess hluta korns sem malarinn þáði sem greiðslu fyrir að mala korn fyrir fólk eða þá vélar (sp. "maquina"). Á ensku er orðið "sweatshop" stundum notað um sambærilega vinnustaði en skásta íslenska þýðingin á íslensku er þrælkunarbúðir. Maquiladora er helst notað um slíka vinnustaði í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku þaðan sem flutt er út aðallega til Bandaríkjanna. Staðsetning. Flestar maquiladora-verksmiðjurnar eru staðsettar meðfram landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Margar þessara verksmiðja hafa orðið til fyrir tilstilli Fríverslunarsamnings Norður Ameríku (NAFTA). Til dæmis eru 300 maquiladora-verksmiðjur í og við mexíkóska landamærabæinn Ciudad Juárez. Fjöldi þessara verksmiðja hefur aukist gríðarlega undanfarið. Árið 1985 voru 789 verksmiðjur, 2.747 árð 1995 og 3.508 árið 1997. Árið 1997 var áætlað að um 1 milljón manns störfuðu við þessar verksmiðjur. Samkvæmt nýjustu tölum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, frá 2005, störfuðu rúmlega 1,2 milljón manns í maquiladora-verksmiðjum, 3,1 milljón ef tengd þjónustuvinna er tekin með. Samanlagt verðmæti útflutnings frá þessum verksmiðjum nam rúmlega 10,5 milljarði bandaríkjadala og er það helmingur af heildarútflutningi Mexíkó. Lagalegt umhverfi. Í orði kveðnu eiga sömu kröfur um umhverfisvernd við á maquiladora-verksmiðjunum og annarsstaðar í Mexíkó. Opinbert heilbrigðiskerfi stendur öllum til boða sem hluti launanna eiga að renna til. Hverri þeirri verksmiðju með fleiri en 100 manns í vinnu ber að hafa lækni við vinnu. Í Mexíkó eru þrjú mismunandi lágmarkslaun eftir landssvæðum. Við landamærin í norðri eru lágmarkslaunin um 49 pesóar. Meðallaun maquiladora-vinnufólks eru ríflega tvöföld sú upphæð, um 110 pesóar sem hækkar með vinnualdri. Vinnuvikan í Mexíkó er 48 klukkustundir, á sunnudögum er greidd yfirvinna. Tollar. Allt hráefni, vélar og aukahlutir má flytja inn til Mexíkó án þess að greitt sé af þeim tollur í 18 mánuði. Sé um vélar að ræða má framlengja um óákveðinn tíma. Hráefni og aukahlutir þarf að flytja aftur út innan þess tímaramma. Innflutningur á vöru sem er framleidd innan NAFTA er tollfrjáls sömuleiðis en af henni þarf að greiða 10% virðisaukaskatt. Saga. Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó eru 3.169 km á lengd. Frá því á stríðsárunum eða árið 1942, þegar Bracero-samningurinn var gerður um aðgengi mexíkóskra verkamenn sem komu til árstíðarbundinna verkefna í landbúnaði, hefur samstarf tekist á milli þessara tveggja ríkisstjórna. Þeim samningi var slitið árið 1964 og Mexíkönunum gert að fara til síns heima. Sökum þess að talsverður fjöldi Mexíkana reiddi sig á atvinnu handan landamæranna lagði mexíkanska ríkisstjórnin af stað með áætlun um iðnvæðingu landamæranna (e. "Border Industrialization Program") strax árið eftir. Mexíkanar leyfðu því innflutning hráefnis án tolla og í staðinn ákváðu bandarísk yfirvöld að skattleggja aðeins virðisaukann, þ.e. andvirði vinnunnar. Þetta gerði það að verkum að vinnuaflið handan landamæranna varð ódýrara fyrir bandaríska framleiðendur. Upphaflega voru þessar maquiladora-verksmiðjur bundnar við landamærin en árið 1989 var samþykkt að leyfa framleiðendum að hafa slíkar verksmiðjur hvar sem er í Mexíkó. Með tilkomu Fríverslunarsamnings Norður Ameríku árið 1994 var skatturinn á vinnunni sem framkvæmd er í Mexíkó afnuminn. Uppúr 2001, þegar Kína hlaut inngöngu í Alþjóða viðskiptastofnunina, leiddi aukin samkeppni til þess að mörg fyrirtæki færðu framleiðslu sína annað. Gísla saga Súrssonar. Gísla saga Súrssonar er ein Íslendingasagnanna. Hún hefur sennilega verðið skráð í lok 13. aldar. Ágúst Guðmundsson gerði kvikmyndina "Útlagann" eftir Gísla sögu árið 1981. Vestfirðir, einkum Dýrafjörður, Arnarfjörður og Breiðafjörður, eru meginsögusvið Gísla sögu. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hversu sannsöguleg sagan er en allflestir eru þó sammála um að kjarni söguþráðarins sé sannur þótt hann hafi fengið skáldlegan búning. Sagan er til í tveimur gerðum. Lengri gerðin í pappírshandritum sem eru afrit af fornum skinnbókum sem nú eru glötuð. Styttri gerðina er að finna í skinnbók frá 15. öld sem er varðveitt á Árnastofnun og er kallað AM 556 A 4to. Gísla saga var fyrst prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1756. Sagan segir frá ósættum og mannvígum frá sjónarmiði hins forna siðar frændseminnar að virðing ættarinnar krefjist hefnda ef vegin eru ættmenni. Það hefur verið talið líklegt að atburðir sögunnar, að því leyti sem þeir eru sannsögulegir, hafi gerst á árunum 940 til 980. Söguþráður. Gísli Súrsson flutti frá Noregi um 950 ásamt fjölskyldu sinni, þar á meðal bróður sínum Þorkatli. Þorbjörn faðir þeirra var nefndur súr vegna þess að hann hafði bjargað fjölskyldu sinni úr eldi með því að nota mjólkursýru úr sýrukerum í stað vatns til að slökkva með. Hann keypti sér land í Dýrafirði og bjó á Sæbóli í Haukadal. Eftir lát Þorbjörns bjó Þorkell áfram á Sæbóli en Gísli á Hóli innar í dalnum. Kona Gísla var Auður Vésteinsdóttir. Í sögunni segir svo frá að svonefndir "Haukdælir" úr Dýrafirði, Gísli, bróðir hans Þorkell, mágur þeirra Þorgrímur Þorsteinsson goðorðsmaður, sem giftur var Þórdísi, systur þeirra, og Vésteinn Vésteinsson, mágur Gísla, sem var bróðir Auðar, konu Gísla, ganga í fóstbræðralag. Í fóstbræðralagi fólst það, að óskyldir menn tengdust eins og um fjölskyldumeðlimi væri að ræða. Hefndarskyldan var mikilvægust í fóstbræðralaginu eins og hún var í fjölskylduheiðri norðurlandamanna á þessum tíma. Fóstbræðralag Haukdæla verður hinsvegar til lítils. Þorgrímur lætur fljótlega í ljós þá skoðun að hann eigi litlum skyldum við Véstein að gegna þar sem þeir séu ekki tengdir fjölskylduböndum. Gísli bregst hart við orðum Þorgríms og sver af sér frekari vináttu við hann. Hefjast nú mannvíg mikil. Vésteinn er myrtur af óþekktum árásarmanni í rekkju sinni um nótt (og eru hinstu orð hans „hneit þar“). Sagan gefur sterklega í skyn að Þorkell, bróðir Gísla, hafi verið morðinginn. Gísli hefur Þorgrím sterklega grunaðan um verknaðinn og drepur hann síðar í lokrekkju hans. Ættmenn Þorgríms, Börkur hinn digri bróðir hans fremstur í flokki, leita eftir hefndum og vilja Gísla dauðan. Þeir fá Gísla dæmdan sekan á vorþingi Vestfirðinga. Börkur gengur að eiga Þórdísi, systur Gísla og ekkju Þorgríms. Börkur leitar liðsinnis Eyjólfs gráa og býður honum fúlgur fjár (þrjú hundruð silfurs) fyrir að drepa Gísla. Gísli selur land sitt í Dýrafirði og flytur í Geirþjófsfjörð innst inni í Arnarfirði ásamt konu sinni, Auði. Næstu árin er Gísli í felum til skiptis í Geirþjófsfirði og nokkrum öðrum stöðum á Barðaströnd og í Hergilsey í Breiðafirði. Þrettán árum eftir að hann var dæmdur fundu liðsmenn Eyjólfs gráa hann í Geirþjófsfirði. Þar hafði hann búið sér fylgsni, bæði við bæinn og í skógi norðan við ána. Voru liðsmenn Eyjólfs 15 saman þegar þeir fundu Gísla. Hljóp Gísli, að því er sagan segir upp á hamar uppi í hlíðinni sem kallaður er Einhamar. Varðist hann af mikilli hreysti en féll að lokum eftir að hafa sært 8 árásarmenn til ólífis. Eftir að Gísli hafði verið veginn reyndi Þórdís að drepa Eyjólf en það misheppnaðist hjá henni og hún særði hann aðeins á læri. Börkur bauð Eyjólfi hvað sem hann vildi í skaðabætur og við það sagði Þórdís skilið við Börk. En Auður fór til Danmerkur ásamt Gunnhildi, konu Vésteins, og gerðist kristin, hún fór í pílagrímsferð til Rómar og sneri aldrei aftur. Rey Mysterio. Oscar Gutierrez (fæddur 11. desember 1974) er bandarískur fjölbragðaglímukappi sem gengur undir nafninu Rey Mysterio í World Wrestling Entertainment (WWE). Wolfsberg. Wolfsberg er bær í fylkinu Kärnten í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 25 þúsund. Listi yfir villt spendýr á Íslandi. Eftirfarandi spendýr eru villt á Íslandi. Baden (Neðra Austurríki). Baden er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 25 þúsund. Brúnrotta. Brúnrotta (fræðiheiti: "Rattus norvegicus") er rotta með heimkynni í öllum álfum heims nema á suðurskautslandinu. Talið er að hún eigi uppruna sinn að rekja til Kína og hafi dreifst þaðan um heiminn. Í Evrópu og Norður-Ameríku er hún ríkjandi en annars staðar víkur hún fyrir svartrottunni. Rottur. Rottur (fræðiheiti: "Rattus") eru miðlungsstór nagdýr af músaætt sem aðgreindar eru músum sökum stærðar sinnar. Þekktastar meðal manna eru svartrottan og brúnrottan sem finnst aðeins í Vestmannaeyjum nánar tiltekið Heimaey. Klosterneuburg. Klosterneuburg er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 26 þúsund. Leoben. Leoben er bær í fylkinu Steiermark í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2006 var 25 þúsund. Sandro Botticelli. Alessandro di Mariano di Vanni Filipepi, betur þekktur sem Sandro Botticelli (1. mars 1445 – 17. maí 1510) var ítalskur myndlistarmaður snemma á endurreisnartímanum. Orðspor Botticellis beið hnekki að honum látnum fram á 19. öld en síðan þá hafa verk hans gjarnan verið talin einkennast af þokka snemmendurreisnarinnar og málverk hans "Fæðing Venusar" og "Primavera" eru talin meðal meistaraverka myndlistar endurreinsarinnar. Botticelli, Sandro Michael Jackson. Michael Joseph Jackson (29. ágúst 1958 – 25. júní 2009), „konungur poppsins“, var bandarískur tónlistarmaður, dansari og einn vinsælasti skemmtikraftur allra tíma. Ótrúlegur söngur hans og dansspor, ásamt miklu einkalífi, gerðu hann vinsælann í yfir fjóra áratugi. Hann byrjaði sólóferilinn sinn árið 1971 eftir að hafa verið fjölskylduhljómsveitinni, Jackson 5, síðan árið 1964. Platan hans Thriller, frá árinu 1982, er mest selda plata allra tíma og eru fimm aðrar — "Off the Wall" (1979), "Bad" (1987), "Dangerous" (1991), "HIStory" (1995) og "Invinceble" (2001) — á meðal þeirra mest seldu. Hann varð einnig þekktur fyrir nokkur mjög flókin og erfið dansspor, svo sem "vélmenni" og "tunglganginn" (moonwalk). Hann er á mörgum stöðum vel þekktur fyrir að hafa breytt tónlistarmyndböndum í list með tónlistarmyndböndunum "Billie Jean", "Beat It" og "Thriller" og varð hann fyrsti svarti tónlistarmaðurinn til að njóta mikilla vinsælda á MTV. Fjölskylda: Michael Jackson á 9 systkin og var Michael 8 af 10. Maureen Reilette "Rebbie" er elstur og síðan koma Sigmund Esco "Jackie", Toriano Adaryll "Tito", Jermaine LaJaune, La Toya Yvonne, Marlon David, Brandon Jackson, Michael Joseph, Steven Randall "Randy", Janet Damita Jo. Foreldrar þeirra heita Joseph Jackson og Katherine Jackson. Robert Schumann. Robert Schumann (8. júní 1810 – 29. júlí 1856) var þýskt tónskáld og áhrifamikill tónlistargagnrýnandi. Hann er eitt frægasta tónskáld rómantísku stefnunnar á 19. öld. Schumann, Robert Bedřich Smetana. Bedřich Smetana (2. mars 1824 – 12. maí 1884) var tékkneskt tónskáld. Hann er þekktastur fyrir flokk sex sinfónískra ljóða sem einu nafni nefnast "Föðurland mitt" ("Má Vlast"). Þeirra á meðal eru hin kunnu lög "Moldá" ("Vltava") og "Frá skógum og ökrum Bæheims". Antonín Dvořák var nemandi Smetanas. Smetana, Bedrich Giuseppe Verdi. Giuseppe Fortunino Francesco Verdi (annaðhvort 9. eða 10. október 1813 – 27. janúar 1901) var ítalskt tónskáld rómantísku stefnunnar, sem samdi einkum óperur. Hann var meðal áhrifamestu tónskáldum Ítalíu á 19. öld. Verdi, Giuseppe Traun. Traun er bær í fylkinu Efra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 25 þúsund. Kim Larsen. Kim Melius Flyvholm Larsen (fæddur 23. október 1945 í Kaupmannahöfn) er danskur tónlistarmaður. Larsen, Kim Leonding. Leonding er bær í fylkinu Efra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 26 þúsund. Krems. Krems er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2006 var 29 þúsund. Litla ísöld. Hér má sjá hvernig hitastigið fellur niður í þónokkra lægð á hinni svokölluðu Litlu ísöld "Litla ísöld" er hugtak sem notað er um langvarandi kuldatímabil, þó ekki sé um eiginlega ísöld að ræða. Oftast er átt við tímabilið 1450-1900, en einnig er talað um að kuldatímabil hafi byrjað um 1100 og staðið fram á 17. öld. Upp úr því hafi farið hlýnandi fram til um 1900 og hlýnunin aukist hratt upp frá því og er þá talað um heimshlýnun. Þær heimildir sem hægt er að styðjast við til að rannsaka þetta kuldatímabil eru einkum skrifaðar heimildir frá þessum tímum, en einnig rannsóknir á borkjörnum frá jöklum eins og Grænlandsjökli. Þessar hörmungar hafa haft mikil áhrif á afkomu Íslendinga á þessum tímum, en einnig fundu Evrópubúar fyrir þessum hamförum. Benjamin Franklin skrifum um bláleita móðu sem liðast yfir Evrópu og Norður-Ameríku þannig að sólar naut ekki eins lengi við og venjulega. Þetta hefur haft mikil áhrif á hitafar og landbúnað eins og gefur að skilja. Einkenni þessa kalda tímabils hefur einkum birst í því að landbúnaður hefur orðið erfiðari og sumstaðar í Evrópu styttist ræktunartíminn um tvo mánuði miðað við hvernig að honum er staðið í dag. Þetta hefur haft keðjuverkandi áhrif á ýmsa þætti samfélagsins, s.s. heilsu, fjárhag, stéttabaráttu og menningarlíf, svo eitthvað sé nefnt. Það er því ljóst að um er að ræða kuldaskeið sem fólk hefur fundið fyrir mjög áþreifanlega eins og hér á Íslandi þar sem smávægilegar hitabreytingar geta haft nokkur áhrif á hinn viðkvæma landbúnað sem menn stunduðu hér á fyrri öldum. Breytingar á virkni sólar. Rannsóknir hafa bent til þess að breytingar á virkni sólar hafi verið nokkrar á undanförnum öldum, sem kann að hafa áhrif á veðurfar. Samkvæmt rannsóknum J. Lean mun sólstuðullinn svokallaði hafa sveiflast um 3 Wm-2 á síðustu 400 árum. Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins. Þessi þáttur er einkum bundin við áhrif mannsins og taldar hafa orsakað þær breytingar sem orðið hafa á veðurfarinu á 20. öld. Einhverjar breytingar urðu á magni koltvísýrings fyrir iðnbyltingu, en hversu miklar þær breytingar voru er ekki vitað. Munu þær breytingar hafa verið að einhverju leyti af mannavöldum, m.a. vegna breytinga á gróðurlendi. Breytingar á armengun. Slíkar breytingar urðu mestar á síðustu 2-3 hundruð árum og tengjast aukinni iðnvæðingu og umsvifum mannsins. En slík mengun er ekki talin hafa haft áhrif þegar litið er lengra aftur í tímann. Breytingar á landnotkun. Mikil skógeyðing í Kína og Evrópu á 18. öld, og í N-Ameríku og víðar á 19. öld er talin hafa haft einhver áhrif á þessar breytingar. Kemur þar til endurskinshlutfall jarðarinnar við sögu, því endurkasthlutfall akra er oft meira en endurkasthlutfall skóglendis, sem gat þýtt að meðalhiti lækkaðu sérstaklega á veturna þegar akrarnir voru snævi þaktir. Eldgos. Stór eldgos geta haft mikil áhrif á veðurfarið og þegar stór eldgos eru tíð er talið að hitafar sé lægra en þegar þau eru fátíðari. Breytingar á brautarþáttum jarðar. Breytingar á möndulhalla, sólnándarreki og hringviki eru af sumum fræðimönnum taldar hafa haft einhver áhrif á kólnun eftir aldamótin 1100. Tilviljanakenndur, innri breytileiki hringrásar lofthjúps og sjávar. Gerðar hafa verið tilraunir á að láta líkön lofthjúps og hafs ganga á sínum eigin breytileikum, en ljóst er að það eitt og sér skýrir ekki hitabreytingar, heldur er það líklegra að allir hinir ofangreindu þætti eigi sinn þátt í að stuðla að þessum breytingum í afar flóknu ferli. Áhrif Litlu ísaldar á íslenskt veðurfar og samfélag. Vísa þessi segir lesendum mikið um hvernig tíðarandinn var á þessum tímum og hvernig svartsýni hefur gripið menn og þeir virðast muna eftir betri árum áður fyrr. Sumarið er ekki svipur hjá sjón og farfuglar láta varla sjá sig. Eins og áður hefur komið fram er talað um að umrædd kólnun hafi byrjað í kringum árið 1100 og um 1200 hafi kuldaskeiðið byrjað að kólna verulega. Fyrir þann tíma virðist loftslag hafa verið nokkuð skaplegra en síðar var. Það virðist hafa verið nokkuð algengt hér á Íslandi að menn ræktuðu ýmsar korntegundir og sést það m.a. á ýmsum heimildum og á örnefnum sem tengjast akurlendi víða um land. Jöklar virðast hafa verið minni en þeir eru í dag, t.d. hét Vatnajökull lengi vel Klofajökull sem bendir til þess að hann hafi verið klofinn og í raun tveir jöklar. Athyglisvert er að þjóðveldisöld líkur um svipað leyti og kólnunin er talin hefjast að alvöru og mikill ófriður geisar í landinu í kringum aldamótin 1200 og sú óöld sem gjarnan er kennd við Sturlungaöld gæti að einhverju leyti tengst kólnandi veðurfari og um leið versnandi efnahag. Í Annálum má oft sjá vísbendingar um veðurfar hverju sinni, t.d. hvernig harðindavetur gengu yfir landið eins og fram kemur í Skarðsannál þar sem sjá má að 17. öld hefur verið býsna hörð og sjá má hvernig sú ótíð hefur leikið þjóðina grátt. Þar bera einstök tímabil afar lýsandi heiti, nöfn á borð við "Eymdarár" (1604), "Jarðbannsvetur" eða "Svellavetur" (1625), "Áfreðavetur" eða "Svelli" (1627) og "Jökulvetur" (1630). Þannig má sjá að heimildir landsmanna sýna að þeir hafa fundið fyrir breytingum á veðráttunni og því ljóst að þetta reikula tímabil sem við nefnum Litla Ísöld hefur snert við Íslendingum og hert lífsróður þeirra til muna. Fóstbræðra saga. Fóstbræðra saga var lengi vel talin ein af elstu Íslendingasögunum, en núna er hún almennt talin vera með þeim yngri og skrifuð í lok 13. aldar. Til eru margar afritanir af sögunni, eins og í Hauksbók, Möðruvallabók og Flateyjarbók, en í þeirri síðastnefndu er henni skeytt inn í Ólafs sögu helga. Sagan er ólík öðrum Íslendingasögum, og aðallega vegna frásögutækni höfundarins. Höfundar flestra Íslendingasagna taka nær aldrei beina afstöðu til sögunnar, en í Fóstbræðrasögu talar höfundurinn oft með beinum hætti til lesandans. Halldór Laxness byggði söguna Gerplu á Fóstrbræðrasögu. Söguþráður. Sagan fjallar að mestum hluta um fóstbræðurna Þormóð Bersason (kallaður "Kolbrúnarskáld") og Þorgeir Hávarsson. Þeir eru afar ólíkir að eðlisfari, en þeir ólust upp saman og eru hvorirtveggja heillaðir af vopnaburði. Þorgeir er vígamaðurinn en Þormóður er flóknari persóna, vígamaður, kvennamaður og skáld og maður sem á auðvelt með að laga sig að breyttum aðstæðum. 1 (tölustafur). 1 er tölustafur, notaður til að tákna töluna einn. Raðtalan "fyrsti" er táknuð „"1."“. 2 (tölustafur). 2 er tölustafur, notaður til að tákna töluna tveir. Raðtalan "annar" er táknuð „"2."“. 3 (tölustafur). 3 er tölustafur, notaður til að tákna töluna þrír. Raðtalan "þriðji" er táknuð „"3."“. 4 (tölustafur). 4 er tölustafur, notaður til að tákna töluna fjórir. Raðtalan "fjórði" er táknuð „"4."“. 5 (tölustafur). 5 er tölustafur, notaður til að tákna töluna fimm. Raðtalan "fimmti" er táknuð „"5."“. 6 (tölustafur). 6 er tölustafur, notaður til að tákna töluna sex. Raðtalan "sjötti" er táknuð „"6."“. 7 (tölustafur). 7 er tölustafur, notaður til að tákna töluna sjö. Raðtalan "sjöundi" er táknuð „"7."“. 8 (tölustafur). 8 er tölustafur, notaður til að tákna töluna átta. Raðtalan "áttundi" er táknuð „"8."“. 9 (tölustafur). 9 er tölustafur, notaður til að tákna töluna níu. Raðtalan "níundi" er táknuð „"9."“. Dagur heilags Patreks. Dagur heilags Patreks (írska: "Lá ’le Pádraig" eða "Lá Fhéile Pádraig", enska: "St. Patrick’s Day" eða í daglegu tali "(St.) Paddy’s Day") er hátíð haldin 17. mars til þess að minnast Heilags Patreks, einum af verndardýrlingum Írlands. Hátíðin er þjóðhátíðardagur Írlands. Hún er almennur frídagur á Norður-Írlandi og er helgidagur á Írlandi, Montserrat og Nýfundnalandi og Labrador í Kanada. Annarstaðar í Kanada, Bretlandi, Ástralíu, Bandaríkjum og Nýja-Sjálandi er hún haldin víða en ekki sem opinber hátíð. Gjóður. Gjóður (fræðiheiti: "Pandion haliaetus") er miðlungsstór ránfugl sem veiðir á daginn. Gjóðurinn er fiskiæta sem nær 60 cm stærð og 1.8 m vænghafi. Háteigsskóli. Háteigsskóli er grunnskóli sem stendur á horni Háteigsvegar og Bólstaðarhlíðar. Samkvæmt skiptingu Menntasviðs Reykjavíkurborgar þá tilheyrir skólinn hverfi 1.2. Kennslan fer fram í aðalbyggingu og í íþróttahúsi Kennaraháskólans. Fjöldi nemenda er um 400 í 1. - 10. bekk en fjöldi bekkja er 18. Við skólann starfa 36 kennari og 22 aðrir starfsmenn. Skólastjóri er Ásgeir Beinteinsson en aðstoðarskólastjóri er Þórður Óskarsson. Vænghaf. Vænghaf á við fjarlægð milli ystu nafa vængja (fullkomlega útbreiddra, ef við á), flugvélar, fugls, skordýrs eða annars vængjaðs hlutar. Helgi Hallvarðsson. Helgi Hallvarðsson (fæddur 12. júní 1931 í Reykjavík, lést 15. mars 2008 í Reykjavík) var skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1976 fyrir þátt sinn í Þorskastríðunum. Amstetten. Amstetten er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2005 var 23 þúsund. Íslandspóstur. Íslandspóstur hf eða Pósturinn er íslenskt póstflutningsfyrirtæki og er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Aðdragandi og upphaf. 29. ágúst 1997 var samþykkt á hluthafafundi að skipta Pósti og síma hf í tvö sjálfstæð hlutafélög. 27. desember sama ár var stofnfundur Íslandspósts haldinn og hinn hlutinn nefndur Landssími Íslands. Einar Þorsteinsson sem hafði áður verið yfirmaður póstsviðs Pósts og síma var síðan ráðinn sem forstjóri Íslandspósts. Fyrstu árin. Fyrstu árin fóru í að breyta og einfalda þjónustu fyrirtækisins og snúa áralöngum taprekstri yfir í gróða með það að markmiði að gera fyrirtækið í stakk búið fyrir samkeppnisumhverfi og jafnvel sölu. Átak var gert í húsnæðismálum og sumar íbúðir í eigu fyrirtækisins seldar eða leigðar út. Íslandspóstur byrjaði stuttu eftir stofnun að sameina rekstur pósthúsa við útibú banka og sparisjóða á landsbyggðinni ásamt því að hagræða í rekstri pósthúsa. Sumum pósthúsum var lokað og rekstur þeirra var sameinaður öðrum en annars staðar var opnunartími takmarkaður. Sem dæmi var samið við nokkra sparisjóði á Norðurlandi um rekstur póstafgreiðslu og póstafgreiðsla á Brú í Hrútafirði var flutt yfir í Staðarskála árið 1999. Árið 1998 var ný dreifingarmiðstöð byggð á Akreyri og sama ár sömdu Íslandspóstur og TNT við Flugleiðir um að fljúga hlaðsendingum milli Liege í Belgíu og Bandaríkjanna sex sinnum í viku með viðkomu á Íslandi. Í október 1999 var ný 5.700 m² póstmiðstöð á einni hæð tekin í notkun við Stórhöfða í Reykjavík en hún tók við hlutverki póstmiðstöðvarinnar að Ármúla 25 en það húsnæði var í eigu Landssímans. Heildarkostnaður við nýja húsnæðið var um 480 millj. kr. 11. mars sama ár var opnuð frímerkjasala við Vesturgötu 10a. 21. öldin. 19. janúar 2000 var byrjað var að fullu keyra ábyrgðarbréf og böggla heim til einstaklinga á kvöldin. Í september sama ár voru höfuðstöðvar fyrirtækisins fluttar frá Pósthússtræti yfir á Stórhöfða 29. Frímerkjasalan á Vesturgötu var einnig flutt í sama húsnæði. Árið 2001 byrjaði Íslandspóstur uppá því að bjóða fólki að neita móttöku á dreifiritum. Sama ár var rekstrarvörulager fyrirtækisins fluttur til Blönduóss og flokkunarvél sem flokkar sjálfkrafa bréf eftir póstnúmerum var síðan tekin í notkun í nóvember. Í september 2002 keypti fyrirtækið bíla sem ganga fyrir metangasi og í október sama ár var sú deild sem sá um s.k. e-póst seld til fyrirtækisins Offset. 14. september 2004 lét Einar Þorsteinsson starfi sínu lausu sem forstjóri og 12. nóvember hóf Ingimundur Sigurpálsson störf. Árið 2005 ákvað Íslandspóstur að kaupa skeytadeild Símans. Árið 2006 keypti Íslandspóstur prentþjónustufyrirtækið Samskipti og framkvæmdir hófust við nýtt pósthús á Húsavík sem var fyrst í röð nýrra pósthúsa. Snemma árs árið 2008 var ákveðið að endurskipuleggja og fækka staðsetningum á póstkössum á höfuðborgarsvæðinu. Sama ár fagnaði fyrirtækið 10 ára afmæli sínu. Í október 2008 komu á markað Frímerkin mín og Skeytin mín sem gera kaupendum á [www.postur.is] mögulegt að setja sínar eigin ljósmyndir á frímerki og skeyti. 2009 fylgdu Kortin mín í kjölfarið og sumarið 2010 Póstkortin mín. Réttindi og skyldur. Íslandspóstur fer með einkarétt ríkisins á ýmiskonar þjónustu og þarf einnig að sinna svokallaðri alþjónustu. Einkaréttur ríkisins. Íslandspóstur fer með einkarétt Íslenska ríkisins dreifingu almennra bréfa undir 50 grömmum ásamt uppsetningu, reksturs póstkassa og útgáfu frímerkja. Íslandspóstur hefur einnig rétt til að nota póstlúður til kynningar á póstþjónustu. Alþjónusta. Íslandspósti ber skylda til að inna af hendi ákveðna þjónustu um allt land s.s. dreifingu á bréfum með utanáskrift, dreifingu á markpósti, uppsetningu og tæmingu á póstkössum, ábyrgðarsendingar, fjármunasendingar og bögglasendingar. Fyrirtækinu ber einnig skylda til að sýna viðskiptaskilmála sína og gjaldskrá á gagnsæan hátt skv. starfsleyfi. Þjónusta. Fyrir utan aðra þjónustu býður Íslandspóstur upp á aðra þjónustu en grunn-póstþjónustu og oft er það í samkeppni við einkaaðila. Kambríumtímabilið. Kambríumtímabilið er upphaf fornlífsaldar sem aftur er upphaf tímabils sýnilegs lífs. Það hófst fyrir 542 ± 1,0 milljón árum síðan og lauk fyrir 488,3 ± 1,7 milljón árum þegar ordóvisíumtímabilið gekk í garð. Kambríumtímabilið er fyrsta tímabilið í jarðsögunni þar sem finnast margir og stórir steingervingar fjölfrumunga. Þessi skyndilega aukning á stærri og flóknari lífverum nefnist kambríumsprengingin. Hin útdauðu liðdýr þríbrotar og frumstæðar jurtir eru meðal lífvera sem birtust á þessu tímabili. Nafnsifjar. Kambría er umritun á "Cambria" sem er umritun á "Cymru" sem er velska heitið yfir Wales, en þar voru jarðlög frá tímabilinu fyrst könnuð. Fjöldaútdauði. Fjöldaútdauði er skyndileg fækkun og útdauði margra tegunda yfir stuttan tíma, t.d. af völdum náttúruhamfara. Yfir 99% þeirra tegunda sem hafa verið til eru nú útdauðar, margar af völdum fjöldaútdauða. Þekktasti fjöldaútdauðinn er krítar-tertíer fjöldaútdauðinn sem risaeðlurnar dóu út í. Nefnd. Tenglar. * Sílúrtímabilið. Jörðin eins og hún gæti hafa litið út á sílúrtímabilinu Sílúrtímabilið er þriðja af sex tímabilum á fornlífsöld. Það hófst fyrir 443,7 ± 1,5 milljónum ára við lok ordóvisíumtímabilsins og lauk fyrir 416,0 ± 2,8 milljónum ára við upphaf devontímabilsins. Ordóvisíum-sílúrfjöldaútdauðinn er fjöldaútdauði sem markar byrjun tímabilsins en í honum urðu um 60% sjávartegunda útdauðar Devontímabilið. Devontímabilið er fjórða af sex tímabilum á fornlífsöld. Það hófst fyrir 416 ± 2,8 milljónum ára við lok sílúrtímabilsins og lauk fyrir 359,2 ± 2,5 milljónum ára við upphaf kolatímabilsins. Líf. Fyrstu jurtirnar sem báru fræ mynduðust á landi og mynduðu stóra skóga, frumstæðir hákarlar urðu algengari en á sílúrtímabilinu og síð-ordóvisíumtímabilinu og fyrstu beinfiskarnir og holduggarnir birtust. Sumir holduggarnir þróuðu með sér fætur og skriðu á land sem ferfætlingar fyrir um 365 Má. Síðdevonfjöldaútdauðinn hafði mikil áhrif á sjávarlíf nálægt lokum tímabilsins. Nafnsifjar. Nafn tímabilsins er dregið af Devonsýslu á Englandi þar sem jarðlög frá tímabilin voru fyrst könnuð. Fédération Cynologique Internationale. Fédération Cynologique Internationale (FCI'") er félag sem heldur utan um mörg hundaræktarfélög í heiminum og setur viðmið um skiptingu hundategunda. Saga. Félagið var stofnað 22. maí 1911 af Belgíu ("Société Royale Saint-Hubert"), Frakklandi ("Société Centrale Canine de France"), Hollandi ("Raad van Beheer op Kynologisch Gebied"), Þýskalandi ("Kartell für das Deutsche Hundewesen en und Die Delegierten Kommission") og Austurríki (Osterreichischer Kynologenverband). Félagið dró saman segl sín á meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð en var endurstofnað af "Société Centrale Canine de France" og "Société Royale Saint-Hubert" árið 1922. FCI starfar nú meðal 80 félaga í jafn mörgum löndum og viðurkenna alls 332 hundategundir. Árið 1885 var þeim skipt í 20 hópa en þeim var fækkað í 11 á 20. öld og allt niður í 10 hópa árið 1950. Hver hópur hefur undirkafla. Children of Bodom. Alexi Laiho í "Masters of Rock" árið 2007 Children of Bodom er Melódískt Dauðametal hljómsveit frá Espoo, Finnlandi. Hljómsveitin syngur lögin sín á ensku, en ekki á sínu eigin tungumáli; finnsku. Hljómsveitin hefur gefið út 8 plötur, og myndirnar framan á þeim eru vanalega af dauðanum. Nafn hljómsveitarinnar vísar til morðs þriggja unglinga við vatnið Bodom, sem er rétt hjá borginni Espoo. Saga. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993 af söngvaranum og gítarleikaranum Alexi Laiho og af trommuleikaranum Jaska Raatikainen, og hét hljósmveitin þá "IneartheD". Þeir hafa þekkt hvorn annan síðan þeir voru litlir strákar. Þeir höfðu báðir sama tónlistarsmekk og hlustuðu á dauðarokkshljómsveitir á borð við Stone, Entombed og Obituary. Snemma á árinu 1996 gengu Jani Pirisjoki, Alexander Kuoppala og Henkka Seppälä í hljómsveitina. Jani Pirisjoki spilaði á hljómborð þangað til árið 1997 þegar hann hætti og Janne Wirman kom í hans stað. Bassaleikarinn Samuli Miettinen sem var einn af upprunalegu meðlimum hljómsveitarinnar, skrifaði mest textana í lögunum fyrir hljómsveitina. Hann hætti árið 1995, útaf fjölskyldan hans flutti til Bandaríkjana, og þá gat hann ekki spilað lengur fyrir hljómsveitina. Árið 1996 gekk Henkka Seppälä í hljómsveitina og spilaði á bassa í staðinn fyrir Samuli Miettinen. Alexander Kuoppala spilaði á gítar fyrir hljómsveitina á árunum 1996 - 2003. Roope Latvala byrjaði síðan að spila fyrir hljómsveitina. Janne Wirman fattaði upp á núverandi nafn hljósmveitarinnar; Children of Bodom. Hljómsveitin var að reyna að finna nýtt nafn, þangað til Wirman kynnti hinum nýja nafnið. Þeim fannst sagan um Bodom-morðin áhugaverð, þannig að þeir létu "Children of Bodom" vera nýja nafnið á hljómsveitinni. Morðin við Bodomsvatn. Morðin við Bodomsvatn áttu sér stað í Finnlandi árið 1960. Atburðarrásin var þannig að fjórir unglingar tjölduðu við Bodomsvatn, tvær 15 ára stelpur og tveir 18 ára strákar. Seinna um kvöldið kom óþekktur maður eða menn og stakk þrjú þeirra til dauða. Annar strákanna, að nafni Nils Wilhelm Gustafsson, lifði af. Árið 2004 var hann handtekinn grunaður um að hafa myrt þau, og ári seinna var hann dæmdur saklaus. UDP. UDP (User Datagram Protocol) er einn af grunn samskiptastöðlum internetsins. Með UDP geta forrit á nettengdum tölvum sent hvort öðru stutt gagnaskeyti án þess að þurfa að stofna til tengingar eins og með TCP staðlinum. UDP staðallinn var hannaður af David P. Reed árið 1980. Öfugt við TCP tryggir UDP hvorki að gagnaskeyti skili sér né að þau komi í réttri röð. Gagnaskeytin geta komið í rangri röð, geta komi oftar en einu sinni eða jafnvel horfið sporlaust. Þessir gallar eru hinsvegar einnig styrkleikar UDP staðalsins þar sem að sé þeim athugunum sem TCP framkvæmir sleppt fæst skilvirkari samskiptastaðall með minnir yfirbyggingu. Í tölvuleikjum til dæmis þar sem tímasetning skilaboða skiptir meira máli en að þau skili sér er UDP notað í samskiptum milli þjóns og biðlara. Stöðuleysi UDP-staðalsins er einnig mjög gagnlegt fyrir þjóna sem þurfa að svara gífurlegum fjölda biðlara með litlum upplýsingum eins og til dæmis DNS þjónar. Port. UDP-portum er eingöngu ætlað að taka við gagnaskeytum. Til að senda gagnaskeyti þarf ekki annað en að smíða pakkann og senda hann af stað. Port númerið er 16 bita tala sem þýðir að portnúmer geta verið frá 0 til 65.535. Port 0 er frátekið en hægt er að skilgeina það sem upprunaport ef ekki er búist við svari. Port 1-1023 eru einnig frátekin fyrir stýrikerfið og eru þau svokölluð vel þekkt port. Pakkar. 0 7 8 15 16 23 24 31 Portnúmer sendanda þarf ekki að stilla en ef það er stillt er venjulega miðað við að það bendi á það port sem sendandi býst við svari á. Einnig er hægt að stilla það sem 0 til að gefa í skyn að ekki sé búist við svari. Portnúmer móttakanda verður að stilla til að stýrikerfi vélar þeirrar sem móttekur viti hvert skal skila pakkanum. Lengd og tékksumma eru svo notuð til að athuga hvort allur pakkinn hafi skilað sér og hann hafi ekki skemmst á leiðinni. Það sést glöggt að yfirbygging UDP pakka er mjög lítil sem gerir það að verkum að UDP er mjög skilvirkur staðall. Munur á UDP og TCP. TCP er tengingamiðaður staðall sem þýðir að áður en samskipti geta átt sér stað þarf frumstilling að eiga sér stað til að setja upp tengingu milli endapúnkta. Aðeins eftir að þessi tenging hefur verið sett upp er hægt að senda gögn um tenginguna. UDP er einfaldur skeytamiðaður staðall sem krefst engra tenginga. Skilaboð eru send af stað án þess að athuga hvort móttakandi er einusinni til staðar. Verksmiðja. Verksmiðja er vinnustaður fólks þar sem vinna tengd iðnaði fer fram. Starfmenn verksmiðja framleiða gjarnan fullunar vörur úr hráefni annaðhvort með sérhæfðum vélum eða við færiband. Verksmiðja, þar sem hráefnið er fiskur, kallast fiskiðja, en frystihús ef fiskurinn er frystur, lítt unninn eða óunninn. Ef hráefnið er mjólk kallast verksmiðjan mjólkurbú. Hráefni. Hráefni er efni, sem notað er til að fullvinna vöru. Sem dæmi má nefna járngrýti eða timbur. Klassart. Klassart er íslensk blús-hljómsveit frá Sandgerði, Íslandi. Klassart var stofnuð þann 19. nóvember 2006. Þau syngja á ensku, en eitt lag er á íslensku sem er kallað „Örlagablús“. Spice Girls. thumb Spice Girls (stundum kallaðar "Kryddpíur" á íslensku) er bresk stúlkna popphljómsveit, lengstum skipuð fimm söngkonum, stofnuð 1994 og starfaði samfellt til ársins 2001. Geri Halliwell hætti í hljómsveitinni 1998. Hljómsveitin kom aftur saman tímabundið á tónleikum í desember 2007 og á Ólympíuleikunum í London 2012. Kapfenberg. Kapfenberg er bær í fylkinu Steiermark í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2005 var 22 þúsund. Saga Ítalíu. Saga Ítalíu er saga þess fólks sem byggt hefur Appennínaskagann sunnan Alpafjalla frá örófi alda, þótt nútímaríkið Ítalía hafi fyrst orðið til þegar flestöll ríkin á skaganum sameinuðust í eitt konungsríki árið 1861. Saga Ítalíu er því saga þess svæðis sem kallað hefur verið Ítalía frá því í fornöld og sem byggt hefur verið ýmsum þjóðum með ólíka menningu og tungumál, þótt saga þeirra sé að meira eða minna leyti samtvinnuð. Lengst af skiptist þetta svæði milli nokkurra ríkja sem ýmist voru sjálfstæð eða undir yfirráðum stærri ríkja. Á ýmsum tímum hefur saga Ítalíu haft mikil áhrif á sögu Evrópu og heimsins alls. Þar var miðja Rómaveldis sem þandist langt út fyrir Appennínaskagann á síðustu öldunum fyrir Krists burð, allt þar til Vestrómverska ríkið leystist upp vegna árása Germana á 5. öld, og þar hefur miðstöð kristinnar kirkju og síðar kaþólskrar trúar verið frá því á 2. öld til dagsins í dag. Á Ítalíu kom ítalska endurreisnin upp á 14. öld sem markar skil milli miðalda og nýaldar í sögu Evrópu. Uppruni heitisins. Nafnið Ítalía er fornt grískt heiti á íbúum Suður-Ítalíu. Það var látið ná yfir allt það land sem heyrði undir rómverska lýðveldið af ítölskum þjóðflokkum frá Abrútsi. Peningar með nafninu voru slegnir af bandalagi Sabína, Samníta og Úmbra sem kepptu við Rómverja um áhrif á 1. öld f.Kr. Á lýðveldistímanum var nafnið notað yfir land Rómar sem náði frá ánni Rubicon að Kalabríu, en á keisaratímanum náði það yfir allan skagann sem var skipt í ellefu héruð ("regiones"). Eftir fall Vestrómverska ríkisins urðu heitin Ítalía og Ítalir smám saman almennt nafn yfir landsvæðið og íbúa þess þegar talað var um þá sem heild. Jarðsaga Ítalíu. Á fornlífsöld var sá massi sem síðar myndaði Ítalíu sjávarbotn. Það var fyrst og fremst myndun Alpafjalla sem leiddi til þess sem í dag er Ítalía. Alpafjöll eru fellingafjöll sem mynduðust við árekstur fjögurra jarðfleka: Afríkuflekans, Evrasíuflekans, Indlandsflekans og Kimmeríu. Við þetta reis sjávarbotninn og myndaði fjallgarð á suðurströnd Evrasíuflekans. Þetta ferli hófst á krítartímabilinu en aðalmyndunartími fjallgarðsins var á paleósentímabilinu og eósentímabilinu. Appennínafjöllin mynduðust einnig á krítartímabilinu sem framhald á Alpafjöllum í vesturátt og tengdu þau við Pýreneafjöll. Síðar tóku þau að sveiflast til suðurs eins og pendúll og tóku með sér hluta af evrópska meginlandinu. Þar sem þessi hluti færðist hægar en fjallgarðurinn slitnaði hann frá þannig að til urðu eyjarnar Sardinía og Korsíka fyrir um fimm milljón árum en milli þeirra og Appennínaskagans myndaðist Tyrrenahaf. Á þeim tíma var stór flói milli fjallgarðanna í norðaustri þar sem Pósléttan er nú. Útþensla íss og eldvirkni á plíósentímabilinu, sem hófst fyrir rúmum fimm milljónum ára, mótuðu fjallgarðana frekar og hæðirnar við rætur Alpfjalla mynduðust þegar ísinn hopaði. Dalirnir sem ísinn myndaði fylltust af vatni og urðu stóru stöðuvötnin þrjú við rætur Alpafjalla; Gardavatn, Cómóvatn og Maggiore-vatn. Flóinn milli fjallgarðanna fylltist af seti og Pósléttan varð til. Eldvirknin á plíósentímabilinu átti líka þátt í að mynda fjöll eins og Monte Amiata og Sabatinifjöll. Virku eldfjöllin Etna (sem er í 3.329 metra hæð yfir sjavarmáli), Vesúvíus og Strombólí eru yngri. Forsögulegur tími. Forsögulegur tími í sögu Ítalíu nær frá þeim tíma þegar fyrstu menn settust að á svæðinu þar til fornöld hófst á 8. öld f.Kr. Talið er að menn hafi sest að á Appennínaskaganum þegar í upphafi pleistósentímabilsins fyrir 1,8 milljónum ára. Þetta tímabil einkenndist af reglubundinni framsókn og hopi jöklanna í Alpafjöllunum allt fram að lokum síðasta kuldaskeiðs fyrir um 10.000 árum. Forsaga Ítalíu er síðan venjulega rakin allt þar til Grikkir hófu að stofna nýlendur á Suður-Ítalíu á 8. öld f.Kr. Steinöld. Elstu merki um menn hafa fundist í hellum og við vatnsbakka og eru um 800.000 ára gömul, frá fornsteinöld sem er langlengsta tímabilið í sögu mannsins. Þetta eru mest einföld steinverkfæri og dýrabein en stöku mannabein (af neanderdalsmönnum) hafa fundist á Mið- og Suður-Ítalíu og eru frá því fyrir upphaf síðasta kuldaskeiðs. Á lokastigum kuldaskeiðsins, frá því fyrir um 36.000 til 10.000 árum síðan, viku neanderdalsmennirnir smám saman fyrir nútímamönnum. Frá þeim tíma er að finna sívaxandi fjölda minja; kuml, dýrabein og steinverkfæri, sem verða smám saman flóknari að gerð. Einnig hafa fundist frá þessum tíma elstu merki um hellamálverk og litlar myndastyttur eins og Venus frá Savignano sem er talin vera um 25.000 ára gömul. Á miðsteinöld (fyrir um 10.000 til 6.000 árum síðan) hlýnaði loftslagið enn meir. Steinverkfærin urðu smágerðari og jarðsetning varð ríkjandi greftrunaraðferð. Merki um menn frá þessum tíma hafa fundist um alla Ítalíu, frá ströndinni, sléttum og fjöllum. Kort sem sýnir útbreiðslu leirkerja af Cardium-gerð norðan við Miðjarðarhafið á 6. og 5. árþúsundinu f.Kr.. Á nýsteinöld vék samfélag veiðimanna og safnara fyrir landbúnaði með kvikfjárrækt, vefnaði og leirkeragerð. Þetta stafaði af menningaráhrifum frá Mið-Austurlöndum. Með því að kortleggja gerðir leirmuna er hægt að gera sér góða hugmynd um þróun þessa tímabils. Notkun verkfæra úr kopar auk steinverkfæra hófst á síðari helmingi þriðja árþúsundsins f.Kr. og barst til Ítalíu frá austurhluta Miðjarðarhafsins og hafði í för með sér hnignun verkfæraframleiðslu úr tinnu. Frá þessum tíma eru elstu dæmin um stauraþorp á stóru vötnunum. Þessi stauraþorpamenning náði hátindi sínum á Bronsöld. Bronsöld. Bronsöld hófst á Ítalíu við lok þriðja árþúsundsins f.Kr. og einkenndist af mikilli útbreiðslu málmvinnslu. Á þessum tíma komu fram Póladamenningin í Gardavatni og Terramaremenningin í suðurenda Pósléttunnar sem einkenndist af fastri búsetu og jarðrækt í litlum þorpum sem voru víggirt með stauravirkjum og síkjum. Appennínamenningin þróaðist í Mið- og Suður-Ítalíu og byggðist á kvikfjárrækt. Frá Bronsöld er einnig að finna stærri og varanlegri minjar eins og núraga, kúpulaga steinkofa á Sardiníu. Castellieri-menningin sem barst til norðausturhéraðanna frá Istríu reisti bæi víggirta með steinveggjum. Seint á Bronsöld barst síðan grafkerjamenningin til Ítalíu frá Mið-Evrópu og breiddist hratt út. Járnöld. Járnöld hófst á Ítalíu í upphafi fyrsta árþúsundsins f.Kr. sem bein afleiðing af vaxandi viðskiptum við Föníkumenn og Grikki. Þeir fyrrnefndu stofnuðu kaupstaði á Sardiníu og vesturströnd Sikileyjar um 1000 f.Kr. en þeir síðarnefndu stofnuðu borgríki á Suður-Ítalíu og austur- og suðurströnd Sikileyjar á 8. og 7. öld f.Kr. Þessar nýlendur voru við ströndina en höfðu gríðarleg menningleg áhrif á öllum Appennínaskaganum. Villanóvamenningin var járnaldarmenning sem er beinn afkomandi grafkerjamenningarinnar og breiddist út um Mið-Ítalíu frá 10. til 8. aldar f.Kr. Hún náði yfir héruðin Emilía-Rómanja, Toskana og Latíum og var sá grunnur sem ríki Etrúra reis á þótt deilt sé um uppruna þeirra sjálfra. Fornöld. Með grísku borgríkjunum, "Magna Graecia", á 8. öld f.Kr. gekk fornöldin í garð á Ítalíuskaganum með ritaðri sögu, en í sögu Ítalíu er gjarnan miðað við stofnun Rómar 753 f.Kr. sem upphaf klassískrar fornaldar. Í raun er það þó ekki svo að til sé mikið af ritheimildum frá þessum tíma og flestar heimildir sem fjalla um sögu tímabilsins eru ritaðar mörgum öldum eftir þá atburði sem þær lýsa. Í fornöld bjuggu margar þjóðir á Appennínaskaganum sem ætlað er að hafi flust þangað frá Austur- og Mið-Evrópu í nokkrum bylgjum frá miðri bronsöld allt þar til Keltar hófu að setjast að sunnan Alpafjalla á 4. öld f.Kr. Þessar þjóðir (til dæmis Venetar, Latínar og Sabellar) töluðu indóevrópsk mál og blönduðust þeim þjóðum sem fyrir voru og ekki töluðu indóevrópsk mál. Meðal þeirra þjóða sem ekki töluðu indóevrópsk mál má nefna Etrúra sem höfðu mikil áhrif á Róm og hinn latneska heim. Uppruni Etrúra er umdeildur þar sem sumir telja þá vera upprunna á Ítalíu en aðrir telja þá hafa flust þangað frá Mið-Austurlöndum. Föníkumenn og Grikkir. Nýlendur Föníkumanna (gular) og Grikkja (rauðar). Um árið 1000 f.Kr. voru Föníkumenn mesta siglingaveldi Miðjarðarhafsins. Þeir reistu þétt net kaupstaða á helstu siglingaleiðum sínum, frá ströndum Portúgals til Líbanon. Meðal þeirra borga sem þeir stofnuðu á eru "Karalis" (nú Cagliari) á Sardiníu og "Ziz" (nú Palermó) á Sikiley. Upphaflega voru þetta aðeins áfangastaðir á hinni mikilvægu siglingaleið til Spánar þar sem voru tin- og silfurnámur, en síðar, einkum eftir að mikilvægi Týrosar minnkaði vegna stöðugra árása Egypta, Persa og Makedóníumanna, uxu þær sem sjálfstæðar nýlendur. Á 8. öld f.Kr. hófu Grikkir að setjast að á strönd Suður-Ítalíu, líkt og á mörgum öðrum stöðum allt frá Svartahafi að Suður-Frakklandi. Rómverjar kölluðu Suður-Ítalíu og austurströnd Sikileyjar "Magna Graecia" sem á latínu merkir Stór-Grikkland. Menning Grikkja, þar á meðal tungumálið, trúarbrögð og hefðir borgríkisins, breiddist út um allan Appennínaskagann. Til varð hellensk menning á Ítalíu sem síðar varð ein af undirstöðum rómverskrar menningar. Eitt af því sem Grikkir fluttu með sér var stafrófið sem var undanfari latneska stafrófsins. Helstu nýlendur Grikkja voru "Kymé" (nú Cuma), "Région" (nú Reggio Calabria), "Neopolis" (nú Napólí), "Naxos" og "Messene" (nú Messína) sem voru stofnaðar af Evbojum og Róteyingum; "Sýrakúsa", sem var stofnuð af Kórinþubúum, "Leontinoi" (nú Lentini) af Megarabúum og "Taras" (nú Tarantó) var stofnuð af Spartverjum. Etrúrar. Um 800 f.Kr. tók að myndast á Mið-Ítalíu, sérstök menning sem kennd er við Etrúra. Rómverjar kölluðu þetta samfélag "Etrusci" eða "Tusci" (þaðan kemur nafn héraðsins Toskana) en Grikkir "Τυρρήνιοι" ("Tyrrhenioi" - þaðan kemur nafn Tyrrenahafs). Um uppruna Etrúra er ekki vitað með vissu. Sumir telja að þeir hafi flust til Ítalíu frá Litlu Asíu en aðrir að þeir hafi verið afkomendur Villanovamenningarinnar sem stóð á sömu slóðum. Menning þeirra ber merki um gríðarleg áhrif helstu viðskiptaþjóða þeirra, Föníkumanna og Grikkja, og þeir þróuðu letur sem byggist á grísku letri. Þekking á máli þeirra er enn takmörkuð en vitað er að það var ekki indóevrópskt mál. Saga þeirra er einkum þekkt af ritum Grikkja og síðar Rómverja, sem í vissum skilningi litu á sig sem arftaka þeirra. Etrúría var staðsett nokkurn veginn þar sem nú er héraðið Toskana en stækkaði á blómaskeiði Etrúra frá 8. til 6. aldar f.Kr. og náði þá yfir Pósléttuna og í suður meðfram ströndinni yfir hluta Latíum og Kampaníu. Etrúría var aldrei eitt ríki heldur bandalag sjálfstæðra borgríkja. Síðustu þrír konungar Rómar fyrir stofnun lýðveldisins (616-510 f.Kr.) eru sagðir hafa verið af etrúskum uppruna. Framrás þeirra til suðurs var stöðvuð af gríska einvaldinum Hieroni 1. frá Sýrakúsu í sjóorrustunni við Cumae í Napólíflóa árið 474 f.Kr. Árið 415 f.Kr. gerðust þeir bandamenn Aþeninga í Sikileyjarförinni þar sem þeir biðu aftur ósigur gegn Grikkjum. Eftir 5. öld f.Kr. hnignaði veldi Etrúra hratt og Rómverjar og Samnítar lögðu lönd þeirra smám saman undir sig. Gallía hérna megin. Keltar frá því svæði þar sem nú eru Frakkland og Sviss tóku að setjast að sunnan Alpafjalla þegar á 6. öld f.Kr. Menning þeirra breiddist hratt út um Pósléttuna þar sem fyrir voru Lígúrar og Venetar. Borgir eins og Mílanó og Bologna eru fyrst nefndar í rómverskum heimildum sem gallverskar borgir. Rómverjar kölluðu svæðið "Gallia Cisalpina" („Gallía hérna megin Alpafjalla“) eða "Gallia Citerior" („Gallía nær“). Gallar hófu að leggja landsvæði Etrúra í Toskana undir sig á 4. öld f.Kr. Etrúrar óskuðu eftir aðstoð frá Róm sem sendi her gegn Göllunum. Fylkingarnar, undir stjórn Gallans Brennusar annars vegar og Rómverjans Quintusar Sulpiciusar hins vegar, mættust í orrustunni við Allium 18. júlí 380 f.Kr. Rómverjar biðu mikinn ósigur og leifar hersins flúðu til Rómar með Gallana á hælunum. Gallarnir rændu Róm en voru reknir burt af herforingjanum Camillusi. Ósigurinn leiddi til þess að Rómverjar endurskipulögðu her sinn og reistu Servíusarmúrinn til varnar. Hundrað árum síðar biðu Rómverjar aftur ósigur gegn Göllum í orrustunni við Aretíum og það var ekki fyrr en eftir orrustuna við Telamon 225 f.Kr. sem þeim tókst að leggja Norður-Ítalíu undir sig. Þegar Hannibal gerði innrás yfir Alpafjöll 218 f.Kr. gengu Gallar í lið með honum gegn Rómverjum. Síðustu gallversku bæirnir á Norður-Ítalíu gáfust ekki upp fyrr en á 1. öld f.Kr. Rómaveldi. Samkvæmt arfsögninni átti úlfynja að hafa alið upp bræðurna Rómúlus og Remus. Rómúlus átti að hafa stofnað borgina 753 f.Kr. sem markar upphaf klassískar fornaldar í sögu Ítalíu. Borgin Róm var stofnuð af Rómúlusi á Palatínhæð við ána Tíber á jaðri Etrúríu árið 753 f.Kr. samkvæmt rómverskri arfsögn. Fornleifar benda líka til þess að borgin hafi verið stofnuð um þetta leyti af Latínum og Sabínum á þremur hæðum á bökkum fljótsins. Fyrst um sinn ríktu konungar yfir borginni, þeir síðustu af etrúskum uppruna, og hugsanlega mynduðu Etrúrar eins konar yfirstétt í Róm á þeim tíma. 509 f.Kr. var lýðveldi komið á fót með stofnanir eins og rómverska öldungaráðið sem takmörkuðu völd ráðamanna. Talið er að við lok 6. aldar hafi yfirráðasvæði Rómar verið tvö þúsund ferkílómetrar. Smám saman lögðu Rómverjar undir sig lönd Etrúra og á 3. öld f.Kr. tókst þeim að ná undirtökunum á Suður-Ítalíu með sigrum á grísku borgríkjunum og leggja undir sig eyjarnar Sardiníu og Sikiley með sigrum á Karþagó. Sigrar Rómverja á Grikkjum, Föníkumönnum og Göllum á Ítalíuskaganum leiddu til áframhaldandi útþenslu inn í Gallíu (Frakkland og Spán), Grikkland og Norður-Afríku. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. varð Róm stórveldi við Miðjarðarhafið. Sigurinn á Grikkjum hafði þær afleiðingar að Rómaveldi tók upp helleníska menningu. 27 f.Kr. varð Oktavíanus einvaldur í Róm og fékk sæmdarheitið "Augustus" sem markar upphaf Rómverska keisaradæmisins. Eitt af því sem einkenndi keisaratímabilið var hnignun landbúnaðar og iðnaðar á Ítalíu sem þurfti að keppa við innflutning frá skattlöndunum. Eftir stutt blómaskeið undir stjórn Ágústusar keisara tók spilling að einkenna keisaraveldið. Frægir einvaldar á borð við Tíberíus, Calígúla og Neró urðu frægir fyrir yfirgengilega lifnaðarhætti og grimmd. Á 2. öld ríktu nokkrir góðir keisarar á borð við Hadríanus og Markús Árelíus og Rómaveldi náði á þeim tíma mestri útbreiðslu. Skipting Rómaveldis. Skipting Rómaveldis eftir dauða Þeódósíusar 1. árið 395. Á 3. öld tók Rómaveldi hægt að hnigna sem lyktaði með skiptingu ríkisins í Austrómverska ríkið og Vestrómverska ríkið árið 293. Um leið gerði Díókletíanus Mílanó að nýrri höfuðborg ríkisins. Skiptingin var fest í sessi þegar Konstantínus mikli stofnaði Konstantínópel í Býsantíum á Grikklandi og gerði hana að nýrri höfuðborg. Um sama leyti jókst þrýstingur frá germönskum þjóðflokkum sem hófu að flytjast suður á bóginn frá Norður-Evrópu. Eftir lát Þeódósíusar 1. árið 395 var skipting Rómverska heimsveldisins orðin föst í sessi og Ítalía hluti af Vestrómverska ríkinu. 402 flutti hirð keisarans til Ravenna. 476 lagði Austurgotinn Ódóaker Ravenna undir sig og síðasti rómverski keisarinn, Rómúlus Ágústúlus, var neyddur til að segja af sér. Miðaldir. Jústiníanus keisari og hirð hans á mósaíkmynd í býsönskum stíl í San Vitale í Ravenna. Fall Vestrómverska ríkisins árið 476 markar endalok fornaldar og upphaf miðalda í sögu Evrópu. Eftir endalok keisaranna kom upp stutt blómaskeið á Ítalíu undir stjórn gotneskra konunga sem voru að nafninu til undirkonungar keisarans í Konstantínópel. Býsantíum gerði tilraun til að sameina ríkin tvö á ný í Gotastríðinu um miðja 6. öld en opnaði með því ríkið fyrir innrás annars germansks þjóðflokks, Langbarða. Langbarðar voru flestir heiðnir eða arískt kristnir og voru þannig andsnúnir Páfagarði í Róm sem Býsantíum ríkti enn yfir. Afskipti Karlamagnúsar gerðu stofnun Páfaríkisins mögulega og urðu upphafið að reglulegum afskiptum Frakkakonunga af málefnum Ítalíu allt fram á 19. öld. Þau afskipti urðu einnig til þess að skapa fullan aðskilnað milli Norður-Ítalíu og Suður-Ítalíu sem hefur að ýmsu leyti haldist fram til dagsins í dag. Miðaldir í sögu Ítalíu einkennast af nokkrum tímabilum hnignunar og endurreisnar. Hrun rómverska heimsveldisins og styrjaldirnar sem fylgdu í kjölfarið drógu mjög úr mætti landsins sem var ekki mikill fyrir eftir langt hnignunarskeið. Stórjarðeignir frá tímum Rómverja framleiddu samt ennþá umframmagn af landbúnaðarvörum sem var selt í bæjum og borgum og Rómarréttur var enn í gildi. Austurgotar. Ódóaker tók upp titilinn konungur Ítalíu. Hann náði Sikiley af Vandölum (sem höfðu lagt hana undir sig nokkrum áratugum fyrr) og samdi frið við Vesturgota og Franka en beið ósigur árið 490 gegn Þjóðreki mikla. Báðir voru þeir að nafninu til varakonungar keisarans í Konstantínópel en ríktu þó sem sjálfstæðir konungar yfir Ítalíu. Um miðja 6. öld hugðist Jústiníanus leggja Vestrómverska ríkið aftur undir sig og hóf Gotastríðið (535-554). Styrjöldin dró mjög úr mætti Vestrómverska ríkisins og borgir og bæir voru yfirgefnir um langt skeið. Á endanum vann Austrómverska ríkið sigur og Rómaveldi var sameinað um stutta hríð, en þegar Langbarðar gerðu innrás 588 hafði ríkið engin úrræði til að halda Ítalíu og megnið af landinu féll í hendur innrásarhersins. Áfram undir stjórn Austrómverska ríkisins voru borgirnar Róm og Ravenna, eyjarnar og hluti af strandhéruðum Suður-Ítalíu. Langbarðar. Langbarðar voru germanskur þjóðflokkur sem á 5. áratug 6. aldar fluttist yfir Dóná og settist að í Pannóníu með stuðningi Jústíníanusar sem fékk þá til að berjast gegn Gepíðum. 560 tók Alboin við konungdómi. Hann vann sigur á Gepíðum og giftist árið 566 Rósamundu dóttur konungs þeirra. Vorið 568 leiddi Alboin Langbarða ásamt mörgum öðrum germönskum þjóðflokkum (Bæjurum, Gepíðum og Söxum) og Búlgörum, alls hálfa milljón manna, yfir Júlísku Alpana og gerði innrás í Norður-Ítalíu. Veldi Austrómverska ríkisins sem var enn að jafna sig eftir Gotastríðið hrundi á fáum árum. 572 féll Pavía í hendur Langbarða og varð höfuðborg ríkis þeirra á Ítalíu. Þeir lögðu líka undir sig Toskana og stór héruð á Mið-Ítalíu þar sem þeir stofnuðu hertogadæmin Spóletó og Beneventó. Býsans hélt yfirráðum sínum yfir borgunum Ravenna og Róm og nágrenni þeirra. Langbarðar voru flestir heiðnir þegar þeir réðust inn á Ítalíuskagann, en sumir þeirra voru arískt kristnir og samband þeirra við kaþólsku kirkjuna var stirt. Þeir tóku brátt upp rómverska titla, nöfn og siði og snerust að hluta til kaþólskrar trúar á 7. öld þótt það gengi ekki átakalaust. Í leiðinni gat Páfaríkið tryggt sér yfirráð yfir fyrrum yfirráðasvæðum Austrómverska ríkisins, Sexveldinu og Fimmborgaríkinu, sem samsvara í dag héruðunum Marke og austurhluta Emilíu. Ríki Langbarða skiptist í 36 hertogadæmi sem héldu töluverðu sjálfstæði gagnvart konunginum í Pavía. Þetta gerði þeim erfitt fyrir að standa gegn vaxandi umsvifum Franka. Konungar Langbarða reyndu að styrkja miðstjórnarvaldið en afleiðingin af því var sú að hertogadæmin Spóletó og Beneventó sögðu sig úr lögum við þá. Afskipti Franka. Pípinn stutti Frankakonungur fékk Sakarías páfa til að staðfesta konungstitil Karlunga. Veldi þeirra óx enn frekar þegar Stefán 2. ferðaðist alla leið til Parísar til og veitti honum einnig titilinn "patricius Romanorum". Í staðinn staðfesti Pípinn yfirráð páfa yfir fyrrum löndum Austrómverska ríkisins á Norður-Ítalíu. Karlamagnús og Hadríanus páfi á lýsingu úr miðaldahandriti. Þegar Hadríanus 1. varð páfi árið 772 lét hann verða sitt fyrsta verk að krefjast yfirráða yfir nokkrum borgum sem áður heyrðu undir Sexveldið. Konungur Langbarða, Desíderíus, svaraði með því að leggja aðrar borgir Páfaríkisins undir sig og réðist inn í Fimmborgaríkið á leið sinni til Rómar. Dóttir Desíderíusar hafði gifst Karlamagnúsi 770 en hann skildi við hana ári síðar. Nú sendi Hadríanus því sendimenn til Karlamagnúsar og bað hann um vernd. Desíderíus sendi líka sendimenn til Franka og hafnaði ásökunum páfa. Sendimenn beggja aðila hittu Karlamagnús í Thionville þar sem hann tók undir málstað páfa. 773 hélt hann með her yfir Alpana og rak Langbarða undan sér til Pavía sem Frankaherinn settist um. Um leið hélt Karlamagnús til Rómar þar sem hann staðfesti enn yfirráð páfa yfir löndum Austrómverska ríkisins. Síðar var því ranglega haldið fram af Páfaveldinu að hann hefði einnig veitt yfirráð yfir Toskana, Emilíu, Feneyjum og Korsíku. Sumarið 774 gáfust Langbarðar upp fyrir Karlamagnúsi og Desíderíus var sendur í klaustur í Corbie. Karlamagnús lét krýna sig með járnkórónu Langbarða. Fyrstu borgríkin. Hertogadæmi Langbarða í suðrinu, Beneventó og Spóletó, héldu sjálfstæði sínu þótt Karlungar gerðu margar tilraunir til að leggja þau undir sig. Hlutar Suður-Ítalíu voru áfram hluti af Austrómverska ríkinu þar til Arabar lögðu Sikiley undir sig 827-902. Meginlandshlutinn skiptist þá í nokkur sjálfstæð borgríki eins og Napólí, Amalfi og Gaeta. Þetta voru fyrstu dæmin um frjáls borgríki eins og áttu eftir að blómstra síðar á Norður-Ítalíu. Þessi fyrstu borgríki urðu þó skammlíf því brátt kom til nýrrar innrásar í Suður-Ítalíu. Lóþaringen og hið Heilaga rómverska ríki. Eftir skiptingu Karlungaveldisins með Verdun-samningnum 843 varð Norður-Ítalía hluti af Lóþaringen. Þegar Karli digra, konungi Lóþaringen, var steypt af stóli 887 klofnaði ríki hans og Norður-Ítalía varð vettvangur fyrir valdatafl voldugra fursta á borð við Guy af Spóletó og Berengar af Fríúlí. 951 gerði Ottó mikli innrás og innlimaði Ítalíu í hið Heilaga rómverska ríki. Hann lét krýna sig konung Ítalíu með járnkórónu Langbarða í Pavía. Eftir hans daga gerðu nær allir keisarar hins Heilaga rómverska ríkis hið sama á leið sinni til Rómar til að hljóta krýningu páfa. Hámiðaldir. Á hámiðöldum féll Suður-Ítalía fyrst Normönnum í hendur og síðan keisurum af þýsku Hohenstaufen-ættinni. Á Norður-Ítalíu blómstruðu tvö sjóveldi, Feneyjar og Genúa, sem urðu fyrirmynd að frjálsu borgríkjunum sem einkenndu endurreisnartímabilið. Á þessum tíma var komið á lénsveldi um alla Ítalíu en ítalskir aðalsmenn héldu eftir sem áður miklu sjálfstæði og sérréttindum gagnvart bæði páfa og keisara. Innrás Normanna. Normannar komu fyrst til Suður-Ítalíu sem pílagrímar í kringum árið 1000 og gátu sér brátt gott orð sem atvinnuhermenn og málaliðar í þjónustu furstanna þar sem áttu oft í átökum sín á milli og eins við Mára frá Sikiley og Norður-Afríku. Brátt tóku Normannar að heimta lönd sjálfum sér til handa. Þeir lögðu svo alla Suður-Ítalíu og Sikiley undir sig í röð stríðsátaka sem stóðu alla 11. öldina. Síðast féll hertogadæmið Napólí í hendur þeirra árið 1137. Konungsríkið Sikiley sem náði yfir alla Suður-Ítalíu var stofnað af Hróðgeiri 2. árið 1130. Árið 1155 gerði býsanski keisarinn Manuel 1. Komnenos síðustu tilraun Grikkja til að leggja Suður-Ítalíu aftur undir sig með árás á Apúlíu. Innrásin mistókst og gríski herinn hvarf frá Ítalíu 1158. Lénsveldið og borgríkin. Feneyjar voru að nafninu til hluti Austrómverska ríkisins en nutu í reynd sjálfstæðis frá 803. Á tímum krossferðanna varð borgin að verslunarveldi sem byggði hagsæld sína á sjóflutningum og verslun um allt Miðjarðarhafið. Á 12. öld fengu feneyskir kaupmenn ýmis sérréttindi í Austrómverska ríkinu og í krossferðunum fengu þeir hluta af ríkulegum ránsfeng. Allar hámiðaldir voru þeir einráðir í verslun milli Evrópu og Mið-Austurlanda. Á sama tíma óx sjóveldið Genúa á vesturhluta Miðjarðarhafsins með verslun á Spáni, Korsíku og Sikiley. Vaxandi verslun í kringum helstu hafnarborgir á Norður-Ítalíu leiddi til eflingar iðnaðar á sömu stöðum og hægt og rólega tók við tímabil þar sem landbúnaður, iðnaður, menning og listir efldust í kringum borgirnar. Ítalskir furstar voru að nafninu til lénsmenn keisara hins Heilaga rómverska ríkis, en í reynd nutu þeir mikils sjálfstæðis og héldu fast í sérréttindi sem þeir höfðu fengið. Átök milli keisara og páfa leiddu til skrýðingadeilunnar á 11. öld. Á þeim tíma skiptust aðall og borgarar norðurítölsku borganna í gvelfa og gíbellína eftir því hvort þeir studdu páfann eða keisarann. Hohenstaufen-ættin. Mynd af Barbarossa úr handriti frá lokum 12. aldar. Árið 1167 var Langbarðabandalagið stofnað gegn tilburðum Friðriks 1., fyrsta keisarans af Hohenstaufen-ættinni, til að staðfesta völd sín á Ítalíu. Nær allar borgir Norður-Ítalíu tóku þátt í bandalaginu sem var stutt af Alexander 3. páfa. Bandalagið vann sigur á her keisarans í orrustunni við Legnano 29. maí 1179 og í kjölfarið var gert vopnahlé og síðan friðarsamkomulag þar sem borgríkin fengu umtalsverða sjálfstjórn en samþykktu yfirráð keisarans að nafninu til. Langbarðabandalagið var endurvakið nokkrum sinnum á 13. öld vegna andstöðu við keisarann. Þessir ósigrar leiddu til hnignunar og að lokum falls Hohenstaufen-ættarinnar. Um leið minnkuðu áhrif hins veraldlega valds og stuðningsmanna þess (gíbellína) og vald kirkjunnar og stuðningsmanna hennar (gvelfa) óx. Hohenstaufen-ættin lagði Suður-Ítalíu undir sig með innrás 1194 og ríkti yfir sikileyska konungríkinu. Átök milli páfa og Hohenstaufen-keisaranna leiddi til þess að páfi kallaði eftir aðstoð frá Angevínum, franskri aðalsætt, og veitti þeim sikileyska konungsríkið í staðinn. Karl 1. af Anjou lagði konungsríkið undir sig 1266 en óánægja íbúanna með yfirráð Frakka leiddi til sikileysku aftansöngvanna 1282 og innrásar Péturs 3. konungs Aragón. Friðarsamkomulagið sem á eftir fylgdi skipti konungsríkinu í tvennt: Sikiley var undir stjórn Aragón en meginlandshlutinn undir stjórn Angevína. Við þetta varð til Konungsríkið Napólí. Ríkin tvö komu ekki aftur saman undir einum konungi fyrr en á 18. öld. Ítalska endurreisnin. Við upphaf endurreisnarinnar var staðan því sú að Norður-Ítalía skiptist milli margra misstórra borgríkja sem að nafninu til heyrðu undir hið Heilaga rómverska ríki eða Austrómverska ríkið (Feneyjar) en nutu í reynd algjörrar sjálfsstjórnar og voru ýmist hertogadæmi eða lýðveldi. Miðhluti Appennínaskagans, Róm og nágrenni, Marke og austurhluti Emilíu, voru hlutar Páfaríkisins. Suður-Ítalía myndaði konungsríkið Napólí og Sikiley myndaði konungsríkið Sikiley. Minjar um glæsta fortíð á tímum Rómaveldis voru út um allt og áhugi menntaðs lágaðals og nýríkrar borgarastéttar á fornleifum varð til þess að fleiri minjar voru grafnar úr jörðu, gert við þær og þeim stillt út til sýnis. Menningarleg endurnýjun. Áhugi á fyrirmyndum frá klassískri fornöld gat af sér nýjar nálganir í byggingarlist, myndlist og listiðn. Upphaf þessarar endurreisnar var hjá málurum í Toskana sem þróuðu áfram býsanskan stíl í trúarlegum myndum og tóku að nota nýja tegund myndmáls eins og fjarvídd, skyggingar og andlitsdrætti sem sýndu tilfinningar. Nýrík borgarastétt greiddi fyrir myndir sem gefnar voru að gjöf í kirkjur og klaustur eða skreyttu heimakapellur. Fremst þessara auðmannsfjölskyldna í Flórens var Medici-fjölskyldan sem notaði myndlistina markvisst sem vopn í baráttu sinni um völd í Toskana. Ítalskan varð til sem bókmenntamál með "Hinum guðdómlega gleðileik" Dantes á 13. öld og "Tídægra" Boccaccios hélt þeirri hefð áfram með veraldlegri áherslum. Húmanisminn, sem snerist um aukið vægi mannsins, og fornmenntastefnan sem snerist um rannsóknir á heimspeki- og náttúrufræðiritum fornaldar, kom fram á sjónarsviðið með Petrarca á 14. öld. Meðal þess sem fornmenntastefnan gat af sér var gríðarlegur áhugi á frumtextum heimspekinga fornaldar, ekki síst Platons, en fram að því hafði skólaspekin verið ríkjandi stefna í heimspeki með áherslu á kenningar Aristótelesar. Um miðja 14. öld barst svarti dauði til Ítalíu með skipum sem komu frá Caffa á Krímskaga til Messínu á Sikiley, og er talið að allt að 60% íbúa hafi látist í veikinni. Hins vegar eru skiptar skoðanir um það hvaða áhrif þetta hafði á endurreisnina. Stækkun Páfaríkisins. Páfaríkið stækkaði gríðarlega á endurreisnartímanum, einkum á valdatíma páfanna Alexanders 6. og Júlíusar 2. Páfinn var voldugur veraldlegur ráðamaður sem gerði samninga og háði stríð við önnur ríki eins og aðrir konungar. Meirihluti páfaríkisins var samt sem áður í höndum lénsmanna sem oft nutu mikils sjálfstæðis gagnvart Rómarvaldinu. Í nokkrum tilvikum kom til átaka þegar páfi staðfesti vald sitt yfir uppreisnargjörnum furstum. Erlend yfirráð. Árið 1425 hófst röð vopnaðra átaka milli Feneyska lýðveldisins og Hertogadæmisins Mílanó og bandamanna þeirra sem voru kölluð Stríðin í Langbarðalandi. Niðurstaða þessara styrjalda var sú að Feneyjar og Mílanó komu fram sem öflugustu ríkin á Norður-Ítalíu. Átökunum lauk með friðarsamningnum í Lodi 1454 en þau sýndu greinilega fram á að ítölsku borgríkin voru óstöðug pólitískt þótt þau stæðu efnahagslega sterkt. Deilur um ríkiserfðir í Mílanó og Napólí leiddu til Ítalíustríðanna 1494 til 1559 þar sem Spánn, Frakkland, hið Heilaga rómverska ríki, Páfaríkið, England og Skotland, eða öllu heldur þau ættarveldi sem réðu yfir þessum ríkjum, tókust á um völd sín á Ítalíuskaganum. Niðurstaða þessara átaka var sú að Habsborgarar stóðu uppi sem voldugasta ætt Evrópu. Ítölsku borgríkin voru nú ýmist innlimuð í stærri ríki eða gerð að minniháttar lénum. Orrustan um Pavíu milli Frakkakonungs og keisarans 1525. Átökin drógu úr mætti borgríkjanna. Róm var rænd af málaliðum 1527 og Flórens varð að hertogadæmi Medici-ættarinnar með fulltingi páfa og Frakkakonungs eftir stutt lýðveldistímabil. Páll 3. kallaði saman kirkjuþingið í Trentó 1544-1563 til að móta svar kirkjunnar við siðbót Lúthers í Þýskalandi. Spánverjar og Frakkar. Friðarsamkomulagið í Cateau-Cambrésis 1559 milli Hinriks 2. Frakkakonungs og Filippusar 2. Spánarkonungs staðfesti yfirráð Spánar yfir Ítalíu. Þeir réðu þá yfir konungsríkjunum Sikiley, Napólí og Sardiníu, hertogadæminu Mílanó og voru með svokölluð setuliðssvæði ("stati dei presidi") á hernaðarlega mikilvægum stöðum í Toskana. Páfaríkið og Feneyjar héldu sjálfstæði sínu en önnur borgríki á Ítalíu voru aðeins sjálfstæð að nafninu til. Á sama tíma hnignaði versluninni eftir því sem hin Evrópuríkin uppgötvuðu nýjar siglingaleiðir til Asíu. Fjármálastarfsemi í Flórens og Genúu var áfram mikilvæg en á heildina litið dró úr bæði efnahagslegum styrk og menningarlegu mikilvægi Ítalíu. Í kjölfar friðarsamkomulagsins fylgdi langt friðartímabil. Páfaríkið náði aftur undir sig borgunum Ferrara (1598) og Úrbínó (1631) og Saluzzo, eina lénið sem Frakkar héldu við friðarsamningana, féll í hlut Savoja árið 1601 í skiptum fyrir héruð í Frakklandi. Upplýst einveldi. Karl 3. kemur til Napólí. Í kjölfar Spænska erfðastríðsins 1701-1714 gengu öll ríki Spánverja á Ítalíu, nema Sikiley, til Austurríkis. Sikiley gekk til hertogans af Savoja sem við það varð konungur. 1718 skipti hann á Sikiley og Sardiníu og bjó þannig til konungsríkið Sardiníu. Pólska erfðastríðið 1733 og Austurríska erfðastríðið 1740 höfðu líka áhrif á Ítalíu. 1734 lagði Karl 3. af ætt Búrbóna Napólí og Sikiley undir sig. Hann var upplýstur einvaldur sem tókst á hendur ýmsar umbætur í ríki sínu og hóf meðal annars fornleifauppgreftina í Pompeii og Herculaneum. 1737 dó Medici-ættin út og hertogadæmið í Toskana féll í hlut Frans Stefáns, hertoga af Lorraine, eiginmanns Maríu Teresíu, erkihertogaynju Austurríkis. 1768 neyddist Genúa til að láta Korsíku af hendi við Frakka. Undir stjórn Maríu og síðan Jóseps 2. erkihertoga voru útfærðar umbætur í landbúnaði í anda upplýsingarinnar í Langbarðalandi, Trentínó og Tríeste. Napóleonstímabilið. Í Frönsku byltingarstríðunum tók Napoléon Bonaparte, sem sjálfur var af ítölskum ættum á Korsíku, yfir stjórn hins litla Ítalíuhers Frakka í Nice 26. mars 1796. Hann hélt með þennan her yfir Alpafjöll við Altare og réðist á hersveitir Savoja og Austurríkismanna í Ceva. 28. apríl undirritaði Savoja vopnahlé í Cherasco og dró sig út úr átökunum. Um sumarið vann Napóleon marga sigra á Austurríkismönnum, settist um höfuðstöðvar þeirra á Ítalíu, Mantúu, og hernam Toskana og Páfaríkið. Eftir orrustuna við Lodi 10. maí 1796 skipti Napóleon hernumdu svæðunum í tvö ríki: Cispadanska lýðveldið norðan við Pó og Transpadanska lýðveldið sunnan við Pó. 29. júní 1797 voru þessi tvö svæði sameinuð í eitt Cisalpínskt lýðveldi með Mílanó sem höfuðborg. Í friðarsamningnum í Campofiore 17. október sama ár viðurkenndi Austurríki þetta ríki en fékk leifarnar af Feneyska lýðveldinu í staðinn. Nýja ríkið fékk sjálfstæða stjórn sem byggði að miklu leyti á stjórnskipun Frakklands. Stjórn þess stefndi opinberlega að sameiningu allra ítalskra ríkja í eitt ríki, sem leiddi til átaka við Sviss. Ítalski fáninn var búinn til fyrir Cispadanska lýðveldið og byggði á franskri fyrirmynd. Kort af Ítalíu árið 1810. Konungsríkið Ítalía er litað ljósgrænt. Lýðveldið var sjálfstætt að nafninu til, en í stjórnskipan þess voru innbyggð yfirráð Frakka. Lögreglan var undir stjórn Frakka og 25.000 franskir hermenn voru staðsettir þar, haldið uppi á kostnað lýðveldisins. Stjórn lýðveldisins var beitt þrýstingi til að undirrita bandalagssamning við Frakka sem fól í sér mikinn kostnað vegna uppihalds frönsku hermannanna. Þegar annað bandalagsstríðið hófst 1799 lögðu Austurríkismenn lýðveldið undir sig og héldu því þar til Napoléon sigraði þá í orrustunni við Marengó 14. júní 1800. Lýðveldið var endurreist 9. febrúar 1801 og stækkað þannig að það náði yfir Venetó, sem áður hafði tilheyrt Austurríki, og Marke, sem áður hafði tilheyrt Páfaríkinu. Í janúar 1802 var nafni lýðveldisins breytt í Ítalska lýðveldið og Napoléon lét gera sjálfan sig að forseta þess 24. janúar. Í kjölfar þess að Napoléon lét krýna sig Frakkakeisara 2. desember 1804 var lýðveldinu breytt í Konungsríkið Ítalíu og Napoléon krýndur konungur Ítalíu með járnkórónu Langbarða í Mílanó 26. maí 1805. Konungsríkið var í reynd lítið annað en leppríki sem Napóleon notaði sem vettvang fyrir herfarir gegn Austurríki. Stjúpsonur Napóleons, Eugène de Beauharnais, var gerður varakonungur. Þegar Napóleon sagði af sér í kjölfar ósigursins í fjórða bandalagsstríðinu gerði Eugène tilraun til að láta krýna sig konung en mætti andstöðu öldungadeildarinnar. Hann var dæmdur í útlegð þegar Austurríki lagði konungsríkið undir sig. Sameining Ítalíu. Hugmyndin um sameiningu allra ríkjanna sunnan Alpafjalla í eitt ríki komst á kreik í kjölfar Frönsku byltingarinnar og margir hópar í hinum ýmsu ríkjum á skaganum hófu að vinna að þessu markmiði í andstöðu við ríkjandi yfirvöld sem Vínarþingið endurreisti í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Einkum snerust þessar hreyfingar gegn Austurríkismönnum og Habsborgurum sem bældu þessar sjálfstæðishreyfingar markvisst niður í norðausturhlutanum sem þeir ríktu yfir. Uppreisnarhreyfingar og fyrsta ítalska sjálfstæðisstríðið. Ein af þessum sjálfstæðishreyfingum var hin svokallaða Carboneria eða kolabrennsla, sem varð til í upphafi 19. aldar og var skipulögð svipað og Frímúrarahreyfingin. Meðlimir í samtökunum voru flestir úr hópi millistéttarfólks og menntamanna og þau breiddust út til Sardiníu, Páfaríkisins, stórhertogadæmisins Toskana, hertogadæmisins Módena og konungsríkisins Langbarðalands-Feneyja. Meðal leiðtoga sameiningarhreyfingarinnar voru lýðveldissinnarnir Giuseppe Mazzini og Giuseppe Garibaldi. Meðal hinna hófsamari konungssinna sem studdu sameiningu voru Cavour greifi og konungur Sardiníu, Viktor Emmanúel 2.. Uppreisnir í Konungsríki Sikileyjanna tveggja á Suður-Ítalíu fengu Ferdinand 1. til að samþykkja stjórnarskrá. Fleiri uppreisnir áttu sér stað um alla Ítalíu og náðu hápunkti byltingarárið 1848 þegar tvö skammlíf lýðveldi voru stofnuð, annað í Róm og hitt í Feneyjum. Um leið ákvað Karl Albert konungur Sardiníu að ráðast gegn Austurríki (Fyrsta ítalska sjálfstæðisstríðið) en var gjörsigraður og neyddist til að láta syni sínum, Viktor Emmanúel, eftir völdin. Annað ítalska sjálfstæðisstríðið. 1858 reyndi ítalskur sjálfstæðissinni, Felice Orsini, að myrða Napóleon 3. Frakkakeisara þar sem hann hefði svikið málstaðinn (Napóleon var sjálfur meðlimur í Carboneria á yngri árum). Keisarinn ákvað þá að gera eitthvað í málefnum Ítalíu og gerði leynilegt bandalag við Cavour, sem þá var forsætisráðherra Sardiníu, gegn Austurríki. Annað ítalska sjálfstæðisstríðið var skammvinnt og lyktaði með fullkomnum sigri Frakka og Ítala í orrustunni við Solferino 24. júní 1859. Þá gerðist það að Napóleon bakkaði, að hluta til af ótta við stöðu sína heima fyrir og möguleg afskipti Þýskalands. Hann hitti því Frans Jósef Austurríkiskeisara á laun í Villafranca og þar ákváðu þeir að Austurríkismenn héldu Venetó en Frakkar fengju Langbarðaland sem þeir létu ganga beint áfram til Sardiníu. Stjórnir miðítölsku ríkjanna Toskana, Módena og Parma, sem flestar voru flúnar til Austurríkis, skyldu endurreistar. Þúsundmannaleiðangurinn. Cavour og stjórn Sardiníu urðu fyrir miklu áfalli við þessi sinnaskipti Napóleons og þegar Viktor Emmanúel ákvað að eina leiðin væri að beygja sig sagði Cavour af sér. Hersveitir Sardiníu lögðu samt fljótlega Toskana, Módena, Parma og Páfahéruðin Ferrara, Romagna og Bologna undir sig, svo samkomulagið var í raun þegar fallið. Nú voru því fjögur ríki eftir á Ítalíuskaganum: Konungsríkið Sardinía, mikið stækkað, Venetó undir stjórn Austurríkismanna, Páfaríkið og Ríki Sikileyjanna tveggja. 1860 leiddi Garibaldi Þúsundmannaleiðangurinn til Sikileyjar og lagði eyjuna undir sig um sumarið. Í september hélt hann með lið yfir Messínasund. 6. september flúði Ferdinand konungur frá Napólí með 4000 manna lið og Garibaldi hélt inn í borgina sem sigurvegari. Cavour héldu til móts við hann úr norðri eftir stutt átök við hersveitir páfa. Garibaldi og Viktor Emmanúel mættust á frægum fundi í bænum Teano þar sem Garibaldi heilsaði honum sem konungi Ítalíu. 18. febrúar 1861 kallaði Viktor Emmanúel saman fyrsta þing Ítalíu í Tórínó og 17. mars lýsti þingið hann konung Ítalíu. Þriðja ítalska sjálfstæðisstríðið og hertaka Rómar. Nú var nær öll Ítalía undir stjórn Viktors Emmanúels og sameiningarsinna en eftir var að leysa rómverska vandamálið og Venetó var enn undir stjórn Austurríkis. Þegar Austurrísk-prússneska stríðið braust út 1866 nýtti stjórn Ítalíu tækifærið og lagði Feneyjar undir sig og gerði bandalag við Prússland. Með friðarsamningunum misstu Austurríkismenn Venetó til Ítalíu fyrir milligöngu Frakka. Þótt Napóleon hefði hingað til stutt kröfur Ítala þá var hann ekki tilbúinn til að láta þeim Róm eftir. Tilraun Garibaldis til að leggja borgina undir sig 1867 mátti sín lítils gegn franska setuliðinu í Róm. En 1870 upphófst Fransk-prússneska stríðið og Napóleon neyddist til að kalla frönsku herdeildirnar í Róm heim. Ítalski herinn lagði borgina undir sig eftir skammvinn átök 20. september sama ár og Píus 9. lýsti því yfir að hann væri fangi í Vatíkaninu. Vatíkanið neitaði að viðurkenna ítalska ríkið fram að Lateransamningunum 1929. Konungsríkið Ítalía. a> í Mílanó var reist á árunum 1865-1877. Ítalska konungsríkið var í reynd aðeins stækkuð útgáfa Konungsríkisins Sardiníu sem var þingbundin konungsstjórn samkvæmt albertínsku grunnlögunum frá 1848. Konungur tilnefndi ríkisstjórn sem bar ábyrgð gagnvart honum en ekki gagnvart þinginu. Konungur skipaði að auki beint hermálaráðherrana (her og flota) og hafði frumkvæði í utanríkismálum. Kosningarétt höfðu aðeins 2% þjóðarinnar. Lýðræðislegur grundvöllur ríkisins var því mjög takmarkaður. Að auki þurfti ríkið að kljást við ójöfnuð milli suðurs og norðurs og andstöðu kirkjunnar við hið nýja ríki. Upphaflega var stjórnin í höndum hægrimanna (íhaldsmanna), stórjarðeigenda og iðnjöfra, sem komu á stórum iðnfyrirtækjum með aðstoð ríkisins á Norður-Ítalíu og iðnvæðingu landbúnaðarins. Þessar aðgerðir skildu alþýðuna á Suður-Ítalíu í reynd eftir meðan uppgangur var á Norður-Ítalíu. 1876 komust vinstrimenn (frjálslyndir) til valda í ríkisstjórn Agostino Depretis eftir þrengingar sem heimskreppan 1873 olli. Ríkisstjórnir Depretis komu á virkri beitingu verndartolla og stóðu fyrir stórum verkefnum á vegum ríkisins sem skapaði mörg störf. Þær beittu meiri hörku gegn mótmælendum, en afnámu um leið skuldafangelsi og komu á almennri skólaskyldu. 1882 gerðist Ítalía aðili að Þríveldabandalaginu með Þýskalandi og Austurrísk-ungverska keisaradæminu. Nýlenduveldið. 1887 komst Francesco Crispi til valda og hóf að leggja meira upp úr utanríkisstefnunni. Crispi reyndi að gera Ítalíu að nýlenduveldi og jók framlög til hermála. 1888 nýtti Ítalía sér átök Breta og Egypta og bjó til nýlenduna Ítölsku Erítreu og 1889 réðust þeir inn í Eþíópíu. Sá leiðangur mistókst gersamlega og varð Ítalíu til skammar á alþjóðavettvangi. 1892 myndaði Giovanni Giolitti sína fyrstu ríkisstjórn, en hann varð oft forsætisráðherra í upphafi 20. aldar. 1911 sagði ríkisstjórn hans Tyrkjaveldi stríð á hendur og lagði Líbýu undir sig. Innrásin og innlimum Líbýu í kjölfarið var vatn á myllu þjóðernissinna en kom sér ekki endilega vel fyrir Giolitti sjálfan. Fyrri heimsstyrjöldin. Skömmu fyrir upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar stóð Ítalía frammi fyrir ýmsum vandamálum á alþjóðavettvangi. Bandalagið við Prússa skapaði andúð hjá Frökkum og vegna nýlendustefnu þeirra í Afríku lenti ríkið upp á kant við bæði Bretland og Þýskaland sem litu á Ítalíu sem keppinaut og hugsanlega ógnun. Að auki keppti Ítalía við Grikkland um yfirráð á Miðjarðarhafinu: bæði ríkin höfðu hugsað sér að innlima Albaníu og Ítalir höfðu lagt undir sig grískumælandi eyjarnar Dodecanese og Ródos sem áður voru undir Tyrkjaveldi milli 1912 og 1914. Innanlands var líka pólitískur óstöðugleiki. Ríkisstjórnin reyndi að fá stuðning hægrimanna og þjóðernissinna, en jafnaðarmenn voru mjög á móti þátttöku í stríði. Ýmsar fylkingar vinstrimanna stóðu fyrir mótmælum, skyndiverkföllum, borgaralegri óhlýðni og jafnvel skemmdarverkum, í mótmælaskyni. Þjóðernissinnaðir fylgismenn þátttöku og vinstrisinnaðir andstæðingar þátttöku börðust á götum úti og blóðug uppþot áttu sér stað í helstu borgum landsins. Þjóðskáldið Gabriele D'Annunzio og ritstjórinn Benito Mussolini hvöttu eindregið til stríðs gegn Austurríki til að endurheimta ítölskumælandi héruðin Trentó og Tríeste. Ítalskur hermaður býst til að henda handsprengju úr skotbyrgi. Herför Ítala gegn Austurríki gekk hörmulega í fyrstu. Þrátt fyrir að vera með mjög dreifðan herstyrk á Balkanskaga tókst Austurríkismönnum að reka ítalska herinn langt inn fyrir landamærin allt suður til Veróna og Padúu. Haustið 1917 sömdu Þjóðverjar frið við Sovétríkin og sameinaðir herir Þjóðverja og Austurríkismanna sóttu gegn Ítalíu. Við Piave tókst hernum að stöðva framrás innrásarherjanna og Ítalir unnu mikilvæga sigra í orrustunni við Asiago og orrustunni við Vittorio Veneto. Stríðinu lauk með vopnahléi 11. nóvember 1918. Versalasamningarnir urðu Ítölum sár vonbrigði. Þótt þeir fengju héruð í norðausturhlutanum þá fengu þeir ekki kröfum sínum framgengt um innlimum Dalmatíu og Albaníu þar sem Woodrow Wilson beitti fyrir sig hugmyndinni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Að auki ákváðu Bretar og Frakkar að skipta nýlendum Þjóðverja milli sín og Ítalía fékk enga þeirra. Samningarnir ollu gríðarlegri óánægju á Ítalíu þar sem stjórnmálaástandið var þegar eldfimt þegar erfiðleikarnir eftir stríð komu í ljós, uppgjafarhermenn sneru aftur, margir örkumlaðir, og efnahagsþrengingar brustu á. Fasisminn. 23. mars 1919 stofnaði Mussolini hreyfinguna "Fasci italiani di combattimento" í Mílanó. Stofnunin fór fram undir verndarvæng þekkts iðnjöfurs, Cesare Goldmann, sem áður hafði fjármagnað útgáfu blaðs Mussolinis. Hlutverk þessara fyrstu „bardagaknippa“ var enda að aðstoða iðnrekendur í baráttu gegn aðgerðum jafnaðarmanna. Meðal þeirra sem voru viðstaddir stofnunina var flugmaðurinn Italo Balbo. Einkennisfatnaður þessara fyrstu fasista voru svartar skyrtur. Ofbeldi fasista fór vaxandi samfara vaxandi andstöðu jafnaðarmanna við ríkisstjórn Giolittis frá 1920. Fyrir kosningarnar 1921 ákvað Giolitti að taka nokkra fasista með á kosningalista sinn. Eftir kosningarnar náði hann ekki að mynda meirihluta og bauð því fasistum að taka þátt í ríkisstjórn en þeir höfnuðu því og gerðu bandalag við jafnaðarmenn til að fella stjórnina. 1922 var allsherjarverkfall sem lamaði allt samfélagið. Mussolini nýtti þetta tækifæri og krafðist pólitískra valda ella myndi hann gera stjórnarbyltingu. Þegar ekkert svar kom hóf hann Rómargönguna í lok október sem lyktaði með valdatöku fasista þegar Viktor Emmanúel 3. lét Mussolini fá stjórnarmyndunarumboð. Fyrsta ríkisstjórn Mussolinis var samsteypustjórn þjóðernissinna, frjálslyndra og kristilegra fylkinga. Eftir morðið á sósíalíska þingmanninum Giacomo Matteotti 10. júní 1924 varð stjórnin í vaxandi mæli einræðisstjórn fasista og með frægri ræðu í janúar 1925 lýsti Mussolini yfir flokksræði í reynd. Ríkið tók yfir stjórn stærstu iðnfyrirtækja, bjó til ríkisrekin verkalýðsfélög og notaði lögregluna til að berja niður andstöðu. Efnahagsstjórn fasista fólst í að hindra innflutning og koma á innlendri framleiðslu á öllum nauðsynjavörum. Með þessum hætti tókst Ítalíu að komast hjá verstu afleiðingum heimskreppunnar. 1929 gerði stjórnin Lateransamningana við Páfaríkið sem fól í sér viðurkenningu ítalska ríkisins af hálfu páfa og afmörkun Vatíkansins sem borgríkis í Róm. 1935 réðust Ítalir svo inn í Eþíópíu. Abbyssiníudeilan olli því að alþjóðasamfélagið beitti landið viðskiptaþvingunum. Fyrsta löggjöfin sem útilokaði gyðinga frá opinberu lífi var samþykkt 1938 en þrátt fyrir gyðingaofsóknir og löggjöf sem byggði á kynþáttahyggju reyndi fasistastjórnin ekki að útrýma gyðingum á Ítalíu með markvissum hætti líkt og Þýskalandi Hitlers. Um 8000 ítalskir gyðingar létust samt í útrýmingarbúðum nasista. Þeir voru fluttir þangað bæði á vegum ítalskra stjórnvalda, eftir þrýsting frá nasistum, og eins af þýska hernámsliðinu eftir 1943. Síðari heimsstyrjöldin. Í lok 4. áratugarins gerði Ítalía hernaðarbandalag við Þýskaland (Stálbandalagið) og var eitt af Öxulveldunum í upphafi Síðari heimsstyrjaldar. Ítalir hófu formlega þátttöku í stríðinu með illa undirbúinni innrás í Frakkland 10. júní 1940. Ítalir náðu, þrátt fyrir töluvert mannfall, að leggja undir sig nokkur frönsk héruð sem þeir héldu til 1943. Átökum við Breta í Norður- og Austur-Afríku lyktaði með fullkomnum ósigri og missi allra nýlendna Ítalíu í Austur-Afríku. Ítölum gekk betur á Balkanskaganum til að byrja með. Mussolini nýtti tækifærið þegar Hitler réðist á Tékkóslóvakíu og Pólland og lagði Albaníu undir sig í apríl 1939. Í október hóf ítalski herinn innrás í Grikkland. Sú hernaðaraðgerð mistókst gersamlega og gríski herinn hrakti Ítali aftur til Albaníu. 6. apríl 1941 hóf Þýskaland árás á Júgóslavíu og Grikkland með stuðningi Ítala. Brátt gáfust bæði löndin upp og Ítalir tóku við stjórninni í Grikklandi. Vorið 1941 hafði Ítalía innlimað strönd Dalmatíu og komið á leppstjórn í Svartfjallalandi. Bandarískur skriðdreki á Sikiley 1943. 1942 yfirgaf stríðsgæfan Ítali með afgerandi hætti. Eftir orrustuna við El Alamein var her Öxulveldanna hrakinn frá Túnis og Líbýu og 10. júlí 1943 gerðu Bandamenn innrás á Sikiley. Missir eyjarinnar og loftárásir á Róm urðu til þess að stuðningur við þátttöku í styrjöldinni snarminnkaði meðal almennings á Ítalíu. 25. júlí var Mussolini steypt af stóli af Fasistaráðinu í Róm. Ný ríkisstjórn tók við undir forsæti Badoglios hershöfðingja og hóf leynilegar samningaviðræður við Bandamenn. Í september hófu hersveitir Bandamanna landgöngu á Ítalíuskaganum og 8. september var tilkynnt vopnahlé. Um leið tóku Þjóðverjar ítalska hermenn höndum, afvopnuðu þá, og tóku yfir stjórn þeirra svæða sem Ítalía hélt hernámi á Balkanskaganum og í Frakklandi. Þýski herinn frelsaði Mussolini, sem var í haldi Bandamanna, og flutti hann til Norður-Ítalíu þar sem hann stofnaði Saló-lýðveldið sem var leppríki Þjóðverja. Þangað söfnuðust þeir sem enn voru trúir fasistastjórninni og börðust gegn sókn Bandamanna úr suðri með aðstoð þýska hersins. Um alla Norður-Ítalíu fór fram skæruhernaður milli herflokka fasista og þjóðverja og andspyrnumanna sem lauk ekki fyrr en með vorsókn Bandamanna inn á Pósléttuna 1945. Mussolini var drepinn af andspyrnumönnum 28. apríl 1945. Lýðveldið Ítalía. Þegar bardögum lauk sumarið 1945 kom í ljós að Ítalía var mjög illa farin eftir herfarir Þjóðverja og Bandamanna. Að auki var stjórnskipan ríkisins í uppnámi eftir afnám tveggja áratuga flokkræðis fasista og efnahagurinn í rúst eftir dýran stríðsrekstur. Konungurinn, Viktor Emmanúel 3., var gríðarlega óvinsæll, bæði vegna þess að hann var talinn bera ábyrgð á valdatöku fasista og eins vegna þess að hann hafði flúið frá Róm þegar þýski herinn lagði borgina undir sig um stutt skeið 1944. 1946 sagði hann af sér og sonur hans Úmbertó 2. tók við. Hann ríkti í 40 daga þar til ákveðið var með þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja konungdæmið niður og stofna lýðveldi. Um leið var kosið til stjórnlagaþings sem hafði það verkefni að semja nýja stjórnarskrá. Alcide De Gasperi á vesturþýsku frímerki frá 1968. Stærstu flokkarnir á stjórnlagaþinginu voru kristilegir demókratar (sem var langstærstur) ítalski sósíalistaflokkurinn og ítalski kommúnistaflokkurinn sem tóku allir þátt í þjóðstjórn undir stjórn Alcide De Gasperi, stofnanda kristilega demókrataflokksins. Eftir ferð til Bandaríkjanna 1947 þar sem hann náði að tryggja Ítölum efnahagsaðstoð, myndaði hann nýja ríkisstjórn án þátttöku sósíalista og kommúnista. Í þingkosningunum 1948, í skugga hins yfirvofandi kalda stríðs, unnu kristilegir demókratar yfirburðasigur með 48,5% atkvæða. 1949 gerðist Ítalía stofnaðili að NATO og á 6. áratugnum fékk landið Marshallaðstoð og gerðist aðili að Evrópubandalaginu. Ítalska efnahagsundrið. Gríðarlegur uppgangur var í ítalska efnahagslífinu undir lok 6. áratugarins. Laun hækkuðu um 6,4%, 5,8%, 6,8% og 6,1% á árunum 1959, 1960, 1961 og 1962. Ört vaxandi heimsmarkaður fyrir framleiðsluvörur átti stóran þátt í vexti efnahagslífsins og endalok efnahagslegrar verndarstefnu fasistastjórnarinnar bjuggu til kjöraðstæður fyrir eflingu fyrirtækja og markaða. Iðnframleiðsla óx að meðaltali um 31,4% frá 1957 til 1960 og vöxturinn var mestur í þeim greinum þar sem stórfyrirtæki voru ráðandi eins og í bílaframleiðslu, fínsmíði og framleiðslu vefnaðarvöru úr gerviefnum. Á sama tíma áttu sér stað gríðarlegir fólksflutningar, aðallega ungs fólks, frá hinum fátæku landbúnaðarhéruðum Suður-Ítalíu til Norður-Ítalíu. Tákn efnahagsuppgangsins voru nýbyggð blokkarhverfi í úthverfum borga Norður-Ítalíu og litlir fólksbílar eins og Fiat 500 og Fiat 600 sem verkafólk hafði nú í fyrsta sinn efni á að eignast. Þessir bílar táknuðu ekki síst aukið frelsi samfara auknum kaupmætti almennings. Meiri bílaumferð kallaði á nýjar hraðbrautir, eins og Autostrada del Sole milli Mílanó og Napólí sem var vígð 4. október 1964. Vinstri-miðjustjórnirnar. Í upphafi 7. áratugarins fóru kristilegir demókratar að leita eftir samstarfi við jafnaðarmenn, aðallega til þess að koma á félagslegum umbótum fyrir lágstéttirnar og lægri millistéttirnar sem þeir óttuðust að myndu annars fylla raðir kommúnista. Atvinnudeilur voru tíðar í upphafi áratugarins, verkafólk vann langan vinnudag og kröfur um betri aðbúnað urðu háværari í takt við aukna velmegun. Fyrst í langri röð vinstri-miðjustjórna var ríkisstjórn Aldo Moro 1963 með þátttöku hinna hefðbundnu miðjuflokka og ítalska sósíalistaflokksins. Sósíalistaflokkurinn margklofnaði á þessum tíma um leið og stærsta stjórnarandstöðuaflið, ítalski kommúnistaflokkurinn, missti hinn vinsæla leiðtoga sinn, Palmiro Togliatti, sem verið hafði aðalritari flokksins frá 1927. Blýárin. Ljósmynd sem ræningjar Aldo Moro sendu frá sér. Stúdentaóeirðirnar undir lok 7. áratugarins juku enn á óstöðugleikann á vinstri væng stjórnmálanna og upp spratt mikill fjöldi róttækra stjórnmálahreyfinga sem voru í andstöðu við hinn íhaldssama kommúnistaflokk. 12. desember 1969 sprakk sprengja á Piazza Fontana í Mílanó með þeim afleiðingum að sautján dóu. Sama dag sprungu fjórar aðrar sprengjur í Mílanó og Róm. Þessi hryðjuverk mörkuðu upphaf blýáranna sem stóðu allan 8. áratuginn. Blýárin einkenndust af hryðjuverkum og vopnuðum átökum róttækra hópa á hægri og vinstri væng stjórnmálanna. Hvorir um sig reyndu markvisst að skapa ótta meðal almennings við andstæðinginn, stjórnvöld eða sjálfa sig með aðgerðum sínum. Enn ríkir mikil óvissa um það hverjir stóðu fyrir tilteknum árásum og í hvaða pólitíska tilgangi, því yfirlýstur tilgangur var oft aðeins ætlaður til þess að koma sökinni yfir á andstæðingana. Árið 1978 var fyrrum forsætisráðherra kristilegra demókrata, Aldo Moro, rænt af Rauðu herdeildunum fyrir það að hann hugðist koma á sögulegum sáttum með þátttöku ítalska kommúnistaflokksins í ríkisstjórn undir forsæti demókrata. Sundurskotið lík hans fannst í farangursgeymslu bifreiðar sem lagt hafði verið miðja vegu milli flokksskrifstofa demókrata og kommúnista í Róm. Síðasta tilræðið sem kennt er við þennan tíma var blóðbaðið í Bologna 1980 sem talið er að ungir hægriöfgamenn hafi staðið að. Baráttan við mafíuna. Fáni með mynd rannsóknardómaranna Falcone og Borsellino sem voru myrtir af mafíunni 1992. Á stríðsárunum óx sikileysku mafíunni fiskur um hrygg og bandaríska og breska hernámsliðið litu jafnvel á þá sem mikilvægan hlekk í baráttunni gegn kommúnistum. Í kjölfar stríðsins högnuðust skipulögð glæpasamtök gríðarlega á smygli og á tímum efnahagsuppgangsins urðu þau stærri og skipulögðu aðgerðir um allan heim. Í upphafi 7. áratugarins átti fyrsta mafíustríðið sér stað vegna átaka um yfirráð yfir heróínmarkaðnum. Í kjölfar þess var mafíuþingnefndin stofnuð til að berjast gegn starfseminni. Undir lok 8. áratugarins braust annað mafíustríðið út milli Corleonefjölskyldunnar og gömlu mafíufjölskyldnanna í Palermó. Meira en þúsund manns voru myrtir og á endanum stóð höfuð Corleonefjölskyldunnar, Salvatore Riina, uppi sem sigurvegari. Sérstök deild ríkissaksóknara, sem taldi meðal annars Giovanni Falcone og Paolo Borsellino, vann að því að takast á við mafíuna í heild. Þessi viðleitni var undirbúningur að stórréttarhöldunum 1986/1987 þegar mörg hundruð manns voru dregin fyrir rétt fyrir þátttöku í mafíustarfsemi. Saksóknari nýtti sér einkum framburð glæpaforingjanna sjálfra ("pentiti") eins og Salvatore Contorno og Tommaso Buscetta gegn Corleonefjölskyldunni. Réttarhöldin leiddu til fjölda sakfellinga en í reynd þurftu fáir að þola refsingar. Margir voru drepnir í kjölfarið og 1992 voru Falcone og Borsellino myrtir með stuttu millibili. Engu að síður gáfu réttarhöldin vísbendingu um að mafían væri ekki ósigrandi. Smám saman tókst að vinda ofan af fjárhag samtakanna með alþjóðlegu lögreglusamstarfi og um miðjan 10. áratuginn var sikileyska mafían talin vera nánast gjaldþrota. Mani pulite. Í upphafi 10. áratugarins hóf vinstri-miðjustjórn undir forystu sósíalistans Craxis einkavæðingarferli í kjölfar fyrstu umferðar innleiðingar Efnahags- og myntbandalags Evrópu sem hófst 1. júlí 1990 með því að allar hömlur á frjálst flæði fjármagns milli landa bandalagsins skyldu afnumdar. 1992 var gengi lírunnar fellt í kjölfar fjármálakreppu og hún datt við það út úr peningakerfi Evrópu. Kreppan stafaði meðal annars af vaxandi skuldum hins opinbera sem höfðu vaxið gríðarlega frá miðjum 9. áratugnum. Á sama tíma hóf hópur rannsóknardómara í Mílanó rannsókn á spillingu meðal flokksgæðinga stjórnarflokkanna og mútugreiðslur frá iðnjöfrum og mafíunni. Spillingarrannsóknin vatt upp á sig og leiddi í ljós víðtækt kerfi spillingar í ítalska stjórnkerfinu og innan stjórnmálaflokkanna. Verst úti urðu stjórnarflokkarnir tveir, kristilegir demókratar og sósíalistar. Báðir hurfu þeir af sjónarsviðinu í kjölfarið. Með því lauk samfelldum valdatíma kristilegra demókrata í ítölskum stjórnmálum frá stríðslokum. Berlusconi fer fyrir skrúðgöngu í Róm árið 2002. Fyrir þingkosningar 1994 stofnaði þekktur athafnamaður frá Mílanó, Silvio Berlusconi, hægriflokkinn "Forza Italia". Flokkurinn náði að mynda ríkisstjórn með stuðningi Þjóðarbandalagsins ("Alleanza Nazionale") arftaka Þjóðernishreyfingar Ítalíu, arftaka ítalska fasistaflokksins, og Norðurbandalagsins ("Lega Nord") sem hafði meðal annars á stefnuskrá sinni að skilja Norður-Ítalíu frá Mið- og Suður-Ítalíu. Ríkisstjórnin sat aðeins í rúma átta mánuði en með henni var komið fordæmi fyrir eins konar tveggja fylkinga kerfi þar sem kosningabandalag hægriflokka fer gegn kosningabandalagi vinstriflokka í kosningum. Fylkingarnar hafa síðan skipst á að mynda stjórn. Árið 2001 tókst Berlusconi að mynda langlífustu ríkisstjórn Ítalíu frá upphafi. Hann sat sem forsætisráðherra til 2006 þegar Einingarbandalagið vann nauman sigur á Húsi frelsisins í kosningum og Romano Prodi myndaði ríkisstjórn vinstri- og miðjuflokka með mjög naumum meirihluta. Sú ríkisstjórn féll í febrúar 2008. Evran og vaxtaverkir efnahagslífsins. Ítalía var þátttakandi í myntbandalagi Evrópu og tók upp evru sem gjaldmiðil árið 2002. Almennt séð hefur Evrópusamstarfið skapað forsendur fyrir aukinn efnahagslegan stöðugleika þrátt fyrir pólitískan óstöðugleika. Frá árinu 2000 hefur atvinnuástand á Ítalíu batnað, meðal annars vegna sveigjanlegri starfssamninga sem hægriflokkarnir lögleiddu þrátt fyrir andstöðu verkalýðsfélaganna. Lág laun eru ennþá algeng um leið og verðlag hefur nánast tvöfaldast um alla Ítalíu frá því evran var tekin upp. Ítalska ríkið glímir við vandamál sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi og vaxandi átök og óeirðir sem stafa af upplifun almennings af innflytjendum frá Kína, Albaníu, Rúmeníu og Norður-Afríku auk ótta við hryðjuverk. Ítalskt efnahagslíf stendur sterkt í ýmsum greinum eftir að hafa staðið af sér samkeppni frá Asíu í útflutningi framleiðsluvara, en það þarf líka að glíma við afleiðingar verðhækkana og krafna um hærri laun. Maðurinn með ljáinn. Dauðinn án kufls, en auðvitað með ljá Maðurinn með ljáinn (stundum kallaður Dauðinn) er vofa í þjóðtrú og skáldsögum, sem sagt er að komi og sæki þann sem feigur er þegar hann deyr. Ýmsir myndlistarmenn sýna dauðann sem beinagrind í svörtum kufli og með ljá. Hallgrímur Pétursson, sálmaskáld kallaði hann "sláttumanninn slynga". Upsakirkja. Upsakapella. Forkirkja síðustu kirkjunnar á Upsum. Upsir í Svarfaðardal eru landnámsjörð og líklega hefur kirkja verið reist þar fljótlega eftir kristnitöku. Fyrstu heimildir um kirkjuna eru í Prestssögu Guðmundar Arasonar, en hann var prestur á Upsum skamman tíma 1196. Upsakirkja var lögð af er Dalvíkurkirkja var reist og síðan var hún rifin. Þó stendur gamla forkirkjan enn í kirkjugarðinum miðjum og kallast Upsakapella. Kirkjan var reist eftir Kirkjurokið mikla aldamótaárið 1900. Kirkjan sem áður stóð á Upsum var reist 1853, þetta var timburkirkja en fyrrum var torfkirkja á staðnum. Tveimur árum síðar fengu menn reynslu af því timburhúsum var hættara í hvassviðri en gömlu torfhúsunum því þá fauk þessi nýja kirkja af grunni sínum og stórskemmdist. Hún var þó endurreist og stóð óhögguð þar til Kirkjurokið reið yfir þann 20. september árið 1900. Þá lyftist hún af grunni sínum á ný og brotnaði í spón úti á túni og munir hennar margir stórskemmdust. Þeirra á meðal voru margir kjörgripir t.d. Upsakristur sem er forn róðukross úr kaþólskum sið, merkileg altaristafla frá 18. öld eftir Hallgrím Jónsson, einn merkasta myndlistarmann sinnar tíðar, og nýleg altaristafla máluð af Arngrími málara. Mynd Arngríms eyðilagðist með öllu en Upsakristur og altaristafla Hallgríms og fleiri munir voru seldir Forngripasafninu í Reykjavík til fjáröflunar fyrir nýja kirkju. Fengust 31 kr. fyrir, sem virðist furðulega lág upphæð því nú teljast þessir gripir þjóðargersemar. Ný kirkja var síðan reist á sama stað og sú gamla stóð á. Hún var vígð haustið 1903. Orgel kom í kirkjuna 1916 eða 1917. Haustið 1931 laskaðist kirkjan í vestanroki og færðist af grunninum, kom þá mjög til tals að reisa nýja og stærri kirkju fyrir hið vaxandi byggðarlag á Dalvík. Það varð þó ekki um sinn heldur var gert við kirkjuna, en árið 1954 var hún formlega lögð niður sem sóknarkirkja enda var þá hin nýja Dalvíkurkirkja í smíðum. Þar með lauk meira en 800 ára sögu þessa kirkjustaðar. Eins og fram kemur í upphafi greinarinnar hefur Upsakirkja nú verið rifin að mestu. Í Svarfaðardal standa hins vegar enn Vallakirkja, Urðakirkja og Tjarnarkirkja. Byggingarlag allra fjögurra kirknanna er sérsvarfdælskt sem felst í því að kirkju”turninn” er lægri en sjálf kirkjan og gefur það kirkjunum sérstakt yfirbragð. Dæmi um kirkjur með lágreista kirkju"turna" er þó að finna víðar, m.a. er Bægisárkirkja í Möðruvallaprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi með lágreistan turn. Upsaprestakall var lagt niður árið 1859 og sóknin varð hluti af Tjarnarprestakalli. Síðan var Tjarnarprestakall lagt niður 1917 og allar sóknir Svarfaðardals settar undir einn prest. Hann sat fyrst í stað á Völlum en er nú á Dalvík og er Upsasókn nú hluti af Dalvíkurprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Síðasti prestur á Upsum var sr. Baldvin Þorsteinsson en hann þjónaði kallinu til dauðadags, 1859. Sr. Baldvin var einn fjögurra bræðra sem allir voru prestar við Eyjafjörð á fyrri hluta 19. aldar. Hinir voru Hallgrímur Þorsteinsson á Hrauni, Stefán Þorsteinsson á Völlum og Kristján Þorsteinsson sem þjónaði víða m.a. á Tjörn. Ötzi. Ötzi, stundum þekktur sem "ísmaðurinn Ötzi", er frosin múmía sem fannst í Ítölsku Ölpunum árið 1991 af tveimur Þjóðverjum. Frosni maðurinn sem fannst, er talinn vera um það bil 5.300 ára gamall. Hann var með allskonar hluti á sér, t.d. skó og föt búin til úr leðri, hníf, exi sem búin var til úr kopar, boga og margt fleira. Ötzi er talinn hafa verið 1,65 metri á hæð, um 50 kg og um 45 ára þegar hann lést. Lumma. Lumma eða klatti er lítil, íslensk pönnukaka en lummur eru oftast hafðar mun þykkari en venjulegar pönnukökur. Þær voru eitthvert algengasta bakkelsið áður fyrr, einkum áður en ofnar urðu algengir, og virðast vera það pönnusteikta kaffibrauð sem fyrst kemur til sögunnar hérlendis og er fyrst getið um þær á 18 öld. Lummur með sírópi eða sykri voru með helstu veitingum í veislum á 19. öld og bornar fram á ýmsum stigum eins og sjá má í lýsingu á brúðkaupsveislum á Hornströndum frá síðari hluta aldarinnar: „... um morguninn fyrsta veizludaginn fá boðsmenn kaffi, lummur og brennivín nokkru seinna er morgunverður borinn á borð,»smurt«brauð og brennivín; þá er sunginn borðsálmur. Önnur máltíð um miðjan dag er steik, kaffi og lummur.“. Í lýsingu á brúðkaupsveislum í Skagafirði nokkru fyrr segir: „Hinn venjulegi veizlumatur var bankabyggsgrautur með sýrópsmjólk út á, hangikjöt og bankabyggslummur, og nóg í staupinu, helzt brennivín.“ Einnig voru lummur eitt helsta jólabakkelsið á langflestum heimilum: „Aðfangadagsmorgun var byrjað að baka lummurnar. Það var dregið til lengstra laga, svo þær væru sem nýjastar, helst heitar. Þótti það ilt verk að baka lummur, því heldur vildi þeim súrna í augum,sem að því störfuðu.“ Á ríkari heimilum voru lummur bakaðar úr hveiti og það er yfirleitt gert nú en algengast var á 19. öld að þær væru úr fínmöluðu byggi. Einnig voru oft notaðir grautarafgangar í þær, áður bygggrautur en núna yfirleitt grjónagrautur, og kallast slíkar lummur "grautarlummur". Í riti Lærdómslistafélagsins 1781 segir frá því að Skaftfellingar geri lummur úr mjöli möluðu úr melgresi. Lumma getur haft bæði jákvæða og neikvæða merkingu í orðtökum. Sagt er að eitthvað sem er mjög vinsælt renni út eða seljist eins og heitar lummur en það sem er ofnotað og útþvælt er oft kallað gömul lumma eða sagt vera lummulegt (lummó). Lumma hefur líka orðið gælunafn á Íslandi fyrir munntóbak. Kimmería. Kimmería var lítil heimsálfa sem var til fyrir u.þ.b. 200 milljón árum. Hún rifnaði frá Gondvana seint á kolatímabilinu og rakst á Laurentíu (Síberíu) á síð-Tertíertímabilinu ásamt kínversku heimsálfunum. Áreksturinn myndaði fellingafjöll á milli Síberíu og Kimmeríu. Kergueleneyjar. Kergueleneyjar eru eyjaklasi í Indlandshafi sem situr á Kerguelenhásléttunni. Arabískar tölur. Arabískar tölur eða arabískir tölustafir eru algengustu tölustafir í heiminum. Fundnir upp á Indlandi, en bárust til vesturlana með aröbum. Eru tugur talsnins: 0, 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8 og 9. Allar tölur tugakerfis eru myndaðar úr þeim. Bodomsvatn. Bodomsvatn (finnska: "Bodominjärvi", sænska: "Bodom Träsk") er vatn rétt hjá borginni Espoo í Finnlandi, og er staðsett 22 kílómetrum vestan við höfuðborgina Helsinki. Vatnið er 3 kílómetra langt og er 1 kílómetra breitt. Melódíska dauðarokks hljómsveitin Children of Bodom er nefnd eftir morðunum við Bodomsvatn, og er til lag með þeim sem heitir "Lake Bodom", sem þýðir "Bodomsvatn". Fóstureyðingar á Íslandi. Fóstureyðingar hafa verið löglegar á Íslandi við sérstakar aðstæður frá 11. júní 1975 þegar lög varðandi kynlíf og barneignir tóku gildi. Saga. Samkvæmt ákvæðum hegningarlaga frá 1868 varðaði það móðurina og hlutdeildarmenn hennar allt að 8 ára hegningarvinnu að eyða burði. Árið 1935 voru sett lög sem heimiluðu fóstureyðingar af læknisfræðilegum ástæðum og 1938 var bætt við ákvæði sem heimilaði eyðinguna ef barnið kom undir við nauðgun eða sifjaspell, eða ef hætta þótti á vansköpun fósturs. Árið 1975 voru núverandi lög sett sem víkkuðu heimild til fóstureyðinga en gerðu hana ekki valfrjálsa að ósk móður. Rovaniemi. Rovaniemi er borg í norður Finnlandi, staðsett í Lapplandi. Íbúarnir eru um það bil 60.000, dreifðir yfir 8016 km² svæði, en flestir búa í borginni sjálfri. Hún er stærsta borg Lapplands. Rovaniemi er staðsett rétt fyrir norðan norðurheimskautsbauginn. Nyrsti háskóli Finnlands er staðsettur í Rovaniemi og eru 16.6%, eða 10.000 íbúar af heildaríbúafjölda Rovaniemi, nemendur. Fríiðnaðarsvæði. Fríiðnaðarsvæði (e. "free trade zone" eða "export processing zone") eru afmörkuð landsvæði innan ríkja þar sem slakað er á höftum á viðskiptafrelsi eins og tollum, sköttum eða takmörkunum á innflutningi. Jafnframt er, í reynd, slakað á kröfum um öryggi á vinnustað, umhverfisvernd og réttindi vinnufólks. Tilgangurinn er að laða að erlenda fjárfesta og er stofnun fríiðnaðarsvæða réttlætt sem meðal sem mun á endanum stuðla að þróun. Þróunarríki eru langsamlega í meirihluta þeirra ríkja sem hafa stofnað fríiðnaðarsvæði. Fríiðnaðarsvæði eru gjarnan þyrpingar af verksmiðjum þangað sem hráefni er flutt og það unnið áður en það er flutt út, jafn óðum og fullunnin varan er tilbúin. Vinnuveitendur á þessum svæðum eru oft verktakar alþjóðlegra stórfyrirtækja sem hafa fengið verkin í gegnum útvistun. Fríiðnaðarsvæði á Íslandi. Á Íslandi eru engin fríiðnaðarsvæði sem stendur. Þó hafa verið umræður um stofnun slíks svæðið við Keflavíkurflugvöll. Þingsályktunartillögur um athugun á hagkvæmni þess að stofna slíkt svæði voru fluttar sex ár í röð á Alþingi, frá 1979-1984 án þess að vera samþykktar. Árið 1984 flutti þáverandi þingmaður Alþýðuflokksins, Karl Steinar Guðnason, tillöguna. Þetta var liður í alhliða uppbyggingarátaki í atvinnumálum á Suðurnesjum. Í þingsályktunartillögunni kom fram að aðstæður á Suðurnesjum væru hagstæðar, þar væri gott aðgengi að orku og hráefni en tækni- og verkkunnáttu væri ábótavant. Bent var á að í Shannon á Írlandi væri búið að koma á fót fríiðnaðarsvæði við sambærilegar aðstæður. Byggðastofnun lauk skýrslu um fýsileika þess að koma á fót fríiðnaðarsvæði á Suðurnesjum árið 1987 en ekkert var aðhafst í framhaldinu. Talið var að Ísland væri ekki nægilega samkeppnishæft, vinnuafl væri of dýrt þannig að til þess að laða að fyrirtæki þyrfti að umbuna þeim of mikið með alls kyns skattafríðindi. Arthur C. Clarke. Arthur Charles Clarke (fæddur 16. desember 1917 í Minehead á Englandi, látinn 19. mars 2008 í Colombo á Srí Lanka) var breskur rithöfundur og uppfinningamaður. Hann er þekktastur fyrir að hafa skrifað bókina ' árið 1968. Lahti. Lahti (sænska: "Lahtis") er borg í suður Finnlandi, staðsett 104 kílómetrum norðan við höfuðborgina Helsinki. Íbúafjöldi borgarinnar er um það bil 100.000, og stærðin á henni er 154,6 km². Afró-Evrasía. Afró-Evrasía, sjaldnar nefnd Afrasía eða Evrafrasía eru orð sem eru notuð til að lýsa landmassa Evrasíu og Afríku sem einu meginlandi. Á þessu landsvæði búa um 85% af jarðarbúum (um 5,7 milljarðar manns). Venjulega er landmassinn talinn skiptast í tvennt við Súesskurðinn í Evrasíu annars vegar og Afríku hins vegar, en fyrrnefndi landmassinn skiptist í Evrópu annars vegar og Asíu hins vegar. Einnig er hægt að skipta Afró-Evrasíu í Evrasíu-Norður-Afríku og Afríku sunnan Sahara af menningarlegum ástæðum. Jarðfræðingar telja að Afró-Evrasía verði að risameginlandi þegar Afríka sameinast Evrópu. Talið er að þetta muni gerast á næstu 600.000 árum en þá mun syðsti tangi Spánar snerta Afríku. Þegar það gerist lokast Miðjarðarhafið af frá Atlantshafi og verður að stærsta stöðuvatni heims. Þá er talið að meginlönd Afríku og Evrópu nái alveg saman á næstu 50 milljónum ára þannig að Miðjarðarhafi hverfi en í staðinn myndist nýir fjallgarðar á mótum meginlandann, líkt og Himalajafjöllin í Asíu. Lahti L-35. Lahti L-35 er finnsk hálfsjálfvirk skammbyssa, framleidd af skotvopnafyrirtækinu Aimo Lahti. Hún var hönnuð árið 1935 og var notuð af finnska hernum í Seinni heimsstyrjöldinni og í Vetrarstríðinu. Hún var hliðarvopn finnska hersins þangað til árið 1980 þegar hann skipti niður í Browning BDA. Lahti L-35 var gerð í 9000 eintökum. Lengd skammbyssunar er 245 mm, þyngdin er 1.2 kíló og hún notar 9 x 19 mm skot. Husqvarna m/40. Svíar bjuggu til sína eigin gerð af Lahti L-35, undir nafninu "Husqvarna m/40", með leyfi frá Finnum. Hún var gerð fyrir sænska herinn og var búinn til í 100.000 eintökum á árunum 1940 - 1946, á meðan Finnar bjuggu aðeins til sínar í 9000 eintökum. Husqvarna m/40 var hliðarvopn sænska hersins þangað til árið 1988 þegar hann skipti í sína eigin gerð af Glock 17, með sitt nafn; "Pistol 88". Þeir gerðu líka sína eigin gerð af Glock 19 fyrir sænska flugherinn, sem heitir "Pistol 88B". C-dúr. C-dúr er dúrtóntegund byggð á grunntóninum C. C-dúr hefur engin föst formerki og er tónstiginn spilaður á hvítu nótunum á píanói á milli C og C áttund ofar. C-dúrtónstiginn inniheldur sömu nótur og jóníska kirkjutóntegundin í sömu röð. C-moll. C-moll er molltóntegund með frumtóninn C. Í hreinum c-moll eru þrjár lækkaðar nótur, B, Es og As, svo að föst formerki hans eru þrjú lækkunarmerki (♭). Germanir. Germanir voru germönskumælandi þjóðir sem komu frá Norður-Evrópu. Tungumál þeirra þróuðust út frá frumgermönsku á tímum Jarstorfmenningarinnar á síðustu fimm öldunum fyrir Krist. Arftakar þeirra voru norðurevrópsku þjóðirnar Danir, Norðmenn, Íslendingar, Svíar, Hollendingar og Flæmingjar, Þjóðverjar og Englendingar. Á þjóðflutningatímanum milli síðfornaldar og ármiðalda breiddust þessar þjóðir út um Evrópu og germönsk mál urðu ríkjandi meðfram landamærum Rómaveldis þar sem nú eru Austurríki, Þýskaland, Holland og England, en annars staðar í rómversku skattlöndunum tóku Germanir upp rómönsk mál. Allar germönsku þjóðirnar voru kristnaðar með einum eða öðrum hætti á fyrsta árþúsundinu eftir Krist. Þær áttu stóran þátt í falli Rómaveldis og upphafi miðalda. Mödling. Mödling er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 21 þúsund. Stanley. Stanley (áður Port Stanley) er höfuðborg Falklandseyja. Hún er á eynni Austur-Falklandi. Íbúar borgarinnar eru um 2000. 37. Árið 37 (XXXVII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. Sextugakerfi. Sextugakerfi er talnakerfi, með grunntöluna sextíu ("60"), fundið upp af Súmerum kringum 2000 f.Kr. og síðar einnig notað af Babýlóníumönnum. Kostir talnakerfisins er að talan "60" hefur 12 heiltöluþætti (1, 2, 3, 4, 5, 6, 10, 12, 15, 20, 30, 60) sem aðveldar útreikninga með brotum. Sextugakerfi er enn í notkun í bogamáli, en heill hringur er t.d. 360°. Talnakerfi. Talnakerfi er stærðfræðileg aðferð til að tákna tölur með endanlegum fjölda tölustafa. Í staðsetningatáknakerfi er notast við grunntölu, allar náttúrlegar tölur minni en grunntalan auk tölunnar núll. Aðrar tölur er síðan táknaðar sem summa af margfeldum grunntölunnar í heiltöluveldum. Algengast er tugakerfi með grunntölu tíu. Rómverskar tölur er ekki staðsetningatáknakerfi, enda var talan núll ekki notuð í því. Johnny Preston. Johnny Preston (fæddur John Preston Courville 18. ágúst 1939 í Port Author í Texas - látinn 4. mars 2011 Beaumont Texas) var bandarískur söngvari. Hann stofnaði rokksveitina "The Shades" og er þekktastur fyrir að hafa flutt lagið „Running Bear“ sem komst í efsta sæti vinsældalistanna í byrjum árs 1960. The Big Bopper samdi lagið en hann lést í flugslysi, ásamt Buddy Holly og Ritchie Valens, árið áður. Hann fór í hjartaaðgerð í desember 2010 en náði sér aldrei að fullu og lést á Baptistasjúkrahúsinu í Beaumont, Texas, 4. mars 2011. Persónuleg sögn. Persónuleg sögn er sögn sem lagar sig að því fallorði sem hún stendur með. Persónuleg sögn greinist í allar þrjár persónurnar, bæði í eintölu og fleirtölu. Ópersónuleg sögn. Ópersónuleg sögn (stundum einnig nefnt einpersónuleg sögn) er tegund sagnorða sem lagar sig ekki að því fallorði sem hún stendur með (þ.e.a.s. breytir aldrei um form). Ópersónuleg sögn er alltaf greind í þriðju persónu eintölu, frumlagsígildi sagnarinnar er ætíð í þolfalli (og kallast þá þolfallsfrumlag), þágufalli (og kallast þá þágufallsfrumlag) og örsjaldan í eignarfalli (og kallast þá eignarfallsfrumlag). Ópersónulegar sagnir búa yfir vissri rökfræði. Segjum sem svo að ísjaka reki vestur með landinu. Sögnin að reka er í þessu tilfelli ópersónuleg. Ekki er sagt: "ísjaki rak" o.s.frv. af þeirri einföldu ástæðu, að ísjakinn rak ekki nokkurn skapaðan hlut, hvorki aftur á bak né áfram. Hann var ekki gerandi þess verknaðar sem sögnin að reka felur í sér. Hann var þolandi verknaðarins, enda er ísjakinn í þolfalli. Það er m.ö.o. einhver ópersónulegur kraftur sem rak ísjakann (í þessu tilfelli líklega hafstraumur og/eða vindur) vestur með landinu. Af sömu ástæðu segjum við: "bátinn rak" (ekki báturinn) "að landi", "skýin bar" (ekki báru) "yfir bæinn", "mig" (ekki ég) "bar af réttri leið". Ópersónulegar sagnir sem taka ekki með sér frumlag kallast oft veðursagnir þar sem þær eru oft notaðar til að lýsa veðri (dæmi "nú birtir til", "í dag snjóar en í gær ringdi", "það frystir"). Fokker. Fokker var nafnið á hollenskum flugvélaframleiðanda, nefnt eftir stofnanda fyrirtækisins, Anthony Fokker. Fyrirtækið var upprunalega stofnað 12. febrúar 1912 í Þýskalandi áður en það fluttist um set árið 1919 til Hollands. Á þriðja og fjórða áratugnum blómstruðu viðskipti fyrirtækisins og var það leiðandi flugvélaframleiðandi á heimsvísu. Seinna tók að fjara undan og var það lýst gjaldþrota árið 1996. Seborgín. Seborgín, einnig nefnt seaborgín, er frumefni með efnatáknið Sg og er númer 106 í lotukerfinu. Farsímakerfi. Farsímakerfi eru fjarskiptakerfi, sem gera notkun farsíma mögulega. Til viðbótar við hefðbundna símaþjónustu geta sum farsímakerfi boðið upp á allhraða nettenginu með t.d. EDGE eða UMTS-tækni. Högun farsímakerfa. Algengustu farsímakerfi heimsins (GSM, NMT, UMTS, AMPS og fl.) byggja á sömu grunnhönnun varðandi dreifingu merkis, þ.e. sellu-högun. Sellu-högun gengur út að skipta landsvæði þar sem bjóða á farsímaþjónustu niður í litla bletti, eða sellur. Ein "sella" er það svæði sem eitt loftnet farsímasendisins á að þjóna. Þessi framkvæmd (að búta landsvæði niður í sellur) er kallað „cell planning“ (sjá hér aftar). Úr hverju loftneti farsímasendis er send ein útsenditíðni, en hún er frábrugðin útsenditíðnum annarra sella í næsta nágrenni. Þessi tíðni er aðalútsenditíðni sellunnar, en símarnir eru að leita eftir þessari útsenditíðni til að geta tengt sig við farsímakerfið. Til viðbótar þessari aðalútsenditíðni hverrar sellu er einnig hægt að senda fleiri útsenditíðnir, en þær tíðnir eru til að hægt sé setja upp fleiri símtöl á sellunni. Séu ekki nógu margar útsenditíðnir á einhverri sellu verður frávísun, þ.e. þegar reynt er að hringja hafnar sellan símtalinu af því að allar rásir eru uppteknar. Þegar þetta gerist kemur á skjá flestra símtækja tilkynningin „network busy“. „Cell Planning“ er það að velja staði fyrir farsímasenda, gerð loftneta, sendistyrk frá loftnetum, stillingar á loftnetum og fleira í þeim dúr. Farsímasendar innihalda eina eða fleiri sellur, oftast eina til þrjár, þar sem hver sella er sá landblettur sem eitt loftnet þjónar. Hægt er að fá loftnet af fjölmörgum gerðum og með mismunandi eiginleika svo sem hvað farsímamerkið er mikið magnað, hve breiður merkis-geislinn er, hve hár geislinn er o.fl. Þá eru loftnetin oftast stillt þannig að þau vísa niður en þannig er takmarkað hve langt merkið frá þeim er að berast, en í farsímakerfum er mikilvægt að merki einstakra sella sé ekki að vaða út um allt, það veldur truflunum á merki annarra sella. „Cell Planning“ er afskaplega margslungin vinna. GSM merkið verður að vera gott innan allrar sellunnar, en GSM þjónusta skerðist ekki aðeins vegna daufs merkis heldur einnig vegna þess að útsenditíðnir annarra sella valda truflunum á merkinu. Þá er peningalega mikilvægt að ekki séu settir upp fleiri farsímasendar en þarf til að þjóna ákveðnu landsvæði, en kostnaður við hvern farsímasendi er mikill. „Cell Planning“ er unnin í sérstökum hugbúnaði þar sem landakort sem innihalda upplýsingar um yfirborð lands (gróið land, hraun, sandar og svo framv.) ásamt hæðarbreytingum og mannvirkjum eru notuð til að spá fyrir um útbreiðslu merkis frá ákveðnum stað. Þessi kort eru mjög nákvæm í borgarumhverfi, en þá er búið að færa inn á þessi landakort allar byggingar, hæð þeirra og lögun. „Tems“, „Cellular expert“ og „Atoll“ eru dæmi um „Cell planning“ hugbúnað. Eftirlit með gæðum farsímakerfa. Í grófum dráttum er eftirlit með gæðum farsímakerfa framkvæmt á tvo vegu. Annars vegar er kerfið mælt með sérstökum mælisímum. Þá er ekið er vítt og breitt um farsímaþjónustusvæðið og bæði styrkur og gæði farsímamerkisins mæld á sjálfvirkan hátt. Niðurstaðan er svo vistuð í sérstökum skrám. GPS tækni heldur utan um hvar hver einstök mæling var gerð en mælingarnar geta skipt tugum þúsunda í hverri mælingaferð. Síðan getur sérfræðingur greint þessar skrár og séð hvernig farsímakerfið er að standa sig á hverjum stað. Hin leiðin til að hafa eftirlit með gæðum farsímakerfa er með greiningu tölfræði, en í farsímakerfum er fylgst með öllu því helsta sem gerist með teljurum. Teljarar þessir eru í raun bara mælingar, þeir eru látnir hækka þegar eitthvað gerist, t.d. þegar einhver hringir, einhver svarar, símtal slitnar og svo framv. Í þróaðri farsímakerfum, t.d. GSM og UMTS eru þessir teljarar mörg hundruð þúsund og mæla svo til allt sem gerist í kerfinu. Niðurstöður þessara mælinga (þ.e. staðan á teljurunum) er svo keyrð í gagnagrunna, en til að vinna tölfræðina eru notuð sérstakur greiningarhugbúnaður, en nokkuð framboð er af sérhæfðum hugbúnaði til að greina tölfræði. Dæmi um slíkan hugbúnað er „Business objects“ og „Cognos“. Sprenging. Sprenging er skyndileg aukning á rúmmáli gass, þ.e. að gasið þenst út hraðar en hljóðhraði þess og höggbylgja myndast. Sprengiefni. Þegar sprengiefni eru sprengd brenna þau hratt upp til agna og gas myndast, þrýstingur og hiti þess hækkar mikið og það þenst hratt út. Byssupúður var fyrsta sprengiefni sem var fundið upp, en nú eru einkum notuð hásprengifim efni eins og dýnamít. Sprenging getur einnig orðið þegar háþrýstur gaskútur eða gufuketill rofnar, sambærilegt og þegar blaðra springur. Sprengingar eru t.d. notaðar til að fella mannvirki eða brjóta niður berg. Sprengjur. "Sprengja" er tæki sem inniheldur sprengiefni ásamt sprengibúnaði, sem er m.a. notað er í hernaði sem vopn til að granda óvinum, mannvirkjum hans eða vopnum eða til hryðjuverka. Kjarnorkusprengjur eru öflugustu sprengjur, sem völ er á, en þeim hefur aðeins tvisvar verið beitt sem vopnum í hernaði, nánar tiltekið í seinni heimsstyrjöldinni á japönsku borgirnar Híróshíma og Nagasakí. Með þeim er nýtt orka, sem fæst við kjarnaklofnun ("klofnunarsprengja") eða kjarnasamruna ("vetnissprengja"). "Reyksprengja" er ekki sprengja, heldur tæki sem myndar þykkan reykjarmökk, sem notaður er í árás eða vörn til byrgja andstæðingi sýn. Flugeldar innihalda smáar sprengur sem notaðar eru til hátíðarbrigða. Nýrómantík. Áhrif nýrómantískustefnunnar koma fram á Íslandi um aldamótin 1900 Upphaf og undirrót nýrómantíkur má rekja til "táknsæisstefnu" og er sú stefna áhrifamesta stefna í ljóðlist nútímans og áhrif hennar hér á landi hafa orðið mjög mikil. Oft má rekja mikil áhrif frá þýska heimspekingnum Friedrich Nietzsche (1844-1900) Yoko Ono. Yoko Ono Lennon (j. 小野 洋子 Ono Yōko; í Japan er nafn hennar oftast ritað í katakana – オノ・ヨーコ – frekar en kanji) (18. febrúar 1933) er japansku mynd- og tónlistarmaður. Hún var gift Bítlinum John Lennon og stóð að því að reisa friðarsúluna í Viðey. Ono, Yoko Agent Fresco. Agent Fresco er íslensk hljómsveit sem spilar polyrythmískt oddtime-rokk með djass ívafi. Þeir tóku þátt í Músíktilraunum árið 2008 og báru sigur úr bítum, en einnig fengu hljóðfæraleikararnir verðlaun fyrir gítarleik, trommuleik og bassaleik. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2008 hlaut hljómsveitin verðlaun sem Bjartasta vonin. Facon. Faconmenn árið 1962. Frá vinstri, Hjörtur Guðbjartsson, Jón Kr. Ólafsson, Jón G. Ingimarsson og Ástvaldur Jónsson. Ljósmyndina tók Valdimar B. Ottósson Hljómsveitin Facon 1969. Frá vinstri, Jón Kr. Ólafsson, Ástvaldur Jónsson, Grétar Ingimarsson og Pétur Bjarnason. Facon var íslensk hljómsveit sem var stofnuð á Bíldudal árið 1962. Stofnandi hennar var Hjörtur Guðbjartsson, en aðrir meðlimir hennar voru þeir Jón Kr. Ólafsson, Ástvaldur Jónsson og Jón Ingimarsson. Árið 1969 lauk ferli hljómsveitarinnar með útgáfu fjögurra laga hljómplötu hjá SG - hljómplötum en hún hafði að geyma hið geysivinsæla lag "Ég er frjáls". Þá skipuðu hljómsveitina þeir Pétur Bjarnason á bassa, Ástvaldur Jónsson gítar og píanó, Grétar Ingimarsson trommur og Jón Kr. Ólafsson söngvari. Kobe. er höfuðborg Hyogo héraðs í Japan og mikilvæg hafnarborg með 1,5 milljón íbúa. Saga. Þann 17. janúar árið 1995 var jarðskjálfti í Kobe þar sem um 4600 manns fórust og yfir 240 þúsund misstu heimilin sín. Diocletianus. Gaius Aurelius Valerius Diocletianus (22. desember 244 – 3. desember 312) var keisari Rómaveldis á árunum 284 – 305. Diocletianus kom á stöðugleika innan Rómaveldis og er álitinn hafa endað hina svokölluðu 3. aldar kreppu. Það gerði hann með því að koma á ýmsum umbótum á löggjöf, skattheimtu og stjórnsýslu ríkisins. Einnig deildi hann völdum sínum með þremur öðrum keisurum þegar hann myndaði fjórveldisstjórnina, en henni var ætlað var að tryggja stöðugleikann til frambúðar. Síðasta kerfisbundna ofsóknin gegn kristnum í Rómaveldi átti sér stað í valdatíð Diocletianusar, en nokkrum árum eftir afsögn hans var kristni gerð lögleg í heimsveldinu. Leiðin til valda. Diocletianus var líklega fæddur í Salona (núverandi Solin í Króatíu). Fæðingarár hans er óvíst en það var líklega í kringum 244. Hann var upphaflega nefndur Diocles og voru foreldrar hans af lágri stétt, faðir hans var annað hvort skrifari eða frelsaður þræll. Diocles var herforingi í rómverska hernum undir keisaranum Carusi og fór með honum, árið 283, í herferð gegn Sasanídum í Persíu. Carus lést sama ár, eftir vel hepnaða herferð, er hann varð fyrir eldingu. Synir hans tveir, Numerianus og Carinus, urðu þá keisarar. Numerianus hafði farið með föður sínum til Persíu en hélt til Rómar eftir dauða hans. Á leiðinni fannst Numerianus látinn í vagni sínum og kenndi Diocles þá yfirmanni lífvarðasveitarinnar, Aper, um dauða hans. Herdeildirnar lýstu Diocles þá keisara og tók hann Aper af lífi fyrir framan hermennina. Eftir að hafa verið lýstur keisari tók Diocles sér nafnið Gaius Aurelius Valerius Diocletianus. Carinus var staddur í vesturhluta Rómaveldis þegar Diocletianus var lýstur keisari en hélt austur með sínar herdeildir til þess að mæta honum. Þeir mættust í bardaga í maí 285 þar sem Carinus hafði stærri her. Carinus var hinsvegar óvinsæll á meðal hermanna sinna og var í miðjum bardaga drepinn af sínum eigin mönnum. Maximianus útnefndur keisari. Stuttu eftir að hafa sigrað Carinus, og tryggt sína stöðu sem keisari yfir öllu Rómaveldi, útnefndi Diocletianus herforingjann Maximianus sem undirkeisara. Diocletianus var þó æðri keisarinn ("augustus") og stjórnaði austurhlutanum en Maximianus var lægra settur ("caesar") og stórnaði vesturhlutanum. Ástæðurnar fyrir útnefningunni voru þær að stöðugt aukin átök við germanska þjóðflokka, Sassanída og fleiri óvini Rómaveldis, sem og tíðar uppreisnir gegn keisurum á 3. öldinni höfðu gert það erfitt fyrir einn keisara að halda völdum og tryggja frið í ríkinu. Diocletianus hélt eftir þetta austur í herferð gegn Persum en samdi fljótlega um frið við þá. Á sama tíma barðist Maximianus gegn uppreisn Carausiusar, sem hafði lýst sjálfan sig keisara yfir Bretlandi og hluta Gallíu. Á meðan á átökunum stóð, á árinu 286, tók Maximianus sér titilinn "augustus" og var því, að nafninu til, jafn valdamikill og Diocletianus. Maximianusi gekk illa að kveða niður uppreisn Carausiusar og þurfti að fresta innrás í Bretland en í staðinn fóru keisararnir í sameiginlega herferð gegn Alemönnum, sem bjuggu í Germaníu norðan Rínar og Dónár. Fjórveldisstjórn. Árið 293 breyttu Diocletianus og Maximianus stjórnskipulagi Rómaveldis og mynduðu hina svokölluðu fjórveldisstjórn. Þeir skipuðu þá hvor um sig einn undirkeisara ("caesar") og því voru nú fjórir keisarar yfir Rómaveldi. Diocletianus útnefndi Galerius, tengdason sinn, sem undirkeisara en Maximianus útnefndi Constantius Chlorus. Tilgangurinn með þessum breytingum var að tryggja það að þegar keisari ("augustus") létist eða léti af völdum, myndi undirkeisarinn taka við á friðsamlegan hátt. Á árunum 293 - 294 barðist Diocletianus gegn Sarmatíum norðan við Dóná, og á svipuðum slóðum gegn öðrum germönskum þjóðflokkum frá 295 til 296, í bæði skiptin með góðum árangri. Með þessu náði hann að tryggja stöðugleika á landamærum ríkisins við Dóná. 297 til 298 þurfti Diocletianus að kveða niður uppreisnir tveggja valdaræningja, Domitiusar Domitianusar og Aureliusar Achilleusar, sem báðir höfðu lýst sig keisara í Egyptalandi, vegna óánægju með breytingar á skattheimtu. Galerius var á árunum 295 - 298 í stríði við Sasanída sem í upphafi gekk illa en endaði með því að Ctesiphon, höfuðborg Sasanída, var hertekin í stuttan tíma og árið 299 sömdu hann og Diocletianus um frið við Sassanídana með skilmálum sem voru mjög hliðhollir Rómverjum Ofsókn gegn kristnum. Síðasta og jafnframt stærsta ofsóknin gegn kristnum mönnum í Rómaveldi átti sér stað í valdatíð Diocletianusar. Ofsóknin hófst árið 303 og hafði í för með sér aftökur á kristnum og eyðileggingu á kirkjum. Mismunun gegn kristnum hafði þó hafist áður því kristnum var frá 299 ekki heimilt að gegna opinberum störfum eða herþjónustu nema þeir færðu fórnir til hinna hefðbundnu rómversku guða. Galerius mun hafa verið helsti hvatamaðurinn að ofsókninni, sem var fylgt eftir af mun meiri hörku í austurhluta Rómaveldis en í vesturhlutanum. Galerius batt svo opinberlega enda á ofsóknina árið 311 en aðeins tveimur árum síðar gerðu Konstantínus og Licinius kristna trú löglega í Rómaveldi. Umbætur. Valdatíð Diocletianusar er álitin hafa endað hina svokölluðu 3. aldar kreppu sem einkendist af stöðugum átökum og sífellt versnandi efnahag innan Rómaveldis. Til að stemma stigu við þessum vandamálum reyndi Diocletianus að koma á ýmsum endurbótum í ríkinu; m.a. endurbætti hann skattheimtu og lét slá verðmeiri mynt. Einnig gaf hann út tilskipun um hámarksverð á vörum, sem var ætlað að slá á verðbólgu í ríkinu. Þessi tilskipun hafði ekki tilætluð áhrif og var fljótlega virt að vettugi. Fjórveldisstjórnar skipulagið hafði það í för með sér að Rómaveldi var í raun skipt í fjóra hluta þar sem hver keisari stjórnaði sér svæði, hafði sína höfuðborg og sína hirð. Diocletianus gerði Nicomediu (núverandi Izmit í Tyrklandi) að sinni höfuðborg en hinar höfuðborgirnar voru Sirmium (Sremska Mitrovica í Serbíu), Mediolanum (Mílanó) og Augusta Treverorum (Tríer). Við þessar breytingar minnkaði mikilvægi Rómar en hún hélt þó öldungaráðinu. Ennfremur hafði hver keisaranna stjórn yfir sínum hluta hersins, sem var stækkaður umtalsvert. Afsögn. Á árunum 304 og 305 versnaði heilsa Diocletianusar og leiddi það til þess að þann 1. maí 305 lét hann af embætti sem keisari og sama dag lét Maximianus einnig af embætti. Galerius og Constantius tóku við af þeim og Maximinus Daia og Flavius Valerius Severus voru útnefndir sem undirkeisarar. Diocletianus lifði það sem eftir var ævi sinnar í höll sinni í Split í núverandi Króatíu. Hann skipti sér lítið af stjórn ríkisins eftir að hafa sagt af sér, en árið 308 hitti hann þó Maximianus og keisarana þegar þeir reyndu að bjarga fjórveldisstjórnar skipulaginu, en það hrundi þó engu að síður nokkrum árum síðar. Diocletianus lést svo árið 312. Eneas. Eneas (forngrísku: Αἰνείας, "Æneias") var í grísk-rómverskri goðafræði tróversk hetja, sonur Ankísesar og gyðjunnar Afródítu (Venusar í rómverskum bókmenntum). Faðir hans var frændi Príamosar, konungs í Tróju. Eneas kemur fyrir í "Ilíonskviðu" Hómers, þar sem Póseidon bjargar honum úr einvígi við Akkilles vegna þess að honum voru ætluð önnur örlög en að deyja í Tróju. Í rómverskum bókmenntum var snemma farið að líta á Eneas sem stofnföður rómversku þjóðarinnar og forföður Rómúlusar. Hann er aðalpersóna "Eneasarkviðu" rómverska skáldsins Virgils en kviðan lýsir m.a. hrakningum Eneasar frá Tróju, komu hans til Ítalíu og baráttu hans þar fyrir því að stofna eigið ríki. Stefán Eiríksson. Stefán Eiríksson (fæddur 6. júní 1970 á Akureyri) er lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann er sonur Eiríks Stefánssonar skálds. Námsferill. Stefán lauk grunnskólaprófi frá Hagaskóla í maí 1986 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember 1990. Keppti í Morfís og Gettu betur fyrir hönd MH, var m.a. valinn ræðumaður Íslands í úrslitakeppni Morfís 1989. Útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands í febrúar 1996. Formaður Orators félags laganema 1993-1994 og sat í Stúdentaráði HÍ fyrir Vöku fls. 1992-1994. Starfsferill. Stefán var blaðamaður á Tímanum 1990-1991 og á Morgunblaðinu 1991-1996 samhliða laganámi. Var ráðinn lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá ársbyrjun 1996, starfaði í sendiráði Íslands í Brussel frá 1999-2001 og sinnti þar verkefnum á sviði dóms- og innanríkismála, þar á meðal á vettvangi Schengen samstarfsins. Hann var skipaður skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 1. janúar 2002 og síðar sama ár staðgengill ráðuneytisstjóra. Í stjórn Neyðarlínunnar frá árinu 2002 og stjórnarformaður til ársins 2007. Skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu frá 15. júlí 2006. Hefur sinnt stundakennslu í Háskóla Íslands og við Háskólann í Reykjavík og kenndi lögfræði í Menntaskólanum við Hamrahlíð samhliða laganámi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) tók til starfa 1. janúar 2007. Embættið varð til við sameiningu þriggja lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu; lögreglunnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Hjá því starfa um 450 starfsmenn, þar af um 340 lögreglumenn. Umdæmið nær yfir átta sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og eru íbúar umdæmisins rétt tæplega 200 þúsund talsins. Sérstök kynningarsíða á netinu var sett upp þegar embættið tók til starfa, en embættið er einnig með vefsíðu á lögregluvefnum. Stofnun embættisins var liður í víðtækum breytingum á skipulagi lögreglumála á Íslandi en nánari upplýsingar um þær breytingar má m.a. finna í vefriti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá janúar 2007. Grundvallarstefna LRH og helstu áhersluatriði. Grundvallarstefna embættisins og helstu áhersluatriði ásamt skipulagi og æðstu stjórnendum var kynnt á blaðamannafundi í október 2006. Í drögum að grundvallarstefnun embættisins er haft að leiðarljósi að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem markmið eru sett um fækkun afbrota á nánar skilgreindum sviðum. Skipulag LRH og æðstu stjórnendur. Starfsemi LRH skiptist í þrjú meginsvið. Í fyrsta lagi löggæslusvið, í öðru lagi ákæru- og lögfræðisvið og í þriðja lagi stjórnsýslu- og þjónustusvið. Lögreglustjóri er Stefán Eiríksson. Hörður Jóhannesson er aðstoðarlögreglustjóri yfir löggæslusviði embættisins og Jón H.B. Snorrason er aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari og stýrir ákæru- og lögfræðisviði embættisins. Geir Jón Þórisson er yfirlögregluþjónn almennrar deildar, Friðrik Smári Björgvinsson er yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar og Egill Bjarnason er yfirlögregluþjónn umferðardeildar. Jónmundur Kjartansson er yfirlögregluþjónn innri endurskoðunar LRH. Framkvæmdastjóri LRH er Halldór Halldórsson en hann stýrir fjármála- og þjónustudeild embættisins og Sigríður Hrefna Jónsdóttir er starfsmannastjóri og stýrir starfsmannadeild LRH. Skipurit LRH var staðfest af dóms- og kirkjumálaráðherra 9. janúar 2007. Lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og aðrar starfsstöðvar LRH. Höfuðstöðvar LRH eru við Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík. Tvær aðrar starfsstöðvar eru í næsta nágrenni, annars vegar er almenn afgreiðsla í Borgartúni og hins vegar eru nokkrar deildir embættisins með starfsaðstöðu á Rauðarárstíg. Svæðisstöðvar LRH eru í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ auk svæðisstöðva í Breiðholti og Grafarvogi í Reykjavík. Starfsemi embættisins dreifist því á tíu starfsstöðvar um allt höfuðborgarsvæðið. Afbrot á höfuðborgarsvæðinu. Ítarleg skýrsla um afbrot á höfuðborgarsvæðinu var gefin út haustið 2007 en þar er að finna nákvæmar upplýsingar um dreifingu tilkynntra brota á höfuðborgarsvæðinu sem og upplýsingar um reynslu íbúa af lögreglu, öryggi og afbrotum. Höfundar skýrslunnar eru Rannveig Þórisdóttir og Benjamín Gíslason. Skýrslan byggir annars vegar á opinberum gögnum um fjölda afbrota eftir svæðum á árunum 2005 og 2006, íbúafjölda, tekjum og félagslegum stuðningi. Hins vegar er byggt á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins vorið 2007 þar sem spurt var um reynslu af afbrotum, viðhorfi til lögreglu og mat á eigin öryggi. Fram kemur m.a. í skýrslunni að aðspurðir um það hvaða afbrot þátttakendur teldu mesta vandamálið í sínu hverfu nefndu flestir innbrot eða þriðjungur þátttakenda, 25 prósent nefndu umferðarlagabrot og 20 prósent eignaspjöll. Í rannsókninni kom almennt fram ánægja þátttakenda með störf lögreglu í sínu hverfi til að stemma stigu við afbrotum. Mikill meirihluti þátttakenda, eða rúmlega 90 af hundraði, sagðist mjög eða frekar öruggur einn á gangi að næturlagi í sínu hverfi. Í skýrslunni kemur fram að árið 2006 voru 9.666 hegningarlagabrot tilkynnt til lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er nokkur aukning frá árinu á undan þegar 7.742 brot voru skráð. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að hafa beri í huga að árið 2005 var nýtt tölvukerfi tekið í notkun hjá lögreglu og gæti það skýrt þessa fjölgun brota milli ára. Nánari upplýsingar um fjölda brota, skiptingu milli brotaflokka o.fl. má finna í skýrslunni. Jón H.B. Snorrason. Jón H. B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fæddist 14. nóvember 1954. Hann lauk landsprófi frá héraðsskólanum að Skógum 1971, verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1973, stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977, embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1984 og prófi frá Politihögskolen í Oslo í Noregi í rannsókn og saksókn efnahagsbrota 1993. Jón starfaði sem lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík 1976-1979, sem rannsóknarlögreglumaður hjá rannsóknarlögreglu ríkisins samhliða laganámi 1979-1984, var löglærður fulltrúi hjá rannsóknarlögreglu ríkisins frá 1984-1987, deildarstjóri og síðar yfirlögfræðingur hjá sama embætti frá 1987-1996 og settur vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins 1996-1997. Hann var skipaður saksóknari og yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra frá 1997-2006 og aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. janúar 2007. Jón hefur starfað í fjölmörgum nefndum á vegum hins opinbera, einkum á sviði lögreglumála og refsiréttar. Hann hefur verið prófdómari við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 1995 og stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Lögregluskóla ríkisins. Þá hefur hann verið settur sýslumaður og dómari tímabundið og vegna einstakra verkefna. Er varafulltrúi í GRECO, ríkjanefnd gegn spillingu og hefur tekið þátt í sérfræðinganefnd á vegum þess. Hektor. Hektor færður aftur til Tróju. Lágmynd á rómverskri gröf frá því um 180–200. Hektor (Ἕκτωρ, "sá sem heldur") er í grískri goðafræði prins í Tróju og helsta hetja og leiðtogi Trójumanna í Trójustríðinu. Hann er sonur Príamosar konungs og Hekúbu drottningar og afkomandi Dardanosar, konungs á Idafjalli, og Tróss, stofnanda Trójuborgar. Sólon. Sólon (á forngrísku: Σόλων, um 638 f.Kr. – 558 f.Kr.) var aþenskur stjórnmálamaður, löggjafi og lýrískt skáld og þekktur sem einn helsti stofnfaðir aþenska borgríkisins og honum er gjarnan eignaður heiðurinn af því að hafa lagt hornsteininn að aþenska lýðræðinu. Pásanías taldi Sólon einn af vitringunum sjö. Faisal. Faisal ibn Abdelaziz Al Saud, konungur Sádi-Arabíu (1324-1395 AH) (1903 eða 1906, 25. mars 1975) (Arabíska: فيصل بن عبدالعزيز آل سعود) var þriðji konungur Sádi-Arabíu frá 1964 til dauðadags árið 1975. Honum er talið til tekna að hefja nútímavæðingu Sádi-Arabíu og komið jafnvægi á fjármál ríkisins. Lustenau. Lustenau er bær í fylkinu Vorarlberg í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2006 var 21 þúsund. Rodrigíska. Rodrigíska (rodrigíska: Kreol rodriguais) er kreólískt tungumál sem er talað í Máritíus og er opinbert tungumál í Rodrigueseyjum. Rodrigíska er talað af 40.000 manns, flestir sem búa í Rodrigueseyjum. Tungumálið er mjög svipuð frönsku, og er eiginlega stundum kallað mállýska frönsku. Mineral County (Vestur-Virginía). Mineral er sýsla í austurhluta Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Íbúafjöldi sýslunnar var 27.078 árið 2000. Sýslan er 852 km² að flatarmáli. Sýslan dregur nafn sitt af steinefni. Sveitarfélög. Mineral Prolog. Prolog (franska: "PROgramation et LOGique") er forritunarmál sem á rætur að rekja til hóps í kringum franska tölvunarfræðinginn Alain Colmerauer við háskólans í Marseille-Aix og kom fram árið 1972. Þróun þess er nátengd rannsóknum í gervigreind og tungutækni, einkum málgreiningu, en það hefur líka verið notað meðal annars við þróun sérfræðikerfa, hugbúnaðar fyrir sjálfvirkar sannanir, leiki og símsvörunarkerfi. Prolog tilheyrir flokki rökforritunarmála. Það eru einungis þrjár „byggingareiningar“ í Prolog: staðreyndir, reglur og fyrirspurnir. Safn af staðreyndum og reglum er kallað þekkingargrunnur og lýsir venslum í því viðfangsefni sem þekkingargrunnurinn snýst um. Forritun í Prolog snýst um það að skrifa slíka þekkingargrunna. Notkun Prolog-forrita felst í því að spyrja þekkingargrunninn um þær upplýsingar sem í honum eru. Staðreyndir. og Prolog-túlkurinn svarar: codice_5 Ef við sendum fyrirspurnina codice_6 á þekkingargrunninn, myndi túlkurinn svara codice_7, vegna þess að Sigga er ekki skilgreind sem nemandi í þekkingargrunninum okkar. Reglur. Þessi regla tilgreinir að X sé kennari Y, en aðeins ef þær staðreyndir eru líka sannar að annars vegar X kenni námskeið M og hins vegar að Y taki námskeið M. svarar Prolog-túlkurinn "yes", þar sem stofninn er þegar skilgreindur í þekkingargrunninum sem sannar fullyrðingar, þ.e. að Guðrún kennir TÖL203 og Helga tekur námskeiðið TÖL203. Vetrarbrautarhnit. Vetrarbrautarhnit eru hnit himinfyrirbæris miðað við Vetrarbrautina í himinhvolfshnitakerfi. Hnit eru gefin með "breidd miðað við Vetrarbrautarsléttuna", táknuð með "b" og "lengd miðað við miðju Vetrarbrutarinnar", táknuð með "l". Friðrik 2. Prússakonungur. Friðrik 2. (24. janúar 1712 – 17. ágúst 1786), nefndur hinn mikli, var leiðtogi Prússlands 1740 – 1786. Friðrik var sonur Friðriks Vilhjálms 1. Reglur lénskerfisins ollu því að Friðrik var 1740-1772 konungur í Prússlandi og 1772 til dauðadags konungur Prússlands. Friðriks er minnst sem mikils listunnanda. Hann var m.a. í talsverðum samskiptum við Voltaire. Friðrik flokkast undir upplýstan einvald og stóð fyrir miklum framförum í Prússlandi meðal annars á sviði menntunar og lista. Á valdatíma Friðriks stóð Prússland í talsverðum ófriði við önnur evrópsk veldi og á valdatíma hans varð Slésía hluti af Prússlandi. Friðrik hvílir á Sanssouci-hallarsvæðinu í Potsdam í núverandi sambandslandinu Brandenborg. Hallein. Hallein er bær í fylkinu Salzburg í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2012 var 20 þúsund. Lily Cole. Lily Cole (fædd 19. maí 1988 í Lundúnum) er ensk fyrirsæta. Cole, Lily Lily Donaldson. Lily Donaldson (fædd 27. janúar 1987 í Lundúnum) er ensk fyrirsæta. Donaldson, Lily Ada Lovelace. Augusta Ada King, greifynja af Lovelace (10. desember 1815 – 27. nóvember 1852) var dóttir skáldsins Byrons lávarðar og er hún einkum þekkt fyrir að hafa skrifað lýsingu á reiknivél (analytical engine) Charles Babbage. Hún er einnig þekkt fyrir að vera „fyrsti forritarinn“, því hún gerði forrit fyrir reiknivél hans. Hefði reiknivél Charles Babbage verið smíðuð hefði forritið sem Ada skrifaði látið vélina reikna út röð Bernoulli talna. Hún sá einnig fyrir að það yrðu fleiri not fyrir svona tæki heldur en reikna tölur, en það var eini tilgangur Babbages. Með þessum rökum hefur Ada Lovelace verið kölluð fyrsti forritarinn og er forritunarmálið Ada nefnt eftir henni. Ada Lovelace og Charles Babbage unnu saman og hittust einnig á ýmsum öðrum opinberum vettvangi en ekki var um ástarsamband að ræða, eins og stundum hefur verið talið. Tenglar. Lovelace, Ada Ketildalir. Ketildalir er röð af stuttum dölum á suðurströnd Arnarfjarðar, frá Kópsnesi inn að Bíldudalsvogi. Þverhníptir fjallgarðar mynda dalina sem eru umkringdir klettabeltum efst, og niður af þeim falla snarbrattar skriður og víða teygja fjöllin sig þverbrotin í sjó fram. Fjöllin ná flest 500 til 600 metra hæð en hæst þeirra er Hringdalsgnúpur 625 metrar. Víða má finna surtarbrand og plöntusteingervinga í fjöllunum í Ketildölum, inn á milli blágrýtishraunlaganna. Hér hafa fundist leifar af beyki, vínviði, rauðviði, álmi og fleiri tegundum. Sandsteinslagið er meðal elstu minja um gróðurfar hérlendis á tertíertímabilinu. Ystir Ketildala eru "Verdalir", en þar var lengi mikil verstöð, en aldrei byggð. Þar á eftir kemur Selárdalur, og svo: "Fífustaðadalur", "Austmannsdalur", "Bakkadalur", "Hringsdalur", "Hvestudalur" og "Auðihringsdalur". Lengi var fjölmenn byggð í Ketildölum en nú eru nær allir bæir komnir í eyði. Kirkja og prestssetur var í Selárdal, en árið 1907 var Selárdalsprestakall lagt niður og Selárdalssókn lögð til Bíldudalsprestakalls. Ketildalir voru sérstakt sveitarfélag, Ketildalahreppur, en var lagt niður 1987 þegar það sameinaðist Suðurfjarðahreppi og hrepparnir mynduðu í sameiningu Bíldudalshrepp. Árið 1994 sameinaðist hann Barðastrandarhreppi, Rauðasandshreppi og Patrekshreppi í sveitarfélagið Vesturbyggð. Ketildalir eru sagðir heita eftir "Katli Þorbjarnarsyni ilbreið" en í Landnámu segir að hann hafi numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals. Commodus. Lucius Aurelius Commodus Antoninus (31. ágúst, 161 – 31. desember, 192) var keisari Rómaveldis á árunum 177 til 192. Commodus var sonur Markúsar Árelíusar keisara og Faustinu yngri. Commodus fékk titilinn augustus árið 177 og var lýstur keisari ásamt föður sínum. Þegar Markús Árelíus lést svo árið 180 varð Commodus einn keisari. Allar götur síðan Nerva kaus Trajanus sem kjörson sinn og eftirmann, höfðu keisarar farið að hans fordæmi og valið þann eftimann sem þeim þótti hæfastur til að gegna stöðu keisara. Commodus var því fyrsti keisarinn síðan á tíma flavísku ættarinnar sem erfði keisaratitilinn. Tími kjörkeisaranna (96 - 180) hafði verið með friðsælustu og blómlegustu tímabilum í sögu Rómaveldis og hafa þeir verið kallaðir góðu keisararnir fimm. Síðari tíma sagnfræðingar hafa margir álitið að með Commodusi hafi hnignun Rómaveldis hafist og að Rómarfriði hafi lokið á hans valdatíma. Ríkinu var þó ekki ógnað af utanaðkomandi óvinum heldur var það pólitískur óstöðugleiki sem jókst á þessum tíma. Ævi. Commodus tók þátt í herför Markúsar Árelíusar gegn germönskum þjóðflokkum við Dóná á árunum 178 – 180. Markús ætlaði sér að halda stríðinu til streitu og ætlaði hugsanlega að innlima ný svæði, norðan Dónár, inn í Rómaveldi. Þegar Markús lést, samdi Commodus hins vegar fljótlega um frið við germanina og hélt til Rómar, þar sem hann fagnaði sigri í stríðinu. Commodus virðist hafa haft lítinn áhuga á hernaði eða á stjórn ríkisins. Snemma á valdaferli sínum fól hann embættismanni að nafni Saoterus að stjórna í flestum málum. Saoterus varð hins vegar mjög óvinsæll og var drepinn árið 182 af manni sem hét Cleander. Cleander tók þá við af Saoterusi sem sá embættismaður Commodusar sem stjórnaði mestu. Hann varð mjög valdamikill og stundaði m.a. það að selja mönnum ýmis embætti, t.d. sæti í öldungaráðinu, stöður í hernum, landsstjórastöður eða ræðismannastöður. Cleander féll í ónáð almennings í Róm árið 190 þegar kornskortur varð í borginni og lét Commodus þá taka hann af lífi. Samsæri um að koma Commodusi frá völdum átti sér stað árið 182. Á meðal þeirra sem tóku þátt í samsærinu var Lucilla, systir Commodusar, og fólst samsærið í því að drepa Commodus og gera eiginmann Lucillu að keisara. Það tókst hins vegar ekki og Lucilla, ásamt öðrum samsærismönnum, var tekin af lífi. Commodus hafði mikinn áhuga á bardögum skylmingaþræla og tók sjálfur þátt í fjölmörgum slíkum bardögum, bæði við aðra skylmingaþræla og við villt dýr. Þetta var mjög óvenjulegt af keisara og var litið hornauga af mörgum öldungaráðsmönnum og öðrum valdamönnum í Rómaveldi. 31. desember 192 reyndi Marcia, hjákona Commodusar, að eitra fyrir honum til þess að ráða hann af dögum. Tilraunin tókst hins vegar ekki þar sem Commodus ældi upp eitraða matnum. Glímukappi að nafni Narcissus var þá fenginn þess til að kyrkja Commodus. Eftir dauða Commodusar tók Pertinax, fyrrum öldungaráðsmaður, við keisaratigninni. Hann er talinn hafa átt þátt í samsærinu um að drepa Commodus. Kjarf. Kjarf er knippi af hveitistöngum með axinu á. Kornstengurnar eru teknar saman á uppskerutímum og bundnar saman um miðju. Kjörf eru víða tákn góðrar uppskeru, gnægtar og velsældar. Þýðandi (tölvunarfræði). Þýðandi (afar sjaldan kallað vistþýðandi) er forrit (eða mengi forrita) sem þýðir eða vistþýðir frumkóða úr einu forritunarmáli á annað. Algengasta ástæðan fyrir því að kóði er þýddur til að búa til keyrsluforrit. Nær alltaf er um að ræða að þýðingu úr æðra forritunarmáli (s.s. 3.0) á lágmál (s.s. vélamál). Einnig er hægt að snúa ferlinu við og búa til kóða úr keyrsluforriti, en sá kóði er alla jafna ekki mjög læsilegur. Saga þýðenda. Á upphafsárum tölva var hugbúnaður eingöngu skrifaður í vélamáli. Þegar ávinningur varð af því að endurnýta hugbúnað á milli mismunandi tegunda örgjörva myndaðist forsenda fyrir að skrifa þýðendur. Lítið minni fyrstu tölvanna hamlaði útfærslu þýðenda. Í enda sjötta áratugarins var fyrst varið að leggja til forritunarmál sem voru óháð tilteknum tölvum. Í beinu framhaldi voru þróaðir nokkrar tilraunaútgáfur af þýðendum. Fyrsti þýðandinn var var skrifaður árið 1952, af Grace Hopper, fyrir A-0 forritunarmálið. Sá sem jafnan hlýtur heiðurinn af að hafa smíðað fyrsta fullbúna þýðandann er FORTRAN hópurinn, undir stjórn John Backus hjá IBM, árið 1957. Snarröðun. Hreyfimynd sem sýnir hvernig Quicksort-reikniritið virkar. Snarröðun (e. quicksort) er einfalt röðunarreiknirit sem var hannað af C.A.R. Hoare. Snarröðun er svokallað deili- og drottnunarreiknirit (e. divide and conquer algorithm), sem oftast þarf formula_1("n"log"n") aðgerðir til að raða "n" stökum í fylki. Virkni reiknirits. Snarröðun þarf formula_1("n"log"n") aðgerðir í besta tilfelli til að klára að raða öllum stökum í fylki, í versta tilfelli þarf reiknirit hins vegar formula_3 aðgerðir til að raða stökum í fylki. Vinnsla í reikniritinu fer þannig fram að fylkinu er skipt upp í 2 minni fylki. Reikniritið er mun hraðvirkara en önnur Θ("n"log"n") samanburðar reiknirit, en hins vegar telst það ekki stöðugt. Helsti gallinn við reikniritið er eftir sem því fylkið er stærra, þarf meira minni til að raða stökunum sem eru í fylkinu. Þetta er hægt að forðast með því að nota svokallaða á-staðnum (e. in-place) aðferð. Þegar að á-staðnum aðferðin er notuð, þá er vinnan við reikniritið svipuð og áður. Eftir að skiptistakið er fundið, er það sett tímabundið aftast ef þess þarf. Síðan eru öll lægri stök flutt í byrjun á undirfylkinu (e. sub-array), þannig að öll hærri stök lenda á eftir þeim. Að lokum er fundinn staðsetning fyrir skiptistakið og það er flutt á sinn stað. Hafa ber í huga að útkomann inniheldur sömu stök eins og þegar var byrjað, einnig getur sama stak verið víxlað oft áður en það kemst á endanlega staðsetningu. Sauðakóði fyrir snarröðun. select a pivot value "pivot" from array if x < pivot then append x to less if x = pivot then append x to equal if x > pivot then append x to greater swap array[pivotIndex] and array[right] "// Move pivot to end" for i from left to right "// left ≤ i < right" swap array[storeIndex] and array[right] "// Move pivot to its final place" Magnúss saga lagabætis. Magnúss saga lagabætis er konungasaga, sem fjallar um ævi og stjórnarár Magnúsar lagabætis Noregskonungs. Varðveitt eru tvö brot úr sögunni, sem segja frá atburðum 1264 og 1274. Höfundur "Magnúss sögu lagabætis" var Sturla Þórðarson sagnaritari. Sturla var í Noregi 1278, og er talið að hann hafi þá ritað fyrri hluta sögunnar, að beiðni Magnúsar konungs, sem hafði áður falið Sturlu að rita sögu föður síns, Hákonar gamla, ("Hákonar sögu Hákonarsonar"). Vísbendingar eru um að sögunni hafi verið fram haldið allt til dauða Magnúsar, 1280, og hlýtur Sturla þá að hafa lokið henni á Íslandi skömmu síðar, því að Sturla dó 1284. Árni Magnússon fékk flest þessi blöð á Íslandi. Sá sem skrifaði þetta handrit hefur verið atvinnuskrifari, og er rithönd hans einnig á blaði úr Heimskringluhandritinu Jöfraskinnu. Um 1600 var meira varðveitt af Magnúss sögu, og notaði Arngrímur lærði þá söguna við samningu rita sinna, einkum "Crymogæu" og "Specimen Islandiæ Historicum". Einnig voru nokkrar fróðleiksgreinar úr sögunni teknar upp í íslenska annála um svipað leyti. Af einhverjum ástæðum virðist enginn hafa skrifað söguna upp á 17. öld. Ef dæma skal af brotunum, sem varðveitt eru, hefur Sturla byggt frásögnina að talsverðu leyti á skjalasafni konungs, og er frásögnin fremur þurr og í strangri tímaröð, jafnvel smásmuguleg. Hefur sagan eflaust verið merk sagnfræðileg heimild, og er því mikill skaði hve lítið er eftir af henni. Upphaf sögunnar er glatað, og er því ekki vitað hvort sagan hefur verið beint framhald af Hákonar sögu, og frásögnin því hafist 1263, þegar Magnús tók að fullu við völdum eftir fráfall föður síns, eða hvort einnig hefur verið sagt frá fæðingu Magnúsar (1238) og uppvexti. Ekki er heldur vitað hvort Sturla hefur prýtt söguna með kveðskap sínum um Magnús konung. Magnús lagabætir var síðasti Noregskonungur sem rituð var saga um, svo að fullvíst sé. Jafnframt er Magnúss saga lagabætis einhver síðasta konungasagan sem íslenskir höfundar rituðu. Litlu yngri eru tvö samsteypurit frá því um 1300. Raquel Zimmermann. Raquel Zimmermann (fædd 6. maí 1983 í Bom Retiro do Sul í Rio Grande do Sul) er brasilísk fyrirsæta. Zimmermann, Raquel Sólfarsvindar. Skýringarmynd A. sýnir Hafgolu og B. Landgolu. Sólfarsvindar eru vindar sem verða fyrir áhrifum frá gangi sólar. Mishitun á landsyfirborði og sjávaryfirborði kemur af stað hringrás land- og hafgolu. Hafgola myndast þegar yfirborð lands verður heitara en yfirborð sjávar. Loftið rís upp og streymir út á haf. Síðan sekkur loftið yfir sjónum, kólnar, og blæs aftur inn á land sem svalt loft. Hafgola myndast á nóttunni. Yfirborð lands er kaldara en sjávaryfirborð. Loftið streymir frá landi út á haf og rís upp. Loftið blæs aftur inn á land og sekkur þar. Þessi ferli eru dæmi um hitahringrás. Hafgola er sterkari heldur en landgola. Orsakir haf- og landgolu. Á heitum og sólríkum dögum hitnar yfirborð lands meira en yfirborð sjávar. Fyrir því eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi hefur vatn meiri vatnsrýmd heldur en þurrlendi. Í öðru lagi leyfir gegnsætt vatnið geislum sólar að smjúga niður í sjóinn og verma hann. Í þriðja lagi gufar hluti geislaorkunnar upp þegar þeir lenda á haffletinum. Ástæðurnar fyrir hitnun yfirborðs lands eru þær að geislar sólar endurkastast. Hins vegar hitnar aðeins efsta lagið á yfirborði lands. Þetta veldur því að yfirborð lands hitnar hraðar heldur en yfirborð sjávar. Þess vegna er yfirborð lands hlýrra yfir daginn heldur en yfirborð sjávar. En þegar kemur fram á nótt snýst þetta við. Yfirborð lands tapar fljótt varma, en yfirborð sjávar tapar síður varma. Þetta stafar af því að sjór hefur meiri varmarýmd. Sjórinn er yfirleitt jafnheitur á degi sem á nóttu. Af þessum ástæðum er yfirborðs land hlýrra á daginn, en yfirborð sjávar er hlýrra á nóttunni. Á strandsvæðum leiðir þessi hitamunur til myndunar á haf- og landgolu. Hafgola. Á morgnana er loft yfir landi og sjó ámóta hlýtt. Eftir því sem dagurinn líður hitar sólin upp yfirborð landsins og við það hitnar loftið yfir landinu sem þenst út. Þá tekur loftið að rísa. Breytingar á þrýstingi verða við þetta ferli og hitalægð myndast yfir landinu. Þá minnkar loftmassinn við yfirborð lands. Í 1.000 til 1.500 metra hæð byrjar loftið að kólna. Það þéttist og safnast saman vegna aukins loftþrýstings og hæðar yfir landi. Við þetta myndast yfirþrýstingur efst í súlunni yfir landi og loftið þar tekur að streyma í átt til sjávar. Þegar loftið er þangað komið myndast lægð í háloftunum yfir sjónum. Kalda loftið tekur að sökkva niður að yfirborði sjávar. Við yfirborð sjávar myndast hæð af því að loftið er kalt. Kalda loftið skríður í átt að lægðinni sem myndaðist yfir landi og ferlið endurtekur sig. Við þetta verður hafgolan til. Þar sem sjávarloftið er oftast kaldara en loftið yfir landi getur kólnað þegar hafgolan ryðst inn á landið. Landgola. Þegar sól tekur að setjast á kvöldin byrjar að kólna. Þar sem vind hefur lægt að mestu liggur þunnt lag af sjávarlofti inni yfir landinu. Loft yfir landi byrjar nú að kólna hraðar heldur en loft yfir sjó. Þar sem kalda loftið yfir landi hefur hærri loftþrýsting heldur en loftið yfir sjó. Byrjar loftið að leita frá landi út á sjó. Við yfirborð lands myndast hæð, en við yfirborð sjávar myndast lægð. Þar sem yfirborð sjávar er heitara en yfirborð lands á nóttunni hlýnar loftið og það byrjar að rísa. Hlýja loftið rís vegna þess að það hefur lægri þrýsting. Þegar heita loftið er komið upp í ákveðna hæð byrjar það að leita aftur til lands. Í háloftunum yfir sjó myndast hæð. Loftið í háloftunum, sem kólnaði þegar það reis upp yfir sjónum, skríður aftur frá sjó til lands. Á leiðinni byrjar loftið aftur að hlýna. Þegar yfir land er komið myndast lægð og loftið sem er nú hefur hitnað sekkur í átt að yfirborði lands. Við það kólnar loftið. Síðan endurtekur ferlið sig. Við þetta myndast landgola. Landgolan er veikari en hafgolan. Fagurfífill. Fagurfífill (fræðiheiti: "Bellis perennis") er blóm af körfublómaætt ("Asteraceae"). SIF. SIF (Schools Interoperability Framework) er opin samskiptastaðall fyrir gagnaflutning á milli upplýsingatæknikerfa sem notuð eru í skólum. Staðallinn er sniðin að þörfum grunnskóla eða hinu svokallaða K-12 námsstigi. Staðallinn samanstendur af tveimur pörtum: XML og Service-Oriented-Architecture (SOA). Þetta er staðall en ekki vara sem kallað var eftir af fyrirtækjum í upplýsingatækni bransanum til að geta á auðveldan hátt skipst á gögnum eða „de facto“ staðall. Notendur. Staðallin var hannaður í Bandaríkjunum en hefur nýlega verið aðlagaður að öðrum löndum svo sem Ástralíu og Bretlandi. Sagan. Á Íslandi sem og öðrum löndum hefur lengi viðgengst að hver sitji í sínu horni og smíði sinn forritsbút til samskipta við þau forrit sem þörf er á í hvert sinn. Þetta þýðir að erfitt og kostnaðarsamt er fyrir alla aðila að fullnýta upplýsingatæknina. Ýmsar tilraunir til samhæfingar upplýsingatæknikerfa hafa verið reyndar svo sem að ríkið láti gera kerfi sem allir eiga að nota eins og INNA var. Næsta skref hjá menntamálayfirvöldum var að skilgreina betur sýnar þarfir og smíða kerfi (SKINNA) sem öll önnur upplýsingatæknikerfi þurfa að skila gögnum inn í. Þetta er gert í gegn um vefþjónustur. Mörg dæmi er um sérsmíðaðar samskiptalausnir hér á landi þar sem kaupandi skilgreinir þarfir þar sem fleiri en eitt kerfi kemur að og þá setjast viðeigandi kerfishönnuðir saman niður og smíða brú á milli þeirra kerfa. Hvernig SIF virkar. Í stað þess að hver sitji í sínu horni og smíði brýr á milli hinna ýmsu kerfa þá var ráðist í að hanna reglur og skilgreiningar til að auðvelda samskipti milli kerfa á svokölluðu „SIF svæði“. Þar geta kerfisstubbar haft samskipti við aðra eins stubba í gegn um einn miðlægan punkt. Þessum svæðum er stjórnað af Svæða tengsla þjóni (ZIS) sem getur þjónað mörgum svæðum. Gögnin ferðast svo milli kerfa sem stöðluð skilaboð, fyrirspurnir og atburðir skrifaðir í XML og sent á milli með Internet Protocol. Um endimörk góðs og ills. "Um endimörk góðs og ills" (latína: "De finibus bonorum et malorum" oft nefnt "De finibus") er rit um siðfræði í fimm bókum eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn Marcus Tullius Cicero. Ritið var samið í júní 45 f.Kr. og fjallar um hin æðstu siðferðilegu gæði. Fyrstu tvær bækurnar fjalla um kenningar epikúringa, bækur þrjú til fjögur fjalla um kenningar stóuspekinnar og fimmta bókin fjallar um kenningar akademískra heimspekinga, einkum Antíokkosar frá Askalon. Um eðli guðanna. "Um eðli guðanna" (latína: "De Natura Deorum") er rit um trúarheimspeki í þremur bókum eftir rómverska stjórnmálamanninn, heimspekinginn og rithöfundinn Marcus Tullius Cicero. Ritið var samið árið 45 f.Kr. og fjallar einkum um kenningar epikúringa og stóuspekinnar Í ritinu er meðal annars fjallað um líkindi og er sú umræða uppsprettan að kenningunni um apann og ritvélina, sem kveður á um að ef api slær á lykklana á ritvél í óendanlega langan tíma muni hann á endanum skrifa hvaða texta sem er (til dæmis Njálu). Í "Um eðli guðanna" er því haldið fram að ef fjöldi handahófskenndra atburða er nægilega mikill sé hægt að finna mikla reglu í óreiðunni. Hugmyndina má rekja aftur til "Frumspekinnar" eftir gríska heimspekinginn Aristóteles. Philosophical Topics. "Philosophical Topics" er tímarit um heimspeki sem er rekið af heimspekideild Arkansas-háskóla. Tímaritið kemur út tvisvar á ári og birtir einungis greinar sem leitað hefur verið eftir. Hvert hefti er tileinkað spurningu innan einhverrar af undirgreinum heimspekinnar. Ritstjóri tímaritsins er Edward Minar. Analysis. "Analysis" er alþjóðlegt tímarit um heimspeki. Það var stofnað árið 1933 og er gefið út af Blackwell Publishing. Duisburg. Duisburg er storborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með 494 þúsund íbúa. Höfn borgarinnar við ána Rín er stærsta innanlandshöfn Evrópu. Lega. Duisburg liggur við ármót Rínarfljóts og Ruhr vestast í Ruhr-héraðinu. Næstu borgir eru Essen til austurs (10 km), Oberhausen til norðausturs (5 km) og Düsseldorf til suðurs (15 km). Hollensku landamærin liggja um 20 km til vesturs. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Duisburg er tvískipt. Neðri hlutinn sýnir hvítt borgarvirki á rauðum grunni. Efri hlutinn er svarti tvíhöfða ríkisörninn á gulum grunni. Skjaldarmerki þetta var tekið formlega í notkun 1977 en allt frá 1527 er hægt að finna svipuð merki. Orðsifjar. Duisburg hét áður Diusburg, þannig að stafavíxl hafa átt sér stað. Fyrri helmingur heitins "Duis-" merkir sennilega "flæðimýri". Það er þó ekki alveg víst. Upphaf. Hluti af gömlu borgarmúrunum stendur enn 883 kemur heitið Duisburg fyrst við skjöl í annálum Regino von Prüm, en honum segist svo frá að víkingar hafi siglt upp Rín, rænt staðinn og haft þar vetursetu. Á 10. öld var reist konungshús (virki) á staðnum, en konungar og keisarar þýska ríkisins voru minnst 18 sinnum í bænum á 10. öld einni saman. 1002 var Hinrik II krýndur til konungs ríkisins í borginni af erkibiskupnum í Köln og biskupnum í Lüttich (Liége). Hann varð seinna meir keisari. Þetta var eina krýningin sem fram hefur farið í borginni. Duisburg var þá fríborg en 1290 batt Rúdolf af Habsborg konungur enda á fríborgarstöðu Duisburg er hann léði hana greifunum frá Kleve fyrir 2.000 silfurmörk. Á svipuðum tíma færðist árfarvegur Rínarfljóts æ vestar, þannig að borgin nam ekki lengur við fljótið. Við það þornaði litla höfnin upp og verslun og samgöngur lögðust nánast af. Duisburg breyttist því úr konungsborg í smáborg. Þrátt fyrir það gekk Duisburg í Hansasambandið 1407. Háskóli. Gerhard Mercator var þekktasti kennari háskólans 1555 var stofnaður háskóli í Duisburg, sem var mikil lyftistöng fyrir borgina. Einn þekktasti kennari skólans var Gerhard Mercator, en hann varð heimsfrægur fyrir byltingu í kortavörpun. Litlar sögur fara af því hvernig siðaskiptum var háttað í borginni eða hvernig henni reiddi af í 30 ára stríðinu. En 1666, nokkru eftir stríðslok, eignaðist Prússland greifadæmið Kleve, ásamt Duisburg. Iðnbylting. Í upphafi 19. aldar voru íbúar Duisburg ekki nema 4.500 talsins. Aðalatvinnuvegurinn var þá tóbaksræktun og vefnaður. En með iðnbyltingunni breyttist þetta skjótt. Duisburg varð að mikilli iðnaðarborg, ekki síst er borgin fékk járnbrautartengingu 1846. Þá risu stáliðjuver og íbúum fjölgaði umtalsvert. Duisburg varð aftur að miðstöð verslunar og samgangna er Rínarhöfnin var lögð í lok 19. aldarinnar en sú höfn er stærsta innlandshöfn Evrópu. 20. öldin. Rínarhöfnin við Duisburg er stærsta innanlandshöfn Evrópu. Myndin er frá 1931. Við lok heimstyrjaldarinnar fyrri ríkti stjórnleysi í borginni. Vinstri og hægri öfl áttust við í götubardögum, verkföll voru tíð og óðaverðbólga lagðist hart á íbúana. 1921 hertóku Frakkar og Belgar borgina og héldu henni í fjögur ár sem nokkurs konar stríðsskaðabætur. 1929 hófst kreppan mikla. Atvinnuleysi í Duisburg varð allt að 34%, sú mesta í öllu landinu. Með tilkomu nasismans breyttust hlutir til hins betra til að byrja með. En heimstyrjöldinni síðari eyðilagði allt. Duisburg varð fyrir gríðarlegum loftárásum sökum hins mikla iðnaðar. Auk þess var borgin á fluglínu árásarflugvéla og varð því oftar fyrir árásum en ella. Á tímabili vældu loftvarnarflautur daglega í borginni, bara fyrir það eitt að óvinaflugvélar flugu yfir eða framhjá borginni. 1943 urðu verstu loftárásirnar. Nær gjörvöll miðborg Duisburg var lögð í rúst. Allt næsta ár voru gríðarlegar loftárásir gerðar er þúsundir flugvéla vörpuðu sprengjum yfir borgina. Í stríðslok voru 80% allra íbúðahúsa ónýt. 12. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina, eða það sem eftir var af henni. Hún var á hernámssvæði Breta. Brátt fór iðnaðurinn í gang á ný og varð Duisburg að einni mestu iðnaðarborg Þýskalands. Á 8. áratugnum hallaði þó mikið á stáliðnaðinn í Ruhr-héraðinu og fór borgin ekki varhluta af þvi. Fyrirtæki byrjuðu að loka og íbúatala borgarinnar minnkaði. Þó er stáliðnaðurinn enn í dag mikilvægasti atvinnuvegur borgarinnar. Íþróttir. Kvennaliðið FCR 2001 Duisburg er sennilega besta knattspyrnulið borgarinnar. Það varð þýskur meistari árið 2000, er tvöfaldur bikarmeistari (1998 og 2009) og varð Evrópumeistari félagsliða 2009. Karlaliðið MSV Duisburg leikur ýmist í fyrstu eða annarri deild. Félagið hefur aldrei unnið stóran titil, en komst tvisvar í úrslit bikarkeppninnar. Í Duisburg eru aðalskrifstofur róðrarsambands Þýskalands. Þar eru gjarnan haldin róðrarmót, bæði á landsvísu og alþjóðleg (til dæmis HM 2007). Nürnberg. Nürnberg er næststærsta borg Bæjaralands í Þýskalandi á eftir München. Hún er við austurjaðar hins gamla Frankalands ("Franken") og er enn menningarlegur og efnahagslegur höfuðstaður þess héraðs. Íbúar eru rúmlega hálf milljón, en á stórborgarsvæðinu búa rúmlega milljón manns. Nürnberg er helst þekkt fyrir Nürnberg-réttarhöldin yfir leiðtogum þriðja ríkisins að síðari heimstyrjöldinni lokinni. Lega. Nürnberg liggur við ána Pegnitz nokkuð miðsvæðis í Bæjaralandi. Þar liggja vegir bókstaflega í allar áttir. Main-Dóná skipaskurðurinn liggur einnig í gegnum borgina. Næstu borgir eru München í suðri (70 km), Würzburg í norðvestri (60 km) og Frankfurt am Main í norðaustri (100 km). Skjaldarmerki. Nürnberg á sér tvö skjaldarmerki. Stóra merkið er örn með mannshöfuð á bláum skildi. Það er þegar til árið 1220 og merkir ríkið sjálft, þar sem Nürnberg var fríborg í ríkinu. Örninn er ríkið, mannshöfuðið keisarinn. Litla merkið er til hálfs svartur örn á gulum fleti og svo rauðhvítar rendur. Örninn er ríkið, rendurnar eru frá 1260. Kastalavirkið er elsta mannvirki borgarinnar Orðsifjar. Borgin hét áður "Nurenberch" og "Norenberc". Merkingin er umdeild, en flestir eru á því að heitið sé dregið af "knur" eða "nörr" (breytist í nürn), sem merkir bjarg eða klettur. Nürnberg héti því "klettaborg" (rétt eins og Nürburg í Eifel þar sem Formúla 1 kappakstrar fara fram). Söguágrip. Saga Nürnberg hófst sem kastalavirki með þessu heiti og kemur fyrst við skjöl 1050. Fyrir neðan það myndaðist kirkja og bær. Keisarinn Friðrik I. Barbarossa gerði bæinn að ríkisborg árið 1219, enda lá hann við fjölmarga samgönguvegi og því mjög mikilvægur. Keisararnir Lúðvík hinn bæríski og Karl IV sátu gjarnan í borginni. Árið 1423 lét Sigismundur keisari borgina geyma krúnudjásnin og voru þau geymd þar allt til 1796, er þau voru flutt til Vínarborgar til verndar gegn Napoleon. Allt til þess tíma var Nürnberg hluti af Frankalandi. Borgin var ekki hertekin í 30 ára stríðinu vegna öflugra borgarmúra. En við borgarmörkin stóðu keisaraherinn og Svíar andspænis hvor öðrum í nærri þrjú ár. Frakkar hertóku borgina hins vegar 1796, en yfirgáfu hana aftur skömmu seinna. 1806 var konungsríkið Bæjaraland stofnað og var Nürnberg innlimað í því ríki. Eftir Napoleonstímann varð Nürnberg að mikilli iðnaðarborg. 1835 var fyrsta járnbrautarlest Þýskalands sett upp í borginni og keyrði hún milli Nürnberg og Fürth. Borgin varð fyrir gríðarlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Nær öll miðborgin eyðilagðist og var Nürnberg næstverst úti í stríðinu (á eftir Dresden). 17. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina eftir mikla götubardaga. Eftir stríð var réttað yfir æðstu foringja nasista og aðra stríðglæpamenn í borginni. Það voru Nürnberg-réttarhöldin og stóðu þau allt til 1949. Íþróttir. Jólamarkaðurinn í Nürnberg er einn sá þekktasti í heimi Aðalknattspyrnulið borgarinnar er 1. FC Nürnberg, sem var eitt allra besta félagslið í Þýskalandi á þriðja og fjórða áratugnum. Á því tímabili var nánast helmingur liðsins einnig í landsliði Þýskalands. Félagið hefur níu sinnum orðið þýskur meistari (síðast 1968) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2007) Kvennahandboltaliðið í Nürnberg er margfaldur þýskur meistari (síðast 2008) og bikarmeistari. Af öðrum íþróttum má nefna íshokkí, körfubolta og hjólreiðar. Murcia. Murcia er borg á Spáni. Borgin er sjöunda stærsta borg landsins með rúmlega 422 þúsund íbúa. Bilbao. Hvolpur Jeff Koons á Guggenheim-safninu Bilbao er borg á Norður-Spáni í héraði Baska. Borgin er tíunda stærsta borg landsins með rúmlega 355 þúsund íbúa en á stórborgarsvæðinu býr tæplega milljón manns. Córdoba. Córdoba er borg í Andalúsíu-héraði á Spáni. Í borginni búa rúmlega 322 þúsund manns. Mannheim. Mannheim er næststærsta borgin í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi með rúmlega 310 þúsund íbúa. Mannheim er mikilvæg samgönguborg. Hún er með næststærsta vörujárnbrautarstöð Þýskalands og eina stærstu höfn við Rínarfljót. Lega. Göngugata í Mannheim. Í bakgrunni er gamli vatnsturninn. Mannheim er hafnarborg við samflæði Neckars og Rínarfljóts norðvestast í sambandslandinu Baden-Württembergs í suðurhluta Þýskalands, gegnt Ludwigshafen í Rínarlandi-Pfalz. Næstu stærri borgir (fyrir utan Ludwigshafen) eru Heidelberg til suðausturs (15 km), Worms til norðurs (20 km) og Kaiserslautern til vesturs (55 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er tvískiptur skjöldur. Hægra megin er gyllt ljón á svörtum grunni. Ljónið er merki kjörfurstanna í Pfalz. Vinstra megin er rauður úlfakrókur á gulum grunni. Bæði merkin eru til á innsiglum á 18. öld. Núverandi skjaldarmerki var tekið upp 1896. Orðsifjar. Heitið Mannheim er dregið af mannanafninu "Manno". Merkingin er því "heimili Manno". Upphaf. Mannheim kemur fyrst við skjöl 766 í klausturbókinni "Lorscher Codex". Bærinn var þá lítill fiskibær við Rínarfljót og kom lítið við sögu næstu aldir. 1415 var haldið kirkjuþingið mikla í Konstanz, meðal annars til að jafna klofning kaþólsku kirkjunnar. Þrír páfar ríktu þá samtímis. Sigismund keisari setti þá alla af og setti nýjan í embætti. Jóhannes páfi XXIII neitaði að láta setja sig af og flúði frá Konstanz. Hann var handsamaður og settur í varðhald í Mannheim, þar sem hann þurfti að dúsa í fjögur ár. Mannheim var þá ekki nema nokkur hundruð manna bær. Aðsetur kjörfurstanna. Mannheim 1758. Rínarfljót til hægri, Neckar fyrir neðan. 1606 ákvað kjörfurstinn Friðrik IV frá Pfalz að reisa sér aðsetur í bænum. Samfara því gerði hann nýtt borgarskipulag fyrir íbúahverfi og varnarmúra. Íbúum fjölgaði hratt. Ári seinna hlaut Mannheim almenn borgarréttindi. En uppgangurinn hlaut snöggan enda. 1618 hófst 30 ára stríðið. Borgin ákvað að berjast með mótmælendum. 1622 sat keisaraherinn um borgina og nær gjöreyddi henni. Kjörfurstinn ákvað að láta endurreisa borgina, en sökum þess að nærsveitir voru eyddar varð Mannheim ekki lengur aðalaðsetur kjörfurstanna, sem oftar en ekki sátu í Heidelberg. Erfðastríðið í Pfalz lék borgina einnig grátt. Frakkar eyddu borginni á nýjan leik 1689. Enn var borgin endurreist. 1720 ákvað kjörfurstinn Karl Philipp að flytja aðsetur sitt frá Heidelberg til Mannheim. Við það verður mikil uppsveifla í borginni, bæði efnahagslega og menningarlega. Næstu árin dvelja þjóðþekkt skáld í borginni, svo sem Goethe, Schiller og Lessing, en einnig Mozart til skamms tíma. 1778 flutti kjörfurstinn Karl Theodor aðsetur sitt til München. Þetta olli mikilli stöðnun og jafnvel kreppu í borginni. Mannheim varð aldrei höfuðborg aftur. Carl Benz smíðaði fyrstu bifreiðina í Mannheim Napoleontími og iðnbylting. 1795 hertók franskur byltingarher borgina. Sama ár tókst austurrískum her þó að frelsa borgina úr höndum Frakka. En 1803 hertóku Frakkar borgina á nýjan leik og héldu henni allt til falls Napoleons. Frakkar innlimuðu borgina hertogadæminu Baden. Segja má að iðnbyltingin í borginni hafi byrjað með þýska uppfinningamanninum Karl Drais, en hann fann upp reiðhjólið 1817. Hér er reyndar um fyrirrennara reiðhjólsins að ræða, svokallað "Draisine". 1828 var Rínarhöfnin tekin í notkun, en hún markaði tímamót í flutningum í héraðinu. 1840 fékk borgin járnbrautartengingu til Heidelberg. 1865 var litaverksmiðjan BASF stofnuð í Mannheim, en hún varð seinna meir að einni stærstu efnaverksmiðju heims. 1886 smíðaði Carl Benz fyrstu bifreiðina og ók henni um götur Mannheim. 1909 var stofnað fyrirtæki sem smíðaði 22 loftför. Fyrirtækið var aðalsamkeppnisaðili Zeppelin fyrirtækisins. Á þessum tíma varð Mannheim stórborg. Nýrri saga. Heimstyrjöldin síðari olli mikilli uppsveiflu iðnaðarins í borginni. En þá skall ógæfan yfir. Í loftárásum bandamanna var Mannheim gjöreyðilögð. Varla stóð þar steinn yfir steini í stríðslok 1945. Í apríl það ár hernámu bandarískir hermenn borgina og var hún hluti af bandaríska hernámssvæðinu. Endurreisn borgarinnar gekk hægt fyrir sig. 1967 var háskólinn í borginni stofnaður. 1975 var Mannheim valin til að hýsa garðasýninguna miklu (Bundesgartenschau), en þá var borgin risin úr öskunni og búið var að reisa ný íbúahverfi. Íþróttir. Nokkrir Íslendingar hafa sett mark sitt á handboltaliðið Rhein-Neckar-Löwen a>) mætti á Arena of Pop 2006 Aðalíþróttagrein borgarinnar er íshokkí. Félagið Adler Mannheim er margfaldur þýskur meistari. Aðalknattspyrnufélagið er SV Waldhof Mannheim 07 sem spilaði í 1. deild 1983-1990. Handknattleiksliðið Rhein-Neckar-Löwen spilar heimaleiki sína í Mannheim. Liðið leikur í 1. deild, en besti árangur þess er úrslitaleikur Evrópubikarkeppninnar 2008 (tapaði honum fyrir Veszprem frá Ungverjalandi). Fjórir Íslendingar leika eða hafa leikið með liðinu: Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson. Þjálfari liðsins er Guðmundur Þórður Guðmundsson. Á tveggja ára fresti er haldið Evrópumót unglinga í körfubolta, þar sem keppt er um Dr.- Albert-Schweitzer-bikarinn. Frægustu börn borgarinnar. Vatnsturninn í Mannheim er helsta kennileiti borgarinnar Bielefeld. Bielefeld er stórborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 323 þúsund íbúa. Hún er háskólaborg og þar er matvælafyrirtækið Dr. Oetker með aðalstöðvar. Lega. Bielefeld er í fjalllendinu Teutoburger Wald í norðausturhluta sambandslandsins, fyrir norðaustan Ruhr-héraðið. Næstu borgir eru Paderborn til suðurs (30 km), Osnabrück til norðvesturs (30 km), Münster til vesturs (30 km) og Hannover til norðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bielefeld er rautt borgarhlið á gulum grunni en rauð-hvítur skjöldur er í hliðinu. Þetta skjaldarmerki hefur verið til í borginni síðan 1263. Á 19. öld var tveimur ljónum bætt við en þeim var aftur sleppt 1973. Orðsifjar. Erfitt er að gera grein fyrir fyrri hluta nafnsins. Tilgátur eru tvær. Að "Biele-" sé dregið af "bil" eða "bihel" og merkir "öxi" (Beil) og vísar þá til þess að landið liggi eins og öxi. Eða þá að það sé nefnt eftir hæð sem heitir Bilstein eða Beilstein. "-feld" merkir "völlur". Íþróttir. Í Bielefeld eru haldin ein mestu sóttu innanhúsknattspyrnumót Evrópu í kvennaboltanum. Einnig eru þar haldin innanhúsmót fyrir unglinga, þar sem jafnvel landslið mæta. Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er Arminia Bielefeld, sem leikur ýmist í 1. eða 2. deild. Félagið hefur ekki unnið stóran bikar. Bielefeld er einn af föstu áningarstöðum í hjólreiðakeppninni Deutschland Tour. Hún hefur einu sinni verið upphafspunktur keppninnar og tíu sinnum lokatakmark keppninnar. Run & Roll Day er heiti á hlaupa- og hjólaskautakeppni sem fram fer á hraðbrautinni í borginni, sem að sjálfsögðu er lokuð allri bílaumferð á meðan. Byggingar og kennileiti. Sparrenburg-virkið á sér langa sögu Wuppertal. Wuppertal er borg í Þýskalandi við Wupper-ána í suðurhluta Ruhr-héraðs. Íbúar borgarinnar eru um 360 þúsund. Hún mydaðist af samruna borganna Elberfeld og Barmen 1929. Í Wuppertal er elsta hangandi sporvagnakerfi heims. Bochum. Bochum er iðnaðarborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 378 þúsund íbúa. Hún er í Ruhr-héraðinu. Lega. Bochum liggur austarlega í Ruhr-héraðinu og er umkringt öðrum borgum þar. Næstu borgir eru Dortmund til austurs (10 km), Recklinghausen til norðurs (10 km), Essen til vesturs (10 km) og Wuppertal til suðurs (25 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bochum er svört bók með gullnum síðum á bláum grunni. Fyrir aftan bókina er hvít-rauður borði. Merki þetta var tekið í notkun 1975 er nokkrir bæir voru innlimaðir Bochum. Hvít-rauði borðinn var merki Wattenscheid en bókin merki Bochum. Uppruni bókarinnar er óljós. Orðsifjar. Bochum hét upphaflega Bokheim og Buockheim. Það er dregið af þýska orðinu "Buche", sem merkir trjátegundina beyki. Endingin "-heim" merkir bær. Söguágrip. 890 kemur heitið Bochum fyrst við skjöl, en lítið er vitað um sögu bæjarins á miðöldum. 1321 veitti greifinn Engelbert II von der Mark Bochum borgarréttindi. Um miðja 16. öld var farið að grafa eftir kolum við borgina en hún var þó aðallega landbúnaðarborg næstu aldir. Í 7 ára stríðinu um miðja 18. öld hertóku Frakkar og prússar borgina. Strax í upphafi 19. aldar hófst iðnbyltingin í borginni er fyrsta gufuvélin í kolanámunum var tekin í notkun. 1806-1815 var Bochum í höndum Frakka, en varð prússnesk eftir það. 1834 voru fyrstu kolanámur neðanjarðar grafnar og í framhaldi af því voru fyrsti stáliðjurnar reistar. Með tilkomu járnbrautarinnar 1860 fara flutningar hraðar fram, þar sem Bochum liggur ekki við skipgengar ár. Við það blómstrar iðnaðurinn enn meir og íbúafjöldinn vex. 1898 fórust 116 kolunámumenn í einu stærsta kolanámuslysi Þýskalands fyrr og síðar. 1923 hertaka Frakkar borgina sem nokkurs konar stríðsskaðabætur og réðu þeir borginni næstu fjögur árin. Eftir valdatöku nasista í Þýskalandi voru gyðingar fluttir á brott frá borginni. Gyðingakonan Else Hirsch skipulagði leyniferðir til Hollands og Bretlands og tókst þannig að bjarga fjölda barna og unglinga, bæði gyðinga og annarra sem nasistar ofsóttu. Else sjálf var síðar flutt í útrýmingarbúðir, þar sem hún lést. Bochum varð fyrir talsverðum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari en þó ekki eins miklum og margar aðrar iðnaðarborgir. Um 38% borgarinnar eyðilagðist. 10. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust. Hún var síðan hluti af breska hernámssvæðinu. Við endurreisn borgarinnar fer iðnaðurinn í gang á ný. 1962 eru Opel-verksmiðjurnar stofnaðar í borginni og sama ár er háskólinn Ruhr-Universität stofnaður i Bochum, en hann er með stærri háskólum Þýskalands. Upp úr því fara erfiðleikar í kolavinnslunni að gera vart við sig. Einni námu eftir annarri er lokað og stálverin í kjölfarið. 1973 er síðustu kolanámunni lokað. 1975 var borgin Wattenscheid innlimuð í Bochum. Þar með fór íbúafjöldinn yfir 400 þúsund en hefur dalað síðan. Viðburðir. Bochum Total er stærsta útirokkhátíð Evrópu Bochum Total er heiti á stærstu rokk/popp útihátíð Evrópu þar sem aðgangur er ókeypis. Hátíð þessi hefur farið fram árlega síðan 1986 og fer ávallt fram seinni part júlí. Um milljón manns sækja hátíðina heim. Ýmsar hljómsveitir troða upp en eitt aðalsmerki hátíðarinnar er að bjóða ungum og óreyndum hljómsveitum að spila og afla sér reynslu. Margar þeirra hafa síðan náð að slá í gegn. Sparkassen Giro Bochum er heiti á alþjóðlegri hjólreiðakeppni sem fram fer í miðborg Bochum. Hún tekur ávallt tvo daga og er bæði fyrir atvinnuhjólreiðamenn og áhugamenn. Keppni þessi fer ávallt fram tveimur vikum eftir að Tour de France lýkur í Frakklandi. Árið 2009 sigraði Mark Cavendish frá Bretlandi, en hann er margfaldur meistari í ýmsum hjólreiðakeppnum. Löndun. Löndun kallast sú aðgerð er afli eða vörur skips eru tekin og færð að landi. Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta. Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta — (eða Óláfs saga Tryggvasonar en mesta) — er konungasaga, sem fjallar um Ólaf Tryggvason Noregskonung. Hún er samin um 1300 og styðst við "Ólafs sögu Tryggvasonar" eins og Snorri Sturluson gekk frá henni í "Heimskringlu", en eykur frásögnina mikið með öðru efni. Einkum er stuðst við fyrri sögur um Ólaf konung, t.d. Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason, glataða sögu um Ólaf eftir Gunnlaug Leifsson, og e.t.v. einnig efni úr öðrum glötuðum ritum eða úr munnlegri geymd. Sagan er varðveitt í nokkrum handritum, sem skipta má í tvo flokka. Eldri útgáfa sögunnar er í handritunum "AM 61 fol." (aðalhandrit, A), "AM 53 fol.", "AM 54 fol.", "Bergsbók" og "Húsafellsbók". Yngri útgáfa, endurskoðuð og aukin (D-gerð), er í handritunum "AM 62 fol." og "Flateyjarbók". Í "Flateyjarbók" er sagan mikið aukin, með því að skotið er inn í hana heilum sögum, eða köflum úr sögum, sem eitthvað tengjast Ólafi konungi Tryggvasyni. Þannig hefur varðveist margvíslegt efni sem annars væri glatað, t.d. meginhluti "Færeyinga sögu", sem er þar í upprunalegri gerð. Í "Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu" eru varðveittir margir þættir og sögubrot, sem eru ekki til annars staðar. Þó að sagan sé hálfgerður óskapnaður, gefur hún mikilvæga sýn inn í íslenskan bókmenntaheim um 1300. Ólafur Halldórsson handritafræðingur hefur gefið út "Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu" á vegum Árnastofnunar í Kaupmannahöfn (Den Arnamagnæanske Samling). Er útgáfan í þremur bindum, og birtist árin 1958, 1961 og 2000 í ritröðinni Editiones Arnamagnæanæ, Series A. Einnig hefur Ólafur gefið út annað efni sem tengist sögunni, t.d. "Færeyinga sögu" o.fl. Editiones Arnamagnæanæ. "Editiones Arnamagnæanæ" (latína: "Útgáfur Árna Magnússonar") er heiti á tveimur ritröðum, sem Árnasafn í Kaupmannahöfn, eða Den Arnamagnæanske Samling, gefur út. Í þessum ritröðum eru vísindalegar textaútgáfur af fornum íslenskum (eða norsk-íslenskum) ritum, og fylgja þeim ítarlegir formálar eða inngangsritgerðir um handritin og varðveislu textanna. Útgáfurnar eru fyrst og fremst ætlaðar fræðimönnum, og er miðað við að þær verði grundvöllur að öðrum útgáfum handa almennum lesendum. Kembiforrit. Kembiforrit (e. debugger) er forrit sem kembir eða leitar að villum í öðrum forritum. Það keyrir kóða skref fyrir skref ef forritarinn vill til að finna nákvæma staðsetningu villu. Það leyfir einnig forritaranum að stöðva keyrsluna, eiga við kóðann og hefja keyrslu á ný. Kembiforrit er ekki samþætt þróunarumhverfi hugbúnaðarins, heldur sjálfstæð eining. Það hleðst inn í þýdda keyrsluhæfa skrá (e. compiled executable) eða í túlkaðan kóða (e. interpreted source code) og leyfir forritaranum að rekja ferlið. Kembiforrit eru í raun ómissandi þáttur í hugbúnaðarþróun, oft fara fleiri klukkutímar í villuleit í kembiforritinu heldur en í gerð kóða. Forritarar geta föndrað saman kóða án þess að þurfa sífellt að hugsa um hvaða villur gætu mögulega komið fram. Aðgerðir. Taka í sundur (e. disassembly). Það er undirstöðuþáttur kembiforrita þar sem kóðinn er þýddur af vélamáli (e. machine code) yfir á assembly forritunarmálið (e. assembly language), sem er auðskiljanlegra fyrir forritarann. Rakning keyrslu (e. Execution Tracing). Þar er farið í gegnum keyrslu forritsins skref fyrir skref. Leyfir vöktun á registerum (e.registers), minnishólfum (e. memory locations) og táknum (e. symbols). Getur skoðað keyrsluvillur (e. runtime errors) aftur í tímann (e. back traces). Leyfir forritaranum að rekja afleiðingar af óvæntri hegðun aftur í tímann og laga það. Heimild. Greinin " á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 25. mars 2008. Málfræðivilla. Málfræðivilla vísar til villu í málskipan forritunarmáls. Venslagagnagrunnur. Venslagagnagrunnur er safn gagna sem lúta reglum um vensl gagnanna. Hugtakið vísar til gagna og skema (rökræn framsetning gagnanna). Grunnurinn er safn af venslum (töflum) og býður upp á aðferðir til að nálgast innihaldið eftir fyrirfram skilgreindum leiðum. Innihald grunnsins býr í skemum, sem innihalda töflur. Tafla (enska "Relation") er skilgreind sem safn ("Set") af röðum ("Tuples") sem hafa sömu dálka ("Attributes" eða "Columns"). Venslalíkanið gerir ráð fyrir að hvorki raðir né dálkar í venslum hafi sérstaka röðun. Hugtakið venslaðir gagnagrunnar var upphaflega skilgreint og sett fram af E.F. Codd. Aðrar aðgerið hafa verið kynntar eða lagðar til síðan Dr. Codd setti fram sínar upphaflegu átta. Normalisering. Normalisering var upphaflega tilgreind af Dr. Codd sem órofa hluti af venslalíkaninu. Normalisering inniheldur aðferðir til að losna við endurtekningar gagna. Að losna við endurtekningar hjálpar við meðhöndlun gagna og hjálpar við heilindi gagna. Notkun normaliseringar leiðir gögn á normalform. Coventry. Coventry er borg í Englandi með 318 þúsund íbúa. Borgin varð mjög illa úti í loftárásum 1940. Coventry er elsti vinabær heims en hann myndaði tengsl við Stalíngrad (nú Volgograd) meðan seinna stríðið stóð enn yfir. Kunnasti íbúi í sögu Coventry er Lafði Godiva en sagan segir að hún hafi riðið nakin á hesti sínum um götur bæjarins á 11. öld til að losa íbúana undan skattaáþján eiginmanns síns. Lega og lýsing. Coventry er í Vestur-Miðhéruð Englands og er sú breska borg sem lengst er frá sjó. Næstu stærri borgir eru Birmingham til norðvesturs (30 km), Leicester til norðausturs (40 km), Oxford til suðurs (80 km) og London til suðausturs (140 km). Miðborgin samanstendur að miklu leyti af nýlegum byggingum, enda nær gjöreyðilagðist hún í loftárásum 1940. Orðsifjar. Tvær tilgátur eru til um tilurð heitisins Coventry. Líklegri tilgátan er sú að borgin heitir eftir mannanafninu Cofa eða Coffa, sem átti að hafa gróðursett tré þar sem nú er miðborgin. Þannig breyttist "Cofa's Tree" yfir í Coventry. Hin tilgátan er sú að borgin hét upphaflega Coventre. Það er samsett úr Coven og Tre. Coven er komið úr "convent", sem merkir "klaustur". Tre er keltneska og merkir "bær". Merkingin væri því "klausturbærinn". Íbúar borgarinnar eru kallaðir Coventrians. Upphaf. Lafði Godiva. Málverk eftir John Collier ca. 1897 Talið er að byggð í Coventry hafi myndast í kringum nunnuklaustur sem stofnað var um 700 e.Kr. Byggð á staðnum var í upphafi óhagstæð sökum skóga sem varð að ryðja. Coventry kom fyrst við skjöl 1016 er Knútur ríki, sonur Danakonungs, herjaði á sveitirnar þar kring. Hann eyddi klaustrinu og byggðinni í Coventry. Staðurinn var endurbyggður um miðja 11. öld af Leofric, jarlinum af Mercíu, og eiginkonu hans Lafði Godivu. Þau stofnuðu nýtt klaustur af Benediktínusarreglu árið 1043 og helguðu það heilagri Maríu. Sagan segir að Leofric hafi skattpínt íbúa Coventry um of. Lafði Godiva fannst nóg um og bað bónda sinn ítrekað að draga úr sköttunum. Að lokum varð hann svo þreyttur á ítrekuðum beiðnum hennar að hann sagðist muni draga úr skattinum ef hún myndi ríða nakin um götur bæjarins. Lafðin tók hann á orðinu og gerði það eftir að hún hafði gefið út tilkynningu þess efnis að íbúar bæjarins skyldu halda sig innandyra og loka gluggum sínum meðan á reiðinni stæði. Sögulegum heimildum ber hins vegar ekki alveg saman við þessa þjóðsögu. 1095 flutti Robert de Limesey biskupsstól sinn til Coventry. Maríukirkjunni í klaustrinu var þá breytt í dómkirkju 1102 og stækkuð í framhaldinu. Miðaldir. María Stúart var til skamms tíma fangi í Coventry Bærinn stækkaði ört. Hann hlaut þrenn mismunandi verslunarréttindi 1150-1200 af jarlinum af Chester og af Hinrik II Englandskonungi. Helstu vörur sem íbúar framleiddu og seldu voru ull, sápa, nálar, málmar og leðurvörur. Ullin var lituð blá og var eftirsótt víða í Evrópu. Auk þess var nokkur gler- og flísaframleiðsla í bænum. 1345 veitti Játvarður III Coventry borgarréttindi, þar á meðal réttindi til að kjósa sér borgarstjóra. Við lok 14. aldar voru íbúar Coventry orðnir 10 þúsund og þar með var borgin sú fjórða stærsta í Englandi. Auður staðarins varð til þess að borgarmúrar voru reistir til varnar. Múrarnir voru alls með 32 turna og 12 hlið. Verkinu lauk ekki fyrr en 1534 og var þá sagt að Coventry væri best varða borgin í Englandi utan London. Nokkru sinnum þingaði Englandskonungur í Coventry, sem þá var tímabundið önnur höfuðborg Englands. Helst var það Hinrik IV sem hélt þing þar 1404 og Hinrik VI meðan Rósastríðin stóðu yfir. Snemma á 16. öld leysti Hinrik VIII kaþólsku kirkjuna upp í Englandi. Var þá einnig klaustrið í Coventry lagt niður. Íbúarnir tóku vel í breytingarnar. Þegar María I Englandsdrotting (Blóð-María) reyndi að endurvekja kaþólsku kirkjuna með valdi, neituðu íbúarnir að hlýða og þoldu frekar ofsóknir. Fram til 1555 voru 12 manns brenndir á báli fyrir að neita að taka kaþólskri trú á ný. Elísabet I var gestur í Coventry 1565 og 1569 var María Stúart í varðhaldi í borginni til skamms tíma. Borgarastríð. 1617 sótti Jakob I konungur Coventry heim. Borgin hélt mikla veislu fyrir hann og studdi hann dyggilega. Það breyttist þó 1635 er konungur heimtaði skipaskatt, enda borgarbúar ekki hrifnir af því að þurfa að greiða aukaskatt fyrir flota konungs. Þar af leiðandi studdi borgin þingið þegar enska borgarastyrjöldin braust út. Í nokkur skipti réðist konungsherinn á borgina, en hún stóðst öll áhlaup, enda borgarmúrarnir enn í góðu standi. Í eitt skipti, 1642, birtist Karl I konungur í eigin persónu við Coventry ásamt sex þúsund manna riddaraliði en beið mikinn ósigur utan við borgarmúrana. Við lok stríðsins 1662, þegar konungdómurinn hafði verið endurreistur í landinu, lét Karl II konungur rífa niður borgarmúrana í hefndarskyni fyrir stuðning borgarbúa við þingið. Þótt Jakob II hafi fengið góðar viðtökur í Coventry 1687, fögnuðu borgarbúar innilega þegar Vilhjálmur af Óraníu varð Englandskonungur tveimur árum síðar. Iðnbyltingin. Skipaskurðurinn Coventry Canal eins og hann lítur út í dag Í upphafi iðnbyltingarinnar sköpuðu bættar samgöngur grundvöll fyrir betri afkomu iðnaðarins. Í lok 18. aldar var skipaskurðurinn Coventry Canal opnaður og 1838 fékk borgin járnbrautartengingu. Helsta atvinnugrein borgarinnar var silkivefnaður. Tíu þúsund manns störfuðu í þeirri grein 1818 en voru orðnir 25 þúsund 1857. Algert hrun varð á þessum iðnaði á sjöunda áratug 19. aldar sökum innflutnings á erlendum silkivörum. Þá skipti borgin yfir í annan iðnað, svo sem úrsmíði. 1861 unnu rúmlega tvö þúsund manns við þá iðju í borginni. Þegar sá iðnaður lenti undir í samkeppni við svissnesk og amerísk úr á níunda áratug 19. aldar, var byrjað að framleiða saumavélar og reiðhjól. 1890 var reiðhjólaframleiðslan í borginni orðinn sá stærsti í heimi, en við hann störfuðu 40 þúsund manns í 248 fyrirtækjum. Sá iðnaður þróaðist yfir í bílasmíði og loks flugvélasmíði þegar kom fram á 20. öld. Fyrsti enski bíllinn var smíðaður í Coventry 1897 hjá Daimler Motor Company. Á fyrri hluta 20. aldar fór framleiðsla á bílum ört stækkandi, en þar voru smíðaðir Jaguar, Rover og Rootes bílar. 1938 voru 38 þúsund manns starfandi í bílaiðnaðinum. 1916 hófst flugvélaframleiðsla í borginni og var hún ein sú mesta í Bretlandi fram að seinna stríði. Þegar stríðið hófst var stór hluti iðnaðarins í borginni að framleiða hergögn eða þjónusta herinn að öðru leyti. Heimstyrjöldin síðari. a> og fylgdarlið í rústum dómkirkjunnar 28. september 1941 25. ágúst 1939, aðeins nokkrum mánuðum áður en heimstyrjöldin hófst formlega, framdi frelsisher Íra (IRA) hryðjuverk í Coventry. Sprengju var komið fyrir í reiðhjólakörfu og sprakk hún í Broadgate, aðalgötu miðborgarinnar. Fimm manns biðu bana, 100 slösuðust. Coventry varð fyrir gífurlegum loftárásum þýska flughersins. Fyrstu árásirnar áttu sér stað í október 1940 og fórum fram í litlum holum í heilan mánuð. Dekkstu stundir borgarinnar hófust þó um kvöldið 14. nóvember sama ár. 515 þýskar flugvélar vörpuðu þá þúsundum sprengja yfir borgina. Árásirnar stóðu yfir í alla nótt (11 tíma) og lauk ekki fyrr en komið var fram undir morgunn. Þegar vélarnar höfðu losað sig við allar sprengjur, flugu þær til Frakklands, tóku upp nýjar og flugu beint aftur til Coventry til að halda áfram eyðingarferlinu. Þannig var borgin bókstaflega sprengd niður og látin brenna í eldhafi. Tveir þriðju hlutar borgarinnar eyðilagðist eða stórskemmdust. Miðborgin eyðilagðist að öllu leyti. Þriðjungur verksmiðja eyðilagðist, annar þriðjungur stórskemmdist og restinn hlaut minniháttar skemmdir. Aðeins 568 manns biðu bana, þar sem margir höfðu yfirgefið borgina skömmu áður og margir náðu að komast í loftvarnabyrgi í tæka tíð. Goebbels var svo ánægður með árangurinn að hann talaði um "koventrieren" (að gera Coventry) í þeirri meiningu að gjöreyða. Bretar kölluðu árásir þessar hins vegar Coventry Blitz. Hægt var að lagafæra margar verksmiðjanna þannig að þær gátu haldið framleiðslu sinni áfram eftir nokkra mánuði. Tvisvar enn varð borgin því fyrir loftárásum: 8.-11. apríl 1941 og 3. ágúst 1942. Enn létust hundruðir manna og margar verksmiðjur skemmdust. Coventry skemmdist meira í stríðinu en flestar aðrar enskar borgir sem urðu fyrir loftárásum. Aðeins London og Plymouth skemmdust meira. Nýrri tímar. Hillman Avenger framleiddur í Coventry Eftir stríð varð ljóst að langflestar gömlu byggingar borgarinnar voru eyðilagðar. Miðborgin var að öllu leyti endurreist. Ekki var reynt að halda í gömlu borgarmyndina, heldur risu nútímahús, verslanir, skrifstofubyggingar og jafnvel ein allra elsta göngugata Evrópu. Skipulagið var þó ábótavant og því mynduðust engin eiginleg aðskilin hverfi og ekkert var einsleitt. Talað er um einn hrærigraut ("hodge-podge") varðandi útlit og notkun bygginga í miðborginni. Sökum mikils bílaiðnaðar í borginni hlaut Coventry auknefnið "Motor City" og "Hin breska Detroit". Ýmsar bíltegundir voru framleiddar þar, bæði breskir og erlendir. 1960 náði borgin mesta fjölda íbúa, 335 þúsund, en hefur dalað mikið síðan. Bílaiðnaðurinn staðnaði á 8. og sérstaklega 9. áratugnum og hætti með öllu 2006. Þetta olli miklum erfiðleikum og atvinnuleysi. Reyndar hafa bæði Jaguar og Peugeot heitið því að hefja framleiðslu í borginni á ný í náinni framtíð. Viðburðir. Godiva Festival er heiti á tónlistarhátíð en hún er nefnd eftir Lafði Godiva, þekktasta íbúa Coventry. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1997 og stóð í heilan dag. Strax árið eftir var hún lengd í þrjá daga. Tónlistarstefna hátíðarinnar er ýmis konar, allt frá poppi til reggí og hipp hopp. Aðalviðburður hátíðarinnar er Godiva-skrúðgangan, en hún hefur farið fram síðan á 17. öld. Íþróttir. Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er Coventry City. Félagið spilaði í efstu deild í 34 ár, frá 1967-2001. Besti árangur þess er sjötta sætið leiktíðina 1969-70. Coventry sigraði í bikarkeppninni 1987 (sigraði þá Tottenham í úrslitaleik) en fékk ekki þátttökurétt í Evrópukeppni bikarhafa sökum atburðanna á Heysel-leikvanginum á sama ári. Frá Coventry er vélhjólaliðið Coventry Buildbase Bees, sem keppir í efstu deild í landinu. Í liðinu eru níu hjólamenn og hafa þeir unnið mýmarga titla í gegnum tíðina, þar á meðal bikarþrennuna 2007. Á árunum 1998 og 2000 var landskeppnin í vélhjólaakstri (Speedway) háð í Coventry. Coventry Jets er íþróttafélag sem keppir í ruðningi. Það var stofnað 2003 og er með bestu liðum landsins. Félagið varð enskur meistari 2008. Rúgbý-liðin í borginni eru tvö: Coventry R.F.C. og Coventry Bears, en þau keppa í sitthvorri deildinni. Önnur þekkt íþróttafélög í borginni eru Coventry Crusaders í körfubolta, Coventry Blaze í íshokkí og Coventry Godiva Harriers í frjálsum. Árið 2005 var Coventry fyrsta enska borgin sem var gestgjafi í Alþjóðlegu barnaleikunum (International Children's Games). Byggingar og kennileiti. Rústir dómkirkjunnar er heilög grund Sökum þess að Coventry varð illa úti í loftárásum seinna stríðs, eru nær engar gamlar byggingar í borginni. Alicante. Alacante er borg í Valensíu á Spáni. Íbúar borgarinnar sjálfrar eru rúmlega 331 þúsund en á stórborgarsvæðinu búa rúmlega 757 þúsund manns. Las Palmas de Gran Canaria. Las Palmas de Gran Canaria, einnig nefnd Las Palmas, er borg á spánsku eyjunni Gran Canaria sem er ein af Kanaríeyjum. Íbúar borgarinnar eru um 377 þúsund. Palma de Mallorca. Palma er stærsta borgin á spánsku eyjunni Mallorca með rúmlega 383 þúsund íbúa en á stórborgarsvæðinu búa rúmlega 517 þúsund manns. Bari. Bari (einnig stundum nefnd Bár á íslensku) er borg á sunnanverðri Ítalíu við Adríahafið. Íbúar Bari eru um 329 þúsund en á stórborgarsvæðinu búa um 653 þúsund manns. Catania. Catania er borg á Sikiley með um 306 þúsund íbúa en á stórborgarsvæðinu búa um 750 þúsund manns. Borgin, sem var upphaflega forngrísk nýlenda (Κατάνη), er á austurhluta eyjunnar, mmiðja vegu milli Messínu og Sýrakúsu, við rætur eldfjallsins Etnu. Nottingham. Nottingham er borg í Nottinghamshire í Englandi með rúmlega 300 þúsund íbúa. Á stórborgarsvæðinu búa um 640 þúsund manns. Nottingham varð að mikilli iðnaðarborg á 19. öld og er einnig þekkt fyrir sögurnar um Hróa hött. Mikil ferðamennska einkennir borgina í dag. Lega og lýsing. Nottingham er í Austur-Miðhéruðum Englands, nokkuð norðarlega í landinu, og liggur við ána Trent. Hún er næststærst í héraðinu, á eftir Leicester. Næstu stærri borgir eru Derby til vesturs (20 km), Leicester til suðurs (30 km) og Sheffield til norðurs (40 km). Til austurs er Wash-fjörðurinn (60 km). London er um 140 km til suðausturs. Orðsifjar. Borgin heitir eftir saxa-höfðingjanum Snot og hét bærinn upphaflega Snotingaham. Inga er gamalt germanskt orð yfir fólk eða menn. "Ham" þýðir "heimili" eða "aðsetur". Merkingin er því "heimili liðsmanna Snots". Með tímanum var "ess"-inu sleppt úr heitinu, enda minnti það of mjög á orðið "snotty", sem hefur neikvæða merkingu. Upphaf. Stytta af Hróa hetti á markaðstorginu í Nottingham Kastalinn í Nottingham. Teikning frá 19. öld. Fyrsta byggðin sem myndaðist á svæðinu var í hellum (Nottingham Caves). Þeir voru ekki náttúrulegir, heldur manngerðir, enda er bergið í kring úr sandsteini. Hellakerfið er það stærsta í Englandi og er ákaflega vinsæll viðkomustaður ferðamanna í dag. Engilsaxar bjuggu á svæðinu fram til 867, en þá hertóku danskir víkingar bæinn, sem eftir það var hluti Danalaga. Normannar, að skipan Vilhjálms sigursæla, reistu kastala í Nottingham skömmu eftir landtökuna 1066 en hann kom við sögu í hinni þekktu þjóðsögu um Hróa hött. Hrói bjó í Skírisskógi norður af bænum á 12. öld, en aðalandstæðingur hans var fógetinn í Nottingham. Þjóðsagan gerist er Ríkharður konungur ljónshjarta var í krossferð í landinu helga en á meðan hafði yngri bróðir hans, Jóhann landlausi, seilst til valda. Við heimkomuna tók Ríkharður því kastalann í Nottingham, enda var hann talinn eitt sterkasta vígi landsins. Bærinn var alla tíð lítill. Á 14. öld bjuggu í honum þrjú þúsund manns og hafði þeim ekki fjölgað nema upp í fjögur þúsund þegar komið var fram á 17. öld. Borgarastyrjöldin. Um miðja 17. öld dró til tíðinda í Englandi, en þá skiptist þjóðin (og landið sjálft) í tvær fylkingar: Fylgjendur Karls I konungs og fylgjendur þingsins í London. Konungur réði ekki nema norður og vesturhluta Englands. 22. ágúst 1642 var Karl í Nottingham og lét hífa konungsflaggið að gömlum hermannasið til að safna liði. Þetta þótti mikil ögrun við þingið, sem einnig safnaði liði. Sumir fræðimenn marka atburð þennan sem upphafið að enska borgarastríðinu. 1651 réðist her þingsins á kastalann í Nottingham og eyddi honum að mestu leyti. Í bænum var einn elsti banki Englands, Smith's Bank, opnaður utan London 1688. Iðnbyltingin. Segja má að iðnbyltingin hafi byrjað í Nottingham er skipaskurðurinn Nottingham Canal var tekinn í notkun 1796 en á þessum tíma voru bæjarbúar orðnir tæplega 30 þúsund. Var þá hægt að flytja kol til og frá bænum fljótar og í meira magni en áður. Aðalatvinnuvegurinn var vefnaður, sérstaklega þó fínvefnaður. Á hinn bóginn voru félagslegar aðstæður afleitar. Í Nottingham voru verstu fátækrahverfin í landinu. Mikil uppreisn fátæka fólksins endaði með því að kveikt var í kastalanum í Nottingham 1831. Á sama ári var Nottingham fyrsta borg Bretlands þar sem háþrýstivatnsleiðslur voru teknar í notkun. Bærinn fékk svo járnbrautartengingu við Derby 1839. Mesta fjölgun bæjarins átti sér stað milli 1871 og 1881 en þá nánast tvöfaldaðist íbúatalan, fór úr 87 þúsund í 159 þúsund. Fjölgunin hélt áfram næstu áratugi. Það var svo Viktoría drottning sem veitti Nottingham borgarréttindi 18. júní 1897. Heimstyrjöldin síðari. Nottingham var fyrsta borgin í Bretlandi sem kom sér upp vörnum við loftárásum þegar heimstyrjöldin síðari hófst. Byggð voru loftvarnabyrgi og 45 slökkvimiðstöðvar dreifðar á víð og dreif í borginni. Að auki var sett upp tæki sem sendi út útvarpsbylgjur sem áttu að trufla eða afvegaleiða þýskar flugvélar sem voru með miðunartæki. Borgin varð aðeins einu sinni fyrir árásum. Það gerðist nóttina 8.-9. maí 1941. Það bjargaði strax að útvarpsbylgjurnar rugluðu margar þýskar vélar, þannig að þær vörpuðu sprengjum sínum í mýrlendi fyrir norðan og austan borgina. Engu að síður voru 100 aðrar vélar sem létu sprengjum rigna yfir borgina. 159 manns biðu bana og tæplega 300 aðrir slösuðust. Hins vegar náðist að slökkva nær alla elda áður en þeir náðu að breiðast út, þannig að skemmdir á byggingum og verksmiðjum var talsvert minni en í öðrum enskum borgum. Alls eyðilögðust 4.500 hús. Atburður þessi kallast Nottingham Blitz. Nýrri tímar. Eftir stríð hrundi vefnaðariðnaðurinn, þannig að hann er í algeru lágmarki nú til dags. Við tók öðruvísi iðnaður og þjónusta. Í borginni er stærsta lyfjafyrirtæki landsins, Boots. Þar er einnig fyrirtækið Games Workshop, sem er leiðandi í heimi á sviði míníherleikja (Table Top Games). Í borginni eru tveir háskólar. Ferðamennska er æ ríkari þáttur í atvinnuvegi borgarinnar. Margir koma til að skoða gamla hellakerfið, sem er að hluta enn í notkun. Einnig hefur kastalinn og þjóðsagan um Hróa hött mikið aðdráttarafl. Viðburðir. Nottingham Goose Fair skemmtigarðurinn, séð úr risahjólinu að kvöldlagi Íþróttir. Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru tvö: Nottingham Forest og Notts County. Bæði liðin eru meðal allra elstu félögum heims (stofnuð 1865 og 1862). Íshokkí er mjög vinsæl íþrótt í Nottingham. Helsta liðið er Nottingham Panthers, sem er margfaldur meistari. Skautahöllin National Ice Centre er ekki aðeins notuð fyrir íshokkí, heldur einnig skautahlaup og ísdans. Í höllinni hófst glæsilegur íþróttaferill Jayne Torvill og Christopher Dean, bæði uppalin í Nottingham. Þau hlutu að lokum bæði gullverðlaun í ísdansi á Vetrarólympíuleikunum 1984 í Sarajevó með fullt hús stiga. Nottingham Open er tenniskeppni sem haldin er vikuna fyrir Wimbledon-mótið og er gjarnan notað af tennisstjörnum sem upphitunarmót. Í Nottingham er manngerð róðrarbraut, Holme Pierrepont, 2 km löng. Brautin er notuð fyrir kappróður, en þar einnig flúðabraut fyrir kanúkeppnir. Robin Hood Marathon er árlegt Maraþonhlaup sem fer fram í miðborginni. Einnig er boðið upp á hálfmaraþon og skemmtiskokk. Af öðrum íþróttum sem stundaðar eru í borginni má nefna krikket og rúgbý. Byggingar og kennileiti. The Trip er hugsanlega elsta kráin í Englandi Lille. Lille er borg í Frakklandi með um 227 þúsund íbúa en á stórborgarsvæðinu búa um 1,9 milljónir manna og er það fjórða stærsta stórborgarsvæði Frakklands. Lúxemborg (borg). Lúxemborg er höfuðborg landsins Lúxemborg. Hún er jafnframt stærsta borg landsins með um 77 þúsund íbúa. Rómarsáttmáli. Rómarsáttmáli var sáttmáli, sem markaði upphaf Evrópubandalagsins og var undirritaður 25. mars 1957 í Róm, af fulltrúum Frakklands, Vestur-Þýskalands, Ítalíu, og Benelúxlandanna. Sáttmálinn tók gildi 1. janúar 1958. Maastrichtsamningurinn tók við af Rómarsáttmála 1992, en með honum þróaðist Evrópubandalagið yfir í Evrópusambandið. Almere. Almere er borg í Hollandi með um 180 þúsund íbúa og er áttunda stærsta borg landsins. Borgin var stofnuð árið 1976. Varna. Varna er borg í Búlgaríu við strönd Svartahafsins. Hún er þriðja stærsta borg landsins með um 350 þúsund íbúa. Plovdiv. Plovdiv er borg í Búlgaríu. Hún er næst stærsta borg landsins með um 380 þúsund íbúa. Katowice. Katowice er borg í Suður-Póllandi. Íbúar borgarinnar eru um 318 þúsund en á stórborgarsvæðinu búa um 3,5 milljónir manna. Constanţa. Constanţa eða Konstantía er ein af elstu borgum Rúmeníu og sú fjórða stærsta með um 306 þúsund íbúa en á stórborgarsvæðinu búa um 600 þúsund manns. Höfnin í Constanţa er stærsta höfnin við Svartahafið. Kaunas. Kaunas er næst stærsta borgin Litháen, á eftir höfuðborginni Vilnius, með um 360 þúsund íbúa. Kaunas var áður höfuðborg landsins. Iaşi. Iaşi er borg í norðausturhluta Rúmeníu með um 316 þúsund íbúa. Borgin var áður höfuðborg Moldóvu eða til ársins 1861. Timişoara. Timişoara er borg í Vestur-Rúmeníu með rúmlega 308 þúsund íbúa hún er bæði fjármála- og menningarmiðstöð í vesturhluta landsins. Í borginni hófust óeirðir í desember 1989, sem leiddu fljótlega til uppreisnar og falls kommúnistaflokksins og aftöku Caeusescuhjónanna. Galaţi. Galaţi er borg í Austur-Rúmeníu. Borgin er sjöunda stærsta borg landsins með um 295 þúsund íbúa. Galaţi liggur við Dóná. Cluj-Napoca. Cluj-Napoca er þriðja stærsta borgin í Rúmeníu með um 310 þúsund íbúa. Borgin var stofnuð árið 1213 Mainz. Mainz er höfuðborg þýska sambandslandsins Rínarland-Pfalz og er jafnframt stærsta borg sambandslandsins með 199 þúsund íbúa. Mainz er háskólaborg, biskupsetur og aðsetur ýmissa sjónvarpsstöðva. Lega. Loftmynd af Rínarfljóti. Til vinstri er Mainz, til hægri Wiesbaden. 50. breiddarbaugur fer í gegnum Mainz Mainz liggur við Rínarfljót austast í sambandslandinu, gegnt Wiesbaden í Hessen. Næstu borgir (fyrir utan Wiesbaden) eru Frankfurt am Main til norðausturs (25 km), Mannheim til suðurs (50 km) og Koblenz til norðvesturs (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Mainz eru tvö hvít hljól á rauðum grunni. Hjólin eru tengd með hvítum krossi. Hjólin komu fyrst fram um 1300, núverandi merki hefur verið óbreytt frá 1915. Tilurð hjólanna er ekki óyggjandi. Talið er að þau eigi uppruna sinn með biskupum kirkjunnar, enda var það talið merki heilags Marteins, sem er verndardýrlingur borgarinnar. Orðsifjar. Heitið hefur breyst mjög mikið frá fyrstu tíð. Borgin hét upphaflega Mogontiacum á tímum Rómverja, sem er dregið af keltneska goðinu Mogon. Á 6. öld hét hún Moguntia, á 7. öld Magancia, við lok miðalda Maginze og Menze og þá kom einnig fyrst fram heitið Maintz, en einnig Menz og Maynz. Í hinum forna íslenska leiðarvísi pílagríma til Rómar, er borgin kölluð Meginsborg. Rómverjar. Júpitersúlan í Mainz minnir á rómverska fortíð borgarinnar Mainz var upphaflega rómversk herstöð. Hún var stofnuð 13 eða 12 f.Kr. af Drúsusi eldri, sem var herstjóri, stjórnmálamaður og stjúpsonur Ágústusar keisara. Úr herstöðinni varð borgin Mogontiacum, sem er með elstu borgum í Þýskalandi. Ein heimild nefnir árið 38 f.Kr. sem stofnár herstöðvarinnar og er það í dag viðurkennt sem stofnár borgarinnar Mainz. Borgin var landamæraborg í jaðri Rómaveldis við Rín, en á eystri bakkanum bjuggu germanir. Mainz var mikilvægasta herstöð við landamærin og 89 e.Kr. varð hún höfuðborg skattlandsins "Germania Superior". Mainz átti eftir að halda status sinn sem höfuðborg fram til dagsins í dag, með nokkrum hléum. Á 4. öld réðust alemannar nokkrum sinnum á borgina. 357 náðu þeir henni á sitt vald, þar til Júlíanus (síðar keisari Rómaveldis) náði að frelsa hana tveimur árum seinna. Árið 368 var borgin orðin kristin en frá því ári eru elstu heimildir um biskupssetur þar. 407 fóru vandalir yfir Rínarfljót og eyddu borginni. Rómverjar bjuggu þó þar áfram allt til seinni hluta 5. aldar, er frankar og aðrir germanskir þjóðflokkar hröktu þá þaðan. Miðaldir. Á tímum franka var Mainz enn mikilvægt biskupssetur. Á miðri 8. öld sendi Bonifatíus biskup kristniboða til Austur-Evrópu og til saxa. Eftirmaður hans varð Lúllus, en á hans tíma varð Mainz að erkibiskupssetri. Karlamagnús átti víða aðsetur. Eitt þeirra var ekki langt frá Mainz, en víst er að Karlamagnús hélt þing í Mainz og það gerðu eftirmenn hans einnig allt til Friðriks Barbarossa. Þegar frankaríkinu mikla var skipt í þrennt með Verdun-samningnum árið 843, lenti Mainz fyrst í miðríkinu, Lóþaringíu, en seinna í austurríkinu, sem var þýska ríkið. Þá varð Mainz orðið stærsta biskupssetur norðan Alpa. Biskuparnir þar urðu þá að kjörfurstum og ríkiskönslurum, og hélst þessi skipan allt til 1803. Þar með var Mainz orðin höfuðborg á ný. Erkibiskupinn hverju sinni varð jafnframt að staðgengli páfa norðan Alpa. Síðla á 9. öld varð Willigis erkibiskup einnig að ríkisstjóra fyrir hinn ómynduga keisara Otto III. Það með varð Willigis að einum voldugasta fursta Evrópu á sínum tíma. Skattpeningar streymdu til Mainz, sem upplifði mikið blómaskeið. 1184 bauð Friðrik Barbarossa keisari til veislu í Mainz, sem talin er mesta veisla miðalda. Tilefnið var að synir hans, Hinrik og Friðrik, voru slegnir til riddara. Nær allir furstar ríkisins voru viðstaddir, sem og 40 þús riddarar. Strax í kjölfar hennar fór hann þaðan í krossferð til landsins helga en drukknaði í þeirri ferð. Fjórir konungar þýska ríkisins voru krýndir í Mainz. Sá síðasti var Friðrik II árið 1218. Á konungslausa tímanum á miðri 13. öld stofnuðu borgirnar Mainz og Worms friðarbandalag gegn stríðandi fylkingum í ríkinu. Bandalag þetta kallaðist Rínarbandalagið ("Rheinischer Städtebund") og gengu ýmsar borgir í bandalagið, allt 59 borgir. Síðmiðaldir. Einn merkasti atburður borgarinnar Mainz átti sér stað 1450 en þá smíðaði Jóhannes Gutenberg prentvél með lausstafaprenti fyrstur manna. Prentvél þessi olli byltingu í bóka- og bæklingagerð um allan heim. Fimm árum síðar prentaði Gutenberg fyrstur manna Biblíuna með slíkri prentun. Ellefu eintök eru enn til af Gutenbergbiblíunni. 1459 varð Diether von Isenburg valinn erkibiskup og kjörfursti í Mainz. Hann fjandskapaðist hins vegar við bæði keisara og páfa á árunum á eftir. Páfi setti Diether af og valdi nýjan erkibiskup. En borgarbúar stóðu með biskupi sínum og meinuðu nýja biskupinum inngöngu. Nýi biskupinn, Adolf, náði að hertaka borgina 1462 og afnam öll réttindi borgarbúa. 1477 var háskólinn í borginni stofnaður og var hann starfræktur til 1823. Árið 1946 var hann endurstofnaður og heitir "Johannes Gutenberg-Universität" í dag. Siðaskiptin. Í upphafi 16. aldar varð Albrecht nýr erkibiskup í Mainz. Hann var samtímis með háar stöður annars staðar í ríkinu og varð því að greiða páfagarði háar summur til að viðhalda embætti sínu í Mainz. Þessir aurar komu ekki síst af sölu aflátsbréfa en í Mainz starfaði Jóhann Tetzel, frægasti aflátssali ríkisins, af miklum eldmóði. Þetta leiddi meðal annars til þess að Marteinn Lúther hóf mótmæli sín, sem leiddu til siðaskiptanna. Í fyrstu var Albrecht biskup frekar hlynntur nýju trúnni, þar sem hann hafði orðið fyrir áhrifum húmanisma. En síðar ákvað hann að halda fast við kaþólska trú, enda hefði hann misst kjörfurstaembætti sitt og biskupsstólinn með nýju trúnni. Öll yfirstjórn borgarinnar viðhélst kaþólsk. 1552 réðist siðaskiptaher á ýmsar borgir í héraðinu. Þegar hann nálgaðist Mainz, flúði biskup og borgarstjórnin og stóð borgin varnarlaus eftir. Herinn tók borgina, rændi og ruplaði og eyðilagði margar byggingar. 1555 varð Daníel Brendel nýr erkibiskup. Hann bauð jesúítum til borgarinnar og hóf endurreisn kaþólsku kirkjunnar þar í borg. Þar með lauk tilraunum lúterstrúarmanna til að festa rætur í borginni. Fyrsti lúterski söfnuðurinn í Mainz var ekki stofnaður fyrr en 1802. 30 ára stríðið. Í upphafi stríðsins kom Mainz ekkert við sögu. Í borginni voru menn uppteknir við að reisa fagrar og glæsilegar byggingar en einnig að víggirða borgina. 1630 hófu Svíar þátttöku í stríðinu og voru þeir komnir til Mainz í október 1631. Erkibiskupinn flúði til Kölnar. Svíar hófu umsvifalaust umsátur um borgina, sem gafst upp eftir nokkurt samningsþóf. Svíar tóku því Mainz bardagalaust og gengu fylktu liði inn í borgina 23. desember 1631. Svíar létu borgarbúa í friði og leyfðu borgarráði að sitja áfram. Þeir kröfðust hins vegar gríðarlegs lausnargjalds og létu flytja ýmis menningarverðmæti til Svíþjóðar, svo sem bækur úr bókasafninu. Gústaf Adolf kom á trúfrelsi í borginni en flestir íbúar kusu að vera kaþólskir áfram. Gústaf lést 1632 og Svíar töpuðu í stórorrustunni við Nördlingen tveimur árum síðar. Í kjölfarið yfirgáfu Svíar Mainz. Síðustu sænsku hermennirnir yfirgáfu borgina 9. janúar 1636. Árið 1666 geysaði skæð pest í borginni. 1688 réðust Frakkar á Mainz í 9 ára stríðinu með 20 þús manns. Aðeins 800 hermenn voru til varnar og gáfust þeir umsvifalaust upp. Frakkar hertóku borgina í október og héldu henni í rúma átta mánuði, þar til keisaraher frelsaði hana. Franski tíminn. Prússar gera umsátur um Mainz. Fyrir innan vörðust Frakkar. Eftir frönsku byltinguna 1789 fór fram furstaþing í Mainz 1792 þar sem ráðgast var um að binda enda á byltinguna og hóta Frökkum. Franz II keisari sagði Frakklandi stríð á hendur. En Frakkar tóku Loðvík XVI af lífi og réðust inn í þýska ríkið. Í október náði byltingarherinn til Mainz. Biskupinn flúði, ásamt fjórðungi borgarbúa, aðallega heldra fólki. Borgarráð ákvað að gefast upp fyrir Frökkum, áður en þeir hæfu skothríð á borgina. Því hertóku Frakkar borgina bardagalaust en Mainz var fyrsta þýska stórborgin sem Frakkar náðu á sitt vald í stríðinu. Margir litu á innrásarliðið sem frelsara, þar sem Frakkar skildu biskupsdæmið að frá veraldlegri stjórnun. Ári síðar leyfðu þeir lýðræðislegar kosningar en í þeim var ákveðið að gera Mainz að lýðveldi. Það var stofnað 17. mars og var fyrsta lýðveldið á þýskri grundu í sögunni. En það stóð stutt yfir. Strax í apríl kom prússneskur her á vettvang og hóf umsátur um borgina. Prússar voru með 32 þúsund manna lið en í borginni voru rúmlega 20 þúsund Frakkar. Þegar Austurríkismenn komu með 11 þúsund manna lið skömmu síðar, hófst mikil skothríð á Mainz. Þjóðskáldið Goethe var einn sjónarvotta og bjó til ritaða heimild um atburðina ("Die Belagerung von Mainz"). 23. júlí gáfust Frakkar upp. Prússar réðu eftir það í borginni og leystu hið unga lýðveldi upp. 1797 voru Frakkar aftur á ferðinni og hertóku borgina bardagalaust. Þetta markaði endalok Mainz sem furstadæmi og höfuðborg (í bili). Biskupinn missti varanlega öll völd sín. 1803 lögðu Frakkar kirkjuvaldið endanlega niður en það hafði ríkt í borginni í rúm 1000 ár. Napoleon sjálfur var tíður gestur í Mainz. Hann lét umbreyta ásýnd borgarinnar, lét rífa margar byggingar og kirkjur, og breikka götur. Eftir hrakfarir hans í Rússlandi hófu Frakkar að draga sig til baka. Síðustu frönsku hermennirnir yfirgáfu Mainz 4. maí 1814. En sökum þess að ekki var komist að samkomulagi um það hver átti að ráða í héraðinu var ákveðið að Mainz skyldi lúta sameiginlegri stjórn þýskra fursta. 1816 var borgin svo innlimuð Hessen. Þessi ráðahagur hélst allt til 1918. Iðnbylting. 1848 brutust út óeirðir í borginni, er borgarbúar kröfðust meira frelsis, ritfrelsis, trúfrelsis og þings. Prússneskur her bældi óeirðirnar niður. Í kjölfarið féll borgin í lágdeyðu, sem gerði það að verkum að iðnbyltingin hófst mjög seint þar. Það var ekki fyrr en 1853 að Mainz fékk járnbrautartengingu og skánaði ástandið þá töluvert. Innan við tíu ár voru verksmiðjur orðnar 164 í borginni. 18. nóvember 1857 átti sér stað stórslys er Marteinsturninn, sem notaður var sem púðurturn og skotfærageymslu, sprakk í loft upp. Á augabragði eyðilögðust 57 byggingar næst turninum og aðrar 60 stórskemmdust. Höggbylgjan braut rúður víða í borginni, þar á meðal í dómkirkjunni. Hundruðir hermanna létu lífið, ásamt tugum borgarbúa. Þegar Prússar sigruðu Frakka í fransk-þýska stríðinu, var Alsace og Lorraine ("Elsass" og "Lothringen") innlimað Prússlandi. Metz varð því að nýrri landamæraborg og var herstöðin í Mainz var þá lögð niður. Á 9. áratug 19. aldar voru borgarmúrarnir loks rifnir til að skapa byggingarpláss. Borgin hóf að þenjast út og náði íbúatalan 100 þúsund árið 1908. Á þessum tíma var gasstöð tekin í notkun, ný brú var reist yfir Rín, skipahöfn var lögð og rafmagn varð almennt notað. Hins vegar náði þungaiðnaður aldrei fótfestu í Mainz. 20. öldin. 9. mars 1918 varð Mainz fyrir loftárásum í heimstyrjöldinni fyrri. Í nóvember lauk stríðinu og 8. desember hertóku Frakkar borgina enn einu sinnni. Þeir héldu borginni í tólf ár og yfirgáfu hana ekki fyrr en 1930. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir loftárásum á ný. Þær verstu áttu sér stað 27. febrúar 1945. Þá vörpuðu breskar flugvélar rúmlega 500 þús sprengjum yfir borgina. Árásin stóð aðeins í korter en borgin varð að einu stóru eldhafi. 60% af borginni var eyðilagður, þar af 80% af miðborginni. 22. mars hertóku Bandaríkjamenn borgina átakalaust, en hún var í franska hernámssvæðinu. Rín var landamærin að bandaríska hernámssvæðinu. Því missti Mainz nær allt landssvæði sitt fyrir austan Rín, sem innlimuð voru Wiesbaden. Frakkar lýstu Mainz höfuðborg hins franska Rínarlands, en sökum eyðileggingar þar voru skrifstofur settar upp í Koblenz í staðin. Það var ekki fyrr en 1950 að Mainz tók við hlutverki sínu sem höfuðborg Rínarlands-Pfalz. 1962 hélt borgin upp á 2000 ára tilveru sína. Ýmsir þjóðhöfðingar hafa sótt borgina heim. 1978 var Elísabet II þar, 1980 Jóhannes Páll II páfi, 2000 Jacques Chirac Frakklandsforseti og 2005 George W. Bush Bandaríkjaforseti. Íþróttir. Íþróttafélagið Mainzer Turnverein er næstelsta íþróttafélag Þýskalands sem enn er starfandi. Það var stofnað 1817 og keppir í ýmsum íþróttagreinum. Í hafnabolta er félagið Mainz Athletics meðal bestu félaga í greininni. Það er iðulega með í úrslitakeppninni og það varð þýskur meistari 2007. Aðalknattspurnufélag borgarinnar er 1. FSV Mainz 05 sem komst í fyrsta sinn í 1. Bundesliguna árið 2004. Það hefur ekki unnið neina stóra titla. Árlega fer fram Maraþonhlaup í Mainz, kallað Gutenberg-Marathon. Til hlaupsins var stofnað árið 2000, á nokkurn veginn 600. afmælisdegi Jóhannesar Gutenbergs. Hlaupið fer iðulega fram í maí. Sofia Rotaru. Sofia Mihailovna Evdokimenko-Rotaru (fædd í Marshintsy í Úkraínu 7. ágúst 1947), þekktust undir listamannsnafninu Sofia Rotaru, er úkraínsk popp-söngkona, lagahöfundur, dansari og leikkona. Magdeburg. Magdeburg er höfuðborg þýska sambandslandsins Saxlands-Anhalt, þótt ekki sé hún nema næststærsta borgin í sambandslandinu. Hún var áður fyrr aðsetur Ottos I keisara og ber viðurnefnið Ottostadt síðan 2010. Lega. Magdeburg liggur við ána Saxelfi fyrir miðju Saxland-Anhalt. Næstu borgir eru Braunschweig til vesturs (60 km), Berlín til norðausturs (70 km) og Halle til suðurs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Magdeburg er rautt borgarvirki með opnum hurðum. Milli turnanna er grænklædd ungfrú sem heldur á grænum kransi. Ungfrúin á að vera nafngefandi fyrir heiti borgarinnar (ungfrú er "Magd" á þýsku). Bæði virkið og ungfrúin komu fram sem merki þegar á 13. öld. Kransinn merkir hreinleika en það merki kom miklu seinna fram. Orðsifjar. Upphaflega hét borgin Magadeburg og Magathaburg. Tvær tilgátur eru um uppruna heitins. Sú fyrri er að heitið sé dregið af Magd, sem merkir "ungfrú", til dæmis skógardís. Sú síðari er að það sé dregið að orðinu Macht (en ekki Magd), sem merkir "máttugur". Söguágrip. Otto I og Edith frá Englandi koma til Magdeburg. Upphaf. 805 kemur borgin fyrst við skjöl hjá Karlamagnús, sem hafði setið þar á ferðum sínum. Það var þó ekki fyrr en með Otto I konungi að Magdeburg verður að borg. Á hans tíma voru Ungverjar mikil ógn í ríkinu og fékk borgin þá viðeigandi varnarvirki. Árið 929 kvæntist Otto I í borginni að ráði Hinriks I föður sínum og fékk hann Edith, dóttur Játvarðs konungs af Wessex í Englandi. Í brúðargjöf fékk Edith Magdeburg. Otto varð síðar keisari þýska ríkisins. Bæði hvíla þau í dómkirkju borgarinnar. Seinni kona Ottos var Aðalheiður frá Ítalíu og kom hún með ítölsk áhrif á byggingarstíl borgarinnar. Eftir þeirra daga varð Magdeburg mikil verslunarborg. Þannig fannst 11. aldar silfurpeningur frá Magdeburg í Sandi á Færeyjum. Borgin var á tímabili meðlimur Hansasambandsins. 1126 varð Magdeburg að biskupsdæmi. Fyrsti biskupinn var Norbert frá Xanten, sem seinna var lýstur heilagur. Þaðan í frá var borgin stjórnuð af biskupum, allt til 1503, en þá fluttu biskuparnir til Halle. Siðaskipti og stríð. Magdeburg um 1572. Mynd eftir Franz Hogenberg. Þýskt frímerki frá 1969 um tilraun Guerickes með lofttæmdum hálfkúlum. Í júní 1524 kom Marteinn Lúther til Magdeburg og hóf að predika nýja trú. Borgarbúar meðtóku hana strax, ekki eingöngu trúarinnar vegna, heldur einnig til að minnka áhrif kaþólsku kirkjunnar á stjórnkerfi borgarinnar. 17. júlí 1524 fóru siðaskiptin formlega fram í öllum kirkjum borgarinnar, nema í dómkirkjunni, sem enn var stjórnuð af fulltrúa biskupanna. Í kjölfarið fór Georg frá Mecklenborg í herferð gegn Magdeburg og settist um borgina. Umsátrið varaði frá 22. september 1550 til 5. nóvember 1551 og héldu borgarbúar út við mikinn skort. Umsátrinu var létt eftir mikið samningsþóf. 30 ára stríðið var hörmulegt fyrir Magdeburg. 20. maí 1631 réðist Tilly með keisaraherinn á borgina. Hann brenndi hana niður og drap flesta íbúa hennar. Þar dóu allt að 30 þúsund manns en fjöldamorð þetta er mesta mannfall óbreyttra borgara í stríðinu öllu. Í stríðslok var kveðið á í friðarsamningum að borgin skyldi tilheyra Saxlandi þar til fulltrúi þess lands dæi. Þá ætti borgin að ganga í Brandenborg. Fulltrúi Saxlands hét Otto von Guericke og var hann borgarstjóri Magdeburg til 1680. Hann var jafnframt eðlisfræðingur og uppfinningamaður. Sérgrein hans var lofttæmi en hann gerði frægar tilraunir með tveimur hálfkúlum sem aðeins lofttæmið innan í þeim hélt saman. Nokkrir hestar voru fengnir til að toga hálfkúlurnar í sundur en tókst ekki. Með láti Guerickes 1680 varð Magdeburg eign Brandenborgar. Nýrri tímar. 1806 hertóku Frakkar borgina. Ári síðar gaf Napoleon hana konungsríkinu Vestfalíu. Við fyrra fall Napoleons 1814 varð borgin hins vegar prússnesk og var til skamms tíma höfuðborg héraðsins Saxlands. Borgin kom lítið við sögu næstu áratugi. Eftir valdatöku nasista var stofnað til útrýmingarbúðanna KZ Magda í norðurhluta borgarinnar. Auk þess var í borginni (í Liebknechtstrasse) settar upp aukabúðir fyrir Buchenwald. Í búðum þessum létust þúsundir gyðinga og andstæðinga nasista. Fyrstu loftárásir á Magdeburg hófust 22. ágúst 1940 og var þeim viðhaldið næstu árin. Markmiðið var að eyðileggja iðnaðinn, sem að hluta var notaður í hergagnaframleiðslu. Verstu loftárásirnar voru gerðar 16. janúar 1945. Í henni lagðist borgin nánast í rúst. Um 90% miðborgarinnar eyðilagðist. Miðað við mannfall var Magdeburg í fimmta sæti yfir mest eyðilagðar borgir í Þýskalandi. Bandaríkjamenn komu að borginni 11. apríl. Þegar nasistar neituðu að gefast upp, var skotið látlaust á borgina í heilan dag. Eftir mikla bardaga náðu Bandaríkjamenn loks að hertaka borgina 19. apríl. Í júní leystu Bretar Bandaríkjamenn af en 1. júlí var borginni skilað til Sovétmanna, enda á þeirra hernámssvæði. Árið 1947 var Saxland-Anhalt stofnað sem sambandsland Austur-Þýskalands. Höfuðborgin var þá Halle. Uppbygging Magdeburg var erfið. Margar byggingar voru ónýtar. Í miðborginni voru sjö kirkjur í rústum og voru allar fjarlægðar. Aðeins dómkirkjan var endurreist. Þess í stað fékk borgin nýja ásýnd með blokkahverfum og breiðgötum í stalínískum stíl. 1990 sameinaðist Þýskaland á ný og varð Saxland-Anhalt að nýju sambandslandi. Á þinginu var ákveðið með naumum meirihluta að gera Magdeburg að höfuðborg sambandslandsins í stað Halle. Á móti komu miklir erfiðleikar í atvinnulífinu. Atvinnuleysið olli miklu brotthvarfi íbúa og fækkaði íbúum um 60 þús á aðeins 15 árum. Íbúar voru um 290 þúsund við sameiningu en voru um 230 þúsund árið 2005. Viðburðir. Magdeburger Stadtfest er þjóðhátíð borgarinnar Íþróttir. Handboltaliðið SC Magdeburg er með bestu félagsliðum Þýskalands. Það hefur tólf sinnum orðið þýskur meistari (síðast 2001), sex sinnum bikarmeistari (síðast 1996) og þrisvar Evrópumeistari (síðast 2002). Nokkrir Íslendingar hafa sett mark sitt á félagið. Þar má nefna Ólaf Stefánsson, sem lék með félaginu 1998-2003 og Björgvin Pál Gústavsson, sem hóf leik með félaginu 2011. Alfreð Gíslason var þjálfari liðsins 1999-2006. Maraþon er hlaupið í borginni í október ár hvert. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er 1. FC Magdeburg, sem þrisvar varð austurþýskur meistari. Liðið varð Evrópumeistari bikarhafa 1974, eina austurþýska liðið sem það afrekaði (sigraði þá AC Milan). Byggingar og kennileiti. Græna virkið er skondnasta byggingin í Magdeburg Hóladómkirkja. Hóladómkirkja stendur á Hólum í Hjaltadal. Gísli Magnússon biskup vígði kirkjuna sem nú stendur 20. nóvember 1763. Laurids de Thurah yfirhúsameistari Dana gerði tillöguuppdrátt að steinkirkjunni og fól múrarasveininum Johan Christhop Sabinsky að fara til Íslands og stjórna verkinu. Rauði steinninn sem kirkjan er byggð úr var fenginn úr Hólabyrðu í nágrenninu. Á meðan að á kirkjubyggingunni stóð voru gerðar þó nokkrar breytingar frá tillöguuppdrætti Thurahs og réði þar mestu ýmsar ákvarðanir Gísla biskups. Verðmæti kirkjunnar. Nokkur menningarsöguleg verðmæti eru í kirkjunni, meðal annars altarisbrík sem talið er að Jón Arason hafi gefið kirkjunni í upphafi sextándu aldar, önnur brík í síðgotnenskum stíl sem talin gerð í Nottingham í Englandi um 1470 og róðukross í fullri líkamsstærð, í gotneskum stíl, líklega frá fyrri hluta sextándu aldar. Hólabrík. Altaristaflan í Hóladómkirkju er nefnd Hólabrík. Hún er frá kaþólskum tíma í gotneskum stíl, að öllum líkindum gerð í Þýskalandi á 16. öld. Sagt er að Jón Arason biskup hafi gefið kirkjunni hana á fyrri hluta 16. aldar. Líkneskin eru útskorin úr fugla-kirsuberjavið og gifsuð en bríkin er úr eik, gifsuð, máluð og gyllt. Bríkin hefur varðveist vel miðað við aldur, en þegar gert var við hana á árunum 1985-89 fundust mörg af einkennistáknum líkneskjanna bak við eitt myndverkið og því hefur verið hægt að gera hana sem líkasta upprunalega eintakinu. Bríkinni stolið. Árið 1550, eftir að Jón Arason var hálshöggvinn í Skálholti, tóku danskir hermenn sig til og rændu verðmætum munum úr Hólakirkju og þar á meðal Hólabríkinni. Þegar þeir voru komnir hálfa leið til skips síns með bríkina, þá sliguðust hestarnir undan þyngdinni á bríkinni og hermennirnir gátu hana hvergi hreyft og urðu því að skilja hana eftir. Er Hólamenn komu til að sækja Hólabríkina heim í kirkjuna, segir sagan að bríkin hafi reynst þeim létt og hestarnir skokkuðu með hana aftur í kirkjuna. Caracalla. Marcus Aurelius Severus Antoninus (4. apríl 188 – 8. apríl 217), þekktur sem Caracalla, var keisari Rómaveldis á árunum 198 – 217. Viðurnefnið Caracalla fékk hann vegna yfirhafnar, af keltneskum uppruna, sem callaðist "caracallus" og hann klæddist iðulega. Caracalla er minnst sem eins af grimmustu keisurunum í sögu Rómaveldis enda lét hann myrða mikinn fjölda fólks, þar á meðal bróður sinn og eiginkonu. Uppvöxtur. Caracalla var sonur Septimiusar Severusar rómarkeisara og Juliu Domnu. Caracalla átti einn bróður, Publius Septimius Geta, sem var einu ári yngri en hann. Severus gerði Caracalla að undirkeisara ("caesar") árið 196, þegar hann var átta ára. Aðeins tveimur árum síðar, 198, varð Caracalla að fullgildum með-keisara ("augustus"), tíu ára gamall. Titillinn var þó fyrst og fremst ætlaður til þess að staðfesta að Caracalla væri erfingi Severusar, frekar en að gefa honum mikil völd. Lengst af virðist Severus hafa ætlað Caracalla einum að taka við af sér en árið 209 varð Geta einnig með-keisari. Sameiginleg stjórn með Geta. Þegar Septimius Severus lést í febrúar árið 211 tók Caracalla við völdunum ásamt bróður sínum. Samstarf bræðranna gekk þó ekki vel og þeir íhuguðu að skipta heimsveldinu í tvennt, þar sem Caracalla átti að stjórna vesturhlutanum og Geta austurhlutanum. Móðir þeirra virðist hafa sannfært þá um að hætta við þessa fyrirætlan. Bræðurnir einangruðu sig þá frá hvorum öðrum, höfðu hvor sína hirð og töluðust sjaldan við. Sameiginleg stjórn þeirra entist ekki út árið því í desember árið 211 plataði Caracalla Geta til þess að hitta sig án lífvarða sinna, en lét þá sína eigin lífverði myrða Geta. Í kjölfarið fóru fram fjölmargar aftökur á stuðningsmönnum Geta. Einnig lét Caracalla drepa eiginkonu sína, Fulviu Plautillu, sem hafði verið í útlegð síðan árið 205. Stjórnsýsluaðgerðir. Morðin á Geta og stuðningsmönnum hans voru illa séð á meðal almennings í Róm, en líkt og faðir hans reiddi Caracalla sig á stuðning hersins fremur en almennings. Til þess að tryggja sér stuðning hersins ákvað Caracalla að hækka laun allra hermanna heimsveldisins umtalsvert. Þessi ákvörðun reyndist vera gríðarlega kostnaðarsöm og kallaði á aðgerðir í ríkisfjármálum. Að hluta til reyndist mögulegt að fjármagna launahækanirnar með því að gera upptækar eignir stuðningsmanna Geta, en Caracalla þurfti einnig að grípa til þess ráðs að minnka silfurinnihald silfurmyntarinnar ("denarius"), og blanda hana með kopar. Margir fyrirrennarar Caracalla höfðu gert slíkt hið sama, en nú var hlutfall silfurs í myntinni komið niður í aðeins um 50 prósent. Vandamálin í ríkisfjármálum voru líka að líkindum kveikjan að því að árið 212 gaf Caracalla út tilskipun sem kölluð hefur verið "Constitutio Antoniniana". Þessi tilskipun kvað á um að allir frjálsir menn innan Rómaveldis fengju fullan ríkisborgararétt. Fram að því höfðu aðeins íbúar á Ítalíuskaganum haft ríkisborgararétt. Helsta ástæðan fyrir þessari aðgerð var líklega sú að með henni var hægt að heimta skatt af fleirum. Einnig var hægt að kveða fleiri menn í herinn. Caracalla lét byggja Baðhús Caracalla í Róm sem var með stærstu byggingum sem byggðar voru í borginni í fornöld. Aðalbygging baðhússins var kláruð á valdatíma Caracalla en viðbætur voru byggðar á valdatíma Elagabalusar og Alexanders Severusar. Baðhúsið, sem var opnað árið 216, var einskonar frístundamiðstöð þess tíma og innihélt bókasafn ásamt bað- og íþróttaaðstöðu. Fjölskylda Caracalla og Geta. Búið er að þurrka út andlit Geta, að fyrirskipan Caracalla. Ferðalög og hernaður í austrinu. Caracalla hélt í herferð gegn Alamönnum við Rín, árið 213, sem endaði fljótlega með friðarsamningum. Eftir það hélt hann austur á bóginn og ferðaðist um grískumælandi svæði Rómaveldis. Hann ferðaðist um slóðir Alexanders mikla og heimsótti sögusvið Hómerskviðanna. Heimsókn hans til Alexandríu í Egyptalandi hófst með miklum hátíarhöldum, þar sem Caracalla heimsótti meðal annars gröf Alexanders mikla, en hún endaði hins vegar með blóðbaði. Caracalla virðist hafa fundist íbúar borgarinnar móðga sig með því að gera grín að morðinu á Geta. Caracalla lét hermenn sína ráðast gegn óvopnuðum íbúunum á götum borgarinnar þar sem mörg þúsund manns voru teknir af lífi, auk þess sem hann leyfði hermönnum sínum að ræna borgina. Helsta ástæða þess að Caracalla ferðaðist austur var sú að hann ætlaði að ráðast inn í Parþíu. Borgarastyrjöld geisaði í Parþíu og því var góður tími fyrir Rómverja að ráðast gegn þeim. Rómverski herinn vann nokkra hernaðarsigra og komst langt inn á landsvæði óvinarins, en dró sig þá til baka. Caracalla hafði uppi áætlanir um að ráðast að nýju inn í Parþíu árið eftir. Af því varð hins vegar ekki því árið 217 var Caracalla myrtur af Juliusi Martialis, liðsforingja í lífvarðasveit keisarans. Yfirmaður lífarðasveitarinnar, Macrinus, var lýstur keisari að Caracalla föllnum. Heimildir. Scarre, Chris, "Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome" (London: Thames & Hudson, 1995). LINQ. Language Integrated Query (LINQ, borið fram „link“) er hluti af Microsoft .NET Framework sem bætir við þeim hæfileika á .NET tungumálin að gera fyrirspurnir og notar til þess setningarfræði sem minnir á SQL. Mörg af þessum hugtökum sem LINQ hefur kynnt voru upphaflega prófuð í rannsóknarverkefninu Cω hjá Microsoft. LINQ var gefið út sem hluti af .NET Framework 3.5, 19. nóvember 2007. LINQ skilgreinir seríur af skipunum sem er hægt að nota til að gera fyrirspurnir, á verkefni til að aðgreina gögn í fylkjum, á teljanlega klasa, á XML, á venslaða gagnagrunna, og á þriðja aðila gagnaskrár. Á meðan það leyfir að gera fyrirspurn á hvaða gagnaskrá sem er, krefst það að gögnin séu þjöppuð saman sem hlutir. Þannig að, ef gagnaskráin er ekki upphaflega að geyma gögn sem hluti, verður að varpa gögnunum yfir í lén hlutsins. Fyrirspurnir sem eru skrifaðar sem skipanir eru framkvæmdar annað hvort af LINQ vinnslu eða með viðbótar vélbúnaði, sem afhendir það svo LINQ "skaffara" sem annað hvort útfærir aðskilda fyrirspurnarvinnslu eða þýðir yfir á annað snið sem verður framkvæmt á öðrum gagnagrunni (eins og t.d. á gagnagrunnsþjóni sem SQL fyrirspurnir). Niðurstaða fyrirspurnar er skilað til baka sem safni af hlutum sem geta verið teljanlegir. Framlenging á forritunarmál. Til dæmis, í fyrirspurninni sem velur alla hluti í safninu codice_1 sem eru minni en 10, var results = from c in SomeCollection let x = SomeValue * 2 c => c.SomeProperty < (SomeValue * 2) Luger P08. Luger P08 er þýsk hálfsjálfvirk skammbyssa, framleidd af skotvopnafyrirtækinu Deutsche Waffen und Munitionsfabriken. Hún var hönnuð árið 1898 af Georg Luger, og var fyrst framleidd árið 1900. Hún var hliðarvopn þýska flotans á unda hernum, árið 1904 varð hún hliðarvopn flotans en varð ekki hliðarvopn hersins fyrr en árið 1908. Hún var í notkun hjá þýska flotanum og hernum að árinu 1938, þegar skipt var í Walther P38 sem hliðarvopn. Luger P08 var notuð í fyrri heimsstyrjöldinni og var líka eitthvað notuð í seinni heimsstyrjöldinni, þó að þýski herinn hafi skipt Walther P38 árið 1938. Skammbyssan er 233 mm að lengd og er um 900 grömm að þyngd. Heckler & Koch USP. Heckler & Koch USP 9mm Heckler & Koch USP er hálfsjálfvirk skammbyssa, framleidd af þýska skotvopnafyrirtækinu Heckler & Koch. Hún var hönnuð árið 1993 af manni að nafni Helmut Weldle, sem hefur hannað margar tegundir af skotvopnum fyrir Heckler & Koch seinustu áratugina. Skammbyssan er hliðarvopn í Bundeswehr, sem er þýsk sérsveit, hún er líka hliðarvopn í herjum og sérsveitum í 13 öðrum löndum. Hægt er að nota fjórar tegundir af skotum í skammbyssuna, .45 ACP, .40 S&W, .357 SIG og 9X19mm Parabellum. "USP" er skammstöfun á þýsku fyrir "Universelle Selbstladepistole". Skammbyssan er um 200 mm að lengd og er í kringum 760 grömm að þyngd. Jonna Louis-Jensen. Jonna Louis-Jensen (21. október 1936) var prófessor í íslensku máli og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla og um tíma forstöðumaður Árnasafns (Den Arnamagnæanske Samling), sem er rannsóknarstofnun í handritafræðum við sama háskóla. Ævi. Jonna Louis-Jensen ólst upp í Kaupmannahöfn, en var á unglingsárum í Ósló og tók þar stúdentspróf 1955. Vegna áhuga síns á skyldleika norrænna mála fór hún til Íslands og lærði íslensku á heimili Páls Ísólfssonar tónskálds. Haustið 1956 hóf hún nám í norrænni textafræði hjá Jóni Helgasyni prófessor, og fór snemma að vinna með honum í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Varð fastur starfsmaður þar 1965. Hún varð MA í norrænni textafræði 1964. Hún gaf út tvær gerðir "Trójumanna sögu", 1963 og 1981. Einnig hefur hún fengist mikið við rannsóknir á konungasögum, einkum þeirri gerð sem kölluð er "Hulda-Hrokkinskinna", og fjallaði doktorsritgerð hennar um það efni: "Kongesagastudier. Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna", prentuð 1977. Árið 1968 sá hún um ljósprentaða útgáfu handritsins "Huldu", AM 66 fol. (Early Icelandic Manuscripts in Facsimile VIII). Hún hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar. Þegar Jón Helgason fór á eftirlaun 1972, tók Jonna við af honum sem prófessor í íslensku máli og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla. Var hún fyrsti Daninn sem gegndi því embætti og einnig fyrsta konan. Þegar Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) var endurskipulögð 1975, var Jonna skipuð í nefndina, ritari hennar frá 1976. Um það leyti fluttist Árnasafn í nýtt húsnæði hugvísindadeildar háskólans við Njálsgötu (Njalsgade) á Amákri (Amager). Hófst þá lokaþáttur handritamálsins með afhendingu handritanna til Íslands, sem lokið var 1997. Jonna var aðalritstjóri Bibliotheca Arnamagnæana og Editiones Arnamagnæanæ á árunum 1976-1988. Hún var prófessor í íslensku við Fróðskaparsetur Færeyja 1988–1990, en að öðru leyti hefur starfsferill hennar verið hjá Árnastofnun í Kaupmannahöfn. Þegar Jonna varð sjötug, 2006, kom út afmælisritið, "Con Amore", með úrvali af greinum hennar og ritaskrá. Jonna Louis-Jensen fékk íslensku fálkaorðuna 1991. Hún var tekin í Vísindafélag Íslendinga 1984, og í Vísindafélagið danska (Videnskabernes Selskab) 1997. Hún varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 2001. Heimildir. Louis-Jensen, Jonna Jón Kaldal. Jón Kaldal (24. ágúst 1896 í Stóradal í Austur-Húnavatnssýslu, 30. október 1981) var einn þekktasti íslenski ljósmyndarinn og afreksmaður í frjálsum íþróttum. Hann var með ljósmyndastofu á Laugaveginum í 49 ár og tók yfir 100 þúsund ljósmyndir á ferli sínum. Barnabarn hans og alnafni var um tíma ritstjóri Fréttablaðsins og síðar stofnandi Fréttatímans og ritstjóri hans. Ævi. Hann var sonur Jóns Jónssonar bónda og Ingibjargar Gísladóttur. Sjö ára gamall missti hann móður sína, bróðir hans lést nokkrum mánuðum síðar og föður sinn missti hann tíu ára gamall. Hann var þá sendur í fóstur ásamt bróður sínum Leifi og systur Ingibjörgu til föðurbróður þeirra, Pálma að Ytri-Löngumýri sem var næsti bær við Stóradal. Fóstru sína missti hann úr lungnabólgu 1911. Þá fluttist hann til Reykjavíkur. Þar hóf hann nám við ljósmyndum hjá Karli Ólafssyni árið 1915. Hann hóf að æfa langhlaup og átti hann eftir að setja mörg met. Hann fluttist til Kaupmannahafnar og lærði ljósmyndun áður en hann sneri aftur til Íslands og stofnaði ljósmyndastúdíó við Laugaveginn. Rauðsmári. Rauðsmári (fræðiheiti: "Trifolium pratense") er belgjurt af ertublómaætt. Hann þekkist af ljósrauðum eða bleikum blómkollum. Rauðsmári er notaður í alls kyns túnrækt enda nýtir hann köfnunarefni úr andrúmslofti í sambýli við svokallaða Rhizobium-gerla. Lýsing. Rauðsmári hefur sterka stólparót en stönglarnir verða 40 cm á hæð. Þeir eru hærðir og ýmist uppréttir eða jarðlægir. Blöðin eru hærð og nær heilrend, oft með ljósan blett í miðju blaði. Blöðin eru þrífingruð með öfugegglaga eða sporbaugótt smáblöð. Smáblöð þessi eru 2 til 3,5 sentímetrar á lengd. Við blaðaxlir eru axlablöð sem mynda ljósgrænt slíður með dökkum æðum og löngum broddi í endann. Blómgun rauðsmára verður í júlí til ágúst en það er mjög sjaldgæft að hann myndi fræ á Íslandi vegna þess að til að það gerist þurfa stór skordýr, eins og humlur, að sjá um frjóvgunina. Blómin eru við allar aðstæður víxlfrjóvga. Blómin eru einsamhverf og um 2,5 til 3 cm í þvermál. Krónan er 12 til 16 mm löng en bikarinn eilítið styttri, um 7 til 8 mm langur. Hann er aðhærður og klofinn niður að miðju í 5 örsmáa hærða flipa. Nýting. Rauðsmári telst til íslensku flórunnar, þó að hann sé ekki algengur nema sem slæðingur við bæi og á röskuðum svæðum. Hann hefur verið notaður til túnræktar að einhverju marki, en endist illa (oft bara um 2 til 4 ár) vegna þess hve hann er illa búinn undir beit og traðk. Hans kjörlendi er graslendi og tún, þó hann láti oft undan í samkeppni í grónu og frjósömu landi. Hann hentar einkar vel til gróffóðurverkunar, sér í lagi í blöndu við vallarfoxgras. Vallarfoxgras hefur reynst góður svarðarnautur rauðsmárans vegna þess að það er ekki eins frekt og margar aðrar grastegundir sem notaðar er í tún. Í íslenskum tilraunum sem gerðar voru 1994 var sýnt fram á það að rauðsmári hefur hærra hlutfall lignínsellulósa, meira af hrápróteini og steinefnum en félagi Vallarfoxgras. Eitthvað hefur borið á svokölluðu smáraroti, sem er sveppasjúkdómur af völdum "Sclerotina trifolium" en hann er hættumestur á mildum, votum haustum og undir snjó. Þá er rauðsmári viðkvæmur við rótarsliti vegna frostlyftingar og hárri grunnvatnsstöðu. Hann safnar sterkju í forðarót sína sem er að vissu leyti því sterkjunni er erfiðara að breyta í orku fyrir grasbíta heldur en frúktósi eða súkrósi sem er aðal forðanæring grasa. Einært rýgresi. Einært rýgresi (fræðiheiti: "Lolium multiflorum") er einær eða sumareinær jurt af grasaætt ("Poaceae"). Það verður að jafna 100 til 120 sentímetra hátt og hefur öflugt rótarkerfi. Það er mikið notað sem grænfóður og nýtt ýmist til beitar eða sláttar. Lýsing. Blöð einærs rýgresis eru dökkgræn, flöt og breið. Efra borð blöðkunnar er rifflað en slétt á neðra borði. Þá er hún glansandi og þegar blöðin bærast í vindi virkar stykkið bylgjast. Blaðslíðrið er hárlaust og neðsti hluti þess er rauðleitt. Slíðurhiman er stór, allt að 4 mm á lengd. Einært rýgresi er axgras, og hvert smáax hefur 10 til 20 blóm. Blómin hafa stutta títu. Í fljótu bragði getur rýgresi líkst húsapunti en helsti munurinn er þó að smáöx rýgresis snúa röð sinni að stráendanum en það gerir húsapuntur ekki. Einært rýgresi gerir litlar kröfur til jarðvegs og getur gefið góða uppskeru á flestum stöðum þó hún sé auðvitað best í frjósömu landi. Tegundin er mjög þolin en þó helst viðkvæm þurrkum á vorin. Hún er mjög vinsæl vegna þess hve óbrigðul hún er í ræktun, er ódýr og hvað hún gefur mikla og lystuga uppskeru. Endurvöxtur er góður og á bestu ræktunarsvæðum á Íslandi er auðveldlega hægt að fá þrjár uppskerur, t.d. með tvíslætti og svo haustbeit. Þetta er vegna þess hve rýgresi nýtir vaxtartímann betur en önnur túngrös og grænfóðurjurtir. Rýgresi lifir lengi fram eftir hausti og gefur kropp t.d. fyrir fé. Afbrigði. Einært rýgresi skiptist í tvö afbrigði; sumar- og vetrarrýgresi. Það fyrrnefnda er stundum kallað vestervoldískt rýgresi ("var. westervoldicum") en hið síðarnefnda ítalskt rýgresi ("var. italicum"). Sumarrýgresi fer fyrr af stað og skríður fyrr. Sé það trassað að slá eða beita verður það lélegra fóður en vetrarafbrigðið. Vaxtartími þess er 60 til 70 dagar og hentar því til miðsumarsbeitar og jafnvel hægt að nýta það snemma náist að sá því snemma. Vetrarrýgresi hefur vaxtartíma upp á 70 til 100 daga. Það þolir lengri vaxtartíma, t.d. fram á haust og skríður sjaldnar á Íslandi. Það getur gefið endurvöxt fram eftir hausti. Yrki eru ýmist tví- eða fjórlitna. Heljardalsheiði. Hnjótafjall fyrir miðju, Heljardalsheiði t.v, Skallárdalur og Unadalsjökull t.h..Heljardalsheiði er fjallvegur milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, nánar tiltekið milli Svarfaðardals og Heljardals, sem er afdalur út frá Kolbeinsdal í Skagafirði. Heiðin er 865 m há, allgrýtt, illa gróin og lífseigar fannir á háheiðinni. Þar er Stóravarða á vatnaskilum. Há fjöll eru á báðar hendur, Heljarfjall (1.090 m) að sunnan en Hákambar (1.162 m) að norðan. Um fjögurra tíma ferð var talin vera á milli innstu bæja í Svarfaðardal og Kolbeinsdal. Heiðin hefur alla tíð verið fjölfarin, fyrrum var hún í þjóðbraut enda skemmsta leið til Hóla fyrir alla þá sem áttu þangað erindi af Norðaustur- og Austurlandi. Símalínan sem lögð var frá Seyðisfirði til Reykjavíkur í upphafi 20. aldar var lögð yfir Heljardalsheiði. Bílvegur hefur hins vegar aldrei verið lagður um hana, þó er hún enn allfjölfarin bæði af gangandi fólki og ríðandi. Í aldanna rás hafa margir endað ævi sína á þessum fjallvegi. Veturinn 1195 hugðist Guðmundur góði Arason, sem þá var prestur á Völlum í Svarfaðardal, fara vestur yfir Heljardalsheiði ásamt með 15 förunautum sínum, körlum konum og börnum. Þá brast á stórhríð svo margir urðu úti en aðrir komust við illan leik til byggða ýmist í Kolbeinsdal eða Svarfaðardal. Guðmundur sjálfur lá úti um nóttina en slapp lífs ásamt með stúlkubarni sem honum fylgdi. Moussa Traoré. Moussa Traoré herforingi (f. 25. september 1936) er malískur stjórnmálamaður. Hann var forseti Malí frá 1968 til 1991. Traoré, Moussa Hrói höttur. Hrói höttur er persóna úr enskum þjóðsögum frá miðöldum. Sögurnar gerast á Englandi, nánar til tekið í Skírisskógi í Nottinghamshire í Englandi. Flestir sagnfræðingar eru þó á því að Hrói hafi verið fæddur í Loxley í suðurhluta York-héraðs og að hann sé grafinn í Kirkleesklaustri í vesturhluta Yorkhéraðs. Í nýrri útgáfunum af sögunum og þeim sem þekktari eru er Hrói mikil hetja sem berst gegn óréttlæti og harðstjórn og er þekktur fyrir að stela frá þeim ríku til að gefa þeim fátæku. Hrói höttur er því orðinn eins konar staðalímynd manneskju sem er tilbúin til að gera hvað sem er, meira að segja brjóta lögin, til að aðstoða þá sem minna mega sín. Í sögunum hefur Hrói stóran hóp fylgismanna, útlaga sem berjast með honum og styðja hann. Í nýrri útgáfum sagnanna er fógetinn í Nottingham mikill harðstjóri sem misnotar stöðu sína til að bæta eigin hag t.d. með ólögmætum eignaupptökum á landi, ofursköttum og ofsóknum á hendur hinum fátæku. Í sumum útgáfum er Jóhann prins andstæðingurinn, sem situr að völdum á meðan bróðir hans Ríkharður ljónshjarta er í krossför í landinu helga. Jóhann prins var uppi á síðari hluta 12. aldar og byrjun þeirrar 13. (f. 24. desember 1166, d. 19. október 1216). Hann var yngri bróðir Ríkharðs og tók við ríkinu eftir dauða hans. Jóhann hafði viðurnefnið "lackland", sem þýðir í raun landlaus, vegna þess að sem yngsti sonur átti hann ekki tilkall til valda og erfða. Hann hefur verið nefndur Jóhann landlausi á íslensku og er í raun ekki sá þorpari og skálkur sem margar sögurnar um Hróa hött gefa til kynna. Hann er nú á tímum ef til vill frægastur fyrir að hafa undirritað Magna Carta sem minnkaði völd konungsins í Englandi og margir telja fyrstu tilburði til þess að koma á lýðræðislegum stjórnunarháttum í konungsríki. Í elstu útgáfunum er Hrói höttur lágstéttarmaður en í þeim síðari er honum yfirleitt lýst sem aðalsmanni og landeiganda. Sumar sögurnar segja að hann hafi barist í krossferðunum en þegar hann kom heim hafi fógetinn veri búinn að yfirtaka landareign hans. Félagar Hróa hattar. Í nýrri sögunum er Maríanna unnusta Hróa. Henni er yfirleitt lýst sem hugrakkri og sjálfstæðri konu af aðalsættum. Litli-Jón er einn einn af dyggustu stuðningsmönnum Hróa. Honum er yfirleitt lýst sem risavöxnum og sterkbyggðum manni. Þegar þeir Hrói hittast í fyrsta sinn reynir Litli-Jón að koma í veg fyrir að Hrói komist yfir brú og þeir berjast um það með stöfum. Bardaginn endar á því að Litli-Jón vinnur og skellir Hróa út í ána. Eftir bardagann fellst hann hinsvegar á að ganga til liðs við Hróa og berjast með honum gegn ofríki fógetans. Tóki munkur er einn af óvenjulegri fylgismönnum Hróa. Honum er yfirleitt lýst sem feitlögnum, kátum og vingjarnlegum munki sem er auk þess mikill sælkeri bæði á mat og vín. Reiknivirkja. Fyrst þá er margföldun *, deiling / og Modulus (afgangur við heiltöludeilingu) % framkvæmt fyrst og síðan má framkvæma samlagningu + og frádrátt síðar -. nidurstada = x * 3 + 5; Reiknivirkjar. Fyrst þá er margföldun *, deiling / og modulus (afgangur við heiltöludeilingu) % framkvæmd fyrst og síðan má framkvæma samlagningu + og frádrátt síðar -. Dæmi:. nidurstada = x * 3 + 5; Egill Ingibergsson. Egill Ingibergsson er leikmyndahöfundur og ljósahönnuður. Hann hefur verið tæknistjóri leiklistardeildar Listaháskóla Íslands um árabil, þar sem hann hefur tekið þátt í sköpunarvinnu flestra sýninga Nemendaleikhússins. Hann hefur lýst yfir fimmtíu atvinnuleiksýningar og er höfundur leikmynda í hátt á annan tug leiksýninga hjá hinum ýmsu leikhúsum og hópum. Ennfremur hefur hann fengist við búningahönnun, hljóð- og myndbandavinnslu fyrir ófáar sýningar og unnið í kvikmyndum og sjónvarpi. Egill hlaut Grímuverðlaunin fyrir lýsingu í Mestarinn og Margaríta hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu og tilnefningu til Grímunnar fyrir lýsingu í Forðist okkur hjá Common Nonsense og LHÍ. Egill er formaður Félags leikmynda- og búningahöfunda og stjórnarmaður í Bandalagi íslenskra listamanna. Skráasnið. Skráarsnið er form á skrám sem yfirleitt segir til um hvaða hugbúnaður verður notaður þegar notandi velur að opna skránna. Í flestum stýrikerfum er geymdur listi yfir þekktar skjala endingar og hvaða hugbúnaður (forrit) verður notað til að opna skránna með. Skráarending. Skráarending er yfirleitt 3ja til 4ja stafa langt og segir venjulega til um á hvaða formi og hvaða forrit á að opna skjalið. Skráarsnið fyrir myndir. Myndir hafa alltaf þekkta endingu eins og.jpg.gif.svg og.png. Það skiptir máli í hvaða skráarsniði myndir eru vistaðar og þarf því að kynna sér vel hvað hvert mynda skráarsnið býður uppá ásamt því að gera sér grein fyrir, fyrir hvaða miðil myndin á að notast. Ef gif er tekið sem dæmi þá er aðeins notaðir 256 litir fyrir hvern ramma og þess vegna óhentug fyrir myndir sem eru eða nýta fleiri lit. Hrúguröðun. Hreyfimynd sem sýnir hvernig hrúguröðun virkar Hrúguröðun er röðunarreiknirit sem velur ákveðið stak stærsta (eða minnsta) og raðar því aftast(eða fremst) í lista. Næstu stök sem eru lesinn í listan eru síðan röðuð annað hvort fyrir framan eða aftan upphaflega valda stakið, eftir því sem við á. Hrúguröðun er aðeins hægari en vel útfærð snarröðun en hefur forskot í versta tilviks, tilvikum þar hún þarf bara O(n log n) tíma til að ljúka keyrslu. Sauðakóði. Einfaldur sauðakóðu fyrir reikniritið, takið eftir að allir listar eru zero based. input: an unordered array a of length count (decrease the size of the heap by one so that the previous max value will start:= (count - 1) / 2 (sift down the node at index start to the proper place such that all nodes below the start index are in heap order) input: end represents the limit of how far down the heap while root * 2 + 1 ≤ end do (While the root has at least one child) child:= root * 2 + 1 (root*2+1 points to the left child) if child < end and a[child] < a[child + 1] then child:= child + 1 (... then point to the right child instead) if a[root] < a[child] then (out of max-heap order) root:= child (repeat to continue sifting down the child now) Massachusetts Institute of Technology. Tækniháskólinn í Massachusetts eða Massachusetts Institute of Technology, þekktur sem MIT, er einkarekinn háskóli í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum. MIT leggur mikla áherslu á raunvísinda- og verkfræðigreinar. William Barton Rogers stofnaði skólann árið 1861. Skólinn byggði á fyrirmyndum frá Þýskalandi og Frakklandi. Eftir seinni heimsstyrjöldina hóf MIT einnig kennslu í félagsvísindum, þ.á m. hagfræði, málvísindum og stjórnmálafræði. Kennarar við skólann eru tæplega 1 þúsund talsins en á 5. þúsund nemendur eru í grunnámi við skólann og á 7. þúsund nemar stunda þar framhaldsnám. Einkunnarorð skólans eru "mens et manus" sem þýðir „hugur og hönd“. Hengill. Hengill er svipmikið móbergsfjall í grennd við Reykjavík. Jarðhiti er í Henglinum og ölkelda. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi og í innsta dalnum, milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls, er einn mesti gufuhver landsins. Sameiningarröðun. Sameiningarröðun sem raðar fylki af 7 heiltölum. Myndin sýnir skrefin sem maður myndi gera (frá toppi til botns). Sameiningarröðun (e. mergesort) er tegund röðunaralgríms sem hefur tímaflækjuna "O"("n" log "n"). Algrímið er er stöðugt sem þýðir að jafngild stök koma koma fyrir í sömu röð fyrir og eftir röðun. Þetta er tegund deili- og drottnunarreiknirits og var fyrst útfært af John von Neumann árið 1945. Sameiningarröðun. Sameiningarröðun nýtir þann eiginleika hversu auðvelt það er að sameina tvo raðaða lista. Röðunin byrjar á að bera saman fyrstu tvö stökin í hvorum lista fyrir sig og afritar minna stakið (eða stærra ef raða á stærsta stakinu fyrst) í nýjan lista. Heldur síðan áfram og ber þá fyrsta stakið í listanum sem var með hærra stak í fyrsta samanburðinum við annað stakið í seinni listanum. Röðunaraðferðin býr til þessa tvo röðuðu lista með því að skipta upprunalega listanum sem á að raða í tvennt, síðan hvorum þessarra nýju lista í tvennt aftur og svo framvegis þangað búið er að búta upprunalega listann niður í lista sem einungis geyma eitt stak hver. Að því loknu eru þessir einingalistar sameinaðir tveir og tveir í einu og mynda þá raðaðan lista með tveimur stökum. Því næst eru þeir listar sameinaðir og svo framvegis þangað til allir undirlistar hafa verið sameinaðir í heilan fullraðaðan lista. Algrím fyrir sameiningarröðun. var middle = length(m) / 2 for each x in m up to middle for each x in m after middle while length(left) > 0 and length(right) > 0 Brobergen. Brobergen (plattþýska "Brobargen") er þorp í Stade-héraði í Neðra-Saxlandi, Þýskalandi. Þorpið stendur á bökkum Oste. Það er 6,06 km² að flatarmáli og hefur 226 íbúa (31. desember 2003). Brobergen var eigið sveitarfélag til 1972 en er nú í sveitarfélaginu Kranenburg. Þorpsins er fyrst getið í heimildum frá áruinu 1286 ("Brocberge"). Skeljaröðun. Saga. Skeljaröðun er nefnd eftir Donald Shell sem bjó hana til árið 1959. Sumar eldri kennslubækur kala Skeljaröðun „Shell-Metzner“ röðun eftir Marlene Metzner Norton, en samkvæmt Metzner segist hann ekkert hafa komið nálægt henni og nafn hanns ætti ekki að vera bendlað við hana. Útfærsla. Upprunalega útfærslan er O("n"2) samanburður en eftir smávægilega breytingu sem kemur bók V. Pratts endurbætti röðunina í O("n" log2 "n"). Þetta er samt sem áður vera en eðlileg sameiningarröðuns, sem er O("n" log "n"). Skeljaröðun bætir innsetningarröðun með því að bera saman tvö tilvik sem eru aðskilin með bili upp á nokkrar staðsetningar. Þetta gerir það að verkum að tilvikið tekur „stærri skref“ í röðun. Margar ferðir yfir gögnin eru teknar með minni og minni bilum í staðsetningarstærð. Síðasta skrefið í skeljaröðun er bara venjuleg innsetningarröðun, en þegar komið er á það stig er nánast búið að full tryggja að gögnin eru „nánast röðuð“. Tökum sem dæmi látt gildi sem er upphaflega raðað á röngum enda á fylki. Með því að nota O("n"2) röðun eins og bóluröðun eða innsetningarröðun, þá mun það taka gróflega "n" samanburði og skiptingar til að færa gildið all leið á hin endan á fylkinu. Skeljaröðun byrjar á því að færa gildið í stóru skrefi svo að lágt gildi muni færast langleiðina á áætlunarstað, með aðeins fáum samanburðum og skiptingum. Hægt er að sjá fyrir sér skeljaröðun á eftirfarandi hátt: raða listanum upp í töflu og sortera dálkana (með innsetningarröðun). Endurtaka ferlið hvert skipti með færi langa dálka. Í lokin hefur taflan aðeins einn dálk. Þegar verið er að framkvæma skerfa stærð, t.d. með codice_1 í stað codice_2). Svo röðum við dálkunum, sem gefur okkur þegar lesið er sem einn röð af númerum fáum við codice_4. Hérna er 10 sem var á hinum endanum komið á byrjun. þessi listi er síðan aftur raðaður með skref_staerd 3 og síðan með skref_staerd 1. Skeljaröðun í C/C++. Eftir farandi útfærsla af skeljaröðun er skrifuð í C/C++ til að raða fylki af heiltölum. þessu útfærsla gefur O(n2) í versta tilfelli. void shell_sort(int A, int size) { Skeljaröðun í java. public static void shellSort(int a) { for (int increment = a.length / 2; increment > 0; increment = (increment == 2 ? 1: (int) Math.round(increment / 2.2))) Skeljaröðun í python. a[j], a[j - increment] = a[j - increment], a[j] Hjónabandssæla. Hjónabandssæla (eða furstakaka) er einföld hvunndagskaka og þykir fyrirhafnarminni í bakstri en flestar aðrar, og þar af koma vinsældir hennar. Hún er oftast gerð úr hafragrjónadeigi sem er breitt út í form og rabbabarasulta smurð yfir. Aflöngum deigræmum er síðan raðað í net yfir, eða deigið einfaldlega hrært í hröngl og stráð yfir. Hjónabandssælan á rætur að rekja til "Linzertorte", sem er austurrísk kaka. Golfstraumurinn. Golfstraumurinn er hlýr hafstraumur sem á upptök sín í Karíbahafi og rennur í norður og norðaustur um Atlantshaf. Ýmsir fræðimenn nota hugtakið Golfstraumur einungis um þann hluta hans sem nær frá Hatterashöfða í Norður-Karólínufylki í Bandaríkjunum og norður fyrir Nýfundnaland. Sá hluti hans sem nær til Íslands er kallaður Norður-Atlantshafsstraumur, en hinn hlutinn, frá Karíbahafinu að Hatterashöfða er kallaður Flórídastraumur. Ferill Golfstraumsins. Golfstraumurinn er upprunninn er skammt norðan við miðbaug í vestlægum hafstraumum sem fara um Karíbahaf, inn í Mexíkóflóa og út um Flórídasund. Hann fer norður með austurströnd Bandaríkjanna, en á um 40° norðlægrar breiddar sveigir hann austur yfir Atlantshafið og tekur hluti hans stefnuna að ströndum Vestur-Evrópu. Annar hluti hans fer í suðaustur meðfram ströndum Vestur-Afríku, uns hann fer svo inn í Karíbahafið aftur. Sá hluti sem tekur stefnuna á Vestur-Evrópu klofnar svo aftur við Færeyjahrygg, önnur kvíslin fer vestur með Íslandi en hin norður með Noregi. Þaðan fer hluti hans í Barentshaf en meginhlutinn norður með vesturströnd Svalbarða, þar sem áhrifa Golfstraumsins gætir vart lengur vegna kulda. Áhrif. Margir hafa eflaust velt því fyrir sér af hverju jafn hlýtt er í Evrópu og raun ber vitni. Evrópa á Golfstraumnum mikið að þakka í þeim efnum. Hann flytur nefnilega hlýjan sjó norður Atlantshafið, sem síðan fer út í loftið í kring, þannig að suðlægir vindar hér um slóðir eru mun hlýrri en á svipuðum breiddargráðum á jörðinni. Talið er að Golfstraumurinn hafi flætt um Norður-Atlantshafið síðast þegar ísöld ríkti á norðurhveli, eða fyrir um 10.000 árum, en greinar hans sem ná lengst í norður, t.d. til Íslands, hafi ekki verið til staðar þá. Áhrif við Ísland. Eins og áður segir hreyfist hinn hlýi Norður-Atlantshafsstraumur til norðausturs að vesturströnd Evrópu allt norður fyrir Noreg. Ein kvísl þessa straums liggur upp að suðurströnd landsins. Hann streymir svo vestur með ströndinni og norður með vesturströndinni að hryggnum milli Íslands og Grænlands, þar sem hluti hans heldur áfram fyrir Horn og austur með Norðurlandi og er sá hluti hans oft kallaður Irmingerstraumur. Þar tekur svo við kaldur straumur, Austur-Íslandsstraumur, sem liggur til suðausturs úti af Norðaustur- og Austurlandi og frá landinu. Allir Íslendingar vita hversu milt veðurfarið er á Íslandi, sérstaklega á veturna. Það eru þó ekki allir sem vita hversu mikið við eigum Golfstrauminum að þakka í þeim málum. Til samanburðar má nefna að eyjar í Beringssundi sem eru á svipuðum breiddargráðum og Ísland, eru stóran hluta ársins umluktar hafís, sem gerir þeim erfitt fyrir þegar kemur að fiskveiðum og ferðalögum. Nokkuð augljóst má því telja að Íslendingar myndu engan veginn hafa það eins gott og raun ber vitni, ef Golfstraumsins nyti ekki við. Munur á hafís á norðurhveli í mars og september. Hafís. Vegna þess að Golf- og Irmingerstraumarnir teygja sig nánast í kringum landið, þá er mun minna um hafís við Ísland en ætla mætti. Fyrir því eru að sjálfsögðu fleiri ástæður, sér í lagi hagstæðar vindáttir sem halda hafísnum við Grænlandsstrendur. Hafís við Íslandsstrendur er að mestu leyti kominn mjög langt að, en hann berst hingað með Austur-Grænlandsstraumnum alla leið vestan úr Grænlandssundi, en þó kemur fyrir að hann berst beint úr norðri að norðausturhorni landsins. Ef skoðaðar eru gervitunglamyndir af hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands, má oftar en ekki sjá mjög skörp skil milli íss og sjávar, sem liggja oft samsíða strönd Grænlands. Elagabalus. Marcus Aurelius Antoninus (203 - 11. mars 222) var rómarkeisari frá 218 til 222. Hann er þekktur sem Elagabalus, en það var viðurnefni sem hann tók sér vegna þess að hann var æðsti prestur í söfnuði guðsins El-Gabal. Elagabalus var skyldur Caracalla og Geta fyrrum rómarkeisurum í gegnum ömmu sína, Juliu Maesu, sem var systir Juliu Domnu móður Caracalla og Geta og eiginkonu Septimiusar Severusar. Elagabalus var aðeins um 14 ára gamall þegar hann varð keisari en það var að miklu leyti Juliu Maesu að þakka þar sem hún tilkynnti (ranglega) að hann væri sonur Caracalla, sem hafði verið vinsæll meðal hersins, og einnig mútaði hún herdeildum til þess að þær myndu lýsa yfir stuðningi við Elagabalus sem keisara og gera uppreisn gegn Macrinusi, þáverandi keisara. Macrinus lýsti þá stríði á hendur Elagabalusi og mætti honum í bardaga árið 218 þar sem herdeildir Elagabalusar báru sigurorð. Macrinus flúði eftir bardagann en náðist fljótlega og var tekinn af lífi. Elagabalus varð fljótlega mjög umdeildur keisari, m.a. vegna trúarofstækis síns, en hann ýtti hinum hefðbundnu rómversku guðum til hliðar og reyndi að láta alla tilbiðja sinn guð, El-Gabal. Einnig var einkalíf hans mjög umdeilt; hann giftist að minnsta kosti þremur konum á sínum stutta valdaferli en hann var líka opinberlega tvíkynhneigður og klæðskiptingur. Móðir Elagabalusar, Julia Soaemias, studdi hann í sínu trúarofstæki, þrátt fyrir vaxandi óvinsældir á meðal almennings. Það var hinsvegar stuðningur ömmu hans, Juliu Maesu, sem skipti mestu máli og árið 221 virðist sá stuðningur hafa horfið og hún snúið sér að öðru barnabarni sínu, Alexander Severus. Hún fékk Elagabalus til þess að ættleiða Severus og gefa honum titilinn Caesar. Meðlimir lífvarðasveitarinnar studdu að lokum einnig að Alexander Severus yrði skipaður keisari og tóku því Elagabalus og móður hans af lífi 11. mars 222 og lýstu Severus sem keisara. Norður-Atlantshafssveiflan. Djúpt lægðasvæði við Ísland og mikil hæð yfir Asoreyjum valda jákvæðum NAO-vísi. Grunn lægð við Ísland og lítil hæð yfir Asoreyjum valda neikvæðum NAO-vísi Norður-Atlantshafssveiflan er loftslagsfyrirbrigði, sem lýsir sveiflum í loftþrýstingi yfir Norður-Atlantshafi. Hún sýnir loftþrýstingsmun á milli Íslands og Asoreyja en sá munur segir til um stefnu og styrk vestanáttar yfir Norður-Atlantshafinu og er einn af aðalorsakaþáttum breytilegs veðurfars í Evrópu. Norður-Atlantshafssveiflan er öflugasta loftslagsfyrirbrigðið á norðurhveli jarðar, þar sem hún er til staðar alla mánuði ársins. Hún er þó öflugust yfir vetrarmánuðina, frá desember fram í mars. Hugtakið Norður-Atlantshafssveiflan var fyrst notað af Sir Gilbert Walker, sem uppgötvaði tilvist hennar á þriðja áratug 20. aldar en áhrif sveiflunnar hafa verið þekkt síðan á seinni hluta 18. aldar. Veðurkerfi yfir Norður-Atlantshafi. Loftþrýstingur á Norður-Atlantshafi er að meðaltali lægstur suðvestur af Íslandi og hefur lægðasvæðið, sem þar heldur sig, því verið kallað Íslandslægðin. Tiltölulega stöðugt háþrýstisvæði liggur að sama skapi yfir Asoreyjum, um 1.500 km vestur af Portúgal og tæpa 3.000 km suður af Íslandi og hefur það svæði verið nefnt Asoreyjahæðin. Athuga skal að hugtökin Íslandslægðin og Asoreyjahæðin vísa til samansafns allra lægða og hæða, sem fara yfir svæðin tvö, en ekki til stakra veðurkerfa. Á norðurhveli jarðar blása vindar rangsælis umhverfis lægðir en réttsælis umhverfis hæðir. Vegna þessa ríkja vestanvindar á Norður-Atlantshafinu milli Íslandslægðarinnar og Asoreyjahæðarinnar. Loftþrýstingsmunurinn á milli kerfanna tveggja ræður styrk vestanvindanna á milli þeirra þannig að aukinn þrýstingsmunur hefur í för með sér öflugri vinda. Árlegur NAO-vísir NAO-vísirinn. Hlutfallslegur styrkur og staðsetning loftþrýstikerfanna við Ísland og Asoreyjar er mismunandi á milli ára og er sá breytileiki nefndur Norður-Atlantshafssveiflan ("North Atlantic oscillation" á ensku, skammstafað NAO). Ef mikill munur er á meðalloftþrýstingi á milli kerfanna tveggja er talað um háan NAO-vísi eða NAO+. Hár NAO-vísir veldur sterkum vestanvindum yfir Norður-Atlantshafinu. Hinir sterku vestanvindar bera mikið af röku lofti frá Norður-Ameríku yfir til Mið- og Norður-Evrópu. Áhrif hás NAO-vísis eru mismunandi eftir landsvæðum. Vetur verða mildir og úrkomusamir í Norður-Evrópu og á austurströnd Bandaríkjanna en þurrir í Suður-Evrópu og í Norður-Kanada og á Vestur-Grænlandi. Ef Íslandslægðin er hins vegar grunn og Asoreyjahæðin lítil þá er drifkraftur vestanvindanna minni og er þá talað um lágan NAO-vísi eða NAO–. Í þeim tilfellum leita vindarnir lengra til suðurs en það veldur aukinni úrkomu og óveðrum í Suður-Evrópu og Norður-Afríku. Að sama skapi er loft þurrara og veðurfar öfgafyllra með heitum sumrum og köldum vetrum í Norður-Evrópu og austurhluta Bandaríkjanna en í Norður-Kanada og á Grænlandi eru vetur mildir. Áhrif lágs NAO-vísis eru því andstæða hás NAO-vísis. Munurinn á meðalloftþrýstingi á milli Lissabon í Portúgal og Stykkishólms á Íslandi er útbreiddasti NAO-vísirinn. Hann nær aftur til ársins 1864 á þessum tveimur stöðvum en aftur til 1821 ef Reykjavík er notuð í stað Stykkishólms og Gíbraltar í stað Lissabon. Rannsóknir á Norður-Atlantshafssveiflunni. Ein fyrsta lýsingin á áhrifum Norður-Atlantshafssveiflunnar eru skrif Danans Hans Egede Saabye, sem dvaldist sem trúboði á Grænlandi. Hann ritaði eftirfarandi athugun í dagbók sína, sem hann hélt á árunum 1770-1778: „Á Grænlandi eru allir vetur harðir, en þrátt fyrir það eru þeir ekki eins. Danir hafa tekið eftir því að þegar veturinn í Danmörku var harður, eins og við skynjum það, var veturinn mildur á Grænlandi á þeirra mælikvarða, og öfugt.“ Í dag vitum við að þessar andstæður, sem áður hafa verið nefndar, í veðurfari annars vegar Norður-Evrópu og austurhluta Bandaríkjanna og hins vegar Suður-Evrópu og Norður-Kanada og Grænlands eru glöggt merki um áhrif Norður-Atlantshafssveiflunnar. Það var þó ekki fyrr en á 3. áratug 20. aldar að breski veðurfræðingurinn og tölfræðingurinn Sir Gilbert Walker uppgötvaði ástæður þessara hitastigsandstæðna við Norður-Atlantshaf þegar hann var að reyna að finna tengsl á milli veðurfarsfrávika víðs vegar um hnöttinn. Þrátt fyrir hátt í aldarlangar vísindarannsóknir frá dögum Walkers hafa vísindamenn ekki enn gert sér fulla grein fyrir þeim grunnþáttum, sem stjórna þróun Norður-Atlantshafssveiflunnar. Veðurfarssagan með kjarnaborunum í Grænlandsjökli. Sögu veðurfars er hægt að skoða á ýmsan hátt. Ritaðar heimildir, til dæmis annálar geta verið gagnlegar en áreiðanlegust eru áþreifanleg gögn, til dæmis innihald jarðvegssniða, frjókorn, plöntuleifar og skordýr, sem segja sína sögu um hvernig loftslag hefur verið á mismunandi tímum. Hliðstæð aðferð við jarvegssnið er sú að skoða borkjarna úr jöklum. Slíkar rannsóknir hófust á Grænlandi á sjötta áratugnum og hafa staðið nær óslitið síðan bæði á jöklum (meðal annars hér á landi, og á heimskautasvæðum. Dálítil sagnfræði. Upphaf rannsókna á ískjörnum liggur í rannsóknum Dr. Ernst Sorge á snjóalögum á Grænlandsjökli. Sorge var meðal annars með Alfred Wegener, föður landrekskenningarinnar, í síðasta leiðangri hans til Grænlands 1930-1931 en þar fórst Wegener. Í þessum leiðangri var í fyrsta skipti unnið að þykktarmælingum á meginlandsjökli. Ein rannsóknaraðferða Sorge var að grafa gryfjur og rannsaka snjólögin á þann hátt og þóttu þessar rannsóknaaðferðir frumlegar á þeim tíma. Hann handmokaði meðal annars 15 metra djúpa gryfju í vetrarbækistöðvum leiðangursins á Grænlandsjökli til að ná sniði í gegnum árslögin í jöklinum. Í þessari gryfju gerði Sorge bratryðjendarannsóknir á lagskiptingu og ársákomu á jöklum. Bortilraunir hófust þó ekki fyrr en upp úr 1950. Fyrstu borkjarnarnir voru á bilinu 300 til 400 metrar langir og ísinn í þeim var allt að 900 ára gamall. Einn af hápunktum slíkra rannsókna náðist í Grænlandsjökli 2003 þegar vísindamenn í verkefninu “North Greenland Ice Core Project” (NGRIP) náðu kjarna af 3085 metra dýpi sem innihélt 270 þúsund ára gamlan ís. Þessi rúmlega þriggja kílómetra langi kjarni kallast NGRIP-2 Jöklar eru gagnageymslur. Þykkir hveljöklar eins og Vatnajökull, Grænlandsjökull og jökullinn yfir Suðurskautslandinu geyma snjóalög mjög langt aftur í tímann. Allt sem sest til á jöklinum og lendir undir næstu snjóalögum varðveitist, hvort sem það eru lífverur, ryk eða aska úr eldgosum. Sem dæmi má nefna að aska úr gosinu í Lakagígum sem varð 1783 fannst á 64 metra dýpi í Grænlandsjökli. Síðast en ekki síst varðveitist andrúmsloftið sjálft. Þegar snjór verður að ís myndast í honum holrými eða loftbólur. Þær varðveita efnasamsetningu andrúmsloftsins á þeim tíma sem ísinn myndaðist. Úr þessari efnasamsetningu er hægt að lesa loftslag eins og það var þegar viðkomandi íslag varð til. Þykkustu jöklarnir, til dæmis Grænlandsjökull, geyma þannig veðurfarssöguna hundruð þúsundir ára aftur í tímann, í réttri tímaröð, sem er mikill kostur í rannsóknum. Þykkt árslaganna er frá nokkrum metrum í efstu lögunum niður í minna en sentímetra í neðstu lögunum í dýpstu kjörnunum. Árslögin eru greinilegri í gaddjöklum eins og Grænlandsjökli en þíðjöklum, en í þeim flokki eru flestir íslenskir jöklar. Munurinn liggur í því að hitastig þíðjökla er um frostmark en gaddjöklar eru vel undir frostmarki og varðveitast skilin milli laga því betur. Oft eru skilin þó illa eða ekki greinanleg og verður þá að beita til dæmis efnafræðilegum aðferðum en ekki verður fjallað um þær hér. Ískjarnar. Ískjarnarannsóknir fara þannig fram að borað er í jökulinn og er fremsti hluti borsins holur að innan. Kjarninn úr borholunni gengur upp í holann borinn, sem hífður er upp þegar boruð hefur verið ákveðin vegalengd. Uppi á yfirborðinu er kjarninn svo tekinn innan úr bornum og geta vísindamenn þá hafist handa um að telja árslögin, ef þau eru það greinileg, ná gasi úr loftbólum og greina efni og agnir sem eru í ísnum. Með þessu er hægt að lesa úr kjarnanum hvernig veðrið hefur þróast í gegnum þann tíma jarðsögunnar sem hann nær til. Einstakur ískjarni segir sögu veðurfars ákveðins svæðis en vitnar líka um atburði lengra í burtu. Með samanburði á ískjörnum frá Suðurskautslandnu og jafnvel af hafsbotni hefur til dæmis komið í ljós sú regla að kuldatíð á norðurhveli þýðir hlýindi á suðurhveli. Einnig sýnast sveiflur í veðurfari vera sneggri á norðurhveli en suðurhveli. Komið hefur í ljós að köldu skeiðin í veðurfarssögunni voru mun kaldari en áður var talið eða 20-25 gráðum kaldari í stað 10 gráða. Þetta þýðir að hér á landi hefur hitinn verið vel neðan frostmarks allt árið á þeim skeiðum. Einnig sést að hitasveiflur síðustu tíuþúsund ára eru þær minnstu í veðurfarssögu síðustu tvöhundruðþúsund ára. Á þessum tíu þúsund árum hefur mannkynið þróast frá því að taka sér fasta búsetu upp í þá hátæknimenningu sem nú ríkir en staðfesta í veðurfari á stóran þátt í þeirri þróun. Kannski eru niðurstöður um magn gróðurhúsalofttegunda, metans og koltvísýrings, forvitnilegastar fyrir almenning vegna þess hve sú umræða er fyrirferðamikil í dag. Borkjarnarnir sýna að meira er af þessum lofttegundum á hlýskeiðum en í kuldatíð og magn þeirra í dag er hið mesta á því tímabili sem hægt hefur verið að mæla. Áhrif eldgosa á veðurfar. Eldgos geta haft töluverð áhrif á veðurfar og fer það eftir því hvort um er að ræða flæðigos eða sprengigos. En hægt er að segja að þessar tvær tegundir gosa hafi hvað mest áhrif á veðurfarið. Einnig spilar það inn í hversu stór þau eru og í hversu langan tíma þau standa yfir en eldgos geta staðið yfir allt frá nokkrum vikum upp í ár eða áratugi. Sprengigos sem eru einnig þekkt undir nafninu þeytigos hafa venjulega að geyma gífurlegt magn eiturlofttegunda, ösku og gjalls sem þeytast hátt í loft upp. Þau geta þeyst allt upp í heiðhvolfið og veðrahvolfið og geta sest þar að í langan tíma og haft talsverð áhrif á veðurfar og til eru mörg dæmi um það. Við flæðigos myndast venjulega ekki eins mikið magn eiturlofttegunda og gjósku og krafturinn ekki nærri eins mikill og við þeytigos en þau hafa ekki síður áhrif á veðurfar vegna þess að eiturgufurnar og gjallið getur lagst yfir stór svæði í kringum eldgosið og geta náð jafnvel enn lengra. Þegar talað er um að eldgos hafi áhrif á veðurfar þá þýðir það kólnun hitastigs, sem getur haft fleiri afleiðingar eins og t.d. þurrk og margt fleira. En komið verður betur að því hér að neðan. Sprengigos. Eins og nefnt var hér að ofan eru þessi gos venjulega gífurlega öflug og verða einkum þegar vatn á greiða leið að kvikunni í gígnum eða gosrásinni. Við þessar aðstæður gýs eingöngu gjósku og lofttegundum. Ekki er um neitt hraunrennsli að ræða, að minnsta kosti ekki í fyrstu. Sprengigos af þessu tagi geta oft breyst í hraungos ef vatn hættir að renna að kvikunni í gosopinu. Flæðigos getur líka breyst í sprengigos. Gott dæmi um svona gos er gosið sem myndaði Surtsey. Við þessar aðstæður er kvikan basísk, sem þýðir að hún er þunnfljótandi. En það getur einnig orðið sprengigos ef kvikan er súr eða ísúr, en þá er kvikan seigfljótandi. Þá gerist það að kvikan verður það seig að hún stíflar gígrásina og myndast því gífurleg spenna og sprengigos getur orðið. Sprengigos eru yfirleitt talin hættuleg og hafa oft valdið miklu manntjóni. Þau geta til að mynda valdið fljóðbylgjum sé nægilega mikill kraftur í þeim. Mikið magn ösku og lofttegunda sem yfirleitt eru eitraðar geta sest fyrir í veðrahvolfinu í kjölfar þeirra, allt frá mánuðum, upp í nokkur ár og geta ferðast langar vegalengdir. Þegar gaus í Surtsey á 7. áratug 20. aldar þá hafði það í för með sér lækkandi hita í Vestmannaeyjum. Íbúar á Heimaey fengu ekki eins mikið sólarljós og áður vegna gjóskunnar sem safnast hafði átt í heiðhvolfinu og skyggt fyrir sólarljós. Einnig komu fram mikið af eiturgufum og gasi sem náði alla leið til Heimaeyjar og íbúar gátu fundið fyrir því. Það var að mestu ósýnilegt en hægt var stundum að sjá það þegar dimma tók. Þá sást oft þunnt lag af eitraðri gastegund sem lá yfir jörðinni. Ef þessari gastegund var andað að sér þá fann fólk fyrir sljóvleika. Þetta er önnur afleiðing sprengigosa. Flæðigos. Eru líka þekkt undir nafninu hraungos en það lýsir tegund gossins reyndar ennþá betur en við þessi gos þá myndast aðallega hraun. Ekki myndast eins mikið af eiturlofttegundum og gjalli og við sprengigos en það getur samt haft mjög mikil áhrif á veðurfar. En eins og kom fram hér að ofan geta þessi gos breyst skyndilega og orðið að sprengigosi. Hraunið sem rennur getur verið íssúrt, súrt eða basískt. Með öðrum orðum getur það runnið bæði sem seigfljótandi og þunnfljótandi og allt þar á milli. Renni hraunið sem þunnfljótandi þá getur það runnið á miklum hraða líkt og á. Einnig er það yfirleitt frekan þunnt lag en þessi hraun kallast helluhraun. Ef það rennur sem seigt hraun þá fer það mun hægar yfir og geta verið tugir metrar á þykkt. Seig hraun eru alltaf fremur gróf og stórgrýtt og nefnast apalhraun. Eins og kom fram hér áðan virðast flæðigos mun hættuminni en sprengigos í fyrstu en geta haft gífurlegar afleiðingar. Ef gosið stendur lengi getur myndast nægilegt magn af gjósku og lofttegundum til að hafa áhrif á sólarljósið. Það getur safnast fyrir í heiðhvolfinu og drukkið í sig miklu magni af sólarljósi sem annars hefði átt að skína á jörðina. Því stærri sem gjóskan og agnirnar eru þeim mun meira af sólarljósi fer til spillis. Þetta leiðir af sér að hitastig lækkar á jörðinni á meðan agnirnar eru til staðar. Það getur tekið nokkra mánuði fyrir heiðvolfið að losa sig við þær og koma hitastiginu í rétt horf aftur. Líklega er besta dæmið um þetta þegar móðuharðindin voru eftir Skaftáreldagosið á Íslandi undir lok 18. aldar en nánar verður fjallað um það hér að neðan. Það eru ekki bara agnirnar og gjóskan sem hefur áhrif á veðurfar. Eiturlofttegundirnar sem myndast við eldgos hafa venjulega að geyma nokkuð mikið magn brennisteins í sér og eykur það koltvísýringsmyndun í andrúmsloftinu. Það hefur einnig í för með sér einhverja lækkun á hitastigi. Þannig að samspil þessara tveggja þátta gerir það að verkum að hitastig getur fallið um nokkrar gráður um óákveðinn tíma. Flæðigos geta breyst skyndilega ef kvikan kemst í snertingu við vatn eða snjó. Þá myndast mikil spenna sem getur endað með sprengigosi. Þá byrjar að myndast mikið meira af gjósku og eiturlofftegundum en áður sem enda í himinhvolfunum og hafa því enn meiri áhrif á veðurfar. Þetta getur síðan snúist við aftur. Þetta getur einnig gerst ef kvikan verður það seig að hún stíflar gosrásina eins og koma fram hér að ofan. Ef ekkert af þessu gerist þá heldur flæðigosið sinni stefnu. Ekki hafa verið mikil mannföll vegna flæðisgosa. Flæðigos sem slíkt ætti ekki að ógna mannfólki nú á tímum en getur hæglega ógnað mannabyggðum. Hinsvegar geta þau leitt til mannsfalla vegna afleiðinganna sem þau hafa ef hitastig fer lækkandi. Gos í Lakagígum árið 1783. Gosið í Lakagígum er næststærsta og jafnframt mannskæðasta gos sem orðið hefur á Íslandi. Það byrjaði árið 1783 og stóð yfir í um 8 mánuði eða fram á næsta ár. Það hefur einnig verið nefnt Skaftáreldagosið en það var flæðigos. Þó ekki mikil mannsföll hafi orðið á meðan gosinu stóða þá hafði það í för með sér miklar breytingar á veðurfari bæði á Íslandi og víðar um Evrópu. Hraunflæðið var mjög mikið frá þessu gosi og það mesta sem þekkst hefur á jörðinni á sögulegum tíma ásamt gosinu í Eldgjá árið 934 Þetta olli til að mynda miklu tjóni á mannvirkjum á Íslandi. Aftur á móti voru árin á eftir gosinu hvað verst og afleiðingarnar voru hin víðfrægu móðuharðindi. En móðuharðindin leiddu um 10.000 mannst til dauða á Íslandi vegna veðurfarsbreytinganna. Eins konar móða myndaðist eftir allt gjallið sem gosið framleiddi og lækkaði hitastig á Íslandi skyndilega um allt að 3°C. Þetta voru bæði agnir sem sest höfðu fyrir í heiðhvolfinu og agnir sem sest höfðu við landið ásamt eiturgufum sem höfðu þessar afleiðingar. Eins og hafði verið lýst hér að ofan þá drukku agnirnar mest allt sólarljós þannig að það náði ekki til jarðar. Hitastigsbreytingarnar gerðu það að verkum að uppskera brást ásamt því dýr þoldu ekki eiturgufurnar og drápust. Vegna þessa dó fólk úr hugri eða varð veikt vegna slæms ástands á andrúmsloftinu sem einnig var orðið ríkara af koltvísýringi en áður vegna brennisteinsgass sem eldgosið hafði sent frá sér. Ísland er ekki eina landið sem lenti í erfiðleikum vegna móðuharðindanna. Agnirnar og gosgufurnar frá Lakagígum náðu um alla Evrópu og alla leið til Afríku og ollu miklu tjóni. Líklegt er að gosið í Lakagígum og Eldgjá hafi líka haft mikil áhrif á monsúnvindana. Það gerðist vegna þess að í kjölfar gosanna hafi loftið fyrir ofan pólana hitnað og ef það gerist þá gerbreytast loftstraumarnir á jörðinni. Auk breytinga á vindakerfi heimsins lækkaði vatnsborð verulega í ánni Níl í Egyptalandi á þessum árum var og telja vísindamenn næstum útilokað að það hafi verið tilviljun. Þeir telja að gosin frá Íslandi hafi valdið því. Afleiðingin varð hungursneyð sem felldi um það bil 1 af hverjum 7 íbúm í Nílardal á 18. öld. Ekki er eins mikið vitað um afleiðingarnar á 10. öld. Einnig fara sögur af versnandi veðurfari í Arfríku og Asíu í kjölfar eldossins í Eldgjá á Íslandi á landnámsöld. En það gos er það langstærsta sem þekkst hefur á sögulegum tíma en það hefur mælst mun stærra en gosið í Lakagígum og talið hafa staðið yfir í 4-8 ár. Einnig hafa rannsóknir vísindamanna sýnt að það hafi myndaðist 4 sinnum meira af brennisteinsmóðu í því gosi heldur en í Skaftáreldagosinu. Þetta hefur haft í för með sér sömu afleiðingar á veðurfar Íslandi og Skaftáreldagosið ef ekki meiri. Hinsvegar er ekki mikið vitað um afleiðingar Eldgjárgossins þar sem það var ekki mikið auglýst til að fæla ekki fólk frá því að flytjast til Íslands. En landnámi var að ljúka á þeim tíma á Íslandi. Auk þess var þá mun meira af gróðri hér á landi og veðurfar betra en á 18. öld sem hefur skipt sköpum fyrir íbúa til að lifa af. Ef litið er enn aftar í tímann og á önnur jarðsögutímabil þá má sjá glöggt að eldgos hafa haft mikil áhrif á verðurfar í gengum tíðina. Vitað er um fjölmörg og enn stærri gos urðu á undan sögulegum tíma og höfðu enn verri afleiðingar en þessi tvö flæðigos á Íslandi sem talað var um að ofan. Veðurfar á jörðinni kólnaði mjög skyndilega fyrir 16 milljónum ára eða á þeim tíma sem flæðigos voru að byggja upp Columbia River hraunbreiðuna í Bandaríkjunum. Þessi kólnun var upphafið á þeim veðurfarsbreytingum sem leiddu til ísaldarinnar sem hófst fyrir um 2,5 milljónum ára hvort sem gosið hafi verið bein afleiðing af því eða ekki. Auk þess var eldvirknin sem myndaði Deccan svæðið á Indlandi fyrir um 65 milljónum árum verið í fullum gangi en sú tímasetning passar saman við útdauða risaeðlanna þó að fleiri þættir hafa hugsanlega átt sér stað sem kunna að hafa valdið því. Dögurður. Dögurður (eða dagverður og jafnvel hábítur eða bröns) (enska: "brunch") er máltíð sem kemur í staðinn fyrir morgunverð og hádegismat. Sumir hafa kallað dögurðinn "dragbít" í hálfkæringi, þar sem þetta er árbítur (þ.e. morgunmatur) sem dregst á langinn. Morgunmatur. Morgunmatur (eða morgunverður) er máltíð sem snædd er að morgni dags, og er fyrsta máltíð dagsins. Einnig er til nokkuð sem nefnist „litli skattur“ eða „skatturinn“, en það er málsverður sem borðaður er um kl. 9 (á undan venjulegum morgunmat). Samheiti á íslensku. Morgunmatur á sér mörg samheiti á íslensku. Þau eru t.d. „árdegisverður“, „árbítur“, „frúkostur“ og „morgunskattur“. Hið gamla orð dögurður, sem í fornri íslensku var haft um morgunmat, hefur fengið nýja merkingu og verið notað sem þýðing á enska orðinu „brunch“. Hádegismatur. Hádegismatur (eða hádegisverður) er máltíð sem er snædd um hádegi, þ.e.a.s. um kl. 12. Orðið "miðdegismatur" er oftast haft um hádegismat í venjulegum skilningi, en hann gat þó dregist frá klukkan 12 til 4 á daginn. Oftast var það um hábjargræðistímann, og var þá kannski aðeins drukkið kaffi á hádegi. Kvöldmatur. Kvöldmatur (eða kvöldverður) er máltíð sem er snædd eftir klukkan 6 á Íslandi. Á íslensku er einnig til orð eins og: "aftanverður", "kvöldskattur" og "náttverður" í sömu merkingu. Orðið "kvöldverður" er stundum einnig haft um (virðulega) veislumáltíð sem fer fram að kvöldi til. Grænkál. Grænkál (fræðiheiti: "Brassica oleracea") er ræktunarafbrigði garðakáls sem myndar ekki höfuð. Grænkál er talið standa nær hinu upprunalega garðakáli en önnur ræktunarafbrigði. Aðalræktunarsvæði grænkáls eru í Norður- og Mið-Evrópu og Norður-Ameríku. Jurtin er harðger en þolir illa hita og rakan jarðveg. Severed Crotch. Severed Crotch er íslensk dauðarokkshljómsveit sem hefur verið starfandi síðan árið 2004. Saga. Severed Crotch var stofnuð úr ösku tveggja Íslenskra Dauðarokks hljómsveita: "Lack of Trust" og "Nokturn" og þáverandi meðlimaskipan var Torfi á rafmagns gítar, Kjartan á rafmagns gítar, Þórður á Rafbassa, Gunnar þór á trommum. Síðan um lok sumars 2004 þá bættist við söngspýran Ingólfur við sveitina. Seinna um haustið spiluðu Severed Crotch sína fyrstu tónleika við góðar undirtektir. Og svo snemma árið 2005 sagði Torfi skilið við Severed Crotch, eftir brottför Torfa, fór tónlistin virkilega að þróast og var orðin flóknari og mikið þyngri. Ingvar kom svo í hljómsveitina seinna það sama ár til að spila á gítar á sviði með Severed Crotch, og spilaði með þeim eiginlega út 2005 og þá dó hann. Og héldu þá Severed Crotch menn ótrauðir áfram sem fjögra manna sveit Svo sumarið 2006 hófu þeir upptökur á sínu fyrstu EP, "Soul Cremation" Sem að sökum bylgju vandræða, með upptökur og margt annað sá aldrei dagsins ljós fyrr en í Apríl 2007. En í Mars 2007 bættist nýr gítarleikari við Severed Crotch, drengur að nafni Marvin Einarsson, og spilaði hann með þeim um það bil eitt ár áður en Severed Crotch sagði skilið við hann. Einnig árið 2008 kom út Kynningardiskurinn "Promo '07". Eftir brottför Marvins gekk Ingvar Sæmundsson aftur, og kom aftur í hljómsveitina Skýjakerfi umhverfis lægðir. Þegar heitir og kaldir loftmassar mætast skapast orka þegar kalt og þungt loft þrengir sér undir léttara hlýrra loft. Við það myndast tvennskonar skil, annað hvort hitaskil eða kuldaskil, skilin geta einnig runnið saman og myndað samskil. Við skilin myndast lægðir sem berast með háloftastraumunum. Í báðum tilvikum lyftist hlýja loftið og við það myndast ský og síðan úrkoma. Lægðir við Ísland. Ísland liggur oft nærri skilum milli hlýrra og kaldra loftmassa, en á þeim myndast flestar lægðir Norður-Atlantshafsins. Eru lægðir því tíðar nálægt landinu, einkum að vetrarlagi. Hreyfast lægðirnar ýmist í norðaustur eða norður fyrir vestan land, eða til austurs og síðan norðausturs fyrir sunnan land. Stundum fara þær alllangt fyrir sunnan landið og hafa lítil áhrif hér. Á Íslandi blæs hvað oftast úr suðaustri, og rignir þá einkum þegar lægðir nálgast úr suðvestri. Skil sem fara yfir Ísland eru oft samskil sem gerir það að verkum að áhrif hlýja loftmassans gætir ekki við yfirborð jarðar nema fyrst þegar lægðin nálgast. Einungis finnum við þá fyrir áhrifum kalda loftmassans. Vatnsklær. Vatnsklær koma fyrst framm hátt í suðvestri eru oft fyrstu merki um lægð. Vatnsklær eru Háský. Blika. "Blika" kemur oft í kjölfar Vatnsklóa. Blikan sem er háský þekur allan himininn og mótar oft fyrir sólu í gegnum skýin. Rósbaugur myndast stundum í kring um blikuna, vegna ljósbrots við ískristalla. Gráblika. Gráblika fylgir blikunni á eftir, þegar lægðin dýpkar. Hún er neðar á himninum en blikan og úr þykkri grábliku rignir. Regnþykkni. Þegar skilin nálgast tekur Gráblikan tekur að þykkna og ringningin ágerist og verður blikan þá að samfelldu þykkni er kallast Regnþykkni. Þokuský. Þoka er skilgreind sem skigni minna en einn km. Þokuloftið er hlítt og oft fylgir því úði. Bólstraský. Þegar loftið hlýnar smám saman verður það óstöðugt. Ef það fer yfir hafsvæði tekur það til sín mikinn raka og myndast þá bólstraský. Skúraský. Bólstraský vaxa vegna mikils uppstreimis lofts og verða loks að háreistum skúraskýum. Stundum verða þessi skúraský mikil um sig að haglél fellur úr skýunum sem og líkur á þrumuveðri aukast. Hulda-Hrokkinskinna. Hulda-Hrokkinskinna er sérstök gerð konungasagna, sem segir sögu Noregskonunga frá Magnúsi góða, sem tók við völdum 1035, til Magnúsar Erlingssonar, sem dó 1177. Talið er að sagan sé rituð um eða eftir 1280, og að hún sé byggð á "Heimskringlu" Snorra Sturlusonar, en með viðaukum úr sérstakri gerð "Morkinskinnu" sem nú er glötuð. "Hulda-Hrokkinskinna" er er einkum gagnleg til samanburðar, þar sem handrit "Morkinskinnu" er óheilt. Í sögunni eru átta dróttkvæðar vísur, sem eru hvergi til annars staðar, eftir skáldin Arnór Þórðarson, Þjóðólf Arnórsson, Bölverk Arnórsson og Þórarin stuttfeld. Nokkrir eldri fræðimenn töldu að "Heimskringla" væri byggð á "Huldu-Hrokkinskinnu", frekar en að því væri öfugt farið. Þessi kenning hefur nýlega verið endurvakin með þeim rökum að hún leiði af sér einfaldari ættarskrá handrita af þessum sögum. "Hulda" eða "AM 66 fol." er íslenskt handrit frá seinni hluta 14. aldar. Í því eru nú 142 blöð, en fyrsta kverið, þ.e. fyrstu 6 blöðin, eru glötuð. Nafnið "Hulda" kom upp í Borgarfirði, þegar menn voru að pukrast þar með bókina eftir miðja 17. öld. "Hulda" hefur betri texta en "Hrokkinskinna". "Hrokkinskinna" eða "GKS 1010 fol." er íslenskt handrit frá upphafi 15. aldar. Texti "Huldu-Hrokkinskinnu" er á blöðum 1-91. Á síðustu fjórum blöðunum, sem bætt var við á 16. öld, er "Hemings þáttur Áslákssonar", að vísu óheill. Þormóður Torfason gaf handritinu þetta nafn, af því skinnið í blöðunum var hrukkótt vegna rakaskemmda. Texti "Huldu-Hrokkinskinnu" var prentaður í 6. og 7. bindi "Fornmanna sagna", 1831 og 1832. Danski fræðimaðurinn Jonna Louis-Jensen hefur rannsakað þessi handrit manna mest, og fjallar doktorsritgerð hennar um þetta efni: "Kongesagastudier: Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna", prentuð 1977. Hún hafði umsjón með ljósprentaðri útgáfu "Huldu", 1968 ("Early Icelandic Manuscripts in Facsimile" VIII). Hún vinnur nú að nýrri fræðilegri útgáfu á "Huldu-Hrokkinskinnu", sem er væntanleg innan tíðar á vegum Árnasafns í Kaupmannahöfn. Extreme. Extreme er bandarísk rokkhljómsveit sem var vinsæl 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hún hefur gefið út fjórar breiðskífur, tvær stuttskífur (í Japan) og tvo safndiska. Fyrstu árin (1985-1989). Árið 1985 voru söngvarinn Gary Cherone og trommarinn Paul Geary í hljómsveit, en gítarleikarinn Nuno Bettencourt og bassaleikaranum Pat Badger í annarri, eftir að þessar tvær hljómsveitir rifust um sameiginlegt búningsherbergi í Boston ákváðu þeir Gary, Paul, Nuno og Pat að stofna sína eigin hljómsveit, sem þeir nefndu Extreme. Gary og Nuno byrjuðu að semja lög saman og spilaðu þeir mörgum sinnum á Boston-svæðinu. Þar varð hljómsveitin fljótt vinsæl og fékk mjög góð ummæli á The Boston music awards. Hljómsveitin var búin að semja um 55 lög þegar Bryan Huttenhower stjóri A&M ákvað að gera við þá samning, og var það árið 1988. Þá tóku þeir upp sínu fyrstu breiðskífu sem bar nafn hljómsveitarinnar og var gefið út árið 1989. Fyrsta smáskífa Extreme hét „Kid Ego“, en Gary viðurkenndi seinna að hann skammaðist sín fyrir lagið. Síðasta lag breiðskífunnar Extreme, „Play with me“, var síðan notað í mynd Stephen Herek; "Bill & Ted's Excellent Adventure. Stjörnuskoðun. Stjörnuskoðun eða stjörnuathugun er aðferð í stjörnufræði við að kanna himinfyrirbæri. Nota má ber augu til að skoða stjörnuhimininn, en sjónaukinn olli byltingu þegar hann kom fram í upphafi 17. aldar. Með tilkomu útvarpssjónauka um miðja 20. öld hófst tímabil útvarpsstjörnufræði. Andrúmsloft jarðar takmarkar ljósmagn frá stjörnum, sem berst til jarðar, og því hafa menn á seinni árum sent nokkra stjörnusjónauka á sporbaug um jörðu, t.d. Hubblesjónaukann. Ólafur Ragnarsson. Ólafur Ragnarsson (fæddur 8. september 1944 á Siglufirði, lést 27. mars 2008 í Reykjavík) stofnaði bókaforlagið Vöku og var framkvæmdastjóri þess sem og eftirrennara þess, Vöku-Helgafell og Eddu-miðlun. Hann stofnaði Bókaforlagið Veröld árið 2005. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu, frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu og ritstjóri dagblaðsins Vísis. Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2006 fyrir framlag til íslenskrar bókaútgáfu. Varið land. „Varið land“ var undirskriftasöfnun, sem stóð frá 15. janúar til 20. febrúar 1974. Markmiðið var að sýna stuðning landsmanna fyrir veru varnarliðsins á Íslandi í kjölfar umræðu um endurskoðun varnarsamnings við Atlantshafsbandalagið. 55.522 undirskriftum var safnað og þær afhentar Alþingi 21. mars sama ár. Þessi áskorun Varins lands til alþingismanna olli miklum úlfaþyt og deilum í þjóðfélaginu, en herstöðvaandstæðingar gagnrýndu forgöngumenn undirskriftasöfnunarinnar harkalega fyrir að neita að taka þátt í umræðum um hana. Árið eftir höfðuðu forgöngumenn söfnunarinnar meiðyrðamál á hendur þeim, sem þeir töldu hafa nítt þá, þ.á m. stúdenta háskólans, sem höfðu gert gys að málinu í skólablaðinu og m.a. krafist þess að nokkrum yrði sagt upp stöðum sínum við háskólann. Nokkrir andstæðingar stofnuðu í framhaldi málfrelsissjóð til að standa straum af kostnaði vegna hugsanlegra og fallinna dóma. 152 háskólamenn og aðrir góðborgarar rituðu nafn sitt undir opinbera yfirlýsingu gegn forvígismönnum undirskriftarsöfnunarinnar. Birkirkara. Kort sem sýnir staðsetningu borgarinnar Birkirkara eða B'Kara er stærsta borg Möltu með 21.775 íbúa árið 2005. Hún er jafnframt ein af elstu borgum landsins, fyrst nefnd 1436. Borgin er meðal annars heimaborg núverandi forseta landsins, Edward Fenech Adami, uppreisnarleiðtogans Alfred Sant og fyrsta forseta landsins, Anthony Mamo. Nikósía. Nikósía er höfuðborg Kýpur og Norður-Kýpur. Borgin er stærsta borg Kýpur. Í grísk-kýpverska hluta hennar búa 47.832 íbúar en alls 224.500 manns séu úthverfi í grísk-kýpverska-hlutanum tekin með. Sé tyrknesk-kýpverski hlutinn tekinn með búa 84.893 íbúar í Nikósíu en alls 309.500 séu öll úthverfi tekin með. DNG. DNG (Digital Negative) er skráarsnið af Adobe Systems. Skrársniðið RAW hefur á síðustu árum orðið mjög vinsælt hjá ljósmyndaunnendum þar sem það gefur þér mikla og góða stjórn yfir myndinni til að vinna hana. Vandamálið er það að myndavélar frá mismunandi fyrirtækjum skrifa myndir í mismunandi RAW sniði, sem getur verið slæmt af því að það geta ekki öll forrit lesið öll þau RAW skráarsnið sem til eru. Í framtíðinni getur einnig verið hætta á að ljósmyndarar komist ekki í gömlu RAW skrárnar sínar þar sem engin forrit geta lesið þau. Vegna skorts á alþjóðlegu RAW skráarsniði, hannaði Adobe DNG til að sameina þessi RAW snið í eitt og sama skráarsniðið sem flest forrit geta spilað. Hægt er að sækja forrit frítt á netinu sem sem getur breytt öllum RAW skrám í DNG. Adobe kom með DNG árið 2004 og nú eru flest fyrirtæki farin að láta myndavélar skrifa myndir í DNG. Vantaa. Vantaa (sænska: "Vanda") er borg í Suður-Finnlandi, staðsett rétt hjá Helsinki. Vantaa, Helsinki, Espoo og Kauniainen mynda Helsinki-höfuðborgarsvæðið. Vantaa er fjórða fjölmennasta borg Finnlands með um það bil 190.000 íbúa dreifða yfir 243 km² svæði. Stærsti flugvöllur Finnlands, Helsinki-Vantaa flugvöllur, er staðsettur í borginni. Íbúar. Íbúar borgarinnar frá árinu 1805 - 2007. Eric Clapton. Eric Clapton á tónleikum þann 19. júní 1977. Eric Patrick Clapton (fæddur 30. mars 1945) er enskur gítaristi, söngvari, texta- og lagahöfundur. Hann hefur samið lög líkt og „Layla“ og „Tears in Heaven“. Clapton spilaði í hljómsveitum á borð við Cream og The Yardbirds. Hann spilaði á minningartónleikum um George Harrison en þeir voru góðir vinir. Clapton átti son sem lést eftir að hann datt út um glugga. Eftir það hætti hann að koma fram og gefa út lög um tíma, en tók svo til við það aftur með frægu minningarlagi um son sinn: Tears in heaven. Schwechat. Schwechat er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 16 þúsund. Traiskirchen. Traiskirchen er bær í fylkinu Neðra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 17 þúsund. Sturlunga saga. Sturlunga eða Sturlunga saga er íslenskt fornrit sem greinir frá valdabaráttu höfðingjaætta, sókn konungsvalds og kirkju og endalokum þjóðveldis. Sturlunga dregur nafn sitt af ætt Sturlunga, en svo voru afkomendur Sturlu Þórðarsonar í Hvammi í Dölum nefndir. Hún er mikilvæg heimild um sögulega viðburði á Íslandi og veitir innsýn í hugmyndaheim og lífsskoðun Íslendinga á 13. öld. Hún er rituð af ýmsum höfundum en þekktastur er Sturla Þórðarson (1214 – 1284) og er hann talinn hafa lagt mest af mörkum til ritsins. Efni Sturlungu. Sturlunga segir frá lífi Íslendinga á Íslandi og voru frásagnir hennar ritaðar á 13. öld líkt og Íslendingasögur. En það sem greinir Sturlungu frá Íslendingasögunum er sú staðreynd að Íslendingasögurnar greina frá löngu liðnum atburðum, sem flestir gerðust á 9. og 10. öld, en Sturlunga saga skýrir frá atburðum á 12. og 13. öld. Íslendingasögur fjalla um atburði úr fortíð en Sturlunga er að nokkru samtímaheimild og segir frá atburðum úr samtíð höfunda. Höfundar Sturlungu byggja frásögnina á eigin reynslu eða á ferskum munnmælum um atburðina. Sögur Sturlungu og Biskupa sögur eru því stundum kallaðar samtíðarsögur. Sturlunga saga er safnrit og varðveitt sem ein samfelld saga í handritum. Þó er greinilegt að þannig hefur hún ekki orðið til í upphafi. Heitið Sturlunga saga er þekkt frá 17. öld en uppruni hennar er þessi: Á 13. öld voru ritaðar einstakar sögur og síðan var þeim steypt saman í eitt rit um aldamótin 1300. Sögurnar gerast á árunum 1117 – 1264. Almennt er talið að Þórður Narfason (d. 1308) lögmaður á Skarði á Skarðsströnd hafi safnað til verksins og ritstýrt því. Hver tilgangurinn var með samsetningu ritsins er ekki vitað. En þó má geta sér til eins og gert er í nýjustu bókmenntasögunni: „Honum hefur augljóslega verið í mun að halda til haga frásögnum af atburðum sem leiddu til þess að Íslendingar glötuðu forræði sínu í hendur Noregskonungi árið 1262.“ Frásagnir Sturlungu eru fjölbreyttar að efni og framsetningu og þrátt fyrir töluverða ritstýringu við samsetningu heildarritsins er oftast auðvelt að greina sögurnar sundur. Tvenns konar hugmyndir hafa verið um hvernig gefa eigi Sturlungu út: Önnur er sú að gefa söguna út sem eina heild líkt og hún er varðveitt, og er nýjasta útgáfan á þann veg (1988 og 2010). Hin er sú að greina sögurnar að og prenta hverja sögu fyrir sig. Þannig er útgáfan frá 1946. Helstu sögur í Sturlungu eru Íslendinga saga eftir Sturlu Þórðarson, Þorgils saga og Hafliða, Prestssaga Guðmundar Arasonar, Þórðar saga kakala, Þorgils saga skarða og Svínfellinga saga. Enn fremur eru þar Sturlu saga, Geirmundar þáttur heljarskinns, Guðmundar saga dýra og Hrafns saga Sveinbjarnarsonar. Handrit. Meginhandrit Sturlunga sögu eru tvö; Króksfjarðarbók (AM 122 a fol) og Reykjafjarðarbók (Am 122 b fol), báðar frá 14. öld. Af Króksfjarðarbók eru varðveitt 110 blöð en talið er að þau hafi upphaflega verið 141. Af Reykjafjarðarbók eru varðveitt 30 blöð af áætluðum 180. Einnig eru til pappírshandrit sem eru runnin frá þessum skinnbókum þegar þær voru heilar. Franz Ferdinand (hljómsveit). Franz Ferdinand er skosk rokkhljómsveit. Meðlimir hennar eru Alexander Kapranos söngvari og gítarleikari, Nick McCarthy hljómborðs- og gítarleikari, Bob Hardy bassaleikari og Paul Thomson trommuleikari. Sveitin var stofnuð í Glasgow árið 2001. Saga. Fyrsta plata þeirra kom út árið 2004 og bar nafn hljómsveitarinnar en á þeirri plötu má finna stórsmellinn „Take Me Out“ og önnur lög sem urðu mjög vinsæl eins og „Jacqueline“ og „The Dark Of The Matinée“. Hljómsveitin sló í gegn með þessari fyrstu plötu sinni og snemma næsta ár sendu þeir frá sér smellinn „Do You Want To“. Um sumarið sama ár gáfu þeir svo út aðra plötu sína You Could Have It So much Better og kvað við rokkaðri tón á þeirri plötu, sem einnig féll vel í kramið hjá tónlistarunnendum. Vorið 2008 hyggjast þeir svo senda frá sér þriðju skífuna sem að sögn hljómsveitarmeðlima verður á lágstemmdari nótum en hljómsveitin hefur verið þekkt fyrir. Skilvinda. Skilvinda (eða skilja og stundum einnig skilvél) er tæki til að aðgreina misþung efni með hröðum snúningi (hin þyngstu leita lengst út vegna miðflóttaaflsins), m.a. notað til að skilja að rjóma og undanrennu. Uppfinningamaður skilvindunnar var hinn sænski hugvitsmaður Gustav de Laval. Ólafur Þórðarson hvítaskáld. Ólafur Þórðarson hvítaskáld (um 1210 – 1259), var lögsögumaður, kennari, skáld og rithöfundur. Oftast kallaður Ólafur hvítaskáld til aðgreiningar frá nafna sínum Ólafi svartaskáldi. Æviferill. Ólafur var launsonur Þórðar Sturlusonar goðorðsmanns á Snæfellsnesi, með Þóru (Jónsdóttur?), talinn fæddur á árabilinu 1210-1212. Hann var albróðir Sturlu Þórðarsonar sagnaritara. Ólafur ólst að hluta upp hjá föðurbróður sínum Snorra Sturlusyni, þar sem hann fékk bestu bóklega menntun sem völ var á. Síðar bjó hann í Hvammi í Hvammssveit, Borg á Mýrum frá 1236, og síðast í Stafholti. Þar rak hann um tíma rithöfunda- og prestaskóla, þar sem meðal annars var kennd málskrúðsfræði. Ólafur var súbdjákn að vígslu. Eftir Bæjarbardaga 1237, rak Sturla Sighvatsson Ólaf úr landi. Hann fór þá til Noregs og dvaldist í Niðarósi hjá Skúla jarli og syni hans, ásamt með Snorra frænda sínum og fleiri Íslendingum. Þar var hann viðstaddur vorið 1239, þegar Snorri fór út til Íslands í banni Hákonar konungs. Líklegt er að hann hafi farið til Svíþjóðar sumarið 1239 til að flytja Eiríki Eiríkssyni Svíakonungi kvæði. Hann kom aftur til Niðaróss snemma árs 1240, hitti þar fyrir Hákon konung og gerðist hans maður í deilunum við Skúla jarl. Eftir að hafa tekið þátt í orustu í Ósló um sumarið, mun hann hafa farið til Danmerkur. Var hann við hirð konungsins, Valdimars sigursæla, næsta ár, 1240-1241, en Valdimar dó 28. mars 1241. Líklegt er að Ólafur hafi þá farið til Noregs, og síðan til Íslands 1242 eða skömmu síðar. Vegna ætternis síns dróst Ólafur inn í átök Sturlungaaldar. Þegar hann kom úr utanförinni höfðu Sturlungar orðið fyrir miklu áfalli: Snorri frændi hans var fallinn, 1241, og einnig Sighvatur Sturluson og flestir synir hans í Örlygsstaðabardaga 1238. Þórður kakali, sonur Sighvats, var þá að hefja baráttu til valda. Að nokkru leyti vegna tengsla við hann varð Ólafur lögsögumaður 1248-1250 og 1252. Ólafur studdi einnig bróðurson sinn Þorgils skarða eftir að hann kom til landsins 1252. Annars virðist hann frekar hafa forðast átök, en sinnt í staðinn kennslu og ritstörfum. Skáldskapur og ritstörf. Ólafur var nafntogað skáld og er m.a. varðveitt brot úr tveimur kvæðum hans um Hákon gamla, annað hrynhenda. Einnig brot úr "Aronsdrápu", um Aron Hjörleifsson, brot úr kvæði um Tómas Bekket, auk lausavísna. Glötuð eru kvæði um Eirík Svíakonung, Valdimar sigursæla og fleiri. Hann samdi einnig merka ritgerð, sem kölluð er Málskrúðsfræði Ólafs hvítaskálds, öðru nafni Þriðja málfræðiritgerðin. Hún er að nokkru byggð á latneskum fyrirmyndum, en efnið aðlagað íslenskum aðstæðum. Margir fræðimenn telja að Ólafur hvítaskáld sé höfundur "Knýtlinga sögu", sem fjallar um sögu Danakonunga frá Haraldi Gormssyni fram undir 1200. Í sögunni segir: „Með honum (þ.e. Valdimar konungi gamla eða sigursæla) var Ólafur Þórðarson og nam að honum marga fræði, og hafði hann margar ágætligar frásagnir frá honum.“ Allir fræðimenn eru sammála um að Ólafur hafi verið heimildarmaður við samningu Knýtlinga sögu, og flestir telja líklegast að hann hafi sjáfur skráð söguna. Ekki er þó full vissa fyrir því. Ólafur hefur einnig verið nefndur sem höfundur Laxdæla sögu, en meiri óvissa er um það, þó að samanburður við stíl Knýtlinga sögu geti bent til þess. Hreiðars þáttur. "Hreiðars þáttur heimska" er stutt saga eða þáttur, sem telst til Íslendingaþátta. Þar segir frá Hreiðari Þorgrímssyni, seinþroska Íslendingi, sem fer til Noregs 1046-1047, þegar þeir fóru sameiginlega með völd, Magnús góði og Haraldur harðráði. Hreiðar vinnur hylli Magnúsar með skoplegum tiltækjum sínum, en vekur reiði Haralds, þegar hann hæðist að honum og drepur hirðmann hans. Magnús konungur kom honum þá til Íslands. Hann settist að á Hreiðarsstöðum í Svarfaðardal og varð nýtur maður. Hreiðars þáttur er varðveittur í "Morkinskinnu", og talsvert umskrifaður í "Huldu-Hrokkinskinnu", en þátturinn gæti upphaflega hafa verið sjálfstætt rit. Hann er talinn með elstu Íslendingaþáttum, gæti verið saminn skömmu eftir 1200, er örugglega eldri en 1250. Þó að þátturinn sé vel saminn og mannlýsingar góðar, getur frásögnin af samskiptum Hreiðars og Haraldar harðráða vart staðist, og er þátturinn því talinn vera skáldskapur að mestu leyti. Hreiðars þáttur var fyrst prentaður í 6. bindi "Fornmanna sagna", 1831, og var textinn þar tekinn úr "Huldu-Hrokkinskinnu". Texti þáttarins samkvæmt "Morkinskinnu" var fyrst prentaður 1867, í útgáfu C. R. Ungers. Sjá einnig "Íslensk fornrit" X, þar sem Björn Sigfússon fjallar nokkuð um þáttinn. Búnaðarsamband Suðurlands. Búnaðarsamband Suðurlands (Bssl) er búnaðarsamband á Suðurlandi, stofnað 1908. Það hefur aðalaðsetur sitt í Selfossi, en einnig rekur það skrifstofur á Hvolsvelli, Klaustri og Höfn. Saga. Búnaðarsamband Suðurlands var stofnað af hreppabúnaðarfélögunum og átti fyrst að sjá um kennslu í búháttum, s.s. hvernig ætti að plægja og auðvelda störf á bæjunum. Voru jarðabætur aðal verkefni félagsins fyrst um sinn. Fyrsti ráðunautur í röðum Bssl var Guðjón A. Sigurðsson sem kom til starfa 1932. Ekki fyrr en 1946 hófust skipulegar leiðbeiningar í búfjárrækt en þá var Hjalti Gestsson frá Hæl í Eystri-Hrepp ráðinn í hálft starf. Hann var þá nýútskrifaður frá Kaupmannahafnarháskóla. Síðar meir, árið 1953 var þriðji ráðunauturinn ráðinn til starfa, enda starf þess komið á blússandi siglingu með Gunnarsholt, undir stjórn Kristjáns Karlssonar, sem aðalbú. Fyrsti formaður Bssl var Sigurður Guðmundsson frá Selalæk í Rangárvallasýslu. Núverandi formaður er Guðbjörg Jónsdóttir á Læk í Flóa en Sveinn Sigmundsson frá Laugardælum í Flóa er framkvæmdastjóri. Rekstur. Í dag rekur Bssl leiðbeiningarþjónustu fyrir bændur, búgreinafélög og búnaðarfélög á sambandssvæðinu hvort sem það sé að vinna sæðingaáætlanir fyrir kýr, vinna bændabókhald eða skattframtöl. Markmið þess eru að efla og bæta landbúnað á svæðinu, fylgja eftir landslögum sem fjalla um landbúnað og nýtingu auðlinda, taka út heybirgðir og aðstöðu við búfé (búfjáreftirlit) og margt fleira. Þá vinnur það náið með Bændasamtökum Íslands. Félagssvæðið nær fyrir Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslur. Þess að auki heyrir Austur-Skaftafellsýsla til starfssvæðisins. Um 10 ráðunautar starfa nú hjá Bssl. Alexander Severus. Marcus Aurelius Severus Alexander (1. október 208 – 18. eða 19. mars 235), þekktur sem Alexander Severus, var rómarkeisari af severísku ættinni, á árunum 222 – 235. Alexander Severus var 13 ára þegar Elagabalus, keisari og frændi hans, var, árið 222, tekinn af lífi af lífvarðasveit keisarans. Í kjölfarið var Severus skipaður keisari. Amma Alexanders (og Elagabalusar), hin valdamikla Julia Maesa, var á bakvið samsærið um að koma Elagabalusi frá völdum og að gera Alexander að keisara. Alexander var mjög háður móður sinni, Juliu Mamaeu, og varð hún mjög valdamikil í keisaratíð hans. Hún skipaði marga ráðgjafa til að leiðbeina hinum unga keisara en einn af þeim var sagnaritarinn Cassius Dio. Samskipti Alexanders við herinn voru ekki góð, aðallega vegna að móðir hans skar niður útgjöld til hersins. Afleiðing þessa var óánægja og lítill agi herdeilda víðsvegar um heimsveldið. Árið 230 hófust árásir persneska Sassanídaveldisins inn á rómverskt landsvæði. Alexander hélt þá austur og gerði gagnárásir sem voru að nokkru leiti árangursríkar og persarnir voru stöðvaðir. Árið 234 réðust svo germanskir þjóðflokkar yfir Rín, inn í Gallíu. Alexander safnaði liðsauka frá herdeildum í austurhluta rómaveldis og hélt til Gallíu. Þegar á hólminn var komið kaus Alexander að borga germönunum til að fresta átökum. Þessi aðferð hans þótti ekki bera vott um herkænsku eða hugrekki af hálfu keisarans og þar sem hann var þá þegar óvinsæll á meðal hersins var nýr keisari, Maximinus Thrax, hylltur árið 235. Fljótlega eftir þetta var Alexander Severus tekinn af lífi. Við dauða Alexanders, og valdatöku Maximinusar, er vanalega miðað við að hin svokallaða 3. aldar kreppa hafi hafist. Brands þáttur örva. "Brands þáttur örva" er stutt frásögn eða þáttur, sem telst til Íslendingaþátta. Þar segir frá örlátum Íslendingi, Brandi Vermundarsyni, og hvernig Haraldur harðráði Noregskonungur, lét reyna á gjafmildi hans. Þátturinn er talinn vera ritaður á 13. öld. Ívars þáttur Ingimundarsonar. "Ívars þáttur Ingimundarsonar" er stuttur Íslendingaþáttur, sem sýnir fram á góðvild Eysteins Magnússonar Noregskonungs. Gelding. Gelding kallast sú aðferð að fjarlægja eða eyðileggja starfsemi eistna karldýra. Við þetta hverfa að mestu hin eiginlegu karleinkenni vegna þess að þau eru háð karl-kynhormónum sem framleidd eru í eistum. Geldingar eru framkvæmdar til að koma í veg fyrir getnað en einnig þegar auka á vaxtargetu karldýranna (t.d. uxar og sauðir til slátrunar). Vönun. Vönun er ófrjósemisaðgerð þar sem sæðisgöng eru skorin í sundur. Hamlar þetta ekki kyneinkennum og hormónastarfsemi. Vönun er t.d. notað hjá mönnum og þegar leitarhrútar, þá sauðir, eru æskilegir í sauðfjárrækt. Þá er þessi aðferð einnig viðhöfð á fressköttum. Hrásalat. Hrásalat er salat með gulrótum, kál, majónesi og stundum með ananans eða eplum. Sagt er að Rómverjar hafi borðað hrásalat. En hrásalat var ekki borðað með majónesi fyrr en á 18. öld. Orðið „hrá“ þýðir eitthvað sem er ósoðið en á öðrum tungumálum er talað um „kálsalat“. Í dag er hrásalat borðað sem meðlæti á Íslandi og líka í Bandaríkjunum, Bretlandi og í öðrum löndum. Mörk (mælieining). Mörk (fleirtala: merkur) er mælieining þyngdar, sem jafngildir 249 grömmum. Mörk var áður notuð í Vestur-Evrópu til að mæla þyngd gulls og silfurs og er enn notuð á Íslandi til að mæla þyngd nýbura. Vörtusvín. Vörtusvín (fræðiheiti: "Phacochoerus africanus") er spendýr af ætt svína. Vörtusvín eru algeng á sléttum í sunnan- og austanverðri Afríku. Einkenni. Vörtusvín bera nafn sitt af tveimur vörtupörum í andliti karldýranna. Bæði karl- og kvendýrin hafa stórar skögultennur í munni. Þessar tennur eru áberandi og nota svínin tennurnar til að róta eftir fæðu í jarðveginum, til að berjast við önnur vörtusvín og einnig til að verja sig. Vörtusvín geta orðið frá 90 cm til 1,5 metrar að lengd og 50-100 kg. að þyngd. Karldýrin eru stærri og þyngri en kvendýrin en bæði bera þau óvenjustóran haus miðað við búk. Dýrin eru lítillega hærð, aðallega í andliti, á framanverðum búki og aftur eftir hrygg. Rófan er hárlaus að undanskildum hárbrúski á rófuendanum. Vörtusvín geta hlaupið tiltölulega hratt og jafnvel stokkið. Á hlaupum stendur rófan oft upp í loftið. Vörtusvín sjá fremur illa en nota gott lyktarskyn sitt til að leita að fæðu. Fæðan er að mestu rætur, jurtir, ávextir og ber en einnig egg, dýrahræ og jafnvel smádýr og fuglar. Dýrin nota höfuð og fætur til að grafa upp rætur og sjást oft krjúpa niður á framfæturnar í fæðuleit. Jökulhlaup. Jökulhlaup kallast það þegar gífurlega mikið vatn brýst skyndilega undan jökli og streymir til sjávar. Til eru nokkrar tegundir jökulhlaups. Það getur verið jökull sem stíflar á og stíflan síðan brestur. Jarðhiti (eldgos) sem veldur vökvasöfnun undir jökli og vatnið brýtur sér svo leið undan eða jökulgarður sem fyllist af vatni og brestur. Almennar upplýsingar. Jökulhlaup byrja yfirleitt af miklum krafti og með stuttum fyrirvara. Þau eru skilgreind sem skyndileg flóð úr lóni við eða undir jökli. Það eru nokkrar tegundir af jökulhlaupum og eru þær útskýrðar hér að neðan. Í þeim er mikil orka og rennsli í þeim getur verið tugir þúsunda rúmmetra á sekúndu. Þau eru það kraftmikil að þau geta flutt með sér grjót og ísjaka sem vega nokkur hundruð kíló. Jökulhlaup hafa valdið miklum skemmdum á mannvirkjum eins og vegakerfi, rafmagnslínum og byggingum. Það fylgir einmitt oftar en ekki Skaftárhlaupum (sjá neðar) að hringvegurinn eyðileggist undir vatnsflauminum. Þó svo að jökulhlaup séu gjarnan tengd við Ísland, er langt frá því að verstu afleiðingar þeirra séu að finna hér á landi. Árið 1985 varð t.d. gífurlegt jökulhlaup úr Dig Tsho glacier vatninu í Nepal. Þetta flóð gjöreyðilagði nýja virkjun sem var verið að reisa sem og aðrar byggingar, eyðilagði vegi, brýr, akra og drap búfénað. Samtals varð tjónið upp á rúman milljarð bandaríkja dollara. Þegar stífla brestur. Þegar jökull stíflar dal og hindrar vatnsflæði niður hann myndast lón bak við ísinn. Ef ísinn er þykkur og lítið vatn í lóninu er hann örugg stífla. Eftir því sem meira vatn safnast saman eykst vatnsþrýstingurinn og vatnið byrjar að seytla í gegnum sprungur. Sprungurnar stækka svo því vatnið bræðir ísinn er það rennur í gegn. Á endanum veikist stíflan svo mikið að hún gefur eftir. Ef nógu mikið vatn er í lóninu getur ísinn farið að fljóta áður en stíflan brestur, því eðlismassi íss er léttari en vatns, og vatnið þá streymt undir ísinn. Vegna háhita eða eldgoss undir jökli. Þegar háhitasvæði er eða eldgos verður undir jökli safnast saman gífurlega mikið vatn í lón undir jöklinum. Þungi jökulsins virkar svo eins og pottlok á lónið. Þegar vatnsmagnið er orðið nægilega mikið lyftist jökullinn, því eðlismassi hans er léttari, og vatnið fossar undan. Þessi gerð jökulhlaupa er algeng hér á Íslandi. Jökulgarður sem brestur. Þegar jökull hopar skilur hann eftir sig garð úr seti og grjóti, jökulgarð. Þessi garður getur fyllst af vatni, sér í lagi í leysingum og rigningum, og myndað lón. Það fer eftir því úr hverju garðurinn er gerður, hversu sterkur hann er. Ef hann er ekki þeim mun sterkari getur hann látið undan og jökulhlaup orðið. Grímsvötn. Grímsvötn er eldstöð undir vestanverðum Vatnajökli. Þau eru virkasta eldstöð landsins en á síðast liðnum 800 árum hafa þau gosið a.m.k 60 sinnum. Úr Grímsvötnum koma þekktustu jökulhlaup á Íslandi, Skeiðarárhlaup. Grímsvötnum hefur verið skipt í þrjá hluta; suður-eða meginöskju, norðuröskju og austuröskju. Mestur er jarðhitinn í meginöskjunni og þar er stöðuvatn hulið undir 200-300 m þykkri íshellu. Þegar of mikið vatn hefur safnast þar saman leitar vatnið undir Skeiðarárjökul í farveg Skeiðarár. Skeiðarárhlaup hefjast yfirleitt hægt en auka hraðann nokkuð hratt uns hámarki er náð. Rennslið minnkar snögglega svo þegar útrásin lokast (fellur saman). Fram á 4. áratug 20. aldar var algengt að 10 ár liðu á milli hlaupa og að vatnsmagnið væri 4-5 km3. Eftir það til 1996 var algengt að 5 ár liðu á milli hlaupa og að vatnsmagnið væri mun minna, eða um 1-3 km3. Árið 1996 kom mjög þekkt eldgos sem kom miklu raski á í Grímsvötnum. Nú er ísstíflan veikari fyrir og hafa orðið mörg smærri hlaup með óreglulegu millibili. Kötlugos. Katla er megineldstöð í Mýrdalsjökli. Úr henni koma kröftug þeytigos og í kjölfar þeirra gífurleg jökulhlaup. Síðan á landnámsöld hafa komið 17 hlaup vegna goss í Kötlu, það síðasta árið 1918. Í flestum tilvikum hafa hlaupin runnið niður á Mýrdalssand, sjaldnar niður á Sólheima-og Skógarsand eða Markarfljótsaura. Þau standa stutt yfir og eru kraft-og vatnsmikil. Jökulhlaup við Kötlugos skila alltaf af sér miklu seti og gosefnum, og stækka með því svæðið neðan við jökulinn. Grunnvatn á höfuðborgarsvæðinu. Það ræðst af tegund berggrunns hvar grunnvatn á höfuðborgarsvæðinu er að finna og hvert það streymir. Höfuðborgarsvæðið er á jaðri mikils hrauna- og grágrýtisflæmis. Berggrunnurinn er allur mjög lekur, hraunasvæðin gleypa í sig nær alla úrkomu sem á þau fellur og grágrýtissvæðið er einnig mjög lekt, þó það sé öllu þéttara en hraunið. Mestöll úrkoma sem fellur á höfuðborgarsvæðið rennur því með grunnvatnsstraumum til sjávar. Flokkun eftir lekt berggrunns. Það má því sjá að mikið grunnvatnsflæði er á svæðinu. Af þekktum grunnvatnsstraumum má nefna svokallaðan Leitarstraum er rennur frá norðanverðum Bláfjöllum og vestanverðum Henglinum í vesturátt til Elliðavatns. Einnig rennur mikið grunnvatn eftir Hjallamisgenginu til suðvesturs í Heiðmörk. Mikið grunnvatn rennur til sjávar í Hraunavík og Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar. Vatnstaka. Við upphaf byggðar í Reykjavík var aðalvatnsbólið í Aðalstræti. Um aldarmótin 1900 er áætlað að um 34 vatnspóstar og vatnsból hafi verið víðsvegar um Reykjavík. Á þessum tíma var hreinlæti afar ábótavant en árið 1907 samþykkti Alþingi vatnsveitulög þar sem ákveðið var að ráðast í gerð vatnsveitu. Árið 1909 var Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð og sama ár var vatni hleypt á lagnir frá Elliðaám og Gvendarbrunnum. Mikill grunnvatnsstraumur er undir Heiðmörk þar sem gljúpt hraun þekur yfirborðið og regnvatn á greiða leið niður. Meginhluti grunnvatnsstraumsins kemur undan Húsafellsbruna og Bláfjöllum. Vatnstökusvæði í Heiðmörk eru Gvendarbrunnar, Jaðarsvæði, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki. Þar eru 21 borhola í notkun, 7 í Gvendarbrunnum, 9 á Jaðarsvæði, 3 á Myllulæk og 2 í Vatnsendakrika. Þær eru á bilinu 10-140 metra djúpar. Árið 1984 var síðasta opna vatnsbólið á Höfuðborgarsvæðinu tekið úr notkun og í dag kemur því allt vatn úr lokuðum borholum, sem tryggir enn frekar öryggi vatnsins gegn mengun. Vatnsverndarsvæði. Til að koma í veg fyrir mengun grunnvatns og tryggja þar með íbúum höfuðborgarsvæðisins öruggt neysluvatn er mikilvægt að hafa vel skilgreind vatnsverndarsvæði. Meginvatnsverndarsvæðið teygir sig frá Bláfjöllum í norðvestur að þéttbýlismörkum svæðisins. Í suðvestri nær svæðið að landamörkum við Vatnsleysustrandarhrepp, í suðri að mörkum Grindavíkur en í austurátt að mörkum sveitafélagsins Ölfuss. Vatnsverndarsvæðum er skipt í 3 flokka eftir þeim kröfum sem gerðar eru til verndunar svæðisins. Brunnsvæði eru afgirt næst núverandi og fyrirhuguðum vatnstökustöðum, en þar er öll óviðkomandi umferð óheimil. Grannsvæði eru svæði þar sem öll starfsemi og umferð er háð leyfi Heilbrigðisnefndar. Óheimilt er að hefja nýjan atvinnurekstur eða byggja ný mannvirki á þessum svæðum. Fjarsvæði skiptast í 2 svæði, A og B. Á fjarsvæði A er krafist meiri verndar en á svæði B, en fjarsvæði A er aðalákomusvæði fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggja að núverandi og framtíðar vatnsbólum. Óheimilt er að flytja úrgang inn á svæðið til geymslu eða förgunar. Vatnsforðinn á vatnsverndarsvæðinu er áætlaður um 15m3/s. Ef það mat er rétt er nú tæplega 10% forðans nýtt. Gæði neysluvatns. Gæði neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu eru afar mikil en undanfarin ár hafa 99% sýna reynst í góðu lagi. Styrkur umhverfisgerla er mjög lítill og nánast er óþekkt að óæskilegir gerlar mælist í vatninu. Ástæða þess er mikil úrkoma á svæðinu og hratt gegnumstreymi vatnsins í grunnvatnsstraumunum. 120 sýni eru tekin árlega til að fylgjast með gæðum vatnsins. Heitt vatn. Nokkur fyrirtæki sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni. Vatnið er ýmist heitt grunnvatn sem dælt er uppúr borholum eða þá að jarðvarmi er nýttur til að hita upp kalt vatn. Stærst þessara fyrirtækja er Orkuveita Reykjavíkur. Heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið er unnið að Nesjavöllum, Laugarnesi, Reykjum, Laxeldisstöðinni Mógilsá, Ráðagerði, Krýsuvík og Seljabrekku/Selholti. Málfrelsissjóður. Málfrelsissjóður er sjóður, sem upphaflega stofnaður var 8. nóvember 1977 til verndar málfrelsi á Íslandi og óheftrar listrænnar tjáningar. Hlutverk sjóðsins er að standa straum af kostnaði og miskabótum vegna meiðyrðamála, þegar stjórn sjóðsins telur að verið sé að hefta eðlilega umræðu um mál er hafa almenna samfélagslega eða menningarlega skírskotun. Síðar hafa fleiri sjóðir með sama heiti verið stofnaðir. Sjóðurinn var stofnaður í framhaldi af málaferlum, sem urðu í kjölfar undirskriftasöfnunarinnar "Varið land". Gróðurhúsalofttegund. Gróðurhúsalofttegund er lofttegund, sem veldur gróðurhúsaáhrifum t.d. hlýnun jarðar. Sameindir þeirra drekka í sig innrauða geislun frá jörðu og ná þannig að hita upp lofthjúpinn. Losun gróðurhúsalofttegunda er vegna náttúrlegra þátta eins og breytileika á sporbaugi við sól (e. "orbital forcing") og vegna áhrifa frá eldgosum og vegna athafna mannsins. Helstu áhrif frá manninum sem stuðla að losun gróðurhúsalofttegunda eru bruni á bensíni, olíum og kolum. Vatnsgufa (H2O). Vatnsgufa er þriggja atóma sameind, samansett úr tveimur vetnisatómum (H) og einu súrefnisatómi (O). Maðurinn hefur ekki bein áhrif á vatnsgufu í andrúmsloftinu en hún er algengasta gróðurhúsalofttegundin. Hækkun hitastigs mun samt leiða af sér meiri uppgufun og auka getu lofts til að halda vatnsgufunni. Koldíoxíð (CO2). Koldíoxíð er þriggja atóma sameind, samansett úr tveimur súrefnisatómum (O) og einu kolefnisatómi (C). Sameindin er á formi gass við stofuhita, er lyktarlaus og litlaus og kemur þannig fyrir í andrúmsloftinu. Koldíoxíð verður til við efnaskipti dýra, plantna, sveppa og örvera ásamt því að verða til við bruna kola og við skógarelda. Jarðkol eru til dæmis notuð við hitun húsa og raforkuframleiðslu. Vegna þess að koldíoxíð myndast við skógarelda gæti orðið meiri losun á því meðfram þurrkum sem verða tilkomnir vegna gróðurhúsaáhrifa. Plöntur nota koldíoxíð til ljóstillífunar. Í sjó er um 50 fallt meira magn koldíoxíðs en í andrúmsloftinu og ógnar það einnig lífi þar með súrnun. Vegna áhrifa frá manninum hefur losun koldíoxíðs aukist um 35% síðan í byrjun iðnvæðingarinnar. Metan (CH4). Metan er fimm atóma sameind sem gerð er úr einu kolefnisatómi (C) og fjórum vetnisatómum (H) og er einfaldasti alkaninn. Metan myndast við rotnun lífræns efnis við loftfirrðar aðstæður fyrir tilstilli gerla. Einnig myndast það við meltingu hjá jórturdýrum og losnar í töluverðu magni frá sorphaugum, hrísgrjónarækt og úr votlendi. Metan losnar einnig við ófullkominn bruna jarðefnaeldsneytis. Tvíköfnunarefnisoxíð (N2O). Tvíköfnunarefnisoxíð eða "hláturgas" er þriggja frumeinda sameind gerð úr tveimur nituratómum (N) og einu súrefnisatómi (O). Sameindin er á formi gass við stofuhita og hefur léttann sætan ilm og bragð. Uppsprettur sameindarinnar eru bæði náttúrlegar og manngerðar. Manngerðar uppsprettur eru t.d. landbúnaður, iðnaður og eldsneytisbrennsla. Tvíköfnunarefnisoxíð verður til í landbúnaði þegar nítrat afoxast í jarðvegi og þegar húsdýraáburður er meðhöndlaður. Þegar köfnunarefni (N)og súrefnisatóm (O) hvarfast saman við mikinn hita í brunahólfum farartækja verður til díköfnunarefnisoxíð. Óson (O3). Óson er þriggja súrefnisatóma (O) sameind og er mun óstöðugri en súrefni (O2). Sameindin er í formi ljósblás gass með köldum ertandi lyktarkeim við venjulegar aðstæður. Mest er af ósoni í heiðhvolfinu á svæði sem kallast ósonlag sem er í 10-50 km svæði frá jörðu. Ósonlagið er afar mikilvægt þar sem það drekkur í sig útfjólubláa geisla frá sólinni (270-400 nm) og geislun ljóseinda á stuttri bylgjulengd (<320 nm). Undanfarin ár hefur ósonlagið verið að þynnast vegna losunar efna sem brjóta óson niður (t.d. freon). Óson virkar sem gróðurhúsalofttegund í andrúmslofti með sama hætti og hinar lofttegundirnar með því að draga í sig innrauða geislun og hita upp yfirborð jarðar. Sameindin myndast í andrúmslofti vegna efnahvarfa loftmengunarefna (köfnunarefnisoxíða og vetniskolefna). Óson er talið geta haft skaðleg áhrif á jörðinni þar sem það er mjög hvarfgjarnt og ertandi en erfitt hefur reynst að meta áhrif þess á loftslagsbreytingar þar sem það getur bæði haft kælandi og hitandi áhrif á andrúmsloftið Klórflúorkolefni. Þetta er stór hópur tilbúinna efna (enska "Chlorofluorcarbons", skammstafað: ("CFC"). Þau eru hluti af halógenalkönum, sem tengdir eru klóri eða brómi. Dæmi um klórflúorkolefni er freon, sem notað var í miklu magni áður fyrr í kælitæki eins og t.d. ísskápa. Talið er að freon sé helsta ástæðan fyrir þynningu ósonlagsins. Þessi efni hafa einnig verið notuð sem drifefni í innúðalyf fyrir astma og í ræstivörur Áhrif gróðurhúsalofttegunda. Hækkun hitastigs jarðar hefur víðtæk áhrif í för með sér. Sjávaryfirborð hækkar vegna bráðnunar jökla og hafa mælingar bent til þess að sjávaryfirborð hafi hækkað að meðaltali um 18 cm síðustu árin en þessi hækkun er meiri en fornleifafræðingar og jarðfræðingar hafa bent á fyrir síðustu tvö ársþúsundin. Jöklar eru í flestum heimsálfum og hafa reynst gagnlegir til þess að rannsaka gróðurhúsaáhrif. Í framtíðinni mun sjávaryfirboð hækka enn frekar ásamt því að bráðnunarhraði jökla mun aukast. Talið er að úrkoma aukist á sumum stöðum meðan hún mun minnka og valda þurrkum á öðrum stöðum. Ef spár ganga eftir mun reynast erfitt eða ómögulegt að nýta viss búsvæði á jörðinni. Þegar hiti endurkastast frá jörðu fer hann framhjá tveggja atóma sameindunum (t.d. O2 og N2) en um leið og hann rekst á stærri sameindir (gróðurhúsalofttegundirnar) verður til hreyfing sem er svipuð tíðni hitageislunar. Þessi hreyfing verður til þess að hluti hitans endurkastast aftur á jörðina og veldur hlýnun. Björn Thors. Björn Thors (fæddur 12. janúar 1978) er íslenskur leikari og leikstjóri. Björn hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Grímunnar - íslensku leiklistarverðlaunanna, fyrir leik sinn í leikritunum "Græna landið", "Dínamít","Killer Joe" og "Vestrinu Eina". Hann hefur tvisar hlotið Grímuna, fyrir "Græna landið" og Vestrið Eina. Hann hefur einnig leikið í Fangavaktinni og sló þar rækilega í gegn sem kenneth máni eða Ketill máni. Grunnvatn. Grunnvatn kemur til yfirborðs í lindum. Bullandi lind í upptökum Galtalækjar í Landsveit. Grunnvatn (eða jarðvatn) er vatn sem fyllir allar glufur í jörðu fyrir neðan grunnvatnsflöt. Meðan vatn er á yfirborðinu er talað um "yfirborðsvatn", "sigvatn" meðan það er á leiðinni niður að grunnvatnsfleti og grunnvatn þar fyrir neðan. Grunnvatnið síast gegnum jarðlögin og þannig hreinsast úr vatninu (mest)allur gerlagróður. Grunnvatnið er sjaldnast kyrrstætt heldur sígur það hægum straumi undan halla. Grunnvatnsflæðinu má skipta upp í grunnvatnsstrauma. Þar sem grunnvatn flæðir til yfirborðs eru lindir og lindasvæði. Ísland er ríkt af grunnvatni enda fara þar saman mikil úrkoma og víðáttumikil lek jarðlög. Um 98% af neysluvatni landsmanna er hreint og ómeðhöndlað grunnvatn. Hiti í jarðlögum fer víðasthvar vaxandi með dýpi. Grunnvatn sem kemst djúpt í jörð er því heitt. Jarðhitavatn er hluti af grunnvatninu. Knud Zimsen. Knud Zimsen (17. ágúst 1875 – 15. apríl 1953) var verkfræðingur og borgarstjóri Reykjavíkur á árunum 1914-1932. Knud Zimsen var í þjónustu Reykjavíkuborgar í nær þrjá áratugi. Fyrst sem bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi en síðast sem borgarstjóri og sat í 18 ár. Hann lét af stöfum vegna vanheilsu, þá aðeins 57 ára að aldri, „orðinn slitinn að kröftum í þágu [borgarinnar]“, eins og segir í andlátsfrétt hans í Morgunblaðinu árið 1953. Knud Zimsen gaf út bók um ævi sína og starfsár sín hjá borginu, og nefnist hún "Úr bæ í borg". Bókin kom út árið 1952. Aprílgabb. Aprílgabb (eða aprílnarr) er lygi sem er sett fram sem sannleikur í tilefni 1. apríl og gert til að láta fólk "hlaupa apríl". En hugtakið "aprílhlaup" er einmitt skilgreint þannig að það sé að gabba einhvern til að fara erindisleysu á fyrsta degi aprílmánaðar. Jarðvatn. Jarðvatn (subterranian water) er samheiti um vatn undir jarðaryfirborði, hvort heldur sem það er undir eða yfir grunnvatnsfleti. Jarðvatninu má skipta í þrjá aðalflokka eða lög eftir ástandi þess á hverjum stað. Þetta eru jarðvegsraki, hárpípuvatn og grunnvatn. Mörkin milli þessara laga eru ekki skörp. Gleggstu skilin eru þó við grunnvatnsflötinn. Þar er þrýstingur vatnsins jafn loftþrýstingi, undir honum er hann hærri en yfir honum er vatnsþrýstingurinn lægri loftþrýstingi. Jarðvatnið er sá hluti hringrásar vatnsins (vatnafarshringsins) sem á sér stað undir yfirborði þurrlendisins. (Stundum er orðið grunnvatn notað um það sem hér er skilgreint sem jarðvatn) Jarðvegsraki. Hjúpvatnið er að mestu bundið í jarðlögin með sameindakröftum og liggur sem örþunn himna utan á kornum jarðvegsins. Sigvatnið er laust vatn sem hripar niður í gegn um jarðveginn áleiðis til grunnvatnsins. Hárpípuvatn. Hárpípuvatn og hárpípubelti (capillary water, capillary fringe) myndar þunnt lag yfir grunnvatnsfleti þar sem jarðlögin eru mettuð vatni sem dregist hefur sökum hárpípukrafta upp fyrir grunnvatnsborð. Þykkt þessa lags er eingöngu háð kornastærð eða gropi jarðlaganna. Í grófri möl er það örþunnt, í sandi getur það verið nokkurra cm þykkt en í leir getur það náð nokkrum metrum. Grunnvatn. Grunnvatn og grunnvatnsbelti (groundwater, groundwater zone) tekur við neðan grunnvatnsborðs. Þar er allt holrými bergsins vatnsfyllt. Þrýstingurinn er hærri en loftþrýstingur. Grunnvatnið er sjaldnast kyrrstætt heldur sígur það hægum straumi undan halla. Grunnvatnsflæðinu má skipta upp í grunnvatnsstrauma. Þar sem grunnvatn flæðir til yfirborðs eru lindir og lindasvæði. Þegar um er að ræ ða frjálsan grunnvatnsflöt er vatnsþrýstingurinn á hverjum stað í samræmi við dýpið undir grunnvatnsborði. Stundum valda þétt jarðlög því að þrýstingurinn er mun meiri, eða mun minna, en dýpið segir til um. Þegar þrýstingurinn er meiri en samsvarar dýpinu er talað um "þrýstivatn (artesian water)." Sú hæð sem vatnið getur þrýst sér upp í, t.d. í borholu, nefnist "þrýstivatnshæð (pizometric surface)." Stundum er þrýstivatnsborðið hærra en jarðaryfirborð og þar koma lindir upp í ólgandi bullaugum og vatn flæðir upp úr borholum á svæðinu. Á sama hátt og þétt jarðlög geta orsakað þrýstivatn geta þau einnig valdið undirþrýstingi þannig að fleira en eitt grunnvatnsborð er til staðar. Í borun við slíkar aðstæður getur grunnvatnsborðið í borholu lækkað snögglega þegar komið er niður í gegn um þéttu lögin. Þrastaskógur. Séð yfir tjaldstæðið í Þrastarskógi. Vegur úr rauðamöl í forgrunni Þrastaskógur í Grímsnesi austan við Ingólfsfjall er 45 hektara skógarsvæði í eigu Ungmennafélags Íslands. Svæðið liggur frá Álftavatni, niður með Soginu að Þrastalundi. Þetta landssvæði var gjöf athafnamannsins Tryggva Gunnarssonar til Ungmennafélagsins á 77 ára afmæli hans, þann 18. október 1911. Ungmennafélög víðs vegar að á landinu hófu strax gróðursetningu í Þrastaskógi en þó var það ekki fyrr en 1914 sem þáverandi formaður UMFÍ, Guðmundur Davíðsson kom með heitið Þrastaskógur en mikið er um skógarþresti á þessu svæði. Árið 1924 var samþykkt á þingi UMFÍ að ráða sumarstarfsmann í skóginum og var þá Aðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka og síðar formaður UMFÍ ráðinn. Uppbygging á íþróttavelli inni í skóginum hófst svo 1961 en hann var ekki fullgerður fyrr en 1970. Við Sogsbrúna var byggður söluskálinn Þrastarlundur árið 1967. Nýr söluskáli og veitingasalur var tekinn í notkun árið 2004. Silfurgægir. Silfurgægir (fræðiheiti: "Leuciscus leuciscus") er fiskur af ætt vatnkarpa. Sentimetri. Sentimetri er lengdareining, sem jafngildir einum hundraðasta úr metra, táknað með cm. Í íslenskum texta er stundum er notuð skammstöfunin "sm" fyrir sentímetra, en til að forðast rugling er frekar er mælt með því að nota alþjóðlega táknið, "cm". Er grunneining lengdar í cgs-kerfinu. 1 cm = 0,01 m. Blandað hagkerfi. Hagkerfi kallast blandað þegar efnahagur lands er skipulagður með þeim hætti að á sumum sviðum eru gæði framleidd á frjálsum markaði en öðrum úthlutað af ríkinu. Á frjálsum markaði eru það fyrirtæki í einkaeigu, sem framleiða vörur og veita þjónustu. Á hinn bóginn framleiða opinberar stofnanir eða fyrirtæki í eigu ríkisins samkvæmt miðstýrðari framleiðsluháttum. Strangt tekið eru öll hagkerfi blönduð, í mismiklum mæli þó. Maximianus. Mynt með mynd af Maximianusi Marcus Aurelius Valerius Maximianus Herculius (250 – júlí 310) var keisari Rómaveldis á árunum 286 til 305. Ferill. Maximianus var útnefndur "caesar", eða undirkeisari, af Diocletianusi árið 285. Hann hafði þá verið hershöfðingi um skeið, m.a. undir keisurunum Aurelianusi, Probusi og Carusi. Diocletianus hafði fyrr á árinu 285 tryggt sína stöðu sem keisari er hann sigraði Carinus í bardaga, en tíð átök undanfarinna áratuga sýndu að erfitt var fyrir einn keisara að tryggja stöðugleika í ríkinu. Diocletianus þurfti því á vönum hershöfðingja að halda til þess að hjálpa sér við að verjast árásum utanfrá og að bæla niður uppreisnir innan heimsveldisins. Hlutverk Maximianusar var að stjórna vesturhluta Rómaveldis á meðan Diocletianus, sem hafði titilinn "augustus" og var því hærra settur, einbeitti sér að austurhlutanum. Maximianus þurfti fljótlega að taka upp vopn þar sem uppreisnarmaðurinn Carausius hafði lýst sjálfan sig keisara í Bretlandi og í hluta Gallíu. Maximianus þurfti hinsvegar að fresta innrás í Bretland þar sem Carausius hafði tryggt sér völd yfir öllum flota Rómverja á þessum slóðum. Árið 286 tók Maximianus sér titilinn "augustus" og var því frá þeim tíma fullgildur keisari. Átökum við Carausius var svo slegið á frest og Maximianus, ásamt Diocletianusi, einbeitti sér að því að tryggja norður-landamæri Rómaveldis, við Rín og Dóná, gegn germönskum þjóðflokkum. Fjórveldisstjórn. Árið 293 var hin svokallaða fjórveldisstjórn mynduð, en í henni fólst að Maximianus og Diocletianus skipuðu hvor um sig einn undirkeisara ("caesar"). Maximianus skipaiði Constantius Chlorus tengdason sinn sem hafði verið yfirmaður lífvarðasveitar hans. Diocletianus skipaði Galerius. Maximianus og Constantius sneru sér nú að því að berjast við Carausius. Þeir börðust fyrst við bandamenn hans í Gallíu, með þeim afleiðingum að Carausius missti stuðning og var tekinn af lífi af Allectusi, fyrrum bandamanni hans. Allectus tók hins vegar við sem uppreisnarforingi, en var sigraður í bardaga, af Constantiusi árið 296. Árin 297 - 298 var Maximianus á norðurströnd Afríku í Mauretaniu (núverandi Marokkó) að berjast gegn Berbum sem ráðist höfðu inn í svæðið frá Atlasfjöllum. Maximianus sigraði þá og rak þá suður til Sahara eyðimarkarinnar. Fyrir vikið fagnaði hann sigri í Róm árið 299. Afsögn. Maxentius, sonur Maximianusar, var ekki skipaður keisari þegar faðir hans sagði af sér og gerði síðar uppreisn Diocletianus og Maximianus sögðu svo báðir af sér sama dag, 1. maí árið 305. Þeir voru fyrstu Rómarkeisararnir til þess að segja af sér en talið er að Maximianus hafi verið tregur til þess og aðeins sagt af sér vegna þrýstings frá Diocletianusi. Constantius varð nú "augustus" í vesturhlutanum og Galerius í austurhlutanum. Bæði Maxentius, sonur Maximianusar, og Konstantínus, sonur Constantiusar, þóttu líklegir til þess að verða undirkeisarar, en gengið var framhjá þeim báðum og Flavius Valerius Severus og Maximinus Daia voru skipaðir í staðinn. Þær umbætur sem gerðar voru á stjórnsýslu, lögum og skattheimtu Rómaveldis á valdatíma Maximinusar og Diocletianusar, og bundu enda á óstöðugleikann sem einkenndi 3. öldina, voru að langmestu leyti Diocletianusi að þakka frekar en Maximianusi. Hlutverk Maximianusar í stjórn ríkisins var aðallega hernaðarlegt og hann virðist alltaf hafa álitið Diocletianus vera æðri keisarann, þrátt fyrir að þeir bæru báðir titilinn "augustus". Mishepnuð endurkoma. Constantius Clorus lést árið 306 og varð Konstantínus þá keisari. Maxentius ákvað þá að lýsa sjálfan sig keisara og fékk til þess stuðning ýmissa valdamanna í Róm. Maximianus sneri þá aftur inn á pólitíska sviðið til þess að styðja son sinn og fékk Konstantínus til þess að styðja hann líka. Fljótlega sinnaðist Maximianusi þó við son sinn og reyndi sjálfur að taka keisaratitil hans. Það mistókst og á ráðstefnu sem haldin var árið 308, til þess að leysa úr þeirri flækju sem myndast hafði í fjórveldisstjórninni, var Maximianus aftur þvingaður til þess að hætta að skipta sér af stjórn ríkisins. Maxentiusi var á sama tíma vísað frá keisaratign. Konstantínus var giftur dóttur Maximianusar, Faustu, og áleit hann Maximianus hliðhollan sér. Árið 310 fól Konstantínus Maximianusi að stjórna nokkrum herdeildum sem verjast áttu hugsanlegri árás frá Maxentiusi, sem enn var að gera uppreisn. Maximianus ákvað hins vegar að lýsa því yfir að Konstantínus væri allur og lýsti sjálfan sig keisara í hans stað. Til þessa fékk hann þó engan stuðning og Konstantínus tók hann til fanga og þvingaði hann til að segja af sér í þriðja sinn. Stuttu síðar, í júlí 310, framdi Maximianus sjáfsmorð. Gróðurhúsaáhrif. Gróðurhúsaáhrif eru hækkun á meðalhita reikistjörnu, vegna gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi hennar. Flestir vísindamenn telja hækkun meðalhita jarðar sé vegna aukinnar losunar mannsins á gróðurhúsalofttegundum en náttúruleg fyrirbæri eins og mismunandi geislun sólar og áhrif frá eldfjöllum geta líka haft áhrif til hækkunar hita. Loftslagsspár gefa til kynna að hækkun hitastigs jarðar verði á bilinu 1,1 °C-6,4 °C á 21. öld og að hækkunin hafi verið á bilinu 0,3-0,6 °C síðustu 150 árin. Veðurfarslíkön benda einnig til þess að hækkun hitastigs verði meiri á pólunum en við miðbaug. Vísindaleg óvissa ríkir um hversu mikil hækkun hita verði og hver áhrifin eru nákvæmlega á mismunandi svæðum jarðar. Flestir eru þó sammála um að breytingar muni eiga sér stað. Flest lönd hafa skrifað undir Kyoto samkomulagið sem miðar að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Neðanmálsgreinar. er hækkaður meðalhiti á reykistjörnu vegna gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi hennar. Boston-háskóli. Myles Standish Hall í Boston University. Boston-háskóli (e. Boston University eða BU) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Boston í Massachusetts í Bandaríkjunum. Skólinn rekur sögu sína aftur til Newbury Biblical Institute í Newbury í Vermont sem var stofnaður árið 1839. Við skólann stunda meira en 30.000 nemendur nám en Boston University er fjórði stærsti einkarekni háskóli Bandaríkjanna. Skólinn er á tveimur háskólasvæðum, annað liggur við Charles River í Fenway-Kenmore-hverfinu í Boston en hitt liggur beggja megin Massachusetts Turnpike-hraðbrautarinnar. Læknaskóli Boston University er South End-hverfi Boston borgar. Boston College. Boston College, miðborg Boston sést í bakgrunninum. Boston College (BC) er einkarekinn háskóli í Chestnut Hill í Massachusetts í Bandaríkjunum. Háskólasvæðið er um 10 km vestan við miðbæ Boston. Emory-háskóli. Candler-bókasafnið í Emory-háskóla í Atlanta. Emory-háskóli (e. Emory University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Emory var stofnaður árið 1836 og nefndur eftir John Emory, vinsælum biskupi. Johns Hopkins-háskóli. Johns Hopkins-háskóli (e. Johns Hopkins University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum. Johns Hopkins var stofnaður árið 1876 og var fyrsti háskólinn í Bandaríkjunum sem tók sér þýska rannsóknarháskóla sem fyrirmynd og lagði megináherslu á rannsóknir. Skólinn er einkum rómaður fyrir læknaskóla sinn. Skólinn er nefndur eftir Johns Hopkins, sem lagði 7 milljónir bandaríkjadala til stofnunar skólans í erfðaskrá sinni árið 1873. Einkunnarorð skólans eru "Veritas vos liberabit" („Sannleikurinn mun frelsa ykkur“). Tjörneslögin. Í gili einu rétt sunnan við Hallbjarnarstaði sjást Tjörneslögin glögglega. Maðurinn á myndinni gefur til kynna hæð jarðlagastabbans. Tjörneslögin eru 500 m þykk sjávarsetlög á vestanverðu Tjörnesi. Nafnið er stunum notað óformlega yfir jarðlög á öllu nesinu eða einungis öll sjávar- og jökulbergslög sem liggja frá Köldukvísl yfir í Breiðuvík. Jarðlögum á Tjörnesi er skipt niður í fjóra meginhluta: Köldukvíslarhraun, Tjörneslög, Höskuldsvíkurhraun og Breiðavíkurhóp. Aldur þessara myndana spannar frá 10 milljónum ára fram á síðari hluta ísaldar, en með stóru mislægi milli Köldukvíslarhraunanna og Tjörneslaganna. Hin eiginlegu Tjörneslög skiptast í þrjú meginlög eftir einkennisskel hvers lags: gáruskelja-, tígulskelja- og krókskeljalög. Í Furuvík og Breiðuvík má finna bæði jökulbergs- og sjávarsetlög. Saman sýna þessi einstöku setlög óvenju samfellda sögu loftslagsbreytinga síðustu 5 ármilljóna eða allan ísaldartímann og ríflega það. Fána Tjörneslaganna segir okkur sögu loftslagsbreytinga í aðdraganda ísaldarinnar. Ofan sjálfra Tjörneslaganna má finna á Tjörnesi alls níu eða tíu jökulbergslög, sem segja til um jökulskeið og hlýskeið kvartertímabilsins. Jökulbergslögin hafa varðveist fyrir tilstilli hraunlaga, sem runnið hafa ofan á jökulbergið og varið það fyrir jöklum síðari jökulskeiða. Vegna þessa samspils elds og ísa finnast hvergi annars staðar jafnmörg jökulbergslög í einni jarðlagasyrpu og má fullyrða að hin samfellda jarðlagasyrpa Tjörness sé einstök á heimsmælikvarða. Jarðfræðiyfirlit. Tjörnes er skaginn, sem skilur að Skjálfandaflóa og Öxarfjörð. Tjörnes er rishryggur og er risið talið um 500 – 600 metrar miðað við bergið suður af basaltstaflanum. Halli jarðlaganna er um 5–10° og hallar þeim til norðvesturs. Risið afhjúpar basalthraunstafla frá tertíer. Ofan á tertíer-hraunlögin leggjast mislægt 500 metra þykk sjávarsetlög, hin eiginlegu Tjörneslög. Liggja þau á milli Köldukvíslar og Höskuldsvíkur. Ofan á Tjörneslögunum liggja hraunlög, kennd við Höskuldsvík og Hvalvík, og ofan á þeim jökulbergs- og sjávarsetlög, kennd við Furuvík og Breiðuvík. Svokallað Mánárbasalt liggur ofan á Breiðavíkurlögunum en ofan á því skiptast á enn yngri jökulbergs- og basalthraunlög. Aldur jarðlaga. Þrjár meginaðferðir, jarðlagafræði, ákvörðun segulstefnu hraunlaga og kalín-argon greining, hafa verið notaðar til að aldursgreina Tjörneslögin allt frá upphafi 20. aldar. Jarðlagafræði. Í upphafi 20. aldarinnar voru engar aðferðir þekktar til að ákvarða raunaldur jarðlaga. Því varð að ákvarða afstæðan aldur með því að bera saman jarðlög og leifar lífvera á milli mismunandi svæða. Fyrstir til að reyna að ákvarða afstæðan aldur Tjörneslaganna voru Helgi Pjetursson 1910 og Guðmundur G. Bárðarson 1925. Gróður- og sjávardýraleifar Tjörneslaganna voru bornar saman við leifar í svipuðum lögum erlendis, til að mynda við lög í Austur-Anglíu á austurströnd Englands. Voru Tjörneslögin talin allt frá pleistósen, plíósen og niður á yngsta hluta míósen. Segulstefna hraunlaga. Hollendingurinn Jan Hospers varð um 1950 fyrstur til að notast við segulstefnu hraunlaga til að ákvarða afstæðan aldur jarðlaga á Íslandi. Doktorsritgerðin hans, Palaeomagnetic studies of Icelandic rocks, kom út árið 1953 en hún fjallaði um segulstefnu íslenskra hraunlaga og þar á meðal hraunlaga á Tjörnesi. Trausti Einarsson staðfesti rannsóknir Hospers með eigin rannsóknum árið 1958 og sjö árum síðar renndu niðurstöður David M. Hopkins, Þorleifs Einarssonar og Richard R. Doell enn frekari stoðum undir fyrri rannsóknir Hospers og Trausta. Þar sem Tjörneslögin leggjast mislægt ofan á Köldukvíslarbasaltið var ekki hægt að ákvarða eldri mörk laganna út frá segulstefnu hraunlaganna. Eitt elsta hraunlagið í Tjörneslögunum er hið svokallaða Skeifárbasalt en það er öfugt segulmagnað. Það þótti líklegast að Skeifárbasaltið félli á annað hvort Kaena eða Mammoth segulkaflana, sem eru öfugt segulmagnaðir kaflar í Gauss tímabilinu. Hraunlögin í Höskuldsvík, sem liggja beint ofan á Tjörneslögunum eru rétt segulmögnuð en öfugt segulmögnuð hraunlög leggjast ofan á í Hvalvík og á milli þeirra eru Gauss-Matuyama skilin. Inn á milli setlaganna í Furuvík og Breiðuvík má finna hraunlög, sem rakin hafa verið til mismunandi segulskeiða, og þannig má aldursgreina afstætt stóran hluta Tjörneslaganna. Kalín-argon aðferð. Um og upp úr miðri 20. öldinni varð kalín-argon aldursgreiningartæknin almennilega nýtileg við raunaldursgreiningu bergs og erlendis var fljótlega lagður grunnur að raunaldurstímakvarða byggðum á segulstefnumælingum hraunlaga. Þorleifur Einarsson hóf því ásamt samstarfsmönnum sínum að tengja saman segulstefnu hraunlaga á Tjörnesi við þennan tímakvarða, en það var aðeins nálgun þar sem ekki lágu beinar rannsóknir að baki. Lengi vel var það vandkvæðum bundið að nota kalín-argon aðferðina á berg frá Tjörnesi, meðal annars vegna lágs kalínmagns í berginu, ummyndunar og lágs aldurs. Nú er Köldukvíslarbasaltið talið vera um 8,5 – 10 milljón ára gamalt. Hraunlag neðst í gáruskeljalögunum hefur verið aldursgreint um 4 milljón ára sem er jafngamalt og elsti hluti Tjörneslaganna. Höskuldsvíkurhraunlögin hafa verið aldursgreind 2,6 milljón ára og hafa Tjörneslögin því hlaðist upp á um 1.500 þúsund árum, frá því fyrir um 4 – 2,5 milljónum ára. Hraunlögin, sem liggja á milli Tjörneslaganna og Furuvíkurlaganna, eru 2,6 – 2 milljón ára gömul. Hið eldra af jökulbergslögunum tveimur í Furuvík hefur verið áætlað um 2,2 milljón ára gamalt. Jökulbergslögin sýna að ísöld hefur þá verið að fullu gengin í garð þar sem Tjörnes er langt frá jökulmiðju landsins og jökullinn hefur þurft að breiða vel úr sér til að ná þar fram í sjó. Í Breiðuvík má finna fjögur jökulbergslög en þau eru hulin hraun- og sjávarsetlögum, sem myndast hafa á hlýskeiðum. Í sjávarsetinu má finna skeljategundir, sem lifa nú við landið, og bendir það til raunverulegra hlýskeiða með loftslagi líkt og á nútíma. Í sjávarseti, næst jökulbergi, hafa þó fundist á tveimur stöðum skeljar jökultoddu, en hún lifir við sporða skriðjökla í 0 °C heitum sjó. Þar hefur einnig fundist gneisshnullungur í jökultoddusetinu en hann er fyrsta ummerki um borgarís við strendur Íslands. Í Breiðavíkurlögunum má þar að auki greina leifar trjágróðurs, furu, elris, víðis og birkis. Ofan á Breiðavíkurlögunum leggst Mánárbasaltið, en það hefur verið aldursgreint 1,2 milljón ára gamalt. Breiðavíkurlögin liggja eftir Tjörnesi suður að Búrfelli og Grasafjöllum, mislægt ofan á öðrum jarðlögum. Helming leiðarinnar samanstanda lögin af jökulbergi og sjávarseti en sunnar af ár- og vatnaseti. Það bendir til þess að á myndunartíma Breiðavíkurlaganna hefur Tjörnesið verið mjög flatlent og löngum hulið sjó. Hvert jökulbergslag svarar því að öllum líkindum til jökulskeiðs með stórfelldri jöklun út frá jökulmiðju landsins en ekki til stuttra kuldakasta með staðbundinni jöklun. Gáruskeljalögin. Neðstu lögin, og jafn framt þau elstu í Tjörneslögunum, eru hin svo kölluðu gáruskeljalög. Þau eru kennd við þrjár tegundir skeljarinnar venerupis, sem nefnist gáruskel á íslensku. Áður voru þessar skeljar kallaðar báruskeljar, með tegundaheitið tapes, en það hefur valdið ruglingi þar sem heitið báruskel hefur lengi verið notað yfir aðrar tegundir skelja. Því lögðu Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson til að heitið gáruskel væri heldur notað yfir þær skeljategundir, sem finnast í neðstu lögum Tjörneslaganna. Þó eru gáruskeljalögin yfirleitt enn kennd við fræðiheitið tapes, líkt og gert hefur verið hingað til. Gáruskeljategundirnar, sem finnast í Tjörneslögunum, eru af tegundunum Venerupis aurea (glóskel), Venerupis rhomboides (bugskel) og Venerupis pullastra (möttulskel). Þessar tegundir lifa nú allt frá ströndum Noregs við Lofoten suður að ströndum Marokkó. Þær eru einnig algengar við strendur Bretlandseyja. Tilvist þessara skeljategunda í gáruskeljalögunum bendir til þess að sjávarhiti hafi verið að minnsta kosti 5–6 °C hærri við Norðurland þegar lögin mynduðust en hann er nú. Athuganir á súrefnissamsætum í skeljunum benda raunar til þess að sjávarhiti hafi verið allt að 10 °C hærri á myndunartíma miðað við nútím. Gáruskeljategundirnar lifa nú á litlu dýpi við orkulitlar strendur þar sem þær grafa sig í smá- eða fínkornóttan bergmulning svo sem sand, silt og leir, en ætla má að gáruskeljalögin hafi því myndast á grunnsævi. Einnig má sjá merki þess að landið hafi nokkrum sinnum risið úr sæ þar sem surtarbrandslög koma fyrir inn á milli sjávarsetlaganna. Tígulskeljalögin. Ofan á gáruskeljalögin leggjast setlög kennd við skeljategundina mactra, sem kölluð hefur verið tígulskel á íslensku. Lögin hafa því verið nefnd tígulskeljalög. Þessi lög liggja frá Reká langleiðina norður að Hallbjarnastaðaá. Tígulskeljar eru nú útdauðar en fjölmargar núlifandi skeldýrategundir má finna meðfram tígulskeljunum í lögunum. Má þar nefna hnúfskel, Glycimeris, en lífsvæði hennar í Evrópu liggur núna frá Kanaríeyjum í suðri að Norðursjó í norðri. Sjávardýrafánan í tígulskeljalögunum bendir til þess að sjávarhiti hafi verið að minnsta kosti 5 °C hærri á upphleðslutíma tígulskeljalaganna en nú. Í tígulskeljalögunum má, líkt og í gáruskeljalögunum, finna töluvert af surtarbrandslögum og ber surtarbrandurinn vitni um gróskumikið skóglendi. Þar hafa ýmsar tegundir barrtrjáa vaxið, svo sem fura, greni, þinur og lerki. Inn á milli barrtrjánna hefur mátt finna kulvís lauftré, eik, beyki, platanvið, helsi og kristþyrni ásamt birki, víði og elri. Leifar skóglendisins benda til mun mildara loftslags en á okkar tímum og hefur meðalhiti kaldasta mánaðar varla farið undir 0 °C. Rannsóknir á súrefnissamsætum í skeljum tígulskeljalaganna benda þó til töluvert sveiflukennds hitastigs og hefur loftslagið farið kólnandi þó það hafi, eins og fyrr segir, verið hlýrra en nú. Uppröðun skeljanna í setlögunum bendir til þess að þau hafi hlaðist á einhverju dýpi úti fyrir ströndinni. Krókskeljalögin. Efsta og jafn framt yngsta lag hinna formlegu Tjörneslaga er kennt við krókskelina, Serripes grönlandicus. Lögin liggja á milli Hallbjarnastaðaár og Höskuldsvíkur en þar fyrir ofan taka yngri hraunlög við. Mjög lítið er um surtarbrand í krókskeljalögunum en þó má finna örlítið af honum efst. Athuganir á súrefnissamsætum skelja úr lögunum sýna að hitastig hefur lækkað töluvert frá því sem var þegar tígulskeljalögin hlóðust upp. Lægsta hitastigið er um miðbik krókskeljalaganna en hitastigið hefur þá farið niður í það sem nú þekkist við strendur Tjörness. Skeljar úr eldri lögum hverfa en nýjar kaldari tegundir koma inn. Má þar meðal annars nefna hafkóng, hallloku og krókskel. Benda þessar breytingar á sjávardýrafánunni til töluverðra loftslagsbreytinga til hins verra. Aðrar merkilegar breytingarnar á fánunni eru að af um 100 nýjum tegundum í lögunum er um það bil fjórðungur upprunninn úr Kyrrahafi. Það kemur heim og saman við opnun Beringssundsins, á milli Alaska og Síberíu, en hún hefur verið talin hafa gerst fyrir um 3 milljónum ára. Við opnunina streymdu sjávardýr Kyrrahafsins út í Norður-Íshafið og námu þaðan ný lönd, meðal annars við Atlantshafið. Fyrrnefndar tegundir, hafkóngur, hallloka og krókskel, eru einmitt á meðal tegundanna, sem bárust úr Kyrrahafinu í þessum flutningum. Þess verður þó að geta að gögn hafa verið lögð fram sem benda til þess að Beringssundið hafi opnast mun fyrr, eða fyrir um 4,8 – 7,4 milljónum ára. Upphaf ísaldarinnar hefur stundum verið talin markast af komu þessara köldu skeljategunda enda fer ísaldarummerkja, jökulbergs, fyrst að gæta rétt fyrir ofan krókskeljalögin. Krókskeljalögin segja því á vissan hátt sögu bæði loftslags- og breytinga á landaskipan (tektónískum breytingum). Koma krókskeljalagafánunnar til Íslandsstranda táknar að ísöldin sé að ganga í garð og vitnar um opnun Beringssundsins. Brennisteinsfjöll. Brennisteinsfjöll eru fjallshryggur á Reykjanesskaga, hluti af Reykjanesfjallgarði. Mikil hraun hafa runnið frá Brennisteinsfjöllum suður í Herdísarvík og eru tignarlegir hraunfossar þar sem þau steypast ofan af hálendisbrúninni skammt frá sjó. Áður var talið að hraunin væru öll frá því fyrir landnám en fundist hafa reiðgötur, sem hverfa undir hraun, svo einhver hraunanna hljóta þar af leiðandi að hafa runnið eftir að land byggðist. Eins og nafnið gefur til kynna finnst nokkur brennisteinn í Brennisteinsfjöllum. Skoti nokkur, W. G. Spencer að nafni, var forvígismaður brennisteinsnáms, sem Englendingar stóðu fyrir á svæðinu í kringum árið 1880. Erfitt reyndist að vinna brennisteininn og bar námið sig ekki þrátt fyrir að brennisteinninn væri tiltölulega hreinn. Brennisteinninn á svæðinu tengist hverum en talsverðan jarðhita er þarna að finna. Brennisteinsfjöll er háhitasvæði. Þjóðleið lá áður fyrr á milli Hafnarfjarðar og Selvogs austan við Brennisteinsfjöll og um Grindarskörð. Sú leið var grýtt og erfið yfirferðar en stysta leiðin sunnan yfir fjöllin frá Hafnarfirði. Léttlest. Mynd:LYNX Car 104 at TremontStation.jpg|thumb|LYNX léttlest í Charlotte, a>] Léttlest er járnbrautarlest, sem notuð er við almenningssamgöngur í borgum og í öðrum þéttbýlum svæðum. Léttlestarkerfi er einskonar millistig á milli sporvagns og snarlestar. Léttlestir bera oftast færri farþega en snarlestir og eru ekki eins hraðskreiðar, en þær eru aftur á móti hraðskreiðari og geta tekið fleiri farþega en sporvagnar. Ein sérstaða léttlesta er sú að þær geta bæði gengið á sér sporum aðskildar frá umferð og á spori ásamt umferð. Flestar léttlestir eru knúnar áfram með rafmagni en þó eru til lestir sem notast við Díselolíu. Léttlestir á Íslandi. Komið hafa upp hugmyndir um að koma á fæti léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Drög að hugsanlegu kerfi má sjá á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2004. Gagnrýnt hefur verið að sá kostnaður sem færi í slíka framkvæmd væri of mikill miðað við þá kosti sem því fylgdi. Frekar ætti að fjárfesta í mun afkastameira snarlestakerfi. Hvítur fiskur. Hvítur fiskur vísar til fiska með hvítt hold. Þar á meðal er þorskur, ýsa, lúða og karfi. "Rauður fiskur" eru fiskar með rautt hold. Þekktastir eru laxfiskar, svosem lax og urriði. Þeir hljóta lit sinn af fæðunni sem er aðallega ýmis krabbadýr sem eru með rautt litarefni í skel. Sigma. Sigma er átjándi bókstafur í gríska stafrófinu (hástafur: Σ, lágstafur: σ/ϛ) og samsvarar íslenska stafnum S. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 200. Gjóskugos. Gjóskugos er eldgos sem lýsir sér þannig að eldfjallið ryður aðallega upp úr sér gjósku en ekki hrauni. Þeytigos eru algeng gjóskugos. Surtsey varð til í gjóskugosi. Kötlugosið 1755 er vafalítið mesta gjóskugos Kötlu. Alfa. Alfa er bókstafur í gríska stafrófinu (hástafur: Α, lágstafur: α) og samsvarar íslenska stafnum A. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 1. Beta. Beta er bókstafur í gríska stafrófinu (hástafur: Β, lágstafur: β eða ϐ) og samsvarar íslenska stafnum B. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 2. Loftur Guðmundsson (f. 1906). Loftur Guðmundsson (6. júní 1906 – 29. ágúst 1978) er best þekktur fyrir störf sín sem þýðandi og söngtextahöfundur. Hann þýddi meðal annars bækur Hergé um Tinna ("Tintin") og gerði texta við mörg sönglög Oddgeirs Kristjánssonar. Loftur stundaði einnig önnur ritstörf og samdi meðal annars leikritið Brimhljóð, kvikmyndasöguna "Síðasti bærinn í dalnum" eftir samnefndri kvikmynd og nokkrar barnabækur. Eins var Loftur leikhúsgagnrýnandi dagblaðsins Vísis um tíma. Loftur skipaði fjórða sæti á framboðslista Óháðra bindindismanna í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík árið 1962, en náði ekki kjöri. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. a> þar sem Ljósmyndasafnið er til húsa. Ljósmyndasafn Reykjavíkur er eina sjálfstætt starfandi ljósmyndasafnið á Íslandi og er markmið þess að er skapa sér sérstöðu og vera leiðandi á sínu sviði. Sem ein af menningarstofnunum Reykjavíkurborgar er safninu ætlað að uppfylla ákveðin skilyrði; að vekja áhuga almennings á menningarlegu hlutverki ljósmyndarinnar. Til að koma til móts við gesti sína á öllum aldri markast sýningarhald safnsins af því að gefa sem fjölbreyttasta mynd af því sem er að gerast á sviði ljósmyndunar jafnt í sögulegu sem samtímalegu ljósi. Jötunuxar. Jötunuxar (eða étinuxi) (fræðiheiti: "Staphylinidae") er ætt bjallna, með um 30.000 tegundir. Jötunuxar eru breytilegir að stærð, ýmist örsmáir eða allstórir. Þeir eru með litla skjaldvængi sem hylja aðeins fremsta hluta afturbols. Jötunuxar eru rándýr eða nærast á sveppgróum. Um 60 tegundir jötunuxa eru á Íslandi. Stærstur er jötunuxi ("Creophilus maxillosus"), sem er um 2 cm á lengd, svartur með grátt þverbelti yfir skjaldvængina. Hugi (vefur). Hugi.is er íslenskur umræðuvefur sem hefur verið rekinn af Já upplýsingaveitum frá árinu 2000. Vefurinn byggist á fjölmörgum áhugamálum, alls rúmlega 100 áhugamála auk 13 áhugamála sem hafa verið fryst. Á áhugamálunum geta notendur stofnað og tekið þátt í umræðum og sent inn efni s.s. greinar, kannanir og myndir. Sigurboginn. Sigurboginn er eitt af táknum Parísarborgar Sigurboginn (franska: "Arc de Triomphe") er minnisvarði í París, Frakklandi og stendur hann í miðju Charles de Gaulle-torgs sem er einnig þekkt undir nafninu Place de l'Étoile eða "Stjörnutorg". Torgið er við vestari enda Champs-Élysées. Sigurboginn var reistur til að heiðra þá sem börðust fyrir Frakkland sérstaklega í stríðum Napóleons. Á innanverðum boganum og efst á honum eru nöfn allra herforingjanna sem börðust svo og nöfn á öllum stríðunum. Undir boganum er gröf hins óþekkta hermanns. Sigurboginn er miðja hins sögulega áss (L'Axe historique) en það er röð minnisvarða og breiðgatna á leið sem teygir sig frá hallargörðum Louvre að útjaðri Parísar. Minnisvarðinn var hannaður af Jean Chalgrin árið 1806 og á honum eru íkon sem sýna á víxl hetjuleg, nakin, frönsk ungmenni og skekkjaða þýska hermenn í herklæðum. Hönnunin lagði grunninn fyrir almenna minnisvarða með sigursælum, þjóðernissinnuðum skilaboðum, fram að fyrri heimsstyrjöld. Minnismerkið er 49,5 metra hátt, 45 metra breitt og 22 metrar á þykkt. Það er næst stærsti sigurbogi í heimi. Hönnun þess tók mið af hinum rómanska Arch of Titus. Sem dæmi um stærð Sigurbogans má nefna að þremur vikum eftir sigurgönguna í París 1919 sem markaði endalok fyrri heimstyrjaldarinnar, flaug Charles Godefroy á Nieuport flugvél sinni gegnum bogann og var atburðurinn festur á filmu í fréttaskoti. Viðhald. Í byrjun sjöunda áratungsins hafði kolasót svert minnisvarðinn mikið og á árunum 1965-1966 var Sigurboginn sandblásinn og hreinsaður vel. Árið 2007 mátti sjá að hann var farinn að dökkna á nýjan leik. Aðgengi. Aðgengi fyrir fótgangandi er um undirgöng. Mjög mikil og hættuleg umferð er á hringtorginu sem tengir breiðgöturnar umhverfis bogann og ekki er mælt með því að hætta sér út í hana. Ein lyfta er í Sigurboganum og með henni er hægt að komast á næstu hæð undir útsýnishæðinni sem er að utanverðu efst á minnisvarðanum. Þeim sem heimsækja bogann gefst kostur á að klifra upp 284 þrep til að komast efst upp á Sigurbogann eða að taka lyftuna og ganga því næst upp 46 þrep. Að ofan um dásamlegt útsýni yfir París, yfir tólf aðal breiðgöturnar sem liggja að Place de l´Étoile eða Stjörnutorginu og hringiðunni á hringtorginu umhverfis Sigurbogann. Til að komast að Sigurboganum er hægt er að nota neðanjarðarlestarkerfið (RER eða Métro) að viðkomustaðnum Charles de Gaulle – Etoile. Lambda. Lambda (hástafur: Λ, lágstafur: λ) er ellefti bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska L og kýrillíska El (Л, л). Í nýgrísku er nafn stafsins lambda (Λάμδα) borið fram „lamða“ en stafurinn sjálfur er borinn fram eins og hið rómverska L. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 30. Gamma. Gamma (hástafur: Γ, lágstafur: γ) er þriðji bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hin rómversku C og G, og kýrillíska Ge (Г, г) og Ghe (Ґ, ґ). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 3. Í uppnámi. "Í uppnámi" var einn skákskýringaþáttur sem Ríkissjónvarpið sýndi fyrst 30. nóvember 1966 og endursýndi vorið 1967. Þáttastjórnandi var Guðmundur Arnlaugsson, rektor. Í þættinum kepptu Friðrik Ólafsson og Ingi R. Jóhannsson. Þátturinn var með því fyrsta sem framleitt var fyrir íslenskt sjónvarp. Munir og minjar. "Munir og minjar" var íslenskur sjónvarpsþáttur sem fjallaði um íslenska menningarsögu, einkum út frá munum í Þjóðminjasafninu, varðveittum húsum og fornleifarannsóknum. Fyrsti stjórnandi þáttarins var Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður. Síðar sáu meðal annars Elsa E. Guðjónsson og Þór Magnússon um þættina. Þættirnir voru um það bil mánaðarlega á dagskrá sjónvarpsins á föstudögum nokkuð reglulega frá 1967 til 1970 en stopulli eftir það. Þeir voru hálftíma langir. Delta. Delta (hástafur: Δ, lágstafur: δ) er fjórði bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska D og kýrillíska De (Д, д). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 4. Epsílon. Epsílon (hástafur: Ε, lágstafur: ε) er fimmti bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska E og kýrillíska Je (Е, е). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 5. Zeta. Zeta (hástafur: Ζ, lágstafur: ζ) er sjötti bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska Z og kýrillíska Ze (З, з). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 7. Eta. Eta (hástafur: Η, lágstafur: η) er sjöundi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska H og kýrillíska I (И, и). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 8. Þeta. Þeta (hástafur: Θ, lágstafur: θ eða ϑ) er áttundi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið til dæmis úrelt kýrillíska "fita" (Ѳ, ѳ). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 9. Jóta. Jóta (hástafur: Ι, lágstafur: ι) er níundi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska I og j. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 10. Kappa. Kappa (hástafur: Κ, lágstafur: κ eða ϰ) er tíundi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska K og kýrillíska Ka (К, к). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 20. Mý (bókstafur). Mý (hástafur: Μ, lágstafur: μ) er tólfti bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska M og kýrillíska Em (М, м). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 40. Ný. Ný (hástafur: Ν, lágstafur: ν) er þrettándi bókstafurinn í gríska stafrófinu. N er jafngildið í latneska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 50. Xí. Xí (hástafur: Ξ, lágstafur: ξ) er fjórtándi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 60. Ómíkron. Ómíkron (hástafur: Ο, lágstafur: ο) er fimmtándi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 70. Pí (bókstafur). Pí (hástafur: Π, lágstafur: π) er sextándi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 80. Hró. Hró (hástafur: Ρ, lágstafur: ρ eða ϱ) er sautjándi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska R og kýrillíska Er (Р, р). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 100. Tá (bókstafur). Tá (hástafur: Τ, lágstafur: τ) er nítjándi bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska T og kýrillíska Te (Т, т). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 300. Upsílon. Upsílon (hástafur: Υ, lágstafur: υ) er tuttugasti bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska V, Y, U og W, og kýrillíska U (У, у) og Izhitsa (Ѵ, ѵ). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 400. Fí. Fí (hástafur: Φ, lágstafur: φ eða ϕ) er tuttugasti og fyrsti bókstafurinn í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 500. Kí. Kí (hástafur: Χ, lágstafur: χ) er tuttugasti og annar bókstafurinn í gríska stafrófinu. Stafir sem hafa þróast frá stafnum eru hið rómverska X og kýrillíska Kha (Х, х). Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 600. Psí. Psí (hástafur: Ψ, lágstafur: ψ) er tuttugasti og þriðji bókstafurinn í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 700. Ómega. Ómega (hástafur: Ω, lágstafur: ω) er tuttugasti og fjórði og síðastur bókstafurinn í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 800. Dígamma. Dígamma (hástafur: Ϝ, lágstafur: ϝ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Rómverska F er jafngildið í latneska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 6. Koppa. Koppa (hástafur: Ϙ, lágstafur: ϙ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Rómverska Q er jafngildið í latneska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 90. Modern Z-lagaður tilbrigði af koppa. San. San (hástafur: Ϻ, lágstafur: ϻ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Sampí. Sampí (hástafur: Ϡ, Ͳ, lágstafur: ϡ, ͳ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 900. Modern €-lagaður tilbrigði af sampí. Novosibirsk. Novosibirsk (rússneska: Новосиби́рск) er borg í Rússlandi. Mannfjöldi var um það bil 1,5 milljónir árið 2002. Samara. Samara (rússneska: Сама́ра) er borg í Rússlandi. Mannfjöldi var um það bil 1,1 milljónir árið 2002. Ufa. Ufa (rússneska: Уфа́) er borg og höfuðborg Lýðveldisins Basjkortostan, sem er hluti Rússneska sambandsríkisins. Borgin er ein af stærstu borgum Rússlands. Hún er miðstöð stjórnmála, stjórnsýslu, efnahags menningar lýðvelsins. Staðsetning. Ufa er staðsett í austast í Evrópu undir Úralfjöllum við mörk Asíu. Hún liggur við mót ánna Belaya og Ufa, syðst undir láglendi vestanverðra Úralfjalla. Mörður er tákn Ufa borgar en viðskipti með marðarskinn voru mikil á svæðinu fyrr á öldum Saga og efnahagur. Borgin var byggð að skipan Ívans Grimma árið 1574 sem virki til að vernda viðskipti leið yfir Úralfjöllin frá Kazan. Árið 1802 varð borgin höfuðstaður Bashkíríu (síðar Lýðveldið Basjkortostan). Ufa stækkaði ört á 20. öld og með margvíslega iðnaðframleiðslu. Árið 1956 sameinaðist Ufa nágrannaborginni Chernikovsk, og varð þá miðstöð olíuframleiðslu á Volga- Úral svæðinu. Þar er einnig ýmis efnaiðnaður, timburframleiðsla og miðstöð öflugrar landbúnaðarframleiðslu lýðveldsins. Ufa er miðstöð járnbrautar- og vegasamgangna á svæðinu. Í borginni eru mikilvæg menningarsetur með nokkrum öflugum háskólum, tæknistofnunum og fjölmörgum rannsóknastofnana. Belaya ísilögð. Ufa borg er byggð á bökkum ánna Belaya og Ufa Íbúar. Áætlaður fjöldi borgarbúa er um 1.5 milljón, meirihluti þeirra eru rússar (54% rússar). Á síðari árum hefur fólki af öðru þjóðerni fjölgað einkum bashkírum og taturum. Önnur þjóðerni eru sjúvas, mari, úkraínumenn, mordvinia, azerar, armenar, hvít-rússar, kazakar, vietnamar, lettar, þjóðverjar og gyðingar. Fjarlægðir. Fjarlægð Ufa frá Moskvu er 1567 km. með lest og 1357 km. með bíl. Það tekur 32 klst. að aka frá frá Moskvu en 2 klst. að fljúga. Borgin er á tímabelti Yekaterinburg (YEKT/YEKST) eða á samræmdum alþjóðatíma UTC+5) Vladivostok. Vladivostok (rússneska: Владивосто́к) er borg í Rússlandi. Mannfjöldi var tæplega 594 þúsund íbúar árið 2002 en átta árum seinna, 2010, hafði fækkað í borginni og bjuggu þá rétt rúmlega 592 þúsund íbúar í Vladivostok. Petropavlovsk-Kamčatskij. Petropavlovsk-Kamčatskij (rússneska: Петропа́вловск-Камча́тский) er borg í Rússlandi. Mannfjöldi var um það bil 0,2 milljónir árið 2002. Hurð. Skreytt hurð á indversku klaustri Hurð er viðar-, málm-, gler- eða plastfleki sem notaður er til að loka dyrum á byggingum eða öðru opi og eru allt frá því að vera knúnar með rafmagni eða aðeins nokkrar fjalir negldar saman til að byrgja op sem þarf að vera hægt er að opna. Flestar hurðir haldast lokaðar með hlaupjárni sem er læsingarjárn í lás sem fellur inn í dyrastafinn þegar lokað er og tengist hurðarhúninum. Hurð má ekki rugla saman við dyrnar, en dyr eru opið sjálft, ólíkt því sem gerist í ensku ("door"). Venjulegar hurðir, svo sem flestar "bílahurðir" og "vængjahurðir", leika á hjörum en það á þó ekki við um allar. "Rennihurðir" eru til dæmis festar öðrum megin við vegginn og er rennt (eða renna sjálfkrafa) til hliðar inn í fals (til dæmis margar "lyftuhurðir"), eða falla saman í minni einingar ("harmóníkuhurðir"). Einnig eru til "fellihurðir" eins og rimlahurðir úr málmi sem er rennt fyrir verslanir eftir lokun. Á kastölum má oft sjá "vinduhurðir" sem er undið upp með vindu (spili). Hurðir koma í mörgum stærðum og gerðum og eru smíðaðar úr mörgum efnu, til að nefna sum: Úr furu, oregon furu (pine) og mahóní, blast hurð eða stálhurð. Í gamla daga var algengt að búa til hurð úr steypu en núna er það sjáldséð hurð. Hurðir koma fyrir í íslenskum málsháttum, sbr. „Þar skall [hurð] nærri hælum“. Sá málsháttur þýðir að eitthvað hafi næstum gerst sem ef það hefði gerst þá hefði það verið slæmt ef það hefði gert. Sú saga kemur frá Sæmundi fróða þegar hann var í háskóla í Evrópu og hurð skall næstum á hælinn hans en það gerðist ekki heldur skall nærri hælnum hans. Einnig í orðtakinu „Að reisa sér hurðarás um öxl“. Það orðtak er gamalt og merking þess því óræð og hver merking höfundar er eins og hún birtist honum þegar ortakið var skapað. Í draumaráðningafræðum er það að dreyma hurð og lykla að það að hurð í draumi standi fyrir því að að það er eitthvað sem þú þarft að breyta í lífinu þínu. Talað er um að hurð sé of "rík" í falsinu ef hún er of stór miðað við dyraumbúnaðinn eða hafi hún bólgnað út af raka og erfitt reynist að loka henni. Tjörnes. Stór og mikill steinn í fjörunni milli Ytri-Tungu og Hallbjarnarstaða. Hann er talinn hafa borist með hafís frá Grænlandi. Tjörnes er smár skagi á milli Skjálfandaflóa og Axarfjarðar. Kaupstaðurinn Húsavík sem nú er hluti af sveitarfélaginu Norðurþingi stendur sunnarlega á vestanverðu nesinu en byggðin í Tjörneshreppi nær frá Reyðará sem fellur til sjávar í Héðinsvík skammt norðan Húsavíkur norður að Mánárbakka nyrst á nesinu. Úti fyrir nesinu eru þrjár smáeyjar, Lundey er syðst og stærst þeirra, en norður af nesinu eru tvær smáeyjar, Mánáreyjar, og heita þær Háey og Lágey. Á vestan- og norðanverðu nesinu renna nokkur vatnsföll til sjávar í alldjúpum giljum en flest þeirra eru vatnslítil. Má þar nefna Reyðará, Köldukvísl, Rekaá, Skeifá, Hallbjarnarstaðaá og Máná. Í Skeifá er hár og fagur slæðufoss þar sem áin rennur fram af bökkum niður í sjó og kallast hann Skeifárfoss. Í fjörunni nokkuð sunnan við Hallbjarnarstaðaá er mikill og stór steinn, sem borist hefur með hafís frá Grænlandi. Heitir hann Torfasteinn og er við hann tengd þjóðsaga. Nyrst á Tjörnesi er jörðin Máná og úr landi þeirrar jarðar hafa verið byggð 2 nýbýli, Árholt og Mánárbakki. Á hinu síðarnefnda er veðurathugunarstöð og hefur verið frá því býlið byggðist 1963 en veðurathugunarstöðin var stofnsett á Máná 1956. Á Mánárbakka hefur einnig verið starfrækt rannsóknarstöð norðurljósa á vegum japanskra vísindamanna síðan 1984. Slíkar stöðvar má einnig finna á Augastöðum í Borgarfirði og Æðey á Ísafjarðardjúpi. Á Mánárbakka er ennfremur minjasafn þar sem finna má margt athygliverðra muna frá síðari ýmsum tímum. Safnið er að miklu leyti staðsett í gömlu timburhúsi sem flutt var frá Húsavík sérstaklega til að þjóna safninu. Tjörneshreppur sem er að gömlu lagi austasti hreppur Suður-Þingeyjarsýslu nær yfir nesið frá fyrrnefndri Reyðará norður og austur með ströndinni að Skeiðsöxl á nesinu norðaustanverðu. Í jarðfræðikaflanum hér á eftir er minnst á Surtarbrandslög en um tíma voru kol úr þeim lögum numin og nýtt. Má segja að sú nýting hafi í megninatriðum spannað fyrri hluta 20. aldarinnar. Um eða eftir aldamótin 1900 vöknuðu hugmyndir um að nýta kolin og á árum styrjaldarinnar 1914-1918, mest 1917-1918 voru kol numin á 2 stöðum, annars vegar í landi jarðarinnar Ytri-Tungu og hins vegar í landi Hringvers sem er næsta jörð sunnan við Ytri-Tungu. Náman í landi Ytri-Tungu var rekin af landssjóði Íslands eins og ríkissjóður var oft nefndur á þeim tíma. Námarekstur í landi Hringvers var á vegum Þorsteins Jónssonar athafnamanns sem mun hafa haft mest umsvif á Siglufirði. Við námu ríkisins í landi Ytri-Tungu var árið 1917 reist hús yfir starfsmenn námunnar, þar var meðal annars svefnpláss, mötuneyti og geymslurými. Þetta hús er nú horfið en grunn þess geta kunnugir enn bent á nærri veginum niður í Tjörneshöfn (Tungulendingu). Vegna þess hversu gisin kolalögin voru þurfti að hreinsa út úr námugöngunum heilmikið af efni sem var reyndar ekki alveg laust við að væri einhver eldsmatur í þó ekki nýttist það sem kol. Safnaðist t.d. allstór haugur af því efni, sem ekki nýttist, í fjöruna fyrir neðan aðalgöng námu ríkisins í landi Ytri-Tungu. Í þessum haug kom upp eldur einhvern tíma síðla árs 1918 þegar stutt var í að kolanáminu lyki. Var lifandi glóð í haugnum, sumir heimamenn segja í 3 missiri, eitt og hálft ár, jafnvel í allt að því 3 ár. Var á þeim tíma eins og sæi í rautt auga þegar komið var fram á sjávarbakkann fyrir ofan hauginn eftir að dimma tók. Heimamenn á Tjörnesi og Húsvíkingar nýttu sér kol úr námunum á Tjörnesi í einhverjum mæli allnokkur ár eftir að námarekstri var hætt og síðasta sinn sem kol munu hafa verið tekin til nýtingar á svæðinu var rétt eftir 1950. Jarðfræði. Mikil jarðlög er að finna niðri við sjó á vestanverðu Tjörnesi og hafa þau verið nefnd Tjörneslög. Elsti hluti þeirra er syðstur og er um 4 milljón ára gamall en yngstu setlögin á Tjörnesi eru um 1,2 milljón ára gömul. Neðsti hluti laganna er aðallega byggður upp af mismunandi skeljalögum en inn á milli má finna surtarbrandslög. Bendir það til þess að nesið hafi risið og hnigið til skiptis. Eftir að ísöldin gekk að fullu í garð fyrir rúmlega 2 milljónum ára einkennast jarðlögin hins vegar af samfellu fjöldamargra jökulbergs- og hraunlaga. Jökulbergslögin tákna þannig kuldaskeið ísaldar en inn á milli hafa hraun náð að renna til sjávar á hlýskeiðum. Tjörnes er rishryggur og er risið talið vera um 500-600 metrar miðað við bergið suður af nesinu. Hallar jarðlögum á nesinu um 5-10° til norðvesturs. Tá. Tær eru útlimir á fæti manna og sumra dýra. Margar dýrategundir, svo sem kötturinn, ganga á tánum og flokkast því sem táfetar. Menn og önnur dýr sem ganga á iljum eru ilfetar, og dýr sem ganga á hófum eru naglfetar. Sá staður á fætinum sem tærnar eru á er nefndur "tárót" eða "tástaður". Tærnar fimm. Tærnar hafa ekki eins föst heiti og fingurnir en stóratá er sú tá sem hefur flest heiti. Stundum eru tánum gefin sérstök nöfn eftir staðsetningu á landinu og er það sett í sviga með útskýringum um stað. Vanessa Hudgens. Vanessa Anne Hudgens (fædd 14. desember 1988) er bandarísk leik- og söngkona. Hún þreytti frumraun sína í Hollywood kvikmyndunum "Thirteen" og "Thunderbirds", áður en hún varð fræg árið 2006 eftir að hafa leikið Gabriellu Montez í "High School Musical"-myndunum. Við tökur á myndunum kynntist Vanessa lífsförunauti sínum, Zac Efron en heyrst hafa sögusagnir um að þau séu trúlofuð. Vanessa hóf söngferil og gaf út fyrstu sólóplötuna sína, "V", árið 2006. Önnur plata hennar, "Identified", var gefin út 1. júlí 2008. Hún er andlit vörumerkjanna Neutrogena, Sears og Eckō. Æska. Vanessa fæddist í Salinas, Kaliforníu, og er dóttir Ginu (upprunalega Guangco) og Greg Hudgens. Hún á systur, Stellu Theodoru Hudgens (fædd 13. nóvember 1995 í San Diego). Faðir Vanessu er af bandarískum og írskum ættum, en móðir hennar, sem ólst upp í Manila, er af filipseyskum, spænskum og kínverskum ættum. Hudgens var kennt heima eftir sjöunda bekk í Orange Conty School of Arts. Þegar Vanessa var 8 ára, kom hún fram sem söngvar í leikhúsi í bæjaruppsetningu af "Carousel", "Galdrakarlinum frá Oz", "The King and I", "Music Man" og "Öskubusku" á meðal annarra. Hún fékk fyrsta verkefnið sitt þegar vinir hennar gátu ekki farið í áheyrnarprufur fyrir auglýsingu og spurðu Vanessu hvort hún vildi fara. CGS-kerfi. CGS-kerfi er gamalt kerfi mælieininga, sem byggðist á grunneiningunum sentimetra ("cm"), grammi ("g") og sekúndu ("s"). SI-kerfið hefur að mestu komið í stað cgs-kerfisins. Guðmundur frá Miðdal. Guðmundur Einarsson frá Miðdal í Mosfellssveit (f. 5. ágúst 1895, d. 23. maí 1963) var íslenskur listamaður sem var allt í senn: teiknari, grafíklistamaður, málari, myndhöggvari, ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður, rithöfundur og fjallgöngumaður. Sonur hans, Erró ("Guðmundur Guðmundsson"), er þekktur myndlistamaður og Ari Trausti er þekktur jarðfræðingur og ljóðskáld. Ævisaga hans "Guðmundur frá Miðdal" eftir Illuga Jökulsson kom út hjá Ormstungu 1997. Jens Eyjólfsson. Jens Eyjólfsson (3. desember 1879 – 10. ágúst 1959) var trésmiður og byggingameistari og byggði mörg af merkustu húsum sem reist voru á fyrri hluta 20. aldar í Reykjavík. Jens fæddist á Hvaleyri við Hafnarfjörð, sonur hjónanna "Eyjólfs Eyjólfssonar", sjómanns og "Helgu Einarsdóttur". Hann hóf ungur nám í trésmíði, lærði fyrst í Hafnarfirði, en síðan í Reykjavík hjá "Guðmundi Jakobssyni" sem talinn var einn lærðasti byggingameistari í Reykjavík í þá daga. Að trésmíðanámi loknu stundaði hann framhaldsnám í dráttlist í kvöldskóla iðnaðarmanna, en það var áður en Iðnskólinn í Reykjavík var stofnaður. Að því loknu sigldi Jens til Kaupmannahafnar og dvaldist þar í 2 ár. Þar vann hann að húsasmíði og stundaði jafnframt nám í húsagerðarlist. Árið 1903 kom hann aftur til Íslands, og 3. desember hóf hann starf sitt, sem byggingameistari í Reykjavík. Fyrsta verk Jens Eyjólfssonar í Reykjavík sem sjálfstæðs byggingameistara, var að teikna og byggja timuburverksmiðjuna Völund, og setja niður allar trésmíðavélarnar. Síðan rekur hver stórbyggingin aðra, sem hann byggir, þótt hann hafi ekki gert uppdrætti að þeim. Þar á meðal má nefna: Hús Sláturfélags Suðurlands, gasstöðina, pósthúsið, hús Nathans & Olsens (síðar Reykjavíkur apótek), hús Sambands íslenskra samvinnufélaga, verslunina Edinborg, Laugavegs Apótek, Landakotskirkju, Landakotsspítala og verslunarhús Árna Jónssonar Hraunsfjörður. Hraunsfjörður er fjörður á norðanverðu Snæfellsnesi, sem gengur inn úr Kolgrafafirði. Hann er langur en þröngur. Berserkjahraun liggur að Hraunsfirði og hefur runnið út í hann þannig að það þrengir mjög að honum. Þar sem hann er þrengstur heitir Mjósund og var Hraunsfjörður brúaður þar árið 1961, fyrstur íslenskra fjarða. Á flóði og fjöru er út- og innstreymi undir brúnni svo mikið að straumurinn líkist beljandi stórfljóti. Ný brú var reist utar yfir fjörðinn árið 1993 og liggur þjóðvegurinn á milli Stykkishólms og Grundarfjarðar um hana nú. Á hálendinu upp af Hraunsfirði eru tvö góð veiðivötn, Hraunsfjarðarvatn og Baulárvallavatn. Kolgrafafjörður. Kolgrafafjörður er fjörður á norðanverðu Snæfellsnesi og næsti fjörður austan við Grundarfjörð. Við fjörðinn stendur bærinn Kolgrafir sem hann gæti heitið eftir. Fornt nafn á Kolgrafafirði er Urthvalafjörður, en hugsanlega hefur það nafn aðeins átt við ytri hluta fjarðarins, áður en Hraunsfjörður skerst úr honum til austurs. Í dag eru þessir tveir firðir almennt aðgreindir í tali og á kortum og að Urthvalafjörður taki við framan við miklar grynningar fremst í Kolgrafafirði sem einmitt voru notaðar til að brúa fjörðinn. Fjörðurinn brúaður. Fjörðurinn er frekar grunnur eða rétt um 40 metra þar sem hann er dýpstur og miklar grynningar. Brú var lögð yfir fjörðinn árið 2004 með því að byggja upphækkanir hvoru megin á grynningum og brúa svo eiðið með 230 metra langri brú, með 150 metra virku vatnsopi undir. Stytti brúin leiðina á milli Grundarfjarðar og Stykkishólms um rúma 6 kílómetra. Síldardauðinn í Kolgrafafirði. 13. desember 2012 drapst mikið magn síldar í firðinum innan við brúnna og er talið að um 30 þúsund tonn hafi drepist vegna súrefnisskorts. Fjörurnar voru bæði fullar af síld sem og botn fjarðarins enda hann mjög grunnur. Aftur varð samskonar síldardauði í firðinum þann 1. febrúar 2013 og þá er talið að um 22 þúsund tonn hafi þá drepist. Líkur hafa verið leiddar að því að hversu lítill sjór kemst inn og út úr firðinum undir brúnna gæti hafa valdið þessum súrefnisskorti. Ekki er vitað um önnur slík tilfelli utan eina frásögn frá 1941, en þá komu breskir hermenn að bænum Kolgröf og náði bóndinn í síld í fjörunna sem þar hafði samkvæmt dagbókarfærslum hanns flotið þar dauð á land. Grundarfjörður (fjörður). Grundarfjörður er fjörður á norðanverðu Snæfellsnesi. Við fjörðinn stendur samnefnt kauptún, Grundarfjörður. Áður var fjörðurinn kallaður Kirkjufjörður eftir einkennisfjalli fjarðarins, Kirkjufelli, sem Danir kölluðu Sykurtopp ("Sukkertoppen"). Utar í firðinum er Stöðin, annað sérstakt fjall, en suður af Grundarfirði eru Helgrindur og önnur fjöll í Snæfellsnesfjallgarði. Charlton Heston. Heston barðist fyrir mannréttindum árið 1963 Charlton Heston (fæddur í Evanstone, Illinois, 4. október 1923, látinn 5. apríl 2008) var bandarískur leikari og Óskarsverðlaunahafi. Hann er þekktastur fyrir túlkun sína á Móse í "Boðorðunum tíu", sem Taylor í "Apaplánetunni" og Judah Ben-Hur í samnefndri kvikmynd, "Ben-Hur". Hróarskeldufjörður. Hróarskeldufjörður er langur og mjór fjörður sem liggur í suður úr mynni Ísafjarðar á norðausturhluta Sjálands í Danmörku. Við suðurenda fjarðarins er nesið Bognæs og innan við það bærinn Hróarskelda. Fjörðurinn skilur á milli Hornsherred, sem er nesið milli fjarðarins og Ísafjarðar, og Norður-Sjálands. Tvær eyjar eru í firðinum; Elleore og Eskilsø. Fjörðurinn er þekktur fyrir fjölda af minjum frá Víkingaöld sem hefur fundist þar, meðal annars Skuldelevskipin sem sökkt var í firðinum 1070 til að verjast innrásarher, og eru nú til sýnis í Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu. Bolli Gústavsson. Bolli Gústavsson (17. nóvember 1935 – 27. mars 2008) var sóknarprestur í Hrísey og Laufási, og vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal frá 1991 til 2002. Æviferill. Bolli fæddist á Akureyri. Foreldrar hans voru hjónin Gústav Elís Berg Jónasson (1911–1990) rafvirkjameistari og Hlín Jónsdóttir (1911–1973) húsfreyja. Bolli lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1963 og vígðist sama ár sóknarprestur í Hrísey. Hann var skipaður sóknarprestur í Laufási 1966 og gegndi því embætti til 1991, þegar hann varð vígslubiskup á Hólum. Árið 2002 lét hann af embætti vígslubiskups vegna heilsubrests. Bolli var um tíma formaður Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti, og Prestafélags hins forna Hólastiftis. Hann var einnig formaður Hólanefndar 1991-2002. Þá var hann formaður úthlutunarnefndar listamannalauna um árabil. Eftir að Bolli tók við embætti vígslubiskups beitti hann sér fyrir byggingu Auðunarstofu hinnar nýju á Hólum. Húsið nýtist sem fræði- og fundaraðstaða. Með hans milligöngu fékkst faglegur og fjárhagslegur stuðningur norskra aðila við verkið. Kona Bolla var Matthildur Jónsdóttir (f. 1936) hárgreiðslumeistari. Þau eignuðust 6 börn. Ritstörf. Bolli var kunnur fyrir ritstörf, bæði fyrir blöð og tímarit, og tók saman dagskrár um skáld og skáldskap til útvarpsflutnings. Hann ritstýrði tímaritinu Heima er best um tveggja ára skeið. Bolli var góður teiknari og myndskreytti bækur, bæði eigin og annarra. Einnig hélt hann sýningar á teikningum sínum. Vígslustig klerka. Vígslustig klerka á miðöldum voru sjö, sem skiptust í fjórar lægri vígslur og þrjár æðri vígslur. Undirdjákni. Undirdjákni (eða súbdjákn frá latneska orðinu "sub" sem þýðir „undir“) er maður sem hefur tekið fimm vígslustig af sjö sem þurfti til fullrar preststignar í kaþólskum sið. Hundarós. Hundarós (fræðiheiti: "Rosa canina") er rósategund sem vex í Evrópu, norðvesturhluta Afríku og vesturhluta Asíu. Margir rugla hundarós saman við glitrós. Hundarós er lauffellandi runni sem venjulega er frá 1-5 metra að hæð en getur verið hærri ef rósin klifrar eftir stofnum stærri trjáa. Stofn rósarinnar er alsettur litlum og beittum þyrnum sem hjálpa rósinni að festa sig og klifra. Blóm eru ljósbleik eða hvít. Þau eru 4-6 sm í þvermál. Hundarós þroskar 1,5-2 sm rauð-appelsínugul aldin. Ræktun og notkun. Hundarós inniheldur mikið af andoxunarefnum. Ávöxturinn inniheldur mikið magn C-vítamína og er notaður við framleiðslu á sýrópi, tei og marmelaði. Glitrós. Glitrós (fræðiheiti: "Rosa dumalis") er rósartegund sem á heimkynni sín í Evrópu og suðvestur Asíu. Hún vex villt í Kvískerjum í Öræfasveit og er friðuð á Íslandi samkvæmt náttúruverndarlögum. Glitrós er skyld hundarós og stundum talin eitt afbrigði af þeirri rós. Glitrós er runni sem verður 1-2 m að hæð. Glitrós blómgast í júní og júli og eru blómin dökk- eða ljósbleik. Alaskalúpína. Alaskalúpína (fræðiheiti: "Lupinus nootkatensis") er 30 til 90 sentimetra há fjölær jurt af ertublómaætt. Hún ber blá eða fjólublá blóm. Alaskalúpína hefur lengi verið notuð í landgræðslu á Íslandi en er upprunalega frá Alaska. Lýsing. Blóm lúpínunnar eru einsamhverf og í 20 til 30 sentimetra löngum klösum. Blómleggir eru 1 cm á lengd, eilítið loðnir. Krónan er 5-deild og óregluleg. Fánablaðið er með aftursveigðar hliðar sem eru rauðar að framan. Bikarinn er loðinn og eru 10 fræflar í hverju blómi. Þeir eru samvaxnir að neðan með fagurgular frjóhirslur. Frævan hins vegar er með einn stíl og verður að 2 til 5 sentimetra löngum belg við þroskun. Blöðin hafa langa stilki og 7 til 8 smáblöð sem eru öfugegglaga. Þau eru hærð sem og stilkurinn. Kjörlendi lúpínu eru melar, áreyrar og rýrt mólendi. Hún er dugleg að koma sér á legg þar sem lítill gróður er fyrir og græðir þannig upp ógróin svæði en getur einnig dreift sér inn í gróin svæði og eytt úr þeim öllum öðrum gróðri. Alaskalúpína er eilítið eitruð (beitarvörn) og sauðfé sem beitt er á lúpínubreiður getur lamast ef það fær of mikið af eitrinu í sig. Þetta ætti þó ekki að vera vandamál þar sem aðgengi að öðrum beitarplöntum er ótakmarkað. Í samvinnu við "Rhizobium"-gerla getur lúpínan unnið köfnunarefni úr andrúmsloftinu en þar sem þeir fyrirfinnast yfirleitt ekki í íslenskum jarðvegi er skortur á þeim þó hamlandi þáttur á vöxt lúpínunar. Sem landgræðslutegund. Lúpínan er góð á melum og söndum þar sem áfok er ekki mikið því henni er illa við slíkt. Hún nýtir kraft "Rhizobium"-gerla til að vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu og þarf því ekki mikla áburðargjöf þó að hún nái betri fótfestu fái hún léttan áburðarskammt fyrsta árið. Þar sem tegundin er fjölær en vex upp af rót á ári hverju myndast mikil sina og lífræn efni í jarðveginum sem bætir vaxtarskilyrðin fyrir komandi tegundir. Hún blómgast og setur fræ fyrst við 3 til 5 ára aldur. Um 70% allra frjóvgana hjá lúpínu eru vegna sjálfsfrjóvgunar en restin verður við hjálp býflugna. Tegundin er ljóselsk en hægt er að halda aftur af henni t.d. með beit búfjár. Alaskalúpína skilur eftir sig mjög næringarríkan jarðveg og getur stundum hörfað undan öðrum tegundum t.d. eftir 30 ár. Lirfur tegunda á borð við "Melanchra pisi" og "Euxoa ochrogaster" eru skaðvaldar sem leggjast einkum á lúpínuna og valda þar usla. Fyrrnefnda tegundin veldur því að laufið fellur en sú síðarnefnda dregur einungis úr vaxtargetu plöntunnar. Saga. Á 18. öld komu lúpínur fyrst til Evrópu en heimkynni hennar eru sem fyrr segir í Alaska og árið 1795 var hún fyrst notuð sem garðplanta í Englandi. Vinsældir hennar sem slík jukust og talið er að hún hafi verið flutt til Svíþjóðar fyrst árið 1840. Þar var nýting hennar sú sama og í Englandi en dreifðist svo út í náttúrunni. Um sama leyti var henni sáð meðfram vegum og jarðbrautateinum í Noregi til að binda jarðveg og hefur síðan verið náttúruleg tegund þar í landi. Alaskalúpína er óalgeng í Finnlandi en hefur þó talist slæðingur frá 1986. Elstu heimildir um lúpínu á Íslandi eru frá 1885 þar sem hún var notuð við plöntutilraunir hjá Georg Schierbeck, landlækni í Reykjavík. Náði hún engri útbreiðslu í það skiptið. Þá eru til heimildir um ræktun hennar í garðyrkjustöð í Reykjavík árið 1911 og sem fyrr náði hún ekki að skapa sér vinsældir. Árið 1945 safnaði Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, fræjum af alaskalúpinu við College-fjörð (Prins Vilhjálms-sundi) á vesturströnd Alaska og flutti til Íslands. Sá Hákon að þar væri komin tilvalin landgræðslutegund. Var hún prófuð á ólíkum svæðum og við ólík skilyrði áður en hún var tekin upp sem ein af aðaltegundum Landgræðslunnar. Novial. Novial er tilbúið tungumál sem var búið til af danska málfræðingnum Otto Jespersen. Jespersen kom því fyrst á framfæri árið 1928 í bókinni "An International Language". Eftir að hann lést 1943 lá tungumálið í dvala en með tilkomu internetsins á tíunda áratugnum jókst áhugi á því. Memphis. Memphis er borg í suðvesturhluta Tennessee ríkis í Bandaríkjunum. Memphis liggur við Mississippi-fljót. Hún er 17. stærsta borg Bandaríkjanna og stærsta borg Tennessee með tæplega 671 þúsund íbúa. Á stórborgarsvæðinu búa tæplega 1,3 milljónir manna. Nashville. Nashville er höfuðborg Tennessee-fylkis í Bandaríkjunum. Borgin er nærststærsta borg fylkisins á eftir Memphis en stórborgarsvæðið er nokkru stærra. Innan borgarmarkanna búa um 620 þúsund manns en á stórborgarsvæðinu búa um 1,5 milljónir. Nashville er miðstöð fjármála og heilbrigðisþjónustu, tónlistar og útgáfu í fylkinu. Knoxville. Knoxville er þriðja stærsta borg Tennessee-fylki, á eftir Memphis og höfuðborginni Nashville. Innan borgarmarka búa um 174 þúsund manns en á stórborgarsvæðinu búa um 655 þúsund manns. Knoxville er stundum nefnd Marmaraborgin (e. "The Marble City"). Fort Worth. Fort Worth er fimmta stærsta borgin í Texas og átjánda stærsta borg Bandaríkjanna. Íbúar borgarinnar eru um 655 þúsund en borgin er hluti af stórborgarsvæði Dallas-Fort Worth-Arlington, sem er fjórða stærsta stórborgarsvæði Bandaríkjanna. Charlotte (Norður-Karólína). Charlotte er stærsta borgin í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og 20. stærsta borg Bandaríkjanna með um 630 þúsund íbúa. Á stórborgarsvæðinu búa rúmlega 1,5 milljónir manna. Charlotte er stundum nefnd drottningarborgin (e. "The Queen City") en hún var nefnd eftir þýsku prinsessunni Charlotte frá Mecklenburg-Strelitz (1744-1818) sem varð drottning Georgs 3. El Paso. El Paso er borg í Texas í Bandaríkjunum með rúmlega 600 þúsund íbúa. Borgin er við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó, hinu megin við hana er mexíkóska borgin Ciudad Juárez. Engjamunablóm. Engjamunablóm (fræðiheiti: "Myosotis scorpioides") er fjölært blóm af munablómaætt. Blóm þess eru heiðblá og 7 til 8 mm í þvermál. Það líkist gleym-mér-ei en þekkist á styttri aldinleggjum og stærri blómum. Þá er gleym-mér-ei eilítið hærðari. Ole Lund Kirkegaard. Ole Lund Kirkegaard (29. júlí 1940 – 24. mars 1979) var danskur barna- og unglingabókahöfundur. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölda tungumála, fengið verðlaun og kvikmyndir og leikrit hafa verið gerðar eftir þeim. Bækur. Bókin Frække Friderik er myndabók sem Ole bjó til fyrir dóttur sína áður en hann varð barnabókahöfundur. Bókin var ekki gefin út fyrr en 2008 í Danmörku. Heimildir. Kirkegaard, Ole Lund C (bókstafur). C eða c (sé) er 3. bókstafurinn í latneska stafrófinu, en er ekki notaður í því íslenska. Söngtifur. Söngtifur (fræðiheiti: "Cicadidae") eru ætt skordýra sem teljast til skortítna, nafn þeirra er dregið af háværu tísti sem karldýrið gefur frá sér með sérstöku líffæri neðan á afturbolnum. Einkenni. Einkennandi við söngtifur er lífsspan þeirra. Einstaklingar eyða aðeins smá hluta lífs síns á yfirborði jarðar og þá rétt svo til að þroskast, makast og koma eggjunum fyrir, oftast á trjágrein og þetta tekur aðeins nokkra daga upp til nokkra viknan. Þegar eggin klekjast þá detta þau niður og grafa sig niður í jarðveginn þar sem þau dvelja í nokkur ár, allt frá 2 upp í 17 ár (mismunandi eftir undirættum) og nærast á jarðveginum þangað til það er kominn tími til að grafa sig upp á yfirborðið og endurtaka leikinn. Merkúríus (guð). Merkúríus, bronsstytta frá 1753 eftir Jean-Babtiste Pigalle (1714-1785) Merkúríus var rómverskur guð verslunar, ferðalaga og þjófnaðar. Hann var sendiboði guðanna og hliðstæða gríska guðsins Hermesar. Sandmunablóm. Sandmunablóm (fræðiheiti: "Myosotis stricta") er einær jurt af munablómaætt. Það ber dökkblá blóm og vex á þurrum melum og í sandbrekkum. Axhnoðapuntur. Axhnoðapuntur (fræðiheiti: "Dactylis glomerata") er 50 til 120 sentimetra hátt puntgras sem ber einkennandi blómhnoða. Það er notað í túnrækt en einnig fyrirfinnst það villt, t.d. sem slæðingur meðfram vegum og í grasbrekkum. Jacques Offenbach. Jacques Offenbach (20. júní 1819 – 5. október 1880) var tónskáld og sellóleikari. Hann er talinn til helstu tónskálda frönsku rómantíkurinnar. Offenbach fæddist inn í þýska tónlistarfjölskyldu, en faðir hans var forsöngvari við sýnagóguna í Köln. Hann fluttist svo 14 ára gamall til Parísar og bjó þar það sem eftir var ævinnar. Álftafjörður. Horft yfir Álftafjörð frá Snjótindi Álftafjörður er grunnur fjörður eða sjávarlón í Djúpavogshreppi. Fyrir fjörðinn gengur rif, sem kallast Starmýrartangi eða Starmýrarfjörur, en útrennsli úr firðinum er um Melrakkanesós yfir í Hamarsfjörð. Álftafjörður er syðstur fjarða í Suður-Múlasýslu. Í fjöllunum upp af Álftafirði finnast þykk lög af flikrubergi. Merkilegir staðir í Álftafirði. Þvottá er bær í sunnanverðum Álftafirði. Í Njálssögu segir frá því er skip Þangbrands stýrimanns eins og hann er nefndur kemur inn Berufjörð og í Gautavík. Þangbrandur var sendur til Íslands af Ólafi konungi Tryggvasyni til að boða kristna trú. Á Þvottá er nú minnisvarði um kristnitökuna en þar skírði Þangbrandur Síðu-Hall og dregur Þvottá nafn sitt af því. U.þ.b. 2 km norðar er Þangbrandsbryggja en þar er Þangbrandur sagður hafa lagst að með skip sitt. Geithellar (stundum kallaðir Geithellnar) er bær í Álftafirði. Þar eru Ingólfur Arnarson og Hjörleifur Hróðmarsson, fóstbróðir hans, sagðir hafa haft vetursetu fyrst þegar þeir komu til Íslands. Álftafjörður (Ísafjarðardjúpi). Álftafjörður er næstysti fjörðurinn, sem gengur suður úr Ísafjarðardjúpi. Arnarnes skilur fjörðinn frá Skutulsfirði til norðurs en til suðurs afmarkast fjörðurinn af Kambsnesi. Við Álftafjörð stendur þorpið Súðavík en fyrir ofan það gnæfir svipmikið fjall, Kofri. Inn úr botni fjarðarins ganga tveir stuttir dalir, Hattardalur og Seljalandsdalur. Úr Seljalandsdal má ganga yfir í bæði Önundarfjörð og Dýrafjörð. Norðmenn voru umsvifamiklir í Álftafirði um aldamótin 1900 og höfðu þar bæði hvalveiðistöðvar og síldarvinnslu. Eyvindur kné af Ögðum er nefndur hér landnámsmaður. Álftafjörður (Snæfellsnesi). Álftafjörður er stuttur fjörður á norðanverðu Snæfellsnesi. Hann er austasti fjörðurinn, sem gengur norðan í nesið. Í firðinum austanverðum liggur dalverpi, sem heitir Borgardalur. Samkvæmt Eyrbyggja sögu bjó þar Geirríður húsfreyja, móðir Þórólfs bægisfóts, og veitti gestum og gangandi beina. Berufjörður (Barðaströnd). Berufjörður er stuttur fjörður í Austur-Barðastrandarsýslu. Hann gengur samhliða Króksfirði og Gilsfirði inn úr Breiðafirði til norðurs. Háaborg skilur að Berufjörð og Króksfjörð til austurs en fjörðurinn liggur að Reykjanesi að vestan. Nokkrar eyjar eru í mynni fjarðarins og er Hrísey þeirra stærst. Eyðibýli, samnefnt firðinum, er í botni hans og var þar áður þing- og samkomustaður héraðsins. Hafa þar fundist fjölmörg kuml. Hótel Bjarkarlundur er í Berufirði og nálægt því Berufjarðarvatn. Í það rennur lítill lækur, Alifiskalækur, sem segir frá í Gull-Þóris sögu og er hann talinn fyrsta dæmi um fiskirækt á Íslandi. Borgarfjörður (Arnarfirði). Borgarfjörður er stuttur fjörður, í Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem gengur inn úr Arnarfirði og er nyrstur innfjarða hans, sunnan við Borgarfjörð er Dynjandisvogur. Borgarfjörður er oft talinn ná alla leið út að Langanestá, en réttara er að hann afmarkist af Hjallkárseyri að norðan og Meðalnestá að sunnan og sé því um 5 km langur. Niður í botn Borgarfjarðar rennur Mjólká en hún var virkjuð árið 1958 og heitir virkjunin Mjólkárvirkjun. Fyrsta virkjunin var byggð á árunum 1956 til 1958. Önnur virkjun var byggð milli 1973 og 1975. Báðar virkjanirnar nýta sama stöðvarhús og aðstöðu. Eldri virkjunin framleiðir 2,4 MW en sú nýrri 5,7 MW. Orkubú Vestfjarða var stofnað 1978 og tók við rekstri Mjólkárvirkjunnar. Djúpifjörður. Djúpifjörður er stuttur fjörður í Austur-Barðastrandarsýslu á milli Þorskafjarðar og Gufufjarðar. Fjörðurinn afmarkast af Hallsteinsnesi til austurs og Grónesi til vesturs. Þrátt fyrir nafnið er Djúpifjörður grunnur og nánast samfelldar leirur á fjöru en þröngur áll gengur út miðjan fjörðinn. Mynni fjarðarins lokast af eyjaklasa. Samnefndur bær er í botni Djúpafjarðar en þar er oft snjóþungt á vetrum. Þjóðvegur 60, Vestfjarðavegur, liggur ofan í fjörðinn, að austan yfir Hjallaháls en að vestan yfir Ódrjúgsháls. Skutulsfjörður. Skutulsfjörður er stysti og vestasti fjörðurinn í Ísafjarðardjúpi. Kaupstaðurinn Ísafjörður stendur við fjörðinn. Tveir megindalir ganga inn úr Skutulsfirði, Engidalur og Tungudalur, og skilur fjallið Kubbi þá að. Í Engidal er kirkjugarður Ísfirðinga, sem og sorpbrennslustöð þeirra. Golfvöllur og skíðasvæði er í Tungudal en úr honum eru Vestfjarðagöng grafin yfir í Botnsdal í Súgandafirði og Breiðdal í Önundarfirði. Upp úr Tungudal ganga Dagverðardalur eða Dögurðardalur, sem segir frá í Gísla sögu, en þaðan lá áður þjóðvegurinn suður yfir Breiðadals- og Botnsheiði. Enn fremur liggur Seljalandsdalur upp af Skutulsfirði en þar var áður aðalskíðasvæði Ísfirðinga. Árið 1994 féll snjóflóð í Seljalands- og Tungudali og eyðilögðust skíðamannvirki og sumarbústaðir. Í fornu máli hét hann Skutilsfjörður. Helgi Hrólfsson á að hafa gefið honum nafn en hann fann þar „skutil í flæðarmáli“. Sigurður Sigurðarson (f. 1944). Sigurður Sigurðarson (30. maí 1944 - 25. nóvember 2010) var vígslubiskup í Skálholt. Sigurður fæddist í Hraungerði í Hraungerðishreppi í Árnessýslu. Foreldrar hans voru Sigurður Pálsson, sóknarprestur á Selfossi og síðar vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi, og Stefanía Gissurardóttir kona hans. Sigurður var sóknarprestur á Selfossi 1971-1994 og vígslubiskup í Skálholti 1994-2010. Sigurður lést, 66 ára að aldri, í nóvember 2010. Vistuð stefja. Vistuð stefja (e.: Stored procedure) er undirforrit tiltækt fyrir hugbúnað sem nýta sér venslagagnagrunna. Hnakki (tískufyrirbrigði). Hnakki eða FM hnakki er íslenskt slanguryrði frá síðari hluta 20. aldarinnar notað yfir tískufyrirbrigði sem vísar til útlits- og sjálfsdýrkunar karlmanna. Hnakkar eru oft orðaðir við að að fara þráfaldlega í ljós, hlusta á FM 957, aflita á sér hárið og setja gel í það og aka um á breyttum fólksbílum. Hugtakið hnakki hefur öðlast nokkuð neikvæða merkingu. Sambærilegt hugtak um konur er skinka. Hnakki (líffræði). Í hefðbundinni japanskri menningu er hnakkinn einn af fáum stöðum líkamans (fyrir utan andlitið og hendurnar) sem fatnaður kvenna huldi ekki. Ef þeim sökum bjó hnakkinn yfir ákveðnu aðdráttarafli. Alta. Forn myndir höggnar í grjót Alta (norðursamíska: "Álaheadju gielda") er fjölmennasta sveitarfélag í norska fylkinu Finnmörk. Íbúar sveitarfélagsins eru um það bil 17.500, og búa flestir þeirra í þéttbýlinu Alta. Hægt er að finna nyrsta Subway veitingastað í heimi í Alta. Í sveitarfélaginu hafa fundist fornar myndir höggnar í grjót, sem taldar eru vera á bilinu 2500 - 5000 ára gamlar. Gautavík. Gautavík er bær við norðanverðan Berufjörð og er í Djúpavogshreppi. Í Gautavík var verslunarstaður til forna og má enn sjá þar rústir, sem hafa verið friðlýstar frá 1964 og hafa dálítið verið rannsakaðar. Þar hefur til dæmis fundist töluvert af leirkerabrotum. Staðarins er getið í Íslendingasögum og bæði í Njálssögu og Fljótsdælasögu segir frá skipakomum þangað. Gautavík kemur oft við sögu sem verslunarstaður í gömlum annálum frá 14. og 15. öld og virðist þar hafa verið ein helsta verslunarhöfn Austurlands. Þýskir kaupmenn frá Brimum versluðu þar fram á síðari hluta 16. aldar. Verslunin fluttist fyrst yfir fjörðinn, fyrst til Fýluvogs (Fúluvíkur) og síðan yfir á Djúpavog. Í Gautavík kom Þangbrandur prestur fyrst að landi, þegar Noregskonungur sendi hann til Íslands til að kristna landsmenn. Hann var þá hirðprestur Ólafs konungs Tryggvasonar. Í Kristnisögu er honum lýst sem ofstopamanni, ófærum til kristniboðs, og var hann sagður bera Biblíuna í annarri hendi og sverð í hinni. Skriða féll á bæinn í Gautavík sumarið 1792 og hjónin þar fórust bæði. 2. Árið 2 (II) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á sunnudegi eða mánudegi. 3. Árið 3 (III) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á mánudegi eða þriðjudegi. Hrygna. Hrygna er kvenfiskur sem hrygnir. Hrygna nefnist svo vegna þess að hún gýtur hrognum. Karlkynsfiskur er nefndur hængur. Fossfjörður. Fossfjörður er stuttur fjörður, sem gengur til suðurs inn úr Arnarfirði. Hann er einn af Suðurfjörðum og er syðstur og næstvestastur þeirra. Fossfjörður er eini Suðurfjörðurinn, utan Bíldudalsvogs, sem enn er í byggð. Heitir bær í botni fjarðarins Foss en býlið Dufansdalur er í samnefndum dal í vesturhlíð Fossfjarðar. Er hann kenndur við Dufan, leysingja Áns rauðfelds Grímssonar landnámsmanns en Án bjó í Dufansdal áður en hann fluttist á Hrafnseyri norðan Arnarfjarðar. Vattarfjörður. Vattarfjörður er stuttur fjörður, sem gengur inn úr Skálmarfirði í Austur-Barðastrandarsýslu. Vattarnes skilur á milli Vattarfjarðar og Skálmarfjarðar. Áður fyrr lá þjóðleiðin um Þingmannaheiði upp úr Vattarfirði vestanverðum og niður í Vatnsfjörð. Upp úr botni fjarðarins er Vattardalur og rennur Vattardalsá um hann. Skálmarfjörður. Skálmarfjörður er langur fjörður í Austur-Barðastrandarsýslu. Til vesturs skilur Skálmarnes Skálmarfjörð frá Kerlingarfirði en að austan Svínanes frá Kvígindisfirði. Innst klofnar fjörðurinn á Vattarnesi og heitir vestari botninn Vattarfjörður en þaðan lá þjóðvegurinn áður upp á Þingmannaheiði. Innst í Skálmarfirði er Skálmardalur og má fara þaðan um Skálmardalsheiði yfir í Gervidal, eða Gjörvidal, í botni Ísafjarðar. Þýskir verslunarstaðir voru áður fyrr á Langeyri og Sigurðareyri við Skálmafjörð. Nú er öll byggð við fjörðinn komin í eyði. Eyrarrós. Eyrarrós (fræðiheiti: "Epilobium latifolium") er blóm af eyrarrósarætt og tilheyrir dúnurtum. Hún vex aðallega á eyrum jökuláa. Hún er þjóðarblóm Grændlendinga og kom til greina sem þjóðarblóm Íslendinga. Seyðisfjörður (Ísafjarðardjúpi). Seyðisfjörður er stuttur fjörður, sem gengur suður úr Ísafjarðardjúpi og er milli Álftafjarðar (í vestri) og Hestfjarðar (í austri). Að norðan skilur Kambsnes fjörðinn frá Álftafirði en fjallið Hestur skilur Seyðisfjörð frá Hestfirði að sunnan. Kirkjustaðurinn Eyri er nú eini bærinn í byggð í Seyðisfirði en áður voru þar nokkrir bæir innar í firðinum. Seinasti hluti Djúpvegarins var lagður um Seyðisfjörð og Hestfjörð á milli Eyrar og Hvítaness og var hann opnaður árið 1975. Einungis er vegur meðfram vestari strönd fjarðarins þar sem ekki er fjöllum fyrir að fara milli Seyðisfjarðar og Hestfjarðar við botn. Fjörðurinn er nefndur Vigrafjörður í gömlum bókum svo sem Landnámabók. Miðfjörður. Miðfjörður er fjörður, sem gengur inn úr Húnaflóa á milli Heggstaðaness og Vatnsness. Næsti fjörður að vestan er Hrútafjörður en Húnafjörður að austan. Við austanverðan Miðfjörð stendur kauptúnið Hvammstangi. Upp af firðinum eru blómlegar byggðir og kallast sveitin einnig Miðfjörður. Innst klofnar hún í þrjá dali, Miðfjarðardali, sem heita Vesturárdalur, Núpsdalur og Austurárdalur. Úr þessum dölum renna þrjár ár, sem dalirnir eru nefndir eftir, og sameinast þær í Miðfjarðará, sem er þekkt laxveiðiá. Austan Miðfjarðarár er lítill þéttbýliskjarni, Laugarbakki. Áður var farið upp úr Miðfirði suður um Tvídægru til Borgarfjarðar en sú leið þótti villugjörn. Miðfjörður er kunnur úr Íslendingasögunum. Á Bjargi í Miðfirði fæddist Grettir Ásmundarson, sem segir frá í Grettis sögu en sögustaði Kormáks sögu, Þórðar sögu hreðu og Bandamanna sögu er þar einnig að finna. Króksfjörður. Króksfjörður er stuttur og grunnur fjörður við norðanverðan Breiðafjörð. Fjörðurinn liggur næst Berufirði að vestan en Gilsfirði að austan. Við Króksfjörð er lítið nes, Króksfjarðarnes, og samnefndur þjónustukjarni á því. Úr Króksfirði liggur nýr heilsárs vegur sem opnaði haustið 2009 um Gautsdal og síðan Arnkötludal á Ströndum yfir í Steingrímsfjörð. Töluverð byggð er í firðinum og undirlendi þó nokkuð. Í Króksfirði eru leifar fornrar eldstöðvar frá tertíertímabilinu og eru bergmyndanir margbreytilegar af þeim sökum. Má þar finna bæði djúpberg, eins og gabbró og granófýr, en einnig líparít. Þórarinn krókur nam hér land og heitir fjörðurinn því svo. Gullregn. Gullregn (fræðiheiti "Laburnum") er ættkvísl lítilla eða meðalstórt trjáa af ertublómaætt sem ber gul blóm í löngum hangandi klösum. Gullregn skiptist í tvær tegundir, strandagullregn ("Laburnum anagyroides") og fjallagullregn ("Laburnum alpinum"). Gullregn er upprunnið úr fjallasvæðum í suðurhluta Evrópu frá Frakklandi til Balkanskagans. Gullregn er vinsælt garðtré en vanalegt er að í görðum sé ræktað garðagullregn (Laburnum x watereri) sem er blendingsgullregn milli hinna tveggja tegunda gullregns með langa blómklasa eins og fjallagullregn og þétt blómskrúð eins og strandagullregn. Eitrunaráhrif gullregns. Garðagullregn þroskar síður fræ en fjallagullregn. Fræ gullregns eru eitruð sem og allir aðrir hlutar plöntunar. Aðaleiturefnið í gullregni er Cytisine. Í fræbelgnum eru 3 til 5 fræ en 2 - 10 fræ geta valdið eitrun hjá börnum. Einkenni geta komið í ljós eftir 10 mínútur en einnig geta nokkrar klukkustundir. Furufjörður. Furufjörður er stuttur fjörður á Hornströndum, milli Þaralátursfjarðar og Bolungarvíkur. Fjörðurinn hélst í byggð fram á miðja 20. öld en lagðist þá í eyði líkt og aðrar byggðir á Hornströndum. Fjallvegur liggur úr Furufirði yfir Skorarheiði til Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum og var hann áður fjölfarinn. Í Furufirði er reisulegt bjálkahús sem er í eigu nokkurra Ísfirðinga ásamt neyðarskýli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og kamar við það. Rétt hjá stendur smávaxið bænahús og kirkjugarður við það. Ströndin í firðinum er hvít skeljasandsströnd. Úr Furufirði liggur gönguleiðin um Horntrandir suður til Þaralátursfjarðar yfir Svartaskarð á Dagmálahorni til suðurs. Til norðurs liggur gönguleiðin um Ófæru yfir til Bolungavíkur. Hestfjörður. Hestfjörður er mjór og langur fjörður, um 15 km, í sunnanverðu Ísafjarðardjúpi. Næsti fjörður úr norðvestri er Seyðisfjörður en svipmikið fjall, Hestur, skilur firðina að. Til suðurs er Skötufjörður en Hvítanes heitir á milli hans og Hestfjarðar. Undirlendi er lítið í Hestfirði og fjallshlíðar beggja megin fjarðarins eru brattar í sjó fram. Samgöngur hafa löngum verið erfiðar í firðinum og lá sá hluti Djúpvegarins, sem síðast var lagður, um fjörðinn. Fyrsti rækjumiðin við Ísland fundust árið 1927 í Hestfirði. Við mynni hans og Skötufjarðar er eyjan Vigur, næststærsta eyjan á Ísafjarðardjúpi. Tímabil. Tímabil eða tímaskeið er samfelld röð atburða milli tveggja tíma í sögunni, sem á sér upphaf og endi. Ef fjallað er um tímabil fyrir árið 1 eru ártöl auðkennd með "f.Kr" ("fyrir Kristsburð"). Ef nauðsyn krefur er ártöl eftir árið 1 auðkennd með "e.Kr" ("eftir Kristsburð"). Eðlisfræðileg skilgreining er að tímabil sé lokað bil á tímaásnum. Last.fm. Last.fm er breskt vefútvarp og tónlistarsamfélgassíða stofnuð árið 2002. Þar eru yfir 21 milljón virkra notenda í yfir 200 löndum. Open Directory Project. Open Directory Project er fjöltyngt tenglasafn í eigu Netscape. HAARP. "HAARP" er geisla- og tónleikamynddiskur frá ensku hljómsveitinni Muse. Charlotte Perrelli. Charlotte Perrelli (fædd Anna Jenny Charlotte Nilsson 7. október 1974) er sænsk söngkona og sigurvegari í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1999 fyrir Svíþjóð með lagið „Take me to your heaven“. Selma Björnsdóttir, söngkona keppti fyrir Ísland og hafnaði í öðru sæti með 146 stig. Charlotte keppti í sömu keppni árið 2008 með lagið „Hero“. Margrét Jónsdóttir. Margrét Jónsdóttir (fædd 1953 í Reykjavík) er íslenskur listmálari. Selma Björnsdóttir. Selma Björnsdóttir (fædd 13. júní 1974) betur þekkt sem Selma er íslensk söngkona, leikkona og leikstjóri sem öðlaðist mikla frægð eftir að hún hafnaði í öðru sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1999 með laginu „"All Out of Luck,"” sem var þá besti árangur Íslands í keppninni, og gaf út sólóplötu sína I Am sem varð söluhæsta hljómplata ársins á Íslandi. Selma hefur síðan gæfið út tvær aðrar hljómplötur ("Life Won't Wait" og "Alla leið til Texas") sem einsöngkona og tvær safnplötur ásamt Hönsu ("Sögur af Sviðinu" og "Sögur af Konum"). Hún hefur einnig notið mikilla vinsælda sem sviðsleikkona í leiksýningum eins og "Grease", "Ávaxtakörfunni" og "Litlu hryllingsbúðinni" og unnið sem leikstjóri á leiksýningum á borð við "Vesalingana" og "Gosa" Æska. Selma Björnsdóttir fæddis í Reykjavík þann 13. júní 1974, þriðja af fjórum börnum Björns Friðbjörnssonar og Aldísar Elíasdóttur. Hún á þrjár systur, Hrafnhildi sem er óperusöngkona, Birnu og Guðfinnu sem eru báðar dansarar og danskennarar. Í barnæsku sinni fór Selma í danstíma ásamt systrum sínum hjá Heiðari Ástvaldssyni. „Ég hætti þar fljótlega fa því að ég þurfti að dansa við stráka. Það gat ég ekki hugsað mér.” Fimm ára gömul fór Selma að læra á selló sem hún æfði í þrjú ár. Frumraun hennar í leikhúsi kom þegar hún var aðeins sjö ára gömul en hún söng álfadísina í uppfærslu barnakórs Garðabæjar af Öskubusku. Þegar Selma var tíu ára fengu hún og systur hennar hlutverk í barnaóperunni Örkinni hans Nóa sem var sýnd í Íslensku óperunni og stuttu seinna komu þær fram í óperunni Carmen. Einnig fékk hún hlutverk í barnaleikritinu Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu. Árið 1990 hóf Selma nám við Verzlunarskóla Íslands og hafði hún mikinn metnað í námi sínu og mikinn áhuga á íslensku, bókmenntafræði og sögu. Hún var mjög virk í félagslífi skólans en hún tók ekki þátt í neinum söngleikjum fyrr en á lokaári hennar. Hún tók þó þátt í söngvakeppni skólans, Verzló Væli, fyrir tilviljun en vinkona hennar skráði hana til leiks án vitundar hennar. Þegar kom að keppninni fór hún með sigur af hólmi og fór hún meðal annars með sigur af hólmi í söngvakeppni skólans, Verzló Væli, og var danshöfundur í nemendamótssýningunni á söngleiknum „Jesus Christ Superstar" og það var við undirbúning sýningarinnar sem hún kynntist Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni sem hún myndi síðar vinna náið með. 1995-98 - Upphaf ferils. Árið 1995 eftir að hafa ústkrifast úr menntaskóla var Selma ráðin til að leika Rosaliu í uppfærslu Þjóðleikhússins af "West Side Story". Hún hafði ætlað að fara í lögfræðinám en ákvað að taka sér ársfrí eftir skólann eftir að hún hafði fengið hlutverkið. Árið 1996 hóf sjónvarpsþátturinn "Ó" göngu sína á dagskrá RÚV í stjórn Selmu og Markúsar Þórs Andréssonar. Þættirnir voru miðaðir að unglingu og urðu frekar umdeildir en þeir samantóðu af umfjöllun um umræðuefni eins og klám og fíkniefni, frumsömdum atriðum, fréttum og allskonar menningarumfjöllun. Árið 1998 var Selma ráðin í aðalkvenhlutverkið í söngleiknum „Grease” í Borgarleikhúsinu á móti Rúnari Frey Gíslasyni sem hún myndi síðar giftast. Söngleikurinn naut gífurlegra vinsælda og var það þar sem Selma öðlaðist fyrst frama sem söng-og leikkona. 1999 - Eurovision frægð og "I Am". a>" seldist í yfir sex þúsund eintökum.Í byrjun ársins 1999 var Selma beðin um að vera fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva vorið 1999. Lagið átti hún að semja ásamt lagahöfundi að hennar eigin vali. Hún valdi Þorvald Bjarna en þau höfðu þá nýlegast unnið að tónlistinni í kvikmyndinni„"Sporlaust"” árið áður. Eftir að hafa kynnt sér fyrri keppnir var Selma viss Selma valdi lagið "All Out of Luck" úr hópi nítján laga sem Þorvaldur Bjarni hafði samið, en textinn var eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson. Þann 9. apríl 1999 var myndbandið við lagið í leikstjórn Óskars Jónassonar frumsýnt en það var tekið upp víðar um Reykjavík. Föruneyti Selmu innhélt Hönsu, Rúnu G. Stefánsdóttur og Stefán Hilmarsson í bakröddum, Brynjar Örn Þorleifsson og Daníel Traustason dansara og Þorvald Bjarna. Selma hlaut töluverða athygli þegar hún kom til Jerúsalem fyrir keppnina og trónaði hún á toppi flestra veðbanka. Blaðamannafundur íslenska hópsins var sá fjölmennasti og þótti hún mjög sigurstrangleg í keppninni. Lagið hafði þá náð toppi tónlistans á Íslandi sjö vikur í röð. Selma náði öðru sæti í keppninni og hlaut 146 stig en þá var það þá besti árangur Íslands í keppninni. Kjóllinn sem Selma klæddist á sviðinu var síðar settur til sýnis á Hard Rock Café í Kringlunni. Árangur Selmu í Eurovision var stökkpallur fyrir hana til að koma sér fyrir á erlendum vettvangi. Stuttu síðar skrifaði hún undir samning við Universal upp á þrjár plötur og hóf hún að syngja á fyrsu sólóplötu sína um leið. Platan bar nafnið "I Am" og í viðtali sagði Selma að hún væri „popplata en það eru nokkur rokklög og ballöður á henni líka.” Selmu voru einnig veitt verðlaunin fyrir "Flytjanda ársins" á íslensku tónlistarverðlaununum 1999 eftir velgengni sína á árinu. 2000-2004 - "Life Won't Wait" og "Sögur af Sviðinu". Aðeins ári eftir að fyrsta plata hennar, "I am" kom út, gaf Selma út aðra plötu sína "Life Won't Wait." Þrátt fyrir að platan hafi ekki náð að jafna velgengni "I am" náði hún fjórða sæti á vinsældarlistanum. Stuttu eftir útgáfu "Life Won't Wait" ákváðu Selma og Þorvaldur að rifta samninginn við Universal eftir að hafa beðið í ár til að fá að koma fyrri plötunni út á heimsmarkað. Selma lýsti samt upplifun sinni á samningnum sem góðum, „ég söng úti um alla Evrópu og skemmti og söng hjá sjónvarpsstöðvum og á tónlistarhátíðum og gerði dýr og flott myndbönd. Þannig að ég lærði helling á þessu.” Í desember 2001 höfðu Selma og Hansa haldið jólatónleika í Vesturporti og síðar Borgarleikhúsinu sem innihéldu eingöngu söngleikjatónlist og nutu mikillavinsælda. Viðbrögð voru svo góð að Skífan sýndi því áhuga að gefa út hljómplötu með söngleikjatónlist. Eftir fæðingu sonar hennar í desember 2002 ákvað Selma að draga sig úr sviðsljósinu og vann þá helst við að aðstoða keppendur í Idol stjörnuleit með dansatriði. Árið 2003 sneri hún svo aftur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þegar hún fylgdi Birgittu Haukdal til Ríga og sá um sviðshreyfingarnar á sviðinu. Íslenska lagið sem hét „Open Your Heart” hafnaði í áttunda sæti með 81 stig og tryggði sá árangur að Ísland fengi að vera í aðalkeppninni árið eftir. Einkalíf. Selma kynntist Rúnari Frey Gíslasyni árið 1998 þegar þau léku á móti hvort öðru í söngleiknum Grease. Rúnar hafði áður verið skólabróðir hennar í Verzlunarskólanum en þau höfðu aldrei kynnst vegna þess hann var árinu eldri. Selma og Rúnar giftu sig í í janúar 2006, þremur árum eftir fæðingu sonar þeirra, Gísla Björns, í desember 2002. Í janúar 2007 eignuðust þau síðan annað barn sitt, dótturina Selmu Rún. Stigma. Stigma (hástafur: Ϛ, lágstafur: ϛ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Í gríska númerakerfinu hefur hann gildið 6. Heta. Heta (hástafur: Ͱ, lágstafur: ͱ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Sjó. Sjó (hástafur: Ϸ, lágstafur: ϸ) er úreltur stafur í gríska stafrófinu. Gufufjörður. Gufufjörður er stuttur fjörður, sem gengur ásamt Djúpafirði inn úr Þorskafirði við norðanverðan Breiðafjörð. Fjörðurinn er svo grunnur að á fjöru tæmist hann svo eftir standa aðeins leirur. Skálanes skilur Gufufjörð frá Kollafirði til vesturs en Grónes er á milli Gufufjarðar og Djúpafjarðar til austurs. Gufufjörður er í Landnámu sagður kenndur við Ketil gufu Örlygsson, landnámsmann, sem nam fjörðinn og Skálanes. Bjó Ketill í Gufudal upp af fjarðarbotninum. Þórhallur Vilmundarson prófessor hefur leitt að því líkur í grein í tímaritinu "Grímni" að Gufufjörður og önnur örnefni sem tengd eru Katli gufu eigi sér í raun náttúrulegar skýringar og bendir meðal annnars á að oft liggur þokuslæðingur yfir leirunum í Gufufirði á fjöru þótt annars sé heiðskírt og er það vegna uppgufunar frá leirunum. Rafsegulfræði. Rafsegulfræði eru kenningar um rafsegulmagn sem settar voru fram á 19. öld, aðallega af James Clerk Maxwell. Brabançonne. Brabançonne er þjóðsöngur Belgíu og hefur hollenska, franska og þýska útgáfu, þ.e. fyrir hvert opinbert tungumál landsins. Helena Paparizou. Helena Paparizou (gríska: Έλενα Παπαρίζου, fædd 31. janúar 1983) er sænsk-grísk söngkona sem þó er fædd og uppalin í Svíþjóð. Hún sigraði Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2005 fyrir Grikklands hönd. Grískir tölustafir. Grískir tölustafir er talnakerfi sem rekur upphaf sitt til Grikklands. Kerfið sem notað var til forna var örlítið breytt á miðöldum til að mynda kerfið sem notað er enn í dag. Grískir tölustafir eru víða notaðir í dag, svo sem í tölusettum listum, klukkum, blaðsíðunúmerum á undan aðalefni bókar, tölusetningu framhaldsmynda, tölusetningu ritverka í meira en einu bindi, kaflanúmer í bók og tölusetningu sumra íþróttaleika, eins og til dæmis Ólympíuleikanna. Einnig eru grískir tölustafir iðulega notaðir til þess að tákna ártöl, svo sem útgáfuár bóka. Reglur um grísku tölurnar eru þannig, að sé stafur með lægra gildi á undan staf með hærra gildi, þá er sá lægri dreginn frá hinum hærri. Annars er lagt saman. Það er dálítið á reiki hvort notaðir eru hástafir eða lágstafir. Orkuvarðveisla. Orkuvarðveisla er lögmál í eðlisfræði sem segir að orkumagn í lokuðu kerfi er fasti. Orkan eyðist því hvorki né eykst heldur breytir aðeins um mynd. Til dæmis getur hreyfiorka breyst í hitaorku við núning. Orkusparnaður. Orkusparnaður er sú viðleitni að minnka það orkumagn, sem maðurinn notar. Hægt er að ná fram orkusparnaði með betri orkunýtni þar sem sama niðurstaða fæst með minni orkuneyslu. Á heildina litið stuðlar orkusparnaður að fjárhagslegum sparnaði, betra umhverfi, auknu öryggi og auknum þægindum. Orkusparnaður er mikilvægur þáttur í stefnumótun í orkumálum samfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Arnaut Daniel. Arnaut Daniel de Riberac var franskur farandsöngvari á 12. öld sem Dante lýsir sem „"il miglior fabbro"“ („besti smiðurinn“) og Petrarca sem „stórmeistara ástarinnar“. Hann orti á próvensölsku. Hann fann upp sestínuna. Ferdowsi. Hakīm Abol-Qāsem Ferdowsī Tūsī (persneska: حکیم ابوالقاسم فردوسی توسی) (um 935 - um 1020) var persneskt skáld þekktur fyrir sagnakvæðið "Bók konunganna" sem var rituð kringum árið 1000. Shota Rustaveli. Shota Rustaveli (georgíska: შოთა რუსთაველი) var georgískt skáld á 12. öld. Hann er höfundur sagnakvæðisins "Riddarinn í tígrisfeldinum". Kālidāsa. Kālidāsa (devanagari: कालिदास) var skáld og leikskáld á sanskrít sem skipar svipaðan sess í bókmenntum á sanskrít og William Shakespeare gerir í enskum bókmenntum. Verk hans byggja á hindúskri hefð. Ekki er vitað hvenær hann var uppi, en líklega var það á 4. eða 5. öld. Wu Cheng'en. Wu Cheng'en (hefðbundin kínverska: 吳承恩; einfölduð kínverska: 吴承恩; pinyin: Wú Chéng'ēn, um. 1500–1582) var kínverskur rithöfundur og skáld á tímum Mingveldisins. Frægasta verk hans er "Vesturferðin" sem er eitt af höfuðverkum kínverskra bókmennta. Fuzûlî. Fużūlī (arabíska: فضولی) var höfundarnafn skáldsins Muhammad bin Suleyman (محمد بن سليمان) (um 1483 – 1556). Hann er oft talinn helsti höfundur dívanhefðarinnar í tyrkneskum bókmenntum. Ljóðasafnið hans er ritað á þremur tungumálum aserbaídsjantyrknesku, persnesku og arabísku. Arthur Rimbaud. Rimbaud 17 ára við upphaf skáldaferils síns. Jean Nicolas Arthur Rimbaud (IPA: [aʁtyʁ ʁɛ̃ˈbo]) (20. október 1854 – 10. nóvember 1891) var franskt skáld sem orti í anda táknsæisins. Prósaljóð hans "Une Saison en Enfer" og "Illuminations" höfðu mikil áhrif á framúrstefnuskáldin í upphafi 20. aldar. Rimbaud hafði ort sín helstu verk fyrir 21 árs aldur þegar hann ákvað að hætta skrifum. Eftir það ferðaðist hann um Evrópu og fór til Jövu, Kýpur, Aden og Harar þar sem hann kynntist landstjóranum Ras Makonnen, föður Haile Selassie. Hann lést úr krabbameini aðeins 37 ára gamall. William Wordsworth. William Wordsworth (7. apríl, 1770 – 23. apríl, 1850) var enskt rómantískt skáld sem var, ásamt Samuel Taylor Coleridge, einn af upphafsmönnum stefnunnar. Þeir gáfu saman út ljóðasafnið "Lyrical Ballads" árið 1798 sem er af mörgum talið marka upphaf rómantíska tímabilsins. Haile Selassie. Haile Selassie (ge'ez: ኃይለ፡ ሥላሴ, „kraftur þrenningarinnar“; 23. júlí, 1892 – 27. ágúst, 1975) var ríkisstjóri Eþíópíu frá 1916 til 1930 og Eþíópíukeisari frá 1930 til 1974. Hann átti þátt í að nútímavæða landið og var gríðarlega vinsæll leiðtogi, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Selassie var meðlimur eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Innan rastafarahreyfingarinnar, sem var stofnuð á Jamaíku snemma á 4. áratugnum er hann talinn vera Kristur endurborinn. Isaac Bashevis Singer. Isaac Bashevis Singer (jiddíska: יצחק באַשעװיס זינגער) (f. 21. nóvember, 1902; d. 24. júlí, 1991) var pólskættaður bandarískur rithöfundur, nóbelsverðlaunahafi og einn af helstu rithöfundum jiddískra bókmennta. Hann skrifaði öll sín verk á jiddísku og gaf út í dagblöðum, en ritstýrði sjálfur ensku útgáfunum. Hann var undir áhrifum frá Knut Hamsun sem hann þýddi í æsku. Sögur hans endurspegla menningu austurevrópskra gyðinga, þjóðsögur og þjóðtrú, með íronísku sjónarhorni nútímamanns. Íslensku tónlistarverðlaunin 2007. Íslensku tónlistarverðlaunin 2007 voru afhending íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir verk útgefin árið 2007. Afhendingin fór fram í Borgarleikhúsinu 18. mars 2008 og kynnir var Felix Bergsson. Aðsópsmestur á hátíðinni var Páll Óskar Hjálmtýsson með hljómplötuna "Allt fyrir ástina" sem fór í platínu sama dag. Söluviðurkenning fyrir tónlist. Söluviðurkenning fyrir tónlist er kerfi til að votta það að tiltekin hljómplata hafi selst í svo og svo mörgum eintökum. Í flestum löndum heims er stuðst við sama kerfi og í Bandaríkjunum; "gullplötur", "platínuplötur" og "demantsplötur" (í sumum löndum eru líka til "silfurplötur"). Sölutalan á bak við hverja viðurkenningu er hins vegar mjög mismunandi eftir löndum. Fyrsta gullplatan var veitt Glenn Miller í febrúar árið 1942 fyrir 1.200.000. selda eintakið af smáskífunni "Chattanooga Choo Choo". Núna er demantsplata veitt fyrir milljón eintök í Bandaríkjunum, platína fyrir 100.000 eintök og gull fyrir 50.000 eintök. Á Íslandi er gullplata veitt fyrir 5.000 seld eintök og platínuplata fyrir 10.000 eintök. Billboard 200. Billboard 200 er vinsældalisti yfir 200 mest seldu breið- og stuttskífurnar í Bandaríkjunum. Þorskafjörður. Séð niður í Þorskafjörð af Þorskafjarðarheiði. Þorskafjörður er um 16 km langur fjörður í Austur-Barðastrandarsýslu á milli Reykjaness og Skálaness. Líkt og aðrir firðir á þessum slóðum er Þorskafjörður grunnur og stendur innsti hluti hans á leirum þegar fjarar. Inn úr honum ganga tveir stuttir og grunnir firðir, Djúpifjörður og Gufufjörður. Á Skógum í Þorskafirði fæddist skáldið Matthías Jochumsson árið 1835. Upp úr botni Þorskafjarðar liggur þjóðvegur um Þorskafjarðarheiði yfir í Ísafjarðardjúp. Var hann lagður á árunum 1940-1946 og þjónaði sem aðalleiðin á milli Reykjavíkur og Djúps fram til 1987, þegar vegur um Parachutes. "Parachutes" er fyrsta stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Coldplay og kom hún út 10. júlí 2000 á Bretlandi og 7. nóvember á Bandaríkjunum. A Rush of Blood to the Head. "A Rush of Blood to the Head" er annar stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Coldplay og kom hún út 26. ágúst 2002 á Bretlandi og 27. ágúst á Bandaríkjunum. X&Y. "X&Y" er þriðji stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Coldplay og kom hún út 6. júní 2005 á Bretlandi og 7. júní á Bandaríkjunum. Haffjörður. Haffjörður eða Hafursfjörður er stuttur fjörður eða vík á sunnanverðu Snæfellsnesi. Löngufjörur eru við botn Haffjarðar. Haffjarðará rennur í fjörðinn en hún þykir ein af betri veiðiám landsins. Oddur Snorrason. Oddur Snorrason (var uppi á síðari hluta 12. aldar), var munkur í Þingeyraklaustri og kunnur rithöfundur. Hann var prestur að vígslu. Æviferill. Foreldrar Odds voru Há-Snorri Oddsson, og kona hans Ásdís (eða Álfdís) Gamladóttir. Há-Snorri var sagður kominn í beinan karllegg af Steingrími, sem nam land í Steingrímsfirði og bjó í Tröllatungu. Afi Ásdísar var Skeggi skammhöndungur, sem bjó á Bjargi í Miðfirði, systursonur Grettis Ásmundarsonar. Bróðir Ásdísar var Þóroddur Gamlason, sem var yfirsmiður við byggingu fyrstu dómkirkjunnar á Hólum, og tilgátur eru um að hann sé sami maður og "Þóroddur rúnameistari", sem nefndur er í formála að málfræðiritgerðunum í Ormsbók Snorra-Eddu. Lítið er vitað um æviferil Odds, annað en að hann var munkur í Benediktsklaustrinu á Þingeyrum. Klaustrið var þá mikil bókmenntamiðstöð, og voru þar auk Odds, rithöfundarnir Karl Jónsson ábóti og Gunnlaugur Leifsson munkur. Oddur Snorrason samdi á latínu sögu Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs. Þessi latneska frumgerð sögunnar er glötuð, en hún var þýdd á íslensku skömmu síðar (fyrir 1200), og er þýðingin til í tveimur heillegum handritum, og broti úr hinu þriðja. Sagan er oftast kölluð "Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk", eða "Ólafs saga Odds". Erfitt er að segja til um hversu góða mynd íslenska þýðingin gefur af latnesku frumgerðinni. Hins vegar er ljóst að Oddur hefur tekið mið af ævisögum dýrlinga, og lýsir Ólafi Tryggvasyni sem postula Norðmanna. Margt bendir til að "Ólafs saga Odds" hafi verið tímamótaverk í íslenskum bókmenntum og haft mikil áhrif. Snorri Sturluson notaði "Ólafs sögu Odds" þegar hann samdi "Heimskringlu", og sama er að segja um aðra höfunda konungasagna, t.d. höfund "Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu". Í Yngvars sögu víðförla kemur fram að Oddur hafi fyrstur ritað söguna, en fræðimenn hafa verið vantrúaðir á það, t.d. Finnur Jónsson prófessor. Á síðustu árum þó dregið úr efasemdum manna um þetta, sjá t.d. Margaret Clunies Ross 2000:306-308 og Theodore M. Andersson 2003:3. Rolling Stone. "Rolling Stone" er bandarískt tónlistar-, stjórnmála- og menningartímarit gefið út hálfsmánaðarlega. Tímartið var stofnað í San Francisco árið 1967 af Jann Wenner og Ralph J. Gleason. Wenner er enn ritstjóri og útgefandi þess í dag. Hann fékk $7.500 að láni hjá fjölskyldu sínu til að setja á markað tímaritið. Lillian Gish. Ljósmynd af Lillian Gish árið 1921. Lillian Diana Gish (14. október 1893 – 27. febrúar 1993) var bandarísk leikkona sem starfaði jafnt á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Leiklistarferill hennar spannaði 75 ár, eða frá 1912-1987. Lillian var stjarna í Hollywood á öðrum og þriðja áratug 20. aldar, og helst fyrir leik sinn í myndum leikstjórans D.W. Griffith, en hún lék t.d. aðalhlutverkið í mynd hans Birth of a Nation (1915). Hún er einnig fræg fyrir að hafa leikið í hinni frægu kvikmynd, og einu kvikmynd, leikstjórans Charles Laughton, The Night of the Hunter ("Nótt veiðimannsins"). Lillian lauk svo ferli sínum með því að leika á móti Bette Davis í The Whales of August sem Lindsay Anderson leikstýrði. Tenglar. Gish, Lillian Vænisýki. Vænisýki (einnig kallað ofsóknarbrjálæði, -æði, -kennd, -sýki) er geðsjúkdómur, sem einkennist af ranghugmyndum, kvíða og ótta. Gláma. Yfirlitskort af Vestfjörðum Gláma heitir hálendissvæði á Vestfjörðum, milli Breiðafjarðar að sunnan, Arnarfjarðar og Dýrafjarðar að vestan og Ísafjarðardjúps að norðaustan. Hæsti hluti Glámuhálendisins heitir Sjónfríð og nær um 920 metrum yfir sjávarmáli og sér þar víðar um Vestfjarðakjálkann en frá nokkrum öðrum sjónarhól. Uppi á Sjónfríð stendur enn mikil varða sem talið er að norski liðsforinginn Hans Frisak og landmælingamenn hans hafi reist árið 1806 eða 1809. Varðan stendur á mörkum Vestur-Ísafjarðarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu. Um sjö kílómetrum sunnar og aðeins austar mætast fjórar sýslur í einum punkti, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla og Vestur- og Austur-Barðastrandarsýsla. Lengi vel var Gláma talin vera jökull og hefur sennilega verið á kuldaskeiðum. En frá lokum 19. aldar hafa einungis stærri eða minni snjófannir legið á Glámu að sumarlagi en enginn jökull. Allt Glámuhálendið nær yfir um 230 ferkílómetra. Þrátt fyrir mikið stórgrýti eins og annarsstaðar á hálendi Vestfjarða lágu áður fyrr margar varðaðar leiðir yfir Glámu enda var sú leið hin skemmsta úr Dýrafirði og Arnarfirði yfir til byggðanna í Austur-Barðastrandarsýslu og innanvert Ísafjarðardjúp. Þegar riðið var til Alþingis á þjóðveldistímanum úr byggðunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu og eins þegar lagt var upp í aðrar ferðir til héraða utan Vestfjarða var oft farið yfir Glámu. Flestir þeirra sem lögðu leið sína yfir Glámu fóru þó aðeins á milli héraða á Vestfjörðum. Vatnasvið Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði er vestanvert Glámuhálendið. Heimild. "Vestfjarðarit I, Firðir og fólk, 900-1900", Kjartan Ólafsson, útg. Búnaðarsamband Vestfjarða 1999 Íhaldsstefna. Íhaldsstefna er heiti á þeim stefnum í stjórnmálaheimspeki sem leggja áherslu á gildi hefða og venja og hægfara framþróun fremur en byltingar. Hvað telst vera hefðbundið er gerólíkt eftir samfélögum og því tekur íhaldsstefna á sig mjög ólíkar myndir eftir löndum. Íhaldsmenn í einu landi getur líka greint á um það hver þau grunngildi séu sem beri að halda í. Sumir íhaldsmenn vilja halda í óbreytt ástand ("status quo") meðan aðrir sækjast eftir því að endurheimta fyrra ástand ("status quo ante"). Íhaldsstefna kom fyrst fram sem greinileg tilhneiging í stjórnmálum í Frönsku byltingunni með ritinu "Reflections on the Revolution in France" eftir Edmund Burke. Burke gagnrýndi upplýsinguna og hélt þess í stað fram mikilvægi rótgróinna stofnana samfélagsins og venja. Munshi Premchand. Munshi Premchand (hindí: प्रेमचंद, úrdú: پریمچںد) (f. 31. júlí 1880, d. 8. október 1936) var einn af helstu rithöfundum nútímans á hindí og úrdú. Hann skrifaði um 300 smásögur, fjölda skáldsagna og leikrita. Hann skrifaði um reynslu fátækra bænda og notaði alþýðumál fremur en það sanskrítskotna hindí sem þá var venja að nota sem bókmenntamál. Pjotr Kropotkin. Pétur (Pjotr) Alexeyevich Kropotkin (rússneska:Пётр Алексе́евич Кропо́ткин) (9. desember 1842 – 8. febrúar 1921) var rússneskur anarkisti og einn fyrsti málsvari stjórnleysis sameignarstefnu. Helstu ritverk hans um stjórnmál eru "La Conquête du Pain" (ísl. Hernám brauðsins) "Fields, Factories and Workshops" (ísl. "Akrar, verksmiðjur og verkstæði") og um vísindi ' (ísl. "Samvinna: Þáttur í þróuninni"). Árið 1942 kom út á Íslandi bók hans: ' í þýðingu Kristínar Ólafsdóttur. Móses. Móses (latína: "Moyses", hebreska: מֹשֶׁה, "Mōšeh"; gríska: Mωυσής í bæði septúagintunni og nýja testamentinu; arabíska: موسىٰ, "Mūsa"; ge'ez: ሙሴ, "Musse") var hebreskur trúarleiðtogi, lögmaður, spámaður og herstjóri sem var uppi á 13. öld f.Kr. Hefð er fyrir því að eigna honum Mósebækurnar eða Torah, fyrstu fimm bækur gamla testamentisins. Hann er líka mikilvægur spámaður í gyðingatrú, kristni, íslam, bahá'í, mormónatrú, rastafaratrú og mörgum öðrum trúarbrögðum. Samkvæmt Annarri Mósebók var hann sonur hebreskrar móður sem faldi hann þegar faraó skipaði svo fyrir að öll nýfædd hebresk sveinbörn skyldu drepin og var síðan ættleiddur af egypsku konungsfjölskyldunni. Eftir að hafa drepið egypskan þrælastjóra flúði hann og gerðist fjárhirðir. Guð skipaði honum að frelsa hina hebresku þræla og leiða þá til þess lands sem hann hafði heitið þeim. Eftir að Guð hafði látið plágurnar tíu ganga yfir Egypta leiddi Móses þá burt frá Egyptalandi og gegnum Rauðahafið. Eftir það reikuðu þeir um eyðimörkina í 40 ár. Hann kom ekki sjálfur til fyrirheitna landsins þó sagt sé að hann hafi orðið 120 ára gamall. Páll postuli. Páll postuli (hebreska: שאול התרסי‎ "Šaʾul HaTarsi", sem merkir „Sál frá Tarsus“, forngríska: Σαουλ "Saoul" og Σαῦλος "Saulos" og Παῦλος "Paulos") „postuli heiðingjanna“, var, ásamt Pétri postula og Jakobi réttláta, ötulastur fyrstu kristniboðanna. Páll snerist til Kristni á veginum til Damaskus þegar hann varð fyrir opinberun og Jesús Kristur upprisinn talaði við hann. Páli eru eignuð fjórtán af bréfum nýja testamentisins sem gengu meðal manna í fyrstu kristnu söfnuðunum. Bréfin eru talin elstu rit nýja testamentisins. Áhrif hans á kristna trú voru gríðarleg, einkum í Rómaveldi þar sem hann var að lokum handtekinn og hálshöggvinn að talið er árið 64 eða 67. Abraham. Abraham (hebreska: אַבְרָהָם, "ʾAḇrāhām Ashkenazi Avrohom" eða "Avruhom"; arabíska: ابراهيم‎, "Ibrāhīm"; ge'ez: አብርሃም, "ʾAbrəham") er persóna sem kemur fyrir í fyrstu ritum hebresku biblíunnar og kóransins. Abrahamísk trúarbrögð; gyðingar, kristnir menn og múslimar, líta á hann sem ættföður Ísraelsmanna, Ísmaelíta og Edomíta. Franz Schubert. Franz Schubert eftir Wilhelm August Rieder. Olíumálverk frá 1875, gerð eftir vatnslitamynd frá 1825 eftir Rieder. Franz Peter Schubert (31. janúar 1797 – 19. nóvember 1828) var austurrískt tónskáld. Hann samdi um 600 söngljóð, níu sinfóníur, kirkjulega tónlist, óperur, kammerverk og einleiksverk fyrir píanó. Á okkar tímum er hann þekktastur fyrir sönglögin, svo sem Vetrarferðina ("Winterreise" á þýsku) og Die schöne Müllerin, ásamt sinfóníunum. Schubert bjó lengst af ævinnar í Vínarborg en hann stríddi við mikil veikindi síðustu æviár sín og lést langt fyrir aldur fram. Schubert, Franz Peter Bermúdasegl. Bermúdasegl er þríhyrnt stórsegl sem var upphaflega þróað á Bermúdaeyjum á 17. öld en er nú langalgengasta tegund stórsegls á seglskútum. Bermúdasegl er dregið upp eftir mastrinu upp í topp. Fremri-Langey. Fremri-Langey er eyja á Breiðafirði. Hún er í Dalasýslu og er hluti af eyjaklasanum sem gengur fram af Klofningi í boga í átt að Stykkishólmi. Eyjarnar heita í þessari röð: Langeyjarnes, Efri-Langey, Fremri-Langey, Arney, Skjaldarey og Bíldsey. Bíldsey og hálf Skjaldarey eru í Snæfellssýslu. Vestur af Skjaldarey eru Fagureyjar. Fyrir utan Langeyjar og Arney er opinn Breiðafjörður en fyrir innan heita vogar og er þar grynnra og mjög skerjótt og gætir ekki úthafsöldu. Iekeliene Stange. Iekeliene Stange (fædd 27. júlí 1984) er hollensk fyrirsæta. Karl Jónsson. Karl Jónsson (um 1135 – um 1213) var rithöfundur og ábóti í Þingeyraklaustri. Hann er höfundur Sverris sögu, sem fjallar um Sverri Sigurðarson Noregskonung. Æviferill. Ætt Karls Jónssonar er ókunn, en Steinn Dofri giskaði á að faðir hans hefði verið Jón Þorvarðsson svarti, af Ljósvetningaætt. Karl var ábóti í Þingeyraklaustri 1169 – 1181, en þá tók Kári Runólfsson við embættinu. Líklega hefur Karl verið munkur þar áður. Árið 1185 sigldi Karl til Noregs, og dvaldist þar við hirð Sverris konungs til 1188. Kári Runólfsson ábóti dó 1187. Er talið að Karl Jónsson hafi aftur orðið ábóti á Þingeyrum þegar hann kom til Íslands 1188, a.m.k. er hann ábóti þar um 1200. Árið 1207 er nýr ábóti vígður þangað, og hefur Karl látið af embættinu skömmu áður. Karl andaðist 1212 eða 1213 að vitnisburði annála. Á dögum Karls var Benediktsklaustrið á Þingeyrum mikil bókmenntamiðstöð, og voru þar auk Karls, rithöfundarnir Oddur Snorrason munkur og Gunnlaugur Leifsson munkur. Sumir hafa talið að Karl hafi farið til Noregs að ósk Sverris konungs, til að rita sögu hans. Aðrir hallast að því að Karl hafi farið að eigin frumkvæði, til þess að taka upp þráðinn eftir Hryggjarstykki Eiríks Oddssonar, sem var fyrsta konungasagan sem sótti efni til samtímans. Loks má nefna þá tilgátu, að Karl hafi verið sendur af íslenskum höfðingjum, til þess að leita stuðnings Sverris í deilum Íslendinga við Eystein Erlendsson erkibiskup. Í formála Sverris sögu kemur fram að Karl ritaði fyrri hluta bókarinnar að viðstöddum Sverri konungi, sem „réð fyrir hvað rita skyldi“. Þann hluta bókarinnar kölluðu þeir Grýlu. Skiptar skoðanir eru um hvar Grýla endar; Þorleifur Hauksson telur eðlilegast að miða við skilin sem eru eftir 100. kapítula sögunnar. Hann telur og að Karl hafi farið aftur til Noregs skömmu eftir 1200, og ritað þá síðari hluta sögunnar. Þá hefur hann stuðst við frásagnir heimildarmanna, en einnig kemur fram í formálanum að „sum þessi tíðindi voru svo í minni fest að menn rituðu þegar eftir er nýorðin voru“. Hefur Sverrir látið gera það til þess að safna efni til síðari hluta sögu sinnar. Um Karl Jónsson hefur verið sagt „að hann sé og hafi lengi verið vanmetinn snillingur í fornbókmenntasögunni“. Stóridómur. Aftaka með sverði - trérista úr þýskri bók frá 1552. Stóridómur var samþykkt um siðferðismál sem var samin að frumkvæði lögmannanna tveggja, Páls Vigfússonar og Eggerts Hannessonar, eftir hvatningu frá Páli Stígssyni hirðstjóra, og undirrituð á alþingi 30. júní árið 1564. 13. apríl 1565 var hann svo staðfestur af konungi og tók gildi sem lög. Tilgangurinn var að koma reglu á dóma í siðferðismálum sem kaþólska kirkjan hafði haft með höndum fram að siðaskiptum. Niðurstaðan var sú að refsingar í þessum málum urðu harðari en áður, einkum fyrir sifjaspell sem við var lögð dauðarefsing. Hórdómsbrot vörðuðu sektum en þriðja brotið lífláti (sem alltaf var breytt í útlegð) og frillulífi (barneignir utan hjónabands eða dulsmál) varðaði einnig háum sektum. Samkvæmt Stóradómi skyldu sýslumenn sjá um framkvæmd rannsókna og innheimtu sekta af hinum brotlegu. 25 karlar og 25 konur voru tekin af lífi vegna sifjaspellsbrota samkvæmt Stóradómi. Síðasta aftakan fyrir slíkt brot fór fram árið 1762. Á síðari hluta 18. aldar var almennt farið að milda refsingar fyrir þessi brot. Háar sektir við barneignum utan hjónabands komu til meðal annars vegna ótta við sveitarómaga og annað framfærslulaust fólk. Þau ákvæði voru numin úr lögum 1812 en önnur refsiákvæði skömmu síðar. Stóridómur var þó ekki numinn úr lögum í heild fyrr en með nýjum hegningarlögum í Danmörku árið 1870. Finnur Jónsson (málfræðingur). Finnur Jónsson (29. maí 1858 – 30. mars 1934) var íslenskur málfræðingur og bókmenntafræðingur, og prófessor í norrænni textafræði við Hafnarháskóla 1898–1928. Finnur var einhver afkastamesti vísindamaður sem starfað hefur á akri norrænna fræða, og var hann í áratugi talinn fremstur í sinni grein. Æviágrip. Finnur fæddist á Akureyri. Foreldrar hans voru Jón Borgfirðingur (1826–1912) fræðimaður, og kona hans Anna Guðrún Eiríksdóttir. Finnur varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1878, tók próf í málfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1883 og varð Dr. phil. þar 6. nóvember 1884 með ritgerðinni "Kritiske studier over en del af de ældste norske og islandske skjaldekvad". Kona Finns (gift 1885) var Emma Heraczek. Sonur þeirra var Jón kaupmaður í Óðinsvéum. Starfsferill. Finnur hóf háskólakennslu 1885, varð dósent við Hafnarháskóla 1887 og prófessor í norrænni textafræði 1898, skipaður 1911, fékk lausn frá störfum sökum aldurs 1928 en hélt áfram fræðistörfum til dauðadags. Eitt mesta stórvirkið var dróttkvæðaútgáfan mikla, "Den norsk-islandske skjaldedigtning" (1912–1915), og orðabókin yfir skáldamálið, Lexicon poeticum antiquae linguae septentrionalis (1913–1916). Einnig er fornbókmenntasaga hans grundvallarrit, vegna þess hversu ítarleg hún er: "Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie" 1–3 (1894–1902, endurskoðuð útgáfa 1920–1924). Auk hinna stærri verka skrifaði hann greinar í fræðileg tímarit, svo sem "Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie", "Arkiv for nordisk filologi" og "Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags". Sumrin 1907–1909 vann Finnur með Daniel Bruun höfuðsmanni við að grafa upp hof-rústir á nokkrum stöðum á Íslandi, einkum norðanlands. Árið 1921 varð Finnur heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Hann varð félagi í Vísindafélaginu danska 1898, Kungliga Vetenskaps- och vitterhetssamhället i Göteborg 1905, bréfafélagi í Kungliga Vitterhets-, Historie- och Antikvitetsakademien 1908 og var í ýmsum öðrum vísindafélögum. Var í stjórn fornritadeildar Fornfræðafélagsins frá 1891, formaður þar og ritari frá 1919, varaformaður félagsins frá 1924. Í stjórn Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur frá 1895, í stjórn Árnasafns frá 1905, formaður frá 1920, og m. fl. Þegar Finnur varð sjötugur, gáfu vinir hans og samstarfsmenn út afmælisrit honum til heiðurs: "Festskrift til Finnur Jónsson 29. maj 1928". Fyrri hluti þess er einnig til sérprentaður: "Sagastudier, af Festskrift til Finnur Jónsson". Finnur arfleiddi Háskóla Íslands að hinu mikla bókasafni sínu. Fræðileg viðhorf. Finnur Jónsson var fremur íhaldssamur og jarðbundinn í viðhorfum til þeirra fræða sem hann stundaði, og forðaðist málalengingar og heimspekilegar vangaveltur um hluti sem erfitt var að sanna. Hann lýsti andstöðu við hugmyndir Sophusar Bugge um fornensk (engilsaxnesk) og írsk áhrif á norræna fornmenningu. Hann viðurkenndi erlend áhrif, en taldi að þau hefðu komið úr suðri, frekar en vestan um haf. Hvað snertir uppruna Eddukvæða, taldi hann að þau væru forn og ættu flest rætur í Noregi, en mætti þar andstöðu frá Sophus Bugge og Birni M. Ólsen, sem töldu að þau væru ort á Íslandi. Elsta saga Ólafs helga. Elsta saga Ólafs helga er eins og nafnið bendir til elsta þekkta sagan um Ólaf helga Haraldsson Noregskonung. Fyrri fræðimenn töldu að hún væri meðal elstu konungasagna, e.t.v. rituð um 1160, en síðari rannsóknir benda til að sagan sé frá því um 1190. Skömmu fyrir miðja 19. öld fundust í Ríkisskjalasafni Norðmanna 16 sneplar úr fornu skinnhandriti Ólafs sögu helga, NRA 52. Sneplarnir fundust í bandi skjalabóka frá Sunnmæri 1639-1641, en líkur benda til að skjalabækurnar hafi verið bundnar inn í Björgvin. Þetta reyndust vera leifar af 6 blöðum úr handriti í fjórblöðungsbroti frá því um 1220–1230. Gustav Storm gaf brotin út árið 1893, ásamt ljósprentuðum myndum af þeim. Hann taldi að "Elsta sagan" væri samin á Íslandi á árabilinu 1155-1180, og að handritsbrotin séu skrifuð af Íslendingi. Í útgáfu Storms voru einnig tvö brot úr Árnasafni, AM 325 IVα 4to, sem Storm taldi vera úr "Elstu sögu". Þessi brot eru úr skinnhandriti frá því um 1225-1250, tvö samhangandi blöð, en vantar í á milli þeirra. Í útgáfu Storms eru þau kölluð „sjöunda og áttunda brot“. Þar segir m.a. frá jarteiknum Ólafs helga. Árið 1970 birti Jonna Louis-Jensen grein, þar sem hún dró í efa að „sjöunda og áttunda brot“ séu úr "Elstu sögu", heldur geti þar verið um að ræða annað rit um Ólaf helga, e.t.v. jarteiknabók, sem höfundur "Helgisögunnar" hefur notað. Nauðsynlegt sé að rannsaka málið nánar. Í grein Jonnu er ný útgáfa á texta þessara tveggja brota. "Helgisaga Ólafs Haraldssonar" er með köflum nánast uppskrift af "Elstu sögu" og er því oft notuð til að gefa hugmynd um hana. Eins og í öðrum konungasögum er í "Elstu sögu" vitnað í gömul dróttkvæði til skrauts og til að staðfesta frásögnina. Snarlest. Snarlest eða neðanjarðarlest er lestarkerfi sem notað er í borgum og á þéttbýlissvæðum. Snarlestir geta borið mikinn fjölda farþega og ferðatíðni er há. Elsta snarlestakerfi í heimi er Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar sem opnað var árið 1863 og er enn þann dag í dag eitt umfangsmesta neðanjarðarlestakerfi í heimi. Í borgum eins og Berlín, Tókýó og London eru snarlestakerfi það viðamikil að meirihluti borgara nota það sem aðalsamgöngumáta. Neðanjarðarlestakerfi Tókýóborgar er viðamesta snarlestakerfi í heimi og ferðast 7 milljón farþegar með því daglega. Í Evrópu eru Lundúnir og Madrid með stærstu kerfin og Moskva og París með hæsta farþegafjöldan. Í Bandaríkjunum er New York-borg með langflesta farþega en einnig ferðast margir með snarlestum í Chicago, Boston, Washington D.C. og Philadelphiu. Borgir í Bandaríkjunum eru almennt dreifbýlli heldur en borgir í Evrópu og í mörgum borgum er einkabíllinn aðal samgöngumátinn. Í slíkum borgum ná neðanjarðarlestakerfi því oft ekki að festa sig í sessi. Gott dæmi um slíkar borgir eru Los Angeles, Dallas og Houston. Scipione Cappella. Scipione Cappella (uppi á 18. öld) var ítalskur málari. Hann var lærlingur Francesco Solimena og hermdi eftir mörgum af málverkum lærimeistara síns. Cappella, Scipione Skippers d'Islande. "Skippers d'Islande" (franska: „Íslandsskipstjórarnir“) er eina alþjóðlega siglingakeppnin sem fram fer við Ísland. Hún hefur verið haldin á 3ja ára fresti frá árinu 2000. Í keppninni eru sigldir þrír leggir milli bæjarins Paimpol í Frakklandi og Reykjavíkur með viðkomu á einhverjum þriðja stað á Íslandi eða í Frakklandi. Keppnin er haldin til að minnast franskra skútusjómanna sem sóttu á Íslandsmið á 19. og 20. öld. "Skippers d'Islande" er opin öllum bátum en í keppninni árið 2009 er gert ráð fyrir tveimur flokkum: Class 40 og IRC-forgjöf. 2009. Í keppninni 2009 var ætlunin að sigla frá Paimpol í lok júní og þaðan vestur fyrir Bretlandseyjar til Reykjavíkur. Þaðan átti svo að sigla í suðaustur, milli Hjaltlandseyja og Skotlands og suður eftir austurströnd Bretlands til Gravelines í Frakklandshluta Flandurs og síðan þaðan aftur til Paimpol. Snemma árs 2009 var tilkynnt að keppninni væri frestað um eitt ár þar sem illa gengi að ná markmiðum um fjölda þátttakenda. 2006. Árið 2006 tóku nítján áhafnir þátt í keppninni, miklu fleiri en í fyrri keppnum. Siglt var frá Paimpol til Reykjavíkur, þaðan til Grundarfjarðar á Snæfellsnesi og síðan sömu leið aftur til Paimpol án viðkomu í Reykjavík. Vegna óveðurs á bakaleiðinni þurftu flestir keppendur að leita vars í Grindavík áður en haldið var yfir Atlantshafið. Úrslit voru kynnt í fjórum flokkum: Open 50, Open 40, IRC-forgjöf og flokki tvíbytna. 2003. Siglt var frá Paimpol til Reykjavíkur og þaðan til Akureyrar og síðan austur fyrir land aftur til Paimpol. 2000. Fyrsta árið sem keppnin var haldin voru aðeins sigldir tveir leggir, frá Paimpol til Reykjavíkur og aftur til baka sömu leið. Íslenska áhöfnin BESTA tók þátt og var fyrst í mark báða leggina. Áhöfnin leigði 62 feta skútu í Frakklandi er bar nafn styrktaraðilans BESTA í keppninni. Ritað risastórum stöfum í stórsegl og belgsegl skútunnar. Paimpol. Paimpol (bretónska: "Pempoull") er lítill bær og sveitarfélag í umdæminu Côtes-d'Armor í Bretagne í Frakklandi. Samkvæmt manntali árið 1999 voru íbúar Paimpol 7.932. Bærinn er vinsæll ferðamannastaður á sumrin. Vinabæir. Vinabæir Paimpol eru Grundarfjörður á Íslandi og Romsey á Englandi. Gravelines. Gravelines er lítill bær og sveitarfélag á norðurströnd Frakklands við ósa árinnar Aa, 25km suðvestan við Dunkerque, í franska hluta gamla héraðsins Flandurs í umdæminu Nord. Íbúar bæjarins eru rúm tólf þúsund. Svínanes. Svínanes er nes við norðurströnd Breiðafjarðar, milli fjarðanna Skálmarfjarðar, sem er vestan megin við nesið, og Kvígindisfjarðar, sem er austan við. Um aldir var búið á nesinu, en þar hefur búseta lagst af, líkt og víðar á þessum slóðum. Yst á nesinu var áður samnefndur bær, en hann fór í eyði árið 1959. Vestan megin á nesinu var einnig búið á bænum Selskerjum, en hann fór í eyði 1954. Um tíma var einnig búið á Svínanesseli, sem var áður sel frá Svínesi. Bæirnir tilheyrðu áður Skálmarnesmúlahreppi (eða Múlahreppi), en nesið er nú hluti af sveitafélaginu Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Landshættir. Nesið er bratt og undirlendi lítið. Helst er undirlendi að finna yst á nesinu, og við bæjarstæði Selskerja. Svínanesfjall heitir fjallið sem liggur eftir endilöngu nesinu. Yst á nesinu er ágæt lending, þar sem nefnist Kumbaravogur. Þar skammt frá, á svo nefndri Fit, munu Þýskir Hansakaupmenn hafa stundað viðskipti á 16. öld. Vegaslóði var ruddur meðfram hluta af nesinu vestanverðu, allt að Selskersseli, en hann er nú með öllu ófær. Um tíu tíma tekur að ganga fyrir nesið og inn í Skálmardal. Sú gönguleið hefur verið vinsæl á síðari tímum, en getur verið erfið öðrum en vönu göngufólki. Símasamband er yst á nesinu, við bæjarstæði Svínaness. Svínanes. Sagan segir að Guðmundur Heljarskinn, landnámsmaður á þessum slóðum, hafi haft svín þar sem nú er Svínanes, og af þeim dragi nesið nafn sitt. Munnmæli herma að svín Guðmundar hafi verið höfð nærri svo nefndum Kumbaravogi. Hvenær búseta hófst á Svínanesi er ómögulegt um að segja, en líklegt þykir að það hafi gerst snemma. Sama ættin byggði jörðina frá 1603, þegar Teitur Halldórsson keypti jörðina í skiptum fyrir nálæga jörð, Kirkjuból, sex málnytakúgildi og 30 hundruð í öðrum gjaldeyri. Síðasti ábúandi jarðarinnar var Aðalsteinn Helgason og kona hans Guðrún Þórðardóttir, fædd á Firði á Skálmarnesi. Þau brugðu búi árið 1959. Séra Árelíus Níelsson prestur, ólst upp um tíma á Svínanesi. Á vestur strönd Svínaneshlíðar var bærinn Selsker. Hann fór í eyði 1954, eftir að húsmóðirin og önnur heimasætan á bænum fórust þegar bátur fórst á Breiðafirði. Á austur strönd Svínaneshlíðar má finna rústir kotsins Svínanessels. Var þar upprunalega haft í seli frá Svínanesi, en um aldamótin 1900 og fram á fjórða áratug 20. aldar bjó þar um tíma Kristinn Sigfússon, gjarnan nefndur Kitti í Seli. Aðstæður þóttu mjög erfiðar og mun Kitti helst hafa lifað á góðvild sveitunga sinna. Halldór Laxness heimsótti Kitta, og telja margir að Kitti hafi, ásamt fleirum, verið fyrirmynd Bjarts í Sumarhúsum. Royal Yachting Association. Félagið var stofnað árið 1875 og hét þá "Yacht Racing Association". Meginhlutverk félagsins var að búa til viðmið fyrir forgjöf svo ólíkir bátar gætu keppt sín á milli. Niðurstaðan úr því var hin svokallaða Portsmouthtala (PY) sem nú er aðallega notuð sem forgjöf í kænukeppnum. Félagið hóf vinnu við að setja upp þjálfunarkerfi fyrir siglingar árið 1967 niðurstaðan úr því voru Yachtmasterprófin, en þau eru lögð fyrir af aðilum sem félagið vottar. Félagið hefur líka gefið út námsefni í siglingum. Þrjú kennsluhefti frá RYA hafa verið gefin út af Siglingasambandi Íslands 2006 og 2008; "Byrjaðu að sigla", "Sigldu betur" og "Siglingabókin mín". Búlandstindur. Búlandstindur er 1069 metra hátt basaltfjall í Djúpavogshreppi og er talinn vera um 8 milljón ára gamall. Búlandstindur þykir almennt vera í hópi formfegurstu fjall á Íslandi og sumir trúa því að Búlandstindur sé orkustöð. Í um 700 m hæð austur af Búlandstindi gengur fjallsrani, Goðaborg, og er sagt að þangað upp hafi menn burðast með goð sín strax eftir kristnitökuna til þess að steypa þeim fram af fjallsgnípunni. Aðrar heimildir segja svo: Goðaborg heitir hamrastallur hátt uppi í Búlandstindi. Stallur þessi er norðaustan í fjallinu, fyrir ofan það mitt, og er sagður breiður og sléttur ofan. Bratt og harðsótt er upp þangað. Sumir segja vatn þar uppi nálægt, er þvegin hafi verið í innyfli þeirra dýra, sem þar var fórnað goðunum til árs og friðar. Gönguleiðin. Fjöldi fólks leggur leið sína á tindinn á hverju ári og reikna má með að þeir yrðu enn fleiri ef leiðin yrði merkt. Best er að fara eftir vegarslóða sem liggur meðfram Búlandsá sunnanverðri og alveg inn að stíflu sem er innarlega á dalnum. Þaðan er gengið beint upp grasi grónar brekkur og skriður innan við Stóruskriðugil í stefnu á skarð fyrir innan Búlandstind. Þar á eftir rekur leiðin sig sjálf þar til efsta tindi er náð. Hátindurinn er mjór og brattur klettarimi og þar er útsýni feyki gott. Mjög mikilvægt er að gæta þess að ganga ekki of langt til austurs ef eitthvað er að skyggni eða ef hált er, því að austurhlíð fjallsins er þverhnípt og hömrótt. Gott GSM samband er á tindinum. Meðalgildissetningin. Mynd:Mvt2 is.svg|250 px|thumb|right|Fyrir sérhvert fall, sem samfellt er á bilinu ["a", "b"] og diffranlegt á bilinu ("a", "b") er til minnst eitt gildi, "c" (eða "t") á bilinu ("a", "b") þannig að sniðillinn sem tengir saman endapunkta bilsins a> við "f(x)" í x = c = t. Meðalgildissetningin er mikilvæg setning í örsmæðareikningi sem segir í stuttu máli að snertill þjáls ferils á gefnu bili er í einhverjum punkti samsíða sniðli fallsins. Lagrange setti regluna fram á 18. öld, en Cauchy setti hana stuttu síðar fram í almennara formi. Hægt er að túlka regluna á eftirfarandi hátt: Ef bíl er ekið 100 kílómetra vegalengd á klukkustund þá hefur bílinn farið yfir á 100km/klst að meðaltali. Samkvæmt því ætti hann á einhverjum tímapunkti að hafa ekið á nákvæmlega hraðanum 100km/klst. Þ.e. ef hann hefur ekki haldið nákvæmlega hraðanum 100km/klst alla leið hlýtur hann að hafa keyrt hægar en 100km/klst stundum og stundum hraðar. Almennt séð segir setningin að þegar maður hefur fall "f": ["a", "b"] → R sem er samfellt á lokaða bilinu ["a", "b"] og deildanlegt á opna bilinu ("a", "b"), þá er til eitthvert "c" á milli "a" og "b" þ.a. Hérna táknar formula_2 afleiðu fallsins "f" í punktinum "c" og formula_3 táknar meðal breytingu á fallinu yfir bilið ["a", "b"] eins og beina línan sýnir á sýnimyndinni til hægri. Til eru mismunandi útgáfur af þessari setningu og eru þær listaðar hér fyrir neðan. Meðalgildisregla Cauchy. formula_4 Sönnun. Meðalgildisregla Cauchy's er einnig stundum kölluð útvíkkaða meðalgildissetning. Andrés Magnússon. Andrés Magnússon (fæddur 1965) er íslenskur blaðamaður, sem skrifar um stjórnmál og fleira í "Viðskiptablaðið". Andrés er búsettur á Englandi, ásamt konu sinni Auðnu Hödd Jónatansdóttur (fædd 1973) og fimm börnum. Andrés hóf fjölmiðlaferil sinn sem blaðamaður á "Morgunblaðinu". Hann hefur starfað á ýmsum fjölmiðlum öðrum, meðal annars á DV, Pressunni, "Eintaki" og "Blaðinu" (síðar "24 stundum"). Hann hefur mikið fengist við skoðanaskrif og heldur fram hægrisinnuðum viðhorfum. Sem slíkur hefur hann verið reglulegur álitsgjafi í umræðuþáttum á borð við Silfur Egils. Hann var flokksbundinn sjálfstæðismaður um árabil og var virkur í hreyfingu ungra sjálfstæðismanna fyrr á árum. Hann er bróðir Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Andrés sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum 2. febrúar 2011 þegar forysta flokksins afréð að styðja frumvarp um Icesave-samninga á Alþingi. Auk skrifa um stjórnmál og viðskipti hefur Andrés fjallað talsvert um netið, tölvur og tækni. Hann hefur einnig fengist við upplýsingagrafík og hönnun samhliða blaðamennsku og vann um skeið á auglýsingastofu við hönnun og almannatengsl. Dajjal. ad-Dajjal stundum skrifað Dajal er illmenni sem kemur fyrir í íslamskri heimsslitafræði. Samkvæmt spádómum í íslamstrú mun Dajjal birtast áður en dómsdagur rennur upp. Dajjal er sambærilegur andkristi í Kristni og samkvæmt spádómum Múhammeðs mun hann birtast einhverstaðar á milli Sýrlands og Íraks. Hann mun síðan ferðast um heiminn og safna fylgismönnum og á sama tíma mun Isa (arabíska fyrir Jesús) snúa aftur og safna fylgismönnum. Samkvæmt spádómunum mun Isa síðan sigra Dajjal við Palestínu. Kjartan Magnússon. Kjartan Magnússon (fæddur 5. desember 1967) er íslenskur stjórnmálamaður, borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Hann hefur setið í Borgarstjórn Reykjavíkur sem vara- og aðalmaður frá 1994. Kjartan situr í Íþrótta- og tómstundaráði og Menntaráði á vettvangi Reykjavíkurborgar og fyrir hennar hönd í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og í Hafnarstjórn, stjórn Faxaflóahafna sf. Hann er 1. varamaður sjálfstæðismanna í Borgarráði. Kjartan er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og las sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1991-1999 og sinnti lengst af viðskiptafréttum. Hann er annar stofnenda sprotafyrirtækisins Intelscan örbylgjutækni. Kjartan er kvæntur og á þrjú börn. Kjartan hóf stjórnmálaferil sinn í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann var kjörinn formaður félagsins 1991 og 1992. Hann tók sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 1994 og náði kjöri sem varaborgarfulltrúi. Í kosningunum 1998 var hann enn kjörinn varaborgarfulltrúi, en eftir að Árni Sigfússon hvarf úr borgarstjórn árið 1999 varð Kjartan aðalfulltrúi. Hann hefur þokast upp listann í prófkjörum síðan, en í prófkjörinu í janúar 2010 (fyrir sveitarstjórnarkosningar þá um vorið) hlaut hann 3. sæti. Eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta í kjölfar borgarstjórnarkosninga 2006 var Kjartan kjörinn í borgarráð og til formennsku í Menningar- og ferðamálaráði, auk ýmissa trúnaðarstarfa annarra. Haustið 2007 slitnaði hins vegar upp úr samstarfinu vegna ágreinings um REI-málið. Kjartan var í hópi þeirra sex borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem ekki vildi fylgja Vihjálmi Þ. Vilhjálmssyni að málum varðandi samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy, þrátt fyrir vináttu og stuðning við Vilhjálm í prófkjörinu 2005. Kjartan var lykilmaður í myndun meirihluta sjálfstæðismanna og frjálslyndra í borgarstjórn, en hann hafði haldið vináttu og trúnað við Ólaf F. Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þegar hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn og bauð sig fram á lista frjálslyndra og óháðra. Lagði Kjartan grunninn að samstarfi flokkanna og leiddi þá Ólaf og Vilhjálm saman til viðræðna, en andað hafði köldu á milli þeirra eftir að upp úr samstarsviðræðum þeirra slitnaði sumarið 2006 og Vilhjálmur samdi við framsóknarmenn um samstarf. Í hinu nýja samstarfi sjálfstæðismanna og frjálslyndra, sem hófst hinn 24. janúar 2008, var Kjartan kjörinn í borgarráð og í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þar sem hann var stjórnarformaður og jafnframt stjórnarformaður REI. Eftir að upp úr því samstarfi slitnaði og sjálfstæðismenn mynduðu meirihluta með framsóknarmanninum Óskari Bergssyni hinn 21. ágúst 2008 vék Kjartan úr stjórnarformannssæti OR fyrir Guðlaugi G. Sverrissyni, fulltrúa framsóknarmanna, og var varaformaður stjórnar uns nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við í kjölfar sveitarstjórnakosninganna 2010. Laufabrauð. Barn að skera út laufabrauð. Laufabrauð er næfurþunn og stökk hveitikaka sem er mikilvægur hluti íslenskra jóla og þorrans. Laufabrauðið tengist jólum alveg sérstaklega, en í upphafi aðventu safnast margar íslenskar fjölskyldur, ættingjar og vinir saman til að skera og steikja laufabrauð. Laufabrauðið er venjulega skorið með litlum skurðarhnífum oftast vasahnífum en einnig eru til laufabrauðsjárn þar sem mynstrið er skorið í kökurnar með því að renna yfir þær þar til gerðu hjóli. Saga laufabrauðsins. Ekki er vitað hvenær farið var að gera laufabrauð. Minnst er á það í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá fyrri hluta 18. aldar. Þar segir að laufabrauð sé sælgæti Íslendinga. Það telst því meðal þjóðlegustu rétta. Mynd af laufabrauði er á frímerki sem Pósturinn gaf úr fyrir jólin 2007. Merkið er sérstætt að því leyti að það er kringlótt. Í stuttu máli. Deig laufabrauðsins er flatt út og hringskorið eftir diski og látið liggja undir rökum dúk á skurðarbretti þar til tekið er til við skurðinn. Í laufabrauðið er skorið allavega mynstur, en aðallega hið „fléttaða“ laufamynstur sem laufabrauðið er kennt við. Að skurði loknum er deigið smurt með smjöri og síðan steikt í fitu. Laufabrauðið er sérlega þunnt, en margir telja að það sé vegna þess að kornskortur hrjáði Íslendinga hér áður fyrr (sérstaklega á einokunartímanum á 17. og 18. öldinni). Uppskrift. Til eru margar uppskriftir að laufabrauði, en eiga þær það allar sameiginlegt að innihalda mikið af hveiti. Stundum er blandað í það rúgméli eða heilhveiti eins og í eftirfarandi uppskrift. Fyrst er mjólkin hituð ásamt smjörlíki og kúmeni. Síðan er ofangreindu hellt yfir mjölið og öllu hnoðað saman. Deigið er síðan flatt út uns það er mjög þunnt, en þá er það skorið, pikkað eða skreytt. Laufabrauðið er síðan steikt í heitri feiti. Pylsa. Pylsa (og með danskættaðri framburðarmynd pulsa) er langur og mjór himnubelgur sem er fylltur af elduðu, söltuðu og/eða reyktu kjötfarsi. Pylsan er oft reidd fram í aflöngu brauði (‚pylsubrauði‘) sem er af svipaðri lengd og pylsan sjálf. Oft er bragðmeti haft með pylsunni, t.d. steiktur laukur, hrár laukur, sinnep, remúlaði, tómatsósa o.s.frv.. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Hún hring minn ber. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Hún hring minn ber er 45 snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1969. Á henni flytur Vilhjálmur Vilhjálmsson tvö lög. Varmajafnvægi. Varmajafnvægi verður þegar tveir misheitir hlutir snertast og sá heitari kólnar en sá kaldari hitnar þar til þeir eru orðnir jafnheitir. Þá flyst varmaorka frá þeim heitari til þess kaldari. Grameðla. Grameðlur (fræðiheiti: "Tyrannosaurus") er ættkvísl risaeðlna. Grameðlan ("Tyrannosaurus rex") er ein stærsta kjötæturisaeðlan. Hún getur orðið 14 metra löng og 8 tonn á fæti. Hausinn á henni er mældur 1,5 metra langur og hann var nógu stór til að gleypa tíu ára barn í heilu lagi. Grameðlan var með ægilegar bognar klær sem hver var á lengd við mannshönd. Alls var hún með 58 af þessum oddhvössu vopnum. Lítið er vitað hvort grameðla var rándýr eða hrææta. Ef til vill gerði hún árás og drap en kannski át hún dauðar eða hálfdauðar risaeðlur. Ef til vill gerði hún hvort tveggja. Mortar. Mortar er ræðukeppni Menntaskólans við Hamrahlíð og snýr að keppni í mælsku innanskóla. Hún fer fram með mjög svipuðum hætti og Morfís, sem er ræðukeppni milli framhaldsskóla á Íslandi. Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi. Í hverri Mortar viðureign takast á tvö keppnislið skipuð fjórum nemendum frá hvorum pól (með og á móti). Þeir kallast liðsstjóri, frummælandi, meðmælandi og stuðningsmaður. Val á sigurvegara byggist á rökum liðanna, flutningi, svörum við rökfærslu andstæðinganna og hughrifum dómara. Dómgæsla. Í venjulegri Mortarkeppni eru þrír dómarar með dómararéttindi frá stjórn MORFÍs. Málfundafélag NFMH getur hinsvegar leyft réttindalausum aðilum að vera dómarar, gegn samþykki beggja liða. Í hverri keppni er einn oddadómari. Hann gefur ræðumönnum refsistig á sínu dómblaði og tilkynnir úrslit í lok keppni. Í flestum tilvikum skipar Málfundafélag skólans dómarana en í undantekningartilvikum semja liðin um þá sín á milli. Eftir að allir ræðumenn hafa lokið máli sínu, dómarar gefið einkunn fyrir alla liði hjá báðum ræðum allra ræðumanna og fundarstjóri sagt til um að eiginlegri keppni sé lokið, fara dómarar afsíðis og reikna úr stigum sínum í svokölluðu dómarahléi. Þar eru öll stig allra dómara lögð saman, refsistig dregin frá, og viðeigandi tölfræði reiknuð út. Bent er á sérstakt Excel skjal á www.morfis.is þar sem tíðkast hefur að setja allan reikning inn í það. Að því loknu afhendir fundarstjóri oddadómara fundarstjórn og hann tilkynnir úrslitin í því sem nefnt er, með réttu, oddadómararæða. Nauðsynlegar upplýsingar, samkvæmt lögum Morfís, í þessari ræðu eru heildarmunur liða, sigurlið og ræðumaður kvöldsins (stigahæsti ræðumaður kvöldsins) eða Ræðumaður Menntaskólans við Hamrahlíð ef um er að ræða úrslitakeppni Mortar. Þó hefur skapast hefð fyrir því að oddadómarar ræði daginn og veginn, gefi upp ógrynni af áhugaverðri eða óáhugaverðri tölfræði, gefi mat sitt á liðum og keppninni í heildinni, komi með athugasemdir og haldi áhorfendum og keppendum í heljargreipum spennu. Mjög misjafnt er, bæði hvað varðar lengd og eðli, hvernig oddadómarar flytja þessa oddadómararæðu og stundum mætti segja að henni svipi til uppistands. Dómblað. Hver um sig gefa dómararnir öllum ræðumönnum (frummælanda, meðmælanda og stuðningsmanni) einkunn frá 1-10 fyrir hvora ræðu í fjórum liðum. Ræða. Í þessum lið er uppsetning og gæði ræðu metin. Þar spila rök, málfar, áhrifamáttur orða, skemmtanagildi og flæði stærst hlutverk. Mortarræður þykja í flestum tilvikum langt frá því að hafa sömu gæði og Morfíssræður í mörgum tilvikum eru þær samdar mjög stuttu fyrir keppni, eða jafnvel hluti þeirra á staðnum, og snúast að mestu leyti um grín og glens. Mortarræður þykja þó oft hafa einkennandi stílbragð, svipað og Morfísræður, oft eru myndlíkingar eða sögur hafnar í byrjun ræðu og þeim lokið í lok ræðu með meginmáli á milli. Hefð er fyrir því að inngangur og meginmál sé fyrir svarakafla og að honum loknum komi lokaorð með upphafsorðunum "góðir gestir". Ætlast er til þess að ræðumenn byrji fyrri ræðu sína á "Fundarstjóri, dómarar, andmælendur og góðir gestir" en þá seinni aðeins á "Fundarstjóri" en þó gilda ekki strangar reglur um það líkt og í Morfís og satt að segja er þessum byrjunarorðum sleppt í flestum tilvikum. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 4 við útreikning stiga í dómarahléi. Málflutningur. Í þessum lið er öryggi og flutningur ræðumannsins metin. Hvort hann horfir til fólksins eða niður á blaðið, hvernig handahreyfingar koma út, hversu skýrmæltur, sannfærandi, öruggur og áhrifaríkur flutningurinn og ræðumaðurinn er. Oft er hægt að sjá áhrif frá uppistandi, stjórnmálum, rappi, útvarpslestri, kennslu, Morfísræðum og fleiru í flutningi Mortarræðumanna. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 3 við útreikning stiga í dómarahléi. Svör. Eitt af verkefnum ræðumanns er að svara rökum ræðumanna andstæðinganna, oftast í sérstökum svarakafla. Þetta þykir oft eitt vandasamasta verk ræðumanna og segir að margra mati mikið um eðli ræðumannsins. Svör eru oftast skrifuð á staðnum þó stundum séu nokkur tilbúin svör til staðar, ólíkt í Morfís þar sem tilbúnu svörin geta farið yfir hundrað. Í þessum lið skipta gæði svara, rök, hnitmiðun, málfar, skemmtanagildi, öryggi flutnings, viðbrögð við ófyrirsjáanlegum rökum og þýðing þeirra fyrir rökræðuna í held mestu máli. Fyrri ræða frummælanda, framsöguræða keppninnar, inniheldur engin svör. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 4 við útreikning stiga í dómarahléi. Geðþóttastuðull dómara. Þessi liður er að mestu leyti frjáls dómaranum. Einstök atriði eða persónulegar tilfinningar í garð ræðumannsins geta ráðið öllu fyrir þennan lið og margir dómarar veigra sér ekki við að setja „1“ eða „10“ í þennan lið við lítil tilefni. Hann er ætlaður sem einkunn á almennri tilfinningu dómarans fyrir ræðumanninum. Hvernig ræða, flutningur og svör var dómaranum að skapi og hversu góður honum þótti ræðumaðurinn á heildina litið. Þessi liður er stundum kallaður "Hughrif" og það nafn var notað á tillögu að nýju dómblaði. Deilt hefur verið um hvort gefa megi 0 í þessum lið, þar sem lög Morfís og leiðbeiningar stangast á. Einkunn í þessum lið er ekki margfölduð við útreikning stiga í dómarahléi og gildir því minnst. Refsistig. Refsistig eru gefin ræðumönnum sem fara út fyrir tímamörk ræðu sinnar. Ræðutími er einni mínútu styttri en í Morfís. Í framsöguræðu (fyrri ræðu frummælanda) eru þau tímamörk 3-4 mínútur en í öðrum ræðum keppninnar eru þau 2-3 mínútur. 1 refsistig er gefið fyrir hverja sekúndu sem hver ræðumaður fer yfir eða undir þessi tímamörk í ræðu sinni. Venjulega eru heildarstig í Mortar keppni frekar fá (3 dómarar * sex ræður * 4 liðir * einkunn á bilinu 1-10) en munur milli liða er allt frá örfáum stigum til nokkurra hundraða svo misjafnt er hvort refsistig breyta úrslitum keppna. Hefðin er að hafa aðeins einn tímavörð við Mortar keppni þar sem tveir þykja óþarfi sem starfar við að taka tíma ræðumanna og tilkynnir fundarstjóra tíma hvers ræðumanns eftir að dómarar hafa lokið við að dæma hann. Þess má þó geta að nýlega hefur venjan verið slík að fundarstjóri gegni hlutverki tímavarðar og hefur oftast (í gríni) verið nefndur 'tímavarðarfundarstjóri'. Oddadómari gefur, einn dómara, þessi refsistig á sínu dómblaði og tilkynnir oft um fjölda refsistiga keppninnar í oddadómararæðu sinni. Meðalstig framsöguræðu. Frummælandi svarar ekki í fyrru ræðu sinni (framsöguræðu) og fær því ekki stig fyrir svör í þeirri ræðu. Til að vega upp á móti þessu var settur inn liður á dómblaðið sem deilir heildarstigum framsöguræðu í 2 (námundað upp ef hálf tala kemur upp) og bætir þeim við heildarstig ræðumannsins. Þessum stigum skal þó ekki bæta við heildarstig keppninnar en það mundi, ólíkt trú margra, geta haft áhrif á úrslit keppninnar. Ef framsöguræða annars liðs er hærra dæmd en hins liðsins eykst sá munur við að bæta meðalstigum framsöguræðu við. Hærra dæmd ræða fær hærri meðalstig. Þannig eykur þetta vægi frummælandans í keppninni og ef samanburður frummælanda var ekki í samræmi við samanburð liðanna getur það breytt úrslitum keppni. Síðan er álitamál hvort þessi áhrif eigi rétt á sér. The Canterville ghost. The Canterville ghost er skáldsaga eftir Oscar Wilde sem kom fyrst út árið 1887. Langabúð. Langabúð er friðað hús og elsta húsið á Djúpavogi ásamt Verslunarstjórahúsinu og eru hvortveggja reist árið 1790. Bæði húsin standa á grunnum eldri húsa og eru staðsett þar sem verslunarstaður hefur verið frá árinu 1589, en þá hófu þýskir kaupmenn verslunarrekstur á Djúpavogi. Fyrir tveimur áratugum leit út fyrir að dagar Löngubúðar væru taldir. Af breyttum atvinnuþáttum leiddi nauðsyn á nútímalegra atvinnuhúsnæði. Þá risu upp einstaklingar sem vildu að Langabúð yrði varðveitt. Nú hefur hún verið endurbætt og henni fengið nýtt hlutverk sem hæfir sögu hennar og mikilvægi fyrir staðinn. Langabúð er orðin ómissandi þáttur í menningarlífi Djúpavogs. Í norðurenda hússins er sýning um líf og starf Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera. Um miðbik hússins er minningarstofa um Eystein Jónsson stjórnmálamann frá Djúpavogi og konu hans; Sólveigu Eyjólfsdóttur. Kvennasmiðjan á Djúpavogi sér um rekstur Löngubúðar auk kaffistofu í suðurenda hússins. Á Löngubúðarloftinu hefur nú verið komið fyrir minjasafni. Robert Brandom. Robert Brandom (fæddur 1950) er bandarískur heimspekingur og prófessor við Pittsburgh-háskóla. Hann fæst einkum við málspeki, hugspeki og rökfræði og verk hans bera vott um sögulegan áhuga á þessum helstu viðfangsefnum hans. Brandom lauk B.A.-gráðu frá Yale-háskóla og doktorsgráðu frá Princeton-háskóla undir leiðsögn Richards Rorty og Davids Kelloggs Lewis. Hann er kvæntur Barböru Brandom, prófessor í læknaskóla Pittsburgh-háskóla. Heimspeki Brandoms er undir miklum áhrifum frá Wilfrid Sellars, Richard Rorty, Michael Dummett og samkennara Brandoms við Pittsburgh-háskóla John McDowell en einnig G.W.F. Hegel, Gottlob Frege og Ludwig Wittgenstein. Brandom er þekktur málsvari wittgensteinískrar málspeki, einkum þeirrar kenningar að merking orðs sé notkun þess. Brandom fjallar um þetta viðfangsefni í riti sínu frá 1994 "Making It Explicit" og "Articulating Reasons: An Introduction to Inferentialism" frá 2000. Brandom hefur einnig gefið út safn ritgerða um sögu heimspekinnar, "Tales of the Mighty Dead" (2002). Tenglar. Brandom, Robert Brandom, Robert Brandom, Robert Ernest Lepore. Ernest LePore (fæddur í New Jersey) er bandarískur heimspekingur og vitsmunavísindamaður. Hann er prófessor við Rutgers-háskóla. Hann er kunnur af verkum sínum í málspeki og hugspeki (oft í samstarfi við Jerry Fodor, Herman Capplen og Kirk Ludwig) og fyrir framlag sitt til rökfræðinnar og skrif sín um heimspeki Donalds Davidson. Helstu rit. Lepore, Ernest Lepore, Ernest Lepore, Ernest Keith Donnellan. Keith Donnellan (fæddur 1931) er bandarískur heimspekingur og prófessor "emeritus" við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Hann er einkum kunnur fyrir mikilvægt framlag sitt til málspekinnar, einkum greiningar á eiginnöfnum ábendingarorðum og ákveðnum lýsingum. Donnellan, Keith Donnellan, Keith Donnellan, Keith Does It Offend You, Yeah? Does It Offend You, Yeah? er bresk raftónlist-rokkhljómsveit frá Reading, Englandi. Sveitina skipa þeir Morgan Quaintance (söngur, hljóðgervill, gítar), James Rushent (bassi, söngur), Dan Coop (hljóðgervill) and Rob Bloomfield (trommur). Hljóð þeirra er líkt Daft Punk, Justice og Digitalism. Í blaðinu "NME" var þeim borið saman við hljómsveitir svo sem Muse og !!!. Olíutunna. Olíutunna er mælieining sem er oftast notuð þegar talað er um heimsmarkaðsverð á hráolíu og er jafngildi 159 lítra. Orðið olíufat er stundum haft um hið sama, en var á árum áður einnig haft um föt sem voru vatnsheld. FK Kuban Krasnodar. FK Kuban Krasnodar (rússneska: "Футбольный клуб "Кубань" Краснодар", umritun: Futbol'nyj Klub Kuban' Krasnodar) er rússneskt knattspyrnulið staðsett í Krasnodar, Rússland. Félagið var stofnað 1928. Félagið spilar á Kuban-völlur í Krasnodar. Tenglar. Kuban Hinrik 5. Englandskonungur. Hinrik 5. (enska: "Henry V") (16. september 1387 – 31. ágúst 1422) var konungur Englands frá 1413 til 1422. Á ríkisstjórnarárum hans nutu Englendingar einna mestrar velgengni í Hundrað ára stríðinu. Uppvöxtur. Hinrik var sonur Hinriks 4. eða Henry Bolingbroke og Mary de Bohun, fyrri konu hans, en hún lést þegar Hinrik var sjö ára. Þegar Hinrik fæddist var hann þó ekki ríkiserfingi og ekkert útlit fyrir að svo yrði þar sem Ríkharður 2. frændi hans, sem þá var konungur, var ungur að árum og líklegur til að eignast erfingja og auk þess stóðu aðrir framar í erfðaröðinni. En árið 1399 stýrði Bolingbroke uppreisn gegn Ríkharði 2. og var honum steypt af stóli en Bolingbroke krýndur konungur í hans stað. Varð Hinrik yngri þá prinsinn af Wales, eða erfingi krúnunnar. Faðir hans hafði hug á að láta hann giftast Ísabellu, hinni barnungu ekkju Ríkharðs konungs, en ekkert varð þó af því og Ísabella sneri heim til Frakklands en tuttugu árum síðar giftist Hinrik yngstu systur hennar. Konungur Englands. Hinrik varð hershöfðingi í stjórnartíð föður síns, aðeins sextán ára að aldri, þótti standa sig mjög vel og átti meðal annars þátt í að berja niður uppreisn í Wales og uppreisn Harry Hotspur Percy 1403. Þar særðist hann illa af örvarskoti og hafði því áberandi ör í andliti. Hann tók líka virkan þátt í stjórn ríkisins um tíma, enda var konungur oft illa haldinn af veikindum sem hrjáðu hann, en hætti því árið 1411, eftir ágreining við föður sinn. Hinrik 4. lést svo árið 1413 og var Hinrik krýndur sem Hinrik 5. 9. apríl 1413. Hinrik 5. er einna frægastur fyrir sigra sína í Hundrað ára stríðinu. Þegar hann varð konungur hafði verið friður á milli Frakka og Englendinga síðan 1389 en Hinrik lýsti yfir stríði og gerði tilkall til stórra svæða í Frakklandi. Árið 1415 sigldi hann með her yfir Ermarsundið og réðst inn í Frakkland. Sama ár vann hann sigur á Frökkum í bardaganum við Agincourt. Sigurinn var einn sá frækilegasti af hálfu Englendinga í stríðinu, þar sem franski herinn var margfalt stærri og ensku hermennirnir þar að auki þreyttir eftir margra daga göngu. Árið 1417 var Hinrik 5. aftur í Frakklandi og lagði þá undir sig Rouen og fleiri borgir. Árið 1420 undirrituðu hann og Karl 6. Frakklandskonungur svo Troyes-sáttmálann sem kvað á um að Hinrik skyldi erfa krúnu Frakklands en ekki sonur Karls. Einnig var samið um að Hinrik skyldi giftast yngstu dóttur Karls, Katrínu af Valois. Brúðkaup þeirra var haldið 2. júní 1420. Þau héldu svo til Englands, þar sem Katrín var krýnd drottning. Sumarið 1421 hélt Hinrik í sína síðustu herferð til Frakklands. Katrín var þá barnshafandi og fæddi son 6. desember sama ár, sem látinn var heita Hinrik. Hinrik náði góðum árangri í herför sinni í Frakkland en 31. ágúst 1422 lést hann skyndilega í Château de Vincennes nálægt París, líklega úr blóðkreppusótt. Ef hann hefði lifað tveimur mánuðum lengur hefði hann líklega verið krýndur konungur Frakklands því Karl 6. tengdafaðir hans lést 21. október. Hinrik sonur hans erfði ríkið sem Hinrik 6., aðeins átta mánaða gamall. Errol Flynn. Errol Leslie Thomson Flynn (20. júní 1909 – 14. október 1959) var bandarískur leikari. Flynn, Errol Transact-SQL. Transact-SQL (T-SQL) er einkaviðbygging Microsoft og Sybase við SQL-málið. Útfærslan sem Microsoft gaf út er til afnota í Microsoft SQL Server. Sybase notar málið í Adaptive Server Enterprise, sem áður hét Sybase SQL Server. Inningarleið. Lykilorð fyrir inningarstjórn í Transact-SQL eru codice_1 og codice_2, codice_3, codice_4, codice_5, codice_6 og codice_7, codice_8, codice_9 og codice_10. codice_6 og codice_7 framkvæma skilyrðisinningar. IF DATEPART(dw, GETDATE()) = 7 OR DATEPART(dw, GETDATE()) = 1 Íslenzkir tónar. Þrívíddar módel af húsnæði Íslenzkra tóna, Laugavegi 58. Líkanið gerði Þorleifur Þorleifsson árið 1966. Verslunin Drangey að Laugavegi 58 árið 1962. Tage Ammendrup á skrifstofunni árið 1947. Stúdíóið í bakhúsinu að Laugavegi 58. María Samúelsdóttir Ammendrup móðir Tage í plötudeildinni 1949. Frummynd Þorleifs Þorleifssonar að plötuumslagi Íslenzkir tónar var tónlistarútgáfufyrirtæki sem Tage Ammendrup stofnaði 12. apríl 1947 og var áberandi í útgáfu íslenskra hljómplatna á 6. áratug 20. aldar. Á vegum útgáfunnar komu út um 100 hljómplötur 78 snúninga, 98 plötur 45 snúninga og tvær tvöfaldar 33 snúninga plötur. Fyrirtækið var lagt niður 1965. Útgáfan. Íslenzkir tónar eru nátengdir versluninni Drangey að Laugavegi 58 en hana ráku Tage og móðir hans í sameiningu á fimmta áratugnum. Verslunin seldi aðallega leðurvörur, töskur og vefnaðarvöru en árið 1945 var stofnuð sérstök hljóðfæradeild í Drangey þar sem seld voru hljóðfæri, hljómplötur og nótur. Tage fann fyrir mikilli eftirspurn eftir íslensku efni hjá viðskiptavinum deildarinnar og langaði að leggja sitt af mörkum til að bregðast við þessum áhuga. Hann hóf að gefa út nótur, kennslubækur og lagatexta undir merkjum Drangeyjarútgáfunnar, gaf út tímaritið Jazz 1947 og Musica 1948 – 1950 og keypti upptökutæki til landsins. Útbúinn var um 20 fermetra upptökusalur í bakhúsinu á Laugavegi 58 í tengslum við tækjakaupin, þar sem æfingar og upptökur fóru fram. Mest var tekið upp fyrir einkaaðila en einnig fóru fram upptökur fyrir leikhús og kvikmyndasýningar. Íslenzkir tónar hefja starfsemi. Ekki fór vel með útgáfu fyrstu plötu Íslenzkra tóna 1948. Á henni spilaði hljómsveit Björns R. Einarssonar lögin Christofer Columbus og Summertime. Björn var óánægður með útkomuna þegar platan kom úr pressun, fékk sett lögbann á hana og höfðaði mál á hendur fyrirtækinu. Það var ekki fyrr en 1952 þegar málaferlum lauk að hin eiginlega útgáfustarfsemi Íslenzkra tóna hófst. Langflestar upptökurnar fóru fram í Ríkisútvarpinu en nokkrar plötur voru teknar upp erlendis. Pressun platna fór fram hjá Nera í Osló. Í apríl 1952 fóru fram í Ríkisútvarpinu upptökur með Sigfúsi Halldórssyni á "Litlu flugunni", "Tondeleyo", "Í dag" og "Við Vatnsmýrina" IM 2 og IM 7. Prufuplötur bárust um sumarið en endanlegar plötur komu ekki í sölu í Drangey fyrr en 21. desember, meðal annars vegna verkfalls sem hafði áhrif á innflutning til landsins í árslok 1952. Í lok október 1952 komu 3 plötur með Svavari Lárussyni og Sy-We-LA kvintettnum til landsins sem teknar voru upp hjá Norska útvarpinu IM 3 - IM 5. Þessar plötur voru því hinar fyrstu sem settar voru á markað frá Íslenzkum tónum. Fjórða platan sem kom á markaðinn var einnig sungin af Svavari við undirleik kvartetts Jan Morávek IM 6. Þetta var fyrsta platan sem gefin var út með íslenskri danshljómsveit og einnig fyrsta dansplatan sem tekin var upp á Íslandi. Kvartettinn skipuðu Jan Morávek sem lék á fiðlu og klarinett, Eyþór Þorláksson lék á gítar, Bragi Hlíðberg á harmoniku og Jón Sigurðsson á bassa. Það komu aðeins 6 plötur út hjá Íslenzkum tónum árið 1952 en margar aðrar voru í bígerð það ár, m.a. spilaði Sigfús Halldórsson inn á IM 8 og IM 9 í Noregi og Soffía Karlsdóttir söng inn "Bílavísur" og "Réttarsömbu" IM 10 hjá Ríkisútvarpinu í desember. Fyrirtækið blómstrar. Næstu ár voru viðburðarrík hjá útgáfunni. Alls gáfu Íslenzkir tónar út 110 plötur sem snérust á 78 snúningum á mínútu, 98 plötur á 45 snúninga hraða og tvær tvöfaldar 33 snúninga plötur. Mest var gefið út af dægurlögum en einnig var töluvert um klassískar hljómplötur með okkar fremstu klassísku söngvurum. Ástæða þess að svona mikið var gefið út á þessu tímabili var fyrst og fremst áhugi fólks og þorsti eftir góðu íslensku efni, framtakssemi Tage og frábærir listamenn sem hann átti samstarf við og voru reiðubúnir til að taka þátt í plötuútgáfu. Einnig voru tollar lækkaðir á íslenskar plötur um það bil sem útgáfustarfsemin hófst fyrir alvöru og hefur það verið hvati. Tage var mjög framsýnn maður og mikill talsmaður þess að skipt var úr 78 snúninga plötum yfir í 45 snúninga þrátt fyrir að það kæmi fyrirtæki hans illa að mörgu leyti. Hann auglýsti þessa nýju plötu meðal annars í blaðinu Hljómplötunýjungum sem hann gaf út í tengslum við plötuútgáfuna og plötulistum sem voru gefnir út nokkrum sinnum. Þess má geta að Íslenzkir tónar voru eitt fyrsta plötuútgáfufyrirtæki á Norðurlöndum sem gaf út 45 snúninga plötur en fyrsta íslenska hljómplatan á þeim hraða kom út árið 1954. Mismunandi gerðir hljómplatna. Á tímabili voru gefnar út þrjár tegundir 78 snúninga hljómplatna og voru þær einkenndar með mismunandi lit á plötumiðum, grænir miðar táknuðu léttklassísk lög, rauðir miðar voru á plötum með klassískri músík og bláir á plötum með íslensk og erlend dægurlög. Nokkrar gerðir eru einnig af miðum á 45 snúninga plötunum og var meðal annars búið til vörumerkið Stjörnuhljómplötur fyrir unglingana. 78 snúninga plöturnar voru ekki í umslögum, en flestallar 45 snúninga plöturnar voru í sérhönnuðum umslögum, þar sem komu oft fram fróðlegar upplýsingar. Það voru bræðurnir Þorleifur og Oddur Þorleifssynir í Ljósmyndastofu Amatörverslunarinnar sem áttu heiðurinn af umslögunum. Verkaskipting þeirra var oftast þannig að Oddur tók ljósmyndir en Þorleifur hannaði og teiknaði umslögin, auk þess sem hann skrifaði textann. Þeir bræðurnir gerðu einnig annað auglýsingaefni fyrir útgáfuna. Umslögin voru flest prentuð í Alþýðuprentsmiðjunni og ÞEGG offsettprentstofu. Ýmsar nýjungar voru prófaðar, bláar, rauðar, grænar og gular plötur og jóla-og nýjárskort í plötuformi, sem menn gátu sent til vina og vandamanna. Ótaldar eru nýjungar þær sem listamennirnir sjálfir buðu upp á í flutningi sínum, sungið var margsinnis í fyrsta sinn inn á plötu IM 48, bergmál notað IM 32 og Jan Morávek lék á fjölda hljóðfæra í einu og sama lagi, svo að eitthvað sé nefnt. Nokkrar barnaplötur voru gefnar út. Má þar nefna að Ingibjörg Þorbergs söng hinar vinsælu "Aravísur" 1954, "Mjallhvít og dvergarnir sjö" og "Kardimommubærinn" komu út 1960, barnakórar sungu inn á plötur og hið vinsæla "Komdu niður með" Soffíu og Önnu Siggu kom út 1959. Einnig voru gefnar út nokkrar plötur með eldri tónlist og þjóðlögum. Gefin var út rímnaplata 1960 EXP-IM 75, tvær plötur með Bjarna Björnssyni, EXP-IM 110 - EXP-IM 111 og plötur með Alfreð Clausen og Sigrúnu Ragnars þar sem þau syngja þjóðvísur og eldri lög. Ferill hljómplötu. Fyrirtækinu var annt um viðskiptavini sína og dæmi um það var bæklingur sem gefinn var út um framleiðslu og gerð hljómplötu. Plötunni er fylgt eftir frá upptöku til þess að hún er sett á fóninn. Listamennirnir. Plötur Íslenzkra tóna eru mjög fjölbreyttar, enda hafði Tage sjálfur breiðan tónlistarsmekk og var í tónlistarnámi í nokkur ár. Hann var áhugamaður um klassíska tónlist og jazz en var opinn og áhugasamur um dægurtónlist. Hann valdi enda margt metsölulagið á plötur sínar. Hann reyndi að kappkosta að fá hæfustu listamenn á sínu sviði til liðs við sig og hann reyndi að koma þeim á framfæri sem kostur var, bæði á Íslandi og erlendis. Meðal söngvara sem sungu inn á plötur Íslenzkra tóna voru: Sigfús Halldórsson, Svavar Lárusson, Soffía Karlsdóttir, Alfred Clausen, Sigurður Ólafsson, Sigrún Jónsdóttir, Ingibjörg Þorbergs, Helena Eyjólfsdóttir, Jóhann Möller, Nora Brockstedt, Ragnar Bjarnason, Skapti Ólafsson, Elly Vilhjálms, Jakob Hafstein og Óðinn Valdimarsson. Nokkrir sönghópar sungu inn á plötur svo sem Marz bræður, Leikbræður og Tígulkvartettinn. Á klassísku plötunum sungu meðal annarra Guðrún Á. Símonar, María Markan, Þuríður Pálsdóttir, Kristinn Hallsson, Guðmundur Jónsson, Magnús Jónsson og Ketill Jensson. Helstu útsetjarar útgáfunnar voru Carl Billich, Jan Moravék og Magnús Ingimarsson en fleiri komu við sögu. Hljómsveitarstjórar og hljóðfæraleikarar sem spiluðu inn á plöturnar voru þeir færustu á sínu sviði á þessum tíma og ófáir voru þeir lagasmiðir og textahöfundar sem tengdust útgáfunni. Nokkur þekkt lög sem Íslenzkir tónar gáfu út: "Litla flugan", "Söngur villiandarinnar", "Hreðavatnsvalsinn", "Bílavísur", "Manstu gamla daga", "Litli vin", "Meira fjör", "Lukta-Gvendur", "Sjómannavalsinn", "Ágústnótt", "Sjana síldarkokkur", "Síldarvalsinn", "Aravísur", "Guttavísur", "Pabbi vill mambo", "Það var lítið hús" (Nora Brockstedt), "Hvítir mávar", "Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig", lögin úr Deleríum Búbonis, "Einsi kaldi úr Eyjunum", "Í kjallaranum", "Komdu niður", "Maja litla", "Fjórir kátir þrestir", "Hún var með dimmblá augu", "Þórsmerkurljóð", "Ég er kominn heim", "Ömmubæn", "Ship-o-hoj", "Ef þú giftist mér", "Blikandi haf", "Allt á floti", "Gamla gatan", "Það er draumur að vera með dáta" og svo mætti lengi telja. Kabarettar og miðnæturskemmtanir. Í tengslum við útgáfuna stóð Tage fyrir vinsælum miðnæturskemmtunum í Austurbæjarbíói 1954 og Revíu-kabarettum 1955 og 1956, þar sem vinsælir tónlistarmenn og leikarar komu fram. Töluvert var lagt upp úr allri umgjörð, leiktjöld voru máluð, leikskrár prentaðar og settur saman danshópur. Á einni skemmtuninni kom fram bandarískur rokkari sem líkast til er einn sá fyrsti til að syngja rokk opinberlega hérlendis. Farið var með nokkrar skemmtanir út á land. Starfsemi Íslenzkra tóna leggst af. Tage hætti plötuútgáfu 1964 en þá voru enn ein skiptin í uppsiglingu, frá 45 snúninga til 33 snúninga platna. Þessar öru breytingar höfðu í för með sér mikla óvissu fyrir útgáfustarfsemina og Tage fór að snúa sér að öðrum málum. Hann vann við dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu 1945 og 1946 og aftur á árunum 1962 – 1965, þegar hann stjórnaði meðal annars skemmtiþáttunum „Hvað er svo glatt“ árið 1965. Hann hóf síðan störf sem dagskrárgerðarmaður hjá Ríkissjónvarpinu við stofnun þess 1965 en þar vann hann til æviloka. Hann tók upp um 1340 þætti í Sjónvarpinu: leikrit, skemmtiþætti, viðtalsþætti, heimildarmyndir og barnaefni svo nokkuð sé nefnt. Tage seldi Svavari Gests fyrirtæki sitt Íslenzka tóna árið 1974 ásamt útgáfurétti. Það var von hans að með því fengju fleiri að njóta þeirrar tónlistar sem hann gaf út. Plötuumslag verður til. Þorleifur Þorleifsson aðalhönnuður Íslenzkra tóna Aðalhöfundurinn að útliti Íslenzkra tóna og velflestra plötuumslaga fyrirtækisins er Þorleifur Þorleifsson teiknari, ljósmyndari og leikmyndahönnuður, (fæddur 17. febrúar 1917, látinn 22. júlí 1974). Hann og bróðir hans Oddur ráku saman ljósmyndavöruverslunina Amatör og studio að Laugavegi 55, skáhalt á móti Drangey við hliðina á Kjörgarði, þannig að hæg voru heimatökin þegar Íslenzkir tónar áttu í hlut. Þegar kvikmyndagerð hófst á Íslandi uppúr 1940 dembdu þeir bræður sér í bransann og störfuðu með Óskari Gíslasyni að gerð kvikmynda. Þorleifur skrifaði meðal annars öll handritin að kvikmyndum Óskars og sagði Óskar að handritið að „Síðasta bænum í dalnum“ (sem Þorleifur skrifaði eftir sögu Lofts Guðmundssonar) væri „meistaraverk“. Þorleifur útbjó líka listilega leikmynd og tæknibrellur í þeirri kvikmynd. Við gerð plötuumslaga var allt letur á framhliðum þeirra handteiknað af Þorleifi sem og vörumerki Íslenzkra tóna. Hann studdist við ljósmyndir við vinnu sína og blandaði saman ólíkum listformum (blandaðri tækni) svo úr urðu eftirminnileg listaverk, saman ber umslagið EXP-IM_35. Það er unnið með lit ofan í ljósmynd sem hann tók við gerð myndarinnar "Björgunarafrekið við Látrabjarg". Þorleifur teiknaði líka nokkur umslög frá grunni svo sem EXP-IM_68 og EXP-IM_72. Ljósmyndarinn Oddur Þorleifsson tók einnig margar myndanna sem prýða umslög útgáfunnar. Hér getum við séð dæmi um vinnsluferli plötuumslags. Það er platan Delerium Bubonis (EXP-IM 70) með lögum úr samnefndum söngleik eftir þá bræður Jón Múla og Jónas Árnasyni sem frumsýndur var í Iðnó (Leikfélag Reykjavíkur) 1959 við gífurlegar vinsældir. Danslagatextar Drangeyjarútgáfunnar 1949-1956. Fyrstu tvö textahefti Drangeyjarútgáfunnar komu út síðla árs 1949. Helgi Kristinsson safnaði 220 textum fyrir fyrstu tvö heftin. Í hefti 8 sem kom út 1953 er fyrst vísað í plötur Íslenzkra tóna. Fyrir utan íslenska og erlenda texta eru stuttar umfjallanir um textahöfunda, söngvara og hljómsveitir. Gustav Storm. Gustav Storm (18. júní 1845 – 23. febrúar 1903) var norskur sagnfræðingur og textafræðingur, og prófessor við Háskólann í Kristjaníu. Æviágrip. Foreldrar hans voru Ole Johan Storm (1806–1850) sóknarprestur, og kona hans Hanna Jørgine Mathilde Breda (1815–1869). Gustav Storm fæddist í Rendalen á Heiðmörk 1845, en sama ár fluttist fjölskyldan til Lardals á Vestfold. Þegar Gustav var fimm ára dó faðirinn. Fluttist ekkjan þá til Kristjaníu, og tók Gustav Storm stúdentspróf þar 1862. Hann nam sagnfræði og textafræði við Háskólann í Kristjaníu og tók embættispróf 1868. Hann starfaði svo við kennslu, en hóf einnig sjálfstæðar rannsóknir á sviði sagnfræði og textafræði, og hlaut verðlaun Vísindafélagsins danska fyrir bók sína um sagnaritun Snorra Sturlusonar (1873). Hann tók doktorspróf 1874 með ritgerð um Karlamagnús sögu og Þiðriks sögu. Hann varð styrkþegi við háskólann 1875 og prófessor í sagnfræði 1877. Gustav Storm var í forystuhlutverki í norskum sagnfræðirannsóknum um sína daga, einkum í miðaldasögu. Hann tók við af brautryðjendunum Rudolf Keyser og Peter Andreas Munch, og þróaði rannsóknirnar áfram með hliðsjón af sjónarmiðum sinnar tíðar hvað snertir aðferðir og kennslu í sagnfræði. Hann miðlaði einnig þekkingu sinni með samningu kennslubóka. Meðal þekktustu verka hans er þýðing hans á Heimskringlu, sem birtist í viðhafnarútgáfu 1899 með myndskreytingum norskra listamanna, alþýðuútgáfa í minna broti 1900. Má segja að sú útgáfa hafi gert "Heimskringlu" að þjóðardýrgrip Norðmanna. Gustav Storm hafði gott vald á fornmálinu (íslensku) og gaf út ýmis heimildarit frá stórveldistíma Noregs. Hann var snjall við sagnfræðilega heimildagreiningu, og hafði næmt auga fyrir athyglisverðum smáatriðum, sem víða sést í ritum hans. Hann var skarpskyggn og gagnrýninn á heimildirnar, og beitti þar m.a. aðferðum sem hann kynntist í námsferð til Berlínar 1875. Á dögum Storms voru rannsóknir á Víkingaöldinni ofarlega á blaði, og var nokkur togstreita milli danskra og norskra sagnfræðinga um ýmsa þætti þeirra rannsókna, t.d. hvort það hefðu verið Danir eða Norðmenn sem lögðu undir sig Normandí um 900. Gustav Storm hélt fast fram sjónarmiðum Norðmanna í þeim deilum. Athyglisverð er einnig ritgerð hans frá 1894 um skjaldarmerki Noregs, þar sem hann rekur uppruna þess og hvernig það breyttist fram á 14. öld. Gustav Storm skrifaði um fleira en sögu Noregs, t.d. læsilega bók um Maríu Stúart (1891), og aðra um Kristófer Kólumbus (1893). Gustav Storm var frá 1886 til dauðadags formaður í "Kildeskriftkommissjonen" ("Útgáfunefnd heimildarrita"), og frá 1899 í norska Sögufélaginu. Hann var félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu frá 1883, og aðalritari þess 1884–1903. Hann var einnig í nokkrum erlendum vísindafélögum og hlaut ýmis heiðursmerki fyrir störf sín. Gustav Storm andaðist í Kristjaníu 23. febrúar 1903. Hann var ógiftur. Miura kortabrot. Miura kortbrot (japanska: ミウラ折り) er kortabrot þróað af japanska stjarneðlisfræðingnum Koryo Miura. Brotið hefur þann eiginleika að hægt er að toka á andstæð horn til að opna kortið og ýta þeim aftur saman til að loka því. Einnig fer ekki framhjá notandanum hvort hann er að brjóta kortið vitlaust saman aftur. Sprotafyrirtæki. Sprotafyrirtæki eru fyrirtæki sem eru á því stigi að þróa viðskiptahugmynd og rannsaka markaðinn fyrir hana. Fjárfesting í sprotafyrirtækjum getur verið áhættusöm og skilað annað hvort miklum gróða eða miklu tapi. Sprotafyrirtæki flokkast ekki lengur sem slíkt þegar það fer að skila ákveðnum gróða, verður að hlutafyrirtæki á almennum hlutabréfamarkaði eða með yfirtöku eða samruna við annað fyrirtæki. Dæmi. Google er gott dæmi um sprotafyrirtæki sem í dag er fyrirtæki á almennum hlutabréfamarkaði. Mörg Web 2.0 fyrirtæki hófu rekstur sinn sem sprotafyrirtæki áður en þau voru keypt af stærri fyrirtækjum. YouTube var upprunalega sprotafyrirtæki en var seinna keypt af Google og einnig Myspace sem var tekið yfir af News Corporation, stærsta fjölmiðlafyrirtæki heims. Málhreinsun. Málhreinsun, hreintungustefna eða málhreinsunarstefna er sú stefna að viðhalda tungumáli hreinu, með því að t.d. forðast tökuorð og slangur. Mikil vinna er lögð í því af íslenska ríkinu að búa til nýyrði yfir ný tæknileg fyrirbæri í íslensku. Listi yfir forritunarmál í stafrófsröð. __NOTOC__ Railteam. Railteam er bandalag sem samanstendur af sjö evrópskum fyrirtækjum sem reka háhraðalestir. Markmið bandalagsins er samræma brottfarar- og komutíma sína til þess að geta kept við flugfélög um ferðir á milli stórborga í Evrópu. Fyrirtækið stefnir að því að auka farþegafjölda sinn úr 15 milljónum á ári í 25 milljónir á ári, árið 2010. BG og Ingibjörg - Fyrsta ástin. Fyrsta ástin er 45 snúninga (45 r.p.m.) vinyl hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1971. Á henni flytja BG og Ingibjörg tvö lög. Ingibjörg Guðmundsdóttir syngur. Emilíana Torrini. Emilíana Torrini Davíðsdóttir (fædd 16. maí 1977) er íslensk söngkona best þekkt fyrir hljómdisk sinn "Love in the Time of Science" og fyrir flutning sinn á laginu „Gollum's song“ í kvikmyndinni "Hringadróttinssögu". Fjölskylda og æska. Faðir Emilíönu er ítalskur en móðir hennar er íslensk. Emilíana ólst upp í Kópavogi og byrjaði sjö ára að syngja í kór. Árið 1994 sigraði hún í Söngkeppni framhaldsskólanna með því að flytja lagið „I Will Survive“. Hún eignaðist sitt fyrsta barn,strák, 6.september 2010. Tónlistin. Á árunum 1994 til 1996 gaf Emilíana þrjár plötur á Íslandi en varð fræg þegar hún gaf út plötuna "Love in the Time of Science" árið 1999 og einnig þegar hún söng lagið „Gollum's song“. Árið 2005 kom út platan "Fisherman's Woman" með lögunum „Sunny road“ og „Heartstopper“. Emilíana hlaut þrenn verðlaun á íslensku tónlistarverðlaunahátíðinni árið 2006. Samstarf. Emíliana hefur unnið með mörgum þekktum tónlistamönnum svo sem Kylie Minogue, Moby, Sting, Dido, Travis, Tricky og Adem. Jacques-Louis David. Jacques-Louis David (30. ágúst 1748 – 29. desember 1825) var franskur listmálari sem málaði í nýklassískum stíl. David hafð mikil áhirf á aðra listmálara og uppúr 1780 gerði hann nýklassíska stílinn vinsælan á kostnað rókókó stílsins sem hafði einkennt listmálun áratugina á undan. David nam fyrst málaralist í konunglegu akademíunni í París en hélt til Rómar árið 1775 eftir hafa unnið Prix de Rome, sem var styrkur til að læra í frönsku akademíunni í Róm. Í Róm höfðu verk gömlu ítölsku meistaranna áhrif á hann, aðallega verk Rafaels. Hann sneri svo aftur til Parísar árið 1780 þar sem hann öðlaðist frægð á næstu árum og sýndi málverk í Salon listagalleríinu, sem þótti mikill heiður. David ferðaðist stuttu síðar aftur til Rómar þar sem hann málaði m.a. "Eið Hóratíusarbræðra". Þegar franska byltingin braust út varð David byltingasinni og hann var vinur Maximiliens Robespierres og Jean-Pauls Marats. Verk Davids, "Lictorar færa Brutusi lík sona sinna", var fyrst sýnt stuttu eftir að byltingin hófst. Verkið sýnir Rómverjann Lucius Junius Brutus eftir að hann hafði skipað fyrir um aftöku sona sinna, en þeir höfðu þá reynt að endurreisa konungdæmið í Róm. Málverkið hafði því skírskotun í málefni líðandi stundar í Frakklandi og varð fljótlega mjög frægt. Eitt frægasta málverk Davids er "Dauði Marats", málað árið 1793, stuttu eftir morðið á Marat. Marat var myrtur þegar hann var í baði, af Charlotte Corday sem var síðar tekin af lífi fyrir vikið. Marat var rótækur blaðamaður og hann skrifaði oft greinar sínar þegar hann var í baði. Ástæðan var sú að hann þjáðist af húðsjúkdómi sem gaf honum mikinn kláða og eina leiðin fyrir hann að draga úr kláðanum var að liggja í baði. Málverkið sýnir Marat deyjandi í baðinu með skriffærin við hendina. David var settur í fangelsi í kjölfar aftöku Robespierres. Þar ákvað hann að mála málverk sem sagði sögu Sabína-kvennanna. Samkvæmt goðsögn lét Rómúlus, stofnandi Rómaborgar, ræna konum úr Sabína þjóðflokknum og við það braust út stríð á milli Rómverja og Sabína en Sabína-konurnar stilltu til friðar. David ákvað að mála "Rán Sabina-kvennanna" eftir að eiginkona hans, Marguerite-Charlotte David, hafði heimsótt hann í fangelsið og því er verkið talið vera henni til heiðurs. Málverkið vakti athygli Napoleons Bonaparte og eftir að Napoleon náði völdum fékk hann David til að mála margar myndir fyrir sig. Þeirra á meðal eru "Napoleon fer um St. Bernard skarð" og "Krýning Napoleons í Notre Dame". Eftir fall Napoleons frá völdum, og endurreisn konungdæmisins, flúði David til Brussel, þar sem hann lifði það sem eftir var ævinnar. Síðasta stóra verkið sem David málaði var "Mars afvopnaður af Venus". Verkið var fyrst sýnt í Brussel en var svo sent til Parísar þar sem yfir 10.000 manns skoðuðu það, en það var gríðarlegur fjöldi á þeim tíma. David lést svo árið 1825. Myndasafn. David, Jacques-Louis Þórarinn Ólafsson. Fæddur 27. október 1937. Píanó og þverflauta. Var í ýmsum dans og djasshljómsveitum 1955-1972; Sinfóníuhljómsveit Íslands 1963-1972 og Útlendingahersveitinni 1996-2007. Þorgrímur Jónsson. Fæddur 29. maí 1976. Lauk burtfararprófi af djassbraut FÍH vorið 2001. Fór í framhaldsnám í Haag í Hollandi, lauk B.M. gráðu vorið 2006. Bróðir Ólafs Jónssonar saxófónleikara. Ólafur Stolzenwald. Fæddur 8. október 1961. Hóf tónlistarnám um tvítugt í Tónlistarskóla Rangæinga. Stundaði nám í tónlistarskóla FÍH á árunum 1980-1985, með áherslu á rafmagnsbassa. Einnig einkatímar hjá Tómasi R. Einarssyni og Jóni Páli Bjarnasyni í nokkra vetur. Ólafur hefur komið fram með helstu jassleikurum landsins síðustu tvo áratugina: á tónleikum, jasshátíðum og við önnur tækifæri. Einnig hefur hann haldið úti sínum hljómsveitum og verið meðlimur m.a. í Póstberunum, tríó Lasúr, Kvartett Q, Bebop Galeiðunni sem hafa komið víða fram undanfarin ár. Póstberaranir fluttu meðal annars verkefnið Tóneyra Megasar sem er tónlist meistarans í djassbúningi. Agnar Már Magnússon. Agnar Már Magnússon er íslenskur djasstónlistarmaður. Hann hóf tónlistarnám sitt sex ára gamall við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann lagði fyrst stund á orgelleik en síðar píanó. Eftir lokapróf frá tónlistarskóla FÍH og Conservatorium van Amsterdam í Hollandi stundaði hann nám hjá Larry Goldings og fleiri einkakennurum í New York. Þar komst Agnar jafnframt í kynni við marga þekkta djasstónlistarmenn og þau kynni leiddu meðal annars til útgáfu fyrsta geisladisks hans sem ber nafnið "01". "Núll einn" var gefinn út 2001 og honum dreift víða um heim af spænska plötufyrirtækinu Fresh Sound-New Talent. Síðan þá hefur Agnar sent frá sér marga geisladiska sem hafa flestir hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001. Þeirra á meðal eru "Tónn í tómið", tónleikaupptaka af píanó-dúett með Ástvaldi Traustasyni; tveir geisladiskar með B3 orgeltríóinu, "Fals og Kör", geisladiskur með frumsaminni tónlist við leikritið "Nítjánhundruð", "Ég um þig" með söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur og síðast ekki síst, "Láð" sem kom út 2007. Agnar Már kallar Láð heimkomu sína og vinnur þar úr íslenskum tónlistararfi en lagið „Daboli“ var valið djasslag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2008. Agnar hefur hlotið verðlaunin „Outstanding Musicianship Award“ frá Berklee-tónlistarháskólanum í Boston og komist í undanúrslit í Alþjóðlegu djass-píanókeppninni Martial Solal í París haustið 2002. Hann hefur útsett lög fyrir geislaplötur og söngleiki, starfað með Stórsveit Reykjavíkur í mörg ár, leikið á tónleikum á Íslandi sem erlendis, verið píanóleikari og annast tónlistarstjórn í leikhúsi. Leikfélagið Sýnir. Leikfélagið Sýnir er áhugaleikfélag sem starfar á landsvísu. Það var stofnað sumarið 1997 af hópi fólks sem hafði verið á fyrstu námskeiðum Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Í byrjun sýndi félagið einþáttungasyrpu. Fyrsta stóra verkefni félagsins var leikritið Nýir tímar eftir Böðvar Guðmundsson. Frumsýnt var í Kjarnaskógi sumarið 1999 og farið í leikferð um landið og einnig sumarið eftir. Síðan hafa árlega verið settar upp sýningar, ýmist stór verk í fullri lengd eða einþáttungar. Leikfélagið sýnir verk sín á sumrin og jafnan undir berum himni. Ætið er farið í leikferðir um landið, t.d. hefur lengst af verið komið við í Hánefsstaðareit í Svarfaðardal í tengslum við fiskidaginn mikla á Dalvík. Viðurlag. Viðurlag er fallorð sem er ákvæðisorð með nafnorði. Viðurlag getur verið fast eða laust. Í síðustu dæminu sparast tíðarsetning = hann vann þetta verk, þegar hann var ungur. Styrmir Kárason. Styrmir Kárason (einnig nefndur Styrmir fróði eða Styrmir Kárason hinn fróði) (um 1170 – 20. febrúar 1245) var lögsögumaður, rithöfundur og príor í Viðeyjarklaustri. Æviferill. Óvíst er um ætt Styrmis, en tilgátur um að faðir hans hafi verið Kári Runólfsson ábóti á Þingeyrum, d. 1187 eða 1188. Styrmir hefur líklega verið fæddur á árabilinu 1170–1180. Sigurður Nordal telur að Styrmir hafi að hluta alist upp í Þingeyraklaustri, hlotið menntun þar og dvalist þar fram undir 1220. Styrmir var prestur að vígslu. Hann var heimilisprestur hjá Snorra Sturlusyni í Reykholti frá því fyrir 1228 til 1235. Hann var lögsögumaður 1210–1214 og 1232–1235. Varð síðan forstöðumaður, eða príor, klaustursins í Viðey 1235–1245. Í ljósi þess að Styrmir var heimilisprestur í Reykholti, þá er líklegt að hann hafi verið aðstoðarmaður Snorra Sturlusonar við ritstörf og bókagerð. Talið er að fylgikona Styrmis, eða barnsmóðir, hafi verið Jórunn Einarsdóttir. Sonur þeirra var Valgarður Styrmisson. Tengt efni. Listi yfir lögsögumenn á Íslandi. Finnafjörður. Finnafjörður er stuttur fjörður í Norður-Múlasýslu. Hann er nyrstur þriggja smáfjarða, sem ganga inn úr Bakkaflóa, og liggur hann sunnan Gunnólfsvíkurfjalls. Miðfjörður (Bakkaflóa). Miðfjörður er stuttur fjörður í Norður-Múlasýslu. Hann er einn þriggja smáfjarða, sem ganga inn úr Bakkaflóa, og liggur hann á milli Finnafjarðar og Bakkafjarðar. Töluvert æðarvarp er í Miðfirði. Bakkafjörður (fjörður). Bakkafjörður er grunnur fjörður í Norður-Múlasýslu. Hann er syðstur þriggja smáfjarða, sem ganga inn úr Bakkaflóa norðvestan Digraness. Samnefnt kauptún stendur við fjörðinn austanverðan en vestan hans stendur kirkjustaðurinn Skeggjastaðir. Upp úr Bakkafirði liggur þjóðvegur 85, Norðausturvegur, suður um Sandvíkurheiði yfir til Vopnafjarðar. Ólafs saga helga eftir Styrmi fróða. Ólafs saga helga eftir Styrmi fróða – eða Lífssaga Ólafs helga – var ein af mörgum sögum um Ólaf helga Haraldsson Noregskonung, nú að mestu glötuð. Höfundur hennar var Styrmir Kárason hinn fróði, sem var um tíma heimilisprestur hjá Snorra Sturlusyni í Reykholti. Aðalheimildin um "Ólafs sögu Styrmis" er Flateyjarbók. Þegar vinnan við Flateyjarbók var langt komin, hefur Magnús Þórhallsson ritari hennar farið yfir "Lífssögu Ólafs" eftir Styrmi, og séð að þar var nokkurt efni umfram það sem var í "Ólafs sögu helga", sem áður hafði verið færð inn í Flateyjarbók. Tók hann þá saman viðauka með þessu viðbótarefni, sjá meðfylgjandi tengil. Hugsanlegt er reyndar að Ólafs saga helga í Flateyjarbók sé að nokkru leyti skrifuð eftir Ólafs sögu Styrmis. Styrmir hefur byggt sögu sína á fyrri ritum um Ólaf helga, en aukið við efni úr öðrum heimildum eða munnlegri geymd. "Ólafs saga Styrmis" hefur verið viss áfangi í þróun konungasagna, og var e.t.v. rituð á Þingeyrum. Ordóvisíumtímabilið. Ordóvisíumtímabilið er annað af sex tímabilum á fornlífsöld. Það hófst fyrir 488,3 ± 1,7 milljón árum síðan við lok kambríumtímabilsins, en lauk fyrir 443,7 ± 1,5 milljón árum síðan þegar sílúrtímabilið hófst. Héðinsfjörður. Héðinsfjörður er tæplega 6 km langur eyðifjörður nyrst á Tröllaskaga, á milli Hestfjalls að vestan og Hvanndalabyrðu að austan. Fyrir botni fjarðarins er ágætt veiðivatn, Héðinsfjarðarvatn, og er útrennsli úr því um Héðinsfjarðarós út í fjörðinn. Við vatnið og inn af því voru áður fáeinir bæir. Næsta byggð til vesturs er í Siglufirði og voru fyrrum fjölfarnar leiðir þangað úr Héðinsfirði um bæði Hestskarð og Hólsskarð. Til austurs var mest farið um Fossabrekkur til Ólafsfjarðar. Mannskæðasta flugslys á Íslandi varð í Héðinsfirði 29. maí 1947 þegar flugvél Flugfélags Íslands flaug á utanvert Hestfjall. Fórust allir 25 sem í vélinni voru, 21 farþegi og fjögurra manna áhöfn. Árið 2006 hófst vinna við Héðinsfjarðargöng, sem liggja á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð og voru þau opnuð 2. október 2010. Ribsblóðvarta. Ribsblóðvarta (fræðiheiti: "Nectria cinnabarina" o.fl.) er asksveppur sem leggst á gamlan við. Nafn hennar á íslensku er dregið af því að hún leggst einkum á dauðar rifs- og reyniviðargreinar. Hverfisveppur. Hverfisveppur (fræðiheiti: "Pholiota mutabilis") er hattsveppur af slíkjusveppaætt sem vex í klösum, einkum á dauðum trjástubbum í skóglendi. Hatturinn verður 3-6sm í þvermál og stafurinn er langur og mjór með hring. Sveppurinn er ljósbrúnn en neðri hluti stafsins dökkur og flagnaður. Hverfisveppur þykir góður ætisveppur. Aðeins hatturinn er étinn þar sem stafurinn er of seigur. Hins vegar er varasamt að tína þennan svepp vegna þess hve auðvelt er að rugla honum saman við eitraðar tegundir, eins og t.d. hina baneitruðu viðarkveif. Dúnurtir. Dúnurtir (fræðiheiti: "Epilobium" eða "Chamerion") er ættkvísl 160-200 blómstrandi blóma af ætt eyrarrósarætt ("Onagraceae"). Jurtirnar eru algengar á tempruðum og "subarctic" svæðum beggja heimskautasvæðanna (en subarctic vísar til þeirra svæða sem hafa meðalhita mánaða 10°C í minnst einn og mest þrjá mánuði á ári). Gjörhygli. Gjörhygli er eitt af aðalhugtökunum í búddískum fræðum og er fólgið í meðvitund um eigin hugsanir, gerðir og langanir. Þar er gengið út frá því að rétt gjörhygli sé leiðin til frelsunar frá hringrás dauða og endurfæðingar. Það er sjöunda atriðið í átta vega leiðinni svonefndu sem er andleg iðkun sadhana og er samkvæmt hefðinni talið auka innsýn og visku. Búdda setti fram leiðbeiningar um það hvernig á að öðlast gjörhygli fyrir 2500 árum, grunn til að öðlast gjörhygli. Sé gjörhygli beitt á réttan hátt beinir hún athyglinni að því sem er að gerast í andartakinu. Með því að dvelja meira í andartakinu fara iðkendur að sjá bæði innri og ytri þætti raunveruleikans. Blettatígur. Blettatígur (eða síta) (fræðiheiti: "Acinonyx jubatus") er kattardýr og hraðskreiðasta dýr á jörðu. Hann getur hlaupið stuttan spöl á 115 km hraða á klukkustund enda er líkaminn er allur sniðinn að hraðanum. Víðar nasir geta dregið mikið súrefni inn í lungun og loppurnar eru lagaðar að spretthlaupi. Nú lifa flestir blettatígrar í austan- og sunnanverðri Afríku en nokkrir eru í Asíu — í Íran og Pakistan. Þeir hafast við í margs konar umhverfi, allt frá trjálausum gresjum að þéttu kjarri eða jafnvel þurrum auðnum. Blettatígurinn er rándýr og lifir á gasellum. Upptalningartag. Upptalningartag er gagnagerð sem hefur ákveðinn fjölda valmöguleika (eða nefna). Abýdos (Egyptalandi). Abýdos (arabíska: أبيدوس, gríska: Αβυδος) var ein af elstu borgum Egyptalands. Borgin var höfuðstaður áttunda fylkis Efra Egyptalands. Egypska heitið yfir bæði borgina og fylkið var "3bdw", „hæð helgidómsins“, þar sem hjarta Ósíríss var varðveitt. Grikkir nefndu borgina "Abýdos" eins og grísku borgina við Hellusund. Borgin var trúarmiðstöð Egypta frá elstu tíð, fyrst guðsins Kemi-Amentiu og síðan Ósíríss. Meðal þekktustu fornminja á staðnum eru Setihofið og Konungalistinn í Abýdos. Pierre Trudeau. Joseph Philippe Pierre Yves Elliott Trudeau, venjulega kallaður Pierre Trudeau eða Pierre Elliott Trudeau (18. október 1919 – 28. september 2000) var fimmtándi forsætisráðherra Kanada frá 20. apríl 1968 til 4. júní 1979. Hann var mjög vinsæll og umdeildur leiðtogi sem átti þátt í því að skapa sérstaka kanadíska þjóðernishyggju og styrkja sambandið í sessi gagnvart aðskilnaðarsinnum. Smári (rafeindafræði). Stakir smárar af mismunandi stærðum. Smári eða transistor er hálfleiðaratæki sem er aðallega notaður til að magna eða skipta rafboðum. Smárar eru grunneiningar í rökrásum tölva og flestra annarra nútímarafeindatækja. Smárar geta verið stakir en oft koma þeir fyrir frá tugum og upp í marga milljarða saman á sömu flögu. Smárar komu fyrst fram á sjónarsviðið á 3. áratug 20. aldar en ekki var farið að framleiða þá fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld til notkunar í útvarpsviðtækjum. Smárar skiptast í tveir megingerðir, sviðshrifssmára (e. FET, field effect transistor) og tvískeytta smára (e. BJT, bipolar junction transistor). Musteri á Indlandi. Musterin á Indlandi geta verið alveg frá litlum kofum upp í stórar hallir. Það er aldrei auglýstur tími fyrir guðsþjónustur, í stærstu musterunum eru guðsþjónustur allan daginn þannig að fólk geti komið hvenær sem er. Þar eru styttur bæði að utan og að innan en þangað koma hindúar til þess að biðja og færa fórnir til eftirlætisguðana sinna. Það er mjög vel passað upp á guðslíkneskin og farið með þau eins og lifandi verur. Timburmenn. Timburmenn (eða þynnka) er almenn vanlíðan eftir drykkju áfengra drykkja, oftast að loknum svefni, en þá eru menn oft með höfuðverk og eru illa fyrir kallaðir, kasta jafnvel upp og margir eru sérlega viðkvæmir fyrir hávaða. Hægt er að draga úr timburmönnum með því að drekka mikið af vatni áður en farið er að sofa. Talað er um að "vera grúttimbraður", ef menn eru sérlega illa haldnir. Að vera "skelþunnur" lýsir ástandi manns sem er farinn að "timbrast upp". Að "hafa þórshamra í höfðinu" er einnig lýsing á því þegar þynnkan veldur því að það er eins og hjartað slái í höfðinu. Príor (titill). Príor (úr latínu "hinn fyrsti", "sá fremsti") var embættistitill í kaþólskri munkaklausturshefð. Upphaflega var það notað í elstu klausturreglunni, Benediktsreglu, um forstoðumann klausturútibús sem var undirmaður ábóta aðalklaustursins. Síðar var hugtakið einnig notað um aðstoðarmann abóta. Að jafnaði var ábóti æðsti maður klausturs af Benediktsreglu og príor er næstur ábóta að tign. Í reglu dómeníkana var yfirmaður klaustursins nefndur príor og samsvaraði þar með ábóta. Í klaustrum af Ágústínusarreglu voru munkarnir prestvígðir, og átti forstöðumaðurinn að vera fremstur meðal jafningja. Var hann kallaður "præpositus" og síðar "príor". Klaustrin voru þá undir yfirstjórn biskups, sem fór með ábótavaldið, og voru munkarnir þá jafnframt prestar í þjónustu biskupsdæmisins. Þetta átti t.d. við um Möðruvallaklaustur í Hörgárdal, þar fór Hólabiskup með ábótavaldið og hafði "príor" sem umboðsmann sinn á klaustrinu. Að jafnaði var miðað við að príor tæki engar meiriháttar ákvarðanir án samráðs við yfirmann sinn. Samsvarandi titill í nunnuklaustri var príorissa eða "príorína", sem var næst undir abbadís að tign, og gat stýrt klaustrinu tímabundið í umboði hennar. Týsfjóla. Týsfjóla (fræðiheiti: "Viola canina") er fjölært blóm af fjóluætt. Lýsing. Krónublöðin eru blá en hvít innst. Bikarblöðin eru odddregi, fræflarnir eru fimm talsins. Laufblöðin eru stilklöng, hárlaus og fíntennt. Týsfjólan kýs að vaxa í mó- og graslendi. Hún er algeng um allt Ísland. David Guetta. David Guetta (fæddur 7. nóvember 1967 í París) er franskur plötusnúður ("DJ"). Hann komst á topp vinsældalistanna 2005 með lagið "The World Is Mine". Þá er hann einnig þekktur fyrir lög á borð við "Love Don't Let Me Go" og "Love Is Gone" af plötunni "Pop Life" sem kom út árið 2007. Þrenningarfjóla. Þrenningarfjóla (fræðiheiti: "Viola tricolor") er einært eða fjölært blóm af fjóluætt sem ber þrílit blóm; fjólublá, gul og hvít. Lýsing. Blómin lúta eilítið og eru 1,5 til 2,5 sentimetrar á lengd. Þau eru hvítleit eða gul í miðju og hafa dökkar æðar. Bikarinn er dökkgrænn eða næstum svartur. Í hverju blómi eru 5 fræflar. Efstu laufblöðin eru öfugeglaga en neðstu eru svo gott sem kringlótt. Blómið nær 10 til 20 sentimetra hæð og vex það gjarnan í þurrum melbrekkum og á söndum. Lækningajurt. Þrenningarfjóla hefur t.d. verið notuð til að lækna astma, húðsjúkdóma og við flogaveiki. Foldaskóli. Foldaskóli er grunnskóli í Grafarvogi sem tók til starfa árið 1985 í hálfkláruðu húsnæði, en byggingarframkvæmdum lauk árið 1991. Aðsetur skólans eru við Logafold 1, 112 Reykjavík. Nemendum fjölgaði hratt og urðu flestir árið 1990 þegar nemendafjöldi fór rétt yfir 1.200 og þá að meðtöldu útibú í Hamrahverfi. Skólaárið 2007-2008 voru nemendur um 420 talsins. Vorið 2001 var tekin fyrsta skóflustungan að viðbyggingu þar sem komið var fyrir sérgreinastofum auk íþróttahúss. Við skólann starfar Skólahljómsveit Grafarvogs. Samstarf um tónlistarkennslu er við Tónlistarskólann í Grafarvogi og Tónskóla hörpunnar. Í húsnæði skólans rekur ÍTR frístundaheimilið Regnbogaland og félagsmiðstöðina Fjörgyn. Skólastjórar skólans eru Arnfinnur Jónsson (1985-1992), Ragnar Gíslason (1992-2002) og Kristinn Breiðfjörð (2002-) Harry Belafonte. a> börðust fyrir mannréttindum árið 1963. Harry Belafonte (fæddur Harold George Belafonte 1. mars 1927 í Harlem í New York-borg) er jamaík-bandarískur söngvari og leikari. Han er einkum þekktur fyrir að koma karabísku calypso-tónlistinni á kortið á 6. og 7 áratug síðustu aldar. Auk þess hefur hann sungið ballöður, vísur, "negro spirituals" með sinni mjúku röddu. Þá hefur Belafonte nýtt frægð sína til að berjast fyrir mannréttindum. Ferill. Harry Belafonte er hugsanlega þekktastur fyrir flutning sinn á laginu "Banana Boat Song" sem Alan Arkin samdi. Þá sló hann í gegn með breiðskífunni "Calypso" (1956) en hún var fyrsta breiðskífa sem seldist í meira en milljón eintökum. Þá varð hann fyrsti bandaríski blökkumaðurinn sem hreppir Emmy-verðlaunin fyrir fyrsta sjónvarpsþátt sinn; „tonight with Belafonte“. Á árunum 1935-1939 bjó Harry hjá móður sinni í heimalandinu Jamaíka. Seinna stundaði hann nám við "George Washington High School" í New York-borg en eftir námið hélt hann til herskyldu í bandaríska sjóhernum; á þeim tíma stóð seinni heimsstyrjöldin hvað hæst. Við lok 5. áratugarins lagði hann fyrir sig leiklistarnám og í framhaldi kom hann fram á fjölum ólíkra leikhúsa. Hann hlaut Tony-verðlaunin fyrir leik sinn í söngleiknum "Almanac". Auk þess að hafa sungið inn á fjöldann allan af plötum hefur Harry Belafonte haldið tónleika, leikið í leikritum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Árið 2000 hlaut hann "Grammy Lifetime Achievement Award" fyrir framlag sitt til plötuútgáfu. Þá hefur hann fengið stjörnu á Hollywood Walk of Fame. Á 7. áratugnum var Belafonte náin samstarfsmaður Martin Luther King jr. og veitti meðal annars fé í mannréttindabaráttu King. Síðar hefur Belafonte verið útnefndur "mannréttindafrömuður" hjá UNICEF. Á síðustu árum hefur hann verið andstæðingur bandarísku utanríkistefnunnar. Bóma. Skýringarmynd af bómu(1) Bóma(2) Mastur(3) Háls(4) Segl(5) Rifband(6) Kló(7) Stórskaut(8)-(9) Bómustrekkjari Bóma (eða beitiás) er rá sem er hluti af reiðabúnaði skipa með seglin langsum (bermúdasegl og gaffalsegl). Bóman er neðan á stórseglinu og er notuð til að stjórna horni seglflatarins þegar segli er beitt eftir vindi og eins til að móta seglið eftir því hvernig ætlast er til þess að það taki vindinn í sig. Framendi bómunnar er festur aftan á mastrið neðanvert á sigurnagla sem heitir „háls“ þannig að bóman getur sveiflast frjálst til hliðanna og upp og niður. Við hinn endann á bómunni er stórskautið fest, yfirleitt með lítilli blökk. Horni bómunnar miðað við bátinn er stjórnað með því að strekkja eða slaka á stórskautinu. Ein af hættunum við það að kúvenda á seglskútum (þegar siglt er lens með vindinn beint aftan á bátinn) er sú að bóman sveiflast frá mesta horni öðrum megin að mesta horni hinum megin, stundum á miklum hraða. Við þetta geta orðið slys ef áhafnarmeðlimir á þilfari fá bómuna í sig auk þess sem getur komið hættulegur slynkur á mastrið. Kvikmyndagerð. Kvikmyndagerðamaður er aðili sem tekur upp, klippir og hannar kvikmyndir.Hann leikstýrir líka myndinni. Uppköst. Uppköst (uppgangur, uppsölur eða uppsala) er það þegar maður selur upp, innihald maga kemur upp í gegnum vélinda og út um munn og jafnvel nef. Uppköst eru oft fylgifiskur veikinda (s.s. flensu en einnig alvarlegri sjúkdóma), eitrunar, þungunar eða timburmanna. Oftast er talað um að menn "æli", "kasti upp" eða "gubbi". Vitinn í Faros við Alexandríu. Endurgerð vitans í Changsa, Kína. Vitinn mikli eða Vitinn í Faros var viti, sem stóð á eyjunni Faros við höfn Alexandríu í Egyptalandi, því stundum kallaður „Faros Alexandríu“, og var reistur á 3. öld f.Kr. Hann telst eitt af sjö undrum veraldar og fyrir utan Pýramídann mikla í Gisa, sem enn stendur, var hann síðastur af hinum sex undrum veraldar að falla. Því eru tiltölulega góðar heimildir til um vitann bæði hvað varðar staðsetningu og útlit. Saga. Saga vitans hefst á því að Alexander mikli stofnar borginar Alexandríu í Egyptalandi en hann stofnaði ótal margar borgir með því nafni, en sú í Egyptalandi lifði í margar aldir og gerir enn. Eftir að Alexander dó kláraði Ptólemajos Soter að byggja borgina. Höfnin þar var mjög fjölfarin og mikilvæg fyrir alls konar viðskipti en landið í kring var mjög flatt og þurfti því eins konar merki og búnað til að leiðbeina þeim fjölda skipa sem komu inn í höfnina. Því var hafist handa við byggingu vitans á litlu eyjunni Faros hjá höfninni árið 290 f.Kr. og tók smíðin um 20 ár. Það var fyrsti vitinn í heiminum og næsthæsta bygging heims en Pýramídinn mikli var enn í fyrsta sæti. Sostrates frá Knidos hannaði turninn, og var svo stoltur að hann vildi fá nafn sinn greypt í steinninn. Ptólemajos II, sem nú stjórnaði Egyptalandi á eftir föður sínum, neitaði beiðni hans og vildi aðeins hafa sitt nafn. En Sostrates var klár maður. Hann meitlaði nafn Ptólemajosar í gifs og setti á bygginguna. En undir gifsinu hafði hann áletrað þetta í steininn: Sostrates sonur Dexifanesar frá Knidos fyrir hönd allra sjómanna til björgunarguðanna. Með tímanum veðraðist gifsið og afhjúpaði nafn Sostratesar. Vitinn stóð í um 1500 ár en skemmdist fyrst alvarlega í tveimur jarðskjálftum (eins og svo margar fornar bygginar) á árunum 1303 og 1323 e.Kr. Samkvæmt sögum var lokafall hans árið 1326. í frásögn hins fræga Araban Ibn Battuta árið 1349, sagðist hann ekki geta komið inn í rústirnar, né jafnvel klifrað að inngangnum. Endanleg örlög Vitans mikla urðu svo árið 1480, þegar þáverandi Sultán Egyptalands, Quitbay, ákvað að styrkja varnir Alexandríu. Hann byggði miðaldavirki, sem stendur enn, á sama stað og Vitinn stóð, og notaði þá fallna marmarann og steinana sem höfðu legið þar síðustu 150 árin. Enduruppgötvun. Árið 1996 að fornleifaflokkur með kafara köfuðu í sjóinn hjá Alexandríu. Þeir voru að leita að fornum gripum en fundu þá stórar steinblokkir á botninum sem virtust koma frá stórri byggingu. Einnig fundust styttur sem gætu hafa staðið við grunn Vitans. Þarna eru taldar hafa fundist leifar af Vitanum sem hafa þá fallið á sjóinn og voru ekki notaðar í virkið af Quitbay. En mönnum til mikillar undrunar, þá virðist stór hluti af því sem fannst vera eldra en Vitinn. Þá halda sumir að Vitinn hafi verið endurgerður úr efni frá enn eldri byggingum. Lýsing. Turninn var um 130 m að hæð, sem er um það bil jafnhátt og um 40 hæða hús í dag. Var hann því næsthæsta bygging heims þá, Pýramídinn mikli enn með fyrsta sætið. Það var sagt að vitinn sjálfur hafi sést í allt að 56 km fjarlægð. Hann var byggður úr hvítum steinblokkum og lögun hans var þrenns konar. Neðsti hlutinn var ferningur, um 56 m, með sívölum spíralslaga kjarna að innan til þess að toga upp alls kyns hluti á efstu hæð. Þar var einnig mikið geymslurými. Miðhlutinn var átthyrningur, um 28 m, og síðast sívalningur, um 7 m. Þar var einskonar vörulyfta til að flytja eldsneyti fyrir eldinn. En í toppnum var boginn spegill sem endurkastaði sólargeislum á daginn en á næturnar var eldur. Efst á byggingunni var stytta af Póseidon, þó aðeins á rómverska tímabilinu. Sagt var að skip gætu séð eldinn í allt að 160 m fjarlægð á næturnar eða reykinn frá eldinum að degi til. Það eru líka til sögur um að ljósið frá vitanum hafi verið notað til þess að brenna óvinaskip áður en þau komust til hafnarinnar. Önnur saga er að það væri hægt að stækka mynd af Konstantínópel sem var handan hafsins til þess að fylgjast með hvað væri í gangi. Báðar þessar sögur þykja hins vegar frekar ósennilegar, þar sem tæknin var ekki komin nógu langt á þessum tíma. Áhrif í tungumálum. Vitinn hefur haft áhrif sem enn eru sjáanleg í dag. Bænaturn í íslömskum moskum hermdu eftir hönnun vitans, sem ber vott um bygginarlistaráhrif hans. Hönnun hans var líka notuð sem fyrirmynd bygginga enn lengra í burtu, til dæmis á Spáni. Hann skildi líka eftir sig spor í tungumálum en orðið ‚viti‘ er fengið frá honum á nokkrum tungumálum. Á frönsku er það „phare“, á bæði spænsku og ítölsku „faro“ og á portúgölsku er það „farol“. Skólahljómsveit Grafarvogs. Skólahljómsveit Grafarvogs hóf starfsemi 1992 sem sérverkefni á vegum Skólaskrifstofu Reykjavíkur, en var formlega stofnuð 21. mars 1993. Hún hefur frá upphafi haft aðsetur í Foldaskóla og er ætlað að sinna nemendum í Grafarvogi. Stofnandi og stjórnandi frá upphafi var Jón E. Hjaltason. Núverandi stjórnandi sveitarinnar er Einar Jónsson (byrjaði 1. ágúst 2007). Skólahljómsveit Grafarvogs stóð fyrir landsmóti Samband íslenskra skólalúðrasveita í Grafarvogi árið 1997 og aftur 2004. Hljómsveitin gegnir þýðingarmiklu hlutverki í menningarlífi Grafarvogs og var fulltrúi Reykjavíkurborgar á tónlistarhátíð evrópskra ungmenna árið 1996. Þá hefur hún leikið í Portúgal, Noregi, Lúxemborg og Ungverjalandi. Sveitin skiptist í þrjár sveitir og er skipuð liðlega eitt hundrað nemendum. Johanna Maria Skylv-Hansen. Johanna Maria Skylv-Hansen (f.17. febrúar í Nólsoy 1877 d. 2. febrúar 1974 í Þórshöfn, Færeyjum) var vel þekktur færeyskur rithöfundur. Græn skjaldbaka. Græn skjaldbaka (tvínefni: "Chelonia mydas") er stór skjaldbaka af ætt sæskjaldbakna og eina tegundin í ættkvíslinni "Chelonia". Hún lifir í sjó í hitabeltinu víða um heim. Tveir aðskildir stofnar eru í Kyrrahafi annars vegar og Atlantshafi hins vegar. Grænskjaldbökur eru tegund í útrýmingarhættu. Ábóti. Ábóti er yfirmaður í kristnu munkaklaustri. Heitið er dregið af arameíska orðinu "abba" sem þýðir faðir. Ábótinn er valin af munkum klaustursins og er vígður til embættisins. Upphaflega var ábóti heiðurstitill sem gefinn var öllum eldri munkum. Frá frá 5 öld kemst ný regla á klausturstarfsemina og yfirmenn klaustranna fá þá aukin völd og geta krafist algjörrar hlýðni af munkunum. Frá þeim tíma eru titill yfirmannanna ábóti. Það er þó ekki fyrr en á 6 öld sem þess er krafist að ábótar séu prestvígðir. Sjöunda ökumeníska kirkjuþingið (í Nicæa, 787) veitti þeim rétt að víga munka sem "lesara" innan klausturs síns, en það var ein af hinum lægri kirkjulegu vígslum. Ábóti er ætíð undirmaður biskups. Íverufall. Íverufall er fall sem fallorð geta staðið í í sumum tungumálum. Í ensku er það kallað „inessive“ sem kemur úr latínu "īnsum" „ég er í, ég tilheyri”. Þetta fall er eitt af staðarföllunum í finnsku, litháísku, basknesku, eistnesku, og ungversku. Íverufall í eistnesku. Í eistnesku er íverufall sýnt með endingunni „-s“. Íverufall í finnsku. Íverufall er eitt af sex staðarföllum í finnsku. Önnur staðarföll í finnsku eru úrferðarfall, íferðarfall, nærverufall, sviptifall, og tilgangsfall. Í finnsku er íverufall táknað með endingunni „-ssa“ eða „-ssä“. Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Auður Eir Vilhjálmsdóttir (f. 21. apríl 1937) er fyrsti kvenpresturinn á Íslandi og hefur starfað sem sérþjónustuprestur í Reykjavík frá árinu 1999. Hún starfaði sem lögreglukona með námi og var starfsmaður á skólaheimilinu á Bjargi á Seltjarnarnesi, en starfsemin á Bjargi hefur verið í kastljósi fjölmiðla vegna svartrar skýrslu um heimilið. Plútó (dvergreikistjarna). Plútó er dvergreikistjarna í kuiperbeltinu, 2300 km í þvermál. Minnsta fjarlægð Plútós frá jörðu er um 4290 milljón kílómetrar og sú mesta um 7530. Plútó uppgötvaðist árið 1930 af bandaríska stjörnufræðingnum Clyde Tombaugh (1906-1997), en nafnið valdi hann eftir uppástungu 11 ára stúlku, Venetiu Burney (fædd Venetia Phair). Sporbaugur Plútós um sólu liggur ekki í sömu sléttu og sporbaugar reikistjarnanna heldur hallar hún um 17 gráður miðað við sléttu þeirra. Ennfremur er sporbaugurinn óvenju ílangur og liggur að hluta fyrir innan sporbaug Neptúnusar. Árið 1988 uppgötvuðu vísindamenn hjá NASA að birta Plútós dofnaði hægt þegar hann bar við stjörnu, en það var talið sanna að Plútó hefði lofthjúp. Plútó hefur fjóra fylgihnetti, en sá fyrsti sem fannst nefnist Karon. Karon er 900 km í þvermál og um sex daga á leið sinni kringum Plútó. Hinir þrír fylgihnettirnir heita Nix, Hýdra og P4. Nix og Hýdra fundust í maí 2005 og tilvist þeirra var staðfest í febrúar 2006 en P4 í júlí 2011. Plútó var lengi talin níunda reikistjarna sólkerfisins, eða frá 1930 til 24. ágúst 2006, þegar samþykkt var eftir heitar umræður á þingi Alþjóðasambands stjörnufræðinga að telja Plútó ekki lengur reikistjörnu, heldur "dvergreikistjörnu". Ástæðan var m.a. sú að Plútó er aðeins einn af þúsundum þekktra geimfyrirbæra í kuiperbeltinu og sum eru líklega stærri en hann. Einnig er sporbaugur Plútós talsvert frábrugðinn sporbaugum reikistjarnanna. Hestur. Hestur (fræðiheiti: "Equus caballus") er tegund stórra spendýra af hófdýraættbálki og eitt af sjö eftirlifandi tegundum af "Equus"-ættkvíslinni. Hestar hafa skipt miklu máli í mótun samgangna og vinnutækja í heiminum. Talið er að hestur nútímans hafi verið fyrst notaður til að auðvelda manninum vinnu sína um 2000 f. Kr. Í dag er hesturinn meira notaður sem húsdýr og tómstundagaman en í þriðja heiminum er hann enn mikið notaður við ýmis störf, sérstaklega í landbúnaði. Lífeðlisfræði. Líffæra- og lífeðlisfræði hestsins eru mjög lík eða eins milli tegunda. Þó eru til frávik s.s. í Arabíska gæðingnum sem hefur færri hryggjarliði en aðrar tegundir, stærð tegundanna er mjög breytileg sem og atferli og búsvæði. Aldur. Lífaldur hests fer eftir kyni (tegund), umhverfi og erfðum. Í dag lifa hestar gjarnan til 25 til 30 ára aldurs en hestar í villtum stóðum lifa gjarnan styttra enda kljást þeir þar við náttúrulegt val. Elsti hesturinn er talinn hafa verið „Old Billy“ sem lifði til 62 ára aldurs. Stærð. Stærðarmunur á hrossakynjum Hrossakynjum er skipt í tvo flokka eftir stærð; smáhesta (e.: "pony") og hesta. Hæðin er mæld á herðakambi og smáhestar kallast þeir hestar sem ná ekki 147 cm hæð. Skiptingin er þó ekki algild og er t.d. umdeilt hvort Íslenski hesturinn sé hestur eða smáhestur. Þannig þarf einnig að fylgja byggingu og getu hesta til að ákvarða í hvorn flokkinn þeir falla í. Minnsta viðurkennda hrossategundin í heiminum er Falabella en stærsta er Skírir (e. "Shire"). Stærsti einstaklingurinn var Sampson, síðar Mammoth, af Skíriskyni, sem náði 2.20 m hæð. Minnsti einstaklingurinn var Thumbelina (ísl"Þumalína") sem þjáist af vaxtarstöðnun. Hún er 43 cm há á herðakamb. Atferli. Hesturinn er hóp- og flóttadýr og hefur alla tíð verið veiddur af rándýrum. Eðli hans er því að flýja frá öllum hættum og þeir halda sig saman í hóp sem kallast stóð. Ef engin er undankomuleiðin snúa hestar sér til árásar eða varnar. Hross halda sig saman í hóp og eru nokkuð föst á það að fylgja stóðinu eða leiðtoganum en hestar hafa mikla hvöt til að velja sér leiðtoga. Þetta getur maðurinn nýtt sér við tamningar og þjálfun hestsins. Hestar hafa samskipti hver við annan með líkamstjáningu og hneggi. Stóðlífið. Stóðið samanstendur af stóðhesti og stóðmerum auk afkvæma. Oft eru yngri graðhestar með í hópnum sem slást um tign í goggunarröðinni. Oftast er það elsta merin sem stjórnar hópnum í leit að fæðu og skjóli. Hún þekkist af því að hún lætur flest hrossin éta á undan sér, ef lítið er um mat, en nýtur samt fyllstu virðingar allra hrossanna í stóðinu. Hún fer fyrir hópnum og velur bestu og öruggustu leiðina milli beitarsvæða. Þegar hrossahópar eða stóð hvílast er að jafna 1 til 2 sem standa og „halda vörð“ fyrir rándýrum. Hestar geta sofið standandi en gera það að jafnaði ekki nema á daginn, þá í stutta stund í einu. Á næturna sofa þeir liggjandi. Hestur í afslöppun einkennist af því að, ef hann stendur, hvílir gjarnan aðra afturlöppina og að neðri flipinn hangi slakur. Auk þess eru augun lokuð og hesturinn virðist sofa. Folöld fæðast venjulega á vorin eftir 336 daga langa meðgöngu og kallast það að merin "kasti". Folöldin kallast "merfolald" og "hestfolald" eftir kynjum. Fleirburar eru sjaldgæfir, en þó koma tvíburar fyrir. Merar eru þeim eiginleikum gæddar að geta gengið lengur með folaldið ef hart er í ári og gengið þá allt að 365 daga meðgöngu. Þetta er algengt á kaldari svæðum á Jörðinni, svo sem á Íslandi, vegna þess hve vorhret eru algeng. Þróun. Prezewalski-hestur í Mongólíu Elstu vísbendingar um að hesturinn hafi komið frá Mið-Asíu eru frá því um 4.000 f. Kr. en talið er að hófdýr hafi þróast fyrir um 10 milljón árum síðan, eftir að risaeðlurnar dóu út. Þau voru helstu spendýrin fram á míósen-tímabilið þegar klaufdýr þróuðust til að nýta grasfæðu betur en þau höfðu áður gert. Hesturinn þróaðist frá því að vera með 5 tær (klaufir) niður í 4, 3 og loks eina tá á míósen. Hestar með fleiri tær lifðu í deiglendara landi og sukku því ekki í blautann jarðveginn. Einnig breyttist fæða hestsins og hætti hann að vera laufæta í skógum og kjarri og fór að éta gras á sléttum meginlandanna. Fæðan varð trénismeiri og því þróaðist meltingarkerfið svo það gæti tekið við grófara æti. Á pleistósen stækkaði hesturinn til muna og missti 2. og 4. tána ásamt því að hann leitaði frekar út á gresjurnar í fæðuleit. Hliðartærnar minnkuðu hjá "Hipparion" og eina sem eftir lifir af þeim eru griffilbeinin sem nútímahestar nota ekki, en eru þó til staðar. Notkun. Hollenskur dráttarhestur Hestar eru hafðir til margs konar nota, hvort sem það er sem tómstundagaman, til vinnu eða afurða. Hestar voru helstu vopn herja fyrir iðnbyltinguna og eru einnig notaðir til sjúkraþjálfunar og í ýmsum meðferðum. Tómstundagaman. Hestar eru notaðir til útreiða og sem félagar manna og annarra dýra, s.s. nautgripa og asna. Útreiðar í náttúrunni eru stundaðar um allan heim, hvort sem það er útúrdúr fyrir keppnishesta eða fyrir hinn almenna reiðmann. Keppnir. Keppt er í ýmsum flokkum og gerðum keppna. Helstu keppnirnar eru hindrunarstökk, fimi og veðhlaup. Bandarískar búgreinakeppnir á borð við „tunnuhlaup“ og „fánareið“ eru vinsælar vestanhafs og hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Á íslenska hestinum er keppt í gangtegundum, A- og B-flokki og tölti auk skeið-spretta. Þolreið er einnig vinsæl. Vinna. Margar atvinnugreinar vinna við eða nota hesta við vinnu sína. Ef frátaldir eru tamningamenn, þjálfarar og dýralæknar nota margar lögregludeildir hesta við störf sín. Bændur og skógarhöggsmenn um allan heim hafa notað hesta til dráttar og gera enn. Í þróunarríkjum eru hestar enn mikið notaðir þó að dregið hafi úr notkun þeirra í atvinnulífi iðnríkjanna. Afurðir. Afurðir hrossa eru kjöt, kaplamjólk, skinn og húðir. Kaplamjólk og blóð hrossa er notað við matargerð í Mongólíu. Blóð úr fylfullum hryssum og fylsugum (þeir hryssur sem hafa folald á spena) er notað í frjósemislyf innan búfjárræktar. Hrosshár, þ.e. taglhár, eru notuð í fiðluboga og boga á öðrum álíka hljóðfærum. Hyrni hófanna er notað til gerðar á hóflími, til að laga sprungur og holur í hófum lifandi hrossa. Skinn og húðir eru nýttar í klæði og efni. Afsjálfgun. Sjálfshvarf: skerðing eða missir tilfinningar fyrir eigin persónu; einkenni sumra geðsjúkdóma, t.d. geðklofa. Ate. Ate (Ἄτη) er persónugervingur mistaka eða glæpsku í grískri goðafræði. Guðlast. Guðlast (eða goðgá) er níð sem beinist að goðmagni eða goðmögnum. Í sumum löndum, t.d. Íslandi, er guðlast bannað með lögum. Urriðafoss. Urriðafoss er neðsti foss í Þjórsá. Fossinn steypist fram af misgengisstalli í Hreppamynduninni. Urriðafoss er einn vatnsmesti foss landsins og er meðalrennsli Þjórsár við Urriðafoss um 360 rúmmetrar á sekúndu (m³/s). Einungis Ölfusá er vatnsmeiri. Fallhæð fossins er 6 metrar þar sem hann er hæstur. Á vetrum getur myndast allt að 20 metra þykk íshrönn við fossinn, svokölluð "Urriðafosshrönn". Virkjunaráform. Á fyrri hluta 20. aldar stofnaði Einar Benediktsson Fossafélagið Títan með það að markmiði virkja Urriðafoss og leggja þangað járnbraut frá Reykjavík. Árið 1927 fékk Títan leyfi til að reisa 160.000 hestafla aflstöð við Urriðafoss en ekkert varð úr framkvæmdum. Landsvirkjun áformar að reisa Urriðafossvirkjun við fossinn. Vatni verður þá veitt í jarðgöngum austan við Urriðafoss og mun fossinn nánast hverfa. Samkvæmt áætlunum verður virkjun við Urriðafoss 125 MW að afli og orkugeta hennar um 930 GWst/ári. Áformað er að mynda inntakslón með stíflu í Þjórsá við Heiðartanga og stíflugörðum. Aðrir fossar í Þjórsá. Urriðafoss og nágrenni í apríl 2008. Samsett úr þremur ljósmyndum Margir aðrir fossar eru í Þjórsá og flestir hærri en Urriðafoss, þótt hann sé þeirra vatnsmestur. Da Nang-flugvöllur. Da Nang-flugvöllur er flugvöllur í Da Nang í Víetnam. Fossafélagið Títan. Hugmynd Fossafélagsins Títans um Urriðafossvirkjun frá 1918. Ekkert varð úr þeirri virkjun Fossafélagið Títan (eða á dönsku Aktieselskabet Titan) var félag sem Einar Benediktsson skáld stofnaði árið 1914 ásamt fleiri aðilum til að virkja Þjórsá og fleiri íslensk fallvötn. Á árunum 1914 til 1919 aflaði félagið sér hlutafjár og vatnsréttinda með samningum við jarðeigendur og stóð fyrir rannsóknum. Norski vélfræðingurinn Gotfred Sætersmoen kom til Íslands á vegum félagsins og árin 1915 -1917 rannsakaði hann Þjórsársvæðið. Félagið gaf út bókina „Vandkraften i Thjorsá elv, Island“ árið 1918 og fjallaði hún um niðurstöður rannsókna á Þjórsársvæðinu og virkjunaráform félagsins. Fossafélagið Títan áformaði að virkja Búrfell og Urriðafoss. Alþingi hafði sett á stofn fossnefnd til að gera tillögu um framtíðarstefnu í virkjanamálum og vonuðust stjórnendur Fossafélagsins eftir því að sú nefnd yrði þeim hliðholl. Árið 1918 var Einar Benediktsson og Fossafélagið Títan búnir að kaupa upp flest vatnsréttindi í afréttum hreppa í uppsveitum Árnessýslu. Landsstjórnin sendi þá símskeyti til allra sýslumanna og benti á að vatnsréttindi væru almenningseign og að svokölluð fossnefnd teldi alla þá sölusamninga sem hreppar hefðu gert um vatns- og landsréttindi í afréttum ólögmæta. Árið 1927 fékk félagið leyfi til að reisa 160.000 hestafla aflstöð við Urriðafoss en ekkert varð úr framkvæmdum. Fossafélagið Títan keypti hálfa jörðina Skildinganes í því augnamiði að koma þar upp hafnaraðstöðu. Eftirmálar af vatnsréttindakaupum. Fossafélagið Títan var leyst upp árið 1951 og árið 1952 keypti íslenska ríkið öll réttindi og greiddi 600 þúsund norskar krónur og 200 þúsund íslenskar krónur fyrir vatnsréttindin. Þessi vatnsréttindi voru svo lögð af Ríkissjóði til Landsvirkjunar árið 1965. Hins vegar er í úrskurði Óbyggðanefndar um eignarréttindi á Gnúpverjaafrétti frá 21. mars 2003 komist að þeirri niðurstöðu að framsal vatnsréttinda í byrjun aldarinnar hafi byggst á vanheimild og hafi því Gnúpverjahreppur ekki átt vatnsréttindin þegar þau voru seld til Títans því þau hafi verið í eigu ríkisins. Jón Jónsson (jarðfræðingur). Jón Jónsson (f. 3. október 1910 að Kársstöðum í Landbroti, d. 29. október 2005) var íslenskur jarðfræðingur. Hann var afkastamikill höfundur og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Hann starfaði á sviði jarðhita og neysluvatnsrannsókna og vann brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Nám. Barnalærdóm og vísi að unglingafræðslu hlaut Jón Jónsson í Þykkvabæ, fór síðan 1928 að Eiðum og sat þar tvo vetur í Alþýðuskólanum. Árið 1945 settist hann að í Uppsölum og kynntist Tómasi Tryggvasyni, sem þá hafði nýlokið jarðfræðinámi þar. Í gegn um Tómas kynntist Jón fleiri jarðfræðingum og jarðfræðiprófessorum. Síðan fékk hann vinnu sem aðstoðarmaður við jarðfræðistörf og sumarið 1949 tók hann þátt í leiðangri til Grænlands undir stjórn dr. Lauge og stundaði steingervingaleit. Starfaði svo sem rannsóknarmaður á steingervingasafninu í Uppsölum. Hann tók einnig þátt í sænskum leiðöngrum og jarðfræðirannsóknum á Hoffelssandi 1951–1952. Sumarið 1954 fór Jón til Íslands og fékk þá þann starfa að gera jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni. Jón innritaðist í jarðfræðideild Uppsalaháskóla 1954. Það haust varð Jón 44 ára. Vorið 1958 lauk hann námi með tvöfaldri útskrift með kandidats- (fil.kand.) og licenciatpróf (fil. lic.). Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti. Störf. Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) 1958. Framan af voru verkefni hans einkum á sviði neysluvatns- og heitavatnsöflunar. Boranir eftir heitu vatni voru þá komnar á skrið og heppnuðust víða vel undir hans tilsögn. Hann vann einnig sem jarðhitaráðgjafi í ýmsum löndum Mið-Ameríku og Afríku á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana. Jón fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Árið 1980 lét Jón af störfum fyrir jarðhitadeild Orkustofnunar en hélt þó áfram eigin rannsóknum og ráðgjöf í neysluvatns- og jarðhitamálum. Á þessi skeiði beindust augu hans mjög að Eyjafjöllum og af þeim gerði hann jarðfræðikort sem út kom ásamt með ýtarlegri lýsingu 1989. Á síðustu árunum snérist áhugi hans í auknum mæli að átthögunum í Vestur-Skaftafellssýslu og hinum miklu hraunaflæmum frá Eldgjá, Lakagígum og Hálsagígum. Síðustu rannsóknarleiðangrana fór Jón á það svæði árið 2002, þá á 92. aldursári. Þótt Jón hæfi ekki jarðfræðistörf fyrr en á fimmtugsaldri spannar starfsferill hans á því sviði vel á sjötta tug ára og er lengri en flestir jarðfræðingar geta státað af. Jón Jónsson var afkastamikill vísindamaður og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Á 85 ára afmæli hans var gefið út bókin Eyjar í eldhafi honum til heiðurs með safni greina um náttúrufræði. Þar má finna æviágrip hans og ritalista. Mótmæli vörubílstjóra á Íslandi 2008. Átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda þann 23. apríl 2008. Mótmæli vörubílstjóra á Íslandi 2008 voru mótmæli sem vörubílstjórar á Íslandi skipulögðu 2008 til að mótmæla háum olíusköttum og of stífum reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra. Mótmælin lýstu sér í því að atvinnubílstjórar lögðu vörubílum sínum á stórum umferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu, og hindruðu þannig alla umferð. Mótmæli. Álögur á eldsneyti eru eftirfarandi: fyrir olíu er vörugjaldið 41 króna en fyrir bensín er 9,28 krónur auk sérstaks bensíngjalds sem er 32,95 krónur. Virðisaukaskattur af eldsneyti á ökutæki er almennt 24,5%. Þessar álögur hafa ekki breyst nýlega. Það sem ætla má að valdi hækkun á eldsneytisverði er hátt heimsmarkaðsverð á hráolíu og veikt gengi íslensku krónunnar. Samgönguráðherra setur lög og reglur um hvíldartíma ökumanna. Samkvæmt reglugerð um skipulag á vinnutíma ökumanna þarf ökumaður að hvílast í samtals 45 mínútur fyrir hvern 4,5 klukkutíma sem ekinn er. Vörubílstjórar segja að þessar reglur, sem byggja á evrópskum reglum, henti ekki á Íslandi auk þess sem hvíldaraðstaða við vegi landsins er lítil sem enginn. Samkvæmt lauslegum útreikningum blaðamanns Morgunblaðsins kostuðu mótmælin, frá 27. mars til 4. apríl, samfélagið að minnsta kosti 31,4 milljónir króna. Brugðist var við þessu í annarri grein í Morgunblaðinu og niðurstöðurnar dregnar í efa. 27. mars 2008. Mótmælin hófust með því að hópur vörubílstjóra lagði bílum sínum í Ártúnsbrekku og stöðvaði þannig umferð. Páll Pálsson forsvarsmaður hagsmunasamtaka vörubílstjóra sagði mótmælinn ekki að frumkvæði samtakanna. Sturla Jónsson var skipuleggjandi mótmælanna og Páll Pálsson sagði að vörubílstjórar myndu mótmæla daglega með sama hætti þar til að álögur yrðu lækkaðar. 28. mars 2008. Þann 28. mars stífluðu vörubílstjórar alla umferð í Ártúnsbrekku. Vörubílstjórar mótmæltu með sama hætti og fyrri daginn en lokuðu umferð í báðar áttir. Mótmælin hófust um fjögurleytið og stóðu yfir í um hálftíma. Áætlað var að um hundrað manns hafi tekið þátt. Þá tilkynntu vörubílstjórar að þeir myndu halda áfram eftir helgi, fengju þeir ekki að funda með ráðamönnum um málefni sín. Bílstjórarnir fóru leynt með ráðagerðir sínar af ótta um að lögreglan myndi koma í veg fyrir þær. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, gagnrýndi mótmælaaðgerðirnar vegna þess að þær voru ekki tilkynntar og því hafi ekki verið hægt að gera ráðstafanir fyrir sjúkraflutninga ef til þess kæmi. 31. mars 2008. Aftur var mótmælt í Ártúnsbrekku og einnig var Reykjanesbraut lokað við Kúagerði. Lögreglan hafði undirbúið sig og var aukalegur mannskapur á vakt. Mótmælin stóðu yfir í rúma klukkustund og lauk laust eftir átta. Boðað var til mótmæla á Austurvelli klukkan 16:00 þann 1. apríl á vef Ferðaklúbbsins 4X4. Einnig var veginum lokað við Lónsvegamót á Höfn í Hornafirði frá kl 16:45 til 17:10 1. apríl 2008. Mótmælin sem boðað var til daginn áður hófust með því að bílstjórar söfnuðust saman í Klettagörðum og óku til Austurvallar. Sturla Jónsson afhenti Sturlu Böðvarsyni, forseta Alþingis, undirskriftalista um lækkun eldsneytisskatta. Hópferðamiðstöðin TREX lýsti yfir stuðningi sínum og sendi netpóst til forsætis-, fjármála-, viðskipta-, iðnaðar- og samgönguráðherranna. Þar sagði að atvinna þeirra sem byggðu afkomu sína á seldum akstri væri í hættu og lýst var yfir vonbrigðum vegna athafnaleysis stjórnvalda. Bílstjórar stöðvuðu einnig umferð við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í um tíu mínútur þar til lögreglan kom á vettvang. Á Akureyri mótmæltu einnig um 50-60 bílstjórar. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, lét þau orð falla í útvarpsviðtali á Bylgjunni að hann væri tilbúinn til að ræða við vörubílstjóra ef þeir „hættu þessum ósköpum á vegunum“ og að það myndi duga að líta við í kaffi. 4. apríl 2008. Sunnlenskir vörubílsstjórara mótmæltu með því að aka löturhægt yfir Ölfusárbrú á Selfossi. Lögregla beindi halarófunni annað þegar bílstjórar hugðust aka yfir brúna í þriðja sinn. Atburðurinn fór friðsamlega fram. 23. apríl 2008. Mótmæli hófust um kl. 11 um morgun 23. apríl 2008 á Suðurlandsvegi við Rauðavatn í nágrenni Reykjavíkur. Lögreglan var á staðnum, vopnuð óeirðarbúnaði (múgskjöldum og kylfum) og kom til átaka milli þeirra og mótmælenda. Þeir handtóku bílstjóra og mótmælendur og sprautuðu piparúða á fjöldann. Var steinum og eggjum kastað í lögrelumenn og slasaðist einn lögreglumaður þegar hann fékk grjót í höfuðið. 21 mótmælandi var handtekinn og 16 ökutæki gerð upptæk vegna mögulegra brota á og. Múgstjórnunarsveit lögreglunnar sá um aðgerðir á vettvangi. Sigmar Magnússon bílstjóri kærði lögreglumann sem hrifsaði af honum farsíma og eyddi myndbandsupptöku af aðgerðum lögreglunnar. Lögreglumaðurinn neitaði að gefa upp lögreglunúmer og bar því við að hann hefði ekkert númer. Samkvæmt 10. grein í reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar fá allir lögreglumenn sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins og lögreglunemar úthlutað lögreglunúmeri. Fréttamaður Stöðvar 2, Lára Ómarsdóttir, heyrðist í beinni útsendingu segja: „Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir“. Vöknuðu þá grunsemdir um að fréttamenn Stöðvar 2 hefðu sviðsett fréttaefni. Í yfirlýsingu frá Láru kom fram að um grín hafi verið að ræða. En í kjölfarið ákvað hún að segja starfi sínu lausu sökum sem henni þótti hún hafa misst traust almennings. 24. apríl 2008. Ungmenni tefja umferð við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar 25. apríl. Eigendur ökutækjanna sem voru gerð upptæk voru boðaðir til skýrslutöku á lögreglustöðina við Hverfisgötu klukka 11:15. Þeir mættu í íþróttabolum, framan á þeim var númer og fyrir ofan það stóð „Trukkari“ og aftan á bolnum stóð „Eign ríkisins“. Einar Árnason flutningabílstjóri sagði að bílunum hafi verið löglega lagt á hvíldarstæði. Samkvæmt Einari telur lögreglan að vörubílarnir hafi stíflað veginn. Maður, sem áður hafði titlað sig talsmann vörubílstóra, réðst á lögreglumann þegar bílstjórarnir voru að sækja bílana sína á geymslusvæði við Kirkjusand. Árásamaðurinn var handtekinn og vörubílstjórarnir fordæmdu árásina. Árásamaðurinn, Ágúst Fylkisson, sendi síðar frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á athæfi sínu. Yfirlögregluþjónn höfuðborgarsvæðisins sagði um árásina: „Þetta er með því grófara sem maður hefur séð og mjög hrottaleg árás“. Lögreglumaðurinn sem varð fyrir árásinni nefbrotnaði og tognaði illa á hálsi. Boðað var til fundar allsherjarnefndar af frumkvæði stjórnarandstöðunnar. Atli Gíslason, fulltrúi Vinstri grænna, vildi að upplýsingum um mótmælin 23. apríl yrði safnað og fulltrúar lögreglu og vörubílstjóra yrðu kallaðir fyrir nefndina. Vörubílstjórar héldu því fram að símar þeirra hefðu verið hleraðir fyrir mótmælin daginn áður en Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn þvertók fyrir það. 25. apríl 2008. Í kringum hundrað ungmenni töfðu umferð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar um fjögurleytið. Eftir að lögregla setti ungmennunum þá afarkosti að fara eða verða handtekin hurfu þau fljótlega á brott. Gagnrýni á mótmæli vörubílsstjóra. Mótmælin hafa helst verið gagnrýnd vegna þess að skipuleggjendum láðist að tilkynna þau. Þetta varð til þess að hætta skapaðist þar sem hvorki slökkvilið né sjúkraliðar gátu gert ráðstafanir tímanlega. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fékk tölvupóst frá ýmsum eftir mótmælin 23. apríl þar sem meðal annars var þess krafist að hann segði af sér. Sigurður Líndal, lagaprófessor við Háskóla Íslands, gagnrýndi ofbeldi gagnvart lögreglu þann 23. apríl og ummæli þingmannana Atla Gíslasonar, Steingríms J. Sigfússonar og Guðjóns A. Kristjánssonar en honum þótti þeir gefa í skyn að aðgerðir lögreglu hefðu farið fram úr hófi. Gagnrýni á aðferðir lögreglu til að halda mannfjölda í skefjum. Við Rauðavatn 23. apríl hótaði lögreglan að beita piparúða á mótmælendur, sem óhlýðnuðust fyrirmælum hennar. Lögregluþjónar gengu ógnandi um götuna með gasbrúsa og hrópuðu: „Gas! Gas! Gas! Af götunni!“ í þeim tilgangi að gefa fólki færi á að forða sér undan úðanum. Skiptar skoðanir eru á því hvort aðferðir lögregluþjónsins hafi verið réttar og hvort of mikilli hörku hafi verið beitt. Arnar Rúnar Marteinsson aðalvarðstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir þetta byggt á algjörum misskilningi. „Okkar markmið er ekki að reyna að klekkja á neinum og við gætum þess að almenningur hafi alltaf útgönguleið. Til þess að svo verði upplýsum við mótmælendur fyrirfram um hvað við hyggjumst gera, hvort sem beita á úða eða kylfum, og veitum þeim þannig tækifæri til að yfirgefa svæðið án átaka.“ segir hann í viðtali við Morgunblaðið þann 28. apríl 2008. Rauðavatn. Rauðavatn er stöðuvatn í nágrenni Reykjavíkur, nánar tiltekið norðan Elliðavatns. Við Rauðavatn voru fyrstu skref skógræktar á Íslandi tekin í upphafi 20. aldar, en skógrækt fór þá einnig fram á Grund í Eyjafirði, á Hallormsstað og á Þingvöllum. Rauðavatn var vettvangur Skógræktarfélags Reykjavíkur. Mohawk-dals forskriftin. Mohawk-dals forskriftin (enska: "The Mohawk Valley formula") var framkvæmdaáætlun í Mohawk-dalnum í Bandaríkjunum sem kom fram í júní 1936 til að brjóta aftur verkfall við Remington Rand Corporation og koma óorði á Verkalýðsleiðtoga, hræða almenning með ofbeldishótunum, nota staðarlögregluna og sjálfsskipaðar löggæslusveitir, mynda tilbúnar leikbrúðu-útgáfur af „fyrirmyndar launamanni“ til að hafa áhrif á almennar rökræður, víggirða vinnustaði, ráða fjöldann allan af starfsmanna-staðgenglum og að hóta því að vinnustaðnum yrði lokað ef vinna yrði ekki tekin upp á ný. "Mohawk-dals forskriftin" kom fyrst fram í grein eftir forseta fyrirtækisins, James Rand, Jr. og var birt í "National Association of Manufacturers Labor Relations Bulletin" á fjórða mánuði verkfallsaðgerðanna. Thorarensen. Thorarensen er algengasta íslenska ættarnafnið. Hansen. Hansen er þriðja algengasta ættarnafnið á Íslandi. Olsen. Olsen er fjórða algengasta ættarnafnið á Íslandi. Möller. Möller er fimmta algengasta ættarnafnið á Íslandi. Thoroddsen. Thoroddsen er sjötta algengasta ættarnafnið á Íslandi. Þórður, sonur Þórodds Þóroddssonar á Vatnseyri, kallaði sig fyrstur ættarnafninu Thoroddsen. Hann bjó á Reykhólum um 1800, og var giftur Þóreyju Gunnlaugsdóttir. Sydney White. Sydney White (einnig þekkt undir vinnuheitinu "Sydney White og nördarnir sjö") er bandarísk gamanmynd frá árinu 2007 með Amöndu Bynes, Söru Paxton og Matt Long í aðalhlutverki og er byggð á sögunni um Mjallhvíti og dvergana sjö. Piparúði. Piparúða beitt gegn manni með kylfu. Piparúði er varnarúði sem veldur tárarennsli, þ.e. efnablanda sem veldur kláða í augum, særindum og jafnvel tímabundinni blindu. Lögregluþjónar nota hann víða — t.d. til að drepa óeirðarseggjum á dreif og til að koma í veg fyrir múgsöfnun. Piparúðinn er sumstaðar notaður til sjálfsvarnar og þar á meðal til að verjast mannýgum hundum eða öðrum illvígum skepnum. Vörubíll. Vörubíll er stórt farartæki notað til að flytja vörur, efni eða útbúnaði. Í mörgum löndum er þörf á sérstöku ökuskírteini til að aka vörubílum. Almenningssamgöngur. Almenningssamgöngur er hugtak í samgöngumálum sem á við um þær almenningsþjónustur sem almenningur borgar fargjald fyrir til að nota. Almennisamgöngur eru í raun hver sá ferðamáti sem ætlaður er almenningi en ekki til einkanota. Dæmi um slíkt eru áætlunarbifreiðar og lestarþjónustur, flugvélar, ferjur og leigubílar. Almenningsamgöngur fylgja yfirleitt tímaáætlun og fara fastar leiðir. Saga tölvuleikjavéla (fyrsta kynslóð). Fyrsta kynslóð tölvuleikjavéla stóð yfir frá 1972 til 1977. Leikjatölvurnar voru Magnavox Odyssey, Magnavox Odyssey 100, Magnavox Odyssey 200, Wonder Wizard 7702, Pong og Coleco Telstar. Setlagafræði. Setlagafræði er sú undirgrein jarðfræðinnar, sem fjallar um set í víðu samhengi, t.d. veðrun og rof, flutning sets og setmyndun í mismunandi setmyndunarumhverfum. Hún er að miklu leyti tengd jarðlagafræði. Þeir sem leggja stund á setlagafræði kallast setlagafræðingar. Til setlagafræðinnar teljast rannsóknir á sandi, leðju (silti), leir og þeim ferlum sem leiða til setmyndunar þessara efna. Setlagafræðingar beita skilningi sínum á þeim ferlum sem þeir sjá í dag og túlka jarðsöguna með því að rannsaka setberg og setmyndanir. Setberg þekur meirihluta af yfirborði jarðar. Í því er að finna stóran hluta af sögu jarðar og það varðveitir alla steingervinga. Setlagafræðin er nátengd jarðlagafræði, fræðigreininni sem fæst við eðlisfræðileg og tímafræðileg tengsl á milli berglaga eða jarðlaga. Sú jarðfræðilega forsenda að nútíminn sé lykilinn að fortíðinni er grunnurinn að því að ákvarða hvernig setmyndun átti sér stað í gegnum jarðsöguna. Með því að bera saman svipuð einkenni nútíma setmyndana við eldri setmyndanir (t.d. sandskafla sem myndast í dag við sandskafla sem mynduðust í fjarlægri fortíð og varðveittust í fornum sandsteini) geta jarðfræðingar byggt upp líkön af setmyndun í fornumhverfi. Savanna tríóið - Savanna tríóið 1968. Savanna tríóið - Savanna tríóið er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1968. Á henni flytur Savanna tríóið þjóðleg lög. Kápumynd Jón Guðmundsson. Saga tölvuleikjavéla (önnur kynslóð). Önnur kynslóð tölvuleikjavéla hófst árið 1976 með Fairchild Channel F tölvunni. Atari 2600 var vinsælasta tölvan á meðan á annarri kynslóð stóð eða til ársins 1984. Aðrar vinsælar tölvur voru Intellivision, Odyssey 2 og ColecoVision. Árið 2004 hafði Atari 2600 selst í 30 milljónum eintaka. Veðrun. Veðrun er ferlið þegar berg grotnar niður. Veðrun skiptist í þrjá flokka, aflræna veðrun, lífræna veðrun og efnaveðrun. Mismunandi tegundir veðrunar hjálpast að við niðurbrot bergs, þar sem aflveðrun og lífræn veðrun eykur það yfirborð bergs, sem efnaveðrun getur unnið á. Við veðrun rúnnast setkorn þar sem veðrunin vinnur best á hornum bergkorna en verst á flötum. Aflræn veðrun. Flögur af graníti eftir farglétti. Aflræn veðrun er aflrænt niðurbrot bergs fyrir tilstilli útrænna afla, svo sem vinds, vatns og sólar. Til hennar telst meðal annars frostveðrun, hitaþensla og fargléttir. Frostveðrun. Frostveðrun ("Freeze thaw weathering" á ensku) á sér stað þar sem hitasveiflur milli frosts og þýðu eru algengar, svo sem á Íslandi. Vatn seytlar í sprungur í bergi þar sem það þenst út þegar það frýs. Við útþenslu vatnsins sprengir það bergið, sprungurnar stækka og vatnið nær að seytla lengra inn áður en það frýs aftur. Hitaþensla. Hitaþensla ("Thermal expansion" á ensku) á sér stað þar sem hitasveifla er mikil innan sólarhringsins, t.d. í eyðimörkum. Þegar berg hitnar þenst það út en við kólnun dregst það saman. Sífelld útþensla og samdráttur veldur álagi á steindir bergsins og það flagnar. Fargléttir. Fargléttir ("Pressure release" á ensku) verður þegar þegar þrýstingur á bergi minnkar, t.d. vegna rofs efri berglaga. Við þrýstingsminnkunina þenst bergið út og flagnar í þynnur samsíða yfirborði. Lífræn veðrun. Lífræn veðrun verður vegna virkni lífvera. Má þar nefna rótarfleygun, sem á sér stað þar sem rætur plantna þrýstast í sprungur bergs og víkka þær. Einnig geta sveppir, fléttur og örverur grafið sig inn í berg eða innbyrt það. Efnaveðrun. Efnaveðrun á sér stað þegar berg grotnar við efnahvörf. Þá hvarfast berg við utanaðkomandi efni, svo sem gastegundir, vatn eða vatnslausnir. Við það breytist efnasamsetning steinda í berginu. Auðleysanlegastar eru þær steindir, sem kristallast við hátt hitastig, svo sem ólívín og pýroxen en efnaveðrun vinnur verst á steindum, sem kristallast við lágt hitastig, eins og kvars. Efnaveðrun er afar mikilvirk á Íslandi. Ástæður þess eru meðal annars gljúp berglög, mikil úrkoma og jarðhiti, sem hraðar efnahvörfum, og að íslenskt berg er tiltölulega auðleysanlegt. Til efnaveðrunar teljast meðal annars uppleysing, vötnun og oxun. Uppleysing. Uppleysing ("Dissolution" á ensku) gerist þegar súrt vatn rennur um sprungur í bergi og leysir upp efni í steindum þess. Saltsteinn og kalsít leysast auðveldlega upp í súrri lausn. Vötnun. Vötnun ("Hydrolysis" á ensku) verður þegar síliköt, svo sem ólivín og orþóklas, leysast upp í jónuðu vatni og mynda leirsteindir (kaólinít). Oxun. Oxun ("Oxidation" á ensku) gerist þegar súrefni gengur í samband við efni í bergi. Algengast er að tvígilt járn oxist yfir í þrígilt en við það fær berg appelsínugulan eða rauðleitan blæ. Rof. Rof er flutningur setkorna og annarra uppleystra efna með roföflum frá veðrunarstað til setmyndunarstaðar. Til rofafla teljast meðal annars jöklar, vatnsföll, vindar og hafstraumar. Þyngdarkraftur jarðar skipar stóran sess í rofi, bæði sem hluti af fyrrnefndum roföflum en einnig sem eðjuflóðavaldur. Rof er einn stærsti þáttur landmótunar þar sem bergmylsnan, sem roföflin flytja, sverfur undirliggjandi berg. Flutningsmáti sets í straumefnum, svo sem vindi og vatnsföllum, er með tvenns konar hætti. Annars vegar er um að ræða botnskrið stærri korna þar sem þau annað hvort skríða eða hoppa eftir botninum. Hins vegar er aursvif smærri korna í svo kallaðri grugglausn. Hvort setkorn ferðast með botnskriði eða aursvifi fer eftir kornastærð og straumhraða. Apúlía. Apúlía (ítalska: "Puglia") er sjálfstjórnarhérað á Ítalíu. Basilíkata. Basilíkata (ítalska: "Basilicata") er sjálfstjórnarhérað á Ítalíu. Lígúría. Lígúría (ítalska: "Liguria") er sjálfstjórnarhérað á Ítalíu. Mólíse. Mólíse (ítalska: "Molise") er sjálfstjórnarhérað á austurströnd Ítalíu sem liggur sunnan við Abrútsi, austan við Latíum og norðan við Kampaníu og Apúlíu. Höfuðstaður héraðsins er borgin Campobasso. Íbúar eru um 320 þúsund. Héraðið skiptist í tvær sýslur: Campobasso og Isernia. Trentínó-Suður-Týról. Trentínó-Suður-Týról (ítalska: "Trentino Alto-Adige") er sjálfstjórnarhérað á Ítalíu. Íbúar eru rúmlega milljón talsins þar af rúm 200.000 í borgunum tveimur, Trento og Bolzano. Í héraðinu eru tvær sýslur Trentó með 217 sveitarfélög og Bolzano með 116 sveitarfélög. Héruð Ítalíu. Image:Regioni of Italy with official names.png|thumb|right|350px|Italia suddivisa per regioni poly 683 497 649 515 650 524 640 525 637 546 649 561 633 561 626 571 651 592 688 602 707 586 719 597 740 571 707 540 Abrútsi poly 791 655 813 651 834 670 847 688 867 686 876 714 865 739 846 737 843 755 805 752 795 742 806 726 777 676 Basilíkata poly 805 754 835 844 811 862 800 894 800 919 826 920 894 838 895 802 868 739 850 741 846 760 Kalabría poly 690 629 758 628 785 656 775 677 802 727 792 744 780 749 751 733 741 692 709 704 675 649 Kampanía poly 583 320 536 316 427 296 396 298 378 335 411 364 424 357 488 392 523 376 542 388 544 412 567 420 570 404 603 410 612 403 585 364 Emilía-Rómanja poly 609 154 670 165 685 248 673 255 631 248 620 230 597 230 593 205 582 190 Friúlí poly 524 544 627 639 679 642 688 617 688 606 651 596 623 571 632 559 642 559 635 540 635 523 646 525 642 512 596 543 554 503 Latíum poly 379 343 318 351 300 385 281 386 267 418 312 411 349 360 428 395 434 387 410 364 Lígúría poly 377 331 392 297 426 292 521 310 473 267 487 231 464 232 472 174 444 157 385 171 348 205 337 239 355 269 335 274 339 305 355 305 Langbarðaland poly 614 402 666 437 684 492 648 513 626 497 607 447 577 433 568 421 573 414 576 408 603 416 Marke poly 743 574 723 599 706 589 690 602 693 627 757 625 765 584 Mólíse poly 344 203 332 171 289 221 295 251 242 263 246 284 207 294 240 326 219 361 276 388 296 381 313 348 379 339 356 309 334 301 330 281 349 269 333 236 Fjallaland poly 770 586 830 579 836 598 815 615 923 667 990 733 975 765 879 713 869 684 848 683 817 650 784 658 760 628 Apúlía poly 409 650 420 702 401 827 349 843 318 841 306 699 318 650 368 642 Sardinía poly 578 943 763 1026 794 893 602 899 Sikiley poly 414 362 425 353 486 394 520 379 538 390 541 414 566 421 576 436 571 461 551 503 527 542 435 519 435 389 Toskana poly 460 160 462 135 575 110 589 149 578 161 567 152 549 184 559 197 537 218 502 245 489 245 489 231 468 231 475 173 Trentínó-Suður-Týról poly 557 502 597 540 638 510 622 495 606 448 578 439 Úmbría poly 223 231 272 216 289 223 291 248 235 263 Ágústudalur poly 586 318 528 310 474 264 480 238 496 246 559 199 553 181 565 158 594 155 606 155 579 188 589 200 592 228 617 230 626 247 575 272 584 303 594 309 Venetó Gunnlaugur Leifsson. Gunnlaugur Leifsson (d. 1218 eða 1219) var íslenskur rithöfundur og skáld. Hann var munkur í Þingeyraklaustri, en þar var klaustur af Benediktsreglu. Gunnlaugur samdi sögu Ólafs Tryggvasonar á latínu. Hún er nú glötuð, en talið að hún hafi verið talsvert aukin útgáfa af hinni latnesku "Ólafs sögu Tryggvasonar" eftir Odd Snorrason, klausturbróður hans á Þingeyrum. Snorri Sturluson studdist að hluta við sögu Gunnlaugs þegar hann vann að "Heimskringlu". Kaflar úr verki Gunnlaugs voru teknir upp í "Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu", sjá Simpson 2004:166. Gunnlaugur samdi á latínu sögu Jóns Ögmundssonar hins helga, Hólabiskups. Þetta verk er glatað, en til eru íslenskar þýðingar á sögu Jóns. Talið er að Gunnlaugur hafi skrifað þátt á latínu um "Þorvald víðförla", en hann er aðeins varðveittur í íslenskri þýðingu. Gunnlaugur mun hafa tekið þátt í að safna til jarteiknabókar Þorláks helga. Vitað er að Gunnlaugur skrifaði um Ambrósíus kirkjuföður. Nýlegar rannsóknir benda til að "Ambrósíus saga", sem er íslensk þýðing á "Vita sancti Ambrosii", geti verið verk Gunnlaugs. (Katrín Axelsdóttir 2005:349). Loks samdi Gunnlaugur "Merlínusspá", sem er íslensk þýðing á "Prophetiae Merlini" eftir Geoffrey frá Monmouth. Myndmálið í þýðingu Gunnlaugs sýnir að hann hafði góða þekkingu á íslenskri skáldskaparlist. Kvæðið er varðveitt í "Hauksbók", það skiptist í tvo hluta og er alls 171 erindi, undir fornyrðislagi. Straujárn. Straujárn er heimilistæki sem notað er til að slétta krumpur og fellingar í efni og fötum með þrýstingi og hita og stundum einnig með gufu. Straujárn er hitunarplata með handfangi. Táknmynd sem sýnir hitastig við straujun. Oftast er einn, tveir eða þrír punktar. Áður var vanalegt að straujárn væru gerð úr smíðajárni. Það var þá flöt járnplata með handfangi og var platan hituð í eldi. Síðan voru framleidd straujárn sem voru flatur járnkassi sem fylltur var af heitum trékolum. Straujárn eru nú oftast framleidd úr áli eða ryðfríu stáli og hituð með rafmagni. Gufustraujárn eru algeng en það eru straujárn með innbyggðu vatnsíláti þar sem vatn er hitað í gufu sem úðað er yfir það sem á að strauja. Straujárn eru oftast með hitastilli sem stilltur er eftir því hvað á að strauja. Algengt er að merki sé á fatnaði sem segir til um hvort hann megi strauja og þá við hvaða hitastig. Óskarsverðlaunin 2006. Óskarsverðlaunin 2006 voru haldin sunnudaginn 5. mars og það í 78. skipti. Kvikmyndin "Brokeback Mountain" var talin sigurstanglegasta mynd hátíðinnar en þegar kvöldinu lauk var "Crash" aðal sigurvegarinn. Elly Vilhjálms og Einar Júlíusson syngja lög Jenna Jóns. Elly Vilhjálms og Einar Júlíusson syngja lög Jenna Jóns er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni syngja Elly Vilhjálms og Einar Júlíusson dægurlög eftir Jenna Jóns. Útsetningar: þórir Baldursson. Hljóðritun á hljómsveitarundirleik fór fram í Hamburger Studio í München í Þýzkalandi og leikur Þórir ásamt þarlendum hljómlistarmönnum. Hljóðritun á söng fór fram í Tóntækni hf. Reykjavik undir umsjá Þóris Baldurssonar og þar lék Grettir Björnsson á harmoniku í laginu "Ólafur sjómaður". Revíuvísur - Alfreð, Brynjólfur, Nína og Lárus. Revíuvísur er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni syngja Alfreð Andrésson, Brynjólfur Jóhannesson, Nína Sveinsdóttir og Lárus Ingólfsson gamanvísur við undirleik margra listamanna. Einsöngvarakvartettinn syngur lög Inga T. Lárussonar. Einsöngvarakvartettinn syngur lög Inga T. Lárussonar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni syngur Einsöngvarakvartettinn íslensk sönglög. Einsöngvarakvartettinn skipa: Magnús Jónsson, Sigurður Björnsson, Guðmundur Jónsson og Kristinn Hallsson. Raddsetning og söngstjórn Magnús Ingimarsson. Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari annast undirleik. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Magnús Ingimarsson. Forsíðumynd tók Studio 28, Reykjavík. Myndina af Inga T. Lárussyni lánaði Inga Lára dóttir hans góðfúslega. Hönnun umslags: SG-hljómplötur. Prentun og setning á umslagi: Grafik/Blik. Mail (forrit). Mail (Mail.app eða Apple Mail) er sjálfgefna tölvupóstsforritið sem kemur með Mac OS X stýrikerfinu frá Apple. Það var upprunalega hannað af NeXT sem NeXTMail, hluti af NEXTSTEP stýrikerfinu, og varð svo að póstforriti Mac OS X eftir að Apple keypti NeXT. Mail notar SMTP, POP3 og IMAP samskiptareglurnar og styður .Mac og Exchange í gegnum IMAP. Bæði iPhone og iPod touch innihalda smærri útgáfu af Apple Mail. Saga. Mail var upprunalega þekkt sem NeXTMail, póstforritið fyrir NEXTSTEP stýrikerfið. NeXTMail var þróað forrit miðað við sinn tíma, það studdi myndir og hægt var að taka upp hljóð og senda. Það studdi einnig MIME pósta. Þegar Apple keypti NeXT og aðlagaði NeXTSTEP að Mac OS X breyttist forritið mikið. Í prufuútgáfunni hét forritið "Rhapsody" og í öðrum útgáfum áður en seinasta útgáfan af Mac OS X kom út hét forritið MailViewer. Bragi Hlíðberg - Dansað á þorranum. Bragi Hlíðberg - Dansað á þorranum er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1976. Á henni leikur Bragi Hlíðberg gömlu dansana. Þetta er önnur hljómplata Braga Hlíðberg og hér leikur hann eingöngu gömlu dansana. Hann sýnir einnig á sér alveg nýja hlið, því öll lögin á plötunni hefur hann samið sjálfur. Magnús Ingimarsson útsetti allan undirleik og stjórnaði hljóðritun á honum og hafði umsjón með allri hljóðritun. Með Braga leika þeir Guðmundur R. Einarsson á trommur, Jón Sigurðsson á bassa og Þórður Árnason á gítar. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni hf. Tæknimaöur: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Magnús Ingimarsson. Kim Noorda. Kim Noorda (fædd 22. apríl 1986) er hollensk fyrirsæta. Marianne Hasperhoven. Marianne Hasperhoven (fædd 31. október 1991) er hollensk fyrirsæta. VISA-bikar karla 2008. VISA-bikar karla 2008 var 49. skiptið sem bikarkeppni karla í knattspyrnu var haldin. Fyrstu leikir keppninnar hófust laugardaginn 24. maí 2008 kl. 14.00 en þá mættust annars vegar Höfrungur og Skallagrímur á Þingvelli og hins vegar Knattspyrnufélag Garðabæjar og Augnablik á Stjörnuvelli. KR-ingar sigruðu bikarkeppnina eftir að hafa lagt KB, Fram, Grindavík og Breiðablik að velli, auk Fjölnis í úrslitaleiknum. Þetta var 11. bikarmeistaratitill KR. Heiðabjalla. Heiðabjalla (fræðiheiti: "Pulsatilla halleri") er blóm af sóleyjaætt. Blómin er eru bjöllulaga og fjólublá. Huldulykill. Huldulykill (fræðiheiti "Primula elatior") er blóm af ættkvísl lykla sem vex í frjósömu, kalkríku og röku skóglendi og mýrum í Evrópu allt til fjallendis Skandinavíu í norðri og Kólaskagans í austri. Huldulykill er lágvaxin fjölær jurt. Blöð verða 5-15 sm löng og 2-6 sm breið. Blómgunartími er í apríl og maí og eru blómin gul. Diplomatarium Norvegicum. mynd:Diplomatarium Norvegicum I 409.jpg|thumb|right|300px|Bréf frá Margréti drottningu til Hákonar 6. konungs, þar sem drottningin segir fréttir og kvartar yfir neyð sinni í Akershús-höll, um 1370. Diplomatarium Norvegicum – (latína: Norska fornbréfasafnið) – er heildarútgáfa á norskum fornbréfum og skjölum frá elstu tímum fram undir 1570. Elsta skjalið er frá því um 1050, en meginhluti þeirra er frá því eftir 1250. Komin eru út 22 bindi með um 20.000 skjölum. Útgáfan er stafrétt og á því máli sem bréfin eru skrifuð á. Efnisútdráttur á norsku fylgir. Málið á flestum skjölunum er fornnorska (þ.e. íslenska), miðnorska og danska. Ýmis bréf, einkum þau sem varða kirkjumál eða samskipti við önnur lönd, eru á latínu. "Diplomatarium Norvegicum" (yfirleitt skammstafað DN) er ómissandi heimildasafn um sögu Noregs frá 11. öld og fram yfir siðaskipti. Í "Norska fornbréfasafninu " er talsvert af skjölum sem snerta sögu Íslands, en mörg þeirra hafa einnig verið tekin upp í "Íslenskt fornbréfasafn". "Norska fornbréfasafnið" er aðgengilegt á netinu, með leitarvél, sjá tengil hér fyrir neðan. Einnig er skönnuð útgáfa til af flestum bindunum, sjá norsku Wikipediuna (bókmál). Fornnorska. Fornnorska – (norska "gammelnorsk") – er tungumál, sem talað var í Noregi frá því um 800 til 1350. Á víkingaöld (u.þ.b. 800-1050) fór fornnorræna að skiptast í tvennt, austurnorrænu (sem varð að forndönsku, fornsænsku og forngutnisku) og vesturnorrænu, en hin síðarnefnda er oft kölluð norræna (þ.e. forníslenska og fornnorska). Norræna hafði mikla landfræðilega útbreiðslu. Hún var töluð í Noregi, Færeyjum, á Íslandi, Grænlandi og skamma stund á Vínlandi. Einnig á Hjaltlandi, í Orkneyjum og á Katanesi nyrst á Skotlandi. Þá var hún töluð innan um mál heimamanna í Suðureyjum, á Mön og víðar í strandbyggðum Bretlandseyja, t.d. í Jórvík (York) og Dyflinni á Írlandi. Norrænan fékk fljótt einhver séreinkenni á hverjum stað. Það mál sem var talað í Noregi er kallað "fornnorska" (n. gammelnorsk). Fornnorska var töluð og síðar skrifuð milli áranna u.þ.b. 800 og u.þ.b. 1350. Sáralítill munur var á fornnorsku og íslensku fram yfir 1250, en upp úr 1300 fóru að koma fram frávik, a.m.k. í ákveðnum héruðum Noregs. Um 1350 dó norska ritmálið nánast út því flestir ritfærir menn dóu úr svarta dauða. Um svipað leyti færðist æðsta stjórn ríkisins til Svíþjóðar og síðar Danmerkur. Eftir það varð ritmál í Noregi eins konar blanda af norsku og dönsku. Það er stundum kallað millinorska (n. mellomnorsk). Karius og Baktus/ Litla ljót - Tvö barnaleikrit. Karius og Baktus/ Litla ljót er 33-snúninga LP hljómplata með leikriti Thorbjörns Egners, Karíus og Baktus og ævintýrinu Litla ljót eftir Hauk Ágústsson gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Madcon. Madcon (stytting á "Mad Conference") er norskt rapp- og reggídúó stofnað árið 1992, skipað þeim Tshawe Baqwa ("Kapricorn") og Yosef Wolde-Mariam ("Critical"). Hljómsveitin hefur gefið út tvær breiðskífur og fjórar smáskífur og hefur hlotið norsku tónlistarverðlaunin ("Spellemannprisen") þrisvar. Saga. Á síðari hluta 10. áratugins komst sveitin á samning við Virgin/EMI og fyrsta smáskífa, „God Forgive Me“ kom út árið 2000. Árin 2002-3 vann Madcon með norsku rappsveitinni Paperboys og ýtti þannig undir vinsældir hennar. Saman gáfu sveitirnar út lagið „Barcelona“ sem sló í gegn í Noregi. Lagið kom síðar út á fyrstu breiðskífu Paperboys, "No Cure for Life". Fyrsta breiðskífa Madcon lét hins vegar bíða eftir sér, kom ekki út fyrr en tveimur árum síðar og hét hún "It's All a MadCon". Á henni er smáskífurnar „Doo Wop“ og „Infidelty“ og hlutu þeir "Spellmanprisen" í flokknum fyrir hip-hop/ryþmablús. Í október 2007 gáfu þeir út smáskífuna „Beggin'“ en lagið er endugerð af lagi með Frankie Valli. Smáskífan komst í efsta sæti norska iTunes-sölulistans og og klifraði þess að auki í efsta sæti VG-vinsældalistans. Alls seldist smáskífan sem nemur sexfaldri platínusölu í Noregi. 3. desember 2007 kom svo seinni breiðskífa sveitarinnar út, "So Dark the Con of Man", en hún rauk út og náði platínusölu á einungis 11 dögum. Fyrir „Beggin'“ hlaut sveitin Spellemanprisen 2007 en það var valið vinsælasta lagið og breiðskífan hlaut verðlaun fyrir bestu hip-hop-breiðskífuna. Þess má geta að aðal upptökustjórar team Madcon er Element sem samanstendur af Íslendingnum Helga Má Hübner sem notar listamannsnafnið „Hitesh Ceon“ og norska slagverksleikaranum Kim Ofstad. Helgi var aðal lagahöfundurinn á „So dark the con of man“. Hann samdi einnig lagið „Glow“ sem varð geysivinsælt í Evrópu eftir að það var flutt í hléi meðan atkvæðagreiðslan fór fram. Meðan á flutningi lagsins stóð var sýnt video frá ýmsum Evrópulöndum þar sem mannfjöldi dansaði á götum úti. Elías Jónatansson. Elías Jónatansson er bæjarstjóri Bolungarvíkur eftir sviptingar í bæjarmálum þar. Hann er fæddur og uppalinn í Bolungarvík og er oddviti lista Sjálfstæðisflokksins þar. Óskar Halldórsson les íslenzk ljóð. Óskar Halldórsson les íslenzk ljóð er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni les Óskar Halldórsson íslenzk ljóð eftir sextán ljóðskáld. Hljóðritun: Ríkisútvarpið. Forsíðumynd: Snorri Snorrason. Myndina af Óskari tók Jón K. Sæmundsson. Hönnun umslags: SG-hljómplötur. Prentun og setning á umslagi: Grafík/Blik. Nefstífla. Nefstífla er læknisfræðilegt vandamál þar sem nasirnar þrengjast vegna bólgna í æðum umhverfis þær. Nefstífla getur orsakast af mörgum hlutum s.s. ofnæmi, kvefi, heymæði, nef- og ennisholusýkingum og fleira. Nefstífla getur verið allt frá óþægindum til lífshættulegs ástands. Nýfædd börn geta einungis andað gegnum nefið. Nefstífla hjá barni á fyrstu mánuðum getur truflað brjóstagjöf og valdið lífshættulegu álagi á öndun þeirra. 12-spora kerfi. 12 spora kerfið er meðferðartækni sem upphaflega var þróuð af AA-samtökunum til að hjálpa fólki að takast á við alkóhólisma og var fyrst sagt frá þeim í bókinni " Alcoholics Anonymous: The Story of How More Than One Hundred Men Have Recovered From Alcoholism" árið 1939. Aðferðin hefur síðan verið þróuð og aðlöguð að meðferð við ýmsum öðrum fíknum og öðrum vandamálum, svo sem fíkniefnaneyslu, spilafíkn, ofáti, meðvirkni, kaupfíkn, kynlífsfíkn og fleiru. Set. Set er samansafn lausra og óharðnaðra steinda, bergbrota eða lífrænna leifa, sem hafa veðrast eða fallið út úr upplausn. Roföfl, svo sem vindur, vatn og jöklar, bera set burt frá veðrunarstað til setmyndunarstaðar. Setmyndunarstaður er sá staður þar sem kraftur rofaflanna þverr og þau hætta að geta borið setið með sér. Flestir setmyndunarstaðir eru aðeins tímabundnir, svo sem stöðuvötn, árfarvegir og eyðimerkur, en með tímanum geta roföflin tekið aftur við setinu þar og borið það áfram. Eini endanlegi setmyndunarstaðurinn er úthafsbotninn en þaðan getur setið ekki borist lengra með roföflum. Seti er skipt í þrjá flokka eftir uppruna, molaset (e. "clastic sediment"), lífrænt set ("biochemical" eða "organic sediment") og efnaset (e. "chemical sediment"). Set er gjarnan flokkað eftir kornastærð og kornalögun. Sunderland A.F.C.. Sunderland A.F.C. er knattspyrnulið í ensku úrvalsdeildinni. Skaftfellskur einhljóðaframburður. Skaftfellskur einhljóðaframburður er það einkenni á framburði, að stafirnir "a", "e", "i", "o", "u" og "ö" eru bornir fram sem einhljóð á undan "gi" (t.d. orðið "lögin" er borið fram sem [ˈlœːjɪn], heldur en [ˈløːjɪn]). En framburðurinn er að minnka. Kornastærð. Kornastærð er mælikvarði, sem segir til um stærð einstakra setkorna í seti. Kornastærðarflokkun. Stærð setkorna getur verið allt frá örfáum míkrómetrum upp í tugi metra en vegna stærðarbilsins notast flestir kornastærðaskalar við e-s konar lograkvarða. Algengast er að notast við svo kallaðan Udden-Wenworth-skala en í honum er hvert stærðargildi helmingi minna en það næsta á undan í röðinni. Skalinn nær frá mm til > 256 mm og spannar því alls 18 flokka. Þessum flokkum er skipt í fjóra aðalflokka sets, möl, sand, silt og leir. Eðja er stundum notað sameiginlega yfir bæði silt og leir. Annar vinsæll lograkvarði fyrir kornastærð er Krumbein-skali, sem er nokkurs konar útvíkkun á Udden-Wenworth-skalanum og notast við sömu flokka, en gefur kornastærðina upp í φ-gildum. Flokkun á setbergi notast við sömu skala og á hver flokkur sets sér sambærilegt heiti yfir setberg, sem búið er til úr seti af viðkomandi kornastærð. Mikilvægi kornastærðarmælinga. Kornastærð getur gefið ýmsar vísbendingar um uppruna sets. Kornastærðardreifing sets, þ.e. hlutfall mismunandi kornastærða í seti, gefur til kynna flutningsaðila setsins þar sem roföflin hafa mismunandi burðargetu. Þannig ber vindur aðallega sand og smærri agnir á meðan vatnsföll geta borið stærri kornastærðir. Jöklar bera hins vegar með sér allar kornastærðir, allt frá leir upp í hnullunga. Auk flutningsmáta getur kornastærð gefið til kynna straumhraða þar sem flutningsgeta eykst í hlutfalli við straumhraða vatns og vinds. Kornastærð getur einnig gefið til kynna þroska sets, þ.e. fjarlægð þess frá upprunastað. Skíðaskotfimi. Skíðaskotfimi er skíðaíþrótt sem tvinnar saman skíðagöngu og skotfimi. Í skíðaskotfimi er gengið með frjálsri aðferð (ganga hefðbundið eða skauta). Í skíðaskotfimi er takmarkið einfalt; að hitta sem flest skotmörk á þar til gerðum skotsvæðum og fá þannig sem fæsta refsihringi á sig. Þá gildir að vera sem fljótastur í gönguhlutanum. Með bestu skíðaskotfimimönnum í heimi má nefna Ole Einar Bjørndalen og Manuela Henkel eða Sandrine Bailly í kvennaflokknum. Guðrún Á. Símonar - 40 ára söngafmælistónleikar. Guðrún Á. Símonar - 40 ára söngafmælistónleikar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni syngur Guðrún Á. Símonar á tónleikum í Háskólabíó. Tóntækni hf hjóðritaði hljómleikana fyrir SG-hljómplötur. Tæknimaður var Sigurður Árnason. Ljósmyndir á plötuumslagi tók Emelía B. Björnsson. Einar Kristjánsson leikur á tvöfalda harmoniku. Einar Kristjánsson leikur á tvöfalda harmoniku er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni leikur Einar Kristjánsson ásamt Garðari Jakobssyni gömul danslög. Ljósmyndin á framhlið plötuumslagsins er frá Akureyri frá því um þarsíðustu aldamót og var hún tekin af Hallgrími Einarssyni ljósmyndara. Myndin var góðfúslega lánuð af Minjasafninu á Akureyri. Myndirnar af Einari og Garðari tók Ljósmyndastofa Páls, Akureyri. Páll Óskar. Páll Óskar Hjálmtýsson (fæddur 16. mars 1970) er íslenskur söngvari, lagahöfundur og plötusnúður. Hann fékk tónlistaruppeldi, söng á einkasamkomum, með kór og fyrir almenning, varð fyrir áhrifum af einelti í skóla og spennu milli foreldra sinna heima fyrir. Hann kom út úr skápnum sextán ára gamall. Páll Óskar er þekktastur fyrir að syngja ballöður, diskó, hefðbundin íslensk lög og teknó. Hann gaf út sinn fyrsta sólódisk, "Stuð" árið 1993 á meðan hann var í New York, og átti auk þess feril sem söngvari með hljómsveitum eins og Milljónamæringunum og Casino. Önnur sólóbreiðskífa, "Palli", var mest seldi diskurinn á Íslandi árið 1995 og 1996 kom út "Seif". Páll Óskar varð alþjóðlega þekktur þegar hann söng lagið „Minn hinsti dans“ framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1997. Platan "Deep inside" sem kom út 1999 seldist hins vegar langt undir væntingum og varð langt hlé fram að næstu sólóplötu. Í millitíðinni gerði hann tvær breiðskífur í samstarfi við hörpuleikarann Moniku Abendroth; "Ef ég sofna ekki" (2001) og "Ljósin heima" (2003). Nýjasta breiðskífa hans "Allt fyrir ástina" kom út árið 2007 og varð metsöluplata. Páll Óskar kemur oft fram sem plötusnúður á skemmtistöðum á Íslandi. Líkamsgerð. Hinar þrjár líkamsgerðir riðvaxinn, kraftvaxinn og rengluvaxinn eru sýndarvísindaleg flokkun á líkamsgerð dýra þróuð um 1940 af bandaríska sálfræðingnum William Sheldon sem vildi setja fram tengsl á milli líkamslags og skapgerðar manna. Flokkunin er mjög einföld og ekki viðurkennd í lífeðlisfræði en er þó oft notuð enn þann dag í dag til að lýsa gróflega líkamslagi fólks. Setmyndunarumhverfi. Setmyndunarumhverfi lýsir setmyndunaraðstæðum, oft tengdum tilteknu landslagsformi, þar sem ákveðin eðlis-, efna- og líffræðileg ferli ríkja. Hvert setmyndunarumhverfi felur í sér ákveðna uppröðun setlaga í svo kallaðar ásýndaraðir og er því mögulegt að greina fornt setmyndunarumhverfi út frá uppbyggingu þeirra. Þannig er hægt að bera kennsl á tilurð setlagasyrpu þótt hún sé ekki lengur staðsett í sínu upprunalega setmyndunarumhverfi. Sístöðuhyggjan, sem kom fram með skosku upplýsingunni, er mikilvægur grundvöllur greiningar á setmyndunarumhverfum, en samkvæmt henni er "nútíminn lykillinn að fortíðinni". Við getum því dregið þá ályktun að þau setmyndunarumhverfi, sem við sjáum núna á jörðinni, hafi líka verið til fyrr í jarðsögunni. Flokkun setmyndunarumhverfa. Setmyndunarumhverfi á jörðinni eru gjarnan flokkuð í þrennt eftir því hvort þau eru á landi, í hafi eða á strandsvæðum. Hvert setmyndunarumhverfi getur haft eitt eða fleiri undirumhverfi. James Blunt. James Blunt (fæddur James Hillier Blount, 22. febrúar 1974) er enskur tónlistarmaður. Hann hlaut fimm Grammy-verðlaun árið 2005 fyrir fyrstu breiðskífu sína, "Back to Bedlam", sem kom út árið 2004. Fyrsta breiðskífa hans, „You're Beautiful“, sló í gegn og klifraði til topps á vinsældalistum beggja vegna hafs og varð Blunt þar með fyrsti breski tónlistarmaðurinn til að koma lagi í efsta sæti bandarískra vinsældalista frá því breiðskífa Eltons John, „Candle in the Wind“ (sem var endurútgefið 1997 eftir andlát Díönu prinsessu), kom út. Dýrlega byltingin. Vilhjálmur III varð konungur Englands í kjölfar dýrlegu byltingarinnar. Dýrlega byltingin, eða Byltingin 1688, var bylting á Bretlandseyjum er Jakobi 2. konungi Englands var steypt úr stóli af þingssinnum og Vilhjálmi 3. af Óraníu sem var tekinn til konungs og varð "Vilhjálmur III". Byltingin er einnig nefnd Blóðlausa byltingin en það er gert í óþökk Íra og Skota þar sem harðir bardagar voru háðir. Jafnvel að þeim undanskildum er "Blóðlausa byltingin" ekki réttnefni því sumstaðar var barist í Englandi. Hugtakið "Dýrlega byltingin" bar fyrst á góma hjá þingmanninum John Hamden haustið 1689 og er núna víðast haft sem heiti byltingarinnar. Byltinguna má gjörla tengja við Níu ára stríðið sem geysaði á meginlandi Evrópu og segja má að þetta hafi verið síðasta heppnaða innrásin í England. Færa má rök fyrir því að byltingin hafi markað þau tímamót í sögu Bretlands að nútímalegt þingbundið lýðræði hafi hafist þar í landi því að frá og með byltingunni tapaði konungurinn einveldi sínu. Sömuleiðis voru ýmis borgaraleg réttindi tryggð með lagasetningu (e. "English Bill of Rights 1689"). Með því að víkja Jakobi 2. frá valdastóli var komið í veg fyrir að kaþólska næði að festa sig í sessi á ný í Bretlandi. Gianne Albertoni. Gianne Albertoni (fædd 5. júlí 1981 í São Paulo) er brasilísk fyrirsæta. Fána. Einföld mynd sem sýnir fánu lítillar eyju Fána eru þær dýrategundir sem lifa á tilteknu svæði, spendýr, fuglar, fiskar, skordýr, lindýr og fleira. "Fána Íslands" er til dæmis öll þau dýr sem lifa á Íslandi eða við landið. Ekki má rugla fánu saman við flóru, en flóra er haft um plöntur á tilteknu svæði. Didz Hammond. David Jonathan Hammond (fæddur 19. júlí 1981), betur þekktur sem Didz Hammond, er enskur bassaleikari. Hann var bassaleikari og bakraddarsöngvari hljómsveitarinnar The Cooper Temple Clause (og spilaði einnig á önnur hljóðfæri öðru hverju), og er núverandi bassaleikari og bakraddarsöngvari hjá Carl Barât's Dirty Pretty Things. Árið 2002 var hann útnefndur „34. svalasti maður í heimi“ af NME. The Cooper Temple Clause. The Cooper Temple Clause var fimm manna ensk rokkhljómsveit. Þorsteinn Hannesson - tenór. Þorsteinn Hannesson - tenór er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni syngur Þorsteinn Hannesson íslensk sönglög. Fritz Weisshappel píanóleikari annast undirleik. Kanínan. Kanínan er dægurlag sem Reynir Guðmundsson söngvari hljómsveitarinnar Ýr fann á snældu í sínum fórum með upptökum úr Radio Luxemburg. Það var með enskum texta en aldrei fundu þeir félagar út hið rétta nafn lagsins. Þeim heyrðist það vera „Rabbit Hey!“ og sungu það á ensku alla tíð þannig á böllum. Enski textinn var aldrei almennilega á hreinu og „bjó“ Reynir söngvari til það sem upp á vantaði. Þegar hljómsveitin ákvað að taka upp hljómplötu árið 1975 fór hún til New York og var Jakob Magnússon tónlistarmaður, upptökustjóri. Í flugvélinni á leiðinni út var ákveðið að frumkvæði Jakobs að snúa flestum textum laganna á íslensku. Þannig breyttist titill lagsins úr „Rabbit Hey!“ í „Kanínan“, sem er óbein þýðing á upphafi enska textans eins og þeir héldu að hann væri. Við gerð íslenska textans voru ýmis atvik og sögur frá ferli hljómsveitarinnar rifjuð upp og línur úr þeim sögum settar þar inn. Íslenski textinn er uppfullur af tilvísunum í samband karls og konu, svo nákvæmum, að til að særa ekki blygðunarkennd fólks (þá sérstaklega Útvarpsráðs) er ein lína textans sungin afturábak. Hún er svona: „Ún liv gé réþ aðír, þó ég verði faðir“. Lagið kom út rétt fyrir jól 1975 og varð mjög vinsælt. Reynir og Rafn eru skrifaðir fyrir íslenska textanum. Sálin hans Jóns míns tók upp lagið síðar og enn hélt það vinsældum sínum. Uppruni lagsins. Árið 2011 auglýsti Dr. Gunni á bloggsíðu sinni eftir upplýsingum um erlenda lagið sem „Kanínan“ byggist á. Einn lesandi bloggsins sendi þá inn bréf þar sem kemur fram að lagið er í raun grískur poppsmellur „Ela Ela“ frá 1971 sem er í grunninn gamalt grískt þjóðlag. Útsetning lagsins er eftir Demis Visvikis og George Chatziathanassiou í grísku hljómsveitinni Axis. Lagið varð nokkuð vinsælt í Evrópu þegar það kom út. Útgáfan sem Reynir heyrði í Radio Luxemburg hefur að öllum líkindum verið í flutningi þýsku hljómsveitarinnar Les Humphries Singers frá 1973. Jólasnjór - Jólasnjór. Jólasnjór - Jólasnjór er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Flytjendur m.a. Guðrún Á. Símonar, Elly Vilhjálms, Sigurður Björnsson, Ragnar Bjarnason, Kirkjukór Akureyrar, Vilhjálmur Vilhjálmsson, Savanna-tríóið, Stúlknakór gagnfræðaskólans á Selfossi, Brynjólfur Jóhannesson, Helena Eyjólfsdóttir, Kristín Lillendahl, Karl Sigurðsson, Guðmundur Jónsson, Eddukórinn, Lúðrasveit Reykjavíkur og margir margir fleiri. Frummynd á bakhlið: Hans Membling (1430-1494). Ýr (breiðskífa). "Ýr" er heiti á breiðskífu ísfirsku hljómsveitarinnar Ýr og kom út rétt fyrir Jólin 1975 hjá ÁÁ Records. Breiðskífan inniheldur 11 lög, sungin á íslensku og ensku. Plötuumslagið teiknaði Þorsteinn Eggertsson textahöfundur og listamaður. Breiðskífan var tekin upp í Soundtek hljóðverinu í New York árið 1975 og Jakob Magnússon tónlistarmaður stjórnaði upptöku. Með í för voru tónlistarmenn á vegum Jakobs, úr hljómsveit hans The White Backman trio eða Hvítárbakkatríóinu sem hann hélt úti í nokkur ár. Þeir eru: Alan Murphy gítarleikari, Preston Hayman ásláttarleikari, John Gibbings banjóleikari og Steve Scheffer vélamaður. Þeir félagar ásamt Jakobi störfuðu þá á sama tíma með tónlistarmanninum Long John Baldry þeim sama og söng lagið She Broke My Heart á breiðskífu Stuðmanna, Sumar á Sýrlandi Friðrik Ómar Hjörleifsson. Friðrik Ómar Hjörleifsson (f. 4. október 1981) er íslenskur söngvari. Friðrik hefur þrisvar sinnum tekið þátt í forkeppni Íslands fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, árin 2006, 2007 og 2008. Árið 2007 lenti hann í 2. sæti með laginu „Eldur“ en þau Regína Ósk Óskarsdóttir, sem saman mynda Eurobandið, sigruðu árið 2008 með laginu „This is my life“. Þau kepptu saman í Eurovision í Belgrad í Serbíu og urðu fyrst Íslendinga til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004. Fury. __NOTOC__ Emmy Rossum. Emmanuelle Grey Rossum (fædd 12. september 1986) er bandarísk leikkona og þekktust fyrir hlutverk sitt í kvikmyndum á borð við "The Day After Tomorrow", "Poseidon" og "The Phantom of the Opera". Rockall. Rockall (eða Rockalldrangur) er lítil óbyggð klettaeyja í Norður-Atlantshafi um það bil 460 kílómetra vestur af Skotlandi. Kletturinn er leifar útkulnaðs neðansjávareldfjalls. Rockall er sömuleiðis nafn á einu af spásvæðum sjóveðurspár BBC. Eyjan er 27 metrar í þvermál og rís 23 metra úr sjó. Heildarflatarmál hennar er u.þ.b. 570 m². Eina varanlega lífið á klettinum eru ýmis sjávarlindýr sem festa sig við hann. Sjófuglar á borð við ritur, súlur, fýla og langvíur nota hann til hvíldar á sumrin en verpa sjaldan þar. Engin ferskvatnsuppspretta er á eynni. Rockall fellur innan efnahagslögsögu Bretlands og Bretar vildu lengi vel nota klettinn sem viðmiðunarpunkt og reikna 200 mílna efnahagslögsögu út frá honum. Þeir gáfu þá kröfu hinsvegar upp á bátinn þegar þeir samþykktu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna 1997 en sáttmálinn kveður á um að ekki sé unnt að nota óbyggileg sker sem viðmiðunarpunkta. Þó að ekki sé deilt um yfirráð yfir eyjunni sem slíkri þá er deilt um hver eigi landgrunnsréttindi á svæðinu vestur af Rockall. Slík réttindi veita ríkjum einkarétt á nýtingu auðlinda sem hugsanlega finnast á eða undir sjávarbotninum, talið er mögulegt að þar leynist olía eða gas. Írland, Bretland, Danmörk (fyrir hönd Færeyja) og Ísland gera öll kröfu til þessara réttinda. Ríkin hafa frest fram að maí 2009 til þess að ná samkomulagi um skiptingu landgrunnsins og leggja það fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Baggalútur (vefrit). Baggalútur er íslenskt vefrit á íslensku sem hefur verið á veraldarvefnum frá því 11. maí 2001. Vefritið er afar háðskt og samanstendur af kaldhæðnislegum og skálduðum fréttum eða ímynduðum viðtölum. Til er samnefnd hljómsveit sem er tengd vefritinu og hefur náð nokkrum vinsældum á Íslandi. Hljómsveitin hefur gefið út fjórar plötur; "Pabbi þarf að vinna" (2005), "Aparnir í Eden" (2006), "Jól og blíða" (2006) sem er safndiskur með öllum jólalögum Baggalúts, og loks "Nýjasta nýtt" (2008). Banki. Banki er fjármálastofnun sem miðlar peningum með því að lána þá út og taka að láni. Bankar starfa með misjöfnum hætti, allt eftir því undir hvaða landslögum þeir eru. Í Þýskalandi, Japan og Íslandi mega bankar eiga hluti í ýmsum stórfyrirtækjum en í Bandaríkjunum mega bankar ekki eiga í fyrirtækjum sem eru ótengd bankastarfsemi. Fyrsti bankinn í nútímalegum skilningi var stofnaður árið 1407 í Genúa á Ítalíu og hét "Banco di San Giorgio" (Banki Skt. Georgs). Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns. Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns er safn í Reykjavík sem var stofnað 28. janúar 1985, og opnaði árið eftir, þann 6. desember. Safnið opnaði á þeim degi, því þá hefði Kristján Eldjárn orðið sjötugur, en hann var einn af aðalhvatamönnum safnsins. Myntsafnið er til húsa að Kalkofnsvegi 1. Skipulag sammvinna Seðlabankans og Þjóðminjasasfnsins hófst nærri tuttugu árum áður en safnið hóf rekstur sinn, og var undirbúningur þess lengst af í höndum Haralds Hannessonar hagfræðings og fyrrverandi Þjóðminjavarðar Þórs Magnússonar. Seðlabanki og Þjóðminjasafn Íslands tóku síðan með sér samstarf um rekstur myntsafns, en samning um það efni staðfesti þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, 28. janúar 1985. Safnið inniheldur t.d. elstu peningaseðla sem heimilt var að nota hér á landi, sem voru danskir kúrantseðlar frá 18. öld, og síðan allar gerðir innlendra seðla frá upphafi íslenskrar seðlaútgáfu. Þar er einnig að finna forngríska og rómverska mynt, erlendar myntir sem getið er í íslenskum heimildum frá fyrri öldum, svo sem dalir, dúkatar, nóbil, gyllini, mörk og skildingar, norræn mynt frá því að hún var samræmd við stofnun Myntsambands Norðurlanda 1873 og fram til þess er farið var að slá íslenska mynt árið 1922, en síðan öll mynt sem gefin hefur verið út hér á landi. Auk opinbers verðmiðils er sýnt safn íslenskra vöruseðla og brauðpeninga. Einnig er á safninu minnispeningar, heiðurspeningar og orður. Meðal þess er danneborgsorðan sem Margrét 2. Danadrottning gaf safninu og Nóbelsverðlaunapeningur Halldórs Laxness sem hann fól safninu til varðveislu ásamt fleiri heiðurstáknum. Sofie Oosterwaal. Sofie Oosterwaal (fædd 17. júlí 1990) er hollensk fyrirsæta. Köfun. Köfun er það að kafa í vatni eða sjó. Köfun getur farið fram án allra fylgihluta í heitum sjó, en kafarar notast oftast við snorku. Það er nefnt að "snorkla" eða "kafsund". Í kaldari sjó og til djúpköfunar klæðast kafarar þurrbúning (eða blautbúning) og bera súrefniskút á bakinu sem er tengdur við snorkuna. Vinsælir köfunarstaðir á Íslandi eru Gullkistuvík á Kjalarnesi og Silfra á Þingvöllum. Kafarar eru stundum nefndir "froskmenn". Sundlaug. a>inni sem þar er að finna. Sundlaug er laug með vatni til sunds eða afþreyingar, og getur verið inni- eða útilaug. Baðlaugar (eða "pottar") eru hluti af baðmenningu margra þjóða, meðal annars Íslendinga, en í þeim synda menn ekki, heldur sitja og láta líða úr líkamanum. Einslögun (stærðfræði). Í rúmfræði er einslögun eiginleiki sem fleiri en ein mynd geta átt sameiginlega. Hugtakið er skilgreint sem svo að tvær myndir séu einslaga ef með endanlegum fjölda stríkkana og færslna má fella aðra myndina í hina. M.ö.o. eru tvær flatarmyndir einslaga ef með stríkkun annarrar má gera þær eins. Séu tveir þríhyrningar einslaga er oft sagt þeir séu einshyrndir. Ekki má rugla hugtakinu saman við að tvær myndir séu eins. Talía. Talía (einnig nefnd blökk, skoruhjól eða reimhjól) er lyftibúnaður með að minnsta kosti tveimur hjólum. Í hverju hjóli er skora sem kaðalstaug eða keðja leikur í og myndar þannig nokkurskonar skorðu eða festu fyrir kaðalinn (eða keðjuna). Hjólin eru fest inn í svonefnt blakkarhús, sem er hengt upp í bjálka eða annarskonar burðarbita. Talía er útbúnaður til að færa til (lyfta eða draga) þunga hluti með minni krafti en svarar til þyngdar þeirra. Talía hefur einnig verið nefnd "hjólald", "blakkarhjól", "rennihjól" og "hjólkerling" á íslensku. Trissa (eða trissuhjól) er einnig oft haft sem samheiti, en er einnig haft um samskonar búnað með aðeins einu hjóli. Camp Nou. Camp Nou, Nou Camp eða Nývangur (Estadi del FC Barcelona fram til ársins 2000) er heimavöllur spænska knattspyrnuliðsins Barcelona. Hann var tekinn í notkun árið 1957 en þá hafði liðið „vaxið upp úr“ eldri heimavelli, Camp de Les Corts. Sá völlur rúmaði 60 þúsund áhorfendur en Nývangur rúmar 98.772 áhorfendur. Þannig er hann stærsti leikvangur Evrópu og tíundi stærsti í heimi. Hönnuðir leikvangsins voru Francesc Mitjans-Miró, Lorenzo García Barbon og Josep Soteras Mauri. Fyrsta skólfustunga var tekin 28. mars 1954 og vígsla fór fram 24. september 1957. Einsykrur. Einsykrur eru sykrur sem aðeins hafa eina sykursameind, t.d. glúkósi, frúktósi, viðarsykur og ríbósi. Tvísykrur. Tvísykrur eru sykrur sem hafa tvær sykursameindir þ.e. tvær einsykrur t.d. matarsykur, sakkarósi, laktósi eða mjólkursykur. Rauðnefjuð uxaspæta. Rauðnefjuð uxaspæta (fræðiheiti: "Buphagus erythrorhynchus") er spörfuglstegund af starraætt sem er að finna á gresjunum sunnan Sahara, frá Mið-Afríkulýðveldinu, austur til Súdan og alveg suður til norður og austurhluta Suður-Afríku. Rauðnefjaða uxaspætan gerir sér hreiður í trjáholum sem hún fóðrar með hárum af þeim skepnum sem hún kemst í tæri við. Hún verpir 2-5 eggjum, eða 3ur að meðaltali. Á pörunartíð myndar rauðnefjaða uxaspætan miklar og háværar suðagöngur. Hún lifir á skordýrum, og nafn hennar vísar til þess að hún hefst mikið við á búpeningi og villtum spendýrum og borðar af þeim blóðmaura. Uppáhaldfæða hennar er þó blóð og þó hún borði blóðmaura sem eru bólgnir af slíku, þá nærist hún einnig með því að gogga í sár spendýra og heldur þeim þannig opnum og greiðir fyrir aðgengi sníkjudýra og sjúkdóma. Akureyrarveikin. Akureyrarveikin (fræðiheiti "Akureyri disease" eða "morbus Akureyriensis") er smitsjúkdómur í flokki ME sjúkdóma (myalgic encephalomyelitis) eða síþreytufárs en það eru sjúkdómar sem lýsa sér með verkjum í vöðvum eða beinverkjum samfara hita og einkennum frá heila og/eða mænu. Fyrsta tilfelli Akureyrarveikinnar var greint árið 1948 en þá gekk yfir faraldur á Akureyri og veiktust 465 manns eða 7 % af íbúum Akureyrar. Veikin breiddist út og stök tilvik af Akureyrarveiki komu upp um allt land. Faraldrar gengu á Þórshöfn og á Patreksfirði árin 1953 og 1955. Engin tilvik hafa verið greind frá árinu 1955. Akureyrarveikin lýsti sér með sótthita,bein- og liðverkjum og vöðvasærindum en einnig særindum í hálsi og óþægindum í meltingarvegi, höfuðverk og stífleika á hálslið, streitu og kvíða og máttleysi og dofa í hluta líkamans. Aðeins 15 % þeirra sem veiktust náðu fullum bata. Flestir náðu allgóðum bata en um 25% þeirra sem veiktust jöfnuðu sig aldrei og hafa alla ævi verið þreyttir bæði andlega og líkamlega og nánast allir fengið vefjagigt sem svo hefur aukið á þreytuna. Afbrigði af Parkinson sjúkdómi er algengara meðal þeirra sem veiktust af Akureyrarveikinni en ætla mætti og er það talið vera afleiðing heilabólgu sem var hluti veikinnar. Fleiri konur en karlar veiktust og var hlutfallslega mest ungt fólk, á aldrinum 15 til 19 ára. Sjaldgæft var að börn veiktust. Hreiður. Hreiður er bæli sem fuglar gera sér til að verpa eggjum í og unga þeim út. Hreiður geta verið mjög mismunandi, allt frá því að vera einungis dæld í sandi, fóðruð með örfáum stráum, að því að vera mjög flóknar samsetningar úr greinum, munnvatni og öðru. Á Íslensku er einnig talað um að mýs gera sér hreiður, sbr. músarhreiður. Nöfn hreiðra eftir fuglategundum. Hreiður sumra fuglategunda eiga sér sérstök heiti á íslensku. Hreiður hrafnsins nefnist t.d. "laupur" en sumstaðar einnig "bálkur". Álftin verpir í svonefndan "bunka" og æðarfuglinn í "æðarbás". Hreiður lundans, "lundaholan", skiptist í tvennt, öðrum megin er hreiður hans, en hitt nefnist "kamar". Þegar fuglar hefja hreiðurgerð er talað um að þeir "setjist upp", en æðarfuglinn, lundinn og jafnvel fleiri tegundir "taka heima". Hannes Þór Halldórsson. Hannes Þór Halldórsson (27. apríl 1984) er knattspyrnu markvörður sem spilar með liði KR. Hann spilaði með Aftureldingu í 2. deildinni 2005 svo fór hann í Stjörnuna 2006 og spilaði þá í 1. deildinni svo gekk hann í lið við Fram árið 2007 og var þar til ársins 2010. Hann skrifaði undir hjá KR til fjögurra ára eftir lok tímabils 2010. Hann spilaði allan leikinn gegn Kýpur í undankeppni fyrir EM 2012 er Ísland vann 1-0. Hannes var kosinn maður leiksins. Elsa G. Vilmundardóttir. Elsa Guðbjörg Vilmundardóttir (27. nóvember 1932 - 23. apríl 2008) varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka háskólanámi í jarðfræði og var því fyrsti kvenjarðfræðingur landsins. Elsa fæddist í Vestmanneyjum. Foreldrar hennar voru Vilmundur Guðmundsson vélstjóri frá Hafnarnesi við Reyðarfjörð (f. 3.9.1907, d. 21.10.1934) og Guðrún Björnsdóttir saumakona frá Fagurhóli í Austur-Landeyjum (f. 26.10.1903, d. 10.2.1975). Á þriðja aldursári flutti Elsa með foreldrum sínum frá Eyjum til Siglufjarðar en þar drukknaði faðir hennar skömmu síðar. Eftir það fór hún til móðurforeldra sinna í Fagurhóli í V-Landeyjum og var hjá þeim meðan þau lifðu en fór síðan með móðursystur sinni að Bollakoti í Fljótshlíð og var þar til heimilis uns hún fluttist til móður sinnar í Reykjavík 12 ára gömul. Elsa G. Vilmundardóttir á bökkum Múlakvíslar sumarið 2004 Nám. Elsa lauk stúdentsprófi frá MR 1953. Árið 1958 fór hún til Svíþjóðar og innritaðist í Stokkhólmsháskóla. Þar stundaði hún nám í jarðfræði árin 1958-1963 og lauk því með fil.kand-prófi. Á námsárum sínum vann hún á sumrin við ýmis jarðfræðistörf á vegum Raforkumálaskrifstofunnar, mest þó að jarðfræðirannsóknum við fyrirhugaða Búrfellsvirkjun. Áhugi hennar beindist fljótt að jarðfræði Tungnáröræfa, hinum miklu og stórdílóttu hraunum sem þar þöktu landið, að móberginu og að hinum stóru gjóskugígunum. Jarðfræði Tungnáröræfa varð verkefni hennar til lokaprófs. Starfsferill. Þegar hún kom heim frá námi árið 1963 hóf hún fljótlega aftur störf hjá Raforkumálaskrifstofunni, síðan hjá Orkustofnun, þegar hún varð til árið 1967. Þar vann hún síðan uns hún fór á eftirlaun 2004. Árið 1977 birtist þekktasta rannsóknarritgerð Elsu Tungnárhraun sem var mikið tímamótaverk og er enn hin merkasta heimild um þessi hraun. Árið 1980 var gerður samningur milli Orkustofnunar og Landsvirkjunar um samræmda jarðfræðikortlagningu á vatnasviði Þjórsár ofan Búrfells og var Elsa umsjónarmaður þess verks. Kortin komu út á árabilinu 1983-1999 og hafa síðan verið grundvöllur allra jarðfræðirannsókna á þessu svæði. Á þessum árum var lagður grunnur að því mikla verki sem Elsa vann enn að er hún lést, þ.e. kortlagningu móbergs í eystra gosbeltinu. Elsa stundaði rannsóknir víðar svo sem að kortlagningu móbergs og hlýskeiðshrauna norðan Vatnajökuls, á fornu lónseti að Fjallabaki og gjóskuflóðum samfara forsögulegum Heklugosum. Hún skrifaði einnig um vísindarannsóknir og rannsóknarferðir dr. Helga Pjeturss. Hún var ennfremur meðhöfundur bókarinnar 100 Geosites in South-Iceland. Lengst munu jarðfræðikortin líklega halda minningu hennar á lofti innan fræðanna. Fjölskylda og heimilishagir. Á námsárunum giftist Elsa eftirlifandi eiginmanni sínum Pálma Lárussyni verkfræðingi sem lengi vann hjá Almennu verkfræðistofunni. Þegar þau komu heim frá námi í Svíþjóð settust þau fyrst í Reykjavík en fluttu svo að í Hrauntungu í Kópavogi. Þar bjuggu þau til 2004 en fluttu þá heimili sitt að Kaldrananesi í Mýrdal. Þau Pálmi eignuðust tvö börn, Vilmund og Guðrúnu Láru. Briem. Briem er 11. algengasta ættarnafnið á Íslandi. Ættarnafnið er afbökun á staðarheitinu Brjánslækur í Barðarstrandarsýslu; ættfaðir þeirra var síra Guðbrandur Sigurðsson (1735-1779). Waage. Waage er 12. algengasta ættarnafnið á Íslandi. Sá sem fyrstur tók upp þetta nafn var Ólafur Gíslason Waage, fæddur um 1760, dáinn 15. mars 1797. Hann átti enga afkomendur hér á landi, en hugsanlega í Danmörku. Magnús Jónsson Waage (1799 - 1857), skipstjóri og útvegsbóndi í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd tók þetta ættarnafn upp síðar. Hann er ættfaðir allra þeirra sem síðar hafa borið þetta nafn hér á landi. Magnús Jónsson var í Noregi að læra smíðar. Var þar samtíða landa sínum og alnafna. Til að aðgreina þá nafnana þá tók Magnús upp þetta ættarnafn. Honum hefur e.t.v. fundist framburðurinn vísa til Voganna. Hafið lokkar og laðar - Fjórtán sjómannalög. Hafið lokkar og laðar - Fjórtán sjómannalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Á henni flytja ýmsir tónlistarmenn þekkt sjómannalög síðustu ára. Ísland. Ísland er eyríki í Norður-Atlantshafi á milli Grænlands, Færeyja og Noregs. Ísland er um 103.000 km² að stærð; það er önnur stærsta eyja í Evrópu á eftir Bretlandi og sú átjánda stærsta í heimi. Á Íslandi búa um það bil 320.000 manns. Höfuðborg landsins er Reykjavík. "Landnámabók" segir frá hvernig landnám Íslands hófst kringum árið 874 þegar Ingólfur Arnarson nam hér land, þó aðrir höfðu áður dvalið tímabundið á landinu. Á næstu áratugum og öldum flutti fjöldi fólks til Íslands á tímabili sem nefnt er landnámsöld. Ísland komst með Gamla sáttmála undir vald Noregs árið 1262 og var undir stjórn Norðmanna og Dana til ársins 1918, þegar það hlaut fullveldi. Danska ríkið fór þó með utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir hönd Íslands og löndin höfðu sameiginlegan konung þar til lýðveldi var stofnað á Íslandi 1944. Landið hefur gengið undir ýmsum nöfnum, einkum meðal ljóðskálda (sjá grein "Heiti yfir Ísland"). Á síðari hluta 20. aldar jókst þjóðarframleiðsla Íslendinga til muna og innviðir og velferðarkerfi landsins efldust. Árið 2007 var Ísland þróaðasta land heims samkvæmt vísitölu SÞ um þróun lífsgæða, en árið 2008 hófst efnahagskreppa á Íslandi. Ísland er meðlimur í SÞ, EFTA, NATO og EES. Saga. Ísland var, samkvæmt Íslendingabók, fyrst numið af norskum og gelískum (skoskum og írskum) landnemum undir lok níundu og tíundu aldar. Þjóðveldið var sett á stofn með Alþingi árið 930 en það er meðal elstu þjóðþinga sem enn eru starfandi. Færeyska Lögþingið og hið manska Tynwaldsþing eru þau norrænnu þing sem hafa sambærilegan aldur og Alþingi Íslendinga. Flestir landsnámsmanna voru ásatrúar þó nokkrir kristnir og höfðu þeir flestir kynnst kristinni trú og látið skírast á Bretlandseyjum. Um svipað leyti sendi Haraldur blátönn Danakonungur saxneskan biskup til Íslands til kristniboðs. Ekki gekk það alltaf og komu fleiri kristniboðar hingað á næstu árum og varð þeim nokkuð ágengt. Ólafur Tryggvason Noregskonungur var mjög áhugasamur um að kristna Ísland — með góðu eða illu. Á Alþingi sumarið 1000 ákváðu Íslendingar að taka kristni að ráðum Þorgeirs ljósvetningagoða sem þó var ásatrúar sjálfur fram að því. Mótmælendatrú var innleidd í Danmörku árið 1536 og áhrif Lúthers bárust hingað um það leyti með Þýskum veiði- og verslunarmönnum. Jón Arason, síðasti kaþólski biskup Norðurlanda var tekinn af lífi í Skálholti 7. nóvember árið 1550 og eru siðaskiptin á Íslandi oftast miðuð við þann dag. Ísland var ekki sett undir erlend ríki fyrr en næstum fjórum öldum eftir að það var fyrst numið. Þá fór svo að Noregskonungur náði landinu undir sína krúnu árið 1262. Síðar varð Ísland svo hluti af Kalmarsambandinu árið 1397, en danskir þjóðhöfðingar höfðu verið yfir Noregi og Íslandi frá 1380. Svíþjóð leysti sig úr þessu sambandi árið 1523, og hét það þar eftir Dansk-norska ríkið og var gjarnan kallað Danaveldi. Seinna við aldamót 18. og 19. aldar, í Napóleonsstyrjöldunum svokölluðu, reyndu Svíþjóð og Danmörk að halda hlutleysi sínu og árið 1800 gengu bæði löndin í svokallað “"Samband vopnaðs hlutleysis"” ("Væbnede neutralitetsforbund" á dönsku, "League of Armed Neutrality" á ensku). Kort sem sýnir umfang Dansk-norska ríkisins um 1780 Bretar töldu þetta ógn og réðust þar með á Kaupmannahöfn árið 1801. Eftir það gekk Danmörk úr því fyrirnefnda sambandi og gekk í bandalag við Napóleon, Frakkakeisara. Bretar réðust því aftur á Kaupmannahöfn 1807 og hafði Svíþjóð þá gengið í lið við Breta. Þar sem Napóleoni hafði verið í nöp við Bretland síðan 1803, neyddi hann Dani til að lýsa yfir stríði á hendur Svíþjóð árið 1808. —Svíar hófu þar með innrás í Noreg, en á sama tíma réðust Rússar á Finnland sem þá var undir sænskum yfirráðum. Þetta tveggja hliða stríð reyndist Svíum hörmung því allt Finnland var síðan fært undir yfirráð Rússa. Árið 1814, þegar Danmörk var um það bil að tapa fyrir sænskum, rússneskum og þýskum hermönnum, samþykkti Friðrik VI Danakonungur Kílarsamninginn um að færa Noreg undir Svíakonung í skiptum fyrir hið sænska Pommern til að forðast hernám Jótlandsskaga. Hinsvegar yrðu norsku eignirnar Ísland, Færeyjar og Grænland enn undir dönskum yfirráðum. Samningurinn tók aldrei formlega gildi, og lýsti Noregur yfir skammvinnu sjálfstæði og varð Pommern seinna undir Prússneskum völdum. Með þessum hætti komst Ísland undir vald Danakonungs og varð hluti Danaveldis. Ísland fékk stjórnarskrá og takmarkaða heimastjórn árið 1874 á þjóðhátíð í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar, þar sem núverandi þjóðsöngur Íslands, Lofsöngur var frumfluttur. Fullveldi fylgdi í kjölfarið árið 1918. Kristján X var þar með sameiginlegur þjóðhöfðingi Danmerkur og Íslands til ársins 1944, þegar lýðveldið var stofnað. Bar hann titilinn "konungur Íslands" og var sá eini sem gerði það. Stjórnmál. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Framkvæmdavaldið liggur hjá forseta og ríkisstjórn. Æðsti maður ríkisstjórnar er forsætisráðherra. Ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart Alþingi, sem er handhafi löggjafarvaldsins ásamt forseta. Dómsvald er í höndum dómstóla; æðsti dómstóll landsins er Hæstiréttur. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins og er þjóðkjörinn í beinni kosningu allra kjörbærra manna. Kjörtímabil hans er 4 ár. Forseti er ábyrgðarlaus á ríkisstjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Hann veitir formönnum stjórnmálaflokka umboð til stjórnarmyndunar eftir kosningar til Alþingis og skipar ráðherra en oftast er þessu ferli í raun stýrt af stjórnmálaflokkunum sjálfum, aðeins þegar þeir geta ómögulega komist að niðurstöðu sjálfir nýtir forsetinn sér þetta vald og skipar sjálfur ríkisstjórn. Þetta hefur þó ekki gerst í sögu lýðveldisins en gerðist 1942 þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri Íslands, skipaði utanþingsstjórn. Forseti Íslands hefur málskotsrétt gagnvart þinglögum samkvæmt stjórnarskrá og ber þá að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu en lögin taka samt gildi, þangað til þau eru afnumin eða staðfest með þjóðaratkvæði. Núverandi forseti er Ólafur Ragnar Grímsson, sem tók við embættinu árið 1996. Hann nýtti sér málskotsréttinn fyrstur forseta á Íslandi, þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin árið 2004. Alþingi, löggjafarþing Íslands, starfar í einni deild. 63 þingmenn þess eru kjörnir hlutfallskosningu í 6 kjördæmum. Kjörtímabilið er 4 ár en getur verið styttra ef það kemur til þingrofs en vald til að rjúfa þing liggur hjá ríkisstjórninni. Ráðherrar eiga einnig sæti á Alþingi en hafa ekki atkvæðarétt nema þeir séu einnig þingmenn en sú er reyndar venjan. Alþingi velur sér forseta til að hafa yfirumsjón með fundum þess, núverandi forseti Alþingis er Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Ríkisstjórnir á Íslandi eru nánast ávallt samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka en einnig eru dæmi til um minnihlutastjórnir, einkum og sér í lagi vegna þess að enginn flokkur hefur hlotið hreinan meirihluta á þingi, í það minnsta ekki frá endurreisn lýðveldis. Núverandi ríkisstjórn er samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Kjördæmi. Íslandi er skipt upp í 6 kjördæmi sem kjósa sína fulltrúa á Alþingi. Sveitarstjórn. Íslandi er skipt upp í 104 sveitarfélög sem eru mikilvægustu stjórnsýslueiningar landsins og hafa víðtæk völd á sviði skólamála, skipulags, samgangna og félagsmála. Sýslur. Íslandi hefur frá fornu fari verið skipt upp í sýslur til umboðsstjórnar. Hinar gömlu landfræðilegu sýslur eru ekki lengur formlegar stjórnsýslueiningar á Íslandi, sýslumenn eru enn þá við lýði en umdæmi þeirra fylgja ekki alltaf gömlu sýsluskiptingunni. Landafræði. Ísland er staðsett á heitum reit á Atlantshafshryggnum. Það er 102.800 ferkílómetrar að stærð. Þar eru mörg virk eldfjöll og ber þar helst að nefna Heklu (1491m) og Eyjafjallajökul (1502 m). Um það bil 10% eyjarinnar er undir jöklum. Á Íslandi eru hverir víða, og gnótt jarðhita færir íbúunum heitt vatn, sem meðal annars er notað til húshitunar. Ísland er önnur stærsta eyja Evrópu, á eftir Bretlandi. Eyjan er vogskorin, og flestir bæir standa við firði, víkur og voga. Helstu þéttbýlisstaðir eru höfuðborgin Reykjavík, Keflavík, þar sem einn af alþjóðlegum flugvöllum landsins er, og Akureyri. Ísland liggur á tveimur jarðskorpuflekum, Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum. Landið telst sögulega til Evrópu. Ystu punktar Íslands eru þeir staðir sem eru lengst til höfuðáttanna. Efnahagsmál. Efnahagur þjóðarinnar byggir enn að talsverðu leyti á fiskveiðum, sem afla nær 40% útflutningstekna og veita 8% vinnandi manna störf. Þar sem aðrar náttúruauðlindir skortir (fyrir utan jarðhita og fallvötn til virkjunar), er efnahagslíf á Íslandi viðkvæmt og háð heimsmarkaðsverði á fiski og sjávarafurðum. Auk þess geta minnkandi fiskstofnar í efnahagslögsögu landsins haft töluverð áhrif á sveiflur í efnahagslífinu og heimsmarkaðsverð á áli og kísilgúri sem eru stærstu útflutningsvörur Íslendinga á eftir sjávarafurðum. Stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sat við stjórnartaumana frá 1995 til 2007. Hún hafði á stefnuskránni að draga úr ríkisumsvifum og einkavæða ríkisfyrirtæki. Ríkisútgjöld, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, hafa þó vaxið síðustu ár. Fjölbreytileiki í efnahagslífinu hefur aukist undanfarna tvo áratugi. Ferðaþjónusta verður æ fyrirferðameiri, og reyna Íslendingar að laða til sín útlendinga með auglýsingum um hreina og ómengaða náttúru og öflugt næturlíf. Nokkuð dró úr hagvexti á árunum 2000 til 2002, en árið 2002 var hann neikvæður um 0,6%, frá 2003 hefur hagvöxtur hins vegar verið drjúgur en efnahagur í samanburði við nágrannalönd einkennst af óstöðugleika. Lýðfræði. Íslendingar eru í megindráttum norræn þjóð. Landið byggðist upphaflega norrænum mönnum, einkum frá Noregi,Svíþjóð,Danmerkur og Keltum frá nýlendum víkinga á Bretlandseyjum og Íslendingar hafa í gegnum tíðina átt mest samskipti við helstu fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi. Til er kenning um að Íslendingar séu að uppruna sérstakur þjóðflokkur, aðgreindur frá öðrum þjóðflokkum á norðurlöndum („Herúlakenningin“). Á síðari tímum hafa ýmsar kenningar um uppruna þjóðarinnar verið settar fram með erfðafræðilegum rökum. Þá er talað um að flestar konur sem hingað komu hafi verið keltneskar (flestar ambáttir) en karlarnir að miklu leyti norrænir. Íbúafjöldi landsins sveiflaðist á milli um 30.000 og 80.000 við hefðbundinn efnahag í bændasamfélagi fyrri alda. Á 19. og 20. öld hefur Íslendingum fjölgað nokkuð ört og nú eru íbúar landsins tæplega 320.000 auk nokkurra þúsunda af íslenskum uppruna sem ekki eru búsett á Íslandi. Árleg fólksfjölgun mælist um 2,2%. Árið 2011 gaf Hagstofa Íslands út þrjár tegundir mannfjödaspáa fyrir 1. janúar 2060: lágspá sem spáir fólksfjöldanum 386.500, miðspá sem spáir fyrir 436.500 og háspá sem spáir 493.800 manns. Á Íslandi er töluð íslenska, sem er norrænt tungumál, og flestir íbúar landsins eru í hinni evangelísk-lúthersku þjóðkirkju. Handbolti er þjóðaríþrótt Íslendinga, íslenska handboltalandsliðið hefur náð langt á undanförnum stórmótum. Innflytjendur. Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mjög á Íslandi undanfarin ár. Árið 2005 var fjölgunin 29,5% og 34,7% árið eftir. Árið 2007 voru erlendir ríkisborgarar 18.563 talsins (6% af íbúum Íslands), og þann 1. janúar 2008 voru 21.434 erlendir ríkisborgarar skráðir (6,8% af íbúum Íslands). Það er 15,5% fjölgun árið 2007. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda Íslands er nú hærra en annars staðar á Norðurlöndum, en árið 2006 var það næst hæst í Svíþjóð eða um 5,4%. Konur voru jafnan fjölmennari í hópi erlendra ríkisborgara til árins 2003, en síðan 2004 hafa karlar verið fjölmennari en konur. Í árslok 2007 voru karlar með erlent ríkisfang 8,1% allra karla en konur 5,5% allra kvenna. Samkvæmt viðhorfskönnun sem var gerð árið 2009 meðal um 800 innflytjenda kom fram að dræm íslenskukunnátta hamlaði þeim helst í því að nýta menntun sína í starfi. Hinn 19. mars 2013 birti Hagstofa Íslands nýja skýrslu sem sýndi að hlutfall fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda á Íslandi væri samanlagt 9,1% af heildaríbúafjölda í landinu. Kvikmynda- og bókmenntaverðlaun. Árlega eru veitt verðlaun fyrir afrek liðins árs í bókmenntum og kvikmyndagerð á Íslandi. Edduverðlaunin eru verðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað fram úr á sviði kvikmynda og sjónvarps. Síðar á árinu eru Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent því fólki sem talið er hafa borið af á ritvellinum. Jökull. Jökull er massi íss sem ekki nær að bráðna milli árstíða. Þeir eru stærsta forðabúr jarðarinnar af ferskvatni og hegða sér líkt og hægfara ár sem hreyfist undan þyngdaraflinu. Stærsti jökull jarðar er á Suðurskautslandinu. Jöklar fyrirfinnast í öllum heimsálfunum. Jöklafræði nefnist sú fræðigrein sem rannsakar sérstaklega jökla. Jöklar flokkast annars vegar til þíðjökla, sem eru nálægt frostmarki vatns, eða gaddjökla, sem ætíð eru neðan frostmarks vatns. Skriðjöklar kallast þeir hlutar jökuls, sem renna hægt (þ.e. "skíða") út frá meginjöklinum. Vísitala neysluverðs. Vísitala neysluverðs er viðmiðunarkvarði milli tímabila og lítur til verðbreytinga á vörum og þjónustu sem eru á útgjaldalið heimilanna. Algengt er að nota hana til að mæla verðbólgu á Íslandi. Þjóðhagsstofnanir eða sambærilegar stofnanir í flestum löndum reikna út vísitölu neysluverðs því hlutfallsleg breyting milli mánaða segir til um ástand verðbólgunar í landinu. Ásamt fólksfjölda og þjóðar- og landsframleiðslu eru vísitala neysluverðs með mikilvægustu hagtölum sem litið er til. Ísland. Á Íslandi fellur það í skaut Hagstofu Íslands að reikna út vísitölu neysluverðs samkvæmt lögum nr 12. frá 1995. Það er gert mánaðarlega. Lögmál Kleibers. Lögmál Kleibers er lögmál sem þjóðverjinn Max Kleiber setti fram uppúr 1930 um að efnakiptahraði flestra dýra aukist í hlutfalli við líkamsþunga þeirra í ¾-veldi og þannig þurfi stór dýr hlutfallslega minni orku en minni dýr. Þetta er vegna þess að orkuþörf dýra ræðst af yfirborði þeirra miðað við rúmmál. Þannig þarf mús hlutfallslega meiri orku en fíll. Kleiber útskýrði lögmálið með formúlunni orkuþörf = Líkamsþungi (kg)0,75 Beitarþungi. Beitarþungi er hugtak notað í beitarfræði og metur meðalfjölda beitardýra sem gengur á ákveðinni landsstærð. Beitarþungi er gefinn upp í dýr/ha, t.d. ær/ha eða hross/ha. Beitarálag. Beitarálag er hugtak í beitar- og fóðurfræði sem metur meðalfjölda beitardýr á tiltekið uppskerumagn (gefið upp í tonnum þurrefnis). Beitarálag metur hversu mikið landið gefur af sér og hvað sé óhætt að beita mörgum gripum á það. Ecser. Ecser er þorp í Ungverjalandi, skammt frá Búdapest, höfuðborg landsins. Íbúar í Ecser eru 3252 (2001) og flatarmál er 13,1 km². Í Ecser búa margir Slóvakar en bærinn heitir á slóvakísku "Ečer". Ecser er gamalt þorp, stofnað árið 896. Kirkja hefur verið í þorpinu frá 1315. Frá 1541 til 1686 var Ecser í eyði en þá voru Tyrkir í Ungverjalandi. Sjávarföll. Sjávarföll eru ris og hnig sjávar á jörðinni, til komin vegna þyngdarkrafta tungls og sólar sem toga í jörðina. Hugtakið nær yfir bæði flóð, sem er hækkun á yfirborði sjávar, og fjöru, þar sem yfirborðið lækkar. Yfirleitt gætir flóðs og fjöru tvisvar sinnum á sólarhring á hverjum punkti jarðar. Þar sem þyngdarkraftur sólar á yfirborði jarðar er aðeins helmingur á við þyngdarkraft tunglsins, skiptir staða tunglsins mestu máli þegar sjávarföll eru skoðuð. Tunglið togar þannig í sjóinn á þeirri hlið jarðar, sem snýr að því. Á fjærhlið jarðar þrýstist sjórinn hins vegar út vegna miðflóttakrafts, sem er til kominn vegna snúnings jarðar-tunglkerfisins um sameiginlega massamiðju. Mesti munur flóðs og fjöru á jörðinni er við Fundyflóa í Kanada en þar flæðir sjórinn inn þröngan flóann á flóði og hækkar yfirborð sjávar um 12 metra. Sjávarfalla gætir hins vegar lítið sem ekkert í innhöfum eins og Miðjarðarhafinu, Eystrasaltinu og Karabíska hafinu. Er það vegna þess að tilkoma sjávarfalla einskorðast ekki aðeins við þyngdarkraft tungls og sólar heldur skipta aðrir þættir máli, eins og yfirborð sjávarbotnsins, tenging innhafa yfir í úthöfin og veðurfar. Mestur munur flóðs og fjöru á Íslandi er við Breiðafjörð og getur þar orðið 5 metrar. Sjávarfalla gætir mismikið í kringum landið, til dæmis er algengur munur flóðs og fjöru við Faxaflóa 4 metrar á stórstreymi en á Norður- og Austurlandi sjaldnast meiri en einn og hálfur metri. Beitiland. Beitiland kallast girt eða ógirt svæði þar sem búfé er beitt. Beitilönd geta ýmist verið heimalönd í einkaeigu (heimahagar), heimalönd í sameign eða afréttir. Beitiland er gjarnan nýtt yfir sumartímann en það er ódýrasti fóðrunarkosturinn. Beitarskipulag. Til að hámarka afkomu beitarsvæða en ganga þó ekki á landgæði þarf að skipuleggja beitina og takmarka hana sumsstaðar. Þetta er gert með því að skipuleggja hvar, hvenær og hversu mörg beitardýr ganga á beitinni á hverjum tíma. Dæmi um slíkt skipulag er t.d. hólfabeit, randbeit, skiptibeit eða samfelld beit. Samfelld beit. Á stórum svæðum er fjölbreytni í gróðurlendum og tegudum mikil og því geta sum svæði verið nauðbitin á meðan önnur eru ekki snert. Þetta á sérstaklega við þar sem samfelld beit er viðhöfð en þá eru beitardýr látin valsa um stór svæði jafnvel árið um kring. Samfelld beit felur ekki í sér neina beitarstýringu. Með samfelldri beit er hægt að viðhafa blandaða beit, þ.e. blanda búfjártegundum en ólíkar tegundir nýta ólíkar plöntur og þannig fæst betri nýting af beitilandinu. Hólfabeit eða skiptibeit. Með hólfabeit er stórt beitarsvæði hólfað niður og hólfin beitt og friðuð til skiptist. Þetta fyrirkomulag er helst notað þar sem landrými er af skornum skammti en landið þarf að gefa visst mikið af sér til að slíkt fyrirkomulag borgi sig (girðingakostnaður). Skiptibeit felst í því að ein búfjártegund er látin bíta landið og það næst friðað í einhvern tíma áður en næsta búfjártegund nýtir endurvöxtinn. Með þessu er t.d. hægt að láta hross „hreinsa“ mýrar svo þær verði lystugari fyrir sauðfé eða nautgripi. Randabeit. Randabeit fer þannig fram að skepnunum er skammtað land með rafmagnsstreng og þannig lágmarkast það sem fer til spillis út af traðki og búfjáráburði. Þessi aðferð er mikið notuð á kýr og hross en erfiðara með sauðfé og geitur þar sem þær virða slík kerfi síður. Hraðbeit. Hraðbeit kallast það að þegar hólf eru þungbeitt í stuttan tíma en síðan friðað á meðan önnur hólf eru beitt. Með þessu vinnst að lítið er um traðk og flestar plöntur eru bitnar en á móti geta skepnurnar „lært á kerfið“ og í stað þess að bíta verri beitarplöntur bíða þær eftir að verða fluttar á milli hólfa. Fjara. Fjara er nefnd sú landræma sem er á mörkum meginlands eða eyja og sjávar eða stöðuvatns. Þar sem sjávarfalla gætir er þetta svæði breiðara en ella. Til dæmis gætir sjávarfalla varla eða mjög lítið í stöðuvötnum en mikið mun meira á sjávarströndum, þó óverulega í innhöfum eins og til dæmis Eystrasalti og Miðjarðarhafi. Yfirleitt er fjara skilgreind sem sú landræma sem sjór fellur af og er á milli meðalstórstraumsflóðs og meðalstórstraumsfjöru. Sjávarföll eru mjög mismikil, mest geta þau orðið 16 metra munur á flóði og fjöru í Fundyflóa á austurströnd Kanada, því eru fjörur mjög mismunandi að umfangi, einnig er lífríki og gerð þeirra mjög mismunandi. Margir líffræðingar vilja líka skilgreina fjöru frekar út frá vistkerfi hennar og segja að hún nái frá efstu "klettadoppum", en ofan þeirra teljist land, og niður að "þarabelti", en þar byrji "grunnsævi". Sú skilgreining er talsverð einföldun og á fyrst og fremst við um kletta- og klapparfjörur. Fjörur á Íslandi. Fjörur á Íslandi eru misstórar vegna þess að sjávarfalla gætir mismikið í kringum landið. Mestur munur flóðs og fjöru er við Breiðafjörð og getur þar orðið 5 metrar. Við Faxaflóa er algengur fjögurra metra munur á stórstreymi en á Norður- og Austurlandi sjaldnast meiri en einn og hálfur metri. Lögun landsins ræður miklu um hve fjörur eru víðáttumiklar að viðbættum sjáfarföllum, en talið í ferkílómetrum er um helmingur allra fjara á Íslandi við Breiðarfjörð, fjórðungur við Faxaflóann en aðeins um 10% samanlagt við norður- og austurströndina. Fjörugerðir. Fjörur eru margvíslegar að gerð. Sumstaðar ganga klettar í sjó út, aðrar sorfnar af brimi úthafsöldunar, enn aðrar fullar af grjóthnullungum, möl eða sandi eða eru lygnar leirur við árósa. Lífríki hinna ýmsu fjörugerða er misjafnt og hefur skjól þar mikið að segja. Í sumum gerðum fjara er nánast ekkert fjörulíf, eins og í sandfjörum fyrir opnu hafi, en mjög mikið í skjólgóðum hnullunga- og þangfjörum. Skipta má fjörum í margar gerði og hafa Íslenskum fjörum meðal annars verið skipt í eftirfarandi flokka: "Þangfjörur, hrúðurkallafjörur, hnullungafjörur, skjóllitlar sandfjörur, kræklingaleirur, sandmaðksleirur, sjávarfitjar" og "árósar og sjáfarlón". Statúta. Statúta (kv., ft. statútur) er skipan eða tilskipun kirkjulegs yfirvalds (biskups, erkibiskups eða páfa), og var "statútan" ígildi lagasetningar í kirkjulögum. Statútur báru oft svip lagagreina eins og þær tíðkuðust á miðöldum, en þær minna einnig á reglugerðir eins og við þekkjum þær á okkar tímum, með því að kveða nánar á um einstök ákvæði kirkjulaga. Orðið er komið úr latínu: "Statutum" = það sem fastsett er. Um 1178 birti Þorlákur helgi skipan sína um föstur og skriftir, sem var í raun og veru ný lög, ætluð íbúum í biskupsdæmi hans. Þessi skipan eða "statúta" var ekki borin undir alþingi, og er ekki í kristinna laga þætti Grágásar, heldur beitti Þorlákur hér valdi kirkjuréttar. Þetta er elsta "biskupastatúta" sem vitað er um hér á landi. Málverk. a> er eitt þekktasta málverk hins vestræna heims Málverk (til forna kallað pentmynd, (pent)skrift eða fái) er flötur sem hefur verið settur litum, annaðhvort með penslum eða öðrum verkfærum, jafnvel höndum. Flöturinn getur verið veggur, léreft, gler eða pappír o.s.frv. Málverk í listrænum tilgangi er samsetning sem líkist fyrirmyndinni eða er byggt upp af hinum ýmsu formum eða formleysum. Talað er um hlutbundna og óhlutbundna list. Hvortveggja getur verið gert eftir ákveðinni listastefnu (eða stefnuyfirlýsingu) til að tjá þá sýn eða hughrif sem listamaðurinn ætlar að framkalla. Með elstu málverkum sem vitað er um eru hellamálverkin í Grotte Chauvet í Frakklandi sem eru frá steinöld. Um orðaforða málara fyrri alda. Sögnin að mála til forna var að steina ("steint skip"), skrifa ("salurinn var skrifaður innan") eða fá (oft haft um rúnir), en málverk af manni var nefnt mannfái. Latneskættaða sögnin að penta var höfð um að mála á miðöldum, og þýskættaða sögnin að farfa, en farfi er t.d. nefndur í Íslendingasögunum. Altarismálverk hafa oft verið nefndar töflur (sbr. altaristafla). Þjórsárhraun. Þjórsárhraun er helluhraun úr stórdílóttu basalti sem rann fyrir um 8700 árum. Það er eitt mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni frá því að ísöld lauk. Það kom upp í 20 til 30 km gossprungu milli Þórisvatns og Veiðivatna. Hraunið rann milli Heklu og Búrfells og niður farveg Þjórsár og yfir láglendið á Skeiðum og Flóa og út í sjó. Hraunið rann um 1 km út í sjó. Gossprungan var á hálendinu 130 km frá sjó. Hraunjaðarinn er nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka. Þjórsárhraun þekur landsvæðið milli Ölfusár og Þjórsár en það er víða hulið þykku jarðvegslagi. Hraunið er víðast um 15-20 m þykkt en um 40 m þar sem það er þykkast. Víða í hrauninu eru dældir og bollar sem kallaðar eru dælur. Þó að hraunið sé víðast hulið þykku jarðvegslagi þá má sums staðar enn sjá hraunið, t.d. í Stokkseyrarfjöru og við Búðafoss en hann steypist fram af hraunbrúninni. Árni Björnsson tónskáld - Einsöngs- og kórlög. Árni Björnsson tónskáld - Einsöngs- og kórlög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni syngja Ólafur Þorsteinn Jónsson, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Árni Jónsson, Jón Þorsteinsson, Sigurveig Hjaltested, Guðmundur Guðjónsson, Svala Nílsen, Sigurður Björnsson, Eiður Ágúst Guðmundsson og fleiri, lög eftir Árna Björnsson. Hljóðritun á lögum nr. 4 á A-hlið og nr. 1, 6, og 7 á B-hlið fór fram hjá Tóntæki: Tæknimaður: Sigurður Árnason. Allar aðrar hljóðritanir fóru fram hjá Ríkisútvarpinu og spanna þær yfir nokkur ár. Staroźreby. Staroźreby er þorp í Póllandi skammt frá Płock. Íbúar voru 1900 árið 2006 Mannaveiðar. "Mannaveiðar" er framhaldsmynd í fjórum þáttum þar sem segir frá rannsókn lögreglu á morði á gæsaskyttu í Dölunum. "Mannaveiðar" er gerð eftir glæpasögu Viktors Arnars Ingólfssonar, "Aftureldingu" en handritið er eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson. Fyrsti þátturinn var sýndur í Ríkissjónvarpinu á annan í páskum 26. mars 2008 og framhaldið næstu þrjá sunnudaga þar á eftir. Þættirnir voru endursýndir á þriðjudagskvöldum og síðdegis á sunnudögum. Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Darri Ólafsson léku aðalhlutverkin, lögreglumennina Hinrik og Gunnar. Með önnur stór hlutverk fóru Atli Rafn Sigurðarson, Björn Thors, Charlotte Böving, Darri Ingólfsson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Halla Vilhjálmsdóttir, Halldóra Björnsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Laufey Elíasdóttir, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Þórunn Lárusdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Tómas Guðmundsson. Tómas Guðmundsson (6. janúar 1901- 14. nóvember 1983) var íslenskt ljóðskáld. Hann orti mest í anda nýrómantíkur framan af. Ævi og störf. Tómas fæddist á Efri-Brú í Grímsnesi, foreldrar hans hétu Guðmundur Ögmundarson og Steinunn Þorsteinsdóttir. Á meðal fyrri starfa utan verksviðs skáldsins er vert að nefna; málflutningsstörf í Reykjavík 1926-1929 og störf við Hagstofu Íslands 1928-1943. Segja má að Tómas hafi verið iðinn við útgáfustörf. Til að mynda var hann einn af frumkvöðlum útgáfu tímaritsins Helgafells og síðar Nýs Helgafells. Hans helstu verk í þeim ritum eru meðal annars; "Myndir og minningar" 1956, Léttara hjal 1975 og Að haustnóttum 1976. Einnig skrifuðu þeir Tómas og Sverrir Kristjánsson og gáfu út tíu binda verk með æviþáttum fólks frá liðinni tíð. Árið 1960 kom út Svo kvað Tómas; samtalsbók Matthíasar Johannessens og Tómasar. Samtalsbókin var seinna gefin út árið 1990 í bókinni "Vökunótt fuglsins". Þýðingarstörf Tómasar eru talsverð. Tómas þjónaði titlinum formaður bókmenntaráðs í 21 ár en hann var einn af aðal frumkvöðlum stofnunar Almenna bókafélagsins á Íslandi. Tómas Guðmundsson er þó fyrst og fremst þekktur sem ljóðskáld og er hann talinn eitt af stórskáldum íslands á 20. öldinni. Hann var aðeins 24 ára þegar fyrsta bók hans kom út og þótti þá þegar eitt fremsta skáld Íslendinga. Átta árum síðar þegar "Fagra veröld" kom út og seldist samstundis upp var ljóst að orðstír Tómasar var gulltryggður og mörg ljóða hans á hvers manns vörum. Hann hefur oft verið kallaður Reykjavíkurskáldið og árið 1994 hóf Reykjavíkurborg að veita Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í minningu skáldsins. Bækur. Einnig skal geta heildarsafns sem kom fyrst út árið 1989. Heildarsafnið hefur verið þrisvar endurútgefið. Suffocation. Suffocation er bandarísk death metal hljómsveit. HLjómsveitin var stofnuð 1990 og hefur síðan gefið frá sér margar hljómplötur, þar á meðal fyrsta geisla diskinn sem var gefinn út hjá útgáfufyrirtækinu Relapse Records, EP plötuna "Human Waste". Saga. Suffocation tók upp plöturnar "Human Waste", "Effigy of the Forgotten", "Breeding the Spawn", "Pierced from Within", og "Despise the Sun" áður en þeir hættu árið 1998. Suffocation komu aftur saman árið 2003, og með þeim var þá upprunalegi trommari hljómsveitarinnar Mike Smith, en einnig voru aðrir lengri-tíma meðlimir farnir, þar á meðal Doug Cerrito og Chris Richards. Hljómsveitin gaf frá sér "Souls to Deny" árið 2004 og fór á heimstónleikaferðalag til að koma nýju plötunni á framfæri. Eftir yfir 200 tónleika, tók hljómsveitin upp og gaf sjálf út sinn fyrsta tónleikadisk "Close Of A Chapter: Live In Quebec City". Sjálf-titluð plata var gefin út árið 2006 af Relapse Records, og í kjölfarið fylgdi heimsferðalag. Árið 2007 voru Suffocation fengnir í auglýsingu fyrir History Channel þáttinn "The Dark Ages". Þeir eru eins og er að safna saman efni í tónleikadisk á dvd en þessum dvd-disk var frestað að sökum þess að efni sem átti að vera á disknum var stolið, og líka því þeir voru að bíða eftir að samningur þeirra við Relapse Records myndi renna út. Þann 4. júní 2007 skildu leiðir Suffocation og útgáfufyrirtækisins sem þeir höfðu verið hjá fram til þess, Relapse Records. Hvað sem því líður þá er hljómsveitin enn starfandi. Þeir munu fara á Evrópu túr 2008, en eftir hann hafa þeir ákveðið að fara að vinna að nýrri stúdíó-plötu. Síll og áhrif. Suffocation fullkomnuðu ríkjandi takt stíla eldri death metal hljómsveita með flóknum lagabyggingum og einstakri melódískri næmni. Þeir eru jafnan sagðir hafa fundið upp brutal death metal undirflokkinn og kynntu til sögunnar marga nýja hluti, þar á meðal má nefna death grunts, blast beats, and breakdowns með mikilli notkun af palm muting. Til að bæta við það, hafa flóknar lagabyggingar þeirra og hljóðfæraleikur þeirra verið áhrifarík í þróuninni á technical death metal. Þar af leiðandi er þeim oft lýst sem „brutal technical death metal“ og eru skráðir sem slíkir á The Metal Archives. Suffocation er sett við hliðiná hljómsveitum eins og Immolation, Mortician og Incantation sem verandi partur af death metal senu sem kallast „New York death metal“, eða „NYDM“ sem er stytting á því. Þrátt fyrir það, hefur hver og ein þessara hljómsveita mjög mismunandi hljóm og þar af leiðandi er NYDM notað aðallega til að lýsa New York senunni á tíunda áratugnum en ekki neinum ákveðnum stíl. Alsíkusmári. Alsíkusmári (fræðiheiti: "Trifolium hybridum") er smári sem ber blóm sem eru hvít í fyrstu en verða svo rósrauð með aldrinum. Þau eru ilmsterk. Alsíkusmári er notaður sem fóðurjurt fyrir búfé. Lýsing. Stöngull alsíkusmára er holur og á blöðunum eru engir ljósir blettir eins og á rauð- og hvítsmára. Ópíumvalmúi. Ópíumvalmúi (fræðiheiti: "Papaver somniferum") er valmúi af "Papaver" ættkvísl draumsóleyjaættar sem ópíum og önnur ópíöt eins og morfín, kódein, metadón og petidín eru unnin úr. Ópíumvalmúi hefur einkum verið ræktaður í Austurlöndum nær (Tyrklandi) og fjær (Burma, Laos og Tælandi). Þá var víðtæk ræktun á honum í Afganistan. Móasef. Móasef eða kvíslsef (fræðiheiti: "Juncus trifidus") er lágvaxið þurrlendis-sef sem vex í toppum. Lýsing. Stráin eru fíngerð og blómin, 1 til 4 stykki, standa ofarlega, þar sem blöðin kvíslast. Blómhlífarblöð eru 6 og sömuleiðis fræflarnir. Þeir eru ljósgulir en frævan ljósgræn. Móasef er oftast 8 til 25 sentimetra hátt og blómbast í júní til júlí. Það er mjög algengt á Íslandi. Viktoría Spans - Íslenzk lög gömul og ný. Viktoría Spans - Íslenzk lög gömul og ný er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni syngur Viktoría Spans gömul íslensk þjóðlög og íslensk sönglög. Jaap Spigt leikur á hapsicord og Bauke van der Meer á píanó. Erkibiskup. Erkibiskup (úr grísku orðunum αρχή, "arkhe", „uppspretta“, „uppruni“ eða „vald“, og επισκοπος, "episkopos", „eftirlitsmaður“, „formaður“) er embættistitill í kaþólsku kirkjunni, biskupakirkjunni og nokkrum mótmælendakirkjum. Kaþólska kirkjan. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni er erkibiskup fremstur biskupa í umdæmi sínu, "Provincia ecclesiastica", en undirmaður kardínála og páfa. Erkibiskupsembættið var stofnað á fyrsta kirkjuþinginu í Nicaea árið 325. Ástæðan var að sóknir voru orðnar margar og ýmis biskupsdæmi orðin mjög stór. Voru erkibiskuparnir upphaflega biskupar í höfuðborgum héraða í rómarveldi. Erkibiskupinn er "primus inter pares" (fremstur meðal jafninga) og hefur ekki lögsögu né formlegt vald yfir hinum biskupunum. Á miðöldum höfðu erkibiskuparnir þó í raun mikil völd. Í rétttrúnaðarkirkjunum er samsvarandi titill metrópólít. Biskupakirkjan. Yfir hverri sjálfstæðri kirkju í heimssambandi biskupakirkna er erkibiskup og í mörgum þeirra stærri fleiri en einn, hlutverk þeirra og valdsvið er öllu meira en í kaþólskum sið. Erkibiskupinn í Canterbury í Englandi er æðsti yfirmaður biskupakirkjunnar á heimsmælikvarða. Lútherskar kirkjur. Við siðaskiptin var embæti erkibiskupa lagt niður í flest öllum mótmælendasöfnuðum. Sænska þjóðkirkjan hélt þó áfram að nefna æðsta yfirmann kirkjunnar erkibiskup, þegar stofnuð var sjálfstæð evangelísk-lúthersk kirkja í Finnlandi 1809 var yfirmaður hennar einnig nefndur erkibiskup. Sama gildir evangelísk-lúthersku kirkjurnar í Eistlandi og Lettlandi. Í öllum þessum kirkjum er erkibiskup talsmaður og leiðtogi inn á við og út á við og vígir meðal annars nýja biskupa. Norðurlönd fyrir siðaskipti. Fyrsta erkibiskupsdæmið á Norðurlöndum var stofnað 1104 í Lundi (sem þá var í Danmörku) og náði það yfir öll Norðurlönd. Árið 1153 var stofnað erkibiskupsdæmi i Niðarósi sem náði yfir Noreg, Ísland, Grænland, Færeyjar, Mön, Hjaltland og Orkneyjar. Árið 1164 var stofnað erkibiskupsdæmi í Uppsölum sem náði yfir þáverandi Svíþjóð (það er einnig yfir núverandi Finnland en ekki Skán). Fyrir 1104 tilheyrðu Norðurlönd erkibiskupsdæminu í Hamborg-Bremen. Heimild. Enzyklopädie der Religionen, Verlag GmbH, Karlsfeld beim München, 2005 Upplyfting - Kveðjustund. Upplyfting - Kveðjustund er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni flytur hljómsveitin Upplyfting tólf lög. Hljóðrítun fór fram hjá Tóntækni hf. Tæknimaöur: Sigurður Árnason Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Jóhann G. Jóhannsson. Tónlistarleg umsjón (producer): Jóhann G. Jóhannsson. Hönnun umslags: SG. Ljósmyndir á umslagi: Troels Bendtsen. Setning: Prentstofan Blik hf. Prentun: Prentsmiðjan Grafík hf. Lagalisti. Magnús Stefánsson: Aðalsöngur, bassi Sigurður V. Dagbjartsson: Aðalgítar, söngur. hljómborð, bazuki Ingimar Jónsson: Trommur Kristján B Snorrason: Söngur, hljómborð Birgir S. Jóhannsson: Gítar Haukur Ingibergsson: Söngur, gítar, píanó, raddir Kristján Óskarsson: Hljómborð Magnús Baldursson: Altosaxófónn Gústaf Guðmundsson: Synth trommur Lárentínus Kristjánsson: Trompet Ingibjörg Vagnsdóttir: Kvenraddir Verslunin Bonanza fyrir föt á forsíðumynd. Sigurður Egilsson og Jónas Þórðarson fyrir lán á bassa. Ingibjörg Vagnsdóttir fyrir pönnukökurnar og allt góðgætið á meðan Sigurður Árnason fyrir ánægjulega samvinnu við hljóðritunina. Jóhann G. Jóhannsson fyrir lögin, upptökustjórnina og Haukur Ingibergsson fyrir lögin og margvíslega hjálp Dr. Gunni. Gunnar Lárus Hjálmarsson (fæddur 7. október 1965), þekktastur undir listamannsnafninu Dr. Gunni, er íslenskur tónlistar- og fjölmiðlamaður. Hann hefur bæði gefið út ljóðabækur og tónlist, auk þess sem hann hefur verið meðlimur í hljómsveitum á borð við Unun, Bless og S.H.Draumi. Dr. Gunni hefur meðal annars haft sinn eigin þátt á Rás 2 er kallast „Skemmtiþáttur Dr. Gunna“ auk þess sem hann stjórnaði "Popppunkti" með Felix Bergssyni. Popppunktur. Popppunktur er spurningaþáttur í umsjá Dr. Gunna og Felix Bergssonar. Í þættinum keppa hljómsveitir sín á milli og spurningarnar eru allar úr sögu alþýðutónlistar. Fjórar þáttaraðir voru gerðar fyrir SkjáEinn: 2002, 2003, 2004 og svo stjörnumessa árið 2005. Fyrir jólin 2004 kom út samnefndur spurningaleikur byggður á þættinum. Sumarið 2009 var ný þáttaröð gerð fyrir Ríkissjónvarpið. Meðal nýjunga var „hlustendafimman“, fimmuþraut sem áhorfendur gátu sent inn svar við til þáttarins Popplands á Rás 2. Haustið 2010 var svo enn ný þáttaröð hafin á RÚV. Tribal King. Tribal King er frönsk hljómsveit skipuð þeim „Tribal“ (David, fæddur 2. apríl 1979) og „King“ (Nony, fæddur 19. júní 1981). Hljómsveitin var stofnuð í ágúst 2005 og leikur ýmist popptónlist, ryþmablús eða reggíblandað "dancehall". Fyrsta smáskífa Tribal King var "Façon sex" sem seldist grimmt í Frakklandi sumarið 2006. Á eftir fylgdi fyrsta breiðskífan, "Welcome", sem kom út 2. október 2006. Smásaga. Smásaga er stutt skálduð frásögn í lausu máli sem er öllu hnitmiðaðri en lengri skáldverk, eins og til dæmis skáldsagan og nóvellan. Í smásögu er oftast aðeins um eina aðalpersónu að ræða og einn tiltekinn atburð í lífi hennar, viðbrögð hennar við honum og/eða öðrum persónum. Góð smásaga getur með fáum orðum brugðið upp ljósi sem fær lesandanum innsýn inn í gangverk persónunnar og ævi hennar. Smásagan á Íslandi. Um og eftir 1950 breyttist smásagnagerð á Íslandi. Höfundar á borð við Thor Vilhjálmsson, Jón Óskar, Steinar Sigurjónsson, Geir Kristjánsson og Ástu Sigurðardóttur leyfðu sér frjálsara form en tíðkast hafði. Þeir færðu sér í nyt ýmsar eigindir ljóðsins, hrynjandi og stíl, létu sér lítið spennandi um söguþráð og brutu af sé viðjar anekdótu og skrítlu. Hin hefðbundna, raunsæja smásaga hafði á sér svip hlutleysis enda átti hún að vera „gluggi“ út í lífið. Nýja smásagan opnaði leið til huglægari tjáningar, rökvísi ímyndunaraflsins kom í stað atviks, rannsókn sálarlífs í stað könnunar á ytri aðstæðum. Formbylting átti sér stað í prósa. Fennikka. Fennikka (Fræðiheiti: "Foeniculum vulgare") er kryddjurt af sveipjurtaætt sem rekur heimkynni sín til landanna við Miðjarðarhaf. Fennikka er bæði notað sem krydd og í lyfjagerð ("fennikkufræ"), en fræin bragðast dálítið eins og anís. Stilkar jurtarinnar (og jafnvel rótarhnúðurinn) eru höfð í salöt og jafnvel borðað einætum. Heiti yfir Ísland. Heiti yfir Ísland sem einkum hafa verið notuð af ljóðskáldum. Stúfa. Stúfa (fræðiheiti: "Succisa pratensis") er fjölær jurt af stúfuætt sem ber blátt blóm. Hún vex gjarnan í graslendi. Smjörgras. Smjörgras (fræðiheiti: "Bartsia alpina") er blóm af varablómabálki sem vex í grónu landi, í klettum og fjallendi. Það verður gjarnan 15 til 30 cm á hæð. Lýsing. Blómin eru dökkfjólublá á litin og einsamhverf, um 1,5 til 2 sentimetrar á lengd. Bikarinn sjálfur er 5 til 7 millimetrar á lengd og bjöllulaga. Blöðin eru stilklaus, egglaga og eilítið loðin. Efstu blöðin eru gjarnan dökkfjólublá eins og blómið. Birkifjóla. Birkifjóla (fræðiheiti: "Viola epipsila") er fjölær fjóla. Hún vex í graslendi, móu og kjarri. Lýsing. Krónublöðin eru ljósfjólublá og gjarnan með dökkbláum æðum. Blöðin eru á löngum stilkum og blaðkan hjartalaga. Jurtin nær 4 til 10 sentimetra hæð. Hún þekkist frá mýrfjólu á hjartalaga blöðunum auk þess sem hún vex í meira grasi en mýrfjólan (sem vex aðallega í deiglendi). Ananas. Ananas (einnig sjaldan kallað granaldin) er hitabeltisávöxtur ananasplöntu (fræðiheiti: "Ananas comosus") upprunin í Úrúgvæ, Brasilíu og Paragvæ. Plantan er fjölær jurt sem verður 1–1,5 m á hæð með 30 eða fleiri oddhvössum laufum 30-100 sm, utan um þykkan stilk. Oodaaq-eyja. Oodaaq-eyja er eyja norðaustur af Grænlandi og hefur af sumum verið talin nyrsta eyja í heimi. Hún var skírð eftir einum helsta sleðaekli Robert Peary, Oodaaq, sem fæddist í nánd við Thule árið 1878. Hann var Inuíti og var þátttakandi ferð Pearys á Norðurpólinn. Árið 1978 var gerður út leiðangur til að fá úr því skorið hvort Eyja kaffiklúbbsins (Danska: "Kaffeklubben Ø") væri nyrsta eyja í heimi. Meðan á mælingum stóð uppgötvaði einn leiðangursmanna, Uffe Petersen, frá Nuuk, einhvers konar malarbing úti við sjóndeildarhringinn en við nánari athugun kom í ljós að þetta var lítil eyja, 30 metrar í þvermáli. Mælingar sýndu að eyja þessi er á 83° 40′ 32" N og 30° 40′ 10" V og um 703 kílómetra frá Norðurpólnum. Margir eru ekki hlynntir því að Ooodaaq teljist til eyju, og nokkrir leiðangursmenn á norðurslóðir hafa þóst sjá að hún sé horfin undir yfirborð sjávar. Páll Einarsson. Páll Einarsson (25. maí 1868 á Hraunum í Fljótum – 17. desember 1954 í Reykjavík) var lögmaður, hæstaréttardómari og fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur. Hann var kosinn í það embætti af bæjarstjórn Reykjavíkur þann 7. maí árið 1908 og gegndi því í sex ár eða til 1914. Páll menntaðist í Reykjavík og seinna í Kaupmannahafnarháskóla. Starfið var auglýst í blaðinu Ingólfi. Einn annar sótti um starfið en það var Knud Zimsen, bæjarfulltrúi. Kosið var á bæjarstjórnarfundi og duttu atkvæði þannig að Knud fékk þrjú atkvæði og Páll tíu. Þess má geta að Knud tók við af Páli sem borgarstjóri. Meðal barna Páls var Árni verkfræðingur. Thorbjörn Egner. Thorbjörn Egner (12. desember 1912 – 24. desember 1990) var leikritarithöfundur og þúsundþjalasmiður sem skrifaði bækur og myndskreytti, samdi vísur og lög, og hannaði búninga og leiktjöld við eigin leikrit. Barnæska og menntun. Faðir hans hét Magnus Egner og móðir hans Anna. Thorbjörn var yngstur af 3 börnum. Þau bjuggu í Kampen sem var hverfi í útjarði Oslo í fjölbýlishúsi og á allri neðstu hæðinni voru verslanir s.s. bakarí, skósmiður, mjólkurbúð og nýlenduvöruverslun, en það voru foreldrar Thorbjörns sem áttu og ráku nýlenduvöruverslunina. Frá því Thorbjörn var lítill var mikill söngur og tónlist í kringum hann. Pabbi hans og bróðir spiluðu á fiðlur, systir hans á píanó og sjálfur spilaði hann seinna meir á píanó, gítar og banjó. Thorbjörn var með margvíslega hæfileika. Hann var áhugasamur um tónlist og söng, einnig að teikna og mála og þegar hann var búinn að læra að skrifa fór hann að skrifa sögur. Þar sem hann var svona hæfileikaríkur átti hann í erfiðleikum með að velja hvað hann vildi gera. Faðir hans vildi að hann fengi góða menntun og því fór Thorbjörn í verslunarskóla þegar hann var 16 ára. Að loknum verslunarskólanum prófaði hann ýmis störf. Löngunin til að verða betri í að teikna og mála gerði það að verkum að tvítugur fór hann í Lista- og handíðaskólann þar sem hann lærði undir leiðsögn annarra málara og myndskreytingamanna. Að loknu námi hóf hann starf á auglýsingastofu og vann þar til 1940 þegar hann var 28 ára að hann sagði upp og ákvað að verða rithöfundur og teiknari í fullu starfi. Rithöfundar – og listaferillinn. Sama ár, 1940, kom út fyrsta bókin hans sem hann skrifaði með vini sínum Sigurd Winsnes. Bókin hét Barnabókin og í henni voru ævintýri, frásagnir, vísur, krossgátur og leikir. Alls komu þrjár bækur út í þessum flokki sem þeir Winsnes skrifuðu saman en eftir það skrifaði Thorbjörn allar bækur sínar einn. Á árunum 1940 – 1945 komu út alls 22 bækur eftir Thorbjörn, að meðtöldum bókunum sem hann skrifaði með Winsnes, 20 þeirra voru barnabækur en 2 fullorðinsbækur. Auk þess að skrifa bækurnar myndskreytti hann þær allar, samdi vísurnar og söngvana. Seinna meir þegar hann skrifaði leikrit upp úr bókum sínum og þau voru sett upp í leikhúsi, teiknaði hann leikmyndirnar og hannaði búningana og mörgum sinnum bjó hann leiktjöldin til. Vegna alls þessa er Thorbjörn Egner kallaður þúsundþjalasmiður. Egner kom að barnatímum í norska útvarpinu frá árinu 1946. Fyrst á laugardögum þar sem hann var með leikrit, en árið 1951 var ákveðið að hafa barnatíma fyrir yngstu börnin alla virka daga. Þar voru sagðar sögur, sungið og leikin tónlist. Það var hér sem Egner lagði grunninn að frægð sinni. Hann var með einkar þægilega og hlýja rödd, sagði sögur og söng. Í fyrstu las hann þekktar barnabækur sem hann hafði þýtt á norsku s.s. Bangsímon, en síðar var hann eingöngu með eigið efni. Hann las oft sögur og leikrit í barnatímanum sem hann var að skrifa, gerði við þær vísur og lög sem hann söng sjálfur. Þarna kynnti hann ýmsar persónur sem síðar komu fram í sögubókum hans og leikritum. Fyrsta sögubókin sem Egnar gaf út var um Karius og Baktus. Hann hafði áður skrifað frásögn um þá í Barnabókina sem kom út árið 1941 og leikrit var flutt í barnatímanum 1947 en bókin sjálf með myndskreytingum Egners kom út árið 1949. Nú gátu lesendur séð hvernig Egnar sá þessa litlu tannálfa. Egner hefur sagt að hugmyndin að sögunni hafi komið frá því að hann þurfti oft að fara til tannlæknis sem barn. Í verslun foreldra hans var sælgæti til sölu og gaukuðu þau því að honum þegar hann var á vappi hjá þeim sem lítill drengur. Nöfnin á persónunum er sótt í ensku, caries sem er tannskemmd og bacteria sem er baktería / gerlar. Í sögunni er sýnt fram á hvernig tennur skemmast ef tannburstun er ekki dagleg venja og sagan hefur haft mikil áhrif á betri tannheilsu og tannvernd í Evrópu síðustu hálfa öldina. Dýrin í Hálsaskógi kom út í bókarformi árið 1953, en áður hafði hann flutt textann með söngvum í Barnatímanum. Nú sáu lesendur hvernig Egner hafði með myndskreytingunum hugsað sér útlitið á dýrunum. Egner lýsti Hálsaskógi þannig: Hálsaskógur er lítill skáldaður heimur, sem getur á margan hátt minnt á okkar stóra heim. Dýrin í skóginum eru ævintýrapersónur sem fá persónueinkenni bæði frá dýrum og mönnum. Þau eru með dýranöfn og dýralegt útlit, en eru í fötum og ganga upprétt á tveim fótum - og minna okkur á fólk í mörgu af því sem þau gera og segja. Bangsapabbi og Bangsamamma eru táknræn fyrir vinsemd og öryggi, Mikki refur er sá hættulegi og óútreiknanlegi sem við góðar aðstæður getur einnig breytt rétt. Marteinn skógarmús er skynsami og vinnusami samborgarinn sem einnig hugsar um morgundaginn, á meðan Lilli klifurmús, góðvinur hans er áhyggjulaus trúbador sem vill helst spila á gítar, yrkja og syngja vísur - listamaður. Hann er sá í skóginum sem best skilur gagnsemina af því ógagnlega. Egnar fannst hann eiga margt sameiginlegt með Lilla klifurmús. Dýrin í Hálsaskógi var sýnt sem brúðuleikhús árið 1959 og sá Egner um að breyta sögunni í leikrit, samdi lögin, gerði leiktjöldin og bjó til brúðurnar. Það var síðan árið 1962 sem leikritið var sýnt sem venjuleg leikskýning í Kaupmannahöfn í fyrsta sinn. Kardemommubærinn kom út í bókarformi árið 1955 í fyrsta skipti, en áður var búið að lesa frásögn í Barnatímanum. Þetta er ímyndaður bær og í honum miðjum er hár turn og lítil hús í kring. Um göturnar ganga asnar og kameldýr og þar vaxa pálmatré, ásamt sporvagni sem gengur frá norðri til suðurs. Þegar Egner var búin að skapa umgjörðina fór hann að setja persónur in í bæinn, s.s. bæjarstjórann Bastian og konu hans, Soffíu frænka og Kamillu litlu, Tobías sem bjó í turninum, kaupmanninn, pyslugerðarmanninn og bakarann að ógleymdum ræningjunum þremur og ljóninu þeirra svo einhverjir séu nefndir. Frá 1949 ferðaðist Egner oft til Frakklands, Ítalíu, Alsír og Marokkó, þar sem hann teiknaði ýmislegt af því sem fyrir augu bar s.s. fólk, hús, götur, dýr og plöntur. Áhrifa af þessum ferðum gætir í Kardemommubænum. Hann færði söguna yfir í leikrit og var það frumsýnt árið 1956 í þremur borgum samtímis, Osló, Bergen og Þrándheimi. Öll þessi leikrit og bækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og eru stöðugt sýnd um allan heim. Lestrarbækur. Á árunum 1949 – 1972 skrifaði Egner 16 lestrarbækur fyrir grunnskólabörn. Hann hafði lengi átt þann draum að skrifa nýja gerð af skólabókum, þær áttu að skapa áhuga, vekja lestrarlöngun og lesgleði hjá börnum. Einnig vildi hann skapa tilfinningu fyrir list, því áttu bækurnar að vera ríkulega myndskreyttar. Fjölskylda og einkalíf. Egner var kvæntur Annie sem hann kynntist í verslunarskólanum og eignuðust þau fjögur börn, Björn sem er fæddur árið 1938 og á næstu 8 árum fæddust Turi, Harald og Marit. Á þessum tíma bjó fjölskyldan í þriggja herbergja íbúð í Osló og vann Egner heima, fyrstu bækurnar sína skrifaði hann og myndskreytti á stofuborðinu á meðan börnin léku sér í kringum hann. Haustið 1952 flutti fjölskyldan í einbýlishús sem Oslóborg hafði byggt á lóð við safn Edvards Munch. Þar fékk Egner loksins sér vinnustofu. Annie sá um heimilið og börnin en að auki var hún ritari Egners og sá um allt reikningshald. Þar fyrir utan var hún faglegur ráðgjafi og hún las allt sem hann skrifaði og gaf álit sitt á því, áður en það fór lengra. Thorbjörn Egner hlotnaðist ýmis heiður um ævina fyrir störf sín, m.a. var hann sleginn til riddara af St. Olavs orðunni, fékk heiðursverðlaun Óslóborgar og Cappelen verðlaunin. Frímerki með mynd af honum kom út 1984 Verk sem hafa komið út á íslensku eftir Thorbjörn Egner. Karíus og Baktus hefur komið út í bókarformi og einnig sem hljómplata og síðar sem geisladiskur. Kardemommubærinn var gefin út á hljóplötu og var þar um að ræða leiksýningu sem var sett upp í þjóðleikhúsinu en var síðan hljóðrituð í Ríkisútvarpinu í desember árið 1963 og gefið út af SG-hljómplötum. Það sama á við um Dýrin í Hálsaskógi, þar var sýning úr Þjóðleikhúsinu hljóðrituð í Ríkisútvarpinu í desember árið 1966 og gefin út á hljómplötu. Bæði leikritin hafa síðar komið út á geisladiskum. Síglaðir söngvarar voru hljóðritaðir í Ríkisútvarpinu árið 1973 og komu út á geisladisk ásamt Karíusi og Baktusi. Verkstæði jólasveinanna kom út á hljómplötu og síðar á geisladisk. Dímítrí Medvedev. Dímítrí Medvedev forseti Rússneska sambandsríkisins. Dímítrí Anatolyevich Medvedev (á rússnesku: Дмитрий Анатольевич Медведев), fæddur 14. september 1965) var rússneskur stjórnmálamaður og forseti Rússneska sambandsríkisins. Hann fæddist í Sankti Pétursborg, þá nefnd Leningrad í fyrrum Sovétríkjunum. Medvedev var sem óháður frambjóðandi (en þó studdur af Sameinaðu Rússlandi, stærsta stjórnmálaflokks landsins), kjörinn þriðji forseti Rússlands þann 2. mars 2008 með 71,25% atkvæða í almennum kosningum, og tók embætti þann 7. maí 2008. Þar áður hafði hann gengt stöðu fyrsta aðstoðarforsætisráðherra rússnesku ríkisstjórnarinnar frá 14. nóvember 2005. Áður var hann starfsmannastjóri Vladímírs Pútín forseta. Frá árinu 2000 gengdi hann einnig stjórnarformennsku í olíufyrirtækinu Gazprom. Framboð Medvedev var stutt af Pútín þáverandi forseta. Hann hefur gert efnahagslega nútímavæðingu Rússlands sem sitt meginviðfangsefni sem forseti. Bakgrunnur. Dímítrí Medvedev tveggja ára árið 1967. Dímítrí Medvedev fæddist í Sankti Pétursborg, þá nefnd Leningrad í fyrrum Sovétríkjunum. Hann er sonur hjónanna Anatoly Afanasevich Medvedev (f. 19. Nóvember 1926, d. 2004) prófessor við Tækniháskólann í Leningrad, og móðir hans er Yulia Veniaminovna Medvedeva, (f. 21. nóvember 1939), fræðimaður og kennari við Kennaraskóla kenndan við AI Herzen, starfaði einnig sem leiðsögukona í Pavlovsk. Móðurleggur Medvedev eru Úkraínumenn frá Belgorodfylki við landamæri Úkraínu. Í föðurlegg er hann afkomandi smábænda í Kursk. Námsár. Medvedev var framúrskarandi nemandi í framhaldsskóla. Hann var félagi í Komsomol ungliðahreyfingu Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna frá 1979 til 1991. Framtíðar eiginkona hans, Svetlana Linnik var bekkjarfélaga hans. Hann útskrifaðist frá lagadeild Ríkisháskólans í Leningrad árið 1987. Á háskólaárunum gerðist hann flokksfélagi í kommúnistaflokknum, var áhugasamur um íþróttir, einkum lyftingar, og aðdáandi ensku rokksveitanna Black Sabbath og Deep Purple. Árið 1990 hlut hann gráðu í almennum lögum frá sama háskóla. Hann var nemandi Anatoly Alexandrovich Sobchak, sem snemma varð í forystu fyrir lýðræðisumbætur í Ráðstjórnarríkjunum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Medvedev gekk til liðs við lýðræðishreyfingu Sobchak árið 1988, stýrði í reynd kosningabaráttu Sobchak á hið þing. Sobchak varð síðast fyrsti borgarstjóri Leníngrad og lét það verða eitt sitt fyrsta verk að enskuskýra borgina Sankti Pétursborg. Hann var borgarstjóri 1991-1996. Hann var kennari og lærifaðir bæði Pútins og Medvedev. Fyrstu starfsár og stjórnmálaþátttaka fyrir forsetakosningar. Á árunum 1991 og 1999 sinnti Medvedev í viðskiptum auk starfa við Sankti Pétursborg. Hann gegndi einnig stöðu dósents við fyrrum háskóla sinn sem nú hafði fengið nýtt nafn Ríkisháskólinn í Sankti Pétursborg. Á árunum 1991-1996 starfaði Medvedev sem lögfræðingur fyrir alþjóðanefnd borgarstjóraskrifstofu Sankti Pétursborgar sem Vladímír Pútín stýrði undir Sobchak borgarstjóra. Árið 1993 varð Medvedev lögmaður fyrirtækisin Ilim Pulp Enterprise, sem var timburfyrirtæki í Sankti Pétursborg. Síðar var fyrirtækið skráð undir nafninu Fincell, þá að helmingshlut í eigu Medvedev. Árið 1998 var hann einnig kjörinn í stjórn Bratskiy LPK sem var pappírsverksmiðja. Hann vann fyrir Ilim Pulp allt til 1999. Kosningastjórinn Medvedev og forsetaframbjóðandinn Putin 27. mars 2000, daginn eftir kosningasigur Putins. Medvedev varð einn nokkurra frá Sankti Pétursborg sem í nóvember 1999 leiddu Vladímír Pútín til æðstu valda í Moskvu. Medvedev var kosningastjóri hans. Í desember árið 2000 varð hann næstráðandi í starfsmannastjórn forsetaskrifstofunnar. Medvedev varð einn þeirra stjórnmálamanna sem stóðu Pútín forseta næst. Sem hluta af herferð Putin gegn spillingu í Rússlandi, ólígarka og efnahagslegri óstjórn, skipaði hann Medvedev sem stjórnarformann hins valdamikla olíufyrirtækis Gazprom árið 2000. Þar var bundin endi á stórfelld skattsvik og eignamissi félagsins undir fyrrum spilltum stjórnendum. Medvedev starfaði síðar einnig sem varaformann stjórnar á árunum 2001-2002 og varð formaður í annað sinn í 2002. Í október 2003 varð hann síðan starfsmannastjóri forsetaskrifstofu Pútin. Í nóvember 2005 var hann skipaður af Pútín sem fyrsti aðstoðarforsætisráðherra og hlaut síðan ýmsar aðrar valdastöður. Medvedev hefur verið lýst sem prúðum manni, í meðallagi frjálslyndum pragmatista, færum stjórnanda og stuðningsmanni Putin. Hann hefur þótt gagnrýninn á alræðisstjórnun fyrrum Ráðstjórnarríkjanna. Hann er einnig þekktur sem leiðtogi „lögfræðinga Sankti Pétursborgar“, sem var einn af pólitískum hópum sem mynduðust í kringum Pútín forseta. Hefur sá hópur reynst valdamikill í Rússlandi. Forsetakosningar 2008. Dímítrí Medvedev og Vladímír Pútín árið 2008. Eftir skipun hans sem fyrst aðstoðarforsætisráðherra, fóru margir stjórnmálaskýrendur að gera ráð fyrir því að Medvedev yrði tilnefndur sem arftaki Putins fyrir forsetakosningarnar 2008. Ýmsir aðrir voru nefndir en 10. desember 2007, tilkynnti Pútín forseti að hann styddi Medvedev sem eftirmann sinn. Það tilkynnti hann í kjölfar þess að fjórir stjórnmálaflokkar höfðu hvatt til framboðs Medvedev; Sameinað Rússland, Sanngjarnt Rússland, Landbúnaðarflokkur Rússlands og Borgaralegt Vald. Á flokksþingi stærsta flokks landsins, Sameinaðs Rússlands, 17. desember 2007 var kjörinn sem frambjóðandi þeirra. Hann skráði formlega forsetaframboð sitt 20. desember 2007 og tilkynnti að hann myndi stíga niður sem formaður Gazprom, þar sem samkvæmt lögum, sem forseti er ekki heimilt að halda önnur störf. aðra færslu. Medvedev sver forsetaeið í Kremlin höll 7. maí 2008.Hann er almennt talinn frjálslyndari en fyrirrennari hans Pútin. Stjórnmálasérfræðingar sögðu val Pútín á eftirmanni myndi tryggja auðvelda kosningu, enda höfðu skoðanakannanir gefið til kynna að umtalsverður meirihluti kjósenda myndi velja þann er Pútín styddi. Fyrst verk Medvedev sem forsetaframjóðenda var tilkynna að hann myndi skipa Pútin í stöðu forsætisráðherra yrði hann kjörinn forseti. Samkvæmt stjórnarskránni gat Putin ekki gengt stöðu forseta í þriðja kjörtímabilið, en skipun hans í forsætisráðherrastöðu tryggði honum áfram mikil völd. Stjórnarskráin heimilar honum endurkjör síðar. Sumir töldu því að Medvedev yrði því einungis forseti til málamynda. Í forsetakosningunum birtust myndir af þeim Medvedev og Pútin undir slagorðinu „Saman vinnum við“ ("Вместе победим"). Landskjörstjórn Rússlands hafnað forsetaframboðum stjórnarandstöðuleiðtoganna Kasparov og Kasyanov. Þremur frambjóðendum sem var leyft að taka þátt sem ekki voru taldir ógna framboði Medvedev og gerði lítið til að ógna honum. Hann neitaði ma. að taka þátt í pólitískum umræðum við aðra frambjóðendur. Í framboðsræðum talaði Medvedev fyrir eignarrétti, afnámi reglugerðarhafta, lægri sköttum, óháðu dómskerfi, baráttu gegn spillingu, og talaði fyrir persónulegu frelsi manna í stað ánauðar. Hann er almennt talinn frjálslyndari en fyrirrennari hans Pútin. Medvedev forseti í heimsókn hjá Barack Obama forseta Bandaríkjanna árið 2010. Medvedev var kjörinn forseti Rússlands 2. mars 2008, með stuðningi 70,28% atkvæða. Kjörsókn var yfir 69,78%. Sanngirni forsetakosninganna hefur orðið ýmsum vestrænum eftirlits- og embættismönnum ágreiningsefni. Þannig sagði fulltrúi Evrópuráðsins, Andreas Gross, að kosningarnar hafi „hvorki verið frjálsar né sanngjarnar“. Vestrænir eftirlitsmenn sögðu ójafna skráningu frambjóðanda óeðlilega og að Medvedev hefði einokað alla sjónvarpumfjöllun. Einkahagir. Dmitry Medvedev með eiginkonu sinni Svetlönu Medvedeva. Nokkrum árum eftir útskrift úr framhaldsskóla giftist Medvedev giftist æskuvinkonu sinni og kærustu úr framhaldsskóla, Svetlönu Vladimirovna Medvedeva. Svetlana og hann eiga soninn Ilya (f. 1995). Medvedev er mikill aðdáandi ensks rokks. Uppáhaldshljómsveitirnar eru Led Zeppelin, Black Sabbath, Pink Floyd og Deep Purple. Hann þykir álitlegur safnari upprunalegra vinyl platna þeirra og ku eiga allar upptökur Deep Purple. Hann sótti Deep Purple tónleika í Moskvu í febrúar 2008. Þrátt fyrir þétta dagskrá tekur Medvedev alltaf klukkutíma á hverjum morgni og aftur að kvöldi í að synda 1.500 metra. Að auki lyftir hann lóðum. Hann skokkar, spilar skák og stundar jóga. Hann er líka aðdáandi fótboltaliðsins FC Zenit í Pétursborg. Og sem Moskvubúi styður hann fótboltaliðið PFC CSKA Moskva. Hann þykir liðtækur áhugaljósmyndari. Í janúar 2010, var ein ljósmynda hans seld á góðgerðaruppboði fyrir 51 milljón rúblur ($1.750.000 USD). Medvedev heldur fiskabúr á skrifstofu sinni og fóðrar fiskana sjálfur. Hann á fresskött af Siberíukyni sem heitir Dorofei. Sá stóð í slagsmálum við kött nágrannans, Mikhail Gorbachev, þannig að gelda þurfti Dorofei. Medvedev talar ágæta ensku, en vegna siðareglna talar hann eingöngu rússnesku í viðtölum. Medvedev er 162 cm á hæð. Útgáfa. Medvedev hefur ritað tvær stuttar greinar um efni doktorsritgerðar sinnar í rússnesk lagatímarit. Hann er einnig meðhöfundur kennslubókar um borgaraleg lög fyrir háskólaútgáfu árið 1991. Hann er höfundur kennslubókar fyrir háskóla sem heitir „Spurningar um þróun Rússlands“ og kom út árið 2007, og fjallar um hlutverk rússneska ríkisins í félagslegri stefnumótun og efnahagsþróun. Hann er einnig meðhöfundur bókarinnar „Athugasemd um alríkislög". Í október 2008, setti Medvedev af stað á forsetavef sínum. Frá 21. apríl 2009 hafa vídeoblogg hans hafa einnig verið birt á sem er opinbert „LiveJournal“ Kremlverja. Hreppstjóri. Hreppstjóri er löggæslumaður í hreppi, skipaður af sýslumanni. Hreppstjóraembættið er nú nær aflagt. Hreppstjóri í Svíþjóð og Noregi nefnist "lénsmaður". Lokbrá. Lokbrá er íslensk hljómsveit sem hefur verið starfandi frá árinu 2000. Árið 2003 tók Lokbrá þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og komst í úrslit en hafnaði ekki í neinu sæti. Hljómsveitin er undir miklum áhrifum frá tónlistarmönnum hljómsveitum eins og The Beatles, Led Zeppelin, The Doors, Oasis, Blur, The Stone Roses, Bob Dylan, The Kinks, The Rolling Stones, Smashing Pumpkins, Radiohead, David Bowie, E.L.O, Muse, Franz Ferdinand, The Killers, The Mars Volta og Trúbrot svo einhverjir séu nefndir. Lokbrá spilaði fyrstu árin tvisvar til þrisvar sinnum í viku og og þegar mest lét þá spiluðu þeir á 2-3 tónleikum á dag. Lokbrá, gaf út fyrstu breiðskífu sína Army of Soundwaves 2006. Platan er tekin upp og pródúseruð af Birgi Erni Steinarssyni sem kenndur er við hljómsveitina Maus. Army of Soundwaves var tekin mestan part upp á Íslandi en söngurinn tekinn upp í Blackheath, London. Lokbrá fékk plötusamning hjá Bandaríska útgáfufyrirtækinu Lucid Records en á Íslandi gáfu MSK út plötuna. Lokbrá byrjaði að taka upp aðra breiðskífu sína "Fernando" árið 2006 í Geimsteini, Keflavík. Platan var sett á ís eftir að harði diskurinn sem geymdi plötuna eyðilagðist en árið 2009 var byrjað að leggja lokahönd á plötuna sem er væntanleg 2009-2010. Þorbjörg Sigurðardóttir Bergmann. Þorbjörg Sigurðardóttir Bergmann (13. apríl 1876 – 14. maí 1952) var hannyrðakona, verslunarrekandi og mikill safnari íslenskra menningarverðmæta. Stór hluti af grunneignum Minjasafns Reykjavíkur kom úr einkasafni Þorbjargar. Þorbjörg Sigurðardóttir fæddist á Seltjarnarnesi, þriðja elst ellefu barna hjónanna í Pálsbæ, en þau voru "Sigurður Einarsson" frá Bollastöðum og "Sigríður Jafetsdóttir". Sigurður var þekktur formaður og sjósóknari. Fjórtán ára gömul, árið 1890, tók Þorbjörg burtfarapróf frá Mýrarhúsaskóla eftir sex ára nám með hæstu mögulegri einkunn. 1894 nam hún klæðskeraiðn hjá Reinholt Andersen, en fór svo í Kvennaskólann og lauk námi með fyrstu ágætiseinkunn, efst 14 bekkjarsystra. Að Kvennaskólanámi loknu réðst Þorbjörg innistúlka á mannmargt og myndarlegt heimili Ásthildar og Péturs J. Thorsteinsson á Bíldudal. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Sigfúsi Bergmann, og giftust þau aldamótaárið. Á iðnsýningu 1911 hlaut hún verðlaunaskjal fyrir hannyrðir og á heimilisiðnaðarsýningunnni 1921 tvö heiðursskjöl, annað fyrir veggábreiðu, en hitt fyrir prjónað langsjal. Dáðadrengir. Dáðadrengir er íslensk rapp-rokk hljómsveit sem sigraði Músíktilraunir 2003. Haukur, Helgi og Atli stofnuðu hljómsveitina Morðingjarnir 2005. Smáskífur. Allar stelpur úr að ofan (2003) Expressjónismi. Expressjónismi var listastefna á fyrri hluta 20. aldar, upphaflega í málaralist, þar sem áhersla var lögð á óhefta tjáningu tilfinninga. Úllen dúllen doff - Úrval úr skemmtiþáttum útvarpsins. Úllen dúllen doff - Úrval úr skemmtiþáttum útvarpsins er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni flytja íslenskir skemmtikraftar frumsamið íslenskt skemmtiefni. Höfundar og flytjendur: Gísli Rúnar Jónsson, Edda Björgvinsdóttir, Randver Þorláksson og Jónas Jónasson. Gestaleikarar: Sigurður Sigurjónsson, Árni Tryggvason og Hanna María Karlsdóttir. Hljómsveitarstjórn og útsetningar: Vilhjálmur Guðjónsson. Framleiðandi: Jónas Jónasson. Leikstjóri: Gísli Rúnar Jónsson. Bixie hljómsveit Úllen dúllen doff: Haraldur Á. Haraldsson, Hlöðver Smári Haraldsson, Vilhjálmur Guðjónsson, Már Elísson og Sveinn Birgisson. Tæknivinna og magnaravarsla: Þórir Steingrímsson Macintosh Business Unit. Macintosh Business Unit (óformlega þekkt sem Mac BU eða MacBU) er eining af Microsoft sem framleiðir hugbúnað fyrir Macintosh-stýrikerfi Apple. Hún var stofnuð 7. janúar 1997 og er nú staðsett í "Microsoft's Specialized Devices and Applications Group á Entertainment and Devices Division". Mac BU er ein af stærustu framleiðendunum á Macintosh-hugbúnaði að Apple Inc. frátöldu, með 180 starfsfólk um þessar mundir og metin ársvelta er 350 milljónir bandaríkjadala. Hugbúnaður. Í dag framleiðir Mac BU Macintosh-útgáfur af Microsoft Office, Microsoft Messenger, og Remote Desktop Client. Annar hugbúnaður sem hannaður var (en er ekki lengur í vinnslu) af Mac BU er Internet Explorer (hætt 2003), Virtual PC og MSN for Mac OS X vafri (hætt 31. maí 2005). Saga. Áður en Mac BU var stofnað hafði Microsoft framleitt Macintosh-hugbúnað - í raun frá 1987 þegar Microsoft gaf út Word 1.0 fyrir Macintosh. Samt sem áður var ótti um að Microsoft myndi hætta hönnun á Macintosh-útgáfum af lykilvörum s.s. Microsoft Office. Þess vegna var Mac BU sett á laggirnar árið 1997 með fimm ára skuldbindingu af hálfu Microsoft til að framleiða og styðja við Macintosh-hugbúnað - og var samningurinn framlengdur 10. janúar 2006 á Macworld Conference & Expo. Iðavöllur. Iðavöllur er samkomustaður goðanna í norrænni goðafræði, eða eins og segir í Völuspá: "Hittust æsir / á Iðavelli, / þeir er hörg og hof / hátimbruðu". Ekki má rugla Iðavöllum saman við Niðvelli. AirPort. AirPort er þráðlaust staðarnetstækni frá Apple Inc. miðast við IEEE 802.11b-staðalinn (einnig þekkur sem Wi-Fi). AirPort Extreme er nafnið síðara tækni út frá IEEE-802.11g-staðalinn, og einnig núgildandi tæknið út frá IEEE 802.11n-staðalinn. Á Japan er tæknið kallað AirMac. Carmen Kass. Carmen Kass (fædd 14. september 1978 í Paide) er eistnesk fyrirsæta. Anett Griffel. Anett Griffel (fædd 8. nóvember 1990) er eistnesk fyrirsæta. Jólabarnið. Jólabarnið er oftast haft um ímynd hins nýfædda Krists þar sem hann liggur í jötunni. Venjulega er það sú mynd sem gefin er í guðspjöllunum, t.d. Lúkasar: "Fæddi hún [María] þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu...". Jesúbarnið er líkt hugtak en víðtækara og er venjulega haft í guðfræði- og listfræði og þá um Krist allt frá fæðingu til tektar. Hann er talinn vera kominn í fullorðins manna tölu á 13. aldursári. Tiiu Kuik. Tiiu Kuik (fædd 16. mars 1987 í Tallinn) er eistnesk fyrirsæta. Hitabelti. Heimskort með hitabeltið í rauðu. Hitabelti (eða brunabelti) er loftslagsbelti jarðar sem samsvarar svæðinu umhverfis miðbaug þar sem ársmeðalhitinn er yfir 20 °C. Heittempraða beltið tekur við af hitabeltinu. Kuldabelti. Kuldabelti (latína: "zona frigida") er veðurfarsbelti á jörðinni sem er næst heimskautunum og með ársmeðalhita undir +10°C. Kuldabeltin taka við norðan og sunnan tempruðu beltanna. Í stjörnufræði er kuldabelti sá hluti jarðar sem liggur norðan nyrðri heimskautsbaugs eða sunnan hins syðri og tekur við af tempraða beltinu. Kuldapollur. Kuldapollur (eða köld lægð) er þegar kalt loft streymir að úr öllum áttum og safnast fyrir í lægð, en heldur síðan áfram að kólna. Kuldapollur var í fyrstu haft um frostbólgusár, oftast á höndum og fótum. Heittemprað belti. Heittempraða belti er loftslagsbelti á jörðinni sem afmarkast af jafnhitalínum þar sem efri mörk eru +15°C og neðri +5°C í kaldasta mánuði ársins. Heittempraða beltið tekur við af hitabeltinu og nær að tempraða beltinu. Temprað belti. Tempruðu beltin eru lituð rauðu Temprað belti er loftslagsbelti sem afmarkast við 40. breiddagráðu til þeirrar 65. og er bæði að finna á suðurhluta jarðar og norður. Í þessum beltum er veðrátta breytileg. Meðalhiti heitustu mánaða ársins er milli 10°og 20° C. Tempraða beltið liggur milli heittempraða beltisins og kuldabeltis. William Heinesen. William Heinesen var heiðraður með útgáfu á frímerki 1988. a> plokkar agn af öngli. Mynd eftir William Heinesen. Freisting heilags Antoníusar. Mynd eftir William Heinesen. Tenglar. Heinesen, William Aldursgreining. Aldursgreiningar í jarðfræði og fornleifafræði eru notaðar til þess að áætla aldur jarðmyndana og fornleifa. Aldursgreiningar byggja á mismunandi tækni og gefa annars vegar upp afstæðan aldur og hins vegar raunaldur. Afstæður aldur ber saman aldur jarðlaga og jarðmyndana með því að greina leiðarlög, einkennissteingervinga eða mismunandi segulstefnur. Raunaldur gefur hins vegar upp raunverulegan aldur jarðlaga og jarðmyndana í annað hvort almanaksárum eða kolefnisárum. Kyrrabelti. Kyrrabeltið eða lognbeltið er eitt af loftslagsbeltum jarðar næst miðbaug, meðalárshiti um eða yfir +25°C, loftþrýstingur lágur og vindar hægir. Silfurkórinn og Pálmi Gunnarsson - Á harða, harða spretti. Silfurkórinn og Pálmi Gunnarsson - Á harða, harða spretti er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni syngja Silfurkórinn og Pálmi Gunnarsson ýmis söng og dægurlög. Hljóðritun fór fram hjá Tóntæki. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Ólafur Gaukur. Silfurkórinn. skipa á þessari plötu þau Albert Pálsson, Alfred W. Gunnarsson, Ásthildur Jónsdóttir, Eiríkur Helgason, Elín Sigmarsdóttir, Guðrún Andrésdóttir, Halldór Torfason, Hannes Sigurgeirsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Jóhanna Sveinsdóttir, Kjartan Jóhannsson, Kristín Þórisdóttir, Linda Leifsdóttir, Magnús Magnússon, María Pálmadóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Sigrún Hákonardóttir, Sigrún Magnúsdóthr, Sigtryggur Jónsson og Viðar Gunnarsson Spínat. Spinat (fræðiheiti: "Spinacia oleracea") er jurt af skrauthalaætt. Spínat er einær planta (sjaldan tvíær), og getur náð allt að 30 cm hæð. Spínat getur þó lifað veturinn af í tempruðu beltunum. Spínat er mikið notað í salöt og matargerð. Björn Sv. Björnsson. Björn Sveinsson Björnsson (15. október 1909 – 14. apríl 1998) var sonur Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands, og konu hans Georgíu Hoff-Hansen. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1930 en hélt síðan til Þýskalands og hóf störf hjá umboðsskrifstofu Eimskipafélags Íslands í Hamborg. Hann hafði ætlað í tónlistarnám en unnusta hans, María, átti von á barni og hann þurfti því að fara að vinna. Þau giftu sig um haustið, bjuggu í Hamborg næstu árin og eignuðust tvær dætur en skildu um 1937. Björn var því í Þýskalandi á uppgangstíma nasista og hreifst af stefnu þeirra. Á þeim tíma var faðir hans sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Í seinni heimsstyrjöldinni gekk Björn til liðs við Waffen SS-sveitir nasista og fór á austurvígstöðvarnar sem fréttaritari og var í Kákasus um tíma. Hann var síðar sendur í foringjaskóla í Bad Tölz í Þýskalandi og að námi loknu til Danmerkur til að starfa í áróðursdeild Þjóðverja þar, átti að sjá um að koma þýsku fréttaefni í blöð og útvarp og gaf einnig út tímarit sem hét "Daggry" og var að mestu þýðing á tímariti sem SS gaf út. Haustið 1944 komst sá kvittur á kreik að danska lögreglan ætlaði að gera uppreisn gegn þýska herliðinu og gripu Þjóðverjar þá til aðgerða, handtóku lögreglumenn og leystu lögregluna upp. Þjóðverjinn Ernst Lohmann hafði stýrt ríkisútvarpinu en hann þótti helst til eftirlátsamur við Danina og var Björn settur yfir útvarpið í tíu daga á meðan aðgerðirnar stóðu yfir. Eftir þetta var nafn hans nokkuð þekkt í Danmörku og hann taldi dönsku andspyrnuhreyfinguna vera á hælum sér. Þegar Þjóðverjar gáfust upp árið 1945 var Björn tekinn til fanga og var í varðhaldi í Danmörku til 1946. Þá var hann leystur úr haldi án þess að vera leiddur fyrir rétt, sennilega vegna þrýstings frá Íslandi (þótt ráðamenn neituðu að svo hefði verið) en mál hans var óþægilegt bæði fyrir Íslendinga og Dani þar sem faðir hans var þá orðinn forseti Íslands. Björn fór þá heim til Íslands, byggði hús í Kópavogi og gifti sig að nýju og var seinni kona hans Nanna Egilsdóttir hörpuleikari og söngkona. Þau fluttu til Argentínu 1949 en gekk ekki eins vel fjárhagslega og þau höfðu vonast eftir svo að þau komu aftur heim fáum árum síðar. Björn vann á Keflavíkurflugvelli um tíma en flutti síðan til Þýskalands og vann þar, fyrst hjá Bandaríkjaher og siðan við ýmis verslunarstörf. Árið 1962 varð hann umboðsmaður fyrir alfræðiritið Encyclopaedia Britannica og seldi mjög mikið af bókunum, bæði á Íslandi og í Skandinavíu. Undir lok starfsævinnar stundaði Björn tungumála- og tónlistarkennslu og leiðsögustörf. Hann bjó í Borgarnesi síðustu árin. Nanna kona Björns lést í bílslysi 22. mars 1979 nálægt Blikastöðum þegar ölvaður ökumaður fór þar yfir á rangan vegarhelming. Þau voru barnlaus en með fyrri eiginkonu sinni átti hann dæturnar Hjördísi og Brynhildi Georgíu. Hljómsveit Ingimars Eydal - Þorvaldur -Helena -Vilhjálmur. Hljómsveit Ingimars Eydal - Þorvaldur -Helena -Vilhjálmur er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1973. Skyndikaffi. Skyndikaffi er drykkur sem unninn er úr kaffibaunum. Við framleiðslu þess eru baunirnar brenndar og malaðar líkt og um venjulegt kaffi væri að ræða en síðan er ýmsum aðferðum beitt til þess að þurrka það og mala niður í fínna duft sem selt er til neytenda. Þegar duftið er sett í heitt vatn leysist það upp og til verður drykkur sem líkist venjulegu kaffi en þykir almennt ekki sambærilegur að gæðum. Skyndikaffi hefur þann kost að fljótlegt og einfalt er að laga það. Þar að auki er geymslutími þess langur miðað við venjulegt kaffi og minna magn (bæði hvað varðar þyngd og rúmmál) þarf af skyndikaffi til að laga sama magn af drykk heldur en þegar um hefðbundið kaffi er að ræða. Neskaffi er algeng tegund skyndikaffis á Íslandi, en heitið er stundum notað almennt um skyndikaffi. Varða. Varða er steinhraukur sem er hlaðinn til vegvísunar um fjöll og óbyggðir, en einnig til að sýna landamæri, skil milli bújarða eða benda á siglingaleiðir með ströndum fram og jafnvel vísa á fengsæl fiskimið. Vörður voru þó ekki engöngu hlaðnar steinum, því stundum voru þeir einnig hlaðnir úr mold eða aðeins með moldarkögglum, en þær entust síður. Þegar lagðar voru vörður eftir einhverri leið var talað um að "vörðuleggja hana". Beinakerlingar voru alkunnar hér á landi. Það voru grjótvörður sem hlaðnar voru upp við alfaraveg. Munurinn á beinakerlingum og vörðum var oftast sú að oftast þegar talað er um beinkerlingar leyndust í þeim vísur, en annars er beinkerling stundum einnig haft um venjulega vörðu. Vörður voru stundum hlaðnar til minningar um atburði, og sumar þeirra notaðar sem eyktarmörk. Fjallvegafélagið. Fjallvegafélagið var félag sem var stofnað 1831 fyrir forgöngu Bjarna Thorarensens. Markmiðið var að ryðja fjallvegi fyrir reiðgötur, hlaða vörður og byggja sæluhús. Hundrað vörður voru reistar á Holtavörðuheiði. Síðan var hafist handa við Vatnshjallaveg, á Grímstunguheiði, Sprengisandsleið og Kaldadalsleið. Tungnárhraun. Tungnárhraun er samheiti yfir allmörg hraun sem upptök eiga á Tungnáröræfum, í eldstöðvum sem tilheyra Veiðivatnagosreininni. Þau eru flest stór og hafa runnið niður með Tungná og Þjórsá. Þjórsárhraunið mikla er þeirra elst og stærst. Það rann fyrir um 8700 árum og nær til sjávar við Eyrarbakka og Stokkseyri. Búrfellshraun er einnig gríðarmikið hraun sem rann frá gígaröð á Veiðivatnasvæðinu og niður í Landsveit fyrir um 3000 árum. Tungnárhraunin eru stórdílótt þar sem stórir ljósir feldspatdílar sitja í dökkum fínkorna grunnmassa. Elsa G. Vilmundardóttir skilgreindi þessi hraun, rannsakaði þau og kortlagði. Í rannsóknarskýrslu Elsu frá 1977 er ellefu Tungnárhraunum lýst, þar hafa þau einkennisstafina THa til THk og er raðað eftir aldri. Lindy Hop. Lindy hop er afró-amerískur dans sem þróaðist í Harlem í New York-borg upp úr 1927. Hann var sambland af mörgum dönsum svo sem jazz, tappi, "breakaway" og Charleston. Lindy hop þróaðist samhliða jazz-tónlistinni og hann er talinn vera afi allra swing-dansa. Honum er lýst sem „jazz” eða „götudans”. Saga. Í Harlem voru margir danssalir á þessum tíma og lindy hop sló í gegn hvar sem fólk hélt partý og dansaði. Einn þeirra danssala, „The Savoy“, átti eftir að verða aðal swing-staðurinn og það var ekki fyrr en eftir opnun hans að lindy hop hlaut nafn sitt og samastað. Lindy Hop þreifst á The Savoy, að hluta til vegna þess að kynþættir blönduðust, dönsuðu saman og deildu á milli sín sporum, ólíkt því sem viðgekkst á annars staðar. Fatageymslan þjónustaði um 5.000 fastagesti í senn og salurinn naut þess vegna mikillar aðsóknar, um það bil 70 þúsund fastagesta á ári, sem „heimili glaðra fóta“. Nýtt dansgólf var smíðað á þriggja ára fresti og það var kallað „Brautin“ ("The Track") vegna ílangs forms þess. Á hljómsveitarpöllunum, sem voru á báðum endum salsins, spiluðu tvær hljómsveitir á hverju kvöldi, sjö kvöld í viku. Tímabilið var blómaskeið jazztónlistar, ódýrt var að dansa á klúbbunum og enn var ekki auðvelt fyrir almenning að nálgast jazzplötur. Á „The Savoy“ varð Lindy Hop vinsælla eftir því sem fólk dansaði fyrir framan bestu stórhljómsveitir landsins. Meðal annars léku þar fyrir dansi Duke Ellington, Cab Calloway og Count Basie. Lindy Hop varð fullkomnari með tímanum, til dæmis vegna hinnar vinsælu Laugardagskeppni sem hjálpaði „góðum“ dönsurum að verða stórkostlegir. Vináttu-keppnir milli dansara leiddu til þess að á hverjum degi komu fram ný spor sem vöktu undrun áhorfenda og unnu á dómara. Stílfæring varð sífellt betri og svo vel framkvæmd að það var jafnmikill unaður að horfa á dansinn eins og að dansa hann. Fyrsta kynslóðin í lindy hop tengist yfirleitt dönsurum á borð við Shorty George Snowden og dansfélögum hans, Big Bea og Leroy Stretch Jones. Dansmaraþonin voru líka mjög vinsæl á þessum tíma. Nafnið lindy hop kom til á einu af þessum maraþonum. Árið 1927 flaug Charles Lindbergh (hann var gjarnan kallaður „Lucky Lindy“ eftir það) fyrstur manna yfir Atlantshafið, frá New-York til Parísar, og allir voru gagnteknir af þessu „hoppi“ hans. Shorty George var að dansa í dansmaraþoni á Manhattan Casino í Harlem þegar einhver blaðamaður spurði hann hvað dansinn hét. Þá dagana komu öll blöð út með titilinn „Lindy hoppar yfir Atlantshafið“ og þess vegna gaf hann Shorty George hnyttið svar og sagði „Ég er að lindy-hoppa“. Shorty George og Big Bea unnu reglulega keppnir á The Savoy. Árið 1935 tapaði hann þó krúnu sinni fyrir hinum tuttugu ára gamla Frankie „Musclehead“ Manning. Manning boðaði kynslóðaskipti lindy hoppara. Þegar það virtist sem svo að dansinn gæti ekki orðið skemmtilegri og betri en hann var þá skapaði Frankie Manning ásamt Freida Washington fyrstu loftskrefin árið 1935 og lindy hop gnæfði hærra en nokkru sinni fyrr. Shorty George vandist þessum skrefum ekki og hvikaði aldrei frá gólfskrefunum. Mjög líklega er Manning frægasti núlifandi upphafsmaður Lindy hoppsins. Al Minns, Leon James og Norma Miller narta þó fast í hælana á Frankie. Í kringum 1960 varð ákveðin hnignun í ástundun lindy hops vegna tilkomu rokk og ról-tónlistarinnar og dansins en á níunda áratugnum lífguðu sænskir dansarar Lindy Hop við og nú er það útbreitt um allan heim. Í Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og jafnvel í Asíu og Suður-Ameríku eru blómstrandi Lindy Hop-samfélög. Á hverju ári í júlí ferðast þúsundir lindy hop-dansara til Herräng í Svíþjóð til að taka þátt í heims stærstu dansbúðum og hátíð um jazz-dans. Ísland. Á Íslandi er eina starfrækta áhugamannafélag um lindy hop. Virkir meðlimir eru hátt í 50 manns en hópurinn stækkar jafnt og þétt. Á Íslandi bjóða bæði Lindy Ravers og Háskóladansinn upp á kennslu í lindy hop á nokkrum erfiðleikastigum. Skíðafélag Reykjavíkur. Skíðafélag Reykjavíkur var stofnað árið 26. febrúar 1914 og var fyrsta félagið sem hafði skíðaíþrótt að markmiði sínu. Skipulögð skíðaiðkun í Reykjavík hófst þó fyrst með stofnun Ungmennafélags Reykjavíkur haustið 1906. Fyrsti formaður Skíðafélagsins var L.H. Möller. Var hann formaður félagsins til ársins 1939, en þá tók við formennsku Kristján Ó. Skagfjörð. Fyrir forgöngu L.H. Möllers og þáverandi meðstjórnanda hans í Skíðafélaginu var Skíðaskálinn í Hveradölum reistur árið 1934. Hann var fyrsti skíðaskálinn sem byggður var hér á landi. Á tímabili stóð félagið fyrir fjölmörgum skíðamótum, t.d. fyrsta landsmót skíðamanna "1937", "Thule-mótin" 1938 og 1939 og Landsmótið 1943. Hallbjörn Hjartarson - Syngur eigin lög. Hallbjörn Hjartarson - Syngur eigin lög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Á henni syngur Hallbjörn Hjartarson eigin lög. Útsetningar og hljómsveitarstjórn Jón Sigurðsson. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni hf. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Ljósmynd á framhlið: Kristján Magnússon Miðnorska. Miðnorska – (norska "mellomnorsk") – er tungumál sem talað var í fjölmennustu héruðum Noregs frá því um 1350 og fram yfir siðaskipti, nánar tiltekið fram undir 1600. "Miðnorska" er hugtak sem er notað í norskri málsögu um málið sem talað var í Noregi í lok miðalda og kom á milli norrænu (fornnorsku) og nútímanorsku. Miðnorska málskeiðið er talið hefjast um svartadauða (1349) þegar norskt mál var farið að breytast verulega frá því sem var í fornnorrænu. Þá dó gamla norska ritmálið nánast út því að flestir ritfærir menn dóu úr svartadauða. Um svipað leyti færðist æðsta stjórn ríkisins til Svíþjóðar og síðan Danmerkur. Eftir það varð ritmál í Noregi eins konar blanda af norsku og dönsku. Miðnorska vék smám saman fyrir nútímanorsku og má segja að í fjölmennustu héruðunum sé breytingin um garð gengin á tímabilinu frá siðaskiptum (1546) fram til 1600. Þess ber þó að geta að í Noregi var mikill munur á mállýskum og mátti fram á 19. öld finna afskekkt sveitahéruð þar sem enn lifðu sterk einkenni úr fornmálinu. Málið, sem talað var eftir 1600, er í stórum dráttum skiljanlegt Norðmönnum nútímans. Í miðnorsku var aftur á móti ennþá mikið af gömlum orðum og orðasamböndum, auk margra málfræðireglna sem ekki eru lengur notaðar í norsku. T.d. hvarf fallbeyging nafnorða að mestu á miðnorska tímabilinu sem og mikill hluti af beygingu sagnorða. Heslimús. Heslimús (stundum einnig nefnd sjösofandi) (fræðiheiti: "Muscardinus avellanarius") er nagdýr af ætt svefnmúsa. Heslimúsin er þekkt fyrir langan vetrarsvefn sem varir venjulega frá október fram í apríl-maí. Heimkynni heslimúsarinnar er allt frá Suður-Svíþjóð suður til Tyrklands. Músin er venjulega ekki stærri en sjö sentimetrar og með jafnlangt skott sem minnir dálítið á skott íkornans. Peter Andreas Munch. P. A. Munch. Ljósmyndari ókunnur. P. A. Munch. Mynd eftir Wihelm Obermann, úr "Illustreret Tidende", 1862. Peter Andreas Munch (15. desember 1810 – 25. maí 1863) var norskur sagnfræðingur og málfræðingur, og mikill áhrifamaður um mótun norskrar þjóðarvitundar. Hann er þekktastur fyrir rit sín um norska miðaldasögu, einkum "Det norske Folks Historie" í átta bindum. Æviferill. P. A. Munch fæddist í Kristjaníu. Foreldrar hans voru Edvard Storm Munch (1780–1847) stiftprófastur og Johanne Sophie Hofgaard (1791–1860) kona hans. Hann ólst upp á kirkjustaðnum Gjerpen á Þelamörk, þar sem faðir hans var sóknarprestur frá 1813. Samhliða heimakennslu föðurins aflaði hann sér víðtækrar þekkingar í tungumálum og sögu. Í lærða skólanum í Skien var hann í bekk með Anton Martin Schweigaard (síðar prófessor í lögfræði og stórþingsmanni), sem varð náinn vinur hans og stendur við hlið hans á stöpli utan við Háskólann í Ósló. Munch lauk stúdentsprófi 1828 og embættisprófi í lögfræði 1834. Á námsárunum hafði hann einsett sér að verða sagnfræðingur. Hann varð lektor í sagnfræði við Háskólann í Ósló 1837 eftir að hafa unnið við rannsóknir í söfnum í Kaupmannahöfn, og prófessor 1841. Hann var settur ríkisskjalavörður 1861–1863. Auk rita um sagnfræðileg efni, liggur eftir Munch fjöldi verka um margvísleg efni, allt frá málvísindum og kortagerð til fræðirita fyrir almenning. Hann vann í nokkur ár sem aðstoðarmaður Rudolfs Keysers við útgáfu á fyrstu þremur bindunum af "Norges gamle love", sem komu út 1846–1849. Hann gaf út mörg önnur heimildarrit, m.a. "Konungsskuggsjá" (Speculum regale), "Munkelivs jordebok", "Historia Norvegiae" og "Chronica Regum Manniae et Insularum", sem sum hver höfðu verið óþekkt eða ónotuð af fræðimönnum. Á árunum 1845–1854 fór hann í nokkrar rannsóknarferðir til nágrannalandanna, m.a. til Normandí, Skotlands og Orkneyja, til þess að leita að og skrifa upp mikilvægar heimildir frá fyrri öldum. Munch átti í sífelldum fjárhagsvandræðum og varð stöðugt að bæta á sig vinnu og ritstörfum til að drýgja tekjurnar frá Háskólanum. Hann var lengi ritstjóri og mikilvægasti greinarhöfundur "Norsk Maanedsskrift". Hann teiknaði bestu landakort af Noregi sem gefin voru út á hans dögum, og hann var snjall málfræðingur. Hann náði góðum tökum á fornmálinu (norrænu), og varð brátt ákafur talsmaður þess að Norðmenn kæmu sér upp eigin ritmáli, sem byggt væri á þeim þáttum úr fornmálinu, sem enn væru lifandi í norskum mállýskum. Hann studdi því Ivar Aasen við mállýskurannsóknir og mótun nýnorskunnar. Hann vann markvisst að því að leggja grunn að sjálfstæðri menningarstarfsemi í Noregi og gagnrýndi danska fræðimenn fyrir tilhneigingu þeirra til að fjalla um fornbókmenntirnar sem „fornnorræna“ sameign, og breiða þannig yfir uppruna þeirra á Íslandi og í Noregi. Árið 1851 byrjaði hann á höfuðverki sínu, "Det norske Folks Historie", og hafði þegar hann dó náð að fjalla um sögu Noregs frá upphafi til 1397. Verkið hefur ekki síst gildi vegna þess mikla efnis sem þar er dregið saman og sett fram með hugkvæmni og mikilli yfirsýn, sem leiðir oft til sannfærandi niðurstöðu. Verkið er skrifað af hugsjón og innlifun, og hefur enn sitt gildi fyrir sagnfræðinga. Árið 1859 fór Munch með fjölskyldu sinni til Rómar. Hann hafði fengið leyfi til að leita að heimildum um sögu Noregs í skjalasafni Páfagarðs í Vatíkaninu, og var hann með fyrstu mótmælendum sem fengu slíkt leyfi. Tveimur árum seinna, 1861, fór hann til Kristjaníu til þess að halda áfram útgáfu á hinu mikla riti sínu um sögu Noregs, en fjölskyldan varð eftir í Róm. Árið 1863 fór hann aftur til Rómar, en fékk skömmu síðar heilablóðfall, þegar hann á heitum vordegi ætlaði að kæla höfuð sitt í gosbrunni. Meginástæðan var þó ofþreyta eftir mikla vinnutörn. Hann dó í Róm 25. maí 1863, eftir stutta sjúkdómslegu, og var jarðsettur í grafreit mótmælenda þar. Munch kvæntist 1835 Nathalie Charlotte Linaae (1812–1900) frá Larvík. Þau eignuðust fjögur börn, þrjár dætur og einn son. P. A. Munch var föðurbróðir listmálarans Edvards Munchs. Helstu ritverk. Þýðingar, útgáfur og safnrit eru ekki tekin hér með. Tenglar. Munch, Peter Andreas Munch, Peter Andreas Silfurkórinn - 40 vinsælustu lög síðari ára. Silfurkórinn - 40 vinsælustu lög síðari ára er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1978. Á henni syngur Silfurkórinn 40 vinsæl íslensk dægurlög. Magnús Ingimarsson útsetti fyrir kór og undirleik. Stjórnaði kórnum og hljómsveitarundirleik. Hljóðritun fór fram hjá Tóntæki. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Magnús Ingimarsson. Silfurkórinn. skipa á þessari plötu þau Albert Pálsson, Alfred W. Gunnarsson, Ásthildur Jónsdóttir, Björgvin Valdimarsson, Eiríkur Helgason, Elín Sigmarsdóttir, Guðrún Andrésdóttir, Hjálmar Sberrisson, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Jóhanna Sveinsdóttir, Kjartan Ó. Jóhannsson, Kristín Þórisdóttir, Linda Leifsdóttir, Magnús Ingólfsson, Magnús Magnússon, María Pálmadóttir, Páll Þorsteinsson, Pétur H. Jónsson,Sigríður Birgisdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Sigrún Hákonardóttir, Sigrún Magnúsdóthr, Viðar Gunnarsson og Þóroddur Þóroddsson Hljóðfæraleikarar. Magnús Ingimarsson, hljómborð; Þórður Árnason, gítar; Tómas Tómasson, bassi; Sigurður Karlsson, trommmur. MATLAB. MATLAB er forritunarmál sem er meðal annars notað við tölulega útreikninga. Automatix. Automatix er forrit fyrir Linux sem einfaldar uppsetningu á reklum fyrir mp3 og fyrir skjákort ásamt fjölda annarra forrita. Hugin. Hugin er opinn hugbúnaður ætlaður til að sauma saman nokkrar ljósmyndir teknar af sama staðnum í eina víðmynd. Það er viðmót fyrir Panorama Tools og Enblend. Þau eru bæði skipanalínuforrit, það fyrra notað til að tengja saman nokkrar skarandi ljósmyndir og það seinna til að blanda þeim saman í eina mynd. Þróun. Hugin er í stöðugri þróun. Það fékk stuðning frá „Google Summer of Code“ verkefninu 2007. 2008 stendur einnig til að nokkur verkefni verði unnin tengd Hugin. Sauðabréfið. Færeyskt frímerki, gefið út 19. október 1981, með upphafsstaf úr Sauðabréfinu (úr Lundarbókinni). Sauðabréfið – (færeyska: "Seyðabrævið") – er réttarbót, sem Hákon háleggur hertogi, síðar Noregskonungur, gaf út 24. júní 1298. Sauðabréfið er elsta skjal sem varðveitt er frá Færeyjum. Það er sett að ósk Færeyinga sjálfra, og höfðu þeir Erlendur biskup í Kirkjubæ og Sigurður lögmaður á Hjaltlandi milligöngu um það, og hafa trúlega samið textann. "Sauðabréfið" er viðauki við Landslög Magnúsar lagabætis frá 1274. Eins og nafnið bendir til, er bréfið viðauki við búnaðarbálkinn í lögbókinni. Nafnið kemur hins vegar fyrst fyrir í handritum frá því um 1600. Handritin. Sauðabréfið er varðveitt í tveimur skinnbókum: "Kóngsbókinni úr Færeyjum" og "Lundarbókinni". Bréfið, eða hluti þess, er einnig varðveitt í þremur pappírshandritum frá því eftir siðaskipti. Kóngsbókin úr Færeyjum. Kóngsbókin var áður í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi, auðkennd "Sth. Perg. 33, 4to." Fremst í handritinu eru Landslög Magnúsar lagabætis (uppskrift frá því um eða skömmu eftir 1300), síðan kemur Sauðabréfið á fjórum blöðum, og aftast bréf frá 14. júlí 1491. Á meðan bókin var í Færeyjum hefur ýmislegt verið skrifað í hana þar sem pláss hefur verið, svo sem Hundabréfið sem talið var ólesandi, en Jóni Helgasyni prófessor tókst að lesa að mestu. Bókin var í Færeyjum fram til um 1599, og hefur fylgt lögmannsembættinu. Síðasti Færeyingur sem hafði hana undir höndum var Pétur Jakopsson, bóndi í Kirkjubæ og lögmaður Færeyja 1588–1601. Hann fór með bókina til Björgvinjar árið 1599, og lét binda hana inn. Var nafn hans sett á fremra spjaldið og ártalið á það aftara. Bókin varð eftir í Björgvin og var þar um skeið. Um 1680 er hún komin til Stokkhólms og fór þar í Konunglega bókasafnið. Nafnið "Kóngsbókin" er í færeyskum sögnum dregið af því að bókin var talin eign konungs, þó að hún væri í vörslu lögmannsembættisins, auk þess sem hún var uppspretta konungsvaldsins í Færeyjum. Hinn 7. desember 1989 ákvað sænska þingið að gefa Færeyingum Kóngsbókina, í ljósi þess hversu mikilvæg hún er í færeyskri sögu. Bókin var afhent við hátíðlega athöfn í færeyska Lögþinginu 28. ágúst 1990 sem gjöf frá sænsku þjóðinni, og er nú í Þjóðskjalasafninu í Þórshöfn, með sama auðkennisnúmeri og áður. Lundarbókin. Síða 132 v í Lundarbókinni, með upphafi Sauðabréfsins Lundarbókin er í Háskólabókasafninu í Lundi í Svíþjóð, miðaldahandrit nr. 15. Hún er skrifuð nokkru síðar en texti Sauðabréfsins í Kóngsbókinni, eða um 1320, og er með glæsilegustu og best varðveittu lögbókum frá sinni tíð. Stefán Karlsson handritafræðingur telur að Lundarbókin hafi verið gerð fyrir biskupsstólinn í Kirkjubæ í Færeyjum og líklega verið þar til siðaskipta. Síðar barst bókin til Svíþjóðar og var gefin Háskólabókasafninu í Lundi á 18. öld. Meginefni Lundarbókar eru aðrir lagatextar, svo sem Hirðskrá, bæjarlög Björgvinjar, Landslög Magnúsar lagabætis o.fl. Sauðabréfið er á sex síðum í Lundarbókinni. Textinn er þar nokkru fyllri en í Kóngsbókinni (16 greinar í stað 12), og fyrirsögnum bætt við. Sum efnisatriði eru færð til. Málið er talið „færeyskara“ en í Kóngsbókinni, og er hugsanlegt að Færeyingur hafi haldið á penna. Færeyski fræðimaðurinn Jakob Jakobsen setti fram þá tilgátu 1907, að Erlendur Færeyjabiskup hafi ekki aðeins átt hlut að upphaflegri gerð Sauðabréfsins, heldur einnig þeirri endurskoðuðu gerð sem birtist í Lundarbók. Sauðabréfið sem heimild. Sauðabréfið gefur mikilvæga innsýn í færeyskt samfélag um 1300. Ýmis ákvæði þess hafa haft lagagildi fram á okkar tíma. Af Sauðabréfinu má sjá að um 1300 var norrænan sem töluð var í Færeyjum, farin að fá sérstök einkenni. Einnig eru í Sauðabréfinu mörg orð, sem ekki koma annars staðar fyrir í fornum handritum, svo sem hagfastur, haglendi, að kyrra, sauðbítur, vagnhögg o.fl. "Vagnhögg" merkir stykki úr hval, eða leifar af hval, sem vagnhvalir, þ.e. háhyrningar, hafa rifið í sig. Ferðamannapálmi. Ferðamannapálmi (fræðiheiti: "Ravenala madagascariensis") er jurt af trönublómaætt. Ferðamannapálminn vex aðallega á Madagaskar og er ekki skyldur pálmatrjám þó hann líti út eins og pálmatré og nefnist pálmi. Hér áður fyrr var ferðamannapálminn talinn af sömu ætt og bananaplantan, en er í raun aðeins fjarskyldur henni. Kristín Lillendahl og Árni Blandon - Söngfuglarnir. Kristín Lilliendahl og Árni Blandon - Söngfuglarnir er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1975. Á henni syngja Kristín Lilliendahl og Árni Blandon sem voru Söngfuglarnir, 20 barnalög. Útsetningar og hljómsveitarstjórn Reynir Sigurðsson. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni hf. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Teikning á framhlið: Sigrún Halla Haraldsdóttir 10 ára. Hasselblad. Hasselblad AB er sænskt fyrirtæki, heimsþekkt fyrir hágæða myndavélar og ljósmyndabúnað, upphaflega stofnað 1841 af "Fritz Wictor Hasselblad", sem heildsala. "Victor Hasselblad" tók yfir stjórn fyrirtækisins 1942 og setti árið 1948 á markað fyrstu myndavél sína fyrir almenning "Hasselblad 1600F". Áður hafði Victor framleitt myndaélar fyrir sænska herinn. Fyrirtækið sameinaðist S árið 2004 og framleiðir nú hágæða stafrænar myndavélar. Hasselblad smíðaði sérstakar myndavélar, sem notaðar voru á tunglinu í Appollótunglferðunum. Höfuðstöðvarnar eru í Gautaborg í Svíþjóð. Sög. Sög er verkfæri til að skera í sundur efni, t.d. við. Hún hefur tennt blað og er ýmist knúin áfram með handafli (handsög), rafmangi, gufuafli, eldsneyti eða vatni. Blaðið er oft gert úr stáli. Fyrstu sagirnar frá forsögulegum tíma voru gerðar úr tinnuflögum, sem skörð voru höggvin í og flest í handarhald úr viði eða beini. Sagir, sem voru það stórar að hægt var að fella með þeim tré, voru ekki búnar til fyrr en maðurinn fór að bræða málmgrýti. Forn-Egyptar notuðu sagir úr eir, en Rómverjar járnsagir ekki ólíkar þeim sem notaðar eru núna. Fyrr á öldum voru trjábolir ristir niður í borð (borðvið) með handafli, en til þess voru notaðar tvískeftar stórviðarsagir og klósagir. Trjábolunum var komið fyrir á trönum, sem reistar voru yfir steinlagða gryfju, og unnu síðan tveir menn að söguninni. Annar maður stóð upp á trönunum, en hinn niður í gryfjunni. Sá sem stóð uppi dró sögina upp og sá um að sögin fylgdi krítarstrikinu, sem saga átti eftir. Sá sem niðri var dró sögina niður og hafði oft barðastóran hatt á höfði til að fá ekki sag í andlitið. Um 1420 fann þýskur hugvitsmaður upp sög, sem drifin var með vatnsafli í vatnsmyllu. Sagarblaðið gekk upp og niður eins og sagað hafði verið með stórviðar- og klósögum. Vatnssagir voru annað hvort með einu blaði eða mörgum blöðum, sem spennt voru í grind svo hægt var að saga mörg borð eða planka í einu. ´ Talið er að ein elsta vatnssög í Noregi hafi verið byggð í Larvík 1540. Á byggðasafninu í Hjerl Hede í Danmörku er til bolsög frá því um 1880, sem drifin er með gufuafli. Blaðið í söginni er lárétt og nefnist skurður sagarinnar bolskurður. ´ Um 1781 byrjaði Walter Taylor myllusagari frá Southampton á Englandi að rista trjáboli með hringlaga sagarblaði (hjólsög), sem drifið var með mylluhjólsafli í ánni Itchen. Sagtennur eru sérhannaðar og skerptar þannig að hver tönn tekur með sér spón úr viðnum, þegar sagað er. SAgartennur eru skekktar eftir ákveðnum reglum, en skekking er það þegar hver tönn er beygð sitt til hvorrar hliðar. Almennar reglur um skekkingu tanna er sú, að aldrei má skekkja tennur meira en 1/3 af tannhæð. Gerðir. Sagir eru flokkaðar niður eftir því hvernig afl knýr þær. Handsagir. Þá skiptast þær í hópa eftir sagarblaðinu; hvort það hafi tennur sem saga bæði þegar er ýtt og togað. Í Evrópu og Norður-Ameríku eru mest notuð blöð sem bíta meira þegar þeim er ýtt frá notandanum en öfugt í Japan og í Asíu allri; þar sem sögin hefur meiri áhrif á efnið þegar hún er dregin. Mascarpone. Mascarpone er ítalskur ostur framleiddur úr kúamjólk. Hann er framleiddur úr sýrðum rjóma með því að hleypa honum með vínsýru. Stundum er áfum bætt út í. Þegar ostinum hefur verið hleypt losnar ostamysan án pressunar eða geymslu. Mascarpone er algengur í matarréttum frá Langbarðalandi og er meðal annars aðalhráefni í tíramísú. Þá er hann stundum notaður í stað smjörs eða parmesan-osts til bæta risotto. Sterkja. Sterkja (Formúla:C6H12O6) er fjölsykra sem er algengasta kolvetnið s.s. í kartöflum, hrísgrjónum og er t.d. aðalnæringarefnið í flestum korntegundum. Kardemommubærinn. Kardemommubærinn er norsk barnabók sem er skrifuð og myndskreytt af Thorbjørn Egner. Bókin er um hinn friðsama Kardemommubæ og fólkið þar. Ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan búa fyrir utan bæinn og fara reglulega í ránsferðir. Þeir ræna Soffíu frænku. Þeir fara í fangelsi og koma út betri menn og verða hetjur þegar þeir slökkva eld í turni bæjarins. In Silico. "In Silico" er önnur breiðskífa áströlsku „drum and bass“ hljómsveitarinnar Pendulum. Smjör. Smjör er mjólkurafurð gerð með því að strokka ferskan eða sýrðan rjóma þar til smjörfitan skilur sig að mestu frá áfunum. Áfirnar eru svo síaðar frá og smjörið hnoðað þar til það er orðið að sléttum og samhangandi massa. Oftast er salti bætt út í smjörið, bæði vegna bragðsins og til að auka geymsluþolið, en ósaltað smjör er einnig framleitt. Smjör er m.a. notað sem smurálegg á brauð, til bragðbætis í ýmiss konar mat, í kökur og annan bakstur, til steikingar og í alls kyns rétti. Smjör inniheldur mjólkurfitu, vatn og prótín. Eiginlegt smjör inniheldur a.m.k. 80% fitu en einnig eru til fituminni útgáfur sem eru þá blandaðar jurtaolíu og öðrum efnum. Stundum er salti, bragðefnum, litarefnum og rotvarnarefnum bætt í smjörið. Smjörgerð á sér langa sögu og er vitað að Súmerar voru farnir að strokka smjör fyrir um 5000 árum. Yfirleitt er smjör gert úr kúamjólk en einnig úr mjólk annarra spendýra, til dæmis sauðfjár, geita, buffla og jakuxa. Íslenskt smjör er nú allt gert úr kúamjólk en áður var smjör úr sauðamjólk mjög algengt og var það allt framleitt á sumrin, þegar ærnar voru mjólkaðar í kvíum. Vegna saltleysis söltuðu Íslendingar ekki smjör sitt fyrr á öldum, heldur létu það súrna. Þannig gat það geymst lengi og gegndi miklu hlutverki sem gjaldmiðill. Leiga fyrir jarðir og búfé var t.d. mjög oft reiknuð og greidd í smjöri og margir ríkir menn áttu miklar smjörbirgðir. "... það saltaða smjör heldur sér varla 2 ár, svo ætt sé á eptir, enn það súra hefir óskémt haldið sér yfir 20 ár," segir í "Arnbjörgu" Björns Halldórssonar. Áður sást greinilegur litarmunur á smjöri eftir árstíðum og réðist liturinn af fóðri kúnna; sumarsmjörið var gulara og mýkra en vetrarsmjörið. Nú er smjörið eins allan ársins hring. Mjólkurafurð. Mjólkurafurð er matur gerður úr mjólk. Yfirleitt er mjólkin úr kúm, en stundum úr öðrum spendýrum svo sem geitum, sauðfé, vatnabufflum, jakuxum eða hestum. Mjólkurafurðir eru notaðir almennt í eldamennskunni í Evrópu, Austurlanda nær og Indlandi, en eru næsta óþekktar í Austur-Asíu. Fóður. Kind bítur hey úr jötu. Fóður eða dýrafóður er öll sú fæða sem gefin er húsdýrum í landbúnaði. Stærstur hluti fóðurs kemur úr jurtaríkinu, en stundum eru dýraafurðir líka notaðar. Gæludýrafóður er sérstök tegund fóðurs framleidd fyrir gæludýr. Heildarfóðurnotkun heimsins árið 2006 var 635 milljón tonn. Árleg aukning í fóðurnotkun er 2%. Lundarbókin. Lundarbókin er skinnhandrit (lögbók) í Háskólabókasafninu í Lundi í Svíþjóð, öðru nafni Miðaldahandrit nr. 15 — (Mh 15). Hún hefur að geyma norsk lög og réttarbætur, og Sauðabréfið færeyska. Aftast í bókinni er messudagatal, þar sem skráð er ártíð Erlends biskups, sem dó í Björgvin 13. júní 1308, eftir að hafa verið Færeyjabiskup frá 1269. Lundarbókin er í stóru broti, tvídálka með fallegri rithendi. Upphasstafir kapítula eru skrautlegir, oft með smámyndum. Bókin er heil að öðru leyti en því að fremsta blað messudagatalsins er glatað, með mánuðunum janúar – apríl. Þetta er með glæsilegustu og best varðveittu lögbókum frá sinni tíð, og telur Stefán Karlsson handritafræðingur mjög líklegt að hún hafi verið ætluð biskupsstólnum í Kirkjubæ, eins og Gustav Storm hélt fram 1885. Færir hann fyrir því ýmis rök. Lengi var því haldið fram að Árni Sigurðsson (d. 1314), sem var biskup í Björgvin frá 1304, hafi látið gera Lundarbók og að hún hafi verið í bókasafni hans, en Stefán Karlsson telur það ekki geta staðist. Í bókinni er hluti réttarbótar frá 19. júlí 1320, og endar hún í miðri málsgrein. Telur Stefán að handritið hafi verið í vinnslu sumarið 1320, eða 1321, og giskar á að Signar munkur, sem var vígður Færeyjabiskup sumarið 1320, hafi tekið handritið með sér til Færeyja áður en því var að fullu lokið. Hugsanlegt er að þriðji hlutinn hafi átt að verða sérstök bók, því að fremsta síðan er auð, eins og oftast í upphafi bókar. Efni bókarinnar hefur sérstök tengsl við Björgvin, og er líklegt að bókin hafi verið skrifuð þar. Hins vegar voru tengsl Færeyinga við Björgvin það náin, að vel hefur hentað að hafa þetta efni í færeyskri lögbók, auk þess sem biskupinn í Kirkjubæ átti sæti í ríkisráði Noregs. Flestir fræðimenn hafa talið að aðalskrifarinn hafi verið færeyskur, en sumir þó nefnt íslenskan eða norskan skrifara. Stefán Karlsson telur erfitt að skera úr um þjóðernið, en íslenskur hafi hann þó ekki verið. Annar skrifari hefur leiðrétt handritið, og telur Stefán ekkert mæla gegn því að hann hafi verið færeyskur. M.a. notar hann orðið "røfil" (ræfil) um stert á hrossi, sem kemur heim við færeyska orðið "røvil". „Má vera að leiðréttandi Lundarbókar hafi þjóðmerkt bókina með þessu orði“, segir Stefán. Stefán Karlsson telur líklegt að Lundarbókin hafi verið í Kirkjubæ í Færeyjum fram til siðaskipta. Seinna barst hún til Svíþjóðar og var gefin Háskólabókasafninu í Lundi á 18. öld. Lundarbókin er einnig kölluð "Codex Reenhielmianus", eftir sænskum fræðimanni, Jacob Reenhielm, sem um tíma átti bókina. Lundarbókin – Myndir af Sauðabréfinu. Sauðabréfið er á sex síðum í Lundarbókinni. Textinn er þar nokkru fyllri en í Kóngsbókinni (16 greinar í stað 12), og fyrirsögnum bætt við. Sum efnisatriði eru færð til. Færeyski fræðimaðurinn Jakob Jakobsen setti fram þá tilgátu árið 1907, að Erlendur Færeyjabiskup hafi ekki aðeins átt hlut að upphaflegri gerð Sauðabréfsins, heldur einnig þeirri endurskoðuðu gerð sem birtist í Lundarbók. Ger. Ger er vaxtarform heilkjarna örvera sem flokkaðar eru sem hluti af svepparíkinu. Um 1.500 tegundir eru þekktar. Ger er helsta sveppategundin sem lifir í sjónum. Flest ger æxlast kynlaust með knappskotum. Ger er einfruma þótt sumar tegundir myndi þræði tengdra knappskota sem eru kallaðir hálfsveppþræðir eða falskir sveppþræðir eins og hjá flestum tegundum myglu. Ölger af tegundinni "Saccaromyces cerevisiae" hefur verið notað í bakstri og til að framleiða áfengi frá örófi alda. Það er líka mjög mikilvæg rannsóknartegund í rannsóknum á frumulíffræði. Hvítger ("Candida albicans") er tækifærismeinvaldur sem getur valdið sýkingu hjá mönnum. Gerðar hafa verið tilraunir til að nota ger við framleiðslu rafmagns í örveruefnarafli. Eldi. Eldi er hugtak sem er aðallega notað um ræktun villtra dýra í búrum eða kvíum, andstætt búfjárrækt sem á aðallega við um ræktun húsdýra. Eldi er í mörgum tilvikum svar við minnkandi veiði eða vaxandi eftirspurn eftir afurðum veiðidýra. Með eldi er líka hægt að jafna út sveiflur í stærð villtra stofna og draga úr ásókn í þá. Hins vegar eru tiltölulega fáar þekktar tegundir sem henta í eldi og það getur verið tæknilega mjög flókið að mæta grunnþörfum dýrategunda við eldisaðstæður og tryggja um leið fjárhagslegan ágóða. Stórfellt eldi getur valdið mengun, t.d. vegna úrgangs, og getur líka valdið umhverfisslysum þegar eldisdýr sleppa út í náttúruna og blandast þar við náttúrulega stofna eða ná að fjölga sér á stað þar sem þær voru ekki til fyrir og valda þannig skaða. Dæmi um hið síðastnefnda er þegar minkar sluppu úr minkabúi árið 1931 og breiddust út um allt Ísland á stuttum tíma, en voru óþekktir áður. Eldisræktun, einkum loðdýrarækt, hefur líka verið gagnrýnd fyrir ómannúðlega meðferð á dýrum. Veiðimenn og safnarar. Veiðimenn og safnarar er einkunn sem höfð er um samfélög þar sem aðalaðferðin til að afla lífsviðurværis felst í beinni öflun matar úr náttúrunni; það er veiðum dýra og tínslu jurtaafurða. Ekki er hægt að gera skýran greinarmun á samfélögum veiðimanna og safnara og landbúnaðarsamfélögum þar sem flest samfélög nota fjölbreytta tækni til matvælaöflunar. Í meira en tvær milljónir ára voru öll samfélög manna samfélög veiðimanna og safnara. Landbúnaður kom fyrst fram á sjónarsviðið undir lok miðsteinaldar fyrir um 12.000 árum síðan og markar upphaf nýsteinaldar. Veiðar. Villisvínaveiðar í handriti frá 14. öld. Veiðar felast í því að elta uppi og fanga eða drepa dýr sér við matar, til skemmtunar eða til að versla með afurðir þeirra. Ólöglegar veiðar eru kallaðar veiðiþjófnaður. Veiðidýr eru yfirleitt stór og smá spendýr, fuglar og fiskar. Matarhefð. Matarhefð eða matarmenning er safn af hefðum og tækni í kringum matreiðslu og varðeislu matvæla sem oftast tengist ákveðinni menningu. Trúarlegar reglur, tiltekin matarbönn og siðferði, hefur allt mikil áhrif á matarhefðir. Matarhefð ræðst yfirleitt af því hvaða matur er tiltækur í gegnum heimaframleiðslu eða verslun. Þriggja gljúfra stíflan. Þriggja glúfra stíflan er stærsta stífla í heimi. Hún er í Jangtse fljótinu í Kína. Stíflan var fullgerð 20. maí 2006 og var tilbúin til notkunar árið 2009. Bygging stíflunnar sætti mikilli gagnrýni því miklu landsvæði var sökkt undir vatn og 1 milljón manns voru neyddir til að flytja. Steypta eining stíflunnar er 2.335 metra breið og 185 metra há. Þykktin er 115 metrar neðst og 40 metrar efst. Flóð í Jangtse fljótinu hafa öldum saman valdið tjóni og mannskaða en talið er að uppistöðulón stíflunnar tempri vatnsmagnið og dragi úr hættu á flóðum. Kristinréttur Sverris konungs. Kristinréttur Sverris konungs er í stórum dráttum samsteypa kristinréttarins úr Gulaþingslögunum og Frostaþingslögunum fornu. Kristinréttur Sverris konungs er varðveittur í einu skinnhandriti í Árnasafni, AM 78 4to, frá fyrri hluta 14. aldar. Kristinrétturinn hefst á bréfi Sverris konungs og allra biskupa um stórmæli þau er bann fylgir, svo sem að raska helgum kirkjum og kennimönnum, og renna (hlaupa) á hendur konu og taka hana nauðga. Líklegt er að Sverrir konungur hafi látið taka kristinréttinn saman um 1190 til þess að styrkja stöðu sína í deilum við kirkjuvaldið. Kristinrétturinn er prentaður í "Norges gamle love inntil 1387", 1. bindi, bls. 407-434. Eiðsivaþingslög. «Hér stóð Eiðsivaþingið». Minnisvarði á Eiðsvelli. Eiðsivaþing. Oftast er ritað Eiðsivaþing, en nafnið er nokkuð á reiki. Í Heimskringlu og fleiri ritum er talað um "Heiðsævisþing" og "Heiðsævislög". Johan Fritzner telur að "Heiðsær" hafi verið annað nafn á vatninu "Mjörs"; fylkið Heiðmörk liggur að því að austan og upphaflega var þingið fyrir byggðirnar umhverfis Mjörs. Hugsanlegt er að nafnið hafi breyst af því að þingið var löngum háð á Eiðsvelli, sem er við suðurenda vatnsins. Stundum sjást nafnmyndirnar "Eiðsifaþing" og "Eiðsifjaþing". Í konungasögum kemur fram að Hálfdan svarti hafi komið á þingi fyrir Upplönd, sem voru kjarninn í Eiðsivaþingslögunum. Upphaflega var þingið haldið á Akri eða Stórakri, sem er skammt frá Hamri. Á dögum Ólafs helga Noregskonungs, 1015-1030, var þingstaðurinn fluttur að Eiðsvelli. Þá náði umdæmið yfir Raumafylki (Raumaríki), Heinafylki (Heiðmörk) og Haðafylki (Haðaland). Síðar bættust við Guðbrandsdalur og Austurdalur. Á síðari öldum var þetta þing kennt við Upplönd (Oplandenes lagdöme) og hélst það til 1797. Eiðsivaþingslögin fornu. Eiðsivaþingslögin fornu eru glötuð, að öðru leyti en því að kristinrétturinn úr þeim er varðveittur. Þó er í Norska ríkisskjalasafninu lítið brot úr veraldlega réttinum (NRA 1A, úr handriti frá því um 1230). Kristinrétturinn hafði lagagildi lengi eftir að Landslög Magnúsar lagabætis voru lögfest, 1274, og hefur það stuðlað að varðveislu hans. Hins vegar hafa menn ekki hirt um að geyma lögbækur með ógildum veraldlegum rétti, sem er því glataður. Báðar gerðirnar eru prentaðar í "Norges gamle love indtil 1387", 1. bindi. Smjörsýra. Smjörsýra (CH3CH2CH2-COOH) er fituleysanleg karboxýlsýra sem meðal annars finnst í jarðvegi, fóðri og saur. Hún er afurð smjörsýrugerla og af henni er einkennandi lykt; oft nefnd súrheyslykt út af rangri gerjun í slíku heyi. Suðurlandsskjálfti. Suðurlandsskjálfti er jarðskjálfti á Suðurlandi sem er 6,0 stig á Richter eða meira, sem stafar af sniðgengishreyfingu á þröngu belti sem liggur frá Ölfusi austur að Vatnafjöllum. Við hreyfinguna bjagast jarðskorpan og spenna hleðst upp. Annað veifið losnar þessi uppsafnaða spenna úr læðingi í jarðskjálfta. Síðasti Suðurlandsskjálfti varð þann 29. maí árið 2008 og mældist 6,2 stig en áður höfðu riðið yfir skjálftar þann 17. og 21. júní árið 2000 sem mældust 6,5 og 6,6 á Richter. Árið 1912 reið yfir Suðurland jarðskjálfti sem var 7,0 á Richter og árið 1896 urðu 5 skjálftar, 6,5-6,9 stig, á svæðinu frá Landssveit vestur í Ölfus. 1013 - 1164 - 1182 - 1211 - 1294 - 1308 - 1311 - 1339 - 1370 - 1389 - 1391 - 1546 - 1581 - 1613 - 1618 - 1624 - 1630 - 1633 - 1657 - 1658 - 1663 - 1671 - 1706 - 1732 - 1734 - 1749 - 1752 - 1754 - 1784 - 1789 - 1808 - 1828 - 1829 - 1896 - 1912 - 2000 - 2008 Katla María - Syngur spænsk barnalög. Katla María - Syngur spænsk barnalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni syngur Katla María spænsk barnalög við íslenska texta eftir Guðmund Guðmundsson. Útsetningar og hljómsveitarstjórn Ólafur Gaukur. Hljóðritun: Tóntækni hf. Tæknimaður Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Ólafur Gaukur. Hönnun umslags: SG. Ljósmynd: Gerardo Hausman. Textasetning: Blik hf. Prentun: Grafík hf. Karen Blixen. Barónsfrú Karen von Blixen-Finecke (17. apríl 1885 – 7. september 1962) (fædd "Karen Dinesen") var danskur rithöfundur. Hún skrifaði margar bækur undir eiginnafni sínu, Karen Blixen, en einnig undir dulnefninu "Isak Dinesen". Hún skrifaði bækur sínar hvortveggja á dönsku og ensku. Þekktust er hún fyrir bók sína Jörð í Afríku ("Out of Africa") sem segir frá árum hennar í Kenía sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1952. Tenglar. Blixen, Karen Volvo. AB Volvo er sænskt stórfyrirtæki, sem þekktast er fyrir framleiðslu fólksbíla, vörubíla og strætisvagna, stofnað 1926. Hluti samsteypunnar, Volvo Aero, framleiðir þotuhreyfla fyrir sænska flugherinn og hluta í eldflaugahreyfla Ariane 5 geimflauganna. Höfuðstöðvarnar eru í Gautaborg í Svíþjóð. Geymsla matvæla. a> sem hvetur fólk til að huga að varðveislu matvæla. Geymsla matvæla er sérstök meðhöndlun matvæla til að tryggja varðveislu þeirra um lengri tíma. Megináhersla er lögð á að hægja á eða koma í veg fyrir rotnun af völdum örvera sem spillir matnum. Til eru geymsluaðferðir sem nýta aðrar örverur, ger og sveppi til að auka geymsluþol matvæla (t.d. vín og osta). Næringargildi, bragð og áferð er meðal þess sem lögð er áhersla á að varðveita. Geymsluaðferðir eru ólíkar eftir menningu og matarhefð; það sem þykir gott í einu samfélagi, þykir ónothæft í öðru. Geymsluaðferðir miða venjulega að því að hindra vöxt gerla, sveppa og annarra örvera og koma í veg fyrir oxun sem veldur þráa í fitu. Til eru geymsluaðferðir til að koma í veg fyrir virkni efnahvata sem valda upplitun og breytingum á bragði. Sumar aðferðir fela í sér innsiglun eftir meðhöndlun til að koma í veg fyrir nýtt örverusmit (t.d. niðursuða), meðan aðrar aðferðir, eins og þurrkun, gera það að verkum að hægt er að geyma matinn í langan tíma án sérstakra íláta. Algengar aðferðir við geymslu matvæla eru þurrkun, úðaþurrkun, frostþurrkun, frysting, lofttæming, niðursuða, geislun og íblöndun efna, svo sem rotvarnarefna og óvirkra lofttegunda eins og koltvísýrings. Algengar geymsluaðferðir sem breyta bragði og áferð matvælanna eru meðal annars sultun, verkun (súrsun, kæsing, reyking og söltun) og niðurlagning (í sýróp, feiti eða áfengi). Kvæðamannafélagið Iðunn - 100 íslensk kvæðalög. Kvæðamannafélagið Iðunn - 100 íslensk kvæðalög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Hljómplata þessi er gefin út í tilefni af 50 ára afmæli Kvæðamannafélagsins Iðunnar, hinn 15. september 1979. Menntamálaráðuneytið veitti Iðunni styrk í því tilefni. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni hf. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Umsjón með öllum flutningi hafði Njáll Sigurðsson. Hönnun umslags: Örlygur Richter. Textasetning: Prentstofan Blik hf. Prentun umslags: Grafík hf. Flytjendur. Nr.55.71.85. - Magnús Jóhannsson: Nr 1.2.3.9.11.14.18.24.34.40.41.43.45.50.51.52.54.57.59.60.68.76.78.82.84.87.93.97.98.99.100. - Njáll Sigurðsson: Nr 1.2.3.4.13.17.25.27.29.32.37.41.42.45,46.50.51.54.56.58.60.62.64.75.77.83.88.91.95.98.99.100. - Ormur Ólafsson: Nr.1.2.3.5.7.10.23.26.41.45.48.50.51. 54.60.74.86.98.99.100. - Ragnheiður Magnúsdóttir: Nr.36.61.73.89 Mars (reikistjarna). Mars (sem áður fyrr var stundum nefnd Þrekstjarna) er fjórða reikistjarnan frá sólu talið og sú ysta af innri reikistjörnunum. Mars er nefndur eftir rómverska stríðsguðinum, sökum hins rauða litar sem prýðir yfirborðið, en hann er til kominn vegna járnríks bergs og ryks sem hefur oxast („ryðgað“). Vegna hins rauða litar er hún einnig oft kölluð „Rauða plánetan“. Yfirborð Mars einkennist af stórum gljúfrum og stórum eldfjöllum. Í kínveskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hún kölluð "Eldstjarnan", byggt á frumefnunum fimm. Tvö tungl, Fóbos og Deimos eru á sporbraut um hana, en þau eru bæði smágerð og hafa einkennilega lögun, Fóbos er stærri en Deimos, en sporbaugur hans er mun styttri – þau eru líklega loftsteinar sem voru fangaðir í þyngdarafli Mars. Vatn á Mars. Kenningar eru um að vatn sé að finna á Mars en það er allavega ekki í fljótandi formi - vegna lágs loftþrýstings er suðumark vatns 0° á selsíus svo að það myndi gufa upp um leið og það kæmi upp á yfirborðið. Fram hafa komið kenningar um að hugsanlega sé ís að finna undir yfirborðinu eða í gígum við pólana þar sem aldrei skín sól. Rannsóknir gefa til kynna að það sé um 0,03% af vatni að meðaltali í andrúmsloftinu á mars. Koltvíoxíð á Mars. Það er rúmlega fimm sinnum meira af Koltvíoxíð í andrúmsloftinu á mars en á Jörðinni. Yfir 95% lofthúpsinns á mars er Koltvíoxíð á móti er aðeins um 0,035% af Koltvíoxíð í adrúmsloftinu á jörðinni. Koltvíoxíð er byggingarefni planta, sem plöntunrar breyta í súrefni og kolvetni. Það er auðvelt að vinna súrefni sem við öndum að okkur og mat sem við borðum eða eldsneyti á vélarnar okkar úr Koltvíoxíð með notkun ljóstilífunar plantna. Tungl. Mars hefur tvö tungl, Fóbos og Deimos, sem eru bæði lítil og óreglulega löguð og alls ekki ósvipuð þeim aragrúa smástirna sem er að finna á milli Mars og Júpíters. Eins og tungl Jarðarinnar snúa tungl Mars ávallt sömu hlið að Mars. Mikið af þeim upplýsingum sem til eru um tunglin eru komnar af geimferðaáætlunum Mariner og Viking í umsjá Geimferðastofnunar Bandaríkjanna auk Fóbos geimferðaáætlunar Geimferðastofnunar Sovétríkjanna. Einkennandi er að tunglin tvö snúast hvort í sína áttina um Mars, Deimos frá austri til vesturs en Fóbos frá austri og sest í vestri. Eldvirkni. Eldfjöll á Mars eru stærri en þau sem finnast á jörðinni vegna þess að ekkert landrek er á Mars og þess vegna verða ekki fleiri eldfjöll til, heldur stækka þau sem eru þar nú þegar. Olympus Mons er stærsta eldfjallið sem menn vita um, en það þekur landsvæði á stærð við Ísland og er um 27 km á hæð. Mesti hæðarmunur á Jörðu er á Everestfjalli og dýpstu úthafsgjám er til samanburðar tæpir 20 kílómetrar. Jarðsaga Íslands. Jarðsaga Íslands er tiltölulega stutt á mælikvarða jarðarinnar. Segja má að hún hefjist með opnun Norður-Atlantshafsins fyrir um 50-60 milljónum ára en þá hófst það rek jarðskorpufleka, sem síðar leiddi til myndunar Íslands. Landið sjálft hóf að myndast fyrir um 44-26 milljónum ára en elsta berg landsins er yst á Vestfjörðum og er um 16 milljón ára gamalt samkvæmt aldursgreiningum. Vegna norðlægrar legu landsins eru ummerki ísaldarinnar áberandi en hún hófst af fullum krafti fyrir rúmlega 2 milljónum ára. Seinasta kuldaskeiði ísaldar lauk svo fyrir um 11.500 árum og er tímabilið eftir það nefnt nútími. Opnun Norður-Atlantshafsins. Rannsóknir á opnun Norður-Atlantshafsins byggja að stórum hluta á upplýsingum, sem fást með segulrannsóknum á hafsbotninum milli Norður-Ameríku og Evrópu. Á krítartímabilinu lágu Norður-Ameríka, Grænland og Evrasía saman á norðurhveli jarðar. Gliðnun hófst á milli meginlandanna og kom fyrst fram þar sem nú er Labradorhaf á milli Grænlands og Norður-Ameríku. Talið er að gliðnunin hafi hafist þar annað hvort þegar á krítartímabilinu, fyrir um 81 milljónum ára, eða snemma á paleósen, fyrir um 61 milljón ára. Á Grænlandi og Bretlandseyjum má finna um 60 milljón ára gömul basalthraunlög en þau eru talin til marks um að heiti reiturinn, sem nú er undir Íslandi, hafi þá verið staðsettur undir suðausturhluta Grænlands. Norður-Atlantshafið hóf sjálft að opnast fyrir um 56-53 milljónum ára þegar gliðnunin færðist austur yfir til Noregshafs, á milli Grænlands og Evrópu. Um 54 milljón ára gömul öskulög finnast í Danmörku og Suður-Englandi, sem benda til sprengigosa þegar vatn hefur komist í gosrás meðfram austari gliðnunarsprungu Norður-Atlantshafsins. Í um 20 milljón ár var gliðnun beggja megin við Grænland en henni lauk vestan við Grænland fyrir um 35 milljónum ára. Eftir það var gliðnun aðeins til staðar austan Grænlands en Grænland og Norður-Ameríka hafa hreyfst sem einn fleki. Fyrir um 38 milljónum ára, fór svæðið milli Grænlands og Evrópu, þar sem Ísland er nú, fyrst niður í sjó og Íslands-Færeyjahryggurinn myndaðist. Ísland er því sjálft talið hafa byrjað að myndast fyrir um 44-26 milljónum ára síðan. Meðal annars hafa 25 milljón ára gömul öskulög í djúphafsseti verið talin til marks um aukna sprengigosavirkni við myndun Íslands. Þar sem fána og flóra Íslands á tertíertímabilinu var mjög lík dýralífi aðlægra meginlanda er talið að Ísland hafi fyrst um sinn verið landbrú á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Með frekari gliðnun á síðari hluta tertíer hafi hins vegar elsta bergið sokkið og landbrúin rofnað, fyrst við Evrópu en síðar við Grænland. Rekbelti á Íslandi. Rekbelti er það belti í gegnum Ísland þar sem gliðnun úthafsskorpunnar á sér stað, eða með öðrum orðum þar sem jarðskorpuflekana "rekur" í sundur. Gliðnun skorpunnar fylgir mikil eldvirkni og því eru rekbeltin einnig gosbelti og má í rauninni segja að rekbeltin á Íslandi séu framhald Atlantshafshryggjarins á landi. Talið er að rekbeltin á Íslandi hafi tilhneigingu til að halda sig sem næst heita reitnum undir landinu þar sem uppstreymi kviku er meira þar heldur en á sjálfum flekaskilunum. Flekaskilin rekur hins vegar hægt í norðvestur á meðan heiti reiturinn er fastur á sama stað og því færist rekbeltið á hverjum tíma smátt og smátt frá heita reitnum. Um leið og tengsl heita reitsins rofna við flekaskilin fer möttulstrókurinn að leita upp á yfirborðið á nýjum stað og þar hefst því eldvirkni og gliðnun á yfirborði á nýjan leik. Gliðnunin hættir að sama skapi á gamla rekbeltinu og þar dregur úr eldvirkninni þar til hún hættir að lokum. Hefur rekbeltið þá hliðrast til suðausturs. Með jarðlaga- og jarðeðlisfræðirannsóknum hefur verið hægt að greina tvö forn rekbelti, sem voru virk fyrr á tertíer en eru nú kulnuð. Hliðrun rekbeltisins hefur því átt sér stað alla vega tvisvar sinnum í jarðsögu Íslands. Fyrsta þekkta rek- og gosbeltið var Vestfjarðargosbeltið en það lá úti fyrir Vestfjörðum og var virkt fyrir um 24 milljónum ára. Fyrir um 15 milljónum ára hófst virkni á Snæfellsnesrekbeltinu, sem lá um Snæfellsnes og Dali norður í Húnaflóa. Hluti af þessu forna rekbelti er enn þá virkt sem gosbelti en ekkert rek hefur átt sér stað þar í nokkrar milljónir ára. Núverandi rekbelti liggur um Reykjanes upp í Langjökul, þaðan þvert í gegnum Hofsjökul yfir í Vatnajökul og svo norður í haf í Öxarfirði. Vestari hluti þessa rekbeltis er oft kallaður Reykjanes-Langjökulsbeltið en sá hluti, sem liggur frá Vatnajökli norður í land, er yfirleitt nefndur eystra rekbeltið. Reykjanes-Langjökulsbeltið hefur verið virkt í um 6-7 milljónir ára en dregið hefur úr eldvirkni á því vegna þess hve mikið það hefur fjarlægst heita reitinn undir Vatnajökli. Fyrir um 2 milljónum ára varð syðri hluti eystra gosbeltisins, sem liggur í suður um Mýrdalsjökul og í sjó hjá Vestmannaeyjum, virkur án þess að rekbelti myndaðist þar. Er nú talið að rekbeltið muni hliðrast á næstu milljónum ára yfir á eystra gosbeltið og liggja alveg frá Öxarfirði suður til Vestmannaeyja. Gliðnunin mun þá stöðvast á Reykjanes-Langjökulsbeltinu þótt gosvirkni muni haldast þar áfram lengur. Ísland á tertíer. Myndun Íslands á sér alfarið stað á tertíer- og kvartertímabilunum. Hefur oft þótt hentugt að skipta jarðsögu Íslands upp í þrjú eða fjögur tímabil: tertíer, ísöld (kvarter), sem er stundum skipt í tvö tímabil þar sem segulskipti urðu fyrir um 700 þúsund árum, og nútíma, sem er síðustu 10.000 ár eða tímabilið eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Þar sem elsta berg landsins er frá tertíer er það því oft nefnt "tertíerhraunlagastaflinn". Stærstur hluti hans er runninn frá þeim tíma þegar Snæfellsnesrekbeltið var virkt, frá 15-7 milljónum ára og eru hraunlög á Vestfjörðum, Austfjörðum, Norðvesturlandi, Vesturlandi og Snæfellsnesi að stórum eða mestum hluta komin frá því. Líkt og nú hafa tertíeru jarðlögin hlaðist upp í kringum linsulaga eldstöðvakerfi, sem svipar mjög til þeirra sem við búum við á nútíma. Hraunlagastaflinn hefur hlaðist upp annars vegar sem þróað berg (basískt-súrt) í gosum megineldstöðva en hins vegar sem flæðibasalt frá ganga- og sprungusveimum. Má hugsanlega áætla að um helmingur af jarðlagastaflanum hafi hlaðist upp í gosum megineldstöðva en hinn helmingurinn komið frá sprungugosum. Hraunlögin eru þykkust næst hinum fornum megineldstöðvum, og má þar inn á milli finna flikruberg, sem er merki um gríðarmikil hamfaragos tengd megineldstöðvunum. Upphaflega hafa eldkeilur og dyngjur staðið upp úr flötum og tilbreytingarlitlum hraunbreiðum umhverfis en með tímanum hafa gosstöðvarnar grafist niður í jarðlagastaflann og yngri hraunlög fergt þau eldri. Má ímynda sér að við uppbygginguna hafi landslag ekki verið ósvipað því sem nú er á gosbeltinu á Reykjanesi. Það landslag, sem nú einkennir tertíeru svæðin, með djúpum dölum og fjallseggjum, er hins vegar til komið síðar vegna rofs ísaldarjökla eftir að tertíer lauk. Á milli stakra hrauna í tertíerhraunlagastaflanum eru millilög, oft rauðleit, sem samanstanda af molaseti, surtarbrandi og gjósku. Rauðu millilögin eru upprunalega oxuð fokmold og foksandur, sem orðið hafa að sand- eða siltsteini. Það að millilögin séu rauð gefur til kynna mun hlýrra loftslag á Íslandi á myndunartíma, þar sem jarðvegur hefur auðveldlega oxast í röku og hlýju veðurfari. Þegar líður tekur á tertíer verða millilögin grófkenndari og fyrir um 5 milljónum ára fara fyrst að sjá jökulkennd setlög. Fyrir um 4 milljónum ára fer tíðni jökulbergslaga í staflanum að vaxa og fyrir rúmlega 2 milljónum ára sjást fyrstu merki um að ísaldarjökullinn hafi náð í sjó fram á Tjörnesi (sjá "Tjörneslögin") og er upphaf ísaldarinnar á Íslandi oft miðað við það. Ísöldin. HerðubreiðElstu merki um jöklun á Íslandi eru um 3-5 milljón ára gömul og því þykir líklegt að jöklun hafi hafist hér fyrr á hæstu hálendissvæðunum. Það er hins vegar ekki hægt að rekja þessi fyrstu jökulbergslög sem nokkru nemur og eru þau því túlkuð sem merki um svæðisbundna útbreiðslu jökuls. Fyrstu merki um víðáttumikla jökulbreiðu eru tvö 2,9 milljón ára gömul jökulbergslög í Fljótsdal og Jökuldal, sem rakin hafa verið saman. Þetta jökulset takmarkast þó alfarið við hálendið. Elsta þekkta jökulræna setið við sjó er á Tjörnesi og er um 2,5 milljón ára gamalt. Bendir það til þess að þá hafi jöklar fyrst náð útbreiðslu yfir stóran eða stærstan hluta landsins, eins og átti eftir að gerast fjölmörgum sinnum síðar á ísöldinni. Jarðlaga- og setlagafræðirannsóknir benda til þess að á Íslandi hafi átt sér stað yfir 20 jökulskeið síðustu 4-5 milljónum ára. Inn á milli jökulskeiðanna hafa staðið stutt hlýskeið þar sem lífríkið hefur tekið aðeins við sér og hraun náð að renna. Móbergsfjöll og stapar myndast við gos undir jökli og eru einkennandi fyrir kuldaskeið ísaldar. Þau geta gefið grófa hugmynd um þykkt ísaldarjökulsins þegar þau mynduðust. Þannig gefa hraunhettur stapa til kynna hámarksþykkt jökulsins en hrein móbergsfjöll, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum, gefa til kynna lágmarksþykkt hans. Herðubreið, sem rís um 1100 metra yfir umhverfi sitt, hefur því myndast við gos undir nálægt 1000 metra þykkum jökli. Eem-hlýskeiðið stóð yfir fyrir um 130-110 þúsund árum. Jökulskeiðið eftir það stóð því yfir í um 100 þúsund ár, frá því fyrir 110 þúsund árum fram til fyrir 10 þúsund árum, þegar jökla leysti að mestu á norðurhveli jarðar og við tók nýtt tímabil, nútíminn (hólósen). Oft er sagt að nútími í jarðfræði hafi hafist fyrir 10.000 árum, en þá er miðað við geislakolsár, sem eru örlítið lengri en almanaksár. Ef talið er í almanaksárum hefst nútími fyrir 11.500 árum eða um 9.500 f.Kr. Ísaldarlok. Hámark síðasta jökulskeiðs ("Last Glacial Maximum, LGM" á ensku) er talið hafa verið fyrir um 20-18 þúsund árum. Upp úr því hófu jöklar að hörfa og fyrir um 14 þúsund árum fór hitastig að hækka verulega og jöklar að láta á sjá. Fyrir um 12.600 árum hófst stutt en snöggt hlýindaskeið, sem kallað hefur verið Bølling, og stóð það þar til fyrir um 12 þúsund árum. Á Bølling hörfuðu jöklar töluvert inn fyrir strandlínuna og sýna geislakolsaldursákvarðanir á skeljum að landgrunnur og strandsvæði hafi orðið íslaus nánast samtímis við upphaf Bølling. Vegna hraðrísandi sjávarborðs varð ísaldarjökullinn líklegast mjög óstöðugur við strendur Íslands og er talið hugsanlegt að hann hafi beinlínis tapað fótfestunni á landgrunninu og leyst mjög hratt út í sjó. Þykkur ísaldarjökullinn fergdi landið við ströndina um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði snöggt flæddi sjór inn í land þar sem jöklar höfðu áður legið og má sjá sjávarmörk frá lokum síðasta jökulskeiðs í töluverðri hæð yfir núverandi sjávarmáli. Sjávarmörkin eru hæst inn til landsins vegna þess að þar var jökullinn þykkari og fergingin meiri. Efstu fjörumörk á Vesturlandi frá því á Bøllingskeiðinu eru við Stóra-Sandhól í Skorradal, í um 150 m hæð yfir núverandi sjávarmáli. Utan í Akrafjalli eru sjávarmörk frá sama tíma í rúmlega 100 m hæð. Á Bølling varð svo afstætt afflæði sjávar þar sem landið reis hratt eftir að hafa losnað við ok jökulsins og í lok Bølling hafði sjávarstaða náð nokkurn veginn sömu hæð og nú. Fyrir um 12 þúsund árum hófu jöklar aftur að ganga fram í sjó á stuttu kuldaskeiði, sem kallað hefur verið eldra drýas og stóð það þar til fyrir um 11.700 árum. Í lok þess hafði landið aftur fergst lítillega vegna jökulsins og sjávarstaða stóð hærra en í lok Bølling. Á eftir eldra drýas kom stutt hlýindaskeið, kallað Allerød, og stóð það í um 700 ár eða þar til fyrir um 11 þúsund árum. Þá tók við seinasta stóra kuldaskeiðið, yngra drýas og stóð það þar til fyrir um 10 þúsund árum. Allerødskeiðinu og yngra drýasi fylgdi hins vegar afstætt áflæði sjávar þar sem jöklar jarðarinnar voru að bráðna og yfirborð sjávar að hækka á heimsvísu á meðan Ísland hætti að rísa vegna jökulfargs. Hæstu fjörumörk frá Allerød og yngra drýasi eru í allt að 60-70 metra hæð yfir núverandi sjávarmáli, t.d. við Skorholtsmela frá því fyrir um 10.300 árum. Eftir það varð örlítið afstætt áflæði þar til í lok preborealskeiðsins, fyrir um 9.800 árum og marka lok þess hæstu fjörumörk í byrjun nútíma. Eftir seinasta framrásarskeið ísaldarinnar reis landið mjög hratt þegar fargi ísaldarjökulsins hafði létt. Þar sem hækkun sjávarborðs af völdum bráðnunar jökla jarðarinnar var ekki jafnhröð og ris Íslands varð afstætt afflæði á Íslandi þar til fyrir um 9 þúsund árum en þá var sjávarstaða um 40 metrum undir núverandi yfirborði sjávar. Nútími. Nútíminn (hólósen) er jarðsögutímabilið eftir að seinasta ísaldarskeiði lauk. Hann hefst fyrir 10.000 geislakolsárum eða um 11.500 almanaksárum. Jarðsaga Íslands á nútíma einkennist aðallega af eldvirkni á virku gosbeltunum. Rekbeltið frá Reykjanesi til Vatnajökuls og norður í haf er virkt gosbelti en auk þess eru þrjú gosbelti utan rekbeltisins virk, Snæfellsnesgosbeltið, eystra gosbeltið (frá Vatnajökli suður í Vestmannaeyjar) og Öræfajökuls-Snæfellsgosbeltið, sem er hliðargosbelti samsíða eystra gosbeltinu. Í upphafi nútíma var eldvirkni á Íslandi um 30 sinnum meiri en hún er í dag. Er það talið tengjast bráðnun ísaldarjökulsins en við hörfun hans varð mikil þrýstiléttir efst í möttlinum. Því eru stærstu dyngjur landsins, svo sem Skjaldbreiður og Trölladyngja, runnar á fyrstu árþúsundunum eftir að nútími hófst. Gosmyndanir frá nútíma eru fjölbreytilegar en margar finnast ekki utan gosbeltanna þar sem ísaldarjökullinn hefur skafið burt slíkar myndanir frá fyrri hlýskeiðum. Dyngjur og eldborgir myndast í hreinum flæðibasaltgosum umhverfis eitt aðalgosop. Dyngjugos geta staðið í ár eða áratugi með litlum hléum en eldborgir myndast í styttri gosum. Sprungugos eiga sér stað á sprungureinum utan megineldstöðvanna og hafa stærstu hraungos jarðar á nútíma runnið frá slíkum eldstöðvum á Íslandi. Má þar meðal annars nefna Þjórsárhraunið mikla, sem er stærsta hraun sem komið hefur upp í einu gosi á jörðinni á nútíma, og Eldhraun, sem rann úr Lakagígum og er annað af tveimur stærstu hraunum, sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma. Aðeins hraunrennslið úr Eldgjárgosinu 934 er talið vera sambærilegt að magni. Jarðfræði Íslands Silfurkórinn - Rokk-rokk-rokk. Silfurkórinn - Rokk-rokk-rokk er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni syngur Silfurkórinn dægurlagasyrpur. Hljóðritun fór fram hjá Tóntæki. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Magnús Ingimarsson. Ljósmyndir af Silfurkórnum á plötuumslagi tók Stúdíó 28 í hinu vinsæla veitingahúsi Þórscafé í Reykjavík. Textasetning á plötuumslagi: Prentstofan Blik. Prentun umslags: Grafík hf. Silfurkórinn. skipa: Albert Pálsson, Alfred W. Gunnarsson, Ásthildur Jónsdóttir, Eiríkur Helgason, Elín Sigmarsdóttir, Guðrún Andrésdóttir, Halldór Torfason, Hannes Sigurgeirsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Jóhanna Sveinsdóttir, Kjartan Jóhannsson, Kristín Þórisdóttir, Linda Leifsdóttir, Magnús Magnússon, María Pálmadóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Sigrún Hákonardóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Sigtryggur Jónsson og Viðar Gunnarsson Gísli Rúnar Jónsson - Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka. Gísli Rúnar Jónsson - Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1977. Á henni flytur Gísli Rúnar Jónsson og félagar gamanefni og lög um seinni heimsstyrjöldina þar sem hernámsárin á Íslandi eru lofsungin. Magnús Ingimarsson útsetti alla tónlist á plötunni, stjórnaði hljómsveitarundirleik og lék jafnframt á orgel og píanó allsstaðar þar sem til þess heyrist (einnig þar sem það er mjög veikt) nema í lögunum "Upphaf stríðsins" og "Lok stríðsins" (Árni Elfar). Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h.f. Tæknimaður var Sigurður Árnason, sem jafnframt annaðist hljóðblöndun ásamt Gísla Rúnari. Hönnun og útlit á albúmi: Gísli Rúnar. Ljósmyndari: Kristján Ólafsson. Útlitsteikning: Bjarni Jónsson. Koparstunga: Björgvin F. Magnússon. Prentun: Grafík Aðrir. hljóðfæraleikarar voru: Alfreð Alfreðsson og Guðmundur R. Einarsson á trommur og eldspýtur, Axel Kristjánsson á bassa, Árni Scheving á bassa, sylofón og vibrafón og Birgir Karlsson á gítar, banjo, mandolín og hurð ásamt ótölulegum fjölda annarra hljóðfæraleikara úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Gísla Rúnari. má kenna allan leirburð bundinn og óbundinn sem skorinn er í þetta plast (utan eitt ljóð) auk þess sem hann valdi og útfærði öll lögin og bjó undir útsetningu. Hann syngnr og raddar ennfremur öll lögin sem heyrast á plotunni (afs.) plötunni að undanskyldu "Verðlaunalagi Ríkisútvarpsins" þar sem Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur á móti honun og "Útlegð í Síberríu", "Saknaðarsöngur" og "Þetta er indælt stríð", en þar leika þær Eva Dögg og Edda Björgvinsdóttir önnur hlutverk. Í mynda-albúmi kemur Gísli Rúnar fram í allra stríðsskvikinda líki ásamt nokkrum ástandsmeyjum og gangandí vegfarendum. Höfundi sérstaklega til aðstoðar við gerð plötunnar var Edda Björgvinsdóttir. Auk þess þakkar höfundur þeim fjölmörgu er veittu aðstoð við efnisöflun og myndatöku. Nútími (jarðfræði). Nútíminn í jarðfræðilegu samhengi eða Hólósen-tímabilið er jarðfræðilegt tímabil er nær frá nútímanum aftur um 10.000 geislakolsár. Tímabilið er tengt við svokallað MIS 1, en það er hlýskeið þeirrar ísaldar sem við lifum á. Siðmenning manna varð öll til á hólósen. Tímabilið hófst að afloknu snörpu kuldaskeiði sem nefnist Yngra-Dryas (yngra holtasóleyjarstig) og markaði endalok pleistósen tímabilsins. Aldursákvarðanir sýna fram á að Yngra-Dryas lauk fyrir um 9.600 árum f. kr. (11550 almanaksár BP). Ummerki Yngra-Dryas eru eingöngu skýr á norðurhveli Jarðar. Samkvæmt loftlagsgögnum úr GRIP ískjarnanum úr Grænlandsjökli hefst Hólósen tímabilið á 1623,6 m dýpi í kjarnanum fyrir 11.500 ískjarnaárum (Björck o.fl. 1998). Hólósen hefst þegar hinir stóru jöklar pleistósen tímabilsins taka að hopa og hverfa. Hólósen er fjórða og síðasta tímabil Neógen tímaskeiðsins. Nafnið er komið frá grísku orðunum "holos" (algjörlega) og ceno (nýtt). Sækýr. Sækýr (eða sænaut) er stórt sjávarspendýr af ættbálknum "Sirenia" en hann þróaðist út frá fjórfættum landspendýrum fyrir meira en 60 milljónum ára. Fullorðin sækýr mælist frá 2,5 til 4,5 metra á lengd og getur orðið allt að 700 kg. Sækýr. Þessar sérkennilegu skeppnur er oft kallaðar góðu eða ljúfu risarnir. Nanfngiftir kemur af því hve stórar þessar skepnur geta orðið og hve friðsælar og róandi áhrif þær hafa. Talið er að sækýr hafi verið landdýr og gengið í sjóinn fyrir 60 miljón árum, nánasti frændi þeirra á landi er fíllinn, húð þeirra er svipuð og hjá frændum þeirra fílunum, augun eru svipuð og stórar eru þær en þá er líka upptalið hvað er líkt með skyldum þar. Sækýr eru með ljúfustu spenndýrum. Sem dæmi um hve friðsamar þær eru er að þær synda alltaf í burt frá vandræðum ef þess er kostur, þá er talið að sækýr eigi enga náttúrulega óvini. Það eru þrjár tegundir sækúa (sirena) Trichechus manatus, sem eru allar í útrýmingarhættu; Amazon-sækýrin, vestur-afríska sækýrin og vestur-indverska sækýrin sem aðalega verður fjallað um hér. Allar eru þær svipaðar í útliti og eru eins og litlir kafbátar þegar þær fljóta í gegnum vatnsstrauminn. Meðal sækýr er rúmir þrír metrar á lengd og 450 kg. Þær geta þó orðið mun stærri eða allt upp í fimm metrar og 1600 kg. Kvendýrin eru yfirleitt stærri. Sækýr lifa í allt að 70 ár ef þær eru í góðu náttúrulegu umhverfi, 30 til 35 ár ef þær eru fangaðar Ýmsar sögur fara af því hvernig nafngiftin kom til á sækúnum. Orðið „manatee“ kemur væntanlega frá Carib Indian og þýðir „brjóst“ en sækýrin hefur afkvæmið sitt á spena eins og önnur spendýr, sækýr kemur væntanlega af því að þær eru stórar og eru lengi að melta gróðurinn sem þær éta eins og kýrnar. En vísindanafnið "manatus" þýðir að hafa hendur en sækýr eru þekktar fyrir að nota framhreyfana til að slíta upp gróður, kroppa í bakka og snerta hvor aðra og hluti sem þær eru forvitnar um, þetta á þó eingöngu við vestur-indversku sækýrnar. Lifnaðarhættir. Sækýr eiga enga þekkta óvini nema manninn, vegna þess hve hægt þær fara, en meðal hraði þeirra er þrír til fimm km á klukkustund og að þær sækja mest af fæðu sinni nálægt árbökkum og ströndum þá lenda þær oft í árekstrum við hraðbáta, sjóþotur og veiðafæri manna. Sækýr hafa þykka grófa húð, stutta og breyða hreyfa og flatann breiðann sporð. Nasir þeirra lokast Þegar þær kafa og lungu þeirra liggja langsum ólíkt öðurm spendýrum en það eykur jafnvægi þeirra í vatninu. Þær eru með marga vöðva sem umlykja lungun og gera að verkum að þær geta andað hraðar frá sér en önnur sepndýr og því verið fljótar að fara í kaf aftur. Sækýr geta kafað í allt að 15 mínútur í einu en venjlega koma þær upp til að anda á þriggja til fimm mínútna fresti. Sækýr hafa engin ytri eyru en þær hafa mjög stór innri eyru og heyra mjög vel, þær gefa frá sér margskonar hljóð og nota þau í samskiptum sín á milli, hver móðir hefur sérstakt hljóð fyrir sinn kálf og hver kálfur ákveðið hljóð fyrir sína mömmu, þegar þær eru á sundi haldast þær oft í hendur (hreyfa). Sækýr eru mikið fyrir að snerta hver aðra og hjálpast að við að hreinsa snýkjudýr og gróður sem festist á þeim. Þær eru félagslyndar en þurfa samt að hafa visst svigrúm útaf fyrir sig, þær ferðast oft í hópun en líka einar, það er engin foringi og allir jafn réttháir í hópnum. Sækýr á öllum aldri leika sér og oft saman, þær eiga auðvelt með að læra og bregðast fljótt við nýjum áreitum. Stofninn. Í Flórída eru talin vera um 2000 sækýr en heimsstofninn af vestur-indverskum sækúm er talinn vera 3000. Á veturna sækja þær upp í ár og uppsprettur þar sem vatnið er heitara, stundum sjást allt að 300 sækýr við sömu uppsptettuna. Sækýr fjölga sér hægt, kýr þarf að ná fimm til níu ára aldri til að verða kynþroska en tarfurinn verður ekki kynþroska fyrr en níu ára. Þegar kemur að fengitíma leika þær sér mikið saman, klóra hvert öðru á maganum, faðmast og kyssast, síðan skiljast leiðir og þrettán mánuðum seinna fæðist kálfurinn en þær eiga oftast bara einn kálf í einu þó einstaka tvíburar fæðist. Kálfurinn er 25 til 39 kíló og 1,2 metrar við fæðingu, hann er á spena í allt að tvö ár og fylgir mömmu sinn lengur en það. Spenarnir eru fyrir aftan hreyfana, kálfurinn stingur hausnum uppí „handakrikann“ og drekkur í kafi. Þegar kálfurinn er mánaðar gamall byrjar hann að narta í mjúkan gróður, í kringum ársgamall er kálfurinn orðinn 1,8 metra langur og 300 kg. Kálfur fer aldrei langt frá móður sinni þessi fyrstu tvö ár, hann sefur undir hreyfum hennar, ofan á baki eða jafnvel á sporði hennar, þau talast á í sífellu, móðirin kennir kálfinum að velja þann gróður sem hann borðar, hvar hann finnur ferskt vatn að drekka, leikur við hann og leggur jafnvel fyrir hann þrautir en hún skammar hann líka og stundum fá þeir flengingu. Ef sækýr finnur kálfinn sinn í hættu syndir hún á milli kálfsins og hættunnar síðan stýrir hún kálfinum frá hættunni. Fæða og hirða. Sækýr eru að éta í allt að níu klukkutíma á dag. Fæðan samanstendur af ýmsum vatnagróðri og laufblöðum sem falla af trjám. Magi sækúnna er með sérstakar bakteríur sem auðvelda meltinguna en samt tekur það næstum sjö daga að melta. Fullorðin sækýr étur um 45 kíló af gróðri á dag, þær hafa engar framtennur en byrja á því að tyggja matinn með hvössum gómum og síðan tyggja þær með jöxlunum sem eru 24 til 32. Jaxlarnir eyðast og falla út en nýir koma upp í staðinn aftast og þrýsta tönnunum fram. Eftir hverja máltíð þrífa sækýr tennurnar ýmist með litlum steinvölum sem þær rúlla upp í sér og milli tannanna og spíta svo út úr sér aða með greinum sem þær stinga upp í sig. Þær hafa líka sést nota reipi til dæmis í akker á bátum sem tannþráð. Sækýr virðast mjög þrifnar og hjálpast að við að hreinsa hrúður, snýkjudýr og gróður hver af annarri. Óvinurinn, maðurinn. Eins og fyrr segir er maðurinn eini óvinur sækýrinnar. Úr því að sækýr eru forvitnar og vingjarnlegar við manninn koma þær oft upp að þeim og bátunum þeirra með þeim afleiðingum að þær lenda í skrúfublöðum og netum. Einnig leita þær að ferskvatni til að drekka hjá mannfólki sem lætur vatn renna í slöngum fyrir þær. Oft er alls konar dót þar í kring sem þær forvitnast um og jafnvel smakka á og valda þeim dauða. Sett hafa verið lög til verndar sækúm í Flórída þar sem hraði báta og annarra sjófarartækja hefur verið takmarkaður, einnig eru ákveðnar reglur um að synda í nálægði við þær. Þjóðsögur um sækýr. Fyrir langa löngu tilkynntu sjómenn að þeir hefðu séð gullfallegar skeppnur sitja á skerjum, þegar þeir silgdu framhjá heyrðu þeir sérkennileg hljóð sem mynntu á konur syngja, þegar þeir sáu síðan sporðinn héldu þeir að þetta væru hálf-konur og hálf-fiskur. Þeir kölluðu þær sírenur eða hafmeyjar. Þessir sjómenn hafa ekki haft góða sjón eða hafa verið of lengi á hafi úti fyrst þeir sáu ekki að hafmeyjar þeirra voru sköllóttar, feitar og hrukkóttar. Íslenskar þjóðsögur hafa líka að geyma sagnir um sækýr, þær áttu að lifa í sjónum en villast stundum á land, í sögunum voru þessar sækýr eins og venjulegar kýr nema með blöðru yfir grönunum, ef tókst að sprengja blöðruna urðu kýrnar að landkúm með þeirri undantekningu þótt þær væru alltaf gráar, mjólkuðu betur og langaði alltaf í sjóinn aftur. Steingrímur Jónsson (biskup). Mynd af Steingrími Jónssyni úr ferðabók Gaimards frá 1835. a> var skrifari biskups árin 1831-32 Steingrímur Jónsson var fyrsti rektor (nefndur lector) Bessastaðaskóla. Hann stýrði skólanum þar til hann gerðist prestur í Odda og síðar biskup. Steingrímur var vígður til biskups í Þrenningarkirkju í Kaupmannahöfn á annan dag jóla árið 1824. Steingrímur kvæntist Valgerði Jónsdóttur ekkju Hannesar Finnssonar biskups en Steingrímur hafði á sínum tíma verið skrifari Hannesar. Þrenningarkirkjan. Þrenningarkirkjan er kirkja í miðbæ Kaupmannahafnar. Kirkjan er hluti af Trinitatis byggingarreitnum en þar eru auk kirkjunnar fyrsta háskólabókasafnið, sem nú er sýningarsalur yfir kirkjunni og stjörnuathugunarstöðin Sívaliturn. Fyrstu hugmyndir um kirkju fyrir stúdenta við Regensen eru frá 1635. Í fyrstu átti að byggja kirkjuna innan háskólagferningsins en árið 1636 var ákveðið að kirkjan skyldi reist á horninu á Landemærket og Købmagergade. Þá höfðu hugmyndir einnig breyst frá því að byggja eingöngu kirkju í að byggja saman kirkju, bókasafn og stjörnuathugunarstöð. Kristjáni 4. Danakonungur átti hugmyndina að þessari samsetningu. Hornsteinn að byggingunum var lagður 7. júlí 1637 og fyrsti hlutinn, Sívaliturninn var tilbúinn árið 1642. Kirkjan var vígð 1. júní 1656 og bókasafnið 7. júlí 1657. Varta. Varta er hornmyndun á húð sem minnir á risavaxna bólu. Vörtur birtast ofast á höndum og fótum manna, og koma til vegna veiru sem nefnist vörtuveira og leggst á menn. Hægt er að smitast af vörtum, bæði með snertingu og jafnvel ef notað er sama handklæði og vörtusjúklingur eða með snertingu annarra hluta sem viðkomandi hefur handfjatlað. Vörtur eru þó ekki hættulegar, og hverfa oftast innan skamms tíma, en sumar þrjóskast við og þó þær hverfi geta þær birst aftur. Venjulega eru vörtur skornar eða brenndar af sjúklingi. Hér í eina tíð þótti það ágætt húsráð að nudda vörtur upp úr vígðri mold, og var sagt að þær læknuðust við það. Önnur alþýðuráð voru að núa baun á vörtuna og stinga henni síðan í veggjarholu, eða halda höndinni niðri í heitri gorvömb. Ekki má rugla saman vörtu og geirvörtum eða spunavörtum kóngulóa. Regensen. Regensen (Garður eða Gamli Garður) er fornfrægur stúdentagarður við Kanúkastræti í Kaupmannahöfn. Þar bjuggu flestir íslenskir stúdentar sem fóru utan til náms við Kaupmannahafnarháskóla á 18. og 19. öld. Jónas Hallgrímsson bjó á Regensen í 5 ár. Þegar óánægja með hið danska einveldi fór vaxandi þá var óánægjan mest meðal prófessora og stúdenta við Kaupmannahafnarháskóla og helsti suðupottur nýrra hugmynda var Garður. Dönsk yfirvöld reyndu að bæla þessar hræringar niður með ýmsum ráðum. Íslensk sjálfstæðishreyfing varð til og mótaðist í því andrúmslofti sem ríkti á Regensen. Helsti foringi danskra stúdenta á Garði upp úr 1835 var skáldið Carl Ploug sem síðar varð áhrifamaður í dönskum stjórnmálum. Þegar Friðrik VI dó árið 1839 efndu garðstúdentar til mótmælafundar. Pungur. Pungur er húðpoki í klofi sumra karlkyns spendýra. Pungurinn er verndarhjúpur utan um eistun og er framlenging á kviðarholi. Á karklyns manni er pungurinn staðsettur á milli getnaðarlims og spangar. Friðrik 6. Danakonungur. Friðrik 6. (28. janúar 1768 - 3. desember 1839) var Danakonungur 1808-1839 og konungur Noregs 1808-1814. Friðrik var sonur Kristjáns 7. og Karólínu Matthildar drottningar. Nokkrum dögum fyrir fjögurra ára afmæli hans var gerð hallarbylting í Danmörku þar sem Johann Friedrich Struensee, elskhugi móður hans, var tekinn höndum og síðan líflátinn en drottningin var send í útlegð og dó þar þremur árum síðar. Friðrik ólst því upp með föður sínum, sem var ekki heill á geðsmunum en ríkinu og uppeldi krónprinsins var stýrt af hálfbróður Kristjáns 7., Friðrik erfðaprinsi, og móður hans, Júlíönu Maríu ekkjudrottningu. Friðrik fékk strangt uppeldi byggt á túlkun á kenningum sem franski heimspekingurinn Rousseau setur fram í bókinni "Émile" og er talið að það hafi átt þátt í að hann þótti nokkuð sérlundaður á fullorðinsárum. Þann 14. apríl 1784 var svo aftur gerð hallarbylting þar sem ekkjudrottningunni og erfðaprinsinum var komið frá völdum en krónprinsinn, sem þá var orðinn 16 ára, varð ríkisstjóri fyrir föður sinn og hélst það uns Kristján 7. lést árið 1808. Friðrik og ráðgjafar hans komu brátt á ýmsum umbótum og meðal annars voru átthagafjötrar afnumdir 1788. Hins vegar herti Friðrik mjög á ritskoðun. Upp úr aldamótunum 1800 drógust Danir inn í stríðsátök Frakka og Englendinga þótt þeir reyndu að halda hlutleysi sínu og eftir að Englendingar höfðu látið sprengjum rigna yfir Kaupmannahöfn af sjó, hertekið borgina og rænt öllum skipum sem þeir náðu til en eyðilagt önnur gerði Friðrik bandalag við Napóleon Frakkakeisara. Svíar höfðu aftur á móti gert bandalag við Englendinga og Rússa. Árið 1813 var svo komið að Danir voru einu bandamenn Frakka í Evrópu og eftir að Svíar og Rússar höfðu unnið sigur á danska hernum voru gerðir friðarsamningar í Kiel 14. janúar 1814 þar sem Svíar létu Rússum eftir Finnland en Danir voru þvingaðir til að láta þeim eftir Noreg í staðinn; þeir fengu þó að halda eftir Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Friðrik konungur taldi hættu á að Rússar og Englendingar myndu skipta Danmörku á milli sín og þegar sigurvegarar Napóleonsstyrjaldanna komu saman í Vínarborg haustið 1814 til að semja um yfirráð í álfunni ákvað hann að fara þangað óboðinn og þótt hann sæti ekki við samningaborðið sem jafningi sigurherranna er ekki talið ólíklegt að vera hans í borginni hafi bjargað Danmörku. Svo mikið er víst að honum var fagnað gífurlega við heimkomuna og ferð hans var talin sigurför. Danska ríkið var hins vegar í raun gjaldþrota eftir stríðið og óðaverðbólga geisaði. Á síðari árum varð Friðrik að láta ögn undan sívaxandi kröfum um aukið lýðræði og árið 1834 var fjórum ráðgefandi stéttaþingum komið á; tvö voru fyrir hertogadæmin, eitt fyrir Jótland og eitt fyrir eyjarnar og áttu Íslendingar tvo fulltrúa á þingi Eydana, sem var haldið í Hróarskeldu. Friðrik kvæntist Marie Sofie Frederikke af Hessen-Kassel en þau voru systkinabörn, móðir hennar var systir Kristjáns 7. Þau eignuðust átta börn. Tvær dætur komust til fullorðinsára en sex dóu í æsku. Hjákona Friðriks var Bente Rafsted, sem gekk undir nafninu frú Dannemand, og stóð samband þeirra í meira en 30 ár. Julianne Moore. Julianne Moore (fædd 3. desember 1960) er bandarísk leikkona. Frumuöndun. Frumuöndun og formúla. Glúkósi + súrefni ->Hvatberi = ATP + (vatn + koltvíoxíð) úrgangsefni sem við öndum frá okkur Formúlan fyrir frumuöndun = C6H12O6 + 6 O2 à ORKA (ATP) + 6 H20 + 6 CO2 Orka (sólarljós)+ 6 CO2+6 H2O => C6H12O6 +6 O2 Þessi kerfi vinna því saman, úrgangsefni ljóstillífunar (súrefni) er nauðsynlegt fyrir frumuöndun, og úrgangsefni frumuöndunar (koltvíoxíð og vatn) er nauðsynlegt fyrir ljóstillífun. Spöng (æxlunarfæri). Spöng (oft haft með greini; spöngin) kallast svæðið á milli pungs og endaþarmsops á karlmanni og píku og endaþarmsops á konum. X86-hönnun. x86 er heiti á fjölskyldu af örgjörvum, með CISC skipanamengi, framleiddum af Intel, en síðar einnig af öðrum framleiðendum, s.s. AMD og VIA. Kom fyrst á markað 1978. Þrastalundur. Veitingaskálinn Þrastalundur í júní 2008 Brúin yfir Sogið séð frá veitingaskálanum Þrastalundi Þrastalundur er söluskáli og veitingastaður í Grímsnesinu við þjóðveg númer 1. Þrastalundur stendur við brúna yfir Sogið í útjaðri Þrastaskógar. Fyrsti söluskálinn var byggður árið 1967 en nýr söluskáli og veitingasalur var tekinn í notkun árið 2004. Þrastalundur og Þrastaskógur eru í eigu Ungmennafélags Íslands. Wittenberg. Wittenberg er borg í þýska sambandslandinu Saxland-Anhalt og er með 50 þús íbúa. Wittenberg er vagga siðaskiptanna, en þar hóf Marteinn Lúther siðbótina. Nokkrar byggingar þar sem tengjast siðaskiptunum beint eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Wittenberg stendur við ána Saxelfi mjög austarlega í sambandslandinu. Næstu borgir eru Magdeburg til norðvesturs (50 km), Leipzig til suðurs (40 km) og Berlín til norðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Wittenbergs sýnir rautt virki í blárri á. Silfurlitaður fiskur syndir í ánni. Á virkinu eru tveir skildir. Virkið er Wittenberg. Áin er Saxelfur. Skildirnir voru tákn hins gamla Saxlands. Fiskurinn á að vera lax sem mikið var veiddur áður fyrr í fljótinu. Orðsifjar. Wittenberg merkir hvítasteinn. Witten er dregið af orðinu weiss ("hvid" á dönsku, "white" á ensku), sem merkir "hvítur". Berg merkir hér "steinn" eða "klettur". Síðan 1922 heitir borgin opinberlega Lutherstadt Wittenberg. Upphaf. Leyfisbréfið sem Albrecht II gaf út, en með því veitti hann Wittenberg borgarréttindin 1293 1174 kemur heitið Wittenberg fyrst við skjöl. Skömmu seinna varð Albrecht I hertogi af Saxlandi og í kjölfarið stækkar byggðin þar. Það var svo Albrecht II greifi sem veitti Wittenberg borgarréttindi 1293. Leyfisbréfið er enn til á safni og er dagsett 27. júní 1293. 1345 var Rúdolf I greifi gerður að kjörfursta í þýska ríkinu. Aðsetur hans var í Wittenberg, sem við það varð að miðstöð stjórnmála. Fyrir utan ýmsar merkar byggingar sem hann lét reisa, stóð hann einnig fyrir varnarvirkjum og borgarmúrum í kringum borgina. Kjörfurstatignin hvarf aftur úr héraðinu við andlát Albrechts III 1422. Nokkrum árum síðar gerðu Hússítar uppreisn í Bæheimi. Þeir réðust inn í Saxland 1429 og gerðu atlögu að Wittenberg. Borgin stóðst hins vegar áhlaup þeirra og slapp í þetta sinn. 1486 varð Wittenberg aftur að kjörborg er greifinn Friðrik hinn vitri varð að kjörfursta. Miklar byggingarframkvæmdir fylgdu í kjölfarið, t.d. brú yfir Saxelfi, kastali og kirkja. Friðrik stofnaði einnig háskóla í Wittenberg 1502. Þar með varð Wittenberg að mikilsverðri borg í ríkinu. Siðaskiptin. Wittenberg 1536, vagga siðaskiptanna. Borgarkirkjan er til hægri. Þar var nýja trúin fyrst predikuð. Kastalakirkjan er til vinstri. Þar hengdi Lúther upp mótmælagreinar sínar og þar liggur hann grafinn. Wittenberg er vagga siðaskiptanna. Marteinn Lúther flutti þangað 1508 til að stunda framhaldsnám í háskólanum. Þaðan útskrifaðist hann 1512 sem Biblíufræðingur ("baccalarius biblicus"). Eftir það hóf hann að kenna í sama háskóla. En með honum bærðust efasemdir um ýmsar kaþólskar kenningar um guðfræði. Þær ágerðust næstu árin, en hin eiginlega ástæða þess að hann hóf að mótmæla var aflátssalan. Hann hóf sjálfur að predika opinberlega gegn henni þegar árið 1516. Aðeins ári síðar ritaði Lúther 95 greinar um almenna guðfræði og aflátssölu. Þessar greinar festi hann á stóru dyrnar á kastalakirkjunni 4. september 1517 til aðgengis fyrir allan almenning. Atburður þessi leysti holskeflu viðbragða úr læðingi, aðallega hjá kennimönnum til að byrja með. Lúther var yfirheyrður af kirkjunnar mönnum sem hefðu átt að framselja hann. En kjörfustinn Friðrik hinn vitri studdi hann og hélt hlífðarhendi yfir honum. Reyndar þurfti Lúther að yfirgefa borgina og fara oftar en ekki huldu höfði. En þá höfðu aðrir tekið við að predika hina nýju trú þar. 1522 ákvað borgarráðið að meðtaka hina nýju trú Lúthers og varð Wittenberg því fyrsta borgin þar sem siðaskiptin fóru formlega fram. Lúther lést 1546 í fæðingarbæ sínum Eisleben. Lík hans var flutt til Wittenbergs og hvílir hann í kastalakirkjunni. Stríð. Prússar ráðast á Wittenberg í febrúar 1814 Snemma í 30 ára stríðinu var hafist handa við að efla borgarmúrana. Jafnframt voru menn þjálfaðir til hernaðar og áttu þeir að gæta að borginni. Allt þetta umstang borgaði sig 1637 er Svíar, undir forystu Johans Banér, réðust á borgina. Borgarbúar vörðust svo vel að Banér ákvað að hverfa frá, en brenndi þó brúna yfir Saxelfi. Í 7 ára stríðinu var borgin ekki eins lánsöm. 1759 hertóku prússar borgina er þeir Friðrik mikli réðist inn í Saxland. Ári síðar var keisaraherinn kominn á vettvang. Prússar neituðu að gefast upp og hóf keisaraherinn þá skothríð á borgina. Í heilan dag var skotið, þar til stór hluti borgarinnar var eyðilagður. Þá fyrst gáfust prússar upp og opnuðu dyrnar fyrir keisaraherinn. Borgin var byggð upp á ný, en blómatími hennar var liðinn. Ljómi háskólans hafði dvínað mikið. 1795 voru aðeins 366 stúdentar þar við nám. 1806 varð Saxland að konungsríki að áeggjan Frakka. Napoleon sótti Wittenberg heim á því ári. Hann lét víggirða borgina á ný og loka háskólanum, þ.e. hann var færður annað. 60 þús franskir hermenn voru að staðaldri í borginni næstu árin (stundum fleiri) og þurftu borgarbúar að brauðfæra þá. Um vorið 1813 var Napoleon kominn til baka frá misheppnaðri herferð sinni til Rússlands. Prússar eltu Frakka og komu til Wittenberg 25. september 1813. Frakkar neituðu að hörfa og því hófu prússar umsátur, sem varaði allt til næsta árs. Neyðin var þá orðin gríðarleg meðal Frakka og borgarbúa. Þegar Frakkar neituðu enn að gefast upp 12. febrúar 1814, hófu prússar mikla skothríð á borgina og réðust svo til atlögu. Frakkar voru orðnir svo fámennir og veikir að viðnám þeirra var lítið. Prússar hertóku borgina, sem varð fyrir mikilli eyðileggingu. Á Vínarfundinum var svo úrskurðað að þessi hluti Saxlands skyldi tilheyra Prússlandi. Wittenberg varð því að prússneskri borg. Gamla kastalanum var þá breytt í herstöð og háskólinn þar sem Lúther hafði numið og kennt var rifinn. Minning Lúthers. Minnisvarðinn um Martein Lúther var afhjúpaður 1821 Prússar heiðruðu minningu Lúthers í Wittenberg. Strax 1821 var minnisvarði um Lúther afhjúpaður. 1830 var Lúthereikin plöntuð á ný, en hún hafði brunnið í síðustu bardögum. Samkvæmt sögunni átti Lúther að hafa brennt bænnfæringarskjal sitt frá páfa hjá eikinni. 1858 voru nýjar bronsdyr (Thesentür) settar á kastalakirkjuna til minningar um Lúther. 1865 var minnisvarði um Philipp Melanchton afhjúpaður, en hann var einn fremsti aðstoðarmaður Lúthers. 1892 var kastalakirkjan endurvígð, en þar hvíla báðir Lúther og Melanchton. 1922 var heiti borgarinnar opinberlega breytt í Lutherstadt Wittenberg. Nýrri tímar. Við aldamótin 1900 var iðnaður enn skammt á veg kominn í Wittenberg. Hinn mikli iðnaður sem einkenndi borgina fram að heimstyrjöldinni síðari hélt innreið sína rétt eftir aldamótin. 1935 átti sér stað stórslys er púðurverksmiðja sprakk í loft upp, en við það biðu fjölda manns bana. Arado flugvélaverksmiðjurnar voru stofnaðar 1936 og áttu að þjóna hervæðingunni. Til að viðhalda verksmiðjunum var útibú frá útrýmingarbúðunum Sachsenhausen reist við borgarmörkin og fangar látnir vinna þar. Wittenberg varð fyrir nokkrum loftárásum bandamanna, en skemmdir voru frekar litlar. 26. apríl 1945 stóðu Sovétmenn við borgardyrnar. Nasistar sprengdu þá brýrnar yfir Saxelfi og flúðu burt. Wittenberg var á sovéska hernámssvæðinu og þar af leiðandi í Austur-Þýskalandi eftir stríð. Sameining Þýskalands 1990 olli miklu atvinnuleysi í borginni, er mörg iðnfyrirtæki lokuðu. Í dag er mikil ferðamennska í kringum siðaskiptamennina Lúther og Melanchton áberandi. Byggingar og kennileiti. Kastalakirkjan. Þar hengdi Lúther upp mótmælagreinar sínar. Borgarkirkjan. Þar var nýja trúin fyrst predikuð. Sendlingur. Sendlingur (fræðiheiti: "Calidris" eða "Erolia maritima") einnig verið kallaður "selningur, fjallafæla, fjörumús" og "fjölmóði", er lítill strandfugl af snípuætt. Hann er alfriðaður á Íslandi. Einkenni. Sendlingurinn eru smávaxinn, þybbinn og fremur stuttfættur. Hann er grábrúnn á bakinu með dökkum flekkjum en að mestu hvítur að neðan. Brjóstið er með smáum daufum gráum blettum og stélið stutt og nær alveg svart. Á flugi kemur í ljós mjó hvít rönd eftir öllum vængnum aftarlega en ekki alveg aftast. Á sumrin breytir hann aðeins um lit og fær til viðbótar gulbrúna flekki á bakið. Þetta er mjög hentugur felubúningur í grýttum þangfjörum og leirum þar sem hann heldur einna helst til á veturna og eins til fjalla þar sem hann verpir á sumrin. Hann er með gulleita fætur og gulleitt nef sem dökknar að framan. Útbreiðsla. Sendlingar eru hánorrænir fuglar sem lifa víða á norðurslóðum en lítið er vitað um ferðalög þeirra milli landa. Á veturna er mikið af fuglum hér sem síðan verpa norðar og á sama tíma koma margir fuglar erlendis frá til að verpa hér. Farhættir íslenskra sendlinga eru ólíkir farháttum annarra vaðfugla og hefur hluti íslenska stofnsins hér bæði varpstöðvar og vetursetu. Sendlingarnir eru einir algengustu strandfuglar hér við land á veturna en á vorin halda þeir upp til fjalla þar sem þeir verpa. Hann er því eiginlega farfugl milli fjöru og fjalls. Í fjörunum halda þeir oft til í stórum hópum og fljúga gjarnan margir mjög þétt saman eða standa í þyrpingum í fjörunni. Sendlingurinn heldur til í fjörum um allt land allt árið um kring en síst í sandfjörum við suðurland. Hann má síðan finna á flestum stöðum til fjalla á sumrin. Í frétt frá Náttúrufræðistofnun Íslands um Sendling í vetrartalningu árið 2008 segir eftirfarandi: "„Eini vaðfuglinn sem sést í öllum landshlutum á veturna og heldur þá einkum til í þangi vöxnum klapparfjörum en einnig á leirum í góðri tíð. Er einna algengastur suðvestanlands. Alls sáust 3212 sendlingar á 60 svæðum að þessu sinni.“" Í sömu frétt segir þó að svo virðist sem vaðfuglum sem hafa hér vetursetu, þar með töldum Sendlingum, hafi fækkað jafnt og þétt síðan 2002. Virðist sú þróun hafa haldið áfram næstu árin eftir talninguna 2008. Þó er talið að fjöldi þeirra á sumrin sé um 10.000 pör, en á veturna um 10.000–100.000 fuglar. Fæða. Á veturna eru sendlingar oftast í stórgrýttum þangfjörum og þá éta þeir mest lindýr svo sem þangdoppur, mærudoppur, klettadoppur, burstaorma og marflær. En á sumrin til heiða eru það ýmis önnur smádýr eins og skordýr, pöddur, sniglar og krabbadýr. Varp. Sendlingurinn verpir í júní og eru eggin ljós á litin með dökkum flekkjum. Hann verpir aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Getur hreiðrið verið á berangri, mosabreiðum, lyngmóum eða melum, venjulega nærri vatni. Hreiðrin eru yfirleitt frekar lítilfjörleg og lítið fóðruð grunn laut á berangri, oft upp við steina eða grasþúfu. Fyrst liggja báðir foreldrarnir jafn mikið á eggjunum en smámsaman liggur móðirinn alltaf skemur og skemur á, uns karlfuglinn tekur alfarið við og sinnir hann einn ungunum. Þó tekur kvenfuglinn við ef karlfuglinn deyr og kemur ungunum niður í fjöru á haustin. Rúskinn. Rúskinn er sútað skinn með ósléttum holdrosa sem snýr út. Flestu rúskinni er það sameiginlegt að mjög erfitt er að fjarlægja úr þeim bletti, einnig regnbletti. Erfiðara er að hreinsa rúskinn, sem gert er úr svínaskinni, en annað rúskinn. Rúskinn er burstað með lónni. Húðkrabbamein. Húðkrabbamein er tegund krabbameins sem á upptök sín í húðinni. Algengustu tegundir húðkrabbameins eru: "Grunnfrumukrabbamein", Sortuæxli og "Flöguþekjukrabbamein" en tegund krabbameins fer eftir því hvaða frumur myndast í meininu. Húðkrabbamein vex hægt og ætti því að vekja upp grunsemdir. Einkenni. Húðkrabbamein eru oftast brún eða svört á litinn, en geta stundum verið rauð, húðlituð eða jafnvel hvít. Þau geta myndast út frá fæðingarblettum eða myndast á húð þar sem áður var enginn blettur. Meðal fjöldi fæðingarbletta á hverjum einstaklingi eru um 30 blettir. Sumir hafa óvenjulega bletti sem óreglulegir í laginu. Sumir þessara bletta eru líklegri til að þróa með sér krabbamein en þarf þó ekki að vera algilt. Það er því mikilvægt að láta skoða slíka bletti til að útiloka að svo sé. Orsök. Þekktasta orsök húðkrabbameina er útfjólublá geislun. Mikil útfjólublá geislun í skamman tíma í einu sem orsakar bruna eykur hættu á sortuæxli og auknum líkum á grunnfrumukrabbameini. Jöfn og stöðug geislun yfir langan tíma orsakar flöguþekjukrabbamein. Húðkrabbamein eru algengustu tegundir krabbameina en jafnframt hvað læknanlegust ef þau greinast snemma. Sortuæxli eru langalgengustu krabbamein hjá konum, frá kynþroskaaldri til 35 ára aldurs. Húðkrabbamein getur myndast út um allan líkama, jafnvel á svæðum þar sem sólin nær ekki til eins og til dæmis á kynfærasvæðum. Einnig geta þau myndast á nöglum, augum og munni. Algengast er að karlmenn fái þá á bakið en konur á fæturna Einstaklingar sem hafa sólbrunnið illa undir 20 ára aldri er frekar hætt við að fá sortuæxli síðar á ævinni. Geislaskemmdirnar safnast saman yfir æviskeið hvers og eins, allt frá barnsaldri og eiga því mikinn þátt í myndun sortuæxla. Þeir sem hafa óreglulega fæðingarbletti, sérstaklega ef um sortuæxli eru í ættinni, fá fremur sortuæxli en aðrir. Meðferð. Ef grunur leikur á að um húðkrabbamein sé að ræða eru blettirnir fjarlægðir. Oftast er notuð skurðaðgerð þar sem bletturinn er tekinn. Þótt óreglulegir fæðingablettir séu líklegri en venjulegir til að breytast í sortuæxli er það ekki algengt. Það er því óþarfi að fjarlægja alla óreglulega bletti, heldur aðeins þá sem líkjast sortuæxlum. Ef krabbameinið hefur náð niður fyrir fitulag taka við aðrar meðferðir eins og lyfja- og geislameðferðir. En það fer eftir hverju tilfelli fyrir sig. Húðkrabbamein eru sem betur fer frekar auðsjáanleg. Lækningatíðni grunnfrumukrabbameina og flöguþekjukrabbameina er um 95% þegar rétt er að farið og þau greinast snemma. Ef sortuæxli er fjarlægt þegar það er á byrjunarstigi, og það hefur vaxið grunnt niður í húðina, eru horfurnar svipaðar. Hinsvegar, ef það er ekki fjarlægt nógu snemma og nær að vaxa dýpra í húðina eða jafnvel niður í fitu þá er mun meiri hætta á að það dreifi sér í önnur líffæri og valdið lífshættulegum veikindum og jafnvel dauða! Forvarnir. Forvörnin felst aðallega í að minnka geislunaráhrif sólar og útfjólublárra geislagjafa eins og ljósabekkja. Í sólskini er þetta gert með því að nota sólarvörn sem er að minnsta kosti nr. 15 með UVB og UVA vörn, nota hatt eða skyggni og bol. Góð vörn gegn húðkrabbameini er að skoða reglulega alla bletti á líkama sínum og fara til læknis ef viðkomandi verður var við einhverja óvenjulega bletti eða breytingar á blettum. Ef þú verður var/vör við slíkar breytingar er rétt að leita til læknis sem fyrst svo að meðferð geti hafist ef um húðkrabbamein er að ræða. Hólmgarður. a> er vel varðveitt kirkja frá 11. öld og hin elsta sem sýnir upprunaleg einkenni rússneskrar byggingarlistar. Hólmgarður, Novgorod eða Velikij Novgorod – (rússneska: Великий Новгород; á íslensku: "Mikla Novgorod" eða "Mikla Nýborg") er hinn forni höfuðstaður Garðaríkis og með merkustu sögustöðum Rússlands. Borgin er á milli Moskvu og St. Pétursborgar og er 180 km suðaustur af Pétursborg við ána Volkhov sem rennur úr Ilmen-vatni. Í borginni búa nú 240 þúsund manns og er hún stjórnarsetur fyrir Novgorod-sýslu (Novgorod-oblast). Loftslag er þurrt og er meðalhiti á sumrin +25 °C og á veturna –10 °C. Fornminjar í Novgorod voru settar á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1992. Hólmgarður (gamli bærinn). "Hólmgarður" (gamli bærinn) var um 2 km sunnan við Novgorod, á austurbakka Volkhov-árinnar, þar sem hún rennur úr Ilmen-vatni. Bærinn stóð á dálítilli hæð, en í kring var votlendi sem fór í kaf í vatnavöxtum, og var þá eins og bærinn stæði á hólma. Á síðari öldum var staðurinn kallaður "Gorodisjtj", sem merkir "Gamli bærinn", eða "Gamla virkið". Í byrjun 19. aldar fóru fræðimenn að kalla staðinn "Rjurikovo Gorodisjtj" eftir hinum norræna Rúrik (Hræreki) sem uppi var 830 – 879 en honum var boðið til bæjarins til að koma þar á friði. Hann settist að í bænum og gerði hann að höfuðstað sínum. Árið 882 vann eftirmaður Hræreks, Helgi frá Hólmgarði, Kænugarð. Hólmgarður (nýi bærinn) – Novgorod. Um 950 fór að myndast umtalsvert þéttbýli við Volkhov-ána, 2 km norðan við Gamla bæinn, þar sem Novgorod er nú. Sá þéttbýliskjarni varð brátt mikilvægari í stjórnkerfi svæðisins. Árið 988 var kristin trú innleidd í Garðaríki, og ári síðar var fyrsta timburkirkjan í landinu byggð í Novgorod (Soffíukirkjan), og stofnað biskupssetur. Skömmu eftir 1015 flutti stórfurstinn Jarisleifur hinn vitri aðsetur sitt frá Gamla bænum til Novgorod og var þar þá bæði miðstöð kirkjulegs og veraldlegs valds á svæðinu. Árið 1044 var byrjað að byggja virki þar á staðnum, og varð þá Gamli bærinn smábær sem hafði ekki mikla þýðingu. Hólmgarður var mikilvæg miðstöð í viðskiptaferðum Væringja milli landanna við Eystrasalt og Miklagarðs. Fornleifarannsóknir. Fyrsta fornleifarannsókn í Gamla bænum var gerð 1901, og var haldið áfram á árunum 1910–1969, en aðeins í takmörkuðum mæli. Á árunum 1975–1989 var svo ráðist í frekari rannsóknir á vegum Rússnesku vísindaakademíunnar í Pétursborg, og fundust þá mikilvægar heimildir um hlutverk Gamla bæjarins í sögu svæðisins. Einnig hafa farið fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir í Novgorod sem hafa leitt í ljós miklar sögulegar heimildir um svæðið. Meðal þeirra eru um 750 sendibréf frá 11. – 15. öld, skrifuð með griffli eða ritstíl á birkibörk. Talið er líklegt að enn eldri bréf eigi eftir að finnast, frá því fyrir 1000. Einnig hafa fundist nokkrar rúnaristur, sem sýna tengsl við Norðurlönd. Fornminjafundir benda til þess að "Gorodisjtj" geti verið frá miðri 9. öld. Um miðja 11. öld er Novgorod orðinn þróaður miðaldabær og stjórnarsetur. Rúrik-konungdæmið hélt velli í Rússlandi í meira en 750 ár. Ísólfur Pálsson tónskáld - Í birkilaut. Ísólfur Pálsson tónskáld - Í birkilaut er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1979. Á henni flytja ýmsir sönglög eftir Ísólfur Pálsson tónskáld. Hljómplata þessi er gefin út að tilstuðlan afkomenda Ísólfs Pálssonar, tónskálds. Þuríður Pálsdóttir valdi efni og flytjendur og hafði yfirumsjón með allri hljóðritun. Hljóðritun fór fram í nóvember og desember 1978 hjá Tóntækni hf. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðritun þeirra laga þar sem leikið er á orgel fór fram í kirkju Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík. Tæknimenn: Sigurður Árnason og Pétur Steingrímsson. Ljósmynd á framhlið umslags er frá Stokkseyrarfjörunni, tekin af Haraldi Ólafssyni. Setning texta á bakhlið umslags: Prentstofan Blik hf.Litgreining og prentun umslags: Prentsmiðjan Grafík hf. Kórinn. Söngfólk í kórnum: Fremri röð frá vinstri: Ingunn Ragnarsdóttir, Þórunn Halla Guðlaugsdóttir, Kristin Sigtryggsdóttir, Ástrún Davíðsdóttlr, Sigrún Andrésdóttir, Þuríður Pálsdóttir, stjórnandi, Krystyna Cortes, undirleikari, Valgerður J. Gunnarsdóttlr, Elísabet F. Eiríksdóttir, Kolbrún H. Magnúsdóttir og Unnur Jensdóttir. Aftari röð frá vinstri: Jónína Gísladóttir, Magnús Magnússon, Kristján Sigurmundsson, Björn Björgvinsson, Ingi Vilhjálmsson, Pétur Hjálmsson, Jón Guðmundsson, Sigurður Þórðarson, Snjólfur Pálmason, Ingimar Sigurðsson, Gunnar Björnsson og Hrönn Hafliðadóttir. Auk þess voru Agnar Ástráðsson og Matthildur Matthíasdóttir í kórnum. Finnur Ingólfsson. Finnur Ingólfsson (f. 8. ágúst 1954 í Vík í Mýrdal) er íslenskur viðskiptamaður og fyrrum ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn frá 1991-1999, varaformaður hans á árunum 1998-2000 og auk þess iðnaðar- og viðskiptaráðherra á árunum 1995-1999. Finnur var skipaður seðlabankastjóri frá 1. janúar 2000 til fimm ára, en hann lét af störfum í september 2002. Þá gerðist hann athafnamaður og var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann og tók við starfi forstjóra tryggingarfélagsins VÍS. Ævi. Finnur var aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, 1983-1987. Aðstoðarmaður Guðmundar Bjarnasonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1987-1991. Finnur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1984. Finnur var kosinn á þing í alþingiskosningunum 1991 og sat í tvö kjörtímabil til 1999. Hann var skipaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra í Einkavæðingarstjórninni. Finnur varð fyrir töluverðri gagnrýni snemma árs 1998, er hann var viðskiptaráðherra, vegna Lindarmálsins svokallaða. Það snérist um fjármögnunarfyrirtækið Lind hf. sem að Landsbanki Íslands, sem þá var í ríkiseigu, tapaði talsverðum fjármunum á. Meðal annars var að því látið liggja að Finnur hefði veitt Alþingi rangar upplýsingar vísvitandi. Finnur yfirgaf Seðlabankann og tók við starfi forstjóra tryggingarfélagsins VÍS í lok árs 2002. Ráðning Finns til VÍS var umdeild. Bogi Pálsson, þáverandi forstjóri P. Samúelssonar, sagði sig úr stjórn VÍS og útskýrði ákvörðun sína við blaðamann Morgunblaðsins þannig „að aðferðafræðin við ráðningu nýs forstjóra hefði ráðið mestu um“. Í fréttaskýringu Sigríðar Daggar Auðunsdóttur í Fréttablaðinu frá maí 2005 er sagt að Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, hafi ráðið mestu um að Finnur hafi tekið við af Axel Gíslasyni sem forstjóri VÍS. Finnur hefur einnig komið að rekstri fyrirtækja eins og bifreiðarskoðunarfyrirtækinu Frumherja. Lúðvík Jósepsson. Lúðvík Aðalsteinn Jósepsson (f. í Nesi í Norðfirði 16. júní 1914, d. 18. nóvember 1994) var íslenskur stjórnmálamaður, hann var þingmaður Alþýðubandalagsins og formaður flokksins árin 1977-1980. Hann var sjávarútvegsráðherra árin 1956-1958 og svo 1971-1974. Ævi. Lúðvík lauk gagnfræðiprófi á Akureyri árið 1933. Hann starfaði sem kennari við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1934—1943. Hann starfaði við útgerð árin 1944 til 1948 og því næst sem forstjóri Bæjarútgerðar Neskaupstaðar til ársins 1952. Stétt. Stétt er hugtak sem vísar til lagskiptingar eða stigveldis samfélaga eftir efnahag fólks eða stöðu þeirra sem ákvarðast af tengslum innan samfélagsins. Mikið er deilt um skilgreiningu hugtaksins. Í hinu áhrifamikla Kommúnistaávarpi (1848) eftir Karl Marx og Friedrich Engels er því haldið fram að saga mannkyns snúist um stéttabaráttu kapítalista og öreiga. Þótt að Marx sé eignaður heiðurinn að hafa fyrstur manna skrifað um stéttir er hugtakið sjaldnast notað í þeim skilningi sem hann átti við lengur. Annar félagsfræðingur, Max Weber, bætti við fleiri víddum þ.e. hann sagði efnahagslega stöðu manna eina ekki ráða stéttarstöðu þeirra. Fleira kæmi til, nefnilega völd og virðing. Skyndibiti. Skyndibiti er smáréttur sem er matreiddur á einfaldan hátt, seldur tilbúinn og oftast snæddur án hnífapara, þ.e. stýfður úr hnefa. Skyndibiti er t.d. hamborgari, pylsa, kebab og í sumum tilfellum pizza. Skyndibitamatur er mishollur, en oftast er hann fitandi og óhollur. Sumir grænir veitingastaðir hafa tekið upp á því að selja fljótlega og holla rétti, og bera fram sem skyndibita. Venjulegir skyndibitastaðir eru staðsettir í alfaraleið. Rón. Rón (franska: "Rhône") er ein af meginám í Evrópu og rennur í gegnum Sviss og Frakkland. Árið 2008 fundu fornleifafræðingar sem höfðu verið að kafa í ánni Rón, brjóstmynd af Júlíusi Sesari. Hún er talin elst þeirra brjóstmynda sem til eru af honum. Stríðið gegn hryðjuverkum. Stríðið gegn hryðjuverkum er hugtak sem notað er yfir hinar ýmsu hernaðaraðgerðir, aðgerðir stjórnvalda og lagabreytingar sem Bandaríkjastjórn og önnur ríki hafa farið í sem svar við hryðjuverkaárásum á Bandaríkin 11. september 2001. Bandaríkjastjórn segir að með þessum aðgerðum sé reynt að koma í veg fyrir frekari hryðjuverkaárásir og útrýma alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum eins og Al-Kaída. Stríðið gegn hryðjuverkum hefur verið mjög umdeilt og finnst gagnrýnendum að það hafi verið notað til þess að réttlæta mannréttindabrot, brot á alþjóðalögum og fyrirbyggjandi stríð. Alvar Aalto. Hugo Alvar Henrik Aalto (3. febrúar 1898 – 11. maí 1976) var arkitekt og húsgagnahönnuður frá Finnlandi sem teiknaði meðal annars Norræna húsið í Vatnsmýrinni í Reykjavík. External links. Aalto, Alvar Walter Gropius. Walter Gropius (18. maí 1883 – 5. júlí 1969) var arkitekt frá Þýskalandi. Hann var stjórnandi Bauhaus skólans á árunum 1919 til 1928 og var ásamt Le Corbusier og Ludwig Mies van der Rohe frumkvöðull í nútímabyggingarlist. Lífsstílssjúkdómar. Lífstílssjúkdómar (einnig nefndir langlífissjúkdómar og menningarsjúkdómar) eru þeir sjúkdómar sem virðast verða algengari eftir því sem samfélög verða þróaðri og fólk lifir lengur. Meðal þeirra eru alzheimer, æðakölkun, krabbamein, skorpulifur, langvinn lungnateppa, sykursýki tvö, hjartveiki, nýrnabólga eða langvinn nýrnabilun, beinþynning, arta, slag, þunglyndi og offita. Talið er að mataræði, lífstíll og húsnæði hafi áhrif á tíðni þessara sjúkdóma. Reykingar, neysla áfengis og fíkniefna og skortur á hreyfingu kunna einnig að auka líkurnar á tilteknum sjúkdómum síðar á ævinni. Mataræði. Mataræði er allur sá matur sem lífvera neytir. Orðið er einkum notað í tengslum við þær venjubundnu ákvarðanir sem fólk tekur um hvað það borðar. Þótt menn séu alætur þá hafa matarhefðir, trúarbrögð og siðferði mikil áhrif á mataræði fólks. Það mataræði sem fólk kýs sér getur verið hollt eða óhollt út frá því sjónarmiði að einstaklingurinn fái næga næringu; bætiefni, steinefni og eldsneyti, í formi matar. Mataræði er talið hafa umtalsverð áhrif á breytileika langlífi og tíðni vissra sjúkdóma milli ólíkra samfélaga. Hefðbundið mataræði. Hefðbundið mataræði byggist yfirleitt á staðbundinni matvælaframleiðslu, t.d. sjávarfang við sjávarsíðuna og landbúnaðarafurðir til sveita. Í sumum tilvikum eru þær tegundir jurta og dýra sem voru uppistaðan í staðbundnum mat, ekki lengur til þar sem afkastameiri tegundir hafa tekið yfir markaði. Samtök eins og t.d. "Slow Food"-hreyfingin reyna að vinna gegn þessari þróun og endurheimta eða varðveita staðbundnar tegundir sem eru uppistaðan í hefðbundnu mataræði. Einstaklingsbundið mataræði. Margt fólk takmarkar þann mat sem það borðar af ýmsum ástæðum, svo sem vegna heilsufars, siðferðis, umhverfisáhrifa og annarra þátta sem mataræði hefur áhrif á. Á Vesturlöndum er algengt að fólk taki ákvörðun um að forðast dýraafurðir í einhverjum mæli (sbr. grænmetisfæði, ávaxtafæði o.s.frv.) eða jafnvel halda sig frá tilteknum matreiðsluaðferðum (sbr. hráfæði). Megrunarfæði er sérstakt mataræði sem er hugsað sem liður í þyngdarstjórnun, venjulega í tengslum við aukna hreyfingu. Karnabær. Karnabær var tískuverslun og hljómplötuverslun í Austurstræti 22 í Reykjavík. Búðin opnaði 16. maí 1966 og var rekin af Guðlaugi Bergmann. Búðin hét í höfuðið á Carnaby Street í Soho í London þar sem helstu tískuverslanir módisma- eða bíttískunnar voru á 7. áratugnum. Eftirmáli. Eftirmáli er niðurlagsorð á eftir bókmenntaverki, leikverki og er stundum notað sem stílbragð í kvikmyndum. Eftirmáli í bókmenntum er oftast um höfund þess, verkið sjálft og það tímabil sem það er sprottið úr. Eftirmáli í leikritum og kvikmyndum er með öðrum hætti, er einhverskonar niðurlag á því verki sem það fylgir, og segir annaðhvort af högum persóna eftir að sagan er fullsögð eða er lokahnykkurinn á verkinu sjálfu. William Shakespeare skrifaði oft eftirmála í lok leikverks, og er hann oftast fluttur af einni persónu verksins, sbr. í Rómeo og Júlíu. Varast ber að rugla saman eftirmála í ofangreindri merkingu við "eftirmál" í merkingunni eftirköst, afleiðing. Eftirmál er hvorkynsorð (og oftast haft í fleirtölu) (dæmi: "sem betur fer urðu engin eftirmál vegna atburðanna"), en eftirmáli karlkyns orð (dæmi: "vandaður eftirmáli var í bókarlok"). Matarsjúkdómur. Matarsjúkdómur er safnheiti yfir hvers kyns sýkingar og eitranir sem smitast við neyslu mengaðra matvæla. Hugtakið nær því yfir matareitranir, matarsýkingar og eitranir af völdum aðskotaefna í matvælum. Orsök og eftirlit. Grunnorskök matarsjúkdóma er venjulega óviðeigandi vinnsla, geymsla eða matreiðsla matvæla. Hreinlæti og réttar geymsluaðstæður, allt frá öflun að neyslu matvæla, draga úr hættunni á matarsjúkdómum. Reynt er að tryggja mataröryggi með markvissu eftirliti með matvælum. Fyrirtæki í matvælaiðnaði leggja að jafnaði mikið upp úr innra eftirliti, en að auki sinnir Matvælastofnun ásamt heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga matvælaeftirliti. Matareitrun "vs." matarsýking. Í matvælafræði og örverufræði er gerður greinarmunur á matarsjúkdómum eftir því hvort sjúkdómseinkennin eru kölluð fram af vexti og viðgangi sýkils í sjúklingi eftir neyslu sýklamengaðra matvæla (matarsýking'") eða af eiturefnum ("toxínum") sem sýkillinn framleiðir og skilur eftir sig í menguðu matvælinu jafnvel þó það sé hreinsað af sjálfum sýklinum (matareitrun'"). Eitranir geta einnig hlotist af neyslu matvæla sem menguð eru af skordýraeitri, illgresiseyðum og öðrum viðbættum eiturefnum, svo og af náttúrulegum eiturefnum eins og finnst í eitursveppum og sumum tegundum fiska og lindýra. Algengir matarsýklar. Bakteríur eru trúlega algengustu orsakavaldar matarsjúkdóma, bæði matarsýkinga og matareitrana. Á vefsíðum Matvælastofnunar og Landlæknis má finna tölur um algengi og matvælasmit nokkurra algengra matarsýkjandi baktería. Úteitur. Sumar bakteríur geta valdið matareitrunum í stað eða auk matarsýkinga. Þessar bakteríur mynda svokölluð úteitur ("exótoxín") sem þær seyta út í umhverfi sitt. Eiturefni þessi geta því framkallað sjúkdómseinkenni þrátt fyrir að bakteríunni sjálfri sé eytt fyrir neyslu. Matareitrunar verður venjulega vart fáeinum klst. eftir neyslu mengaðra matvæla (samanborið við um hálfan sólarhring í tilviki matarsýkinga). Hollustufæði. Ferskt grænmeti er oft ráðlagt sem uppistaða í hollustufæði. Hollustufæði eða heilsukostur er matur sem miðar að því að viðhalda góðri heilsu. Venjulega felur þetta í sér að sá sem neytir þess fái hæfilegan skammt næringarefna ef hann borðar mat úr öllum helstu fæðuflokkum og í réttum hlutföllum, þar með talið nægilegt magn vatns. Þar sem næringarsamsetning mannsins er flókin þá getur hollt mataræði verið breytilegt eftir arfgerð einstaklinga, umhverfi og heilsu. Um 20% mannkyns þjást af vannæringu vegna skorts á matvælum. Í þróuðum ríkjum er vandamálið hins vegar offita sem stafar af röngu mataræði og ofneyslu. Matarfræði. Matarfræði eða matreiðslufræði fæst við rannsóknir á sambandi menningar og matar. Rannsóknir á matarlist og matargagnrýni eru hluti matarfræði sem felst í því að smakka, prófa, rannsaka, skilja og skrifa um mat. Fyrsta formlega matarfræðiritið er líklega "La Physiologie du Goût" („Eðli bragðsins“) eftir franska lífsnautnamanninn Jean Anthelme Brillat-Savarin frá 1825. Ólíkt hefðbundum matreiðslubókum fjallar hún um samband skilningarvitanna og matar. Matvælafræði. Matvælafræði er vísindagrein sem fjallar um öll tæknileg atriði í tengslum við matvæli, frá slátrun eða uppskeru að matreiðslu og neyslu. Matvælafræði er stundum skilgreind sem undirgrein búfræði og er venjulega aðgreind frá næringarfræði. Matvælafræðingar fást meðal annars við þróun matvæla, þróun framleiðsluaðferða í matvælaframleiðslu, þróun matarumbúða og rannsóknir á geymsluþoli matvæla. Næringarfræði. Næringarfræði er vísindagrein innan heilbrigðisvísinda og náttúruvísinda og snýst hún um rannsóknir á tengslum næringar og heilsu og fjallar um næringarefna í líkama mannsins. Matreiðslubók. Matreiðslubók er bók sem inniheldur mataruppskriftir og ráðleggingar um matreiðslu. Matreiðslubækur fjalla líka oft um uppruna matar, ferskleika, val á hráefni og gæði. Matarofnæmi. Matarofnæmi er ónæmissvörun við tilteknum tegundum prótína sem finnast í mat. Matarofnæmi lýsir sér sem fæðuóþol (t.d. mjólkuróþol), lyfjafræðileg viðbrögð (t.d. koffíneitrun) og eitrunarviðbrögð (t.d. matareitrunarviðbrögð vegna örvera). Algengustu matarofnæmi hjá fullorðnum eru skelfisksofnæmi, jarðhnetuofnæmi, hnetuofnæmi, fiskofnæmi og eggjaofnæmi. Algengustu ofnæmisvaldar hjá börnum eru mjólk, egg, jarðhnetur og hnetur. Afleiðing. Afleiðing er eitthvað sem hlýst af orsök, og er í daglegu máli venjulega haft um eitthvað neikvætt. Það er þó ekki einhlýtt. Að öllu jöfnu má segja að ef orsökin „gerist“, þá „gerist“ afleiðingin líka. Fiskeldi. Fiskeldi er oft notað sem samheiti yfir enska orðið "aquaculture", þó í raun eigi það betur við eitt form þess ("e. fish farming"). Þó er samkvæmt íslenskum lögum fiskeldi skilgreint sem geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni. Menn hafa alið vatnadýr frá örófi alda, þar með talið fiska, lindýr, krabbadýr og plöntur. Árið 2006 var heildarframleiðsla í heiminum (veiddur afli og ræktaður, að plöntum undanskildum) um 140 milljón tonn, og þar af stendur fiskeldi undir um 35% framleiðslunnar. Ef aðeins er skoðaður hlutinn er fer beint til manneldis, breytist þetta hlutfall í hátt í 50%. Mikil aukning hefur átt sér stað í fiskeldi í heiminum og eru eldisafurðir nú algengar og áberandi á alþjóðlegum mörkuðum. Eldisafurðir eru í beinni samkeppni við afurðir frá hefðbundnum fiskveiðum. Stríðeldi og strjáleldi. Hægt er að skipta fiskeldisframleiðslu gróflega í þrjá hluta; strjáleldi, hálf-stríðeldi og stríðeldi. Strjáleldi ("e. extensive") fer yfirleitt fram í meira eða minna tilbúnum jarðtjörnum eða lónum af ýmsum stærðum. Það er algengasta eldisformið í heiminum, einkum í heitari löndum. Strjáleldi byggir á að skapa eldistegund rétt umhverfisskilyrði, en lífveran er síðan látin sjálfala að miklu eða öllu leyti, þar til sláturstærð er náð. Fiskinum er ætlað að éta dýrasvif og plöntur sem vaxa í tjörninni. Mikilvægt að hlutfall stofnstærðar lífveru (upphafsfjöldi) og fæðuframboðs í vatninu sé rétt. Hálf-stríðeldi ("e. semi-intensive") er nokkurs konar strjáleldi, en þó er reynt að örva og auka framleiðsluna með fóðrun og umhverfisbætandi aðgerðum. Þá er fóðrað með tilbúnu fóðri eða úrgangi (t.d. afskurði eða jafnvel plöntum). Einnig gæti verið reynt að hafa áhrif á stofnstærð eða samsetningu í eldinu. Í stríðeldi ("e. intensive") er fjölda lífvera haldið þétt saman á tiltölulega afmörkuðu svæði (kerum/ kvíum o.s.frv.). Þar er reynt að aðlaga umhverfið að þörfum tegundarinnar og nýta það sem best. Reynt er að örva vöxt með fóðurgjöf og öðrum aðgerðum til að keyra framleiðsluna áfram. Þessi leið er gríðarlega kostnaðarsöm og orkuþörfin er mikil, öfugt við strjáleldi. Eineldi og fjöleldi. Eineldi ("e. monoculture") er þegar eingöngu ein tegund lífveru er alin í sömu eldiseiningu. Þetta er algengasti mátinn á Íslandi og í öðrum þróuðum löndum, og er yfirleitt notaður í stríðeldi. Þessi leið er kostnaðarsöm og gríðarlega tímafrek þar sem stjórnunin er mikil. Helsta ógnin eru sýkingar þar sem lífverurnar lifa oft mjög þétt og umhverfið veldur stressi. Fjöleldi ("e. polyculture") er algengast í jarðtjörnum eða í strjáleldi. Þar eru tvær eða fleiri tegundir aldar saman í sömu eldiseiningunni. Þá er t.d. ein tegund sem étur úrgang annarrar eða rántegund sem heldur földa annarrar tegundar í skefjum. Einnig hefur færst í vöxt að blanda saman fiskeldi og plönturækt. Fiskurinn bætir næringarefnum í eldisvatnið sem nýtt er á plönturnar. Mataröryggi. Mataröryggi er tryggt þegar matur er meðhöndlaður, matreiddur og geymdur þannig að hættan á matarsjúkdómum er í algjöru lágmarki. Trygging mataröryggis felst í því að fylgja venjubundnum eða stöðluðum verkferlum til að forðast heilsutjón neytandans. Matur getur borið sjúkdóma milli manna auk þess að vera gróðrarstía fyrir örverur sem geta valdið matareitrun. Forseti Frakklands. Forseti lýðveldisins Frakklands (franska: "Président de la République française"), í daglegu máli forseti Frakklands, er þjóðhöfðingi Frakklands. Það er elsta forsetaembætti Evrópu sem er til í dag, þ.e.a.s. hafa haft fimm af fjórum lýðveldum Frakklands forseta. Forsetinn hefur verið François Hollande síðan 15. maí 2012. BBC BASIC. BBC BASIC var hannað árið 1981 sem forritunarmál fyrir MOS Technology 6502-byggðu Acorn BBC Micro-einkatöluna, aðallega af Roger Wilson. Það var útgáfa af BASIC forritunarmálinu notuð í bresku tölvukunnáttuverkefni hjá BBC. Tvíhljóð. Tvíhljóð eru tegund sérhljóða sem gerð eru úr tveimur einhljóðum, sem borin eru fram hvort í sínu lagi í röð sem gerir það að verkum að hljóðið breytist frá upphafi til enda. Tvíhljóð hefst á sérhljóða en lýkur ei fyrr en talfærin hafa hreyfst og myndað nýtt sérhljóð, fyrra sérhljóðið er ávallt fjarlægara en það seinna. Tvíhljóðar í íslensku. Tvíhljóð í íslensku eru fimm talsins: "æ", "ei/ey", "au", "á" og "ó". Óhefðbundin tvíhljóð. Kom hér fram áður að tvíhljóðin væru aðeins 5, en þá er aðeins átt við hin hefðbundnu tvíhljóð, þ.e.a.s. þau tvíhljóð sem hafa ákveðið rittákn. Dæmi um óhefðbundin tvíhljóð. Ö-ið í lögin. Þar er Ö borið fram sem au [øy]/[øi]. A-ið í lagið. Þar er A borið fram sem æ [ai]. Guðbrandsdalur. Guðbrandsdalur (norska: "Gudbrandsdalen") er 200 km langur dalur í austur Noregi, nánar tiltekið í Upplöndum. Í gegnum Guðbrandsdal rennur Lögurinn ("Gudbrandsdalslågen"). Georges Clemenceau. Georges Benjamin Clemenceau (28. september 1841 – 24. nóvember 1929) var franskur stjórnmálamaður, læknir og blaðamaður. Hann var forsætisráðherra Frakklands 1906-1909 og 1917-1920. Hann beitt sér m.a. fyrir sýknun Alfreds Dreyfusar og var óbilgjarnastur leiðtoga Bandamanna í garð Þjóðverja við gerð Versalasamninganna. Hann var stundum kallaður "Tígrisdýrið". Spákvistur. Spákvistur er klofin trjágrein, eða hlutur sem myndar tvö horn (Y-laga), sem samkvæmt þjóðtrú getur vísað á vatn, eðalsteina eða málm í jörðu. Jónmundur Halldórsson. Séra Jónmundur Halldórsson (4. júlí 1874 – 9. júlí 1954) var þekktur prestur á Stað í Grunnavík, tröllvaxinn og allsérstakur persónuleiki. Af honum segir t.d. í ritum Vilmundar Jónssonar, landlæknis og í bók hins sænska myndlistamanns og rithöfundar Alberts Engström: "Til Heklu". Jónmundur fæddist að Götuhúsum á Akranesi. Foreldrar hans voru "Halldór Jónsson" og "Sesselja Gísladóttir". Jónmundur Halldórsson útskrifaðist úr Latínuskólanum árið vorið 1896. Um haustið settist hann í Prestaskólann, þaðan sem hann útskrifaðist, kandídat í guðfræði, aldamótaárið 1900. Þann 25. september sama ár gekk hann að eiga "Guðrúnu Jónsdóttur" frá Eyrarkoti í Kjós. Í október sama ár vígðist hann aðstoðaprestur til sr. Helga Árnasonar í Ólafsvík og voru vígslubræður hans sr. Ólafur Briem, síðar prestur að Stóra-Núpi og æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi K.F.U.M og K. Tveimur árum síðar fékk sr. Jónmundur veitingu fyrir Barði í Fljótum þar sem hann gerðist umsvifamikill bóndi og félagsmálamaður. Stofnaði m.a. pöntunarfélag, er hann stjórnaði um skeið. Árið 1915 var honum veitt Mjóafjarðarprestakall eystra, þar sem hann sat til ársins 1918. Í Mjóafirði stundaði hann sjóróðra, ásamt búskapnum. sr. Jónmundur undi sér ekki lengi eystra og sótti því um Staðarprestakall í Grunnavík, sem hann fékk veitingu fyrir vorið 1918. Þar var hann einnig um langt skeið í hreppsnefnd og oddviti, skólanefndarmaður og sat í sýslunefnd í áratugi og var einnig kennari um skeið. Séra Jónmundur lést 5 dögum eftir áttræðisafmæli sitt. Loftbelgur. Loftbelgur er tvískipt loftfar: belgur sem er fylltur gasi (eðlisléttara en loft) til að hann takist á loft og undir honum er karfa, oft úr basti eða léttu efni, sem er fest við belginn með stögum. Áður var um tíma notað gas í loftbelgjum og loftskipum, eins og vetni, sem er eldfimt eða helín, sem er dýrt, en nú er oftast notað heitt loft, eins og í fyrsta loftbelgnum. Menn flugu í loftbelgjum og loftskipum löngu áður en flugvélar voru fundnar upp en eftir 1930 urðu miklar framfarir í flugvélum og smám saman gleymdust loftbelgirnir. En nú eru loftbelgir aftur orðnir vinsælir í flugi til dægrastyttingar. Montgolfierbræðurnir. Frönsku bræðurnir Josep og Jaques Montgolfier bjuggu til fyrsta loftbelginn sem fólk gat ferðast með. Fyrsta flug hans var í París 21. nóvember 1783, 120 árum áður en Wrightbræðurnir flugu fyrstir manna flugvél, sem þeir smíðuðu. Belgir með heitu lofti. Belgir með heitu lofti eru gerðir úr næloni og í þeim hangir tágakarfa. Belgirnir geta verið alla vega í laginu. Mikið af heitu lofti þarf til að fylla belginn. Það fæst með því að brenna gasi sem heitir própan og er það geymt í formi vökva í málmhylkjum sem flutt eru í körfunni. Hitamælir. Hitamælir er tæki notað til að mæla hita. Algengustu hitamælar áður fyrr notuðu hitaþenslu kvikasilfurssúlu, en nú er algengast að nota hitanema úr hálfleiðurum. Handayfirlagning. Handayfirlagning eða handaálagning er sú athöfn að blessa eða lækna með því að leggja hönd yfir höfuð þess sem óskar blessunar eða er veikur. Þeir menn sem hlutu handayfirlagningu til blessunar fengu hana oft jafnframt með ósk um lækningu á einhverjum tilteknum sjúkdómi. Játvarður góði. Í næstum sjö aldir læknuðu Englandskonungar með handayfirlagningu. Það var Játvarður góði er fyrstur hóf þessar lækningar, en hann sat að völdum 1042-1066. Svo virðist sem hann hafi læknað alls konar sjúkdóma. Sagt er að hann hafi einu sinni borið lamaðan sjúkling á bakinu til kirkjunnar í Westminster, og þegar þangað kom hafi sjúklingurinn verið albata. Margar sögur ganga af lækningum hans, og sagt er að hann hafi arfleitt afkomendur sína að lækningamætti sínum. Það var þó aðallega kirtlaveiki (eitlakröm), sem þeir læknuðu og þess vegna var hún um langt skeið nefnd konungsveiki (enska: "King's Evil") í Englandi. Brenda Song. Brenda Song (f. 27. mars 1988 í Kaliforníu) er bandarísk leik- og söngkona. Brenda ákvað að fara í leiklist eftir að móðir hennar og og hvöttu hana til þess, en systir hennar er einnig leikkona. Brenda varð fyrst fræg þegar hún lék í þáttunum um The Suite Life sem skart Sprouse tvíburunum, en þeir voru óhemju vinsælir á meðal yngri áhorfenda. Alla tíð hefur systir hennar Mia Song verið fyrirmynd hennar. Árið 2003 lék hún eitt af 12 börnum í myndinni College Road Trip, en í henni fór Martin Lawerance með aðalhlutverkið. Hún hefur einnig leikið í myndunum Ultimate Christmas Present, Stuck In The Suburbs, Get A Clue, Like Mike og. Fyrsta kvikmynd sem Brenda lék í var True Woman, en í henni fór Angelina Jolie með stórt hlutverk. Brenda var aðeins tíu ára gömul þá. Brenda hefur leikið mjög mikið af aukahlutverkum í sjónvarpsþáttum m.a. George Lopez og Fraiser. Þegar hún kom fyrst fram í sjónvarpi var hún sjö ára en þremur árum seinna byrjaði hún að leika í kvikmyndum. Hún hefur skapað sína eigin fatalínu sem fékk nafnið og er til sölu í Target verslunum. Baglar. Baglar voru flokkur stuðningsmanna kirkjunnar í Norska innanlandsófriðnum 1130 til 1240. Flokkurinn var stofnaður af Nikulási Árnasyni biskupi, hálfbróður Inga krypplings, árið 1196. Markmiðið var að styðja Inga baglakonung, sem sagður var sonur Magnúsar Erlingssonar, sem konungsefni gegn Sverri Sigurðssyni sem hafði verið krýndur tveimur árum fyrr með fulltingi birkibeina. Flestir baglar komu úr Víkinni og voru kirkjunnar menn, landeigendur og kaupmenn. Árið 1194 bannfærði kirkjan Sverri konung og biskupar landsins yfirgáfu það. Við lát Sverris 1202 sneru biskuparnir aftur heim og stuðningur við bagla þvarr, en eftir lát síðasta beina afkomanda Sverris sem vitað var um, Guttorms, fylktu baglar sér á ný um meintan son Magnúsar Erlingssonar, Erling steinvegg, en birkibeinar tóku Inga Bárðarson til konungs. 1204 gerðu baglar innrás í Noreg og lögðu Víkina undir sig með aðstoð Valdimars sigursæla Danakonungs. Átök milli bagla og birkibeina stóðu til ársins 1208 þegar biskupunum tókst að semja um frið í Hvítingsey. Þá var Erlingur látinn og baglar höfðu tekið Filippus, systurson Inga krypplings og Nikulásar Árnasonar, til konungs. Þegar Ingi Bárðarson og Filippus baglakonungur dóu báðir 1217 tókst Skúla jarli að fá bagla til að samþykkja konungsefni birkibeina, Hákon, og leysa flokkinn upp. Andstaða við Hákon konung kom upp síðar í kringum Sigurð ribbung, son Erlings steinveggs, og var sá flokkur kallaður ribbungar. Gulaþingslög. Gulaþing. Lengst af var Gulaþingið haldið í Eivindvík við Gulafjörðinn, sunnan við mynni Sognsfjarðar. Síðar var þingið flutt til Björgvinjar. Gulaþingslögin fornu. Gulaþingslög eru nefnd í Íslendingabók Ara fróða. Þar segir að þegar Íslendingar settu þing sitt á Þingvelli, hafi þeir sniðið lög sín eftir því sem þá voru "Golaþingslög". Íslenska löggjöfin þróaðist síðan á eigin forsendum, og varð að lagabálki þeim sem kallast Grágás. Gulaþingslögin fornu eru til í einu heillegu skinnhandriti, í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn (frá því um 1250), og auk þess eru til brot úr nokkrum skinnhandritum, þau elstu frá síðari hluta 12. aldar. Brekkugoði. Brekkugoði (fræðiheiti: "Adonis pyrenaica") er skrautjurt af sóleyjaætt sem upprunnin er í Evrópu. Pandabjörn. Pandabjörn eða risapanda (fræðiheiti: "Ailuropoda melanoleuca"), til aðgreiningar frá rauðu pöndunni, er spendýr sem tilheyrir ætt bjarndýra ("Ursidae") og á heimkynni sín í Miðvestur- og Suðvestur-Kína. Tegundin er auðþekkt á stórum svörtum skellum í kringum augun, yfir eyrum og um miðjan líkamann. Þótt pandabjörninn tilheyri hópi rándýra nærist hann nær eingöngu á bambus. Pandabjörninn étur líka hunang, egg, fisk, appelsínur og banana ef slíkt er innan seilingar. Pandabjörninn lifir í fjallendi um miðbik Kína, það er í Sichuan, Shaanxi, og Gansu. Hann lifði eitt sinn á láglendinu en maðurinn hefur, með landbúnaði, eyðileggingu skóglendis og stækkandi byggð, þvingað hann til að lifa einungis í fjöllunum. Pandabjörninn er í útrýmingarhættu af mannavöldum. Samkvæmt skýrslu sem kom út árið 2007 var 239 risapöndum haldið föngnum í Kína auk 27 utan Kína. Talið er að á bilinu 1.500-3.000 risapöndur lifi í náttúrunni. Amúrhlébarði. Amúrhlébarði (fræðiheiti: "Panthera pardus orientalis" eða "Panthera pardus amurensis") er sjaldgæfasta undirtegund hlébarða í heiminum. Talið er að 25 til 34 einstaklingar finnist í náttúrunni. Hlébarðinn lifir í Síberíu og hefur nánast verið útrýmt af mönnum með veiðum og eyðileggingu skóglendis. Hjartartré. Hjartartré (fræðiheiti "Cercidiphyllum japonicum") er tré af ættinni Cercidiphyllaceae sem upprunalega kemur frá Japan, Kóreu og Kína. Hjartartré getur orðið 45 metrar að hæð og er ein af stærstu harðviðartegundum í Asíu. Það er ræktað sem skrauttré í görðum vegna útlits og fallegra rauðra haustlita. Maígull. Maígull (fræðiheiti: "Chrysosplenium alternifolium") er lítill fjölær jurt af steinbrjótsætt. Hófsóley. Hófsóley eða lækjasóley (fræðiheiti: "Caltha palustris" eða "Trollius paluster") er fjölær jurt með hóflaga blöðkum og gulum blómum. Engin bikarblöð eru á blómum. Nokkrar frævur verða að belghýðum sem hver hefur nokkur fræ. Hún vex í rökum jarðvegi og myndar þéttar þúfur. Hófsóley inniheldur eiturefni svo dýr forðast að éta hana. Útbreiðsla á Íslandi. Hófsóley er algeng á láglendi á Íslandi og vex í mýrum, vatnsfarvegum, keldum og meðfram lygnum lækjum. Hófsóley finnst stundum í 300 til 400 metra hæð inni á heiðum og vex jafnvel enn hærra þar sem jarðhiti er eins til dæmis í 600 metra hæð á Hveravöllum og í Landmannalaugum. Landmannalaugar. Landmannalaugar er íslensk laug og vinsæll ferðamannastaður á Fjallabaksleið nyrðri austur af Heklu. Vegur þangað er aðeins fær að sumarlagi. Mikill jarðhiti er í Landmannalaugum og vinsæl náttúruböð. Jarðhitinn tengist einu mesta háhitasvæði landsins, Torfajökulssvæðinu. Landmannalaugar eru rómaðar fyrir náttúrufegurð og litríkt berg, þar er mikið um líparít og líparíthraun, hrafntinnu o. fl. Vinsæl gönguleið Laugavegurinn liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Vanalegt er að ganga þá leið á fjórum dögum en stundum er bætt við ferð allt til Skóga yfir Fimmvörðuháls milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Ferðafélag Íslands rekur skála í Landmannalaugum og þar er skálavörður að sumri. Ferðafélagið reisti fyrst sæluhús í Landmannalaugum árið 1951 en núverandi hús er að stofni til frá 1969. Það stendur í um 600 metra hæð við jaðar Laugahrauns og þar nálægt eru heitar uppsprettur sem vinsælar eru til baða. Hraun (matur). Hraun er gamall íslenskur matréttur sem gerður var úr beinum af stórgripum, einkum úr ganglimum og höfuðbeinum. Kjötið var grófskorið af beinunum og þau síðan léttsöltuð, reykt eða jafnvel kæst. Eftir það voru hraunin soðin og kjötið etið af þeim. Afrennsli af kæstum hraunum, hraunaflot, þótti ágætt viðbit. Kæst hraun voru algengust á Suður- og Suðausturlandi, einkum í Skaftafellssýslum. Heimildir. Hallgerður Gísladóttir. "Íslensk matarhefð". Mál og menning, Reykjavík, 1999. Blóðrifs. Blóðrifs (fræðiheiti: "Ribes sanguineum") er rifsrunni með rauðum hangandi blómklösum. Heiðagullhnappur. Heiðagullhnappur (fræðiheiti: "Trollius ranunculinus") er blóm af sóleyjaætt. Engjagullhnappur. Engjagullhnappur (fræðiheiti: "Trollius laxus") er blóm af sóleyjaætt. Asíugullhnappur. Asíugullhnappur (fræðiheiti: "Trollius asiaticus") er blóm af sóleyjaætt. Brekkugullhnappur. Brekkugullhnappur (fræðiheiti: "Trollius altaicus") er blóm af sóleyjaætt. Skógarlyngrós. Skógarlyngrós (fræðiheiti: "Rhododendron oreodoxa var. fargesii") er sígrænn runni. Tegundin er upprunnin í Vestur-Kína. Latneska heitið oreodoxa er samsett ur oreos sem þýðir fjall og doxa sem þýðir prýði eða sómi. Skógarlyngrós getur orðið allt að 3 - 4 metra hár runni. Blómin eru rauðbleik en lýsast svo upp. Skógarlyngrós þroskar fræ á Íslandi. Heimildir. Skógarlyngrós í blóma í Grasagarði Reykjavíkur. Runninn er um 2 metra hár. Rósakirsiber. Rósakirsiber (fræðiheiti: "Prunus nipponica v. kurilensis") eða Kúrileyjakirsi er lítill runni eða tré ættað frá Japan. Laufblöð eru öfugegglaga, langydd, dökkgræn.Blómin eru ljósbleik í 1-3 blóma sveiplaga blómskipun og eru blómstilkar allt að 3 sm. Kúrileyjakirsi ("var. kurilensis") hefur reynst harðgert í Reykjavík. Súrsmæra. Súrsmæra (fræðiheiti: "Oxalis acetosella") er jurt af sem er algeng í Evrópu og hluta af Asíu. Hún er afar sjaldgæf á Íslandi og er friðuð samkvæmt náttúruverndarlögum. Súrsmæra blómstrar á vorin. Blónin eru lítil og hvít á lit með bleikum taumum. Jurtin er súr á bragðið. Blöðin minna á blöð hvítsmára. Súrsmæra vex ætíð í skugga. Blóm súrsmæru Rósulykill. Rósulykill (fræðiheiti "Primula rosea") er blóm af æt{tkvísl lykla. Júlíulykill. Júlíulykill (fræðiheiti "Primula juliae") er blóm af ættkvísl lykla. Júlíulykill í blóma í Grasagarði Reykjavíkur í maí 2008 Roðalykill. Roðalykill (fræðiheiti "Primula hirsuta") er blóm af ættkvísl lykla. Mararlykill. Mararlykill (fræðiheiti "Primula glaucescens") er blóm af ættkvísl lykla. Elri. Elri (fræðiheiti: "Alnus") er ættkvísl blómplantna af birkiætt. Í ættkvíslinni eru um 30 tegundir af trjám og runnum. Elri hefur verið notað sem landgræðsluplanta á Íslandi. Reklar á elri í maí 2008 í Grasagarði Reykjavíkur Donghoiflugvöllur. Dong Hoi-flugvöllur ("Sân bay Đồng Hới") er flugvöllurinn í Dong Hoi-borg í Víetnam. Jarðhiti. Jarðhiti er eftir bókstaflegri merkingu orðsins sá hiti í jörðinni sem er umfram þann hita er ríkir við yfirborð jarðar. Með aukinni nýtingu jarðhitans á tuttugustu öldinni hefur merking orðsins þrengst nokkuð og er það nú fyrst og fremst notað um það fyrirbæri er heitt vatn og gufa kemur upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum. Þegar greina þarf á milli fyrirbærisins jarðhita og þeirrar orku sem berst með vatni og gufu upp til yfirborðs er orðið jarðvarmi notað um orkuna". Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 telst jarðvarmi til endurnýjanlegrar orku Hverinn Blesi í forgrunni og Strokkur í bakgrunni Almennt. Jarðhita má skilgreina sem varma sem berst til yfirborðs jarðar með varmaleiðni, rennandi vatni eða vatnsgufu. Varmi myndast í jarðmöttlinum og jarðskorpunni vegna geislavirkra efna. Varminn sem myndast, streymir frá heitu bergi upp til yfirborðs jarðar þar sem berglög eru kaldari. Mælikvarðinn á þetta varmaflæði er kallaður hitastigull og er hann í raun mælikvarði á það hvernig hiti breytist á lengdareiningu, hann sýnir í flestum tilfellum hvað hitinn eykst eftir því hversu djúpt er farið niður í jörðina. Mæling á hitastigli er einhver mikilvægasta rannsóknaraðferð sem notuð er við jarðhitakönnun. Berg er slæmur varmaleiðari og þess vegna myndast svokallað iðustreymi í möttlinum en það veldur uppstreymi efnis á rekbeltum undir plötuskilum. Grynnst er að bráðnu berg á gos- og gliðnunarbeltunum og mjög grunnt á heit innskot. Þess vegna er jarðskorpan heitust þar og kólnar eftir því sem fjær dregur og berg verður eldra. Þar sem mikil eldvirkni er til staðar, eru berglögin ung, gropin og gegndræp. Það gerir það að verkum að vatnið á greiða leið niður í berglögin og flýtir það fyrir varmaflutningi frá heitum innskotunum til yfirborðsins. Flekakenningin fjallar um jarðskorpuna sem skiptist niður í nokkra fleka sem hreyfast vegna hægfara efnisstrauma í möttlinum. Stærstu flekarnir eru 8 talsins en inn á milli eru fleiri minni. Minni flekarnir eru sífellt að myndast bæði á flekaskilum þar sem þeir eru að færast í sundur, og á flekamótum þar sem flekarnir eru að rekast saman. Flekaskil eru forsendan fyrir þeim mikla jarðhita sem finnst hér á landi. Ísland er einmitt á flekaskilum þar sem tveir meginlandsflekar, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekinn eru að reka í sundur og á milli þeirra flæðir því bergkvikan upp og veldur þeim miklu umbrotum og jarðhita sem á sér stað á þessu svæði. Heitir reitir tengjast einnig efnishreyfingum í möttli jarðar en þar stíga strókar úr möttulefni upp undir jarðskorpuna og hafa í för með sér aukna eldvirkni á yfirborðinu. Sérstaða Íslands í þessum málum felst í því að það er bæði staðsett á flekaskilum og einnig á heitum reit nánast á sama stað. Talið er að ef ekki væri fyrir þennan heita reit sem heldur landinu í þeirri hæð sem það er, væri Ísland líklega enn á hafsbotni. Flokkun jarðhitasvæða. Jarðhitasvæði á Íslandi voru áður fyrr aðallega flokkuð eftir útliti og yfirborðseinkennum. Virk jarðhitasvæði geta samt sem áður verið mjög ólík að útliti en útlit svæðanna ræðst yfirleitt mest af hita svæðanna og efnainnihaldi vökvans í jarðhitageyminum sem er undir jarðhitasvæðinu. Sameiginlegt einkenni flestra jarðhitasvæða er að annað hvort gufa eða vatn stígur upp frá yfirborðinu. Flokkun eftir hitastigi hefur verið notuð en sú flokkun er ekki talin vera nógu skýr. Talað er um volgrur, laugar, vatnshveri, gufuhveri, leirhveri og brennisteinshveri. Volgrur sem eru með hita yfir meðallagi umhverfisins en fara samt ekki yfir 30-40°C, laugar eru aðeins heitari eða yfir 30-40°C, vatnshverir eru oftast nærri suðumarki eða sjóðandi. Að auki er talað um gufuhveri, leirhverileirhveri og brennisteinshveri en í þeim er lítið sem ekkert vatn en getur verið talsvert af gufu, útfellingum og leir, sem myndast hefur við ummyndun bergs sem af völdum lofttegunda koma upp á þessum svæðum. Vatnið og gufan á lauga- og vatnshverasvæðum er yfirleitt basískt en á jarðgufusvæðum er það yfirleitt súrt. Skilgreiningin er þannig að háhitasvæði er þar sem hiti er yfir 200°C á 1000 m dýpi en önnur svæði flokkuðust þá undir lághitasvæði. Þetta er gert til að tengja þessar skilgreiningar frekar borholumælingum. Einnig er farið að skipta lághitasvæðum í tvo flokka,lághitasvæði og svo sjóðandi lághitasvæði þar sem hiti á minna en 1000 m dýpi er milli 100 og 200°C. Sjóðandi lághitasvæði eru mun verðmætari en hin þar sem hærri hiti gefur betri tækifæri til að fjölnýta vatnið. Þessi svæði eru svipuð og hin lághitasvæðin á yfirborðinu. Vegna þess hve vatnið eða gufan er heit, er gróður og náttúrufar á jarðhitasvæðum oft mjög fjölskrúðugt. Við nýtingu á þessum svæðum getur yfirborð þeirra raskast en það er þó ekki alltaf. Svæðin eru yfirleitt mjög viðkvæm og því þarf að fara að þeim með gætni og hafa ýmsir merkir jarðfræðingar og vísindamenn bent á að huga þarf sérstaklega að verndun á þessum svæðum. Háhitasvæði. Háhitasvæðin liggja í gliðnunarbeltum landsins frá Reykjanesskaga og norður í Þingeyjarsýslu. Þessi svæði eru tengd megineldstöðvum, sem eru eldstöðvar sem hafa verið virkar í langan tíma. Þessar eldstöðvar eru tengdar sprungusveimum sem geta verið fleiri kílómetrar að lengd og eru megineldstöðvarnar þá oft þar á miðjunni. Bæði megineldstöðin og sprungusveimurinn hafa orðið til við gliðnun jarðskorpunnar og hreyfingu bergkviku sem henni fylgja. Þó eru til megineldstöðvar sem ekki eru tengdar háhitasvæði samanber Snæfellsjökul, Heklu og Snæfell. Undir þessum svæðum virðast ekki vera hagstæðar aðstæður fyrir myndun háhitasvæðis og telst það einna helst vera vegna þess hve lítil vatnsleiðni er í berglögunum og vegna þess að það vantar varmagjafa eða kvikuinnskot á nægilega litlu dýpi. Varmagjafar háhitasvæðanna eru í flestum tilfellum kólnandi kvikuþrær og heit innskot. Upp af þessum varmagjöfum myndar sjóðandi vatn og gufa iðustrók sem nær til yfirborðsins. Lághitasvæði. Lághitasvæðin liggja nær eingöngu á jöðrum gosbeltanna og eru flest vestan eystra gosbeltisins. Virðist sem þau séu sérstaklega tengd göngum, innskotum og virkum sprungum þar sem vatn nær að renna í strikstefnu jarðlaganna frá hálendinu og niður á láglendi. Svo virðist sem aflmestu svæðin tengist fornum gangasveimum og brotalínum, sérstaklega þar sem virkir sprungusveimar teygja sig inn á svæðin og víkka sprungurnar. Stærstu lághitasvæðin virðast vera á svæðum síð-plíósen og árkvarteru myndananna (0,8 – 3,3 milljón ár) og meðfram þeim á yngstu hlutum blágrýtismyndunarinnar. Lághitasvæðin eru talin vera í kringum 250 talsins. Þau eru misjöfn að stærð og eru allt frá einstökum volgrum upp í tugi uppsprettna. Lághitasvæðin geta bæði verið ofan- og neðansjávar, þ.e. á grunnsævi eða í flæðarmáli. Þetta er þó algengast hér við strendur Vestfjarða og á Breiðarfirði eins og sést á jarðhitakorti. Einnig eru fundin svæði á botni Eyjafjarðar, í nágreni Grímseyjar, Kolbeinseyjar og á Reykjaneshrygg. Ef náttúrulegt rennsli lághitasvæða hér á landi er tekið saman kemur í ljós að það er ekki svo ýkja mikið ef miðað er við úrkomuna sem jarðhitavatnið á uppruna sinn að rekja til. Rennslið er um 2.000 L/s og svarar til um meðalúrkomu á ári á um 34 km2 svæði eða um einn þrjúþúsundasti hluti af flatarmáli Íslands. Varmagjafi lághitasvæðanna er talinn koma frá mismunandi stöðum og eru lághitasvæðin talin hafa myndast á mismunandi hátt. Flest lághitasvæðin er að finna þar sem grunnvatn frá hálendinustreymir um virk sprungukerfi á láglendi eða þar sem þau ganga þvert á dali. Einnig eru þau talin hafa orðið til úr gömlum háhitasvæðum sem rekið hafa frá virku gosbeltunum. Vatnið á lághitasvæðunum er talið fá varma sinn á langri leið um heit berglög djúpt í jörðu þar sem það seytlar um rætur útkulnaðra megineldstöðva eða með hræringu þegar kalt grunnvatn frá hálendinu sígur niður í lóðréttar sprungur þar sem staðbundið varmanám fer fram. Jarðhitaleit. Þegar leitað er að heitu vatni þurfa að fara fram ýmis konar athuganir og rannsóknir sem greina má í fjóra þætti. Fyrst má telja forrannsókn, svo rannsóknarboranir, því næst reynsluboranir og prófanir og að lokum vinnsluboranir. Í forrannsókn eru rannsökuð jarðfræði og vatnafar svæðisins. Þau atriði sem skipta mestu máli eru nákvæm jarðfræðikortlagning,úttekt á efnainnihaldi jarðhitavatnsins og ýmsar jarðfræðilegar mælingar.Yfirlitskort Á jarðfræðikorti þarf að sýna hveri og laugar,helstu jarðmyndanir svo og öll brot,sprungur og misgengi er tengst gætu rennslisleiðum vatnsins. Gjarnan eru unnin tvenns konar kort. Í fyrsta lagi eru yfirlitskort, sem sýna jarðhitastaði og bergbyggingu í næstu nágrenni þeirra, jafnvel heilla landshluta. Í öðru lagi eru gerð nákvæm kort er sýna einstaka hveri og laugar innan eins jarðhitasvæðis og öll bort og jarðmyndanir er tengjast dreifingu þeirra. Jarðfræðikortlagning er ekki ýkja kostnaðarsöm en tímafrek. Oftast vinnur einn jarðfræðingur við kortalagninguna og getur útivinna tekið frá viku uppí marga mánuði. Sú regla að hitaorka streymi frá heitum stað á kaldan gerir það að verkum að beinast liggur fyrir að rannsaka jarðhitasvæði með því að mæla hita í yfirborðsjarðlögum. Ýmsar fleiri mæliaðferðir eru samt sem áður til. Ef notaðar eru viðnáms- eða rafleiðnimælingar er hægt að finna jarðhita en eðlisviðnám á jarðhitasvæðum er yfirleitt frekar lágt. Einnig er hægt að fá nokkurs konar mynd af jarðlögunum með því að mæla segulstefnuna í þeim. Þá er einnig hægt að bora niður í jörðina og mæla hitastigulinn. Þetta tilheyrir mest allt frumrannsóknum. Við rannsóknarboranir eru boraðar grunnar holur til að halda kostnaði í lágmarki. Tilgangur þessara rannsóknarborana er sérstaklega að þrengja hringinn utan um heitar vatnsæðar og finna útfrá því hvar hentugast gæti verið að bora reynsluholur og svo vonandi vinnsluholur í framhaldinu. Með þessum rannsóknarborunum fæst einnig gleggri mynd af jarðlögunum og misfellum í jarðskorpunni. Á yfirborði jarðar eru laugar og hverir sem sýna hvar bresti er að finna í jarðlögunum og þar af leiðandi vottur um sýnilega leka á straumkerfi grunnvatnsins. Vatnið kemur upp eftir misgengissprungum í berglögum og göngum sem mynda lóðréttar rásir í gegnum þau. Þegar búið er að bora vinnsluholu á vatnið greiðari leið upp á yfirborðið heldur en áður og unnt er að koma því til notanda. Nýtingarsvið. Vatnsorku er eingöngu breytt í raforku og tapast mjög lítið af orku vatnsfallsins við þá umbreytingu. Nýtingu vatnsorku fylgir oft mikil landnotkun undir lón og vatnsvegi. Í nýjustu áætlunum er oftast gert ráð fyrir að veitur séu að mestu í jarðgöngum og oft er gert ráð fyrir stöðvarhúsi neðanjarðar. Til þess að koma raforku til notenda er háspennt raforka að mestu flutt eftir loftlínum, en lágspenntri í vaxandi mæli í jarðstrengjum. Þegar varmaorka er nýtt til að framleiða raforku nýtist aðeins um 10% varmans en 90% er skilað sem afgangsvarma við lægri hita. Þennan varma má nýta til hitunar ef markaður finnst en að öðrum kosti er honum dreift til umhverfis eða dælt aftur niður í jarðhitakerfið. Um 90% af húsnæðum landsins er hitað með jarðvarma, aðallega frá lághitasvæðum. Önnur helstu nýtingarsvið eru iðnaður,ylrækt, sundlaugar og síðast en ekki síst raforkuframleiðsla, sem er hratt vaxandi. Á töflu 1 má sjá þá varmaorku sem nýtist en ekki þá frumorku sem tekin er úr auðlindinni. Í nálægð við þéttbýli er oft völ á fjölþættri nýtingu, t.d. til upphitunar húsnæðis, ylræktar o.þ.h. eða til iðnaðar og skiptir þá lega jarðhitasvæðisins miklu máli. Nýting affallsvarma frá virkjunum á hálendinu væri hugsanleg til baða en tæplega til iðnaðar sökum fjarlægðar frá höfnum. Nýting lághita með dælingu úr borholum getur stöðvað sjálfrennsli úr hverum og laugum og eyðir í þeim tilfellum þegar til lengdar lætur ummerkjum um jarðhita á yfirborði. Á háhitasvæðum veldur blástur úr borholum þrýstingslækkun í heitu bergi og suða vatns í berginu verður víðtækari en áður. Vinnslan getur því allt eins orðið til þess að yfirborðsvirkni af völdum gufu aukist og þar með hveravirkni á sprungusvæðum. Gufuvirkni við Hverarönd í Námafjalli er að miklu leyti af völdum borana Ameríkubikarinn. Ameríkubikarinn er þekktasta siglingakeppni heims og elstu verðlaun sem enn eru veitt fyrir sigur í alþjóðlegri íþróttakeppni. Bikarinn var upphaflega veittur sigurvegara í siglingakeppni konunglega breska siglingaklúbbsins Royal Yacht Squadron umhverfis Isle of Wight árið 1851 en dregur nafn sitt af skútunni "America" sem vann bikarinn fyrir siglingaklúbbinn New York Yacht Club sama ár. 1857 gaf eigendafélag "America" klúbbnum bikarinn sem verðlaun í áskorendakeppnum. Engum tókst að vinna bikarinn af klúbbnum til ársins 1983 þegar "Australia II" frá Royal Perth Yacht Club sigraði og flutti bikarinn til Ástralíu. Þetta telst vera lengsta samfellda vinningslota í sögu alþjóðlegra íþróttakeppna. Núverandi handhafar bikarsins eru siglingaklúbbur skútunnar "USA-17", Golden Gate Yacht Club í Bandaríkjunum. Keppnin um Ameríkubikarinn er áskorendakeppni, einvígi milli tveggja skúta, þar sem sá sem vinnur flestar af níu kappsiglingum ber sigur úr býtum. Frá 1992 hefur verið keppt á slúppum í Alþjóðlega Ameríkubikarsflokknum, sem er einbola flokkur. Dæmigerð lengd slíkra skúta er 75 fet (23 m). Hver sá sem uppfyllir skilyrðin sem sett eru fram í gjafarbréfinu sem fylgdi með bikarnum 1852 (endurskrifað nokkrum sinnum síðan) hefur rétt til að skora á þann klúbb sem geymir bikarinn. Ef áskorandinn sigrar flyst eign bikarsins frá siglingaklúbbi fyrri vinningshafa til siglingaklúbbs áskorandans. Frá 1970 hefur verið haldin undankeppni til að skera úr um hver fær réttinn til áskorunar þegar um fleiri en einn áskoranda er að ræða. Frá 1983 hefur þessi keppni heitið Louis Vutton-bikarinn. Áskorendur og verjendur í Ameríkubikarnum. Verjandinn hefur aðeins tapað titlinum sex sinnum (1851, 1983, 1987, 1995, 2003 og 2010). Kristjanía (Ósló). Kristjanía — nafn, sem á árabilinu 1624–1925 var notað um Ósló. Gamla Osló brann til grunna um miðjan ágúst 1624. Kristján 4. Danakonungur tók þá ákvörðun að borgin skyldi ekki endurreist á sama stað, heldur skyldi hún flutt um set, til norðvesturs, yfir á svæðið norðan við Akershúsvirkið. Þar var byggð ný borg, með breiðum götum, til þess að auðvelda brunavarnir. Til heiðurs konungi, var borgin kölluð Kristjanía. Nafnið var lengst af skrifað Christiania, nema á árabilinu 1877–1925 þegar oft var ritað Kristiania, fyrst í opinberum gögnum, síðan almennt. Árið 1859 voru mörk Kristjaníu færð út, og varð gamla Ósló þá aftur innan borgarmarkanna. Hún er nú sérstakt hverfi, Gamlibærinn (norska: Gamlebyen). Í ársbyrjun 1925 ákváðu borgaryfirvöld í Kristjaníu að taka aftur upp gamla nafnið á borginni, Osló (Oslo). Karl 2. Englandskonungur. Karl 2. Englandskonungur, (f. Karl Stúart 29. maí 1630 – 6. febrúar 1685) var konungur Englands, Írlands og Skotlands. 17. öldin í sögu Bretlands var sérlega róstusöm. Biskupastríðin á árunum 1638 og 1640 og margskonar önnur átök tengd trúarbrögðum leiddu til Ensku borgarstyrjaldarinnar. Krúnan féll Karli í skaut þegar Karl 1. Englandskonungur, faðir hans, var tekinn af lífi 30. janúar 1649 í lokauppgjöri Ensku borgarastyrjaldarinnar. Beogradska Arena. Beogradska Arena er leikvangur í Belgrad,Serbíu. Beogradska Arena er fjölnota innanhúsleikvangur og er hann einn stærsti leikvangur sinnar tegundar í Evrópu. Hann er notaður bæði til þess að hýsa margskonar íþróttaviðburði sem og menningarviðburði og var m.a. notaður til þess að hýsa Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2008. Leikvangurinn verður einn af þeim leikvöngum sem verða notaðir undir Evrópumeistaramót karla í handknattleik árið 2012, en hann verður stærsti leikvangurinn, en Beogradska Arena tekur 22.000 manns í sæti. Eimsnælda. Eimsnælda (eða gufukúla) (fræðiheiti: "aeolopile") er gufuknúinn vél sem Heron frá Alexandríu fann upp, og er fyrsta gufuvélin sem sögur fara af, svo vitað sé. Eimsnælda hans var hol málmkúla með tveimur stútum og var föst við snúningslegur. Snúningslegurnar voru fastar við íholar pípur sem lágu ofan í vatnsketil sem var lokaður. Undir honum var kveiktur eldur og þegar vatnið fór að sjóða þrýstist gufan upp í eimsnælduna sem við það tók að snúast. Eimsnælda var einnig tæki sem notað var til að auka vélaafl og minnka kolaeyðslu gufuvéla í upphafi 20. aldar. Sjálfsfróun. Sjálfsfróun er þegar karlmaður eða kona þægja eigin kynhvöt með því að örva eigin kynfæri og endar oftast með fullnægingu. Oftast er um að ræða líkamssnertingu eingöngu, hönd á kynfærum, en einnig nota sumir kynlífsleikföng eða aðra hluti. Sjálfsfróun er algengust í einrúmi en einnig er til gagnkvæm fýsnarfróun. Sjálfsfróun er einnig algeng meðal dýra. Samheiti. Orðið sjálfsfróun á sér ýmis samheiti í íslensku, svo sem "fýsnarfróun" og "sjálfsþæging". Hið alþjóðlega orð "onani", sem er haft eftir Onan, persónu í Gamla testamenntinu, er lítið sem ekkert notað í íslensku. "Sjálfsflekkun" er eldra orð og hefur yfir sér neikvæða sýn á verknaðinn, hugsunin er að maður „flekki sjálfan sig“ með athöfninni, það er óhreinki. Í íslensku slangurorðabókinni er orðið "fingrapólki" haft um sjálfsfróun. Mike Pollock. Mike Pollock (fæddur 9. mars 1965) er bandarískur leikari sem raddar persónur fyrir 4Kids Entertainment. Hann er sögumaður Pokémon-sjónvarpsþáttarins og er rödd Dr. Eggmans í Sonic the Hedgehog-sjónvarpsþættinum. Fótgíma. Fótgíma (fræðiheiti: "Calvatia excipuliformis") er físisveppur sem er auðvelt að greina frá öðrum skyldum sveppum vegna þess hve hún er með langan staf. Kólfurinn er hringlaga og samvaxinn fætinum. Yfirborð sveppsins er þakið litlum nöbbum. Með aldrinum verður fótgíman brúnni og opnast að ofan þar sem myndast skál full af brúnum gróum. Fótgíma er góður ætisveppur en gæta þarf að því að tína aðeins mjög unga (alhvíta) sveppi. Fótgíma er algeng um allt Ísland. Mýrasúlungur. Mýrasúlungur (fræðiheiti: "Suillus flavidus") er fremur smávaxinn ljósbrúnn pípusveppur með grönnum staf með kraga ofarlega. Mýrasúlungur hefur fundist á Íslandi við Rauðavatn. Aldebaran. Aldebaran (eða Nautsaugað) er stjarna í stjörnumerkinu Nautinu og er ein af björtustu stjörnunum á næturhimninum. Aldebaran er risastjarna, og mælist um 30 sinnum breiðari en sólin. Sökum þess að Aldebaran er staðsett í höfði Nautsins, hefur stjarnan stundum verið nefnd "Nautsaugað". Jón Helgason (biskup). Dr. Jón Helgason (1866 – 1942) var biskup íslensku Þjóðkirkjunnar á árunum 1917 – 1939 og forstöðumaður Prestaskólans frá 1908 – 1911, en einnig rithöfundur og skrifaði töluvert um sagnfræðileg efni, meðal annars "Árbækur Reykjavíkur." Árið 1908 reisti Jón sér veglegt íbúðarhús við Tjarnargötu sem enn stendur. Foreldrar Jóns voru Helgi Hálfdanarson prestur og síðar lektors Prestaskólans og Þórunn Tómasdóttir en hún var dóttir Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns. Jón skráði ævisögu afa síns. Luzhniki-leikvangur. Luzhniki-leikvangur eða Grand Sports Arena of the Luzhniki Olympic Complex (á rússnesku: Большая спортивная арена Олимпийского комплекса Лужники), Moskvu, er leikvangur notaður til ýmissa íþrótta. Á leikvanginum er meðal annars góð aðstaða fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Áhorfendastúkurnar geta tekið allt að 84.745 manns í sæti. Leikvangurinn var notaður í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2007-08 þann 21. maí 2008. Leiðsögumaður. Leiðsögumaður (leiðsagi, leiðsagnari, leiðsagnarmaður eða láðmaður) er maður sem annaðhvort vísar manni um vegleysur eða leið sem viðkomandi hefur ekki farið áður (t.d. yfir heiði eða fjall) eða fylgir fólki um slóðir lands og vísar í söguna sem tengist því landslagi sem ber fyrir augum. Leiðsögumaður á sjó nefnist "lóðs" eða "lóss" og hlutverk hans er að vísa skipum framhjá skerjum og grynningum og tryggja því skipi sem hann fylgir áfallalausa leið í höfn. Heljardalur. Heljardalur er afdalur úr Kolbeinsdal í Skagafirði. Vegur liggur eftir Heljardal yfir Heljardalsheiði. Munnmæli herma, að dalurinn hafi fengið nafn sitt vegna þess að margt fólk, úr fylgd Guðmundar góða Hólabiskups, hafi orðið þar úti. Þerney. Þerney og Lundey eru vestan við Gunnunes á Álfsnesi Þerney er eyja á Kollafirði. Þerney mun vera nefnd eftir kríunni, sem fyrrum var nefnd "þerna". Þerney er notuð sem sumarleyfisstaður fyrir dýr sem Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hefur á sínum vegum. Þangað fara þau í tveimur hlutum, fyrri helmingurinn um miðjan júlí og seinni helmingurinn miðjan ágúst. Reynt er að miða við að dýrin fái jafn langt frí og starfsfólk í garðinum eða um mánuð. Í Þerney var kirkja á 13. öld. Á 18. öld var leiguliði bóndans verðlaunaður með konungsúrskurði fyrir garðhleðslu í eyjunni. Danskar kýr sem koma til Íslands 4. júlí 1933 voru fluttar til Þerneyjar í einangrun og einnig voru fluttar þann 10. júlí sama ár karakúlkindur. Skömmu seinna fór að koma fram hringskyrfi á nautgripunum og breiddist hún út í nautgripi bónands þar og sýktist fólk líka. Öllu búfénu var slátrað nema einum kálfi. Þerney er ásamt Lundey, Akurey og Engey eru á Náttúruminjaskrá. Hestafl. Hestafl er mælieining afls, táknuð með "ha" eða "hö". Er ekki SI-mælieining. "Metrakerfishestafl" er það afl sem þarf til þess að flytja hlut með massann 75 kg á hraðanum 1 metra á sekúndu, eða 735,5 vött ("W"). Eitt breskt eða bandarískt hestafl jafngildir 745,7 W en "rafvélahestafl" er 746 W. Algengt er að gefa afl bílvéla í hestöflum, en þá er átt við afl vélarinnar á ákveðnum snúnigshraða, til dæmis jafngilda 100 hö um 75 kW. Huri. Huri (arabíska: حورية‎: oft þýtt sem "dimmeygðar jómfrúr" eða "hreinlyndar fylgdarmeyjar") eru fagrar, síungar konur í paradís múhameðstrúarmanna. Kvarsít. Kvarsít (eða kvarssandsteinn) er hörð bergtegund sem flokkast sem umbreytingarberg, þar eð hún var áður sandsteinn, en hefur fyrir tilverknað þrýstings og hita breyst í kvarsít. Kvarsít má ekki rugla saman við kvars. Umbreytingarberg. Umbreytingarberg (einnig kallað myndbreytt berg) er berg, sem áður var storkuberg eða setberg, en hefur orðið fyrir breytingum að gerð og efnasamböndum, og það á þann hátt að upphaflegar steindir hafa að fullu breyst í aðrar fyrir áhrif þrýstings og hita. Brunnklukka. Brunnklukka (brúnklukka eða brattrass) (fræðiheiti: "Agabus bipustulatus") er bjalla af brunnklukkuætt, og er t.d. algeng í vötnum, keldum og tjörnum á Íslandi. Brunnklukkur eru svart- eða brúnleitar og eru allstórar bjöllur, sundfættar, og geta skotist áfram með miklum hraða í vatni. Meðan þær eru lirfustigi kallast þær "vatnskettir" og hafa sterkar griptengur á höfðinu. Brunnklukkur eru flatar á skrokkinn og mjög sléttar utan, og bæði lirfan, þ.e. vatnskötturinn, og þær sjálfar eru hin mestu rándýr og lifa á öllum þeim smádýrum, sem þær ráða við. Þær dveljast í vötnum, en synda upp undir yfirborð vatnsins og taka þar loft undir skjaldvængina og synda svo sem hraðast til botns aftur. Fálmarar þeirra eru með 11 liðum, fæturnir oftast 5 liða, og öftustu fæturnir eru hærðir, og eru sundfætur, mjög sterkbyggðar. Um nætur fer brunnklukkan úr vatninu og flýgur. Þekjuvængir. a> þegar hann hefur sig til flugs Þekjuvængir eða skjaldvængir eru framvængir á bjöllu og skortítum. Þeir eru harðir og kúptir og aðallega til hlífðar hinum eiginlegu vængjum. Þegar skordýrið er ekki á flugi, fellir það vængina að líkama sér og þekjuvængirnir skorðast yfir. Dæmi um bjöllur með þekjuvængi eru aldinborar, húsbukkar, jötunuxar og olíubjöllur. Þekjuvængir hafa stundum einnig verið nefndir "vængskjöldur" eða "vænghlífar". Lífeyrissjóður. Lífeyrissjóður er sjóður eigna sem notaður er til ýmissa fjárfestinga með það að markmiði að ávaxta fénu og greiða út sem lífeyri til meðlima. Til eru bæði lífeyrissjóðir í einkaeigu og opinberri eigu. V for Vendetta (kvikmynd). "V for Vendetta" er spennukvikmynd frá árinu 2006, sem leikstýrt var af James McTeigue og framleitt af Joel Silver og Wachowski-bræðrum. Myndin var byggð á "samnefndri myndasögu" eftir Alan Moore og David Lloyd. Þúsundblaðarós. Þúsundblaðarós (fræðiheiti:"Athyrium distentifolium") er stórvaxinn burkni sem vex þar sem snjór tekur seint upp, t.d. á láglendissvæðum Íslands. Þúsundblaðarósin er því víða í fjallahlíðum Vestfjarða og í útkjálkasveitum við Eyjafjörð, en einnig á Snæfellsnesi og lítillega á Austfjörðum. Hraunketill. Hraunketill er gíglaga jarðfall í hrauni, en má ekki rugla saman við gíg. Hraunkatlar standa ekki í sambandi við innri hluta jarðar, en hafa, undir sérstökum kringumstæðum, myndast á hraununum sjálfum, og hafa hita og afl eingöngu úr þeim. Þar sem mikið hraun rennur út í mýri eða vatn sýgur hraunið í sig svo mikla vatnsgufu að þar verða gufusprengingar, líkt og þar sé að gjósa. Þegar hraunið kólnar verða eftir í því hópar af rauðum gjallhrúgum og svörtum hraunkötlum. Dæmi um hraunketil er til dæmis Tintron, fyrir norðan Barmaskarð. Ríkisskuldabréf. Ríkisskuldabréf eru skuldabréf sem ríki gefur út í eigin gjaldmiðli. Almennt er litið á ríkisskuldabréf sem áhættulitla fjárfestingu þar sem ríkisstjórninni er oftast fært að greiða fyrir skuldabréfin með því að prenta meiri peninga, nú eða hækka skatta. Sú áhætta sem felst í þeirri fjárfestingu lítur einna helst að mismuni milli gjaldmiðla (sé fjárfestirinn útlendur) eða að verðbólga verði til þess að verðmæti þeirra minnkar. Ísland. Lög um ríkisskuldabréf voru sett 4. júní árið 1924, þegar Jón Magnússon var forsætisráðherra. Í þeim segir að ef ríkissjóður taki lán, þurfi hann að gefa út ríkisskuldabréf fyrir samsvarandi upphæð. Vextir eiga að vera greiddir út tvisvar á ári, 1. október og 1. apríl, að hálfu í hvort sinn. Líftími þeirra má vera 25 ár að hámarki. Lögin hafa staðið óbreytt síðan þá. Í 24. gr reglugerðar um Seðlabanka Íslands segir að bankinn megi kaupa og selja ríkisskuldabréf og önnur trygg verðbréf í því augnamiði „að á komist skipuleg verðbréfaviðskipti.“ Útdauði. Útdauði eða aldauði er það þegar tegund dýra deyr út, þ.e. finnst hvergi lifandi á jörðinni og er hugtak í líffræði og vistfræði. Dæmi um útdauðar tegundir er t.d. geirfuglinn, dúdúfuglinn og Balítígurinn. Kaffihús. a>s er stærsta kaffihúsakeðja í heiminum. Kaffihús er veitingastaður sem sérhæfir sig aðallega í sölu á kaffi og öðrum heitum og köldum drykkjum, sætabrauði og smáréttum. Sum kaffihús bjóða einnig upp á vínveitingar og lifandi tónlist, en allt er það mismunandi eftir því hvaða áherslur kaffihúsið setur sér. Ríma. Ríma er ein tegund af hefðbundnum íslenskum kveðskap. Rímur eru ortar undir sérstökum bragarháttum, sem kallast rímnahættir, og samanstendur hver ríma yfirleitt af nokkrum tugum vísna. Rímur eru vanalega nokkrar saman, og kallast þá rímnaflokkur og eru ein samhangandi frásögn en hver ríma eins og einn kafli í sögu. Yrkisefni eru oftast sögur af hetjum, gjarnan fornsögur, riddarasögur eða ævintýri. Hver ríma er ort undir sama bragarhætti, en yfirleitt er breytt um bragarhátt á milli rímna í rímnaflokki. Hver ríma byrjar vanalega á mansöng, þar sem skáldið notar nokkrar vísur til þess að afsaka hvað hann sé lélegt skáld en voni samt að kvenþjóðin kunni að meta kveðskap hans. Eftir það kemur frásögn rímunnar í nokkrum tugum vísna, og gjarnan er síðasta vísa rímunnar höfð dýrar kveðin en hinar, til dæmis með meira innrími. Saga rímnanna. Fyrstu þekktu rímurnar sem til eru á íslensku eru frá síðari hluta miðalda. Þær færðust mjög í aukana sem bókmenntagrein er frá leið miðöldum, og íslensk skáld ortu flestar þær sem til eru á 17., 18. og 19. öld. Um miðja 19. öld, eftir að Jónas Hallgrímsson ritaði mjög harðorðan ritdóm í Fjölni, fóru þær að komast úr tísku og lentu smám saman á jaðri bókmenntanna. Rímahættir. Hefðbundnar rímur eru ortar undir bragarháttum sem gróflega má skipta í þrjá flokka: Ferskeytlu (í fjórum línum), braghendu (í þrem línum) og afhendingu (í tveim línum). Hver þessara flokka á sér marga undirflokka, sem byggjast á mismunandi línulengd, mismunandi endarími og mismunandi innrími. Minnþak. Minnþak (Gelíska: "min-": hveiti) er fæða sem sagt er frá í Landnámu. Á siglingu sinni til Íslands urðu Ingólfur og Hjörleifur vatnslitlir, og tóku þá írskir þrælar það til bragðs að hnoða saman smjöri og mjöli og kölluðu hnoðninginn minnþak, sögðu mönnum að éta og „kváðu eigi þorstlátt“. Þessum atburði tengist nafn á höfninni, sem venjulega er kölluð Minþakseyri. Afhending. Afhending er bragarháttur sem er einn rímnahátta og þekkist best af því að vera aðeins tvær línur að lengd. Er fyrri línan gjarnan tólf atkvæði, skiptist í sex hnígandi tvíliði og hefur ávallt tvo stuðla og einn höfuðstaf. Síðari línan er oftast átta atkvæði, eða fjórir hnígandi tvíliðir, og hefur aðeins tvo stuðla. Línurnar tvær ríma með endarími, sem gjarnan er hálfrím. Þar sem afhending er sami bragarháttur og samrímuð braghenda, fyrir utan að síðustu línunni er sleppt í afhendingu, vilja sumir flokka hana sem undirtegund af braghendu. Hins vegar er stúfhenda undirtegund af afhendingu, með annarri línulengd. Heiti og kenningar. Heiti og kenningar eru notuð til að umorða það sem maður vill segja, vanalega til þess að beygja það undir bragfræðilegar reglur í skáldskap (rím, hrynjandi eða ljóðstafi), en einnig til að komast hjá stagli, gera málið torskilið eða sýna færni skáldsins í að beita heitum og kenningum. Heiti. Það sem í bragfræði er kallað heiti er oft það sem í daglegu tali kallað samheiti, einfaldlega orð sem þýða það sama (maður = halur; sverð = hjör; kona = snót). Einnig er til að menn noti hluta fyrir heild (skip = kjölur; hestur = faxi; skjöldur = rönd; hús = gafl), eða þá að það sem eitthvað gerir yfirfærist á gerandann (konungur = ríkir, stillir; hermaður = myrðir). Kenningar. Kenning er samsetning tveggja eða fleiri orða, þar sem stofni eru veittar einkunnir sem skýra hvað við er átt. Algeng aðferð er að vísa til goðafræði eða annarra sagna, einkum úr Skáldskaparmálum Snorra-Eddu eða fornaldarsögum Norðurlanda. Þá er gull til dæmis kennt sem „Kraka sáð“ -- sáðkorn kennt við Hrólf konung kraka, og vísað til þess þegar Hrólfi var eitt sinn veitt eftirför en hann fór í skjóðu sína, tók hnefafylli af gulli og stráði aftur fyrir sig. Eftirreiðarmennirnir hættu þá eftirförinni til að tína upp gullið, en Hrólfur kraki slapp. Það sem Kraki sáði er þá gull. Eins getur gull verið kennt sem „eldur Rínar“ og er þá vísað í Völsunga sögu, þegar fjársjóður var falinn á árbotni fljótsins Rínar. Það sem glóir í Rín er þá gull. Önnur algeng aðferð er að bregða upp myndlíkingu. Þá er til dæmis „hjörva viður“ tré sem hefur sverð í stað greina, það er að segja hermaður, það er að segja karlmaður. „Bryggja bauga“ er eitthvað sem baugar (skartgripir) liggja á, það er að segja kona. „Hófa hreinn“ er hreindýrstarfur sem er með hófa, það er að segja hestur. Serov. Serov (rússneska: "Серо́в") er bær í Sverdlovsk-umdæminu í Rússlandi, við austur-Úralfjöll. Árið 2002 var mannfjöldi 99.804. Ópið. "Ópið" (norska: "Skrik") er málverk eftir Edvard Munch sem málað var árið 1893. Spergill. Spergill (eða aspas) (fræðiheiti: "Asparagus officinalis") er fjölær matjurt af Sperglaætt. Spergilplantan vex upp úr jörðinni sem hvítir eða grænir sprotar og er höfð til matar. Ekki má rugla spergli við spergilkál (brokkólí), en það er nefnt svo vegna þess að það minnir mjög á spergilinn. Íbúðalánasjóður. Íbúðalánasjóður er sjálfstæð ríkisstofnun sem veitir húsnæðislán til íbúðarkaupa og byggingarframkvæmda. Íbúðalánasjóður er fjárhagslega sjálfbær. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að samkeppni við einkareknar bankastofnanir og tryggja jafnrétti lánþega óháð staðsetningu eða atvinnu. Sjóðurinn tapaði um 8 milljörðum vegna bankahrunsins árið 2008. Lokaritgerð. Lokaritgerð er umfangsmikil ritgerð, oftast á háskólastigi, sem lögð er undir dóm prófessors eða nefndar, skipaðrar til að meta lokaritgerðina. Doktorsritgerð er lokaritgerð til doktorsprófs. Gottfried Helnwein. Gottfried Helnwein (fæddur 8. október 1948 í Vín) er austurrískur listmálari, ljósmyndari, innsetningar- og leikgjörningalistamaður. Tenglar. Helnwein, Gottfried Snæfellsnessýsla. Snæfellsnessýsla var kjördæmi í Alþingiskosningum fram til 1959 er Vesturlandskjördæmi var myndað. Ríkisráð Noregs. Ríkisráð Noregs, hið forna, var æðsta valdastofnun norska ríkisins, næst á eftir konungi. Ríkisráðið varð til úr samkundu embættismanna, sem voru ráðgjafar og trúnaðarmenn konungs. Slíkir ráðgjafar hafa ávallt fylgt konungdæminu, án þess þó að um fasta stofnun væri að ræða. Á höfðingjafundi, sem Hákon háleggur Noregskonungur stóð fyrir 1302, var nafnið „ríkisins ráð“ fyrst nefnt, og telst það föst stofnun frá þeim tíma. Með tilkomu Kalmarsambandsins 1397 gekk Noregur í samband við Danmörku um sameiginlegan konung. Ríkisráð Noregs var þó áfram við lýði og stjórnaði norska ríkinu, var það einkum valdamikið þegar konungslaust var. Árið 1450 ákváðu norska og danska ríkisráðið að standa sameiginlega að konungskjöri. Árið 1537 innlimaði Kristján 3. Danakonungur Noreg í danska ríkið, og var ríkisráð Noregs þá lagt niður. Færðist stjórn Íslandsmála þá að fullu undir danska ríkisráðið og Danakonung. Ísland laut norska ríkisráðinu og áttu íslenskir biskupar rétt til setu í ráðinu (eins og aðrir biskupar ríkisins), þó að þeir af eðlilegum ástæðum hefðu sjaldan tækifæri til að sitja fundi þess. Seinastir til þess voru Jón Arason og Ögmundur Pálsson, og fól ríkisráðið þeim einnig völd hirðstjóra á Íslandi. Rocahöfði. Rocahöfði (portúgalska: "Cabo da Roca") er vestasti oddi Portúgals og jafnframt vestasti oddi meginlands Evrópu. Hann tilheyrir portúgalska sveitarfélaginu Sintra í Lissabonumdæmi. Frjálslyndi flokkurinn (1). Frjálslyndi flokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður árið 1926 af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokknum (eldri) sem ekki vildu taka þátt í stofnun Íhaldsflokksins. Flokkurinn bauð fram í landkjöri sama ár undir forystu Sigurðar Eggerz en hann náði ekki kjöri. Flokkurinn bauð fram lista í Alþingiskosningum 1927 og náði Sigurður þá einn kjöri. Frjálslyndi flokkurinn tók þátt í stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929. Frjálslyndi flokkurinn (2). Frjálslyndi flokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður í Reykjavík árið 1973 að undirlagi Bjarna Guðnasonar sem áður hafði klofið sig frá Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Flokkurinn hafði sömu stefnuskrá og Samtökin höfðu samþykkt á stofnfundi sínum 1969. Við klofninginn missti fyrsta ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar meirihluta í neðri deild Alþingis. Frjálslyndi flokkurinn bauð fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík 1974 en fékk engan mann kjörinn. Hann bauð ekki fram í alþingiskosningum sama ár. Bjarkeyjarréttur. Bjarkeyjarréttur eða bæjarmannalög, er lagabálkur sem að fornu var notaður í kaupstöðum og öðrum verslunarstöðum í Noregi og víðar um Norðurlönd. Merking. Ekki er að fullu vitað hvers vegna þessi forna verslunarlöggjöf heitir "Bjarkeyjarréttur". Sumir fræðimenn hafa talið að til hafi verið orðið "birk", í merkingunni verslunarstaður eða lögsagnarumdæmi, sbr. "Bereich" í þýsku. Yfirgnæfandi líkur eru þó á að merkingin sé "lögin frá Bjarkey". Á fyrri hluta víkingaaldar var Bjarkey í Leginum (Mälaren), skammt frá Stokkhólmi, einn mikilvægasti verslunarstaður Norðurlanda. Þar var þéttbýli sem síðar hlaut nafnið Birka, e.t.v. eftir latnesku útgáfunni af Bjarkeyjar-nafninu, "Birca". Á Bjarkey var sérstakt þing, og þar hefur þróast löggjöf sem hentaði höfuðatvinnugrein staðarins, verslun og viðskiptum. Þessi "bjarkeyjarréttur" hefur síðan borist með kaupmönnum frá Bjarkey, og verið viðurkenndur og notaður þar sem þeir héldu kaupstefnur, og síðar víða þar sem fastir verslunarstaðir mynduðust. Bjarkeyjarréttur í Noregi. Orðið "bjarkeyjarréttur" kemur fyrst fyrir í samningi "Um rétt Noregskonungs á Íslandi og rétt Íslendinga í Noregi", frá dögum Ólafs helga (um 1020), og er þá notað um bæjarlögin í Niðarósi. Þó að bjarkeyjarrétturinn hafi í öndverðu verið samnorræn verslunarlöggjöf, þróaðist hún með tímanum með sérstökum hætti í hverjum kaupstað, með nýjum og breyttum reglum. Gamla nafnið hélst þó öldum saman sem lagalegt hugtak, þó að vitneskjan um uppruna þess og merkingu væri alveg gleymd. Fjöldi staða (eyja) á Norðurlöndum ber nafnið "Bjarkey", og rannsóknir hafa sýnt að flestir þeirra hafa eitthvað tengst verslun á miðöldum. Er talið að á víkingaöld hafi nafnið "Bjarkey" færst yfir á marga verslunarstaði, vegna þess að þar gilti "bjarkeyjarréttur". E.t.v. hefur orðið "Bjarkey" smám saman fengið þá merkingu í huga manna. Svæðisbundnu lögin í Noregi Gulaþingslög, Frostaþingslög o.s.frv., voru fyrst og fremst sniðin að bændasamfélaginu, þ.e. landbúnaðarlöggjöf. Því var talin þörf á sérstakri löggjöf fyrir verslunarstaði. Magnús lagabætir lét endurskoða í heild löggjöf í Noregi. Voru þá samin ný "bæjarlög" sem voru nánast eins fyrir helstu kaupstaði í Noregi. Þau voru samþykkt í Björgvin 1276, og síðar eflaust í Niðarósi, Ósló og Túnsbergi. Þessi bæjarlög Magnúsar lagabætis eru kölluð "bæjarlögin nýju", eða samkvæmt gamalli hefð: "bjarkeyjarréttur hinn nýi". Varðveisla. Af hinum forna bjarkeyjarrétti í Noregi eru einungis varðveitt brot og útdrættir úr bjarkeyjarréttinum í Niðarósi. Þar er m.a. kristinréttur, mannhelgibálkur og farmannalög. Margar lagagreinar eru þar sameiginlegar með Frostaþingslögum, enda var bjarkeyjarrétturinn yfirleitt eins konar viðauki við löggjöf viðkomandi svæðis. Einnig kemur fram (í grein 42) að bjarkeyjarréttur sé „á fisknesi hverju og í síldveri og í kaupförum“. Þetta má rekja til þess tíma þegar bjarkeyjarréttur var almenn löggjöf fyrir farmennsku og verslun. Norski bjarkeyjarrétturinn er sá elsti sem varðveittur er á Norðurlöndum. Útgáfa: Norges gamle love inntil 1387 I, bls. 301–336. Nokkrir viðaukar eru í 4. bindi. Bjarkeyjarréttur í Svíþjóð og Danmörku. Til er bjarkeyjarréttur (fornsænska: "biærköarætter") sem hafði lagagildi í Stokkhólmi og víðar. Hann er í handriti frá um 1345, en gæti verið frá seinni hluta 13. aldar, frá dögum Birgis jarls. Einnig er til bjarkeyjarréttur frá Skáni, í handriti frá seinni hluta 14. aldar. Hann gilti í Lundi og öðrum kaupstöðum þar, sem þá heyrðu undir Danmörku. Í Danmörku hafði orðið "birk" merkinguna afmarkað svæði, þar sem íbúarnir sóttu sérstakt þing, annað en héraðsþingið. „Birkerett“ var löggjöf sem gilti á þessu svæði, sem oftast var kaupstaður. Þingið í Worms. Lúther talar á þinginu í Worms. Þingið í Worms var almennt stéttaþing sem keisari hins Heilaga rómverska ríkis boðaði til í Worms þar sem nú er Þýskaland. Þingið stóð frá 28. janúar til 25. maí 1521 og keisarinn, Karl 5., veitti því forstöðu. Þingsins er einkum minnst fyrir að hafa tekið á siðbót Marteins Lúthers sem flutti mál sitt fyrir þinginu. Samkvæmt hefðinni á hann að hafa mælt þar hin fleygu orð „Hér stend ég og get ekki annað, svo hjálpi mér guð, amen!“ (þýska: "Hier stehe ich. Ich kann nicht anders. Gott helfe mir. Amen."). Vatnafjöll. Vatnafjöll eru 40 km langt og 9 km breitt basaltískt gossprungubelti suðaustan við Heklu á Íslandi. Á hólósentímabilinu hefur sprungan gosið tólf sinnum, síðast fyrir 1200 árum. Hæsti tindur Vatnafjalla er 1235 metra yfir sjávarmáli. Erik Weihenmayer. Erik Weihenmayer (f. 23. september 1968) er bandarískur blindur fjallgöngumaður og íþróttamaður. Hann var fyrsti blindi maðurinn sem náði tindi Everestfjalls 25. maí 2001. Hnýði. Hnýði er forðabúr fyrir næringarefni plantna sem þær nýta sér á vetrum og tryggir plöntunni vaxtarmagn vorið eftir. Hnýði eru tvennskonar: "stöngulhnýði" eða "rótarhnýði". Plöntur notast einnig við hnýðið við kynlausa æxlun. Sýklalyf. Sýklalyf (einnig fúkalyf eða fúkkalyf'") á vanalega við efni sem drepa eða hindra vöxt gerla ("baktería"), og eru sýklalyf undirflokkur örverueyðandi efna. Fyrsta sýklalyfið sem fannst var penisillín en það var skoski líffræðingurinn Alexander Fleming sem fyrstur var til þess að finna efnið penisillin af tilviljun í myglu sem hafði ræktast upp í rannsóknarstofuni hjá honum árið 1928. Eftir það hafa verið þróuð mörg sýklalyf með mismunandi virkni. Til eru bæði svokölluð sérvirk sýklalyf sem verka þá á ákveðnar bakteríur sem valda sýkingum en láta aðra bakteríu flóru í friði og síðan eru breiðvirk sýklalyf sem „drepa allt“. Fjórflokkun sýklalyfja. Hægt er að flokka sýklalyf eftir virkni þeirra í fjóra flokka (Tenover FC, 2006). Truflun á nýsmíði frumuveggsins. Innan þessa flokks eru β-laktasar; penisillin, kefalósporín, ampicillín, carbapenem og monobactam. Einnig eru hér efnin glýkópeptíð ásamt vancomycin og teicoplanin. β-laktasa hamla nýmyndun frumuveggsins með því að trufla ensímin sem nauðsynleg eru til nýmundunar peptíðóglýcan lagsins. Vancomycin og teiocoplanin hamla einnig nýmyndunar frumu veggsins, þetta gera þau með því að koma í veg fyrir víxltengingu peptíðóglýcana sem er nauðsynleg fyrir stöðuga nýmyndun á frumuveggnum. Hömlun á nýmyndun próteina. Makrólíð, amínóglýkósíð, klóramfenikól, tetrasýklín, streptogramin og oxazolidinones eru sýklalyf innan þessa flokks. Ríbósóm baktería eru frábrugðin hliðstæðu einingunum í heilkjarna frumum. Þessi sýklalyf nýta sér það og geta þannig sérstaklega hamlað bakteríuvöxt. Makrólíð, amínóglýkósíð og tetrasýklín bindast 30S undireiningunum ríbósómsins á meðan klóramfeníkólið bindist 50S undireiningum. Truflun á nýmyndun kjarnsýra. Í þessum flokk eru meðal annarra lyfin fluoroquinolones, en þau raska nýmyndun á DNA með því að rjúfa tvöföldu DNA sameindina meðan á DNA afritun stendur. Hömlun á efnaskiptaferli. Í þessum flokk eru efni á við súlfónamíð og gagnvirkar fólínsýrur. Rannsóknir hafa sýnt að of mikil notkun sumra sýklalyfa og röng notkun þeirra getur valdið ónæmi gagnvart þeim og þannig þarf sífellt sterkari skammta og lyfjagjöfin dregst yfir lengra tímabil en eðlilegt getur talist. Sumstaðar hafa sýklalyf (til dæmis aureomysín, penisillín og oxýtetracýklín) verið notuð sem íblöndunarefni í dýrafóður. Rengla. a> ("Argentina anserina"). Renglurnar eru rauðleitar. Rengla er jarðlægur eða hulinn sproti sem vex út frá stofni eða jarðstöngli plöntu. Við endann á renglunni myndast ný jurt úr knúppi. Dæmi um jurtir sem fjölga sér með renglum eru jarðarber og kartöflur. Smjattpattar. Smjattpattar voru persónur í barnabókum eftir breska rithöfundinn Denis Bond (sem notaði höfundarnafnið "Giles Reed") myndskreyttar af Angelu Mitson. Smjattpattar voru persónugerðir ávextir og grænmeti sem báru heiti eins og Lúlli laukur, Pála púrra, Kalli kartafla, Mangi maískólfur o.s.frv. Fyrstu bækurnar komu út árið 1978. 1980 voru gerðir brúðuþættir með persónunum fyrir ITC Entertainment. Um miðjan 9. áratuginn eyðilögðust allar upprunalegu myndskreytingarnar í eldsvoða. Á Íslandi komu bækurnar út hjá Bókaútgáfunni Vöku 1982 til 1984 í þýðingu Þrándar Thoroddsen. Árið 1983 voru brúðumyndirnar sýndar í Stundinni okkar og sama ár kom út samnefnd íslensk hljómplata með „Smjattpattalögum“. Bókaútgáfan Vaka. Bókaútgáfan Vaka var íslenskt bókaforlag sem var stofnað árið 1981 af Ólafi Ragnarssyni og Elínu Bergs. Bókaútgáfan var brautryðjandi í útgáfu ódýrra kilja. 1985 keypti fyrirtækið hina gamalgrónu bókaútgáfu Helgafell (stofnað 1942) og til varð bókaútgáfan Vaka-Helgafell. Árni Hafstað. Árni Hafstað í Vík. Málverk eftir André Enard tengdason Árna. Árni Jónsson Hafstað bóndi í Vík í Skagafirði f. 23. maí 1883 á Hafsteinsstöðum d. 22.júní 1969. Foreldrar hans voru Jón Jónsson (1850-1939) bóndi og hreppsstjóri á Hafsteinsstöðum og kona hans Steinunn Árnadóttir (1851-1933). Árni ólst upp hjá foreldrum sínum á Hafsteinsstöðum til 18 ára aldurs en þá fór hann til náms einn vetur til sr. Árna Björnssonar á Sauðárkróki. Næstu tvo vetur var hann á Bændaskólanum á Hólum en fór að því búnu til Akureyrar og lærði garðyrkju og meðferð garðyrkjutækja í Gróðrarstöðinni. Vorið 1906 hélt hann til Danmerkur og Noregs til frekara náms í búfræði. Þar dvaldist hann á annað ár. Vorið 1908 hóf hann búskap í Vík í Staðarhreppi ásamt Sigríði systur sinni. Þar reistu þau stórt hús úr steinsteypu, eitt hið fyrsta þeirrar gerðar í Skagafirði. Í utanför sinni kynntist Árni lýðháskólahreyfingunni á Norðurlöndum og fékk þar mikinn áhuga á alþýðufræðslu. Það varð til þess að hann hann stofnaði unglingaskóla í samvinnu við sveitunga sinn Jón Sigurðsson frá Reynistað. Skólinn tók til starfa í ársbyrjun 1909 í hinu nýreista steinhúsi í Vík. Hann starfaði þó ekki nema í tvö ár en þá var kominn unglingaskóli á Sauðárkróki sem tók starfssemina yfir. Árni var hugsjóna- og félagsmálamaður. Hann átti þátt í stofnun Ungmennafélagsins Æskunnar í Skagafirði og Ungmennafélagsins Tindastóls á Sauðárkróki. Hann var einn af stofnendum Ungmennafélagasambands Skagafjarðar og fyrsti ritari þess. Hann var samvinnumaður og deildarstjóri í Staðardeild Kaupfélags Skagfirðinga, í stjórn Kaupfélagsins sat hann 1938-1947 og var kjörinn heiðursfélagi þess er hann varð 75 ára. Árni var einn af aðalhvatamönnum þess að koma á stofn héraðsskóla í Varmahlíð sem var fyrsti vísir að þorpinu sem þar er nú. Herramenn. Herramenn eru barnabækur fyrir yngstu lesendurna eftir breska rithöfundinn Roger Hargreaves. Herramenn eru einfaldar fígúrur sem hver hefur sinn eiginleika. Fyrsta bókin, "Herra Kitli", kom út árið 1971. Alls urðu bækurnar um herramennina 52. Hann fylgdi þeim eftir með 39 bókum um ungfrúrnar frá 1981. Eftir lát hans 1988 hefur sonur hans, Adam Hargreaves, haldið áfram að semja nýjar sögur í báðum flokkunum. Fjórar teiknaðar sjónvarpsþáttaraðir hafa verið gerðar eftir bókunum, sú fyrsta árið 1975. Á Íslandi komu bækurnar um herramennina út hjá Iðunni frá 1980 í þýðingu Þrándar Thoroddsen. Bókaútgáfan Iðunn. Bókaútgáfan Iðunn er íslenskt bókaforlag sem var stofnað 1945 af Valdimar Jóhannssyni, og starfaði sjálfstætt allt til ársins 2000 en er nú hluti af Forlaginu. Iðunn gaf út mikinn fjölda bóka, bæði undir heiti Iðunnar og undirforlaganna Hlaðbúðar, Skálholts og Draupnisútgáfunnar. Það hafði framan af aðsetur á Skeggjagötu en frá því um 1975 á Bræðraborgarstíg 16. Útgáfubækur forlagsins voru af öllu tagi, frá fræðiritum til þýddra reyfara, og á meðal þeirra höfunda sem forlagið gaf út voru Alistair MacLean, en spennusögur hans voru mest seldu bækur landsins ár eftir ár á 7. og 8. áratug 20. aldar, og Enid Blyton, sem var í svipaðri stöðu hvað barnabækur varðaði. Þekktasta útgáfuverk Iðunnar er þó vafalítið bókaflokkurinn Aldirnar, en fyrsta bókin í þeim flokki, "Öldin okkar 1901-1930", kom út árið 1950 og sú nýjasta, "Öldin okkar 1996-2000", kom út árið 2010, réttum 60 árum síðar. Útgáfan var einnig umsvifamikil á sviði teikmimyndasagna um tíma og gaf út marga flokka þeirra, svo sem Sval og Val, Viggó viðutan og Strumpana. Árið 2000 sameinaðist Iðunn útgáfufyrirtækinu Fróða og varð bókaútgáfudeild þess. 2003 seldi Fróði forlagið til Eddu miðlunar og 2007 gekk Iðunn svo, ásamt öðrum forlögum, til Forlagsins, en forstjóri þess, Jóhann Páll Valdimarsson, er sonur Valdimars stofnanda Iðunnar. Enn koma út nokkrar bækur á ári undir nafni Iðunnar. Legkaka. Legkaka eða fylgja er skammvinnt líffæri sem fyrirfinnst í legkökuspendýrum á meðan á óléttu stendur. Messier 81. Mynd úr Hubble geimsjónauka af Messier 81. Messier 81 er stjörnuþoka sem er í 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Messier 81 er í stjörnumerkinu Stóri-Björn. Hún er þyrilþoka. Ný Evrópa með augum Palins. Ný Evrópa með augum Palins (e. "Michael Palin's New Europe") eru ferðaþættir þar sem leikarinn Michael Palin ferðast um 20 lönd í Austur-Evrópu og skoðar m.a. þær breytingar sem hafa átt sér stað eftir hrun Berlínarmúrsins. Þættirnir eru sjö talsins og er hver þáttur ein klukkustund. Kvæðamannafélagið Iðunn. Kvæðamannafélagið Iðunn er stofnað þann 15. september árið 1929. Starfsemi þess er einkum tvíþætt: Að yrkja vísur, einkum undir hefðbundnum bragarháttum, og að kveða vísur eftir gömlum stemmum, sem félagar Iðunnar söfnuðu fyrr á árum. Þriðja hlutverkið hefur raunar bæst við, sem er að hlúa að þjóðlegri tónlistarhefð. Núverandi formaður félagsins er Ragnar Ingi Aðalsteinsson. Phoenix (geimfar). "Phoenix" ("Fönix" á íslensku) er tölvustýrt geimfar á sendiför könnunar geimsins á Mars. Vísindamenn sem stjórna sendiförinni munu nota verkfæri til að leita að kjörlendum sem er viðeigandi fyrir örverur, og til að rannsaka sögu vatns á Mars. Verkefnið er samvinna milli háskóla á Bandaríkjum, Kanada, Sviss, Filippseyjum, Danmörk, Þýskalandi og Bretlandi, NASA, Canadian Space Agency og annarra fyrirtækja. Arizona-háskóli stjórna sendiförinni með Jet Propulsion Laboratory í NASA. "Phoenix" var skotið á loft 4. ágúst 2007, klukkan 5:26:34 EDT frá Cape Canaveral Air Force Station í Flórída. Það lenti á velheppnaðan hátt á Mars 25. maí 2008. Basil Bernstein. Basil Bernstein (1. nóvember 1924 – 24. september 2000) var breskur félagsfræðingur og málfræðingur. Hann er þekktur fyrir kenningar sínar um félagsfræði uppeldis- og kennslu. Fjölskylda Bernstein var innflytjendur af gyðingættum í Austur-London. Hann var um fertugt þegar hann tók doktorspróf. Bernstein starfaði við Lundúnaháskóla. Kenningar Basil Bernstein um félagsfræði uppeldis- og kennslu greina það táknkerfi sem stýrir skólastarfi. Hann leiðir rök að því að kennsluhættir byggi á reglum um samskipti og hefðum sem hafa mótast innan stofnana á löngum tíma. Þessar samskiptareglur nefnir hann hina stýrandi (regulative) orðræðu. Lykilhugtök í kenningum hans eru flokkun (classification) og umgerð (framing) þar sem flokkun lýsir uppbyggingu félagslegs rýmis t.d. hvernig námsgreinum er skipt og hvernig fólk er flokkað í nemendur og kennara. Umgerð vísar til þess hvar yfirráðin eru yfir samskiptum, hver stýrir þeim. Tenglar. Bernstein, Basil Fagvörur. Fagvörur er matvælafyrirtæki sem framleiðir fjöldan allan af matvælum fyrir íslenskan markað. Fyrirtækið er einnig í sölu á tækjum fyrir efnaiðnað ásamt influtningi á pökkunarvélum E-161b. Lútín eða E-161b er andoxunarefni sem finnst í blaðgrænmeti eins og spínat og káli. Það er karótínefni. Hnit (stærðfræði). Mynd sem sýnir einfalt hnitakerfi Hnit í stærðfræði á við talnapar ("a","b"), sem sýnir staðsetningu punkts á tvívíðri sléttu, s.n. hnitakerfi. Hér eru "a" og "b" stök í mengi rauntalna og lýsa staðsetningu punktsins, "a" miðað við láréttan "x-ás" og "b" miðað við lóðréttan "y-ás". Skurðpunktur þeirra hefur hnitið (0, 0) og er oft kallaður "upphafspunktur" O (dregið af orðinu "origo", sem þýðir upphaf). Einnig getur hnit verið talnaþrennd af gerðinni ("a","b","c"), sem sýnir hvar punktur er í þrívíðu hnitakerfi. Eins og í tvívíða kerfifnu eru "a", "b" og "c" rauntölur og lýsa stöðu punktsins miðað við þrjá ása, x-ás og y-ás, sem eru hornréttir í láréttum fleti, og "z-ás", sem er lóðréttur og sker hina tvo í sameiginlegum skurðpunkti, O = (0,0,0). Á svipaðan hátt er mögulegt að sýna tvinntölu "a" + i"b", þar sem "i" er þvertala, á tvinntalnasléttu, en þá kallast lóðrétti ásinn "þverás". Algengust eru eftirfarandi hnitakerfi: rétthyrnt hnitakerfi og skauthnitakerfi. Einstaklingshyggja. Einstaklingshyggja er sú hugsun eða stefna að hver einstaklingur eigi fyrst og fremst að sjá um sjálfan sig og vini, ættingja eða aðra sem hann vill sjálfur, frekar en að einstaklingar og samfélag hafi gagnkvæmum skyldum að gegna, eins og félagshyggja segir. Einstaklingshyggja er stundum talin fylgjast að með sumum tegundum pólitískrar hægristefnu, sérstaklega frjálshyggju, en það er ekki algilt. Einstaklingshyggju-anarkismi er ein tegund stjórnleysisstefnu, þar sem áherslan er (eins og nafnið bendir til) á einstaklinginn frekar en samfélagið. Nútíma einstaklingshyggja kom fram á nýöld og tilurð hennar er tengd tilurð kapítalískra framleiðsluhátta. Annars vegar fóru atvinnurekendur að semja við launamenn á einstaklingsgrundvelli (í það minnsta fyrir tilkomu stéttarfélaga) í meiri mæli en áður var, svo það varð reglan frekar en undantekningin. Þannig varð einstakur vinnandi maður að framleiðslueiningu, í stað heimilisins, sem áður var. Hins vegar losnaði um bönd lénsveldisins og bændaánauð, vistarband og slíkar hömlur á einstaklingsfrelsi rofnuðu. Transfólk. Transfólk ("transkona", "transmaður") er manneskja sem lætur leiðrétta um kyn sitt (e. "transsexual"). Nefna má að orðið "'kynskiptingur"' er úrelt orð, enda mjög misvísandi varðandi ferli transfólks. Orðið skipti gerir ekki aðeins lítið úr einstaklingnum, heldur vísar til einhverskonar sífellu eins og það sé hægt að skipta fram og til baka. En það á alls ekki við í tilfelli transfólks. Algeng ástæða fyrir því að fólk leiðréttir kyn sitt er að það telji sig vera í „röngum líkama“ — upplifi sig og hugsi til dæmis sem kona en sé samt líffræðilegur karl. Fólk sem þannig er ástatt um velur stundum leið kynleiðréttingar. Þetta tengist þó ekkert kynhneigð viðkomandi. Kynhneigð transfólks er eins mismunandi og hjá öllum öðrum. Hormónameðferð. Kynleiðrétting hefst á hormónameðferð. Einstaklingur þarf að vera í hormónameðferð í minnsta kosti ár áður en hægt er að fara í sjálfa kynleiðréttinguna. Við meðferðina tekur viðkomandi á sig viss líkamleg einkenni ákveðins kyns vegna áhrifa hormónanna. Transmenn (karl sem fæðist með kynfæri konu) þarf að taka inn testósterón og við það eykst m.a. skeggvöxtur, vöðvar byrja að stækka og rödd dýpkar svo fátt sé nefnt. Transkona (kona sem fæðist með kynfæri karls) tekur inn estrógen og prógesterón, sem m.a. minnka eða stöðva skeggvöxt, hafa áhrif á fitumyndun og láta brjóst byrja að myndast og fleira. Skurðaðgerð. Eftir nógu langan hormónakúr getur einstaklingur undirgengist kynleiðréttingaðgerð. Ber að nefna að ekki allt transfólk velur að undirgangast slíka aðgerð. Við hana kyn einstaklings leiðrétt til að samsvara kyngervi einstaklingsins. Félagslegi þátturinn. Þar sem kynferði fólks er ekki síður félagslegt en líffræðilegt, er félagslega breytingin ekki minni heldur en sú líffræðilega. Þannig þarf transfólk að axla nýtt félagslegt hlutverk, sem nær allt frá því að breyta færslu í þjóðskrá yfir í að hætta að fara á karlaklósett og fara á kvennaklósett í staðinn, eða öfugt. Friðarsinni. Friðarsinni er manneskja sem vill að friður ríki meðal fólks. Þótt flestir vilji það, þá er hugtakið yfirleitt tengt við fólk sem beitir sér á einn eða annan hátt gegn ófriði, einkum stríðsrekstri. Friðarbarátta er nátengd baráttu fyrir m.a. lýðræði, mannréttindum og jafnrétti og samtök friðarsinna hafa þessi málefni oft öll á stefnuskrá sinni. Fortakslausir friðarsinnar. Sumir friðarsinnar aðhyllast fortakslausa friðarhyggju og hafna allri valdbeitingu. Þeir álíta að leiðirnar til að berjast gegn yfirgangi, óréttlæti eða ofbeldi séu fólgnar í friðsömum aðferðum á borð við fundi, kröfugöngur, mótmæli, bréfaskriftir, undirskriftasafnanir o.s.frv. And-heimsvaldasinnar. Sumir friðarsinnar vilja ekki bara frið heldur réttlátan frið, og setja valdbeitingu valdamanna ekki undir sama hatt og andspyrnu gegn henni. Þeir fordæma þannig ekki andspyrnuhreyfingar sem berjast gegn hernámi eða skæruliða sem berjast gegn einræðisstjórnum og setja auk þess ekki endilega samasemmerki milli ríkja sem þeir telja að stundi heimsvaldastefnu og ríkja sem streitast gegn henni. Litla-Brekka. Litla-Brekka var torbær við Þormóðsstaðaveg í Grímsstaðaholtinu í og var síðasti torfbærinn í Reykjavík. Bærinn stóð á horninu milli Suðurgötu og Eggertsgötu þar sem nú er bílastæði við stúdentagarðana. Litla-Brekka var byggð úr grjóti og torfi árið 1918 sem blanda af steinbæ og venjulegum torfbæ. Í bænum voru þrjú lítil herbergi og eldhús og lítil viðbygging. Bærinn var um 40-50 fm að stærð. Í bænum bjuggu 8-9 manns þegar mest var. Þakið var úr torfi og vegghleðslur úr torfi og grjóti. Í viðbyggingunni var forstofa, geymsla og kamar. Vatnssalerni var aldrei í Litlu-Brekku. Í fyrstu var ekki rafmagn og vatn sótt í vatnspóst við Þrastargötu. Bærinn var byggður á rústum eldri bæjar. Hann stóð fyrir utan Reykjavík þegar hann var byggður. Ekki var búskapur í Litlu-Brekku nema þar voru hænsni og ræktaðar kartöflur. Eðvarð Sigurðsson alþingismaður ólst upp í Litlu-Brekku og bjó þar á fullorðinsárum með móður sinni og systur. Simi hans í Litlu-Brekku var hleraður. Eftir að þær létust þá bjó hann einn í Litlu-Brekku fram til ársins 1980. Bærinn var rifinn haustið 1980. Saltvíkurhátíðin. Saltvík '71 eða Saltvíkurhátíðin var útihátíð sem haldin var um hvítasunnuhelgina 28.-31. maí árið 1971 í Saltvík á Kjalarnesi. Jörðin var þá rekin sem útivistarvettvangur fyrir börn á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Ákveðið var að halda hátíðina til að reyna að stemma stigu við óskipulegum samkomum ungs fólks úti á landi yfir þessa helgi þar sem þótti bera á miklum drykkjuskap. Þetta tókst þó illa því talsverð ölvun varð á hátíðarsvæðinu, sérstaklega um kvöldið þegar skemmtistöðum lokaði í Reykjavík og straumur leigubíla flutti eldra fólk á hátíðarsvæðið. Talið er að þegar mest var hafi um tíu þúsund manns verið á svæðinu. Seldir aðgöngumiðar voru um átta þúsund. Rigning setti líka mark sitt á hátíðina. Löggæsla var höfð í lágmarki og ekki leitað á fólki við hliðið, en einhverjir gengu um svæðið og helltu niður áfengi fyrir unglingum. Hjálparsveit skáta sá um fyrstu hjálp. Talsverð umræða spannst um hátíðina eftir helgina og var Æskulýðsráð gagnrýnt af mörgum fyrir að standa að henni. Hljómsveitir og tónlistarfólk sem komu fram á hátíðinni voru Arkimedes, Dýpt og Tiktúra, Ævintýri, Tilvera, Jeremias, Akropolis, Júmbó, Torrek, Trix, Mánar og Ingvi Steinn söngvari, Trúbrot, Náttúra, Ríó Tríó, Þrjú á palli, Kristín og Helgi, Árni Johnsen, Lítið eitt og Bill og Gerry, Roof Tops, Haukur og Plantan. One Tree Hill. "One Tree Hill" er bandarískur sjónvarpsþáttur búinn til af Mark Schwahn. Hann var frumsýndur 23. september 2003 á stöðinni The WB Television Network en eftir þriðju þáttaröð var hann sýndur á CW Television Network. Þátturinn á sér stað í bænum Tree Hill í North Carolina og þar er fylgst með lífi hálfbræðranna Lucas Scott (Chad Michael Murray) og Nathan Scott (James Lafferty). Þeir hafa báðir mikinn áhuga á körfubolta og er mikið drama á þeim. Tökur á þættinum voru aðallega í Wilmington í North Carolina. Í fyrstu fjórum þáttaröðunum er fylgst með pérsónum í framhaldsskólanum Tree Hill High, en í lok fjórðu þáttaraðar hafa þær útskrifast úr framhaldsskóla og fara sínar eigin leiðir í lífinu. Hins vegar í fimmtu þáttaröð er farið fjögur ár fram í tímann og er fylgst þá með lífi þeirra eftir háskóla. Þátturinn naut mikilla vinsælda en var hann sýndur á SkjáEinum á Íslandi. Í fyrstu fjórum þáttaröðunum var lagið „I Don't Want to Be“ með Gavin DeGraw. Frá áttundu þáttaröð var lagið notað aftur sem upphafstef en það var ekki sungið með Gavin DeGraw, heldur mismunandi tónlistarmönnum í hverri viku. Alls voru níu þáttaraðir gerðar en þeirri síðustu lauk 4. apríl 2012. Söguþráður. "One Tree Hill" fjallar aðallega um samband bræðranna Lucas og Nathan Scott og vina þeirra. Þeir þekktust ekki af því að pabbi þeirra Dan Scott fór frá mömmu Lucasar þegar hún eignaðist hann og hafði ekkert samband við hann meira. En þá giftist hann Deb og átti með henni Nathan en hann ól hann upp og ákvað að hann yrði körfuboltastjarna og ýtti á hann mikið. Samband Lucas og Nathans byrjaði aðallega þegar Lucas ákvað að vera með í framhaldskólaliðið í körfubolta Tree Hill Ravens eftir hjálp frænda Lucasar og Nathans sem ól hann Lucas upp. Þá byrja Nathan og Lucas að rífast mikið, af því að Lucas var hrifinn af kærustunni hans Peyton Sawyer. Og þá byrjar besta vínkona Peyton (Brooke Davis) að vilja Lucasar og Nathan með bestu vinkonu Lucasar til þess að reyna að særa hann. Eftir það byrjar Karen mamma Lucasar og Deb mamma Nathans að vera miklar vínkonur, og hún Deb byrjar að vera eigandi með Karen af kaffihúsinu hennar. En Dan er illa við það af því að hann vill helst ekki vera í sambandi við hana. Í fyrstu þáttaröð er fjallað um kynningu á persónunum, og svo líka skólalífið hjá þeim sem nýnemar. Ástarsambandið milli Haley og Nathans, sambandið milli Peyton, Lucas og Brooke flókna sambandið, og svo líka sambandið hjá foreldrunum þeirra. Í annarri þáttaröð er farið í gegnum annan helminginn á þeirra nýnema árum, og er fyglst með körfuboltabransanum og ný ástarsambönd byrja. Lucas fer í stefnamót við stelpu sem heitir Anna Taggaro og Peyton byrjar með Jake Jegielski. Svo byrjar smá ástarþríhyrningur á milli Felix Taggaro. Brooke og Mouth Mcdadden. Þessi þáttaröð sýnir líka sambandserfiðleika hjá Haley og Nathan út af tónlistarmanninum Chris Keller, og heilsufar Lucasar og Nathan af því að þeir eru með miklar líkur til þess að fá hjartasjúkdóm, eins og faðir þeirra er með. Peyton byrjar með eiturlyfjavandarmál og líka út af vandamálunum á milli hennar og raunverulegu móðir hennar. Karen byrjar með skemmtistað sem heitir Tric og byrjar í ástarsambandi með kennaranum sínum Andy Hargrove, og Deb á í erfiðleikum með eiturlyf. Í maí 2009 var ákveðið að Chad Michael Murray og Hilarie Burton skyldu ekki halda áfram að leika í sjöundu þáttaröð. Persónur þeirra Lucas Scott og Peyton Sawyer voru þá fluttar úr Tree Hill, en þeim var sagt upp af því að það framleiðendurnir áttu ekki efni á að borga þeim. Melarokk. Melarokk voru tónleikar sem voru haldnir á Melavellinum í Vesturbæ Reykjavíkur á laugardegi 28. ágúst 1982. Tónleikarnir eru stundum sagðir marka endalok blómaskeiðs pönksins á Íslandi. Heimildarmynd Friðriks Þórs, "Rokk í Reykjavík", hafði komið út vorið áður, og tónleikarnir Risarokk voru haldnir í Laugardalshöll 10. september af aðstandendum myndarinnar, aðeins tíu dögum eftir Melarokk, en þeir fengu slæma dóma. Tónleikarnir hófust fyrst einum og hálfum tíma eftir áætlaðan tíma vegna þess að aðstandendur námskeiðs Paul Zukovsky í Háskólabíói óttuðust að Melarokk myndi trufla lokahátíð þeirra, því var beðið þar til þeim tónleikum lauk. Um 2000 manns sóttu tónleikana þrátt fyrir kulda og rok. Aðalnúmer kvöldsins, hljómsveitin Þeyr, mætti ekki þegar hún átti að leika síðust í röðinni og nokkrir meðlimir annarra hljómsveita hlupu þá í skarðið til að loka dagskránni. Hljómsveitirnar sem komu fram á tónleikunum voru Reflex, Tappi tíkarrass, KOS, Grýlurnar, Hin konunglega flugeldarokksveit, Stockfield Big Nose Band, Q4U, Vonbrigði, Fræbbblarnir, Þrumuvagninn, Pungó og Daisy, Lola, Bandóðir, BARA-flokkurinn og Purrkur Pillnikk. Lagos. Lagos er stærsta þýttbýlissvæði í Nígeríu ásamt því að vera stærsta þéttbýlissvæði í Afríku. Borgin er í örum vexti en þar eiga heima meira en 8 milljón manns. Fólksfjölgun í borginni sú önnur hæsta í Afríku og sú sjöunda hæsta í heiminum (mest fólksfjölgun í Afríku á sér nú stað í borginni Bamakó í Malí). Borgin sem áður var höfuðborg Nígeríu er nú aðalmiðstöð efnahags og viðskipta í Nígeríu. Cyrano de Bergerac. Cyrano de Bergerac á koparstungu frá 17. öld. Cyrano de Bergerac (6. mars 1619 – 28. júlí 1655) var franskt leikskáld og skylmingamaður. Hann er fyrst og fremst þekktur í dag vegna samnefnds leikrits um hann sem Edmond Rostand skrifaði 1897. Hvítasunnudagur. Niðurför heilags anda á handritalýsingu frá 15. öld. Hvítasunnudagur er hátíð í kirkjuári kristinnar kirkju. Hann er 49. dagurinn eftir páskadag og tíundi dagurinn eftir uppstigningardag. Forngrískt heiti hans er πεντηκοστή [ἡμέρα] (pentekostē [hēmera]) sem merkir fimmtugasti (dagur). Dagsins er minnst sem þess dags þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana og aðra fylgjendur Jesú eins og lýst er í Postulasögunni. Mánudagurinn eftir hvítasunnudag, annar í hvítasunnu, er almennur frídagur á Íslandi. Saltvík. Saltvík er jörð á Kjalarnesi við Kollafjörð. Reykjavíkurborg keypti jörðina 1963 og 1967 var opnað þar útivistarsvæði og aðstaða fyrir börn og unglinga á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. 1971 var t.d. haldin þar Saltvíkurhátíðin að frumkvæði hljómsveitarinnar Trúbrots og Æskulýðsráðs. Æskulýðsráð rak jörðina fram á miðjan 9. áratuginn þegar hún var leigð undir aðra starfsemi. Jörðin var seld árið 1997 og þar er núna kjötvinnsla. Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur. Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur, áður Íþrótta- og tómstundaráð, enn áður Æskulýðsráð, er starfssvið í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem skipuleggur tómstundastarf fyrir börn og unglinga. Starfsemin er umfangsmikil og nær yfir rekstur allra frístundamiðstöðva, frístundaheimila og félagsmiðstöðva í Reykjavík, auk Hins hússins og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. Að auki rekur Íþrótta- og tómstundaráð fjórar íþróttamiðstöðvar og sjö sundlaugar og ylströndina í Nauthólsvík. Æskulýðsráð Reykjavíkur var stofnað árið 1956 og sá í fyrstu um rekstur tómstundaheimilis við Lindargötu. 1964 flutti starfsemin í Fríkirkjuveg 11 sem áður hafði verið í eigu Góðtemplarareglunnar. ÍTR sér líka um Skrekk sem er hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkur. Lee Hazlewood. Lee Hazlewood (9. júlí 1929 – 4. ágúst 2007) var bandarískur kántrýsöngvari og lagahöfundur. Hann var þekktastur undir lok 6. áratugarins þegar hann var í samstarfi við gítarleikarann Duane Eddy og á 7. áratugnum þegar hann vann með Nancy Sinatra. Þekktustu lög Hazlewoods eru þau sem Sinatra söng, eins og „These Boots Are Made For Walkin“, „Jackson“ og „Summer Wine“ sem var þýtt á íslensku sem „Sumarást“ og flutt af Hljómsveit Ingimars Eydal. Eftir 1970 dró hann sig að mestu leyti í hlé og flutti til Stokkhólms. Í Svíþjóð framleiddi hann klukkutíma langan sjónvarpsþátt, "Cowboy in Sweden". Þátturinn vann til fjölda verðlauna og eitt af lögunum úr þættinum, dúett sem hann söng með Ninu Lizell, „Vem kan segla förutan vind“, varð gríðarvinsælt. Eitt af síðustu verkum Hazlewoods var söngur á hljómplötu Amiinu, "Hilli (At The Top Of The World)". Gúttóslagurinn. Gúttóslagurinn var baráttutengdar götuóeirðir í miðbæ Reykjavíkur 9. nóvember 1932. Slagsmál brutust út milli lögreglumanna og verkamanna við Góðtemplarahús Reykjavíkur („Gúttó“) en þar voru bæjarstjórnarfundir haldnir. Á fundi bæjarstjórnar þennan dag var tekin til afgreiðslu tillaga um að lækka kaupið í atvinnubótavinnu á vegum bæjarins en þá höfðu áhrif kreppunnar miklu orðið til þess að auka atvinnuleysi á landinu mikið. Mikill mannfjöldi safnaðist saman við Gútto og mótmæli byrjuðu inn í húsinu og færðust út á götu. Slagsmálunum lauk með því að lögregla hörfaði og hætt var við tillöguna. Skírn. Skírn er sakramenti hjá kristinni kirkju. Hún fer vanalega fram með því að prestur eys vatni á höfuð þess sem er skírður. Með skírn er hugmyndin að maður gangist guði á hönd og öðlist hlutdeild í fyrirgefningu og náð og aðgang að himnaríki á efsta degi. Barnaskírn og ferming. Flestar kirkjur skíra smábörn, en sumar þeirra telja barnaskírn ranga þar sem smábarn geti ekki verið trúað eða skilji ekki hvað felst í skríninni. Kirkjur sem skíra smábörn láta þau því yfirleitt fermast líka þegar þau stálpast, en ferming er játun eða staðfesting ungmennis á skírn sinni. Orðið er líka dregið af latneska „confirmare“ („að staðfesta“) eða „conformatio“ („staðfesting“). Niðurdýfingarskírn. Sumar kirkjur, einkum þær sem skíra fullorðna, ausa ekki vatni yfir höfuð þess sem er skírður, heldur er vaðið út í laug þar sem viðkomandi er dýft ofan í og skírður þannig. Reglur um skírn á Íslandi. Í þá daga er kirkjan réð meiru en hún gerir nú, þótti skipta mjög miklu að börn væru skírð eins fljótlega eftir fæðingu og unnt var. Það skipti sérstaklega miklu máli ef þau þóttu ekki lífvænleg, en fólk trúði því að sá sem dæi óskírður færi til helvítis (eða í forgarð helvítis í kaþólskri tíð). Því tiltóku lög nákvæmlega hvernig skyldi bera sig að, t.d. hver mætti skíra ef ekki næðist í prest (í forgangsröð frá fullveðja karlmanni til stúlkubarns) eða hvað mætti nota til skírnarinnar ef ekki næðist í rennandi lindarvatn (í forgangsröð frá snjóbráð til mjólkur). Frumtök. Frumtök eru hagsmunasamtök fyrir framleiðendur frumlyfja. Tilgangur samtakana er að vernda hagsmuni framleiðanda frumlyfja á Íslandi sem og erlendis. Forseti Ísraels. Forseti Ísraels (hebreska: נשיא המדינה, "Nesi HaMedina", þýðing "ríkisforseti") er þjóðhöfðingi Ísraels. Staðan er að mestu leyti táknræn, Forsætisráðherra hefur framkvæmdavald. Um þessar mundir er forsetinn Shimon Peres sem tók við embætti 15. júlí 2007. Forsetar eru kosnir hver sjö ár af Knesset og er í þjónustu yfir eitt stjórnartíð. Eftirskjálfti. Eftirskjálfti er jarðskjálftakippur sem kemur í kjölfar mikils upphafskipps í jarðskjálftum, en er oftast veikari en aðalkippurinn. Eftirskjálftar eru oftast margir eftir venjulegan jarðskjálfta, og missterkir. Dyr. Dyr eru manngengt op inn í hús eða milli herbergja, oftast með umbúnaði til að hurð geti fallið fyrir. Varast ber að rugla dyr saman við hurð, en hurð er flekinn sem fellur að dyrum. Enska orðið "door" getur aftur á móti þýtt hvortveggja, hurð og dyr, en ekki í íslensku. Orðið dyr er fleirtöluorð. Farþegaflugvél. Farþegaflugvél er flugvél sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að flytja farþega gegn greiðslu. Slíkar flugvélar eru yfirleitt reknar af flugfélögum sem eiga eða leigja flugvélarnar. Hvað telst vera farþegaflugvél er mismunandi milli landa en yfirleitt er miðað við vél með fleiri en 20 sæti fyrir farþega og/eða tómaþyngd sem er yfir 22.680 kíló eða 50.000 pund og minnst tvo hreyfla. Breiðþota. a> er stærsta og breiðasta farþegaflugvél heims. Breiðþota er farþegaflugvél með tvo gangvegi og sjö til tíu farþega í hverri sætaröð. Bolurinn er venjulega 5-6 metrar á breidd. Dæmigerðar breiðþotur bera 200 til 600 farþega meðan venjulegar flugvélar bera mest um 280 farþega. Minnisvarði. Minnisvarði eða minnismerki er hlutur sem þjónar þeim tilgangi að minna á látna manneskju eða liðinn atburð. Algengasta form minnisvarða er legsteinn sem settur er yfir gröf látinnar manneskju. Minnisvarðar sem helgaðir eru þekktu fólki eða merkisatburðum eru venjulega höggmyndir, gosbrunnar eða jafnvel almenningsgarðar. Suðurlandsskjálftinn 29. maí 2008. Þann 29. maí 2008 klukkan 15:45 riðu yfir tveir suðurlandsskjálftar samtímis sem voru um 6,3 stig á Richter-kvarða yfir Suðurland á Íslandi. Talið er að annar skjálftinn hafi hrint hinum af stað. Hann fannst á höfuðborgarsvæðinu og alla leið til Ísafjarðar.. Almannavarnir lýstu yfir hæsta viðbúnaðarstigi í Selfossi, Hveragerði og nágrenni vegna hugsanlegra eftirskjálfta. Ekkert mannfall varð, en nokkrar sauðkindur urðu undir byggingum og fórust og nokkrum þurfti að lóga. Eignatjón. Töluverðar skemmdir urðu á þeim svæðum sem næst lágu skjálftaupptökunum. Hlutir hrundu úr hillum á heimilum og verslunum, meðal annars næstum allar flöskur ÁTVR-verslunarinnar í Hveragerði og á Selfossi og sprungur mynduðust í húsveggjum. Töluvert var einnig um skemmdir innandyra þegar húsgögn og aðrir lausamunir köstuðust til og frá í jarðskjálftanum.Af öruggisástæðum var fólki sem bjó næst upptökunum ráðlagt að sofa ekki heima hjá sér næstu nótt á eftir. Einhver slys urðu á fólki við skjálftann, en engin alvarleg. Þjóðvegur eitt skemmdist við Ingólfsfjall og skemmdir urðu á Óseyrabrú sem var lokað tímabundið á meðan skemmdir voru metnar. Slys og áhrif á fólk. Ekki er vitað um nein stórslys á fólki en allmargir urðu fyrir smávægilegum meiðslum þegar skjálftinn reið yfir. Vistfólk á dvalarheimilum aldraðra í Hveragerði og á Selfossi sem og sjúklingar á Sjúkrahúsinu á Selfossi voru flutt út undir bert loft og starfsfólk og fangar á Litla Hrauni eyddu deginum úti í garði fangelsisins. Slys á dýrum. Útihús hrundu á nokkrum bæjum. Á bænum Krossi í Ölfusi hrundi útihúsið með þeim afleiðingum að fé varð undir og þurfti að lóga nokkrum ám og lömbum. Skriður og grjóthrun. Grjóthrun og skriðuföll urðu víða í hlíðum Ingólfsfjalls. Allt að hundrað tonna björg ultu sums staðar niður á flatlendið og rykmekkir stigu upp. Skriðurnar voru flestar smáar og ollu hvergi tiltakanlegu tjóni. Jarðvegsspilda seig fram í Sogið innan við Sogsbrúna. Fréttir bárust af smávægilegu grjóthruni í Esju og í Vestmannaeyjum. Jörð færðist til. Með haustinu sáu menn að mælipunktar landmælinga höfðu færst úr stað, svo mæla þarf land upp á nýtt. Mælingarnar eru gerðar á vegum Landmælinga Íslands, Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna o.fl. Meðal annars hækkaði Selfoss um 6 cm og færðist til suðausturs um 17 cm, miðað við mælipunkta í Reykjavík. Haft var eftir Páli Bjarnasyni, við Verkfræðistofu Suðurlands, að tilfærslan gæti „verið heilmikil, en ekkert sem fólk finnur beint fyrir. Þetta gerðist líka eftir skjálftana árið 2000, en þá gekk færslan sem var um 10 cm á Selfossi að hluta til baka. Í skjálftunum í vor færðist Selfoss til um 17 cm til suð-austurs og hækkaði um 6 cm, en Hveragerði færðist um 14 cm til norð-austurs en þetta mun sennilega ganga að einhverju leyti til baka eins og árið 2000.“ Kosningaaldur. Kosningaaldur er lágmarksaldur sem þarf til að öðlast kosningarétt í almennum kosningum samkvæmt lögum. Langflest lönd heimsins tilgreina kosningaaldur. Í dag er algengast að miða við átján ára aldur en þegar almennum kosningum var komið á var algengt að miða við 21 árs aldur. Mizunoo annar. Mizunoo annar (japanska: 後水尾天皇 "Go-Mizunoo-tennō") (29. júní 1596 – 11. september 1680) var 108. Japanskeisarinn samkvæmt hefðbundinni röð. Hann ríkti frá 1611 til 1629. Mizunoo var þriðji sonur Yōzei annars. Fyrsta eiginkona hans var Tokugawa Kazuko, dóttir Tokugawa Hidetada. Dóttir þeirra varð síðar Meishō keisaraynja. Nurhaci. Nurhaci (kínverska: 努爾哈赤 [Nǔ'ěrhāchì] or 努爾哈齊 [Nǔ'ěrhāqí]; mansjúríska: 18px) (1558 – 30. september 1626) var stofnandi Mansjúveldisins í Kína. Árásir hans á Mingveldið í Kína og Jóseonveldið í Kóreu lögðu grunninn að Kingveldinu sem ríkti í Kína frá 1644 til 1912. Hann sameinaði ættbálka Jurchena undir sinni stjórn og lýsti sig fyrsta kan síðara Jinveldisins árið 1616. Mústafa 1.. Mústafa 1. (1591 – 20. janúar 1639) (arabíska: (arabíska: مصطفى الأول) var Tyrkjasoldán frá 1617 til 1618 og aftur 1622 til 1623. Hann var bróðir Akmeðs 1. sem lést ungur úr taugaveiki. Mústafa var talinn seinfær eða í besta falli taugaóstyrkur og var aldrei annað en tæki í valdabaráttu hirðmanna í Topkapı-höll. Í valdatíð bróður síns var honum haldið í stofufangelsi í fjórtán ár. Eftir stutt valdaskeið í kjölfar andláts Akmeðs tók hinn ungi sonur Akmeðs, Ósman 2. við hásætinu (1618-1622). Eftir að janissarar myrtu Ósman, tók Mústafa aftur við völdum um stutt skeið en var brátt steypt af stóli af bróður Ósmans, Múrað 4. (1623-1640). Ósman 2.. Ósman 2. (líka þekktur sem Genç Osman sem merkir „Ósman ungi“ á tyrknesku) (ósmanska: عثمان ثانى "‘Osmān-i sānī") (3. nóvember, 1604 – 20. maí, 1622) var Tyrkjasoldán frá 1618 til dauðadags. Hann var sonur Akmeðs 1. sem lést þegar hann var aðeins þrettán ára. Fjórtán ára varð hann soldán í kjölfarið á hallarbyltingu gegn föðurbróður hans, Mústafa 1.. Hann samdi um frið við Safavídaríkið í Íran og hélt með her inn í Pólland í Moldavísku stórmennastyrjöldunum. Eftir ósigur gegn Pólverjum í orrustunni um Kotin 1621 sneri hann aftur til Istanbúl með skömm og kenndi lífverðinum, janissörum, um ófarirnar. Hann hóf að reyna að brjóta lífvörðinn niður með því að loka kaffihúsum þeirra og koma á fót nýjum her skipuðum Tyrkjum. Janissarar brugðust við með uppreisn, handtóku soldáninn og létu kyrkja hann. Gústaf 2. Adólf. Gústaf 2. Adólf (9. desember 1594 – 6. nóvember 1632) var konungur Svíþjóðar frá 1611. Í sögu Svíþjóðar miðast upphaf stórveldistímans við valdatöku hans. Hann var sonur Karls hertoga og konu hans Kristínar af Holstein-Gottorp. Frændi hans, Sigmundur 3., Póllandskonungur, gerði áfram tilkall til sænsku krúnunnar og deilurnar um ríkiserfðir héldu áfram milli landanna. 1626 réðist Gústaf inn í Lífland og hóf með því Pólsk-sænska stríðið (1626-1629) og í júní 1630 réðist hann inn í Þýskaland sem verndari málstaðar mótmælenda í Þrjátíu ára stríðinu. Sænski herinn sneri stríðsgæfunni skjótt mótmælendum í hag en Gústaf sjálfur féll í orrustunni við Lützen tveimur árum síðar. Möttulstrókurinn undir Íslandi. Möttulstrókurinn undir Íslandi er einn af öflugustu möttulstrókum jarðarinnar. Talið er að miðja stróksins sé núna undir norðvesturhluta Vatnajökuls (Grímsvötn, Bárðarbunga). Talið er að Ísland hafi orðið til vegna þessa möttulstróks. Á síðustu árþúsundum hafa komið hér upp stór hluti af þeirri kviku sem öll eldgos á jörðinni framleiddu ofan sjávar. Áætlað er að möttulstrókurinn sé um 200 km í þvermál sem sennilega nær að mörkum möttuls og kjarna á um 2900 km dýpi. Efnið í honum er um 300 °C heitara en efnið umhverfis. Listi yfir farfuglaheimili á Íslandi. Þetta er listi yfir staðsetningu farfuglaheimila á Íslandi. John Thomas Stanley. Sir John Thomas Stanley (26. nóvember 1735 – 2. október 1807) var breskur barónett af Alderley og ferðalangur. Sir John ferðaðist um Ísland sumarið 1789, ásamt grasafræðingi, landmælingamanni og teiknara. Þeir komu hingað á skipinu "John of Leit", sem var 150 lestir að stærð, búið 6 tveggja punda fallbyssum. Sir John birti tvær greinar um hveri á Íslandi þegar hann sneri aftur. Barónett. Barónett er aðalsmaður á Bretlandi af lægstu arfgengri tign. Barónett er lægri titill en barón en æðri en riddari. Barónett hefir "Sir" fyrir framan nafn sitt og á ensku er skrifað "Bart" á eftir því til styttingar á barónett. Dæmi: Sir John Thomas Stanley, Bart. Saumgirni. Saumgirni (eða kattargirni) er strengjaefni snúið úr þurrkuðum þörmum sláturdýra og haft m.a. í hljóðfæra- og tennisspaðastrengi og sárasaumþráð. Saumgirni er aldrei unnið úr þörmum katta, þó það sé stundum nefnt "kattargirni". Orðið kattargirni er komið úr ensku, en enskan nefnir saumgirnið "catgut". Talið er að það orð sé ummyndun á orðinu "kitgut" ("fiðlustrengur"), en kit í upphafi orðsins er skylt orðinu „citara“ eða „kitara“ sem er skylt orðinu gítar. Orðið hefur síðan með alþýðuskýringu breyst í "catgut". Steingervingur. Steingervingar eru leifar dýra, jurta eða annarra lífvera frá fortíð. Þeir verða til inni setbjörgum. Steingervingafræði er rannsókn steingervinga og myndun þeirra. Lægsti aldur steingervings er 10.000 ár, þess vegna eru yngstir steingervingarnir frá nútíma og elstir frá upphafsöld (fyrir milljörðum ára síðan). Steingervinga er hægt að finna í mörgum formum, meðal annars sem plöntur og dýr. Steingervingar á Íslandi og fundarstaðir þeirra. Elstu steingervingar sem hafa fundist eru frá míósen, um 15 milljón ára. Fundist hafa plöntuleifar og eru fundarstaðir m.a. yst á Vestfjarðakjálkanum, í Þórishlíðarfjalli í Selárdal, Svalvogum við Dýrafjörð, Botni í Súgandafirði og Breiðhillu utan við Bolungarvík. Í Mókollsdal í Strandasýslu hafa auk plöntuleifa fundist skordýraleifar sem talin eru 8–9 milljón ára gömul. Í jarðlögum á Tjörnesi má sjá mót tertíer og kvarter í jarðlagastafla og þar er mikið um steingervinga sjávardýra, aðallega skeljar og kuðunga en einnig selabein. Þessi jarðlög settust til á sjávarbotni, hörðnuðu síðan og risu úr sæ. Fossvogslögin eru jarðlög frá síðjökultíma sem hafa harðnað vegna þess að þau eru rík af gjósku. Ryksuga. Ryksuga er heimilistæki sem notað er til að sjúga ryk og óhreinindi af gólfum. Í þróuðum löndum eru ryksugur algengar hjá heimilisfólki til að hreinsa teppi. Síá eða miðflóttahreinsari safnar óhreinindum til að raða niður síðar. Ives W. McGaffney fann upp fyrst ryksuguna árið 1868 í Chicago, og var hún knúin með handafli. Hún var erfið í notkun því snúa þurfti sveif á handfanginu og ýta samtíms. Hubert Cecil Booth fann upp rafmagnsryksuga árið 1901. Þvagrásarsvampur. Þvagrásarsvampur er gljúpur vefur sem fyrirfinnst hjá konum og liggur á milli lífbeinsins og veggja legganganna. Yasuo Fukuda. Yasuo Fukuda (f. 16. júlí 1936) var 91. forsætisráðherra Japans og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins þangað til að hann sagði af sér vegna óvinsældar í september 2008. Hann varð forsætisráðherra eftir að Shinzō Abe sagði af sér í september 2007. Yasuo er sonur Takeo Fukuda sem einnig var forsætisráðherra Japan á áttunda áratugnum. Yasuo var kjörinn á neðrideild japanska þingsins árið 1990. Tengill. Koizumi Ryūtarō Hashimoto. Ryutaro Hashimoto (橋本 龍太郎 Hashimoto Ryūtarō, fæddur 29. júlí 1937, dáinn 1. júlí 2006) var forsætisráðherra Japans frá 1996 til 1998 og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hann sagði af sér vegna stjórnmálahneykslis. Hann lést 1. júlí 2006 á spítala í Tókýó. Tengill. Hashimoto, Ryutaro Spittal an der Drau. Spittal an der Drau er bær í fylkinu Kärnten í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2005 var 16 þúsund. Saalfelden. Saalfelden am Steinernen Meer er bær í fylkinu Salzburg í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 16 þúsund. České Budějovice. České Budějovice (þýska: "Budweis") er borg í Tékklandi. Íbúar borgarinnar eru um 95 þúsund talsins. Siglingafræði. Siglingafræði, stýrimennska eða stýrimannafræði er sú fræðigrein sem fæst m.a. við að reikna út stefnu og ferð farartækis, t.d. skips á siglingu eða loftfars á flugi. Góðtemplarahús Reykjavíkur. Góðtemplarahús Reykjavíkur (jafnan kallað Gúttó) var einlyft bárujárnsklætt timburhús sem stóð á uppfyllingu í Tjörninni sunnan við Alþingishúsið á horni Templarasunds og Vonarstrætis. Húsið var rifið 1968 og þar er nú bílastæði þingmanna. Húsið var reist af Góðtemplarastúku Reykjavíkur og vígt 2. október 1887. 1890 var komið þar fyrir kassasviði og fóru leiksýningar þar fram, þar til Leikfélag Reykjavíkur tók til starfa í Iðnó 1897. Fjöldi annarra félagasamtaka hafði einnig aðstöðu í húsinu um lengri eða skemmri tíma. Frá 1903 var bæjarstjórn Reykjavíkur með fundi í húsinu, en hún hafði áður komið saman í Hegningarhúsinu Skólavörðustíg. Síðasti bæjarstjórnarfundurinn sem haldinn var í húsinu var sá sem endaði með Gúttóslagnum 9. nóvember 1932. Íslenska ríkið keypti húsið árið 1935, en templarar og önnur félagasamtök höfðu þó afnot af húsinu áfram. 1968 var húsið rifið. Portolanokort. Portolanokort voru fyrstu raunverulegu siglingakortin og komu fram í byrjun 14. aldar. Þau voru notuð við siglingar af siglingafræðingum á vestanverðu Miðjarðarhafi. Kortin voru dregin á sauðskinn og öll sömu gerðar. Það var einungis merkt inn á þau hin ýmsu einkenni strandarinnar með nöfnum á skögum og höfnum og þess háttar kennileitum. Á kortin var síðan dregið mikið net lína og hringja, sem höfð var hliðsjón af við að ákveða stefnu frá einum stað til annars. Þessi portolano-sjókort viku smám saman fyrir kortum, sem landkortagerðarmenn drógu og af þeim varð Gerardus Mercator mestur við að auðvelda siglingar. Pungapróf. Pungapróf (eða smáskipapróf eða hið minna fiskimannapróf) er réttindapróf til að stýra skipum sem eru 30 rúmlestir eða minni (var áður 15 rúmlestir). Hull City A.F.C.. Hull City A.F.C. er knattspyrnulið í ensku Championship deildinni. Þeir leika á KC Stadium.Hull spilar í appelsínugulum búningum. Þeir eru mikil hörkutól og vaða gjarnan í tæklingar eins og engin sé morgundagurinn. Annamít fjallgarðurinn. Annamít fjallgarðurinn er mikið fjallendi í austurhluta Indókína. Fjallgarðurinn nær yfir um það bil 1100 km svæði í gegnum Laos, Víetnam og inn í norðausturhluta Kambódíu. Á víetnömsku er hann nefndur "Dãy Trường Sơn", á laósku "Phou Luang", og á frönsku "Chaîne Annamitique". Fjallgarðurinn aðskilur aðrennslissvæði Mekong-fljótsins frá mjórri strandlengju Víetnam að Suður-Kínahafi. Austan megin rís fjallgarðurinn allbratt en vestan megin taka við aflíðandi hásléttur. Hæsta fjallið er Phou Bia í Laos og er það 2.820 metra yfir sjávarmáli. Fjallgarðurinn er að mestu skógi vaxinn og er þar mjög fjölskrúðlegt jurta og dýralíf, m.a. Indókínverska tígrisdýrið ("Panthera tigris corbetti") og hinn risavaxna gáruxa ("Bos gaurus"). Kent (hljómsveit). Kent er sænsk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1990 í Eskilstuna. Jarðskjálftinn í Sesúan 2008. Jarðskjálftinn í Sesúan (kínverska: 四川大地震) var jarðskjálfti sem átti sér stað klukkan 14:28:01.42 að kínverskum staðartíma (06:28:01.42 að samræmdum alþjóðlegum tíma) þann 12. maí 2008 í Sesúan-héraði Kína. Um 69.016 manns létu lífið og 5 milljónir manna misstu heimili sín. Skjálftamiðjan var á 31°1'N 103°22'A á 19 km dýpi. Stærð skjálftans var 8 stig á Richterskvarða. Um tilvísun. Heimspekigreinin „Um tilvísun“ (enska "On Denoting") sem Bertrand Russell skrifaði, er ein þeirra greina sem hafði hvað mesta þýðingu og áhrif á 20. öldinni, einkum á tilurð og þróun rökgreiningarheimspekinnar. Greinin birtist fyrst í heimspekitímaritinu "Mind" árið 1905, en hefur einnig verið gefin út í sérstakri 100 ára afmælisútgáfu "Mind" árið 2005 og í bók Russells "Rökfræði og þekking" (e. "Logic and Knowledge") 1956. Í greininni kynnir Russell bæði ákveðnar og óákveðnar lýsingar og setur fram lýsingarhyggju um tilvísanir með tilliti til eiginnafna. Í greininni auðkennir hann eiginnöfn sem „dulbúinar“ eða „styttar“ ákveðnar lýsingar. Lýsingarhyggjan, sem á einnig rætur að rekja til kenninga þýska rökfræðingsins Gottlobs Frege, var ríkjandi kenning um tilvísanir í málspeki allt fram á 8. áratug aldarinnar og á sér enn málsvara, en þeirra helstur er John Searle. Greinin birtist í íslenskri þýðingu Ólafs Páls Jónssonar í greinasafninu "Heimspeki á 20. öld" árið 1994. Hvammsvík. Hvammsvík er jörð í Kjósarhreppi. Hitaveita Reykjavíkur, nú Orkuveita Reykjavíkur keypti jarðirnar Hvamm og Hvammsvík árið 1996 en seldi síðan til Skúla Mogensens árið 2011. Á jörðunum er jarðhiti og þykja þær henta vel til útivistar og skógræktar fyrir íbúa Reykjavíkur. Jarðirnar eru um 600 hektarar að stærð og ná frá sjó í innanverðum Hvalfirði upp í 400 metra yfir sjó á Reynisvallahálsi. Mark Sainsbury. R. Mark Sainsbury (f. 1943) er heimspekingur frá Stóra Bretlandi sem hefur beitt sér í rökfræði og málspeki, og í heimspeki Bertrands Russell og Gottlob Frege. Sainsbury kenndi í mörg ár í King's College London og er í dag prófessor í heimspeki í Texasháskólanum í Austin. Hann kennir jafnframt ennþá heimspeki í London á sumrin. Hann var ritstjóri heimspekilega tímaritsins "Mind" frá 1990 til 2000. Hann er félagi í Bresku akademíunni. Fyrsta bókin hans fjallaði um Bertrand Russell (Routledge, 1979). Nýjasta bók hans "Reference Without Referents" (Oxford, 2005), fjallar um merkingarfræði tilvísandi orða. "Departing From Frege" (2002) fjallar um heimspeki Gottlob Freges. Eins hefur hann skrifað um þverstæður í bókinni "Paradoxes" (Cambridge, 1988, 1995). Tengt efni. Sainsbury, Mark Sainsbury, Mark Sainsbury, Mark Laxá í Kjós. Laxá í Kjós Laxá í Kjós er laxveiðiá sem á upptök í Stíflisdalsvatni í Þingvallasveit. Í ánni er fossinn Þórufoss og gengur lax upp að þeim fossi. Lengd Laxár er 25 km. Fyrsta laxaklak á Íslandi var reynt í Laxá árið 1884. Frumkvæði að þeirri tilraun átti Þorkell Bjarnason prestur á Reynivöllum en hann fékk hingað norræna fiskifræðinga og var kössum sem vatn gat runnið í gegnum komið fyrir í Laxá og í kassana settar 13 hrygnur og 18 hængar. Félagsgarður. Félagsgarður er hús sem er félagsheimili Kjósarhrepps. Það var tekið í notkun árið 1946 og var byggt af Ungmennafélaginu Dreng. Skrifstofur hreppsins eru í húsinu. Nýey. Nýey var eyja sem myndaðist árið 1783 í eldgosi neðansjávar suðvestur af Reykjanesi, líklega í grennd við þar sem nú er Eldeyjarboði. Ári síðar var eyjan horfin. Myndun Nýeyjar hófst 1. maí 1783 og vakti mikla athygli erlendis og vildu sumir vildu tengja hana jarðskjálftum á Suður-Ítalíu fyrr um veturinn. Skipstjóri á húkkertu sem sigldi um þessar slóðir segir í dagbók frá brennandi eyju sem liggur 8 1/2 sjómílu réttvísandi suðvestur frá syðsta Geirfuglaskerinu við Ísland. Hann sigldi að eyjunni til að sjá lögun hennar en varð frá að hverfa þegar skipið var í hálfrar mílu fjarlægð vegna hræðslu um að skipsverjar féllu í ómegin út af brennisteinsreyk. Þegar Kristján VII Danakonungur frétti af eyjunni gaf hann henni heitið Nýey og skipaði svo fyrir að þangað yrði gerður út leiðangur hið fyrsta og eyjan helguð konungsveldinu með dönskum fána. Síðar ætlaði svo konungur að senda hingað áletraðan stein sem koma átti fyrir á eynni. Sumarið 1784 átti skip á leið til Kaupmannahafnar með þá Magnús Stephensen og Levetshof kammerherra að koma við á Nýey til að helga hana konungi og gera á henni athuganir en þá var eyjan horfin. Eldeyjarboði. Eldeyjarboði er blindsker sem er um 57 km suðvestan Reykjaness. Brotin þar eru stundum tugir metra á hæð og fiskimið eru góð þar í kring. Líklega er boði leifar af eynni Nýey sem hvarf. Mila Kunis. Milena Markovna Kunis (Милена Маркοвна Кунис, Мілена Марківна Куніс; fædd 14. ágúst 1983) er bandarísk leikkona sem er þekkt fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttum á borð við "That '70s Show" og "Family Guy". Úrbanus 8.. Úrbanus 8. (skírður 5. apríl 1568 – 29. júlí 1644) var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1623 til dauðadags. Hann var síðasti páfinn sem stækkaði Páfaríkið með hervaldi, en um leið steypti hann páfastól í skuldir sem drógu mjög úr möguleikum eftirmanna hans til að hafa hernaðarleg eða pólitísk áhrif í Evrópu. Úrbanus hét Maffeo Barberini og var úr aðalsfjölskyldu frá Flórens. Hann hlaut grunnmenntun hjá jesúítum og tók síðan próf í lögfræði við Háskólann í Písa 1589. Frændi hans, sem gegndi stöðu postullegs frumbókanda, náði að tryggja honum stöðu sendimanns Klemens 8. páfa við hirð Hinriks 4. Frakkakonungs árið 1601. 1604 var hann skipaður erkibiskup í Nasaret, sem var heiðurstitill án raunverulegs umboðs enda Landið helga undir stjórn Tyrkjaveldis. Hann varð meðlimur kardinálaráðsins í tíð Páls 5. og gerðist sendimaður í Bologna. 6. ágúst 1623 var hann kjörinn eftirmaður Gregoríusar 15. og tók sér nafnið Úrbanus. Úrbanus vann ötullega að því að auka sjálfstæði páfaveldisins og sín eigin völd, fremur en styrkja kaþólska trú í Evrópu þar sem Þrjátíu ára stríðið geisaði. Hann hyglaði ættingjum sínum sem sumir högnuðust gríðarlega í valdatíð hans, svo hann virtist vera að vinna að stofnun ættarveldis Barberini-fjölskyldunnar. 1626 gerði hann hertogadæmið Úrbínó að hluta Páfaríkisins og þegar karlleggur Gonzaga-ættarinnar dó út studdi hann tilkall hertogans af Nevers, sem var mótmælandi, gegn tilkalli hinna kaþólsku Habsborgara. Úrbanus jók vígvæðingu Páfaríkisins, kom upp vopnabúri í Vatíkaninu, víggirti Castel Sant'Angelo í Róm og Castelfranco Emilia á landamærunum við Mantúu. Hann stofnaði vopnaverksmiðju í Tívolí og bætti varnir hafnarinnar í Civitavecchia. Hann varð frægur fyrir að taka gríðarstóra bronsbjálka úr Pantheon í Róm til að steypa úr þeim fallbyssur. Við það tækifæri var sagt "quod non fecerunt barbari, fecerunt Barberini" („Það sem barbararnir ekki gerðu, það gerði Barberini“). Úrbanus fjármagnaði líka verkefni á sviði byggingarlistar, svo sem Palazzo Barberini í Róm sem var teiknuð af Gian Lorenzo Bernini og Francesco Borromini, og studdi listmálara á borð við Nicolas Poussin og Claude Lorrain. Afleiðingin af þessum verkefnum var gríðarleg skuldasöfnun embættisins. Úrbanus erfði 16 milljón skúta skuld frá fyrirrennurum sínum og jók hana í 28 milljónir skúta fyrir 1635. 1640 var skuldin komin í 35 milljónir og vaxtagreiðslurnar námu 80% af árstekjum páfa. Úrbanus páfi tók Rosaliu mey í tölu dýrlinga árið 1630. Skaftáreldar. Skaftáreldar er heiti eldgoss sem hófst á hvítasunnudag, 8. júní árið 1783, í Lakagígum í Vestur-Skaftafellssýslu og stóð það fram í febrúar 1784. Í Skaftáreldum varð mesta hraunrennsli í einu gosi á jörðinni á síðasta árþúsundi og er heildarrúmál hraunsins um 12-14 km³ og flatarmál þess 580 km². Gosinu fylgdi aska og eiturefni sem barst um landið. Mikil gosmóða, rík af brennisteinssamböndum, barst út í gufuhvolfið og varð hennar vart um allt norðurhvel jarðar. Veturinn á eftir var harður um alla Evrópu en einkum þó á Íslandi, búfé féll og hungursneyð ríkti. Hörmungarnar sem fylgdu Skaftáreldum eru kallaðar Móðuharðindin eftir gosmóðunni. Þær stóðu yfir til ársins 1785. Talið að sauðfé hafi fækkað um allt að 80%, hrossum um 60% og nautgripum um 50%. Þessar hörmungar kostuðu meira en 10.000 manns (rúmlega 20% þjóðarinnar) lífið. Í "Eldriti" sínu lýsir Jón Steingrímsson (kallaður "eldklerkur") eldgosinu og eftirmálum þess á landinu. Skaftáreldar höfðu áhrif annars staðar en á Íslandi. Þeir ollu kólnun um hálft stig á norðurhveli í eitt ár eða svo. Lakagígar. Lakagígar Lakagígar eru gígaröð á 25 km langri gossprungu vestan Vatnajökuls, suð-austan Fögrufjalla. Suð-vestur hluti gígraðarinnar endar ekki langt frá Eldgjá og liggur meðfram Skaftá að Vatnajökli við mót Skaftárjökuls og Síðujökuls. Gígaröðin heitir eftir gömlu móbergsfjalli sem Laki nefnist og er nálægt henni miðri. Lakagígar voru friðlýstir árið 1971. Náttúruvættið sem nú er kallað Lakagígar varð til í Skaftáreldum árin 1783-1784 en það var eitt mesta gos Íslandssögunnar. Áður fyrr var gígaröðin kölluð Eldborgir. Eldgosið hófst á hvítasunnudag 8. júní 1783 að undangenginni jarðskjálftahrinu. Lakagígar liggja á tíu samhliða sprungum sem hver er 2-5 km löng. Við suðurenda gígaraðarinnar við fjallið Hnúta opnaðist fyrsta sprungan. Gosið kom svo í hrinum sem hófust með jarðskjálftum. Hrinurnar í gosinu hafa sennilega verið tíu eins og sprungurnar sjálfar. Í gosinu mynduðust um 135 gígar og 2-500 metra breiður sigdalur frá rótum Laka og tvo kílómetra suðvestur fyrir hann. Aska og gosgufur ollu miklu mistri og móðu yfir Íslandi sem barst síðan yfir Evrópu, Asíu og Ameríku. Mikil mengun fylgdi móðunni sem olli eitrun í gróðri svo búpeningur féll unnvörpum á Íslandi sem aftur leiddi af sér hungursneyð meðal landsmanna. Móðan og gosaskan ollu líka köldu veðurfari vegna þess að þau drógu úr inngeislun sólar og deyfðu sólskinið. Þetta voru móðuharðindin svokölluðu ein mestu harðindi sem dunið hafa yfir Íslendinga. Eldgosið er eitt mannskæðasta eldgos í mannkynssögunni. Hraunið úr Lakagígum þekur um 600 km² og kaffærði marga bæi. Phou Bia. Phou Bia (einnig skrifað Phu Bia) er hæsta fjall í Laos og hæsta fjall í Annamít fjallakeðjunni. Hæsti tindurinn er 2.817 metra yfir yfirborði sjávar. Fjallið rís upp frá Phou Ane hásléttunni í Xieng Khouang (einnig stafað Xiangkhoang) héraðinu í nyrðri hluta Laos. Georg David Anthon. a>i sem ennþá stendur. Georg David Anthon teiknaði Viðeyjarkirkju. Georg David Anthon 1714 – 1781) var danskur arkitekt. Hann teiknaði nokkur hús á Íslandi, t.d. "Hegningarhúsið" (eða "Múrinn") sem síðar varð Stjórnarráðshúsið (1765), Viðeyjarkirkju (1766), Landakirkju á Heimaey árið 1774 og Bessastaðakirkju árið 1777. Georg David Anthon var lærisveinn Nicolai Eigtved. Anthon, Georg David Hallveig Ormsdóttir. Hallveig Ormsdóttir (um 1199 – 25. júlí 1241) var íslensk kona á 13. öld. Hún var dóttir Orms Jónssonar Breiðbælings, goðorðsmanns á Breiðabólstað í Fljótshlíð, sem var sonur Jóns Loftssonar í Odda, og Þóru frillu hans. Bróðir Þóru var Kolskeggur auðgi Eiríksson í Dal undir Eyjafjöllum. Ormur og Jón albróðir Hallveigar voru drepnir í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1218. Fyrri maður Hallveigar var Björn Þorvaldsson goðorðsmaður á Breiðabólstað. Hann var af Haukdælaætt, hálfbróðir Gissurar Þorvaldssonar. Þau áttu synina Klæng, sem Órækja Snorrason lét drepa í Reykholti á annan dag jóla 1241, og Orm goðorðsmann á Breiðabólstað. Björn var drepinn á Breiðabólstað 17. júní 1221.Árið 1223 dó Kolskeggur auðgi og erfði Hallveig systurdóttir hans allt fé hans og var þá talin ríkasta kona landsins. Árið 1224 gerði Hallveig helmingafélag við Snorra Sturluson og flutti til hans í Reykholt en þau munu líklega ekki hafa gifst. Sambúð þeirra virðist þó hafa verið góð. Engin barna þeirra lifðu til fullorðinsára. Hallveig dó í Reykholti 25. júlí 1241, nokkrum mánuðum áður en Snorri var myrtur, og "þótti Snorra það allmikill skaði, sem var", eins og segir í Íslendinga sögu. Viðeyjarkirkja. Prédikunarstóll í Viðeyjarkirkju. Viðeyjarkirkja er kirkja í Viðey við Reykjavík. Kirkjan var hlaðin úr steini á árunum 1767 til 1774 og var að einhverju leyti notast við grjót sem gengið hafði af þegar Viðeyjarstofa var reist. Danskur arkitekt, Georg David Anthon, teiknaði kirkjuna. Hún stendur rétt hjá Viðeyjarstofu. Kirkjan var vígð árið 1774 og er næstelsta steinkirkja landsins. Viðeyjarkirkja er í Dómkirkjuprestakalli íReykjavíkurprófastdæmi vestra. Fornleifauppgröftur hefur sýnt að kirkja mun hafa verið byggð í Viðey á 12. öld og árið 1225 var stofnað þar klaustur af Ágústínareglu en hvatamenn að klausturstofnun voru Þorvaldur Gissurarson og Snorri Sturluson. Menn Danakonungs rændu og saurguðu klaustrið og ráku munkana burt árið 1539. Jón Arason endurreisti klaustrið og lét reisa virki í Viðey en klaustrið var svo endanlega lagt niður við siðaskiptin skömmu síðar. Í kirkjugarðinum eru grafnir meðal annars Ólafur Stephensen stiftamtmaður og sonur hans Magnús Stephensen konferensráð og Gunnar Gunnarsson skáld. Þjóðminjasafnið lét gera upp byggingarnar í Viðey á árunum 1967 til 1979 og árið 1987 undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar. Johnossi. Johnossi er sænsk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1996. Nina Rochelle. Nina Rochelle er sænsk rokkhljómsveit. CC Cowboys. CC Cowboys er norsk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1989. Nicolai Eigtved. Nicolai Eigtved einnig þekktur sem Niels Eigtved (4. júní eða 22. júní, 1701 – 7. júní, 1754) var danskur arkitekt. Hann teiknaði m.a. Viðeyjarstofu. Hann innleiddi franskan rókokkó stíl í danska húsagerðarlist á árunum 1730 til 1740 og hannaði og byggði margar þekktar byggingar á sinni tíð. Hann var fyrsti danski stjórnandi Konunglega danska listaháskólans. Eigtved lærði fyrst garðyrkju og fékk stöðu í görðunum við Friðriksborgarhöll um 1720. Í júlí 1723 gafst honum kostur á að ferðast erlendis sem konunglegur garðyrkjunemi. Hann fór til Berlínar og Dresden og fleiri staða í Þýskalandi, vann sem garðyrkjumaður og lærði þýsku. Eigtved dvaldi í tíu ár í Póllandi og vann fyrir þýska arkitektinn Matthäus Daniel Pöppelmann. Tenglar. Eigtvet, Nicolai Jóhann Friðgeir Valdimarsson. Jóhann Friðgeir Valdimarsson er íslenskur tenór, fæddur í Reykjavík þann 12. desember 1967. Söngferil sinn hóf hann árið 1995 í Söngskólanum í Reykjavík hjá Garðari Cortes. Hann nam síðar hjá Magnúsi Jónssyni, Bergþóri Pálssyni og Þuríði Pálsdóttur og lauk 8. stigs prófi vorið 1998. Sama ár fór hann til náms í Mílanó hjá prófessor Giovanna Canetti, yfirkennara hjá Conservatori Giuseppi Verdi. Hann sótti líka einkatíma hjá M. Angelo Bertacchi í Modena og M. Franco Ghitti í Brescia. Jóhann Friðgeir hefur sungið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og meginlandi Evrópu. Jóhann Friðgeir hefur gefið út þrjá hljómdiska frá árunum 2001, 2002 og 2006. Fjórði og nýjasti geisladiskur Jóhanns Friðgeirs, Sacred Arias var síðan gefinn út í nóvember 2010. Jóhann hefur síðustu ár sungið með Frostrósum ásamt því að vera einn af Tenórunum þremur. Vodafonevöllur. Vodafone-völlurinn Hlíðarenda tekur 1200 manns í sæti og á því eftir að fjölga því eftri á að byggja stúkuna á móti og er áætlað að hún taki um 3000 manns þannig í heildina litið verðu þetta 4200 sæta völlur, fyrsti leikurinn á vellinum varð þann 25. maí 2008 á 140 ára afmæli séra Friðriks.En það er maðurinn sem stofnaði Val.Maðurinn sem á Heiðurinn að skora fyrsta mark Valsmanna á Vodafone vellinum var Helgi Sigurðsson og skoraði hann það mark á 41 mínútu. Annað Mark Valsmanna skoraði Pálmi Rafn Pálmason. Fyrsta byrjunarlið valsmanna sem spilaði á vellinum var svona:Valur: Kjartan Sturluson (M), Birkir Már Sævarsson, Atli Sveinn Þórarinsson, Gunnar Einarsson, Rene Carlsen, Sigurbjörn Hreiðarsson (F), Pálmi Rafn Pálmason, Baldur Bett, Bjarni Ólafur Eiríksson, Helgi Sigurðsson, Hafþór Ægir Vilhjálmsson. Varamenn: Ágúst Bjarni Garðarsson (M), Einar Marteinsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Geir Brynjólfsson, Baldur Þórólfsson, Rasmus Hansen og Albert Brynjar Ingason. No Doubt. No Doubt er bandarísk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1986 í Anaheim. The Knife. The Knife er sænsk raftónlistar-hljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1999. Télépopmusik. Télépopmusik er frönsk raftónlistar-hljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1998. Tvinnbíll. Tvinnbíll er bíll sem hefur tvískipta vél, gengur annars vegar fyrir bensíni (eða dísel), en hjálparvélin er rafdrifin. Sumir tvinnbílar eru sagðir menga allt að helmingi minna en aðrir bílar. Í tvinnbílum er tölva sem safnar gögnum um hraða og ástig á eldsneytisgjöfina og stýrir því hvort báðar vélarnar eru í gangi eða bara önnur. Sumir tvinnbílar vinna þannig að þegar bílnum er startað gengur hann aðeins fyrir rafvélinni og upp að 40-50 km á klst. En þegar farið er hraðar fer bensínvélin í gang. Boris Johnson. Alexander Boris de Pfeffel Johnson (fæddur 19. júní 1964) er breskur stjórnmálamaður og borgarstjóri Lundúna. Hann er einnig blaðamaður og rithöfundur, var t.d. ritstjóri stjórnmálatímarits "The Spectator". Boris var kosinn þingmaður fyrir Henley árið 2001, og var skuggamenntamálaráðherra til ársins 2008 þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra Lundúna. Hann var settur inn í starf borgarstjóra þann 4. maí 2008. Johnson, Boris Plugg'd. Plugg'd er íslensk hljómsveit sem spilar elektróníska hústónlist í bland við big beat og trip hop. Fyrsta plata þeirra, Sequence, kom út 6. júní 2008. Jose Mourinho. José Mário dos Santos Félix Mourinho (fæddur 26. janúar 1963 í bænum Setúbal í Portúgal) er knattspyrnustjóri liðsins Chelsea á Englandi. Hann er 175 á hæð. Ferill sem knattspyrnustjóri. Jose Mourinho hefur stjórnar þremur portúgölskum liðum (Benfica, U.D. Leiria, F.C. Porto) og gerði Porto annars að sigurvegurum í meistaradeild Evrópu árið 2004, unnu Monaco frá Frakklandi 3-0 í úrslitaleik. Því næst fór hann til Englands að þjálfa Chelsea frá London og gerði þá að tvöföldum Englandsmeisturum tímabilin 2004-2005 og 2005-2006. Eftir að hann náði ekki að gera Chelsea að meisturum tímabilið 2006-2007 var hann rekinn. 2. júní 2008 tók hann við Internazionale frá Ítalíu. Vann hann með Inter þrennuna (ítalska deildinn,ítalski bikarinn og meistardeildinn) árið 2010, eftir það timabil skrifaði hann undir hjá Real Madrid 2013 Jose Mourinho, nýráðinn þjálfari Chelsea, segir að hann sé ennþá sérstakur og að það sé erfitt að bera annan þjálfara saman við hann. Mourinho verður við stjórnvölin hjá Chelsea á næsta tímabili en hann stýrði einnig liðinu á árunum 2004 til 2007 með góðum árangri. Mourinho hefur síðan unnið meistaratitla með bæði Inter á Ítalíu og Real Madrid á Spáni. "Til þess að verða meistari þarftu sérstaka hæfileika. Að vera sérstakur krefst þess að maður nái öllu því besta úr sjálfum sér og þeim sem eru að spila fyrir mann. Ég held að það sé ekki neinn betri í sínu starfi en ég í heiminum," sagði Mourinho. "Ég vil ekki vera kallaður goðsögn en ég hef átt frábæran feril sem erfitt er toppa. Ég eyði ekki of miklum tíma í að fagna titlum vegna þess að ég vil aldrei fá þá tilfinningu að þetta sé síðasti titillinn sem ég vinn. Ég held að það sé nokkuð sjálfgefið að ég komi til með að vinna fleiri titla á mínum ferli," sagði Mourinho að lokum og augljóslega stutt í hrokann hjá þessum litríka Portúgala. 200px Zúúber. Zúúber er morgunþáttur sem er á dagskrá FM957 sem voru alla virka morgna kl. 7-10. Stjórnendur Zúúber eru Svali (Sigvaldi Þórður Kaldalóns), Gassi (Jóhann Garðar Ólafsson) og Sigga (Sigríður Lund Hermannsdóttir). Austurbæjarskóli. Austurbæjarskóli er grunnskóli í miðborg Reykjavíkur. Skólinn var vel lengi notaður sem kjörstaður fyrir ýmsar kosningar. Í skólanum eru um 600 nemendur (yngsta-, mið- og unglingastig) og 100 starfsmenn. Hann hóf störf 1930. Núverandi Skólastjóri er Guðmundur Sighvatsson. Séð yfir Austurbæjarskóla úr Hallgrímskirkju The Cardigans. The Cardigans er sænsk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 1992 í Jönköping. Söngvarinn Nina Persson hefur einnig eigin verkefni sem kallast "A Camp", og Magnus Sveningsson hafa haft eigin verkefni sem kallast "Righteous Boy". Peter Svensson hafa haft samvinnu við Joakim Berg frá Kent og þau kölluðu sig "Paus". Oh Laura. Oh Laura er sænsk hljómsveit. Molta. Molta Molta er jarðvegur úr lífrænum úrgangi. Hún er mynduð með niðurbrot lífræns úrgangs við loftháðar aðstæður, þar sem hitakærar örverur melta úrganginn þannig að úr verður moldarkenndur massi. Hana er hægt að nýta sem jarðvegsbæti, til landfyllinga eða jafnvel sem áburð. Í jarðgerðastöð Moltu ehf. fer hiti í jarðgerðarblöndunni yfir 70°C sem gerir það að verkum að skaðlegar bakteríur sem kunna að vera í úrganginum drepast. Vörðuskóli. a> sést á bakvið skólann til vinstri. Vörðuskóli (sem hét til ársins 1974 Gagnfræðaskóli Austurbæjar) er skólabygging við Barónstíg í Reykjavík. Þar var áður gagnfræðaskóli en nú er skólinn hluti af Tækniskólanum og fer kennsla í tölvugreinum þar fram. Vörðuskóli er í næsta húsi við Austurbæjarskóla. Byggingin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara og var fullbyggt 1949. Morgunþáttur. Morgunþáttur er sjónvarps- eða útvarpsþáttur sem fram fara að morgni til. Morgunþættir á Íslandi eru t.d. "Zúúber" (FM957 og Skífan tv), "Ísland í bítið" (Bylgjan en var einu sinni á Stöð 2) og "Morgunvakt Rásar 2" (Rás 2). Torg hins himneska friðar. Torg hins himneska friðar séð frá hliðinu Torg hins himneska friðar er stórt torg nálægt miðbæ Peking í Kína. Torgið hefur verið vettvangur margra atburða í sögu Kína. Utan Kína er torgið þekktast vegna mótmælanna sem voru á torginu 1989. Torgið er 40,5 hektarar að stærð. Torg hins himneska friðar í Peking Barónsstígur. Barónsstígur er gata í Reykjavík. Gatan heitir eftir Barónsfjósinu, sem reist var árið 1899 en hvortveggja heitir í höfuðið á baróninum á Hvítárvöllum sem lét reisa það. Við götuna standa Heilsuverndarstöðin í Reykjavík, Sundhöll Reykjavíkur, Vörðuskóli og Austurbæjarskóli. Stiklutexti. Stiklutexti á oftast við um texta á tölvu sem í leið er tengill sem gefur notendanum meiri upplýsingar um innihald textans þegar smellt er á hann. Ólíkt venjulegum texta sem ekki er hægt að breyta. Þá notast stiklutexti við svokallaða textatengla til þess að raða upplýsingum upp á annan hátt en gert er með hefðbundnum texta. Stiklutexta má nota á marga vegu. Hann er oft notaður í handbókum á tölvutæku formi til þess að útskýra betur einstaka hugtök. Hann er mjög mikið notaður á vefnum til þess að flakka á milli vefsíðna eða til þess að opna hljóðskjöl eða myndbönd. Wikipedia er gott dæmi um vefsíðu sem notast mikið við stiklutexta. Hrafnista. Hrafnista er dvalarheimili aldraðra í Reykjavík og Hafnarfirði. Hrafnista tók fyrst til starfa á sjómannadaginn 2. júní 1957 í Reykjavík. Hrafnista í Hafnarfirði var opnuð á sjómannadaginn 5. júní 1977. Heimilin voru byggð fyrir forgöngu stéttarfélaga sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði sem dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra sjómanna. Heimilin mynda með sér Sjómannadagsráð, sem stofnað var 25. nóvember 1937. Megintekjur til uppbyggingar Hrafnistu koma frá fyrirtækjum sjómannadagsins, Happdrætti DAS og Laugarásbíói. Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili. Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili (hét áður Elli- og hjúkrunarheimilið Grund) er elsta starfandi heimili fyrir aldraða hér á landi. Hvatamenn að stofnun Grundar voru stjórnarmenn líknarfélagsins Samverjans, Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason guðfræðingur, Flosi Sigurðsson trésmíðameistari, Páll Jónsson skrifstofumaður, Haraldur Sigurðsson verslunarmaður og Júlíus Árnason kaupmaður. Í byrjun september 1922 keypti stjórn Samverjans steinhúsið Grund, sem stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg og var húsið vígt 29. október sama ár. Í upphafi voru heimilismenn 21. Sumarið 1927 úthlutaði bæjarstjórn Reykjavíkur heimilinu lóð milli Hringbrautar og Brávallagötu. Nýtt hús var vígt 28. september 1930 og nefnt Grund, eins og gamla húsið við Kaplaskjólsveg. Fjöldi heimilismanna á þeim tíma var 56. Árið 1934 voru heimilismenn orðnir 115. Fyrsti framkvæmdastjóri Grundar var Haraldur Sigurðsson. Eftir andlát hans árið 1934 var Gísli Sigurbjörnsson ráðinn forstjóri heimilisins og var það þar til hann lést 7. janúar 1994. Guðrún Birna Gísladóttir dóttir Gísla tók þá við sem forstjóri Grundar og gegnir hún því starfi enn í dag. Árið 1952 tók Grund að sér rekstur Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði fyrir elliheimilisnefnd Árnessýslu. Það heimili var rekið í tveimur húsum og heimilismenn voru þrettán fyrsta árið. Í dag er Ás í eigu Grundar og árið 1998 var tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili í Ási. Heimilismenn í Ási eru um 156. Heimilismenn Grundar eru nú um 210. Hjúkrunarrýmin eru samtals 181 Húsakosti á Grund er skipt í fernt Viðbygging við austurálmu Grundar var tekin í notkun 29. október 2002 á 80 ára afmæli heimilisins. Ári síðar var viðbygging við vesturálmu tekin í notkun. Lokið er við byggingu glergangs sem tengir Litlu- og Minni Grund við aðalbygginguna. Rúmlega 300 manns eru starfandi á Grund og eru starfsmenn frá 19 þjóðlöndum. Staðartími Greenwich. Staðartími Greenwich (enska: Greenwich Mean Time eða GMT) er meðalsólartími í Greenwich í London, á Greenwich-núllbaugi. Hann er notaður sem tímabelti og margt fólk notar „GMT“ til að meina UTC. Hvernig sem notar UTC atómklukku og áætlar bara GMT. Ray Romano. Raymond Albert „Ray“ Romano(f. 21. desember 1958) er bandrískur gamanleikari. Hann er þekktastur fyrir þætina sína "Everybody Loves Raymond" þar sem hann lék aðalhlutverkið á móti Brad Garrett. Var hann líka framleiðandi þáttarins og var hann sýndur á CBS. Og svo hefur Ray Romano talað inn á fjöllmargar myndir eins svo allar "Ice Age"-myndinar þar sem hann talar fyrir loðfílinn Manny. Heimildir. Romano, Ray Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Heilsuverndarstöðin í Reykjavík er bygging sem stendur fyrir sunnan Sundhöllina við Barónsstíg, en önnur álman teygir sig niður Egilsgötuna. Húsið teiknaði Einar Sveinsson. Byggingin var vígð þann 2. mars 1957 eftir að hafa verið sjö ár í byggingu. Fyrsta deild hennar hóf starfsemi 1953. Upphaflega, eftir að húsið var byggt, voru þrjár deildir í annarri álmunni, þeirri sem veit að Barónsstíg: ein fyrir barnavernd, þar sem haft var eftirlit með ungbörnum og stálpuðum börnum. Þá var þar deild, sem hafði eftirlit með barnshafandi konum og veitti þeim leiðbeningar. En í enda álmunnar var deild fyrir kynsjúkdómalækni. Í hinni álmunni, sem veit að Egilsgötu, voru berklavarnirnar, en þær voru einnig á annarri hæð í aðalbyggingunni og þar var einnig röntgen-rannsóknarstofa. Á neðstu hæð aðalbyggingarinnar var slysavarðstofa. Á tveimur efstu hæðunum var heilsuverndin og þar var einnig húsrúm fyrir sjúklinga og gert ráð fyrir að þar gætu verið allt að 50-60 sjúkrarúm. Í byggingunni starfaði Heilsuverndarstöðin ehf sem er einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Þérun. Þérun kallast það þegar persónufornöfnin „vér“ og „þér“ eru notuð. Í nútímamáli eru orðin „við“ og „þið“ notuð þegar átt er við fleiri en einn, og nefnist það fleirtala. Í fornu máli voru „við“ og „þið“ einungis notuð um tvo einstaklinga, svokölluð tvítala. Um fleiri en tvo voru notuð fornöfnin „vér“ og „þér“. Í biblíumáli er þessi háttur enn hafður á, samanber Faðir vor en þar vísar „vor“ til fleiri en tveggja. Í formlegu eða hátíðlegu máli tíðkaðist að nota „vér“ og „þér“ hvort sem átt var við einn eða fleiri. Dæmi um þetta er „vér Íslendingar!“ Fleirtölumyndir sagna og lýsingarorða eru hafðar með „vér“ og „þér“. Dæmi: „Þér eruð frjálsir.“ Lo-Fi-Fnk. Lo-Fi-Fnk er sænsk raftónlistar-hljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 2001. Spánarsnigill. Spánarsnigill ("Arion lusitanicus") er af "arionidae"-ætt snigla sem ekki bera kuðung. Hann er rauður, rauðbrúnn eða rauðgulur að lit og getur náð 15 cm lengd. Snigillinn er upprunninn á Íberíuskaga og barst þaðan til annarra svæða í Mið- og Vestur-Evrópu upp úr 1960, líklega af mannavöldum. Vegna þurrs loftslags á Íberíuskaga hefur hann aldrei verið sérstaklega fyrirferðarmikill sem tegund þar, en þegar hann barst til rakari svæða í Norður-Evrópu fjölgaði honum hratt og er almennt talinn til meindýra. Snigillinn gefur frá sér mikið slím, gult að lit, og á sér fáa náttúrulega óvini. Þó er vitað að broddgeltir, greifingjar, villigeltir og einhverjar tegundir anda éta hann. Hann étur flest sem hann kemst í, allt frá matjurtum, kryddjurtum, laukum og skrautblómum til hundaskíts, hræja og annarra snigla. Spánarsnigils varð vart á Skáni í Svíþjóð árið 1975 og hefur smám saman orðið landlægur á Norðurlöndum síðan, fannst í Noregi 1988, Danmörku 1991, Færeyjum 1996 og á Íslandi fannst hann fyrst í vesturbæ Reykjavíkur í ágústmánuði árið 2003, á Ólafsfirði 2004 og á hverju ári síðan. Spánarsnigill breiðist smám saman um Ísland og fannst fyrst á Vestfjörðum í júlí 2008. Spánarsniglar eru tvíkynja og geta, hvort heldur eð er, frjóvgað sjálfa sig eða frjóvgað hvor annan þegar tveir hittast. Þeir grafa sig niður í jörðina og leggjast í dvala yfir veturinn, og þar sem þeir þola frost ekki vel, þá eru snjóþungir vetur hentugri fyrir þá en snjóléttir. Snigillinn verður kynþroska um fimm vikna gamall, verpir nokkrum tugum eggja í einu og þau klekjast á 3,5-5 vikum. Þeir eru því fljótir að fjölga sér þegar aðstæður eru þeim hagstæðar. Í Danmörku verða þeir stundum svo margir að menn telja 50 stykki á fermetra. Lucas van Leyden. Lucas van Leyden (1494 í Leiden – 8. ágúst 1533 í Leiden) var hollenskur listmálari. Leyden, Lucas van MiFID. MiFID (skammstöfun fyrir enska hugtakið "Markets in Financial Instruments Directive") eru tilskipun í lögum Evrópusambandsins sem kveður á um samstefnda reglugerð fyrir fjárfestingarþjónustur hinna 30 aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Megintakmark tilskipunarinnar er að auka samkeppni og neytendavernd í verðbréfaviðskiptum og fjárfestingarþjónustu. Tilskipunin kom í stað Investment Services Directive. Tilskipunin var leidd í íslensk lög með setningu laga nr. 108/2007 og reglugerðar nr. 995/2007. Hvorutveggja tók gildi þann 1. nóvember 2007. Hvassaleiti. Hvassaleiti er hverfi í 103 Reykjavík sem liggur nálægt Miklubraut. Börn sem búa þar sækja annað hvort Hvassaleitisskóla eða Álftamýrarskóla. Verslunin Austurver er staðsett í Hvassaleiti og verslunarmiðstöðin Kringlan er nálæg. Borgarleikhúsið. Borgarleikhúsið er leikhús við Listabraut í Reykjavík í Kringlumýri rétt við verslunarmiðstöðina Kringluna. Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin af þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, Birgi Ísleifi Gunnarssyni árið 1976, en þá hafði Leikfélag Reykjavíkur undirbúið byggingu leikhússins frá 1953 með stofnun húsbyggingasjóðs, sem meðal annars var fjármagnaður með ágóða af miðnætursýningum og revíum. Framkvæmdir lágu svo niðri til 1980 þegar leikfélagið fékk arf og borgin ákvað að leggja aukið fé í framkvæmdina. Þá stóð til að opna leikhúsið á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar 1986. Davíð Oddsson borgarstjóri lagði hornstein að byggingunni, sem þá var að mestu lokið við að steypa, 11. janúar 1986 en það var ekki fyrr en 5. september 1989 að leikarar leikfélagsins fluttu með formlegum hætti úr Iðnó í Borgarleikhúsið og fengu lykla afhenta frá borgarstjóra. 20. október var húsið vígt og nam þá byggingarkostnaður 1,5 milljörðum króna. Fyrstu leikritin sem sett voru upp voru tvö leikrit byggð á verkum Halldórs Laxness, "Ljós heimsins" á litla sviðinu í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar, og "Höll sumarlandsins" á stóra sviðinu í leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2008. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2008, oft nefnd EM 2008, var 13. keppni evrópskra landsliða í knattspyrnu haldin á vegum Knattspyrnusambands Evrópu 7.-29. júní 2008 í Austurríki og Sviss. Sextán lönd taka þátt. Þátttökurétt fengu þau lönd sem metin voru sterkust út frá gengi þeirra í Evrópukeppninni 2004 og Heimsmeistarakeppninni 2006, nema gestgjafarnir, Austurríki og Sviss, sem fengu sjálfkrafa rétt til þátttöku. Spánn var sigurvegari keppninnar eftir 1-0 sigur gegn Þýskalandi í úrslitaleiknum 29. júní. Riðlakeppni. "Allir tímar miðast við miðevrópskan sumartíma (UTC+2)" Útsláttarkeppnin. 2008 Björn Bjarnason frá Viðfirði. Dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði (3. júlí 1873 – 18. nóvember 1918) var fræðimaður og kennari og þjóðsagnasafnari. Björn var einnig ritsjóri Skírnis á árunum 1910 - 1912. Hann er einna þekktastur fyrir bók sína "Íþróttir fornmanna á Norðurlöndum". Þá þýddi hann m.a. skáldsöguna Föðurást eftir Selmu Lagerlöf, rússnesk ævintýri og fleiri sögur. Dr. Björn Bjarnason var bóndason frá Viðfirði í Suður-Múlasýslu. Þar ólst hann upp, og kenndi sig síðan að jafnaði við fæðingarstað sinn. Hann kom fyrst í skóla 16 ára og varð stúdent 1895 með ágætiseinkunn. Í skóla hafði hann mikinn áhuga á íþróttum, en sá áhugi átti síðar eftir að blandast aðaláhugamáli hans: íslenskri tungu. Björn lagði stund á norræna tungu við Háskólann í Kaupmannahöfn. Í fyrstu ætlaði hann að verða lögfræðingur, en féll ekki það nám og hvarf að norrænunni. Hann lauk meistaraprófi í norrænum fræðum 1901 og hélt þá til Íslands og varð skólastjóri á Ísafirði, en þar ólst kona hans, Gyða Þorvaldsdóttir læknis Jónssonar, upp. Gyða var systir málarans Kristínar Þorvaldsdóttur, stundum nefnd Jónsson. Gyða og Björn gengu í hjónaband árið 1902. Þau eignuðust fjögur börn, Högna, Sigríði, Kristínu og Þórunni, hún dó ung. Dr. Björn varði doktorsrit sitt, "Íþróttir fornmanna", þann 27. september 1905, en það kom síðar út sem bók. Það rit er af mörgum talið skrifað á óvenju góðri íslensku, en dr. Björn var ætíð talinn mikill smekkmaður á málfar, og var t.d. í miklum metum hjá Þórbergi Þórðarsyni eins og kemur fram í bók hans Ofvitanum. 1908 tók Kennaraskólinn til starfa í Reykjavík og sama ár varð hann kennari þar. Eftir fjögra ára starf við skólann bilaði heilsa hans skyndilega. Hann leitaði sér heilsubótar, fyrst hér heima en síðan erlendis, og dvaldi lengstum í Sviss. Vorið 1917 var hann loks það hress orðinn, að hann gat haldið heimleiðis eftir meira en fjögra ára dvöl erlendis. Honum var þá falið að semja eða efna til íslensku orðabókarinnar. Hann lést ári síðar úr spænsku veikinni. Ken Livingstone. einu sinni sem stjórnandi ráðs stórborgarsvæðið Lundúna og síðar sem borgarstjóri Lúnduna frá 2000 til 2008, þegar Boris Johnson varð stjórnandi. Hann var einnig þingmaður Brent East frá 1987 til 2001. Hann var kosinn sem sjálfstæður stjórnandi þegar Verkamannaflokkurinn ákvað að hann var ekki að vera frambjóðandi þeirra. Verkamannaflokkurinn ákvað árið 2004 að viðurkenna Ken aftur inn í flokknum. Livingstone, Ken Belfast. Belfast (skoska: "Bilfawst", írska: "Béal Feirste") er höfuðborg Norður-Írlands sem er hluti Bretlands. Hún er stærst þéttbýli í Norður-Írlandi og í héraði Ulster. Árið 2001 var mannfjöldi 276.459 í borginni og 579.554 fólk bjuggu í borgarsvæði Belfasts. Fyrir vikið er Belfast fimmtándi stærst borg Bretlands. 2 Girls 1 Cup. "2 Girls 1 Cup" (íslenska: "Tvær stelpur, eitt glas") er myndbrot fyrir klámmyndina "Hungry Bithces" (íslenska: "Svangar tíkur") sem framleidd var af MFX-Media. Veffanginu „2girls1cup.com“ var bætt ofan á myndina, undir framleiðslukóðanum fyrir "Hungry Bitches" sem var „MFX 1209“. Á myndbandinu sést önnur konan hafa hægðir í glas. Þær sleikja síðan hægðirnar, og önnur þeirra stingur fingri upp í sig og kastar upp í munn hinnar. Garðar Cortes. Garðar Cortes er íslenskur söngvari Hann var óperustjóri við Íslensku óperuna um árabil og stofnaði Söngskólann í Reykjavík 1973 og hefur verið þar skólastjóri síðan. Bergþór Pálsson. Bergþór Pálsson (fæddur 22. október 1957) er íslenskur baritónsöngvari. Þistill. Þistill (fræðiheiti: "Cirsium arvense") er stórvaxin fjölær jurt af körfublómaætt með litlum fjólubláum blómum. Blöðin eru þyrnótt á röndunum. Tegundin er víða flokkuð sem illgresi. Þistill er innfluttur slæðingur á Íslandi. Stefnuyfirlýsing. Stefnuyfirlýsing er opinber yfirlýsing sem dregur saman stefnuatriði, grunnviðhorf eða ætlunarverk. Oftast eru það stjórnmálahreyfingar, myndlistarhreyfingar eða skáldahreyfingar sem gefa út opinberar stefnuyfirlýsingar. Á síðari hluta 19. aldar voru gefnar út nokkrar frægar stefnuyfirlýsingar róttækra stjórnmálahreyfinga. Frægust þeirra allra er vafalaust "Kommúnistaávarpið" (þýska: "Das Manifest der Kommunistischen Partei") eftir Karl Marx og Friedrich Engels. Á fyrri hluta 20. aldar var algengt að listamenn sem stefndu að sama markmiði gæfu út stefnuyfirlýsingar málstað sínum til framdráttar. Umtalaðir stefnuyfirlýsingasmiðir voru til að mynda dadaistinn Tristan Tzara og súrrealistinn André Breton. Blómaskeið þessara stefnuyfirlýsinga listamanna og skálda má segja að nái frá 2. áratugnum fram að upphafi Síðari heimsstyrjaldar. Kjarrmunablóm. Kjarrmunablóm (fræðiheiti: "Myosotis decumbens") er blómjurt af munablómaætt. Kjarrmunablóm er ein tegund Gleym-mér-eia. Hressingarskálinn. Hressingarskálinn, Skálinn eða Hressó er kaffihús og skemmtistaður að Austurstræti 20 í Reykjavík. Húsið var reist árið 1805 og er með elstu húsum borgarinnar. Upphaflega var það kallað „svenska húsið“ af því það var flutt inn tilhöggvið frá Svíþjóð. Rekstur veitingaskála í húsinu hófst árið 1932 þegar Björnsbakarí (stofnað 1900) leigði húsið undir starfsemi Hressingarskálans sem áður hafði verið rekinn í Pósthússtræti, í húsi Reykjavíkurapóteks, frá 1929. Svenska húsið og landfógetahúsið. Upphaflega var húsið að Austurstræti 5 (nú 20) reist að undirlagi Rentukammersins sem embættisbústaður fyrir sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu milli húss stiftamtmanns sem var reist 1802 og bakarís sem O. P. Christian Möller kaupmaður hafði reist. Húsið var flutt inn tilhöggvið frá Svíþjóð og var því almennt kallað „svenska húsið“. Fyrsti íbúi hússins var Hans Wöllner Koefoed sýslumaður. Ólafur Finsen var skipaður sýslumaður 1821 og flutti í húsið. Hann keypti það síðan af Rentukammerinu og sömuleiðis bakaríið og bjó þar til dauðadags 1836. Síðar keypti Kristján Kristjánsson landfógeti húsið af ekkju Finsens og síðan keypti Vilhjálmur Finsen landfógeti húsið af honum. Árni Thorsteinsson, eftirmaður hans, keypti aftur húsið af honum og bjó í því til dauðadags 1907. Á hans tíma var tekið að kalla húsið „landfógetahúsið“. Árni vann ýmsar breytingar á húsinu og stækkaði það. Í gamla bakaríinu innréttaði hann skrifstofu og hann hóf trjárækt í garðinum bak við húsið. Eftir lát Árna bjó sonur hans, Hannes Thorsteinsson bankastjóri, í húsinu til dauðadags 1931. 1931 keypti íslenska ríkið húsið og skipti á því sama ár við KFUM og K gegn Bernhöftsbakaríi í Bankastræti (þar sem nú er veitingahúsið Lækjarbrekka), en þar hugðist félagið reisa glæsilegar höfuðstöðvar. Félagið fékk vilyrði fyrir byggingarétti á allri lóðinni við Austurstræti fyrir hús sem væri á stærð við Reykjavíkurapótek, en ekkert varð af þeim framkvæmdum af ýmsum ástæðum. Hressingarskálinn. Björn Björnsson, konditormeistari og stórkaupmaður, stofnaði og rak Hressingarskálann á fyrstu árum hans. Hressingarskálinn var í fyrstu í húsakynnum Reykjavíkurapóteks, þar sem síðar var snyrtivöruverslunin "Hygea", Pósthússtræti 7. Björn Björnsson fékk erlendan mann til þess að setja upp kaffivél í Hressingarskálanum að hætti alþjóðlegra kaffihúsa. Árið 1932 leigði Björn landfógetahúsið undir rekstur skálans. Þar stillti hann út tertum og kökum og seldi kaffi og ís en framhlið hússins hafði þá verið breytt til samræmis við breytt hlutverk. 1934 tók Hressingarskálinn hf. við rekstri kaffihússins og 1935 flutti Björn til London. Í Síðari heimsstyrjöld og mörg ár eftir var Hressingarskálinn vinsæll samkomustaður myndlistarmanna og ljóðskálda. 1957 og 1958 voru aftur gerðar breytingar á húsinu, gluggum á framhlið var breytt og skáli reistur suður úr húsinu. Að innan var húsið innréttað upp á nýtt. Enn voru gerðar breytingar á húsinu árið 1985 þegar aftur var tekinn upp veitingarekstur í garðinum, sem þá hafði lagst af um skeið. Á 9. og 10. áratugnum var lengi rekinn í húsinu vinsæll skemmtistaður á kvöldin aðgreindur frá kaffihúsinu á daginn, oft af öðrum rekstraraðilum, en þá voru vínveitingar ekki leyfðar fyrir klukkan sex síðdegis. 1991 voru húsið og reksturinn síðan auglýst til sölu en þá hafði KFUM hafið að reisa félagsheimili við Holtaveg í Laugardal. Hætt var við söluna í það skiptið. Árið 1994 var rætt um að Hressingarskálinn mætti muna sinn fífil fegri og eigendur hússins ákváðu að leigja það undir McDonald's-veitingastað. Í tilefni af 60 ára afmæli Hressingarskálans hf. og í skugga yfirvofandi breytinga var gefið út afmælisrit, "Ljóð og laust mál: 60 ára afmæli Hressingarskálans", ritstýrt af Benedikt Lafleur, sem innihélt ný og gömul ljóð og smásögur eftir ýmsa höfunda. 16. júní 1995 opnaði svo McDonald's-staður sem var rekinn í húsinu til 2003. Veitingastaðurinn var opinn til kl. 10 á kvöldin en seldi síðan mat í gegnum lúgu fram á nótt. Frá 1996 var miðstöð miðbæjarstarfs KFUM og K á svokallaðri „loftstofu“ á efri hæð hússins. Árið 2001 var gamla bakaríið aftur aðskilið frá húsinu og KFUM og K hóf þar rekstur lítils kaffihúss, Ömmukaffis, sem var bæði reyklaust og áfengislaust. 2002 seldi KFUM svo húsið og 2003 var aftur opnaður veitinga- og skemmtistaður með nafninu Hressingarskálinn í Austurstræti 20 eftir gagngerar breytingar á innréttingum. Ömmukaffi var rekið áfram í bakaríshúsinu til ársins 2006. Þegar bruninn í Austurstræti átti sér stað 18. apríl 2007 var lengi óttast um að eldurinn bærist í Hressingarskálann, en húsið slapp vel og opnaði aftur næsta dag. Eftir að reykingabann gekk í gildi á skemmtistöðum og kaffihúsum 1. júní 2007 hafa garðurinn og pallurinn aftan við húsið reynst hafa talsvert aðdráttarafl fyrir reykingamenn. 2008 opnaði sportbarinn "Bjarni Fel" í bakaríshúsinu þar sem Ömmukaffi var áður til húsa, en þá hafði enginn rekstur verið í húsinu um nokkurt skeið. Bjarni Fel nýtir hluta garðsins við Hressingarskálann. Leicester. Leicester (framburður: /ˈlɛstə/) er borg í austur-miðhéruðum Englands (e. "East Midlands") og er hefðbundin höfuðborg sýslunnar Leicestershire. Borgin er ein sú elsta í Englandi. Þar búa um 330 þús manns. Lega og lýsing. Leicester stendur við ána Soar nærri Þjóðskógi Englands (National Forest) um miðbik landsins. Næstu stærri borgir eru Coventry til suðvesturs (30 km), Birmingham til vesturs (40 km), Nottingham til norðurs (40 km) og Peterborough til austurs (60 km). London er um 180 km til suðurs. Miðborgin er að miklu leyti í viktoríönskum stíl. Borgin hefur þanist út á 20. öld, þannig að mörg úthverfi voru áður fyrr þorp og bæir. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Ratae Corieltauvorum á tímum Rómverja og hét eftir keltneska ættflokknum corieltauvi. Heitið Leicester er þó dregið af orðunum Legro og Castra. Legro er gamla heitið á ánni Soar. Castra merkir "hervirki". Á 10. öld hét borgin Ligeraceaster og í jarðabókinni Domesday Book hét hún Ledecestre. Úr því varð svo Leicester. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Leicester sýnir fimm blaða hvítt blóm á rauðum grunni. Þetta var merki jarlsins af Leicester áður fyrr. Skjaldarmerkið var veitt 1619, en 1929 var skjaldarberunum bætt við. Það eru tvö rauð ljón, sem einnig eru merki Lancaster-ættarinnar (jarlanna í Leicester). Efst er hjálmur með hvítum dreka. Neðst er borði sem á stendur: SEMPER EADEM, sem merkir "ávallt eins". Þetta voru einkennisorð Elísabetar I sem veitti Leicester konunglegt leyfisbréf. Rómverjar. Nikulásarkirkjan í Leicester er frá 9. öld Fyrir tíma Rómverja bjuggu keltar í bænum og var Leicester jafnframt höfuðstaður ættflokksins corieltauvi. En það voru Rómverjar sem tóku við búsetu þar 50 e.Kr. og reistu borg á staðnum. Leicester er því með allra elstu borgum Bretlands. Í fyrstu voru það bara hermenn sem þar bjuggu, en síðar settust verslunarmenn og aðrar stéttir að. Á tímabili var Leicester með stærstu borgum innan rómverska svæðisins á Bretlandi. Enn í dag eru rómverskar rústir innan um nútímahús í borginni, s.s. baðhúsin. Litlar sögur fara af því hvernig borginni reiddi af þegar Rómverjar hurfu úr landi í upphafi 5. aldar eða hvernig engilsaxar settust þar að. Leicester var hins vegar í upphafi hluti af konungdæminu Mercia. 679/80 varð borgin biskupssetur, sem lagðist þó niður þegar danskir víkingar réðust inn í héraðið og hertóku borgina á 8. öld. Í kjölfarið varð borgin hluti af Danalögum til skamms tíma. Kristni biskupinn flúði til Dorchester-on-Thames. Leicester varð ekki biskupsdæmi á ný fyrr en á 20. öld. Miðaldir. Ríkharður III lést í orrustunni við Bosworth Field fyrir vestan Leicester Í Domesday Book kom fram að Leicester væri borg. Hins vegar missti hún borgarréttindin á ný á 11. öld sökum valdabaráttu klerka og aðalsmanna. Bærinn kemur fram í Historia Regum Britanniae frá árinu 1136 eftir Geoffrey of Monmouth. Þar segir frá Leir, hinum þjóðsagnakennda konungi fornbreta (kelta). Leir átti að hafa verið greftraður við ána Soar, en eftir það kom fólk á hverju ári þangað til að minnast hans með veisluhöldum. Leikritið Ljár konungur eftir Shakespeare er tengt þessum konungi. Orrustan við Bosworth Field var háð rétt vestan við Leicester 22. ágúst 1485, en hún var síðasta stóra orrusta Rósastríðanna. Þar féll Ríkharður III, síðasti konungur Lancaster-ættarinnar. Sagan segir að Ríkharður hafi leitað til miðils í Leicester sem spáði fyrir um fall hans. Eftir orrustuna var líkami hans lagður í gröf undir Greyfriars Church í Leicester. Kirkjan var síðar jöfnuð við jörðu. Borgarastríð. Á tímum borgarastríðsins á 17. öld var Leicester sterkt vígi lýðveldissinna. 1645 ákvað Rúpert prins að ráðast á borgina til að freista þess að lokka konungsherinn burt frá Oxford. Þegar umsátrið var fullgert voru boð send inn í borgina um að gefast upp. Þegar borgarbúar hunsuðu boðin, var ráðist til atlögu 30. maí. Fyrst rigndi fallbyssukúlum yfir borgina, en síðan réðist konungsherinn inn. Borgin var nánast jöfnuð við jörðu. Hundruðir manna voru drepnir. Iðnbyltingin. Á síðasta áratug 18. aldar var Grand Union skipaskurðurinn opnaður milli Leicester og London. Borgin fékk járnbrautartengingu 1832 á línunni Birmingham – London. Þannig var hægt að flytja kol til Leicester hraðar en áður. Verksmiðjur spruttu upp, sérstaklega við skipaskurðinn og við ána Soar. Megin iðnaðurinn í borginni var vefnaður, framleiðsla á sokkum og skóm, og vélaiðnaður ýmis konar. Skó- og stígvélaverksmiðjurnar voru meðal þeirra stærstu í Evrópu. Að sama skapi fjölgaði í borginni. Íbúar fóru upp í 200 þús við aldamótin 1900. Þegar borgin stækkaði í lok 19. aldar, innlimaði hún marga nágrannabæi. 20. öldin. Hluti af Greyfriars kirkjunni þar sem gröf Ríkharðs III fannst Leicester hlaut loks borgarréttindi 1919. 1935 stækkaði borgin enn við innlimun smærri bæja og hlaut hún þá núverandi stærð. Í Kreppunni miklu á þriðja áratugnum komst Leicester nokkuð vel frá efnahagshruni, því atvinnuvegir voru fjölbreyttir og síður háðir frumframleiðslu. Í skýrslu tölfræðistofnunar frá 1936 var Leicester álitin næstefnaðasta borgin í Evrópu. Þangað fluttu margir pólitískir flóttamenn frá meginlandinu. Hin mikla mótmælaganga 207 atvinnulausra einstaklinga frá norðurhluta Englands (enska: Jarrow March) kom við í Leicester 1936 á leið sinni til London. Borgin tók vel á móti göngumönnum og gaf þeim öllum ný stígvél. Leicester kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni síðari. Engar loftárásir voru gerðar á borgina. En efnahagslífið breyttist talsvert eftir stríð. Verksmiðjurnar áttu við mikinn vanda að stríða og mörgum þeirra var lokað. Við tóku þjónustufyrirtæki, ekki síst þegar járnbrautarkerfið batnaði og borgin hlaut tengingu við hraðbraut. Eftir stríð hófu margir Asíubúar að setjast að í Leicester, sérstaklega frá Indlandi. Einnig settust þar að Pólverjar og Írar, en einnig fólk frá Afríku. Í dag eru um 40% íbúanna af erlendu bergi brotnir, en þar með er Leicester með eitt hæsta hlutfall útlendinga í Bretlandi. Hlutfallið fer hækkandi stefnir í 50%. Engin önnur borg í Bretlandi er með breskan minnihluta. Árið 2012 fundust líkamsleifar Ríkharðs III undir gömlu Greyfriars kirkjunni í Leicester eftir vandlega leit. Í febrúar 2013 fékkst það staðfest með DNA-úrskurði að um Ríkharð sé að ræða. Bæði Leicester og York etja nú kappi um að fá að greftra miðaldakonunginn í sinni borg. Viðburðir. Leicester Comedy Festival er árleg hátíð skemmtikrafta í borginni. Henni var hleypt af stokkuknum 1994 og stóð þá í heila viku. Í dag koma skemmtikraftar hvaðanæva af í heiminum og stendur yfir í 17 daga. 60 þús manns hátíðina heim og er hún meðal fimm mestu hátíða sinnar tegundar í heimi. Caribbean Carnival er heiti á karabískri hátíð í borginni sem haldin er í ágúst. Hún hefur verið haldin síðan 1985 og er þriðja stærsta karnevalið sinnar tegundar í Bretlandi (á eftir Leeds og Notting Hill í London). Leicester Pride er hátíð samkynhneigðra í borginni. Hún er haldin með gleðigöngu sem endar með hátíð í Victoria Park. Í Leicester er haldin stærsta Diwali (eða Devali) hátíð Indverja utan Indlands. Íþróttir. Tvö helstu íþróttafélög borgarinnar eru Leicester Tigers í rúgbý og Leicester City í knattspyrnu. Í borginni fóru fram landsleikarnir Special Olympics fyrir Bretland árin 1989 og 2009. Árið 2008 var Leicester kjörin Íþróttaborg Evrópu. Frægustu börn borgarinnar. Bræðurnir Richard og David Attenborough fæddust á London-svæðinu, en ólust upp í Leicester. Byggingar og kennileiti. Safnið er opið skólabörnum. Þar fara einnig fram sérviðburðir, s.s. Stjörnustríðshelgi, sýning um Doctor Who, sýningar um vísindaskáldskap og margt annað. Pétur Halldórsson. Pétur Halldórsson (fæddur 26. apríl 1887, dáinn 26. nóvember 1940) var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1935 til dauðadags 1940. Pétur tók stúdentspróf frá MR árið 1907 og hóf nám í Kaupmannahafnarháskóla en hvarf frá námi eftir einn vetur. Hann keypti Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar árið 1909 og rak hana til æviloka. Pétur var alþingismaður Reykvíkinga (Sjálfstæðisflokksins) árið 1932 til 1940. Pétur átti mörg systkini, þar á meðal Gunnar Halldórsson stofnfélaga og formann Knattspyrnufélagsins Fram. Faðir þeirra var Halldór Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjavík. Meðal barna Péturs var Halldór Pétursson teiknari. Katalínu-flugvél. Katalína (eða Katalínu-flugvél eða Katalínuflugbátur) var sjóflugvél af tegundinni "PBY Catalina" og var í framleiðslu á fjórða og fimmta áratug 20. aldar. Katalínu-flugvélarnar voru í notkun á Íslandi á þeim tímum þegar lítið var um flugvelli á sjávarplássunum í kringum landið. Secretariat. Secretariat (30. mars 1970 – 4. október 1989) var bandarískur veðhlaupahestur sem sigraði Triple Crown-keppnina árið 1973 og varð þar með fyrsti sigurvegar keppninnar í 25 ár. Samræmd stafsetning forn. Samræmd stafsetning forn var aðferð við að samræma stafsetningu í útgáfu norrænna miðaldabókmennta sem byggðist á íslensku eins og fyrstu málfræðingarnir lýstu henni um 1200. Þessi aðferð var ríkjandi í alþýðilegum útgáfum Íslendingasagna frá lokum 19. aldar fram að miðri 20. öld. Þegar Ragnar í Smára og fleiri tóku upp á því að gefa út Laxdælu með lögboðinni nútímastafsetningu árið 1941 urðu út af því gríðarlegar deilur enda höfðu þá flestir vanist því að líta á samræmdu útgáfurnar sem hinn eina rétta texta. Ýmsir sem börðust fyrst gegn nýju útgáfunum, svo sem Árni í Múla, skiptu þó um skoðun síðar þegar ljóst þótti að nýja útgáfan breytti aðeins stafsetningu en ekki orðalagi. Broad Peak. Broad Peak (enska: „Breiðtindur“; áður nefnt K3), einnig þekkt sem Faichan Kangri meðal íbúa Baltistan, er 12. hæsta fjall jarðar. Fjallið er í Gasherbrum-fjallgarðinum á landamærum Pakistans og Kína. Fyrstir til að klífa fjallið voru Austurríkismennirnir Fritz Wintersteller, Marcus Schmuck, Kurt Diemberger, og Hermann Buhl 9. júní 1957. Raisting. Raisting er sveitarfélag í héraðinu Weilheim-Schongau í Bæjaralandi í Þýskalandi. Íbúar eru rúm tvö þúsund. Astara (Aserbaídsjan). Astara er bær i Aserbaídsjan. Astara Andakílsá. Andakílsá er dragá sem fellur úr Skorradalsvatni og rennur um 12 kílómetra leið uns hún fellur í Hvítá í Borgarfirði. Í ánni eru fossar, Andakílsárfossar. Í Andakílsá er Andakílsárvirkjun en hún var byggð á árunum 1946-47. Virkjunin er í dag rekin af Orkuveitu Reykjavíkur. Virkjað afl er 8.2 megavött og ársafköst 32 gígawattstundir. Rennsli árinnar getur sveiflast allt frá 3 til 22 m3/sek. Í ánni veiðist bæði lax og silungur. Allianz Arena. Allianz Arena eða Allianz-leikvangurinn er knattspyrnuleikvangur norðan við München í Þýskalandi. Leikvangurinn tekur 66 þúsund manns í sæti og opnaði 30. maí 2005. Leikvangurinn var hannaður af svissneska arkitektafyrirtækinu Herzog & de Meuron. Sjálfsþurftarbúskapur. Sjálfsþurftarbúskapur er það nefnt þegar hvert heimili, bóndabær eða sveitaþorp er sjálfu sér nægt að flestu leyti varðandi framleiðslu á matvælum og öðrum nauðþurftum. Fjölskyldan er oft efnahagsleg kjarnaeining og framleiddir flest allt það sem hún þarfnast fyrir sjálfa sig en framleiddir lítið umfram það. Markaðsstarfsemi er afar takmörkuð í samfélögum sem einkennast af sjálfsþurftarbúskap og þá einkum í formi skiptiverslunar. Peningar og aðrir gjaldmiðlar er óþekktir eða til lítilla nota. Fyrsta skóflustunga. Fyrsta skóflustunga er athöfn sem fram fer við upphaf byggingarframkvæmdar. Oft eru það stjórnmálamenn eða athafnamenn sem taka fyrstu skóflustunguna. Athöfnin getur farið fram mörgum mánuðum (eða jafnvel árum) áður en hin eiginlega framkvæmd hefst. Fyrsta skóflustungan er þannig yfirlýsing um að ætlunin sé að byggja á þeim stað fremur en eiginlegt upphaf framkvæmdatímans. Stundum er skóflan sem notuð er varðveitt eftir athöfnina og stillt út til sýnis þegar byggingin er fullbúin. IPhone 3G. iPhone 3G er útgáfa iPhone, margmiðlunar/Internet studdur farsími frá Apple. Á WWDC 9. júní 2008, Steve Jobs tilkynnti að iPhone 3G mun vera fáanlegur í 22 löndum 11. júlí 2008. Ný iPhone hefur 3G samhæfni og A-GPS tæki. Farsíminn mun vera fáanlegur í gljáandi svörtum eða hvítum og hefur plestið bakhlið. Verðlagning og auðfáanleiki. 8GB iPhone 3G mun kosta US$199 og mun vera aðeins fáanlegur í svörtum. 16GB útgáfan mun kosta US$ og mun vera fáanlegur í svörtum eða hvítum. Verðin eru niðurgreidd og mun þurfa samning með þjónustuaðila svo sem AT&T. Borðaklipping. Borðaklipping er athöfn sem oft er haldin þegar opnað er fyrir aðgang almennings að einhverju mannvirki. Þá er borði strengdur fyrir inngang byggingarinnar, yfir veginn eða brúna sem á að opna og síðan klipptur með viðhöfn. Oft eru það þekktar persónur, stjórnmálamenn sem klippa á borðann, einkum ef um er að ræða opinbert mannvirki. Skærin og hluti borðans eru oft varðveitt eftir athöfnina og stillt út til sýnis. Íslensk málstöð. Íslensk málstöð er deild innan Menntamálaráðuneytisins, sem vinnur að framgangi íslenskrar tungu, komið á fót 1985. Þota. Þota er loftfar knúið áfram með þotuhreyflum. Þotur geta flogið mikið hraðar en venjulegar flugvélar og ná þær allt að 10.000 til 15.000 metra hæð. Orðsifjafræði. Íslenska orðið "þota" er nýyrði og er dregið af lýsingarhætti þátíðar sagnarinnar "þjóta" sem er "þotinn". Vátrygging. Vátrygging (oftast kölluð trygging) er tegund áhættustjórnunar í formi samnings um þjónustu milli aðila (t.d. einstaklings eða fyrirtækis) og vátryggjanda (tryggingafélag). Þjónþoli, sem hefur gilda vátryggingu, fær þá bætt það tjón, sem hann verður fyrir gegn því að hann greiði umsamið vátryggingariðgjald allan samningstímann. Flestar tryggingar fela einnig í sér "sjálfsábyrgð", sem þýðir að þjónþoli greiðir fyrirfram ákveðna, tiltölulega lága upphæð sjálfur af kostnaði tjóns. Það eru margar tegundir tryggingar, svo sem brunatryggning, heilsutrygging, líftrygging, húseingdatrygging, heimilistrygging, atvinnutrygging og kortatrygging. Þungun. Þungun er líkamlegt ástand kynþroska konu, þegar hún "gengur með" fóstur í legi sínu. Þungun lýkur með fæðingu barns, fósturláti eða fóstureyðingu. Sjóflugvél. Sjóflugvél er flugvél, sem getur tekið á loft og lent á stöðuvatni eða sjó og fljóta á vatni eins og bátur. Sumar sjóflugvélar geta einnig lent á flugvöllum. Ítalskur skúti. Ítalskur skúti á við nokkrar myntir sem slegnar voru á Ítalíu fram á 19. öld. Nafnið er dregið af latneska orðinu "scutum" sem merkir „skjöldur“. Á 16. öld var heitið notað á stóra silfurmynt sem gat verið mismunandi að stærð eftir því hvaðan hún kom. Fyrsti silfurskútinn ("scudo d'argento") var sleginn árið 1551 í Mílanó af Karli 5. keisara. Í Páfaríkinu var skúti Páfaríkisins opinber gjaldmiðill til 1866. Orðið er líka heiti gjaldmiðilsins sem notaður var í Portúgal áður en evran var tekin upp. Nevers. Nevers (latína: "Noviodunum", síðar "Nevirnum" og "Nebirnum") er sveitarfélag í miðju Frakklandi í sýslunni Nivernais og umdæminu Nièvre á bökkum fljótsins Loire. Íbúar eru rúm fjörutíu þúsund. Bæjarins er getið í rómverskum heimildum frá innrás þeirra í Gallíu. Júlíus Sesar gerði bæinn að birgðastöð. Edúar voru Keltar sem bjuggu þar. Eftir ósigur Sesars í orrustunni við Gergóvíu 52 f.Kr. brenndu þeir bæinn og rændu því sem þeir gátu. Í "Leiðarlýsingu Antonínusar" frá 3. öld er bærinn kallaður Nevirnum. Við lok 5. aldar varð bærinn biskupsdæmi. Úrbínó. Úrbínó er víggirt borg í héraðinu Marke á Ítalíu, suðvestan við höfuðstað héraðsins, Pesaró. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO vegna ríkulegra minja frá endurreisnartímanum, einkum frá þeim tíma þegar Friðrik frá Montefeltro ríkti yfir borginni 1444 til 1482. Úrbínóháskóli var stofnaður 1506. Porto Covo. Ströndin í Porto Covo árið 1984. Porto Covo er önnur tveggja sókna í sveitarfélaginu Sines í Portúgal. Staðurinn er þekktur fyrir baðstrendur. Philadelphia-sýsla. Philadelpha-sýsla er sýsla í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum sem nær yfir sama svæði og borgin Philadelphia. Sýslan er ein af þremur sem William Penn stofnaði árið 1682. Friðrik barbarossa. Friðrik barbarossa („rauðskeggur“) eða Friðrik 1. (1122 – 10. júní 1190) var kjörinn konungur Þýskalands í Frankfurt 4. mars árið 1152. Hann var krýndur í Aachen 9. mars og krýndur konungur Ítalíu 1154 í Pavíu og loks keisari hins heilaga rómverska ríkis af Hadríanusi 4. páfa í Róm 18. júní 1155. Áður en hann gerðist keisari var hann hertogi af Svefalandi sem Friðrik 3. Hann var sonur Friðriks 2. af Hohenstaufen-ættinni. Móðir hans, Júdit, var dóttir Hinriks svarta, hertoga af Bæjaralandi, og Friðrik var því kominn af tveimur valdamestu ættum Þýskalands á þeim tíma. Friðrik fór í margar herfarir til Ítalíu en í þeirri síðustu árið 1174 beið hann ósigur gegn Langbarðabandalaginu í orrustunni við Legnano. Með friðarsamningum í Konstanz fengu borgirnar í Langbarðalandi rétt til að kjósa sér eigin stjórn. 1189 lagði Friðrik upp í þriðju krossferðina sem einnig var leidd af Filippusi Ágústusi Frakkakonungi og Ríkharði ljónshjarta. Hann lést þegar hann hélt yfir ána Salef (nú Göksu) í Kilikíu í suðausturhluta Anatólíu. Göksu. Göksu (einnig nefnd Geuk Su, Goksu Nehri, Salef, Kalykadnos) er fljót í héraðinu Çukurova í Tyrklandi. Áin á upptök sín í Tárusfjöllum og rennur þaðan 260 km út í Miðjarðarhafið. Apple II. Upprunalega Apple II-tölvan frá 1977. Hér með tveimur diskdrifum og skjá. Apple II var fyrsta örtölvan sem fyrirtækið Apple Inc. fjöldaframleiddi. Apple II var talsvert þróaðri en Apple I sem var aðallega ætluð tölvuáhugamönnum. Apple II var ein af fyrstu vinsælu einkatölvunum og átti þátt í því að gera Apple að gróðavænlegu fyrirtæki. Hún var fyrst kynnt á tölvuráðstefnunni West Coast Computer Faire árið 1977. Einkatölva. Einkatölva er tölva sem er ætluð einum notanda í einu. Stærð, verð og geta einkatölva miðast þannig við milliliðalaus einkanot. Með tilkomu örgjörva um miðjan 8. áratuginn varð mögulegt að hanna minni tölvur, sem upphaflega voru kallaðar örtölvur. Undir lok 8. áratugarins var síðan farið að markaðssetja tölvur sem heimilistæki og heimilistölvan varð til samfara minnkandi framleiðslukostnaði. Með tilkomu einkatölva og notendavænna stýrikerfa og forrita hefst tölvubyltingin. Orðið "einkatölva" á yfirleitt við tölvu sem inniheldur móðurborð, örgjörva, staðbundna gagnageymslu líkt og harðan disk, tölvuskjá og lyklaborð. Sumar einkatölvur hafa sambyggðan tölvukassa og skjá, t.d. Macintosh 128K og flestar eru búnar tölvumús. Einkatölvur geta til dæmis verið borðtölvur, fartölvur eða fistölvur. Kópavogsvöllur. Kópavogsvöllur er fjölnota leikvangur í Kópavogi. Hann er notaður jafnt undir knattspyrnu og frjálsar íþróttir og er heimavöllur bæði HK og Breiðabliks. Risaborg. Risaborg er mjög stórt stórborgarsvæði eða keðja af samliggjandi stórborgarsvæðum. Bandaríkjamaðurinn Jean Gottman var fyrstur til þess að nota hugtakið til að lýsa hinu risavaxna BosWash stórborgarsvæði á austurströnd Bandaríkjanna. Svæðið inniheldur m.a. stórborgirnar Boston í Massachusetts, New York, Philadelphiu, Baltimore og Washington D.C.. Samgöngubætur eins og hraðbrautir og lestir eru oft hvatar að myndun risaborga. Transport for London. Transport for London (TfL) er ensk samtök sem stjórna samgöngukerfinu stórborgarsvæðis Lundúna. Nefnd stjórnar Transport for London, og eru félagarnir nefndarinnar kosnir af borgarstjóra Lundúna, eins og er Boris Johnson. Samtök voru stofnuð árið 2000 til að skipta um London Regional Transport, en ný samtök stjórna ekki neðanjarðarlestakerfinu Lundúnaborgar til 2003. Transport for London stjórnar aðgöngumiða samgöngukerfis, að meðtöldum Travelcard og Oyster-kort sem nýtast yfir kerfinu. Heimabanki. Heimabanki eða netbanki er forrit sem býður viðskiptavinum banka möguleika á því að nálgast bankaþjónustu í gegnum heimilistölvu eða annað tæki (til dæmis snjallsíma), og er þá hægt að nálgast bankann og sinna viðskiptum sínum þegar manni hentar. Heimabankinn er alltaf opinn. Höfuðbók. Höfuðbók eða HB kallast í reikningsnúmerum þeir tveir tölustafir sem gefa að til kynna hvaða kerfi viðkomandi reikningur tilheyrir. Sendiráð. Sendiráð er staður þar sem teymi fólks sem treyst er fyrir utanríkjastörfum starfar. Það er aðsetur sendiráðsherra. Alþjóðatengsl Íslands. Ísland rekur sendiráð í Austurríki (Vínarborg), Bandaríkjunum (Washington), Belgíu (Brussel), Bretlandi (London), Danmörku (Kaupmannahöfn), Finnlandi (Helsinki), Frakklandi (París), Indlandi (Nýju-Delí), Ítalíu (Róm), Japan (Tókýó), Kanada (Ottawa), Kína (Peking), Malaví (Lílongve), Mósambík (Mapútó), Namibíu (Windhoek), Noregi (Osló), Rússlandi (Moskvu), Srí Lanka (Kolombo), Suður-Afríku (Pretoríu), Svíþjóð (Stokkhólmi), Úganda (Kampala) og Þýskalandi (Berlín). Hagkaup. Hagkaup er íslenskt smásölufyrirtæki í eigu Haga sem selur matvörur, fatnað, raftæki, afþreyingarefni og leikföng. Hagkaup eru með tíu verslanir á Íslandi, þar af sjö á höfuðborgarsvæðinu. Hagkaup segjast reka stærstu verslun landsins í Smáralind. Hagkaup voru upphaflega stofnuð af Pálma Jónssyni (sem nefndur var "Pálmi í Hagkaup") árið 1959. Árið 1967 opnaði hann fyrstu Hagkaupsverslunina við Miklatorg í Reykjavík, sú búð er enn í rekstri. Jólin 2008 buðu Hagkaup viðskiptavinum sínum að taka lán til hálfs árs á 3% vöxtum fyrir þeim vörum sem þeir töldu sig vanta. Þetta var gert að sögn forsvarsmanna hagkaupa til þess að koma til móts við þá sem höfðu lítið milli handanna sökum efnahagskreppunnar. Um sjö hundruð manns tóku slík lán þrátt fyrir að umboðsmaður Alþingis hafi varað við þeim. Kringlumýrarbraut. Kringlumýrarbraut er stór gata í Reykjavík nefnd eftir Kringlumýri. Í mótmælum vörubílstjóra þann 1. apríl 2008 stöðvuðu bílstjórarnir umferð við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í um tíu mínútur þar til lögreglan kom á vettvang. Abbas 2.. Persneskt veggmálverk sem sýnir Abbas 2. Abbas 2. (20. desember 1633 – 25. september 1666) var keisari ("sja") í Safavídaríkinu í Persíu frá 15. maí 1642 til dauðadags. Hann var á barnsaldri þegar hann tók við völdum af föður sínum, Safi, og stjórn ríkisins var því í höndum stórvesírsins Saru Taqi. Saru Taqi barðist gegn spillingu í stjórnkerfinu sem aflaði honum margra óvina og hann var myrtur árið 1645. Frá fimmtán ára aldri fór Abbas að taka meiri þátt í stjórn landsins, ólíkt föður sínum, og honum tókst að hertaka Kandahar og halda henni gegn árásum Mógúlveldisins. Fasilídes. Fasilídes (ge'ez ፋሲልደስ "Fāsīladas", nútímamál "Fāsīledes"; ríkisnafn ʿAlam Sagad, ge'ez ዓለም ሰገድ "ʿĀlam Sagad", nútímamál "ʿĀlem Seged", „sá sem heimurinn hneigir sig fyrir“; 1603 - 18. október, 1667) var Eþíópíukeisari frá 1632. Hann var af Salómonsætt, sonur Susenyosar keisara og Sultana Mogassa drottningar. Fasilídes var hylltur sem keisari þegar árið 1630 af uppreisnarmönnum undir stjórn Sersa Krestos, en hann náði ekki völdum fyrr en faðir hans sagði af sér tveimur árum síðar. Hann dró enn frekar úr áhrifum Jesúíta í landinu, gerði eignir þeirra upptækar og hrakti þá að lokum burt úr landinu, eftir að hann frétti af árás Portúgala á Mombasa í Kenýa. 1665 lét hann brenna þær kaþólsku bækur sem eftir voru í landinu. Fasilídes stofnaði borgina Gondar árið 1636 og gerði hana að höfuðborg. Mest af valdatíma hans fór í að berja niður uppreisnir meðal Ageva eða hrinda árásum Orómóa í suðri. The Sun. "The Sun" er breskt æsifréttablað sem kemur út alla daga vikunnar. Það er gefið út í Bretlandi og Írlandi, og er með stærst umferð enskt dagblaðs í heimi, 3.126.866 eru afrit lesin á hverjum degi. Í raun er dagblaðið í eigu News Corporation. Það var stofnað 15. september 1964 til að skipta um "Daily Herald". Í dag er blaðið þrætugjarnt, sérstaklega fyrir að finna upp hugtakið „pía 3. blaðsíðu“ (e. "Page Three girl"), þ.e.a.s. topplaus fyrirsæta sem er á 3. blaðsíðu blaðsins. News Corporation. News Corporation (oftast News Corp) (,,) er stærsta fjölmiðlafyrirtæki í heimi eftir markaðsvirði. Framkvæmdastjórinn fyrirtækis er Rupert Murdoch og er forstjórinn Peter Chernin. News Corporation er opinbert fyrirtæki á verðbréfaþing í New York, á Australian Securities Exchange og á verðbréfaþing í London. Í byrjún var fyrirtækið gerð að hlutafélagi í Ástraliu en var gerð að hlutafélagi aftur árið 2004 í Delaware. Höfuðstöðvar fyrirtækis eru í Rockerfeller Center á Sjötti breiðstræti í New York. Árið 2007 var tekjur US$28,655 billjónir. Melavöllurinn. Melavöllurinn var íþróttaleikvangur sem var reistur af Íþróttasambandi Reykjavíkur á Melunum (Skildinganesmelum) sunnan Hringbrautar í Vesturbæ Reykjavíkur árið 1925. Völlurinn var vígður 17. júní 1926 og var notaður til knattspyrnuiðkunar allt til ársins 1984 þegar hann var lagður niður. Saga vallarins. Í kjölfar þess að Íþróttavöllurinn á Melunum var dæmdur ónothæfur þurfti að leita á önnur mið til að leika knattspyrnu. Ákveðið var að reisa völl nálægt þeim stað sem gamli íþróttavöllurinn hafði staðið. Hafist var handa við að byggja hann 1925 og var hann vígður þann 17. júní árið 1926. Fyrsta mótið sem fór þar fram var allsherjarmót ÍSÍ. Framan af var það þó knattspyrnan sem var ráðandi á Melavellinum, en árin 1926 - 1959 voru nær allir leikir í efstu deild karla í knattspyrnu leiknir á honum og Íslandsmeistaratitillinn var afhentur þar í 31 skipti á þeim árunum fyrir utan þrjú ár, 1928 var bikarinn afhentur í Iðnó, en 1957 og 1959 á Laugardalsvelli. Laugardalsvöllurinn var vígður árið 1957 og með tilkomu grasvallar þótti Melavöllurinn sem malarvöllur óspennandi kostur og æ færri leikir voru leiknir þar í efstu deild. Bikarúrslitaleikirnir voru þó enn leiknir á Melavellinum allt fram til ársins 1972. Flóðljós voru sett þar upp árið 1971. Völlurinn var þó ekki lagður af strax og héldur æfingar frjálsíþróttafólks og yngri flokka í knattspyrnu áfram, þar var skautasvell á vetrum auk þess sem tónleikar voru haldnir þar af og til. Frægir pönktónleikar, Melarokk, voru haldnir þar árið 1982. Völlurinn var loks lagður niður árið 1984 sama ár og nýr gervigrasvöllur var tekinn í notkun í Laugardal. Síðasti leikurinn í efstu deild sem fór þar fram var viðureign KA og KR. KA vann 1-0 og var það Hinrik Þórhallsson sem skoraði sigurmarkið, og síðasta markið á Melavellinum, 55 árum eftir að Helgi Eiríksson, Víkingi Reykjavík, skoraði fyrsta markið þar í 4-1 sigri á Val. Staðsetning. Melavöllurinn stóð innan þess svæði sem nú til dags afmarkast af Hringbraut, Birkimel, Melatorgi, Suðurgötu og Hótel Sögu. Hann stóð alveg upp við Suðurgötu og einhver hluti hans var þar sem Þjóðarbókhlaðan stendur nú. Agnar Kofoed-Hansen. Agnar Kofoed-Hansen (3. ágúst 1915 – 23. desember 1982) var íslenskur flugmaður, flugmálastjóri og lögreglustjóri. Hann fæddist í Reykjavík og lærði að fljúga í flugskóla danska sjóhersins. Eftir nám starfaði hann sem flugmaður í Danmörku og Noregi. Hann var hvatamaður að stofnun Svifflugfélags Íslands og Flugmálafélagsins 1936 og tók þátt í stofnun Flugfélags Akureyrar 1937. 1940, eftir að hann hafði verið sendur á sumarnámskeið hjá SS-sveitum þýskra nasista sumarið 1939 var hann skipaður í embætti lögreglustjórans í Reykjavík og setti á fót njósnadeild Útlendingaeftirlitsins, svokallaða eftirgrennslanadeild. Hann sinnti starfi lögreglustjóra til ársins 1947. Agnar var flugvallastjóri ríkisins árin 1947-1951. Hann varð flugmálastjóri 1951 og gegndi því starfi til dauðadags. Viðeyjarprent. Viðeyjarprent var prentsmiðja sem starfrækt var í Viðey. Þar var Klausturpósturinn prentaður 1819 - 1827, Sunnanpósturinn 1835 - 1836 og 5. árgangur af Fjölni 1839 - 1840. Klausturpósturinn og Sunnanpósturinn voru mánaðarrit en Fjölnir var ársrit. Klausturpósturinn. Klausturpósturinn var fyrsta mánaðarritið sem kom út á íslensku var fyrst prentað á Beitistöðum 1818 en var síðan prentað í Viðeyjarprentsmiðju 1819 - 1827. Það var Magnús Stephensen dómstjóri sem gaf út Klausturpóstinn og í honum var innlent og erlent frétta- og fræðsluefni. Sunnanpósturinn. Sunnanpósturinn var mánaðarrit sem kom út 1835, 1836 og 1838. Það var prentað í Viðeyjarprentsmiðju árið 1835-36. Í ritinu voru fréttir, tilkynningar, greinar, frásagnir og kvæði. Í fyrstu var Þórður Sveinbjörnsson ritstjóri en síðar séra Árni Helgason. Þórður Sveinbjörnsson. Þórður Sveinbjörnsson (4. september 1786 – 20. febrúar 1856) var háyfirdómari, landfógeti og bæjarfógeti í Reykjavík. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1845-1850 og forseti Alþingis 1847. Þórður var ritstjóri Sunnanpóstsins árið 1835. Þórður fæddist á Ytra-Hólmi á Akranesi og voru foreldrar hans Sveinbjörn Þórðarson lögréttumaður á Hvítárvöllum og fyrri kona hans, Halldóra Jónsdóttir. Þórður lærði í heimaskóla hjá Geir Vídalín biskupi og útskrifaðist með stúdentspróf 1802. Hann var svo skrifari Stefáns Stephensen amtmanns í hálfan annan áratug en hóf lögfræðinám við Kaupmannahafnarháskóla 1817 og lauk prófi vorið 1820. Hann fékk heiðurspening háskólans 1819 fyrir ritgerð sögulegs efnis. Þórður vann síðan um tíma í Rentukammerinu en var skipaður sýslumaður í Árnessýslu 1822 og fór þá til Íslands. Hann varð 1. assessor í Landsyfirrétti 1834 og háyfirdómari 1836 og þjónaði því embætti til dauðadags. Hann gegndi landfógetaembættinu og jafnframt bæjarfógetaembættinu í Reykjavík frá hausti 1835 til 24. febrúar næsta ár og aftur um sumarið nokkurn tíma og gegndi einnig störfum stiftamtmanns í nokkra mánuði 1836. Hann fékk konferensráðsnafnbót 1848. Þórður sat á Alþingi sem konungkjörinn þingmaður fimm fyrstu þingin, var forseti þess 1847, og var jafnframt konungkjörinn fulltrúi á þjóðfundinum 1851. Fyrri kona Þórðar var Guðrún Oddsdóttir Stephensen, ekkja Stefáns Stephensen, en börn þeirra dóu ung. Þau hjónin bjuggu í Hjálmholti í Flóa en þegar Þórður var skipaður dómari fluttu þau að Nesi við Seltjörn. Guðrún dó 1838 og tveimur árum síðar giftist Þórður Kristínu Cathrine Lauritzdóttur Knudsen, einni hinna kunnu Knudsenssystra, sem þóttu einhverjar helstu glæsimeyjar Reykjavíkur um 1830-40. Kristín var 27 árum yngri en Þórður en hafði nokkrum árum áður hneykslað Reykvíkinga með því að eignast barn með manni systur sinnar og þóttu því nokkur tíðindi í bæjarlífinu þegar hún giftist einum æðsta embættismanni landsins. Þórður ættleiddi son hennar, sem eftir það nefndist Lárus Sveinbjörnsson, og eignuðust þau Kristín svo átta börn saman. Á meðal þeirra voru Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld og Áróra, kona Christians Trampe greifa, sonar Jørgens Ditlevs Trampe stiftamtmanns. Prentsmiðja. Prentsmiðja getur annaðtveggja átt við hús með tilheyrandi prentvélum eða stofnun sem stundar prentverk. Fyrsta prentsmiðja á Íslandi var að Hólum í Hjaltadal. Jón biskup Arason lét flytja hana til landsins, sennilega um 1530. Gallerí Fold. Gallerí Fold er listagallerí við Rauðarárstíg. Eigandi þess er Elínbjört Jónsdóttir og stjórnar hún fyrirtækinu ásamt eiginmanni sínum, Tryggva Páli Friðriksyni. Sjálfsfróunarmúffa. Sjálfsfróunarmúffa (enska "Fleshlight" eða "Fleshjack") er kynlífsleikfang hannað og markaðssett af fyrirtækinu Interactive Life Forms (ILF). Það samanstendur af hörðum plasthólki og mjúkum fjarlægjanlegum innri hluta sem getnaðarlimur passar inn í. Orðsifjar. Íslenska netfyrirtækið AVK ehf sem byrjaði að selja sjálfsfróunarmúffuna á íslenskum markaði árið 2008 leitaði samkvæmt talsmanni þess, Ágústi Smára Beaumont, til Orðabókar Háskóla Íslands eftir aðstoð við smíði nýyrðisins. „Þetta var þeirra tillaga. Múffa er eitthvað sem maður setur eitthvað inn í þannig að sú nafngift passaði vel við vöruna“. Margrét Skúladóttir Sigurz. Margrét Skúladóttir Sigurz vann Ungfrú Ísland keppnina árið 1994 og keppti svo fyrir Íslands hönd í Miss World. Satan. Satan, einnig þekktur sem andskotinn, djöfullinn, kölski, fjandinn, fjárinn, skrattinn eða Lúsífer Morgunstjarna, er venjulega notaður sem tákn alls ills. Samkvæmt Biblíunni er hann drottnari Helvítis og erkióvinur Guðs. Í bókinni "Paradísarmissi" eftir John Milton er hann erkiengillinn Lúsífer sem að gerir uppreisn gegn Guði og var honum refsað með því að vera sendur til Helvítis þar sem hann er sagður drottna nú. Jökulfirðir. Jökulfirðir og Hornstrandir Allir eru firðirnir utan Leirufjarðar á nyrðri hlið Jökuldjúpsins. Firðirnir eru allir óbyggðir í dag en seinustu ábúendur á svæðinu yfirgáfu það milli 1960 og 1970. Í dag er sumarábúð á nokkrum stöðum í Jökulfjörðum. Til að mynda er sumarábúð og þjónusta við ferðamenn í Grunnuvík og á Hesteyri. Til að komast í Jökulfirði þarf að fara með bát en nokkrir aðilar stunda slíka þjónustu eins og Jónas í Æðey og ferðaþjónustan í Grunnuvík. Enginn vegur lá í Jökulfirði framan af en árið 2005 kom upp umdeilt mál þar sem eigandi Leirufjarðar ruddi slóða þangað úr Ísafjarðardjúpi. Fjallabak. Fjallabak er samkvæmt orðabók bakhlið fjalla eða svæðið hinum megin fjalla. En sá hluti hálendis Íslands sem er norðan Mýrdalsjökuls norður til Landmannalauga og Hrauneyja nefnist almennt Fjallabak. Svæðið er þekkt fyrir stórbrotna og einstæða náttúru. Svæðið er friðland samkvæmt lögum. Að Fjallabaki eru margar vinsælar gönguleiðir eins og Laugavegurinn sem liggur úr Landmannalaugum yfir í Þórsmörk. Hann er talinn ein af vinsælustu hálendisgönguleiðum í heimi. Neyðarlínan. Neyðarlínan er fyrirtækið sem rekur neyðarnúmerið 112 á Íslandi. Neyðarlínan er staðsett í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík ásamt ýmsum viðbragðsaðilum eins og Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslunni, Fjarskiptamiðstöð Lögreglu, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar er Þórhallur Ólafsson og aðstoðarframkvæmdastjóri Tómas Gíslason, skrifstofustjóri er Árni Möller. Fyrirtækið þjónustar flesta viðbragðsaðila landsins og leysir af yfir 400 neyðarnúmer sem voru hjá viðbraðsaðilum áður fyrr. Meðal verkefna Neyðarlínunnar eru sjúkraflutningaskráning, svörun fyrir lögreglu, neyðarnúmer barnaverndarstofu, umhald upplýsinga um viðbragðsaðila og einnig er neyðalínan aðili að almannavörnum með aðild að Samhæfingarstöð almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Um 16-18 neyðarsímverðir svara í neyðarnúmerið 112 á reglulegum vöktum, allan sólarhringinn allan ársins hring, en um 26 manns vinna í heild hjá fyrirtækinu. Starfsfólk er vel þjálfað og sem dæmi má nefna að neyðarverðir fara reglulega á vaktir með slökkviliðs- og sjúkrabílum, lögreglubílum, björgunarsveitum, og vaktir staðnar á slysadeildinni svo fátt eitt sé nefnt. Regluleg þjálfun og endurmenntun er undirstaða þess að neyðarnúmerið 112 er þekktasta símanúmerið á Íslandi. Svörun er líka með því besta sem gerist í Evrópu, en svarað er á innan við 3,64 sek sem telst vera 3. besti svartími í Evrópu. Evrópusambandið setur það sem lög að svara verði innan 8 sek, svo fremi sem álag sé ekki þeim mun meira að ekki tekst að anna hringingum. Frá árinu 2005 hefur verið haldið upp á 112 daginn (11.2) sem er samevrópskur dagur, að þessum degi koma Neyðarlínan, Lögreglan, Slökkvi- og sjúkralið, Landsbjörg, Landlæknisembættið, Landhelgisgæslan, Rauði kross Íslands, Flugstoðir, Vegagerðin, Ríkislögregludeild Almannavarna og Barnaverndarstofa. Á þessum degi er valinn skyndihjálparmaður ársins, það er sú persóna sem hefur sýnt snarræði með góðri kunnáttu í skyndihjálp og jafnvel bjargað mannslífi. Lögreglukórinn tekur lagið, menntamálaráðherra heldur ræðu, veitt eru verðlaun í eldvarnargetraun slökkviliðsins og árið 2009 var valinn í fyrsta sinn neyðarvörður ársins. Fyrstur til að hljóta þessa tilnefningu er Sigurður Viðar Ottesen og fer nafn hans á viðurkenningarskjöld. Neyðarlínan sér einnig um rekstur á Tetra fjarskiptakerfinu, það er besta kerfið sem völ er á og er alls staðar notað af öllum leitar- og björgunaraðilum í heiminum í dag. Vaktstöð siglinga VSS (gamla Tilkynningarskylda báta) er einnig staðsett í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og er rekin samhliða með stjórnstöðinni hjá Landhelgisgæslunni. Inga Rannveig. Inga Rannveig Guðrúnardóttir (fædd 1976) er íslensk fjöllistakona. Helstu svið Ingu eru myndlist og ljósmyndun. Dvergsóley. Dvergsóley (fræðiheiti: "Ranunculus pygmaeus") er sóleyjartegund sem vex á Norðurslóðum og til fjalla í Noregi og í Klettafjöllunum. Litlir stofnar vaxa í austurhluta Alpafjalla og Tatrafjöllum í Evrópu. Dvergsóley er lítil jurt sem myndar litlar þúfur. Stilkarnir eru 1-5sm langir og bera eitt gult blóm með fimm krónublöðum. Við rótina vex síðan fjöldi laufblaða sem skiptast í 3-5 blöð. Á Íslandi vex dvergsóley á hálendinu og til fjalla um allt land en ekki á láglendi. Laugadepla. Laugadepla (fræðiheiti: "Veronica anagallis-aquatica") er vatnajurt í græðisúruætt sem vex við heitar laugar og í volgum lækjum. Á Íslandi er laugadepla afar sjaldgæf og finnst aðeins á suðvesturlandi. Mýrasóley. Mýrasóley (fræðiheiti: "Parnassia palustris") er jurt sem vex í graslendi og móum. Hún vex í þyrpingum. Blaðlaus stöngullinn verður allt að 30 sm langur og ber eitt hvítt blóm með fimm krónublöðum. Ketilsfjörður. Ketilsfjörður (grænlenska: "Tasermiut") er fjörður norðvestan við Herjólfsnes á Suður-Grænlandi. Ketilfjörður er um 70 km langur og víðast hvar um 2,5 km breiður. Mynni fjarðarins er um 25 km norðvestur við Herjólfsnes en þar á milli er Hellisey og Helliseyjarfjörður. Fiskmarkaður. Fiskmarkaður er markaður þar sem fram fer verslun með fisk og annað sjávarfang. Fiskmarkaðir geta verið heildsölumarkaðir þar sem fiskimenn versla við fiskkaupmenn, fengist við smásölu á fiski til neytenda, eða gert hvort tveggja. Lyfjagras. Lyfjagras (fræðiheiti: "Pinguicula vulgaris") er lítil jurt af blöðrujurtarætt. Jurtin er skordýraæta sem veiðir lítil skordýr með klístri sem þekur jarðlæg blöð hennar. Eitt blátt trektlaga blóm vex á 3-16sm löngum stöngli. Lyfjagras er algengt um alla Evrópu og á Norðurslóðum og vex þá yfirleitt í votlendi og lyngmóum. Á Íslandi er lyfjagras algengt um allt land. Lyfjagras hefur einnig verið kallað hleypigras vegna þess að hægt er að nota blöðin sem hleypi. Í Hollandi er lyfjagras friðað. Beinhákarl. (einnig barði, rýnir eða beinagráni) er næststærsta fisktegund í heimi. Roar Kvam. Roar Kvam (fæddur 4. maí 1944 í Steinkjer í Noregi) er norskur tónlistarmaður. Hann stundaði framhaldsnám í tónlist við Musikkonservatoriet í Oslo, þar sem hann nam kórstjórn hjá Trygve Lindeman, hljómsveitarstjórn hjá Øyvin Fjeldstad og tónsmiðar hjá Finn Mortensen. Hann hefur starfað að tónlistarmálum á Akureyri síðan 1971 er hann flutti til Íslands. Hann stofnaði og hefur starfað með Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri, sem síðar varð Blásarasveit æskunnar en báðar þessar hljómsveitir unnu til gullverðlauna í alþjóðlegum keppnum undir hans stjórn. Þá stofnaði Roar einnig Kammersveit Akureyrar, fyrirrennara Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stjórnaði henni fyrstu fimm árin. Roar stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar í sjö ár og Karlakórnum Geysi í áratug. Hann stofnaði Passíukórinn 1972 og stjórnaði honum alla tíð eða til ársins 1997. Roar hefur starfað sem tónlistarstjóri í nokkrum uppfærslum Leikfélags Akureyrar og má þar nefna My Fair Lady, Kabarett, Blood Brothers og Leðurblakan. Leikhúskórinn stofnaði hann svo ásamt áhugafólki um leikhústónlist árið 1996 og hefur stjórnað kórnum frá upphafi ef frá er talinn veturinn 1999. Tenglar. Kvam, Roar Hárdepla. Hárdepla (fræðiheiti: "Veronica officinalis") er fjölær depla sem vex í Evrópu og Asíu. Stönglarnir eru loðnir, 10-50sm langir, og mynda breiður. Ljósvínrauð blóm vaxa á stuttum knúppum. Hárdepla hefur verið mikið notuð sem lækningajurt. Á Íslandi er hárdepla algengust um sunnan- og vestanvert landið. Varablómabálkur. Varablómabálkur (fræðiheiti: "Lamiales") er ættbálkur tvíkímblöðunga sem telur um 11.000 tegundir í um tíu ættum. Þessum ættbálki tilheyra þekktar plöntur, eins og lavendill, askur, jasmína, ólífuviður og tekk, og nokkur vel þekkt krydd á borð við mintu, basilíku og rósmarín. Luang Prabang. Mynd af Luang Prabang, fljótið Mekong í forgrunni Luang Prabang, sem einnig er stafað Louang Prabang, (á laosku: ຫລວງພະບາງ) er borg í norðurhluta Laos og höfuðstaður í samnefndu héraði. Íbúatala borgarinnar er um 50 000 (2005), í héraðinu um 100 000. Upphaflega hét borgin "Xieng Dong Xieng Thong" en fékk núvarandi nafn af Búddha-styttu (Phrabang Buddha) sem var flutt frá Vientiane 1512. Í samband við laoska nýárið er mikil hátíð tengd þessari styttu. Borgin var höfuðborg í ríkinu Lan Xang frá byrjun fjórtándu aldar fram um miðja sextándu öld. Lang Xang samsvaraði nokkurn vegin núverandi Laos. Árið 1707 leystist Lan Xang upp og þá varð Luang Prabang höfuðborg í samnefndu konungsdæmi. Franska nýlendustjórnin gerði konunginn í Luang Prabang að formlegum þjóðhöfðingja en valdalausum í raun þegar þeir náðu Laos undir sig í lok 19. aldar. Vientiane var höfuðborg en Luang Prabang konunglegt aðsetur. Hélst það allt fram að 1975 þegar kommúnistar tóku völdin og afnámu konungsdæmið. Luang Prabang liggur við Mekong-fljótið, um 420 km fyrir norðan Vientiane. Borgin er miðstöð í trúarlífi búddhista í Laos og þar eru nú 33 klaustur og mikill fjöldi munka og nunna. Mörg klaustur byggð þegar á sexándu öld. Louang Prabang var tilnefnt 1995 á Heimsminjaskrá UNESCO, og er álitin vera einstök blanda af hefðbundinni byggingarlist og frönskum nýlenduáhrifum. Á síðari árum hefur fjöldi ferðamanna lagt leið sína til borgarinnar. Saffran. Saffran (eða safran) (fræðiheiti: "Crocus sativus") er fræni saffrankrókuss sem er lágvaxin planta af sverðliljuætt. Saffran er er upprunnið í Suður-Evrópu og í Litlu-Asíu og notað sem krydd og litunarefni. Í fornöld var saffran vinsælt litunarefni við Miðjarðarhafið og gaf gulan lit. Saffran er allra dýrasta krydd sem til er, en oftast þarf lítið af því til að fá bragð. Hár kostnaður saffrans kemur til að mestu vegna þess hversu seinlegt verk er að safna því. Best er að steyta saffran eða mylja, gjarnan ásamt ofurlitlu af salti eða sykri, sem hjálpar að mylja það. Þannig steytt leysist það betur upp en heilu þræðirnir. Á tímabili var reynt að íslenska orðið saffran með því að nefna það "safur". Saga saffrans. Saffran hefur verið þekkt löngu fyrir Krist. Fyrstu heimildir um saffran er að finna í Asíu en nú er saffran ræktað í flestum Miðjarhafslöndum, Mið-Asíu og Kína. Saffran var mikið notað á tímum Rómverja en þeir fluttu það inn í miklu magni frá Grikklandi. Ekkert virtist vera um notkun Saffrans í Evrópu frá falli Rómaveldis fram á 8. öld þegar Márar hófu ræktun á því á Spáni. Márar eru múslimar og orðið „saffran“ er komið frá arabíska orðinu „za’fran“ sem þýðir „yrði gulur“. Feneyjar skömmtuðu saffran til Evrópu og voru með sérstaka söluskrifstofu sem sá eingöngu um viðskipti með saffran. Þetta var gert vegna þess að Ítalir voru mjög eigingjarnir á saffran og vildu ekki að aðrar Evrópuþjóðir kæmust upp á lag með að rækta það. Samt sem áður tókst nokkrum Evrópuþjóðum að verða sér úti um lauka eða fræ saffranjurtarinnar og hófu ræktun hennar. Talið er að upphafsmaður saffranræktunar á Englandi hafi verið enskur pílagrímur sem á að hafa stolið lauk í Trípólí og falið í göngustaf sínum. Í Þýskalandi voru þeir farnir að rækta saffran á 15. öld og um tíma var dauðarefsing við sölu á fölsuðu saffrani. Notkun saffrans. Aðeins þarf smáveigis af saffrani til þess að gefa lit í hrísgrjón, sem það er oftast notað með. Bragðið fellur vel af hvítlauk, fiski og einnig er það haft í nokkrum sósum. Saffran er notað í ítalska, franska og spænska matargerð eins og í ítalska réttinn risotto, spænska hrísgrjónaréttinn paella og frönsku fiskisúpuna bouillabaisse. Til þess að ná sem mestu úr kryddinu við notkun eru tvær aðferðir. Annars vegar að rista þræðina á heitri pönnu, mylja þá og setja síðan í heitt vatn eða soð í stutta stund áður en þeir eru notaðir. Ef það á að nota þræðina heila er best að leggja þá í bleyti í að minnsta kosti 15 mínútur fyrir notkun og helst lengur því það tekur Saffran allt að fjóra tíma til þess að skila bragðinu að fullnustu. Plantan. Blómið er nefnt "Crocus Sativus" það er purpuralitað og í miðju þess eru þrír örfínir rauðir þræðir. Þessir þræðir eru fræni blómsins og þeir eru saffranið sjálft. Eftir að frænið hefur verið skilið frá blóminu er það þurrkað. Þurrkunin getur verið tvenns konar, sólþurrkun sem er mjög afkastalítil aðferð og hin aðferðin er þurrkun við eld frá viðarkolum en þá er fræninu dreift á silkidúk og hann hengdur yfir lítinn eld frá viðarkolum. Saffran er til í nokkrum gæðaflokkum. Á Indlandi eru tveir meginflokkar sá fyrri kallast,mongra” sem er hágæða saffran og,lachcha” það þýðir að saffranið getur innihaldið fræfla sem eru bragðlitlir og jafnvel bragðlausir. Á Spáni eru þrír meginflokkar og þeir tilgreina hvar saffranið er ræktað, jafnframt er töluverður gæðamunur á þeim. „Mancha“ er talinn bestur, síðan „Rio“ og að lokum „Sierra“. Kostnaður. Saffran er dýrasta krydd veraldar. Heimsmarkaðsverð saffrans er um það bil 250.000 kr fyrir kílóið. Tvær meginástæður eru fyrir verðinu sú fyrri felst í því að gífurlega mörg blóm þarf til að framleiða kíló af saffran eða um það bil 150-200 þúsund. Í öðru lagi er gífurlega mikil vinna við framleiðsluna en aðeins er hægt að handtína fræið og þarf tínslan að fara fram snemma morguns til að koma í veg fyrir að hitinn yfir hádaginn rýri gæði frænisins. Þar við bætist að blómgunin stendur aðeins yfir í fjórar vikur frá miðjum október fram í miðjan nóvember. Victor Moses. Victor Moses (fæddur 12. desember 1990 í Lagos í Nígeríu) er enskur knattspyrnumaður af nígerískum uppruna. Hann leikur með Wigan Athletic í ensku 1. deildinni. Þá hefur hann leikið nokkra leiki með yngrideildum enska landsliðsins. Hetjur Valhallar - Þór. Hetjur Valhallar - Þór er tölvuteiknuð mynd sem framleidd er af CAOZ, Ulysses og Magma Films. Myndin sem var frumsýnd þann 14. október 2011 byggir á sögum um þrumuguðinn Þór úr norrænni goðafræði. Safn (stofnun). Safn er stofnun sem safnar, varðveitir, rannsakar og stillir út listaverkum eða öðrum hlutum sem hafa listræna, sögulega, náttúrufræðilega eða vísindalega þýðingu. Venjulega sérhæfa söfn sig innan tiltekins sviðs og hafa á að skipa fagfólki með sérþekkingu á því sviði. Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Íslensku bjartsýnisverðlaunin (áður Bjartsýnisverðlaun Brøstes) eru íslensk menningarverðlaun sem veitt eru árlega til íslensks listamanns „sem með list sinni hefur stuðlað að bjartsýnu lífsviðhorfi“. Verðlaunin voru stofnuð af Peter Brøste hjá S í Kaupmannahöfn. Þau voru veitt í fyrsta skipti 15. júní 1981 Garðari Cortes óperusöngvara. 1999 hætti Brøste að styðja verðlaunin og tók þá Rio Tinto Alcan - ISAL Straumsvík við. Eftir það hafa verðlaunin heitið Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Édith Piaf. Édith Piaf (19. desember 1915 – 10. október 1963) var frönsk söngkona, og er einna þekktust fyrir lög eins og: „La vie en rose“ (1946), „Hymne à l'amour“ (1949), „Milord“ (1959) og „Non, je ne regrette rien“ (1960). Uppvaxtarár. Margar ævisögur hafa verið gefnar út um ævi Piaf en samt er ævi hennar enn að miklu leyti óþekkt. Hún fæddist sem Édith Giovanna Gassion í Belleville, París. Hún var nefnd eftir Edith Cavell, sem var bresk hjúkrunarkona í fyrri heimstyrjöldinni, og var tekin af lífi fyrir að hjálpa frönskum hermönnum að flýja þýskar herbúðir. Seinna nafn Édith, Piaf, þýðir á frönsku „Lítill fugl“ sem hún tók sér þegar hún var um tvítugt. Sumarólympíuleikarnir 2008. Sumarólympíuleikarnir 2008 voru haldnir í Peking í Alþýðulýðveldinu Kína frá 8. ágúst til 24. ágúst, 2008. Í kjölfar leikanna voru Sumarólympíuleikar fatlaðra 2008 haldnir þar frá 6. september til 17. september. Búist er við komu um 10.500 íþróttamanna sem taka þátt í 302 keppnum í 28 íþróttagreinum, aðeins einni keppni meira en á síðustu ólympíuleikum. Leikarnir eru haldnir á landi tveggja landsnefnda í þriðja skiptið í sögu leikanna, þar sem hluti þeirra fer fram í Hong Kong sem er með eigin nefnd. Peking var valin eftir kosningu Alþjóða ólympíunefndarinnar 13. júlí 2001. Þátttaka. Þótt öllum keppnum sé lokið sem veita þátttökurétt á Ólympíuleikunum þá verður ekki öruggt fyrr en á opnunarhátíðinni 8. ágúst hverjar af Ólympíulandsnefndunum 205 munu taka þátt. Flestar landsnefndir taka reglulega þátt, en ýmsar ástæður geta valdið því að land taki ekki þátt eins og var raunin með sex landsnefndir á Vetrarólympíuleikunum 2006. Hér fyrir neðan er listi yfir þau lönd sem eru með landsnefnd og fjöldi keppenda í sviga. Íslendingar fengu ein verðlaun og það var íslenska handknattleikslandsliðið sem vann silfurverðlaun en það er aðeins önnur silfurverðlaun Íslands í sögu þess. Dagatal. Í eftirfarandi dagatali yfir Ólympíuleikana 2008 táknar hver blár reitur einn keppnisviðburð, t.d. undankeppni, á þeim degi. Gulu reitirnir eru dagar þar sem verðlaun eru afhent. Hver punktur í þessum reitum táknar úrslitakeppni. Graflax. Graflax (sænska, danska: gravad lax, norska: gravlaks, finnska: graavilohi, eistneska: graavilõhe) er skandinavískur réttur, hrár lax sem verkaður er með því að láta laxaflök liggja undir fargi í nokkra sólarhringa í blöndu af salti, sykri og dilli og stundum öðru kryddi eða kryddjurtum. Yfirleitt er graflax borðaður sem forréttur með sósu sem er búin til úr majónesi eða sýrðum rjóma, hunangi, dilli og sinnepi. Hann er oftast borinn fram á eða með ristuðu brauði. Stundum er hann einnig borinn fram með öðrum réttum á hlaðborði. Á miðöldum gerðu fiskimenn graflax með því að hylja laxinn með borðsalti og gerjuðu hann með því að grafa hann í sandi. Orðið "graflax" er dregið af skandinavísku orðinu "grav" sem táknar „gröf“ (á sænsku, norsku og dönsku) og "lax" (eða "laks"). Á seinni árum er farið að verka ýmislegt annað hráefni á svipaðan hátt og kalla það grafið, til dæmis grafnar gæsabringur og fleira. Entrena. Entrena er sveitarfélag í héraðinu La Rioja á Spáni. Íbúar eru tæp 1.451 (2008). Lax. Lax er samheiti nokkurra fisktegunda af ætt laxfiska ("Salmonidae"), sem einnig inniheldur silunga. Heimkynni laxa er í Atlantshafi og Kyrrahafi, og einnig í ýmsum landluktum stöðuvötnum. Laxar eru göngufiskar. Þeir klekjast út í ferskvatni og þar alast seiðin upp, oftast í þrjú ár, en ganga þá til sjávar, þar sem laxinn er svo þangað til hann verður kynþroska. Það tekur oftast 1-3 ár. Þá gengur hann aftur upp í ána sem hann ólst upp í og hrygnir þar. Yfirleitt gengur hann í árnar á sumrin, frá maí fram í október, en þó langmest um mitt sumar. Nú er lax einnig alinn í eldisstöðvum og er þar þá frá því að seiðin klekjast út þar til fullvöxnum laxinum er slátrað. Laxveiði hefur verið stunduð á Íslandi frá landnámsöld og eru margar þekktar laxveiðiár þar, flestar á svæðinu frá Þjórsá vestur og norður um land að Laxá í Aðaldal. Alls veiðist lax í um 80 íslenskum ám. Fyrr á öldum var laxinn veiddur í net og laxakistur en nú er aðeins leyft að veiða hann í net á örfáum stöðum, annars er hann veiddur á stöng. Lax er vinsæll matfiskur og er talinn hollur vegna þess að hann inniheldur mikið af OfznszkrgnozdrlesDknfjmega-3-fitusýrum. Hann er soðinn, steiktur og grillaður en einnig reyktur eða grafinn. Einnig er hann mjög vinsæll í sashimi og sushi. Denver. Denver, Colorado er höfuðborg og fjölmennasta borg Colorado-fylkis. Árið 2003 var áætlaður íbúafjöldi 557.478. „The Mile High City“ er auknefni á borgina, af því að hún er einmitt 1.609 metrum (einni enskri mílu) yfir sjávarmáli. Klettafjöll eru nálæg og draga marga ferðamenn, sérstaklega skíðamenn, að Denver. Borgin er nefnd í höfuðið á James W. Denver. Mikilvægir háskólar í Denver eru Denver-háskóli, Colorado-háskóli í Denver og Regis-háskóli. Forréttur. Forréttur er léttur réttur á undan aðalréttinum. Forréttur er t.d. súpa, salat eða ristað brauð með gröfnum laxi. Forrétturinn er mikilvægur hluti evrópskrar matargerðar, sérstaklega t.d. í Frakklandi og Ítalíu. Engjarós. Engjarós (fræðiheiti: "Potentilla palustris") er jurt af rósaætt sem vex í mýrlendi og við vatnsbakka. Hún ber vínrauð blóm, 3-5sm í þvermál, með fimm krónublöð. Laufin eru fimm- til sjöblaða, löng og mjó og sagtennt. Á Íslandi er engjarós algeng um allt land á láglendi. Beitilyng. Beitilyng (fræðiheiti: "Calluna vulgaris") er lítill fjölær runni sem verður 20-50sm hár og vex víða í Evrópu og Asíu í þurrum, súrum jarðvegi á opnum svæðum. Beitilyng getur orðið ríkjandi gróður á heiðum, í mógröfum og í gisnum barrskógum. Beitilyng er eina tegundin í ættkvíslinni "Calluna". Á Íslandi vex beitilyng alls staðar á láglendi, nema á Vestfjörðum. Bleikhnöttur. Bleikhnöttur (lat. "globus pallidus") er miðlægur við gráhýði (putamen) í sitt hvoru hveli, en gráhýði og bleikhnöttur eru aðskilin með lateral medullary lamina. Bleikhnöttur skiptist í miðlægan og hliðlægan hluta. Þeir hafa svipaða aðlæga en talsvert ólíka frálæga þræði. Miðlæga hluta bleikhnattar svipar mjög til pars reticulata í svartfyllu (substantia nigra) en þetta tvennt er aðskilið með innri kapsúlu. Aðlægar brautir koma aðallega frá kjörnum framstúku og striatum, en þær síðarnefndu skiptast í tvennt; þræðir til hliðlæga kjarna innihalda enkephalín en þeir til miðlæga kjarna bleikhnattar innihalda substance P og dynorphín; báðar gerðir notast þó við GABA. Miðlægi og hliðlægi hlutar bleikhnattar hafa ólíkar frálægar brautir. Sá hliðlægi sendir aðallega brautir til framstúku (subthalamus). Notar GABA-hamlandi. Sá miðlægi ásamt pars reticulata af svartfyllu sendir aðallega til stúku og notar einnig hið hamlandi taugaboðefni GABA, og sendir einnig smá til tegmentum heilastofns. Bærinn undir sandinum. Kortið sýnir Vestribyggð í núverandi Nuuk-héraði, rauðu punktarnir sýna helstu bæjarrústir. Merkt er við "Bæinn undir sandinum" neðarlega á kortinu Bærinn undir sandinum (sem er þekktari meðal forleifafræðinga undir danska nafninu "Gården under Sandet - GUS") er eitt merkasta uppgraftrarsvæði og fornleifafundur á Grænlandi. Svæðið er á hárri sléttu fáeina kílómetra frá jaðri skriðjökulsins innst í Ameralikfirðinum, sem norrænir Grænlendingar nefndu Lýsufjörð í Vestribyggð. Árið 1990 fundu tveir hreindýraveiðimenn allmikla tilhöggna timburstokka stinga þar út úr árbakka. Það leiddi til mikillar starfsemi fornleifafræðinga næstu árin og var grafið þar á hverju sumri á árunum 1991 til 1996. Kom í ljós að timburstokkarnir höfðu verið uppistöður í húsabyggingu af norrænni gerð. Höfðu húsin horfið undir margra metra þykkt lag af sandi og var nafnið dregið af því. Uppgröfturinn sýndi fram á að þar hafði verið búið frá því um miðja elleftu öld og langt fram á þá fjórtándu. Elsta húsið hafði verið langhús sem snemma hafði brunnið. Síðan tók við húsabygging með stöðugum viðbótum og umbyggingum þar til bærinn var yfirgefinn. Fljótlega eftir það hafði hann fyllst af sandi sem barst fram í jökulhlaupi. Á þeim tíma sem bærinn var í byggð var hann umbyggður að minnsta kosti átta sinnum, stækkaður og minnkaður, vistarberum bætt við eða tekin burt. Höfðu verið í bænum samanlagt 63 herbergi og aðrar vistarverur á þessu tímaskeiði. Byggingarefnið var torf og steinn fyrir utan timbur. Hægt var að sjá á maðkaáti að megnið af timbrinu hafði verið rekaviður. Voru íveruhús íbúa, skemmur, vinnustofur og gripahús sambyggð, húsagerðin var því öll áþekk torfhúsum á Íslandi. Húsdýr voru allmörg á bænum en gripahúsin voru af ýmsum stærðum á búsetutímanum og þau stærstu sennileg elst. Þar voru kindur, geitur, kýr, hestar og hundar. Beinafundir sýna hins vegar að megnið af kjötmeti kom af veiðidýrum, selum og hreindýrum en húsdýr höfð til mjalta og fyrir ullina. Stórar trétunnur sýndu að greinilegt var að gerðar voru ýmsar tegundir af sýrðum mjólkurafurðum.  Húsamýs voru fjölmargar, þar að auki mátti finna leifar af höfuðlús og sníkjudýrum sem einkum leggjast á skeppnur, enda fundust margar greiður og lúsakambar. Ullarnýting var mikilvæg og mátti sjá það um bæinn allan. Ýmsar gerðir af spunasnældum, halasnældur, snældasnúður og tvinningarsnældur og vaðmálsbúta hér og þar. Þar að auki fannst heil vefstofa með leifum af uppréttum vefstól 140 cm breiðum og yfir 90 kljásteinar. Íbúar virðast haf verið trúræknir, víða má sjá krossmörk ristuð í tré og einnig nokkra minni krossa. Rúnakunnátta virðist einnig hafa verið nokkur á öllum ábúðartímanum, má sjá rúnaristur á mörgum áhöldum og öðrum hlutum. Þar á meðal má sjá að á bænum hefur búið einn Barður, tveir með nafnið Þór og ein Björk. Talsvert hefur fundist af leikföngum, sérlega útskornum fuglum og dýrum. Einnig haganlega útskornar hirslur og fjalir og nokkrar teikningar ristaðar á fjalir. Sú merkilegasta af beisluðu hreindýri sem þykir benda til þess að íbúar hafi tamið hreindýr. Uppgröfturinn á "Bænum undir sandi" hefur gefið einstaka innsýn í líf norrænna manna á Grænlandi á miðöldum og sýnt að það var í flestum atriðum nauðalíkt lífi annarra norrænna manna við strendur Norður-Atlantshafs. Lýsufjörður. Lýsufjörður (eða Ljósifjörður) (grænlenska: "Ameralik") er fjörður á vesturströnd Grænlands. Geitur (sjúkdómur). Geitur (fleirtalan af geit) (fræðiheiti: "favus") er sýking í húð, einkum í hársverði, af völdum svepps, sem myndar gulleitt hrúður. Geitur lýsa sér fyrst með ofurlitlum þurrum kringlóttum ljósgulum (brennisteinslituðum) skorpum. Þegar sjúkdómurinn tekur að grassera visnar síðan hárið og losnar. "Geitnahaus" er höfuð sem er smitað af geitum. Rútstún. Hátíðahöld á Rútstúni 17. júní 2007 Rútstún er tún í vesturbæ Kópavogs á Kársnesi og flokkast sem útivistarsvæði. Þar fara að jafnaði fram 17. júní hátíðarhöld Kópavogsbúa. Það er nefnt eftir Finnboga Rúti Valdimarssyni, fyrsta bæjarstjóra Kópavogs. Á Rútstúni er að finna Sundlaug Kópavogs. Silfurkóngur. Silfurkóngur (eða Tarpúnn) (fræðiheiti: "Megalops atlanticus") er fiskur sem lifir undan ströndum Flórída og er vinsæll veiðifiskur; getur orðið nær tveir metrar að lengd. Marstjarna. Marstjarna (fræðiheiti: "Aster tripolium") er jurt sem vex í norður Evrópu og helst við saltmerski, ármynni eða árósa þar sem gætir sjávarfalla og í söltum jarðvegi. Marstjarnan er fjölær jurt sem getur orðið allt að 50 sm að hæð. Fræva. Fræva (fræðiheiti: "pistillum") er kvenleg æxlunarfæri blóms. Frævan myndar fræ blómsins og skiptist í fræni og stíl. Frænið er efsti hluti frævunnar sem frjókornin falla á. Stíllinn er stafurinn upp af egglegi í blómi sem ber frænið. Karlkyns æxlunarfæri blóms nefnist frævill ("stamen"). Fræfill. Fræfill (frævill eða fræll) er karlkyns æxlunarfæri blóms, venjulega gert úr frjóþræði, frjóhnappi eða frjódufti. Malagasíska. Malagasíska er eitt opinberra tungumála Madagaskar (önnur eru franska og enska). Hún er móðurmál flestra Madagaskarbúa. Í Malagasísku er mikilvægur munur á hversdagsmáli og viðhafnarmáli („kabaly“). Viðhafnarmál er óeiginlegt og óbeint. Orðaröð í malagasísku er VOS (sagnorð - andlag - frumlag). Íbúarnir Madagaskar fluttu til Madagaskar frá Indónesíu, og tungumálið kom þaðan með þeim. Þannig er malagasíska skipuð í ætt með ástróneskrum tungumálum. Malagasíska notast við Latneska stafrófið. Malagasísk safnorð hafa sérstaka „tilvísunarmynd,“ sem er aðgreind frá germynd og þolmynd. Fræni. Fræni er efsti hluti stílsins (eða stílanna) á frævu blóma. Frænið tekur við frjóduftinu sem frjóvgar eggin. Frjóduft. Frjóduft er korn sem geyma karlfrumu blóma. Frjóduftið myndast í fræflunum. Frjóhnappur. Frjóhnappur (eða frjóknappur'") er efstu hluti fræfilsins og inniheldur frjóduftið. Neðri hluti fræfilsins er venjulega mjór og það er hann sem nefnist frjóþráður. Efst á honum er frjóhnappurinn. Frjóhnappurinn skiptist í tvær tvírýmdar frjóhirslur, og innan í þeim verður frjóduftið ("pollen") til, en það eru örsmá korn, sem hið karllega frjóefni er falið í. Frjóþráður. Frjóþráður er stilkurinn sem tengir frjóhnappinn við blómbotninn eða krónuna. Frjóþræðirnir eru oft langir, mjóir og linir og frjóhnapparnir eru því oft lafandi og hanga út úr blómunum. Magnús Þór Sigmundsson - Gatan og sólin. Magnús Þór Sigmundsson - Gatan og sólin er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Flytjendur efnis á þessari plötu eru Magnús Þór Sigmundsson og spunahljómsveitin Steini blundur. Hljómsveitina skipa: Magnús Þór Sigmundsson, söngur, raddir og kassagítar. Graham Smith, einleiksfiðla og strengjaveit. Richard Korn, bandalaus rafmagnsbassi. Jónas Björnsson, trommur, klukkuspil og ásláttarhljóðfæri. Gestur Guðnason, rafmagnsgítar. Aðrir: Jóhann Helgason, söngur, raddir og kassagítar. Helgi Skúlason, upplestur. Gunnar Reynir Sveinsson, rafeinda- og náttúrutónlist. Anna Thelma og Linda Magnúsdætur, söngur og blokkflautuleikur. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni h. f. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Magnús Þór. Lokavinnsla á hljóðritun fór fram í Hljóðrita hf. Tæknimaður: Gunnar Smári. Brian Pilkington gerði framhlið plötuumslags. Ljósmynd á bakhlið Haraldur Skarphéðinsson. Filmuvinna og prentun fór fram í Grafík hf. en textasetning hjá Blik hf. Blómbotn. Blómbotn er stöngulendi sem blómið sjálft stendur á og getur verið flatur, íhvolfur eða hvelfdur. Á sumum blómum myndast hunangsvökvi við blómbotnin, en þeir myndast í svonfefndum hunangberum. Skordýr, sem koma til þess að safna hunangi snerta oft frjóhnappana og bera með sér frjóduftið. Hunangsberi. Hunangsberi er ófrjór, ummyndaður fræfill í blómi. Hunangsberar eru ýmist lítt áberandi eða áberandi líkt og krónublöð. Í þá sækjast sum skordýr. Stíll (plöntur). Stíll er sá hluti frævunnar sem tengir eggleg og fræni saman, og er oft eins og mjór, sívalur stafur. Neðst á honum er egglegið og efst á honum er frænið. Fræblað. Fræblað (fræðiheiti: "kotyledon" úr grísku: κοτυληδών) er eitt þeirra blaða á blómum sem ber frævuna. Á flestum blómplöntum lykjast fræblöðin utan um eggin og mynda þar frævurnar. Eggleg. Eggleg er kvenæxlunarfæri blóma sem geymir eggin sem verða að fræjum eftir frjóvgun og er hluti frævunnar. Þrír eru venjulega aðalpartar frævunnar; egglegið neðst, stíllinn, mjór stafur upp af eggleginu, og efst á honum frænið. Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður. Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni flytur Margrét Hjálmarsdóttir 33 rímnastemmur. Myndin á framhlið umslagsins er eftir franska listamanninn Auguste Mayer, sem kom til Íslands 1836. Hann gerði þá fjölda mynda af íslendingum og íslenzku landslagi. Pleasantville (kvikmynd). "Pleasantville" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1998. Hún fjallar um tvíburasystkin, leikin af Tobey Maguire og Reese Witherspoon, sem sogast inn í sjónvarpsþátt. Katla María - Ég fæ jólagjöf. Katla María - Ég fæ jólagjöf er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni syngur Katla María jólalög. Útsetningar, söng og hljómsveitarstjórn Ólafur Gaukur. Hljóðritun: Tóntækni hf. Tæknimaður Sigurður Árnason. Hljóðblöndun: Sigurður Árnason og Ólafur Gaukur. Hönnun umslags: Hugmynd hf. Ljósmyndir: Björgvin Pálsson. Textasetning: Blik hf. Prentun: Grafík hf. Morgunkorn. Morgunkorn er spónamatur sem er búinn til úr korni, borðaður sem hluti morgunmatar. Yfirleitt er það borðað kalt og með mjólk eða vatni, en stundum er jógúrti bætt við. Undantekningar eru haframjöl og hafragrautur sem eru borðuð heit. Það eru margar tegundir morgunkorns og fyrirtæki svo sem Kellogg’s, Quaker Oats, Nestlé og General Mills markaðssetja morgunkorn fyrir fólk á öllum aldri. Spónn (áhald). Spænir í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Spónn (fleirtala "spænir") nefnist fyrri tíma matskeið, og var einkum úr nauts- eða hrútshornum eða hvalbeini. Spónn getur líka merkt dálítill skammtur af spónamat. Að "missa spón úr aski sínum", í merkingunni að missa eitthvað sem maður hefur haft (t.d. tekjur, bitling), er orðatiltæki sem í upphafi þýddi að missa matarskammt af diski sínum sem maður hafði áður fengið, kannski sem aukagetu. Sveinn Ásgeirsson - Úr útvarpsþáttum. Sveinn Ásgeirsson - Úr útvarpsþáttum er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni má heyra úrval úr útvarpsþáttum Sveins Ásgeirssonar frá árunum 1952 - 1960. Textar við myndir á framhlið plötuumslags. Efsta mynd á framhlið. Rímsnillingarnir og Sveinn Ásgeirsson. Frá v. Helgi Sæmundsson, Guðmundur Sigurðsson, Sveinn Ágeirsson, Steinn Steinarr og Karl Ísfeld. Miðmynd á framhlið. Spurningasnillingarnir og Sveinn. Frá v. Skúli Thoroddsen, Friðfinnur Ólafsson, Haraldur Á. Sigurðsson, Sveinn Ásgeirsson og Hersteinn Pálsson. Neðsta mynd á framhlið. Annar hópur spurninga-snillinga. Frá v. Helgi Sæmundsson, Friðfinnur Ólafsson, Sigurður Magnússon, Sigurður Ólason og Indriði G. Þorsteinsson. Fiskimaður. Íslensk sjóklæði frá fyrri tíð. Fiskimaður er sá sem starfar við að afla fisks, skelfisks eða annars sjávarfangs úr sjó, fljótum eða vötnum. Fiskveiðar eru meginuppspretta tekna í mörgum samfélögum um allan heim, og eru líka mikilvægur hluti menningar þeirra. Við iðju sína nota fiskimenn meðal annars báta og veiðarfæri á borð við net og fiskilínur. Bátarnir geta verið allt frá stórum frystitogurum að litlum árabátum. Ársreikningur. Ársreikningur er yfirlit sem sýnir niðurstöðu rekstrar og eignir í lok tímabils fyrir það fyrirtæki eða félagasamtök sem gefa hann út. Ársreikningur er gefinn út einu sinni á ári og nær yfir eitt rekstrarár. Hann er oftast borinn undir aðalfund til samþykktar. Ársreikningur samanstendur venjulega af rekstrarreikningi, efnahagsreikningi, sjóðstreymisyfirliti, skýringum, samþykkt stjórnar og áritun endurskoðanda. Tvínefni. Tvínafnakerfið í flokkunarfræði byggist á því að sérhver tegund ber ákveðið tvínefni. Það er samsett úr ættkvíslarheiti og lýsandi heiti yfir tegundina (t.d. "Ranunculus acris"). Tvínefni er nafnakerfi fyrir líffræðilegar tegundir. Tvínefni eru latneskt heiti tegundarinnar í tveimur hlutum. Sá fyrri segir til um ættkvísl sem tegundin tilheyrir og sá síðari er lýsandi fyrir þessa tegund. Ættkvíslarheitið (fyrra nafnið) er alltaf ritað með stórum staf. Það var Carl von Linné sem bjó tvínafnakerfið til (upphaflega bara fyrir plöntur, dýr og steindir) og er það notað enn þann dag í dag. Nafnareglur. Tvínefni eru aðgreindar frá öðrum texta með skáletrun eða undirstrikun. Tegunda- og ættkvíslaheiti eru skáletruð í texta eða undirstrikuð í handskrifuðum texta. Tegundum er skipt í undirtegundir og afbrigði. Þar sem til eru undirtegundir tiltekinnar tegundar er heiti undirtegundarinnar bætt við tvínefnið. Síberíutígur heitir þannig "Panthera tigris altaica". Milli tegundaheitis og undirtegunda- eða afbrigðaheita kemur svo skammstöfun eða eiginnafn höfundar þess sem nefndi tegundina fyrst. Nafnareglur fyrir plöntur eru skráðar í "International Code of Botanical Nomenclature". Lambagras. Lambagras (fræðiheiti: "Silene acaulis") er lítil jurt sem vex á Norðurslóðum og í fjöllum á suðlægari breiddargráðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Það vex á melum, í þurrum sendnum jarðvegi. Það myndar kúlulaga þúfur með þéttum löngum stönglum sem bera 3-5 lítil lauf á endanum og leifar af eldri laufum neðar á stönglinum. Þúfan er með eina mjög langa stólparót sem kallast "holtarót". Þegar jurtin blómgast koma mörg lítil bleik eða hvít blóm á þúfuna, fyrst sunnan megin. Á Íslandi er lambagras algengt um allt land, bæði á láglendi og hálendi. Norðurskautsráðið. Aðildarríki eru ljósblá en ríki með áheyrnarfulltrúa eru dökkblá. Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra landa sem liggja á eða að Norðurslóðum. Drög að slíku samstarfi voru lögð 1991 með Rovaniemi-ferlinu sem gengur út á samstarf um umhverfismál á Norðurslóðum. Norðurskautsráðið var síðan stofnað með Ottawa-yfirlýsingunni 1996. Ályktanir ráðsins hafa fyrst og fremst gengið út á umhverfismál, einkum loftslagsbreytingar, en á síðustu árum hefur verið rætt um að ráðið fjalli líka um álitamál varðandi nýtingu auðlinda og landakröfur á Norðurslóðum. Aðildarríki. Að auki eiga sex samtök frumbyggja á Norðurslóðum aðild að ráðinu. Póstvagn. Bandarískur póstvagn frá síðari hluta 19. aldar. Póstvagn er hestvagn sem notaður var til póstflutninga á 18., 19. og 20. öld. Póstvagnar voru yfirleitt léttari og hraðskreiðari en farþegavagnar þar sem þeir voru ekki búnir neinum þægindum að innan. Mikið dró úr notkun póstvagna frá miðri 19. öld þegar járnbrautarlestar tóku við póstflutningum. Á Íslandi var fyrsti póstvagninn tekinn í notkun árið 1900. Bernd Schneider. Bernd Schneider (f. 20. júlí 1964) er þýskur kappakstursmaður sem keppir aðallega í flokki breyttra götubíla. Hann keppti í Formúla 1-keppninni 1988 til 1990. 1992 keppti hann í Þýska götubílakappakstrinum fyrir AMG-Mercedes og varð meistari þar 1995 og síðan aftur 2000, 2001 og 2003. Mercedes-Benz. Mercedes-Benz er þýskur bílaframleiðandi í eigu Daimler AG.. Fyrirtækið er elsti bílaframleiðandi heims þar sem rætur þess liggja í fyrsta bílnum sem Karl Benz bjó til árið 1886. Nokkrum mánuðum síðar bjuggu Gottlieb Daimler og Wilhelm Maybach til sinn fyrsta bíl. 1901 hófu þeir framleiðslu á Mercedes-bifreiðum. 1926 sameinuðust fyrirtæki Daimlers og Benz og Mercedes-Benz varð til. Síðari ár hefur fyrirtækið sérhæft sig í framleiðslu lúxusbifreiða, strætisvagna, áætlunarbifreiða og vörubíla. Sverðbræður. Sverðbræður (latína: "Fratres militiæ Christi Livoniae", þýska: "Schwertbrüderorden") var riddararegla sem Albert Líflandsbiskup stofnaði árið 1202 í Líflandi. Innósentíus 3. páfi staðfesti stofnun reglunnar tveimur árum síðar. Eftir ósigur gegn Litháum í orrustunni við Sól 1236 var reglan innlimuð í Þýsku riddararegluna sem sjálfstæð deild. Geirmundur Valtýsson. Geirmundur Valtýsson (fæddur 13. apríl 1944) er íslenskur tónlistarmaður, bóndi og starfsmaður Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. Hann er stundum kallaður „sveiflukóngurinn“ og tónlistin sem hann flytur er stundum flokkuð sem „skagfirsk sveifla“. Geirmundur hélt nýverið upp á 60 ára „bransaafmæli“. Landið helga. Landið helga (hebreska: ארץ הקודש, (staðlað) "Éreẓ haQodeš" (tíberísk) ʾÉreṣ haqQāḏēš; latína: "Terra Sancta"; arabíska: الأرض المقدسة, "al-Arḍ ul-Muqaddasah"; fornamharíska: ארעא קדישא "Ar'a Qaddisha") er heiti á hinu sögulega landi Ísrael og vísar til þess að þar eru margir helgistaðir þriggja abrahamískra trúarbragða: gyðingdóms, kristni og íslam. Nafngiftin stafar af trúarlegu mikilvægi Jerúsalem í þessum þremur trúarbrögðum og stöðu svæðisins sem hinu fyrirheitna landi gyðinga. Krossferðir Vesturkirkjunnar á miðöldum voru farnar í því skini að ná Landinu helga undan yfirráðum múslima. Þeyr - Þagað í hel. Þeyr - Þagað í hel er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni flytur hljómsveitin Þeyr nokkur lög. Hljómsveitina skipa: Elín Reynisdóttir; söngur, raddir og öskur. Hilmar Örn Agnarsson; Bassi og hljómborð. Jóhannes Helgason, gítar. Magnús Guðmundsson; söngur, útburðarvæl, gítar og söngur. Sigtryggur Baldursson; Trommur og slagverk. Enfremur: Þorsteinn Magnússon, gítar. Eiríkur Hauksson; söngur. Vilborg Reynisdóttir; söngur. Sigurður Long, Daði Einarsson og Eiríkur Örn Pálsson; Blástur. Upptökumaður; Sigurður Árnason. Upptökustjóri; Hilmar Örn Agnarsson. Umslag: Kristján Einvarð Karlsson. Ljósmyndir: Gunnar Vilhelmsson Karl 10. Gústaf. Karl 10. Gústaf (8. nóvember 1622 – 13. febrúar 1660) var konungur Svíþjóðar frá 1654 til dauðadags. Hann var sonur Jóhanns Casimir, greifa af Pfalz og Katrínar Svíaprinsessu, dóttur Karls 9.. Kristín Svíadrottning fékk hann samþykktan sem arftaka sinn árið 1649 og hann tók við embætti þegar hún sagði af sér fimm árum síðar. Hann giftist 1654 Heiðveigu Leónóru af Holstein-Gottorp og átti með henni ríkisarfann Karl 11.. Hjónaband þeirra var bandalag milli sænsku krúnunnar og hertogans af Holtsetalandi gegn Danmörku. Stríðið gegn Póllandi. Sumarið 1655 réðist hann gegn Pólsk-litháíska samveldinu og lagði brátt undir sig bæði Varsjá og Kraká, en Jóhann 2. Casimir flúði til Slésíu. Honum hélst illa á sigrinum, neitaði að boða pólska þingið til að fjalla um lögmæti landakrafna hans og hann lenti því í vandræðum þegar Jóhann sneri aftur með her sinn. Innrásin í Danmörku. Þegar Danir gengu á lagið og sögðu honum stríð á hendur 1. júní 1657 notaði hann tækifærið til að hverfa með leifar hersins frá Póllandi og réðist inn í Jótland þar sem danski herinn kom engum vörnum við. Um veturinn bjóst hann til þess að ferja herinn yfir á eyjarnar, en vegna gríðarlegra frosta í lok janúar 1658 myndaðist nægilega sterkur ís á Litlabelti og Stórabelti að sænski herinn gat gengið yfir með allan sinn farangur. Eftir málamyndamótstöðu gáfust Danir upp og undirrituðu Hróarskeldufriðinn 26. febrúar þar sem þeir gáfu Svíum eftir öll lönd Danmerkur austan Eyrarsunds, auk Þrændalaga í Noregi. Önnur innrásin í Danmörku. 7. júlí sama ár rauf Karl friðinn við Danmörku og gerði aftur innrás frá Holtsetalandi í því augnamiði að leggja landið undir sig. Hann náði allri Danmörku á sitt vald nema Kaupmannahöfn sem hélt áhlaupið út. Í orrustunni um Eyrarsund beið sænski flotinn ósigur gegn hollenskum og dönskum flota 29. október. Hollendingar og Danir hröktu sænska herinn smátt og smátt frá eyjunum og Jótlandi og 13. febrúar 1660 lést Karl. 26. maí 1660 var aftur undirritað friðarsamkomulag, Kaupmannahafnarfriðinn, þar sem Danir fengu Borgundarhólm og norsku héruðin til baka, en gáfu eftir tilkall til landanna austan Eyrarsunds. Michael Faraday. Michael Faraday á gamals aldri. Michael Faraday (22. september 1791 – 25. ágúst 1867) var enskur efnafræðingur og eðlisfræðingur sem vann að rannsóknum á rafsegulmagni og rafefnafræði. Hann rannsakaði segulsviðið umhverfis leiðara með jafnstraumi. Faraday uppgötvaði rafsegulspönun, mótseglun og rafgreiningarlögmálin. Hann staðfesti að segulmagn getur haft áhrif á ljósgeislun. Sem efnafræðingur uppgötvaði hann bensen og gerði almenn fræðileg hugtök eins og forskaut, bakskaut, rafskaut og jón. SI-Mæleiningin farad er kennd við hann. Emily Brontë. Emily Jane Brontë (borði fram /ˈbrɒnti/); (30. júlí 1818 – 19. desember 1848) var enskur skáldsagnahöfundur og ljóðskáld. Hún fæddist í Thornton næri Bradford í Yorkshire. Hún er fræg fyrir einu skáldsöguna sína "Fýkur yfir hæðir" (e. "Wuthering Heights") sem er klassískt verk enskra bókmennta. Hún var önnur elst Brontë-systra, yngri en Charlotte og eldri en Anne. Hún notaðist við höfundarnafnið Ellis Bell. Charlotte Brontë. Charlotte Brontë (borið fram /ˈbrɒnti/); (21. apríl 1816 – 31. mars 1855) var enskur skáldsagnahöfundur og ljóðskáld. Hún fæddist í Thornton nærri Bradford í Yorkshire. Hún var elst Brontë-systra. Hún notaðist við höfundarnafnið Currer Bell og skrifaði skáldsögur eins og "Jane Eyre" sem er ein frægasta skáldsaga enskra bókmennta. Ritverk Brontë-systra eru oft nefnd sem bestu ritverk enskrar tungu. Veiðihundarnir. Veiðihundarnir (latína: "Canes venatici") er lítið stjörnumerki á norðurhimninum sem var fyrst lýst af Johannesi Hevelius á 17. öld. Hundarnir tveir heita "Chara" og "Asterion" sem Hjarðmaðurinn hefur í bandi. Bjartasta stjarna merkisins er Cor Caroli (α² CVn) sem Edmund Halley nefndi í höfuðið á Karli 1. eða syni hans Karli 2.. Hún hefur birtustigið 2,9. Agatha Christie. Dame Agatha Mary Clarissa Miller (15. september 1890 – 12. janúar 1976), betur þekkt sem "Agatha Christie" var enskur rithöfundur. Hún er þekkt fyrir glæpasögur sínar sem snúast um Breskar mið- og yfirstéttir. Þekktustu persónur hennar eru Hercule Poirot og Miss Jane Marple. Hún skrifaði einnig ástarsögur undir listamannsnafninu Mary Westmacott. Samkvæmt "Heimsmetabók Guinness" er Agatha Christie sá rithöfundur sem selt hefur flestar bækur. Aðeins Biblían hefur selst í fleiri eintökum heldur en bækur Agöthu Christie. Fyrirtæki. Fyrirtæki eru hagfræðileg og félagsleg samtök þar sem margt fólk vinnur á skipulagðan hátt til að bjóða viðskiptavini vörur eða þjónustu. Öll fyrirtæki teljast vera lögaðilar. Tangarsókn. Karþagóbúar undir stjórn Hannibals eyða rómverska hernum í orrustunni við Cannae. Tangarsókn er í hernaði sókn að óvinaher úr tveimur áttum samtímis. Fyrsta þekkta tangarsóknin var í orrustunni við Cannae. Í tangarsókn mynda sóknarherinn hálfmánalaga fylkingu, sem stundum er þykkust í miðjunni, og reynir þannig að umkringja óvinaherinn. Héraðsskólinn á Laugarvatni. Héraðskólinn á Laugarvatni var héraðsskóli sem var stofnaður árið 1928 í skólahúsi sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Hús héraðsskólans var friðað árið 2003 og tekur friðunin til ytra útlits og stigagangs. Við setningu fræðslulaga árið 1946 tók héraðsskólinn upp kennslu til landsprófs. Haustið 1947 tók til starfa við héraðsskólann framhaldsdeild sem kenndi námsefni fyrsta árs menntaskóla og var hún nefnd Skálholtsdeild. Menntaskólinn að Laugarvatni var svo stofnaður árið 1953. Árið 1932 var Íþróttakennaraskóli Íslands stofnaður og var hann í húsakynnum héraðsskólans, bókasafni, sundlaug og íþróttahúsi. Hús gamla héraðsskólans stóð autt um nokkuð skeið eftir að skólahald fluttist í aðrar byggingar á Laugavatni. Listahátíðin Gullkistan var haldin í héraðsskólanum sumarið 2005. Gamli héraðsskólinn hefur nú verið gerður upp og mun Háskóli Íslands mun fá hluta gamla héraðsskólans fyrir starfsemi sína á Laugarvatni en þar er íþróttafræðanám innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Árið 1928 létu "Laugarvatnshjónin", "Ingunn Eyjólfsdóttir" (1873 – 1969) og "Böðvar Magnússon" (1877 – 1966) ættaróðal sitt af hendi til að veita stofnun Hérðasskóla á Laugarvatni brautargengi. Þau hjónin tóku við búi á Laugarvatni 1907 og bjuggu á Laugarvatni alla tíð. Gufubaðið á Laugarvatni. Gamla gufubaðið að utan í júní 2008 Séð inn í gamla gufubaðið í júní 2008 Gufubaðið á Laugarvatni var náttúrulegt gufubað byggt yfir hver sem kemur upp við Laugarvatn og veitti bullandi hver gufunni upp gegnum gólfið. Við hlið gufubaðsins stóð smíðahús. Gamla gufubaðinu hefur verið lokað og til stendur að byggja nýtt. Vígðalaug. Vígðalaug Vígðalaug er heit laug á Laugarvatni. Í laugina rennur lítill hveralækur sem er 35-40°C heitur. Laugin er hlaðin úr grjóti, hú er 60 sm djúp og sporöskjulaga. Áður hét laugin Reykjalaug og er talin draga nafn af bæ sem talið er að hafi heitið Reykir. Laugarvatn og Laugardalur draga nafn sitt af þessari laug. Við kristnitöku á Íslandi var laugin vígð af prestum frá Noregi og notuð sem skírnarlaug. Fyrir austan Vígðulaug eru steinar sem nefndir eru Líkasteinar. Sagnir segja að á þá hafi líkbörur Jóns Arasonar og sona hans Björns og Ara, sem hálshöggvnir voru í Skálholti árið 1550 verið lagðar og lík þeirra þvegin upp úr Vígðulaug. Hvítabirnir á Íslandi. Hvítabirnir lifa ekki að staðaldri á Íslandi en ná stundum að ganga þar á land þegar hafís er nálægt landi. Þekktar ísbjarnaheimsóknir. Tveir hvítabirnir gengu á land á Íslandi árið 2008. Sá fyrri sást fyrst í Skagafirði þann 3. júní við Miðmundarfell á Skaga. Björninn var felldur sama dag og var sú ákvörðun afar umdeild og olli mikilli fjölmiðlaumfjöllun. Aldursgreining á tönnum hvítabjarnarins sem framkvæmd var af Karli Skírnissyni dýrafræðingi við tilraunastöðina á Keldum, leiddi í ljós að björninn var 22. ára gamalt karldýr og er einn af elstu hvítabjörnum af Grænlandskyni sem vitað er til að hafi verið vegnir. Hann var einnig smitaður af tríkínum, sníkjudýri sem leggst á hvítabjarnarstofninn, en sníkjudýrið dregur úr hreyfigetu dýrsins. Björninn var stoppaður upp og hefur undanfarin ár verið vistaður á Náttúrustofu Norðurlands vestra og í Minjahúsinu á Sauðárkróki. Seinni björninn þetta ár sást í æðarvarpi við bæinn Hraun á Skaga þann 16. júní 2008. Karen Helga Steinsdóttir, 12 ára heimasæta á Hrauni II, varð fyrst manna vör við björninn. Annar björn hafði verið skotinn nokkrum dögum áður við Þverárfjallsveg milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Reynt var að svæfa björninn við Hraun með deyfilyfjum til að flytja hann til Grænlands. Fjárfestingafyrirtækið Novator bauðst til þess að kosta björgunina. Í því skyni var sérfræðingur fenginn frá Danmörku og fór hann á slóðir bjarnarins þann 17. júní. Hann hafði ekki erindi sem erfiði: Til að svæfa björn þarf að komast í 30 metra færi, en björninn fældist mannaferðirnar og þegar hann virtist ætla að leggja til sunds þóttust menn ekki hafa önnur úrræði en að bana honum. Hann féll fyrir tveim riffilkúlum. Þegar hræið var skoðað kom í ljós að þetta var birna, særð í bógkrikum eftir sjóvolk og sundafrek, og glorhungruð. Hún var í fyrstu talin vera á miðjum aldri, en í nóvember sýndu rannsóknaniðurstöður að hún var háöldruð, talin vera 22 ára. Grunnskóli Bláskógabyggðar. Grunnskóli Bláskógabyggðar í Reykholti Grunnskóli Bláskógabyggðar er grunnskóli í sveitarfélaginu Bláskógabyggð. Skólinn hefur tvær starfstöðvar, eina í Reykholti og hina á Laugarvatni. Aratunga. Félagsheimilið Aratunga Aratunga er félagsheimili á þéttbýlisstaðnum Reykholti í Bláskógabyggð. Áður tilheyrði félagsheimilið Biskupstungnahreppi. Aratunga stendur fyrir neðan Grunnskóla Bláskógabyggðar. Húsið var byggt með styrk frá Félagsheimilasjóði en var auk þess kostað af hreppnum, ungmennafélagi og kvenfélagi hreppsins. Sumarið 1959 var húsið steypt upp og formlega tekið í notkun 9. júlí 1961. Bygging hússins var fjámögnuð á ýmsan hátt m.a. var samþykkt var að hver verkfær karlmaður í sveitinni 17 – 60 ára skuli leggja fram 10 dagsverk í bygginguna eða tilsvarandi upphæð í peningum og ógiftar konur á sama aldri 5 dagsverk. Lagafrumvarp. Lagafrumvarp er drög að nýjum lögum eða lagabreytingu sem lagt er fyrir löggjafann (venjulega þing) til umræðu og samþykktar. Þegar lagafrumvarp hefur verið samþykkt af löggjafanum þarf venjulega að bera þau undir þjóðhöfðingja til staðfestingar. Oftast er aðeins um að ræða táknræna staðfestingu en þar sem þjóðhöfðinginn er jafnframt höfuð framkvæmdavaldsins getur neitunarvald hans orðið að pólitísku tæki. Skagi (Norðurland). Skagi kallast nesið sem er á milli Húnaflóa og Skagafjarðar, og dregur Skagafjörður nafn af Skaganum. Áður fyrr voru þrjú sveitarfélög á Skaga, Skagahreppur og Vindhælishreppur að vestanverðu, tilheyrðu Austur-Húnavatnssýslu; heita nú Skagabyggð og Skagaströnd. Að austanverðu var Skefilsstaðahreppur í Skagafjarðarsýslu, en hann rann inn í Sveitarfélagið Skagafjörð árið 1998. Reykjaströnd við Skagafjörð, austan við Tindastól, telst ekki til Skagans. Byggðin Húnaflóamegin á Skaga, frá kirkjustaðnum Höskuldsstöðum og út fyrir Kálfshamarsvík, heitir Skagaströnd en Skagafjarðarmegin kallast hún Skagi frá Sævarlandsvík utan við Tindastól og út á Skagatá. Ystu bæirnir Húnavatnssýslumegin eru líka sagðir vera á Skaga en ekki Skagaströnd. Sýslumörkin liggja eftir endilöngum Skaga, heldur austan megin við miðju. Utan til er Skaginn láglendur með fjölda vatna á svokallaðri Skagaheiði, þar er víða ágæt silungsveiði. Sunnar taka við fjöll, einkum að vestanverðu. Þeirra þekktast er Spákonufell ofan við Höfðakaupstað, sem nú kallast jafnan Skagaströnd og er eina þéttbýlið á Skaga. Áður fyrr var lítið þorp við Kálfshamarsvík, utarlega á Skaga. Engin þéttbýlismyndun varð nokkru sinni austan á Skaga en útræði var áður úr Selvík. Víða á Skaganum, einkum utan til, voru mikil hlunnindi af reka, selveiði og æðarvarpi, auk silungsveiði í vötnum á Skagaheiði. Skagafjarðarmegin er ysti bær Hraun á Skaga. Þar er viti á svokallaðri Skagatá. Við Hraun gekk hvítabjörn á land 16. júní 2008 (sjá Hraunsbirnan). Annar hvítabjörn var felldur 3. júní 2008 á Þverárfjalli, skammt frá þjóðveginum milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Þverárfjall er syðst á Skaganum, um 35 km frá Hrauni. Búrmíska. Búrmíska telst til tíbetsk-búrmískra mála innan sínó-tíbetsku málaættarinnar. Málið er opinbert í Mjanmar (Búrma) og talað af um 25 miljónum manna. RAM. RAM er skamstöfun fyrir Random Access Memory. Það er tölvuminni sem tekur jafn langan tíma að skrifa í eða lesa úr gögn óháð því hvaða minnisvistfang gögn eru sótt eða skrifuð í. Algengt er að nota hugtakið RAM um vinnsluminni, þar sem það er það RAM minni í tölvum sem almennir notendur þekkja helst til. Dæmi um minni sem er RAM en er ekki vinnsluminni eru lesminnis kubbar (ROM), flash minni, og flýtiminni (en. cache memory). Í ensku er mjög algengt að hugtakið RAM sé notað um vinnsluminni og því er hugtakið "random access" oft notað þegar átt er við RAM sem eru ekki vinnsluminni. Dæmi um minni sem ekki er RAM eru segulbönd, geisladiskar og seguldiskar. RAM eins og við þekkjum þau í dag sem vinnlu minnis kubba, eru oftast "volatile" sem þýðir að ef spennan er tekin af minninu (t.d. þegar slökkt er á tölvu) þá hverfa öll gögn af því. Til eru nokkrar gerðir af "non-volatile" RAM, en þau hafa ekki enn komið á almenningsmarkað og eru flest ennþá í þróun. Sæotur. Sæotur (fræðiheiti: "Enhydra lutris") er sjávarspendýr sem lifir við strendur norðaustan Kyrrahafsins. Sæotrar verða 14-45kg á þyngd og eru þyngstu dýrin í marðarætt en jafnframt með smæstu sjávarspendýrum. Ólíkt flestum öðrum sjávarspendýrum er hitaeinangrun sæotursins fyrst og fremst fólgin í þykkum feldi sem er sá þéttasti í dýraríkinu. Sæotur getur gengið á landi en hann getur líka lifað eingöngu í sjó. Morroflói. Bátalegan í Morroflóa með Morroklett í baksýn. Morroflói er strandbær í San Luis Obispo-sýslu, Kaliforníu, Bandaríkjunum. Íbúafjöldi árið 2000 var 10.350. Rauði listi IUCN. Rauði listi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna yfir tegundir í útrýmingarhættu eða Rauði listi IUCN er stærsta heildaryfirlit yfir ástand stofns lífvera. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN) hafa haldið þennan lista frá árinu 1963. Á listanum eru lífverur flokkaðar í níu flokka eftir ástandi. Mat um helmings lífvera á listanum er unnið úr gögnum annarra samtaka á borð við BirdLife International, Zoological Society of London og World Conservation Monitoring Centre. Síðasta útgáfa listans kom út 19. júlí 2012. Á listanum voru þá 63.837 tegundir og af þeim voru 19.817 metnar í hættu. Listinn var gagnrýndur árið 1997 vegna skorts á gagnsæi varðandi uppruna þeirra gagna sem hann byggist á. Í kjölfarið var skjölun bætt og gefinn möguleiki á ritrýni. Við hættumörk. Við hættumörk er lýsing á ástandi stofns í flokkunarkerfi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna - IUCN. Taldar eru líkur á því að tegundir í þessum flokki muni lenda í hættuflokki í náinni framtíð. Við matið er stuðst við sömu mælikvarða og þá sem ákvarða hvort tegund telst vera í hættu, t.d. samdráttur búsvæða eða fækkun einstaklinga. Samtökin leggja áherslu á reglulegt eftirlit með tegundum í þessum flokki. Eftir 2001 voru tegundir sem áður hefðu flokkast sem „háðar verndarsvæðum“ settar í þennan flokk. Á listanum yfir tegundir við hættumörk eru 2423 dýrategundir og 1050 jurtir. Við þetta má bæta þeim um 400 tegundum sem voru í „háð verndarsvæðum“-flokknum. Evangeline Lilly. Nicole Evangeline Lilly (fædd 3. ágúst 1979) er kanadísk leikkona sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem Kate Austen í Lost sjónvarpsseríunni. Samningur um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu. Samningur um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu eða CITES (e: "Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora") er alþjóðasamningur sem takmarkar milliríkjaverslun með tilteknar tegundir dýra og jurta. Samningurinn var saminn af Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum árið 1973 og tók gildi 1. júlí 1975. Ísland gerðist aðili að samningnum 3. janúar árið 2000. Árið 2008 höfðu 173 ríki gerst aðilar. Í samningnum eru um 33.000 tegundir flokkaðar í þrjá flokka eftir því hversu miklar takmarkanir gilda um inn- og útflutning þeirra. Þari. Þari er íslenskt heiti á nokkrum tegundum brúnþörunga sem tilheyra ættbálknum "Laminariales" (e. "kelp"). Þekktustu ættkvíslir þara eru "Macrocystis", "Laminaria" og "Ecklonia". Þarategundir einkennast af því að allar hafa vel aðgreindan stilk, neðst á honum vaxa út margir, sívalir festusprotar sem festa þarann við botninn og á efri enda stilksins situr stórt blað. Stilkurinn er oft nefndur þöngull og festan á neðri enda hans þöngulhaus. Þarar eru fjölbreyttastir og stærstir brúnþörunga og hafa fundist einstaklingar sem eru allt að 100 m langir. Þeir finnast í miklu magni á grunnsævi neðan fjörunnar í tempruðum svæðum bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Sumar tegundir geta orðið mjög stórar og myndað þétta þaraskóga þar sem framleiðnin er oft mjög mikil. Á einni þaraplöntu, þöngulhaus, þöngli og blöðku, getur dafnað ótrúlegur fjöldi einstaklinga. Yfir 100 þúsund plöntur og dýr geta vaxið á þaranum sem ásætur, auk dýralífs í og á þöngulhausnum. Þaraskógur býður auk þess fjölda lífvera upp á skjól, felustaði og æti. Útbreiðsla. Þari er algengur á tempruðum svæðum á bæði norður- og suðurhveli. Flestar tegundir þara vaxa í Kyrrahafi, en einnig hefur fundist töluverður fjöldi í Atlantshafi. Ættkvíslin "Laminaria" er ríkjandi í N-Atlantshafi og NV-Kyrrahafi, ættkvísl "Macrocystis" (risaþara) í A-Kyrrahafi og SA-Atlantshafi, en ættkvísl "Ecklonia" við S-Afríku og Ástralasíu. Þari vex á grunnsævi neðan fjöruborðs. Eftir því sem sjórinn er tærari og sólarljósið nær lengra niður í sjóinn, getur þarinn lifað því mun dýpra. Sumar tegundir vaxa á allt að 40 metra dýpi. Nytjar. Þari hefur verið notaður sem áburður, húsdýrafóður og matur. Marinkjarni er eina þarategundin sem vitað er til að höfð hafi verið til matar á Íslandi, en í Austur-Asíu er þari notaður í miklum mæli til matar. Japansþari ("Laminaria japonica") er sú þarategund sem mest er neytt af, og er megnið af honum ræktaður. Aðalnotkun þara hins vegar er til framleiðslu á gúmmíefninu algín. Það er notað í margs konar iðnaði, t.d. matvæla- og lyfjaiðnaði, og í vefnaði. Algín er einnig notað til að auðvelda blöndun ólíkra vökva, svo sem vatns og olíuefna. Sem dæmi er algín notað við ísgerð, til að koma í veg fyrir að vatnið skilji sig frá mjólkurfitunni og myndi ískristalla. Jamie Lynn Spears. Jamie Lynn Spears (fædd 4. apríl 1991) er fræg leik- og söngkona. Hún er best þekkt fyrir aðalhlutverk sitt í seríunni Zoey 101. Hún er dóttir hjónanna Lynne Irene Spears og Jamie Parnell Spears. Lynne Irene er fyrrum grunnskólakennari enn Jamie Parnell er byggingarverktaki. Jamie Lynn er skírð í höfuðið á báðum foreldrum sínum. Jamie Lynn er yngst þriggja systkina enn hin tvö eru Brian Spears og Britney Spears. Jamie Lynn er trúlofuð Casey Aldridge. Þann 19. júní 2008 eignaðist Jamie Lynn sitt fyrsta barn. Stúlkan fæddist á CST, í Mississippi Southwest Regional Medical Center kl.9.30. Stúlkan fékk nafnið Maddie Briann Aldridge. Staðvindur. Skýringarmynd sem sýnir staðvindabeltið norðan og sunnan miðbaugs. Staðvindur er vindur sem blæs í beltum við miðbaug jarðar. Staðvindar eru ríkjandi vindar í hitabeltinu. Vindarnir blása frá hlýtempruðu beltunum í átt að miðbaug. Snúningur jarðar veldur því svo að þeir blása stöðugt í suðvestur á norðurhvelinu en norðvestur á suðurhvelinu. Staðvindar stafa af því að heitt loft sem stígur upp við miðbaug kólnar og sígur niður við hvarfbaugana þar sem myndast háþrýstisvæði (hæð). Vegna þessarar stöðugu hringrásar eru staðvindar stöðugir (og draga nafn sitt af því). Alveg við miðbaug er svo kyrrabeltið sem einkennist af léttum, breytilegum vindi. Bjarnargildran í Norðursetu. Kort yfir Norðursetu, Bjarnargildran fyrir ofan miðju Bjarnargildran er nafn á mannvirki af norrænum uppruna norðarlega á því svæði sem Grænlendingar hinir fornu nefndu Norðursetu. Meðal sagn- og fornleifafræðinga er byggingin þekktust sem "Bjørnefælden" upp á dönsku. Bygging þessi er utarlega og allhátt á Nuussuaq-skaganum (Eysunesi). Hún er hlaðin úr flötum steinum sem hafa verið teknir á nesinu. Byggingin er vel hlaðin og skiptast á þunnir og þykkir steinar á svipaðan hátt og í norrænum byggingum á Suður-Grænlandi. Ekki er hægt að greina hvenær byggingin var hlaðin. Í raun er með öllu ókunnugt til hvers það var byggt eða til hvaða nota. Byggingin er nánast ferningur að utanmáli, hver hlið um 440 til 450 cm löng. Hleðslan er um 150 cm há. Veggirnir er mjög þykkir, vesturhliðin 110 cm á þykkt og norðurhliðin 180 cm. Op er inn í hleðsluna austanmegin um 50 cm breitt og um meter inn að aðalrýminu sem er 230 cm langt og um 120 breitt. Norðan megin er um 50 cm hár flatur klettur sem er einskonar hylla og er hann um 80 cm breiður. Meðfram honum er því einungis rúmlega 40 cm breiður gangur sem framhald af innganginum. Ekki er annað hægt að sjá en að hleðslan standi enn eins og hún var hlaðin. Ekki er hægt að sjá hvort eða hvernig þak var yfir byggingunni. Stærð og hlutföll gera það ósennilegt að þetta hafi verið húsnæði til búsetu, það er einnig heldur ósennilegt að það hafi verið hentugt sem gildra fyrir hvítabirni. Sennilegast er að hér hafi verið geymd verðmæti, t.d. rostungstennur, á meðan á veiðiferðum stóð. Poul Egede er fyrstur seinnitíma Evrópumanna að nefna Bjarnargildruna 1736. Hann hafði þá verið þar á ferð og rakst á þessa byggingu. Inuíta ferðafélagar hans sögðu honum að byggingin væri nefnd Putdlagssuaq á grænlensku (þ.e. Bjarnargildran) og hermdu sögur um að norrænir menn hefðu byggt hana til að veiða ísbirni. Savannakhet. Verslunarhverfi í SavannakhetSavannakhet er höfuðstaður í samnefndu héraði í suðurhluta Laos. Íbúafjöldi í borginni er um 70 000 árið 2000 en í öllu héraðinu um 120 000. Formlega heitir borgin Kaysone Phomvihane eftir aðalleiðtoga Pathet Lao og þar að auki hefur hún heitið Khanthabouli. Öll þrjú nöfnin eru notuð í bókum og á kortum en Savannakhet er það nafn sem notað er í daglegu samhengi. Borgin er önnur stærsta borg Laos eftir Vientiane. Kaysone Phomvihane fæddist í borginni. Stór hluti íbúanna hafa ekki laosku að móðurmáli heldur tala tungumál þjóðaflokkana frá fjallasvæðunum auk Taílendinga og Víetnama. Stór hluti Víetnamana eru kristnir enda er í borginni stærsta kaþólska kirkjan í Laos. Þar er einnig frægt búddistamusteri, "Wat Sainyaphum", sem byggt var á 15. öld. Skammt utan við borgina er stúpan "That Ing Hang" sem er eitt helgasta takmark pílagrímsferða búddista í Laos. Ein af tveimur brúm yfir fljótið Mekong frá Laos til Taílands liggur frá Savannakhet yfir að Mukdahan. Brúin var opnuð fyrir umferð í janúar 2007. Enda er borgin mikil verslunarmiðstöð fyrir suðurhluta Laos og einnig mikilvægur samgöngutengill milli Taílands og Víetnam. Pakse. Pakse einnig skrifað Pakxe (á frönsku Paksé) er borg í suðurhluta Laos, þar sem fljótið Xedone rennur í Mekong. Borgin er stærsta borg í Champasak héraðinu og aðalleið inn á Bolaven hásléttuna. Hún var lengi höfuðborg í laoska konungsdæminu Champasak, sem var afnumið 1946 þegar hið sameinaða konungsríki Laos var stofnað. Frakkar gerðu Pakse að fyrstu aðalstöð sinni í Laos 1905. Með stuðningi Japan var byggð brú yfir Mekong hjá borginni árið 2000 og var það fyrsta brúin yfir fljótið. Atvinnulíf, ekki síst umsjón ferðamanna, hefur stóraukist við tilkomu brúarinnar. Íbúafjöldi Pakse er um 87,000. Furia infernalis. Furia infernalis var dýr sem menn héldu að væri til í norður-Svíþjóð og Finnlandi og einnig á Líflandi á 18. og 19. öld. Dýrið var sagt líkjast maðki eða skordýri. Furia infernalis var hluti af þjóðtrú í áðurnefndum löndum, en það fékk einnig fræðilega meðhöndlun vísindamanna, þar á meðal í ritum eftir þá Daniel Solander og Carl von Linné. Hingað til hafa ekki fundist neinar sannanir um tilvist dýrsins. Dýrið var talið orsaka sjúkdóma, en þeir sjúkdómar hafa verið útskýrðir með öðrum hætti. Vísindamenn og Furia infernalis. Fyrsta fræðilýsing á dýrinu gerði hinn sænski grasafræðingur Daniel Solander í "Universal-Lexikon der Gegenwart und Vergangenheit". Eftir það var dýrið nefnt af fleiri vísindamönnum. Carl von Linné nefnir t.d. að hann hafi verið bitinn af dýrinu nálægt Lundi, árið 1728. Hann lýsir síðan dýrinu í Systema naturae, og í þýsku alfræðiriti læknisfræðinnar, sem út kom árið 1830, er von Linné nefndur sem höfundur fræðiheitisins, Furia infernalis. Lýsing á dýrinu. Í öllum þessum ritum er dýrinu lýst sem smásæju skordýri eða maðki og dýrið sagt „"aðeins nokkrar línur"“ að lengd og ekki þykkra en hár. Dýrið átti að vera alsett nöbbum eða göddum með agnhaldslíkum broddum. Dýrið var sagt lifa í trjám eða blautlendi og flutti sig um set með vindinum. Ritin nefna einnig að menn eða önnur stór dýr geta átt það á hættu að dýrið bíti eða þrengi sig inn í líkamann gegnum húðina og vöðvana. Í fyrstu var bitið sagt vera lítill rauður blettur á húðinni, en síðan tæki sig upp kolbrandur (holdfúi), hálseymsli og vöðvaviprur og meðvitundarleysi, en síðan hlyti fórnarlambið sársaukafullan dauðdaga. Carl von Línne mælir með að hinn sýkti líkamspartur sé skorinn af, en samkvæmt sænskri náttúrulækningu átti að leggja draflaost á bitsárið þannig að dýrið gæti flutt sig yfir í ostinn. Sjúkdómsgreiningar. Um leið og þjóðtrúin og fræðin héldu fram tilvist þess voru til vísindamenn sem voru efins. Johann Friedrich Blumenbach og Karl Asmund Rudolphi lögðu lítinn trúnað á tilvist Furia infernalis. Þeir útskýrðu sjúkdómseinkennin, sem talin voru orsök af biti dýrsins, sem þrota af völdum skordýrabits, blóðsýkingu eða staðbundna líkamssvörun við smitsjúkdómum eins og bólusótt eða miltisbrandi Kolbrandur. Kolbrandur (kaldabruni eða holdfúi) er drep í holdi, sem lýsir sér þannig að blóðflæði til líkamsvefs stöðvast og vefurinn deyr. Öngull. Öngull er krókur sem beitu er krækt á og er notaður til fiskveiða. Öngullinn er venjulega festur á færi eða línu. Önglar eru oftast úr járni og með agnhaldi, en það er lítill broddur í bugi öngulsins sem kemur í veg fyrir að fiskurinn renni af. "Tinfiskur" er fiskur steyptur úr tini og er notaður sem agn á öngli, oftast þríkrækjum sem er öngull með þremur krókum. Lína (mælieining). Lína er mælieining á lengd sem var notast við áður en metra- og tugakerfið kom til, og var 1/10 eða 1/12 úr þumlungi. Qilakitsoq. Kort af Grænlandi sem sýnir hvar Qilakitsoq er Qilakitsoq heitir byggð, sem nú er farin í eyði, norðan megin á Nuussuaq-skaganum ekki langt frá þorpinu Uummannaq. Qilakitsoq þýðir "Himinhátt" enda mjög brattar og háar hlíðar. Þar hafa fundist einar merkilegustu fornleifar á Norðurslóðum. Voru það einstaklega vel varðveittar múmíur yfir 500 ára gamlar. Það var árið 1972 að bræðurnir Hans og Jokum Grønvold voru í veiðileit að þeir fundu múmíur í hellisskúta. Þeir létu yfirvöld vita af fundinum en það var ekki fyrr en 1977 sem vísindamenn hófu rannsóknir og voru allar múmíurnar þá fluttar til Kaupmannahafnar. Múmíurnar. Fornleifafræðingar hafa komist að mörgu um líf þessara einstaklinga, heilsufar og skyldleika. Hins vegar hefur ekki tekist að sýna fram á dánarorsök með nokkuri vissu fyrir þá flesta. Hér var um að ræða átta einstaklinga, sex konur og tvö börn. Með C-14 aldursgreiningu má sjá að þau hafa dáið um 1475. Þau voru öll vel búin og höfðu með sér auka klæðnað, samanlagt sextán selskinspelsa, sjö pelsa gerða úr fuglaskinni, ein hreindýraskinspels, tólf skinnbuxur auk margra sokka og skinnstígvéla ("kamik"). Allt sem allt 78 plögg. Fötin voru mjög vel saumuð og tilsniðin, má nefna skinnbuxur úr selskinni sem voru saumaðar úr tíu til þess sniðnum skinnbútum. Innripels úr fuglaskinni var gerður úr skinni af fimm fuglategundum þar sem þétt stutt fiður var notað þar sem halda þurfti hita og grófari fjaðraskinn við hálsmál og ermar til að sleppa út hita. Hefur þessi klæðnaður varðveitts einstaklega vel. Múmíurnar voru varðar veðri inn í hellisskútanum og þurrt loftslag og kuldinn höfðu frystiþurrkað líkin. Múmíurnar voru í tveim gröfum með um það bil metir á milli. Í annarri gröfinni voru þrjár konur, fjögur ára drengur og sex mánaða ungabarn. Tvær kvennanna voru ungar, önnur milli 20 til 30 og hin 25 til 35. Sú þriðja hafði verið á milli 40 og 50 ára þegar hún dó. Í hinni gröfinni voru þrjár konur. Tvær um fimmtugt og ein milli 18 og 21 árs aldur. Rannsókn á múmíunum fór eins varlega fram og hægt var. Tannabreytingar sýndu aldur, DNA-sýni voru tekin tekin úr hári og nöglum til að sjá skyldleika og heilsuástand. Grænlensk kona árið 1654. Húðflúrið samsvarar húðflúri á múmíunum í Qilakitsoq Fimm af konunum voru með húðflúr á andliti eins og tíðkaðist meðal Inuítakvenna fram á 19. öld. Allar fimm höfðu þær blár eða svartar línur yfir enni og kinnbein. Þrjár höfðu einnig línur á höku. Tvær höfðu hins vegar púnktamerki á enni í staðin. Bendir það til þess að nokkrar kvennanna hafi gifst inn í fjölskylduhópinn. Heilsufar. Öll höfðu þau verið vel nærð fyrir dauðadag. Matarleifar í innyflum og greining á húð sýnir að megnið af fæðunni voru sjávardýr og einungis um 25 % af landjurtum og landdýrum t.d. hreindýrum. En þau höfðu ekki öll verið við góða heilsu. Með gegnumlýsingu sjást að drengurinn hafði skaðað mjaðmabein og þar að auki svo nefndan Legg-Calvé-Perthes sjúkdóm sem gerði honum erfitt um gang. Ein af eldri konunum hafði illa gróið viðbeinsbrot sem gerði henni erfitt að nota vinstri handlegg. Hún hafði þar að auki krabbamein í nefi sem hafði breiðst út til augnanna. Að öðru leiti virðist heilsufar þessara einstaklinga verð ágætt. Meðalhæð kvennanna var 150 cm sem er sama meðalhæð og er enn hjá Grænlenskum konum. Skyldleiki. DNA-greining sýnir að flestir einstaklingarnir höfðu verið skildir. Tvær elstu konurnar í gröf tvö hafa sennilegast verið systur og önnur þeirra móðir yngstu konunnar í gröf eitt. Sú kona hefur verið móðir fjögur ára drengsins sem var grafinn með henni. Önnur hvor hinna yngri kvennanna tveggja var sennilega móðir ungabarnsins en þær systur. Elsta konan í gröf eitt virðist hins vegar ekki hafa verið skyld neinum hinna. En greftrunin og greftrunarstaðurinn er hins vegar óleyst leyndarmál. Það var ekki siður Inuíta að grafa konur og börn aðskilin frá körlum. Heilsufar eldri drengsins og einnar eldri kvennanna hefur kannski leitt þau til dauða. En eingin vísbending hefur hins vegar fundist um dauðaorsök hinna. Það er ekki heldur víst að þau hafi dáið um sama leiti eða verið lögð til hvílu samtímis. Hugsanlegt er að ungabarnið hafi verið grafið lifandi enda siður Inuíta lengi vel að kæfa eða grafa lifandi ungabörn með mæðrum sínum ef að þær létust. Múmíurnar voru fluttar aftur til Grænlands 1982 og eru nú til sýnis í Þjóðminjasafninu í Nuuk. Jón Grunnvíkingur. Jón Ólafsson, nefndur Jón Ólafsson úr Grunnavík eða Jón Grunnvíkingur (1705 – 1779) var íslenskur fræðimaður sem dvaldist mestan hluta ævinnar í Kaupmannahöfn. Jón var sonur séra Ólafs Jónssonar prests á Stað í Grunnavík í Jökulfjörðum og konu hans Þórunnar Pálsdóttur. Faðir hans lést úr Stórubólu 1707 og fór Jón nokkru síðar í fóstur til vinar hans, Páls Vídalín, sem ól hann upp, kom honum í Hólaskóla og styrkti hann síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Hann vann að mikilli íslenskri orðabók með alfræðiefni sem enn hefur ekki birst, skrifaði um menntamál og ýmisleg efni og safnaði tóbaksvísum. Jón er meðal annars þekktur fyrir að hafa skrifað upp Heiðarvígasögu eftir minni, en eina þekkta handrit Heiðarvígasögu varð eldinum að bráð í brunanum í Kaupmannahöfn 1728. Til þess notaðist hann við minnispunkta sína sem voru aðallega orðatiltæki og orðasambönd úr sögunni. Hann skrifaði einnig lýsingu á brunanum skömmu eftir atburðin. Jón Helgason, prófessor, skrifaði doktorsrit sitt um Jón Grunnvíking. Jón Grunnvíkingur kemur fyrir sem sögupersóna í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness og nefnist þar: "Jón Grindvicensis" (latína: Grindavíkur Jón). Bergþór Oddsson. Bergþór Oddsson (f. 1639, d. eftir 1703 en fyrir 1712) eða Bergþór skáld í Flatey var íslenskt skáld. Eftir hann eru varðveittir þrír sálmar, eitt kvæði í "Skautaljóðum" og tveir rímnaflokkar; "Remundarrímur" og "Úlfsrímur Uggasonar". Bergþór er þekktastur fyrir rímur sínar, einkum Úlfsrímur sem lengi nutu vinsælda. Ævi og ættir. Ætt Bergþórs er ókunn og lítið er vitað um ævi hans. Þegar manntalið 1703 var gert bjó hann í Neðribæ í Flatey á Skjálfanda ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur sem þá var 61 árs og þremur börnum sínum, Þorsteini 31 árs, Nikulási 21 árs og Ragnhildi 20 ára. Tveir eldri synir Bergþórs eru þekktir, Þórarinn og Oddur. Þórarinn mun hafa verið elsti sonur föður síns og frá honum eru komnar ættir. Rímur. Rímur Bergþórs urðu vinsælar. Í niðurlagi beggja rímnanna bindur höfundur nafn sitt. "Rímur af Remundi Rígarðssyni" eru ortar eftir "Rémundar sögu keisarasonar", íslenskri riddarasögu frá 14. öld. Þær orti Bergþór fyrir Bjarna Hallsson prest. Rímurnar eru 20 að tölu og varðveittar að fullu eða að hluta til í sex handritum. Rímur af Úlfi Uggasyni eru sex. Vinsældir þeirra sjást af því að þær eru varðveittar í átján handritum. Yrkisefnið er "Úlfs saga Uggasonar", ung saga af ætt fornaldarsagna og riddarasagna. Lengi gengu á vörum manna vísur úr Úlfsrímum, til dæmis sú sem hér fer á eftir. Úlfsrímur hafa opinskáar og gamansamar lýsingar á kynfærum risa enda voru sumar vísurnar vart taldar prenthæfar. Þorsteinn Pétursson sagði í höfundatali sínu að rímurnar væru "með auðvirðilegu orðatiltæki, en vel vaktaðar uppá bragarháttinn, svo þar af sést hann var gott skáld í náttúrunni." Páll Eggert Ólason kallaði þær "góðar rímur". Annar kveðskapur. Auk rímnanna er Bergþóri eignað eitt kvæði í Skautaljóðadeilunni ("Litið hefi eg ljóðin tvenn") og þrír sálmar; "Bænarsálmur", ("Eilífur friðarfaðir"), "Sálmur um góða burtför" ("Þú, mín sál, þér er mál") og "Kvöldvísa" ("Hrópandi eg af hjarta bið"). Páll Eggert Ólason sagði að sálmarnir væru "sæmilega... kveðnir". Flóra (líffræði). Flóra er orð í líffræði og haft um allar þær plöntutegundir sem vaxa á tilteknu svæði, bæði háplöntur (byrkningar og fræplöntur) og lágplöntur (fléttur, mosar og sveppir). Flóra getur einnig verið bók (rit eða listi) sem lýsir plöntutegundum á tilteknu svæði, sbr. "Flóra Íslands". Ýmsir - Það gefur á bátinn. Ýmsir - Það gefur á bátinn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á þessari tvöföldu safnplötu flytja ýmsir þjóðþekktir listamenn fjörtíu vel valin sjómannalög. Umslags: Brian Pilkinton. Filmuvinna og prentun: Prisma Hafnarfirði Ástþór Magnússon. Ástþór Magnússon (f. í Reykjavík 4. ágúst 1953) er íslenskur viðskiptamaður og stofnandi Friðar 2000. Eftir landspróf hóf Ástþór nám í Verslunarskóla Íslands en fór síðan til Bretlands í nám við Medway College of Art and Design og lauk prófi í auglýsingaljósmyndun og markaðsfræðum. Hann sótti síðan fjölda námskeiða bæði heima og erlendis í stjórnun og rekstri fyrirtækja. Ástþór var upphafsmaður að stofnun Eurocard á Íslandi árið 1979 en það var fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins. Ástþór stofnaði einnig og rak um árabil "myndiðjuna Ástþór" og póstverslunarfyrirtæki með útibúum í Færeyjum og Danmörku. Árið 1983 flutti Ástþór til Danmerkur og síðan til Bretlands þar sem hann gerðist frumkvöðull í þróun tölvutækni fyrir gagnvirk upplýsinga- og verslunarkerfi. Hann kom einnig að flugrekstri um árabil og er með yfir 2000 flugtíma mest við stjórn á litlum einkaþotum. Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 1994 með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995. Ástþór hefur hlotið tvenn mannúðarverðlaun, Gandhi verðlaunin og Heilaga Gullkrossinn frá Grísku rétttrúnaðarkirkjunni en það var UNESCO í Grikklandi sem tilnefndi Ástþór til verðlaunanna. Ástþór kynnti hugmyndafræði sína í forsetaframboði 1996 og í bókinni "Virkjum Bessastaði" sem dreift var á öll heimili landsmanna. Ástþór bauð sig fram til forseta Íslands í forsetakosningunum 2012, en þann 1.júní 2012 var framboð hans dæmt ógilt því hann fékk ekki lögboðið vottorð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis. Forsetaframboð hans árið 2000 var einnig dæmt ógilt, vegna þess að nægjanlegan fjölda meðmælenda vantaði. Heron frá Alexandríu. Heron frá Alexandríu (10 – 70 e.Kr.) (gríska: Ήρων ο Αλεξανδρεύς) var forngrískur stærðfræðingur og uppfinningamaður og sagður vera einn helsti „tilraunamaðurinn“ í fornöld. Hann er þekktastur fyrir að hafa fundið upp gufuknúna vél, eimsnælduna ("aeolopile") og vindvél sína, sem er nokkurs konar fyrirrennari vindmyllunnar. Í alfræðiritum Herons er lýst fjölmörgum uppfinningum sem hann gerði, þeirra á meðal eru slökkvivél (dæla), dragpípa, sjálfsali, vatnsorgan, leiðarmælir, stórvirkar vígvélar og loks gufuvélin, hin fyrsta í heiminum. Uppsalahofið. a>). Um hofið var hengd gullkeðja, einnig má sjá tré það hið mikla sem fórnardýr og menn voru hengd upp í. Uppsalahofið var trúarhof, aðallega reist til að dýrka Frey, í "Gömlu Uppsölum", nálægt Uppsölum nútímans í Svíþjóð. Hofið er einna þekktast af lýsingum Adams frá Brimum, en kemur einnig fyrir í fornsögunum, hjá Saxo Grammaticus og í Heimskringlu. Gömlu Uppsalir voru miðstöð ásatrúar í Svíþjóð. Eftir kristnitöku á 11. öld hætti dýrkun á ásunum og í þeirra stað urðu Uppsalir mikilvæg miðstöð kirkjunnar. Í lýsingu Adams frá Brimum á Uppsalahofinu og umhverfi þess segir frá hvernig dýrum var sökkt í blótkeldu, menn og dýr hengu á greinum í blótlundinum, og gert var ráð fyrir, að Freyr kæmi í lundinn. En hann var sagður þar gestur. Í hofinu voru skurðgoð, Freyr mest tignaður, sýndur blygðunarlaust með tákn frjóvgunarinnar til þess að glæða umhyggju hans fyrir ársæld. Blótsöngvarnir lutu að hinu sama. Í blótveislum var goðunum í senn veitt (sbr. siðinn að stökkva blóði á stalla og myndir goða) og gestunum aukinn máttur, er þeir átu kjöt fórnardýra og drukku signað mungát og mjöð. Teigarhorn. Teigarhorn er býli undir Búlandstindi í sunnanverðum Berufirði á Austfjörðum. Þar er meðal annars rekið steinasafn og veðurathugunarstöð. Þann 22. júní 1939 mældist þar mesti hiti á Íslandi, 30,5°C. Fimbulfamb. Fimbulfamb er spil sem gengur út á að útskýra sjaldgæf orð í íslensku máli. Spilareglur. Spilið gengur þannig fyrir sig að sá sem er elstur byrjar að vera svokallaður „Fambi“. Hlutverk fambans er það að draga spjald úr bunka sem fylgir spilinu. Á spjaldinu eru fjögur forn orð og gert er ráð fyrir því að spilendur þekki ekki orðið. Fambinn velur orð eftir því hvaða reit á spilaborðinu hann er staddur. Hinir leikmennirnir eiga að skrifa niður á blað hvað þeir halda að rétta merkingin á orðinu er. Ráðlegt er að skrifa eitthvað gáfulegt því að eftir að allir eru búnir er skrifa niður þá skýringu sem þeir halda að sé rétt tekur Fambinn við þeim. Fambinn les svo allar skýringarnar ásamt réttu skýringunni sem stendur aftan á spjaldinu sem hann dró. Svo er farið hringinn og allir giska á eina skýringu. Leyfilegt er að giska á skýringu sem einhver annar giskar á. Dæmi. Fambinn les af spjaldinu orðið „flekán“. Atli Kalli, Bragi Palli, Cleopatra Siggi og Davíð Gummi eru hinir leikmennirnir og hver og einn skrifar það sem þeir halda að orðið þýði. Fambinn fær alla miðana og les af þeim ásamt skýringunni sem stendur aftan á miðanum. Fambinn: „Flekán þýðir: ónytjungur, ermahnappur, hraðahindrun, lauslát kona (rétta skýringin) og þráðlaga þaragróður“. Svo giska keppendur á eina skýringu, hver á fætur örðum. Davíð giskar á þráðlaga þaragróður líka. Stigagjöf miðað við dæmið hér að ofan. Atli fær 0 stig; hann giskaði hvorki á rétt svar og enginn giskaði á hans skýringu. Bragi fær 6 stig; 2 fyrir að giska á rétt og 4 því að Atli og Davíð giskuðu báðir á hans skýringu. Davíð fær 2 stig vegna þess að Siggi giskaði á hans skýringu. Hefði enginn giskað á rétta skýringu hefði Fambinn fengið 2 stig. Knýtlinga saga. Knútur ríki, mynd úr fornu handriti Knýtlinga saga — eða Ævi Danakonunga — er konungasaga, sem fjallar um sögu Danakonunga frá því um 950 þegar Haraldur blátönn var konungur, til ársins 1187, þegar Knútur Valdimarsson (d. 1202) hafði unnið sigur í Vindastríðunum. Sagan var skrifuð á Íslandi um eða fyrir 1250. Um söguna. Nafnið "Knýtlingar" mun hafa verið notað um afkomendur Knúts ríka Danakonungs. Knýtlinga saga hefst þannig: „Haraldur Gormsson var tekinn til konungs í Danmörk eftir föður sinn.“ Allir fræðimenn eru sammála um að upphaf sögunnar hafi glatast. Guðbrandur Vigfússon sýndi fram á það fyrir löngu að Sögubrot af fornkonungum, sem varðveitt er í AM 1eβ I fol. hafi verið hluti af einu handriti Knýtlinga sögu (AM 20 b I fol.), og það því haft að geyma samfellda sögu Danakonunga frá forneskju. Sumir fræðimenn telja "Sögubrotið" leifar hinnar glötuðu Skjöldunga sögu. Knýtlinga saga er laustengd "Heimskringlu" Snorra Sturlusonar (sögu Noregskonunga frá upphafi til 1177). Höfundur Knýtlinga sögu notaði Heimskringlu sem fyrirmynd að verki sínu, þ.e. Knýtlinga saga átti að verða sambærilegt yfirlit um sögu Danakonunga. Hins vegar hafði hann ekki jafn næmt auga og Snorri fyrir sögulegri heimildarýni, né því hvað fer vel í frásögn. Þrátt fyrir það hefur Knýtlinga saga mikið sögulegt og bókmenntalegt gildi. Í Knýtlinga sögu er eins og í Heimskringlu vitnað í dróttkvæði, bæði til skrauts og til að staðfesta frásögnina. "Ólafs saga helga" er burðarásinn í Heimskringlu, og á sama hátt fjallar höfundur Knýtlinga sögu í lengstu máli um Knút helga (d. 1086). Umfjöllun um valdaskeið hans nær yfir 23.-72. kafla í Knýtlinga sögu, eða um 40% af sögunni. Frásögnin styðst m.a. við tvö latínurit um ævi Knúts konungs, sem skrifuð voru af Englendingum sem störfuðu í Danmörku. Nafn annars þeirra er óþekkt, en hinn hét Ælnoth og var munkur frá Kantaraborg. Hann flýði land eftir að Normannar lögðu undir sig England árið 1066. Í Knýtlinga sögu er Knútur helgi sýndur í karlmannlegu ljósi, sem víkingur og veraldlegur valdhafi, og einnig sem kristinn píslarvottur. Athygli vekur að Sveinn Þorgunnuson, faðir Össurar erkibiskups í Lundi, fær mikið rými í sögu Knúts helga. Þetta eru e.t.v. áhrif frá "Jómsvíkinga sögu", en helsta söguhetjan þar, Vagn Ákason, var forfaðir Össurar. Höfundurinn. Sterk rök hafa verið færð fyrir því að höfundur sögunnar sé Ólafur Þórðarson hvítaskáld, d. 1259. Hann var bróðursonur Snorra Sturlusonar. Ólafur fór til Danmerkur sumarið 1240 og var við hirð Valdimars sigursæla þar til konungurinn dó vorið 1241. Í sögunni segir: "„Með honum [Valdimar konungi] var Ólafur Þórðarson og nam að honum marga fræði, og hafði hann margar ágætligar frásagnir frá honum“". Sigurður Nordal segir að tæplega hafi nokkur annar Íslendingur haft jafn góð skilyrði og Ólafur til að ráðast í það stórvirki að semja Knýtlinga sögu. Dvöl Ólafs við hirð Valdimars, var hliðstæð því þegar Adam frá Brimum dvaldist við hirð Sveins Úlfssonar, sem var konungur í Danmörku á árunum 1047 – 1074. Þar fékk Adam upplýsingar sem hann notaði í verk sitt "Gesta Hammaburgensis Ecclesiae Pontificum" ("Sögu erkibiskupsdæmis Hamborgar") sem er einnig merk heimild um mannlíf á Norðurlöndum. Höfundur Knýtlinga sögu notaði beint og óbeint ritaðar danskar heimilidir, m.a. "Danasögu Saxa" ("Gesta Danorum" eftir Saxo Grammaticus). Er einkum stuðst við Saxa í síðari hluta bókarinnar. Einnig sótti höfundurinn efni í Heimskringlu Snorra Sturlusonar og fjölmörg önnur rit. Í útgáfu Bjarna Guðnasonar, 1982, er mikill fróðleikur um heimildir sögunnar. Handrit og útgáfur. Handrit af B-flokki hefjast með 22. kapítula. Knýtlinga saga var prentuð 1741, með latneskri þýðingu, en bókin kom aldrei út, og aðeins örfá eintök varðveitt. Útgáfan er besta heimildin um texta "Codex Academicus", og hefur því mikið gildi. Fergin. Fergin eða tjarnarelfting (fræðiheiti: "Equisetum fluviatile") er fjölær jurt af elftingarætt. Hún vex alla jafna í votlendi, skurðum og jafnvel grunnum tjörnum. Jurtin nær 30 til 100 cm hæð en getur þó orðið stærri. Stöngullinn er alsettur liðum og við hvern lið vaxa 5 til 10 mm langar blöðkur en þær eru svartar í endann. Fergin fjölgar sér bæði með renglum og gróum. Gróin þroskast í enda stilksins. Fergin er algengt um nær allt tempraðabelti norðurhvels; um alla Evrasíu suður til Spánar, í norðurhluta Ítalíu, Kákasusfjöllum, Kína, Kóreu og Japan í Asíu. Í Norður-Ameríku er hún heimakomin frá Aleuteyjum að Nýfundnalandi, suður til Oregon, Idaho, norðvesturhluta Montana, norðaustur Wyoming, Vestur-Virginíu og Virginíu. Nýting. Carolus Linnaeus getur þess að hreindýr, sem alla jafna fúlsa við venjulegu grasheyi, éti fergin af bestu lyst. Fergin hafi einnig verið slegið sem fóður fyrir kýr í norður-Svíþjóð en að hross sneiði hjá því. Listi yfir elstu manneskjur í heimi. Þetta er listi yfir elstu manneskjur heims, raðað eftir ævilengd. Royan. Royan er hafnarborg í suð-vesturhluta Frakklands. Fólksfjöldi árið 1999 var 17.102 og heildarflatarmálið borgarinnar er 19,30 km². Íbúar borgarinnar eru kallaðir "Royannais". Elly Vilhjálms - Heyr mína bæn. Elly Vilhjálms - Heyr mína bæn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni syngur Elly Vilhjálms fjórtán dægurlög. Platan er safnplata af áður útgefnum "hit" lögum af 45 snúninga plötum. Skuldatryggingarálag. Skuldatryggingarálag (eða CDS) er álag ofan grunnvexti skuldabréfs sem mælir hvað það kostar fyrir fjárfesta að kaupa vátryggingu gegn því að útgefandi viðkomandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Skuldatryggingarálag er mælikvarði á markaðskjör sem bönkum bjóðast á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum. Ómar Ragnarsson - Syngur fyrir börnin. Ómar Ragnarsson - Syngur fyrir börnin er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni syngur Ómar Ragnarsson þrettán barnalög. Platan er safnplata af áður útgefnum "hit" lögum af 45 snúninga plötum. Súmerska. Súmerska var mál Súmera, fornþjóðar af óþekktum uppruna. Súmerska leið undir lok sem talað mál um 2000 f.Kr. Súmerska hefur fjóra sérhljóða: a, i, u, e en 16 samhljóða: b, d, g, h, k, l, m, n, p, r, s, s*, s°, t, z. Elsta ritheimild mannkyns er á þessu máli. Þessi elsta ritheimild er fleygirúnir á leirtöflum frá 3100 f.Kr. Ekki hefur tekist að sýna fram á skyldleika súmersku við neitt annað tungumál. Kyn kemur ekki fram á nafnorðum. Fleirtala er táknuð með viðskeyti (-me, -hía, -ene) eða mynduð með tvítekningu (til dæmis kur – fjall, kurkur – fjöll). Nafnorð bæta við sig viðskeytum sem samsvara nokkurn veginn klassískri fallbeygingu: -e til að tákna frumlag eða nefnifall, -a eða -ak til að tákna eignarfall, -ra táknar þágufall, -a, -ta sviptifall (ablativus), -da samvistarfall (comitativus) og -sh eða -she til að tákna tímalengd og tilgang. Sagnorð laga sig eftir persónu og tölu. George Carlin. George Denis Patrick Carlin (12. maí 1937 – 22. júní 2008) var bandarískur uppistandari, leikari og rithöfundur. Heimildir. Carlin, George Ýmsir - Lög Jóns Múla Árnasonar. Ýmsir - Lög Jóns Múla Árnasonar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytja ýmsir lög eftir Jón Múla Árnason. Lögin eru flest úr söngleikjum eftir þá bræður Jón Múla og Jónas Árnasyni. Ýmsir - Lögin úr söngleiknum Gretti. Ýmsir - Lögin úr söngleiknum Gretti er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytja ýmsir lögin úr söngleiknum Gretti eftir Egil Ólafsson og Ólaf Hauk Símonarson. Lagalisti. • Broti úr laginu El Paso bætt inn í Trefjar. Trefjar eru flokkur efna þar sem eru samfelldir þræðir eða lengjur sem vafnar eru saman til að mynda lengri þræði eins og í prjónagarni. Trefjar eru mikilvægar í líffræði jurta og dýra, þær halda lífrænum vef saman. Mannkynið notar trefjar á ýmsan hátt, spunnið er úr trefjum, gerð reipi og ýmis efni eru styrkt með trefjum eins og pappír og "filt". Trefjar eru oft notaðar sem hráefni til að framleiða önnur efni. Trefjar úr gerviefnum eru ódýrari í framleiðslu en náttúrulegar trefjar og hægt að framleiða þær í miklu magni. Jurtatrefjar í fæðu. Jurtatrefjar ímat eru lítt meltanleg efni úr plönturíkinu. Flestar trefjar flokkast sem kolvetni en lítil sem engin eða enga orku kemur úr trefjum. Trefjar eru samt mikilvægar heilsu vegna þess að þær hjálpa til við útskilnað úrgangsefna úr meltingarfærum, bera óæskileg efni úr líkamanum og geta þannig dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og krabbameini. Þar að auki geta trefjar dregið úr löngun í mat. Trefjarnar geta verið vatnsleysanlegar og óvatnsleysanlegar. trefjar. Óvatnsleysanlegar trefjar fást að mestu leyti úr grænmeti, korni og hveiti. Gróf brauð og gróft pasta eru rík af trefjum. Neysla slíks matar flýtir fyrir ferð fæðun í gegnum þarma og eykur massa hægða. Vatnsleysanlegar trefjar má finna baunum, linsubaunlinsum, höfrum, byggi, rúgi og ávöxtum. Neysla þeirra tefur fyrir tæmingu magans og hægir á ferð fæðu í gegnum þarma, auk þess að lækka magn kólesteróls í blóði. Vatnsleysanlegar og óvatnsleysanlegar trefjar eiga það sameiginlegt að hægja á niðurbroti sterkju og frásogi glúkósa í blóð svo blóðsykur helst jafnari, auk þess sem þær eru meltar af bakteríum í þörmum. Við það myndast næringarefni sem líkaminn getur nýtt sér. Óvatnsleysanlegar trefjar sjúga í sig vatn og bólgna upp í þörmum. Það auðveldar hreyfingu þarmanna og gerir hana reglulegri. Þannig virka óvatnsleysanlegar trefjar eins og hreinsiefni fyrir þarmana. Talið er að vatnsleysanlegar trefjar geti dregið úr magni kólesteróls í blóði og dregið úr hættu á ýmsum kvillum á borð við sykursýki, hjartasjúkdómum og krabbameini. Vatnsleysanlegar trefjar hægja á upptöku næringarefna úr meltingarvegi. Það leiðir til þess að svengdartilfinning gerir síður vart við sig eftir neyslu trefjaríkrar fæðu. Samkvæmt upplýsingum frá Lýðheilsustöð er meðalneysla trefja á Íslandi langt undir ráðleggingum, ekki síst vegna lítillar neyslu grófs kornmetis, grænmetis og ávaxta. Matvælafyrirtæki hafa í auknum mæli boðið ýmsar vörur með viðbættum trefjum. Ríddu mér. "Baise-moi" (franska: "Ríddu mér") er skáldsaga eftir franska rithöfundinn Virginie Despentes, gefin út árið 1999. Samnefnd kvikmynd byggð á bókinni var frumsýnd árið 2000. Búrfellshraun í Landsveit. Búrfellshraun á Landmannaafrétti er eitt hinna svokölluðu Tungnárhrauna. Þar er þeirra næststærst, aðeins Þjórsárhraunið mikla er stærra. Búrfellshraun kom upp í langri gígaröð norðan Veiðivatna fyrir rúmum 3000 árum. Það þekur miklar víðáttur á Veiðivatnasvæðinu og við Þórisvatn en flæddi einnig niður með Tungná og Þjórsá. Það streymdi niður með Búrfelli en stöðvaðist í ofanverðri Landsveit og myndar þar háa samfellda hraunbrún, Gloppubrún, sem rekja má í boga um þvera sveit frá Skarfanesi og langleiðina að Rangá ofan við Galtalæk. Bæirnir Skarfanes, Ósgröf, Eskiholt, Mörk og Gloppa stóðu neðan undir hraunbrúninni. Hraunið er úr dílabasalti þar sem stórir hvítir feldspatdílar sitja í dökkum grunnmassa. Þjórsárdalshraun, sem flæddi niður Gjána í Þjórsárdal og þakti allan dalbotninn þar neðan við, er af mörgum talið vera hluti Búrfellshrauns aðrir telja það sjálfstætt hraun. Hraunið er 485 km² að flatarmáli og um 6-7 km³ að rúmtaki. Vikurlagið H3 frá Heklu liggur ofan á hrauninu. Það er talið litlu eldra en vikurinn eða um 3200 ára. Heimildir. Eldstöðvar á Íslandi Sigölduhraun. Sigölduhraun (TH-f) er í flokki Tungnárhrauna. Það er að öllum líkindum komið frá gígaröð sem mótar fyrir í Vatnaölduvikrinum um 1 km vestan við Vatnaöldur innri nálægt Veiðivötnum. Það er mjög hulið yngri hraunum og vikri en sést þó hér og hvar á yfirborði og víða í borholum. Það er í botni Sigöldulóns (Krókslóns) og tekur nafn sitt af því. Það sést við Rangárbotna og þar hefur Sölvahraun runnið út á það. Það er í farvegi Þjórsár við Tröllkonuhlaup og myndar norðurbakka árinnar frá ósi Bjarnalækjar og niður fyrir Þjófafoss. Þar sést að gjóskulagið H4 liggur ofan á hrauninu. Tota úr hrauninu sést austan við Rangá og nær allt niður á móts við Galtalækjarskóg. Lengd hraunsins miðað við upptök vestur af Vatnaöldum innri er 65 km, flatarmálið er áætlað 200 km² og rúmmálið um 3,4 km³. Aldurinn er talinn um 6200 ár. Hljóðdvalarbreytingin. Hljóðdvalarbreytingin er helsta breyting sem varð á íslenska sérhljóðakerfinu frá forníslensku til nútímaíslensku. Hún átti sér stað milli 1400 og 1500. Félagsheimili. Félagsheimili er samkomustaður fyrir félaga í tilteknu samfélagi, oft íbúa í byggðalagi. Árið 1981 voru 173 félagsheimili á Íslandi í 134 bæjar- og sveitarfélögum. Elstu félagsheimilin voru hús ungtemplara og ungmennafélaga. Oft eru það samtök ýmissa félaga sem standa að byggingu og rekstri félagsheimila og hafa aðstöðu þar. Félagsheimilasjóður styrkir byggingu félagsheimila. Jackie Chan. Jackie Chan (fæddur 7. apríl 1954), raunverulegt nafn Chan Kong Sang, er kínverskur leikari, söngvari, áhættuleikari, handritshöfundur og leikstjóri. Hann er best þekktur fyrir áhættuleik sinn þar sem hann er meistari í kung fu. Æska. Chan fæddist í Hong Kong. Foreldrar hans heita Charles og Lee-Lee Chan. Chan fór í leiklistarskóla mjög ungur. Þegar hann var átta ára lék hann í sinni fyrstu mynd "Big and Little Wong Tin Bar" árið 1962. Persónulegt líf. Chan er giftur Ling-Feng Jiao. Þau eiga einn son Jaycee Chan. Kvikmyndaferill. Chan hefur leikið í meira en 100 myndum. Þegar hann var ungur (1976-1987) lék hann í myndum eins og Drunken Master, New Fist Of Fury, Half Of Loaf Of Kung Fu, Fearless Hyena, Armour Of God, The Cannonball Run og Lukcy Stars. Hann hefur hlotið heimsfrægð fyrir myndir eins og Police Story 1,2,3,4, Rush Hour, 1,2,3, Shanghai Noon og The Forbidden Kingdom. Hann er höfundur teiknimyndaþáttana Jackie Chan Adventures. Kvikmyndir í vinnslu. Chan, Jackie Stafrétti. Stafrétti er þegar ekki er munur á rituðu máli og framburði. Esperanto er dæmi um mál sem er að fullu stafrétt. Í frönsku má stundum finna þrjá aukalega stafi í enda orðs sem ekki eru bornir fram. Hálíngresi. Hálíngresi (fræðiheiti: "Agrostis capillaris" eða "A. tenuis" Sibth.) er puntgras af ættkvísl língresis; upphaflega frá Evrasíu. Það verður 20 til 60 sentimetrar á hæð með 2 til 4 millimetra breið blöð. Hálíngresi er algengt í gömlum túnum og beitilandi. Óspaksstaðir. Óspaksstaðir er innsti bær í Hrútafirði sem er enn í byggð. Bærinn er austan Hrútafjarðarár og því í Húnaþingi vestra. Nokkur eyðibýli voru innar t.d. Grænumýrartunga sem brann árið 2003, sem er vestan Hrútafjarðarár og því í Strandasýslu. Enn sunnar var sel frá Óspaksstöðum sem hét Óspaksstaðasel. Heilsuverndarstöðin ehf. Heilsuverndarstöðin ehf er einkarekin heilbrigðisþjónusta í Reykjavík. Uppruni fyrirtækisins er frá fyrirtækinu InPro sem keypti árið 2005 fyrirtækið Heilsuvernd. Í júní 2006 sameinuðust fyrirtækin Inpro og Liðsinni ehf en það fyrirtæki rak einkarekna umönnunar- og hjúkrunarþjónustu og upplýsingavef um heilbrigðismál doktor.is. InPro sameinaðist fyrirtækinu MEDICA árið 2007 og flutti í hús gömlu Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík við Barónstíg og var nafni fyrirtækisins þá breytt í Heilsuverndarstöðin ehf. Driver 2. "Driver 2: The Wheelman is Back" (seldur sem "Driver 2: Back on the Streets" í Evrópu) er tölvuleikur á PlayStation sem var gefinn út árið 2000. Í leiknum fer spilarinn í spor Tanners sem er leynilögregla. Í Driver 2 eru fjórar borgir, en það eru: Chicago, Havana, Las Vegas og Rio de Janeiro. Í Driver 2 er einnig hægt að fara útúr bílnum og stela öðrum sem var ekki hægt í Driver Sogæðakerfið. Sogæðakerfið vessakerfið eða eitlakerfið er eitlar á hálsi, í handarkrikum og nára og inni í brjóstholi og kviðarholi, milta og sogæðar sem tengja eitlastöðvar saman. Eitilvefur er einnig í maga og görnum, lifur, beinmerg og húð. Sogæðar eða vessaæðar eru grannar rásir sem mynda séstakt æðakerfi um allan líkamann. Vessaæðar eru um allan líkamann nema í æðavef, í miðtaugakerfi og rauðum beinmerg.Á vessaæðum eru eitlar með reglulegu millibili. Eitlarnir sía vessann og fjarlægja úr honum óhreinindi. Hlutverk vessakerfisins er þríþætt, í fyrsta lagi að safna umfram millifrumuvökva í vefjum og koma honum og prótínum aftur inn í blóðrás, í öðru lagi taka vessaæðar þarmanna við fituefnum og koma þeim í blóðrásina og í þriðja lagi verja eitlar líkamann fyrir framandi ögnum. Vessaæðar eru lokaðar í anna endann. Upptök þeirra eru í þeim vefjum þar sem vessi myndast og vessinn bert svo burtu með fínum vessaæðum í stærri æðar og sameinast svo í tvær stórar æðar. Önnur þeirra nefnist hægri vessagangur og tekur við vessa frá efri hluta hægri hluta líkamans. Hin nefnist brjóstgangur og tekur við vessa frá öllum neðri hluta líkamans og frá efri hluta vinstra hluta líkamans. Úr stóru vessaæðunum fer vessinn út í blóðrásina. Ef vessi kemst ekki aftur út í blóðrás þá safnast hann fyrir í vefjum og verður að bjúgi. Eitill. Eitlar eru sporöskju- eða baunalaga hnúðar á vessaæðum líkamans og koma oft fyrir í þyrpingum meðfram þeim. Eitlar sía og hreinsa vessa sem berst frá vessaæðum inn í eitlana af framandi efnum. Þessi síun gerist með þrennum hætti. Framandi efni eru gleypt af átfrumum, T-eitilfrumur seyta efni sem drepur örverur og plasmafrumur sem myndast úr B-eitilfrumum mynda mótefni. Þessar frumugerðir eru mismundi gerðir af hvítkornum. B- og T-frumur geta farið úr eitlum og borist með vessa um allan líkamann. Joey Tribbiani. Joseph Francis Tribbiani Jr. (fæddur 9. janúar 1968 í Queens í New York) er persóna í þáttunum "Friends" sem leikin er af Matt LeBlanc. Hann á sjö systur (Gina, Dina, Mary Angela, Mary Therese, Veronica, Cocckie og Tina). Foreldrar hans heita Gloria og Joseph. Joey er leikari og fyrsta stórhlutverk hans var sjónvarpsserían "Days Of Our Lives". Hann hefur líka leikið í auglýsingum, leikritum og bíómyndum. Joey hefur verið með mörgum konum en Alex Garret var sú síðasta sem hann sást með. Eftir að "Friends" hætti fékk hann sinn eigin þátt "Joey". Upplyfting - Endurfundir. Upplyfting - Endurfundir er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytur hljómsveitin Upplyfting nokkur lög. Þeir sem koma fram á plötunni eru: Magnús Stefánsson söngur og raddir. Sigurður V. Dagbjartsson, gítarar, söngur, raddir og banjó. Kristján Óskarsson, hljómborð. Þorleifur Jóhannsson, trommur og slagverk. Kristján B. Snorrason, söngur og raddir. Haukur Ingibergsson, söngur og raddir. Sigurður Egilsson, bassi. Jónas Þórðarson, bassi. Jóhann G. Jóhannsson, raddir og hljómstjórn (producer). Eðvarð Marx, gyðinga-harpa. Jóhann G. Jóhannsson og Upplyfting sáu um útsetningar. Hljóðritun fór fram í Hljóðrita h.f. í apríl og maí 1981, tæknimaður: Eðvarð Marx. Hönnun plötuumslags: Brian Pilkington. Ljósmyndir: Valdís Óskarsdóttir. Filmuvinna og prentun: Prisma Hafnarfirði. Rush Hour. "Rush Hour" er grín- og hasarmynd frá árinu 1998. Myndinni leikstýrði Brett Ratner. Framhald myndarinnar eru kvikmyndirnar "Rush Hour 2", "Rush Hour 3" og "Rush Hour 4". Myndin er 97 mínútur. Myndin fjallar um Lee, löggu frá Hong Kong, og Carter, löggu frá Los Angeles. Þegar dóttir kínversk þingmans er rænt í L.A. er sent eftir Lee, hæfustu löggu í Hong Kong. Því miður fær hann félagann Carter sem er bæði sjálfselskur og eigingjarn. Saman elta þeir uppi ræningjana. Kvæðamannafélag Hafnarfjarðar - Geymd. Kvæðamannafélag Hafnarfjarðar - Geymd er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytur Kvæðamannafélag Hafnarfjarðar rímur. Upptaka: Hljóðriti hf. Hönnun umslags: Haukur Sigtryggsson. Litgreining og prentun: Prisma Hafnarfirði. Rush Hour 2. "Rush Hour 2" er grín- og hasarmynd frá árinu 2001. Leikstjóri myndarinnar var Brett Ratner. Myndin er framhald kvikmyndarinnar "Rush Hour" og undanfari myndanna "Rush Hour 3" og "Rush Hour 4". Myndin er 90 mínútur. Í myndinni leita þeir Lee og Carter uppi peningafalsara í Hong Kong. Úr verður mikill eltingaleikur. Rush Hour 3. "Rush Hour 3" er grín- og hasarmynd frá árinu 2007. Brett Ratner leikstýrði myndinni. Myndin er 91 mínútur og er framhald af kvikmyndunum "Rush Hour" og "Rush Hour 2". Myndin fjallar um löggurnar Lee og Carter. Þegar reynt er að drepa þingmanninn Han elta þeir morðingjan til Frakklands. Þar hitta þeir Kenji, sem er höfuðpaur glæpagengis. Þeir byrja að leyta að Shy Shen sem er listi yfir fleiri höfuðpaura. Þeir hitta Geneviève. Shy Shen listin er húðflúraður aftan á henni. En þegar þeir finna það út komast þeir að svikara og verða að berjast við Kenji á endanum. Jökulsárgljúfur. Jökulsárgljúfur Jökulsárgljúfur eru árgljúfur á Íslandi, um 25 km löng, ½ km á breidd víða um eða yfir 100 metra djúp. Jökulsárgljúfur var sérstakur þjóðgarður en við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 8. júní 2008 varð Jökulsárgljúfur hluti hans. Hr. Bean. Hr. Bean eða Mr. Bean er persóna úr þáttunum Mr. Bean. Hann er leikinn af Rowan Atkinson sem bjó persónuna einnig til. Hann kom fyrst fram í janúar 1990 á stöð 1 í Englandi. Mr. Bean hefur unnið ein "Golden Rose", ein "Tidleg Sædavgang" og tvenn verðlaun á "Rose d'Or Light Entertainment Festival". Þættir. Það voru líka nokkur atriði sem voru ekki sýnd. Þau eru" Mr. Beans Diary", "The Library, The Bus Stop, Blind Date", "Torvill And Mr. Bean", "Mr. Bean's Red Nose Day", "Mr. Bean on The National Lottery" og "Mr. Bean's Wedding". Hann kom líka fram í tveimur tónlistarmyndböndum "(I Want To Be) Elected" og "Picture Of You". Síðan kom hann fram í fyrsta þættinum af "Dame Edna Treatment." Persónuleiki. Mr. Bean er heimskur, eigingjarn og hefur oft verið lýst sem apa. Hann er alltaf í sama jakkanum og með litið rautt bindi. Það er aldrei sagt fyrsta nafn hans eða starf. Hann er mjög sérstakur og hefur mistekist í flestum þrautum lífsins. Teddy og Mini. Besti og örugglega eini vinur hans er Teddy eða Bangsi, sem er bangsinn hans. Teddy kom fram í flestum þáttum sem og bíllinn hans. Bíllinn er "1970 MK IV British Leyland Mini 1000". Í fyrsta þættinum kom bíllin fyrst fram, en þá var hann rauður. Í hinum þrettán var hann gulur. Aðrar persónur. Irma Gobb kom fram í nokkrum þáttum sem kærasta Mr. Bean's. Samt lét hann eins og hún væri bara félagi heldur en kærasta. síðan er það Hubert og Rubert en annars hefur hann ekki hafið samband við annað fólk. Það er líka blár bíll sem er alltaf að lenda í allskonar slysum. Kvikmyndir. Það hafa verið gerðar tvær myndir með Mr. Bean. Sú fyrsta var "Bean" eða "Bean: The Ultimate Disaster Movie" var gerð árið 1997. Í henni varð Mr. Bean sendur til Los Angeles. Því miður halda allir þar að hann sé listasnillingur. Úr því verður stórskemmtilegur söguðráður þar sem margar skrautlegar persónur. Sú seinni er "Mr. Bean's Holiday" árið 2005. Í henni vinnur Hann ferð til Frakklands. En á leiðini gerist mikið. Hann missir af lestini, lendir í gervi-orustu og hjálpar tíndum stráki að finna pabba sinn. Teiknimynd. Það eru líka til teiknimyndaþættir með Mr.Bean. Þar eru ævintýrinn öðruvísi en samt byggð af sama grunni. Atkinson talar fyrir Mr. Bean og svo eru aðrar persónur sem eru til staðar eins og Mrs. Wicket, Irma Gobb og Scrapper. Bækur. Það hafa tvær bækur verið gerðar tvær bækur um Mr. Bean. "Mr. Bean's Diary" árið 1992 0g "Mr. Bean's Pocket Diary" árið 1994. Landfræðingur. Landfræðingur er það starfsheiti sem maður sem hefur lokið háskólanámi í landfræði hlýtur. Íslenskar þjóðsögur. "Íslenskar Þjóðsögur I" og "II" eru hljóðdiskar byggðir á bókinni "Þjóðsögur við þjóðveginn" eftir Jón R. Hjálmarsson. Diskarnir innihalda íslenskar þjóðsögur tengda við staði á Íslandi og er þeim raðað upp á geisladiskana í þeirri röð sem þeir eru við hringveginn. Þeir sem keyra hringinn geta því hlustað á þjóðsögur tengdar hverjum stað fyrir sig í réttri röð. "Íslenskar þjóðsögur I" inniheldur sögur frá Reykjanesi að Egilsstöðum (norðurleið) en "Íslenskar þjóðsögur II" inniheldur sögur frá Egilstöðum að Reykjanesi (suðurleið). Varðeldakórinn - Skátasöngvar. Varðeldakórinn - Skátasöngvar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni syngur Varðeldakórinn 25 vinsæla skátasöngva. Útsetningar, söng og hljómsveitarstjórn Ólafur Gaukur. Einnig sá hann um tónlistarlegu hlið hljóðritunarinnar og hljóðblöndun ásamt Sigurði Rúnari Jónssyni sem annaðist hljóðritun í Studio Stemmu. Graham Smith - Með töfraboga. Graham Smith - Með töfraboga er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni leikur Graham Smith þekkt dægurlög. Ólafur Gaukur útsetti alla tónlistina, stjórnaði hljóðfæraleik og hafði yfirumsjón með hljóðritun (producer). Graham Smith leikur á fiðlu, sem einleikari í öllum lögunum. Aðrir hljóðfæraleikarar í öllum lögum eru Pétur Hjaltested á píanó, Tryggvi Húbner á gítar, Pálmi Gunnarsson á bassa og Sigurður Karlsson á trommur. Aðrir hljóðfæraleikarar í einstaka lögum eru Kristinn Svavarsson á altó- og tenór saxófón, Eyþór Gunnarsson á rafmagnspíanó, Bernard Wilkinson á flautu, Viðar Alfreðsson á horn og trompetta og Reynir Sigurðsson á marimba. Strengjasveitina skipa: Anna Rögnvaldsdóttir, Claudia Hoehje, Graham Smith, Herdís Gröndal, Hrönn Geirlaugsdóttir og Sólrún Garðarsdóttir á fiðlur. Ágústa Jónsdóttir og Ásdís H. Runólfsdóttir víólur. Guðrún Th. Sigurðardóttir og Ólöf S. Óskarsdóttir selló. Hljóðritun fór fram í Hljóðrita hf. Tæknimaður: Gunnar Smári. Hljóðblöndun: Ólafur Gaukur og Gunnar Smári. Umslag: Brian Pilkington. Ljósmynd á umslagi: Finnur Fróðason. Litgreining og Prentun: Prisma, Hafnarfirði. Friðryk - Friðryk. Friðryk - Friðryk er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytur hljómsveitin Friðryk nokkur lög. Hljóðritun fór fram í Hljóðrita undir stjórn Friðryks, tæknimaður: Gunnar Smári, Lögin Lóndrangadjamn og Trommuskiptajöfnuður voru hljóðrituð að Búðum, Snæfellsnesi sumarið 1981. Ljósmyndir og hönnun umslags: Pjetur Stefánsson. Litgreining og prentun: Prisma, Hafnarfirði. Merking. Merking er það sem tengir merkingarbera við það sem hann á við eða tjáir. Merking er viðfangsefni bæði málvísinda, merkingarfræði og málspeki eða heimspeki tungumáls. Merkingarberi. Merkingarberi er sú eining sem er merkingarbær, það er að segja það sem getur haft merkingu. Oftast eru orð talin merkingarbær en í málvísindum er gjarnan litið á orðshluta sem merkingarbærar einingar og er þá minnsta merkingarbæra einingin nefnd morfem (myndan). Í málspeki er á hinn bóginn stundum litið svo á að einungis setningar sem tjá heildstæða hugsun séu merkingarbærar og að orð séu ekki merkingarbær nema þegar þau eru notuð. Skilningur og tilvísun. Ein áhrifamesta kenning málspekinnar um merkingu er sú hugmynd Gottlobs Frege að merking sé tvíþætt og felist í tilvísun annars vegar og skilningi hins vegar (á þýsku „Bedeutung“ og „Sinn“). Með tilvísun er átt við það sem orð (eða heil setning) vísar til. Tilvísun orðsins „Morgunstjarnan“ er því reikistjarnan Venus, þ.e. sjálf reikistjarnan sem átt er við. Með skilningi er átt við inntak orðsins. Skilningur orðsins „Morgunstjarnan“ gæti því verið „skærasta stjarnan á himninum fyrir sólarupprás“. Með þessum greinarmuni taldi Frege að honum tækist að útskýra hvernig fullyrðing á borð við „Morgunstjarnan er Kvöldstjarnan“ gæti verið upplýsandi; ef merking væri einungis fólgin í tilvísuninni væri fullyrðingin ekki upplýsandi því þá jafngilti hún því að segja „Venus er Venus“. Frege og Bertrand Russell héldu fram svokallaðri lýsingarhyggju til að útskýra í hverju tilvísunin fælist. Þeir töldu að tilvísunin væri fólgin í lýsingu sem mælandinn hefði í huga. Þannig væri tilvísunin til Aristótelesar þegar maður nefnir hann fólgin í einhverri lýsingu á Aristótelesi sem maður hefði í huga, t.d. „nemandi Platons og kennari Alexanders mikla“. Frege setti kenningu sína fram í greininni „Über Sinn und Bedeutung“ („Skilningur og tilvísun“) árið 1892. Greinarmuni hans svipar til en er ekki nákvæmlega sá sami og greinarmunur Johns Stuarts Mill á tilvísun og aukamerkingu (á ensku „denotation“ og „connotation“). Russell setti fyrst fram lýsingarhyggjuna í grein sinni „Um tilvísun“ (á ensku „On Denoting“) sem birtist fyrst árið 1905 í tímaritinu "Mind". Lýsingarhyggjan varð fyrir alvarlegri gagnrýni snemma á 8. áratug 20. aldar, einkum frá Hilary Putnam og Saul Kripke og hafa vinsældir kenningarinnar dalað síðan þá enda þótt hún eigi sér enn málsvara, einkum John Searle. Merking og notkun. Önnur nálgun sem kom fram um miðja 20. öld gekk út frá því að merking orðs væri fólgin í notkun þess. Þessa nálgun má rekja til Ludwigs Wittgenstein í riti sínu "Rannsóknir í heimspeki" sem kom út að honum látnum árið 1953. Kenning Wittgensteins á sér marga málsvara í heimspeki samtímans en hafði einnig gríðarleg áhrif á marga hugsuði, svo sem P.F. Strawson, H.P. Grice, J.L. Austin og mannamálsheimspekina í Oxford. Sannkjör, sannleikur og merking. Á síðasta þriðjungi 20. aldar setti bandaríski heimspekingurinn Donald Davidson fram áhrifamikla kenningu um merkingu sem byggði á kenningu pólska rökfræðingsins Alfreds Tarski um sannleika. Kenning af því tagi sem Davidson hefur haldið fram er nefnd sannkjarakenning um merkingu. Samkvæmt sannkjarakenningu um merkingu er merking staðhæfinga fólgin í sannkjörum þeirra en sannkjörin eru þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að staðhæfing geti talist sönn. Samkvæmt þessu skilur maður staðhæfingu ef og aðeins ef maður veit hvernig heimurinn þyrfti að vera til þess að hún gæti talist sönn. Maður skilur til dæmis setninguna „Ísland er í Asíu“ og veit þar af leiðandi hver merking hennar er ef og aðeins ef hann áttar sig á sannkjörum fullyrðingarinnar, það er að segja áttar sig á því hvernig heimurinn væri ef hún væri sönn. Á hliðstæðan máta má segja að maður skilji spurningu og skipun ef og aðeins ef maður veit hvaða upplýsingar þyrftu að koma fram til að svara spurningunni og hvað þyrfti að gera til þess að hlýða skipuninni. Davidson birti greinina „Truth and Meaning“ árið 1967 þar sem hann færði rök fyrir því að það yrði að vera hægt að lýsa reglum allra tungumála sem hægt er að læra með endanlegri lýsingu, enda þótt á tungumálinu væri hægt að mynda óendanlegan fjölda setninga — eins og gera má ráð fyrir að náttúruleg tungumál séu. Ef ekki væri hægt að lýsa reglum málsins í endanlegri lýsingu, þá væri ekki hægt að læra málið af reynslunni (sem er endanleg) líkt og menn læra tungumál sín. Af þessu leiðir að það hlýtur að vera mögulegt að setja fram merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál sem getur lýst merkingu óendanlegs fjölda setninga á grundvelli endanlegs fjölda frumsendna. Davidson fylgdi í kjölfar Rudolfs Carnap og annarra og færði einnig rök fyrir því að merking setningar væri fólgin í sannkjörum hennar og greiddi þannig götu sannkjarakenninga í merkingarfræði nútímans. Í stuttu máli lagði hann til að það hlyti að vera mögulegt að greina endanlegan fjölda málfræðireglna í tungumáli og útskýra hvernig hver og ein þeirra virkar þannig að mynda mætti augljóslega sannar fullyrðingar um sannkjör allra þeirra óendanlega mörgu setninga sem hafa sannkjör. Það er að segja, það verður að vera hægt að gefa endanlega kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál; prófsteinninn á það hvort kenningin er rétt er sá hvort hún getur myndað allar setningar á forminu „'p' er sönn ef og aðeins ef p“ (t.d. „'Snjór er hvítur' ef og aðeins ef snjór er hvítur“). (Þessar setningar nefnast T-jafngildi en Davidson fær hugmyndina að láni frá Alfred Tarski.) Davidson setti kenninguna fyrst fram í John Locke-fyrirlestrunum sem hann flutti í Oxford og í kjölfarið reyndu fjölmargir heimspekingar að þróa davidsonskar kenningar í merkingarfræði fyrir náttúruleg tungumál. Davidson lagði margt fram til slíkrar kenningar í ritgerðum um tilvitnanir, óbeinar ræður og lýsingar á athöfnum. Rökhyggja. Rökhyggja er það viðhorf í þekkingarfræði sem leggur áherslu á hlutverk skynseminnar í öflun þekkingar. Rökhyggja var einkum fyrirferðamikil í heimspeki 17. og 18. aldar. Helstu málsvarar rökhyggjunnar voru heimspekingarnir René Descartes, Benedikt Spinoza og Gottfried Wilhelm Leibniz en einnig Antoine Arnauld, Marin Mersenne, Blaise Pascal, Nicholas Malebranche og Christian Wolff. Rökhyggjan hafði einnig umtalsverð áhrif á heimspeki þýska heimspekingsin Immanuels Kant. Midnight Club 2. Það er hægt að keyra á mörgum tegundum bíla og mótorhjóla.Bílarnir skemmast ef keyrt er á hús eða aðra hluti.Á endanum springur bíllinn ef skemmdarmælirinn fyllist. KR-útvarpið. KR-útvarpið er útvarp Knattspyrnufélags Reykjavíkur og hefur það verið starfrækt frá árinu 1999. KR-útvarpið hefur frá árinu 1999 sent beint frá öllum deildar-, bikar- og evrópuleikjum meistaraflokks karla í knattspyrnu, auk þess sem stundum hafa verið sendir út annálar og frá dráttum í evrópukeppnum. Á KR-útvarpinu hafa margir þekktir fjölmiðlamenn starfað og starfa margir enn. Útvarpið er á sínu 15. starfsári í ár. Saga. KR-heimilið, heimaleikjum er lýst úr gluggum (hægra megin) á 2. hæð Það voru þeir Höskuldur Þór Höskuldsson, Sigurjón M. Egilsson og Daníel M. Guðlaugsson þáverandi formaður KR-klúbbsins sem ræddu fyrstir um það hvernig hægt væri að gera starfsemi KR-klúbbsins enn öflugari og kviknaði þar hugmyndin um útvarps útsendingar. Sigurjón leiddi útvarpsmálið fyrst um sinn og náði samningum við Halldór Árna í Almiðlun um að senda út KR-útvarpið. Útvarpsleyfi fékkst síðan nokkrum dögum fyrir mót. Strax var hafist handa við að finna fleiri fjölmiðlamenn innan KR sem gætu komið og lýst leikjum fyrir útvarpið og voru þeir Bogi Ágústsson, Haukur Hólm og Þröstur Emilsson fengnir, auk þess sem að Kristinn Kjærnested og Pétur Pétursson lýstu nokkrum leikjum. Fyrsta útsending KR-útvarpsins, sem þá var á tíðninni 104,5 (MHz), var laugardaginn 15. maí 1999, sent var út frá Rauða Ljóninu á Eiðstorgi. Það var tilrauna útsending og heppnaðist hún mjög vel. Þriðjudaginn þann 18. maí var síðan fyrsti leikur KR á Íslandsmótinu 1999, leikurinn var gegn ÍA og endaði 1-0 fyrir KR. Höskuldur Þór Höskuldsson var snemma í júní skipaður útvarpsstjóri, en mikil ánægja var með starfsemi útvarpsins. Seinnihluta sumars náðust síðan samningar við Margmiðlun um að senda KR-útvarpið út á netinu. KR-ingar út um allan heim gátu nú hlustað á útsendingar frá leikjum KR. Netheimur sér núna um útsendingu KR-útvarpsins á netinu. Ásamt því að hafa ferðast til Akureyrar, Vestmannaeyja og Ólafsfjarðar hefur KR-útvarpið einnig fylgt meistaraflokki KR til Albaníu, Armeníu, Svíþjóðar, Danmerkur, Írlands, Grikklands, Slóvakíu, Færeyja, Úkraínu, Norður-Írlands, Sviss og Möltu til að lýsa leikjum KR í Meistaradeild Evrópu eða UEFA Bikarnum. KR-útvarpið hefur núna verið sent út 396 sinnum frá árinu 1999. Sendir KR-útvarpsins er staðsettur í Hafnarfirði og nást útsendingar þess á stórhöfuðborgarsvæðinu og Akranesi. Katla María - Litli Mexíkaninn. Katla María - Litli Mexíkaninn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni syngur Katla María barnalög. Ólafur Gaukur útsetti öll lögin á þessari plötu og stjórnaði hljómsveitarundireik og hafði einnig yfirumsjón með hljóðritun og hljóðblöndun. Eftirfarandi hljóðfæraleikarar koma við sögu í öllum lögunum: Pétur Hjatested, Hljómborð; Tryggvi Húbner, gítar; Sigurður Karlsson trommur og slagverk og Pálmi Gunnarsson, bassi. Strengjasveit undir forystu Graham Smith leikur í níu lögum. Fiðlur: Graham Smith, Júlíana Elín Kjartansdóttir, Michael Shelton, Ágústa Jónsdóttir, Anna Rögnvaldsdóttir og Sólrún Garðarsdóttir. Víólur: Helga Þorsteinsdóttir og Stephen King. Selló: Josep Breines og Isidor Weiser. Í einstaka lögum leika þeir Viðar Alfreðsson, trompet; Bernard Wilkinsson, flauta; Kristinn Svavarsson, altó-saxófónn; Kristján Stephensen, óbó; Hafsteinn Guðmundsson, fagott; Björn R. Einarsson, trombón og Árni Elvar, trombón. Hljóðritun fór fram hjá Hljóðrita hf. Tæknimenn: Tony Cook og Gunnar Smári. Ljósmyndir: Pjétur Stefánsson. Litgreining og prentun: Prisma, Hafnarfirði. Ómar Ragnarsson - Skemmtilegustu lög Gáttaþefs. Ómar Ragnarsson - Skemmtilegustu lög Gáttaþefs er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Magnús Ingimarsson útsetti og stjórnaði hljóðfæraleik í lögum 2, 3, 4, 5, 6, 7 og 8 á A-hlið og 1, 3, 4, 7 og 8 á B-hlið. Jón Sigurðsson útsetti og stjórnaði undirleik í lögum 1 og 9 á A-hlið og 2, 5 og 6 á B-hlið. Telpur úr Álftamýrarskóla syngja með í lögum 1, 3, 4, 5, 6 og 9 á A-nliö og 2, 3, 4, 5, 6 og 8 á B-hlið. Telpur úr Langholtsskóla syngja með í lögum 2, 7 og 8 á A-hlið og 1 og 7 á B-hlið. Ljósm: Finnur Fróðason. Hönnun umslags: Brian Pilkington. Filmuvinna og prentun: Prisma. Karlakór Reykjavíkur - Úrvals kórlög. Karlakór Reykjavíkur - Úrvals kórlög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytur Karlakór Reykjavíkur úrvals kórlög. Hljóðritun: Pétur Steingrímsson. Ljósm: Ljósmyndastofa Þóris. Litgreining og prentun: Prisma, Hafnarfirði Guðmundur Jónsson - Einsöngslög og óperuaríur. Guðmundur Jónsson - Einsöngslög og óperuaríur er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni syngur Guðmundur Jónsson einsöngslög og óperuaríur. Upplyfting - Í sumarskapi. Upplyfting - Í sumarskapi er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni flytur hljómsveitin Upplyfting nokkur lög. Upplyfting er skipuð Hauki Ingibergssyni, Kristjáni B. Snorrasyni, Sigurði V. Dagbjartssyni og Þorleifi Jóhannssyni. Þeir Gunnar Þórðarson, Kristján B. Óskarsson, Kristinn Svavarsson og Eypór Gunnarsson sjá um viðbótar hljóðfæraleik. Fyrri félagi í Upplyftingu, Magnús Stefánsson, syngur lagið Ég sakna þín og í syrpunni í sumarskapi. Kristín Jóhannsdóttir syngur í laginu Ég kem til að kveðja. Gunnar Þórðarson sá um útsetningar, tónstjórn (production). Og þá einnig hljóðblöndun ásamt tæknimönnum við hljóðritun, sem eru Sigurður Bjóla og Tony Cook í Hljóðrita hf. Hönnun umslags: SG. Ljósmynd: Studio 28. Aðstoð varðandi myndatöku: Modelsamtökin og Þórscafé. Setning, litgreining og prentun: Prisma. Tilraunaheimspeki. Tilraunaheimspeki er aðferðafræði í heimspeki sem styðst að einhverju leyti við tilraunir og athuganir, m.a. skoðanakannanir. Tilraunaheimspeki er nýleg aðferð í heimspeki sem hefur að mestu leyti orðið til á 21. öldinni. Tilraunaheimspekin er undir óbeinum áhrifum frá kenningum bandaríska heimspekingsins W.V.O. Quine. Nokkur ágreininigur er um hvert framlag tilraunaheimspekinnar gæti verið. Sumir telja að tilraunaheimspekin sé á endanum vart annað en hugtakagreining sem tekur mið af megindlegum rannsóknum. Meðal heimspekinga sem hafa fengist við tilraunaheimspeki má nefna Stephen Stich, Shaun Nichols og Brian Weatherson. Þverstæða. Þverstæða eða þversögn er þegar fullyrðing eða fullyrðingar sem virðast vera augljóslega sannar leiða til mótsagnar eða fráleitrar niðurstöðu. Einnig mætti orða það þannig að þverstæða sé fullyrðing sem virðist við fyrstu sýn vera ósönn eða bersýnileg firra en virðist engu að síður leiða af sönnum forsendum. Venjulega er þó annaðhvort um rökvillu að ræða, það er að segja eitthvert skref í röksemdafærslunni er óleyfilegt, eða einhver af forsendunum er þegar öllu er á botninn hvolft ekki sönn. Dæmi um þverstæður eru þverstæður Zenons, þverstæðan um lygarann og þverstæða Russells. Knattspyrnufélagið Víðir. Knattspyrnufélagið Víðir er íslenskt knattspyrnufélag frá Garði á Suðurnesjum. Félagið var stofnað 11. maí 1936. Víðir leikur í bláum búningum og spilar heimaleiki sína á Garðsvelli. Meistaraflokkur karla leikur eins og er í 3. deild. Besti árangur Víðis í deildakeppni er 7. sæti í efstu deild karla árið 1986, en félagið lék í efstu deild frá 1985-1987 og aftur 1991. Víðir lék til úrslita í Bikarkeppni KSÍ árið 1987 á Laugardalsvelli en tapaði gegn Fram. Núverandi þjálfari Víðis er Gísli Eyjólfsson. Víðir varð árið 2008 fyrst íslenskra liða til þess að taka þátt í Evrópukeppninni í Futsal. Liðið vann sér inn þátttökurétt á mótinu eftir að hafa spilað til úrslita gegn Val um íslandsmeistaratitilinn í innanhúsknattspyrnu. Valur vann leikinn og hlaut þar með þátttökuréttinn en gat ekki tekið þátt og því féll það í skaut Víðis að fara á mótið fyrir Íslands hönd. Ýmislegt. Víðir Listi yfir elstu manneskjur á Íslandi. Þetta er listi yfir elstu manneskjur Íslands (yfir 105 ár), raðað eftir ævilengd. Norðurárdalur (Skagafirði). Séð inn eftir Norðurárdal af brúnni yfir Norðurá. Norðurárdalur er dalur í austanverðum Skagafirði og tilheyrir Akrahreppi en mörkin milli Blönduhlíðar og Norðurárdals eru um Bóluá. Um dalinn liggur Þjóðvegur 1 upp á Öxnadalsheiði. Dalurinn liggur fyrst til austsuðausturs en sveigir fljótlega til norðausturs. Norðurhlíð hans frá Bólugili kallast fyrst Silfrastaðafjall en síðan tekur Kotaheiði við og nær fram að Valagilsá. Þar tekur Silfrastaðaafrétt við. Hann tilheyrði áður Silfrastöðum en er nú eign hreppsins. Sunnan dalsins er Krókárgerðisfjall og síðan Borgargerðisfjall og fremst Virkishnjúkur. Vestan við Virkishnjúk gengur inn djúpur þverdalur og kallast norðurhlíð hans Egilsdalur en suðurhlíðin Tungudalur og er þá komið yfir á Kjálka. Nokkurt undirlendi er í dalnum, þó minnst um miðbik hans, og þar fellur Norðurá um víðáttumiklar eyrar og hefur flæmst víða um þær í áranna rás. Í hana falla ýmsar þverár, þar á meðal Kotaá, Valagilsá, Króká og Egilsá. Sumar ánna gátu verið miklir farartálmar áður en þær voru brúaðar, einkum þó Valagilsá. Dalurinn er veðursæll og víða ágætlega gróinn og nú er hafin mikil skógrækt í Silfrastaðafjalli. Þar hafa á síðustu árum verið gróðursettar yfir milljón trjáplöntur. Mikil skriðuföll urðu í Norðurárdal 6. júlí 1954 eftir stórrigningar sem gengið höfðu yfir sólarhringinn á undan og ollu þau miklum skemmdum, einkum á Fremri-Kotum, þar sem skriða staðnæmdist rétt ofan við íbúðarhúsið, en einnig á Ytri-Kotum, sem þá voru farin í eyði. Lengst af voru 7 bæir í byggð í Norðurárdal en aðeins þrír eru eftir, Fremri-Kot, Egilsá og Silfrastaðir. Egilsá fór í eyði 2009 en var aftur komin í byggð 2010. Þar var lengi rekið sumardvalarheimili fyrir börn og síðar skólaheimili fyrir seinfæra og þroskahefta unglinga. Normannar. Normannar er nafn notað um íbúa Normandí á miðöldum. Norrænir menn, einkum frá Noregi og Danmörku, tóku sér þar bólfestu á 9. öld undir forystu Göngu-Hrólfs, og urðu þar yfirstétt. Þeir tóku að miklu leyti upp tungu heimamanna, en samt voru talsverð áhrif norrænnar tungu í máli þeirra og örnefnum. Normannar urðu herraþjóð á Englandi eftir innrás Vilhjálms bastarðar 1066, en eftir sigurinn var hann kallaður Vilhjálmur sigursæli. Þaralátursfjörður. Þaralátursfjörður er stuttur og lítill fjörður á austanverðum Hornströndum, milli Furufjarðar og Reykjafjarðar. Einn bær var í dalnum og er í eyði Utarlega í Þaralátursfirði er sérkennilegt kennileiti er hefur nafnið Kanna. Til austurs er Reykjafjörður sem er vinsæll upphafs og áningastaður þeirra er ganga um Hornstrandir. Skoðanakönnun. Skoðanakönnun er könnun á almenningsáliti með notkun úrtaks. Skoðanakannanir geta snúist um allt milli himins og jarðar: stuðning við stjórnmálaflokka, smekk á matvöru eða afstöðu til fóstureyðinga svo nokkur dæmi séu nefnd. Niðurstöður skoðanakannanna eru birtar með fyrirvara um skekkjumörk, svonefnd öryggismörk. Skoðanakannanir eru alls ekki alltaf áreiðanlegar og niðurstöður þeirra geta verið fjarri lagi. Saga. Fyrsta þekkta dæmi þess að skoðanakönnun hafi verið framkvæmd gerðist árið 1824 í Bandaríkjunum í dagblaðinu "The Harrisburg Pennsylvanian". Í þeirri könnun var athugað fylgi við forsetaframbjóðendurna Andrew Jackson og John Quincy Adams, í ljós kom að Jackson hafði stuðning 335 og Adams 169. Slíkar kannanir urðu vinsælar í kjölfarið þótt þær væru óvísindalega unnar og endurspegluði ekki ávallt þýðið. Árið 1916 framkvæmdi bandaríska vikublaðið The Literary Digest póstskoðanakönnun fyrir allt landið og gat spáð fyrir um sigur Woodrow Wilsons í bandarísku forsetakosningunum það ár. Næstu fjórar forsetakosningar beiti blaðið þeirri aðferð að senda út könnunina með pósti og töldu svörin sem þeim bárust aftur. Árið 1936 brást The Literary Digest bogalistin en þá buðu Alf Landon og Franklin D. Roosevelt sig fram til forseta Bandaríkjanna. Úrtak vikublaðsins var með meira en tvær milljónir lesendur en ritstjórar þess gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir endurspegluðu ekki kjósendur í heild sinni þar sem þeir voru mikið til vel stæðir Bandaríkjamenn sem studdu Repúblikanaflokkinn. The Literary Digest gaf því út að forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins myndi fara með sigur af hólmi. Um sömu mundir vann George Gallup könnun með minna þýði sem hafði verið valið með vísindalegri aðferð. Honum tókst að spá fyrir um stórsigur Roosevelts í kosningunum. The Literary Digest var lagt niður skömmu seinna en meiri eftirspurn varð eftir skoðanakönnunum. Jaleel White. Jaleel Ahmad White (fæddur 27. nóvember 1976) er bandarískur leikari sem talaði meðal annars fyrir Sonic í "The Adventures of Sonic the Hedgehog" árið 1991. Hann lék líka í þættinum "Family Matters". Hann lék einnig lítil hlutverk í kvikmydunum "Big Fat Liar" og "Dreamgirls" og var röddin fyrir Martin Luther King, Jr. í "Our Friend Martin". Brauðrist. Rafmagnsbrauðristar komu á markað á Íslandi á seinni hluta þriðja áratugarins. Þannig voru brauðristar meðal ramagnstækja sem auglýst voru til sölu fyrir jólin 1927. Árið eftir birtist svohljóðandi auglýsing í tímaritinu Fálkanum: "Hafið þjer smakkað brúnað franksbrauð? Kaupið Therma brauðrist og brúnið brauðið á borðinu hjá yður. Þjer munuð aldrei borða óbrúnað brauð eftir það." Allister Brimble. Allister Brimble er (fæddur árið 1970) breskur tónlistarmaður. Hann bjó til tónlistina í tölvuleikjunum "Driver" og "Driver 2". Heimilistæki. Heimilistæki eru vélar, oftast knúnar með rafmagni, sem eru algengar á heimilum fólks. Heimilistæki eru flest ætluð til notkunar við húsverk, svo sem við eldamennsku, þrif og þvotta, en stundum eru rafmagnstæki ætluð til afþreyingar líka kölluð „heimilistæki“, einkum þegar þau eru orðin svo algeng að þau eru komin „á hvert heimili“. Þannig er t.d. talað um þá breytingu sem varð þegar útvarpstæki hættu að vera fyrst og fremst tæki fyrir radíóamatöra og urðu heimilistæki. Þetta olli breytingum á tækinu sjálfu og sölu þess; í stað heyrnartóla kom hátalari, og í stað þess að vera selt ósamsett voru sett á markað tæki sem voru tilbúin úr kassanum. Heimilistækjum er stundum skipt í hvítvöru (ísskápar, þvottavélar o.s.frv.) og brúnvöru (sjónvörp, geislaspilarar o.s.frv.) eftir því hvaða litur er eða hefur verið ráðandi í framleiðslu þeirra. Hvítvara á þannig oftast við stór heimilistæki sem ætluð eru til notkunar við húsverk en brúnvara á oftast við lítil heimilistæki sem ætluð eru til afþreyingar. Örbylgjuofn. Örbylgjuofn er heimilistæki notað til að hita mat. Vélin notar örbylgjur til að örva sameindir vatns, sem valda hita. Örbylgjuofninn hefur gjörbylt undirbúning matar síðan frá áttunda áratugnum Giorgio Moroder. Giorgio Moroder (fæddur 26. apríl 1940 í Ortisei, Ítalíu sem Hansjörg Moroder) er ítalskur útgefandi, tónlistarframleiðandi og lagasmiður. Hann er þekktastur fyrir framleiðslu sína á diskósmellum Donnu Summer á borð við „I Feel Love“ (1977) sem höfðu mikil áhrif á nýbylgjutónlist 9. áratugarins. Hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni "Miðnæturhraðlestin" 1978. Lögin "E=MC2" og "I’m Left You’re Right She’s Gone" voru notuð í leiknum ' á útvarpsstöðinni „Flashback FM“. Guðmundur Árnason. Guðmundur Árnason (fæddur 20. september 1963) er stórnmálafræðingur og ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu. Hann er fæddur á Eskifirði. Fjölskylda. Foreldrar hans eru Árni Halldórsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður, og Ragnhildur Kristjánsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri. Eiginkona Guðmundar er Sólveig Berg Emilsdóttir arkitekt, en börn þeirra eru Birna (f. 1992) og Kristján (f. 1999). Systkini Guðmundar eru Kristín Aðalbjörg Árnadóttir sendiherra, Halldór Árnason framkvæmdastjóri, Björn Árnason framkvæmdastjóri, og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði. Menntun. Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1984, bakkalárprófi í stjórnmálafræði frá Stirling-háskóla í Skotlandi 1989 og meistaraprófi í alþjóðastjórnmálum frá háskólanum í Sussex í Englandi 1990. Lokaritgerð hans fjallaði um Norðurlöndin og pólitískan samruna í Evrópu. Starfsferill. Guðmundur starfaði við sérverkefni fyrir forsætis- og fjármálaráðuneyti 1991, var skipaður deildarstjóri í forsætisráðuneyti í ársbyrjun 1992, skipaður skrifstofustjóri í sama ráðuneyti frá ársbyrjun 1996, var í leyfi þaðan frá 1998 til 2000 er hann starfaði sem ráðgjafi (e. Senior Advisor) við Norræna þróunarsjóðinn í Helsinki (NDF) þar sem hann sinnti einkanlega málefnum Afríku, hóf á ný störf sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti árið 2000, settur ráðuneytistjóri í menntamálaráðuneyti í september 2002, skipaður ráðuneytisstjóri í því ráðuneyti í mars 2003. Hann fór aftur til starfa í forsætisráðuneytinu frá janúar 2009 til loka apríl sama ár. Hann var settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í júni 2009. Met Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Listi þessi er yfir Met Knattspyrnufélags Reykjavíkur og ýmis önnur afrek. Karlaflokkur. Leikmenn KR hampa bikarnum eftir sigur á Njarðvík í Iceland Express deild karla 2007 Leikjahæstu menn KR. Listi yfir leikjahæstu leikmenn KR í A-deild. Feitletrun merkir mann sem er enn að spila fótbolta. Markahæstu menn í A-deild. Listi yfir markahæstu leikmenn KR í A-deild. Feitletrun merkir mann sem er enn að spila fótbolta. Markahæstu leikmenn eftir hvert tímabil. Ef reitur leikmanns er gulllitaður var hann handhafi gullskós þess tímabils, silfur fyrir handhafa silfurskós og brons handhafa bronsskós. Flest mörk skoruð í einum leik. Baldvin Baldvinsson - gegn ÍA í 10-0 sigri í bikarkeppninni haustið 1966. Hans Kragn - gegn Fram í 8-1 sigri á Reykjavíkurmótinu 1932 Haraldur Gíslason - gegn TB í Færeyjum í 5-1 sigri sumarið 1939 Hörður Óskarsson - gegn Fram í 6-1 sigri á Íslandsmótinu 1945 Þórólfur Beck - gegn Þrótti í 13-1 sigri á haustmótinu 1957 Þórólfur Beck - gegn Randers Freja frá Danmörku í 6-2 sigri á Melavellinum 1961 Gunnar Felixson - gegn Þrótti í 8-0 sigri á Reykjavíkurmótinu 1961 Þórólfur Beck - gegn ÍBA í 6-3 sigri í heimaleik á Íslandsmótinu 1961 Andri Sigþórsson - gegn Skallagrími í 6-2 sigri á útivelli á Íslandsmótinu 1997 Gunnar Örn Jónsson - gegn Reyni í 9-1 sigri í árlegum minningarleik um Magnús Þórðarson 2009 Björgólfur Hideaki Takefusa - gegn Val í 5-2 sigri á útivelli á Íslandsmótinu 2009 Flestir landsleikir KR-inga. Einungis leikmenn sem hafa spilað landsleiki á meðan þeir voru í KR eru taldir með. Stærstu deildarsigrar. 9-1 gegn Val, A-deild 1992 8-1 gegn Keflavík, A-deild 1960 7-0 gegn ÍBH, A-deild 1961 Stærstu deildartöp. 0-7 gegn Fram, A-deild 1922 0-7 gegn FH, A-deild 2003 1-6 gegn Fram 1918 og 1921 Stærsti sigur gegn íslensku félagsliði. 13-1 gegn Þrótti á haustmóti í ágúst 1957. Þórólfur Beck skoraði 5 mörk. Stærsti ósigurinn gegn íslensku félagsliði. 0-10 gegn Fram í Reykjavíkurmótinu 1921 Stærsti skráði sigurinn. 14-1 gegn áhöfn skipsins Ville de Ys árið 1924 Stærsti skráði ósigurinn. 2-13 gegn Lokomotiv Moscow árið 1956 Stærsti sigur í bikarkeppni. 10-0 gegn ÍA árið 1966. Baldvin Baldvinsson skoraði 6 mörk. Stærsti ósigurinn í bikarkeppni. 2-6 gegn Fram í framlengdum leik sumarið 1986. Stærsti sigur í evrópukeppni. 5-1 gegn ÍF frá Fuglafirði í Færeyjum 2011 Stærsti ósigurinn í evrópukeppni. 2-12 gegn Feyenoord árið 1969. Feyenoord varð síðar Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða. Í öllum leikjum. 10.268 mans - gegn Liverpool í undankeppni Evrópukeppni meistaraliða 1964 á Laugardalsvelli. 0-5 fyrir Liverpool. Á Íslandsmóti. 8.534 mans - gegn ÍA í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 1965 á Laugardalsvelli. 2-1 fyrir KR Á KR-velli. 5.400 mans - gegn ÍBV í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 1998. 0-2 fyrir ÍBV Sonic the Hedgehog (persóna). Þessi persóna á sér erkióvin Dr. Eggman sem reinir að ná í alla kaols smargarðana til þess að ná heimsyfirráðum. Sonic á tvö aðra tvíbura sem heita Skuggi (Shadow) og Silfur(Silver). Sonic á tvö frændsystkyni Rouge og Hnúi(Knuckles)Naoto Ōshima, Hirokazu Yasuhara og Yuji Naka sköpuðu persónuna sem er blár manngervandi broddgöltur sem getur hlaupið hraðar en hljóðhraði. Hann kemur líka fram í Super Smash Bros. Brawl. Jeanine Deckers. a> af Syngjandi nunnuniJeanine Deckers (skírnarnafn: "Jeanne-Paule Marie Deckers") (17. október 1933 í Wavre Belgíu – 29. mars 1985 í Wavre) var nunna af reglu dóminíkana í Belgíu, en hún er betur þekkt sem hin „syngjandi nunna“ eða „hin brosandi systir“ (franska: „Soeur Sourire“). Hún hlaut heimsfrægð árið 1963 þegar lag hennar Dominique trónaði á toppi flestra vinsældarlista víðsvegar um heiminn. Æviágrip. Jeanine Deckers var nunna af reglu dóminíkana í Fichermont, Belgíu. Hún semdi, söng og spilaði eigin tónlist við hvert tækifæri í klaustrinu við mikin fögnuð safnaðarins. Reyndar líkaði söfnuðinum gítarlög hennar svo vel að klaustrið ákvað að greiða fyrir útgáfu laga hennar á vínil. Almenningur átti svo að geta fengið að taka eintak af plötu hennar með sér heim eftir heimsóknir í klaustrið. Árið 1963 var plata hennar tekin upp af Philips Records í Brussel. Innan skamms hafði smáskífan „Dominique“ náð alheims-frægð. Lagið „Dominique“ var spilað látlaust á útvarpsstöðvum víðsvegar um heiminn og í Bandaríkjunum var það meira að segja látið fylgja lagalistum miningarathafna sem haldnar voru eftir launmorðið á John F. Kennedy. Það virtist sem að lagið „Dominique“ hefði sigrað heiminn á einni nóttu og nunnan Soeur Sourire varð vinsæl dægurlagastjarna í kjölfarið. Systirinn brosandi hélt fáa tónleika en söng þó í þætti Ed Sullivan árið 1964 en aðeins á snældu. Hún sóttist ekki sérstaklega eftir frægð og litlu munaði að abbadísin í klaustrinu kæmi í veg fyrir að snældan yrði spiluð í þætti Sullivans. Vinsældir Dominique féllu ekki í kramið hjá abbadísinni. Hún leit á vinsældir hennar sem „ósvífni“ við klaustrið og Dóminíkusarregluna. Ekki batnaði svo ástandið þegar kvikmyndafyrirtækið MGM kvikmyndaði söngvamynd byggða á lífi Decker árið 1965 þar sem bandaríska leikkonan Debbie Reynolds fór með hlutverk hennar sem nunnu, sem glamrar á gítar og ekur um á vespu og varður ástfangin af Chad Everett. Þetta sama ár dró "Syngjandi nunnan" sig frá öllu sviðsljósi og afsalaði sér blómstrandi tónlistarferli. En ári seinna skipti hún skyndilega um skoðun, má segja að hugarfar hennar hafi tekið stakkaskiptum. Hún sneri baki við klaustrinu, yfirgaf regluna og sneri sér alfarið að tónlist. Decker lét samt sem áður í ljós andúð sína á athyglinni árið 1967 með því að gefa út plötu undir titlinum „"Je ne suis pas une étoile"“, sem þýðir „Ég er engin stjarna“. Eftir hafa gefið út plötuna tók hún að sér að semja um umdeild málefni í þjóðfélaginu. Í lagi sínu "Gullna Pillan" beinir hún spjótum sínum að kvenréttindum og getnaðarvörnum sem hún studdi andstætt Páfanum sem fordæmdi þær. Ásamt konu að nafni Annie Pescher stofnsettu hún seinna skóla fyrir einhverf börn í Belgíu. Legsteinn Jeanine DeckersEn brotthlaup hennar frá klaustrinu átti eftir að verða henni dýrkeypt. Vinsældir hennar í tónlistarheiminum virtust ekki færa henni þá hamingju sem hún þráði og með tímanum ánetjaðist hún áfengi og notkun ávanabindandi lyfja. Hún lýsti því yfir að hún væri lesbísk og var virkur talsmaður réttinda samkynhneigðra um tíma. En bæði frægðin og vinsældir skólans tóku að dvína og Deckers endaði í vanskilum og mikilli skuldasúpu þar sem hún hafði gefið mest allan ágóðan af frægustu smáskífu sinni til safnaðarins forðum daga. Hún reyndi að gefa út Diskó útgáfu af Dominique til að ná fjármunum út úr fyrri frægð, en allt kom fyrir ekki. "Syngjandi nunnan" svipti sig á endanum lífi ásamt þáverandi unnustu sinni Annie Pescher árið 1985 með blöndu af áfengi og lyfjum. Ákvörðunina um sjálfsmorðið tók hún eftir að skattheimtan krafði hana um 4.800.000 ísl. kr fyrir vanskil. Upphæðin hefði kostað hana aleiguna og skólann. Vinsældir Deckers áttu þó eftir að rísa aftur eftir dauða hennar, því í byrjun 10. áratugarins gáfu „The Unity Mixers“ í samvinnu við INDISC út geysivinsælt teknó danslag eftir „Dominique“. Lagið hleypti nýju lífi í sögu nunnunar sem hafði hlotið heimsfrægð með því að syngja og spila fyrir söfnuð sinn, en endaði ævi sína á því að fremja sjálfsmorð sem stórskuldugur lesbískur fíkniefnaneytandi. Tenglar. Deckers, Jeaninne Listi yfir sjónvarpssframleiðendur. Þetta er listi yfir framleiðendur sjónvarpstækja. Sveitabær. Sveitabær er bújörð í dreifbýli. Sveitabæir sem farnir eru í eyði kallast eyðibýli. Bæir í ábúð voru 4.638 árið 1994 en þá eru taldar allar jarðir sem voru skráð lögheimili einhvers, hvort sem þar var stundaður einhver búskapur eða ekki. Sama ár voru skráðar eyðijarðir 1.836. Listasafn Einars Jónssonar. Listasafn Einars Jónssonar er listasafn á Skólavörðuhæð í Reykjavík. Hús safnsins heitir Hnitbjörg'". Í safninu eru verk Einars Jónssonar, bæði höggmyndir og málverk, varðveitt og höfð til sýnis. Safnið er sjálfseignarstofnun og er rekið með árlegum styrk í fjárlögum íslenska ríkisins. Saga safnsins. Árið 1909 bauð Einar Jónsson íslensku þjóðinni öll verk sín að gjöf með því skilyrði að reist yrði yfir þau safn. Árið 1914 þáði Alþingi gjöfina og lagði fram 10.000 krónur og í söfnun meðal almennings söfnuðust 20.000 krónur. Byggingin. Garðurinn og safnahúsið séð úr lofti Þýskur vísindaleiðangur heimsækir Hnitbjörg sumarið 1925 Safnið er byggt eftir teikningum Einars sjálfs en Einar Erlendsson húsameistari áritaði teikninguna 1916. Listasafn Einars Jónssonar var vígt á Jónsmessudag 23. júní árið 1923 og var það fyrsta listasafn á Íslandi. Einar valdi stað fyrir safnið á Skólavörðuhæð sem þá var eyðiholt í útjaðri bæjarins og var safnið fyrsta byggingin á hæðinni en það var hæsti sjónarhóll bæjarins. Einar og fleiri samtíðarmenn sáu Skólavörðuhæðina sem „"háborg Íslands"“. Íbúð listamannsins. Í turnhýsi safnsins er gott útsýni yfir Reykjavík. Þar bjuggu Einar og kona hans Anna Jörgensen. Heimili þeirra er hluti af safninu og er það varðveitt í upphaflegri mynd. Garðurinn. Við safnið er garður og í honum eru bronsafsteypur af verkum Einars. Funai. Funai er japanskur sjónvarpsframleiðandi sem hefur framleitt sjónvörp og vídeotæki. Fyrirtækið var stofnað í Osaka árið 1961. Einar Ingibergur Erlendsson. Einar Ingibergur Erlendsson húsameistari fæddist 15. október árið 1883 í Reykjavík og lést 24. maí 1968. Hann er talinn einn af brautryðjendum í íslenskri byggingarlist þó hann hefði ekki formlega menntun sem arkitekt. Einar teiknaði m.a. Gömlu loftskeytastöðina við Suðurgötu, Kennaraskólann við Laufásveg og Fríkirkjuveg 11. Græna vítið. "Græna vítið" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. „Samkvæmt skýrslu þeirri, sem sérfræðingar við mannfræðistofnunina í London hafa tekið saman, hefur fengizt vissa fyrir því, að mannabein þau, sem fundust við bakka Rio Kuluene í Brazilíu, geta ekki átt rót sína að rekja til rannsóknarleiðangurs Fawcett ofursta.“ Þessi fregn, sem útvarpið bar að eyrum þeirra Bob Morans og vinar hans, Alejandro Riasar, verður upphafið að röð óvenjulegra atburða, sem þessir tveir vinir verða þátttakendur í, þó að þeim sé það þvert um geð. Áður en þeir vita almennilega af, eru þeir komnir á slóð hins sögufróða ævintýramanns og landkönnuðar, Fawcett ofursta. - Þeir eru á leið til hinnar leyndardómsfullu höfuðborgar Musuþjóðflokksins, sem allir hafa heyrt getið um í Matto Grosso, "Græna vítinu" svo kallaða, en engin veit, hvar borgin er. Skref fyrir skref brýzt Moran áleiðs að marki sínu, sem á að vera hin leyndardómsfulla borg, - gegnum hinn lífshættulega frumskóg, þar sem slöngur, rándýr, og jafnvel fiskar, sem éta menn, og blóðþyrstir indíánar liggja hvarvetna í leyni. En Bob Moran bítur á jaxlinn - hann veit, hvað bíður hans, ef hann gefst upp. Og að gefast upp er ekki að hans skapi. Aðalpersónur. Bob Moran, Don Alejandro Rias, Tsinu, Carlos Paez, Antonio Paez, Coya Sögusvið. Matto grosso, Brazilía - Rio de Janeiro, Brazilía Eldklóin. "Eldklóin" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. „Oss vantar ungan verkfræðing, sem kann allt varðandi efnafræði, jarðfræði, eldfjallafræði, mann, sem er undir það búinn að láta að sér kveða og ver þó jafnan rólegur og skýr í hugsun...“ stóð í hinu leyndardómsfulla bréfi, sem Bob Moran fékk einn morguninn með póstinum. Moran var nú einmitt vanur því að starfa af atorku og láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna. En Bombu-héraðið við M'Bangivatnið í Mið-Afríku reyndist mjög óheilnæmt fyrir Bob Moran - og ekki aðeins hvað líkmalega hollustuhætti snerti. Bob Moran verður að taka á öllu snarræði sínu og ráðsnilld til þess að sigrast á örðugleikunum. Á botni stöðuvatnsins er sem sé verðmæt, en hættuleg gastegund, sem breytt getur Bombu í nýja Pompeii á fáum sekúndum, ef hún leysist of fljótt úr sambandi. Ef hraunflóðið — sannkölluð eldtunga — nær alla leið fram að vatninu, munu allir íbúar borgarinnar og héraðsins í kring bíða hinn hörulegast dauðdaga. Þeir Bob og Packart prófessor vita, hvað þeirra bíður, ef þeim tekst ekki í tíma að hafa hemil á náttúruöflunum. Aðalpersónur. Bob Moran, Jacques Lamartin, Jan Packart, Brúnó Sang, Louis Van Dorf, Venega höfðingi Bajabongóanna Sögusvið. París, Frakkland - Bomba, M'Bangi-vatn, Kalíma, Mið-Afríku Ógnir í lofti. "Ógnir í lofti" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. "Þrumurnar", - nýtízkuflugvélar í eigu brezks flugfélags - virðast vera í ofboðslegum álögum. Hver á eftir annarri farast þær einhvers staðar á leið sinni til Indlands og valda dauða fjölda manns. Eru þessi slys að kenna vankunnáttu siglingafræðinga, tæknileg missmíði á vélunum eða þá skemmdarverkum? Breska flugfélagið, sem hefur látið smíða vélarnar, er í þann veginn að neyðast til þess að taka þær úr umferð, þegar Bob Moran kemur til skjalanna. - Saklausar umræður á kaffistofu við eina af breiðgötum Parísar leiða til ferðar vinar vors til Aden, - sem kölluð er Gíbraltar hinna nálægri Austurlanda - og þar kemst hann undir eins í kast við layndarsómsfullan flokk harðvítugra bófa og ævintýramanna. - Og þarna lendir Bob í háskalegum ævintýrum. - En tekst honum að svipta hulunni af þessum grunsamlegu slysum, sem henda "þrumurnar"? - Í þetta skipti gerist nokkur hluti af ævintýrum hans þarna eystra í háloftunum. En allir vita, að enda þótt Moran yfirforingi sé enginn engill, er dvölin þar uppi honum jafneiginleg og sjórinn er fiskunum. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Ballantine, Prófessor Aristide Clairembart, Samúel Lefton, George Lester, Jerome Binderley Sögusvið. París, Frakkland - Aden, Jemen - París, Frakkland Rauða perlan. "Rauða perlan" er unglingasaga eftir Henri Vernes sem kom út árið 1955, en í íslenskri þýðingu 1963. Söguþráður. Kvöld eitt segir Léman læknir vinum sínum einkennilega sögu: Kona nokkur liggur dauðvona í París, og svo einkennilega vill til, að einungis dularfull, rauð perla getur bjargað lífi hennar. Þessi perla er í vörzlum hins grimmúðlega soldáns af Jaravak - en Jaravak er eyja í Bandarhafinu, óralangt í burtu. Þegar læknirinn hefur lokið sögu sinni, verður þögn umhverfis hann, þangað til rödd innan úr stofunni segir: „Hvar er annars þessi eyja, Jaravak?“ það var Bob Moran, sem talaði, og þessi spurning hans varð upphafið að ótrúlegu og jafnframt átakanlegu ævintýri - afreki, þar sem Moran flugstjóri á í höggi við hinn hræðilega andstæðing, Timor Bulloc. En Moran hugsar um það eitt að komast aftur til Parísar með rauðu perluna, sem kannski getur bjargað lífi gömlu konunnar - og upplýst leyndarmál! Í þetta sinn er Moran einnig í kapphlaupi við tímann. - Ætli honum heppnist að ná aftur til Parísar í tæka tíð? - Ætli honum heppnist að sigra hinn vonda soldán, eða verður hann fórnarlamb hinnar hræðilegu hitabeltisveiki? - Meira en nokkru sinni fyrr þarf Bob á að halda allri ráðsnilld sinni og óbilandi viljakrafti. Aðalpersónur. Bob Moran, Jacques Léman, Frú Neuville, Bohr Groschag, Georg Leslie, Harvey Jameson, Timor Bulloc, Khalang Gara, Ashim Gara, Sandam Ballik Sögusvið. París, Frakkland - Kupang, Timor - Bandar, Jaravak Panasonic. Panasonic (japanska: パナソニック "Panasonikku") er alþjóðleg vörumerki notað af japönsku fyrirtækinu Matsushita. Matsushita notar þessa vörumerki til að setja á markað LCD-sjónvörp, mynddisksspilara, Blu-ray-spilara, tökuvélar, síma, ryksugur, örbylgjuofna, rafmagnsrakvélar, sýningarvélar, stafræn myndavélar, rafhlöður, fartölvur, geislaspilara, hljómtæki, rafmagnshluta og hálfleiðara. Fyrirtækinu notað slagorð „"Ideas for life"“. Panasonic birtist fyrsta árið 1955 í Bandaríkjum, Kanada og Mexíkó. Vörumerkið er dregið af „pan“ (merking: "allur") og „sonic“ (merking: "hljóð") því það var notað fyrsta fyrir hljóðtæki. Með suð í eyrum við spilum endalaust. "Með suð í eyrum við spilum endalaust" er fimmta hljómplata Sigur Rósar, og var gefin út þann 23. júní 2008. Skjöldunga saga. Skjöldunga saga er glötuð saga, sem sagði frá niðjum Skjaldar, sonar Óðins, og fjallaði um sögu Danakonunga aftan úr grárri forneskju til Gorms gamla. Sagan var skrifuð á Íslandi um 1180–1200. Elsta heimild um Skjöldunga sögu er í 29. kapítula "Ynglinga sögu" (í Heimskringlu Snorra Sturlusonar). Þar segir um orustuna á Vænis ísi: „Frá þessi orrustu er langt sagt í Skjöldunga sögu og svo frá því, er Hrólfur kraki kom til Uppsala til Aðils.“ – Einnig er Skjöldunga saga eða Skjöldungabók nefnd í bókaskrám frá 14. og 15. öld. Bjarni safnaði þessum köflum saman og prentaði þá í útgáfu sinni af Danakonunga sögum, 1982. Einnig þýddi hann úr latínu ofangreinda útdrætti Arngríms lærða, sem eru frá því um 1600. Bjarni telur að "Danasaga Arngríms lærða" gefi besta hugmynd um eldri gerð Skjöldunga sögu. Arngrímur hafði þó ekki fyrir sér heillegan texta sögunnar, heldur afrit, sem var afbakað. Auk þess vantaði þá talsvert í söguna, m.a. frásagnir af Ívari víðfaðma, Haraldi hilditönn og Brávallabardaga. Reyndi Arngrímur að brúa það bil með Heiðreks sögu og fleiri heimildum. "Sögubrot af nokkrum fornkonungum" er talið vera endursaminn og aukinn texti "Skjöldunga sögu", þ.e. brot úr yngri gerð sögunnar, sem í a.m.k. einu handriti hefur verið skeytt framan við Knýtlinga sögu. Texti sögubrotsins hefur orðið fyrir áhrifum frá riddarasögum, og gæti verið frá síðari hluta 13. aldar. Álitamál er hvort telja beri Skjöldunga sögu meðal konungasagna, eða kalla hana fyrstu fornaldarsöguna í íslenskum bókmenntum. Raunar getur hvort tveggja staðist. Bjarni Guðnason segir: „Skjöldunga saga er merkilegt landvinningarit í íslenskum miðaldabókmenntum. Höfundur víkkar svið sagnaritunarinnar bæði um vettvang og tíma.... Það væri því nærtækt að álykta, að Skjöldunga saga hefði átt veigamikinn þátt í því að ryðja fornaldarsögum brautina að bókfellinu“. – Skjöldunga saga varð einnig fyrirmyndin að Ynglinga sögu Snorra Sturlusonar. Af fornaldarsögum og Danasögu Saxa má sjá að á Íslandi gengu miklar sagnir af Skjöldungum á 12. og 13. öld. Bjarni Guðnason bendir á að Skjöldunga saga hafi m.a. verið skrifuð til þess að hafa í hávegum kyngöfgi Skjöldunga, því séu engir líklegri en Oddaverjar til að haf staðið að ritun hennar. Telur hann að söguhöfundar sé að leita í næsta nágrenni við Pál Jónsson biskup í Skálholti, ef hann hafi þá ekki sjálfur samið söguna. Það er þó ágiskun, þó að færa megi ýmis rök fyrir því. Meðal hinna þekktustu af Skjöldungum eru Friðfróði, sem sagt er frá í "Gróttasöng", og herkonungarnir Hrólfur kraki, sem sagt er frá í "Bjarkamálum", Ragnar loðbrók og Haraldur hilditönn. Líklega voru Skjöldungar sögulegar persónur, en það sem sagt hefur verið frá þeim í "Skjöldunga sögu" voru munnmæli og þjóðsagnir. Kjarnorkuver. Kjarnorkuver er mannvirki ætlað til að umbreyta orku í kjarna frumeinda í raforku. Þau sjá fyrir umtalsverðum hluta raforkuframleiðslu í heiminum og eftir Kyoto-bókunina stefnir í að vægi þeirra við orkuframleiðslu eigi eftir að aukast. Nokkrar mismunandi gerðir kjarnorkuvera eru starfræktar en þau byggja öll á sömu meginatriðum. Í kjarnaofni eru stórar frumeindir klofnar og við það losnar gríðarlegur varmi sem er leiddur í burt af kælikerfi. Kælikerfið nýtir varmann til að snúa túrbínum sem aftur knýja rafala. Kjarnorkver hafa þá kosti að þeim fylgir ekki losun gróðurhúsalofttegunda en aftur á móti eru þungu frumefnin sem eru nauðsynleg til að starfrækja kjarnorkuver takmörkuð auðlind. Mesti vandinn við kjarnorkuver er þó að þau losa frá sér stórhættulegan geislavirkan úrgang sem brotnar afar hægt niður. Þrátt fyrir að kjarnorkuver losi ekki gróðurhúsalofttegundur eru þau ekki almennt viðurkennd sem umhvefisvænn kostur vegna geislavirks úrgangs. Einnig veldur það áhyggjum hve alvarlegar afleiðingar það hefur ef slys, leki eða sprenging, verða í kjarnorkuveri. Einkum kom þessi ótti fram eftir sprenigingu í kjarnorkuveri í Tsjernobyl í Úkraínu þar sem geislavirkur úrgangur drefiðist um stóran hluta Evrópu. Nýrri kjarnaorkuver eru sögð mun öruggari en eldri gerðir og í framtíðinni á að byggja nýjar gerðir kjarnorkuvera sem eiga að vera hagkvæmari, öruggari og umhverfisvænni en fyrri gerðir. Borðtennisdeild KR. Borðtennisdeild KR var stofnuð þann 1. júlí, 1969 af tveimur borðtennisáhugamönnum og KR-ingum, þeim Sveini Áka Lúðvíkssyni og Pétri Ingimundarsyni. Hjá deildinni geta börn á öllum aldri æft borðtennis og fara æfingar fram inní KR-heimilinu. Saga. Deildin var stofnuð 1969 og strax skipuðu KR-ingar sér í fremstu röð í þessari ungu íþróttagrein. Fyrsti titillinn vannst árið 1971. Borðtennissamband Íslands var stofnað ári síðar og var þar kjörinn formaður Sveinn Áki Lúðvíksson sem gegndi því embætti í 18 ár. Fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitil í liðakeppni árið 1975 og varð KR að sætta sig við 2. sætið á eftir Erninum. Ári síðar vinnur KR hinsvegar titilinn og hefst þá ein lengsta sigurganga nokkurs íslensks liðs í nokkurri íþróttagrein því titillinn vannst 19 ár í röð, eða frá 1976-1994. Tuttugasti titillinn kom síðan í hús árið 2008. Sunddeild KR. Sunddeild KR var formlega stofnuð árið 1948 þegar ný deildarskipting varð innan KR. Sund hafði þó verið stundað frá því í maí árið 1923 innan KR. Í dag eru rúmlega 220 sundmenn í sunddeild KR. Æfingar KR eru haldnar í fimm laugum, Vesturbæjarlaug, Sundhöll Reykjavíkur, Laugardalslaug, Laug Austurbæjarskóla og Sundlaug Seltjarnarness. Þann 25. janúar 2006 fékk Sunddeild KR síðan viðurkenningu Íþróttasambands Íslands sem Fyrirmyndafélag ÍSÍ. Keiludeild KR. Keiludeild KR var stofnuð árið 30. júní 1990. Rétt um 30-60 mans eru nú við æfingar hjá deildinni, á öllum aldri. Æfingar KR eru haldnar í keiluhöllinni við Öskjuhlíð. Strax í upphafi var lögð mikil áhersla á unglingastarfið og fyrsti Íslandsmeistaratitillinn kom árið 1995. Smyglaraskipið. "Smyglaraskipið" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Í þessari bók hittum við þá Bob og Bill Ballantine, sem við kynntumst í bókinni Ungur ofurhugi. Þarna eru þeir mætti aftur til leiks, í þetta sinn á fornum sjóræningjaslóðum Karabískahafsins. Og þar hefst leikurinn: Það er kominn óboðinn gestur í heimsókn til Bob, þar sem hann dvelur í húsnæði sínu og bíður vinar síns, sem honum þykir hafa seinkað grunsamlega í kvöldverðinn. Það er þrusk í bifreiðaskýlinu og eins og löttur læðist Bob að dyrunum. Hann hefur náð í skammbyssu sína, þreifaði eftir ljósrofanum og beindi síðan byssunni að náunganum: Upp með hendurnar, og kvöldgesturinn hlýddi, en þó ekki á þann hátt, sem Bob ætlaðist til, því að hægri hönd hans flaug í boga og skiptilykillinn, sem hann hélt á, þaut úr hendi hans í lampann. - Síðan var tekið til fótanna og skuggi af manni bar við loft, þegar hann þaut út um garðshliðið. Bob hefði getað hleypt af skoti, en í hans augum var mannslífið heilagt, og hann skaut aldrei, nema þegar hann átti líf sitt að verja. - Svo hefst atburðarás sögunnar: Eins og í öllum Bob Moran-bókum er hún hröð og æsispennandi, og þess vegna ánægulegast fyrir lesandann að kynnast henni í sjálfri bókinni. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Ballantine, Fil Júrdan, Sosthéne Forceville, Basil Cortes, Tígra-Jakob, Híerónímus Lí, Pepe, Alonzo Riga Sögusvið. Port-au-Prince, Cap Haitien, Port-au-Paix, Haití - Havana, Maestrafjöll, Kúba - Felicidad-eyja, Bahamaeyjum - Turkseyjabanki - Miami, Bandaríkin Upphaf allra frásagna. Upphaf allra frásagna er stuttur sögukafli sem skýrir frá því, þegar menn (æsir) leggja undir sig Norðurálfu, undir forystu Óðins. Í skinnbókinni AM 764 4to, sem er talin skrifuð 1376–1386, er stuttur sögukafli (2 bls.) sem hefst á orðunum „Upphaf allra frásagna í norrænni tungu...“ Þar er skýrt frá því, þegar Óðinn og fylgismenn hans leggja undir sig Norðurálfu, og sagt frá niðjum hans, Skildi, Friðleifi og Friðfróða. Fræðimenn eru sammála um að "Upphaf allra frásagna" sé frá Skjöldunga sögu komið. Hins vegar hefur höfundur "Upphafs" viðað að sér efni úr fleiri heimildum, og má rekja sumar þeirra til erlendra fræðirita, eins og Andreas Heusler benti á. Texti "Upphafs" er prentaður í neðangreindri útgáfu Bjarna Guðnasonar á Danakonunga sögum. Sögubrot af nokkrum fornkonungum. Sögubrot af nokkrum fornkonungum er brot úr konungasögu eða fornaldarsögu, sem fjallaði um danska og sænska fornkonunga. "Sögubrotið " er talið vera endursaminn og aukinn texti "Skjöldunga sögu", þ.e. brot úr yngri gerð sögunnar. Textinn hefur orðið fyrir áhrifum frá riddarasögum, og gæti verið frá síðari hluta 13. aldar. "Sögubrotið" er varðveitt í handritinu AM 1eβ I fol. Það eru 6 skinnblöð frá því um 1300, og skiptist textinn í tvo samfellda kafla. Guðbrandur Vigfússon sýndi fram á það fyrir löngu að "Sögubrotið", hefur verið hluti af einu handriti Knýtlinga sögu (AM 20 b I fol.), og það því haft að geyma samfellda sögu Danakonunga frá forneskju. Í Sögubrotinu er m.a. frásögn af Brávallabardaga, þar sem Haraldur hilditönn féll. Johan Fredrik Peringskjöld gaf "Sögubrotið" fyrst út í Stokkhólmi árið 1719, undir nafninu: Sögubrot af nockorum fornkongum í Dana oc Svia velldi, þaðan er nafnið komið. Útgáfunni fylgdi sænsk þýðing. Bjarni Guðnason gaf "Sögubrotið" út með Danakonunga sögum, árið 1982, og gerir nánari grein fyrir því í formála. Matthías Johannessen. Matthías Johannessen (f. 3. janúar 1930) er íslenskt ljóðskáld og rithöfundur, og er sem slíkur einna frægastur fyrir viðtalsbækur sínar. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959-2000. Matthías fæddist í Reykjavík, og varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Hann stundaði síðan nám við Háskóla Íslands, og árið 1955 lauk hann kandítatsprófi í íslenskum fræðum með bókmenntir sem aðalgrein. Hann hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði framhaldsnám veturinn 1956 - 1957. Meðfram háskólanámi hafði Matthías starfað sem blaðamaður við Morgunblaðið og varð síðar meir ritstjóri þess. Fyrsta ljóðabók Matthíasar "Borgin hló" kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka. Ninja. Ninja eða shinobi (忍者 bókst. „Sá sem læðist“) á einkum við sögulega stríðsmenn í Japan til forna sem voru sérþjálfaðir í hinu japanska ninjutsu, með það að megin markmiði að skapa hljóðlausa, ósýnilega og banvæna launmorðingja. Ninjan var virk á mismunandi sviðum óhefðbundins stríðsrekstrar, þar sem sérsvið hennar var oftast launmorð, umsátur, njósnir, hryðju- og skemmdarverk. Ninjan líkt og samúræinn fylgdi sínum eigin siðareglum sem kallaðar voru ninpo. Þó ninja þyki almennt hafa verið sérstök tegund af sérhæfðum launmorðingjum þá samkvæmt nútíma iðkendum budo nin-juitsu, var sérgrein ninjunar ekki launmorð, heldur njósnir. Það er almennt trúað því að hin forna ninja hafi verið kotbændur, sem bannað var með lögum að nema sverðlistir samúræjans vegna erfðastéttskiptingar samfélagsins. Mönnum greinir þó þar á, þar sem heimildir fyrir því að ninjur hafi einnig verið samúræjar starfandi sem njósnarar, hafa fundist. Ninjan hefur birst í fleiri kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, bókum og tímaritum en nokkur annar sögulegur stríðsmaður. Uppruni. Upphaf ninjunar þykir sveipað leyndardómi, sérstaklega þar sem ninjan skildi lítið eftir á skriflegu máli og lýstu aldrei tilræðum á hendur sér. Nákvæmur uppruni þessara stríðsmanna er óþekktur en lykilhlutverk þeirra í hernaði virtist vera nokkurs konar skæruhernaður þar sem þeir sáu aðalega um njósnir, launmorð og sérhæfð hryðjuverk til að skapa bæði ótta og ringulreið á svæðum óvinana. Paul Churchland. Paul Churchland (fæddur 21. október 1942) er kanadískur heimspekingur sem er einkum þekktur fyrir skrif sín um hugspeki. Hann er prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í San Diego. Churchland lauk doktorsnámi frá Pittsburgh-háskóla árið 1969 undir leiðsögn Wilfrids Sellars. Hann er eiginmaður heimspekingsins Patriciu Churchland. Heimspeki. Churchland hefur ásamt eiginkonu sinni verið einn helsti málsvari útrýmingarefnishyggju en samkvæmt henni eru hversdagsleg hugtök á borð við skoðun, geðshræringu og löngun í raun illa skilgreind fræðihugtök; þar af leiðandi ættum við ekki að gera ráð fyrir að slík hugtök verði nauðsynlega hluti af vísindalegri útskýringu á heilanum. Rétt eins og nútímavísindi hafa enga þörf fyrir hugtök á borð við heppni eða nornir til þess að útskýra heiminn munu taugavísindin, að mati Churchland-hjónanna, ekki þurfa á hugtökum á borð við skoðun eða geðshræringu að halda til þess að útskýra starfsemi heilans. Í stæðaninn ætti að nægja að nefna hlutlæg fyrirbæri eins og taugaboð. Churchland bendir einnig á að í sögu vísindanna eru mörg dæmi um hugtök sem hafa verið gefin upp á bátinn svo sem ljósvaki. Greinar. Churchland hefur samið fjölda ritgerða sem hafa haft mikil áhrif innan heimspekinnar. Tenglar. Churchland, Paul Churchland, Paul Churchland, Paul Patricia Churchland. Patricia Smith Churchland (fædd 16. júlí 1943 í Oliver, British Columbia í Kanada) er kanadískur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í San Diego. Hún hlaut MacArthur-verðlaunin árið 1991. Churchland hlaut menntun sína við Háskólann í British Columbia, Pittsburgh-háskóla og Oxford-háskóla. Hún kenndi heimspeki við Háskólann í Manitoba frá 1969 til 1984. Patricia er eiginkona heimspekingsins Pauls Churchland. Churchland hefur einkum einbeitt sér að tengslum taugavísinda og heimspeki. Ásamt eiginmanni sínum Paul er hún einn helsti málsvari útrýmingarefnishyggju en samkvæmt henni eru hugtök alþýðusálfræðinnar á boðr við skoðun og meðvitund óskýr og illa skilgreind hugtök sem koma til með að verða óþörf í fræðilegri útskýringu á starfsemi heilans. Patricia hefur einnig verið kölluð náttúruhyggjusinni af því að hún telur að rannsaka beri hugann með vísindalegum aðferðum. Hún hefur undanfarið rannsakað hvernig gera megi grein fyrir vali, ábyrgð og undirstöðum siðferðisins á grundvelli heilastarfsemi. Tenglar. Churchland, Patricia Churchland, Patricia Churchland, Patricia Yukio Mishima. Yukio Mishima (三島 由紀夫 - "Mishima Yukio") var dulnefni Kimitake Hiraoka (平岡 公威 - "Hiraoka Kimitake") (14. janúar 1925 – 25. nóvember 1970) sem var japanskur rithöfundur og leikskáld. "Sjóarinn sem hafið hafnaði" (japanska: 午後の曳航) er eina bók Mishima sem hefur verið þýdd á íslensku. Yukio Mishima framdi harakírí ásamt tveimur fylgismönnum eftir misheppnað valdarán. Tenglar. Mishima, Yukio Enter Shikari. Enter Shikari (borið fram /ɛntɜr ʃɪkɑriː/) er ensk síðrokkhljómsveit frá St Albans í Hertfordshire. Stíll þeirra einkennist af hljóðgervlum og fylgihljóðum. Hljómsveitin Enter Shikari var stofnuð árið 2003 af fjórum félögum sem voru í hljómsveitinni "Hybryd". Nafnið er dregið af nafni báts eins hljómsveitameðlimsins og þýðir „veiðimaður“ á persnesku, hindí, nepölsku, úrdú og punjabi. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu hljómplötu, "Take To The Skies", 19. mars 2007. Grand Theft Auto. "Grand Theft Auto" (GTA) er tölvuleikjaröð sem Dave Jones framleiddi. GTA var upphaflega gerður fyrir PlayStation en síðar hafa verið framleiddar aðrar útgáfur af honum. Leikurinn gengur út á ýmis verkefni, en - eins og nafnið gefur til kynna - er hægt að stela bílum og nota til að leysa verkefnin. Þá er leikurinn einnig þekktur fyrir ofbeldi. Síð-harðkjarni. Síð-harðkjarni (e. "post-hardcore") er tónlistarstefna sem þróaðist út frá harðkjarnapönki, sem er angi pönktónlistar. Eins og síð-pönk er síð-harðkjarni víðáttumikið hugtak notað til að lýsa mörgum hljómsveitum sem komu upp úr harðkjarna eða tóku innblástur frá menningarkima harðkjarna, á meðan tilraunarokk hefur áhrif einnig. Síð-harðkjarni birtist fyrsta á níunda áratugnum. Hljómsveitir. Hér er dæmi um nokkrar hljómsveitir sem spila síð-harðkjarna. Ítalía (veitingastaður). Ítalía er veitingastaður við Laugaveg 11 sem hóf starfsemi snemma árs 1988. Fylgihljóð. Fylgihljóð (eða leikhljóð) (enska: "sound effect") eru hljóð sem eru manngerð frá grunni eða eru ýkt (náttúru)hljóð, og geta þá verið sniðin til í hljóðgervli eða brengluð (s.s að láta ugluvæl hljóma eins og djúpan bassa úr þokulúðri). Fylgihljóð eru notuð til að leggja áherslur í tónlist eða leikverki og kvikmyndum, tölvuleikjum og heimasíðum o.s.frv. Hvarfið. Hvarfið er hlíð Hvarfsfjalls (eða Hvarfshnjúks) á milli bæjanna Ytrahvarfs og Syðrahvarfs í Dalvíkurbyggð. Þar mætast Svarfaðardalur og Skíðadalur. Þarna eru gróðursælir urðarhólar og talsvert kjarr og útsýn fögur um byggðir dalanna enda er þar allmikil frístunda- eða sumarbústaðabyggð. Mikið berghlaup hefur fallið úr Hvarfshnjúk og kastast niður hlíðina og ystu tungur þess ná vestur yfir Skíðadalsá og upp í brekkurnar þar á móti og mynda fallega og vel gróna urðarhóla. Sá hluti berghlaupsins kallast Dælishólar. Tungurétt, skilarétt Svarfdælinga, er skammt fyrir utan hólana. Berghlaupið, sem kallast einu nafni Hvarfið, er með stærstu berghlaupum á Íslandi og virðist hafa fallið skömmu eftir ísaldarlok. Vitsmunaflótti. Vitsmunaflótti, atgervisflótti, menntamannaflótti eða vitsmunaleki er hugtak sem lýsir brottflutningi einstaklinga sem búa yfir sérstökum hæfileikum, menntun eða þekkingu. Vitsmunaflótti getur verið kostnaðarsamur fyrir ríki því þeir einstaklingar sem flytjast á brott búa yfir menntun sem í mörgum tilfellum er styrkt eða kostuð að miklu leyti af ríkisstjórn viðkomandi ríkis. Hugtakið var fyrst notað eftir seinni heimstyrjöld til þess að lýsa flótta vísindamanna og tæknifræðinga frá Evrópu til Norður-Ameríku. Vitsmunaflótti getur orsakast af ýmsum þáttum. Fyrirbæri eins og átök í samfélaginu, skortur á atvinnutækifærum eða slæmt efnahagsástand eru allt þættir sem geta valdið vitsmunaflótta. Vitsmunaflótti er algengur í þróunarlöndum og sér í lagi í fyrrverandi nýlendum í Afríku eða meðal eyþjóða í Karíbahafinu. Þátttaka Íslands á Ólympíuleikum. Ísland keppti í fyrsta sinn á Ólympíuleikum árið 1908 en keppti síðan ekki á næstu fjórum leikum þar á eftir. Síðan hafa Íslendingar keppt á öllum Sumarólympíuleikum síðan 1936. Íslendingar hafa einnig keppt á öllum Vetrarólympíuleikum síðan 1948 að Vetrarólympíuleikunum árið 1972 undanskildum. Íslendingar hafa unnið til fernra verðlauna á Ólympíuleikum. Tvenn í frjálsum íþróttum, ein í júdó og ein í handknattleik. Skólasöngleikurinn 2. "Skólasöngleikurinn 2" (enska: "High School Musical 2") er önnur myndin í Skólasöngleikurinn-seríunni. Hún var heimsfrumsýnd 17. ágúst 2007 í Disneylandi í Kaliforníu. Leikararnir, m.a. Zac Efron, Lucas Grabeel, Vanessa Hudgens og Ashley Tisdale mættu á frumsýninguna. Hún var sýnd á Disney Channel í Bandaríkjunum og á Family í Canada. Í þessari annarri mynd í Disney-seríunni, er Troy Bolton stressaður yfir að fá ekki sumarstarf og hvað háskóli kostar mikið. Þá hyggst hann tryggja að hann og Gabriella geti verið saman allt sumarið. 17,3 milljónir horfðu á frumsýningu myndarinnar í Bandaríkjunum - næstum því 10 milljónum fleiri en á fyrri myndina. Þegar hún var sýnd sat hún í efsta sæti yfir fjölmennustu frumsýningar. Söguþráður. Í East High hringir síðasta bjalla skólaársins og nemendurnir syngja lagið "What Time Is It". Sem tákn um tilfinningar sínar til Gabriellu (Vanessa Hudgens gefur Troy (Zac Efron) henni hálsmen með stafnum „T“ sem merki um hann. Sharpay og Ryan Evans (Ashley Tisdale og Lucas Grabeel) ætla að eyða sumrinu á fjölskylduhótelinu, Lava Springs ("Fabulous"), en plan Sharpay var að fá Troy í vinnu svo hún gæti dregið hann á tálar. En Troy hefur sannfært framkvæmdastjóra hótelsins, Mr.Fulton (Mark L. Taylor) til þess að ráða Gabriellu og nánasta vinahóp þeirra; sem inniheldur bestu vinkonu Gabriellu, Taylor (Monique Coleman), og besta vin Troy, Chad (Corbin Bleu). Sharpay verður mjög pirruð þegar hún kemst að því að Gabriella er nýji sundlaugarvörðurinn. Mr.Fulton getur ekki rekið þau og þá krefst Sharpay þess (þar sem móðir hennar var samþykk ráðningunum) að Fulton eigi að láta þau vilja hætta. Hann gerir lítið úr öllum krökkunum, en Troy sannfærir þau um að þau geti klárað þetta á viljastyrknum ("Work This Out"). Að lokum fagna allir sumarlokum með því að halda sundlaugarteiti ("All for One"). Dómsvald. Dómsvald eða dómskerfi er dómstólakerfi sem sér um að framfylgja réttlæti við lausn ágreiningsmála í nafni ríkis eða þjóðhöfðingja. Samkvæmt kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins er dómsvaldið sú grein ríkisvaldsins sem ber meginábyrgð á túlkun laga. Disney Channel. Höfuðstöðvar Disney Channel í Burbank. Disney Channel er bandarísk sjónvarpsstöð (stofnuð 18. apríl 1983). Stöðin sendir út þætti og kvikmyndir fyrir börn og unglinga. Að mestu eru sýndir þættir framleiddir af Walt Disney fyrirtækinu en stundum stöðin sendir stöðin út þáttum frá öðrum aðilum. Disney sendir bæði út í gegnum kapal og í gegnum gervihnött. Stöðin er hluti Disney-ABC Cable Networks samsteypunnar, sem er í eigu Walt Disney. Höfuðstöðvar sjónvarpstöðvarinnar eru í Burbank, Kaliforníu. Walt Disney-fyrirtækið. Walt Disney Studios - höfuðstöðvar fyrirtækisins Walt Disney-fyrirtækið () er eitt af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum heims. Það var stofnað 16. október 1923 af bræðrunum Walt og Roy Disney og hefur orðið eitt af stærstir kvikmyndaverum í Hollywood. Ellefu þemagarðar eru í eigu fyrirtæksins til viðbótar eru nokkrar sjónvarpsstöðvar í eigu Disney, að meðtöldum ABC og ESPN. Höfuðstöðvar Disney eru í Burbank í Kaliforníu og heitir Walt Disney-kvikmyndaverin. Hringspinnir. Hringspinnir (fræðiheiti: "Malacosoma neustria") er náttfiðrildi af ætt spunafiðrilda. Hringspinnir er gulbrúnn með allt að 3 cm vænghaf. Kvendýrið verpir eggjum í skrúflínuferil á fingurgildar trjágreinar. Lirfur hringspinna nærast á laufi ýmissa trjáa og eru meindýr í ávaxtarækt. Sorgarskikkja. Sorgarskikkja (fræðiheiti: "Nymphalis antiopa") er dagfiðrildi af ætt dröfnufiðrilda. Sorgarskikkjan er með svarbláa vængi, sem eru gulleitir á jöðrunum. Hún lifir í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Vænghaf hennar er um 7 cm. Fullvaxta skordýr. Fullvaxta skordýr (kynþroska skordýr eða fullorðið skordýr) (fræðiheiti: "imago") er þroskunarstig innan skordýrafræðinnar sem merkir að skordýrið er ekki lengur púpa eða lirfa, heldur hefur náð fullvaxta stigi sínu. Stöðurafmagn. Stöðurafmagn hefur myndast vegna núnings milli hársins á stúlkunni og rennibrautarinnar Stöðurafmagn kallast rafmagn, sem verður vegna rafhleðsla í kyrrstöðu. Myndast gjarnan þegar tveir mismunandi hlutir núast saman þ.a. hleðslur af gagnstæðu formerki safnast upp á sitt hvorn hlutinn. Stundum verður rafspennan það há að afhleðsla verður í formi rafstraums, sem hleypur til jarðar í formi neista. Slík afhleðsla getur skemmt rafrásir og valdið íkveikju. Víðivallabræður. Víðivallabræður hafa þeir bræður verið nefndir: Jón Pétursson, háyfirdómari og þingmaður, Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður og Pétur Pétursson biskup, synir Péturs Péturssonar prófasts og konu hans Þóru Brynjólfsdóttur. Þeir urðu á tímabili leiðandi menn í þjóðmálum Íslendinga, hver á sínu sviði. Þeir eru kenndir við bæinn Víðivelli í Skagafirði. Olíutindur. Olíuframleiðsla Bandaríkjanna ásamt mati Hubberts Olíuframleiðsla Noregs ásamt ferli Hubberts Olíutindur (e. "Peak oil") er kenning sem lýsir því sem gerist þegar búið er að dæla upp það mikilli olíu úr olíulindum heimsins að það magn olíu sem dælt er upp úr lindunum eftir það fer sífellt minnkandi, þangað til að þær á endanum tæmast. Ef ekki er dregið úr olíunotkun heimsins áður en olíutindi er náð gæti það samkvæmt kenningunni leitt til orkukreppu. Bandaríkjamaðurinn M. King Hubbert notaði hugtakið um olíutind fyrstur árið 1956 og spáði réttilega fyrir um það að olíuframleiðsla Bandaríkjanna myndi ná hámarki á árunum 1965-1970. Hubbert spáði því síðan árið 1974 að olíutindi fyrir heimsbyggðina yrði náð árið 1995. Eftir það hafa margir spáð fyrir um það hvenær tindinum verði náð og hverjar afleiðingarnar muni verða. Bjartsýnustu spár segja að það magn olíu sem dælt verði upp muni ekki byrja að minnka fyrr en á fjórða áratugi 21. aldar. Þær segja að minnkunin muni ekki eiga sér stað eins snögglega og sumir hafa spáð fyrir um. Þess í stað muni olíuframleiðsla fyrst ná stöðugu hámarki og síðan smám saman minnka eftir það. Einnig segja þær að spár Hubberts geti ekki spáð fyrir um uppgötvanir nýrra olíulinda eins og þeirra sem fundist hafa í Alaska og í Mexíkóflóa. Svartsýnni spámenn segja hins vegar að tindinum hafi þegar verið náð. Grafít. Grafít eða ritblý er steinefni og eitt af fjölgervingsformum kolefnis. Grafít er notað í blýanta, en orðið er "grafít" er myndað af gríska orðinu "graphein" (γραφειν) sem þýðir „að teikna/skrifa“. Ólíkt demöntum er grafít rafleiðari og hefur til dæmis verið notað sem rafskaut í kolbogalampa. Grafít er stöðugusta form kolefnis við staðalaðstæður. Harry Potter og dauðadjásnin. Harry Potter og dauðadjásnin eftir J.K. Rowling er sjötta og síðasta bókin í bókaseríunni sem fjallar um Harry Potter, ungling sem er í námi til galdramanns. Weimar-lýðveldið. Weimar lýðveldið er heiti sem sagnfræðingar nota yfir lýðræði og lýðveldi í Þýskalandi á tímabilinu 1919 til 1933. Lýðveldið var stofnað eftir þýsku byltinguna í nóvember 1918 og kom þjóðarráð saman í borginni Weimar þar sem stjórnarskrá fyrir Þýskaland var tekin upp 11. ágúst 1919. Stjórnarskráin var ekki numin úr gildi fyrr en eftir Síðari heimstyrjöldina en með lögum sem stjórn Nasista setti í febrúar og mars 1933 þá var lýðræði ekki lengur í Þýskalandi og er það talið marka endalok Weimar lýðveldisins og byrjun Þriðja ríkisins. Hitler varð Kanslari Þýskalands 30. janúar 1933 og þinghúsið brann 27. febrúar. Eftir þinghúsbrunann voru afnumin ýmis mannréttindi sem Weimar stjórnarskráin kvað á um og Nasistastjórnin bannaði stjórnmálafundi og lét fangelsa og drepa kommúnista. Mör. Mör (eða netja) er innanfita úr dýrum, þ.e. oftast fituhimnan utan um innyflin. Mör er notuð í ýmiskonar matargerð, t.d. í blóðmör, lifrarpylsu, hamsatólg, hnoðmör og fleira. Hamsatólg. Hamsatólg er kindamör sem hefur verið bræddur og látinn storkna og bræddur upp aftur til að hafa út á mat, aðallega fisk. Hamsatólg er líklega vestfirsk uppáfynding. Munurinn á hamsatólg og "mörfloti" er að í mörflotinu er hnoðmör, en hann er ekki hafður í hamsatólginni. Oft er talað um vestfirskt mörflot. Hamsatólgin er mikið borðuð með saltfiski, signum fiski og kæstri skötu á Þorláksmessu. Orðið hamsatólg. Hamsar sem eiga við forliðin í orðinu hamsatólg eru brúnu bitarnir sem verða eftir þegar mör er bræddur, öðru nafni skræður. Tólg er mör sem hefur verið bræddur og hefur storknað aftur. Traveling Wilburys. Traveling Wilburys var hljómsveit (oft kölluð súperhljómsveit), sem í voru stórstirnin George Harrison (úr Bítlunum), Jeff Lynne (úr ELO), Roy Orbison, Tom Petty (úr Tom Petty and the Heartbreakers) og Bob Dylan söngvari, tónskáld og textahöfundur. Harrison og Lynne voru báðir breskir en Orbison, Petty og Dylan amerískir. Þeir stofnuðu hljómsveitina árið 1988 og gáfu út tvö albúm. Roy Orbison lést eftir að upptökum lauk á fyrra albúminu og stóðu hinir fjórir að því síðara tveimur árum síðar. Albúmin heita Traveling Wilburys Vol. 1 og Traveling Wilburys Vol. 3 og vekur athygli að númer tvö kom aldrei út og eru ýmsar sögur um ástæðu þess. Sápa. Sápa er yfirborðsvirkt efni sem er notað með vatni til þvotta og hreinsunar og er fáanleg í föstu formi sem stykkjasápa (sbr. handsápa), og einnig í duft- eða vökviformi. Efnafræðin útskýrir sápu sem salt úr fitusýrum, en sápa er yfirleitt framleidd með efnahvarfi fitu og sterks basa eins og lúts (natríumhýdroxíð), pottösku (kalíumhýdroxíð) eða vatnssnauðu natríumkarbónati. Venjulega er basin fenginn úr ösku harðviðar. Pílagrímsferð. Pílagrímar eru þeir nefndir sem ferðast til heilagra staða, en ferðamerkingin er þó eldri en hin trúarlega. Orðið pílagrímur er komið úr miðaldalatínu "pelegrinus" sem er hljóðbreyting frá "peregrinus" í klassískri latínu (það er "útlendingur"). Pílagrímsferðir eru mikilvægar í flestöllum trúarbrögðum og eru farnar í þakkargjörðarskyni, í yfirbótarskyni, eða einfaldlega vegna trúarlegs eða menningarlegs áhuga. Flestir pílagrímar leggja á sig töluverðan tíma, erfiði og kostnað við vegferðina og er ferðin sjálf oft jafn mikilvæg og áfangastaðurinn. Staðirnir sem pílagrímar heimsækja tengjast oftast atburðum og persónum úr heilögum ritum. Á leiðinni eru bænir beðnar og helgir textar íhugaðir um leið og holdið er tyftað með líkamlegri áreynslu en misjafnt er hversu nákvæmar reglur eru um pílagrímsgönguna. Pílagrímagöngur hafa haft mikilvægt efnahagslegt gildi, sérlega fyrir hina heilögu stað en einnig fyrir þorp og bæi á vegferðinni. Þetta er snar þáttur í endurvakningu pílagrímaferða í Evrópu á síðustu áratugum. Þó svo að hugtakið pílagrímur sé oftast notað í trúarlegu samhengi er ekki sjaldgæft að samskonar fyrirbæri skapist í pólitísku samhengi, má þar nefna ferðir að grafhýsi Leníns í Moskvu og dýrkun tengd Mao Zedong, Kim Il Sung og Ho Chi Minh. Hugtakið er einnig alloft notað í óeiginlegri merkingu um för á merkilega staði. Bahá'í pílagrímar. Stofnandi Bahá'í trúarinnar, Bahá'u'lláh, lagði fyrir um pílagrímagöngur á tvo staði, að heilögu húsi í Bagdad í Írak og eins í borginni Shiraz í Íran. Hann lýsti einnig nákvæmlega reglum um hegðun í samband við ferðirnar. Eftirmaður Bahá'u'lláh, `Abdu'l-Bahá, sagði fyrir um þriðja pílagrímamarkmið trúaðra bahaía, Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar í Haifa í Ísrael. Það er nú í raun eina pílagrímamöguleiki trúarinnar þar sem hinir tveir eru nú algjörlega lokaðir trúuðum. Búddískir pílagrímar. a>; þeir kasta sér endilöngum á jörðina. Pílagrímaferðir eru mikilvægur þáttur í flestum greinum búddisma og eru þáttur í menntun munka og nunna. Heilögustu staðir búddismans eru flestir á sléttunni við Ganges-fljótið og í suðurhluta Nepal. Gautama Buddha lifði og starfaði á þessum slóðum og þar eru helstu heilagir staðir búddista. Þeir mikilvægustu eru: Lumbini: fæðingarstaður Gautama Buddha (í Nepal); Bodh Gaya: þar sem hann varð upplýstur; Sarnath: þar sem hann hélt fyrsta fyrirlesturinn; Kusinara: (nú Kusinagar, á Indlandi) þar sem hann náði mahaparinirvana (dó). Mikill fjöldi annarra staða eru markmið pílagrímaferða, má þar nefna Lhasa í Tíbet, Angkor Wat í Kambódíu, Polonnaruwa á Sri Lanka, Luang Prabang í Laos, Borobudur í Indónesíu og Kyoto í Japan Gyðinga pílagrímar. a> er allt sem eftir stendur af musterinu í Jerúsalem Musterið í Jerúsalem var miðpunktur trúarathafna gyðinga þar til það var jafnað við jörðu árið 70. Þangað áttu allir fullorðir karlmenn að fara á helstu hátíðum til að taka þátt í trúarathöfnum. Frá því að gyðingar voru sendir í útlegð af rómverjum ár 135 og næstu eitt þúsund og átta hundruð árin áttu fæstir þeirra möguleika að sækja Jerúsalem heim. Draumurinn um það var þó snar þáttur í trúarlífi og hefðum gyðinga. Nú á tímum fara gyðingar allstaðar að úr heiminum í pílagrímaferðir til Jerúsalem og er Grátmúrinn aðal markmiðið. Hindúiskir pílagrímar. Pílagrímaferðir eru ekki nein kvöð í hindúisma þó svo að fjölmargir fari í þær. Það er meðal annars trú margra að bæta megi karma fyrir næsta líf með því að sækja heim helga staði. Má þar nefna meðal fjölmargra borgirnar Allahabad, Haridwar, Varanasi og Vrindavan. Kumbh Mela pílagrímaferðin er farin á tólf ára fresti og er fjölmennasta trúarathöfn í heimi, um 60 miljónir tóku þátt í henni 2005. Kristnir pílagrímar. Pílagrímaferðir eru gömul hefð í flestum greinum kristinnar trúar. Upphaflega voru þær farnar á staði tengda lífi og dauða Jesú. Heimildir eru til um ferðir kristinna pílagríma til Landsins helga allt frá 4. öld þegar meðal annarra Hieronymus kirkjufaðir hvatti til bænaferða. Fljótlega hófust einnig ferðir til Rómarborgar og annarra staða sem tengdust postulunum, dýrlingum og sérlega stöðum þar sem María mey hafði opinberað sig. Krossferðirnar voru farnir sem pílagrímsferðir meðfram til að frelsa Landið helga frá múslimum. Á miðöldum var mikill fjöldi helgistaða á meginlandi Evrópu og varð mikil ferðamannaþjónusta í kringum ferðalög pílagríma. Á 4. og 5. öld jókst dýrkun helgra dóma og þóttu þeir bestir sem gerðu tilkall til að eiga gripi sem tengdust Jesú eða postulunum á einhvern hátt. Á miðöldum voru pílagrímsferðir fyrst og fremst farnar í sáluhjálparskyni í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir og sem þakkargjörð og einnig í yfirbótarskyni, ýmist af eigin frumkvæði eða fyrirlagt af andlegum eða veraldlegum yfirvöldum. Ferðunum var heitið til staða sem geymdu leifar dýrlinga og annarra heilagra manna. Líkamar og hlutar af líkum heilagra manna og hlutir sem höfðu verið í snertingu við þá voru helgir dómar og bjuggu yfir andlegum kröftum. Fyrir utan Jerúsalem sem fæstir áttu aðgang að urðu helstu pílagrímamarkmiðin Rómarborg, Santiago de Compostela á Spáni, Lourdes í Frakklandi og fyrir rétttrúnaðarkirkjuna Konstantínópel (sem nú heitir Istanbúl) í Tyrklandi. Fyrir Norðurlandabúa voru pílagrímsferðir til Niðaróss nærtækastar en margir lögðu á sig að ganga til Rómar. Heimildir eru um fjölmarga Íslenska pílagríma á miðöldum, má þar nefna Nikulás ábóta á Munkaþverá (dáinn 1159) sem skrifaði leiðarlýsingu fyrir pílagríma; Sturla Sighvatsson sem fór í suðurför fyrir mótgerðir sínar við Guðmund biskup góða og var leiddur berfættur milli höfuðkirkna í Rómaborg og flengdur. Í Grænlendinga sögu er frá því sagt að Guðríður Þorbjarnardóttir kona Þorfinns karlsefnis, sú er fór með honum til Vínlands, gekk suður og gerðist síðan einsetukona þegar heim kom. Einnig er sagt frá því í Gísla sögu Súrssonar að Auður Vésteinsdóttir kona Gísla hafi farið í pílagrímsferð til Rómar að honum látnum og aldrei snúið aftur. Einna frægastur er Björn Einarsson Jórsalafari sem fór til Jerúsalem árið 1406. Voru pílagrímaferðir jöfnum höndum nefndar suðurgöngur. Mjög dró úr pílagrímaferðum, sérlega langferðum, er miðöldum lauk. Á síðustu áratugum hafa þær þau aukist mjög og í mörgum tilvikum fremur tengdar ferðamennsku og menningarsögu en trúmálum. Sérlega hefur aðsókn á Jakobsveginn til Sanitago de Campolstela aukist gífurlega, einnig hefur hin endurvakti vegur Ólafs helga til Niðaróss vaxið að vinsældum. Athuga ber að mótmælendakirkjur viðurkenna ekki, andstætt við kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjurnar, pílagrímaferðir sem trúarlegar athafnir sem geti haft andlegar náðargjafir í för með sér. Þær líta ekki heldur á staði tengda pílagrímsferðum sem helgistaði þar sem kraftaverk geti átt sér stað. Í Ágsborgarjátningunni (grundvallarjátningu evangelísk-lúthersku kirkjunnar) 20. grein eru pílagrímsferðir sagðar „barnaleg og ónauðsynleg verk". Þó að mótmælendur heimsæki staði eins og t.d. gröf Lúthers er hvorki litið á það sem kristna skyldu né að þar sé um helgistað að ræða. Kalvín lét grafa sig á óþekktum stað til að koma í veg fyrir pílagrímsferðir. Á síðustu áratugum hefur afstaða lúthersku kirknanna á Norðurlöndum gagnvart pílagrímaferðum snúist frá því sem áður var. Þær sækjast ekki eftir kraftaverkum miðaldakirkjunnar heldur líta á pílagrímaferðina sem bænagjörð með fótunum. Múslimskir pílagrímar. Pílagrímsferð múslima til Mekka er nefnd hadsjí er og er ein af "fimm stoðum íslams" samkvæmt Sunní og einnig hinum t"íu greinum trúarinnar" samkvæmt Shía. Allir múslimar, sem heilsu hafa og hafa efni á, eiga að fara í slíka pílagrímsferð að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þar að auki fara múslimar iðulega í pílagrímsferðir til ýmissra annarra staða tengda starfi Múhameðs eins og borgin Medína. Í trúarhefð Shía eru grafir imama haldnar heilagar og eru markmið pílagríma auk annarra helgistaða. Einnig fylgir mikil helgi Musterishæðinni í Jerúsalem, og fara múslimar í pílagrímsferðir til Al Aqsa moskunnar og til Klettamoskunnar þar. Sigursteinn Gíslason. Sigursteinn Gíslason (25. júní 1968 - 16. janúar 2012) var yfirknattspyrnuþjálfari Leiknis og fyrrverandi varnarmaður. Hann hóf knattspyrnuferil sinn með KR og spilaði fyrst með þeim árið 1987. Árið eftir fór hann til ÍA og spilaði með þeim til 1998 og vann með þeim fimm Íslandsmeistaratitla. Hann gekk til liðs við KR 1999 og vann með þeim fyrsta titil félagsins í 31 ár. Hann fór veturinn eftir til Stoke City en festi sig ekki í sessi þar og fór aftur til KR árið 2000 og var þar til ársins 2003. Síðasta tímabilið sitt lék hann með Víkingi Reykjavík, 2004. Eftir að hætta knattspyrnuiðkun var hann ráðinn aðstoðarþjálfari KR, en að loknu tímabilinu 2008 var hann ráðinn þjálfari Leiknis. Sigursteinn hefur unnið 9 Íslandsmeistaratitla sem leikmaður, flesta allra, og spilað 22 landsleiki. Sigursteinn dó þann 16. janúar 2012 úr krabbameini. Vecht. Vecht er á sem rennur bæði um Þýskaland og Holland og er ein af þverám Rínarfljóts. Hollandsmegin er áin oft kölluð Utrecht Vecht til aðgreiningar frá OverIjssel en hluti árinnar er oft kölluð OverIjssel til aðgreiningar frá þýska hluta árinnar. Lengd árinnar Vecht er 162 km, þar af eru 107 km í Þýskalandi. Vecht á upptök sín í Baumberge hæðum í þýska fylkinu North Rhine Westfalen, nálægt borginni Munster í Þýskalandi. Landsvæðið meðfram ánni kallast Vecht-Streek KR-TV. KR-TV er vefsjónvarp körfuknattleiksdeildar KR og eru deildar, bikar og evrópuleikir meistaraflokks karla í körfuknattleik sýndir þar í beinni útsendingu. KR-TV fór í loftið þann 11. október árið 2007 í fyrsta leik KR á tímabilinu 2007-08 en það var leikur gegn Fjölni sem KR vann með 100 stigum gegn 78. Ingi Þór Steinþórsson, einn af þjálfurum yngri flokka KR í körfubolta, lýsti mörgum leikjum auk þess sem Atli Freyr Einarsson og Hjalti Kristinsson lýstu einhverjum leikjum. KR-TV var með beina útsendingu frá öllum leikjum KR í deild og bikarkeppninni 2007-08 auk heimaleikjarins í evrópukeppninni, alls 29 leikir. KR-TV fékk ekki leyfi frá FIBA til að senda útileikinn í beinni útsendingu, en KR keppti við Banvit frá Tyrklandi. Auk þess að sýna frá leikjum meistaraflokks karla voru líka beinar útsendingar frá stórum heimaleikjum meistaraflokks kvenna ásamt úrslitaleikjum í unglinga- og drengjaflokki. Símbréf. Símbréf (einnig kallað fax) er fjarskiptatækni sem notuð er til að flytja afrit af skjölum, sérstaklega með tækjum á viðráðanlegu verði, yfir símakerfi. Öxnadalsheiði. Öxnadalsheiði er heiði eða dalur á milli Norðurárdals í Skagafirði og Öxnadals í Eyjafirði. Þjóðvegur 1 milli Skagafjarðar og Akureyrar liggur um heiðina. Heiðin er nokkuð snjóþung og var erfið yfirferðar áður fyrr. Vegurinn um Öxnadalsheiði liggur hæst í 540 metrum yfir sjó og er það annar hæsti punkturinn á Þjóðvegi 1, næst á eftir Möðrudalsöræfum. Heiðin er þröng vestantil, í Giljareit og Skógahlíð. Þar rennur Heiðará í djúpu og hrikalegu gili meðfram veginum. en víkkar heldur til austurs og þar eru sýslumörk Skagafjarðarsýslu og Eyjafjarðarsýslu við Grjótá. Upp af Grjótá er Grjótárhnjúkur (1237 m) og upp af gildragi vestan hans er Tryppaskál, þar sem nær þrjátíu hross voru rekin fyrir björg árið 1870. Má enn sjá bein þeirra í skálinni. Fundist hafa tóftir af tveimur bæjum á heiðinni. Þessir bæir fóru í eyði einhvern tímann á 13. öld. Norwich. Norwich er borg í Austur-Anglíu á Englandi. Hún er höfuðborg sýslunnar Norfolk. Á 11. öldinni varð Norwich önnur stærsta borg Englands og var einn af mikilvægustum stöðum í konungsríkinu. Árið 2006 var mannfjöldi borgarsvæðis 129.500 og er þéttbýli 3.319 manns á ferkílómetra. Í Norwich er byggingarlist margvísleg og eru til margar sögulegar byggingar í dag. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Menntavísindasvið Háskóla Íslands er eitt fimm sviða innan Háskóla Íslands. Það menntar kennara fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, íþrótta- og heilsufræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa. Menntavísindasvið er að kjarna til Kennaraháskóli Íslands sem sameinaðist Háskóla Íslands 1. júlí 2008. Nám á menntavísindasviði er ýmist staðbundið nám, fjarnám eða sveigjanlegt nám. Húsakynni. Menntavísindasvið hefur aðsetur í Stakkahlíð, Skipholti og Bolholti í Reykjavík og á Laugarvatni. Aðalbygging Kennaraháskólans er við Stakkahlíð. Þar var tekin í notkun nýbyggingin Hamar árið 2002. Kennsla í list- og verkgreinum fer fram í Listgreinahúsi skólans í Skipholti 37. Skrifstofur margra kennara og stofnana innan skólans eru í Skipholti og Bolholti. Íþróttanám fer fram á Laugarvatni. Hólmfríður Sigurðardóttir. a>. Málverkið er talið málað á árunum 1690 til 1692. Hólmfríður Sigurðardóttir (9. janúar 1617 – 25. apríl 1692) var prófastfrú í Vatnsfirði á 17. öld. Foreldrar hennar voru Sigurður Oddsson í Hróarsholti í Flóa, sonur Odds biskups Einarssonar, og kona hans Þórunn ríka Jónsdóttir. Sigurður drukknaði sama ár og Hólmfríður fæddist en móðir hennar giftist aftur Magnúsi Arasyni sýslumanni á Reykhólum og ólst Hólmfríður þar upp. Um Hólmfríði segir Jón Ólafsson frá Grunnavík: „Það var sú, sem lét færa sér utan gylltan lit til hárs síns, að sagt er. Og einhverja vinnukonu þvo sér, ef hún tók á nokkru óhreinu, og sú, er sagði: Mun ég þá verða að segja: æ? þá hún fann sig fyrst þungaða. Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin.“ Hún giftist 1636 Jóni Arasyni prófasti í Vatnsfirði, sem var yngri bróðir Magnúsar stjúpföður hennar, og bjuggu þau í Vatnsfirði þar til Jón lést árið 1673. Þá flutti hún í Hóla til Ragnheiðar dóttur sinnar og síðar í Laufás til Helgu dóttur sinnar. Í Laufáskirkju er varðveitt málverk af Hólmfríði sem talið er að Helga hafi látið mála í minningu móður sinnar. Börn þeirra Jóns voru Magnús digri, bóndi í Vigur og Ögri, Helga eldri prestkona í Laufási, Ragheiður eldri húsfreyja í Flatey, Guðbrandur prófastur í Vatnsfirði, Sigurður prófastur í Holti í Önundarfirði, Ragnheiður yngri biskupsfrú á Hólum, Oddur digri klausturhaldari á Reynistað, Anna digra prestsfrú á Breiðabólstað í Vesturhópi og Ari bóndi á Sökku í Svarfaðardal. Jón Arason í Vatnsfirði. Jón Arason (19. október 1606 – 10. ágúst 1673) var skáld og prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp á 17. öld og áður skólameistari í Skálholtsskóla. Jón n var af Svalbarðsætt, sonur Ara Magnússonar í Ögri og Kristínar dóttur Guðbrands Þorlákssonar biskups. Hann sigldi 1624, stundaði háskólanám í Kaupmannahöfn í fimm ár, varð skólameistari í Skálholti 1632 og gegndi því embætti til 1636 en þá varð hann prestur í Vatnsfirði og bjó þar til dauðadags. Sagt var að skólapiltar í Skálholti hefðu lítið séð eftir honum vegna þótta hans og dramblætis. Hann var prófastur í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi og einnig í Strandasýslu. Jón var skáld og er varðveittur ýmis kveðskapur eftir hann, þar á meðal vísur sem hann orti um nafna sinn, Jón biskup Arason. Hann skrifaði líka "Vatnsfjarðarannál elsta", sem þykir einn hinna traustari annála. Sagt var að hann hefði í elli orðið guðhræddur og auðmjúkur af mótlæti. Kona Jóns var Hólmfríður Sigurðardóttir (9. janúar 1617 – 25. apríl 1692). Börn þeirra voru Magnús digri, bóndi í Vigur og Ögri, faðir Þorbjargar konu Páls Vídalín, Helga eldri prestkona í Laufási, Ragheiður eldri húsfreyja í Flatey, Guðbrandur prófastur í Vatnsfirði, Sigurður prófastur í Holti í Önundarfirði, Ragnheiður yngri biskupsfrú á Hólum, Oddur digri klausturhaldari á Reynistað, Anna digra prestsfrú á Breiðabólstað í Vesturhópi og Ari bóndi á Sökku í Svarfaðardal. Sum af börnum Jóns og Hólmfríðar voru afar feitlagin og sagt að fáir eða engir hestar gætu borið þau. Laufás (Grýtubakkahreppi). Gamli bærinn í Laufási Laufás í Grýtubakkahreppi er kirkjustaður og prestsetur í Þingeyjarsýslu. Prestsetur hefur verið í Laufási frá fyrstu kristni. Kirkjan sem þar stendur er byggð á 19. öld af Tryggva Gunnarssyni, trésmið og athafnamanni. Í Laufási er gamall burstabær, byggður í núverandi mynd af Jóhanni Bessasyni á Skarði í Dalsmynni á seinni hluta 19. aldar. Laufásbærinn er nú byggðasafn og búinn húsmunum og áhöldum líkast því sem tíðkaðist í kringum aldamótin 1900. Hann var hýbýli prests þar til byggt var nýtt prestsetur árið 1936. Frá Laufási var Þórhallur Bjarnarson biskup, sem byggði hús í Reykjavík og lét heita eftir bænum. Við það hús er svo Laufásvegur kenndur. Sonur Péturs Þórarinssonar prests reisti íbúðarhús í Laufási en Prestsetrasjóður leigði honum jörðina án hlunninda eftir að faðir hans lést. Risu af því deilur árið 2007. Oude IJssel. Oude IJssel er á á landamærum Hollands og Þýskalands. Landamærin liggja víða eftir miðri ánni og er um 80 km löng. Hún er þverá IJssel-árinnar. Oude IJssel þýðir „gamla IJssel“. Þær voru sameinaðar Rínarfljóti með skurði, Berkelskurðinum á tímum Rómaveldis. Við ána er bærinn Gescher. KR-klúbburinn. KR-klúbburinn er klúbbur stuðningsmanna KR, stofnaður hinn 11. mars 1993. Markmið klúbbsins hefur verið frá fyrsta degi að auka tengsl hins almenna stuðningsmanns við félagið auk þess að efla samheldni og veita leikmönnum stuðning með öflugri starfsemi innan vallar sem utan. KR-klúbburinn hefur lengi staðið að opnu húsi fyrir heimaleiki KR þar sem m.a. hefur verið boðið uppá veitingar. Saga. Ársmiðar og KR-klúbbs kort fyrir tímabilið 2008 Það var þann 11. mars árið 1993 sem stuðningsmenn knattspyrnudeildar KR boðuðu til fundar í félagsheimili KR. Á þeim fundi var KR-klúbburinn stofnaður. Þrátt fyrir að félagið hafi allt frá upphafi notið öflugs stuðnings var þetta í fyrsta skipti sem stuðningsmenn KR stofnuðu með sér samtök, því lengst af voru það einungis gamlir, "innvígðir" KR-ingar sem höfðu starfað hjá KR. Fyrsti formaður KR-klúbbsins var Hafsteinn Egilsson og varaformaður Kristján Ingi Einarsson Skömmu eftir stofnun klúbbsins hóf hann að gefa út fréttabréf auk þess sem klúbburinn tók að sér sölu minjagripa og halda opin hús á heimaleikjum KR. KR-klúbburinn tók einnig uppá því að heiðra leikmenn KR sem hafa spilað 150 leiki eða skarað fram úr fyrir félagið. Fyrsti heiðursmaður KR-klúbbsins var Atli Eðvaldsson og fljótlega eftir það fylgdu Gunnar Skúlason og Kristrún Heimisdóttir. KR-klúbburinn hefur nú í áraraðir staðið fyrir rútuferðum á útileiki, ókeypis barnapössun á heimaleikjum, opnum húsum á heimaleikjum og lukkupollum, þar sem börn félagsmanna geta fengið að fylgja leikmönnum meistaraflokks út á völlinn í byrjun leiks. Ársmiðar KR-klúbbs frá upphafi. Frá 1993-2000 voru kortin notuð sem aðgöngumiðar að hverjum heimaleik en vegna þess hversu oft menn svindluðu með þau var skipt yfir í það form sem nú er við lýði, þar sem miðar eru rifnir úr bókinni fyrir hvern leik. Einn ársmiði er þarna fyrir körfuboltann í KR Námafjall. Námafjall og umhverfi er háhitasvæði sem liggur um sprungurein sem nær norður úr Öxarfirði gegnum eldstöðina Kröflu og suður fyrir Hverfell. Jarðhitanum er viðhaldið af kvikuinnskotum frá eldstöðinni. Þjóðvegurinn milli Mývatns og Austurlands liggur um Námaskarð rétt austan Bjarnarflags milli Dalfjalls og Námafjalls. Þétt sprungubelti liggur yfir allt Námafjallssvæðið en meginuppstreymið er austan við fjallið og hefur það gengið síðustu ár undir nafninu Hverarönd. Á því svæði eru margir gufu- og leirhverir, en engir vatnshverir. Leirhverirnir eru stórir og áberandi en gufuhverirnir eru margir ekki annað en borholur sem búið er að hlaða grjóti yfir. Jarðvegur ófrjór og gróðurlaus á háhitasvæðinu og mjög súr vegna áhrifa hveraloftsins og fellur út brennisteinn. Fyrr á öldum var mikið brennisteinsnám við Námafjall en á miðöldum var brennisteinninn notaður í púður. Eigendur Reykjahlíðar auðguðust mikið á sölu brennisteins. Brennisteinn var unninn í Hlíðarnámum. Danakonungur eignaðist námurnar árið 1563. Þær voru nýttar af og til fram á miðja 19. öld. Verksmiðja til að vinna brennistein var reist í Bjarnarflagi árið 1939 og starfaði í nokkur ár. Jarðhitasvæðið við Námafjall og allur Skútustaðahreppur var friðlýst árið 1974. Laugarvatnshellar. Laugarvatnshellar eru manngerðir móbergshellar í Reyðarbarmi á Laugarvatnsvöllum, miðja leið milli Þingvalla og Laugarvatns. Hellarnir voru tveir, annar fjögurra metra breiður og 12 metra langur, en hinn álíka langur en mjórri. Hefur skilrúm milli þeirra nú hrunið niður. Hellarnir eru þekktir fyrir að það var búið í þeim í byrjun 20. aldar. Á fyrri öldum voru þeir notaðir sem sæluhús. Mikið er um veggjakrot í móberginu á hellisveggjum og utan við hellismunnana, nöfn, fangamörk, ártöl, bílnúmer o.fl. Ungmennafélagið Laugdælir hefur í samvinnu við Vegagerðina reist upplýsingaskilti við hellana, þar sem saga þeirra er tíunduð. Ábúendur 1910-1911. Indriði Guðmundsson og Guðrún Kolbeinsdóttir hófu búskap í hellunum árið 1910, en land var ekki á lausu í sveitinni, þaðan sem Indriði var ættaður. Þrátt fyrir að Indriði væri einungis 22 ára og Guðrún 17 bjuggu þau í hellinum í eitt ár og starfræktu veitingasölu við þjóðveginn. Af veitingasölunni fengu þau nokkrar tekjur sem auðveldaði þeim að flytjast annað. Seinna stunduðu þau búskap í Reykjavík og ráku Indriðabúð að Skólavörðustíg 15. Ábúendur 1918-1921. Sjö árum eftir að fyrri ábúendurnir yfirgáfu hellana settust önnur ung hjón þar að. Í þetta skiptið voru á ferðinni Jón Þorvarðarson og Vigdís Helgadóttir, en Jón var ættaður úr sveitinni líkt og Indriði. Þau bjuggu mun lengur í hellunum, eða í fjögur ár, og ól Vigdís þrjú börn á þessum tíma, þar af voru tvö fædd í hellinum. Eitt barnanna sem ólst upp í hellunum er Magnús Jónsson, sem enn er á lífi og kallar sig síðasta núlifandi hellisbúann á Íslandi. Hann fæddist þó ekki í hellinum en ólst þar upp fyrstu tvö ár ævi sinnar. Jakobsvegurinn. Nútímatákn Jakobsvegarins Jakobsvegur eða Vegur heilags Jakobs er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu. Hann heitir á galisísku "O camiño de Santiago", á spænsku "El Camino de Santiago" og frönsku "Chemins de Saint-Jacques". Jakobsvegurinn endar í dómkirkjunni í Santiago de Compostela í héraðinu Galisíu á Spáni en hefst þar sem pílagrímurinn leggur af stað. Snemma skapaðist helgisögn um tengsl Jakobs postula við norðvestur Spán og á 9. öld var álitið að líkamsleifar hans hefðu fundist þar sem nú er borgin Santiago de Compostela og er hún nefnd eftir Jakobi. Fljótlega fóru trúaðir víðsvegar að úr Evrópu að fara í bótgerðar og þakkargöngur til borgarinnar og varð hún þriðji mikilvægasti ákvörðunarstaður kristinna pílagríma á eftir Jerúsalem og Róm. Greinar Jakobsvegarinns í Vestur-Evrópu, þær bláu og rauðu eru þær sem nú eru mest notaðar Dómkirkjan í Santiago de Compostela, takmark Jakobsvegarins Ein meginleið kristinna pílagríma. Jakobsvegurinn hefur verið farbraut manna í meira en þúsund ár og var ein megin pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum. Ferð um Jakobsvegin var ein af þremur slíkum sem veittu syndaaflausn samkvæmt kaþólsku kirkjunni.. Hinar tvær voru pílagrímaganga til Rómar eftir svo nefndri Via Francigena leið og svo pílagrímaferð til Jerúsalem. Samkvæmt helgisögn, sem allmennt er talin eiga upphaf á sjöundu öld, var Jakobi postula ætlað trúboð á Íberíuskaganum. Fyrir þessari helgisögn eru hins vegar engar heimildir, hvorki í Biblíunni né í öðrum ritum. Heilagur Jakob, sem einnig er nefndur hinn mikli, var eldri bróðir Jóhannesar guðspjallamanns samkvæmt Nýja testamentinu. Helgisagan hermir að Jakob hafi stigið á skipsfjöl og tekið land á norð-vestur hluta Spánar, þar sem nú heitir Galisía. En Jakob hafði ekki árangur sem erfiði í trúboðinu og að sjö árum liðnum snéri hann til Landsins helga. Jakob dó þar samkvæmt Postulasögunni píslarvættisdauða (hugsanlega um árið 44) og er frá því sagt: "Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði" Lærisveinar Jakobs fluttu jarðneskar leifar hans aftur til Galisíu til greftrunar samkvæmt helgisögunni. En gröfin gleymdist síðar á þjóðflutningatímabilinu. Árið 814 fylgdi fjárhirðir að nafni Pelayo ábendingu stjörnuhraps samkvæmt helgisögninni og fann þá grafhýsi Jakobs. Af þeim atburði fékk staðurinn nafnið Santiago de Compostela, sem þýðir eiginlega "Heilagur Jakob í Stjörnuakri" (campus stellae á latínu). Sagt er að "Godescalc" eða "Gottskálkur biskup" í frönsku borginni Le Puy hafi verið fyrstur manna til að fara í pílagrímagöngu til Santiago árið 950. Nafnið Jakobsvegur kemur fyrst fyrir í rituðum heimildum frá 1047 og var fljótlega allmennt notað í evrópskum málum. Engin ein leið er til Santiago, hún endar þar en hefst þar sem pílagrímurinn lagði af stað. En nokkrar meginleiðir mynduðust þar sem leiðirnar lágu saman eftir því sem nær dró og þegar komið var inn í Spán gengu langflestir einn og sama veginn. Við veginn risu sæluhús og pílagrímakirkjur með reglulegu millibili. Á miðöldum var leiðin afar fjölfarin en svarti dauði, siðaskipti mótmælenda og ekki síst pólitísk umbrot á 16. öld urðu til þessa að mjög fækkaði pílagrímum. Um 1980 komu einungis fáeinir pílagrímar árlega til Santiago. En upp frá því hefur þeim fjölgað stöðugt og koma á síðustu árum milli 50.000 og 100.000 pílagrímar árlega. Árið 1993 var Jakobsvegurinn á Spáni settur á Heimsminjaskrá UNESCO og franski hlutinn árið 1998. Seinni tíma pílagrímar. Klettakirkjan í Le Puy Síðustu áratugina hafa tugir þúsunda kristinna pílagríma og annarra ferðamanna lagt upp í för til Santiago de Compostela. Árið 1982 fór páfinn Jóhannes Páll 2. í pílagrímsferð til Santiago og skoraði þá á Evrópumenn að endurreisa hefð pílagríma sem leið til að finna menningarlegar rætur sínar. Var það á sinn hátt til að endurskapa Jakobsveg nútímans. Evrópuráðið samþykkti 1987 að útnefna Jakobsveginn sem fyrsta "menningarveg Evrópu". Það ár voru 3.000 pílagrímar skráðir við dómkirkjuna í Santiago, árið 2003 voru þeir 74.000 og 2004, sem var heilagt Compostela-ár, komu 179.932. Nokkrir hefja förina bókstaflega á þröskuldi heimilis síns en flestir hefja pílagrímaferðina á einhverjum af þeim stöðum sem kaþólska kirkjan og ferðamálayfirvöld í Frakklandi og á Spáni í sameiningu hafa valið sem upphafsstaði Jakobsvegar nútímans. Flestir fara gangandi, nokkrir hjóla og fáeinir fara ferða sinna á þann hátt sem miðalda pílagrímar gerðu, það er með hest eða asna. Fyrir utan þá sem fara í trúarlegum tilgangi eru fjölmargir sem hafa aðrar ástæður, menningarlegar jafnt og ferðaþrá. Hin svo kallaða franska leið Pílagrímar á Jakobsvegi ganga í vikur eða mánuði á leið sinni til Santiago de Compostela. Þeir geta fylgt fjölmörgum leiðum, enda eru allar leiðir til Santiago pílagrímaleiðir, en sú vinsælast er hin svo kallaða "franska leið" eða "Camino Francés" og hefja flestir ferðina í einhverri af spænsku borgunum á leiðinni. Spánverjar telja eðlilegt að hefja gönguna við Pýreneafjöllin. Algengt er að byrja gönguna í Saint-Jean-Pied-de-Port eða Somport Frakklandsmegin við Pýreneafjöllin og Roncesvalles eða Jaca Spánarmegin. En fjölmargir velja að hefja gönguna í einni af fjórum hefðbundnum upphafsstöðum Jakobsvegarins í Frakklandi: Le Puy, Vézelay, Arles eða Tours. Frá pílagrímaborgunum í Pýreneafjöllunum er um 740 til 760 km leið til Santiago. Ef ferðin er hafin í Le Puy er vegalengdin um 1700 km og um það bil sama ef farið er frá Vézelay. Frá Arles er leiðin um 1500 km og frá Tours um 1300 km. Þó svo að engin syndaaflausn fáist sjálfkrafa lengur að pílagrímsferð lokinni þá hafur dómkirkjan í Santiago de Compostela sett upp reglur fyrir að reiknast sem pílagrímur og fá viðurkenningaskjöl sem sanna það. Í fyrsta lagi þarf að bera með sér pílagrímavegabréf, sem má fá í heimasókn eða í kirkjum á upphafsstöðum, og safna stimplum á öllum viðkomustöðum. Í öðru lagi þarf viðkomandi að hafa gengið eða riðið á hesti eða asna minnst 100 km til Santiago eða farið minnst 200 km á hjóli. Í þriðja lagi þarf viðkomandi að lýsa yfir að förin hafi verið farin í trúarlegum eða andlegu tilgangi. Ef þessar kröfur eru uppfylltar getur pílagrímurinn fengið "Compostela skírteini" á latínu. Blokkflauta. Blokkflauta er tréblásturshljóðfæri með átta gripgötum án klappa og er af sömu ætt og pjáturflautan og okkarínan. Blokkflautan til í mörgum stærðum, og er oftast úr viði. Tröll. Tröll er í þjóðsögum stórvaxin ómennsk vera í mannsmynd sem oft býr upp til fjalla eða í fjalli. Oftast er gerður greinarmunur á hugtökunum tröll, jötunn og risi, þó að stundum skarist merking þeirra og skil geti verið óljós. Lagaákvæði um tröll. Í Gulaþingslögum og kristinrétti Sverris konungs segir, að sé konu kennt, "að hún sé tröll og mannæta" og verði hún sönn að því, skuli "færa hana á sæ út og höggva á hrygg". Í kafla um níðingsverk í Jónsbók er talið á meðal óbótamála "að vekja upp tröll og fremja heiðni með því". Páll Vídalín lögmaður skýrði þetta: „Hér merkir tröll eftir sinni náttúru anda óhreina, uppvakta drauga, evocatos manes, immundos spiritus et spectra omnis generis." Hann nefndi fleiri merkingar orðsins "tröll" og skýrði þær með dæmum.. SV Werder Bremen. Werder Bremen er þýskt knattspyrnufélag. Nauthvalur. Nauthvalur (nauthveli eða fjósi) er hvortveggja samheiti búrhvals, en einnig hvalur í þjóðtrú sem seiðir kýr til sín í hafið með bauli sínu. Atli Magnússon. Atli Magnússon (fæddur 1944) er rithöfundur og mikilvirkur þýðandi. Atli hefur þýtt margar bækur sem teljst til heimsbókmennta, eins og t.d. "Meistara Jim", "Nostromo" og "Innstu myrkur" eftir Joseph Conrad, "Gatsby" og "Nóttin blíð" eftir F. Scott Fitzgerald og "Hið rauða tákn hugprýðinnar" eftir Stephen Crane. Hann hefur einnig þýtt "Fall konungs" eftir Johannes V. Jensen o.fl. Hákun Djurhuus. Hákun Djurhuus (fæddur 11. desember 1908 í Þórshöfn, látinn 22. september 1987) var færeyskur stjórnmálamaður. Hann var meðal annars lögmaður eyjanna á árunum 1963 til 1967 en sat á lögþinginu allt frá 1964 til 1980. Max Abramovitz. Avery Fisher Hall í Lincoln Center er eitt af frægustu verkum Abramovitz Max Abramovitz (fæddur 23. maí 1908 í Chicago, látinn 12. september 2004 í Pound Rigde, New York-fylki) var bandarískur arkitekt og meðeigandi í arkitektafyrirtækinu Harrison, Abramovitz, & Abbe í New York-borg. Meðal þekktustu verka hans er aðalskrifstofa Sameinuðu þjóðanna á Manhattan, Avery Fisher Hall í Lincoln Center (áður "Philharmonic Hall"), US Steel Tower í Pittsburg, National City Tower í Louisville og "Tour GAN" í La Defense í París. Bette Davis. Bette Davis í myndinni "Jezebel" Bette Davis (fædd Ruth Elizabeth Davis 5. apríl 1908 í Lowell, látin 6. október 1989 Neuilly-sur-Seine) var bandarísk leikkona. Á ferlinum lék hún í alls 101 kvikmyndum og hlaut tvenn Óskarsverðlaun; annars vegar fyrir hlutverk sitt sem „Joyce Heath“ í "Dangerous" (1935) og sem „Julie Marsden“ í "Jezebel" (1938). Bryggjuhverfi. Séð yfir Bryggjuhverfið í Grafarvogi. Esjan í baksýn. Bryggjuhverfi er hluti af hverfinu Grafarvogi í Reykjavík. Vörðufell. Vörðufell er 391 metra hátt fjall austan við Hvítá hjá Iðu. Úr lofti séð er það þríhyrningslaga. Upp á fjallinu er vatnið Úlfsvatn. Fjallið er úr móbergi og grágrýti. Sagnir herma að á 18. öld hafi unglingspiltur búið til flugham úr fuglsvængjum og tekist að svífa úr hlíðum fjallsins. Iða (bær). Iða er bær í Árnessýslu. Iðubrú tengir saman Iðu og byggðahverfið Laugarás. Svínavatn (bær í Grímsnesi). Svínavatn er bær við samnefnt vatn í Grímsnesi. Sumarhúsalandið Öldubyggð er í landi Svínavatns. Borgaraleg réttindi. Borgaraleg réttindi eða Borgararéttindi eru lögbundin réttindi einstaklinga. Sem dæmi um borgaraleg réttindi má nefna rétt til þess að efna til eða taka þátt í friðsamlegum mótmælum, kosningarétt, trúfrelsi, málfrelsi og prentfrelsi. Trúboðastelling. Trúboðastelling er kynlífsstelling við samfarir og er oftast haft um það þegar karl liggur ofan á konunni. Konan liggur á bakinu og karlmaðurinn liggur ofan á konunni, milli fóta hennar. Trúboðastellingin er ein algengasta stelling fólks sem stundar kynlíf. Halldór Laxness lætur eina kvenpersónuna í Kristnihald undir Jökli segja: "Ég veit ekki betur en ég hafi haft hann milli hnjákollanna lúngann úr nóttinni." Þetta er lýsandi dæmi um trúboðastellinguna frá sjónarhóli konu. Hundastelling. Hundastellingin þar sem kona er tekin aftan frá af manni. Hundastelling (enska: "doggy style", franska: "Position de la levrette", latína: "coitus more ferarum" sem þýðir „kynmök að hætti dýra“ eða "more ferarum" „að sið dýra“) er kynlífsstelling sem lýsir sér þannig að annar aðilinn fer niður á fjórar fætur, en hinn kemur aftan að til samfara. Þetta er einnig nefnt að "taka aftan frá" á íslensku. Karlmaður sem stundar kynlíf með konu í hundastellingunni er annaðhvort með liminn í sköpum hennar eða endaþarmi, og er þetta algengasta stellingin við endaþarmssamfarir. Hundastellingin er einnig algeng stelling í kynlífi homma, og lesbíur geta sömuleiðis notið kynlífs í hundastellinguni, t.d. með beltislim eða öðrum hætti. Skeiðastelling. Skeiðastelling er kynlífsstelling sem lýsir sér þannig að konan liggur á hlið fyrir framan karlmanninn, sem einnig liggur á hlið. Karlmaðurinn getur þá komið getnaðarliminum annaðtveggja í sköp hennar eða endaþarm. Er þessi stelling eins og hundastellingin, bara liggjandi og á hlið. Hommar og lesbíur fara eins að, að breyttu breytanda. Skeiðastellingin er þó einnig haft um þá „kúrstellingu“ þegar tveir einstaklingar liggja eða sofa í þannig stellingu, og ekkert kynlíf kemur við sögu. Skeiðastelling er svo nefnd af því hún minnir á það þegar matarskeið er lögð að annarri skeið og þær falla saman. Í sumum löndum er skeiðastellingin kennd við töluna 99, eins og t.d. í Frakklandi og Svíþjóð. Beltislimur. Beltislimur (enska: "strap-on dildo") er gervigetnaðarlimur sem er festur á annan aðilann með belti (eða útbúnaði sem minnir nokkuð á beisli). Beltislimurinn er oftast notaður sem venjulegur getnaðarlimur í kynlífi, og er bæði notaður af gagnkynhneigðu fólki sem og samkynhneigðu. Hópkynlíf. Hópkynlíf er kynlífsathöfn þegar fleiri en tveir einstaklingar stunda saman kynlíf. Aðallega eru það menn sem stunda hópkynlíf, en það kemur einnig fyrir í dýraríkinu eins og t.d. hjá bonobo-simpönsum. Ómar Ragnarsson - Fugladansinn. Ómar Ragnarsson - Fugladansinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1981. Á henni flytur Ómar Ragnarsson tvö lög. Útsetning og hljómsveitarstjórn Ólafur Gaukur. Hljóðritun: Hljóðriti hf. Umslag: Brian Pilkington. Litgreining og prentun: Prisma, Hafnarfirði. Oddbjørn Hagen. Oddbjørn Hagen (fæddur 3. febrúar 1908, látinn 25. júní 1983) var norskur keppnismaður í skíðagöngu og norrænni tvíkeppni. Á Ólympíuleikunum 1936 hlaut hann þrenn verðlaun; silfur í 18 kílómetra skíðagöngu og skíðaboðgöngu og loks gullverðlaun í norrænni tvíkeppni. Árið 1934 hlaut hann Holmenkollen-verðlaunin. Aspartam. Aspartam er sætuefni sem er notað í staðinn fyrir sykur í flestum léttvörum; E-tala efnisins er E 951. Aspartam er selt sem borðsætuefni undir nöfnunum "Canderen" og "Equal" (í Bandaríkjunum) en er fyrir það mesta í tilbúnum matvörum. Eitt gramm af aspartami inniheldur einungis fjórar hitaeiningar, skemmir ekki tennurnar og hefur engin áhrif á blóðsykur eða insúlín. Efnið er u.þ.b. 200 sinnum sætari en sykur og getur haft laxeráhrif við of mikið inntak. Aspartam var kynnt í matvælaiðnaði árið 1981 í Bandaríkjunum, þá undir nafninu "Nutrasweet". Þegar líkaminn brýtur niður aspartam myndast metanól. Hafa ber þó að hafa í huga að maður fær í sig mikið meira af metanóli úr einu glasi appelsínusafa en úr einu glasi af aspartamsættum safa. Í appelsínusafan er er metanólið bundið í pektínsem sem hindrar líkamann að taka upp metanólið svo að það er áhættulaust að drekka safann) Hvernig metanólið í aspartaminu hefur áhrif á almenning er enn óljóst. Aspartam finnst í u.þ.b. 6.000 matvörum í heiminum, þar af ca. 2.000 í Evrópu. Það má finna aspartam t.d. í kökum, safa, gosi, ís, tyggjó, hálstöflum, meðölum, konfekti og fleiru. Sundabraut. Sundabraut er fyrirhugaður þjóðvegur frá Vesturlandsvegi undir hlíðum Esju yfir Kollafjörð í Álfsnes og þaðan yfir Leirvog í Geldinganes og áfram í Gufunes þaðan sem hún mun liggja yfir annað hvort Elliðavog eða Kleppsvík. Oföndun. Oföndun er djúp og hröð öndun sem lýsir sér í því að magn koltvísýrings í blóði fer niður fyrir eðlileg mörk. Líkaminn tekur ekki upp meira súrefni við oföndun en það tapast meiri koltvísýringur við útöndun og blóðið missir sýru. Of lágt sýrustig í blóði veldur því að æðar í heila dragast saman og heilinn fær minna súrefni. Einkenni. Oföndun getur valdið eínkennum eins og svima og sundli, og léttleikatilfinningu í höfði og yfirliði, doða og sting í útlimum og brjóstverk. Orsakavaldar. Streita og álag geta valdið oföndun. Oföndun getur komið fram við að blása upp vindsæng eða blása upp margar blöðrur. Ýmsir lungnasjúkdómar geta valdið oföndun. Afleiðingar. Oföndun getur verið hættuleg við ákveðnar aðstæður. Talið er að oföndun og ofkæling eigi þátt í því að margir sundmenn drukkna þó þeir séu nærri landi. MediaStream Records. MediaStream Records er plötufyrirtæki í eigu MediaStream ehf. Stofnandi fyrirtækisins er Steinar Jónsson (núverandi framkvæmdarstjóri MediaStream ehf.). MediaStream Records – Saga fyrirtækissins. Fyrirtækið var stofnað sumarið 2006 af Steinari Jónssyni sem þá var trommarinn í punkbandinu Capybara. Þegar Capybara hætti tók fyrirtækið nýja stefnu og byrjaði að koma á framfæri nokkrum íslenskum röppurum. Í byrjun júní 2007 var MediaStream Agency stofnað með þann tilgang að koma Dabba T, Hugrofi og fleirum á framfæri. Í ágúst 2007 var útgáfufyrirtækið MediaStream Music stofnað og mánuði seinna gefin út platan Óheflað Málfar" með Dabba T. Saman unnu MediaStream Agency og MediaStream Music að því að skipuleggja tónleika, fylgja plötuútgáfum og skipuleggja frekari útgáfur. Í apríl 2008 sameinuðust svo þessi tvö fyrirtæki í eitt og vinna núna bæði undir nafninu MediaStream Records. Studio 112 (2006-2007). Í lok 2006 átti fyrirtækið hljóðver sem hét Studio 112 staðsett í Reykjavík. Hljóðverið var notað fyrir Urban upptökur og kvikmyndamix en því var svo endanlega lokað í maí 2007. Í janúar 2009 opnaði fyrirtækið svo annað hljóðver undir nafninu Studio Róm þar sem meðal annars var hljóðrituð platan Erkiengill með Gummzter. Studio Róm var svo lokað í september 2009. MediaStream Records tónlistarstraumar. Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina verið með fjölbreyttar tónlistarstefnur s.s. Pönk, raftónlist og Pop en mest hefur þó verið einbeitt á útgáfu hip-hop tónlistar. Njósnarinn með þúsund andlitin. "Njósnarinn með þúsund andlitin" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Í þessari bók hittum við þá Bob Moran og Bill Ballantine. Það var að kvöldi dags, er þeir voru staddir í Belgíu og voru að fara í heimsókn til hins fræga prófessors Flandre, en hann var þekktur kjarnorkufræðingur og gamall vinur Bob. En af einhverjum ástæðum hafði skurður verið grafinn í gengum heimtröðina, svo vinirnir urðu að leggja það á sig að ganga heima að húsinu. Þeir voru komnir gegnum garðshliðið og áttu eftir svo sem fimmtíu faðma heima að húsinu, þegar þeir snarstönzuðu allt í einu. Innan úr íbúð prófessorsins kvað við hátt og skerandi vein - angistaróp, og svo óp kvennmannsraddar, sem æpti: Hjálp, hjálp. - Bob og vinur hans, Skotinn, litu fyrst hvor á annan. En án þess að kæla orð tóju þeir á rás heim að húsinu. - Það er óþarfi að skýra það nánar fyrir lesendum bókarinnar: Hér hefst atburðarás sögunnar - dularfull - æsispennandi - ævíntýrarík - og auðvitað kemst Bob vinur okkar í hann krappann eins og í fyrri bókum sínum. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Ballantine, Prófessor Flandre, Nadine Flandre, Van Eyck, Jan Merks, X ofursti Lauf. Lauf (eða laufblað) er samkvæmt grasafræðinni sú líffræðilega eining plantna sem vinnur orku úr sólinni með ljóstillífun. Laufblað er oftast þunnt og flatt, en lauf geta einnig verið oddlaga eins og t.d. "barrnálar". Lauf sumra plantna falla af á haustin og er slík planta sögð sumargræn, en felli hún ekki lauf er hún sígrænn. Laufblöð sígrænna plantna geta lifað lengi, furublöðin t.a.m. í 3 ár og greniblöðin 12--13 ár. Á blómplöntunum eru fernskonar blöð: "Lágblöð", laufblöð, "háblöð" og "blómblöð". Landsmót hestamanna. Landsmót hestamanna er íþróttamót í kappreiðum og kynbótasýning íslenskra hesta sem haldið er árlega á Íslandi. Fyrsta landsmótið var sett 6. júlí 1950 á Þingvöllum. Það var haldið af Landssambandi hestamannafélaga sem var stofnað í þeim tilgangi í desember árið áður. Fyrst var mótið haldið á fjögurra ára fresti en á tveggja ára fresti frá 1995. Frá 2001 hefur rekstraraðili mótanna verið Landsmót hestamanna ehf. sem er í eigu Landssambands hestafélaga og Bændasamtaka Íslands. Europe. Europe er sænsk þungarokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1979 í bænum Upplands Väsby og hét þá "Force". Stofnendur voru söngvarinn Joey Tempest (Rolf Magnus Joakim Larsson) og gítarleikarinn John Norum. Hljómsveitin sló í gegn um allan heim með laginu „The Final Countdown“ sem kom út á samnefndri hljómplötu árið 1986. Tónleikar. Tónleikar eða konsert (úr ítölsku "concerto", „í samræmi við“ eða „í andstöðu við“, upphaflega haft um einleikara sem lék með hljómsveit) eru lifandi tónlistarflutningur fyrir áheyrendur. Tónlistin getur verið flutt af einum tónlistarmanni eða hljómsveit eða kór. Tónleikar eru haldnir við alls kyns aðstæður, allt frá því að vera tækifærisviðburðir í heimahúsum eða á götum úti að því að vera vandlega undirbúnir og auglýstir viðburðir sem fram fara í sérstökum tónleikasölum eða íþróttavöllum fyrir tugþúsundir áhorfenda. Oftast fer flutningurinn fram á einhvers konar sviði. 100 Club. Inngangur 100 Club við Oxfordstræti 100 Club er frægur tónleikastaður í Oxfordstræti 100, Westminster í London. Á staðnum, sem þá var veitingastaður sem hét "Mack's", hafa verið haldnir tónleikar frá árinu 1942. Fyrstu árin voru það einkum djasstónlistarmenn sem komu þar fram en staðurinn er í dag þekktastur fyrir að hafa hýst fyrstu pönktónleikana í Bretlandi árið 1976. Meðal þeirra sem komu þar fram á fyrstu „alþjóðlegu pönktónlistarhátíðinni“ 21. september 1976 voru Sex Pistols, Siouxsie & the Banshees, The Clash, Buzzcocks og The Damned. Frá 1981 hýsti staðurinn marga harðkjarnapönktónleika með hljómsveitum á borð við Discharge og Crass. Sex Pistols. Sex Pistols var bresk pönkhljómsveit sem var stofnuð í London árið 1975. Upphaflegir hljómsveitarmeðlimir voru söngvarinn Johnny Rotten (John Lydon), gítarleikarinn Steve Jones, trommuleikarinn Paul Cook og bassaleikarinn Glen Matlock. Matlock yfirgaf hljómsveitina 1977 og Sid Vicious tók við. Hljómsveitin gaf aðeins út fjórar smáskífur og eina breiðskífu, "Never Mind the Bollocks, Here's the Sex Pistols" árið 1977, en er samt sem áður ein frægasta hljómsveit fyrstu pönkbylgjunnar í Bretlandi. Johnny Rotten yfirgaf hljómsveitina eftir stormasama Bandaríkjaferð 1978 og Sid Vicious lést úr of stórum skammti heróíns í febrúar 1979 skömmu eftir að hljómsveitin lagði upp laupana. Réttarhöld. Réttarhöld eru atburður þar sem aðilar koma saman til að ræða málsgögn í einkamáli eða sakamáli við formlegar aðstæður, venjulega fyrir dómstól, dómara, kviðdómi eða öðrum viðurkenndum úrskurðaraðila, til að leysa úr ágreiningi með dómi. Spilling. Spilling er misnotkun á valdi eða stöðu þar sem einstakir aðilar eða hópur þeirra nýtir sér aðstöðu sína á óeðlilegan hátt til að hafa áhrif á stöðu mála, oftast til þess að hagnast persónulega. Misnotkun valds í þeim tilgangi að kúga pólitíska andstæðinga er almennt ekki kallað spilling, né heldur ólöglegar athafnir einkafyrirtækja og einstaklinga nema þar sem þær tengjast hinu opinbera með beinum hætti. Spilling er til í öllum stjórnkerfum. Algeng dæmi um spillingu eru mútur, fjárkúgun, frændhygli og fjárdráttur. Victoria Peak. Victoria Peak og Mount Kellett Victoria Peak (hefðbundin kínverska: 太平山頂) er fjall í Hong Kong í Kína. Fjallið stendur á vesturhluta Hong Kong-eyju. Það er 552 metra hátt og hæsta fjall eyjunnar. Það er vinsæll ferðamannastaður vegna stórkostlegs útsýnis yfir miðborg Hong Kong, höfnina og nálægar eyjar. Ítalski sósíalistaflokkurinn. Ítalski sósíalistaflokkurinn (ítalska: "Partito Socialista Italiano") var sósíalískur flokkur stofnaður á Ítalíu 1892 og nefndist þá ítalski verkamannaflokkurinn ("Partito dei Lavoratori Italiani"). Hann var upphaflega stærsti vinstriflokkurinn í ítölskum stjórnmálum, en eftir Síðari heimsstyrjöld varð ítalski kommúnistaflokkurinn honum yfirsterkari. Flokkurinn leystist upp eftir stjórnmálahneykslið í kringum Mani pulite-réttarhöldin árið 1994. Kristilegi demókrataflokkurinn (Ítalía). Kristilegi demókrataflokkurinn á Ítalíu var stjórnmálaflokkur sem aðhylltist stjórnmálastefnu kristilegra demókrata sem er eitt afbrigði félagshyggju. Flokkurinn var stofnaður skömmu eftir Síðari heimsstyrjöld. Hann var arftaki ítalska alþýðuflokksins ("Partito Popolare Italiano") sem presturinn Don Luigi Sturzo hafði stofnað 1919 en fasistastjórnin lýst ólöglegan 1925. Flokkurinn var stærsti flokkur Ítalíu frá 1948 til 1992 og myndaði ávallt ríkisstjórn með minni flokkum, eins og frjálslynda flokknum, lýðveldisflokknum og jafnaðarmönnum til 1963 þegar hann myndaði fyrstu vinstri-miðjustjórnina með sósíalistum. Flokkurinn lagðist af í kjölfar hneykslismála í tengslum við Mani pulite-réttarhöldin 1992 til 1994. Kólumkilli. Kólumkilli eða heilagur Kólumba (7. desember 521 – 9. júní 597) var írskur munkur sem boðaði kristna trú í ríki Pikta snemma á miðöldum. Kólumkilli er einn af tólf postulum Írlands. Írska nafnið Colum Cille þýðir „dúfa kirkjunnar“.) Kútter Sigurfari. Kútter Sigurfari er 85 smálesta tvímastra kútter, smíðaður 1885 í Englandi og keyptur til Íslands 1897, en áður var hann gerður út frá Hull. Hann var gerður út til handfæraveiða á Faxaflóa og þótti mikið happaskip. Skipið var selt til Færeyja 1920 og komst þangað eftir að hafa lent í mánaðarlöngum hrakningum á sjó milli landanna. Frá Færeyjum var skipið gert út til 1970 en 1974 var báturinn aftur keyptur til Íslands að undirlagi Jóns M. Guðjónssonar prests á Akranesi. Hann stendur nú á steyptum undirstöðum á safnasvæðinu á Görðum á Akranesi. Til er allþekktur samnefndur söngtexti eftir Jónas Árnason við enska lagið „Shoals of herring“ eftir Ewan MacColl (byggt á söng og sögum Sam Larner frá Winterton í Norfolk). Broadway (skemmtistaður). Broadway er skemmtistaður í Ármúla í Reykjavík. Staðurinn var stofnaður af Ólafi Laufdal árið 1982 við Álfabakka í Breiðholti en flutti 1987 í nýbyggt Hótel Ísland við Ármúla. Piktar. Eftirgerð af Hilton of Cadboll steininum. Piktar (eða Péttar) (latína: "picti") voru bandalag ættbálka á svæði sem seinna varð mið- og norðurhluti Skotlands frá tímum Rómaveldis fram á 11. öld. Uppruni orðsins piktar er óviss, en það er oft skýrt sem „hinir máluðu“. Sumir telja að nafnið merki hestverði eða njósnaskip og eigi við varðgæslu þjóðflokksins í sambandi við eyjarnar. Bjarkamál. Bjarkamál in fornu eru norrænt fornkvæði sem segja frá Böðvari Bjarka sem var hirðmaður hjá Hrólfi kraka. Fyrir Stiklastaðabardaga voru Bjarkamál in fornu flutt til að hvetja menn Ólafs helga til dáða í orustu. Þormóður Kolbrúnarskáld flutti kvæðið. Stiklastaðaorrusta. a> við Ólafs sögu helga úr norskri útgáfu Heimskringlu. Stiklastaðaorrusta er bardagi sem háður var 29. júlí 1030 á Stiklastöðum í Noregi. Ólafur digri Haraldsson, konungur Noregs, var veginn í þessum bardaga og var tveimur árum seinna gerður að dýrlingnum Ólafi helga. Bardaginn er tákn fyrir innkomu kristni til Noregs. Google Map Maker. Google Map Maker er ný þjónusta frá Google þar sem notendur geta búið til landakort fyrir Google Maps. Sumt af því sem hægt er að breyta og bæta við eru vegir, lestateinar, flugleiðir og áhugaverðar byggingar. Til að byrja með er hægt að breyta kortum fyrir Ísland, Kýpur, Pakistan, Víetnam og fleiri. U Thant. U Thant (búrmíska: ဦးသန့်; 22. janúar 1909 – 25. nóvember 1974) var búrmískur ríkiserindreki og þriðji aðalritari Sameinuðu þjóðanna frá 1961 til 1971. Hann var valinn í embættið eftir að fyrirrennari hans, Dag Hammarskjöld, lést í flugslysi í september 1961. Garðar (Akranesi). Garðar eru fornt höfuðból á Akranesi. Bærinn er nefndur í "Landnámu" sem jörð Jörundar hins kristna, sonar Ketils Bresasonar sem kom til Íslands frá Írlandi. Staðurinn var kirkjustaður og prestsetur til 1896 þegar ný kirkja, Akraneskirkja, var vígð. Eftir það var búskapur á Görðum til 1936. Frá 1959 hefur þar verið byggðasafn Akraness. Safnasvæðið hefur stækkað, m.a. með komu kútter Sigurfara þangað 1974, og er nú kallað Safnasvæðið Akranesi. Þar eru nú fjögur söfn í tveimur húsum og nokkuð svæði utandyra. Hindisvík. Hindisvík Hindisvík er eyðibýli á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar var áður prestsetur. Bærinn stendur við samnefnda vík. Hindisvík var mikil hlunnindajörð og er þar stórt selalátur sem hefur verið friðað lengi. Sigurður Norland og Hindisvík. Sigurður Norland fæddist í Hindisvík og ólst þar upp og þegar hann varð prestur í Tjarnarprestakalli á Vatnsnesi kaus hann ekki að sitja prestsetrið Tjörn heldur bjó í Hindisvík. Hann keypti svo jörðina á uppboði árið 1919 þegar móðir hans hætti búskap. Sigurður var áhugamaður um verndun sela og hvala og uppgang Hindisvíkur sem þéttbýlis. Hann lét friða selalátrið í Hindisvík árið 1940. Sigurður sá fyrir sér að í Hindisvík yrði verslunarstaður og umskipunarhöfn. Hindisvík var verslunarstaður 1924. Örnefnið Hindisvík. Í Auðunarmáldögum frá 1318 er nafnið skrifað „hamdisvyk“ Í Ólafsmáldögum frá 1461 er nafnið skrifað „hanndis vik“. Bærinn er nefndur Vík á Vatnsnesi í Sjávarborgarannál fyrir árið 1686. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er jörðin nefnd Vijk en tekið fram að sumir noti forna heitið Hindisvijk. Bæði nöfnin Vík og Hindisvík eru í Jarðatali Johnsens en Hindisvík á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar árið 1844. Í jarðatalinu frá 1861 er nafnið Hindingsvík. Í sóknarlýsingu 1840 notar sr.Ögmundur Sigurðsson ýmist myndina Hindingsvík eða Vík. Sigurður Norland. Sigurður Norland (16. mars 1885 – 27. maí 1971) frá Hindisvík á Vatnsnesi var frumkvöðull í náttúruvernd á Íslandi. Hann var prestur í Tjarnarprestakalli en kaus að búa í Hindisvík frekar en sitja pestsetrið Tjörn. Sigurður var mikill áhugamaður um verndun sela og hvala og lét árið 1940 vernda selalátrið í Hindisvík. Sigurður var áhugamaður um hrossarækt og kom upp og ræktaði Hindisvíkurkyn. Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1907 og sigldi til Skotlands og var þar um tíma. Þaðan fór hann til Íslendingabyggða í Kanada og dvaldi um hríð í Danmörku á heimleiðinni. Hann fór svo í Prestaskólann og var síðasti kandidatinn sem útskrifaðist þaðan. Sigurður var svo vígður sem aðstoðarprestur á Vopnafirði og dvaldi þar í eitt ár eða þangað til hann fékk Tjarnarprestakall á Vatnsnesi. Hann bjó í Hindisvík hjá móður sinni en keypti svo jörðina á uppboði árið 1919 þegar móðir hans hætti búskap. Frá 1919 var Sigurður í nokkur ár prestur á Bergþórshvoli en sótti svo aftur um Tjarnarprestakall og var þar prestur til 1955. Sigurður vildi að í Hindisvík risi þéttbýli með útgerð og umskipunarhöfn. Siguður var mikill tungumálamaður og hagyrðingur. Hann lauk árið 1959 B.A. prófi í grísku frá Háskóla Íslands, þá 74 ára að aldri. Sigurður bjó í Hindisvík til æviloka. Hann var ókvæntur og barnlaus. Tjörn (Vatnsnesi). Tjörn á Vatnsnesi er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á vestanverðu Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Sigurður Norland var prestur í Tjarnarprestakalli en hann bjó ekki á prestsetrinu heldur í Hindisvík. Annar prestur á Tjörn var séra Róbert Jack, Skoti sem kom til Íslands sem knattspyrnuþjálfari og varð hér innlyksa í stríðinu. Hann fór þá að læra guðfræði í Háskóla Íslands og varð eftir það prestur og prófastur á Tjörn í áratugi. Á Tjörn eru nú ræktaðar íslenskar landnámshænur. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skrá yfir ásigkomulag jarða og hag landsmanna á Íslandi sem gerð var árin 1702-1714. Friðrik 4. Danakonungur gaf út erindisbréf vorið 1702 til handa Árna Magnússyni og Páli Vídalín. Erindisbréfið var í 30 greinum og var þeim falið að gera úttekt á öllum bújörðum landsins en jafnframt að hafa eftirlit með öllum opinberum eigum og kanna hvort of miklar kvaðir væru lagðir á bændur. Skyldu þeir meðal annars skrá dýrleika (verðmat) jarðanna, landskuld, kúgildatölu og kvaðir á hverri jörð, auk hlunninda sem þeim fylgdu, og skrá nákvæmlega fjölda búpenings á hverri jörð. Einnig áttu þeir að sjá til þess að gert yrði manntal á öllu landinu og ýmis fleiri verkefni voru þeim falin. Þeir Árni og Páll hófu störf þegar sumarið 1702, ferðuðust um landið og hófu skráninguna í Dalasýslu. Upphaflega stóð til að láta hvern bónda fyrir sig skrá upplýsingar um jörð sína en það gekk ekki upp, enda margir illa eða ekki skrifandi, og varð úr að bændum og jarðeigendum var stefnt saman á ákveðna staði þar sem Árni og Páll spurðu þá spjörunum úr. Verkið tók mörg ár, enda ekki hægt að vinna það nema á sumrin og ýmislegt varð til að tefja, svo sem Stórabóla 1707, og lauk því ekki fyrr en á árunum 1712-1714. Manntalið var aftur á móti tekið árið 1703. Jarðalýsingarnar voru svo fluttar til Kaupmannahafnar og varðveittar þar, nema hvað lýsingar jarða úr Múla- og Skaftafellssýslum brunnu í eldinum í Kaupmannahöfn 1728. Jarðabókin var svo gefin út á árunum 1913-1943 og er ómetanleg og raunar einstök heimild um jarðir og búskap um allt land. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn gaf Jarðabókina út. Friðrik 4. Danakonungur. Málverk af Friðriki 4. Friðrik 4. var Danakonungur árin 1699-1730. Hann fæddist 11. október 1671 og giftist Louise af Mecklenburg en lét vígja sig til vinstri handar með Elisabeth Helene von Vieregg árið 1703. Þannig vígsla var útbreiddur siður konunga á þeim tíma. Elisabeth dó ári eftir vígsluna af barnsförum. Þegar konungurinn og hirðin flýði Pestina í Kaupmannahöfn dvaldi hann í Koldinghus og þar hitti hann hina 18 ára gömlu Anna Sophie Reventlow. Móðir Önnu lét loka hana inn á ættarsetrinu Clausholm. Ári seinna nam konungur Önnu á brott og lét vígja sig saman við hana til sinnar lausu vinstri handar. Daginn eftir útför Louise drottningar árið 1721 lét Friðrik vígja sig saman við Önnu sem þá varð drottning. Konungurinn eignaðist sex börn með Önnu en þau létust öll áður en þau náðu tveggja ára aldri. Árið 1700 náðu danskar hersveitir undir sig hluta Slésvíkur af Gottorp og þá hófst hið stóra norræna stríð sem stóð með hléum til 1720. Friðrik 4. kom í gegn ýmsum umbótum, tók í notkun gregorískt tímatal og afnám ánauð bænda sem ekki máttu yfirgefa fæðingarstað sinn án leyfis landeiganda. Hann lét byggja tvær hallir í ítölskum barokkstíl. Hann kom á fót heiðingjatrúboði á Grænlandi undir stjórn Hans Egede og hann lét setja á stofn 240 alþýðuskóla. Skólarnir áttu að kenna börnum að lesa og ala þau upp í að verða konungshollir þegnar. Friðrik 4. lést 12. október 1730 og er jarðsettur í dómkirkjunni í Hróarskeldu. Eftir dauða hans var Anna Sophie sent aftur á Clausholm á Jótlandi, þaðan sem hún var numin á brott á sínum tíma. Páll Vídalín. Páll Vídalín (f. 1667, d. 18. júlí 1727) var lögmaður, sýslumaður og skáld í Dalasýslu og Strandasýslu og bjó lengst af í Víðidalstungu. Hann var samstarfsmaður Árna Magnússonar við gerð Jarðabókarinnar 1702-1712. Páll var eitt af helstu skáldum sinnar tíðar og er þekktur fyrir lausavísur sínar. Páll var sonur Jóns Þorlákssonar lögréttumanns í Víðidalstungu (sem var sonarsonarsonur Guðbrandar Þorlákssonar biskups) og konu hans, Hildar Arngrímsdóttur lærða Jónssonar. Páll lærði við Kaupmannahafnarháskóla í þrjú ár, tók próf í guðfræði 1688 og kom síðan aftur til Íslands. Hann hafði meðferðis konungsbréf um að hann skyldi fá skólameistaraembættið í Skálholtsskóla en sá sem gegndi því þá, Þórður Þorkelsson Vídalín frændi hans, vildi ekki sleppa því og fékk Páll ekki embættið fyrr en 1690. Hann var skólameistari til 1697. Vorið eftir varð hann sýslumaður í Dalasýslu og sama ár varalögmaður sunnan og austan. Lögmaður varð hann svo 1706. Árið 1702 var Páll, ásamt Árna Magnússyni, skólabróður sínum frá Kaupmannahöfn, settur í nefnd og áttu þeir að rannsaka allt ástand Íslands. Þeir áttu meðal annars að taka saman jarðabók með nákvæmum upplýsingum um hverja einustu jörð á landinu. Þetta verk var unnið á tólf árum og vann Páll meginhluta þess. Ennfremur áttu þeir að sjá til þess að tekið yrði allsherjarmanntal og er manntalið 1703 hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Þeir áttu líka að meta tekjur presta og kirkna, kanna þörf á holdsveikraspítölum, athuga jarðeignir konungs, kanna rekstur Bessastaða, kanna framferði kaupmanna gegn landsmönnum, meta kærur almennings gegn embættismönnum og ríkismönnum og skrifa greinargerð um réttarfar. Starfinn var því ærinn og jarðabókavinnan dróst á langinn og tók mun lengri tíma en ætlað hafði verið. "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns" var ekki fullgerð fyrr en 1713. Þeir félagar lentu í útistöðum við flesta eða alla helstu valdsmenn landsins nema biskupana. Páll átti oft í hörðum deilum, lenti meðal annars í málaferlum við Odd Sigurðsson lögmann og var vikið úr lögmannsembætti um tíma. Skýrslugerð og önnur vinna þeirra félaga varð ekki til þess að umbótum væri komið á en skilaði aftur á móti ómetanlegum heimildum um íslenskt þjóðfélag og landshætti á fyrsta áratug 18. aldar. Páll var mjög fróður um bæði lögfræði og fornfræði og skrifaði meðal annars "Skýringar yfir fornyrði Jónsbókar" og fleiri verk. Hann var skáld gott bæði á íslensku og latínu. Hann var sagður einn vitrasti maður sinnar tíðar. „Lærður maður og stórvitr, en haldinn nokkuð grályndur“, segir Espólín. Hann dó á Alþingi 1727. Kona Páls var Þorbjörg Magnúsdóttir (20. febrúar 1667 - 19. maí 1737 (drukknaði)), dóttir Magnúsar digra Jónssonar í Ögri og konu hans Ástríðar Jónsdóttur. „Ekki samdi þeim heldur en foreldrum Þorbjargar og það varð ættgengt“, segir Espólín. Á meðal barna þeirra voru Hólmfríður kona Bjarna Halldórssonar sýslumanns á Þingeyrum, og Jón Vídalín Pálsson sýslumaður, sem varð úti á Hjaltadalsheiði 1726. Vatnsnes. Vatnsnes er hálendur skagi milli Miðfjarðar og Húnafjarðar. Þar er lítið láglendi nema á vesturhlutanum. Hálendi Vatnsness nefnist einu nafni Vatnsnesfjall, en það er nokkuð skorið dölum og eru þeirra stærstir Katadalur og Þorgrímsstaðadalur. Hæsti hnjúkur Vatnsnesfjalls er Þrælsfell, 895 m y.s. Þaðan er víðsýnt til allra átta, en sjá má í sjö sýslur í góðu skyggni. Hringvegur um Vatnsnes er 90 km langur. Meðal áhugaverðra eða sögufrægra staða við Vatnsneshringinn má til dæmis nefna Hamarsrétt, Illugastaði, Tjörn, Hvítserk og Borgarvirki. Á Vatnsnesi er mikið um sel og gott aðgengi fyrir ferðamenn að skoða seli í Hindisvík og að Ósum. Í selatalningu í lok ágúst 2007 við Vatnsnes sáust 727 selir. Kauptúnið Hvammstangi stendur á vesturströnd Vatnsness. Bergþórshvoll. Bergþórshvoll er bær í Vestur-Landeyjum sem stendur á vesturbakka Affalls á hæð sem rís hæst í svonefndum Floshóli austan við bæinn. Landið er marflatt en það er mjög víðsýnt þegar staðið er á toppi hólsins. Staðurinn er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Íslendingasögunni Brennu-Njáls sögu en þar var heimili hjónanna Njáls og Bergþóru. Vegna sögunnar hafa verið gerðar ýmsar fornleifarannsóknir þar í gegnum tíðina. Bæjarstæðið á Bergþórshvoli er friðlýst. Bergþórshvoll í Brennu-Njálssögu. Sagan á að gerast í kringum aldamótin 1000 og segir frá Njáli Þorgeirssyni, konu hans Bergþóru Skarphéðinsdóttur og sonum þeirra Helga, Grími og Skarphéðni. Sagan snýst um hefndaraðgerðir fram og til baka sem enda í bruna sem á að hafa gerst á Bergþórshvoli árið 1011. Synir Njáls höfðu drepið Höskuld Þráinsson Hvítanessgoða vegna rógburðar Marðar Valgarðssonar, sem leiddi til þess að Flosi Þorgeirsson kom með hundrað manna lið og brenndi Njál og fjölskyldu hans inni.. Fornleifarannsóknir. Bæði fyrr og síðar hefur fólk reynt að átta sig á lýsingum Njáls sögu á brennunni og koma þeim heim og saman við staðhætti á Bergþórshvoli. Eldri rannsóknir (t.d. Kristians Kaalund sem kom þar 1877) miðuð fyrst og fremst að því að skýra atburðarásina eins og henni er lýst í sögunni en seinna fóru fræðimenn að leita að ummerkjum um brennuna sjálfa í bæjarhólnum. Þeir sem hafa gert uppgrefti á Bergþórhvoli eru Sigurður Vigfússon, Matthías Þórðarson og Kristján Eldjárn og Gísli Gestsson. Rannsókn Sigurðar Vigfússonar. Sigurður Vigfússon skráði fornleifar á vegum hins Hins íslenska fornleifafélags í lok 19. aldar þegar áhugi á sögustaðafornleifafræði var sem mestur. Rannsóknir hans miðuðu einkum að því að láta fornleifar varpa ljósi á sögurnar. Á Bergþórshvoli las Sigurður í landslagið og bar saman við Njás sögu og taldi sig meðal annars finna Dalinn sem getið er í sögunni. En hann gróf líka nokkra grunna skurði, fyrst 1883 og aftur 1885. Hann fann m.a. brenndar viðarleifar sem honum fannst augljóst að hlyti að koma úr brennunni og leifar af hvítu efi. Sigurður lét gera efnafræðilega rannsókn á hvíta efninu og niðurstaðan var að það væri einhverskonar mjólkumat. Sigurður ályktaði því sem svo að hann hefði fundið skyr Bergþóru. Rannsókn Matthíasar Þórðarssonar. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður (1907-1947) gerði umfangsmikinn uppgröft á Bergþórshvoli 1927, 1928 og 1931. Þegar hann fór að Bergþórhvoli var búið að slétta hólinn og túnið í kring þannig að ekki sást í leifarnar sem höfðu verið á yfirborði þegar Sigurður Vigfússon heimsótti staðinn. Matthías gróf í gegnum margar byggingar, samtals 50 hús eða herbergi sem spanna Íslandssöguna frá víkingaöld til 19. aldar. Við uppgröftinn komu í ljós um 800 gripir. Rannsókn Matthíasar á Bergþórshvoli var án efa langstærsti fornleifauppgröftur sem fram hafði farið á Íslandi til þess tíma og var í fyrsta skipti sem heill bæjarhóll var grafinn upp í heild sinni á öllu Norður Atlantshafssvæðinu. Engu að síður virðast niðurstöðurnar hafa valdið vonbrigðum því Matthías fann engar vísbendingar um að heill bær hafi brunnið og tók aldrei saman skýrslu um rannsóknina. Rannsókn Kristjáns Eldjárns og Gísla Gestssonar. Árið 1951 grófu Kristján Eldjárn og Gísli Gestsson aftur á Bergþórshvoli. Rannsókn þeirra var gerð í samhengi við fyrirhugaða útgáfu Njáls sögu á vegum Hins íslenska fornritafélags. Þeir grófu á öðrum stað í hólnum en Matthías og fundu þar brunna húsrúst á miklu dýpi. Hún reyndist vera af stóru fjósi með lítilli hlöðu. Í skýrslu um uppgröftinn gerðu þeir einnig grein fyrir helstu niðurstöðum úr rannsókn Matthíasar og er sú samantekt eina fræðilega greinargerðin sem til er um hana. Seinna lét Kristján gera kolefnisaldursgreiningu á sýni úr fjósinu og benti hún til seinni hluta víkingaaldar. Njálsbrenna. Njálsbrenna er atburður í Njálu þar bærinn Bergþórshvoll var brenndur og inn í honum brenna Njáll og Bergþóra kona hans og synir þeirra. Sjávarborgarannáll. Sjávarborgarannáll er annáll sem Þorlákur Magnússon á Sjávarborg við Sauðárkrók skráði 1727-1729. Fyrir árin 1609-1627 er þessi annáll er talinn útdráttur úr týndum annáll frá Suðurlandi. Fyrir árin 1645-1650 og 1668-1671 er í annálnum efni sem talið er ættað úr eldri annálum frá Gufudal í Barðastrandarsýslu. Húnafjörður. Staðsetning Húnafjarðar á Íslandskorti. Húnafjörður er einn af fjörðunum sem ganga inn úr Húnaflóa Húnafjörður er fjörður inn af Húnaflóa. Hann er austasti fjörðurinn í Húnaflóa og afmarkast að vestan af Vatnsnesi og að austan af Skaga. Húnafjörður er 10 km breiður og 15 km langur. Þorpið Blönduós er við Húnafjörð. Upp af Húnafirði er Þing og Vatnsdalur. Í vestanverðum botni Húnafjarðar er Hvítserkur sem er sérkennilegur brimsorfinn berggangur í sjó. Vatnsdalshólar. Vatndalshólar Vatnsdalshólar eru víðáttumikil hólaþyrping í mynni Vatnsdals. Hæstu hólarnir eru 84 metrar yfir sjávarmáli. Vatnsdalshólar eru sagðir vera óteljandi margir. Mikið er um rhýólít (líparít) í hólunum. Talið er að þeir séu berghlaup og hafi myndast við hrun úr Vatnsdalsfjalli. Bæir í og við hólana taka nöfn af þeim: Hólabak, Vatnsdalshólar og Hnausar. Skriðuföll eru tíð í Vatnsdal, einkum í grennd við Vatnsdalshóla. Skíðastaðaskriða eyddi bænum Skíðastöðum árið 1545 en hún er ein mannskæðasta skriða sem fallið hefur á Íslandi. Bjarnastaðaskriða hljóp árið 1720 og fór yfir bæinn á Bjarnastöðum, stíflaði Vatnsdalsá. Þá myndaðist Flóðið, stöðuvatnið innan við Vatnsdalshóla. Vestast í Vatnsdalshólum eru þrír samliggjandi smáhólar, Þrístapar. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi 12. janúar 1830 en þá voru hálshöggvin Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir fyrir morð á Natani Ketilssyni. Flóðið. Séð yfir Flóðið sem myndaðist við náttúruhamfarir þegar Bjarnastaðaskriða féll Flóðið er stöðuvatn við mynni Vatnsdals. Í það fellur Vatnsdalsá. Vatnsfallið skiptir um nafn við Flóðið og heitir Hnausakvísl þegar það fellur úr Flóðinu. Hnausakvísl er 7 km löng og fellur til sjávar í Húnaós. Vatnasvið við Flóðið er 993 m². Flóðið varð til árið 1720 þegar Bjarnastaðaskriða féll. Vatnsdalsvegur. Mynd af vegaskilti um Vatnsdalsveg Vatnsdalsvegur eða þjóðvegur 722 er vegur um Vatnsdal.Vegurinn liggur sitt hvorum megin við Vatnsdalsá inn dalinn að Grímstungu. Við veginn eru bæirnir Vatnsdalshólar í Vatnsdal, Flóðvangur í Vatnsdal, Miðhús í Vatnsdal, Breiðabólsstaður í Vatnsdal,Hnjúkur í Vatnsdal, Helgavatn í Vatnsdal, Flaga í Vatnsdal, Gilsstaðir í Vatnsdal, Kornsá í Vatnsdal, Kornsá II í Vatnsdal, Nautabú í Vatnsdal, Undirfell í Vatnsdal, Snæringsstaðir í Vatnsdal, Birkihlíð í Vatnsdal, Brúsastaðir í Vatnsdal, Ás í Vatnsdal, Ásbrekka í Vatnsdal, Saurbær í Vatnsdal, Haukagil í Vatnsdal, Grímstunga í Vatnsdal, Þórormstunga í Vatnsdal, Marðarnúpur í Vatnsdal, Gilá í Vatnsdal, Hof í Vatnsdal, Bakki í Vatnsdal, Eyjölfsstaðir í Vatnsdal, Hvammur í Vatnsdal, Hjallaland í Vatnsdal, Másstaðir í Vatnsdal, Steinkot í Vatnsdal og Bjarnastaðir í Vatnsdal. Bjarnastaðaskriða. Vatnsdalsfjall.Bjarnastaðaskriða féll úr Vatnsdalsfjalli. Bjarnastaðaskriða var náttúruhamfarir í Vatnsdal en skriða féll 8. október árið 1720 úr Vatnsdalsfjalli. Skriðan fyllti farveg Vatnsdalsár með stórgrýti og þá myndaðist stöðuvatnið Flóðið. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Félagið er rekið með frjálsum framlögum og með styrkjum frá íslenska ríkinu. Félagið hefur einn starfsmann á launum, Guðrúnu Helgu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra. Meðal verkefna sem félagið hefur komið að er uppsetning vefanna og. Félagið þýddi einnig samantekt Þróunarskýrslu SÞ 2007-8. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Ban Ki-moon er áttundi aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna er yfir Aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna sem er ein af höfuðstofnunum samtakanna. Aðalritarinn er líka í reynd aðaltalsmaður og leiðtogi Sameinuðu þjóðanna. Núverandi aðalritari er Ban Ki-moon frá Suður-Kóreu sem tók við embætti 1. janúar 2007. Ray Charles. Ray Charles á síðustu tónleikunum sem hann kom fram á árið 2003. Ray Charles Robinson (23. september, 1930 – 10. júní, 2004) var bandarískur píanóleikari og söngvari sem hafði mikil áhrif á ryþmablústónlist á 6. og 7. áratugnum. Hann var blindur frá sjö ára aldri. Sjálfsmorðsárás. a>" brennur eftir sjálfsmorðsárásir japanskra flugmanna í maí 1945. Sjálfsmorðsárás er árás á hernaðarlegt eða borgaralegt skotmark þar sem árásarmaðurinn er meðvitaður um það að árásin mun að öllum líkindum fela í sér dauða hans sjálfs (sjá sjálfsmorð). Aðferðir við sjálfsmorðsárásir eru margvíslegar og til eru dæmi um bifreiðar fullar af sprengiefni, farþegavélar og sprengjuvesti. Þótt til séu gömul dæmi um sjálfsmorðsárásir, þær þekktustu kannski kamikaze-árásir japanskra flugmanna í Síðari heimsstyrjöld, varð þessi árásaraðferð fyrst áberandi á 9. áratug 20. aldar. Árið 2005 voru 460 sjálfsmorðsárásir framkvæmdar í heiminum samanborið við 81 árið 2001. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 1974. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu 1974 var haldin í Vestur-Þýskalandi 13. júní til 7. júlí 1974. Gestgjafarnir unnu keppnina eftir sigur á Hollandi 2-1 í úrslitaleik. Kirkjuvogskirkja. Kirkjuvogskirkja er kirkja í Höfnum í Reykjanesbæ. Kirkjan var byggð 1860-1861. Hún er í Grindavíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan kostaði 300 kýrverð. Vilhjálmur Kr. Hákonarson lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Kirkjan er timburkirkja bikuð að utan með hvítum gluggum. Krafla. Krafla er megineldstöð nálægt Mývatni. Hæsti tindur er 818 m. Í henni er sigketill eða askja sem er 10 km í þvermál. Á Kröflusvæðinu er háhitasvæði með leirhverum og gufuhverum t.d. við Námafjall. Þar eru um 100 km langar sprungur sem gliðna í sundur um 2 sm á ári. Eldgos verða oft á slíkum svæðum. Fyrir 10 þúsund árum lá ísaldarjökull yfir svæðinu og gat því hraunið ekki runnið burt heldur hlóðust upp móbergshryggir eins og Skógamannafjöll. Árin 1724-29 geysuðu Mývatnseldar. Síðasta gos í Kröflu var 1984. Frá því ári hefur jarðhiti Kröflu verið notaður í 60 MV jarðvarmavirkjun, Kröflustöð. Glaumbær (bær). Torfbærinn í Glaumbæ. Minnismerki um Guðríði Þorbjarnardóttur og Snorra Þorfinnsson í Glaumbæ. Glaumbær er bær og kirkjustaður á miðju Langholti, vestan Héraðsvatna í Skagafirði, og tilheyrði áður Seyluhreppi. Þar er nú Byggðasafn Skagfirðinga. Saga. Byggð hefur verið í Glaumbæ frá því að sögur hófust. Landkönnuðurinn Þorfinnur karlsefni og kona hans, Guðríður Þorbjarnardóttir, bjuggu á Reynistað eftir að þau komu frá Vínlandi og keyptu Glaumbæjarlönd. Á 11. öld bjó þar sonur þeirra, Snorri Þorfinnsson sem var sagður fæddur á Vínlandi. Í Grænlendingasögu segir að hann hafi látið reisa fyrstu kirkjuna í Glaumbæ á meðan Guðríður móðir hans gekk suður. Glaumbæjarkirkja var helguð Jóhannesi skírara á kaþólskum tíma. Sagan segir að Guðríður hafi verið einsetukona í Glaumbæ eftir að hún kom úr suðurgöngunni. Margir þekktir höfðingjar bjuggu í Glaumbæ á kaþólskum tíma. Þeirra á meðal var Hrafn Oddsson hirðstjóri, sonur hans Jón korpur og sonarsonur hans Glaumbæjar-Hrafn (Rafn) Jónsson. Hann bauð 360 manns í brúðkaupsveislu dóttur sinnar í Glaumbæ 1360. Soffía dóttir Lofts ríka Guttormssonar bjó í Glaumbæ og sonur hennar Þorleifur Árnason. Sonur hans var Teitur ríki Þorleifsson (d. 1537), sem átti í miklum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup og fleiri höfðingja á fyrri hluta 16. aldar og missti mestallan auð sinn og völd í hendur þeirra. Fornleifarannsóknir í Glaumbæ hafa leitt í ljós leifar af fornum skála í túninu. Prestar og kirkja. Samkvæmt máldögum kirkjunnar frá kaþólskum sið voru þá tveir prestar í Glaumbæ, heimilisprestur og sóknarprestur. Nokkru fyrir siðaskipti lagði Jón Arason jörðina undir Hólastól og gerði hana að prestssetri og hefur prestur verið í Glaumbæ síðan. Glaumbær þótti löngum besta brauð í Skagafirði og sátu flestir prestar þar lengi. Einna þekktastur er Gottskálk Jónsson (1524 - 1590), prestur í Glaumbæ frá 1554, sem var mikill fræðimaður og skrifaði meðal annars Gottskálksannál og Sópdyngju, sem er eitt af elstu og merkustu pappírshandritum Íslendinga. Annar þekktur prestur í Glaumbæ var Grímúlfur Illugason (1697 - 1784), sem var þar frá 1727 til dauðadags. Han var talinn göldróttur og gengu ýmsar þjóðsögur af honum. Núverandi kirkja er byggð 1926, eftir að timburkirkjan sem þar var áður brotnaði í ofsaveðri. Á veggjum hennar eru nú spjöld úr prédikunarstóli sem talinn er hafa verið smíðaður 1685. Hann var seldur á uppboði 1930 og voru spjöldin notuð í farg á hey í nokkur ár, áður en þeim var bjargað. Í kirkjugarðinum í Glaumbæ er leiði Miklabæjar-Solveigar, en bein hennar voru jarðsett þar 1937. Byggðasafnið. Byggðasafn Skagfirðinga sem stofnað var 29. maí 1948, fékk afnot af torfbænum í Glaumbæ og opnaði sýningu í honum 15. júní 1952. Á sýningunni er fjöldi muna sem flestir eru tengdir hemilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Torfbærinn er samstæða þrettán húsa. Sex snúa burstum fram á hlaðið. Bærinn er sérstæður meðal íslenskra torfbæja að því leyti að mjög lítið grjót er notað í hleðslurnar, enda er það varla að finna í Glaumbæjarlandi. Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ. "Áshús" er frá Ási í Hegranesi, byggt 1884-1886 til að hýsa kvennaskóla fyrir Skagfirðinga. Aldrei varð af því og var það notað sem íbúðarhús til 1977. Í húsinu er nú kaffistofa, sýning og geymsla. "Gilsstofa" var upphaflega reist á Espihóli í Eyjafirði 1849. Hún var tekin niður 1861 og flutt til Akureyrar og þaðan með skipi til Kolkuóss, reist aftur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, flutt í Reynistað 1872, að Gili í Borgarsveit 1884, til Sauðárkróks 1891 og stóð þar til 1985 þegar hún var flutt að Kringlumýri í Blönduhlíð. Þar stóð hún þar til hún var flutt að Glaumbæ 1996 og endursmíðuð þar sem næst í upprunalegri mynd en lítið var eftir af upprunalegum viðum eftir alla flutningana. Þar er nú safnbúð og skrifstofa byggðasafnsins og aðstaða fyrir starfsfólk. Hvítserkur (klettur). Hvítserkur í Húnafirði Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann stendur rétt í flæðarmálinu, austan við Vatnsnesið. Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Efranúpskirkja. Efranúpskirkja er kirkja á Efra-Núpi í Miðfirði. Bakarí. Bakarí er búð sem býr til og/eða selur bakkelsi, búið til af bökurum. Það eru til margar mismunandi gerðir af bakaríum. Til eru bakarí sem þjóna aðeins þeim tilgangi að baka bakkelsið sem síðan er selt í verslunum eða í öðrum bakaríum. Til eru bakarí sem búa til sitt eigið bakkelsi og selja á staðnum. Síðan eru til bakarí sem eru einksonar útibú fyrir önnur bakarí. Þau selja bakkelsi en baka ekkert sjálf, slík bakarí eru oft einnig rekin sem kaffihús. Prestsetur. Prestsetur er jörð þar sem prestur situr, þar er heimili sóknarprests og oftast er aðalkirkja eða heimakirkja þar. Í prestaköllum er oft auk aðalkirkjunnar á öðrum jörðum "útkirkjur" (annexíur) eða bænhús, þar sem messað er stöku sinnum. Líparít. Líparít, ljósgrýti eða rhýólít er súrt gosberg. a> og neðst til hægri er ljósgrýti eða rhýólít Lýsing. Ljósgrá, gulleit eða bleikt á litinn, litadýrðin stafar af jarðhitaummyndun. Kísilsýrmagn yfir 67% og kristalgerð sést aðeins í smásjá. Oft dílótt þá einkum af natríumríku feldspati en líka járnríku ágíti og ólivíni. Grunnmassi dulkornóttur og glerkenndur. Afbrigði. Ef líparít storknar hægt í iðrum jarðar myndast grófkristallað granít, í grunnum innskotum fínkristallað granófýr. Við snögga kælingu í vatni myndast ekki kristallar og þá storknar bergkvikan eins og gler og myndar hrafntinnu. Útbreiðsla. Líparít þekur um 2% af yfirborði Íslands og er Torfajökulssvæðið í Friðlandi að fjallabaki stærsta líparítsvæði landsins. Kvika líparíts er seigfljótandi og fer hægt yfir því eru hraun yfirleitt skammt frá uppruna og bergið verður straumfljótt. Þykk hraunsins er á bilinu 50-100 m eða hrúgast upp og myndar hraungúla. Líparót er viðkvæmt fyrir veðrun og klofnar í misstórar flögur. Göngubrú. Göngubrú er brú sem er hönnuð fyrir fótgangandi fólk og í sumum tilvikum fyrir hjólreiðamenn og hesta en er lokuð fyrir bílaumferð. Göngubrýr eru oft byggðar svo fótgangandi fólk geti komist leiðar sinnar yfir vatn, lestarteina og vegi. Kleifarvatn. Kleifarvatn í júní árið 2008. Kleifarvatn er stöðuvatn á Reykjanesskaga. Vatnið er 97 metra djúpt. Eftir jarðskjálfta árið 2000 byrjaði vatnið að minnka og hefur minnkað um 20% síðan þá. Arnaldur Indriðason skrifaði sakamálasöguna Kleifarvatn. Erna, Eva, Erna - Manstu eftir því. Erna, Eva, Erna - Manstu eftir því er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni flytja Erna, Eva, Erna dægurlög. Hljómsveitarstjórn, útsetningar og umsjón með hljóðritun: Magnús Kjartansson. Útsetningar fyrir strengja- og blásturs hljóðfæri: Del Newman og Mike McNaught. Hljóðritanir fóru fram í Hljóðrita hf. og Nova Suite Studio, London. Graham Smith - Þá og nú. Graham Smith - Þá og nú er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni leikur Graham Smith dægurlög á fiðlu ásamt hljómsveit. Hljóðritun fór fram í Hljóðrita h.f. Tæknimaður: Tony Cook. Hönnum umslags: Brian Pilkington. Vegur Ólafs helga. Miðaldalíkneski af Ólafi helga frá kirkjunni í Rättvik í Dalarna í Svíþjóð Vegur Ólafs helga – eða Vegir Ólafs helga – eru samnefni fjölmargra leiða að dómkirkjunni í Niðarósi í Noregi. (Niðarós heitir nú Þrándheimur). Þetta var ein mikilvægasta pílagrímaleið í Evrópu á miðöldum, og hefur hún nú verið endurreist. Fljótlega eftir fall Ólafs helga Haraldssonar í Stiklastaðaorustu 1030 fóru pílagrímar að leita hjálpar við gröf hans í Niðarósi. Fyrsta kraftaverk hans var sólmyrkvinn sem varð þegar hann féll. Ýmis önnur kraftaverk eða jarteiknir fylgdu í kjölfarið, og þótti hann góður til áheita. Var hann kanóníseraður sem dýrlingur þegar árið 1031. Segir Snorri Sturluson frá því í Ólafs sögu helga í Heimskringlu: "Var þá biskups atkvæði og konungs samþykki og dómur allsherjar að Ólafur væri sannheilagur". Ólafur helgi varð verndardýrlingur Noregs, og frægð hans og helgi barst langt út fyrir strendur landsins. Voru meðal annars 70 kirkjur á Íslandi helgaðar honum. Leiðir pílagríma frá öllum Norðurlöndum og Norður-Evrópu, lágu ýmist á skipsfjöl eða yfir fjöll og heiðar. Leiðin til Niðaróss (Niðaróssvegurinn /-vegirnir), varð fjórða mikilvægasta pílagrímaleiðin í Evrópu á miðöldum, á eftir leiðunum til Jerúsalem og Rómar, og Jakobsveginum. Til Niðaróss fóru þúsundir á hverju ári allt fram að siðaskiptunum í Noregi 1537, þegar hin nýja lútherska kirkja bannaði pílagrímaferðir og allt annað sem tengdist dýrlingadýrkun. Á miðöldum voru pílagrímsferðir fyrst og fremst farnar í sáluhjálparskyni í von um andlegar eða líkamlegar náðargjafir og sem þakkargjörð og einnig í yfirbótarskyni, ýmist að eigin frumkvæði eða fyrirlagt af andlegum eða veraldlegum yfirvöldum. Ferðunum var heitið til staða sem geymdu leifar dýrlinga og annarra heilagra manna. Líkamar og líkamshlutar heilagra manna, og hlutir sem höfðu verið í snertingu við þá, voru helgir dómar og bjuggu yfir andlegum kröftum. Ekki er allstaðar ljóst hvar hinar fornu pílagrímaleiðir lágu, enda víða gróið yfir stíga og aðrir horfnir undir vegi eða önnur mannvirki nútímans. Pílagrímarnir héldu gjarnan hópinn og voru áfangastaðir með beitilandi fyrir hesta með 8 til 10 km millibili. Einnig var fjöldi gistihúsa og viðlegustaða á leiðinni. Oft var gist í klaustrum. Krossar og kapellur vísuðu veginn og víða mátti finna helgar uppsprettur. Á síðustu áratugum hefur afstaða lúthersku kirknanna á Norðurlöndum gagnvart pílagrímaferðum snúist frá því sem áður var. Þær sækjast ekki eftir kraftaverkum miðaldakirkjunnar heldur líta á pílagrímaferðina sem bænagjörð með fótunum. Norska þjóðkirkjan átti frumkvæði að endurvakningu Niðarósgöngunnar í byrjun tíunda áratugar 20. aldar. Í samvinnu við ferðafélög og Umhverfismálaráðuneyti Noregs var hinn nýi "Vegur Ólafs helga" opnaður í júlí 1997. Síðan hefur markvist verið unnið að því að merkja leiðir og gefa út bæklinga og kort um leiðirnar. Samanlögð veglengd er nú orðin um 5.000 km, þar af um 2.000 km í Noregi. Fjölmargir pílagrímar fara nú á hverju ári einhverja af þessum leiðum, annaðhvort upp á eigin spýtur eða í skipulögðum hópum, oft undir forystu presta. Ingveldur Hjaltested - Sextán einsönsglög. Ingveldur Hjaltested - Sextán einsönsglög er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni syngur Ingveldur Hjaltested íslensk sönglög. Jónína Gísladóttir píanóleikari annast undirleik. Hljóðritun fór fram hjá Tóntækni. Tæknimaður: Sigurður Árnason. Ljósmyndun á framhlið: Íris Gunnarsdóttir. Ljósmundun á bakhlið: Guðmundur Ingólfsson. Prentun: Prisma Ísskápur. Ísskápur eða kæliskápur er tæki sem kælir innihald sitt. Hann er með vélbúnað sem flytur hita innan úr tækinu út í umhverfið. Algengast er að nota ísskápa til að kæla mat sem hættir til að skemmast nema vöxtur gerlanna sé bældur með kælingu. Ísskápar eru algeng heimilistæki. Algengt hitastig í ísskáp er á bilinu 5-10 °C en hitastillingin getur verið háð bæði menningarsvæði og óskum einstakra notenda. Margir ísskápar eru búnir frystihólfi eða sambyggðum frystiskáp til að frysta matvæli. Úllen dúllen doff - Kisubörnin kátu. Úllen dúllen doff - Kisubörnin kátu er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni flytur Úllen dúllen doff leikflokkurinn leikrit fyrir börn búið til flutnings af Gísla Rúnari Jónssyni eftir sögu Walt Disney í þýðingu Guðjóns Guðjónssonar. Leikstjóri: Gísli Rúnar Jónsson. Hljóðritun fór fram hjá Hljóðrita hf. Tæknimenn: Hjörtur Howser og Pétur Hjaltested. Viðbótarhljóðritun og hljóðblöndun fór fram hjá Ríkisútvarpinu. Tæknimaður: Vigfús Ingvarsson. Ljósmynd á framhlið: Ólafur Jónsson. Ljósmynd á bakhlið: Bjarnleifur. Filmuvinna og prentun: Prisma Tónlist. Tónlist og áhrifahljóð eru eftir Gísla Rúnar Jónsson og útsett af honum ásamt Magnúsi Kjartanssyni. Hljóðfæraleikur: Magnús Kjartansson. Viðar og Ari - Minningar mætar. Viðar og Ari - Minningar mætar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni flytja Viðar og Ari dægurlög. Útsetningar og hljómsveitarstjóm: Ólafur Gaukur. Hljóðritun: Hljóðriti hf. Tæknimaður: Tony Cook. Hljóðblóndun: Ólafur Gaukur og Tony Cook. Ljósmyndir: Effect-ljósmyndir. Litgreining og prentun: Prisma Skeifan. Skeifan er gata í Laugardalnum í Reykjavík með póstnúmerið 108. Með Fákafeni og Faxafeni myndar hún verslunarhverfi sem hefur einnig verið kallað Skeifan. Í Skeifunni eru margar verslanir eins og Elko, Hagkaup, Subway, KFC, Domino's, Víðir, Metro og Rúmfatalagerinn svo nokkrar séu nefndar. Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun er ríkisstofnun sem starfar samkvæmt sérstökum lögum nr. 90/2002. Hlutverk hennar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Stóra stökkið fram á við. Stóra stökkið fram á við átti við efnahags- og þjóðfélaglega áætlun sem notuð var í Alþýðulýðveldinu Kína frá árinu 1958 til 1960. Tilgangur hennar var að breyta bændasamfélagi á meginlandi Kína í nútíma iðnvætt kommúnistaríki. Maó byggði þessa áætlun á kenningu um framleiðsluöflin. Nafnið Stóra stökkið fram á við er nafn sem gefið var annarri fimm ára áætlun inni í Kína sem ætlað var að gilda fyrir árin 1958–1963 en síðar hefur þetta nafn aðeins verið notað um fyrstu þrjú ár þeirrar áætlunar. Stóra stökkið fram á við er núna talið bæði innan Kína og utan hafa mistekist hrapalega og hafa valdið hungursneyð og hörmungum. Talið er að fjöldi fólks sem dó úr hungri á þessu tímabili sé á milli 14 til 43 milljónir. Fimm ára áætlun. Fimm ára áætlun var miðstýrð efnahags- og þjóðfélagsáætlun í Sovétríkjunum þar sem stjórnvöld settu sér markmið til fimm ára í senn. Það voru alls 13 fimm ára áætlanir. Nokkrar fimm ára áætlanir stóðu ekki yfir í fimm ár því markmiðum var náð fyrr og aðrar misheppnuðust og voru lagðar til hliðar. Fyrstu fimm ára áætlununum var ætlað að flýta fyrir iðnvæðingu Sovétríkjanna og aðaláhersla var lögð á þungaiðnað. Fimm ára áætlanirnar byggðust á kenningu um framleiðsluöflin. Fyrsta áætlunin var samþykkt árið 1928 og var hún fyrir árið 1929 til 1933 og náðust markmið hennar ári fyrr eða árið 1932. Seinasta fimm ára áætlunin var fyrir árin 1991 til 1995 en hún kom aldrei til framkvæmda því að Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991. Áætlunarbúskapur í öðrum löndum. Sams konar áætlanabúskapur var tekin upp í flestum kommúnistaríkjum svo sem á Indlandi og í Alþýðulýðveldinu Kína á árunum 1950-60. Stóra stökkið fram á við var önnur fimm ára áætlunin í Alþýðulýðveldinu Kína. Mörg ríki á Vesturlöndum lögðu einnig áherslu á miðstýrðar áætlanir innan markaðshagkerfa með því að setja fram langtíma efnahagsmarkmið. Þungaiðnaður. Þungaiðnaður er iðnaður sem krefst mikils rýmis, fjármagns og orku svo sem iðnaður þar sem stál og járn eða aðrir málmar eru bræddir og formaðir. Dæmi um þungaiðnað er námavinnsla, álver og olíuefnavinnsla. Þungaiðnaður getur einnig átt við iðnframleiðslu þar sem framleiddir eru stórir hlutir eins og skip, byggingakranar, vörubifreiðar og ýmis mannvirki eða varahlutir. Kleifarvatn (skáldsaga). Kleifarvatn er sakamálasaga eftir Arnald Indriðason. Sagan hefst við Kleifarvatn á Reykjanesskaga. Þegar vatnsborð Kleifarvatns lækkar í kjölfar jarðskjálfta finnst beinagrind af manni í sandi. Vað. a> fer yfir á á vaði Vað kallast staður í á eða læk sem er það grunnur að hægt er að komast þar yfir með því að vaða, fara ríðandi á hestbaki eða keyrandi á ökutæki. Orðið "vað" er hvorugkyns og má ekki rugla saman karlkynsorðið "vaður" sem merki færi, taug, reipi kaðall. Orðatiltæki. Orðatiltækið að „hafa vaðið fyrir neðan sig“ þýddi upphaflega að sá sem ætlaði sér að fara yfir á ætti að hafa þá fyrirhyggju að grynnri hluti árinnar væri fyrir neðan, en ekki ofan, þegar farið væri yfir. Nú þýðir það að vera aðgætinn. Fornaldarsögur. Hjörvarður og Hjálmar hugumstóri biðja Ingibjargar konungsdóttur í Uppsölum, sbr. Hervarar sögu, 2. kapítula. Teikning eftir Hugo Hamilton, gerð um 1830 Fornaldarsögur eða Fornaldarsögur Norðurlanda eru sögur, sem ólíkt Íslendingasögum, gerast í nágrannalöndunum fyrir landnám Íslands. Þó eru þar undantekningar, svo sem "Yngvars saga víðförla", sem gerist á 11. öld. Sögurnar voru líklega allar ritaðar á Íslandi, á tímabilinu frá því um 1250 og fram undir 1400. Þó er hugsanlegt að einhverjar þeirra séu yngri. Helstu einkenni fornaldarsagna. Sögusvið fornaldarsagna er oftast á Norðurlöndum, en stundum berst frásögnin til fjarlægra og furðulegra staða. Oft blandast goðsöguleg eða yfirnáttúruleg öfl inn í frásögnina, svo sem dvergar, álfar, risar og galdrar. Á 17. og 18. öld voru fornaldarsögur taldar nothæfar sagnfræðilegar heimildir meðal norrænna fræðimanna, en á 19. öld komust menn á þá skoðun að lítið væri á þeim byggjandi fyrir sagnfræðinga. Nú er almennt litið svo á, að þó að sumar sögurnar hafi að geyma dálítinn sögulegan kjarna og að sumar persónurnar hafi verið til, þá hafi meginhlutverk fornaldarsagna verið að skemmta fólki, en ekki að segja sanna sögu frá fyrri tíð. Nýlega hefur þó verið lögð áhersla á að sögurnar geti varpað ljósi á íslenska þjóðmenningu á 13. og 14. öld, þegar þær voru samdar. Sumar sögurnar fjalla um sögulegar persónur, eins og sjá má þar sem til eru heimildir til samanburðar, svo sem um "Ragnar loðbrók", "Yngvar víðförla" og sumar af persónum "Völsunga sögu". Í "Hervarar sögu" koma fram staðanöfn í Úkraínu frá árabilinu 150–450, og síðasti hluti sögunnar er notaður sem heimild um sögu Svíþjóðar. Löngum hafa fornaldarsögur notið heldur lítillar virðingar og taldar hafa mun minna bókmenntagildi en Íslendingasögur. Efnið er ekki eins trúverðugt, persónulýsingar skortir dýpt, og efnið er oft keimlíkt, fengið að láni úr öðrum sögum eða þjóðsögum. Þrátt fyrir það ber ekki að vanmeta þær. Sumar sögurnar hafa að geyma ævafornar germanskar sagnir, svo sem "Hervarar saga" og "Völsunga saga", þar sem er kveðskapur um Sigurð Fáfnisbana sem er ekki í "Konungsbók Eddukvæða" og hefði annars glatast, (sjá Eyðan í Konungsbók). Aðrar fjalla um þekktar hetjur eins og Ragnar loðbrók, Hrólf kraka og Örvar-Odd. Fornaldarsögur hafa mikið gildi fyrir þjóðsagnarannsóknir, því að í þeim er fjöldi sagnaminna (mótífa) úr margs konar þjóðsögum, sem annars eru engar heimildir um á Norðurlöndum fyrr en um miðja 19. öld. Þær eru einnig áhugaverðar fyrir þá sem rannsaka norræn fornkvæði, sem oft fjalla um sama eða svipað efni. Loks eru þær mikilvægar við rannsóknir á norrænum og þýskum hetjukvæðum, og einnig á Danasögu Saxa, sem var byggð á sömu fornaldarsögum og hetjukvæðum. Fornaldarsögur hafa haft áhrif á rithöfunda og listamenn á síðari öldum, einkum á tímum rómantísku stefnunnar. T.d. samdi sænska skáldið Esaias Tegnér, söguljóðið "Friðþjófssögu", sem byggt er á "Friðþjófs sögu hins frœkna". Matthías Jochumsson þýddi það á íslensku. Sigríðarstaðavatn. Sigríðarstaðavatn þar sem það rennur út í Húnafjörð Sigríðarstaðavatn er stöðuvatn og gamalt sjávarlón víð Húnafjörð í Vestur-Húnavatnssýslu. Það er grunnt og mjótt, 6 km langt og 6,2 ferkílómetrar. Úr því rennur í Sigríðarstaðaós út í Húnafjörð. Bærinn Sigríðarstaðir er í eyði og landið heyrir undir Þingeyrar. Við Sigríðarstaðaós er mikið um sel. Farfuglaheimili. Farfuglaheimili er gistihús fyrir ferðamenn þar sem gestir geta gist gegn vægu gjaldi. Gisting getur verið í svefnsölum eða herbergjum þar sem gestir gista í kojum. Oft er sameiginleg aðstaða eins og setustofa og eldhús þar sem gestir geta sjálfir eldað. Farfuglaheimili á Íslandi. Bandalag íslenskra Farfugla starfrækir farfuglaheimili og er aðili að alþjóðasamtökum farfugla Hostelling International (International Youth Hostel Federation) og voru samtökin stofnuð árið 1939. Það er hægt að kaupa félagsskírteini sem gilda í eitt ár frá útgáfudegi. Svanhildur Jakobsdóttir - Ég kann mér ekki læti. Svanhildur og hljómsveit Ólafs Gauks - Ég kann mér ekki læti er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1972. Ólafur Gaukur útsetti helming laganna og stjórnaði hinni stóru hljómsveit, sem leikur undir. Hinn helminginn útsetti Jón Sigurðsson. Umsjón með hljóðritun skiftu þeir Ólafur Gaukur og Jón á milli sín. Þá hannaði Ólafur Gaukur hljómplötuumslagið, en ljósmynd tók Óli Páll. Hljóðritun gerði Pétur Steingrímsson. Netafræði. Í stærðfræði og tölvunarfræði kallast netafræði (áður nefnt graffræði eftir enska heitinu "graph theory") það þegar lögð er stund á "net". Harold Holt. Harold Edward Holt (fæddur 5. ágúst 1908, látinn 17. desember 1967) var ástralskur stjórnmálamaður. Hann var forsætisráðherra Ástralíu frá janúar 1966 til dauðadags en hann hvarf í sundferð á strönd í Viktoríu. Lík hans fannst aldrei. Matti Sippala. Matti Kalervo Sippala (fæddur 11. mars 1908 í Hollola, látinn 22. ágúst 1997 í Kotka) var finnskur spjótkastari. Hann tók þátt í sumarólympíuleikunum 1932 í Los Angeles og hlaut silfurverðlaun í spjótkasti en landar hans, Matti Järvinen og Eino Penttilä fengu gull- og bronsverðlaun. David Lean. David Lean (fæddur 25. mars 1908 í Croydon á Englandi, látinn 16. apríl 1991 í London) var enskur kvikmyndaleikstjóri. Hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir "Brúnna yfir Kwai-fljót" (1957) og "Arabíu Lawrence" (1962). Árið 1984 var hann sleginn til riddara af bresku krúnunni (KBE). Þrístapar. Þrístapar eru þrír samliggjandi smáhólar sem eru hluti af Vatnsdalshólum. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi 12. janúar 1830 en þá voru hálshöggvin Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir fyrir morð á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Morðið, aftakan og örlagasaga Friðriks, Agnesar og Natans hafa verið yrkisefni í íslenskri skáldsögu og íslenskri kvikmynd. Þorgeir Þorgeirson skrifaði skáldsöguna Yfirvaldið og mun sú saga styðjast við heimildir. Kvikmyndin Agnes sem Egill Eðvarðsson leikstýrði árið 1996 er byggð á þessum atburðum en víkur mjög frá þekktum staðreyndum. Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs frá Íslandi. Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs frá Íslandi koma frá þriggja manna dómnefnd. Norðurlandaráð hefur frá 1962 árlega veitt bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs til norræns bókmenntaverks. Á hverju ári eru tilnefndar tvær bækur frá hverju þessara landa: Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Færeyjar, Álandseyjar, Grænland og samíska málsvæðið tilnefna eitt verk hvert. Tveir aðilar og einn til vara eru í nefndinni sem tilnefnir verk frá Íslandi. Tilnefningar frá Íslandi. a> hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2005 Tengt efni. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs Verðlaun Norðurlandaráðs Kristín Steinsdóttir. Kristín Steinsdóttir (fædd 11. mars 1946) er íslenskur rithöfundur. Hún hefur aðallega skrifað bækur fyrir börn og unglinga og þýtt barnabækur úr þýsku. Einnig hefur hún samið leikrit og skáldsögur fyrir fullorðna. Kristín fæddist og ólst upp á Seyðisfirði. Hún er stúdent frá Menntaskólanum frá Akureyri og lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1968. Hún lauk síðar B.A. prófi í dönsku og þýsku frá Háskóla Íslands. Kristín kenndi við gagnfræðadeild Réttarholtsskóla í þrjú ár og fór svo til náms í Danmörku í dönsku og dönskum bókmenntum. Árin 1972 til 1978 var hún búsett í Göttingen í Þýskaland og árið 1978 í Noregi og flutti til Íslands árið 1979 og hefur lengst af búið á Akranesi. Kristín kenndi við Brekkubæjarskóla og síðar við Fjölbrautaskóla Vesturlands en sneri sér alfarið að ritstörfum árið 1988. Kristín var í stjórn Rithöfundasambands Íslands árin 1993 – 2001 og formaður stjórnar Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG) árin 1999 – 2003. Kristín hefur samið fjölda barnabóka og einnig skáldsögur fyrir fullorðna og sú nýjasta, "Ljósa", hlaut meðal annars Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Fjöruverðlaunin 2011. Skáldsagan "Á eigin vegum" var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2008. Kristín hefur einnig hlotið viðurkenningar fyrir barnabækur sínar, meðal annars Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir fyrstu bók sína, "Franskbrauð með sultu", og Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur og Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina "Engill í Vesturbænum". Hún hefur einnig samið leikrit og sögur í samstarfi við systur sína, Iðunni Steinsdóttur rithöfund. Peter Lewis. Peter B. Lewis (fæddur 1933) er bandarískur milljarðamæringur frá Cleveland í Ohio. Hann er stjórnarformaður í tryggingarfyrirtækinu Progressive Insurance Companies sem er fimmta stærsta tryggingarfyrirtækið í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Lewis þykir sérvitur og fara nýjar leiðir í viðskiptum. Hann lét byggja byggja heilsurækt og ferðaþjónustu fyrir starfsmenn í höfuðstöðvum Progressive og lagði áherslu á nútímalist. Hann telur mikilvægt að búa til starfsumhverfi þar sem skapandi hugsun þrífst en það sé leið til að auka hagnað í í fyrirtækjarekstri. Lewis hefur gefið miklar fjárhæðir til listasafna, háskóla og ýmis konar góðgerðarmála og stjórnmála. Tenglar. Lewis, Peter Grindadráp. Bátar á Suðurey í Færeyjum reka hvali upp á land 8. ágúst 2012 a> er velþekktur veiðistaður fyrir grindhvali. Grindadráp er veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á grindhvölum (marsvínum) í Færeyjum. Flestir Færeyingar telja grindadráp mikilvægan hluta af menningu sinni. Þessi veiðiaðferð hefur verið notuð að minnsta kosti frá 11. öld. Hvalveiðiráð Færeyinga hefur eftirlit með veiðunum en ekki Alþjóðahvalveiðiráðið. Um 950 grindhvalir eru veiddir árlega, aðallega að sumarlagi. Veiðarnar sem kallast á færeysku grindadráp eru ekki gerðar til að selja hvalaafurðir heldur eru skipulagðar þannig að allir geta tekið þátt. Dýraverndunarsinnar hafa gagnrýnt veiðarnar og segja þær grimmúðugar og ónauðsynlegar. Framkvæmd grindadráps. Þegar vart var við torfur grindhvala var hrópað "grindaboð" og sendaboðar voru sendir til allra íbúa á eyjunni. Á sama tíma var kveiktur eldur til að koma boðum um grindina til nágrannaeyja og þar var sama kerfi notað til koma fréttum til allra íbúa á þeim eyjum. Veiðiaðferðin er þannig að það þurfti mjög marga báta og fólk til að króa af og reka grindhvalahjörð að landi. Boð um grindhvalaveiðar nútímans fara fram með nútíma fjarskiptatækni svo sem gegnum farsíma og síma.Veiðimennirnir króa fyrst af hvalina með því að mynda hálfhring með bátum. Bátarnir reka síðan grindhvalahjörðina hægt upp inn í flóa eða fjarðarbotn. Grindadráp á Íslandi. Fyrsta grindadráp í Reykjavík var 17. september 1823 en þá voru 450 marsvín rekin á land vestur í hafnarkrikanum þar sem Slippurinn er núna. Í ágúst 1875 voru rekin á land í Njarðvíkum 207 marsvín og 22 höfrungar. Þann 15. júlí 1957 var marsvínavaða rekin á land við dráttarbrautina í Njarðvík og voru 105 marsvín drepin. Færeyingar búsettir í Njarðvík stjórnuðu veiðunum og óðu sumir þeirra allt í axlir í sjó fram við að drepa hvalina. Nokkrum árum áður voru hvalir reknir á land á sama stað og skornir þar í fjörunni. Þann 30. ágúst 1966 fundu sjómenn á tveim trillubátum marsvínavöðu með á annað hundrað dýrum á Sundunum út af Reykjavík og ráku þau til lands. Fleiri trillubátar og hraðbátar bættust í för og eftir tveggja klukkustunda eltingarleik tókst að reka þrjú marsvín á land við Laugarnestanga en þar skipti marsvínavaðan sér í tvo hópa og fór til hafs. Síðsumars árið 1982 rak stóra marsvínavöðu líklega um og yfir 300 dýr upp að landi við Rif á Snæfellsnesi. Heimamenn komu megninu af vöðunni aftur á haf út en um 40 dýr drápust. Árið 1781 skrifaði Jón Eiríksson grein í tímarit Hins íslenska lærdómslistafélags um Marsvína rekstr en þar lýsti hann hnísuveiðum í Middelfart á Fjóni og hvatti Íslandinga til hvalveiða. Frank Cameron Jackson. Frank Cameron Jackson (fæddur 1943) er ástralskur heimspekingur. Hann er prófessor í heimspeki við Australian National University en var einnig forstöðumaður Rannsóknarseturs háskólans í félagsvísindum. Frá 2007 er hann reglulega gistiprófessor við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Rannsóknir Jacksons eru einkum á sviði hugspeki, þekkingarfræði, frumspeki og siðspeki. Greinar. Jackson, Frank Cameron Jackson, Frank Cameron Jackson, Frank Cameron Maríuhöfn á Hálsnesi. Maríuhöfn á Hálsnesi var áður höfn og þéttbýli við Laxárvog í Hvalfirði. Við Maríuhöfn er talið að ein fyrsta höfn Íslands hafi verið og þar hafi verið stærsti kaupstaður landsins fram á 15. öld. Til Maríuhafnar komu skip Skálholtsstóls. Svarti-dauði barst til Íslands með skipi sem lagði upp í Maríuhöfn árið 1402. Á miðöldum voru hafskip lítil og ristu grunnt svo auðvelt var að draga þau á land á veturna. Maríuhöfn hefur hentað vel og verið örugg höfn sem lá vel við samgöngum á helstu staði landsins eins og Þingvelli, Skálholt og Viðey. Fremst við fjöruna á Hálsnesi eru höfðar og milli þeirra er sjávarkambur sem nefnist Búðasandur. Þar er einnig örnefnið Maríuhöfn. Þar eru rústir fornra búða. Menningarhúsið Síbería, Sakha-Jakútía er á Maríuhöfn á Hálsnesi. Kjuregej Alexandra Argunova byggði húsið og rekur það. Menningarhúsið var vígt 15. júní 2008. Robert Stalnaker. Robert Culp Stalnaker er Laurance S. Rockefeller-prófessor í heimspeki við Tækniháskólann í Massachusetts. Hann fæst einkum við heimspekilegar undirstöður merkingarfræðinnar og málnotkunarfræðinnar, rökfræði, ákvörðunarfræði, frumspeki, þekkingarfræði og hugspeki. Stalnaker hefur reynt að setja fram náttúruhyggju um íbyggni. Hann hefur einnig verið, ásamt Saul Kripke, David Lewis og Alvin Plantinga, einn áhrifamesti hugsuðurinn um merkingarfræði mögulegra heima. Stalnaker lauk doktorsgráðu frá Princeton-háskóla árið 1965. Hann kenndi heimspeki við Yale-háskóla, Illinois-háskóla og Cornell-háskóla áður en hann gekk til liðs við heimspekideild MIT seint á 9. áratugnum. Meðal nemenda hans má nefna Jason Stanley, Adam Elga og Deliu Graff Fara. Helstu rit. Stalnaker, Robert Stalnaker, Robert Laxárvogur. Laxárvogur eða Laxvogur er vogur þar sem Laxá í Kjós gengur út í sjó. Þar eru víðáttumiklar leirur og fjölbreytt lífríki og eitt frjósamasta grunnsævi við sunnanverðan Faxaflóa. Áður fyrr var algengt að sjómenn færu í Laxvog að sækja krækling í beitu. Álftavatn. Umhverfi Álftavatns. Skálinn sést fyrir framan vatnið Álftavatn er við Laugaveginn, gönguleiðina á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Við Áltavatn er skáli Ferðafélags Íslands. Húsin við Álftavatn voru reist árið 1979 og rúma 58 manns. Laugahraun. Séð yfir Laugahraun Laugahraun er eitt allmargra hrafntinnu- og líparíthrauna sem runnið hafa eftir ísöld á Torfajökulssvæðinu. Laugahraun er frá því um 1477 og varð til í gosi sem tengist kvikuhólfinu undir Bárðarbungu, en hraun mun hafa runnið þaðan um Veiðivatnasprunguna og allt til Torfajökulssvæðisins áður en það kom upp á yfirborðið. Gossprunga Laugahrauns klýfur Brennisteinsöldu. Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum stendur við jaðar Laugahrauns. Gambri. Gambri er áfengur drykkur sem er oftast bruggaður í heimahúsum og er gerður úr vatni, geri og sykri og er gul­leitur með allt að 20% alkóhólinnihaldi. Samkvæmt 2. gr. áfengislaga er gambri vökvi með meira en 1¼% af vínanda að rúmmáli, en landi er sterkur drykkur með 31% - 55 % alkohólinnihaldi. Sumir lýsa gambranum sem heimabrugguðu áfengu öli, ósoðnu. Gambri er kenndur við Gambrinus, hinn goðsögulega konung Flæmingja, sem er óopinber verndardýrlingur bjórs og bjórbruggunar. Flæmingjar (þjóðflokkur). Flæmingjar (eða Flandrarar) er þjóðflokkur manna sem er kenndur við heimkynni sín, Flæmingjaland eða öðru nafni Flandern í Belgíu. Þeir tala flæmsku. Landi. Landi er heimabruggaður brenndur áfengur drykkur, sem er glær og litlaus með allt frá 31% - 55 % alkóhólinnihaldi. Lyngdalsheiði. Lyngdalsheiði Lyngdalsheiði er heiði milli Laugarvatns og Þingvalla. Vegur var lagður norðan við Lyngdalsheiði um Gjábakkahraun og um Reyðarhraun árið 1907 fyrir komu Friðriks 8. Danakonungs og var sá vegur einu sinni kallaður Kóngsvegur. Skammt frá veginum eru nokkrir hellar, meðal þeirra eru Laugarvatnshellir, Gjábakkahellir, Vegkantshellir, Tintron, Lambhellir og Tvíbotni. Riddarabókmenntir. Riddarabókmenntir eru rómantískar skáldsögur og kappakvæði, af ævintýrum og ástum riddara, sem voru skrifaðar á síð-miðöldum. Riddarabókmenntir einkennast af frásögnum af hirðlífi, fatfríðum köppum, svakalegum bardögum og yfirnáttúrulegum hetjudáðum. Hugprýði, drengskapur, háttvísi, hreysti, kurteisi og rómantík eru áberandi í sögunum og sönn kristileg hegðun er mikilvæg. Skýr skil eru gerð á milli góðs og ills og eru það oft kristnir menn sem eru hetjurnar og þeir slæmu heiðnir, frá þjóðunum í suðri og norðri. Hetjunum er lýst á afar jákvæðan hátt, bæði persónuleika og útliti, og hvergi sparað við þá. Erlendu kappakvæðin (eða riddarasöngvarnir) voru yfirleitt í bundnu máli, en voru þýdd í óbundið mál í Noregi, sjá riddarasögur. Þaðan bárust þær svo til Íslands um 1250. Urðu riddarasögurnar brátt vinsæl bókmenntagrein hér á landi og þýddu íslenskir rithöfundar fleiri slíkar sögur. Sumar sögurnar eru í ljóðrænum stíl eins og frumtextinn. Íslenskir rithöfundar sömdu einnig margar nýjar riddarasögur í svipuðum stíl. Höfundar sagnanna eru óþekktir og ekki er vitað hverjir þýddu þær. Steinbær. Steinbær er sérreykvísk húsagerð frá tímabilinu 1870 til 1905. Steinbæir tóku við af torfbæjum og voru byggðir samkvæmt hefð og fyrirkomulagi torfbæja en ekki eftir fyrirfram ákveðnum teikningum. Í Reykjavík voru byggðir um 170 steinbæir og standa rúmlega 20 enn. Bjargarstígur. Séð niður Bjargarstíg að næturlagi. Myndin er tekin efst í götunni, á horni Bjargarstígs og Óðinsgötu. Hornhúsið er Bjargarstígur 16. Heilmannsbær (Bjargarstígur 17) er annar steinbæja við Bjargarstíg. Myndin er tekin í júní 2009 Bjargarstígur er gata í Þingholtunum í Reykjavík á milli Óðinsgötu og Grundarstígs. Bjargarstígur tekur við af Freyjugötu og nær að Skálholtsstíg. Bjargarstígur er með eldri götum í Reykjavík. Gatan kemur fyrst fyrir í manntali 1903. Heiti götunnar er ýmist talið frá Sigurbjörgu Sigurðardóttur sem bjó á Bergstaðastræti 22 eða að gatan hafi upprunalega heitið Bjarga-stígur og þá vísað til þess að það var grjótnám í neðanverðu Skólavörðuholti. Hús Sigurbjargar er steinbær sem stendur á horninu á Bjargarstíg og Bergstaðastræti. Bergstaðastræti 22. Endurbygging Sigurbjargarbæjar í júlí 2008 Endurbygging Sigurbjargarbæjar í júlí 2008 Bergstaðastræti 22 er gamall steinbær í Reykjavík. Bærinn er einnig nefndur "Miðgrund" og "Sigurbjargarbær". Bærinn stendur á horni Bergstaðastrætis og Bjargarstígs. Byggingarár bæjarins er talið 1893 og fyrsti eigandi var Sigurbjörg Sigurðardóttir ekkja. Gatan Bjargarstígur heitir eftir Sigurbjörgu. Framkvæmdir við Sigurbjargarbæ í júli 2008 urðu fjölmiðlaefni og snerist umræðan um það hvort verið væri að endurbyggja friðað hús án tilskilinna leyfa. Thor Thors. Thor Thors (26. nóvember 1903 í Reykjavík – 11. janúar 1965) var íslenskur lögfræðingur, sendiherra í Bandaríkjunum og fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Faðir hans var Thor Jensen, umsvifamikill athafnamaður, og meðal systkina hans var Ólafur Thors. Ævi. Thor lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar árið 1921. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í hagfræði í Cambridge og París áður en hann réðist til starfa sem framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Kveldúlfur hf., fjölskyldufyrirtækisins, um sjö ára tímabil, 1927—34. Frá 1933 til 41 var hann þingmaður Snæfellinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var forstjóri Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda 1934—40. Skipaður sendiherra Íslendinga í Bandaríkjunum árið 1940. Sveitserstíll. Sveitserstíll er byggingarstíll sem kom til Íslands á síðasta áratug 19. aldar. Sveitserstíllinn barst til Íslands með norskum hval- og síldarútvegsmönnum og varð hér á landi að "bárujárnssveitser". Talað er um sveitserhús þegar viðkomandi bygging er byggð í þessum stíl, en einnig er talað um "sveitserglugga" eða annað þegar slíkt á uppruna sinn í hinum norska sveitser. Heilmannsbær. Heilmannsbær (Bjargarstígur 17) í júní 2009 Heilmannsbær er steinbær á Bjargarstíg 17 í Þingholtinu í Reykjavík. Bærinn er byggður á árunum 1879 til 1885. Fyrsti eigandi hússins var Jóhann V. Heilmann. Kambgarn. Kambgarn er band spunnið úr ull sem áður hefur verið kembd, teygð og kömbuð þannig að aðeins eru eftir í henni löng, slétt samhliða ullarhár. Kambgarnið er sléttara og jafnara en venjulegt ullargarn, enda hafa stystu hárin verið kembd úr ullinni. Alþingishúsgarðurinn. Alþingisgarðurinn að sumarlagi Alþingishúsgarðurinn er skrúðgarður bak við Alþingishúsið. Garðurinn er með fyrstu skipulögðu skrúðgörðum á Íslandi. Alþingisgarðurinn var að miklu leyti handaverk Tryggva Gunnarssonar og þar kaus hann sér legstað. Hallargarðurinn. Hallargarðurinn er skrúðgarður við Fríkirkjuveg í Reykjavík. Hann er fyrir framan Listasafn Íslands, hús Kvennaskólans í Reykjavík og Thor Jensen húsið á Fríkirkjuveg 11. Lækjargata 14a. Lækjargata 14 a Lækjargata 14a (eða Gamli Iðnskólinn) er timburhús á horni Lækjargötu og Vonarstrætis við hliðina á Iðnó. Það er sambyggt Lækjargötu 14b. Í húsinu er safnaðarheimili Dómkirkjunnar í Reykjavík. Gagnfræðaskóli Vesturbæjar (Gagnfræðaskólinn við Vonarstræti) var um tíma í húsinu og þar voru landsprófsdeildir fyrir unglinga úr mörgum hverfum Reykjavíkur. Byggingarsaga. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík lét reisa norðurhluta hússins fyrir iðnskóla - og eigin starfsemi. Suðurhlutann lét Búnaðarfélag Íslands reisa. Iðnskólinn í Reykjavík hafði aðsetur í húsinu frá 1906-1955. Gagnfræðaskóli verknáms. Gagnfræðaskóli verknáms var 2 ára gagnfræðaskóli sem var til húsa í Brautarholti 18. Verknámið tók við þegar lokið var unglingaprófi og veitti sömu réttindi og gagnfræðapróf úr bóknámsdeildum. Skólinn starfaði frá 1950. Skólinn skiptist í fimm deildir, fyrir stúlkur var saumadeild og hússtjórnardeild og fyrir pilta var trésmíðadeild, járnsmíða- og vélvirkjun|vélvirkjadeild og sjóvinnudeild. Byggt var nýtt skólahúsnæði fyrir Gagnfræðaskóli verknáms við Ármúla en það húsnæði var sérstaklega hannað fyrir verknám. Ármúlaskólinn varð hins vegar að venjulegum grunnskóla og síðar voru Lindargötuskólinn að hluta til og framhaldsdeild Laugalækjarskóla flutt þangað. Skólanum var breytt í framhaldsskóla árið 1979. Formlega var svo Fjölbrautaskólinn við Ármúla stofnaður haustið 1981. Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Fjölbrautaskólinn við Ármúla er framhaldsskóli í Reykjavík. Húsnæði skólans við Ármúla var upphaflega reist fyrir Gagnfræðaskóla verknáms en var almennur grunnskóli fyrir Háaleitis- og Bústaðahverfi til 1979. Haustið 1977 voru fluttar í skólann framhaldsdeildir gagnfræðaskóla úr Lindargötuskóla heilbrigðis- og uppeldissvið og árið 1979 voru fluttar í skólann verslunardeildir sem verið höfðu í Laugalækjarskóla. Grunnskólinn var sameinaður Álftamýrarskólanum. Ármúlaskóli hefur því verið framhaldsskóli síðan 1979, en formlega var Fjölbrautaskólinn við Ármúla stofnaður haustið 1981. Gagnfræðaskólinn við Vonarstræti. Gagnfræðaskólinn við Vonarstræti var gagnfræðaskóli í Reykjavík. Þar voru um tíma fjölmennar landsprófdeildir. Þegar skólahverfum Reykjavíkur var breytt árið 1969 voru skólarnir í miðbænum: Gagnfræðaskólinn við Vonarstræti og Miðbæjarskólinn lagðir niður. Tyggigúmmí. Tyggigúmmí (eða tyggjó) er sérstök tegund sælgætis sem er ætlað til að tyggja lengi, og er tuggið án þess að því sé kyngt. Orð höfð um tyggigúmmí á íslensku. Tyggigúmmí hefur stundum einnig verið nefnt togleðurstugga á íslensku eða jórturleður. Og í íslensku slangri hefur tyggigúmmí stundum verið nefnt mellufóður. Innflutningur á tyggigúmmí var bannaður á árunum eftir seinni heimsstyrjöld, og var þá ein helsta smyglvaran frá Bandaríkjunum ásamt nýlonsokkum. Á þeim árum var tyggigúmmí kallað "gúm" af æsku landsins. Lindargötuskólinn. Lindargötuskólinn (áður Ingimarskólinn) var framhaldsskóli í Reykjavík við Lindargötu í Reykjavík. Lindargötuskólinn var undanfari fjölbrautaskóla. Þar var boðið upp á tveggja ára framhaldsdeildir (5. og 6. bekk) að loknu gagnfræðaprófi í fjórum deildum þ.e. verslunarnám, hjúkrunarbraut, eðlisfræðibraut og uppeldisbraut. Haustið 1977 fluttust heilbrigðis- og uppeldissvið Lindargötuskólans í Ármúlaskóla og runnu saman við skóla sem síðar varð Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Áður en Lindargötuskólinn var nefndur svo hét hann Ingimarsskólinn. Áður en hann kom til var þar starfandi "Franski spítalinn". Lindargötuskólinn varð síðan að Tónlistarskólanum. Tónmenntaskóli Reykjavíkur. Tónmenntaskóli Reykjavíkur (sem áður hét Barnamúsíkskólinn) er skóli sem sérhæfir sig í hljóðfærakennslu fyrir ungmenni. Hann var stofnaður árið 1952 og er til húsa þar sem Lindargötuskólinn var áður. Nýklassískur stíll. Nýklassískur stíll er byggingarstíll sem reis upp úr nýklassiskrí hreyfingu sem hófst um miðja 19. öld, að hluta sem andsvar við rókokkó stíl. Danir kalla þennan stíl síðklassískan. Alþingishúsið, Dómkirkjan, Iðnó eru hús í nýklassískum byggingarstíl. Land Eiríks rauða. Kort sem sýnir Land Eiríks rauða á Austur-Grænlandi. Land Eiríks rauða (norska: "Eirik Raudes Land") var landsvæði á austurströnd Grænlands sem Norðmenn gerðu tilkall til og hernámu frá 27. júní 1931 til 5. apríl 1933. Hernámið kom í kjölfar Grænlandsdeilunnar milli Danmerkur og Noregs um yfirráð Dana yfir Grænlandi, en Norðmenn vildu meina að þeir gætu gert tilkall til strandlengju Austur-Grænlands þar sem landið hefði verið einskismannsland þegar þeir hófu landkönnun og byggingu veiðistöðva þar undir lok 19. aldar. Deilan var tekin fyrir af Alþjóðadómstólnum í Haag sem dæmdi Danmörku í vil. Noregur sætti sig við dóminn og lét landsvæðið eftir. Eftir það skírðu Danir svæðið „Land Kristjáns 10.“. Það er nú hluti af Þjóðgarði Grænlands. Dragá. Dragá er bergvatnsá, sem myndast smám saman þegar yfirborðsvatn í lækjarsytrum leitar sameiginlegs farvegs. Hiti og vatnsmagn dragáa eru ójöfn og sveiflukennd frá einum tíma til annars og fer það eftir veðráttu. Í rigningartíð og í leysingum eru árnar vatnsmiklar og verða þá stundum mórauðar af framburði. Í þurrkatíð dragast þær saman, rennslið er þá lítið og vatnið er tært. Í hlýindum hitna þær fljótt og verða oft 10-20 gráðu heitar. Í kulda og frostum kólnar vatnið og þær leggur, þ.e. ís myndast á þeim. Ógrónar áreyrar eru víða meðfram dragám og úti í þeim, flóð og vatnavextir koma í veg fyrir að gróður festi þar rætur. Dragár eru einkennandi fyrir blágrýtismyndun Íslands, en finnast ekki í gosbeltum landsins. Dæmi um dragár eru Fnjóská, Andakílsá, Kálfá í Hreppum og Selfljót á Héraði. Landslagsþáttur. Landslagsþáttur er hver sá hluti náttúrunnar (eða landslags) sem á sér afmarkaða skilgreiningu innan tungunnar, t.d. fjall, á eða stöðuvatn. Landslagsþættir eru m.ö.o. þeir þættir sem saman mynda yfirborð landsvæðis og tungumálið eða fræðin hafa afmarkað í hugtaki. Rafstöðin við Elliðaár. Rafstöðin við Elliðaár er stöðvarhús við 3 MW virkjun í Elliðaám í Reykjavík. Virkjunin var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Í rafstöðinni má sjá tækjabúnað sem er sá elsti sinnar tegundar á landinu sem enn er í notkun. Frímann B. Arngrímsson var fyrstur til að hvetja til að virkjað yrði í Elliðaám. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti byggingu rafstöðvar 26. september 1918 en þá voru verkfræðingarnir Guðmundur Hlíðdal og Jón Þorláksson búnir að leggja fram tillögur um virkjanir þar. Undirbúningur að virkjunninni hófst árið 1916, framkvæmdir hófust í september sama árs og stöðin var gangsett þann 27. júní 1921. Til undirbúnings virkjuninnar voru fengnir norskir verkfræðingar og arkitekt stöðvarinnar var Aage Broager-Christiansen. Grand Hótel Reykjavík. Grand Hótel Reykjavík er hótel við Sigtún í Reykjavík. Við hótelið er 14 hæða turn sem byggður var 2007 og tengdur er við hótelið með glerbyggingu. Saga Reykjavíkur. Saga Reykjavíkur hefst þegar Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík þegar hann kom frá Noregi í kringum árið 874 með konu sinni Hallveigu Fróðadóttur, syni sínum Þorsteini og tveimur þrælum Vífli og Karli og nam land. Saga Reykjavíkur hefst því með landnámi Íslands. Þrælunum veitti Ingólfur frelsi fyrir að finna öndvegissúlurnar sem hann varpaði frá borði og settist Vífill að á Vífilsstöðum skammt frá. Með tíð og tíma byggðust fleiri bæir umhverfis og má þar helst nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Þéttbýlismyndun varð ekki í Reykjavík fyrr en undir lok nítjándu aldar en þá hófst einnig iðnvæðing Íslands. Í byrjun tuttugustu aldarinnar óx Reykjavík hratt og þar voru mikilvægustu stofnanir landsins. Þar var Alþingi þegar það var endurreist sem ráðgefandi þing árið 1845 og eftir að heimastjórn var komið á 1904 var þar einnig Stjórnarráðið. Miðaldir. Á miðöldum er fátt eitt vitað um atburði í Reykjavík. Víkurkirkja var byggð við Aðalstræti á ofanverðri þrettándu öld og árið 1226 hófst byggð í Viðey þegar Þorvaldur Gissurarson í Hruna og Snorri Sturluson í Reykholti stofnuðu þar Viðeyjarklaustur af Ágústínusarreglu. Eftir miðaldirnar. Á 17. öld keypti Kristján 4. konungur Vík. Ekki fór að myndast þéttbýli að ráði í Reykjavík fyrr en á 18. öld, en fram að því lágu býli af ýmsum stærðum á víð og dreif um svæðið þar sem borgin stendur nú. Á 6. áratug 18. aldar var gerð tilraun til að reka ullariðnað í Reykjavík að frumkvæði Skúla Magnússonar fógeta. Þetta fyrirtæki sem var kallað Innréttingarnar markaði þáttaskil í þróun svæðisins, sem í kjölfarið fór að taka á sig einhverja þorpsmynd. Danska konungsvaldið studdi þessar tilraunir til uppbyggingar með því að gefa jarðir sem það átti í Reykjavík og Örfirisey. Sextán hús voru byggð í Reykjavík vegna Innréttinganna, sem hefur verið mikil fjölgun á þeim tíma, merki um tvö þeirra má enn sjá. Þá var byggt steinhús á árunum 1761-71, sem varð fyrsta fangelsi landsins og gekk undir nafninu Múrinn, en er nú Stjórnarráð Íslands og hýsir forsætisráðuneytið. Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786 ásamt fimm öðrum stöðum í kjölfar afnáms einokunarverslunar í landinu. Á nítjándu öld mynduðust þéttar þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna í bænum. Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1845. Ári síðar var Menntaskólinn í Reykjavík fluttur frá Bessastöðum í útjaðar bæjarins. Barnaskóli Reykjavíkur tók til starfa árið 1862. Árið 1874 var Kvennaskólinn í Reykjavík stofnaður af Þóru og Páli Melsteð. Árið 1881 var Alþingishúsið fullbúið. Stýrimannaskólinn tók til starfa 1891 eftir að þilskip voru komin til landsins. Árið 1893 var Skautafélag Reykjavíkur stofnað. Árið 1898 var Barnaskóli Reykjavíkur fluttur í hina nýsmíðuðu byggingu Miðbæjarskólann. Á 20. öldinni. Árið 1904 fengu Íslendingar heimastjórn og Hannes Hafstein gerðist fyrsti ráðherra Íslands. Embætti borgarstjóra Reykjavíkur var stofnað 1908 og fyrsti borgarstjórinn var Páll Einarsson. Í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 1908 kusu konur í fyrsta sinn og buðu fram sérstök kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916. Þær hlutu mjög góða kosningu 1908 og 1910 en þaðan af dalaði fylgi kvennanna. Gasstöð Reykjavíkur tók til starfa í júní 1910. Háskóli Íslands var stofnaður í Reykjavík þann 17. júní 1911. Á sama degi var Iðnsýningin 1911 haldin í Miðbæjarskólanum. Reykjavíkurhöfn, sem var byggð í áföngum á árunum 1913-17, bætti mjög skipaaðstöðu. Árið 1915 brunnu tylft húsa í miðborg Reyjavíkur, í "brunanum mikla". Í brunanum fórust tveir menn og Hótel Reykjavík brann til kaldra kola. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni. Í Reykjavík hafa verið veðurathugunarstöðvar síðan 1920. 9. nóvember 1932 voru óeirðir á götum úti í miðbæ Reykjavíkur á milli íslensku lögreglunnar og verkamanna við "Góðtemplarahús Reykjavíkur" (öðru nafni "Gúttó") og hafa þær óeirðir verið kallaðar Gúttóslagurinn. Þann 18. apríl 2007 kom upp bruni í Austurstræti sem breiddist um húsin á horninu við Lækjargötu. Tenglar. * Kvenréttindadagurinn. 19. júní er hátíðisdagur þar sem þvi er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis þegar konungur samþykkti nýja stjórnarskrá. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Árið 1918 var svo 40 ára aldursákvæði numið úr lögum. Femínistar á Íslandi hafa frá árinu 2003 hvatt til þess að dagsins yrði minnst með því að bera eitthvað bleikt og notað kjörorðið „Málum bæinn bleikan“. Kvenréttindafélag Íslands gefur út tímaritið 19. júní sem kemur út þennan dag og stendur fyrir göngu og hátíðardagskrá á Hallveigarstöðum. Hátíðarhöldin 1915. Kvenréttindafélagið og Hið íslenska kvenfélag efndu til hátíðar þegar Alþingi var sett þann 7. júlí. Austurvöllur var skreyttur hinum nýja íslenska fána og 200 smámeyjar fóru fyrir skrúðgöngu í gegnum miðbæinn. Alþingi fékk skrautritað ávarp og þingmenn hrópaðu húrra fyrir konum. Kvennakór söng á Austurvelli, Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason héldu ræður. Ingibjörg tilkynnti í ræðu sinni að næsta baráttumál kvenna muni verða stofnun landsspítala. Hvítblæði. Beinmergur úr sjúklingi með bráðahvítblæði Hvítblæði er tegund krabbameins í blóði og beinmerg sem felst í óeðlilegri aukningu hvítra blóðkorna. Sjúkdómurinn skiptist í bráða- og langvarandi hvítblæði auk annarra undirflokka. Algengt er að stökkbreytingar valdi hvítblæði. Brennisteinsalda. Brennisteinsalda Brennisteinsalda er eldfjall á Suður-Íslandi. Hæð fjallsins er 855 metrar. Það er nálægt Landmannalaugum og ekki langt frá Heklu. Brennisteinsalda er afar litskrúðugt fjall, brennisteinn litar hlíðarnar en einnig er fjallið grænt af mosa, hraun og aska lita það svart og blátt og rautt litbrigði koma vegna járns í jarðvegi. Gönguleiðin Laugavegurinn liggur upp með fjallinu. Fyrir framan fjallið er hrafntinnuhraunið Laugahraun en gossprunga þess klýfur Brennisteinsöldu. Gamli kvennaskólinn. Mótmælafundur á Austurvelli. Gamli Kvennaskólinn er til hægri á myndinni, gamla Landsímahúsið til vinstri. Gamli kvennaskólinn er húsið Thorvaldssensstræti 2 við Austurvöll í Reykjavík. Þar var Kvennaskólinn í Reykjavík til húsa fyrstu áratugina sem hann starfaði en síðan hefur húsið meðal annars verið nýtt sem skrifstofuhús og til samkomuhalds. Hjónin Þóra Melsteð og Páll Melsteð stofnuðu Kvennaskólann 1874 en skólahúsið var líka heimili þeirra. Þóra hafði kennt við skóla fyrir stúlkur í Reykjavík sem systir hennar Ágústa stóð fyrir 1851-1853 í Dillonshúsi við Suðurgötu. Þóra veitti Kvennaskólanum forstöðu frá 1874-1906 en þá tók við stjórninni Ingibjörg H. Bjarnason. Fyrstu árin starfaði skólinn í íbúðarhúsi þeirra, sem Páll hafði keypt árið 1846 og stóð við Austurvöll. Þóra og Páll söfnuðu fé til að byggja og reka skólann hér á landi og í Danmörku. Húsið sem enn stendur byggðu þau á grunni hins gamla árið 1878. Það er tvílyft timburhús á hlöðnum kjallara og hraunhellum og holtagrjóti hlaðið í grindina. Tréverkið í húsið var líklega keypt tilsniðið frá Svíþjóð en kalkið var fengið í Esjunni. Helgi Helgason byggingameistari teiknaði húsið og sá um smíði þess. Kvennaskólinn var þarna til húsa þangað til skólinn flutti í nýbyggt hús við Fríkirkjuveg árið 1909. Hallgrímur Benediktsson keypti húsið 1915 og bjó á efri hæðinni en hafði skrifstofur fyrirtækis síns, H. Ben & Co, á neðri hæð. Árið 1941 eignaðist Sjálfstæðisflokkurinn húsið og var því þá breytt mjög mikið. Meðal annars var reist einnar hæðar steinsteypt viðbygging vestan við það og það var allt múrhúðað að utan og ytra útliti þess gjörbreytt. Sjálfstæðisflokkurinn hafði starfsemi sína í húsinu þar til hann flutti í Valhöll við Háaleitisbraut og var það þá oftast nefnt "Sjálfstæðishúsið" og seinna "Gamla sjálfstæðishúsið". Sigmar Pétursson tók húsið á leigu 1963 og rak þar um skeið veitingahúsið Sigtún en árið 1969 eignaðist Póstur og sími húsið og hafði þar mötuneyti sitt. Árið 1997 var hafist handa við gagngerar endurbætur á húsinu og var það þá fært til upphaflegs útlits að utan. Þar er nú skemmtistaðurinn Nasa. Skólavarðan (Skálholti). Skólavarðan í Skálholti er ferhyrndur turn hlaðinn úr ótilhöggnu grjóti. Talið er að hún hafi fyrst verið hlaðin sem varðturn á 13. eða 14. öld. Hún varð síðar aðalfundarstaður skólapilta í Skálholti. Þá var hefð fyrir því að piltar sem komu til skólans að hausti hittust við vörðuna og þar fóru fram vígsluathafnir fyrir nýnema. Enn má sjá leifar af Skólavörðunni í Skálholti. Rétt fyrir aldamótin síðustu, líklega 1997 var hún hlaðin upp. Skömmu eftir að skólinn var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur 1786 hlóðu skólapiltar nýja skólavörðu á Skólavörðuholti í Reykjavík. Skólavarðan (Reykjavík). Skólavarðan í Reykjavík á póstkorti frá 1921. Skólavarðan var ferhyrndur steinturn sem stóð á Skólavörðuholti í Reykjavík þar sem nú er styttan af Leifi Eiríkssyni við enda Skólavörðustígs. Upphaflega hlóðu skólapiltar í Hólavallarskóla vörðuna úr ótilhöggnu grjóti árið 1793 en þá voru sjö ár síðan skólinn var fluttur frá Skálholti þar sem upphaflega Skólavarðan hafði staðið öldum saman og verið aðalfundarstaður þeirra þar. Þessi fyrsta skólavarða hrundi nokkrum árum síðar vegna hirðuleysis. Þar sem varðan á Skólavörðuholti var hlaðin, var áður Steinkudys, þar sem ógæfukona að nafni Steinunn hafði verið dysjuð utan kirkjugarðs. Árið 1834 lét Lorentz Angel Krieger, stiftamtmaður, hlaða nýja skólavörðu á sama stað úr tilhöggnu grjóti. Þessi skólavarða var tvílyftur steinturn með gluggum á efri hæð og ofan á hana var bætt tréverki og þaki. Hún var um tíma nefnd "Kriegersminde". Skólavarðan stóð til 1931 þegar hún var rifin til að rýma fyrir styttu af Leifi Eiríkssyni sem Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum í tilefni af Alþingishátíðinni árið áður og stendur þar nú. Hluti af grjóti Skólavörðunnar hefur varðveist og er nú varðveittur á Árbæjarsafni og hefur öðru hvoru komið til tals að nýta það til að endurreisa vörðuna í einhverri myndi. Guðríður Þorbjarnardóttir. Minnismerki í Glaumbæ um Guðríði Þorbjarnardóttur og Snorra son hennar. Guðríður Þorbjarnardóttir er íslenskur landkönnuður og talin ein víðförlasta kona heims sem uppi var kringum árið 1000. Að því er sögur herma sigldi hún átta sinnum yfir úthöf og ferðaðist fótgangandi um þvera Evrópu. Guðríður var fædd á Íslandi en sigldi til Grænlands og þaðan til Vínlands. Hún eignaðist þar barn, Snorra Þorfinnsson, og er talið að hún sé fyrsta konan af evrópskum uppruna sem fæddi barn í Ameríku. Guðríður fór að sögn einnig til Rómar. Frásögn af Guðríði er í Eiríks sögu rauða, en einnig segir af henni í Grænlendinga sögu og ber þeim ekki alltaf vel saman. Guðríður var eftir því sem fyrrnefnda sagan segir dóttir Þorbjarnar, sonar Vífils, leysingja Auðar djúpúðgu, og Hallveigar Einarsdóttur konu hans, Sigmundssonar Ketilssonar landnámsmanns á Laugarbrekku. Foreldrar Guðríðar bjuggu á Laugarbrekku og þar fæddist hún en þegar hún var ung að aldri flutti fjölskyldan til Grænlands og lenti í miklum hrakningum á leiðinni og dó helmingur förunauta þeirra. Þó komst Þorbjörn á endanum til Grænlands og gaf Eiríkur rauði honum land á Stokkanesi. Í Grænlendinga sögu segir aftur á móti ekkert um ættir Guðríðar en þar er sagt að Leifur heppni hafi bjargað hópi manna, þar á meðal henni og og Þóri austmanni, fyrsta manni hennar, úr skeri og flutt með sér til Brattahlíðar, þar sem Þórir veiktist og dó skömmu síðar. Guðríður giftist svo Þorsteini Eiríkssyni, syni Eiríks rauða og bróður Leifs heppna. Þorsteinn dó úr farsótt á leiðinni til Vínlands. Þriðji maður Guðríðar var Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Glaumbæ í Skagafirði. Þau sigldu til Vínlands og voru 160 manns í leiðangri þeirra. Þau könnuðu landið og fóru sunnar en aðrir og komu á stað sem þau nefndu Hóp. Líkur eru á því að það hafi verið Manhattaneyja þar sem New York stendur núna. Guðríður og Þorfinnur voru í þrjú ár í Ameríku. Á meðan þau dvöldu þar fæddi Guðríður soninn Snorra. Talið er að hann sé fæddur um 1004 og er fyrsti hvíti maðurinn fæddur þar svo að vitað sé. Þau gáfust þó upp á Ameríkudvölinni og fóru þaðan aftur til Grænlands og síðan fljótlega til Noregs. Þar voru þau þó aðeins einn vetur en héldu síðan til Íslands og settust að í Glaumbæ, föðurleifð Þorfinns. Þar eignuðust þau annan son, Þorbjörn eða Björn. Snorri sonur þeirra tók við búi í Glaumbæ eftir lát föður síns. Þegar Guðríður var orðin ekkja fór hún í suðurgöngu, hugsanlega til Rómar. Þegar hún kom aftur hafði Snorri byggt fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ. Í Grænlendinga sögu segir að Guðríður hafi verið einsetukona og nunna í Glaumbæ síðustu æviárin. Þann 4. mars 2011 fór Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands til fundar við Benedikt páfa 16. í Vatíkaninu og færði honum afsteypu af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði og Snorra syni hennar. Soulja Boy. DeAndre Cortez Way (fæddur 28. júlí 1990 í Chicago), þekktastur undir listamannsnafninu Soulja Boy Tell'Em eða hreinlega Soulja Boy, er bandarískur rappari. Lag hans, "Crank that (Soulja Boy)", komst á topp "Billboard" Hot 100 smáskífulistans í september 2007. Eiríks saga rauða. Eiríks saga rauða er Íslendingasaga sem fjallar um landnám og landkönnun norrænna manna í Norður-Ameríku. a>s), sem farnar voru af þeim landkönnuðum sem sagt er frá í Íslendingasögum, aðallega Eiríks sögu rauða og Grænlendingasögu. Eiríkssaga segir frá því hvernig Eiríkur var flæmdur frá Íslandi, landnámi hans á Grænlandi, og hvernig sonur hans Leifur heppni fann Vínland þegar skip hans rak af leið. Líklegast er talið að Leifur heppni hafi komið þar sem nú er Nýfundnaland og þannig verið fyrstur Evrópumanna til að kanna Ameríku, fimm öldum fyrir ferðir Kristófers Kólumbusar. Eiríkssaga er varðveitt í tveimur handritum, Hauksbók frá byrjun 14. aldar og Skálholtsbók rituð skömmu fyrir miðja 15. öld. Talið er að Skálholtsbók sé líkari frumgerð sögunnar, sem er talin hafa verið rituð á 13. öld. Eiríks saga og Grænlendinga saga eru ósamkvæða um suma hluti. Þannig finnur Leifur 'Vínland' á leið frá Skotlandi til Grænlands samkvæmt Eiríkssögu en samkvæmt Grænlendinga sögu er það Bjarni Herjólfsson sem sem finnur Vínland en Leifur fylgir síðan í fótspor hans. Samkvæmt Eiríks sögu hafði Leifur tekið trú í Noregi þar sem hann var hjá konungi og konungur vildi ekki hafa heiðna menn í hirð sinni og tók hann þess vegna skírn. Konungur bað hann enn fremur að boða kristinn sið sen hann sóttist undan og sagðist ekki bestur manna til þess en konungur sagði hann tilvalin. Leifur hafði upphaflega ætlað frá Noregi til Íslands en rak austur til Skotlands. Þar varð hann veðurtepptur og kynnst konu nokkurri og gerði hana barnshafandi. Að lokum sigldi hann frá Skotlandi „þó eigi blési allhagstætt“ því eigi vildi hann ellidauður þar verða. Blés hann þá enn af leið og fann Vínland. Hjördis Petterson. Hjördis Olga Maria Pettersson (fædd 17. október 1908 í Visby á Gotlandi, látin 27. maí 1988 i Stokkhólmi) var sænsk leikkona sem lék í meira en 140 kvikmyndum. Petterson lærði við Dramaten-leiklistarskólann frá 1927 til 1930. Hún kom fyrst fram opinberlega árið 1930 í Folkteatern í Gautaborg í farsanum "Gröna Hissen". Hún lék einnig við Göteborgs Stadsteater en sneri svo aftur að Dramaten og vann þar í lotum fram til 1985. Hún lék stór hlutverk í "Gösta Berlings saga" (1936), "Túskildingsóperunni" (1969) og "Spöksonaten" (1973). Þá kenndi hún einnig við Dramaten. Ford T. Ford Model T eða Ford T var bifreið sem Ford Motor Company framleiddi á árunum 1908 til 1927. Hann var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn og átti með því að vera ódýr þannig að sem flestir hefði efni á honum. Hann var jafnframt fyrsti bíllinn, árið 1914, sem var settur saman á flæðilínu, en áður höfðu bílar verið settir saman án línulegs samsetningarkerfis. Fram til ársins 1924 voru bílarnir allir svartir en með tilkomu sellulósalakksins varð aukið framboð á litum. Bygging. Ford T var einfaldur bíll með plötuklæddan yfirvagn sem var klæddur með ódýrri eftirlíkingu af leðri sem minnir nokkuð á Gervileður nútímans. Bæði grind og öxlar voru úr krómvanadínstáli sem var framleitt í stálverksmiðjum fyrirtækisins. Þannig var Ford T um 700 kg að eiginþyngd á meðan samkeppnisaðilar voru um 300 kg þyngri, eða um 1 tonn. Vél. Ford T hafði 2,9-lítra 4-strokka vél. Hún skilaði um 20 hestöflum og var hámarkshraði bílsins 60 km/klst. Vélin eyddi um 11,1 til 18,7 lítrum á hundraðið. Þó svo að Ford T væri vatnskældur var ekki vatnsdæla í bílnum nema fyrstu gerðunum. Hún var tekin út til að lækka framleiðslukostnað. Í staðinn kom hringrennsli sem byggði á misjafnri þéttni vatns eftir hitastigi. Þannig steig heitt vatn efst í vatnskassann þar sem það kólnaði og rann niður á vélina á nýjan leik og kældi hana. Þetta hringrennsli hélt áfram svo lengi sem vélin var í gangi. Gírkassi og drifrás. Pedalar og gírstöng í Ford T 1923-árgerð Bíllinn var afturdrifinn með þrjá gíra: tvo áfram og einn afturábak. Gírkassanum var stýrt með þremur fetlum (pedölum) og stöng til vinstri við ökumann. Þá var handolíugjöf við hlið stýrisins. Gírkassinn var úr vandadínstáli og í olíubaði. Ford T hafði enga kúplingu eins og þekkist nútildags. Þess í stað var skipt um gír með fetlunum þremur; frá vinstri talið var hár- og lágur gír, afturábak og bremsa. Stöngin til vinstri sá um að aftengja gírkassann frá kasthjóli, til að koma honum í hlutlausan, og sem handbremsa sem hafði bara áhrif á afturhjólin. Bremsan virkaði ekki á hjólin heldur á gírkassann. Fjöðrun og hjól. Það voru ekki höggdeyfar í bílnum og hann var því dálitið hastur á malarvegum þess tíma. Í staðinn var gormur á hverju hjóli og tók fjöðrunin þá til hvers öxuls fyrir sig. Sjálfstæð fjöðrun, þar sem hvert hjól fjaðrar óháð öðrum, var því ekki til staðar. Framöxullinn var heilhamraður úr vanadínstáli. Úlfhams saga. Úlfhams saga segir frá Hálfdani vargstakki Gautakonungi og Úlfhami syni hans og átökum þeirra feðga við menn og vættir. Sagan er varðveitt í gömlum rímum, auk þriggja lausamálgerða frá 17., 18. og 19. öld, sem allar byggja beint eða óbeint á efni rímnanna. Sagan er skilgreind sem fornaldarsaga. Leikritið Úlfhams saga. Leikritið "Úlfhams saga" er byggt á "Vargstökum" eða "Úlfhams rímum" sem eru taldar frá 14. öld, og urðu aðgengilegar með doktorsritgerð Aðalheiðar Guðmundsdóttur. María Ellingsen átti hugmyndina að verkinu og setti saman hóp listamanna til þess að setja það upp: Eivöru Pálsdóttur frá Færeyjum, Reijo Kela dansara frá Finnlandi, Snorra Frey Hilmarsson leikmyndateiknara, Grétu Maríu Bergsdóttur dramatúrg og Andra Snæ Magnason rithöfund, sem samdi leiktextann. Leikritið var sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu árið 2004, og naut töluverðra vinsælda. Útilegumaður. Útilegumaður nefndist sá maður, sem bjó í óbyggðum til fjalla. Frægasti útilegumaður Íslands er Fjalla-Eyvindur. Útilegumenn voru taldir sauðaþjófar. Margar þjóðsögur eru til um útilegumenn og var þeim kennt um ef fé heimtist illa af fjalli. Útilegumenn voru oft útlagar sem höfðu gerst brotlegir við lög og lögðust út á heiðar til að flýja yfirvöld. Sumir trúðu á einhvers konar samfélög útilegumanna og má nefna að Jón lærði Guðmundsson skrifaði bókina Um hulin pláz og yfirskyggða dali á Íslandi. Sagnir um útilegumenn urðu yrkisefni margra skálda og listamanna. Útilegumennirnir (Skugga-Sveinn) eftir Matthías Jochumsson var fyrst sett á svið í Reykjavík árið 1862 og varð mjög vinsælt. Jóhann Sigurjónsson skrifaði vinsælt leikrit um Fjalla-Eyvind og Höllu. Knattspyrnufélag Breiðholts. Stjórn: Þórður Einarsson (formaður), Elvar Geir Magnússon (forseti KB). Aðrir stjórnarmenn: Benedikt Bóas Hinriksson og Gunnar Jarl Jónsson. Kaffibætir. Kaffibætir með íslenskum merkingum. Mynd tekin í Árbæjarsafni. Kaffibætir (áður kallaður export, komið af vöruheitinu "Export", sem var ein tegud kaffibætis) er þurrkuð, ristuð og mulin sikkorírót ("jólasalat"), sem fyrrum var notuð til að drýgja kaffi. Rótinni var blandað saman við malað kaffi, stundum allt að því til helminga. Talað var um baunakaffi ef kaffið var eingöngu úr kaffi og án kaffibætis. Verslun Guðsteins Eyjólfssonar. Hjá Guðsteini Verslun Guðsteins Eyjólfssonar er herrafataverslun á Laugavegi 34. Mæðragarðurinn. Mæðragarðurinn er garður í Lækjargötu í Reykjavík. Hann var gerður árið 1925 og var aðallega ætlaður mæðrum með ung börn. Garðurinn afmarkast af Lækjargötu í vestri, Bókhlöðustíg í norðri, lóða vestan við Laufásveg í austri og Míðbæjarskólanum í suðri. Þetta svæði tilheyrði áður Skálholtskoti sem var ein af hjáleigum Víkur. Bærinn Skálholtskot stóð á svæði milli húsa númer 13 og 17 við Laufásveg. Laufásvegur var upphaflega slóði að Skálholtskoti. Styttan Móðurást eftir Nínu Sæmundsson var sett upp í Mæðragarðinum árið 1928. Þetta var fyrsta stytta á opinberum vettvangi sem ekki var minnismerki heldur listaverk. Móðurást stendur þar sem brunnurinn Skálholtslind eða Skálholtsbrunnur var áður. Árið 1950 var Lækjargata breikkuð og þá var garðurinn minnkaður mikið. Í Mæðragarðinum er frægur áttstrendur turn, Söluturninn. Við Bókhlöðustíg stendur ein af spennistöðvum Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þetta er ein af sjö spennistöðvum sem voru byggðar í Reykjavík til að taka við rafmagni frá Elliðaárstöðinni sem tók til starfa árið 1921. Súrmjólk. Súrmjólk er mjólkurafurð. Er hún nýmjólk sem hefur verið gerilsneydd, fitusprengd og sýrð með mjólkursýrugerlum. Súrmjólkin hefur komið fram í íslenskri menningu eins og í lagi Bjartmars Guðlaugssonar „Súrmjólk í hádeginu og cheerios á kvöldin“. Ryan Giggs. Ryan Joseph Giggs (Áður Ryan Wilson) (fæddur 29. nóvember 1973) er velskur knattspyrnumaður. Hann leikur eins og er með Manchester United á Englandi. Ryan Giggs hætti að gefa kost á sér í velska landsliðið 2. júní 2007. Giggs, Ryan Skálholtsbiskupsdæmi. Skálholtsbiskupsdæmi – eða Skálholtsstifti – voru þær kirkjusóknir sem heyrðu undir Skálholtsbiskup á Íslandi. Biskupsdæmið var stofnað af fyrsta íslenska biskupinum, Ísleifi Gizurarsyni árið 1056, og náði upphaflega yfir allt landið. Árið 1106 var Hólabiskupsdæmi stofnað og náði það yfir sóknir í Norðlendingafjórðungi frá Hrútafirði að Langanesi. Til 1104 heyrði biskupsdæmið undir erkibiskupsdæmið í Brimum-Hamborg, en það ár var það fært undir erkibiskupsdæmið í Lundi á Skáni sem þá heyrði undir Danmörku. Árið 1153 var stofnað nýtt erkibiskupsdæmi í Niðarósi í Noregi og urðu bæði biskupsdæmin Hólar og Skálholt hlutar þess. Erkibiskupsdæmið í Niðarósi var lagt niður með kirkjuskipan Kristjáns 3. 1537. Geir Vídalín var vígður Skáhloltsbiskup 1797, en hann fluttist ekki í Skálholt, heldur bjó áfram á Lambastöðum á Seltjarnarnesi. Árið 1801 var biskupsstóllinn í Skálholti formlega lagður niður og um leið voru bæði biskupsdæmin sameinuð í eitt biskupsdæmi sem náði yfir allt landið, en biskup hafði aðsetur í Reykjavík. Palmiro Togliatti. Togliatti á sovésku frímerki frá 1964. Palmiro Togliatti (26. mars 1893 – 21. ágúst 1964) var ítalskur stjórnmálamaður og leiðtogi ítalska kommúnistaflokksins frá 1927 til dauðadags. Hann lék stórt hlutverk í því ferli sem leiddi til stofnunar lýðveldis á Ítalíu eftir Síðari heimsstyrjöld með því að framkvæma stefnubreytingu flokksins í Salernó, að undirlagi Stalíns, þar sem kommúnistaflokkurinn og ítalski sósíalistaflokkurinn sammæltust um að vinna eftir lýðræðislegum leiðum að stofnun lýðveldis á Ítalíu eftir stríð í stað vopnaðrar baráttu fyrir byltingu öreiganna, líkt og margir flokksmenn vildu. Ferill. Togliatti var stofnfélagi í ítalska kommúnistaflokknum og varð aðalritari eftir að Antonio Gramsci var tekinn höndum af fasistastjórninni. 1935 varð hann meðlimur í stjórn Alþjóðasambands kommúnista undir dulnefninu Ercole Ercoli. Árið 1937 barðist hann í Spænsku borgarastyrjöldinni og tók þar þátt í að útrýma leiðtogum trotskýista og anarkista í Katalóníu samkvæmt skipunum Stalíns. Ítalska stjórnlagaþingið. Hann tók sæti á stjórnarskrárþinginu 1946 og samþykkti þar, þrátt fyrir mótmæli innan eigin flokks, að Lateransamningarnir sem staðfestu skiptinguna milli Ítalíu og Vatíkansins, yrðu hluti af stjórnarskrá Ítalíu. Árið 1947 hætti kommúnistaflokkurinn stuðningi við aðra ríkisstjórn Alcide de Gasperi og kristilegir demókratar mynduðu stjórn með frjálslyndum og fleiri flokkum hægra megin við kommúnista. Í kosningunum 1948, fyrstu kosningunum eftir að landið varð lýðveldi, fengu kommúnistar yfir 30% atkvæða, en demókratar sigruðu með yfirburðum með 48,5% atkvæða. Kommúnistar voru útilokaðir frá ríkisstjórn (líkt og í Frakklandi), meðal annars vegna afskipta Bandaríkjamanna, og urðu stórt stjórnarandstöðuafl. Tilræðið 1948. Tveimur mánuðum eftir kosningarnar var Togliatti skotinn af tilræðismanni sem að sögn óttaðist sterk tengsl ítalskra kommúnista við Sovétríkin. Þrjú skot hittu Togliatti í höfuð, hnakka og bak. Um leið og fréttist af tilræðinu og orðrómur komst á kreik um að hann væri látinn, hófust mótmæli verkamanna á mörgum stöðum á Ítalíu. Þessar aðgerðir urðu skammvinnar þar sem kommúnistaflokkurinn ákvað að styðja þær ekki eftir að hafa ráðfært sig við Moskvu. Togliatti gaf sjálfur skipun um að aðgerðum skyldi hætt af sjúkrabeðinu. Langstærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Undir stjórn hans varð ítalski kommúnistaflokkurinn stærsti evrópski kommúnistaflokkurinn í stjórnarandstöðu. Flokkurinn fékk milli 20 og 30% atkvæða í kosningum. Þrátt fyrir sterk tengsl Togliattis við Moskvu tókst honum að halda vinsældum sínum eftir uppreisnina í Ungverjalandi 1956 sem olli miklum átökum og klofningi vinstriflokka annars staðar á Vesturlöndum. Toljattí í Rússlandi. Eftir andlát hans var bærinn Stavropol við Volgu endurskírður í höfuðið á honum, Toljattí. Gamla bænum hafði verið drekkt af uppistöðulóni Kúibisjevstíflunnar en hann var endurreistur á öðrum stað 1964, sama ár og Togliatti lést í sumarleyfi í Sovétríkjunum. Bílaframleiðandinn AvtoVAS, sem framleiddi meðal annars Lödu, var settur upp í bænum tveimur árum síðar í samstarfi milli Sovétríkjanna og ítalska bílaframleiðandans Fiat. Ítalska þingið. Ítalska þingið er þjóðþing Ítalíu og löggjafi landsins. Það skiptist í tvær deildir með samtals 945 þingmönnum sem kjörnir eru til fimm ára í senn. Ítalska fulltrúadeildin er neðri deild þingsins með 630 þingmenn. Ítalska öldungadeildin er efri deild þingsins með 315 kjörna þingmenn auk nokkurra „öldungadeildarþingmanna til lífstíðar“ sem voru sjö talsins árið 2008. Frá 2005 er kosið til ítalska þingsins með hlutfallskosningu sem tók við af uppbótarþingmannskerfi sem komið hafði verið á á 10. áratugnum. Kosið er til þings í 26 kjördæmum. Ítalska fulltrúadeildin kemur saman í Montecitorio-höll ("Palazzo Montecitorio") en öldungadeildin í Frúarhöllinni ("Palazzo Madama"). Bastilludagurinn. Bastilludagurinn er þjóðhátíðardagur Frakklands, haldinn 14. júlí ár hvert til að minnast árásarinnar á Bastilluna í Frönsku byltingunni 14. júlí 1789. Ákveðið var að gera Bastilludaginn að þjóðhátíðardegi árið 1880. Jamestown. Jamestown var bandarískt draugaskip sem strandaði hinn 26. júní 1881 við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar á Suðurnesjum. Það var um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma. Skipið var að flytja verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum til Liverpool á Englandi þegar það lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Í óveðrinu skemmdist það mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip, Ethiopia, og sett á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak aftur á móti stjórnlaust í nokkrar vikur þangað til það strandaði við Ísland. Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr við Jamestown, húsið "Efra Sandgerði", heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá. Árið 2002 fannst akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna "Blái Herinn". Ítalski kommúnistaflokkurinn. Ítalski kommúnistaflokkurinn (ítalska: "Partito Comunista Italiano" eða "PCI") varð til eftir klofning í ítalska sósíalistaflokknum á flokksþingi þess síðarnefnda í Livorno 21. janúar 1921. Amadeo Bordiga og Antonio Gramsci stóðu fyrir klofningnum. Flokkurinn var bannaður af alræðisstjórn fasista en varð aftur virkur í ítölskum stjórnmálum þegar hillti undir lok Síðari heimsstyrjaldar. Hann var útilokaður frá stjórnarþátttöku á eftirstríðsárunum og varð langstærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Ítalíu með milli 20 og 30% atkvæða í kosningum. 1974 vann hann sinn stærsta kosningasigur og fékk 34,4% atkvæða, mest allra kommúnistaflokka á Vesturlöndum. 1991 leysti flokkurinn sjálfan sig upp til að mynda vinstri-lýðræðisflokkinn með aðild að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Róttækari armur flokksins myndaði þá endurstofnun kommúnistaflokksins undir stjórn Armando Cossutta. Aðalpersóna. Aðalpersóna, aðalsöguhetja eða forvígismaður er sá í miðjunni í sögu. Það er ekki alltaf ljóst hvað felst í að vera í miðjunni. Forvígismaður, aðalpersóna, hetja eru mismunandi skilgreind. Í hefðbundnu leikhúsi breyttist aðalpersónan í sögunni, bæði persónan sjálf og þær kringumstæður sem hún var í og sögufléttan breyttist annaðhvort úr reglu í glundroða eins og í harmleikjum þegar lánleysi og ógæfa elta aðalpersónuna sem vanalega er frábrugðinn öðrum og býr yfir einhverjum lesti sem verður henni að falli, eða úr glundroða í reglu eins og í gleðileik þar sem aðalpersónan fer úr ógæfu í gæfu. Íraska byltingin. Íraska byltingin, einnig kölluð 14. júlí byltingin, var herforingjabylting í Írak 14. júlí 1958 sem steypti af stóli konunginum, Faisal 2. og ríkisstjórn Nuri al-Saids. Byltingin leiddi til falls Hasjemítakonunganna og upphafs lýðveldisins Íraks. Byltingin var framkvæmd af hópum sem aðhylltust arabíska þjóðernisstefnu sem höfðu vaxið eftir egypsku byltinguna 1952. Þeir tóku undir stefnu Nassers og efldust mikið við Súesdeiluna, þar sem stjórn al-Saids var höll undir Vesturveldin. Tækifærið til að gera byltingu kom þegar Írak og Jórdanía mynduðu hið skammlífa Arabískt sambandsríki Íraks og Jórdaníu 1958 sem svar við Sameinaða arabíska lýðveldinu sem Egyptaland og Sýrland höfðu myndað skömmu áður. Í júlí voru tvö írösk stórfylki send til Jórdaníu eftir leið sem lá framhjá Bagdad. Herdeildirnar, sem voru undir stjórn Abdul Salam Arif ofursta og stórfylkisforingjans Abdul Karim Qasim lögðu höfuðborgina undir sig og tóku konungsfjölskylduna af lífi. Uppþot urðu víða um borgina og nokkrir útlendingar sem gistu á Hótel Bagdad voru drepnir. Al-Said slapp en var gripinn og skotinn daginn eftir. Eftir byltinguna var lýðveldi stofnað undir stjórn byltingarráðs með fulltrúum helstu trúarhreyfinga og stjórnmálahreyfinga landsins. Quasim varð forsætisráðherra. John N. Gray. John N. Gray (fæddur 17. apríl 1948 í South Shields á Englandi) er breskur heimspekingur og prófessor í Evrópskri hugmyndasögu við London School of Economics í London. Hann skrifar einnig reglulega í bresku blöðin "The Guardian", "New Statesman" og "The Times Literary Supplement". Tengill. Gray, John N. Gray, John N. Gray, John N. Skeiðarárbrú. Skeiðarárbrú er einbreið stálbitabrú á steyptum stöplum sem spannar Skeiðará á Skeiðarársandi. Framkvæmdir hófust í september 1972 og brúin var vígð 14. júlí 1974. Með henni var lokið gerð hringvegar um Ísland sem markvisst hafði verið stefnt að frá 1967. Brúin þótti verkfræðilegt afrek á sínum tíma enda reist á djúpum sandi yfir síbreytilegan árfarveg sem reglulega verður fyrir jökulhlaupum. Brúin er þar að auki lengsta brú Íslands, 880 metra löng, þó upphaflega hafi hún verið 904 m, en brúin styttist þegar skemmdir hlutar hennar voru endurbyggðir eftir hlaupið 1996. Á brúnni eru 5 útskot til mætinga. Hún sannaði gildi sitt í jökulhlaupinu sem varð í kjölfar eldgoss í Grímsvötnum 1996 þótt hluti hennar skemmdist; austasti hlutinn fór alveg og landfestingin vestanmegin hrundi einnig. Brúin yfir Gígjukvísl, vestar á sandinum, eyðilagðist þá algjörlega. ACF Fiorentina. ACF Fiorentina er ítalskt knattspyrnulið frá Flórens í Toskana. Liðið hefur verið keppt í efri deildum ítalskrar knattspyrnu frá stofnun þess 1926. Þeir hafa unnið ítölsku úrvalsdeildina ("Serie A") tvisvar: 1956 og 1969, og sex sinnum orðið bikarmeistarar, síðast árið 2001. Heimabúningur Fiorentina er fjólublár og liðið er því oft kallað "la Viola" („sú fjólubláa“). Heimaleikvangur liðsins er Artemio Franchi-leikvangurinn í hverfinu Campo di Marte í Flórens. Í kjölfar ítalska úrvaldsdeildarhneykslisins 2006 voru dregin 30 stig af þeim. Á næstu leiktíðbyrjuðu þeirmeð nítján stig í mínus sem síðar var breytt í fimmtán stig. Þrátt fyrir að hefja þannig leiktímabilið tókst liðinu að tryggja sér sæti í Evrópubikarnum næsta ár. Società Sportiva Lazio. Íþróttafélagið Lazio 1900 (ítalska: "Società Sportiva Lazio 1900", "S.S. Lazio" eða einfaldlega "Lazio") er ítalskt íþróttafélag frá Latíum stofnað 9. janúar 1900 sem hlaupafélag. Knattspyrnudeild félagsins var stofnuð árið 1910. Það hefur orðið ítalíumeistarar tvisvar: 1974 og 2000, og orðið bikarmeistarar fjórum sinnum, síðast árið 2004. Heimabúningur liðsins er ljósblá treyja og hvítar buxur. Heimavöllur liðsins er Ólympíuleikvangurinn í Róm. Klámvæðing. Klámvæðing er hugtak sem vísar til ýmissa breytinga á fjölmiðlum, einkum með tilkomu alþjóðlegra sjónvarpsstöðva og Internetsins, sem urðu undir lok 20. aldar og fólu í sér aukið aðgengi að klámi um leið og þær gerðu það erfitt eða ómögulegt að framfylgja takmörkunum eða banni á sölu þess. Á sama tíma urðu endalok Kalda stríðsins og þróun skipulagðrar glæpastarfsemi til þess að breyta framboði og samsetningu bæði klámútgáfu og vændis í Evrópu. Þetta hefur leitt til ótta við siðferðilega hnignun með því að kynlífsiðnaðurinn í heild verði smám saman viðurkenndur og samþykktur, ekki aðeins útgáfa klámefnis, heldur einnig hlutir eins og nektardans og vændi sem margir hafa bent á að tengist nútímaþrælahaldi (mansali) og kynbundnu ofbeldi og sumir vilja jafnvel meina að feli þetta óhjákvæmilega í sér. Oft er talað um að í tiltekinni þróun afþreyingariðnaðarins; t.d. auglýsinga, tísku og tónlistar, sjáist merki klámvæðingarinnar. Umræða um nauðsyn þess að sporna við klámvæðingu hefur verið áberandi innan ýmissa hópa sem láta sig siðferðismál varða, t.d. trúarhópa sem tengja klámvæðinguna við almenna kynlífsvæðingu samfélagsins. Þannig hefur bandaríska útvarpskonan Laura Ingraham meðal annars gagnrýnt fólk á borð við Howard Stern og Hugh Hefner fyrir að smita bandarískt samfélag af klámi. Á Íslandi hefur umræða um klámvæðingu einkum tengst þriðju bylgju femínismans sem hefur fordæmt aukið vægi kynlífsiðnaðar í íslensku samfélagi, t.d. með tilkomu nektardansstaða, sem ýti undir kynferðislega hlutgervingu kvenna og kynbundið ofbeldi. Faldbúningur. Konur úr Faldafeyki sýna faldbúninga í Árbæjarsafni Konur úr Faldafeyki sýna föt sem notuð voru undir faldbúninga Faldbúningur er íslenskur kvenbúningur og er elsta gerð þjóðbúnings íslenskra kvenna sem þekkt er. Hann er kenndur við höfuðbúnaðinn sem gjarnan er, eða var, notaður með honum, háan hvítan fald. Faldbúningur var búningur flestra íslenskra kvenna um langt skeið allt til um 1850. Hann virðist hafa verið notaður alls staðar og hafa verið búningur bæði ríkra og fátækra en misjafnlega íburðarmikill. Hlutar faldbúnings. Mynd af konum með pípukraga frá 17. öld, áður en notkun þeirra lagðist af. Búningurinn skiptist í fald, treyju með kraga og klút, upphlut, skyrtu, pils og svuntu eða samfellu og handlínu. Konur vöfðu hárið með ljósu trafi í króklaga trýtu. Um og eftir 1899 hafði krókfaldurinn þróast í spaðafald. Pilsið var sítt úr ullarefni með skrautbekk að neðan. Fyrst var svuntan laus en síðan var hún felld inn í pilsið og þá var hún kölluð samfella. Upphluturinn er undir treyjunni. Hann var skreyttur millum og borðum að framan og þremur leggingum að aftan. Treyjan er svört. Barmarnir eru skreyttir vírborðum eða með baldýringu, perlusaumi eða flauelssaumi. Kraginn er laus. Hann er stífur og skreyttur með knipli, baldýringu, perlusaumi eða flauelssaumi. Áður var hann til stuðnings pípukraga, en notkun hans við búninginn var hætt um miðja 18. öld. Horn handlínunnar var fest í pilsstreng eða belti. Handlínurnar voru fagurlega útsaumaðar og voru lagðar yfir hendur þegar konur fóru í kirkju. Efnaðar konur gengu í silfurbelti og voru í búning með silfurmillum og skreyttar keðjum og hnöppum. Listi yfir helstu brýr á Íslandi. Brýr á Íslandi eru oftast gerðar til að brúa vatnsföll, einnig eru byggðar brýr fyrir mislæg gatnamót. Yfir breiðari sund eins og firði er yfirleitt byggður grjótgarður og brýr aðallega notaðar til að tryggja eðlileg sjávarföll. Miðað við önnur lönd eru stórbrýr (lengri en 100 metrar) fremur fáar og enga skipgenga brú er að finna á Íslandi. Megadeth. thumb Megadeth er bandarísk Metal hljómsveit stofnuð árið 1983. Hún er ein af fjórum stærstu thrash/metal hljómsveitunum en hinar þrjár eru: Slayer, Metallica og Anthrax. Undir forystu forsprakkans Dave Mustaine hefur sveitin selt yfir 25 milljónir plata. Saga 1981-1990. Saga sveitarinnar hófst árið 1981 þegar Lars ulrich, James Hetfield, Cliff Burton og Dave Mustaine stofnuðu hljómsveitinna Metallica. Sú hljómsveit spilaði í litlum klúbbum og börum og varð fljótt gríðarlega vinsæl „neðanjarðar“ hljómsveit. Á þessum tíma var Dave Mustaine á kafi í drykkju og vegna gríðarlegrar drykkju og ofbeldishneigðar gagnvart hinum meðlimum hljómsveitarinnar var hann rekinn árið 1983. Mustaine varð reiður út í fyrrum félaga sína og leitaði hefnda,hann vildi búa til hljómsveit sem væri hraðari, þyngri og betri en Metallica. Hann skýrði nýju sveitina Megadeth. Fyrsta „lineup“ sveitarinnar samanstóð af Mustaine (gítar), Greg Handevidt (gítar), Dave Ellefson (bassi) og Dijon Carruthers(trommur). Carruthers og Handevidt voru fljótt reknir og í staðinn fyrir Carruthers kom Lee Rausch og í staðinn fyrir Handevidt Kerry King. Eftir margendurteknar tilraunir til að næla sér í söngvara gafst Mustaine upp og tók upp á því að syngja sjálfur. Þeir tóku upp fyrsta demóið snemma árið 1984 sem samanstóð af þrem lögum en þau voru: „Last rites/loved to death“",„Skull beneath the skin“ og „Mechanix“. Eftir að hafa spilað nokkur gig snemma 1984 var trommarinn Lee Rausch rekinn og í staðinn kom Gar Samuelsson. Eftir að þeir gáfu út demóið fengu þeir samning hjá Combat Records og í desember 1984 kom nýr gítarleikari í stað Kerry King en það var vinur Gar Samuelsson, Chris Poland. Snemma árið 1985 fengu þeir 8.000 dali til að taka upp fyrstu plötuna. Þeir tóku upp plötuna sjálfir. Þrátt fyrir lélega framleiðslu fékk fyrsta platan þeirra „Killing is my business... And business is good!“ frábæra dóma og gerði þá fljótt vinsæla hjá hardcore metal aðdáendum. Sumarið 1985 túruðu þeir Bandaríkin og Kanada til að kynna „Killing is my business“ með „Exciter“,meðan á túrnum stóð hætti Chris Poland tímabundið og Mike Albert kom í staðinn, en í október 1985 kom hann aftur og þá burjuðu þeir að taka upp aðra plötu þeirra, Peace sells... But who's buying??. þeir luku upprunarlega við peace sells í mars 1986 en voru óánægðir með gæðin svo að þeir hættu með samningin við combat og tóku upp við Capitol Records. Upptökustjórinn Paul Lani remixaði plötuna og var hún gefin út undir Capitol Records í Nóvember 1986, platan kom Megadeth á kortið sem stóra metal hljómsveit, en hún seldist í yfir milljón eintökum bara í Bandaríkjunum og fékk stórkostlega dóma, en hún er ennþá í dag talinn ein af bestu og áhrifamestu metal plötum sögunnar. Platan var sú fyrsta sem að listamaðurinn Ed Repka teiknaði coverið af og var mustaine gríðarlega ánægður með verk hans en coverið var þannig að lukkudýr sveitarinnar „Vic Rattlehead“ stendur fyrr framan niðurbrotna byggingu sameinuðu þjóðanna með herþotur fljúgandi fyrir ofan sig og heldur um skilti sem segir peace sells. Í febrúar 1987 var sveitin fengin til að hita upp fyrir Alice Cooper og sama ár fóru þeir í fyrsta heimstúrinn sinn sem aðal hjómsveit. Í júlí 1987 voru Chris Poland og Gar samuelsson reknir. Chuck Behler kom í staðinn fyrir Samuelsson og Jeff young í staðinn fyrir Poland. Í ágúst árið 1987 byrjuðu þeir að taka upp sína þriðju plötu So far, so good... So what! Paul Lani tók upp plötuna eins og fyrr og eyddu þeir fimm mánuðum í upptökurnar. Á þessum tíma var Mustaine búinn að ná botninum í dópneyslu sinni og því gengu upptökurnar hræðilega illa og var Lani rekinn vegna deilna við Mustaine og Micheal Wagener kom í staðinn. Platan kom út í janúar 1988 og seldist vel en fékk slæma dóma gagnrýnenda, platan innihélt hinsvegar tvö gríðarlega vinsæl lög „Set the world afire“ og „In my darkest hour“ sem að Mustane samdi fyrir Cliff Burton eftir að hann dó í rútuslysi en hann var eini meðlimur Metallica sem að Mustaine hafði einhverjar mætur á. Í júní 1988 kom sveitin fram í heimildamyndinni The decline of western civilization II: The metal years. Mustaine fannst myndin vera ömurleg en honum fannst sveitin vera sett upp á sama stall og einhverjar skíta hljómsveitir. Í febrúar 1988 byrjuðu þeir að túra um heiminn til að kynna So far so good... en þeir hituðu upp fyrir Dio. Í ágúst 1988 spiluðu þeir á Monsters of rock-hátíðinni fyrir meira en 100.000 manns með Kiss, Iron Maiden, Helloween, David Lee Roth og Guns N' Roses. Seinna sama ár rak Mustaine bæði Behler og Young og í júlí 1989 var Nick Menza ráðinn í hans stað en erfitt var að finna nýan gítarleikara. Um sumarið 1989 var Mustaine handtekinn fyrir að keyra fullur og eftir það fór hann í meðferð og varð edrú í fyrsta sinn í 10 ár. Næstu mánuðir fóru allir í að finna nýjan gítarleikara en áheyrnaprufur voru haldnar og ætluðu þeir að ráða Dimebag nokkurn Darrell en hann neitaði. Loks fundu þeir nýan gítarleikara Marty Friedman að nafni og var þá komið það sem er af mörgum talið besta Megadeth lineuppið: Dave Mustaine (söngur, gítar), Dave Ellefson(bassi), Marty Friedman (gítar) og Nick Menza (trommur). Í mars 1990 byrjuðu þeir að taka upp sína næstu plötu með Mike Clink sem upptökustjóra og var þetta fyrsta platan sem að þeir tóku upp edrú og gengu því upptökurnar vel en Mike Clink var fyrsti upptökustjórinn sem að var ekki rekinn meðan á upptökum stóð. þeirra fjórða plata Rust in Peace var gefinn út 24.september 1990 og var hún gríðarlegt hit bæði hjá gagnrýnendum og aðdáendum en hún náði í 23 sæti á bandaríska bilboard listanum, 8. sæti í Bretlandi, og var tilnefnd til tveggja Grammy-verðlauna, platan fékk líka eins og peace sells... stórkostlega dóma hjá gagnrýnendum og er með henni oft sögð besta plata Megadeth og ein besta Thrash/Metal plata sögunnar. Saga 1990-2009. Í september 1990 fengu þeir að spila í evrópska Clash of the titans-túrnum með Slayer, Testament og Suicidal Tendencies og í október voru þeir fengnir til að hita upp fyrir Judas Priest á Painkiller túrnum þeirra, í janúar 1991 spiluðu þeir fyrir 140.000 manns á Rock in Rio hátíðinni og vegna mikla vinsælda Clash of the Titans-túrsins í Evrópu spiluðu þeir á bandarískum Clash of the Titans-túr með Slayer, Anthrax og Alice in Chains. Árið 1991 gáfu þeir út plötuna Rusted Peaces sem innihélt öll þeirra sex tónlistarmyndbönd og viðtal við sveitina. Í janúar 1992 byrjuðu þeir að taka upp þeirra fimmtu plötu í Enterprise studios í Burbank í Kaliforníu með upptökustjóranum Max Norman sem að mixaði Rust in Peace. Norman vildi hafa plötuna meira Radio friendly en fyrirrennara sína og fannst Mustaine það góð hugmynd því að draumur hans var að gera plötu sem seldist meira en plötur Metallica. Platan Countdown to Extinction kom út 14. júlí 1992 og seldist hún í yfir tveimur milljónum eintaka í Bandaríkjunum og náði öðru sæti á Bilboard-listanum á eftir Black Album með Metallica og fimmta sæti í Bretlandi og varð því langsöluhæsta plata sveitarinnar, platan fékk góða dóma gagnrýnenda en mörgum aðdáendum fannst að þeir hefðu „selt sig“ vegna þeirra mikla breytinga sem varð á tónlistarlega stílnum eftir "Rust in Peace". Í október 1992 gáfu þeir út annað safn tónlistarmyndband sem að hét „Exposure of a dream“ og í desember sama ár fóru þeir í heimstúrinn til að kynna Countdown... með Pantera og Suicidal Tendencies og í janúar 1993 fylgdi annar túr í Norður-Ameríku með Stone Temple Pilots. eftir aðeins mánuð af norður-ameríska túrnum þurftu þeir að hætta við það sem eftir var af túrnum og hætta algjörlega við annan túr sem átti að vera í Japan vegna þess að Mustaine var byrjaður aftur í neyslu og „overdósaði“ hann svo á miðjum tónleikum og var sendur beint á sjúkrahús en lifði það af og fór hann þá í sjö vikna meðferð. Í júní 1993 spiluðu þeir sína fyrstu tónleika eftir með meðferðina og það var sannkallaður stórviðburður því að þeir komu fram með engum öðrum en erkifjendunum Metallica og leit þá út fyrir að deilunum á milli sveitanna tveggja væru lokið en þær spruttu svo upp aftur nokkrum árum seinna. Í júlí sama ár voru þeir fengnir til að spila í Get a grip-túrnum með Aerosmith en voru þeir reknir úr túrnum eftir aðeins sjö tónleika vegna móðgandi ummæla Dave's um Aerosmith. Snemma árið 1994 fengu þeir Max norman aftur í lið með sér til að taka upp næstu plötu sem að átti eftir að vera enn meira „mainstream“ en Countdown to extinction. Platan átti upprunalega að vera tekinn upp í Phase four-stúdíóinu í Pheonix en eftir nokkra daga komu upp vandamál í stúdíóinu og þurftu þeir þá að finna nýtt stúdíó og ákváðu svo að taka upp plötuna í leigðu vöruhúsi í Arizona. Eftir átta mánuði í stúdíóinu kom þeirra sjötta plata Youthanasia út 1. nóvember 1994, platan seldist mjög vel og náði í fjórða sæti á bilboard listanum en eins og fyrirrennarinn Countdown to extinction þá var hún mjög mainstream og flokkaðist frekar undir „heavy metal“ en „thrash metal“. Eftir langan og strangan túr til að kynna Youthanasia tók hljómsveitin sér frí seint árið 1995, Mustaine byrjaði að vinna að verkefninu MD.45 með söngvaranum Lee Ving úr hljómsveitinni Fear. Miklar breytingar áttu sér stað um þetta leyti á viðskiptahliðinni en nýr umboðsmaður, Bud Prager var ráðinn. en hann ýtti hljómsveitinni en lengra inn á „mainstream“ markaðinn. Í september 1996 byrjuðu þeir að vinna að þessari næstu plötu en hún hét Cryptic Writings og kom út 17. júní 1997. Platan seldist mjög vel en hún lendi númer 10 á Bilboard vinsældarlistanum og innihélt hún líka vinsælasta lagið þeirra frá upphafi, Trust. Hinsvegar eins og fyrri tilraunir þeirra til að vera poppaðari fékk platan blendna dóma. Í júní 1997 byrjuðu þeir aftur að túra, fyrst fóru þeir í heimstúr með „Misfits“ og síðan túruðu þeir Bandaríkin með Coal Chamber og Life of Agony. Eftir að hafa gengið til liðs við ozzfest í júlí 1998 þurfti trommarinn Nick Menza að hætta tímabundið í hljómsveitinni vegna æxlis á hné og var Jimmy Degrasso fenginn í staðinn, hinsvegar eftir þau ummæli Mustaine að Menza hafi logið um æxlið var Degrasso fenginn inn í hljómsveitina endanlega. Eftir mikla velgengni Cryptic Writings lét Mustaine upptökustjórann Dann Huff leiða þá enn lengra inn á „mainstream“ markaðinn, og byrjuðu þeir að taka upp sýna nýustu plötu, Risk í janúar 1999. Platan var gefin út í ágúst sama ár og var hún algjörlega misheppnuð jafnt hjá gagnrýnendum og aðdáendum, en tónlistarlegur stíll sveitarinnar var orðin líkari einhvers konar „country pop“ heldur en gamla thrash metalnum sem að sveitin var brautryðjandi í. í júlí 1999 gaf sveitin út „cover“ útgáfu af Black Sabbath laginu never say die fyrir Sabbath tribute plötuna Nativity in Black, og í september byrjuðu þeir heimstúrinn til að kynna Risk með Iron Maiden í Evrópu. Eftir þrjá mánuði í túrnum ákvað langtíma gítarleikarinn Marty Friedman að hætta í sveitinni vegna tónlistarlegs ágreinings við Mustaine. Í janúat 2000 var gítarleikarinn Al Pitrelli fenginn inn í sveitina, en hann hafði áður spilað fyrir Alice Cooper og Savatage. Sveitin sneri aftur í stúdíóið í apríl 2000, en eftir að hafa fengið það tilboð að spila í Maximum Rock-túrnum með Anthrax og Motley Crue, ákváðu þeir að gera hlé á upptökunum og halda áfram í að túra norður ameríku út sumarið 2000. Í október sama ár hættu Megadeth og Capitol Records fjórtán ára samstarfi sínu, en seinasta Megadeth platan sem að Capitol gaf út var greatest hits platan Capitol punishment: The Megadeth years, en sú plata innihélt tvo ný lög: „Kill the King“ og „Dread and the fugitive mind“ sem að sýndu að sveitin var að snúa aftur til þeirra Thrash Metal uppruna. Í nóvember 2000 skrifuðu þeir undir samning við nýja upptökufyrirtækið Sanctuary Records. Eftir Maximum Rock-túrinn sneru þeir aftur í stúdíóið til að leggja lokahönd á þeirra níundu stúdíóplötu The world needs a hero en Mustaine hafði rekið umboðsmanninn Bud Prager vegna þeirra gríðarlegu vonbrigða sem að Risk var og ákvað að framleiða plötuna sjálfur. Platan kom út 15.maí 2001 og var hún fyrsta platan síðan Peace sells... sem að Mustaine samdi alla sjálfur (fyrir utan smá part í laginu promises) og fékk platan blendna dóma gagnrýnenda en aðdáendur voru hinsvegar ánægðir með að platan var skref í rétta átt fyrir hljómsveitina þar sem að hún varð kominn aftur í thrash metalinn. Túrinn til að kynna The world needs a hero byrjaði sumarið 2001 og túruðu þeir þá Evrópu með DC, og síðan Ameríku með Iced Earth og Endo í september. Hinsvegar var klippt fljótlega á túrinn vegna hryðjuverkaárásanna 11.september, og Mustaine fór í staðinn heim til Arizona og tók upp þeirra fyrstu "live" plötu, Rude Awakening. Í september 2002 endurmixaði Mustaine þeirra fyrstu plötu Killing is my business... og átti hann þá eftir að mixa allar gömlu plöturnar þeirra seinna. 3.apríl 2002 tilkynnti Mustaine á blaðamannafundi að Megadeth væri hætt störfum vegna alvarlegs taugaskaða í hendi sem að Mustaine hafði orðið fyrir. Eftir næstum ár af mikilli sjúkraþjálfun og veseni byrjaði Mustaine að vinna að því sem átti að vera hans fyrsta "Sóló" plata, platan var tekið upp með trommaranum Vinnie Colaiuta, bassaleikaranum Jimmy Sloas og fékk Mustaine fyrrverandi gítarleikara Megadeth, Chris Poland til að spila nokkra sólóa inná plötuna. Vegna samninga við EMI Records þurfti Mustaine að gefa út plötuna "The System Has Failed" undir nafninu Megadeth og kom sú plata út 14.september 2004. Platan seldist vel og fékk góða dóma en mörg lög á plötunni voru hinsvegar ansi útvarpsvæn og ekki voru allir fullkomlega ánægðir. The System Has Failed var fyrsta Megadeth platan sem að bassaleikarinn Dave Ellefson lék ekki á og hafði Mustaine rekið hann úr sveitinni vegna persónulegra deilna. "Blackmail the Universe" túrinn byrjaði í október 2004 og höfðu þá bassaleikarinn James Lomenzo(fyrrum Iced Earth meðlimur) og gítarleikarinn Glen Drover(Eidolon,King Diomond) gengið til liðs við sveitina, gamli meðlimurinn Nick Menza sneri aftur á bak við trommusettið en þurfti að hætta fimm dögum fyrir fyrstu tónleikanna vegna þess að hann var ekki í nógu góðu líkamlegu formi og kom þá bróðir Glen Drover, Shawn Drover í staðinn fyrir hann. Hljómsveitin túraði Bandaríkin með Exodus og seinna Evrópu með Diamond Head og Dungeon. Í maí 2006 tilkynnti Mustaine að þeirra ellefta stúdíóplata "United Abominations" væri næstum því tilbúin, platan kom út 15.maí 2007 og spiluðu sömu meðlimir á plötunni og í Blackmail the Universe túrnum. Platan seldist mest af öllum plötum síðan Youthanasia kom út 1994 og fékk hún góða dóma, flestir aðdáendur voru líka sammála um að Megadeth hefði snúið aftur í upprunann, Thrash-Metal. 13 janúar 2008 tilkynnti Mustaine að gítarleikarinn Glen Drover væri hættur í sveitinni og að hinn knái Chris Broderick(Nevermore,Jag Panzer) hefði komið í hans stað en Drover hafði hætt vegna þess að hann vildi fá að eyða meiri tíma með fjöldskyldunni. Í september 2008 tilkynnti Mustaine að þeir væru byrjaðir að taka upp nýja plötu, platan á að koma út seint á árinu og á ætla þeir að halda sér á sömu braut í tónlistinni og á United Abominations. Lexicon Islandicum. Orðabók Guðmundar Andréssonar eða "Lexicon Islandicum" (latína: „íslensk orðabók“) er íslensk orðabók með latneskum skýringum sem rituð var árin 1650-1654 af Guðmundi Andréssyni. Orðabókin sjálf var gefin út í Kaupmannahöfn árið 1683. Listi yfir markverða vegi eða vegakafla á Íslandi. Á þessum lista yfir markverða vegi eða vegakafla á Íslandi eru teknir saman allir þeir vegir eða vegakaflar sem á einhvern hátt teljast merkilegir. Þessi listi tekur þó aðeins yfir kafla á núverandi vegakerfi. Eldri kafla (t.d. Kerlingarskarð og Breiðadalsheiði) má sjá undir lista yfir aflagða vegi. Listanum er skipt í þrjá meginflokka: Fjallvegir, Brattar fjallshlíðar, og Aðrir markverðir vegakaflar. Nánari útskýringar á hverjum flokk eru á undan hverri meginupptalningu. Fjallvegir. Hér eru taldir upp flestir vegir sem liggja um heiðar, skörð, fjöll, hálsa og fleira þess háttar. Vegir sem kallast fjallvegir á lista yfir þjóðvegi eru í raun Hálendisleiðir sem aðeins eru færir fjallabílum. Nucleus latinitatis. "Nucleus latinitatis" (latína: „kjarni góðrar latínu“) eða Kleyfsi eins og hún var oft kölluð af nemendum er latnesk orðabók með íslenskum skýringum sem gefin var út árið 1738 af Jóni Árnasyni biskupi. Orðabókin inniheldur margar heimildir um það hvernig íslenskan var á fyrri hluta 18. aldar og gefur góða yfirsýn af máli þess tíma. Unnið var svo að endurútgáfu sem gefin var út árið 1994. Bókin inniheldur rúmlega 16 þúsund flettiorð og er hægt að finna orðalista yfir íslensk skýringarorð fyrir aftan orðabókartextann. Brandur (eyja). Brandur er lítil eyja (0.1 km²) sem liggur rétt sunnan við Álsey. Hún er gíglaga nema suðurhlið gígsins hefur orðið sterkri suðuröldunni að bráð og rofnað burt. Ytri hluti gígsins norðan og austan megin er gyrtur hömrum á meðan innri hliðin sunnan megin er meira aflíðandi. Greinilega má sjá 5 m háan gígtappa við rætur suðurbrekkunnar. Veiðikofinn í Brandinum er staðsettur ofarlega á eyjunni en graslendi þekur hana alla. Lundaveiði og eggjataka er hvort tveggja stundað í Brandi og sauðfé haft á beit. Þar er höfn frá náttúrunnar hendi og landtaka mjög auveld. Haffjarðará. Haffjarðará er á á Snæfellsnesi sem rennur úr Oddastaðavatni um 20 km leið í Haffjörð. Áin er ein þekktasta laxveiðiá landsins og á hún sér nokkra sérstöðu að því leiti að engum seiðum hefur verið sleppt í hana og er hún því sjálfbær. Frá 1974 hefur eingöngu verið veitt á flugu. Sumarið 2008 var metveiði, 2010 laxar sem veiddir voru á 4-6 stangir. Áin er í eigu Óttars Yngvasonar og Einars Sigfússonar. Fyrr á 20. öldinni var áin lengi vel í eigu Thors Jensens og fjölskyldu hans og byggðu þau tvo sumarbústaði þar og dvöldu langdvölum á sumrin. Til er frásögn af því að Ólafur Thors hafi verið í útreiðartúr nálægt ánni í júlí 1923 og hann hafi fallið af baki og hlotið slæmt höfuðhögg með þeim afleiðingum að hann treysti sér ekki til að taka fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum sama ár. Thorsarar. Thorsararnir eða Thorsfjölskyldan var notað um Thor Jensen, konu hans Margréti Þorbjörgu Kristjánsdóttur og 11 börn þeirra. Thor var mjög umsvifamikill athafnamaður og átti Kveldúlf útgerðarfélag, eitt stærsta fyrirtæki landsins. Synir hans stjórnuðu fyrirtækinu Ólafur Thors (1892-1964), seinna forsætisráðherra Íslands, Richard Thors (1888-1970), Kjartan Thors (1890-1971) og Thor Thors (1903-1965), seinna sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Fjölskyldan var alla tíð mjög tengd Sjálfstæðisflokknum, Ólafur Thors var formaður í 27 ár, og notuðu andstæðingar og öfundarmenn þessa nafngift oft í háði eða neikvæðri merkingu. Nafnið Thors var tekið upp af systkinunum að eigin frumkvæði fyrst af Kjartani í ágúst 1912, svo Richard í mars 1913, Ólafur í september, Haukur 1915, Kristín 1918, og Kristjana, Margrét, Thor, Lorentz og Hilmar 1920. Alexandrine af Mecklenburg-Schwerin. Alexandrine af Mecklenburg-Schwerin (24. desember 1879 – 28. desember 1952) var drottning Danmerkur 1912 til 1947. Hún var gift Kristjáni 10. Danakonungi. Sonur hennar Friðrik 9. tók við ríkinu eftir lát föður síns. Alexandrine með Kristján krónprins og syninum Friðrik Alexandrine kom með manni sínum til Íslands árið 1921 og var viðstödd vígslu Elliðaárvirkjunar. Kvenfélagskonur létu þá sauma skautbúning og möttul og gáfu drottningunni. Árni Björnsson smíðaði skartið með búningnum en þarð var úr 14 karata gulli. Búningurinn er varðveittur í Amalienborg. Dauðadans. "Dauðadansinn" (1493) eftir Michael Wolgemut Dauðadans er allegóría frá síðmiðöldum um dauðann. Með dauðadansinum er dauðinn persónugerður og leiðir röð af dönsurum frá öllum æviskeiðum til grafar, þ.e. allir sameinast í dauðadansi að lokum. Dansararnir eru oftast keisari, konungur, unglingur, falleg stúlka, allt beinagrindur. Þær eru gerðar til að minna á fallvaltleika lífsins og hve gæfan er hverful (sjá Sic transit gloria mundi. Gögn um uppruna dauðadansins eru myndskreytingar frá fyrri tíð. Elstu dæmin má finna í grafreit í París frá árinu 1424. Málverk. Elstu listaverk sem sýna dauðadansinn eru freskur í kirkjugarði í París. Það hafa líka varðveist verk eftir Konrad Witz í Basel (1440), Bernt Notke frá Lübeck (1463) og tréskurðarmyndir hannaðar af Hans Holbein yngri og gerðar af Hans Lützelburger (1538). Hans Holbein yngri. Hans Holbein yngri (1497 –1543) var þýskur listamaður og prentari. Hann er þekktastur fyrir andlitsmyndir og tréskurðarmyndir af dauðadansinum. Hans Holbein yngri fæddist í Augsburg í Bayern. Faðir hans Hans Holbein eldri var listmálari. Hann fór 19 ára til Basel og þar fékk hann það verkefni að mála borgarstjórann. Í Basel hitti hann Erasmus frá Rotterdam sem hann málaði margar myndir af. Holbein ferðaðist til Englands árið 1526 og vann sem andlitsmyndamálari í tvö ár. Þegar hann sneri aftur til Basel voru erfiðir tímar fyrir listamenn. Múgur eyðilagði allt sem minnti á kaþólska trú og margar trúarlegar myndir glötuðust. Holbein sneri aftur til Englands og málaði margar myndir fyrir hirð Hinriks VIII. Eitt þekktasta málverk hans frá þessum tíma og hápunktur málverka endurreisnarinn er málverkið Ambassadørene frá 1533. Tenglar. Holbein, Hans Desiderius Erasmus. Desiderius Erasmus eða Erasmus frá Rotterdam (17. október 1466/1469 – 12. júlí 1536) var hollenskur húmanisti og guðfræðingur. Erasmus, Desiderius Grafreitur. Grafreitur er staður þar sem lík eða aska eftir líkbruna eru grafin gröf til varðveislu í langan tíma. Grafreitur, sem tilheyrir kirkju, nefnist kirkjugarður og venja er að jarðsetja lík í líkkistu, þ.a. höfuð vísar til vesturs, en fætur til austurs. Kirkjugarðasamband Íslands (KGSÍ) á og rekur sérstakan vef um íslenska kirkjugarða: gardur.is. Á vefnum sem var opnaður 9. júní 2001, eru upplýsingar um kirkjugarða oglegstaðaskrár. Kappkostað er að uppfæra þær legstaðaskrár sem fyrir eru í gagnagrunni, þ.e.a.s. að bæta inn nöfnum þeirra einstaklinga sem látist hafa frá því að vefurinn var opnaður og hafa verið grafnir í þá kirkjugarða sem þegar eru komnir inn í gagnasafnið. Vefurinn byggir á samvirku gagnasafni og inniheldur leyfilegar upplýsingar um látna einstaklinga og legstað þeirra í kirkjugörðum á Íslandi. Tilgangurinn er að skapa almenningi aðgang á aðgengilegan hátt að upplýsingum um legstað látinna manna á Íslandi. Jafnframt eru á þessum vef upplýsingar um viðkomandi kirkjugarða þ.m.t. kort, texti, myndir og teikningar. Nú [Desember 2009] eru 125.908 nöfn í grunninum. Skrapp út. "Skrapp út" (enska: "Back Soon") er íslensk gamanmynd eftir Sólveigu Anspach með Diddu Jónsdóttir í aðalhlutverki. Stokkhólmsbanki. Stokkhólmsbanki (opinbert heiti: "Stockholms Banco") einnig þekktur sem Banki Palmstruchs var sænskur banki stofnaður 1657 af hollenska kaupmanninum Johan Palmstruch. Bankinn hóf prentun peningaseðla árið 1661, fyrstur banka í Evrópu (prentaðir seðlar höfðu verið notaðir frá því á miðöldum í Kína). Seðlarnir nefndust "kreditivsedlar" hljóðuðu upp á 5, 25, 100 og 1000 kopardali. Hver seðill var undirritaður af Palmstruch sjálfum. Aðeins þremur árum síðar hætti bankinn starfsemi þar sem útgefnir seðlar voru upp á langtum stærri upphæð en bankinn átti í innistæðum. Palmstruch var dæmdur til dauða, en síðar náðaður. Sænska þingið tók yfir starfsemi bankans og stofnaði árið 1668 "Riksens Ständers Bank" sem síðar varð Sænski seðlabankinn. Sjórán. Sjórán er rán sem fram fer á sjó eða á skipum við ströndina. Sjórán eru fremur algeng á vissum hafsvæðum og er tap vegna þeirra talið nema milli 13 og 16 milljörðum Bandaríkjadala árlega. Sjórán eru sérstaklega algeng milli Indlandshafs og Kyrrahafs, úti fyrir strönd Sómalíu, í Malakkasundi og við Singapúr. Þótt enn komi fyrir að ráðist sé á báta og skip undan strönd Norður-Afríku og í Karíbahafinu er það fremur sjaldgæft vegna markvissrar baráttu flota og strandgæslu á þessum hafsvæðum. Fríbýttari eða kapari er gamalt heiti á sjóræningja sem rænir her- og kaupskip óvinveittrar þjóðar í umboði konungs (kaparabréf), einkum á 16., 17. og 18. öld. Slíkir sjóræningjar gátu hlotið frægð og vegsemd hjá því ríki sem þeir störfuðu fyrir. Sem dæmi má nefna sir Francis Drake sem rændi spænsk skip í Karíbahafinu og Magnus Heinason í Færeyjum sem fékk kaparabréf til að ráðast gegn enskum og hollenskum sjóræningjaskipum sem herjuðu á eyjarnar. Harry Potter og blendingsprinsinn. "Harry Potter og blendingsprinsinn" er sjötta og næstsíðasta bókin í bókaröð J. K. Rowling um Harry Potter. Bókin kom út 16. júlí 2005 og setti met í sölu með en hún seldi níu milljón eintök á fyrsta sólarhringnum. Metið var síðar slegið af næstu bók í bókaröðinni, "Harry Potter og dauðadjásnin". Í bókinni koma fram leyndarmál Voldemorts og Albus Dumbledore er myrtur af Severus Snape. Þar kemur í ljós að Snape er drápari og þjónar hinum myrkra herra. J. D. Salinger. Jerome David Salinger (1. janúar 1919 – 27. janúar 2010) var bandarískur rithöfundur sem er þekktastur fyrir skáldsöguna "Bjargvætturinn í grasinu" (enska: "The Catcher in the Rye"). Hún kom út árið 1951. J.D. Salinger hafði ekki gefið út bók síðan 1965, og ekki veitt viðtal frá árinu 1980. Sagt er að dánarbú hans lumi á meira en tíu óútgefnum skáldsögum. Fríkirkjan í Reykjavík. Fríkirkjan í Reykjavík Fríkirkjan í Reykjavík er kirkja Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík sem er kristinn lútherstrúarsöfnuður utan Þjóðkirkjunnar. Fríkirkjan stendur við Fríkirkjuveg við Tjörnina í Reykjavík. Prestur Fríkirkjunnar er Hjörtur Magni Jóhannsson. Þangbrandur. Þangbrandur var prestur sem sendur var til Íslands af Ólaf Tryggvason Noregskonung skömmu fyrir árið 1000 í þeim tilgangi að kristna landið. Faðir hans var Vilbaldús (eða Vilbaldur) greifi í Saxlandi í Þýskalandi. Þangbrandur var sagður mikill ofstopamaður. Þangbrandur kom árið 997 til Austfjarða í Álftafjörð hinn syðra og var fyrsta veturinn hjá Halli á Síðu sem tók trú og lét skírast. Um vorið eftir fer Þangbrandur vestur Lónsheiði og Hallur með honum til Stafafells og hitta þar Þorkell sem mælti í mót trúnni og skorar Þangbrand á hólm en Þangbrandur drap Þorkel. Þaðan fóru þeir til Hornafjarðar og gistu í Borgarhöfn fyrir vestan Heinabergssand þar sem bjó Hildir inn gamli og Glúmur sem til brennu fór með Flosa og tekur Hildir trú og hjú hans öll. Þaðan fóru þeir til Fellshverfis og gistu á Kálfafelli en þar bjó Kolur Þorsteinsson frændi Halls og tók hann trú og hjú hans öll. Þaðan fóru þeir til Breiðár þar sem bjó Özur Hróaldsson, sem var líka frændi Halls. Tók hann svonefndri prímsigning sem var minna en skírn. Þaðan fóru þeir til Flosa leiðtoga Njálsbrennumanna sem bjó að Svínafelli og tók Flosi prímsigning og hét að fylgja þeim á þingi (Alþingi um sumarið). Frá Flosa fóru þeir til Surts Ásbjarnarsonar í Kirkjubæ en hann var þegar kristinn og höfðu forfeður hans einnig verið það. Þorvaldur veili og Veturliði skáld ortu níð um Þangbrand en hann drap þá báða. Hann drap líka einn berserk. Þangbrandur dvaldist tvo vetur á Íslandi og sneri svo aftur til hirðar Ólafs og sagði farir sínar ekki sléttar. Taldi hann ekki góðar líkur á því að tækist að kristna Ísland. Ólafur brást reiður við og ætlaði að drepa alla heiðna Íslendinga í bænum en Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason sem báðir höfðu látið skírast af Þangbrandi töldu konung af þeim fyrirætlunum. Þeir útskýrðu fyrir konungi að ástæða þess að Þangbrandi gekk svona illa að kristna Ísland væri út af aðferðum hans sem voru ofbeldi og morð og lofuðu sjálfir að gerast trúboðar á Íslandi. Visir.is. Vísir eða visir.is er íslensk fréttasíða í eigu 365 miðla. Vísir var stofnaður 1. apríl árið 1998. Á vefnum má finna efni frá ýmsum öðrum miðlum 365 miðla, t.a.m. Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjunni, FM957, X-inu og Fréttablaðinu. Vefurinn rekur einnig fréttastofu. Þorvaldur veili. Þorvaldur veili eða Þorvaldr (inn) veili var skáld á Ísland á seinasta hluta 10. aldar. Njála segir frá örlögum hans. Þorvaldur var heiðinn og andsnúinn kristni. Í Ólafs sögu Tryggvasonar segir Snorri Sturluson frá því að Þorvaldur hafi ort níð um trúboðann Þangbrand sem Ólafur sendi til Íslands til að kristna landið. Þegar Þangbrandur kom í hérað Þorvalds í Grímsnesið safnaði Þorvaldur liði til að drepa hann og félaga hans Guðleif Arason. En leikar fóru svo að Þorvaldur var drepinn. Þorvaldur hafði beðið skáldið Úlf Uggason að hjálpa sér að klekkja á Þangbrandi sem Þorvaldur kallaði argan goðvarg. Beiðni Þorvalds er sett fram í lausavísu og er hún það eina sem hefur varðveist af kveðskap hans. Snorri segir frá því í Háttatali að Þorvaldur sé höfundur drápu um Sigurðarsögu. Sú drápa var sérstök af því hún var steflaus og skjálfhent. Adolf Hitler. Adolf Hitler (20. apríl 1889 – 30. apríl 1945) var kanslari Þýskalands á árunum 1933 – 1945 og á árunum 1934 – 1945 „foringi og kanslari“ (þýska "Führer und Reichskanzler") Þýskalands. Uppruni. Hitler fæddist í Braunau í Austurríki-Ungverjalandi, nálægt þýsku landamærunum. Hann var fjórði í röð sex barna Alois Hitler og konu hans, Klöru. Sem ungur maður reyndi Hitler að komast inn í listaháskólann í Vín en var hafnað. Fyrri heimstyriöldin. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út gerðist hann sjálfboðaliði í bæverska hernum og barðist á vesturvígstöðvunum fyrir þjóðverja nær allt stríðið, þar til hann særðist þann 15. október 1918 eftir gasárás og var fluttur á herspítala. Eftir ósigur Þjóðverja settist Hitler að í München í Bæjaralandi. hann hafði enga menntun þannig að hann reyndi að vera í Þýska hernum eins lengi og hann mögulega gat. Stjórnmál. Í júlí 1919 fékk Hitler að fylgjast með DAP sem var stjórnarflokkur sem var andsnúinn auðvaldshyggju. Á meðan Hitler var þar þá fékk hann áhuga á formanninum Anton Drexler, sem studdi sterk yfirvöld þar sem gyðingar voru ekki leyfðir. Drexler varð so ánægður með störf Hitlers að hann bauð Hitler Inngöngu í DAP flokkinn og Hitler samþykkti 12. september árið 1919. Hann varð 55. meðlimurinn í flokknum og var það flokkurinn, sem seinna varð kallaður Nasistaflokkurinn. Í DAP hitti Hitler Eckart, sem varð lærimeistari Hitlers. Eftir nokkrar hugleiðingar breytti flokkurinn nafni flokkarins í NSDAP og Hitler hannaði fána flokksins, sem varð svo fáni nasista í seinni heimstyriöldinni. Árið 1920 hætti Hitler að vinna fyrir herinn og fór að vinna fyrir NSDAP að fullu. Árið 1921 var Hitler orðinn voða góður að halda ræðu fyrir framan margs fólks og í febrúar hélt hann ræðu fyrir framan 6.000 manns í Munchen. Júní 1921 fóru Hitler og Eckart til Berlín og í millitíðinni brutust út óeyrðir innan um flokksins í Munchen og sneri Hitler reiður til Munchen og sagðist ætla að hætta í flokknum, nema að ef hann yrði kjörinn formaður flokksins að þá myndi hann vera áfram. Þá voru sumir sem álitu Hitler sem svikara hópsins og varði Hitler sig gegn ásökum þessum með stórum ræðum fyrir framan þúsundir manna.Hitler varð síðar kjörinn formaður þess flokks 1921 og leiddi flokkinn til æviloka.Það leið ekki langur tími þar til Hitler fór að halda sínar merkilegu ræður og fór að safna stuðningsmönnum. Fólk sem hlustaði á ræður hans töluðu um að hann hefði dáleiðandi augnaráð og allt sem hann sagði hljómaði bara alltaf eins og það væri það rétta og sanna en sumir sem hittu hann á tali voru samt ósammála þessu. Fangelsi. Hitler varð áhugasamur um það að valda götum München eins og Mussolini hafði gert áður í Róm árið 1922. árið 1923 gerði Hitler tilraun til þess en gekk það ekki upp. Hann flúði þá á brott og varð þunglyndur og jafnvel hugleyddi sjálfsmorð. Hann var engu síður rólegur þegar hann var handtekinn 11. nóvember 1923 fyrir landráð. Þann 1. apríl árið 1924 fékk Hitler fimm ára fangelsisdóm fyrir að heilla dómarann. Hann fékk að fara í fínasta fangelsi sem var í öllu þýskalandi á þeim tíma. Þann 20 desember 1924 var honum vegna undanþágu sleppt út og hafði hann þá skrifað fyrsta part bókarinnar "Mein Kampf" ("Barátta mín") sem fjallaði að mestu leyti um hat, gyðinga, lyga og svik. Áframhald í stjórnmálum. Eftir að Hitler var sleppt var samkeppni stjórnmálaflokka ekki lengur jafn mikil og þýska hagskerfið hafði bætt sig um mikils. Vegna mistaka Hitlers fyrir fangelsi þá hafði NSDAP verið bannað í Bayern. Þann 4. janúar 1925 fór Hitler á fund með forsetisráðherra Bayern, Heinrich Held, og sagði Hitler meðal annars að hann myndi bara leita stuðnings í gegnum kosningar og var banninu þá aflétt. Samt sem áður var Hitler í banni í að halda ræður þar til ársins 1927. Hrunið í Bandaríkjunum 20. október 1929 hafði mikil áhrif á hagkerfi Þýskalands. Milljónir misstu vinnuna og var hent út úr húsum, NSDAP ákvað að grípa þetta tækifæri til að auka fylki flokksins meðal almennings. Þeir lofuðu betra hagkerfi og að veita fleiri störf. Kreppan mikla í Þýskalandi gaf Hitler og hans mönnum forskot á hina flokkana og jókst fylgi Nasistaflokksins töluvert milli ára. Árið 1925 hafði Hitler misst austuríska ríkisborgararéttinn og var því ríkisborgari í engu landi þar til ársins 1932 en þá gaf ráðherra Brunswick, sem var meðlimur NSDAP, Hitler þýskan ríkisbrogararétt og gat hann þá loksins sótt um að verða kanslari. Kanslari Þýskalands. Hitler komst til valda árið 1933 en þá var hann útnefndur kanslari Þýskalands af Hindenburg, forseta Þýskalands. Sem Kanslari Þýskalands krafðist hann að fá völd yfir lögreglunni í Þýskalandi. Hitler þurfti að berjast mikið gegn andstæðingum sínum sem gerðu margar tilraunir til að mynda stærri stjórn og steypa honum af stóli. Þann 27. febrúar árið 1933 var kveikt í ríkisbyggingu og kom Hitler þá með lög sem leyfðu handtöku án dóms í gildi og voru þá yfir fjögur þúsund manns handtekir en það er sagt að NSDAP flokkurinn hafi sjálfur borið ábyrgð á eldinum. Eftir að Hitler var kominn með völdin fór hann að fjarlæga alla andstæðinga sína með útrýmingarbúðunum. Þann 14. júlí árið 1933 var NSDAP eini löglegi flokkurinn í Þýskalandi. 2. ágúst 1934 dó forsetinn Hindenburg. eftir fráfall Hindenburgs árið eftir tók Hitler sér titil kanslara og foringja og var í raun orðinn einræðisherra í Þýskalandi. Seinni heimstyriöldin. Á valdatíma sínum leiddi Hitler Þýskaland út í stríð við flesta nágranna sína. Með innrás Þjóðverja í Pólland 1939 hófst seinni heimsstyrjöldin sem lauk með algerum ósigri Þjóðverja sex árum síðar. Á lokadögum stríðsins, þegar rauði herinn hafði nánast alla Berlín á sínu valdi, framdi Hitler sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín sem hann hafði hafst við í frá upphafi árs 1945. Tenglar. Hitler, Adolf Hitler, Adolf Viðeyjarberg. Viðeyjarberg er elsta berg á Reykjavíkursvæðinu. Það er um 2 milljón ára gamalt og kom frá megineldstöðinni Viðeyjareldstöð. Viðeyjarberg kemur fram í Viðey, Geldinganesi, Gufunesi og á svæðinu frá Kleppi og út með Sundahöfn. Það er úr basalti, líparíti og andesíti og er ýmist hraun, gosaska eða innskot. Regína Þórðardóttir. Regína Þórðardóttir (fædd í Reykjavík 26. apríl 1906, látin 17. október 1974) var íslensk leikkona. Hún hóf að leika á Akureyri um 1930, en þar bjó hún þá ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Bjarnasyni lækni. Hugur hennar stóð snemma til náms í leiklist og gat hún látið þann draum rætast árið 1933 er þau hjónin fluttust til Kaupmannahafnar þar sem Bjarni stundaði um skeið framhaldsnám í sinni grein. Prófi frá skóla Konunglega leikhússins lauk Regína þó ekki fyrr en árið 1940. Regína Þórðardóttir hóf að leika með Leikfélagi Reykjavíkur árið 1936 og starfaði með því þangað til Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950. Í Þjóðleikhúsinu starfaði hún rúman áratug og var allan þann tíma ein helsta burðarleikkona hússins. Hún var á yngri árum sjálfkörin til að leika ungu og fögru stúlkurnar, en brátt kom í ljós að hún var efni í stórbrotna skapgerðarleikkonu. Hún lék frú Júlíu Strindbergs með Leikfélagi Akureyrar árið 1933 og meðal helstu hlutverka hennar hjá Leikfélagi Reykjavíkur voru Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti Kambans, Geirþrúður Danadrottning í Hamlet Shakespeares og Steinunn í Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar. Af hlutverkum hennar í Þjóðleikhúsinu má nefna frú Arnaeus í Íslandsklukku Laxness, Lindu Loman í Sölumaður deyr Arthurs Millers, Tyrkja-Guddu í samnefndu leikriti Jakobs Jónssonar og Evelyn Holt í Edward sonur minn eftir Noel Langley og Robert Morley. Regína Þórðardóttir kvaddi Þjóðleikhúsið árið 1962 og næstu ár lék hún mest með Leikfélagi Reykjavíkur, auk þess sem hún lék einnig mikið í útvarp. Hún vakti mikla athygli fyrir túlkun sína á Matthildi von Zahnd í Eðlisfræðingum Dürrenmatts og Clöru Zachnassian í Sú gamla kemur í heimsókn eftir sama höfund. Þar naut dirfska hennar, hugkvæmni og hæfileiki til að lýsa sérkennilegum, jafnvel gróteskum persónum, sín til fulls. Hún var afar kröfuhörð við sjálfa sig, en yfirlætislaus og kunni því illa að vera mikið hampað. Hjá því varð þó ekki komist, þar sem engum duldist að hún var einn af fremstu listamönnum þjóðarinnar um sína daga. Elliðaárlögin. Elliðaárlögin eru setlög sem innihalda jökulurð, sjávarset og landset og liggja ofan á leifum Viðeyjareldstöðvar og undir grágrýtinu í Reykjavík. Þau eru talin 200 - 400 þúsund ára gömul. Neðantil eru Elliðalögin sjávarset úr leirsteini með fornskeljum. Ofan á sjávarsetinu eru ýmis konar strandmyndanir og jökulberg. Efst er þurrlendisset og í því er sums staðar samanpressaður mór sem er orðinn eins konar surtarbrandur. Elliðaárlögin ná frá Brimnesi yfir á Álftanes. Þau eru misþykk og þau eru þykkust þar sem þau hafa hlaðist upp undir sjávarmáli. Við Háubakka í Breiðholti sjást þessi lög vel. Neðsta lagið er jökulborið set, fyrir ofan það er sjávarset. Þar hafa fundist skeljar eins og halloka, kúfskel, krókskel og gljáhnytla en sam konar skeljar lifa þar við ströndina í dag. Þetta sjávarset er um 300 þúsund ár frá Cromer hlýskeiði. Ofan á það er að finna annað lag af jökulbornu seti sem talið er um 250 þúsund ára gamalt. Efst er svo samanþjappaður mór eða surtarbrandur á milli tveggja grágrýtislaga. Þessi surtarbrandur er talinn vera um 200 þúsund ára gamall og frá Elster hlýskeiði. Í honum eru leifar ýmissa plantna sem uxu á því skeiði. Háubakkar. Háubakkar við Elliðaárvog er náttúruvætti í Breiðholti í Reykjavík. Þar sjást þykk setlög,Elliðaárlögin sem sennilega eru um 200 þúsund ára gömul. Þessi lög sýna áhrif mikilla loftslagsbreytinga á ísöld. Setlögin eru um 8 m á þykkt og það má finna undir grágrýtislagi um 20 sm þykkt surtarbrandslag. Friðþjófssaga. Friðþjófur biður Ingibjargar. Myndskreyting úr sænskri útgáfu Friðjófssögu, 1827. A. Lundquist. Friðþjófssaga er norrænt söguljóð í 24 köflum (eða kvæðum), eftir sænska skáldið Esaias Tegnér. Hver kafli er undir sérstökum bragarhætti. Friðþjófssaga kom út á íslensku árið 1866 í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Þýðingin er frábærlega af hendi leyst, t.d. yrkir Matthías undir svipuðum bragarháttum og Tegnér notaði. Þýðing Matthíasar varð vinsæl, og hefur komið út sérstaklega alls fimm sinnum, 1866, 1884, 1906, 1935 og 1949. Einnig birtist hún í seinna bindinu af "Ljóðmælum" hans, 1958, tekin eftir frumútgáfunni. Þess ber að geta að Matthías endurskoðaði þýðingu sína og orti t.d. annan kafla upp undir nýjum bragarhætti. Frumútgáfan frá 1866 er því ekki endanleg útgáfa Matthíasar af Friðþjófssögu. Söguljóðið Friðþjófssaga er byggt á fornaldarsögunni Friðþjófs sögu hins frækna. Friðþjófs saga hins frœkna. Ingibjörg á málverki eftir Peter Nicolai Arbo Friðþjófs saga hins frækna er ein af fornaldarsögum Norðurlanda. Sagan var þýdd á sænsku árið 1737. Hún er til í íslensku handriti frá um 1300 og gerist á 8. öld. Sagan er framhald af annarri fornaldarsögu, Þorsteins sögu Víkingssonar. Söguljóðið Friðþjófssaga eftir Esaias Tegnér er byggt á Friðþjófs sögu hins frækna. Söguþráður. Beli konungur af Sogni á tvo syni Helga og Hálfdán og eina dóttur Ingibjörgu. Hinum megin við fjörðinn býr vinur konungs, Þorsteinn Víkingsson, og hann á soninn Friðþjóf sem kallaður er hinn frækni. Friðþjófur var alinn upp með Ingibjörgu. Fóstri þeirra var Hildingur. Esaias Tegnér. Tegnér leggur lárveigarsveig á höfuð Oehlenschlaeger árið 1829 Esaias Tegnér (13. nóvember 1782 – 2. nóvember 1846) var sænskur rithöfundur og skáld, prófessor í grísku og biskup. Hann var á 19. öld talinn faðir nútíma ljóðlistar í Svíþjóð, sérstaklega með söguljóðinu Friðþjófssögu. Tegnér, Esaias Adam Gottlob Oehlenschläger. Adam Gottlob Oehlenschläger (14. nóvember 1779 – 20. janúar 1850) var danskt skáld og leikritahöfundur. Oehlenschläger, Gottlob Oehlenschläger, Gottlob Nikolai Frederik Severin Grundtvig. N.F.S. Grundtvig Nikolaj Frederik Severin Grundtvig (8. september 1783 – 2. september 1872), oftast nefndur N. F. S. Grundtvig, var danskur kennari, rithöfundur, skáld, heimspekingur, sagnfræðingur, prestur og stjórnmálamaður. Hann var einn áhrifamesti maður í danskri sögu og hugmyndir hans ollu þjóðernisvakningu í Danmörku á síðasta helmingi 19. aldar. Hann giftist þrisvar sinnum, síðast 66 ára. Grundtvig nam við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist 1803. Hann var mikilvirkt sálmaskáld og ritaði sálmasafn fyrir dönsku kirkjuna. Hann skrifaði nokkrar bækur um sögu heimsins. Grundtvig þýddi Bjólfkviðu yfir á dönsku. Lýðháskólahreyfingin á Norðurlöndum byggir á hugmyndum Grundtvigs. Grundtvig er ásamt H.C. Andersen og Søren Kierkegaard talinn með fremstu rithöfundum Dana. Tenglar. Grundtvig, Nikolai Frederik Severin Grundtvig, Nikolai Frederik Severin Grundtvig, Nikolai Frederik Severin Grundtvig, Nikolai Frederik Severin Grundtvig, Nikolai Frederik Severin Grundtvig, Nikolai Frederik Severin Bjólfskviða. Fyrsta síðan í handriti Bjólfskviðu, molnað hefur af spássíunum. Bjólfskviða, sem á ensku heitir "Beowulf", er engilsaxneskt eða fornenskt miðaldakvæði sem segir af hetjunni og stríðsmanninum Bjólfi og viðureign hans við risann Grendil, móður "Grendils" og síðar við dreka, þegar hann er orðinn konungur í Gautlandi. Bjólfskviða var skrifuð á Englandi en sögusviðið er Skandinavía á 8. eða 9. öld. Kviðan er söguljóð um atburði og hetjur fortíðar. Bjólfskviða er eitt af höfuðritum fornenskrar tungu, en höfundur er ókunnur. Kvæðið er 3183 línur og hefur aðeins varðveist í einu handriti, sem talið er frá því um 1000. Grímur Jónsson Thorkelín skrifaði fyrstur upp handritið um 1787, þegar hann vann að sagnfræðirannsóknum á Englandi fyrir dönsk stjórnvöld; hann gaf Bjólfskviðu svo út 1815. Grímur hafði tvö eftirrit með sér til Danmerkur, annað gerði hann sjálfur, en hitt eftirritið fékk hann starfsmann British Museum til að gera, líklega James Matthews. Upphaflega handritið er orðið ólæsilegra og er uppskrift Thorkelíns mikilvæg fyrir þá sem rannsaka Bjólfskviðu. Halldóra B. Björnsson hefur þýtt Bjólfskviðu á íslensku, og kom kviðan út hjá Fjölva árið 1983. Í þýðingunni reynir Halldóra að fylgja bragarhætti fornenska textans, sem er náskyldur fornyrðislagi. Kvikmyndin Bjólfskviða byggir á miðaldakvæðinu. Kvikmyndin var tekin upp á Íslandi árið 2006. Dorota Rabczewska. Doda (fædd Dorota Rabczewska 15. febrúar 1984) er poppsöngkona frá Ciechanów á Pólland. Hún er þekktust fyrir lög á borð við „Znak Pokoju“, „2 Bajki“, „Szansa“, „Katharsis“, „Nie daj się og „Bad Girls“. Tenglar. Rabczewska, Dorota Grendill. Grendill er sögupersóna í Bjólfskviðu. Hann var einn af þeim þremur sem Bjólfur glímdi við, hinir voru móðir Grendils og dreki. Munntóbak. Munntóbak (skro, rulla eða skrotóbak og stundum presstóbak) er tóbak sem er tuggið og var algengt hér áður fyrr og mikið notað á sjó. Núorðið er orðið munntóbak þó oftast haft um fínskorið blautt tóbak sem sett er undir vörina, og sé það keypt tilbúið (frá Svíþjóð) er það oftast nefnt snus eða snustóbak. Það er bannað á Íslandi en menn hafa notast við íslenskt neftóbak og sett það í vörina. AFL Starfsgreinafélag. AFL Starfsgreinafélag (AFL) er stærsta stéttarfélag á Austurlandi. Félagið varð til 28. apríl 2007 með sameiningu þessara félaga: AFL Starfsgreinafélag Austurlands, Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar og Vökull Stéttarfélag. AFL Starfsgreinafélag er þriðja fjölmennasta verkalýðsfélag landsins í dag — á eftir Eflingu og VR. Stærð félagsins skýrist af víðtækum sameiningum verkalýðsfélaga á Austurlandi síðustu ár og miklum uppgangi í atvinnulífi í fjórðungnum. Yfirlit. Félagssvæðið er víðfeðmt, en það nær frá Langanesbyggð í norðri til Skeiðarársands í suðri. Ríflega 9000 félagsmenn eru í félaginu í 4 deildum, verkamannadeild, sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og deild verslunar-og skrifstofufólks. Félagið á aðild að Starfsgreinasambandinu, Sjómannasambandinu, Samiðn og Landssambandi íslenskra verslunarmanna, auk aðildar að Alþýðusambandi Íslands. Félagið tekur virkan þátt í starfi sambandanna og ýmissa annarra félaga og sjóða. Félagið á til dæmis stjórnarmenn í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandins, Sjómannasambandsins og Samiðnar, í stjórn Landsmenntar, Lífeyrissjóðsins Stapa, Sameinaða lífeyrissjóðsins, Þekkingarnets Austurlands og Vaxtarsamnings Austurlands. Félagið hafði auk þess forgöngu um stofnun Starfsendurhæfingar Austurlands, sem tók til starfa í janúar 2008 og sinnti endurhæfingu um 30 einstaklinga á fyrstu starfsönn. Forstöðumaður StarfA er Erla Jónsdóttir. Þá hefur félagið tekið þátt í alþjóðlegu starfi, m.a. verið þátttakandi í Leonardo verkefni með IF Metall í Svíþjóð og átt þátt í stofnun ALCOA Workers Global Network, sem er óformlegur hópur verkalýðsfélaga sem í er launafólk, starfandi í ALCOA verksmiðjum. Þjónusta og starfssemi. Starfssemi AFLs eins og flestra annarra stéttarfélaga skiptist í innra starf og síðan þjónustu við félagsmenn. Innra starf félagsins fer aðallega fram í gegnum starf með trúnaðarmönnum félagsins, stjórnum og ráðum félagsins og öflugu námskeiðshaldi fyrir félagsmenn og trúnaðarmenn þess. Helstu viðburðir innra starfs félagsins eru fyrir utan félagsfundi og deildarfundi, árlegur fundur trúnaðarmanna sem stendur í tvo daga. Á þeim fundum hefur verið lagður grunnur að stefnumótunarvinnu félagsins. Félagið heldur úti öflugri þjónustu fyrir félagsmenn. Í því sambandi má meðal annars nefna að haldið er úti skrifstofum á öllum þéttbýlisstöðum á Austurlandi. Leitast er við að tryggja félagsmönnum sem bestan og greiðastan aðgang að upplýsingum og þjónustu á heimasíðunni. Saga AFLS. AFL Starfsgreinafélag var stofnað 28. apríl 2007, með sameiningu þriggja félaga, AFLs Starfsgreinafélags Austurlands, Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar og Vökuls Stéttarfélags. Afl Starfsgreinafélag Austurlands. AFL - Starfsgreinafélag Austurlands var stofnað þann 14. janúar 2001 þegar, sex verkalýðsfélög á svæðinu frá Bakkafirði til Fáskrúðsfjarðar voru sameinuð. Utan við þessa sameiningu var eitt félag á áður nefndu svæði, en það er Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar sem stofnað 1. apríl 1933. Félögin sem sameinuðust voru: Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar, Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði, Verkalýðsfélag Norðfirðinga, Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar, Verkamannafélagið Fram á Seyðisfirði, Verkalýðs- og sjómannafélag Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps. Með sameiningunni varð til stærsta stéttarfélag á Austurlandi. Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar. Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var eitt af elstu starfandi verkalýðsfélögum landsins, tæplega 100 ára gamalt. Til undirbúningsfundar var boðað milli jóla og nýárs árið 1907. „Að kvöldi þess 29. desember 1907 var fundur haldinn í bindindisfélagshúsinu til að ræða um stofnun verkamannafélags í Reyðarfjarðarhreppi. Á fundinum voru mættir 16 menn“, segir í fyrstu fundargerð félagsins. Á þessum fundi voru lagðar fram tillögur um nafn félagsins og árstillag. Fimm manna nefnd var kjörin til að semja lög og reglur félagsins. Verkamenn á Reyðarfirði fóru strax í undirbúningsvinnu og sunnudaginn 19. janúar var stofnfundurinn haldinn. Vökull Stéttarfélag. Vökull Stéttarfélag varð til þann 31. október 1999, þegar Verkalýðs- og sjómannafélag Stöðvarfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs og Verkalýðsfélagið Jökull á Hornafirði voru sameinuð. Hugmyndir um sameiningu félaga innan Alþýðusambands Austurlands höfðu af og til stungið upp kollinum og um miðjan 10. áratuginn kom fram tillaga á þingi Alþýðusambands Austurlands um að sameina öll félögin á Austurlandi í eitt félag. Þótti mörgum tillagan víðáttuvitlaus á þeim tíma. Stjórn AFLs Starfsgreinafélags 2008 - 2009. Framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags er Sverrir Albertsson AFL Starfsgreinafélag Austurlands. AFL Starfsgreinafélag Austurlands var eitt stofnfélaga AFLs Starfsgreinafélags. Yfirlit. Með sameiningunni varð til stærsta stéttarfélag á Austurlandi með um 1800 félagsmenn. Þann 6. júní árið 2002 stækkaði félagið enn þegar AFL sameinaðist tveimur iðnaðarmannafélögum, Iðnsveinafélagi Fljótsdalshéraðs og Málm- og skipasmiðafélagi Norðfjarðar. Í kjölfarið var síðan stofnuð sérstök iðnaðarmannadeild innan félagsins með á annað hundrað félagsmenn en hún kom til viðbótar við sjómannadeild sem áður var starfrækt. Deildirnar tvær sinntu sérhagsmunamálum umræddra hópa en flestir félagsmenn voru í almennri deild. Félagsmenn í AFLi 2005 voru um 2000 auk þeirra starfsmanna sem starfa við virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka sem falla undir kjarasamninga AFLs. AFL Starfsgreinafélag Austurlands varð ekki nema 6 ára gamalt því 28. apríl 2007 sameinaðist AFL Starfsgreinafélag Austurlands félagið Vökli Stéttarfélagi og Verkalýðsfélagi Reyðarfjarðar og varð AFL Starfsgreinafélag. Saga félagsins einkenndist þó af miklum átökum meðal aannars við Kárahnjúka og verulegum breytingum í starfssemi félagsins en fjöldi félagsmanna jókst ár frá ári þar til að félagið var orðið stærsta félag SGS (og ASÍ) utan höfuðborgarsvæðis og þriðja stærsta félag landsins. Jón Ingi Kristjánsson var formaður lengst af eða fram á vor 2006 en þá tók Sigurður Hólm Freysson við formennsku. Aðalbjörn Sigurðsson var framkvæmdastjóri félagsins frá 2002 – 2005 en þá var Sverrir Albertsson ráðinn í starfið. Félagið hefur rekið þjónustuskrifstofur á öllum þéttbýlisstöðum félagssvæðisins og verið farsælt með starfsfólk. AFL rak umfangsmikla endurmenntun fyrir starfsfólk sitt og trúnaðarmenn og hefur það skilað sér í markvissara starfi félagsins. Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði. Félagið var stofnað haustið 1914. Reyndar hafði Jón Kr. Jónsson stofnað verkalýðsfélag á Eskifirði skömmu eftir aldamótin. Mætti það félag mikilli andstöðu meðal kaupmanna og varð ekki langlíft. Fyrsti formaður Verkamannafélagsins Árvakurs var Valgeir Guðbjartsson. Með honum í stjórn voru Jón Kr. Austfjörð, Þórarinn Jóhannesson, Bjarni Kemp og Helgi Þorláksson. Meðal annarra formanna má nefna þekktan einstakling, Richard Beck prófessor, sem var þó mjög stutt formaður eða í tæpa tvo mánuði. Arnfinnur Jónsson skólastjóri var í formannssæti í sex ár en báðir þessir menn stóðu að stofnun félagsins. Lengst hafa þó setið í formannsstóli Alfreð Guðnason, sem var formaður Árvakurs í 18 ár, og Hrafnkell A. Jónsson, sem sat samanlagt á formannsstóli í 16 ár. Alfreð var formaður frá 1949 til 1959 og aftur 1962 til 1970. Hrafnkell var formaður frá 1977 til 1979, 1981 til 1982 og 1984 til 1997. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands 11. apríl 1917. Árvakur hefur látið ýmis framfaramál til sín taka og stofnaði Kaupfélag verkamanna árið 1917 en það starfaði til vorsins 1926. Til gamans má geta þess að Kaupfélag verkamanna hafði frá 1917 til 1922 aðsetur í eigin húsnæði miðsvæðis á Eskifirði sem gekk undir nafninu Kauphöllin. Félagið átti líka þátt í stofnun togarafélagsins Andra. Árið 1933 hafði félagið einnig forgöngu um stofnun Samvinnufélagsins Kakala. Gerði það út þrjá 17 tonna báta og einn 48 tonna. Þá bauð Verkamannafélagið Árvakur nokkrum sinnum fram lista við hreppsnefndarkosningar og tvisvar lýsti félagið yfir stuðningi við pólitíska flokka í alþingiskosningum. Síðasti formaður félagsins fyrir sameininguna við AFL var Sigurður Hólm Freysson. Verkakvennafélagið Framtíðin á Eskifirði. Þetta félag var stofnað þann 14. mars árið 1918 að Brautarholti á Eskifirði. Félagssvæðið var Eskifjarðarhreppur og gekk félagið í ASÍ þann 17. nóvember 1942. Það voru nokkrar konur á Eskifirði sem beittu sér fyrir stofnun Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar. Þær höfðu séð þörf fyrir samtök verkakvenna til að standa vörð um hagsmuni þeirra og launakjör. Fyrsti formaður Framtíðarinnar var Nikólína Jónsdóttir. Með henni voru í stjórninni þær Borghildur Einarsdóttir varaformaður, Ragnheiður Björnsdóttir ritari og Ingibjörg Stefánsdóttir gjaldkeri. Ragnhildur Einarsdóttir Snædal var lengst formaður félagsins eða á árunum 1926 til 1933 og síðan frá 1934 til 1961 er hún lést. Verkalýðsfélögin á Eskifirði gengu til sameiginlegra samninga í mars 1926 við atvinnurekendur sem voru reyndar kaupmennirnir á staðnum. Lauk þeim samningum eftir harðvítuga baráttu með sigri félaganna. Þar skuldbundu atvinnurekendur sig til að láta heimilisfast fólk á Eskifirði ganga fyrir um vinnu. þá var það athyglisverða nýmæli sett inn í samningana að þegar konur ynnu þá vinnu sem almennt teldist til karlmannsverka, skyldu þær fá karlmannskaup. Enn þann dag í dag er verið að berjast fyrir því sem þarna var skrifað upp á í samningum en með mjög misjöfnum árangri þó. Er það þá kallað að krefjast sömu launa fyrir sömu vinnu. Samt teljast konur enn ekki njóta launa til jafns við karla þótt 78 ár séu liðin frá þessum samningum á Eskifirði. Framtíðin sameinaðist Verkamannafélaginu Árvakri árið 1971. Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar. Félagið var stofnað 10. desember 1935. Félagið gekk í gekk í Alþýðusamband Íslands sama ár. Það var Jón Sigurðsson, erindreki Alþýðusambandsins, sem hafði forgöngu um stofnun félagsins í samráði við heimamenn. Félagssvæðið var samkvæmt lögum félagsins Fáskrúðsfjarðarhreppur og Búðarhreppur. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Kr. Guðmundsson, síðar kaupfélagsstjóri á Akranesi. Með honum í stjórninni voru Lárus Guðmundsson, Guðmundur Stefánsson, Vilhjálmur Jóhannsson og Bjarni Þórlindsson. Valdimar Bjarnason var lengi formaður félagsins. Eiríkur Stefánsson, var formaður félagsins um nær tveggja áratuga skeið. Hann var kosinn formaður 1983 og var í þeirri stöðu allt þar til félagið rann inn í AFL árið 2001. Árin sem Eiríkur var við formennsku var mikill átakatími. Helsti vinnuveitandi í upphafi ferils hans í formannssæti var söltunarstöðin Pólarsíld, stærsta söltunarstöð landsins með um 200 starfsmenn. Voru oft hörð átök um kaup og kjör en Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar hafði þann metnað að semja sjálft um kjör síns fólks heima í héraði. Það var ekki gert baráttulaust. Eftir að Pólarsíld komst í þrot skömmu eftir 1990 missti mikill fjöldi fólks vinnu sína og varð mikil fólksfækkun við það í plássinu. Eftir gjaldþrot Pólarsíldar stóð Kaupfélag Fáskrúðsfjarðar eftir sem stærsti vinnuveitandinn á staðnum. Kaupfélagið gerði út tvo og um tíma þrjá togara og rak frystihús og loðnubræðslu. Um svipað leyti og Eiríkur tók við formennsku í verkalýðsfélaginu, tók jafnaldri hans, Gísli Jónatansson frá Vestmannaeyjum, við stöðu kaupfélagsstjóra. Á milli þessara manna urðu oft mikil átök þegar semja þurfti um kaup og kjör og voru verkalýðsmálin oft tilefni frétta í dagblöðum landsmanna. Eiríkur hélt baráttunni áfram sem formaður fyrir sitt félag allt þar til það sameinaðist AFLi árið 2001. Þá hélt Eiríkur áfram störfum fyrir AFL í tæpt ár eftir sameininguna. Verkalýðsfélag Norðfirðinga og forverar þess. Heimildir benda til þess að fyrsta tilraun verkafólks á Norðfirði til að bindast samstökum og standa vörð um hagsmuni sína hafi hafist árið 1905. Félagið var nefnt Vinnufólksfélag Norðfjarðar og átti erfitt uppdráttar og bendir þest til að lífdagar þess hafi ekki verið langir. Næsta tilraun norðfirskrar alþýðu til að kom á fót stéttarfélagi var árið 1915 og var Verkamannafélagið Starfandi stofnað 11. apríl það ár. Stofnfélagar voru 48, allt karlmenn, og kusu þeir fyrstu stjórn félagsins og skipuðu hana: Jón Einarsson formaður, Guðjón Símonarson ritari og Sigurjón Magnússon féhirðir. Í varastjórn voru þessir: Þorsteinn Einarsson varaformaður, Sigurður Jónsson á Tröllanesi, vararitari og Guðjón Hjörleifsson varaféhirðir. Heimildir um starfsemi Verkamannafélagsins Starfandi eru ekki miklar en fram kemur þó að frá stofnun þess til 6. maí 1917 hafi verið haldnir 17 fundir en lengra ná heimildir ekki. Alls munu um 90 manns hafa gengið í félagið á líftíma þess, þar af tvær konur, þær Kristín Ágústsdóttir og Kristín Stefánsdóttir en þær voru meðal þeirra sem sögðu sig þjótlega úr því. Algengt var að menn segðu sig úr félaginu til að komast hjá því að gegna trúnaðarstörfum fyrir það og má álykta að þeir sem voru í forsvari þess hafi orðið fyrir Verkalýðsfélag Norðfjarðar. Félagið var stofnað 30. maí árið 1922 í Góðtemplarahúsinu á Norðfirði. Gekk félagið strax við stofnun í ASÍ. Félagssvæðið varNorðfjarðar. Stofnendur og aðalhvatamenn að stofnun félagsins voru þeir Ólafur Friðriksson, Guðjón Símonarson, Jón Rafnsson og þeiri. Fyrsti formaður félagsins var Jón Rafnsson (yngri). Með honum í stjórninni voru Guðjón Símonarson og Vigfús Sigurðsson. Strangt til tekið verður að líta á ?? sem hinn eiginlega stofndag en þá var fyrsta raunverulega stjórn félagsins kjörin. Á þennan fund komu 52 félagsmenn en alls voru stofnendur taldir 60. Í stjórn voru kjörnir: Jón Rafnsson yngri, formaður, Ingimann Ólafsson varaformaður, Steinn Jónsson ritari, Vigfús Sigurðsson gjaldkeri og Guðjón Símonarson fjármálaritari. Í bók Jón Rafnssonar, Vor í véum, segir að nokkurs uggs hafi gætt í herbúðum stórkaupmanna við komu Ólafs Friðrikssonar til Norðfjarðar og stofnun Verkalýðsfélags Norðfjarðar í kjölfar hennar. Eftir að Verkalýðsfélagi Norðfjarðar var vikið úr Alþýðusambandi Íslands árið 1939 var stofnað annað félag, Verkalýðsfélag Neskaupstaðar. Miklar pólitískar deilur settu svip sinn á starfsemi beggja félaganna en innan Verkalýðsfélags Norðfjarðar hafði alla tíð verið mikil pólitísk starfsemi. Þann 3. september 1942 var haldinn stofnfundur nýs verkalýðsfélags í Neskaupstað en bæði félögin sem áður eru nefnd höfðu samþykkt að hætta störfum ef verkalýður bæjarins yrði sameinaður í einu félagi. Stofnun Verkalýðsfélags Norðfirðinga markar tímamót í sögu norðfirskrar verkalýðshreyfingar. Með stofnun félagsins var norðfirsk alþýða sameinuð í einu félagi og pólitískar deilur heyrðu sögunni til. Formenn Verkalýðsfélags Norðfjarðar og Verkalýðsfélags Norðfirðinga frá upphafi eru þessir: Jón Rafnsson yngri, Pétur Sveinbjörnsson, Jónas Guðmundsson, Þorvaldur Sigurðsson, Jóhannes Stefánsson, Bjarni Þórðarson, Örn Scheving, Sigfinnur Karlsson, Jón Ingi Kristjánsson, Einar Guðmundsson og Guðmundur Sigurjónsson. Baráttudagur alþýðunnar, 1. maí, var fyrst haldinn hátíðlegur á Norðfirði árið 1927. Mikil félagsstarfsemi var innan Verkalýðsfélags Norðfjarðar. Þar störfuðu meðal annars lesflokkar og lestrarfélag, nefndir um leiklist og söng og nefnd sem var ætlað að starfa að skemmtunum og alls konar gleðskap og fræðslu innan félagsins. Frá árinu 1978 hefur Verkalýðsfélag Norðfirðinga og síðar AFL - Starfsgreinafélag Austurlands, verið til húsa að Egilsbraut 11 í Neskaupstað. Það lýsir kannski best þeirri pólitísku hugsjón, sem um áraraðir var innan félagsins, að húsið að Egilsbraut 11 hefur, og þykir við hæfi í ljósi sögunnar, um árabil gengið undir nafninu „Kreml" Sigfinnur Karlsson. Ekki er á neinn hallað þótt sagt sé að Sigfinnur Karlsson sé sá maður á Austurlandi sem til þessa hafi lagt mest af mörkum til verkalýðshreyfingarinnar, ekki bara í Verkalýðsfélagi Norðfirðinga, heldur og Alþýðusambandi Austurlands og víðar. Sigfinnur lauk prófi frá Alþýðuskólanum á Eiðum og hóf snemma afskipti af verkalýðsmálum eða árið 1942 er hann var kosinn formaður Vélstjórafélagsins Gerpis í Neskaupstað. Frá þeim tíma og allt fram til ársins 1994 starfaði Sigfinnur óslitið að verkalýðsmálum. Hann sat í stjórn Verkalýðsfélags Norðfirðinga í 41 ár, þar af var hann formaður í 25 ár. Þá sat hann lengi í stjórn Alþýðusambands Austurlands og var forseti þess í 17 ár. Sigfinnur var í stjórn Verkamannasambands Íslands í 23 ár og átti einnig lengi sæti í framkvæmdastjórn þess. Þá var hann fyrsti formaður fiskvinnsludeildar Verkamannasambandsins. Sigfinnur sat í stjórn og framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands í um 20 ár. Sigfinnur beitti sér mjög fyrir byggingu orlofshúsa verkalýðsfélaga á Austurlandi á Einarsstöðum. Hann var einn af stofnendum Síldarvinnslunnar og Alþýðubankans og rak flutningafyrirtæki ásamt syni sínum í mörg ár. Árið 2000 voru Sigfinnur og eiginkona hans, Valgerður Ólafsdóttir, sem lifði eiginmann sinn, gerð að fyrstu heiðursfélögum Verkalýðsfélags Norðfirðinga. Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar. Félagið varð til við samruna tveggja félaga árið 2000. Upphafið má raunar rekja til 27. október árið 1951. Þá stofnuðu 17 karlar í Egilsstaðahreppi Verkalýðs- og bílstjórafélag Egilsstaðahrepps. Í fyrstu stjórn voru kjörnir: Ari Björnsson formaður, Steinþór Erlendsson gjaldkeri, Björgvin Hrólfsson ritari og meðstjórnendur voru Bergur Ólason og Vilhjálmur Emilsson. Nafni Verkalýðs- og bílstjórafélags Egilsstaðahrepps var breytt í Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs þann 15. maí árið 1971. Þá var Héraðið orðið viðurkennt sem eitt atvinnusvæði sem það hafði þó raunar verið því að sveitafólk stundaði mjög mikið vinnu í þéttbýlinu. Verkalýðsfélag Borgarfjarðar sameinaðist svo Verkalýðsfélagi Fljótsdalshéraðs og hét félagið eftir það VFB, Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar. Síðasti formaður VFB fyrir sameininguna við AFL var Eyþór Guðmundsson. Verkamannafélagið Fram á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði var stofnað eitt elsta verkalýðsfélag landsins árið 1896. Þá var haldinn stofnfundur verkamannafélags á heimili Jóhannesar Oddssonar. Með honum stóðu að þessari uppákomu þeir Einar Long, Anton Sigurðsson frá Akureyri og fleiri. Virðist sem framhaldsstofnfundur hafi verið haldinn 1. maí 1897 og telst félagið þá formlega hafa verið stofnað. Birti Þorsteinn Erlingsson lög félagsins í blaðinu Bjarka á Seyðisfirði á stofndaginn 1. maí, en hann var þá ritstjóri blaðsins. Fyrsti formaður Verkamannafélags Seyðisfjarðar var Anton Sigurðsson. Félagið starfaði fram yfir aldamótin 1900 eða til 1902 eða 1903. Verkamannafélagið Fram. Aftur var haldið af stað með stofnun verkamannafélags á Seyðisfirði sem fékk nafnið Fram og var stofnað 18. janúar árið 1904 að Austurvegi 38 (Góðtemplarahúsinu) en undirbúningsfundur hafði verið haldinn 13. janúar sama ár. Fyrsti formaður nýja félagsins var Hermann Þorsteinsson. Með honum í stjórn, sem reyndar var til bráðabirgða, voru Tryggvi Guðmundsson ritari og Páll Árnason gjaldkeri. Viku seinna eða þann 25. janúar var haldinn annar fundur og þá ákveðið að halda aðalfund 1. febrúar. Á aðalfundinum var kosin fimm manna stjórn og í fundargerð er tekið fram að fundurinn hafi verið fjölmennur. Formaður var kosinn Hermann Þorsteinsson, varaformaður var Árni Þórðarson, ritari Tryggvi Guðmundsson, gjaldkeri Páll Árnason og Pétur Jóhannsson var vararitari. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands árið 1930. Síðasti formaður félagsins fyrir sameingu AFLs Verkakvennafélagið Brynja. Verkakonur stofnuðu með sér Verkakvennafélagið Brynju á Seyðisfirði þann 3. mars árið 1938. Það var mikill baráttukraftur í konum þeim sem þar komu við sögu og ekki neinn uppgjafartónn. Félagið gekk í ASÍ þann 22. mars sama ár. Fyrsti formaður Brynju var Valgerður Ingimundardóttir. Meðal annarra kvenna sem gegndu þar formennsku voru Sigrún Einarsdóttir og Ingibjörg Hjálmarsdóttir. Eftir seinni heimsstyrjöldina var mikill kraftur í starfssemi Brynju og var alla tíð fram yfir 1960. Óvíst er hins vegar hvenær Brynja hætti starfsemi þar sem ekki er vitað til þess að hún hafi nokkurn tíma verið afskrifuð formlega. Þegar atvinna jókst á Seyðisfirði á árunum fyrir 1970 gerðist það að konur gengu frekar í Verkamannafélagið Fram en í Brynju. Mun það smám saman hafa dregið kraftinn úr starfsemi Brynju sem á endanum lagðist af. Enginn virðist vita hvað varð um fundargerðarbækur félagsins og eru flest allir frumkvöðlar félagsins látnir. Verkalýðs-og sjómannafélag Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps. Þetta félag varð til við samruna félaganna tveggja í Vopnafirð árið 1998. Annað þeirra var Verkalýðsfélag Vopnafjarðar sem st1922. Breyting var hins vegar gerð á nafni félagsins á aðalfundi 1950 og kallaðist þá félagið í fyrsta sinn Verkalýðs- og sjómannafélag Vopnafjarðar. Félagið gekk í ASÍ árið 1934. Síðasti formaður þessa félags fyrir samruna félaganna tveggja var Sigurbjörn Björnsson. Hitt félagið var Verkalýðsfélag Skeggjastaðahrepps sem stofnað var á Bakkafirði þann 23. nóvember árið 1921. Félagið gekk í ASÍ 21. apríl árið 1947. Síðasti formaður félagsins fyrir samrunann við félagið á Vopnafirði var Aldís Gunnlaugsdóttir. Síðasti formaður hinna sameinuðu félaga undir nafni Verkalýðs- og sjómannafélags Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps fyrir samrunann í AFL, var Sigurbjörn Björnsson á Vopnafirði. Iðnsveinafélag Fljótsdalshéraðs. Samkvæmt heimildum á Héraðsskjalasafni Austurlands var stofnað Iðnaðarmannafélag Fljótsalshéraðs þann 9. maí 1954. Átta manns voru á þessuog var Guðmundur Magnússon kosinn formaður. Á aðalfundi Iðnaðarmannafélagsins 19. október árið 1968 var samþykkt að stofna nýtt félag. Í framhaldi af því varð til nákvæmlega ári seinna Iðnsveinafélag Fljótsdalshéraðs sem var stofnað þann 19. október 1969. Formaður var kjörinn Sigurður Magnússon og voru stofnfélagar 34. Í gjörðabókum félagsins, sem ná yfir tímabilið frá stofnun þess til 20. desember 2001, er talað um sameiningu félaganna en ekki bókað um samruna við AFL. Síðasti formaður Iðnsveinafélags Fljótsdalshéraðs fyrir sameininguna við AFL var Hjálmþór Bjarnason. Málm- og skipasmiðafélag Neskaupstaðar. Þann 15. október árið 1964 var haldinn fundur járniðnaðarmanna, skipasmiða og bifvélavirkja í Neskaupstað. Tilgangur fundarins var að stofna hagsmunasamtök þessara stétta og var Snorri Jónsson frá Sambandi málmiðnaðar og skipasmiða í Reykjavík, sérstakur gestur fundarins. Hann skýrði tilgang hliðstæðra félaga og gerði ráð fyrir að hér yrði um sveinafélag að ræða. Á fundinum kom fram fyrirspurn um hvort ekki væri heppilegra að stofna deild þessara stétta innan Iðnaðarmannafélags Norðfjarðar (IN). Fram kom að deild innan þess félags fengi ekki inngöngu í Málmiðnaðar- og skipasmíðasambandið og voru flestir fundar menn á þeirri skoðun að „deild innan IN yrði þessum stéttum fjötur um fót, einkum í launa- og kjaramálum“. Leynileg kosning fór fram um tillögu um að stofna félag járn- og skipasmiða og bifvélavirkja í Neskaupstað og var hún samþykkt með níu atkvæðum, tveir seðlar voru auðir. Kosið var í fyrstu stjórn hins nýja félags og hlutu kosningu Bjarki Þórlindsson formaður, Björgvin Jónsson ritari og Sigurður G. Björnsson gjaldkeri, en hann var aðalhvatamaður að stofnun félagsins. Ljóst er af lestri fundargerðabókar félagsins að talsvert hefur verið um samningafundi og þá aðallega við stærstu fyrirtæki bæjarins, Dráttarbrautina hf. og Síldarvinnsluna hf. Í árslok 1998 er farið að huga að samstarfi við Verkalýðsfélag Norðfirðinga og þann 1. janúar 1999 tók skrifstofa VN við öllum rekstri Málm- og skipasmiðafélagsins. Í síðustu fundargerðinni kemur fram að öll þjónusta við félagsmenn hafi gjörbreyst við þessa tilhögun. Síðasti skráði stjórnarfundur er 28. mars 1999 en trúlega hafa verið einhverjir fundir eftir það þótt þeir hafi ekki verið færðir til bókar. Síðasti formaður félagsins var Guðjón B. Magnússon. Lilienfeld. Útsýni úr klaustrinu yfir Lilienfeld Lilienfeld er bær í Niederösterreich í Austurríki og er höfuðstaður samnefnds hrepps. Áætlaður íbúafjöldi er 3.002 manns. Bærinn er þekktur fyrir klaustrið sem þar liggur.Í gegn um bæinn liggur Via Sacra en það var einn af aðalvegum Rómaveldis forðum og liggur til Rómar. Stór hluti vegarins í Austurríki var þó hluti af heilagri ferð krossfara, en hún var frá Vínarborg til Mariazell. Rabarbari. Rabarbari (eða tröllasúra) (fræðiheiti: "Rheum rhabarbarum" eða "Rheum x hybridum") er garðplöntutegund af súruætt. Stöngull rabarbarans er rauðleitur, stökkur og getur orðið jafn breiður og barnshandleggur. Blaðið upp af stilknum er mikið og breitt og grófgert og er stundum nefnt "rabarbarablaðka". Til eru ýms afbrigði af rabarbara; algengust eru: Linnæus og Victoria. Stilkur rabarbarans er mikið notaður í sultugerð, rabarbarasúpu og stundum einnig í saft- og víngerð. Neðsti hluti stilksins er hvítur og er oft soðinn niður. Sá hluti rabarbarans nefnist "rabarbarapera" vegna þess að hann líkist mjög flysjaðri peru, þ.e.a.s. sé búið að skera hann frá leggnum. Stilkur rabarbarans inniheldur talsvert magn af oxalsýru sem gerir hann súran. Oxalsýran í rabarbara er í það miklum styrk að hún getur haft óæskileg áhrif á nýrnastarfsemi og ætti að minnsta kosti ekki að neyta mikils af honum. Mikil neysla rabarbara getur einnig eytt glerungi tanna. Orðsifjar. Orðið rabarbari er komið úr grísku: "rha barbaron". Orðið "rha" er fornt skýþiskt nafn á ánni Volgu og "barbaron" þýðir erlendur. Rabarbari var til forna ræktaður í Kína og Tíbet og var löngum fluttur til Evrópu frá Rússlandi. Weasley-fjölskyldan. Wealey-fjölskyldan er uppspuninn fjölskylda af galdramönnum sem koma fram í sögum J.K. Rowling um Harry Potter. Yngsti sonurinn, Ron Weasley, sem er besti vinur Harrys Potter. Weasley-fjölskyldan er ein af þeim fáu hrein-blóðs fjölskyldum sem eru eftir,en þau eru talinn blóðsvikarar út af því að þau tengjast svo mörgu ekki-hrein-blóðs-fjölskyldum. Weasley-hjóninn eiga sjö börn, öll rauðhærð með freknur. Öll Weasley-fjölskyldan hefur verið sett í Gryffindor í Hogwarts-skóla. Öll Weasley börnin, nema Bill og Percy sem voru báðir yfir-strákar, eru þekkt fyrir að hafa sem með Quiddich-liði Gryffindor-heimavistarinnar, sem Charlie var fyrirliði í allavega eitt af skólaárum sínum, Charlie, Bill, Percy og Ron voru allir valdir sem „prefects“ sem eru nokkurs konar gangaverðir og athuga hvort að allir séu ekki á sínum stað. Allir í Weasley-fjölskyldunni vinna fyrir Fönixregluna, nema Ron, Percy og Ginny. Barbari. Barbari er orð sem er haft um siðleysingja eða rusta. Orðið barbarar í fleirtölu er haft um hálfsiðaðar þjóðflokka (eða þjóðir) sem ekki hafa enn komist á svokallað siðmenningarskeið, þ.e. að mati þess sem notar orðið. Orðsifjar. Orðið barbari er úr grísku: βάρβαρος (bárbaros). Orðið er hljóðlíking og vísar til þess þegar einhver heyrir tungumál talað, skilur það ekki og orðin renna saman í endurtekin hljóð, en í forngrískum eyrum varð slíkt tal að: "bar bar". Á íslensku er "bla bla" samskonar orð, þ.e.a.s. er hljóðlíking á samhengislausu blaðri. Málfrelsi. Málfrelsi eða tjáningarfrelsi eru þau mannréttindi að geta tjáð skoðanir sínar án ritskoðunar eða þvingana. Málfrelsi er tryggt í stjórnarskrá Íslands og í fjölmörgum alþjóðasáttmálum, þ.m.t. í 19. grein Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Yfirleitt er fjallað um málfrelsi og tjáningarfrelsi sem sama hlut þar sem málfrelsi er ekki talið eiga aðeins við munnlega eða skriflega tjáningu heldur og alla miðla, t.d. myndlist. Deilur um málfrelsi snúast oft um rétt manna til að tjá skoðanir sem aðrir telja skaða sig eða sína hagsmuni. Á Vísindavefnum kemur fram að „[m]annréttindi eins og málfrelsi og ferðafrelsi eru yfirleitt skilin svo að réttur hvers og eins takmarkist af réttindum hinna. Við búum við ferðafrelsi en við megum samt ekki fara bókstaflega hvert sem er, til dæmis megum við ekki ganga inn í annarra hús án leyfis og þótt okkur leyfist að aka hvert á land sem er megum við ekki aka á annað fólk. Réttur okkar til að ferðast frjálst um allar trissur takmarkast af rétti annarra til að hafa frið fyrir átroðningi. Á sama hátt takmarkast málfrelsið af rétti annarra til að njóta sannmælis.“ Friedrich Schiller. Johann Christoph Friedrich von Schiller oftast nefndur Friedrich Schiller (fæddur 10. nóvember 1759 í Marbach am Neckar, dáinn 9. maí 1805 í Weimar) var þýskur rithöfundur. Schiller, Friedrich Vermaland. Vermaland (sænska: "Värmland") er hérað í Mið-Svíþjóð til vesturs og liggur upp að landamærum Noregs. Selma Lagerlöf bjó í Vermalandi á bæ sínum "Mårbacka," en hún var fædd í héraðinu. Þetta gamla heimili hennar er núna safn. Sjálfsbjörg. Sjálfsbjörg - Landssamband fatlaðra er regnhlífasamtök hagsmunasamtaka fatlaðra á Íslandi. Í 3. grein laga þeirra segir að hlutverk þeirra sé m.a.; „að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra, á öllum sviðum þjóðlífsins, með því að hafa áhrif á ríkis- og sveitarstjórnir, hagsmunasamtök og einstaklinga og með því að vekja áhuga almennings á málefnum þeirra með útgáfu og kynningarstarfsemi.“ Saga. Fyrsta Sjálfsbjargarfélagið var stofnað á Siglufirði þann 9. júní 1958 og á sama ári voru stofnuð félög í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og í Árnessýslu. Landssamband Sjálfsbjargar var svo stofnað ári seinna, 4. júní 1959 og sama ár bætast við félög í Bolungarvík og í Vestmannaeyjum. Árið 1960 á Húsavík, 1961 á Suðurnesjum og 1962 á Sauðárkróki. Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) var stofnað árið 1961 en Ólöf Ríkarðsdóttir, ritari Sjálfsbjargar hafði frumkvæði að því. Í dag er Sjálfsbjörg aðildarfélag ÖBÍ. Árið 1963 hóf Sjálfsbjörg samstarf við norræn systursamtök í gegnum "Nordisk Handikap Förbund". Sama ár gefa aðildarfélögin Sjálfsbjörgu fundarhamar úr fílabeini eftir Ríkarð Jónsson, myndhöggvara. Ríkarður samdi vísubrot sem síðan þá hefur verið einkunnarorð samtakanna „Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn“. Árið 1970 voru Sjálfsbjargarfélög stofnuð í Stykkishólmi, á Akranesi árið 1970 og árið 1974 í Neskaupstað. Sjálfsbjörg kom að stofnun Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík ásamt ÍSÍ árið 1974. Árið 1976 kom Sjálfsbjörg að stofnun Hjálpartækjabankans sem var seldur Össuri hf. árið 1995. Sjálfsbjörg skipulagði „jafnréttisgöngu“ fatlaðra 1978 í tilefni árs fatlaðra og um 10 þúsund manns mæta á baráttufund til að sýna stuðning við fatlaða. Árið 1981 var stofnað Sjálfsbjargarfélag í Austur-Húnavatnssýslu, árið 1984 á Höfn í Hornafirði og á Vopnafirði árið 1991. Þá voru félögin innan landssambandsins orðin 16. Árið 1993 tók hópur manna sig saman og stofnaði „Hollvini Sjálfsbjargar“, samtök einstaklinga sem leggur reglulega fram fasta upphæð til styrktar samtökunum. Árið 1996 gerðist Félag heilablóðfallsskaðaðra aðili að Sjálfsbjörg. Skugga-Sveinn. Skugga-Sveinn (en hét upphaflega Útilegumennirnir) er leikrit eftir Matthías Jochumsson. Skugga-Sveinn var samið í jólaleyfinu 1861, en Matthías var þá í 5. bekk Latínuskólans og fluttu skólapiltar leikritið í febrúar 1862. Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar. Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var eitt þriggja stofnfélaga AFLs Starfsgreinafélags 28. apríl 2007. Félagið var minnst stofnfélaga AFLs en auk Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar voru stofnfélög AFLs, AFL Starfsgreinafélag Austurlands og Vökull Stéttarfélag. Upphafið. Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var eitt af elstu starfandi verkalýðsfélögum landsins er það sameinaðist í AFL Starfsgreinafélag en það var tæplega 100 ára gamalt við sameininguna. Til undirbúningsfundar var boðað milli jóla og nýárs árið 1907. „Að kvöldi þess 29. desember 1907 var fundur haldinn í bindindisfélagshúsinu til að ræða um stofnun verkamannafélags í Reyðarfjarðarhreppi. Á fundinum voru mættir 16 menn“, segir í fyrstu fundargerð félagsins. Á þessum fundi voru lagðar fram tillögur um nafn félagsins og árstillag. Fimm manna nefnd var kjörin til að semja lög og reglur félagsins. Verkamenn á Reyðarfirði fóru strax í undir-búningsvinnu og sunnudaginn 19. janúar 1908 var stofnfundurinn haldinn. Fundarstjóri var kjörinn Guðmundur Jónsson sem einnig hafði stýrt undirbúningsfundinum. Þegar hér var komið við sögu höfðu fimm menn bæst í hópinn og voru stofnfélagar því alls 21. Fyrstu lög félagsins í 16 greinum voru samþykkt og fyrsta stjórn kjörin. Í henni sátu Sigurjón Gíslason formaður, Eiríkur Beck varaformaður og Guðmundur Jónsson gjaldkeri, en hann skrifaði einnig fundargerðirnar. Endurskoðendur reikninga voru kosnir Hallgrímur Bóasson og Valdimar Þorgrímsson. Stjórn félagsins var falið að semja reglur um sjóð félagsins og samþykkt að meðlimir greiddu fyrsta gjald sitt í félagið á næsta fundi. Verkamannafélag Reyðarfjarðarhrepps var því komið á skrið í stéttabaráttunni og á þriðja fundinum var samþykkt kaupgjaldskrá fyrir félagsmenn. Það má sjá á fundargerð frá árinu 1913 að safnast höfðu í sjóði félagsins 120,88 krónur. Þá voru félaginu færðar fimm krónur í áheit frá félagsmanni. Í reglum félagsins frá árinu 1914 segir að tilgangur félagsins sé að stuðla að réttindum og hag félagsmanna og árgjald til félagsins skuli vera 1 króna. Í 6. grein félagslaganna er ákvæði um að enginn félagsmaður megi koma ölvaður til vinnu eða hafa vín um hönd meðan á vinnu stendur. Í næstu grein þar á eftir er ákvæði um að félagsmenn séu skyldir að halda sig vel að vinnu! Á þessum árum voru laun félagsmanna ákveðin 25 aurar á tímann í dagvinnu og 35 aurar í eftirvinnu yfir vetrarmánuðina. Tímalaun á sumrin voru 40 aurar í dagvinnu og 50 aurar í eftirvinnu. Félagið endurreist og gengur í ASÍ. Starfsemi félagsins lá niðri í nokkur ár en árið 1933 var aftur blásið til sóknar hjá verkamönnum á Reyðarfirði og boðað til fundar þann 1. apríl það ár. Fundurinn var haldinn í Barnaskóla Reyðarfjarðar og var hann fjölmennur eins og tiltekið er í fundargerðabókum frá þeim tíma. Á þeim fundi var lagt til að félagið gengi til liðs við Alþýðusamband Íslands. Félagsmenn voru alls ekki sammála um nauðsyn þess að vera innan ASÍ og einn félagsmaður taldi samtökin „of pólitísk“. Eftir snarpar umræður var samþykkt að sækja um inngöngu í Alþýðusamband Íslands. Árið eftir á aðalfundi 1934 voru félagsmenn 83 talsins og höfðu 80 af þeim greitt árgjaldið til félagsins. Heildartekjur félagsins voru 423 krónur. Tímalaun í dagvinnu voru komin í 90 aura og 1,10 krónur í eftirvinnu að lágmarki. Hærra var greitt fyrir vinnu við uppskipun og í kola- og saltvinnu. Á þessum fyrsta aðalfundi eftir endurreisn samþykkti félagið áskorun til ASÍ um að samtökin beittu sér fyrir samræmingu á kjörum vegavinnumanna um landið. Einnig var stofnuð nefnd til að athuga um möguleika á að koma á fót samvinnuútgerð í þorpinu. Næstu árin starfaði félagið af krafti í kjarabaráttu fyrir félagsmenn sína. Kaupgjald var samræmt við önnur verkamannafélög á Austurlandi árið 1947. Það sama ár voru félagsmenn með gilda samninga og neitaðu þeir að segja upp samningum með ASÍ. Hins vegar samþykkti fundurinn áskorun til ASÍ um að sambandið tæki upp samvinnu við ríkisstjórnina um áframhaldandi nýsköpun atvinnuveganna. Í febrúar árið 1952 var nafni félagsins breytt úr Verkamannafélagi Reyðarfjarðarhrepps í Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar. Vökull Stéttarfélag. Vökull Stéttarfélag var eitt þriggja stofnfélaga AFLs Starfsgreinafélags 28. apríl 2007. Inngangur. Vökull Stéttarfélag varð til þann 31. október 1999 þegar Verkalýðs- og sjómannafélag Stöðvarfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs og Verkalýðsfélagið Jökull á Hornafirði voru sameinuð. Hugmyndir um sameiningu félaga innan Alþýðusambands Austurlands höfðu af og til stungið upp kollinum og um miðjan 10. áratuginn kom fram tillaga á þingi Alþýðusambands Austurlands um að sameina öll félögin á Austurlandi í eitt félag. Þótti mörgum tillagan víðáttuvitlaus. Þróunin hin síðari ár hefur hins vegar verið sú að félög hafa í auknum mæli sameinast. Aðalhvatinn að sameiningu félaganna sem mynda Vökul var einkum sú að félögin töldu að með því að sameina krafta sína í eitt félag gæti það boðið félögum sínum betri þjónustu, yrðu sterkara afl og með betri baktryggingu í sjóðum en hvert og eitt þeirra gat áður, en um þúsund manns voru í hinu nýja félagi við stofnun þess. Félagssvæðið Vökuls náði frá Skeiðarársandi í vestri til Merkigils norðan Stöðvarfjarðar í austri. Félagið var deildaskipt með fjórum deildum starfandi innan þess; almenn deild verkafólks, sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og deild verslunar- og skrifstofufólks. Fyrsti formaður hins sameinaða félags var Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir. Margvísleg verkefni biðu nýrrar stjórnar. Í fyrstu var lögð áhersla á að hrista félagið saman. Starfsemi félagsins var áfram með líku sniði og verið hafði í félögunum. Áfram voru reknar þjónustuskrifstofur á Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi. Aðalskrifastofan var á Hornafirði. Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga. Félagið var stofnað haustið 1952 á lofti saltverkunarhúss í Selnesi. Þar var þá mötuneyti. Hvatamenn að þeirri stofnun voru Guðmundur Sigurðsson afgreiðslumaður, Arnarhvoli, Bárður Gunnarsson verkamaður, Sólheimum og Gísli Guðnason símstöðvarstjóri í Selnesi. Sátu þeir í fyrstu stjórninni. Hvatinn að stofnunni var ekki vegna einstæðs atviks heldur eðlileg framvinda mála þar sem verkalýðsfélög höfðu verið stofnuð í nágrannasveitarfélögunum. Ekki er vitað um fjölda stofnfélaga og fátt er vitað um starfsemina fyrsta áratuginn. Árið 1963 urðu vatnaskil í sögu félagsins. Komu þau í kjölfar vaxandi atvinnuuppbyggingar. Tveir stórir bátar komu í plássið árið 1958 og 1961. Síldarsöltun hófst árið 1961 og bygging síldarverksmiðju og rekstur hófst 1963. Þessi umsvif kölluðu á virkt stéttarfélag. Á aðalfundi 1. maí 1965 voru fyrstu lög félagsins rædd og ákveðið að segja upp samningum, vafalítið í fyrsta sinn. Þá var samþykkt að stofna sjúkrasjóð. Sama ár var auglýstur taxti lagður fyrir atvinnurekendur á staðnum. Fól hann í sér 2% meiri hækkun en samningur sá er flest verkalýðsfélög á Norður- og Austurlandi höfðu skrifað undir. Þetta þótti atvinnurekendum á staðnum vera afarkostir og neituðu að semja. Ákvað VB að fara í verkfall. Lyktir urðu þær að samkomulag náðist um einhverja moðsuðu úr fyrrgreindum samningum. Merkileg tímamót urðu í sögu félagsins á aðalfundi 5. ágúst 1976. Í aðalstjórn voru kosnar þrjár konur: Steina Þórarinsdóttir formaður, Áslaug Arthursdóttir gjaldkeri og Erna Hjartardóttir ritari. Ef til vill er þetta fyrsta blandaða stéttarfélagið á landinu þar sem eingöngu konur setjast í aðalstjórn. Á stjórnarfundi 13. október 1980 var samþykkt að breyta félagsgjöldum á þann hátt að taka prósentugjöld af vinnulaunum í stað þess að nota fasta krónutölu og afnema um leið svo kallað aukafélagsgjald. Fyrsta prósentan var 0,75%. Síðla árs 1981 var í fyrsta sinn samþykkt að veita átta útlendingum atvinnuleyfi. Þá var samþykkt að fá heilbrigðisnefnd til að gera úttekt á íbúðarhæfni „gamla kaupfélagsins“, eins og segir í fundargerð. Þar með var brotið blað í sögu þess merkilega húss. Pöntunarfélag á vegum félagsins var komið á fót 1988 en það starfaði í skamman tíma. Þeir sem lengst sátu í stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Breiðdælinga voru: Skúli Hannesson sem gegndi formannsstöðu í 13 ár, Bragi Björgvinsson sem var ritari í 12 ár og í stöðu gjaldkera sat Sigmar Pétursson í 12 ár. Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs. Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs var stofnað 2. júlí 1937 í gamla barnaskólanum á Djúpavogi. Fyrsti formaður félagsins var Sigurgeir Stefánsson frá Hamri í Hamarsfirði. Með honum í fyrstu stjórninni voru Ásbjörn Karlsson ritari, Geysi og Hlöðver Lúðvíksson gjaldkeri, Sunnuhvoli. Stofnendur voru rétt um 30 talsins. Helstu forvígismenn að stofnun félagsins munu hafa verið Sigurgeir Stefánsson og Ásmundur Guðnason frá Borg á Djúpavogi ásamt nokkrum fleiri áhugamönnum um verkalýðsmál. Báðir þessir menn unnu ósleitilega að málum félagsins meðan þeirra naut við. Félagssvæðið náði yfir Djúpavogskauptún og Hálsþorpsbæi eða hinu fornu Hálsþingá. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands 9. ágúst 1937. Getið er í fundargerðum um að komið hafi til átaka út af kaupgjaldsmálum á fyrstu árum félagsins og minnst er á verkföll þrisvar en þau munu hafa staðið stutt. Eins og önnur sambærileg félög sá Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs um samningsmál verkafólks og sjómanna og auk þess stóð það að ýmsum góðum málum í byggðarlaginu. Félagið átti stóran þátt í byggingu húss í félagi við Slysavarnafélagið Báru. Eignarhlutur félagsins var 65% á móti 35% hjá Bárunni. Húsið var formlega tekið í notkun á sjómannadaginn 6. júní 1993 og hlaut nafnið Sambúð. Þar er aðstaða fyrir ýmis konar félagsstarfsemi og geymsla fyrir björgunarbúnað. Verkalýðs‐ og sjómannafél. Stöðvarfjarðar. Verkalýðsfélag Stöðvarfjarðar var stofnað á fundi í gamla skólanum á Stöðvarfirði 24. ágúst 1944. Til fundarins boðuðu Lúðvík Jósepsson og Jóhannes Stefánsson, erindreki Alþýðusambands Austfjarða, en þeir voru saman á ferð á vegum Alþýðusambandsins til að heimsækja verkalýðsfélög og stofna ný. Hvatti Jóhannes eindregið til þess að stofnað yrði verkalýðsfélag á Stöðvarfirði þar sem verið væri að byggja hafnarbryggju og einnig var ljóst að nokkuð yrði um vegagerð næstu árin. Á stofnfundinum var Kristinn Helgason kosinn formaður. Stofnfélagar voru 24. Á fyrsta fundinum var ákveðið að inntökugjald yrði 5 krónur og árgjald 10 krónur. Einnig var samþykkt að vinnutími skyldi vera 10 klukkustundir eða frá kl. 7 að morgni til kl. 18 síðdegis. Í kaupsamningi frá 30. september 1949 voru laun karlmanna fyrir almenna vinnu 3 krónur í dagvinnu, 3,90 krónur í eftirvinnu og 5,20 krónur í næturvinnu. Konur og drengir fengu 2,15 krónur í dagvinnu, 2,85 krónur í eftirvinnu og 3,80 krónur í Verkalýðsfélagið Jökull. Forveri Verkalýðsfélagsins Jökuls var Atvinnufélag Hafnarverkalýðs sem stofnað var 2. janúar 1929 af 11 verkamönnum á Höfn. Aðalhvatamaður stofnun þess var Jens Figved, verslunarmaður frá Eskifirði. Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Steinsen. Félagið beitti sér fyrir ýmsum réttindamálum verkamanna en konur fengu ekki inngöngu. Á fyrstu tveimur starfsárunum gengu að minnsta kosti 23 menn í félagið en 82 einstaklingar á starfstímanum öllum. Aðalvinnuveitandi félagsins var Kaupfélag Austur-Skaftfellinga. Það setti því verulegan svip á starfsemi félagsins að Jón Ívarsson kaupfélagsstjóri gekk í félagið árið 1932. Vera hans í félaginu og áhrif á réttindabaráttu verkamanna leiddi loks til þess áratug síðar að Atvinnufélag Hafnarverkalýðs var lagt niður á miklum átakafundi þann 3. janúar 1942. Sama kvöld var stofnað nýtt félag verkamanna á Höfn, Verkalýðsfélagið Jökull. Helsti forystumaður að stofnun Verkalýðsfélagsins Jökuls og fyrsti formaður þess var Benedikt Þorsteinsson. Hann gegndi formannsstarfinu í rúman aldarfjórðung eða frá 1942 til 1968. Benedikt var einnig helsti forsprakki þess að leggja niður gamla félagið og koma þannig í veg fyrir áframhaldandi tök kaupfélagsstjórans á verkamönnum. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Aðalsteinn Aðalsteinsson og Óskar Guðnason. Stofnendur voru 39. Félagið var áberandi í fjölmiðlum út af deilum sem spruttu upp um verðlag á kolum á Hornafirði árið 1943. Umræðan barst inn á Alþingi og blandaðist Jónas Jónsson frá Hriflu, meðal annarra, inn í þær deilur. Félagið beitti sér strax í upphafi fyrir nýjum samningum um Bretavinnu og þeira. Félagið efldist smám saman og varð tryggur bakhjarl í réttindabaráttu verkafólks. Það beitti sér einnig snemma fyrir ýmsum framförum og átti frumkvæði að atvinnuuppbyggingu á Hornafirði. Fyrstu konurnar fengu inngöngu í félagið árið 1951. Þær tóku smám saman virkan þátt í félagsstarfinu og árið 1977 var fyrsta konan kjörin í stjórn félagsins. Árið 1992 gekk Verslunarmannafélag Austur-Skaftafellsýslu inn í Jökul. Félagið kom sér upp orlofshúsum, íbúðum í Reykjavík og félagsaðstöðu auk þess að standa fyrir ýmis konar hagsmuna- og félagsstarfi. Félagið studdi einnig dyggilega við ýmis konar menningarstarf í héraðinu. Verkalýðsfélagið Jökull lét skrásetja sögu verkalýðshreyfingar í Austur-Skaftafellssýslu og gaf út bækurnar Þó hver einn megni smátt, árið 1994 og Kolalausir kommúnistar á Hornafirði, árið 1999. Bækurnar eru eftir Gísla Sverri Árnason. Formenn Verkalýðsfélagsins Jökuls voru: Benedikt Þorsteinsson 1942-1969, Grétar Sigurðsson 1969-1973, Þorsteinn L. Þorsteinsson 1973-1980, Sigurður Örn Hannesson 1980-1985, Björn Grétar Sveinsson1985-1993 og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir 1993-1999. Ritskoðun. Ritskoðun er hverjar þær hömlur sem lagðar eru á tjáningarfrelsi einstaklinga af þeim sem með ritkoðunarvald fer. Hugmyndafræði er liggur að baki ritskoðunar er mismunandi eftir menningarheimum eða ástandi sem ríkjandi er. Ritskoðun felst í því að fjarlægja efni eða koma í veg fyrir birtingu þess, þyki það ofbjóða velsæmisvitund almennings, eða af öðrum orsökum skaða ríkjandi viðhorf eða stjórnarfar þar sem ritskoðun er á annað borð beitt. Virk ritskoðun. Ritskoðun er virk þegar stjórnvöld eða aðrir þeir sem stjórn hafa á fjölmiðlum eða öðrum birtingarmiðlum tjáningar, skoða efni fyrir birtingu og ákvarða um hvort efnið verður birt eða fyrirskipa breytingar á því. Þetta form ritskoðunar hefur átt verulega undir högg að sækja síðustu ár og áratugi með auknu upplýsingaflæði milli svæða og heimshluta, ekki síst með tilkomu veraldarvefsins. Íbúar vesturlanda tengja ritskoðun yfirleitt stjórnvöldum sem stjórna með alræðisvaldi, leynt eða ljóst, þ.e. miðstýrðri ógnarstjórn sem stýrist af einstaklingum eða flokksvaldi frekar en stjórnarskrá og lýðræði; þar sem kosningarúrslitum er gjarnan hagrætt, stjórnmálaflokkum beitt til að skapa fjöldafylgi um tiltekinn boðskap flokksins með miðstýrðum aðferðum og engin trygging er fyrir almennum mannréttindum. Dæmi um ríkisvald sem hagar sér á þessa lund eru fjölmörg nær og fjær í tíma og rúmi og má nefna t.d. Þýskaland frá valdatöku Nasista á fjórða áratugnum og nær í tíma, stjórn Roberts Mugabes í Zimbabwe í dag. Eigin ritskoðun. 1. Lagalegar. Þ.e. ekki er birt efni sem bannað er með lögum og þannig líklegt að geti skapað þeim sem birtir eða er ábyrgur fyrir birtingu hættu að að vera sóttur til saka og dæmdur til refsingar og/eða skaða-eða miskabóta. "Hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári." (a) til þess að virða réttindi eða mannorð annarra; (b) til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigði almennings eða siðgæði." 2. Almenningsálit / ríkjandi viðhorf. Sjálfsritskoðun getur verið beitt t.d. af fjölmiðlum vegna ótta við að reiði almennings beinist gegn viðkomandi falli birting tiltekinna upplýsinga ekki að ríkjandi viðhorfum - eða sé til þess fallin að skaða ímynd viðkomandi miðils eða höfundar. Sem dæmi má nefna er DV nafngreindi mann er sakaður hafði verið fyrir kynferðisafbrot áður en formleg ákæra var gefin út og á meðan málið var í rannsókn. Í kjölfarið reis upp reiðialda almennings og fjöldauppsagnir á blaðinu og skömmu síðar var gert hlé á útgáfunni og ritstjórarnir létu af störfum. Í ljósi þessarar reynslu má telja víst að fjölmiðlar hugsi sig um tvisvar áður en álíka upplýsingar eru birtar. Á sama hátt virkar "jafningjaþrýstingur" á t.d. vísindamenn sem birta ekki skoðanir eða niðurstöður sem ganga gegn ríkjandi viðhorfum og kenningum nema að vel hugsuðu máli. 3. Persónulegir eða efnahagslegir hagsmunir. Einstaklingar geta ritskoðað eigin verk til að gæta fjárhagslegra hagsmuna, þ.e. til að styggja ekki eða veikja andstöðu þeirra sem þeir byggja fjárhagslega afkomu á. Ennfremur ritskoða einstaklingar verk sín til að særa ekki eða móðga aðila sem þeir tengjast á einhvern hátt persónulegum böndum. Ritskoðun með takmörkun aðgangs að upplýsingum. Í ríkjum á borð við Ísland þar sem bein ritskoðun er ekki stunduð geta stjórnvöld beitt óbeinni ritskoðun með því að takmarka þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að. Sem dæmi má nefna þá tregðu á að afhenda gögn um símahleranir: „Kjartan segir að gögnin séu geymd á Þjóðskjalasafni og honum hafi í tvígang í sumar verið neitað um aðgang að þeim, bæði um frjálsan aðgang og einnig um aðgang að þeim með sömu skilmálum og sagnfræðingurinn“, Kjartan Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður í Mbl. 16.9.2006. Aukin sókn í Ritskoðun. Valdsækin (authoritarian) stjórnvöld hafa aukið ritskoðun síðustu ár og má t.d. nefna aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjum Norður Ameríku í kjölfar hryðjuverkanna 11.september 2001 en stjórnvöld létu loka fjölda vefsíða og hertu mjög á eftirlit með birtingu upplýsinga sem talið var að ógnuðu öryggi almennings (vísan til allsherjarreglu). Á sama hátt hefur um árabil óheimilt að auglýsa áfengi og tóbak á Íslandi með vísan til allsherjarreglu eða til verndar heilbrigði almennings og siðgæði. Frítökuréttur. Frítökuréttur réttur launafólks til hvíldartíma þegar vinnulota verður lengri en samningar og lög leyfa. Kröfur um lögbundinn hvíldartíma hafa lengi verið uppi á borðum verkalýðshreyfingarinnar. 1921, þegar vinnutími togarasjómanna þótti keyra um þverbak og menn hnigu nánast meðvitundarlausir af þreytu ofan í fiskkösina, voru í fyrsta sinn sett lög um hvíldartíma launafólks, Vökulögin svokölluðu, en með þeim var launafólki tryggður 6 tíma lágmarkshvíldartími á sólarhring. 1980 var lögbundin lágmarkshvíld síðan komin í 11 klst. daglega með lögum nr. 46 / 1980, en útfærsla frítökuréttar beið síðan kjarasamninganna 1996 (sjá síðar). Atvinnurekanda ber að skylda að skipuleggja vinnu sinna starfsmanna þannig að þeir fái a.m.k. 11. klst. lágmarkshvíld á hverjum sólarhring. Ef starfsmaður fær ekki a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld á sólarhring skapar það honum samkvæmt kjarasamningi svokallaðan frítökurétt. Frítökuréttur reiknast þannig að sá tími sem hin daglega lágmarkshvíld skerðist um er margfaldaður með 1 ½. Svo dæmi sé tekið þá leiðir skerðing daglegs hvíldartíma um 2 klst. til 3 klst. frítökuréttar. (Vefur ASÍ – Vinnuréttur, www.asi.is) Um vinnutíma starfsmanna er fjallað í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og í kjarasamningum. Ákvæði laganna eru nánar útfærð í kjarasamningum. Vinnutímatilskipunin Reglur um vinnu- og hvíldartíma starfsmanna eru byggðar á tilskipun 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Markmið tilskipunarinnar er að setja lágmarkskröfur til að stuðla að umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi, til að tryggja aukið öryggi og heilsuvernd launafólks. Tilskipunin var upphaflega innleidd hér á landi með svokölluðum vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ sem undirritaður var 30. desember 1996. Samsvarandi samningar voru gerðir í janúar 1997 milli ASÍ, BHM, BSRB og KÍ annars vegar og Ríkisins, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Helstu megnreglur eru eftirfarandi: 11. klst. samfelld lágmarkshvíld á hverju 24 klst. tímabili. Einn hvíldardagur á viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, þ.e. 35 klst. samfelld hvíld. Hámarksvinnutími á viku skal ekki vera meiri en 48 virkar vinnustundir að yfirvinnu meðtalinni. Ef nauðsynlegt er að skerða daglega eða vikulega lágmarkshvíld skal veita starfsmönnum samsvarandi hvíld síðar. Frítökuréttur skapast þegar dagleg lágmarkshvíld er skert. (Vefur ASÍ – Vinnuréttur, www.asi.is) Úr kjarasamningum:. 2.4.2. Frávik og frítökuréttur (Almennur samningur SGS) Við sérstakar aðstæður, þegar bjarga þarf verðmætum, má lengja vinnulotu í allt að 16 klst. og skal þá veita 11 klst. Hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra daglauna. Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildir eftirfarandi: Séu starfsmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum óski starfsmaður þess. Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða átta klst. samfellda hvíld. Vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skal fara með það á sama hátt. Komi starfsmaður til vinnu á frídegi eða helgi greiðist yfirvinnukaup fyrir unninn tíma án frekari aukagreiðslna af þessum sökum. Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst. Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn enda séu uppsafnaður frítökuréttur a.m.k. fjórar klst. Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma. Orlof. Orlof er tími sem þar sem tekið er frí frá vinnu eða námi og sem einstaklingurinn notar til eigin hugðarefna, ferðalaga, hvíldar eða hverrar þeirrar iðju sem viðkomandi kýs. Orlof er yfirleitt notað um frí þegar það stendur í marga daga og eru því frídagar um helgar yfirleitt ekki kallaðir orlof. Ýfirleitt er orðið „orlof“ ekki notað um hina eiginlegu frítöku heldur er talað um sumarfrí, vetrarfrí, páskafríog jólafrí, sjá þó húsmæðraorlof. Orðið „orlof“ hefur breytt um merkingu en fyrr á öldum gat það þýtt „leyfi“ sbr. „eingi þeirra manna sem sigi ero j logriettu nefnder skulu innan uebanda sitia utan orlof“. Á síðari árum hefur orðið tekið merkinguna "frí" eða lausn frá daglegu starfi og tíma sem ætlaður er til hvíldar eða dægrastyttingar umfram þá daga sem sameiginlegir eru öllum sem frídagar, þ.e. lögbundnir frídagar. Orlofsréttur á Íslandi. Allt launafólk á Íslandi á rétt til orlofs að lágmarki 24 daga á ári miðað við að viðkomandi vinni fullan vinnudag. Með orlofi er átt við að viðkomandi eigi þennan tíma til að hvíla sig, sinna hugðarefnum sínum og fjölskyldu - þrátt að fyrir að orlof sé oft notað til að sinna annarri vinnu eða aukavinnu. Auk réttar til orlofstöku fjalla lög um orlof um rétt til orlofslauna, að lágmarki 10,17% allra greiddra launa. Orlofslaun skulu greidd næsta virka daga fyrir töku orlofs eða með hefðbundnum launagreiðslum. Þá er og heimilt með samkomulagi við viðkomandi stéttarfélag að launagreiðandi leggi orlofslaun inn á sérstakan orlofsreikning í nafni launamanns og eru þá orlofslaun greidd út um miðjan maí með vöxtum. Algengt er að launagreiðendur greiði sjálfir dagvinnuhluta orlofs starfsmanna en leggi orlof af yfirvinnu og öðrum breytilegum tekjum inn á orlofsreikninga. Áunnið orlof er greitt er að launagreiðanda skal umreikna í dagvinnustundir og þegar það kemur til greiðslu, greiðist það með þeim dagvinnulaunum sem þá gilda. Svo sem fram kemur í lögunum fjalla þau annars vegar um rétt launamanns til leyfis frá störfum og hins vegar um rétt hans til greiðslu orlofslauna þann tíma sem hann er frá störfum. Oftast fer þetta tvennt saman en þarf þó ekki að gera það. Þannig getur starfsmaður, sem nýlega hefur hafið störf, átt rétt til leyfis án þess að eiga rétt á greiðslum í leyfinu frá núverandi atvinnurekanda. Hann hefur þá áður fengið uppgerð orlofslaun frá fyrri atvinnurekanda. (Vinnuréttur - vefur ASÍ) Samkvæmt orlofslögum er orlofstímabilið frá 2. maí til 15. september(í sumum kjarasamningum er ákvæði um 30. september.) Í almennum kjarasamningi SGS við SA er ákvæði um að sumarorlof, þ.e. orlof tekið á orlofstímabilinu, sé að lágmarki 20 dagar. Fái starfsmaður ekki 20 daga sumarorlof skal hann fá álag, 25%, á það sem á vantar af 20 daga orlofi, til viðbótar við þá orlofsdaga sem hann tekur utan þess tímabils. Orlofsárið er 1. maí til 30. apríl, þ.e. réttur til orlofs og orlofslauna reiknast á þessu tímabili. Orlofsuppbót er árleg eingreiðsla sem greidd er til launafólks 15. júní og er ætluð til að auðvelda launafólki töku orlofs. Upphæð orlofsuppbótar er mismunandi eftir kjarasamningum en er 2008 24.300 kr. í almennum kjarasamningum en yfir 100.000 kr. í einstaka sérkjarasamningum, t.d. vinnustaðasamningi AFLs Starfsgreinafélags og ALCOA Fjarðaáls. Saga orlofsréttar á Íslandi. Árið 1942 ölaðist allt íslenskt launafólk rétt til orlofs, samkvæmt lögum. Áður en til lagasetningarinnar kom, hafði þó verið gert samkomulag við atvinnurekendur um að koma á rétti til orlofs. Lögin gerðu því ekki annað en að staðfesta það sem verkalýðshreyfingin hafði náð fram í samningum gagnvart atvinnurekendum. Málið hafði um nokkurt skeið legið fyrir þingi, en fékkst ekki afgreitt fyrir en orlofsrétturinn var orðinn að veruleika. Aðdragandi þessa máls var nokkur. Árið 1939 höfðu verið sett lög á Alþingi sem takmörkuðu verðlagsbætur á grunnlaun, þó verðhækkanir væru miklar. Síðan skall stríðið á og eftir að landið var hernumið þurfti setuliðið á miklu vinnuafli að halda, þannig að skortur varð á verkafólki. Við þessar aðstæður var mjög erfitt fyrir íslenska atvinnurekendur að keppa um vinnuafl, ekki síst vegna þess að þeim var óheimilt að bjóða hærri laun. Lögin um takmörkun á verðlagsuppbótum voru numin úr gildi um áramótin 1941/42, en þá höfðu ýmis verkalýðsfélög boðað til verkfalla. Ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög, þar sem settur var gerðardómur í kaupgjaldsmálum og verðlagsmálum, en grunnkaupshækkanir bannaðar. Jafnframt voru verkföll og verkbönn óheimil. Verkalýðsfélögin aflýstu verkföllum en fólk mætti samt sem áður ekki til vinnu. Þessar aðgerðir verkafólks gengu undir nafninu Skæruhernaðurinn og stóðu hæst sumarið 1942. Aðgerðirnar höfðu mikil áhrif á framgang verkefna sem mörg töfðust eða stöðvuðust. Ýmsir atvinnurekendur ákváðu því að hækka laun til að fá fólk til vinnu, jafnvel þó í því fælust lögbrot. Lögin voru þar með ekki annað en orðin tóm og voru skömmu síðar numin úr gildi. Eftir þennan mikilvæga sigur launafólks voru gerðir almennir kjarasamningar, þar sem náðust margir mikilvægir áfangar í kjarabaráttu launafólks. Samningurinn fól m.a. í sér ákvæði um átta stunda vinnudag, réttinn til orlofs, hækkun yfirvinnutaxta, auk næstum 40% launahækkunar. Orlofsrétturinn skiptist annars vegar í rétt til leyfis frá störfum og hins vegar í rétt til launa á þeim tíma. Með samningunum 1942 fékkst 12 daga sumarleyfi og atvinnurekendur samþykktu að greiða 4% í orlofssjóð. Þetta hlutfall hækkaði í 5% árið 1952 og hefur hækkað nokkrum sinnum síðan. Samkvæmt núgildandi kjarasamningum skal orlof vera að lágmarki 24 virkir dagar, tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð og orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða yfirvinnu. Þetta hlutfall hækkar síðan með auknum starfsaldri og orlofsdögum fjölgar. Nánar er kveðið á um orlofsrétt og orlofslaun í kjarasamningum mismunandi starfsstétta. Orlofshús. Verkalýðshreyfingin lét þó ekki þar við sitja. Það var ekki nóg að eiga lögbundið frí á launum. Til að tryggja að launafólk hefði aðstæður til að nýta orlofið, hófu mörg þeirra byggingu orlofshúsa. Þannig eru nú víða um land orlofsbyggðar verkalýðsfélaga, sem félagsmönnum gefst tækifæri á að leigja á sanngjörnu verði til lengri eða skemmri tíma. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að félög hafa byggt eða keypt orlofshús í útlöndum, til útleigu fyrir félagsmenn. Þessi kaup eru fjármögnuð af svokölluðum orlofs- eða orlofshúsasjóðum, sem og ýmislegt fleira sem viðkemur orlofi félagsmanna. Samkvæmt flestum kjarasamningum er framlag atvinnurekenda til orlofssjóða 0,25% af útborguðu kaupi. Lög um orlof á Íslandi. 1. gr. Allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eiga rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum þessara laga. 2. gr. Lög þessi rýra ekki víðtækari eða hagkvæmari orlofsrétt samkvæmt öðrum lögum, samningum eða venjum. Samningur um minni rétt til handa launþegum en lög þessi ákveða er ógildur. 3. gr. Orlof skal vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira heill mánuður en skemmri tími telst ekki með. Það telst vinnutími samkvæmt þessari grein þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi. Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl. 4. gr. Orlof samkvæmt lögum þessum skal veitt í einu lagi á tímabilinu frá 2. maí til 15. september. Heimilt er í kjarasamningum stéttarfélaga að kveða á um skemmra orlof á fyrrgreindu tímabili, þó að lágmarki 14 daga á sumarorlofstímabilinu, ef sérstakar rekstrarástæður gera það brýnt. Nú nýtur orlofsþegi eigi lengri orlofsréttar en lög þessi kveða á um og skal þá sá hluti orlofsins, sem tekinn er utan orlofstímabilsins, lengjast um 1/4 ef orlof er tekið utan orlofstímabilsins að ósk atvinnurekanda. Í vinnu við landbúnað og síldveiðar má veita allt að helmingi orlofsins utan orlofstímabilsins. Aðilar geta með samkomulagi vikið frá reglum þessarar greinar um skiptingu orlofs. Orlofi skal þó alltaf lokið fyrir lok orlofsársins. 5. gr. Atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli. 6. gr. Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skv. 5. gr. skal hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tímum en ákveðið er í 4. gr., en þó ekki síðar en svo að orlofi hans sé lokið fyrir 31. maí næstan á eftir. Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof fyrir þann tíma á hann rétt á að fá orlofslaun sín greidd ef hann sannar veikindi sín á sama hátt og að ofan greinir. 7. gr. Launþegi á rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári. Orlofslaun reiknast við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunum reiknast orlofslaunahlutfall viðkomandi starfsmanns að lágmarki 10,17% miðað við lágmarksorlof skv. 3. gr. Reiknuð orlofslaun fyrir hvert launatímabil skulu kauptryggð þannig að deilt skal í fjárhæð áunninna orlofslauna með dagvinnukaupi starfsmannsins. Orlofslaun fyrir hvert launatímabil reiknast samkvæmt þessu í dagvinnutímum og skulu þau skráð sérstaklega á launaseðil við hverja launagreiðslu, bæði samtala áunninna orlofslauna frá upphafi orlofsárs og orlofslaun vegna þess greiðslutímabils. Launþega skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt framanskráðu næsta virkan dag fyrir töku orlofs og greiðast þau miðað við dagvinnutímakaup starfsmannsins eins og það er fyrsta dag orlofsins. Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram, enda sé meiri hluti þeirra því samþykkur. Þá er stéttarfélögum einnig heimilt að semja um þá framkvæmd að orlofslaun séu jafnharðan greidd á sérstaka orlofsreikninga launþega hjá banka eða sparisjóði. Skal í slíkum samningi tryggt að sá aðili, sem tekur að sér vörslu orlofslauna, geri upp áunnin orlofslaun, þ.e. höfuðstól og vexti, til launþega við upphaf orlofstöku. Skylt er að afhenda félagsmálaráðuneytinu þegar í stað eintak af slíkum samningi og tilkynna um slit hans. 8. gr. Ljúki ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda skal vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglunni í 2. mgr. 7. gr. 9. gr. Nú liggur atvinnurekstur niðri á meðan á orlofi stendur vegna þess að starfsfólki er veitt orlof samtímis og geta þá þeir launþegar, sem ekki eiga rétt á fullu orlofi, ekki krafist launa eða orlofslauna fyrir þá daga sem á vantar. 10. gr. Félagsmálaráðherra setur reglur um útreikning orlofslauna launþega sem ekki taka laun beint frá atvinnurekanda sínum, heldur fá greitt í þjónustugjaldi eða á annan hátt sem er frábrugðinn venjulegum greiðslumáta launa. 12. gr. Óheimilt er manni að vinna fyrir launum í starfsgrein sinni eða skyldum starfsgreinum meðan hann er í orlofi og má setja um þetta nánari ákvæði í reglugerð. 13. gr. Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er óheimilt. 14. gr. Kröfur á hendur vinnuveitendum samkvæmt lögum þessum fyrnast eftir sömu reglum og kaupkröfur samkvæmt lögum nr. 14 20. október 1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. 5. gr. Kröfur sem njóta ábyrgðar sjóðsins. a. Kröfu launamanns um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda. b. Kröfu um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti. c. Kröfu um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. d. Kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. Ábyrgðin takmarkast við [12%]1) lágmarksiðgjald og allt að 4% af iðgjaldsstofni samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og ákvæði í kjarasamningum. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á iðgjöldum, þar á meðal um eftirlit með skilum og innheimtu þeirra. e. Kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar. Standi vinnuveitandi ekki í skilum með greiðslu orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, getur launamaður eða hlutaðeigandi stéttarfélag í umboði hans snúið sér til Ábyrgðasjóðs launa með orlofslaunakröfuna. Krafa skal studd fullnægjandi gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum og vottorði viðkomandi vinnuveitanda eða löggilts endurskoðanda hans. Jón Eiríksson. Jón Eiríksson (31. ágúst 1728 – 29. mars 1787) var lögfræðingur og konferensráð í Kaupmannahöfn. Jón kvæntist "Christine Maria Lundgaard" árið 1761. Þau áttu 10 börn og komust 7 þeirra til fullorðinsára. Jón Eiríksson fæddist á Skálafelli í Suðursveit og stundaði nám í Skálholtsskóla en þar hafði Ludvig Harboe biskup mikið dálæti á honum. Jón fór síðar með honum til Kaupmannahafnar og þaðan til foreldra biskups í Slésvík. Árið 1746 fór Jón aftur með honum til Kaupmannahafnar og þaðan til Niðaróss þar sem Harboe tók við biskupsembætti. Jón settist þar í skóla og var þar til 1748. Þá fór hann til náms í Kaupmannahafnarháskóla, og þar fékk hann svokallað Regéns og er þess getið að hann hafi þá nálega verið búinn að týna niður íslensku. Íslendingar álösuðu honum fyrir það og mun hann því hafa reynt að lesa allt sem hann komst yfir á íslensku og fengið aðgang að handritasafni Árna Magnússonar á bókasal háskólans. Hann tók lærdómspróf 1749. Árið 1750 bað jústitsráð Bolle Willum Luxdorph Harboe biskup að útvega sér íslenskan stúdent sem gæti komið sér niður í hinni gömlu tungu Norðurlanda og benti hann á Jón. Fyrir áeggjan Luxdorph hóf Jón að læra lög og fékk opinbert skírteini í lögvísi 22. ágúst 1758. Árið 1759 fékk hann prófessorstöðu við Háskólann í Sórey og var þar í 12 ár. Hann varð félagi í hinu konunglega norska vísindafélagi 1769, en árið 1771 var hann kallaður til starfa í hinu nýstofnaða norska kammeri og mun það hafa verið að undirlagi Moltkes greifa. Síðar fluttist Jón með honum inn í Tollkammerið. Árið 1772 varð Jón félagi í Árnamagnæanisku Fornfræðanefndinni, og Etatsráð í Rentukammerinu árið 1777. Jón varð forseti í hinu íslenska Lærdómslistafélagi árið 1779. Hann fékk konferensráðsnafnbót árið 1781 og varð um svipað leyti bókavörður við konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn. Árið 1785 var hann í nefnd sem átti að gera uppástungur um bætt ástand á Íslandi, verslunarfrelsi og sölu á eignum Skálholtsstóls og Skálholtsskóla og flutning biskupsdæmisins til Reykjavíkur, og árið eftir, 1786, var hann í nefnd sem athugaði kjör bænda í Danmörku. Jón var vinur biskupanna Finns Jónssonar og Hannesar Finnssonar og landfógetans Skúla Magnússonar. Jón framdi sjálfsmorð með því að stökkva út af brú í eitt af sýkjum Kaupmannahafnar og drukknaði. Olivia Newton-John. Olivia Newton-John (fædd 26. september 1948 í Cambridge á Englandi) er áströlsk söng- og leikkona. Fjölskyldan flutti til Melbourne árið 1954. Ung að aldri sýndi Olivia mikinn áhuga á söng og strax 12 ára að aldri sigraði hún söngvakeppni sem haldin var í skólanum hennar. 17 ára gömul kom hún fram í kvikmyndinn "Funny Things Happen Down Under" og söng þar lagið "Christmas Time Down Under". Árið 1977 lék hún svo í "Grease" en þar lék hún á móti John Travolta. Bolle Willum Luxdorph. Bolle Willum Luxdorph (24. júlí 1716 – 13. ágúst 1788) var danskur sagnfræðingur, ljóðskáld og embættismaður. Luxdorph hélt aðstoðarmenn (amanuensis) til að aðstoða sig í fræðunum og var Jón Eiríksson einn þeirra. Árið 1750 bað Luxdorph Ludvig Harboe biskup að útvega sér íslenskan stúdent sem gæti komið sér niður í hina gömlu tungu Norðurlanda og benti Harboe á Jón sem starfaði fyrir Luxdorph í mörg ár. Luxdorph var virkur félagi í Arnemagnæanske nefndinni sem gaf út mörg íslensk rit. Hann var ákafur bókasafnari og í bókasafni hans voru um 15 þúsund bækur og 500 handrit. Hann skrifaði dagbækur á árunum 1745-1748 og 1757-1788. Luxdorph skrifaði um hin fjölbreytilegustu málefni og þykja dagbækur hans góð heimild um daglegt og opinbert líf á síðasta helmingi 18. aldar. Luxdorph hafði ekki í huga að dagbækurnar kæmu út eftir sinn dag heldur hélt þær til minnis. Heimild. Luxdorph, Bolle Willum Harry Houdini. Harry Houdini (24. mars 1874 — 31. október 1926) var ungversk-amerískur töframaður, undankomusérfræðingur, baráttumaður gegn miðlum og fleira. Hann fæddist í Ungverjalandi sem Erik Weisz en breytti nafninu í Erich Weiss er hann fluttist til Bandaríkjanna. Nafnið Harry Houdini var aðeins sviðsnafn hans. Hið íslenska lærdómslistafélag. Hið íslenska lærdómslistafélag var félag sem stofnað var árið 1779 af 12 íslenskum námsmönnum í Kaupmannahöfn. Jón Eiríksson var lífið og sálin í starfsemi þess. Félagið skyldi varðveita norræna tungu. Það var sameinað Hinu íslenska bókmenntafélagi 1818. Norðurlandasamningur um almannatryggingar. Norðurlandasamningur um almannatryggingar er samningur sem stjórnvöld Norðurlandanna undirrituðu þann 18. ágúst 2003 um almannatryggingar sem tekur við af fyrrum samkomulagi um almannatryggingar frá 15. júní 1992. Sá samningur kom í stað fyrra samkomulags um almannatryggingar frá 5. mars 1981 og norræns samkomulags frá 12. nóvember 1985 um atvinnuleysisbætur. Samkomulagið tók gildi 1. september 2004. Samkomulagið sníður samstarf Norðurlanda varðandi félagslegar bætur að samkomulaginu um samstarfssvæði Evrópska efnahagssvæðisins frá 2. maí 1992. Jafnframt kveður samkomulagið á um vissar norrænar sérreglur. Samkomulagið nær yfir þau atriði í almannatryggingakerfi Norðurlanda, sem fela í sér félagslegar bætur í sambandi við foreldrarétt, börn, öldrun, fötlun, atvinnuleysi, vinnuslys, veikindi og dauðsfall. Samkomulagið kveður í aðalatriðum á um samstarf milli Norðurlanda á sviði félagslegra bóta. Þannig njóta norrænir ríkisborgarar, sem dvelja í öðru norrænu landi sömu almannatrygginga og þegnar viðkomandi lands. Die Toten Hosen. Die Toten Hosen ("Dauðu buxurnar") er þýsk pönkhljómsveit frá Düsseldorf sem var stofnuð árið 1982. Stofnendur hennar voru: Andreas Frege eða Campino, eins og hann kallar sig, Andreas von Holst, Andreas Meurer, Michael Breitkopf, Trini Trimpop og Walter November. Frá því hljómsveitin var stofnuð hefður hún gefið út ellefu plötur. Die Toten Hosen spila blöndu af rokki og pönki Hugo Grotius. Hugo Grotius eða Huig de Groot eða Hugo de Groot (10. apríl 1583 – 28. ágúst 1645) var hollenskur lögfræðingur. Hann lagði ásamt Francisco de Vitoria grunn að alþjóðarétti sem byggist á náttúrurétti. Hann var einnig heimspekingur, leikskáld og ljóðskáld. Grotius fæddist í Delft á tímum áttatíu ára stríðsins. Faðir hans var menntamaður og veitti syni sínum góða menntun í anda húmanismans og hugmynda Aristótelesar. Hann var undrabarn og komst inn í háskólann í Leiden þegar hann var aðeins ellefu ára gamall. Grotius útskrifaðist úr háskólanum 1598 og var þá boðið að fara með í opinbera sendiför til Frakklands. Þegar hinn fimmtán ára gamli Grotius fékk áheyrn hjá konungi þá hreifst Hinrik 4. Frakkakonungur mjög af gáfum hans og bað um að undrinu frá Hollandi skyldi haldið eftir í Frakklandi. Grotius dvaldi í Frakklandi um hríð en sneri til Hollands og varð lögfræðingur í Haag árið 1599 og síðan opinber sagnaritari hollenska ríkisins árið 1601. Hann hóf fyrst að skrifa skipulega um alþjóðalög árið 1604 þegar hann blandaðist í mál sem tengdust töku holleskra kaupmanna á portúgölsku skipi í Singapúrflóa. "De Indis" og "Mare Liberum". Hollendingar stóðu í stríði við Spánverja og Portúgali þegar hlaðið kaupskip "Santa Catarina" var hertekið af kapteininum Jacob van Heemskerk árið 1603. Textar á vefnum. Grotius, Hugo Grotius, Hugo Grotius, Hugo Náttúruréttur. Náttúruréttur (á latínu: "lex naturalis") er kenning um að það séu til lög sem ráðist af náttúrunni og gildi alls staðar. Náttúruréttur er hefð í hugmyndasögu Vesturlanda alveg frá fornöld, hjá Aristótelesi og stóuspekingum, á miðöldum hjá heilögum Tómasi frá Akvínó, og framan af nýöld hjá Hugo Grotiusi og John Locke. Frá því um 1800 hafa þessar hugmyndir vikið smám saman og gætir þeirra varla í íslenskri lögfræði á 20. öld. Áhrifa náttúruréttar gætti áður fyrr á Íslandi og má sjá þess dæmi í óprentuðum fyrirlestrum Jóns skólameistara Þorkelssonar úr Skálholtsskóla og í Tyro Jurís Sveins lögmanns Sölvasonar. Bjarnarey (Svalbarða). Kort sem sýnir staðsetningu Bjarnareyjar við Svalbarða. Rústir af hvalveiðistöð við Kvalrossbukta á Bjarnarey a> er vel aðlagað skilyrðum eins og á Bjarnarey. Bjarnarey er syðsta eyjan í eyjaklasanum við Svalbarða. Eyjan er í vesturhluta Barentshafs. Hollensku landkönnuðurnir Willem Barents og Jacob van Heemskerk fundu Bjarnarey þann 10. júníárið 1596. Eyjan er nefnd eftir ísbirni sem þeir sáu á sundi nálægt eyjunni. Bjarnarey hefur hernaðarlega þýðingu og reyndu mörg ríki að fá eyjuna undir yfirráðasvæði sitt. Eyjan komst undir yfirráð Noregs árið 1920. Í eyjunni hefur verið námavinnsla og þar voru stundaðar fiskveiðar og hvalveiðar. Eyjan var notuð sem bækistöð fyrir hval-, rostungs- og selveiðar og þar var góð eggjatekja. Búseta þar hefur hins vegar ekki varað nema nokkur ár í einu og er eyjan nú óbyggð fyrir utan veðurathugunarstöð sem þar er. Eyjan var friðlýst sem náttúruverndarsvæði árið 2002. Zeppelin-loftfar. Zeppelin er tegund af loftfari sem hannað var í Þýskalandi af Ferdinand von Zeppelin snemma á 20. öld en miðað við hönnun frá 1874. Þessi loftskip voru svo vel hönnuð að heitið "zeppelin" var notað sem samheiti fyrir öll slík loftför. Zeppelin loftförin voru notuð af Deutsche Luftschifffahrts-Aktiengesellschaft (DELAG) sem var þýskt flugfélag og fyrsta flugfélagið sem starfrækti áætlunarflug með farþega fyrir fyrri heimstyrjöldina. Þegar stríðið braust út þá notaði þýski herinn Zeppelin loftförin til loftárása og eftirlitsflugs. Ósigur Þjóðverja í fyrri heimstyrjöldinni dró um tíma úr framþróun Zeppelin loftfara en undir stjórn Hugo Eckener áttu þau sitt blómaskeið um 1930 en þá flugu loftförin LZ 127 "Graf Zeppelin" og LZ 129 "Hindenburg" reglulega yfir hafið milli Þýskalands og bæði Norður- og Suður-Ameríku. Hindenburg loftfarið brann árið 1937 og það var ein ástæða hnignunar Zeppelin loftfara. Húsabakki í Svarfaðardal. Húsabakki er hinn gamli barna- og unglingaskóli Svarfaðardalshrepps. Þetta var heimavistarskóli sem hóf göngu sína 1955 en var lagður af eftir miklar deilur 2004. Félagsheimilið og íþróttahúsið Rimar eru á sama stað og voru hluti af skólabyggingunum. Þarna var einnig til húsa bókasafn sveitarinnar. Skólabyggingarnar standa á brattri brekkubrún við jaðar Friðlands Svarfdæla neðan þjóðvegarins sunnan við Tjörn. Á síðustu árum hefur verið ýmis konar starfsemi á staðnum, samkomuhald, gistiþjónusta, aðstaða fyrir fundi, ráðstefnur, námskeið og fleira. Bandalag íslenskra leikfélaga hélt þar leiklistarskóla á hverju sumri frá 1997-2009. Nú er þar gistiheimili, sjá, fuglasafn og sýning og aðstaða fyrir fræðimenn í náttúrufræðum. Allsherjarregla. Allsherjarregla er hugtak sem víða kemur fyrir í lögum en er hvergi skilgreint. Á Vísindavefnum er nokkur umfjöllun um hugtakið. Í umfjöllunin Vísindavefsins, sem rituð er af Halldóri Gunnari Haraldssyni 30.12.2001, kemur fram að allsherjarregla sé hvernig almannahagsmunir séu túlkaðir hverju sinni. Þannig kunni breytingar á aðstæðum, t.d. við hernaðarástand eða aðrar hörmungar, breyta þeim forsendur sem stjórnvöld leggja til grundvallar við túlkun á allsherjarreglu. Skerðing á mannréttindum á borð við málfrelsi og ferðafrelsi verður helst réttlætt með vísan í allsherjarreglu eða almannaheill - þ.e. að skerðing réttinda eins þegnanna eða hóps þegna sé réttlætanleg með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Heinrich von Kleist. Bernd Heinrich Wilhelm von Kleist (oftast nefndur Heinrich von Kleist; fæddur 18. október eða 10. október 1777 í Frankfurt an der Oder, dáinn 21. nóvember 1811 við Kleiner Wannsee í Berlín) var þýskur rithöfundur. Kleist, Heinrich von Dispútasía. Dispútasía (úr latínu "disputare", að rökræða eða útlista) er opinber rökræða, þar sem háskólamaður (kennari eða nemandi) setur fram fullyrðingu eða ritgerð, sem hann ætlar að verja, en andmælendur gagnrýna harðlega. Á fyrri öldum voru slíkar dispútasíur mikið notaðar til þess að komast að niðurstöðu og gera upp á milli ólíkra skoðana. Þær voru einnig notaðar sem æfingar við æðri skóla, bæði í latínu, sem þá var alþjóðamál lærðra manna, og einnig í mælsku og snjallri röksemdafærslu. Þannig áttu háskólakennarar (prófessorar) að rökræða reglulega um viðfangsefni innan fræðigreinar sinnar, og voru slíkar andlegar skylmingar í hávegum hafðar. Þær voru umtalsverður þáttur í hugmyndagrósku innan háskólanna, og voru taldar fræðileg hliðstæða burtreiða riddara og aðalsmanna. Slíkt þótti eðlileg rannsóknaraðferð á þeim tíma, en leiddi oft til dýrkunar á málskrúði og mælskubrögðum, í stað vísindalegra rannsókna í nútímaskilningi. Þessi aðferð tíðast enn við doktorsvörn í háskólum okkar tíma. Sá sem ætlar að afla sér lærdómsgráðu í ákveðinni fræðigrein, og fullnægir skilyrðum til slíks, sendir doktorsritgerð til viðkomandi háskóladeildar. Ef ritgerðin er talin hæf til varnar, fer fram opinber doktorsvörn. Þar eru tilnefndir tveir opinberir andmælendur, en einnig geta komið athugasemdir frá áheyrendum úr sal ("ex auditorio"). Andmælendurnir „gagnrýna“ ritgerðina, en doktorsefnið ver sig eftir mætti. Nú orðið er vörnin aðeins formsatriði, því að ritgerð er ekki lögð fram til varnar fyrr en bætt hefur verið úr ágöllum hennar. Orðið „dispútasía“ er einnig notað um ritgerðina sjálfa, sem lögð var fram. Hún var jafnan á latínu og oft prentuð. Dispútasíur á fyrri öldum voru yfirleitt ekki sambærilegar við doktorsritgerðir nútímans, þær voru mun veigaminni, bæði að innihaldi og umfangi, og oft ekki miklar rannsóknir sem lágu að baki þeim. Orðið „dispútasía“ er ekki notað um nútíma doktorsritgerðir. Landfógeti. Landfógeti var embættismaður sem sá um fjármál Danakonungs á Íslandi. Hann var gjaldkeri jarðarbókarsjóðs. Landfógeti innheimti skatta í Gullbringusýslu og var lögreglustjóri í Reykjavík. Landfógeti átti að hafa eftirlit með eignum konungs hér á landi, skattheimtu og öðrum greiðslum, og sjá um fiskiútveg konungs á Suðurnesjum. Hann átti og að líta eftir því að verslunarlöggjöfinni væri hlýtt. Sá sem fyrst gegndi þessu starfi hét Kristófer Heidemann. Bifhjól. Bifhjól er vélknúið farartæki, yfirleitt á tveimur hjólum, þó sum hafi þrjú hjól. Mótorhjól nefnast þau bifhjól sem mest vélarafl hafa, en "létt bifhjól" eru með minna rúmtak en 50 cm3. Á Íslandi þarf ökuréttindi á öll bifhjól. Stuðlaberg. Stuðlaberg (e. "columnar basalt", þ. "Basaltsäulen") er storkuberg, einkum blágrýti, sem við kólnunina hefur dregist saman í stuðla sem oftast eru lóðréttir. Stuðlaberg er oftast sexstrenda en einnig þekkjast önnur form svo sem sjö-, fimm- og ferstrendingar. Gröf. Gröf er hinsta hvíla látins manns. Er oftast tveggja metra langur, ~80 cm breiður og ~2 metrar djúpur skurður. Eftir að lík hefur verið jarðsett er gröfin lukt með greftrinum. Í kristnum ríkjum eru lík jarðsett í líkkistu og flestar grafir eru innan kirkjugarða, þó einnig þekkist sérstakir grafreitir í kirkjugólfum og heimagrafreitir eða grafhýsi. Fjöldagröf er hvíldarstaður margra, og er oftast ómerkt. Menn sem týnast á hafi úti eru sagðir hafa hlotið "vota gröf". Einnig tíðkast sums staðar að taka grafir fyrir gæludýrum. Kolagrafir, sem ekki eru grafir en svo nefndar, voru fyrrum notaðar til að búa til viðarkol, m.a. á Íslandi. Grafhýsi. Grafhýsi er hús, jarðhús eða húshluti (t.d. grafarveggur) til að varðveita jarðneskar leifar framliðinna. Algengustu grafhýsin eru svonefndar "leghallir" (eða "líkhallir"), sem á mörgum tungum nefnist "Mausoleum". Leghallir kristinna manna eru oft einnig nokkurskonar kapellur. Býkúpugröf. Býkúpugröf er neðanjarðargrafhýsi með hvelfingu sem þrengist því ofar sem dregur, og minnir því nokkuð á býkúpu. Býkúpugrafir voru hlaðnar úr leirmúrsteinum eða grjóti, og tíðkuðust í fornum menningarsamfélögum við Miðjarðarhaf og Suðvestur-Asíu. Hugmyndafræði. Hugtakið hugmyndafræði er frá því um 1800 og merkti upphaflega heildstæða lýsingu á samfélaginu ásamt hugmyndum um hvernig skyldi breyta því til hins betra. Merking orðsins hefur víkkað síðan og það færst nær því að merkja hvern þann hugsunarhátt sem einkennir einhvern hóp eða menningarsamfélag. Enn er orðið þó sér í lagi notað um félagspólitíska stefnuskrá hóps eða hreyfingar. Hugtakið var fyrst sett fram af franska heimspekingnum Antoine Louis Claude Destutt, comte de Tracy (20. júlí 1754 – 9. mars 1836). Destutt vann að rannsóknum á „vísindum hugmynda“ og beindi sjónum sínum að rannsókninni sjálfri en ekki viðfangsefni hennar. Hann greindi fræðigreinina í þrennt, þ.e. hugmyndafræði, framsetningu hugmynda og afleiddum niðurstöðum hugmynda. Hugtakið kom fram á miklum umbreytingatíma í Evrópu á dögum frönsku byltingarinnar mikilli grósku í heimspeki- og stjórnmálaumræðu. Í upphafi var hugtakið einungis notað í þjóðfélagsumræðu í þeirri merkingu sem ofan greinir. Í seinni tíð hefur merkingin orðið víðari og síðustu ár hefur hugtakið verið ofnotað og þannig fengið merkinguna að hugmyndafræði sé lýsing á markmiðum, forsendum þeirra og hvernig viðkomandi hyggist ná þeim markmiðum og getur átt við nánast hvað sem er. Þannig er talað um „hugmyndafræði“ leikskólans Naustatjarnar, hugmyndafræði Tónagulls, tónlistarskóla fyrir börn og þannig mætti áfram telja. Kasper Hvidt. Kasper Hvidt (fæddur 6. febrúar árið 1976 í Kaupmannahöfn í Danmörku) er danskur handboltamaður sem spilar með spænska félaginu FC Barcelona. Kasper er markmaður, meðal þeirra allra bestu i heiminum og var útnefndur sem besti markmaðurinn við lok EM í handbolta árið 2008. Kasper spilar með danska landsliðinu og hefur í mörg skipti unnið að því að tryggja liðinu góð úrslit meðal annars á EM í Sviss árið 2006,HM í Þýskalandi árið 2007 og EM í Noregi árið 2008 þar sem hann var með 40% markvörslu og spilaði 471 mínútu af 480 í leikjum liðsins á mótinu. Kasper er núverandi fyrirliði liðsins en hann komst fyrst í landsliðið árið 1996 og hefur spilað 170 landsleiki. Upphaflega spilaði Kasper Hvidt með BK Ydun í Frederiksberg, seinna FIF. Síðasta liðið sem hann spilaði með í Danmörku áður hann fór til Spánar var Ajax. Síðan árið 1997 hefur hann spilað með mismunandi spænskum liðum. Smá saman, eftir því sem hann hefur orðið betri hefur hann skipt til stærri liða, hann spilaði árin 2004-2006 með Portland San Antonio, sem er talið eitt af bestu liðum heims. Þar var hann meðal annars liðsfélagi Lars Jørgensen og Króatans, Ivano Balić. Árið 2007 skipti Kasper til annars topliðs á Spáni, FC Barcelona. Með sínum virka handboltaferli hefur Kasper Hvidt einnig verið þáttakandi í skipulögðu íþróttastarfi. Hann situr í team Danmark sem hugar að skipulagningu úrvalsíþrótta í Danmörku, virkri nefnd danska íþróttasambandsins (DIF) á tímabilinu 2005-2008 og í stjórn félags handboltamanna (Håndboldspillerforening). Hvidt, Kasper Sendiráð Íslands. Sendiráð Íslands eru starfsstöðvar utanríkisþjónustu Íslands erlendis. Innan sendiráða starfa stjórnarerindrekar sem vinna eiga að hagsmunum Íslands eða Íslendinga í viðkomandi landi. „Eðli málsins samkvæmt væri útilokað að vinna að þessum markmiðum án þess að reka starfsemi á erlendri grundu. Því eru starfrækt sendiráð Íslands í öðrum ríkjum, fastanefndum haldið úti hjá alþjóðastofnunum og ræðisskrifstofur starfræktar þar sem hagsmunir Íslands eru taldir minni. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar sem sinna slíkum ríkiserindrekstri eru kallaðir diplómatar eða ríkiserindrekar. Í þeirra störfum geta persónuleg tengsl skipt sköpum enda byggjast þau mikið á samvinnu og gagnkvæmu trausti.“. Ísland hefur mjög fá sendiráð. Landið hefur hins vegar aðalræðismann í Winnipeg (höfuðborg og stærstu borg Manitoba í Kanada) sem þjónustar hinn mikla fjölda Manitobabúa sem eru af íslenskum ættum, og var það fyrsta ríkið í 2007 sem opnaði ræðismannsstofu í Þórshöfn vegna hinna sterku tengsla sem Ísland hefur við eyjarnar með eyjunum, bæði sagnfræðilega, fjárhagslega og meningarlega Flosi Einarsson. Flosi Einarsson (fæddur árið 1961) er íslenskur tónlistarmaður. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann á Akranesi í æsku og byrjaði á því að læra á klarinett en píanóið tók við er unglingsárin færðust yfir. Flosi byrjaði snemma á því að leika í hljómsveitum en lengst af lék hann með hljómsveitinni Tíbrá frá Akranesi. Hann stundaði nám við Kennaraháskóla Íslands (1983-1986) og seinna nam hann við Tónlistarskólann í Reykjavík (1999-2000). Frá því Flosi lauk námi hefur hann kennt við Grundaskóla á Akranesi. Einnig hefur hann kennt við Kennaraháskóla Íslands síðan 2005. Árið 2001 og 2002 stundaði Flosi nám við Berklee College of Music í Boston og lagði þar stund á djasspíanóleik auk þess sem hann tók áfanga er tengdust kvikmyndatónlist. Í gegnum árin hefur Flosi spilað með ýmsum tónlistarmönnum, einsöngvurum og kórum. Í Grundaskóla á Akranesi hefur Flosi einnig lagt mikla rækt við söngleikjastarf og samið og sett upp ásamt fleirum fjóra söngleiki. Þar er um að ræða Frelsi (2002), Hungangsflugur og Villiketti (2005), Draumaleit (2007) og Vítahringur (2008). Í tengslum við áðurnefnda söngleiki útsetti Flosi og tók upp alla tónlist sem jafnframt var gefin út á geisladiskum Einnig hefur Flosi starfað sem tónlistarstjóri í fjöldamörgum söngleikjum fyrir Fjölbrautaskóla Vesturlands og Skagaleikflokkinn. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er skemmtigarður og dýragarður í Laugardal í Reykjavík. Hann er staðsettur við hliðina á Grasagarði Reykjavíkur. Húsdýragarðurinn var opnaður þann 19. maí 1990. Fjölskyldugarðurinn var svo tekinn í notkun 4. júní 1993 og þá tók hið sameinaði garður Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn tók til starfa. Hermannaveiki. Hermannaveiki er lungnabólgulíkur smitsjúkdómur sem orsakast af gerlinum "Legionella pneumophila". Saga. Veikinni var fyrst lýst í Philadelphiu í júlí 1976 vegna smita á ársfundi American Legion sem eru samtök fyrrverandi hermanna, en þaðan kemur nafnið. Orsök útbreiðslunnar var bakteríusmit í loftræstikerfi hótelsins þar sem ársfundurinn var haldinn. Alls smituðust um 221 og létust 34; bæði vegfarendur í nágrenni hótelsins sem og fundargestir. Útbreiðsla veikinnar hófst þó á 6. áratugnum þegar kælikerfi urðu algeng. Einkenni. Hermannaveiki smitast ekki milli manna heldur kemur úr umhverfinu. Bakteríurnar þrífast best í vatni á bilinu 35 til 40°C eða vatnsgufu á álíka bili. Helstu einkenni sjúklinga er hiti, hósti (ýmist þurr eða með slími), vöðvaverkir, höfuðverkur, niðurgangur og lystarleysi. Blóðpróf gefa til kynna lækkaða nýrnastarfsemi. Meðgöngutími, frá smiti til einkenna, er gjarnan 2 til 10 dagar en getur einnig verið styttri. Til að útiloka hermannaveiki frá lungnabólgu eru tekin strokpróf og sett í ræktun. Meðhöndlun. Hermannaveiki er meðhöndluð með fúkkalyfjum. Á fyrstu árunum eftir að veikin breiddist fyrst út létust margir en nú hefur hlutfallið fallið niður fyrir 5% smitaðra ef meðhöndlun er hafin fljótlega frá smiti. Krupp. Alfred Krupp (1812-87. Alfred var langafi Alfried Krupp. Vopnaframleiðsla hjá Krupp árið 1905 Krupp er 400 ára fjölskylduveldi frá Essen í Þýskalandi. Krupp fjölskyldan er þekkt fyrir stál- og vopnaframleiðslu. Á síðari árum nefndist fjölskyldufyrirtækið: Friedrich Krupp AG Hoesch-Krupp en það fyrirtæki sameinaðist síðan Thyssen AG árið 1999 og varð að samsteypunni ThyssenKrupp AG. Krupp er notað sem orðatiltæki í Þýskalandi um afbragðsgott stál og sagt er "Hart wie Kruppstahl" (hart eins og Kruppstál). Fjölskyldufyrirtækið var stofnað árið 1811 í Essen. Í fyrstu var fyrirtækið þekktast fyrir málmsteypu sína í Rúhrhéraðinu og vopnaframleiðslu bæði fyrir innanlandsmarkað í Þýskalandi en einnig til annarra landa. Í fyrri heimstyrjöldinni seldi Krupp vopn til beggja stríðandi fylkinga. Krupp tók fljótt upp samstarf við Adolf Hitler og vann að hervæðingu Þýskalands á millistríðsárunum. Eftir seinni heimstyrjöldina voru Krupp stjórnendur ásakaðir um stríðsglæpi í Nürnberg réttarhöldunum og um þrælahald og var Alfried Krupp dæmdur í 12 ára fangelsi. Hann var látinn laus eftir þrjú ár. ThyssenKrupp. ThyssenKrupp er stór þýsk samsteypa iðnfyrirtækja með meira en 200 þúsund starfsmenn. Innan samsteypunnar eru 670 fyrirtæki víðs vegar um heim. ThyssenKrupp er eitt af stærstu stálframleiðslufyrirtækjum í heimi. ThyssenKrupp vart til þegar fyrirtæki Friedrich Krupp AG Hoesch-Krupp fyrirtækið sameinaðist Thyssen AG árið 1999. Jákvæð sálfræði. Jákvæð sálfræði er ný fræðigrein grein sem beinir sjónum að heilbrigði, hamingju og því sem gerir venjulegt líf innihaldsríkara, frekar en að fást við sjúkdóma og vandamál. Sérfræðingar sem aðhyllast jákvæða sálfræði leitast við að greina hugsun, hegðun og lífsstíl þeirra sem eru hamingjusamir og gengur vel í lífinu almennt og á einstökum sviðum þess. Jákvæða sálfræðin kynnir í raun nýjar áherslur og nýja orðræðu inná hefðbundin fræðasvið eins og heilbrigðisvísindi, stjónunarfræði, uppeldis- og menntunarfræði, íþróttafræði og lýðheilsufræði. Sérfræðingar sem aðhyllast jákvæða sálfræði leitast við að greina hugsun, hegðun og lífsstíl þeirra sem eru hamingjusamir og gengur vel í lífinu og á einstökum sviðum lífsins. Martin Seligman er álitinn vera faðir jákvæðrar sálfræði. Martin Seligman. Martin E.P. Seligman (fæddur í Albany í New York-ríki 12. ágúst 1942) er bandarískur sálfræðingur og rithöfundur, hann er þekktur fyrir kenningu sína um lært hjálparleysi og nýlega fyrir framlag sitt á sviði jákvæðrar sálfræði. Geimfari. Geimfari er sá sem fer út í geim um borð í geimfari, og er meðlimur áhafnar. Skilgreining geimfara er breytileg, til dæmis í Bandaríkjum er geimfari sá sem hefur flogið í meiri hæð en 80 km, en FAI telur geimfari vera sá sem hefur flogið meira en 100 km. Seinni helming 20. aldarinnar voru stóveldin Bandaríkin og Sovétríkin í nokkurs konar kapphlaupi um geiminn. Framan af voru Sovétríkin í forystu. Júrí Gagarín frá Sovétríkjunum var fyrsti maðurinn sem fór út í geiminn árið 1961 og Valentína Tereshkova var fyrst kvenna út í geim árið 1963. Síðar tóku Bandaríkjamenn forystuna, en Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið árið 1969. Norðurheimskautsbaugurinn. Norðurheimskautsbaugurinn merktur með rauðri línu Varði nálægt heimskautsbaugnum á Saltfjalli í Noregi. Norðurheimskautsbauginn afmarkar það svæði á norðurhjara jarðar þar sem sólin (eða réttara sagt sólmiðjan) getur horfið undir sjóndeildarhringinn í heilan sólarhring eða lengur að vetrinum en getur þá jafnframt verið sýnileg heilan sólarhring eða lengur að sumrinu, þannig að sjá megi miðnætursól. Sams konar baugur, suðurheimskautsbaugurinn, er á suðurhvelinu. Skilgreiningin sýnist einföld en margt flækir málið. Fólk víða á Norðurlandi getur borið vitni um það að sólin hverfur ekki undir sjónarrönd dögum saman kring um sumarsólstöður, þó liggur baugurinn langt norður í hafi. Ástæðan fyrir þessu er sú að skilgreining baugsins miðast við að athugandinn sé við sjávarmál og tekur ekki tillit til ljósbrots í gufuhvolfi jarðar. Ljósbrotið veldur því að miðnætursól getur sést tugi km sunnan heimskautsbaugs og raunar yfir 100 km ef farið er til fjalla. Möndulhallinn. Það er möndulhalli jarðar sem ræður legu heimskautsbaugsins. Snúningsmöndull jarðar liggur ekki hornrétt á brautarflöt hennar. Hornið á milli þeirra er nálægt 66°33,5‘. Baugurinn er því á 66°33,5‘ norðlægrar breiddar. Þetta horn er þó ekki stöðugt heldur tekur það hægfara breytingum og er ýmist að vaxa eða minnka og sveiflast á milli hámarks og lágmarks á um 20.000 árum. Á síðustu ármilljónum hefur hornið mest orðið 68° en minnst 65,5°. Mismunurinn er 2,5° og samkvæmt þeirri þekktu reglu að hver breiddarmínúta jafngildi einni sjómílu má ljóst vera að baugurinn getur flust til um 150 sjómílur frá norðri til suðurs. Sem stendur fer hornið vaxandi en það veldur því að baugurinn færist til norðurs um 14,5 m á ári. Þetta er margfalt meiri tilfærsla en verður við hægfara jarðskorpuhreyfingar eins og t.d. landrek. Fleiri óreglur. Fleiri þættir koma hér við sögu t.d. hin svokallaða pólriða (nutation) sem veldur sveiflu frá hámarki til lágmarks á 9,3 árum og flytur bauginn til um hátt í 570 m á sama tíma og síðan til baka á ný á næstu 9,3 árum. Enn fleiri atriði flækja þetta mál. Hreyfingin heimskautsbaugsins er því ekki jöfn frá einum tíma til annars heldur rykkjótt og skrykkjótt. Ekki er hægt að segja nákvæmlega fyrir um hana í smáatriðum því hafstraumar, iðustraumar í iðrum jarðar og jafnvel stórir jarðskjálftar geta haft áhrif þótt í litlu sé. Uppruni hugtaksins. Hið landfræðilega hugtak heimskautsbaugur er komið frá Forngrikkjum. Þeir skilgreindu einnig hvarfbaugana og miðbaug. Baugar þessir teljast mikilvægustu breiddarbaugar heimskortsins og þeir afmarka loftslagsbelti jarðar, hitabeltið, tempruðu beltin og heimskautabeltin. Norðurslóðir er landfræðilegt hugtak um landsvæðin norðan við og í grennd við heimskautsbauginn. Baugurinn við Ísland. Merkið við heimskautsbauginn hjá Básum í Grímsey Heimskautsbaugurinn liggur þvert yfir Grímsey. Á hlaðinu norðan við Bása, sem er nyrsti bærinn í eynni, er varði sem merkir legu baugsins og þar láta ferðalangar ljósmynda sig og fá síðan áritað skjal því til tippi staðfestingar að þeir hafi stigið fæti norður fyrir heimskautsbaug. Þetta er þó ekki nákvæm staðsetning því hann liggur nokkru norðar. Í dag er hann nálægt Almannagjá nyrst á eynni og reikar til lengri tíma litið hægt til norðurs. Fyrr á öldum lá hann sunnan eyjarinnar en gekk inn á hana snemma á 18. öld. Hjá Básum var hann á árunum 1880-1920. Um miðja þessa öld mun hann fara norður af eynni. Eftir það verður Grímsey sunnan heimskautsbaugs í nærfellt 20.000 ár en þá mun baugurinn á ný reika yfir eyna en í það skipti á suðurleið. Áhugamenn um landafræði og ferðaþjónustufólk hafna oft hinni flóknu stjarnfræðilegu skilgreiningu á legu heimskautsbaugsins. Menn vilja fá fasta landfræðilega skilgreiningu þar sem hægt er að setja niður merki og viðkomustað ferðamanna. Víðast hafa menn einfaldlega kosið að marka heimskautsbauginn við 66°33‘ norður. Alaskabúar hafa t.d. gert fallegan áningarstað við Dalton þjóðveginn þar sem hann fer yfir 66°33‘N og á sömu breidd hafa Norðmenn reist táknrænt hlið á veginum yfir Saltfjallið í Norðlandsfylki. Þeir sem fara í gegn um það eru komnir inn á heimslautasvæðið. Þar er einnig fallegur varði úr graníti og ofan á honum hnattlíkan. Það virðist sanngjörn málamiðlun að marka baugnum fastan sess á þessari breidd, skammt sunnan við hinn stjarnfræðilega rétta stað, hvað sem síðar kann að þykja þegar baugurinn hefur flutt sig norðar. Orator. Orator er félag laganema við Háskóla Íslands. Félagið heldur uppi einu öflugasta og virkasta félagslífi við Háskólann. Orðið „orator“ þýðir „ræðumaður“ eða "mælskumaður" og kemur úr latínu. Félagið hefur verið starfrækt frá árinu 1928. Saga Orators. Orator var stofnað haustið 1928, upphaflega til þess að þjálfa félagsmenn í ræðumennsku, auk þess sem það átti að vera skemmtifélag. Síðara markmiðið hefur félagið jafnan staðið vel við með skemmtikvöldum, dansleikjahaldi, árshátíðum o.fl. Í upphafi var haldið fast við markmiðið um þjálfun í ræðumennsku, því margir fundir voru haldnir þar sem félagsmenn tóku þátt í umræðum um hin ýmsu mál. Fljótlega dró þó úr fundahöldum og hafði þessi þáttur í starfseminni nánast lagst af á tímabili. Nokkur kippur kom í fundahöld upp úr 1960 og hafa fundahöld verið nokkur drjúgur þáttur í starfseminni síðan. Sú breyting varð á fundum félagsins er fram liður stundur að fengnir voru utanfélagsmenn til þess að flytja erindi, en áður höfðu einungis félagsmenn tekið til máls á fundum. Við þetta varð sú breyting að færri félagsmenn tóku þátt í umræðum á fundum, þannig að lítið varð úr upphaflegu markmiðinu um ræðuþjálfun. Á seinni tímum hefur aðalvettvangur fyrir þjálfun í ræðumennsku verið hinn árlegi aðalfundur félagsins. Einnig hafa félagsmenn fengið nokkra þjálfun í ræðumennsku við málflutningsæfingar. Fljótlega færði félagið út kvíarnar og fleiri þættir komu inn í starfsemina. Þegar á öðru starfsári félagsins var farið að sýslu við ritlistina með því að byrjað var að gefa út blaðið Auctor. Tæpur tveimur áratugum síðar var byrjað að gefa út lögfræðitímaritið "Úlfljót", og hefur það verið gefið út því sem næst óslitið síðan. Má telja það til afreka að félagið hafi getað haldið úti útgáfustarfsemi svo lengi. Ýmis önnur útgáfustarfsemi hefur farið fram á vegum félagsins. Margar lögfræðibækur hafa veirð gefnar út, svo og ýmis önnur kennslugögn. Einnig hefur félagið átt hlut að málum við útgáfu ýmissa bóka á vegum háskólans. Á síðari árum hefur félagið enn fremur gefið út fréttabréf, fyrst Fréttabréf Orators, síðan Grím Geitskó. Annar þáttur sem hefur verið mjög áberandi í starfseminni lengi, eru vísindaferðirnar (nefndar „kokkteilar“). Fyrsti kokkteillinn var farin að vinnuhælinu á Litla-Hrauni. Fyrsta áratugina var einungis farið í einn kokkteil á hverju ári og þá var öllum laganemum heimiluð þátt taka í honum. Upp úr 1967 varð nokkur breyting á þessu því kokkteilum fjölgaði mjög og voru sumar ferðirnar takmarkaðar við tiltekna námsárganga. Í fyrstu var yfirleitt farið í kokkteila á Litla-Hrauni. Seinna urðu Þingvellir og Laugarvatn vinsælir staðir í þessum ferðum. Síðan var farið að heimsækja sýslumenn og bæjarfógeta um allt land. Eftir fjölgun kokkteila upp úr 1976 var farið í þá mun víðar bæði innanlands sem utan. Nú til dags er farið í kokkteila á hverjum föstudegi á meðan skólaárið stendur yfir og lögmannsstofur, ríkisstofnanir, fyrirtæki o.fl. sótt heim. Samskipti Orators við erlenda lagastúdenta hafa verið mikil Fyrstu samskipti íslenskra laganema við norræna kollega, svo kunnugt sé, varð ferð á norrænt laganemamót í Finnlandi 1933. Þessi ferð var þó ekki farin á vegum Orators. Erlend samskipti hjá Orator hófust ekki fyrr en 1947. Hafa þau farið vaxandi síðan og eru nú mjög fjölbreytileg. Í byrjun voru erlendu samskipti félagsins einskorðuð við þátttöku í norrænum laganemamótum og heimsóknum á hátíðir norrænna laganemafélaga. Auk þess voru tekin upp stúdentaskipti við háskólann í Osló, sem stóðu í tæp tvö ár. Á árunum eftir 1955 voru tekin upp stúdentaskipti við háskóla í Bandaríkjunum og við stúdentasambandið í Þýskalandi. Aðeins var um eina heimsókn af hálfu hvors aðila að ræða í þessum stúdentaskiptum. Jafnfram þessu jukust samskipti félagsins við önnur laganemafélög á Norðurlöndum. Félagið gerðist m.a. aðili að Norræna laganemaráðinu, sem stofnað var 1964. Árið 1967 hófust stúdentaskipti milli Orators og háskólans í Glasgow; stóðu þau yfir í nokkur ár. Nokkru seinna voru tekin upp föst stúdentaskipti við Ohio Northern-háskóla í Bandaríkjunum og hafa þessi skipti haldið áfram síðan. Auk þess sem félagsmenn Orators hafa jafn og þétt sótt hátíðir laganemafélaga á hinum Norðurlöndunum. Síðasta nýbreytnin í erlendum samskiptum félagsins er aðild Orators að European Law Student Association. Nú er sérstök Íslandsdeild ELSA sem sér um þessi samskipti, óháð Orator. Málflutningsæfingar hafa verið stór þáttur í starfsemi félagsins. Þær hófust árið 1933 og hafa síðan verið haldnar reglulega, þó með nokkur hléi eftir að starfsemi félagsins lagðist tímabundið niður árið 1935. Í fyrstu vorur það yfirleitt prófessorar við lagadeildina, sem útbjuggu málsatvikin í þessum æfingum og gagnrýndu meðferð og niðurstöðu málsins. Síðan voru utandeildarmenn einnig fengnir til þessa verks. Árið 1997 var endurvakin málflutningskeppni Orators með dyggum stuðningi prófessora við lagadeild. Keppnin skal haldin annað hvert ár. Árið 1933 hóf félagið að veita ókeypis lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk. Þessi starfsemi hefur líklega lognast út af í kringum 1935. Þráðurinn var þó tekinn upp að nýju árið 1981 og hefur lögfræðiaðstoð Orators starfað síðan. Eins merks þáttar í starfsemi félagsins er enn ógetið en það er útvarps- og sjónvarpsþáttagerð félagsins. Fyrsti útvarpsþátturinn gerði félagið árið 1958. Í þeim útvarpsþáttum, sem Orator hefur gert hefur félagið ýmist kynnt laganám á Íslandi, tekið fyrir fræg dómsmál eða fjallað um sérstök lögfræðileg viðfangsefni. Sjónvarpsþættir félagsins, sem nefndir hafa verið Réttur er settur, hafa allir verið með svipuðu sniðu. Fyrsti sjónvarpsþátturinn var sýndur árið 1967. Lögbergsdómur er dómsalur laganema, sem staðsettur er á annarri hæð í Lögbergi. Dómsalurinn var formlega tekinn í notkun hinn 28. mars 2007. Frumkvæði að framkvæmdum við salinn áttu þáverandi framkvæmdastjórar Úlfljóts, Einar Björgvin Sigurbergsson og Jóhannes Eiríksson, en þeir sáu og um öflun styrkja vegna verkefnisins. Ýmislegt annað hefur verið starfað á vegum félagsins. Félagið hefur haldið fjölbreytileg námskeið, svo sem í ræðumennsku og fundarsköpum, lögmannsstörfum og skattarétti. Einnig hefur félagið gengist fyrir seminörum, þar sem fjallað hefur verið um margvísleg máleni. Þá hafa önnur fundahöld, svo sem fræðslufundir verið þáttur í starfsemi félagsins. Þá hafa félagsmenn starfað nokkuð að kennslumálum, meðal annars með setu fulltrúa félagsins á deildarfundum og í námsnefnd lagadeildar og störfum hagsmunadeildar félagsins. Orator hefur gengist fyrir íþróttaiðkun á meðal félagsmanna sinna með því að halda ýmiss konar íþróttamót. Úlfljótur. Úlfljótur er tímarit laganema og hefur verið gefið út lengst allra tímarita við Háskóla Íslands. Fyrsta tölublað þess leit dagsins ljós í lok febrúarmánaðar árið 1947. Frá þeim tíma hefur tímaritið verið gefið út á hverju ári, að undanskildu árinu 1951, og orðið efnismeira með hverju árinu sem líður. Í Úlfljóti er að finna vandaðar greinar um íslenska sem og alþjóðlega lögfræði auk þess sem þar er að finna umfjöllun um það sem er efst á baugi í lögfræði hverju sinni. Þar eru m.a. reifaðir nýjustu dómar Hæstaréttar, fjallað um ný fræðirit á sviði lögfræði og greint frá helstu tíðindum sem berast frá Alþingi svo fátt eitt sé nefnt. Í tímaritinu eru og fluttar fregnir af hinu stranga og áhugaverða laganámi sem og hinu viðburðaríka starfi félagsstarfi Orators og Úlfljóts. Flestir höfundar eru lögfræðingar eða laganemar en auk þeirra hafa fjölmargir aðrir, sem láta sig lögvísindi varða, ritað greinar í Úlfljót. Á hverju ári eru gefin út fjögur tölublöð og er hægt er að gerast áskrifandi að Úlfljóti með því að styðja á þar til gerðan hnapp á vefsíðu Úlfljóts. Lögbergsdómur. Lögbergsdómur er staðsettur er á annarri hæð í Lögbergi. Dómsalurinn var formlega tekinn í notkun hinn 28. mars 2007. Frumkvæði að framkvæmdum við salinn áttu þáverandi framkvæmdastjórar "Úlfljóts", Einar Björgvin Sigurbergsson og Jóhannes Eiríksson, en þeir sáu og um öflun styrkja vegna verkefnisins. Þau félög sem styrki veittu voru Landsbankinn, ESSÓ, Hollvinafélag lagadeildar og dómsmálaráðuneytið. Í dómsalnum hefur og aðsetur sérstakur dómstóll laganema við Háskóla Íslands, er ber sama heiti og salurinn sjálfur, þ.e. Lögbergsdómur. Frumkvæði að stofnun dómstólsins var einnig í höndum Einars Björgvins og Jóhannesar, en stofnunin var samþykkt með breytingu á lögum Orators hinn 3. apríl 2007. Hefur verið vísað í dómstólinn sem „þriðja stoðin“ í félagslífi laganema ásamt "Úlfljóti", tímariti laganema, og Orator, félag laganema. Stjórn Orators. Stjórn félagsins skipa sjö laganemar við Háskóla Íslands: formaður, varaformaður, ritstjóri Úlfljóts, funda- og menningarmálastjóri, gjaldkeri, alþjóðaritari og skemmtanastjóri. Beyki. Beyki (áður einnig kallað bæki) (fræðiheiti: "Fagus") er ættkvísl skammærra trjáa af beykiætt sem finnst í tempraða beltinu í Evrópu og Norður-Ameríku. Beykitré geta orðið allt að 35 m há. Þau eru með egglaga, heilrend laufblöð sem hafa lítið eitt bugðótta jaðra, blóm í hnoðum og eru með sléttan, gráleitan börk. Beykiviður er auðunninn og notaður m.a. í húsgögn o.fl. Beyki þrífst illa á Íslandi, en myndaði þó fræ nýlega−það var haustið 2007 í garðinum Hellisgerði í Hafnarfirði; trén voru um 80 ára gömul. Í "Bygging og líf plantna. Grasafræði", eftir Helgi Jónsson, segir: Beykið skyggir meira og þolir skuggann betur, og er því skuggatré en eikin er ljóstré. Hringmyrkvi. Hringmyrkvi er sólmyrkvi sem verður þegar tunglið skyggir fyrir sólkringluna miðja en ekki jaðar hennar, séð frá athugunarstað. Almyrkvi verður ef tunglið hylur alla sólarkringluna, en deildarmyrkvi ef tunglið skyggir aðeins á sneið af sólinni. Laura Prepon. Laura Prepon (fædd 7. mars 1980) er bandarísk leikkona og þekktust fyrir hlutverk sitt sem „Donna“ í "That '70s Show". Hello Kitty. sem er enska og þýðir á íslensku „Halló kisa“ er sú þekktasta skáldsagnapersóna japanska fyrirtækisins Sanrio. Hello Kitty var sköpuð árið 1974 af Sanrio fyrirtækinu í Tókíó í Japan og er núna orðin heimsfrægt vörumerki. Robbie Keane. Robert David Keane (fæddur 8. júlí 1980) er knattspyrnumaður frá Dublin á Írlandi sem leikur með Liverpool F.C. í ensku úrvalsdeildinni. Ferill. Keane byrjaði atvinnumannaferil sinn hjá Wolverhampton Wanderers árið 1997 og var þar til árið 1999. hjá þeim lék hann 73 leiki og skoraði 24 mörk. Þaðan var hann seldur til Coventry City á sex miljónir punda sem var met fyrir breskan ungling, hjá þeim lék hann 31 leik og skoraði 12 mörk. Þá fékk Marcello Lippi hann til Internazionale þar sem hann spilaði með mönnum eins og Ronaldo og Christian Vieri en Marcello Lippi var rekinn og Keane fékk fá tækifæri hjá nýja þjálfaranum og skoraði ekkert mark í þeim sex leikjum sem hann fékk og var á endanum lánaður til Leeds. Hjá Leeds byrjaði hann vel og skoraði níu mörk í 14 leikjum og fékk þá þjálfari Leeds David O'Leary hann keyptan í maí 2001 á 12 miljónir. Þá hóft erfiður tími hjá honum og hann féll neðar í röðina hjá þjálfaranum en hann skoraði aðeins tíu mörk í 36 leikjum. Leeds lentu þá í fjárhags kröggum og urðu að selja sína bestu. Þá var Keane seldur til Tottenham fyrir leiktíðina 2002-2003 á sjö miljónir punda. Þar lék Keane undir stjórn Glenn Hoddle og á fyrsta tímabili sínu skoraði hann 13 mörk og þar á meðal þrennu. Leiktíðina 2003-2004 gekk allt illa hjá Tottenham en Keane skoraði þar 16 mörk. Á þriðju leiktíð sinni fyrir þá skoraði hann 17 mörk en hann var fyrir aftan þá Jermain Defoe, Freddy Kanoute og Mido í röðinni. 2005-06 kom Martin Jol til sögunnar og þá fékk Keane loksins almennileg tækifæri og hann nýtti sér það og spilaði sinn allra besta fótbolta á ferlinum og þá leiktíðina náði hann 16 mörkum. Og var gerður að vara fyrirliða liðsins. Í febrúar 2006 sagði forseti Inter Massimo Moratti að hann sæi mikið eftir því að hafa látið hann fara því að Keane væri að spila fullkomin fótbolta. þessi leiktíð byrjaði illa fyrir Keane þar sem að hann meiddist á hné, en þegar að hann kom sér upp úr því þá fór hann að raða inn mörkum og endaði á að skora 22 mörk og 15 mörk í seinustu 15 leikjum á tímabilinu. Í desember 2007 náði hann þeim áfanga að verða sá 13 í sögu enskrar kanttspyrnu til þess að skora 100 mörk í deildinni í heildina og á þeirri leiktíð skoraði hann 31 mark og var með 13 stoðsendingar í 40 leikjum. Keane, Robbie Áttaviti. Áttaviti (eða kompás) er tæki með segulnál til að vísa á réttar áttir. Áttavitar eru mikið notaðir á sjó, en einnig í óbyggðum og eru vinsælt amboð í ratleikjum. Í sumum áttavitum er spíritusblanda, þ.e. að nálin er lukt inn í spíra milli glerja, en sumar tegundir eru „þurrar“. Áttamerkin á skífu áttavitans nefnast "áttavitarós". Á mörgum eldri gerðum skipa var áttavitinn hafður í uppháum trékassa, tvíhólfuðum, sem var á þilfarinu og nefndist "nátthús". Kristian Kaalund. Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn. Æviferill. Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888). Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: "Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island", 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu "Íslenskir sögustaðir" 1–4. Kaalund fékk doktorsnafnbót 8. maí 1879 fyrir hluta þessa verks (kaflann um Norðlendingafjórðung). Eftir að hann kom frá Íslandi, varð hann (1875) kennari við Metropolitanskólann í Kaupmannahöfn (aðjúnkt 1880), en lét af því starfi vorið 1883, þegar hann varð ritari Árnanefndar og bókavörður við Handritasafn Árna Magnússonar. Mikilvægasta verk hans þar, var heildarskrá um handritasafnið, sem kom út í tveimur bindum 1889–1894. Slíka skrá hafði sárlega vantað, og nokkrir gert atlögu að verkinu, m.a. Jón Sigurðsson forseti, en með verki Kaalunds varð safnið loks aðgengilegt fræðimönnum. Árið 1900 gaf hann út sambærilega skrá yfir forn íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Háskólabókasafninu. Þar birti Kaalund ítarlega ritgerð um söfnun og varðveislu handritanna fornu. Sem bókavörður við Árnasafn, og ritari í Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (frá stofnun þess 1879) og í Fornritanefnd Fornfræðafélagsins (eftir Konráð Gíslason 1891), hafði Kaalund mikil áhrif á útgáfustarfsemi á sviði íslenskra fornrita, og gaf sjálfur út nokkur rit. Mikilvægust er vönduð útgáfa hans á Sturlunga sögu 1906–1911. Útgáfa hans á "Palæografisk Atlas", með fjölda sýnishorna af dönskum, norskum og íslenskum handritum, hafði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á þróun skriftar á Norðurlöndum á fyrri öldum. Á síðustu árum sínum fékkst Kaalund einkum við sögu Árnasafns, og gaf út heimildir um líf og starf stofnandans, Árna Magnússonar. Hefur hann eflaust ætlað að setja kórónuna á það verk með ítarlegri ævisögu Árna, en hann dó frá því verki. Í Íslandsför sinni lærði Kristian Kaalund að tala íslensku, og bar síðan hlýjan hug til þjóðarinnar. Fékk hann brátt áhuga á sögu Íslands á síðari öldum, sem kom honum að gagni þegar hann skrifaði æviágrip fjölda Íslendinga í "Dansk biografisk leksikon", 1887–1905, og greinar um Ísland i "Nordisk konversations-leksikon", 3. útg. Þegar Kristian Kaalund varð sjötugur, 1914, gaf Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn út afmælisrit honum til heiðurs, með æviágripi hans eftir Finn Jónsson og greinum sex íslenskra fræðimanna. Kristian Kaalund var ógiftur og barnlaus. Við fráfall hans, 1919, arfleiddi hann Hið íslenska fræðafélag að öllum eigum sínum. Hann varð félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1899, í Vísindafélaginu danska (Videnskabernes Selskab) 1900 og Sænska vísindafélaginu (Kungliga vitterhets-, historie- og antikvitets akademien) 1910. Hann varð riddari af Dannebrog 1907. Hið íslenska bókmenntafélag kaus hann heiðursfélaga 1897. Rannsóknir á íslenskum fornleifum. Kristian Kaalund ferðaðist um allt Ísland til þess að skoða og skrá þekkta sögustaði og sögusvið Íslendingasagna. Í bók sinni, "Bidrag til en topografisk-historisk Beskrivelse af Island" eða Íslenskir sögustaðir, lýsir Kaalund landslaginu og fornum minjum sem hann taldi að tengdust Íslendingasögum eða vörpuðu ljósi á þær. Einnig skráði hann sagnir og munnmæli sem tengdust rústum og fornum grafhaugum. Hann notaði margskonar heimildir og studdist t.d. við örnefni og staðbundnar hefðir auk eigin athugana á rústum sem hann skoðaði. Hann bar vettvangsathuganir sínar saman við upplýsingar sem hann fann í sóknarlýsingum og gögnum frá Konunglegu fornminjanefndinni í Danmörku auk margvíslegra annarra heimilda. Árið 1882 gaf Kaalund út ritgerðina "Islands Fortidslævningar" eða “Icelandic Antiquities”, þar sem að hann skráði niður alla þekkta heiðna grafstaði. Hann efaðist um að það væri mikill fjöldi af heiðnum grafreitum vegna þess að fyrstu landnámsmennirnir komu til landsins á seinni hluta 9. aldar og svo var kristnin tekin upp árið 1000, samkvæmt "Íslendingabók" og "Landnámabók". Minjar um stofnanir þjóðveldisins. Í leiðangri sínum leitaðist Kaalund við að fara á alla þá staði sem getið er í Íslendingasögunum (nokkur svæði urðu þó útundan), lýsa þeim rústum sem taldar voru tengjast sögunum og átta sig á staðháttum m.a. með tilliti til þess hvort leiðalýsingar sagnanna væru raunhæfar. Hann taldi að með því að skoða staðhættina mætti varpa ljósi á óskýr atriði í sögunum og jafnvel skera úr um hvaða textar væru upprunalegastir þar sem sögurnar voru varðveittar í mismunandi gerðum. En hann hafði líka áhuga á því að varpa almennu ljósi á söguöldina með því að skoða staðhætti og fornleifar og lagði því líka áherslu á að skoða ummerki um stofnanir þjóðveldisins, hof og þing. Hann athugaði marga slíka staði þó þeirra væri ekki endlilega getið í sögunum og lagði víða grunninn að frekari rannsóknum. Hann skráði t.d. um 60 staði þar sem hann taldi að hof hefðu verið í heiðni, m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem Daniel Bruun átti seinna eftir að gera mkikinn uppgröft og þar sem mikla rannsóknir fóru aftur fram 1991-2002. Kaalund kom einnig á marga af þeim stöðum sem taldir eru hafa verið þingstaðir á þjóðveldisöld og tókst á við þann vanda að reyna að skilgreina slíka staði útfrá minjum sem sáust á yfirborði. Á mörgum slíkum stöðum fann hann þyrpingar af ferhyrndum rústum, sem hann taldi vera búðir, og svo annaðhvort ferhyrndar eða hringlaga rústir sem hann taldi vera dómhringa. Á sumum þingstaðanna taldi hann einnig hafa verið þingbrekku. Mjög oft voru það örnefni eins og "þing" eða "búð" sem komu honum á sporið þar sem hann leitaði þingstaða. Kaalund beitti hvergi uppgrefti við rannsóknir sínar en lýsingar hans og skilgreiningar á minjastöðum lögðu grundvöllinn að frekari rannsóknum á næstu áratugum. Hið Íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og áttu rannsóknarmenn þess, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi, eftir að heimsækja flesta þá staði sem Kaalund skráði, enduskoða sumar af túlkunum hans en þó oftar að bæta við ítarlegri lýsingum. Stórt hlutfall friðlýstra minjastaða í dag var fyrst lýst af Kristian Kaalund. Brenna Njáls. Kaalund heimsótti Bergþórshvol þar sem Njáll og fjölskylda hans voru brennd inni árið 1011 samkvæmt Njáls sögu. Hann fann þar ösku og búta af bronsi, en taldi það ættað úr ruslahaugi og væri því ekki tengt brennunni sjálfri. Í kjölfarið hafa ýmsir fræðimenn, þ.á.m. Sigurður Vigfússon, Matthíast Þórðarson og Kristján Eldjárn spreytt sig á að finna ummerki um Njálsbrennu á Bergþórshvoli, en með misjöfnum árangri. Heimildir. Kaalund, Kristian Dýragarður. a> er dýragarður frá upphafi 20. aldar. Dýragarður er svæði þar sem dýr í haldi eru til sýnis. Dýragarðar eru vinsæl afþreying og þeir stærri eru mikilvægir ferðamannastaðir. Að auki leggja margir dýragarðar stund á verkefni sem snúast um að fjölga sjaldgæfum dýrategundum, rannsóknir á varðveislu dýrategunda og fræðslu almennings. Dýragarðar eru oft umdeildir vegna þess aðbúnaðar sem dýrin lifa við, en það þrönga rými sem dýragarðar geta notað til að skapa villtum dýrum aðbúnað við hæfi er talið ófullnægjandi til að sumum dýrum líði vel. Eins eru ýmis siðferðileg álitamál sem snúast um nauðsyn eða tilgang þess að hafa dýr til sýnis yfirleitt. Oddfellowreglan. Oddfellowreglan er bræðrafélag sem rekur rætur sínar til nokkura stúka sem stofnaðar voru í Bretlandi á 18. öld og höfðu þann tilgang að aðstoða félaga sína í neyð. Nafnið er dregið af nafni gilda sem félagar ("fellows") stofnuðu þegar meistarar tóku að takmarka aðgang að hinum hefðbundnu iðnaðarmannagildum á 14. öld. "Odd Fellows" er dregið af því að félagar í þessum gildum komu úr ýmsum iðngreinum ("odd" í merkingunni „hinum og þessum“). Elísabet 1. hóf baráttu gegn leynifélögum í Bretlandi og undir lok ríkisára hennar höfðu flest gildin verið lögð niður. Sumum þessara félaga tókst að lifa af með því að breyta um hlutverk og gerast góðgerðastofnanir. Reglurnar voru með aðalstöðvar í London en stofnuðu „stúkur“ ("lodges") annars staðar. Elsta dæmið um reglur fyrir Oddfellowsstúku eru frá 1730 Óháða Oddfellowreglan var stofnuð í Bandaríkjunum árið 1819 og breiddist þaðan út um allan heim. Stórstúka Íslands (stofnuð 1897) er grein af bandarísku Óháðu Oddfellowreglunni. Flotfræði. Flotfræði eða seigjufræði er sú fræðigrein sem fæst við breytingu forms efna, vegna álags eða þrýstings. Enska heitið er "rheology" og var búið til af prófessor Eugene C. Bingham við Lafayette Háskólann árið 1920 eftir nafni kollega hans, Markus Reiner. Seigjumælir. Seigjumælir mælir seigju og er til dæmis mikið notaður við þróun sérsteypu. Hvítbláinn. Hvítbláinn var fáni Íslendinga áður en Íslenski fáninn var tekinn upp. Hugmyndin að Hvítblánum átti Einar Benediktsson. Sama ár og tillagan var borin fram, árið 1897, blakti hann við hún á þjóðminningunni í Reykjavík. Núna er hvítbláinn fáni UMFÍ ("Ungmennafélags Íslands"). 13. mars, árið 1897, skrifaði Einar Benediktsson grein í blaðið Dagskrá, sem hann nefndi „Íslenski fáninn“ og var um fána- og skjaldarmerkismálið. Gerði hann þar glögga greinarmun á fána og skjaldarmerki, og gerir það síðan að tillögu, að fáni Íslands verði „hvítur kross í bláum feldi“. Bendir hann þar á að fálkafáninn sé ósamræmanlegur við flögg annarra kristinna þjóða. Krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Grein þessi markaði tímamót í fánamálum Íslendinga, því að Hvítbláinn ávann sér geysilegar vinsældir meðal þjóðarinnar. Það voru svo kvenfélagskonur í Reykjavík, sem hófu þennan fána fyrst á loft. Var það á Þjóðminningunni (þjóðhátíðinni) í Reykjavík sumarið 1897. Það var þó ekki fyrr en árið 1905 og næstu ár þar á eftir, að fáni þessi fór að breiðast út um landið. Ýmsar fleiri tillögur voru þó á kreiki. Má nefna tillögu um einlitan fána, bláan eða rauðan, með hinni heiðnu fimmgeisluðu stjörnu eða hamarsmarki Þórs, hina gömlu tillögu um hvítan fálka í bláum feldi, sem hafa átt sér nokkra fylgismenn, og tillögu um mynd af Fjallkonunni í hvítum feldi. Ekki voru þó allir alls kostar ánægðir með þennan fána. Ýmsir töldu hann of líkan fánum annarra þjóða, aðallega Svía og Grikkja. Kristjáni konungi tíunda þótti t.d. Hvítbláinn líkjast um of gríska fánanum. Margir töldu einnig að örðugt gæti reynst að greina gríska og íslenska hvítbláinn í sundur á sjó úti. Fáni Hjaltlands hefur sama útlit og Hvítbláinn. Hánorska. Hánorska kallast óopinber og lítið notuð útgáfa nýnorsku. Henni er ætlað að varðveita nýnorskt skrifmál óháð bókmáli. Helstu talsmenn hánorskunnar voru þeir Ivar Aasen, Aasmund Olavsson Vinje, Arne Garborg, Olav Nygard og Olaf H. Hauge. Hánorska er mjög lík landsmáli ("landsmål"). Þorskafáninn. Þorskafáninn (eða Þorskafáni Jörundar'") var fáni Jörundar hundadagakonugs meðan hann ríkti yfir Íslandi. Þorskarnir þrír voru í efri stangarreit, og var fáni þessi dreginn að húni og hylltur með fallbyssuskotum á hádegi 12. júlí 1809. Fánastöngin var við pakkhús eitt í Hafnarstræti. Fálkafáninn. Fálkafáninn var fáni sem var óopinbert tákn Íslands í lok 19. aldar og gerður eftir hugmynd Sigurðar málara. Þegar líða tók á 19. öld vildu menn taka fálkann upp í skjaldarmerki Íslands í stað flatta þorsksins og hugsuðu menn sér þá jafnframt, að fálkinn yrði í fána Íslendinga. Þá hófust og skrif um það, að hvítt og blátt væru hinir sönnu þjóðarlitir Íslendinga. Sigurður málari Guðmundsson vakti einna fyrstur máls á því, að fálkinn væri sæmilegra tákn en þorskurinn, og fyrir atbeina hans tóku stúdentar fálkann upp í merki sitt (1873) og skólapiltar nokkru seinna. Fálkahugmynd Sigurðar breiddist ört út, og á þjóðhátíðinni 1874 var merki með hvítum fálka í bláum feldi mjög víða notað við hátíðahöldin á Íslandi og jafnvel meðal Íslendinga í Vesturheimi. Var mikil hreyfing uppi um það, að hvítur fálki í bláum feldi skyldi vera þjóðtákn Íslendinga, og þá bæði skjaldarmerki og fáni, að svo miklu leyti, sem menn gerðu sér ljósan greinarmun á þessu tvennu. Fram undir aldamót voru fánar af þessari gerð víða notaðir við hátíðahöld, einkum á þjóðhátíðum. Ordbog over det norrøne prosasprog. Ordbog over det norrøne prosasprog (skammstafað ONP) – enskur titill: A Dictionary of Old Norse Prose / eldra danskt heiti: Den Arnamagnæanske kommissions ordbog / á íslensku: Orðabók Árnanefndar – er fornmáls orðabók með útskýringum á dönsku og ensku. Orðabókin hefur að geyma heildarúttekt á orðaforða allra íslenskra og norskra miðaldatexta í lausu máli: frumsömdum og þýddum sögum, trúarritum, alfræði, lögum, skjölum og bréfum. Orðabókin er unnin á vegum Árnanefndar í Kaupmannahöfn fyrir fjárveitingar frá danska ríkinu, og hefur undirbúningur að útgáfu hennar staðið yfir frá árinu 1939. Orðabókin á að taka til óbundins máls norsks fram til 1370 og íslensks fram til 1540; frá því ári er Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrsta íslenska prentbókin sem varðveist hefur, sem jafnframt er elsta ritið sem Orðabók Háskóla Íslands reisir sína orðtöku á. Viðmiðun við árið 1370 er valin fyrir norska texta því að þá hafði norskan breyst svo mjög að líta verður á íslensku og norsku sem tvö aðskilin tungumál. Verkið tekur ekki til bundins máls enda hafði Finnur Jónsson nýlokið endurskoðun sinni á Lexicon Poeticum sem nær yfir skáldamálið. Út eru komin þrjú bindi: "1: a-bam" (1995), "2: ban-da" (2000) og "3: de-em" (2004). Alls var áætlað að bindin yrðu ellefu talsins, en miðað við það hlutfall stafrófsins sem út er komið gætu bindin orðið rúmlega tuttugu. Útgáfa ONP í bókarformi er nú í biðstöðu. Í bréfi sem fylgdi 3. bindinu var sagt að næstu 8–10 árin yrðu notuð í að koma gagnasöfnum orðabókarinnar (um 900.000 seðlum) í stafrænt form, auk þess sem efni fyrstu þriggja bindanna verði gert aðgengilegt á netinu. Árnið 1989 kom út lykilbók, þar sem er mjög nákvæmt yfirlit um handritaforðann sem orðabókin er byggð á, ítarleg heimildaskrá o.fl. Lykilbókin var síðast uppfærð 2004 með sérstöku hefti, þar sem einnig eru leiðbeiningar um notkun bókarinnar. Ritstjórar orðabókarinnar eru Bent Chr. Jakobsen (aðalritstjóri), Christoper Sanders, Helle Degnbol, Eva Rode og Þorbjörg Helgadóttir (í október 2008). Perlur Bailys. Perlur Bailys eru þeir geislar nefndir þar sem örlar fyrir sól við tunglröndina í sólmyrkva. Þær eru kenndar við enska stjörnuáhugamanninn Francis Baily (1774-1844). Vopnahlé. Mynd frá vopnahlésviðræðum Bandaríkjamanna og Norður-Kóreubúa í Kóreustríðinu 1953. Vopnahlé er þegar stríðandi fylkingar semja um að hætta átökum. Vopnahlé getur bundið enda á átökin eða verið tímabundið. Það getur byggst á formlegum samningi eða óformlegu samþykki beggja fylkinga. Vopnahlé er ekki það sama og friðarsamningur sem getur verið langan tíma í smíðum. Dæmi um vopnahlé sem ekki hefur verið fylgt eftir með friðarsamningum er vopnahléð sem batt endi á Kóreustríðið árið 1953. Ísafjarðarkirkja. Ísafjarðarkirkja er sóknarkirkja Ísafjarðarkaupstaðar. Núverandi kirkja var teiknuð af Hróbjarti Hróbjartssyni og vígð árið 1995. Áður hafði á Ísafirði verið timburkirkja, reist 1863, en sú kirkja skemmdist mikið í eldsvoða 1987. Ljóssækni. Ljóssækni (e. "phototaxis") er breyting (diurnal motion) á hlutum plöntu (blóma eða laufa) sem viðbragð við afstöðu sólar. Ljóssækin blóm elta hreyfingu sólar eftir himninum frá austri til vesturs. Um nætur er tilviljun hvernig blómin eru, um dögun snúa þau til austurs þar sem sólin rís. Dæmi um blóm er goðasóley ("ranunculus adoneus"), jurt sem lifir í ölpunum. Hreyfingin er framkvæmd af hreyfifrumum á sveiganlegum stað sem er rétt fyrir neðan blómið, kallað pulvinus. Þessar hreyfifrumum er sérfræðingar í að dæla jonir kalíums í nálæga vefi og breyta þannig turgor þrýstingnum. Svæðið er sveigjanlegt vegna þess að hreyfi frumurnar sem að eru á skuggahliðinni elongate doe to a turgor rise. Ljóssækni er viðbragð við bláu ljósi. Ef ljóssæknar plöntur eru huldar með gegnsæju efni sem hleypir ekki í gegn bláu ljósi, snúa þær sér ekki að sólinni næsta morgun. Ef blómið er þakið með efni sem hleypir í gegn um sig bláu ljósi eingöngu snúa þær sér að sólinni í dögun. Leðurskjaldbaka. Leðurskjaldbaka (fræðiheiti: "Dermochelys coriacea") er stærst allra sæskjaldbaka og um leið stærsta skjaldbakan í veröldinni. Leðurskjaldbakan lifir eins og aðrar sæskjaldbökur í heitum og heittempruðum höfum. Hún á sér heimkynni í höfunum kringum miðbaug, Indlandshafi, Kyrrahafi og Atlantshafi, en er einnig algeng við Suður-Kyrrahafseyjar. Leðurskjaldbakan er lagardýr og fer aldrei á land nema til að verpa eggjum. Leðurskjaldbakan er af einni frumstæðustu tegunda skjaldbaka. Leðurskjaldbaka í Steingrímsfirði. Leðurskjaldbökur hafa átt það til að rekast norður með austurströnd Ameríku með Golfstrauminum allt norður um New York. Árið 1963, þann 1. október, veiddist leðurskjaldbaka í Steingrímsfirði á Ströndum. Einar Hansen formaður á 7 tonna báti, sem gerði út frá Hólmavík og sonur hans Sigurður höfðu hana með sér í land. Þeir feðgar voru að koma úr róðri og höfðu lokið við að draga línuna kl. 11:30. Veður var eindæma gott, sléttur sjór og sólskin. Að öðrum kosti hefðu þeir ekki séð skjaldbökuna, því aðeins lítið af afturhluta skjaldarins stóð upp úr sjó. Þeir vissu ekki hvað þetta væri, og fóru því varlega að gripnum, héldu jafnvel að dýrið mókti í sjávarskorpunni. Fljótt komust þeir þó að raun um að hún var dauð eftir að hafa borið í hana ífæru. Síðan settu þeir feðgar hákarlakrók í kjaft skepnunnar og drógu hana á síðu bátsins á hægri ferð til Hólmavíkur. Skjaldbakan reyndist alveg óskemmd og var ekki einu sinni lykt af henni. Hún var þegar sett í frysti. Náttúrugripasafn Íslands keypti leðurskjaldbökuna af Einari Hansen með það fyrir augum að varðveita hana. Það tókst ekki, en afsteypa af henni er á safninu, einnig skjöldurinn og hauskúpan. Jóhann Jónsson. Jóhann Jónsson (fæddur 12. september 1896 á Staðastað á Snæfellsnesi, dáinn 1. september 1932, Leipzig) var íslenskur rithöfundur og skáld. Ljóð hans Söknuður er talið hafa gert Jóhann að brautryðjanda í íslenskri ljóðagerð. Jóhann ólst upp í Ólafsvík. Móðir hans var Steinunn Kristjánsdóttir f. 4. júlí 1869, d. 27.2.1944. Þau hvíla hlið við hlið í Ólafsvíkurkirkjugarði. Jóhann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1920 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1919. Hann fór árið 1921 til Leipzig og kom aldrei aftur til Íslands. Á barnsaldri fékk Jóhann berkla í annan fótinn og hafði staurfót og gekk haltur. Hann veiktist seinna af lungnaberklum og lést 1. september 1932, aðeins 35 ára gamall. Jóhann ætlaði sér að verða rithöfundur. Halldór Laxness vinur hans safnaði ljóðum hans og ritgerðum saman og gaf út árið 1952 í bókinni "Kvæði og ritgerðir". Bréf frá 1912-1925, sem Jóhann ritaði vini sínum, séra Friðriki A. Friðrikssyni presti á Húsavík voru gefin út 1992 í bókinni "Undarlegt er líf þitt". Eitt ljóð, ljóðið Söknuður er talið hafa sérstöðu meðal ritverka Jóhanns og það er út af því ljóði sem Jóhann er talinn brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Ljóðin „Söknuður“ eftir Jóhann Jónsson og ljóðið „Sorg“ eftir Jóhann Sigurjónsson eru talin marka upphaf íslenskrar nútímaljóðlistar. Forngripasafnið. Forngripasafnið var safn íslenskra forngripa sem síðar varð að Þjóðminjasafni Íslands. Það var stofnað árið 1863 til að íslenskir gripir yrðu varðveittir á Íslandi en ekki fluttir úr landi í erlend söfn. Eftir að heiðin dys fannst nálægt Baldursheimi við Mývatn skrifaði Sigurður málari hugvekju í Þjóðólf 24. apríl 1862 um mikilvægi slíks safns til að skilja þjóðerni Íslendinga og sögu landsins. Hugvekja Sigurðar málara varð til þess að Helgi Sigurðsson sem síðar varð prestur á Setbergi við Grundarfjörð og Melum í Melasveit skrifaði bréf 8. janúar 1863 og gaf Íslandi 15 forngripi sem hann hafði safnað og sem hann vænti að gætu orðið fyrsti vísir til safns íslenskra fornminja. Stiftsyfirvöld fólu Jóni Árnasyni bókaverði við Stiftsbókasafnið í fyrstu tilsjón með safninu og seinna þeim Jóni og Sigurði málara saman. Voru þeir svo báðir umsjónarmenn safnsins þangað til Sigurður lést árið 1874. Forngripasafnið var á lofti Dómkirkjunnar þangað til viðgerð Dómkirkjunar hófst í apríl 1879 en þá var það flutt til geymslu í borgarastofu í Hegningarhúsinu. Þar var safnið geymt þar til það var flutt í Alþingishúsið 1881. Sigurður Vigfússon gullsmiður (Sigurður fornfræðingur) kom til starfa við safnið 1878. Sigurður fornfræðingur annaðist svo Forngripasafnið einn frá 1882 til 1892. Enskunám. Enskunám er nám í ensku fyrir þá sem ekki hafa ensku að móðurmáli. Saga enskunáms á Íslandi. Fyrsta kennslan í nútímaensku á Íslandi er ef til vill veturinn 1813-1814 en þá dvaldi Rasmus Kristján Rask hjá Árna Helgasyni að Reynivöllum í Kjós og er sagður hafa sagt nemendum Árna til í ensku. Við Bessastaðaskóla varð enska valgrein og nemendur máttu velja milli hebresku og ensku og frá árinu 1850 milli frönsku og ensku. Fyrsti enskukennari Bessastaðaskóla var Sigurður Sívertsen sonur Bjarna Sívertsen riddara. Sigurður var þá var kominn um sextugt. Hann kenndi ensku 1847-1848 og svo 1849-1850. Halldór Kr. Friðriksson kennari tók við enskukennslunni af Sigurði. Árið 1850 tóku fjórir nemendur stúdentspróf í ensku en það sama ár er enska afnumin sem prófgrein og gerð að aukafagi. Því varð ekki breytt aftur fyrr en árið 1904. Bjarni Jónsson rektor tók við kennslu í frönsku og ensku árið 1853. Þegar gufuskip hófu að sigla til Íslands árið 1858 komu til landsins margir enskumælandi ferðamenn sem þurfu enskumælandi leiðsögumenn. Fyrsti leiðsögumaðurinn var sennilega Geir Zoëga eldri. Fyrsta kennslubókin í ensku sem kom út á Íslandi var "Leiðarvísir í enskri tungu" eftir Odd V. Gíslason cand. theol en hún kom út árið 1863. Bókin er eins konar handbók fyrir leiðsögumenn og þá sem eiga samskipti við útlendinga sem hingað koma. Halldór Briem guðfræðingur gaf árið 1873 út kennslubókina "Kennslubók í enskri tungu. Vasabók fyrir vesturfara og aðra, er eiga viðskipti við Englendinga eða vilja læra ensku". Bók Halldórs var hugsuð fyrir Vesturfara en einnig þá sem seldu til Bretlands kvikfénað á fæti en um 1870 voru það mikil viðskipti og um 2500 hross árlega seld breskum kaupmönnum. Halldór gaf aftur út enskukennslubækur 1875 og 1889. Árið 1873 setti Handiðnamannafélagið í Reykjavík upp sunnudagaskóla fyrir fullorðna og var enska vinsælasta námsgreinin. Oddur V. Gíslason kenndi enskuna og notaði bók Hallórs. Um 1880 þegar skólum tekur að fjölga þá er enska kennd víðar en í lærða skólanum. Enskukennsla hófst í Kvennaskólanum um 1890 og voru fyrstu enskukennarar þar sennilega þær Jarþrúður Jónsdóttir og Þórunn Richardsdóttir. Í Möðruvallaskóla var Jón Hjaltalín skólastjóri og enskukennari en hann hafði starfað í nokkur ár sem bókavörður í Edinborg. Enska var kennd fimm stundir í viku við skólann og lagði Jón áherslu á talmál. Ensk lestrarbók eftir Jón Hjaltalín kom út árið 1882 og árið 1883 gaf hann út Orðasafn íslenzkt og enskt. Jón Ólafsson skáld og þingmaður varð enskukennari við lærða skólann 1881. Hann gaf út kennslubókina English Made Easy þegar hann hafði starfað þar í eitt ár og árið 1888 gaf Jón Ólafsson út samtalsbók fyrir úflytjendur Vesturfara túlk. Frá árinu 1899 kenndi dóttir hans Sigríður Jónsdóttir ensku í Kvennaskólanum í Reykjavík en hún kenndi síðar einnig ensku í Barnaskóla Reykjavíkur. Geir T. Zoëga tók við enskukennslu af Jóni. Árið 1889 gaf hann út Enskunámsbók Geirs T. Zoëga (Geirsbók). Hún var endurbætt, orðasafni bætt við og gefin út sjö sinnum allt til ársins 1934. Geir T. Zoëga gaf út ensk-íslenska orðabók árið 1896,íslensk-enska orðabók 1904 og árið 1910 forníslenska-enska orðabók. Geirsbók varð aðalbyrjendabók í ensku í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, Kennaraskólanum, Kvennaskólanum í Reykjavík og Flensborg í Hafnarfirði. Bjarni Sívertsen. Bjarni Sívertsen (eða Bjarni riddari) (1763-1833) var kaupmaður í Hafnarfirði og brautryðjandi í verslun og útgerð á Íslandi. Hann hefur verið nefndur "faðir Hafnarfjarðar". Hann lét reisa íbúðarhús árið 1803-1805 og er það hús núna hluti af Byggðasafni Hafnarfjarðar. Bjarni hlaut viðurkenninguna riddari af Dannebrog frá Danakonungi. Árni Helgason (f. 1777). Árni Helgason (27. október 1777 – 14. desember 1869) var prestur, kennari og prófastur. Hann kenndi fjölda manna skólalærdóm og margir urðu stúdentar frá honum. Árni lauk stúdentsprófi frá Hólavallarskóla 1799 og guðfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1807.Hann var svo heimiliskennari í Skálholti og starfsmaður (stipendiarius) Stofnunar Árna Magnússonar og síðar prestur í Vatnsfirði frá 1809. Hann var heimiliskennari á Innra-Hólmi hjá Magnúsi Stephensen konferensráði 1809—1811 og varð prestur á Reynivöllum í Kjós 1810 og síðan dómkirkjuprestur í Reykjavík 1814 og hann sat þá í Breiðholti. Hann var jafnframt kennari á Bessastöðum 1817—1819. Árið 1825 varð hann prestur á Görðum á Álftanesi og fékk lausn frá því embætti árið 1858 en átti þar heima til æviloka. Árni var prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1821—1856 og hann var settur biskup 21. september 1823 til 14. maí 1825 og aftur 14. júní 1845 til 2. september 1846.Hann varð stiftprófastur að nafnbót 1828 og biskup að nafnbót 1858. Árni var einn af aðalstofnendum Hins íslenska bókmenntafélags og forseti Reykjavíkurdeildar þess 1816—1848. Hann var einn af aðalstofnendum Hins íslenska biblíufélags 1816. Hann var ritstjóri Sunnanpóstsins 1836 og 1838. Árni var alþingismaður Reykvíkinga 1845 - 1849. Norður- og austuramt. Norður- og austuramt var íslenskt amt sem var stjórnsýslueining sem varð til árið 1770 þegar landinu var skipt í tvö ömt, Suður- og Vesturamt og Norður- og Austuramt. Suðuramtið var um tíma klofið aftur niður í tvö ömt, Suðuramt og Vesturamt en Norður og austuramt hélst óbreytt. Amtskipanin var lögð af árið 1904 þegar Íslendingar fengu heimastjórn. Amtmenn í Norður og austuramti voru m.a. Benedikt Gröndal eldri. Benedikt Gröndal eldri (13. nóvember 1762 – 30. júlí 1825) eða Benedikt Jónsson Gröndal var síðasti lögmaðurinn sunnan og austan og síðan dómari við Landsyfirrétt (landsyfirréttar assessor). Hann var menntaður í klassískum fræðum og varð fyrstur manna á Íslandi svo vitað sé til að þýða ljóð úr grísku. Benedikt orti í æsku á árunum 1775 – 1777 rímur af Hrómundi Gripssyni. Benedikt fæddist í Vogum við Mývatn. Hann var sonur séra Jóns Þórarinssonar í Vogum og konu hans Helgu Tómasdóttur frá Skriðu í Hörgárdal. Hann fór í Hólaskóla á 16. aldursári og útskrifaðist árið 1781. Næstu tvö sumur var hann á Hólum hjá stólhaldara Jóni Árnasyni og var skrifari hjá meistara Hálfdáni sem gegndi biskupsverkum á Hólum. Haustið 1782 fór Benedikt að Innra-Hólmi á Akranesi til Ólafs Stefánssonar amtmanns og dvaldi þar á þriðja ár sem skrifari Ólafs. Árið 1785 sigldi hann til Kaupmannahafnar og tók skólalærdómspróf (examen artium) 1786. Árin 1787 – 1788 lagði hann stund á nám í latínu og grísku og „hinum fögru vísindum“ en tók þá ekki próf og iðraðist þess síðar. Benedikt lagði hins vegar kapp á þá vísindagrein sem helst þótti lífleg til atvinnu og árin 1789 til 1790 las hann lög. Hann var jaframt starfsmaður nefndar sem fjallaði um skipun kaupverslunar Íslands og Finnmerkur. Á árunum 1788 – 1791 var hann skrifari hins konunglega íslenska lærdómslistafélags. Hann tók embættispróf í lögum 21. júní 1791 og var sama ár skipaður varalögmaður og skyldi taka við þegar Magnús Ólafsson lögmaður sunnan og austan félli frá eða léti af embætti. Benedikt sigldi til Íslands með skipinu Svalan sem lagði í haf 26. september 1791. Skipið kom til Íslands eftir 72 daga og brotnaði við Vatnsleysuströnd nálægt Breiðagerði þann 6. desember 1791 en fólk og fé komst í land. Benedikt og annar maður lögðu á stað yfir Vatnsleysuheiði en er þeir áttu stutt eftir til Óttarsstaða sofnaði Benedikt úr vosbúð og kulda en fylgarmaður hans náði til bæjar og var Benedikt naumlega bjargað. Hann var á Lambastöðum á Seltjarnarnesi hjá séra Geir Vídalín um veturinn en fór aftur utan og sótti um stöðu amtmanns í suðuramtinu, sem hann fékk þó ekki. Hann kom þá aftur heim og var á Lambastöðum og Bessastöðum þar til hann kvæntist og fór að búa. Magnús lögmaður dó í janúar árið 1800 og varð Benedikt þá lögmaður. Það stóð þó skammt því sama ár var lögmannsembættið lagt niður en Benedikt varð fyrsti assessor í landsyfirrétti með 700 dala árslaun. Gengdi hann því embætti til 18. júní 1817, þegar hann fékk lausn vegna veikinda. Kona Benedikts var Þuríður Ólafsdóttir frá Frostastöðum í Skagafirði, systir Ólafs Ólafssonar lektors í Túnsbergi í Noregi. Dætur þeirra voru Helga, kona Sveinbjarnar Egilssonar rektors, og Ragnhildur kona Stefáns Gunnlaugssonar landfógeta. Sonur Helgu og Sveinbjarnar var skáldið Benedikt Gröndal sem einnig er nefndur Benedikt Gröndal yngri til aðgreiningar frá afa sínum. Ég var einu sinni nörd. Ég var einu sinni nörd er uppistand frá árinu 2000 með Jóni Gnarr. Hallgrímskirkja (Hvalfirði). Hallgrímskirkja í Saurbæ í Hvalfirði eða Saurbæjarkirkja er helguð minningu Hallgríms Péturssonar en hann var sóknarprestur í Saurbæjarprestakalli á árunum 1651 til 1669. Guðjón Samúelsson teiknaði fyrstu gerð að kirkjunni og voru undirstöður steyptar eftir hans teikningu. Árið 1953 teiknuðu Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson nýja kirkju. Kirkjan er steinsteypt og klædd múrsteini að innan. Þakið er koparklætt. Turninn er 20 metra hár. Gerður Helgadóttir gerði glerlistaverk kirkjunnar en verk hennar eru sótt í Passíusálmana. Finnskur listamaður Lennart Segerstråle gerði fresku sem er í stað altaristöflu. Á altari er róðukross sem talinn er frá því um 1500. Róðukrossinn var í kirkju Hallgríms á 17. öld. Eldvarp. Eldvarp (rauðakúla eða kerhóll) er hæð eða hraukur (gíghóll) úr gosefnum sem hlaðist hafa upp umhverfis gosop. Eldvörp eru mismunandi að gerð, allt eftir því hvers eðlis gosið er og hversu kraftmikið. Helstu gerðir eru: "Klepragígur" og "gjallgígur" (líka nefndur "gjallhóll"). Freska. Freska í húsi sem grafið var upp í Pompeii Freska (freskómynd, freskómálverk eða veggmálverk) er vatnslitamynd sem máluð er með sérstakri tækni á blautt kalk, sem dregið er á vegg eins og múrhúðun. Þessi tækni hefur þann kost að ekki er hætta á að málningin flagni af eða springi og liturinn heldur sér vel þótt aldir líði, nema hvað myndirnar kunna að dökkna af sóti frá reykelsi og kertum. Freskan er algeng í kirkjulist fyrri alda og þær freskur sem frægastar hafa orðið eru þær sem Michelangelo málaði á loft Sinxtinsku kapellunnar í páfagarði. Jón Borgfirðingur. Jón Borgfirðingur (Jón Jónsson, 30. september 1826 – 20. október 1912) var íslenskur fræðimaður, rithöfundur og lögregluþjónn. Hann safnaði handritum og hélt dagbók. Vinnumaður og bókbindari. Jón var fæddur á Hvanneyri í Andakíl, sonur Guðríðar Jónsdóttur, ógiftrar vinnukonu þar, en uppfóstraður af fátækum hjónum í Svíra, koti hjá Hvanneyri. Vegna fátæktar höfðu þau engin tök á að senda hann í skóla en hann lærði þó að lesa og skrifa. Eftir að hann komst upp var hann vinnumaður á Hvanneyri og víðar í Borgarfirði en var mjög bókhneigður, las allt sem hann náði í og lærði dönsku án tilsagnar. Hann var líka áhugasamur um stjórnmál og fékk leyfi þáverandi húsbónda síns til að sækja Þingvallafundinn 1848. Hann var þó aldrei hneigður fyrir sveitavinnu og flutti til Reykjavíkur haustið 1852 og stundaði þar ýmsa vinnu, einkum þó farandbóksölu. Hann fluttist svo til Akureyrar 1854 og lærði þar bókband. Hann kvæntist Önnu Guðrúnu Eiríksdóttur 1856 og lifði næstu árin á bókbandsiðn, bókaútgáfu og bóksölu á Akureyri, auk þess sem hann fór í bóksöluferðir. Lögregluþjónn og bókamaður. Jón flutti aftur til Reykjavíkur með fjölskyldu sína 1865 og fékk fljótlega stöðu lögregluþjóns, sem hann gegndi svo í 23 ár. Jafnframt fór hann að sinna ritstörfum og var meðal annars fenginn til þess af bókaverði British Museum að skrifa lista yfir allar bækur sem prentaðar höfðu verið í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi og í framhaldi af því sneru aðrir erlendir fræðimenn og bókaverðir sér til hans og báðu hann um lista yfir íslensk bókverk. Einnig var hann um tíma umboðsmaður British Museum og útvegaði safninu ýmsar íslenskar bækur. Hann var ástríðufullur bóka- og handritasafnari en gat þó oft ekki sökum fátæktar keypt það sem hugurinn stóð til. Hann lét Bókmenntafélagið fá allt það sem hann eignaðist af handritum, sumt af því mjög merka gripi, enda var hann gerður að heiðursfélaga þess. Fjölskylda. Í bréfum Jóns Borgfirðings má sjá þess glögg merki að honum svíður menntunarskortur sinn; hann kallar sig á einum stað „minnstan allra utanveltubesefa Minervumusteris“ og á öðrum stað segir hann „Mér hefði verið miklu nær að rorra í Borgarfjarðarmyrkrinu sem garðmaður og fjósa, aldrei lært að lesa á bók og því síður að mynda staf með krít og koli“. En þrátt fyrir fátækt og menntunarleysi tókst þeim hjónum að koma öllum fjórum sonum sínum til mennta og eldri synirnir tveir urðu landskunnir fræðimenn. Elstur var Finnur Jónsson prófessor, þá Klemens Jónsson landritari og ráðherra, Vilhjálmur cand. phil., sem dó ungur, og Ingólfur stúdent og verslunarmaður. Systurnar fengu einnig menntun að þeirrar tíðar hætti; Guðný giftist Birni Bjarnarsyni sýslumanni í Dalasýslu en Guðrún giftist ekki en var lengst af með Klemens bróður sínum. Hjá honum var Jón Borgfirðingur líka eftir að Anna kona hans lést 10. apríl 1881. Úmbertó 1.. Úmbertó 1. (fullt nafn: Umberto Ranieri Carlo Emanuele Giovanni Maria Ferdinando Eugenio af Savoja; 14. mars 1844 – 29. júlí 1900) var konungur Ítalíu frá 9. janúar 1878 til dauðadags. Hann var hataður af vinstrimönnum þar sem hann var harðlínuíhaldsmaður og var auk þess talinn bera ábyrgð á Bava-Beccaris-blóðbaðinu í Mílanó árið 1898 þar sem herinn beitti fallbyssum gegn mótmælendum. Hann var myrtur af anarkistanum Gaetano Bresci tveimur árum eftir blóðbaðið. Petrozavodsk. Petrozavodsk (rússneska: Петрозаводск, karelska og finnska: "Petroskoi") er borg í Rússlandi og höfuðborg Lýðveldisins Karelíu. Fólksfjöldi er 282000 (2005). Alþýðuskýring. Alþýðuskýring (eða þjóðskýring) nefnast þær orðsifjar orða sem hafa ummyndast við það að málnotendur leitast við að tengja utanaðkomandi og framandi orð við kunnuglega orðliði. Við það skapast fölsk tengsl við kunnugleg orð, en sem eru oft alls óskyld erlenda orðinu. Heimir Eyvindarson. Heimir Evindarson (fæddur 14. apríl árið 1968) er íslenskur hljómborðsleikari og meðlimur í hljómsveitinni Á móti sól. Hann er helsti lagahöfundur hljómsveitarinnar og á til að mynda lag og texta laganna „Árin“, „Sæt“ og „Djöfull er ég flottur“. Heimir bauð sig fram í 3. sæti suðurkjördæmis í Alþingiskosningum 2013 fyrir Bjarta framtíð. Randy Pausch. Randolph Frederick Pausch (fæddur 23. október 1960, látinn 25. júlí 2008) var bandarískur prófessor. Pausch lést úr briskrabba 47 ára gamall. Hann var þekktur fyrirlesari og gaf út bókina sem heitir "The last lecture". Torfmoldarsteypa. Torfmoldarsteypa er tilbúin steypa sem gerð er úr lífrænum trefjum, sandi eða möl, sementi og vatni. Lífrænar trefjar geta t.d. verið fínmulinn barnamosi. Efnunum er hrært saman í þykka leðju sem síðan er sett í eða utan um mót og oft látið harðna á þeim stað sem steypti gripurinn á að standa á. Torfmoldarsteypa er vinsæl í skreytingar í görðum og í ker eða trog undir jurtir. Gjarnan er reynt að hafa yfirborð steypunnar sem úfnast og sem fornlegast og má gera það með því að ýfa yfirborðið með vírbusta og pensla með lífrænni lausn eins og kalíumpermanganat eða mykjuvatni. Sogblettur. Sogblettur er marblettur eða tímabundið far á húð eftir nógu harkalegan koss, sog eða bit til að gera gat á æðarnar sem eru undir húðinni. Sogblettir geta varið í 4 til 12 daga, og fer sá tími eftir manneskjunni. Flöguberg. Eiginlegt flöguberg er oft notað í þakplötur Flöguberg er berg sem hefur myndast þannig að deigt berg eða seigfljótandi bergkvika aflagast í spennusviði þannig að efnið skríður til eftir ákveðnum skriðflötum og klofnar niður í flögur. Eiginlegt flöguberg er setberg sem hefur umkristallast og klofnað eftir flötum sem venjulega er þakið glimmer kristöllum. Slíkt berg er t.d. notað í þakplötur. Flöguberg sem hefur myndast á þannig hátt finnst ekki á Íslandi. Flögótt berg á Íslandi er yfirleitt líparít (rýólít) en bráð þess er svo seigfljótandi að það myndar flæðimynstur sem klofna í flögur. Mikið af slíku bergi er í Drápuhlíðarfjalli á Snæfellsnesi og Hellnum á Snæfellsnesi. Sumar tegundir af blágrýti brotna í flögur þegar í berginu er flæðimynstur sem myndaðist þegar hálfstorkin bráð var á hreyfingu. Eiginlegt flöguberg og flögótt rýólít eru þannig að skriðfletirnir sem bergið klofnar um eru vatnsríkari en aðrir hlutar bergsins. Þar myndast glimmer sem er mjög lint og kleyft og inniheldur vatn. Íslenska flögubergið var fyrrum notað í þök torfbæja í sumum landshlutum og í seinni til að klæða veggi og arna í húsum. Sjóveiki. Sjóveiki (eða sjósótt) er eitt afbrigði ferðaveiki sem stafar af veltingi á sjó. Henni fylgir flökurleikatilfinning og svimi, og heldur í sumum tilfellum áfram þó í land sé komið. Margir kasta upp og liggja fyrir, en öðrum er aðeins ómótt og nefnist það launsótt þ.e. ef maður er með ógleði á sjó en getur ekki kastað upp. Veltingur bátsins truflar þá tilhneigingu mannsins að reyna halda þyngdarpunktinum við fætur sér. Til að halda honum sem í landi nota flestir föst viðmið í kringum sig, en þegar báturinn og aðrar einingar hans (s.s. stýrishús, möstur, borðstokkur o.s.frv.) velta einnig til og frá verður erfiðara að stilla þyngdarpunkt líkamans. Um leið verða hreyfingar líkamans til þess að maginn þrýstist upp að þindinni. Fólk er misnæmt fyrir sjóveiki; sumir finna til sjóveiki við það eitt að stíga á skipsfjöl, jafnvel þótt legið sé við bryggju, meðan aðrir eru nánast ónæmir eða verða smámsaman ónæmir við að eyða miklum tíma á sjó. Ráð við sjóveiki. Til eru ýmis lyf við sjóveiki, s.s. dímenhýdrínat (dramamín) og skópólamín, sem valda syfju og geta í stórum skömmtum einnig valdið ofskynjunum. Þau henta því ekki þar sem viðkomandi þarf að halda vöku sinni, t.d. kafarar. Margar rannsóknir hafa sýnt að engifer (oftast tekið inn sem duft í pillum) minnkar ógleðina og er án aukaverkana. Einnig eru til sérstök armbönd með kúlum sem þrýsta á púlsinn sem sumir vilja meina að verki á sjóveiki. Miley Cyrus. Miley Ray Cyrus (fædd sem Destiny Hope Cyrus 23. nóvember 1992) er bandarísk leik- og poppsöngkona. Hún varð fræg fyrir hlutverk sitt sem Hannah Montana/Miley Stewart í Disney-þættinum "Hannah Montana", sem byrjaði árið 2006 og er núna (2012) að klára sína síðustu þáttaröð. Faðir Miley er kántrísöngvarinn Billy Ray Cyrus sem einnig leikur föður hennar í þáttunum. Miley tók upp lög fyrir þættina "Hannah Montana" (2006-2011) sem hjálpaði henni að verða fræg. Árið 2007 skrifaði hún undir samning við Hollywood Records um að hefja sólóferil. Hún fór í "Best of Both Worlds" túrinn þetta sama ár en tónleikarnir urðu að mjög vinsælli tónleikamynd sem bar nafnið "Hannah Montana & Miley Cyrus: Best of Both Worlds" (2008). Cyrus gaf út fyrstu sólóplötuna sína, "Breakout" árið 2008 sem varð vinsæl um allan heim. Miley byrjaði að reyna fyrir sér í kvikmyndum með því að leika rödd Penny í teiknimyndinni "Bolt" (2008) og með því að endurtaka hlutverk sitt sem Miley í "Hannah Montana: Kvikmyndin" (2009). Titillag Bolts, „I Thought I Lost You“ („Ég hélt ég hefði týnt þér“) gaf henni tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna fyrir besta frumsamda lagið. Hún byrjaði að móta fullorðinsímynd sína árið 2009 í "The Time of Our Lives" (2009) og í kvikmyndinni "Last Song" (2010). Hún stefnir að því að gefa út plötuna "Can't Be Tamed" á þessu ári. Miley hefur sagt að hún vilji frekar einbeita sér að leikferlinum en söngnum í framtíðinni. Æska. Miley Ray Cyrus fæddist í Nashville í Tennessee og er dóttir Leticiu „Tish“ (áður Finley) og kántrí-söngvarans Billys Rays Cyrus. Upphaflega var hún skírð Destiny Hope Cyrus vegna þess að foreldrar hennar trúðu því að hún myndi gera frábæra hluti í lífinu. Þau gáfu henni gælunafnið „Smiley“, sem seinna var stytt í „Miley“ vegna þess að hún brosti svo mikið þegar hún var barn. Miley er með vægan hjartagalla sem veldur óreglulegum hjartslætti sem, er þó ekki hættulegur, veldur oft óþægindum. Gegnt vilja plötufyrirtækis föður hennar, giftust foreldrar Miley mánuði eftir að hún fæddist, þann 28. desember 1992. Hjónabandið gaf Miley þrjú hálfsystkini: Trace og Brandi, börn Tish úr fyrra sambandi, og Christopher Cody, son Billy Rays úr fyrra sambandi. Billy Ray ættleiddi Trace og Brandi þegar þau voru smábörn og studdi Cody fjárhagslega, sem fæddist líka árið 1992 og ólst upp með móður sinni í Suður-Karólínu. Parið eignaðist seinna tvö yngri systkini Miley, Braison og Noah. Guðmóðir Miley er söngkonan Dolly Parton. Cyrus var mjög náin föðurafa sínum, Ronald Ray Cyrus. Cyrus hefur vottað afa sínum virðingu sína nokkrum sinnum síðan hann dó árið 2006, meðal annars að hún breytti millinafninu sínu í „Ray“. Samkvæmt föður hennar halda margir að hún hafi breytt nafninu sín vegna en að það sé ekki satt. Hún hafi gert það í minningu föður hans vegna þess að þau elskuðu hvort annað svo mikið. Cyrus ólst upp á 500 hektara landi í Franklin í Tennessee í um það bil klukkutíma fjarlægð frá Nashville og gekk í Hertage grunnskólann. Hún var alin upp í kristindómi og var skírð í Suður-Baptistakirkjunni áður en hún flutti til Hollywood árið 2005. Hún fór reglulega í kirkju þegar hún ólst upp og gekk með skírlífishring. 2001-2005: Ferillinn byrjar. Árið 2001, þegar Miley var átta ára, flutti hún ásamt fjölskyldunni sinni til Toronto í Kanada á meðan faðir hennar var við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni "Doc". Cyrus sagði að það að horfa á föður sinn leika hafi hvatt hana til að leggja leiklistina fyrir sig. Eftir að Billy Ray fór með hana á sýningu af "Mamma Mia!" í leikhúsi konunglegrar Alexöndru, greip Miley í handlegginn á honum og sagði: „Þetta er það sem mig langar að gera, pabbi. Mig langar að verða leikkona“. Hún byrjaði í söng- og leiktímum í Armstrong leiklistarskólanum í Toronto. Fyrsta hlutverkið hennar var stelpa að nafni Kylie í "Doc". Árið 2003 var Cyrus titluð undir fæðingarnafninu sínu sem „Ung Ruthie“ í kvikmynd Tim Burton, "Big Fish". Cyrus komst að leikprufunni fyrir Hönnuh Montana, nýjan þátt á Disney-stöðinni, þegar hún var 11 ára, í gegnum umboðsmann í Nashville. Þátturinn átti að snúast um skóalstelpu sem lifir tvöföldu lífi sem unglings-poppstjarna sem heitir Hannah Montana. Miley sendi inn myndband til að komast í áheyrnaprufu fyrir bestu vinkonuna en fékk símtal um að koma til að lesa aðalhlutverkið. Eftir að haf sent inn nýtt myndband og flogið til Hollywood fyrir fleiri prufur, var Miley sagt að hún væri og lítil fyrir hlutverkið. En staðfesta hennar og sönghæfileiki hennar til viðbótar við leikinn varð til þess að hún fékk tilboð um fleiri áheyrnaprufur. Cyrus fékk að lokum hlutverk aðalpersónunnar sem nefnd var „Miley Stewart“ eftir henni, þegar hún var 12 ára. 2006–2007: "Hannah Montana" og "Meet Miley Cyrus". "Hannah Montana" varð strax vinsæl og gerði Cyrus og unglings-fyrirmynd, samkvæmt The Daily Telegraph. Þættirnir fóru í loftið þann 26. mars 2006 og varð fljótlega einn vinsælasti þátturinn í sögu Disney-stöðvarinnar sem gerði Miley fræga og ríka fyrir vikið. Tímaritið Time segir að ótrúlegur árangur Cyrus sé að hluta vegna hæfileika hennar og að hluta vegna þess að „Disney vissi hvernig átti að nota efniviðinn og mikil margmiðlunaráhrif sín“ og markaðsetja Cyrus og Hönnuh Montana veglega. Cyrus varð að lokum fyrsta manneskjan sem hafði samninga í sjónvarpi, kvikmynd, neytendavörum og tónlist innan Walt Disney fyrirtækisins. Fyrsta smáskífa Cyrus var „The Best of Both Worlds“, opnunarlag Hönnuh Montana og kom hún út 28. mars 2006. Titill lagsins er "Hannah Montana" en það er jafnframt nafn poppstjörnunnar sem Miley leikur í samnefndum þáttum. Þar sem hún átti önnur lög titluð undir nafni Montana, klæddi Miley sig upp sem persónan þegar hún var að syngja lögin á tónleikum. Fyrsta lag Miley undir hennar eigin nafni var endurútgáfa lags James Basketts, "Zip-a-Dee-Doo-Dah", sem kom út 4. apríl 2006 á fjórðu plötu DisneyMania. Sem Hannah Montana, var Miley tuttugu sinnum opnunartatriði The Ceetah Girls í september 2006. Þann 24. október sama ár kom út fyrsti Hannah Montana diskurinn. Af þeim níu lögum sem voru á disknum voru átta sungin undir nafninu Hannah Montana en eitt, sem var dúett, var sungið af Miley „sjálfri“ og föðu hennar. Platan fór í fyrsta sæti á Billboard 200 listanum. Önnur þáttaröðin af Hönnuh Montana fór í gang 23. apríl 2007 og kláraðist 12. október 2008. Cyrus skrifaði undir fjögurra platna samning við Hollywood Records sem er að hluta til í eigu Disney og þann 26. júní 2007 kom út tvöfaldur diskur. Fyrsti diskurinn innihélt lögin úr annarri þáttaröð Hönnuh Montana en á hin sem hét "Meet Miley Cyrus", var fyrsta plata Cyrus undir hennar eigin nafni. Tvöfalda platan náði fyrsta sæti á Billboard 200 og náði þrefaldri platínumsölu. "Meet Miley Cyrus" innihélt meðal annars „See You Again“, fyrstu smáskífu Miley undir hennar eigin nafni og fyrsta smellinn hennar á Billboard Top 100 listanum. Haustið 2007 lagði hún af stað í fyrstu tónleikaferðina, The Best of Both Worlds-túrinn, til að kynna "Meet Miley Cyrus" og lögin úr Hannah Montana. Jonas Brothers, Aly & AJ og Everlife voru upphitunaratriðin hennar og túraði hún frá 17. október 2007 til 31. janúar 2008 og stoppaði bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Miðarnir seldust upp á örfáum mínútum og fór verðið upp í allt að 2.500 dollara og að meðaltali 214 dollara en í miðasölunni kostuðu þeir 26-65 dollara. Æðinu var líkt við Bítlana og Elvis Presley. Í árslok 2007 hætti Miley með kærasta sínum til tveggja ára, Nick Jonas í Jonas Brothers. Cyrus sagði í samtali við tímaritið Seventeen að hún og Jonas hefðu verið saman í tvo ár og væru „ástfangin“ en „rifust mikið“ í lokin. Eftir sambandsslitin sagði Cyrus að hún hefði barist á móti öllu sem Nick vildi að hún væri og hún hefði viljað vera hún sjálf og komast að því hver hún væri í raun. 2008: Myndadeilur og "Breakout". Eftir að "The Best of Both Worlds" túrnum lauk í janúar 2008 gaf Walt Disney út DVD disk með tónleikunum undir titlinum "Hannah Montana & Miley Cyrus: Best of Both Worlds". Myndefni disksins er í þrívídd og hann kom út á Íslandi 19. mars 2008. Diskurinn halaði inn 29 milljónum dollara. Lögin voru gefin út á breiðskífu af plötufyrirtæki Walt Disney/Hollywood Records 11. mars 2008 og náði þriðja sæti á Billboard 200 vinsældarlistanum. Í febrúar sama árs opnuðu Miley of vinkona hennar, Mandy Jioux, aðgang á YouTube og byrjuðu að setja inn myndbönd sem þær kölluðu "Miley og Mandy þátturinn". Þátturinn sló í gegn á YouTube og var tekinn upp í gríni af Cyrus og Jiroux og er algjörlega þeirra verk. Cyrus sendi inn beiðni um að fá nafninu sínu breytt í „Miley Ray Cyrus“ þann 18. mars 2008. Breytingin varð opinber 1. maí 2008. Í apríl 2008, var nokkrum djörfum myndum af Cyrus á nærfötunum og í sundfötum, lekið á netið af ungling sem hakkaði sig inn á Google-póstinn hennar Miley. Cyrus lýsti myndunum sem „kjánalegum, óviðunandi skotum“ og sagði „Ég á eftir að gera mistök og ég er ekki fullkomin. Ég vildi aldrei að þetta myndi gerast og ég biðst innilegrar fyrirgefningar ef ég hef brugðist einhverjum“. Þann 25. apríl 2008 sagði þátturinn Entertainment Tonight að Miley hefði verið ber að ofan í myndatöku hjá ljósmyndaranum Annie Leibovitz fyrir Vanity Fair þegar hún var 15 ára. 29. apríl 2008 leiðrétti The New York Times sögusögnina með orðunum að Miley hafi í raun og veru verið vafin inn í lak. Sumir foreldar urðu mjög reiðir yfir myndunum og sagði talsmaður Disney að þetta hafi verið aðstæður þar sem 15 ára unglingur var notaður til að selja fleiri blöð. Gary Marsh, formaður skemmtinefndar hjá Disney Channel Worldwide sagði að það fyrir Miley að vera „góð stelpa“ væri viðskiptaákvörðun sem hún þyrfti að taka. Foreldrar væru búnir að fjárfesta í góðsemi hennar. Ef hún bryti það traust, myndi hún ekki fá það aftur. Stuttu síðar sendi Miley frá sér hjartnæma afsökunarbeiðni og sömuleiðis ljósmyndarinn Annie Leibovitz. 22. júlí 2008 gaf Cyrus út aðra stúdíóplötuna sína undir sínu eigin nafni og hét hún "Breakout". Cyrus sagði að "Breakout" væri innblásin af lífsreynslu Miley síðasta árið. Hún samdi átta af tólf lögum ásamt öðrum. Platan náði fyrsta sæti á Billboard 200 listanum og aðalsmáskífan, „7 Things“ náði 9. sæti á Billboard Hot 100. Hún var kynnir á CMT Music Awards ásamt föður sínum í apríl og var eini kynnirinn á Teen Chocie Awards í ágúst. Cyrus talaði fyrir Penny í teiknimyndinni Bolt sem kom út 21. nóvember 2008 og fékk mikið lof gagnrýnenda. Hún skrifaði ásamt öðrum og söng dúett með John Travolta fyrir myndina, lagið „I Thought I Lost You“ og fyrir vikið fékk hún tilnefningu til Golden Globe. Í september 2009 tók hún þátt í gerð góðgerðar-smáskífunnar „Just Stand Up!“ til styrktar krabbameini og herferðinni „Stand up to Cancer“. Hún tók einnig þátt í "Disney's Friends for Change" en fyrir það samdi hún lagið „Send It On“ ásamt öðrum Disney Channel-stjörnum. Miley hélt upp á 16 ára afmælið sitt í Disneylandi með góðgerðarsöfnun fyrir Youth Service America. Hún safnaði alls um 25 milljónum dollara það árið, en hún safnaði 18 milljónum árið 2007 og varð í 35. sæti á lista Forbes, „Celebrity 100“. Tímaritið "Parde" sagði að hún væri ríkasta unglingsstjarnan og hún hefði fengið einn milljarð bandaríkjadala í laun eftir árið. Meiri athygli fjölmiðla fylgdu í kjölfar aukinna vinsælda. Tímaritið "Time" setti hana á lista sinn yfir 100 áhrifamesta fólk í heimi. 2009: Breytingar og byrjun leikferils. Miley hafði nú þegar byrjað að breyta ímynd sinni í fullorðnari einstakling seinni hluta ársins 2008, þegar fulltrúar hennar höfðu samið við rithöfundinn Nicholas Sparks um að skrifa handrit fyrir kvikmynd sem átti að verða farartæki Cyrus upp á stjörnuhimininn til að kynna hana fyrir eldri áhorfendum en þeim sem hún hafði öðlast í gegnum "Hönnuh Montana". Sparks og Jeff Van Wie skrifuðu síðan handritið að "The Last Song". Það var mikilvægt fyrir Miley að hún myndi ekki vera í leikaraliðinu sem söngvari: „Ég vildi ekki vera söngvari í enn einni myndinni. Ég vil ekki gera það lengur. Þú hefur enga hugmynd um hvað ég hef fengið mörg söngleikjatilboð. Ég vil gera eitthvað aðeins alvarlegra.“ Í mars 2009 gaf Cyrus út "Miles to Go", ævisögu sem var einnig skrifuð af Hilary Liftin sem fjallaði um líf hennar þangað til hún varð sextán ára. Cyrus lék Miley Stewart/Hönnuh Montana í "Hannah Montana: Kvikmyndin" sem kom út 10. apríl 2009. Bæði kvikmyndin og diskurinn með lögunum úr myndinni, sem voru tólf og sungin af Cyrus, urðu mjög vinsæl. Aðalsmáskífa plötunnar, „The Climb“, náði inn á Topp 40 lista í 12 löndum og kynnti Cyrus fyrir hlustendum fyrir utan hennar venjulega hlustunarhóp. Miley hafði hugsað sér að enda Hönnuh Montana eftir þriðju þáttaröðina sem kláraðist 5. júní 2009 en Disney hélt áfram að ræða möguleika um fjórðu þáttaröðina. Miley flytur lagið „Start all over” á tónleikaferðalaginu „Wonder World” Í maí 2008 færði Gossett, umboðsmaður Miley til langs tíma, sig frá Cunningham Escott Slevin Doherty skrifstofunni yfir til United Talent Agency (UTA), að hluta til með þær væntingar að geta gert feril Cyrus enn stærri ef hann hefði stærra bakland. Um ári seinna, í júní 2009, hætti Cyrus bæði hjá Gossett og UTA, sem hafði nýlega samið um "The Last Song" og fjórðu þáttaröðina af Hannah Montana, og gekk til liðs við Creative Artists Agency, sem hafði áður verið fulltrúar hennar í tónlist. Nikki Finke, sem sagði frá fréttunum, sagði: „Er þetta sanngjarnt gagnvart UTA? Auðvitað ekki. En ég hef heyrt að þetta er ákvörðun sem móðir Miley, Trish, tók“. Í einkalífinu endaði Miley níu mánaða samband sitt við Justin Gaston í júní, stuttu áður en hún átti að fljúga til Georgíu til að taka upp "The Last Song". Á meðan tökum á myndinni stóð byrjaði hún ástarsamband við meðleikara sinn í "The Last Song", Ástralann Liam Hemsworth. Hún kallaði hann síðar „fyrsta alvöru kærastann sinn“. Framleiðsla á "The Last Song" stóð frá 15. júní 2009 til 18. ágúst 2009. Í millitíðinni gaf Cyrus út þriðju Hannah Montana-plötuna og gaf út eina smáskífu, „Party in the USA“. Smáskífan náði 2. sæti á Billboart Hot 100 listanum sem er besti árangur hennar hingað til. Flutningur Cyrus á „Party in the USA“ á Teen Choice Awards þetta ár varð til þess að hún fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum, þar sem sumir áhorfendur gagnrýndu ögrandi fatnað hennar og vísanir í súludans væru óviðeigandi fyrir stúlku á hennar aldri, þá sextán ára, og fyrir unga aðdáendur hennar. Cyrus var einnig gagnrýnd fyrir það að eiga í ástarsambandi við Gaston sem er fimm árum eldri en hún og fyrir mynd af henni og vinum hennar þar sem þau væru að teygja á sér augun, sem samtök kínverskra Bandaríkjamanna sögðu að væri óvirðing við Asíubúa. Cyrus baðst afsökunar á myndinni og eyddi henni af heimasíðu sinni, varði gjörðir sínar og sagði, „Ég var ekki á neinn hátt að gera grín að neinu þjóðerni!“. Þann 8. október 2009 eyddi Miley Twitter-síðunni sinni og sagðist vilja meira næði. Hún sagði einnig við tímaritið Parede, „Ég eyddi Twitter-aðgangnum mínum vegna þess að ég sagði þar að ég tryði á giftingu samkynhneigðra vegna þess að allir hafa rétt á því að elska hver annan og ég fékk mikið að haturs-póstum sem sögðu að ég væri slæm manneskja.“ Miley var mjög vinsæl á þessari síðu: um 2 milljónir manna skoðuðu síðuna hennar á hverjum degi. Frá 14. september 2009 til 29. desember 2009 var Miley á tónleikaferðalaginu "Wonder World" til að kynna nýjustu plötuna sína, "Breakout" og "Time of Our Lives". 7. desember 2009 söng Cyrus fyrir Elísabetu II Englandsdrottningu og aðra meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar í Blackpool í Norð-Vestur Englandi. Við lok ársins 2009 setti Billboard tímaritið hana í fjórða sæti yfir tekjuhæstu söngkonurnar og fimmta tekjuhæsta söngvarann yfir allt. Forbes setti hana í 29. sæti á Celebrity 100 listanum sínum og sagði að hún hefði þénað 25 milljónir Bandaríkjadollara það árið. 2010 og framtíðin: "Can't Be Tamed" og kvikmyndaferill. Framleiðsla fjórðu og síðustu þáttaraðar Hönnuh Montana byrjaði þann 18. janúar 2010. Eftir jarðskálftann á Haítí 2010, söng Cyrus á góðgerðar-smáskífunum "We Are the World: 25 for Haiti" og "Everybody Hurts". Áætlað er að þriðja stúdíóplatan hennar, "Can't Be Tamed", komi út 22. júní 2010. Fyrsta smáskífa plötunnar er titillag hennar, "Can't Be Tamed" en hún kom út 18. maí 2010 og fór í 8. sæti Billboard Hot 100 listans. Tónlistarmyndbandið, þar sem Cyrus var klædd í þröng leðurföt og dansaði ögrandi dansa, fékk dóma á borð við "frábært, geðveikt, flott" og "vá, allt of mikið fyrir einhvern á hennar aldri (17)", samkvæmt tímaritinu People. Miley hefur ákveðið að taka sér frí frá tónlistarbransanum eftir útgáfu plötunnar til að einbeita sér að kvikmyndaferlinum. Hún sagði, "Ég hef ekki tekið leiklistartíma eða neitt svoleiðis en það þýðir ekki að ég þurfi þess ekki því ég er viss um að ég þurfi þess [...] Ég mun örugglega fá mér leiklistarþjálfara." Cyrus hefur einnig ákveðið að hætta í háskóla af sömu ástæðu og sagði "Ég trúi heitt á það að þú getir farið aftur hvað sem þú ert gamall, vegna þess að amma mín fór aftur í háskóla þegar hún var 62 ára [...] Núna langar mig bara að einbeita mér að ferlinum. Ég hef unnið hart að því að komast þangað sem ég er og ég vil njóta þess á meðan það varir." Cyrus fékk ekki slæma dóma fyrir "The Last Song" sem kom út 31. mars 2010. Kvikmyndagagnrýnendur sögðu að Cyrus hefði góða framkmou en hana skorti tilfinningasvið. Þrátt fyrir það gekk myndinni vel. Cyrus hefur á dagskránni tvær aðrar myndir, "Wings" og "LOL (Laughing Out Loud)". Í LOL, sem er endurgerð af franskri gamanmynd, leikur Miley "dóttur sem er með öllum vitlausu krökkunum, er í eiturlyfjum, fellur í skólanum en móðir hennar sér hana sem fullkomna" og segir Miley að hún hafi orðið ástfangin af sögunni. "Wings" er byggð á fyrstu skáldsögunni í fjögurra bóka röð sem skrifuð er af Aprilynne Pike og mun Miley leika Laure, fimmtán ára stelpu sem uppgötvar að hún er álfur. Hlutverk. ! colspan="4" style="background: Yellow;" | Kvikmyndir ! Ár !! Kvikmynd !! Hlutverk !! Athugasemd ! colspan="4" style="background: Pink;" | Kvikmyndir gerðar fyrir sjónvarp/DVD ! Ár !! Kvikmynd !! Hlutverk !! Athugasemd Ýmsir - Við djúkboxið. Ýmsir - Við djúkboxið er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni flytja ýmsir nokkur dægurlög frá sjötta áratugnum valin af Björgvini Halldórssyni. Krákustígsás. Krákustígsás er sjaldgæfur landslagsþáttur sem talið er að myndist þegar bræðsluvatn ryðst eftir sprungum í kjölfar framhlaups jökuls og ryður upp möl og sandi. Krákustígsásar sjást á Íslandi einungis við Eyjabakkajökul og Brúarjökul. Framhlaupsjökull. Framhlaupsjökull er skriðjökull sem hleypur fram með margföldum hraða (10-1000 sinnum hraðar en venjulega). Í framhlaupum flyst mikill ís frá efri hluta jökulsins að jökulsporði. Einkenni framhlaupsjökla er að milli hlaupa hreyfast jaðar og jökulsporðar jöklana lítil sem ekkert. Þekktasti framhlaupsjökull á Íslandi er Brúarjökull sem gengur norður úr Vatnajökli. Framhlaupsjöklar móta umhverfið, þeir bera fram mikið set og aflaga setlög og búa til krákustígsása. Hraukarnir í Kringilsárrana mynduðust við framhlaup Brúarjökuls árið 1890. Talið er að Eyjabakkajökull muni hlaupa fram á næstu árum. Katla og Pálmi - Katla og Pálmi. Katla og Pálmi - Katla og Pálmi er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni syngja Katla María og Pálmi Gunnarsson nokkur þekkt barnalög. Gunnar Þórðarson útsetti og stjórnaði undirleik og hljóðritun. Hljóðritun undirleiks fór fram í Tapestry Studio, London en hljóðritun söngs í Hljóðrita. Tæknimaður: Sigurður Bjóla. Ljósmyndir á umslagi: Studio 28 Filmuvinna og prentun: Prisma Guðmundur Ingólfsson - Nafnakall. Guðmundur Ingólfsson - Nafnakall er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1982. Á henni flytur Guðmundur Ingólfsson og hljómsveit jazz og blúslög. Hljóðritað í Studio Nemi í júní 1982. Tæknimaður: Helgi E. Kristjánsson. Plötuumslag: Prentun: Prisma. Ýmsir - Jólaljós. Ýmsir - Jólaljós er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1983. Á henni flytja ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn þekkt jólalög. Tvískipting. Tvískipting, tvígreining eða tvíflokkun kallast sú skipting heildar í nákvæmlega tvo hluta sem ekki skarast saman. Páll Kr. Pálsson - Leikur á orgel. Páll Kr. Pálsson - Leikur á orgel er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1983. Á henni leikur Páll Kr. Pálsson orgelverk. Málverk á framhlið: Eiríkur Smith. Filmuvinna og prentun: Prisma Jón Kr. Ólafsson - Ljúfþýtt lag. Jón Kr. Ólafsson - Ljúfþýtt lag er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1983. Á henni syngur Jón Kr. Ólafsson íslensk söng og dægurlög. Ólafur Vignir Albertsson leikur undir á píanó í öllum lögunum nema lögum nr. 6 og 12. Þau lög eru af plötu Facon. Filmuvinna og prentun: Prisma Hornbjargsviti. Hornbjargsviti er viti sem stendur í Látravík, sem er næsta vík fyrir austan Hornvík. Fyrr á öldum þótti Látravík ekki álitlegur kostur til ábúðar, og var hún ekki byggð fyrr en 1872, þegar Jóhann Halldórsson bóndi og refakytta settist þar að. Jóhann er talinn síðasti landnámsmaðurinn, þar sem Látravík er síðasta jörðin sem mæld var úr óskiftum almenningi hér á Íslandi. Í Látravík var svo búið allt fram til 1909, en þá fór jörðin í eyði. Það var svo árið 1930 að Vitamálastofnun kaupir jörðina og reisir þar Hornbjargsvita. Vitinn stendur ekki á Hornbjarginu sjálfu, menn munu fljótt hafa séð að það gengi ekki að hafa vitann þar sökum erfiðleika við búsetu nálægt honum, enda þurftu vitaverðir oft að dveljast langdvölum í vitanum við skyldustörf. Vitinn var fyrstu árin knúinn með gasi og gasþrýstingi, en 1960 var byggð lítil vatnsvirkjun og vitinn raflýstur. Árið 1995 var vitinn rafvæddur með sólar og vindorku og starf vitavarðar lagt niður. Nú er vitinn nánast alsjálfvirkur, einungis er komið 1-2 sinnum á ári til eftirlits. Vitinn stendur í um það bil 20 metra hæð yfir sjávarmáli og er hæð vitans 10,2 metrar svo ljóshæð hans er 31 metri yfir sjávarmáli. Nú er rekin gistiþjónusta fyrir ferðamenn í vitavarðarhúsinu. Bygging vitans. Hús vitans var steypt á einu sumri. Fjöldi manns vann við bygginguna, nokkra þurfti að fá „að sunnan“. Við verkið var notuð steypuhrærivél sem var nýlunda á Ströndum á þessum tíma, og sennilega sú fyrsta sem þar sást. Bertel Sigurgeirsson trésmíðameistari stjórnaði verkinu, en hann stjórnaði einnig byggingu Landakotsspítala. Meðan á verkinu stóð, bjuggu verkamennirnir í skála sem reistur var skammt fyrir austan vitann. Allt efnið í vitann var aðflutt nema grjótið sem var notað í púkk með steypunni, til að drýgja hana. Sementið innflutt, en allur sandur sótt á bátum í Hornvík þar sem því var mokað í strigapoka og borið um borð í bátinn. Mestallt efnið í vitann og húsið var híft upp í svokölluðum Svelg, sem er víkin austan við vitann. Þar var reistur krani sem efnið var híft upp með, allt var þetta gert á handaflinu einu saman. Það er mikil hreyfing í Svelgnum og klettarnir í kring 15 til 20 metra háir. Þaðan var efninu ekið í hjólbörum eða bera það á bakinu á byggingarstað, um það bil 300 metra. Seinna sáu menn að mun betri lending var fyrir vestan vitann og hófu að nota hana, en þá var byggður stigi og rennibraut niður í fjöru og allt efnið dregið þar upp. Húsið var haft stórt vegna radíóvitans sem meiningin var að setja upp í „Síberíu“, en það herbergi hefur verið nýtt sem matargeymsla í fjölmörg ár, enda alltaf kalt þar inni. Maurice Ravel. Joseph-Maurice Ravel (fæddur 7. mars 1875 í Ciboure, Frakklandi; látinn 28. desember 1937 í París) var franskt tónskáld og píanóleikari á impressjónismatímabilinu, þekktur fyir slægð, kraft og biturleika í tónlist sinni. Ravel er best þekktur fyrir tónverkin "Boléro" og "La Valse". Daniel Kehlmann. Daniel Kehlmann (fæddur 13. janúar 1975 í München) er þýskur rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir að hafa gefið út bókina "Mæling heimsins" (upphaflega "Die Vermessung der Welt"). Hleri. Hleri er notaður við að halda veiðarfæri opnu svo hægt sé að fá fisk inn í það. Til eru tvær gerðir af hlerum; botnhlerar og flothlerar. Botnhlerar. Botnhlerar eru notaðir til veiða á fiskum sem eru botnlægir og eru algengustu hlerarnir á Íslandsmiðum. Þeir eru þannig úr garði gerðir að þeir eiga að sitja á botninum og haldast sem mest og best við hann, og yfirleitt alltaf eru hlerarnir í botni á meðan verið er að draga trollið, þó ekki alltaf eins og t.d þegar verið er að veiða á miklu dýpi. Flothlerar. Flothlerar eru að sama skapi gerðir til að halda trollinu opnu, en eru aftur á móti þannig gerðir að þeir eiga að svífa um sjóinn og eiga að geta stjórnað því á hvaða dýpi veiðarfæri eru. Þessir hlerar dragast því ekki eftir botninum. Flothlerar eru notaðir við veiðar á uppsjávarfiski, svo sem loðnu og síld. Stundin okkar. Stundin okkar er barnaþáttur sem er sýndur í íslenska ríkissjónvarpinu á sunnudögum. Fyrsti þátturinn var sendur út á aðfangadag 1966 skömmu eftir stofnun sjónvarpsins. Stundin okkar er elsti íslenski sjónvarpsþátturinn sem enn er sendur út. Hann hefur lengst af verið sendur út um klukkan sex síðdegis á sunnudögum og tekið 40-50 mínútur í útsendingu. Fyrstu árin var sunnudagshugvekja send út í kortér klukkan sex og síðan tók Stundin okkar við fram að íþróttum klukkan sjö. Fyrsti umsjónarmaður Stundarinnar okkar var Hinrik Bjarnason kennari og síðar dagskrárstjóri. Strax í febrúar 1967 urðu Rannveig og Krummi (Rannveig Jóhannsdóttir og Sigríður Hannesdóttir) fastur liður í öðrum hverjum þætti og svo vinsæl að flestir tengja þau við þessi fyrstu ár fremur en Hinrik. Krummi var handbrúða sem Hinrik hafði keypt í Þýskalandi. Frá upphafi byggðist þátturinn á blönduðum atriðum frá grunnskólunum, leikhúsunum og aðkeyptu erlendu efni sem stjórnandi þáttarins kynnti fyrir áhorfendum. Eftir Krumma settu margar brúður svip sinn á þáttinn: Fúsi flakkari kom fram í þáttum Kristínar Ólafsdóttur og Klöru Hilmarsdóttur 1969 til 1970, Glámur og Skrámur (Halli og Laddi) komu fram í þáttum Ragnheiðar Geirsdóttur og Björns Þórs Sigurbjörnssonar 1972 og síðan aftur við og við í mörg ár á eftir, og Páll Vilhjálmsson (Gísli Rúnar Jónsson) kom fram með Sirrý í atriðum sem voru skrifuð af Guðrúnu Helgadóttur. Fjöldinn allur af brúðum kom fram í þáttum Helgu Steffensen 1987 til 1994 og Keli köttur (Steinn Ármann Magnússon) var félagi Ástu Hrafnhildar Garðarsdóttur 1997 til 2001. Leiknar persónur sem voru þróaðar sérstaklega fyrir þáttinn voru einkenni á þáttum Bryndísar Schram 1979 til 1983 þar sem Þórhallur Sigurðsson leikari þróaði margar af þekktustu persónum sínum, s.s. Eirík Fjalar og Þórð húsvörð. Elías (Sigurður Sigurjónsson) var með atriði skrifuð af Auði Haralds í þáttum Ásu Ragnarsdóttur og Þorsteins Marelssonar frá 1983 til 1985. Gunni og Felix léku samnefndar persónur í þáttum sínum 1994 til 1996 en Þóra Sigurðardóttir og Jóhann G. Jóhannsson gengu skrefinu lengra árið 2002 og bjuggu til persónurnar Birtu og Bárð sem sáu um kynningar í þættinum að hluta. Frá 2007 hefur allur þátturinn byggst á samhangandi leiknum atriðum, Ævintýri Stígs og Snæfríðar leikin af Ívari Erni Sverrissyni og Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur, sem eru skrifuð af Leynifélaginu ehf. (Þorgeiri Tryggvasyni, Ármanni Guðmundssyni, Snæbirni Ragnarssyni og Sævari Sigurbjörnssyni). Vítissódi. Vítissódi (NaOH), natríumhýdroxíð eða natrínhýdroxíð er jónískt efni myndað úr Na+ og OH-. Það er hvítt, fast efni með bræðslumarkið 318 °C og rammur basi. Suðumark þess er 1390 °C. Vítissódi er auðleystur í vatni en það fylgir mikil varmamyndun að leysa hann upp í vatni. Vítissódi er stundum seldur sem flögur, litlar kúlur eða sem upplausn. Heimsframleiðslan á vítissóda árið 1998 var um 45 milljón tonn. Vítissódi er afar ætandi og hættulegt efni. Mikilvægt er að geyma efnið í loftþéttu íláti því það binst koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Vítissódi leysist upp í vatni en þá losnar mikill hiti. Efnið leysist líka upp í etanól og metanól en leysist ekki upp í eter. Vítissódalausn skilur eftir gula bletti í efnum og á pappír. Notkun. Vítissódi er notaður við vinnslu og sem hráefni í ýmisskonar efnaiðnaði; aðallega sem rammur basi í framleiðslu viðarkvoðu og pappírs, textíls, drykkjarvatns, sápu og þvotta- og hreinsiefna fyrir frárennslisrör. Efnið er notað til að losa stíflur í frárennslisrörum og er þá sturtað í niðurföll. Vítissódi er notaður sem hreinsiefni t.d. til að hreinsa bjórframleiðslutanka og er algengasta efnið í efnum sem seld eru til að hreinsa bakarofna. Vítissódi er algengasti basinn sem notaður er efnafræðitilraunum. Efnið er líka notað við framleiðslu á lífdísil. Áður var algengast að nota vítissóda til að ná málningu af tré en vegna umhverfissjónarmiða hefur sú notkun minnkað. Vítissódi er notaður í fæðuframleiðslu m.a. við framleiðslu á hinum norska „lutefisk“. Oftast er hinn guli litur á kínverskum núðlum ekki vegna þess að þær innihaldi egg heldur vegna þess að þær hafa verið gerðar með upplausn sem inniheldur vítissóda. Vítissódi hefur verið notaður við verkun sviðahausa á Íslandi, til að ná sóti af sviðnum hausum eru þeir settir í vatnslausn með vítissóda. Vítissódi er notaður til að hreinsa ál sem inniheldur báxíð til að búa til áloxíð sem síðan er hráefni sem notað er til að framleiða ál í álbræðslum. Vítissódi hefur verið notaður af fagstéttum til að slétta hár en úr þeirri notkun hefur dregið vegna hættu á efnabruna. Vítisódi hefur verið notaður til að leysa upp lífræna vefi dýra. Vítissódi hefur verið notaður til að stjórna sýrustigi við framleiðslu ólöglegra lyfja eins og metamfetamíns. Gullpeningatilraun. Vítissódi gengur í samband við sínk og það er hægt að búa til „gullpeninga“ úr mynt úr kopar og með því að sjóða peninga í vítissódaupplausn þar sem í er dálítið af sínki, myntin silfurlituð eftir 45 sekúndur. Ef myntin er síðan sett undir gasloga í nokkrar sekúndur verður hún gullin. Ástæðan fyrir þessu er að sínkduftið leysist upp í vítissóda og býr til Zn(OH)42-. Þegar sink og kopar eru hitað saman verður til látún. Limousin (nautgripakyn). Limousin-naut og gripir í Frakklandi Limousin er nautgripakyn upprunalega ræktað í Limousin-héraði í Frakklandi. Kynið þekkist á rauðum lit einstaklinganna og eru hreinræktaðir gripir hyrndir. Með blöndun við önnur kyn hafa fengist erfðavísar fyrir svartan lit og kollótt inn í stofninn. Saga. Fyrsta ættbók Limousinkynsins var stofnuð árið 1886 til að bæta það með náttúrulegu vali. Þó eru uppi kenningar um að kynið gæti verið allt að 20 þúsund ára gamalt sé byggt á hellaristum nálægt Montignac sem sýna nautgripi sem líkjast mjög Limousin. Einkenni. Kálfar af Limousinkyni eru stórir og fljótvaxta. Gripirnir hafa góða fóðurnýtingu og hafa þannig mikinn vaxtahraða. Hinsvegar er mjólkurlagni ekki góð en góðir kjötsöfnunareiginleikar bæta það upp. Geðslag er gott og burðarvandamál fátíðari en hjá öðrum kynjum. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Fundnar hljóðritanir. Vilhjálmur Vilhjálmsson - Fundnar hljóðritanir er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1984. Á henni syngur Vilhjálmur Vilhjálmsson íslensk dægurlög. Endurvinnsla á hljóðritunum fór fram hjá Ríkisútvarpinu og var steríó-hljómi bætt inn á. Tæknimaður: Þórir Steingrímsson. Óli Páll Kristjánsson ljósmyndari tók allar myndir á umslagi. Filmuvinna og prentun: Prisma. Ómar Ragnarsson - Fyrstu árin. Ómar Ragnarsson - Fyrstu árin er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1984. Á henni syngur Ómar Ragnarsson íslensk dægurlög og flytur gamanefni. Litmyndir á umslagi tók Friðþjófur Helgason á skemmtunum Ómars Ragnarssonar í Broadway í maí 1984. Mynd í opnu umslags tók Óli Páll 1966 þegar Ómar söng lögin á síðari plötunni. Hin lögin söng Ómar inn á plötu fimm árum á undan. Litgreining, textasetning og prentun umslags: Prisma Fjórtán fóstbræður - Fjórtán fóstbræður. Fjórtán fóstbræður - Fjórtán fóstbræður er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1984. Á þessari tvöföldu safnplötu flytja Fjórtán fóstbræður öll sín bestu lög. Elly Vilhjálms syngur með fóstbræðrum í syrpum 11 og 15. Hljóðritun fór fram hjá Ríkisútvarpinu 1964 og 1965. Stereó-hljómi var bætt inn á endurútgáfu á báðum plötum. Litgreining, textasetning og prentun umslags: Prisma. Ljósmynd á plötuumslagi: Gunnar Hannesson. George Lincoln Rockwell. George Lincoln Rockwell (9. mars 1918 – 25. ágúst 1967) var liðsforingi í bandaríska sjóhernum og stofnandi Ameríska Nasistaflokksins (e. "American Nazi Party"). Hann var hátt settur í hreyfingu nýnasista í Bandaríkjunum á eftirstríðsárunum og enn hafa skoðanir hans og skrif áhrif á hvíta þjóðernissinna og nýnasista í Bandaríkjunum. Rockwell var elstur þriggja systkina. Foreldrar hans voru bæði leikarar og skildu þegar hann var sex ára. Eftir það ólst hann upp ýmist hjá móðurfólki sínu í Atlantic City í New Jersey eða föðurfólki sínu í Boothbay Harbor í Maine. Rockwell stundaði nám í heimspeki við Brown-háskóla í Providence á Rhode Island. Herþjónusta og hjónabönd. Á lokaári sínu í skólanum hætti hann námi og gekk í sjóherinn. Um borð í USS Pastores tók hann þátt í að kveða niður óeirðir á milli hvítra og svartra hermanna um borð og varð liðsforingi þeirra svörtu eftir hlutkesti. Árið 1943 giftist hann fyrstu konu sinni, Judy Altman. Eftir að þau giftu sig lærði hann að taka ljósmyndir úr lofti. Að lokinni þjálfun var hann í herþjónustu á Kyrrahafseyjum. Hann stjórnaði og skipulagði aðgerðir flughersins þegar Bandaríkjaher náði eyjunni Gúam aftur á sitt vald. Árið 1952 var hann sendur til Íslands og þjónaði þar í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem yfirmaður. Á þeim tíma fengu hermenn þar ekki að hafa fjölskyldu sína með sér og leiddi það til þess að hann og kona hans skildu. Nokkru síðar kynntist hann Þóru Hallgrímsson, sem varð önnur kona hans. Sagt er að þau hafi farið í brúðkaupsferð til Berchtesgaden í Þýskalandi þar sem Hitler hafði afdrep í Ölpunum. Þau eignuðust þrjú börn, einn son, sem fæddist í Keflavík og tvær dætur sem fæddust í Bandaríkjunum eftir að þau fluttust þangað. Hjónabandi þeirra lauk með skilnaði og fluttist Þóra til Íslands með öll börnin þrjú. Ameríski nasistaflokkurinn. Í mars 1959 stofnaði Rockwell flokk, sem í fyrstu var kallaður "World Union of Free Enterprise National Socialists" en nafninu var fljótlega breytt í American Nazi Party. Hann hélt samkomu á National Mall í Washington og hélt þar tveggja klukkustunda langa ræðu, sem vakti talsverða athygli í blöðum. Hann ætlaði að halda sams konar samkomu á Union Square í New York en það gekk ekki eftir, því að mikill fjöldi gyðinga var þar staddur og lá við óeirðum. Rockwell var fylgt út úr New York í lögregluvernd. Rockwell barðist fyrir kynþáttaaðskilnaði. Hann var andvígur Martin Luther King og taldi að hann væri verkfæri gyðingakommúnista. Hann studdi Ku Klux Klan. Eftir að hann heyrði slagorð svertingja, Black Power, tók hann strax upp slagorðið „White Power“, sem svo varð nafn á málgagni nýnasistaflokksins og titill bókar, sem hann skrifaði. Hann dáðist að Malcolm X og leit á hann sem komandi leiðtoga blökkumanna í Bandaríkjunum. Hann trúði því að ef aðskilnaður kynþátta yrði ekki tekinn upp yrðu langvarandi erjur og jafnvel borgarastyrjöld þar sem húðlitur yrði einkennisbúningurinn. Ævilok. Þann 28. júní 1967 var gerð tilraun til þess að myrða George Rockwell. Hann var að koma að höfuðstöðvum flokksins í Arlington, en þar hafði tré verið fellt þvert yfir afleggjarann, svo að hann varð að stoppa. Á meðan ungur piltur vann að því að draga tréð úr vegi var skotið tveimur riffilskotum að Rockwell, sem þaut út úr bílnum og reyndi að elta tilræðismanninn uppi en það tókst ekki. Tæpum tveimur mánuðum síðar var hann myrtur þann 25. ágúst er hann kom út úr þvottahúsi og gekk að bíl sínum og settist inn í hann. Byssumaður var á þaki þvottahússins og skaut tveimur skotum, sem hæfðu Rockwell í höfuð og brjóst. Hann komst út úr bílnum og gat bent upp á þakið, en var látinn tveimur mínútum síðar. Skotmanninum var veitt eftirför, en hann náðist ekki. Hálftíma síðar var maður að nafni John Patler handtekinn á strætisvagnabiðstöð í grenndinni, sakaður um morðið. Patler var félagi í nasistahreyfingunni. Hann var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir morðið og sat inni í samtals 14 ár. Fyrst í 8 ár og var þá látinn laus á skilorði. Hann hélt ekki skilorð og var því lokaður inni aftur og í það skiptið í 6 ár. Eyðumerkurrotturnar. "Eyðimerkurrotturnar" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Að fá nagla úr skósólanum upp í fótinn er hversdagslegt atvik, sem venjulega leiðir til þessa að við göngum við hjá skósmið. En fyrir Bob Moran hafði þetta alvarlegri afleiðingar. Hann gekk að vísu við hjá alvarlegri afleiðingar. Hann gekk að vísu við hjá skósmið til að láta laga skóinn sinn, en hann grunaði ekki, að þar þyti hann beint upp í fangið á alþjóðlegum bófaflokki. Og yfirhöfðingi þessa bófaflokks var prófessor Sixte að nafni. Hann hafði ákveðið að eyðileggja heiminn, vegna þess að heimurinn hafði ekki viðurkennt hæfileika hans. En honum var þó áhyggjuefni, að þegar hann væri búinn að eyðileggja heiminn, þá yrði líklega enginn eftir til þess að dázt að afrekum hans. Og nú vantaði hann eldflaugasérfræðing, og í misgripum taka þeir Bob og flytja hann til eyjar í Karabíska hafinu. Þar er hann hýstur í stálhöll, umkringdur ógerðarmönnum og atvinnumorðingjum. Ótal hættur verða á vegin hans. En tekst honum að sigra og frelsa þar með heiminn frá yfirvofandi plágu þessa mikilmennskubrjálæðings, sem í rauninni var ekkert annað en spennitreyjumatur. Aðalpersónur. Bob Moran, Georg Lansky, Mayer, Prófessor Aristide Clairembart, Prófessor Sixte, Fred Duncan Sögusvið. París, Le Havre, Frakkland - Assomption, Karabíska hafinu Hjartarsalt. Hjartarsalt eða Ammóníumkarbónat ((NH4)2CO3) er hvítt duft, það er blanda af ammóníumbíkarbónati NH4HCO3 og ammóníumkarbamínati NH2COONH4. Bræðslumark þess er 58 °C. Hjartarsalt er notað sem lyftiefni í bakstur, aðallega smákökubakstur til að fá sléttar og stökkar kökur. Ammoníaksgufurnar sem myndast þegar deigið hitnar - en þær gefa lyftingu - þurfa að gufa alveg upp en það næst ekki í stærri og blautari kökum. Hjartarsalt er í mörgum norrænum uppskriftum t.d. af íslenskum loftkökum. Hjartarsalt er notað sem lyktarsalt til að vekja fólk af yfirliði. Nafnið kemur frá því að efnið var unnið úr dýrahárum og dýrahornum, ekki síst hjartardýra. Matarsódi. Matarsódi eða natrón er efnasamband með formúlunni NaHCO3. Það er hvítt efni með daufu, beisku bragði eins og þvottasódi. Efnið er notað sem lyftiefni í bakstur, því þegar matarsóda er blandað saman við vökvann í deigi sem jafnframt inniheldur súrt hráefni myndast loftbólur sem gera það að verkum að brauð og kökur lyftast. Deig sem búið er að setja matarsóda í þarf að baka strax því að bólurnar springa fljótlega og þá stöðvast lyftingin og kökurnar geta sigið saman. Matarsódi er virka lyftiefnið í lyftidufti en í það hefur verið bætt efnum sem valda því að loftbólurnar fara ekki að myndast og þenjast út að ráði fyrr en í heitum ofni. Árið 1791 bjó franskur efnafræðingur, Nicolas Leblanc, til matarsóda, en verksmiðjuframleiðsla á honum til notkunar í bakstri hófst í New York árið 1846. Matarsódi er líka hafður til fleiri nota, svo sem við brjóstsviða og sem hreinsiefni. Virkni. Bæði matarsódi og lyftiduft eru efni sem létta og mýkja afurðina og þarf að bæta í deigið áður en það er bakað. Þau framleiða koldíoxíð sem veldur því að afurðin ‚lyftist‘. Lyftiduft inniheldur matarsóda en þessi tvö efni eru þó ekki notuð á sama hátt þótt þau séu stundum notuð samhliða. Matarsódi er hreint natríumbíkarbónat. Þegar matarsódi kemst í snertingu við raka í deiginu og innihaldsefni með lágt sýrustig (til dæmis jógúrt, súkkulaði, súrmjólk eða hunang) leiðir það til efnahvarfa, matarsódinn brotnar niður í salt, vatn og koldíoxíð og við það myndast og þenjast út loftbólur sem verða til þess að deigið lyftist. Efnahvörfin hefjast strax og efnunum er blandað saman þannig að mikilvægt er að baka deigið strax ef það inniheldur eingöngu matarsóda. Ef það er ekki gert fellur deigið og afurðin verður flöt. Ef enginn sýruvaldur er í deiginu er hætt við að lyftingin verði lítil og bragðið beiskt. Beiskt bragð getur einnig komið fram þegar notað er of mikið af matarsóda í deigið, miðað við önnur innhaldsefni. Munurinn á matarsóda (natroni) og lyftidufti. Í sumum uppskriftum er lyftiefnið eingöngu matarsódi en í öðrum er það lyftiduft, það er að segja matarsódi að viðbættum öðrum efnum. Hvort er notað veltur fyrst og fremst á öðrum innihaldsefnum uppskriftarinnar. Lyftiduft inniheldur bæði basa og sýru, það er að segja natríumbíkarbónat (matarsóda) og sýruvalda eins og fosföt eða vínstein. Einnig eru í því þurrkefni (oftast sterkja), svo sem hveiti, maíssterkja, kartöflumjöl eða hrísmjöl. Þar sem sýruvaldarnir eru fyrir hendi í lyftiduftinu er ekki þörf á súru hráefni til að lyftiduftið virki. Til eru einvirkt og tvívirkt lyftiduft. Hið fyrrnefnda verður virkt þegar það kemst í snertingu við raka þannig að baka þarf deigið strax eftir blöndun. Tvívirkt lyftiduft bregst við í tveimur skrefum, annars vegar þegar vöknar í því og hins vegar þegar hita frá ofninum fer að gæta, og deigið getur því beðið um stund fyrir bakstur. Það er ekki fyrr en hitastig hækkar í deiginu inni í ofninum sem aðallyftingin fer af stað þegar koltvísýringur losnar úr læðingi og loftbólurnar í deiginu stækka og þenja það út. Matarsódi er meðal annars algengur í smákökum, kexi, skonsum, lummum og öðru fljótbökuðu þar sem lyftingin þarf að vera hröð, og einnig í uppskriftum þar sem óskað er eftir hraðri lyftingu í upphafi sem heldur svo áfram, en þá er yfirleitt einnig notað tvívirkt lyftiduft, sem verður til þess að lyftingin stendur lengur. Af honum getur sem fyrr segir verið beiskjubragð ef hlutföllin eru ekki rétt. Lyftiduft er almennt bragðlaust þótt sumir telji sig finna málmkennt bragð af lyftiduftstegundum sem innihalda álsambönd. Lyftiduft er mikið notað í alls konar kökur og kex. Einu skipt út fyrir annað í uppskriftum. Oft má nota lyftiduft í staðinn fyrir matarsóda, þá oftast í hlutföllunum 3:1. Hafi uppskriftin gert ráð fyrir 1 teskeið af matarsóda eru notaðar 3 teskeiðar af lyftidufti í staðinn. Þó má gera ráð fyrir að bragðið af kökunni breytist eitthvað. Yfirleitt er ekki hægt að nota matarsóda eingöngu þegar uppskriftin gerir ráð fyrir lyftidufti, nema þá ef bætt er við súru hráefni til að koma lyftingunni af stað, því að matarsóda vantar sýruna til að fá kökuna til að lyftast. Bragðið breytist að sjálfsögðu eitthvað við þetta. Útbúa má heimagert lyftiduft úr matarsóda og vínstein (kalíumbítartar - KC4H5O6) og þá er blandað saman einum hluta af vínstein á móti tveimur af matarsóda og einum af maíssterkju (einnig má sleppa sterkjunni en þá geymist lyftiduftið verr og það þarf að nota heldur meira af því en ella). Þetta lyftiduft er þó ekki tvívirkt og því þarf að baka kökur þar sem það er notað um leið og deigið er tilbúið. Metýlenblátt. þrívíddarmynd af metýlenbláu í oxuðu formi Metýlenblátt er lífrænt efnasamband sem hefur efnaformúluna C16H18ClN3S. Það er notað á ýmsum sviðum svo sem í líffræði og efnafræði. Við herbergishita er metýlenblátt fast efni, lyktarlaust, dökkgrænt duft sem verður blátt þegar það er leyst upp í vatni. Efnafræði. Metýlenblátt eða methylthioninium chloride er mikið notað sem litvísir fyrir afoxun í efnagreiningu. Lausnir með metylenbláu verða bláar í oxandi umhverfi en verða litlausar ef afoxun á sér stað. Þessir afoxunareiginleikar eru vel sýnilegir í algengri efnafræðitilraun með bláu flöskuna en þá er lausn úr þrúgusykri,metýlenbláu og vítissóda hrist. Þá oxar súrefnið metýlínblátt og lausnin verður blá. Þrúgusykurinn hefur svo þau áhrif að metýlenblátt verður smám saman litlaust. Þegar allt súrefnið er uppurið verður lausnin litlaus. Líffræði. Metýlenblátt er notað sem litunarefni á rannsóknarstofum. Það er einnig notað til að greina hvort frumur eins og ger eru lifandi eða ekki. Læknisfræði. Metýlenblátt hefur verið notað við meðhöndlun á methemóglóbíndreyra sem lýsir sér þannig að húðin verður blá. Þó það hljómi einkennilega þá er hægt að nota bláa litunarefnið til að minnka bláma í húð en það gerist þegar metýlenblátt afoxar methemóglóbín. Metýlenblátt er notað í skurðaðgerðum m.a. til að lita saltlausn sem sprautað er kringum æxli sem á að fjarlægja og sem litunarefni til að greina sjúkdóma. Metýlenblátt var áður notað með góðum árangri sem malaríulyf en notkun þess var hætt á millistríðsárunum þar sem bandarískum hermönnum geðjaðist ekki að aukaverkunum lyfsins en þær voru að þvag varð grænt á lit og augnhvíta blá. Nú hefur aftur vaknað áhugi á að nota metýlenblátt við malaríu, ekki síst vegna þess að þannig lyf er mjög ódýrt í framleiðslu. Í bæklunaraðgerðum er metýlenblátt notað til að greina á milli ígrædds beinþykknis (bone cement) og upprunalegs beins. Það hraðar því líka að ígrætt beinþykkni harðni. Stórir skammtar af metýlínbláu eru stundum notaðir við afeitrun við sérstakar gerðir af eitrunum. Nýlegar rannsóknir virðast benda til þess að metýlenblátt (methylthioninium chloride) geti hægt á eða stöðvað framþróun Alsheimer sjúkdómsins. Sherman-bræður. Sherman-bræður eru bandarísk lagahöfundar sem einkum fást við kvikmyndatónlist. Þeir eru Robert B. Sherman (f. 19. desember 1925) og Richard M. Sherman (f. 12. júní 1928). Þeir hafa samið lög fyrir kvikmyndir á borð við "Mary Poppins", "Kittý-kittý-bang-bang", "Skógarlíf", "Hefðarkettirnir" og "Vefur Karlottu". Bob Hilliard. Bob Hilliard (28. janúar 1918 – 1. febrúar 1971) var bandarískur textahöfundur fæddur í New York-borg. Hann hóf feril sinn á Tin Pan Alley. Hann starfaði með mörgum frægum lagahöfundum á borð við Burt Bacharach, Carl Sigman, Jule Styne, Mort Garson, Sammy Mysels, Dick Sanford, Milton DeLugg, Philip Springer, Lee Pockriss og Sammy Fain. Hillard og Bacharach sömdu meðal annars lagið „Three Wheels on My Wagon“ sem Ómar Ragnarsson íslenskaði og staðfærði sem „Þrjú hjól undir bílnum“ 1965. Hillard varð frægur fyrir lög í Broadway-söngleikjunum "Angel in the Wings" og "Hazel Flagg" en er líklega einkum minnst fyrir lögin í teiknimyndinni "Lísu í Undralandi" frá Walt Disney. Hellar í Landsveit. Hellar í Landsveit er bær í Rangárvallasýslu, vestan undir Skarðsfjalli, og dregur hann nafn sitt af manngerðum hellum sem þar eru. Hellar eru gömul bújörð og á þá er minnst í máldögum frá 14. öld. Þar er nú sauðfjárbúskapur. Hellarnir eru þrír talsins, höggnir í sandstein eða móhellu, og er sá stærsti þeirra, Hellnahellir, lengsti manngerði hellir á Íslandi, um 50 metrar á lengd. Fremri hluti hans kallast Heyhellir og var lengi notaður sem hlaða. Í Hellnahelli hafa á síðari árum verið haldnar ýmsar samkomur, söngskemmtanir og fleira og árið 2000 söng biskup Íslands messu þar. Hinir hellarnir kallast Lambahellir og Hesthellir og eru þeir tengdir saman með göngum. Menjar um fleiri hella má sjá á Hellum en þeir hafa fallið saman. Hellarnir hafa verið notaðir sem geymslur, fjárhús og fleira. Einhverjir þeirra hafa verið mannabústaðir og margar kenningar eru á lofti um íbúana og aldur hellanna sjálfra. Kenningar hafa komið fram um að sumir hellanna kunni að vera eldri en landnám og hafa hýst Papa. Hvað sem því líður hljóta þeir að vera að minnsta kosti jafngamlir bæjarnafninu, en elstu ritaðar heimildur um nafnið eru frá áriðnu 1332. Hellarnir eru friðlýstir. Til er þjóðsaga sem segir frá kálfi sem hvarf eitt sinn í Hellnahelli og manni sem fór að leita hans. Hann gekk lengi í myrkrinu í hellinum, þangað til hann heyrði árnið yfir höfði sér, varð hræddur og sneri við. Þegar hann komst loks aftur upp úr hellinum var hann með gullsand í skónum. Skömmu síðar heyrðist baul undir hjónarúminu á Stóra-Núpii í Gnúpverjahreppi og þegar að var gáð var þar kominn kálfurinn heill á húfi, en hann hafði týnt halanum einhvers staðar á leiðinni. Dalur fornaldardýranna. "Dalur fornaldardýranna" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Professor Hetzel hefur af tilviljun komizt yfir skjal þar sem sagt er, að til sé gríðarstór legstaður forsögulegra risaeðla á einhverjum afstakktasta svæði Mið-Afríku. Því miður deyr prófessorinn, áður en hann fær því við komið að ferðbúa könnurleiðangur þann, sem átti að varpa ljóma á allt rannsóknarstarf hans. Lena dóttir hans fer því til Afríku í því skyni að uppfylla síðustu ósk hans, og hún hittir Bob Moran á fljótaskipinu Valabo. - Frá þeirri stundu fer að koma skriður á atburðarásina. Bob hafði farið til Afríku ti að leita upp stór veiðidýr með það fyrir augum að taka nærmyndir af þeim. En áður en því takmarki er náð, urðu á vegi hans allt aðrir og öllu hættulegri andstæðingar en ljón og tígrar. Til að hjálpa hinni fögru Lenu afgreiðir hann þegar á fljótaskipinu ókunnan bófa, sem ætlaði að koma í veg fyrir að hún næði takmarki sínu, og fleiri fylgdu í kjölfarið. Hann leggur síðan til baráttu úti í hættulegum frumskóginum, þar sem leóparðamenn vekja ógn og skelfingu með villimannlegu framferði sínu. Hann fær að komast að raun um, að meira að segja flóðhestar og bavíanar geta verið hættulegir. En jafnvel óðir manndráparar í tígrafeldum og með stálklær á höndum megna ekki að skjóta Bob vini okkar skelk í bringu. Enn einu sinni þurkar hann svitann af enninu og brettir upp ermunum. Aðalpersónur. Bob Moran, Lena Hetzel, M'Booli, Allan Wood, Chest, Pétur Bald, Friðrik Brown-sky, Bankútúh konungur balebelanna Vin “K” svarar ekki. "Vin „K“ svarar ekki" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Víðsvegar í Frakklandi og Norður-Afríku hverfa menn án þess til þeirra spyrjist. Það eru hraustir og þrekmiklir verkamenn, sem geta tekið til höndunum. Samtímis hættir vin „K“ - hin leynilega tilraunastöð í Sahara - að hafa samband við umheiminn. Eitt kvöld fær Moran flugforingi undarlega heimsókn, og þegar daginn eftir leggur hann af stað í flugvél áleiðis til hinnar dularfullu Vinar „K“. - En frá þeirri stundu mætir Bob Moran hverjum andstæðingnum öðrum hættulegri. Hverjir eru þessir ókennilegu hermenn, harðir í horn að taka, sem eitthvert annarlegt vald sendir gegn honum? Moran flugforingi á ekki aðeins í höggi við menn, heldur líka algerlega ný vísindi, sem fela í sér banvæna hættu fyrir mannkynið. Tekst fáeinum ófyrirleitnum hundingjum að brjóta Moran flugforingja á bak aftur, lama viðnámsþrótt hans og gera hann að lifandi vélmenni? Örlög Bob Morans - og meira að segja alls heimsins - eru komin undir smávægilegri nálastungu. Aldrei hefur Bob Moran - hinn reyndi herflugmaður og ævintýragarpur - ratað í hættulegri ævintýri, aldrei staði tæpar á barmi dauða og tortímingar. Aðalpersónur. Bob Moran, Claude Bory, Alabert lögreglufulltrúi, Jouvert ofursti, Clark major, Said Mussa, Lang liðsforingi, Charles Wiener Sögusvið. París, Frakkland - El Koufra, Sahara, Norður-Afríka Svarta höndin. "Svarta höndin" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Feneyjar eru ferðamannaborg, en Bob Moran þarf ekki annað en leggja leið sína þangað, til þess að allt andrúmsloftið verði miður friðsamlegt. Það er og heldur engin hvíld í því að hjálpa munaðarleysingja til þess að ná arfi forfeðra sinn. einkum þó þegar Svarta höndin vill hafa þar hönd í bagga. Bob heyr harða baráttu við foringja og handlangara þessara glæpasamkundu, og leikurinn berst um alla borgina, hin fögru lón, eftir fjallvegum, sem liggja til Arnarkastalans. Í þetta skipti á hetja vor samt við of mikinn liðsmun að etja, en það verður einmitt til þess, að honum tekst að sigra að lokum. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Sabrína Alferi, Jósef Salizo, Aristide Clairembart, Salvatore Marziano, Manrico Busso, Marvini prófessor, Beppo Sögusvið. París, Frakkland - Feneyjar, San Giuliano,Feneyjafjöll, Ítalía Le Sport. Le Sport er sænsk raftónlistar-hljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 2004. Tímagreind hagfræði. Í tímagreindri hagfræði eru bæði skatturinn og launin í hlutfalli við vinnutíma. Þessi eiginleiki aðskilur tímagreinda hagfræði frá flestum öðrum hagkerfum, sem hafa aðra þætti en tímannn fyrir því að reikna út skattana. Á seinni tímum hefur sænskur uppfinningamaður Karl Gustafson lýst nákvæmlega þessu kerfi, en þýskur hagfræðingur Silvio Gesell hafði líka hugmyndir um tímagreinda hagfræði. Árið 1976 flutti þjóðarflokksmaður Anders Gernandt frumvarp á sænska þinginu um innleiðingu "tímaskatt". Almennt um kerfið. Tímagreinda hagfræðin geng út frá því að hagkerfin samtímans eru ekki í hag öllum þeim, sem þurfa að fara eftir reglum þeirra, en að vandamál þessara kerfa væru leyst, ef hagkerfin væru grundvölluð á náttúrulögmálunum. Samkvæmt tímagreindu hagfræði byggast óréttlæti í kerfunum samtímans á því að það eru ekki til fastar reglur fyrir því hvernig skal stjórna hagkerfinu eða skera úr um gildi hluta. Tímagreinda hagfræðin bendir á að "tíma" er óhlutdrægur fasti, sem stjórnmálaákvarðan kunna ekki stjórna, og geng út frá því að þetta fasti er réttlátastur grunnur hagkerfis. Markmið. Tímagreinda hagfræðin stefnir að því að innleiða gjald fyrir unnið verk í stað vaxtakerfins, það er að segja gjald, reiknað í "tíma". Í slíkt hagkerfi muna gildi aldrei vaxa án þess að verk, sem samsvarar aukningunni, hefur verið unnið. Markmið tímagreindrar hagfræði er að binda gildi við fasta, á sama hátt sem rúmmál og þyngd eru bundin við fastar einingar. Þannig torveldast svindl og spákaupmennska. Ámæli. Tímagreinda hagfræðin hefur legið undir ámæli fyrir að vera alltof bundin við kenningar fyrir því að eiga sér stoð í raunveruleikanum og fyrir að ganga út frá því að allt skattskylt fólk á vinnu. Ferðasót. Ferðasót er þriðja breiðskífa Hjálma. Aleksandr Solzhenitsyn. Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn (oftast skrifað Alexander Solzhenitsyn á íslensku) (11. desember 1918 – 3. ágúst 2008) var rússneskur rithöfundur, leikritahöfundur og sagnfræðingur. Hann er frægastur fyrir verk sitt: "Gulag-eyjarnar", en með því fékk heimsbyggðin spurnir af Gúlag fangabúðum Sovétríkjanna. Sjálfur eyddi hann átta árum í fangabúðum fyrir meinta óvirðingu í garð Stalíns. Solzhenitsyn fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1970 og var gerður útlægur frá Sovétríkjunum árið 1974. Hann sneri aftur til Rússlands árið 1994. Eftir hann liggur fjöldi verka, sjálfsævisöguleg, skáldverk, ljóð, leikrit og söguskoðanir. Tenglar. Solzhenitsyn, Aleksandr Isayevich Solzhenitsyn, Aleksandr Isayevich Njósnarinn ósýnilegi. "Njósnarinn ósýnilegi" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Eitt kvöld í París í jólaönnunum eru þeir vinirnir, Bob og Bill, að rölta um göturnar og huga í búðarglugga. Sérstaklega eru það gluggar bókabúðanna, er athygli þeirra beinist að, því Bob er mikill bókasafnari, og einkum eru það gamlar og fágætar bækur, sem hann hefur áhuga á. Það er því engin tilviljun, að þeir vinirnir stönsuðu við bókabúðina „Allar bækur“ og fara inn. Þeir halda rakleitt í fornbókadeildina, og er Bob að skoða fágæta biblíu, þegar einhver stjakar allharkalega við honum, svo að hann hrasar við. En Bob kann ekki við slíkt athæfi á almannafæri og lítur snarleg við, en sér engan nálægt sér, nema Bill vin sinn, sem stóð við hliðina á honum. Þeir vinirnir verða furðu lostnir og taka að rannsaka staðinn. Bob kemur auga á stiga upp á efri hæð búðarinnar og heldur þangað. En þá slökna ljósin og í stiganum mætir honum kúlnahríð, sem strýkur næstum vanga hans. Hann kastar sér flötum. Og þar sem hann liggur á gólfinu í myrkrinu sér hann ljóskeilu úr vasaljósi líða fram hjá — en það heldur enginn á vasaljósinu — það líður áfram eins og sjálfkrafa. Þarna er ósýnilegi njósnarinn á ferð og átti Bob eftir að kynnast honum betur. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Ferret lögregluforingi, Bernard Philippe, Juliette prófessor, Aristide Clairembart, Gaston Dessaumur, Majórinn, Sorprennan, Li, Song Ýmsir - Litlu andarungarnir - 40 vinsæl barnalög 1950-1980. Ýmsir - Litlu andarungarnir - 40 vinsæl barnalög 1950-1980 er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1983. Á henni flytja ýmsir 40 vinsæl barnalög. Ljósmynd á umslagi: Ólafur K. Magnússon. Filmuvinna og prentun: Prisma. Molde. Séð yfir Molde, knattspyrnuleikvangurinn Aker Stadium fremstur Molde er bær og sveitarfélag í Møre og Romsdal-fylki í Noregi. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 er 24.378 manns. Síðan 1961 hefur verið haldin jazzhátíð þar sem heitir Moldejazz og er mjög fjölsótt, bæði af innlendum sem erlendum gestum. Molde er þekktur sem bær rósanna. Peter Adler Alberti. Peter Adler Alberti (16. júní 1851 – 14. júní 1932) var dómsmálaráðherra í Danmörku og Íslandsráðherra. Hann var lögfræðingur að mennt og var í stjórn sparisjóðs bænda á Sjálandi. Ævi. Árið 1888 stofnaði hann fyrirtæki til að flytja út danskt smjör. Hann bauð sig fram fyrir stjórnmálaflokkinn Venstre og var kosinn á þing 1892. Hann gaf út dagblaðið Dannebrog. Árið 1901 varð hann dómsmálaráðherra og er tíma hans í því embætti helst minnst fyrir að hann lögleiddi hýðingar vegna kynferðisafbrota sem voru þannig að karlar á aldrinum 15 til 55 ára sem fundnir voru sekir um að nauðga konum eða fremja kynferðisafbrot gagnvart ungum stúlkubörnum átti að rassskella 27 sinnum með priki. Þessar hýðingar voru afnumdar árið 1911. Alberti var ásakaður um að misnota vald sitt og varð að segja af sér ráðherraembætti eftir sjö ár í embætti en fékk nafnbótina og tignarheitið "geheimekonferensråd" af konungi. En málið varð ennþá verra þegar í ljós kom einnig mikið fjármálahneyksli, Alberti hafði dregið að sér óhemju mikla fjármuni úr sparisjóð bænda. Hann hafði árum saman stolið úr sjóðnum til að fjármagna fjárglæfra sína m.a. að kaupa gullhlutabréf. Þann 8. september 1908 gaf hann sig fram við löggæsluyfirvöld og játaði brot sín en í ágústbyrjun sama ár hafði Privatbanken staðfest að tölur pössuðu ekki í bókhaldi sparisjóðsins. Ritstjóri Politiken beitti einnig þrýstingi til að fá fram sannleikann og Alberti gaf sig fram þegar ljóst var að svik hans myndu vera afhjúpuð í fjölmiðlum. Þetta varð reginhneyksli og hafði mikil áhrif í stjórnmálalífi Dana. Alberti var ekki ráðherra þegar fjárdrátturinn komst upp og hann hafði ekki dregið að sér fé á meðan hann gegndi stöðu dómsmálaráðherra. Hins vegar hafði Friðrik 8. Danakonungur veitt Alberti tign sem leyndarráð vegna meðmæla frá J.C. Christensen forsætisráðherra og vegna þessa máls beið stjórnin álitshnekki og J.C. Christensen varð að segja af sér í október 1908 og afhenda Niels Neergaard stjórnartaumana. Alberti var dæmdur í átta ára tugthúsvist og sat inn árin 1912 til 1917. Hann dó eftir að sporvagn keyrði á hann árið 1932. Alberti var Íslandsráðherra í Kaupmannahöfn og það var hann sem valdi Hannes Hafstein til að gegna fyrsta ráðherraembættinu með aðsetur á Íslandi. Tenglar. Alberti, Peter Adler Alberti, Peter Adler Felix da Housecat. Felix da Housecat árið 2007 Felix da Housecat (fæddur Felix Stallings Jr. 25. ágúst 1971) er bandarískur plötusnúður, tónlistarmaður og útgefandi. Borðtennis. Borðtennis er íþrótt þar sem tveir eða fjórir leikmenn slá léttan lítinn bolta milli sín með spöðum. Leikurinn fer fram á sérstöku borðtennisborði sem skipt er í miðjunni með lágu neti. Boltinn verður að skoppa einu sinni á öðrum helmingnum áður en hann er sleginn yfir á þann næsta. Ef leikmanni tekst ekki að slá boltann yfir á hinn helminginn vinnur andstæðingurinn stig. Borðtennis er hraður leikur og krefst stöðugrar einbeitingar. Góður leikmaður getur sett snúning á boltann og gert andstæðingnum þannig erfitt fyrir að ná honum. Borðtennis varð til í Bretlandi á 9. áratug 19. aldar og var leikinn af bresku yfirstéttinni. Upphaflega var netið röð af bókum sem stillt var upp á miðju borðinu, boltinn efri hlutinn af kampavínstappa og spaðarnir lok af vindlakössum. Alþjóðlega borðtennissambandið var stofnað 1926 til að hafa yfirumsjón með alþjóðlegum mótum. Borðtennis varð ólympíugrein árið 1988. Á Ólympíuleikunum er keppt í fjórum flokkum: einliðaleik og liðakeppni karla og kvenna. Dýfingar. Dýfingar eru ein tegund sundíþrótta og gengur út á stigagjöf fyrir stökk fram af stökkbretti eða stökkpalli ofan í sundlaug. Í stökkinu (loftköstunum) gerir keppandinn ýmsar fimleikaæfingar áður en hann réttir úr líkamanum og stingur sér í vatnið. Dýfingar hafa verið ólympíugrein frá 1904. Alþjóða sundsambandið hefur yfirumsjón með alþjóðlegum mótum. Þríþraut. Þríþraut er íþrótt þar sem keppt er í sundi, hjólreiðum og kapphlaupi tiltekna vegalengd án hlés, þannig að tíminn á milli greina telst með í heildartímanum. Þríþraut er íþrótt sem reynir sérstaklega mikið á þol keppenda. Þríþraut varð til í Frakklandi á 3. áratug 20. aldar. Hin staðlaða „ólympíuvegalengd“ (1500 metra sund, 40 km hjólreiðar og 10km hlaup), var búin til af bandaríska keppnisstjóranum Jim Curl um miðjan 9. áratuginn. Alþjóða þríþrautarsambandið var stofnað árið 1989 til að reyna að koma íþróttinni að sem ólympíugrein. Fyrst var keppt í þríþraut á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000. Hjólreiðar. Hjólreiðar eru notkun reiðhjóla til ferða, afþreyingar eða sem íþrótt. Alþjóða hjólreiðasambandið hefur umsjón með alþjóðlegum hjólreiðakeppnum. Hjólreiðar hafa verið ólympíugrein frá upphafi og er keppt í fjórum greinum: götuhjólreiðum, brautarkeppni, fjallahjólreiðum og BMX. Hokkí. Hokkí (stundum kallað landhokkí til aðgreiningar frá íshokkíi) er hópíþrótt þar sem tvö ellefu manna lið slá lítinn bolta á milli sín með sveigðum hokkíkylfum og reyna að skora mark hjá andstæðingnum. Hokkí er upprunnið í breskum einkaskólum snemma á 19. öld. Hokkí hefur verið ólympíugrein frá 1908. Kajak- og kanóróður. Kajak- og kanóróður er sú íþrótt að róa kanó eða kajak til að ferðast á vatni, til afþreyingar eða í keppni. Kajak er róið með ár með spöðum á báðum endum, en ár fyrir kanó er aðeins með spaða á öðrum endanum. Kanóróður hefur verið ólympíugrein frá 1936 og kajakróður frá 1992. Keppt er í tveimur greinum á hvorri tegund: kappróðri og svigi, ýmist einstaklings- eða parakeppni í karla og kvennaflokki. Kappróður. Ræðarapar á tveggja ára kappróðrabát. Kappróður er íþrótt þar sem ræðarar keppa á kappróðrabátum sem knúnir eru árum eingöngu. Kappróðrar eru líka mikið stundaðir sem líkamsrækt. Kappróðrar hafa verið ólympíugrein frá aldamótunum 1900. Listsund. Listsund er íþrótt sem blandar saman þáttum úr sundi, fimleikum og dansi. Þátttakendur geta verið einstaklingar, pör eða hópar. Í listsundi fara þátttakendur gegnum ákveðnar samhæfðar hreyfingar í vatninu við tónlistarundirleik. Listsund var þróað í Kanada um aldamótin 1900 og var stundum kallað „vatnsballett“. Íþróttin er nánast eingöngu stunduð af konum. Listsund var sýningargrein á Ólympíuleikunum 1952, 1956 og 1968 en hefur verið fullgild keppnisgrein frá leikunum í Los Angeles 1984. Alþjóða sundsambandið hefur yfirumsjón með alþjóðlegum keppnum í greininni. Lyftingar. Íraskur lyftingamaður með 180 kílóa lóð. Lyftingar eru aflraunaíþrótt þar sem keppendur reyna að lyfta lóðum með sem mestri þyngd. Lyftingar eru mikið stundaðar sem líkamsrækt. Lyftingar skiptast í kraftlyftingar (réttstöðulyfta, hnébeygja og bekkpressa) og ólympískar lyftingar (snörun og jafnhöttun). Ólympískar lyftingar hafa verið ólympíugrein frá upphafi. Mjúkbolti. Mjúkbolti er hópíþrótt sem er aðallega vinsæl í Bandaríkjunum. Honum svipar mjög til hafnabolta. Leikurinn var búinn til af George Hancock í Chicago árið 1887 og var fyrst kallaður „innanhússhafnabolti“. Hann hugsaði leikinn sem leið til að halda hafnaboltaleikmönnum í þjálfun yfir vetrartímann. Mjúkbolti var valinn sem ólympíugrein 1996 en árið 2005 kaus Alþjóða ólympíunefndin að taka bæði hafnabolta og mjúkbolta út af dagskránni fyrir Óympíuleikana 2012. Beck. Beck Hansen (fæddur 8. júlí 1970) er bandarískur tónlistarmaður og söngvari þekktur undir sviðsnafninu Beck. Þeistareykir. Þeistareykir er eyðibýli sunnarlega á Reykjaheiði. Þar er jarðhiti mikill og var brennisteinn unnin þar áður fyrr. Suður af bæjarstæðinu er Bæjarfjall, 570 metra hátt. Nútímafimmtarþraut. Keppendur í nútímafimmtarþraut karla í Bandaríkjunum. Nútímafimmtarþraut er íþrótt þar sem keppt er í skylmingum með lagsverði, skotfimi með skammbyssu, skriðsundi, hindrunarhlaupi á hestbaki og 3 km víðavangshlaupi. Íþróttin er kölluð "nútíma"fimmtarþraut til aðgreiningar frá hinni fornu fimmtarþraut sem var hluti af hinum fornu Ólympíuleikunum. Nútímafimmtarþraut var búin til af upphafsmanni hinna nýju Ólympíuleika, franska baróninum Pierre de Coubertin, sem hannaði íþróttina með það fyrir augum að hún endurspeglaði þjálfun hins fullkomna hermanns þess tíma. Coubertin sá fyrir sér það sem riddaraliðshermaður þurfti að gera ef hann lenti handan víglínunnar: ríða ókunnum hesti, berjast með sverði og skammbyssu, hlaupa og synda. Fyrst var keppt í greininni á Ólympíuleikunum 1912. Fyrsti heimsmeistarinn var Svíinn Gösta Lilliehöök. Liðakeppni var bætt við á Ólympíuleikunum 1956 en henni var hætt 1992. Kvennaflokki var bætt við árið 2000. Frá 1949 hefur verið haldin heimsmeistarakeppni í greininni þau ár sem Ólympíuleikarnir eru ekki. Öxnadalur. a> gnæfir yfir Öxnadal að norðanverðu. Öxnadalur er djúpur dalur í vestanverðum Eyjafirði, inn af Hörgárdal. Hann er um 25 kílómetra langur frá mynni dalsins við Bægisá inn að Öxnadalsheiði. Um hann fellur Öxnadalsá. Hringvegurinn, þjóðvegur 1, liggur um Öxnadalsheiði og Öxnadal áleiðis til Akureyrar. Öxnadalur merkir eiginlega nautgripadalur eða uxadalur. „Öxn“ er hvorugkynsorð í fleirtölu, þau öxnin, og er gamalt orð um nautpening, skylt uxi. Samkvæmt Landnámabók var Öxnadalur numinn af Þóri þursasprengi. Áður fyrr var Öxnadalur sérstakt sveitarfélag, Öxnadalshreppur, en tilheyrir nú Hörgárbyggð. Árið 1952 hóf skógræktarfélag Eyfirðinga skógrækt utan til í dalnum, í landi Miðhálsstaða, þar sem nú er vöxtulegur skógur. Innsti hluti dalsins er allur í eyði, innstu bæir í byggð eru nú Engimýri og Háls. Á Engimýri er gistiheimili og á Hálsi er veitingahúsið Halastjarnan. Næsti bær utan við Háls er Hraun. Þar fæddist skáldið Jónas Hallgrímsson, en fluttist á öðru ári að Steinsstöðum og var þar til 9 ára aldurs. Æskuslóðirnar eru áberandi í skáldskap hans. Stórbrotið landslag er á Hrauni og þar í grennd, með Hraundranga ofan við bæinn og Hraunsvatni, þar sem faðir Jónasar drukknaði. Í vatninu er silungsveiði. Á Hrauni er nú safn til minnigar um Jónas. Efsti bær í Öxnadal var Bakkasel sem fór í eyði 1960 og var einn af þeim síðustu í innri hlutanum í byggð. Skotfimi. a>, einn af bandarísku keppendunum í skotfimi á sumarólympíuleikunum í Grikklandi 2004. Skotfimi er keppnisíþrótt þar sem keppt er í bæði nákvæmni og hraða með ýmsum tegundum af skotvopnum (rifflum, skammbyssum, haglabyssum og loftbyssum). Skotfimi hefur verið ólympíugrein frá upphafi hinna nýju Ólympíuleika 1896 en keppnisgreinar hafa breyst með árunum til að taka mið af þróun tækni og félagslegra viðmiða. Mörkin voru t.d. upphaflega látin líkjast fólki og dýrum en eru nú hringlaga skífur. Siglingar. Siglingar eru sú íþrótt að sigla seglskipi með því að haga seglbúnaði, stýri og kili þannig að kraftur vindsins sé nýttur til að stjórna bátnum og knýja hann áfram. Góðir siglingamenn hafa reynslu af viðbrögðum í ýmsum veðrum og sjólagi og þekkingu á seglskipum. Siglingar eru í dag einkum stundaðar sem afþreying sem skipta má í grófum dráttum í kappsiglingar og skemmtisiglingar. Siglingakeppnir eru haldnar í kjölbátasiglingum, sem skiptast í úthafssiglingar og strandsiglingar, og kænusiglingum á minni kænum. Keppt er í að sigla seglbáti tiltekna leið á sem stystum tíma. Bátarnir eru af ýmsum stærðum og gerðum og er skipt í tvo aðalflokka, kjölbáta (með föstum kili) og kænur (með lausum kili). Siglingaleiðir eru mislangar, gjarnan þríhyrnings- eða trapisulaga og afmarkaðar með baujum. Í blönduðum keppnum er gjarnan notast við forgjafarkerfi til að jafna ólíkar gerðir báta. Saga. Siglingar hafa haft gríðarmikla þýðingu fyrir þróun siðmenningar. Elstu myndir af segli eru frá Kúveit frá því um 3500 f.Kr. Þróun seglskipa gerði Evrópumönnum á 15. öld kleift að fara í langa könnunarleiðangra og sigla um svæði þar sem óveður eru tíð. Talið er að siglingar verði að íþrótt á 17. öld. Fyrsta siglingakeppnin fór fram 1661 á Englandi og fyrsti siglingaklúbburinn var stofnaður 1775. Fyrstu bátarnir voru kjölbátar, en síðar byrjuðu Hollendingar að smíða báta sem ekki voru eins djúpristir og því hægt að sigla þeim á vötnum. Slíkur bátur er Flying Dutchman (Hollendingurinn fljúgandi), sem byrjað var að smíða um 1950. Siglingar eru vatnaíþrótt og urðu Ólympíugrein á Sumarleikunum 1900. Flest nútímaseglskip eru slúppur með eitt mastur, eitt stórsegl og eitt framsegl en stór fjölmastra seglskip eru oftast rekin sem skólaskip til að þjálfa sjómenn í flotadeildum herja eða sjómannaskólum eða notuð sem leikmynd fyrir kvikmyndir. Siglingar á Íslandi. Á Íslandi hafa siglingar verið stundaðar frá upphafi vega. Árabátaútgerðin reiddi sig ekki síður á segl en árar og með þilskipaútgerð á 18. öld komust stærri seglskútur í eigu Íslendinga. Undir lok 19. aldar stunduðu íslenskar útgerðir fiskveiðar með stórum tvímastra kútterum en upp úr aldamótunum tóku vélarnar við á bæði stærri skipum og minni bátum. Reiðabúnaður var samt áfram algengur öryggisbúnaður ef vélin bilaði. Þegar farið var að ræða um skipulega iðkun íþrótta á Íslandi upp úr miðri 19. öld voru siglingar meðal þeirra íþróttagreina sem taldar voru hentugar fyrir íslenskar aðstæður, ásamt kappróðrum, kappreiðum og glímu. Fyrsta skipulega kappsiglingin sem sögur fara af var haldin í tengslum við héraðshátíð Eyfirðinga á Akureyri 1890. Eins var keppt í siglingum á þjóðhátíð Reykvíkinga 2. ágúst 1898. Þrír bátar þreyttu keppni í Víkinni. Keppnin þótti takast illa, bátarnir voru ekki rétt búnir og alls kyns óhöpp urðu. Kappsiglingar á kænum voru stundaðar að einhverju marki á millistríðsárunum og fyrsti siglingaklúbburinn var Yachtklúbbur Reykjavíkur sem var stofnaður árið 1944, en hann varð skammlífur. Á Akureyri var farið að stunda kappsiglingar skipulega á 6. áratug 20. aldar á Pollinum og Sjóferðafélag Akureyrar, síðar kallað Nökkvi, var stofnað árið 1963. Ári áður var siglingaklúbburinn Siglunes stofnaður í Fossvogi af Æskulýðsráði Reykjavíkur og Æskulýðsráði Kópavogs. Ungt fólk sem lærði siglingar í Siglunesi stofnaði síðan fyrstu siglingafélögin á höfuðborgarsvæðinu, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Siglingafélagið Ými í Kópavogi, árið 1971. Þessi þrjú félög, Brokey, Ýmir og Sjóferðafélag Akureyrar, stofnuðu Siglingasamband Íslands árið 1973. Næstu ár voru stofnuð siglingafélög í Garðabæ (Vogur), Hafnarfirði (Siglingaklúbburinn Þytur), Ísafirði (Sæfari) og Keflavík (Knörr), en bæði Vogur og Knörr lögðu síðar upp laupana. Ungmennafélagið Snæfell í Stykkishólmi hóf siglingaþjálfun árið 2006 og árið 2009 var Siglingaklúbburinn Drangey stofnaður á Sauðárkróki. Íslendingar tóku fyrst þátt í keppni í siglingum á Sumarólympíuleikunum 1984 og 1988 á 470-kænu. Hafsteinn Ægir Geirsson keppti á Laser á Sumarólympíuleikunum 2000 og 2004. Sjómennska. Sjómennska er fag sem snýst um þau verk sem unnin eru á skipi, þar á meðal þau verk sem þarf til að sigla og stýra skipum og minni bátum, vinna með skipsvélar, þilfarstæki, ankeri, reipi og bönd, samskipti á hafi úti, björgun á sjó og að slökkva elda um borð. House of Pain. House of Pain var írsk stílaður bandarískur hip-hop-hópur sem gaf út þrjár plötur snemma á 10. áratug 20. aldar. Sandgerðisbót. Sandgerðisbót eða Bótin er lítið hverfi á Akureyri. Þar er smábátahöfn og nokkur íbúðarhús. Whodini. Whodini er hip hop-hópur frá New York, stofnaður 1981 af Jalil (Jalil Hutchins), Ecstasy (John Fletcher) og Grandmaster Dee (Drew Carter). Þrumuveður. Þrumuveður kallast veður þegar þrumur heyrast og/eða eldingar sjást. Þrumuveður verða í hásreistum élja- eða skúraskýjum. Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu. Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL) er lungnasjúkdómur af völdum kórónaveiru. Veikin kom fyrst upp í Guangdong-héraði í Kína í febrúar 2003 varð svo að heimsfaraldri frá í nóvember sama ár fram til júlí 2004. Alls sýktust 8.096 manns og létust 774 samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Smitleiðir og hópsýkingar. Talið er að áður óþekkt kórónaveira valdi sjúkdómnum. Kórónaveirur geta lifað í umhverfinu í allt að þrjár klukkustundir og geta borist milli manna með dropasmiti og snertimengun. Talið er líklegt að heilbrigðisstarfsmenn sem sýktust af HABL hafi smitast með dropasmiti en algengasta smitleið HABL er talin dropasmit frá öndunarvegi frá sjúklingi til þeirra sem eru nálægt þeim. Árið 2003 kom í ljós að 13 sjúklingar áttu það sameiginlegt að hafa verið gestir á sama hóteli í Hong Kong í febrúarmánuði það ár og margir þessara sjúklinga sem virðast hafa sýkst á hótelinu báru sjúkdóminn með sér til annarra landa og má rekja smit frá þeim til Hanoi í Víet-Nam, Singapore, Þýskaland og Toronto í Kanada auk þess sem margir sem sýktust á hótelinu sýktu fleiri innan heilbrigðisstofnana í Hong Kong. Einnig hefur verið rannsökuð hópsýking þar sem karlmaður sem var veiktist af HABL 14. mars 2003 og heimsótti ættingja í fjölbýlishúsi í Hong Kong. Meðal einkenna hans var niðurgangur. Sjúkdómurinn barst til annarra íbúa hússins og þann 15. apríl höfðu 321 íbúar veikst. Talið er líklegt að þessi hópsýking hafi orðið vegna bilaðra vatnslása, brotinna salerna, skemmdra skolpröra og út af öflugum viftum í salernisgluggum sem lágu að brunni þar sem rör lágu eftir. Einkenni. Megineinkenni HABL eru hiti, þurrhósti og öndunarerfiðleikar sem koma fram á 3. til 5. degi eftir að einkenni hefjast. Flestir sjúklingar fá hroll, vöðva- og höfuðverk og sumir fá niðurgang eða særindi í hálsi. Í flestum tilvikum veldur sjúkdómurinn lungnabólgu sem sést á lungnamynd sem staðbundnar lóbar- eða miðvefsþéttingar. Lungnabólgan getur bæði líkst bakteríu- og veirulungnabólgu. Í 10-20% tilvika þarf sjúklingur að vera í öndunarvél og dánartíðni er talin 5%. Meðgöngutími sjúkdómsins er vanalega 2 - 7 dagar en getur verið 10 dagar. Höfn (Melasveit). Höfn er fornt höfðingjasetur og innsti bær í Melasveit. Þar bjó á 17. öld Steinunn Finnsdóttir, ein fyrsta kunna skáldkona á Íslandi. Hún orti meðal annars rímur. Laxfoss (Norðurárdal). Laxfoss er eyðibýli í Borgarfirði. Það fór í eyði árið 1981 og var síðasti bærinn sem fór í eyði í Ystu-Tungu. Nálægt bænum, mitt á milli Grábrókarhrauns og Munaðarness er samnefndur foss og er við hann mikil laxagengd. Komast má að Laxfossi eftir afleggjara frá frá hringveginum og einnig má ganga þangað frá fossinum Glanna og Munaðarnesi. Þar í grendinni finnast plöntusteingervingar og surtarbrandur. Húsið er í uppgerð og er nú notað sem sumarhús. Rauðeygur trjáfroskur. Rauðeygur trjáfroskur (fræðiheiti: "Litoria chloris") er trjáfroskur sem lifir í austurhluta Ástralíu á svæðinu frá Sidney til Proserpine í Queensland. Hann er grænn á baki með gulum blettum og skærgulur á kviðnum. Lærin dökkna á fullorðnum froskum og geta orðið frá bláum út í svart. Augun eru gul í miðju og rauð út til jaðranna. Rannsóknir hafa sýnt að efni úr húð trjáfrosksins eyðir alnæmisfrumum án þess að heilbrigðar frumur skaddist. Efnið er það sama og finnst í ástralska græna trjáfrosknum en rauðeygi trjáfroskurinn framleiðir það í meira magni. Listi yfir Íslandsmet. Eftirfarandi er listi yfir gild Íslandsmet. Frjálsar íþróttir. Frjálsíþróttasamband Íslands heldur skrá yfir Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Sleggjukast. "Heimsmet í sleggjukasti eiga Júríj Sedik, Sovétríkjunum: 86,74m (1986) og Tatjana Lisenkó, Rússlandi: 77,80m (2006)." Spjótkast. "Heimsmetið í spjótkasti (núverandi gerð) eiga Jan Železný, Tékklandi: 98,48m (1996) og Osleidys Menéndez, Kúbu: 71,70m (2005)" Siglingar. Siglingasamband Íslands heldur skrá yfir Íslandsmet í siglingum. Sund. Sundsamband Íslands heldur skrá yfir Íslandsmet í sundi. Leynifélag löngu hnífanna. "Leynifélag löngu hnífanna" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Bob er á ferð um undirheima San Francisco. Hann heyrir fótatak nálgast, stekkur aftur á bak, þrífur skammbyssu sína upp úr jakkavasanum en fékk þó ekki tíma til að ógna fjendum sínum með henni í þetta sinn, því að einhver sló vopnið úr hendi hans. Um leið stóð hann augliti til auglitis við geysistórann skugga, sem hann þekkti þegar í stað, að þar var kominn risinn mikli, sem hann hafði átt í höggi við fyrr um nóttina. Tvær krumlur fálmuðu á móti honum. Hann vatt sér undan og steig harkalega ofan á tærnar á risanum, sem veinaði af sársauka. Samtímis rak Bob hnefann í magann á honum, sem var viðkomu eins og fiðursæng. Bob færðist nú í aukana og greiddi nú þungt högg með handarjarðinum á háls risans. En það bar engan árangur, allt í einu klauf önnur risakrumlan loftið og laust Bob í síðuna, svo að hann lak niður. Hann fann höggin dynja á sér og loks féll hann óvígur. En það þarf enginn að láta sér detta í hug, að Bob láti bófana úr „Leynifélagi löngu hnífanna“ leika sig oft svo grátt. Hann rankaði fljótlega við sér og þá varð annað uppi á teningnum. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Jón Mó, Eroll Dunkirk/Lawrence Miller, Sandra Lee, Herra Pink, Wu Sögusvið. San Juanico, Mexíkó - San Francisco, Bandaríkin Ísland á Sumarólympíuleikunum 2008. Ísland sendi lið til keppni á Sumarólympíuleikana í Peking árið 2008. Guli skugginn. "Guli skugginn" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Hver er hann, þessi Guli skuggi? Lögreglulið um allan heim hefur heyrt talað um hann, en enginn þekkir hann. Sé einhver leyndardómsfullur glæpur framinn, er Guli skugginn á hvers manns vörum. Hann er alls staðar og hvergi. Hann rekur ógnarstjórn og deyðir menn í fjarska. Gáfur hans eru frammúrskarandi. Hver er þá Guli skugginn? Enginn veit það með vissu, þangað til Bob Moran kemur fram á sjónarsviðið. Þar sem franska lögreglan, sú ameríska og Scotland Yard hafa orðið að láta í minni pokann, heppnast Bob aðeins af því, að Guli skugginn er gamall kunningi. Á þokubökkum Temsár, í dökkum mýrarflákum og í hverfum Limehouse, sem hafa miðlungi gott orð á sér, þarf Bob að berjst harðvítugri baráttu gegn fjandmanni, sem ekki þekkir neina miskunn og lætur vestræna menningu skjálfa frá neðstu rótum. Það er sjálfur Satan gegn Bob Moran. Veðmálið er byrjað. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Ballantine, Sir Archibald Baywatter, Jacob Star, Frú Mo, Tvífarar gula skuggans. "Tvífara Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Að á mann sé ráðist af tvíburabróður sínum, þegar maður á engan tvíburabróður og ekki einu sinni bróður, kann að þykja ósennilegt. En þegar svo kemur á daginn, að það er hinn ógurlegi herra Ming, þekktari undir nafninu Guli Skugginn, sem heldur í spottann, þá vita menn, að jafnvel hinir ótrúlegustu hlutir gerast. Bob Moran og Bill vinur hans eru jafnórtauðir og áður að berjast við óvin mannkynsins, Gula skuggann, og munar minnstu, að þeir gangi með sigur að hólmi. En herra Ming á sér hræðilega liðsmenn. Hverjir eru þeir? Moran hefur vissulega marga hildi háð gegn margskonar andstæðingum, en aldrei gegn sjálfum sér. Það ber margt furðulegt fyrir í þessari bók og sannar yður enn þá einu sinni, að Guli skugginn er ekki allur, þar sem hann er séður. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Sir Archibald Baywater, Herra Ming (Guli skugginn), Tanía Orloff, Samuel Finlayson, Sögusvið. London, England - Kings Lyn, Fen-fenin, England Kraftframherji. Kraftframherji er ein af fimm aðalstöðum í körfubolta. Oftast eru kraftframherjarnir stórir sterkir með góðan stökkkraft. Sjaldnast eru kraftframherjar kallaðir því nafni, oftast eru þeir kallaðir bara fjarki eða framherji. Meðal frægra kraftframherja má nefna Karl Malone, Charles Barkley, Kevin McHale, Shawn Kemp, Chris Webber, Dennis Rodman og Dirk Nowitzki Sarmatar. a> um 100 f.Kr. Sarmatía er merkt inn sem vesturhluti Skýþíu. Sarmatar (úr fornírönsku: "Sarumatah", „bogmaður“) voru írönsk þjóð sem fluttist frá Mið-Asíu til Úralfjalla á 5. öld f.Kr. og settust að lokum að í Kákasus, Úkraínu og austurhluta Balkanskaga. Flestar fornminjar sem tengjast Sarmötum hafa fundist þar sem nú er Krasnodarfylki í Rússlandi við rætur Kákasusfjalla. Sarmatar voru ein þeirra þjóða sem stöðvuðu framrás Rómaveldis til austurs. Þeir voru öflugasta ríkið við Svartahaf þar til Gotar tóku að sækja austur á bóginn. Innrás Húna á 4. öld batt síðan endi á ríki Sarmata. Ein grein þeirra, Alanar, eru eftir það nefndir í rómverskum heimildum ýmist sem bandamenn Germana eða Húna. Ossetar nútímans rekja uppruna sinn til Alana, en nöfn í grískum áletrunum frá strönd Svartahafs benda til þess að tungumál þeirra hafi verið norðausturíranskt mál, skylt sogdísku og ossetísku. Formaður. Formaður er manneskja sem hefur æðstu stöðu í nefnd eða stjórn (oft nefndur stjórnarformaður) fyrirtækis eða samtaka. Hlutverk formanns er að sjá til þess að sjá til þess að stjórnarfundir gangi greiðlega fyrir sig og hafa lokaorðið um sumar ákvarðanir, oft er formaður andlit út á við og tekur að sér samskipti við fjölmiðla. Á Íslandi var formaður notað um skipstjóra báta á 19. og á byrjun 20. aldar, áður en þilskip urðu útbreidd. Sem dæmi má nefna Þuríði formann en þessi notkun á orðinu vék smám saman fyrir skipstjóranum. Hefnd gula skuggans. "Hefnd Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Nei, ekki aldeilis! Guli skugginn er ekki dauður. Og hann á Bob grátt að gjalda. Það er nú í París, sem hinn ógurlegi herra Ming ásamt dakóítum sínum og sérfræðingum í kyrkingum, hefur á prjónunum sín hrollvekjandi áform að vekja skelfingu meðal alls mannkyns. Enn á ný leggur Bob til orrustu við þennan hræðilega Mongóla. Úr neðanjarðarhvelfinum og skólpleiðslum Parísar, austur á Nílarbakka, berst nú leikurinn með stígandi hraða og hörðum átökum, því eins og allir vita, er Guli Skugginn og leynifélag hans ekkert lamb að leika sér við. En í þetta skipti heppnazt Bob samt ekki að ráða niðurlögum hans, þrátt fyrir góðan vilja og aðstoð vinar síns, Bills Ballantines, og hinni yndisfögru Tönju Orloff. Honum tekst að vísu að koma í veg fyrir fyriætlanir hans, en Guli Skugginn hefnir sín sín grimilega. Þótt Bob sé ákafur baráttumaður gegn hinum illu máttarvöldum, er hann sams sem áður ekki algerlega ódauðlegur. Aðalpersónur. Bob Moran, Prófessor Aristide Clairembart, Tanja Orloff, Sir Archibald Baywatter, Bill Ballantine, Herra Ming/Guli skugginn, Ferret lögreglustjóri, Doktor Packart, Jakob Star Sögusvið. París, Frakkland - Brussel, Belgía - Kairó, Assúan, Egyptaland Endurkoma Gula skuggans. "Endurkoma Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Guli skugginn var dauður. Já, svo sannarlega. En hvað þá? Hinn geigvænlegi herra Ming (Guli skugginn) og illþýði hans er enn á ný kominn á kreik. Guli skugginn á í fórum sínum margt, sem kemur okkur á óvart. Eftir að honum hefur heppnast að endurfæða sjálfan sig vegna hinnar miklu vísindaþekkingar sinnar, þá stendur hann andspænis þeirri óþægilegu staðreynd að sjá sjálfan sig í mörgum útgáfum. Og Bob Moran á fullt í fangi að gera sér grein fyrir þessum ósköpum, ótal margföldunum af herra Ming og öllum jafngeigvænlegum. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Tanja Orloff, Herra Ming/Guli skugginn, Sir Archibald Baywatter, Silviani lögreglustjóri, Sheela Kan Sögusvið. Cannes, Frakkland - Kalkútta, Indland - Nagafjöll, Tíbet - Kimpong, Himalayafjöllum Augu Gula skuggans. "Augu Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Lundúnaþokan er ekkert lamb að leika sér við. Það er annað en gaman að villast í henni og út yfir tekur þó, þegar menn rekast á verur, sem brenna menn upp til agna með augnaráðinu einu saman. Hér er eitthvað að gerast næsta óvenjulegt, enda kemur þeim fóstbræðrum Bob Moran og Bill Ballantine, ekki á óvart, hvaðan sá ófögnuður stafi. Enn á ný er hafin barátta upp á líf og dauða við Gula skuggann, þennan alheims óvin, sem Bob Moran hefur árum saman átt í höggi við. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Sir Archibald Baywatter, Prófessor Aristide Clairembart, Herra Ming (Guli skugginn), Tanía Orloff, Martína Hems, Gústaf Hems Margaret Cavendish. Margaret Cavendish (1623 – 15. desember 1673) var enskur rithöfundur og hefðarkona. Hún hét upphaflega Margaret Lucas og var yngri systir sir John Lucas og sir Charles Lucas sem báðir voru áberandi konungssinnar í Ensku borgarastyrjöldinni. Hún varð hirðmey Henríettu Maríu og fylgdi henni til Frakklands þegar hún flúði þangað 1644. Þar giftist hún William Cavendish hertoga. Rithöfundarferill hennar hófst þegar hún varði einu og hálfu ári í Englandi til að reyna að fá eitthvað út úr uppboði á eigum eiginmanns síns sem höfðu verið gerðar upptækar eftir borgarastyrjöldina. Cavendish skrifaði um náttúruspeki og gagnrýndi verk René Descartes. Í París kynntist hún heimspekingum á borð við Descartes, Marin Mersenne og Thomas Hobbes. Auk ritgerða um heimspeki skrifaði hún sjálfsævisögu, ljóð, leikrit og skáldsöguna "The Blazing World", útópíu sem stundum er talin fyrsta dæmið um vísindaskáldsögu. Flest rit hennar snúast um náttúruspeki, en fjalla líka um vald og stöðu kvenna auk hugleiðinga um eigin skrif. Hún var gagnrýnd af sumum samtíðarmönnum sínum eins og Samuel Pepys sem sagði að hún væri „brjáluð, hégómleg og hlægileg“. Portsmouth (New Hampshire). Portsmouth er bær í Rockingham-sýslu, New Hampshire í Bandaríkjunum. Hún er fjórða stærsta sveitarfélagið í sýslunni með 20.784 íbúa árið 2000. Bærinn er vinsæll ferðamannastaður á sumrin. Bærinn var stofnaður í byrjun 17. aldar og hét upphaflega "Piscataqua" en var síðan gefið nafnið Strawbery Banke vegna þess hve mikið af jarðarberjum uxu á bökkum Piscataquafljóts. Arfur Gula skuggans. "Arfur Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Guli skugginn, að öðru nafni Herra Ming, lætur Bob Moran eftir harla einkennilegan arf og fer hetja vor að sækja hann alla leið til Indlands og hefst ferðalagið frá miðaldakastala í Dardogne í Frakklandi, um gömlu hverfin í Parísarborg og að lokum til Kutch Rann í Indlandi, sem er eyðilegt fenjasvæði, en þar á Guli skugginn eina af hinum mörgu bækistöðvum sínum, falda undir yfirborði jarðar. Bob Moran heldur ótrauður áfram ferðinni, ásamt vinum sínum þeim Ballantine og Clairembart prófessor, að ógleymdum leynigesti, sem bætist í hópinn í Indlandi, og lendir þessi fámenni flokkur í hverri hættunni á fætur annarri. Bob hefur vissulega forystuna, en Guli skugginn heldur í spottana, því að honum þykir gaman að leika sér. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Prófessor Aristide Clairembart, Evariste Grosrobert notaríus, Cynthia Paget, Herra Ming (Guli skugginn), Tanía Orloff, Sir Archibald Baywatter, Jouvert ofursti, Arnold Paget, Nikulás Strygin, Kien Tseu Sögusvið. Dardogne, Paris, Frakkland - Nagai Parkar, Kutch Rann, Indland Westminster Abbey. Stiftskirkja heilags Péturs í Westminster, sem er næstum alltaf kölluð sínu upprunalega nafni Westminster Abbey („Westminsterklaustur“), er stór kirkja að mestu í gotneskum stíl í Westminster („Vestmusteri“) í London, vestan við Westminster-höll. Í kirkjunni er venja að krýning og greftrun Bretlandskonunga fari fram. Kirkjan var dómkirkja um stutt skeið 1546 til 1556. Hún heyrir beint undir konung, fremur en tiltekið biskupsdæmi ("Royal Peculiar"). Haagsáttmálinn. Haagsáttmálinn var undirritaður 1661 af fulltrúum Hollands og Portúgals. Hann kvað á um að Hollendingar viðurkenndu yfirráð Portúgals yfir Nýja Hollandi í Brasilíu í skiptum fyrir skaðabætur sem jafngiltu 63 tonnum gulls sem Portúgal var næstu fjörutíu árin að greiða upp. Að auki létu Portúgalir Seylon og Mólúkkaeyjar af hendi við Hollendinga og gáfu þeim einkarétt á sykurverslun. Dagestan. a> tekin milli 1905 og 1915. Lýðveldið Dagestan er fylki (lýðveldi) í Rússneska sambandslýðveldinu. Dagestan er stærsta fylki Rússlands í Kákasus bæði hvað varðar stærð og fólksfjölda. Fylkið er fjalllent og dreifbýlt. Svæðið er byggt mörgum ættflokkasamfélögum sem tala ólík tungumál en 95,3% íbúa eru múslimar. Höfuðborg fylkisins er Makatskala (um 460þ íbúar). Önnur stærsta borgin er Derbent (um 100þ íbúar). Norður-Ossetía. Norður-Ossetía (rússneska: Респу́блика Се́верная Осе́тия–Ала́ния; ossetíska: Республикæ Цæгат Ирыстон — Алани) er fylki í Kákasusfjöllum í Rússlandi, við landamærin að Georgíu. Fylkið er um 8.000 ferkílómetrar að flatarmáli og fólksfjöldi árið 2002 var 710.275. Ossetar eru fjölmennasta þjóðarbrotið og tala íranskt tungumál. Þar á eftir fylgja rússar. Kóróna drottningarinnar. "Kóróna Drottningarinnar. Golcondu-kórónan" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Bob Moran er ekki af baki dottinn... Á skemmtiferðaskipi, sem siglir um Indlandshaf kynnist hann ungri stúlku, sem er indversk-evrópsk að uppruna og þar með er Bob kominn í hörkubaráttu við bófaflokk, sem er á hælum ungu stúlkunnar, því hún er erfingi að Golgondu-soldánanna, en um það vissi Bob ekki til að byrja með... Þau fara til Indlands til þess að ná í arfinn... En það eru fleiri, sem hafa áhuga á þeim miklu auðæfum, sérstaklega Golcondu-kórónunni, sem er úr skíra gulli og alsett dýrustu gimsteinum... Bob hélt í fyrstu að þetta um auðæfin væri aðeins þjóðsaga, en hann kemst að raun um annað, þegar keppinautur hans um Golcondu-fjársjóðinn er engin annar en herra Ming, sem Bob kynnist betur síðar undir nafninu Guli skugginn. Þarna hefjast fyrstu kynni þeirra, og Bob bjargar lífi Gula skuggans, sem átti síðar eftir að endurgjalda Bob þá skuld, þótt undarlegt megi virðast... Sagan er hörkuspennandi frá upphafi til enda, baráttan tvísýn og djörf... en hetja okkar Bob vinnur þar auðvitað sigur að lokum... og nær í Golcondu-kórónuna. Aðalpersónur. Bob Moran, Húbert Jason, Sarojini 'Jini' Savadra-Diamond, Herra Ming (Guli skugginn), Clarke, Dhumpa Rai Sögusvið. Colombo, Singalesí - Hyderabad, Phali, Kunwarklaustrið, Dekkan - Indland Pierre Joubert. Pierre Joubert (27. júní 1910 – 13. janúar 2002) var franskur bókaskreytingamaður sem var nátengdur frönsku skátahreyfingunni og fyrstu myndir hans birtust í skátatímaritum. Hann myndskreytti fjöldann allan af drengjabókum, meðal annars bækurnar um Bob Moran eftir Henri Vernes. Isaac Hayes. Isaac Lee Hayes, Jr. (20. ágúst 1942 – 10. ágúst 2008) var Bandarískur tónlistarmaður, lagahöfundur og söngvari, sem sérhæfði sig í sálartónlist og fönki. Hayes samdi einnig tónlist við margar kvikmyndir, þekktast af þeim verkum var tónlistin í myndinni "Shaft" frá 1971 en hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir titillag myndarinnar. Einnig hlaut hann nokkur Grammy-verðlaun á ferlinum. Hayes var rödd persónunnar Chef í teiknimyndaseríunni "South Park" frá upphafi hennar þangað til að hann hætti vegna ósættis við höfunda þáttanna vegna ádeilu þeirra á Vísindakirkjuna sem hann tilheyrði. Hayes, Isaac Hayes, Isaac Vistgata. Þýskt skilti sem merkir vistgötu. Vistgata er gata þar sem umferð gangandi vegfarenda og hægfara faratækja — eins og reiðhjóla, hjólaskauta eða hjólabretta — hefur forgang fram yfir umferð bíla. Venjulega er hraði takmarkaður við gönguhraða og gangandi vegfarendum, börnum að leik o.s.frv. er heimilt að nota götuna til jafns við bíla. Slíkar götur eru hannaðar með því augnmiði að minnka hraða bifreiða, t.d. með hraðahindrunum og með því að hafa bílastæði til skiptis öðrum hvorum megin götunnar. Í 7. grein íslenskra umferðarlaga er kafli um vistgötur. Þar kemur fram að vistgötur skuli merkja með sérstöku skilti. Göngugata. Göngugata er gata þar sem bílaumferð er bönnuð. Oft eru göngugötur verslunargötur eða svæði í miðborgum þar sem bílaumferð er talin óæskileg vegna þrengsla, mikillar umferðar gangandi fólks eða mengunar. Á þessum götum er umferð flutningabifreiða oftast leyfð á næturnar. Eitt elsta dæmið um göngugötu er Strikið í Kaupmannahöfn sem var gert að göngugötu, ásamt nærliggjandi götum, á 7. áratug 20. aldar. Í sumum borgum hefur bílaumferð aldrei verið leyfð. Dæmi um slíkt eru Feneyjar og bæirnir sem mynda Cinque Terre á Ítalíu. Northrop N-3PB. Northrop N-3PB („"Patrol Bomber"“) var sjóflugvél frá fyrirtækinu Northrop til notkunar í hernaði. Eini kaupandinn nokkurn tíma var Flugfélag Konunglega norska sjóhersins sem pantaði 24 slíkar vélar 12. mars 1940. Þær áttu að koma í stað úreltra Farman MF.11-tvívængja. Vélin var eins hreyfils lágvængja með 14,91m vænghaf, tvö stór flotholt og þriggja manna áhöfn. Hún var 2,8 tonn að þyngd. Hreyfillinn var 1200 hestafla loftkældur Wright Cyclone stjörnuhreyfill. Hún var búin sex vélbyssum og gat borið eitt 2000 punda tundurskeyti eða sömu þyngd af sprengjum. Áður en sendingin var afhent gerðu Þjóðverjar innrás í Noreg. Vélarnar voru því þess í stað afhentar Flugfélagi sjóhersins sem starfaði sem útlagadeild innan Konunglega breska flughersins á Íslandi. Þaðan var vélunum flogið til fylgdar skipalestum og í kafbátaeftirlitsferðir allt stríðið. Eftir stríð voru einungis tvær vélar heilar af hinum upprunalegu 24 og var þeim báðum flogið til Noregs en á 6. áratugnum voru þær settar í brotajárn. Ekkert eintak var því til fyrr en flak einnar slíkrar vélar fannst 11. ágúst 1979 í Þjórsá. Flakið var sent til Kaliforníu þar sem það var gert upp og síðan til Noregs þar sem hægt er að sjá vélina á Flugsafni norska hersins í Gardermoen. 27. ágúst 2002 fannst annað heillegt flak slíkrar vélar á 8m dýpi í Skerjafirði. Fornleifavernd ríkisins ákvað að friðlýsa flakið og gildir köfunarbann í 20 metra radíus út frá því. Geitungar. Myndaröð sem sýnir þegar ung geitungadrottning stofnar nýtt bú, verpir eggjum og finnur æti handa lirfum Geitungar er skordýr af ættbálk æðvængja og undirættbálk broddvespa. Geitungar eru félagsskordýr. Þeir byggja bú úr pappírskvoðu sem þeir fá með því að naga timbur. Í hverju geitungabúi er ein drottning og mörg hundruð vinnugeitungar. Drottningin verpir eggjum í sérstök hólf. Úr eggjunum þroskast lirfur sem síðan verða að púpum. Úr púpunum skríða aðeins vinnugeitungar yfir sumartímann. Vinnugeitungar annast lirfur og viðhalda búinu. Á haustin verða til nýjar drottningar sem lifa af veturinn. Geitungar á Íslandi. Fjórar tegundir af geitungaætt hafa sest að á Íslandi. Húsageitungur. þrír deplar á höfði húsageitungs Húsageitungur (fræðiheiti: "Vespula germanica") er geitungategund sem finnst á norðurhveli jarðar og er upprunnin í Evrópu, Norður-Afríku og tempraða belti Asíu en hefur breiðst út á fleiri stöðum svo sem í Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Argentínu, Chile, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Umferð. a>. Pallurinn fellur ofan í götuna þegar hann er ekki í notkun. Umferð á við um ferðir gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi vegfarenda á opinberum vegum. Umferðarlög eru lög sem ná yfir umferð og farartæki en umferðarreglur eru reglur sem hafa þróast með tíð og tíma og fela líka í sér óskráðar reglur sem eiga að auðvelda umferð og tryggja öryggi vegfarenda. Skipuleg umferð felur í sér skýrar reglur um forgang („réttinn“), umferðarstefnu og umferðarstjórn á gatnamótum. Stjórna má umferð með umferðarljósum og skiltum. Trjágeitungur. Trjágeitungur (fræðiheiti: "Dolichovespula norwegica") er geitungategund. Holugeitungur. Holugeitungur (fræðiheiti "Paravespula vulgaris" eða "Vespula vulgaris") er geitungategund. Holugeitungar hafa numið land á Íslandi, árið 1977 fannst fyrsta bú þeirra hérlendis en það var í Laugarneshverfi í Reykjavík. Bú þeirra hafa aðeins fundist á höfuðborgarsvæðinu. Holugeitungur staðsetur bú á sömu stöðum og húsageitungur svo sem inn í húsum og í holum í jörðu og við hraunhellur í blómabeðum. Holugeitungum gengur mun betur en húsageitungum á Íslandi en mikill munur er á fjölda milli ára. Roðageitungur. Roðageitungur (fræðiheiti: "Paravespula rufa" eða "Vespula rufa") er geitungategund. Hún hefur fundist á Íslandi en er afar sjaldgæf. Æðvængjur. Æðvængjur (fræðiheiti: "Hymenoptera") er ættbálkur skordýra sem skipt í tvo undirættbálka, annars vegar sagvespur ("Symphyta") og hins vegar broddvespur ("Apocrita"). Sagvespur eru breiðar um mittið en broddvespur eru örmjóar. Lirfur sagvespa eru plöntuætur en flestar broddvespur eru sníkjuvespur þ.e. verpa eggjum sínum í eða á önnur dýr og aðrar eins og geitungar, býflugur og maurar eru félagsskordýr sem lifa í samfélögum. Æðvængjur hafa yfirleitt greinilega þrískiptan bol og grannt mitti milli frambols og afturbols, kúlulaga höfuð, margliðskipta fálmara sem stundum eru mjög langir, áberandi augu og sterka bitkjálka. Þær hafa tvö pör af vængjum og eru aftari vængirnir mun minni. Mörg kvendýr hafa áberandi varppípu á afturenda. Sumar æðarvængjur hafa stungugadd sem tengdur er í eiturkirtil. Á Íslandi hafa fundist um 260 tegundir æðvængna. Langflestar þeirra eru sníkjuvespur. Broddvespur. Broddvespur (fræðiheiti: "Apocrita") er undirættbálkur skordýra af ættbálkinum æðvængjur. Geitungar, býflugur og maurar eru broddvespur. Varppípa kvendýra er stundum áberandi og er hefur stundum þróast í stungugadd sem dýrið notar bæði til varnar og til að lama veiðibráð. Lirfurnar eru fótalausar og blindar og eru annað hvort aldar upp inni í hýsli (jurt eða dýri) eða í hólfi í búi sem móðir þeirra sér um. Vanalega er broddvespum skipt í tvo meginhópa, sníkjuvespur (Parasitica) og gaddvespur (Aculeata). Geitungaættin (Vespidae) og býflugnaættin (Apidae) eru gaddvespur. Flestar tegundir sníkjuvespna eru litlar. Sníkjuvespur verpa eggjum sínum inn í eða á öðru skordýri (eggi, lirfu eða púpu) og lirfa þeirra vex og þroskast inn í eða á hýslinum. Hýsillinn er næstum alltaf drepinn. Margar sníkjuvespur eru notaðar við lífræna stjórnun til að draga úr meindýrum eins og fiðrildislirfum. Þær broddvespur sem hvorki eru sníkjuvespur né félagsskordýr gefa lirfum sínum bráð (venjulega lifandi og lamaða) eða frjódufti og hunangslög. Félagsskordýr í hópi broddvespna gefa lirfum sínum veiðibráð, frjóduft og hunangslög eða fræ, sveppi og egg. Díodóros frá Sikiley. Díodóros frá Sikiley (Forngríska: Διόδωρος Σικελιώτης) var forngrískur sagnaritari sem var uppi á 1. öld f.Kr. Hann fæddist á í Agíru á Sikiley en lítið annað er vita um ævi hans. Díodóros samdi sagnfræðirit í 40 bókum sem er venjulega nefnt upp á latínu "Bibliotheca historica". Bækur 1–5 og 11–20 eru varðveittar. Fyrstu sex bækurnar fjölluðu um goðsagnir fram að Trójustríðinu og hafa að geyma mikinn landfræðilegan fróðleik. Í fyrstu bók fjallar Díodóros um sögu og menningu Egyptalands; í annarri bók er fjallað um Mesópótamíu, Indland, Skýþíu og Arabíu; þriðja bók fjallar um Norður-Afríku og fjórða, fimmta og sjötta bók fjalla um sögu og menningu Grikklands og Evrópu. Bækur 7-17 fjalla um sögu heimsins frá lokum Trójustríðsins til dauða Alexanders mikla. Bækur 17-40 fjölluðu um sögu heimsins frá dauða Alexanders til annaðhvort ársins 60 f.Kr. eða upphafs Gallatríðanna. Sníkjuvespur. Sníkjuvespur (fræðiheiti: "Parasitica") eru æðvængjur sem flestar teljast til broddvespna. Þær lifa sníkjulífi á öðrum dýrum, aðallega á öðrum liðdýrum. Margar tegundir þeirra svo sem ættin "Braconidae" eru nytsamar í ræktun því þær eru notaðar til að hefta útbreiðslu meindýra. Melissos. Melissos frá Samos (forgríska: Μέλισσος ὁ Σάμιος; fæddur um 470 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og stjórnmálamaður. Melissos var nemandi Parmenídesar og útfærði heimspeki kennara síns. Gaddvespur. Gaddvespur (fræðiheiti: "Aculeata") er flokkun á æðvængjum sem hafa þróast þannig að varppípan hefur breyst í stungugadd. Það eru ekki allar tegundir gaddvespna sem stinga, margar stinga ekki vegna þess að varppípan hefur þróast í aðra átt til að gera auðveldara að verpa eða varppípan hefur alveg horfið. Býflugur, maurar og öll félagsskordýr meðal æðvængja teljast til gaddvespa. Talið er að einmitt hinar miklu varnir sem felast í gaddinum geti hafa ýtt undir þróun sem félagskordýr. Þrasýmakkos. Þrasýmakkos (forngríska: Θρασύμαχος; um 459-400 f.Kr.) var forngrískur fræðari sem er þekktastur úr "Ríkinu" eftir Platon. Hinn sögulegi Þasýmakkos. Þrasýmakkos var frá Kalkedon við Svartahafið. Hann var fræðari og starfaði einkum í Aþenu. Hann fékkst meðal annars við mælskufræði og stjórnmálafræði. Varðveitt er brot úr verki hans "Um stjórnskipun". Þrasýmakkos hjá Platoni. Þrasýmakkos bregður fyrir í 1. bók "Ríkisins" eftir Platon þar sem honum er lýst sem skapbráðum og ofstopafullum manni. Þrasýmakkos ver þar þá kenningu að réttlæti sé ekkert annað en það sem kemur sér vel fyrir þann sterkari. Nafn hans merkir „sá sem berst af ákafa“ og kann það að vera skýringin á hlutverki hans í samræðunni. Díogenes frá Apolloníu. Díogenes frá Apolloníu (um 460 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá Apolloníu í Þrakíu. Hann bjó um tíma í Aþenu. Einungis brot eru varðveitt úr ritum hans. Vespinae. Undirættin "Vespinae" inniheldur stærstu og þekktustu félagsskordýr meðal geitunga. Margar tegundir hafa breiðst út og eru talin meindýr í nýjum heimkynnum. Abkasía. Abkasía (dökkgræn) innan Georgíu (ljósgræn) Abkasía (abkasíska: Аҧсны ("Apsny"), georgíska: აფხაზეთი ("Apkhazeti" eða "Abkhazeti"), rússneska: Абха́зия ("Abhazia")) er "de facto" sjálfstætt ríki innan landamæra Georgíu. Það er þó ekki viðurkennt af alþjóðasamfélaginu. Það er á ströndu Svartahafs, á landamærum Georgíu og Rússlands í norðri. Samkvæmt stjórn Georgíu er telst það sjálfstjórnarhérað og er Sukhumi höfuborg þess. Þann 26. ágúst 2008 viðurkenndi Dímítrí Medvedev forseti Rússlands sjálfsstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu. Síðan þá hafa Níkaragúa, Venesúela, Nárú, Túvalú og Vanúatú bæst í hóp ríkja sem viðurkenna sjálfstæði Abkasíu. Húsamaur. Húsamaur (fræðiheiti "Hypoponera punctatissima") er smávaxið skordýr 2 - 4 mm að stærð og af ættbálk æðvængna. Auðvelt er að greina húsamaur af eins konar aukalið sem þeir hafa milli bols og höfuðs. Húsamaurar eru rándýr og lifa á ýmsum tegundum smádýra. Þeir eru félagsskordýr og mynda bú með hundruðum eða þúsundum einstaklinga. Í búunum eru drottningar, vinnudýr og karldýr. Drottningin er stærst. Öll dýrin í búinu eru vængjalaus nema ófrjóvgaðar drottningar. Venjulega verður ekki vart við húsamaur nema þegar drottningar yfirgefa búin til að stofna ný. Á ákveðnum tímum árs streymir mikill fjöldi vængjaðra drottninga um húsakynnin. Bú húsamaura hafa á Íslandi aðallega fundist í holrúmum undir gólfplötum eða í biluðum skólplögnum þar sem heppileg lífsskilyrði þ.e. smádýralíf, raki og hiti er til staðar. Erfitt getur verið að eyða búum húsamaura því erfitt er að komast að þeim. Húsamaur fannst fyrst í gróðurhúsi á Íslandi árið 1956 og sást síðan ekki fyrr en árið 1974. Eftir það hefur hann breiðst út í híbýlum á Reykjavíkursvæðinu. Giardia lamblia. "Giardia lambia" er frumdýr sem veldur sýkingum í þörmum manna og dýra. Lífsferill Giardia lamblia er tvískiptur, hreyfanlegt stig og þolhjúpar. Þolhjúpur er hvíldarfasi frumdýrsins en þegar það berst niður í skeifugörn þá fer það á hreyfanlegt stig, fjölgar sér og veldur einkennum. Þegar það berst neðar í meltingarveginn og aðstæður verða óhagstæðari þá tekur það aftur form þolhjúps. Tími frá sýkingu og þar til einkenna er vart er ein til tvær vikur. Algengast er að smit verði með menguðu vatni. Smit getur einnig orðið með grænmeti sem þvegið hefur verið úr menguðu vatni. Stöðumælir. Stöðumælir er tæki sem tekur við peningum og sýnir hversu lengi ökumaður hefur leyfi til þess að leggja bíl sínum í bílastæðið þar sem mælirinn stendur. Carl C. Magee fann upp stöðumælinn og sá fyrsti var settur upp í heimaborg hans, Oklahómaborg 16. júlí 1935. Fyrstu stöðumælarnir voru með rauf fyrir peninga, sveif til að setja klukkuna í gang og vísi sem sýndi hve mikið væri eftir af tímanum. Þessi uppsetning var síðan notuð nánast óbreytt í um 40 ár. Rafrænir stöðumælar með stafrænum skjá sem sýndi tímann komu fram á sjónarsviðið um miðjan 9. áratuginn Fyrsti stöðumælirinn í London var settur upp við Grosvenor Square 10. júní 1958. Í Reykjavík voru fyrst settir upp stöðumælar 12. ágúst 1957 (í borgarstjóratíð Gunnars Thoroddsen). Þá voru settir upp 274 mælar í miðborg Reykjavíkur. Við flestar götur var gjaldið 1kr fyrir 15 mínútur og 2kr fyrir hálftíma, sem var hámarkstími, en þar sem bílastæðistorg voru (Kirkjutorg, við Hótel Ísland í Austurstræti og á horni Tjarnargötu og Kirkjustrætis) var gjaldið helmingi lægra og hægt að greiða fyrir allt að 2 tíma í einu. Hafnarstræti (Akureyri). Hafnarstræti á Akureyri er gata sem nær frá Aðalstræti í Innbænum til Ráðhússtorgs í miðbænum. Reiturinn á milli Hafnarstrætis og Aðalstrætis í Innbænum er elsti hluti Akureyrarbæjar og hin raunverulega Akureyri sem bærinn heitir eftir en eyrin er nú horfin vegna landfyllinga. Þjóðvegurinn um bæinn lá um Hafnarstræti þangað til að Drottningarbraut og Glerárgata voru lagðar um fyllingar framan við brekkuna á 8. og 9. áratug 20. aldar. 1983 var gatan á milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs gerð að göngugötu en 1997 var gerð tilraun með það að hleypa bílaumferð á hana aftur að kröfu kaupmanna við götuna sem töldu það líklegt til þess að auka verslun í miðbænum. Bílaumferð var síðar leyfð til frambúðar í einstefnu til norðurs en þessi hluti götunnar er nú skilgreindur sem vistgata með 15 km hámarkshraða og forgangi gangandi vegfarenda, götunni er þó ávallt lokað þegar búist er við miklum mannfjölda í miðbænum. Sagvespur. Sagvespur (fræðiheiti: "Symphyta")eru annar af tveimur undirættbálkum æðvængna. Þær eru breiðari um mittið en broddvespur. Flestar sagvespur eru jurtaætur. Varppípa sagvespna hefur ummyndast í eins konar sagarblað en með því getur vespan gert raufir í plöntustöngla og verpt þar. Krukkspá. Krukkspá er spádómar frá 16. öld sem taldir eru eftir Jón krukk. Krukkspá kom út á prenti árið 1884. Suður-Ossetía. Kort sem sýnir staðsetningu Suður-Ossetíu. Suður-Ossetía (ossetíska: Хуссар Ирыстон, Kussar Iriston; georgíska: სამხრეთი ოსეთი, Samkhreti Oseti; rússneska: Южная Осетия, Júsjnaja Osetija) er de facto sjálfstætt ríki í Suður-Kákasus innan Georgíu. Héraðið var áður sjálfstjórnarhérað innan Sovétlýðveldisins Georgíu. Hluti héraðsins hefur verið "de facto" sjálfstætt frá Georgíu frá því á 10. áratugnum þegar íbúar þar lýstu yfir sjálfstæði. Íbúar Suður-Ossetíu eru 72.000 og er svæðið 3885 km² að stærð. Höfuðstaður héraðsins er Tskinval. Átök Georgíu og Ossetíu komu til vegna vaxandi þjóðernishyggju bæði Georgíumanna og Osseta eftir hrun Sovétríkjanna 1989. Þann 26. ágúst 2008 viðurkenndi Dímítrí Medvedev forseti Rússlands sjálfsstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu. Síðan þá hafa Níkaragúa, Venesúela, Nárú og Túvalú bæst í hóp ríkja sem viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu. Transnistría. Kort af Moldóvu þar sem Transnistría er sýnd með gulum lit. Transnistría (líka kallað Trans-Dniester, Transdniestria og Pridnestrovie) er "de facto" sjálfstætt lýðveldi innan landamæra Moldóvu þar sem það hefur stöðu sjálfstjórnarhéraðs. Eftir hrun Sovétríkjanna lýsti Transnistría yfir sjálfstæði sem leiddi til styrjaldar við stjórn Moldóvu sem hófst í mars 1992 og lauk með vopnahléi í júlí sama ár. Átökin stöfuðu af andstöðu við þjóðernissinnaða stjórn hinnar nýfrjálsu Moldóvu og aðgerðir hennar gegn slavneskumælandi minnihlutahópum í landinu. Höfuðstaður Transnistría er Tiraspol. Transnistría er oft nefnd ásamt Nagornó-Karabak, Abkasíu og Suður-Ossetíu sem dæmi um frosin átök innan fyrrum sovétlýðvelda. Hagnaður. Hagnaður í viðskiptum á við það að söluverðmæti eignar eða þjónusu er hærra en kostnaður við kaup eða framleiðslu eignarinnar/þjónustunnar. Hagnaðurinn er innleystur þegar eignin eða varan er seld en þangað til er gjarnan talað um óinnleystan hagnað. Í fyrirtækjarekstri verður hagnaður venjulega til með hætti að vara er seld við hærra verði en sem samsvarar kostnaði við framleiðslu hennar, markaðssetningu, flutning til neytenda og ýmsan stjórnunarkostnað viðkomandi fyritækis. Hagnaður verður einnig til ef verðmæti eigna sem ganga kaupa og sölum á markaði eykst. Dæmi um þesskonar eignir eru t.d. fasteignir, hlutabréf og bifreiðar. Hlutfallslegur hagnaður er gjarnan gefinn upp sem prósentutala. Þannig er hlutfallslegur hagnaður 20% ef eign sem keypt er á 100 milljónir er seld aftur á 120 milljónir, en aðeins 2% ef eign sem keypt er á 1000 milljónir er seld aftur á 1020 milljónir. Hlutfallslegur hagnaður er einnig nefndur ávöxtun fjárfestingarinnar. Tap. Tap í viðskiptum á við það að söluverðmæti eignar eða þjónusu er lægra en kostnaður við kaup eða framleiðslu eignarinnar/þjónustunnar. Hagnaður er andstaða taps, en í viðskiptum er ætíð reynd að lágmarka tap, en hámarka hagnað. La traviata. La Traviata er ópera í þremur þáttum eftir Giuseppe Verdi, frumflutt árið 1853. Leiktextinn er byggður á leikgerð skáldsögunnar "Kamelíufrúin" eftir Alexandre Dumas. Heitið "La Traviata" má þýða sem „hin bersynduga“ eða „hin afvegaleidda“. 1. þáttur. Violetta Valéry er fræg fylgikona í París sem heldur veislu til að halda upp á að hún hafi verið að ná sér eftir veikindi. Í þeirri veislu hittir hún verðandi elskhuga sinn, Alfredo Germont, en hann hefur verið hrifinn af henni í eitt ár. Henni var sagt að Alfredo hafi komið á hverjum degi á meðan hún hafi verið veik og það leyni sér ekki hversu mikið hann dái hana. Síðan kemur Alfredo aftur og verður beðinn að flytja drykkju ræðu, hann neitar en að lokum byrjar á hann á „Libiamo, ne' lieti calici“ eða „Drykkjulaginu“. Eftir það ætla allir gestir að fara í dansalinn og dansa. En þá fær Violetta verki hún segist koma fljótlega og segir gestunum að byrja dansleikinn án hennar. Alfredo verður eftir og saman syngja þau tvísönginn „Un dì felice, eterea“ Alfredo segir elskar hana mikið en Violetta segist bara geta boðið honum vináttu. Síðan segir hún það er nóg komið af þessari ástarþvælu. Alfredo segir „þá ég fer þá“. Hún eltir hann og gefur honum blóm hann spyr hvað hann ætti að gera við það. Hún svara „þú átt að skila mér því aftur“. Hann spyr hvenær, „Þegar það byrjar að fölna“. Hann verður svo kátur og tjáir henni hvað hann elskar hana mikið hún segir honum að fara koma sér, en þá koma allir gestirnir og segja „það er byrjað að daga við verðum að fara“ og Violetta verður ein eftir og syngur einsöng. Síðan syngur hún aftur frægan aríu um hversu frjáls hún væri en fyrir utan húsið hennar syngur Alfredo um ástina en hún segir að hún geti ekki veið ástfangin en samt líður henni eins og hún sé ástfangin af Alfredo og þannig endar fyrsti þáttur af þessari óperu. Alkmajon frá Króton. Alkmajon (forngríska: Ἀλκμαίων) frá Króton (á Suður-Ítalíu) (uppi á fyrri hluta 5. aldar f.Kr.) var forngrískur heimspekingur. Faðir hans hét Piriþos og er það umdeilt hvort hann hafi verið nemandi Pýþagórasar. Alkmajon ritaði einkum um læknisfræði og náttúruspeki. Hann virðist einnig hafa fengist við stjórnufræði og veðurfræði. Lítið sem ekkert er vitað um ævi hans. Arkýtas. Archytas (forngríska: Αρχύτας; uppi um 400 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur, stærðfræðingur, stjörnufræðingur, stjórnmálamaður og herforingi. Arkýtas fæddist í grísku borginni Tarentum á Suður-Ítalíu. Hann var sonur Mnesagórasar eða Histiajosar. Hann nam hjá Fílolási og kenndi Evdoxosi stærðfræði. Hann var tengdur pýþagóríska skólanum og var góður vinur Platons. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Íslendinga í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Íslands. HM 2011. Markahæstir íslensku leikmannanna voru Alexander Petersson með 53 mörk (60% skotnýtingu) og Guðjón Valur Sigurðsson með 47 mörk (68% skotnýtingu). Alexander Petersson stal flestum boltum á mótinu, alls 14 sinnum eða að meðaltali 1,6 stolinn bolta í hverjum leik. Hann var einnig stoðsendingahæstur íslensku leikmannanna með 28 stoðsendingar. Arnór Atlason gaf næstflestar stoðsendingar íslensku leikmannanna eða 25 stoðsendingar. Hann skoraði einnig 19 mörk á mótinu. Aron Pálmarsson skoraði 25 stig á mótinu og gaf 20 stoðsendingar. Ólafur Stefánsson gaf 19 stoðsendingar. Fyrrverandi liðsmenn. Listarnir hér að neðan eru ekki tæmandi. Markahæstu leikmenn landsliðsins. Eftirfarandi er listi yfir 30 markahæstu leikmenn landsliðsins frá upphafi. Listinn byggir á tölum frá Handknattleikssambandi Íslands. Leikreyndustu leikmenn landsliðsins. Eftirfarandi er listi yfir 30 leikreyndustu leikmenn landsliðsins frá upphafi. Listinn byggir á tölum frá Handknattleikssambandi Íslands. Tenglar. handknattleikur Fílolás. Fílolás (forngríska: Φιλόλαος; um 480 f.Kr. — um 385 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur. Hann var pýþagóringur og hélt fram talnaspeki í anda skólans. Hann mun fyrstur hafa haldið því fram að jörðin væri ekki miðja alheimsins en hélt því fram að til væri „andjörð“ til mótvægis við jörðina og að himinhnettirnir væru þess vegna tíu talsins. Hann hélt einnig fram hugmyndum um að sálin væri ódauðleg og væri fjötruð í eins konar líkamlegu fangelsi. Gnóttstaða. Gnóttstaða í viðskiptum vísar til þess að einhver aðili eigi ákveðið magn verðbréfa, t.d. hlutabréf ákveðins fyrirtækis eða gjaldeyri. Aðili sem er í gnóttstöðu hefur trú á því að verðmæti verðbréfanna hækki í framtíðinni. Gnóttstaða er andstæðan við skortstöðu. Grace Kelly. Grace Patricia Kelly (12. nóvember, 1929 – 14. september, 1982) var bandarísk leikkona sem var vinsæl á 6. áratugnum. Hún lék fyrir MGM, meðal annars aðalhlutverk í þremur Hitchcock-myndum. Hún fékk Óskarsverðlaun sem besta leikkona fyrir leik sinn í "Sveitastúlkan" ("Country Girl") 1954 þar sem hún lék á móti Bing Crosby og William Holden. Á Kvikmyndahátíðinni í Cannes 1955 kynntist hún Rainier 3. fursta af Mónakó og þau héldu áfram sambandi eftir að hún sneri aftur til Bandaríkjanna. Þau giftu sig 19. apríl 1956 og brúðkaupið var kallað „brúðkaup aldarinnar“. Níu mánuðum síðar fæddist fyrsta barn þeirra, Karólína og ári síðar Albert sem er núverandi Mónakófursti. 1965 fæddist yngsta barn þeira, Stefanía. Nokkrum sinnum kom upp sú hugmynd að Grace sneri aftur á hvíta tjaldið, en slíkar hugmyndir mættu mikilli andstöðu Rainieris og almennings í Mónakó. 13. september 1982 fékk Grace heilablóðfall þar sem hún var að aka Rover P6-bifreið sinni, en í bílnum var einnig Stefanía, dóttir hennar. Bíllinn fór út af veginum og hrapaði niður fjallshlíð. Grace lést á sjúkrahúsi daginn eftir. Stefanía virtist í fyrstu hafa sloppið með minniháttar meiðsli en síðar kom í ljós að hún var með sprungu í höfuðkúpu. Faðir Grace, Jack Kelly, var kunnur íþróttagarpur og vann til gullverðlauna í kappróðri á Ólympíuleikunum 1920. Eyrarsundsbrúin. Eyrarsundsbrúin er blönduð bita- og hengibrú sem tengir saman Danmörku og Svíþjóð yfir Eyrarsund milli Amager og Skáns, rétt sunnan við Málmey. Eyrarsundsgöngin liggja frá Kastrup á Amager fyrsta hluta leiðarinnar yfir á Piparhólma þar sem brúin byrjar. Yfir brúna liggja hraðbraut og tvær járnbrautir. Smíði brúarinnar lauk 14. ágúst 1999 en vegurinn var vígður 1. júlí árið 2000. Bitruvirkjun. Bitruvirkjun er allt að 135 MW jarðvarmavirkjun sem Orkuveita Reykjavíkur áformar að reisa á Hengilssvæðinu. Fyrirhugað vinnslusvæði er á Bitru milli Henglafjalla að vestan og raðar goshryggja úr móbergi og bólstrabergi frá Hrómundarfirði að norðan til Molddalahnjúka að sunnan. Svæðið er nálægt Ölkelduási en þó ekki á ásnum sjálfum. Svæðið er innan sveitarfélaganna Ölfuss og Grímsnes- og Grímsnes- og Grafningshrepps. Landeigendur eru Orkuveita Reykjavíkur og íslenska ríkið. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hætti undirbúningi að Bitruvirkjun í kjörfar álits Skipulagsstofnunar í ágúst 2008. Vallanes. Vallanes er bær og kirkjustaður á Norður-Völlum á Fljótsdalshéraði í Norður-Múlasýslu. Jörðin liggur á nesi milli Grímsár og Lagarfljóts. Bærinn var prestsetur til ársins 1975. Núverandi kirkja var reist árið 1930. Þar er nú stunduð lífræn ræktun á grænmeti og byggi sem er selt undir vörumerkinu „Móðir Jörð“. Meðal frægra ábúenda á Vallanesi má nefna Stefán Ólafsson (1619-1688) prófast og skáld. Bæjarnafnið Vallanes er að finna á þremur stöðum á Íslandi: Vallanes í Skagafirði, Vallanes í Hvalfjarðarsveit og Vallanes á Austur-Héraði. Flotgengi. Flotgengi eða fljótandi gengi er gengisstefna þar sem gengi gjaldmiðils er leyft að fljóta miðað við gjaldeyrismarkað. Slíkur gjaldmiðill er kallaður fljótandi gjaldmiðill. Andstæða flotgengis er fastgengi. Kostir fyrirkomulagsins er að ef sveiflur í hagkerfinu eru ekki í takt við sveiflur annara landa, endurspeglast það í gengi gjaldmiðilsins, m.ö.o gengi krónunnar endurspeglast af aðstæðum í hagkerfinu á hverjum tíma. Annar kostur er sá að leiða má að því líkur að minni hætta sé á fjármálakreppum en þegar fastgengisstefna er við lýði. Skammtaljósfræði. Skammtaljósfræði er sú grein innan eðlisfræðinnar sem fjallar um skammtaeiginleika ljóss og víxlverkun þess við atóm. James Clerk Maxwell setti fram jöfnur sínar sem lýstu rafsegulbylgjum með 4 diffurjöfnum og gerðu ráð fyrir því að ljós væri samfelld rafsegulbylgja. En í byrjun 20. aldarinnar var sýnt fram á að ljós hegðaði sér einnig sem eindir. Síðan þá hefur verið talað um tvíeðli ljóss, þ.e. að ljós er bæði bylgja og eind, kölluð ljóseind. Skammtaljósfræði nýtir sér einmitt þessa tvíræðni ljóssins og skilgreinir ljós sem skammta af rafsegulbylgjum og er lýst stærðfræðilega með skammtarafsegulfræði, Spanskgræna. Spanskgræna (spansgræna eirgræna, kopargræna eða patína) er græn skán af koparkarbónati sem myndast á yfirborði kopars (en einnig brons og látúns) þegar koldíoxíð kemst að málminum. Spanskgrænan myndast oftast með tíð og tíma, rétt eins og ryð myndast á járni, en flýta má fyrir ferlinu með vissri tækni. Blýeitrun. Blýeitrun er eitrun sem stafar af of miklu blýi í líkamanum. Eitrunin getur stafað af blýgufum sem menn anda að sér eða borist inn í líkamann með fæðu. Blýeitrun er mjög hættuleg þar sem líkaminn getur ekki losað sig við málminn. Magn blýs í líkamanum eykst því stöðugt. Fóstur og börn undir sex ára aldri eru sérlega næm fyrir blýeitrun. Talið er að sjötta hvert barn innan sex ára aldurs í Bandaríkjunum sé með of hátt blýmagn í líkama sínum. Sumstaðar eru nautgripir og önnur húsdýr, sem ganga á beit meðfram fjölförnum þjóðvegum í hættu af að fá blýeitrun vegna útblásturs þeirra bíla, sem framhjá fara. Rafgeymir. Rafgeymir er „stór rafhlaða“ sem knýr rafmagnskerfið í bílum og öðrum vélknúnum tækjum, s.s. vinnuvélum, snjóbílum o.s.frv. Rafgeymir getur breytt efnaorku í rafmagn og hann er unnt að hlaða aftur ef hann er í góðu ásigkomulagi. Í flestum bílum og vinnuvélum er rafall sem vélin snýr og endurhleður hann rafgeyminn jafnóðum. Hvítþyrnir. Hvítþyrnir (eða hagþyrnir) (fræðiheiti: "Crataegus laevigata") er þyrnóttur runni sem getur orðið allt að 8 m hár og vex villtur í Mið-Evrópu. Hvítþyrnir er vinsæll runni til að nota í limgerði, allt frá Spáni og alveg norður til Svíþjóðar. Samgræðslu-kynblendingurinn þyrnimispill, "Crataegomespilus Asnieresii", er myndaður við samgræðslu hvítþyrnis og mispils. Limgerði. Limgerði (eða limgirðing) er þétt runnaröð sem er notuð sem girðing til dæmis til afmörkunnar eða sem skjólbelti kringum hús eða til að skýla styttu í lystigarði. Limgerði má ekki rugla saman við grindverk sem er smíðað, til dæmis úr grindum. Blöðruhálskirtill. Blöðruhálskirtill (eða hvekkur) (fræðiheiti: "prostata") er kirtill við neðra op þvagblöðru karlmanna og myndar meginhluta sáðvökvans. Nkhotakota. Nkhotakota (áður Kota Kota) er bær á ströndu Malaví-vatns í miðhluta Malaví. Áætlaður íbúafjöldi 2008 var 33.150 manns. Saga. Nkhotakota mótaðist í upphafi af nokkrum þorpum á svæðinu en varð svo verslunarstaður fyrir arabíska þrælasala. Landkönnuðurinn David Livingstone sannfærði leiðtogann Jumbe um að hætta þrælasölu af svæðinu, en fyrirkomulagið er enn í gildi. Sátu þeir undir tré einu og ræddu málin. Hastings Banda, fyrsti forseti landsins, fór með ræðu undir öðru tré í bænum á 7. áratugnum. Það tré er í kaldhæðni kallað „Livingstone-tréð“. Árið 2001 voru mikil flóð í landinu og náðu þau einnig til Nkhotakota. Bærinn varð verst úti af svæðunum í miðhluta landsins. Landafræði. Bærinn er í um 472 metra hæð yfir sjávarmáli á ströndu Malavívatns. Hann stendur á malarhrygg og snýr að Nkhotakota-flói sem er úti fyrir ströndinni en hann er afmarkaður af sandrifi. Næstu bæir eru Makuta, Mbaluko og Mtenje. Auk þess eru um 200 kílómetrar til Lílongve en 378 kílómetrar til Blantyre. Tungumál. Chichewa er aðaltungumál staðarins. Swahili-nýlenda er einnig í bænum, en einnig eru chewa-mælendur í suðurhluta hans. Tonga-mælendur er að finna í norðurhlutanum. Heilsugæsla. Í Nkhotakota er sjúkrahús sem hefur reynst vel í baráttunni gegn HIV og eyðni. Samtökin "Society for Women Against AIDS in Malawi" (SWAM) (ísl. "Konur gegn eyðni í Malaví") eru með tveggja ára verkefni í bænum. Fjármálastofnanir. Commercial Bank of Malawi er með útibú við aðalbraut bæjarins sem liggur norður-suður. Eldsneytisverslun. Í Nkhotakota er bensínstöð frá BP. Samgöngur. Í Nkhotakota er ein af aðal höfnunum við Malavívatn. Nálægasti flugvöllur er í Kasungu Langferðabílar gang til Salima í tvær stundir á dag. Þess að auki aka smárútur til Nkhata Bay. Nkhotakota (hérað). Nkhotakota er hérað í Central Region í Malaví. Það er alls 4.259 km² og íbúafjöldinn er 229.460 manns. Höfuðborg héraðsins er Nkhotakota. Í austri er Malaví-vatn, í norðri Mzimba og Nkhata Bay, í vestri Kasungu og Ntchisi og í suðri Salima. Í héraðinu er einnig samnefnt villidýraverndarsvæði. Dedza (hérað). Dedza er hérað í Central Region í Malaví. Höfuðborg þess er Dedza og flatarmálið alls 3.624 km². Íbúafjöldinn er 486.682. Isortoq. Isortoq (eldri stafsetning: "Isertoq") er fámenn byggð á Austur-Grænlandi, nánar tiltekið á Ammassalik-svæðinu. Íbúar voru 93 árið 2010 og hafa atvinnu af veiðum. Í Isortoq er hreindýrastöð Stefáns Magnússonar sem hann hefur rekið ásamt Ole Kristiansen síðan 1983. Júbaland. Júbaland (sómalska: "Jubbaland") eða Júbadalur (sómalska: "Dooxada Jubba"), áður Transjúba (ítalska: "Oltre Giuba") er syðsti hluti Sómalíu handan Júbafljóts með landamæri að Kenýa. Íbúafjöldi svæðisins er áætlaður 1,3 milljónir. Svæðið nær yfir héruðin Gedo, Neðri-Júba og Mið-Júba. Aðalborgin er Kismayo á ströndinni við ósa Júbafljóts. Eftir að Siad Barre forseta Sómalíu var steypt af stóli 1991 breiddist borgarastyrjöld smátt og smátt út um allt landið. 1993 lagði tengdasonur Barre, Mohammed Said Hersi, Kismayo undir sig með hersveitum sem héldu enn tryggð við Barre og ríkti yfir svæðinu sem herstjóri. Menn hans beittu íbúana kerfisbundnu ofbeldi, nauðguðu konum og rændu hjálpargögnum. 3. september 1998 var sjálfstæða ríkið Júbaland stofnað af fulltrúum Sómalska föðurlandsflokknum, undir stjórn Said Hersi, í samstarfi við Rahanweyn-andspyrnuherinn en þeir voru brátt reknir burt af Sómalska þjóðverðinum sem voru leifarnar af her Barres sem stefndu að endurreisn ríkisstjórnar hans. Ári síðar var þjóðvörðurinn rekinn burt af Júbadalsbandalaginu, bandalagi nokkurra ættflokka á svæðinu. 2001 gerðist Júbadalsbandalagið aðili að bráðabirgðastjórn sómalska sambandsríkisins. Árið 2006 réðust herir Íslömsku dómstólanna inn í Júbaland og lögðu Kismayo og fleiri mikilvæga bæi undir sig. Júbadalsbandalagið dró sig í hlé, yfirleitt án andstöðu. Í desember, eftir ósigur dómstólanna gegn bráðabirgðastjórninni og hersveitum Eþíópíu í orrustunni við Baidoa, náði bandalagið Kismayo aftur á sitt vald. Hengibrú. Hengibrú er ein gerð brúar, þar sem brúargólfið eða brautin, hangir í burðarköplum sem festir eru í akkeri við báða enda. Hengibrýr í frumstæðri mynd eru eflaust nokkur þúsund ára gamlar, og eru dæmi um slíkar brýr í Kína á 2. öld fyrir Krist. Á 19. öld kom fram sú hugmynd að lyfta burðarköplunum með háum turnum, eða stöplum, og má segja að þá hafi komið fram hengibrýr í nútímamerkingu. Með tækniframförum á síðustu áratugum hefur tekist að byggja lengri hengibrýr en áður var mögulegt. Er þar bæði verið að uppfylla ákveðnar þarfir í samgöngum, en einnig að fullnægja metnaði verkfræðinga og þjóða, með því að fara að ystu mörkum þess sem er tæknilega mögulegt. Auk þess eru hengibrýr oft glæsileg mannvirki. Sundlaugar og laugar á Íslandi. Íslenskar sundlaugar eru 163 talsins. Saga sundlauga á Íslandi. Vitað er um þrettán laugar sem notaðar voru til forna og um fjórar eru enn nothæfar. Snorralaug í Reykholti er ein af þeim laugum sem enn eru nothæfar, og hún er einnig sú fyrsta sem getið er. Árið 1821 hófst sundkennsla og árið 1824 var fyrsta sundfélag Íslands stofnað en það bar nafnið Sundfélag Reykjavíkur. Fyrsta steypta sundlaugin á Íslandi var gerð í Laugardal við Reykjavík árið 1908 þar sem heitu vatni úr Þvottalaugunum var veitt í laugina og köldu úr Gvendarbrunnum. Í eftir árið 1930 fjölgar byggingu sundlauga á Íslandi mikið, og á árunum 1931-1940 og 1941-1950 voru 44 sundlaugar byggðar. Konum er almennt heimilað að vera berbrjósta í sundlaugum á Íslandi (að Bláa lóninu undanskildu) en þrátt fyrir það hefur konum hefur verið vísað úr laugum fyrir að bera brjóst sín. Í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Flestar sundlaugar eru staðsettar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu og þar af rekur Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur sjö. Einnig var baðhús í Reykjavík, en í því var ekki sundlaug heldur aðeins aðstaða til líkamsþvottar þangað til að húsið var rifið árið 1967. Tenglar. * César Cielo. César Augusto Cielo Filho (fæddur 10. janúar 1987 í Santa Barbara d'Oeste, São Paulo) er brasilískur sundmaður. Hann hefur sérhæft sig í að synda stystu skriðsundssprettina, s.s. 50 og 100 metra. 16. ágúst 2008 vann hann gullverðlaun í 50 metra skriðsundi á ólympíuleikunum 2008 í Peking. Var það fyrsta ólympíugull Brasilíu í sundi. Í undanrásum setti hann nýtt ólympíumet, bætti það í undanúrslitum og var 0,2 sekúndum frá nýju heimsmeti í úrslitunum. Hann vann einnig brons í 100 metra skriðsundi á sömu leikum, var þó jafn bandaríkjamanninum Jason Lezak. César Cielo stundar nám við Auburn University í Auburn í Alabama og keppir með liði skólans, „Auburn Tigers“. Í heimalandinu syndir hann fyrir Esporte Clube Pinheiros. Jason Lezak. Jason Edward Lezak (fæddur 12. nóvember 1975 í Irvine í Kaliforníu) er bandarískur sundmaður. Hann keppir í skriðsundi, auk þess sem hann á sæti í boðsundssveit Bandaríkjanna. Lezak útskrifaðist frá Kaliforníuháskóla í Santa Barbara árið 1999. Vallarhverfi. Vallarhverfi er hverfi í Hafnarfirði á Íslandi. Í Vallarhverfi mun Ásvallalaug opna seint um sumar 2008. Handknattleikur á sumarólympíuleikunum 2008 - keppni í karlaflokki. Handknattleikskeppni karla á sumarólympíuleikunum 2008 fór fram dagana 10 til 24. ágúst í Peking í Kína. Tólf lið kepptu á mótinu. Riðlakeppni fór fram í tveimur riðlum en að henni lokinni tók við útsláttarkeppni. Fjögur bestu liðin úr hvorum riðli héldu áfram í fjórðungsúrslit en liðin í neðstu sætunum tveimur í hvorum riðli lentu í 9. – 12. sæti á mótinu eftir árangri í riðlakeppninni. Í riðlakeppninni fengust tvö stig fyrir hvern sigur, eitt stig fyrir hvert jafntefli en ekkert stig fyrir tap; þegar lið voru jöfn að stigum er miðað við fjölda vinningsleikja og mismun á markatölu í öllum leikjum liðanna. Tapliðin í fjórðungsúrslitunum kepptu um 5. – 8. sæti á mótinu en sigurliðin kepptu um 1. – 4. sæti. Röðun í riðla. Dregið var í riðla 16. júní 2008. A-riðill. Allar tímasetningar eru að kínverskum tíma (UTC+8) B-riðill. Allar tímasetningar eru að kínverskum tíma (UTC+8) Útsláttarkeppni. Allar tímasetningar eru að kínverskum tíma (UTC+8) Ásvallalaug. Ásvallalaug er íslensk sundhöll sem opnaði 6. september 2008 í Vallarhverfi í Hafnarfirði. Sundhöllin er sú stærsta á landinu eða um 6.000 m² og þar er aðstaða fyrir heilsurækt í 600 m² sal, sem er samhliða sundhöllinni. Sundhöllin skartar 50 metra sundlaug og vatnsrennibraut og fjórum heitum pottum. Þar er einnig stórar barna- og vaðlaugar, kennslulaugar og gert er ráð fyrir 25 metra útisundlaug. Einnig er boðið upp á aðstöðu til að fara í sólbað og eimbað. Líkamsræktarstöð og kaffihús eru einnig í húsinu. Stafkirkja. Stafkirkja (eða stafakirkja) er timburkirkja þar sem veggir eru gerðir úr stöfum (þ.e. lóðréttum bjálkum) og þeir klæddir lóðréttum borðum. Flestallar stafkirkjur sem nú standa uppi eru í Noregi, en á upphafsárum kristni í Norður-Evrópu voru þær víða til. Í upphafi kristni hér á Íslandi voru flestar kirkjur stafkirkjur. Dómkirkjurnar í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal voru þá líklega stærstu stafkirkjur Evrópu, því að dómkirkjur í nágrannalöndunum voru þá úr steini. Í Vestmannaeyjum er lítil stafkirkja. Hún var reist á 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Þá ákváðu Norðmenn að gefa Vestmannaeyingum eftirmynd stafkirkju og afhenti Noregskonungur hana við hátíðlega athöfn 30. júlí árið 2000. Stafverk var ekki eingöngu notað í kirkjur, til dæmis er Auðunarstofa á Hólum í Hjaltadal að hluta byggð með þeirri aðferð. Þunglyndi Haruhi Suzumiya. The Melancholy of Haruhi Suzumiya er anime sería um unglingsstúlkuna Haruhi Suzumiya sem hefur kraftinn til að breyta veruleikanum í hvað sem hún óskar sér, án þess að vita það. Serían var gerð af Kyoto Animation á árinu 2006 og kom út á ensku 2007. Í japönsku sjónvarpi voru þættirnir sýndir í ruglaðri röð (sjötti þátturinn var sýndur síðastur og sögulokin voru t.d. sýnd sem níundi þáttur) en á DVD diskum voru þættirnir settir í rétta röð. Bleach (anime). Bleach er vinsæl Shonen Jump anime og manga sería um Ichigo Kurosaki, 15 ára strák sem hefur þann hæfileika að geta séð drauga og „soul reapers“ (shinigami) sem vinna að því að hreinsa heiminn af óverunum „hollows“. Hann hittir fyrir „soul reaper“ að nafni Rukia Kuchiki sem meiddist í baráttu við einn „hollow“ og gaf honum krafta sína á meðan hún jafnar sig. Manga sögurnar hafa verið í gangi síðan ágúst 2001 með yfir 295 kafla en anime þættirnir byrjuðu fimmta október 2004 og eru bæði enn gangandi. Þættirnir hafa ekki lagst vel í aðdáendur bókanna, og hafa því ekki selst vel. Ichigo á líka marga vini svo sem orihime,sado-kun og ishida en þau geta líka séð shinigamis og hollows. Þau eru líka með mætti en eru ekki shinigami. Saman fara þau til soul society (himnaríki) til að bjarga rukiu sem á að deyja fyrir að gefa ichigo mátt sinn. En áður en Ichigo fór til soul society var hann að þjálfa með mjög máttugum shinigami sem heitir Urahara. Þar breytist Ichigo næstum því í hollow en nær að rífa grímuna af sér á síðustu stundu. Eftir það hefur hollowinn stöðugt reynt að taka yfir Ichigo. Út af þessu koma menn sem eru hálfir shinigamis og hálfir hollows (Vizoreds) og vilja að hann verði einn af þeim. Cutie Honey. Cutie Honey er anime og manga sería frá 1997 og er eitt fyrsta dæmi af „magical girl“ í anime. 1973 serían snerist um Honey Kisaragi, sem notar Ai-kerfið sem faðir hennar bjó til til þess að breyta sér í hvern sem er, og Hayami fjölskylduna til þess að stoppa hryðjuverkahópinn Panther Claw, stjórnað af Panther Zora og Sister Jill. Í flestum þáttum sendir Panther Claw út nýja útsendara sem valda glundroða þangað til að Honey notar Ai-kerfið til þess að breytast í Cutie Honey, kvenhetju sem berst með sverði. Manga sögurnar gengu frá fyrsta október 1973 til fyrsta apríl 1974 en anime þættirnir voru sýndir frá þrettánda október 1973 til 30. mars 1974. New Cutie Honey. New Cutie Honey er framhald Cutie Honey og kom út 21. apríl 1994 til 21. nóvember 1995 á myndbandi í Japan. Serían var þýdd yfir á ensku af A.D. Vision og er fyrsta teiknaða útgáfan af Cutie Honey sem kemur út á ensku og sú eina hingað til. Sagan gerist í borginni Cosplay City mörgum árum eftir upprunalegu þættina og ekki hefur sést til Cutie Honey síðan Panther Claw voru sigruð í fyrstu seríunni. Eftir að undarlegur fíkniefnahringur hefur verið uppgötvaður fara glæpir í vöxt og borgarstjóri Cosplay, Mayor Light, er staðráðinn í því að uppræta glæpina í borginni. Unglingsstrákurinn Chokkei Hayami stendur með Light og ritara hans, Honey Kisaragi, sem er í raun Cutie Honey, en minnis- og kraftlaus. Eftir að Honey var í miðju árásar á borginna man hún eftir fyrra lífi sínu sem Cutie Honey og fær aftur krafta sína. Húsfluga. Húsfluga (eða húsafluga) (fræðiheiti: "Musca domestica") er tvívængja af húsfluguætt. Húsflugan er mjög algeng á Íslandi, enda er hún ein útbreiddasta tegund jarðarinnar og ein algengasta fluga í hýbílum manna (þ.a.l. nafnið). Húsflugan er að mestu hættulaus á Íslandi en er varasamur sýklaberi í heitari löndum. Í raun nefnist húsflugan sem algengust er: Stóra húsfluga ("musca domestica"), en svo er til önnur minni sem nefnist: litla húsfluga ("fannia cannicularis"). Fiskifluga. Fiskifluga (fræðiheiti: "Calliphora uralensis") er tvívængja af maðkaflugnaætt, og er mjög algeng á Íslandi. Funkisstíll. Funkisstíll (nýtistefna eða funksjónalismi) (enska: "functionalism") er byggingarstíll og stefna í arkitektúr og hönnun. Fúnkisstíl gengur út á að gera hlutina samkvæmt nýtistefnu, hagnýtingin á að ráða útlitinu. Nýtistefnan var mynduð á 3. og 4. áratug 20. aldar, en í arkitektúr nær stefnan þó fram á áttunda áratuginn, eða þar til póstmódernisminn tók við. Upphaf fúnkisstíls er oftast rakið til orða Louis Sullivan: „Form fylgir funksjón“. Usain Bolt. Usain Bolt (fæddur 21. ágúst 1986) er jamaískur spretthlaupari. Hann er núverandi Ólympíumeistari, heimsmeistari og heimsmethafi í 100 og 200 metra spretthlaupi karla. Á Ólympíuleikunum í Peking 2008 setti hann heims- og ólympíumet í báðum greinum, 9,69 sekúndur í 100 metrum og 19,30 sekúndur í 200 metrunum. Einnig setti jamaíska liðið heimsmet í 4x100 m hlaupi, 37,04 sekúndur á HM 2011, og hljóp Bolt seinasta sprettinn. Á heimsmeistaramótinu í Berlín í ágúst 2009 setti hann aftur heimsmet í 100 m hlaupi er hann hljóp á 9,58 sekúndum, og í 200 m hlaupi, 19,19 sekúndur, og er hann fyrstur til að eiga samtímis heimsmet, Ólympíumeistaratitil og heimsmeistaratitil í báðum greinum. Bolt á einnig heimsmet unglinga í 200 m spretthlaupi (19,67 sek). Afrek hans hafa gert það að verkum að hann er jafnan kallaður „þrumufleygurinn“ (e. "lightning Bolt") í fjölmiðlum. Hann var kjörinn frjálsíþróttamaður ársins árið 2008 af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu. Levy Mwanawasa. Levy Mwanawasa 16. mars 2006 Levy Patrick Mwanawasa (fæddur 3. september 1948, látinn 19. ágúst 2008) var sambískur stjórnmálamaður. Hann var forseti lýðveldisins Sambíu frá 2002 til dauðadags. Bifreiðastöð Akureyrar. Bifreiðastöð Akureyrar (eða B.S.A.) var umsvifamikið fyrirtæki á Akureyri á fyrri hluta 20. aldar. Bifreiðastöð Akureyrar sá um áætlunarferðir til Reykjavíkur og víða um austur- og norðurland, rak leigubíla, vörubíla og bílaverkstæði - það stærsta utan Reykjavíkur - og einnig yfirbyggingarverkstæði, þar sem smíðað var yfir rútur. Fyrirtækið hóf starsemi sina í Bíó-kjallaranum við Ráðhústorgið. Bifreiðastöð Akureyrar var stofnuð laugardaginn 2. júní 1923. Stofnandi þess var Kristján Kristjánsson frá Birningsstöðum, oft nefndur: "Kristján Birning". Ökumenn ásamt honum fyrsta árið voru þeir: "Ebenharð Jónsson" og "Jón Jósepsson", sem seinna vann á sprautuverkstæði hjá Kristjáni. Hann var bróðir Jóhannesar glímukappa á Hótel Borg. Árið 1926 var Bifreiðastöð Akureyrar komin með tvo vörubíla, en þá var hafið að byggja Kristneshæli og voru bílarnir notaðir við þá byggingarvinnu. Kristján hóf síðan áætlunarferðir til Reykjavíkur án þess að komið væri á eiginlegt vegasamband milli héraða eða landshluta. Kom sér þá vel að fyrstu bílarnir voru yfirleitt léttir. Hann fór fyrstu ferð sína suður á land árið 1929. Þá var ekki enn orðið bílfært alla leið til Reykjavíkur, svo hann og farþegar hans tóku sér fari með báti frá Borgarnesi. Kristján hélt líka í austur með tíð og tíma og hóf áætlunarferðir til Húsavíkur og Kópaskers og staða á Austurlandi. Ferð á Þingvöll á Alþingishátíðina 1930 varð kveikjan að því að Kristján hóf áætlunarferðir suður á Hvalfjarðarströnd vorið 1931. Farþegar voru ferjaðir yfir fjörðinn, en þar biðu bílar frá Steindóri Einarssyni eftir þeim og fluttu þá til Reykjavíkur. Árið 1946 stofnaði Kristján fyrirtækið Bílasöluna h.f. ásamt "Ólafi Benediktssyni" og á næstu árum dró hann úr bílaútgerð. Áður hafði hann hætt með vörubíla,en Kea keypti yfirbyggingaverkstæðið og rak það næstu árin. Maðkaflugur. Maðkaflugur (fræðiheiti: "Calliphoridae") eru ætt tvívængna flugna, en lirfur þeirra kallaðst "maðkar". Maðkaflugur eru oftast bláar, grænar eða svartar með málmgljáa og vía í hræjum sem við það maðka (þ.e. taka að iða af möðkum). Víur. Víur eru maðkafluguegg í fiski eða kjöti. Maðkaflugur vía oftast í hræ dýra, s.s. út í náttúrunni en einnig þar sem flugurnar komast í matarafurðir, eins og t.d. í upphengda skreið. Þá er talað um að hræið (eða skreiðin) maðki, því lirfur maðkaflugurnar nefnast "maðkar". Doha. Doha (arabíska: الدوحة‎, umritað: Ad-Dawḥah eða Ad-Dōḥah) er höfuðborg Katar. Borgin stendur við Persaflóa og íbúafjöldi árið 2005 var rúmlega 400 þúsund. Rifbein. Rifbein (eða rif) er eitt af beinunum sem umlykja brjósthol manna og sumra dýra. Venjulegur brjóstkassi manns samanstendur af 24 rifbeinum, 12 á hvorri hlið. "Beinserkur" er skapnaður sem lýsir sér þannig að rifjahylkið nær niður á mjaðmarbein (þ.e. ekkert bil á milli mjaðmanna og rifjanna).´Áður fyrr þótti beinserkur merki um hreysti og styrkleika, þó menn gætu tæpast beygt sig. Var þá til dæmis sagt: "Sveinn var karlmenni mikið, kallað hann hefði beinserk." Beinserkur hefur þó síðan verið notað í yfirfærðri merkingu um stirðleika og fornaldarbrag, sbr: "Þetta var úreltur vísindastíll, sem lá eins og beinserkur utan um hugsunarhátt gömlu háskólamannanna." Abubaker Kaki Khamis. Abubaker Kaki Khamis (fæddur 21. júní 1989) er súdanskur hlaupari sem sérhæfir sig í 800 metrum. Í febrúar 2008 náði hann besta tíma ársins í 1000 metra hlaupi, 2:15,7, í Svíþjóð. 9. mars varð hann yngsti heimsmeistari í 800 metra hlaupi innanhúss, þá 18 ára og 262 daga gamall.. Á Bislett Games í Ósló 6. júní 2008 vann hann 800 metra hlaupið á tímanum 1:42,69 sem reyndist vera nýtt heimsmet ungmenna. Gamla metið (1:43,64) átti Kenýumaðurinn Japheth Kimutai. Kaki keppti á sumarólympíuleikunum 2008 og var fánaberi Súdans á opnunarhátíðinni. Kenenisa Bekele. Kenenisa Bekele (fæddur 14. júní 1982 í Eþíópíu) er eþíópskur langhlaupari. Hann á heimsmet í 5.000 og 10.000 metra hlaupi. Þá hefur hann í tvígang tekið ólympíugull í 10.000 metrum og er sigursælasti hlaupari í "IAAF World Cross Country Championships" (víðavangshlaupi Alþjóða frjálsíþróttasambandsins) með því að hafa sigrað 12 kílómetrana sex sinnum og 4 kílómetra fimm sinnum. Yngri bróðir hans, Tariku Bekele, er einnig langhlaupari. Tariku Bekele. Tariku Bekele (fæddur 21. janúar 1987) er eþíópskur langhlaupari sem sérhæfir sig í 5.000 metra hlaupi. Hann er yngri bróðir Kenenisa Bekele. Yipsi Moreno. Yipsi Moreno González (fædd 19. nóvember 1980 í Camagüey) er kúbverskur sleggjukastari. Hún er tvöfaldur heimsmeistari og silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikunum 2004 og 2008. Mjólkurbúð. Mjólkurbúð er verslun sem verslar nær eingöngu með mjólk og hvítan mat. Mjólkurbúðir á Íslandi. Farið var að stofna sérhæfðar mjólkurbúðir í Reykjavík um 1910 vegna krafna um aukið hreinlæti við meðferð mjólkurafurða. Í kjölfar afurðasölumálsins sem lyktaði með því að samvinnufélögin fengu einkaleyfi á sölu ýmissa landbúnaðarafurða voru allar mjólkurbúðir eftir 1934 reknar af Mjólkursamsölunni. Mjólk fékkst þá ekki seld í matvörubúðum, nema með vissum undantekningum. Síðasta mjólkurbúðin var lögð niður 1. febrúar 1977, en þá féllu úr gildi rúmlega 40 ára gömul lög varðandi mjólkursölu og matvöruverslanir tóku að sér alla smásölu mjólkurvara. Nokkrar sérhæfðar mjólkurbúðir störfuðu þó áfram um allt land í nokkur ár en reyndu að auka vöruúrval, meðal annars með sölu rjómaíss. Síðasta mjólkurbúð Mjólkursamsölunnar við Laugarveg 162 lokaði 1986. Mjólkurbúð á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs var breytt í bakarí um 1990. Mörg kvörtunarbréf varðandi mjólkurbúðirnar voru skrifuð í blöðin þau ár sem búðirnar störfuðu. Var þá aðallega kvartað yfir lélegri afgreiðslu (og afgreiðslutímanum), óliðlegheitum starfstúlkna (eða fasi þeirra), vinnuálaginu sem á þeim var þegar mjólkin kom, aðstöðu búðanna og sum árin yfir því að ekki fengist mjólk, eða of lítið af henni. Amalgam. Amalgam (stundum nefnt vatnssilfur) er málmblanda (kvikasilfursblendingur), t.d. blendingur kvikasilfurs og t.d. kopars, silfurs, gulls, tins eða sinks. Amalgam er einkum notað í tannfyllingar og speglagerð. Fábio Gomes da Silva. Fábio Gomes da Silva (fæddur 4. ágúst 1983 í Campinas) er brasilískur stangarstökkvari. Persónulegt met hans, og jafnframt brasilískt met, er 5,77 metrar en það setti hann í júní 2007 í São Paulo. Lyfjafræði. Lyfjafræði er sú heilbrigðisgrein sem tengir saman heilbrigðisvísindi og efnafræði. Lyfjafræðingum er treyst til að tryggja að sjúklingar fái rétt lyf í réttum skömmtum. Í hefðbundinni lyfjafræði er einnig fengist við að blanda og gefa lyf. Nútímalyfjafræði fæst við ýmis efni tengd umönnun sjúklinga, þar með talið klíníska þjónustu, athugun á lyfjum frá sjónarhóli öryggis og skilvirkni og upplýsingagjöf um lyf. Lyfjafræði er kennd við Háskóla Íslands sem 3ja ára BS-nám og 2ja ára MS-nám. Andrej Silnov. Andrej Silnov (rússneska: Андрей Сильнов, fæddur 9. september 1984 í Sjakti) er rússneskur hástökkvari. Hann sigraði hástökkskeppni karla á Ólympíuleikunum 2008. Silnov tók gull á Evrópumótinu 2006 þegar hann stökk 2,36 metra. Þar með bætti hann gamalt evrópumet Steinars Hoen frá árinu 1994 um einn sentimetra. Viku eftir Evrópumótið stökk Silnov 2,37 metra í Mónakó en það var besta stökk ársins. 25. júlí 2008 setti hann persónulegt met á London Grand Prix er hann stökk 2,38 metra og náði þá síðasta sætinu í rússneska frjálsíþróttaliðinu fyrir ÓL-08. Vinulág. Vinulág eða Amorsspor er lóðrétt dæld eða lægð í eftri vörinni sem liggur undir miðsnesinu á fólki að amorsboga. Vinulág heitir "philtron" (φιλτρον) á grísku, sem kemur úr "philein" (φιλειν) sem merkir „að elska, kyssa“. Íslenska orðið "vinulág" er hugsað rétt eins og það gríska það er að segja „lág“ (sem merkir „dæld“) vinkonunnar eða vinar. Þetta nýyrði er talið komið frá Bjarna Pálssyni, landlækni. Nokkrir sem skrifuðu pistlahöfundi íðorðagreina í Læknablaðinu vildu um tíma nefna þetta "miðsnesisgróf" og "efrivararrennu", en hvorgt heitið hefur þó náð festu í íslensku máli. Meinafræði. Ef vinulágin nær ekki að myndast fullkomlega getur myndast skarð í vör. Flöt eða slétt vinulág getur verið merki um að móðir viðkomandi hafi neytt áfengis á meðgöngutíma. Þríforkur. Þríforkur (Latína: "tridens") er kvísl með þremur tindum og minnir nokkuð á heykvíslina. Þríforkurinn var vopn og veldissproti sjávarguðsins Posídons í grískri goðafræði og Neptúnúsar í rómverksri goðafræði. Þríforkurinn er sumstaður notaður við veiðar og honum beitt eins og ljósti. Ljóstur. Ljóstur (eða fiskispjót'") er stöng með járnoddi á, notuð til að veiða fisk af ströndu eða árbakka eða til að bana hákarli þegar hann er dreginn upp að síðu báts. Ljóstur er sumstaður notaður til að ná fugli úr holum t.d. lunda. Í frumstæðustu mynd sinni er ljóstur sjálfsagt með elstu veiðiverkfærum sem maðurinn gerði sér til fiskveiða. Miðsnesi. Miðsnesi (eða miðnesi) er brjóskveggurinn á milli nasaholanna í nefinu. Talað er um miðsnesi bæði á mönnum og dýrum (t.d. nautum sem oft eru með hring í miðsnesinu). Varast ber að ruglast á örnefninu Miðnes (sem í þágufalli er Miðnesi) saman við miðnesi eða miðsnesi sem eru hvorkyns orð og enda á -i í nefnifalli. Atkvæði orðsins skiptast á ð og s, þ.e. mið|snesi. Ruslana Lyzhichko. Ruslana Lyzhichko (fædd 24. maí 1973) er úkranísk söngkona sem sigraði Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2004 með lagi sínu „Wild Dances“. Pokadýr. Pokadýr (fræðiheiti: "Marsupialia") eru dýr af frumstæðum ættbálki spendýra. Pokadýr eru flest með poka undir kviðnum og bera unga sína þar í uns þeir eru orðnir fullburða (sbr. t.d. kengúrur). Ástralía er helsta heimkynni pokadýranna, ásamt Nýju Gíneu. Í lok krítar og byrjun tertíer voru pokadýr aftur á móti algeng á öllum meginlöndum. Menningarnótt. Menningarnótt er árlegur íslenskur atburður sem haldinn er í Reykjavík á fyrsta laugardegi eftir 18. ágúst og hefur Menningarnótt verið haldin frá árinu 1996. Borgarstjórn Reykjavíkur stofnaði til Menningarnætur og hefur hún með tímanum orðið einn stærsti atburður Íslands, eins og 17. júní. Talið er að um 100.000 manns mæti árlega til að sækja atburði eins og tónleika og hátíðir sem má teljast gott miðað við íbúafjöldann í Reykjavík. Atvik á menningarnótt. Á menningarnótt árið 2005 var 18 ára piltur tvívegis stunginn í bakið, og var 17 ára unglingur handtekinn og sakfelldur í kjölfar þess. Dayron Robles. Dayron Robles (fæddur 19. nóvember 1986 í Guantánamo) er kúbverskur grindahlaupari. Hann er núverandi heimsmethafi í 110 metra grindahlaupi með tímann 12,87 sekúndur. Metið setti hann 12. júní 2008. Í undanúrslitum á ólympíuleikunum 2008 hljóp Robles á tímanum 13,12 sekúndum. Hann sigraði svo úrslitin á tímanum 12,93 sekúndur. Grindahlaup. Grindahlaup telst til frjálsra íþrótta og er kapphlaup á hlaupabraut með 10 grindum, yfirleitt 400 m, 110 m (karlar) eða 100 m (konur). Hæð grinda í 110 m. grindahlaupi 91,4 cm. Grindahlaup er kapphlaup yfir lausar hindranir, en hindrunarhlaup yfir fastar hindranir. Hástökk. Hástökk er ein grein frjálsíþrótta og er stökk yfir slá án allra hjálpartækja. Keppt er í hástökki með eða án atrennu, en með atrennu er algengari keppnisgrein. Hökuskarð. Hökuskarð (einnig nefnt pétursskarð eða pétursspor) er eins og nafnið gefur til kynna skarð í hökunni. Hökuskarð er erft einkenni í mannverum þar sem ríkjandi genið veldur skarði í hökinni á meðan víkjandi genið veldur skarðlausri höku. Haka. Hakan er í líffærafræði mannsins lægsti hluti andlitsins. Stírur. Stírur kallast storknuð tár í augnkrókum. Vanalega myndast stírur ekki í vöku, heldur meðan viðkomandi sefur. Þegar svo er komið er talað um að sá sé með „stírur í augunum“ og nær þeim úr með því að "núa stírunum úr augunum". Athugið að sögnin „að "stíra"“ er eiginlega aðeins notuð í orðasambandinu „einhvern stírir í augun“ sem merkir að einhver verður þreyttur í augunum. Stírur er nefnilega einnig haft um þreytu í augum, sbr. lýsingarorðið stírueygður. Um orðið. Ekki er vitað um að þetta orð sé notað í eignarfalli. Orðsifjar. Orðið „stírur“ er samstofna nýnorska orðinu "stira", miðsænska orðinu "stira" (sem merkir að „stara“), austur-frísneska orðinu "stīren" (að „stífna“ eða að „stara“), nýháþýska orðinu "stieren" (að „stara“). Bara má saman við austur-frísneska orðið "stīr" („stífur“), nýháþýska orðið "stier" („stífur“, „stafandi“). Sagnorðið að "stíra" er líklega dregið af lýsingarorðinu "*stīra-", "*stĭra-" (samanber íslenska orðið "stira" sem merkir að „stara“). Einnig tengt litháíska orðinu "stỹros ãkys" („stýrð augu“), "stìrsti" (að „stífna“), latneska orðinu "stīria" („dropi sem hefur frosið“, „klaki“, „grýlukerti“), gríska orðinu "stílē" („dropi“) sem er af rótinni "*stā-", "*stĭ-" (að „vera stífur“, að „þrengjast saman“) með l-viðskeyti. Berist saman við orðið "steinn", "stía", "stím" og mögulega "stíll". Síðara Slésvíkurstríðið. Síðara Slésvíkurtríðið hófst 1. febrúar 1864 þegar þýskir hermenn héldu yfir landamærin inn í Slésvík, en endaði með Vínarsamningnum 30. október 1864 þar sem þýsk yfirráð yfir Slésvík, Holtsetalandi og Lauenburg voru viðurkennd. Arnór Atlason. Arnór Atlason, mynd tekin 30. ágúst 2008 Arnór Atlason, mynd tekin í ágúst 2007 Arnór Atlason (fæddur 1984) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með danska liðinu FC Köbenhavn. Arnór lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Ásgeir Örn Hallgrímsson. Ásgeir Örn Hallgrímsson (f. 17. febrúar 1984) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með danska liðinu GOG Svendborg. Ásgeir lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Bjarni Fritzson. Bjarni Fritzson (f. 1980) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með íslenska liðinu Akureyri. Björgvin Páll Gústavsson. Björgvin Páll Gústavsson (f. 24. maí 1985) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með SC Magdeburg í Þýskalandi. Björgvin er markmaður. Björgvin lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Áður en Björgvin fór til Þýskalands lék hann með FRAM og þar áður með HK. Hreiðar Levý Guðmundsson. Hreiðar Levý Guðmundsson (f. 29. nóvember 1980) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með sænska liðinu Sävehof. Hann er markvörður. Hreiðar lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Hann keppti einnig á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011. Ingimundur Ingimundarson. Ingimundur Ingimundarson (f. 29. janúar 1980) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur nú með Fram. Ferilinn hóf hann á Íslandi með ÍR en hefur síðan þá leikið í Sviss, Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Hjördís Þóra er mikill aðdáandi hans. Ingimundur lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Logi Eldon Geirsson. Logi Eldon Geirsson (fæddur 10. október 1982) er fyrrverandi íslenskur handknattleiksmaður sem lék með íslenska liðinu FH. Foreldrar Loga eru þau Geir Hallsteinsson og Ingibjörg Eldon Logadóttir. Skólaganga Loga hófst á Leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði og þaðan lá leið hans í Engidalsskóla. Hann lauk síðan stúdentsprófi frá Flensborg. Logi lék handknattleik frá blautu barnsbeini og ólst upp sem handboltamaður í Hafnarfirði. Hann hóf feril sinn hjá FH í Hafnarfirði en fór til Lemgo árið 2004. Logi lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Logi varð evrópumeistari með félagsliði sínu 2006. Róbert Gunnarsson. Róbert Gunnarsson (fæddur 22. maí 1980) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með franska liðinu Paris Saint-Germain. Róbert lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Sigfús Sigurðsson. Sigfús Sigurðsson (fæddur 7. maí 1975) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með íslenska liðinu Val. Sigfús lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Snorri Steinn Guðjónsson. 300px Snorri Steinn Guðjónsson (fæddur 17. október 1981) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með AG Köbenhavn Snorri Steinn lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Hann var valinn í úrvalslið Ólympíuleikanna og var markahæstur íslensku leikmannanna á mótinu með 48 mörk. Snorri steinn vann síðan sín önnur verðlaun með íslenska landsliðinu á stórmóti þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Sturla Ásgeirsson. Sturla Ásgeirsson (f. 20. júlí 1980) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með danska liðinu Aarhus Gymnastikforening. Sturla lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Sverre Andreas Jakobsson. Sverre Andreas Jakobsson 12. ágúst 2007 Sverre Andreas Jakobsson (fæddur 8. febrúar 1977) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með þýska liðinu Grosswallstadt. Sverre lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Faðir Sverre er Jakob Björnsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, móðir hans er norsk Sverre hefur spilað með HK og Aftureldingu og nokkrum liðum öðrum. Vatnsveitubrú. Vatnsveitubrú (eða vatnsbrú) er mannvirki sem minnir helst á brú og er reist er til að veita vatni frá einum stað til annars. Rómverjar reistu margar vatnsveitubrýr sem spönnuðu yfir dali og gil þegar þeir lögðu vatnsveitustokka (vatnslagnir) til hinna ýmsu borga. Rejsen til Saturn. Rejsen til Saturn (Íslenska. "Ferðin til Satúrnusar") er tölvuteiknuð mynd sem fjallar um hóp af dönskum geimförum sem eru sendir til plánetunar Satúrnusar í leit að náttúruauðlindum. Myndin er byggð á samnefndum teiknimyndasögum eftir Claus Deleuran. Israel Kamakawiwo'ole. Israel „Bruddah Iz“ Kamakawiwo'ole (fæddur 20. maí 1959, látinn 26. júní 1997) var tónlistarmaður frá Hawaii. Hann varð fyrst frægur eftir að fyrsta breiðskífa hans, "Facing Future", kom út árið 1993. Á skífunni var ábreiður hans af lögunum „Over the Rainbow“ og „What a Wonderful World“ sem síðar hafa verið notaðar í mörgum kvikmyndum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Kamakawiwo'ole var kallaður „The Gentle Giant“. Honum var lýst sem glöðum og jákvæðum manni og að hann elskaði lands sitt og íbúa Hawaii. Hann var einn þekktasti tónlistarmaðurinn á eyjunum. Fyrstu árin. Israel Ka'ano'i Kamakawiwo'ole fæddist á Ni'ihau en fluttist ungur á eyjuna O'ahu og ólst upp í Kaimuki, rétt fyrir utan Waikīkī. 11 ára byrjaði hann í tónlist ásamt eldri bróður sínum, Skippy. Þegar Israel var 13-14 ára flutti fjölskyldan til Makaha og hitti þar með Louis „Moon“ Kauakahi, Sam Gray, og Jerome Koko. Ásamt þeim og Skippy stofnaði Israel hljómsveitina Makaha Sons of Ni’ihau. Frá 1976 til 1980 gaf hljómsveitin út fimm breiðskífur og hlaut nokkra frægð á Hawaii-eyjum og á meginlandi Bandaríkjanna. Árið 1982 lést Skippy úr hjartaáfalli. Sama ár kvæntist Iz kærustunni sinni, Marlene. Tónlistarferill. Árið 1990 gaf hann út fyrstu sólóplötu sína, "Ka'ano" en hún hlaut verðlaun sem "Contemporary Album of the Year" og "Male Vocalist of the Year" hjá "Hawaiʻi Academy of Recording Arts" (HARA). Breiðskífan "Facing Future" kom út þremur árum síðar og telst vera best breiðskífa Kamakawiwo'ole. Á henni má finna lög á borð við „Somewhere Over The Rainbow/What a Wonderfull World“, „Hawaii 78“, „Whute Sandy Beach of Hawaii“, „Maui Hawaiian Man“ og „Kaulana Kawaihae“. "Facing Future" komst í 25. sæti Billboard Magasin's Top Pop Catalogue-listans. 26. október 2005 varð platan fyrsta platan frá Hawaii sem komst í platínusölu. Alls seldist hún í meira en 1 milljón eintökum í Ameríku. Árið 1995 var Iz kosinn flytjandi ársins af Hara. 1997 var hann á ný kosinn af HARA, nú hlaut viðurkenningar sem "Male Vocalist of the Year", "Favorite Entertainer of the Year", "Album of the Year" og "Island Contemporary Album of the Year". Vegna veikinda gat hann ekki verið til staðar við verðlaunaafhendinguna heldur fylgdist með henni í sjúkrahúsherbergi sínu. Andlát. Á síðustu æviárum sínum átti Israel Kamakawiwo'ole við offitu að stríða og á tímabili reyndist hann 343 kg að þyngd, þá 1,88 m á hæð. Hann var oft lagður inn á spítala en lést svo vegna öndunarfærasjúkdóms 26. júlí 1997 klukkan 12.18, aðeins 38 ára að aldri. Havæski fáninn var dreginn í hálfa stöng á meðan á jarðaförinni stóð þann 10. júlí 1997. Kistan stóð í aðalbyggingunni á Honolulu svo fólk gæti borið hana augum. Alls komu um 10 þúsund manns í jarðaförina. Ösku Iz var dreift á Kyrrahaf tveimur dögum eftir jarðaförina.. Straumönd. Straumönd (fræðiheiti: "Histrionicus histrionicus") er fugl af andaætt. Straumönd er staðfugl á Íslandi og verpir um nær allt land, en mest í kringum Mývatn. Þar er líklegasta þéttasta straumandarvarp í heimi. Straumendur eru alfriðaðar. Rauðhöfðaönd. Rauðhöfðaönd (rauðdúfuönd, rauðhöfði eða brúnhöfði, rauðkolla eða rauðhöfðagráönd (en svo er hún nefnd við Mývatn)) (fræðiheiti: "Anas penelope") er fugl af andaætt, varpfugl á Íslandi og eru nokkuð algengar á láglendi um allt land einkum þó í Þingeyjarsýslum. Rauðhöfðaendur eru veiddar í einhverju magni hér á landi. Rauðhöfðaöndin er algengasta gráöndin á Mývatni. Milli 500-2000 pör eru við vatnið á vorin. Korpönd. Korpönd (fræiheiti: "Melanitta fusca") er fugl af andaætt. Korpöndin er flækingur á Íslandi. Windows 7. Windows 7 (áður þekkt með dulnefninu „Blackcomb“ og seinna „Vienna“) er nafnið á nýjustu útgáfu af stýrikerfinu Windows, sem tók við af Windows Vista. Windows 7 kom út 22. október 2009 og fæst annað hvort sem 32-bita (x86) eða 64-bita (x64). Útgáfur. Windows 7 var gefið út í sex mismunandi útgáfum. Þær eru "Home Premium", "Enterprise", "Ultimate", "Professional", "Starter" og "Home Basic". Einnig komu út undirútgáfurnar N og KN, þar sem Windows forritum á borð við "Media Player", "Windows Media Center" og "Windows DVD maker" var sleppt. Þjónustu pakkar. Þjónustu pakki 1 (service pack 1 á ensku) var gefinn út 9. febrúar 2011. Þjónustupakkinn er öryggisuppfærsla sem einnig bætir möguleika og þjónustur í stýrikerfinu, eins og HDMI hljóð og prentun með XPS Viewer. Breytingar og áfangar. Windows 7 hefur náð áfanga 1 (M1). Áfangi 1 var með útgáfunúmer af 6.1.6519.1. og var sendur til lykil félaga, í bæði 32-bit (x86) og 64-bit (x64), í janúar 2008. Samkvæmt upplýsingum sem voru sendar til "TG Daily" hefur áfangi 1 bætt við stuðningi við mörg skjákort sem vinna saman og nýja útgáfu af Windows Media Center. Esja (hljómsveit). Esja er íslensk hljómsveit sem spilar suðurríkja-rokk og ballöður. Aðal sprauturnar í hjómsveitini eru Krummi Björgvinsson oft kenndur við hljómsveitina Mínus og Daníel Ágúst Haraldsson sem hefur starfað í hjómsveitunum Nýdönsk og GusGus. Fyrsta plata hljómsveitarinnar, sem bar sama nafn og hún, kom svo út 8. ágúst 2008 og tekið að selja hana á tonlist.is 12. ágúst. Breiðskífur. Esja (2008) Steven Hooker. Steven Hooker (fæddur 16. júlí 1982 í Melbourne) er ástralskur stangarstökkvari og núverandi ólympíumeistari í greininni. Hans besti árangur eru 6,00 metrar en því náði hann 27. janúar 2008 í Perth. Komst hann þannig upp að hlið Paul Burgess sem næst besti stangarstökkvari Ástralíu, eftir Dmitri Markov. Á Ólympíuleikunum 2008 vann Steven Hooker gullverðlaun og setti nýtt ólympíumet með hæðinni 5,96 metrar. Erica Hooker, móðir hans, keppti á ólympíuleikunum 1972 og hlaut silfurverðlaun á Samveldisleikunum 1978 í langstökki. Þá á hún 9 Ástralíutitla í greininni. Faðir Steven, Bill var í boðhlaupssveit Ástralíu á Samveldisleikunum 1978 (4x400m karla) og einnig í 800 metra hlaupi. Auk þess vann hann 4 Ástralíutitla. Marorka. Marorka er íslenskt fyrirtæki sem þróar orkustjórnunarkerfi fyrir skip með það að marki að draga úr olíunotkun skipa og þar með eldsneytiskostnaði og mengun. Fyrirtækið var stofnað í júní árið 2002 og er sprottið af vinnu Dr. Jóns Ágústar Þorsteinssonar, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins, við doktorsverkefni sitt í vélaverkfræði frá Álaborgarháskóla. Stjórnarformaður Marorku er Þórður Magnússon. Kerfi frá Marorku hafa verið sett upp um borð í skip af margvíslegum stærðum og gerðum; Fiskiskipum, flutningaskipum og skemmtiferðaskipum. Árið 2008 var Marorka eitt af 37 norrænum fyrirtækum sem tilnefnd voru til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Marorka er með gæðakerfi, og er vottað af Det Norske Veritas. Frétt. Fréttir eru upplýsingar um það hvað er að gerast í heiminum og hvað stendur helst upp úr. Sandur (landslagsþáttur). Sandur (í fleirtölu sandar) er slétta sem myndast úr seti frá bráðnuðum jöklum. Sandar eru algengir á Íslandi því eldvirkni undir jöklum hraðar því að set myndist úr bráðnuðu jökulvatni. Skeiðarársandur. Skeiðarársandur er gríðarstórt sandflæmi undan Skeiðarárjökli sem nær til sjávar. Skeiðarársandur er myndaður af framburði jökuláa og er stærsti sandur í heimi en hann þekur um 1300 km² svæði. Eldgos undir jöklinum hafa valdið mörgum jökulhlaupum, síðast árið 1996. Þessi hlaup sem eiga upptök sín í Grímsvötnum eru kölluð Skeiðarárhlaup. Næst jöklinum er Skeiðarársandur afar grýttur, nánast stórgrýti en eftir því sem fjær dregur er sandurinn aur og möl og næst sjó er hann sandur og leir. Lítill gróður er á Skeiðarársandi. Sandurinn er mikilvægt selalátur. Landselur og útselur kæpa við ströndina. Skeiðarársandur er eitt stærsta varpsvæði skúms á Íslandi. Sandurinn er eitt aðalvaxtarsvæði safastarar á Íslandi. Mörg skip hafa strandað á sandinum í aldanna rás, þekktasta strandið var 19. september árið 1667 þegar Het Wapen van Amsterdam strandaði þar. Árið 1904 var byggt skipbrotsmannaskýli á sandinum og var það fyrsta slíka skýlið á Íslandi. Het Wapen van Amsterdam. Het Wapen van Amsterdam (stundum nefnt gullskipið) var hollenskt skip sem sigldi frá Austur-Indíum árið 1667. Það strandaði á Skeiðarársandi 19. september 1667. Skipið var hlaðið dýrmætum varningi og með 200 manns innanborðs. Af þeim björguðust 60 eftir mikla hrakninga en hinir 140 létust úr sjóvolki og kulda. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að finna skipið í sandinum en þær hafa ekki borið árangur. Ýmsir töldu að skipið hefði borið verðmætan farm frá Austur-Indíum sem hefði grafist með flakinu í sandinn en á móti hafa menn bent á heimildir sem gefa til kynna að skipið hafi verið rifið og viðir þess nýttir í áratugi eftir strandið. Leitin að gullskipinu. Saga skipulegrar leitar að skipsflakinu í sandinum hófst á því að Bergur Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri fékk árið 1960 leyfi frá forsætisráðherra til að leita að skipinu gegn hlut í því sem fyndist. Leitin hófst samt ekki fyrr en árið 1971 þegar hópur athafnamanna með Kristinn Guðbrandsson, kenndan við fyrirtækið Björgun, innanborðs kom að málinu í samstarfi við Berg. 1974 kom ábending frá starfsmönnum Varnarliðsins um skipsflak á ákveðnum stað í sandinum. Uppgröftur leiddi ekkert í ljós en 1981 sýndu mælingar annað flak á öðrum stað en talið var að skipið hefði strandað. Mikill uppgröftur var hafinn þar með 50 milljón króna ríkisábyrgð árið 1983 en þegar til kom reyndist það vera flak af þýska togaranum "Friedrich Albert" frá Getsemünde sem strandaði 19. janúar 1903. Bækur og kvikmyndir. Tvær barnabækur eftir Ármann Kr. Einarsson frá 7. áratugnum fjalla um leit að gullskipinu, "Óli og Maggi með gullleitarmönnum" 1966 og "Óli og Maggi finna gullskipið" 1968. Kvikmynd Ágústs Guðmundssonar "Gullsandur" frá 1985 fjallar um tvo bandaríska hermenn sem hyggjast leita að skipinu. 1986 kom síðan út ævisagan "Kristinn í Björgun" eftir Árna Johnsen þar sem saga leitarinnar er rakin. Giötheborg. Giötheborg var danskt herskip sem strandaði á Hraunsskeiði við Ölfusárósa 7. nóvember 1718. Flestir af áhöfn skipsins komust lífs af, en skipið sjálft varð eyðileggingunni að bráð og leifar þess grófust í sandinn, þar á meðal dýrmætar koparfallbyssur, sem talið er að hafi verið milli fimmtíu og sextíu talsins. Bæjarstaðaskógur. Bæjarstaðaskógur er birkiskógur í Morsárdal, vestan við Skaftafell. Skógurinn er í vesturhlíð dalsins og snýr móti suðaustri. Hann var girtur af árið 1935, alls 22 ha, sem voru að hálfu vaxnir skógi. Skógrætarfélag Íslands sá um framkvæmdir en frjáls samskot stóðu undir kostnaði. Bæjarstaðarskógur er talinn einhver þróttmesti birkiskógur hérlendis með allt að 12 m háum trjám, sem eru beinvaxnari en gerist yfirleitt með íslenskt birki. Þar er einnig nokkuð af reynitrjám. Laufásvegur. Laufásvegur er gata í miðbæ Reykjavíkur og liggur samsíða Smáragötu og Fjólugötu til vesturs og Bergstaðastræti til austurs og klofnar svo í Þingholtsstræti við hringtorg hjá Breska og Þýska sendiráðinu, og endar þar sem Bókhlöðustígur kemur niður úr Þingholtsstræti. Hið íslenska ljósmyndafélag. Hið íslenska ljósmyndafélag (sem síðar varð Ljósmyndafélag Íslands) var stofnað 18. október 1952 á Hótel Borg. Félagið var stofnað til að vinna að því að „viðurkennt verði hið listræna viðhorf fólks til ljósmyndarinnar og til þess að efla og glæða skilning fólks á auknum listrænum kröfum til ljósmynda“. Leifur Muller. Leifur Muller (fæddur Müller 3. september 1920, dáinn 24. ágúst 1988) var íslenskur kaupmaður, sem tekinn var til fanga af Nasistum í Noregi sumarið 1943. Hann var fangi í Sachsenhausen fangabúðunum við Oranieburg nálægt Berlín og var í haldi til stríðsloka. Fanganúmer hans var "68138". Leifur ritaði tvær bækur um dvöl sína í fangabúðunum sem nefndust: "Í fangabúðum nasista" og "Býr Íslendingur hér?". Faðir hans var hinn norskættaði "Lorentz H. Müller", sem rak íþróttaverslun að Austurstræti 17 um miðja 20. öld. Móðir hans hét "Marie Bertelsen" og var norsk. Þau bjuggu lengi vel á Stýrimannastíg 15. Skolpdýr. Skolpdýr (fræðiheiti: "infusoria") eru einfrumungar (svo nefnd frumdýr). Skolpdýr eru flóknari að líkamsbyggingu en nokkur önnur frumdýr. Þau hafa mörg, lítil bifhár og eru ýmist þakin bifhárum um allan líkamann eða eingöngu með bifhár á ákveðnum hlutum yfirborðsins. Frumdýrafylkingunni er oft skipt í fjóra flokka, og er þá flokkað eftir hreyfifærum dýranna á aðalskeiði ævinnar. Flokkarnir eru: svipudýr ("Flagellata"), slímdýr ("Rhizopoda"), gródýr ("Sporozoa") og skolpdýr. Guðmundur Oddur Magnússon. Guðmundur Oddur Magnússon, oft kallaður Goddur, er listamaður og prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Guðmundur Oddur er frá Akureyri. Hann nam við grafíkdeild og nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans 1976-1979. Á árunum 1980-1982 rak hann galleríið "Rauða húsið" á Akureyri. Hann starfaði á auglýsingastofunum Tímabæ og Midasi í Reykjavík til 1986 en nam síðan grafíska hönnun við Emily Carr College of Art and Design í Vancouver í Bresku Kólumbíu frá 1986 til 1989 og starfaði sem grafískur hönnuður í eitt og hálft ár hjá ION design í Vancouver. Árið 1991 flutti Guðmundur Oddur til Akureyrar og vann að stofnun Listamiðstöðvar í Grófargili. Hann kom á námi í grafískri hönnun við Myndlistarskólann á Akureyri 1993 og varð deildarstjóri í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995 til loka skólans 1999. Síðan vann hann að stofnun hönnunardeildar við Listaháskóla Íslands og var deildarstjóri í grafískri hönnun frá upphafi. Hann var ráðinn prófessor í grafískri hönnun við LHÍ 2002. Guðmundur Oddur hefur undirbúið eða skipulagt fjölda sýninga í hönnun og myndlist. Má þar nefna MÓT hönnunarsýninguna á Kjarvalsstöðum árið 2000, yfirlitsýningu Harðar Ágústsonar á Kjarvalsstöðum 2005, sovésk-pólitíska plakatasýningu í Hafnarhúsinu 2003 og sýningu á Nýja málverkinu í Nýlistasafninu árið 2000. Guðmundur Oddur starfar sem sjálfstæður hönnuður meðfram kennslu og vinnur mest að hönnun fyrir menningarstofnanir. Hann hefur skrifað fjölda greina um hönnun og myndlist í íslensk blöð. Verk hans hafa birst í fjölda tímarita og bóka í Asíu, Ameríku og Evrópu. Jón Stefánsson (Filippseyjakappi). Jón Stefánsson nefndur Filippseyjakappi (27. apríl 1873 – 29. október 1932) var Íslendingur sem barðist sem liðforingi í Filippseyjarstríðinu ameríska (enska: "Philippine-American War") og fékk því viðurnefnið "Filippseyjakappi". Jón var sonur sr. Stefáns Péturssonar og Ragnhildar Bjargar Mathúsalemsdóttur. Jón lést í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum, nærri sextugur að aldri. Árin fyrir andlát sitt hafði hann starfað við eina stjórnardeild Bandaríkjastjórnar í Washington D.C.. Jón fór ungur til Bandaríkjanna, stundaði þar nám og störf á síðasta áratug 19. aldar og gekk þá í Bandaríkjaher. Hann tók þátt í Filippseyjarstríðinu ameríska, og vann sig þar upp í liðsforingjatign, og var eftir það einatt nefndur: "Filippseyjarkappi". Hann sneri svo aftur til Íslands, fór síðan í Verslunarskóla í Kaupmannahöfn, settist að á Seyðisfirði og stundaði þar verslunarstörf, en fluttist síðan alfarinn til Bandaríkjanna. Jón var kvæntur Sólveigu Jónsdóttur (sem var dóttir Jóns alþingismanns frá Múla). Hún lifði eiginmann sinn og sex börn þeirra, 4 synir og 2 dætur. Einn sonur þeirra var Ragnar Stefánsson ofursti og annar var Björn Stefánsson alþingismaður. Camille Flammarion. Nicolas Camille Flammarion oftast nefndur Camille Flammarion (26. febrúar 1842 – 3. júní 1925) var franskur stjörnufræðingur og rithöfundur. Hann skrifaði bókina "Úraníu" (franska: "Uranie") sem Björn Bjarnason frá Viðfirði þýddi. Hún kom fyrst út á íslensku árið 1898 og svo aftur 1947. Tenglar. Flammarion, Camille Flammarion, Camille Handknattleikur á sumarólympíuleikunum 2008. Handknattleiksmót fer fram á sumarólympíuleikunum 2008 í Peking í Kína dagana 10 til 24. ágúst. Keppt er í karla- og kvennaflokki. Fjölbrautaskóli Snæfellinga. Fjölbrautaskóli Snæfellinga (skammstafað sem FSN) er íslenskur framhaldsskóli sem staðsettur er í Grundarfirði. Skólinn tók til starfa 30. ágúst 2004. Skólameistari er Jón Eggert Bragason en fyrsti skólameistari var Guðbjörg Aðalbergsdóttir. Fallbyssa. Fallbyssa (fallstykki, stykki eða kanóna) er mjög stór byssa, oftast á fæti, og notast við þung skot. Í upphafi voru fallbyssur oftast steyptar í heilu lagi, en seinna voru þær lóðaðar saman úr minni einingum. Elstu fallbyssur eru frá 12 - 13. öld, en finna má lýsingar á fallbyssum frá 3. öld f.Kr. Það voru frumstæðar fallbyssur og voru ekki knúnar með byssupúðri. Nútíma fallbyssur er stundum nefndar stórskotabyssur. "Klumba" var orð sem haft var um fallbyssu með vissu lagi og "skrúfbyssur" eru tegund af litlum fallbyssum sem eru gerðar í tvennu lagi, og voru skrúfaðar saman þegar notast þurfti við þær. Byssur þessar voru notaðar í fjallahernaði þar sem erfitt gat verið að athafna sig með venjulegar fallbyssur. Fallbyssur sem dregnar voru áfram á hjólakerrum voru nefndar "kerrubyssur". Ólafsvíkurenni. Ólafsvíkurenni gnæfir yfir Ólafsvík Bæjarfossgil milli Tvísteinahlíðar og Ennis. Ólafsvíkurenni eða Enni er 418 m hátt, bratt og klettótt fjall vestan við Ólafsvík á Snæfellsnesi. Skriður og snjóflóð falla oft á veginn sem liggur með sjónum undir Enninu. Austurhlíð Ennisins vestan Ólafsvíkur nefnist Ennishlíð. Sunnan, og að hluta til vestan, byggðarinnar í Ólafsvík er lág hlíð sem nefnist Tvísteinahlíð. Bæjarfossgil er milli Ennis og Tvísteinahlíðar og um það rennur lækur gegnum bæinn til sjávar. Upp á Enni er göngufært um Ennisdal og er útsýni sagt mikið og gott þegar upp á toppinn er komið. Snjóflóð sem braut niður steypustöðina Bjarg varð 22. febrúar 1984. Menntaskólinn á Ísafirði. Menntaskólinn á Ísafirði (oft skammstafað MÍ) er íslenskur menntaskóli, staðsettur á Torfnesi á Ísafirði. Núverandi skólameistari er Jón Reynir Sigurvinsson. Saga skólans. Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970, og var settur í fyrsta skiptið í Alþýðuhúsinu á Ísafirði. Kennsla fór fyrst fram í gamla barnaskólahúsinu við Aðalstræti 34 og voru fyrstu stúdentarnir brautskráðir árið 1974. Í janúar 1984 fluttist kennslan í nýtt bóknámshús (formlega opnað 1987) á Torfnesi þar sem heimavistin var fyrir og nú einnig íþróttahús (1993) og verknámshús (1995). Fyrsti skólameistari skólans var Jón Baldvin Hannibalsson, en hann hætti árið 1979. Þekktir nemendur. Allnokkrir þekktir einstaklingar hafa stundað nám við Menntaskólann á Ísafirði. Gerðuberg (Snæfellsnesi). Gerðuberg á Snæfellsnesi Gerðuberg á Snæfellsnesi er hamrabelti úr grágrýti, myndarlegur og reglulegur stuðlabergshamar. Það er í 46 km fjarlægð frá Borgarnesi í Hnappadal á innanverðu Snæfellsnesi. Gerðuberg er hluti af basalthrauni sem rann á Tertíer. Hraunið er óvenju fallega stuðlað og eru stuðlarnir mjög reglulegir 1 - 1,5 m í þvermál og eru 14 metra háir þar sem þeir eru hæstir. Björn Þorleifsson hirðstjóri. Björn ríki Þorleifsson (um 1408–1467) var hirðstjóri, riddari og bóndi á Skarði á Skarðsströnd. Björn var sonur Þorleifs Árnasonar sýslumanns á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og síðast í Vatnsfirði, og konu hans Vatnsfjarðar-Kristínar, dóttur Björns Jórsalafara Einarssonar. Kona hans var Ólöf ríka, dóttir Lofts Guttormssonar riddara, og voru þau auðugustu hjón á Íslandi. Þegar biskupslaust var í Skálholti um miðja 15. öld eftir lát Goðsvins biskups, en Marcellus eftirmaður hans kom aldrei til landsins, gerðist Björn ásælinn í eigur stólsins og rændi þær og ruplaði. Kristján 1. Danakonungur, Hinrik erkibiskup í Niðarósi og Marcellus Skálholtsbiskup sendu harðorð bréf til landsins sumarið 1453 og hallmæltu mjög þeim sem rændu kirkjur eigum sínum. Fékk Gottskálk Hólabiskup umboð frá konungi til að reka Björn af eigum Skálholtsstóls og krefja hann reikningsskila, en bannfæra hann ella. Björn gerði þá sætt við biskup og virðist allt hafa fallið í ljúfa löð. Um 1455 héldu Björn og Ólöf kona hans í utanför en lentu í hrakningum og við Orkneyjar réðust skoskir sjóræningjar á skipið, rændu hjónunum og fluttu þau til Skotlands. Kristján 1. Danakonungur greiddi lausnargjald fyrir þau og fóru þau síðan til Danmerkur og fengu góðar viðtökur. (Björn Þorsteinsson sagnfræðingur hefur raunar dregið sannleiksgildi þessarar sögu mjög í efa og getið þess til að hún kunni jafnvel að vera uppspuni sem Björn, konungur og Marcellus biskup hafi soðið saman af pólitískum ástæðum.) Björn fékk þá riddaranafnbót, var gerður að hirðstjóra yfir öllu Íslandi og falið það hlutverk að hefta ólöglega verslun Englendinga á Íslandi. Þegar þau hjón komu heim hófu þau þegar að sinna þessu hlutverki, fóru um landið með sveina sína og ráku Englendinga burtu og gerðu fé þeirra upptækt. Árið 1467 sló í bardaga milli Björns og manna hans annars vegar og Englendinga frá Lynn hins vegar á Rifi á Snæfellsnesi, þar sem Englendingar höfðu verslun, og lauk honum þannig að Björn var drepinn ásamt nokkrum mönnum sínum en Þorleifur sonur þeirra hjóna tekinn til fanga. Ólöf keypti Þorleif lausan og er sögð hafa hefnt Björns grimmilega. Börn þeirra Björns og Ólafar voru Þorleifur hirðstjóri, Árni, sem var hermaður í þjónustu Kristjáns 1. og féll í orrustunni við Brunkeberg í Svíþjóð 1471, Einar jungkæri á Skarði, sem dó erlendis 1493 og hafði átt að vera hirðstjóri, að því er segir í annálum, og Solveig húsfreyja á Skarði, kona Páls Jónssonar sýslumanns. Björn átti líka nokkur launbörn, þar á meðal Þóru móður Björns Guðnasonar í Ögri. Krossavík. Krossavík er vík vestan við Hellissand. Þar var um áraraðir aðalhöfn fyrir útgerð frá Hellissandi. Vorið 2010 hófu hjónin Steingerður Jóhannsdóttir og Árni Emanúelsson endurbætur á gamla íshúsinu í Krossavík. Húsið var byggt árið 1930 og er ávallt kallað Hvítahúsið. Rifsvör. Rifsvör er forn lending og vör norðan megin í Rifi rétt fyrir framan Snoppu. Rifsvör hefur verið rudd gegnum stórgrýti og hellulögð. Erfitt varð að halda vörinni við því grjót barst í hana. Drifefni. Drifefni er efni, sem notað er til að knýja eitthvað áfram, t.d. úðabrúsa, kæliskápa, byssukúlur o.fl. Talað er t.d. um "fast drifefni" eða "fljótandi drifefni". Drifefni er t.d. það efni sem blásið er út um annan enda eldflauga til að fá flaugina sjálfa til að fara í hina áttina. Kasímír hrif. Kasímír hrif eru hrif srem sumir telja að færi sönnur fyrir tilvist tómaflöktsins (enska: "vacuum fluctuations"). Þau lýsa sér í því að ef tvær leiðandi plötur eru lagðar saman fara þær að þrýstast saman vegna meiri tómaflökts fyrir utan en á milli platnanna. Keflavíkurvör. Keflavíkurvör er forn lending og vör austast í byggðinni á Hellissandi. Frá þessari vör var róið allt frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á sjötta áratug 20. aldar. Vörin er nefnd Keflavíkurvör undir Jökli til aðgreiningar frá Keflavíkurvör undir Bjargi sem er vestan Breiðafjarðar. Vörin er náttúrusmíð sem hefur myndast í hrauni þannig að hrauntungur hafa ekki náð saman og mynda rennu sem er fjögurra metra breið og tuttugu metra löng. Yst og austast í rennunni er bjarg sem gerir lendingu þarna hættulega. Þegar kemur úr rennunni taka við klappir. Meðfram klöppunum hefur vörin verið hellulögð en sú hellulögn er nú horfin. Ormagöng. Ormagöng eru ímynduð göng milli tveggja punkta í tímarúminu, þannig að sá sem færi um þau gæti farið milli tíma rúms á meira hraða en ljóshraða. Ormagöng koma oft fyrir í vísindaskáldsögum en vísindamenn efast mjög um tilvist þeirra. Vörpudrif. Vörpudrif (enska: "Warp drive") er tæki í Star Trek vísindaskáldsagnarheiminum sem teygir eða strekkir á tímarúminu fyrir framan geimfarið og hrúgar því fyrir aftan það og gerir því farinu kleift að ferðast hraðar en ella. Skammtasmug. Skammtasmug er sá eiginleiki agna að geta ferðast í gegnum svæði sem krefst meiri orku en svo að þær gætu það samkvæmt sígildri eðlisfræði. Dritvík. Dritvík er umlukin hraunum á þrjá vegu Lending í Dritvík er í sand- og malarfjöru Dritvík var forn verstöð á Snæfellsnesi. Talið er að útræði þaðan hafi byrjað um miðja 16. öld og haldist í þrjár aldir. Talið er að allt 600 til 700 manns hafi stundað sjósókn í Dritvík þegar mest var. Dritvík er umlukin hraunum á þrjá vegu. Mjög stutt var að róa á fengsæl fiskimið úr Dritvík og víkin var skjólgóð. Dritvík er í landi Hólahóla. Landleiðin þangað var löngum torsótt og þurfti að fara yfir úfið hraun. Af Djúpalónssandi er hægt að komast í víkina meðfram sjó en annars þarf að fara yfir úfið og illfært hraun. Helgafellsklaustur eignaðist Hólahóla árið 1364 þegar Halldóra Þorvaldsdóttir gaf klaustrinu upp í próventu sína þrjár jarðir. Dritvík kemur fyrst fyrir í rituðum heimildum árið 1530 í skjali þar sem segir að skreiðarafgjöld Helgafellsklausturs eigi að afhenda þar. Bátar lentu annað hvort á Mölinni eða Pollinum sem myndaðist milli Bárðarskips og Dritvíkurkletts. Á 17., 18. og framan af 19. öld var Dritvík ein stærsta verstöð á Íslandi. Í 18. aldar heimild segir að til forna hafi gengið þar 70 - 80 skip en á 18. öld voru bátar í víkinni oft 40 - 50. Á 19. öld fór að draga úr sjósókn úr Dritvík og útræði þaðan lauk árið 1861. Bátar sem réru úr Dritvík voru flestir áttæringar og minni skip en sexæringar munu ekki hafa gengið þaðan. Fátt er nú í Dritvík sem sýnir að þar hafi 500-600 vermenn hafist við á hverjum vetri. Engar búðarleifar eru þar því menn höfðust við í tjöldum sem voru þannig að tóttir voru hlaðnar og tjaldað yfir. Í vertíðarlok voru tjöldin tekin niður. Örfáar þurrabúðir voru í Dritvík en flestir dvöldu þar aðeins meðan þeir réru til fiskjar. Andefni. Andefni er andstaða efnis, þ.e. samsett úr andeindum samsvarandi öreinda efnisins. Það hefur ekki fundist á jörðinni, því efni og andefni eyða hvort öðru samstundis ef þau komast í snertingu og mynda öfluga gammageisla. Andeindir finnast í dálitlu magni í geimnum, t.d. í geimgeislum og þær myndast einnig í eindahröðlum. Sérhver rafhlaðin öreind á sér andeind með sama massa, en gagnstæða hleðslu, t.d. er jáeind andeind rafeindarinnar. Berserkjahraun. thumb Berserkjahraun er hraun í vestanverðri Helgafellssveit á Snæfellsnesi og frægt er úr Heiðarvíga sögu. Berserkjahraun hefur runnið úr gígum norðan Kerlingarskarðs, af hverjum er stærstur Rauðakúla. Úr Rauðukúlu er einnig runnið hraunið Bláfeldarhraun í Staðarsveit, ekki langt frá Lýsuhól. Næst koma svo Grákúla og þá Kothraunskúla. Hraunið rann til sjávar við Bjarnarhöfn og út í Hraunsfjörð. Berserkjahraun er úfið apalhraun með gíghólum og söguminjum, Berserkjagötu og Berserkjadys og er það á náttúruminjaskrá. Tómaflökt. Tómaflökt (enska: "vacuum fluctuations") er skammtafræðilegur eiginleiki sem lýsir tilviljanakenndum orkusveiflum í tímarúmi þegar öll orka hefur verið fjarlægð. Brjánslækur. Brjánslækur (áður einnig Brjámslækur) er fornt höfuðból og kirkjustaður við mynni Vatnsfjarðar. Þar er ferjustaður, Breiðafjarðarferjan Baldur siglir yfir Breiðafjörð frá Stykkishólmi til Brjánslækjar. Innanvert við Brjánslæk eru friðlýstar tóftir, Flókatóftir en munnmæli herma að þar hafi Hrafna-Flóki búið. Af bæjarnafninu Brjánslækur gerðu menn sér ættarnafnið Briem. Ættfaðir Briemara var síra Guðbrandur Sigurðsson (1735-1779). Baldur (ferja). thumb Baldur er ferja sem siglir þvert yfir Breiðafjörð milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Ferjan tók að ganga vorið 1924. Þingeyrarkirkja. Séð inn að altari í Þingeyrarkirkju Þingeyrarkirkja er kirkja í Ísafjarðarprófastdæmi. Hún er staðsett í kauptúninu Þingeyri. Hún var byggð á árunum 1909 til 1911 og vígð 9. apríl 1911. Áður var kirkja og prestsetur á Söndum í Þingeyrarhreppi. Prestsetrið var flutt til Þingeyrar árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði kirkjuna og er hún úr steini í gotneskum stíl. Rögnvaldur lét kirkjuna snúa í norður og suður til að hún beri vel við þeim sem koma af hafi til Þingeyrar. Þórarinn B. Þorláksson málaði altaristöflu sem sýnir Krist í íslenskri náttúru og hjá honum standa þrjár stelpur. Skírnarfontur kirkjunnar er útskorinn af Ríkharði Jónssyni. Hjónin Gréta Björnsson og Jón Björnsson skreyttu kirkjuna með ýmsum trúartáknum árið 1961. Sandakirkja var í kaþólskum sið helguð heilögum Nikulási og er máluð mynd af honum vinstra megin vil altarið en mynd af Pétri postula hægra megin. Þrír steindir gluggar í kirkjunni eru eftir glerlistakonuna Höllu Haraldsdóttur. Kirkjan á ljósastjaka frá 1656 sem komu úr Sandakirkju og fleiri gripi úr Sandakirkju og Hraunskirkju í Keldudal. Sóknarprestur er Guðrún Edda Gunnarsdóttir. Sveifluháls. Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Hæstu tindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkar. Hellnar. Hellnar er gamalt sjávarþorp eða þéttbýli á Snæfellsnesi vestan við Arnarstapa. Þar var áður ein stærsta verstöð á Snæfellsnesi en einnig nokkur grasbýli og margar þurrabúðir. Á Hellnum hefur sennilega myndast verstöð þegar á miðöldum og er elsta ritaða heimild um sjósókn þaðan frá árinu 1560. Á 17. öld var þar allstórt hverfi sæbýla og í manntalinu frá 1703 voru 194 manns heimilisfastir á Hellnum og voru þar sjö grasbýli, 11 ítaksbýli og 20 þurrabúðir. Á ströndinni eru fallegar bergmyndanir og þar er bjarg sem skagar fram í sjóinn og heitir Valasnös. Þar í er hellirinn Baðstofa og eru litbrigði í hellinum eru mjög breytileg eftir birtu og sjávarföllum. Undan hraunjaðrinum sprettur lind sem kölluð er Gvendarbrunnur eða Maríulind. Þar er og Ásgrímssbrunnur, kenndur við Ásgrím Hellnaprest (1758-1829) er hjó brunn í bergið þar sem aldrei hafði áður runnið vatn. Hellnar er stutt frá Snæfellsjökulsþjóðgarði og þar er upplýsingastofa um þjóðgarðinn. Á Hellnum er í byggingu þorp með frístundahúsum sem nefnist Plássið undir Jökli en byggingarframkvæmdir við það hafa legið niðri um hríð. Plássið undir Jökli. Hús í byggingu í frístundaþropinu á Hellnum Hafin hefur verið bygging á nokkrum húsum en byggingarframkvæmdir hafa stöðvast Plássið undir Jökli er frístundaþorp sem skipulagt var á Hellnum á Snæfellsnesi. Skipulagt var 30 hektara svæði og var áætlað að reisa allt að 200 íbúðarhús auk verslana, lista og handverksgallería. Ætlunin var að byggja upp þorp með sama nafni og gamla fiskiþorpið hét þegar útræði var stundað frá Hellnum og þar voru margar þurrabúðir. Húsin áttu að vera timburhús, heilsárshús sem flutt voru inn frá Noregi. Byrjað hefur verið á nokkrum húsum en þau standa ónotuð á byggingarstigi. Geir Sveinsson. Geir Sveinsson (fæddur 27. janúar 1964) er íslenskur handknattleiksmaður sem var áður í Landsliðinu. Geir tók þátt í Ólympíuleikunum í Seoul 1988 og var fyrirliði landsliðsins á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992, þar sem liðið hafnaði í fjórða sæti. Geir er næstleikreyndasti leikmaður landsliðsins frá upphafi en hann lék alls 340 leiki og skoraði alls 502 mörk. Sigurður Valur Sveinsson. Sigurður Valur Sveinsson (eða Siggi Sveins) (fæddur 5. mars 1959) er íslenskur handknattleiksmaður. Hann spilaði með landsliðinu í fjölda ára, alls 242 landsleiki. Sigurður skoraði alls 736 mörk á ferli sínum með landsliðinu og er 5. markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Árið 1969 byrjaði Sigurður að æfa með Þrótti, bæði í handbolta og nokkru fyrr í knattspyrnu. Tímabilið 1975-1976 varð hann Reykjavíkurmeistari með Þrótti 16 ára gamall og Íslandsmeistari í 3. flokki. Árið 1977 spilaði Sigurður fyrsta A-landsleikinn sinn. Leikið var í Vestmannaeyjum gegn Dönum. Árið eftir lék hann með Olympíu í Svíþjóð. 1979-1980 var hann aftur kominn til Þróttar. Liðið komst upp úr 2. deild. 1980-1981 urðu Þróttarar bikarmeistarar og í 2. sæti í 1. deild. 1981-1982 var hann með Þrótti og lenti í 3. sæti í 1. deild. Liðið var slegið út í undanúrslitum Evrópukeppni bikarhafa af Dukla Prag. 1982-1983 lék Sigurður eitt ár með Nettelstedt í Þýskalandi. Tímabilið 1983-1988 lék hann með Lemgó í Þýskalandi og varð markakóngur í 1. deild einn veturinn. 1988-1990 lék hann með Val og liðið varð bikarmeistari. 1989-1990 lék Sigurður með Dortmund í Þýskalandi og varð markakóngur í 2. deild. 1990-1991 lék Sigurður með Atletico Madrid á Spáni. 1991-1992 lék hann með Selfossi og liðið tapaði fyrir FH í úrslitakeppninni. Guðmundur Þórður Guðmundsson. Guðmundur Þórður Guðmundsson (fæddur 23. desember 1960) er þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta. Hann var áður handknattleiksmaður og lék t.d. með félagsliðinu Víking. Fyrsti landsleikur hans sem leikmaður var gegn Belgíu árið 1980. Guðmundur lék alls 230 leiki með landsliðinu og skoraði 356 mörk. Hann var þjálfari karlaliðs Fram sem varð Íslandsmeistari árið 2006. Guðmundur var þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Stagbrú. Stagbrú – eða skástagabrú – er brú, þar sem brúarplatan er stöguð í eina eða fleiri súlur (eða turna) með hallandi stálköplum. Skipta má stagbrúm í tvo megin flokka eftir útfærslu staganna: Í "vængstögun" eða "blævængsútfærslu" liggja stögin með breytilegum halla frá ofanverðri burðarsúlunni, eins og teinar í blævæng, en í "harpstögun" eða "hörpuútfærslu" eru stögin nokkurn vegin samsíða eins og strengir í hörpu. Stagbrýr eru taldar hagstæðasta burðarformið fyrir nokkur hundruð metra haflengdir, en einnig geta aðstæður ráðið því hvaða gerð af brú er talin hagstæðust. Stagbrýr ná að spanna u.þ.b. helminginn af þeirri vegalengd sem unnt er með hengibrúm, og því eru lengstu brýr í heiminum hengibrýr. Athyglisverðar stagbrýr. a>i, er ósamhverf brú með einni súlu, 300 m haf. Sumarólympíuleikarnir 2012. Sumarólympíuleikarnir 2012 voru haldnir í London í Englandi dagana 27. júlí til 12. ágúst 2012. Þetta voru þrítugustu sumarólympíuleikarnir sem haldnir hafa verið. London var kosin til að halda leikana þann 6. júlí 2005 og verður þar með fyrsta borgin til að halda þá þrisvar sinnum. Áður voru leikarnir haldnir þar árin 1908 og 1948. Leikarnir áttu sér stað aðallega í Stratford, svæði í Austur-London sem er nú í endurbyggingu. Einkennislag leikanna var lagið "Survival", samið og flutt af ensku hljómsveitinni Muse. Leikarnir voru opnaðir opinberlega 27. júlí 2012 með setningarathöfn á Ólympíuleikvanginum. Staðir. Sumarólympíuleikarnir áttu sér stað víðs vegar um London. Að hluta voru notuð mannvirki sem voru til og að hluta ný og tímabundin mannvirki. Yfirlýst markmið er að skilja ekki eftir hvíta fíla (stór mannvirki sem enginn nýtir eftir leikana). Ólympíuleikvangurinn og ólympíuþorpið eru í Stratford í Austur-London þar sem eignarnám eldri bygginga sem voru rifnar niður, þetta vakti nokkurra deilu við fyrri eigendur og íbúa. Ólympíuleikvangurinn var hannaður þannig að hann rúmi 80.000 gesti fyrir opnunar- og lokahátíðir ólympíuleikanna en var breytt eftir leikana í 25.000 sæta íþróttaleikvang. Í ákveðnum greinum (siglingum, kajak- og kanóróðri, kappróðrum og fjallahjólabruni) var keppt utan London. Leikir í undanriðlum í knattspyrnu voru leiknir á frægum knattspyrnuvöllum í Glasgow, Manchester, Cardiff og Newcastle. Miðsvæðið. a> mun hýsa keppnina í tennis Þátttakendur. Kort sem sýnir fjölda þátttakenda frá hverju landi Yfir 10.000 keppendur frá 204 löndum tóku þátt í leikunum. Normandí-brúin. Normandí-brúin (franska: Pont de Normandie) er stagbrú yfir ósa Signu, og tengir borgirnar Le Havre og Honfleur í Normandí, norður Frakklandi. Heildarlengd brúarinnar er 2.143 m, en hafið yfir Signu, milli meginstöpla, er 856 m. Bygging brúarinnar. Brúin var hönnuð af hópi verkfræðinga undir stjórn dr. Michel Virlogeux, í samráði við arkitektana François Doyelle og Charles Lavigne. Bygging brúarinnar hófst 1988 og stóð yfir í 7 ár. Brúin var formlega vígð 20. janúar 1995, en umferð hafði verið hleypt á hana í árslok 1994. Þegar brúin var tekin í notkun, var hún bæði lengsta stagbrú í heimi (miðað við heildarlengd), og einnig með lengsta meginhafið (856 m), sem var meira en 250 m lengra milli burðarsúlna en fyrra metið. Þetta met féll 1999, þegar Tatara-brúin í Japan var tekin í notkun. Metið fyrir heildarlengd féll árið 2004, þegar Rio-Antirio-brúin í Grikklandi var opnuð fyrir umferð, en hún er 2.883 m. Ákveðið var að byggja stagbrú, af því að hún var bæði ódýrari, og stöðugri gagnvart vindálagi en hengibrú. Einnig þóttu jarðfræðilegar aðstæður henta betur fyrir stagbrú (mjúk leirlög), því að þar nægir að gera undirstöður fyrir tvo stöpla, en í hengibrúm þarf einnig tvö risavaxin akkeri til þess að halda í burðarkaplana. Loks hafði þjóðarstolt Frakka nokkur áhrif, þ.e. vilji til að byggja lengstu stagbrú í heimi. Normandí-brúin kostaði um 40 milljarða íslenskra króna. Tekinn er vegatollur af þeim sem aka um brúna. Gerð brúarinnar. Brúarplatan er 23.60 m breið, og skiptist í 4 akreinar fyrir bíla og tvo göngustíga. Súlurnar eru steinsteyptar og eru í lögun eins og öfugt Y. Þær eru 215 m háar og vega yfir 20.000 tonn. Meira en 19.000 tonn af stáli fóru í brúna og 184 stög úr stálköplum voru notuð. Hæðin frá vatnsborði Signu upp undir brúargólfið er rúmir 50 m, enda er áin skipgeng. Útreikningar leiddu í ljós að við vissar aðstæður gætu lengstu stögin farið að sveiflast. Til þess að koma í veg fyrir það voru stögin tengd saman með þvervírum, sem setja nokkurn svip á brúna. Brúin er talin verkfræðilegt og framkvæmdalegt afrek, og hefði verið óhugsandi 20 árum fyrr, þegar ekki var völ á nútíma tölvu- og mælitækni. Brúin er einnig fallegt mannvirki, sem almenningur í Normandí lítur til með stolti, og telur vera tákn fyrir héraðið, eins og Camembert-osturinn og Calvados-vínið. Listi yfir ISO-staðla. Aðal afurð Alþjóðlegu staðlastofnunarinnar eru ISO-staðlarnir. Þess aukin gefur Alþjóðlega staðalstofnunin út tæknilegar skýrslur (e. "Technical Reports"), skilgreiningar og leiðarvísa. Alþjóðlegu staðlarnir (ISO staðlarnir) eru auðkenndir á sniðinu ISO[/IEC][ASTM] [IS] nnnnn[:yyyy] Nafn, þar sem nnnnn er númer staðalsins, yyyy er árið sem hann er gefinn út og Nafn lýsir viðfangsefninu. IEC er hluti auðkennisins sé staðallinn afurð JTC1 (the Joint Technical Committee). ASTM á við um staðla sem eru þróaðir í samvinnu við ASTM International. Tæknilegar skýrslur eru gefnar út þegar tækninefnd eða undirnefnd hennar hefur safnað saman gögnum af öðrum toga en þeim sem venjubundið eru gefin út í alþjóðlegum staðli. ISO staðlar. ISO Skarlatssótt. Skarlatssótt (stundum nefnd flekkusótt) (fræðiheiti: "febris scarlatina") er bráður barnasjúkdómur sem veldur háum hita og blárauðum flekkjum um líkamann. Sumar heimildir telja að skarlatssótt hafi gengið sem landfarsótt hér á landi árið 1787 og 1788. Athugið að orðið "flekkusótt" hefur einnig stundum verið notað um mislinga, enda að sumu leyti líkir sjúkdómar. Jelena Slesarenko. Jelеnа Vlаdimirоvnа Slesаrеnko (rússneska: Елена Владимировна Слесаренко, fædd 28. febrúar 1982 í Volgograd) er rússneskur hástökkkvari. Hún vann gull á Ólympíuleikunum 2004, gull á innanhúsmeistaramótunum 2004 og 2006 en silfur á sama móti árið 2008. Á Ólympíuleikunum 2008 endaði hún í 4. sæti. Hjartaskel. Hjartaskel (fræðiheiti: "Cerastoderma edule" eða "Cardium edule") er sælindýr af báruskeljarætt. Hjartaskel og sandskel eru síarar. Hörpudiskur. Hörpudiskur (eða báruskel) (fræðiheiti: "Chlamys islandica") er sælindýr af diskaætt og er langstærsta og algengasta tegund ættarinnar hér við land. Hörpudiskur þykir góður til átu. Sælindýr. Sælindýr er lindýr sem lifir í sjó. Síari. Síari er sjávardýr (aðallega sælindýr) sem sía smáar lífverur og lífrænar agnir úr sjónum með útlimum (fótum), sem alsettir eru fínum hárum. Dæmi um síara eru hinar ýmsu skeljar og hrúðurkarlar. Ræktarland. Ræktarland, ræktunarland, ræktað land eða ræktanlegt land er land sem hægt er að nýta til ræktunar í landbúnaði. Aðrar landslagsgerðir eru t.d. jöklar, eyðimerkur, haf, vötn og auðnir. Í heiminum í dag eru um 19.824.000 km² ræktunarlands. Auðn. Auðn nefnist land sem er hefur lítinn lífmassa og er ekki byggt. Sem dæmi má nefna eyðimerkur, öræfi, sandar og freðmýrar. Rifstangi. Rifstangi er nyrsti tangi Melrakkasléttu og þar með nyrsti tangi á meginlandi Íslands. Hann er milli Skálavíkur í vestri og Rifsvíkur. Upp af tanganum er Skinnalónsheiði. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins samanstendur af 15 heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Garðabæ og Hafnarfirði. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins tilheyra einnig Þróunarstofa heilsugæslunnar, Þroska- og hegðunarstöð, Göngudeild sóttvarna, Geðheilsa-Eftirfylgd/Iðjuþjálfun, og Stjórnsýsla Heilsugæslunnar. Kötlutangi. Kötlutangi er syðsti tangi meginlands Íslands. Hann er á Mýrdalssandi suður af Hjörleifshöfða í Vestur-Skaftafellssýslu. Kötlutangi myndaðist í Kötlugosinu 1918 en þá færðist ströndin út vegna mikils framburðar í jökulhlaupinu sem fylgdi gosinu. Fyrir þann tíma var Dyrhólaey syðsti tangi landsins. Síðan þá hefur sjórinn hins vegar jafnt og þétt étið af Kötlutanga og hefur því verið spáð að innan tíðar muni Dyrhólaey ná aftur þeirri stöðu að vera syðsti tangi meginlandsins. Bið verður þó á því, því samkvæmt Landmælingum Íslands sem byggja á gervihnattamyndum árið 2004 var Kötlutangi 500 metrum sunnar en Dyrhólaey þá. Áætlað að að Kötlutangi minnki um 10 til 20 metra á ári. Gerpir. Gerpir er fjall milli Vöðlavíkur og Sandvíkur í Suður-Múlasýslu. Það er jafnframt austasti oddi meginlands Íslands. Hjörsey. Hjörsey er 5,5 km² eyja í Faxaflóa og þriðja stærsta eyjan við Ísland. Eyjan er vel gróin og þar var lengi stórbýli og margbýli um skeið. Í eyjunni var kirkja, sem lögð var niður árið 1896. Hægt er að komast á fæti frá meginlandinu til eyjarinnar á fjöru á stórstraumsfjöru. Gervitungl. Gervitungl eða gervihnöttur er manngert tæki eða hlutur, sem komið hefur verið á sporbaug um stjarnfræðilegt fyrirbæri. Spútnik 1 er fyrsta gervihnötturinn en hann fór á braut um jörðu. Hlutir, sem fyrir slysni hafa komist á sporbaug um jörðina og ónýt gervitungl kallast "geimrusl". Gróið land. Gróið land kallast allt það land sem hefur vissa gróðurþekju, svo sem 50-75% mælt við svörð. Skjákort. Skjákort er tölvuíhlutur sem gerið það að gagni að nota hágæði í leiki eða bíomyndir. Örgjörvi í skjákorti (með öðrum orðum GPU). GPU stendur fyrir "Graphics processing unit". Landsuppfræðingarfélagið. Landsuppfræðingarfélagið var félag sem var stofnað árið 1794 til að fræða almenning á Íslandi og veita nýjum straumum út í þjóðlífið. Til þessa tók félagið prentsmiðjurna í Hrappsey (Hrappseyjarprentsmiðju) á leigu haustið 1794. Var hún flutt að Leirárgörðum við Leirá sumarið 1795. Félagið keypti síðan prentsmiðjuna áður en langt um leið, og einnig prentsmiðjuna að Hólum. Upphafsmaðurinn. Stofnandi "Landsuppfræðingarfélagsins" var Magnús Stephensen háyfirdómari (konferensráð) (1762-1833), og vildi hann með stofnun félagsins glæða nýjan smekk með Íslendingum og fræða þá með nytsömum fróðleik og koma löndum sínum í kynni við erlenda siðmenningu. Félagið gaf til dæmis út Minnisverð tíðindi, Vinagleði og Gaman og alvöru. Magnús hafði sínar ákveðnu og fastmótuðu skoðanir á því hvers konar efni þar hentaði best. Upplýsing og fræðsla voru kjörorðin sem þjóðin skyldi kjósa sér. Og hvað trúarbrögðin snertir þá var skynsemistrúin sú stefna sem Magnús fylgdi einarðlega fram, enda var hún um þær mundir ríkjandi trúarstefna á Norðurlöndum og víðast í norðanverðri Evrópu. Þess vegna var honum mjög í nöp við sumar guðsorðabækur sem höfðu á liðnum árum og öldum verið þjóðinni okkar handgengnar og harla kærar. Þessari nýbreytni Magnúsar var illa tekið af mörgum, því að menn voru fastheldnir við gamlar venjur og kölluðu hann óþjóðlegan, þar eð hann vildi láta Íslendinga semja sig sem mest að háttum annara þjóða. Magnús kunni þessu illa, því hann var ákafamaður í lund, og gaf löndum sínum heldur svæsnar ádrepur í ritum sínum, en ónafngreindir höfundar svöruðu aftur með níðritum og níðkvæðum um Magnús, og var sumt af því óþvegið. Það jókst þó til muna þegar nýja sálmabókin kom út í Leirárgerðum (Leirgerður) undir umsjón Magnúsar árið 1801. En þessum deilum slotaði að mestu, og sum af ritum Magnúsar náðu almenningshylli, svo sem: Eftirmæli 18. aldar. Viðeyjarárin. Þegar Magnús flutti síðar til Viðeyjar, árið 1813, flutti hann prentsmiðju sína af Leirá með sér og tók nú að gefa út bækur á ný, og einnig tímaritið Klausturpóstinn, sem kom út í 9 ár. Þegar hér var komið sögu voru flestir farnir að átta sig á Magnúsi gekk gott eitt til þegar hann vandaði um við þjóðina, og vildi hag hennar og heill í öllum greinum. Á efstu árum komst Magnús þó í málaþras mikið út af prentsmiðjunni og Landsuppfræðingafélaginu og hafði af því bæði skaða og skapraun. En Magnús hafði aldrei látið óvinsældir almennings aftra sér frá að gefa út þau rit er hann sjálfur áleit þörf og góð, og á þeim árum sem Landsuppfræðingarfélagið var sem sterkast horfði hann lítt í kostnaðinn og aldrei lét hann í gróðaskyni leiðast til að fylgja smekk almennings. Ulrik Christian Gyldenløve. Ulrik Christian Gyldenløve (eða Úlrik Kristján Gyldenlöve) (1678 – desember 1719) var aðmíráll í danska sjóhernum og launsonur Kristjáns 5. danakonungs. Móðir hans var Sophie Amalie Moth, greifynja af Samsø. Gyldenløve var eftirnafn sem laungetnum börnum dönsku konunganna Krisjáns 4., Friðriks 3. og Kristjáns 5. var gefið. Ulrik Christian Gyldenløve er einna þekktastur á Íslandi fyrir það að hafa verið skipaður fyrsti stiftamtmaður hérlendis, aðeins 5 ára gamall, og hafði hann í sjálfu sér alls engin afskipti af Íslandsmálum framan af. Fimmtán ára að aldri var hann sendur til Hollands í sjóliðsforingjanám og fékk aðmírálstign þegar heim kom. Árið 1701 varð hann yfirmaður alls danska flotans og fékk leyfi hjá Friðrik 4. hálfbróður sínum, sem þá var orðinn konungur, til að láta koma á fót sjóliðsforingjaskóla í Kaupmannahöfn. Þegar Danir sögðu Svíum stríð á hendur 1709 og sænski flotinn settist um Kaupmannahöfn þótti Gyldenløve standa sig mjög vel við varnir borgarinnar, tók sjálfur þátt í sjóorrustunum og særðist illa. Hann féll svo í sjóorrustu á Køge-flóa rétt áður en stríðinu lauk, þegar sænsk leyniskytta skaut hann í hnakkann. Gyldenløve var stiftamtmaður til dauðadags en átti lítinn þátt í landsstjórninni. Með árunum lagði hann þó jafnan gott til Íslandsmála en varð að sjá allt með annara augum, því að hann kom aldrei til Íslands. Salahverfi. Salahverfi er hverfi sem liggur suðaustan Lindahverfis og á mörkum Reykjavíkur við Seljahverfi. Salahverfi er í Kópavogi sem er sveitarfélag á Íslandi, og eru Versalir þar, skólinn Salaskóli og sundlaugin Salalaug. Salahverfi deilir póstnúmerinu „201“ með Smáranum og Lindahverfinu. Árið 2007 fundist Spánarsniglar í Salahverfi. Krakatá. Krakatá (indónesíska: "Krakatau") er eldfjallaeyja í Sundasundi, milli Jövu og Súmötru í Indónesíu. Eldfjallið á eyjunni heitir einnig Krakatá og það hefur gosið oft og kröftuglega. Gosið 1883 var eitt mesta stórgos á sögulegum tíma í heiminum. Facebook. Facebook (stundum íslenskað sem Feisbók, Feisbúkk eða Fésbók í hálfkæringi) er netsamfélag stofnað þann 4. febrúar 2004. Vefsíðan er fullkomlega í eigu Facebook, Inc. Notendur geta tengt í „tengslanetum“ sem tákna borgir, vinnustaði, skóla og svæði til að hafa samskipti við annað fólk. Fólk getur bætt við vinum, sent skilaboð og breytt yfirliti sínu. Mark Zuckerberg stofnaði Facebook þegar var hann námsmaður Harvard-háskóla og í fyrstu var félagsaðild bundin við námsmenn háskólanna. Til er mynd um hvernig facebook varð til. Hún heitir The Social Network.Í dag geta allir skráð sig á Facebook. FarmVille er einn vinsælasti tölvuleikur sögunnar og er bara hægt að nota á facebook. FarmVille er sveitabæjarleikur þar sem maður byggir bæ og gróðursetur. Fyrirtækið Zynga sem hannaði leikinn hefur framleitt marga aðra leiki á facebook t.d CityVille. Frá og með ágúst 2008 er unnið að því að þýða Facebook á íslensku. Facebook var upprunalega ætluð fyrir skólafólk en nú notar fólk á öllum aldri Facebook. Eðlisvarmi. Eðlisvarmi er það hitamagn sem þarf til að hita eitt gramm efnis um eitt stig eða m.ö.o. "eðlisvarmi efnis" er jafn þeim fjölda hitaeininga, sem þarf til þess að hita eitt gramm af efninu um 1°.silfur er með mjög lítinn eðlisvarma Leiðarhnoða. Leiðarhnoða var hnykill sem Aríaðna í grískri goðafræði lét Þeseif fá áður en hann hélt inn í völundarhúsið á Krít til að drepa Mínotárosinn. Hnykill þessi var nefndur "leiðarhnoða" vegna þess að Þeseifur vatt út af hnyklinum þegar hann gekk inn í völundarhúsið til að geta svo lesið sig eftir honum þegar hann hafði drepið Mínotárosinn og ratað þannig út. Leiðarhnoða hefur síðan verið notað í yfirfærðri merkingu, sbr. t.d. þegar menn segja: "Stjórnmálaskoðanir Niccolò Machiavelli voru honum leiðarhnoða í lífinu." Þurrabúð. Þurrabúð (eða tómthús) er búskaparform við sjávarsíðuna þar sem menn bjuggu en voru hvorki sjálfstæðir bændur né vistráðnir hjá bændum, eða m.ö.o. menn voru sjómenn eða daglaunamenn í verstöð eða sjávarbyggð en höfðu ekki afnot af jörð eða héldu húsdýr. Sett voru lög um þurrabúðarmenn árið 1888 sem komu í stað tilskipunar um lausamenn og húsmenn frá 1863. Utan kaupstaðar eða verslunarstaðar máttu menn ekki byggja þurrabúð, nema lóð fylgdi búðinni með matjurtagarði og húsakynni væru sæmileg. Árið 1894 var losað um vistarskylduna og árið 1907 var felld niður heimild sveitarstjórna til að synja manni um leyfi til að setjast í húsmennsku eða þurrabúð. Verstöð. Verstöð er staður þar sem stunduð var sjósókn og afli verkaður. Flestar hinar elstu verstöðvar eru frá árabátaöld og hafa að líkindum myndast á síðmiðöldum. Það sem verstöð myndaðist þurfti að vera góð lending, skammt að róa á fiskimið og nógu mikið landrými til að reisa mætti verbúðir og verka fisk. Einnig þurfti að vera auðvelt að sækja rennandi vatn eða vatn í brunna. Fjórar tegundir fiskivera voru algengust á fyrri tíð. Verstöðvar voru fjölmargar, um 320 verstöðvar eru þekktar frá árabátaöld, flestar í Vestfirðingafjórðungi. Meðal verstöðva voru Vestmannaeyjar, Dritvík, Oddbjarnarsker og Bolungarvík. Útræði. Útræði er þegar róið var til fiskjar út frá útveri en útver voru verstöðvar þar sem menn fóru til með báta sína og skipshafnir á árabátaöld. Útver voru nálægt fiskimiðum þar sem gott var að sitja fyrir fiskigöngum. Þau voru oft á annesjum fjarri byggð. Ósvör. Ósvör í Bolungarvík er endurgerð verstöð frá árabátaöld sem var smíðuð fyrir gerð heimildarmynda Erlends Sveinssonar "Verstöðin Ísland" og "Íslands þúsund ár" 1990. Þar er nú minjasafn. Í Ósvör er verbúð, salthús, fiskihjallar, sexæringur, dráttarspil, fiskireitur og útihjallar. Safnverðir í Ósvör klæðast sjófötum árabátatímans. Netsamfélag. Netsamfélag er vefsíða þar sem fólk getur haft samskipti við annað fólk í gegnum fréttabréf, síma, tölvupóst eða annað skilaboðakerfi eða spjallkerfi í staðinn fyrir að hafa samband augliti til auglitis. Félagsnet svo sem MySpace og Facebook eru dæmi um netsamfélög. Íslands þúsund ár. "Ísland þúsund ár" er leikin íslensk heimildarkvikmynd frá árinu 1997. Leikstjóri hennar er Erlendur Sveinsson. Kvikmyndin fjallar um sjósókn fyrri alda og gefur innsýn í lífsbaráttu íslenskra sjómanna á árabátatímanum þegar farið var í útróðra á opnum bátum. Kvikmyndin er sjálfstætt framhald heimildamyndarinnar "Verstöðin Ísland" frá 1991 og notar myndefni úr þeirri mynd að hluta. Í myndinni er sagt frá einum róðri sjö manna á sexæringi um aldamótin 1900. Leikmyndin úr myndinni, endurgerð verstöð í Ósvör við Bolungarvík er vinsæll ferðamannastaður. Kyndilmessa. Kyndilmessa (á latínu "Praesentatio Domini"; þ.e. "Kynning Herrans", einnig nefnd á latínu "Missa Candelarum", og "Purificatio Mariæ") er kristinn helgidagur, einkum í kaþólsku og rétttrúnaðarkirkjunum, sem haldinn er hátíðlegur 2. febrúar. Nafnið er dregið af latneska orðinu "candelarium" sem merkir kerti. Hátíðin er haldin til minningar um þegar Jesúsbarnið var fram borið í musterinu í Jerúsalem. Kyndilmessa er þess vegna hreinsunardagur Maríu meyjar, 40 dögum eftir fæðingu Krists. Á íslensku hefur hún einnig verið kölluð „hreinsunarhátíð blessaðrar Maríu meyjar”. Tímasetning. Samkvæmt Móselögum (3. Mósebók 12, 2-4) og hefðum gyðinga er kona talin óhrein í fjörutíu daga eftir að hún hefur fætt sveinbarn. Samkvæmt Lúkasarguðspjallinu tóku María og Jósef Jesúbarnið til musterisins fjörutíu dögum eftir fæðingu hans. Upphaflega var hátíðin haldin 14. febrúar enda var fæðing Jesúsar í frumkristni talin hafa átt sér stað 6. janúar. Á fjórðu öld var fæðingardagurinn fluttur yfir á 25. desember. Saga. Á fyrstu öldum kristni var hátíðin haldin til minnis um fund Símeon og Jesúsar í musterinu samkvæmt 2. kapítula Lúkasarguðspjalls 25-40 enda var hátíðin þá nefnd "Dagur heilags Símeonar" eða "Hypapante" (úr grísku "fundur"). Elstu heimildir um hreinsunarhátíð Maríu eru frá Jerúsalem snemma á 4. öld, en er þá reyndar bundin við 14. febrúar, þar sem þá var fæðingardagur Jesú enn talinn 6. janúar. Hátíðin var svo fyrirskipuð árið 524 af Jústiníanusi keisara í Konstantínópel. Árið 690 skipaði Sergius páfi í Róm, að á hreinsunarhátíðinni skyldi vígja öll kerti sem ætlað væri til helgigjörða á árinu. Á þessum degi var á miðöldum farin skrúðganga utan og innan kirkjubyggingarinnar og einnig út í kirkjugarð. Báru prestar og söfnuður logandi kerti í göngunni. Hátíðin fékk því nafnið "missa candelarum" á latínu en það þýðir kertamessa. Það sést oft í íslenskum fornbréfum frá 15. og 16. öld en eftir siðbreytingu er orðið kyndilsmessa orðin allsráðandi. Kyndilmessa á Íslandi. Eftir siðaskipti lagðist hátíðin af eins og önnur Maríudýrkun en í kaþólskum sið og rétttrúnaðakirkjunni er ennþá haldið upp á daginn með ljósamessu. Á kyndilmessu er vetur hálfnaður en vetrarvertíð hófst áður fyrsta virka dag eftir kyndilmessu. Skjaldbreiður. Skjaldbreiður er 1.060 m há dyngja á Íslandi. Skjaldbreiður myndaðist í eldgosi fyrir um 9.000 árum síðan en í sama gosi myndaðist umgjörð Þingvallavatns. Gígurinn er um 300m í þvermál. Verbúð. Verbúð var á árabátaöld bústaður sem skipshafnir bjuggu í á meðan á vertíð stóð. Þegar vertíð hófst komu vermenn til búðanna sem oft voru á verstöðvum þar sem margir bátar réru út. Vermenn voru oft marga daga á leið í búðirnar. Verbúðir voru oftast þannig að það voru tóftir sem tjaldað var yfir. Yfirleitt rúmuðu verbúðir eina skipshöfn. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, sperrur voru í loft sem annars var úr torfi. Meðfram veggjum voru bálkar hlaðnir úr grjóti og sváfu vermenn þar, oftast tveir og tveir saman. Á Stokkseyri er varðveitt gömul verbúð Þuríðarbúð sem er dæmigerð fyrir sunnlenskar verbúðir, en sú búð mun hafa rúmað skipshöfn af áttæringi. Verbúð getur einnig átt við húsnæði farandverkafólks í fiskvinnslu, oft húsnæði sem er í eigu útgerðar. Annes (landslagsþáttur). Annes er nes sem skagar langt út, útskagi. Árabátaöld. Árabátaöld er tímabil í sögu fiskveiða við Ísland sem einkennist af því að róið út á fiskimið á árabátum. Þetta á við tímabilið frá um 1300 fram til 1800. Fyrri hluti tímabilsins hefur verið nefndur "fiskveiðaöld" og það einkenndist af uppgangi, mikilli eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum, einkum skreið. Þegar kom fram undir miðja 16. öld hófst tímabil stöðnunar og hnignunar. Minnkandi eftirspurn eftir skreið olli verðfalli og breytt verslunarfyrirkomulag með verslunareinokun var sjávarútvegi óhagstætt. Skútuöld tók við af árabátaöld. Skúli Magnússon landfógeti beitti sér fyrir að stofnað var félag um verksmiðjurekstur og þilskipaútgerð og keypti félagið, sem nefnt var Innréttingarnar, tvær húkkortur "Friðriksósk" og "Friðriksvon" til að kenna Íslendingum að nota segl og stýri. Skipin sigldu til Íslands árið 1752. Einnig lét Skúli smíða jakt í Örfirisey. Maren orkustjórnunarkerfi. Maren er orkustjórnunarkerfi fyrir skip notað til að lágmarka olíunotkun, þar með minnka eldsneytiskostnað útgerða og draga úr mengun sjófara. Það er þróað af fyrirtækinu Marorku. Maren 2 kerfið var gefið út seinni hluta ársins 2005 og sýnt á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi það ár. Maren 2 hlaut það árið verðlaun sem besta nýja varan á sýningunni. Maren kerfið fylgist með mismunandi gerðum orkukerfa um borð í hinum ýmsu tegundum skipa. Það sýnir skipsstjórnendum samhengi milli stýringa þessara kerfa og olíueyðslu skipsins. Maren notar hermun og bestun til að koma með tillögur að bættri stýringu og tekur við það mið af hönnun skipsins og aðgerðum um borð. Lucy Lawless. Lucille Frances Ryan (fædd 29. mars 1968 í Auckland) er bandarísk leikkona og poppsöngkona. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls er safn beygingardæma á rafrænu formi sem er aðgengilegt almenningi á netinu. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi sér um að viðhalda og dreifa BÍN. Byrjað var að vinna við gerð BÍN árið 2002 hjá Orðabók Háskólans. BÍN var unnin í nokkrum áföngum og var sá fyrsti styrktur af tungutækniverkefni menntamálaráðuneytisins og lauk honum þann 15. mars 2004 með um 173.000 orðum. Nú eru um 260.000 orð, og er BÍN ennþá í vinnslu. Sigurbjörn Einarsson. Sr. Sigurbjörn Einarsson (30. júní 1911 – 28. ágúst 2008) var biskup Íslands frá árinu 1959 til ársins 1981. Sonur hans er Karl Sigurbjörnsson. Æska. Sigurbjörn Einarsson fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi, Vestur-Skaftafellssýslu. Nám. Sigurbjörn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1931 og nam almenn trúarbragðavísindi, klassísk fornfræði og sögu við Uppsalaháskóla. Hann lauk þaðan prófi í grísku, fornfræðum og sögu árið 1936 og hlaut cand. fil. gráðu frá heimspekideild Stokkhólmsháskóla árið 1937. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1938. Sigurbjörn stundaði framhaldsnám í nýja-testamentisfræðum við Uppsalaháskóla 1939, í trúfræði við Háskólann í Cambridge sumarið 1945 og framhaldsnám veturinn 1947-48, meðal annars í Basel. Starf. Séra Sigurbjörn Einarsson varð sóknarprestur í Breiðabólstaðarprestakalli á Skógarströnd 1938 og var veitt Hallgrímsprestakall í janúar 1941 og þjónaði þar til 1944 þegar hann var skipaður dósent í guðfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hafði verið settur kennari. Hann var skipaður prófessor í guðfræði 1949 og gegndi því starfi til 1959 er hann var vígður biskup Íslands. Hann þjónaði sem biskup Íslands til ársins 1981. Félags- og trúnaðarstörf. Sigurbjörn var forseti Framtíðarinnar 1931, formaður Lilju frá stofnun 1943 og til 1959, formaður Þjóðvarnarfélags Íslendinga 1946 – 50, formaður Skálholtsfélagins frá stofnun þess 1949. Hann sat í stjórn Hins íslenska Biblíufélags frá 1948 og var forseti þess 1959 – 81, forseti Kirkjuráðs og Kirkjuþings 1959-81 og sat í stjórn Nordiska Ekumeniska Institutet 1959 – 81. Sigurbjörn var formaður sálmabókarnefndar 1962-72, formaður þýðingarnefndar Nýja testamentisins 1962-81 og sat í nefnd á vegum Lúterska heimssambandsins um trúariðkun og trúarlíf 1964-68. Hann var formaður Listvinafélags Hallgrímskirkju 1982-87 og Skólanefndar Skálholtsskóla 1972-81. Ritstörf. Sigurbjörn samdi og þýddi mörg ritverk. Þar má nefna Trúarbrögð mannkyns, Opinberun Jóhannesar - skýringar, ævisögu Alberts Schweitzer og kennslurit um trúarbragðasögu og trúarlífssálfræði. Hann gaf einnig út fjölda bóka með greinum, predikunum og hugvekjum og samdi og þýddi fjölda sálma í Sálmabók kirkjunnar. Crème brûlée. Mynd af "crème brûlée" sem kveikt hefur verið í. "Crème brûlée" (Franska: „brenndur rjómi“) er eftirréttur úr saðsömum búðingi með karamelluskel sem gerð er með því að brenna sykur með gasbrennara eða öðru álíka. Rétturinn er vanalega borinn fram í litlum köldum keramík skálum, sem kallast ramekin. Búðingurinn er oftast með vanillubragði, en líkjör, súkkulaði eða ávöxtum er oft bætt við. Biti (tölvufræði). Biti er tölustafur á tvítöluformi (tvítölustafur) og getur haft gildið 0 eða 1. Biti er grunneining upplýsinga á stafrænuformi. Fleiri orð eru notuð yfir gildi bita heldur en núll og einn, t.d. hár og lág, satt og ósatt, af og á. Atli Viðar Björnsson. Atli Viðar Björnsson er íslenskur knattspyrnumaður sem leikur fyrir FH. Hann er Dalvíkingur að uppruna. Vilhjálmur Finsen. Vilhjálmur Finsen (7. nóvember 1883 – 11. október 1960) var blaðamaður og fyrsti ritsjóri Morgunblaðsins og einn af stofnendum þess, ásamt Ólafi Björnssyni. Vilhjálmur Finsen var sonur Óla Finsen, sem lengi var póstmeistari í Reykjavík, af hinni frægu Finsensætt, sem kennir sig við nafn Finns Jónssonar Skálholtsbiskups. Vilhjálmur varð stúdent 1902 og lagði stund á málanám við Kaupmannahafnarháskóla en tók jafnframt að rita fréttapistla frá Íslandi í dönsk blöð sama vetur og hann kom til Hafnar. Árið 1904 varð Vilhjálmur íslenskur fréttaritari við "Politiken". Hann var starfsmaður hjá Marconi-félaginu 1906 og tók próf í loftskeytafræði við skóla félagsins í Liverpool í apríl 1907 og varð fyrstur manna á Norðurlöndum til þess að taka loftskeytapróf. Um nokkurra ára skeið starfaði hann hjá Marconi-félaginu og ferðaðist víða á vegum þess. Á þessum árum stundaði hann jafnframt blaðamennsku. Hinn 2. nóvember 1913 stofnaði hann "Morgunblaðið" ásamt Ólafi Björnssyni ritstjóra en lét af ritstjórn blaðsins í árslok 1921. Þá fluttist hann til Noregs og starfaði meðal annars við stórblaðið "Tidens Tegn". Vilhjálmur varð sendiherra í Svíþjóð og síðar í Þýskalandi en síðustu árin helgaði hann sig einkum blaðamennskunni og safnaði greinum sínum í bók. Á vegi hans varð margt merkra manna og segir hann frá kynnum sínum við þá í ævisögu sinni "Alltaf á heimleið". Blaðaviðtöl átti hann meðal annars við Edison, Amundsen og Caruso. Sólarljóð. Sólarljóð – (nafnið er yfirleitt haft í fleirtölu: Sólarljóðin) – eru gamalt íslenskt helgikvæði sem líkist sumum Eddukvæðum að bragarhætti og myndmáli. Það hefur að geyma kristna lífsspeki og minnir um margt á Hávamál. Það er alls 82 (eða 83) erindi, er kveðið undir ljóðahætti, rétt eins og t.d. Hávamál og Hugsvinnsmál. Sólarljóð flokkast oftast undir leiðslukvæði. Höfundur þeirra er óþekktur. Uppruni Sólarljóða. Í kvæðinu birtist kristinn og heiðinn hugarheimur á sérstæðan hátt, og töldu því margir að kvæðið sé ort á mörkum heiðni og kristni. En nú er talið að eigið hugarflug skáldsins og kynni af Eddukvæðum hafi haft þessi áhrif. Þó að skiptar skoðanir hafi verið um aldur kvæðisins, hallast nú flestir að því að það sé frá árabilinu 1200–1250. Sólarljóð eru varðveitt í 44 pappírshandritum, og eru þau elstu frá 17. öld. Í einu þeirra er vitnað til skinnhandrits sem skrifað var eftir. Innihald ljóðanna. Í Sólarljóðum birtist faðir syni sínum í draumi, og ávarpar hann frá öðrum heimi. Kvæðið getur því talist til leiðslubókmennta, sem voru vinsælar á miðöldum. Kvæðið birtir kaþólska heimsmynd og leiðsögn um refilstigu lífsins. Sá sem hafði tileinkað sér boðskap kvæðisins kunni bæði að lifa og deyja, og gat því hlotið eilífa sáluhjálp. Nafnið "Sólarljóð" kemur fram í 81. erindi, og er sótt í vísur 39-45, sem allar byrja á orðunum, "Sól eg sá...". Sæmundur fróði og Sólarljóðin. Sólarljóð eru í sumum handritum eignuð Sæmundi fróða, en það er úr lausu lofti gripið, og er höfundurinn óþekktur. Sú hugmynd kemur þó fram í þjóðsögum. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur: „Sæmundur andaðist 1133, en með hverjum atburðum höfum vér eigi heyrt; þó segja menn, að hann þrídagaður hafi úr líkrekkjunni risið og þá kveðið þá drápu, er hans Ljóða-Eddu er vön að fylgja og kallast Sólarljóð.“ Spore (tölvuleikur). Spore er tölvuleikur sem kom út í september 2008. Höfundur leiksins er Will Wright sem einnig gerði leikina SimCity og The Sims. Í Spore getur spilari búið til eigin heim, bæi, farartæki og verur. Leikurinn er einstaklingsleikur en hægt er að skiptast á samfélögum og verum við aðra spilara. Will Wright. William Wright (fæddur 20. janúar 1960 í borginni Atlanta) er bandarískur tölvuleikjahönnuður og einn af stofnendum tölvuleikjafyrirtækisins Maxis sem nú er hluti af Electronic Arts. Hann er þekktastur fyrir að hafa hannað SimCity og The Sims. Nýjasta verk hans er Spore. Wright var sem barn í Montessori skóla þar sem lögð var áhersla á sköpun, lausnaleit og frumkvæði. Hann hefur sagt að einmitt þessi tegund af námi hafi verið innblástur í sum atriði í SimCity. SimCity. SimCity er tölvuleikur þar sem spilari býr til borg. Leikurinn kom fyrst út árið 1989 og var hannaður af Will Wright. Komið hefur út röð leikja sem byggjast á SimCity hönnun. Frumkóði SimCity var gefinn út með GNU höfundarleyfi þann 10. janúar 2008 undir nafninu Micropolis. Fjalldrapi. Fjalldrapi (fjallhrapi eða drapi) (Fræðiheiti: "Betula nana") er lágvaxinn runni af birkiætt. Fjalldrapi vex í móum og votlendi. Áður fyrr var fjalldrapinn oftast notaður sem tróð undir torfið í þökum torfbæja, því börkur hans varðist mjög vel fúa og hlífði svo viðunum. Bárðarbunga. Bárðarbunga er hæsti punktur á norð-vesturhluta Vatnajökuls, um 2.000 m að hæð. Undan henni gengur skriðjökullinn Köldukvíslarjökull auk fleiri smærri jökla. Þann 14. september 1950 nauðlenti þar íslensk flugvél Loftleiða án þess að nokkur léti lífið. Bandarísk DC-3 flugvél var send til þess að bjarga áhöfninni og gat hún lent á jöklinum en ekki hafið sig til flugs aftur. Fenjakrókódíll. Fenjakrókódíll (eða persneski krókódíllinn) (fræðiheiti: "Crocodylus palustris") er krókódílategund sem er að finna á Indlandi, Pakistan og Srí Lanka. Hann er einnig að finna í hluta Nepals og Írans. Á ensku nefnist fenjakrókódíllinn "Mugger Crocodile", en „mugger“ er ensk ummyndun á orðinu "magar" á Hindí sem merkir „vatnaskrímsli“. Í Nýjum dýrheimum ("The Second Jungle Book") eftir Rudyard Kipling, sem Gísli Guðmundsson þýddi á íslensku, kemur fyrir fenjakrókódíll. Gísli nefnir í þýðingu sinni tegundina mugg (nf. muggur). Fenjakrókódíll getur orðið allt að fimm metra langur. Hann hefur átt það til að ráðast á fólk, en þó aðallega börn. Hnísa. Hnísa, einnig nefnd "selhnísa", (fræðiheiti "Phocoena phocoena") er sjávarspendýr af ætt tannhvala eins og höfrungar. Lýsing. Hnísan er minnsti tannhvalurinn við Ísland. Fullvaxin karldýr eru tæpir tveir metrar á lengd og vega u.þ.b. 70 kg.  Kvendýrin eru 1,4-1,9 m löng og vega 55-70 kg. Hnísan er dökkgrá að ofan, ljósari á síðum og hvít á kviði.  Dökkar rákir eru milli bægsla og munnvika.  Bakugginn er lágur, ávalur og afturhallandi.  Tennurnar eru 40-60 í hvorum skolti. Hnísurnar geta orðið um 30 ár gamlar. Fæða. Helsta fæða hnísu eru ýmsir smáfiskar, síli, loðna og síld. Hnísur kafa ekki eins djúpt og aðrar tegundir og er köfunartími um 2-6 mínútur. Þær synda hægt og liggja oft hreyfingalausar í yfirborði í langan tíma.Talsvert er um það að hnísur festist í fiskinetum einkum hrognkelsanetum og drepist. Fjöldi og dreifing. Hnísa er minnsta hvalategundin hér við Ísland en er afar algeng. Stofninn við landið er líklega um 25–27 þúsund dýr. Hnísur eru hópdýr þó svo að stundum megi rekast á stök dýr. Hnísur er helst að finna inni á fjörðum og flóum enda veiða þær við botninn á fremur grunnu vatni. Hnísan heldur sig aðallega í Norðurhöfum, Atlantshafi og Kyrrahafi.  Kvendýr verða kynþroska 3-4 ára og fæða venjulega einn kálf á ári.  Meðgöngutíminn er 10-11 mánuðir.  Karldýrin verða kynþroska nokkru eldri.  Hnísan var áður veidd við Ísland einkum úti af Breiðafirði og Vestfjörðum en í dag eru einungis nýtt dýr sem fyrir slysni festast í netum. Andeind. Andeind er öreind, sem deilir öllum eigninleikum með tiltekinni efniseind, nema rafhleðslunni, sem er öfug miðað við efniseindina. Dæmi: jáeind er andeind rafeindar. Andefni er eingöngu samsett úr andeindum, en fyrirfinnst ekki náttúrulega á jörðinni. Marabústorkur. Marabústorkur (fræðiheiti: "Leptoptilos crumeniferus") er stórvaxinn vaðfugl af storkaætt. Marabústorkurinn er hrææta og heldur til í Afríku suður af Saharaeyðimörkinni, og er algengur hvortveggja í votlendi sem og á þurrum landsvæðum. Hann er oft að finna nálægt mannabyggðum, sérstaklega ef þar er að finna öskuhauga. Montessori. Montessori er námsaðferð sem þróuð var af Maríu Montessori. Lögð er áhersla á að innleiða vísindi í skólastarfi og börn eigi að fræðast sjálf og læra að velja þroskandi viðfangsefni. Montessori prófaði uppeldishugmyndir sínar í Casa dei bambini í Róm og hóf að rit hennar í uppeldis- og menntunarfræðum voru þýdd á fjölda tungumála. Hún var einn af frumkvöðlum umbótauppeldisfræðinnar (reform education) í Evrópu á 20. öldinni. Hún lagði áherslu á að kennarar ungra barna fylgdust vel með börnunum og skráðu hjá sér námsleiðir þeirra til þess að þeir yrðu færir um að fylgja þeim eftir og styðja við nám barna. Leiðslubókmenntir. Leiðslubókmenntir eru frásagnir í bundnu eða óbundnu máli af því sem höfundar sáu í leiðslu eða draumsýn (latína: "visio"). Oftast er þar um að ræða lýsingar á öðrum heimi, bæði Víti og Himnaríki. Leiðslubókmenntir má rekja til frumkristni, og þær urðu vinsælar í bókmenntum kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Meðal frægustu verka af þessu tagi er "Divina Commedia" ("Gleðileikurinn guðdómlegi") eftir Dante Alighieri. Draumkvæðið norska telst einnig til leiðslubókmennta en það var þó ekki skrifað upp fyrr en á 19. öld. Þórisvatn. Þórisvatn er stærsta stöðuvatn Íslands, um 86 ferkílómetrar, en það liggur milli Köldukvíslar og Hraunvatna á hálendi Rangárvallasýslu. Suður í vatnið gengur alllangur höfði, Útigönguhöfði, sem skiptir því í tvo flóa. Austan höfðans eru Austurbotnar en vestan við hann er stærsti hluti vatnsins. Þórisvatn hefur verið miðlunarlón Vatnsfellsvirkjunar, sem er við suðurenda vatnsins, frá árinu 1971 en vatnið í það kemur úr Köldukvísl (og þar með Kvíslaveitum Þjórsár). Áður en Vatnsfellsvirkjun var byggð var Þórisvatn annað stærsta stöðuvatn landsins, á eftir Þingvallavatni, um 70 km², en í dag getur það orðið allt að 86 km². Þá var ekkert yfirborðsrennsli í vatnið heldur bara neðanjarðarlindir sem sytruðu í gegnum hraunið, mest í Austurbotn. Mesta dýpi vatnsins er 109 metrar. Yfirborðshæð þess sveiflast um 16,5 metra eftir árstímum. Öskjuvatn. Öskjuvatn er næstdýpsta stöðuvatn Íslands. Það varð til við Öskjugos árið 1875. Það var lengi vel dýpsta stöðuvatn Íslands, 11 km² að stærð og 220 m á dýpt, staðsett við eldfjallið Öskju á Austurlandi. Nýlegar mælingar hafa sýnt að Jökulsárlón er dýpsta vatn Íslands, 248 m á dýpt. Júlíus Havsteen. Júlíus Havsteen (13. júlí 1886 – 31. júlí 1960) var lögreglustjóri á Siglufirði, en lengst af sýslumaður í Þingeyjarsýslu. Hann þýddi einnig "Moby Dick" eftir Herman Melville, en sú þýðing kom út árið 1970. Júlíus lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1905 og embættisprófi í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1912. Sama ár, 12. júlí, kvæntist hann frændkonu sinni, "Þórunni Jónsdóttur". Júlíus var mikill áhugamaður um öflugri landhelgisgæslu og stækkun landhelgi Íslands. Mun þar að rekja rætur til viðureignar hans við erlenda yfirgangsmenn er hann var lögreglustjóri á Siglufirði á árunum 1914-1919. Júlíus Havsteen var var skipaður sýslumaður í Þingeyjarsýslu 27. september 1920. Tók við embætti þar 1. apríl 1921 og gegndi því til 1. júní 1956. Árið 1921 fluttust þau hjónin búferlum til Húsavíkur ásamt 6 börnum og aldurhniginni móður Júlíusar. Árið 1925 varð Júlíus formaður vatnsveitunefndar, þeirrar fyrstu er sveitastjórnin kaus. Júlíus vann ötullega að því að síldarverksmiðja var reist á Húsavík 1937-38. Hann varð einnig formaður hafnarnefndar árið 1933 og allt til þess er hann lét af störfum sem sýslumaður 1956. Júlíus varði um árabil tómstundum sínum til að þýða Moby Dick á íslensku og lauk verkinu nokkru fyrir andlát sitt. Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi. Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi (18. febrúar 1886 – 31. október 1957) var skrifstofustjóri Alþingis í mörg ár og einn af helstu þýðendum á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Hann er þekktastur fyrir þýðingar sínar á skáldsögum Knuts Hamsun. Halldór Laxness kallaði hann „doktor og meistara íslenskrar tungu“. Og hélt áfram: „Honum var léð slík list, að hann þurfti ekki á að halda nema hinum einföldustu og alþýðlegustu orðum til þess að mál hans yrði að dýrum skáldskap“. Jón lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1906, stundaði síðan nám í norrænum fræðum við háskólann í Kaupmannahöfn, en hvarf brátt að öðrum störfum. Hann var ritari í skrifstofu stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn 1909-1912 og fulltrúi sýslumannsins í Árnessýslu 1912-1915. Á árinu 1916 gerðist hann starfsmaður í skrifstofu Alþingis og vann þar um 40 ára skeið, var skrifstofustjóri frá 1921, en lét af þeim störfum sökum aldurs á miðju ári 1956. Jón Gíslason. Dr. Jón Gíslason (23. febrúar 1909 – 16. janúar 1980) var skólastjóri Verzlunarskóla Íslands og mikilsvirtur þýðandi. Hann þýddi t.d. nokkra af grísku harmleikjunum í óbundnu máli, s.s. "Persa", "Sjö gegn Þebu", "Prómeþeif fjötraðan", "Agamemnon", "Dreypifórnfærendur" og "Refsinornir" eftir Æskýlos, "Ödípús konung", "Ödípús í Kólonos" og "Antígónu" eftir Sófókles og "Medeu", "Hippolýtos" og "Alkestis" eftir Evripídes. Hann skrifaði einnig bók um gríska goðafræði sem nefndist "Goðafræði Grikkja og Rómverja: forsögualdir, trúarbragðaþróun, guðir og hetjur" og kom fyrst út árið 1944. Úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Úrvalsdeild karla í körfuknattleik eða Domino's deild karla er efsta deild karla í körfuknattleik á Íslandi en Körfuknattleikssamband Íslands fer með málefni íþróttarinnar á Íslandi. Meistarasaga. Tímabilið 1983-1984 er fyrsta tímabilið þar sem úrslitakeppni fer fram og því bæði annars vegar um deildarmeistara að ræða og hinsvegar Íslandsmeistara Asklepios. Asklepios, stundum kallaður Æskulápur, (gríska: "Ἀσκληπιός") er í grískri goðafræði guð læknisfræðinnar og lækninga. Hann var sonur Apollons og faðir Hygieiu, heilbrigðisgyðjunnar. Kennimerki Asklepiosar eru stafur og slanga sem venjulega hlykkjast um stafinn og nefnist Asklepiosarstafurinn og er alþjóðlegt tákn læknavísindanna. Foreldrar Asklepiosar. Apollon felldi ástarhug til Korónis, þessalskrar konungsdóttur, og þekktist hún guðinn, en var honum ekki trú. Hrafninn komst um ótryggð hennar og gerði Apollon aðvart. Skaut Apollon þá einni af sínum óskeikulu örvum í brjóst meyjarinnar. Áður en hún andaðist, barmaði hún sér sáran, þó ekki yfir sínum eigin örlögum, heldur barnsins sem hún gekk með undir belti. Apollon iðraðist, en það var um seinan. Lagði hann þá Korónis á bálköstinn, en tók ungbarnið og fékk það hinum lækningafróða kentár, Keiron, til fósturs. Þessi sonur Apollons var Asklepios. Að vekja dauða til lífsins. Þegar Asklepios varð eldri fékk Aþena honum blóð úr Gorgóunum, en með því gat hann læknað sjúka og jafnvel vakið dauða til lífsins. Er Hades sá þannig gengið á yfirráð sín, bar hann sig upp við Seif. Laust hann Asklepios eldingu í refsingarskyni fyrir það að hann hafði dirfst að rjúfa lögmál náttúrunnar. Apollon hefndi dauða sonar síns með því að drepa Kýklópa sem höfðu smíðað eldingarnar handa Seifi. Asklepios átti frægt hof á eynni Kos. Í sambandi við það var merkilegur læknaskóli, er alveg sérstaklega stuðlaði að því að hefja grísku læknavísindin til þeirrar fullkomnunar sem þau náðu. Dýrkun Asklepiosar var annars mjög útbreidd. Til Aþenuborgar barst hún um árið 420 f.Kr. Í Róm var Asklepios (á latínu: "Aesculapius") fyrst dýrkaður í mynd hinnar heilögu slöngu (292 f.Kr.). Var honum reist hof á Tíberey. Fendt. Fendt er þýskur dráttarvélaframleiðandi. Það hefur verið í eigu AGCO-samsteypunnar frá 1997 sem meðal annars á Massey Ferguson og Valtra. Fendt framleiðir tratkora í 200-, 300-, 400-, 700-, 800- og 900-línunum. Þá voru þeir fyrstir með svokallaða Vario-gírkassa, en þeir eru stiglausir. Í dag eru flestir Fendt-traktorar með Deutz-vél. New Holland Ag. New Holland er bandarískt fyrirtæki sem framleiðir landbúnaðar- og jarðvinnsluvélar. Það var stofnað í Pennsylvaníu árið 1895 og er í dag hluti af CNH Global. Saga. Þjónustu- og söluaðili fyrir New Holland landbúnaðartæki á Íslandi eru Kraftvélar ehf. John Michael Talbot. John Michael Talbot (fæddist 8. maí árið 1954 í Oklahoma City, Oklahoma, Bandaríkjunum) er bandarískur rómversk-kaþólskur munkur, söngvari, tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann er mjög vinsæll í kaþólsku kirkjuni. Hann stofnaði einnig klaustrið "The Brothers and Sisters of Charity" í Eureka Springs, Arkansas, Bandaríkjunum. Tenglar. Talbot, John Michael Ungmennafélagið Skallagrímur. Ungmennafélagið Skallagrímur er ungmennafélag í Borgarnesi. Félagið er bæði íþróttafélag og leikfélag í senn. Íþróttir sem stundaðar eru innan félagsins eru badminton, frjálsar íþróttir, körfuknattleikur, knattspyrna og sund. Félagið er svo í samstarfi við Íþróttafélagið Kveldúlf, sem er íþróttafélag fatlaðra í Borgarbyggð og er félagið með öflugt starf fyrir fatlaða og aldraða þar sem æft er boccia. Körfuknattleiksdeild Skallagríms og Háskólinn á Bifröst gerðu samning, þann 4. nóvember 2010 að þeir nemendur sem eru samningsbundnir Skallagrími fái niðurfelld skólagjöld. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi aðferð hefur verið farin á íslandi. Ungmennafélagið Snæfell. Ungmennafélagið Snæfell er íþróttafélag í Stykkishólmi. Íþróttir sem stundaðar eru innan félagsins eru körfuknattleikur, knattspyrna, frjálsar íþróttir, sund, siglingar og blak. Ungmennafélagið Tindastóll. Ungmennafélagið Tindastóll er íþróttafélag á Sauðárkróki. Íþróttir sem stundaðar eru innan félagsins eru körfuknattleikur, sund, frjálsar íþróttir, skíði og knattspyrna. FSu. FSu er körfuknattleiksakademía á Selfossi sem samanstendur af leikmönnum úr Fjölbrautaskóla Suðurlands sem keppa fyrir hans hönd. Fellibylurinn Gustav. Fellibylurinn Gustav var 4. stigs fellibylur sem myndaðist í Karíbahafi árið 2008. Gustav olli alvarlegum skemmdum og mannfalli á Haítí, í Dóminíska lýðveldinu, á Jamaíka, Caymaneyjum, Kúbu og í Bandaríkjunum. Akureyri Handboltafélag. Akureyri Handboltafélag er handknattleiksfélag frá Akureyri. Akureyri Handboltafélag var stofnað árið 2006 þegar handknattleiksdeildir Þórs og Knattspyrnufélags Akureyrar ákváðu að hefja samstarf sín á milli. Í Nóvember 2010 skrifuðu svo formenn bæði Þórs og K.A. undir nýjan samning sem inniheldur samkomulag um samvinnu liðanna til ársins 2015. Límóna. Límóna (eða súraldin) (fræðiheiti: "Citrus aurantifolia") er grænn ávöxtur límónutrésins sem er hitabeltistré af rútuætt. Límóna er sítrusávöxtur, og hvortveggja súr og mjög C-vítamínríkur. Límónur eru mikið kreistar yfir salöt og límónusneiðar eru vinsælt bragðskraut út í áfenga drykki, t.d. gin og tónik. Í Mexíkó er víða til siðs að bjór sé borinn fram með límónubáti sem er stungið ofan í flöskustútinn. Arkiv for nordisk filologi. Arkiv for nordisk filologi var fyrsta tímaritið, sem eingöngu var helgað norrænni textafræði, með rannsóknum á norrænum tungumálum og bókmenntum fyrri alda. Hugmyndin að tímaritinu kom fram á öðru þingi norrænna textafræðinga, 1881. Fjögur fyrstu bindin komu út á árunum 1883–1888 í Kristjaníu, og var Gustav Storm þá ritstjóri. Þegar Axel Kock lét af ritstjórn 1929, kom út sérstakt heiðursrit til að minnast framlags hans til fræðanna. Tímaritið er nú gefið út með styrk frá "Axel Kocks fond för nordisk filologi". Oklahoma City. Oklahoma City er höfuðborg og stærsta borg fylkisins Oklahoma í Bandaríkjunum. Rúmlega 550.00 manns búa í borginni. Borgarísjaki. Aðeins lítill hluti af borgarísjaka er ofan sjávar. Borgarísjaki eða borgarís er ísjaki sem hefur brotnað úr jöklum sem skríða í sjó fram eða liggja meðfram strönd. Stærsti hluti af borgarísjaka er neðanjarðar. Hafís getur annaðhvort verið borgarís sem kemur úr jöklum eða frosið vatn á yfirborði sjávar. Borgarís við Ísland. Borgarís sem flýtur á hafinu við Ísland kemur úr jöklum Grænlands og berst með Austur-Grænlandsstrauminum hingað vestan úr Grænlandssundi eða beint úr norðri á norðausturhluta Íslands. Uppbygging. Eðlisþyngd borgarísjaka er 920 kg/m³. Vegna lítils munar við eðlisþyngd sjávar sem er 1025 kg/m³ er eingöngu 1/9 hluti ísjakans sem nær upp fyrir yfirborð sjávar. Erfitt er að dæma lögun hans undir sjávarmáli með því að horfa á hann ofansjávar. Þetta vandamál hefur leitt af sér máltækið "toppurinn á ísjakanum". Algeng stærð ísjaka er 1-75 metrar yfir sjávarmáli og 100.000 - 200.000 tonn. Heimsmetið yfir stærsta borgarísjaka er að finna á Norður-Atlantshafi, en þar fannst ísjaki með 168 metra yfir sjávarmáli sem greint var frá ísbrjót árið 1958. Þessi hæð er jöfn 55 hæða byggingu. Ísjakar eins og þessi eiga uppruna sinn frá jöklum vestur Grænlands og innra hitastig þeirra er -15 til 20 °C. Hermesarstafurinn. Hermesarstafurinn eða Merkúrsstafurinn (en einnig kenndur við sprota og kallaður Hermesarsprotinn) (gríska: "κηρύκειον" - latína: "caduceus") er gylltur stafur eða sproti sem tvær slöngur hlykkjast um og er vængjaður efst. Guðinn Hermes er oft sýndur í höggmynda- og myndlist með Hermesarstafinn í vinstri hendi, en Hermes var sálnaleiðir ("psychagogos") og verndarguð kaupmanna, þjófa, lygara og fjárhættuspilara. Varast ber að rugla Hermesarstafnum saman við Asklepiosarstafinn og öfugt. Til forna var Hermesarstafurinn tákn plánetunnar Merkúríusar. Á Íslandi er Hemesarstafurinn tákn Verzlunarskóla Íslands, enda Hermes (Merkúríus) guð verslunar. ASUS Eee PC. ASUS Eee PC er fartölva sem kom á markað árið 2007. Einkenni hennar þá voru að hún var með Linux-stýrikerfi og var afar lítil og sterkbyggð, skjárinn var 7 til 9 tommur og vélin innan við 1 kíló að þyngd. Asklepiosarstafurinn. Asklepiosarstafurinn er stafur eða sproti sem snákur hlykkjast um og er tákn læknisvísindanna, enda var Asklepios, sem stafurinn er kenndur við, guð læknisfræðinnar og lækninga í grískri goðafræði. Asklepiosarstafinum er oft ruglað saman við Hermesarstafinn. Hinrik Hansen. Hinrik Hansen eða Hendrik Hansen (1748 – 11. október 1802) var Dani sem fluttist til Íslands á síðari hluta 18. aldar. Hann var kaupmaður á Básendum í Hvalsnessókn. Básendar voru á Rosmhvalanesi rétt við Hafnir og hafði þar verið verslunarstaður frá lokum 15. aldar. Hinrik var assistent við verslunina í Örfirisey árið 1776 og bjó þá í Stöðlakoti í Reykjavík. Síðar fluttist hann suður á Básenda og keypti kóngsverslunina þar. Hann hafði töluvert umleikis og á Básendum átti hann sölubúð, íbúðarhús, tvö vörugeymsluhús, gripahús og torfbæ. Einnig átti hann sex báta sem hann gerði út. Sjávarflóðið. Hann missti aleiguna í miklu sjávarflóði sem varð aðfaranótt 9. janúar 1799, þegar allar byggingar á Básendum eyðilögðust eða skemmdust svo að þær voru ekki endurbyggðar. Flúði fjölskyldan fyrst upp á loft í íbúðarhúsinu en þegar Hinrik sá að það mundi ekki duga braut hann glugga og skriðu þau þar út, fáklædd, og komust í fjósið, sem stóð ögn hærra. Þegar hún fór að brotna hröktust þau í hlöðuna en urðu einnig að flýja þaðan og komust við illan leik að hjáleigunni Loddu hjá Stafnesi. Íbúum í torfbænum tókst að rjúfa gat á þekjuna og komast út en ein kona drukknaði; hún var 79 ára og mjög lasburða. Af bænum var ekki annað eftir um morguninn en grjóthrúga. Byggð á Básendum lagðist niður fyrir fullt og allt og Hinrik flutti með fjölskyldu sína til Keflavíkur. Hann bjó þar þegar manntalið 1801 var tekið en dó ári síðar. Kona Hinriks (g. 1. nóvember 1774) var Sigríður Sigurðardóttir (1761 - 1813) frá Götuhúsum í Reykjavík. Börn þeirra voru Hans Símon Hansen (1779), Pétur Hansen (1785), líklega beykir í Ullarstofunni í Reykjavík 1816, Símon Hansen (1789 - 1847), María Elísabet Hansen (1791) og Friðrik Hansen (1794 - 1836). Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur eftir lát Hinriks og voru bræðurnir jafnan kallaðir Básendabræður. Rembihnútur. Rembihnútur er einfaldur hnútur og yfirleitt sá fyrsti sem menn læra. Hann er líka grunnur undir marga aðra hnúta, t.d. slaufu og blóðhnút. Hnúturinn er mjög öruggur og erfitt getur verið að leysa hann. Hann er oft hnýttur á endann á bandi til að koma í veg fyrir að það rakni upp. Íþróttahúsið Digranes. Íþróttahúsið Digranes er íþróttahús í Kópavogi og heimavöllur HK. Húsið var tekið í notkun árið 1984. Digranes Skaftárjökull. Skaftárjökull er skriðjökull sem liggur úr Vatnajökli í vesturátt, suður af Tungnafellsjökli. Úr Skaftárjökli rennur Skaftá. Köldukvíslarjökull. Köldukvíslarjökull er skriðjökull sem gengur út af Norð-Austurhluta Vatnajökuls. Tungnárjökull. Tungnárjökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í vesturátt. Síðujökull. Síðujökull er skriðjökull sem gengur út af Suð-Vesturhorni Vatnajökuls. Skeiðarárjökull. Skeiðarárjökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í suðurátt. Breiðamerkurjökull. Breiðamerkurjökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í suðurátt. Skálafellsjökull. Skálafellsjökull er skriðjökull sem gengur út af Suð-Austurhluta Vatnajökuls. Fláajökull. Fláajökull er skriðjökull sem gengur niður af austurhluta Vatnajökuls, Breiðubungu, í suðausturátt. Eyjabakkajökull. Eyjabakkajökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í norð-austurátt. Brúarjökull. Brúarjökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í norðausturátt niður á Brúaröræfi og nær á milli Kverkfjalla í vestri og Þjófahnjúka suður af Snæfelli. Hann er víðáttumestur skriðjökla Vatnajökuls, um 40 km breiður yfir hann þveran og jaðar hanns um 55 - 60 km langur og sá sem mest skríður fram í kílómetrum talið. Hann skreið til dæmis 10 km fram á árunum 1963-1964 og er einn frægasti skriðjökull á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Hann er frekar auðveldur yfirferðar, lár og bunguvaxinn. Helstu ár sem falla undan Brúarjökli eru Jökulsá á Brú og Kreppa. Hann er þekktur fyrir að hlaupa oft fram með miklum látum líkt og margir skriðjöklar. Heimildir frá fyrri tíð geta um hlaup í Jökulsá á Brú, sem hækkaði þá verulega og var talið afleiðing af framhlaupi jökulsins. Framan af 18. öld hopaði jökullinn verulega en hljóp fram árið 1810. Eftir það hopaði hann aftur en hljóp síðan fram um marga kílómetra árið 1890. Var það svo öflugt hlaup að hann skóf upp jarðveg og ýtti honum upp í mikla hrauka á undan sér. Leifar af því hlaupi má sjá í miklum hraukum yfir Kringilsárrana þvera og lengra austur. Þessir hraukar eru kallaðir Töðuhraukar. Eftir þetta mikla hlaup rýrnaði jökullinn aftur, um allt að 10 km frá hraukunum. Í október 1963 komst á hann aftur verulegt skrið og heyrðust brestirnir á efstu bæjum í Jökuldal í Fljótsdal og á Möðrudal. Þessu skriði lauk ekki fyrr en ári seinna, 1964, en í þetta skipti skreið jökullinn ekki jafn langt fram og árið 1890. Dyngjujökull. Dyngjujökull er skriðjökull sem gengur út af Vatnajökli í norðurátt. Dyngjujökull er vanur að skríða fram á 20-25 ára fresti og þá 1-2 km í senn. Fyrsta þekkta framhlaup hans varð árið 1934 og svo hljóp hann 1951, 1977-1978 og svo í nóvember 1999 og í júlí árið 2000. Fleiri skriðjöklar á Íslandi eiga þetta til, til dæmis: Síðujökull, Tungnárjökull, Kaldalónsjökull og Leirufjarðarjökull í Drangajökli, og líka Hagafellsjökull, sem gekk út í Hagavatn árið 1999 og olli stórvandræðum í Hvítá, og svo Brúarjökull, en hann er mestur af þeim öllum í þessu tilliti. Skákþing Íslands. Skákþing Íslands er Íslandsmót einstaklinga í skák sem er haldið árlega af Skáksambandi Íslands. Keppt er í tveimur flokkum: landsliðsflokki og áskorendaflokki. Jökulsá á Fjöllum. Jökulsá á Fjöllum er önnur lengsta á Íslands, 206 km að lengd. Eins og nafnið gefur til kynna er hún jökulá sem rennur frá Vatnajökli, nánar tiltekið Dyngjujökli og Brúarjökli. Fossarnir Selfoss, Hafragilsfoss, Réttarfoss og Dettifoss eru í ánni. Nálægt eru þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi. Árfarvegur Jökulsár á Fjöllum er mótaður af miklum jökulhlaupum sem flest tengjast líklegaeldgosum í Vatnajökli. Áin rennur austan við Herðubreiðarlindir og markar austurjaðar Ódáðahrauns, norður eftir Kelduhverfi. Framburðurinn árinnar hefur myndað sandana og flatlendið í Öxarfirði og Kelduhverfi. Vatnasvið. Í Jökulsá á Fjöllum berst vatn undan Dyngjujökli og kvíslast um flatar eyrar áður en það safnast einn farveg. Hin meginupptökin eru undan Brúarjökli og heita aðalkvíslarnar Kreppa og Kverká. Þær sameinast fyrst í eitt vatnsfall og síðan vesturkvíslinni rétt austan við Herðubreiðarlindir. Virkjanahugmyndir. Áin er hvergi virkjuð og sumarið 2008 gaf Landsvirkjun út yfirlýsingu þar sem tekið var fram að ekki stæði til að virkja Jökulsá á Fjöllum. Smárinn (íþróttahús). Smárinn er íþróttahús í Kópavogi og heimavöllur Breiðabliks. Vatnsfellsvirkjun. Vatnsfellsvirkjun er 90 MW vatnsaflsvirkjun í Þjórsá. Framleiðslugeta stöðvarinnar er um 430 GWst á ári. Framkvæmdir hófust 1999 og var lokið 2001. Fyrirkomulag. Vatnsfellsvirkjun nýtir 65 m fallhæð á milli Þórislóns og Krókslóns sem er uppistöðulón Sigöldustöðvar. Virkjunin var byggð til að nýta vatnsmiðlunina á milli Þórisvatns og Krókslóns og var fyrirhugað að framleiða raforku í henni á veturna þegar mesta orkuþörfin er. Nú er hún hins vegar í gangi nánast allan ársins hring. Ofan við stífluna er lítið inntakslón, um 0,6 km² að stærð, í hæstu vatnsstöðu og með miðlanlegt rými upp á 3,2 Gl. Við suðurenda aðalstíflunnar er 700 m langur aðrennslisskurður að steyptu inntaksvirki. Frá inntaki er vatninu veitt í tveimur 126 m löngum þrýstipípum úr stáli að stöðvarhúsi. Í stöðvarhúsinu eru tvær aflvélar af Francis gerð hvor um sig 45 MW. Stöðvarhúsið er ofanjarðar en grafið niður og inn í brekkurótina. Frá stöðvarhúsinu liggja háspennustrengir um stokk neðanjarðar að rofa- og tengivirkishúsi norðan við stöðina. Frá húsinu er 220 KV flutningslína að tengivirkinu við Sigöldustöð. Frá stöðvarhúsi að Krókslóni var grafinn 2,4 km langur frárennslisskurður. Aðkomuvegur að stöðvarhúsi var lagður suðaustan við hann. Vatnsfellsveita. Í tengslum við Vatnsfellsvirkjun voru reistar þrjár stíflur. Ein aðalstífla nær yfir núverandi veitufarveg en að auki voru reistar tvær minni hliðarstíflur. Aðalstíflan er hæst 30 m og um 750 m löng. Krónuhæð hennar er í 565,5 m y.s. Hliðarstíflurnar eru suðaustan við aðalstífluna. Sú hærri er 10 m há og 300 m löng en sú minni um 4 m há og 80 m löng. Stíflurnar eru grjótstíflur en aðalstíflan er með steyptri klæðningu vatnsmegin. Listaverk við stöðina. Við Vatnsfellsstöð eru tvö listaverk sem voru vígð árið 2005. Tíðni. Listaverkið "Tíðni" er eftir Finnboga Pétursson. Það myndar hljóð á tíðninni 50 rið, en það er sama tíðni og rafmagnsins í orkukerfinu. Segja má að listaverkið sé manngeng hljóðpípa. Í norðanáttum, sem eru ríkjandi á svæðinu, blæs loft í gegnum hljóðpípuna. Við gegnumstreymi loftsins myndast tónninn sem er afar djúpur og á mörkum þess sem mannseyrað skynjar. Móðir jörð. Listaverkið "Móðir jörð"Listaverkið "Móðir jörð" er eftir Gjörningaklúbbinn. Hann skipa þær Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Móðir jörð er gróðurreitur sem hefur verið útbúinn við Vatnsfellsstöð. Í október 2003 voru gróðutorfur úr Þóristungum, sem eru á svæði fyrirhugaðs Sporðöldulóns, fluttar á hinn gróðursnauða tanga við Vatnsfellsstöð í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Stöðin sér gróðurreitnum fyrir skjóli auk rafmagns sem lýsir upp útlínur hans þegar skyggja fer. Laurence-prófessor í fornaldarheimspeki. Laurence-prófessorststaðan í fornaldarheimspeki við Cambridge-háskóla á Englandi var stofnuð árið 1930 með peningjagjöf frá Sir Perceval Maitland Laurence; hún er elsta prófessorsstaðan í fornaldarheimspeki í heimi.. Reginald Hackforth. Reginald Hackforth (fæddur 17. ágúst 1887 í London, látinn 6. maí 1957 í Cambridge) var enskur fornfræðingur. Hann gegndi embætti Laurence-prófessors í fornaldarheimspeki við Cambridge-háskóla á árunum 1939 til 1952. Hackforth gerður að félaga í Bresku akademíunni árið 1946. David Sedley. David Neil Sedley (fæddur 30. maí 1947) er breskur fornfræðingur og heimspekisagnfræðingur. Hann er Laurence-prófessor í fornaldarheimspeki við Cambridge-háskóla. Sedley nam við Trinity College í Oxford þaðan sem hann brautskráðist árið 1969. Honum var veitt doktorsgráða árið 1974 af University College London. Doktorsverkefni hans var ritstýrður texti, þýðing og skýringar við 28. bók "Um náttúruna" eftir Epikúros. Frá 1976 hefur Sedley verið félagi á Christ's College í Cambridge og frá 1996 prófessor í fornaldarheimspeki. Í júlí árið 2000 tók hann við stöðu Laurence-prófessors í fornaldarheimspeki af Giselu Striker. Sedley hefur verið gistiprófessor við Princeton-háskóla (1981 - 1982), Kaliforníuháskóla í Berkeley (1984 og 2004), Yale-háskóla (1990) og Cornell-háskóla (2001). Hann var gerður að félaga í Bresku akademíunni í júlí 1994. Steve Angello. Steve Angello (fæddur Steve Josefsson Fragogiannis) er grísk-sænskur skífuþeytir og framleiðandi. Hann er einn þriggja í Swedish House Mafia. Bakgrunnur. Angello fæddist í Aþenu, faðir hans var grískur en móðir hans sænsk. Faðir hans var krimmi og var myrtur þegar Steve var unglingur. Því ákvað hann að flytja til Stokkhólms til að koma í veg fyrir það að dragast inn í heim glæpa í Grikklandi. Þar hóf hann einnig tónlistarferil sinn og fór að þeyta skífum. Þannig leiddi hann saman hip-hop, break-takta, sígilda tónlist frá 8. áratugnum og síðar house-tónlist. Með honum að þeyta skífum var Sebastian Ingrosso, besti vinur hans. Framleiðsla. Steve Angello semur tónlist undir nokkrum dulnefnum. Einna helst ber þar að nefna "Who's Who" sem er sóló-nafn hans og notaði við gerð laganna „Not So Dirty“ og „Sexy Fu*k“. Þegar þeir Sebastian Ingrosso vinna sama nota þeir nöfnin "Buy Now", "Fireflies", "General Moders", "Mode Hookers", "Outfunk" og "The Sinners". Nú nýlega gáfu þeir út lagið „Bodycrash“ undir Buy Now-nafninu en þá unnu þeir takta upp úr „Let's All Chant“ sem Michael Zager Band gaf út árið 1978. Lagið var fyrst leikið í útvarpi á seinni hluta árs 2007 en lak svo á Netið í janúar árið eftir. Þá var það gefið út af Positiva Records. Svokölluð „Laidback Luke“-endurhljóðblöndun kom þá einnig út. Ásamt Eric Prydz semur Angello undir nafninu "A&P Project". Þeir Axwell kalla sig svo "Supermongo", og síðar "Supermode". Þeir gerðu ábreiðu af Bronski Beat lagi og nefndu það „Tell Me Why“. Lagið kom út sumarið 2006. Tónlistargerð Steve Angello telst helst "house" (til dæmis „Summer Noize“), framúrstefnulegt "house" (lagið „Yeah“) og raf-"house" („Raining Again“). Hann á einnig eigið plötufyrirtæki sem heitir Size Records. Þá vann Angello að nokkrum lögum á "Pop Life", breiðskífu David Guetta. Sarah Palin. Sarah PalinSarah Louise Heath Palin (fædd 11. febrúar 1964) var ríkisstjóri Alaska-fylkis frá 2006 til 2009 og varaforsetaefni Johns McCain í forsetakosningum Bandaríkjanna 2008. Hún er önnur konan í sögu Bandaríkjanna sem verður í varaforsetaframboði annars stóru flokkanna (á eftir Geraldine Ferraro) í Bandaríkjunum og sú fyrsta í sögu Repúblikanaflokksins. Ævi. Palin fæddist í Sandpoint í Idaho þriðja barn Sarah Heath, ritara í skóla, og Charles R. Heath, raunvísindakennara og hlaupakennara. Sarah var virk í íþróttum á sínum yngri árum, lék körfubolta og hlaut gælunafnið "Barrakúda". Hún sá um að leiða bæn áður en leikar hófust. Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Idaho með B.S.-gráðu í samskipta- og fjölmiðlafræðum og með stjórnmálafræði sem hlutanám. Hún var bæjarstjóri smábæjarins Wasilla í Alaska frá 1996 til 2002, tæplega sjö þúsund manns búa þar. Í október 1996 rak hún lögreglustjórann og fleiri embættismenn til að „reyna hollustu þeirra við nýja yfirstjórn“, lögreglustjórinn sótti hana til saka fyrir ólögmætan brottrekstur en Palin var sýknuð því dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hún mætti reka starfsmenn vegna pólitískra atriða. Á sama tíma rak hún bókasafnsfræðinginn, eftir að hafa áður spurst fyrir hvernig hún gæti bannað bækur af bókasafninu sem henni eða hópi kjósenda mislíkaði, hópur 60 íbúa bæjarins efndi til mótmæla og því ákvað Palin að endurráða bókasafnsfræðinginn. Árið 2006 bauð hún sig fram til ríkisstjóra Alaska-fylkis, og lagði áherslu á að uppræta spillingu og sóun, hún sigraði með 48,3% atkvæða en helsti keppinautur hennar, demókratinn Tony Knowles fékk 40,9%. Hún bauð upp einkaþotu ríkisstjórans og rak einkakokkinn eftir að hún náði kjöri og beitti neitunarvaldi á fjölmörg verkefni, mörg þeirra urðu þó að veruleika eftir lagabreytingar og ásakanir komu fram að hún hefði ekki haft næga vitneskju um gildi verkefnanna til að hafa beitt neitunarvaldi á þau. Stefnumál. Palin er andvíg hjónaböndum samkynhneigðra, er andvíg fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir í skólum og styður skírlífiskennslu í þess stað, er andvíg fóstureyðingum nema líf móður sé í hættu. Hún styður dauðarefsingar og vill að sköpunarsagan sé kennd samhliða þróunarkenningunni. Heimildir. Palin, Sarah Sumarfrí. Sumarfrí (eða sumarleyfi) er orlof með óskertum launum frá vinnu að sumarlagi en einnig starfshlé til dæmis skóla á sumrin. Sumarfrí er oftast notað til ferðalaga eða til afslöppunar. Á syðri hluta suðurhvels jarðar hefjast sumarfrí oft um leið og jólafríin eins og til dæmis í Ástralíu. Sumarfrí skóla standa þar frá desember fram í febrúar. Andalúsía. Andalúsía (spænska: "Andalucía") er sjálfstjórnarhérað á Suður-Spáni. Próventa. Próventa var fé sem einhverjum var gefið með því skilyrði að hann sæi fyrir gefanda í ellinni. Það tíðkaðist mjög fyrr á öldum, að aldrað fólk gæfi með sér eignir, með þeim skilmálum, að það hefði fullt framfæri, hvort sem það lifði lengur eða skemur. "Próventumaður" (eða "próventukarl") og "próventukona" voru þ.a.l. manneskjur sem höfðu gefið einhverjum eignir sínar og bjuggu svo í umsjá viðkomandi. Próventa gat líka merkt eignir eða jarðeignir kirkju. Félagsvera. Félagsvera er lífvera sem á í félagslegum samskiptum við aðra einstaklinga af sömu tegund. Rógburður. Rógburður er það þegar einstaklingur notar upplognar sakir til að rægja annan, m.ö.o. heldur einhverju fram til að klekkja á honum. Einstaklingur getur þó kallað orð einhvers rógburð, þó að það sem sagt hafi verið sé allt sannleikanum samkvæmt, en eðli rógburðar er samt sem áður að um lygar sé að ræða. Þegar mönnum finnst að heiðri sínum vegið, hvort sem það er með réttu eða röngu, verður (yfirlýstur) rógburður oft að málaferlum. "Álygar" eru í þessu sambandi ákæra, einkum ósönn, og fer eftir því hver á heldur og aðstæður eru hvort um álygar sé að ræða eður ei. En sá sem segir kæruna logna kallar hana álygar. Maður sem stundar rógburð er kallaður "rógsmaður". Hér áður fyrr var slíkur maður nefndur "bakmælismaður" (þ.e. maður sem baktalar annan) eða "umlesmaður", en umlestur er rógur eða baktal. Maria Callas. Maria Callas (gríska: "Μαρία Κάλλας", fædd 2. desember 1923 – látin 16. september 1977) var grísk sópransöngkona og er líklegast ein þekktasta óperusöngkona 20. aldar. Hún sameinaði "bel canto"-tæknina með mikilli dramatík. Hún var mjög hæfileikaríkur söngvari og þótti túlka Donizetti, Bellini og Rossini vel og einnig verk Verdis, Puccini og Wagner. Hún fékk viðurnefnið "La Divina" vegna guðdómlegra sönghæfileika sinna. Barry Stroud. Barry Stroud er kanadískur heimspekingur sem hefur einkum fengist við frumspeki, hugspeki, þekkingarfræði og efahyggju. Nám og störf. Stroud lauk B.A.-gráðu í heimspeki frá Toronto-háskóla og doktorsgráðu í heimspeki frá Harvard-háskóla. Frá 1961 hefur Stroud kennt heimspeki við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Árið 2007 var hann útnefndur Willis S. og Marion Slusser-prófessor í heimspeki við heimspekideild Kaliforníuháskóla í Berkeley. Bók Strouds um Hume, sem kom út árið 1977, vann Matchette-verðlaunin árið 1979. Hugleiðingar (Markús Árelíus). "Hugleiðingar" (forngríska: Τὰ εἰς ἑαυτόν, "Ta eis heauton" (orðrétt "Skrif til sjálfs mín") en víðast þekkt undir latneska titlinum "Meditationes") er rit eftir rómverska keisarann og heimspekinginn Markús Árelíus. Í ritinu er að finna ýmsar hugleiðingar Markúsar um stóíska heimspeki. Ritið var samið á grísku. Markús Árelíus samdi "Hugleiðingarnar" í tólf bókum. Að öllum líkindum var stór hluti verksins saminn í Sirmium (í dag Serbía) þar sem keisarinn varði miklum tíma í gerð hernaðaráætlanna frá 170 til 180. Óvíst er að Markús hafi ætlað sér að gefa ritið út. Viðtökur og áhrif. Markús Árelíus hefur stundum verið lofaður fyrir að skrifa nákvæmlega það sem hann meinar. Gilbert Murray hefur líkt honum við Rousseau og Ágústínus frá Hippó. Enda þótt Murray gagnrýni Markús fyrir „stirðan og fábrotinn stíl“ telur hann að "Hugleiðingarnar" séu „eins tilfinningaþrungnar... og flestar nútímabækur um trú en undir stjórn agaðri penna“. Hann segir að „fólk [skilji] ekki Markús, ekki vegna þess að hann tjái sig illa heldur af því að flestum reynist erfitt að anda í slíkum hæðum andans eða í það minnsta anda eðlilega“. D.A. Rees lýsir "hugleiðingunum" sem „óendanlegum innblæstri“ en telur þær ekki vera frumlegt rit um heimspeki. Bertrand Russell fannst Hugleiðingarnar mótsagnakenndar og bera vott um „þreytta elli“ höfundar. Hann tók Markús sem dæmi um stóískan heimspeking almennt og komst að þeirri niðurstöðu að stóísk siðfræði hefði sín „súru ber“. „Við getum ekki verið hamingjusöm en við getum verið góð; við skulum þess vegna láta sem það skipti ekki máli hvort við erum hamingjusöm svo lengi sem við erum góð“. Russell og Rees telja sig báðir sjá áhrif Markúsar í ritum þýska heimspekingsins Immanuels Kant. Þýðing Gregorys Hays á "Hugleiðingunum" fyrir The Modern Library komst á metsölulista og var þar í tvær vikur árið 2002. Oddsdalur. Oddsdalur er syðsti dalurinn inn úr Norðfirði á Austfjörðum. Inn úr Norðfirði ganga þrír dalir: Fannardalur er nyrstur, þá Seldalur og syðstur er Oddsdalur. Föst búseta hefur verið í Fannardal og Seldal í aldanna rás, en ekki í Oddsdal. Oddsdalur er umlukinn tignarlegum fjallahring. Samgönguæð. Samgöngur á landi hafa gegnum aldirnar farið um Oddsdal. Fyrrum fóru ferðamenn fótgangandi eða á hestum úr Norðfirði, upp Hátún, yfir Oddsskarð, niður í Sellátradal og þaðan til Eskifjarðar. Eftir að bílvegur var lagður yfir Oddsskarð 1949 hefur vegurinn legið eftir endilöngum Oddsdalnum. Árið 1976 voru Oddsskarðsgöng tekin í notkun. Göngin eru í meira en 600 metra hæð.Göngin eru 605 metra löng. Fugla- og dýralíf. Á Oddsdal verpa fjölmargir fuglar. Fyrst ber þar að nefna rjúpu, einnig verpa þarna algengustu spörfuglar eins og þrestir, mikið er einnig um mófugla: spóa, heiðlóu og hrossagauk. Grágæsir verpa þar til fjalla. Hrafnar verpa í klettum og giljum. Hreindýr fara mikið um Oddsdal á vetrum og á vorin. Þau dvelja þar á beit. Dalurinn er einnig farleið milli hálendisins og svæða á fjörðum þar sem dýrin dvelja langdvölum t.d. Vaðlavík og Sandvík. Steinaríki. Steinasafnarar geta átt góðan dag við iðju sína í Oddsdal og nágrenni. Á svæðinu finnast meðal annars fallegir jaspisar og geislasteinar. Gróðurfar. Oddsdalurinn er grösugur neðan til, en lítið er um birkikjarr, kjarr er aðeins neðst í dalnum og er mun minna en í Fannardal og Seldal. Sjaldgæfar plöntur eins og jöklaklukka og lotsveifgras finnast í Oddsdal. Skíðasvæði/Gamli skíðaskálinn. Upp úr 1950 reistu Norðfirðingar skíðaskála í Oddsdal. Þar var skíðasvæði Norðfirðinga þar til skíðamiðstöðin í Oddsskarði var byggð 1978. Gamli skíðaskálinn stendur neðst á framhlaupi í svokölluðum Grashólum neðarlega í Oddsdal. Gamli skálinn þjónaði Norðfirðingum til 1978. Skálinn er nú í einkaeign. Eigandi er Brynja Garðarsdóttir í Neskaupstað. Gönguleiðir. Á Oddsdal eru fjölbreyttar gönguleiðir og gott gönguskíðaland. Hægt er að ganga á fjallatinda og einnig fara fjallvegi bæði til Hellisfjarðar og Viðfjarðar sem og yfir til Reyðarfjarðar. Gengið upp í Op með Lakahnaus á hægri hönd.Farið upp í um 650 metra hæð. Gengið fyrir botn Hellisfjarðar, niður í Helgustaðardal, komið við í Helgustaðarnámunni. Náman var vel þekkt silfurbergsnáma. Þetta er gömul verslunarleið Norðfirðinga yfir í Breiðuvík. Frá Geithúsaá um Vegahnjúka til Hellisfjarðar. Gengið frá bílastæði við Geithúsaá. Gengið upp með ánni að austan, upp á brún Kolahlíðar og þaðan tekin stefnan yfir eða framhjá Heystæðismýri gengið að Vegahnjúkum. Gamla þjóðleiðin, frá Seldalsá að Oddsskarði. Gengið frá mótum Seldalsár og Hengifossár, upp að Hengifossi í átt að Hátúni. Gengið ofan við Blóðbrekkur að Oddsskarði. Ár og fossar. Áin sem rennur eftir Oddsdal nefnist Hengifossá. Einnig nefnd Oddsdalsá. Í hana rennur síðan minni á er nefnist Geithúsaá. Margir fossar eru í Hengifossá en aðeins tveir eru nafngreindir, Svartifoss og Hengifoss. DHL-Höllin. DHL-Höllin er fjölnota íþróttahöll í Vesturbæ Reykjavíkur. Höllin er heimavöllur liðs KR í körfubolta og fara þar fram æfingar í körfubolta. Handknattleiksdeild KR notar höllina einnig fyrir æfingar, en KR á þó ekkert lið í efstu deild handboltans. Laugardalslaug. Laugardalslaug (einnig Sundlaugin í Laugardal) er stór íslensk sundlaug á Sundlaugarvegi 30 í 104 Reykjavík sem byggð var árið 1968. Sundlaugin var teiknuð á teiknistofu húsameistara Reykjavíkuborgar, Einars Sveinssonar. Í Laugardalslaug er að finna þrjár laugar og fjóra búningsklefa, eina upphitaða útilaug sem er 28°C heit, 50 metrar á lengd og 22 m á breidd með átta brautum. Við hlið hennar er 30 m laug, en vatnið í henni er hlýrra en vatnið í 50 m lauginni sem hún liggur við. Árið 2004 bættist við 25 m breið og 50 m löng innilaug sem hefur færanlegan bakka og 10 brautir;. Einnig eru heitir pottar, eimbað, nuddpottar, ljósabekkir og 86 m löng rennibraut. Hvert ár koma um 1,5 milljón gestir í Laugardalslaugina. Snorralaug í Reykholti. Snorralaug í Reykholti eða Snorralaug er íslensk laug sem finna má í Reykholti. Snorralaug var ein af hinum 10 fyrstu friðlýstu fornminjunum á Íslandi. Hún er ein af þrettán laugum sem vitað er um að notaðar hafi verið til forna, og ein af fjórum sem enn eru nothæf. Saga. Talið er að laugin hafi verið hlaðin á 13. öld, og er hún kennd við Snorra Sturluson, en fyrstu heimildir um að það hafi verið laug í Reykholti eru frá dögum Snorra Sturlusonar (sem var uppi frá 1178-1241), en fyrirfinnast líka í Landnámabók og Sturlunga sögu. Tveir hverir finnast þar helstir, Skrifla og Dynkur. Var vatni veitt í Snorralaug úr Skriflu eftir um 120 m löngum neðanjarðarstokki og er baðlauga í Reykholti oft getið í gömlum heimildum. Snorralaug er með elstu mannvirkjum sem varðveist hafa hér á landi. Frá lauginn lágu jarðgöng til bæjarhúsa Snorra og hafa þau verið grafinn upp að hluta. En talið er að laug hafi verið á Reykvöllum frá árinu 960 eða fyrr á grundvelli Landnámu en þar segir frá því að Tungu-Oddur, sonur Önundar breiðskeggs á Breiðabólstað fór „frá húsi til laugar í Reykjaholt; þar voru sauðahús hans;“ Árið 2004 sýndi séra Geir Waage sóknarprestur í Reykholtskirkju norsku krónprinshjónunum frá Reykholti og sýndi þeim ásamt öðrum stöðum Snorralaug. Lýsing. Laugin er u.þ.b. 4 metrar í þvermál; og þar sem botn laugarinnar er ójafn er hún misdjúp, en dýptin er breytileg á milli 0.70 til 1 metra djúp. Þrep liggja niður í laugina, og er hlaðin úr tilhöggnu hveragrjót. Fyrir tilstilli fornleifauppgraftar hefur það verið leitt í ljós að tvær rennur veittu heitu vatni í laugina úr hverinum Skriflu sem hefur nú verið eyðilögð. Á barmi aðrennslisins má sjá fangamerkið "V.Th. 1858." á steini og er það fangamark Sr. Vernharðs Þorkelssonar sem lét gera við laugina það ár. Lauginni er fyrst lýst í riti frá circa. 1724 eftir Páls Vídalíns („Um fornyrði Jónsbókar“). Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir (fædd 5. september 1972) er borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík og hefur setið í borgarstjórn frá árinu 2006. Þorbjörg Helga er formaður Umhverfis- og samgönguráðs og Leikskólaráðs. Þorbjörg Helga er gift Hallbirni Karlssyni verkfræðingi og eiga þau tvo syni. Þorbjörg Helga er fædd og uppalin í Reykjavík, dóttir Vigfúsar Árnasonar endurskoðanda og Ólafar Björnsdóttur ljósmóður og hjúkrunarfræðingi. Hún er stúdent frá Verslunarskóla Íslands. Hún er með BA-próf í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í námssálfræði frá Washington-háskóla í Seattle. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri og kennari við Háskólann í Reykjavík og sem ráðgjafi menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þorbjörg Helga situr í Háskólaráði Háskóla Íslands og situr í stjórn Lánasjóðs Sveitarfélaga. Hún er varamaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og formaður hússtjórnar Borgarleikhússins. Alvin Plantinga. Alvin Plantinga (fæddur 15. nóvember 1932) er bandarískur heimspekingur. Hann hefur meðal annars skrifað um trúarheimspeki, frumspeki og þekkingarfræði. Hann er prófessor við Note Dame-háskóla í Bandaríkjunum. Plantinga, Alvin Plantinga, Alvin Plantinga, Alvin Lara Flynn Boyle. Lara Flynn Boyle (fædd 24. mars 1970) er bandarísk leikkona. Pelican (hljómsveit). Pelican var íslensk hljómsveit sem starfaði á tímabilinu 1973-75 og síðan aftur tveimur áratugum seinna, þá með Guðmund Jónsson úr Sálinni innanborðs. Pétur Kristjánsson. Pétur Kristjánsson (fæddur 1952, dáinn 2004) var íslenskur tónlistarmaður. Pétur snéri sér síðar að hljómplötuútgáfu. Badmintondeild KR. Badmintondeild KR var stofnuð 23. september 1963. Á stofnfundinum var Óskar Guðmundsson, margfaldur meistari í greininni, valinn formaður en hann var, ásamt Birgi Þorvaldssyni og Sveini Björnssyni, helsti hvatamaður að stofnun deildarinnar. Rúmlega 70 börn stunda nú æfingar hjá deildinni undir leiðsögn Árna Þórs Hallgrímssonar, sem er aðalþjálfarinn við deildina. Núverandi stjórn. Meðstjórnendur: Egill Erlingsson, Júlíus Þorsteinsson, Ólafur Einarsson Boys in a Band. Boys in a Band er færeysk rokkhljómsveit, stofnuð árið 2006 í Götu. Hljómsveitin samanstendur af gítarleikaranum og söngvaranum Pætur Zachariasson, gítarleikaranum Heini, bassaleikaranum Símun, trommaranum Rógvi og Heri Schwartz sem leikur á Hammond-orgel. Sveitin sigraði Global Battle of the Bands (GBOB) árið 2007. Harpa (tónlistarhús). Harpa er tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík, nánar tiltekið á austurbakka Reykjavíkurhafnar, fyrir neðan Seðlabanka Íslands. Byggingin er hluti af stærri framkvæmd sem átti upprunalega að fela í sér 400 herbergja hótel, viðskiptamiðstöðina World Trade Center Reykjavík, nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, verslanir, íbúðir, veitingahús, bílastæðahús og göngugötu. Verkið var boðið út af ríki og borg og að útboði loknu kom athafnamaðurinn Björgólfur Guðmundsson að fjármögnun byggingar Hörpu en eftir bankahrunið 2008 þurfti Reykjavíkurborg að hlaupa undir bagga. Hætt var við viðskiptamiðstöðina, hótelið og bankabygginguna. Bílastæðahúsið varð minna en upphaflega var gert ráð fyrir. Um mitt ár 2010 var áætlað að heildarkostnaður frá upphafi næmi um 27,7 milljörðum. Kjallarar hússins, m.a. þar sem bílakjallarar eru, eru að hluta undir og við sjávarborð. Sérstakar ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir að loftfyllt byggingin flyti upp. Einnig var gert ráð fyrir hækkun yfirborðs sjávar vegna loftslagsbreytinga. Upphaflegar teikningar gerðu ráð fyrir að umferð bíla fram hjá svæðinu mundu að mestu fara neðanjarðar, til að tengja Hörpu betur við miðborgina. Seinna var fallið frá þessum áformum, að hluta vegna kostnaðar. Þegar leið á byggingartímabílið, var stígur gangandi og hjólandi sem lá norðanmegin Kalkofnsvegar skorinn, á meðan fjögurra akreina akvegur var látin halda sér mestan hluta byggingartímabilsins. Tónlistar og ráðstefnuhúsið er hannað af Teiknistofu Hennings Larsens í Danmörku og stór glerhjúpur sem umlykur bygginguna er hannaður af Ólafi Elíassyni. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan hafa aðsetur í húsinu. Húsið var tímabundið kallað "Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík" en fékk síðan nafnið "Harpa" á degi íslenskrar tónlistar 11. desember 2009. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir 4. maí 2011, en þar flutti Sinfóníuhljómsveitin 9. sinfóníu Beethovens undir stjórn Vladímírs Ashkenazys. Opnunartónleikar voru haldnir 13. maí, en næstu tvo daga var opið hús með fjölbreyttri tónlistardagsskrá og komu þá um 32 þúsund manns í húsið eða um tíundi hluti íslensku þjóðarinnar. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann eða SÁÁ eru íslensk samtök sem voru stofnuð til að berjast gegn áfengis- og vímuefnavanda á Íslandi. Aðalmarkmið samtakanna er að sjá til þess að alkóhólistar, vímuefnafíklar og aðstandendur þeirra eigi ávallt völ á bestu fáanlegri sjúkrameðferð og endurhæfingu. Samtökin vinna einnig að forvörnum. Opinberir aðilar kosta um tvo þriðju af starfsemi samtakanna, en einn þriðji er fjármagnaður af samtökunum sjálfum. Þó að starfsemin beinist fyrst og fremst að alkóhólistum, vímuefnafíklum og aðstandendum þeirra njóta miklu fleiri þjónustunnar beint eða óbeint. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu margir hafa samband við starfsmenn samtakanna til að leita eftir upplýsingum eða þjónustu á hverju ári, en ekki er ólíklegt að þeir séu um 10.000. Meðferð. Samtökin byggja meðferðarstarf sitt á tiltækri vísindalegri þekkingu í læknisfræði, sálarfræði og félagsvísindum og binda sig því ekki við neina eina meðferðarhugmynd. Vaxandi vísindaleg þekking um fíknisjúkdóma og meðferð þeirra leiðir sífellt af sér nýjungar í þjónustunni. þannig hafa samtökin byggt upp alhliða meðferð sem kemur til móts við flesta einstaklinga og undirhópa í sjúklingahópnum sem til samtakanna leita og býður meðferð sem stenst strangar faglegar kröfur. Meðferðin fer ýmist fram á göngudeild eða á sjúkrastofnun. Hún er sniðin sérstaklega að þörfum kvenna, unglinga, endurkomukarla, karla eldri en 55 ára eða að þörfum þeirra sem eru minna veikir eða betur félagslega staddir. Á heimasíðu samtakanna er að finna margvíslegar upplýsingar um starfsemina, eðli sjúkdómsins og þau úrræði sem þeim sem í vanda eru staddir standa til boða. Meðferðin getur verið mjög mismunandi og fer eftir því hversu alvarlegur vandinn er, allt frá einu viðtali í viðamikla meðferð. Hjá SÁÁ er líka stuðningur fyrir aðstandendur alkóhólista og vímuefnafíkla. Viðhorf til SÁÁ. Þann 10. apríl 2008 lét SÁÁ framkvæma fyrir sig viðhorfskönnun meðal almennings. Af þessari könnun má ráða að SÁÁ nýtur margfalt meira trausts meðal almennings en aðrar meðferðastöðvar á Íslandi, en 77% sögðust treysta SÁÁ best í meðferðarmálum á meðan næsti aðili var með 6% af þeim sem tóku afstöðu. Einnig virðist almenningur á einu máli um mikilvægi starfsemi SÁÁ og þau verk sem unnin hafa verið í meðferðarmálum á þeim 29 árum sem samtökin hafa starfað (95% segja starfið mjög mikilvægt eða mikilvægt). Athygli vekur hversu margir svarenda þekkja einhvern sem á við áfengis- eða vímuefnavanda að etja, en 86% svarenda svaraði játandi þeirri spurningu. Þetta sýnir þá staðreynd að um 9,6% allra núlifandi íslenskra karla sem eru eldri en 15 ára hafa komið inn á Vog. Nýmiðlun framkvæmdi könnunina fyrir SÁÁ og fengust 3006 svör. Stjórn. Þórarinn Tyrfingsson hefur verið yfirlæknir á meðferðarheimilinu Vogi frá stofnun. Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður er formaður samtakanna frá árinu 2011. Grétar Sigfinnur Sigurðarson. Grétar Sigfinnur Sigurðarson (fæddur 9. október 1982) er íslenskur knattspyrnumaður sem leikur með KR. Hann hefur leikið með Geisla á Súðavík, Sindra, Víking, Val og núna með KR. Hann nemur viðskiptafræði í Háskólanuum í Reykjavík. Hann leikur sem varnarmaður og er 190 cm. hár og er 86 kg. Pétur Marteinsson. Pétur Marteinsson er íslenskur knattspyrnumaður. Hann hóf meistaraflokksferilinn í Fram 1991 og gekk síðan í raðir Leifturs og spilaði með þeim frá 1992-1993 og gekk síðan aftur í raðir Fram, en var svo var keyptur til Hammerby í Svíþjóð og síðan keyptur til norska liðsins Stabæk. Árið 2001 gekk hann til liðs við liðið Stoke á Bretlandi þar til ársins 2003 er hann gekk aftur til liðs við Hammerby og lék með þeim til 2006 er hann gekk til liðs við KR. Jay Sean. Jay Sean (fæddur Kamaljit Singh Jhooti 26. mars 1979) er breskur r'n'b-söngvari af asískum uppruna. Hann er þekktastur fyrir lögin „Stolen“, „Eyes On You“ og „Ride It“. Jay Sean hefur gefið út tvær breiðskífur; "Me Against Myself" (2004) og "My Own Way" (2008). Global Deejays. Global Deejays er austurrískt danstríó sem samanastendur af þeim "DJ Taylor" (Konrad Schreyvogl), "DJ Mikkel" (Mikkel Christensen) og "FLOw" (Florian Schreyvogl). Þeir hafa notið vinsælda í Evrópu, sér í lagi í Rússlandi, með lögum á borð við „The Sound of San Francisco“. Lag þetta inniheldur brot úr „San Francisco (Be Sure to Wear Flowers in Your Hair)“ sem Scott McKenzie flutti. Þá hefur tríóið endurhljóðblandað „What A Feeling (Flashdance)“ með Irene Cara. Gloria Gaynor. Gloria Gaynor (fædd Gloria Fowles 7. september 1949 í Newark, New Jersey) er bandarísk söngkona, þekktust fyrir diskólagið „I will survive“. Amy MacDonald (söngkona). Amy MacDonald (fædd 25. ágúst 1987 í Bishopbriggs í Austur-Dunbartonskíri) er léleg skosk söngkona og lagahöfundur. Fyrsta breiðskífa hennar "This is the life" kom út 30. júlí 2007 og seldust meira en 1 milljón eintök af henni. Fyrsta smáskífa söngkonunnar var „Poison Prince“ sem kom út 7. maí sama ár. Hún hefur komið fram á tónleikahátíðum á borð við Glastonbury, í Hyde Park, á T in the Park og á V Festival. Macdonald hóf tónlistarferil sinn aðeins 15 ára gömul. Hennar helstu áhrifavaldar eru Travis og The Libertines. Bishopbriggs. Kort af Bishopbriggs frá árinu 1923 Bishopbriggs er úthverfi Glasgow í Austur-Dunbartonskíri í Skotlandi. Þar búa nú um 23.500 íbúar. Bæjarins var fyrst getið 1655. Bishoppbriggs komst í sviðsljósið eftir að karakterinn "Lúkas" í þátta röðinni "Little Britain",sem er eini hominn í bænum, er búsettur í Bishoppbriggs. Bergur Thorberg. Bergur Thorberg (23. janúar 1829 – 21. janúar 1886) var landshöfðingi frá 1882 til 1886 og var annar í röð þeirra þriggja sem gegndu landshöfðingjaembættinu. Bergur var fæddur á Hvanneyri í Siglufirði, sonur séra Ólafs Hjaltasonar Thorberg og Guðfinnu Bergsdóttur konu hans. Hann lauk stúdentsprófi árið 1851 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla árið 1857. Bergur varð aðstoðarmaður í danska dómsmálaráðuneytinu árið 1857 og amtmaður í vesturamtinu árið 1866. Hann sat þá í Stykkishólmi. Hann varð jafnframt amtmaður í suðuramtinu árið 1872 en þá voru embættin sameinuð. Bergur flutti til Reykjavíkur árið 1873. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1876 - 1883 og konungskjörinn alþingismaður 1865 - 1883. Hann var settur til að gegna landshöfðingjaembættinu í fjarveru Hilmars Finsen 1882 og síðan skipaður landshöfðingi og gegndi því embætti til dauðadags. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sesselja Þórðardóttir umboðsmanns Bjarna í Sviðsholti en eftir lát hennar giftist hann Elinborgu dóttur Péturs Péturssonar biskups. Vistarbandið. Vistarbandið var kvöð um að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn og skyldi skipta um heimili og vinnu á vinnuhjúaskildaga sem lengst af var á krossmessu á vor, 3. maí, en fluttist yfir á 14. maí árið 1700 þegar tímatalinu var breytt. Lágmarksstærð búa var þrjú kúgildi samkvæmt Píningsdómi frá árinu 1490. Ef einstaklingur réð ekki yfir slíkri eign þá varð hann að gerast vinnuhjú. Þessi lög voru ennþá í gildi á 18. öld og giltu í reynd áfram langt fram á 19.öld. Ef húsbóndi stóð ekki við skyldur sínar við vinnuhjú þá mátti kæra hann fyrir hreppstjóra en vinnuhjú máttu þó ekki yfirgefa bæinn nema með leyfi bónda. Hvorki vinnuhjú né bændur máttu fara frá byggðalagi sínu nema þau fengju skriflegt leyfi prests eða veraldlegra yfirvalda. Stundum var hægt að losna undan vistarbandi með því að gerast lausamaður. Þá réðu menn atvinnu sinni sjálfir og gátu selt húsbændum vinnu sína. Fram til ársins 1783 þurfti að eiga minnst tíu kúgildi til að vera lausamaður. Lausamennska var bönnuð árin 1783-1863. Þegar lausamennska var leyfð aftur árið 1863 var það með ströngum skilyrðum. Þegar sjósókn jókst var lögum breytt árið 1894 og fór þá lausaganga að vera flestu búlausu fólki aðgengileg. Vistarband á Norðurlöndum og á Íslandi. Vistarbandið var tekið upp í Danmörku árið 1733 (undir nafninu "stavnsbånd") vegna áhrifa frá landeigendum og her til að tryggja bændum ódýrt vinnuafl. Ísland er sérstakt vegna þess hve stór hluti þjóðarinnar bjó í ófrjálsu einlífi vinnumennskunnar, eða að jafnaði um 25% landsmanna alla 19. öldina sem var hæsta hlutfall í Evrópu. Algengast var að fólk væri eingöngu vinnuhjú á unga aldri en stofnaði síðan bú ef það fékk leigt jarðnæði og gengi þá í hjónaband. Hins vegar var það hlutskipti margra, sérstaklega kvenna, að vera í vinnumennsku ævilangt. Flestir íslenskir bændur voru leiguliðar en þó var ekki bændaánauð á Íslandi og ekki hægt að skylda bændur til að búa áfram á leigujörð sinni lengur en eitt ár í senn. Sama gilti um vistarbandið, enginn var skyldugur að vera hjá sama bónda lengur en eitt ár í senn. Fornleifar. Fornleifar eru allt það sem varðveist hefur frá gamalli tíð, meðal annars leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á en einnig hvers kyns manngerðir hlutir og verkfæri. Samkvæmt íslenskum lögum eru fornleifar eldri en 100 ára en víða er þó miðað við hluti og minjar sem eru eldri en 500 ára. Gerðir fornleifa. Fornleifar geta meðal annars verið byggðaleifar, bæjarstæði, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum; einnig vinnustaðir þar sem aflað var fanga, sel, verstöðvar, ból, mógrafir, kolagrafir, gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, gamlir vegir, stíflur, brýr, vöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; varnarmannvirki; þingstaðir, hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; áletranir, greftrunarstaðir og skipsflök. Fornleifar eru ekki aðeins öll forn mannvirki heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum. Hörgur. Hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur. Einnig merkir orðið grjóthóll, hæð, fjall, hnjótur, hrjóstrugt land eða skortur. Talið er hörgar hafi upphaflega verið blótstaðir undir berum himni, líklega steinaltari. Á þetta bendir uppruni orðsins hörgur. Í Eddukvæðunum er getið um hörg, sem hlaðinn var úr steinum. Stundum virðast hörgarnir hafa verið hús. Getið er um hörga sem brunnu, og um hátimbraða hörga. Á Íslandi hafa fundist tóftir sem talið er að séu af fornum hörgum og hefur ein þeirra verið rannsökuð. Kom þá í ljós að hörgurinn hefur verið hús í líkingu við hof en miklu minni. Því hefur verið haldið fram að ásynjurnar hafi aðalega verið dýrkaðar í hörgunum. Þessi skoðun byggist á því, að Snorri kallar höllina Vingólf hörg. En þá höll áttu ásynjur og víðar er getið um dýrkun þeirra í hörgum. Ekki voru allir hörgar helgaðir gyðjum, i Svíþjóð eru til örnefnin Þórshörgur og Óðinshögur. Talið er að hörgar séu eldri en hofin. Aðalmenjar um hörga eru í örnefnum og er þeirra ekki getið nema á tveim stöðum í sagnaritum. Vingólf. Vingólf er höll sem nefnd er í norrænni goðafræði. Gefjun (norræn goðafræði). Gefjun er gyðja í norrænni goðafræði. Hún er mær og henni þjóna þær er meyjar andast. Hún er af ásaætt. Sagan af gyðjunni Gefjun segir frá hvernig Sjáland varð til. Gefjun tók fjögur naut norðan úr Jötunheimum og setti fyrir plóg. Nautin voru synir jötuns og hennar. Nautin drógu landið út á hafið í vesturátt. Samkvæmt Ynglingasögu í Heimskringlu varð Gefjun tengdadóttir Óðins, gift Skildi Óðinssyni, sem Skjöldungar eru frá komnir. Þau bjuggu í Hleiðru á Sjálandi (Lere). Gefjun (verksmiðja). Gefjun er verksmiðja sem tók til starfa á Gleráreyrum við Glerá á Akureyri í nóvember 1907 í nýbyggðu verksmiðjuhúsi. Margháttaður verksmiðjurekstur var á Gleráreyrum þangað til SÍS lagði upp laupana. Unnu um 800 manns í verksmiðjunum þegar mest var. 1907-1930 Klæðaverksmiðjan Gefjun. Verksmiðjan hét í fyrstu Klæðaverksmiðjan Gefjun. Tóvélar Eyjafjarðar sem settar voru af stað 1897 mörkuðu upphaf ullariðnaðarins á Akureyri. 1930-1987 Ullarverksmiðjan Gefjun. S.Í.S keypti Klæðaverksmiðjuna Gefjun þann 13. september 1930 og breytti þá nafninu í Ullarverksmiðjan Gefjun. Kaupverð var 245.000 kr. Árið 1947 var hafin bygging nýs verksmiðjuhúss sem þá var stærsti verksmiðjusalur á Íslandi. Árið 1934 tók til starfa kambgarnsspunadeild. Árið 1952 var hið nýja verksmiðjuhús Gefjunar fullbúið. Árið 1973 var vélakostur Gefjunar stóraukinn en upp úr 1980 byrjaði að halla undir fæti hjá iðnaðinum á Gleráreyrum. Glerá. Glerá rennur í gegnum Akureyri Glerá er á á Norðurlandi. Hún á upptök sín í jöklum á Tröllaskaga og einnig úr ferskvatnslindum í Glerárdal. Glerá rennur gegnum Akureyri út í sjó í Eyjafirði. Eyrin Oddeyri er mynduð af framburði árinnar. Glerá var mikilvæg í iðnsögu Akureyrar og var hún stífluð til raforkuframleiðslu á 20. öld. Rafstöðin hefur verið rifin en uppistöðulónið stendur ennþá. Ný rafstöð hefur verið byggð til að minnast 100 ára rafvæðingar á Íslandi. Þessi 290 kW rafstöð var opnuð 27. ágúst 2005. Gleráin skipti Akureyri í Glerárþorpið sem var fyrir norðan Glerá. Það varð hluti af Akureyri snemma á 20. öld. Núna er sá hluti Akureyrar sem er norðan við Glerá kallaður Glerárhverfi eða Þorpið og þar búa yfir 7000 af 17000 íbúum Akureyrar. Hjaltadalur. Séð frá Hólum inn Hjaltadal í dumbungs veðri. Hjaltadalur er dalur í austanverðum Skagafirði og tilheyrði áður Hólahreppi. Hann er að mestu luktur 1000-1200 m háum fjöllum og inn í þau skerast ýmsir afdalir. Hjaltadalsá rennur um dalinn og á upptök í Hjaltadalsjökli í dalbotninum. Í hana falla ýmsar þverár og lækir. Biskupssetrið og síðar skólasetrið Hólar í Hjaltadal er í miðjum dalnum og setur mikinn svip á hann. Fjallið fyrir ofan Hóla heitir Hólabyrða og er 1244 m hátt. Innsti bærinn í dalnum er Reykir. Þar er jarðhiti og þar er gömul laug sem nefnist Biskupslaug. Hún er nú upphlaðin. Bæir í Hjaltadal. Allmargir bæir eru í Hjaltadal. Á síðari árum hefur myndast dálítið þorp á Hólum í kringum Hólaskóla. Tóvélar Eyjafjarðar. Tóvélar Eyjafjarðar var ullarverksmiðja sem sett var á stofn á Akureyri árið 1897. Vélakostur var þá ein kembivélastæða, spunavél og tvinningarvél. Verksmiðjan var upphaflega sett á stofn af yfirvöldum í Eyjafjarðarsýslu og Akureyrarbæ en árið 1898 voru tóvélarnar boðnar til kaups fyrir 17.000 krónur. Árið 1902 voru Tóvélar Eyjafjarðar sem þá voru nefndar Tóverksmiðjan á Akureyri seldar til Verksmiðjufélagsins á Akureyri Limit en í því félagi voru tíu hluthafar. Verksmiðjan var stækkuð og síðan var stofnuð Klæðaverksmiðjan Gefjun. Stálhákarlarnir. "Stálhákarlarnir" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Geigvænlegur flokkur illvirkja veldur ógnum og skelfingu á skipaleiðum. Um miðja nótt birtast þeir um borð í farþegaskpunum, án þess að menn geti gert sér grein fyrir, hvaðan þeir koma. Þeir ræna, rupla og jafnvel myrða fólk og hverfa svo á jafn fularfullan hátt og þeir komu. Lögregla allra landa er á höttunum eftir þeim, en allar rannsólnir hennar eru árangurslausar. Og svo er það dag nokkurn, að Bob Moran, sem er á leið frá Honolulu til San Francisco fellur einnig í hendur þessara ræningja og er skilinn eftir sem dauður á gólfinu í skipsklefa sínum. Þegar hann kemur til sjálfs sín á sjúkrahúsinu, minnist hans þess að hafa séð andlit glæpaforingjans, og verður það á að skýra frá því. Þá byrjar fyrir hann hættuleg röð ævintýra, sem leiða hann frá San Francisco til Sydney og því næst frá Sydney til Singapore og þaðan til eyði-kóraleyjar í Kyrrahafinu. Marg oft telur Bob daga sína talda. En samt sem áður ber hann sigur af hólmi yfir óvinum sínum, en hversu milkar þjáningar og grimmilega bardaga hefur það ekki kostað hann. Aðalpersónur. Bob Moran, Rex Holliday, Al Lewison, Lawnson liðsforingi, Doctor Fuchs, Edward O'Brien, Lemúel Stocker/maðurinn með slýgrænu augun/Earl Bennet, Frank Reeves Sögusvið. Kyrrahafið - San Francisco í Bandaríkjunum - Sydney í Ástralíu - Kóralrif í Kyrrahafinu - Flórída í Bandaríkjunum Jón Sigmundsson. Jón Sigmundsson (um 1455 – 1520) var íslenskur höfðingi og lögmaður norðan og vestan frá 1509 til 1518. Þekktastur er hann fyrir deilur sínar við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup. Jón var launsonur Sigmundar Steinþórssonar prests í Miklabæ og síðar á Breiðabólstað í Vesturhópi og Solveigar Þorleifsdóttur, ekkju Orms Loftssonar hirðstjóra og systur Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Þau Sigmundur og Solveig áttu saman fimm börn. Jón varð sýslumaður í Vaðlaþingi (Eyjafjarðarsýslu) árið 1481 og 1493 í Húnavatnsþingi (Húnavatnssýslu). Hann bjó lengst af í Víðidalstungu og hélt líka bú á Urðum í Svarfaðardal. Hann átti í deilum um 1488 við Magnús Þorkelsson í Grenivík og Kristínu Eyjólfsdóttur konu hans og munu þá menn hans hafa brotið upp hús í Grenivík og meitt Kristínu. Hann flæktist líka inn í erfðadeiluna miklu sem varð um arf eftir Solveigu Björnsdóttur á Skarði og fygldi þar Birni Guðnasyni sýslumanni í Ögri, og voru þeir vinir og samherjar. (Mögulegt er að Jón hafi verið fyrsti eigandi handrits AM 566 a/b 4to, sem er meðal annars aðalhandrit Gísla sögu Súrssonar, og síðan gefið Birni það.) Árið 1508 sigldi Jón og fékk konungsveitingu í lögmannsembættið en kom þó ekki heim til að taka við því fyrr en 1509. Jón fylgdi Birni Guðnasyni í Vatnsfjarðarmálum og beittu þeir sér fyrir Leiðarhólmssamþykkt, þar sem höfðingjar skuldbundu sig til að þola ekki biskupum ójöfnuð en hlíta þó kirkjulögum. Jón gat þó lítið beitt lögmannsvaldi sínu síðustu árin vegna bannfæringar. Í raun var Vigfús Erlendsson lögmaður um allt land 1516-1518 en fékk þó ekki samþykki konungs fyrir embættinu norðan og vestan. Hann átti í miklum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup og snerust þær meðal annars um að biskup taldi að Jón og seinni kona hans, Björg Þorvaldsdóttir, væru of skyld til að mega vera gift. Einnig kærði biskupinn Jón fyrir tíundarsvik og fleiri ávirðingar. Gottskálk bannfærði Jón og fékk Stefán Jónsson Skálholtsbiskup til að gera það einnig. Gottskálk lét einnig dæma Jón í háar sektir og glataði hann að lokum stærstum hluta eigna sinna til kirkjunnar og Gottskálks. Var Jón mikið hjá Birni Guðnasyni þessi ár en eftir að hann dó 1517 átti hann í fá hús að venda og bjó hann seinustu árin á Krossanesi á Vatnsnesi við þröngan kost. Þeir Gottskálk biskup dóu með fárra mánaða millibili 1520. Fyrri kona Jóns var Guðrún Gunnlaugsdóttir (d. 1495) frá Marðarnúpi. Brúðkaup þeirra var haldið í Víðidalstungu 1483 og á meðan á brúðkaupinu stóð var Ásgrímur bróðir Jóns drepinn. Varð sá atburður ein af kveikjum Morðbréfamálsins. Seinni kona Jóns (g. 1497) var Björg Þorvaldsdóttir frá Móbergi í Langadal og hélt Gottskálk því fram sem fyrr segir að þau væru fjórmenningar en ekki er nú vitað hvernig skyldleika þeirra á að hafa verið háttað. Þau áttu þrjár dætur, Guðrúnu vatnshyrnu, sem var amma Arngríms lærða, Vilborgu (Söngva-Borgu) og Helgu, móður Guðbrandar Þorlákssonar biskups, sem reyndi mörgum áratugum eftir dauða afa síns að ná eignum hans aftur og spunnust af því löng og mikil mál (sjá Morðbréfamálið). Sonur Jóns hét Einar en ekki er víst hvort Guðrún eða Björg var móðir hans. Jóhannes Gunnarsson. Jóhannes Gunnarsson, (3. ágúst 1897 – 17. júní 1972) var prestur rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og biskup hennar í Reykjavík frá 1942 þar til hann sagði af sér embæti 1967. Jóhannes fæddist í Reykjavík og var sonur Gunnars Einarssonar sem var fyrsti íslendingurinn eftir siðaskiptin sem gerðist kaþólikki. Gunnar kynntist kaþólskum kenningum þegar hann var við nám í Danmörku. Jóhannes hóf nám hjá jesúítum á Íslandi áður en hann fór til Danmerkur í framhaldsnám. Hann lagði síðar stund á guðfræðinám í Hollandi. Jóhannes var vígður prestur þar 1924 og snéri sama ár aftur til Íslands og hóf þjónustu við Landakotskirkju. Jóhannes var skipaður "Vicar Apostolic Emeritus" yfir Íslandi og einnig "titilbiskup" "Hóla" biskupsdæmis 1942 af Píusi XI. Jóhannes var ekki titlaður "biskup Reykjavíkur" sem er nú formlegur titill kaþólska biskupsins á Íslandi. Þegar Jóhannes tók við embæti voru einungis þrír kaþólskir söfnuðir á landinu og rúmlega 400 safnaðarmeðlimir. Jóhannes biskup sat Annað Vatikansráðið frá 1962 til 1965, en sagði af sér embæti 1967, eftir tuttugu og fimm ára biskupsþjónustu. Hann lést árið 1972, 74 ár gamall. Pétur Bürcher. Pétur Bürcher, (upphaflega "Pierre Bürcher") (20. desember, 1945 er biskup rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Pétur er ættaður úr Fiescherdalnum í Oberwallis í Sviss, hann var vígður til prests í Genf 27. mars 1971, skipaður aðstoðarbiskup í Lausanne-Genf og Fribourg 3. febrúar 1994, skipaður stjórnandi biskupsdæmisins í Reykjavík 30. október 2007 af Benedikt XVI og settur í embætti 15. desember 2007. Tannhvalir. Núlifandi hvalategundir skiptast í tvo undirættbálka, tannhvali (Odontoceti) og skíðishvali (Mysticeti). Flokkunarfræðingar telja tæplega 80 tegundir tannhvala, en nákvæmur fjöldi tegunda er umdeildur. Tannhvalir finnast í öllum heimshöfum og í mörgum stórfljótum. Tannhvalir eru tenntir eins og nafnið bendir til. Tennurnar eru þó ekki eins í öllum tannhvölum. Hjá sumum hvalategundum eru tennurnar allar af sömu gerð (það er þær greinast ekki í framtennur, vígtennur og jaxla) og eru keilulaga með einfalda rót. Fjöldi tanna er einnig misjöfn eftir tegundum, sumar tegundir vatnahöfrunga (Platanistidae) eru með allt að tvö hundruð tennur, en náhvalir (Monodon monoceros) hafa aðeins eina tönn sem skagar fram úr höfðinu. Að búrhval (Physeter catodon) undanskildum eru flestar tegundir tannhvala talsvert minni en skíðishvalir. Tannhvalir hafa eitt öndunarop en skíðishvalir tvö. Hægri og vinstri hauskúpuhelmingar tannhvala er ekki eins og er það vegna þess að þeir nota bergmálsmiðun við fæðuleit og hefur aðlögun að slíkri skynjun gert það að verkum að hauskúpa þeirra er ósamhverf. Tannhvalir eru nær undantekningalaust hópdýr og fjölkvænisdýr með flókið félagsatferli. Fullvaxnir tannhvalstarfar eru oft verulega stærri en kýrnar. Hóparnir eru afar misstórir, allt frá nokkrum dýrum upp í tugi einstaklinga og jafnvel allt að þúsund dýr eins og þekkist meðal höfrunga. Samskipti einstaklinga innan hópsins eru mjög flókin og nota þeir meðal annars mismunandi hljóð til samskipta. Helsta fæða tannhvala er fiskur, smokkfiskur og kolkrabbar. Sumir háhyrningsstofnar lifa á öðrum hvölum, hreifadýrum og mörgæsum. Ættir tannhvala. Vísindamenn eru ekki sammála um hvernig flokka beri tannhvali í ættir en algengt er að skipta núlifandi tannhvölum í sjö ættir. Fimm tegundir teljast til vatnahöfrunga og lifa þær í fljótum í Suður-Ameríku og Asíu. Ætt hvíthvela telur einungis tvær tegundir, mjaldur (Delphinapterus leucas) og náhvalur (Monodon monoceros). Sex tegundir teljast til hnísuættarinnar og eru þær minnstar núlifandi hvala, stærstu tegundirnar verða aðeins um 2,5 metrar á lengd. Minnsta tegundin, Vaquinta (Phocoena sinus) sem lifir við strendur Norður-Ameríku, er aðeins 1,2 -1,5 m á lengd og 30-55 kg að þyngd. Tegundaríkusta ætt tannhvala eru höfrungar en það eru taldar rúmlega 30 tegundir. Að undanskildum háhyrningum (Orchinus orca) eru höfrungar tiltölulega litlir samanborið við aðra hvali. Svínshvelaætt er talin tegundaríkasta ætt hvala á eftir höfrungum og eru í henni 21 tegundur í 6 ættkvíslum. Svínshvalir eru meðalstórir hvalir, á bilinu 3,5 – 13 metrar á lengd og vega á bilinu 1-15 tonn. Búrhveli er stærstur tannhvala en fullorðnir tarfar geta orðið um 20 metra langir. Höfuðið er einn þriðji af heildarlengdinni kjafturinn sérstakur, neðri kjálkinn er með fjölda hvassra tanna en efri kjálkinn er því sem næst tannlaus. Dvergbúrraætt skiptist í tvær ættir, litli búrhvalurinn (Kogia breviceps) og dvergbúrhvalurinn (Kogia sima). Báðar tegundirnar lifa í heitum eða heittempruðum sjó umhverfis jörðina. Björn M. Ólsen. Björn M. Ólsen, mynd tekin 1900–1910. Björn M. Ólsen – (Björn Magnússon Ólsen) – (14. júlí 1850 – 16. janúar 1919) var alþingismaður, fyrsti rektor Háskóla Íslands og prófessor þar í íslenskri málfræði og menningarsögu frá 1911. Æviágrip. Björn M. Ólsen fæddist á Þingeyrum. Foreldrar hans voru Magnús R. Ólsen (1810–1860) alþingismaður á Þingeyrum og kona hans Ingunn Jónsdóttir Ólsen (1817–1897). Björn varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1869. Tók sér síðan hlé frá námi vegna brjóstveiki, en fór utan 1872, og tók meistarapróf í málfræði og sögu frá Háskólanum í Kaupmannahöfn vorið 1877. Námsferð til Ítalíu og Grikklands 1878 með styrk af opinberu fé. Hann varð aðjúnkt í Reykjavíkurskóla 1879 og varð rektor þar sumarið 1895. Hann fékk lausn frá því embætti vorið 1904, varð þá prófessor að nafnbót og helgaði sig að mestu rannsóknum á íslenskum fornbókmenntum og sögu. Þetta er sama árið og heimastjórn kom inn í landið, og er líklegt að litið hafi verið á þetta sem lið í að byggja upp innlenda fræðastarfsemi í þessum greinum. Björn var konungkjörinn alþingismaður 1905 og 1907 fyrir Heimastjórnarflokkinn (Hannes Hafstein). Varð prófessor í íslensku við Háskóla Íslands við stofnun hans 1911, og varð jafnframt fyrsti rektor skólans 1911–1912. Hann fékk lausn frá prófessorsembætti sumarið 1918, og andaðist hálfu ári síðar. Hann var ógiftur. Hann tók doktorspróf í Háskólanum í Kaupmannahöfn 1883, heiðursdoktor við Háskólann í Kristjaníu 1911, og við Háskóla Íslands 17. júní 1918. Forseti Hins íslenska bókmenntafélags 1894–1900 og 1909–1918, og átti þátt í flutningi Kaupmannahafnardeildarinnar til Reykjavíkur. Var í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar 1895–1919. Hann var heiðursfélagi í Vísindafélaginu danska og fleiri vísindafélögum. Björn M. Ólsen skrifaði fjölda ritgerða um íslenskar fornbókmenntir og sögu. Páll Eggert Ólason segir um hann: „Skarpur maður að skilningi og einn hinn snjallasti kennari“. Finnur Jónsson segir í eftirmælum um Björn, að bestu verk hans séu ritgerðin um Sturlunga sögu í "Safni til sögu Íslands", og ritgerðirnar um Landnámu, sem birtust í "Árbókum Fornfræðafélagsins". Um þær síðarnefndu segir hann að þær séu ótrúlega djúpsæjar, og hafi mikla bókmenntasögulega þýðingu, því að þar sé bent á svo margt sem menn höfðu ekki áður veitt athygli. Af öðrum merkum ritgerðum nefnir hann ritið um Gunnlaugs sögu, 1911, og um Snorra sem höfund Egils sögu, 1905. Orkneyinga saga. Orkneyinga saga (einnig kölluð Jarlasögur) er íslensk saga, sem fjallar um sögu Orkneyja (og norðurhluta Skotlands), frá því Noregskonungar lögðu eyjarnar undir sig á 9. öld, allt fram undir 1200. Sagan segir einkum sögu jarlanna (Orkneyjajarla), sem stýrðu eyjunum í umboði Noregskonungs. Um söguna. Sagan hefst í grárri forneskju, en segir svo frá landvinningum Norðmanna og stofnun jarlsdæmisins. Í fyrsta hlutanum ber talsvert á þjóðsagnakenndu efni, en höfundurinn hefur haft traustari heimildir þegar nær dregur í tíma. Saga jarlanna er síðan rakin fram undir 1200. Fyrsti jarlinn sem eitthvað kvað að, var Torf-Einar Rögnvaldsson, og síðan fylgdu dugmiklir afkomendur hans, eins og Þorfinnur hausakljúfur, Þorfinnur Sigurðarson o.fl. Síðasti jarlinn sem sagt er frá er Haraldur Maddaðarson, d. 1206. Meðal jarlanna var Magnús Erlendsson, d. 1116, sem síðar var tekinn í dýrlinga tölu. Af honum er einnig sérstök helgisaga, Magnúss saga Eyjajarls. Systursonur hans var Rögnvaldur Kali, sem stýrði eyjunum á miklu velmegunarskeiði. Talsvert er sagt frá Jórsalaför hans 1151–1153. Orkneyinga saga er aðalheimildin um sögu Orkneyja, Hjaltlands og norðurhluta Skotlands, í þrjár og hálfa öld, og rekur einnig mikilvægan þátt í sögu víkingaaldarinnar. Þá voru Orkneyjar krossgötur, þar sem fjölbreyttir menningarstraumar komu saman. Upphaflega mun sögunni hafa lokið með 108. kapítula, og eru kaflar 109–112 taldir síðari viðbót. Aftast er viðauki, Brenna Adams biskups (1222), sem er aðeins að finna í Flateyjarbók. Talið er að sagan hafi verið rituð hér á Íslandi um 1200. Óvíst er hver samdi söguna, en ýmsar tilgátur uppi um það. Allt frá því að Orkneyinga saga varð almennt kunn á Bretlandseyjum með enskri þýðingu 1873, hefur hún haft sérstakan sess í hugum Orkneyinga. Hún opnaði þeim nýja sýn á fortíðina, varpaði ljósi á að norræn menning var öldum saman ríkjandi á eyjunum, og þar var voldug stjórnsýslumiðstöð. Raunar var norræna tímabilið blómaskeið í sögu þeirra. Þeim varð ljóst að norræna arfleifðin var gildur þáttur í þeirri menningu sem þróast hefur í eyjunum, ekkert síður en hin keltneska, sem fyrir var í eyjunum, og hin skoska sem síðar tók við. Orkneyinga saga er oft flokkuð með konungasögum, þó að hún sé það ekki, strangt til tekið. Handrit og útgáfur. Flateyjarbók hefur ein skinnbóka varðveitt nær alla Orkneyinga sögu. Er sagan þar felld inn í Ólafs sögurnar tvær, og henni skeytt við þær. Einnig eru til leifar þriggja skinnbóka, sem eru mun eldri en Flateyjarbók. AM 325 I 4to (18 blöð), AM 325 IIIa 4to (tvö blöð) og AM 325 IIIb 4to (eitt blað). Loks var sagan til á skinnbók í Noregi. Leifar hennar bárust á Háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn, og brunnu þar 1728, en til er uppskrift sem Árni Magnússon lét gera, AM 332 4to. Einnig er til dönsk þýðing, sem gerð var í Noregi meðan handritið var að mestu heilt. Furstinn. Furstinn (í. "Il Principe", e. "The Prince") er þekktasta rit Niccolòs Machiavelli (1469 - 1527) sem var opinber þjónn frá Flórens. Niccolò skrifaði bókina árið 1513 en hún kom fyrst út árið 1532. Bókin er leiðarvísir handa furstum um hvernig halda skuli völdum og auka þau, hvaða brögðum beri að beita og hvaða sögulega lærdóma sé hægt að draga. Um leið sýnir hún einkar vel hugsunarhátt og aðferðir valdhafa gegnum aldirnar, enda er hún eitt frægasta stjórnmálarit allra tíma. Á enskri tungu er það orðið niðrandi lýsingarorð að segja einhvern vera "machiavellian" og er þá átt við að viðkomandi sé snauður tilfinningum, og jafnvel siðferði og hugsi einvörðungu um eiginhagsmuni. Skíðishvalir. Núlifandi hvalategundir skiptast í tvo undirættbálka, skíðishvali (Mysticeti) og tannhvali (Odontoceti). Flokkunarfræðingar telja 14 núlifandi tegundir skíðishvala og finnast þeir í öllum heimshöfum. Í stað tanna hafa skíðishvalir hornkenndar plötur, svo nefnd skíði í efri skolti, sem notaðar eru til að sía fæðuna frá sjónum en helsta fæða þeirra eru krabbadýr, einkum sviflægar krabbaflær, og smáfiskar. Opna hvalirnir kjaftinn upp á gátt þegar þeir eru í æti og loka honum svo á ný. Þrýsta þeir síðan sjónum út gegnum skíðin og gleypa átuna. Nasirnar opnast ofan á höfðinu hjá öllum hvölum og þeir þurfa þess vegna aðeins að lyfta efsta hluta þess upp yfir yfirborð sjávar til að anda. Skíðishvalir hafa tvö blástursop en tannhvalir aðeins eitt. Stærðarmunur kynjanna er lítill hjá skíðishvölum, þótt kýrnar séu oftast heldur stærri en skíðishvalir eru einkvænisdýr. Margar skíðishvalategundir eru mikil fardýr og fara oft um mörg þúsund kílómetra leið milli vetrar og sumardvalarstaða. Skíðishvalir gefa frá sér afar sérkennileg hljóð og er það kallað að þeir „syngi“. Hljóðið getur borist gífurlega langt og er álitið vera mikilvægt til samskipta á úthöfunum. Ættir skíðishvala. Í gráhvalaætt er ein tegund og lifir einungis við strendur Norður-Kyrrahafs. Í sunnhvelaætt er einungis ein tegund, litli sléttbakur. Lítið er vitað um þessa hval tegund sem lifir í grennd við Suðurskautslandið. Litli sléttbakur er minnsta tegund skíðishvala og er um 4 til 6 metra á lengd og 3000 til 3500 kg á þyngd. Í sléttbakaætt eru fjórar tegundir í tveim ættkvíslum. Í Norður-Atlantshafi eru norðhvalur og sléttbakur. Í reyðarhvelaætt eru átta tegundir í tveim ættkvíslum. Fimm af þeim lifa í Norður-Atlantshafi og eru það hnúfubakur, steypireyður, langreyður, sandreyður og hrefna. Steypireyðurin er stærsta dýr sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni, getur orðið allt að 30 m löng og getur orðið 150 tonn að þyngd. Nanna (norræn goðafræði). Nanna er í norrænni goðafræði gyðja sem gift var Baldri syni Óðins. Baldur var þannig einn af ásum og bjó á stað sem var kallaður Breiðablik og var á himninum fyrir ofan Ásgarð. Þar var allt tandurhreint og óspillt. Nanna var dóttir Neps. Sonur Nönnu og Baldurs var Forseti. Forseti átti heima nálægt föður sínum á himninum fyrir ofan Ásgarð en í „sal“ eða höll sem kallaðist Glitnir. Glitnir var nokkurs konar „sáttahöll“ þar sem Forseti fyrirgaf sakir eða „sakavandræði“ þeirra sem komu þangað. Í Gesta Danorum eru Baldur og Höður keppinautar um ástir Nönnu. N4. N4 er íslensk sjónvarpsstöð sem sérhæfir sig í fréttum og dagskrárgerð tengdri Norðurlandi. Fyrirtækið var stofnað 1. maí 2006 þegar fyrirtækin Samver, Extra dagskráin, Smit kvikmyndagerð og Traustmynd voru sameinuð sem N4. Samver hafði áður rekið sjónvarpsstöðina Aksjón sem var forveri N4. Heimilistónar. Heimilistónar er íslensk kvennahljómsveit stofnuð 1997. Hún er nú samansett af þeim stöllum Vigdísi Gunnarsdóttur leikkonu, Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur leikkonu, Ragnhildi Gísladóttur söng- og leikkonu, og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur leikkonu. Áður var Halldóra Björnsdóttir í hljómsveitinni en hún hætti árið 2003 og komu í hennar stað Katla Margrét og Ragnhildur. Hljómsveitin gaf út breiðskífuna "Herra ég get tjúttað" árið 2007. Íslenska kvótakerfið. Íslenska kvótakerfið, oft nefnt kvótakerfið í daglegu tali, er fiskveiðistjórnunarkerfi (aflamarkskerfi) sem segir til um það hversu mikið íslenskir sjómenn eða íslenskar útgerðir mega veiða af hverri fisktegund á tilteknu tímabili. Kvótakerfinu var komið á til þess að vernda íslenska fiskistofna frá ofveiði. Það hefur sérlega mikið vægi þar sem sjávarútvegur hefur alla tíð verið veigamikill þáttur í efnahag Íslands, þó svo að hann fari minnkandi hlutfallslega. Kvótakerfið hefur lengi verið mjög umdeilt á Íslandi. Kvótakerfinu var upprunalega komið á með lagasetningu árið 1983, sem tók gildi árið 1984, en því var breytt talsvert með nýrri lagasetningu árið 1990. Í fyrstu úthlutun kvóta, á árinu 1984, var miðað við aflareynslu skipsins þrjú næstliðin ár. Ágúst Einarsson, prófessor, lýsir aflamarkskerfi þannig: „Fiskveiðistjórnunarkerfi sem notað er hérlendis. Oft einfaldlega kallað kvótakerfið. Úthlutað er hlutdeildarkvótum í einstökum fisktegundum á skip útgerðaraðila til langs tíma, til dæmis 0,1% af leyfilegum heildarafla í þorski. Síðan er úthlutað til eins árs í senn aflamarki, til dæmis 100 tonnum af þorski. Útgerðarmenn veiða kvótann eða framselja hann til annarra útgerðarmanna innan ársins (kvótaleiga) eða selja hann varanlega (kvótasala).“ Úthlutun kvóta. Sjávarútvegsráðherra ákveður heildaraflamark, eða kvóta, í hverri tegund fyrir sig með reglugerð sem venjulega er gefin út í júlí ár hvert. Kvótaárið, eða fiskveiðiárið, er það tímabil sem skip skulu veiða kvóta sinn á og nær frá 1. september hvert ár til 31. ágúst. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heildaraflamark er venjulega byggt á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar Íslands en ráðherra er heimilt að víkja frá þeirri ráðgjöf. Kvótanum er úthlutað til skipa af Fiskistofu, og er það tiltekið sem ákveðið hlutfall af heildarafla í viðkomandi fisktegund sem skipið má veiða. Þannig eykst kvóti skipsins ef heildaraflamark eykst, en minnkar þegar heildaraflamark minnkar. Kvótinn sem skip fær úthlutað ræðst af aflamarki skipsins síðasta fiskveiðiár, að viðbættum aflaheimildum sem skipið kann að hafa keypt en að frádregnum seldum aflaheimildum. Skip mega færa ákveðinn hluta kvóta síns á milli kvótaára, en þau mega ekki veiða fyrirfram úr kvóta næsta árs. Skip sem búið er með kvótann sinn, en hyggst halda áfram veiðum, verður annaðhvort að leigja eða kaupa viðbótarkvóta af öðru skipi. Kvótakerfið hefur alla tíð verið mjög umdeilt og hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir það að ýta undir brottkast á fiski og að kippa undirstöðunum undan sjávarþorpum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Kvótaþak er á kerfinu sem á að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun fiskveiðiheimilda á of fáar hendur. Eitt fyrirtæki má mest eiga 12 % af heildarkvóta fiskveiðiflotans. Snertill. Snertill eða snertillína er rúmfræðilegt hugtak og á við tiltekna línu og ákveðinn feril, sem snertast þannig að hallatala línunnar og ferilsins er sú sama í snertipunktinum. Martha's Vineyard. Martha's Vineyard (í. "Vínekra Mörtu") er eyja undan austurströnd Bandaríkjanna, suður af Þorskhöfða, 231.75 km² að stærð. Eyjan er hluti af Massachusettsfylki. Um 15 þúsund manns búa þar. Boeing 747. Boeing 747 er farþegaþota framleidd af Boeing. Flugvélin er tveggja hæða. Efri hæðin er um það bil þriðjung yfir vélinni, það er að segja önnur hæð er þrisvar sinnum styttri en fyrsta hæð, önnur hæð er nú fyrsta farrými. Hún er oft kölluð „júmbóþota" og ein þekktasta flugvél í heimi. Boeing 747 er tvisvar og hálfum sinnum stærra en Boeing 707 sem var ein algengasta farþegaþota sjötta áratugsins. Fyrsta flug Boeing 747 var árið 1969. Var fyrsta tegundin af Boeing 747 þotu eins og allar 747 þoturnar var hún með tvær hæðir á 100 voru 6 gluggar á efri hæðinni, enda styttri heldur en þessar nýju. Núna er búið að taka nærri allar 747-100 í gegn og breyta þeim í flutningaþotur, 167 747-100 hafa verið byggðar. Var stærri gerð af -100 týpunum en Japanir vildu fá slíka þotu til að nota til innanlandsflug. Seinni gerðin af -100 þotunum sem hafði meira flugþol og betri hönnun. Pan Am og Iran Air báðu um þessa vél til lengri fluga en þessi vél á metið "Lengsta flug án stopps" sem var 12.000 kílómetra leið frá Sydney til San Francisco enda var það markmiðið með SP þotunni. Hún var styttri í lengd og hafði 12 glugga á efri hæðinni. Línuleg jafna. Línuleg jafna er jafna, sem hefur "línulega eiginleika", þ.e. breytistæðir koma aðeins fyrir í fyrsta veldi. Ferill, sem línuleg jafna lýsir er bein lína. Það eru til margar leiðir til að tákna línulega jöfnu en ein algeng útgáfa er þar sem formula_2 er hallatalan og formula_3 eru hnit einhvers punkts í línunni. Línuleg jafna fyrir beina línu í gegnum punktinn formula_4 með hallatöluna formula_5 væri því formula_6 eða formula_7. Línurit. Línurit (stundum nefnt graf'") er myndræn framsetning tölulegra gagna. Sýna má feril falls, eða ofanvarpið, á tvívíða sléttu, en einnig má sýna tölfræðigögn í línuriti. Línurit er oftast teiknað í kartesísku (rétthyrndu) hnitakerfi fyrir tiltekið bil og sýnir í reynd tvenndirnar ("x", "y"), þar sem "x" er stak í formengi falls "f", en "y" = "f"("x") er tilsvarandi stak í varpmenginu. Sýna má feril falls í línuriti. SSC Napoli. SSC Napoli er ítalskt knattspyrnulið frá Napólí í Kampaníu-héraði. Þema. Þema (eða tema'") er hugtak sem vísar til uppistöðu eða meginhugmynda listaverks (eða uppákomu), m.ö.o. hugmyndakeðja sem rennur sem nokkurskonar rauður þráður í gegnum verkið og litar það vissum hughrifum. Viðfangsefni ("subject") listaverks er hugtak sem grípur yfir heildarhugmynd verksins (innra eðli þess), t.d. „dauðinn“ eða „tíminn“. Þema er aftur á móti oftast skilgreint sem ytra eðli verksins, t.d. „skemmtanamenning níundaáratugsins“ eða „firring borgarlífsins“. Ásgeir Einarsson. Ásgeir Einarsson (23. júlí 1809 – 15. nóvember 1885) var íslenskur bóndi og alþingismaður á 19. öld. Hann fæddist í Kollafjarðarnesi á Ströndum, sonur Einars Jónssonar dannebrogsmanns, (f. 9. júlí 1754, d. 6. desember 1845) og konu hans Þórdísar Guðmundsdóttur (f. um 1777, d. 31. júlí 1861). Bróðir Ásgeirs var Torfi Einarsson alþingismaður. PlayStation Home. PlayStation Home er þjónusta fyrir samfélag notenda Playstation tölva. Þjónustan hefur verið í vinnslu síðan 2005 af og hún varð opin til almennings á 11. Desember 2008. Jónatengi. Í efnafræði er jónatengi efnatengi sem hlýzt af rafstöðu-aðlöðun milli jákvætt og neikvætt hlaðinna jóna. Walther Kossel lýsti jónatenginu fyrstur manna árið 1916. Við rafeindasækni-mismun upp á ΔEN = 1,7 er rætt um að tengið sé að 50% jónískt. Sé mismunurinn meiri en 1,7 telst tengið að mestu leyti jónískt, en sé hann minni, kallast það að mestu leyti deilið. Þessi mörk eru þó geðþóttakennd, hugmyndin um hreint jónatengi er í reynd hugarsmíð. Almennt er sagt að jónatengi skapist milli frumefna til vinstri í lotukerfinu, þ.e. málma, og frumefna til hægri, þ.e. málmleysingja. Natrínklóríð, (NaCl) sem oft er talið sígilt dæmi um jónatengi, telst vera 73% jónískt. Annað dæmi er sesínflúoríð (CsF) með 92%. Jónatengi eru m.ö.o. ávallt eitthvað blönduð deilitengjum. Hið gagnstæða gildir þó ekki, t.d. í frumefnissameindum er tengið 100% deilið. Rafeindaskipan. Atómin sækjast eftir því að láta yzta setna svigrúm sitt öðlast rafeindaskipan eðallofttegundar með því að láta frá sér eða hremma til sín rafeindir. Það næst annaðhvort með því að frumefnið sem hefur lægri rafeindasækni (til vinstri í lotukerfinu) lætur frá sér eina eða fleiri rafeindir, en við það verða til einfalt eða margfalt hlaðnar plúsjónir, eða frumefnið sem hefur hærri rafeindasækni (til hægri í lotukerfinu) tekur til sín eina eða fleiri rafeindir, en við það verða til einfalt eða margfalt hlaðnar mínusjónir. Myndun jónagrinda. Mæla má grindarorkuna með Born-Haber-hringferlinu. Eiginleikar jónagrinda. Þar eð rafsviðið teygir sig jafnt í allar rúmáttir, verða jónagrindur afar reglulegar. Vegna þess að jónaradíarnir eru mismunandi eru jónískar grindargerðir samt mismunandi: Matarsaltsgrind (NaCl), sesínklóríðgrind (CsCl), sinkblendigrind (ZnS), flúoríðgrind (CaF2) og fleiri sem nefndar eru eftir einkennandi dæmum. Tiltölulegur stöðugleiki mismunandi grindargerða vegna mismunandi samhæfingargeometríu og samhæfingartalna jónanna endurspeglast Madelung-fasta hverrar grindargerðar. Stuðlafylki. Stuðlafylki er hugtak í línulegri algebru sem á við fylki sem samanstendur af stuðlum breytnanna í hópi línulegra jafna. Dæmi. Þegar það eru "m" línulegar jöfnur og "n" óþekktar má vanalega skrifa það sem Efnatengi. Efnatengi er eðlisfræðilegt ferli sem veldur aðdráttarvíxlverkun milli minnstu eininga efna (þær geta verið atóm, plúsjónir, mínusjónir eða sameindir) þannig að þau verða stöðug. Skýring aðdráttarkraftanna er flókið efni sem lýst er með lögmálum skammtarafsegulfræði. Í reynd láta efnafræðingar sér yfirleitt nægja að skýra efnatengi á grundvelli skammtafræðinnar eða almennari lýsinga sem eru ekki eins nákvæmar en auðskildari. Almennt hljótast sterk efnatengi af því að hlutaðeigandi atóm deila með sér rafeindum eða þær flytjast af öðru á hitt. Sameindum, kristöllum og tvíatóma lofttegundum -- mestöllum hinum áþreifanlega veruleika -- er haldið saman með efnatengjum, sem stýra byggingu efnisins. Efnatengi eru mjög missterk. Almennt er deilitengjum og jónatengjum lýst sem "sterkum" en vetnistengjum og van der Waals-tengjum sem "veikum". Aðgát skyldi þó höfð því sterkustu "veiku" tengin geta verið sterkari en veikustu "sterku" tengin. Þegar efnatengi rofna og myndast í efnahvarfi breytast efni úr einu í annað. Hvarfefnin kunna að búa yfir allt öðrum eiginleikum en myndunarefnin. Yfirlit. Kjarnar atóma draga rafeindir atómanna til sín vegna gagnstæðrar hleðslu. Efnatengi einkennast af eðlisfræðilegum ástöndum þar sem nokkrar rafeindir færast að hluta til af einu atómi yfir á eitt eða fleiri önnur atóm, knúin áfram af lækkun heildarorku sem hlýzt af slíkum flutningi. Þessi orkuminnkun orsakast af enduruppröðun hleðslna og leiðir venjulega til nettóminnkunar meðalfjarlægðar milli rafeinda allra tengdu atómanna og kjarna þeirra. Hleðsluflutningurinn sem hlýzt af færslu rafeindar af einu atómi á annað veldur því að hlutaðeigandi atóm (sem geta verið frá tveimur upp í mjög mörg) dragast hvert að öðru rafsegulfræðilega. Aðdráttarkrafturinn milli atóma er tengið. Samkvæmt hefð er eiginleikum efnatengja til einföldunar skipt í tvær aðalgerðir: "deilitengi" og "jónatengi", sjá nánari umfjöllun aftar í greininni. Flest efnatengi hafa blandað tengi- og jónaeðli, þ.e. atómin deila bindirafeindum á milli sín, en "ójafnt". Skýra má öll tengi með skammtafræði, en í reynd gera einföldunarreglur efnafræðingum kleift að segja fyrir um styrk, stefnu og skautun tengja. Áttundarreglan (sjá aftar) og VSEPR-kenningin eru tvö dæmi. Háþróaðri kenningar eru gildisrafeindakenningin og með henni svigrúmapörun, meðsveiflun og línuleg samsetning atómasvigrúma (sameindasvigrúmaaðferðin) sem felur í sér bindlasviðskenninguna. Rafstöðufræði eru notuð til að lýsa skautun tengja og áhrifunum sem þau hafa á efni. Saga. Vangaveltur frá 12. öld um eðli efnatengisins voru á þá leið að tilteknar gerðir efnafræðilegra tegunda hefðu tiltekna efnafræðilega ásælni. Árið 1704 birti Isaac Newton sína frægu atómtengjakenningu, í "Query 31" bókar sinnar Opticks, en samkvæmt henni festast atóm saman með einhverjum krafti. Sér í lagi segir Newton, eftir að hafa rakið hinar ýmsu kenningar sem þá voru í tízku um hvernig atóm tengdust saman, svo sem "krækt atóm", "límd saman af kyrrstöðu" eða "tolla saman með samræmdri hreyfingu" að hann dragi frekar þá ályktun af samloðun þeirra að "agnir laðast hver að annarri vegna einhvers krafts, sem er einstaklega sterkur við snertingu, orsakar efnatengið við litla fjarlægð en hefur lítil áhrif þegar lengra dregur frá ögnunum." Með orðum Lewis sjálfs: "Rafeind getur myndað hluta svigrúms tveggja mismunandi atóma og verður þá ekki sögð tilheyra öðru þeirra eingöngu." Sama ár setti Walther Kossel fram kenningu sem svipaði til kenningar Lewis, nema hvað líkan hans gerði ráð fyrir fullkomnum flutningi rafeinda milli atóma og lýsti því skautuðum tengjum. Lewis og Kossel byggðu tengilíkön sín báðir á reglu Abeggs (1904). Árið 1927 þróaði danski eðlisfræðingurinn Øyvind Burrau fyrstu stærðfræðilega fullgerðu skammtalýsingu einfalds efnatengis, þ.e. þess sem ein rafeind framkallar í vetnissameindarjóninni, H2+. Verk hans sýndi fram á að skammtanálgunin við efnatengi væri fræðilega og megindlega rétt, en ekki var hægt að færa stærðfræðiaðferðirnar út til sameinda með fleiri en einni rafeind. Sama ár settu Walter Heitler og Fritz London fram hagnýtari en ekki eins megindlega nálgun. Heitler-London-aðferðin myndar grunninn í því sem kallast nú gildistengiskenningin. Árið 1929 setti John Lennard-Jones fram línulega samantekt atómsvigrúma (sameindasvigrúmaaðferðina) (LSA). Hann lagði einnig til aðferðir við að leiða út rafeindabyggingu sameinda F2 (flúors) og O2 (súrefnis) útfrá skammtafræðilegum grundvallarlögmálum. Þessi sameindasvigrúmaaðferð setti deilitengi fram sem svigrúm sem myndaðist með samsetningu hinna skammtafræðilegu Schrödinger-atómsvigrúma sem höfðu verið gerðar tilgátur um fyrir rafeindir í stökum atómum. Jöfnurnar um tengirafeindir í margra-rafeinda-atómum var ekki hægt að leysa á lokuðu formi ("analýtískt") en lausnanálganir gáfu margar góðar eigindlegar forsagnir og niðurstöður. Flestir megindlegir útreikningar í nútíma-skammtaefnafræði notast ýmist við gildistengis- eða sameindasvigrúmskenninguna sem útgangspunkt, þó þriðja aðferðin, þéttleikafelliskenningin, hafi notið vaxandi vinsælda síðari ár. Árið 1935 framkvæmdu H.H. James og A.S. Coolidge útreikning á tvívetnissameindinni sem notaðist, ólíkt fyrri útreikningum sem byggðu aðeins á fjarlægð rafeindarinnar frá atómkjarnanum, við föll sem voru einnig háð fjarlægðinni milli rafeindanna tveggja. Með allt að 13 stillanlegum stikum náðu þeir fram útkomu sem var mjög nálægt tilraunaniðurstöðunni um bindiorkuna. Síðari útvíkkanir hafa notazt við allt að 54 stika og gefa afbragðsgott samræmi við tilraunir. Þessi útreikningur sannfærði vísindasamfélagið um að skammtafræðin gæti fallið saman við tilraunir. Hinsvegar býður þessi nálgun ekki upp á "eðlisfræðilega mynd" á borð við gildistengis- og sameindasvigrúmakenninguna og erfitt er að víkka hana út til stærri sameinda. Gildistengiskenningin. Á grundvelli þessarrar greinar varð kennslubók Paulings frá árinu 1939: "Um eðli efnatengisins" ("On the Nature of the Chemical Bond") að því sem kallað hefur verið "biblía" nútímaefnafræði. Bókin auðveldaði tilraunaefnafræðingum skilning á áhrifum skammtafræði á efnafræði. Síðari útgáfa frá árinu 1959 náði þó ekki að taka með fullnægjandi hætti á vandamálum sem sameindasvigrúmakenningin virtist skýra betur. Áhrif gildisrafeindakenningarinnar minnkuðu árin 1960-1980 eftir því sem sameindasvigrúmakenningin varð vinsælli og var framkvæmd með mörgum tölvuforritum. Frá árinu 1980 hafa erfiðustu vandamálin við að framkvæma gildisrafeindakenninguna í tölvuforritum að mestu verið leyst og hefur hún því eflzt aftur. Sameindasvigrúmskenningin. Samkvæmt sameindasvigrúmskenningunni myndar línuleg samantekt atómsvigrúma svigrúm sem ná yfir alla sameindina. Slíkum sameindasvigrúmum er oft skipt upp í tengjandi svigrúm, andtengjandi svigrúm og ótengjandi svigrúm. Sameindasvigrúm er ekkert annað en Schrödinger-svigrúm með fleiri en einum kjarna. Ef þetta svigrúm er þannig gert að meiri líkur eru til þess að rafeindir þess séu "á milli" kjarnanna en annarsstaðar, er það tengjandi og hefur tilhneigingu til að halda kjörnunum saman. Ef rafeindir sameindasvigrúms eyða meiri tíma annarsstaðar en milli kjarnanna, verkar það sem andtengjandi svigrúm og veikir tengið. Rafeindir ótengjandi svigrúma eru yfirleitt í djúpum svigrúmum (næstumþví atómsvigrúmum) sem tengjast nær alfarið einum kjarna og verja því jafnmiklum tíma milli kjarna og ekki. Slíkar rafeindir auka hvorki né draga úr styrk tengisins. Samanburður gildistengis- og sameindasvigrúmskenninganna. Að sumu leyti er gildistengiskenningin fremri sameindasvigrúmskenningunni. Þegar gildistengiskenningunni er beitt á einföldustu tveggja atóma sameindina, H2, gefur hún, jafnvel með einföldustu Heitler-London-nálguninni, miklu betri nálgun fyrir tengiorkuna. Hún gefur einnig mun nákvæmari mynd af hegðun rafeindanna þegar efnatengi myndast og rofna. Einföld sameindasvigrúmakenning segir hinsvegar til um að vetnissameindin leysist upp í línulega samlegð vetnisatóma og jákvæðra og neikvæðra vetnisjóna, algjörlega óeðlisfræðilega niðurstöðu. Þetta útskýrir að hluta til hvers vegna ferill heildarorku á móti fjarlægðar milli atóma fyrir gildistengisaðferðina liggur fyrir ofan ferilinn fyrir sameindasvigrúmsaðferðina fyrir allar fjarlægðir, einkum stórar. Þessi staða er eins fyrir allar eins-frumefnis-sameindir og er sérstaklega slæm fyrir F2 þar sem lágmarksorka sameindasvigrúmskenningarferilsins er hærri en orka tveggja F atóma. Hugtakið tvinnun er svo fjölhæft og breytileiki tengja í flestum lífrænum efnasamböndum svo takmarkaður að gildistengjakenningin er ennþá óaðskiljanlegur hluti orðaforða lífrænnar efnafræði. Hinsvegar sýndu verk Hunds, Mullikens og Herzbergs að sameindasvigrúmskenningin gæfi betri lýsingu á litrófs-, jónunar- og seguleiginleikum sameinda. Annmarkar gildistengiskenningar urðu ljósir þegar marggildar sameindir (t.d. PF5) voru útskýrðar án notkunar d-svigrúma sem voru ómissandi fyrir tengipörunarskemað sem Pauling lagði til fyrir slíkar sameindir. Málmflókar og rafeindasnauð efnasambönd (t.d. tvíboran) virtust einnig vel útskýrð með sameindasvigrúmskenningunni enda þótt þeim hefði þá þegar verið lýst með gildistengiskenningunni. Tengi í efnaformúlum. Þrívítt eðli atóma og sameinda veldur því að ekki er hægt að nota eina aðferð til að tilgreina rafeindahvel og tengi. Í sameindaformúlu eru efnatengin (bindihvel) milli atóma tilgreind með ýmsum mismunandi aðferðum eftir tegund umfjöllunar. Stundum er þeim alveg sleppt. Til dæmis í lífrænni efnafræði hafa efnafræðingar stundum aðeins áhuga á virknihópi sameindarinnar. Þ.e., sameindaformúla etanóls (vínanda) kann að birtast í vísindagrein á aðlögunar-, þrívíðu, fullu tvívíðu (þar sem hvert tengi er tilgreint án allra þrívíðra átta), samþjöppuðu tvívíðu (t.d. CH3–CH2–OH) formi, með virknihópinn aðgreindan frá afgangi sameindarinnar (C2H5OH), eða eftir atómeiningum efnisins (C2H6O), allt eftir því hvað er rætt. Stundum eru m.a.s. ótengjandi gildishvelsrafeindirnar (með tvívíðum nálgunaráttum) sýndar, þ.e. fyrir frumefniskolefni:.'C'. Sumir efnafræðingar kunna einnig að tilgreina tilheyrandi hvel, þ.e. tilgátukenndu mínusjónina eten−4 mínusjón (\/C=C/\ −4) sem gefur til kynna möguleikann á myndun tengis. Sterk tengi. Í töflunni hér að neðan má sjá helstu gerðir sterkra tengja. Sameiginlegt með sterkum tengjum er að þau eru kraftar sem verka milli atóma og halda þeim innan sameindar. Í einfaldaðri staðbundinni mynd af tengi er fjöldi rafeinda sem taka þátt í tengi (eða eru staðsettar í tengihveli) yfirleitt margfeldi af 2, 4 eða 6. Jafnar tölur eru reglan því rafeindir ná lægra orkuástandi með því að para sig. Mun flóknari tengikenningar hafa sýnt að tengistyrkur er ekki ávallt heiltala, eftir dreifingu rafeinda á hvert atóm sem tekur þátt í tengi. Til dæmis tengjast kolefnisatómin í benzeni hvert öðru með u.þ.b. 1,5-gildu tengi og atómin tvö í nituroxíði tengjast hvort öðru með u.þ.b. 2,5-gildu tengi. Ferföld tengi þekkjast einnig. Tegund sterks tengis fer eftir mismun rafeindasækni og dreifingu rafeindahvelaferlanna sem bjóðast atómunum sem tengjast. Því meiri sem rafeindasæknimunurinn er, þeim mun sterkar dregst rafeind að tilteknu atómi tengisins og þeim mun "jónískara" er tengið sagt vera. Því minni sem rafeindasæknimunurinn er, þeim mun jafngildara er tengið. Jónatengi. Jónatengi er almennt sterkasta efnatengið. Samkvæmt strangri skilgreiningu kallast það jónatengi milli atóma málms og málmleysingja þegar málmatómið gefur gildisrafeindir sínar alfarið yfir til málmleysingjans. Þar með verður til plúsjón úr málmatóminu og mínusjón úr atómi málmleysingjans. Við nógu lágan hita veldur rafstöðuaðdráttur milli slíkra jóna því að þær raða sér saman í jónagrind. Við hærri hita brotnar grindin niður og til verður vökvi þar sem stakar jónir ferðast auðveldlega til. Efnasambönd með jónatengjum eru vegna hinna sterku rafaðdráttarkrafta milli eininga sinna saltkennd: þau hafa hátt bræðslumark, eru vel rafleiðandi sem vökvi og í lausn (2. stigs leiðarar, rafvakar) og eru mjög stökk. formula_1 Málmtengi. Þar eð eingöngu málmar tengjast með málmtengjum, gefa öll atómin frá sér gildisrafeindir. Málmplúsjónirnar sem þannig verða til haldast saman fyrir tilstilli þessara rafeinda sem ferðast frjálst (svokallaðs rafeindagass); málmgrind verður til. Ólíkt því sem gerist í tilfelli jónatengisins byggist grindin í tilfelli málmtengja hjá hinum ýmsu frumefnum ekki upp samkvæmt lögmálum hlutfallaefnafræðinnar. Málmar eru þessvegna yfirleitt góðir rafleiðarar (1. stigs leiðarar), mótanlegir (þanþolnir), góðir varmaleiðarar og hafa málmgljáa (sjá myndina af eirmola). Deilitengi. Vatns- og súrefnisatómin í vatni tengjast með deilitengjum - vatn er því gert úr sameindum Þar eð eingöngu málmleysingjar tengjast með deilitengjum (einnig nefnd "samgild tengi") bjóða báðir aðilar hvarfsins hinum gildisrafeind til ráðstöfunar en gefa hana ekki alveg frá sér, og taka til sín rafeind frá hinum að hluta til með sama hætti. Þannig verða til sameindir eða atómgrindur sem rafeindapör halda saman. Rafeindirnar dvelja í svokölluðum sameindasvigrúmum milli atómanna tveggja (tengjandi rafeindapör). Atómsambandið sem þannig verður til er nefnt sameind. Því er deilitengi einnig stundum nefnt sameindatengi, samgilt tengi (sbr. gildi) eða rafeindaparstengi. Deilitengi getur verið skautað eða óskautað eftir því hvort rafeindirnar hafa ósamhverfa eða samhverfa dreifingu í sameindinni. Yfirleitt hafa sameindakennd efni lágt suðumark og eru rafeinangrandi. Efni úr litlum sameindum koma við stofuhita gjarnan fyrir sem lofttegund eða vökvi (dæmi: vatn, súrefni, klórvetni). Efni úr risasameindum og fjölliðum birtast á föstu formi og gjarnan sem gerviefni eða demantar (dæmi: pólýetýlen, sterkja, bórnítríð). Millistig milli jóna-, málm- og deilitengja. Millistig milli jóna- og deilitengis Í tengjum klórs við frumefni 3. lotu minnkar jónaeðlið stöðugt frá vinstri til hægri og deilitengiseðlið eykst. Millistig milli málm- og jónatengis Í tengjum natríns við frumefni 3. lotu minnkar málmeðlið stöðugt frá vinstri til hægri og jónaeðlið eykst. Millistig milli málm- og deilitengis Innan málmgrindar eða sameinda frumefna 3. lotu minnkar málmeðlið stöðugt frá vinstri til hægri og deilitengiseðlið eykst. Flókatengi. Flókatengið líkist í eiginleikum sínum deilitenginu því einnig hér eru rafeindir ekki alveg gefnar burt. En ólíkt því sem gerist í deilitengi njóta ekki báðir aðilar sameiginlegu rafeindaparanna, heldur aðeins annar. Yfirleitt hvarfast miðatóm (oftast málmjón) með göt í rafeindaskipan sinni (t.d. í næstyzta svigrúmi) við eina eða fleiri sameindir eða jónir (bindla) sem hafa hvert a.m.k. eitt frjálst rafeindapar að bjóða fyrir tengið. Áttundarreglan skiptir hér engu máli þar eð tengirafeindir fylla auð pláss í innri svigrúmum miðatómsins, ólíkt því sem gerist í deili- og jónatengjum, þar sem aðeins yzta svigrúmið fyllist eða tæmist. Eiginleikum flókasambanda er ekki hægt að lýsa almennt. Þar eð flókasambönd eru oft sjálf hlaðin vegna hleðslu miðatómsins og bindlanna, sýna þau einnig eiginleika líka efnum með jónatengjum. Flestir flókar hafa lit. Hinsvegar heldur flókatengið saman á sama hátt og deilitengið með aðdrætti milli jákvætt hlaðinna kjarna og neikvætt hlaðinna rafeinda sem nýttar eru sameiginlega í sameindarsvigrúmi. Tengi milli sameinda (veik tengi). Til eru fjórar megingerðir tengja sem geta myndast milli tveggja eða fleiri sameinda, jóna eða atóma sem eru ótengd að öðru leyti. Kraftar milli sameinda valda því að sameindir dragast að eða hrindast frá hver annarri. Þeir skilgreina oft vissa eðlisfræðilega eiginleika efnis, svo sem bræðslumark. Tengi milli tveggja varanlegra tvískauta. Mikill munur á rafeindasækni milli tveggja sterktengdra atóma innan sameindar veldur því að til verður tvískaut (tvískaut er par varanlegra hluthleðslna). Tvískaut dragast að eða hrinda hvert öðru frá sér. Vetnistengi. Á vissan hátt er vetnistengið sérstaklega sterkt dæmi um varanlegt tvískaut. En í vetnistengi er það nær sanni að mark- og gjafaatómið deili vetnisróteindinni á milli sín í þriggja miðja, tveggja rafeinda tengi svipað því sem gildir í tvíborani. Vetnistengi eru skýringin á hinu tiltölulega háa suðumarki vökva svo sem vatns, ammoníaks og vetnisflúoríðs, í samanburði við þyngri samsvarandi frumefni í sama dálki frumefnatöflunnar. Tengi milli augnablikstvískauts og spanaðs tvískauts (van der Waals). Tengi milli augnablikstvískauts og spanaðs tvískauts, eða van der Waals-kraftar, eru veikust en einnig algengust allra tengja; þau finnast milli allra efna. Ímyndum okkur helínatóm: Á sérhverju augnabliki má hugsa sér að rafeindaskýið í kringum kjarnann sé í lítilsháttar ójafnvægi, meiri neikvæð hleðsla sé annarrar róteindarinnar megin. Þetta kallast augnablikstvískaut. Það dregur að eða hrindir frá sér rafeindum nálægs helínatóms og framkallar þannig annað tvískaut. Atómin tvö dragast að hvort öðru eitt augnablik eða þar til hleðslurnar ná aftur jafnvægi og atómin halda sína leið. Plúsjón-pí-víxlverkun. Plúsjón-pí-víxlverkun á sér stað milli staðbundinna neikvæðra hleðslna π-svigrúms-rafeinda, staðsettra fyrir ofan og neðan flöt arómatísks hrings, og jákvæðrar hleðslu. Rafeindir í efnatengjum. Í markgildi "hreins" jónatengis milli tveggja atóma halda rafeindirnar sig alfarið á öðru atóminu. Tengið má þá skilja útfrá sígildri eðlisfræði þar sem kraftarnir milli atómanna einkennast að mestu af einsátta samfelldum rafstöðumættum. Atómin dragast hvort að öðru í réttu hlutfalli við hleðslumuninn. Deilitengjum er hinsvegar betur lýst með gildistengiskenningunni og skilja má eiginleika hlutaðeigandi atóma með hugtökum svo sem oxunartölu. Í deilitengjum er rafeindaþéttleikinn innan tengis ekki rakinn til einstakra atóma. Kenningin um línulega samantekt atómsvigrúma hjálpar til við lýsingu byggingar sameindasvigrúma og -orkna á grundvelli atómsvigrúma atómanna sem þær eru gerðar úr. Ólíkt hreinum jónatengjum hafa sum deilitengi óeinsátta eiginleika og hafa þá eigin heiti svo sem Sigma- og Pítengi. Í raun eru flest efnasambönd hvorki "hrein" jónísk eða deilin, heldur einhversstaðar þar á milli. Rafeindin ver meiri hluti tíma sínum á öðru atóminu en hinu, eftir hlutfallslegri rafeindasækni þeirra. Airbus. Airbus SAS (borið fram á frönsku, á ensku og á þýsku) er einn stærsti framleiðandi farþegaflugvéla í heimi. Airbus er dótturfyrirtæki evrópska framleiðanda EADS. Höfuðstöðvar Airbus eru í Toulouse í Frakklandi. Airbus hefur nú framleitt níu farþegaflugvélar. Nöfn þeirra allra byrja á A3, svo koma tvær tölur. Stærsta og nýjasta Airbus-vélin heitir Airbus A380 og er tveggja hæða. Singapore Airlines var fyrsta flugfélagið til að taka vélina í notkun. Minnsta Airbus-vélin er A318. Fyrsta vélin var A300 sem var tekin í almenna notkun árið 1974. Ættarmerki. Ættarmerki var skjaldarmerki ættar og tíðkaðist meðal heldra fólks, t.d. hér á Íslandi. Haukur Erlendsson lögmaður (d. 1334) bar t.d. hauk í innsigli sínu og er það líklega hið elsta ættarmerki á Íslandi sem sögur fara af. Loftur ríki Guttormsson á Möðruvöllum (d. 1432) hafði fyrir ættarmerki hvítan fálka á bláum feldi en hafði höggorm í innsigli sínu. Björn ríki Þorleifsson og hans afkomendur höfðu að skjaldarmerki hvítabjörn í bláum feldi og hvítabjörn á hjálminum. Torfi Arason riddari á Ökrum hafði nokkru áður 1450 tekið upp samskonar merki, nema hálfur hvítabjörn var á hjálminum. Eggert Eggertsson, sem eitt sinn var lögmaður í Víkinni í Noregi og aðlaður 1488, hafði að skjaldarmerki hvítan einhyrning í bláum feldi og sömuleiðis á hjálmi. Sonarsonur hans, Eggert Hannesson lögmaður, fékk staðfestingu á því merki hjá Kristjáni 3. árið 1554, handa sér og afkomendum sínum, er síðan báru það í innsiglum sínum fram á 19. öld. Orðið ættarmerki er einnig haft um ættareinkenni, sbr. t.d.: "Ættarmerki lágmannaðra forfeðra höfðu einnig skilið eftir mörg spor í innra eðli hennar". Púntland. Kort af Púntlandi sem sýnir skiptingu þess í héruð. Púntland er svæði í norðausturhluta Sómalíu sem nær yfir héruðin Nugaal, Bari, Karkaar, Mudug, Sool, Sanaag og Cayne. Höfuðstaður svæðisins er borgin Garowe en stærsta borgin er Bosaso. Stjórn Púntlands er fylgjandi sameiningu Sómalíu í eitt sambandsríki. Deilt er um hvort Sool og Sannag eru hluti Púntlands eða Sómalílands sem nær yfir norðvesturhlutann og sækist eftir fullu sjálfstæði. Svæðið er nefnt eftir hinu forna landi Púnt sem minnst er á í ritum Forn-Egypta. Bandalag ættbálka á svæðinu undir forystu Abdullahi Yusuf Ahmed lýsti yfir sjálfstjórn árið 1998. Ahmed stýrði stjórn svæðisins til 2004 þegar hann var kjörinn forseti Sómalíu. Í desember það sama ár varð Púntland fyrir miklu tjóni vegna jarðskjálftanna á Indlandshafi. Aðalnáttúruauðlindir svæðisins eru í hafinu þar sem fiskveiðar eru stundaðar. Svæðið flytur út humar, þurrkaðan fisk og túnfisk. Frá upplausn miðstjórnarvaldsins í Sómalíu 1991 hafa ólöglegar fiskveiðar erlendra togara vaxið mikið í hafinu við strendur Púntlands. Sjórán eru mikið vandamál og sjóræningjar gera út frá þorpum við ströndina að Adenflóa í norðri þar sem ein fjölfarnasta siglingaleið flutningaskipa í heiminum er staðsett, til og frá Súesskurðinum. Hellisgerði. Hellisgerði er almenningsgarður í Hafnarfirði. Hann er þekktur fyrir miklar hraunmyndanir sem gefa honum óvenjulegt yfirbragð. Í garðinum er minnismerki um Bjarna Sívertsen og bonsai-garður (á sumrin) meðal annars. Samtök hernámsandstæðinga. Samtök hernámsandstæðinga voru samtök sem stofnuð voru á Þingvallafundinum svokallaða 10. september 1960 þar sem saman komu ýmis félög hernámsandstæðinga alls staðar af landinu á fundi í Hótel Valhöll. Aðdragandinn að stofnun samtakanna var fyrsta Keflavíkurgangan sem farin var 19. júní sama ár, en til hennar var efnt af nokkrum einstaklingum í Reykjavík. Ýmsar blikur þóttu líka vera á lofti haustið 1960; Ísland átti í öðru þorskastríðinu við Breta og til stóð að Bandaríski flotinn myndi taka við rekstri Keflavíkurstöðvarinnar. Menn óttuðust mjög að herskip og kjarnorkuknúnir kafbátar búnir kjarnaoddum myndu gera Ísland að skotmarki ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Kalda stríðið hafði harðnað þá um vorið eftir njósnaflugvélarmálið í maí en samskipti stórveldanna Bandaríkjanna og Sovétríkjanna versnuðu til muna í kjölfarið. Samtökin stóðu að fleiri Keflavíkurgöngum næstu árin og voru virk í skipulagningu mótmæla gegn herstöðinni en lognuðust út af eftir 1970. Samtök herstöðvaandstæðinga (nú Samtök hernaðarandstæðinga) sem voru stofnuð 1975 voru að vissu leyti arftaki samtakanna. Guðmundur Friðjónsson. Guðmundur Friðjónsson frá Sandi (24. október 1869 – 26. júní 1944) var rithöfundur, skáld og bóndi. Hann er einna þekktastur fyrir sérstæðan ritstíl sinn. Guðmundur fæddist að Silalæk í Aðaldal, þar sem faðir hans, "Friðjón Jónsson", var þá bóndi. Hann flutti síðar að Sandi og tók þar við búskap eftir föður sinn. Skólamenntunar naut Guðmundur í Möðruvallaskóla árin 1891-1893 og og var það eina menntun hans. Uppfrá því gerðist hann bóndi og umsvifamikill rithöfundur og stóð oft styr um hann í blöðum og tímaritum landsins. Í mörg ár hafði hann þann sið, að hann tók sig upp frá búi sínu og flutti fyrirlestra um ýmis þjóðmál eða þær hugmyndir og hugsjónir sem hann bar fyrir brjósti sér. Þótti hann stundum óvæginn við menn og málefni, enda þannig skapi farinn, að hann kunni því best að eiga ekki aðeins í baráttu við óblíða náttúru landsins. Fyrsta kvæðabók hans kom út árið 1902 og hét "Úr heimahögum". Næstu ár hélt Guðmundur uppteknum hætti, ritaði stutta þætti og sögur, orti kvæði og birti sumt af þessu hér og þar. Hann skrifaði ritgerðir um ýmis efni í blöð og tímarit. Árið 1904 gaf hann út dýrasögur: "Undir beru lofti", (en hann gaf svo út aðra bók með dýrasögum árið 1938: "Úti á víðavangi"). Árið 1907 kom út lengsta sagan hans, Ólöf í Ási. Saga þessi hlaut misjafna dóma, þótti klúr og jafnvel ósiðleg með köflum. Guðmundur skrifaði ekki lengri sögur, enda var dýfum hans til ritstarfa þannig farið, að hann mun hafa átt örðugt með að taka fyrir ritverk, er kröfðu langrar aðsetu. Guðmundur lagði alla ævi mikla rækt við sérkennilegan stíl sinn og málfar, er að vissu leyti minnir á og er í ætt við hið forna skáldamál. Orðgnótt hans og málfimi var oft aðdáunarverð, mjög oft snjöll, en að vísu stundum einnig langsótt. Lagmetisiðnaður. Lagmetisiðnaður er sá iðnaður sem snýr að niðursuðu eða niðurlagningu á matvælum, m.ö.o. það að leggja matvæli í loftþétt ílát, niðursoðin eða með öðrum hætti. CERN. Samtök Evrópu að kjarnorkurannsóknum (franska: "Organisation Européenne pour la Recherche Nucléaire", eða "Centre Européen pour la Recherche Nucléaire", skammstafað CERN, framburður „SERN“) er evrópsk miðstöð rannsókna í kjarneðlisfræði, stofnuð 1954, staðsett á landamærum Frakklands og Sviss, skammt utan við Genf. Upphaflega voru aðildarlöndin 12 en eru nú 20. Fjöldi vísindamanna, sem þar starfa er um 6500. CERN rekur samstæðu af tíu hröðlum, sem ýmist eru línuhraðlar eða hringhraðlar. Stærstir þeirra eru jáeindahraðllinn (e. "Large Electron Positron collider", skammstafað "LEP"), sem er hringhraðall, 9 km í þvermál, og Stóri róteindahraðallinn (e. "Super Proton Synchroton", skammstafað "SPS"), einnig stóri sterkeindahraðallinn (e. "Large Hadron Collider", skammstafað "LHC), 27 km að ummáli). Stóri sterkeindahraðallinn. Stóri sterkeindahraðallinn í CERN (enska „"Large Hadron Collider"“, skammstafað "LHC") er stærsti eindahraðall í heimi og sá eini sem gerður er til að hraða sterkeindum. Hann er staðsettur á landamærum Frakklands og Sviss nálægt Genf í Sviss. Í hraðlinum er róteindum og blýatómkjörnum (sínum í hvorri tilrauninni) hraðað nálægt ljóshraða. Helmingur eindanna hverju sinni fer réttsælis en hinn helmingurinn rangsælis og eru þær síðan látnar rekast saman. Agnirnar sem verða til við áreksturinn eru síðan skoðaðar og eiginleikar þeirra. Í júlílok 2008 náði allur hraðallinn rekstrarhitastigi sínu eftir áralangan undirbúning, 1,9K (-271,25 °C) sem er 0,8° kaldara en meðalhiti alheimsins (örbylgjukliðarins). Fyrstu róteindageislarnir voru sendir í gegnum göng hraðalsins þann 10. september 2008. Fyrstu orkumiklu árekstrarnir eru væntanlegir 6-8 vikum síðar en þó með aðeins um 10 TeV (tera-elektrónuvolt). Engir árekstrar verða prófaðir á fullum krafti hraðalsins (14 TeV fyrir róteindir) fyrr en árið 2009. Heildarkostnaður verkefnisins til þessa er áætlaður 3,5 milljarðar evra eða u.þ.b. 450 milljarðar ISK. Tilgangur. Við árekstrana sem framkallaðir verða í stóra sterkeindahraðlinum er vonast til að komi fram óvenju massamiklar öreindir, einkum Higgs-bóseindin sem er eina öreind staðallíkansins sem enn hefur ekki fundist í tilraunum. Samkvæmt staðallíkaninu er Higgseindin sú eind sem gefur efni massa sinn. Vona eðlisfræðingar að með þessu opni stóri sterkeindahraðallinn eðlisfræðinni nýjar dyr. Bygging. a> stóra sterkeindahraðalsins í febrúar 2008 Yfirlit yfir stóra sterkeindahraðalinn og hjálparhraðla hans Stóri sterkeindahraðallinn er hringhraðall sem komið er fyrir í neðanjarðargöngum með 27 km ummál sem áður hýstu hinn svokallaða Stóra rafeinda-jáeindahraðal (alþjóðleg skammstöfun LEP, "Large Electron-Positron Collider"), en rekstri hans var hætt árið 2000. Í rafeinda-jáeindahraðlinum var rafeindum og jáeindum skotið hverjum á aðrar, en í sterkeindahraðlinum verður ýmist róteindum eða blýjónum hraðað og þær látnar rekast saman. Þar eð róteindir og blýjónir hafa margfalt meiri massa en rafeindir, missa þær sem því nemur minnir orku með þverhröðunargeislun og verður munurinn á massamiðjuorku þeirra og rafeinda því enn meiri en massamunurinn segir til um. Stefnt er að 14 TeV fyrir róteindirnar og 1146 TeV fyrir blýkjarnana. Mögulegt orkugildi ræðst af styrk segulsviðsins sem notað er. Styrkur þess hefur verið hámarkaður við gerð LHC með ofurleiðandi efnum, sem notuð eru bæði í þá segla sem stýra eindunum og þá sem hraða þeim. Í róteindatilraununum er gert ráð fyrir að geislunaraflið verði í kringum 1034 cm-2s-1. Auk hinnar auknu massamiðjuorku samanborið við eldri tilraunir, sem gerir rannsóknir á nýjum orkusviðum mögulegar, er þetta mikla geislunarafl sérstakt einkenni LHC, en það gefur almennt betri tölulegar upplýsingar á styttri tíma. Árekstrarnir eiga sér stað í nokkrum rýmum meðfram hröðunarhringnum. Þar eru öreindanemarnir ALICE, ATLAS, CMS, LHCf og TOTEM, en með þeim fara hinar öreindaeðlisfræðilegu mælingar fram. Nemarnir LHCf og TOTEM, sem ekki koma fram á yfirlitsmyndinni, eru í rýmum tilraunaeininganna ATLAS og CMS. Róteindaárekstrar eru áskorun fyrir umræddar tilraunir þar eð víxlverkanirnar sem búast má við eru fjölþættari en í tilfelli rafeinda vegna væntrar innri gerðar sterkeindanna úr kvörkum og límeindum. Vegna þess hve erfitt er að framkvæma nákvæmnimælingar við sterkeindahraðalinn, hefur framhaldstilraunaeining fyrir nýju eindirnar sem hugsanlega uppgötvast þegar verið ráðgerð, létteindahraðallinn Alþjóðlegi línuhraðallinn (ILC, "International Linear Collider"). Eðlisfræði. a> vigurbóseindarsamruna, þekkts ferlis sem á að leiða til sköpunar Higgs-bóseinda ATLAS og CMS eru svokallaðar margnota tilraunir. Helsti tilgangur þeirra er að sýna fram á tilvist Higgs-bóseindarinnar. Þess utan er ekki loku fyrir það skotið að með þeim uppgötvist aðrar áður óþekktar öreindir. Einnig gera menn sér vonir um að finna vísbendingar um mögulega útvíkkun staðallíkansins, t.d. með því að sýna fram á ofursamhverfar eindir eða áður óþekktar rúmvíddir vegna styrktrar víxlverkunar við þyngdareindir eða með sköpun skammlífra svarthola. Ennfremur gæti LHC gefið upplýsingar um samsetningu dimma efnisins. Í LHCb-tilrauninni verða sterkeindir sem innihalda botn-kvarka rannsakaðar til að ákvarða stök CKM-fylkisins nánar (B-eðlisfræði). Tilraunir með árekstra blýkjarna, sem verða framkvæmdar sjaldnar en róteinda, eiga að framkalla skammlíft en afar orkuríkt rafgas hálffrjálsra kvarka og límeinda (kvarka-límeinda-rafgas). Í nemanum ALICE á með þessu móti að endurskapa og rannsaka skilyrðin sem ríktu í alheiminum á mjög ungu þroskaskeiði hans. Reikningar. Til var verkefnið LHC@Home sem hafði það markmið að herma öreindabrautirnar í LHC. Það náði einnig til venjulegra tölvueigenda með dreifðri reiknun. Með því var hermt hvernig eindirnar hegðuðu sér á leið sinni gegnum rörin og hvort tjón gæti orðið vegna gallaðra segulstýringa. Þessum hermunum er lokið. Hermun hinna eiginlegu eindaárekstra, eins og þeir skrást í nemunum, getur af sér tröllaukið gagnaflóð sem þarf óhemju reikniafl til að vinna úr. Stærð einstakra gagnabúta telst í gígabætum og er úrvinnsla þeirra því ekki framkvæmanleg á heimatölvum heldur er þörf tölvuklasa. Til að auka skilvirknina hafa mörg hundruð klasar um heim allan verið tengdir saman í reikninet - LHC-reikninetið (LCG). Ástæðulaus ótti við tilraunirnar. Í tengslum við tilraunir óttuðust sumir að lítil svarthol gætu myndast með alvarlegum afleiðingum fyrir umhverfi sitt og jafnvel að heimsendir yrði. Slíkar áhyggjur reyndust ástæðulausar eins og vísindamenn höfðu áður haldið fram. Eiður Arnarsson. Eiður Arnarsson (fæddur 26. september 1966) er bassaleikari sem helst má kenna við hljómsveitirnar Todmobile og Stjórnina. Eiður spilaði einnig með Sniglabandinu, Tweety og fleiri hljómsveitum. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árin 1993, 1994 og 1996 sem bassaleikari ársins. Eiður hefur leikið inn á fjölda hljómplatna á sínum ferli en hann hóf bassaleik árið 1981. Að líkindum eru þau lög sem Eiður hefur leikið inn á hljómplötur að minnsta kosti 300 talsins. Hann starfar nú sem forstöðumaður tónlistardeildar Senu og er því enn viðriðinn tónlist. Gwyneth Paltrow. Gwyneth Kate Paltrow (fædd 27. september 1972) er bandarísk leikkona og þekktust fyrir hlutverk sitt í kvikmyndum á borð við "Iron Man". Ölver (sumarbúðir). Ölver er sumarbúðir KFUM og KFUK eru undir hlíðum Hafnarfjalls um 25 km frá Akranesi og um 10 km frá Borgarnesi. Listi yfir persónur Simpsons-þáttanna. Eftirfarandi er listi yfir persónur Simpsons-þáttanna. Homer Jay Simpson. Homer er mishepnaður fjölskyldufaðir sem býr í Evergreen Terace 742. Hann vinnur í kjarnorkuveri þar sem hann gerir ekkert meira en að sofa. Hann giftist Marge árið 1982. Hann á hálf-bróður(Herb) og hálf-systur(Abbie). James L. Brooks. James L. Brooks (fæddur 9. maí 1940 í New York) er bandarískur handritshöfundur. Hann er gyðingur. Brooks byrjaði sem handritshöfundur fyrir þætti CBS og ABC sjónvarpsstöðvanna. Hann gerði þætti eins og Room 222 og Rhoda. Árið 1984 náði hann tali við Matt Greoning og árið 1987 gerðu þeir í sameiningu þættina The Simpsons. Hann hefur líka gert mundir eins og Spanglish og As Good As It gets. Hann hefur unnið þrenn óskarsverðlaun, 18 Emmy-verðlaun og tvenn Golden Globe-verðlaun. Brooks, James L. Sam Simon. Sam Simon (fæddur 1955) er handritshöfundur fyrir þætti eins og The Tracy Ullman Show, The Drew Carey Show og Cheers. Hann var líka einn af höfundum The Simpsons og bjó til margar persónur eins og Jacqueline. Hann er núverandi umboðsmaður boxarans Lamon Brewster. Simon var giftur Jennifer Tilly 1984-1991. Hann hefur unnið þrenn Emmy-verðlaun. Simon, Sam Eldsneyti. Eldsneyti er sér efni sem við bruna gefur frá sér nýtanlega orku. Mikilvægur eiginleiki eldsneytis er að hægt er að nota það sem orkuforða og leysa orkuna með skipulegum hætti úr læðingi þegar þörf krefur. Stærstur hluti orkunotkunar mannsins kemur frá eldsneyti hvort sem er til samgangna, húshitunar, iðnaðar eða raforkuframleiðslu. Jarðefnaeldsneyti. Jarðefnaeldsneyti er samheiti yfir kol, hráolíu og jarðgas og eldsneytisvörur unnar úr þeim. Kol myndast úr leifum plantna sem liggja í súrefnissnauðu umhverfi, t.d. stöðuvötnum og mýrum og ummyndast mó. Þegar mórinn grefst undir öðrum jarðlögum umbreytist hann við hita (varma) og þrýsting í kol. Kol sem nú eru notuð mynduðust fyrir milljónum ára. Flokkun kola fylgir orkuinnihaldinu (orkuþéttleikanum) eða kolefnisinnihaldinu sem vex eftir því sem ferlið gengur lengra. Þar má nefna brúnkol, steinkol og gljákol (antrasít). Sagnir eru um kolanotkun Kínverja frá því um 1000 fyrir Krist. Rómverjar notuðu kol til hitunar og málmbræðslu á veldistíma sínum í Bretlandi. Kolanotkun var óveruleg fram undir iðnbyltinguna en jókst þá hröðum skrefum. Kolanotkun jókst alla 20. öldina og spáð er aukningu fyrstu áratugi 21. aldar. Kolanotkun svarar til tæpra 30% heildar orkunotkun (2006). Hráolía eða jarðolía og jarðgas myndaðist úr leyfum vatna- og þó aðallega sjávarlífvera sem myndar set sem grefst undir jarðlögum. Setið umbreytist við hita og þrýsting á milljónum ára í það sem kallað er jarðolía. Olían er í litlum holrýmum í bergi neðanjarðar, t.d. sandsteini. Við sérstakar aðstæður safnast olían saman og myndar stórar neðanjarðartjarnir. Úr hráolíu er unnið eldsneyti með hreinsun (eimingu), t.d. svartolía, dísilolía, steinolía, bensín og gas. Jarðolía hefur verið þekkt um aldir en olíuvinnsla til eldsneytis í stórum stíl hófst upp úr miðri 19. öld. Olíunotkun fór vaxandi alla 20. öldina ef frá er skilið tímabil olíukreppu á 8. áratugnum. Olíulindir ganga til þurrðar en nýjar finnast og tækni við vinnslutækni eykst. Sumar spár gera ráð fyrir að hámarki olíuvinnslu sé náð árið 2010. Jarðgas, sem er að stærstum hluta metan, CH4, myndaðist í tengslum við myndun olíu og kola, í svipuðum ferlum. Gas finnst í tengslum við olíulindir og hefur þá safnast fyrir ofan við olíuna. Gas finnst eitt og sér í stórum lindum, hefur þá stundum flust langan veg frá myndunarstað og getur verið af ýmsum uppruna. Gas finnst einnig í tengslum við kol, þar sem það hefur ýmist safnast í stærri holrými eða er bundið í kolunum. Jarðgasvinnsla var til að byrja með hliðarframleiðsla með olíuvinnslu. Vinnsla og notkun hafa aukist jafnt og þétt. Oft er talað um jarðgas sem hreint eldsneyti miðað við kol. Við brunann myndast vatn, koldíoxíð og lítið magn af köfnunarefnisoxíði, en í miklu minna magni en t.d. við brennslu kola. Vegna minni losunar af þessum efnum hefur notkunin aukist mjög hratt. Þekktar gaslindir eru nú (2010) meiri en áður hefur þekkst en mjög hefur hægt á aukningunni. Spár gera ráð fyrir aukinni notkun fram eftir 21. öld Ýmsar spár benda til að hámarksnotkun verði á bilinu 2020 – 2030.og að þekktar gaslindir endist í um 60 ár. Lífeldsneyti. Lífrænt eldsneyti (eða líforka) er lífmassi og efni framleidd úr honum sem ætluð eru til orkuframleiðslu. Frá því maðurinn náði tökum á eldinum hefur hann notað eldsneyti. Megnið af því er af lífrænum toga. Upphaflega var það viður o.þ.h., mór og þá jarðefnaeldsneyti. Með aukinni áherslu á sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku og þá ekki síst endurnýjanlegt eldsneyti hafa sjónir beinst í auknum mæli að lífrænu eldsneyti. Eftirfarandi skilgreiningar á hugtökum taka mið af þessum áherslum og einnig af að skórinn kreppir mest að í samgöngum. Lífmassi: Lifandi eða nýdauður lífrænn vefur eins og t.d. uppskerujurtir og aðra búafurðir, viður eða úrgangur frá skógarhöggi, þörungar eða sorp. Líforka: Hverskonar orka úr lífmassa, þ.m.t. lífeldsneyti. Lífeldsneyti: Fljótandi eldsneyti (og gas) fyrir farartæki, unnið úr lífmassa. Uppskeruplöntur sem hægt er að nota eru sykur- eða sterkjuríkar, t.d. sykurreyr, eða olíuríkar plöntur, t.d. repja. Framleiðsluaðferðir eru margvíslegar. Sumar byggja á þekktri tækni en aðrar eru í þróun. Dæmi um afurðir eru: Metan, etanól, lífdísill eða lífdísilolía, vetni og lífbensín. Tilbúið eldsneyti. Hægt er framleiða eldsneyti úr kolefni og vetni. Tilbúið eldsneyti er hvert það eldsneyti sem framleitt er úr öðrum orkugjöfum. Kolefnisgjafinn getur verið kol, lífmassi (lífeldsneyti) eða losun frá stóriðjuverum og jarðorkuverum. Dæmi eru metanól og DME (dímetýleter). Vetni. Vetni er hægt að framleiða með rafgreiningu og úr lífmassa, t.d. með gösun. Vetni er hægt að nota sem eldsneyti. Það er t.d. notað sem eldsneyti fyrir eldflaugar og er hægt að nota í sprengihreyflum. Með efnarafölum er hægt að vinna orku úr vetni. Þá er vetnið ekki eiginlegt eldsneyti þar sem ekki er um bruna að ræða og réttara að tala um orkubera. Mikil þróun er í framleiðslu efnarafala. Efnaskipti. Í frumum lífvera eiga sér stað efnaskipti til sem kölluð eru bruni, en við þau losnar orka sem er lífverunni nauðsynleg. Þessi efnaskipti gerast við lágan hita og eru oftast knúin áfram af ensímum. Kjarnaeldsneyti. Kjarnaeldsneyti er sérhvert efni sem með kjarnaklofnun eða kjarnasamruna gefur frá sér orku. Berbrjósta. __NOTOC__ Það að vera berbrjósta eða topplaus er það þegar kona eða stúlka sem hefur náð kynþroska felur ekki brjóst sín svo geirvörtur og vörtubaugur sjáist. Hefð fyrir því að vera berbrjósta. Það var hefð fyrir því að vera berbrjósta í Norður-Ameríku, Afríku, Ástralíu og á Kyrrahafseyjunum áður en kristnir trúboðar komu. Í Evrópu. Leyfilegt er að vera berbrjósta á Íslandi. Sandhólapuntur. Sandhólapuntur (fræðiheiti: "Ammophila arenaria") er grastegund af sandhjálmsætt. Sandhólapunturinn er grófur og getur orðið allt að einn metri á hæð. Hann vex aðallega á sandöldum stranda á meginlandi Evrópu, en er einnig að finna víða annars staðar. Hann hefur stundum verið notaður til að binda sendinn jarðveg og er vegna ótrúlegrar útbreiðsluhæfni sinnar sumstaðar flokkaður sem plága. Geirvarta. Geirvarta er lítil tota á brjósti karla og kvenna og sumra fremdardýra. Geirvarta kvenna er afrás brjóstamjólkur sem hefur næringargildi fyrir afkvæmið. Geirvartan er kynnæmissvæði. Vallhumall. thumbnail Vallhumall (fræðiheiti: "Achillea millefolium") er fjölær jurt af körfublómaætt. Blómin hvít en stilkurinn og laufin græn. Aðalblómgunartíminn er í júlí. Hæð plöntunnar er 10 - 50 sentimetrar. Vallhumall er algengur um allt norðurhvel jarðar. Vallhumall er frekar algeng planta á Íslandi og vex að mestu á Norðaustlandi og Suðvesturlandi. Kjörlendi plöntunnar er valllendi. Plantan dreifir sér ekki vel á hálendi en á Norðausturlandi eru nokkur dæmi um að hún finnist ofar en 500 metra fyrir ofan sjávarmál. Plantan er oft notuð í alls konar græðandi smyrsl, te og sem bragðbætir í bjór. Koltrefjar. Koltrefjar eru afar fínar trefjar (um 0.005–0.010 mm í þvermál) aðallega gerðar úr kolefnissameindum. Kristalsbygging efnisins er samsíða þræðinum. Kolefnistrefjar eru því mjög sterkar miðað við stærð. Mörg þúsund kolefnistrefjar eru spunnar saman í þráð og slíka þræði má nota til að vefa úr efni. Koltrefjamottur eru oft notaðar sem styrkingarefni fyrir fjölliður eins og plast til að búa til samsett efni eins og koltrefjaplast sem er vinsælt efni til báta-, flugvéla- og bílasmíða meðal annars vegna þess hversu létt það er miðað við styrk og hversu hita- og þanþolið það er. Koltrefjar eru framleiddar með því að umbreyta undanfara (pólýakrýlónítríli, rayoni eða biki) með því að hita hann, fyrst í um 300° í súrefni þannig að vetnistengin rofni og efnið oxist, og síðan í um 2000° í óvirku gasi eins og argoni til að láta það kristallast. Við réttar aðstæður myndar kolefnið þá mjóa grafítborða sem tvinnast saman og mynda rörlaga þráð. Efnið sem verður til er venjulega 93-95% kolefni. Koltrefjaefni hafa minna togþol en aramíð (s.s. Kevlar), en meira togþol en glertrefjar. Glertrefjar eru stífari en koltrefjar sem aftur eru stífari en aramíð. Trapisa. Mynd af trapisu með hæðina "h". Trapisa eða hálfsamsíðungur er ferhyrningur sem hefur tvær mótlægar hliðar samsíða. Samsíða hliðarnar eru oft táknaðar með a og b, en fjarlægðin á milli þeirra með h og kallast hæð trapisunnar. Flatarmál trapisunnar er fundið út frá þessum lengdum þannig: F = 1/2(a+b)h. Þetta má orða svo, að fundið er meðaltal lengda samsíða línanna og það margfaldað með hæðinni. Þetta má rökstyðja með því að draga hornalínuna AC, sem skiptir trapisunni í tvo þríhyrninga, ABC og ACD. ABC hefur flatarmálið 1/2bh en ADC hefur flatarmálið 1/2ah. Summa þeirra er flatarmál allrar trapisunnar, svo að F = 1/2ah + 1/2bh = 1/2(a+b)h. Línustrik. Strik eða línustrik er í rúmfræði hluti línu sem er táknað með tveimur punktum, og inniheldur alla punkta línunnar á milli endapunktanna. Dæmi um línustrik eru t.d. hliðar þríhyrninga og ferhyrninga. Skilgreining. fyrir einhverja vigra formula_8 þar sem formula_9 en í því tilfelli eru vigrarnir formula_10 og formula_11 kallaðir endapunktar hjá formula_12 fyrir einhverja vigra formula_8 meðformula_16 Fallhlíf. Bandarískur fallhlífarhermaður með kringlótta fallhlíf. Fallhlíf er tæki sem hægir á falli hlutar í andrúmsloftinu með því að búa til viðnám. Fallhlífin er yfirleitt gerð úr léttu efni eins og silki eða næloni og er fest við þann hlut sem hún á að verja falli með böndum eða vírum. Fallhlífin er brotin saman á sérstakan hátt inni í poka og opnast í fallinu. Ölfusborgir. Ölfusborgir eru orlofshúsabyggð sem telur 38 hús í eigu ýmissa stéttarfélaga í hlíðum Reykjafjalls 15km austur af Hveragerði. Húsin voru reist á 12 hektara spildu í landi Reykjatorfu í Ölfushreppi 1962-1965 með framlagi á fjárlögum frá 1957 til byggingar orlofshúsa á vegum ASÍ. Öll húsin voru teiknuð af Sigvalda Tordarson arkitekt og einkennast af stórum gluggum sem snúa í suður og afturhallandi flötu þaki. Fyrstu húsin voru tekin í notkun 12. september 1965. Finkur. Finkur (fræðiheiti: "Fringillidae") eru spörfuglar með keilulaga gogg sem lifa á fræjum. Útbreiðsla þeirra er aðallega á norðurhveli jarðar og í Afríku. Deilt er um hvernig finkur skuli flokkaðar en innan ættarinnar "Fringillidae", sem kalla mætti „sannar finkur“, eru um 140 tegundir. Finkur eru 10-27 cm að lengd og með sterklegan, keilulaga gogg sem hentar vel til að brjóta fræ. Finkur eru miklir söngfuglar. Sönnum finkum ("Fringillidae") er skipt niður í tvær undirættir. Sú fyrri er "Fringillinae" en henni tilheyra þrjár tegundir. Þær næra unga sína á skordýrum en finkur af hinni undirættinni, "Carduelinae", næra unga sína á fræjum. Þeirri undirætt tilheyra 137 tegundir. Bókfinkan sem er algengasta finkan í Evrópu er af undirættinni "Fringillinae". Kanarífuglar, krossnefur, fjallafinka og rósafinka eru af undirættinni "Carduelinae" og næra unga sína á fræjum. Pearl Jam. Pearl Jam er bandarísk rokk hljómsveit sem stofnuð var árið 1990. Hljómsveitin var þekkt sem ein af lykilhljómsveitum gruggtónlistarstefnunnar við upphaf 10. áratugarins. Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar var "Ten" en hún er enn þann dag í dag mest selda plata allra tíma frá alternative rokk flytjanda í Bandaríkjunum. Tilraunavefurinn. Tilraunavefurinn er vefur á vegum Háskóla Íslands, þar sem safnað er saman öllum mögulegum tilraunum. Tilraunirnar eru þó flokkaðar eftir hættustigi og hverri tilraun fylgja varnaðarorð ef svo ber við. Starfsmenn Tilraunavefjarins eru nokkrir nemendur skólans. Andarnefja. Andarnefja (fræðiheiti "Hyperoodon ampullatus") er allstór tannhvalur, álíkastór og hrefna en mjög ólík henni. Hún er með mjótt trýni og hátt og kúpt enni. Trýnið minnir á andarnef og af því fær hún nafn sitt. Höfuðið er nokkuð aðgreint frá bolnum. Augun eru rétt aftan við munnvikin. Tarfarnir eru um átta til níu metrar á lengd og um 3600 kg að þyngd. Kýrnar eru um sjö metrar á lengd og vega um þrjú tonn. Karldýrið er með tvær tennur í neðri skolti en kvendýrið er tannlaust. Tennurnar tvær eru inni í tannholdinu þangað til hvalirnir eru orðnir rúmlega 15 ára gamlir, en þá fyrst koma þær upp úr tannholdinu. Andarnefjan er grásvört á litinn en ljósari að neðan en á bakinu. Þegar dýrin eldast verða sum þeirra ljós á litinn og höfuðið nærri hvítt. Bægslin eru rétt fyrir aftan höfuðið og eru smá. Bakugginn er aftarlega og er um 30 sm hár. Það er ekkert skarð á miðjum sporðinum og lyfta andarnefjur sporðinum sjaldan upp úr sjónum, en stundum stökkva þær. Blásturinn er lítill og sést heldur illa. Andarnefjan verður kynþroska um 9 - 12 ára. Fyrri hluta sumars eða á vorin er fengitími og er meðgöngutími kúnna um 12 mánuðir. Andarnefjur lifa aðallega á smokkfiski en éta einnig fisk, sæbjúgu og krossfiska. Þær halda sig oftast fjarri landi. Andarnefjur eru félagslyndar og er algengt að sjá þær í litlum hópum, 4 – 10 dýr saman. Þær eru mjög forvitnar og koma oft nærri skipum. Ef skip gefa frá sér hvell hljóð kafa þær undir skipin til að kanna hvaðan hávaðinn kemur. Þær eru oft margar mínútur á yfirborði til að anda en kafa þess á milli niður á mikið dýpi. Aðeins búrhvalir geta kafað dýpra en þær. Andarnefjur halda sig oftast langt úti á reginhafi þar sem dýpið er að minnsta kosti 1.000 metrar. Þær sjást við Ísland á sumrin og eru þær þá aðallega fyrir vestan og norðan landið milli Íslands og Jan Mayen. Á veturna eru þær aðallega vestur og suðvestur af Spáni. Andarnefja var mikið veidd í Norður-Atlantshafi allt fram á sjötta áratug þessarar aldar, sérlega af norskum og breskum hvalveiðimönnum, en lítið veidd á suðurhveli. Um 60000 andarnefjur voru veiddar frá 1882 fram að 1930 á Norður-Atlantshafi og 5800 frá 1930 til 1973 en tegundin var friðuð árið 1972. Andarnefjan var aðallega veidd vegna olíunnar í höfð hennar. Olían var notuð sem hægðalyf, áburður og í smyrsl en kjötið í dýrafóður. Gústaf Vasa. Gústaf Vasa eða Gústaf 1. (sænska: Gustav Eriksson; 15. aldar upplenska: "Gösta Jerksson"; fæddur líklega 12. maí 1496 á bóndabænum Rydboholm eða Lindholmen í Vallentuna, Upplandi, dáinn 29. september 1560 í Stokkhólmskastala) var konungur Svíþjóðar frá 1523 þangað til hann dó. Gústaf gerði uppreisn gegn Kalmarsambandinu. Áður hafði það tíðkast að kjósa konunginn en Gústaf afnam það kerfi og tók þess í stað upp þá hefð að konungsvaldið gengi í arf. Hann var fyrsti konungurinn af Vasaættinni sem var konungsætt Svíþjóðar stærstan hluta 16. og 17. aldar. Hann var fyrst kjörinn ríkisstjóri af mönnum sínum í uppreisninni gegn Kristjáni 2. og þegar þeir unnu sigur tveimur árum síðar var hann kjörinn konungur sem aftur varð til þess að Kalmarsambandið leystist upp. Við valdatöku Gústafs flúði erkibiskup Uppsala, Gustav Trolle, land og páfi var andsnúinn því að skipaður yrði nýr erkibiskup. Afleiðingin af þessu var sú að Gústaf skipaði í trássi við páfa lútherstrúarmanninn Laurentius Petri erkibiskup og hóf þannig siðbreytingu í Svíþjóð. Ættin og nafnið. Gústaf var sonur Eriks Johanssonar (Vasa) og Ceciliu Månsdotter (af Ekaættinni). Eins og samtíma og eldri meðlimir ættarinnar notaði Gústaf Eriksson aldrei ættarnafnið Vasa. Það var fyrst eftir að Eiríkur 14. inleiddi notkun aðalstitla fyrir greifa samkvæmt meginlandslögum, að ættarnöfn eins og Vasa voru tekin til notkunar í Svíþjóð. Föðurnafnið hans, Eriksson, var hins vegar ekki notað eftir krýninguna, þá var hann einungis kallaður Gústaf konungur. Meðal fólksins kallaðist hann Gösta kóngur (sænska: "kung Gösta"), nafn sem lifir áfram í sænskum ljóðum og vísum. Sæbjúgu. Sæbjúgu (fræðiheiti "Holothuroidea") er einn sex ættbálka innan fylkingar skrápdýra. Í Kína er algengt að rækta sæbjúgu í tilbúnum tjörnum. Þau eru notuð til til matar, til lækninga og sem fæðubótarefni og talin heilnæm m.a. góð fyrir húð, augu og þvagfærakerfi og hafa jákvæð áhrif á kynorku. Þurrkuð sæbjúgu í kínversku apóteki. Sum afbrigði af sæbjúgum eru notuð í lækningaskyni. Kísiliðjan. Kísiliðjan hf var verksmiðja við Mývatn sem vann kísilgúr úr vatninu og stóð rekstur fyrirtækisins í tæpa fjóra áratugi. Kísiliðjan var stofnuð 13. ágúst 1966, en vinnslu var hætt 28. nóvember 2004 og verksmiðjan rifin ári síðar. Þingholtsstræti 9. Þingholtsstræti 9 er núna staðsett á ÁrbæjarsafniÞingholtsstræti 9 er timburhús sem áður stóð við Þingholtsstræti. Húsið var reist árið 1846 úr timbri sem gekk af við byggingu Menntaskólans í Reykjavík. Helgi Jónsson snikkari reisti húsið og bjó þar með fjölskyldu sinni. Jónas og Helgi synir Helga voru áberandi í tónlistarlífi og stofnuðu Söngfélagið Harpan og Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur. Í húsinu voru haldin píuböll. Þann 5. febrúar árið 1908 var Bakarasveinafélag Íslands stofnað í húsinu, en þá bjó í því Guðmundur Guðmundsson, bakarasveinn. Voru stofnendur 16 talsins. Árið 1969 var húsið flutt í Árbæjarsafn þar sem það stendur nú. Þingholtsstræti. Þingholtsstræti er gata í miðbæ Reykjavíkur sem teygir sig frá þeim punkti þar sem Laufásvegur klofnar, nánar tiltekið við hringtorgið hjá breska og þýska sendiráðinu, liggur þaðan í norður og endar þar sem Bankastræti liggur þvert á það. Vindbelgur. Vindbelgur (Vindbelgjarfjall eða Belgjarfjall) er 529 m hátt keilulaga móbergsfjall í Mývatnssveit. Norður úr fjallinu gengur lægri rani sem nefnist "Buski". Austan í fjallinu, syðst eru örnefnin "Skútahellir" og "Skútaskriða", en þjóðsögur herma að þar hafi Víga-Skúta varist. Þess er þó ekki getið í fornsögunum. Charlie Rose (spjallþáttur). Charlie Rose er bandarískur spjallþáttur sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni PBS. Þáttastjórnandinn Charlie Rose fær til sín viðmælendur úr hinum ýmsu kimum samfélagsins eins og stjórnmálamenn, íþróttamenn, skemmtikrafta, kaupsýslumenn, vísindamenn, rithöfunda og fleiri. Þátturinn sem aðallega er fjármagnaður með styrkjum frá fyrirtækjum og góðgerðasamtökum var frumsýndur þann 30. september 1991. Árið 2007 var safn af myndböndum þáttarins hlaðið upp á heimasíðu hans svo hægt væri að horfa á fyrri viðtöl gjaldfrjálst í gegn um internetið. Þátturinn hlóð einnig upp nærri 4000 klukkustundum af viðtölum upp á myndbandavefinn YouTube. Þorleifur Repp. Þorleifur Repp (1794 – 4. desember 1857) var íslenskur fræðimaður, þýðandi og var talinn einn gáfaðist maður landsins á sínum tíma. Hann var einnig kennari, fornminja- og bókasafnari, stjórnmálamaður og blaðamaður. Hann bjó 12 ár í Edinborg, þar sem hann starfaði sem bókavörður við „The Advocate's Library“, og setti mark sitt á menningarlíf borgarinnar. Þorleifur var nafnkunnur víða erlendis að gáfum, málfræði og annarri fjölvísi. Hann er einna þekktastur í hugum almennings fyrir að hafa hlegið svo mikið við doktorsvörn sína að hann var rekinn úr henni og vörnin dæmd ógild. Þýðandinn Repp. Þorleifur var sonur Guðmundar prests Böðvarssonar sem var prestur að Kálfatjörnum. Þorleifur lagði mikla stund á málvísindi og heimspeki og fagurfræði. Hann hataðist við Dani og flutti því til Bretlands, þar sem hann gerðist bókavörður við Háskólann í Edinborg. Frítíma sínum eyddi hann í fræðistörfin og þýðingar af ýmsu tagi, en Repp kunni fjölda tungumála. Prófessor Andrew Wawn, hefur sagt um Repp að hann hafi verið frábær þýðandi og bætti við: „Sagt er að menn eigi ekki að þýða [Íslendinga]sögurnar á ensku nema vera jafnvígir á bæði tungumálin og það var raunin með Repp, hann var því sem næst tvítyngdur“. En fátt ef nokkuð kom út eftir hann af þýðingum hans. Andrew heldur því þó fram að slík bók, þ.e. þýðingar hans á fornsögunum, hefði breytt sögu íslenskra fræða á Bretlandi á nitjándu öld. Og að hann hefði sett ný viðmið í þýðingum íslenskra fornbókmennta á ensku. Þorleifur þýddi einnig margt annað, t.d. ensk kvæði á dönsku og Laxdæla sögu á latínu. Andlát Repps og greftrun. Þorleifur lést í Kaupmannahöfn eftir langa og þunga legu. Síðasta ósk Þorleifs var að hann yrði fluttur til Íslands til greftrunnar, enda hafði hann illan bifur á Danmörk og Dönum. Dr. Jacobsen, borgarlæknir í Höfn og tryggðarvinur Repps, balsamaði því lík hans. Var hann siðan settur í kistu sem var alfóðruð innan með blýi og hún síðan sett í Holmens kirkju-kapelluna í Kaupmannahöfn, og beðið fram á vor en þá var hún send heim með póstgufuskipinu. Lík hans kom svo til landsins og var af skipsfjöl borið í hús tryggðarvinar hans, Helga biskups Thordersens. Hann gerði þá ættingjum og tengdafólki viðvart og Prestaskólastúdenta, hina helstu söngmenn meðal skólasveina, til þess að hefja hinn framliðna til kirkju. Eftir að búið var að opna kistuna og blýhulstrið þar inn í, svo allir er vildu máttu sjá hinn framliðna, var gengið frá öllu aftur með sömu ummerkjum. Þorleifur Repp var svo jarðsettur frá Dómkirkjunni og var allt fyrirkomulag við jarðarförina að öllu samboðið landshöfðingja. Dómkirkjan hét að vera full, allir embættismenn og vísindamenn í Reykjavík voru viðstaddir, að einum þrem til fjórum fráteknum og allir skólasveinar, sem til þess var gefið leyfi. Game Tíví. Game Tíví er íslenskur sjónvarpsþáttur sem sýndur er á Popptíví og endursýndur á Stöð 2. Þáttastjórnendur eru Ólafur Þór Jóelsson og Sverrir Bergmann. Þátturinn fjallar um og sýnir ýmislegt nýtt úr tækni- og tölvuleikjaheiminum. Dúnkarkari. Dúnkarkari (eða karkari) er heiti yfir sjómenn og sjóræningja frá bænum Dunkerque sem var ýmist hluti hins Heilaga rómverska ríkis, Englands eða Frakklands á 17. og 18. öld. Tryggvi Ófeigsson. Tryggvi Ófeigsson (22. júlí 1896 - 18. júní 1987) var íslenskur útgerðarmaður og athafnamaður sem var umsvifamikill í íslenskum sjávarútveg á 20. öldinni. Velúr. Velúr er flosofið (klæðis)efni, heldur grófgerðara og með þykkari loðnu en flauel. Velúr er oftast úr baðmull, en getur líka verið úr fjölester ("polyester"). Það er mikið notað í fatnað, svo sem inniföt og einnig í leikhústjöld. Kristen Bell. Kristen Anne Bell (f. 18. júlí 1980) er bandarísk leikkona. Árið 2001 kom hún fyrst fram á Broadway sem Becky Thatcher í "Ævintýrum Tom Sawyer". Eftir að hafa flutt til Los Angeles landaði Bell fjölmörgum gestahlutverkum í sjónvarpsþáttum og litlum kvikmyndum áður en hún lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni "Spartan". Fyrsta kvikmyndahlutverk hennar var pínulítið hlutverk í "Polish Wedding". Hún hlaut frægð og frama fyrir að fara með titilhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni "Veronica Mars" sem voru sýndir á árunum 2004-2007. Á meðan hún lék í "Veronicu Mars" lék Bell Mary Lane í kvikmyndinni ', en það var endurtekning á hlutverki sem hún hafði leikið í leikhúsuppfærslu í New York. Árið 2007 gekk hún til liðs við leikaralið "Heroes" þar sem hún fór með hlutverk Elle Bishop, og "Gossip Girl" þar sem hún er sögumaður. Árið 2008 lék hún Söruh Marshall í gamanmyndinni "Forgetting Sarah Marshall". Síðan þá hefur hún leikið í fjölmörgum gamanmyndum, þ.á m. "Fanboys", "Couples Retreat" og "When in Rome". Bell hefur fengið Satellite- og Saturn-verðlaun, og tilnefnd nokkrum sinnum til Television Critics Association-verðlauna og Teen Choice-verðlauna. Haraldur Björnsson. Haraldur Björnsson (27. júlí 1891 – 9. desember 1967) var leikari í Reykjavík. Haraldur og Anna Borg luku leikaranámi við skóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfnárið 1927 og voru þá fyrstu Íslendingarnir sem luku námi við formlega leiklistarskóla. Njörður P. Njarðvík skráði ævisögu Haraldar "Sá svarti senuþjófur" árið 1963. Þorsteinn Ö. Stephensen. Þorsteinn Ö. Stephensen (21. desember 1904 – 13. nóvember) 1991 var íslenskur leikari. Hann fæddist að Hurðabaki í Kjós. Hann réðst til Ríkisútvarpsins árið 1935 sem þulur og var leiklistarstjóri Útvarpsins frá árinu 1947 til ársins 1974. Þorsteinn lék fyrst í útvarpsleikriti árið 1936 og mun hafa leikið í um 600 hlutverkum í útvarpsleikritum á starfsferli sínum. Þorsteinn samdi mörg kvæði sem flutt voru í barnatíma útvarpsins á jóladag. Lárus Ingólfsson. Lárus Ingólfsson (22. júní 1905 – 22. september 1981) var íslenskur leikari. Hann var vinsæll gamanleikari og gamanvísnasöngvari og helsti leikmynda- og búningateiknari á sinni tíð. Stefán Íslandi. Stefán Íslandi eða Stefano Islandi (Stefán Guðmundsson) (6. október 1907 – 1. janúar 1994) var íslenskur söngvari. Hann lærði söng á Ítalíu, en starfaði lengst af í Danmörku og var útnefndur konunglegur hirðsöngvari þar árið 1949. Ævi. Foreldrar Stefáns bjuggu á Sauðárkróki. Faðir hans drukknaði í Gönguskarðsá þegar Stefán var tíu ára en þá fór hann í fóstur til hjónanna í Syðra-Vallholti í Skagafirði. Stefán þótti snemma mjög efnilegur tenórsöngvari. Fyrstu tónleika sína hélt hann á Siglufirði 17 ára að aldri. Haustið 1926 hélt hann til Reykjavíkur og starfaði þar fyrst í Málaranum en hóf síðar nám í rakaraiðn. Hann söng jafnframt í Karlakór Reykjavíkur og stundaði söngnám hjá Sigurði Birkis. Hann hélt tónleika og söng við ýmis tækifæri, meðal annars á kvikmyndasýningum, og vakti mikla athygli fyrir sönghæfileika sína. Úr varð að Richard Thors, forstjóri útgerðarfélagsins Kveldúlfs, styrkti hann til náms á Ítalíu. Stefán hóf söngnám í Mílanó á Ítalíu árið 1930 og lærði lengst af hjá barítónsöngvaranum Ernesto Caronna. Árið 1933 söng Stefán fyrst á sviði á Ítalíu og tók skömmu síðar upp listamannsnafnið "Stefano Islandi". Hann söng á Ítalíu um tíma en var síðan á faraldsfæti um skeið, söng bæði heima á Íslandi og á Norðurlöndum og tók upp fyrstu tvær hljómplötur sínar. Árið 1938 söng hann svo hlutverk Pinkertons í óperunni Madame Butterfly við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn við þvílíkar vinsældir að hann settist að í Danmörku, fékk fastráðningu við leikhúsið 1940 og varð það aðalstarfsvettvangur hans allt þar til hann fluttist heim til Íslands. Hann naut mikilla vinsælda í Danmörku og söng fjölda þekktra óperuhlutverka. Hann var útnefndur konunglegur hirðsöngvari 1949. Hann var einnig söngkennari við óperuna og prófdómari við Konunglega tónlistarskólann um skeið. Stefán flutti til Íslands árið 1966 og sneri sér að söngkennslu. Á Kaupmannahafnarárunum kom hann oft heim og hélt tónleika eða söng sem gestur, söng meðal annars Rigoletto í fyrstu íslensku óperuuppfærslunni í Þjóðleikhúsinu 1951. Indriði G. Þorsteinsson skráði ævisögu Stefáns, "Áfram veginn". Færeyinga saga. Færeyinga saga, er forn íslensk saga sem segir fyrst frá landnámi Gríms Kambans í Færeyjum, um 825, en meginhluti frásagnarinnar er um atburði frá árunum 990–1002, þegar Sigmundur Brestisson reyndi að koma á kristni í Færeyjum og skattskyldu til Noregskonungs, en Þrándur í Götu stóð gegn því. Sögunni lýkur eftir andlát Þrándar um 1035. Um söguna. Færeyinga saga var skrifuð hér á Íslandi skömmu eftir 1200, en höfundurinn er ókunnur. Margt bendir til að hann hafi stuðst við munnlegar sagnir úr Færeyjum, sem hann smíðaði söguna úr, en verið fremur ókunnugur staðháttum, t.d. ruglar hann að nokkru saman Stóru Dímun og Skúfey. Sagan er mikilvæg söguleg heimild um Færeyjar, því að hún bregður upp eftirminnilegum myndum af mannlífi í eyjunum á fyrstu öldum byggðar þar. Ef hennar nyti ekki við væri þar við fátt að styðjast. Færeyinga saga er fremur illa varðveitt, og hefur ekki geymst sem sjálfstætt rit. Snorri Sturluson tók stuttan kafla úr sögunni (43.-48. kapítula) upp í Ólafs sögu helga hina sérstöku, en meginhluti sögunnar hefur varðveist í handritum Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu, þar sem hún er fleyguð inn í sögu Ólafs, af því að hún snertir efnið. Þegar Jón Þórðarson, annar ritari Flateyjarbókar, skrifaði upp Ólafs-sögurnar, ákvað hann að skrifa flesta kaflana úr Færeyinga sögu eftir sérstöku handriti af sögunni, sem þar með varðveittust í sem næst upprunalegri gerð. Því miður láðist honum að gera það í 28.–33. kafla, og ofangreindum köflum 43–48. Ólafur Halldórsson handritafræðingur segir að á fáeinum stöðum vanti í söguna, en líklega hafi þó ekki glatast nema smákaflar. Færeyinga saga var fyrst gefin út sem sjálfstætt rit af Fornfræðafélaginu í Kaupmannahöfn árið 1832. Carl Christian Rafn sá um útgáfuna, sem var að mörgu leyti athyglisverð. Þar var frumtextinn prentaður á íslensku, dönsk þýðing, og einnig færeysk þýðing (eftir Johan Henrik Schrøter, með stafsetningu sem kennd er við hann). Árið 1884 kom út önnur færeysk þýðing, gerð af V. U. Hammershaimb, með svipaðri stafsetningu og nú tíðkast. Í Færeyjum er sagan kennd í skólum, og þar þekkir hvert mannsbarn söguhetjurnar. Þar er Þrándur í Götu talinn þjóðhetja, en glæsimennið Sigmundur Brestisson hálfgerður svikari. Sagan hefur einnig verið vel þekkt hér á landi, samanber orðtakið, „að vera einhverjum Þrándur í Götu“, þ.e. hindrun, eða erfiður viðureignar. Nú er oft sagt: „að vera þrándur í götu einhvers“, sbr. orðtakið „að leggja stein í götu einhvers“. Ólafur Halldórsson hefur manna mest rannsakað Færeyinga sögu í seinni tíð. Hann hefur séð um fjórar útgáfur sögunnar, sbr. eftirfarandi lista. Í formálum Ólafs er mikill fróðleikur um flest það sem viðkemur sögunni. Færeyinga saga er stundum flokkuð með konungasögum, en hún er skyldust Íslendingasögum og heyrir þeim flokki til sem bókmenntir. Í rauninni er þetta ekki saga Færeyinga, heldur öllu fremur örlagasaga Sigmundar Brestissonar og Þrándar í Götu. Ólafur Halldórsson segir um söguna (1978, 41): [Sagan er] „fjölþætt listaverk, og... sem heild er hún rökrétt og þaulhugsuð, svo að þar má engu hnika til og einskis án vera.... persónur hennar lifa sínu lífi í sögunni, svo sjálfstæðu, að lesandinn gleymir að sagan eigi sér höfund, og hún er samin af þeirri list sem Íslendingar kunnu einu sinni, að hún virðist vera sögð, en ekki samin.“ Sveinbjörn Beinteinsson. Sveinbjörn Beinteinsson á blóti 1991 Sveinbjörn Beinteinsson (4. júlí 1924 – 24. desember 1993) var skáld og allsherjargoði Ásatrúarfélagsins á Íslandi. Hann bjó að Draghálsi í Grafardal í Skorradalshreppi, Borgarfirði. Sveinbjörn kom oft fram á tónleikum á pönktímabílinu og kvað rímur milli atriða, og má t.d. sjá hann kveða í Rokk í Reykjavík. Hlaðajarla saga. Hlaðajarla saga, var forn íslensk saga (tilgátusaga), sem fjallaði um sögu Hlaðajarla, sem höfðu aðsetur á Hlöðum hjá Niðarósi. Sagan er glötuð, og er því óvíst hversu umfangsmikið rit þetta var. Í Grettis sögu og Fagurskinnu er vísað til sögu Eiríks Hákonarsonar Hlaðajarls (d. um eða eftir 1023), og telja margir fræðimenn, m.a. Finnur Jónsson, að sagan hafi ekki eingöngu fjallað um Eirík jarl, heldur einnig fyrirrennara hans, a.m.k. aftur til Hákonar Grjótgarðssonar. Einnig sé hugsanlegt að upphaf sögunnar hafi náð enn lengra aftur, með stuðningi af Háleygjatali Eyvindar skáldaspillis og fornum munnmælasögum. Saga Eiríks jarls Hákonarsonar (eða saga fleiri Hlaðajarla), var notuð sem heimild í konungasögum, Grettis sögu og e.t.v. fleiri ritum. Hlaðajarlar. Hlaðajarlar – (bókmál: Ladejarlene, nýnorska: Ladejarlane) – var norsk höfðingjaætt, sem var mjög áhrifamikil í Noregi og víðar frá því fyrir 900 og fram yfir 1000. Ættin var talin upprunnin á Hálogalandi. Höfðingjasetrið Hlaðir var skammt norðan við Niðarós, en nú er það innan borgarinnar. Fyrstu Hlaðajarlarnir þáðu jarlstitil af Noregskonungum, en þeir síðustu stjórnuðu í umboði erlendra konunga, og voru því af Norðmönnum taldir hálfgerðir landráðamenn. Dögg (veðurfræði). Dögg (áfall, náttfall eða væða) er gufa í loftinu sem hefur þést á einhverju köldu, t.d. á grasi eða laufum. Dögg þéttist vanalega yfir nóttina og er augljós berum augum að morgni dags. Dögg í íslensku máli. Hann talar líka um að jörð eða gras sé "löðrandi í vatni", þegar það er mikið döggfall. Þegar dögg "tekur af" er stundum líka sagt að "það/hann svaðrar af" og átt við að döggin þorni af. Halldór Laxness talar um það í Íslandsklukkunni að það sé "væða í grasinu": "Það var væða í grasi". Og líka í Sjálfstæðu fólki: "Væða í túninu, mýrin mórauð, grænkað í rindum." Þágufall af dögg er dögg, en stundum einnig skrifað döggu (sbr. ör), en aðallega í skáldamáli. Í Völsungakviðu hinni fornu er sagt að dýrkálfurinn sé „döggu slunginn“. Eignarfallið af dögg er daggar en döggvar er líka til, og því er hvortveggja rétt málfræðilega: "daggardropar" og "döggvardropar". Jóhann Jónsson skáld segir t.d. í einu ljóða sinna: "Blítt lætur veröldin. / Drjúpa döggvartár / um dalvíðishár"... The Kinks. The Kinks var ensk popp/rokk hljómsveit sem stofnuð var árið 1964. Þrátt fyrir að hafa ekki notið eins mikilla vinsælda og margar breskar samtímahljómsveitir eins og Bítlarnir og The Who er hljómsveitin talin ein sú áhrifamesta frá þeim tíma. Hljómsveitin hefur ekki spilað saman síðan árið 1996 og óvíst hvort hún muni koma nokkurntíman aftur saman. Keðjuregla. Keðjuregla er heiti á aðferð við deildun samsettra falla. Útskýring. Innsetningaraðferðin er hliðstæða keðjureglunnar við heildun. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1938. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1938 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1938. Í sumum af helstu þéttbýlisstöðum landsins buðu Alþýðuflokkurinn og Kommúnistaflokkurinn fram sameiginlega. Skiptar skoðanir voru um árangurinn, t.a.m. fékk sameiginlega framboðið í Reykjavík lægra hlutfall atkvæða en vinstrimenn höfðu náð fjórum árum fyrr. Síðar sama ár klauf Héðinn Valdimarsson, einn af helstu leiðtogum Alþýðuflokksmanna sig úr flokknum og stofnaði ásamt kommúnistum nýjan flokk, Sameiningarflokk alþýðu - Sósíalistaflokkinn. Akranes. Kosið var 30. janúar 1938. Þetta voru síðustu hreppsnefndarkosningarnar á Akranesi þar sem það hlaut kaupstaðarréttindi 1942 og því var næst kosið til bæjarstjórnar. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 30. janúar 1938. Töluverðar tilfæringar urðu á lista Sjálfstæðisflokks og óháðra vegna útstrikana. Jón Sveinsson, fyrrverandi bæjarstjóri og efsti maður listans, var þannig strikaður svo mikið út að hann náði ekki kjöri þrátt fyrir að listinn fengi fjóra menn. Einnig var sjötti maður listans, Jakob Karlsson, færður svo mikið upp að hann náði kjöri á kostnað Arnfinnu Bjarnadóttur sem skipaði fimmta sætið. Blönduós. Þessar Bæjarstjórnarkosningar á Blönduósi fóru fram 30. janúar 1938. Bolungarvík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Bolungarvík fóru fram 30. janúar 1938. Borgarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Borgarnesi fóru fram 30. janúar 1938. Eskifjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Eskifirði fóru fram 30. janúar 1938. 400 manns voru á kjörskrá og kosningaþátttaka einungis 31,5%, sem skýrist af því að Sjálfstæðisflokkurinn bauð ekki fram. Eyrarbakki. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Eyrarbakka fóru fram 30. janúar 1938. Þar sem báðir listar fengu jafn mörg atkvæði þurfti að grípa til hlutkestis þar sem Sjálfstæðismenn höfðu betur. Fáskrúðsfjörður. Aðeins einn listi kom fram við kosningarnar, listi Alþýðuflokksins og var hann því sjálfkjörinn. Þessar hreppsnefndarkosningar á Fáskrúðsfirði áttu að fara fram 30. janúar. Flateyri. Þessar Bæjarstjórnarkosningar á Flateyri fóru fram 30. janúar 1938. Hellissandur. Þessar Bæjarstjórnarkosningar á Hellissandi fóru fram 30. janúar 1938. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 30. janúar 1938. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 30. janúar 1938. Ísafjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Ísafirði fóru fram 30. janúar 1938. Keflavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Keflavík fóru fram 30. janúar 1938. Neskaupstaður. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Neskaupstað fóru fram 30. janúar 1938. Ólafsfjörður. Þessar Bæjarstjórnarkosningar á Ólafsfirði fóru fram 30. janúar 1938. Patreksfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Patreksfirði fóru fram 30. janúar 1938. Sauðárkrókur. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Sauðárkróki fóru fram 30. janúar 1938. Seyðisfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seyðisfirði fóru fram 30. janúar 1938. Siglufjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Siglufirði fóru fram 30. janúar 1938. Suðureyri. Þessar hreppsnefndarkosningar á Suðureyri fóru fram 30. janúar 1938. Stokkseyri. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stokkseyri fóru fram 30. janúar 1938. Stykkishólmur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Stykkishólmi fóru fram 30. janúar 1938. Vestmannaeyjar. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum fóru fram 30. janúar 1938. Fjársjóður sjóræningjans. "Fjársjóður sjóræningjans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Á eyðiströnd í Mið-Ameríkuríkinu Zambara rötuðu þeir Bob Moran og Claude Loarec vinur hans kvöld eitt í óvenjulegt ævintýri, sem hafði örlagaríkar afleiðingar fyrir þá. Áður en þeir vissu af, voru þeir flæktir í hina ótrúlegustu atburðarás, sem lauk með því, að þeir fengu gistingu í skuggalegu fangelsi harðstjórans Porfirio Gomezar. Skjal eitt ritað á fornri mállýzku franskri varð til þess ásamt ágrind fangelsisstjórans, að þeir fengu aftur frelsi sitt en reyndar kostaði það þá nýjar mannraunir og hættulegar. Jafnvel hugaðri menn en Bob Moran hefðu getað látið hugfallast, ef þeir hefðu staðið augliti til auglits við bláu Indíánana og hinn leyndardómsfulla hvíta foringja þeirra. En þeim Moran og vini hans var ekki undankomu auðið. Þeir áttu ekki annars kost en að duga eða drepast. Þeir urðu að brjótast gegnum frumskóginn upp að fossinum, þar sem þeir væntu þess að, fjársjóður Montbucs sjóræningja væri falinn. Þar varð Moran enn einu sinni að verja hendur sínar í erfiðri vígstöðu, en hann gefst ekki upp, vilji hans og taugar eru sem stál. Aðalpersónur. Bob Moran, Claude Loarec, Pablo Cabral, Mario Foldes, Pierrer Loarec, Jose Fiscal, Gert Luber, Don Porfirio Gomez Sögusvið. San Felicidad - Ille de Cocotiers, Cuidad Porfirio, Zambara - Pueblo Bolivar Tækniskólinn. Tækniskólinn er íslenskur framhaldsskóli stofnaður 1. júlí árið 2008 með sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans. Skólinn er einkarekinn og er í eigu LÍÚ, Samtaka Iðnaðarins, Samorku, Samtök Íslenskra Kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík Starfsemi. Starfsemi Tækniskólans fer fram nær eingöngu á þrem stöðum; Skólavörðuholti, Vörðuskóla og Háteigsvegi. Í Skólavörðuholti eru til húsa Hársnyrtiskólinn, Tæknimenntaskólinn, Endurmenntunarskólinn, Raftækniskólinn, Byggingatækniskólinn, Hönnunar- og handverksskólinn og Meistaraskólinn. Í Vörðuskóla hafa aðsetur Upplýsingatækniskólinn, Margmiðlunarskólinn og Byggingatækniskólinn (tækniteiknun). Á Háteigsvegi eru Flugskólinn, Skipstjórnarskólinn, Véltækniskólinn og Tæknimenntaskólinn. Erfðabreytt matvæli. Skordýraþolinn erfðabreyttur maís kynntur í Kenýa. Erfðabreytt matvæli eru matvæli, oftast nytjaplöntur, sem breytt hefur verið með aðferðum erfðatækninnar. Breytingin, sem framkvæmd er með það að markmiði að efla æskilega eiginlega lífverunnar eða færa henni nýja, eftirsóknarverða eiginleika á borð við þol gegn skordýrum eða illgresiseyðum, er framkölluð með því að skeyta inn í erfðamengi lífverunnar erfðaefni úr öðrum tegundum, sem jafnvel geta verið afar fjarskyldar. Þannig er hægt að flytja erfðaefni úr t.d. bakteríu inn í erfðamengi hveitiplantna eða úr fiski í erfðamengi kartöfluplantna og fá erfðabreytt hveiti og erfðabreyttar kartöflur. Við erfðabreytingar af þessu tagi er farið fram hjá þeim skorðum sem náttúran alla jafna setur blöndun erfðaefnis lítt skyldra lífvera. Önnur, en öllu seinfarnari leið að sama marki eru kynbætur, þar sem stýrð blöndun erfðaefnis mikið skyldra lífvera á sér stað yfir margar kynslóðir. Efnahags- og skattanefnd Alþingis. Efnahags- og skattanefnd var ein af fastanefndum Alþingis, löggjafarþings íslenska ríkisins. Eitt helsta hlutverk hennar var að fjalla um lagafrumvörp þau sem varða skatta, tolla og eignir íslenska ríkisins (t.d. verðbréf og hlutabréf; lífeyrissjóði, banka og annað). Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni efnahags- og skattanefndar í dag að mestu leiti undir efnahags- og viðskiptanefnd. Okur. Okur er lán með of háum vöxtum. Innan lögfræðinnar er okur auðgunarbrot, þ.e.a.s. ef fram kemur að hinn ákærði hefur notað sér bágindi annarra (t.d. fjárþröng) til að hagnast (óhæfilega) á viðskiptum sínum. Á miðöldum var okur ekki flokkað sem ein af dauðasyndunum sjö, en féll undir skilgreininguna á grægði. Í Helvíti Dantes dveljast orkrar í sjöunda hringnum, neðar en jafnvel sjálfmorðingjar. Okur á Íslandi. Í kirkjuskipan Kristjáns 3. segir að okurkörlum skuli synja kvöldmáltíðarsakramentis. Þá var hvort tveggja kallað okur ef menn tóku of háa leigu (lögleigu) eða seldu vöru sína óhæfilega dýrt. Samkvæmt kristinrétti Árna Þorlákssonar biskups, árið 1275, var bannað að taka leigu eftir allt „dautt fé“ svo sem gull, silfur, vaðmál eða aðrar vörur. Hins vegar mátti taka leigu eftir allt „lifandi fé“. Þeir sem tóku leigu eftir dautt fé gerðust sekir um okur, enda urðu þeir að greiða sex aura og allt leigufé gert upptækt og rann helmingur hvors tveggja til konungs og biskups. Okurkarlar „féllu í forboð“ af verkinu sjálfu og máttu ekkl taka kirkjulega þjónustu né njóta legs í vígðum reit fyrr en þeir komust í sátt við kirkjuna. Nútildags þegar samið er um lán er lánað með vöxum og þá talað um vaxtahæð. Að slíkum samningum eru menn hins vegar ekki frjálsir því íslensk lög leggja takmörk við hæð vaxta. Eru lögin frá árinu 1960 um bann við okri, dráttarvexti og fleira. Í hegningarlögum frá 1940 eru einnig refsiákvæði sem kveða á um viðurlög hafi menn meðal annars áskilið sér óleyfilega háa vexti með því að beita refsiverðri aðferð, sem kölluð er misneyting. Okur í dómsmálum á Íslandi. Árið 1984 kom í ljós að eiturlyfjasalar höfðu fjármagnað eituryfjakaup sín í útlöndum með okurlánum hér á Íslandi. Árið eftir fengu eiturlyfjaneytendur lán hjá okrara og héldu til útlanda til að flytja inn eiturlyf til landsins. Þeir voru handteknir. Litlar sögur fara af okurlánaranum. Félagsmálanefnd. Félagsmálanefnd er íslensk nefnd sem sér um mál sem tengjast sveitarfélögum, húsnæði og atvinnu, barna- og ungmennavernd og málum fatlaðra. Blóðrauði. Blóðrauði skammstafað sem Hb eða Hgb (kemur af enska heitinu "hemoglobin" eða "haemoglobin", á íslensku „hemglóbín“ eða „hemóglóbíni“) er prótínsameind í blóðinu í sem veldur rauða-litinum og sér það um að flytja súrefni sem blóðrauðinn nær í lungunum og ber þaðan um allan mannslíkamann. Í blóðrauðanum er járnfrumeind, en úr henni kemur rauði liturinn. Sýrður blóðrauði. Sýrður blóðrauði kallast það þegar blóðrauðinn binst við súrefni í lungunum og verður ljósrauður. Þannig ferðast súrefnið til frumnanna frá blóðinu, en þegar það er þangað komið losnar súrefnið frá sýrða blóðrauðanum og verður þá aftur að ósýrðum blóðrauða. Hnúfubakur. Hnúfubakur (fræðiheiti: "Megaptera novaeangliae", e. humpback whale), einnig kallaður hnúðurbakur og skeljungur, er skíðishvalur af ætt reyðarhvala. Lýsing. Hnúfubakur er frekar kubbslega vaxinn og er sverastur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Fullorðinn er hann 13 til 17 metra langur og 25 til 40 tonn á þyngd. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir eins og er um alla skíðishvali. Hausinn er um einn þriðjungur af heildarlengd hvalsins. Skíðin eru svört á lit og öllu styttri en skíði annarra skíðishvala af svipaðri stærð. Hnúfubakurinn hefur 330 pör af skíðum og eru þau um 60 cm á lengd og 30 cm á breidd þar sem þau eru breiðust, sú hlið skíðanna sem snýr inn að munnholi er alsett hárum. Eitt helsta sérkenni hnúfubaks eru gríðarlöng bægsli. Þau geta orðið fimm til sex metra löng eða um einn þriðja af skrokklengd. Fremri brún bægslanna er alsett misstórum hnúðum. Sveifla hvalirnir bægslunum stundum upp úr sjónum og lemja þeim í yfirborðið, að því er virðist í leik. Þeir velta sér einnig iðulega í yfirborðinu og stökkva upp úr sjónum með miklum bægslagangi. Hnúfubakur hefur lítið horn aftarlega á bakinu og er mjög breytilegt að stærð og lögun. Hornið er á einskonar upphækkun á bakinu og er sérlega áberandi þegar hvalurinn setur á sig kryppu fyrir djúpköfun. Nafn hans á íslensku (og mörgum öðrum málum) er dregið af því. Hvalirnir eru yfirleitt fimm til sjö mínútur í kafi en stundum mun lengur. Dæmi er um köfun upp að hálftíma. Áður en þeir kafa koma þeir upp til að anda þrisvar til fjórum sinnum. Þegar hnúfubakar fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum upp úr sjónum. Þá koma í ljós sérstök hvít litamynstur neðan á sporðblöðkunni sem nota má til þess að greina að einstaklinga. Sporðurinn er breiður með djúpa skoru í miðju og er aftari brún hans óreglulega tennt. Fæða og félagskerfi. Fæða hnúfubaka er fjölbreytt og mismunandi eftir árstíma og en er fyrst og fremst svif, áta og smáfiskur, s.s. sandsíli og loðna. Félagskerfi húfubaka er betur þekkt en flestra annarra hvala og er hann eina tegundin sem hefur þekkt, afmörkuð og aðgengileg æxlunarsvæði. Tegundin í Norður-Atlandshafi hefur æxlunarsvæði í Karíbahafi. Talið er að minnst tveir aðskildir stofnar hnúfubaks séu í Norður-Atlantshafi, fimm á suðurhveli jarðar og þrír í Kyrrahafi. Hvalirnir fara ár efir ár á sömu fæðusvæðin og virðist vera lítil blöndun milli stofnanna. Á fartíma á haustin og fengitíma að vetri gefa tarfarnir frá sér fjölbreytileg hljóð sem líkja mætti við fuglasöng. Ekki er ljóst hvort þeir eru með þessa að laða til sín kýrnar eða hræða burtu aðra tarfa. Söngurinn er breytilegur eftir hafssvæðum en tarfar á sama svæði syngja sömu stefin. Nýlegar rannsóknir sýna að söngurinn getur gjörbreyst á skömmum tíma þegar nýtt stef verður vinsælt. Veiðar. Fyrir daga sprengiskutulsins voru hnúfubakar miklu meira veiddir en aðrar tegundir reyðarhvala. Bæði var að þeir héldu sig oft nálægt ströndum og synda einnig hægar en frændur þeirra. Hnúfubakur var án efa meðal þeirra tegunda sem voru skutlaðar við Ísland fyrr á öldum. Með nýrri tækni í lok 19. aldar, gufuknúin skip og sprengiskutar, gekk hratt á hnúfubaksstofna heimsins. Talið er að 2800 húfubakar hafi verið veiddir við Vestfirði og Austfirði á árunum 1889 til 1915 en fyrir þann tíma var hann mjög algengur við strendur landsins. Eftir þessar miklu veiðar urðu hnúfubakar mjög sjaldgæfir við Ísland. Veiddust einungis 6 hvalir af þessari tegund frá því að hvalstöðin í Hvalfirði tók til starfa 1948 þar til hnúfubakar voru friðaðir 1955. Veiðar annarstaðar á Norður-Atlantshafi voru öllu minni en við Ísland eða mill 2 og 3 þúsund samanlagt en Alþjóðahvalveiðiráðið alfriðaði hnúfubak þar 1956. Í Norður-Kyrrahafi voru veiddir um 28 þúsund hnúfubakar frá 1905 til 1965 þegar tegundin var friðuð þar. Á suðurhveli jarðar voru veiddir meir en 150 þúsund hnúfubakar frá aldamótum 1900 fram til 1963 þegar þeir voru friðaðir. Á síðustu áratugum hefur hnúfubak fjölgað mjög, og er Norður-Atlantshafsstofninn talinn vera á bilinu 12.000 til 14.000.. Fjöldi hnúfubaka í Norður-Kyrrahafi er talinn 6000 til 8000 dýr og á suðurhveli jarðar um 17.000 Sean Paul. Sean Paul Ryan Francis Henriques (fæddur 9. janúar 1973) er jamaískur reggí- og "dancehall" tónlistarmaður. Hann er þekktastur sem Sean Paul. Ljósmynd. Ljósmynd er heiti á mynd, sem fæst við ljósmyndun með sýnilegu ljósi. Hitamynd er samsvarandi mynd sem fæst þegar notast er við innrautt ljós. Kreml. Kreml (rússneska: Кремль) er rússneskt orð sem þýðir borgarvirki eða kastali og vísar til miðjunnar í varnareiningum gamalla rússneskra borga. Kreml er þó oftast haft um Kreml í Moskvu, eða stjórn landsins sem þar er til húsa. Að kreml vísi til stjórnarinnar (sbr. "stjórnin í Kreml") hefur þó minnkað umtalsvert eftir fall kommúnismans. John Duns Scotus. John Duns Scotus (u.þ.b. 1266 – 8. nóvember 1308) var skoskur fyrirlesari og skólaspekingur, og einn af helstu guðfræðingum og heimspekingum hámiðalda. Hann fékk viðurnefnið "Doctor Subtilis" vegna þess hve mönnum þótti hann beita gegnumlýsandi og hárfínni rökhugsun. Heimspekingar 16. aldar höfðu ekki nærri því jafn mikið álit á honum og menn fyrri alda, og litu á hann sem glammrandi sófista. Það varð til þess að lærðir menn í Bretlandi tóku að nefna tornæma nemandur sína (tossana) eða tornæmt fólk yfirleitt, „dunce“, en það er leitt af miðnafni hans (sbr. Dunsensku, þ.e. tossahúfuna (eða "tossaspísshattinn") sem tíðkaðist á Bretlandi og víðar, alveg fram á 20. öld. Lúðrasveitin Svanur. Lúðrasveitin Svanur (oft nefnd Svanurinn) er íslensk lúðrasveit sem var stofnuð þann 16. nóvember 1930 og hefur starfað óslitið síðan. 1962 kom Svanurinn sér upp búningum sem eru einkenni Svansins enn í dag. Búningarnir eru bláir að lit og fyrirmyndin frá Bandaríkjunum, en allir saumaðir á Íslandi. Árið 1970, á fjörutíu ára afmæli Svansins, spilaði Svanurinn inn á fyrstu innlendu steríóplötuna á Íslandi. Fálkinn gaf hana út, en um upptökuna sá Pétur Steingrímsson. Þetta var fjögurra laga plata og vakti mikla athygli, og þrátt fyrir þær frumstæðu aðstæður sem platan var tekin upp við er útkoman merkilega góð allavega er spilamenskan bara nokkuð góð, þetta voru eitt af þeim góðu og mörgum hlutum sem Jón Sigurðsson gerði fyrir Svaninn. Hræringur. Hræringur kallast spónamatur sem er gerður með því að bæta skyri út í graut, oftast hafragraut en einnig þekktist að nota aðrar grautartegundir, svo sem bygggrjóna, hrísgrjóna-, rúgmjöls- eða fjallagrasagraut. Oftast var notaður kaldur grautur en einnig þekktist að blanda heitum graut saman við skyrið. Hræringur var mjög algengur matur á Íslandi áður fyrr en sést nú mun sjaldnar. Hann er oft borðaður með mjólk út á, ásamt blóðmör eða lifrarpylsu. Ingólfstorg. Fólk að dansa á Ingólfstorgi. Ingólfstorg (áður Hallærisplanið/Hótel Íslands-planið og Steindórsplanið) er torg í miðbæ Reykjavíkur. Torgið er nefnt í höfuðið á Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni, en honum er eignaður heiðurinn af því að hafa fundið Ísland, og talin hafa numið land þar rétt hjá. Torgið er því staðsett þar sem einna lengst hefur verið byggð í Reykjavík. Við torgið er gatan Aðalstræti og er Aðalstræti 10 elsta hús bæjarins sem kennt er við Innréttingar Skúla Magnússonar. Nú til dags er torgið oft notað til tónleikahalds, ræðuhalda og fjöldasamkomna af ýmsu tagi. Það er oft notað á hátíðisdögum og stórviðburðum eins og 1. maí, Menningarnótt og 17. júní. Torgið er einnig vinsælt meðal hjólabrettafólks. Þann 7. desember 2006 var torginu breytt í skautasvell út desembermánuð í tilefni af 50 ára afmæli Tryggingamiðstöðvarinnar Nafn. Svæðið þar sem torgið var var upphaflega tvö bílaplön sem Austurstræti gekk á milli. Suðurhlutinn var í fyrstu nefndur "Hótel Íslands-lóðin" (eða "Hótel Íslandsplanið"), en á horni Aðalstrætis og Austurstrætis stóð lengi vel hið landsfræga Hótel Ísland frá 1882 þar til það brann 1944. Eftir brunann myndaðist autt svæði við gatnamótin áðurnefndu og varð um síðir, á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar, að stað þar sem unglingar hittust. Torgið hafði verið uppnefnt "Hallærisplanið" allt frá því um 1960, enda var litið á lóðina sem sár í bæjarlandinu. Hinum megin við Austurstræti var Bifreiðastöð Steindórs frá 1922 með bílastæði, rútustopp og síðar stórt þjónustuhús. Þetta svæði var kallað Steindórsplanið. Eftir bruna Hótel Íslands notaði bifreiðastöðin lóðina þar líka undir bílastæði. Bandaríska kauphöllin. Bandaríska kauphöllin (AMEX) er bandarísk kauphöll staðsett í New York-borg. Kauphöllin er gagnkvæmt félag sem félagar eiga. Aiguille du Midi. Aiguille du Midi er fjall í Mont Blanc-fjallgarðinum í Frönsku Ölpunum. Nafn fjallsins merkir „hádegisnálin“ og kemur til vegna þess að sólin er beint yfir tindinum á hádegi þegar horft er á hann frá bænum Chamonix. Þaðan er hægt að fara upp á tind fjallsins með kláf sem á heimsmetið í lóðréttu klifri; fer úr 1035 metrum í 3842 metra hæð á 20 mínútum. Kristján Jóhannsson. Kristján Jóhannsson (fæddur 24. maí 1948) er tenór sem er einna þekktastur fyrir hlutverk sín í óperum Verdis. Hann hefur sungið í ýmsum þekktum óperuhúsum, bæði á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum, og má þar t.d. nefna La Scala og Metropolitan óperuna. Nornavöndur. Nornavöndur (fræðiheiti: "Taphrina") er sveppasjúkdómur á trjám, og kemur fram sem þéttur greinavöndur, einkum á birki. Virkjun. Virkjun er mannvirki, sem breytir hluta orku fljótandi vatns, sjávarfalla, jarðhita eða vinds í raforku, sem síðan er dreift til notenda. Taka skal þó fram að þegar vindur er virkjaður er oftast talað um vindorkuver (eða bara vindmyllur), en sjaldan „vindvirkjun“. Og ekki má rugla saman raf- eða vélvirkjun við virkjun í sambandi við orkunýtingu. Bæjarstjórnarkosningar á Akranesi. Akranes hlaut kaupstaðarréttindi árið 1942, fram að því hafði það verið hreppur með hreppsnefndarkosningum. 1942. Sveitarstjórnarkosningarnar 1942 fóru fram 25. janúar. 1946. Sveitarstjórnarkosningarnar 1946 fóru fram 27. janúar. 1950. Sveitarstjórnarkosningarnar 1950 fóru fram 29. janúar. 1954. Sveitarstjórnarkosningarnar 1954 fóru fram 31. janúar. Í framboði voru annars vegar sameiginlegur listi Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og kommúnista og hins vegar listi Sjálfstæðisflokksins. 1958. Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 fóru fram 25. janúar. Í framboði voru annars vegar sameiginlegur listi Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og kommúnista sem nefndi sig Frjálslynda kjósendur og hins vegar listi Sjálfstæðisflokksins. Sameiginlegi listinn fór með sigur af hólmi og hélt meirihluta sínum. 1962. Sveitarstjórnarkosningarnar 1962 fóru fram 27. maí. Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta og kusu bæjarverkfræðinginn Björgvin Sæmundsson sem bæjarstjóra. 1966. Sveitarstjórnarkosningarnar 1966 fóru fram 22. maí. Í framboði voru Alþýðuflokkur, Sjálfstæðisflokkur og listi sem nefndi sig Frjálslynda kjósendur en hann skipuðu Framsóknarmenn, Alþýðubandalagsmenn og fleiri. 1970. Sveitarstjórnarkosningarnar 1970 fóru fram 31. maí. 1974. Sveitarstjórnarkosningarnar 1974 fóru fram 26. maí. Í framboði voru Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og I-listi, en að honum stóðu Alþýðubandalagið, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna og Frjálslyndir kjósendur. 1978. Sveitarstjórnarkosningarnar 1978 fóru fram 28. maí. 1982. Sveitarstjórnarkosningarnar 1982 fóru fram 22. maí. 1986. Sveitarstjórnarkosningarnar 1986 fóru fram 31. maí. 1990. Sveitarstjórnarkosningarnar 1990 fóru fram 26. maí. 1994. Sveitarstjórnarkosningarnar 1994 fóru fram 28. maí. 1998. Sveitarstjórnarkosningarnar 1998 fóru fram 23. maí. Heimildir. Akranes Sundlaug Kópavogs. Sundlaug Kópavogs er ein af sundlaugum Íslands sem staðsett er á Rútstúni á Kársnesi í vesturbæ Kópavogs. Sundlaugin var fyrst tekin í notkun 1967, þá með einni laug sem var 17x8 metrar að stærð. Þrír heitir pottar komu svo við hliðina á lauginni. 1991 var önnur laug og mun stærri tekin í notkun, fullgild 50x25 metra keppnislaug. Að auki var þá sett upp rennibraut í litla laug við hlið stóru laugarinnar og öll búningsaðstaða færð í nýja klefa og heitum pottum fjölgað. Þann 11. maí 2008 var ný og breytt sundlaug opnuð, 50x25 metra keppnislaugin var á sínum stað en elsta laugin og pottar þar voru horfin, í þeirra stað var komin 25 metra keppnislaug með áhorfendabekkjum sem og 10 metra vaðlaug, báðar innanhúss. Flundra. Flundra (fræðiheiti: "Platichthys flesus") er flatfiskur af kolaætt. Útbreiðslusvæði hennar er strandsvæði Norður-Evrópu. Flundra er vinsæll matfiskur. Flundra getur náð allt að 60 sm lengd en er sjaldan lengri en 30 sm. Hún lifir á sjávarbotni frá fjöruborði og niður í um 100 m dýpi og sækir í ísalt og ferskt vatn og getur gengið upp í ár og læki. Flundra er lík skarkola og sandkola en þekkist frá þeim á því að það eru smáar beinkörtur meðfram bak- og raufaruggi. Flundra við Íslandsstrendur. Flundra veiddist fyrst við Ísland í september 1999 og virðist tegundin núna vera farin að hrygna við Ísland. Flundra virðist núna breiðast hratt út við landið. Ekki er vitað hvernig flundra barst þangað en sennilegast að hún hafi borist frá Evrópu, hugsanlega frá Færeyjum. Hrogn og smáseiði flyndru eru sviflæg og geta borist með straumum. Flundru hefur orðið vart við ósa og sjávarlón á Suðurlandi. Samtalsgreining. Samtalsgreining eða samræðugreining er aðferð til rannsókna á samskiptum fólks með því að greina samtöl út frá uppskrifuðum hljóðupptökum. Samtalsgreining var fyrst þróuð af Harvey Sacks og Emanuel Schlegoff út frá athugunum Sacks sem hann lýsti í röð fyrirlestra við Kaliforníuháskóla 1964 til 1972. Í fyrirlestrunum byggði Sacks meðal annars á reynslu sinni við greiningu á hljóðupptökum frá hjálparlínu fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum. Í fyrirlestrunum fjallaði hann vítt og breitt um samskipti og samtöl, en samstarfsmenn hans, m.a. Schlegoff og Gail Jefferson þróuðu aðferðina eftir lát hans 1975. Samtalsgreining greinir litla þætti sem koma reglulega fyrir í samtölum, s.s. aðferðir við lotuskipti (hvernig fólk skiptist á að tala), hik, samstæðupör o.fl. í þeim tilgangi að reyna að átta sig á hlutverki þeirra í samskiptum þátttakenda. Samtalsgreiningu hefur einkum verið beitt á samtöl sem fara fram við formlegar aðstæður; vitnaleiðslur, læknaviðtöl, innkaup og þess háttar. Samtalsgreining er oft flokkuð sem grein af félagsháttafræði og er stundum stillt upp sem andstæðu við orðræðugreiningu. Skíði (hvalir). Hvalskíðin eru ekki óáþekk hárgreiðu Skíði nota skíðishvalir til að afla sér fæðu. Þessir hvalir hafa ekki tennur en í þess stað hreyfanlegar plötur sem eru fastar við efri kjálka dýranna og sú hlið skíðanna sem snýr inn að munnholi er alsett hárum. Skíðin eru úr keratíni á sama hátt og hár, horn, klaufar og neglur en ekki úr beini. Skíðin virka eins og sía þegar hvalirnir leita sér fæðu. Skíðishvalir eru eina tegund hryggjadýra sem nota svipaðar aðferðir við fæðuöflun (flamingóar og krabbaselir ("Lobodon carcinophagus") nota svipaðar aðferðir en hafa ekki skíði). En skíðin hafa gert það mögulegt fyrir þessa hvali að verða afskaplega stór dýr. Stærsta dýr sem nokkur tíma hefur lifað, steypireyður, er skíðishvalur. Mikill munur er á stærð skíðanna allt eftir hvalategund, allt frá 0,5 til 3,5 metra á lengd og geta verið allt að 90 kg á þyngd hver skíði. Þau eru breiðust þar sem þau eru fest við kjálkann. Fjöldi þeirra er misjafn en t.d. hefur hnúfubakurinn 330 pör af skíðum. Þróun skíða. Elstu steingervingar sem hafa fundist og sýna hvalaskíði eru einungis um 15 milljón ára gamlir. En skíðin, eins og aðrir líkamshlutar úr keratíni, steingerast mjög sjaldan og halda vísindamenn að skíðin hafi þróast mun fyrr. Það má sjá af þeim breytingum sem verða á höfuðkúpum þeirra hvala sem fundist hafa og eru miklu eldri. Algeng skoðun vísindamanna er að skíðin hafi þróast fyrir um það bil 30 miljónum ára og þá úr hvalategund með harða og nokkuð sléttan efri kjálka, svipaðan og en má sjá hjá þeirri hnísutegund sem nefnd er Dallshnísa ("Phocoenoides dalli"). Svo er að sjá sem fyrstu skíðishvalirnir hafi einnig haft tennur en þær hafa sennilega verið lítið notaðar. Skíðasían. Þegar skíðishvalir leita fæðu gleypa þeir gríðarlegt magn af sjó og geyma í munnholinu, loka síðan munninum og þrýsta sjónum út á milli skíðanna. Hárin á skíðunum verða eins og sía og halda eftir smádýrum úr sjónum. Þau sitja eftir í hárunum og hvalurinn gleypir þau síðan. Helsta fæða skíðishvala er ljósáta, ýmsar árfætlur ("copepoda") og smáir fiskar, þar á meðal loðna, síld, síli og makríll. Önnur not. Hvalskíði voru áður fyrr höfð til ýmissa nota, meðal annars voru þau notuð í lífstykki kvenna og eins regn- og sólhlífar. Plast hefur nú algjörlega leyst skíðin af hólmi þar sem þau komu áður til nota. Lyfta. Lyfta er rafknúinn lyftibúnaður í háum húsum til fólks- eða vöruflutninga, sbr. fólkslyftur (t.d. talnabandslyftur) og vörulyftur. Einnig eru til heylyftur sem eru notaðar til að flytja hey úr hlöðu að garða eða jötu, skíðalyftur (svo sem stólalyftur) til að flytja skíðafólk upp í fjall, vinnulyftur sem notaðar eru við byggingu og viðhald húsa og eru þær bæði til rafknúnar og díselknúnar. Vökvalyftur eru lyftur sem knúnar eru vökvaþrýstingi til að lyfta þungum hlutum (eins og t.d. vagnlyftur). Fyrsta fólkslyfta í íbúðarhúsi hér á landi var tekin í notkun 11. febrúar 1960. Þá voru gangsettar þrjár lyftur sama daginn í Prentarablokkinni, Kleppsvegi 2-6. Trúarbragðasaga. Trúarbragðasaga er saga trúarbragða eins langt aftur og heimildir og sögusagnir ná, allt frá frumsögu trúar til nútímans. M.ö.o. er trúarbragðasaga líf mannsins í samskiptum sínum við hin ýmsu trúarbrögð, trúarsiði og þróun þeirra með tíð og tíma. Trúarbragðasaga hefur víða komið í stað kristnifræðslu í skólum. Carlos Tévez. Carlos Alberto Tévez (fæddur "Carlos Alberto Martínez" 5. febrúar 1984 í Ciudadela, Buenos Aires) er argentínskur knattspyrnumaður. Hann hóf feril sinn með Boca Juniors 16 ára gamall en fór til Corinthians í Brasilíu árið 2005. Árið eftir gerði hann samning við West Ham United og lék með liðinu eitt ár áður en hann fór sem lánsmaður til tveggja ára til Manchester United þar sem hann spilaði en nú er hann í Manchester City. Carlos Tévez hefur leikið meira en 40 leiki með argentínska karlalandsliðinu. Parker Posey. Parker Christian Posey (fædd 8. nóvember 1968) er bandarísk leikkona. Próf Turings. Próf Turings eða Turing-próf er próf til að sannreyna hvort tölva getur sýnt greind við ákveðnar aðstæður. Hugmyndin kom fyrst fram í grein Alan Turing, „Computing machinery and intelligence“, sem kom út árið 1950 í tímaritinu "Mind". Prófið gengur út á að leika hermileik þar sem spyrill leggur spurningar fyrir mann og tölvu sem er forrituð þannig að hún þykist vera maður. Spyrillinn á síðan að álykta út frá svörum viðmælendanna hvor þeirra er tölva. Turing vildi meina að ef tölvu tækist að herma svo vel eftir manni að spyrillinn léti blekkjast þá væri það nægjanleg sönnun þess að hún hugsaði. Til þess að komast í gegnum prófið þyrfti tölvan að geta beitt tungumálinu, rökvísi, þekkingu og vera fær um nám. Turing færir rök fyrir því í greininni að slíkt sé einungis spurning um verkfræði og forritun og að í náinni framtíð verði til tölvur sem geti staðist prófið. Margir hafa dregið þessa ályktun í efa. Fræg andsvör við þessu eru meðal annars þrautin kínverska herbergið sem John Searle setti fram 1980. Engin tölva hefur staðist próf Turings enn, svo vitað sé. Spjallhermar á borð við ELIZA hafa getað blekkt viðmælendur sína og látið þá halda að þeir væru að tala við manneskju í stuttan tíma, en á því er sá reginmunur að viðmælandinn vissi ekki af þeim möguleika að hann væri að tala við tölvu fremur en mann, en spyrillinn í prófi Turings veit að annar viðmælendanna er tölva. Ustersbach. Ustersbach er sveitarfélag í Þýskalandi með 1.177 íbúa (2007). Sveitarfélag er staðsett í sambandslandinu Bæjaralandi í Þýskalandi. Heimsendi. Heimsendi er í heimsfræði endimörk hins sýnilega heims, sem er um 100 milljarðar ljósára. Björn Þorfinnsson. Björn Þorfinnsson er íslenskur skákmeistari og forseti Skáksambands Íslands. Hann tók við embættinu í maí 2008 af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Björn er FIDE-Meistari með 2422 ELO-stig (1. júlí 2008). Larisa Oleynik. Larisa Romanovna Oleynik (fædd 7. júní 1981) er bandarísk leikkona. Hún er þekktust fyrir að vera í aðalhlutverki í sjónvarpsþættinum "The Secret World of Alex Mack", en hefur einnig leikið í bíómyndum á borð við "The Baby-Sitters Club" og "10 Things I Hate About You". Ferill. Hún lék í sínu fyrsta hlutverki 15 ára gömul í sjónvarpsþættinum "Dr. Quinn, Medicine Woman". Hún lék aðalhlutverkið í sjónvarpsþættinum "The Secret World of Alex Mack", sem stelpa með hugarhreyfingar mátt sem hún fékk eftir að hafa lent í slysi. Þáttaröðin var sýnd á Nickelodeon frá 1994 til 1998 og var einn af þremur vinsælustu þáttum sjónvarpstöðvarinnar. Donkey Kong-leikirnir. Donkey Kong-leikirnir eru tölvuleikir. Sá fyrsti var búin ntil árið 1985 hann fjallar um Supermario er að bjarga prinsessuni og Mario má ekki rekast á tunnurnar en þarf að hoppa yfir tunnurnar og bjarga prinsessuni. Húsavíkurkirkja. Húsavíkurkirkja er þrílit timburkirkja sem stendur í miðju bæjarstæði Húsavíkur við Skjálfanda og er með sterkum einkennum svonefnds schweitzerstíls. Rögnvaldur Ólafsson, arkitekt, teiknaði kirkjuna og var hún vígð 2. júní 1907. Húsavíkurkirkja er krosskirkja, byggð úr norskum við. Aðalhleðslumaður við grunn kirkjunnar var "Jón Ármann Árnason" steinsmiður, Fossi, Húsavík. Yfirsmiður var "Páll Kristjánsson" smiður og kaupmaður á Húsavík. Þekktir nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð. Þetta er listi yfir þekkta nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð. Bæjarstjóri Akraness. Skjaldarmerki AkranessAkranes fékk kaupstaðarréttindi 1942. Leiðsögutilgáta. Leiðsögutilgáta (eða leiðsögugetgáta) er tilgáta, sem styðst við staðreyndir, þótt hún sé ekki fullkomlega staðfest af reynslunni. Stuðst er við leiðsögutilgátur í rannsóknarvinnu af ýmsu tagi, en sá sem rannsakar reynir þó að vera við því búinn að sjá eitthvað óvænt sem brýtur í bága við leiðsögugetgátuna, annars stjórnar kenningin en ekki staðreyndirnar. Menn leggja þó alltaf mismikla áherslu á hversu traustar staðreyndirnar eru eða hvernig þær eru uppbyggðar þegar menn leggja út frá leiðsögutilgátu. Sigurður Nordal hélt útvarpserindi árið 1940 sem nefndist: "Líf og dauði", og fjallar um trúarbrögð og mannlífið, dauðann og framhaldslífið. Í því stendur: „[...] ég geri ráð fyrir, að kenningar allra trúarbragða, líka kristninnar, séu ekki nema leiðsögutilgátur.“ Miðlunartillaga. Miðlunartillaga er sáttaumleitun milli tveggja einstaklinga t.d. í dómsmálum eða stéttarfélags og vinnuveitanda í launabaráttu þeirra fyrrnefndu. Miðlunartillaga er oftar en ekki sáttatiltraun sem reynir að fara bil beggja (þ.e. miðla málum). Miðlunartillagan er þá lögð fram fyrir t.d. stéttarfélagið og kröfuhafar kjósa um að fella hana eða ganga að henni. Jón Múli Árnason. Mynd af Jóni Múla og Louis Armstrong á bakhlið hljómplötu með lögum Jóns Múla Jón Múli Árnason (31. mars 1921 – 1. apríl 2002) var útvarpsmaður hjá Ríkisútvarpinu í áratugi og sem slíkur ein þekktasta „útvarpsrödd“ síns tíma. Jón Múli gaf út þriggja binda ævisögu sem hét: "Þjóðsögur Jóns Múla" I, II og III. Jón Múli fæddist á Vopnafirði. Foreldrar hans voru "Árni Jónsson" í Múla, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, og "Ragnheiður Jónasdóttir" frá Brennu í Reykjavík. Jón Múli varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1940 og stundaði nám við heimspekideild og læknadeild Háskóla Íslands 1941 til 1942. Hann lagði stund á nám í hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1945 til 1946 og einnig söngnám á árunum 1951 og 1952. Jón Múli starfaði hjá Ríkisútvarpinu frá 1946 til 1985. Hann var þar fréttamaður, þulur, fulltrúi í tónlistardeild og leiklistardeild, auk þess sem hann sá um dagskrárgerð. Hann var ekki síst þekktur fyrir kynningar sínar á djasstónlist í útvarpinu. Jón Múli var virkur félagi í Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu. Hann hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðum á Austurvelli og árás á Alþingishúsið 30. mars 1949, en var náðaður. Hann var um skeið launaður starfsmaður MÍR, Menningartengsla Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, eins og hann segir frá í sjálfsævisögu sinni. Fór hann í boðsferðir til Sovétríkjanna og hélt oft uppi vörnum fyrir þau opinberlega. Meðal annars hélt hann því fram 1980 að Sovétmenn hefðu ekki ráðist inn í Afganistan, heldur veitt umbeðna aðstoð „sem betur fer“. Hann sagði 1981 að „fasískur ruslaralýður“ kæmi fram í nafni Samstöðu í Póllandi og fagnaði setningu herlaga. Sagði hann: „Ég vona, að ráðstafanirnar komi ekki of seint til þess að bæta fyrir skemmdarverk fyrrnefnds hyskis og Pólverjar fái að byggja æ fegurra þjóðlíf undir forystu kommúnistaflokks Póllands. Hann lengi lifi.“ Jón Múli var fulltrúi Alþýðubandalagsins í útvarpsráði 1978–1982. Jón Múli var einn af stofnendum Lúðrasveitar verkalýðsins árið 1953, lék á kornett með sveitinni í tæpa tvo áratugi og var gerður að heiðursfélaga lúðrasveitarinnar árið 1991. Hann var einnig þekkt tónskáld, samdi meðal annars tónlist við leikritið "Deleríum Búbónis", sem bróðir hans, Jónas Árnason, var meðhöfundur að. Árið 1981 gáfu SG - hljómplötur út plötuna Lög Jóns Múla Árnasonar. Er þar safnað saman flestum vinsælustu lögum Jóns Múla en sum þeirra höfðu áður verið gefin út á litlum plötum. Jón Múli var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Þórunn Sceving Thorsteinsson, og áttu þau eina dóttur. Önnur kona hans var Guðrún Jóna Thorsteinsson, og áttu þau tvær dætur. Þriðja kona hans var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, og áttu þau eina dóttur, Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Líkrán. Líkrán er það þegar líki er rænt í einhverjum tilgangi, t.d. til að nota það til galdra s.s. uppvakninga eða til að hafa fjármuni út úr fjölskyldu hins látna. Líkrán getur einnig verið það að stela úr líki, s.s. gylltar tennur. Líkrán getur farið fram án opnun grafar, enda hægt að stela líki (eða úr líki) áður en það er grafið. Oftast er þó um að ræða lík úr gröfum. Ekki má rugla líkráni saman við grafarráni, þar eð grafarrán er oftast stuldur eða rán á verðmætum úr ríkmannlegri gröf, þó við grafarrán geti auðvitað einnig komið til líkráns. Þessi tvö hugtök eru þó oft á reiki. Einkamerki. Einkamerki er tegund númeraplötu bíls eða annars farartækis þar sem greitt hefur verið fyrir svokallað einkanúmeri sem er stafa- eða talnaruna á plötunni; en upphafsstafir eða nöfn eru oft valin. Á Íslandi. Einkamerki á íslenskum bifreið og -hjólum og mega vera 2-6 bókstafir eða tölustafir á lengd. Áletrunin má hvorki stangast á við íslenskt málfar né vera líkleg til að særa blygðunarkennd. Einkanúmer voru fyrst gefin út í júní 1996 (fyrstu númerin voru "ÍSLAND" og "RAGNAR") og frá þeim tíma og til febrúar 2000 hafa 1.652 einkanúmer verið gefin út. Útgáfa einkamerkja hefur aukist stöðugt en fyrsta árið voru gefin út 97 merki, árið 1999 voru gefin út 752 merki, en fjöldi einkanúmera sem pöntuð frá janúar til september 2008 voru 943 talsins. Gjaldur fyrir rétt einkamerkis er 25.000 kr. en við það leggjast 5.200 kr. fyrir framleiðslukostnað og 500 kr. fyrir skráningu á ökutæki. Oft ágirnast þjófar einkanúmer, en árið 2003 var þremur einkanúmerum stolið á Akureyri. Samkvæmt umboðsmanni Alþingis telur að Umferðarstofu sé ekki er heimilt að taka gjald fyrir það að endurnýja einkanúmer. Berkeley, Kaliforníu. Horft yfir Berkeley frá Berkeley-hæðum. Berkeley er borg í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hún er staðsett í norðanverðri Alameda-sýslu, norðan við Oakland á austurströnd San Francisco-flóa. Íbúar Berkeley eru um 101.000. Berkeley er þekkt fyrir að vera ein frjálslyndasta borg Bandaríkjanna. Borgin var miðstöð ýmissa baráttuhreyfinga fyrir mannréttindum og málfrelsi á sjöunda áratugnum. Í borginni austanverðri er einn þekktasti háskóli Bandaríkjanna, Kaliforníuháskóli í Berkeley. Verðandi (2006-2008). "Verðandi" er íslenskt menningartímarit fyrir framhalds- og háskólanema sem var gefið út af Guðmundi R. Svanssyni. Það var gefið út frá september 2006 til haustsins 2008, en eftir efnahagshrunið var frekari útgáfu frestað. Blaðinu var dreift í öllum framhaldsskólum, háskólum, og í götudreifingu á höfuðborgarsvæðinu á nágrannabyggðalögum. Fyrsti ritstjóri Verðandi var Sindri Freyr Steinsson, og síðari ritstjórar voru Daníel Tryggvi Thors, Kristján Skúli Skúlason og Jón Ingi Stefánsson. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar (oft kallað Sigurjónssafn) er listasafn, yst á Laugarnestanga, yfir verk Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara. Safnið er sjálfseignarstofnun og starfar eftir skipulagsskrá frá 1989. Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns, veitir safninu forstöðu. Samband íslenskra skólalúðrasveita. Samband íslenskra skólalúðrasveitir hefur frá upphafi staðið fyrir landsmótum og stuðlað að útgáfu á íslenskum útsetningum fyrir skólalúðrasveitir. Hátt í 40 sveitir tengdar tónlistarskólum, grunnskólum og öðrum skólum taka þátt í þessum verkefnum. Forsögu SÍSL má rekja aftur til ársins 1969, þegar nokkrir stjórnendur skólalúðrasveita hófu samstarf. Var þetta gert fyrir frumkvæði frá Seltjarnarnesi en þar voru fyrstu mótin haldin, á hverju ári frá 1969 til 1974. Helstu verkefni SÍSL hafa frá upphafi verið að standa fyrir landsmótum annað hvert ár og stuðla að útgáfu á íslenskum útsetningum fyrir skólalúðrasveitir. Undanfarin 10 ár hefur starfsemi Lúðrasveitar Æskunnar einnig verið fyrirferðamikill hluti starfsins. SÍSL hefur staðið fyrir því að fá til landsins erlenda stjórnendur til að stjórna LÆ og hafði einnig frumkvæði að fyrstu hljómsveitarkeppninni sem haldin var í Reykjanesbæ þann 1. júní síðastliðinn. Árið 1999 gengu samtökin í NoMU, Nordisk Musik Union og hefur það samstarf reynst samtökunum mjög heilladrjúgt. NoMU hefur m.a. styrkt Skólalúðrasveit Grafarvogs til Noregsfarar og liðsinnt við val á norskum stjórnanda fyrir Lúðrasveit Æskunnar. Skólaskrifstofa Reykjavíkur. Skólaskrifstofa Reykjavíkur er núverandi Menntasvið Reykjavíkur. Sviðsstjóri Menntasviðs árið 2008 er Ragnar Þorsteinsson. Orkneyjajarlar. Orkneyjajarlar voru upphaflega norskir jarlar sem fóru með völd í Orkneyjum, Hjaltlandi og hluta af Katanesi og Suðurlandi nyrst á Skotlandi. Jarlarnir voru löngum nokkuð sjálfstæðir, en stjórnuðu þó Orkneyjum og Hjaltlandi í umboði Noregskonungs. Sum þeirra svæða sem þeir réðu yfir á meginlandi Skotlands þágu þeir síðar í lén af Skotakonungi. Um skeið réðu jarlarnir einnig Suðureyjum. Norskir Orkneyjajarlar. Fyrsti Orkneyjajarlinn var Rögnvaldur Eysteinsson Mærajarl (í Noregi). Haraldur hárfagri gaf honum jarlsnafn þar í sonarbætur, en Rögnvaldur vildi ekki setjast að í eyjunum og gaf Sigurði bróður sínum jarlsdæmið sama dag. Jarlarnir sem á eftir fylgdu, allt til 1232, voru afkomendur þeirra Rögnvalds og Sigurðar. Af Rögnvaldi voru einnig komnir Rúðujarlar, eða Hertogar af Normandí. Um 1195 tóku Orkneyingar þátt í uppreisn gegn Sverri konungi, og sendu til Noregs herflokk sem kallaður var „Eyjarskeggjar“. Sverrir vann sigur á þeim og refsaði Orkneyingum með því að slá eign sinni á helstu höfðingjasetur í eyjunum. Jarlinn varð þá formlega norskur lénsmaður og Hjaltland tekið undan hans stjórn. Upp úr því fór jarlsdæmið að veikjast verulega. Norska jarlsdæmið í Orkneyjum var oft undir samstjórn bræðra eða frænda. Skoskir jarlar undir norsku krúnunni. Árið 1231 dó karlleggurinn af norsku jarlaættinni út. Árið eftir fórst skip með öllum helstu höfðingjum eyjanna, sem voru á leið frá Noregi. Hákon gamli Noregskonungur brá þá á það ráð (1236) að skipa sem jarl mann af skoskri höfðingjaætt (Angus-jarlar), sem átti ættir að rekja til Orkneyjajarla, og fóru afkomendur hans með völd í Orkneyjum a.m.k. til 1321. Þá voru tengslin við Noreg farin að trosna, og fór svo að Orkneyjar komust undir yfirráð Skotakonungs. Orkneyjajarlar, endurreistir í þriðja sinn (1696). Líklegur arftaki, Oliver St John, greifi af Kirkjuvogi (f. 1969) Lamborghini. Hámarkshraði þeirra er um 310-340 km/klst og jafnvel allt að 390 km/klst. Þverganga. Þverganga, innan stjörnufræði, kallast sá atburður þegar geimfyrirbæri ber við annað slíkt, þ.a. annað þeirra skyggir á hitt, að hluta til eða alveg, frá athuganda séð. Í sólkerfinu er talað um þvergöngu þegar reikistjarna eða tungl gengur fyrir annað slíkt eða sólina. Frá jörðu sjást stöku sinnum þvergöngur Merkúrs og Venusar, þegar þeir ganga milli jarðar og sólar, þ.a. skuggar þeirra falla á jörðu. Árni Þórarinsson (rithöfundur). Árni Þórarinsson (f. 1. ágúst 1950) er íslenskur blaðamaður og rithöfundur sem er þekktastur fyrir kvikmynda- og tónlistargagnrýni sína í Morgunblaðinu og á síðari árum glæpasögur sínar. Árni skrifaði handrit að einum þætti þáttaraðarinnar "Pressan" sem var sýnd á Stöð 2 vorið 2008. Guðrún Lárusdóttir. Guðrún Lárusdóttir (fædd 8. janúar 1880 á Valþjófsstað í Fljótsdal, dáin 20. ágúst 1938 var íslenskur rithöfundur, bæjarfulltrúi í Reykjavík 1912 – 1918 og þingkona tvö kjörtímabil, fyrst óflokksbundin árin 1930 – 1934 og svo fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 1934 – 1938. Guðrún var önnur íslenska konan til þess að vera kosin á Alþingi (hin fyrri var Ingibjörg H. Bjarnason) en sú fyrsta til þess að vera kosin fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðrún lét lífið í bílslysi við brú á Tungufljóti þar sem hún var á ferð með eiginmanni sínum Sigurbirni, guðfræðingi og kennara, tveimur dætrum, Guðrúnu Valgerði og Sigrúnu Kristínu og einkabílstjóra þegar bílinn fór út af veginum og út í ána. Bílstjórinn og Sigurbjörn björguðust en dætur hennar drukknuðu með henni. Þetta var eitt fyrsta alvarlega bílslysið sem átti sér stað á Íslandi. Ævi. Faðir Guðrúnar var Lárus Halldórsson, þingmaður og prestur. Móðir hennar var Kirstín Katrín Pétursdóttir Guðjohnsen, húsmóðir en faðir hennar Pétur Guðjohnsen var einnig þingmaður. Guðrún var þriðja systkynið í hópi sex og árið 1885 fluttist fjölskyldan til Reyðarfjarðar þar sem Lárus faðir hennar gerðist prestur fríkirkjusafnaðarins. Guðrún gekk ekki í skóla heldur hlaut menntun í heimahúsi. Rétt fyrir aldamótin, 1899 fluttist fjölskylda hennar svo til Reykjavíkur. Árið 1902 giftist Guðrún Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni, presti og stofnanda elliheimilisins Grundar. Guðrún var húsfreyja í Ási á Sólvöllum í Reykjavík frá 1906 til æviloka. Hún og Sigurbjörn eignuðust alls tíu börn en helmingur þeirra dóu ung og barnlaus. Guðrún sat í bæjarstjórn Reykjavíkur árin 1912 – 1918 og var í skólanefnd. Hún var fátækrafulltrúi í Reykjavík 1912 – 1923 og svo aftur 1930 – 1938. Hún var mjög virk í ýmsu félagsstarfi, hún var í stjórn KFUK frá 1922, þar af formaður 1928 – 1938 og í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar. Þá var hún formaður Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík frá 1926, sömuleiðis til æviloka. Hún kom að stofnun Húsmæðrafélags Reykjavíkur og var fyrsti formaður þess 1935 – 1938. Urriðafossvirkjun. Urriðafossvirkjun er óreist virkjun við Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár. Virkjunin var fyrst á teikniborðinu árið 1928, en vegna fjárskorts var ekki farið út í framkvæmdir. Urriðafossvirkjun er aftur komin á teikniborðið, en er mjög umdeild. Fyrirhuguð virkjun verður u.þ.b. 130 MW að afli og orkugeta virkjunarinnar verður allt að 980 GWh/ári. Framkvæmdaraðili er Landsvirkjun. Virkjunin. Urriðafossvirkjun er ein þriggja vatnsaflsvirkjana sem fyrirhugað er að reisa í neðri hluta Þjórsár. Gangi áætlanir eftir verður hún þeirra stærst, 130 MW að afli og verður orkugeta hennar 980 GWh/ári. Nafn virkjunarinnar kemur frá Urriðafossi í Þjórsá. Gert er ráð fyrir að inntakslón virkjunarinnar, Heiðarlón, verði myndað með stíflu í Þjórsá við Heiðartanga og stíflugörðum á vesturbakka árinnar. Einnig er gert ráð fyrir að inntaksmannvirki verði í Heiðartanga og stöðvarhús verði neðanjarðar nærri Þjórsártúni. Frárennslisgöng munu liggja frá stöðvarhúsinu og opnast út í Þjórsá neðan Urriðafoss. Vatnasvið Þjórsár er um 7.600 km2 að stærð og er meðalrennsli árinnar 344 m3/sek. Virkjað rennsli verður 370 m3/sek. Áætluð hæð Heiðarlóns er 50 m.y.s. og mun stærð lónsins við þá hæð vera um 9 km2. Heildarlengd á stíflum og görðum verður um 7.600 m og verður mesta hæð þeirra 11 m. Stöðvarhúsið sjálft verður neðanjarðar og verður það 62 m að lengd, 16,3 m að breidd og 48 m langt. Mun stöðvarhúsið innihalda tvær 65 MW Kaplan vatnsvélar. Fallgöng verða tvö og verða hvor göngin 50 m löng og 7 m breið. Þá verða reist um 3000 m frárennslisgöng, 17 m há og 13,5 m breið. Virkjað fall verður 40,6 m. Áhrifa gætir víða. Framkvæmdasvæði virkjunarinnar mun ná til fjögurra hreppa í tveimur sýslum. Í Árnessýslu fellur svæðið undir Flóahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Í Rangárvallasýslu tilheyrir það Ásahreppi og Rangárþingi ytra. Um 20 kílómetrar eru í næstu þéttbýlisstaði beggja vegna Þjórsár og Þjóðvegur nr. 1 liggur um neðri hluta framkvæmdasvæðisins, því má segja að framkvæmdasvæðið sé í alfaraleið. Helsta landnotkun á framkvæmdasvæði er landbúnaður og kemur fyrirhugð framkvæmd til með að hafa áhrif á um 20 jarðir. Náttúrufar er fjölbreytt innan framkvæmdasvæðisins en áhrifa mannsins gætir þar víðast hvar og nokkur röskun hefur þegar orðið. Gróðurfar er nokkuð fjölbreytt á svæðinu og votlendi er að finna á nokkrum stöðum innan þess. Á svæðinu eru einnig eldhraun (Þjórsárhraunið mikla), strengir og flúðir í Þjórsá og heitar laugar en engin friðlönd eða friðlýst náttúruvætti. Fuglalíf er nokkuð fjölbreytt á svæðinu og sambærilegt við önnur lík svæði á Suðurlandi, eru mófuglar þar í meirihluta. Einnig er nokkuð um fornleifar á fyrirhuguðu virkjanasvæði og eru nokkrar þeirra taldar hafa hátt minjagildi. Framkvæmdir tengdar virkjuninni. Fyrir utan þær framkvæmdir sem tilheyra virkjuninni sjálfri þurfa aðrar framkvæmdir einnig að eiga sér stað svo virkjunin starfi eins og áætlanir gera ráð fyrir. Ís- og krapamyndun í Þjórsá getur haft óæskileg áhrif og til að sporna við því er ætlunin að dýpka farveg árinnar á um 3 km kafla ofan Heiðarlóns, upp undir Árnessporð. Einnig þarf að leggja vegi að helstu mannvirkjum og athafnasvæðum. Ekki er gert ráð fyrir að nýjar námur verði opnaðar vegna virkjunarinnar þar sem jarðvinna í tengslum við framkvæmdina sjálfa muni sjá fyrir nægjanlegu efni. Umframefni verður komið fyrir á landi. Einnig er gert ráð fyrir að flutningskerfi Landsvirkjunar verði nýtt til orkuflutninga en það krefst breytinga á Búrfellslínu 2 sem liggur í næsta nágrenni við fyrirhugaða Urriðafossvirkjun. Teikning frá 1918 eftir Gottfred Sætersmoen sem sýnir mögulega útfærslu Urriðafossvirkjunar. Títan-félagið hyggur á virkjun. Hugmyndir um virkjun neðri hluta Þjórsár hafa verið til allt frá fyrri hluta 20. aldar. Árið 1928 veitti Alþingi atvinnumálaráðherra heimild til að leyfa Títan-félaginu norska að reisa 112 MW raforkuver við Urriðafoss, leggja þaðan háspennulínu og járnbraut til Reykjavíkur og reisa þar verksmiðju til framleiðslu á köfnunarefnisáburði. Heimild Alþingis var bundin því skilyrði að framkvæmdir væru hafnar 1. júlí 1933. Að öðrum kosti félli hún niður. Framkvæmdir voru ekki hafnar þá og því féll heimildin niður. Aðalorsök þess að menn hófust ekki handa var annars vegar heimskreppan og hins vegar ný tækni til framleiðslu köfnunarefnisáburðar sem ekki byggðist á raforku. Upphaf og undirbúningur. Samkvæmt 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var ljóst í upphafi að meta þyrfti umhverfisáhrif fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar þar sem uppsett afl hennar yrði meira en 10 MW. Í ágúst 2001 lagði Landsvirkjun fram tillögu að matsáætlun. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var á þá leið að fallist var á tillöguna með athugasemdum. Er ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir hófst vinna við gerð matsskýrslunnar og lauk þeirri vinnu sumarið 2003 þegar skýrslunni var skilað til Skipulagsstofnunar til athugunar. Í ágúst 2003 úrskurðaði Skipulagsstofnun í málinu og féllst á framkvæmdina með skilyrðum. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður og í apríl 2004 lá fyrir úrskurður umhverfisráðherra sem staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar með viðbótarskilyrðum. Enn er unnið að undirbúningi. Miklar deilur hafa staðið um framkvæmd Urriðafossvirkjunar og annarra fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Hefur ágreiningur milli hagsmunaðila haft mikil áhrif á framgang undirbúningsvinnunnar. Landsvirkjun mun halda áfram undirbúningi vegna virkjananna auk þess sem beðið er niðurstöðu Rammaáætlunar sem fjallar um virkjanakosti í Neðri-Þjórsá. Ólympíuleikar þroskaheftra. Ólympíuleikar þroskaheftra eða Heimsleikar seinfærra og þroskaheftra eru alþjóðlegt íþróttamót fólks með vitsmunavanþroska sem er haldið fjórða hvert ár. Ólympíuleikarnir voru fyrst haldnir 20. júlí í Chicago árið 1968 af samtökunum "Special Olympics" sem Anne McGlone Burke, íþróttakennari, stofnaði með stuðningi Eunice Kennedy Shriver, systur Bandaríkjaforseta. Hverfuætt. Hverfuætt er ætt flatfiska sem á heimkynni sín í ísöltum sjávarhöfum Norður-Atlantshafsins og eins í Miðjarðar- og Svartahafi. Við Ísland hafa fundist fjórar tegundir fiska af hverfuætt, sandhverfa, stórkjafta, slétthverfa og litli flóki. Handhverfa. Handhverfa er í efnafræði efni sem hafa sömu frumefnasamsetningu en mismunandi byggingarformúlu, og eru í raun spegilmyndir hvort af öðru. Basjkortostan. Basjkortostan (á rússnesku: Респу́блика Башкортоста́н; á basjkírisku: Башҡортостан Республикаһы) eða Basjkíría (Башки́рия), er sjálfstjórnarlýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins sem nær frá vestanverðum hlíðum Suður-Úralfjalla í austri að aflíðandi hæðum og sléttum Bugulma-Belebey í vestri. Landið sem er í suðaustur Evrópuhluta Rússlands er 143.600 ferkílómetrar. Íbúar eru 4,1 milljónir af ólíku þjóðerni: 36% Rússar, 30% Basjkírar og 24% Tatarar. Höfuðborgin er Ufa með 1,5 milljón íbúa. Landlýsing. Kortið sýnir legu Lýðveldisins Basjkortostan innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis Fjallið Yamantau, er hæsti punktur suðurhluta Úralfjalla, lækkar til suðurs og vesturs, með skógivaxin fjöllin mynda umgjörð Belaya árinnar. Belaya kemur frá suðurhluta Úralfjalla, streymir suðvestur og þá norðvestur, og skilur að fjallahéruðin í austur og vesturhluta lýðveldisins. Áin er meginvatn Kama árinnar sem síðar myndar ána Volgu. Kalt Síberíuloftið hefur mikil áhrif á rakt meginlandsloftslagið í lýðveldinu. Hitastig getur orðið allt að -45 °C á veturna og 36 °C á sumrin. Í suðurhluta lýðveldisins er heitur og þurr vindur seint á vorin og sumrin. Regn er breytilegt 400-500 mm á gresjunum til 600 mm í fjallahéruðum. Saga. Fyrsta byggð á landsvæði Basjkortostan má rekja til síðari hluta steinaldar ("paleolithic"). En það var fyrst á bronsöld sem byggð örvaðist. Mikil kunnátta var í framleiðslu bronsverkfæra, vopna og skreytinga. „Basjkírar“ eru fyrst þekktir á 9. öld. Kort af Lýðveldinu Basjkortostan. Höfuðborgin Ufa er fyrir ofan miðju landsins Á 10. öld, breiddist Íslam út meðal basjkíra, og varð ríkjandi trúarbrögð á 14. öld. Á 16. öld skiptist landsvæði nútíma Basjkortostan á milli Kazan ríkisins og Síberíu Khans og ríkis Gullnu hjarðarinnar og vesturhluti mongólska keisaradæmisins. Landið varð síðan hluti Rússlands árið 1552 eftir að Ívan grimmi hertók borgina Kazan. Á árunum 1554-1555 óskuðu fulltrúar basjkírskra ættbálka eftir því að ríkið gengi í ríkjasamband við Moskvu. Árið 1574 stofnuðu Rússar borgina Ufa, sem nú er höfuðborg og stærsta borg lýðveldisins. Um miðja 16. öld tók Bashkiria á sig æ meir mynd sem eitt hinna rússnesku ríkja. Árið 1798 var Andlegt þing rússneskra múslima stofnað sem var mikilvægt skref rússneska Zarsins að viðurkenna rétt Basjkíra, Tatara og annarra múslimaþjóða til að iðka íslam. Upp úr miðri 18. öld hófst mikilvæg kopar- og járnframleiðsla á svæðinu. Árið 1919 varð landið sjálfstjórnarlýðveldi innan Sovétríkjanna í kjölfar rússnesku byltingarinnar. Á árunum 1919-1991 var hið formlega heiti Sjálfstjórnarlýðveldið Basjkir í Ráðstjórnarríkjunum (á rússnesku: Башкирская Автономная Советская Социалистическая Республика). Efnahagur. Basjkortostan, sem er hluti af efnahagssvæði kenndu við Volgu í Rússlandi, hefur einkum þróað landbúnað og iðnað. Lýðveldið er ríkt af fjölbreyttum auðlindum. Olía og jarðgas eru unnar nálægt borgunum Ufa og Neftekamsk í norðvestri, í borgunum Belebey í vestri, og í Ishimbay við miðja Belaya. Járn og mangan er unnið í Úralfjöllum, kopar í suðaustri, og salt nálægt borginni Sterlitamak. Úr opnum námum koma efni í gler og sement. Olíuframleiðsla, olíuhreinsun og -vinnsla eru afar mikilvægar atvinnugreinar í lýðveldinu. Helstu olíuhreinsunarstöðvar eru við Ufa, Ishimbay og Salavat eru tengdar svæðisbundnu neti olíuleiðsla lýðveldisins og nágrannalýðveldisins Tatarstan. Miðstöðvar járn- og stálframleiðslu eru í Beloretsk og Tirlyansky, sem framleiða stálkapla, víra, og aðrar gerðir stáls sem notað eru við framleiðslu á vélaverkfæra, búnað fyrir olíu- og námuvinnslu, mótora, rafmagnskapla og símabúnað. Efnaiðnaðurinn notar margvíslegar olíu- og gasvörur, og timburiðnaður framleiðir viðarspón, húsgögn og pappír fyrir framleiðslu. Við borgirnar Ufa, Sterlitamak, Ishimbay, Yermolaevo, Salavat og Karmanovo eru stórar virkjanir. Landbúnaður er mikilvægur í árdal Belaya. Helstu landbúnaðarafurðir eru rúgur, hafrar, korn (maís), hör, sykurrófur, kartöflur og sólblóm. Grænmetismarkaðir blómstra nálægt Ufa og Sterlitamak, en ræktun nautgripa, sauðfjár og geita er aðallega við Úralfjöllin. Landið er þekkt fyrir hestaræktun og býflugnabú eru mjög útbreidd. Hunang frá Basjkortostan er þekkt víða um heim. Járnbrautir og vegir hafa miðstöð sína í höfuðborginni frá Ufa, en þar er einnig alþjóðaflugvöllur. Einn af helstu járnbrautaleiðum yfir Úralfjöllin fara í gegnum höfuðborgina. Járnbrautakerfið er byggt til annarra iðnaðarborga lýðveldisins; að borginni Magnitogorsk og upp að fjallahéruðum lýðveldisins. Efnahagur Basjkortostan byggir að stóru leiti á olíuvinnslu. Iðnaður sem hefur verið einkavæddur hefur að miklu leyti verið færður fjölskyldu Forseta lýðveldisins. Íbúar. Íbúar Basjkortostan samanstanda af Rússum (36%), Basjkírum (30%), Tatörum (24%), Sjúvas (3%), Mari (3%), Úkraínumönnum (1%) og Mordvinia ættflokknum (1%). Meirihluti þeirra býr í þéttbýli. Helstu borgirnar eru, auk höfuðborgarinnar Ufa, Sterlitamak og Salavat. Í lýðveldinu eru nokkrar stofnanir á háskólastigi, hundruð bókasafna og mörg leikhús sem hafa nokkur sýningar á basjkírisku. Meirihluti Basjkíra og Tatara eru múslimar. Flestir Rússar aðhyllast hins vegar Rússnesku Réttrúnaðarkirkjuna (Orthodox). Opinbert tungumál er rússneska og basjkírska. Nær allir íbúar tala rússnesku (~100%), um 34% tala tungu Tatar og 26% tala basjkírisku. Íbúafjöldi var áætlaður árið 2006 um 4.104.336. Vesturbæjarlaug. Vesturbæjarlaug er almenningssundlaug í vesturbæ Reykjavíkur. Hún var upprunalega byggð árið 1961, en gerðar hafa verið endurbætur 1976 og síðar meir. Barnalaugin er samteng aðallauginni sem er 25 m. á lengd. Þrír heitir pottar eru með mismunandi hitastig. Þar er einnig gufubað. Í Vesturbæjarlaug læra grunnskólabörn úr Melaskóla, Vesturbæjarskóla, Landakotsskóla og Grandaskóla sund. Ólafsfjarðarmúli. Ólafsfjarðarmúli er fjallið sem skilur Ólafsfjörð frá Eyjafirði. Í daglegu tali er hann oftast nefndur Múlinn en upprunalegt heiti hans er Vámúli. Ysti hnjúkurinn er nefndur Múlakolla (um 960 m y.s.). Menn hafa um aldir lagt leið sína fyrir Múlann um tæpar götur þar sem erfiðir farartálmar voru í veginum svo sem Stóragjá og Flagið. Upp úr 1960 var gerður bílfær vegur fyrir Múlann og þar með komst Ólafsfjörður í bílsamband við aðrar byggðir Eyjafjarðar. Yst í Múlanum lá vegurinn í 230 m hæð yfir þverhníptum björgum. Þar var Planið svokallaða, góður útsýnisstaður þaðan sem sást yfir Ólafsfjörð, inn Eyjafjörð, út til Grímseyjar og langt norður í Ballarhaf. Á fáum stöðum nýtur miðnætursól sín betur en séð frá Planinu. Vegurinn þótti hálfgerð glæfraleið eins og görutnar gömlu. Árið 1991 voru vígð jarðgöng gegn um Múlann, Ólafsfjarðargöng, þá lagðist vegurinn fyrir Múlann af en er nú notaður sem gönguleið. Í sjávarhömrum Múlans er Hálfdanarhurð sem þjóðsagan segir að sé fyrir helli miklum þar sem tröll búa. Hurðin er berggangur úr brúnleitu basalti og sker sig vel frá dökkum klettunum í kring. Um Ólafsfjarðarmúla kvað Jón Helgason í kvæðinu „Áföngum“: „Ærið er bratt við Ólafsfjörð [...]“. Avant. Avant er íslenskt fjármögnunarfyrirtæki á sviði öku- og atvinnutækja. Það var stofnað af tryggingarfélaginu Sjóvá og er nú dótturfélag Askar Capital. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Magnús Gunnarsson en Benedikt Árnason formaður stjórnar. Tengill. Avant er búið að sameinast landsbankanum TM Software. TM Software (áður Tölvumyndir) er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki. Einföld hreintóna sveifla. Einföld hreintóna sveifla er hreyfing sem er hvorki knúin né dempuð. Hreyfingin er lotubundin og endurtekur sig á ákveðnum bilnum á ákveðinn hátt. Pýtonslanga. Pýtonslanga er ættkvísl óeitraðra pythonidae-slangna sem fyrirfinnst í Afríku og í Asíu. Eins og er eru aðeins 7 tegundir þekktar. Stigveldi. Stigveldi (eða stigskipun) er stigskipt kerfi (manna, dýra, hluta eða hugtaka) þar sem hverri einstakri einingu eða einstaklingi er skipað á ákveðið þrep samkvæmt tilteknum greinimörkum. Dæmi um stigveldi er t.d. í norrænni goðafræði þar sem einn ásinn er æðstur, síðan breikkar píramídinn niður og neðst eru fjölmörg goð sem aðeins eru nefnd á nafn, þ.e. hafa minni þýðingu. Uppröðunin er stundum nefnd "stigveldisröðun". Stigveldi er talið til mikilvægra einkenna á nútímalegu skrifræði. Hafmey. Hafmey er þjóðsagnavera sem er í líki kvenmanns ofan mittis en með hreistraðan sporð eins og fiskur neðan og er sögð lifa í hafinu. Karlkyns hafbúi nefnist marbendill. Hafmeyjar og hafmenn (einu orði nefnd hafbúar) hafa verið viðloðandi þjóðsagnir mannkyns mun lengur en elstu menn muna. Það er fyrst í grískum bókmenntum sem minnst er á hafbúa. Rómverska skáldið Óvidíus segir að hafmeyjar hafi orðið til þegar galeiður Trójumanna brunnu í stríði og timbrið af þeim breyttist í hold og blóð hinna grænleitu dætra sjávar. Það er þó ekki eina kenningin um upphaf hafbúanna. Írar halda því fram að hafmeyjar séu gamlar og útskúfaðar kerlingar úr bænum St. Patricks. Samkvæmt þjóðsögum frá Líflandi eru hafmeyjar ungbörn sem drukknuðu og voru dæmd til að lifa í djúpi Rauðahafsins. Margir rugla saman hafmeyjum og sírenum þar sem hafmeyjar eru líka frægar fyrir söng sinn. Hafmeyjar lifa oft einnig í fljótum. Fræg er vatnamærin Lórelei, sem ærir ferjumenn á Rín með söng sínum. Þegar útliti hafmeyja er lýst eru þær vanalega mjög fagrar. Íslenskar þjóðsögur geta líka um hafmeyjar. Þær koma oft fyrir í líki kvenna sem geta afklæðst selsham og horfið í hann aftur. Samheiti. Hafmey á sér mörg samheiti á íslensku. Þau ertu til dæmis: "hafgúa", "hafgúfa", "hafgýgur", "hafmeyja", "hafmær" og "mardöll" (aðeins til í eintölu), "margýgja", "margýgur", "meyfiskur" og "sækona". Flotmeisa. Flotmeisa (fræðiheiti: "Parus major") er fugl sem telst til meisuættarinnar ("Paridae") og er flækingur á Íslandi. Kolsýra. a> er að mestu lausn vatns og koltvísýrings, sem myndar ögn af kolsýru. Kolsýra er sýra með efnaformúluna H2CO3. Orðið "kolsýra" er stundum haft um blöndu koltvísýrings og vatns, t.d. gosdrykkur, sem jafnframt inniheldur ögn af H2CO3. CO2 + H2O ⇔ H+ + HCO3- ⇔ H2CO3. Kolbogalampi. Kolbogalampi (eða kolbogaljós) er rafmagnsljós sem kom fram í upphafsskrefum þróunarinnar á glóðarperunni. Ljósið framkallaðist í boga milli tveggja skauta. Englendingurinn sir Humphrey Davy smíðaði fyrsta kolbogaljósið árið 1801. Núpsdalur. Núpsdalur er dalur í Miðfirði. Um hann rennur Núpsá. Austurárdalur. Austurárdalur er austastur dalanna þriggja sem liggja inn af Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu. í honum voru fimm bæir sem allir eru nú komnir í eyði nema einn, Skárastaðir. Íbúðarhúsinu í Hnausakoti er þó haldið við. Aðalökuleiðin að norðan inn á Arnarvatnsheiði liggur upp úr Austurárdal. Gömul reiðleið er upp úr Austurárdal og yfir Austurárdalsháls að Efra-Núpi í Núpsdal. Hún er kölluð "Lombervegur" og mun það vera vegna þess að bændurnir á Aðalbóli í Austurárdal og Efra-Núpi, sem báðir hétu Benedikt, voru vinir og ákafir lomberspilarar og fóru stystu leið milli bæjanna þegar þeir vildu sitja næturlangt að lomberspili. Einnig er reiðleið úr Austurárdal yfir í Fitjárdal. Mörg eru dags augu. "Mörg eru dags augu" er heimildamynd um samspil mannlífs og náttúru í Vestureyjum á Breiðafirði. Myndin var frumsýnd 1980 og er 75 mínútur í sýningu. Höfundar myndarinnar eru Óli Örn Andreassen kvikmyndagerðarmaður og Guðmundur Páll Ólafsson rithöfundur og líffræðingur. "Mörg eru dags augu" var ein af þeim kvikmyndum sem fengu styrk við fyrstu úthlutun úr Kvikmyndasjóði Íslands árið 1979. Hún var sýnd sumarið 1980 í Regnboganum með "Þrymskviðu" sem er 17 mínútna löng teiknimynd eftir Sigurð Örn Brynjólfsson. Langidalur (Vestfjörðum). Langidalur er dalur sem gengur út frá Ísafirði í botni Ísafjarðardjúps á Vestfjörðum. Djúpvegur (nr. 61) liggur um dalinn upp á Steingrímsfjarðarheiði. Þar voru áður margir bæir en nú aðeins einn í byggð. Ölkelda (Staðarsveit). Ölkelda er bær innan við Staðará í Staðarsveit Snæfellsbæ, um 13 km vestan við Vegamót, þar sem beygt er til Stykkishólms. Við bæinn er ósnortin ölkelda sem hann dregur nafn sitt af og er ölkeldan vinsæll áningarstaður ferðafólks, þar sem koldíoxíð (CO2) kemur upp með grunnvatninu svo af verður bragðgott ölkelduvatn. Umhverfis sjálfa ölkelduna eru hlaðnir veggir, um 1 m á hæð, sem þar voru hlaðnir fyrir nokkrum áratugum síðan og er ölkeldan á náttúruminjaskrá. Frá bænum Ölkeldu liggur vegur til norðvesturs upp að fjallgarðinum og má þaðan komast upp á Gráborg (930 m). Ölkelda (uppspretta). Ölkelda (úr "öl" + "kelda" sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum Jarðar. Eftir staðsetningu. Ölkeldur finnast um allan heim, og eru þær sumar heilsulindir. Á Íslandi. Flestar íslenskar ölkeldur er að finna á Snæfellsnesi, en einnig eru ölkeldur á Ölkelduhálsi í Hengli og við Leirá í Borgarfirði. Í ritverkum. Er þar líka sagt að ölkeldur bæti Snæfellsnesi það að hafa ekki heitt vatn. Reyndu þeir að flytja smá ölkelduvatn með sér til Kaupmannahafnar, en það skemmdist á leiðinni. Sölvadalur. Sölvadalur er dalur innst í Eyjafirði, næsti dalur fyrir austan Eyjafjarðardal. Þar voru mest 9 bæir í byggð en eru nú (2013) allir komnir í eyði nema Þormóðsstaðir og Eyvindastaðir. Sölvadalur gengur til suðausturs út úr Eyjafjarðardal við bæinn Gnúpufell. Sagt er að dalurinn dragi nafn sitt af gelti einum sem Helgi magri setti á land við Galthamar ásamt gyltu og fann síðan þremur vetrum síðar í Sölvadal og voru þar þá sjö tugir svína. Dalurinn er um 25 km langur og nokkuð víður yst. Aldrei var rafmagn frá landsveitum lagt í Sölvadal. Heimamenn komu sér upp heimarafstöðvum sem voru hin mesta meistarasmíð en oft máttu bændur berjast við válind veður og hættulegar aðstæður þegar bilun varð í rafstöðinni og þá oftast þegar aðstæður voru verulega slæmar vegna veðurs og ísa. Dalurinn væri ætíð harðbýll og hættulegur einkum vegna skriðufalla. Miklar skriður féllu að austanverðu árið 1934 og hjá Björk féll mikið skriða 1866. Snjóflóð drap fé á Draflastöðum 1877 og áður eru nefnd skriðuföll um 1950. Ægilegt snjóflóð féll á Ánastaði 1871 og var það um 540 faðma breitt. Það braut hús, banaði fé en mannbjörg varð með naumindum. Allir bæir austan Núpár voru komnir í eyði um og fyrir 1930. ISO 8601. ISO 8601 er staðall frá alþjóðlegu staðlastofnuninni ISO sem fjallar um hvernig tákna skuli dagsetningar, tíma innan dags, dagsetningu með tíma og tímabil. Staðalinn er hægt að nota alls staðar sem sem máli skiptir að koma dagsetningu á framfæri án þess að það fari milli mála hvað er átt við, t.d. í tölvusamskiptum eða vöruframleiðslu, hvort sem um tölvutækar, prentaðar eða skrifaðar upplýsingar er að ræða. Mörg ríki styðjast við staðalinn í meira eða minni mæli, ekki síst í Evrópu. Ártal er ávallt skrifað sem fjórir tölustafir, og núll (0) er notað til að fá rétta lengd á númeri mánaðar, dags og viku. Auk þess tiltekur staðallinn að vikan hefjist á mánudegi (sem er jafnframt fyrsti dagur vinnuviku), hvernig vikunúmer skulu reiknuð og fleira. Staðan á Íslandi. Íslenskur staðall IST EN 28601:1992 tekur e.t.v. á þessum málum hér á landi, en óljóst er hver raunveruleg staða staðalsins er. Dagatöl á Íslandi, prentuð og á vefnum, hefjast þannig ýmist á mánudegi eða sunnudegi. Þetta getur valdið ruglingi, sérstaklega ef vikunúmerin koma fram. Orsök misræmisins er kristin hefð, en einnig má ætla að það gæti áhrifa frá hugbúnaði upprunnum í Bandaríkjunum. Stafliður. Stafliður er hluti einhvers, t.d. ritaðs máls sem skipt er og merkt með bókstöfum a), b), c), o.s.frv.. Stafliðir er t.d. mikið notað sem undirkaflar lagagreina, t.d. eins og þegar eitthvað er sagt svo eða svo samkvæmt stjórnarskránni 34. gr. 1. staflið. Eða í viðskiptum, sbr.: að skuld einhvers skuli greidd svo eða svo eins og fram kemur undir tölulið XI. staflið a. Þverkraftur. Þverkraftur (einnig normal-kraftur) er kraftur í eðlisfræði táknaður með formula_1 (og stundum "N" eða "n") en hann er hornréttur á það yfirborð sem hann snertir. Hann er þáttur snertikrafts yfirborðs t.d. gólfs eða veggs. Stöðufræði. Dæmi um bita í jafnvægi. Samanlagt magn krafta sem verka á hann og hreyfing er núll. Stöðufræði er grein vélfræðinnar sem fjallar um byrð (krafta, snúningsátak eða hreyfingu) hlutar í jafnvægi. Hvítsmári. Hvítsmári (eða hrútafífill og börn nefna stundum sápublóm) (fræðiheiti: "Trifolium repens") er lágvaxin, fjölær jurt af ertublómaætt. Heimkynni hvítsmára eru Evrópa, Norður-Afríka og Vestur-Asía. Hvítsmári hefur verið fluttur víða annars staðar því hann er ágæt beitarjurt og hann er algengur á grassvæðum í Norður-Ameríku. Hvítsmári er niturbindandi eins og margar belgjurtir og skríður út til jaðranna og byggir jarðveginn upp. Oft má sjá grasvöxt inn í smárahringjunum. Skammferðarhalastjörnur. Skammferðahalastjörnur sem eru halastjörnur með „stuttan umferðartíma“ (innan við 200 ár) sem koma flestar frá Kuipersbeltinu. Þær eru búnar að hringsóla ótal sinnum umhverfis sólina hafa jafnframt losað sig við megnið af því efni sem lá áður frekar laust á yfirborðinu. Virknin á þeim stjörnum er að miklu leyti bundin við stróka sem stíga upp frá sprungum og glufum í yfirborðinu. Yfirborð þessara halastjarna er tiltölulega dökkt því dökkt ryk (m.a. kolefnissambönd) situr eftir þegar ísinn í ystu lögunum hefur gufað upp. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2008. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2008 var leikinn þann 4. október 2008 á Laugadalssvelli. KR-ingar kepptu á móti Fjölnismönnum. Þetta var í annað skipti á jafn mörgum árum sem Fjölnismenn komust í bikarúrslit og í annað skipti á þremur árum sem KR-ingar komust í bikarúrslit. KR-ingar unnu sinn 11. bikar eftir að Kristján Hauksson skoraði sjálfsmark undir lok venjulegs leiktíma. Nettó kraftur. Tveir kraftar (F1 og F2) sem eru laggðir saman til að mynda nettó kraftinn Fnet. Nettó kraftur (Fnet = F1 + F2 + …) er vigur sem samanstendur af tveimur eða fleiri kröftum sem verka á einn hlut. Nettó krafturinn er reiknaður með því að leggja saman þá vigra sem verka á hlutinn. Nettó kraft má einnig skilgreina sem sá heildarkraftur sem verkar á hlut þegar búið er að leggja alla krafta saman. Ungmennafélagið Afturelding. Ungmennafélagið Afturelding er íþróttafélag í Mosfellsbæ, stofnað 11. apríl 1909. Íþróttadeildir félagsins eru badminton, frjálsar, karate, körfubolti, taekwondo, tennis og knattspyrna. Karlalið þeirra í fótbolta leikur í 2. deild karla en kvennaliðið í Pepsi-deild kvenna. Afturelding spilar heimaleiki sína á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Liðið hefur einnig gervigrasvöll til afnota sem og æfingaaaðstöðu á Tungubökkum. Tregða. Tregða í eðlisfræði kallast þol eða andóf hluta gegn breytingu í hreyfingu, hvort sem um er að ræða breytingu á hraða eða stefnu. Tregða er eitt af grundvallar hugtökum sígildrar eðlisfræði eins og hún er skilgreind í 1. lögmáli Newtons, sem segir að hreyfing hlutar haldist óbreytt að því gefnu að á hann verki engir ytri kraftar. Taro Aso. Taro Aso (f. 20. september 1940) er 92. forsætisráðherra Japans (2008 - 2009) og formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Aso hefur verið á japanska þinginu frá árinu 1979. Taro Aso er fyrsti Kaþólski Forsætisráðherra Japans. Hann var kunnur íþróttamaður á yngri árum og keppti í skotfimi á Ólympíuleikunum 1976. Tengill. Aso, Taro Aso, Taro Thora Friðriksson. Frk. Thora Friðriksson (fullt nafn: Thora Frederikke Halldórsdóttir Friðriksson) (22. maí 1866 – 18. apríl 1958) var rithöfundur minningarbóka og höfundur einna fyrstu kennslubókar í frönsku á íslensku. Hún var einnig einn af helstu hvatamönnum að stofnun Alliance francaise á Íslandi 1911 og lengi heiðursforseti þess. Hún var sæmd heiðursmerkjum Frakklandsstjórnar, þ.e. "Officier d´ Académie" (1909), "Officier de L´Instruction publique" (1926) og "Chevalier de la Légion d´honneur" (1928). Hún var einnig aðsópsmikil í bæjarmálum Reykvíkinga og kvennadeild Slysavarnarfélags Íslands. Hún var dóttir Halldórs Kr. Friðrikssonar yfirkennara og konu hans Charlotte Karoline f. Degen, danskrar ættar, sem andaðist á Íslandi 1911. Ögn. Punktar eru oft notaðir til að tákna agnir Ögn eða eind er í eðlisfræði smár hlutur sem getur haft nokkra eðlisþætti eins og til dæmis rúmmál eða massa. Það sem má kalla ögn ræðst af aðstæðunum, það er að segja ef hlutur er lítill eða ómerkilegur miðaður við aðra, eða ef einkenni og uppbygging hlutsins skipta ekki máli, þá má kalla hann ögn. Til dæmis geta sandkorn á strönd verið talin agnir út af því að smæð eins sandkorns (sirka 1 mm) er óveruleg miðuð við stærð strandarinnar og einkenni einstaka sandkorna skipta ekki mál þegar um er að ræða ströndina. Hins vegar myndi sandkorn ekki vera kallað ögn ef það er miðað við t.d. frumeind. Ögn geta haft rafhleðslu og kallast þá "hlaðin ögn". Fræðigrein sem fjallar um agnir heitir agnaeðlisfræði. Þormóðsstaðir (hús). Þormóðsstaðir er hús í Reykjavík. Það stendur nálægt Reykjavíkurflugvelli og gömlum vegi sem hét Þormóðsstaðavegur. Smiður Andrésson. Smiður Andrésson (dáinn 8. júlí 1362) var hirðstjóri á Íslandi á 14. öld. Eyfirðingar felldu hann og nokkra menn hans í Grundarbardaga. Smiður og var að öllum líkindum norskur að ætt, bróðir eða ættingi Bótólfs Andréssonar sem áður hafði verið hirðstjóri, því að seinna er þess getið að Hrafn Bótólfsson lögmaður hafi verið grafinn á Hólum hjá Smiði frænda sínum. Smiður kom til landsins 1361 með Grindavíkurskipi og hafði tekið landið á leigu til þriggja ára með sköttum og skyldum. Hann virðist fljótt hafa aflað sér óvinsælda, þótti ganga hart fram í skattheimtu og er sagður hafa verið svallgjarn og djarfur til kvenna. Haustið 1361 risu norðlenskir prestar undir forystu séra Þorsteins Hallssonar á Hrafnagili upp á móti Jóni skalla Eiríkssyni Hólabiskupi og neituðu að viðurkenna hann sem yfirboðara sinn. Sáttafundur var á Hólum 14. apríl 1362 og var Smiður þar en ekki varð af sáttum. Um sumarið eftir Alþingi reið Smiður norður í Eyjafjörð með hóp manna, þar á meðal lögmennina báða, Jón skráveifu Guttormsson og Orm Snorrason, og ætlaði að kveða niður mótþróa Eyfirðinga. Séra Þorsteinn hafði þá siglt til Noregs með Þorsteini Eyjólfssyni á Urðum en Smiður kom á Grund í Eyjafirði daginn fyrir Seljumannamessu. Þar bjó þá Grundar-Helga, móðir Björns Jórsalafara. Sagan segir að Helga hafi veitt gestunum vel og hafi þeir orðið mjög ölvaðir. Smiður á að hafa heimtað konu í sæng til sín um kvöldið og menn hans einnig, en Helga húsfreyja sagði stúlkum þeim sem þjónuðu mönnunum til sængur að snúa við annarri skálminni á brókum þeirra svo þeim yrði tafsamt að klæða sig. En á meðan veislan stóð hafði hún látið sendimenn sína fara um sveitina og safna saman vopnfærum mönnum. Samtímaheimildir segja þó að Eyfirðingar hafi safnast saman þegar þeir fréttu af ferðum Smiðs og förunauta hans og hitt þá fyrir á Grund. Komu þeir að Grund snemma morguns, réðust til inngöngu og sló í bardaga. Smiður var vel vígur og er sagður hafa varist fimlega þótt drukkinn væri, stökk upp á skálabitana og hljóp á milli þeirra. Á endanum gat þó einhver komið lagi á háls hans og er sagt að höfuðið hafi lent í mjólkurtrogi húsfreyjunnar, en Helga hefði ekki viljað láta hella mjólkinni, heldur sagt „að saman skyldi slá öllu til grautargerðar“. Jón skráveifa féll einnig og fimm eða sex aðrir af mönnum Smiðs, en sex úr liði Eyfirðinga. Svínshvelaætt. Svínhvalir, nefjuhvalir eða nefjungar (fræðiheiti: "Ziphiidae") eru hvalategundir af undirættbálki tannhvala (fræðiheiti: "Odontoceti"). Þeir eru mun stærri en höfrungar en hafa lítið verið rannsakaðir. Þeir halda oftast til á reginhafi þar sem er mikið dýpi. Innan þessarar ættar eru þekktar 21 tegund en ekki er ólíklegt að fleir eigi eftir að finnast. Þær eru flokkaðar saman í fimm ættir (sumir líffræðingar telja þær sex). Lýsing. Afar lítið er vitað um vistfræði svínhvala og nokkrar tegundir eru einungis þekktar af beinafundum. Nokkrar tegundir hafa fyrst á síðustu áratugum fengið vísindalega umfjöllun. Allar tegundirnar nota óvenjulegar aðferðir við fæðuöflun. Í stað þess að festa ætið með því að bíta í það nota svínhvalir sogaðferð. Þessir hvalir hafa sérkennilega langa kjálka en trýnið minnir á andagogg. Tennur hafa því sem næst horfið í þróun þessara tegunda, þær fá einungis tennur í neðrikjálka. Hjá nokkrum tegundum eru það einungis karldýrin sem fá tennur, nokkrar tegundir fá eins konar vígtennur sem sem stingast út úr kjaftinum og minna á tennur villisvína. Allt eftir tegundum eru svínhvalir 3,5 til 13 metra á lengd og frá einu til fimmtán tonn á þyngd. Útbreiðsla og hegðun. Svínahvali má finna um öll úthöf en eru sjaldgæfir upp við strendur. Þeir eru þekktir fyrir að geta kafað niður á mikið dýpi. Þann 17. október 2006 mældist gáshnallur sem kafaði niður á 1 899 metra dýpi. Hugsanlega geta þeir farið enn dýpra. Oftast kafa þeir í 20 til 30 mínútur en köf í allt að 85 mínútur hafa skráðst. Við Ísland er andarnefjan (fræðiheiti: "Hyperoodon ampullatus") algengust af svínhvölum. Aðrar tegundir sem finna má í kringum landið eru gáshnallur (fræðiheiti: "Ziphius cavirostris"), króksnjáldri (fræðiheiti: "Mesoplodon densirostris") og svínahvalur sem einnig er nefndur norðsnjáldri (fræðiheiti: "Mesoplodon bidens"). Grund (Eyjafjarðarsveit). Grund er sögufrægur staður í Eyjafirði, nokkrum kílómetrum fyrir sunnan Hrafnagil. Bærinn var höfuðból um aldir og þekkt fyrir mikil landgæði. Við Grund stendur ein af merkilegri sveitakirkjum landsins, Grundarkirkja, en hana lét Magnús Sigurðsson ("Magnús á Grund") reisa árið 1905. Á Grund greindist hringskyrfi í búfé árið 1966. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins (FBA) var banki sem varð til úr Fiskveiðisjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Útflutningslánasjóði og Iðnþróunarsjóði. Bankinn var stofnaður 1. janúar 1998. Forstjóri bankans var Bjarni Ármannsson. Þann 15. maí árið 2000 sameinaðist FBA Íslandsbanka, og til varð Íslandsbanki-FBA hf. Kátir voru karlar á kútter Haraldi. "Kátir voru karlar á kútter Haraldi" er vinsælt sönglag. Lagið er samið um kútter sem gerði út frá Akranesi. Sá kútter var upphaflega frá Hull, og hét þá "William Boys". Sveinbjörn Egilsson skipstjóri, og síðar ritsjóri Ægis, var sendur út á fyrri hluta 20. aldar að kaupa og sækja kútter sem hét "Lusty" fyrir Geir Zoëga útgerðarmann. En Lusty var á veiðum þegar Sveinbjörn kom út, en kútterinn "William Boys" var tilbúinn til sölu. Sveinbjörn keypti skipið og sigldi því heim. Geir varð vondur er þeir komu heim með vitlaust skip og vildi ekki eiga það. Hann seldi það því Böðvari Þorvaldssyni á Akranesi og hann skírði það Harald. Það reyndist hið allra besta skip. Síðar átti það Geir Sigurðsson, en hann er einmitt höfundur textans. Hreppsnefndarkosningar á Akranesi. 1938 . Kosið var 30. janúar 1938. Þetta voru síðustu hreppsnefndarkosningarnar á Akranesi þar sem það hlaut kaupstaðarréttindi 1942 og því var næst kosið til bæjarstjórnar. Heimildir. Akranes Konungskoman 1921. Konungskoman 1921 er íslensk heimildarkvikmynd í 4 þáttum. Kvikmyndina tók Magnús Ólafsson og Peter Petersen ("Bíópetersen"). Hún var útbúin hjá Nord Film Co. í Kaupmannahöfn. Kvikmyndin fjallar um komu konungshjónana hingað til lands og sona þeirra: Friðrik ríkisarfa og Knud prins. Sviðslistir. Óperur. Í óperu blandar listamaðurinn saman munnlegri tjáningu, leik, söng. Í flestum óperum að þá eru tvær eða fleiri aðalpersónur þar sem þau eða þeir eða þær eru að leika og syngja um eitthvað sem er að gerast. Oftast eru óperur flokkaðar sem söngleikir en að vissu leyti eru þær ekki söngleikir. Óperur tjá og túlka tónverk og skala eftir tónlistarhöfund, þar sem tónlist er blandað ofan í leikverkið. Leikrit. Leikrit er mjög svipuð óperum nema að handrit kemur í stað tónverks og mælt mál í stað söngs. Upphaflega voru þó leikrit í bundnu máli og sungin í Grikklandi hinu forna. Listamaðurinn segir frá sögu eða sönnum atburði eða jafnvel sýnir rannsóknir. Söngleikir. söngleikir er nánast það sama og leikrit í smáatriðum, segja sögu eða lýsa sönnum atburði eða eitthvað annað sem listamanninum dettur í hug. Nema í söngleik er tjáð eins og í óperu, með tónlist söng og alls kyns brellum. Það sem er náskylt söngleik eru tónleikar nema að á milli laga í söngleik bætist við leikur og einhverju er komið fram. Munurinn á söngleik og óperu er sá að í söngleik er samið handrit og skrifaður er annaðhvort gamanleikur, drama eða hryllingur. Tökum sem dæmi ef gamaleikur er saminn er frekar valin lífleg og skemmtileg tónlist sem fer vel i eyru allra. En aftur á móti í óperu er fengið tónskáld og fær hann að semja heilt tónverk (óperu). Þegar tónverkið er tilbúið er samið handrit eftir tónverkinu; ef lagið er dapurt á sér stað dapur atburður í óperunni. Kvikmyndahátíð í Reykjavík. Kvikmyndahátíð í Reykjavík, áður Kvikmyndahátíð Listahátíðar í Reykjavík, er kvikmyndahátíð sem haldin er í Reykjavík. Fyrsta kvikmyndahátíðin var haldin í tengslum við Listahátíð í Reykjavík 2.-12. febrúar 1978 í kjölfar umræðu innan Bandalags listamanna þar sem kvikmyndagerðarfólki þótt sinn hlutur hafa verið rýr á fyrri listahátíðum. Framkvæmdastjóri listahátíðar var þá Davíð Oddsson en framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar var Friðrik Þór Friðriksson. Heiðursgestur var Wim Wenders og fóru flestar sýningar fram í Háskólabíói, en nokkrar í Tjarnarbíói. Kvikmyndahátíðin var síðan haldin annað hvert ár, sama ár og Listahátíð, en í upphafi 10. áratugarins minnkaði aðsókn ört og hrundi árið 1993 frá því sem áður hafði verið. Þá var rætt um að breyta fyrirkomulagi hátíðarinnar. Engin hátíð var haldin 1995 en 1996 var hátíðin endurreist sem Kvikmyndahátíð Reykjavíkur ótengd Listahátíð og haldin af Félagi kvikmyndagerðarmanna. Hátíðin var haldin árlega eftir það en lognaðist út af eftir 2001. Tengt efni. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) hefur verið haldin í Reykjavík frá 2004. Félag kvikmyndagerðarmanna. Félag kvikmyndagerðarmanna er félag kvikmyndagerðarfólks á Íslandi og á aðild að Bandalagi íslenskra listamanna fyrir hönd þeirra, annarra en kvikmyndaleikstjóra sem eru í Samtökum kvikmyndaleikstjóra. Félagið var stofnað 25. maí 1966 meðal annars í þeim tilgangi að vera samningsaðili kvikmyndagerðarmanna við hið nýstofnaða Ríkissjónvarp. Félagið gaf út tímaritið "Land og syni" frá 1995 en Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían hefur nú tekið við útgáfu þess og samnefnds vefrits. Stuttmyndadagar í Reykjavík. Stuttmyndadagar í Reykjavík er kvikmyndahátíð sem var haldin árlega í Reykjavík frá 1992 til 2002 og var endurreist vorið 2008. Hátíðin var upphaflega haldin af Kvikmyndafélagi Íslands, fyrirtæki Júlíusar Kemp og Jóhanns Sigmarssonar. Myndirnar voru sýndar á Hótel Borg 27. til 29. apríl 1992. Meðal fyrstu myndanna sem sýndar voru var "Sjúgðu mig Nína" eftir Óskar Jónasson og "Spurning um svar" eftir Sævar Guðmundsson og Filmumenn. 1993 var hátíðinni breytt í keppni þar sem veitt voru verðlaun fyrir bestu myndina. 40 myndir bárust það ár og fyrstu verðlaun hreppti stuttmyndin "Athyglissýki" eftir Reyni Lyngdal og Arnar Jónasson. Meðal verðlaunahafa í gegnum tíðina má nefna Róbert Douglas, Ragnar Bragason og fleiri sem hafa verið áberandi í gerð kvikmynda í fullri lengd. Árið 2008, eða sama ár og keppnin var endurreist var haldin í fyrsta skipti kvikmyndahátíðin Reykjavík Shorts & Docs þar sem veitt voru verðlaunin Silfurrefurinn fyrir bestu stuttmyndina annars vegar og bestu heimildarmyndina hins vegar. Kvikmyndaskoðun. Kvikmyndaskoðun, áður Kvikmyndaeftirlit ríkisins, er sex manna nefnd skipuð af menntamálaráðherra samkvæmt tillögum ráðherra félagsmála og dómsmála auk fulltrúa Félags kvikmyndagerðarmanna. Kvikmyndaskoðun er ætlað að framfylgja banni við framleiðslu eða innflutningi ofbeldiskvikmynda og sjá um úthlutun skoðunarvottorða sem eru forsenda þess að leyfi fáist til að sýna kvikmynd. Sjónvarpsstöðvarnar sjá þó sjálfar um skoðun þess efnis sem þær senda út í samráði við Kvikmyndaskoðun. Flokkanir. Lög um kvikmyndaeftirlit ríkisins voru fyrst sett á Íslandi árið 1932. Bréfsefni. Bréfsefni er haft um pappír og umslög, og oftast um þessa tvennu með vissu samræmdu útliti, sérmerkt notanda, hvort sem það er einstaklingur eða fyrirtæki. Fínt bréfsefni er stundum sett listrænum haus, letrið jafnvel gyllt og getur minnt á samruna skreytis og nafnspjalds. Orðið bréfsefni er á íslensku einnig haft um innihald bréfs (sbr.: "Nú er bréfsefnið ekkert annað en þakka þér fyrir seinasta bréf."). Spree. Spree er á sem rennur í gegnum miðborg Berlínar í Þýskalandi. Í Vestur-Berlín sameinast hún síðan ánni Havel (við Spandau), sem síðan sameinast Saxelfi (Elbe) og rennur þaðan í Norðursjó. Spree er 382 km að lengd. Hún á upptök sín syðst í Saxlandi, rétt við landamæri Tékklands. Helstu borgir við Spree eru Berlín og Cottbus. Helsta þveráin er Dahme, en þær flæða saman í Austur-Berlín. Spree er skipgeng frá Berlín nokkra tugi km í suðaustur. Þar tekur skipaskurðurinn Oder-Spree-Kanal við, sem gengur alla leið í fljótið Odru við pólsku landamærin. Slökkviliðsæfing í Reykjavík (kvikmynd). Slökkviliðsæfing í Reykjavík er íslensk kvikmynd sem var gerð árið 1906. Kvikmyndina gerðu þeir Peter Petersen ("BíóPetersen"), sýningastjóri í Gamla bíó, og Alfred Lind. Eins og nafnið gefur til kynna er hún um slökkviliðsæfingu hjá brunaliðinu í Reykjavík. Silfur hafsins. Silfur hafsins er íslensk heimildarkvikmynd frá árinu 1987 um síldariðnað Íslendinga í áranna rás. Handritsgerð, klipping og stjórn myndarinnar önnuðust þeir Erlendur Sveinsson og Sigurður Sverrir Pálsson, en þulir eru þeir Róbert Arnfinnsson og Guðjón Einarsson. Framleiðandi myndarinnar var Lifandi myndir hf.. Myndin var gerð fyrir Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi og Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi með styrk frá Síldarútvegsnefnd. Peter Petersen. Peter Petersen (Bíó-Petersen eða Bíópetersen) (30. júní 1881 – 28. maí 1961) var danskur ljósmyndari sem var einn af upphafsmönnum kvikmynda á Íslandi og einn af fyrstu mönnum sem fékkst við rekstur kvikmyndahúsa á landinu. Daninn Alfred Lind, var gerður út af Warburg nokkrum, stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Sá hafði keypt tæki til sýninga og töku kvikmynda og falið Lind að koma upp kvikmyndahúsi í Reykjavík, sem hann og gerði. Það var "Reykjavíkur Biograftheater" sem var staðsett í Breiðfjörðshúsi (síðar Fjalakettinum), Aðalstræti 8. Peter Peterson var þar sýningarstjóri, og þann 2. nóvember árið 1906 kveikti hann í fyrsta skipti á sýningarvélinni og var upphaf reglulegra kvikmyndasýninga á Íslandi. Peter starfaði í Reykjavíkur Biograftheater í mörg ár, og fékk við það viðurnefnið Biópetersen. Peter gerði á þessum árum einnig nokkrar kvikmyndir í félagi við Alfred Lind, svo sem Slökkviliðsæfing í Reykjavík, árið 1906 og Konungskomuna 1921. Peter reisti árið 1927 Gamla bíó (þar er núna Íslenska óperan) í Ingólfsstræti yfir starfsemi „gamla bíós“, þ.e. "Reykjavíkur Biograftheater", og tók hið nýja hús við af Fjalakettinum. Petersen innréttaði íbúð fyrir sjálfan sig á efri hæð hússins og bjó þar. Hann rak svo Gamla bíó til ársins 1939, er hann seldi það og fluttist til Kaupmannahafnar og hóf rekstur kvikmyndahússins Atlantic Bio við Christianshavns Torv og rak það í fjölda ára. Det Danske Selskab. Det Danske Selskab var félagsskapur Dana á Íslandi sem var stofnaður 5. júní 1923. Takmark þess var að efla sem mest og best samstarf Íslendinga og Dana og vinna að menningarlegum tengslum milli þjóðanna. Aðalhvatamaður að stofnun þess var Böggeld, þáverandi sendiherra Dana á Íslandi. Bankastræti. Bankastræti (sem áður hét Bakarabrekka, kennd við kornmyllu sem þar stóð lengi) er gata í miðborg Reykjavíkur sem liggur frá Laugaveginum og Skólavörðustíg og á gatnamót við Lækjartorg. Bankastræti heitir eftir Landsbankaútibúi, sem var fyrsta útibú Landsbankans. Landbankinn opnaði þar þann 1. júlí árið 1886. Nokkrum árum áður, eða þann 2. september 1876 var kveikt var á fyrsta götuljósi í Reykjavík, en það stóð hjá Lækjarbrúnni og var steinolíulugt. Almenningssalernið Núllið er svo nefnt vegna staðsetningar sinnar neðst í Bankastrætinu og neðan við fyrstu númeruðu lóðirnar. Það er tvískipt, karla öðrumegin við götuna en kvenna hinumegin, niðurgrafið svo einungis sést stigaopið á yfirborðinu. Salernið hefur verið lagt af en inngangarnir standa ennþá þótt engin starfsemi sé í húsnæðinu neðanjarðar lengur. Í upphafi 20. aldar var Bankastræti ekki einstefnugata og þá var hægt að keyra upp Bankastræti upp að Laugarvegi. En keyrðu menn upp Bankastræti urðu menn annaðtveggja að beygja inn á Ingólfsstræti eða til hægri upp Skólavörðustiginn. Jóhann R. Benediktsson. Jóhann Ragnar Benediktsson (f. 18. mars 1961) var lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hann var sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, en var skipaður lögreglustjóri Suðurnesja þegar lögregla sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var sameinuð lögreglu sýslumannsins í Keflavík. Sem yfirmaður tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og baráttu gegn fíkniefnasmygli og -viðskiptum, hefur Jóhann oft verið í fréttum. Í september 2008 komst hann enn í fréttir, þegar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sendi honum bréf þar sem honum var tilkynnt að embætti hans yrði auglýst þann 1. apríl 2009. Jóhann hélt þá fund og tilkynnti afsögn sína (ásamt nokkrum veigamiklum starfsmönnum við embættið) frá og með 1. október 2008 og bar við trúnaðarbresti. Fokker F27 Friendship. Fokker F27 sem hefur verið breytt í vöruflutningavél. Fokker F27 Friendship er farþegavél með skrúfuhverfihreyflum sem hollenski flugvélaframleiðandinn Fokker framleiddi og seldi frá árinu 1958 þar til Fokker 50 tóku við seint á 9. áratug 20. aldar. F27-vélarnar voru hugsaðar sem arftaki Douglas DC-3 farþegavélarinnar sem hafði valdið byltingu í þróun flugfélaga á 4. og 5. áratugnum. 793 flugvélar af þessari tegund voru smíðaðar. Botnsdalur (Hvalfirði). Botnsdalur er um 3 km langur dalur, sem liggur frá Botnsvogi þar sem Botnsá rennur með Hvalfjarðará til Hvalfjarðar. Í Botnsá fellur Glymur, hæsti foss landsins, um 200 m niður djúpt gljúfur og þröngt gil, um 1,5 km að lengd. Í Botnsdal voru þrír bæir en nú eru aðeins tveir í byggð, þetta eru Stóri-Botn (í byggð), Litli-Botn (í eyði) og Botnsskáli (í byggð). Í Botnsdal er auk þess að finna fjöllin Botnssúlur, Hvalfell og Hvalvatn. Harold Macmillan. Harold Macmillan (10. febrúar 1894 – 29. desember 1986) var breskur stjórnmálamaður fyrir Íhaldsflokkinn og forsætisráðherra Bretlands frá 10. janúar 1957 til 18. október 1963. Í forsætisráðherratíð sinni studdi hann blandað hagkerfi þar sem ríkið beitti opinberum fjárfestingum til að skapa hagvöxt. Stjórnartíð hans einkenndist af miklum vexti efnahagslífsins og litlu atvinnuleysi þar sem stjórnin beitti „start-stopp“-aðferðum til að koma í veg fyrir verðbólgu en halda hagkerfinu gangandi um leið sem á endanum leiddi síðan til minnkandi vaxtar. Í utanríkismálum endurreisti Macmillan hin sérstöku tengsl Bretlands og Bandaríkjanna, efldi kjarnorkuáætlun Breta í samstarfi við Bandaríkjamenn, átti þátt í að gera Samkomulag um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn við Sovétríkin og Bandaríkin. Hann reyndi að sækja um aðgang að Evrópubandalaginu en Frakkar beittu neitunarvaldi gegn því, að hluta vegna óánægju með samstarf Breta og Bandaríkjamanna í kjarnorkumálum. Nashyrningseðla. Nashyrningseðla (fræðiheiti "Triceratops") er útdauð tegund af risaeðlum. Hún hafði stórt beinplötu á höfði og löng augabrúnahorn. Nashyrningseðla var jurtaæta. Stærð nashyrningseðlu miðað við mann Nashyrningseðlur lifðu á svæðum sem nú eru vestanverð Bandaríkin og Kanada, á sama tíma og grameðlur. Sæmundarhlíð. Sæmundarhlíð er byggðarlag í vestanverðum Skagafirði og liggur meðfram fjallshlíðinni sunnan frá Vatnsskarði út undir Reynistað. Austurmörkin eru við Sæmundará, sem rennur meðfram endilangri hlíðinni og sveigir svo til austurs skammt frá Reynistað. Á landnámsöld virðist Sæmundarhlíðarnafnið hafa náð lengra til norðurs, allt út að Gönguskarðsá. Hlíðin er kennd við landnámsmanninn Sæmund suðureyska. Nokkrir bæir eru í Sæmundarhlíð. Syðst er Fjall, sem stundum er þó talið með Vatnsskarðsbæjunum, enda liggur vegurinn að Fjalli út frá þjóðvegi 1 í Vatnsskarði en ekki úr Sæmundarhlíð. Þar fyrir norðan er eyðibýlið Skarðsá. Þar bjó á 17. öld annálaritarinn og fræðimaðurinn Björn Jónsson, sem skrifaði meðal annars Skarðsárannál. Ysti bærinn er Geirmundarstaðir. Þaðan er sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson. Vatnsskarð. Minnismerki um Stephan G. Stephansson á Arnarstapa. Vatnsskarð er fjallaskarð milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu og liggur þjóðvegur 1 um skarðið. Á því er vatn sem heitir Vatnshlíðarvatn og eru sýslumörkin skammt austan við það. Lækur rennur í vatnið og er hann á sýslumörkum (Arnarvatnslækur eða Sýslulækur). Er sagt að eitt sinn þegar almennt manntal var tekið hafi förumaður, sem kallaður var Magnús sálarháski og miklar sögur eru til um, lagst þvert yfir lækinn og legið þar allan manntalsdaginn svo að hvorki væri hægt að telja hann til Húnavatns- né Skagafjarðarsýslu. Norðan við skarðið er Grísafell en sunnan við það Valadalshnúkur. Vatnsskarðsá kemur úr Vatnshlíðarvatni og Valadal og rennur til austurs, og er Gýgjarfoss í ánni austast í skarðinu. Þegar niður í Sæmundarhlíð kemur kallast hún Sæmundará. Fáeinir bæir eru á Vatnsskarði og kallaðist byggðin áður „á Skörðum“. Í austanverðu skarðinu er hóllinn Arnarstapi. Þar er minnismerki um skáldið Stephan G. Stephansson, sem ólst upp þar rétt hjá. Af Arnarstapa er mjög gott útsýni yfir héraðið og er hringsjá skammt frá minnisvarðanum. Endalausidalur. Endalausidalur er dalur milli Hornafjarðar og Lóns í Austur-Skaftafellssýslu. Um hann rennur Fjarðará og er einn bær í dalnum; Efri-Fjörður. Bæjarhverfi. Bæjarhverfi eru 4 - 6 sveitabæir á sama stað og jafnvel fleiri. Slík hverfi eru algeng í dreifbýli í Evrópu en síður algeng á Ísland. Einna helst eru þau í Skaftafellssýslum. Áshverfi. Áshverfi er bæjarhverfi nálægt Hrútsvatni í Ásahreppi í Rangárvallasýslu. Skjaldfannardalur. Skjaldfannardalur er dalur við innanvert Ísafjarðardjúp á Vestfjörðum. Liggur hann sunnan Kaldalóns á Langadalsströnd. Í honum eru fimm bæir. Smásjá. a> úr bók hans "Micrographia" frá 1664. Smásjá er tæki til að skoða hluti sem eru of smáir til að sjást með berum augum. Fyrsta smásjáin var smíðuð af gleraugnasmið 1595 í Middleburg í Hollandi. Rafeindasmásjá er tæki, sem notað er til að kanna smásæja hluti, með því að beina að þeim rafeindageisla og skoða endurkastið. Listi yfir sjónvarpssþætti. Eftirfarandi er listi yfir sjónvarpsþætti í stafrófsröð. Listinn er ekki tæmandi. Caroline Graham. Caroline Graham (f. 17. júlí 1931) er enskt leikskáld, handritshöfundur og rithöfundur sem er þekktust fyrir skáldsögur sínar um rannsóknarlögreglumanninn Barnaby sem röð sjónvarpsmynda ("Midsomer Murders") hefur verið gerð eftir. Norðurál. Norðurál er álverksmiðja sem er staðsett á Grundartanga. Verksmiðjan hefur verið starfrækt frá árinu 1998 og er einn fjölmennasti vinnustaður á Vesturlandi með um 420 starfsmenn að jafnaði. Kenneth D. Peterson jr., eigandi og forstjóri Columbia Ventures Corporation stofnaði Norðurál og byggðist tæknin að mestu leyti á gömlu álveri frá Þýskalandi. Fyrstu kerin voru flutt inn frá Þýskalandi en síðar meir hefur deild innan fyrirtækisins sem nefnist Kerfóðrun séð um að undirbúning nýrra kerja sem eiga að fara í notkun. Þann 16. mars árið 2004 keypti Century Aluminium 49,9% af Colombia Ventures og skeiði Kenneth D. Peterson jr. sem forstjóra Norðuráls að ljúka. Með þessum breytingum hélt Century Aluminium í umfangsmiklar stækkanir á Norðuráli úr 90.000 tonnum í 260.000 tonn og enn eru fyrirhugaðar stækkanir á álverinu í nánustu framtíð. Ólafur Einarsson. Ólafur Einarsson um 1573 – 1651 var skáld og prestur í Kirkjubæ í Hróarstungu. Sennilega fæddur í Nesi í Aðaldal. Foreldrar hans voru Einar Sigurðusson prestur og skáld í Eydölum (Heydölum) og seinni kona hans, Ólöf Þórarinsdóttir. Ólafur lærði fyrst í Hólaskóla (frá 1589) en frá 1589 í Skálholtsskóla. Fór utan 1594, var skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kaupmannahöfn 26. október sama ár. Þar var hann í 4 ár, var heyrari í Skálholti 1598-1600, en rektor þar 1600-1608, fékk þá Kirkubæ í Hróarstungu og tók þá við prestþjónustu þar, en var afhentur staðurinn árið 1609 og hélt til æviloka. Ólafur var prófastur í Múlaþingi frá 1609 til æviloka, en hann er enn á lífi 22. ágúst 1651. Hann var blindur síðustu æviár sín. Ólafur er eitt hinna austfirsku skálda. Ólafur Einarsson var talinn með lærðustu mönnum sinnar tíðar, hann var og höfuðskáld á sinni tíð og er prentuð eftir hann kvæðin Árgali í Litlu vísnabók 1757 og 1839, fáeinir sálmar í Vísnabók 1612 og 1748, Litlu vísnabók 1757 og 1839, í sálmabókum 1619 og síðar og í Höfuðgreinabók 1772, en flest er varðveitt eftir hann í handritum. (Páll Eggert Ólason 1951: 37.) Ólafur Einarsson "var í röð fremstu skálda á sinni tíð, orti trúarljóð og sálma af meiri formfágun en tíðkazt hafði eftir siðaskipti, einnig kröftugar heimsádeilur. Kveðskapur hans er að mestu óútgefinn, nokkuð er þó prentað í Vísnabók Guðbrands biskups 1612, og Lítilli sálma og vísnabók Hálfdanar Einarssonar 1757, einnig í sálmasöngsbókum síðar (2 sálmar frumkveðnir eru í sálmabókinni 1972). Sjá og t.d. Íslands þúsund ár, 1947." (Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson 1976: 18.) Mynd af honum, konu hans og börnum er í Þjóðminjasafni. Kona Ólafs (gift 1608) var Kristín, dóttir Stefáns Gíslasonar prests í Odda. Hún lifði mann sinn. Austfirsku skáldin. Austfirsku skáldin „iðkuðu jöfnum höndum trúarlegan og veraldlegan skáldskap, voru stórvirkir, og þrátt fyrir persónuleg einkenni hvers og eins, tengir þá saman sviplík afstaða til yrkisefna og málsmeðferðar. Bragstíllinn er yfirleitt lipur, háttaval fjölbreytt, bragðmiklar þjóðlífslýsingar í veraldlegum kvæðum, einkum heimsádeilum, sem er snar þáttur í verkum þeirra, og kankvísi um nærtæk efni kunnu þeir með að fara skálda bezt.“ (Hannes Pétursson 1973: 9.) Ertuygla. Ertuygla (fræðiheiti "Melanchra pisi" eða "Ceramica pisi") er fiðrildi sem lifir á jurtum af ertublómaætt. Ertuygla hefur sést í auknum mæli á Íslandi síðustu ár. Hún er algeng um sunnanvert Ísland. Fullorðin fiðrildi eru á ferli á vorin og fyrri hluta sumars og verpa þá og lirfur klekjast úr eggjum. Í águst ná lirfurnar fullum vexti, hverfa niður í gróðursvörðinn og púpa sig. Fullþroska fiðrildi skríða úr púpunum að vetri loknum. Vænghafið er 32-37 mm. Grasygla. Grasygla (fræðiheiti "Cerapteryx graminis") er mölfluga af ygluætt. Lirfu yglunar, "grasmaðksinns" eða "grasormsinns" svokallaða, er getið í Íslenskum heimildum allt frá 17. öld en hann gat verið svo skæður í túnum að verða plága. Var hann stundum svo skæður að ár voru kölluð grasmaðksár. Heldur hefur dregið úr skaða af völdum grasmaðksinns í seinni tíð með betri ræktun því hann sækir mest í vanrækt tún og því urðu áður fyrr kotbændur oft verst úti. Útbreiðsla. Hún er algeng um allt meginland Evrópu norðanverða, um Rússland allt til Síberíu og til nyrstu héraða miðjarðarhafslandanna og Mið-Asíu til Kyrrahafs. Hún finnst einnig á eyjum Evrópu, bæði Bretlandseyjum, Færeyjum og Íslandi. Í Eyjahafi hefur hún fundist á Nýja-Sjálandi. Á Íslandi finnst hún um allt land en er sjaldgæf á miðhálendinu. Útlit og lifnaðarhættir. Grasyglan er auðþekkjanleg á mynstruðum vængjunum, hér er karlfluga sem þekkist á fjöðruðum fálmurum. Grasyglan er með algengari yglum á Íslandi en ein sú minnsta. Þó er stærðarmunur milli kynja og eru kvenflugurnar heldur stærri. Annar munur kynjanna er að karlflugan er með fjaðraða fálmara en kvenflugann þráðlaga. Grasyglan er auðþekkjanleg á skrautlegum vængjunum sem eru brúnir með svörtum deplum og strikaður hvítum rákum en kantur þeirra hvítur. Lirfan er aftur á móti grænleit með mjóum ljósum röndum aftur búkinn. Kjörlendi Grasyglunar er eins og nafn hennar gefur til kynna hverskonar graslendi. Bæði ræktuð tún eða vilt graslendi en þar, eða í vanrækt, unir hún sér best. Hún er mest á ferðinni á daginn í góðu veðri og sækir þá í ýmis blóm. Einnig er hún stundum á ferðinni á kvöldin eftir að dimmir og sækir þá gjarnan í hverskonar ljós. Flugtími Grasyglunar er langur eða frá seinnihluta júní til september en nær hámarki um hásumarið. Lirfa hennar, grasmaðkurinn, er mikið skaðræði í túnum og öðru graslendi og veldur oft ræktendum miklum búsifjum þegar vel árar hjá maðkinum. Eggin liggja í dvala veturinn og klekst maðkurinn út á vorinn. Hann lifir mest á rótum grasa, helst sveifgrasa og vingla. Hann púpar sig í júní milli grasrótanna og ný kynslóð flugna kemur svo úr púpunum í lok mánaðarins. Mölflugur. Mölflugur eru skordýr sem eru náskyld fiðrildum. Bæði mölflugur og fiðrildi tilheyra ættbálki hreisturvængja. François Mauriac. François Mauriac ("François Charles Mauriac") (11. október 1885 – 1. september 1970) var franskur rithöfundur. Árið 1933 var hann kosinn í frönsku akademíuna. Hann hlaut "Grand Prix du roman de l'Académie française" árið 1926 og bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1952. Tenglar. Mauriac, François Mauriac, François Bjarni Gissurarson. Bjarni Gissurarson 1621 – 1712 var skáld og prestur í Þingmúla í Skriðdal, fæðingarstað sínum. Foreldrar hans voru Gissur Gíslason prestur að Þingmúla og kona hans, Guðrún, dóttir Einars Sigurðssonar í Eydölum. Stúdent úr Skálholtsskóla 1643, var síðan í í þjónustu Brynjólfs Sveinssonar biskups þar til hann fékk Þingmúla 1647. Gegndi prestskap í Þingmúla til 1702, síðan á Hallormsstað 1702-1703, eftir lát Þorleifs Guðmundssonar tengdasonar síns. Var síðan um um hríð hjá dóttur sinni að Stóra-Sandfelli, en fór síðan aftur að Hallormsstað til Eiríks sonar síns, sem var þá tekinn við prestskap þar, og þar andaðist Bjarni. Bjarni var gáfumaður, gleðimaður og gamansamur. Hann er í tölu helstu skálda síns tíma og mjög mikilvirkur, orti trúarljóð og veraldleg kvæði af ýmsum toga, einkum ádeilur, skemmtibragi og ljóðabréf, einnig vikivakakvæði. Til er fjöldi kvæða eftir hann víðs vegar í handritum. Jón Samsonarson handritafræðingur og sérfræðingur á Árnastofnun gaf út úrval kvæða hans árið 1960 undir heitinu "Sólarsýn" með ritgerð um skáldið. Bjarni er eitt hinna austfirsku skálda. Kona Bjarna var Ingibjörg, dóttir Árna Þorvarðarsonar prests í Vallanesi. Hærusauður. Hærusauður (fræðiheiti: "Ammotragus lervia") er villt geitfjártegund sem lifir í Norður-Afríku. Lýsing. Hærusauðir eru um 80 til 100 sm háir á herðar og um það bil 40 til 140 kg á fæti. Þeir eru ljósmórauðir (ljósbrúnir) á litinn og dökkna með aldrinum. Þá eru þeir ljósari undir kvið (nokkurs konar ljósmóbotnóttur litur); og dökkur áll liggur aftur eftir hryggnum. Undir hálsinum eru dýrin hærð og teygir þessi hárlubbi sig niður á bringu á hrútunum. Hornin eru aftursett og hringast. Þau geta orðið allt að 50 sm löng og eru slétt; nema niðri við haus. Gáshnallur. Gáshnallur (fræðiheiti: "Ziphius cavirostris") einnig nefndur skuggnefja og gæsanefja er allstór tannhvalur og eina tegundinn í ættkvíslinni "Ziphius". Þeir eru hluti af ættinni svínhvalir ("Ziphiidae"). Ekkert annað spendýr hefur kafað jafn djúpt svo vitað er. Lýsing. Teikning af gáshnalli, sjá má tennurnar í neðrikjálka Gáshnallur minnir á aðra svínhvali og eru tarfarnir heldur stærri en kýrnar. Þeir eru þéttbyggðir og straumlínulagaðir, bakuggi lítill og bægslin einnig fremur lítil og getur dýrið lagt þá þétt að skrokknum. Eins og hjá öðrum svínhvölum er sporðurinn fremur stór. Höfuðið er lítið og er á því óvægileg enniskúla. Nafn hvalategundarinnar á íslensku er dregið af laginu á trýninu. Fremst í neðrikjálka fullorðinna tarfa eru tvær alllangar tennur sem skaga út úr kjaftinum eins og undirbit. Gáshallar eru að mestu dökkgráir en með ljósar höfuð sem getur verið næstum því hvítt hjá eldri törfum. Þar að auki er húðin alsett minni ljósum blettum. Stærstu dýrin verða 7-7,5 metra á lengd og get orðið allt að 3 tonnum á þyngd (þó oftst 2-2,5 tonn). Útbreiðsla og hegðun. Gáshnallar er algengasta og útbreiddasta tegund svínhvala. Lítið er þó vitað um vistfræði þeirra, þeir halda sig fjarri skipum og halda til á reginhafi þar sem hafdýpi er mikið. Það er þó þekkt að þessir hvalir eru mjög góðir kafarar sem sennilega geta kafað niður á 2000 metra dýpi og kannski enn dýpra. Þann 17. október 2006 mældist gáshnallur sem kafaði niður á 1 899 metra dýpi. Það tekur hvalinn um 20 sekúndur að endurjafna súrefnismagn líkamans eftir köfun áður enn hann getur kafað að nýju. Helsta vitneskja um gáshalla hefur fengist af rannsóknum á strönduðum dýrum. Greinilegt er að þeir nota bergmálsmiðun til að rata um hafdjúpin og til að leita ætis. Svo er að sjá að gáshnallar séu háðari þessum lífrænu bergmálsmiðun en aðrir hvalir og heimildir eru fyrir því að þeir hafi mist áttir og strandað vegna sónars frá fiskiskipum. Þeir halda saman í hópum með 2 til 15 dýrum en það er ekki óvenulegt að rekast á einstaka dýr. Gáshnallar haf sést stökkva en það virðist þó vera fremur óvenjuleg hegðun. Ekkert bendir til þess að gáshallar færi sig til eftir árstímum. Gáhallar eru algengir í tempruðum og hitabeltishöfum þar sem er mikið hafsdýpi (meir en 1000 metra dýpi). Það er sjaldgæft að sjá þessa tegund í nánd við strendur. Gáshnallar hafa sést við Ísland en afar sjaldan. Þessi hvalategund lifir aðallega á kolkröbbum og öðrum hryggleysingum. Veiðar og fjöldi. Veiðar hafa aldrei beinlínis verið stundaðar á gáshnalli en japanskir hvalveiðimenn drepa um 20 dýr á ári í samband við veiði á öðrum hvölum. Tegundin er á Viðbótarlista II við samning um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu og er merkt að um hana séu ekki nægar upplýsingar á lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna - IUCN. Sharam. Sharam Tayebi (eða Sharam) er íranskur skífuþeytir og upptökustjóri. Sharam vinnur með "house-" og raftónlist. Hann er meðlimur í dúóinu Deep Dish sem hlaut Grammy-verðlaun árið 2002. DJ Aligator. Ali Movasat (persneska: علی مواساط), eða DJ Aligator, (fæddur í Teheran 10. mars 1975) er íranskur raftónlistarmaður. Hann býr nú í Svíþjóð en bjó áður nokkur ár í Danmörku. Frægasta lag DJ Aligator er „The Whistle Song“ (samið ásamt Dananum Holger Lagerfeldt) en það er að finna í tölvuleiknum Dance Dance Revolution. Þá hefur hann einnig endurhljóðblandað lag O-Zone, „Dragostea Din Tei“. Hann hefur einnig endurhljóðblandað „I Like to Move It“ (með Reel 2 Real) og „From Paris to Berlin“ (með Infernal). Swedish House Mafia. Swedish House Mafia (SHM) er hópur þriggja sænskra "house"-tónlistarmanna (skífuþeyta), en allir eiga þeir sameiginlegt að vera frægir fyrir utan Svíþjóð. Gigi D'Agostino. Luigi di Agostino, betur þekktur sem Gigi D'Agostino (fæddur 17. desember 1967 í Tórínó) er ítalskur plötusnúður og upptökustjóri. D'Agostino ólst upp milli Tórínó og Brescia og ungur að árum hafði hann það sem aðal markmið sitt að verða frægur í heimi diskósins. Hann hóf tónlistarferil sinn árið 1986 er hann fór að semja svokallaða Italo Disco-tónlist. Sama ár gaf hann einnig út fyrstu hljóðblöndunina sína, „Psychodelic“. Þá ákvað hann að flytja til Lundúna. Árið 1999 gaf hann út smáskífuna „L'Amour Toujours (I'll fly with you)“ en lagið þeytti honum upp á stjörnuhimininn. Síðar sama ár gaf hann einnig út breiðskífu með sama nafni - hún komst í 10. sæti yfir mest seldu plötur Ítalíu. Pepsideild karla í knattspyrnu 2009. Árið 2009 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 98. skipti. Stjarnan tók þátt aftur eftir 9 ára fjarveru auk Eyjamanna, en þeir spiluðu síðast í efstu deild árið 2006. Nýr styrktaraðili, Ölgerðin, fékkst fyrir deildina þann 27. apríl og ber deildin því nafnið Pepsideildin til ársins 2011 minnst. FH-ingar höfðu haft sannfærandi forystu í mótinu allt sumarið og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í 21. umferð á heimavelli. Phil Lynott. Philip Parris Lynott (20. ágúst 1949 – 4. janúar 1986) var söngvari, bassaleikari og lagahöfundur ásamt því að spila á önnur hljóðfæri. Lynott var hvað þekktastur fyrir það að vera bassaleikari, söngvari og aðallagahöfundur rokkhljómsveitarinnar Thin Lizzy á árunum 1969 - 1983. Fyrri ár. Lynott var fæddur á Hallam-spítalanum í Staffordshire á Englandi. Faðir hans Cecil Parris var afro-brasilískur en móðir Phil Lynotts var Philomena „Phyllis“ Lynott frá Írlandi og frá henni kemur Lynott nafnið. Faðir hans Cecil Parris fór frá móður hans aftur til Brasilíu einungis þremur vikum eftir fæðingu Lynotts. Foreldrar Phils héldu sambandi við hvort annað fyrstu ár ævi hans en Lynott hitti ekki föður sinn fyrst fyrr en seint á áttunda áratugnum. Phil var alinn upp í Moss Side í Manchester þar sem hann varð meðal annars Manchester United-aðdáandi. Meðan að hann var enn í skóla flutti hann til Crumlin í Dublin til ömmu sinnar sem hét Sarah. Tónlistarferill. Tónlistarferill Lynott's byrjaði á miðjum sjöunda áratuginum þegar hann söng með hljómsveitinni the Black Eagles. Á þessum tímapunkti urðu hann og Brian Downey trommuleikari vinir. Lynott, Phil Sunset Strippers. Sunset Strippers er bresk rafhljómsveit. Hún er frægust fyrir lagið „Falling Stars“ sem kom út árið 2005. Það er „endurhljóðblöndun“ á laginu „Waiting For A Star To Fall“ eftir Boy Meets Girl sem kom út árið 1988. Sunset Strippers endurhljóðblönduðu einnig „Cry Little Sister“, sem upphaflega var samið af Gerard McMahon, fyrir myndina "The Lost Boys". 1. deild karla í knattspyrnu 2008. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 54. sinn árið 2008. Ísafold (1874). "Ísafold" var íslenskt tímarit sem var stofnað af Birni Jónssyni, sem ritstýrði því lengst af. Það kom fyrst út árið 1874 og var gefið út til ársins 1929. Það var lengi víðlesnasta blað landsins. Björn Jónsson stofnaði blaðið þegar hann sneri heim frá námi í Kaupmannahöfn í samstarfi við útgefanda "Víkverja", Jón Guðmundsson landshöfðingjaritara. "Víkverji" var lagður niður um leið og "Ísafold" hóf göngu sína. Nafnabreytingin stafaði af því að Björn vildi gefa út blað fyrir allt landið, en "Víkverji" var bæjarblað í Reykjavík. Fyrstu árin var blaðið prentað í Landsprentsmiðjunni en árið 1877 setti Björn upp nýja prentsmiðju, Ísafoldarprentsmiðju, sem hann hafði keypt frá Danmörku til að prenta blaðið, meðal annars vegna óánægju með ritskoðun sem Landsprentsmiðjan stundaði. Þegar Björn varð ráðherra Íslands 1909 tók sonur hans, Ólafur Björnsson, við ritstjórninni. 1913 stofnaði hann "Morgunblaðið" ásamt Vilhjálmi Finsen. Útgáfufélag "Morgunblaðsins" (sem síðar nefndist Árvakur) keypti svo "Ísafold" af Ólafi 1919 og eftir það var blaðið gefið út sem mánudagsútgáfa "Morgunblaðsins" og sérstakt síðdegisblað. Þjóðólfur. Þjóðólfur var íslenskt hálfsmánaðarblað sem var stofnað árið 1848 og var gefið út til ársins 1920. Blaðinu var ritstýrt af Matthíasi Jochumssyni á tímabili. Þjóðólfur var landsfréttablað. Heiðlóa. Heiðlóa (fræðiheiti: "pluvialis apricaria") einnig oft kölluð bara lóa er stór fugl af lóuætt. Hún er mófugl og farfugl á íslandi. Kemur í apríl til Íslands en hefur vetursetu á Bretlandseyjum og suður þaðan með ströndum Vestur-Evrópu allt til Gíbraltar og Norður-Afríku. Heiðlóan er alfriðuð á Íslandi. Einkenni. Að ofan er hún dökk með gulum dílum, en svört að neðan og á vöngum, á milli þess er breið hvít s-laga rönd. Bæði kynin eru nánast eins eins að lit. Lifnaðarhættir. Lóan lifir aðallega á ánamöðkum, mýflugum, skordýralirfum og sniglum. Á sumrin nærist hún einnig á jurtafæðu, t.d. berjum. Fyrst er lóan kemur til landsins dvelur hún meðfram ströndum en leitar svo að varpstöðum í móum, mýrum eða heiðum. Hreiðurgerð er ekki mikil hjá henni, aðeins laut í lyngmóa eða grasi útbúið með grasstráum eða laufblöðum. Varp hefst seinni hluta maí og verpir hún oftast fjórum eggjum sem eru grágul eða mógul með mósvörtum dílum á litin. Eftir um það bil 3 vikur brjótast ungarnir út. Báðir foreldrarnir taka þátt í að liggja á egginu. Í lok júlí flýgur hún með ungana aftur suður til vetrardvalar og flýgur lóan þá í hópum. Vorboðinn. Fólk á Íslandi segir oft að heiðlóan sé merki þess að vor og sumar sé á næsta leiti og hefur heiðlóan orðið tákn fyrir vorið og kölluð "vorboðinn". Sagt er að hún sé veðurglögg og reyna sumir að lesa út úr veðrinu eftir hegðun hennar og sér hennar ósjaldan stað í skáldskap og þjóðtrú. Eitt þekktasta ljóð sem samið hefur verið á Íslandi um heiðlóuna er ljóð Páls Ólafssonar, "Lóan er komin að kveða burt snjóinn", sem lýsir þessu viðhorfi ágætlega. Hertogar af Normandí. Hertogar af Normandí – eða Rúðujarlar, kenndir við Rúðuborg – kallast þeir hertogar, sem ríktu á árabilinu 911–1204 yfir því svæði í Norður-Frakklandi, sem nú kallast Normandí. Hertogadæmið Normandí var stofnað árið 911 af víkingahöfðingjanum Rollo, eða Göngu-Hrólfi, með samkomulagi við Karl einfalda Frakkakonung, sem gaf Rollo titilinn: "jarl Normanna". Í staðinn áttu Normannar að sjá um landvarnir, meðal annars gegn víkingum. Í fyrstu var um jarlsdæmi að ræða, en Ríkarður 2. var sá fyrsti sem bar formlega titilinn hertogi af Normandí. Árið 1066 lögðu Normannar, undir stjórn Vilhjálms sigursæla, England undir sig. Varð Vilhjálmur þá konungur Englands, en Normandí var áfram hertogadæmi undir stjórn hans og afkomenda hans. Þetta leiddi til þeirrar undarlegu stöðu að Vilhjálmur var bæði konungur Englands og lénsmaður Frakkakonungs, og var þetta lengi uppspretta ófriðar á milli ríkjanna. Hertogadæmið á meginlandinu var hertekið árið 1204 af Filippusi 2. Frakkakonungi, en Ermarsundseyjarnar voru þó undanskildar. Konungar Englands gerðu áfram kröfu um að halda titlinum hertogi af Normandí, en með samningi milli Englands og Frakklands 1259, gáfu þeir eftir þessa kröfu. Síðar reyndu þeir oftar en einu sinni að ná aftur eignum sínum í Frakklandi, einkum í Hundraðárastríðinu, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Listi yfir hertogana. Árið 1204 lagði Filippus 2. Frakkakonungur undir sig Normandí, en konungar Englands gerðu þó kröfu til hertogatitilsins. Með samningi 1259 viðurkenndu þeir yfirráð Frakka. Konungar Englands réðu áfram yfir Ermarsundseyjunum, sem höfðu verið hluti af hertogadæminu frá 933. Á eyjunum hefur konungurinn samkvæmt hefð alltaf verið kallaður hertogi af Normandí. Leyndardómur Mayanna. "Leyndardómur Mayanna" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Þjóðsögn greinir frá því, að í frumskógum Mið-Ameríku leynist týnd borg, þar sem geymd væri Gullbók Maya hinna fornu, og hefði að geyma, ef til vill, leyndardóma nú horfinnar menningar. Clairembart prófessor hefur öðlast vissu fyrir því, að borg þessi sé til og sömuleiðis Gullbókin. Ásamt Bob Moran og Bill Ballantine ræðst hann í ferðalag inn í frumskóginn í leit að þessari dularfullu borg. Auk þeirra hættu, sem stafaði af náttúrufyrirbærum á leið rannsóknarmanna, bætist við hin stöðuga leyndardómsfulla „Nálægð“ (Bob giskaði á að það væri andi, sem tilheyrði hinum fornu Mayum), sem sífellt lét á sér bæra og lagði óteljandi gildrur á leið þeirra félaga. Heppnast Bob enn þá einu sinni að yfirbuga fjendur sína? Heppnast honum að komast að leyndarmáli Mayanna? Moran, Clairembart og Bill Ballantine hefðu haft óteljandi gildar ástæður til þess að hætta þessum leiðangri og oft lá við að ævintýrið endaði með flótta eða dauða. Aðalpersónur. Bob Moran, Bill Balantine, Prófessor Aristide Clairembart, Frank Reeves, Samúel Higgins, Loomie Refsing Gula skuggans. "Refsing Gula skuggans" er unglingasaga eftir Henri Vernes. Söguþráður. Moran yfirforingi er dáinn, myrtur af sjálfum Gula skugganum. Í sinni miklu sorg á Bill Ballantine aðeins eina hugsun: að hefna vinar síns og samtímis hindra hinn óhugnanlega herra Ming í að fremja fleiri fólskuverk. Bill hefur fengið óverulegar upplýsingar, en leggur samt upp að leita að fylgsnis Mings, einhvers staðar í Efri-Burma. Á ferð sinni yfir torsótt land á valdi ræningja og uppreisnarmanna ratar hinn hugrakki Skoti í ótal mannraunir og ævintýri. Á vegi hans verða dakóítar, hræðileg eiturslanga og ofsatrúarmenn, sem flækjast um Nagafjöll. Í leit að hinu leyndardómsfulla landi Herra Mi-Sing-Ling ratar hann í hinar mestu mannraunir og lífshættur. En einhver dularfullur samverkamaður hemur fram í hvert sinn sem hætta er á ferðum og hrifsar hann úr höndum fjenda hans og hjálpar honum að lokum að refsa Gula skugganum. Það er samverkamaður, sem kemur sjálfum Bill Ballantine hreint ekki svo lítið á óvart. Aðalpersónur. Bill Ballantine, Bob Moran, Tanja Orloff, Herra Ming/Guli skugginn, U Win, Thibaw, Dr. Partridge/Oh-Oh Sesúan. Kort sem sýnir staðsetningu Sesúan í Kína. Sesúan (kínverska: 四川; pinyin: "Sìchuān") er hérað í vesturhluta Kína. Höfuðborg þess er Chengdu. Stærstur hluti héraðsins er í Sesúandældinni sem er umkringt Himalajafjöllum í vestri, Qinling-fjallgarðinum í norðri og Yunling-fjallgarðinum í suðri. Fljótið Jangtse rennur í gegnum héraðið. Konstantín Tsjernenkó. thumb Konstantín Úsínovitsj Tsjernenkó (rússneska: Константи́н Усти́нович Черне́нко; 24. september 1911 – 10. mars 1985) var sovéskur stjórnmálamaður og aðalritari sovéska kommúnistaflokksins í aðeins þrettán mánuði frá 1984 til dauðadags. Júríj Andropov. Júríj Vladimíróvitsj Andropov (rússneska: Ю́рий Влади́мирович Андро́пов; 15. júní 1914 – 9. febrúar 1984) var sovéskur stjórnmálamaður og aðalritari sovéska kommúnistaflokksins í aðeins fimmtán mánuði frá 1982 til dauðadags. Áður hafði hann verið sendiherra Sovétríkjanna í Ungverjalandi þegar uppreisnin í Ungverjalandi átti sér stað og yfirmaður sovésku leyniþjónustunnar KGB frá 1967 til 1982. KGB. KGB (rússneska: КГБ) er skammstöfun fyrir Комитет государственной безопасности, "Komitjet gosýudarstvvennoj besopasností" eða Ríkisöryggisnefnd sem var opinbert nafn leyniþjónustu Sovétríkjanna á tímum Kalda stríðsins frá 1951 til 1991. KGB tók við af Stjórnmálastofnun ríkisins. Göngu-Hrólfur. Stytta af Rollo í Rúðuborg. Rollo (franska: Rollon) – í íslenskum heimildum kallaður Göngu-Hrólfur – (um. 860 - um. 932) var víkingahöfðingi sem lagði undir sig það svæði í Frakklandi sem síðar kallaðist Normandí, og var fyrsti jarlinn þar. Í sumum heimildum er hann kallaður "Róbert af Normandí", en það nafn tók hann upp þegar hann var skírður. Af Rollo eru Rúðujarlar komnir og enska konungsættin er rakin til hans. Nafnið "Rollo" er að öllum líkindum latnesk útgáfa af norræna nafninu Hrólfur (sbr. nafnið "Roluo" = Hrólfur kraki í "Gesta Danorum"). Sögulegar heimildir. Rollo var nafnkunnur víkingahöfðingi, en ekki er full vissa um uppruna hans. Norskir og íslenskir sagnfræðingar hafa haldið því fram að Rollo sé sami maður og Göngu-Hrólfur, sonur Rögnvalds Eysteinssonar Mærajarls í Vestur-Noregi. Þetta er byggt á norskum og íslenskum ritum frá 12. og 13. öld, sem segja að Göngu-Hrólfur hafi lagt undir sig Normandí. Elsta heimildin um þetta er Historia Norvegiae, latínurit, samið í Noregi í lok 12. aldar. Þar segir að Hrólfur hafi fallið í ónáð hjá Haraldi hárfagra, og verið gerður útlægur af Noregi. Hann fór þá í hernað, og varð síðar jarl í Normandí. Viðurnefnið fékk hann af því að hann var svo stór, að enginn hestur gat borið hann (eða a.m.k. ekki norskir smáhestar þeirra tíma). Um Göngu-Hrólf, sjá t.d. Haralds sögu hárfagra í Heimskringlu – og Orkneyinga sögu. Danskir sagnfræðingar hafa haldið á lofti dönskum uppruna Rollos. Sagnaritarinn Dudo frá St. Quentin, segir í riti sínu: "De moribus et actis primorum Normannorum ducum", sem er samið eftir 1015, að Rollo hafi verið danskur (frá "Dacia", sem getur átt við stærra svæði en Danmörku nútímans). Þar segir frá tveimur dönskum höfðingjasonum, Gurim og Rollo. Gurim var drepinn en Rollo hraktist úr landi. Hann varð síðar leiðtogi víkinga sem lögðu undir sig Normandí. Rit Dudos er mikil lofgjörð um hertogana, og þykir ekki mjög traust heimild. Gustav Storm hefur með samanburði við samtíma annála sýnt fram á að Dudo blandi saman atburðum og mönnum. Telur hann hugsanlegt að sagnir um danska víkingahöfðingjann Sigfreð (Sigurð orm í auga), hafi færst yfir á Rollo, sem var síðar á ferðinni. Einnig hefur því verið haldið fram að þegar Dudo vann að riti sínu hafi hertogunum þótt henta að leggja áherslu á tengsl við dönsku konungsættina, sem hafði þá lagt undir sig England. Vilhjálmur frá Jumièges er á sömu skoðun um uppruna Rollos í riti sínu "Gesta Normannorum Ducum", sem samið er um 1070 og notar Dudo sem heimild. Benoit frá Sainte-Maure, sem um 1170 samdi rit um hertogana ("Chronique des ducs de Normandie"), segir að Rollo hafi verið frá þorpinu "Fasge", sem Johannes Steenstrup telur að geti verið Fakse á Austur-Sjálandi. Spurningin um hvort Rollo var af dönskum eða norskum uppruna, var heitt deilumál milli danskra og norskra sagnfræðinga á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar, einkum þegar nær dró 1000 ára afmælishátíð Normandís árið 1911. Enn eru skiptar skoðanir um þetta meðal sagnfræðinga, en flestir eru þó sammála um að ekki sé hægt að komast að öruggri niðurstöðu í málinu. Innrásin í Frakkland. Árið 885 réðst fjölmennur her víkinga undir forystu Sigfreðs, á París, og er líklegt að Rollo og menn hans hafi verið í þeim hópi. Sagt er að franski konungurinn hafi sent fulltrúa sinn til að reyna að semja við leiðtoga víkinganna. Þegar hann spurði eftir höfðingjanum, svöruðu víkingar að þeir væru allir höfðingjar, hjá þeim stæði enginn einn öðrum framar. Árið 886 yfirgáfu víkingarnir París gegn háu gjaldi. Síðar sneri Rollo aftur með fylgismönnum sínum (Norðmönnum og Dönum, sumum frá Englandi), og sótti inn í héruðin umhverfis ána Signu, í norðvesturhluta Frakklands, þar sem nú heitir Normandí. Árið 911 beið herlið Rollos lægri hlut fyrir her Karls einfalda, í orustunni við Chartres. Karl gerði sér grein fyrir að hann gæti ekki komið í veg fyrir strandhögg og ránsferðir vikinga. Venjan hafði verið að kaupa þá af sér með fé, en í staðinn ákvað hann að setja Rollo yfir héruðin sem hann hafði lagt undir sig, með þeim skilmála að hann sæi um landvarnir gegn víkingum. Í sáttmála, sem gerður var 911 í Saint-Clair-sur-Epte, gerðist Rollo lénsmaður konungsins, lét skírast til kristinnar trúar, og mun hafa tekið upp skírnarnafnið Robert. Hann var þá settur yfir héruðin umhverfis neðri hluta Signu, með Rúðuborg sem höfuðborg og miðju svæðisins. Yfirleitt er talið að Rollo hafi verið jarl, en ekki hertogi (latína: "dux") eða greifi ("comes"). Sagan segir að þegar Rollo var skipað að kyssa fót Karls konungs, samkvæmt gerðum skilmálum, neitaði hann að auðmýkja sig svo. Þegar konungurinn rétti fótinn fram, skipaði Rollo einum hermanni sínum að taka að sér skítverkið. Sá lyfti fætinum upp að vörum sér, og féll kóngurinn við það aftur fyrir sig. Landnám. Í fyrstu stóð Rollo við samningana um að verja strandhéruð Frakklands og svæðin meðfram Signu. En brátt kom í ljós að hann og fylgismenn hans höfðu allt aðrar hugmyndir. Rollo byrjaði að skipta landinu milli ánna Epte og Risle milli liðsforingja sinna og námu þeir þar land með Rúðuborg sem höfuðstöðvar. Þegar þeir höfðu komið sér þar vel fyrir, hófu þeir að herja lengra inn í landið frá þessu örugga baklandi, í stað þess að stunda strandhögg frá skipum. Hermenn Rollos tóku sér innlendar konur, og eignuðust börn, sem alin voru upp í franskri menningu. Fékk yfirstéttin því brátt franskt yfirbragð. Nokkur merki um norræna landnámið lifðu þó í örnefnum o.fl. Um 1025 lifði norrænan enn í takmörkuðum mæli, t.d. meðal vissra hópa í Bayeux. Ævilok. a>, þar sem hann var grafinn. Um 927 var Rollo farinn að lýjast, og afhenti syni sínum, Vilhjálmi langasverði valdataumana í Normandí. Rollo hefur líklega lifað nokkur ár eftir það, en hann var örugglega dáinn 933. Sagnaritarinn Adémar segir frá því, að þegar Rollo fann dauðann nálgast, varð hann óður og lét hálshöggva fyrir framan sig 100 kristna fanga, til að friða norrænu goðin, sem hann hafði trúað á í æsku. Síðan skipti hann 100 pundum af gulli milli helstu kirkna í Normandí, til dýrðar hinum eina sanna guði, sem hann hafði viðurkennt með skírn sinni. Samkvæmt þessu hefur einhver trúarlegur efi komið upp á yfirborðið í ellinni. Arfleifð. Rollo setti ströng lög á yfirráðasvæði sínu í Normandí, sem munu hafa verið sniðin eftir norrænum lögum. Hann og eftirmenn hans byggðu upp einstaklega skilvirkt stjórnkerfi, sem hafði víðtæk áhrif þegar fram liðu stundir. Rollo var forfaðir Vilhjálms sigursæla, sem lagði undir sig England 1066. Af Vilhjálmi er breska konungsættin komin, allt til núverandi þjóðhöfðingja, Elísabetar drottningar. Betsson. Betson Malta Ltd. er veðmálasíða með höfuðstöðvar á Möltu. Síðan býður upp á póker, spilasal, skafmiða og íþróttaveðmál. Síðan er stafrækt á ensku, sænsku, finnsku, þýsku, tyrknesku, íslensku, dönsku, norsku, tékknesku, spænsku, frönsku, grísku, ítölsku, serbnesku og hollensku. Fyrirtækið hóf rekstur í ársbyrjun 2001 og fékk veðmálaleyfi í London í apríl 2002. Í næsta mánuði opnaði vefurinn á ensku og sænsku. Í kjölfarið varð vefsíðan ein af þem fyrstu til að bjóða upp á veðmál á meðan leikjum stendur. Næstu árin opnaði síðan á finnsku, þýsku, norsku, tékknesku, tyrknesku, íslensku og dönsku. Á þessum tíma kynnti Betson til sögunar spilavíti og pókerborð, en það síðara var opnað í samvinnu við fyrirtækið Ongame. Í apríl 2005 varð Betson dótturfyrirtæki Cherry Företagen AB sem er skráð á kauphöllinni í Stokkhólmi. Ári síðar 2006 hafði vefurinn rúmlega 400.000 viðskiptavini og sama ár var skafmiðanum Trio hleypt af stokknum. Aðalskrifstofa fyrirtækisins fluttist frá London til Möltu og í júní var síðan valin besta íþróttaveðmálasíða í heimi af tímaritinu Internetworld. Í apríl 2007 hóf Betsson að bjóða uppá leiki í beinni í Net-lengjunni. Betsson fór enn víðar til Frakklands, Grikklands, Ítalíu og Spánar. Á veturmánuðum 2008 fór fjöldi viðskiptavina Betsson upp fyrir eina milljón! Í janúar 2008 hélt Betsson til Suður-Ameríku í fyrsta skipti til Perú. Serbía fylgdi í kjölfarið og Holland kom nokkru síðar. Tímamótum var náð í maí 2008 þegar Betsson opnaði veðstofu í Stokkhólmi með lög Evrópusambandsins sér að baki í trássi við veðmálaeinokun sænska ríkisins. Helgi Már Magnússon. Helgi Már Magnússon (fæddur 27. ágúst 1982) er íslenskur körfuknattleiksmaður. Hann er framherji hjá KR. Hann spilaði sín fyrstu tímabil, frá 1998-2002 með KR en hélt síðan til Bandaríkjanna og spilaði með Westminister og Catawba þar úti. Hann fór síðan í eitt ár til Sviss, 2006, áður en hann snéri aftur heim til KR 2007. Hann hefur spilað fjölda landsleikja með A-landsliði Íslands. Vorrúlla. Vorrúllur er matartegund, deigþynna vafin upp í rúllu og fyllt með einhverju hráefni, oftast smátt skornu eða hökkuðu kjöti og/eða söxuðu grænmeti. Vorrúllurnar eru oftast djúpsteiktar en stundum er hráefnið einfaldlega vafið í uppbleyttan hríspappír og rúllurnar bornar fram kaldar. Hvort sem þær eru heitar eða kaldar eru þær bornar fram með ídýfu. Vorrúllur þekkjast hjá mörgum Asíuþjóðum en eru algengastar í Kína, Víetnam, Indónesíu og á Filippseyjum. Þar eru þær oftast forréttur eða smáréttur en á Vesturlöndum eru þær oft hafðar sem aðalréttur. RES Orkuskóli. RES - Orkuskólinn er alþjóðleg háskólastofnun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa sem tók formlega til starfa á Akureyri, Sumardaginn fyrsta 20. apríl 2006. Enskt heiti skólans er RES - The School for Renewable Energy Science. Meginverkefni RES. Meginverkefni RES er að útskrifa meistaranema í vistvænni orkunýtingu. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri veita sameiginlega hina formlegu M.Sc. gráðu í endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er samkvæmt samstarfssamningi háskólanna við RES. Fimm sérsvið endurnýjanlegra orkugjafa. Á vegum RES og samstarfsaðila er boðið upp á meistaranám upp á 45 einingar eða 90 ECTS samkvæmt Bologna-ferlinu um samræmingu háskólastigs í Evrópu. Á námsárinu 2010 býður skólinn upp á nám á fimm sérsviðum: Jarðhita; efnarafalar og vetni; lífmassi; vatnsafl; og sérstakri braut á sviði orkukerfa og orkustjórnun. Gert er ráð fyrir því að á komandi árum verði að auki kenndar brautir á sviði vindorku, öldu- og sjávarfallaorku annars vegar og sólarorku hins vegar. Starfssvæði. Höfuðstöðvar RES eru á Akureyri en að auki starfar skólinn í Reykjavík í samstarfi við Háskóla Íslands og í Reykjanesbæ í samstarfi við Keili. Allmargir meistaranemendur sækja síðan erlenda samstarfsskóla heim vegna lokaverkefna. Nemendur. Á fyrsta starfsári meistaranámsins 2008-9 útskrifuðust 30 kandídatar frá níu þjóðríkjum. Þeir koma frá Bandaríkjunum, Lettlandi, Portúgal, Póllandi, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi. Á öðru starfsári meistaranámsins 2009-10 útskrifuðust 35 kandídatar frá 11 þjóðríkjum. Þeir komu frá Bandaríkjunum (7), Íslandi (2), Finnlandi (1), Eistlandi (1), Póllandi (14), Kazakhstan (1), Slóvakíu (2), Slóveníu (1), Ungverjalandi (2), Mexíkó (3) og Chile (1). Námsárið 2010-2011 er áætlað að 49 meistaranemar frá 12 þjóðríkjum útskrifist frá skólanum. Þeir koma frá Bandaríkjunum (8), Frakklandi (1), Íslandi (4), Eistlandi (1), Póllandi (27), Rússlandi (1), Malasíu (1), Slóvakíu (1), Slóveníu (1), Kanada (2), Spáni (1) og Þýskalandi (1). Að auki hafa ýmsir sótt einstaka námskeið einkum yfir sumartímann. Starfslið og kennarar RES. Stór hluti kennara RES er alþjóðlegur en að skólanum koma einnig prófessorar og kennarar frá Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, ÍSOR, og innlendum orku- og verkfræðifyrirtækjum. Af alþjóðlegu starfsliði skólans eru flestir með prófessorstöðu við samstarfsskóla RES. Á starfsárinu 2010-11 eru samtals 65 alþjóðlegir sérfræðingar að kenna við meistaranám RES. 35 þeirra koma erlendis frá og 30 þeirra eru íslenskir. Því til viðbótar koma 16 sérfræðingar einkum frá íslenskum orku- og verkfræðifyrirtækjum að lokaverkefnum nemenda. Einkarekin háskólastofnun. RES Orkuskólinn er einkarekin mennta- og vísindastofnun, en starfar án ágóðasjónarmiða. Það er einkahlutafélagið Orkuvörður sem starfrækja RES Orkuskóla. Eigendur Orkuvarða ehf. eru Þekkingarvörður ehf., RARIK, KEA, Gift fjárfestingafélag, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarbær og Landsbanki Íslands. Að stofnun RES hafa komið margvísleg innlend fyrirtæki og stofnanir en að auki byggir skólinn byggir á formlegu samstarfsneti bæði innlendra- og erlendra rannsóknar- og háskólastofnanna. Nesjavallavirkjun. Nesjavallavirkjun er 120 MW jarðvarmavirkjun í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Framkvæmdir hófust árið 1987 en orkuverið var formlega tekið í notkun 29. september 1990. Síminn. Síminn er íslenskt símafyrirtæki í einkaeigu. Fyrirtækið var í ríkiseigu, hét áður "Landssími Íslands" og var stofnað árið 1906. Landsíminn var í fyrstu í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg en hann hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn. Landssími Íslands var stofnaður sama ár og sæsímastrengur fyrir ritsíma var lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sameinuð í eitt fyrirtæki, "Póstur & sími", en árið 1998 var Landssími Íslands hf. var stofnaður. Haustið 2005 seldi Ríkisstjórn Íslands 98,8% eignarhlut sinn í Landssíma Íslands til Skipta ehf. Gagnrýni. Töluverð gagnrýni hefur beinst að Símanum í gegnum árin. Meðal annars má telja greinar eins og í viðskiptablaði Morgunblaðsins eftir Hrein Loftsson og. Persónuvernd kærði Símann í janúar 2011 vegna alvarlega brota á lögum um persónuvernd. Síminn hefur viðurkennt brot sín og sagðist harma þau. Brand Nubian. Brand Nubian er hip hop-hópur frá New Rochelle í New York fylki í Bandaríkjunum. Grafningur. Grafningur er heiti á sveitinni vestan Þingvallavatns og Sogsins. Grafningur er löng og mjó hlíð og lítil dalverpi undir Grafningsfjöllum, Hengli og Ingólfsfjalli. Búrhvalur. Búrhvalur (eða búri) (fræðiheiti: "Physeter macrocephalus") er stærstur tannhvala og eina stórhvelið meðal þeirra. Þá má finna um öll höf nema á Norður-Íshafi. Lýsing. Mikill stærðarmunur er á kynjum búrhval. Tarfarnir geta náð 15 -20 metra lengd og eru 45 til 57 tonn á þyngd. Kýrnar verða 11 - 13 metra langar og geta orðið um 20 tonn á þyngd. Höfuðið er mjög stórt, um 25 - 35 % af lengd dýrsins. Höfuðið hefur sérkennilegt kantað tunnulag sem enn eykur fyrirferð þess. Heili búrhvalsins er stærstur allra spendýra. Blásturholan er vinstra megin á höfðinu og fremur framarlega. Neðrikjálki er mjór og ber venjulega 18 til 30 pör tanna, engar tennur eru í efri kjálka. Tennurnar geta orðið yfir 10 cm langar hjá stórum törfum en með rót getur tönnin orðið yfir 20 cm á lengd og vega yfir 1,4 kg. Bægslin eru stutt en þykk og spaðalaga. Sporðblakan er 4 til 5 metrar á breidd og er þríhyrningslaga. Búrhvalurinn er nær allur dökkgrár og ívið ljósari kviður, en efrivarir og efri hluti neðri kjálka eru hvít. Þó nokkur dæmi um óvenju ljós og jafnvel hvít dýr eru þekkt. Beinagrind búrhvals Hið sérkennilega höfuðlag búrhvala ræðst af tunnulaga fitubólstri sem liggur efst í höfðinu. Fitubólstrið er fullt af vaxkenndri olíu sem er fljótandi við líkamshita en storknar við lægri hita en 29 °C. Undir fitubólstrinu liggur stór svampkenndur bindivefsmassi sem er mettaður svipaðri olíu. Áður var álitið að olían í höfði hvalanna væri sæði þar sem hún þótti minna á sæði karla. Þessari kenningu er nú algjörlega hafnað en fitubólstrið er nefnt "spermaceti" á latínu ("sperma = sæði, ceti = hvalur"). Líffræðingar hallast nú að því að olían í höfði hvalanna stýri flothæfni þeirra á mismunandi dýpi svipað og sundmagar fiska. Eðlisþyngd olíunnar í höfðinu er breytilegt eftir dýpi og hitastigi. Þessi kenning byggir á því að búrhvalir getir stýrt hitastigi olíunnar og þar með eðlisþyngd hennar. Með því að taka kaldan sjó inn um hægri nasagöngin kælist olían. Vinstri og hægri nasagöngin eru ekki eins. Þau vinstri liggja til hliðar við fitubólsturinn og síðan beint að blásturopinu. Þau hægri liggja hins vegar á milli fitubólstursins og bindivefsmassans í loftsekk í nefinu og þaðan upp í blástursopið. Að öllum líkindum geta hvalirnir einnig hækkað hitastig olíunnar með því að auka blóðflæði til höfuðsins. Önnur tilgáta er að hljóðbylgjur sem búrhvalurinn myndar við að þrýsta lofti í gegnum loftsekkinn fremst í nefinu magnist og endurkastist við að berast í gegnum fitubólsturinn og byndivefsmassann. Tíðni endurkastsins er í hlutfalli við stærð höfuðsins og þar með líkamsstærð. Útbreiðsla. Búrhval má finna á öllum helstu hafssvæðum, þeir halda sig þó helst á úthafssvæðum og sjást sjaldan á grunnsævi. Tarfaranna má finna allt frá ískantinum á norður og suðurhveli en kýrnar og kálfarnir halda sig á tempruðum og hitabeltis hafssvæðum þar sem sjór nær minnst 15 °C. Það eru því eingöngu tarfar sem koma á Íslandsmið og sjást þeir oftast vestur og norðvestur af landinu. Vistfræði. Sporður búrhvals, Mexíkóflóa Búrhvalir lifa oftast í hópum. Mikilvægasta eining þeirra er hópur kvendýra og sem eru innbyrðist skyldar og afkvæmi þeirra. Þessir hópar eru oftast um 12 dýr. Tarfarnir yfirgefa mæðrahópinn þegar þeir eru um sex ára gamlir (það er þó misjafnt, allt frá því þeir eru 4 ára og allt að 21 árs aldri). Ungtarfarnir halda sig oftast í hópum með öðrum törfum af svipuðum aldri. Eldri tarfar eru oft einir á ferð en sjást þó alloft nokkrir saman. Búrhvalir kafa oft niður á 500 metra dýpi og eru þá í kafi í um það bil 40 mínútur. Þeir geta þó hins vegar kafað í allt að 2000 metra dýpi (og hugsanlega allt að 3000 metrum) og verið í kafi í allt að tvær klukkustundir. Eftir djúpköfun liggur hvalurinn við yfirborðið í um tíu mínútur og andar. Búrhvalir eins og aðrir tannhvalir nota bergmálsmiðun til að rata um hafdjúpin og til að leita ætis. Stórir og meðalstórir smokkfiskar eru helstu fæðutegundin en þeir éta einnig ýmsa aðra fiska. Meðal annars athuganir á fæðuöflun búrhval milli Íslands og Grænlands að þeir éta mikið af hrognkelsi ("Cyclopterus lumpus"), karfa ("Sebastes marinus"), skötusel ("Lophius piscatorius") og þorski ("Gadus morhus"). Oft má sjá ummerki á búrhvölum, sérlega eldri dýrum, eftir átök við kolkrabba sem hafa vafið örmunum um höfuð þeirra. Stofnstærð og veiðar. Teikning af búrhvalsveiðum á fyrri öldum Fjöldi búrhvala er óþekkt, talning einstaklinga er ekki auðveld meðal annars vegna þess að svo langur tími getur liðið á milli þess að þeir komi upp til að anda. Ágiskanir sem byggja á talningum á litlum afmörkuðum svæðum sem síðan eru margfaldaðar yfir allt útbreiðslusvæðið telja allt frá 200 000 til 2 milljóna dýra og um 3 milljónir áður enn veiðar hófust. Fjöldi búrhvala á hafssvæðinu við Ísland og Færeyjar er talin vera um 11 þúsund dýr. Veiðar á búrhval voru ekki stundaðar við Ísland fyrr á öldum en spik var nýtt af strönduðum hvölum. Þegar veiðar á stórhvölum hófst við Ísland um aldamótin 1900 snérust þær ekki að búrhvölum nema að litlu leiti. Einungis nokkrir tugir voru veiddir þar til hvalstöðin var stofnuð í Hvalfirði 1948. Eftir það varð mikil breyting á, frá 1948 þar til búrhvalur var friðaður við 1983 voru veiddir samanlagt 2885 hvalir. Bandaríkjamenn stunduðu miklar veiðar á búrhval allt frá 1712. Bretar og Frakkar stunduðu einnig veiðar á búrhval en þó í miklu minni mæli. Á tímabilinu 1804 til 1876 er talið að heildaraflinn hafi verið um 225 þúsund dýr. Sóst var eftir olíunni og spikinu sem notuð var til smurningar, lýsingar og í snyrtiiðnaði. Alþjóðahvalveiðiráðið friðaði búrhval 1983, Japanir héldu þó áfram veiðum fram til 1987. Klaus Ebner. Klaus Ebner (fæddur 8. ágúst 1964 í Vín) er austurrískur rithöfundur. Edik. Edik (áður fyrr nefnt eysill eða örvínan) er edikssýra blönduð vatni og aðallega höfð til matargerðar, en áður fyrr einnig notuð til lækninga. Tvær aðaltegundir eru til af ediki. Það er 1) þynnt edikssýra og 2) gerjað edik. Eftir því hver uppistaðan er í gerjuninni er talað um ávaxtaedik, vín- eða maltedik. Edik er t.d. notað í tómatsósu, majónes og við framleiðslu osta. Til eru ýmsar gerðir ediks, s.s. "ávaxtaedik" (edik blandað ávöxtum), "balsamedik", "hrísgrjónaedik", "jurtaedik", "eplaedik", "maltedik" (áður fyrr nefnt "öledik") og "vínedik". Tvíundaklukka. Tvíundaklukka (eða tvítöluklukka) er klukka sem sýnir hefðbundinn sextugatíma í tvítölusniði. Upprunalega sýndu þær "hvern tugastaf" úr sextugatímanum sem tvíundagildi, en í dag eru sannar tvíundaklukkur einnig til. Tvítölukóðaðar tíundaklukkur. Frá og með 2008 eru flestar seldar tvíundaklukkur hannaðar af Anelace Inc., og nota sex raðir af ljóstvistrum til að tákna núll og einn. Hver dálkur táknar einn tugastaf og kallast það snið tvítölukóðaður tugastafur. Botninn á hverjum dálk táknar 1 (eða 20), þar sem að hver röð fyrir ofan táknar hærra veldi af tveimur, upp að 23 (eða 8). Til að lesa hvern tölustaf fyrir sig í tímanum, bætir maður gildunum sem hver upplýstur ljóstvistur táknar, og les koll af kolli frá vinstri til hægri. Fyrstu tveir dálkarnir tákna klukkutíman, næstu tveir tákna mínúturnar og síðustu tveir tákna sekúndurnar. Þar sem að núlltáknaðir tölustafir eru ekki upplýstir er þessi klukka ekki nothæf í myrkri. Til að lesa tvíundakóðaða tugaklukku bætir maður gildunum sem hver dálkur táknar með ljóstvistum saman og fær út sex tugastafi. Svona fær maður út tvo tugastafi sem tákna klukkutíma, mínútur og sekúndur. Sönn tvíundaklukka. Nýjasta útgáfa Anelace Inc. á tvíundaklukkum notast við sönn tvíundagildi til að tákna tímann (eina tölu fyrir klukkutíma, mínútur og sekúndur) frekar en sex tölustafi fyrir tugastafina í hverju tímalið. Tölur eru síðan sýndar lárétt. Satt tvíundaarmbandsúr frá Time Technology's Samui Moon. Sýnidæmið fyrir ofan sýnir þrjá tvíundatöludálka, einn fyrir hvern tímalið (klukkutíma, mínútur og sekúndur) í hefðbundna tímakerfinu. Steinríkur alvaski. Steinríkur alvaski er sögupersóna í bókaflokknum um Ástrík og víðfræg afrek hans. Besti vinur hans er og félagi er Ástríkur gallvaski. Einnig á Steinríkur hundinn Krílrík. Aðfella. a>. X- og y-ásarnir eru aðfellurnar. Aðfella (sjaldnar ósnertill) er bein lína, sem er þannig að fjarlægð ferilsins og aðfellunnar verður sífellt minni því lengra sem farið er eftir ferlinum frá einhverjum punkti á honum og má þá segja að ferillinn „halli sér“ stöðugt betur að aðfellunni þegar farið er fjær punktinum. Til eru þrjár tegundir aðfellna fyrir ferla með föll "y = f(x)": "lóðfella", lóðrétt aðfella þar sem fallið vaxi óendanlega mikið við lóðfelluna; "láfella", lárétt aðfella sem ferillinn nálgast þegar "x" nálgast "+∞" eða −∞ og "skáfella", þar sem aðfellan er hvorki samhliða x- né y-ásnum. Ferill sem sker aðfellu sína, jafnvel óendanlega oft. Ummál. Ummál hlutar er lengd lokaðs ferils, sem umlykur hlutinn. Talan pí er hlutfall ummáls og þvermáls hrings. þar sem er "r" geislinn og er "d" þvermálið hringsins. Dafnis og Klói. Dafnis og Klói (gríska: Δάφνις και Χλόη, "Dafnis kai Khlóe") er saga eftir forngríska höfundinn Longos, sú eina sem varðveist hefur eftir hann. Sagan gerist á 2. öld e.Kr. á eyjunni Lesbey. Þetta er hirðingja- og ástarsaga titilpersónanna, en er um leið einnig sögð lýsa launhelgum Díonýsosar. Hinn íslenski þýðandi verksins Friðrik Þórðarson minnist á þetta í eftirmála þýðingar sinnar: "Það er eftirlætisíþrótt grískra höfunda að tala allt í líkingum [..]; undir yfirborði sögunnar grillir einhver dulin fræði sem sérstaka kunnandi þarf til að skilja. [..] Sagan af Dafnis og Klói virðist vera samin handa safnaðarmönnum í launhelgum Díonýsusar; þetta má ráða sumpart af orðfæri sumpart af atburðum sögunnar". Geir Jón Þórisson. Geir Jón Þórisson (fæddur 24. apríl 1952) var yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Fossá. Fossá er á sem rennur í Gnúpverjahreppi, fossarnir Háifoss og Hjálparfoss eru í ánni. Helmut Kohl. Helmut Kohl (f. 3. apríl 1930) er þýskur stjórnmálamaður. Hann var kanslari Vestur-Þýskalands frá 1982 til 1990 og sameinaðs Þýskalands frá 1990 til 1998. Hann varð formaður Kristilega demókratasambandsins 1973, eins stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands. Sextán ára kanslaratíð hans nær yfir endalok Kalda stríðsins og var sú lengsta í sögu Þýskalands frá valdatíð Ottos von Bismarck. Kohl var leiðandi í sameiningarferli Þýskalands og, ásamt François Mitterrand Frakklandsforseta, er eignaður heiðurinn af því að hafa komið á Maastrichtsáttmálanum og þar með Evrópusambandinu. Ásamt Jean Monnet er Kohl eini maðurinn sem hefur verið sæmdur Heiðursborgari Evrópu. Panamaborg. Panamaborg er höfuðborg og stærsta borg Panama, með yfir 700.000 íbúa. Hún stendur við enda Panamaskurðarins Kyrrahafsmegin. Borgin var stofnuð af Pedro Arias de Ávila 15. ágúst 1519 sem miðstöð fyrir landvinninga Spánverja í Perú og tengihöfn fyrir gull- og silfurflutninga frá vesturströnd Suður-Ameríku til Evrópu. Snotra. Snotra var ein af Ásynjunum. Hún þótti mjög vitur og látprúð. Perfect Symmetry. Perfect Symmetry er þriðja stúdíóplata bresku hljómsveitarinnar Keane sem kemur út 13. október 2008 á Bretlandi. Heitið hljómplötu var gefið út 31. júlí 2008. Stíllinn hljómplötunni er mjög ólíkur fyrsta tveimur hljómplötum Keane. Laglisti. Öll lög eru skrifuð af Tim Rice-Oxley, Tom Chaplin og Richard Hughes að frátöldum það er skrifað að öðru leyti. Louvre. Louvre-minjasafnið (franska: "Musée de Louvre") er listasafn í París í Frakklandi. Það er mest heimsótta listasafn í heimi, sögufrægt minnismerki og þjóðminjasafn Frakklands. Það er landamerki miðsvæðis á hægri austurbakka Signu. Þar eru næstum 35.000 smíðisgripir frá 7000 f.Kr. til 19. aldarinnar. Minjasafnið er í Louvre-höllinni ("Palais du Louvre"), sem er virki byggt á 12. öldinni af Filip 2., rústir virkisins eru enn sýnilegar. Smám saman þróaðist mannvirkið í að verða að höll. Árið 1674 ákvað Loðvík 14. að búa í Versölum og var þá konunglegt safn sýnt þarna. Í frönsku byltingunni tilkynnti Þjóðsamkoman að Louvre-byggingin ætti vera notuð sem minjasafn. Minjasafnið opnaði þann 10. ágúst 1793 með 537 málverk að mestu leyti frá eignum kirkjunnar eða kóngafólksins. Árið 1796 var minjasafnið lokað til 1801 vegna byggingarvandamála. Þegar Napóleon var við stjórnvöl jókst stærð safnsins og var það kallað "Musée Napoléon". Eftir að Napóleon fór halloka í Waterloo var mikið af safngripunum skilað til upprunalegu eigendanna. Á ríkisárunum Loðvíkar 18. og Karls 10. var bætt við það og fékk minjasafnið 20.000 smíðisgripi á Öðrum keisaradæminu Frakklands. Einingarvigur. Einingarvigur eða einingarvektor er í stærðfræði vigur í stöðluðu vigurrúmi sem hefur lengdina "1". Einingarvigur er oft táknaður með lágstaf með „hatti“ ofan á (sjá formula_1). Einingarvigur með stefnuhornið v er táknaður með formula_2 og hefur hnitin formula_3. Einingarvigur í stefnu x-ássins er oft táknaður með formula_4 eða i og einingarvigur í stefnu y-ássins með formula_5 eða j. Einingavigur formula_1 sem hefur sömu stefnu og formula_4 má finna með því að finna andhverfu lengdar vigursins formula_4 og margfalda með upprunalega vigrinum. Dæmi: formula_4 = formula_10 = formula_11 þ.a. lengd formula_4 = formula_13 = 9. Andhverfa 9 er formula_14 þannig að formula_1 = formula_16 University College London. University College London (skammstafaður sem UCL) er fjöldeilda háskóli á Bretlandi staðsettur aðallega í London. Hann er hluti Háskólans í London, og var stofnaður árið 1826 sem "London University". UCL var fyrsti háskóli í London og var sá fyrsti á Bretlandi sem stofnaður var á veraldlegum grundvelli. Hann var líka fyrsti háskólinn til að viðurkenna fólk án tilits til kynþáttar, stéttar, trúar eða kyns. Árið 1836 stofnsettu London University og King's College London „háskólann í London“ og þá var UCL gefið núverandi nafn. Löngu hefur verið mikið keppni milli UCL og King's þó að þeir séu meðlimir í sama háskólanum. Enda þótt UCL sé hluti háskólans í London er hann hliðstæður við frístandandi, sjáfstæða og fjármagnaða á óháðan hátt háskóla því hann úthlutar gráður hann sjálfir. Í dag starfa um það bil 8.000 manns við skólann og nemendur eru 22.000. Skólinn er stærri en aðrir háskólar á Bretlandi. Árið 2008 var velta UCL 635 milljónir breskra punda og var hrein eign hans 581 milljónir breskra punda. Núverandi yfirmaður og forseti UCL er prófessor Malcolm Grant. UCL er eini háskólinn á Bretlandi þar sem hægt er að læra íslensku. Staðsetning. UCL er staðsettur í Bloomsbury í Mið-London. Háskólalóðin er við Gower Street og það eru líka aðrar byggingar í eigu UCL um London. Háskólalóðin við Gower Street inniheldur aðal- og vísindabókasöfn, tungumáladeildir, sagnfræðadeildir, Bloomsbury-leikhúsið, líffræði- og eðlisfræðideildir og Petrie Museum of Egyptian Archaeology. Annar hópur bygginga við Gordon Street og Gordon Square hýsir Fornleifafræðastofnunina, efnifræðadeild, heimspekideild, The Bartlett borgarfræðaskóla og School of Slavonic and East European Studies (SSEES). Nokkrar aðrar stofnanir eru staðsettar á svæðinu sem umkringir UCL, eins og Þjóðbókasafn Bretlands, Þjóðminjasafn Bretlands, Royal Academy of Art, British Medical Association og Wellcome Trust. Nálægt liggja margir skólar og stofnanir háskólans í London, eins og SOAS, Birkbeck, Háskólann í London, Institute of Education, School of Advanced Study og Senate House-bókasafnið sem hýsir rannsóknarsöfn háskólans í London um listir, fornmenntir og þjóðfélagsvísindi. Allir nemendur sem taka gráður hjá UCL og allt starfsfólk háskólans hefur aðgang að þessu bókasafni og innihaldinu þess. Næsta neðanjarðarlestarstöðin við UCL-háskólalóðina er Euston Square. Hinar nærliggjandi lestarstöðvar eru Warren Street, Russell Square og Euston. Saga. Lík Jeremy Bentham í fötum sínum. UCL var stofnaður árið 1826 undir heitinu "London University" sem veraldlegt val á móti Oxford og Cambridge-háskóla. Því er hann kallaður þriðji elsti háskólinn á Englandi enda þótt aðrir háskólar reyni stundum að eigna sér það sæti. Heimspekingurinn Jeremy Bentham er talinn að vera frumkvöðull að stofnun háskólans en hann átti enga hlutdeild í sköpuninni sinni. Hugtök Jeremy Bentham blésu stofnendunum James Mill (1773-1836) og Henry Brougham (1778-1868) í brjóst og mótaði sköpun háskólans. Árið 1836 varð "London University" þekktur sem University College London og vann við King's College London til að mynda sambandsháskólann háskólans í London. Rannsóknir. UCL er einn besti rannsóknarháskóli Bretlands. Hann er meðlimur Russell-háskólahópsins og vann 174 rannsóknarverðlaun eiga 81.365.000 breskra punda árið 2008. Merkilegir útskrifaðir nemendur. Margt merkilegt fólk hefur verið nemendur við UCL, til dæmis Mahatma Gandhi og Alexander Graham Bell, Ricky Gervais og allir meðlimir hljómsveitar Coldplay og auk þess tveir meðlimir hljómsveitar Keane. Sumir mikilvægir rithöfundar sem lærðu þar eru Stella Gibbons, Robert Browning, Rabindranath Tagore (útskrifaði ekki), Raymond Briggs og G. K. Chesterton. Vísindamenn og verkfræðingar eru Francis Crick, John Ambrose Fleming, John Ambrose Fleming, Joseph Lister, Roger Penrose, Colin Chapman, Patrick Head, Paul Davies eðlisfræðingur, John Maynard Smith þróunarlíffræðingur og líka fyrrnefndi Alexander Graham Bell. Nokkrir listamenn, arkitektar og hönnuðir sem lærðu þar eru William Coldstream, Eduardo Paolozzi, Ben Nicholson og David Mlinaric. Margir stjórnmálmenn lærðu þar, nokkrir merkilegir einstaklingar eru Sir Stafford Cripps (Fjármálaráðherra Bretlands), William Wedgwood Benn, 1st Viscount Stansgate (Verkamannaflokksmaður), fyrsti og fyrri forsætisráðherrar Japan (Hirobumi Ito og Junichiro Koizumi hver um sig) og Chaim Herzog, fyrri forsætisráðherra forstjóri Ísraels. Maður sem stofnaði Kenýa, Jomo Kenyatta, var nemandi við UCL. Wu Tingfang (Ng Choy), sem var starfandi forsætisráðherra lýðveldisins Kína, lærði við UCL. Margir blaðamenn hafa verið nemendur við UCL. Til dæmis hafa þrír fyrri ritstjórar "The Economist" allir lært þar. Nokkrar söngvarar og sjónvarpskynnar sem eru vinsælar í Bretlandi hafa lært þar, til dæmis Justine Frischmann, Jack Peñate, Jonathan Dimbleby og Jonathan Ross. Kaupsýslumaður Edwin Waterhouse, sem stofnaði PricewaterhouseCoopers, lærði þar. Christopher Nolan, leikstjóri "The Dark Knight" og fleira var nemandi við UCL. Við UCL starfa fleiri prófessorar en hjá öllum hinum háskólunum á Bretlandi. Þar eru 35 meðlimir Royal Society, 27 meðlimir British Academy og 77 meðlimir Academy of Medical Sciences. Fræðimönnum og nemendum UCL hafa verið veidd 21 Nóbelsverðlaun. Allir eðallofttegundirnar fimm voru uppgötvaðar við UCL af Sir William Ramsay sem var stjóri eðlisfræðisdeildarinnar á þeim tíma. Tenglar. University College London Staðlað vigurrúm. Sérhvert staðlað vigurrúm ("V", || ⋅ ||) verður að firðrúmi ("V", "d") með firðina Staðlað vigurrúm kallast Banach-rúm, ef það er fullkomið í firðinni "d". * Kirlian-ljósmyndun. Kirlian-ljósmyndun er ljósmyndatækni sem byggist á því að leggja lifandi „hluti“ ofan á ljósmyndafilmu og beina háspennuriðstraum að þeim svo að kringum þá myndast reglulegt ljósblik sem virðist geisla út frá yfirborði þeirra. Tæknin uppgötvaðist fyrir tilviljun árið 1939. Það var rússneski rafmagnsfræðingurinn Semyon Kirlian sem uppgötvaði þessa ljósmyndatækni í lok 19. aldar, nánast fyrir tilviljun. Reyndar hafði tékkneski vísindamaðurinn Nikola Tesla fengist við svipaðar rannsóknir. Hann tengdi geysiöflug háspennutæki við dauða hluti og fólk þannig að geislandi blik myndaðist í kring um það. Enginn hefur þorað að endurtaka þessar tilrauir Tesla á fólki, og féllu þessar aðferðir hans næstum í gleymsku að honum látnum. Kirlian hóf fyrst rannsóknir á dauðum hlutum, en það vakti strax athygli Kirlians að lifandi hlutir, s.s. laufblöð og figur höfðu allt öðruvísi blik en dauðir hlutir - blik þeirra hafði miklu flóknara mynstur og í því komu fram allir regnbogans litir, í stað þess bláleita bjarma sem stafaði af dauðum hlutum. Eftir að hafa rannsakað þessi fyrir um nokkurn tíma rak Kirlian sig á nokkuð einkennilegt, sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á rannsóknir hans. Einn daginn var hann að mynda hendur sínar með tækinu en allar tilraunir hans mistókust því lítið sem ekkert blik kom fram á filmunni. Hann fékk þá konu sína til að framkvæma tilraunirnar í sinn stað, og brá þá svo undarlega við að allar myndirnar heppnuðust ágætlega hjá henni. Skömmu síðar veiktist Kirlian hastarlega og datt þá í hug að hugsanlega hyrfi blikið eða minnkaði þegar líkaminn væri sjúkur, og væri það skýringin á því að allar tilraunir hefðu mistekist hjá honum áður en hann veiktist, en kona hans fékk fram venjulegar myndir í sömu tækjum. Það furðulega er að sjúkdómar virðast koma fram á Kirlian-myndum, þannig að það dregur úr blikinu og það breytist ef viðkomandi er veikur. Vígahnöttur. Vígahnöttur er glóandi loftsteinn sem skilur eftir sig rák í loftinu, en var áður fyrr einnig haft um hinar ýmsu furðusýnir á lofti (loftsjónir). Varast ber að rugla vígahnetti saman við urðarmána Vígahnettir koma einnig fyrir í þjóðsögunum, eins og t.d. í "Íslenzkum þjóðsögum og sögnum", eftir Sigfús Sigfússon, sem kom út á árunum 1922-1959. Þar segir: „Vígahnetti kalla menn ljósakúlur þær eða eldhnetti, sem hafa sýnzt oft berast langar leiðir áfram um himingeiminn“. Glitnir (norræn goðafræði). Glitnir er í norrænni goðafræði hinn silfri þakti bústaður ássins Forseta. Glitnir þýðir í raun „hinn glansandi“, því auk þess að vera þakinn silfri er bústaðurinn sagður borinn uppi af súlum, veggjum og bitum úr gulli. Glitnir kemur einnig fyrir sem hestsheiti í þulum. Kreppa. Kreppa er hugtak sem haft er um verulega örðugleika í efnahagsmálum, með atvinnuleysi og sölutregðu fyrirtækja. Aðaleinkenni kreppu er ógurlegt verðfall á gjaldmiðlum, fjöldauppsagnir og greiðsluerfiðleikar fyrirtækja og almennings. "Kreppuboði" er það nefnt sem veit á samdráttarskeið, þ.e. er fyrirboði kreppu. Skór. Skór er fótabúnaður sem eru gerðir til að hlífa fótunum. Skór eru t.d. notaðir til auðvelda mönnum að ganga milli staða eða til að athafna sig við vinnu. Venjulegir skór eru gerðir úr sóla, en svo nefnist skóbotninn eða sá hluti á skó sem gengið er á. "Yfirleðrið", sem einnig er nefnt "ristarleður", er sá hluti sem klæðir ristina og svo er það hællinn sem er sá hluti sem lykur um hælinn. Hæll (sbr. t.d. kínahæll eða klossahæll) er einnig sú þykka (gúmmí)eining sem stendur niður af sólanum. Á skóristinni eru oft þræddar reimar gegnum kósa sem er í ristarflipunum, en reimarnar eru til að herða skóinn að fætinum svo að skórinn sitji betur á honum og þannig að ekki sé "stigið upp úr" skónum. Einnig eru til reimalausir skór eða skór með frönskum rennilás. Króksnjáldri. Krókshjáldri (fræðiheiti "Mesoplodon densirostris") er tannhvalur og ein af 14 tegundum í ættkvíslinni snjáldrar ("Mesoplodon"). Þeir eru hluti af ættinni svínhveli ("Ziphiidae"). Afar lítið er vitað um þessa hvalategund og er helsta vitneskja fengin af dauðum dýrum sem rekið hefa á land. Lýsing. Króksnjáldur minnir mjög á aðra svínhvali í líkamsbyggingu og er ekki auðvelt að aðgreina þá á sjó úti. Búkurinn er sívalur, afturuggi lítill og einnig bægslin og sporðblakan án skoru. Tarfar og kýr eru nokkuð jafnlöng, um 4,7 metrar, en kýrin er heldur þyngri og vegur um eitt tonn en tarfurinn um 800 kg. Auðveldast er að greina króksnjáldra frá öðrum svínhvölum á höfuðlaginu. Þeir hafa lágt enni, mjótt og miðlungslangt snjáldur. Munnurinn sveigist í boga upp frá miðju og aftur að munnvikum. Þetta stafar af lögun kjálkabeinsins, fremri hluti þess er lágt en um miðju kjálkans hækkar hann snögglega. Tarfarnir hafa eitt par af tönnum í neðri kjálka og koma þær upp úr kjálkaboganum þar sem hann er hæstur. Fullorðnir tarfar eru oft þaktir tannaförðum aðallega framan og ofan á höfði og stafa þau sennilega af bardögum tarfanna. Hvalirnir eru gráir eða blágráir nema á kviði þar sem þeir eru hvítir eða ljósgráir. Algengt er að hvalirnir hafi hvít eða ljósgrá ör sennilega eftir hákarla eða sníkjudýr. Útbreiðsla og hegðun. Ekkert er vitað um fjölda króksnjáldra enda sjást þeir sjaldan á hafi úti og reka sjaldan á land. Þessi hvalategund hefur þó mikla útbreiðslu umhverfið jörðina á tempruðum og hitabeltishöfum. Þeir fylgja þó einstaka sinnum með Golfstraumnum og hafa þess vegna fundist við Ísland. Króksnjáldrar virðast oftast fara um í litlum hópum um 3 til 7 dýr. Þeir virðast aðallega éta smokkfiska. Veiðar hafa aldrei verið stundaðar á króksnjáldrum nema í samband við aðrar hvalaveiðar og einstaka dýr hafa náðst í net við fiskveiðar. Múrsvölungur. Múrsvölungur (eða turnsvala) (fræðiheiti: "apus apus") er hraðfleygur fugl af svölungaætt ("Apodidae"). Hann líkist svölum í útliti, en er auðgreindur frá þeim á löngum vængjum, stuttu klofnu stéli, sótsvörtum lit og hvítri kverk. Múrsvölungurinn sést sjaldan nema á flugi. Kleggjar. Kleggjar (eða hestaflugur) eru flugur af ættinni "Tabanidae". Til eru 4000 tegundir af kleggjum í heiminum. Kvendýr kleggjans er blóðsuga og leggst á spendýr eins og t.d. hesta og menn og bit þeirra geta verið sársaukafull, sérstaklega stærri tegunda. Sársaukin skapast að hluta til af því að kleggurinn sker nógu stórt gat á húðina til þess að geta lapið upp blóðið sem rennur út, í stað þess að drekk blóðið gegn um húðina. Oft bólgnar húðin í kring um bitið, ekki ósvipað biti mýflugunnar. Kleggjarnir geta borið ýmiss konar smit, m.a. miltisbrand, en það er óalgengt á norrænum slóðum. Landnám. Landnám á sér stað þegar ein eða fleiri tegundir setjast að á nýju svæði. Hugtakið átti upphaflega aðeins við um menn, en hefur frá því á 19. öld líka verið notað til að lýsa útbreiðslu dýra, gerla og plantna. Þegar hugtakið á við menn er átt við athafnir landnema, stofnun verslunarstaða og nýlendna, en nýlendustefna lýsir yfirráðum landnema yfir landsvæði þar sem aðrir bjuggu fyrir. Skátagil. Skátagil er gil á Akureyri. Í því voru tvö hús. Er nú búið að rífa annað húsið. Henry George. Henry George (2. september 1839, 29. október 1897) var sjálfmenntaður bandarískur hagfræðingur sem er frægur fyrir að hafa lagt fram hugmynd sína um stakan skatt á jarðeignir. Heimspeki- og hagfræðilega hugmyndafræðin georgismi, sem áréttar að maðurinn eigi eigin framleiðslu en allir eigi sameiginlega náttúruleg gæði, er kennd við hann. George gaf út bókina "Framfarir og fátækt" árið 1879 og naut hún mikilla vinsælda, í Bandaríkjunum seldust þrjár milljónir eintaka. Georgismi. George bjó í Kaliforníu í San Francisco um miðja 19. öldina og varð vitni að því að verð á jörðum í kringum borgina jókst í takt við fólksfjöldann eftir því sem borgarmörkin þöndust út. Hann hafði einnig tekið eftir því að þegar járnbrautateinar voru lagðir yfir Bandaríkin þver og endilöng jókst verð landsins sem leggja átti teinana yfir. Honum þótti þetta óréttlátt, að menn fengju að njóta góðs af einhverju sem þeir hefðu í sjálfu sér ekki unnið til. Því lagði hann til að lagður yrði jarðrentuskattur á hagnað af sölu gæða jarðarinnar sem yrði svo dreift jafnt til allra þegna. Afleggja mætti alla aðra skatta og yrði ríkið fjármagnað með þessum hætti. Áhrif á Íslandi. Á Íslandi urðu Benedikt Jónsson á Auðnum og Jónas Jónsson frá Hriflu fyrir miklum áhrifum frá George. Árið 1915 hófst útgáfa tímaritsins Rétts, sem að komu fylgismenn Georges. Marta María Jónasdóttir. Marta María Jónasdóttir er íslenskur rithöfundur og blaðamaður. Í samvinnu við Þóru Sigurðardóttir hefur hún samið tvær bækur: unglingabókina "Djöflatertuna" árið 2005 og "Ef þú bara vissir..." árið 2007. Higgs-bóseind. Higgs-bóseind eða bóseind Higgs (og stundum Guðseindin) er bóseind, með spuna núll, sem gegnir lykilhlutverki í Staðallíkaninu. Hugmyndir um tilvist bóseindarinnar voru fyrst settar fram 1964, m.a. af breska eðlisfræðingnum "Peter Ward Higgs" (f. 1929), sem hún er kennd við. 4. júlí 2012 tilkynntu vísindamenn við CERN að fundist hefði marktækar vísbendingar um Higgs-lega eind við CMS og ATLAS rannsóknastöðvarnar stóra-sterkeindahraðlsins. Frásögn. Frásögn eða saga er ræða af tiltekinni gerð (rituð, töluð, myndir, eða dans t.d.) þar sem skálduð eða raunveruleg atburðarás er sett fram með samfelldum hætti í skipulegri röð. "Saga" (þ.e. ein merking þess orðs) og frásögn eru oft samheiti en stundum er orðið "frásögn" notað í þröngri merkingu um þau atriði sem mynda þráð eða grind sögunnar, óháð t.d. persónusköpun eða efnistökum nema þar sem þessi atriði hafa áhrif á uppbyggingu frásagnarinnar. Frásagnarfræði fæst við rannsóknir á frásögnum í þessum þrönga skilningi. Þetta fræðasvið spratt úr strúktúralismanum eftir miðja 20. öld og nýtir sér talsvert hugtök mælskufræði. Frásagnir eru mikilvægur hluti menningar. Sú aðferð að tjá sig í frásögn er sammannleg og kemur fyrir í alls kyns samskiptum og eins í hugrænum og sálrænum ferlum eins og mótun sjálfsmyndar, minninga og merkingar. Jean Cocteau. Jean Maurice Eugène Clément Cocteau (5. júlí 1889 í Maisons-Laffitte í Frakklandi – 11. október 1963 í Milly-la-Forêt í Frakkland) var franskt ljóðskáld, listmálari og kvikmyndaleikstjóri. Cocteau, Jean Cocteau, Jean Bóseind. Bóseind er eind með heiltöluspuna, sem hlítir Bose-Einstein-dreifingu. Kraftmiðlarar í staðllíkaninu, þ.e. ljóseind, þyngdardeind og vigureindir, eru bóseindir. Higgs-bóseind hefur ekki fundist enn, en vonir eru bundnar við að stóri sterkeindahraðalinn í CERN muni sanna tilvist hennar. Fermíeindir hafa hálftöluspuna. Saint-John Perse. Saint-John Perse (dulnefni "Alexis Léger", einnig "Alexis Saint-Léger Léger") (31. maí 1887 – 20. september 1975) var franskt skáld og ríkiserindreki. Perse er einna frægastur fyrir verk sitt "Anabase" ("Austurför"), sem kom út árið 1924 en einnig: "Exile" (Útlegð) (1942) og "Vents" (Vinda) (1946). Verkið Útlegð (Exile) kom út á íslensku árið 1992 í þýðingu Sigfúsar Daðasonar. Perse hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1960. Tenglar. Perse, Saint-John Arthur Cecil Pigou. Arthur Cecil Pigou (fæddur 18. nóvember 1877, dáinn 7. mars 1959) var breskur hagfræðingur og kennari við Cambridge-háskóla. Sem kennari við Cambridge-háskóla á tímabili þegar hagfræði var ung fræðigrein átti Pigou þátt í að móta kennslu greinarinnar og fjöldann allan af ungum afburðarnemendum sem útskrifuðust úr skólanum og tóku að sér mikilvæg störf í samfélaginu. Pigou var fjölhæfur á sviði hagfræðinnar en rannsakaði einna mest almannatryggingar. Hann þjónaði í opinberum nefndum af hálfum hug, þeirra á meðal Cunlife-nefndinni og Konunglegri nefnd um tekjuskatt árið 1919. Ævi. Pigou fæddist í bænum Ryde á Wighteyju, sonur hermannsins Clarence Pigou og Noru Lees, dóttur John Lees, þriðja baróns af Blackrock. Arthur gekk í Harrow-skólann, nálægt London. Árið 1896 gekk hann í King's College í Cambridge þar sem hann nam undir Oscar Browning. Pigou var góður nemandi og vann fjölda verðlauna, m.a. Chancellor's Gold Medal fyrir ljóðlist árið 1899 og hann varð forseti málfundafélagsins Cambridge Union Society árið 1900. Fljótlega kviknaði áhugi Pigous á hagfræði og hóf hann nám hjá brautryðjanda hagfræðinnar, Alfred Marshall. Fræðistörf. Pigou hóf að kenna hagfræði árið 1901 og ári seinna var hann innvígður sem meðlimur við King's College (e. "Fellow of King's College") eftir að hafa verið hafnað tveimur árum fyr. Árið 1908 var Pigou gerður að prófessor í pólitískri hagfræði, og tók hann við stöðunni af Alfred Marshall, og hélt henni allt til ársins 1943. Pigou var góður vinur John Maynard Keynes, sem á þeim tíma var ungur nemi, og gerði Pigou vel við hann og veitti honum fjárstuðning til rannsókna. Bókin "Auður og velferð" (e. "Wealth and Welfare", 1912, 1920) er eitt af helstu verkum Pigous en þar gerir hann greinarmun á opinberum og einka jaðarkostnaði og framleiðslu. Þaðan er hugmyndin um að ríkið geti leiðrétt markaðsbresti með sköttum og niðurgreiðslum (stundum nefndir "Pigou-skattar"). Heimild. Pigou, Arthur Cecil SkjáVarp. SkjáVarp er upplýsinga- og auglýsingamiðill Hornfirðinga sem sendir út hverskonar upplýsingar um viðburði, fréttir, auglýsingar og bæjarstjórnarfundi. SkjáVarp sendir bæði í gegnum UHF-sjónvarpssendi og á netinu. Texel. Texel er stærst og vestust Vesturfrísnesku eyjanna undan norðurströnd Hollands. Með 169 km2 er hún reyndar stærst allra frísnesku eyjanna. Texel tilheyrir héraðinu Norður-Hollandi. Lega og lýsing. Texel er vestust Vesturfrísnesku eyjanna og er sú eina sem ekki liggur í austur/vesturstefnu. Stefnan er norðaustur/suðvestur og skilur aðeins mjótt sund suðurodda Texel við meginlandið. Jafnmjótt sund skilur Texel við nágrannaeyjuna Vlieland í norðri. Báðar mynda þær nokkurs konar tappa sem lokar Ijsselmeer af. Minna er af sandi á Texel en hinum eyjunum, sennilega vegna lögunar sinnar. Sökum þess að eyjan er miklu breiðari en hinar eyjarnar í eyjaklasanum, hefur gróður náð að festa sig vel þar. Á Texel er því stundaður mikill landbúnaður, í meira mæli en á nokkurri annarri frísneskri eyju. Byggð er mikil á Texel. Þar eru sjö þorp, þeirra helst er Den Burg. Íbúar eru 13.800 og er Texel því langfjölmennust Vesturfrísnesku eyjanna. Söguágrip. Fram að 1170 var Texel hluti af meginlandinu og skagaði út í Norðursjó. En í stormflóði í nóvember það ár (kallað "Allerheiligenfloet") ruddi sjórinn sér leið í gegnum skagann og skildi Texel eftir sem eyju. Eyjan var miklu minni en nú og flæddi yfir hana reglulega. Brátt náðu menn að þurrka stóra hluta hennar og setjast þar að á ný. Íbúarnir lögðu litla varnargarða og héldu áfram að vinna land. 1415 hlaut Texel borgarréttindi, en flestir íbúar bjuggu þá í bænum Den Burg. Á 17. öld var lagður garður til nágrannaeyjarinnar í norðri, Eierland, sem var miklu minni. Næstu tvö hundruð árin var landið þurrkað milli eyjanna og fleiri garðar lagðir. Þannig varð Eierland hluti af Texel og myndar nyrsta oddann í dag. Öll vesturströndin var þá ein samfelld sandströnd. En í stormflóði 1851 rauf sjórinn gat á þremur stöðum. Við það mynduðust votlendin De Muy og De Slufter, sem í dag eru griðastaðir fugla. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði, bjuggu margir Georgíumenn á Texel. Í apríl og maí 1945 gerðu þeir uppreisn gegn nasistum, enda stríðslok í nánd. Þeir börðust við þýska hermenn, jafnvel eftir að stríðinu lauk formlega. Georgíumenn máttu sín þó lítils við skipulagða Þjóðverja og voru stráfelldir. 3.000 þeirra létu lífið, ásamt 117 almennum hollenskum borgurum. Þeir voru síðustu fórnarlömb stríðsins í Evrópu. Eftir því sem á leið 20. öldina varð Texel æ vinsælli meðal ferðamanna. Ferjusiglingar ganga til Den Helder, hafnarbæjarins sem liggur gegnt suðurodda Texel. Á eyjunni er bílaumferð leyft, gagnstætt því sem gerist á nágrannaeyjunum. Þar er einnig þétt net hjólreiða- og göngustíga. Náttúra. Den Hoge Berg er hæsta hæðin á Texel, þótt hún sé ekki nema 15 metra há. 1968 var hæðin friðuð. Þar er eina skordýraverndarsvæði Hollands, en skordýrin njóta góðs af heitum sandinum. Den Hoge Berg er rétt suðaustan við bæinn Den Burg. Árið 2002 var stofnaður þjóðgarðurinn Duinen van Texel þar sem sandöldurnar eru verndaðar. Garðurinn samanstendur af gjörvallri vesturströnd eyjarinnar og er 22 km langur. Einn skógur er á Texel innan af sandöldunum meðfram vesturströndinni. Fuglaverndarsvæðin De Muy og De Slufter eru einnig á vesturströndinni. Þetta eru votlendi sem laða að ógrynni fugla. Sjaldgæfasta varptegundin er flatnefur, en þar finnast einnig ýmsar tegundir vaðfugla. Skoðunarverðir staðir. Sauðahús er mörg á Texel. Sauðfé er úti allan veturinn, en getur leitað skjóls í svotilgerðum sauðahúsum. Hús þessi eru opin til norðausturs, því aðalvindáttin á eyjunni er suðvesturátt. Nokkur þessara húsa eru friðuð. Ecomare er sjávarsafn í þorpinu De Koog. Þar má sjá ýmislegt um dýra- og plöntulíf eyjarinnar, ásamt vistfræði Vaðhafsins og Norðursjávar. Þar er einnig nokkurs konar uppeldisstöð fyrir meidda fugla og seli. Árlega hjúkrar stofnunin um 25 kópa, sem eftir það fá frelsi. 20 fullorðnir selir eru í stórri laug í stöðinni, en það eru dýr sem ekki gátu vanist frelsinu. Ecomare er ákaflega vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Á Texel er safn sem helgar sig sjó- og strandrán ("Maritiem & Jutters Museum"). Þar fræðast menn um siglingar og strandrán sem menn stunduðu gjarnan fyrr á öldum við skipastrand. Á Eierland, nyrst á Texel, stendur eftirmynd af tröllvaxinni manneskju (Moai) sem Páskaeyjan í Kyrrahafi er fræg fyrir. Vatnsmýrarvegur. Vatnsmýrarvegur er vegur í Reykjavík. Við hann voru áður tjaldsvæði, bílaleiga, blómabúð og íbúðarhús. Sléttbakur. Sléttbakur (fræðiheiti: "Eubalaena glacialis" einnig "Balaena glacialis"), einnig nefndur íslandssléttbakur og hafurketti, er stór skíðishvalur og er ein af þremur tegundum í ættkvíslinni "Eubalaena", ein á suðurhveli og tvær á norðurhveli (í Norður-Atlantshafi og Kyrrahafi). Auk þessara er einungis norðhvalur í ætt sléttbaka ("Balaenidae"). Lýsing. Sléttbakur hefur sérkennilegan kröftugan blástur í allt að 5 metra hæð og greinist í tvennt til hiðanna. Sléttbakur er mjög gildvaxinn, ummál getur verið allt að 60% af heildarlengd. Hausinn er mjög stór, um 25-30% af heildarlengd. Kjafturinn er sérkennilegur en svipaður norðurhval, munnvikin rísa í stórum boga frá trjónunni yfir neðra kjálkabein og síðan í krappa beygju niður fyrir augun (augun eru aðeins fyrir neðan miðju á hliðunum). Bægslin eru stór og breið og fremur oddhvöss. Eins og nafnið bendir til hefur tegundin ekkert horn á bakinu. Sporðurinn er mjög breiður næstum 40% af lengd hvalsins. Sléttbakur er mjög hægsyndur. Að mestu er sléttbakurinn svartur á litin en hefur stundum óreglulega hvíta bletti á kviðnum. Þar að auki hafa sléttbakar næstum alltaf hvíta eða gulleita hrúðurbletti á yfirborði haussins. Sléttbakar hafa stærstu eistu í dýraríkinu og vega þau samantals um eða yfir eitt tonn. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir, allt að 17 metra á lengd og upp undir 90 tonn á þyngd. Útbreiðsla og hegðun. Á öldum áður var útbreiðslusvæði sléttbaks frá Flórída að norðurvesturströnd Afríku í suðri og frá Nýfundnalandi, Grænlandi og Íslandi að Norður-Noregi í norður. Nú er hvalinn aðallega að finna við austurströnd Norður-Ameríku. Að sumarlagi heldur hann sig á norðlægum slóðum við fæðuöflun en að vetrarlagi á suðurhluta útbreiðslusvæðisins til að ala kálfa og makast. Lítið er vitað um fæðuval sléttbaks en sennilega étur hann nánast eingöngu svifkrabbadýr. Hann veiðir með svo kallaðri sundsíun sem felst i því að synda með opin kjaft svo að sjórinn rennur stöðugt inn að framan og síast út í gegnum skíðin til hliðanna. Veiðar og fjöldi. Á 11. öld hófu Baskar veiðar á sléttbak og var það upphaf atvinnuveiða á hval. Það var aðallega lýsi sem var eftirsótt sem feitmeti, smurningu, kerti og sápu. Þar að auki voru skíðin notuð í krínólínur. Allt eftir því sem hvölum fækkaði í nágrenninu færðu Baskarnir sig á fjarlægari slóðir, meðal annars við Ísland á 16. og 17. öld (frá þeim tíma eru til þrjú basknesk-íslensk orðasöfn). Frá 17. og fram á 19. öld bættust Hollendingar, Danir, Frakkar og Bandaríkjamenni í hóp hvalveiðiþjóða. Við lok 19. aldar voru sárafáir sléttbakar eftir. Stofninn hefur verið alfriðaður frá 1935 en lítil merki eru um að stofninn sér í vexti. Talið er að meginhluti stofnsins sem heldur sig við Norður-Ameríku sé um 300 til 450 dýr og að í austurhluta Atlantshafsins séu nokkrir tugir. Mjaldur. Mjaldur (fræðiheiti: "Delphinapterus leucas"), einnig nefndur hvíthvalur, hvítfiskur og hvítingur er tannhvalur og er önnur af tveimur tegundum í ætt hvíthvala ("Monodontidae"). Hin tegundin er náhvalur ("Monodon monoceros"). Mjaldur þýðir sá hvíti; eldri mynd þess er "mjallur", sem er dregið af orðinu mjöll (snjór). Lýsing. Mjaldurinn er fremur kubbslegur, með lítinn haus, hátt enni og stutt trýni. Mjaldur er með stuttan háls, en hálsliðirnir eru ekki samgrónir eins og hjá flestum hvölum og þess vegna er höfuðið hreyfanlegra en venjulegt er hjá hvölum. Bægslin eru fremur lítil og ávöl. Mjaldurinn hefur ekkert horn á baki. Sporðblaðka er lítil með grunnri skoru í miðju. Hann hefur mjög þykka húð og jafnframt þykkt spiklag, en það getur verið allt að 40% af heildarþyngd dýrsins. Munur er á stærð kynjanna, kýrnar eru um 3,9 til 4,1 metrar á lengd en tarfarnir frá 4,9 til 5,5 metra. Þyngd fullvaxta dýra er allt frá 500 kg upp í 1500 kg. Kálfarnir fæðast dökkgráir eða brúngráir. Mjaldurinn lýsist svo með aldrinum og við fimm til tólf ára aldur er dýrið orðið alhvítt. Hann nær 25-30 ára aldri. Ólíkt öllum öðrum hvölum getur mjaldurinn andað þó hann lendi upp á landi. Útbreiðsla og hegðun. Útbreiðsla mjaldurs er í Norður-Íshafi nánast allt í kringum Norðurheimskautið en hann má einnig finna á köldtempruðum svæðum. Í Atlantshafi heldur hann sig talsvert norður af Íslandi og er því fremur sjaldséður við landið. Mjaldurinn heldur sig aðallega við strandlengjuna og við árósa að sumarlagi. Hann á það til að elta lax upp eftir stórám í Kanada og Síberíu og hefur sést allt að 1000 km frá sjó. Mjaldurinn hefur aðlagast því að lifa í köldum sjó og innan um rekís. Hegðun hans svipar því að sumu leyti meira til sela en hvala, meðal annars rekur hann stundum hausinn upp úr sjó til að svipast um. Mjaldurinn er hægsyndur, syndir yfirleitt á þriggja til níu kílómetra hraða. Hann notar hljóð til að skynja umhverfið, þessi hátíðnihljóð geta heyrst upp á yfirborðið enda nefndu hvalveiðimenn hann „kanarífugl hafsins“. Að öllum líkindum notar mjaldurinn hljóðendurkast til að finna fæðu á sjávarbotni og til að finna vakir í hafís. Mjaldur er hjarðdýr og eru oftast um 15 dýr í hverri hjörð. Hjarðirnar koma stundum saman við árósa og mynda hópa með allt að 1000 dýrum. Fæðuval er mjög fjölbreytt, á sumrin eru krabbadýr, lindýr og burstaormar uppistaða fæðunnar, á öðrum ártímum er það einkum ýmsar tegundir fiska. Veiðar og fjöldi. Frumbyggjar við norðurskaut hafa veitt mjaldi í aldaraðir, með skutli eða við vakir í hafísnum. Veiðar Evrópumanna á mjaldri í atvinnuskyni við Grænland og Kanada hófust á seinni hluta 19. aldar og á sama tíma hófu Norðmenn og Rússar veiðar við Svalbarða. Mjaldri hefur fækkað verulega á 20. öld og hafa líffræðingar áhyggjur af framtíð tegundarinar. Þó er talið að um 20 þúsund dýr sé í stofninum milli Kanada og Grænlands, 15 til 20 þúsund í stofninum í Hvítahafi, Barentshafi og Karahafi norðan Síberíu og 5-7 þúsund í stofninum við Alaska. Algengt er að mjaldur sé hafður til sýnis í dýragörðum og geta þeir orðið allt að 25 ára í haldi. Leiftur. Leiftur einnig leifturhnýðir (fræðiheiti: "Lagenorhynchus acutus") er tannhvalur af höfrungaætt. Leiftur er náskyldur hnýðingi ("Lagenorhynchus albirostris"), en en er talsvert minni og frábrugðinn í litamynstri. Lýsing. Leiftur er fremur lítill hvalur, og grannvaxinn. Höfuðið er stutt, ennið allkúpt og snjáldrið mjög stutt, líkt og á hnýðingnum. Stórt aftursveigt horn, rétt aftan við miðju á bakinu. Litarmynstur leifturs er sérkennilegt, það er mjög afmarkað og þar með ólíkt flestum öðrum höfrungum. Bakið er svart eða mjög dökkgratt, hliðarnar eru gráar fyrir utan langan hvítan blett neðan og aftan við hornið en aftan við þennan blett er gulleit rönd næstum aftur að sporðblöku. Kviðurinn er hvítur, en efri kjálki er svartur og sá neðri hvítur. Tarfarnir eru heldur stærri en kýrnar, um 2,8 metrar á lengd og um 230 kg á þyngd. Kýrnar um 2,4 metrar og 180 kg. Útbreiðsla og hegðun. Leiftrar á hafnarbakka í Hvalba, Færeyjum Útbreiðsla leifturs er bundin við tempruð svæði á Norður-Atlantshafi, frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og Biskajaflóa í suðri og í norður að suðurodda Grænlands, sunnan við Ísland og allt norðaustur til Svalbarða. Leiftur heldur sig venjulega talsvert sunnanvert við Ísland. Hann er hins vegar langalgengasti höfrungategundin við Færeyjar. Við Færeyjar sjást oft blandaðir hópar grindhvala og leiftra. Annars er leiftur að mestu úthafstegund. Fæðuval lefturs er fjölbreytt, einkum uppsjávarfiskar og botnfiskar, svo sem síld, makríl, silfurkód og þorskur. Smokkfiskur er einnig mikilvæg fæðutegund. Leiftur heldur sig oftast í hópum um 20 dýr en þá má þó oft finna í miklu stærri hópum með hundruðum einstaklinga. Þeir halda sig of með öðrum hvalategundum, bæði höfrungategundum en einnig langreyð og hnúfubak. Á sama hátt og grindhvalir gengur leiftur oft á land í stórum hópum, allt að 150 dýr eða meir. Það má oft sjá leiftur stökkva á hafi úti en hann fylgir ekki í kjölfar báta á sama hátt og hnýðingur. Hann kafar ekki mjög djúpt og er sjaldan lengur en 4 - 5 mínútur í kafi. Veiðar og fjöldi. Heildarstofnfjöldi leifturs er óþekkt en við strendur Norður-Ameríku er áætlað að séu um 40 þúsund dýr. Sunnan við Ísland og við Færeyjar er talið að séu milli 50 og 100 þúsund dýr. Samanlagt er því giskað á að heildarstofninn sé fáein hundruð þúsunda. Leiftur hefur verið veiddur í fremur litlum mæli með skotvopnum við Grænland, Kanada, Noreg og Færeyjar. Hins vegar er algengt að leiftur sé rekinn á land í Færeyjum og eru hundruðum dýra slátrað á hverju ári á þann hátt. Sömu veiðiaðferð var einnig beitt á Nýfundnalandi til skamms tíma. Norðhvalur. Norðhvalur (fræðiheiti: "Balaena mysticetus"), einnig nefndur grænlandssléttbakur og grænlandshvalur'", er stór skíðishvalur. Auk hans eru einungis sléttbakar (Eubalaena glacialis) í ætt sléttbaka ("Balaenidae"). Lýsing. Norðhvalur er stærstur af sléttbökum, hann er mjög gildvaxinn um bol og haus. Ummálið getur verið allt að 70% af heildarlengd. Hausinn stór, um 40% af heildarlengd. Kjafturinn er sérkennilegur en svipaður sléttbaks, munnvikin rísa í stórum boga frá trjónunni yfir neðra kjálkabein og síðan í krappa beygju niður fyrir augun (augun eru aðeins fyrir neðan miðju á hliðunum). Bægslin eru stór og breið en ekki eins oddhvöss og hjá sléttbaknum. Eins og aðrir sléttbakar hefur tegundin ekkert horn á bakinu. Sporðurinn er mjög breiður, næstum 40% af lengd hvalsins. Að mestu er norðhvalurinn svartur eða dökkbrúnn á litinn en með vel afmarkaða hvíta eða gráa flekki. Fremri hluti neðrikjálka er hvítur með gráum eða svörtum blettum. Húðin er mun þykkari en á öðrum skíðishvölum sem vörn við núning við hafísjaka. Spiklagið er mjög þykkt, allt að 70 cm. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir, 18 til 20 metra á lengd og upp undir 90 tonn á þyngd. Hámarksþyngd norðhvals hefur mælst 136 tonn. Tarfarnir 16 til 18 metra en svipaðir á þyngd og kýrnar. Norðhvalur er hægsyndur, meðalsundhraði á fartíma hefur mælst 1,5 til 6 kílómetra á klukkustund. Útbreiðsla og hegðun. Færeyskt frímerki með mynd af norðhval Norðhval er einungis að finna í Norður-Íshafinu og á kaldtempruðu hafsvæði norðurhvels. Norðhvalir skiptast í fimm stofna, sá langstærsti hefur sumardvöl við Beringssund, annar minni stofn er í Kyrrahafi við austurströnd Síberíu. Í Norður-Atlantshafi eru leifar af þremur stofnum, tveimur við Kanada og Vestur-Grænland og einn frá Austur-Grænlandi yfir að Novaya Zemlya. Suðurmörk síðastnefnda stofnsins lágu um eða norðan við Ísland á öldum áður; engar heimildir eru um norðhvali við landið frá 1879 þegar sást til hans við ísrönd vestur af Arnarfirði. Norðhvalur heldur sig við ísröndina allt árið, fylgir henni norður að sumarlagi og aftur suður þegar haustar. Talið er að hann geti brotið allt að meter þykkann ís með hausnum til að komast upp til að anda. Lítið er vitað um fæðuval norðhvals en sennilega étur hann nánast eingöngu smákrabbadýr. Hann veiðir, eins og sléttbakur, með svo kallaðri sundsíun sem felst i því að synda með opin kjaft svo að sjórinn rennur stöðugt inn að framan og síast út í gegnum skíðin til hliðanna. Norðhvalir eru einrænir og sjást oftast einir á ferð, þó einstaka dæmi eru um stærri hópa allt að 60 dýrum í hóp. Tarfarnir gefa frá sér mjög kröftug lágtíðnihljóð og virðist vera notuð til að laða kýr að sér en eru einnig talin geta gegnt öðrum samskiptahlutverkum. Ekki er óalgengt að norðhvalur stökkvi þrátt fyrir ólíklegt vaxtarlag. Norðhvalir virðast geta orðið mjög gamlir, gömul spjót, skutlar og önnur veiðarfæri sem hafa fundist í hvölum á síðust árum benda til þess að þeir geti orðið allt að 150 til 200 ára gamlir. Veiðar og fjöldi. Baskar hófu skipulagðar veiðar á norðhval við Labrador á 16. öld. Þeim veiðum var hætt um öld síðar enda lítið eftir af stofninum. Hollendingar, Þjóðverjar, Bretar og Norðmenn veiddu um 90 þúsund norðhvali við Svalbarða á tímabilinu 1669 til 1911 en þá lögðust veiðarnar af vegna þess að stofninn var nærri útdauður. Á 18. öld voru veiddir um 30 þúsund norðhvalir við Kanada og Grænland. Í lok 19. aldar lögðust veiðar á norðhval í Norður-Atlantshafi niður vegna ofveiða og hafa stofnarnir þar ekki enn náð sér. Sveinbjörn Ásgeir Egilson. Sveinbjörn Ásgeir Egilson (1863 – 25. október 1946) var sjómaður, rithöfundur og ritsjóri sjómannablaðsins "Ægis" í 23 ár. Hann var sonur Þorsteins Sveinbjarnarsonar Egilson og fyrri eiginkonu hans, Arndísar Ásgeirsdóttur. Sveinbjörn var giftur Elínu Egilson. Í danska blaðinu "Börsen" birtist árið 1937 löng grein um Sveinbjörn í tilefni af því að hann hafði látið af ritstjórn "Ægis". Sagði í greininni, að í þau 23 ár, sem hann var ritstjóri hafi hann sýnt framúrskarandi hæfileika til þess að gera lesendum sínum ljóst, hvað verða megi til þess að efla hag og framþróun fiskimálanna. Volvo Ocean Race. Skútan "Pirates of the Caribbean" lenti í 2. sæti í keppninni 2005-2006. Volvo Ocean Race (áður Whitbread Round the World Race) er alþjóðleg siglingakeppni umhverfis jörðina sem yfirleitt er haldin á þriggja ára fresti. Hún er nefnd eftir núverandi aðalstyrktaraðila keppninnar, Volvo. Keppnin hefst í einhverri höfn í Evrópu að hausti og fer í gegnum 9-10 leggi auk styttri keppna í höfnum áfangastaða. Síðasta keppni hófst í Alicante 29. október 2011. Samanlögð siglingaleiðin var 39.000 sjómílur en keppninni lauk 7. júlí 2012. Keppnin var fyrst ræst 8. september 1973. Upphaflega var keppnin blönduð með ýmsum bátsgerðum, en frá 1997 var þátttaka bundin við báta af sérsniðna flokknum Whitbread 60 og frá 2005 Volvo Open 70. Fyrir keppnina 2008 voru aðeins gerðar minniháttar breytingar á hönnunarreglum. Svart og sykurlaust. Svart og sykurlaust var hópur leikara og listamanna sem hélt úti götuleikhúsi á árunum 1983-1986. Mikill fjöldi manna tók þátt í starfi hópsins en lengst af voru í hópnum Kolbrún Halldórsdóttir, Guðjón Pedersen, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, Guðjón Ketilsson og Brynhildur Þorgeirsdóttir. Leikhópurinn ferðaðist um Ítalíu og gerði þar kvikmyndina SOS ("Schwarz ohne Zucker"). Fráfærur. Fráfærur kallaðist það þegar ær og lömb voru aðskilin á vorin til þess að unnt væri að nytja mjólkina. Þær voru tíðkaðar á hverjum bæ á Íslandi um margar aldir. Fært var frá í júnímánuði. Fyrst var svonefnd stekktíð, en þá voru lömbin enn með mæðrum sínum en sett í lambakró á stekknum á kvöldin og höfð þar um nóttina en ærnar gengu lausar á meðan og voru svo mjólkaðar að morgni, áður en lömbunum var hleypt út. Þetta var líka kallað að stía lömbin og stóð yfirleitt í um tvær vikur. Þegar lömbin voru um það bil sex vikna voru þau svo rekin á fjall eða í haga fjarri ánum og látin sjá um sig sjálf en ærnar hafðar heima og mjólkaðar kvölds og morgna. Smalinn sat yfir þeim, að minnsta kosti á daginn. Ær sem fært hafði verið frá og voru mjólkaðar kölluðust kvíaaær. Stundum var setið yfir lömbunum fyrstu vikuna og voru þau þá oft höfð í hafti svo auðveldara væri að halda þeim saman. Sauðamjólkin var mikið notuð til skyrgerðar, ein sér eða blönduð kúamjólk, en einnig var gert úr henni smjör og ostar. Fráfærur tíðkuðust fram á 20. öldina en lögðust víðast hvar af á árunum 1915-1940, meðal annars vegna mikillar verðhækkunar á lambakjöti á stríðsárunum fyrri, svo að það borgaði sig betur að láta lömbin njóta mjólkurinnar en mjólka ærnar. Nú er líka talað um fráfærur þegar átt er við aðskilnað afkvæmis og móður, t.d. gríss frá gyltu. Brjóstaskora. Brjóstaskora nefnist skarðið sem myndast á milli brjósta kvenna þegar brjóstin eru hálfdulin í fleygnum bol eða kjól. Magnús Stephensen (f. 1762). Magnús Stephensen (27. desember 1762 – 17. mars 1833) var íslenskur lögfræðingur og embættismaður á 18. og 19. öld. Hann varð dómstjóri í landsyfirdómi árið 1800 eftir frækilegan feril í námi og starfi. Magnús átti mestan þátt í stofnun og starfi Landsuppfræðingarfélagsins (stofnað 1794) og var mjög mikilvirkur boðberi fræðslu og upplýsingar og atkvæðamikill í bókaútgáfu. Ævi. Magnús fæddist á Leirá í Leirársveit, sonur Ólafs Stephensen stiftamtmanns og konu hans Sigríðar, dóttur Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Hann ólst að mestu upp á Innra-Hólmi. Magnús varð stúdent utanskóla frá Hannesi Finnsyni biskupi 1779 og fór síðan í Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan lögfræðiprófi 1788. Á námsárunum var hann sendur til Íslands á vegum danskra stjórnvalda til að rannsaka Skaftárelda og afleiðingar þeirra. Hann fór með skipi sem sigldi frá Kaupmannahöfn haustið 1783 en hraktist til Noregs. Þar dvaldist Magnús um veturinn hjá Þorkatli Fjeldsted etatsráði í góðu yfirlæti en þegar heim kom biðu hans skelfilegar upplifanir, eins og hann segir frá í sjálfsævisögubroti: „... húsfyllir dag eftir dag af dauðvona aumingjum, flúnum að norðan, austan og vestan, og uppflosningum, konum, börnum og gamalmennum til að leita sér líknar og saðnings, margir um seinan, því þeir deyðu þar og allsstaðar hrönnum saman af hungri og hungursóttum, pestnæmum sjúkleikum, er leiddu af eldgosinu, við óholt loft, langvinnan sult, eður nautn hor- og pestardauðra gamalla hrossa- og kindahræja“. Magnús hlaut skjótan embættisframa að loknu prófi. Hann varð lögmaður norðan lands og austan 1789, settur landfógeti 1793-1795 og árið 1800 varð hann dómstjóri í Landsyfirrétti, sem þá var nýstofnaður. Hann þótti mildur í dómum og mannúðlegur. Hann gegndi líka stiftamtmannsstarfi um tíma, var ráðgjafi við dönsku hirðina og var eftir það titlaður konferensráð. Magnús var að mörgu leyti frjálslyndur skynsemishyggjumaður sem vildi stuðla að framförum. Hann var alþjóðlegur í hugsun og gagnrýndi mjög heimóttarhátt landa sinna og vildi upplýsa þá og kynna þeim erlenda menningu og atvinnuhætti. Hann var einn öflugasti liðsmaður upplýsingarinnar á Íslandi og gekkst meðal annars fyrir stofnun Hins íslenska landsuppfræðingarfélags árið 1794. Tilgangur þess var upphaflega að festa kaup á Hrappseyjarprentsmiðju og var það gert og hún flutt að Leirárgörðum, í nábýli við Magnús. Fimm árum síðar var Hólaprentsmiðja sameinuð henni og mátti þá heita að Magnús réði einn yfir einu prentsmiðju landsins. Þótti sumum hann nokkuð ráðríkur. Útgáfa og ritstörf. Magnús gaf meðal annars út tvö tímarit, "Minnisverð tíðindi", sem komu út 1796-1808 og var fréttatímarit sem flutti innlendar og erlendar fréttir og "Klausturpóstinn", sem kom út 1818-1827 og flutti fréttir og greinar af ýmsu tagi. Hann gaf líka út ýmis fræðslurit, meðal annars um hagfræðileg, lögfræðileg og söguleg efni, svo og bækur um guðfræði, en umdeildust bóka hans var sálmabókin sem hann gaf út árið 1801 og var uppnefnd Leirgerður. Um hana var mikið rifist. Sálmarnir þóttu sumir illa ortir og svo var markmið Magnúsar að útrýma kölska úr sálmabókinni og voru ekki allir sáttir við þá áherslubreytingu. Hann gaf líka út skáldskap af ýmsu tagi, bæði þýtt efni og frumsamið. Magnús var mikilvirkur rithöfundur en þótti ekki gott ljóðskáld. Ein þeirra bóka sem Magnús gaf út var "Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur", sem kom út undir nafni Mörtu Maríu Stephensen, konu Stefáns amtmanns, bróður hans, og er fyrsta íslenska matreiðslubókin. Í ævisögu sinni segir Magnús að hann hafi sjálfur skrifað bókina að mestu þegar hann var tepptur í Noregi veturinn 1783-1784 og þá væntanlega upp úr uppskriftabók frú Fjeldsted en þetta er þó allt óljóst og óvíst hvort þeirra á meiri þátt í bókinni. Kona Magnúsar (g. 1788) var Guðrún Vigfúsdóttir Scheving, dóttir Vigfúsar Scheving sýslumanns á Víðivöllum í Skagafirði og Önnu Stefánsdóttur konu hans. Börn þeirra voru Ólafur Stephensen dómsmálaritari í Viðey og Þórunn kona Hannesar Stephensen prófasts á Ytra-Hólmi. Magnús og Guðrún bjuggu á Leirá, síðar á Innra-Hólmi og síðast í Viðey. Þar dó Magnús 1833. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2011. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2011 er djúp efnahagskreppa á Íslandi, sem hófst í byrjun árs 2008 þegar íslenskar hagvísitölur tóku að falla og verðbólga jókst. Þann 17. mars 2008 hækkaði gengisvísitala íslensku krónunnar um 6,97% og var það mesta fall krónunnar í sögu hennar. Mikil þensla hafði verið í efnahag Íslands á árunum á undan og var hagvöxtur árið 2007 4,9% og atvinnuleysi lítið. Íslensk stórfyrirtæki eins og Stoðir og Exista tilkynntu töp eða minni hagnað. Um miðjan júní var gengisvísitalan 164,7 stig og hafði aldrei verið hærri. Vendipunktur varð þann 29. september þegar tilkynnt var, nær fyrirvaralaust, að ríkið myndi þjóðnýta Glitni, sem var þá þriðji stærsti banki landsins, með kaupum á 75% hlut í honum. Hætt var við þau kaup ríkisins en þess í stað voru sett neyðarlög sem veittu Fjármálaeftirlitinu víðtækar valdheimildir til inngripa í rekstri fyrirtækja í einkaeigu. Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Landsbankans, Glitnis og Kaupþings fljótlega eftir setningu þeirra. Í framhaldi af því kom upp deilumál vegna skuldbindinga íslensku bankanna í starfsemi erlendis. Ekki liggur fyrir hvaða upphæðir um ræðir en ljóst er að þær eru talsverðar. Í nóvember leystust þessar deilur að hluta til þegar há neyðarlán fyrir milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru afgreidd. Gengi krónunnar hefur aldrei verið lægra og sett hafa verið takmarkanir á viðskiptum með hana. Almenningur hefur reglulega haldið mótmæli þar sem aðgerðum og aðgerðarleysi íslensku ríkisstjórnarinnar, framgöngu leiðandi manna í íslensku fjármálalífi og beitingu hryðjuverkalaganna af hálfu breskra stjórnvalda er mótmælt. Spáð er miklum samdrætti í íslenskum efnahag. Samkvæmt nýlegri spá fjármálaráðuneytisins mun kaupmáttur launa lækka um meira en 13% á þessu ári og árið 2010 verður atvinnuleysi 10%. Aðdragandi. Frá 2004 hefur meðaltal hagvaxtar á Íslandi verið 6,1%, sem er nokkuð mikill hagvöxtur (sjá graf til hægri) og lágt atvinnuleysi, 2,7% að meðaltali. Mikill vöruskiptahalli hefur verið á Íslandi á sama tímabili, þ.e. andvirði innfluttra vara meira en andvirði útfluttra vara. Einkavæðing bankanna. Undir lok tíunda áratugar 20. aldarinnar voru íslensku ríkisbankarnir; Landsbanki Íslands, Íslandsbanki og Búnaðarbanki Íslands einkavæddir í skrefum. Síðasti bankinn sem var seldur var Búnaðarbanki Íslands og var sölusamningur undirritaður 16. janúar 2003. Með sölu þeirra hagnaðist ríkissjóður töluvert. Bankarnir hófu margir starfsemi erlendis, keyptu erlenda banka og voru með útibú. Nokkur ánægja hefur verið með einkavæðinguna fram að þessu, t.a.m. sagði í ályktun af landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2007: „"Einkavæðing bankanna hefur sýnt okkur þann kraft sem leysist úr læðingi við það að einkaaðilar taki við rekstri. Nýsköpun og þróunarstarf þessara fyrirtækja hefur skilað þeim góðum árangri bæði hér heima og erlendis. Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála."“ Bankarnir tóku há erlend lán og, í október 2008, kom fram hjá Geir H. Haarde að samanlagt næmu skuldir þeirra tólffaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Stóriðja. Haustið 2003 hófust framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun af alvöru, áætlaður kostnaður var 80 milljarðar kr. Þúsundir erlendra verkamanna fluttust til landsins til þess að vinna við þetta verkefni þar sem vinnuafl á Íslandi annaði ekki eftirspurn. Framkvæmdirnar einar og sér höfðu talsverð áhrif á íslenskan efnahag. Í apríl árið 2004 var metið sem svo að heildarfjárfesting í verkefnum Landsvirkjunar á Íslandi væri á bilinu 250-300 milljarðar íslenskra króna. Impregilo, aðalverktaki framkvæmdarinnar, keypti vörur og þjónustu af íslenskum fyrirtækjum fyrir rúmlega 8,3 milljarða króna frá upphafi framkvæmda við Kárahnjúka til ársloka 2004. Kárahnjúkavirkjun var byggð með það að markmiði að veita álveri Alcoa í Reyðarfirði rafmagn til framleiðslu á áli. Á eftir sjávarútvegi er álframleiðsla sögð önnur helsta útflutningsvara Íslands. Skuldsetning heimilanna. Með auknu aðgengi að fjármagni skuldsetti íslenskur almenningur sig hröðum skrefum. Bankarnir veittu fólki lán fyrir íbúðum á betri kjörum en áður hafði þekkst. Íbúðalánasjóður, sem er helsta opinbera stofnunin í samkeppni við bankana á þessu sviði, fylgdi í humátt eftir. Lánsfé var einnig nýtt til kaupa á bílum og í einkaneyslu. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna, opinber stofnun sem veitir fólki ráðgjöf um fjármál, tilkynnti á ársfundi sínum 2008 að „"heildarskuldir þeirra, sem leita til Ráðgjafarstofu, [hefðu] aukist um 14,9% á milli ára og vanskil hafa hækkað um 33,5%. Vanskil lána með raðgreiðslusamningi og bílalán hafa aukist mest á milli ára."“ Á miðju ári 2008 námu skuldir heimilanna við íslenskar lánastofnanir (þ.e. banka, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði, LÍN, tryggingarfélög) 1.760 ma. kr og höfðu þá aukist um 13,5% frá því áramótunum 2007-8, úr 1.551 ma.kr. Lausafjárkreppan 2007-2008. Lausafjárkreppan 2007-2008 er alþjóðleg efnahagskreppa sem hefur einkennst af töpum á rekstri, greiðslustöðvunum og gjaldþrotum hjá stórum bönkum og fjármálastofnunum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Hana má rekja til undirmálslánakrísunnar svonefndu í Bandaríkjunum en þá er átt við fjölda húsnæðislána sem lánþegar gátu ekki endurgreitt sem varð til þess að stórar bandarískar fjármálastofnanir þ.á m. Indymac Federal Bank, Fannie Mae og Freddie Mac, Lehman Brothers, AIG, Merrill Lynch, o.fl. lentu í miklum skakkaföllum. Bankar í Evrópu og víðar hafa átt í vanda við að útvega sér lausafé í a.m.k. eitt ár, fyrsti bankinn sem varð gjaldþrota var breski bankinn Northern Rock, í september 2007. Þetta hafði einnig áhrif á íslenska efnahagskerfið. Efnahagskreppa. Undir lok ársins 2007 féllu bréf í Exista og SPRON töluvert, en nýlega var búið að skrá SPRON á markað og hafði gengið á hlutabréfum í sparisjóðnum fallið um helming á örfáum mánuðum. Á fyrstu þremur viðskiptadögum ársins 2008 féllu íslensk hlutabréf um 10,53%, á alþjóðlegum mörkuðum féllu hlutabréf sömuleiðis en þó ekki jafn mikið. Á einum degi lækkaði Exista mest þeirra félaga sem voru á aðallista íslensku kauphallarinnar eða um rúm 5%. FL-Group lækkaði um rúm 3%, Straumur-Burðarás um 2,5% og Kaupþing um tæp 2%. Gengi krónunnar. Í mars var metvelta á íslenskum gjaldeyrismarkaði, þann 7. mars nam veltan 88,2 milljörðum króna. Þann 17. mars 2008 féll gengisvísistala íslensku krónunnar um 6,97% og var það mesta fall í sögu hennar. Gengisvísitala krónunnar hafði þá ekki verið hærri síðan í desember 2001, um svipað leyti og flotgengistefna Seðlabankans var tekin upp. Seðlabankinn brást við 25. mars og hækkaði stýrisvexti um 1,25% í 15%. Í kjölfarið komu upp umræður um að s.k. jöklabréfum væri um að kenna. Frá Seðlabankanum bárust ásakanir um að erlendir vogunarsjóðir og aðrir „óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.“ Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, sakaði fjóra erlenda vogunarsjóði um kerfisbundnar árásir á íslenska hagkerfið: Trafalgar, Landsdowne, Ako Capital og Cheney. Fram kom að hagnaður þeirra næmi tugum eða hundruðum milljarða króna. Háir stýrivextir. Íslenski Seðlabankinn hækkaði vexti sína í 15,5% þann 10. apríl og voru þeir þá þeir hæstu í Evrópu. Strax daginn eftir gaf Seðlabankinn út þá spá að fasteignaverð á Íslandi myndi lækka að raunvirði um 30% til ársins 2010 og þá yrði verðbólgumarkmiðum Seðlabankans náð. Framangengin ár hafði fasteignaverð á landinu öllu hækkað mjög mikið, á árinu 2007 „"námu heildarviðskipti með fasteignir tæplega 410 milljörðum króna, sem er mesta velta á fasteignamarkaði á Íslandi á einu ári."“ Þann 28. apríl gaf Hagstofa Íslands út að verðbólga væri 11,8% og hefði mælst jafn mikil síðan í september 1990. Tveir prófessorar við Háskola Íslands sögðu opinberlega að nú væru horfurnar dökkar, talað var um efnahagsvanda og kreppur. Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands. Eitt af hlutverkum seðlabanka hvers lands er að veita ríkisábyrgð (e. "lender of last resort") ef nauðsyn þykir. Í ljósi þess að íslenska krónan er bundin við hagkerfi Íslands, þ.e. hana er ekki hægt að nota utan landsins, ólíkt öðrum gjaldmiðlum s.s. bandaríkjadollari og evran, hefur Seðlabanki Íslands haft gjaldeyrisvaraforða eða gjaldeyrisvarasjóð. Í mars 2008 leitaði Seðlabanki Íslands til Seðlabanka Danmerkur, Englandsbanka, Seðlabanka Evrópu, Alþjóðagreiðslubankans í Basel og Seðlabanka Bandaríkjanna eftir gerð gjaldeyrisskiptasamninga. Á fundum hjá AGS í apríl 2008 var krafist álitsgerða frá AGS af hálfu Mervyn King, seðlabankastjóra Englandsbanka, og í kjölfarið skiptu ofangreindir aðilar um skoðun og höfnuðu hugmyndum um gjaldeyrisskiptasamniga. Í maí 2008 tilkynnti Seðlabankinn gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabankaa Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur að andvirði 500 milljónir evra hver. Stuttu áður kom út "skoðun" Viðskiptaráðs Íslands um að gjaldeyrisvaraforðinn væri of lágur. Í Viðskiptablaðinu kom fram sama skoðun. Yfirmaður greiningardeildar Kaupþings taldi 500 milljarða kr. heimild til lántöku í þeim tilgangi skref í rétta átt. Gylfi Magnússon, þá dósent í hagfræði við Háskóla Íslands sem seinna var skipaður viðskiptaráðherra Íslands, sagði það „mjög stór og alvarleg mistök að stækka ekki gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans í samræmi við vöxt fjármálakerfisins“ og átt þá við að það væri orðið of seint. Í lok september, stuttu fyrir bankahrunið, tilkynnti Seðlabanki Bandaríkjanna gjaldeyrisskiptasamninga við norrænu löndin, að Íslandi undanskildu, auk Seðlabanka Ástralíu. Seðlabanki Íslands leitaði þá, og svo aftur í byrjun október, til Seðlabanka Bandaríkjanna um hliðstæðan samning en því var hafnað vegna þess að „fjármálakerfið á Íslandi væri svo stórt í hlutfalli við þjóðarbúið að skiptasamningur yrði að vera stærri en svo að bandaríski seðlabankinn sæi sér fært að standa að gerð hans“. Bankahrunið. Snemma í október tilkynnti Seðlabanki Íslands að hann hyggðist kaupa 75% hlut í Glitni þar sem bankinn ætti í miklum lausafjárvanda. Stutt var síðan að Lárus Welding, bankastjóri Glitnis, hafði sagt í viðtali í Silfri Egils að bankinn stæði traustum fótum. Í flókinni atburðarrás næstu daga varð Landsbanki Íslands og Kaupþing sömuleiðis gjaldþrota. Alþingi setti neyðarlög sem heimiluðu Fjármálaeftirlitinu að taka yfir stjórnir fyrirtækja og voru skipaðar skilanefndir til þess að sjá um rekstur bankanna. Mikil óvissa um fjármálalegan stöðugleika er áfram varðandi íslenskan efnahag þrátt fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi veitt Íslandi neyðarlán upp á 2,1 milljarða bandaríkjadala. Milliríkjadeilur Íslendinga vegna skuldbindinga íslenskra einkabanka erlendis. a>-spariþjónustu Landsbankans í Bretlandi um 300 þúsund. Þann 8. október lækkaði Englandsbanki stýrivexti um 0,5%. Sama dag var Heritable, banki í eigu Landsbankans, settur í greiðslustöðvun og Kaupþing sömuleiðis. Með vísan til sérstakra laga um fjármálastarfsemi hafði hann fært þjónustu með innistæðureikninga Kaupthing Edge, sem var nafn erlendrar starfsemi Kaupþings, yfir til hollenska bankans ING Direct. Varðandi Icesave, innistæðuþjónustu Landsbankans tilkynnti hann að, þó svo að um íslenskan banka væri að ræða, myndi breska ríkið ganga í ábyrgðir á innistæðum viðskiptavina þess. Þetta var degi eftir símtal milli Darlings og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra Íslands, þar sem Árni hafði tekið fram að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst innistæður erlendis. Í Kastljósviðtali kvöldið áður hafði Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, verið með svipaðar yfirlýsingar. Þá ákvað breska ríkisstjórnin að frysta eigur Landsbankans sem og íslenska ríkisins í Bretlandi í krafti hryðjuverkalaga. Kaupthing Singer & Friedlander var sett í greiðslustöðvun af breska fjármálaeftirlitinu. Notast var við ákvæði í hlutum (e. "sections") 4 og 14 og tímaáætlun (e. "schedule") 3 í hryðjuverkalögunum (e. "Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001"). Þessi ákvörðun var tekin vegna þess að innan breska fjármálaráðuneytisins var talið að ákveðnir einstaklingar sem annað hvort tilheyrðu ríkisstjórn eða væru þegnar annars lands hefðu tekið eða myndu hugsanlega taka ákvörðun sem sköðuðu breskan efnahag. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði að aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins hefðu verið allt að því ólöglegar og algjörlega óásættanlegar. Hann sagði bresk yfirvöld hafa fryst eigur íslenskra fyrirtækja í Bretlandi. Aðgerðir almennings vegna bankahrunsins. Í fyrri hluta október hófu ýmsir aðilar úr hópi almennings að standa fyrir mótmælum og opnum borgarafundum. Þúsundir manns hafa oft komið saman á Austurvelli til að mótmæla og svokallaðir opnir borgarafundir hafa verið haldnir í Iðnó og á skemmtistaðnum Nasa. Þann 15. nóvember voru haldnir samstöðutónleikar í Egilshöll. Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009. Erlend umfjöllun. Umfjöllun erlendra fjölmiðla um þróun mála á Íslandi hófst vorið 2008. Í marsmánuði ársins 2008 árið var fjallað um hversu hátt skuldatryggingarálag Landsbankans (610 stig) og Kaupþings (856 stig) væru. Í lok mars birtist ritstjórnargrein í breska fjármáladagblaðinu Financial Times og því gefinn gaumur hversu mikil uppbygging og skuldsetning hefði átt sér stað hjá svona smáum efnahag. Þó var það áréttað að hann stæði föstum fótum og ekki væri ástæða til að óttast um afdrif hans. Haustið 2008 settu íslensk stjórnvöld upp upplýsingamiðlun vegna efnahagskreppunnar á vefsíðunni iceland.org þar sem leitast var við að kynna málstað íslendinga, gefa yfirlit yfir atburðarás og aðgerðir og ennfremur veita erlendum almenningi svör vegna hruns íslensku bankanna. Evrópuráðsþingið. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2009 Naflaló. Naflaló eða naflakusk er kuskhnoðri í nafla manns sem samanstendur aðallega af stökum trefjum úr fatnaði ásamt svolitlu af dauðum húðfrumum og líkamshárum. Naflaló myndast sjaldnar hjá konum en körlum, enda eru þær með fíngerðari og styttri líkamshár en þeir. Tímaskekkja. Tímaskekkja (einnig anakrónismi úr grísku „ana“ „"ανά"“, „upp, aftur á bak“, og „khronos“ „"χρόνος"“, „tími“) á við fyrirbæri sem stingur í stúf við þann tíma sem það er í. Hugtakið getur vísað til hlutar, orðatiltækis, tækni, heimspeki, tónlistar, efnis, siðar eða annars sem er nógu tengt tilteknum tíma til að virðast rangt utan hans. Önundarfjörður. Önundarfjörður er um 2ja km djúpur fjörður milli Dýrafjarðar og Súgandafjarðar á norðanverðum Vestfjörðum. Þorpið Flateyri er norðan megin fjörðinn. Samkvæmt "Landnámu" var Önundur Víkingsson þar fyrstur maður að búa (bróðir Þórðar í Alviðru). Sakka. Sakka í Svarfaðardal, mynd tekin í mars 2008. Sakka er býli í Svarfaðardal. Bærinn er í Vallasókn austan megin Svarfaðardalsár en handan árinnar er kirkjustaðurinn Tjörn. Upp af Sökku rís Vallafjall um 1000 m hátt. Sakka er góð bújörð og hefur löngum verið vel setin. Túnin eru í brekkunum upp af þjóðveginum og ágæt engjalönd neðan vegar á bökkum Svarfaðardalsár. Þar er Friðland Svarfdæla og Ingólfshöfði sem rís upp af flatlendinu og þar eru Lambhagi og Saurbæjartjörn. Sakka er að öllum líkindum landnámsjörð og nafn bæjarins kemur fyrir í fornum sögum. s.s. Guðmundar sögu dýra og í Prestssögu Guðmundar góða Arasonar. Þar bjó Arnþrúður Fróðadóttir og synir hennar á Sturlungaöld en hún var frænka Guðmundar góða og fékk hann til að verða prestur á Völlum. Gunnar Þorsteinsson. Gunnar Þorsteinsson, oft kallaður Gunnar í Krossinum, er fyrrverandi forstöðumaður trúfélagsins Krossins í Kópavogi. Jörmundur Ingi Hansen. Jörmundur Ingi settur inn í embætti allsherjargoða á Þingvöllum 1994 Jörmundur Ingi Hansen (f. 14. ágúst 1940) er fyrrum allsherjargoði Ásatrúarfélagsins og núverandi forstöðumaður Reykjavíkurgoðorðs. Jónína Kristín Berg. Jónína Kristín Berg (f. 3. september 1962) er Þórsnesgoði Ásatrúarfélagsins og staðgengill allsherjargoða. Hún var settur allsherjargoði frá 2002-2003. Hilmar Örn Hilmarsson. Hilmar Örn Hilmarsson er (f. 23. apríl 1958) er tónlistarmaður og tónskáld og hefur m.a. gert tónlist við fjölda íslenskra kvikmynda. Hann er einnig allsherjargoði Ásatrúarfélagsins og hefur gegnt því embætti frá árinu 2003. Vogunarsjóður. Vogunarsjóður er oftast haft um sjóð sem notar lántöku eða svokallaða skortstöðu í tilteknum eignum til að afla fjár til kaupa á öðrum eignum. Vogunarsjóðir eru lokaðir fjárfestingarsjóðir sem, ólíkt hinum hefðbundnu verðbréfasjóðum, hafa heimildir til að beita margvíslegum fjárfestingar­aðferðum við að ná hámarksávöxtun að teknu tilliti til áhættunnar sem sjóðsfélagar eru tilbúnir að taka. Þann 23. mars 2008 var grein í breska blaðinu SundayTelegraph, sem sagði frá því, að íslensk stjórnvöld gerðu allt til að koma í veg fyrir hrun efnahagslífsins, og héldu því fram að Ísland hefði orðið illa fyrir barðinu á lausafjárkreppunni, sem þá var að koma í ljós, og haft eftir ónafngreindum sérfræðingi að landið væri meðhöndlað eins og það væri "eitraður vogunarsjóður". Sigurður Hákonarson. Sigurður Hákonarson (norska: Sigurd Håkonsson) (um 895 – 962) var Hlaðajarl, þ.e. jarl yfir Þrændalögum og Hálogalandi, og því einn valdamesti maður Noregs á sinni tíð. Hann var sonur Hákonar Grjótgarðssonar. Eftir því sem segir í Heimskringlu fór Þóra Morstrarstöng, frilla Haraldar hárfagra, með Sigurði á skipi og ætlaði til Haraldar, en hún var þá þunguð. Hún ól son á leiðinni og gaf Sigurður honum nafnið Hákon eftir föður sinum. Drengurinn var síðar sendur í fóstur til Aðalsteins Englandskonungs en sneri aftur þegar hann var um tvítugt, var tekinn til konungs og kallaður Hákon Aðalsteinsfóstri. Sigurður var einn helsti ráðgjafi hans og fylgdi honum vel að málum en setti sig þó á móti tilraunum Hákonar til að kristna Norðmenn, enda fór svo að Hákon varð að kasta trúnni til að halda völdum. Hákon Aðalsteinsfóstri féll fyrir Gunnhildarsonum frændum sínum 960 eða 961. Sigurður var svo brenndur inni á Ögló í Stjóradal haustið 962, þegar Haraldur gráfeldur Noregskonungur, sonur Eiríks blóðöxar, reyndi að sameina Noreg á ný. Kona Sigurðar var Bergljót, dóttir Þóris þegjandi jarls af Mæri og konu hans Álofar árbótar, sem sögð er hafa verið dóttir Haraldar hárfagra. Sonur þeirra var Hákon, sem tók við jarldæminu eftir föður sinn. Kormákur Ögmundarson var hirðskáld Sigurðar jarls, og eru brot úr "Sigurðardrápu" eftir hann varðveitt í "Skáldskaparmálum" Snorra-Eddu og "Heimskringlu." Silfur Egils. Silfur Egils er pólitískur íslenskur umræðuþáttur þar sem Egill Helgason er þáttarstjórnandi og hefur verið síðan stofnun þáttarins árið 2000. Þátturinn vann verðlaun sem sjónvarpsþáttur ársins á Edduverðlaununum árið 2000. East Clubbers. East Clubbers er pólskt "trance"-dúó sem samanstendur af þeim félögum DJ Silver og DJ Sqren. Þekktustu lög East Clubbers eru „Sextasy“, „Walk Alone“ og „It's a Dream“. Reykjavíkurgoðorð. Reykjavíkurgoðorð er eitt nýjasta og fámennasta íslenska trúfélagið. Það var skráð sem trúfélag þann 3. apríl 2006 og hefur 20 skráða meðlimi (miðað við 1. desember 2007). Forstöðumaður þess er Jörmundur Ingi Hansen, fyrrum allsherjargoði Ásatrúarfélagsins. Heimakirkja. Heimakirkja er íslenskt trúfélag. Hún var skráð sem slík þann 29. mars 2005 og í henni eru 11 meðlimir (m.v. 17. janúar 2008). Forstöðumaður Heimakirkjunnar er Eiríkur Sigurbjörnsson, sá sami og rekur sjónvarpsstöðina Omega. Vaxtamunur. Vaxtamunur er munurinn á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum banka. Það er að segja vaxtamunur jafngildir útlánsvöxtum að frádregnum innlánsvöxtum. Vextir. Vextir (áður fyrr renta) er það gjald sem greitt er fyrir lán á fjármagni, m.ö.o. leiga sem greidd er fyrir fjármagn. "Innlánsvextir" eru þeir vextir sem fjármálastofnun greiðir af innlánum, þ.e. greiðir þeim sem leggur inn fyrir afnot af fjármagninu, en "útlánsvextir" þeir vextir sem lántakandi greiðir af útlánum, þ.e. fyrir að hafa fengið féð að láni. Árið 1997, gerði Seðlabanki Íslands úttekt á vöxtum á lánsfé til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og kom þá í ljós að vextir voru hæstir hér á landi af þeim átta samkeppnislöndum sem miðað var við. Þannig voru t.d. vextir af óverðtryggðum lánum hér á landi 11,3%, í Bandaríkjunum 9,6%, Englandi 8,6%, 7,3% í Danmörku, 6,2% í Finnlandi, 5,7% í Noregi en lægstir í Japan, 3%. Niðurstaðan var sú að innlendir vextir reyndust vera meira en þrisvar sinnum hærri en japanskir vextir og næstum helmingi hærri en í Noregi, en annars 2-3% hærri en annarra þjóða. Lausafjárkreppan 2007-2008. Lausafjárkreppan 2007-2008 er alþjóðleg efnahagskreppa sem hefur einkennst af töpum á rekstri, greiðslustöðvunum og gjaldþrotum hjá stórum bönkum og fjármálastofnunum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Dakota Fanning. Hannah Dakota Fanning (fædd 23. febrúar 1994) er bandarísk leikkona. Hundingjar. Hundingjar (eða kýnikar) (forngríska: Κυνικοί [frb. Kunikoj], latína: Cynici) voru heimspekingar í Grikklandi til forna. Stefnan fól í sér róttæka höfnun á félagslegum gildum og rík hneigð til meinlætalífs. Þeir hvöttu fólk til að hleypa dýrinu lausu innra með sér og gerðu oft sitt ýtrasta til að hneyksla fólk og stunduðu m.a. sjálfsfróun á almannafæri. Frægastur hundingja er sennilega Díógenes hundingi sem bjó í tunnu. Meðal annarra hundingja voru Krates, Demetríos og Demonax. Hundingjar sóttu innblástur sinn til Sókratesar en upphafsmaður hundingjastefnunnar var heimspekingurinn Antisþenes (444-365 f.o.t.) sem verið hafði vinur og nemandi Sókratesar. Hundingjar höfðu síðar mikil áhrif á Zenon frá Kítíon, upphafsmanns stóuspekinnar og aðra stóumenn, svo sem Epiktetos. Guðfinna (Sjálfstætt fólk). Guðfinna, sem er kölluð Finna, er seinni eiginkona Bjarts í Sumarhúsum í bókinni "Sjálfstætt fólk" eftir Halldór Kiljan Laxness. Hún er dóttir Hallberu sem flytur með henni í Sumarhús. Hún hefur eignast 7 börn en aðeins 3 uppkomin, drengina Helga, Guðmund (Gvend) og Jón (Nonna). Gjaldeyrir. Gjaldeyrir (og eldra gjaldpeningur) er hugtak sem núorðið er aðallega haft um erlendan gjaldmiðil, en var áður einnig haft um það sem greitt var með í viðskiptum (þ.e. peninga almennt eða ígildi þeirra). Íslendingar kaupa gjaldeyri með íslenskum krónum í samræmi við gengi hennar, þ.e. gildi krónunnar gagnvart hinni erlendu mynt. Fyrirtæki og einstaklingar þurfa á gjaldeyri að halda til þess að kaupa erlent hráefni, eða einstaklingar til að geta ferðast í útlöndum (þ.e. farareyrir). Talað er um að innlend framleiðsla "skapi gjaldeyri", eins og t.d. fiskvinnsla, landbúnaður og stóriðja hérlendis. Gjaldeyristekjur þjóðar verða þannig til að þjóðin flytur út hráefni eða hugvit, og fær greitt í þeim gjaldeyri sem um var samið, oft þeim sem notaður er í landi kaupandans. Spákaupmennska er algeng í tengslum við gjaldeyrisviðskipti. Fyrr á öldum, áður en gjaldeyrisviðskipti tóku að tíðkast á Íslandi í jafn miklum mæli og þau eru stunduð núna, byggðist afkoma þjóðarinnar mikið til á vöruskiptum. Guðmundur Bragason. Guðmundur Bragason er frá Grindavík og og er fæddur 21. apríl árið 1967. Guðmundur spilaði í mörg ár með Grindavík í körfubolta. Guðmundur spilaði sinn fyrsta landsleik í janúar 1987 á móti Svíþjóð og var í byrjunarliðinu! Lið Grindavíkur komst upp úr fyrstu deild árið 1987 og spilaði þar með sinn fyrsta leik í efstu deild árið 1987 um haustið.. Guðmundur var ávallt kallaður Kóngurinn í liðinu sem gerði góða hluti í byrjun og um miðjan Tíundaáratug.. Grindavík komst í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn fjögur ár í röð eða frá 94-97. Urðu loksins íslandsmeistarar árið 1996 og Bikarmeistarar árið 95' þegar þeir sigruðu Njarðvíkinga í skemmtilegum úrslitaleik. Enginn hefur spilað fleiri A landsleiki í körfuknattleik en Guðmundur Bragason en hann hefur spilað 169 landsleiki í körfuknattleik og var fyrirliði landsliðsins til fjölda ára. Guðmundur Bragason var mikill burðarrás í liði Grindavíkur og missti mjög sjaldan úr leikjum vegna meiðsli eða veikindi.. Sælla minningar þegar lið Grindavíkur spilaði í fyrstu deild fór Grindavík til Akureyrar og spiluðu þar tvö leiki þar sem Guðmundur Bragason var með flensu en spilaði samt og var þeirra besti maður. Árið 1996 fór hann til Þýskalands og spilaði þar í þrjú ár. Guðmundur kom aftur og gekk til liðs við sitt gamla félag Grindavík og var einnig spilandi þjálfari. Hann gekk svo til liðs við Hauka og endaði sinn körfuboltaferil með Grindavík árið 2004. Guðmundur er hæstur í körfuboltasögunni á Íslandi í fráköstum, sóknarfráköstum og varnarfráköstum. Ólafur Skúlason. Ólafur Skúlason (29. desember 1929 – 9. júní 2008) var prestur og biskup Íslands frá 1989 til 1997. Ólafur var sakaður um kynferðislega misnotkun af fjölmörgum konum, þar á meðal dóttur sinni. Ólafur Skúlason fæddist í Birtingaholti í Hrunamannahreppi sonur hjónanna Sigríðar Ágústsdóttur og Skúla Oddleifssonar. Árið 1955 vígðist hann til þjónustu við íslenska söfnuði í Mountain í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Árið 1960 var hann settur til starfa sem fyrsti æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar. Þann 1. janúar árið 1964 tók hann við þjónustu í Bústaðasókn. Árið 1975 var hann skipaður dómprófastur í Reykjavík. 1983 var hann vígður vígslubiskup yfir Skálholtsstifti. Þá gegndi hann formennsku í Prestafélagi Suðurlands, Prestafélagi Íslands og Prófastafélagi Íslands. Biskupstíð hans var tími mikilla umskipta fyrir þjóðkirkjuna sem stefndi í átt til meira sjálfstæðis auk þess sem áhrif leikmanna urðu æ meiri í stjórnkerfi hennar. Hápunktur þeirra breytinga voru lögin (Um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar) frá 1997 þar sem kirkjan hafði sjálf ákvörðunarrétt um þau málefni sem hana vörðuðu. Á þessum tíma var hann auk þess stjórnarmaður í Lútherska heimssambandinu og gegndi formennsku í stjórn ekúmenísku stofnunarinnar í Strassborg. Á embættistíma hans kom upp röð hneykslismála sem tengdust prestum, auk ásakana á hendur Ólafi sjálfum um kynferðisbrot í fyrra starfi sem sóknarprestur Bústaðakirkju. Árið 2010 fór dóttir hans Guðrún Ebba Ólafsdóttir á fund Kirkjuráðs og sagði Ólaf hafa misnotað sig kynferðislega í mörg ár. Árið 2011 kom út samtalsbók við Guðrúnu Ebbu sem Elín Hirst skráði og nefnist hún "Ekki líta undan". Þar segir Guðrún Ebba frá lífi sínu í skugga kynferðisofbeldis og afneitunar og baráttu við lífsvanda sem þar af hlýst. Pétur Sigurgeirsson. Pétur Sigurgeirsson (2. júní 1919 – 4. júní 2010) var biskup Íslands á árunum 1981-1989 og sóknarprestur í Akureyrarkirkju 1947-1981. Pétur var sonur Sigurgeirs Sigurðssonar biskups og konu hans, Guðrúnar Pétursdóttur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1940, lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1944 og fór síðan í framhaldsnám til Bandaríkjanna. Hann var skipaður sóknarprestur á Akureyri er heim kom og gegndi því embætti alla sína prestskapartíð. Hann var skipaður vígslubiskup Hólastiftis 1969 jafnframt prestsstarfinu og gegndi því embætti uns hann varð biskup Íslands 1. október 1981. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir þann 1. júlí 1989. Ásmundur Guðmundsson. Ásmundur Guðmundsson var biskup Íslands frá 1953 til 1959. Sigurgeir Sigurðsson. Sigurgeir Sigurðsson var biskup íslensku Þjóðkirkjunnar frá 1939 til 1953. Hann var faðir Péturs Sigurgeirssonar biskups. Þórhallur Bjarnarson. Þórhallur Bjarnarson (2. desember 1855 - 15. desember 1916) var biskup íslensku Þjóðkirkjunnar frá 1908 til 1916 og alþingismaður. Hann var fæddur í Laufási við Eyjafjörð, sonur séra Björns Halldórssonar og konu hans Sigríðar Einarsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1877 og guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1883. Hann var prestur í Reykholti og prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi frá 1884, varð kennari við Prestaskólann 1885 og forstöðumaður hans 1894. Hann var alþingismaður Borgfirðinga 1894-1900 og 1902-1908, fyrst utanflokka en síðan fyrir Heimastjórnarflokkinn. Einnig sat hann í bæjarstjórn Reykjavíkur 1888-1906. Árið 1908 var hann skipaður biskup yfir Íslandi og gegndi því embætti til dauðadags. Þórhallur bjó lengst af í Laufási við Laufásveg í Reykjavík og rak þar blómlegan búskap. Kona hans var Valgerður Jónsdóttir (27. janúar 1863 - 28. janúar 1913), fósturdóttir Tryggva Gunnarssonar bankastjóra og alþingismanns. Börn þeirra voru Tryggvi forsætisráðherra, Svava, Björn og Dóra, kona Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands. Hallgrímur Sveinsson. Hallgrímur Sveinsson var biskup íslensku Þjóðkirkjunnar frá 1889 til 1908. F. í Blöndudalshólum 5. apríl 1841, d. 16. des. 1909. For.: Sveinn Níelsson (f. 14. ágúst 1801, d. 17. jan. 1881) alþm. og 2. k. h. Guðrún Jónsdóttir (f. 27. mars 1807, d. 10. júní 1873) húsmóðir. K. (16. sept. 1871) Elina Marie Bolette, f. Fevejle (f. 12. júní 1847, d. 14. júní 1934) húsmóðir. Faðir: Fr. Chr. F. Fevejle. Börn: Friðrik (1872), Guðrún (1875), Sveinn (1876), Ágústa (1877). Stúdentspróf Lsk. 1863. Guðfræðipróf Hafnarháskóla 1870. Stundaði nám við Pastoralseminariet í Kaupmannahöfn 1870—1871. Kgk. alþm. 1885—1887 og 1893—1905 (Framffl., Framsfl. eldri). Forseti Sþ. 1897—1899. Varaforseti Ed. 1903. Pétur Pétursson. Pétur Pétursson (3. október 1808 - 15. maí 1891) var biskup íslensku Þjóðkirkjunnar frá 1866 til 1889. Hann var fæddur á Miklabæ í Blönduhlíð, sonur Péturs Péturssonar prófasts á Víðivöllum og seinni konu hans, Þóru Brynjólfsdóttur. Hann var einn hinna kunnu Víðivallabræðra; hinir voru Jón Pétursson háyfirdómari og Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður. Pétur og Brynjólfur bróðir hans voru sendir til í tvo vetur náms hjá séra Einari Thorlacius í Goðdölum og seinna á Saurbæ í Eyjafirði og var Jónas Hallgrímsson samnemandi þeirra seinni veturinn. Þeir fóru svo í Bessastaðaskóla. Pétur varð stúdent þaðan 1827 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1834. Hann var prestur á Helgafelli og Staðarstað og prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi, og var skipaður forstöðumaður Prestaskólans 1847. Má því segja að hann hafi verið fyrsti stjórnandi íslensks skóla á háskólastigi. Hann var skipaður biskup Íslands 1866 og gengdi því embætti í 23 ár, fékk lausn 16. apríl 1889. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1849-1887 og bæjarfulltrúi í Reykjavík 1849-1851 og 1855-1856. Hann samdi líka margar guðsorðabækur. Fyrri kona hans var Anna Sigríður Aradóttir frá Flugumýri en hún dó 1839 eftir stutt hjónaband. Síðari kona hans var Sigríður Bogadóttir, dóttir Boga Benediktssonar á Staðarfelli. Meðal barna þeirra var Þóra (f.1848). Helgi G. Thordersen. Helgi Thordersen Guðmundsson (8. apríl 1794 - 4. desember 1867) var biskup íslensku Þjóðkirkjunnar frá 1846 til 1866. Geir Vídalín. a> var aðsetur Geirs Vídalín biskups frá 1807-1823 og kallaðist þá Biskupsstofan. Geir Vídalín (27. október 1761 - 20. september 1823) var biskup í Skálholtsbiskupsdæmi frá 1797 - en sat þó aldrei í Skálholti - og biskup Íslands alls frá 1801 - 1823. Hann bar þann titil fyrstur manna eftir siðaskipti, en áður höfðu verið tvö sjálfstæð biskupsembætti í landinu, í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal. Geir var sonur Jóns Jónssonar (10. ágúst 1726 - 1. desember 1767) prests í Laufási, sonar Jóns yngri Pálssonar Vídalín. Móðir Geirs var Sigríður Magnúsdóttir, systir Skúla fógeta. Geir lauk prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1789. Hann var dómkirkjuprestur í Reykjavík og bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi, þar sem þá var prestssetur Reykvíkinga. Hann var valinn biskup eftir lát Hannesar Finnssonar 1796. Hann var vígður biskup á Hólum af Sigurði Stefánssyni biskupi þar 30. júlí 1797. Hann sat þó áfram á Lambastöðum, enda hafði alltaf staðið til að flytja biskupssetrið til Reykjavíkur við lát Hannesar. Sigurður Hólabiskup dó vorið 1798, það dróst að skipa eftirmann hans og á endanum varð úr að sameina biskupsdæmin. Var Geir skipaður biskup yfir Íslandi með konungsbréfi í nóvember 1801. Hann bjó áfram á Lambastöðum til 1807. Þá flutti hann í Aðalstræti 10, sem eftir það var nefnt Biskupsstofan, og bjó þar til dauðadags. Geir biskup var orðlagður fyrir gestrisni og góðmennsku og var oft kallaður Geir biskup góði. Hann sást oft ekki fyrir í greiðasemi sinni og heimilið var dýrt í rekstri. Á endanum varð biskupinn gjaldþrota, svo að skipuð var nefnd sem sá um fjármál hans og skammtaði honum meðal annars mjöl, smjör, blek og tóbak vikulega. Haustið 1823 kom marsvínavaða að landi við Hlíðarhús og var hún rekin þar á land og hvölunum slátrað. Flestir íbúar Reykjavíkur komu að horfa á, þar á meðal biskup. Hann varð innkulsa við þetta og dó úr lungnabólgu nokkru síðar. Kona Geirs var Sigríður Halldórsdóttir og bjó hún áfram í Biskupsstofunni þar til hún lést 1846. Sigurður Pétursson, sýslumaður og leikskáld, var skólafélagi Geirs og aldavinur. Þegar hann sagði af sér embætti vegna heilsubrests 1803 flutti hann til Geirs og bjó hjá honum þar til Geir lést og síðan hjá ekkju hans þar til hann lést 1827. Þórður Tómasson (klausturprestur). Séra Þórður Tómasson (7. desember 1871 – 21. ágúst 1931) var íslenskur prestur í Danmörku, ljóðskáld og þýðandi. Þórður var prestur alla ævi í Danmörku og var síðast klausturprestur í Vemmetofte, sem er klaustur á Sjálandi í Danmörku. Klausturembættið var þá einskonar heiðursembætti, ætlað velmetnum eldri prestum, sem hneigðir voru fyrir skáldmennt og bókagerð, svo að þeir gætu gefið sig að slíku í næði. Þórður er einna þekktastur fyrir að hafa þýtt Passíusálmanna, eftir Hallgrím Pétursson, á dönsku. Þórður fæddist á Akureyri — á gamla spítalanum svonefnda þar sem foreldrar hans bjuggu. Hann var skírður Þórður Tómas. Faðir hans var Þórður héraðslæknir Tómasson (prófasts Sæmundssonar á Breiðabólstað), en móðir hans, Camilla Christiane, var dönsk, dóttir píanósmiðs Enig í Kaupmannahöfn. Þegar Þórður var tveggja ára lést faðir hans, og fluttist móðir hans þá til Danmerkur næsta ár með börnum sínum tveimur, Þórði og dóttir þeirra hjóna, lítið eitt eldri, sem hét María. Ellefur ára var Þórður settur í Borgaradyggðaskólann á Kristjánshöfn og útskrifaðist þaðan 1890 með ágætiseinkunn. Hvarf hann þá að guðfræðinni og lauk embættisprófi vorið 1896 með lofseinkunn í öllum greinum nema einni, kirkjusögu, þar hlaut hann ágætiseinkunn. Næsta vetur var hann húskennari hjá Ahlefeldt Laurvigen greifa og stóreignamanna á Kjærsgaard (á Fjóni). Hann fékkst annars við ritstörf og kennslu („manuduction“ í heimspeki og guðfræði) í Kaupmannahöfn uns hann undir árslok 1898 var skipaður annar prestur við Klausturkirkjuna í Horsens og skömmu síðar prestvígður. Um sama leyti kvæntist hann danskri heitmey sinni Christine Paybjerg, en með henni átti hann þrjár dætur. Árið 1904 varð hann sóknarprestur við sömu kirkju og hélt því embætti uns hann 1925 varð prestur á Vemmetofte-klaustri á Sjálandi (nálægt Faxe). Dvöl hans þar varð skammæ, aðeins rúm 6 ár. Hann andaðist í sumarbústað sínum í Sönderho á Fanö. Brandenborg. Brandenborg (þýska: "Brandenburg"; neðri sorbneska: "Bramborska"; efri sorbneska: "Braniborska") er fimmta stærsta sambandsland Þýskalands með rúmlega 29 þús km². Landið er í austurhluta Þýskalands og umlykur Berlín, sem er sjálfstætt sambandsland. Fyrir norðan er Mecklenborg-Vorpommern, fyrir norðvestan er Neðra-Saxland, fyrir vestan er Saxland-Anhalt og fyrir sunnan er Saxland. Auk þess nær Brandenborg að Póllandi að austan. Íbúar eru tiltölulega fáir, aðeins 2,5 milljónir talsins. Margar ár og mikið votlendi eru einkennandi fyrir Brandenborg. Þar má helst nefna Saxelfi, Odru, Havel og Spree. Fyrir vestan borgina Cottbus er eitt stærsta votlendissvæði Þýskalands, Spreewald. Borgir eru fáar og ekki mjög stórar. Höfuðborgin er Potsdam. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Brandenborgar eru tvær láréttar rendur, rauð að ofan og hvít að neðan. Fyrir miðju er skjaldarmerkið, rauður örn á hvítum fleti. Örninn er tákn markarinnar (markgreifadæmisins Brandenborgar) og á uppruna sinn á 12. öld. Orðsifjar. Brandenburg hét áður "Brandanburg" og "Brendanburg". Ekki er með öllu ljóst hvaðan heitið á uppruna sinn, en líklegt þykir að það sé dregið af sögninni að brenna (á þýsku: "brennen" eða "Brand"). Upphaf Brandenborgar er landnám Þjóðverja á 12. öld og þurftu þeir oftar en ekki að ryðja skóga. Við það ferli var oft notaður eldur. Söguágrip. Árið 929 lagði Hinrik I. keisari svæðið undir sig og gerði slava skattskylda sér. Nokkrir bæir mynduðust við það. En í slavauppreisninni miklu 983 náðu slavar að endurheimta allt sitt land á ný og myndaði fljótið Saxelfur náttúruleg landamæri milli Þjóðverja og slava. Þegar slavafurstinn Pribislaw dó barnlaus 1150, ánafnaði hann Þjóðverjanum Albrecht der Bär ("Albrecht björn") allt landið. Albrecht varð þó að berjast gegn nokkrum slavneskum erfingjum, en 1157 náði hann að vinna landið. Þetta markar stofnun markgreifadæmisins Brandenborgar. Þýskt landnám hefst á ný og borgir eins Berlín myndast í kjölfarið. Margir slavar urðu þó eftir í landinu, aðallega vindar og sorbar. Afkomendur sorba eru enn til í dag og búa þeir suðaustast í Brandenborg og norðaustast í Saxlandi. Talið er að 20-30 þús manns á þessu svæði tali sorbnesku í dag, en tungumálið er verndað. Helstu valdaættir í Brandenborg urðu Askanier-ættin, en hún dó út 1320, og Hohenzollern-ættin. Eftir 30 ára stríðið lá landið í rústum. Á 17. öld sameinaðist markgreifadæmið Brandenborg og hertogadæmið Prússland. Úr því varð kjörfurstadæmi, þ.e. kjörfurstinn átti rétt á að mæta á furstafund og velja nýjan þýskan konung. Prússland varð að konungsríki 1701 og brátt varð það að stórveldi í Evrópu. Prússland barðist gegn Napoleon, en mátti síns lítils. Eftir fall Napoleons þandist Prússland út í vestur, en einnig í austur. 1871 varð Prússland að keisararíki og hélst það allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri, er keisarinn afþakkaði og fór í útlegð. Við lok heimstyrjaldarinnar síðari var Berlín og Brandenborg skipt upp í tvö svæði. Brandenborg varð hluti af hernámssvæði Sovétmanna, en Berlín var skipt upp í fjögur hernámssvæði. 1949 varð Brandenborg hluti af nýstofnuðu Alþýðulýðveldi Þýskalands, ásamt Austur-Berlín. 1952 var Brandenborg skipt upp i þrjú héröð (Cottbus, Frankfurt a.d. Oder og Potsdam). En við sameiningu Þýskalands 1990 var skiptingin tekin til baka og Brandenborg varð til á ný. 1996 fór fram atkvæðagreiðsla í Brandenborg og í Berlín þess eðlis að sameina þessi tvö sambandslönd. Berlín samþykkti, en Brandenborg hafnaði. Tillagan var því felld. Bavaria Yachtbau. Bavaria Yachtbau GmbH er stór þýskur bátaframleiðandi í Giebelstadt í Bæjaralandi sem framleiðir bæði vélbáta og seglskútur. Fyrirtækið framleiðir um 3500 báta árlega og er því ein af stærstu bátasmiðjum Evrópu. Fyrirtækið er þekktast fyrir meðalstórar (30-50 feta) skemmtisiglingaskútur. Bavaria er í eigu bandaríska einkaframtakssjóðsins Bain Capital. Micro 18. Micro 18, Micro Cupper eða einfaldlega Micro er tegund af seglskútu sem er hönnuð bæði fyrir kappsiglingar og skemmtisiglingar. Bátar af þessari gerð eru átján feta langir (5,5 metrar) og 2,45 metra breiðir með káetu og svefnpláss fyrir fjóra að framanverðu. Hönnunin var fyrst kynnt af franska tímaritinu "Bateaux" árið 1976. Gerðin var hugsuð fyrir eina árlega siglingakeppni, Micro Cup frá 1977, og miðaðist við hönnun vinsælla átján feta báta á borð við Corsaire. Brátt hófu bæði stærri og minni framleiðendur framleiðslu báta út frá þessum hönnunarviðmiðum og Micro-bátar náðu talsverðum vinsældum á 9. áratug 20. aldar. Árið 1999 hlaut gerðin viðurkenningu Alþjóða siglingasambandsins sem alþjóðleg keppnisgerð. Algengar útgáfur Micro 18-báta eru meðal annars Jeanneau Microsail, Corsaire og GEM. Micro-bátar skipast í keppnisbáta, skemmtibáta og frumgerðir eftir því hvaða áherslur hafa ráðið smíði þeirra. Oftast eru Micro-bátar gerðir úr trefjaplasti utanum krossviðarskel með fellikili með 100 kg ballest úr blýi. Nokkrar vinsælar tegundir voru upphaflega líka með fellistýri þannig að hægt væri að sigla bátnum upp í fjöru, en eftir nokkur atvik þar sem slík stýri brotnuðu við álag varð algengara að notast við heilt stýri. Micro-bátar eru yfirleitt um hálft tonn að þyngd og því hægt að flytja þá með kerru aftaní fólksbíl. Á Íslandi voru nokkrir bátar af þessari gerð smíðaðir um miðjan 9. áratuginn af fyrirtækinu Mótun ehf. í Hafnarfirði eftir teikningum frá breskum framleiðanda og frá 1983 fram á 10. áratuginn var haldin árleg Íslandsmeistarakeppni í flokknum. Optimist. Optimist (eða optimist-kæna) er lítil ferköntuð opin kæna (julla) með eitt spritsegl sem er hönnuð sem kennslu- og skemmtiskúta fyrir börn. Optimist-kænan var upphaflega hönnuð af bandaríska skútuhönnuðinum Clark Mills árið 1947 og varð fljótlega vinsæl í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum. Núna er Optimist ein vinsælasta kæna heims með 132 þúsund skráða báta og væntanlega marga óskráða. Áður fyrr var algengast að smíða kænuna heima fyrir úr borðum eða krossviði, enda miðaðist hönnun hennar við það, en nú til dags eru fjöldaframleiddar Optimist-kænur úr trefjaplasti algengastar. Hönnunin var stöðluð árið 1960 og gerðin varð einsleit 1995. Optimist-kænan er ferköntuð með flötu stefni og nánast flötum botni. Hún er með fellikjöl í miðjunni og mastrið kemur nánast upp úr stefninu að framan svo pláss sé fyrir siglingamanninn að aftan. Hún er 2,3 metra löng og vegur aðeins 35 kíló tóm. Optimist er viðurkennd alþjóðleg keppnisgerð af Alþjóða siglingasambandinu. Tur 84. Tur 84 er gerð af seglskútu sem var hönnuð af sænska skútuhönnuðinum Per Brohäll. Framleiðsla bátsins hófst árið 1975 á eynni Orust þar sem hún stóð til 1980. Tur-bátarnir eru 28 feta langir (8,5 metrar) og 2,6 metra breiðir með langan 900 kg þungan kjöl. Inni er svefnpláss fyrir fimm. Á Íslandi voru sautján Tur 84-bátar framleiddir í Hafnarfirði á árunum 1984 til 1986 og er þessi gerð talin algengasta gerð kjölbáta á landinu. Íslandsmót í kappsiglingu á Tur 84 var haldið í nokkur ár um miðjan 9. áratug 20. aldar. Lýsistafur. Lýsistafur er stafur eða tákn sem ber sérstaka merkingu í tölvuforriti, eins og í túlkurinum fyrir skelina og vél sem keyrir reglulegar segðir. Secret 26. Secret 26 er gerð af seglskútum hönnuð af breska bátahönnuðinum David Thomas sem meðal annars hannaði hinn vinsæla Hunter Sonata bát. Fyrsti báturinn var hannaður samkvæmt hugmyndum Rúnars Steinsen, Páls Hreinssonar og Ólafs Bjarnasonar og sjósettur árið 1987. Nafnið kom til af því hversu mikil leynd hvíldi yfir smíði bátsins. Nokkrir Secret-bátar voru síðan framleiddir af fyrirtækinu Sigurbátum og hafa verið vinsælir kappsiglingabátar. Núverandi Íslandsmet í siglingu frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og frá Reykjavík til Keflavíkur voru sett í bátum af þessari gerð. Secret-bátarnir eru 26 feta langir (8 metrar) og grannir með djúpan kjöl og hlutfallslega mikinn seglaflöt. Flestir þeirra hafa verið notaðir sem félagsbátar hjá siglingafélögum á Íslandi. Topper. Kappsigling á Topperum árið 2005. Topper er gerð kæna hönnuð af enska skútuhönnuðinum Ian Proctor árið 1976. Báturinn er 3,4 metra langur einmenningsplastbátur með eitt stórsegl á plasthúðuðu álmastri og vegur aðeins 43 kg án seglabúnaðar. Hann er viðurkennd alþjóðleg keppnisgerð hjá Alþjóða siglingasambandinu. British Hunter. British Hunter (áður Hunter Boats Ltd) er breskur skútuframleiðandi í Essex á Englandi sem var stofnaður árið 1969. Fyrirtækið er nú hluti af bátaframleiðandanum Select Yacht Group sem einnig á vörumerkið Cornish Crabber. Meðal vinsælla báta sem Hunter framleiddi eru Hunter Delta, Hunter Horizon og Hunter Sonata. Marta Vieira da Silva. Marta Vieira da Silva eða einfaldlega Marta (fædd 19. febrúar 1986 í Dois Riachos í Alagoas) er brasilísk knattspyrnukona sem leikur með Los Angeles Sol í Bandaríkjunum. Hún kom þangað frá Umeå IK í Svíþjóð. Hún var kosin leikmaður ársins (kona) af FIFA árin 2006, 2007 og 2008. Hún hlaut Gullboltann, sem besti leikmaður, og Gullskóinn, sem markahæsti leikmaðurinn, á heimsmeistarmóti kvenna í knattspyrnu 2007. Oyster-kort. Oyster-kort (úr ensku "oyster", „ostra“) er snertifrjálst rafkort sem er aðgöngumiði fyrir almenningssamgöngur í London. Kerfinu er stjórnað af Transport for London og kortið er í gildi í neðanjarðarlestakerfinu Lundúnaborgar, strætisvögnum, Docklands Light Railway, London Overground, sporvögnum og National Rail-lestum í stórborgarsvæðinu Lundúna. Oyster-kortið er blátt, kreditkortsstórt kort sem getur hald ýmis aðgöngumiða. Það komið út fyrsta árið 2003. Jökulsárlón. Jökulsárlón er lón við rætur Breiðamerkurjökuls. Jökulsá á Breiðamerkursandi rennur úr því. Samkvæmt nýlegum mælingum er Jökulsárlón dýpsta vatn á Íslandi. Þar með er vatnið orðið dýpra en Öskjuvatn, sem áður var dýpsta vatn Íslands. Öskjuvatn er 220 metrar á dýpt en að sögn Einars B. Einarssonar, sem rekur bátaþjónustu fyrir ferðamenn á svæðinu, mældist dýpið í Jökulsárlóni 248 metrar niður á botn. Jökulsárlón er ungt lón og hefur myndast eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa eftir 1933. Áður rann áin beint undan jökli og til sjávar. Breiðamerkursandur var fyrr á öldum töluvert breiðari en hann er nú; bæði hefur sjór brotið af honum og einnig náði jökullinn skemmra fram á sandinn. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um sandinn 1756 töldu þeir um eina danska mílu (7,5 km) milli jökuls og sjávar. Á næstu áratugum skreið jökullinn mjög fram og þegar Sveinn Pálsson fór um sandinn 1794 taldi hann aðeins um 2 km milli jökuls og sjávar. Þegar jökullinn skreið fram hefur hann líklega grafið sig djúpt ofan í gljúp jarðlög og þegar hann fór að hopa aftur á 4. áratug 20. aldar myndaðist lón þar sem hann hafði grafið sig niður. Þorgrímsstaðadalur. Þorgrímsstaðadalur er dalur á Vatnsnesi. Hann heitir eftir innsta bæ í dalnum, Þorgrímsstöðum. Fimm bæir voru í dalnum en nú eru bara tveir í byggð. Vegurinn sem liggur um dalinn heitir Þorgrímsstaðadalsvegur og er 8 km langur. Sagnir eru um að heil kirkjusókn hafi verið í dalnum og kirkjan hafi verið á Ásgarði. Nú er þetta farið í auðn fyrir löngu og bæjarnöfnin ekki vituð. Freddy Cannon. Freddy Cannon (fæddur Frederico Anthony Picariello 4. desember 1940 í Lynn í Massachusetts USA), er bandarískur rokksöngvari. Hann er stundum kallaður „The Boom Boom Man“ eftir eigin lagi. Cannon lenti í skugga rokk og ról-stjarnanna sem voru frægir í byrjun 7. áratugarins. Tónlist hans einkennist av trommum og hröðum, hressum lögum. Þekkustu lög Cannon eru „Tallahassee Lassie“, „Way Down Yonder in New Orleans“ og „Palisades Park“. Áshildarmýrarsamþykkt. Áshildarmýrarsamþykkt (eða Árnesingaskrá (yngri)) var samþykkt gerð árið 1496 sem sneri að því að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til verndar réttindum sem Íslendingar höfðu tryggt sér með Gamla sáttmála og bindast jafnframt samtökum um að hrinda af sér hvers konar yfirgangi og órétti af hendi erlendra og innlendra umboðsmanna konungsvaldsins. Árnesingar komu saman að Áshildarmýri á Skeiðum, og var tilefnið yfirgangur Lénharðs fógeta og fleiri valdamanna í héraðinu. Hybris. Hybris (forngríska: ὕβρις) er forngrískt hugtak sem stundum er notað á íslensku og öðrum málum og haft um persónuleikaeinkenni sem lýsa sér í ofdrambi og hroka sem síðar hefur válegar afleiðingar. Sumir útskýra hybris sem „ofmetnaðarfullt athæfi“ eins og t.d. Sigurður A. Magnússon. Í Grikklandi til forna var hugtakið þó víðtækara en það er nú og haft um athæfi sem viljandi eða óviljandi gjörði fórnarlambinu skömm og brotamanni einnig. Orðið var einnig haft um þá sem storkuðu guðunum og lögum þeirra. Þetta kemur sérstaklega fyrir í grískum harmleikjunum og endar undantekningalaust með falli hetjunnar. Skírnarnafn. Skírnarnafn er eiginnafn gefið við skírn. Menn skrifa venjulega skírnarnafn (eða skírnarnöfn) og föðurnafn (og/eða ættarnafn) undir flesta samninga sem menn gera. Þegar nöfnum er raðað eftir stafrófsröð þá er Íslendingum raðað eftir skírnarnöfnum, en erlendum eftir ættarnöfnum. Útflutningsvörur Íslendinga. Útflutningsvörur Íslendinga eru þær afurðir sem Íslendingar flytja að jafnaði út og hafa verið mismunandi í aldanna rás og jafnvel frá ári til árs. Fiskveiðar afla núna um helming útflutningstekna og veita 8% vinnandi manna störf. Þar sem aðrar náttúruauðlindir skortir (fyrir utan jarðhita og fallvötn til virkjunar), er efnahagslíf á Íslandi viðkvæmt og háð heimsmarkaðsverði á fiski, áli og sjávarafurðum. Auk þess geta minnkandi fiskstofnar í efnahagslögsögu landsins haft töluverð áhrif á sveiflur í efnahagslífinu og heimsmarkaðsverð á áli og kísilgúri sem eru stærstu útflutningsvörur Íslendinga á eftir sjávarafurðum. Listi yfir famiclona. Famiclonar eru leikjatölvu eftirlíkingar. Fyrstu leikjatölvu eftirlíkingarnar voru endurframleiðsla af leikjavélum síns tíma. Seinna, með þróun hálfleiðara var hægt að setja örgjafana, minnið og aðra lógískar rásir saman í eina sílíkón rás. Famiclomar urðu til að fullnægja eftirspurn þar sem stóru framleiðendurnir Nitendo, Sony og Sega seldu ekki sínar vörur. Famiclonar voru þó, á sama tímabili, ólöglegir vegna einkaleyfis stórfyrirtækjana þriggja. Árið 2003 rann einkaleyfi Nitendo út, og Famiclonar urðu löglegir. Við þetta urðu til nýjir famiclonar sem flæddu markaðin af ódýrum leikjatölvum. Mastergames 9000. Mastergames 9000 er eftirherma af PlayStation tölvunni. Hún var gefin út einhvern tímann á 10. áratugnum. Baunagras. Baunagras (fræðiheiti: "Lathyrus japonicus ssp. maritimus") er ertublóm sem lifir í fjörusandi og á heimkynni sín í Asíu, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku. Rótargerlar sem lifa í hnýðum á rótum baunagrass vinna köfunarefni úr andrúmsloftinu og bæta þannig vaxtarskilyrði. Lýsing. Baunagras nær um 15 til 25 sentimetra hæð en stiklir eru 50 til 80 cm langir. Laufblöðin eru hjúpuð vaxi og eru fjaðurskipt með þremur til fjórum smáblaðapörum á hverju laufblaði. Axlablöð eru þar sem laufblöðin festast á stilkinn og eru þau skakkhjartalaga. Endablaðið í hverju laufblaði er gjarnan ummyndað í vafþráð. Blöð af baunagrasi eru notuð í hefðbundinni kínverskri lyfjafræði. Blómin eru 2-2,5 sm á lengd og fjólublá. Í hverju blómi eru 5 fræflar og ein fræva sem verður að flötum belg. Belgir þessir eru 4-7 sm á lengd og ætir. Útbreiðsla. Fræ baunagrass geta flotið í sjó í allt að 5 ár og geta því borist um langa leið. Spírun fer fram þegar ytra byrði belgsins opnast þar sem sjór skellur á landi. Útbreiðsla baunagrass á Íslandi er víða þar sem áður voru uppskipunarhafnir. Á þeim tíma voru skip þyngd með sandi og var þeim sandi mokað úr skipinu þegar draga átti það á land á Íslandi. Því er talið að fræ af baunagrasi hafi borist með sandi sem notaður var sem ballast. Hrauntröð. Hrauntröð eru leifar eftir hraunlæni og myndast oft við gjall- og klepragíga. Þetta gerist þegar allt hraun umhverfis gíginn er storknað nema hraunlænan sem enn rennur um sinn farveg. Farvegurinn tæmist svo eftir gosið og kallast hrauntröð. Skilanefnd. Skilanefnd er nefnd sem er skipuð (eða kosin) til að standa fyrir skilum fyrirtækis á fjármunum, oftast eftir gjaldþrot. Skilanefnd starfar oft að því að höfða skaðabótamál gegn ýmsum viðskiptamönnum fyrirtækisins og einnig að taka á móti slíkum málum. Hlutverk hennar er að komast að eignum fyrirtækisins og skuldum og skila greinagerð. Kveldúlfur. Kveldúlfur hf. var íslenskt togaraútgerðarfélag sem var stofnað árið 1912. Stofnandi þess var Thor Jensen og synir hans, Thorsararnir, eins og þeir voru nefndir, voru einhverjir umsvifamestu athafna- og stjórnmálamenn á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Kveldúlfur var stærsta útgerðarfyrirtæki á Íslandi fram að seinni heimsstyrjöld og gerði út sjö togara þegar mest var. Eftir styrjöldina dró úr umsvifum þess, og fyrirtækið var aðeins með einn togara að síðustu. Kveldúlfur hf. var afskráð 1977. Bjúga. Bjúga (ítroðningur eða sperðill) er sver pylsa úr (ódýru) kjötdeigi, söltuð og reykt. Á Þorláksmessu áður fyrr var það stundum tíðkað í sveitum að borða bjúgu til miðdegisverðar. Um beygingu orðsins bjúga. Í orðabók Eddu er orðið bjúga sagt tvíkynja, þ.e. hvorugkyns og kvenkyns, það bjúgað og þau bjúgun, svo og hún bjúgan og þær bjúgurnar. Flestum er þó ótamt að hafa orðið í kvenkyni, og lang flestir hafa í áranna rás talað um bjúga í hvorugkyni. Sumum þykir og ágætt að muna að orðið bjúga beygist í hvorugkyni eins og orðið auga. Tímaás. Tímaás er myndræn (t.d. grafísk) eða ártöluliðuð uppsetning á einhverju sem gerist í tímaröð. Enska orðið "timeline" hefur oft getið af sér hráa þýðingu hjá íslenskum pennum, þ.e. "tímalínu", en íslenskir fræðimenn notast flestir við orðið tímaás. Prins Valíant. Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs er teiknimyndasería sem var sköpuð af rithöfundinum og teiknaranum Harold R. Foster 1937. Prins Valíant (enska: Prince Valiant) er útlægur konungssonur frá Thúle, ríki á vesturströnd Noregs, sem flýr með föður sínum, Aguar konungi, til Englands og strengir þess heit að verða einn af riddurum hringborðsins við hirð Arthúrs konungs í Camelot. Prins Valíant hefur birst samfellt frá 13. febrúar 1937 í dagblöðum í Bandaríkjunum. Harold R. Foster teiknaði um 1788 heilsíður af sögunni en valdi síðan eftirmann sinn. John Cullen Murphy tók við af honum 1971 og teiknaði til 1980 eftir sögum Hal Foster. Frá 1980 til 2004 teiknaði John Cullen Murphy eftir handriti sonar síns, Cullen Murphy og dóttir hans, Mairead, sá um að lita og handskrifa sögurnar. Gary Gianni tók við af honum og Mark Schultz tók til við að semja söguna. Síðan 1. apríl 2012 hefur Thomas Yeates teiknað söguna en Mark Schultz heldur áfram að skrifa söguna. Fjölskylda Prins Valíants. Prins Valíant - Aleta, drottning Þokueyjanna, eiginkona hans. Arn - Maeve, Karen - Vanni, Valeta, Galan, Nathan, börn þeirra 5 og makar. Ingrid, dóttir Arns og Maeve, eina barnabarnið. Nokkrar sögupersónur. Prins Valíant-bækurnar hafa verið gefnar út í tveimur mismunandi útgáfum á Íslandi, 1961 - 1972 af Ásaþór og 1987 - 1991 af Fjölvaútgáfunni. Bækur útgefnar af Ásaþór. Bækurnar eru endursagðar af Max Trell og voru fyrstu 7 gefnar út af Hastings House í Bandaríkjunum. Bækur 8 til 11 voru fyrst gefnar út í Þýskalandi af Bädischer Verlag. Bók 12 er endurprentun á sunnudagssíðum í svarthvítu. Bækur útgefnar af Fjölva. Þetta eru endurprentanir af sunnudagssíðum eins og þær birtust vikulega í dagblöðum í Bandaríkjunum. Sögurnar voru fyrst gefnar út af Fantagraphics í 50 heftum. 14 fyrstu heftin voru gefin út á Íslandi. Þorsteinn Thorarensen þýddi. Dagblöð. Morgunblaðið hefur verið að birta eina síða vikulega frá 22. desember 2007 og byrjaði á síðu 1553. Kvikmyndir. DVD 1954 DVD 1997 Teiknimyndaþættir. DVD volume 1 DVD volume 2 Alda. Alda er yfirborðsbylgja á vatni eða í hafi sem verður til vegna vinda og þyngdarafls tunglsins og sólarinnar. Flóðbylgjur ("Tsunami-öldur") eru risavaxnar öldur sem verða til vegna jarðfræðilegra hreyfinga. Skíðadeild KR. Skíðadeild KR var stofnuð 1934. Við deildina starfa margir skíðaþjálfarar og boðið er upp á æfingar á skíðum, gönguskíðum, snjóbretti og skautum. Saga. Deildin var stofnuð árið 1934, tveimur árum eftir stofnunina var byggður skíðaskáli í Skálafelli. Ekki var byggður annar skáli fyrir starfsemi félagsins fyrr en eftir seinna stríð, en sá var staðsettur í Hveradölum. Skálarnir brunnu hinsvegar báðir. Skálinn í Hveradölum fórst í bruna árið 1953 en skálinn í Skálafelli fórst einnig í bruna, tveimur árum síðar, eða árið 1955. Strax eftir brunann í skálafelli var tekin ákvörðun um að endurbyggja skálann og hafa hann glæsilegari en áður. Þann 1. mars árið 1959 var nýr skáli vígður. Skíðadeildin á tvo skála í skálafelli í dag og einnig er þar rekinn skíðaskóli, en þar er hægt að æfa skíði, gönguskíði og snjóbretti auk þess sem hægt er að æfa skauta í Skautahöllinni í Laugardalnum Formenn Skíðadeildar KR. Fram til ársin 2003 var starfsár deildarinnar miðað við 1. maí til 31. apríl en síðan þá hefur almanksárið gilt Running Bear. "Running Bear" er lag samið af Big Bopper (J. P. Richardson) en þekktast í flutningi Johnny Preston frá árinu 1959. Preston söng lagið inn á plötu með Big Bopper og George Jones sem sungu bakraddir. Lagið sat í efsta sæti bandaríska vinsældalistans frá 18. janúar til 1. febrúar 1960. Saga. Richardson bauð Preston að syngja lagið á skemmtistað. Árið 1958 tók Preston upp lagið í Gold Star Studios í Houston. Upptökustjóri var Bill Hall, Link Davis blés í saxófón og þeir Richardson, Hall og Jones kyrjuðu indjánatakta fyrir bakraddirnar. Preston komst á mála hjá Mercury Records og lagið kom út í ágúst 1959, sjö mánuðum eftir að Big Bopper lést í flugslysi. Lagið komst í fyrsta sæti breska vinsældalistans árið 1960. Innihald lagsins. Lagið fjallar um „Running Bear“, ungan og hugrakkann indjána, og hina ungu indjánamær „White Dove“ sem eru ástfangin. Tvennt skilur þau að; annars vegar að þau eru úr stríðandi indjánabálkum og hins vegar að á milli þeirra er straumhörð á sem myndlíking um aðskilnað þeirra. Undir lok lags vaða þau bæða út í ánna og kyssast áður en þeim skolar niður með straumnum og drukkna bæði. Rúrik Haraldsson. Rúrik Haraldsson (fæddur 14. janúar 1926, dáinn 23. janúar 2003) var íslenskur leikari. Harðangursfjörður. Harðangursfjörður er 179 km langur fjörður í Hörðalandsfylki á vesturströnd Noregs. Harðangursfjörður er þriðji lengsti fjörður í heiminum og næst lengsti fjörður Noregs á eftir Sognfirði. 13 sveitarfélög liggja að firðinum. Edubuntu. Edubuntu, einnig þekkt sem Ubuntu Education Edition („Menntaútgáfa Ubuntu“) er opinbert stýrikerfi sem er afleitt af stýrikerfinu Ubuntu en það við hönnun þess var það haft til hliðsjónar að nota mætti Edubuntu í skóla og kennslustofum. Edubuntu var hannað í samstarfi við kennara og tæknifræðingum í mörgum löndum. Konrad von Maurer. Konrad Heinrich von Maurer (29. apríl 1823 – 16. september 1902) var þýskur réttarsagnfræðingur, þjóðfræðingur og norrænufræðingur. Á Íslandi er hann er meðal annars þekktur fyrir dagbók sína er hann skrifaði á Íslandsferð sinni árið 1858 og þann stuðning sem hann sýndi Íslendingum í sjálfstæðisbaráttunni. Æska. Konrad Maurer var sonur Georg Ludwig von Maurer og Friederike Maurer (fædd Heydweiller). Systir hans var Charlotte (1821-1874). Árið 1826 fluttist fjölskyldan frá Frankenthal í Pfalz til München því faðir hans hafði fengið ráðningu sem prófessor í þýskri réttarsögu við Ludwig-Maximilians háskólann í München. Sjö ára að aldri missti Konrad Maurer móður sína. Í tvö ár dvaldi hann í Grikklandi þar sem faðir hans starfaði í ráðuneyti Ottós I Grikklandskonungs, meðal annars við gerð stjórnarskrár landsins. Að því loknu flutti fjölskyldan aftur til München. Konrad Maurer fékk tilsögn hjá einkakennurum og lauk stúdentsprófi árið 1839 frá Altes Gymnasium í München (nú Wilhelmsgymnasium). Áhugi hans stefndi til náttúruvísinda, einkum steindafræði. Samkvæmt ósk föður síns lagði hann stund á lögfræði í München, Leipzig og Berlín. Í námi sínu varð Konrad Maurer fyrir miklum áhrifum af lögfræðingnum Wilhelm Eduard Albrecht sem og Jacob Grimm, upphafsmanni þýskrar þjóðfræði og fornfræði. Störf. Konrad Maurer lauk doktorsprófi árið 1845 einungis 22 ára gamall og þáði árið 1847 (eiginlega gegn sínum eigin vilja) stöðu aðstoðarprófessors í lögfræði við háskólann í München. Árið 1855 var hann ráðinn prófessor í þýskum einka- og ríkisrétti. Konrad Maurer fékk mikinn áhuga á norrænum þjóðum og menningu þeirra, bókmenntum og sögu, en þó sérstaklega Íslandi og Noregi. Á Íslandi er litið á hann sem einn af helstu bandamönnum landsins á 19. öldinni. Frá árinu 1856 gerðist hann talsmaður sjálfstæðis Íslands og studdi Jón Sigurðsson í sjálfstæðisbaráttu hans. Ferð Konrad Maurers til Íslands. Vorið 1858 ferðaðist Maurer til Íslands og dvaldi þar í hálft ár. Hann ferðaðist víða um landið ásamt jarðfræðingnum Georg Winkler og leiðsögumanninum Ólafi Ólafssyni. Á ferðinni safnaði hann íslenskum þjóðsögum, sem gefnar voru út í Leipzig árið 1886, rannsakaði sögustaði og lagði sig fram við að kynnast fólki sem gat veitt honum upplýsingar um land og þjóð. Leið hans lá fyrst um Suðurland og síðan norður yfir Sprengisand. Frá Bárðardal fór hann til Akureyrar og þaðan vestur í Dali og Breiðafjörð og þaðan lá leiðin til Borgarfjarðar og síðan til Reykjavíkur. Hann hélt dagbók allan tímann og skrifaði síðar mikla ferðasögu. Sú saga lá lengi gleymd og grafin, en fannst árið 1972. Á þýsku er hún aðeins til í handriti en var þýdd á íslensku og gefin út árið 1997. Starfsævi Konrads Maurers. Konrad Maurer sérhæfði sig í norrænni réttarsögu og var í fararbroddi fræðimanna á því sviði. Hann hélt fyrirlestra í München, Ósló og Kaupmannahöfn. Með rannsóknum sínum lagði hann grunninn að norrænum fræðum. Árið 1865 var Konrad Maurer tekinn inn í bæversku vísindaakademíuna vegna stefnumarkandi rannsókna sinna. Árið 1876 var hann heiðraður með þjónustuorðu bæversku kórónunnar og samkvæmt reglum orðunnar fékk hann aðalsnafnbótina „Ritter von“. Hann hafnaði því hins vegar alla tíð að nota þessa nafnbót í persónulegum samskiptum. Sama ár var hann tilnefndur heiðursdoktor við háskólann í Kristjaníu (Ósló). Hann neitaði að taka stöðu prófessors sem kennd var við hann sjálfan sem ráðgert var að stofna við háskólann í Kristjaníu. Fjölskylda og vinir. Nokkrum dögum eftir heimkomuna frá Íslandi giftist Konrad Maurer Valerie von Faulhaber. Þau eignuðust átta börn. Af þeim létust tvö á barns aldri. Elsti sonur þeirra, Ludwig Maurer (1859-1927) varð prófessor í stærðfræði í Tübingen. Markus Maurer (1861-1891) var sagnfræðikennari í Würzburg. Yngsti sonurinn, Friedrich Maurer, (1866-1914) var major í 14. sveit bæversku fótgönguliðanna. Á meðal vina hans frá Noregi voru Peter Christen Asbjørnsen, Henrik Ibsen og Bjørnstjerne Bjørnson. Á áttunda áratug 19. aldarinnar var heimili Maurers í München eins konar samkomustaður skandinavískra listamanna, rithöfunda og fræðimanna. Þeir sem vöndu komu sína til hans voru t.d. Henrik Ibsen, Marcus Grønvold, Eilif Peterssen, Christian Meyer Ross, Oscar Wergeland og Sophus Bugge. Konrad Maurer á efri árum. Þrátt fyrir að Maurer hafi notið mikillar virðingar sem réttarsagnfræðingur og fyrirlestrar hans hafi notið mikillar hylli, þótti honum leitt að geta ekki sinnt áhugamálum sínum betur vegna kennslustarfa sinna. Þegar aldurinn færðist yfir hann varð hann þunglyndur og dró sig til baka frá opinberum vettvangi. Árið fékk Maurer lausn frá störfum vegna lasleika og lést árið 1902 í München þar sem hann var jarðsettur í kirkjugarðinum Alter Südfriedhof (svæði 30). Ferðafélag Íslands ákvað að heiðra minningu Konrad Maurers og lét útbúa legsteina og letra á þá kveðju frá íslensku þjóðinni. Þeim var komið fyrir á gröf Konrads og Valerie Maurer árið 1998 í tilefni af 175 ára afmæli Maurers. Hið mikla bókasafn hans sem taldi um 9000 titla var að mestu leyti selt til Harvardháskólans í Bandaríkjunum og einnig til Bar Association New York. Hluti þeirra bóka er nú aðgengilegur annars vegar í bókasafni lagadeildar Yaleháskóla og hins vegar í bókasafni lagadeildar George Washington University. Menningarleg afstæðishyggja. Menningarleg afstæðishyggja er sú hugmynd eða hugsunarháttur að ekki sé til æðri menning heldur aðeins mismunandi. Hugmyndin um menningarlega afstæðishyggju varð til sem viðmið í mannfræðirannsóknum hjá mannfræðingnum Frank Boas. Samkvæmt henni er ekki litið niður á tiltekna menningu heldur er hún skoðuð á hennar eigin forsendum og borin saman við menningu athugandans. Þetta þýðir að að neita þeim fyrirfram ákveðnu hugmyndum sem við höfum og hafa opinn huga og skoða hlutina útfrá samhengi sínu. Andstæðan við menningarlega afstæðishyggju er þjóðhverfa sem þýðir að telja sína menningu æðri öðrum og dæma aðra menningu útfrá sinni eigin, ekki útfrá aðstæðum og menningunni sjálfri. Menningarleg afstæðishyggja er því mikilvæg í hvers konar rannsóknum á menningarheimum. Má jafnvel segja að þetta hugtak sé grunnhugsun í öllum rannsóknum mannfræðinga. Því oft lenda þeir í aðstæðum sem eru ólíkar því sem þeir eiga að venjast og jafnvel siðferðislega eða hugmyndafræðilega krefjandi. Má þar nefna mannfræðing sem er staddur í litlu þorpi í Afríku þar sem er verið að fara að umskera konu. Á mannfræðingurinn að reyna að stöðva athöfnina því honum þykir hún röng, og hann veit að sýkingar og minnkuð gleði við kynlífsathafnir gætu komið í kjölfarið. Eða á hann að sætta sig við þetta því þetta er þeirra menning og jafnvel að taka þátt að því leyti sem hann getur og má til að skilja athöfnina og skrá hana. Mannfræðingurinn Melford Spiro skipti menningarlegri afstæðishyggju í þrjá flokka: Lýsandi afstæðishyggja, siðferðisleg afstæðishyggja og þekkingarfræðileg afstæðishyggja. Lýsandi afstæðishyggja er þegar lagt er til hliðar eigið mat á heiminum, uppruna og menningu, þ.e. þjóðhverfuna, og litið er á málin hlutlaust. Siðferðisleg afstæðishyggja er þegar siðferðiskenndin skiptist ekki í gott og ekki gott. Í þekkingarfræðilegri afstæðishyggja er engin grunnþekking, hvað við vitum og hvernig við vitum það. Líkt og má ímynda sé eru fyrstu tveir flokkarnir mikilvægir til aðstoðar mannfræðingum, og jafnvel hverjum sem er við að leggja frá sér fordóma og líta opnum augum á aðra menningu. Þriðja tegundin, þekkingarleg afstæðishyggja, er aðeins erfiðari að meðhöndla því þar er efast um allt sem maður veit og hvernig maður viti það. Þrátt fyrir að menningarleg afstæðishyggja sé mikilvæg hjá mannfræðingum þá getur hún einnig verið mikilvæg í daglegu lífi. Má taka sem dæmi kennara sem er lítið hrifin af innflytjendum en verður að vera fordómalaus, verður að beita menningarlegri afstæðishyggju þegar hann gefur Juan litla frá Kólumbíu einkunn svo uppruni hans lækki ekki einkunina hans. Menningarlegt afstæði er ekki bara orð eða óljós hugmynd heldur skýr stefna um hugsunarhátt sem er mikilvægt að temja sér. Jafnvel hjá hverjum sem er, hvort sem er hjá mannfræðingi sem er í vettvangsferð í Afríku eða kennara sem hefur aldrei stigið fæti út fyrir íslenskt samfélag. Að ganga inní ókunnar eða öðruvísi aðstæður og ætla sér ekki að dæma neitt er erfiðara en það hljómar einkum og sér í lagi þegar það sem er að gerast þar brýtur gegn þinni innstu sannfæringu. Líkt og mannfræðingur sem kemur í lítið þorp og er búinn að dvelja þar lengi og kemur þá að fyrstu fæðingunni. Barnið fæðist en með einhvern smá líkamsgalla, þá þykir það sannað að barnið sé í einhverjum tengslum við hið illa og jafnvel við djöfulinn sjálfan og verður því að bera barnið út. Mannfræðingurinn getur ekki séð að barnið sé hið illa og á því afar erfitt með að sætta sig við aðgerðir þorpsbúa. Það er mikilvægt að nálgast menningaheima með opnum huga en þó verður að passa sig því að tapa ekki gagnrýnu hugsuninni því þó það sé gott að geta skoðað báðar hliðar á málinu má maður ekki missa eigin skoðanir og telja að allt sé gott og gilt þar sem það gerist í annarri menningu, þesis hugmynd er líka afstæð og því undir hverjum og einum að temja sér gagnrýna hugsun, hún hentar sumum en öðrum ekki. Að geta ekki séð hvað er rétt getur valdið því að við eigum að samþykkja þjóðernishreinsanir undir því flaggi að við séum mannfræðingar og okkar menningarlega afstæðishyggja neiti okkur um að taka ákvarðanir gegn því sem gerist utan menningu okkar? Við búum í fjölþjóðlegu samfélagi, okkar samskipti við aðrar hugmyndir og aðrar þjóðir heldur áfram að aukast með hverjum deginum. Í dag eru fréttir af Múslimum sem eru reiðir við Dani útaf móðgunum í garð þeirra raunveruleikinn. Umburðalyndi og skilningur verður mikilvægari eftir því sem alþjóðavæðingin snertir á fleiri hliðum í lífinu. Mannfræðingar verða að halda áfram að skoða og skilgreina mismunandi menningar, og til þess er nauðsynlegt að geta gert það laus við þjóðhverfu. Dagvaktin. "Dagvaktin" er íslensk sjónvarpsþáttaröð sem er framhald "Næturvaktarinnar", og hóf göngu sína í september 2008. Í Dagvaktinni eru persónurnar úr Næturvaktinni, Georg Bjarnfreðarson (Jón Gnarr), Ólafur Ragnar (Pétur Jóhann Sigfússon) og Daníel (Jörundur Ragnarsson), ráðnir sem starfsmenn á hótelinu Bjarkarlundi í Reykhólasveit þar sem hótelstýran Gugga (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) ræður ríkjum. Þættirnir eru byggðir upp sem framhaldsþættir meðan þáttaröðin "Næturvaktin" voru samhangandi sjálfstæðir gamanþættir. Hverjum þætti lýkur þannig með atriði sem skapar væntingar fyrir næsta þátt. Þættirnir voru frumsýndir í læstri dagskrá á Stöð 2 á sunnudögum klukkan 20:30 haustið 2008. Gert var sérstakt samkomulag við Ríkissjónvarpið um breytingar á sýningartíma þar sem spennuþáttaröð RÚV, "Svartir englar", átti upphaflega að fara í loftið kl. 20:20 á sunnudagskvöldum, en hún var þess í stað færð til kl. 19:40 og þátturinn "Sunnudagskvöld með Evu Maríu" fluttur til kl. 20:30. Jean Picard. Jean Picard (21. júlí 1620 – 12. júlí 1682) var franskur stjörnufræðingur og prestur frá La Flèche við ána Loir þar sem hann lærði í jesúítaskólanum Collège Royal Henry-Le-Grand. Hann er frægur fyrir að hafa verið sá fyrsti sem reiknaði út ummál jarðar með einhverri nákvæmni út frá landmælingum sem framkvæmdar voru árin 1669-1670. Picard fékk það út að jörðin væri 6328,9 km að ummáli en nútímamælingar gefa upp 6357 km þannig að skekkjan var aðeins 0,44%. Picard var sá fyrsti sem festi stjörnukíki við kvaðrant og fyrstur til að nota míkróskrúfu sem stillitæki. Hann átti í talsverðum samskiptum við marga helstu stjörnufræðinga síns tíma, s.s. Isaac Newton, Christiaan Huygens, Ole Rømer, Thomas Bartholin, Johannes Hudde og Giovanni Cassini. Maastricht. Maastricht (Meschtreech á limbúrgísku) er höfuðborg hollenska héraðsins Limburg og jafnframt syðsta borg Hollands. Maastricht-samningarnir voru undirritaðir í borginni 1992. Borgin hefur sótt um að fá að vera menningarhöfuðborg Evrópu 2018. Í Maastricht er töluð hollenska, limburgíska (ásamt Maastricht-mállýskunni), franska, þýska og enska. Lega og lýsing. Maastricht liggur sitthvoru megin við ána Maas syðst í Hollandi. Vestri borgarmörkin nema við belgísku landamærin. Til þýsku landamæranna eru aðeins um 15 km til austurs. Næstu borgir eru Aachen í Þýskalandi til austurs (20 km), Liége í Belgíu til suðurs (20 km), Genk í Belgíu til norðvesturs og Roermond í Hollandi til norðurs (40 km). Maastricht er að öðru leyti syðsta borgin í Hollandi, en nokkrir smábæir eru þó aðeins sunnar. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Maastricht er alrauður með hvítri fimmarma stjörnu vinstra megin við miðju. Fáni þessi kom fyrst fram 1545, en veik fyrir öðrum fána sem var nauðalíkur pólska fánanum. Þetta leiddi oft til misskilnings og því var gamli fáninn tekinn í notkun á ný 1. janúar 1994. Ekki er ljóst hvað stjarnan merkir, en hún tengist kommúnisma á engan hátt. Skjaldarmerkið sýnir fánann, nema hvað hlutföllin eru breytt og stjarnan er beint fyrir miðju. Fyrir ofan er kóróna og verndarengill. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Traiectum ad Mosam á tímum Rómverja. Það þýðir "vað" eða "yfirferð yfir ána Maas". Mosam er Maas í þágufalli. Trajectum breytist í –trecht með tímanum. Upphaf. Það voru keltar sem reistu bæinn fyrst, en þar með er Maastricht með elstu borgum Hollands. Rómverjar hertóku svæðið og borgina um tímamótin. Á tímum Ágústusar keisara var reist brú yfir Maas, en handan hennar lá þjóðvegur beint vestur til Colonia Agrippina (Kölnar). Snemma varð Maastricht að biskupssetri sökum þess hve vel hún var varin. Borgin var hluti af þýska ríkinu. 1202 varð hún eign tveggja aðila. Í fyrsta lagi greifans af Brabant fyrir hönd keisara, en í öðru lagi biskupanna af Liège. 1204 hlaut hún borgarréttindi. Fyrsta brúin yfir Maas, Servatíusbrúin, var smíðuð 1280. Hún var í fleiri hundruð ár nyrsta brúin yfir Maas. Í kjölfarið varð Maastricht að verslunarborg, þar sem iðnaðarvörur eins og ull og leðurvörur voru framleiddar og seldar. Þessi velmegun hélst til sjálfstæðisstríðs Niðurlanda. Frelsisstríð. Árás Spánverja á Maastricht 29. júní 1579 Karl V keisari var tíður gestur í Maastricht á fyrri hluta 16. aldar. Þegar mótmælendatrúin barst til Niðurlanda, voru mótmælendur eltir og fangaðir. Siðaskiptin náðu sér ekki á strik í borginni, sem hélst kaþólsk og er það enn. Þegar Margrét af Parma var landstjóri Niðurlanda fyrir Spánarkonung, sendi hún lítið herlið til Maastrich árið 1567. Borgin tók hins vegar ekki á móti þeim og lét gera þá afturreka með aðstoð þýskra leiguliða. En Spánverjar tóku borgina síðar á árinu. Þeir þóttu afar óvinsælir meðal borgarbúa. 1676 gripu þeir til sinna ráða og handtóku spænska fulltrúann í borginni, Francisco de Montesdoca. Spæanskur her sótti þá á borgina, frelsaði Montesdoca og rændu borgina. Margir borgarbúar voru drepnir. Á næsta ári yfirgáfu Spánverjar borgina aftur er borgarstjórinn lofaði að vera þeim vilhallur. En hann var drepinn og snerist þá borgin aftur gegn Spáni. Nýr landstjóri Spánverja á Niðurlöndum varð Alexander Farnese. Hann fór með herliði til Maastricht 1579 og hóf umsátur. Það hófst í mars og stóð í fjóra mánuði. 29. júní réðust Spánverjar á borgina í miklu áhlaupi og tókst að hertaka hana. Þeir rændu allt sem þeir gátu og drápu þúsundir borgarbúa. Sumar heimildir nefna að allt að 4.000 hafi verið drepnir. Spánverjar héldu borginni í 53 ár. 1632 náði Friðrik Hinrik af Óraníu að frelsa borgina úr höndum Spánverja og setti hana undir yfirstjórn hollensku fylkjanna. Borgin var þó nær innikróuð yfirráðasvæði Spánverja. Frakkar. Þegar verslunarstríð Hollendinga og Englendinga stóð yfir 1672-79 notuðu Frakkar sér ástandið og sátu um borgina Maastricht 1673. Það var Loðvík XIV sem sóttist eftir að stækka ríki sitt. Einn af hans mönnum var d’Artagnan, einn af skyttum Frakklandskonungs. Þegar Frakkar voru að sækja á Tongershliðið við suðvesturmúr borgarinnar 25. júní, féll d’Artagnan fyrir byssukúlu, en hún hæfði hann í barkakýlið. Árið 2003 var reistur minnisvarði um skyttuna frægu á staðnum, en hliðið sjálft er löngu horfið. Frakkar náðu að hertaka borgina, en héldu henni aðeins til 1678. Í austurríska erfðastríðinu voru Frakkar aftur á ferð 1748 og hertóku borgina, en skiluðu henni skömmu seinna. Enn hertóku Frakkar Maastricht 1794 er Niðurlönd voru hertekin. Að þessu sinni var Maastricht innlimuð Frakklandi, sem varð að franskri borg í 20 ár, eða meðan Napoleons naut við. Hún var gerð að höfuðborg sýslunnar (dpepartement) Meuse-Inférieure. Höfuðborg. Módel af Maastricht á 18. öld. Horft til suðvesturs. 1815 varð Maastricht hluti af konungdæmi sameinaðra Niðurlanda. Hún varð að höfuðborg héraðsins Limburg, sem þá var talsvert stærri en í dag. 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Maastricht var boðið upp á að ráða sjálf hvort hún vildi tilheyra Belgíu eða Hollandi, og var niðurstaðan sú að borgin valdi Holland. Þetta kom á óvart, því Maastricht var með meiri tengsl við suðurhluta Niðurlanda og var að auki kaþólsk. Héraðið Limburg var því skipt. Vestur- og suðurhlutinn tilheyrði Belgíu, en austur- og norðurhlutinn tilheyrði Hollandi. Maastricht var höfuðborg hollenska hlutans, sem þó var ekki formlega tekinn upp sem sjálfstætt hérað Hollands fyrr en 1839. Af þessum sökum er Maastricht sú borg Hollands sem síst hefur hollenskan blæ á sér. Þar er auk þess töluð sérstök mállýska, limbúrgíska. Þessi sérstaki blær var sérlega áberandi alla 19. öldina og eymir af honum enn í dag. Sökum mikilla tengsla við Þýskaland og Belgíu hófst iðnvæðingin í Maastricht fyrr en í öðrum hollenskum borgum. 1853 hlaut borgin járnbrautartengingu, reyndar til þýsku borgarinnar Aachen. Nýrri tímar. Þýskir skriðdrekar í Maastricht 10. maí 1940 Í byrjun 20. aldar urðu hollensk áhrif á borgina sterkari, sérstaklega meðan heimstyrjöldin fyrri geisaði. 10. maí 1940 réðust Þjóðverjar inn í Holland. Maastricht var meðal allra fyrstu borga sem þeir réðust á, sökum legu hennar. En Hollendingar veittu slíka mótspyrnu að það tók nasista langan tíma að ná borginni. Allar brýr yfir Maas voru eyðilagðar. Borgin féll síðdegis og var hún síðasta borgin í Limburg til að falla í hendur nasistum. Hún var einnig fyrsta hollenska borgin sem bandamenn frelsuðu 1944. 1976 var háskólinn Maastricht University stofnaður. Hann er þekktur fyrir nútíma kennslufræði og hefur hlotið háar alþjóðlegar viðurkenningar. Um helmingur stúdenta eru útlendingar. 1992 voru Maastricht-samningarnir undirritaðir í borginni, en þeir marka upphafið að Evrópusambandinu (sem arftaki Evrópubandalagsins). Samningarnir tóku gildi 1. nóvember 1993. Viðburðir. Karneval er haldið árlega að hausti. Íþróttir. Amstel Gold Race er hjólreiðakeppni sem fram fer árlega í og við Maastricht. Vegalengdin eru rúmir 250 km og er keppnin hluti af heimsbikarkeppninni. Síðustu tvö árin sigraði belgíski hjólreiðakappinn Philippe Gilbert. Hjólreiðagoðsögnin Eddie Merckx vann keppnina 1973 og 1975. Daginn fyrir keppnina sjálfa er haldin hjólreiðakeppni fyrir almenning. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er MVV Maastricht, sem í dag spilar í 2. deild. Besti árangur félagsins er 7. sætið í úrvalsdeildinni (1991 og 1992). Heiðarbyggðin. Heiðarbyggðin var byggð sem var uppi á Möðrudalsöræfum. Hún stóð í 100 ár eða frá 1840 til 1940. Komma. Komma (,) er greinarmerki sem notað er milli liða í upptalningu og til að afmarka innskot eða viðauka. Komma er líka lesmerki og táknar stutt hlé eða hik í upplestri. Tómstundaskólinn í Mosfellsbæ. Fyrstu námskeið á vegum Tómstundaskólans í Mosfellsbæ voru haldin á vorönn 2006. Síðan þá hefur fjöldi námskeiða og nemenda fjölgað jafnt og þétt. Þörfin er greinileg og mikil jákvæðni og ánægja hefur ríkt vegna þessarar þjónustu í bæjarfélaginu. Reynt er að bjóða upp á vönduð og fræðandi námskeið við hæfi sem flestra. Helga Jóhannesdóttir myndlistakona og framhaldsskólakennari er stjórnandi Tómstundaskólans í Mosfellsbæ með stuðningi Menningar- og fræðslusviðs Mosfellsbæjar. Listi yfir umbrotsvélar. Eftirfarandi er listi yfir umbrotsvélar. Norðurslóð. Norðurslóð, svarfdælsk byggð og bær er héraðsfréttablað Svarfdæla. Fyrsta tölublað kom út í nóvember 1977 og síðan hefur það komið út reglulega á mánaðar fresti en þó oft með lengra hléi yfir hásumarið. Blaðinu er ætlað að vera vettvangur fyrir umræður, skoðanaskipti, upplýsingar og fréttir um hvað eina sem uppi er á teningnum í hinu svarfdælska byggðarlagi og nágrenni þess á líðandi stund. Enginn ritstjóri var yfir blaðinu til að byrja með en útgefendur og ábyrgðarmenn voru Hjörtur Eldjárn Þórarinsson, Jóhann Antonsson og Óttar Proppé. Blaðið er nú með elstu héraðsfréttablöðum sem út koma á landinu. Útgefandi þess er útgáfufélagið Rimar ehf. Útgáfufélagið heldur einnig úti fréttavefnum dagur.net. Félagið gaf á tímabili einnig út Bæjarpóstinn á Dalvík en þeirri útgáfu hefur verið hætt. Ritstjóri og ábyrgðarmaður Norðurslóðar er Hjörleifur Hjartarson. Sigríður Hafstað hefur einnig verið viðriðin blaðið frá upphafi, annast dreifingu, auglýsingar og framkvæmdastjórn. Stýfing. Það að stýfa er hugtak í stærðfræði sem á við það þegar fjöldi tölustafa hægra megin við tugakommuna með því að sleppa aftasta tölustafinum. Sáttmálahreyfingin. Eintak af þjóðarsáttmálanum í Edinborg. Sáttmálahreyfingin var mikilvæg pólitísk og trúarleg hreyfing í Skotlandi á 17. öld. Uppruni hreyfingarinnar lá í andstöðu skoska þingsins við tilraunir Englandskonunga til að koma á biskupakirkju í Skotlandi þar sem flestir aðhylltust öldungakirkju í samræmi við boðun Kalvíns. Þessi átök áttu sér rætur í skosku siðbótinni. Þjóðarsáttmálinn. Sáttmálahreyfingin dregur nafn sitt af nokkrum sáttmálum eða bandalögum skoskra mótmælenda frá tímum skosku siðbótarinnar þar sem hópar bundust fastmælum að halda hinn nýja sið og vinna að siðbót Skotlands. Presturinn John Craig samdi síðan „þjóðarsáttmálann“ 1581 sem byggðist á trúarjátningunni frá 1560 þar sem valdi páfa og kenningum kaþólsku kirkjunnar var hafnað. Þessi sáttmáli var tekinn upp af kirkjuþingi skosku kirkjunnar og undirritaður af Jakobi 6.. Vaxandi einveldistilburðir Jakobs urðu til þess að fram komu tveir andstæðir flokkar á skoska þinginu; „kirkjuflokkur“ Andrews Mellville og „hirðflokkur“ Jakobs konungs. Eftir að Jakob tók við ensku krúnunni náði hann loks yfirhöndinni. Hann fullmannaði alla biskupsstóla í Skotlandi og lét handtaka Melville. Nýi þjóðarsáttmálinn. Grábræðrakirkjan í Edinborg þar sem sáttmálinn var gerður. Þegar Karl 1. gerði aðalráðgjafa sinn, William Laud, að erkibiskupi í Kantaraborg 1633 hóf hann röð umbóta innan ensku kirkjunnar og hugðist gera hið sama í Skotlandi. Hann gerði skosku biskupana að meðlimum í stjórnum og ráðum sem fóru með framkvæmdavaldið í Skotlandi og ræddi auk þess um að endurheimta það land sem skoskir aðalsmenn höfðu rænt kirkjuna meðan á siðbreytingunni stóð. Þetta varð til þess að skoskir aðalsmenn gerðu með sér „aðalsmannasáttmálann“ árið 1637. Presturinn Alexander Henderson og lögfræðingurinn Archibald Johnston of Warriston voru fengnir til að semja texta fyrir nýjan þjóðarsáttmála sama ár. Sáttmálinn var tilbúinn í upphafi árs 1638. Hann hafnaði öllum breytingum sem gerðar höfðu verið á skosku kirkjunni frá fyrri þjóðarsáttmálanum 1581 og hafnaði auk þess með öllu pápískum og hjátrúarfullum helgisiðum, á sama hátt og skoska þingið hafði áður gert. Sáttmálinn var undirritaður í kirkjugarði Grábræðrakirkjunnar í Edinborg 28. febrúar 1638 og eintök af honum síðan send út til undirskriftar. Í nóvember sama ár ráku sáttmálamenn alla biskupana á kirkjuþingi í Glasgow. Þetta varð til þess að Karl hélt með herlið gegn Skotum og hóf fyrra Biskupastríðið án þess að kalla saman enska þingið. Það reyndist honum ómögulegt og hann neyddist til að undirrita friðarsamkomulag þar sem hann samþykkti að boða nýtt kirkjuþing um kirkjuskipanina í Skotlandi. Nýja kirkjuþingið staðfesti allar ákvarðanir þingsins í Glasgow. Árið 1640 löggilti skoska þingið auk þess sáttmálann og gerði undirritun hans að skyldu fyrir alla skoska þegna. Í reynd hafði skoska þingið þannig gert skosku kirkjuna að öldungakirkju og lagt niður kirkjuskipan biskupakirkjunnar. Við þetta gat konungur ekki unað og Karl hóf því að undirbúa síðara Biskupastríðið. Skotar gersigruðu hins vegar hersveitir konungs í orrustunni við Newburn og friðarviðræður hófust í kjölfarið milli skoska þingsins og langa þingsins sem Skotar neyddu Karl til að boða. Þetta sama þing átti síðan eftir að samþykkja dauðadóm yfir Karli og stofnun Enska samveldisins. Þríríkjastríðin. Næstu árin voru borgarastyrjaldir í öllum þremur konungsríkjunum. Í Skotlandi höfðu sáttmálamenn yfirhöndina og voru í reynd ríkisstjórn landsins. Árið 1642 sendu þeir herlið til að vernda skoska landnema í Ulster fyrir írskum uppreisnarmönnum í Írsku uppreisninni 1641. Árið 1643 sendi skoska þingið herlið til Englands til að berjast með enska þinghernum gegn konungssinnum í kjölfar gerðar nýs sáttmála ("Solemn League and Covenant") milli þinganna sem líka kvað á um kirkjuskipan en var hæfilega loðinn til að bæði þingin gátu samþykkt hann. Þetta leiddi hins vegar til upphafs borgarastyrjaldar í Skotlandi þar sem konungssinnar tóku til vopna gegn sáttmálamönnum. Borgarastyrjöldin stóð frá 1644 til 1647 og dró fram í dagsljósið þann klofning sem var milli skoskra öldungakirkjumanna, biskupakirkjumanna og kaþólikka, og þá pólitísku og menningarlegu gjá sem var milli hálandanna og láglandanna. Árið 1646 gafst Karl 1. upp fyrir Skotum en þrátt fyrir miklar tilraunir neitaði hann staðfastlega að samþykkja sáttmálann sem Skotar höfðu gert við enska þingið. Skotar seldu hann því í hendur enska þingsins. Vaxandi tortryggni milli Skota og enska þingsins leiddi að lokum til styrjaldar milli þeirra og samkomulags Skota við Karl 2. 1650 gegn því að hann samþykkti báða sáttmálana. Karl var krýndur Skotakonungur við Scone í janúar 1651. Afleiðingin varð sú að Cromwell leiddi New Model Army inn í skosku láglöndin, gersigraði Skota í orrustunni við Dunbar og neyddi þá til að samþykkja inngöngu í Enska samveldið. Með þessu voru pólitísk völd sáttmálahreyfingarinnar brotin á bak aftur. Endurreisn konungdæmis og „Drápstíminn“. Fangaklefar í garði Grábræðrakirkjunnar í Edinborg geymdu sáttmálamenn sem voru handteknir eftir orrustuna við Bothwell Brig. Þegar konungdæmi var endurreist í Englandi og Karl 2. settist í valdastól hafnaði hann sáttmálunum og lýsti þá ólögmæta fyrir hvern þann sem héldi opinbert embætti. Biskupar voru skipaðir að nýju í Skotlandi og prestar sem neituðu að hlýða þeim voru reknir. Uppreisnarprestar hófu þá að predika á laun undir berum himni og tilraunir yfirvalda til að sporna gegn slíkum söfnuðum leiddu til vopnaðrar uppreisnar 1666 en hópur illa vopnaðra sáttmálamanna var gersigraður í orrustunni við Rullion Green 28. nóvember. Stjórnin notaði hermenn úr hálöndunum til að hafa stjórn á sáttmálamönnum. Önnur uppreisn braust út árið 1679 en stjórnin sigraði uppreisnarmenn í orrustunni við Bothwell Brig 22. júní. Ósigrar og ofsóknir stjórnarinnar á hendur sáttmálamönnum urðu til þess að herða marga þeirra í afstöðu sinni. Árið eftir uppreisnina samdi hópur þeirra Sanguhar-yfirlýsinguna að frumkvæði prestsins Richard Cameron. Í yfirlýsingunni sögðu þeir upp trúnaði við konung, öfugt við fyrri sáttmálana sem höfðu lýst konungshollustu í orði þótt þeim væri stefnt gegn kirkjuskipun konungs. Konungur ákvað nú að þurrka þessa hreyfingu út með valdi. Í kjölfarið fylgdi „Drápstíminn“ þegar viðurlög við því að mæta ekki í messu, útipredikunum og að neita að sverja konungi hollustueið, urðu strangari og aftökur og pyntingar urðu algengar. Þúsundir voru líflátnar á þessum tíma. Öldungakirkjan staðfest. Drápstímanum lauk með Dýrlegu byltingunni 1688. Stéttaþing í Edinborg studdi þá Vilhjálm til valda (eftir að stór hópur Cameronista mætti til að sýna honum stuðning) og Vilhjálmur gerði öldungakirkju að opinberri kirkjuskipan í Skotlandi með "Act of Settlement" árið eftir. Lítill hópur sáttmálamanna neitaði þó enn að viðurkenna Vilhjálm þar sem hann var höfuð ensku biskupakirkjunnar (sem konungur Englands) og litu svo á að skoska kirkjan hefði verið gerð að ríkiskirkju. Skoska kirkjan hefur síðan þá verið öldungakirkja en deilur hafa oft risið um sjálfstæði hennar gagnvart ríkisvaldinu. Helgi Pjeturss. Dr.Helgi Pjeturss (31. mars 1872 – 28. janúar 1949) var íslenskur jarðfræðingur og dulvísindamaður, og er einna frægastur fyrir bækur sínar sem hann skrifaði um þau efni. Foreldrar Helga voru Pétur Pétursson bæjargjaldkeri í Reykjavík og Anna Sigríður Vigfúsdóttir Thorarensen píanóleikari. Nám og störf. Helgi hóf nám við Hafnarháskóla 1891 og lauk prófi í náttúrufræði 1897. Um það leyti fór hann til Grænlands í rannsóknarleiðangri Frode Petersen. Hann lauk síðan doktorsprófi frá Hafnarháskóla 1905 og varð fyrstur Íslendinga til að taka slíkt próf í jarðfræði. Doktorsritgerð hans nefnist "Om Islands geologi". Helgi fór í margar rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1898-1910 og gerði merkar vísindalegar uppgötvanir og skrifaði margt sem lengi mun halda nafni hans á lofti meðal jarðfræðinga. Hann var með fyrstu jarðfræðingum til að átta sig á því að ísöldin hafði ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur skiptust á jökulskeið og hlýskeið. Helgi var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) 1901-1905. Á síðari hluta ævi sinnar hneigðist Helgi að heimspeki, stjörnulíffræði og dulvísindum og skóp kenningu sem sneri að því að maðurinn væri jafnefnislegur á öðrum plánetum eftir dauða sinn, og lifði á slíkum hnetti sem samsvaraði andlegu þroskastigi viðkomandi. Draumar okkar hér á jörðinni væru auk þess sýn inn í líf á öðrum plánetum. Um þessi efni skrifaði hann Nýalsbækur sínar, sex að tölu, og fjölmargt fleira. Kona Helga var Kristín Brandsdóttir frá Hallbjarnareyri. Northern Rock. Fólk sem stendur í biðröð til að taka út peningana þeirra. Northern Rock plc er breskur banki í eigu breska ríkisins. Höfuðstöðvar bankans eru í Newcastle upon Tyne í norðvestur Englandi. Fyrirtækið hét áður fyrr Northern Rock Building Society, en því var breytt í banka árið 1997 þegar opnað var fyrir kaupum á hlutabréfum í fyrirtækinu í Kauphöllinni í Lundúnum. Árið 2000 varð bankinn hluti FTSE 100-hlutabréfavísitölunnar. Þann 14. september 2007 bað bankinn um og fékk greiðslugetustuðning frá Englandsbanka eftir undirmálslánakrísuna í Bandaríkjunum. Klukkan 00:01 þann 22. febrúar 2008 var bankinn þjóðnýttur af bresku ríkisstjórninni. Þjóðnýtingin kom í kjölfarið á tveimur árangurslausum yfirtökutilboðum annarra banka. Englandsbanki. "The Old Lady" eða "Gamla hefðarfrúin". Englandsbanki (e. "Bank of England") er seðlabanki Stóra-Bretlands og er í eigu breska ríkisins. Hann var stofnaður árið 1694. Bankinn hefur einkarétt á prentun peningaseðla í Englandi og Wales. Peningamálastefnu Englands er stjórnað af nefnd á vegum bankans. Höfuðstöðvar bankans hafa verið á Threadneedle-götu í fjármálahverfi Lundúnaborgar frá 1734. Byggingin er kölluð "The Old Lady" (þ.e. "gamla hefðarfrúin"). Núverandi bankastjóri Englandsbanka er Mervyn King sem tók við af Sir Edward George þann 30. júni 2003. Línuveiðaskip. Línuveiðaskip er bátur sem kastar út línu með áfastri beitu og lætur hana liggja í sjónum í nokkrar klst. Áður en hún er dregin aftur um borð með aflanum áfastri við línuna, og þarf að vera maður sem notar spítu með nagla á endanum (svo kallaður goggur) til að hjálpa fisknum um borð eða með öðrum orðum að gogga fiskinn um borð. Indiana Jones. Dr. Henry Walton „Indiana“ Jones yngri er aðalpersóna, hermaður og fornleifafræðingur í samnefndir kvikmyndaröð. Hann kom fyrst fram í myndinni "Leitin að týndu örkinni" ("Raiders of the lost Ark") árið 1981. Kvikmyndir. Kvikmyndirnar um Indiana Jones eru grín-, hasar- og ævintýramynd sem eru orðnar fjórar talsins, og leikur Harrison Ford Indy í þeim öllum. Fyrsta myndin var "Ránið á týndu örkinni" ("Raiders of the Lost Ark") en hún gerist upp úr 1930. Þar mætir Indiana Jones meðal annars nasistum í leit sinni að týndu örkinni. Næsta mynd var "Indiana Jones og musteri óttans" ("Indiana Jones and the Temple of Doom") sem kom út árið 1984. Hún gerist að mestu á Indlandi og árið er 1935. Þriðja myndin var "Indiana Jones og síðasta krossferðin" ("Indiana Jones and The Last Crusade") en hún gerist árið 1938. Nýjasta myndin er svo "Indiana Jones og konungsríki kristalshauskúpunnar" ("Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull") sem kom út árið 2008. Sú mynd gerist árið 1957 og hefur Indy elst nokkuð milli mynda. Sjónvarpsþættir. Á árunum 1992 til 1996 gerði George Lucas sjónvarpsþáttaröð um Indiana Jones sem nefndist "Ævintýri Indiana Jones" ("The Young Indiana Jones Chronicles"). Hreistur. Hreistur á vængum fiðrildis ("Melitaea athalia") Hreistur eru þunnar, skaraðar beinflögur á roði sumra fiska og á húð fleiri dýra. Hreistur gróa sem hlífðarlag, en þau má einnig finna á vængum fiðrilda, en þar mynda þau litamynstur þeirra. Hreistur eru algeng á dýrum en þau hafa þróast margsinnis með mismunandi hætti - hreistur fiska hafa þróast frá öðruvísi efni en hreistur skriðdýra. Hreistur eru flokkuð sem hluti hlífðarlíffærakerfis. Flekaskil. Flekaskil eru þar sem jarðflekarnir gliðna í sundur ca. 1-15 cm á ári í hvora átt. Þar kemur bergkvika upp um sprungur á skilunum. Eldvirkni á flekaskilum er að mestu neðansjávar. Einkennandi fyrir flekaskil eru miðhafshryggir og sigdalir. Dæmi um flekaskil er á Íslandi þar sem Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekinn færast hvor frá öðrum. Andstæða flekaskila eru flekamót þar sem flekar rekast saman. Íslenska útrásin. Íslenska útrásin var tímabil í fjármálasögu Íslands sem má segja að hafi hafist nálægt aldamótunum 2000 og kann að hafa lokið í lok september eða byrjun október 2008. Forsendur útrásarinnar voru einkavæðing bankanna, lagasetning sem var hagstæð fyrir fjárfestingar, mikið framboð af ódýru lánsfjármagni á alþjóðamörkuðum og ákvæði í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem kveða á um frjálst flæði fjármagns. Loks ber að geta efnahagsþenslu vegna stóriðjuuppbyggingar, ekki síst á Kárahnjúkum. Þegar íslenskir fjárfestar höfðu eignast stæðileg fjármálafyrirtæki fóru þeir að fjárfesta í miklum mæli erlendis. Meðal áberandi fjárfestinga voru erlend flugfélög, eins og Sterling, lyfjafyrirtæki og símafyrirtæki í Austur-Evrópu, og ýmsar verslanir, verslanakeðjur og önnur fyrirtæki, einkum í Bretlandi (t.d. Debenhams, Woolworths, Hamleys o.fl.) og Danmörku (Magasin de Nord, Royal Unibrew o.fl.) Fjárfestarnir -- þar á meðal Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason og Björgólfur Thor Björgólfsson -- efnuðust hratt á fjárfestingum, lifðu hátt og voru oft kallaðir „útrásarvíkingarnir“, „þotulið“ (eftir einkaþotum þeirra) og fleira slíkt. Á meðan allt virtist leika í lyndi þóttust sumir sjá að ekki væri allt sem sýndist. Þannig tjáðu ýmsir innlendir og erlendir hagfræðingar sig um hagkerfið og að það væri ekki stöðugt, m.a. vegna þess að það væri svo smátt, Seðlabankinn þar með talinn, að það gæti ekki staðið á bak við alla bankastarfsemina sem íslenskir bankar voru með erlendis. Fyrsta bakslagið var sennilega stórt gengisfall krónunnar upp úr miðjum marsmánuði 2008. Sumir kenndu erlendum vogunarsjóðum um að hafa tekið stöðu gegn gengi krónunnar til að hagnast á falli þess. Aðrir kenndu bönkunum um og bentu á að vegna mikillar gjaldeyriseignar hefðu þeir grætt á fallinu. Loks voru þeir sem kenndu stefnu stjórnvalda um, að þenslan (aðallega vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar) hefði einfaldlega gert krónuna veika fyrir og þannig boðið hættunni heim. Eftir nokkurra mánaða erfiðleika í efnahagsmálum, kom stærsti skellurinn þegar kreppa skall á haustið 2008. Fjármálafyrirtækin reyndust þá ekki öll vera eins vel undir hana búin. Íslensk yfirvöld yfirtóku þannig Glitni þann 29. september og Landsbankann og Kaupþing fáum dögum seinna. Nýja Holland. Nýja Holland (hollenska: "Nieuw-Nederland", latína: "Novum Belgium" eða "Nova Belgica") var heitið á því landsvæði sem Hollendingar réðu yfir á austurströnd Norður-Ameríku á 17. öld. Nýja Holland náði yfir hluta þess lands sem í dag tilheyrir bandarísku fylkjunum Maryland, Delaware, Pennsylvaníu, New Jersey, New York, Connecticut og Rhode Island. Nafnið Nýja Holland var fyrst notað á landakorti sem Adriaen Block gerði og kynnti fyrir hollenska stéttaþinginu árið 1614. Árið 1621 fékk Hollenska Vestur-Indíafélagið einkaleyfi á verslun á landsvæðinu en frá 4. áratugnum tóku enskir landnemar að flykkjast til landsins án þess að Hollendingar fengju rönd við reist. Með Hartford-samningnum 1650 létu Hollendingar Connecticut-á Englendingum eftir og árið 1664 ákváðu Englendingar að leggja Nýja Holland undir sig sem leiddi til annars stríðs Englands og Hollands 1665-1667. Árið 1673 lögðu Hollendingar landið aftur undir sig með 21 skipa flota undir stjórn Cornelis Evertsen de Jongste en Westminster-sáttmálinn sem batt enda á þriðja stríð Englands og Hollands 1674 kvað endanlega á um að landið tilheyrði Englandi. Guido Grandi. Luigi Guido Grandi (1. október 1671 – 4. júlí 1742) var ítalskur prestur og stærðfræðingur frá Cremona. Hann lærði hjá jesúítum og gerðist munkur í Camaldolese-reglunni. Hann kenndi heimspeki og stærðfræði við klaustur reglunnar í Flórens. Hann er þekktastur fyrir runu Grandis og rannsóknir á rósarferlinum. Hann vann líka sem verkfræðingur fyrir stjórn Toskana og átti þátt í því að þurrka upp dalinn Val di Chiana. Hann heimsótti England 1706 þar sem hann varð félagi í Konunglega enska vísindafélaginu. Cremona. Cremona er borg í Langbarðalandi á Ítalíu á vesturbakka árinnar Pó á miðri Pósléttunni. Borgin er höfuðstaður samnefndrar sýslu. Íbúar eru um 70 þúsund. Meðal frægra íbúa Cremona má nefna Antonio Stradivari, Guido Grandi og Claudio Monteverdi. Innósentíus 10.. Innósentíus 10. (6. maí 1574 – 7. janúar 1655) sem upphaflega hét Giovanni Battista Pamphili var páfi frá 1644 til dauðadags. Hann fæddist í Róm en fjölskylda hans hafði flust þangað frá Gubbio í Úmbríu í tíð Innósentíusar 9.. Hann lærði lögfræði og varð endurskoðandi við rómverska áfrýjunardómstólinn. Hann varð kardináli árið 1629. Hann hóf valdatíð sína á málsókn gegn Barberini-fjölskyldunni sem hafði hagnast gríðarlega í valdatíð Úrbanusar 8.. Antonio og Francesco Barberini flúðu til Parísar þar sem Mazarin kardináli tók þá undir sinn verndarvæng. Hann fordæmdi jansenisma sem villutrú sem varð til þess að klaustrið í Port-Royal var leyst upp. Hann hélt áfram Castro-stríðunum gegn hertoganum af Parma sem lauk með því að hersveitir Páfagarðs eyddu borgina Castro algerlega. Helsti ráðgjafi hans var hin umdeilda Olimpia Maidalchini, ekkja bróður hans. Mazarin kardináli. Jules Mazarin, áður Giulio Raimondo Mazzarino (14. júlí 1602 – 9. mars 1661) var franskur stjórnmálamaður af ítölskum uppruna. Hann var aðalráðgjafi Frakkakonungs frá 1642 til dauðadags og tók við af læriföður sínum, Richelieu. Hann hélt áfram andstöðu Richelieus við Habsborgara og lagði grunninn að útþenslustefnu Frakka í valdatíð Loðvíks 14.. Hann var samningamaður fyrir hönd Frakklands þegar Vestfalíufriðurinn var undirritaður 1648 þar sem Frakkar fengu héraðið Alsace. Pierre Mignard. Pierre Mignard (7. nóvember 1612 – 30. maí 1695) var franskur listmálari frá Troyes. Hann lærði hjá Jehan Boucher í Bourges og fékk vinnu á vinnustofu Simon Vouet í París. 1630 hélt hann til Ítalíu þar sem hann dvaldist næstu 22 árin. Hann varð síðan hirðmálari við frönsku hirðina í París þar sem hann varð leiðtogi andstöðunnar við frönsku listaakademíunnar sem var undir stjórn Charles Le Brun. Troyes. Troyes er 60 þúsund manna borg við ána Signu í Aube-umdæmi í Frakklandi, 150 km suðaustan við París. Simon Vouet. Simon Vouet (9. janúar 1590 – 30. júní 1649) var franskur listmálari sem átti þátt í því að koma ítalska barokkinu á framfæri í Frakklandi. Hann fæddist í París og lærði hjá föður sínum en hélt síðan í námsferð til Ítalíu þar sem hann eyddi fjórtán árum, aðallega í Róm þar sem hann stúderaði verk Caravaggios, Paolo Veronese, Annibale Carracci, Guercinos og Guido Reni. Hann var forseti Akademíu heilags Lúkasar í Róm þegar Loðvík 13. boðaði hann til Parísar þar sem hann setti upp vinnustofu. Meðal nemenda hans var Charles Le Brun, einn áhrifamesti listamaður Frakklands 17. aldar. Nicolas Mignard. a> eftir Nicolas Mignard frá 1658. Nicolas Mignard (7. febrúar 1606 – 20. mars 1668) var franskur listmálari. Hann var bróðir listmálarans Pierre Mignard og fæddist í Troyes. Hann varði tveimur árum í námsferð á Ítalíu þar sem hann tileinkaði sér verk Annibale Carracci og Francesco Albani. Eftir það setti hann upp vinnustofu í Avignon. Árið 1660 boðaði Mazarin kardináli hann til Parísar þar sem Loðvík 14. fékk hann til að skreyta hluta Tuileries-hallar. International Harvester. International Harvester W4 (1947 árgerð), voru kallaðir "W4" á Íslandi International Harvester var bandarískt fyrirtæki sem framleiddi verkfæri fyrir jarðvinnslu og skógarvinnu auk þess sem það framleiddi bíla. Á Íslandi ganga dráttarvélar frá fyrirtækinu undir nafninu "Nalli". Saga. Internation var stofnað árið 1902 þegar McCormick Harvesting Company sameinaðist fjórum öðrum fyrirtækjum. Stórfyrirtæki þetta hafði 25 þúsund starfsmenn á könnu sinni. Stofnandi McCromick Harvesting Company var Cyrus Hall, sem fann upp sjálfvirku sláttuvélina. Alla tíð var aðalframleiðsla fyrirtæksins fólgin í jarðvinnslutækjum og traktorum en þó framleiddi það einnig skólabíla og fjórhjóladrifna bíla. Dæmi um vinsælan bíl frá IH var til dæmis Scout. Case Corporation (nú CNH) keypti stóran hlut í International Harvester árið 1985. Fyrirtæki þetta framleiðir ennþá dráttarvélar og vinnutæki undir heitinu Case IH. Vörubíladeild IH varð að Navistar Internation Corporation þar sem Case fékk einkanot á IH-merkinu. David Beckham. David Robert Joseph Beckham (fæddur 2. maí 1975) er enskur fótboltamaður. Hann leikur með Los Angeles Galaxy í Kaliforníu. Í janúar 2009 fór hann sem lánsmaður til AC Milan á Ítalíu. Hann hefur áður leikið með Manchester United á Englandi og vann meðal annars þrennuna frægu árið 1999 og með Real Madrid á Spáni og vann La Liga tímabilið 2006-2007. Hann er talinn einn ríkasti fótboltamaður í heimi. Einkalíf. Beckham er giftur pop-söngkonunni Victoriu Beckham, áður Viktoria Adams. Hún var þekkt undir nafninu „Posh Spice“ í stúlknabandinu Spice Girls sem gerði garðinn frægan á seinni hluta tuttugustu aldarinnar. David og Victoria giftu sig 4. júlí 1999 en hann bað hennar árinu áður 24. janúar á veitingastað í Englandi. David og Victoria eiga saman þrjá stráka, Brooklyn Joseph Beckham (fæddur 4.mars 1999 í London, Englandi), Romeo James Beckham (fæddur 1.september 2002 í London) og Cruz David Beckham (fæddur 20. febrúar 2005 í Madríd, Spáni; nafnið Cruz er spænskt og þýðir kross). Djöflatað. Djöflatað (fræðiheiti: "Ferula assafoetida") er smávaxin jurt steinseljuættar og vex í Mið-Austurlöndum, aðallega Íran og Afganistan. Það er ýmist notað þurrkað í dufti eða í kvoðu. Djöflatað lyktar afar illa, en þegar búið er hita það í olíu, þá er gefur það réttinum nýtt og áhugavert bragð. Það var nær eingöngu notað í grænmetisrétti og þá jafnvel í stað lauks eða hvítlauks, en það gefur steiktu og grilluðu kjöti sérstakt bragð. Kvoðan er mjög bragðsterk og verður að nota með fyllstu varúð, en duftið er bragðminna enda yfirleitt blandað með hrísmjöli. Djöflatað var mjög vinsælt krydd á dögum Rómverja og allt fram á miðaldir, en féll þá í gleymsku. Jansenismi. Titilsíða ritsins "Ágústínus" eftir Cornelius Jansen í útgáfu frá 1640. Jansenismi var kaþólsk trúarhreyfing, grein af gallikanisma í Frakklandi í anda gagnsiðbótarinnar á 17. öld. Jansenismi lagði áherslu á hugmyndina um erfðasyndina, spillingu mannsins og nauðsyn þess að öðlast guðlega náð og fyrirhugun. Jansenismi átti upptök sín í ritum hollenska guðfræðingsins Corneliusar Otto Jansen. Helsta vígi Jansenismans var í klaustrinu Port-Royal-des-Champs undir stjórn abbadísarinnar Marie Angélique Arnauld og Port-Royal í París. Þar störfuðu margir af helstu hugsuðum Frakklands á 17. öld, svo sem Antoine Arnauld (bróðir Marie), Pierre Nicole, Blaise Pascal og Jean Racine. Hugtakið „Jansenismi“ var notað af helstu andstæðingum hreyfingarinnar, Jesúítum, sem sökuðu þá um að vera hugmyndafræðilega skyldir Kalvínistum. Jansenistar skilgreindu sig hins vegar sjálfir sem fylgjendur kenninga Ágústínusar. Innósentíus 10. páfi fordæmdi ýmsar af kenningum hreyfingarinnar (einkum þær sem vörðuðu tengslin milli frjáls vilja og ómótstæðilegrar náðar) sem villutrú með páfabullunni "Cum occasione" 31. maí 1653. Alexander 7. vildi síðan láta Jansenista undirrita sérstakan formála þar sem þeir samþykktu páfabulluna. Þetta leiddi til Formáladeilunnar 1664-1668 en Klemens 9. lét sér nægja undirskrift fjögurra Jansenistabiskupa og lét þar við sitja. Endalok Jansenismans urðu svo í upphafi 18. aldar þegar fjörutíu guðfræðikennarar við Sorbonne-háskóla ákváðu að klerkur nokkur sem neitaði að viðurkenna óskeikulleika kirkjunnar skyldi engu að síður hljóta syndaaflausn. Þessi ákvörðun olli gríðarlegri hneykslun meðal andstæðinga Jansenista innan frönsku kirkjunnar. Á endanum gaf Klemens 11. út páfabulluna "Vineam Domini Sabaoth" að beiðni Loðvíks 14. sem lýsti hana bindandi lög í Frakklandi. 1708 var klaustrið í Port-Royal-des-Champs leyst upp með nýrri páfabullu (að undirlagi Loðvíks) og árið eftir voru nunnurnar reknar úr klaustrinu og byggingarnar rifnar til grunna. Klaustrið í París var áfram til þar til því var lokað í Frönsku byltingunni. Jean Racine. Jean Racine (22. desember 1639 – 21. apríl 1699) var franskt leikskáld, eitt af þeim „þremur stóru“ í Frakklandi 17. aldar, ásamt Molière og Pierre Corneille. Racine fékkst aðallega við að skrifa harmleiki út frá þemum frá klassískri fornöld. Hann lærði við janseníska skólann í Port-Royal-des-Champs og fyrstu leikrit hans voru sett upp af leikhóp Molières árið 1664. Fyrsta verkið sem náði einhverjum vinsældum var "Alexander mikli" en þá brá Racine við og samdi við annan leikhóp, Hôtel de Bourgogne, um uppsetningu þess eftir að leikhópur Molières hafði frumsýnt það. Við þetta slitnaði upp úr vináttu þeirra Molières. Racine aflaði sér líka óvina með efnisvali sínu og brátt var hann ásakaður um að spilla hugum áhorfenda. Hann sleit þá öll tengsl sín við Port-Royal-klaustrið. Ferill Racines náði yfir fimmtán ár en 1679 giftist hann hinni trúuðu Catherine de Romanet og fékk stöðu sem sagnaritari konungs um svipað leyti. Hann hætti því starfi sínu í leikhúsinu og endurnýjaði tengslin við Jansenista. Hann samdi síðar tvö leikverk 1689 og 1691, að beiðni Françoise d'Aubigné, eiginkonu Loðvíks 14. til vinstri handar, sem bæði byggðu á efni úr Gamla testamentinu. Enska samveldið. a> inngöngu í þinghúsið í desember 1648. Enska samveldið (enska: "Commonwealth of England") var lýðveldi sem stóð fyrst á Englandi og í Wales, en síðar einnig á Skotlandi og Írlandi, frá 1649 til 1660. Kveðið var á um stofnun þess í lögum sem Afgangsþingið staðfesti 19. maí 1649, fjórum mánuðum eftir aftöku Karls 1. Englandskonungs. Frá 1653 til 1658 var samveldið í reynd undir stjórn Olivers Cromwell sem titlaði sig "lávarð samveldis Englands, Skotlands og Írlands". Eftir lát hans tók sonur hans við titlinum en hann sagði af sér ári síðar þegar enska ríkisráðið tók við stjórn landsins og hélt henni þar til Karl 2. tók sjálfur við stjórnartaumunum í London 28. maí 1660. Sébastien Bourdon. "Björgun Mósess" frá því um 1650. Sébastien Bourdon (2. febrúar 1616 – 8. maí 1671) var franskur listmálari frá Montpellier. Hann var sendur í læri til Parísar og fór í námsferð til Rómar 1636 þar sem hann tileinkaði sér verk Nicolas Poussin, Claude Lorrain og Caravaggios. Tveimur árum síðar neyddist hann til að flýja frá Ítalíu til að sleppa við ákæru frá rannsóknarréttinum þar sem hann var mótmælendatrúar. 1652 gerði Kristín Svíadrottning hann að sínum fyrsta hirðmálara. Caravaggio. Michelangelo Merisi da Caravaggio, oftast kallaður Caravaggio (29. september 1571 – 18. júlí 1610) var ítalskur listmálari sem hafði gríðarleg áhrif á barokklist 17. aldar. Hann greindi sig frá uppstillingum manierismans og málaði dramatískar myndir sem einkenndust af natúralisma og leikrænni lýsingu með sterkum birtuskilum. Stíll Caravaggios varð vinsæll í nýbyggðum kirkjum gagnsiðbótartímans í Róm þar sem leitast var við að skapa raunsæja kirkjulist sem svar við siðbótinni. Hann vann í Róm frá 1600 þar sem hann varð frægur að endemum fyrir drykkjuskap, spilafíkn og ólæti. Árið 1606 drap hann ungan mann í slagsmálum á krá og flúði í kjölfarið frá Róm þar sem hann var eftirlýstur. 1608 lenti hann aftur í slagsmálum á Möltu og aftur ári síðar í Napólí. Ári síðar lést hann úr sótthita að því er virðist í Porto Ercole í Toskana þar sem hann var á skipi á leið til Rómar til að fá náðun frá yfirvöldum. Ekki er vitað um afdrif líksins, né nákvæmlega hvernig, hvar og hvenær hann dó. Etna. Etna (latína: "Aetna"; einnig þekkt sem "Muncibeddu" á sikileysku eða "Mongibello" á ítölsku, sem er samsetning latneska orðsins "mons" og arabíska orðsins "gebel" sem bæði merkja „fjall“) er virk eldkeila á austurströnd Sikileyjar við Messínasund á Suður-Ítalíu. Etna er hæsta virka eldfjall Evrópu og nær í 3.329 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún er líka hæsta fjall Ítalíu sunnan Alpafjalla. Etna er með virkustu eldfjöllum jarðar og eldsumbrot í fjallinu eru nánast stöðug. Ivangorod. Ivangorod-virkið (til hægri) og virkið í Narva (til vinstri). Ivangorod er bær í Leníngradhéraði í Rússlandi. Íbúar eru um tólf þúsund. Bærinn stendur á hægri bakka árinnar Narva við landamæri Rússlands og Eistlands 159 km vestan við Sankti Pétursborg. Bærinn er einkum þekktur fyrir Ivangorod-virkið sem þar stendur. Peter Greenaway. Peter Greenaway (f. 5. apríl 1942) er velskur kvikmyndaleikstjóri. Hann hóf feril sinn sem kvikmyndatökumaður við Upplýsingaskrifstofu bresku stjórnarinnar 1965 og hóf fljótlega að gera listrænar tilraunakvikmyndir. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd var "The Falls" árið 1980, 185 mínútna skálduð heimildamynd um reynslu fólks sem orðið hefur fyrir því sem nefnt er „óþekktur hörmungaratburður“ (e. "violent unknown event"). Tónlistin í myndinni var samin af Michael Nyman sem síðar gerði tónlist fyrir margar af myndum Greenaways á borð við "Teiknarann" (e. "The Draughtsman's Contract") 1982 og "Þeir týna tölunni" ("Drowning by Numbers") 1988. Þekktasta mynd Greenaways er vafalítið "Kokkurinn, þjófurinn, eiginkona hans og elskhugi hennar" (e. "The Cook, the Thief, His Wife and Her Lover") frá 1989. Greenaway kom til Íslands í október 2007 og tók á móti heiðursverðlaunum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hann hélt sömuleiðis fyrirlestur í Háskóla Íslands. Arnór Jónsson. Arnór Jónsson, f. 27. desember 1772, d. 5. nóvember 1853 var prestur og prófastur í Hestþingum í Borgarfirði og síðar í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru séra Jón Hannesson á Mosfelli í Mosfellssveit og kona hans, Sigríður Arnórsdóttir, en hún var dóttir Arnórs Jónssonar, sýslumanns í Belgsholti. Menntun og störf. Arnór lauk stúdentsprófi frá Reykjavíkurskóla eldra (Hólavallaskóla) árið 1794 með miklu lofi. Það ár varð hann skrifari hjá Skúla Magnússyni, landfógeta, og í framhaldi af því var hann skrifari Ólafs stiftamtmanns Stefánssonar. Hann var kennari í Reykjavíkurskóla veturinn 1797 - 8 og var vígður til Hestþinga það vor. Hann bjó víða í Borgarfirði, meðal annars á Neðrahreppi, Hesti og Hvítárvöllum. Hann var prófastur í Borgarfirði frá 1807 til 1811, en það vor fékk hann Vatnsfjörð við Ísafjarðardjúp og hélt staðinn til dauðadags. Hann var prófastur í Norður-Ísafjarðarsýslu frá 1817 til dauðadags. Arnór þótti vel gefinn maður og kenndi mörgum undir skóla. Hann var lágvaxinn og þrekinn og mikill glímumaður talinn, en búmaður slakur og bjó löngum við lítil efni. Skáldmæltur var hann og átti allnokkra sálma í sálmabókum, þar á meðal sálminn "Til hafs sól hraðar sér", sem var alþekktur útfararsálmur. Fjölskylda. Arnór var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður (um 1771 - 1837), Sveinsdóttir næturvarðar í Reykjavík. Sonur þeirra var séra Hannes Arnórsson, prestur í Grunnavík. Seinni kona Arnórs var Guðrún (1818 - 1869), Magnúsdóttir eymdarskrokks Jónssonar, frá Tröð í Álftafirði. Hún var tvítug en hann 66 ára er þau giftust árið 1838 og mun faðir hennar hafa ráðið meiru um það hjónaband en hún sjálf. Börn þeirra voru Magnús (bjó á Ísafirði) og Sigríður (húsmóðir á Neðri-Bakka í Langadal og Tungu í Dalamynni). Skráarnafn. Skráarnafn er sérstök gerð af streng sem notaður er til þess að bera einkvæm kennsl á skrá sem geymd er í skráakerfi í tölvu. Sum stýrikerfi bera einnig kennsl á skráarsöfn á sama máta. Valþjófsstaðahurðin. Valþjófsstaðahurðin er tréhurð, með útskurði í rómönskum stíl, skorin út á Íslandi. Var fyrir dyrum á kirkjum á Valþjófsstað í Fljótsdal frá um 1200 til ársins 1852. Hurðin er merkasti forngripur Íslensku þjóðarinnar, en lá undir skemmdum um miðja 19. öld og var þá flutt til Danmerkur til varðveislu. Danir skiluðu henni í tilefni að Alþingishátíðinni 1930. Er til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands. Skarðsbók. Skarðsbók er nafn á tveimur fornum íslenskum skinnhandritum. Skarðsbók Jónsbókar er lögbókarhandrit, sem hefur að geyma Jónsbók og nokkrar réttarbætur. Í handritinu kemur fram að það var skrifað 1363. Talið er að handritið hafi verið skrifað í Helgafellsklaustri, og að verkbeiðandinn hafi verið Ormur Snorrason lögmaður á Skarði á Skarðsströnd. Handritið er í Árnasafni, og hefur safnnúmerið AM 350 fol. Skarðsbók postulasagna var lengi í eigu kirkjunnar á Skarði á Skarðsströnd, en hvarf þaðan um 1820. Handritið kom síðar fram á Englandi og var þar í einkaeign. Það var selt á uppboði 30. nóvember 1965 og var keypt til landsins af íslensku bönkunum og gefið íslensku þjóðinni. Var það fyrsta handritið sem afhent var Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi til varðveislu, og hlaut safnmerkið SÁM 1 fol. Kynkirtill. Kynkirtill eða æxlunarkirtill kallast það líffæri sem býr til sáðfrumur og eggfrumur (ensku gamete). Kynkirtill kvenna er í eggjastokkunum og kynkirtill karla er í eistunum. Testes. Kynkirtill karla gefa frá sér hormón sem heitir andrógen (sh. karlefni, karlhormón) og framleiðir sáðfrumur. Helsta andrógenið sem eistun framleiða er testósterón. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. a> þar sem Árnastofnun er til húsa. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eða Árnastofnun (upphaflega Handritastofnun Íslands) er íslensk háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra. Hlutverk hennar er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem stofnuninni eru falin eða hún á. Forstöðumaður frá árinu 2008 er Guðrún Nordal, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Handritastofnun Íslands var stofnuð með sérstökum lögum í menntamálaráðherratíð Gylfa Þ. Gíslasonar 14. apríl árið 1962. Tilefnið að stofnun hennar var yfirvofandi lausn Handritamálsins þar sem Íslendingar fengu afhent nokkur af dýrmætustu miðaldahandritunum sem rituð höfðu verið á Íslandi, frá Árnasafni í Danmörku. Fyrsti forstöðumaður stofnunarinnar var Einar Ólafur Sveinsson, sagnfræðingur og fyrstu húsakynni hennar voru í húsnæði Landsbókasafnsins. 1970 flutti stofnunin á nýreistan Árnagarð við Háskóla Íslands og 1972 var nafni hennar breytt í "Stofnun Árna Magnússonar" með nýjum lögum. Árið 2006 samþykkti Alþingi Íslendinga lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Samkvæmt þeim voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun sameinaðar frá og með 1. september 2006. Hin nýja stofnun tók við skyldum stofnananna fimm og þeim verkefnum sem þær sinntu. Ásgeir Blöndal Magnússon. Ásgeir Blöndal Magnússon (2. nóvember 1909 – 25. júlí 1987) var málfræðingur, forstöðumaður Orðabókar Háskólans og sá lengi um þættina Daglegt mál í Ríkisútvarpinu. Á síðari árum ævi sinnar vann hann að orðsifjaorðabók sem kom út að honum látnum. Líf. Hann fæddist 2. nóvember árið 1909 í Dýrafirði en ólst að mestum hluta upp í Þingeyri. Hann stundaði nám við Menntaskólinn á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan árið 1942 og cand.mag.-prófi frá Háskóla Íslands árið 1946. Árið 1947 gerðist hann starfsmaður Orðabókar Háskólans og vann hann þar þangað til hann hætti störfum sökum aldurs seint árið 1979. Hann var gerður að heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands árið 1986, við 75 ára afmæli Háskóla Íslands en lést árið 1987. Lungnafiskar. Lungnafiskar (fræðiheiti: "Dipnoi") eru ferskvatnsfiskar þekktir fyrir einkenni sem eru frumstæð meðal beinfiska, þ.á.m. eiginleikan til að anda að sér lofti, auk líffæra sem eru frumstæð meðal holdugga, t.d. blaðlaga ugga og þróaða innri beinagrind. Vefjadrep. Alvarlegt drep í fæti 11 ára drengs. Drep eða vefjadrep kallast ónáttúrulegur dauði frumna eða vefs. Það sem drep hefur komist í kallast holdfúið eða er fær forskeytið drep-. Rakarafrumvarpið. Rakarafrumvarpið var frumvarp um afgreiðslutíma rakarastofa og annarra vinnustofa sem voru í viðskiptum við almenning. Það var lagt fyrir Alþingi árið 1924 og samþykkt árið 1928. Þetta frumvarp varð mikið hitamál á Íslandi, og mikið um það skrifað í blöðunum. Frumvarpið var fellt á Alþingi fjögur þing í röð, en náði loks loks samþykkt árið 1928. Arilíus Marteinsson. Arilíus Marteinsson (fæddur 31. maí 1984) er íslenskur knattspyrnumaður. Arilíus hóf knattspyrnuferill sinn á Stokkseyri og lék þar frá 7. flokki til 3. flokks en færði sig svo um set og byrjaði að æfa með Selfossi. Arilíus fór í byrjun árs 2006 til ÍBV og lék með þeim í úrvaldsdeildinni. Eftir eitt tímabil með ÍBV fór Arilíus aftur til Selfoss þar sem hann spilar núna. Arilíus á að baki nokkra U-17 og U-19 ára landsleiki með Íslandi. Arilíus hefur spilað lykilhlutverk í liði Selfoss síðust ár og á að baki 151 leiki og 49 mörk í öllum keppnum. Arilíus er hvað þekktastur fyrir að skora 3 mörk í sínum fyrsta landsleik gegn Færeyingum. Eftir langa dvöl á Selfossi lá leiðin til Ægismanna þar sem Arilíus hefur spilað síðastliðin tvö tímabil. Grand Theft Auto 2. Grand Theft Auto 2 er tölvuleikur gefinn út árið 1999. Í honum fer maður í hlutverk Claude Speed og gerist leikurinn árið 2013.Hann er svipaður eldri leikjunum en það er þó búið að bæta grafíkina aðeins. Leikurinn snýst um að gera störf fyrir mafíur og láta þær virða mann. Það er samt mikill munur á Playstation og Pc útgáfunni vegna þess að Playstation tölvan þoldi ekki alveg leikinn þannig að það er meira hægt í Pc útgáfunni. Tónlist. Mikið úrval af tónlist er í leiknum en öll lögin eru skálduð upp af fyrirtækinu sem gaf út leikinn. Píningsdómur. Píningsdómur var ígildi laga og var samþykktur á Alþingi árið 1490. Píningsdómur ítrekaði bann sem verið hafði í gildi árin á undan og bannaði útlendingum að hafa hér vetursetu á Íslandi, nema í neyð og þeir mættu ekki taka Íslendinga í sína þjónustu. Auk þess hvorki gera héðan út skip né menn til sjós. Í þeim dómi var einnig tekið fram að engir búðsetumenn skulu vera á Íslandi sem ekki hafa búfé að fæða sig við sem þó sé ekki minna en 300. Var það gert til að skylda almenning til að vera í vist hjá bændum. Píningsdómur er kenndur við Diðrik Píning, sem var þýskur flotaforingi og höfuðsmaður Danakonungs á Íslandi frá 1478 til 1491. Tónlist í Grand Theft Auto 2. Eftirfarandi er listi yfir allar útvarpsstöðvar í leiknum Grand Theft Auto 2. Orðsifjabók. Orðsifjabók er orðabók sem inniheldur orðsifjar þeirra orða sem þar eru. Margar stórar orðabækur eins og Oxford English Dictionary og Webster's innihalda upplýsingar um orðsifjar án þess að vera sérstaklega orðsifjabækur. Íslensk orðsifjabók. Íslensk orðsifjabók er orðsifjabók með 25.000 íslenskum uppflettiorðum sem var fyrst gefin út árið 1989 eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Skriðdepla. Skriðdepla (fræðiheiti: "Veronica scutellata") er vatnajurt af græðisúruætt sem vex í votlendi og súrum jarðvegi. Hæðst hefur hún fundist í 450m hæð fyrir utan við Hveravelli, þar hefur hún sést í 600m hæð við jarðhiti. Emily Osment. Emily Jordan Osment (fædd 10. mars 1992) er bandarísk leik- og söngkona. Hún hefur leikið í sjónvarpsþáttum á borð við "Hannah Montana". Þá lék hún í kvikmyndaþríleiknum um "Spy Kids". Al anon. Al-anon samtökin eru alþjóðleg 12 spora samtök fyrir ættingja og vini alkóhólista og náteinkt AA-samtökunum. Í samtökum er félögum gefið tækifæri til að deila reynslu sinni sem og að hjálpa til með að styrkja og hjálpa öðrum meðlimum að reyna að leysa vandamál sín. Hugmyndafræði. Al-Anon starfar eftir þeirri hugmynd að alkóhólismi sé fjölskyldusjúkdómur og að aðstandendur verði oft jafn veikir við það að lifa með alkahólistanum og þrói með sér það sem kallað er meðvirkni og þurfi því sjálfir á því að halda að byggja sig upp, rétt eins og alkahólistinn sjálfur, og það með því að losna við meðvirkni sína. Aðferðafræði. Tilgangur Al-Anon er því að hjálpa fjölskyldum alkóhólista til að byggja upp einstaklingana sem mynda fjölskilduna með reynslusporunum 12. Á sama hátt og önnur 12 spora samtök, eins og AA-samtökin sem dæmi, eru Al-Anon ekki tengd neinum trúarhópum né trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, félagasamtökum og/eða stofnunum. Jafnframt taka samtökin ekki þátt í deilum, þau styðja ekki né eru í andstöðu við nokkurn málsstað. Al-Anon byggja ekki á fjélagsgjöldum félagsgjöldum heldur eru þau fjárhagslega sjálfstæð með samskotum á félagsfundum. Samtökin eru grundvölluð af þremur stoðum líkt og AA samtökin. Þau eru reynslusporin, erfðavenjur og þjónustuhugtökunum. Í merki samtakanna eru þessar 3 stoðir, en þær merkja hvert horn. Slysavarnafélagið Landsbjörg. Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnafélaga á Íslandi. Samtökin urðu til 2. október árið 1999 við sameiningu Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar, landssamtaka björgunarsveita. Aðilar að sambandinu eru 99 björgunarsveitir, 70 slysavarnadeildir og 50 unglingadeildir. Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur skrifstofu að Skógarhlíð 14. Slysavarnafélagið Landsbjörg á og rekur Slysavarnaskóla sjómanna, sem hefur aðsetur um borð í skólaskipinu Sæbjörgu. Fjöldi björgunarsveita slysavarnafélagsins eru meðlimir í Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni. Slysavarnarfélagið sjálft stýrir aðgerðum alþjóðabjörgunarsveitarinnar frá skrifstofu sinni. Landsbjörg, landssamtök björgunarsveita. Landsbjörg, landssamtök björgunarsveita voru landssamtök hjálparsveita og flugbjörgunarsveita sem urðu til við sameiningu Landssambands hjálparsveita skáta og Landssambands flugbjörgunarsveita 28. september 1991. Formaður samtakanna var kjörinn Ólafur Proppé. Nokkrar deilur spunnust milli Slysavarnafélags Íslands og nýju samtakanna vegna einkunnarinnar „landssamtök björgunarsveita“ þar sem innan Slysavarnafélagsins voru þá 94 björgunarsveitir en innan landssamtakanna aðeins 28 samkvæmt Slysavarnafélaginu. Árið 1999 sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg og urðu Slysavarnafélagið Landsbjörg. Deplur. Deplur (fræðiheiti: "Veronica") eru ættkvísl innan græðisúruættarinnar. Hallgrímur Þorsteinsson. Hallgrímur Þorsteinsson f. 17. mars 1776, d. 4. ágúst 1816 var prestur á Hrauni og Steinsstöðum í Öxnadal. Hallgrímur fæddist í Garði í Aðaldal og voru foreldrar hans þau Þorsteinn Hallgrímsson prestur, síðar í Stærra Árskógi, og fyrri kona hans Jórunn Lárusdóttir Scheving. Hallgrímur lærði í Hólaskóla og lauk stúdentsprófi þaðan 11. maí 1799. Þótti hann halda góða prófræðu og útskrifaðist með einkunn betri en í meðallagi. Hallgrímur vígðist aðstoðarprestur til séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá vorið 1803. Hann þótti dável gefinn, ásjálegur maður og söngmaður góður. Hallgrímur var einn fjögurra bræðra sem allir voru prestar við Eyjafjörð á fyrstu áratugum 19. aldar, þeir voru auk hans sr. Kristján Þorsteinsson prestur víða m.a. á Tjörn, sr. Stefán Þorsteinsson á Völlum og sr. Baldvin Þorsteinsson á Upsum. Kona sr. Hallgríms var Rannveig Jónasdóttir frá Hvassafelli. Þau bjuggu á Hrauni í Öxnadal 1803 - 1809 en frá 1809 á Steinsstöðum. Börn þeirra voru Þorsteinn, bóndi á Hvassafelli, Rannveig, húsmóðir á Steinsstöðum, Jónas, náttúrufræðingur og skáld og Anna Margrét á Steinsstöðum. Séra Hallgrímur drukknaði í Hraunsvatni sumarið 1816, fertugur að aldri. Urtönd. Urtönd (fræðiheiti: "Anas crecca") er minnst anda hérlendis. Höfuð og háls steggsins eru rauðbrúnn en aftur frá augum ganga grænir geirar um vanga, bryddaðir gulu. Bringan er mógul en flikrótt af ljósari fjaðrajöðrum. Búkur er af öðru leyti ljósgrár nema undir gumpur svartur með gulum blettum á hvorri hlið niður af brúnu stéli. Kollan er mógulflikrótt. Svo speglar beggja kynja grængljáandi, bryddaðir ljósum, en ofan þeirra ber kollan ljósa bekki sem verða áberandi á þöndum vængjum. Við þetta einkenni bætast hjá steggnum rákir, hvítar og svartar, milli vængja og baks. Stél beggja kynja tiltölulega löng og fleyglaga. Goggur beggja kynja er blágrár með dökkri nögl. Fætur eru gráir. Urtönd er lágfleygur fugl, flýgur hratt. Eggin geta náð tugi. Varpstöðvar eru með lækjum og tjörnum, jafnt á heiðum sem láglendi. Hreiður er óvandað, klætt fjörðum og dúni. Urtönd er meira á ferli um kvöld og nætur en daga. Hún dylst tíðum og sést því ekki eins oft og aðrar endur. Yfir vetrarmánuðina. Á Íslandi eru urtendur algengar á Ölfusá yfir vetrarmánuðina. Þær sjást oft á grynningunum. Meðfram bökkum Ölfusár vestan við kirkjugarðinn sjást þær oft enda lítið um mannaferðir á þeim slóðum. Þar sækja þær í heitar lindir sem eru íslausar allann veturinn. Fjöldi urtanda er mjög mismunandi eftir árum. Urtendur eru veiddar til matar en í litlu mæli. Fæðingarfræði. Fæðingarfræði er sérgrein innan læknisfræði og ljósmóðurfræði sem lýtur að umönnun og eftirliti kvenna og barna þeirra á meðgöngu, í fæðingunni og eftir fæðingu. Þeir sem sinna fæðingarfræðum eru annars vegar kvensjúkdóma- og fæðingarlæknar, sem taka ákvarðanir um og annast inngrip og aðgerðir á meðgöngu og í fæðingu, og hins vegar ljósmæður, sem sinna fræðslu og venjubundnu eftirliti á meðgöngu og annast stuðning við eðlilegt ferli fæðingar og umönnun móður og barns eftir fæðingu. Katyn-fjöldamorðin. Katyn-fjöldamorðin fóru fram í apríl 1940 í Katyn skógi, 19 km vestur af Smolensk í Sovétríkjunum þegar Rússar myrtu 22.000 pólska herforingja, lögreglumenn, menntamenn auk annarra að fyrirskipun Jósefs Stalíns í því skyni að afhöfða pólska herinn. Það var ekki fyrr en 1990, sem sovésk yfirvöld játuðu, að þarna hefði sovéska leynilögreglan verið blóðug upp fyrir axlir. Katyn. Katyn (rússneska: Каты́нь; pólska: Katyń ['katɨnʲ]) er þorp ("selo") í Smolenskfylki í Rússlandi. Bjór (nagdýr). Bjórar (eða bifrar) (fræðiheiti: "Castoridae") er ættkvísl nagdýra (Castor) sem lifir í ám og vötnum og byggir þar stíflur. Skinn bjóranna eru mikið notuð í loðfeldi. Bjórar hafa sundfit á afturfótunum. Sigurður Kristófer Pétursson. Sigurður Kristófer Pétursson (9. júlí 1882 – 1925) var sjálfmenntaður fræðimaður og þýðandi, en hann þýddi t.d. "Hávamál Indíalands: Bhagavad-Gíta". Hann var mikill málamaður, las norðurlandamálin öll, og talaði og ritaði dönsku. Ensku og þýsku nam hann svo vel að hann gat lesið vísindarit á þeim málum, og talaði esperanto og orti á því máli. Sigurður Kristófer er þekktastur fyrir bók sína: "Hrynjandi íslenskrar tungu," en hún útskýrir með mjög sérstökum hætti hvernig skrifa má fallegra óbundið íslenskt mál. Sigurður Nordal las handritið yfir og benti á margt sem betur mátti fara. Þegar Sigurður Kristófer var 14 vetra varð hann holdsveikur. Tveimur vetrum síðar, árið 1898, tók Laugarnesspítali til starfa. Fékk hann þá vist þar og var hann einn af fyrstu sjúklingum sem þangað fluttust. Dvaldist hann þar til dauðadags. Sjúkdómur hans var hin svonefnda "slétta holdsveiki". Ekki varð séð að hún ágerðist hið minnsta seinni árin. það sem mest þjáði hann var meltingarsjúkdómur, en ekki holdsveiki. Sjúkdómur þessi ágerðist meir og meir, þar til Kristófer var skorinn upp haustið 1923. Batnaði þá nokkuð um hríð, en síðan sótti í sama horf. Síðstliðið haust var hann sárlasinn. Vann hann þá sem ákafast að bók sinni "Hrynjandi íslenskrar tungu", og undi sér engrar hvíldar. Sumir töldu að Sigurður ætti skilið doktorsnafnbót fyrir kenningu sína en hann svaraði því til að sér nægði sá titill, sem ekki yrði af sér tekinn: "Sjúklingur í Laugarnesspítala". Eitt og annað. Í Sálmabók Þjóðkirkjunnar er einn sálmur eftir Sigurð nr. 402, Drottinn vakir, drottinn vakir daga' og nætur yfir þér. Glasgow (bygging). Glasgow var hús sem stóð við Vesturgötu (5A). Það var stærsta hús á Íslandi þegar kaupmaðurinn P.L. Henderson lét byggja húsið árið 1862 og líka þegar það brann til kaldra kola, 18. apríl 1903. Þrjátíu manns bjuggu í húsinu þegar eldurinn kom upp, og bjargaðist það allt óskaddað út. Enska konsúlatið var til húsa í Glasgow og sjö smiðir höfðu þar verkstæði. Vindaverksmiðja var í húsinu og þar kom eldurinn upp. Bærinn Vigfúsarkot, sem stóð vestan, brann einnig. Nú stendur þar elliheimili. P.L. Henderson, sem hafði keypt Höltersbæjarlóð, fékk leyfi til að reisa stórhýsi á lóðinni. Þetta var Glasgow-verslunin, eign firmans Henderson, Anderson & Co og var J. Jonassen verslunarstjóri. Glasgow-verslunin varð gjaldþrota árið 1862 og var allur búðarvarningur seldur á uppboði. Egill Egilsson kaupmaður eignaðist Glasgow árið 1872. Í húsinu var stór salur, sem rúmaði 200 manns í sæti og voru þar haldnar samkomur. Þar starfaði sjómannaklúbburinn þar sem oft voru haldnir fyrirlestrar um ýmis efni til fróðleiks almenningi. Ennfremur var salurinn notaður fyrir fundarhöld og sjónleiki. Þar stóð Þorlákur Ó. Johnson fyrir fyrstu málverkasýningunni á Íslandi árið 1879 og sýndi þar eftirprentanir af myndum eftir erlenda málara, en aldamótaárið var þar fyrsta málverkasýning íslensks málara: Þórarins B. Þorlákssonar. Síðar var húsinu breytt og mun herbergjum hafa verið fjölgað. Í brunabótavirðingu frá 1883 eru þar talin 18 herbergi og þrjú eldhús auk sölubúðar og 14 árum síðar voru herbergin orðin 40 samtals. Einar Benediktsson skáld keypti eignina 1896 og tveim árum síðar lét hann reisa hús á norðausturhluta lóðarinnar (Vesturgata 5). Það stendur enn á horni Vesturgötu og Aðalstrætis. Veggjalús. Veggjalús (fræðiheiti: "Cimex lectularius") er skortíta af sníkjutítnaætt. Veggjalús er blóðsuga í húsum, heldur sig mikið til í rúmum fólks og sýgur blóð þess á nóttunni. Ekki má rugla veggjalúsinni saman við veggjatítluna. Snjóbíll. Snjóbíll (eða snjóbifreið) er bíll á skriðbeltum, og er sérstaklega gerður til að aka á snjó. Fyrsti snjóbíllinn á Íslandi var nefndur "Gusi" og var í eigu Guðmundar Jónssonar (1909-1985). Hann kom hingað til lands árið 1950. Grófin. Grófin var kriki sem gekk inn í sandfjöru sem spannaði frá ósi Lækjarins, fyrir neðan Arnarhól og vestur fyrir, þar sem nú er húsið Vesturgata 4. Svæðið hvarf síðar undir hafnaruppfyllingu, og svo var tekið að byggja þar, en það er þetta svæði sem í daglegu tali nefnist Grófin. Ódáðahraun. Ódáðahraun er víðáttumikið hraunflæmi í Suður-Þingeyjarsýslu, norðan Vatnajökuls, milli Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum. Norðurmörkin eru skilgreind á mismunandi hátt. Sumir vilja draga þau frá austri til vesturs sunnan við Bláfell og Sellandafjall, aðrir telja að það nái norður undir Mývatnssveit og að Hringveginum um Mývatnsöræfi, enn aðrir vilja teygja það allt norður að Þeistareykjum. Ódáðahraun er stærsti samfelldi hraunfláki Íslands, um 4400 km² (ef miðað er við fyrst nefndu skilgreininguna). Það er samsett úr fjölgamörgum einstökum hraunum, bæði dyngjuhraunum og hraunum frá sprungum og gígaröðum. Elstu hraunin eru 10-12 þúsund ára en þau yngstu eru frá Kröflueldum á 20. öld. Upp úr hraunaflákum Ódáðahrauns rísa fjöll og fjallaklasar svo sem Herðubreið, Upptyppingar og Dyngjufjöll. Ekki er vitað hvenær svælðið fékk Ódáðahraunsnafnið en það kemur fyrst fyrir í rituðum heimildum í Undur Íslands sem Gísli biskup Oddsson skrifaði á 17. öld. Nafnið er augljóslega tengt útilegumannatrú enda töldu menn á fyrri öldum að í hrauninu leyndust fjölbyggðir og frjósamir útilegumannadalir. Peter Schmeichel. Peter Bolestaw Schmeichel (fæddur 18. nóvember 1963) er danskur markmaður í knattspyrnu. Faðir hans var danskur en móðir pólsk. Schmeichel lék lengi vel með Manchester United en fór frá liðinu til Sporting Lissabon en síðar til Aston Villa. Hann lagði skóna á hilluna árið 2003. Hann á að minstakosti einn son, Kasper Schmeichel. Hann leikur með manchester city, sem varamarkmaður. Laugahlíð. Laugahlíð í Svarfaðardal, bærinn Tjarnargarðshorn efst til vinstri, jarðhitinn kemur fram sem dökkir blettir í snjónum í hlíðinni, mars 2008. Laugahlíð í Svarfaðardal er hlíðin fyrir sunnan og ofan Tjörn. Þar eru volgar laugar en vatn frá þeim hefur verið notað í Sundskála Svarfdæla sem vígður var 1929. Laugarnar raða sér í stórum dráttum á línu sem liggur norður-suður í hlíðinni. Heitustu volgrurnar eru tæplega 30°C. Laugasteinn er stór stakur steinn við laugarnar ofan við Sundskálann. Neðan undir hlíðinni er bærinn Tjarnargarðshorn. Bæjarins er getið í Sturlungu. Á 20. öld var nafni hans breytt í Laugahlíð en upp úr aldamótum 2000 var nafnið aftur fært í sitt gamla horf. Á síðustu áratugum hafa allmörg hús risið í landi Tjarnargarðshorns svo nú er þar kominn snotur þéttbýliskjarni sem einu nafni nefnist Laugahlíð. Retro Stefson. Retro Stefson er íslensk hljómsveit. Retro Stefson var stofnuð í byrjun ársins 2006 og hefur starfað í ýmsum myndum síðan. Árið 2008 kom fyrsta breiðskífa sveitarinnar, "Montaña", út. Þá lék hljómsveitin á Iceland Airwaves 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011 og síðast 2012. Frægir eru Frostrokk tónleikarnir árið 2006 þar sem Retro Stefson gerði allt vitlaust ásamt hljómsveitum eins og UMTBS, Underdrive (Í þeirri hljómsveit var Stefán Finnbogason, nú meðlimur í hljómsveitinni Sykur), Spooky Jetson og The Unknown. Gæsahúð. Gæsahúð kallast litlar bólur á húð manna, rétt við hárrótina sem verða til þegar viðkomandi er kalt, eða finnur fyrir ótta eða sterkri tilfinningalegri upplifun. Gæsahúð kemur þegar smáir vöðvar við hárrótina sem heita "arrectores pilorum" herpast saman svo hárið standi upp. Kormáks saga. Kormáks saga er ein af Íslendingasögunum sem segir frá íslenska skáldinu Kormáki Ögmundarsyni og ást hans Steingerði. Haraldur konungur hinn hárfagri réð fyrir Noregi þá er saga sjá gerðist. Í þann tíma var sá höfðingi í ríkinu er Kormákur hét, víkverskur að ætt, ríkur og kynstór. Hann var hinn mesti garpur og hafði verið með Haraldi konungi í mörgum orustum. Haraldus rex Pulchricomus regni Norvegici sceptra tenebat, cum in historia isthac memoranda gererentur. Erat in rego eo tempore magnas, nomine Kormakus, e Vikia oriundus, dives atqve generosus, item vir fortissimus, qui unacum Haraldo rege variis pugnis interfuerat. Harald Fairhair was king of Norway when this tale begins. There was a chief in the kingdom in those days and his name was Cormac; one of the Vik-folk by kindred, a great man of high birth. He was the mightiest of champions, and had been with King Harald in many battles. När konung Harald hårfager härskade öfver Norge, var där i riket en höfding, som hette Kormak. Han stammade från Viken och var en mäktig man af ädel ätt. En ansenlig kämpe var han äfven, och han hade följt konung Harald i många strider. Hann átti son er Ögmundur hét. Hann var hinn efnilegasti maður, snemma mikill og sterkur. Þegar er hann hafði aldur og þroska lagðist hann í víking á sumrum en var með konungi á vetrum. Hann aflaði sér góðs orðs og mikils fjár. Filium habuit Ögmundum, optimae spei juvenem, mature jam magnum fortemqve. Mox ubi per ætatem et vires licuit, æstate quivis piraticæ vacavit, hyemibus apud regem commoratus. Bonam famam ingentesqve opes sibi conciliavit. He had a son called Ogmund, a very hopeful lad; big and sturdy even as a child; who when he was grown of age and come to his full strength, took to sea-roving in summer and served in the king's household in winter. So he earned for himself a good name and great riches. Kormak hade en son, som hette Ögmund. Tidigt blef denne stor och stark. Sä snart han hade åldern och krafterna inne, drog han om sommartiden ut i viking. Men under vintrarne uppehöll han sig hos konung Harald. Han förvärfvade sig godt rykte och stor rikedom. Gerjun. Gerjun er samheiti yfir nokkrar leiðir til loftfirrtra orkuefnaskipta þar sem orka er unnin úr sykrungum („kolvetnum“) með myndun efna á borð við alkóhól og lífrænar sýrur. Orðið er einkum notað um slík efnaskipti meðal örvera, þó svo plöntur geti einnig stundað sambærileg efnaskipti. Einnig er mjólkursýrumyndun í vöðvafrumum samsvarandi ferli og mjólkursýrugerjun margra baktería. Gerjun er mikið notuð í matvælaiðnaði og líftækni, einkum alkohól- og mjólkursýrumyndandi gerjun. Orkuheimtur gerjunar eru að miklum mun lægri en öndunar, og skýrist það af því að orkunám verður eingöngu í sykurrofsferlinu, en orkuvinnslukerfi sítrónsýruhringsins og rafeindaflutningskeðjunnar nýtast hvorug við gerjun. Nafnfræði. Nafnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á orðsifjar, uppruna og merkingu nafna- þá einkum sérnafna. Örnefnafræði er undirgrein nafnfræðinnar sem er fræðigrein sem fæst við örnefni en mannanafnfræði (en) fjallar um mannanöfn. Andkristnihátíð. Andkristnihátíð er árleg þungarokkshátíð sem haldin hefur verið í Reykjavík frá árinu 2000. Engin þungarokkstónleikaröð hefur verið haldin lengur samfellt á Íslandi. Sigurður Harðarson, söngvari Forgarðs helvítis og Aðalbjörn Tryggvason, söngvari Sólstafa, stofnuðu hana. Kristnihátíð hafði verið haldin þá um sumarið og kostaði ríkissjóð mikið fé. Ýmislegt var umdeilt í kring um hana, svo Sigurði og Aðalbirni þótti við hæfi að „svara“ henni með því að halda tónlistarhátíð með þessu nafni. Fyrsta hátíðin var haldin á Gauki á Stöng. Hátíðin hefur tvisvar verið haldin undir öðru nafni, „Sólstöðuhátíð“(2001 og 2006) (enda er hún vanalega haldin nálægt vetrarsólstöðum). Flestar hljómsveitirnar sem spila á henni spila dauðarokk eða svartmálm, þótt pönk, grindcore og ýmislegt annað hafi verið spilað þar líka. Hegri. Hegrar eru vaðfuglar sem tilheyra ættinni "Ardeidae". Þótt hegrar líkist fuglum eins og storkum, kúhegrum og flatnefjum eru þeir frábrugðnir að því leyti að hegrar fljúga með hálsinn dreginn inn. Til skamms tíma voru hegrar flokkaðir sem storkfuglar en í ljósi nýlegra erfðafræðirannsókna eru þeir nú verið flokkaðir sem pelíkanfuglar. Bertálkni. Bertálkni (eða nakintálkni) er heiti snigla sem er undirættbálkur "Nudibranchia". Bertálkni er án kuðungs og hefur óeiginleg tálkn á bakinu. Karamella. Karamella (borið fram sem [karamel-la]) er sælgæti sem unnið með því að sjóða matarsykur og melassa með smjöri og annað veifið er hveiti líka bætt út í. Blandan er svo hituð uns hitinn nær 150 til 160°C (eða um 302–310 °F). Orðsifjar. Orðið „karamella“ er íslenskt tökuorð frá 19. öld sem kemur af danska orðinu "karamel". Talið er að danska orðið sé komið úr franska orðinu "caramel" en það barst til Frakklands úr spænska orðinu "caramelo" („sælgæti“, „karamella“). Spænska orðið er að öllum líkindum ummyndun úr miðaldarlatneska orðinu "cannamella" eða "canna mellis" („reyrsykur“) sem kemur af latnesku orðunum "canna" („lítill reyr“) og "mel" („hunang“). Það eru hins vegar aðrir sem telja orðið komið af "calamellus" („lítill hálmur“, „lítill penni notaður til skrifta“) sem er smækkunarmynd latneska orðsins "calamus" („hálmur“, „reyr“) frá gríska orðinu "kalamos". Notkun orðsins. Orðið kom ekki fram í orðabók Sigfúsar Blöndals, þótt karamellur væru oft auglýstar á þeim árum; en árið 1924 var auglýsing birt í Ægi þar sem sælgæti var talið upp; „"Lakkrís, síróp, hunang, brjóstsykur, karamellur'", konfekt, marsipan".“ Í orðabók Menningarsjóðs er orðinu karamella fylgt með spurningarmerki (?), og merkir það að orðið hafi flokkast undir vont mál sem forðast skyldi. Ekki kom samt fram betra samheiti. Töggur. Orðið „töggur“ er að finna í orðabók Menningarsjóðs og er það skráð sem samheiti við orðið „karamella“. Orðið náði hins vegar aldrei fótfestu í íslensku þótt reynt hafi verið að festa það í málinu. Nýyrði þetta hefur þó fengið vissan sess á Íslandi, því frægar karamellur frá Nóa Síríus nefnast Töggur. Hvítbók. Hvítbók er bók sem ríkisstjórn gefur út til að skýra afstöðu sína til einhvers tiltekins máls eða hvernig eigi að leysa núverandi eða komandi vandamál. Ríkisstjórn getur t.d. ákveðið að gefa út hvítbók um stefnu sína í orkumálum á 21. öld eða um efnahagsstjórn næsta áratugar og hvað beri að gera og hvað beri að varast svo dæmi séu tekin. Hvítbók er skrifað í einu orði. Klášterec nad Ohří. Klášterec nad Ohří (þýska: "Klösterle an der Eger") er borg í Tékklandi. Borgin þekur 53,8 ferkílómetra, íbúar Klášterec nad Ohří eru um 15.854 talsins. Borgin er í 320 metra hæð. Borgarstjóri er Jan Houška. Bjarnarfjarðará. Bjarnarfjarðará er dragá í Bjarnarfirði á Ströndum. Hana mynda Goðdalsá og Sunndalsá. Í Bjarnarfjarðará er sjóbleikjuveiði og einstaka lax gengur í hana. Kristjana Stefánsdóttir. Kristjana Stefánsdóttir (f. 25. maí 1968) er íslensk jasssöngkona sem býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur komið fram með hljómsveitum á borð við Stórsveit Reykjavíkur ásamt því að starfa sem tónlistarstjóri í leikhúsi og tónskáld. Kristjana er fædd og uppalin á Selfossi. Fyrsta geislaplata hennar “Ég verð heima um jólin” kom út árið 1996 (endurútgefin 2006). Á þeirri plötu eru engir ómerkari gestasöngvarar en Páll Óskar Hjálmtýsson og Emilíana Torrini. Síðan þá hefur hún hljóðritað fjölda platna í eigin nafni en eitt stærsta verkefni hennar var að hljóðrita 24 íslensk jazzsönglög á plötunni “Hvar er tunglið”sem kom út árið 2006 og inniheldur tónlist Sigurðar Flosasonar við ljóð Aðalsteins Ásbergs. Hún syngur reglulega með Stórsveit Reykjavíkur og hefur unnið m.a. með stjórnendunum á borð við Daniel Nolgard og Ole Kock Hansen. Kristjana hefur nokkrum sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötur sínar. Hún hefur haldið tónleika víða, m.a. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum. Kristjana hefur í seinni tíð unnið meira með frumsamda tónlist og útsetningar auk þess að starfa við upptökustjórn á söng með vinsælustu söngvurum þjóðarinnar. Kristjana hefur starfað sem tónlistarstjóri og útsetjari fyrir Borgarleikhúsið í nokkur ár. Hún hlaut Grímuverðlauninn ásamt kollegum sínum fyrir sýninguna Jesú litla árið 2009 og var einnig tilnefnd til fyrir tónlist sína og söng í sýningunni. Nám. Kristjana lauk námi í jasssöng frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Hollandi árið 2000, en áður hafði hún lokið söngnámi við Söngskólann í Reykjavík og sótt einkatíma hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Einnig lauk hún námi í söngtækni hjá Cathrine Sadolin í Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn 2005. Sognfjörður. Sognfjörður (n. "Sognefjorden") er lengsti fjörður í Noregi, um 205 km að lengd, og næst lengsti fjörður í heimi. Sognfjörður er í Sogn og Fjarðafylki og skiptist í fjölda minni fjarða sem kvíslast af honum. Dreifing. Dreifing í tölfræði er til marks um mismun breytu eða líkindadreifingar. Dæmi um mælikvarða á dreifingu er dreifni, staðalfrávik og fjórðungsbil. Andstæða dreifingar í tölfræði er miðsækni. Ef dreifing er táknuð með rauntölu sem er 0 ef öll gögn eru eins og hækkar eftir því sem meiri munur er á gögnunum. Talan getur aldrei verið minni en 0. Í flestum tilvikum er sama mælieining notuð við dreifnina og gögnin segja til um. T.a.m. er hægt að notast við: staðalfrávik, fjórðungsbil, spönn, mismun meðaltals (e. "mean difference"), tölugildi fráviks miðgildis (e. "median absolute deviation") og frávik. Gögn. Gögn nefnast upplýsingar sem búið er að safna skipulega saman byggt á reynslu, tilraunum eða athugunum sem geymd eru með einum eða öðrum hætti, oftast í formi talna, orða eða mynda. Eftir atvikum eru gjarnan notaðir mælikvarðar eða breytur til þess að einfalda framsetningu þeirra. Raunvísindi. Raunvísindi teljast vísindi þau er leggja áherslu á náttúrulögmál til útskýringar á alheiminum. Raunvísindi er líka notað til aðgreiningar frá félagsvísindum og hugvísindum. Geitur. Geitur (fræðiheiti: "Capra") er ættkvísl spendýra sem inniheldur allt að níu tegundir, þar á meðal steingeit, skrúfugeit og geit. Reykjarfjörður (Arnarfirði). Reykjarfjörður er stuttur fjörður, sem gengur til suðurs inn úr Arnarfirði og er einn af Suðurfjörðum. Austan við fjörðinn er Trostansfjörður og að vestan Fossfjörður. Fjörðurinn er um tveir kílómetrar á lengd og tæplega einn kílómeter á breidd. Lengi var tvíbýli í firðinum, Neðri- og Fremri-Reykjafjörður, en er nú í eyði. Í firðinum er jarðhiti og sundlaug, Reykjarfjarðarsundlaug. Haraldur Níelsson. Séra Haraldur Níelsson (30. nóvember 1868 – 1928) var prófessor við Háskóla Íslands og um tíma dómkirkjuprestur. Haraldur er þó einna helst þekktur fyrir biblíuþýðingar sínar. Ævi og störf. Haraldur fæddist á Grímsstöðum á Mýrum. Faðir hans var Níels Eyjólfsson og móðir hans var Sigríður Sveinsdóttir húsfreyja, dóttir Sveins prófasts á Staðastað, hálfsystir Hallgríms biskups og frú Elísabetar konu Björns ráðherra. Haraldur lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum og embættisprófi í guðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Eftir að hann kom heim vann hann að biblíuþýðingunni sleitulaust að kalla í 11 ár. Þá var hann kennari við Prestaskólann og vígður prestur Holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Haraldur varð síðar prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, en sagði starfinu lausu vegna veikinda í hálsi og tók aftur við kennslu í Prestaskólanum. Hann var síðan prófessor við Háskóla Íslands til æviloka. 14 síðustu æviárin hélt hann uppi frjálsum guðsþjónustum í Fríkirkjunni í Reykjavík annan hvorn helgan dag, við mikinn orðstír. Haraldur var varaforseti Sálarrannsóknafélags Íslands frá stofnun þess til æviloka. Fyrri kona Haralds var "Bergljót Sigurðardóttir" prófasts Gunnarssonar. Hún lést eftir 15 ára hjónaband. Síðari kona hans var Aðalbjörg Sigurðardóttir. Vatnsfjörður (Ísafjarðardjúpi). Vatnsfjörður er fjörður við Ísafjarðardjúp. Aðeins einn bær er í byggð. Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp, ef marka má Landnámabók, er landnámsjörð sem numin var af Snæbirni Eyvindarsyni sem nam land á milli Mjóafjarðar og Langadals og setti bú sitt í Vatnsfirði. Vatnsfjörður er merkur staður í sögu Íslands, en þar var valdamiðstöð Vatnsfirðinga, einnar voldugustu ættar á Sturlungaöld. Kirkja hefur staðið í Vatnsfirði í aldanna rás og er sú sem stendur þar núna ein af elstu steinsteyptu kirkjum Íslands. Fornleifarannsóknir í Vatnsfirði. Fornleifarannsóknir í Vatnsfirði fara fram á tveimur stöðum í túni bæjarins, annars vegar á 19.-20. aldar minjum á gamla bæjarhólnum og á 10. aldar minjum norðar í túninu. Markmið rannsóknarinnar er að kanna bæði efnahagslega og félagslega stöðu byggðarinnar frá víkingaöld fram til 20. aldar, en almennt er talið að blómaskeið Vatnsfjarðar sem höfuðbóls á Vestfjörðum hafi verið frá landámi fram á 16. öld. 10. aldar minjar. Rannsóknir hófust í Vatnsfirði árið 2003 þegar grafnir voru könnunarskurðir sem sýndu að fornleifar á svæðinu væru vel varðveittar. 10. aldar minjarnar sem fundust norðarlega í túninu, sem voru skáli með langeld í miðjunni, voru fyrstu minjarnar sem voru rannsakaðar, en á svæðinu í kring er búið að grafa upp sjö byggingar, þær eru t.d. smiðja, verkstæði og skepnuhús. Svo gott sem engin jarðvegsþykknun hefur átt sér stað á þessu svæði og þurfti einungis að grafa 15-20 sm niður á 10. aldar veggina. Margir gripir hafa fundist við rannsóknina: gullnisti, beinprjónar og beltissprotar svo eitthvað sé nefnt. Bæjarhóllinn. Rannsóknir á bæjarhólnum hafa sýnt fram á að byggðin var í öndverðu færð sunnar í túnið út af náttúrulegum hjalla í landslaginu. Tekin voru sýni úr neðstu mannvistarlögunum í bæjarhólnum, sem eru á um 1,4 metra dýpi, og gáfu þau aldursgreiningar í kringum árið 1000 og sýnir það að samfelld byggð hefur verið í Vatnsfirði í meira en þúsund ár. Fornleifaskólinn í Vatnsfirði. Fornleifaskólinn hefur verið starfandi hvert sumar í Vatnsfirði síðan árið 2005 og er hann rekinn af Fornleifastofnun Íslands í samstarfi við NABO og Senter for studier i vikingtid og nordiske midelalder, Oslo Universitet. Einnig er fornleifaskólinn 10 eininga námskeið í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Skólinn er starfandi í fjórar vikur á hverju sumri og er ætlaður til þess að þjálfa nemendur bæði í fornleifauppgreftri og skráningu. Sveinbjörn Sigurjónsson. Sveinbjörn Sigurjónsson (5. október 1899 – 26. mars 1990) var skólastjóri, höfundur kennslubóka (t.d. um bragfræði og réttritun). Sveinbjörn var einnig þýðandi og er einna þekktastur fyrir að hafa þýtt alþjóðlegan baráttusöng verkalýðsins, Internasjónalinn. Sveinbjörn fæddist á Efri-Sýrlæk í Villingarholtshreppi. Hann las utanskóla til gagnfræðaskólaprófs í Menntaskólanum í Reykjavík 1918, settist síðan í hinn nafntogaða 4. bekk; sextán skálda bekkinn sem Tómas Guðmundsson hefur gert ódauðlegan í kvæði sínu "Austurstræti". Sveinbjörn stytti sér leið og lauk stúdentsprófi utanskóla 1920. Síðan lauk hann meistaraprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1926. Lokaritgerð hans fjallaði um Sigurð Breiðfjörð, en Sveinbjörn gaf síðar út ljóðasafn hans í vandaðri útgáfu og rakti æviferil skáldsins. Sveinbjörn ferðaðist þá til Þýskalands, Svíþjóðar og Danmerkur, vann við fræðslustörf og kynnti sér skóla og kennslumál. Hann kenndi síðar við Gagnfræðaskólann í Reykjavík (síðar Gagnfræðaskóli Austurbæjar), sem þá nefndist oftast aðeins "Ingimarsskólinn". Hann varð yfirkennari við skólann 1949 og skólastjóri frá 1955, uns hann lét af störfum fyrir aldurssakir. Sveinbjörn var einnig íslenskukennari við Bréfaskóla SÍS 1941, og starfaði þar í rúm fjörtíu ár. Signa. Signa (franska: "Seine", borið fram 'sen(g)') er ein af mestu ám Frakklands. Hún kemur upp í Búrgúnd-héraði, nálægt borginni Dijon, rennur um París og Rúðuborg og til sjávar í Signuflóa, í grennd við hafnarborgina Le Havre. Neðri hluti árinnar er afar lygn og því mikilvæg flutningaleið skipum og fljótabátum. Uppruni nafnsins. Nafnið "Signa" ("Seine") er komið úr latínu, "Sequana", sem aftur er sagt komið úr gallísku "Sicauna", sem talið er merkja "áin helga – (Helgá)" eða "fljótið helga". (Gallíska var keltneskt tungumál, sem talað var í Gallíu, og skiptist í margar mállýskur). Neðsti hluti árinnar, í Normandí, var að fornu kallaður "Rodo" eða "Roto", sem er keltneskt orð sem merkir á. (Árheitið Rhône í Suður-Frakklandi er dregið af þessu sama orði). Þessu til frekari stuðnings má nefna að nafnið Rouen (Rúða eða Rúðuborg) var "Rotomagos" á gallísku, sem merkir „Árvellir“ ("magos" í gallísku var upphaflega grasflöt, völlur, en fékk síðar merkinguna verslunarstaður (kaupvangur – kaupangur), sbr. Rúðu-borg). Signa nálægt Invalides-brúnni í París. Siglingar og brýr. Fjöldi brúa hefur verið byggður yfir Signu, þar af um 36 í París. Meðal þeirra eru "Pont Louis-Philippe" og "Pont Neuf", sú síðarnefnda er frá 1607. Af öðrum brúm má nefna Normandí-brúna (Pont de Normandie), sem er einhver lengsta stagbrú í heimi, og tengir borgirnar Le Havre og Honfleur. Signa er fær hafskipum upp til Rúðuborgar, sem er 120 km frá sjó, og þar gætir flóðs og fjöru. Hægt er að komast á fljótabátum upp til Bar-sur-Seine sem er 560 km frá ósum árinnar. Þar fyrir ofan er hægt að komast um á skemmtibátum. Við París, um 446 km frá ármynninu, er áin aðeins í 24 m hæð, og er hún því afar lygn og auðveld til siglinga. Það nýttu víkingar sér að fornu, og komust á skipum sínum alla leið upp til Parísar. Í dag lítur áin nokkuð öðruvísi en á víkingaöld. Á milli árinnar Signa, og árinnar Oise, liggur skipaskurður rétt norðan og austan við höfuðborg Frakklands, París. Skipaskurðurinn endar hjá borginni Conflans-Sainte-Horine, og fer á leið sinni um borgirnar Bougival, Surenes og Saint Mammés. Nokkur hæðarmunur er á byrjunar og endapunkti skipaskurðarins, og því fylgir margir skipalásar. Annar skipaskurður var byggður sem leyfði skipum að sigla alla leið til Troyes, en hann hefur nú verið yfirgefinn. Meðaldýpt árinnar Signa við París er um átta metrar. Dýptin var áður minni, á 18 öld þegar að lítill skurður í samfelldu streymi var haldið í skefjum með sandbönkum. Í dag er dýptinni stjórnað með manngerðum bökkum þar sem hvor hliðin fyrir sig er full af vatni. Flæði árinnar er þó lítil, um nokkra fermetra á sekúndu, en mun hærra flæði er mögulegt í flóðum. Sérstök lón fyrir ofan París hjálpa að halda jöfnu streymi árinnar í gegnum borgina, en tryggja þó ekki að aukning verði í árfarveginum þegar flóð verða. Mjög stórvægilegt flóð var í ánni Signa í Janúar 1910. Í flóðinu flæddi yfir borgina, í allt að 8.62 metra sjávarmál. Áin flæddi aftur árin 1924, 1955, 1982 og 1999-2000. Vatnasvið árinnar er 78.910 ferkílómetrar. 2% af vatnasviðinu er skóglendi, og 78% ræktað land. Nokkrar ár yfir 100.000 íbúa eru á svæðinu, auk Parísar, en þær eru Le Havre, Rouen og Rheims. Saga. Sagnir eru um að eftir að Jóhanna af Örk var brennd á báli árið 1431, hafi ösku hennar verið dreift í Signu. Napóleon, sem dó 1821, óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að verða grafinn á bökkum Signu, en eftir því var ekki farið. Árið 1991 voru Signubakkar í París (Vinstri bakkinn – "Rive Gauche" og Hægri bakkinn – "Rive Droite") settir á heimsminjaskrá UNESCO. Sjá vefsíðu UNESCO — Sjálfstæðisflokkur Alaska. Sjálfstæðisflokkur Alaska er bandarískur stjórnmálaflokkur sem starfar í Alaska. Helsta stefna flokksins er að fá sjálfstæði frá Bandaríkjunum, einnig eru margir innan flokksins sem vilja ganga inn í Kanada. Flokkurinn er stærsti þriðja flokks (enska: third party) flokkur sem starfar í Bandaríkjunum. Hann fékk 39% atkvæða í ríkisstjórnarkosningunum árið 1990 sem er mesta fylgi sem flokkurinn hefur fengið. Síðan þá hefur fylgi flokksins minnkað mikið og í seinustu ríkisstjórnarkosningum fékk flokkurinn minna en 1% atkvæða þó að staða flokksins sé mjög sterk í einstökum borgum og sveitarfélögum. Pilsfaldakapítalismi. Pilsfaldakapítalismi er sá kapítalismi nefndur í hálfkæringi sem starfar alfarið undir merkjum markaðarins þegar vel árar, og er að mestu á móti öllum ríkisútgjöldum, en vill svo skyndilega að ríkið komi hlaupandi og hjálpi þegar illa árar. Slíkur kapítalismi er ekki samkvæmur sjálfum sér, samkvæmt þeim sem taka sér hugtakið í munn. Pilsfaldakapítalisminn er kenndur við pilsfaldinn vegna þess að börn leita oft í skjól móður sinnar þegar eitthvað kemur upp á, og þannig er eins og þeir kapítalistar sæki í skjól ríkisins þegar það hentar þeim. Dalbrú. Dalbrú (dælbrú eða svifbrú) er brú með (oftast) stutt haf milli bila, þ.e. hefur mörg brúarhol sem eru mynduð af bogalaga hlöðum. Dalbrýr liggja oft yfir dal eða (rennandi) vatn og stundum hvortveggja. Dalbrýr voru oft hlaðnar áður fyrr, en eru nú til dags oftast reistar úr málmi. Varast ber að rugla saman dalbrú og vatnsveitubrú, þar er hið síðarnefnda er aðeins til að flytja vatn. Hótel Bjarkalundur. Hótel Bjarkalundur er sumarhótel í Berufirði í Reykhólasveit. Hótel Bjarkalundur er elsta sumarhótel landsins en menn stoppuðu þar fyrir meira en 60 árum síðan á leiðinni milli Vestfjarða og Reykjavíkur. Yfir hótelinu tróna Vaðalfjöll og allt í kring er birkikjarr eins og víðar í Reykhólasveitinni. Philipskúrfan. Philipskúrfan er hugtak í hagfræði um samband atvinnuleysis og verðbólgu. Í stuttu máli mætti segja að hægt sé að lesa út úr henni að það kosti aukna verðbólgu þegar atvinnuleysi minnkar. Philipskúrfan er kennd við Nýsjálendinginn William Phillips sem setti hana fram árið 1958. Grand rokk. Grand rokk var krá og skemmtistaður við Smiðjustíg í Reykjavík, en var áður við Klapparstíg. Staðurinn er meðal annars þekktur fyrir skákmenningu og sem vettvangur margvíslegra rokktónleika til skamms tíma. Innvortis. Innvortis er íslensk pönk/rokkhljómsveit frá Húsavík sem var stofnuð árið 1996 af Arngrími Arnarsyni, Björgvini Sigurðssyni, Brynjúlfi Sigurðssyni og Snæbirni Ragnarssyni. Hlómsveitin gaf út sinn fyrsta geisladisk, kemur & fer, árið 1998 en síðan þá hafa þeir verið lítið starfandi. Árið 1999 tók Eggert Hilmarsson við af Brynjúlfi. Árið 2003 tók Daníel Viðar Elíasson við af Arngrími og Flosi Þorgeirsson tók við af Björgvini og árið 2005 tók Baldur Ragnarsson við af Flosa og þannig hafa þeir starfað síðan. Árið 2012 gáfu þeir svo út geisladiskinn Reykjavík er ömurleg eftir að hafa verið lítið virkir í nokkur ár. Forgarður helvítis. Forgarður Helvítis er íslensk Grindcore-pönksveit sem var stofnuð árið 1990. Hljómsveitin hefur gefið út eina breiðskífu og nokkrar demó upptökur. Efni frá Forgarðinum hefur komið út á fjölmörgum safn-plötum/-diskum/-spólum víðsvegar um heiminn. Sagan. Forgarður Helvítis var stofnuð árið 1990 af frændunum Vernharði og Sigurgrími. Innblásnir af grófustu framvarðasveitum rokksins á þessum tíma fengu þeir til liðs við sig frændur sína Magnús trommuleikara og Sigurð, Sigga Pönk, textasmið. Auk þess var Kári fenginn sem bassaleikari. Fyrstu tónleikar Forgarðsins voru haldnir í kjallara Fjölbrautaskóla Suðurlands. Tónleikahald hefur löngum verið fastur en óreglulegur liður í starfsemi sveitarinnar en Sigurður Pönkari hefur í gegn um tíðina verið ötull skipuleggjari neðanjarðar rokk tónleika. Þegar fram liðu stundir ílendist Kári bassaleikari erlendis svo fenginn var liðsauki í Magnúsi Pálssyni, sem reyndist einnig tilheyra frændgarði Garðverja. Íslensk nýsköpun. Nýsköpun í sinni einföldustu mynd er að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Á þetta jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Nýsköpun er ekki það sama og ný hugmynd heldur er aðeins talað um nýsköpun þegar hugmyndinni eða endurbótinni hefur verið hrint í framkvæmd. Skilgreiningar. Frumkvöðull er sá sem stofnar fyrirtæki til að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd. Frumkvöðull er sá einstaklingur sem er ekki aðeins tilbúinn í að taka fjárhagslega áhættu heldur einnig að vera tilbúinn í að fórna sér tímalega séð. Frumkvöðull þarf því að vera tilbúinn í að eyða 5 til 7 árum í erfiða uppbyggingu á sínu sprotafyrirtæki og taka þar með fjárhagslega áhættu í leiðinni. Sprotafyrirtæki er fyrirtæki sem einn eða fleiri frumkvöðlar stofna til. Einnig geta þessi sprotafyrirtæki sprottið upp úr rannsókna- eða þróunarverkefni háskóla, rannsóknarstofnana, annarra fyrirtækja. Nýsköpun. Nýsköpun er að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Á þetta jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu og markaðssetningar. Nýsköpun er ekki það sama og ný hugmynd heldur er aðeins talað um nýsköpun þegar hugmyndinni eða endurbótinni hefur verið hrint í framkvæmd. Væntigildi. Væntigildi er það gildi sem áætlað er að slembibreyta muni taka. The Tough Alliance. The Tough Alliance er sænsk raftónlistar-hljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð árið 2001. Dreifni. Dreifni er mælikvarði í stærðfræði og tölfræði á dreifingu slembibreytu, líkindadreifingar eða úrtaks, meðaltal fjarlægðar (eða tölugildis) mögulegra gilda þess og væntigildisins. Meðaltal er mælikvarði á miðsækni eða "staðsetningu" dreifingar en dreifni, hins vegar, lýsir því hversu þétt gildi hennar "þyrpast" saman. Mælieining dreifninnar (stundum nefnd dreifitala) er sú sama og það sem verið er að mæla, í öðru veldi. Kvaðratrótin af dreifninni er nefnt staðalfrávik og er mikið notuð mælieining lýsandi tölfræði. Industria. Industria var hugbúnaðarfyrirtæki sem vann að nýsköpun fyrir sjónvarps- og fjarskiptamarkaðinn. Fyrirtækið breytti um nafn árið 2010 í Raflagnir og ráðgjöf ehf og var fyrirtækið tekið til gjaldþrotaskipta 2012. Hugbúnaður þess Zignal var skilið frá fyrirtækinu og rekið undir nafninu Medizza sem svo varð að OZ árið 2013. Stofnun. Industria var stofnað árið 2003 af frændunum Guðjóni Má Guðjónsyni, einnig þekktum sem Guðjóni í OZ og Erlingi Frey Gumundarsyni. Fyrirtækið teygði sig langt á nokkrum árum og árið 2007 var fyrirtækið með starfsemi á Írlandi, í Búlgaríu og Kína. Á Industria að hafa haft nánast markaðsráðandi stöðu á Írlandi í ljósleiðaratækni árið 2007. Viðurkenningar og áhrif. Árið 2007 fékk Industria útnefningu viðskiptatímaritsins CNBC Europe sem eitt af fimmtíu framsæknustu fyrirtækjum Evrópu. Nafnabreyting og Gjaldþrot. Árið 2010 var nafn Industria breytt í Raflagnir og ráðgjöf ehf og 5. desember 2012 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar skiptum var lokið var ekkert fundið upp í lýstar kröfur upp á rúmlega 1.100 milljónir krónur. Guðjón Már sagði sig úr stjórn félagsins í maí 2011. Skráður eigandi félagsins var EG Capital sem var að fullu í eigu Erlings Freys DataMarket ehf. DataMarket ehf er íslenskt sprotafyrirtæki. Einar Kristjánsson. Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli (26. október 1911 – 6. júlí 1996) var rithöfundur og bóndi, fæddur á Hermundarfelli í Þistilfirði og kenndi sig oft við þann bæ. Einar var bóndi á Hermundarfelli og Hagalandi og starfaði síðan sem húsvörður við Barnaskólann á Akureyri. Ritstörfum sinnti hann með fram fullu starfi sem húsvörður. Einar var hagyrðingur góður og lika mikill músíkant og lék á tvöfalda harmónikku inn á hljómplötu. Lengi stjórnaði hann vinsælum útvarpsþætti, "Mér eru fornu minnin kær". Einar er jafnan nefndur með Akureyrarskáldunum Rósberg Snædal og Heiðreki Guðmundssyni. Kona Einars var Guðrún Kristjánsdóttir (f. 16. ágúst 1917), og gengu þau í hjónaband 11. september 1937. Þau hjónin eignuðust fimm börn. Helstu verk. „Æviár mín hafa liðið með óðfluga hraða, að mér finnst. Vera má að það sé vegna þess hversu tilveran hefur verið mér veitul á lífsgæði þau, sem mestu máli skipta, en til þeirra telst hamingja í hjúskapar- og fjölskyldulífinu. (...) Þó að mín skráða ævisaga sé ekki misfelllulaus af minni hálfu, þykir mér vænt um hana. Ég horfi með eftirvæntingu til þess að lifa þá ævisögu, sem ég á enn óskráða, og mun aldrei kvíða endalokum hennar.“ ("Lengi væntir vonin 1981") Tölvubankinn. Tölvubankinn er eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki Íslands, stofnað árið 1981. Afmæli. Afmæli er dagurinn sem heldur upp á fæðingu einhvers, eða er bara dagur sem er til minningar um mikilvægan atburð. Yfirleitt er haldið upp á afmæli með veislu. Staðalfrávik. Graf sem sýnir staðalfrávik σ frá falli sem nefnt er μ. Staðalfrávik er í líkindafræði og tölfræði mæling dreifingar í safni gilda, t.d. slembibreytu, líkindadreifingar, þýðis eða gagnasafns. Staðalfrávik er skilgreint sem kvaðratrót af dreifni en dreifni er meðaltal kvaðrata frávika frá meðaltali gilda safnsins. Þetta felur það í sér að til þess að reikna staðalfrávikið þarf að gera eftirfarandi: reikna meðaltalið, finna frávik allra gilda frá meðaltalinu og hefja þau öll í annað veldi, reikna meðaltal þessara kvaðrata og draga kvaðratrót af því meðaltali. Til eru ýmsar aðrar leiðir til þess að finna staðalfrávikið. Staðalfrávik er jafnan táknað með gríska bókstafnum σ (sigma). Sónatína. Sónatína kallast stutt eða einföld sónata. Sónatína fer oftast eftir eftirfarandi einkennum; hún er stutt, tæknilega einföld og svo eru sónatínur ekki alvarleg heldur oft léttar, en þetta er hins vegar breytilegt. Sónata. Sónata er tónsmíð ætluð hljóðfæri (oft einleikshljóðfæri með undirleik), sem skiptist venjulega í þrjá eða fjóra kafla. Orðsifjar. Orðið „sónata“ er nýtt í íslensku og kom upprunalega sem tökuorð frá danska orðinu "sonate", sem kemur úr ítalska orðinu "sonata" („hljómað“) en það er kvenkyns lýsingarháttur þátíðar sagnarinnar "suonare" („að hljóma“) frá latneska orðinu "sono" („ég hljóma“). Múltuber. Múltuber (moltuber) (fræðiheiti: "Rubus chamaemorus") er villt berjategund. Múltuberjajurtin er lágvaxin jurt og vex oftast í rökum jarðvegi. Vendée Globe. Vendée Globe er einmenningssiglingakeppni umhverfis jörðina án hlés og án aðstoðar. Keppnin var stofnuð af franska siglingamanninum Philippe Jeantot árið 1989 og hefur verið haldin á fjögurra ára fresti frá árinu 1992. Keppnin er af mörgum talin erfiðasta siglingakeppni heims. Tveir þekktir siglingamenn týndu lífinu í keppnunum 1992 og 1996 sem leiddi til þess að strangari öryggisreglur voru settar fyrir keppnina árið 2000. Síðustu ár hafa um tuttugu skútur hafið keppni en tæplega helmingur hættir af ýmsum ástæðum. Í keppninni er einungis heimilt að leggja að landi ef búnaður skaddast eða bilar, og siglingamaðurinn verður að sjá sjálfur um viðgerðir. Skúturnar þurfa að uppfylla skilyrði Open 60-flokksins sem gefa töluvert svigrúm fyrir ólíka hönnun en tilgreina t.d. hámarkslengd (60 fet) og gera ýmsar kröfur um stöðugleika og öryggi. Rásmark og endamark eru bæði í sjávarþorpinu Les Sables-d'Olonne í Vendée-umdæmi í Frakklandi. Siglingaleiðin fylgir klipparaleiðinni suður Atlantshafið að Góðrarvonarhöfða og síðan réttsælis umhverfis Suðurskautslandið með Leeuwin-höfða og Hornhöfða á bakborða. Keppnin stendur venjulega frá nóvember fram í febrúar árið eftir og miðast við að keppendur sigli um Suður-Kyrrahaf að sumarlagi. Hraðametið á sigurvegari síðustu keppni, Frakkinn François Gabart sem fór leiðina á 78 dögum og rúmum 2 klukkustundum. Þarsíðasta keppni var ræst 9. nóvember 2008. Þrjátíu keppendur hófu keppni en nítján heltust úr lestinni á leiðinni af ýmsum ástæðum. Sigurvegari keppninnar, Michel Desjoyeaux, kom í land 1. febrúar 2009. Næsta keppni hófst 9. nóvember 2012 með tuttugu þátttakendum. Sigurvegarinn, François Gabart, kom í land á skútu sinni "Macif" 27. janúar 2013. Keilusnið. Hérna sést hvernig plan sem sker keilu myndar mismunandi keilusnið (blágrænu ferlarnir sem myndast þar sem planið sker keiluna) eftir því hvar planið og keilan skerast. Á fyrstu myndinni er sýnt hvernig fleygbogi myndast, næst er það sporbaugur og hringur, að lokum er það breiðbogi. formula_1 þar sem "A", "B", "C", "D", "E" og "F" eru rauntölur, "A", "B" og "C" eru ekki allar 0 en "D", "E" og "F" geta verið 0. Lífhreinsun. Lífhreinsun er líftækni þar sem örverum, sveppum, plöntum eða ensímum þeirra er beitt til að hreinsa upp umhverfismengun. Meðal lífhreinsunaraðferða má nefna hvötun á niðurbroti olíumengunar af völdum náttúrlegra jarðvegsörvera með áburðargjöf, og sértækt niðurbrot á þrávirkum mengunarefnum á borð við fjölklóruð bífenýl með sérvöldum bakteríum, erfðabreyttum eða náttúrlegum. Lífhreinsun hefur verið notuð í marga áratugi — til dæmis skolphreinsun. Nýverið hefur lífhreinsun fengið nýja merkingu og nýjar líftæknilegar aðferðir verið notaðar. Örverurnar þurfa að vera virkar og hafa næga næringu til þess að lífhreinsun geti átt sér stað. Þetta er gert með ýmsum aðferðum,til dæmis að búa til kjöraðstæður fyrir örverurnar á þessum menguðu stöðum. Margar aðferðir eru notaðar til þess að hreinsa umhverfi, en af hverju er lífhreinsun notuð? Aðferðir knúnar vélum eru oft mjög dýrar og afleiðingin getur verið enn meiri samsöfnun á eiturefnum. Flestar lífhreinsiaðferðir hreinsa flókin eiturefni í koltvísýring, klór, vatn og einföld lífræn efni, þ.e. mjög umhverfisvæn efni. Eftir að líftækni var notuð til lífhreinsunar þá hafa komið fram önnur svið í gegnum þessa tækni. Nefna má greiningar á mengandi efnum, endursköpun á vistkerfum og aukin þekking á sjúkdómum af völdum eiturefna. Lífhreinsun við mengunarslys var fyrst notuð árið 1989 þegar olíuskipið Exxon Valdez fórst í Alaska og fékkst þar gífurlega mikilvæg reynsla af lífhreinsun. Þannig má ætla að fyrir öll náttúrleg, lífræn mengunarefni megi finna örveru sem er fær um að brjóta þau niður og mynda úr þeim skaðlausar afurðir. Tvær gerðir lífhreinsunar. Þá er mengunin brotin niður þar sem hún varð. Þetta er oftast ódýrasta lausnin en getur verið erfitt að stjórna ferlinu og oft erum við einnig að sleppa framandi lífverum í umhverfið Dæmi um þessa aðferð er sáning baktería í mengað svæði. Þegar það er gert þá þurfa viðkomandi bakteríur að geta brotið niður eða aðskilið mengunarefnin hratt og að fullu. Einnig þurfa þær að vaxa og dafna í umhverfinu sem mengunin varð, þær mega ekki mynda sterka lykt eða eitraða gufu og þær mega ekki vera sjúkdómsvaldandi. Þá er mengununni safnað saman og mengunarefnin eru brotin niður í gerjunartanki. Þetta getur verið erfið og dýr aðferð en með henni er hægt að hafa stjórn á bæði umhverfinu og ferlinu. Póseidon. Stytta af Póseidoni í Kaupmannahöfn. Póseidon (á forngrísku: Ποσειδῶν) var óútreiknanlegur sjávarguð Grikkja sem rak þrífork í óvini sína. Hann gat æst upp hafið og lægt öldur að vild og var talinn valda jarðskjálftum. Samsvarandi vatna-/sjávarguðir í etrúskri og rómverskri goðafræði voru Nethuns og Neptúnus. Rani. Rani er útlimur/líffæri á fílum sem er nýttur meðal annars til að taka upp hluti en ekki til að drekka vatn eins og margir halda, en það gera fílar með munninum. Páll Pálsson (amtskrifari). Páll Pálsson (9. mars 1806 – 20. mars 1877) var amtskrifari, en er þó helst minnst fyrir að hafa safnað bókum og fyrir að vera einn fyrsti bókbindari á Íslandi. Leitaði hann jafnvel uppi bókasöfn þar sem hann vissi að væru bækur sem lágu undir skemmdum og gerði við og tók oft á tíðum enga borgun fyrir. Hann skrifaði líka upp bækur og safnaði fróðleik sjálfur. Páll fæddist á Lambastöðum á Seltjarnarnesi og var sonur Páls sýslumanns á Hallfreðarstöðum (d. 1815),og Malenu, dóttir Jens Örums verslunarmanns. Páll lærði skólalærdóm hjá Steingrími biskupi, þá prófasti í Odda, og varð stúdent frá honum 1823, þá 17 vetra, með lofsorði fyrir greind, siðprýði og iðni. Hann fór síðan vestur að Stapa til Bjarna Amtmanns Þorsteinssonar (1825 eða 1826) og gerðist skrifari hjá honum, og flutti með honum þaðan 1854 til Reykjavíkur. Páll var á vist með honum jafnan síðan og var trúnaðarmaður hans og aðstoðarmaður í nær 50 ár. Sýndareinkanet. Sýndareinkanet eða VPN-net (á ensku "virtual private network", skammstafað sem "VPN") er tölvunet sem er eftirlíking á Internetinu af einkaneti. Notast er við dulritun til að forðast hlerun. Carmageddon. Carmageddon er tölvuleikur gefinn út á Playstation árið 1999. Leikurinn var fyrsti leikurinn í leikjaseríu sem var þekkt fyrir mikið ofbeldi. Hann var byggður á myndinni "Death Race 2000" frá árinu 1975. Lýsing. Í Carmageddon keppir keppandinn á móti öðrum tölvukeyrðum keppendundum á stöðum eins og borgum, iðnaðarsvæðum, námum og fleirum stöðum. Keppandinn hefur ákveðið mikinn tíma til að klára keppnina en meiri tími fæst með því að skemma bíla keppenda, keyra á bónusa eða keyra yfir uppvakninga. Keppnir eru kláraðar með því að annað hvort klára keppnina eins og í venjulegum bílakappakstursleikjum, eyðileggja bíla hinna keppendanna eða keyra yfir alla uppvakningana í borðinu - á undan öllum öðrum. Lok seríunar. SCi hafði upprunalega planað að leikurinn Carmageddon 4 kæmi út seint á árinu 2005 en hætti svo við það. Litlar sem engar fréttir voru um leikinn. Venusargildra. Venusargildra (eða flugugrípur) (fræðiheiti: "Dionaea muscipula") er kjötætuplanta sem grípur um og meltir flugur og kóngulær (en einnig önnur smádýr s.s. smáfroska). Lauf venusargildrunnar, sem eru samhverf, minna einna helst á litla kjafta. Inn í hverjum kjafti, sem helst opin þegar plantan er á veiðum, eru agnarsmá gikkhár sem loka laufkjaftinum þegar lífvera snertir við þeim. Á jöðrum laufanna eru broddhár, og þegar laufin læsa sig um dýrið, virka þau líkt og rimlar og halda því innilokuðu. Jörundur Brynjólfsson. Jörundur Brynjólfsson (f. á Starmýri í Álftafirði eystra 21. febrúar 1884, d. 3. desember 1979 í Reykjavík) var íslenskur kennari, bóndi, verkalýðsforingi og þingmaður. Ævi. Jörundur var sonur Brynjólfs Jónssonar, bónda, og Guðleifar Guðmundsdóttur. Hann hlaut kennslu á heimili en lauk búfræðiprófi við Búnaðarskólann á Hvanneyri árið 1906 eftir tveggja ára nám, þá 22 ára gamall. Jörundur starfaði sem kennari í Nesjahreppi í eitt ár 1907—8 og lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1909. Hann stundaði nám í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn í um tíu mánuði, árin 1911 og 1912. Jörundur var ráðinn kennari við barnaskólann í Reykjavík í áratug, frá 1909 til 1919 en fór utan til náms eins og komið hefur fram. Jörundur sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1916—1919 fyrir hönd Samtaka verkamanna í Reykjavík og sömuleiðis var hann kosinn fyrsti þingmaður nýstofnaðs Alþýðuflokks og sat hann á Alþingi sama tímabil. Jörundur hneigðist frekar til sveitarinnar og gerðist bóndi í Múla í Biskupstungum en þar var hann í þrjú ár, 1919—1922. Þá flutti hann sig um set til Skálholts og var þar í 26 ár, 1922—1948. Þá sat hann í framboði fyrir annan flokk, Framsóknarflokkinn og var kosinn á þing í alþingiskosningunum 1923. Þá sat hann samfellt á þingi sem þingmaður Framsóknarflokksins í 33 ár til ársins 1956. Hann var forseti neðri deildar Alþingis árin 1931-42 og svo 1942-5, og forseti sameinaðs þings Loks bjó hann í Kaldaðarnesi í Flóa 1948—1963, hann andaðist í Reykjavík 95 ára að aldri. Grand Theft Auto III. Grand Theft Auto III er leikur í Grand Theft Auto seríunni. Leikurinn var gefinn út í október árið 2001 fyrir Playstation 2 af Rockstar Games. Hann var framhald af Grand Theft Auto 2 og á undan Grand Theft Auto Vice City. Hann var líka vinsælasti tölvuleikurinn árið 2001. Lýsing. Í leiknum fer maður í fótspor ónafngreinds glæpamanns sem er svikinn af kærustu sinni og þarf að vinna sig upp til að ná kærustunni. Maður getur verið frjáls í borginni og gert hliðar störf, framið glæpi og sinna störfum. Leikurinn gerist í borg sem heitir Liberty City og er skálduð stórborg. Allan tímann í leiknum heyrist aðalpersónan aldrei tala. Í leiknum er hann aldrei kallaður neinu nafni en í öðrum leik, Grand Theft Auto San Andreas er hann kallaður Claude en þá er hann ekki spilanleg persóna. Torben Grael. Torben Schmidt Grael (f. 22. júlí 1960 í São Paulo) er brasilískur siglingamaður af dönskum ættum. Hann er sá Brasilíumaður sem hlotið hefur flest verðlaun á Ólympíuleikum, alls fimm verðlaun; tvö gull, eitt silfur og tvö brons. Hann er líka sá siglingamaður sem flest verðlaun hefur hlotið á leikunum. Hann hefur auk þess tekið þátt í fjölda heimsmeistarakeppna í siglingum, og nokkrum sinnum í Ameríkubikarnum, síðast sem leikstjórnandi "Luna Rossa Challenge" árið 2007. Hann var skipstjóri á "Brasil1" sem lenti í 3. sæti í Volvo Ocean Race 2005-2006 og var skipstjóri á "Ericsson 4" sem sigraði keppnina 2008/09. Aramíð. Aramíð eru flokkur hitaþolinna og sterkra gervitrefja sem eru meðal annars notaðar í flugvélar, skotheld vesti og báta. Efnið er líka mikið notað í staðinn fyrir asbest. Efnið var uppgötvað af fyrirtækinu DuPont á 3. áratug 20. aldar en það hóf framleiðslu á því á 7. áratugnum undir heitinu Nomex. Þekktasta vörumerki aramíða er Kevlar sem DuPont setti fyrst á markað árið 1973. Nafnið er stytting á "arómatískt pólýamíð" eða angandi fjölamíð. Glertrefjar. Glertrefjar eða trefjagler er efni sem gert er úr hárfínum trefjum úr gleri. Það er einkum notað sem styrkingarefni fyrir ýmsar tegundir fjölliða eins og t.d. í trefjaplasti. Eitt form glertrefja er glerull. Tæknin til að búa til glertrefjaflóka hefur verið þekkt í þúsundir ára, en framleiðsla glertrefja í stórum stíl í formi glerþráða hófst fyrst á 4. áratug 20. aldar. VELUX 5 Oceans Race. Upplýsingaskilti í Varsjá með siglingaleiðinni 2006-2007. VELUX 5 Oceans Race (áður Around Alone og þar áður BOC Challenge) er einmenningssiglingakeppni umhverfis jörðina. Keppnin heitir eftir aðalstyrktaraðila hennar frá 2006, danska fyrirtækinu Velux. Keppt er í 3-5 löngum leggjum (öfugt við Vendée Globe þar sem siglt er án hlés) og heildarvegalengd keppninnar árið 2006 var 30.140 sjómílur. Keppnin er haldin á fjögurra ára fresti. Bátarnir verða að uppfylla skilyrði skútuflokkanna "Open 50" eða "Open 60" sem eru einbola flokkar 50 og 60 feta langra skúta. BOC Challenge var fyrst haldin árið 1982 með styrk frá breska fyrirtækinu BOC Gases. Þetta var önnur keppnin af þessu tagi sem haldin hafði verið frá upphafi. Sú fyrsta var hin fræga Sunday Times Golden Globe Race 1968-69 þar sem aðeins einn keppandi lauk keppni. Prótínmengi. Prótínmengi er safn allra þeirra prótína sem til staðar eru í frumu eða vef hverju sinni og samsvarar því öllum tjáðum genaafurðum hennar, utan þeirra sem aðeins eru tjáð á formi RNA. Prótínmengið er þannig ólíkt erfðamenginu að það er breytilegt milli vefja og tekur breytingum með tíma, eftir því sem lífveran lagar sig að umhverfi sínu. Með greiningu á prótínmengjum lífveru eða einstakra vefja hennar má þannig fá yfirlitsmynd af ástandi lífverunnar og kortleggja aðlögunarferli hennar við hvers kyns áreiti án þess að gera sér fyrir fram mótaðar hugmyndir um það hvaða lífefnafræðileg ferli áreitið hefur áhrif á. Þessir eiginleikar gera prótínmengjagreiningu að vænlegum og öflugum kosti þegar ráðist er í að kanna hvaða lífefnafræðileg ferli taka breytingum sem svörun við t.d. umhverfis- eða fæðubreytingum. Við sumar frumulíffræðilegar eða lífefnafræðilegar rannsóknir getur verið hentugt að skipta prótínmenginu upp í undirmengi eftir staðsetningu eða virkni. Þannig má tala til dæmis um prótínmengi frumuhimnunnar eða Golgikerfisins, eða um kínasammengið eða metallópróteasammengið, svo dæmi séu tekin. Saga. Sjóngerving prótínmengja í hárri upplausn varð möguleg með þróun tvívíðrar rafdráttartækni á 7. og 8. áratug tuttugustu aldar, en Patrick H. O'Farrell lýsti slíkri aðferð árið 1975 sem notuð hefur verið síðan með litlum breytingum. Í fyrstu var aðferðin þó ekki mikið notuð á mjög flóknar prótínblöndur á borð við prótínmengi, því hún þótti erfið og flókin í framkvæmd. Einnig var erfitt að bera kennsl á einstök prótín í blöndunni og var það helst gert með ónæmisþrykki eða með Edman-raðgreiningu. Árið 1993 var peptíðmassafingraförun með MALDI-TOF massagreiningu þróuð samtímis af nokkrum hópum vísindamanna. Grunninn að þeirri tækni lagði Koichi Tanaka árið 1987Nóbelsverðlaununum í efnafræði 2002. Peptíðmassafingraförun einfaldar kennigreiningu prótína til mikilla muna og gerir vísindamönnum kleift að kennigreina hundruð prótína á fljótlegan og öruggan hátt. Það var svo Marc Wilkins sem bjó til hugtakið „prótínmengi“ (e. "proteome") um miðjan 10. áratuginn. Prótínmengjagreining. Öfugt við kjarnsýrur, þá eru prótín fremur misleit hvað eðlis- og efnafræðilega eiginleika áhrærir. Það kemur því ekki á óvart að fræði sem snúast um „kerfisbundna kennigreiningu prótína hvað varðar byggingu þeirra, virkni og samskipti við aðrar sameindir“ skuli hafa í verkfærakistu sinni hin misleitustu tól sem mörg hver eru í örri þróun. Meðal áhugaverðra nýjunga mætti nefna afkastamiklar, gelfríar aðferðir svo sem súluskiljun í vökvafasa sem fylgt er eftir með tvímassagreiningu (LC-MS/MS), massagreiningu með yfirborðs-örvaðri laserjónun og -ásogi (SELDI) eða prótínflögur. Hins vegar, þá er það hið „klassíska“ ferli sem samanstendur af tvívíðum rafdrætti prótínmengis og kennigreiningu einstakra prótína með massagreiningu á trypsín niðurbrotspeptíðum þeirra sem til þessa hefur reynst afkastamesta og áreiðanlegasta ferlið til prótínmengjagreiningar. Hér má helst þakka því að aðferðin er í eðli sínu tiltölulega einföld, gefur afbragðs góða upplausn (greina má allt upp í þúsundir prótína á sama geli), og nákvæma massaákvörðun peptíða sem aftur leiðir til tiltölulega öruggrar greiningar Patrick H. O'Farrell. Patrick H. O'Farrell er prófessor í lífefnafræði við Kaliforníuháskóla í San Francisco þar sem hann stundar rannsóknir á ósérhæfða ónæmiskerfinu í bananaflugum. Hann er þó þekktastur fyrir að hafa þróað tvívíðan rafdrátt á prótínum, en það gerði hann á námsárum sínum við Háskólann í Boulder í Colorado á 8. áratugi tuttugustu aldar. Heimildir. O'Farrell, Patrick H. Portsmouth. Portsmouth er borg í sýslunni Hampshire á suðurströnd Englands. Borgin stendur á eyjunni Portsea Island og telur tæplega 450 þúsund íbúa sem gerir hana að 11. stærstu borg landsins. Portsmouth var öldum saman mikilvæg hafnarborg og þar er elsta þurrkví heims. IBM System/3X. IBM System/3X var miðtölvulína frá IBM sem var framleidd frá 1975 þar til 400-vélar tóku við árið 1988. Línan tók við af gataspjaldavélinni 3 og var markaðssett sem bókhaldsvélar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þessar tölvur litu út eins og tæknivætt skrifborð og tóku svipað rými. Þær voru búnar skjá, hörðum diski og notuðu átta tommu disklinga sem ytri gagnageymslu í stað gataspjalda og segulbanda. Tölvurnar notuðu forritunarmálið IBM RPG ("Report Program Generator") sem var upphaflega þróað fyrir System/3. Á System/32 vélinni var stýrikerfið kallað "System Control Program" en á System/34 og System/36-vélunum var System Support Program notað. Með System/38 kom Control Program Facility eða CPF sem var mun öflugra en SSP. IBM Personal Computer. IBM Personal Computer, betur þekkt sem IBM PC, var einkatölva sem IBM setti á markað 12. ágúst 1981 og náði fljótt gríðarlegum vinsældum. Tölvan var arftaki fartölvunnar IBM 5100 og var upphaflega kölluð IBM 5150 þótt hún væri í raun tæknilega óskyld þeirri tölvu. Hún var tilraun IBM til að komast inn á ört vaxandi örtölvumarkaðinn þar sem voru ríkjandi tölvur á borð við Commodore PET, Atari 800, Apple II, TRS-80 og ýmsar gerðir sem búnar voru stýrikerfinu M. Vegna þess hve mikið lá á að koma tölvunni á markað var ákveðið að notast við tilbúna íhluti frá öðrum framleiðendum í stað þess að þróa nýja hjá IBM. Tölvan var með nýjum átta bita 8088 örgjörva frá Intel auk átta bita gagnabrautar og búin stýrikerfinu IBM PC-DOS sem IBM þróaði í samstarfi við Microsoft og var í raun sérmerkt útgáfa MS-DOS. Tölvan var hönnuð af hópi verkfræðinga undir stjórn Don Estridge í Boca Raton í Flórída. Upphaflega áætlunin, að markaðssetja tölvuna sem heimilistölvu, reyndist mistök og tölvan náði fyrst og fremst vinsældum sem skrifstofuvél. IBM PC-vélar náðu gríðarlegum vinsældum og olli einkatölvubyltingu hjá fyrirtækjum þar sem áður voru ríkjandi stórtölvur og meðalstórar bókhaldsvélar. IBM PC varð þannig þekktasta vörumerki tölva af þessari stærð allan 9. áratug 20. aldar. Það að tölvan var að mestu gerð úr íhlutum frá öðrum framleiðendum en IBM og með grunnstýringarkerfi sem hægt var að endurskapa með löglegum hætti, gerði það að verkum að aðrir framleiðendur gátu framleitt tölvur sem nýttu sér sama hugbúnað og IBM-tölvan. Þessar tölvur, sem voru kallaðar IBM PC-samhæfðar tölvur eða PC-klónar, náðu líka talsverðum vinsældum á heimilistölvumarkaðnum. Arftakar hins upphaflega IBM PC voru IBM Personal Computer XT, eða 5160, sem kom út 1983, og öflugri AT sem kom út 1984 með nýjan örgjörva; Intel 80286. Að auki byggði IBM á þessari vinnu með IBM Portable 1984, sem var í grundvallaratriðum XT-tölva í töskukassa, og IBM PC Convertible, fyrstu kjöltutölvu fyrirtækisins sem gekk samt illa í sölu. Báðar þessar tölvur notuðust við Intel 8088-örgjörvann. Enn ein PC-tölvan, IBM PCjr, sem ætluð var skólum og kom út 1984, seldist líka illa. Grænumýrartunga. Grænumýrartunga er eyðibýli í Hrútafirði. Grænumýrartunga var einu sinni helsta kennileiti norðan Holtavörðuheiðar og viðkomustaður ferðamanna. Húsið í Grænumýrartungu var byggt árið 1925 og hafði heimarafstöð (eigin vatnsaflsvirkjun). Þetta var framúrstefnuleg bygging á sínum tíma. Jörðin hefur verið í eyði frá 1967, en síðast bjó sama ætt þarna samfellt í þrjá ættliði um hundrað ára skeið. Í garðinum var eitt elsta grenitré á íslandi. Grænumýrartunga var líka innsti byggði bær í Hrútafirði til 1967. Þá urðu Óspaksstaðir innsti byggði bærinn. Árið 2003 fékk Slökkvilið Bæjarhrepps í Strandasýslu, gamla íbúðarhúsið í Grænumýrartungu fyrir brunaæfingu. Þakplötur höfðu losnað og einhverjir óprúttnir aðilar höfðu gengið berserksgang þar innan dyra með sleggjum, svo að varasamt gat verið að fara inn í húsið. Stuttu eftir brunaæfinguna var húsið í Grænumýrartungu svo rifið. Eina byggingin sem stendur enn þá er útihús. Þekktast var býlið Grænumýrartunga sem áfangastaður á leiðinni yfir heiðina og skjól norðan heiðar á árum áður. Sunnan heiðarinnar var Fornihvammur efsti bær í Norðurárdal. Þar var gistihús, sem er horfið fyrir alllöngu. Nú er Holtavörðuheiðin ekki lengur sá farartálmi sem áður var. Þessi tvö býli, hvort sínum megin heiðarinnar, voru eins konar gistihús, viðkomustaðir ferðamanna og landpósta og öruggt skjól í vondum vetrarveðrum. Græðisúruætt. Græðisúruætt (fræðiheiti: "Plantaginaceae") er ætt dulfrævinga. Stærsta ættkvísl ættarinnar eru deplur. Kálfatindar. Kálfatindar eru misháir tindar upp af Hornbjargi á Hornströndum. Kálfatindarnir eru kenndir við efsta tindinn sem nefnist "Kálfatindur". Nafnið er þannig til komið, að frændur tveir bjuggu á Horni, næsta bæ við Hornbjarg. Var annar páfatrúar, en hinn hafði tekið Lúterstrú og þrættust mjög um það, hvor trúin væri betri, því hvor hélt með sinni trú. Kom þeim svo að lokum ásamt um, að þeir skyldu reyna kraft trúar sinnar. Þeir frændur áttu báðir alikálfa, og með þá fóru þeir upp á efstu gnípu bjargsins og beiddust þar fyrir. Sá, sem hafði Lúterstrú beiddi guð þríeinan um að bjarga kálfi sínum, og hinn beiddi Maríu mey og alla helga menn að varðveita kálfinn sinn. Var svo kálfunum báðum hrundið ofan fyrir bjargið. Þegar að var komið fyrir neðan bjargið var kálfur þess, sem Lúterstrú hafði, lifandi og var að leika sér í fjörunni, en hinn var horfinn, svo að ekki sást eftir af honum nema blóðslettur einar. Játaði þá páfatrúarmaðurinn, að Lúterstrú væri betri, og snerist til hennar. Síðan heitir þar Kálfatindar, sem kálfinum var hrundið fram af. KDE. KDE er alþjóðlegt frjálst hugbúnaðarsamfélag sem býr til forrit sem keyra á Linux, FreeBSD, Solaris, Microsoft Windows og OS X stýrikerfum. KDE stóð áður fyrir K Desktop Environment, frjálst og ókeypis skjáborðsumhverfi sem er eitt af verkefnum samfélagins. Verkefnið var stofnað árið 1996 en KDE 1.0 kom út árið 1998. KDE-sjáborðsumhverfið er með vinsælustu gluggaumhverfum GNU/Linux stýrikerfisins ásamt Unity (frá Ubuntu) og GNOME. Svavar Guðnason. Svavar Guðnason (18. nóvember 1909 – 25. júní 1988) var íslenskur myndlistarmaður sem starfaði í mörg ár í Danmörku og var virkur í hópi róttækra myndlistarmanna sem voru kenndir við Cobra. Hann er álitinn einn af helstu málurum á Íslandi á ofanverðri 20. öld. Verk hans eru í helstu söfnum Danmörku, eins og Louisiana, Nordjyllands Kunstmuseum og Statens Museum for Kunst og mörgum einkasöfnum í Evrópu sem einkum sérhæfa sig í list Cobra-manna. Ævi Svavars. Svavar fæddist í Höfn í Hornafirði. Svavar komst í kynni við málaralistina á uppvaxtarárum sínum, mest fyrir tilstilli Bjarna Guðmundssonar á Höfn, Jóns Þorleifssonar í Hólum og Höskuldar Björnssonar listmálara. Að eigin sögn fór Svavar að mála fyrir alvöru 1934 og hélt ári síðar til Danmerkur. Árið 1939 kvæntist hann Ástu Eiríksdóttur. Hann nam um tíma við málaradeild Kræstens Iversen í Konunglegu akademíunni í Kaupmannahöfn. Veturinn 1936-37 fóru tíðindi að gerast í list Svavars, en þá fór stíll hans að koma í ljós. Árið 1937 hélt Svavar heim til Íslands og dvaldist þar um nokkurra mánaða skeið, en lagði meiri áherslu á sjálfsnám og fór m.a. í námsferðir til Parísar og varð virkur þáttakandi í stefnumótun, útgáfumálum og einnig var hann viðloðandi skóla Fernand Léger á meðan hann dvaldi þar. Hann hélt áfram að þreifa fyrir sér á nýju leiðum, vann mest með olíukrít og notfærði sér þau myndefni sem Reykjavík bauð upp á. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út lokaðist Svavar inni í Kaupmannahöfn. Á þessum útlegðarárum hófst eitt frjóasta skeiðið í sköpunarferli Svavars. Þá urðu fúgurnar hans til og varð greinileg umbylting um 1940. Öll tök hans urðu markvissari og hnitmiðaðri. Með sýningu sinni í Listamannaskálanum í Reykjavík nokkrum mánuðum eftir stríðslok 1945 innleiddi Svavar Guðnason óhlutbundið myndmál í íslenska myndlist. Sýninguna hélt Svavar eftir rúmlega tíu ára dvöl í Danmörku. Þar hafði hann verið virkur í hópi róttækra myndlistarmanna, sem meðal annars voru kenndir við Cobra. Í skugga og einangrun stríðsins höfðu þessir myndlistamenn leitast við að tjá innri þörf og til þess skapað sjálfsprottið tjáningarform, þar sem myndmál Picassos, expressjónismi Kandinskys og kenningar súrrealista um óhefta tjáningu lágu til grundvallar. Á sýningunni einkenndust verkin af expressjónískum krafti í litameðferð og myndbyggingu. Myndrýmið var að öllu leyti huglægt og efnislega skírskotuðu verkin til hughrifa og tilfinninga í stað ytri raunveru. Sýningin gerði menn ýmist ofsahrifna eða örvita af hneykslun. Íslendinga rak í rogastans þegar óvænt blasti við svo framandleg list eftir íslenskan mann. Sjálfsprottin tjáning var annars eðlis en rökföst formhugsun síðkúbismans sem menn hér heima höfðu áður kynnst og var nauðsynlegur grunnur til að menn gætu meðtekið það afdráttarleysi sem var í verkum Svavars. Verk hans voru ekki tilraunir með óhlutbundið myndmál heldur ávöxtur nýsköpunar í myndlist sem hann hafði tekið virkan þátt í. Það sem Svavar kynnti löndum sínum var nýlist samtímans, áleitin og umbúðalaus; listviðburður sem markaði tímamót í íslenskri myndlist. Fyrir og eftir stríð náði hann að heimsækja Ísland öðru hverju en 1951 fluttist hann alkominn heim og settist að í Reykjavík. Hann var þó áfram virkur í sýningarhaldi á meginlandinu. Svavar Guðnason er einn merkasti listamaður sem Íslendingar geta státað af og fór ótroðnar slóðir í listsköpun sinni. Hann gaf lítið út á frægð og frama og verkin hans standa og tala sínu máli. Þau eru vitnisburður um stórbrotinn listamann og hafa þegar hlotið virðingarsess í íslenskri og ekki síður evrópskri listasögu. Svavar Guðnason er einn fárra íslenskra myndlistamanna sem er vel þekktur utan landsteinanna. Verk hans eru í helstu söfnum Danmörku, eins og Louisiana, Nordjyllands Kunstmuseum og Statens Museum for Kunst og mörgum einkasöfnum í Evrópu sem einkum sérhæfa sig í list Cobra-manna. Undanfarin ár hefur ekkja Svavars, Ásta Eiríksdóttir, fært Sveitarfélaginu Hornafirði fjölda verka eftir mann sinn og er óvíða jafn mörg verk á einum stað. Svavar andaðist í Reykjavík þann 25. júní 1988. Skeifa (járn). Skeifa (járn, hestskór (gömul dönskusletta), skafl) er bogalaga (þ.e. U-laga) járn sem fest er með hóffjöðrum (hestskónöglum) undir fætur hesta til hlífðar hófunum. Skeifur eru hugsaðar til að ekki gangi á hófinn, og þegar þær eru festar undir hófana er talað um að "járna hest". Sagt var fyrrum að á Íslandi hefðu Skaftfellingar breiðastar skeifur, enda er víða mjög grýtt í Skaftafelli. Skeifur hafa fundist í jörðu á meginlandi Evrópu frá sjöttu öld. Eftir að skeifur voru teknar í notkun jókst notagildi hrossa til muna, þar sem hófarnir slitnuðu ekki eins mikið undir þungum byrðum. Hóffjaðrir (hestskónaglar). Ef hóffjöður, sem sumir nefna "skeifufjöður" eða bara "fjöður", og sumir jafnvel hestskónagla, er með broddi (egg) á hausnum nefnast hóffjöðurinn "gandur" ("gandi" eða "gandajárn"), "broddfjöður" eða "broddnagli". Orðið "stappa" er svo haft um hóffjöður með haus sem fellur í gatið á skeifunni. Skaflaskeifur. Skaflaskeifur eða (skaflar) eru með broddum sem ganga neðan úr þeim aftanverðum og neðanverðum. Broddarnir eru til þess að hrossið renni síður á ís eða hálku. Vélmenni. Vélmenni (þjarki eða róbóti) er vél sem getur unnið mannsverk á miklu nákvæmari og skilvirkari hátt en maðurinn sjálfur og við erfiðari aðstæður og þar sem manninum væri ómögulegt að starfa, eins og t.d. ofan í djúpum hellum eða á plánetunni Mars. Eoin Colfer. Eoin Colfer (fæddur 14. maí 1965 í Wexford á Írlandi) er írskur rithöfundur. Eoin er þekktastur fyrir bækurnar um "Artemis Fowl". Þær fjalla um undrabarn, Artemis, sem er ljóngáfaður glæpamaður. Jafnvel þótt hann sé bara táningur leggur hann í að ræna hulduveru og heimta lausnargjald. Honum órar ekki fyrir því að hulduveran og hann munu verða góðir vinir. Eoin skrifaði líka bók sem heitir "Óskalistinn". Þegar stelpa á táningsaldri brýst inn hjá gömlum manni er hún myrt og hverfur inn í göngin á milli himna og helvítis. Þá kemur í ljós að hún er „fjólublá“, en fjólublátt fólk er mitt á milli himins og helvítis. Hún er send til baka til að hjálpa manninum sem hún braust inn hjá að uppfylla óskir. Ef henni tekst það kemst hún til himnaríkis en ef henni mistekst fer hún til helvítis. "Barist við ókunn öfl" fjallar um munaðarlausan strák, Cosmo Hill, sem lifir í framtíðinni í mengaðri stórborg. Þegar hann og vinur hans ætla að strjúka af munaðarleysingjahælinu fer allt úr böndunum. Cosmo deyr næstum og sér litlar, bláar verur sem sjúga úr honum lífsorkuna. Gengi sem kallar sig „Yfirnáttúrugengið“ kemur og bjarga honum á síðustu stundu. Cosmo gengur til liðs við gengið og berst með þeim við „skaðvaldana“, en það er það sem gengið kallar skepnurnar. Colfer, Eoin Tímabil KR 2008-09. KR mun á knattspyrnutímabilinu 2008-2009 reyna að byggja ofan á árangur sinn frá fyrra tímabili. KR-ingar lentu þá í 4. sæti og urðu bikarmeistarar eftir 1-0 sigur á Fjölni. Logi Ólafsson mun þjálfa KR-inga áfram og mun njóta aðstoðar Péturs Péturssonar, en Sigursteinn Gíslason sem hefur verið aðstoðarþjálfari um langt skeið fer til Leiknis til þess að þjálfa. Liðið mun taka þátt í 6 keppnum þetta ár: Landsbankadeildinni, Lengjubikarnum, Reykjavíkurmótinu, Meistarakeppni KSÍ, VISA bikarnum og Evrópubikarnum. KR-ingar hafa þegar lokið þáttöku í þremur af þessum sex mótum. Þeir unnu Reykjavíkurmótið og urðu Reykjavíkurmeistarar í 37. skipti, en duttu úr keppni í Lengjubikarnum eftir fyrstu umferð og töpuðu gegn FH í meistarakeppni KSÍ. Leikir. Stjörnumerking við leik merkir að leikurinn var aðsóknamesti leikur þeirrar umferðar Samantekt. Bestu úrslit: 9-2 17. apríl 2009 í Lengjubikarnum gegn Leikni á gervigrasvelli KR Verstu úrslit: 0-3 21. júní 2009 í Pepsídeildinni gegn Fram á Laugardalsvelli Stig (hlutfall): 50 / 78 (64,1%) Tryggvi Gunnarsson. Tryggvi Gunnarsson (f. 18. október 1835 að Laufási í Þingeyjarsýslu, d. 21. október 1917) var íslenskur trésmiður, þingmaður og bankastjóri Landsbankans. Tryggvagata í miðbæ Reykjavíkur er nefnd eftir honum. Í garði Alþingishússins er stytta til minningar um Tryggva en Tryggvi sinnti garðinum einkar vel á efri árum. Æviágrip. Faðir Tryggva var Gunnar prestur Gunnarsson, prestur í Laufási, og móðir hans var Jóhanna Gunnlaugsdóttir, dóttir Gunnlaugs Briems, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu. Tryggvi ólst upp í Laufási til 14 ára aldurs, en þá fór hann til móðurbróður síns Ólafs Briem á Grund í Eyjafirði og lærði hjá honum trésmíði og fékk sveinsbréf 16 ára gamall. Árið 1859 giftist hann Halldóru Þorsteinsdóttur, en faðir hennar var Þorsteinn Pálssonar, prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Sama ár byggði hann bæ að Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Árið 1863 ferðaðist Tryggvi til Kaupmannahafnar, vegna tillagna Péturs Hafsteins, amtmanns, og hafði vetursetu. Næsta ár fór hann til Åss í Noregi þar sem var landbúnaðarskóli og eyddi einhverjum tíma þar og ferðaðist um Suður-Noreg. Tryggvi var mjög iðinn við bóndstörf og smíðar. Hann var hreppstjóri í þrjú ár og formaður í Búnaðarfélagi Suður-Þingeyinga frá 1866-71. Þau bjuggu á Hallgilsstöðum til ársins 1871 en þá gerðist Tryggvi kaupstjóri Gránufélagsins. Á bæjarstjórnarfundi 1. nóvember 1917 var ákveðið að skíra nýja götu sam lögð hafði verið samhliða uppfyllingu við hina nýju Reykjavíkurhöfn "Tryggvagata" í höfuðið á Tryggva Gunnarssyni sem þá var nýlega látinn. Nikolaj og Julie. "Nikolaj og Julie" var dönsk sjónvarpsþáttaröð sem sýnd var á DR1 á árunum 2002-2003. Þættirnir fjalla um Nikolaj og Julie, ungt par sem kynnist í Tívolí, gifta sig skömmu seinna og eignast sitt fyrsta barn. Allt virðist ganga í haginn í fyrstu þar til þrýstingur í vinnu, barnauppeldi og vináttubönd fara að reyna á sambandi. Þáttaröðin tók á ást, vináttu og öllu sem manninum kemur við. Árið 2003 hlaut Nikolaj og Julie Emmy-verðlaunin sem besta alþjóðlega dramaþáttaröð. Talið er að um ein og hálf milljón áhorfenda hafi séð hvern þátt fyrir sig, að meðaltali. Upphafslag þáttanna, "Right Next to the Right One", er eftir Tim Christensen. Brjáns saga. Brjáns saga – (eða Brjánssaga) – var forn íslensk saga (tilgátusaga), þar sem m.a. var sagt frá Brjánsbardaga á Írlandi og Brjáni yfirkonungi Írlands. Sagan er glötuð. Flestir fræðimenn eru sammála um að í 154.–157. kafla Njáls sögu sé stuðst við glatað rit um Brjánsbardaga. Þetta rit er einnig notað í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar og lítillega í Orkneyinga sögu. Þessi tilgátusaga er venjulega kölluð "Brjáns saga", og hefur líklega verið samin á Íslandi um 1200. Hún hefur e.t.v. verið eina íslenska fornritið sem fjallaði að mestu um írska atburði. Í Þorsteins sögu segir: „Jarl [Sigurður Hlöðvisson] þakkaði honum [Þorsteini] orð sín. Þeir fóru síðan til Írlands og börðust við Brján konung, og urðu þar mörg tíðendi senn, sem segir í sögu hans.“ Talið hefur verið að orðið "hans" vísi til Brjáns konungs og sögu hans. Jón Jóhannesson benti hins vegar á, að þetta megi skilja svo að átt sé við sérstaka sögu af Sigurði Hlöðvissyni Orkneyjajarli, sem féll í Brjánsbardaga. Sú saga er glötuð ef til hefur verið. Þrátt fyrir þennan möguleika hélt Jón sig við það að átt sé við sögu Brjáns konungs. Brjánsbardagi varð föstudaginn langa, 23. apríl 1014, á Uxavöllum (Clontarf – clon = engi, tarf = tarfur, uxi) við Dyflinni á Írlandi. Þar tókust á Brjánn yfirkonungur Írlands og konungurinn í Leinster, Máel Mórda mac Murchada, sem hafði fengið til liðs við sig málaliða frá Orkneyjum og Dyflinni, undir stjórn Sigtryggs silkiskeggs Dyflinnarkonungs. „Brjánn féll, en hélt velli“, eins og segir í vísu um bardagann. Aðalheimildir um orustuna eru írskar, m.a. samtímaannálar og ritið "Landvörn Íra gegn víkingum" (Cogadh Gáedhel re Gallaibh) frá 12. öld. Kjarni frásagnarinnar um Brjánsbardaga eru Darraðarljóð, sem eru stórfellt og dularfullt kvæði, e.t.v. ort á Katanesi nyrst á Skotlandi. Sjá Njáls sögu. Nýlega hafa verið endurvaktar hugmyndir um að Brjáns saga hafi verið rituð af norrænum mönnum í Dyflinni um 1100, sem andsvar við ritinu „Landvörn Íra gegn víkingum“ (sjá Clarke o.fl. 1998:449). Síðtímabilið. Síðtímabilið er í sögu Egyptalands tímabil sem nær frá upphafi tuttugustu og sjöttu konungsættarinnar 672 f.Kr. til loka þrítugustu og fyrstu konungsættarinnar 323 f.Kr.. Oft er litið á þetta tímabil sem síðasta blómaskeið menningar Forn-Egypta áður en landið féll endanlega undir erlend yfirráð. Fyrsta konungsætt þessa tímabils sleit samband sitt við Assyríu og reyndi að endurreisa stórveldisstöðu landsins við Miðjarðarhafið. Að lokum þurfti landið þó að beygja sig undir vaxandi veldi Persa. Einum konungi tuttugustu og áttundu konungsættarinnar tókst að gera uppreisn gegn Persum sem varði í sex ár, en að öðru leyti var landið hluti af veldi Akkamenída samfellt frá 525 f.Kr. þar til síðasti landstjóri Persa í Egyptalandi gafst upp fyrir Alexander mikla án orrustu árið 332 f.Kr. Ptólemajaríkið varð síðan til við skiptingu ríkis Alexanders 305 f.Kr. Brjánsbardagi. Brjánsbardagi (írska: "Cath Chluain Tarbh") varð föstudaginn langa, 23. apríl 1014, á Uxavöllum ("Clontarf" – chluana = engi, tarbh = tarfur, uxi), sem eru norðan við höfnina í Dyflinni á Írlandi. Þar tókust á Brjánn yfirkonungur Írlands og konungurinn í Leinster, Máel Mórda mac Murchada, sem hafði fengið til liðs við sig málaliða frá Orkneyjum og Dyflinni, undir stjórn Sigtryggs silkiskeggs Dyflinnarkonungs. Bardaganum lauk með algerum ósigri Máel Mórda, en Brjánn var drepinn af nokkrum norrænum mönnum, sem á flótta rákust á tjald hans. „Brjánn féll, en hélt velli“, eins og segir í vísu um bardagann, undir lok Njáls sögu. Eftir orustuna breyttist Írland aftur í ríki nokkurra smákonunga, eins og verið hafði fyrir daga Brjáns konungs. Aðalheimildir um orustuna eru írskar, m.a. samtímaannálar og ritið "Landvörn Íra gegn víkingum" (Cogadh Gáedhel re Gallaibh) frá 12. öld. Í Njáls sögu er eftirminnileg lýsing á Brjánsbardaga og aðdraganda hans, þar sem dularfull öfl leika stórt hlutverk. Brjánsbardagi skipar sérstakan sess í hugum Íra, sem samið hafa söngva og sögur um bardagann og Brján konung. Friðrik Ásmundsson Brekkan samdi skáldsögu um Brjánsbardaga: "Saga af Bróður Ylfing". Hún kom fyrst út á dönsku 1924: "Ulveungernes broder", en var brátt þýdd og að nokkru endursamin á íslensku (Akureyri 1929). Ljósprentuð 1988 í tilefni af aldarafmæli höfundarins. Krybba. Krybbur, í fjölskyldunni Gryllidae eru skordýr sem eru skyld engisprettum. Búkur krybbna er nokkuð flatur og hafa þær langa fálmara. Til eru um 900 tegundir krybbna í heiminum. Assyría. Assyría var stórveldi sem ríkti yfir frjósama hálfmánanum, Egyptalandi og stórum hluta Litlu-Asíu í fornöld. Ríkið hét eftir upprunalegri höfuðborg þess, hinni fornu borg Assúr (akkadíska: "Aššur"; arabíska: أشور "Aššûr"; hebreska: אַשּׁוּר "Aššûr", aramaíska: "Ashur"). Síðar varð Níneve höfuðborg ríkisins (skammt frá Mosul í Írak í dag). Stórveldistíma Assyríu er skipt í þrjú tímabil: Gamla ríkið (20. – 15. öld f.Kr.), Miðríkið (15. – 10. öld f.Kr.) og Ný-Assyríska ríkið (911 – 612 f.Kr.) en af þessum þremur tímabilum er það síðasta langþekktast. Veldi Assyríu leið undir lok þegar ný-babýlónskt ríki Kaldea reis til áhrifa í frjósama hálfmánanum. Assurbanipal konungur, sem var uppi 685 f.Kr. – 627 f.Kr., setti á laggirnar fyrsta bókasafnið í Mið-Austurlöndum í borginni Níneve. Bókasafnið samanstóð af leirtöflum og þekktasta verkið er Gilgameskviða. Segir sagan að þegar Alexander mikli sá bókasafn Assurbanipals hafi það veitt honum innblástur að því að stofna eigið bókasafn, sem varð að Bókasafninu í Alexandríu undir leiðsögn Ptolemajosar I Soter. Tuttugasta og sjötta konungsættin. Tuttugasta og sjötta konungsættin í sögu Egyptalands var síðasta konungsættin af egypskum uppruna áður en Persar lögðu landið undir sig. Þessi konungsætt var fyrsta konungsætt Síðtímabilsins. Höfuðborg ríkisins var í Saís í Nílarósum líkt og hjá tuttugustu og fjórðu konungsættinni, en Psamtik 1. var barnabarn Bakenrenefs, síðasta faraós tuttugustu og fjórðu konungsættarinnar. Fyrsti konungur þessarar ættar Nekaú 1. var landstjóri í Saís, en sonur hans, Psamtik, endurreisti sjálfstæði landsins með aðstoð lýdískra og grískra málaliða eftir að höfuðborg Assyríu, Níneve, var rænd af Babýlónum 612 f.Kr.. Lýdía. Lýdía (assyríska: "Luddu"; gríska: "Λυδία") var járnaldarríki í vesturhluta Litlu-Asíu þar sem nú eru tyrknesku héruðin Manisa og Ismír. Íbúar Lýdíu töluðu lýdísku sem er anatólískt mál. Ríkið varð til við fall veldis Hittíta á 12. öld f.Kr. Það náði hátindi sínum undir stjórn Krösosar á 6. öld f.Kr. en eftir ósigur hans gegn Kýrosi 2. lögðu Persar landið undir sig. Síðar varð Lýdía hluti af ríki Alexanders mikla, Selevkídaríkinu og síðar rómverskt skattland. Miðríkið. Miðríkið er tímabil í sögu Egyptalands sem nær frá stofnun elleftu konungsættarinnar til loka fjórtándu konungsættarinnar eða um það bil frá 2040 f.Kr. til 1640 f.Kr. Ríkið varð til þegar Mentuhotep 2. af elleftu konungsættinni frá Þebu, tókst að sameina Efra og Neðra Egyptaland í eitt ríki með sigri á tíundu konungsættinni sem ríkti yfir Neðra Egyptalandi frá Herakleópólis. Sumir fræðimenn vilja samt meina að upphaf Miðríkisins sé fyrst þegar tólfta konungsættin tók við völdum með friðsamlegum hætti eftir lát Mentuhoteps 4. Á tímum elleftu konungsættarinnar var höfuðborg ríkisins í Þebu, en þegar tólfta konungsættin tók við fluttist hún til El-Lisht í Neðra Egyptalandi sem að vissu leyti var afturhvarf til Memfis sem er rétt norðan við hana. Höfuðguðinn á þessum tíma var hinn herskái fálki Montjú sem var dýrkaður í Armant og Þebu, fremur en Amon. Helstu konunganöfn á þessu tímabili voru Senusret og Amenemhat. Á þessum tíma var borgin Karnak reist af Senusret 1. af tólftu konungsættinni. Talsverð velmegun ríkti og pýramídar voru áfram notaðir sem grafhýsi konunga. Á þessum tíma sendu Egyptar marga könnunarleiðangra og sendimenn til annarra ríkja í Mið-Austurlöndum. Vatnsrennibraut. Vatnsrennibraut er rennibraut eða rör sem er hannað svo fólk geti rennt sér í henni, oft þannig að vatn sem sprautað er frá toppi rennibrautarinnar hjálpi fólki að renna niður með því að minnka viðnámið. Beverly Hills Chihuahua. "Beverly Hills Chihuahua" er bandarísk ævintýra kvikmynd, sem Walt Disney Pictures frumsýndi þann 3. október 2008. Kvikmyndin var leikstýrð var af Raja Gosnell. Framleiðendur voru David Hoberman, Todd Lieberman, John Jacobs og Ricardo Del Rio. Handritshöfundar voru Analisa LaBianco og Jeffrey Bushell. Björn bróðir. "Björn bróðir" (enska: "Brother Bear") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Feature Animation. Myndin var frumsýnd þann 1. nóvember 2003. Kvikmyndin var fertugasta og fjórða kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Aaron Blaise og Robert Walker. Framleiðendur voru Igor Khait og Chuck Williams. Handritshöfundar voru Tab Murphy, Lorne Cameron, David Hoselton, Steve Bencich og Ron J. Friedman. Tónlistin í myndinni er eftir Mark Mancina og sungið af Phil Collins. Árið 2006 var gerð framhaldsmynd, "Björn bróðir 2", sem var aðeins dreift á mynddiski. Refurinn og hundurinn. "Refurinn og hundurinn" (enska: "The Fox and the Hound") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á samnefndri skáldsögu eftir bandaríska rithöfundinn Daniel P. Mannix. Myndin var frumsýnd þann 10. júlí 1981. Kvikmyndin var tuttugasta og fjórða kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Aðalpersónur eru rauðrefurinn Teddi og hundurinn Kobbi. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Ted Berman, Richard Rich og Art Stevens. Framleiðendur voru Ron Miller, Art Stevens og Wolfgang Reitherman. Handritshöfundar voru Ted Berman, Larry Clemmons, David Michener, Peter Young, Burny Mattinson, Steve Hulett, Earl Kress og Vance Gerry. Tónlistin í myndinni er eftir Richard Johnston, Richard Rich, Jim Stafford, Jeffrey Patch og Buddy Baker. Þegar myndin kom út var hún dýrasta teiknimynd sem framleidd hafði verið en kostnaðurinn nam $12 milljónum. Árið 2006 var gerð framhaldsmynd, "Hundurinn og refurinn 2", sem var aðeins dreift á mynddiski. Óliver og félagar. "Óliver og félagar" (enska: "Oliver & Company") er bandarísk teiknimynd, sem Walt Disney Pictures frumsýndi þann 18. nóvember 1988. Leikstjóri myndarinnar er George Scribner. Aðalpersónur eru Óliver (köttur) og félagar. Þeir eru: Dodger, Francis, Einstein, Rita, Tito, og Georgette. Sósíalismi andskotans. Sósíalismi andskotans er stjórnarstefna þegar ríkið þjóðnýtir tap, en afhendir gróðann einstaklingum. Vilmundur Jónsson, landlæknir mun vera upphafsmaður þessara orða. Ragnar Jónsson skrifaði síðar grein í tímaritið Nýtt Helgafell árið 1959 sem nefndist þessu nafni. Síðan hafa þessi orð oft verið notuð í almennri umræðu. Annað millitímabilið. Annað millitímabilið er tímabil í sögu Egyptalands sem nær frá endalokum Miðríkisins um 1640 f.Kr. fram að upphafi Nýja ríkisins um það bil 1570 f.Kr.. Á þessum tíma leystist miðstjórnarvald faraóanna upp og Neðra Egyptaland féll í hendur hirðingjaþjóðflokks sem Egyptar nefndu Hyksos og ríktu frá Memfis og Avaris, meðan Efra Egyptaland var í höndum fursta sem ríktu frá Þebu. Hyksos-konungar mynda fimmtándu konungsættina í konungalistunum, en deilt er um hvort sextánda konungsættin telji Hyksos-konunga eða egypska konunga. Sautjánda konungsættin er mynduð af furstum sem ríktu yfir Þebu. Síðustu konungar þeirrar ættar gerðu uppreisn gegn Hyksos-konungunum og lögðu grundvöllinn að myndun Nýja ríkisins. Sjöunda konungsættin. Sjöunda konungsættin var, samkvæmt Maneþoni, fyrsta konungsætt fyrsta millitímabilsins í sögu Egyptalands. Hann segir að þá hafi sjötíu konungar í Memfis ríkt í sjötíu daga. Flestir eru nú sammála um að þessi konungsætt hafi aldrei verið til, en endurspegli fremur ákveðna rósturtíma í sögu landsins. Fræðimenn hafa ýmist dagsett þetta tímabil 2181 f.Kr., 2175 f.Kr., 2150 f.Kr. eða 2140 f.Kr. til 2165 f.Kr. eða 2130 f.Kr. Áttunda konungsættin. Áttunda konungsættin var í sögu Egyptalands konungsætt sem ríkti yfir landinu í byrjun fyrsta millitímabilsins þegar miðstjórnarvald faraóanna var veikt. Konungsættin kom upp í þeim átökum sem urðu eftir lát drottningarinnar Nitókriss. Konungar þessarar konungsættar ríktu í Memfis en Abýdos varð sjálfstætt stjórnvaldssetur í Efra Egyptalandi. Níunda konungsættin. Níunda konungsættin í sögu Egyptalands var konungsætt sem ríkti yfir Egyptalandi um það bil frá 2160 f.Kr. til 2040 f.Kr. Níundu og tíundu konungsættirnar ríktu frá Herakleópólis. Oft er erfitt að sjá hvorri konungsættinni konungar þessa tímabils tilheyra. Tíunda konungsættin. Tíunda konungsættin í sögu Egyptalands var konungsætt sem ríkti yfir Egyptalandi á fyrsta millitímabilinu um það bil frá 2100 f.Kr. til 2040 f.Kr. Þessir konungar ríktu, líkt og konungar níundu konungsættarinnar, frá Herakleópólis í Neðra Egyptalandi. Þeba (Egyptalandi). Þeba (gríska: Θῆβαι, "Thēbai"; fornegypska: "niwt" „borgin“ eða "niwt-rst" „borgin í suðri“ eða "w3st") sem Hómer kallar "Þebu hinna hundrað hliða", var borg í Egyptalandi hinu forna sem stóð á austurbakka Nílar um 800 kílómetra frá Miðjarðarhafinu. Þeba var höfuðborg héraðsins Úaset sem var fjórða umdæmi Efra Egyptalands. Þeba var höfuðborg alls landsins á tímum elleftu konungsættarinnar og mestan hluta átjándu konungsættarinnar þótt hin eiginlega stjórnsýslumiðstöð hafi líklega verið í Memfis. Bæirnir Lúxor og Karnak standa við jaðar borgarinnar. Höfuðstöðvar. Höfuðstöðvar er aðalaðsetur fyrirtækis eða samtaka og innihalda oft margar yfirdeildir sem virka sem nokkurs konar heili fyrir önnur útibú eins og t.d. í tilfelli banka. Í hernaðarlegu tilliti er orðið notað um aðalstöðvar t.d. útlagahers eða yfir meginmiðstöð hernaðarframkvæmda þaðan sem öðrum deildum er stjórnað, t.d. minni bækistöðvum hersins. Kransæðasjúkdómar. Kransæðasjúkdómar eru algengastir hjartasjúkdóma og leiðandi orsök dauðsfalla um heim allan. Þegar talað er um kransæðasjúkdóma er átt við þrengingar eða stíflur í kransæðum hjartans vegna æðakölkunar eða blóðtappa sem myndast í kjölfar hennar. Æðakölkun er ekki einskorðuð við kransæðar hjartans, heldur er um kerfisbundin og mögulega útbreiddan sjúkdóm að ræða. Æðakölkun getur birst sem sjúkdómur í slagæðum heilans og þá valdið blóðþurrð eða heilablóðfalli, eða sem sjúkdómur í útlægum slagæðum og valdið heltiköstum eða alvarlegri blóðþurrð í útlimum. Sjúkdómar af völdum æðakölkunar geta allir verið til staðar hjá einum og sama sjúklingnum og er meinafræði þeirra sú sama. Þegar æðakölkun birtist sem kransæðasjúkdómur valda þrengsli eða stíflur í kransæðum takmörkuðu blóðflæði til hjartavöðvans sem leiðir til klínískra einkenna kransæðasjúkdóms. Einkenni og áhættuþættir. Helstu einkenni kransæðasjúkdóms eru mæði og hjartaöng en aukning á þessum einkennum er ein aðal ástæða þess að sjúklingar leita sér læknisaðstoðar. Þekktir áhættuþættir kransæðasjúkdóma eru aldur, hár blóðþrýstingur, sykursýki, hækkaðar blóðfitur, reykingar og ættarsaga um kransæðasjúkdóma. Einnig er verið að rannsaka áhrif persónuleikans á sjúkdómana. Meðferð. Það er engin þekkt lækning á kransæðasjúkdómum en fyrsta meðferð er gjarnan gjöf lyfja sem minnka súrefnisþörf hjartans. Eftir því sem sjúkdómurinn ágerist getur hins vegar reynst óhjákvæmilegt að sjúklingur fari í aðgerð til að koma á betra blóðflæði til hjartavöðvans. Aðgerðir sem framkvæmdar eru eru kransæðavíkkun, stent ísetning og kransæðahjáveituaðgerð. Formerkisfall. Formerkisfall er ósamfellt fall sem tekur gildið formula_1 þegar breyta þess er neikvæð og formula_2 þegar breyta þess er jákvæð. Skilgreining. þar sem formula_7 er algildi tölunnar formula_8. Eiginleikar. Hægt er að sjá frá jöfnu (1) að þegar skilgreiningin hér að ofan er notuð þá fæst Tvinntalnaformerkisfall. þar sem arg z er fasahorn z. Kransæðahjáveituaðgerð. Kransæðahjáveituaðgerð ("CABG") er algengasta hjartaaðgerð sem framkvæmd er á fullorðnum einstaklingum og jafnframt algengasta aðgerðin til meðferðar á kransæðaþrengslum. Aðgerðin. Meirihluti kransæðahjáveituaðgerða, eða um 70%, eru gerðar á hjarta sem hefur verið stöðvað og sjúklingur tengdur hjarta- og lungnavél, en einnig er hægt að framkvæma aðgerðina á sláandi hjarta. Í flestum tilfellum er sjúklingur vægt ofkældur áður en klemmt er á ósæðina og hjartað stöðvað með svokallaðri "cardioplegiu" sem er gefin í gegnum ósæðarótina. Cardioplegian er svo gefin á 15-20 mínútna fresti út aðgerðina til að viðhalda virkninni. Æðarnar sem notaðar eru til hjáveitu geta bæði verið slagæðar og bláæðar, en það hefur sýnt sig að slagæðar hafa lengri líftíma og notkun þeirra því sífellt að færast í aukanna. Sú bláæð eða græðlingur sem oftast er notaður til hjáveitu er löng bláæð úr fæti sjúklings sem heitir "vena saphanous". Snúa þarf græðlingnum á rönguna vegna loka sem í æðinni eru og er annar endi hans tengdur við kransæð og hinn tengdur ósæðinni. Innri brjóstveggsslagæðar eru algengustu slagæðarnar sem notaðar eru til hjáveitu og þar sem þær eru þegar tengdar stærri slagæðum þarf aðeins að flytja annan endann og græða hann við kransæð. Þegar búið er að tengja allar hjáveitur er blóði dælt aftur inn í hjartað og sjúklingur tekinn af hjarta- og lungnavélinni. Áður en skurðsári sjúklings er lokað eru tengdir gangráðsvírar í gáttir og slegla og drenum komið fyrir í miðmæti umhverfis hjarta til þess að taka á móti blóði og vessa frá aðgerðarsvæði fyrst um sinn. Fylgikvillar. Eins og með allar aðgerðir fylgir einhver áhætta því að gangast undir kransæðahjáveituaðgerð, bæði þegar litið er til aðgerðarinnar sjálfrar og fylgikvilla hennar. Hlutfall þeirra sem deyja í aðgerð er um 2-3% en tíðni sýkinga í skurðsárum eftir aðgerð er allt að 20% innan 30 daga eftir aðgerð. Ýmis vandamál geta komið upp hjá sjúklingum fyrir, í og eftir hjartaaðgerð. Fyrir aðgerð er alltaf einhver hætta á að sjúklingur fái hjartadrep vegna álags og kvíða eða í kjölfar alvarlegrar blóðþurrðar til hjartavöðvans. Í aðgerðinni sjálfri getur reynst erfitt að venja sjúkling af hjarta- og lungnavél og getur það jafnvel orðið til þess að hjarta sjúklings nái sér ekki á strik að fullu. Í aðgerð er líka hætta á því að sjúklingur fái blóðtappa vegna blóðreks frá græðlingnum. Eftir aðgerð geta komið upp ýmsar fylgikvillar eins og miðmætisbólga og "postpericadiotomy syndrome" en lungnavandamál eru algengasti fylgikvillinn og má þar helst nefna samfall á lungnablöðrum, vökva í brjóstholi og lungnabólgu. Einnig eru hjartsláttartruflanir algengar efir hjartaaðgerðir. Rannsóknir á kransæðahjáveituaðgerðum sýna samt sem áður fram gangsemi þeirra fyrir fólk með kransæðasjúkdóma og mikilvægi þeirra í að draga úr einkennum tengdum sjúkdómnum og auka lífsgæði sjúklinga. Hjartsláttartruflanir. a>n er ekki til staðar í gáttartifi. Fyrstu dagana eftir kransæðahjáveituaðgerð er fylgst náið með hjartalínuriti sjúklings því hjartsláttartruflanir eru algengur fylgikvilli hjartaaðgerða. Orsakir hjartsláttartruflana geta tengst áverka í aðgerð, svæfingu, notkun hjarta- og lungnavélar, breytingum á kalíumþéttni í blóði, lágþrýstingi, minnkun á blóðrúmmáli og súrefnisþurrð. Helstu hjartsláttartruflanirnar eru gáttatif, gáttaflökt og aðrar ofansleglatruflanir vegna bjúgs og bólgu í gáttarvef og geta þær valdið ófullnægjandi fyllingu slegla þannig að útfall hjarta minnkar. Minnkað útfall hjarta getur einnig stafað af minnkuðu blóðrúmmáli og blóðþrýstingsfalli ef mikil blæðing verður. Meðferðin felst í nákvæmu eftirliti og skráningu á hjartsláttartíðni og takti, blóðþrýstingi og súrefnismettun. Viðhald blóðþrýstings eftir hjartaaðgerð er gríðarlega mikilvæg og breytingar á honum getur haft neikvæðar afleiðingar á bata sjúklings. Háþrýstingur eftir aðgerð eykur til að mynda líkur á blæðingu, eykur súrefnisþörf hjartavöðvans og getur valdið hjartaþröng. Einnig getur þvagútskilnaður gefið vísbendingu um útfall hjartans og þess vegna mikilvægt að fylgjast með hraða hans. Ef hjartasláttartruflanir verða hjá sjúkingi er honum gefin lyf samkvæmt fyrirmælum læknis og stundum þarf að grípa til þess að stjórna hjartsláttartíðni og takti tímabundið með gangráðvírum sem settur voru við hjarta sjúklings í aðgerðinni. Skert athafnarþrek. Skert athafnarþrek getur bæði átt við kransæðasjúklinga fyrir og eftir aðgerð. Fyrir aðgerð stafar þrekleysið af ónægu súrefnisframboði tengt skertu blóðflæði til hjartans vegna kransæðaþrengsla. Blóðþurrðin lýsir sér svo sem hjartaöng og viðkomandi finnur að öllum líkindum til aukinnar mæði. Ef sjúklingur er með langt genginn kransæðasjúkdóm og sýnir einkenni í hvíld þarf hann að miklu leiti að vera rúmliggjandi til að minnka súrefnisþörf hjartans. Eftir aðgerð skerðist athafnarþrek sjúklings hins vegar oftast vegna rúmlegu eða hreyfingaleysis sem fylgir óhjákvæmilega aðgerðinni. Markmið meðferðar við skertu athafnarþreki er að sjúklingur efli hreyfigetu sína stigvaxandi og tjái sig færan um að ljúka áætluðum daglegum athöfnum. Helsta hjúkrunarmeðferðin er hreyfing eins fljótt og kostur gefst eftir aðgerð enda skiptir hún höfuð máli í endurhæfingu aðgerðarsjúklinga. Ekki er ólíklegt að sjúkraþjálfun hefjist að kvöldi aðgerðardags eða morguninn eftir en þá sest sjúklingur gjarnan fram á rúmstokk og leyfir fótum að hanga lausum fram af rúminu. Hreyfing flýtir bæði fyrir bata sjúklings og kemur í veg fyrir þekkta fylgikvilla aðgerða eins og vandamálum tengt hjarta- og æðakerfi, öndunarfærum og þvagfærum, auk þess sem að hún viðheldur vöðvavirkni sjúklings og kemur í veg fyrir hægðatregðu. Vandamál tengt öndunarfærum. Þegar notuð er hjarta- og lungnavél í aðgerð verður takmörkun á útþenslu lungnablaðra og öndun almennt grynnist en við það minnkar framleiðsla surfactants og lungnablöðrur geta því fallið saman. Einnig geta verkir vegna inniliggjandi drenslanga komið í veg fyrir að sjúklingur nái að viðhalda eðlilegri öndun. Mikilvægt er því að stuðla að hreinsun öndunarvega í kjölfar aðgerðar svo sjúklingi sé unnt að endurheimta fyrri lungnarýmd. Meðferð felst í hvatningu á öndunar- og hóstaæfingum ásamt eftirliti með blóðgösum, magni, litarhátt og þykkt drenvökva, hraða, dýpt, takti og áreynslu við öndun og niðurstöðum lungnamynda. Það að sjúklingur sé vel verkjastilltur gerir honum kleift að iðka öndunar- og hóstaæfingar og hefur það því mikið að segja um árangur meðferðar. Með öndunaræfingum er unnt að auka lungnarýmd og koma í veg fyrir slímsöfnun í lungum. Þannig má minnka líkur á því að sjúklingur þrói með sér lungnabólgu og frekara samfall lungnablaðra. Enn fremur örvar djúp innöndun hóstaviðbrögð sem ýta enn frekar undir hreinsun öndunarvega. Brenglun á vökvajafnvægi. Nákvæmt eftirlit með vökvajafnvægi sjúklings er nauðsynlegt eftir hjartaaðgerðir og er það gert með því að mæla og skrá inn allan vökva sem sjúklingur fær, um munn og í æð, sem og þvagútskilnað frá honum. Fyrst eftir aðgerð er vökvainntekt sjúklinga takmörkuð vegna mikillar vökvagjafar í aðgerð og til þess að draga úr þeirri vinnu sem hjartað þarf að inna af hendi. Þegar sjúklingur er í hjarta- og lungnavél aukast líkur á nýrnabilun vegna þess að rauðar blóðfrumur skemmast og geta valdið stíflu í nýrum en allt að 25% sjúklinga fá einhverja nýrnabilun eftir hjartaaðgerðir. Einnig getur starfsemi nýrna raskast ef blóðþrýstingur verður of lágur í aðgerð. Hjúkrunarmeðferð felst í því að fylgjast með mælingum á inntöku og útskilnaði vökva hjá sjúklingi, en lágmarks útskilnaður er 30 ml/klst. Sjúkling á einnig að vigta daglega og fylgjast með einkennum um bjúgsöfnun í lungum og útlimum. Gjöf á þvagræsilyfjum eftir hjartaaðgerðir er ekki óalgeng og því mikilvægt að fylgjast með niðurstöðum blóðrannsókna með tilliti til raflausna, sérstaklega kalium, magnesíum og fosfór. Kvíði. Kvíði sjúklinga fyrir og eftir kransæðahjáveituaðgerð er eðlilegur í ljósi þess að um stóra aðgerð er að ræða. Kvíði sjúklings getur byggst á mismunandi forsendum og því mikilvægt að finna út hvar rót kvíðans liggur en ótti við breytt heilsufar eða hlutverk er algengur. Rannsóknir hafa sýnt að væntingar kransæðasjúklinga til meðferðar hafi áhrif á útkomur og upplifun sjúklinga á eigin lífsgæði eftir kransæðahjáveituaðgerðir. Hjúkrunarmeðferðir við kvíða byggjast á því að efla aðlögunarleiðir og getur reynst hjúkrunarfræðingum vel að hafa í huga bjargráð sjúklinga. Öflug fræðsla fyrir aðgerð getur dregið úr kvíða hjá sumum en aukið á hjá öðrum. Kvíðastilling getur byggst á því að gefa sjúklingi róandi lyf en stundum getur verið nóg að vera virkur hlustandi og hughreysta sjúkling. Ýmsar slökunarmeðferðir geta virkað vel gegn kvíða sem og stjórn á umhverfisaðstæðum. Mikilvægt er að huga að fjölskyldu sjúklings og aðstandendum því þeir geta upplifað kvíða gagnvart heilsufari sjúklings og jafnvel haft neikvæð áhrif á tilfinningar sjúklings til eigins heilsufars. Æðakölkun. Æðakölkun er bólgusjúkdómur í veggjum slagæða en upphaf hennar má rekja til þess þegar fita safnast fyrir staðbundið undir innsta lag æðar vegna spennu eða álags (til dæmis háþrýstingur). Við það raskast virkni innsta lagsins og ónæmiskerfið ræsist í kjölfarið með íferð stórkirninga á svæðið. Stórkirningarnir taka upp fituna og sérhæfast við það í gleypifrumu. Þegar gleypifrumurnar virkjast losa þær frá sér frumuboðefni sem örva frumur í miðlagi æðarinnar til að hylja fituskelluna með myndun trefjahimnu. Með þessum viðbrögðum hefur ónæmiskerfið unnið tímabundið úr vandamálinu og getur einstaklingur verið einkennalaus á meðan að skellan raskar ekki eðlilegu blóðflæði. Hins vegar ef bólguviðbrögð ónæmiskerfisins ágerast getur það orðið til þess að gleypifrumur nái að rjúfa sér leið gegnum trefjahimnuna og innsta lag æðarinnar. Við rofið nær innihald skellunnar að komast í snertingu við blóðrásina en við það fer af stað storkuferli og blóðtappi myndast sem nær bæði inn fyrir brostna veggi skellunnar og út fyrir hana. Blóðtappinn hleður utan á sig og getur annað hvort valdið stíflu í æðinni staðbundið eða losnað frá skellunni og valdið stíflu annars staðar í æðakerfinu og valdið hjartaáfalli, heilablóðfalli og heltiköstum. Þekktir áhættuþættir kransæðasjúkdóma eru aldur, háþrýstingur, sykursýki, hækkaðar blóðfitur, reykingar og ættarsaga um æðakölkunarsjúkdóma. Angíótensín II. Angíótensín II er hormón sem kemur víða við sögu í stjórnkerfi blóðþrýstings og vökvajafnvægis í mannslíkamanum. Áhrif angíótensíns II sameinast í virkni þess á þvag- og blóðrásarkerfið. Angíótensín II er virka efnið í renín-angíótensín kerfinu. Renín-angíótensín kerfið. Renín-angíótensín kerfið er flókið hormónakerfi sem stjórnar blóðþrýstingi. Renín-angíótensín kerfið virkjast þegar enzýminu reníni er seytt frá nærhnoðrafrumum nærhnoðratækis í aðlægum slagæðlingum nýrnahnoðra t.d. þegar blóðrúmmál minnkar, súrefnisbindigeta nýrnunga er léleg eða blóðþrýstingur fellur. Þegar reníni er seytt út í blóðrásina umbreytir það óvirka peptíðinu angíótensínógen, sem framleitt er í lifur, í angíótensín I. Óvirku angíótensín I er svo breytt í virkt angíótensín II fyrir tilstuðlan angíótensín breytiensímsins ("ACE"). Angíótensín breytiensímið var áður talið aðeins finnast í háræðaþeli lungna en nú er vitað að breytiensímið finnst í miklu magni í æðaþeli um allan líkamann. Angíótensínógen → Angíótensín I → Angíótensín II Stjórnkerfi angíótensín II. Angíótensín II gegnir margþættu hlutverki á samvægi líkamans ("homeostasis") en eitt helsta hlutverk angíótensíns eru bein áhirf þess á rúmmál slagæða og þ.a.l. á blóðþrýsting og örvun þess á seytingu aldesteróns frá nýrnahettuberki. Angíótensín II er virkur æðaþrengir um allan líkamann og spilar stórt hlutverk í viðhaldi blóðþrýstings og blóðflæðis, sérstaklega til nýrna. Hnoðrasíunarhraða ("GFR") í nýrungum er viðhaldið innan ákveðinna marka og er það að stórum hluta fyrir tilstuðlan angíótensíns II. Þar sem hnoðrasíunarhraði endurspeglast í þrýstingi í hnoðra hverju sinni (og gegndræpi hans) verður líkaminn að viðhalda ákveðnum blóðþrýstingi og tryggja blóðflæði til nýrna. Þegar blóðþrýstingur fellur eða blóðflæði til nýrna skerðist skynja nærhnoðafrumur í aðlægum slagæðlingum hnoðra minnkað flæði og losa renín. Angíótensín II fer einnig aðrar leiðir til að hafa áhrif á blóðþrýsting. Angíótensín II nemar í undirstúku heila virkja losun þvagtemprandi hormóns ("ADH") eða vasópressíns úr aftari hluta heiladinguls. Þvagtemprandi hormón veldur því að vökva er haldið eftir í nýrum þannig að blóðrúmmál eykst og blóðþrýstingi er viðhaldið. Aukið magn angíótensín II í blóði framkallar þorstatilfinningu og við aukna vökvainntekt eykst rúmmál blóðsins og blóðþrýstingur eykst. Einnig eru angíótensín II viðtakar í hjarta- og blóðrásarstjórnstöðvum í mænukylfu. Þegar þeir virkjast aukast drifkerfisáhrif á hjartað og æðar, þ.e. aukning á útfalli hjartans og aukinn æðasamdráttur sem verður til þess að blóðþrýstingur hækkar. Í nýrnahettuberki hvetur angíótensín (ekki er vitað hvort um sé að ræða angíótensín II eða III) til losunar á aldósteróni. Aldósterón er hormón sem virkar á nýrnapíplur og safnrásir nýrnaog eykur þar endurupptöku á natríum og vatni frá þvagi sem stuðlar enn frekar að hækkuðum blóðþrýstingi. Angíótensín breytiensímshemlar. Afleiðingin er minnkaður blóðþrýstingur, minni framleiðsla og seytun á þvagtemprandi hormóni og minnkun á seytingu aldósteróns. Angótensín II viðtakahemlar. Hjá sumum sjúklingum getur hækkað bradýkínin í blóði valdið þurrum, hörðum hósta og hafa því verið þróuð lyf sem kallast angótensín II viðtakahemlar, en þau koma í veg fyrir blóðþrýstingshækkandi áhrif angíótensíns II án þess að hafa áhrif á niðurbrot bradýkíníns. Angíótensín II viðtakahemlar eru hindrunarefni ("antagonists") með sérhæfða sækni í AT1 viðtaka angíótensíns II. Þannig koma þeir í veg fyrir að angíótensín II setjist í viðtaka sína í vefjum, hvort sem þeir eru í æðum, heila eða nýrnahettuberki, og blóðþrýstingshækkandi áhrif þess. Áhrif angíótensín II viðtakahemla eru þar af leiðandi æðavíkkun (viðtakar í æðum), minnkun á framleiðslu og seytingu aldósteróns (viðtakar í nýrnahettuberki) og minnkar seytingu á þvagtemprandi hórmóni (viðtakar í heila). Samanlögð áhrif eru minnkun á blóðþrýstingi og lyfið því gefið við háþrýstingi, oft sjúklingum sem eru ónæmir eða með óþol fyrir angíótensín breytiensímshemlum. Vessaþurrð. Vessaþurrð (e. "dehydration") er algeng birtingarmynd vökva- og elektrólýtabrenglunnar en hún orsakast af minnkun á vökvainntöku og/eða aukningu á útskilnaði. Áhættuþættir vessaþurrðar eru margir og tengjast þeir oftar en ekki hækkandi aldri. Talið er að vessaþurrð sé helsta vökva- og elektrólýtabrenglun hjá eldri einstaklingum og oft ástæða innlagnar á spítala. Einkenni. Lífefnafræðilegir vísar að vessaþurrð eru sermi við undirþrýstna vessaþurrð eða >145 mmol/L natriums í sermi við yfirþrýstna vessaþurrð og/eða þegar hlutfall BUN/kreatinin í blóði ≥ 25. Ein eða fleiri hitamælingar sem sýna >37,5 °C um munn eða >38,3 °C um endaþarm geta einnig verið vísbending um vessaþurrð. Meðal annarra einkenna má nefna hrukkur þvert á tungu, þurrar slímhimnur, sokkin augu, tjáningarerfiðleikar, rugl og máttminnkun í efri hluta líkamans. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar sem þjást af hypernatremiu mælast með lágan blóðþrýsting og háa hjartsláttartíðni (>100 slög/mín) auk lækkaðrar líkamsþyngdar. Aðrar vísbendingar um hypernatremiu geta verið ortóstatískur blóðþrýstingur, lélegur húðturgor, oft neðan við viðbein og á framhandlegg, og minnkuð meðvitund. Klínísk einkenni yfirþrýstinnar vessaþurrðar eða hypernatremiu geta einnig verið ruglingur/uppnám, þorstatilfinning, slagæða blóðþurrð, hiti og þurr slímhúð. Breytingar á meðvitundarstigi hefur verið nefnd sem besta vísbendingin um vessaþurrð og þær séu merki um að frekari þörf sé til rannsókna á elektrólýta jafnvægi. Þessar breytingar sem fram koma á hugarástandi sjúklinga með vessaþurrð eru talin stafa af minnkun á innanfrumurúmtaki heilafrumna og röskun á starfsemi þeirra í kjölfarið. Reynst getur erfitt að túlka klínísk einkenni hypernatremiu hjá öldruðum því sum áðurnefndra einkenna geta verið eðlileg fyrir þennan aldurshóp. Til dæmis getur lélegur húðtugor sem er oft túlkaður sem vísbending um vessaþurrð í neðra kviðarholi einnig verið eðlileg afleiðing aukins teygjanleika húðarinnar með aldrinum. Auk þess getur líkamsmat verið misjafnt milli heilbrigðisstarfsmanna. Gagnrýni hefur einnig beinst að klínískum einkennum eins og þurrum slímhimnum og húðturgor og þau sögð byggjast frekar á persónulegri reynslu athuganda heldur nákvæmum viðmiðunum. Orsaka- og áhættuþættir. Þeir þættir sem gjarnan er litið til þegar meta á hættu á vessaþurrð er meðal annars aldur, hreyfi- og virknigeta, kyn, þvagleki og hugarástand. Vessaþurrð einskorðast ekki aðeins við langlegusjúklinga heldur getur hún allt eins þróast meðal sjúklinga á bráðadeildum spítala. Yfirþrýstin vessaþurrð eða hypernatremia er algeng orsök vessaþurrðar hjá eldra fólki á heilbrigðisstofnunum sem oft má rekja til skorts á vatni eða jafnvel vanrækslu. Rannsóknum ber ekki saman hvað varðar þá hópa sem eru í mestri hættu á að þróa með sér hypernatremiu. Komið hefur fram að hópurinn sem er í mestri áhættu sé mjög aldraðir einstaklingar með mikla líkamlega og andlega takmörkun. Hins vegar hefur verið bent á að meira eftirlit sé með sjúklingum sem eru rúmfastir, sjónskertir eða eiga erfitt með mál og að það séu frekar hálfsjálfstæðir sjúklingar sem líta út fyrir að geta haft umsjón með eigin vökvainntöku sem verði útundan og séu því í mestri hættu á að þróa með sér vessaþurrð. Í raun dregur allt tap á líkamlegu og andlegu sjálfstæði úr getu fólks til að viðhalda fullnægjandi vökvainntöku. Sumar rannsóknir hafa einnig litið til annarra áhættuþátta eins og bráðasýkinga, þunglyndis, áhugaleysis, spítalainnlagnar, fjölda sjúkdóma, fjölda matmálstíma, erfiðleika við að matast og drekka, uppkasta og niðurgangs. Aldur. Sá þáttur sem vegur þyngst, og er gjarnan orsök annarra áhættuþátta sem nefndir hafa verið, er aldur, en upplýsingar benda til að yfir helmingur þeirra sjúklinga sem leggjast inn á spítala eftir greininguna vessaþurrð eru 65 ára og eldri. Hækkandi aldri fylgja ýmsar lífeðlisfræðilegar breytingar á líkamsstarfsemi manna. Bent hefur verið á að þorstaskynjun minnki með aldrinum en talið er að allt að tveir þriðju aldraðra sem þjást af hypernatremiu séu með skerta þorstatilfinningu. Fitugeymslur líkamans eru nánast alveg lausar við vatn og fitulausu svæðin ("fat free mass") eru 73% vatn. Með aldrinum rýrna vöðvar og bein og þar af leiðandi verður tap á vökva. Sú staðreynd getur hjálpað til við að útskýra hvers vegna vessaþurrð sé aldurstengd. Meðal annarra breytinga sem eiga sér stað má nefna breytingar á efnaskiptum vatns í líkamanum, minnkun á þvagframleiðslu, hormónastarfsemi nýrna brenglast auk þess sem að nýrun verða tiltölulega ónæm gagnvart vasópressín. Matarneysla minnkar gjarnan með aldrinum og því mikilvægt að líta til áhrifa þess á heildar vökvainntöku aldraðra. Einnig er mikilvægt að bæta upp vökvaskortinn sem óhjákvæmilega fylgir minnkaðri matarneyslu með aukningu á vökvainntöku. Menn eru samt ekki á eitt sáttir um að hættan á vessaþurrð sé aldurstengd og hafa niðurstöður rannsókna um aldurstengda vessaþurrð verið misjafnar og sýna oft að enginn marktækur aldursmunur sé á þeim sem þjást af vessaþurrð og þeim sem teljast eðlilegir. Skert hreyfigeta. Skert hreyfigeta er annar mikið ræddur áhættuþáttur vessaþurrðar og jafnvel talinn einn af stærstu áhættuþáttunum. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að rúmfastir íbúar á hjúkrunarheimilum séu líklegri en aðrir íbúar til að þjást af vessaþurrð og sýna að tengsl séu á milli sjálfsbjargargetu og vökvainntöku. Aðrar niðurstöður sýna hins vegar að vökvainntaka sjálfstæðra einstaklingar og þeirra sem eru háðir öðrum um aðstoð við matast sé mjög svipuð. Með öðrum orðum að þeir einstaklingar sem af einhverjum orsökum geta ekki séð um sig sjálf fá þá hjálp sem þeir þurfa á meðan að hálfsjálfstæðir sem virðast sjálfbjarga verða útundan. Kyn. Kyn hefur verið nefnt sem áhættuþáttur og þá að kvenkyns íbúar á hjúkrunarheimilum séu líklegri til að þróa með sér vessaþurrð en karlmenn. Rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt fram á að marktækur munur sé á vökvainntöku milli kynja. Þvagleki. Ekki hefur verið sýnt fram á að þvagleki sé raunverulegur áhættuþáttur vessaþurrðar, en rannsóknir hafa sýnt fram á minnkaða vökvainntöku hjá einstaklingum með þvagleka. Talið er að þar sé um að ræða meðvitaða ákvörðun til að minnka tímaramma þvaglekans. Hræðslan við þvagleka getur valdið því að sumt eldra fólk reyni að minnka vökvainntöku sína til að forðast það að horfast í augu við erfiðleikann við að finna klósett eða til að forðast erfiðar eða kvalafullar stöðubreytingar. Andlegt ástand. Andlegt ástand er talið eiga stóran þátt í vökvainntöku hjá sjúklingum. Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvætt sambandi milli langlegusjúklinga við verra andlegt ástand og minnkaðrar vökvainntöku. Hins vegar þegar skoðuð hefur verið heildar matar- og vökvainntaka íbúa á hjúkrunarheimilum sást enginn marktæk tengsl milli huglægrar getu og heildar vökvainntöku. Komið hefur skýrt fram á klínískri birtingamynd hypernatremiu hjá öldruðum að andleg hnignun (dementia) sé stór áhættuþáttur. Auk þess hefur verið sagt að andleg hnignun geti komið í veg fyrir að hypernatremia sé greind á byrjunarstigi enda séu breytingar á meðvitundarástandi eitt fyrsta einkenni hypernatremiu hjá öldruðum. Forvarnir og meðferð. Hlutverk vatns í líkamanum er margþætt og er nauðsynlegt næringarefni til viðhald lífs. Vatn er meðal annars notað sem flutningsmiðill innan líkamans auk þess sem það tekur þátt í hitastjórnun líkamans. Sterkt samband er á milli vökvun ("hydration") frumna og frumuvirkni, enda viðheldur vatn formi vefja og stuðlar að frumuvirkni og þar af leiðandi að eðlilegri heilastarfsemi. Vatnsbirgðir líkamans eru stöðugt endurnýjaðar og því mikilvægt að viðhalda stöðugri vökvun. Þeir þættir sem mikilvægast er að hafa í huga þegar koma á í veg fyrir vessaþurrð eru breytt efnaskipti vatns með aldrinum og vökvaójafnvægi hjá eldra, veikburða fólki. Mikilvægt er að framkvæma hugarástands- eða huglægt mat hjá sjúklingum daglega, sérstaklega á stofnunum, til að koma í veg fyrir þróun efnaskiptakvilla eins og vessaþurrðar. Gagnlegt er að koma auga á þá sjúklinga sem eru í mestri hættu á að þróa með sér vessaþurrð og koma á viðeigandi forvarnarmeðferð. Til dæmis að muna að auka vökvainntöku þeirra sjúklinga sem eru með sjúkdóma af völdum sýkinga eða sem hafa í för með sér hita. Margir þeirra sem rannsaka hafa hypernatremiu og séð hversu lélegar batahorfurnar telja sjúkdóminn vera ágætis mælikvarða á gæði umönnunnar. Mikilvægt er að leiða hugan að öllum þeim vísbendingum sem gefa til kynna upphaf vessaþurrðar eins og kyngingarerfiðleikum, of hröð öndun, niðurgangur og uppköst. Eldra fólk á það til að sína einkenni um lystastol sem stóreykur hættu á vessaþurrð. Vökvaskráning getur komið að gagni þegar fylgjast þarf grannt með vökvainnöku eldra fólks. Gildi þessara mælinga er umdeild og bent hefur verið á óáreiðanleika vökvaskráa. Sumir vilja meina að þeim sé illa viðhaldið og aðrir ganga svo langt að segja að ómögulegt sé að meta vökvun sjúklinga með því að nota vökvaskrár. Fræðsla hefur mikla þýðingu í forvörnum gegn vessaþurrð hjá eldra fólki því þau gera sér ekki endilega grein fyrir minnkandi þorstaskynjun með aldrinum. Dagleg vökvaþörf er 1,5 L sé miðað við eðlilegan líkamshita við stofuhita en auka þarf að vökvainntöku þegar líkamshiti eða hiti í umhverfi hækkar. Ráðlagt er að auka vökvainntöku um 500 ml. fyrir hverja gráðu yfir 38 á celsius. Gott er að benda eldra fólki á úrval vökva sem þau eiga kost á að neyta og mæla með að drekka oftar og minna frekar en sjaldan og mikið í einu. Sýnt hefur verið fram á að árangurríkt sé að bjóða sjúklingum að drekka á 90 mínútna festi yfir daginn til að viðhalda fullnægjani vökvainntöku. Regluleg fræðsla er ekki síður mikilvæg þegar kemur að heilbrigðisstarfsfólki, aðstandendum og öðrum umönnunaraðilum enda eru það þau sem standa eldra fólkinu næst. Vegtollur. Vegtollur er gjald sem ökumenn greiða fyrir afnot af vegi, göngum eða brú. Aðrir vegir eru fjármagnaðir með almennum sköttum eða með sérstökum eldsneytisskatti, þungaskatti og/eða álögum á hjólbarða. Vegtollur er innheimtur í svokölluðu tollskýli. Mógilsá. Mógilsá er ríkisjörð í Kollafirði við rætur Esju. Þar er Rannsóknastöð Skógræktar staðsett. Árið 1967 var ákveðið að efla rannsóknir í þágu skógræktar á Íslandi og var Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá í Kollafirði reist fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum sem gefin var í tilefni af heimsókn Ólafs V. Noregskonungs til Íslands árið 1961. Það er eðlilegur þáttur í rannsóknum að prófa nýjar trjátegundir og hefur mikið af því efni endað í brekkunni fyrir ofan rannsóknastöðina. Þar er því einhver fjölbreyttasti skógur landsins og margt forvitnilegt að sjá. Skógurinn er einna mestur í kringum stöðina sjálfa, en hann er í raun trjásafn með tegundum teknum víða að úr heiminum. Í skóginum eru m.a. fágætar tegundir eins og linditré, broddhlynur og risalerki, svo eitthvað sé nefnt, en flestar trjátegundir eru merkt. Öllum er frjálst aðgengi að skóginum. Fjölmargir stígar liggja um skóginn, yfir læki og bakka, skógi vaxnar hlíða í alpaumgjörð Esju, eins vinsælasta útivistarsvæðis höfuðborgarinnar. Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum en margir minni stígarnir eru í raun tilvalið tilbrigði við hefðbundna Esjugöngu; styttri Esjuganga í sjálfu sér. Syðri Ánastaðir. Ánastaðir eru fornbýli. Bærinn er í Vestur-Húnavatnssýslu á Vatnsnesi vestanverðu, gegnt enda Heggstaðaness. Jörðin er stór og liggur vel við sjó, og þar hafa verið bæði verbúðir og hjáleigur nokkrar frá ýmsum tímum. Hvalrekinn á Ánastöðum 1882. Þann 24. maí 1882 gerði aftaka veður um nálega allt land með þeim afleiðingum að hafísinn rak að landi og fyllti allar víkur og voga. Að kvöldi 25. maí varð heimilisfólkið á Ánastöðum vart við að hvalir höfðu lokast inni í vík sem Sandvík heitir. Sendi þá Eggert bóndi eftir aðstoð til næstu bæja til að aflífa hvalina svo nýta mætti kjötið og spikið af þeim. Fjórir hvalir náðust þarna um nóttina því þeir voru svo fast klemmdir af ísnum að þeir gátu lítið sem ekkert hreyft sig. Nokkuð auðvelt var að komast að þeim því íshellurnar voru það þéttar. Daginn eftir var hvalveiðunum haldið áfram og nú voru notaðir 2 bátar við veiðarnar. Þá voru komnir margir menn úr sveitinni til að hjálpa til við hvalskurðinn. Þennan dag voru allir hvalirnir 31 að tölu drepnir ýmist úr bátunum eða af íshellunum. Allir voru þeir 20 – 22 metrar að lengd. Þegar hvalirnir voru dauðir, sukku þeir og ísinn lagðist yfir en eftir 2-3 daga hafði myndast svo mikið gas í þeim að þeir flutu upp og veltu af sér ísjökunum. Þá voru þeir dregnir að landi og var það afar erfitt verk. Hvalirnir voru svo þungir og stórir að ekki var hægt að draga þá alveg upp í fjöruna því strax á 5 metra dýpi kenndu þeir grunns. Tóku menn það til bragðs að skera ofan af hvölunum rengið og moka innyflum þeirra í sjóinn og eftir því sem þeir léttust þeim mun nær landi var hægt að draga þá þegar flæddi að. Vinnuaðstaða mannanna var mjög slæm því þeir urðu annað hvort að standa á sjálfum hvölunum eða á ísnum en allt var flughált af grút. Engin slys urðu þó á mönnum. Í landi voru síðan reistar trönur þar sem kjötstykkin voru hengd upp og var þungi þeirra merktur með skorum í kjötið og þýddi hver skora vissa þyngd. Var því fljótlegt að afgreiða hvalinn því viktin var mörkuð á hvert stykki. Þann 25. maí varð bóndinn í Gröf á Vatnsnesi var við hval sem var skorðaður á milli jaka fyrir neðan bæinn. Jónas bóndi hélt að hvalurinn væri dauður hljóp út á ísinn og stökk upp á hvalinn. Ekki kunni hvalurinn sem var á lífi, við að láta einhvern bónda troða á sér og reyndi því að dýfa sér. Jónas stökk þá af hvalnum en hann synti innar í fjörðinn og var lagður þar. Var þessi hvalur sá 32. sem veginn var þennan dag. Mikil harðindi höfðu herjað á landsmenn þennan vetur og margir orðnir matarlitlir því var þessi hvalreki sannkallaður happafengur. Fljótt flaug fregnin um þennan hvalreka og eftir fáa daga var fjöldi manna kominn á hvalfjöruna, sumir langt að. Með þessum mönnum komu mislingar sem þá voru farnir að breiðast út um Suðurland. Lögðust þá allir í mislinga sem miðaldra voru og yngri. Því varð að hætta hvalskurðinum í bili og var ekki hægt að ná eins miklu kjöti og annars hefði verið. Veðráttan hélst slæm allt sumarið, frost flestar nætur og snjókoma fram yfir mitt sumar og var fjárdauði mikill. Ekkert vöruskip kom á Húnaflóa fyrr en um haustið var því lítið annað að borða en mjólk og hvalur. Mun hann hafa verið fluttur á öll heimili í Húnavatnssýslu, mikinn hluta Skagafjarðar, eins í Borgarfjarðar-, Mýra-, Dala- og Strandasýslur. Ekki varð Eggert bóndi á Ánastöðum auðugur maður af þessum mikla hvalreka og var það haft eftir honum að fyrst Guð hefði sent þessa miklu björg til að bæta úr bjargarskorti þeim og neyð er þá var víða, bæri sér að stuðla að því að sem flestir gætu notið þess. En þessi mikli hvalreki, sem einstæður er í sögu landsins, varð til þess að bjarga mörgum sveitum frá bjargarskorti og hungursneyð sem tvímælalaust hefði annars orðið. Hauskúpufiðrildi. Hauskúpufiðrildi (eða hauskúpusvarmi) (fræðiheiti: "Acherontia atropos") er fiðrildi af svarmfiðrildaætt og er svo nefnt vegna þess að ofan á frambol er gul litflikra sem minnir á hauskúpu. Hauskúpufiðrildi á heima við Miðjarðarhaf og flýgur árlega norður yfir Pýreneafjöll og Alpanna. Þá er hásumar og verpir hann eggjum sínum í kartöflugrös og skyldar náttskuggajurtir. Hauskúpufiðrildið sækir hunang í býflugnabú, dáleiðir býflugurnar með sérstöku blísturhljóði, en oft endar innbrotið með því að býflugurnar stinga það til bana. Aðeins einu sinni hefur hauskúpufiðrildi fundist á Íslandi, það var í Öræfasveit. Krabbalakki. Krabbalakki (fræðiheiti: "Gromphadorhina portentosa") er með stærri kakkalökkum í heiminum, enda getur hann orðið allt að 8-10 cm að lengd, en kvendýrið er nokkuð minna en kardýrið. Krabbalakkinn er brúnsvartur, vængjalaus, með sérkennilega hnúða á framboli. Krabbalakkinn lifir villtur á Madagaskar, en hefur orðið vinsælt gæludýr þar eð hann hvæsir sem slanga ef hann telur sér ógnað. Elton John. Sir Elton Hercules John (fæddur Reginald Kenneth Dwight, 25. mars 1947) er enskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Stephen Fry. Stephen Fry (fæddur 24. ágúst 1957) er enskur leikari, grínisti, rithöfundur, þáttastjórnandi og fjölfræðingur. Hann er þekktur fyrir leik sinn í þáttum á borð við "A bit of Fry and Laurie", "Blackadder", "Jeeves and Wooster" og kvikmyndum á borð við "Wilde" og "V for Vendetta". Auk þess hefur hann skrifað fjölda bóka, leikstýrt kvikmynd og gert heimildarmyndir svo fátt eitt sé nefnt. Hann hefur mikið unnið með vini sínum Hugh Laurie, en þeir hafa starfað saman síðan þeir kynntust við nám í Cambridge. Kayapo-fólkið. Kayapo-fólkið er 7.000 manna Gê-talandi örþjóð frumbyggja sem býr í regnskógum Mið-Brasilíu við Xingu ána, eina af stærri þverám Amazon-fljóts. Það býr í fjórtán sjálfstæðum samfélögum. Svæðið sem því tilheyrir er á stærð við Skotland og er blanda af skóglendi og grassléttum. Öflun frumþarfa er mikilvægur þáttur í tilvist Kayapo-fólksins en hún hefur mikla félagslega þýðingu fyrir það. Þannig sér það tengingu milli öflun frumþarfa og æxlunnar. Með öðrum orðum er aðlögun þeirra að umhverfinu og öflun nauðþurfta samofin á flókin hátt við æxlunaratferlið. Það trúir á orku náttúrunnar, innvortis náttúrulegan kjarna manna og að blöndun náttúrulegrar orku við félagslega þáttinn geri samfélaginu kleift að vera til og endurnýja sig. Kayapo-fólkið á sér sterk menningarleg sérkenni sem hafa þó tekið breytingum á undanförnum árum með auknum alþjóðlegum umsvifum. Það er þekkt fyrir höfuðbúnað sinn og hvernig það málar líkama og andlit. Þessi líkamlega meðhöndlun er hluti af flóknu merkingarkerfi sem vísar til líkamlegrar líðan og stöðu fólks í lífinu. Þannig táknar sídd hársins eitthvað ákveðið á hverju aldursstigi. Til dæmis á fullorðinsárum merkir sítt hár að maður sé kynferðislega virkur, á meðan stutt táknar hið gangstæða, eins og að vera með barn á brjósti og stunda því ekki kynlíf eða vegna dauða maka eða barns. Kayapo-fólkið leggur mikla áherslu á táknræna og félagslega framkomu og virðist náttúan ávallt vera hluti af túlkunarferlinu. Samskipti við umheiminn. Samskipti Kayapo-fólksins við brasilískt samfélag hafur staðið yfir í um 150 ár og hefur sambúð þeirra oftar en ekki einkennst af slitróttum og ofbeldisfullum erjum. Samfélag þeirra hefur tekið mörgum breytingum á þessum árum, frá því að vera ræningjasamfélag háð þýfi frá brasilískum landnemabyggðum, í að eiga verðmætar gullnámur og ráða yfir gríðarlegu magni af mahónívið. En saga þeirra er er ekki svo einföld. Kayapo-fólkið hefur umborið áform stjórnvalda í Brasilíu frá 1920 en markmið stjórnvalda var að skapa einsleitt þjóðfélag með því að knýja frumbyggja til aðlögunar að samfélagi annarra Brasilíumanna. Kayapo-fólkinu var komið í vinnu og hlutfall vinnandi frumbyggja jókst stöðugt á 6. og 7. áratugnum og um leið, áhrifin á samfélagsgerð þeirra. Um svipað leiti hóf hluti Kayapo-fólksins að flytja sig um set, en því var úthlutað verndarsvæði af stjórnvöldum í Brasilíu sem vernda átti þau fyrir áhrifum frá evrópsku og brasilísku landnámi. En upp úr 1960 jókst ágangur brasilískra stjórnvalda og landnema inn á verndarsvæði Kayapo-fólksins. Bygging hraðbrautar þvert yfir verndarsvæðið hafði í för með sér aukna umferð og uppgötvun gullnáma inn á verndarsvæðinu leiddi til kvikasilfurmengunar í aðalfiskveiðiá Kayapo-fólksins og losun geislavirks úrgangs frá krabbameinsleitarstöð olli tugum dauðsfalla meðal þess. Sögusagnir þess efnis að stjórnvöld í Brasilíu hyggðust byggja röð af vatnsorkustíflum, með fram Xingu ánni og þverám hennar, komust á kreik og vissi Kayapo-fólkið að afleiðingar slíkra framkvæmda yrðu skelfilegar fyrir þá, þar sem stór hluti landssvæðis þeirra færi undir vatn. Framkvæmdirnar áttu að vera fjármagnaðar af Alþjóðabankanum. Kayapo-fólkið varð frá sér numið af reiði í garð stjórvalda fyrir að bera ekki fyrirhugaðar aðgerðir undir sig og hundsa þar með pólitískan og lagalegan rétt þeirra. Stjórnvöld komu á ákvæði í lögum sem hefur gengið undir nafninu "Catch 22". Ákvæðið innihélt endurskilgreiningu á frumbyggjum sem í stuttu máli meinaði þeim aðgang að réttarkefinu. Aðstæður kölluðu á breytingar og andspyrna hófst með vopnuðum árásum Kayapo-fólksins á landnema sem stóðu yfir í 15 ár. Auk vopnaðrar andspyrnu beitti það öðrum andspyrnuaðgerðum og höfðu árangur sem erfiði því að lokum yfirgáfu allir landnemar og námumenn verndarsvæðið. Áralaöng barátta þess gerði það að verkum að öllu ólöglegu skógarhöggi var hætt árið 1987 og áætlanir um losun geislavirks úrgangs aflögð. Í kjölfarið fauk "Catch 22" klausan og Kayapo-fólkið komst yfir skýrslur frá Alþjóðabankanum sem sönnuðu fyrirhugaða stíflugerð stjórnvalda. Skipulögð mótmæli 500 Kayapo manna fóru fram í borginni Belem, fyrir framan Höll réttlætis, stuttu síðar þar sem þau fordæmdu kúgun brasilískra stjórnvalda. En mótmælin urðu að engu þegar Kayapo fókið var hraktið burt á grundvelli klæðaburðar. Þá gerðu þeir gögnin frá Alþjóðabankanum opinber og vöktu þannig enn meiri athygli á fyrirhuguðu umhverfisslysi. Alþjóðleg mótmæli í Altmira. Tækniframfarir á 9. áratugnum buðu upp á fjölbreyttari framsetningarmöguleika málstaðar Kayapo-fólksins og aukið svigrúm til aðgerða gerði því kleift að tengja baráattumál sín við alþjóðlega umhverfisstefnu. Með einhverja kunnáttu í portúgölsku, lestri og skrift gat Kayapo-fólkið komið sér í samband við umheiminn með hjálp mannfræðinga, óháðra samtaka og stuðningshópa innfæddra. Saman skipulagði það alþjóðleg mótmæli sem halda átti í Altmira, þar sem fyrsta stíflan átti að rísa. Þangað áttu að koma fulltrúar brasilískra stjórnvalda, fulltrúar Alþjóðabankans, innlendir og alþjóðlegir fjölmiðlar auk umhverfissinna, mannréttindasinna, stuðningsmanna innfæddra og eins mikið af innfæddum og mögulegt væri. Kayapo-fólkið gerði sér grein fyrir því að árangur samkomunnar væri bundinn því hversu mikla athygli hún fengi hjá fjölmiðlum og þar af leiðandi almenningi. Þannig kom Kayapo-fólkið á fót auglýsingarherferð um heim allan í lok ársins 1988 þar sem mótmælin í Altmira og málstaður þess var kynntur. Frá 19. – 24. febrúar árið 1989 söfnuðust saman við árbæinn Altmira 600 Amazonbúar og jafn margir alþjóðlegir fjölmiðlamenn, ljósmyndarar, heimildamyndagerðarmenn, brasilískir og erlendir pólitíkusar og fulltrúar óháðra samtaka. Allt gekk eins og í sögu, Sting kom, Jóhannes Páll páfi II sendi skeyti og Altmira samkoman vakti heimsathygli. Stuttu síðar hætti Alþjóðabankinn við lánveitingu til stíflugerðarinnar og árið 1992 var sigur í höfn hjá Kayapo-fólkinu þegar öllum áformum um framkvæmdir var hætt og verndarsvæðunum var fjölgað úr tveimur í þrjú. Þannig sigraði Kayapo-fólkið áralanga baráttu sína fyrir eigin velferð og það gegn öllum líkum. Það sem gerði Kayapoum kleift að fanga áhuga umheimsins á baráttumálum sínum voru fyrst og fremst nútímalegur fréttaflutningur og upplýst fjölmiðlun. Án fjölþjóðlegra samskipta hefði líklega aldrei komið til þessa. Áberandi sviðsetning menningar þeirra hefur einnig skipt sköpum. Meðvituð notkun þeirra á orðum eins og „menning“ og „uppruni“ í samskiptum sínum við hina ýmsu ráðamenn síðustu ár hefur kannski aukið þrýsting á Kayapo-fólkið að viðhalda sérstöðu sinni um ókomna tíð. Framtíðin. En þrátt fyrir sigur Kayapo-fólksins gegn ágangi brasilískra stjórnvalda hefur ekki allt gengið slyndralaust fyrir sig í framhaldinu því enn eru Kayapoleiðtogar að semja ólöglega við skógarhöggs- og námumenn. Þessir samningar hafa fært umræddum leiðtogunum glás af peningum, gulli og alls kyns góssi á borð við flugvélar, vélknúin farartæki og hús í vestrænum stíl. Ekkert virðist geta stöðvað leiðtogana hvað þetta varðar. Kayapo leiðtogarnir Raoniiii, Kaye, Kadjor, Panara. Kayapo-fólkið hefur haldið því fram að það séu knúið óbeint til samninga um náttúruauðlindir sínar af stjórnvöldum. Því til rökstuðnings benda þau á að mörg timbur- og námufyrirtæki með starfsemi á verndarsvæðunum bjóði upp á heilbrigðisþjónustu, nokkuð sem brasilísk stjórvöld hafa vanrækt að mestu. En skógarhöggið er kannski ekki það sem ber að hafa mestar áhyggjur af því kvikasilfursmengun sem námugröfturinn hefur í för með sér hefur ekki aðeins mengað árnar heldur mælist óhóflegt kvikasilfursmagn í blóði margra Kayapo manna. Auðvitað á þetta ekki við um allt Kayapo-fólkið því flestum er ekki það vald gefið að stjórna þorpum. Hvort sem Kayapo-fólkið er álitið eins frumstætt og aðrir innfæddir sem búa innan verndasvæðisins, er það meðvitað um stöðu sína og þeim skortir ekki kímni yfir stöðunni. Oft spaugast það sín á milli og segir að einhver sé ekki lengur Kayapomaður vegna þess að sá hinn sami getur hvorki sofið án teppis né gengið án skófatnaðar. Hreyfiþroski. Hreyfiþroski er skilgreindur sem þróun á getu barns til þess að hreyfa sig og hafa stjórn á líkama sínum. Við fæðingu eru hreyfingar barns ósamhæfðar en eftir því sem heilinn þroskast samfara aukinni skynreynslu barnsins, eykst hreyfigeta þess. Þroski heilans fer að hluta til eftir skynreynslu barnsins og hreyfingu þess í upphafi lífs og því er mikilvægt að hlúa vel að þeim þáttum. Svissneski sálfræðingurinn Jean Piaget kallar þetta fyrsta stig í lífi einstaklinga skynhreyfistigið ("sensorimotor stage") og vill meina að í því felist að vitsmunir barns þroskist út frá skynjun og hreyfigetu. Fyrst um sinn einkennast hreyfingar barna einkum af óviljastýrðum viðbrögðum við ákveðnu áreiti. Í raun eru viðbrögðin barninu lífsnauðsynleg til þess að viðhalda súrefnisframboði og líkamshita og til þess að nærast. Óviljastýrðu viðbrögðin eru jafnframt undanfari grófhreyfingar, hvort sem það er notkun handa, fóta eða þegar börn læra að ganga. Það sama á við um þróun fínhreyfingar. Til dæmis eru nýburar með sterkt óviljastýrt gripviðbragð en fljótlega fer það að geta teygt sig meðvitað í hluti og gripið um þá. Börn mæta samt sem áður ýmsum áskorunum á þroskabraut sinni þegar litið er til hreyfiþroska. Líkami þeirra breytist mikið á skömmum tíma, leikni þeirra er í stöðugri þróun og fjölbreytileiki umhverfisins eykur enn á áskorunina. Þróun samhæfðrar hreyfingar, frá viðbrögðum til viljastýrðrar hreyfingar, ræðst þannig bæði af breytingum hjá barninu sjálfu og á umhverfi þess. Í þvi felst að hreyfiþroski mótist af ótal samhangandi þáttum eins og mynsturmótun ("pattern generation"), málþroska, stöðustjórnun, næmni á sjónflæði, styrk réttivöðva, líkamlegum hömlum og hvata svo nokkur dæmi séu tekin. Stöðugt endurmat barns á aðstæðum og eigin getu er því nauðsynlegt til þess að það geti aðlagað hreyfigetu sína að nýjum veruleika. Það að ná tökum á nýrri hreyfigetu kostar mikla vinnu og aðlögun hjá barni. Eftir að barn hefur náð góðum tökum á því að skríða og vanist því að komast frá einum stað til annars snögglega og örugglega þarf það að taka skref aftur á bak þegar það reynir að takast á við það að standa óstutt eða ganga. Barnið þarf að hægja á sér og horfast í augu við endalaus föll og það óöryggi sem felst í því að læra nýja hreyfingu. Á þessum tíma sést oft hvernig börn, sem eru farin að taka nokkur hikandi skref, skipta úr göngu í skrið til þess að komast fyrr á áætlunarstað. Jafnframt hafa rannsakendur bent á að þroskamynstur barna sé háð menningu, líkamlegu hreysti og heilbrigði á fyrstu tveimur árum lífsins. Þó að hreyfiþroski barna sé vissulega að mörgu leyti stigbundinn og til eru ákveðin viðmið þegar litið er til þroskastigs barns er mjög misjafnt hvernær heilbrigð börn ná tilteknu þroskastigi í hreyfiþroska, eins og til dæmis að sitja óstudd eða ganga. Ef hins vegar er um óvenjulega hægan hreyfiþroska að ræða getur reynst nauðsynlegt að kanna forsendurnar fyrir töfunum. Um gæti verið að ræða þroskahömlun, líkamleg veikindi, alvarlega vanrækslu en þó alltaf mögulegt að barnið sé fullkomlega eðlilegt. Baðhús Reykjavíkur. Baðhús Reykjavíkur var almenn hreinlætisaðstæða í húsi sem stóð á Kirkjustræti 10 í miðbæ Reykjavíkur. Starfsemi "Baðhúss Reykjavíkur" hófst árið 1905 á þessum stað, en lauk árið 1966, u.þ.b. ári áður en húsið var rifið 25. apríl 1967. Múlatti. Í Minnisverðum tíðindum frá árinu 1803, 2. árg., 1. tbl., bls. 23 segir í neðanmálsgrein: "Þessir blendíngar, komnir af svörtum og hvítum foreldrum, kallast eginlega Múlattar; þessara og hvítra manna afsprengi nefnast Creólar." Baðhúsfélag Reykjavíkur. Baðhúsfélag Reykjavíkur (eða Baðhúsfjelag Reykjavíkur) var félag sem var stofnað um leið og fyrsta baðhús í Reykjavík þann 13. apríl 1895. Voru frumkvöðlar að stofnun þeirri, þeir Guðmundur Björnsson, landlæknir og Guðbrandur Finnbogason, konsúll. Voru í stjórn þess félags, auk þeirra sjálfra, þeir dr. Jónassen landlæknir, Guðmundur Magnússon læknir og Björn Jónsson ráðherra. Húsnæði tók félagið á leigu fyrir baðhúsið í norðurenda Gömlu-prensmiðjunnar í Aðalstræti. Baðhús þetta var allmyndarlegt samanborið við íbúatölu bæjarins. Þar voru 2 kerlaugarklefar og 1 steypibaðklefi og biðherbergi fram af. Mun á tímabili hafa verið rekin rakarastofa í sambandi við baðhús þetta. Ekki var hún opin fyrst, nema á miðvikudögum og laugardögum. Vatn var tekið úr prentsmiðjupóstinum þar rétt hjá. Baðvörður í þessu fyrsta baðhúsi Reykvíkinga var hinn góðkunni bæjarbúi Magnús Vigfússon, síðar dyravörður í Stjórnarráðinu. Árið 1903 og 1904 komu að utan þeir Eggert Claessen hæstaréttarmálaferlamaður og Jón Þorláksson borgarstjóri. Eitthvað mun þeim áhugasömu og framtaksömu fundist vanta á, að þrifnarðarmál öll væru í því lagi, sem skyldi. Þeir stofnuðu hlutafélag, er þeir nefndur h.f. Baðhús Reykjavíkur. Keyptu þeir lóð í miðbænum af Kristjáni Þorgrímssyni og reistu á þeirri lóð "Baðhús Reykjavíkur". Þetta var árið 1905. Hafði hlutafélagið rekstur hússins á hendi næstu árin. Ellefta konungsættin. Ellefta konungsættin er í sögu Egyptalands konungsættin sem kom á fót Miðríkinu með sameiningu Efra og Neðra Egyptalands í eitt ríki. Fyrstu konungar þessarar ættar tilheyra því fyrsta millitímabilinu, en þeir síðustu Miðríkinu. Allir ríktu þeir í Þebu og ættin rekur sig til fylkisstjóra Þebu, „Intefs hins mikla, sonar Iku“. Maneþon talar um sextán konunga sem ríkt hafi í 43 ár, en samtímaáletranir og Tórínópapýrusinn benda til þess að konungarnir hafi verið sjö og hafi ríkt í 143 ár. Drekaflugur. Drekaflugur (einnig verið nefndar slenjur) (fræðiheiti: "Anisoptera") nefnast skordýr af annarri af tvem undirættbálkum vogvængja ("Odonata"), hin er glermeyjar ("Zygoptera"). Þessir undirættbálkar eru mjög svipaðir en helsti sýnilegi munur þeirra er að vængir drekaflugna standa lárétt út frá líkamanum í hvíld en glermeyjar leggja vængina aftur með búknum. Drekaflugur eru einhver mestu rándýrin í skordýraríkinu. Vænghaf þeirra er oft um 10 cm, og hitabeltistegundir stærri, og vængirnir svo harðir að skellur í. Þær elta bráð sína uppi af mikilli áfergju, minni skordýr hvar sem er, grípa flugur í loftinu og voma yfir jörð líkt og ránfuglar og steypa sér niður, ef þær sjá eitthvað kvikt til að klófesta. Drekaflugur flækjast stundum til Íslands en lifa þar ekki. Gátlisti. Gátlisti (eða gaumlisti) er listi yfir atriði sem þarf að gaumgæfa, venjulega í sömu röð og þau eru skráð á listann, t.d. í stjórnklefa flugvélar áður en flug hefst og meðan á því stendur. Hvítblinda. Kjöraðstæður fyrir hvítblindu á Suðurskautslandinu. Hvítblinda er truflun á sjónskynjun sem lýsir sér með því að allt rennur saman í hvíta heild án skugga, kennileita, áttar eða dýptar. Gerist þetta helst þar sem jörð er alhvít og himininn er skýjaður (t.d. upp á jökli eða í snjóbreiðu). Hvítblinda er einnig sjálf birtan á alhvítum svæðum þar sem himinn og jörð renna saman. "Snjóblinda" er hið sama, nema snjóblinda er eingöngu tímabundin sjóndepra af völdum mikillar snjóbirtu, en ekki lýsing á birtuskilyrðum. Á meðal flugmanna er slíkt ástand, sem veldur truflun á sjónskynjun, oftast kallað hvítblinda, en snjóblinda er orð sem er oftar notað um þær snjótruflanir sem heimskauta- og jöklafarar og skíðamenn þjást af. Julia Roberts. Julia Fiona Roberts (fædd 28. október 1967) er bandarísk leikkona. Hún er þekkt fyrir að leika í rómantísku gamanmyndinni Pretty Woman á móti Richard Gere, sem halaði inn 463 milljónum dala um allan heim. Eftir að hafa fengið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir Steel Magnolias árið 1990 og Pretty Woman 1991 vann hún verðlaunin árið 2001 fyrir frammistöðu sína í Erin Borcovich. Myndirnar hennar sem eru meðal annars My Best Friend's Wedding, Stepmom, Mystic Pizza, Notting Hill, Runaway Bride, Valentine's Day og glæpamyndir eins og The Pelican Brief og Ocean's Eleven og Twelve hafa samtals halað inn 2 milljörðum dollara og gerir það hana að leikkonunni sem hefur halað inn mestum peningum fyrir myndirnar sínar. Norðursamíska. Norðursamíska (norðursamíska: davvisámegiella, sámegiella, davvi'") er finnsk-úgrískt tungumál sem er talað í Finnmörku í Lapplandi sem liggur í norður Noregi, Svíþjóði, og Finnlandi. Flestir samenar eiga norðursamísku að móðurmáli og er oft notað í samískt alþingi ("Sámediggi"). Föll. Það eru 7 föll í norðursamísku, þó eru þolfall og eignarfall sama fall núna. Nefnifall, þolfall, og eignarfall virka sama eins og á íslensku. En þegar maður notar töluorð, þá nafnorðið tekur þolfall í eintali. (T.d. 2 beatnaga = "2 hund" = 2 hundar). Staðarfall getur þýtt "frá e-h" eða "í e-h" og er notað líka til að segja "að eiga, að hafa" í norðursamísku. (T.d. mus lea = "í mér er" = ég hef). Íferðarfall er notað þegar mann langar að segja "til e-hs". (T.d. mun ferten Supmii = ég ferðast til Finnlands). Til að segja "með e-h" í norðursamísku, samvistarfall er notað. (T.d. mun bargan bohccuiguin = ég er að vinna með hreindýrum). Og síðasta fallið í norðursamísku er verufall sem er sjaldan notað en þýðir að eitthvað eða einhver er í tímabúndu ástandi. Fornöfn. Eitthvað sem er einstætt í norðursamísku er tvötalið. Á íslensku höfum við bara eintal og fleirital, eins og í flestum evrópeskum tungumálum. En í norðursamísku er það önnur leið til að segja "við tvö, þau tvö, tveir hundar, o.s.frv.". Þessi listi er fornöfn í nefnifalli. Og þessi listi er fallbeygingar af fornöfnum í norðursamísku. Pétursskip. Pétursskip (pétursbudda, pétursbörur, péturspungur eða skötuskip) er eggjahylki (eggjabú) sumra skötutegunda. Tvær tegundir háfa við Íslandsstrendur gjóta einnig pétursskipum. Það eru gíslaháfur og jensensháfur. Pétursskipum fylgir margháttuð þjóðtrú. Hvítjöfnun. Hvítjöfnun er aðferð í stafrænni ljósmyndun til að stilla liti ljósmyndar eftir ljósgjafa. Tólfta konungsættin. Tólfta konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem ríkti á tímum Miðríkisins. Maneþon segir að þessi konungsætt hafi ríkt í Þebu en samtímaáletranir segja frá því að fyrsti konungurinn hafi flutt höfuðborgina til borgarinnar "Amenemhat-itj-tawy" („Amenemhat drottnari landanna tveggja“) eða Itjtawi þar sem nú er þorpið Lisht. Syrpa. Syrpa eru kiljur í vasabroti sem innihalda kringum átta myndasögur frá Disney, einkum sögur um Andrés önd og Mikka mús og sögupersónur sem þeim tengjast. Slíkar bækur eru gefnar út í ýmsum Evrópulöndum. Bækurnar eru að jafnaði um 250 síður að lengd. Nær allar sögurnar koma frá The Walt Disney Company Italia á Ítalíu og frá Egmont í Danmörku. Upphaflega kom hugmyndin að því að gefa út vasabrotsbækur með klassískum Disney-sögum frá ítalska forlaginu Mondadori. Til 1987 komu bækurnar út með óreglulegu millibili en hafa komið út mánaðarlega eftir það. Íslenska útgáfan Syrpa kom upphaflega út hjá Vöku-Helgafelli árið 1994. Hún er núna gefin út af Eddu útgáfu. Cornelis B. van Niel. Cornelis Bernardus van Niel (4. nóvember 1897 í Haarlem í Hollandi – 10. mars 1985 í Carmel í Kaliforníu) var hollenskur örverufræðingur sem lengst af starfaði í Bandaríkjunum. Hans er minnst meðal annars fyrir að hafa útskýrt lífefnafræðilegt hvarfaferli ljóstillífunar, og einnig að hafa borið Delft-skólann svonefnda í örverufræði inn í bandarískt fræðasamfélag. Að loknu námi í efnaverkfræði við Tækniháskólann í Delft 1923 gerðist hann rannsóknamaður hjá Albert Jan Kluyver sem þá hafði nýlega tekið við prófessorsstöðu í örverufræði við þann sama skóla. Kluyver stundaði samanburðarrannsóknir á lífefnafræði örvera og var frumkvöðull á því sviði. Meðal verkefna van Niels var að halda utan um stofnasafn Kluyvers og auka við það bakteríutegundum einangruðum úr ýmiss konar umhverfi. Við þá vinnu einangraði hann própíóniksýrumyndandi bakteríur úr svissneskum osti og hóf vinnu við doktorsverkefni sitt sem snerist um greiningu bakteríanna og lífefnafræði þeirra og hann lauk 1928. Hann ályktaði að í ljóstillífun grænna plantna væri róteindargjafinn H2O og myndefni oxunarinnar væri O2. Robert Hill staðfesti þessa ályktun síðar með tilraunum. Framlag van Niels í lífefnafræði og örverufræði var umtals vert, bæði í gegn um eigin rannsóknir, en ekki síður fyrir þau áhrif sem hann hafði á samferðamenn sína og nemendur. Hann þótti afar góður fyrirlesari og var eftirsóttur sem slíkur. Hann hlaut vísindaorðu Bandaríkjaforseta 1963 og Leeuwenhoek-orðu hollensku vísindaakademíunnar 1970. Linsa. Linsa í ljósfræði er áhald gert úr gegnsæju efni, t.d. gleri eða plasti. Linsur eru t.d. notaðar í sjóntæki og myndavélar. Einföld linsa er ýmist "kúpt" eða "íhvolf" og brennivídd hennar, er mælikvarði á hversu mikið hún geti "stækkað" eða "minnkað" fyrirmyndina. Augnlinsur eru sjóntæki, sem notuð er í stað gleraugna til að bæta sjón. Myndavélarlinsa er gerð úr mörgum einföldum linsum, sem eru ýmis kúptar eða íhvolfar, og úr mismunandi efnum. Þær geta haft fasta eða breytilega brennivídd ("súmlinsa"). VGA-kort. VGA-kort, VGA-litspjald eða VGA-spjald þar sem "VGA" stendur fyrir "Video Graphics Array" er vélbúnaðarbirtir sem leit fyrst dagsins ljós með IBM PS/2 tölvunum árið 1987, en í gegnum drykklanga notkun getur þetta átt við nokkra hluti, eins og analog stuðul fyrir tölvubirti, 15-pinna D-subminiature VGA tengil, eða upplausnina 640×480. Þessari upplausn hefur verið skipt út fyrir betri upplausnir í einkatölvum, en hún er orðin vinsæl upplausn á færanlegum tækjum. Hitaveita Suðurnesja. Hitaveita Suðurnesja var hlutafélag í eigu sex sveitarfélaga á Suðurnesjum, auk Geysis Green Energy og Orkuveitu Reykjavíkur. Stærsti hluthafinn er Reykjanesbær. Fyrirtækið var stofnað um nýtingu jarðhita á Suðurnesjum árið 1974, en áður höfðu sveitarfélögin í tvo áratugi rannsakað möguleika jarðhita á svæðinu. Hitaveitan rekur nú tvær jarðvarmavirkjanir: Svartsengisvirkjun og Reykjanesvirkjun. Helsta verkefni hitaveitunnar var frá upphafi smíði orkuvers við Svartsengi þar sem vatnið sem upp kemur er salt og því ekki hægt að nýta beint eins og þá var gert í Reykjavík heldur verður að notast við varmaskipti. Fyrsta varmaskiptastöðin var tekin í notkun 1976 og var heitu vatni þaðan hleypt á hús í Grindavík 6. nóvember 1976. Í maí 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Samkvæmt lögunum bar Hitaveitu Suðurnesja hf. að aðskilja formlega í sérstökum félögum einkaleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi. Hitaveitu Suðurnesja hf var skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Veitur hf sem annast dreifingu á rafmagni, hitaveitu og ferskvatni og HS Orka hf annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Lögformlegur aðskilnaður HS Orku hf. og HS Veitna hf. miðast við 1. júlí 2008. Escherichia coli. "Escherichia coli" er Gram-neikvæð, staflaga, sýrumyndandi og oxidasa-neikvæð baktería (gerill). Hún tilheyrir ætt þarmabaktería ("Enterobacteriaceae") og finnst gjarnan í þörmum manna og dýra. Margir stofnar tegundarinnar geta valdið sýkingum og telst hún til tækifærissýkla. Ættkvíslarheitið "Escherichia" er svo nefnt til heiðurs bæverska barnalækninum Theodor Escherich. Theodor Escherich. Theodor Escherich (29. nóvember 1857 í Ansbach í Bæjaralandi – 15. febrúar 1911 í Vín í Austurríki) var barnalæknir og prófessor við háskólana í München, Graz og Vín. Hann er þekktastur fyrir uppgötvun sína á þarmabakteríunni "Escherichia coli," sem nefnd var eftir honum 1919. Ævi og störf. Escherich stundaði læknanám á árunum 1876 til 1881 á nokkrum mismunandi sjúkrahúsum, eins og þá var alsiða í þýsku læknanámi. Hann hóf nám sitt í Würzburg, en nam einnig í Berlín, Kiel, Strasbourg í Austurríki, og lauk svo embættisprófi með afbragðs einkunn í München 1881. Hann ritaði svo doktorsritgerð undir leiðsögn K. C. A. J. Gerhardt um þarmasýkingar í ungbörnum. Hjá Gerhardt fékk hann mikinn áhuga á örverufræðum almennt, og sérstaklega áhrifum þarmaörvera á heilsu ungbarna. Hann helgaði sig því rannsóknastörfum í örverufræðum framan af starfsævinni og stundaði meðal annars rannsóknir á kólerufaraldrinum í Napólí 1884 og á gerlagróðri í brjóstamjólk. Það voru svo rannsóknir þær sem hann stundaði í München á árunum 1885 og 1886 og birti í nýdoktorsritgerð ("Habilitationsschrift") sem hann er þekktastur fyrir, en þar lýsti hann 19 mismunandi þarmabakteríum ungbarna, þar á meðal bakteríunni sem síðar hlaut nafnið "Escherichia coli". Í ritgerðinni leiddi hann líkur að því að hlutverk bakteríanna í meltingu barna væri óverulegt. Árið 1890 þáði hann kennslu- og rannsóknastöðu í barnalækningum við Karl Franzens Háskólann í Graz í Austurríki og gerðist þar fullgildur prófessor ("ordentlicher Professor") árið 1894. Árið 1902 færði hann sig um set til Vínarborgar þar sem hann þáði prófessorsstöðu í barnalækningum við Vínarháskóla og stýrði St. Anna barnaspítalanum. Ári síðar stofnaði hann samtök til verndar ungbörnum ("Verein Säuglingsschutz") og hóf áróðursherferð í því skyni að hvetja mæður til brjóstagjafa. Hann var óþreytandi við að vekja athygli á heilbrigðismálum barna og kvenna. Árið 1906 var hann skipaður ráðgjafi ("kaiserlich-königlicher Hofrat") við hirð Frans Jósefs Austurríkiskeisara. Tenglar. Escherich, Theodor Escherich, Theodor Escherich, Theodor Ferilsathugun. Ferilsathugun (eða ferilsrannsókn) er nákvæm greining á afmarkaðri einingu t.d. persónu eða hóp, sem síðan er höfð sem líkan við viðameiri athuganir, nokkurs konar hluti fyrir heild. Ferilsrannsóknir eru t.d. stundaðar í læknisfræði, sálfræði og félagsvísindum. Ferilsathugun er einnig notuð í markaðsfræði til að skoða fyrirtæki eða einhverja deild þess í þaula til að athuga þætti þess sem benda annaðhvort til falls eða farsældar. Geirnyt. Geirnyt (hámús, rottufiskur eða særotta) (fræðiheiti: "Chimaera monstrosa") er fiskur af hámúsaætt. Geirnytin er hausstór og trjónustuttur brjóskfiskur með smáan kjaft og stór augu. Geirnytin getur náð allt að 150 cm lengd, en lengsta geirnyt hér við land var 110 cm löng. Algeng stærð er 70-95 cm. Pétursskip geirnytjarinnar eru gildari í annan endann en oddmjó í hinn. Sigurður Einarsson. Sigurður Einarsson (19. september 1960) er íslenskur hagfræðingur, kaupsýslumaður og fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. Hann er í hópi hinna svokölluðu íslensku "útrásarvíkinga", áður en bankahrunið varð átti hann yfir sex milljarða íslenskra króna og var með 12 milljónir króna á mánuði að meðaltali árið 2007. Í yfirlýsingu sem hann gaf út 9. október 2008 sagði hann, og stjórn Kaupþings, af sér vegna „atburðarás[ar] sem enginn sá fyrir eða gat haft stjórn á“. Breska dagblaðið Observer segir að Sigurður, ásamt öðrum starfsmönnum Kaupþings, sé grunaður um glæpsamlegt athæfi. Hann hafi formlega stöðu grunaðs manns gagnvart sérstökum ríkissaksóknara sem rannsakar bankahrunið. Þann 11. maí 2010 var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Sigurði, sem ítrekað hafði hundsað boðun um að mæta til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara. Ævi. Sigurður er sonur Einars Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, alþingismanns og utanríkisráðherra, og konu hans Þórunnar Sigurðardóttur. Hann útskrifaðist sem hagfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1987 og öðlaðist réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari á EES árið 1994. Hann starfaði áður hjá Den Danske Bank á árunum 1982-8 og hjá Iðnaðarbankanum, þar til hann varð að Íslandsbanka, 1988-94. Hann kenndi stundakennslu við Háskóla Íslands 1993-7. Hann sat í stjórn Kauphallar Íslands 1993-7. Sigurður hóf störf á verðbréfasviði Kaupþings hf. árið 1994, varð forstjóri þess 1997 og stjórnarformaður 2003-2008. Hann situr í stjórn Norvestia og Aurora velgerðarsjóðs. Árið 2003 komust hann og Hreiðar Már Sigurðsson, sem báðir störfuðu þá sem forstjórar Kaupþings, í fréttirnar fyrir háa kaupréttarsamninga á hlutabréfum í Kaupþingi. Davíð Oddsson komst í fréttirnar sömuleiðis er hann sagði upp viðskiptum sínum við Kaupþing vegna þessa. Sigurður og Hreiðar drógu kaup sín á hlutabréfunum til baka og sagði Sigurður ástæðu þess að þeir Hreiðar hefðu hætt við kaupin þá „að samningarnir falla illa inn í íslenskan veruleika og við erum búnir að átta okkur á því núna“. Thomsens-magasín. Thomsens-magasín (eða Thomsens-verslunin) var verslun í Reykjavík með margar ólíkar deildir sem voru flestar í húsunum að Hafnarstræti 17-22. Thomsens-magasín var stofnað árið 1837 og var um 1907 orðin stærsta verslun landsins. Á hátindi veldi síns skiptist verslunin í margar deildir. Endalok Thomsens-magasíns urðu þau að í fyrri heimsstyrjöldinni varð að leysa verslunina upp vegna mikilla tengsla hennar við Þýskaland. Kristalsnótt. Kristalsnótt er atburður sem stóð yfir 9. nóvember og 10. nóvember árið 1938 en þá þyrptust brúnstakkar nasista og almennir borgarar út á götur í borgum og bæjum Þýskalands og brutu alla glugga í verslunum og heimilum gyðinga. Níutíu og tveir gyðingar voru myrtir og tugþúsundir fluttir í útrýmingarbúðir. Þetta var upphafið á skipulögðum ofsóknum gegn gyðingum. Olinda. Olinda er borg í Pernambuco, einu 27 fylkja Brasilíu. Blóðmaurar. Blóðmaurar (fræðiheiti: "Ixodoidea") eru áttfætlur, nokkra millimetra að stærð. Blóðmaurar festa sig við hýsil sinn og þrífast þar á blóði. Þeir minna mest á lundalúsina, en eiga einnig allmarga meinlausa frændur sem lifa í jarðvegi, t.d. roðamaurinn. Blóðmaurar hafa fundist á Íslandi, þó ekki séu tilfellin mörg. Þeir finnast aftur á móti víða í Evrópu og leggjast aðallega á ýmis spendýr og fugla, meðal annars farfugla. Vengaboys. Vengaboys (borið fram "Bengaboys") er hollensk eurodance-hljómsveit stofnuð árið 1992. Hún sló í gegn undir lok síðustu aldar með lögum á borð við „Boom, Boom, Boom, Boom!!“ og „We're Going to Ibiza“. Talið er að alls hafi hljómsveitin selt 15 milljónir platna um allan heim. Duarte Coelho. Duarte Coelho var Portúgali sem stofnaði Olinda á 16. öld. Tölvumálvísindi. Tölvumálvísindi eða tölvufræðileg málvísindi kallast þverfaglegt fræðisvið sem fæst við tölfræði og reglufræðilega nálgun á náttúrulegu tungumáli frá tölvunarfræðilegu sjónarhorni. Æxlafræði. Æxlafræði er grein læknisfræðinnar sem rannsakar æxli (þá aðalega krabbamein) og leitast við það að skilja þroska þeirra, sjúkdómsgreiningu, hvernig hafa skal til meðferðar og hvernig hægt er að forðast þau. Þar sem æxlafræði hefur oft þrengri merkingu, er oft átt við krabbameinsfræði. Malarás. Malarás er jarðfræðihugtak sem haft er um sand- og malarhrygg sem jökulvatn hefur skilið eftir sig í farvegi undir jökli og verður siðan eftir þegar jökullinn bráðnar. Malarásarnir eru því m.ö.o. setmyndun jökulár við hörfandi jökul. Eitt af mörgu, sem er til marks um það, að jöklar hafi í eina tíð hulið landsvæði, sem nú eru örísa, eru malarásarnir. Langur malarás liggur t.d. eftir endilöngum Kaldadal. Sýkill. Sýkill eða sóttkveikja) (innan þeirra telst heitið sjúkdómsvaldandi örvera) er hvert það fyrirbæri sem veldur sýkingu (frumdýr, sveppur, baktería, veira, bandormur, þráðormur, agða eða liðdýr). Orðin sjúkdóms- eða meinvaldur eru notuð sem almenn heiti yfir það sem valdið getur sjúkdómi. Jökulrák. Jökulrák eða jökulrún eru rispur í klöppum (t.d. jökulflúðum) eftir skriðjökul. Sums staðar má sjá mismunandi stefnu jökulráka, sem bera vitni um að straumstefna skriðjökulsins var ekki ævinlega hin sama. Jökulrákir eftir ísaldarjökul kallast "ísrákir". Sporbaugur. Sporbaugur eða sporaskja, stundum kölluð "ellipsa", er heiti aflangs, lokaðs ferils og eins keilusniðanna. Summa fjarlægða frá brennipunktunum, sem eru tveir, að sérhverjum punkti á ferlinum er ávallt fasti, en líta má á hring sem sértilvik sporbaugs þar sem brennipunktarnir eru einn og sami punkturinn. Brautir reikistjarna og halastjarna eru sporbaugar. Skessuketill. Skessuketill er hola í klöpp sem hefur myndast við núning steinhnullunga sem þyrlast í hringiðu. Oft koma þeir ekki í ljós fyrr en straumþung á breytir farvegi sínum, og þá er þá helst að finna þar sem áður féll foss eða þar sem áður var hylur. Stálormur. Stálormur (fræðiheiti: "Anguis fragilis") er gráleit, útlimalaus eðlutegund sem fæðir lifandi unga og er helst að finna í Norður-Evrópu. Steinaskip. Steinaskip er skiplaga steinaröð sem oftast er gröf höfðingja eða minnismerki um slíkan mann. Steinaskip voru reist víða á Norðurlöndum á brons- og járnöld. Jacobson-líffærið. Jacobson-líffærið er þeffæri sem er að finna í mörgum dýrum, s.s. mörgum húsdýrum eins og t.d. köttum, hundum, geitum og svínum, en einnig í músum, rottum, og fílum. Jacobson-líffærið er nefnt er eftir hinum danska líffræðingi Ludvig Levin Jacobson (1783-1843). Ceará. Ceará er fylki í norðaustur-Brasíliu. Fylkishöfuðborgin er Fortaleza. Alagoas. Alagoas er fylki í norðaustur-Brasíliu. Fylkishöfuðborgin er Maceió. Bahia. Bahia er eitt 27 fylkja Brasilíu. Piauí. Piauí er eitt 27 fylkja Brasilíu. Jaboatão dos Guararapes. Jaboatão dos Guararapes er borg í Pernambuco í Brasilíu. Paulista. Paulista er borg í Pernambuco í Brasilíu. Caruaru. Caruaru er borg í Pernambuco í Brasilíu, Borgin var stofnuð þann 18 maí 1857, hefur um 320 000 íbúa. Petrolina. Petrolina er borg í Pernambuco í Brasilíu. Cabo de Santo Agostinho. Cabo de Santo Agostinho er borg í Pernambuco í Brasilíu. Garanhuns. Garanhuns er borg í Pernambuco í Brasilíu. Vitória do Santo Antão. Vitória do Santo Antão er borg í Pernambuco í Brasilíu. Johan Maurits van Nassau-Siegen. Johan Maurits van Nassau-Siegen var hollenskur prins. Boa Viagem. Boa Viagem er borg í Pernambuco í Brasilíu. Candeias. Candeias er borg í Pernambuco í Brasilíu. Gaibu. Gaibu er borg í Pernambuco í Brasilíu. Muro Alto. Muro Alto er borg í Pernambuco í Brasilíu. Porto de Galinhas. Porto de Galinhas er borg í Pernambuco í Brasilíu. Maria Farinha. Maria Farinha er borg í Pernambuco í Brasilíu. Carne de Vaca. Carne de Vaca er borg í Pernambuco í Brasilíu. Itamaracá. Itamaracá er borg í Pernambuco í Brasilíu. Rio Doce. Rio Doce er borg í Pernambuco í Brasilíu. Diário de Pernambuco. Diário de Pernambuco er dagblað sem gefið er út í héraðinu Pernambuco í Brasilíu. Það er elsta dagblað í Rómönsku Ameríku, gefið út frá 7. nóvember 1825. Mýflugur. Mýflugur (fræðiheiti: "Nematocera") eru undirættbálkur tvívængna og þekkjast helst á þráðlaga fálmarum, einkum á karldýri. Eikundarsund. Eikundarsund (norska: "Eigersund") er sveitafélag í Rogaland sem er í suðvesturhluta Noregs. Íhaldsflokkur New York. Íhaldsflokkur New York er bandarískur stjórnmálaflokkur sem aðeins starfar í New York. Hann var stofnaður árið 1962 og höfðar mikið til kaþólskra hægrisinnaðra íhaldsmanna. Flokkurinn var einn af þremur flokkum sem stóðu að framboði John McCain og Sarah Palin í forsetakosningunum árið 2008, ásamt Repúblíkanaflokknum og Independence Party of New York. Próteógerill. Próteógerlar ("Proteobacteria") er fylking baktería (gerla). Til próteógerla teljast margir sýklar, til dæmis "Escherichia coli" og "Vibrio cholerae," en einnig fjölskrúðugir hópar umhverfisbaktería, svo sem ljóstillífandi purpuragerlar og hinir flóknu, sambýlismyndandi myxógerlar. Fylkingin er nefnd eftir gríska guðinum Próteusi sem brugðið gat sér í allra kvikinda líki. Allir próteógerlar eru Gram-neikvæðir og hafa því ytri frumuhimnu sem að mestu er gerð úr lípófjölsykrueiningum. Svipuháður kvikleiki er algengur meðal próteógerla og eru svipurnar ýmist endastæðar eða kringstæðar. Sumir meðlimir fylkingarinnar eru einnig færir um skriðhreyfingar eftir föstum yfirborðum, en sá kvikleiki er svipuóháður. Fjölbreytileiki í efnaskiptum er verulegur innan fylkingarinnar, en flestar tegundir þrífast þó vel án þess að súrefni sé til staðar og teljast ýmist nauðháð eða valháð loftfælnar. Nokkurn fjölda ljóstillífandi baktería er að finna meðal próteógerla og eru þær gjarnan nefndar purpuragerlar vegna rauðleitra og fjólublárra litarefna í frumuhimnu þeirra. Fylkingunni er skipt í fimm flokka: alfa-, beta-, gamma-, delta- og epsílonpróteógerla. Sjómaður. Sjómaður er maður sem starfar á sjó, hvort sem er við fiskveiðar (en nefnast þeir þá fiskimenn) eða flutninga. Orðið á jafnt við um þá sem róa einir á litlum bátum og sjómenn sem starfa í áhöfnum stórra skipa. Á stærri skipum gildir ákveðin stöðuskipun þar sem skipstjóri er hæstráðandi og ber ábyrgð á öðrum um borð. Nú til dags er oftast krafist sérmenntunar hjá þeim sem gegna yfirmannsstöðum um borð í stærri skipum. Kirkjufell. Kirkjufell er fjall (463 m y.s.) í Eyrarsveit við vestanverðan Grundarfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi, Íslandi. Kirkjufell var kallað "Sukkertoppen" af dönskum sæförum hér áður fyrr og er stundum lýst sem einu sérkennilegasta ef ekki fegursta fjalli á Snæfellsnesi. Kirkjufell, sem talið er að hafi verið kallað "Firðafjall" áður en það fékk núverandi nafn, er gegnt fyrir sæmilega góða fjallgöngumenn, en nokkur dæmi eru um að menn hafi þar hrapað til bana í gegn um tíðina. Vestan við Kirkjufell er fjallið Stöðin og þar á milli Hálsvaðall og eru þessi tvö fjöll aðskilin frá meginfjallgarðinum. Fyrir ofan Kirkjufell er tröllslegt hamrafjall, Mýrarhyrna, (578 m) og má á þessum slóðum sjá, frá sjónahóli jarðfræði, óvenjulega greinilegar minjar um rof jökla og straumvatna og mótun landslags undan jöklum frá síðustu ísöld og á síðustu milljón árum. Hægt er að ganga í kringum fjallið, sem er sem slitið frá meginfjallgarðinum og tekur það um þrjá klukkutíma. Óvönu fjallafólki er þó ráðið frá uppgöngu þó fjallið sé ágætlega kleift. Mosastelkur. Mosastelkur (fræðiheiti: "Tringa melanoleuca") er norðuramerískur fugl af snípuætt. Mosastelkurinn er flækingur í V-Evrópu, á Íslandi og annars staðar í Norður-Evrópu. Kjörlendi hans er í grösugum mýrum, kringum tjarnir og á strandflesjum utan varptímans. Verpur í Norður-Ameríku. Vatnalilja. Vatnalilja (eða "nykurrós") er af ættkvísl blóma innan vatnaliljuættar. Vatnaliljur eru vatnaplöntur með stórum flotblöðum og skrautlegum, stökum blómum. Loftaugu eru á flotblöðum vatnaliljurnar og vatn tollir ekki á yfirborði þeirra vegna þess að það er vaxkennt. Flotblöðin sitja á löngum stilkum og blómin sitja á flotblöðunum. Vatnaliljur voru vinsælt myndefni myndlistarmanna á tímum impressjónista og rómantísku stefnunnar. Sínusreglan. right Sínusreglan er regla í rúmfræði sem tengir saman hlutfallið á milli sínus af horni í þríhyrningi og lengd mótlægrar hliðar hornsins. Eins og sést á myndinni hér til hliðar þá hefur horn α þá er mótlæg hlið þess horns hliðin með lengd a, þá gildir eftirfarandi jafna þar sem "R" er radíus umhrings þríhyrningsins. Þessa reglu er hægt að nota til að finna restina af hornum og lengdum þríhyrnings þegar t.d. tvö horn og ein lengd eru vituð, eða eitt horn og tvær lengdir. Vefur Karlottu (kvikmynd 1973). "Vefur Karlottu" (enska: "Charlotte's Web") er bandarísk teiknimynd framleidd af Hanna-Barbera Productions og Sagittarius Productions. Myndin er byggir á samnefndri skáldsögu eftir bandaríska rithöfundinn E. B. White. Myndin var frumsýnd þann 1. mars 1973. Kvikmyndin er fyrsta teiknimynd Hanna-Barbera í fullri lengd sem ekki byggir á persónum úr sjónvarpsþáttum fyrirtækisins. Myndin, eins bókin, er um svín sem kemst undan slátrun og könguló sem heitir Karlotta. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Charles A. Nichols og Iwao Takamoto. Handritshöfundur var Earl Hamner, Jr. Tónlistin í myndinni er eftir Sherman-bræður. Árið 2003 var gerð framhaldsmynd, ', sem var aðeins dreift á mynddiski. Ungfrú heimur. Ungfrú heimur er stór alþjóðleg fegurðarsamkeppni sem var stofnuð í Bretlandi af Eric Morley árið 1951. Keppnin er, ásamt keppnunum Ungfrú alheimur og Ungfrú jörð, ein sú þekktasta í heimi og er sjónvarpað í flestum löndum heims. Fulltrúar Íslands hafa sigrað keppnina þrisvar sinnum: Hólmfríður Karlsdóttir 1985, Linda Pétursdóttir 1988 og Unnur Birna Vilhjálmsdóttir 2005. Núverandi Miss World 2011 er ungfrú Venesúela, Ivian Sarcos, 21. árs gömul. Júródans. a> sló í gegn með laginu „Get ready for this“ árið 1991. Júródans (enska: "Eurodance") er rafræn danstónlist undir áhrifum frá Hipphopp-tónlist, Hi-NRG og Hústónlist. Þessi tegund tónlistar átti sitt blómaskeið á 10. áratug 20. aldar. Lögin einkennast af þungum, hröðum bassatakti, grípandi laglínum og notkun hljóðgervla. Oft eru tvær söngkonur sem syngja laglínurnar en karlraddir rappa á milli. Textarnir, sem oft eru á ensku, fjalla gjarnan um skemmtanir, sumarfrí og sólarstrendur. Tónlistin var oft tengd við sólarlanda- og strandferðir ungs fólks til staða með fjörugt næturlíf eins og Ibiza á Spáni. Einstök lög náðu mikilli sölu en plötur í fullri lengd miklu síður. Dæmi um tónlistarmenn og hljómsveitir sem tengjast þessari tónlistarstefnu eru Alexia, Ice MC, 2 Unlimited, Fun Factory, Culture Beat og Real McCoy. Grettistak jökla. Grettistak jökla (einnig kallað grettistak eða aðkomusteinn) er risavaxinn steinn eða bjarg sem (forsögulegur) skriðjökull hefur borið fram og skilið eftir þar sem bergið í kring á ekkert skylt við þennan óvænta gest. Oft hafa þessir „flakkandi steinar“ ferðast með jöklinum langa leið, stundum fleiri hundrað kílómetra frá upphafsstað sínum. Grettistakið getur, þrátt fyrir nafnið, verið allt frá smásteinvölu og upp í mikinn robbungsstein eins og t.d. Big Rock í Albertafylki, Kanada. Blákolla. Blákolla (fræðiheiti: "Prunella vulgaris") er jurt af varablómaætt sem ber blá blóm. Hún vex í bollum og grónu landi. Hún er hitakær og því algengari í hlýrri sveitum, gjarnan sunnan í móti eða við heitar uppsprettur. Lýsing. Blómin eru blá og mörg saman í 2 sm löngum klösum. Krónublöðin eru dökk- eða fjólublá en bikarinn bjöllulaga - dökkrauðfjólublár. Í hverju blómi eru 5 fræflar. Stöngull blákollu er ferstrendur. Sigurskúfur. Sigurskúfur (fræðiheiti: "Epilobium angustifolium") er fjölær jurt af eyrarrósarætt. Hann tilheyrir dúnurtum og getur orðið allt að 70 cm á hæð. Sigurskúfur ber rauð blóm og er algengur um allt norðurhvel jarðar. Lýsing. Blómin eru mörg í klasa upp eftir plöntunni. Þau eru um 2 cm í þvermál. Krónublöðin eru rauð en bikarblöðin dökkrauð. Í hverju blómi er 8 fræflar. Frævan er löng og hærð. Blöðin standa gagnstætt á stilknum. Þau eru 4 til 12 cm á lengd og 1 til 2 cm á breidd. Þau eru lensulaga, heilrennd eða með litlar tennur og hárlaus. Sigurskúfur er áburðarfrekur og vex því gjarnan í kringum bæi - oft í þéttum breiðum. Í skóglendi og klettum vex hann villtur - blómstrar seint. Í gras- eða mólendi er hann stundum dvergvaxinn og blómstrar ekki vegna næringarskorts. Þá myndar hann 10 til 20 cm langa blaðsprota. Á vorin er gott að borða rætur af plöntunni. Steikja þær í smjöri og salta. Kóngsbænadagur. Kóngsbænadagur eða stórbeðudagur (danska: "den store bededag") er föstudagurinn í 3. viku eftir páska. Kóngsbænadagur var sérstakur hátíðisdagur sem Kristján 5. Danakonungur fyrirskipaði í öllu ríki sínu fjórða föstudag eftir páska. Uppruni dagsins er sá að Hans Bagger Sjálandsbiskup lét taka upp þrjá nýja föstu- og hátíðisdaga í biskupsdæmi sínu á árunum 1675 til 1677. Af þessum þremur var kóngsbænadagurinn lögboðinn í öllu ríkinu af konungi árið 1686. Þennan dag átti að loka krám og verslunum og hringja til messu. Í Kaupmannahöfn komst fljótlega sú hefð á að borgarar fögnuðu vori þennan dag með því að klæða sig upp á og fá sér göngutúr á borgarvirkjunum. Vegna þessarar hefðar var deginum hlíft, að talið er, þegar Johann Friedrich Struensee fækkaði helgidögum ársins um helming 20. október 1770. Dagurinn er enn haldinn hátíðlegur í Danmörku og Færeyjum (þar sem hann heitir "dýri biðidagur") en dagurinn var afnuminn sem helgidagur af Alþingi á Íslandi árið 1893. Upphaflega átti líka að afnema skírdag, annan í páskum, uppstigningardag og annan í hvítasunnu en horfið var frá því með alla daga nema kóngsbænadaginn. Baldursbrá. Baldursbrá (fræðiheiti: "Matricaria maritimum" eða "Tripleurospermum maritimum") er jurt af körfublómaætt. Baldursbrá vex gjarnan í fjörusandi, á malarbornum hlöðum og í nágrenni við þéttbýli. Baldursbrá er algeng um alla Norður-Evrópu. Lýsing. Fjölær jurt, 10-60 sentímetra há, með uppréttum stöngli og stofnstæðum uppréttum fjaðurskiptum blöðum, sem hafa mörg smáblöð. Blómin mynda stóra körfu með hvítum blöðum og gulu auga. Körfurnar eru 3 til 5 cm í þvermál. Blómgast í júní og júlí. Baldursbrá líkist hlaðkollu, sem þó er ekki með hvít krónublöð, og freyjubrá sem er með fjaðursepótt og tennt blöð en ekki fjaðurskipt. Króna freyjubrár er þó mjög lík krónu baldursbrár. Jurtin hefur gengið undir ýmsum nöfnum hér á landi, til dæmis "fuðarurt, móðurjurt, múkakróna" og "strandamúkakróna". Nöfnin fuðarurt og móðurjurt eru dregin af lækningarmætti jurtarinnar en múkakróna er af erlendum toga. Baldursbrá er þekkt lækningarjurt og sögð góð við margskonar kvensjúkdómum, einkum þó til að leiða tíðir kvenna. Einnig þótti gott að leggja hana við eyra þess sem þjáðist af tannpínu. Seyði blómanna er sagt hollt og gott í te og blöðin góð í súpur áður en jurtin blómstraði. Björn Halldórsson frá Sauðlauksdal segir baldursbrána vera afleita sem fóðurjurt þar sem hún þorni illa og ef hún þorni á annað borð gefi hún frá sér sterka lykt sem fæli búpeninginn frá. Meja. Meja (fædd Meja Anna Pernilla Beckman 12. febrúar 1969 í Nynäshamn) er sænsk söngkona og lagahöfundur. Meðal þekktustu laga hennar eru „All 'Bout the Money“ og „Private Emotion“ (dúett með Ricky Martin). Meja var söngkona í danshópnum Legacy of Sound áður en hún hóf sólóferil sinn. Edduverðlaunin 2008. Edduverðlaunin 2008 voru tíunda afhending Edduverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefni framleitt árið 2008. Afhendingin fór fram í Háskólabíói 16. nóvember 2008. Kynnir kvöldsins var Halla Vilhjálmsdóttir leikkona. Afhendingin var sýnd í frestaðri útsendingu í Sjónvarpinu. Veitt voru verðlaun í 22 flokkum, en áður höfðu flest verið veitt sextán verðlaun 2002 og 2007, auk heiðursverðlauna ÍKSA og framlags Íslands til Óskarsverðlaunanna. Helsta breyting á verðlaunaflokkum var sú að svokölluð "fagverðlaun" (hljóð, kvikmyndataka, klipping o.s.frv.) sem árið 2007 voru í þremur flokkum voru nú veitt í sjö flokkum. Einnig var ákveðið að veita verðlaun fyrir leik í fjórum flokkum, leikari/leikkona í aðal-/aukahlutverki, líkt og gert var fyrir 2004, en árið 2007 voru þessir flokkar þrír talsins og þar áður aðeins tveir. Kvikmyndinn "Brúðguminn" eftir Baltasar Kormák hlaut alls fjórtán tilnefningar (sem er met) og sjö verðlaun. Kvikmynd Óskars Jónassonar, "Reykjavík - Rotterdam", hlaut tíu tilnefningar og fimm verðlaun. Tilnefningar til Edduverðlaunanna 2008. Tilnefningar voru kynntar 1. nóvember 2008. Vinsælasti sjónvarpsmaður ársins. Vinsælasti sjónvarpsmaðurinn var tilnefndur samkvæmt kosningu á netinu og valinn með símakosningu. Erich Hartmann. Erich Alfred Hartmann (19. apríl 1922 – 20. september 1993) var þýskur herflugmaður í seinni heimsstyrjöldinni, sem enn þann dag í dag telst vera sá fræknasti í sögu flughernaðar. Erich Hartmann, sem uppnefndur var „Bubi“ af bandamönnum en „Svarti djöfull“ af óvinum, er sagður hafa skotið niður 352 óvinaflugvélar, en 345 þeirra voru skotnar niður í stríði við hinn sovéska flugher. Hann flaug allt í allt 1404 herferðir og lenti 825 sinnum í flugátökum á vegum "Luftwaffe". Á þeim tíma brotlenti hann 14 sinnum, en ástæður brotlendinganna voru annaðhvort skemmdir af völdum splúndurbrota frá óvinaflugvélum eða vélarbilunar. Hann hélt því sjálfur fram að hann hefði aldrei verið skotinn niður eða þuft að lenda vegna árásaskota óvinarins. Ibn al-Haytham. Ibn al-Haytham var arabískur stærðfræðingur sem var uppi fyrir um 1000 árum. Hann fæddist árið 965 í Basra í Írak, en hann dó svo í kringum 1040. Hann hóf vinnu sína í Kaíró, Egyptalandi, en hún var að afrita vísindaleg rit, en þar lærði hann eflaust mikið um vísindin. Al-Haytham var á latínu kallaður Alhazen eða Alhacen. Ibn varð frægur fyrir bækur sínar um ljósfræði. Þær fjölluðu um það hvernig ljós endurkastast mismunandi af mismunandi flötum, hvernig augað býr til mynd og margt fleira. Reyndar var Haytham ekki bara stærðfræðingur, hann var einnig verkfræðingur, stjörnufræðingur, stjörnuspekingur og margt fleira tengt náttúruvísindunum. Ljósfræði. Eins og áður kom fram er bók Haythams, sem heitir Book of Optics á ensku, líklega þekktasta verk hans. Hann skrifaði öll sjö bindin á árunum 1011 – 1021 þegar hann var í stofufangelsi í Kaíró. Ibn hafði áður átt að finna lausn til að stjórna flæði Nílar. Þegar hann fann út að það var ógjörningur þóttist hann vera brjálaður til að sleppa við harða refsingu. Það er sem sagt ástæða stofufangelsisins þar sem hann skrifaði eitt virtasta rit sitt, Bókina um ljósfræði, sem varð einn mesti áhrifavaldur í sögu eðlisfræðinnar. Ljósfræðibókin samanstóða af kerfisbundnum tilraunum og stærðfræðilegum sönnunum. Það var svo allt útskýrt ítarlega í vönduðu ritmáli. Latínska útgáfan átti seinna eftir að hafa mikil áhrif á komandi heimspekinga. Bókinni var þó ekki sýnd mikil athygli utan Egyptalands fyrr en stærðfræðingurinn Muhammad Al-Farisi gaf bókinni góða umsögn á 13. öld. Vegna velgengni bókarinnar og áhuga Ibns á ljósi hefur hann verið kallaður faðir ljósfræðinnar (e. the father of optics). Bókin hjálpaði mönnum við framfarir í augnlækningum og augnskurðaðgerðum þar sem hún lýsti í fyrsta skipti nákvæmlega því sem er að gerast í augunum og hausnum á okkur þegar við horfum eitthvert. Hann var fyrsti vísindamaðurinn til að segja að augun búa til mynd í heilanum, ekki í augunum sjálfum. Eins og áður kom fram þá sýnir bókin rétt líkan sjónarinnar, hvernig hún virkar. Fólk í gamla daga hélt nefnilega að augun sendu stöðuga ljósgeisla út frá sér og sæu þannig en í bókinni var útskýrt að augun skynja endurkastað ljós. Bókin inniheldur einnig fullkomna formúlu yfir lögmálin um endurkast ljóss og nákvæmar rannsakanir á ljósbrotum (hvernig ljós skín mismunandi þegar að það er brotið upp). Sagnfræðingar segja hann frumkvöðul nútíma-vísindalegra aðferða. Mjög lítill munur var á hans aðferðum og þeim sem notaðar eru í dag. 3. Tilgáta um lausn vandanns mynduð. 4. Tilraun er gerð til að kanna gildi tilgátunnar. 5. Útkomur tilraunar eru skráðar niður. 6. Útkomurnar eru túlkaðar og niðurstaða fundin. 2. Upplýsinga er aflað um ráðgátuna. 4. Tilraunir eru gerðar til þess að kanna gildi tilgátunnar. 5. Gögn eru skráð og brotin til mergjar. Fyrirmyndir Haythams hafa að öllum líkindum verið þeir Ptolemy og Euclid. Ptolemy var grískur/egypskur stærðfræðingur, landafræðingur, stjörnuspekingur og stjörnufræðingur, en hann fæddist árið 83 e.k. og lést 161 e.k. Hann Euclid var grískur stærðfræðingur sem lagði áherslu á rúmfræði og var uppi á árunum 323-283 f.kr. Rúmfræðin var Ibn al-Haythams sterka hlið. Hún var viðfangsefnið þar sem mest af skrifum hans hafa endst til nútímans og hann hefur verið virtastur fyrir. Hann var einn af þeim fyrstu til að leysa ýmsar stærðfræðitengdar ráðgátur í grískri stærðfræði, bæði í grunn- og framhaldsstærðfræði. Ibn gerði margt annað en að skrifa bókina um ljósfræði. Hann skrifaði u.þ.b. 200 bækur en reyndar hafa aðeins 50 haldið út til dagsins í dag. Hann var fyrsti músliminn til að aðhyllast sólmiðjukenningunni. Í Írak, fæðingarlandi sínu er hann mjög virtur sem og annars staðar, eða hvað er maður þegar maður er kominn inná íraska dinarinn (sem er peningurinn í Írak)? Ályktarorð. Svo við sjáum að Ibn al-Haytham var ekki bara stærðfræðingur, heldur líka náttúrufræðingur á mörgum sviðum. Hann varð frægur fyrir að skrifa brautryðjandi bækur um ljósið og margt (ef ekki bara allt) tengt því. Hann setti fram vísindalegar aðferðir og í dag eru notaðar næstum alveg sömu aðferðir og hann skrifaði niður. Hann var fyrsti maðurinn til að leysa ýmis stærðfræðitengd vandamál en hann var mjög góður í rúmfræði. Honum tókst, fyrstur manna, að lýsa hvernig augun í okkur vinna saman við heilann til að búa til mynd sem við sjáum. Stúart-endurreisnin. Stúart-endurreisnin eða endurreisn konungdæmis í Englandi (enska: "Restoration") er í sögu Englands oftast notað sem heiti á valdatíð síðustu tveggja konunga Englands af Stúartættinni; Karls 2. 1660 til 1685 og Jakobs 2. 1685 til 1701. Á þessum tíma blómstraði veraldleg menning á Englandi, undir áhrifum frá Hollandi og Frakklandi, en áður hafði hreintrúarstefna verið ríkjandi í menningarlífinu á tímum Enska samveldisins sem bannaði meðal annars leikhús og fordæmdi veraldlegar bókmenntir. Æskulýðsfylkingin. Æskulýðsfylkingin - samband ungra sósíalista var félag ungra stuðningsmanna Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins sem var stofnað á löngu stofnþingi í byrjun nóvember 1938 skömmu eftir stofnun flokksins. Samtökin höfðu sig lengst af lítið í frammi. Upp úr miðjum 7. áratugnum breyttust samtökin mjög og urðu samastaður róttæklinga af ýmsu tagi. Árið 1970 slitu samtökin endanlega öllu sambandi við arftaka Sósíalistaflokksins, Alþýðubandalagið. Nafninu var breytt í Fylkingin - baráttusamtök sósíalista og samtökin þar með orðin stjórnmálaflokkur. Eftir harðar innri deilur gengu trotskíistar með sigur innan samtakana og sóttu um aðild að Fjórða alþjóðasambandinu (alþjóðasambandi trotskíista) árið 1976 og skiptu samtökin þá um nafn og voru nefnd Fylking baráttusinnaðra kommúnista. Árið 1984 var ákveðið að Fykingarfélagar gengi í Alþýðubandalagið en störfuðu einnig áfram í sér samtökum. Ári seinna, 1985, var enn skipt um nafn og hétu þá samtökin Baráttusamtök sósíalista en umsvif samtakanna fór hraðdvínandi eftir þetta. Málgagn Æskulýðsfylkingarinnar og eftirfylgjandi samtaka var tímaritið "Neisti". Hafnarstræti 107b. Hafnarstræti 107b er hús á Akureyri. Það er byggt fyrir 1918 og er þess vegna friðað. Það var eitt af tveim húsum í Skátagili, En hitt var rifið. Samkvæmt einni tillögu í Akureyri í Öndvegi fær það að standa lengur. Konungar í Jórvík. Konungar í Jórvík voru flestir af norrænum uppruna. Norskir og danskir víkingar lögðu Norðymbraland undir sig um 866, og var konungdæmið Jórvík stofnað nokkrum árum síðar. Konungdæmið náði yfir Jórvíkurskíri (Yorkshire) og talsvert svæði þar í grennd. Snorri Sturluson segir í Heimskringlu að Norðymbraland sé fimmtungur Englands. Konungarnir réðu yfir Jórvík og Norðymbralandi. Stundum einnig yfir Dyflinni, eynni Mön og Borgunum fimm í Danalögum. Þetta svæði varð fyrir verulegum áhrifum af norrænni menningu. Hálfdan Ragnarsson (loðbrókar) var fyrsti konungur í Jórvík, en Eiríkur blóðöx (d. 954) sá síðasti. Eftir að enska krúnan náði þessu svæði undir sig, var því lengi stjórnað af jörlum. Konungar í Dyflinni. Byggðir víkinga á Írlandi þegar veldi þeirra var sem mest, í Dyflinni (bleikt) og á öðrum svæðum (grænt). Konungar í Dyflinni réðu borginni Dyflinni á Írlandi og næsta nágrenni hennar (Dyflinnarhéraði) frá því um 840. Konungdæmið var stofnað um 840 af norskum og dönskum víkingum, sem stunduðu þar verslun og höfðu þar bækistöð í hernaði sínum á Bretlandseyjum. Um skeið réðu þeir einnig yfir Jórvík og Mön. Eflaust hefur sterkra írskra áhrifa gætt í borginni, einkum eftir 1036. Um 1052 náðu Írar yfirráðum yfir Dyflinni, undir forystu konunganna í Leinster. Síðar komust norrænir konungar aftur til valda þar, og var sá síðasti drepinn þegar Normannar réðust inn í Írland um 1171. Þá leið norræna konungdæmið undir lok. Samfélagið í Dyflinni bjó þó við talsverða sérstöðu nokkrum kynslóðum lengur, vegna þeirra róta sem það átti í norrænni menningu. Vegna brotakenndra heimilda er erfitt að taka saman heildstætt yfirlit yfir konunga í Dyflinni, og eru því mörg vafaatriði í eftirfarandi lista. Konungar eftir 917. Dyflinni var hertekin af írsku konungunum Mael Finnia mac Flannacán í Brega og Cerball mac Muiricán konungi í Leinster, og yfirgáfu norrænir menn borgina að mestu frá 902 til 917. Stubbarnir. "Stubbarnir" (enska: "Teletubbies") er breskur gaman- og fræðsluþáttur fyrir börn framleiddur af BBC. Þættirnir segja frá fjórum verum (Tinky Winky, Dipsy, Laa-Laa og Po) og ævintýrum þeirra. Stubbarnir eru íslenska þýðingin á nafni þeirra, á Íslandi hafa komið út talsettir þættir gefnir út af Myndbandavinnslunni og Hljóðrita sem og bækur gefnar út af Vöku-Helgafelli. Á íslensku nefnast persónurnar Tínkí-vínki, Dipsý, Lala og Pó. Blaðra. Blaðra er sveigjanlegur poki fylltur með ákveðnum tegundum af gasi, svo sem helíum, vetni, nituroxíð og lofti. Blöður nú til dags eru oft gerðar úr gúmmíi, latexi, pólýklórópreni eða nælonefni á meðan eldri blöðrur voru oft gerðar úr þurrkuðum dýraþvagblöðrum. Sumar blöðrur eru eingöngu notaðar til skrauts á meðan aðrar þjóna mikilvægari tilgangi svo sem í veðurfræði, læknisfræðilegri meðferð, hernaðarlegri vörn eða til samgangna. Blöðrur hafa lágan eðlismassa og tiltölulega lágan kostnað, sem leiðir að breiðum markaði. Saga. Indjánar frá mið- og suðu-Ameríku bjuggu til blöðrur úr leðri, eins og víða er gert í dag. Árið 1643 sýndi Evangelista Toricelli, ítalskur eðlisfræðingur, fram á að loft var meira en ekki neitt. Það var kínversk, japönsk og amerísk þjóðarmenning sem leiddi að upphafi blöðrunnar. Fyrsta blaðran (kölluð blaðra þvagsins) var fundin upp af brasilískum presti, Bartolomeu de Gusmao en hann var fæddur var í Portúgal. Fyrsta opinbera sýningin á blöðru var svo í portúgölskum rétti þann 8. ágúst 1709 í höllinni Casa da India í Lissabon. Tilgátusaga. Tilgátusaga er fornsaga sem er glötuð, en fræðimenn telja að hafi verið til. Það er að segja tilvist sögunnar er byggð á tilgátum fræðimanna, út frá röksemdum sem geta verið misjafnlega traustar. Einnig getur verið allgóð vissa fyrir að sagan hafi verið til en skiptar skoðanir um hversu umfangsmikið rit hún var og hvaða efni hún hafði nákvæmlega að geyma. Dæmi um tilgátusögu er Brjáns saga. Í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar er vísað til rits sem nú er glatað. Fræðimenn greinir hins vegar á um hvort umrætt rit var saga Brjáns yfirkonungs á Írlandi eða saga Sigurðar Hlöðvissonar Orkneyjajarls. Og veruleg óvissa er um innihald og umfang ritsins, þó að Brjáns þáttur í Njáls sögu gefi nokkra hugmynd um það. Eldsvoði. Eldsvoði eða stórbruni er stjórnlaus bruni sem ógnar lífi fólks, eignum og umhverfi. Stundum er slíkum eldi komið viljandi af stað (íkveikja) til að valda dauða eða skapa skelfingu eða vegna íkveikjuæðis. Algengustu ástæður eldsvoða eru að óvarlega er farið með eld eða eldfim efni, sjálfsíkveikja í efnum, neistar vegna stöðurafmagns, eldingar og íkveikjur. Baðhús. Baðhús, böð eða spa er hús þar sem almenningur getur baðað sig, venjulega með því að greiða aðgangseyri. Sundlaugar eru ein tegund baðhúsa, en til eru margar ólíkar tegundir slíkra stofnana og ólíkar hefðir sem þeim tengjast um allan heim. Dæmi um ólíkar hefðir í tengslum við baðhús eru rómversk böð ("thermae"), tyrknesk baðhús ("hammam") og norræn gufuböð. Uppgröftur. Hér hafa fornleifafræðingar í London flett ofan af beinagrind af hesti frá tímum Rómverja. Uppgröftur er rannsóknaraðferð sem er notuð meðal annars í fornleifafræði, jarðfræði, réttarmeinafræði og þróunarmannfræði. Aðferðin felst í því að flytja jarðlög til að fletta ofan af leifum frá fyrri tíð. Uppgröftum er gjarnan skipt í rannsóknaruppgrefti og björgunaruppgrefti. Þeir síðarnefndu eru framkvæmdir þegar ætlunin er að raska verulega stað þar sem mikilvægar náttúru- eða fornleifar er að finna og því nauðsynlegt að fá eins miklar upplýsingar og hægt er áður en raskið á sér stað. Húgenottar. Húgenottar voru meðlimir Frönsku siðbótarkirkjunnar frá 16. öld til 18. aldar. Húgenottar aðhylltust kenningar Kalvíns. Áður hafði gallikanismi verið áberandi í Frakklandi og var í opinberri andstöðu við páfann í Róm. Gallikanistinn Jacques Lefevre gaf út eigin þýðingu á Nýja testamentinu 1523 og síðan alla Biblíuna á frönsku 1528. Meðal nemenda hans voru margir sem snerust til lútherstrúar, eins og Kalvín sjálfur. Eftir 1550 var farið að tala um þessa frönsku mótmælendur sem „húgenotta“. Húgenottar nutu oft umburðarlyndis hjá konungi en um leið óx andstaða kaþólsku kirkjunnar við þá. Eftir að Katrín af Medici gaf út Saint-Germain-tilskipunina 1562 þar sem húgenottar voru í fyrsta skipti formlega viðurkenndir og leyft að stunda trú sína á laun hófust Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar sem stóðu með hléum til 1598. Í þeim urðu húgenottar pólitískt afl sem nutu stuðnings Búrbóna og Hinriks af Navarra. Með Nantes-tilskipuninni batt Hinrik 4. endi á styrjaldirnar og gaf húgenottum jafnan rétt á við kaþólikka. Eftir að Loðvík 14. komst til valda jukust ofsóknir á hendur húgenottum aftur og árið 1685 afturkallaði hann öll þau réttindi sem þeir höfðu fengið með Nantes-tilskipuninni með Fontainebleau-tilskipuninni. Afleiðingin var sú að franskir húgenottar flúðu til nálægra landa þar sem mótmælendatrú var leyfð, s.s. Englands, Hollands, Sviss, Danmerkur-Noregs og Prússlands. Stórir hópar húgenotta voru aðeins eftir í einu héraði, Cévennes, í Suður-Frakklandi þar sem þeir gerðu uppreisn 1702-1715. Búrbónar. Búrbónar (franska: "Maison de Bourbon") eru mikilvæg konungsætt í Evrópu. Þeir eru grein af Kapetingum sem tóku við af Karlungum sem konungsætt Frakklands árið 987. Búrbónar komust fyrst til valda í Navarra og síðan í Frakklandi á 16. öld. Eftir Spænska erfðastríðið á 18. öld voru Búrbónar einnig við völd á Spáni, Napólí, Sikiley og Parma. Núverandi Spánarkonungur og hertoginn af Lúxemborg eru af ætt Búrbóna. Tektít. Tektít er samnefni glerkenndra loftsteina af óvissum uppruna. Tektít-steinar eru óreglulegir að lögun, svartir eða græn-svartir að lit. Tektít finnst í sveimum á afmörkuðum svæðum víða um heim. Brjóskgljáfiskar. Brjóskgljáfiskar (Fræðiheiti: "Chondrostei") eru undirflokkur geislugga sem inniheldur tvo ættbálka, uggageddur og styrjur. Uggageddur. Uggageddur (Fræðiheiti: Polypteriformes) eru ættbálkur innan Brjóskgljáfiska og innihalda aðeins eina ætt, polypteridae. Stím. Stím ehf er íslenskt eignarhaldsfélag sem er skráð á Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmann í Bolungarvík. Fyrirtækið er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara fyrir hugsanleg lögbrot. Samkvæmt yfirlýsingu frá Jakobi Valgeiri var félagið stofnað 16. nóvember 2007 í þeim tilgangi að sjá um eignarhald, umsýslu, kaup og sölu á verðbréfum. Strax við stofnun fjárfesti Stím í 3,8% hlut í FL Group fyrir 8,4 milljarða króna og 4,3% hlut í Glitni fyrir 16,4 milljarða króna. Þessi fyrirtæki tvö voru þá þegar nokkuð krosseignatengd. Samanlagt námu þessar fjárfestingar 24,8 milljarða króna en þar af komu 19,6 milljarða króna, eða tæp 80%, sem lán frá Glitni. Glitnir tók einvörðungu veð í bréfunum sem keypt voru. Stuttu eftir fjárfestinguna skilaði FL Group mesta tapi Íslandssögunnar, eða 70 milljörðum króna. Herforingjastjórn. Herforingjastjórn er stjórnarfar þar sem stjórn landsins er í höndum hersins. Slík stjórn getur verið opinber (t.d. þar sem ríkisstjórn landsins er herforingjaráð) eða óopinber (t.d. þar sem yfirmenn hersins hafa mikil áhrif á borgaralega ríkisstjórn). Yfirleitt tekur herforingjastjórn við völdum eftir stjórnarbyltingu. Oft er yfirlýstur tilgangur slíkra stjórna sá að vera starfsstjórnir tímabundið þar til „eðlilegt ástand“ kemst aftur á, t.d. þegar mikill órói ríkir. Stundum leiðir herforingjastjórn til einræðis þar sem einn valdamikill herforingi eða borgaralegur stjórnmálamaður með mikil tengsl við herinn verður einræðisherra. Gaukur á Stöng. Gaukur á Stöng eða Gaukurinn er krá og skemmtistaður í Blöndalshúsi við Tryggvagötu í miðborg Reykjavíkur. Staðurinn var opnaður 19. nóvember 1983 en hann var stofnaður af nokkrum ungum hagfræðingum og lögfræðingum sem þá voru nýkomnir heim úr námi og átti upphaflega að vera ölkrá að þýskri fyrirmynd. Bjór var að vísu ekki leyfður á þeim tíma en staðurinn seldi bjórlíki til 1989 þegar hann gat farið að selja bjór. Gaukurinn varð fljótlega vinsæll sem lítill tónleikastaður fyrir bæði djass- og rokkhljómsveitir. Nafnið er tilvísun í Gauk Trandilsson sem bjó á bænum Stöng á þjóðveldisöld. Opinber þjónusta. Opinber þjónusta er þjónusta veitt af fyrirtæki eða stofnun, sem að mestum hluta er kostuð af ríkssjóði. Starfmsnn slíkra stofnana eru "opinberir starfsmenn", sem lúta lögum um opinbera starfsmenn. Æðstu stöðuheiti, stjórnunar- og ábyrgðarstöður, nefnast "embætti". Talað er um að „skipa“ eða „kjósa“ í embætti og að einhver „gegni“ embætti sem vísar til þess að oft er slík embættisveiting framkvæmd opinberlega af æðstu ráðamönnum; konungi, forseta eða ráðherra. Þeir sem gegna einhverju embætti eru kallaðir "embættismenn". Aðeins þeir starfsmenn ríkisins sem taldir eru upp í 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins teljast vera opinberir embættismenn með embættisskipun. Slíkir embættismenn eru skipaðir í embætti til fimm ára í senn. Georg Brandes. Georg Morris Cohen Brandes (4. febrúar 1842 - 19. febrúar 1927) var danskur fræðimaður, sem hafði mikil áhrif á menningu í Evrópu, sér í lagi á Norðurlöndunum frá um 1870 og fram yfir aldamótin 1900. Í Danmörku er hann gjarnan kenndur við „"stökkið í módernismann"“ (d. "det Moderne Gennembrud"). Brandes er til að mynda talinn hafa talsverð áhrif á norska rithöfundinn Henrik Ibsen. Ekki má gleyma áhrifum Brandesar á Verðandimenn, ekki síst þá Hannes Hafstein, Gest Pálsson og Einar Kvaran. Brevis commentarius de Islandia. "Brevis commentarius de Islandia" (latína „Stutt greinargerð um Ísland“ eða „Stutt skýringarit um Ísland“) er ádeilurit eftir Arngrím Jónsson var fyrst gefin út árið 1593 á latínu í Kaupmannahöfn. Saga. Guðbrandi Þorlákssyni líkaði illa við hina neikvæðu ímynd Íslands í útlöndum, og því fékk hann frænda sinn Arngrím til að rita verkið, en tilgangur þess var að verja Ísland gegn ranghugmyndum og gróusögum. "Breuis Commentarius de Islandia'": quo Scriptorum de hac Insula errores deteguntur, & extraneorum quorundam conuitijs, ac calumnijs, quibus Islandis liberiùs insultare solent, occurritur: per Arngrimum Ionam Islandum. Stutt greinargerð um Ísland: þar sem flett verður ofan af þeim villum sem ritaðar hafa verið í garð Íslands og sá rógburður og átölur sem hafðar hafa verið gegn Íslendingum hraktar: ritað af Arngrími Jónssyni. Byr sparisjóður. Byr sparisjóður er íslenskur sparisjóður sem varð til við samruna Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar árið 2006 en í mars 2007 var Byr kynnt sem nafn á hinum nýja sameinaða sparisjóði. Haustið 2007 sameinaðist Byr sparisjóður Sparisjóði Kópavogs. Í desember sama ár rann Sparisjóður Norðlendinga inn í Byr. Fyrsta ákæra sérstaks saksóknara var á hendur Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóri MP banka, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann Byrs og Ragnar Zophonías Guðjónsson, fyrrverandi sparissjóðsstjóra Byrs fyrir umboðssvik og, í tilviki Styrmis, peningaþvætti vegna Exeter-málsins svonefnda. Það mál snýst um eins milljarðs króna lán sem Byr veitti félaginu Exeter Holding í tveimur hlutum haustið 2008 án nokkurra trygginga og olli sparisjóðnum miklu fjárhagslegu tjóni. Sparisjóður vélstjóra. Sparisjóður vélstjóra er sparisjóður sem starfaði á Íslandi frá 1961. Sparisjóðurinn sameinaðist Sparisjóði Hafnarfjarðar og hefur starfað sem Byr sparisjóður frá mars 2007. Sparisjóður vélstjóra var stofnaður 11. nóvember 1961. Hann var fyrst til húsa að Bárugötu 11 en flutti árið 1971 í Hátún 4a og síðan 4. nóvember 1977 í eigið húsnæði að Borgartúni 18. Sparisjóður vélstjóra opnaði útibú að Síðumúla 1 og síðar var afgreiðsla flutt í Rofabæ 39. Í apríl 2002 var afgreiðslan flutt og stofnað nýtt útibú í Hraunbæ 119 og í desember 2002 var opnuð ný afgreiðsla í Orkuveituhúsinu við Bæjarháls 1. Styrjur. Styrjur eru ættbálkur innan undirflokksins brjóskgljáfiskar. Ættbálkurinn inniheldur tvær ættir, acipenserinae og scaphirhynchinae Kóralslöngur. Kóralslöngur eru af ætt eiturslangna (fræðiheiti: "Micrurus") og auðkenndar á því að vera litríkar, þ.e.: dumbrauðar, gulhvítar og svartar. Einveldistímabilið á Íslandi. Einveldið á Íslandi stóð frá þeim tíma þegar Íslendingar undirrituðu Erfðahyllinguna á Kópavogsfundinum 1662, tveimur árum eftir að hún var undirrituð í Danmörku, þar til það var formlega afnumið með stöðulögunum árið 1871. Áður var það afnumið í Danmörku 1848 en þarna á milli má segja að staða Íslands gagnvart konungi hafi verið óviss. Stofnun einveldis. Í kjölfar sigurs Dana eftir umsátrið um Kaupmannahöfn í Karls Gústafs-stríðunum árið 1660 tók Dansk-norska ríkið upp einveldi á stéttaþingi í Kaupmannahöfn. Við þetta varð ríkið jafnframt að erfðaríki en hafði áður verið formlega séð kjörríki þar sem nýjum konungi hafði verið gert að undirrita réttindaskrá sem undirbúin var af danska ríkisráðinu áður en hann gat tekið við völdum. Með nýju lögunum varð konungur óháðari danska aðlinum og gat hagað stjórnskipan ríkisins að vild. Árið 1665 var einveldið staðfest með konungslögunum um einveldið (L. Lex Regia). Konungslögin voru í raun fyrsta stjórnarskrá Danmerkur og þar með Íslands. Lögin giltu í Danmörku til 5 júní 1849, þegar ný stjórnarskrá tók gildi og afnam einveldis konungs í Danmörku. Einveldið var hinsvegar ekki formlega afnumið á Íslandi fyrr en danska þingið setti einhliða á Stöðulögin árið 1871. Stöðulögin kváðu á um að Ísland væri óskiljanlegur hluti af Danmerku og greiddar yrðu bætur til landsins í staðinn. Landsmenn sættu sig ekki við þessa niðurstöðu í sjálfstæðisbaráttu landsins og Alþingi hafnaði lögunum. Þremur árum síðar voru stöðulögin síðan afnumin með fyrstu sér stjórnarskrá Íslands; Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands. Þar með var staða Íslands gagnvart bæði danska ríkinu og dönsku krúnunni. Breytt hlutverk Alþingis. Með stofnun einveldis breyttist hlutverk Alþingis þannig að lög sem komu frá Kaupmannahöfn þurftu ekki lengur staðfestingar þingsins með. Hlutverki Alþingis sem löggjafarsamkundu var þar með í raun lokið, þótt þingið setti raunar áfram lög til ársins 1700. Með stofnun hæstaréttar í Danmörku 1661 missti yfirdómur jafnframt hlutverk sitt sem æðsta dómstig landsins. Menn deila þó um hversu róttækar breytingarnar á stjórnskipan landsins voru í reynd og benda á að Alþingi hefði löngu áður verið farið að staðfesta sjálfkrafa lög frá konungi og að menn hefðu getað skotið máli sínu til konungs áður en hæstiréttur tók til starfa. Önnur breyting sem varð á stjórn landsins með einveldinu var sú að í stað höfuðsmanns varð stiftamtmaður æðsti fulltrúi konungs á Íslandi (eftir lát Henriks Bjelke árið 1683). Hann sat lengst af í Danmörku en með vald hans á Íslandi fóru amtmenn og landfógeti sem lengst af sátu á Íslandi. Alþingi hélt áfram dómsstörfum á Þingvöllum til aldamótanna 1800 þegar stofnaður var landsyfirréttur í Reykjavík í stað yfirdóms. Voru þá aðstæður til þinghalds við Öxará orðnar mjög slæmar vegna breytinga sem orðið höfðu á árfarveginum. Alþingi var þar með lagt niður. Endurreisn Alþingis og endalok einveldis á Íslandi. Þegar sjálfstæðisbarátta Íslendinga hófst um miðja 19. öld ákvað konungur að koma til móts við óskir landsmanna og endurreisa Alþingi sem ráðgjafarþing í Reykjavík. Fyrsti fundur nýs þings var haldinn 1845. Með stjórnarskrá Danmerkur 1849 var einveldið lagt niður í Danmörku en staða Íslands var óljós þar til stöðulögin voru samþykkt 1871 en með þeim var staðfest að á Íslandi gilti þingbundin konungsstjórn eins og í Danmörku. Löggjafarvald Alþingis var endurreist en konungur hafði synjunarvald sem hann beitti nokkrum sinnum. Ísland fékk svo sérstaka stjórnarskrá árið 1874. Nýuggar. Nýuggar eru undirflokkur geislugganna og hafa tvo ættbálka, bryngeddur og eðjufiska. Einnig einn deiliflokk, beinfiska. Bryngeddur. Bryngeddur eru útdauður ættbálkur. Nútíma nýuggar. Nútíma nýuggar ("Teleostei", einnig nefndir sannir beinfiskar) eru stór innflokkur innan undirflokksins nýuggar. Hallgrímskirkja í Vindáshlíð (Kjós). Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar frá árinu 1878. Saga. Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu. Tveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina. Í miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“. Þegar heimild til að flytja hana var fengið með flutningi á eignarhaldi gekk Guðlaugur Þorláksson í undirbúningsstörfin og fékk fleiri til liðs við sig, m.a. Guðlaug Jakobsson, verkstjóra hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Guðlaugur Þorláksson bað um leyfi bæjarráðs Reykjavíkur til að fá lánuð tæki og vélar til kirkjuflutnings. Þeirri bón var vel tekið og öll tæki, bílar og menn fengust frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur fyrir milligöngu Guðlaugs Jakobssonar. Leyfi fékkst einnig frá vegamálastjóra til að fá að fara um þjóðveginn með kirkjuna og var það auðsótt mál. Símamenn urðu einnig að vera viðlátnir til að taka niður eða lyfta símalínum og loks þurfti löggæslu. Útbúa þurfti grunn fyrir kirkjuna og ljúka við að breikka veginn upp í Vindáshlíð í Kjós. Kirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð. Smíðaðir voru nýir bekkir, prédíkunarstóll og altari og settar nýjar umgjarðir um gluggana og eru allar innréttingar unnar í oddbogastíl samkvæmt teikningum Aðalsteins Thorarensen. Kirkjan var endurvígð 16. ágúst 1959. Séra Bjarni Jónsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna og hófst athöfnin klukkan þrjú með skrúðgöngu frá skálanum að kirkjunni. Í henni voru, auk séra Bjarna, herra Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, og dr. Ásmundur Guðmundsson, fyrrv. biskup Íslands. Auk þeirra voru sex prestar, stjórn KFUK í Reykjavík, Hlíðarstjórn og starfsstúkur Vindáshlíðar. Um fimm hundruð manns var samankominn í Vindáshlíð að þessu tilefni, en þar eð aðeins brot þeirra rúmaðist inni í kirkjunni hafði hátölurum verið komið fyrir utandyra og inni í skálanum svo að allir gætu fylgst með athöfninni. Inni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hallgrímskirkja í Vindáshlíð eignaðist marga góða gripi í tilefni endurvígslunnar og eru þeir flestir áletraðir með nafni kirkjunnar sem fengist hafði samþykki kirkjuyfirvalda fyrir að tilstuðlan Guðlaugs Þorlákssonar. Kirkjuklukkan var smíðuð í Stálsmiðjunni hf. í Reykjavík. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð. Heimildir. Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir. Gagnagerð. Gagnagerð (einnig gagnatag) er hugtak í forritun um eigindi sem inniheldur gögn. Baðstofa. En á 18. öld var það haft um íveru-, vinnu- og matarstað, oft á palli öðrumegin eða beggja vegna. Frá 18. öld var það svo haft um helsta íbúðarhús torfbæjarins, svefn-, vinnu- og dvalarstað. (Sbr. fyrri tíma kvöldvökur). Nú til dags er orðið oftast haft um síðustu merkingunni hér að framan og herbergi eða sal til gufubaða (t.d. við sundlaugar). Sojasósa. Sojasósa er gerjuð kryddsósa, notuð jafnt sem borðkrydd og við matargerð. Hún er gerð er úr vatni, sojabaunum, ristuðu korni og salti. Sojasósa á uppruna sinn að rekja til Kína fyrir um 2.500 árum og á veigamikinn sess í matarmenningu flestra þjóða í austanverðri Asíu. Hún hefur einnig verið vel þekkt í vestrænni matargerð um all nokkurt skeið, en hún barst til Evrópu með hollenskum kaupmönnum á 17. öld. Við hefðbundna sojasósugerð er sojamjöli, ristuðu hrís- eða hveitimjöli, salti og vatni blandað saman og bætt í soppuna slettu úr eldri lögun sem inniheldur gerið, en sojager er þráðlaga myglusveppur af "Aspergillus" ættkvísl (ýmist "A. oryzae" eða "A. sojae"). Blandan er svo látin gerjast mánuðum, eða jafnvel árum saman. Áður fyrr fór gerjunin fram í stórum, opnum kerjum sem látin voru standa utandyra, helst á sólríkum stað. Nú á tímum er notast við gerjunartanka þar sem höfð er nákvæm stjórn á umhverfisaðstæðum. Steingrímsstöð. Steingrímsstöð. Stöðvarhúsið séð frá vegi Steingrímsstöð er efsta virkjunin í Soginu nefnd eftir Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra Reykjavíkur. Hún er yngst Sogsstöðva, tekin í notkun 1959. Útrennsli Þingvallavatns er virkjað með tveimur kaplan túrbínum með samanlagt afl uppá 27 MW. Laxárstöðvar. Laxárstöðvareru þrjár og eru staðsettar í Laxá í Aðaldal. Þær nýta fallið í gljúfrunum við bæinn Brúar neðst í Laxárdal. Þaðan fellur áin út í Aðaldal. Virkjanirnar Laxá I og Laxá III eru rennslisvirkjanir. Það þýðir að virkjanirnar nýta eðlilegt rennsli Laxár. Áin rennur því beint inn í inntaksgöngin og að vatnsvélunum. Æskilegra er að hafa lítið inntakslón. Laxárstöð I. Laxárstöð I er elsta virkjunin í Laxá og nýtir hún efri hluta fallsins við Brúar. Frá stíflunni efst í gljúfrunum er vatnið leitt fyrst í jarðgöngum og síðan í trépípu að stöðvarhúsinu um 670 m leið. Fallhæðin er 39 m og framleiðslugeta virkjunarinnar er 5 MW. Í stöðinni eru tvær vélasamstæður og var sú fyrri tekin í notkun árið 1939 en hin síðari árið 1944. Laxárstöð II. Laxárstöð II var reist á árunum 1950 til 1952. Hún hýsir einu vatnsvél stöðvarinnar sem tekin var í notkun árið 1953. Afl hennar er 9 MW. Stíflumannvirki Laxár II voru byggð árið 1952 til að mynda inntakslón fyrir Laxárstöð II. Heildarfallið er 29 m. Aðrennslispípa liggur frá stíflunni niður að Laxárstöð II, 378 m langur tréstokkur. Hann er 4 m í þvermál og flytur um 40 tonn af vatni á sekúndu. Fallhæðin er 29 m. Fyrir ofan stöðvarhúsið er áberandi þrýstijöfnunartankur. Í vatninu sem rennur eftir tréstokknum er gífurleg hreyfiorka. Komi til þess að stöðva þurfi skyndilega vélar Laxár II myndast svokallaður vatnshamar í tréstokknum sem getur sprengt hann. Jöfnunartankurinn kemur í veg fyrir að slíkt gerist þar sem hann tekur þá við vatnshögginu. Jafnframt jafnar hann út rennslissveiflur í pípunni. Rör úr botni hans liggur niður að Laxá II. Laxárstöð III. Laxárstöð III, 13,5 MW að afli, er nýjasta virkjunin í Laxá og nýtir sama fall og Laxá I. Frá stíflu Laxár I er vatnið leitt í jarðgöngum í austari gljúfurveggnum að stöðvarhúsi um 60 m inni í berginu skammt frá stöðvarhúsi Laxár I og þaðan um frárennslisgöng út í Laxá. Þessir vatnsvegir eru alls um 850 m á lengd. Í stöðinni er ein vélasamstæða sem tekin var í notkun árið 1973. Inni í berginu er hvelfingin sem hýsir vélasamstæðu Laxár III. Upphaflega var hvelfingin hönnuð fyrir tvær vatnsvélar sem hvor um sig átti að framleiða 25 MW. Var þá miðað við 56 m háa stíflu ofar í gljúfrinu og að heildarfallhæðin yrði 83 m. Þessi virkjanatilhögun olli miklum deilum í þjóðfélaginu og gekk undir nafninu laxárdeilan. Henni lyktaði með samkomulagi um núverandi tilhögun þar sem hætt var við alla frekari stíflugerð og aðeins önnur vatnsvélin var sett niður. Á árinu 1993 var vatnshjól hverfilsins endurnýjað og við það jókst afl stöðvarinnar úr 9 MW í 13,5 MW. Ljósafossstöð. Ljósafosstöð er elsta vatnsaflstöðin við Sogið og liggur við útfall árinnar úr Úlfljótsvatni nokkur hundruð metrum ofan við Írafossstöð. Sogsstöðvar eru þrjár talsins og sú nýjasta er Steingrímsstöð sem hóf rekstur 1959. Reykvíkingar byggðu Ljósafossstöð til að afla rafmagns til borgarinnar og hófst rekstur hennar árið 1937. Stöðin var stækkuð 1944 og eru í henni 3 vélasamstæður samtals 14,3 MW að afli. Stöðin tilheyrði Sogsvirkjun sem var helmingafélag Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins og var lagt inn í Landsvirkjun við stofnun þess fyrirtækis 1965. Landsvirkjun á og rekur Ljósafossstöð og endurbætti hana verulega á árunum 1996 til 2000. Ljósafossstöð. Stöðvarhúsið séð frá bílaplani. Í bakgrunni má sjá stíflumannvirki og gamla farveginn. Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði stöðina í fúnkisstíl en framan á stöðvarhúsinu er lágmynd eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara sem heitir Ljósberinn. Eðjufiskur. Eðjufiskur, boguggi eða leirgedda er eina tegundin eftirlifandi í ættbálknum eðjufiskar. Eðjufiskurinn er ferskvatnsfiskur og veiðist aðallega í ferskvatni í Norður Ameríku Osteoglossomorpha. Osteoglossomorpha er ættbálkur innan geislugga flokksins. Ættbálkurinn inniheldur tvær ættir, beintungur og Hiodontiformes. Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Kvikmyndin All Quiet on the Western Front (Íslenska: "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum") kom út árið 1930 í leikstjórn "Lewis Milestone". Myndin var byggð á samnefndri bók sem kom út 1929 og var skrifuð af hinum þýska rithöfundi Erich Maria Remarque. Kvikmynd þessi vann tvö Óskars verðlaun; ein fyrir bestu myndina önnur fyrir besta leikstjóra. Auk þess var hún tilnefnd til tveggja Óskarverðlauna í viðbót en vann þrjú önnur verðlaun. Þess má geta var All Quiet on the Western Front þriðja myndin að fá Óskarsverðlaun fyrir bestu mynd. Söguþráður. Myndin fjallar um þýska bekkjabræður sem eru sannfærðir af kennaranum sínum og skrúðugri ræðu hans sem einkenndist af miklum þjóðernisstefnu áróðri um það að berjast fyrir landið sitt og ganga í herinn. Þeir eru allir mjög spenntir útaf þessu en einhverju síðar verður þeim ekki sama hugar. Hlutirnir ganga ekki alveg eins og þeir vildu þó og er vera þeirra í hernum sem og á stríðs vellinum ekki eins og þeir hefðu búist við. Þeir sjá að ræða kennarans hafði einungis verið glysfyllt kjaftæði og þeir fóru að meta líf sitt sem og óvinsins. Himmelstoss liðþjálfi og fyrrum póstmaður hittir þá í hérþjálfun og er hann með alvarlegu móti. Hann vill að drengirnir gleymi öllu því þeir eiga að tileinka sér hermanna hlutverkið. Hermaður hefur bara einn tilgang; að fylgja skipunum. Þeir gætu dáið í bardaga og aldrei hitt vini sína né vandamenn aftur. Þeir gætu til dæmis misst limi eða orðið fyrir andlegum skaða og myndu þá aldrei geta orðið það sem þeir voru fyrir stríðið aftur né það sem þeim langar að vera seinna. Þeir eiga þess vegna ekki að hafa of miklar vonir og eiga bara að sætta sig við hvað mun verða um þá og alla í kringum þá. Þeim ber að fylgja skipunum og gera það sem þeim er sagt. Þeir eiga að vera,harðsoðnir” eins og Himmelstoss segir við þá, engum öðrum háðir og sjálfstæðir. Viðtökur. Myndinni var vel tekið og má nefna að árið 1990 var sú ákvörðun tekin að varðveita myndina hjá Bandarísku ‘þjóðarbókhlöðunni‘ þar sem hún hafði menningarlegt sem og sögulegt gildi. Það var mat sumra að það ætti að talsetja verkið á öllum tungumálum og nota hana í forvarnarskyni þar til orðið „stríð“ myndi hverfa úr orðabókinni. Þess má geta að Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn létu banna myndina í Þýskalandi á fjórða áratugnum þar til snemma á fimmta áratugnum. þótt myndin mældi á móti stríði var myndin endurunnin árið 1939 þar sem henni fylgdi skilaboð sem mældu á móti nasistum. Auk þess á tímum Kóreu stríðsins var myndinni breytt á ákveðnum tímapunkti og var látinn styðja og stuðla að stríðinu og að inngöngu í herinn. Dúfan. Dúfan (Die Taube) er önnur skáldsaga þýska rithöfundarins Patrick Süskind sem skrifaði einnig bókina Ilmurinn. Hún kom fyrst út árið 1987. Ostariophysi. Ostariophysi er yfirættbálkur innan flokksins geisluggar. Hann er næst stærsti yfirættbálkur flokksins með í kringum 8.000 tegundir. Driver (tölvuleikjaröð). Driver er leikjasería sem nú tilheyra sjö leikir en áttundi er á leiðinni. Lina Wertmüller. Lina Wertmüller (f. 14. ágúst 1926) er ítalskur kvikmyndaleikstjóri. Hún var fyrsta konan sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leikstjórn fyrir kvikmyndina "Sjö sætar" ("Pasqualino Settebellezze") árið 1976. Hún vakti fyrst alþjóðlega athygli með fjórleik sínum þar sem Giancarlo Giannini fer með aðalkarlhlutverkið; "Mimi og mafían" 1972, "Kvikmynd um ást og stjórnleysi" 1973, "Óvenjuleg örlög" 1974 og "Sjö sætar" 1975. Í myndunum er gróteskum húmor og kaldhæðni beitt til að draga upp mynd af hlutskipti fátæks alþýðufólks á Suður-Ítalíu. Aðalsöguhetjan er alltaf alþýðumaður (verkamaður, smákrimmi, bóndi, sjómaður) sem leikinn er af Giannini og í samböndum hans við konur endurspeglast stéttabaráttan og vonlítil staða verkafólks gagnvart hinum ríku og voldugu. Wertmüller hefur oft verið sökuð um kvenfyrirlitningu vegna þess hvernig farið er með kvenpersónur í myndum hennar, einkum í "Óvenjuleg örlög". Giancarlo Giannini. Giancarlo Giannini (f. 1. ágúst 1942) er ítalskur leikari sem vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sitt í frægri sviðsuppfærslu Franco Zeffirelli á "Rómeó og Júlíu" en varð síðar þekktastur fyrir hlutverk sín í fjórleik Linu Wertmüller frá 8. áratugnum um alþýðufólk frá Suður-Ítalíu. Auk þeirra hefur hann leikið í fjöldamörgum kvikmyndum, bæði með ítölskum leikstjórum og leikstjórum frá öðrum löndum. Meðal þeirra síðarnefndu eru Rainer Werner Fassbinder í "Lili Marleen" 1980, Francis Ford Coppola í "New York Stories" 1989 og Ridley Scott í "Hannibal" frá 2001. Hann fór með hlutverk tengiliðarins René Mathis í Bond-myndunum "Casino Royale" 2006 og "Quantum of Solace" 2008. Marcello Mastroianni. Marcello Mastroianni (28. september 1924 – 19. desember 1996) var ítalskur leikari. Hann varð fyrst þekktur í kvikmyndum á tímum ítalska nýraunsæisins á 5. og 6. áratugnum og lék eitt aðalhlutverkið í "La dolce vita" Fellinis 1960 sem markar að vissu leyti endalok þess. Á 7. áratugnum var hann, ásamt Alberto Sordi, Ugo Tognazzi, Vittorio Gassman og Nino Manfredi, einn af þekktustu leikurum ítölsku gamanmyndarinnar. Á 9. áratugnum lék hann meðal annars í þremur myndum Fellinis en síðustu árin sem hann lifði vann hann aðallega utan Ítalíu. Hann lék meðal annars í kvikmynd Roberts Altman "Prêt-à-Porter" 1994. Jógúrt. Jógúrt er mjólkurafurð sem hefur verið gerjuð (sýrð) með aðstoð mjólkursýrugerla. Við gerjunina umbreyta gerlarnir laktósa (mjólkursykri) í mjólkursýru, sem aftur verkar á mjólkurprótínin þannig að mjólkin þykknar og verður nánast hlaupkennd. Samspil þessarra eðlisbreytinga og myndunar bragðefna í gerlunum leiðir til hinna einkennandi áferðar- og keimeiginleika jógúrtarinnar. Gerlarnir sem oftast eru notaðir við jógúrtgerð eru "Lactobacillus bulgaricus" og "Streptococcus thermophilus," en einnig er algengt að öðrum gerlum sé bætt út í jógúrtina til þess annað hvort að framkalla æskilega keimeiginleika eða vegna meints heilsufarslegs ávinnings. Jógúrt getur því verið markaðssett sem markfæði og inniheldur þá gjarnan "Bifidobacterium" tegundir, "Lactobacillus acidophilus" og/eða "Lactobacillus casei." Ítalska nýraunsæið. Ítalska nýraunsæið (ítalska: "Il Neorealismo") var ríkjandi stefna í ítalskri kvikmyndagerð fyrstu árin eftir Síðari heimsstyrjöld. Upphaf stefnunnar má rekja til hóps róttækra kvikmyndagagnrýnenda í kringum tímaritið "Cinema" í Róm á tímum fasismans. Þessi hópur taldi meðal annars Michelangelo Antonioni, Luchino Visconti, Gianni Puccini, Cesare Zavattini, Giuseppe De Santis og Pietro Ingrao, sem einkum gagnrýndu svokallaðar "telefono bianco"-myndir sem voru stofudrama að bandarískri fyrirmynd úr heimi góðborgara og aðals. Fyrsta kvikmyndin sem opinberlega var kennd við nýraunsæið var "Róm, óvarin borg" eftir Roberto Rossellini 1945, sem fjallaði um hina skammvinnu þýsku hersetu í Róm 1943. Áður hafði kvikmyndin "Heltekinn" eftir Visconti verið bönnuð af kvikmyndaeftirlitinu 1943 en sú mynd var undir miklum áhrifum frá ljóðræna raunsæinu í franskri kvikmyndagerð fyrir stríð. Helstu einkenni ítalska nýraunsæisins voru sögur af alþýðufólki, yfirleitt settar fram með stuttum laustengdum atriðum, með áherslu á tilfinningar fremur en pólitískan boðskap, tökur á raunverulegum stöðum (ekki í kvikmyndaveri), ómenntaðir leikarar í aukahlutverkum og jafnvel aðalhlutverkum, notkun venjulegs talmáls og heimildarmyndastíll í kvikmyndatöku. Með því að notast við talsetningu var hægt að skapa breiða sviðsetningu með mörgu fólki í mynd í einu. Með þessum hætti reyndu leikstjórarnir að skapa raunsæja mynd af ítölsku samfélagi eftirstríðsáranna sem einkenndist af atvinnuleysi og fátækt. Ítalska nýraunsæið var nátengt samfélagsaðstæðum á Ítalíu eftirstríðsáranna og um leið og efnahagsástandið batnaði upp úr 1950 tóku vinsældir nýraunsæisins að dala. Fyrstu kvikmyndir Fellinis voru í þessum anda en í talsvert ólíkum stíl og með "La dolce vita" 1960 sagði hann alveg skilið við nýraunsæið með sögum af næturlífi fræga fólksins í Róm. Ítalska nýraunsæið hafði samt gríðarleg áhrif á ítalska kvikmyndagerð um langt skeið og var einn af áhrifavöldum listrænu kvikmyndanna og frönsku nýbylgjunnar á 7. og 8. áratugnum. Sumir af leikstjórum ítalska nýraunsæisins gerðu sínar bestu myndir löngu síðar. Frumbroddgeislungar. Frumbroddgeislungar ("Protacanthopterygii") er yfirættbálkur innan flokksins geisluggar. Silfurfiskar. Silfurfiskar ("Stenopterygii") er yfirættbálkur innan flokksins geisluggar. Paracanthopterygii. Paracanthopterygii er yfirættbálkur innan flokksins geisluggar. Fanta. thumb Fanta er appelsínugosdrykkur og er vörumerki í eigu Coca-Cola gosdrykkjaframleiðandans. Broddgeislungar. Broddgeislungar ("Acanthopterygii") er yfirættbálkur innan flokksins geisluggar. Ashton Kutcher. Ashton Kutcher eða Christopher Ashton Kutcher eins og hann heitir fullu nafni (fæddur 7. febrúar 1978) er bandarískur leikari og fyrirsæta. Hann bjó til þættina Punk'd sem er eins og Tekinn (sem Auðunn Blöndal gerði á Íslandi) og hann stríðir frægum stjörnum t.d. Zac Efron. Hann er frægastur fyrir að leika í Dude, where's my car?, Just Married, The Butterfly Effect, The Guardian og What Happens in Vegas. Hann er samt þekktastur fyrir að leika Micheal Kelso í þáttunum That 70's Show. Kutcher, Ashton Aulopiformes. Aulopiformes er eini ættbálkurinn innan yfirættbálksins cyclosquanata. Myctophiformes. Myctophiformes er eini ættbálkurinn innan yfirættbálksins Scopelomorpha. Kóngar. Kóngar ("Lampridiformes") er eini ættbálkurinn innan yfirættbálksins lampridiomorpha. Skeggfiskar. Skeggfiskar (fræðiheiti: "Polymixiidae") er eina ættin innan yfirættbálksins polymixiomorpha. Michelangelo Antonioni. Michelangelo Antonioni (29. september 1912 – 30. júlí 2007) var ítalskur kvikmyndaleikstjóri. Hann hóf feril sinn sem kvikmyndagagnrýnandi og varð samstarfsmaður Roberto Rossellini. Fyrstu stuttmyndirnar sem hann gerði sjálfur voru í anda ítalska nýraunsæisins en fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, "Cronaca di un amore" 1950 fjallaði um miðstéttarfólk fremur en verkafólk. Myndir hans frá 6. áratugnum fjölluðu um firringu og brátt fór að gæta formtilrauna á borð við langar tökur og hæga eða enga framvindu í frásögninni. Um miðjan 7. áratuginn gerði hann samning við framleiðandann Carlo Ponti um þrjár myndir á ensku sem MGM myndi dreifa. Sú fyrsta, "Blowup" (1966), náði miklum vinsældum, en hinar tvær, "Zabriskie Point" (1970) og "The Passenger" (1975) fengu mun síðri viðtökur. 1985 fékk hann slag sem lamaði hann að hluta og gerði hann mállausan. Eftir það gat hann lítið fengist við kvikmyndagerð þótt hann tæki þátt í að gera "Beyond the Clouds" með Wim Wenders 1995. 1996 fékk hann heiðursverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar. Luchino Visconti. Luchino Visconti di Modrone, greifi af Lonate Pozzolo (2. nóvember 1906 – 17. mars 1976) var ítalskur kvikmyndaleikstjóri. Faðir hans var hertogi af Grazzano og fjölskylda hans með þeim ríkustu á allri Norður-Ítalíu. Þrítugur fór hann til Parísar þar sem hann varð aðstoðarmaður Jean Renoir. Í Síðari heimsstyrjöldinni varð hann hluti af hópnum í kringum Vittorio Mussolini og tímaritið "Cinema". Sína fyrstu kvikmynd, "Heltekinn" ("Ossessione"), gerði hann 1943 í anda ítalska nýraunsæisins eftir skáldsögunni "Pósturinn hringir alltaf tvisvar". Myndin var bönnuð af leppstjórn fasista á Norður-Ítalíu. Visconti hélt áfram að gera myndir í anda nýraunsæisins allan 6. áratuginn en eftir 1960 tóku myndir hans að snúast meira um hnignun aðalsins. 1963 gerði hann stórmyndina "Hlébarðinn" eftir sögu Giuseppe Tomasi di Lampedusa. 1969 kom síðan út "Ragnarök", "Dauðinn í Feneyjum" 1972 og "Ludwig" 1975 sem eru saman kallaðar „þýski þríleikurinn“. Á sama tíma fékkst hann við óperuleikstjórn og stjórnaði meðal annars nokkrum frægum uppfærslum með Mariu Callas í La Scala á 6. áratugnum. Yotta. Yotta er forskeyti fyrir 10024 (1000^8) og er komið af orðinu okta (átta) í grísku því 10008 (1000^8) er jafnt 1024. Það er venjulega táknað með stafnum „Y“. The Pirate Bay. The Pirate Bay er sænsk torrent-síða sem var stofnuð árið 2003 af Piratbyrån en síðan hefur verið rekin sjálfstætt síðan 2004. The Pirate Bay kallaði sig „stærstu BitTorrent-síðu heims“ og taldist 123. vinsælasta vefsíða heims samkvæmt mælingum Alexa Internet árið 2008. 31. mars 2006 leitaði lögreglan í Stokkhólmi í húsnæði félagsins og gerði vefþjóna upptæka en það olli því að síðan virkaði ekki í þrjá daga. Fyrirtækið hefur nokkrum sinnum komið fyrir dómstóla vegna gruns um brot á höfundaréttalögum og til þess að sækja eigin mál. 15. nóvember 2008 tilkynnti The Pirate Bay að vefsíðan hefði alls 25 milljónir deilendur. Kevin Smith. Kevin Smith (fæddur 2. ágúst 1970 í New Jersey) er leikari, handritshöfundur, rithöfundur og leikstjóri í Los Angeles. Hann gerir grínmyndir. Hann byrjaði á fyrstu kvikmynd sinni árið 1994, hún hét Clerks og gerist í verslun í New Jersey en hann leikur í henni persónuna Silent Bob. Önnur mynd hans hét Mallrats en hún gerist í verslunarmiðstöð. Seinna kom út mynd sem heitir Jay And Silent Bob Strike Back. Í henni leikur hann Silent Bob. Seinna kom út Clerks 2 en hún gerist á veitingastað. Kevin Smith starfar oft með Ben Affleck, Matt Damon, Jason Lee, Ethan Suplee, Brian O'Halloran, Jason Mewes og Jeff Anderson, en þau hafa leikið í myndum hans oftar en einu sinni. 28.nóvember 2008 sendi hann frá sér kvikmynd sem heitir Zack And Miri Make A Porno Smith, Kevin Smith, Kevin Handritshöfundur. Handritshöfundur er maður sem skrifar handrit fyrir kvikmynd, sjónvarpsþætti eða leikrit. Í starfi handritshöfundar felst meðal annars rannsóknarvinna, að skrifa handrit, fá athugasemdir og endurrita. Clerks. "Clerks" er bandarísk grínmynd frá árinu 1994. Myndin er eftir Kevin Smith og með aðalhlutverkin fara Brian O'Halloran (sem Dante Hicks) og Jeff Anderson (sem Randal Graves). Silent Bob. Silent Bob er kvikmyndapersóna sem er leikin af Kevin Smith. Silent Bob birtist fyrst í Clerks og svo Mallrats og svo Jay and Silent Bob Strike Back. Ari Johnsen. Ari Márus Johnsen (skírður "Ari Maurus Jónsson", en var líka stundum nefndur "Ari Jónsson" og "Ari Márus Daníelsson Johnsen") (30. maí 1860 – 17. júní 1927) var fyrsti lærði óperusöngvarinn frá Íslandi. Hann starfaði aðallega í Þýskalandi, t.d. í Berlín, Leipzig og Hamborg, en kom einnig fram í Lundúnum. Hann hætti að syngja árið 1909, þar eð hann taldi sig þá vera orðinn of gamall til að syngja, og stundaði eftir það eingöngu söngkennslu í Hamborg og síðan í Kaupmannahöfn. Hann var kallaður "sönglistarmaður" í blöðunum kringum aldamótin 1900. Firmicutes. Firmicutes er fylking innan ríkis gerla ("Bacteria"). Hún er fremur tegundarík, inniheldur að minnsta kosti 274 ættkvíslir. Heitið "Firmicutes" kemur úr latínu og þýðir sterk ("firmus") húð ("cutis") og er þar vísað til frumuveggjarins, en eitt af mikilvægum einkennum fylkingarinnar er hin tiltölulega einfalda en rammgerða, Gram-jákvæða bygging frumuveggja flestra tegunda hennar. Önnur meginfylking Gram-jákvæðra gerla eru Geislagerlar ("Actinobacteria"). Bacilli. Bacilli er flokkur innan fylkingarinnar Firmicutes. Flokkurinn, sem eingöngu inniheldur Gram-jákvæða gerla skiptist í tvo ættbálka, "Bacillales" og "Lactobacillales". Bacillales. Bacillales er ættbálkur Gram-jákvæðra gerla innan flokksins "Bacilli". Ættbálknum er skipt í 10 ættir sem meðal annars innihalda ættkvíslir á borð við "Bacillus", "Listeria" og "Staphylococcus". Karlakórinn Fóstbræður. Karlakórinn Fóstbræður er karlakór sem var stofnaður 23. nóvember 1916. Upphaflega hét kórinn "Karlakór KFUM". 1936 var nafninu breytt í "Fóstbræður" eftir kvartett sem fyrsti söngstjóri kórsins, Jón Halldórsson, hafði sungið í í byrjun aldarinnar. Karlakór hafði hins vegar áður starfað innan KFUM allt frá 1912. Kórinn rekur félagsheimili við Langholtsveg í Laugardal. Það var vígt 22. apríl 1972. Tyrone Power. Tyrone Edmund Power, yngri (5. maí 1914 – 15. nóvember 1958) var bandarískur leikari sem lék í fjölda vinsælla kvikmynda frá 4. áratugnum til 6. áratugarins. Hann naut líka mikillar velgengni sem sviðsleikari. Hann lést úr hjartaáfalli 44 ára gamall. Gráerta. Gráerta eða matarerta (matbaun, en ranglega kallaðar grænar baunir) (fræðiheiti: "Pisum sativum") er matjurt af ertublómaætt. Jurtin er stundum ræktuð sem skrautplanta, en oftast vegna baunanna (sem eru fræ plöntunnar). Flestir líta á gráertuna sem grænmeti, en frá sjónarhóli grasafræðinnar er hún ávöxtur. Utan um erturnar er svonefndur baunabelgur eða baunaskálpur. Gregor Mendel notaði gráertur við erfðafræðitilraunir sínar. Undirtegundir. Garðerta ("Pisum sativum sativum") er undirætt gráertunnar og "gulertur" eru klofnar og þurrkaðar matarertur og eru t.d. notaðar í baunasúpu. Örn og Örlygur. Örn og Örlygur hf. var íslensk bókaútgáfa sem var stofnuð árið 1966 af Örlygi Hálfdánarsyni og Erni Maríussyni sem áður höfðu fengist við útgáfu "Ferðahandbókarinnar" í tvö ár. Útgáfan markaði sér sérstöðu með útgáfu stórra myndskreyttra handbóka og ritraða um almennt efni í stóru bandi prentaðar á vandaðan pappír. Árið 1990 kom út hjá forlaginu "Íslenska alfræðiorðabókin A-Ö" sem þótti tímamótaverk á íslenskum bókamarkaði. Útgáfa Alfræðibókarinnar var forlaginu þung í skauti og árið 1994 fór það í greiðslustöðvun. Útgáfa hélt áfram á vegum Bókaklúbba Arnar og Örlygs sem síðar nefndist Íslenska bókaútgáfan til 2003. Manhattanbrúin. Manhattanbrúin er hengibrú yfir East River í New York-borg í Bandaríkjunum. Brúin tengir hverfin Neðri Manhattan og Brooklyn á Long Island. Hún var síðasta hengibrúin sem byggð var yfir ána á eftir Brooklyn-brúnni og Williamsburg-brúnni. Brúin opnaði 31. desember 1909. Gregor Mendel. Gregor Johann Mendel (20. júlí 1822 – 6. janúar 1884) var austurrískur kanúki af Ágústínusarreglu, en er þekktastur fyrir vísindarannsóknir sínar. Hann er oft kallaður" Faðir erfðafræðinnar". Á árunum 1856-1863 gerði Mendel tilraunir í garði Drottningarklaustursins í Brünn. Hann hóf að athuga og skrá hjá sér kynblöndun á gráertum ("Pisum sativum") til þess að sjá hvort einhver regla eða eitthvert mynstur væri í því hvernig eiginleikar plantnanna erfðust. Lét hann hreinræktaðar plöntur með mismunandi eiginleika æxlast saman. Þær plöntur voru foreldrakynslóðin. Eiginleikinn sem kom fram í fyrstu afkomendakynslóðinni var kallaður "ríkjandi". Eiginleikinn sem hvarf í þessari kynslóð en birtist síðan á ný í annarri afkomendakynslóðinni, var kallaður "víkjandi". Niðurstöður þessara tilrauna voru kynntar á fundum "Náttúruvísindafélagsins í Brünn" 8. febrúar og 8. mars árið 1865, og gefnar út af sama félagi ári síðar, 1866, undir nafninu: "Tilraunir við kynblöndun plantna". Í niðurstöðunum dró Mendel saman í tvær tilgátur, sem síðar voru nefndar Mendelslögmál. "Fyrsta lögmálið" er um aðskilnað gena; samkvæmt því hlýtur hver kynfruma aðeins annað genanna í hverju genapari. "Annað lögmálið" er um óháða samröðun gena; samkvæmt því erfist hvert genapar óháð öðrum, þ.e.a.s. uppröðun og aðskilnaður litninganna (en um tilvist þeirra vissu menn ekkert á dögum Mendels) er algjörlega tilviljunarkenndur. Mendel, Gregor Sigtryggur Ólafsson silkiskegg. Sigtryggur Ólafsson silkiskegg (írska: Sihtric eða Sitric mac Amlaeibh'"), konungur í Dyflinni 989 – 1036, var sonur Ólafs Sigtryggssonar kvaran konungs í Dyflinni og Kormlaðar ("Gormflaith") drottningar. Hann var helsti leiðtogi víkinga í Brjánsbardaga árið 1014, þó að hann tæki ekki þátt í bardaganum sjálfur. Árið 989 tók Sigtryggur við af hálfbróður sínum, Glúniairn Ólafssyni sem konungur í Dyflinni. Hann var rekinn frá borginni 994 – 995 af Ívari (Imar) konungi í Waterford. Árið 998 gerði frændi Sigtryggs, Máel Mórda mac Murchada konungur í Leinster, uppreisn gegn Brjáni yfirkonungi Írlands. Sigtryggur studdi frænda sinn, en þeir biðu ósigur 999 í orustunni við Glen Mama. Til þess að innsigla frið, giftist Brjánn Kormlöðu móður Sigtryggs, og gifti um leið Sigtryggi dóttur sína. Þegar Brjánn skildi við Kormlöðu nokkrum árum síðar, fór hún að æsa til uppreisnar gegn honum. Sigtryggur fékk til liðs við sig Sigurð Hlöðvisson Orkneyjajarl og víkingahöfðingjann Bróður frá Mön. Þetta leiddi til átaka (1012) sem lauk með Brjánsbardaga 23. apríl 1014. Írar undir forystu Brjáns unnu sigur, en Brjánn var drepinn eftir bardagann. Sigtryggur tók ekki þátt, heldur fylgdist með orustunni af virkisvegg Dyflinnar. Sigtryggur silkiskegg ríkti lengst allra norrænna konunga í Dyflinni. Á hans dögum var fyrsta dómkirkjan þar byggð, um 1030, þar sem Kristkirkjan í Dyflinni stendur nú. Sigtryggur lét af völdum um 1036. Hann átti þá ekki son á lífi og kaus sem eftirmann Margað Rögnvaldsson (Echmarcach mac Ragnaill) frænda sinn. Sigtryggur gekk síðar í klaustur og dó um 1042. (Ath. Norsku og frönsku Wikipediunni ber ekki saman um börnin). Marcus Hellner. Marcus Hellner (fæddur 25. nóvember 1985) er sænskur skíðagöngugarpur þekktur fyrir snarpa endaspretti. Hann var í bronsliði Svía á Heimsmeistaramótinu í Sapporo 2007 og sigraði sinn fyrsta heimsbikartitill 22. nóvember 2008 í Gällivare í Svíþjóð. Marcus á sér jafnmaka í Petter Northug frá Noregi og er oft mikil rígur á milli þeirra. Hákonar saga Ívarssonar. Hákonar saga Ívarssonar er forn íslensk saga, sem segir frá Hákoni Ívarssyni, sem var jarl á Upplöndum í Noregi á 11. öld. Aðeins eru varðveittir nokkrir kaflar úr sögunni. Um söguna. Handritið AM 570 a 4to er íslensk skinnbók frá árabilinu 1450–1500. Þar eru brot úr fimm sögum, m.a. 6 blöð úr Hákonar sögu Ívarssonar, en mikið er glatað úr sögunni. Sagan er ekki til annars staðar, en til er útdráttur á latínu, sem talið er að Arngrímur Jónsson lærði hafi gert um 1600, eftir handriti þar sem sagan var heil. Útdrátturinn gefur nokkra hugmynd um það efni sem glatast hefur. Einnig hefur Snorri Sturluson stuðst við Hákonar sögu Ívarssonar þegar hann tók saman Heimskringlu. Er sagan því eldri en 1220, eða a.m.k. frumgerð hennar. Fyrst segir frá æsku Hákonar og víkingaferðum. Hann giftist Ragnhildi, dóttur Magnúsar góða Noregskonungs, en þegar Haraldur harðráði sveik hann um jarlsnafnbót, fór hann til Danmerkur og gekk í þjónustu Sveins konungs Úlfssonar. Síðar sættist Hákon við Harald harðráða, sem gerði hann jarl á Upplöndum. Árið 1062 barðist Hákon með Haraldi gegn Sveini Danakonungi við ána Nizi (á Hallandi, nú í Svíþjóð) þar sem Norðmenn unnu sigur. Eftir orustuna náði Sveinn konungur fundi Hákonar, sem kom honum undan. Nokkru síðar fékk Haraldur vitneskju um þetta og ætlaði að láta Hákon gjalda fyrir með lífinu, en honum barst njósn og komst yfir til Svíþjóðar. Þeir börðust 1064, Haraldur vann sigur og batt þar með enda á ítök Hákonar á Upplöndum. Óvíst er hvenær Hákon dó. Sagan dregur upp afar jákvæða mynd af jarlinum, sem þó sat á svikráðum við Harald Noregskonung. Hákon átti áhrifamikla afkomendur. Dóttir hans var amma Eiríks lambs Danakonungs, og önnur dóttir hans giftist Páli Þorfinnssyni Orkneyjajarli. Meðal afkomenda þeirra voru margir jarlar og annað stórmenni, t.d. Bjarni biskup Kolbeinsson í Orkneyjum. Hafa komið fram hugmyndir um að Bjarni biskup hafi látið rita söguna um 1200, og þá e.t.v. fengið Íslending til verksins. Hákonar saga Ívarssonar er eina varðveitta fornsagan sem fjallar um Norðmann utan norsku konungsættarinnar. Það styrkir rökin fyrir að fleiri slíkar hafi verið til, t.d. Hlaðajarla saga. Finnur Jónsson segir að Hákonar saga Ívarssonar sé eins konar framhald af Hlaðajarla sögu, en faðir Hákonar var dóttursonur Hákonar Sigurðarsonar Hlaðajarls. Í Morkinskinnu er einnig sagt talsvert frá Hákoni Ívarssyni, en engin skrifleg tengsl virðast þar vera við Hákonar sögu Ívarssonar. Uppkastið. a> 2. júní 1908. Mannfjöldi fylgist með. Uppkastið voru drög að sambandslögunum sem voru gerð á tímum heimastjórnarinnar á Íslandi, með blessun Friðriks VIII Danakonungs. Íslendingar höfðu fengið ráðherra Íslands árið 1904 en áfram var krafist frekara sjálfstæðis. Þegar Friðrik VIII kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1907 skipaði hann forsætisráðherra Dana og Hannes Hafstein, ráðherra Íslands, ásamt fulltrúum þingflokkanna í sérstaka samningsnefnd til samninga um ný lög um samband Íslands og Danmerkur, sem leysa átti af hólmi stöðulögin frá 1871. Komist var að málamiðlun og féllst nefndin að Skúla Thoroddsen undanþegnum á samninginn þar sem Danir og Íslendingar hefðu sömu réttindi í hvoru landinu en Danir hefðu áfram umsjón með utanríkis- og hermálum Íslands og Danakonungur væri áfram konungur Íslendinga. Samningurinn átti að vera óuppsegjanlegur. Þingkosningarnar 1908 snerust að mestu leyti um "Uppkastið" og urðu úrslit kosninganna þannig að andstæðingar "Uppkastsins" undir forystu Björns Jónssonar í Sjálfstæðisflokknum gamla, ritstjóra Ísafoldar, sigruðu. Þegar nýtt þing var sett var samþykkt vantrauststillaga gegn Hannesi Hafstein og tók Björn við af honum sem ráðherra Íslands. Björn sat sem ráðherra til 1911 þegar hann varð sjálfur að víkja vegna "Bankafargansins" svonefnda. Hannes Hafstein gerði aftur atlögu við að fá "Uppkastið" samþykkt á þingi, og var nú nefnt "Bræðingurinn". Hann stofnaði Sambandsflokkinn árið 1911 og hélt til Kaupmannahafnar til skrafs og ráðagerðar við danska embættismenn. Hann snéri þaðan með óformlegt tilboð („"grútinn"“) sem hann hætti við að bera upp á þingi 1913. Ný sambandslög tóku gildi 1918 og þar með hlaut Ísland fullveldi. Samuel Eto'o. Samuel Eto'o (fæddur 10. mars 1981 í Douala) er knattspyrnumaður frá Kamerún. Hann leikur með Chelsea F.C. í Englandi. Magnea J. Matthíasdóttir. Magnea Jóhanna Matthíasdóttir (f. 13. janúar 1953) er íslenskt skáld, leikskáld, rithöfundur og þýðandi. Hún vakti fyrst almenna athygli með ljóðabókinni "Kopar" árið 1976 og síðan „þríleiknum“ "Hægara pælt en kýlt" 1978, "Göturæsiskandídatar" 1979 og "Sætir strákar" 1981, sem allar fjalla um litríkt líf ungs fólks í Reykjavík. Hún hefur þýtt fjölda bóka og er nú stundakennari í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Víctor Valdés. Víctor Valdés (fæddur 14. janúar 1982 í Katalóníu) er spænskur markvörður sem leikur með FC Barcelona. Wayne Rooney. Wayne Mark Rooney (fæddur 24. október 1985 í Liverpool) er enskur knattspynumaður. Hann leikur með Manchester United á Englandi og enska landsliðinu. Hann hóf feril sinn hjá Everton en var keyptur sumarið 2004 til Manchester United á 25,6 milljónir. Upphafsár. Wayne Rooney fæddist þann 24. október árið 1985 í Liverpool, Englandi. Faðir hans er Thomas Rooney og móðir hans Jeanette Marie Rooney og á Wayne tvo bræður, þá Graeme og John. Hann var dyggur stuðnigsmaður Everton á sínum uppvaxtarárum. Everton. Rooney hóf feril sinn hjá Everton aðeins 11 ára gamall og þótti gríðarlega efnilegur. Hann spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði Everton gegn Arsenal, þá aðeins 16 ára. Hann skoraði í þeim leik og varð yngsti markaskorari ensku úrvalsdeildarinnar á þeim tíma. Í ágúst 2004 gekk Rooney til liðs við Manchester United sem greiddi út £25.6 milljónum fyrir, Rooney að dýrasta leikmanni undir 20 ára. 2004-05. Rooney skoraði þrennu í fyrsta leik sínum fyrir Manchester United gegn Fenerbahçe í semptember 2004. Þrátt fyrir góða byrjun varð þetta tímabil tiltlalaust hjá United sem lenti í þriðja sæti í deildinni og komst ekki lengra en í 16-liða úrslit í Meistaradeild Evrópu. Þeim gekk betur í bikarkeppnunum, en þar duttu United-menn út í undanúrslitum deildarbikarsins eftir að hafa tapað fyrir Chelsea. Þeir töpuðu svo fyrir Arsenal í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik enska bikarsins. Rooney náði þó að skora 11 mörkum í deildinni og var valinn besti ungi leikmaður tímabilsins. 2005-06. Á tímabilinu 2005-06 vann Rooney sinn fyrsta bikar með félaginu þegar United bar 4 - 0 sigurorð á Wigan í úrslitum deildarbikarsins. Skoraði Rooney tvö mörk og var hann valinn maður leiksins að honum loknum. United endaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, 8 stigum á eftir Chelsea. Þetta tímabil náði Rooney að bæta sig í markaskorun og endaði hann með 16 mörk í lok leiktíðar. 2006-07. Þetta tímabil náðu Manchester United loks að endurheimta Englandsmeistarartitilinn og enduðu þeir 7 stigum ofar en Chelsea. Rooney átti góðan þátt í því þar sem hann skoraði 14 deildarmörk á tímabilinu. 2007-08. Rooney í lek gegn Everton í nóvember 2009. Rooney varð fyrir miklum meiðslum tímabilið 2007-08 og missti af 10 leikjum. Hann náði þó að skora 18 mörk (12 í deildinni) en United varði Englandsmeistaratitilinn þetta árið. Þeir unnu líka Meistaradeild Evrópu eftir að hafa sigrað Chelsea í vítaspyrnukeppni á dramatískan hátt, 6 - 5. 2008-09. Í október 2008 varð Rooney yngsti leikmaðurinn til að ná þeim áfanga til að leika 200 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Hann varð fyrir smávægum meiðslum sem gerðu það að verkum að hann missti af 4 leikjum. Hann skoraði 20 mörk í öllum keppnum fyrir Manchester United sem varði Englandsmeistaratitilinn, þriðja árið í röð. 2009-10. Rooney byrjaði tímabilið með því að skora geng Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Hann var síðan aftur á ferðinni gegn Birmingham City í opnunarleik keppnistímabilsins. Hann skoraði 26 mörk í deildinni þetta árið og var valinn leikmaður tímabilsins. Hann skoraði í sigurleik United gegn Aston Villa í úrslitum deildarbikarsins. Varð það eini bikarinn sem United vann en þeir urðu einu stigi á eftir Chelsea sem vann deildina. United datt síðan úr leik í Meistaradeildinni í 8-liða úrslitum eftir að hafa tapað gegn Bayern München á útimarkareglunni. 2010-11. Rooney byrjaði tímabilið illa. Um tíma íhugaði hann að fara til Real Madrid, Chelsea eða Manchester City. Þó ákvað hann að lokum að halda kyrru fyrir. Hann er búin að vera lengi meiddur. Landsliðsferill. Rooney varð yngsti leikmaðurinn til að leika fyrir England þegar Englendingar öttu kappi við Ástralska landsliðið í vináttu landsleik þann 12. febrúar 2003, þá 17 ára. Theo Walcott, leikmaður Arsenal, bætti það met um 63 daga í júní 2006. EM 2004. Fyrsta mót Rooney með enska landsliðinu var EM 2004 í Portúgal. Náðu Englendingar að komast í átta liða úrslit en þar duttu þeir út fyrir Portúgölum í vítaspyrnukeppni. HM 2006. Rooney var síðan valinn í hópinn fyrir HM 2006 í Þýskalandi. Þar duttu þeir aftur út fyrir Portúgölum í átta liða úrslitum, og aftur í vítaspyrnukeppni. Ronney er mest minnst frá þessu móti fyrir að hafa fengið rautt spjald gegn Portúgölum eftir að Cristiano Ronaldo, þáverandi samherji hans hjá Manchester United, fiskaði hann út af fyrir að hafa stappað á Ricardo Carvalho. HM 2010. Á HM 2010 í Suður-Afríku vegnaði Rooney og félögum hins vegar ekki vel en þeir duttu út fyrir Þjóðverjum eftir 4-1 tap í sextán liða úrslitum. Ferilsyfirlit. "Síðast yfirfarið þann 8. desember 2010" Auður Haralds. Auður Haralds (f. 11. desember 1947) er íslenskur rithöfundur. Fyrsta skáldsaga hennar, "Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn" árið 1979, vakti mikla athygli sem opinská grátbrosleg lýsing á hlutskipti kvenna við upphaf ákveðins kafla í kvennabaráttu á Íslandi. Hún fylgdi henni eftir með "Læknamafían" 1980 og "Hlustið þér á Mozart?" 1982. Skömmu síðar komu út þrjár bækur hennar um Elías sem byggðu á innslögum sem hún skrifaði fyrir "Stundina okkar", sem Sigurður Sigurjónsson lék, og unglingabókin "Baneitrað samband á Njálsgötunni". 1987 kom svo út síðasta skáldsaga hennar til þessa, "Ung, há, feig og ljóshærð". Íslensku barnabókaverðlaunin. Íslensku barnabókaverðlaunin eru bókmenntaverðlaun sem veitt eru árlega af Verðlaunasjóði íslenskra barnabóka sem rithöfundurinn Ármann Kr. Einarsson stofnaði í samvinnu við Vöku-Helgafell árið 1985. Verðlaunin eru veitt fyrir áður óbirt handrit að skáldsögu fyrir börn og unglinga eða myndskreyttri barnabók sem er skilað inn í upphafi árs. Verðlaunabókin er síðan gefin út af Vöku-Helgafelli (nú innan Forlagsins) og kynnt um haustið. Tvisvar (1995 og 2006) hafa tvær bækur hlotið verðlaunin. Ármann Kr. Einarsson. Ármann Kr. Einarsson (30. janúar 1915 – 15. desember 1999) var íslenskur rithöfundur sem fékkst við að semja skáldsögur handa börnum og unglingum. Lengst af starfaði hann sem kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík. Fyrsta bók Ármanns var smásagnasafnið "Vonir" sem kom út 1934. Þremur árum síðar kom út ævintýrið "Margt býr í fjöllunum". Fleiri ævintýri, smásögur og skáldsögur fyrir börn fylgdu í kjölfarið og 1953 kom út fyrsta bók hans um Árna í Hraunkoti, "Falinn fjársjóður", með myndum eftir Odd Björnsson. Halldór Pétursson teiknaði hinsvegar myndirnar í seinni bókunum. Árnabækurnar urðu alls átta talsins, nutu mikilla vinsælda og voru meðal annars þýddar á norsku. 1962 kom út fyrsta bókin í sex bóka röð um Óla og Magga. 1997 kom út eftir hann sjálfsævisagan "Ævintýri lífs míns". Edda útgáfa. Edda útgáfa er íslenskt bókaforlag sem rekur áskriftar- og bókaklúbba og gefur jafnframt út bækur fyrir almennan markað. Fyrirtækið var stofnað sem Edda - miðlun og útgáfa með sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells 30. júní árið 2000. Sameiningin var tilraun til að búa til stórt og öflugt bókaforlag sem myndi ráðast í verkefni á sviði nýmiðlunar auk bókaútgáfu og reksturs bókaklúbba. Þá réð Mál og menning yfir einni stærstu bókabúð landsins við Laugaveg en Vaka-Helgafell rak öfluga bókaklúbba. Bæði félögin voru með mikla útgáfustarfsemi. Fyrirtækið keypti Iðunni árið 2003 en hélt áfram útgáfu undir nöfnum forlaganna. Vaka-Helgafell hafði áður eignast Almenna bókafélagið eftir gjaldþrot þess árið 1996. Fljótlega komu upp miklir rekstarörðugleikar sem leiddu til þess að hópur athafnamanna með Björgólf Guðmundsson í broddi fylkingar kom með nýtt fjármagn inn í félagið og hóf endurskipulagningu þess. Nafni fyrirtækisins var breytt og bókabúðirnar seldar til Pennans-Eymundssonar. Tímaritadeild Eddu, sem fylgt hafði Vöku-Helgafelli og gaf út tímaritin "Iceland Review", "Ský" og "Atlantica", var seld til Útgáfufélagsins Heims. Nýmiðlunardeildin var lögð niður. Páll Bragi Kristjónsson varð framkvæmdastjóri. 2007 var útgáfuhluti Eddu, og þar með forlögin Vaka-Helgafell, Mál og menning og Iðunn (en ekki Almenna bókafélagið) seld til sjálfseignarstofnunarinnar Máls og menningar - Heimskringlu sem var fyrir einn eigenda Eddu. Mánuði síðar var Forlagið stofnað með sameiningu Máls og menningar og bókaforlagsins JPV. Eftir í Eddu urðu bókaklúbbarnir og Almenna bókafélagið. Edda gefur einnig út bækur fyrir almennan markað undir eigin nafni. Núverandi eigandi Eddu er Jón Axel Ólafsson. Almenna bókafélagið. Almenna bókafélagið eða AB er íslenskt bókafélag sem var stofnað 17. júní 1955. Hlutverk þess var meðal annars að mynda menningarlegt mótvægi við Mál og menningu sem þá var öflugasta bókafélag landsins, tengt vinstrisinnuðum rithöfundum og hallt undir Ráðstjórnarríkin, enda þáði það háa fjárstyrki þaðan. Á þessum tíma störfuðu tvö félög íslenskra rithöfunda, Rithöfundafélag Íslands og Félag íslenskra rithöfunda, sem skiptust eftir átakalínum í stjórnmálum. Að stofnun Almenna bókafélagsins stóðu meðal annars Bjarni Benediktsson, sem þá var menntamálaráðherra, Gunnar Gunnarsson, Guðmundur G. Hagalín, Tómas Guðmundsson, Jóhannes Nordal og Kristmann Guðmundsson. Alvarlegir rekstrarörðugleikar í byrjun 10. áratugar 20. aldar ráku félagið í gjaldþrot árið 1996. Vaka-Helgafell keypti þá bókabirgðir fyrirtækisins. Bókafélagið sem Jónas Sigurgeirsson rekur keypti nafnið úr þrotabúi 2011 og gefur nú út nokkrar bækur á ári undir nafni Almenna bókafélagsins. Ingólfur Arnarson Jónsson. Ingólfur Arnarson Jónsson er persóna úr "Sjálfstæðu fólki". Hann var sonur hjónanna á Útirauðsmýri og barnsfaðir Rósu Þórðardóttur og faðir Ástu Sóllilju. Hann var myndarlegur maður og ríkur. Við lok sögunnar var hann orðinn forsætisráðherra Íslands. Gresjuhestur. Gresjuhestur (eða ónagri) (fræðiheiti: "Equus hemionus") er stórt spendýr sem tilheyrir ætt hesta. Heimkynni gresjuhestsins eru í eyðimörkum Sýrlands, Írans, Pakistan, Indlands, Ísraels og Tíbets. Leikskáld. Leikskáld eða leikritahöfundur er sá nefndur sem semur leikrit. Orðið leik"skáld" kemur til af því að lengst af í sögu vestrænnar leikritunar voru leikrit samin í bundnu máli að mestu eða öllu leyti. Fyrstu nafnkunnu leikskáldin eru forngrísk skáld frá 5. öld f.Kr.; Æskýlos, Sófókles, Evrípídes og Aristófanes. Mörg verk þeirra eru reglulega sett upp í leikhúsum enn þann dag í dag. Indverski flughundur. Indverski flughundur (fræðiheiti: "Pteropus giganteus") er tegund leðurblakna sem er að finna í Bangladess, Kína, Indlandi, Maldíveyjum, Nepal, Pakistan og Sri Lanka. Indverski flughundurinn er með vænghaf sem spannar 80 sentímetra, fæðir einn eða tvo lifandi unga og lifir að mestu í skógum. Þeir lifa að mestu á þroskuðum ávöxtum, s.s. mangó, nektar og banönum og eru hópsæknir og lifa í sambúi sem getur verið allt að nokkur hundruð dýr. Hugmyndasaga. Hugmyndasaga er grein innan sagnfræðinnar sem fæst við þróun hugmynda og áhrifa þeirra. Arthur O. Lovejoy, heimspekingur við Johns Hopkins-háskóla, er gjarnan talinn upphafsmaður þessarar greinar en hann var einn af stofnendum "History of Ideas Club" og fyrsti ritstjóri "Journal of the History of Ideas" (á meðal greinahöfunda voru til dæmis Bertrand Russell og Paul O. Kristeller). Gallerí. Gallerí (eða listhús) er (lítill) sýningarsalur fyrir myndlist, sem er rekinn af einkaaðilum og þar sem einnig er stunduð verslun með listaverk. Sundlaug Stykkishólms. Mynd af Sundlaug Stykkishólms þar sem sést í heitu pottana tvo, vaðlaugina og hluta af vatnsrennibrautinni. Sundlaug Stykkishólms er sundlaug á Íslandi sem er staðsett í Íþróttamiðstöð Stykkishólmsbæjar, á Borgarbraut 4, 340 Stykkishólmi. Þar er 25 metra löng og 12 metra breið útisundlaug, og 57 metra löng vatnsrennibraut, en hún er önnur lengsta á Íslandi. Einnig eru tveir heitir pottar en vatnið sem í þeim er er veitt úr borholu við Hofstaði, vaðlaug og 12 metra löng innilaug. Svartidauði á Íslandi. Svartidauði var mjög skæð farsótt, sem talin er hafa borist til Íslands vorið 1402. Hálfri öld fyrr, á árunum 1348 – 1350, hafði pestin gengið um alla Evrópu en barst þó ekki til Íslands, sennilega einfaldlega vegna þess að engin skip komu til landsins þau tvö ár sem hún geisaði á Norðurlöndum og í Englandi. Ýmist tókst ekki að manna skipin vegna fólksfæðar eða þá að skipverjar dóu á leiðinni og skipin komust aldrei alla leið. Töluverður vöruskortur var í landinu vegna siglingaleysis þessi ár og er meðal annars sagt að leggja hafi þurft niður altarisgöngur um tíma af því að prestar höfðu ekki messuvín. Svartidauði var viðloðandi í Evrópu næstu aldir þótt hann yrði ekki aftur að viðlíka farsótt. Líklega barst hann til Íslands með farmanninum "Hval-Einari Herjólfssyni", sem tók land í Maríuhöfn á Hálsnesi í Hvalfirði. Hann sigldi líklega frá Englandi, en þar er vitað af veikinni árið 1401. Þangað kom "Óli Svarthöfðason prestur" í Odda til fundar við Einar. Hann veiktist fljótt og dó í Hvalfirði eftir skamman tíma. Lík hans var flutt til Skálholts til greftrunar. Síðan breiddist veikin hratt út um landið. Í Árbókum Espólíns segir: „Þar kom út í klæði — að því er sumir sögðu — svo mikil bráðasótt, að menn lágu dauðir innan þriggja nátta, þar til heitið var þremur lofmessum með sæmilegu bænahaldi og ljósbruna, þurraföstu fyrir Kyndilmessu og vatnsföstu fyrir jólin; ennfremur Saltarasöngum, Maríusöngum og að gefa hálfvætt silfurs til Hóla, til að búa skrín Guðmundar hins góða. Er síðan mælt að flestir næðu að skriftast áður en dóu“. Svartidauði gekk um landið á árunum 1402 – 1403 og var mjög skæður. Á sumum bæjum dó hver einasti maður og sagt er jafnvel að heilar sveitir hafi eyðst; til dæmis er sagt að í Aðalvík og Grunnavík hafi aðeins lifað eftir tvö ungmenni. Prestum var sérlega hætt við að smitast, þar sem þeir vitjuðu oft dauðvona fólks og veittu því skriftir, og er sagt að aðeins hafi lifað eftir þrír prestar á öllu Norðurlandi og auk þess einn munkur og þrír djáknar á Þingeyrum; aðrir vígðir menn dóu í plágunni. Ekki er vitað hve margir dóu í Svarta dauða á Íslandi; sumir segja allt að tveir þriðju allra landsmanna hafi fallið í valinn en fræðimenn hafa notað fjölda eyðibýla nokkrum áratugum eftir pláguna til að geta þess til að um helmingsfækkun hafi orðið. Heilar fjölskyldur og jafnvel ættir dóu og mikil tilfærsla varð á eignum, sumir erfðu stóreignir eftir fjarskylda ættingja og gat stundum verið erfitt að finna réttu erfingjana, þegar óvíst var í hvaða röð fólk hafði dáið. Kirkjan eignaðist líka fjölda jarða því að fólk hét á kirkjur og dýrlinga og gaf stórfé sér til sáluhjálpar. Verðmæti jarðeigna hrapaði þó á sama tíma því fjölmargar jarðir lögðust í eyði og leiguverð lækkaði. Mikill skortur var á vinnuafli eftir pláguna og liðu margir áratugir þar til fór að rætast úr því ástandi. Þetta kom ekki síst niður á sjósókn og varð til þess að minna aflaðist af fiski, sem var helsta útflutningsvara Íslendinga. Snefilefni. Snefilefni (örefni eða sporefni) eru ólífræn næringarefni sem lífvera þarf að fá daglega en í mjög litlu magni. Snefilefni má finna með efnagreiningu í mjög litlu magni í pöntu- og dýraríkinu og til að frumefni geti flokkast sem snefilefni verður magn þess af heildarmagni frumefna lífverunnar að vera minna en 0,01%. Röðulblóm. Röðulblóm (fræðiheiti: "Clivia miniata") er sígræn stofujurt af páskaliljuætt. Röðulblómið ber á latínu nafn hertogafrúar sem var upp á Norðymbralandi og bar tignarheitið Lady Clive. Síðara nafnið – "miniata" – mun hinsvegar þýða menjurauður og vísar til blómlitarins. Hreðka. Hreðka (radísa eða rætla) (fræðiheiti: "Raphanus sativus") er matjurt af krossblómaætt. Radísan myndar smáan, hnöttóttan, rauðan forðahnúð neðanjarðar sem notaður er sem grænmeti eða krydd. Vindill. Vindill (sígar eða sígari) er tóbak undið inn í tóbaksblöð í (misgilda og mislanga) ströngla og eru gerðir til reykingar. Vindlar eru mjög mismunandi að gæðum, en vindlar frá Kúbu hafa alltaf haft á sér orð fyrir einstök gæði. Ekki má rugla vindlum saman við orðinu "vindlingar", en það orð er haft um sígarettur. Réttritun. Réttritun eða stafsetning er kerfi í tungumáli sem segir til um hvernig nota skal ákveðin ritkerfi til að skrifa tungumál. Þótt réttritun sé oft kölluð „stafsetning“ í talmáli, þá er stafsetning undirflokkur réttritunar. Tútankamon. Tútankamon (stundum skrifað Tútankamún eða Tútankamen; fornegypska: "twt-ˁnḫ-ı͗mn" eða "tVwa:t-ʕa:nəx-ʔaˡma:n"; um 1341 f.Kr. – 1323 f.Kr.) var fornegypskur faraó af átjándu konungsættinni á tíma Nýja ríkisins. Upphaflega kemur nafn hans fyrir í heimildum sem Tútankaten sem merkir „lifandi mynd Aten (sólskífunnar)“ en Tútankamon merkir „lifandi mynd Amons (sólguðsins)“. Hann komst til valda níu ára gamall og tók við af Smenkare eða Neferneferuaten. Hann ríkti í tíu ár. Algengasta tilgátan um ætterni hans er sú að hann hafi verið sonur Akenatens og Kiju sem var ein af eiginkonum hans. Valdatíð Tútankamons einkenndist af afturköllun þeirra trúarlegu og stjórnarfarslegu breytinga sem Akenaten hafði staðið fyrir. Gröf Tútankamons fannst óhreyfð í Dal konunganna árið 1922. Fundurinn vakti gríðarlega athygli um allan heim og gat af sér aukinn áhuga á Egyptalandi til forna. Gullgríman sem var yfir múmíunni hefur orðið að vinsælli táknmynd fyrir menningu Fornegypta. Carnarvon lávarður. Lávarðurinn með lafði Carnarvon á kappreiðum árið 1921. George Edward Stanhope Molyneux Herbert, fimmti jarl af Carnarvon (26. júní 1866 – 5. apríl 1923) var enskur aðalsmaður sem er fyrst og fremst þekktur fyrir að hafa fjármagnað uppgröftinn sem leiddi í ljós gröf faraósins Tútankamons í Dal konunganna í Egyptalandi. Hann tók sjálfur þátt í því að opna gröfina ásamt Howard Carter sem stjórnaði rannsókninni. Sviplegt andlát hans á hóteli í Kaíró, aðeins nokkrum mánuðum síðar, varð til þess að sögusagnir um bölvun múmíunnar komust á kreik. Irma Boom. Irma Boom (fædd í Lochem, Hollandi þann 15. desember 1960) er grafískur hönnuður sem starfar í Amsterdam og sérhæfir sig í bókahönnun. Irma Boom lærði grafíska hönnun við AKI Art Academy í Enschede. Eftir útskrift starfaði hún í fimm ár við Hollensku ríkisútgáfuna í Haag. Árið 1991 stofnsetti hún Irma Boom Office, sem starfar bæði á innlendum og erlendum vettvangi í bæði menningar- og einkageiranum. Meðal skjólstæðinga eru Ríkissafnið í Amsterdam, Paul Fentener van Vlissingen (1941-2006), Inside Outside, Museum, Boijmans Van Beuningen, Zumtobel, Ferrari, Vitra International, NAi Publishers, Sameinuðu þjóðirnar og OMA/Rem Koolhaas, Koninklijke Tichelaar, og Camper. Frá 1992 hefur Boom verið gagnrýnandi við Yale-háskóla í Bandaríkjunum og heldur fyrirlestra og námskeið um allan heim. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir hönnun sína og var yngst til að hljóta Gutenberg-verðlaunin fyrir heildarverk sín. Í fimm ár starfaði hún við hönnun og ritstjórn SVH Think Book 1996-1896 fyrir SVH Holdings í Utrecht. Bókin telur alls 2.136 blaðsíður og var gefin út á bæði ensku og kínversku. Hönnun hennar á „"Weaving as Metaphor"“ eftir bandarísku listakonuna Sheilu Hicks fékk verðlaunin "The Most Beautiful Book in the World" á bókahátíðinni í Leipzig. Sogsstöðvar. Sogsstöðvar er samheiti yfir þrjár vatnsaflsvirkjanir í Soginu sem byggðar voru af Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu um miðja 20. öld til þess að tryggja nægilegt rafmagn í Reykjavík og á Suður- og Vesturlandi. Þær eru Ljósafossstöð sem hóf rekstur 1937, Írafossstöð sem komst í gagnið 1953 og loks Steingrímsstöð frá 1959. Um rekstur þessara stöðva stofnuðu eigendurnir fyrirtækið Sogsvirkjun sem lagt var niður þegar Landsvirkjun var stofnuð af sömu aðilum og voru þá Sogsstöðvar lagðar inn í Landsvirkjun sem á stöðvarnar og rekur í dag. Sogsstöðvar voru endurbættar og endurnýjaðar að stórum hluta á árunum 1996 til 2000. Historia Norvegiæ. Historia Norvegiæ (íslenska: "Saga Noregs") er stutt yfirlit um sögu Noregs að fornu, samið á latínu á seinni hluta 12. aldar. Talið er að höfundurinn hafi verið norskur munkur, og e.t.v. búið austanfjalls. Handritið. "Historia Norwegiæ" – (skammstafað HN) – hefur aðeins varðveist í einu pappírshandriti, sem er í einkaeign jarlsins af Dalhousie í Skotlandi. Það var lengst af geymt á heimili jarlsins í Brechin kastala norðan við Dundee, en jarlinn kom því árið 1998 til geymslu í Þjóðskjalasafni Skotlands í Edinborg. P. A. Munch frétti af handritinu í Skotlandi og lét prenta textann árið 1850 í bókinni "Symbolæ ad Historiam Antiquiorem Rerum Norvegicarum". Hluti af konungatalinu í 9. og 10. kafla HN var tekið upp í tvö sænsk handrit á árabilinu 1350–1430, sem sýnir að HN hefur þá verið þekkt í Svíþjóð. Innihald Sögu Noregs. "Historia Norvegiæ" hefst á stuttri landlýsingu, sem nær yfir Noreg og þau lönd sem þaðan byggðust, m.a. Ísland. Á eftir fylgir stutt saga Noregs fram á daga Ólafs helga. Frásögnin endar í miðju kafi, og hefur því verið haldið fram að vantað hafi aftan á handritið sem skrifað var eftir og því sé HN aðeins upphaf að mun lengra riti sem náð hafi fram á daga höfundarins. E.t.v. hefur ritinu þó aldrei verið lokið. HN er yfirlitsrit í sama anda og "Ágrip af Noregskonungasögum" og verk Theodoricusar munks. Hún er talin elst þeirra, líklega rituð á árabilinu 1160 – 1175, þó að talsvert hafi verið um það deilt. Íslandslýsingin í HN er með þeim elstu sem til eru. Einnig er í HN að finna sjálfstæða latneska gerð af "Ynglingatali" Þjóðólfs af Hvini, sem er óháð "Ynglinga sögu" í Heimskringlu. Þá eru áhugaverðar í augum þjóðfræðinga lýsingar á töframönnum Sama. Loks er HN elsta skriflega heimildin um marga þá sögulegu atburði sem lýst er. Útgáfur og þýðingar. Áður er minnst á frumútgáfu P. A. Munch, frá 1850. Gustav Storm sá um aðra útgáfu 1880, og var hún lengi sá texti sem vitnað var til. Ný útgáfa með ítarlegum skýringum birtist 2003, sjá heimildaskrá. Historia Norvegiae hefur ekki enn verið þýdd á íslensku (nema stuttir kaflar), en til eru þýðingar á norsku og nýnorsku og tvær á ensku. Fell (landslagsþáttur). Fell er tegunda af fjalli sem ekki er mjög stórt og stendur venjulega stakt í landslagi. Fell eru oft líka flöt að ofan. Listi yfir risaeðlur. Þetta er listi yfir latnesk heiti risaeðla og samsvarandi íslensk heiti þeirra. Árbók Ferðafélags Íslands. "Árbók Ferðafélags Íslands" er bók með greinum um áfangastaði ferðafólks á Íslandi sem Ferðafélag Íslands gefur út árlega. Bókin hefur komið út samfellt frá 1928 og er því orðin að stóru safni greina um náttúru Íslands, dýralíf og staðfræði. Kallakaffi. "Kallakaffi" er íslensk aðstæðukómedía í tólf þáttum í leikstjórn Hilmars Oddssonar sem Saga-Film framleiddi fyrir Ríkissjónvarpið. Þættirnir voru frumsýndir haustið 2005. Handritshöfundur var Guðmundur Ólafsson. Þættirnir fjalla um Kalla (Valdimar Örn Flygenring) og Möggu (Rósa Guðný Þórsdóttir) sem eru nýlega fráskilin en reka áfram saman kaffihús. Aðrir leikarar sem komu við sögu voru Ívar Örn Sverrisson, Davíð Guðbrandsson, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Þórhallur Sigurðsson. Moli litli. "Moli litli: saga um lítinn flugustrák" er barnabókaröð eftir Ragnar Lár sem kom út á árunum 1968-1975. Molabækurnar eru sjö talsins, allar heftaðar í kjölinn, 32 síður með stóru letri og mynd á hverri síðu. Bækurnar fjölluðu um ævintýri Mola sem er lítill og fremur ógætinn flugustrákur, besta vin hans Jóa járnsmið og illmennið Köngul kónguló sem ætlar sér að éta Mola. Nafnið á Mola er til komið af því hve hrifinn hann er af sykurmolum. Moli litli var lesinn sem „teiknisaga“ í Stundinni okkar 1969 þannig að hver teikning var höfð í mynd meðan texti þeirrar síðu var lesinn og þannig koll af kolli. Semball. a> „Engin færni án þekkingar“) og DUM VIXI TACUI MORTUA DULCE CANO („er ég lifði var ég orðvana, en sálugur syng ég blítt“). Semball er strengja- og hljómborðshljóðfæri og forveri píanós. Semball hefur hljómborð, en hver lykill tengist „þorni“ sem griplar strengi á láréttri hörpu í stað þess að slá á þá eins og í píanói. Orðsifjar. Orðið "semball" á uppruna sinn í ítalska orðinu „cembalo“ sem er stytting á orðinu „clavicembalo“ sem hefur sömu merkingu. Strengur. Orðið strengur er oftast notað yfir gisið reipi eða spotta sem auðvelt er að sveigja, binda, hnýta eða hengja. Strengir eru oft gerðir út mörgum þráðum. Ólympíumet. Ólympíumet er besti árangur sem náðst hefur í sögu tiltekinnar ólympíugreinar, ýmist á Sumarólympíuleikunum eða Vetrarólympíuleikunum. Ólympíumet og heimsmet fara ekki endilega saman þar sem hvorir leikar eiga sér einungis stað á fjögurra ára fresti. Geislavirkir. "Geislavirkir" var fyrsta breiðskífa og önnur hljómplata íslensku pönkhljómsveitarinnar Utangarðsmanna. Hún kom út 26. nóvember 1980. Utangarðsmenn höfðu hafið starfsemi í byrjun þessa sama árs en á þeim stutta tíma hafði hljómsveitin farið í tvær hljómleikaferðir um landið, hitað upp fyrir ensku hljómsveitina The Clash á stórtónleikum í Laugardalshöll og gefið út þriggja laga smáskífuna "Ha-ha-ha (Rækjureggae)" tæpum tveimur mánuðum fyrr. Sumarið áður kom sólóplata Bubba Morthens, "Ísbjarnarblús", út. Fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar var því beðið með talsverðri óþreyju. Platan var tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði. Upptökustjóri var Geoff Calver og sagt var að upptakan hefði tekið 80 tíma. Meðlimir hljómsveitarinnar léku sjálfir á öll hljóðfæri nema hvað Gunnar Þórðarson lék á orgel í laginu „Kyrrlátt kvöld“. Platan kom út hjá Steinum og er númeruð „Steinar 040“. Plötuumslagið er bláhvít, loftpensluð ljósmynd af hljómsveitinni með reyksvepp eftir kjarnorkusprengingu yfir Reykjavík í bakgrunni. Myndin vísar til textans í fyrsta lagi plötunnar „Hiroshima“. Viðtökur. Platan fékk þegar mjög góða dóma gagnrýnenda og menn greindi á um hvort bæri að telja hana eða "Ísbjarnarblús" bestu plötu ársins. Í desember komst hún í annað sæti lista yfir söluhæstu plöturnar á Íslandi sem birtur var í Morgunblaðinu. Afmælisútgáfa. 25 ára afmælisútgáfa plötunnar var gefin út á geisladiski af Íslenskum tónum árið 2005 með átta aukalögum. Kísilgúr. Kísilgúr (barnamold eða pétursmold) er rakadrægt jarðefni sem molnar auðveldlega og breytist í fínt duft sem líkist vikurdufti. Efnið er mjög létt vegna þess hversu gljúpt það er. Samsetning þess er 86% kísiltvíoxíði, 5% natrín, 3% magnesín og 2% járn. Kísilgúr myndar setlög sem eru leifar af skeljum kísilþörungum. Kísilgúr er nýttur í margs konar vörur, þar á meðal í síur, sem mjúkt slípiefni (t.d. í tannkrem), sem rakadrægt efni s.s. í kattasand og sem uppistöðuefni í dýnamíti þar sem hann er látinn draga í sig nítróglyserín. Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn. Á Íslandi var stofnuð kísilgúrverksmiðja við Mývatn árið 1966 í samstarfi íslenska ríkisins og bandaríska fyrirtækisins Johns-Manville Corporation. Verksmiðjan var einstök að því leyti að hún vann kísilgúrinn af botni vatnsins en ekki úr uppþornuðum setlögum líkt og sambærilegar verksmiðjur erlendis. Jarðhiti (gufa) var síðan notaður til að þurrka kísilgúrinn og hreinsa hann. Þetta var langmesta notkun jarðhita í iðnaði á Íslandi en verksmiðjan framleiddi um 27 þúsund tonn árlega. Oft var deilt um áhrif verksmiðjunnar á lífríkið í Mývatni, meðal annars á silungastofninn í vatninu. Árið 2000 keypti félag í eigu Straums verksmiðjuna af ríkinu og þáverandi samstarfsaðila. Þá lá fyrir að offramleiðsla var á kísilgúr í heiminum og nauðsynlegt að finna nýja undirstöðu fyrir framleiðsluna. Reynt var að koma á framleiðslu á kísildufti með innfluttu kvarsi en það tókst ekki. Kísiliðjan var því lögð niður árið 2004. Bústaðakirkja. Bústaðakirkja er kirkja sem stendur við Bústaðaveg í Reykjavík. Kirkjan þjónar Fossvogshverfi, Bústaðahverfi, Smáíbúðahverfi og Blesugróf í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Byggingin var hönnuð af Helga Hjálmarssyni og er með glerlistaverk eftir Leif Breiðfjörð í gluggum. Fyrsta skóflustunga að kirkjunni var tekin af sóknarpresti Bústaðasóknar, Ólafi Skúlasyni, 7. maí 1966. Kirkjan var vígð 28. nóvember 1971. Ólafur var áfram sóknarprestur þar til hann var kjörinn biskup 1989 en þá tók Pálmi Matthíasson við. Upphaflega var útibú Borgarbókasafns, Bústaðasafn, í kjallara kirkjunnar en sumarið 2001 flutti það í Kringluna og heitir nú Kringlusafn. Franz Liszt. Franz Liszt (22. október 1811 – 31. júlí 1886) var ungverskt tónskáld, píanóleikari og píanókennari. Liszt var annálaður um alla Evrópu fyrir píanóleik sinn meðan hann lék opinberlega og líta margir á hann sem fremsta píanóleikara sögunnar. Hann hafði líka töluverð áhrif sem tónskáld, var rómaður píanókennari sem setti mark sitt á leiktækni píanóleikara um langa tíð og var auk þess velgjörðarmaður tónskálda, s.s. Hector Berlioz og Richard Wagner. Dóttir Liszt, Cosima, sem hann átti með Marie d'Agoult, varð eiginkona Wagners. Kaupum ekkert-dagurinn. Kaupum ekkert-ganga í San Francisco árið 2000. Kaupum ekkert-dagurinn er óformlegur dagur til að mótmæla neysluhyggju sem er haldinn víða um heim. Dagurinn á upptök sín í Kanada þar sem hann var fyrst haldinn í Vancouver í september árið 1992 og kynntur af kanadíska tímaritinu "Adbusters". 1997 var hann fluttur til að hann kæmi saman við fyrsta föstudag eftir Þakkargjörðarhátíðina sem er einn mesti verslunardagur Bandaríkjanna. Utan Bandaríkjanna er dagurinn haldinn hátíðlegur laugardaginn á eftir. Árið 2008 var þessi hátíð haldið dagana 28. og 29. nóvember. Sambandsflokkurinn. Sambandsflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður eftir Alþingiskosningar 1911 af Hannesi Hafstein og ýmsum fylgismönnum Heimastjórnarflokksins, svo sem Guðmundi Björnssyni og Stefáni Baldvin Stefánssyni. Tilgangur Sambandsflokksins var að koma með ný drög að sambandslögunum 1912 („"bræðingurinn"“). Hannes varð aftur ráðherra fyrir þennan flokk sama ár. Þegar Sambandsflokkurinn leið undir lok 1914 gengu flestir fylgismenn hans aftur í Heimastjórnarflokkinn. Möltukross. Möltukross eða Amalfikross er kross sem Jóhannesarriddarar og síðar Mölturiddarar hafa notað sem sitt tákn. Uppruni táknsins (og riddarareglunnar) er í bænum Amalfi í Kampaníu sem á 11. öldinni var sjálfstætt lýðveldi. Krossinn er áttskiptur þar sem hver af fjórum örmum hans er klofinn í endann. Krossinn minnir því á fjögur „V“ tengd saman að neðan. Vancouver. Vancouver er borg í Bresku Kólumbíu á vesturströnd Kanada. Íbúafjöldi er rúm 600 þúsund en yfir tvær milljónir manna búa á öllu borgarsvæðinu. Borgin er í héraðinu Lower Mainland. Stærðfræðilegur fasti. Stærðfræðilegur fasti er einigarlaus fasti, sem kemur fyrir í stærðfræði og eðlisfræði. Þekktastir eru pí og "e". Efnatillífun. Efnatillífun er þegar lífrænt efni er myndað úr litlum kolefnissameindum og næringarefnum með því að nota oxun ólífræns efnis (t.d. vetnis eða vetnissúlfíðs) eða metan sem orkugjafa, fremur en sólarljós, eins og í ljóstillífun. Staðfestingartilhneiging. Staðfestingartilhneiging er sál- og vitsmunafræðihugtak sem haft er um þá hneigð að leitast við að túlka nýjar upplýsingar svo þær staðfesti fyrirfram mótaðar hugmyndir, og að hundsa upplýsingar og útskýringar sem stangast á við fyrri skoðanir. Arkangelskfylki. Staðsetning Arkangelskfylkis sýnd á korti af Rússlandi. Arkangelskfylki (rússneska: Арха́нгельская о́бласть, "Arkhangelskaya oblast") er fylki (oblast) í sambandslýðveldinu Rússlandi. Það nær yfir Frans Jósefsland, eyjarnar Novaja Semlja og Nenetsíu. Bæði Fligelíhöfði, nyrsti oddi Evrópu, og Sjelaníjahöfði, austasti oddi Evrópu, tilheyra þessu fylki. Höfuðstaður fylkisins er borgin Arkangelsk við Hvítahaf. Íbúar fylkisins voru um 1,3 milljónir árið 2002. Amúrfylki. Kort sem sýnir staðsetningu Amúrfylkis í Rússlandi. Amúrfylki (rússneska: Аму́рская о́бласть, "Amurskaya oblast") er fylki í Rússlandi um 8000 km austan við Moskvu á bökkum Amúrfljóts og Sejafljóts við landamæri Kína. Höfuðstaður fylkisins er borgin Blagovestsjenk. Íbúar fylkisins voru tæp 900 þúsund árið 2005. Astrakanfylki. Kort sem sýnir staðsetningu Astrakanfylkis í Rússlandi. Astrakanfylki (rússneska: Астраха́нская о́бласть, "Astrakhanskaya oblast") er fylki (oblast) í Rússlandi. Fylkið er við norðurströnd Kaspíahafs við ósa Volgu þar Astrakankanatið var áður frá 15. öld til 16. aldar þegar Ívan grimmi lagði það undir sig. Höfuðstaður fylkisins er borgin Astrakan. Íbúar voru um ein milljón árið 2002. Astrakan. Minnisvarði um Pétur mikla í Astrakan. Astrakan (rússneska: А́страхань "Astrakhanj"; tatarska: "Ästerxan"; persneska: حاجی‌ترخان "Haji-Tarkhan") er borg í suðurhluta evrópska Rússlands. Borgin stendur við ósa Volgu þar sem hún rennur út í Kaspíahaf. Íbúafjöldi er um hálf milljón. Borgin stendur í frjósömum árósum Volgu þar sem mikið er um styrju og framandi jurtir. Nálægt þessum stað stóðu höfuðborgir Astrakankanatsins Xacitarxan og ríkis Kasara, Atil, á miðöldum. 1556 lagði Ívan grimmi kanatið undir sig og reisti nýtt hallarvirki ("kreml") á brattri hæð með útsýni yfir Volgu. Á 17. öld var borgin hlið Rússlands að Austurlöndum og kaupmenn frá Armeníu, Persíu, Indlandi og Kívakanatinu settust þar að. Belgorodfylki. Kort sem sýnir staðsetningu Belgorodfylkis í Rússlandi. Belgorodfylki (rússneska: Белгоро́дская о́бласть, "Belgorodskaja oblast") er fylki (oblast) í Rússlandi. Fylkið er í suðvesturhluta Rússlands við landamærin að Úkraínu. Höfuðstaður fylkisins er Belgorod. Íbúafjöldi var ein og hálf milljón árið 2002. Súðin. "Súðin" var strandferðarskip við Íslandsstrendur um miðja 20. öld. "Súðin" varð fyrir loftárás þýskrar orrustuflugvélar á Skjálfandaflóa þann 16. júní 1943. Tveir menn létust í árásinni. Skipið var keypt fyrir Skipaútgerð ríkisins árið 1930 frá Gautaborg og kom til landsins 18. maí það ár. "Súðin" var smíðuð í Þýskalandi árið 1895 og hafði áður heitið "Cambria" og "Goethe". Hún var 811 tonn og 189 fet að lengd. Eftir breytingar sem ríkið lét gera á skipinu gat það flutt 64 farþega, 24 á fyrsta farrými og 40 á öðru farrými. Fyrstu árin eftir stríð eignaðist útgerðin skipin "Þyril" (frá setuliðinu) og "Herðubreið" og "Skjaldbreið" sem keypt voru frá Englandi. 1949 var því gamla "Súðin" seld. Hún var gerð út sem fiskiskip á Grænlandsmiðum eitt sumar en síðan sigldu eigendur hennar henni til Seylon þar sem hún var seld 1952. Beinn kostnaður. Beinn kostnaður er allur sá kostnaður nefndur sem rekja má beint til framleiðslu ákveðinnar vöru (Dæmi: "Laun og hráefni"). Beinn kostnaður er ávallt notaður í ákveðnu hlutfalli við fjölda framleiddra eininga af vörunni. Hjaðningar. Hjaðningar (eða Héðningar) voru Héðinn konungur og lið hans sem kemur fyrir í Snorra-Eddu. Hjaðningavíg var fyrst haft um stríð Héðins og manna hans, og átti að vara að eilífu. Nú er hjaðningavíg haft um látlausan bardaga og oft haft um þá sem ættu síst að vera að berjast. Fleslandflugvöllur. Fleslandflugvöllur (IATA: BGO, ICAO: ENBR) (norska: "Bergen lufthavn, Flesland") er flugvöllurinn í Björgvin í Noregi. Hnyð. Hnyð (fræðiheiti: "Ichthyophonus hoferi", einnig nefnt iktíófónus á íslensku) er sveppur sem vex aðallega í sjávarfiskum, t.d. síld og er hann talinn eiga hlut að hruni síldarstofnins við Noregsstrendur 1991-1993. Í nóvember 2008 fannst þessi sveppur í síld sem veiddist á Breiðafirði. Jerúsalemskirsuber. Jerúsalemskirsuber (fræðiheiti: "Solanum pseudocapsicum") er runni af náttskuggaætt og er víða notaður sem skrautjurt. Í Ástralíu er runni þessi þó víða flokkaður sem illgresi. „Kirsuber“ runnans eru eitruð mönnum og flestum dýrum. Runnasteppa. Runnasteppa er gróðurbelti þar sem úrkoma er minni en svo að grös þrífist með góðu móti. Runnasteppan einkennist af strjálum, oft þyrnóttum runnum, þykkblöðungum og kaktusum. Þær eru víða í heiminum og þekja stór svæði, t.d. á jöðrum eyðimarka í Asíu, Afríku og Ástralíu, auk svæða í SV-Bandaríkjunum, Mexíkó og Argentínu. Kildinsamíska. Kildinsamíska (kildinsamíska: самь кӣлл "sam' kíl") er finnsk-úgrískt og samískt tungumál sem er talað í Rússlandi í Kólaskaga sem liggur í norðvestur Rússlandi. Kildinsamíska er aðallega töluð í borginni Lovozero, sem er höfuðborg rússneska Lapplands. Í Lovozero kallar fólkið kildinsamísku einfaldlega „samísku“ eða „samíska tungumálið“. Um þessar mundir eiga aðeins 753 manns kildinsamísku að móðurmáli, en fleiri kunna tungumálið sem annað tungumál (og móðurmálið þá rússneska). Kildinsamíska er eitt af þremum austursamískum tungumálum sem er skrifað í kýrillíska stafrófinu. Hún hefur líka bókstafi sem eru bara notaðir í kildinsamísku, til dæmis bókstafurinn „Ҍ ҍ“ Fornöfn. Þessi listi er af fornöfnum í nefnifalli. Fornöfn í kildinsamísku eru mjög svípuð fornöfnum í öðrum samískum tungumálum. Dáraaldin. Dáraaldin er ávöxtur trjáa af ættkvíslinni "Durio" sem vaxa í Suðaustur-Asíu. Ávöxturinn þekkist á stærðinni, einstakri lykt og þyrnóttu hýði. Hann getur orðið allt að 30 sm að lengd og vegur eitt til þrjú kíló. Af þrjátíu tegundum trjáa í ættkvíslinni "Durio" gefa níu af sér æta ávexti. Durian. Durian var fellibylur sem olli miklu tjóni á Filippseyjum 30. nóvember til 3. desember árið 2006. Hann myndaðist 24. nóvember í Vestur-Kyrrahafi og eyddist 5. desember yfir Víetnam. Þar sem eldfjallið Mayon hafði gosið skömmu áður olli fellibylurinn aurskriðum. Að minnsta kosti 720 manns létust, en tala látinna er ekki vituð þar sem ekki hefur verið grafið í stærstu aurskriðurnar umhverfis eldfjallið. 98 létust í Víetnam vegna fellibylsins. Impregilo. Impregilo er ítalskt bygginga- og verkfræðifyrirtæki með höfuðstöðvar í Sesto San Giovanni hjá Mílanó. Fyrirtækið var stofnað árið 1959 með sameiningu fyrirtækjanna Cogefar-Impresit S.p.A., Girola S.p.A. og Lodigiani S.p.A.. Það hefur vaxið með sameiningum við önnur fyrirtæki og er nú stærsta verktakafyrirtækið í sinni grein á Ítalíu. Það hefur fengist við fjölda stórra verkefna um allan heim. Dæmi um stór verkefni sem fyrirtækið hefur komið að eru Karíbastíflan í Simbabve (Impresit) 1959, Dez-stíflan í Íran 1963, Lesótóvatnaflutningaverkefnið 1998 og Nathpa Jhakri-vatnsafnsvirkjanaverkefnið á Indlandi 2003. Impregilo er aðalverktaki við byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem áætlað er að ljúki árið 2009. Tvíkynhneigð. Tvíkynhneigð er kynhneigð sem felst í því að laðast bæði að sama kyni og gagnstæðu kyni. Jökulsá á Dal. Jökulsá á Dal eða Jökulsá á Brú, einnig nefnd Jökla, er lengsta á á Austurlandi. Áin er dæmigerð jökulá og á upptök sín í Brúarjökli og fellur um Jökuldal. Miklar rennslissveiflur eru í ánni eins og títt er í jökulám og jafnframt er hún mjög gruggug vegna framburðar. Jökla hefur grafið mikil gljúfur í farvegi sínum, Hafrahvammagljúfur og Dimmugljúfur. Margar þverár falla til Jöklu. Þær helstu eru Kringilsá, Sauðá, Reykjará, Hrafnkela, Gilsá, Hnefilsdalsá, Laxá og Kaldá. Jökla og Lagarfljót falla í Héraðsflóa um sameiginlegan ós á Héraðssandi. Jökulsá á Dal er virkjuð með Kárahnjúkavirkjun. Eftir að virkjunin tók til starfa fer megnið af jökulvatni árinnar um jarðgöng til Fljótsdals og skilar sér til sjávar um Lagarfljót. Neðan Kárahnjúkastíflu er Jökulsá því tær bergvatnsá mestan hluta árs en hún getur þó breyst í ólgandi jökulá þegar uppistöðulónið (Hálslón) er fullt og vatn fossar um yfirföll stíflunnar. Vatnsaflsvirkjun. Vatnsaflsvirkjun er rafstöð þar sem rafmagn er framleitt með virkjun vatnsafls, þ.e. með því að nota skriðþunga eða fallþunga vatns í fljóti, á eða læk. Virkjun fallvatna er algengasta aðferðin við að framleiða endurnýjanlega orku í heiminum. Áætlað er að heimsframleiðsla rafmagns í vatnsaflsvirkjunum hafi verið 715.000 MWe árið 2005 sem jafngildir 19% af raforkuframleiðslu heimsins og 63% af framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi. Fossafélagið Títan var stofnað 1914 og leyst upp árið 1951. Íslenska ríkið keypti vatnsréttindi þess og lagði til Landsvirkjunar þegar það félag var stofnað þann 1. júlí árið 1965. Landsvirkjun var stofnuð einkum til að byggja og reka raforkuver sem gæti selt raforku til stóriðju og séð markaðnum fyrir raforku á hagkvæmu verði. Fyrst var ráðist í að byggja Búrfellsvirkjun í júní 1966. Fyrirtækið Alusuisse (í dag Rio Tinto Alcan) byggði og rak Álverið í Straumsvík og átti Búrfellsvirkjun að sjá því fyrir rafmagni. Á fyrstu árum fyrirtækisins voru byggðar þrjár virkjanir í Þjórsá og Tungnaá. Þegar byggingu Búrfellsvirkjunar lauk árið 1972 var byggð Sigölduvirkjun og síðar Hrauneyjafossvirkjun sem hóf rekstur 1981. Bygging virkjananna tveggja fór fram í kapphlaupi við tímann þar sem orkuskortur hafði skapast í landinu vegna veðurfars og aukinni eftirspurn. Í dag eru um níu vatnsaflsstöðvar á Íslandi, af þessum níu eru fimm staðsettar á suðvestur hluta landsins. Þessar virkjanir eru Hrauneyjafossvirkjun, Sigöldustöð, Vatnsfellsstöð, Sultartangastöð og Búrfellsstöð. Miðhálendið. Miðhálendið er óbyggt hálendið í yfir 500 metra hæð sem nær yfir stærstan hluta Íslands inni í landi og sem að jafnaði hentar ekki til búsetu vegna kulda og/eða skorts á jarðvegi. Að öðru leyti er náttúra þessa svæðis gríðarlega fjölbreytt. Á þessu svæði er t.d. að finna hveri, hraun, jökla, stöðuvötn og gróðurvinjar. Hluti hálendisins hefur verið nýttur sem afrétt. Ferðamennska fer þar vaxandi, einkum á sumrin. Víðmynd. Víðmynd er tvívíð mynd (ljósmynd eða málverk) sem sýnir efni sitt með mjög breiðu eða ílöngu sjónarhorn. Víðmynd sem sýnir sjónarhorn einhvers í heilan hring (360°) er stundum kölluð hringmynd. Medellín. Medellin er önnur stærsta borg Kólumbíu. Hún stendur í Aburrádal í norðurenda Andesfjalla. Íbúar eru 2,4 milljónir. Alhambra. Alhambra (úr arabísku: الْحَمْرَاء = Al-Ħamrā', bókst. „það rauða“; fullt nafn var الْقَلْعَةُ ٱلْحَمْرَاءُ = al-Qal'at al-Ħamrā' = „rauða virkið“) er höll og virki sem márískir furstar Granada á Suður-Spáni ("Al-Andalus") reistu á 14. öld. Höllin er eitt frægasta dæmið um íslamska byggingarlist á Spáni. Innan Alhambra lét Karl 5. reisa sína árið 1527. Höllin er á heimsminjaskrá UNESCO. Heittrúarstefna. Philipp Jakob Spener var upphafsmaður heittrúarstefnunnar. Heittrúarstefna eða píetismi var trúarhreyfing innan lútherstrúar á 18. öld. Heittrúarstefnan blandaði áherslu kalvínisma og hreintrúarstefnu á trúrækni einstaklingsins við lútherska rétttrúnaðinn. Uppruni hreyfingarinnar er rakinn til kenninga þýska guðfræðingsins Philipp Jakob Spener sem var á þeirri skoðun að ofuráhersla á lútherskan rétttrúnað kæfði kristilegt líferni. 1675 gaf hann út ritið "Pia desideria" þar sem hann setti fram helstu hugmyndir sínar um endurreisn hinnar lifandi kirkju. Heittrúarstefnan náði hámarki sínu um miðja 18. öld og átti þátt í því (með áherslu sinni á reynslu einstaklingsins) að skapa grundvöll upplýsingarinnar sem hún var þó í andstöðu við. Heittrúarstefnan hafði áhrif á stofnun Schwarzenau-bræðralagsins og meþódistakirkjunnar á 18. öld. Áhrifa heittrúarstefnunnar á Íslandi gætti einkum eftir umbætur Harboes um miðja 18. öld, en "Vídalínspostilla" Jóns Vídalíns biskups sem kom út 1718-20 var undir nokkrum áhrifum frá stefnunni. Tilskipun um ferminguna frá árinu 1741 er einna merkust þeirra umbóta en sú tilskipun kvað á um að ferming yrði almenn skylda og uppfræða ætti börn í trúnni svo þau gætu endurnýjað skírnarheit sitt. Hannes Smárason. Hannes Þór Smárason (f. 25. nóvember 1967) er íslenskur verkfræðingur og fyrrverandi forstjóri FL Group. Hannes var nokkuð atkvæðamikill er hann leiddi fjárfestingastarf FL Group en sú vegferð endaði með miklu tapi. Sem slíkur var hann gjarnan settur í flokk íslenska útrásarvíkinga, menn sem fjárfestu mikið erlendis. Hann varð vellauðugur en tapaði miklu í bankahruninu haustið 2008. Ævi. Hannes lauk B.Sc.-gráðu í vélaverkfræði og stjórnun við MIT háskólann í Massachusetts og lauk síðan M.B.A.-gráðu frá MIT Sloan School of Management. Hannes sat í stjórn Flugleiða frá árinu 2004 og starfaði sem stjórnarformaður þar til í október 2005 þegar hann var ráðinn forstjóri FL Group. Undir hans stjórn urðu Flugleiðir að alþjóðlegu fjárfestingafyrirtæki. Áður gegndi hann stöðu aðstoðarforstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og var kjörinn í aðalstjórn Kers hf. þann 27. nóvember 2002. Hann vann hjá McKinsey & Co. í Boston frá 1992 og út 1996 sem ráðgjafi. Sem forstjóri FL Group stóð Hannes að einni hagstæðustu fjárfestingu íslenskra viðskipta að mati viðskiptablaðs Morgunblaðsins en árið 2006 skilaði fjárfesting félagsins í easyJet lággjalda flugfélaginu 12 milljarða króna í innleystum hagnaði. Hannes lét af starfi forstjóra FL Group hinn 4. desember 2007 eftir viðamiklar breytingar á eignarhaldi félagsins í kjölfar lækkandi gengi skráðra félaga, sem fjárfestingarfélagið hafði tekið stöðu í. Sérstaklega var þar horft til fjárfestingar i AMR, eignarhaldsfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines, sem mjög hafði fjarað undan, en FL Group tapaði um 15 milljörðum króna á henni. Þá kom einnig fram gagnrýni í fjölmiðlum á rekstrarkostnað félagsins, en undir þann lið var meðal annars bókfærður kostnaður við starfslokasamninga og lífeyrisgreiðslur til fyrrverandi lykilstjórnenda félagsins og fyrirrennara þess, Flugleiða. Á árinu 2007 nam launakostnaður fyrirtækisins 701 milljón króna sem deildist á 40 starfsmenn. Laun Hannesar á árinu 2007 voru 139,5 milljónir króna en starfslokasamingur hans nam 90 milljónum króna. Stærstur hlutur rekstrarkostnaðarins var þó útskýrður sem sérfræðikostnaður vegna yfirtökutilrauna og annara verkefna sem ekki komust til framkvæmda. Hannes hefur síðar sagt að hann sæi eftir ákvörðunum sem teknar voru í stjórnartíð hans, til dæmis að FL Group hafi vaxið of hratt og minnkað of hægt. Málsókn Glitnis banka. Þann 11. maí 2010 var málsókn Glitnis banka á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur þingfest fyrir rétti í New York-fylki, þar sem þau voru ákærð fyrir meint fjársvik af bankanum sem nam meira en tveimur milljörðum dala.. Það mál var síðar fellt niður þann 4. janúar 2012 með tveimur skilyrðum. Í fyrsta lagi að allir einstaklingarnir viðurkenndu lögsögu íslensks dómstóls og í öðru lagi að þeir myndu ekki mótmæla því að dómur á Íslandi yrði aðfararhæfur í New York. Hinir stefndu hyggjast sækja skaðabætur á hendi Glitni banka. Kristmennska. Kristmennska er ein tegund af mismæli, sem lýsir sér aðallega í því að menn gera stafavíxl á milli orða. Dæmi: maður nokkur ætlar að fá að tala við "Úlfar á Ingveldarstöðum" en biður þess í stað um "Ingvar á Úlfaldarstöðum". Orðið er kennt við Kristmann nokkurn Þorkelsson sem vann í Íshúsinu í Eyjum. Hann var þekktur fyrir mismæli sín. Vegna þessa var hann oft nefndur Ísmann í Kristhúsinu. Talað er um að "kristmenna" þegar menn brengla setningar með þessum hætti. Kortagerð. Kortagerð kallast sú fræði að líkja eftir Jörðinni á flötu yfirborði, sem kallast kort. Kortagerð sameinar vísindi, fagurfræði og tæknilega kunnáttu til að skapa auðlesanlegt kort svo hægt sé að nálgast þær upplýsingar sem á því eru auðveldlega. Sá sem vinnur við kortagerð kallast kortagerðarmaður. Marbendill. Marbendill (marmennill, hafmaður eða sæbúi) er þjóðsagnatengd furðuvera sem býr við eða í sjó. Samkvæmt þjóðsögum er marbendillinn karlkyns útgáfa af hafmeyju. Þekktasta frásögn sem segir af marbendli mun vera þjóðsagan „Frá Marbendli“ en þar kemur fram að marbendlar sjái í gegnum tilfinningar fólks og dýra. Einnig eiga þeir að geta séð í gegnum hluti sem bera falin verðmæti. Ekki er getið um að marbendla sem hafi unnið fólki mein fyrir að hafa veitt þá eða fundið. Jakob Benediktsson. Sigurður Jakob Benediktsson (20. júlí 1907 - 23. janúar 1999) var forstöðumaður Orðabókar Háskólans, ritstjóri Tímarits Máls og menningar og meðritstjóri af Íslands hálfu fyrir "Kulturhistorisk Leksikon". Hann gaf einnig út fjölda rita, þeirra á meðal Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, VII, X og XI bindi. Hann skrifaði einnig mikið sjálfur og munu titlar rita hans vera á sjöunda hundrað. Jakob þýddi einnig fjölmörg verka Halldórs Laxness á dönsku og naut við það verk aðstoðar konu sinnar. Rómeó og Júlía. Rómeó og Júlía er harmleikur eftir William Shakespeare sem fjallar um forboðna ást ungra elskenda. Þetta var meðal vinsælustu leikrita Shakespeares og líklegt er að það hafi verið skrifað einhverstaðar á árunum 1591 til 1595. Söguþráðurinn er byggður á ítalskri sögu, þýtt sem ljóðabálkur undir nafninu "The Tragical History of Romeus and Juliet" eftir "Arthur Brooke" árið 1562, og endurþýdd yfir á óbundið mál í "Palace of Pleasure" eftir "William Painter" árið 1582. Shakespeare studdist mikið við þessi verk en þróaði þó áfram aukapersónurnar, sérstakelga Mercutio og Paris í þeim tilgangi að víkka söguþráðinn og gera hann viðameiri. Leikritið sást fyrst á prenti í litlum bæklingi í lélegum gæðum. Leikritið. Leikritið um Rómeó og Júlíu hefur margoft verið sett upp á sviði, gerðar fjölmargar kvikmyndir byggðar á söguþræðinum, söngleikir og óperur. Rómeó og Júlía ásamt fleiri leikritum eftir Shakespeare hafa verið þýdd yfir á íslensku af Helga Hálfdánarsyni og þykir það vera besta þýðingin á þeim, hingað til. Leikritið hefur einnig verið sett upp á svið á Íslandi, m.a. í Vesturportinu þar sem Gísli Örn Garðarsson fór með hlutverk Rómeós en Nína Dögg Filippusdóttir með hlutverk Júlíu. Aðrir leikarar sem má nefna eru m.a. Björn Hlynur Haraldsson sem Mercutio, Erlendur Eiríksson fór með hlutverk París, Ingvar E. Sigurðsson sem Capulet, fóstruna lék Ólafur Darri Ólafsson og Lafði Capulet lék síðan Margrét Vilhjálmsdóttir sem einnig fór með hlutverk Benvolios. Leikritinu var leikstýrt af Gísla Erni Garðarssyni. Persónur. Júlía Capulet, dóttir herra og frú Capulet er að verða fjórtán ára. Hún er bæði væn og ung og fögur. Heitmaður hennar er París sem biður hennar í byrjun sögunnar en hún neitar að kvænast, þrátt fyrir það er hún föstnuð honum. Hún hefur ætíð með sér Fóstruna sína góðu sem hefur verið hjá henni síðan hún var ungabarn. Tíbalt er frændi Júlíu og er lýst þannig í sögunni að honum virðist vera mjög annt um velferð hennar, eða þannig að honum finnst að sú velferð ætti að vera. Rómeó, einkasonur Montague-hjónanna var ástfanginn af Rósalín sem þó hafnaði honum. Hans vinir eru t.d. Mercutio og Benvolio. Aðrir karaketar í sögunni eru t.d. faðir Laurence sem er förumunkur og trúnaðarvinur Rómeós og Prins Escalus, prinsinn af Verónu. Söguþráðurinn. Söguþráðurinn tekur sér stað í borg er Veróna hét og í grófumáli byrjar á því að Rómeó er í ástarsorg vegna konu sem hann þráði svo undurheitt en fékk ekki. Hann og félagar hans, Benvolio, Mercutio o.fl. fara því ball sem haldið er í húsum Kapúlet (Capulet) fjölskyldunnar til að draga Rómeó út úr skugganum og gá hvort að hin fagra Rósalín sé ekki þarna og jú víst er það ung og fögur stúlka sem fangar athygli Rómeós en ekki var það Rósalín heldur Júlía. Þau þekkja ekki hvert annað og vita því ekki að þau eiga að heita erkióvinir. Þau verða ástfangin og ákveða að gifta sig. Tíbalt tekur eftir því að þau hafa auga á hvor öðru og þar sem að hann er tryggur meðlimur Kapúlet fjölskyldunnar tekur hann það ekki í mál að Júlía fái að yrða á einhvern Montague aula, hvað þá giftast honum. Daginn sem Rómeó og Júlía gifta sig fer Tíbalt að finna Rómeó í fjöru fyrir að ryðjast inní boðið og draga Júlíu á tálar. Hann egnir Rómeó sem neitar að berjast þar sem honum er ekki lengur í nöp við fjölskyldu Júlíu. Vinir Rómeós skylja ekki hví hann vill ekki berjast við Tíbalt svo Mercutio gerir það fyrir Rómeó sem endar með því að hann fellur í valinn. Til að hefna vinar síns drepur Rómeó þá Tíbalt. Prins Escalus sendir Rómeó í útlegð frá Verónu fyrir þetta sem neyðir hann til að skilja sína heittelskuðu Júlíu eftir. Eyðilagður yfirgefur Rómeó Verónu vitandi það að faðir Júlíu, hr. Kapúlett, hafði kvænt hana Paris greifa sem hafði nýverið beðið um hönd hennar. Í örvæntingu sinni leggur Júlía á ráðin með föður Laurence, prestinum sem gifti hana og Rómeó. Með trega fellst faðir Laurence á að samþykkja að brúðkaup hennar og Parisar fari fram en nóttina fyrir brúðkaupsdaginn skuli hún drekka seyðinn sem lætur hana falla dá en líta út fyrir að hún sé látin. Þegar hún hafi gert það skuli hann senda eftir Rómeó til að bjarga henni. Júlía gerir það sem henni er ráðlagt og kvöldið fyrir brúðkaupið drekkur hún seyðinn en brýtur þá um leið hjörtu foreldra sinna sem halda að þau hafi misst einkadóttur sína. En ráðagerð Júlíu og prestsins fara út um þúfur. Vondar fréttir dreifast hraðar en þær góðu og áður en faðir Laurence nær að láta Rómeó vita um þetta ráðabrugg þeirra þá fréttir hann hjá einhverjum öðrum að Júlía sé dáin. Með brotið hjarta kaupir Rómeó í örvæntingu sinni eitur og fer til Verónu, ekkert getur stöðvað hann í að vera með ástinni sinni. Fyrir utan grafhýsi Júlíu hittir hann Paris sem hann neyðist til að berjast við og drepur hann. Hann kemst inn og drekkur eitrið en um leið vaknar Júlía upp úr dáinu en það er um seinan. Andartaki síðar deyr Rómeó. Með enga ástæðu lengur til að lifa tekur Júlía hníf og stingur sig banasári. Síðan lýkur bókinni með þessum orðum: Sárum trega sveipuð lifir þó, sagan af Júlíu og Rómeó. Augngrugg. Augngrugg eða flotögn kallast augnfyrirbrigði sem orsakast af botnfalli eða seti af ýmsu tagi í augnhlaupi augans, en það er vanalega gegnsætt. Svefnsýki. Svefnsýki er sníkjusjúkdómur sem fyrirfinnst í dýrum og mönnum, en hann hefur breiðst mikið út í hitabeltissvæðum Afríku. Hin afríska tsetse-fluga dreyfir skjúkdómnum. Einkenni. Einkenni sjúkdómssins eru hiti, svefndá, svefndrungi, skjálfi og þyngdartap. Sími (líffræði). Síminn er lengsti taugaþráðurinn sem gengur út úr bol frumu. Síminn og aðrir taugaþræðir flytja boð um líkamann. PRINCE2. PRINCE2 eða PRojects IN a Controlled Environment er aðferðafræði fyrir verkefnastjórnun. Aðferðin byggir á aðferðafræðinni PRINCE sem upphaflega var þróuð árið 1989 af tölvumiðstöð breska ríkisins CCTA. Upphaflega var PRINCE ætlað að vera stöðluð aðferðafræði við stjórnun verkefna á sviði upplýsingatækni en fljótlega var farið að nota hana fyrir önnur verkefni líka. PRINCE2 kom síðan út árið 1996 sem almenn verkefnastjórnunaraðferð. PRINCE2 er skráð vörumerki í eigu innkaupastofnunar breska ríkisins, Office of Government Commerce (OGC). Fræhirsla. Fræhirsla (eða fræleg) er aldin, þ.e. umbreytt eggleg með þroskuðum fræjum. Hólf í fræhirslu nefnast "legrými". Gerðaskóli. Gerðaskóli er grunnskólinn í sveitafélaginu Garði. Hann var stofnaður 1872 og er þriðji elsti starfandi grunnskóli á landinu. Séra Sigurður B. Sívertsen, prestur á útskálum var sá sem átti frumkvæðið af byggingu skólans. Í Gerðaskóla eru um 250 nemendur, um 50 kennarar og starfsfólk. Skólastjóri er Pétur Brynjarsson og aðstoðaskólastjóri er Jón Ögmundsson. Bjarkarlundur. Bjarkalundur er sumarhótel og veitingastaður í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Sjónvarpsþáttaröðin "Dagvaktin", sem sýnd var á Stöð 2 haustið 2008, var tekin í Bjarkalundi. World Match Racing Tour. World Match Racing Tour er siglingakeppnisröð þar sem keppt er í tvíliðakeppni eftir sömu reglum og í Ameríkubikarnum. Keppnisröðin er samsett úr níu keppnum sem fara fram um allan heim á mismunandi tímum. Keppnistímabilið nær nánast yfir allt árið. Hver keppni tekur fimm daga og reynt er að keppa á stuttum leggjum nálægt ströndinni til að áhorfendur fái notið sem best. Keppnisstjórn á hverjum stað sér þátttakendum fyrir eins bátum sem eru 30-40 fet á lengd fyrir 4-6 manna áhafnir. Lokakeppnin er Monsúnbikarinn sem haldin er í Malasíu. Keppnin var fyrst haldin árið 2000. 2008 var keppnin ISAF World Match Racing sameinuð þessari keppni um leið og WMRT hlaut sérstaka viðurkenningu Alþjóða siglingasambandsins. Tvíliðakeppni. Tvíliðakeppni er íþróttakeppni þar sem tvö lið etja kappi (heyja einvígi) í hverri umferð. Hugtakið er aðallega notað um siglingakeppnir og ýmsar útgáfur af tennis þar sem þetta keppnisform er algengt. Þekktasta tvíliðakeppnin í siglingum er Ameríkubikarinn sem er áskorendakeppni milli tveggja siglingafélaga. Charlotte Bobcats. Charlotte Bobcats er atvinnumannalið í körfubolta frá Charlotte, Norður-Karólínu. Liðið spilar í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Það var stofnað árið 2004. Rekankeri. Rekankeri er ankeri sem ekki er fest í botn heldur myndar mótstöðu í vatninu og dregur þannig úr ferð bátsins. Oftast er slíku ankeri beitt til að hægja á reki eða ef hægja þarf á ferð bátsins. Rekankeri getur verið gert úr öllu því sem myndar mótstöðu í vatni, en algengt er að það sé úr dúk eða poka sem festur er við tógina á hornunum. Leggja til drifs. Að leggja til drifs er aðferð við að hægja á eða stöðva seglbát og festa stefnu hans þannig að ekki þurfi að halda við stýrið. Þetta er oft notað þegar menn bíða af sér vont veður eða til að taka hlé á siglingu, t.d. þegar einn er í áhöfn. Þetta er gert með því að stýra bátnum upp í vindinn, festa framseglið upp við mastrið með því að festa bæði skautin, festa stýrið hlémegin og láta stórseglið blakta. Í þessari stöðu hreyfist báturinn lítið eða ekkert áfram og situr fastur með stefnið upp í vindinn. OpenStreetMap. OpenStreetMap (skammstafað OSM) er samvinnuverkefni með það að markmiði að búa til frjálst kort af heiminum. Verkefnið er wiki-verkefni (líkt og Wikipedia) sem hver-sem-er getur lagt fram gögn í og bætt þannig kortagrunninn, en bæði grunnurinn sjálfur og afleidd kort byggð á honum eru undir Open Database License hugverkaleyfinu. OpenStreetMap grunnurinn er að mestu búinn til af sjálfboðaliðum sem ferðast um með GPS tæki í upptökuham og láta tækið skrá GPS "ferla" sem sýna hvert leiðin lá. Grunnkortagögnunum er svo breytt með hliðsjón að ferlunum. Einnig eru þó notuð annarskonar gögn við að halda við grunninum, t.d. kortagögn frá hinu opinbera enda hafi þau verið gefin út undir samhæfum leyfum. OpenStreetMap er til dæmis notað í ókeypis forritinu Marble. Framsegl. Skonnortan "Albanus" með fjögur framsegl; jagar að húni fremst og síðan ytri- og innri-klýfi og fokku næst mastrinu. Framsegl eru þríhyrnd stagsegl sem hengd eru í framstagið sem nær milli stafns og framsiglu á fjölmastra seglskipum eða masturs á einmastra skútum. Framsegl hafa tvíþætt hlutverk: þau hjálpa til við að knýja skipið áfram og eru líka notuð til að stýra loftstraumi yfir stórseglin aftan við þau. Stundum eru belgsegl líka flokkuð sem framsegl. Úranía. Úranía er íslenskt kvenmannsnafn. Evey. Evey er íslenskt kvenmannsnafn. Karó. Karó er íslenskt kvenmannsnafn. Petrós. Petrós er íslenskt kvenmannsnafn. Brighton. Brighton er strandbær á suðurströnd Englands. Brighton og nágrannabærinn Hove mynda saman borgina Brighton og Hove. Hann er vinsæll ferðamannastaður allt frá því að bærinn fékk járnbraut árið 1841. Alls búa um 480 þúsund manns í borginni en þegar mannfjöldinn var hvað mestur bjuggu þar um 160 þúsund (1961). Átta milljónir ferðamenn heimsækja Brighton árlega. Vinsælt er að halda fundi og ráðstefnur í borginni. Þá eru þar tveir háskólar og einn læknaskóla. Faraó. a> (höfuðklút), gervihökutopp og klæddur í skrautlegt pils. Faraó (úr fornegypsku: "pr-`3" „mikið hús“) er titill sem venja er að nota um konunga Egyptalands hins forna. Upphaflega kom orðið fyrir í samsettum titlum með vísun til konungshallarinnar eins og í "smr pr-`3", „hirðmaður hins mikla húss“. Á tímum átjándu konungsættarinnar var farið að nota orðið til að ávarpa konunginn, sem annars er "nswt" á fornegypsku. Löngu síðar, á þriðja millitímabilinu, var þetta orð líklega borið fram *par-ʕoʔ sem varð φαραώ í forngrísku og "pharaō" í latínu. Brátt myndaðist hefð fyrir því að nota orðið sem titil allra konunga Egyptalands hins forna, hvort sem þeir ríktu fyrir eða eftir tíma átjándu konungsættarinnar. Í Egyptalandi hinu forna erfðist konungstitillinn yfirleitt í kvenlegg og menn urðu konungar vegna tengsla sinna við konungbornar konur. Í fyrstu var litið svo á að konungurinn væri sonur kýrgyðjunnar Bat og síðar Haþor en síðar komst hefð á að líta á hann sem líkamning fálkaguðsins Hórusar á jörðu meðan hann lifði, og Ósíriss eftir að hann dó. Þegar dýrkun Ósíriss og Ísisar varð áberandi varð konungurinn að tengilið dauðlegra manna við Ósíris sem sameinaðist honum eftir dauða sinn. Stagsegl. Franska skonnortan "La Recouvrance" er hér með fjögur stagsegl uppi, auk tveggja gaffalsegla, eins gaffaltopps og tveggja rásegla. Stagsegl er segl sem er fest á eitthvert stag í seglabúnaði seglskips. Yfirleitt er seglið fest á stagið eftir endilöngum framfaldinum. Flest stagsegl eru þríhyrnd en geta þó stundum verið ferhyrnd. Segl eru fest þannig á framstögin sem ná frá framsiglu að stefni eða bugspjóti. Þannig stagsegl eru algengustu framsegl seglskipa ásamt belgseglum. Stagsegl eru líka fest á stög sem ná milli mastra á fjölmastra skipum. Það framstagsegl sem næst er framsiglunni heitir alltaf fokka eða genúafokka eftir því hvort það nær aftur fyrir framsigluna eða ekki. Næstu tvö segl þar fyrir framan heita klýfir og jagar, en oft eru öll framstagsegl kölluð „fokka“. Stagsegl milli mastra draga heiti sín af þeim stöðum þar sem þau eru fest, t.d. messanstagsegl milli messansiglu og næstu siglu, krusbramstagsegl milli bramseglanna á krusmastrinu (aftursiglunni) og næsta masturs, o.s.frv.. Fokka. Barkskipið "Alexander von Humboldt" með fjögur framsegl, fokku (innst), innri- og ytri-klýfi og jagar (yst). Fokka er þríhyrnt stagsegl sem er fest framan við fremstu siglu (fokkumastur eða stórsiglu) seglskútu á stag sem nær frá mastrinu að stefninu. Seglskip eru nánast alltaf með fokku ef þau eru með framsegl á annað borð. Fokkan gegnir mikilvægu hlutverki við að knýja skipið áfram og stýra vindstreymi yfir seglabúnaðinn fyrir aftan. Venjulega er fokkan minni en sá þríhyrningur sem markast af mastrinu, staginu og stefninu, en fokka sem nær aftur fyrir mastrið er kölluð genúafokka eða einfaldlega genúa. Á fjölmastra skipum með bugspjót eru framseglin venjulega fleiri en eitt og heitir þá aðeins það segl sem næst er framsiglunni fokka, en hin klýfir og jagar. Í þeim tilfellum er fokkan oft fest á bómu eða braut að neðan þannig að hún flytur sig sjálf til þegar skipið vendir. Litlar einmastra slúppur eru oftast með eina aðalfokku og nokkrar til skiptanna fyrir mismunandi veður. Þá er minnsta fokkan stormsegl sem hefur þann tilgang að auka stöðugleika og hjálpa við að halda stefnu fremur en knýja bátinn áfram. Rúllufokka er sérstök tegund af fokku sem rúllast upp á stöng sem fest er við stagið en þá er hægt að stjórna því hversu stór hluti af seglinu stendur út af staginu. Kildinsamísk töluorð. Kildinsamísk töluð (kildinsamíska: Самь чиссэл "sam' tjíssel") eru svipuð öðrum finnsk-úgrískum tungumálum í Kólaskaga í Rússlandi. Þau eru skrifað í kýríllíska stafrófinu. Bakteríuveira. Bakteríuveira eða gerilæta kallst þær veirur sem sýkja bakteríur, oftast með þeirri afleiðingu að bakterían sundrast. Bakteríuveirur samanstanda af ytri hlífðarhúð úr prótíni sem inniheldur erfðaefni. Sprengjuflugvél. Fljúgandi virkið Boeing B-17 var ein af þekktustu sprengjuflugvélum bandamanna í Síðari heimsstyrjöld. Sprengjuflugvél er herflugvél sem ætluð er til loftárása á skotmörk á jörðu niðri, aðallega með því að varpa á þau sprengjum. Langdrægar sprengjuflugvélar eru ætlaðar til langferða til að eyðileggja innviði og aðflutningslínur óvinahers til að skaða hernaðarstarf hans. Þegar stríð er háð samkvæmt kenningunni um algjört stríð eru langdrægar sprengjuflugvélar lykiltæki til að brjóta mótstöðuafl óvinarins á bak aftur. Slíkum loftárásum er þá beitt jafnt á hernaðarleg skotmörk sem og borgaraleg skotmörk sem áætlað er að styrki hernaðarstarf óvinarins. Skammdrægar sprengjuflugvélar eru aftur á móti ætlaðar til þátttöku í orrustum til að varpa sprengjum á óvinaherinn og styðja þannig framrás eða vörn eigin landhers. Dæmi um langdrægar sprengjuflugvélar eru Avro Lancaster, Heinkel He-111, Junkers Ju 88, B-17 Flying Fortress, B-24 Liberator, B-29 Superfortress, B-36, B-47, B-52 Stratofortress, General Dynamics F-111, Tupolev Tu-16, Tupolev Tu-160, Tupolev Tu-95 og Gotha G.V. Dæmi um skammdrægar sprengjuflugvélar eru Junkers Ju 87, Iljúsín Il-2, A-10 Thunderbolt II og Sukoi Su-25. Alistair Darling. Alistair Maclean Darling (f. 28. nóvember 1953) er fjármálaráðherra Bretlands í ríkisstjórn Gordons Browns. Hann var kosinn á breska þingið fyrir Verkamannaflokkinn í Suðvesturkjördæmi í Edinborg í Skotlandi. Darling er menntaður lögfræðingur, hann var fyrst kosinn á þing árið 1987. Frá árinu 1997 hefur Verkamannaflokkurinn verið við völd í Bretlandi og hefur Darling, ásamt Gordon Brown og Jack Straw setið samfellt í ríkisstjórn síðan þá. Hann var atvinnu- og lífeyrismálaráðherra frá 1998-2002, samgöngumálaráðherra 2002-6, Skotlandsráðherra 2003-6, viðskipta- og iðnaðarráðherra 2006-7 og loks fjármálaráðherra frá því í júní 2007. Rúnar Júlíusson. Guðmundur Rúnar Júlíusson, betur þekktur sem Rúnar Júlíusson (Rúni Júl'") (fæddur 13. apríl 1945, látinn 5. desember 2008) var íslenskur tónlistarmaður. Hann var bassaleikari og lék með hljómsveitinni Hljómum, Trúbrot og mörgum öðrum. Þá rak hann útgáfufyrirtækið Geimstein. Hann lést þann 5. desember 2008 eftir að hann hafði fengið hjartaáfall. Rúnar var að fara á svið að syngja á árlegri útgáfukynningu Geimsteins er hann hneig niður við að teygja sig í gítarinn og andaðist síðar sömu nótt. Loona. Marie-Jose van der Kolk (fædd 16. september 1974 í IJmuiden), betur þekkt undir listamannsnöfnunum Loona og Carisma, er hollensk söngkona og dansari. Hún er þekktust fyrir samstarf sitt við DJ Sammy, sem einnig er eiginmaður hennar. Þau koma fram undir nafninu DJ Sammy feat. Carisma. Ferill. Marie kynntist DJ Sammy þegar hún flutti til Majorca. Þau sömdum saman lagið „Life is just a game“ árið 1996. Næstu smáskífur í röðinni voru „You are my Angel“, „Prince of Love“ og „Golden Child“. Öll þessi lög komu svo fram á breiðskífunni "Life is just a game" sem kom út árið 1998. Sumarið 1998 stofnaði Marie nýtt verkefni, "Loona", en DJ Sammy kom að því verkefni. Fyrsta smáskífan var með laginu „Bailando“ sem Paradisio hafði gefið út. Lagið fór í toppsæti þýska vinsældalistans sumarið 1998. Um haustið gaf Loona svo út aðra smáskífu sína, „Hijo de la luna“ (ábreiða af lagi Mecano) en lag þetta komst einnig í efsta sæti þýska vinsældalistans. Þá gaf hún út breiðskífuna "Lunita" en öll lögin á henni eru sungin á spænsku. Mario Più. Mario Più (fæddur Mario Piperno í Livorno, 26. ágúst 1965) er ítalskur plötusnúður. Þekktasta lag hans er „Communication“ sem kom út árið 1999. Mæðrastyrksnefnd. Mæðrastyrksnefnd var stofnuð 20. apríl 1928 en þá komu saman 22 konur, fulltrúar frá 10 kvenfélögum, á fund að Kirkjutorgi 4 í Reykjavík. Félögin voru: Kvenréttindafélag Íslands, Bandalag kvenna, Félag íslenskra hjúkrunarkvenna, Hvítabandið, eldri og yngri deild, Hið íslenska kvenfélag, Lestrarfélag kvenna, Kvenfélagið Hringurinn, Thorvaldsensfélagið og Verkakvennafélagið Framsókn. Einnig sátu fundinn fulltrúar Barnavinafélagsins Sumargjafar og Hjúkrunarfélagsins Líknar. Þann 27. febrúar 1928 varð sjóslys þegar togarinn Jón forseti strandaði við Stafnes en í því slysi drukknuðu 15 skipverjar og var félagið stofnað til að koma að koma ekkjum og föðurlausum börnum til hjálpar. Laufey Valdimarsdóttir var kjörin formaður og sama vor opnaði nefndin skrifstofu í húsi Guðspekifélagsins í Reykjavík. Auður Auðuns starfaði í mörg ár fyrir félagið. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar matvælum hvern miðvikudag en fatnaði og ýmsum smávörum fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Þá hefur nefndin veitt fermingarstyrki á hverju vori og einnig styrki til barna til dvalar í sumarbúðum og vegna þátttöku í leikjanámskeiðum. Og nýfædd börn fá vandaða gjafapakka með fatnaði og öðrum nauðsynjum. Sérstök jólaúthlutun er fastur liður í starfseminni og hefur hún hin síðustu ár verið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar, innanlands, og Rauða kross Íslands. Við úthlutanir nefndarinnar starfa sjálfboðaliðar, venjulega um 20 eldri konur, sem sumar hafa starfað launalaust í mörg ár hjá nefndinni. Þær eru fulltrúar þeirra sjö kvenfélaga sem nú standa að nefndinni, en það eru: Kvenréttindafélag Íslands, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið, Félag háskólakvenna, Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna, Kvenfélag Alþýðuflokksins og Félag framsóknarkvenna. Heiðar Helguson. Heiðar Helguson (fæddur Heiðar Sigurjónsson á Akureyri 22. ágúst 1977) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann er leikmaður Cardiff City á Englandi. Heiðar hefur leikið með Dalvík, Þrótti Reykjavík, Lillestrøm í Noregi, Watford og Fulham Bolton og QPR á Englandi. Hann hætti í landsliði íslands árið 2012 Gym Class Heroes. Gym Class Heroes er bandarísk hipp hopp/öðruvísi rokk hljómsveit frá Geneva, New York. Travis McCoy og tommuleikari Matt McGinley stofnuðu hjlómsveitina. Útgáfan hljómsveitar er Decaydance Records sem gefur út hljómplötu "As Cruel as School Children". Smáskífan Cupid's Chokehold var mjög árangursrík og var númer fjögur í Billboard Hot 100. Þeir unnu saman oftast með Patrick Stump frá Fall Out Boy. Nítróglusserín. Nítróglusserín (eða nítróglyserín) (efnaformúla: (C3H5(ONO2)3) er mjög sprengifimur vökvi, myndaður úr saltpéturssýru, brennisteinssýru og glusseríni. Nítróglusserín er geysiöflugt sprengiefni sem springur við smáhögg og hefur stundum valdið miklum slysum. Nítróglusserín er notað til iðnaðar, m.a. til að framleiða dínamít. Þegar dínamít er gamalt lekur nítróglusserínið oft úr sprengihólkunum og verður sérlega hættulegt. Nítróglusserín er einnig notað í sprengitöflur sem sumir hjartasjúklingar taka. Árið 1847 fann ítalski efnafræðingurinn Ascanio Sobrero upp nítróglusserín þegar hann hellti hálfu máli af glusseríni í dropatali út í eitt mál af saltpéturssýru og tvö mál af brennisteinssýru. Kransæðastífla. Kransæðastífla eða hjartadrep er sjúkdómur sem kemur til vegna þess að blóðsegi í kransæð stöðvar blóðflæðið til hluta hjartavöðvans. Getur valdið hjartaáfalli. Junior Jack. Junior Jack (fæddur Vito Lucente 31. ágúst 1971 á Ítalíu) er "house"-tónlistarmaður, upptökustjóri og plötusnúður. Hann hefur búið í Belgíu frá því að hann var táningur. Ferill. Á yngri árum tók Lucente þátt í nokkrum sýru- og "eurodance"-verkefnum - gjarnan með Eric Imhauser. Frægastur varð hann þó þegar hann var upptökustjóri hljómsveitarinnar Benny B, með söngvaranum Amid Gharbaoui, DJ Daddy K og dansaranum Serge „Perfect“ Nuet. Lucente hætti í hljómsveitinni þegar tvær breiðskífur höfðu verið gefnar út. Árið 1995 tók Lucente upp nafnið Mr. Jack (sem síðar breyttist í Junior Jack) og fór að fikta við house-tónlist. Smáskífur á borð við „My Feeling“, „Thrill Me (Such A Thrill)“, „E Samba“, „Stupidisco“ og „Da Hype“ komu honum aftur fram á sjónarsviðið. Lögin „My Feeling“ og „Stupidisco“ voru bæði sömpluð úr eldri lögum; „Saturday Love“ eftir Alexander O'Neal og Cherrelle, og „Dare Me“ með The Pointer Sisters. Nýjasta smáskífa Junior Jack var endurhljóðblanda af „Dare Me (Stupidisco)“. Lagið komst í 20. sæti breska smáskífulistans. Vito Lucente hefur endurhljóðblandað lög listamanna á borð við Whitney Houston, Moby, Bob Sinclar og Utada. Þá hefur hann mikið unnið með Kid Creme. Tálknafjarðarlistinn. Tálknafjarðarlistinn var íslenskt stjórnmálaafl sem bauð fram til sveitarstjórnarkosninganna 2006 í Tálknafjarðarhreppi. Listinn fékk tvo menn kjörna í fimm manna sveitastjórn. Bræðurnir Ormsson. Bræðurnir Ormsson er fyrirtæki sem verslar með rafmagnsvörur og heimlistæki. Fyrirtækið var stofnað árið 1922, en hlaut núverandi nafn sitt árið 1923. Fyritækið er nú til húsa á þremur stöðum í Reykjavík: í Lágmúla 8, Síðumúla 9 og Smáralind. Þann 22. desember árið 1922 negldi Eiríkur Ormsson, stofnandi fyrirtækisins, skilti á húsnæði sem hann hafði til umráða á Óðinsgötu 25. Á því stóð: "Rafvéla- og mælaviðgerðir, Eiríkur Ormsson". Er það talið vera upphaf fyrirtækisins. Veróna. Séð yfir Verónu og ána Adige Verönd Júlíu er einn vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar Veróna er borg á norðanverðri Ítalíu með rúmlega 240 þúsund íbúa. Í borginni gerist harmleikurinn um Rómeó og Júlíu. Skófla. Tvær skóflur; stunguskófla (vinstri) fyrir fastan jarðveg en sú til hægri er fyrir laus efni Skófla er handverkfæri með skafti og flötum eða hvelfdum járnspaða á öðrum enda, notuð til moksturs eða til að stinga upp jarðveg, forleif eða lík. Einnig eru vélskóflur á ýmsum vinnuvélum eins og skurðgröfum. Skófla er aldagamalt verkfæri, líklegast frá steinöld. Frímerki sem sýnir þýskann hermann með skóflu Þegar Þjóðverjar voru að byggja upp her sinn, í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar, létu þeir hermenn sína bera skóflur í stað byssa, en samkvæmt uppgjafarsamkomulaginu eftir fyrri heimstyrjöldina máttu Þjóðverjar ekki stofna her. Það var því táknræn athöfn að láta hermennina bera skóflur í byssu. Klipping (kvikmyndagerð). Klipping er í heimi kvikmynda og sjónvarps haft um það að fella myndbrot saman þannig að þau myndi eina heild. Þá eru valin réttu atriðaskotin eða réttu sjónarhornin svo að myndin renni sem best fyrir augum áhorfandans. Klipping nútildags fer oftast fram í tölvu. Bringusund. Bringusund er sundaðferð. Uppskriftin af bringusundi er: Beygja, kreppa, sundur, saman, sem er hreyfing fótanna í vatninu. Bringusund er fyrsta sundaðferðin sem börnum í grunnskólum er kennd. Hljómplata. Hljómplata, eða bara plata í stuttu máli, er geymslumiðill fyrir hljóðritað efni. Hljóðefnið, yfirleitt tónlist, er geymt á plötunni á bylgjulaga rákum sem eru ættar í plötuna, sem liggja í hringi frá ystu brún plötunar og í átt að miðju. Til að spila upptöku af hljómplötu er notaður plötuspilari. Hljómplötur eru framleiddar í ýmsum stærðum, en stærðunum er alltaf lýst í tommum. Algengustu stærðirnar eru tólf tommur (oftast ritað sem 12") fyrir heilar plötur, sjö tommur (7") fyrir smáskífur, en framan af voru tíu tommu plötur (10") algengastar. Snúningshraði platna er mismunandi, en langflestar nýrri upptökur eru 33 snúningar á mínútu (33 ⅓ r.p.m. - algengast fyrir heilar plötur) eða 44 snúningar á mínútu (45 r.p.m. algengast fyrir smáskífur). Á fyrri hluta 20. aldar voru plötur sem snérust 78 snúninga á mínútu algengar, og enn eru margir plötuspilarar sem spila þannig plötur, þó að framleiðslu á þeim hafi mestmegnis verið hætt upp úr miðbiki síðustu aldar. Hljómplötur og plötuspilarar voru vinsælasta afspilunartæknin fyrir tónlist frá um 1920 og þangað til að geisladiskar, sem eru smærri, ódýrari í framleiðslu og geta geymt meira af uppteknu efni, tóku við. Þó að vinsældir vínylplötunar döluðu mjög snögglega frá miðbiki níunda áratugar og til 1988, þegar geisladiskurinn tók við krúnunni, þá dó tæknin aldrei út. Á tíunda áratugnum voru vínilplötur en vinsælasta afspilunarsniðið hjá plötusnúðum, og er meðal annars þeim að þakka að sala jókst hægt og bítandi frá árinu 1991 til 2000. Frá 2007 hefur sala á hljómplötum farið ört vaxandi, eða frá miljón eintökum það ár til 3,6 miljón eintaka árið 2011. Fjallkóngur. Fjallkóngur (leitarforingi, gangnastjóri eða gagnaforingi) nefnist sá sem stjórnar göngum (fjallferð á Suðurlandi) á afrétti á haustin. Konur sem gegnt hafa starfi leitarforingja eru einnig nefndar fjallkóngar. Víða um land má finna örnefnið „Kóngsás“ (eða álíka) en um þann stað fer fjallkóngur í leitum. Þar hefur hann yfirsýn yfir smalamenn og afréttinn. Dúmbó. "Dúmbó" (enska: "Dumbo") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á samnefndri skáldsögu eftir Helen Aberson og Harold Perl. Myndin var frumsýnd þann 23. október 1941. Kvikmyndin var fjórða kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Aðalpersónur eru fílinn Dúmbó og vinur hans Timothy Q. Mouse (mús). Myndin fjallar um ævintýrum þeirra. Kvikmyndin var leikstýrð var af Ben Sharpsteen. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundar voru Otto Englander, Joe Grant og Dick Huemer. Tónlistin í myndinni er eftir Frank Churchill og Oliver Wallace. Deutsche Bank. Deutsche Bank er einn stærsti banki heims með höfuðstöðvar í Frankfurt í Þýskalandi. Starfsmenn eru 81.000 í 76 löndum. Bankastjóri Deutsche Bank er Josef Ackermann. Regla Sarrusar. Regla Sarrusar (enska "Sarrus' rule" eða "Sarrus' scheme") er aðferð notuð til að reikna ákveðu 3×3 fylkis. Hún er nefnd í höfuðið á franska stærðfræðinginum Pierre Frédéric Sarrus. formula_2 formula_3 Fyrsta dæmið. Sem dæmi má taka 2×2 fylkið og því er ákveða fylkisins A formula_11. Annað dæmið. Sem dæmi má taka 2×2 fylkið og því er ákveða fylkisins B formula_14. 3×3 fylki. Sem dæmi má taka 3×3 fylkið Og þá er margfeldi skálínanna sem voru heilar laggðar saman þar sem sú fyrsta er formula_21 eða formula_22, sú önnur er formula_23 sem er jaft og formula_24 og sú síðasta er formula_25 sem er formula_26. Svo er margfeldi óheilu skálínanna dregnar frá, en fyrsta skálínan er formula_27 eða formula_28, sú önnur er formula_29 eða formula_30 og sú síðasta er formula_31 eða formula_32. og því er ákveða fylkisins C jöfn formula_36. Philips. Koninklijke Philips Electronics N.V. (e. "Royal Philips Electronics Inc."), í almennri notkun Philips er eitt stærsta fyrirtækið í heiminum sem framleiðir raftæki og annan tengdan varning. Philips var stofnað 1891 í Eindhoven í Hollandi en eru nú með höfuðstöðvar í Amsterdam. Árið 2006 seldust vörur frá fyrirtækinu fyrir €26.976 milljarða og hjá því vinna 125.500 manns í yfir 60 löndum. Philips framleiðir m.a. ljósbúnað og einnig tengdum tækjum fyrir heilsugæslu og spítala. Afkastaprófun. Afkastaprófun kallst það að meta afköst hugbúnaðar eða vélbúnaðar með prófunum, en þetta er oftast gert með því að keyra sérstök forrit eða þrautir fyrir búnaðinn. Heimabrugg. Heimabrugg er áfengi sem bruggað er heima í litlum mæli til eigin nota sem áhugamál. Algengast er að brugga gerjað áfengi svo sem vín, bjór, engiferöl, eplavín o.s.frv. Eimað áfengi krefst flóknari tækjabúnaðar og auk þess er heimaframleiðsla á brenndu víni víða bönnuð með lögum, meðal annars vegna eldhættu. Á Íslandi er aðeins heimilt að brugga gerjaða drykki sem eru minna en 2,25% að styrkleika. Margar verslanir selja búnað sem ætlaður er til bruggunar. Samheitaorðabók. Samheitaorðabók er orðabók sem inniheldur orð í stafrófsröð og við hvert orð eru gefin upp samheiti og stundum andheiti. Í samheitaorðabókum, ólíkt venjulegum orðabókum, eru engar orðskýringar eða framburðarlýsingar. Upphafsmaður íslensku samheitaorðabókarinnar var Þórbergur Þórðarson. Í bókasafns- og upplýsingafræði er einnig rætt um kerfisbundna efnisorðaskrá eða kerfisbundin efnisorðalykil, sem er þó ekki það sama og efnisorðaskrá. Bíum, bíum, bamba. Bíum, bíum, bamba er alkunn barnagæla sem sumir nota sem vögguvísu á börn sín. Höfundur er ókunnur. Flestir kunna þó eingöngu fyrsta erindið og gleyma því seinna. Margir hafa ekki hugmynd um hvað sögnina að "þamba" þýðir, en hún þýðir að kjaga áfram með erfiðismunum, einkum í vondri færð, gegn stormi og hríð. Gollur er hið sama og gollurshús, en það er poki sem umlykur hjartað. Í þennan poka létu menn koma kjöt og mör og gerðu sér þannig mat úr honum. Skógarlíf (kvikmynd 1967). "Skógarlíf" (enska: "The Jungle Book") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á skáldsögu "Frumskógarbókin" eftir Rudyard Kipling. Myndin var frumsýnd þann 18. október 1967. Kvikmyndin var nítjánda kvikmynd Disney-teiknimyndaversins í fullri lengd. Leikstjóri myndarinnar er Wolfgang Reitherman. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundar voru Larry Clemmons, Ralph Wright, Ken Anderson, Vance Gerry og Bill Peet. Tónlistin í myndinni er eftir Sherman-bræður. Árið 2003 var gerð framhaldsmynd, "Skógarlíf 2", sem var dreift á kvikmyndahús. Tímaeignarfall. Tímaeignarfall er eignarfall án sérstaks fallvalds sem táknar tímann þegar eitthvað gerist, t.d. "þessa árs" og "kvölds og morgna". Í íslensku er tíminn ýmist táknaður í þolfalli eða þágufalli, hvort heldur er með forsetningum eða forsetningarlaust. Til algerra undantekninga telst þó "tímaeignarfallið". Tímaeignarfallið hefur fylgt málinu lengi. "Komið annars dags" = annan dag, segir í Völundarkviðu og í Hávamálum: "Hins hindra dags" (= daginn eftir) "gengu hrímþursar". Bjarneyjar. Bjarneyjar eru 16-17 eyjar um miðbik Breiðafjarðar. Þær eru syðstar Vestureyja sem er stærsti eyjaklasinn á firðinum. Tvær Bjarneyja eru stærstar; Heimaey, sem eru nokkrar samhangandi eyjar, og Búðey. Í eyjunum var búið frá landnámi og þar eru talin tólf heimili í manntalinu 1703. Eyjarnar fóru í eyði árið 1946. Miðilsfundur. Miðilsfundur eða skyggnilýsing er samkoma þar sem reynt er að ná sambandi við anda, oftast fyrir milligöngu miðils. Miðilsfundir tengjast helst hreyfingu spíritista á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Draumkvæðið. Draumkvæðið er þekktasta fornkvæði (eða þjóðkvæði) Norðmanna. Kvæðið er talið frá miðöldum og telst til leiðslubókmennta. Draumkvæðið var „uppgötvað“ á Þelamörk í Austur-Noregi um 1840, einkum í Lårdal, Kviteseid og Mo. Engar eldri heimildir eru um kvæðið. Uppskriftir sem gerðar voru af Draumkvæðinu eru mjög brotakenndar og ólíkar hver annarri. Þekktasta útgáfan er endurgerð sem Moltke Moe gerði um 1894, og er alls 52 vísur. Efniságrip. Draumkvæðið hefst með vísu, þar sem ljóðmælandinn kynnir sig. Síðan er sagt frá því að Ólafur Ástuson (hjá flestum heimildarmönnum Åkneson eða Håkinson) sofnar á jólanótt og vaknar ekki fyrr en á þrettánda degi (6. janúar). Hann ríður til kirkju, sest í kirkjudyrnar og segir draum sinn. Í draumnum gekk hann yfir Gjallarbrú, sem skilur okkar heim frá ríki hinna dauðu. Hann braust gegnum þyrnigerði og yfir fenjasvæði, sá helvíti og einnig himnaríki, þar sem María guðsmóðir sat. Að lokum birtist honum frumdómurinn (þ.e. dómurinn fyrst eftir dauðann), þar sem Mikjáll erkiengill vó syndugar sálir á skálavog. Heimildarmenn og uppskriftir. Til eru um 70 uppskriftir af Draumkvæðinu, en flestar eru örfáar vísur. Aðeins ein uppskrift (30 vísur), sem presturinn Magnus Brostrup Landstad skrifaði upp um 1847 eftir Maren Ramskeid, er í einhverju samhengi. Maren, sem var þrítug vinnukona, hafði lært kvæðið af föður sínum, og hann af sínum föður. Landstad birti uppskriftina í "Norske Folkeviser" 1853, og einnig endurgerð sína af kvæðinu. Sveitafólk á Þelamörk vissi að kvæðið var óheilt, og taldi jafnvel að það hefði í öndverðu verið mörg hundruð vísur. Rannsóknir, tilgátur og endurgerðir. Jørgen Moe taldi að Draumkvæðið væri mjög gamalt, jafnvel frá því skömmu eftir kristnitöku og að Ólafur Ástuson hlyti að vera Ólafur helgi. M. B. Landstad var sömu skoðunar, en taldi að höfundar Sólarljóða og Draumkvæðisins hefðu notað sem fyrirmynd draumsýn eða leiðslu hins heilaga Ansgars, erkibiskups í Brimum. Nokkru síðar birti Sophus Bugge grein sem markaði stefnu í rannsóknum á Draumkvæðinu í nær hundrað ár. Hann benti á að kvæðið væri náskylt leiðslubókmenntum miðalda, einkum mætti sjá skyldleika við sýn írska riddarans Tundals frá 1149, sem þýdd var á norrænu um 1250 undir nafninu Duggalsleiðsla. Þegar Moltke Moe hélt kunna fyrirlestra sína um Draumkvæðið árin 1891–92, lýsti hann sig í meginatriðum sammála Sophusi Bugge. Knut Liestøl taldi kvæðið vera frá 1250–1300, og hafnar því að vísað sé til Ólafs helga, Olav Åkneson eða Håkinson sé upprunalegra. Almennt eru menn nú sammála um að kvæðið sé úr kaþólskri tíð. T.d. telur Bengt R. Jonsson líklegt að kvæðið sé ort á árabilinu 1350 til 1550. Kvæðið getur tæplega verið eldra en frá því skömmu fyrir 1300. Ef það er svo gamalt hefur upphaflegur málfarsbúningur þess verið norræna (þ.e. íslenska). Um 1970 komu fram þau sjónarmið að líta bæri eingöngu á kvæðið eins og það varðveittist, og hafna tilraunum til að endurgera það. Brynjulf Alver hefur gengið einna lengst í þessu efni. Hann telur óvíst að Draumkvæðið sé eldra en frá því um 1700, og bendir á að þegar það var skrifað upp hafi það yfirleitt verið sundurlausar vísur og hafi e.t.v. aldrei verið í öðru formi. Þeir Jørgen Moe (1847) og M. B. Landstad (1853) birtu endurgerðir af Draumkvæðinu, en sú sem hlaut almennasta viðurkenningu var útgáfa Moltke Moes frá því um 1894. Hann lagði til grundvallar textann sem skrifaður var upp eftir Maren Ramskeid, en notaði einnig vísur frá öðrum heimildarmönnum. Í endurgerð sinni lagði hann áherslu á að sýna tengslin við Duggalsleiðslu. Til voru þeir sem töldu að Moltke Moe hefði ekki gengið nógu langt. Meðal þeirra var Ivar Mortensson-Egnund, sem birti árið 1927 sína eigin útgáfu, með 119 vísum. Tónlist við Draumkvæðið. Draumkvæðið var sungið, enda er það danskvæði að formi, þó að það sé helgikvæði að efni. Á 19. öld voru skráð nokkur lög við kvæðið. Þeir sem flytja kvæðið nú, nota yfirleitt sérstakt lag við hvern hluta kvæðisins. Ástæðan fyrir því er, að aðalheimildarmaðurinn, Maren Ramskeid, notaði nokkur mismunandi lög þegar hún söng kvæðið fyrir M. B. Landstad. Þýðingar og útgáfur. Draumkvæðið er varðveitt á mállýsku frá Þelamörk. Nokkrar þýðingar á kvæðinu eru til. Segja má að Draumkvæðið sé sveipað vissum dularljóma, og á það eflaust þátt í að fagrar útgáfur hafa verið gerðar af kvæðinu, myndskreyttar af þekktum listamönnum. Kristján Eldjárn hefur þýtt kvæðið á íslensku, sjá heimildaskrá. Hann telur Draumkvæðið og Sólarljóð gnæfa upp úr þorra leiðslurita að skáldskapargildi. Tímon frá Flíos. Timon (Τίμων) frá Flíos (um 320 f.Kr. – um 230 f.Kr.), sonur Tímarkosar, var forngrískur heimspekingur og efahyggjumaður, nemandi Pyrrhons og kunnur rithöfundur og skáld. Tímon mun hafa verið mikilvirkur rithöfundur en rit hans eru ekki varðveitt nema í brotum. Díogenes Laertíos segir hann hafa samið bæði lýrísk og epísk kvæði, þrjátíu skopleiki, sextíu harmleiki og ýmis ádeilurit. Brot úr verkum Tímons eru mikilvægasta heimildin um heimspeki Pyrrhons. Antíokkos frá Askalon. Antíokkos frá Askalon (Άντίοχος ὁ Ἀσκαλώνιος) (um 130 f.Kr. – um 68 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og platonisti og höfuð Akademíunnar. Hann var nemandi Fílons frá Larissu við Akademíuna en vék frá efahyggju þeirri sem Fílon kenndi og innleiddi að nýju hefðbundnari platonisma. Hann reyndi þó einnig að sætta ýmsar af kenningum stóumanna og aristótelískrar heimspeki við kenningar platonismans. Með honum hófst tímabil hins svonefnda mið-platonisma. Antíokkos var einn af kennurum rómverska stjórnmálamannsins og heimspekingsins Ciceros. Fílon frá Larissu. Fílon (Φίλων) frá Larissu (159/158 – 84/83 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og efahyggjumaður. Hann var nemandi Kleitomakkosar og tók við stjórn Akademíunnar af honum. Stöðutaka. Stöðutaka er hugtak í viðskiptafræðum sem er haft um það að "taka stöðu gegn einhverju í von um gróða", og er oftast notað í sambandi við gjaldmiðla. Kristján Þór Einarsson. Kristján Þór Einarsson (fæddur 11. janúar árið 1988) er núverandi Íslandsmeistari í höggleik karla. Hann er jafnframt næstyngsti Íslandsmeistari í golfi frá upphafi. Kristján vann titilinn i Vestmannaeyjum þar sem hann háði mikla baráttu við atvinnumennina Björgvin Sigurbergsson og Heiðar Davíð Bragason. Kristján á líka á baki leiki með knattspyrnufélaginu Ými úr Kópavogi og vann með þeim lengjubikarinn árið 2008 Tadjena-fjöldamorðin. Tadjena-fjöldamorðin voru fjöldamorð á þorpsbúum tveggja þorpa rétt norðan við Tadjena í héraðinu Chlef í vesturhluta Alsír. Morðin stóðu frá 8. desember til 9. desember 1998 um tíu dögum fyrir ramadan. 81 þorpsbúi var myrtur á sérlega hrottalegan hátt með sveðjum, karlar, konur og börn. Að auki var 20 konum rænt. Fjöldamorðin voru hluti af borgarastyrjöldinni í Alsír og eru talin hafa verið framin af íslömsku öfgasamtökunum Vopnaða íslamska hópnum þótt hópurinn hafi ekki lýst ábyrgð á hendur sér. Kraeiðið. Kraeiðið er mjótt eiði sem tengir Malakkaskaga við meginland Asíu. Austurhluti eiðisins tilheyrir Taílandi en vesturhlutinn Mjanmar. Vestan við eiðið er Andamanhaf og austan megin er Taílandsflói. Eiðið heitir eftir bænum Kra Buri í Rangonghéraði í Taílandi sem er vestan megin við grennsta hluta þess. Eiðið er grennst, 44 km breitt, milli ósa Krafljóts og Sawiflóa þar sem taílenska borgin Chumphon stendur. Baleareyjar. Baleareyjar (katalónska: "Illes Balears"; spænska: "Islas Baleares") eru eyjaklasi í vesturhluta Miðjarðarhafsins nálægt austurströnd Íberíuskagans. Fjórar stærstu eyjarnar eru Majorka, Menorka, Íbísa og Formentera. Eyjaklasinn er sjálfstjórnarhérað Spánar og höfuðstaður þess er borgin Palma. Opinber tungumál eyjanna eru spænska og katalónska. Konungsskuggsjá. Síða úr aðalhandriti Konungs skuggsjár. Konungsskuggsjá eða Konungs skuggsjá – (á latínu: Speculum regale) – er norskt fornrit frá árunum 1250-1260. Konungs skuggsjá er fræðslurit, sett upp sem samtal föður og sonar, og tilheyrir bókmenntagrein sem nefnd hefur verið furstaspegill. Ritið skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta eru ráðleggingar til kaupmanna, í öðrum til hirðmanna og í þeim þriðja til konunga. Konungsskuggsjá er varðveitt í mörgum handritum, og flest þeirra eru íslensk. Sjálftaka. Sjálftaka er það nefnt í lögfræði þegar menn dæma sjálfum sér ótiltekinn rétt og fullnægja því „réttlæti“ án þess að leita til löglegra yfirvalda. Sjálftaka er einnig haft um þann gjörning þegar menn skammta sjálfum sér eitthvað sem þeim ber ekki endilega, en hafa vald til. Dæmi um það er þegar alþingismenn skammta sér laun (hækka þau t.d.) en án þess að sjáanlegt réttlæti liggi á bakvið þeim launahækkunum. Þá er talað um "sjálftöku launa". Varast ber að rugla saman sjálftöku við stöðutöku. Prison Break. Prison Break er bandarísk þáttaröð. Prison Break eru spennu og hasar sjónvarpsþættir sem voru frumsýndir þann 29. ágúst árið 2005. Þættirnir snúast um tvo bræður, einn þeirra hafði verið ranglega dæmdur til dauða, og hinn sem er snillingurinn, hefur hugsað sér mjög vandaða áætlun til að hjálpa honum að komast úr fangelsinu. Þættirnir voru hugarfóstur Pauls Scheuring og eru framleiddir af framleiðslufyrirtækinu Adelstein-Parouse Productions í samvinnu við Original Television og 20th Century Fox Television. Framleiðendur þáttana eru Scheuring, Matt Olmstead, Kevin Hooks, Marty Adelstein, Dawn Olmstead, Neal H. Moritz og Brett Ratner. Þematónlist þáttana er eftir Ramin Djawadi, sem var tilnefnd til Emmy-verðlauna árið 2006. Fyrsta þáttaröð. Fyrsta þáttaröð inniheldur 22 þætti og fjallar um björgun Lincoln Burrows (Dominic Purcell), sem að er ákærður fyrir morðið á Terrence Steadman (Jeff Perry), bróður varaforseta Bandaríkjanna. Fyrir það er Lincoln dæmdur til dauða. Bróðir Lincolns, Michael Scofield (Wentworth Miller), er búinn að finna upp mjög vandaða áætlun til að koma bróður hans úr fangelsinu, Fox River. Til að áætlunin gæti virkað þá þarf Michael að játa á sig þjófnað og var því dæmdur í fimm ára fangelsi. Til þess að þetta gæti allt gengið upp þurftu þeir að vera fljótir til að safna saman liði bæði með öðrum föngum og starfsmönnum Fox Rivers. Ein manneskja ákveður að hjálpa þeim. Það er læknir fangelsisins Sara Tancredi (Sarah Wayne Callies). Saman kemst liðið út með vandaðri áætlun Michaels. Önnur þáttaröð. Önnur þáttaröð inniheldur 22 þætti og byrjar átta tímum eftir að þeir fara frá fangelsinu. Í seríu 2 er flóttinn mikli og fjallar serían öll um flóttann. Brad Bellick (Wade Williams) er rekinn frá Fox River fangelsinu þar sem hann vann sem fangavörður í fyrstu seríunni og tekur því sjálfur upp á því að elta þá til að fá peninginn sem var grafinn fyrir löngu síðan og hann vissi að flóttamennirnir vissu um. T-Bag reyndi að flýja með peningana og er öll restin af seríunni um bræðurna í að elta hann. Peninginn þurftu bræðurnir til að flýja og líka finnst Scofield hann ábyrgur á því að hafa látið morðingjann lausan. Allríkisfulltrúinn Alexander Mahone (William Fichtner) er útnefndur til að finna og ná átta flóttamönnunum, en hann er líka að vinna fyrir „The Company“ sem vill alla átta mennina, sérstaklega Lincoln, dauða. Sumir flóttamannana eru drepnir eða eru náðir aftur í fangelsið. En bræðurnir komast til Panama. En í fluginu þangað er pabbi Söru, Frank Tancredi, myrtur því að hann komst að sannleika Lincolns. En í enda seríunnar enda Michael, T-Bag og Mahone í fangelsinu Penitenciaría Federal Sona. Þar finna þeir Brad Bellick sem var handtekinn áður í seríunni. Þriðja þáttaröð. Þriðja þáttaröð inniheldur 13 þætti og fjallar um Michael og teymi hans í Sona og Lincoln utan við Panama. Burrows er fljótlega kominn í samband við „The Company“ sem hefur rænt syni hans, L.J. (Marshall Allman) og Söru Tancredi (Sarah Wayne Callies), konunni sem Michael elskar. Honum er sagt að þeir vilji að Scofield frelsi James Wistler (Chris Vance) út úr Sona. Serían fjallar semsagt um Michael og Whistler að reyna að finna áætlun til að koma honum úr fangelsinu, á meðan Lincoln talar við tengilið „The Company“ sem heldur Söru og L.J. í vörslu. Ef Michael kemur ekki Whistler úr Sona verða L.J. og Sara tekin af lífi. Í lok seríunnar reynir liðið að komast úr Sona ásamt Mahone, T-Bag og Bellick. Sucre hjálpar þeim, en einn varðanna kemst að því og honum er hent inn í Sona. Fyrr í seríunni hefur verið sent höfuð Söru Tancredi til Lincolns til viðvörunar um son hans. Í lokin er L.J. skipt fyrir Whistler og Michael íhugar hefnd á Gretchen fyrir dauða Söru. Fjórða þáttaröð. Fjórða þáttaröð inniheldur 22 þætti og byrjar með því að Michael ætlar að hefna sín fyrir dauða Söru þangað til að hann kemst að því að Gretchen myrti ekki Söru eins og hann hélt. Michael kemst líka að sannleikanum um James Whistler, að hann hafði leynilega unnið með Mahone til að taka niður „The Company“. Fljótlega kemst „The Company“ að því og er Whistler tekinn af lífi. Sona var brennt niður og náðu Sucre, T-Bag og Bellick að flýja. Þegar að Michael er í Chicago að leit að Söru er hann handtekinn og er sendur til Don Self, einkaaðila fyrir „ Homland Security“ til að hjálpa honum að taka niður „The Company“ í skiptum fyrir frelsi hans. Lincoln var svo handtekinn í Panama var líka fluttur til Selfs, ásamt Mahone, Sucre og Bellick og er sama sagt við þá, í skiptum fyrir frelsi þeirra eiga þeir að taka niður „The Company“. Þeir sem fóru líka í teymið voru Sara, sem flúði frá Gretchen og Roland, tölvuþrjótur sem ætlar að hjálpa þeim í skiptum fyrir frelsi sitt. Þau hugsa plan til að ná í „Scylla“ sem er litla svarta bók „The Company“. Og fjallar serían um þá að ná í Scylla til að taka niður „The Company“. Ofurpaur. Rót eða ofurpaur (ensku "root" eða "superuser") kallast sérstakur notandi í Unix stýrikerfum sem getur opnað og breytt öllum skrám. Laugarásbíó. Laugarásbíó er kvikmyndahús sem stendur við Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna, á Laugarási í Reykjavík. Kvikmyndahúsið var byggt á sama tíma og dvalarheimilið og hóf sýningar 6. apríl 1956 með þýsku kvikmyndinni "Fiskimaðurinn og aðalsmærin" ("Der Fischer vom Heiligensee"). Byggingaraðili var Fulltrúaráð sjómannadagsins í Reykjavík og var byggingin meðal annars fjármögnuð með Happdrætti DAS en tekjur af kvikmyndahúsinu voru nýttar til frekari uppbyggingar dvalarheimilisins. Árið 1993 tók myndbandadreifingarfyrirtækið Myndform við rekstri kvikmyndahússins. Í bíóinu eru þrír sýningarsalir. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (stofnaður 1. ágúst 1984) er framhaldsskóli staðsettur við Skólabraut 1 í Garðabæ. Upphaflega var skólinn kallaður Fjölbrautir Garðaskóla en síðar þótti þörf fyrir að stofna fjölbrautaskóla. Skólinn var upphaflega staðsettur í nokkrum iðnaðarhúsum að Lyngási í Garðabæ en reist var nýbygging undir skólann og var flutt þangað inn í september 1997. Upphaf skólans. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ var formlega stofnaður 1. ágúst 1984 með sérstökum samningi er gerður var á milli menntamálaráðuneytisins og bæjarstjórnar Garðabæjar. Í samningi þessum er kveðið á um fyrirkomulag skólahalds og hljóðar 1. grein svo: „Í Garðabæ skal starfa skóli fyrir nemendur á framhaldsskólastigi er sjái um allt nám þar að loknum grunnskóla. Skólinn skal taka við framhaldsnámi sem verið hefur við Garðaskóla“. Árið 1978 voru stofnaðar framhaldsdeildir við Garðaskóla og nefndar Fjölbrautir Garðaskóla. Nemendur gátu lokið þar tveggja ára námi en urðu síðan að leita til annarra skóla. Framhaldsdeildunum óx fiskur um hrygg og vorið 1982 útskrifuðust fyrstu stúdentarnir frá Fjölbrautum Garðaskóla með hjálp Flensborgarskólans. Sérstök ritnefnd vinnur nú að því að rita sögu skólans til útgáfu. Húsnæði. Skólinn er nú til húsa í nýju húsnæði við Skólabraut. Hinn 19. nóvember 1993 var undirritaður samningur milli ríkisins annars vegar og sveitarstjórna Garðabæjar og Bessastaðahrepps hins vegar um byggingu á nýju skólahúsi við Bæjarbraut í Garðabæ. Flutt var inn í nýja byggingu í september 1997. Félagslíf. Nemendafélag var stofnað við skólann árið 1986. NFFG skipuleggur alla helstu atburði og skemmtanir á vegum skólans, auk þess sér það um hagsmunamál nemenda. Nemendafélagið stendur að ýmiss konar félagsstarfi til dæmis: böllum, árshátíð, rokkfestival, tónleikum, íþróttamóti, ræðukeppnum, blaðaútgáfu og mörgu fleira. Innan NFFG starfa margar nefndir og félög, þar má nefna atburðarnefnd, skemmtinefnd, íþróttanefnd, vefnefnd & útgáfunefnd. Auk þeirra eru þrjú sjálfstætt starfandi félög sem starfa þó náið með NFFG: Leikfélagið Verðandi, Málfundarfélagið Rökrétta & Nördafélagið Lovecraft. Orrustan við Fehrbellin. Orrustan við Fehrbellin var orrusta háð 28. júní 1675 milli herja Svía, undir stjórn Wolmars Wrangel, og Brandenborgara, undir stjórn Friðriks Vilhjálms kjörfursta af Brandenborg og Georgs von Derfflinger hermarskálks. Orrustan fór fram við bæinn Fehrbellin 50 km norðvestur af Berlín. Nokkrum vikum áður höfðu Svíar nýtt sér herför síns gamla bandamanns, Friðriks, til Frakklands og lögðu undir sig stóra hluta furstadæmisins frá Sænsku Pommern og rændu og rupluðu. Friðrik Vilhjálmur sneri þá aftur með her sinn á aðeins tveimur vikum og tókst að leggja víggirta bæinn Rathenau undir sig. Svíar voru þá komnir í slæma stöðu og neyddust til að heyja orrustu við eyðilagða brú yfir ána Rhin meðan verkfræðingar þeirra reyndu að gera við hana. Brandenborgara höfðu yfirhöndina frá upphafi en Svíum tókst að gera við brúna og koma herliðinu burtu fyrir kvöldið. Mannfall var svipað í báðum liðum, en almennt var samt litið á orrustuna sem sigur Brandenborgara á hinum „ósigrandi“ Svíum. Friðrik Vilhjálmur var eftir þetta kallaður kjörfurstinn mikli og herinn sem hann og Derfflinger leiddu til sigurs varð kjarninn í prússneska hernum. Dagurinn 28. júní var haldinn hátíðlegur í Þýskalandi eftir þetta allt til upphafs Fyrri heimsstyrjaldar. Ósigur Svía varð til þess að hrikta tók í stórveldi þeirra við Eystrasaltið; Brandenborgarar gerðu bandalag við Dani og Hollendinga gegn Svíum og saman lögðu þeir Sænsku Pommern og hertogadæmið Bremen undir sig, Danir gerðu innrás í Skán árið eftir (Skánska stríðið) og Brandenborgarar lögðu síðan undir sig öll yfirráðasvæði Svía á meginlandinu næstu ár; Stettin, Stralsund og Greifswald. Sænska Pommern. Kort sem sýnir Sænsku Pommern árið 1812. Sænska Pommern var sænskt yfirráðasvæði í Vestur-Pommern þar sem nú eru strendur Þýskalands og Póllands við Eystrasalt. Yfirráð Svía yfir þessu svæði stóðu "í reynd" frá landgöngu Svía í Þrjátíu ára stríðsinu 1630 til 1814 þegar Danmörk fékk landið í skiptum fyrir Noreg. 1815 gekk það síðan til Prússlands í kjölfarið á Vínarþinginu. Svæðið náði upphaflega yfir alla Vestur-Pommern, lítinn hluta Austur-Pommern og eyjarnar Rügen, Usedom, og Wolin. Primrose Hill. Miðborg London séð frá Primrose Hill. Primrose Hill er 78 metra há hæð í Regent's Park í Norður-London, Englandi. Nafnið er líka notað yfir nærliggjandi borgarhluta. Af hæðinni er gott útsýni yfir miðborg London í suður og Belsize Park og Hampstead í norður. Hæðin er hluti af borgarhlutanum Camden. Plymouth-nýlendan. Kort af Plymouth-nýlendunni sem sýnir helstu byggðir. Plymouth-nýlendan eða Nýja Plymouth var ensk landnemabyggð á og við Þorskhöfða í Norður-Ameríku. Nýlendan var stofnuð af pílagrímunum, hópi fylgjenda aðskilnaðar frá ensku biskupakirkjunni, sem flúðu undan erfiðleikum í Englandi, fyrst til Hollands og síðan þaðan til Nýja heimsins með skipinu "Mayflower" árið 1620. Byggðin í Plymouth var önnur enska landnemabyggðin í Nýja heiminum sem náði að blómstra. Sú fyrsta var Jamestown í Virginíu, stofnuð 1607. Meðal þess sem gerði nýlendustofnunina mögulega var samningur landnemanna við höfðingja Pokanoeg-indíána, Massasoit, sem gerði þeim kleift að lifa af fyrstu misserin. Atburðir í Plymouth-nýlendunni áttu síðan þátt í því að hrinda af stað Stríði Filippusar konungs 1675-1676 sem var ein af fyrstu Indíánastyrjöldunum. 1691 var nýlendan innlimuð í Massachusettsflóanýlenduna. Samband íslenskra framhaldsskólanema. Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) eru hagsmunasamtök framhaldsskólanema á Íslandi. Sambandið var stofnað 4. nóvember 2007 við samruna Iðnemasambands Íslands og Hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema. Sambandið var stofnað með það að leiðarljósi að standa vörð um hagsmuni allra nema á framhaldsskólastigi og er því SÍF ólíkt öllum þeim hagsmunasamtökum sem stofnuð hafa verið í fyrri tíð svo sem Iðnnemasambandið sem starfaði með hagsmuni iðn- og starfsnema að leiðarljósi eða Félag framhaldskólanema sem einbeitti sér að málefnum er varðaði bóknámsnema. Saga. Samband Íslenskra Framhaldsskólanema var stofnað þann 4. nóvember 2007. Sambandið er byggt á sterkum grunni I.N.S.Í eða Iðnnemasambandi Íslands og tók SÍF yfir allar skyldur þess og það því lagt niður. Markmiðið með stofnun SÍF var að setja á laggirnar stórt og öflugt hagsmunafélag fyrir alla nema á framhaldsskólastigi og stuðla þannig að brúun þess bil sem hefur verið á milli bók- og iðnnáms og tryggja að ekki yrði brotið á réttindum eða hagsmunum framhaldsskólanema. Á þeim árum sem SÍF hefur starfað hefur félagið náð að verða að kröstugt þrýstiafl í samfélaginu og helsti tengiliður framhaldsskólanema við stjórnvöld sem og aðra aðila. Starfsemi. Verkefni SÍF eru mismunandi ár frá ári. Aðalþing er þó alltaf haldið árlega. Aðalþingið er æðsta vald félagsins og eru teknar ákvarðanir með atkvæðagreiðslu þar sem fulltrúar frá öllum aðildarfélögum eiga atkvæði, auk þess sem stefna og markmið félagsins eru mótuð, lögin endurskoðuð o.s.frv. Sambandsstjórnarfundir eru einnig haldnir einu sinni á önn. Sambandsstjórn samanstendur af SÍFörum, sem eru aðaltengiliðir hvers skóla við sambandið, formönnum nemendafélaga, miðstjórn og framkvæmdastjórn. Eiga því öll aðildarfélögin sæti þar. Þar eru teknar þær ákvarðanir sem þarf að taka hverju sinni og öðlast þær gildi til næsta aðalþings þar sem þær eru samþykktar eða felldar. SÍF er með þjónustusamning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið og gegnir þar ákveðnum skyldum. Þjónustusamningurinn gerir sambandinu kleift að halda úti skrifstofu og starfsmönnum og sjá þannig um þjónustu við námsmenn sem þess þurfa. Einnig mæta fulltrúar SÍF reglulega á fundi á vegum ráðuneytisins, eiga sæti í HOFF (Heilsu og forvarnarefling í framhaldsskólum) og LÍN (Lánasjóður íslenskra námsmanna) sem og fá tækifæri til að taka þátt í þeim ákvörðunum er snerta framhaldsskólanema og þeirra menntun. SÍF tekur einnig þátt í málefnum utan landssteinanna en sambandið á aðild að OBESSU (The organizing bureau of European school student unions) einskonar regnhlífasamtökum hagsmunafélaga námsmanna í Evrópu. Fulltrúum SÍF er boðið út til að taka þátt í ráðstefnum og aðalþingi samtakanna. Þar er unnið að verðugum málefnum sem viðkoma öllum nemendum í Evrópu. Þar gefst góður samráðsvettvangur þar sem margt má læra og samstaðan veitir mikinn stuðning. Hlutverk og stefnuskrá. SÍF er Samband íslenskra framhaldsskólanema. Meginmarkmið sambandsins er að gæta að og standa vörð um hagsmuni og mannréttindi nemenda á framhaldsskólastigi. Aðildarfélög. Aðildarfélög SÍF samanstanda af nemendafélögum framhaldsskólanna og er eru 32 talsins. Framkvæmdastjórn SÍF. Viktor Ingi Lorange - "Verkefnastjóri alþjóðamála" John Evelyn. John Evelyn (31. október 1620 – 27. febrúar 1706) var enskur rithöfundur, garðyrkjumaður og dagbókarhöfundur. Dagbækur hans, sem ná að hluta yfir sama tímabil og dagbækur Samuel Pepys, eru ómetanlegar heimildir um menningu Englands á 17. öld. Evelyn varð þannig vitni að dauða Karls 1., stjórn Olivers Cromwells, Lundúnaplágunni og Lundúnabrunanum. Evelyn og Pepys áttu í bréfasambandi og mikið af þeim bréfum hefur varðveist. Auk dagbókanna skrifaði Evelyn fjölda bóka um ólík efni, svo sem guðfræði, myntfræði, stjórnmál, garðyrkju, byggingarlist og grænmetishyggju. Guðmundur Kamban. Guðmundur Jónsson, skáldanafn Guðmundur Kamban (8. júní 1888 – 5. maí 1945) var íslenskt skáld og leikstjóri, þekktastur fyrir leikrit sín í Danmörku, þar sem hann bjó. Þekktustu leikrit hans hér á landi munu vera Vér morðingjar og Hadda Padda, sem var fyrsta leikrit hans. Eftir síðari heimsstyrjöldina sökuðu andspyrnumenn í Danmörku hann um að vera nasisti og varð það til þess að þeir myrtu hann. Jóhann Ævar Grímsson. Jóhann Ævar Grímsson er íslenskur handritshöfundur. Atómskáld. Atómskáld kölluðust íslensk ljóðskáld í kringum 1950 sem tóku ljóðagerðina nýstárlegum tökum. Upphaflega voru þessir höfundar kallaði atómskáld í háðungarskyni en orðið átti eftir að breytast í sæmdarheiti. Atómskáldin sögðu hefðinni stríð á hendur, bragfræðin var iðulega látin lönd og leið, þeir notuðu nýstárlegt myndmál og ljóðin fylgdu ekki ætíð strangri rökhugsun. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna er alþjóðlegur samningur um réttindi og skyldur ríkja við nýtingu hafsvæða sem var saminn á þriðju ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um hafréttarmál sem haldin var á árunum frá 1973 til 1982. Sáttmálinn kemur í stað fjögurra alþjóðasamninga frá 1958. Sáttmálinn tók formlega gildi 16. nóvember árið 1994 ári eftir að Gvæjana varð 60. ríkið sem staðfesti hann. Í dag eru 156 ríki, auk Evrópusambandsins, aðilar að sáttmálanum. Hafréttarsáttmálinn nær yfir viðskipti með sjávarafurðir, umhverfismál og nýtingu sjávarafla, auk þess að skilgreina landgrunnsréttindi, landhelgi og efnahagslögsögu ríkja með strönd við sjó. Sanya. Sanya (einfölduð kínverska: 三亚; hefðbundin kínverska: 三亞; pinyin: "Sānyà") er syðsta borgin í Hainan-héraði syðst í Kína. Borgin er þekktust fyrir milt loftslag og hlýindi allt árið um kring. Hún er vinsæll ferðamannastaður. Íbúar eru rúm hálf milljón. Norræna félagið. Norræna félagið er félag sem vinnur að því að efla tengsl fólks innan Norðurlandanna. Félagið var fyrst stofnað í Svíþjóð árið 1917 en á fundi í Kaupmannahöfn árið eftir var ákveðið að stofna félag með félagsdeildir á öllum Norðurlöndunum. Árið 1919 voru svo stofnaðar deildir í Noregi og Danmörku. 1922 var stofnuð deild á Íslandi og 1924 í Finnlandi. Síðan þá hafa bæst við félagsdeildir á Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi. Félagið stóð frá upphafi fyrir félagsmótum þar sem fólk frá öllum Norðurlöndunum hittist. Félagið sinnir margs konar starfsemi; Það veitir meðal annars styrki til lýðháskólanáms á Norðurlöndunum og fjármagnar verkefnið Nordjobb ásamt Norrænu ráðherranefndinni. Norræna félagið rekur jafnframt Íslandsskrifstofu Halló Norðurlanda, sem er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir fólk sem hyggst flytja búferlum milli Norðurlanda. Núningskraftur. Núningskraftur eða núningur er kraftur sem spornar gegn hreyfingu. Vinna núningskrafts myndar varma og veldur því að hlutur á ferð stöðvast að lokum. Núningsstuðull er hlutfall núningskrafts og þverkrafts. Kaþarsis. Kaþarsis er forngrískt hugtak sem merkir "hreinsun" eða "útrás". Samkvæmt skáldskaparkenningu Aristótelesar er kaþarsis markmið harmleiksins. Með því að sýna athafnir manna og vekja með því vorkunn og skelfingu veitir hann tilfinningunum útrás. Að mati Aristótelesar hafði harmleikurinn því sálfræðilegt hlutverk. Sjónbeining. Sjónbeining er bókmenntafræðilegt hugtak sem nær ekki einungis yfir það sem sögumaður sér, heldur yfir alla stöðu hans í textanum. Ytri sjónbeining heitir það þegar sögumaður er staddur utan atburðarásarinnar og veit þ.a.l. minna en persónurnar. Innri sjónbeining kallast það þegar sögumaður er þátttakandi í atburðarás. Sjónbeiningu má greina í sundur í nokkrar tegundir sjónarmiða sem lýsa því hvernig sögumaður birtist og tekur sér stöðu í frásögninni. Baldur Guðlaugsson. Jón Baldur Guðlaugsson (f. 8. desember 1946) er íslenskur hæstaréttarlögmaður og í leyfi frá störfum sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis stjórnarráðs Íslands. Baldur var fundinn sekur um innherjasvik í aðdraganda bankahrunsins. Hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna. Baldur vissi vegna stöðu sinnar af slæmri stöðu Landsbankans og var því innherji. Lögmaður Baldurs hefur látið að því liggja að rannsóknin gegn Baldri sé pólitísk. Snemma árs 2010 var kröfu Baldurs um að rannsókn sérstaks saksóknara gegn honum yrði hætt vísað frá. Baldur er eini opinberi starfsmaðurinn sem opinbert er að sérstakur saksóknari sé að rannsaka vegna saknæms athæfis í tengslum við bankahrunið. Þann 7. apríl 2011 var Baldur dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ferill. Baldur er tengdur Sjálfstæðisflokknum og var í hinum svonefnda Eimreiðarhóp á yngri árum. Hann hefur skrifað bókina 30. marz 1949 um inngöngu Íslands í NATO 30. mars 1949 og óeirðirnar á Austurvelli vegna hennar en hún kom út 1976. Baldur hefur setið í stjórn Eimskipa og starfað sem lögfræðingur á vegum Landsvirkjunar. Í viðtali í tímaritinu Frjáls verslun árið 1999 var hann sagður „manna fróðastur um [íslensku] hlutafélagalögin”. Innherjastaða Baldurs. Baldur seldi bréf sín í Landsbankanum um mánuði áður en íslenska ríkið tók yfir rekstur bankans og hlutabréfin urðu verðlaus. Baldur hefur staðfastlega neitað að hafa haft fyrirfram vitneskju um það hrun sem var í vændum. Hann hefur frá þeim tíma síðan hann tók við stöðu ráðuneytisstjóra árið 2000 ekki keypt nein ný hlutabréf. Baldur hafði hvorki tilkynnt fjármála- né viðskiptaráðherra um þessa hagsmuni sína. Þó hefur komið í ljós að tveimur vikum áður en hann seldi hlutabréf sín hafi hann setið fund ásamt Björgvini G. Sigurðssyni og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, þar sem vandamál vegna Icesave-reikninga Landsbankans voru rædd. Í viðtölum við Morgunblaðið og Viðskiptablaðið um tilefni þess að hann seldi hlutabréfin sagðist Baldur hafa ákveðið að selja eftir að hafa lesið um bága stöðu Landsbankans í fjölmiðlum. Hann segist hafa ráðagert í langan tíma að selja bréfin en beðið með það fram á miðjan september. Öll umræða um að hann hefði haft innherjaupplýsingar væri ásakanir sem væru af pólitískum toga. Fleiri en lögmaður Baldurs hafa komið honum til varnar. Á vefsíðu sinni segir Jón Baldur Lorange um Baldur: „Þó hefur mér fundist hér traustur embættismaður á ferð enda farsæll starfsferill að baki. Vissulega virðist hann hafa misstigið sig í öllu brjálæðinu sem gekk yfir þjóðfélagið á síðustu 2 árum ef rétt er að hægt sé að rekja sölu hlutabréfa hans í Landsbankanum til innherjaupplýsinga. Það hefur hins vegar ekki verið til siðs hér á landi að taka hart á slíku enda virðast þeir sem áttu að hafa eftirlit hafa verið áköfustu klappstýrur hrunaliðsins. Hvort er líklegra að fyrrnefndur embættismaður reyni að koma fjármunum undan eða forhertur fjárglæframaður sem er sérfræðingur í hringrásum sýndarfjármuna í aflandsfélögum? Hetjan í kastala réttlætisins fær örugglega hrós frá útrásargosunum sem hlæja sig máttlausa yfir uppákomunni. Þjóðinni er hins vegar ekki hlátur í huga.” Í staksteinum Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Reitt hátt til höggs” eru þessi skrif Jóns Baldurs tekin upp og bætt við: „Stóra fréttin í þessu undarlega máli er auðvitað sú að 14 mánuðum eftir „hrun“ þá skuli fyrsta frystingin á fjármunum beinast að embættismanni úr fjármálaráðuneytinu. Þeir sem óðu um bankana með eignarhaldsfélögin sín og slógu hundraða milljarða lán jafn létt og aðrir drekka vatn eru ekki enn komnir á blað. Þetta lofar ekki góðu og er fremur grátlegt en hlægilegt.“. Að mati vefritsins Eyjan leynir sér ekki að Davíð Oddsson haldi um pennann í þessum skrifum blaðsins, en Davíð og Baldur séu nánir persónulegir vinir og pólitískir samherjar um áratugaskeið. Hlutverk í bankahruninu. Laugardaginn 27. september 2008 sat Baldur afdrifaríkan fund ásamt Geir Haarde forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni seðlabankastjórum, Tryggva Þór Herbertssyni, efnahagsráðgjafa Geirs, og Bolla Þór Bollasyni ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Á þessum fundi var Geir Haarde gert grein fyrir fjárhagsvanda Glitnis sem leiddi síðar til bankahrunsins. Í krafti stöðu sinnar hefur Baldur verið sagður „ráða miklu um það að fjármálaráðuneytið lagðist lengi vel gegn beiðni um aðstoð [Alþjóðagjaldeyrissjóðsins]”. Annað. Fjármálaráðherra skipar stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og formann hennar. Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hverju sinni hefur verið skipaður formaður stjórnar. Baldur gegndi þeirri stöðu 4. júlí 2008, þegar héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að undirmenn Baldurs í fjármálaráðuneytinu hefðu vegna undirmannavanhæfis verið vanhæfir þegar þeir ákváðu árið 2005 að staðfesta breytingar á samþykktum lífeyrissjóðsins Gildis, þar sem Baldur hefði vegna stöðu sinnar sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda verið vanhæfur ef hann hefði tekið þessa ákvörðun. Framandgerving. Framandgerving (þýska: "Verfremdungseffekt", enska: "Distancing effect") er bókmenntahugtak sem er notað í leikritum. Framandgerving er lykilatriði í kenningum Brechts um epískt leikhús. Leikhúsið átti að mati Brechts ekki að stefna að innlifun eða kaþarsis, heldur þvert á móti. Það á að rífa hlutina úr sínu venjubundna samhengi og sýna þá í framandi ljósi þannig að persónurnar birtist sem þættir í sögulegum ferlum, sem afurð umhverfisins. Upplifun áhorfandans byggir því á skynsemi, en ekki tilfinningu. Epískt leikhús. Epískt leikhús er leiklistarsiður í 20 öld eftir Bertolt Brecht. Hann Bertolt Brecht hafnaði hinu aristótelíska leikhúsi og í stað atburðarrásar setti hann laustengd atriði, montage. Form leikritsins líkist þannig fremur epískum skáldskap þar sem einn kafli tekur við af öðrum án þess að bein tengsl þurfi að vera á milli atburða. Rísandi þríliður. Rísandi þríliður eða anapest er stíll af bragliðum. codice_1 Fallandi tvíliður. Fallandi tvíliður eða troké er stíll af bragliðum. codice_1 Fallandi þríliður. Fallandi þríliður eða daktylos er stíll af bragliðum. codice_1 Dæmi. Dæmi af fallanda þríliðum er notað í fyrsta línum af Evangeline eftir Henry Longfelow í ensku Rísandi tvíliður. Rísandi tvíliður eða jambos er stíll af bragliðum. codice_1 Harmleikur. Harmleikur er harmislungið eða sorglegt leikrit, getur einnig náð yfir kvikmyndir og önnur verk framkvæmd með einhvers konar leikhætti. Mark Tilden. Mark W. Tilden (f. 1961) er bresk-kanadískur uppfinningamaður sem er þekktastur fyrir að eiga hugmyndina að s-k BEAMþjörkum þar sem tiltölulega flókin hegðun er útfærð með tiltölulega einföldum rafrásum. Hann starfar nú sem þjarkahönnuður fyrir WowWee Toys þar sem hann hannaði meðal annars RoboSapien leikfangavélmennið. Dráttarbátur. Tveir dráttarbátar draga skip á skipaskurði. Dráttarbátur (áður fyrr nefndur togbátur) er bátur sem er ætlað að draga eða ýta öðrum bátum í höfnum, á hafi eða eftir skurðum. Dráttarbátar eru notaðir til að draga pramma, vélarvana skip eða annan búnað, s.s. olíuborpalla. Hlutfallið milli krafts og stærðar (mælt í kW/brúttórúmlest) er mjög hátt í dráttarbátum, um 2,20 - 4,50 hjá stórum dráttarbátum en 4,0 til 9,5 hjá litlum dráttarbátum á móti 0,25 - 1,20 hjá venjulegum flutninga- og farþegaskipum. William Dampier. William Dampier (5. september 1651 (skírður) – mars 1715) var enskur sjóræningi, skipstjóri, rithöfundur og landkönnuður. Hann kannaði og kortlagði hluta Nýja Hollands í Ástralíu og Nýju Gíneu fyrstur Englendinga. Hann var líka sá fyrsti sem sigldi þrisvar sinnum kringum hnöttinn. Onegavatn. Onegavatn (rússneska: Онежское озеро; finnska: "Ääninen" eða "Äänisjärvi") er 9.894 km² stórt stöðuvatn í vesturhluta Rússlands í Karelíu. Í vatninu eru 1.369 eyjar. Petrosavodsk, höfuðstaður Karelíu, stendur við vesturbakka vatnsins. Onegavatn er næst stærsta stöðuvatn í Evrópu, á eftir Ladogavatni. Brixham. Brixham er lítill hafnarbær í Devon í suðvesturhluta Englands. Bærinn lifir aðallega á fiskveiðum og ferðaþjónustu. Jafnstæð og oddstæð föll. Fall kallast jafnstætt ef það er samhverft um y-ás, þ.e. "f"("-x") = "f"("x"). Fall, sem spegla má um línuna "y" = "x" eða "y" = "-x" kallast oddstætt, þ.e. "f"("-x") = -"f"("x"). Oddstætt fall heildað yfir bil, samhverft um núllpunkt hnitakerfis, gefur núll. Skammhlið. Skammhlið kallast önnur tveggja hliða í rétthyrndum þríhyrningi, sem liggja að rétta horninu. Langhlið. Mörg forritunarmál styðja fallið hypot(x, y) sem er hluti IEC 9899 C-staðalsins þar sem hypot er stytting á enska orðinu "hypotenuse" („langhlið“). Rétt horn. Horn kallast rétt horn ef það er 90°. Gleitt horn er stærra en 90°, en hvasst horn minna. Þríhyrningur með eitt rétt horn kallast "rétthyrndur". Hótel Ísland. Hótel Ísland var hótel sem stóð við Aðalstræti frá 1882 til 1944 þegar það brann til grunna í eldsvoða nóttina 3. febrúar. Hótel Ísland var í raun nokkur timburhús sambyggð og stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis þar sem nú er Ingólfstorg. Lóðin náði þá út í allan reitinn milli Austurstrætis, Aðalstrætis, Veltusunds og Vallarstrætis. Áður hafði staðið þar pakkhús frá um 1790 en eftir aldamótin 1800 var það rifið og Einar Jónsson reisti þar tvö bindingsverkshús, íbúðarhús og verslun. Jafet Johnson, sonur hans, seldi R. P. Tærgesen kaupmanni eignina 1845 og hann lét reisa vöruskemmu hinum megin við húsin á horni Vallarstrætis og Veltusunds. Hann dó 1875 en 1879 giftist ekkja hans Johani Hallberg skipstjóra sem byggði tvílyft stórhýsi áfast gamla húsinu Austurstrætismegin og hóf þar veitinga- og hótelrekstur 1882. Skömmu síðar tók hann upp nafnið "Hótel Ísland". Hallberg byggði mikið og endurbætti á reitnum næstu árin. Hann reisti meðal annars skála út úr húsinu meðfram Vallarstræti og 1901 lét hann rífa gamla húsið Aðalstrætismegin og reisa þar þrílyft timburhús sem tengdist við húsið Austurstrætismegin með turni sem stóð á horninu. Þannig var húsið lengst af þar til það brann. Hallberg seldi húsið 1906 hópi manna sem áttu húsið í eitt ár en seldu það svo Góðtemplarastúku Reykjavíkur. 1912 hófst rekstur Nýja bíós í húsinu sem lá frá Austurstræti eftir Veltusundi og var það starfrækt þarna til 1920 þegar það flutti í eigið hús. Húsið komst svo í eigu Íslandsbanka og síðan félagsins Borg h.f.. 1928 eignaðist Alfreð Rosenberg hótelið. Hann hafði áður rekið kaffihús og tónleikastað í kjallara Nýja bíós og síðan Café Rosenberg þar sem Reykjavíkurapótek er nú. Aðfaranótt 3. febrúar 1944 um klukkan tvö varð starfsstúlka sem svaf á efstu hæð hússins vör við að eldur var kominn upp á geymslulofti. Hún gerði viðvart og gestir hússins og fjölskylda Rosenbergs björguðust út á náttklæðunum. Húsið brann til kaldra kola á aðeins tveimur tímum. Einn maður fórst. Eftir brunann stóð reiturinn auður þar til Bifreiðastöð Steindórs kom sér þar upp aðstöðu og bílaplani sem síðar var kallað Hallærisplanið. Bifreiðastöðin hafði haft aðstöðu á svokölluðu Steindórsplani gegnt hótelinu við Hafnarstræti frá stofnun hennar 1922. 1993 voru plönin tvö sameinuð og Ingólfstorg reist. Það opnaði 4. desember 1993. Hugmyndir hafa verið á lofti um að endurreisa Hótel Ísland til þess að endurskapa fyrri ásýnd Aðalstrætis og nágrennis. Staphylococcaceae. "Staphylococcaceae" er ætt gerla (baktería) innan ættbálksins Bacillales. Líkt og flestar aðrar bakteríur innan fylkingarinnar Firmicutes eru meðlimir "Staphylococcaceae" Gram-jákvæðir og með lágt GC-hlutfall í erfðaefni sínu. Þeir eru ekki grómyndandi, ókvikir, valfrjálst loftfælnir og nánast allar tegundir ættarinnar eru kokkar að lögun (innan ættkvíslarinnar "Gemella" er þó að finna staflaga tegundir). Margar tegundir ættarinnar geta stundað nítratöndun þegar súrefni er ekki til staðar. Sultartangastöð. Sultartangastöð er vatnsaflsvirkjun í Þjórsá, staðsett nokkurn veginn miðja vegu á milli Hrauneyjafossstöðvar og Búrfellsstöðvar. Tilhögun. Framkvæmdir hófust árið 1997 en stöðin komst í fullan rekstur árið 2000. Þetta varð fimmta stórvirkjun Landsvirkjunar en áður höfðu verið byggðar virkjanir við Sigöldu og Hrauneyjafoss í Tungnaá, Búrfell í Þjórsá, og neðanjarðarvirkjun í Blöndu. Sultartangastöð nýtir vatn er rennur úr Sultartangalóni sem myndaðist á árunum 1982 – 1984 þegar Þjórsá og Tungnaá voru stíflaðar austan undir Sandafelli, u.þ.b. kílómetra ofan ármótanna. Sultartangastíflan er lengsta stífla á Íslandi. Á byggingartíma Sultatangastöðvar var stíflan hækkuð um einn metra og við það óx lónið úr 18 í 20 km². Aðrennslisgöng liggja úr lóninu í gegnum Sandafell að jöfnunarþró suðvestan í fellinu. Við enda þróarinnar er stöðvarinntak eða aðhlaupshús og þaðan liggja stálpípur að stöðvarhúsinu. Aflvélar eru tvær af Francis gerð, hvor um sig 60 MW. Frárennslisskurður liggur frá stöðvarhúsinu í rótum Sandafells, um Álftafell og niður á Hafið. Skurðurinn sveigir í stefnu meðfram farvegi Þjórsár og fylgir honum að stað 800 m ofan við veitustíflu Búrfellsvirkjunar þar sem hann liggur út í farveg Þjórsár. Tengivirki og línuleiðir. Tengivirki er í rofahúsinu vestan við stöðina með SF6 einangruðum rofabúnaði. Við innleiðingu nýrrar raforkulaga á árinu 2004, varð tengivirkið hluti flutningskerfis Landsnets. Inn í húsið tengist 220 kV háspennulína frá Hrauneyjafossi að tengivirki Landsnets að Brennimel í Hvalfirði. Blús. Blús er tónlistarstefna sem varð til í þrælahaldinu í Bandaríkjunum. Hún er upprunninn frá þrælum á plantekrum í syðstu fylkjum Bandaríkjanna eða „Deep South“ sem var einnig þekkt sem bómullarríkin, í byrjun tuttugustu aldar. Svart verkafólk og bómullartínarar fóru að syngja blöndu af trúarlegum söngum, vinnu söngum, hrópum og einföldum ballöðum og kallaðist það blús. Blústónlistin endurspeglaði stöðu svartra bandaríkjamanna eftir að þrælahald var afnumið. Þrælarnir höfðu þróað með sér ákveðinn stíl, kalla og svara, og er það form sem einkennir alla blústónlist. Í byrjun blússtílsins voru gítar, banjó og munnharpa hljóðfærin sem mest voru notuð og fylgdi þeim yfirleitt sólósöngvari. Þegar blúsinn varð vinsælli og færðist norðar bættust við fleiri hljóðfæri úr djassinu eins og trompet, básúna, klarinett, píanó og kontrabassi. Algengasta uppbygginginn í blús er 12 takta blús. Hann notar tólf takta mynstur og er á sama tíma. Hann byrjar á ákveðnum grunntón í 4 takta, svo fer hann upp umm fimmund í 2 takta svo kemur aftur grunntónninn í 4 takta, svo fer hann upp í sjöund í 1 takt og niður í fimmund í 1 takt og svo kemur yfirleitt eitthvað stutt millispil. Blús hefur hægan takt og textinn innheldur oft mikla depurð og líf svartra bandaríkamanna bæði fyrir og eftir þrælahald. Nafnið dregur líka merkingu sína af því hversu tilfinningaþrungin tónlistinn og textarnir geta verið. Á ensku er blús "blues" og „feeling blue“ þýðir að líða illa. Upphaf. Tónlistarstefnan blús byggist á blús forminu en býr einnig yfir öðrum einkennum eins og sérstökum textum, bassa línum og hljóðfærum. Blús hefur margar undistefnur sem hafa verið mis vinsælar á mörgum tímabilum 20. aldarinnar. Fyrsta blúslagið sem gefið var úr var lagið „Dallas Blues“ með Hart Wand árið 1912. Fyrsta upptakan með svörtum bandaríkjamanna var gerð árið 1920, það var flutningur Mamie Smith á laginu „Crazy Blues“. Það var fyrsta blúslagið til að ná heimsvinsældum. Uppruni blús er þó talinn ná lengra aftur, alveg að 1890. Það eru því miður til fáar heimildir um það vegna mikils kynþáttamismunar innan bandaríks samfélags á þeim tíma, svörtu fólki bauðst ekki menntun og skólaganga og því gátu þeir ekki skráð neinar heimildir um það sem þeir gerðu. Blind Lemon Jefferson var söngvari og gítarleikari frá Texas. Hann var fyrsti alvöru blússöngvarinn sem tók upp lag í alvöru upptökustúdíói. Saga. Umskiptin sem urðu á blús árið 1920 þegar hann fór að færast norðar og í þéttbýlari svæði höfði alltaf verið keyrð áfram af efnahagslegum ástæðum, eins og kreppunni. Fólk fór að flytja frá dreifibýlum til þéttbýlis og tónlistin flaut með. Eftir seinni heimstyrjöldina varð rafmagnsblús (e. "electric blues") vinsæll í borgum eins og Chicago, Memphis, Detroit og St. Louis. Í rafmagnsblús er notast við rafmagnsgítara, bassa, trommur og stundum munnhörpur. Chicago varð miðpunktur rafmagnsblús varð hann síðar meir kallaður „Chicago blues“. Árið 1949 fæddist ein af undirstefnum blús, ryþmablús. Sú stefna er enn þann dag í dag mjög vinsæl. Muddy Waters og Jimmy Reed urðu vinsælir blús tónlistarmenn, þeir fluttust báðir til Chicago í kreppunni og uppgvötuðu tónlistina. Blús hafði mikil áhrif á popptónlist í Bandaríkjunum á sjötta áratugnum. Í byrjum sjöunda áratugsins voru stefnur sem voru fyrir áhrifum frá bandarískri blökkumannatónlist eins og rokk og sálartónlist orðin partur af hefðbundinni amerískri popptónlist. Hvítir tónlistarmenn höfðu kynnt tónlistina til víðari áhorfendahóps, bæði í Bandaríkjunum og út fyrir þau. Hins vegar varð blúsinn sem gerði Muddy Waters og fleiri fræga ekki jafn vinsæll áfram. Nýjar tegundir blúsins urðu til og fóru að leiðast út í meira popp og rokk. Síðan árið 1980 hefur verið endurvakning á upprunalega blúsnum á meðal ungra amerískra blökkumanna, þá aðallega í Jackson í Mississippi og á þeim slóðum. Á níunda áratugnum hélt blúsinn áfram bæði í hefðbundnu formi og nýju. Blústónlistarmenn. William Christofer Handy, kallaður faðir blúsins fæddist í Alabama og varð hugfanginn af tónlist þar. Hann var einn af áhrifamestu amerísku lagahöfundunum. Árið 1902 ferðaðist hann um Mississippi og fræddist um blús tónlist af afmerískum blökkumönnum. Hann fylgdi ekki alltaf þessu klassíska 12 takta blús heldur prófaði margt nýtt. Hann samdi lög eins og „Long gone John“ og „Memphis blues“. Hún var amerísk söngona, leikkona, píanóleikari og dansari. Hún lék í nokkrum myndum á sínum ferli. Hún var fyrsta svarta söngkonan til að gefa út lag, það var lagið „Crazy blues“. Það var fyrsta blús lagið til að ná heimsvinsældum. Amerískur blús söngvari, kallaður yfirmaður blúsins. Hann söng lög eins og „Midnight special“ og „Honey Hush“. Amerískur söngvari og lagahöfundur, hann var þekktur fyrir að spila rafmagns blús. Hljómsveitin the rolling stones hafa sagt að Reed hafi verið þeim mikill innblástur í sinni tónlist. Söngvarinn Elvis Presley söng mörg lög eftir Jimmy. Jimmy Reed samdi mörg lög, meðal annars: „Shame, shame, shame“ og „Found love“. Hann er brekur gítarleikar, söngvari og lagahöfundur. Hann hefur verið í hljómsveitunum Derek and the dominos, Cream, Bluesbrakers og The Yardbirds. Það hefur verið talað um Clapton sem einn mikilvægasta og áhrifamesta gítarleikara allra tíma. Hann hefur samið lög eins og „Tears in heaven“ og „Layla“. Hann er amerískur söngvari, gítarleikari og lagahöfundur. Tímaritið "Rolling Stone" setti hann í 3. sæti yfir bestu gítarleikara allra tíma. Hann er einn áhrifamesti blús gítarleikari allra tíma. Hann hefur unnið mörg grammy-verðlaun fyrir lög og plötur. Amerískur blús tónlistarmaður. Var þekktur sem faðir Chicago-blúsins. Ferðin til Limbó. "Ferðin til Limbó" er barnaleikrit eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu vorið 1964. Leikritið byggði á barnabókinni "Músabörn í geimflugi" eftir sama höfund sem kom út árið áður. Leikritið var fyrsta leikritið eftir íslenska konu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Klemenz Jónsson leikstýrði. Í leikritinu voru 22 söng- og dansatriði eftir Ingibjörgu Þorbergs og Fay Werner en hljómsveitarstjóri var Carl Billich. Þrjú lög úr leikritinu voru gefin út á samnefndri smáskífu árið 1969. "Ferðin til Limbó" fjallar um prófessor (Bessi Bjarnason) og aðstoðarmann hans (Lárus Ingólfsson) sem senda tvær mýs, Magga (Ómar Ragnarsson) og Möllu (Margrét Guðmundsdóttir), til lítillar plánetu, Limbó, á milli jarðarinnar og tunglsins þar sem þau lenda í ýmsum ævintýrum meðal íbúa plánetunnar áður en þau komast aftur til jarðar. Federico García Lorca. Federico García Lorca (5. júní 1898 – 19. ágúst 1936) var spænskt ljóðskáld, leikritahöfundur og leikhússtjórnandi. Hann var helsti liðsoddur og merkisberi ljóðskáldanna í "Generación del 27". Hann var skotinn af Falangistum í byrjun spænsku borgarastyrjaldarinnar. Hann var skólabróðir og vinur Luis Buñuel og Salvador Dalí sem báðir urðu heimsfrægir listamenn sömuleiðis. Tenglar. Lorca, Federico García Gossip Girl (sjónvarpsþáttur). Gossip Girl er bandarískur unglingadrama þáttur, byggður á samnefndum bókaflokki eftir Cecily von Ziegesar. Þátturinn var búinn til af Josh Schwartz og Stephanie Savage og var hann frumsýndur á CW-stöðinni 19. september 2007. Hin alvitra "Blaðurskjóða" (e. Gossip Girl) talar inn á þættina, en Kristen Bell ljær henni rödd sína, sem snúast um líf ríkra og fordekraðra unglinga í Efri Austur-hluta (e. Upper East Side) Manhattan í New York borg. Þættirnir hefjast þegar aðalstelpa hverfisins, Serena van der Woodsen (Blake Lively), snýr aftur úr dularfullri dvöl sinni í heimavistarskóla í Cornwall, Connecticut. Blair Waldorf (Leighton Meester), sem framleiðendurnir lýsa sem drottningunni í miðju skákspilsins, er æskuvinkona og einstaka sinnum óvinkona Serenu, og drottningin í Constance Billard skólanum. Þættirnir fylgjast einnig með Chuck Bass (Ed Westwick), vonda stráknum á Upper East Side; "gulldrengnum" Nate Archibald (Chace Crawford), besta vini Chucks. Hins vegar hefur samband þeirra staðið á brauðfótum síðan Serena fór í heimavistarskólann. Aðrar persónur, sem ekki búa á Manhattan: Dan Humphrey (Penn Badgley); besta vinkona Dans, Vanessa Abrams (Jessica Szohr); systir Dans, Jenny Humphrey (Taylor Momsen); og glæpakonan Ivy Dickens (Kaylee DeFer). Þættirnir hafa fengið fjölmargar tilnefningar til verðlauna og hafa unnið átján Teen Choice verðlaun. CW-stöðin endurnýjaði formlega samninga við þættinga um sjöttu og síðustu þáttaröðina þann 11. maí 2012. Þáttaröðin samanstendur af 10 þáttum og hófust sýningar þann 8. október 2012 og mun þáttaröðinni ljúka 17. desember 2012. Þróun. Upphaflega átti að þróa Gossip Girl bókaflokkinn í kvikmynd og átti Lindsay Lohan að fara með aðalhlutverkið. Þegar lítið gekk með kvikmyndaverkefnið ákváðu Stephanie Savage og Josh Schwartz að taka málin í sínar hendur og breyttu verkefninu í þróun sjónvarpsþáttar. Persónueinkenni allra persónanna í fyrsta þættinum voru byggð á fyrstu Gossip Girl bókinni. Aðalframleiðendur. Höfundur þáttanna The O.C., Josh Schwartz og meðhöfundurinn Stephanie Savage eru aðalframleiðendur þáttanna og þegar leið á bættust Bob Levy og Leslie Morgeinstein hjá Alloy Entertainment í hópinn til að hjálpa við útfærslu bókanna í sjónvarpsþátt. Eftir að Gossip Girl sló í gegn varð framleiðandi Gilmore Girls og fyrrum samstarfsmaður Schwartz og Stephanie Savage í O.C., John Stephens einnig aðalframleiðandi. Joshua Safran sem byrjaði sem höfundur/ráðgjafa framleiðandi áður en hann varð meðframleiðandi, varð seinna aðalframleiðandi. Þann 24. apríl 2012 var tilkynnt að hann mun yfirgefa þættina við lok fimmtu þáttaraðar til að verða framleiðandi þáttanna "Smash". Til að fylla í skarð Safrans mun meðframleiðandinn Sara Goodman taka við stöðu aðalframleiðanda í sjöttu þáttaröðinni. Ráðningar. Níu aðalpersónur eru í þáttunum og var meirihluti leikaraliðsins ráðinn á tímabilinu febrúar - apríl 2007. Blake Lively og Leighton Meester voru fyrstu leikkonurnar til að fá hlutverk í febrúar, hlutverk Serenu van der Woodsen og Blair Waldorf. Penn Badgley, Taylor Momsen, Chace Crawford, Kelly Rutherford, Connor Paolo og Florencia Lozano (birtist aðeins í fyrsta þættinum; Margaret Colin tók við af henni) lönduðu síðan hlutverkum í mars. Leikarar fyrir hlutverk Chuck Bass og Rufus Humphrey voru fundnir í apríl þegar enski leikarinn Ed Westwick og Matthew Settle voru ráðnir. Þegar orðrómur var uppi um að sjónvarpsstöðin ætlaði að hætta framleiðslu þáttanna Veronica Mars tilkynnti CW-stöðin að Kirsten Bell, sem talaði yfir fyrsta þátt Gossip Girl, væri titilpersónan í öðrum þætti stöðvarinnar. Jessica Szohr var ráðin í aukahlutverk sem Vanessa Abrams en varð síðan ein af aðalpersónunum frá og með 14. þætti 1. þáttaraðar. Í gegnum þáttaröðina neitaði Connor Paolo stöðugt að stækka hlutverk sitt sem Eric van der Woodsen og sagði ástæðurnar persónulegar. Jenny Humphrey, leikin af Taylor Momsen, fór í ótímabundið leyfi í fjórðu þáttaröðinni. Í gegnum þættina hafa komið margar gestastjörnur. Michelle Trachtenberg lék Georginu Sparks. Francie Swift og Sam Robards tóku að sér hlutverk Anne og Howard Archibald. Caroline Lagerfelt leikur Celiu "CeCe" Rhodes, ömmu Serenu. Sebastian Stan birtist nokkrum sinnnum sem Carter Baizen í gegnum fyrstu þrjár þáttaraðirnar. Tökustaðir. Þættirnir eru aðallega teknir í New York og hefur Gossip Girl verið útnefnur "veitingastaðalegasti þátturinn síðan Beðmál í borginni", sem vísar í það að fyrsti þátturinn innihélt m.a. japanskan veitingastað, Geishu, Campell íbúðina og barinn Gilt á New York Palace hótelinu. Aðrir frægir staðir New York borgar komu fram í fyrstu þáttaröðinni. Byrjun annarrar þáttaraðarinnar var tekin í Hampton-hverfinu um miðjan júní. Í sjötta þættinum var Columbia háskólinn notaður til að mynda Yale háskólann en þátturinn olli vonbrigðum hjá aðdáendum Yale vegna myndarinnar sem dregin var upp af umsóknarferlinu. Í sjöunda þætti sömu þáttaraðar var the Brooklyn Inn fléttað inn í þættina en einnig hefur verið myndað inni á rússnesku testofunni (e. "The Russian Tea Room") Sýningar voru hafnar á fjórðu þáttaröðinni 13. september 2010 og voru fyrstu tveir þættirnir teknir upp í París. Tekið var upp í franska háskólanum, La Sorbonne í latneska hverfinu. Aðrir staðir voru Eiffel turninn, Gare du Nord og Avenue Montaigne. Colubmia háskólinn varð varanlegur upptökustaður fyrir fyrstu þætti þáttaraðarinnar. Snið þáttarins. Hver þáttur byrjar með bloggsíðu Gossip Girl með mynd af Serenu úr fyrsta þættinum. Eftir það kemur upprifjun úr því sem hefur verið að gerast í undanförnum þáttum og gefur það áhorfandanum hugmynd um það sem gerist í þættinum en upprifjunin endar síðan aftur á bloggsíðunni. Í þetta sinn eru þó myndir af annarri persónu eða öðrum persónum og fyrir neðan er texti sem tengist myndinni. Blaðurskjóðan (e. „Gossip Girl“) talar alltaf inn á þættina (Kristen Bell). Hún byrjar upprifjunina á orðunum: „Blaðurskjóðan hér, eina og aðeins eina heimild ykkar inn í skammarleg líf elítunnar á Manhattan“ (e. „Gossip Girl here, your one and only source into the scandalous lives of Manhattan's elite“) og endar venjulega þættina á: „Þið vitið að þið elskið mig, X.O.X.O. Blaðurskjóðan“ (e. „You know you love me. X.O.X.O. Gossip Girl“). Persónur og leikendur. Fyrstu þættirnir í fyrstu þáttaröðinni voru að mestu skrifaðir beint upp úr bókunum, þ.e. fylgdist aðallega með lífum fimm ungmenna á menntaskólaárunum. Serenu van der Woodsen (Blake Lively) er oftast lýst sem „it girl“ (aðalstelpan). Það kemur síðan fram að hún á skammarlega fortíð sem kemur oft aftan að henni og er hún þekkt fyrir mörg „haltu-mér-slepptu-mér“ sambönd við karlpersónurnar og er einnig þekkt fyrir að vera uppreisnargjörn. Dan Humphrey (Penn Badgley) er útundan sem verður síðan hluti af lífi elítunnar á Manhattan, upprennandi rithöfundur og er hreinn og beinn og er hjartahreinn með góða siðferðiskennd. Blair Waldorf (Leighton Meester) er fallega drottning Constance Billard skólans en einnig besta vinkona Serenu og einstaka sinum keppinautur hennar. Nate Archibald (Chace Crawford) er hinn fullkomni „Golden Boy“ (gulldrengur) fína hverfisins og vilja allar stelpur vera með honum. Chuck Bass (Ed Westwick) er mikill kvennamaður og er elskar veislur og hefur átt erfitt líf með vafasamri fortíð. Auk þeirra fimm aðalpersóna sem nefndar eru hér að ofan, birtust þrjár aðrar persónur í fyrsta þættinum. Jenny Humphrey (Taylor Momsen) er yngri systir Dans sem reynir allt sem hún getur til að verða næsta drottning Constance Billard, markmið sem fær hana til að hugsa um hin raunverulegu gildi í lífinu; Lily van der Woodsen (Kelly Rutherford); og faðir Dans, Rufus Humphrey (Matthew Settle). Þau eiga rómantíska fortíð sem eltir þau í þáttunum og leiðir að lokum til hjónabands. Humphrey-fjölskyldan verður í kastljósinu þegar þau fara að skoða lífið í efri austurhlutanum og þegar Dan reynir að líta eftir litlu systur sinni þegar hann uppgötvar partýin. Vanessa Abrams (Jessicca Szohr) kemur inn í fyrstu þáttaröðina sem fyrrum kærasta Dans og verður regluleg persóna eftir 14. þáttinn. Aðrar persónur eru m.a. Eric van der Woodsen (Connor Paolo), yngri bróðir Serenu sem er mjög góður og kemur hann út úr skápnum seinni hluta 1. þáttaraðar og verða hann og Jenny mjög náin í kjölfarið. Georgina Sparks (Michelle Trachtenberg) kemur einstaka sinnum fyrir í þáttunum en hún er aukapersóna. Carter Baizen (Sebastian Stan) er óvinur Chuck sem á í litlu ástarævintýri við Serenu. Margar persónur eru gestastjörnur og leika foreldra eða aðra ættingja aðalpersónanna. Eleanor Waldorf-Rose (Margaret Colin) og Harold Waldorf (John Shea) leika fráksilda foreldra Blair og Cyrus Rose (Wallace Shawn) er eiginmaður Eleanor og stjúpfaðir Blair. Dorota Kishlovsky (Zuzanna Szadkowski) er trygg þerna Blair. Anne Archibald (Francie Swift) og Howard „The Captain“ Archibald (Sam Robars) eru stífu foreldrar Nates á meðan William van der Bilt I (James Naughton) og William „Tripp“ van der Bilt III (Aaron Tveit) eru stjórnsamur afi og frændi Nates. Barholomew „Bart“ Bass (Robert John Burke) er látinn fyrrum eiginmaður Lily og kröfuharður faðir Chucks, og Jack Bass (Desmond Harrington) er bróðir Barts og frændi Chucks. Celia „CeCe“ Rhodes (Caroline Lagerfelt) er amma Serenu og Gabriela Abrams (Gina Torres) er móðir Vanessu. Í fjórðu þáttaröðinni er nýr kærasti/unnusti Blair, Prins Louis af Mónakó (Hugo Becker). 1. þáttaröð 2007-08. Fyrsta þáttaröðin fylgist aðallega með skyndilegri endurkomu Serenu eftir dularfullt hvarf hennar. Upphaflega var haldið að einnar nætur gaman Serenu með Nate Archibald, kærasta bestu vinkonu Serenu, Blair Waldorf, hafi verið ástæða brottfararinnar. Hins vegar kemur í ljós í kringum enda þáttaraðarinnar að hin sviksama Georgina Sparks, fyrrum vinkona Serenu, kemur til borgarinnar og upp kemst að kvöldið sem Serena svaf hjá Nate endaði ekki þar - Serena fór heim til Georginu og maður dó þar eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af eiturlyfjum, á meðan hann var tekinn upp á myndband. Þáttaröðin snýst líka um samband Serenu við hinn utanaðkomandi Dan Humphrey; samband Blair við Nate og framhjáhald hennar með besta vini Nates, Chuck; stutt ástarsamband milli móður Serenu og föður Dans; samband Blair og Jenny; og komu fyrrum besta vinar Dans, Vanessu Abrams. Þáttaröðin endar þegar upp kemst um leyndarmál Serenu og þegar Chuck skilur Blair eftir á flugvellinum, áður en hann fer til Evrópu. 2. þáttaröð 2008-09. Önnur þáttaröðin fylgist aðallega með síðasta ári flestra persónanna í menntaskóla og hefst hún í Hampton hverfinu og fylgist aðallega með sambandi Blair og Chuck, sem hafa verið merkt "hjarta þáttanna" af lesendum tímaritsins People. Fyrri hluti þáttaraðarinnar fylgist með því hvað Serena er áberandi í félagslífinu sem dregur að sér athygli Blair og reynir mikið á vináttu þeirra þegar persónan Poppy Lifton (Tamara Feldman) kemur, yfirstéttarstúlka sem kemur upp á milli Blair og Serenu eftir að hún hvetur Serenu til að taka við hennar stað í sviðsljósinu. Nate horfist í augu við eftirleik glæpasamrar fortíðar föður síns og byrjar ástarsamband með Vanessu, sem dregst enn meira inn í heim fína hverfisins. Jenny heldur áfram að vera uppreisnargjörn og reynir að koma sér áfram sem fatahönnuður, og reynir þar með á uppeldishæfileika Rufusar á meðan vinskapur Dans og Nates og samband Dans við Serenu breyta honum í innanbúðarmann. Fyrri helmingur þáttaraðarinnar kláraðist fyrstu vikuna í desember með dauða Barts Bass. Seinni helmingur þáttaraðarinnar skýrir ástæður dauðfalls Barts, sem veldur því að persónuleiki Chucks breytist sem síðan leiðir til þess að samband Rufusar og Lilyar vex með opinberun þess að þau eigi son, sem veldur því að Dan og Serena slíta sambandi sínu. John Shea endurtók hlutverk sitt sem Harold Waldorf í þakkargjörðarþættinum og festist í umsóknarferli Blair inn í Yale. Desmond Harris kom inn í þættina sem stjórnsamur frændi Chucks, Jack Bass. Feldman sneri aftur í þættina með Armie Hammer nýju ást Serenu, Gabriel Edwards. Michelle Trachtenberg sneri aftur sem Georgina Sparks og tók upp atriðin sín í febrúar og kom persónan hennar að ráðgátu þáttaraðarinnar. Þegar líður á þáttaröðina minnkar hlutverk Blaðurskjóðunnar örlítið. Hún heldur áfram að halda uppi bloggsíðu sinni en heldur mikilvægustu upplýsingunum fyrir sig og gefur þær ekki frá sér fyrr en í lokaþættinum þegar Serena ákveður að komast að því hver Blaðurskjóðan virkilega er, en tekst það þó ekki. Þáttaröðin endaði á kossi milli Blair og Chuck. 3. þáttaröð 2009-10. Þriðja þáttaröðin fylgist með Blair, Dan og Vanessu þegar þau byrja í NYU háskólanum ásamt kvikmyndastjörnunni Oliviu Burke (Hilary Duff) sem Dan á síðan í ástarsambandi við; Nate sem kemst inn í Columbia háskólann; Serenu sem tekur sér ársfrí frá skóla; Jenny þegar hún verður drottning Constance Billard skólans; og Chuck eftir að hann tekur við stjórntaumunum hjá fjölskyldufyrirtækinu, Bass Industries, ásamt stjúpmóður sinni, Lily van der Woodsen. Fyrstu þættirnir gerast í sumarfríinu, u.þ.b. viku fyrir skólabyrjun. Hlutverk Blaðurskjóðunnar minnkar í þáttaröðinni. Í þáttaröðinni eru margar gestastjörnur, þ.á.m. Joanna García sem Bree Buckley, ástarskot Nates; fyrirsætan Tyra Banks sem Ursula Nyquist, ofurstór kvikmyndastjarna og er Serena fjölmiðlafulltrúi hennar í stuttan tíma; William Baldwin sem William van der Woodsen, faðir Serenu og Erics, fyrrum eiginmaður Lilyar og mikill óvinur Rufusar; en einnig sjást Lady GaGa, Tory Burch, Jimmy Fallon, Plastiscines, Georgina Chapman og Sonic Youth í þáttaröðinni. Níundi þáttur þáttaraðarinnar olli miklum deilum. Foreldrahópar hvöttu CW-stöðina til að hætta við að sýna þáttinn þar sem hann innihélt þríkant. Stöðin hunsaði þetta og tilkynnti að þátturinn yrði sýndur eins og upphaflega var áætlað. Robert John Burke sem lék föður Chucks, Bart Bass, sneri aftur fyrir jóla-tengdan þátt í desember á meðan Desmond Harrington sneri aftur sem frændi Chucks, Jack Bass, og átti hann stóran söguþráð sem tengist öllum persónunum í seinni hluta þáttaraðarinnar sem hefur aftur mikil áhrif á samband Chucks og Blair sem snýst um Jack og fjarverandi móður Chucks, Evelyn Bass Fisher (Laura Harring). Þáttaröðin fylgdist mikið með þroskun Jenny Humphrey og hröpun hennar. Hún eyðir miklum tíma þáttaraðarinnar í að slíta sig frá Eric, fyrrum besta vini sínum, og að eltast við Nate, sem er hrifinn af Serenu. Við lok þáttaraðarinnar, vegna einnar nætur gamans með stjúpbróður sínum Chuck Bass og vandamáls með eiturlyf, senda faðir hennar og Lily hana til Hudson, New York til að búa með móður sinni. Aðrir söguþræðir eru m.a. tilraun Chucks og Blairs og mistök þeirra í að eiga í góðu ástarsambandi; Dan og Vanessa reyna að þróa samband sitt úr vinskap í eitthvað meira; og tilraunir Serenu til að finna sjálfa sig í gegnum nýtt starf og stutt ástarsambönd við Carter, giftan frænda Nates, Tripp og að lokum Nate sjálfan. 4. þáttaröð 2010-11. Aðalráðgáta þáttaraðarinnar snýst um Juliet Sharp (Katie Cassidy), leyndardómsfulla stúlku með áætlun gegn Serenu sem tengist fortíð hennar. Seinni hluti þáttaraðarinnar byggir á vandræðum nýlegs sambands Serenu við fyrrum kennarann hennar, Ben, Chuck sem reynir að ná aftur stjórn á Bass Industries frá Russell Thorpe (Michael Boatman) og vaxandi sambandi Dans og Blair. Þáttaröðin fylgist einnig með því þegar fortíðar-svik Lilyar kom aftan að henni; stormasömu sambandi Chuck og Blair eftir að þau hætta saman; minnkandi vináttu Dans og Vanessu; og koma frænku Serenu, Charlie Rhodes (Kaylee DeFer) í fína hverfið. Fyrstu tveir þættirnir snerust um Serenu, Blair og Chuck í París. Á meðan þau eru þar hittir Blair prinsinn Louis Grimaldi sem hún trúlofast við lok þáttaraðarinnar. Taylor Momsen, sem leikur Jenny Humphrey var fjarverandi meirihluta þáttaraðarinnar en kom þó fram í 4 þáttum. 5. þáttaröð 2011-2012. Samningar voru endurnýjaðir fyrir fimmtu þáttaröðina þann 26. apríl 2011. Þann 9. maí 2011 var tilkynnt að Taylor Momsen og Jessica Szohr myndu ekki snúa aftur sem aðalapersónur þrátt fyrir að þeim báðum hafi verið boðið að snúa aftur sem gestaleikarar. Kaylee DeFer leikur Ivy Dickens sem er borgað af systur Lily, Carol, til að þykjast vera dóttur hennar og frænka Serenu, Charlie Rhodes. Þáttaröðin hófst í Los Angeles þegar endurnærðir Chuck og Nate ákveða að heimsækja Serenu. Chuck lifir eftir nýrri lífsspeki og segir "já" við öllu, jafnvel hættulegum áhættuatriðum. Serena heldur áfram að vinna í kvikmyndatökum og er boðið fullt starf í lok fyrsta þáttarins. Nate byrjar ástarsamband við eldri konu, Diönu Payne, sem gæti haft aðrar ástæður fyrir að vera með Nate. Í New York kemst Dan að því að Vanessa hefur gefið út einn kaflann í skáldsögunni hans, og Blair heldur áfram að skipuleggja brúðkaup sitt og Louis en hún kemst líka að því að hún er ólétt. Eftir að hafa áttað sig á því að hún beri enn tilfinningar til Chuck ákveða Blair og Chuck að fara í burtu saman en bíll þeirra lendir í árekstri. Vegna bílslyssins missir Blair barnið og Chuck er við dauðans dyr, og giftist að lokum Louis. Í þáttaröðinni er einnig fylgst með Nate reka dagblaðið "The Spectator", vináttunni sem breytist í ástarsamband á milli Blair og Dan og leit Chuck að raunverulegum foreldrum sínum sem leiðir hann að þeirri uppgötvun að faðir hans, Bart, er enn á lífi, og þau áhrif sem dauði CeCe hefur á hjónaband Rufusar og Lilyar. Við lok þáttaraðarinnar velur Blair á milli Dan og Chuck en Lily gerir það sama á milli Rufusar og Barts. Serena yfirgefur borgina á meðan Dan ákveður að skrifa nýja bók um fína hverfið með hjálp Georginu. 6. þáttaröð: 2013. Þann 11. maí 2012 var tilkynnt að Gossip Girl myndi snúa aftur í stuttri sjöttu og síðustu þáttaröð haustið 2012. Þáttaröðin mun samanstanda af 10 þáttum og er búist við því að hún muni enda fyrir jól. Maastrichtsáttmálinn. Maastrichtsáttmálinn (formlega Sáttmáli um Evrópusambandið) er samningur sem undirritaður var 7. febrúar 1992 í Maastricht í Hollandi af aðildarlöndum Evrópubandalagsins. Samningurinn tók gildi 1. nóvember 1993 og markaði upphaf Evrópusambandsins (ESB). Þvagskál. Þvagskál er hreinlætistæki notað til að farga þvagi á opinberum stöðum, yfirleitt eingöngu fyrir karlmenn og drengi. Seðlabanki Evrópu. Seðlabanki Evrópu er seðlabanki sem fer með stjórn peningamálastefnu evrusvæðisins og gefur út evruseðla og mynt. Hann var stofnaður 1. janúar 1998 og kemur að hluta til í stað seðlabanka evrulandanna. Höfuðstöðvar bankans eru í Frankfurt. Núverandi stjórnarformaður er Jean-Claude Trichet. Flokkur evrópskra sósíalista. Flokkur evrópskra sósíalista eða "Evrópski jafnaðarflokkurinn" er Evrópuflokkur sem samanstendur af jafnaðarflokkum í Evrópu, ýmist kallaðir "jafnaðarflokkar", "sósíaldemókrataflokkar", "sósíalistaflokkar" eða "verkamannaflokkar". Hann rekur samnefndan þinghóp á Evrópuþinginu þar sem hann er næst stærstur. Flokkurinn var formlega stofnaður árið 1992 og hefur aðsetur í Brussel. Samfylkingin er ekki fullgildur meðlimur í flokknum ólíkt flestum evrópskum systurflokkum hennar. Evrópski vinstriflokkurinn. Evrópski vinstriflokkurinn er Evrópuflokkur sem samanstendur af róttækum vinstriflokkum í Evrópu, ýmist kallaðir "vinstriflokkar" eða "kommúnistaflokkar". Hann var stofnaður í Róm árið 2004 og hefur höfuðstöðvar í Brussel. Aðildarflokkarnir bjóða fram til Evrópuþingsins undir sameiginlegum þinghópi með norrænu vinstriflokkunum. Evrópski þjóðarflokkurinn. Evrópski þjóðarflokkurinn er Evrópuflokkur sem samanstendur af frjálshyggjuflokkum í Evrópu, ýmist kallaðir "fólksflokkar", "kristilegir demókrataflokkar" eða "íhaldsflokkar". Hann var stofnaður árið 1976 og hefur aðsetur í Brussel. Flokkurinn er einn tveggja eininga EÞ-ED sem er stærsti þinghópurinn á Evrópuþinginu. Hópar á Evrópuþinginu. Hópar á Evrópuþinginu eru pólitískir hópar sem þingmenn Evrópuþingsins mynda sín á milli. Þeir eru gjarnan myndaðir af einum eða fleirum evrópuflokkum eða sjálfstæðum flokkum og frambjóðendum. Evrópuflokkur. Evrópuflokkar, Evrópskir flokkar eða stjórnmálaflokkar á Evrópustigi eru bandalög stjórnmálaflokka með svipaðar pólitískar skoðanir. Þeir starfa líkt og önnur alþjóðasamtök flokka en einskorðast við Evrópu eins og nafnið gefur til kynna. Þeim má skipta í tvennt: flokka sem fá fjárveitingar frá ESB og flokka sem starfa sjálfstætt. Hátt í 20 slíkir flokkar eru starfandi. Koichi Tanaka. Koichi Tanaka (japanska: 田中 耕一 Tanaka Kōichi) (f. 3. ágúst 1959 í Toyama í Japan) er japanskur nóbelsverðlaunahafi, en hann deildi helmingnum af nóbelsverðlaununum í efnafræði 2002 með John B. Fenn (Kurt Wüthrich hlaut hinn helminginn). Hann hlaut verðlaunin fyrir þróun á massagreiningartækni fyrir risasameindir, en fram að þeim tíma voru einungis smásameindir tækar til greiningar með massagreini. Flugtíma-massagreinar starfa þannig að efnið sem greina á svífur í rafsviði að nema og er massinn metinn út frá sviftímanum. Efnið þarf því að vera bæði hlaðið og í loftkenndu ástandi. Til að massagreining risasameindar á borð við prótín sé möguleg þarf því að jóna sameindina og koma henni í gasfasa, og er það gert með leysigeislun. Sé reynt að jóna risasameindir á þennan hátt, án þess að vernda byggingu þeirra gegn niðurbroti í aflmiklum geislanum, brotna þær niður í stutta búta og massagreiningin verður marklaus. Árið 1985 þróaði Tanaka aðferð þar sem sviflausn af örfínu málmdufti í glýseróli var notuð sem stoðefni (e. "matrix") og var þá mögulegt að jóna prótín með 330 nm leysigeisla án teljandi niðurbrots. Aðferð Tanaka, sem kölluð er SLD (e. "soft laser desorption"), er raunar ekki mikið notuð í dag og hlaut nóbelnefndin nokkra gagnrýni fyrir að hafa veitt Tanaka verðlaunin fremur en Franz Hillenkamp og Michael Karas, en þeir þróuðu svipaða aðferð, MALDI (e. "matrix-assisted laser desorption/ionization") sem nú er mun meira notuð, einkum við greiningu prótínmengja. Þeir Hillenkamp og Karas notuðu þó MALDI aðferðina ekki á risasameindir fyrr en nokkru eftir að Tanaka hafði sýnt fram á notagildi SLD við massagreiningu prótína. Tenglar. Tanaka, Koichi Hreintrúarstefna. Hreintrúarstefna eða púritanismi er heiti sem er notað um enska kalvinsita frá ensku siðbótinni á 16. öld. Þeir lögðu áherslu á aukinn „hreinleika“ átrúnaðar og kenninga kirkjunnar sem og einfeldni og látleysi í lofgjörð. Fyrst um sinn var þetta hreyfing innan ensku biskupakirkjunnar sem vildi gera kirkjuna að öldungakirkju og fjarlægja atriði sem voru álitin pápísk úr almennu bænabókinni frá 1559. Púritanar voru strangari en aðrir kalvínistar innan ensku kirkjunnar, aðhylltust sjálfstjórn kirkjusókna, löghyggju og lögðu áherslu á guðrækilegt líferni. Fæstir þeirra vildu þó aðskilnað frá ensku kirkjunni þar til Jakob 1. Englandskonungur hóf að berjast gegn hreintrúarmönnum í Englandi og William Laud, erkibiskup af Kantaraborg, fór að knýja á um notkun almennu bænabókarinnar og bannaði boðun fyrirhyggju. Þetta leiddi til þess að margir hreintrúarmenn flúðu til Nýja heimsins þar sem þeir stofnuðu Massachusettsflóanýlenduna. Þegar Enska borgarastyrjöldin hófst sneru margir þeirra til baka og gengu í þingherinn. Þegar enska þingið kallaði saman kirkjuþingið í Westminster 1643 náðist ekki samkomulag um stjórn kirkjunnar, hvort hún ætti að vera öldungakirkja, biskupakirkja, sóknarkirkja eða samkvæmt hugmyndum Erastusar um stjórn ríkisins á kirkjunni. Niðurstaðan var að kirkjan skyldi vera öldungakirkja, en Oliver Cromwell skyldaði kirkjuna ekki til að taka upp nýja skipan. Með Stúart-endurreisninni 1660 var skipan kirkjunnar færð aftur til þess horfs sem hún var í fyrir 1643 og hreintrúarmenn hraktir úr ensku biskupakirkjunni. Eftir það var farið að kalla þá utankirkjumenn. Athanasius Kircher. Athanasius Kircher (2. maí 1601 – 28. nóvember 1680) var þýskur jesúíti og fræðimaður helst á sviði austurlandafræði, jarðfræði og læknisfræði. Hann fann líka upp fyrsta gjallarhornið. Hann gerði rannsóknir á fornegypskum helgirúnum og er því talinn upphafsmaður Egyptalandsfræðinnar. Hann var einn af þeim fyrstu sem sáu örverur með hjálp smásjár og var á undan sinni samtíð með því að stinga upp á því að svarti dauði stafaði af örverusmiti. Kircher hefur verið borinn saman við Leonardo da Vinci og kallaður síðasti endurreisnarmaðurinn vegna þess hve verk hans spanna breitt svið. Þórður Jónsson helgi. Þórður Jónsson helgi – eða Þórður góðimaður – (um 1340 – 1385) var íslenskur alþýðumaður sem talinn var heilagur maður eftir að hann var tekinn af lífi. Faðir Þórðar var e.t.v. Jón Pétursson (d. 1355), móðir ókunn. Þórður er talinn hafa búið á Barðaströnd. Á jólum árið 1385 reið Guðmundur Ormsson sýslumaður frá Skarði á Skarðsströnd heim til Þórðar og tók hann höndum. Hann var síðan höggvinn á Krosshólum, eftir dómi Orms Snorrasonar sýslumanns á Skarði. Bein hans voru grafin upp 1389 og flutt í Stafholt í Borgarfirði, „í kirkjugarð, eftir skipan officialis og samþykki allra lærðra manna, og hyggja menn hann helgan mann“. Íslenska kirkjan mun skv. þessu að einhverju leyti hafa viðurkennt Þórð sem dýrling, en fyrst og fremst var um alþýðuhreyfingu vestanlands að ræða. Þórður var talinn góður til áheita. Gatan "Þórðarsveigur" í Grafarholtshverfi í Reykjavík, er kennd við Þórð góðamann. Allmörg örnefni í Borgarfirði, á Mýrum og víðar, eru sennilega dregin af nafni Þórðar góðamanns. Ormur Snorrason. Ormur Snorrason (um 1320 – um 1402) var sýslumaður, lögmaður og hirðstjóri á 14. öld. Hann var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd. Faðir Orms var Snorri Narfason (d. 1332) lögmaður á Skarði. Ormur hefur líklega verið fæddur um 1320. Hann sigldi með Guðmundi bróður sínum 1344 og var Guðmundur þá orðinn sýslumaður; hann hefur sennilega verið heldur eldri en Ormur. Guðmundur var sýslumaður í Snæfellsnessýslu en fórst í siglingu 1354 og tók Ormur við sýslunni eftir lát hans. Ormur varð lögmaður sunnan og austan 1359. Hann fór í norðurreiðina með Smiði Andréssyni hirðstjóra og Jóni skráveifu lögmanni eftir Alþingi 1362, tók þátt í Grundarbardaga varð og fékk þar kirkjugrið. Vísur sem ortar voru eftir bardagann benda til þess að framganga hans þar hafi ekki þótt sérlega hetjuleg. Ormur sigldi, líklega sumarið 1365, og kom aftur árið eftir ásamt Andrési Gíslasyni og höfðu þeir saman fengið hirðstjórn á landinu. Var Ormur hirðstjóri norðan og vestan 1366–1368. Hann var svo aftur lögmaður sunnan og austan 1374–1375. Hans er síðast getið í heimildum árið 1401 og hefur hann líklega dáið skömmu síðar. Ormur var mikill auðmaður og hafði menningarlegan metnað. Hann lét gera tvær af fegurstu skinnbókum sem varðveist hafa hér á landi, þ.e. Skarðsbók Jónsbókar um 1363, og Skarðsbók postulasagna. Þá síðari gaf hann kirkjunni á Skarði að hálfu leyti, en hinn helminginn skyldi bóndinn á Skarði eiga. Í Svíþjóð var til á 17. öld mikil skinnbók, sem kölluð var Bók Orms Snorrasonar, nú kölluð Ormsbók. Í henni voru riddarasögur o.fl. Bókin er talin hafa brunnið árið 1697. Honoré Daumier. Honoré Daumier (26. febrúar 1808 – 10. febrúar 1879) var franskur prentlistamaður, skopmyndateiknari, listmálari og myndhöggvari. Mörg verka hans veita félagslega innsýn inn í franskt samfélag á 19. öld, og eru myndir hans bæði af meiði skopstælinga eða raunsæis. Honoré Daumier hefur oft verið nefndur "Michelangelo skopmyndarinnar". Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er útihátíð sem haldin er árlega í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum um Verslunarmannahelgina. Hátíðin heitir eftir þjóðhátíðinni á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 2. ágúst 1874 þegar slíkar þjóðhátíðir voru haldnar víða um land. Frá 1901 hefur hátíðin verið haldin árlega í ágústmánuði. Í upphafi 20. aldar var hátíðin fyrst og fremst íþróttahátíð þar sem keppt var í kappróðrum, glímu og fleiri íþróttum, líkt og tíðkaðist þá á þjóðhátíðum víða um land. Fyrirrennarar þjóðhátíðar í Herjólfsdal eru kaupstefnur Vestmannaeyinga og erlendra skipa sem haldnar voru þar áður fyrr, hersýningar Heimavarnarliðs Vestmannaeyja sem haldnar voru í dalnum eftir miðja 19. öld og veislur sem Pétur Bryde kaupmaður hélt starfsfólki sínu í Herjólfsdal eftir miðja 19. öld. Pétur kostaði meðal annars endurnýjun vegarins inn í dalinn árið 1859. Dimitar Berbatov. Dimitar Ivanov Berbatov (b. Димитър Иванов Бербатов) (f. 30. janúar 1981 í Blagoevgrad í Búlgaríu) er búlgarskur knattspyrnumaður sem leikur í stöðu framherja hjá enska úrvalsdeilarliðinu Fulham og búlgarska landsliðinu. Hann hefur fjórum sinnum unnið til Búlgörsku verðlaunanna „Leikmaður ársins“. Ferill. Ferill Berbatov byrjaði hjá félaginu "Pirin Blagoevgrad" og hélt áfram þar þangað til þjálfarinn Dimitar Penev kom auga á hann. CSKA Sofia. Þegar Berbatov var 17 ára gamall fetaði hann í fótspor föður síns og fór til félagsins CSKA Sofia. Hann var þar frá 1998 til 2001. Það sama ár skoraði hann 14 mörk í 27 deildarleikjum. Bayer Leverkusen. Markatala hans, 9 mörk í 11 leikjum 2000-2001, tryggði Berbatov samning hjá Bayer Leverkusen í janúar 2001. Fyrsta leiktíð hans hjá Bayer Leverkusen gekk sæmilega en hann skoraði einungis 16 mörk í fyrstu 67 leikjum sínum. Berbatov spilaði hinsvegar stórt hlutverk í meistaradeildarleik á fyrstu leiktíð sinni og skoraði mjög minnisstætt mark gegn Lyon og annað gegn Liverpool í 4 liða úrslitum. Hann kom líka inn sem varamaður á 38. mínútu fyrir Thomas Brdaric í úrslitaleik gegn Real Madrid. Tottenham Hotspurs. Þann 1. júlí 2006 gekk Berbatov svo í raðir úrvalsdeildarliðsins Tottenham Hotspurs fyrir 10,9 milljón punda sem gerði hann að dýrasta búlgarska knattspyrnumanni sögunnar. Berbatov skoraði tvö mörk á tveimur mínútum í fyrsta leik sínum fyrir Tottenham í vinaleik gegn Birmingham City. Manchester United. Þann 1. september 2008 fór Berbatov til Manchester United fyrir um það bil £30.75 million punda og fékk hann þar treyju númer 9, fyrrverandi númer Louis Saha. Berbatov skoraði svo sín fyrstu 2 mörk í 3-0 sigri United í meistaradeildarleik gegn liði Álaborgar, "Aalborg BK". Hann skoraði svo sitt fyrsta deildarmark í 4-0 sigri á West Bromwich Albion þann 18. október 2008. Fulham. Þann 31.ágúst 2012 fór Berbatov til Fulham og skrifaði han undir 2 ára samning en kaupverðið var ekki gefið upp. Berbatov hélt sama treyju númeri og hjá Manchester United eða númer 9. Berbatov, Dimitar Berbatov, Dimitar Airsoft. Airsoft spilendur úti í skóg Airsoft er hernaðaríþrótt og áhugamál sem líkist Paintball, þar sem tvö lið keppa og hvort um sig reynir að útrýma hinu liðinu. Notaðar eru airsoft byssur sem skjóta 6 mm plast kúlum, venjulega 0,2 g – 0,3 g þungar. Airsoft byssur eru skyldar loftbyssum og eru knúnar af þrýstilofti, nema airsoft byssur eru töluvert hættuminni en loftbyssur. Til eru þrjár tegundir af airsoft byssum, hleðslubatterí drifnar, gas drifnar og hlaða fyrir hvert skot. Airsoft leikir eru svokallaðir „milsim“ (military simulation eða hernaðarlíking á íslensku) leikir, þar sem hópur manna klæðist felulitabúningum og nota airsoft byssur sem eru nákvæmar eftirlíkingar af alvöru skotvopnum. Airsoft spilendur vilja hafa það sem raunverulegast. Airsoft má leika hvort sem er innanhúss eða utan. Kæruleysi með airsoft byssur getur valdið vandræðum, til dæmis ef airsoft vopn eru meðhöndluð innan um almenning (sem er stranglega bannað í flestum löndum), þá getur fólk orðið skelkað og haldið að þetta sé ekta skotvopn. Sjónskaðar hafa hlotist af óvarlegri meðhöndlun airsoftvopna ef menn gleyma að nota öryggisgleraugu við meðferð þeirra. Saga. Airsoft á rætur að rekja til Asíu, þar sem skotvopn voru ólögleg í höndum óbreyttra borgara. Airsoft er enn eitt af frægustu íþróttum í Asíu, og eru airsoft byssur mest framleiddar þar: Japan, Kína, Taívan, Hong Kong og í Suður-Kóreu. Airsoft er vinsæl íþrótt í Evrópu og Norður Ameríku. Mikill áhugi á Airsoft er í eftirfarandi löndum: Noregur, Svíþjóð, Færeyjar, Finnland, Danmörk, Þýskaland, Bretland, Frakkland, Eistland, Litháen, Lettland, Pólland, Austurríki, Sviss, Spánn, Ítalía, Tékkland, Írland, Slóvakía, Belgía, Ungverjaland, Króatía, Slóvenía, Portúgal, Búlgaría, Rúmenía, Tyrkland, Serbía, Rússland, Bandaríkin, Kanada og auðvitað á Íslandi, en samkvæmt íslenskum lögum eru eftirlíkingar af vopnum ekki leyfðar og finnst mörgum það vera úr takt við önnur lönd, því hin Norðurlöndin og mestöll Evrópa hafa samþykkt þessa íþrótt. Codex Sinaiticus. Codex Sinaiticus (Skammstafað א (Tischendorf), 01 (Gregory) eða δ2 (Von Soden)) er eitt af þremur elstu handritum sem til eru af biblíunni. Upphaflega hafa bæði Gamla og Nýja testamentið verið í handritinu, en nú vantar um það bil helminginn af Gamla testamentinu. Í handritinu eru einnig Apókrýf rit, og önnur biblíutengd rit, svo sem Bréf Barnabasar og Hirðirinn, eftir Hermas. Uppruni og textagildi. 1 Chr 9,27-10,11 - facsimile (1862) Handritið er skrifað með hástöfum á forngrísku um 350 e.Kr., stuttu eftir að kristni var gerð að ríkistrú í Rómaveldi. Ekki er vitað nákvæmlega hvar það var skrifað en Sesarea í Palestínu (Herbet Milne og T.C.Skeat) og Alexandría í Egyptalandi (Kirsopp Lake) eru þeir staðir sem helst koma til greina. Vitað er að handritið var leiðrétt í Sesareu á fimmtu eða sjöttu öld. Þegar arabar náðu borginni á sitt vald árið 638, varð því sennilega bjargað af flóttamönnum og síðan flutt til Katrínarklaustursins við Sínaífjall í Egyptalandi (á Sínaískaga). Handritið er ein af mikilvægustu heimildunum um hinn alexandríska gríska frumtexta Nýja testamentisins, sem er talinn vera sá sem stendur næst hinum eiginlega frumtexta. Handritið gegnir því mikilvægu hlutverki í útgáfu sameinuðu biblíufélaganna af frumtextanum (Textinn er þekktur sem UBS4 eða NA27). Saga handritsins. Árið 1761 kom ítalskur ferðamaður, Vitaliano Donati, í Katrínarklaustrið á Sínaískaga, og fékk þá að sjá handrit þar, m.a. Codex Sinaiticus. Hann segir frá því í dagbók sinni, sem var þó ekki prentuð fyrr en 1879, eftir að handritið var komið til Vesturlanda. Handritið varð fyrst þekkt á Vesturlöndum 1844, þegar þýski fornfræðingurinn Constantin von Tischendorf fann það og komst yfir 43 blöð úr því. Hann fór með þau til Þýskalands og voru þau gefin Háskólabókasafninu í Leipzig. Tischendorf fór aftur í Katrínarklaustrið árið 1859, á vegum Alexanders 2. Rússakeisara, og fékk hann þá það sem eftir var af handritinu, 346½ blað. Var því komið fyrir í safni í Pétursborg. Árið 1933 vantaði gjaldeyri í rússneska ríkiskassann og var sá hluti handritsins þá seldur Þjóðminjasafni Bretlands í London (nú í Þjóðbókasafni Bretlands – British Library). Árið 1975 fór fram viðgerð á Katrínarklaustrinu og fundust þá 12 blöð úr handritinu í lokuðu rými. Síðan hafa fundist leifar af 14 blöðum í bókbandi annarra handrita í klaustrinu. Loks eru í Pétursborg leifar af 3 blöðum sem rússneski fræðimaðurinn Vladimir N. Beneshevich fann í bókbandi í klaustrinu á árunum 1907–1911. Hlutar af handritinu eru því nú í fjórum löndum. Þótt svo að Tischendorf hafi lengi verið talinn hetja fyrir að bjarga handritinu, hafa undanfarið komið fram greinar sem saka hann um að hafa náð því með brögðum. Ýmislegt virðist benda til þess að upprunaleg saga Tischendorfs, sem m.a. fólst í að munkarnir hafi ætlað að brenna handritið til að halda á sér hita, standist ekki. Hafa fulltrúar klaustursins haldið því fram að hann hafi aðeins fengið handritið lánað til fræðilegra nota. Tilraunir til að fá handritinu skilað hafa ekki borið árangur. Samskiptamáti. Neðanmálsgreinar. Athugið að þessi listi er ekki byggður á neinum vísindalegum könnunum. MSNP (MicroSoft Network Protocol) styðst við HTTP, eins og SOAP. NNTP. NNTP stendur fyrir Network News Transfer Protocol, sem myndi vera NetFrétta Flutnings Samskiptastaðall á íslenzku. SMTP. --SvartMan 15. desember 2008 kl. 13:09 (UTC) Simple Mail Transfer Protocol. Í tölvunarfræði er Simple Mail Transfer Protocol (SMTP) samskiptastaðall til að senda tölvupóst. Gramlitun. Gramlitun er frumulitunaraðferð sem notuð er til að skipta gerlum (bakteríum) í tvo hópa: Gram-jákvæða og Gram-neikvæða gerla. Aðferðin greinir á milli hinna tveggja megin byggingarforma frumuveggja sem finnast meðal baktería og eru þau nefnd eftir litunarsvöruninni (Gram-jákvæðir og Gram-neikvæðir frumuveggir). Einstaka tegundir baktería sýna veika svörun eða breytilega eftir ræktunaraðstæðum og eru þær sagðar ýmist Gram-breytilegar eða óflokkanlegar með Gramlitun. Aðferðin er nefnd eftir danska lækninum og örverufræðingnum Hans Christian Gram, en hann þróaði hana árið 1884 til að greina á milli tveggja sýkla sem valda sýkingum með svipuð sjúkdómseinkenni: "Streptococcus pneumoniae" og "Klebsiella pneumoniae". Notagildi. Gramlitun gagnast við flokkun baktería vegna þess að hún endurspeglar að hluta þróunarsögu þeirra. Þannig eru meðlimir fylkinganna "Firmicutes" og "Actinobacteria" eingöngu með Gram-jákvæða frumuveggi og finnast þeir ekki meðal annarra baktería. Aðferðin er þó aldrei notuð ein og sér við flokkun baktería og hefur raðgreining DNA að miklu leyti leyst hana af hólmi í þessum tilgangi. Litunin er þó enn mikið notuð til sjóngervingar, en ólitaðar bakteríufrumur sjást illa í venjulegri ljóssmásjá. Þó lita megi fyrnur með Gramlitun eru þær ekki flokkaðar eftir Gramsvörun, því hún endurspeglar ekki þróunarsögulegan skyldleika þeirra, enda er bygging frumuveggja í fyrnum nokkuð frábrugðin því sem gerist hjá bakteríum. Kobe Bryant. Kobe Bean Bryant (fæddur 23. ágúst 1978 í Philadelphia) er bandarískur körfuknattleiksmaður. Hann er 1,97 m á hæð og leikur með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni. Hann á 2 börn með konu sinni sem hann giftist árið 2001, foreldrar hans voru á móti giftingunni þar sem hún var ekki afrísk-amerísk. Guttormur J. Guttormsson. Guttormur J. Guttormsson (21. nóvember 1878 – 1966) var vesturíslenskt skáld sem skrifaði auk þess nokkur leikrit. Hann var þrjú ár í barnaskóla en var að öðru leyti sjálfmenntaður. Hann var eitt af helstu skáldum vestur-íslenskum á tuttugustu öld, ásamt Stephan G. Stephansson og Káinn. Guttormur fæddist að Víðivöllum í Nýja-Íslandi og bjó lengst af á föðurleifð sinni. Kvæði hans birtust fyrst í íslenskum vikublöðunum í Kanada, en fyrsta bók hans kom út í Winnipeg árið 1909 og nefndist "Jón Austfirðingur". Heildarútgáfa af ljóðum hans kom út í Reykjavík árið 1947 og nefndist "Kvæðasafn". Guttormur fékkst einnig við leikritaskrif og komu út eftir hann í Reykjavík árið 1930, og nefndist bókin: "Tíu leikrit". Verkamannaflokkurinn (Bretlandi). Verkamannaflokkurinn (enska: "Labour Party") er breskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður árið 1900. Flokkurinn var upphaflega talinn vinstriflokk, en hefur farið nærri miðjunni síðan á tíunda áratugi síðustu öld. Verkamannaflokkurinn býður sig fram til kosninga í neðri deild breska þingsins, í velska og skoska þingunum, í borgarráðum og einnig til þings Evrópusambandsins. Saga. Um tuttugu ár eftir að hann var stofnaður, varð flokkurinn (ásamt Íhaldsflokknum) meðal þeirra tveggja flokka sem nutu mests fylgis í kosningum, og hefur frá þeim tíma verið við völd sex sinnum; í minnihlutastjórn árin 1924 og 1929-1931; í samsteypustjórn ásamt öllum hinum þingflokkum meðan seinni heimstyrjöld stóð yfir; og í meirahlutastjórn árin 1964-1970 og 1974-1979. Nú síðast var flokkurinn við stjórnvöll frá 1997 þegar Tony Blair leiddi flokknum til stórsigurs, hann sigraði síðan í kosningum árin 2001 og 2005. Gordon Brown tók við sem forsætisráðherra árið 2007 en flokkurinn tapaði kosningunum árið 2010. Verkamannaflokkurinn situr nú í stjórnarandstöðu, eftir að samsteypustjórn var mynduð af Íhaldsflokknum og Frjálslynda demókrötum í síðustu kosningum árið 2010. Lögmál Okuns. Lögmál Okuns (e. "Okun's Law") er lögmál sem fjallar um samaband atvinnuleysis og hagvaxtar. Árið 1964 sýndi hagfræðingur Arthur M. Okuns fram á tölfræðilegt samband atvinnuleysis og hagvaxtar í Bandaríkjunum. Þannig bentu bandarísk gögn til þess að fyrir hvert hagvaxtarstig drægist atvinnuleysi saman um 0,3%. Slíkar vísbendingar þóttu hjálplegir mælikvarðar við hagstjórn. Síðari tíma haggögn og rannsóknir hafa leitt í ljós þetta samband er hvorki stöðugt né sambærilegt milli landa en samband atvinnuleysis og hagvaxtar er háð mörgum áhrifaþáttum. Minni hagvöxtur fer ekki alltaf saman með sömu aukningu atvinnuleysis þar sem starfsmenn geta unnið færri tíma eða dregið úr afköstum þegar hægir á efnahagslífinu. Fyrstu viðbrögð við samdrætti er frekari framleiðni minnki en að atvinnuleysi aukist en það tengist meðal annars reglum um vinnuvernd. Einnig er eitthvað um það að þeir sem missa vinnu hverfa af vinnumarkaði og fari ekki á atvinnuleysiskrá. Seinni tíma mælingar á bandarískum haggögnum benda til breyting hafi orðið á sambandinu þannig að atvinnuleysi sé orðið næmara fyrir eftirspurn í hagkerfinu. Marcus Antonius. thumb Marcus Antonius (20. apríl 83 f.Kr. – 1. ágúst 30 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og herforingi. Hann var mikilvægur stuðningsmaður Gaiusar Juliusar Caesars, herforingi hans í Gallíu og frændi hans. Eftir að Caesar var ráðinn af dögum myndaði Antonius stjórnmálasamband við Octavianus og Marcus Aemilius Lepidus og er það gjarnan nefnt þremenningasambandið síðara. Antonius var mestur herforingi þeirra þriggja og átti mestan heiðurinn af sigri þeirra Octavianusar á herjum Brutusar og Cassiusar í orrustunni við Filippí árið 42 f.Kr. Þremenningasambandið rann út árið 33 f.Kr. og ósættir og valdabarátta milli Octavianusar og Antoniusar blossaði upp í borgarastyrjöld árið 31 f.Kr. Floti Octavianusar sigraði sameinaðan flota Antoniusar og Kleópötru drottningar í Egyptalandi í orrustunni við Actíum. Antonius og Kleópatra komust undan til Alexandríu þar sem smávægileg átök urðu milli hers Octavianusar og þeirra fáu hermanna sem eftir voru í liði Antoniusar og Kleópötru. Þegar ljóst var hver málalok voru framdi Antonius sjálfsmorð. Slíkt hið sama gerði Kleópatra skömmu síðar eftir að hafa reynt að semja fyrst við Octavianus. Þar með lauk borgarastyrjöldinni, Octavianus stóð þá eftir sem valdamesti maður Rómaveldis og varð síðar fyrsti keisari heimsveldinsins. Marcus Antonius hafði áður verið kvæntur Octaviu, systur Octavianusar og átti með henni tvær dætur, Antoniu eldri og Antoniu yngri. Antonia yngri var móðir Claudiusar keisara en Antonia eldri var amma Nerós keisara. Delí. Delí (á hindí दिल्ली eða देहली) er næststærsta borg Indlands með yfir 11 milljónir íbúa og er stórborgarsvæði borgarinnar það áttunda stærsta í heimi. Borgin liggur við bakka Yamuna-fljóts á Norður-Indlandi en þar hefur verið byggð síðan á 6. öld f.Kr. Á 13. öld fór Delí að verða miðstöð stjórnmála, verslunar og menningar. Þegar Breska Austur-Indíafélagið náði völdum víða á Indlandi á 18. og 19. öld varð Kalkútta höfuðborg landsins en Georg V Bretlandskonungur kunngerði árið 1911 að höfuðborgin skyldi flutt á ný til Delí. Sunnan gömlu borgarinnar var reist ný höfuðborg, Nýja Delí á 3. áratug 20. aldar. Þegar Indland hlaut sjálfstæði frá Bretum árið 1947 var Nýja Delí gerð að höfuðborg landsins og stjórnsetri. Kolkata. Kolkata (áður Kalkútta) (á indversku: কলকাতা) er borg á Indlandi og höfuðborg Vestur-Bengal á Austur-Indlandi. Á stórborgarsvæði Kalkútta búa um 15 milljónir manna og er það 14. stærsta stórborgarsvæði heims. Kolkata var höfuðborg Indlands fram til ársins 1911. Borgin var eitt sinn miðstöð menntunar, iðnaðar og vísinda, menningar og stjórnmála en frá 1954 hafa ofbeldisfull átök verið tíð í Kolkata. Fátækt og mengun eru mikil í borginni en á 1. áratug 21. aldar hafa orðið efnahagsframfarir og hagvöxtur í Kolkata. São Paulo. São Paulo er stærsta borg Brasilíu en stórborgarsvæðið er það sjöunda stærsta í heimi. Borgin er höfuðborg São Paulo-fylkis, sem er það fjölmennasta í Brasilíu. Borgin er einnig auðugasta borg landsins. Nafn borgarinnar merkir „heilagur Páll“ á portugölsku og vísar til Páls postula. São Paulo er miðstöð verslunar og fjármála sem og lista og menningar. Utanþingsstjórn. Utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum. Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja og stjórna með stuðningi eða hlutleysi löggjafarvaldsins. Þetta felur í sér að stjórnin lætur sér nægja að sjá um daglegan rekstur ríkisins og forðast umdeildar ákvarðanir. Á Íslandi hefur einu sinni setið utanþingsstjórn, ríkisstjórn Björns Þórðarsonar, sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði í kjölfar þess að formenn stjórnmálaflokkanna gátu ekki komið sér saman um myndun ríkisstjórnar. Utanþingsstjórnin sat í tvö ár 1942 til 1944. Nokkrum sinnum síðan hefur myndun utanþingsstjórnar komið til tals og er stundum talað um hana sem svipu sem forseti hefur til að knýja formenn flokkanna til samkomulags. Rjómaís. Rjómaís eða bara ís er eftirréttur gerður úr mjólkurafurðum, eins og mjólk eða rjóma með bragðefni og sætuefni (til dæmis sykri). Blandan er hreyfð hægt til að hindra ísskristal að mynda. Verðleikavara. Verðleikavara eða hollvara er vara sem álitið er að fólk ætti að nota á grundvelli einhvers gildismats annars en þess að hún svari eftirspurn. Það að eitthvað sé verðleikavara er oft nefnt sem ástæða fyrir því að ríkisvaldið eða annar aðili gefi vöruna og réttlæting fyrir því að framboð hennar sé tryggt óháð eftirspurn á markaði. Dæmi um slíkar vörur eru t.d. ýmis heilbrigðisþjónusta, menntun og listir, sem talið er að hafi jákvæð ytri áhrif, þ.e. að fleiri njóta þeirra en neyta þeirra, og sú hugmynd að neytendur meti gæði vöru fremur á grundvelli skammtímasjónarmiða en langtímasjónarmiða sem leiði til minni eftirspurnar eftir verðleikavöru en kostir hennar gefi tilefni til. Andstæðan við verðleikavöru er vara sem talin er óverðug eða óholl þrátt fyrir að næg eftirspurn sé eftir henni. Dæmi um þetta eru t.d. sælgæti, tóbak, áfengi, eiturlyf, vændi og fjárhættuspil, sem eru talin óæskileg á öðrum forsendum en markaðsforsendum. Hugtakið var fyrst sett fram af þýsk-bandaríska hagfræðingnum Richard Musgrave í greininni „A Multiple Theory of Budget Determination“ sem birtist í "FinanzArchiv" árið 1957. Fromage frais. "Fromage frais" eða "fromage blanc" er mjólkurafurð frá Belgíu og Norður-Frakklandi. Nafnið þýðir „ferskur ostur“ ("fromage blanc" þýðir „hvítur ostur“). Hreinn "fromage frais" er nánast fitulaus en oftast er rjóma bætt við til að auka bragðið sem eykur fituinnihaldið. "Fromage frais" er borðaður sem eftirréttur líkur jógúrt, oft með ávöxt, eða sem hluti ljúffengra rétta. Eftirréttur. Eftirréttur er réttur sem kemur undir lokin máltíðar, og er oft sætur en stundum er sterklega bragðbættur (til dæmis ostur). Algengir eftirréttir eru kökur, smákökur, ávextir, vínarbrauð, rjómaís eða sælgæti. Máltíð. Máltíð er tími dags þegar fólk borðar sérstakan mat. Oftast neyta menn máltíða að mestu leyti heima eða á veitingahúsum eða kaffihúsum en máltíða er hægt að neyta hvar sem er. Venjulega neyta menn máltíðar daglega nokkrum sinnum á dag. Stafýlókokkar. Stafýlókokkar (eða haugkúluklasar; fræðiheiti: "Staphylococcus") er ættkvísl Gram-jákvæðra baktería (gerla) sem allar eru af formgerð kokka (kúlugerla). Flokkunarfræði. Ættkvíslinni "Staphylococcus" var áður skipað í ættina "Micrococcaceae" en hefur nú verið skipað í ættina "Staphylococcaceae" innan fylkingarinnar "Firmicutes" en míkrókokkarnir teljast býsna fjarskyldir (eru í fylkingunni "Actinobacteria"). Það var Sir Alexander Ogston, skoskur læknir og prófessor við Háskólann í Aberdeen, sem fyrstur lýsti tegundinni sem í dag kallast "Staphylococcus aureus" og sýndi fram á að hún getur valdið sýkingum í mönnum árið 1880. Hann fann jafnframt upp nafnið "Staphylococcus" og er það samsett úr grísku orðunum σταφυλή ("staphylē"), sem þýðir „þrúgnaklasi“, og κόκκος ("kókkos"), sem þýðir „korn“. Þrátt fyrir þetta er hið opinbera nafn ættkvíslarinnar "Staphylococcus" Rosenbach 1884, eftir Friedrich Rosenbach, en hann var fyrstur til að rækta stafýlókokka í hreinrækt. Þekktum "Staphylococcus" tegundum hefur fjölgað mjög á umliðnum árum og teljast nú 41. Helstu einkennisþættir. Stafýlókokkar mynda kúlulaga frumur, um 0,5 til 1,5 µm að þvermáli sem koma ýmist fyrir stakar, í pörum eða óreglulegum klösum (haugkúluklösum). Flestar tegundir eru valfrjálst loftfælnar og ófrumbjarga (þurfa lífræn efni til vaxtar og viðhalds). Einstaka tegundir eru nauðháð loftfælnar. Flestar tegundir eru katalasa-jákvæðar. Cýtókróm eru venjulega til staðar, en þó gefa flestar tegundir neikvæða svörun við stöðluðu oxidasaprófi. Flestar tegundir eru saltþolnar en þarfnast þó ekki aukalegs salts í ræktunarætinu (eru ekki saltkærar). Saltþolnustu stafýlókokkarnir geta vaxið við saltstyrk allt að 4,5 M. Kjörhitastig til vaxtar er hjá flestum tegundum á bilinu 30 – 37 °C, en þær geta þó vaxið við hitastig allt frá 4 °C til 48 °C, og við sýrustig frá pH 4,0 að 9,8. Raunar er þolni gegn umhverfisbreytum mjög háð öðrum ræktunaraðstæðum. Til dæmis ræðst hitaþolni "S. aureus" mjög af saltstyrk ræktunarætisins. Þó stafýlókokkar myndi ekki dvalargró, þá eru þeir mjög þolnir gegn ýmsum umhverfisöfgum, svo sem afar háum saltstyrk, miklum þurrki, mikilli geislun, háum þrýstingi, o.fl.. Unnt er að rjúfa frumur stafýlókokka með lýsóstafíni, en ekki með lýsósími. Vistfræði. Stafýlókokkar eru algengar gistilífverur á húð og í nefholi blóðheitra hryggdýra og eru sumar þeirra sýklar eða tækifærissýklar, en aðrar álitnar náttúrlegur hluti af sambýlisbíótu manna og dýra. Sumar tegundir finnast gjarnan í mikið verkuðum matvælum, svo sem pylsum, gerjuðum fiskisósum og saltfiski og eru tegundir á borð við "S. xylosus" og "S. saprophyticus" notaðar sem startkúltúrar í gerjun sumra kjötafurða. Sumar tegundir, einkum "S. aureus" framleiða úteitur og geta þannig valdið matareitrunum. Gemella. "Gemella" er ættkvísl Gram-jákvæðra baktería (gerla) sem vaxa best við háan styrk CO2. Þær eru valfrjálst loftfælnar og bæði oxidasa- og katalasa neikvæðar. Þær nota eingöngu gerjandi efnaskipti, ýmist með myndun ediksýru og mjólkursýru eða ediksýru og CO2. Þannig stundar til dæmis "G. haemolysans" mjólkur- og ediksýrumyndandi gerjun ef súrefni er ekki til staðar í æti hennar, en sé súrefni til staðar myndar hún ediksýru og CO2 í jöfnum hlutföllum. Bakteríur af "Gemella" ættkvísl finnast einkum í slímhúðum manna og annarra spendýra, gjarnan í munnholi og ofanverðum meltingarvegi. Moskan í Reykjavík. Moskan í Reykjavík í Ármúla Moskan í Reykjavík er súnní-íslömsk moska sem er í Reykjavík á Íslandi. Moskan var stofnuð árið 2002 að frumkvæði Félags múslima á Íslandi. Árið 2000 var fór félagið þess á leit við borgarstjórn Reykjavíkur byggð yrði moska en engin niðurstaða hefur fengist. Félag múslima á Íslandi greiðir fyrir rekstur moskunnar í Reykjavík sem málin standa. Í moskunni eru föstudagsbænir eða "djúma" og líka bænir að nóttu til. Það eru tveir imamar, Salmann Tamimi, sem er frá Palestínu og er líka forseti félagsins, og hinn annar imam frá Marokkó. Pasta. Pasta er margs konar í laginu Pasta (ítalska: „deig“) er ítölsk núðlutegund sem er gerð úr deigi. Deigið er hnoðað úr hveiti, vatni og/eða eggjum. Með pastanu er oftast höfð einhvers konar sósa og hin ýmsu krydd. Pasta er soðið áður en þess er neytt, og reynt að sjóða það þannig að það sé smá „bit“ í því, að það „taki við tönn“ svo að segja eða það sem ítalir nefna "al dente". Ofsoðið pasta á Ítalíu er ekki talið mannamatur. Ítalir borða pastað yfirleitt alltaf heitt. Köld pastasalöt komu fyrst fram í Bandaríkjunum en hafa öðlast mikla útbreiðslu á síðari árum. Í fyrstu þekktust ekki aðrar pastategundir á Íslandi en spaghettí, sem jafnan var borðað með tómatsósu og oftast líka steiktu kjöthakki, og makkarónur, sem oftast voru notaðar í mjólkursúpu. Orðið „pasta“ varð ekki algengt fyrr en á níunda áratug tuttugustu aldar. Orðið „makkarónur“ var á árunum þar á undan lengi haft um pasta. Það er til um það bil 350 pastalaganir, til dæmis spaghettí (aflangir, þunnir sívalningar), makkaróna (oftast lítil rör), fúsillí (gormundið pasta) og lasagna (blöð). Það er tvær aðaltegundir af pasta: þurrt eða ferskt. Geymsluþol pasta getur verið allt að nokkur ár en veltur helst á því hvort pastað inniheldur egg eður ei. Saga. Það er talið að fyrir fleiri en hundruð árum hafi fólk verið byrjað að nota og borða pasta. Pasta er og hefur lengi verið vinsæll matur. Það er talið að í byrjun hafi pasta verið borðað með soðnum lauk, hvítlauk og næpum. Pastað var borðað af öllum stéttum þjóðfélagsins. Það var ekki fyrir en síðmiðöldum að byrjað var að borða pasta með tómatsósu eða tómatmauki. Á fyrstu öld f.Kr. í skrifum Horatiusar, lagana voru fín blöð af deigi sem voru steikt og var hversdagsmatur. Í ritum frá 2. öld nefnir Aþenajos frá Nákratis uppskrift af lagana sem svipar til lýsingar Krýsipposar frá Tayana frá 1. öld: blöð af deigi sem voru búin til úr hveiti og safa úr mörðu salati, síðan bragðbætt með kryddi og síðan djúpsteiki í olíu. Heimildir eru um uppskriftabók síðan frá 5. öld sem lýsir rétti sem kallast lagana og inniheldur lög af deigi með kjötfyllingu og gæti hugsanlega verið eins og við þekkjum í nútímanum lasgnea. Hins vegar virðist aðferðin við að elda þessar deigplötur ekki líkjast okkar aðferðum í nútímanum hvort sem þær eru ferskar eða þurrkaðar pastaplötur, sem aðeins er sama innihald og ef til vill sömu lögun. Fyrstu upplýsingar um pastavörur á dögum Ítalu eru frá 13. og 14. öld. Sagnfræðingar hafa ekki margar upplýsingar um pasta, að minnsta kosti engar sem breyta aðal einkennum þess. Til dæmis í verkum gríska heimspekingsins Galenosar nefnir hann itrion, sem var búið til úr hveiti og vatni. Í Talmud-ritunum frá Jerúsalem stendur að itrium væri eins konar soðið deig, sem var mjög vinsælt í Ísrael frá 3. öld fram á 5. öld eftir Krist. Orðabók sem var unnin var af arabískum lækni á 9. öld sem hét Isho bar Ali og nefnir hann þar itriyya, sem er eins og band í lögun og búið til úr semolínu (hveiti) og þurrkað áður en það er eldað. Í landfræðilegum texta sem Muhammad al-Idrisi safnaði saman fyrir Roger II, hinn normannska konung Sikileyjar, árið 1154 nefnir hann itriyya sem er framleitt og flutt frá Sikiley. Vestur af Termini er byggð sem kallast Trabia. Mikið um rennandi læki og mikið af millum. Þar eru stórar byggingar í sveitnni þar sem þeir framleiða mikið magn af itriyya sem er flutt víðsvegar til Calabríu, til múslimskra og kristinna landa. Mörg skipfermi eru send til landanna. Itriyya svipar oftast til tagitelle og trenette, langar ræmur. Eitt form af itriyya sem hefur langa sögu er laganum, (fleirtala af lagana), sem er latína og vísar í þunnt blað af deigi og vísar þannig til ítlasks lasagnega. Samkvæmt Charles Perry, aðlöguðu Arabarnir núðlur fyrir lengri ferðir á fimmtu öld og eru það fyrstu skráðu heimildirnar um þurtt pasta. Druum hveiti pasta hvað kynnt Aröbum af Líbýumönnum við sigur þeirra á Sikiley seint á 7. öld. Þurrt pasta var framleitt í miklu magni í Palermo á sama tíma. Sikileyingar nefndu eins og við þekkjum í dag makkarónur sem er hnoðað með durum hveiti með valdi. Í Norður-Afríku var til matur sem þótti líkjast pasta þekt sem kúskús, hefður það verði borðað í margar aldir. Hins vegar skortir kúskúsið áferðina og útlitið hjá pastanu, kúskús er meira eins og einn dropi af deginu. Í fyrstu var þurrt pasta munaðarvara á Ítalíu vegna hversu lengi þurfti að hnoða hveitið og semolíuna saman. Aðeins eftir inðnbyltinguna í Napólí, þegar vélar unnu störf manna og hægt var að gera framleiða stóra skammta í einu af pastanum, hafði alþýðan efni á að kaupa pasta og varð það mjög vinsælt meðal þeirra stéttar. Á 14. og 15. öld varð þurkað pasta mjög vinsælt vegna hversu auðvelt var að geyma það. Þetta hafði upp á að bjóða að fólk gat geymt þurrt pasta í skipum sínum þegar það var að kanna nýja heiminn. Öld síðar, var pastað með í för með landkönnuðum sem voru að uppgvöta heiminn. Á 16. öld uppgvötuðu spánverjar tómata sem nýtt hráefni í pasta sósuna. Áður en tómatsósan kom til söguna þá var pasta borðað þurrt með fingrunum og var ekki þörf fyrir hnífapör. Hins vegar ef notast var við sósu þá voru notuð hnífapör útaf almennum mannasiðum. Á Ítalíu er maður stundum sagður vera pasta af manni (essere una pasta d'uomo) en það er lýsandi fyrir mikilvægi pastans í ítalskri matarhefð. Konur að vinna við pastagerð Saga pasta framleiðslunnar. Pasta hefur verið framleitt síðan um 1600 á ströndum San Remo. Pressan sem notuð er til að móta pastað býr til mikið magn af eins pasta. Talið er að áferðin og lögunin sé mun betri heldur en þetta væri gert í höndunum. Þessi tækni breiddist út til annarra héraða á Ítalíu og má þar nefna Genúu, Apúlíu, Brindisi, Bari og Toskana. Árið 1867, Buitoni fyrirtækið sem var staðsett í Tíberdalnum varð eitt árangursríkasta og þektasta pasta fyrirtækið í heiminum. Tegundir pasta. Gult, Rautt og Grænt pasta Það eru til ótal margar gerðir af pasta til (skrúfur, rör, ræmur og fleira) og fer það eftir því hverju sinni hvað maður ætlar að elda hverju sinni, hvað er þá best að nota. Til dæmis er gott að nota skrúfur og rör í pasta með þykkum sósum og flatar núðlur eða spaghettí er gott að nota til dæmis við gerð sjávarréttapasta. En þegar pastaréttir eru gerðir fyrir þá sem eru að hugsa um hollustuna er betra að hafa pastað í lágmarki og grænmetið eða það aðal innihald sem er verið að nota það sinnið í aðalhlutverki. Pasta er tegund matar sem við getum neytt án þesss að hafa nein sérstök vandamál með líkamsþunga. En hvað bragð varðar er pasta sú tegund hráefnis sem auðvelt er að útfæra á nánast hina óendanlegu máta. Pasta er lagað út hveiti og vatni, oftast eru einnig notuð egg sem gefur dýpra bragð og meiri orku. Hveitið er oftast venjulegt hveiti eða durum hveiti. Pasta er eitt af grunnefnum við matreiðslu nútímans þar sem það inniheldur hveiti. Verksmiðjulagað pasta er oftast vítamínbætt. Það er bæði til ferkst pasta og þurrkað pasta. Ferkst pasta er eins og nafnið gefur til kynna ferskvara. Þannig pasta ætti gjarnan að geima með yfirbreiðslu, stykki. Þannig er hægt að geyma pasta í nokkra daga án þess að það mygli en það verður þá að geyma pastað í kæli. Bragðið er dýpra og áferðin mýkri í fersku pasta. Ef lagað er ferskt pasta verður að láta það þorna að utan svo það klístrist ekki saman. Þurrkað pasta er þægilegt sem lagervara og skal geyma á þurrum stað, helst á köldum stað þá geymist pastað lengi. Pasta þýðir deig, pasta er einnig nafn á ólíkum tegundum af mótun pastans tengt lögun. Til eru ótal tegundir og mótun pastans. Það sem við þekkjum einna helst er spaghettí og makkarónur. En að hluta til er bragðið einnig bundið lögun pastans. Venjulegt ófyllt pasta er til í mörgum mismunandi formum og er kallað mörgum misjöfnum nöfnum. Það sem er einna erfiðast að skilja er að hinar mörgu tegundir af pasta fylltar og ófylltar og ganga undir mismunandi heitum eftir því í hvaða hluta Ítalíu þær eru framleiddar og eða borðaðar. Það er hægt að fá pasta í mörgum litum. Pastadegið er hægt að útfæra á marga misjafna máta bæði hvað varðar lit og bragð. Það sem er mest notað við pastagerð er spínat og tómatar eða rauðbeða. Næringargildi. Það eru nokkrir heilsukostir við að neyta pasta og þó sérstaklega heilhveitipasta. Í pastanu eru kolvetni sem líkaminn nýtir sér á frekar löngum tíma miðað við orkuþörf. Það er oft talað um að fólk borði pasta áður en það fer í íþróttir, þá aðalega hlauparar. Pasta gefur íþróttafólki aukna orku svo eru aðrir sem borða til dæmis spelt pasta. Með pasta er hægt að útbúa alls konar rétti hvort sem þeir eru hollir eða óhollir. Sagt er að kolvetni séu helsti orkugjafi líkamans og gefur fjórar hitaeiningar fyrir hvert gramm. Kolvetni skiptast í einföld kolvetni og flókin kolvetni, hvítt pasta er í einföldum kolvetnum og heilhveiti pasta er í flóknum kolvetnum. Í heilhveiti pastanu er einnig lítið magn af vítamínum til dæmis járn, sink, magnesíum, kalk og fleira. Pasta er mælt með fyrir grænmetisætur þar sem pastað inniheldur mikið af próteini. Algeng nöfn á pasta: Tortiglioni, taglitelle, gnocchi, spagetti, capelli, lasagne, makaroni. Matreiðsla. hægt að elda girnilega pastarétti Í heimalandi pastans Ítalíu eru fyrst og fremst notuð fersk krydd við matargerðina en þurkuð krydd ganga líka. Basilika er einna mest notað í ítölsku eldhúsi. Parmesan er líka mikið notað með pasta. Pasta passar með næstum öllum mat, hægt er að skipta út kartöflum og grjónum og setja pasta í staðinn. Pastað er hægt að útfæra á margan hátt og um að gera að vera hugmyndarík/ur. Alþjóðleg aðlögun. Þegar Pasta var kynnt fyrir heiminum var það aðlagað mörgum mismunandi eldunaraðferðum sem oft höfðu mjög ólíkar leiðir til að undirbúa það heldur en viðgangengust á Ítalíu. Rómverjar til forna elduðu pastað með því að sjóða það eða steikja það á pönnu, þeir notuðu einnig hunang til að fá sætara bragð af því. Þeim fannst einnig gott að baka pastað í bökum sem kallast timballi. í Cha chaan teng eru makkarónurnar soðnar í vatni og bornar fram með soði og skinku eða franfurter pylsum, baunum, svörtum sveppum og ef til vill eggjum, svipað og núðlusúpa. Þessi réttur er oft notaður sem morgunverður eða léttur hádegisverður. Tveir algengir spaghettí réttir sem boðið er upp á í Japan eru Bolignese og Napolitan. Á Indlandi hafa makkarónur rutt sér til rúms og eru eldaðar á indverskan máta, soðnar makkarónur eru snögg steiktar ásamt kúmen, túrmerik, fínt söxuðu chilli, lauk og káli. Á Grikklandi er Hilopittes talin ein besta tegund þurrkaðs eggja pasta. Það er eldað annaðhvort í tómatsósu eða með ýmiss konar kjöti. Yfirleitt er það svo börið fram með grískum osti. Pasta er einnig útbreidd vara í Argentínu og Brasilíu, einkumm á svæðum sem hafa ítalskar rætur eins og Buenos Aires og São Paulo. Nöfn á pastategnundum eru útgáfur á ítölsku nöfnunum svo sem ñoquis/nhoque fyrir gnocchi, ravioles/ravióli fyrir ravioli og tallarines/talharim fyrir tagliatelle. Í Svíþjóð sem og flestum norðurlöndunum er spaghettí jafnan borið fram með köttfärssås eða Bolognese sósu sem er þykk tómatssúpa með hökkuðu kjöti. Útgáfa Íslendinga af þessu er spaghettí borið fram með steiktu hakki og tómatsósu. á Filipseyjum er pasta oftast borið fram með sérstakri, sætri en þó bragðmikilli kjötsósu sem inniheldur gjarnan niðurskornar pylsur. Fettuccine Alfredo með rjóma, osti og smjöri og spaghettí með tómatsósu (með eða án kjöts) eru mjög vinsælir pastaréttir í Bandaríkjunum. Í Ástralíu er boscaiola pasta-sósa uppáhald landans en grunnur hennar er beikon og sveppir. Drykkur. Drykkur er vökvi til neyslu fyrir menn til að slökkva þorsta, til næringar, eða sem neytt er til skemmtunar eða afþreingar. Flestir drykkir eru að mestu vatn og orðið „drykkur“ getur líka verið notað til að lýsa áfengum drykkjum. Stundum eru súpa og jógúrt kölluð drykkir. Deig. Deig er óbökuð blanda af mjöli og vökva með margvíslegu öðru hráefni. Að hnoða deigið er fyrsti áfangi þess að búa til meðal annars brauð, pasta, núðlur, vínarbrauð, smákökur. Soppa er þunnt fljótandi deig eins og t.d. er notað í pönnukökubakstur. Jöfn hringhreyfing. Hraðinn v og hröðunin a í jafnri hringhreyfingu með millibili ω; hraðinn og hröðinin eru jöfn og vísar hröðunin alltaf að miðju hringsins. Jöfn hringhreyfing kallast hringhreyfing hlutar, sem fer með jöfnum hraða eftir hringferli. Hábeinn Heppni. Hábeinn Heppni er persóna úr Andabæ. Hann kom fyrst fram í sögu eftir Carl Barks árið 1948. Hann er frændi Andrésar Andar og Jóakims Aðalandar. Hábeinn Heppni er alltaf heppinn, eins og nafnið gefur til kynna, hvað sem hann tekur sér fyrir hendur. Þó kemur það einstaka sinnum fyrir að hann er óheppinn en það er mjög sjaldan og þá er ástæðan ærin. Hábeinn Heppni kemur oft fyrir í sögunum um Andrés Önd. Forledrar Hábeins heita Andrea Önd og Andoníus Önd Spaghettí. Spaghettí (stundum spagettí) eða hveitilengja er aflöng og þunn pastategund frá Ítalíu. Ýmsar pastamáltíðir miðast við spaghettí, t.d. spaghettíi með osti og svartum pipar eða hvítlauk og ólífuolíu eða spaghettí með tómat, kjöt eða öðrum sósum. Spaghettí er gert úr símiljumjöli og vatni. Orðið „spaghettí“ er komið af ítalska orðinu "spaghetti" sem er fleirtölumynd af "spaghetto" sem er smækkunarorð af "spago" sem þýðir „þunnur strengur, seglgarn“. Þess vegna þýðir orðið "spaghetti" bókstaflega „litlir strengir“. Á íslensku hefur spaghettí stundum verið kallað "englabellir" eða "pottormar" í hálfkæringi. Ólífuolía. Ólífuolía er olía sem er unnin úr ólífum, berjum ólífutrésins ("Olea europaea") og er hefðbundin landbúnaðarafurð í löndunum umhverfis Miðjarðarhafið; Portúgal, Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Króatíu, Grikklandi, Tyrklandi, Líbanon, Ísrael og Palestínu. Ólífutréð er upphaflega frá Litlu Asíu. Ólífuolía er meðal annars notuð í matargerð, snyrtivörur, lyf, sápur og sem eldsneyti fyrir olíulampa. 750 milljónir ólífutrjáa eru ræktuð árlega og eru 95% þeirra umhverfis Miðjarðarhafið. Megnið af heimsframleiðslunni er frá Suður-Evrópu, Norður-Afríku og Austurlöndum nær. Árið 2006 var heimsframleiðslan 2,8 milljónir tonna og voru 40–45% frá Spáni sem er stærsti framleiðandi ólífuolíu í heimi. Gæðastaðlar. Alþjóðlega ólífuolíuráðið (IOOC) er alþjóðastofnun með 23 aðildarríki og höfuðstöðvar í Madríd á Spáni. Ráðið vinnur að alþjóðlegri markaðssetningu ólífuolíunnar og fylgist með framleiðslu hennar í aðildarlöndunum þar sem það reynir að framfylgja gæðastöðlum. Meira en 85% af ólífuolíu heimsins kemur frá aðildarlöndum IOOC. Merkingar á umbúðum ólífuolíu geta snúist um landfræðilegan uppruna hennar, framleiðsluaðferð, sýruinnihald og bragð. Í löndum innan IOOC er yfirleitt alltaf kveðið á um sýruinnihald á umbúðum (mælt sem hlutfall af þyngd) þar sem mikið magn óbundinna einómettaðra fitusýra veldur þráabragði í olíunni. Í Evrópusambandinu eru nokkrar verndaðar upprunamerkingar fyrir ólífuolíu. Gæðaflokkar. "* Þessar olíur er óheimilt að selja beint til neytenda í Evrópusambandinu." Mozzarella. Ferskur mozzarella er yfirleitt hvítur en getur verið gulleitur og fer eftir mataræði dýrsins. Mozzarella er mjúkur ostur og inniheldur mikinn vökva og því er hann yfirleitt snæddur samdægurs. Hann geymist þó ágætlega í saltvatni í eina viku. Nokkrar tegundir mozzarella eru notaðar á pítsur og í lasagna. Insalata Caprese er salat sem inniheldur mozzarella, niðursneidda tómata og basilíku. Pönnukaka. Pönnukaka er örþunn kaka úr hveiti, eggjum og mjólk. Úr þessum afurðum er búin til soppa. Pönnukökur eru oftast bakaðar á pönnu, annaðhvort á skaftpönnu eða frístandandi rafmagnspönnu. Íslensku pönnukökur eru oftast borðaðar með strásykri eða sultu og þeyttum rjóma. Pönnukökur eru til í flestum nágrannalöndum okkar en þar eru þær oftast þykkari en þær íslensku og minna jafnvel á lummur. Uppskrift. Til eru margar uppskriftir að pönnukökum. Eftirfarandi uppskrift er fengin úr bók Helgu Sigurðardóttur. Þessu er öllu hrært vel saman í þunna hræru. Gott er að nota þeytara til þess. Bakað á pönnukökupönnu við góðan hita. Pönnukökurnar má vefja upp með sykri eða sýrópi. Einnig er afar vinsælt að bera þær fram með þeyttum rjóma og berjasultu. Pönnukökubakstur á þermur pönnum í einu. Miðsóknarafl. Miðsóknarkraftur er kraftur, sem heldur hlut á hringhreyfingu. Miðsóknarkraftur hlutar í jafnri hringhreyfingu er með fasta stærð, en stefnir inn að miðju hringsins. Gagnkraftur miðsókarkrafts kallast miðflóttaafl. Héruð Kína. Héruð Kína eru hæstu stjórnsýslueiningar innan Alþýðulýðveldisins Kína. Þau eru alls 33 talsins (Tævan ekki meðtalið) og skiptast í fjórar gerðir. Hérað. Venjuleg héruð (省) eru algengasta tegundin, 22 talsins. Þeim er stjórnað af "héraðsnefnd" þar sem "ritari" nefndarinnar er æðstur manna. Sjálfstjórnarhérað. Sjálfstjórnarhéruðin (自治区) eru fimm talsins. Þau hafa takmarkaða heimastjórn. Borghérað. Borghéruð Kína (直辖市) eða "Sveitarfélög á héraðsstigi" eru fjögur talsins en þar samanstendur héraðið yfirleitt af einni mjög stórri borg. Sérstjórnarhérað. Sérstjórnarhéruðin (特别行政区, beint "sérstakt stjórnsýslusvæði"; enska: "Special Administrative Region"; portúgalska: "Região especial administrativa") eru tvö, bæði fyrrverandi evrópskar nýlendur. Þau hafa eigin stjórnarskrá, ríkisstjórn, gjaldmiðil og viðhalda landamæraeftirliti við Kína sem og önnur lönd. Gagnkraftur. Gagnkraftur er kraftur, sem skilgreindur er í þriðja lögmáli Newtons, með "gagntaki", þ.e. gefið er að tiltekinn kraftur ("átak") verki á hlut, en þá verkar jafnframt annar jafn stór kraftur, "gagntak", með gagnstæða stefnu. Dæmi: Gagnkraftur miðsókarkrafts kallast "miðflóttaafl". Hornhraði. Hornhraði er heiti á hraða hringhreyfingar, táknuðum með ω. SI-mælieining: radían á sekúndu (rad/s). Stefna vigurs hornhraðans er þvert á sléttu hringhreyfingarinnar og ákvarðast skv. "hægrihandarreglu". Hornhraðinn 2π rad/s samsvarar horntíðninni einum "hring á sekúndu". þar sem r er staðsetningarvigur, v hraðavigur og X táknar krossmargfeldi. þar sem θ er hornið milli r og v. Ef r og v eru hornréttir með fasta stærð r og v fæst ω = v/r. Hringhreyfing, með fasta stærð hornhraðans, kallast jöfn hringhreyfing. Hverfitregða. Hverfitregða er mælikvarði á tregðu hlutar í hringhreyfingu, táknuð með "I". SI-mælieining er kg m2. þar sem formula_3 er hverfiþungi og formula_4 hornhraði. Hringhreyfing. Hringhreyfing er hreyfing hlutar eftir hringferli. Hringhreyfing, þar sem hlutur fer með föstum hraða kallast jöfn hringhreyfing. Myndbrigði. Myndbrigði eða allómorf er í málvísindum afbrigði af myndönum. Myndbrigði gerist þegar maður ber fram orð eða hljóð á annan máta án að merkingin breytist. Hljóðbrigði. Hljóðbrigði eða allófón er í málvísindum afbrigði af hljóðönum. Hljóðbrigði gerist þegar maður ber fram bókstaf á annan máta í mismunandi orðum. Snúningsvægi. Snúningsvægi eða vægi (stundum kallað "móment") er tilhneiging krafts, sem verkar á hlut, að snúa honum um snúningsás, oft táknað með "τ". SI-mælieining: N m = kg m2 s-2. Snúningsvægi getur einnig verkað á hlut, sem eru kyrr, en þá gildir að summa allra snúningsvægja, sem á hlutinn verka, er núll. Greinilegt er að hverfinþungi varðveitist ("L" = fasti) þegar ytra snúningsvægi er núll. þar sem θ er hornið milli krafts og snúningsarms. Mosfellsheiði. Mosfellsheiði er heiði sem liggur milli Esju og Henglafjalla á Vesturlandi. Hæsti punktur á heiðinni eru Borgarhólar 410 metrar yfir sjávarmáli. Um heiðina liggja margar gamlar þjóðleiðir og Þingvallavegur kemur þar upp úr Mosfellsdal sem gengur inn í heiðina vestan megin og liggur til Þingvalla. Flugslys. a> er eitt frægasta flugslys allra tíma. Flugslys er slys á fólki eða flugvél sem á sér stað í flugi, við flugtak eða lendingu fljúgandi farartækis. Flugslys eru hlutfallslega fátíð en vegna þess hve tjónið getur orðið mikið vekja þau ævinlega mikla athygli. Stuðmenn. Stuðmenn er íslensk rokkhljómsveit stofnuð árið 1970 í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Fyrsta smáskífa sveitarinnar, "Honey, will you marry me?", kom þó ekki út fyrr en árið 1974. Upprunalegir meðlimir hljómsveitarinnar voru Jakob Frímann Magnússon, Valgeir Guðjónsson, Gylfi Kristinsson og Ragnar Danielsen.Stuðmenn tóku upp "Sumar á Sýrlandi" sem kom út sumarið 1975 og sló rækilega í gegn. Þá höfðu gengið til liðs við sveitina þeir Tómas Tómasson, Egill Ólafsson og Sigurður Bjóla. Platan var sett upp sem hálfgildings konseptplata sem lýsti á gamansaman hátt þróun skemmtanamenningar Íslendinga úr brennivínsmenningu í hippamenningu. Ári síðar fylgdu þeir henni eftir með "Tívolí" sem var meira hreinræktað og pólitískt konseptverk og varð líka gríðarvinsæl. Þá hafði Þórður Árnason gítarleikari gengið til liðs við Stuðmenn. 1978 stofnuðu Egill, Tómas, Ásgeir Óskarsson og Þórður Árnason framúrstefnurokksveitina Þursaflokkinn sem gaf út fjórar hljómplötur á næstu fjórum árum. Valgeir hélt til Noregs í nám og Jakob var búsettur í London og síðar Los Angeles þar sem hann hljóðritaði nokkrar sólóplötur, m.a. fyrir Warner Brothers, Capitol og Golden Boy, sem hann fylgdi eftir með tónleikaferðum auk þess að hljóðrita og leika á tónleikum með hljómsveit Long John Baldry, Kevin Ayers o.fl. 1982 gerðu Stuðmenn kvikmyndina "Með allt á hreinu" ásamt pönkhljómsveitinni Grýlunum í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar. Kvikmyndin sló í gegn og hljómplata með lögum úr myndinni varð ekki síður vinsæl. Tveimur árum síðar gerði hljómsveitin kvikmyndina "Hvítir mávar" þar sem dýpra var á húmornum, enda náði hún ekki að slá við vinsældum fyrri myndarinnar þótt lögin úr henni yrðu mörg feykivinsæl, svo sem lagið „Búkalú“ sem var mánuðum saman í efstu sætum vinsældalista. 1984 hélt hljómsveitin fræga útihátíð í Atlavík þar sem Ringo Starr kom fram. 1986 hélt hljómsveitin í tónleikaferð til Kínaí boði kínversku stjórnarinnar. Rætt var um að Stuðmenn hefðu verið önnur vestræna popphljómsveitin sem hélt tónleika í Kína á eftir hljómsveitinni Wham!. Hljómsveitin kom fram á tólf tónleikum. Heimildarmyndin "Strax í Kína" var gerð um ferðina. Eftir Kína-ævintýrið tók við nokkuð hlé þar sem meðlimir hljómsveitarinnar einbeittu sér að eigin verkefnum. 1987 innleiddu Stuðmenn söngvarakeppnina Látúnsbarkann, eins konar forvera Idol-keppninnar og sama ár kom út "Á gæsaveiðum". Eftir útgáfu þeirrar plötu dró Valgeir sig út úr hljómsveitinni´næstu tvo áratugi. 1989 kom út "Listin að lifa" og 1990 "Hve glöð er vor æska". Eftir það tók aftur við hlé þar til út komu "Ærlegt sumarfrí", "Hvílík þjóð!","EP+" 1997 og 1998. Samstarfsverkefni Stuðmanna og Karlakórsins Fóstbræðra, tónleikaplatan Íslenskir karlmenn sló öll sölumet árið 1998, en skífan seldist í 25.000 eintökum. Eftir aldamótin hafa m.a. komið út stór safnplata "Tvöfalda bítið", hljómleikaplatan "Á stóra sviðinu" og hljómplatan "Á Hlíðarenda". 2004 gerðu Stuðmenn síðan framhald af kvikmyndinni "Með allt á hreinu", "Í takt við tímann", með Ágústi Guðmundssyni og hljómsveitinni Quarashi. Samnefnd plata kom út sama ár. Árið 2004 lék hljómsveitin m.a. í Tívolí í Kaupmannahöfn, 2005 í Royal Albert Hall í London, 2006 í Jazz Philharmonic Hall í St. Pétursborg og 2007 í Circus í Kaupmannahöfn. Vorið 2009 kom hljómsveitin fram á minningartónleikum tileinkuðum Rúnari Júlíussyni í Laugardalshöll. Auk stofnendnanna Jakobs og Valgeirs var hljómsveitin þar skipuð hrynparinu Tómasi og Ásgeiri, gítarleikaranum Ómari Guðjónssyni og tveimur ungum forsöngvurum, Stefaníu Svavarsdóttur og Eyþóri Inga Gunnlaugssyni. Sá síðastnefndi er nafni hljómborðs- og slagverksleikarans Eyþórs Gunnarssonar sem starfað hefur með Stuðmönnum frá 1998. Í maí 2009 gáfu Stuðmenn út smáskífu sem var tileinkuð Rúnari Júlíussyni samhliða því að flytja lokalag handknattleikskvikmyndarinnar Gott silfur gulli betra. Skriðþungi. Skriðþungi eða hreyfimagn er mælikvarði á tregðu hlutar á hreyfingu við breytingar á hraða, þ.e. ferð og stefnu. Oft táknaður með "p". SI-mælieining: kg ms-1 eða N s. þar sem "m" er massi hlutar og v hraðavigur. Annað lögmál Newtons skilgreinir kraft, sem verkar á hlut, sem fyrstu tímaafleiðu skriðþungans þ.e. Varðveisla skriðþunga. Þegar enginn ytri kraftur verkar á kerfi þá verður engin tímabreyting á skriðþunga og hann er því varðveittur. Þetta nýtist í eldflaugum þannig að þær losa sig við hluta af farminum og minnka þar með massann, en vegna varðveislu skriðþungans eykst þá hraðinn að sama skapi. Miðflóttaafl. Miðflóttaafl eða miðflóttakraftur kallast gagnkraftur miðsóknarkrafts, sem saman halda hlutum á hringhreyfingu. Í jafnri hringhreyfingu eru þessir tveir kraftar alltaf jafn stórir, en með gagnstæðar stefnur. Í hnitakerfum, sem ekki eru tregðukerfi, birtist miðflóttaafl gjarnan sem gervikraftur. Gervikraftur. Gervikraftur í eðlisfræði kallast sú hröðun, sem verður í kerfi sem ekki er tregðukerfi og birtist athuganda sem kraftur (skv. 2. lögmáli Newtons, F=ma). Gervikraftar hafa enga sjálfstæða tilvist heldur eru þeir háðir hnitakerfinu, sem þeim er lýst með, t.d. svigkraftur jarðar ("corioliskraftur"). Pestó. Pestó er sósuþykkni sem oftast er kennt við Genúa á Norður-Ítalíu ("pesto alla genovese"). Talið er að pestósósa sé persnesk að uppruna en hún er nú órjúfanlega tengd við Ítalíu og sérstaklega Genúaborg. Heitið er dregið af ítölsku sögninni: "pestare" („að mala“) sem vísar til malaðs hvítlauks og krydds. "Pesto alla genovese" er gert úr basilíku frá Genúaborg, salti, hvítlauki, og líka hreinni ólífuolíu, evrópskum furuhnetum og röspuðum hörðum osti eins og Parmigiano-Reggiano, (Grana Padano, Pecorino Sardo eða Pecorino Romano). Þegar pestó var búið til í fyrstu var notað marmaramortél og tréstautur. Basilíkulauf voru þvegin, þurrkuð og möluð saman í mortélinu með hvítlauk og grófgert salt. Síðan var blandan möluð saman þangað til hún varð þykkni. Þá var furuhnetunum bætt út í. Þegar hneturnar höfðu blandast saman við þykknið, var ostur raspaður út í og ólifuolíu bætt við. Pestó er yfirleitt notað með pasta (lasagna, strozzapreti eða trenette) og stundum í grænmetissúpu ("minestrone"). Mikilvægt er að elda pestó aldrei af því basilíka í því verður bitur þegar hún er hituð. Mortél. Mortél (áður fyrr einnig nefnt mortér eða mortari og gamalt nýyrði var steytill) er ílát úr málmi, steini (t.d. marmara) eða harðviði og er notað til þess að mylja hörð efni t.d. krydd og er það gert með sérstökum stauti eða hnalli. Talað er um að "steyta" t.d. pipar. Í "Matreiðslubók handa ungu fólki á öllum aldri", eftir Sigrúnu Davíðsdóttur segir að rifjárn, mortél og kryddkvörn séu mikilsverð hjálpartæki við matargerð. Áður fyrr notuðu lyfsalar og listmálarar mikið mortél við vinnu sína. Lyfsalar steyttu saman efnum í lyf sín og listmálarar blönduðu saman litarefnum til að ná rétta litblænum. LOLCODE. LOLCODE er forritunarmál ætlað þröngum hópi sem var blásið í brjóst af Internetbrandaranum lolcat. Forritunarmálið var búið til árið 2007 af Adam Lindsay, rannsóknarmanni við tölvudeild háskólans í Lancaster. Ytri tenglar. LOLCODE Sigrún Björnsdóttir. Sigrún Björnsdóttir (f. 1956) er íslenskt ljóðskáld. Hún hefur gefið út tvær ljóðabækur: "Næturfæðing" (2002) og "Blóðeyjar" (2008). Einnig hafa birst eftir hana ljóð í tímaritum og safnritum. Ljóðið Fótsterk er á ljóðavef Jónasar Hallgrímssonar Tíbet. Tíbet er land í Asíu. Vegna þess hve landið liggur óvenjulega hátt yfir sjávarmáli er það oft kallað „þak heimsins“. Höfuðborg Tíbets er Lasa. Í Tíbet hallast íbúarnir að tíbetskum búddisma. Höfundarrangur. Höfundarrangur er lagaákvæði sem segir að óhöfundarréttavarið efni skuli ávallt vera óhöfundarréttarvarið. Manska. Manska eða Manar-gelíska (manska: "Gaelg" eða "Gailck", borið fram: "ɡilg" eða "ɡilk", – enska: "Manx" eða "Manks") er keltneskt tungumál sem talað var á eynni Mön í Írlandshafi, en dó út 1974. Málið er náskylt írsku og skoskri gelísku, auk þess sem greinileg áhrif eru úr norrænu. Verið er að reyna að endurreisa málið. Saga málsins. Á 18. öld var Manar-gelíska lifandi tungumál sem meginhluti íbúanna talaði, eða um 20.000 manns. Kaflaskil urðu árið 1765, þegar Englendingar lögðu Mön formlega undir sig og fóru að beita stjórnmálalegri og félagslegri kúgun í eigin þágu, m.a. með því að þröngva ensku upp á íbúana. Árið 1899 var stofnað félag til að viðhalda málinu, Gelíska félagið á Mön ("Yn Cheshaght Ghailckagh"). Við manntal árið 1901 töldust 9,1% íbúanna tala mönsku, en þá var svo komið að varla nokkur þeirra var yngri en 50 ára. Árið 1946 tókst að finna 20 aldraða menn sem töluðu málið, og beitti Gelíska félagið sér fyrir því að næstu árin voru gerðar segulbandsupptökur til þess að varðveita framburðinn og önnur einkenni málsins. Árið 1974 dó Ned Maddrell, sá síðasti sem talaði mönsku sem móðurmál. Meginhluti örnefna á eynni Mön eru gelísk, þó að talsvert sé þar einnig af nöfnum af norrænum uppruna, t.d. Snaefell = Snæfell og Tynewald eða Tinvaal = Þingvellir. Mjög algengt er að bæjanöfn á Mön byrji á Balla- sem merkir býli, t.d. Ballabeg = Litlibær og Ballamore = Miklibær. Endurreisn málsins. Hópur áhugamanna hefur verið að reyna að endurvekja málið, og var það um 1991 talað sem annað mál af um 700 manns á eynni, en alls búa þar um 80.000 manns. Frá árinu 1992 hafa allir skólar á Mön gefið kost á námskeiðum í mönsku, og sóttu um 1.400 nemendur slík námskeið fyrsta árið. Auk þess hefur verið komið upp fimm leikskólum ("Mooinjer Veggey") og tveimur alþýðuskólum ("Bunscoill Ghaelgagh" og "Scoill Balley Cottier"), þar sem kennt er á mönsku. Í manntali árið 2001 voru 1.689 einstaklingar taldir geta talað, lesið eða skrifað Manar-gelísku, en ekki var lagt mat á kunnáttu þeirra. Engu að síður er nú að alast upp hópur barna sem talar mönsku sem móðurmál. Við endurreisn málsins er stuðst við prentuð rit og segulbandsupptökur frá því um miðja 20. öld. Manska sem ritmál. Elstu rit á mönsku eru frá 17. öld. Fremur litlar bókmenntir eru til á málinu. Árið 1610 lét John Philipps biskup þýða bænabók á mönsku. Til er langt fornkvæði um sögu eyjarinnar, skráð á 18. öld, en það er talið samið um miðja 16. öld. Meginhluti bókmennta á mönsku eru þjóðsögur, frásagnir og ljóð sem skráð hafa verið á 19. og 20. öld. Guðbrandur Þorláksson þeirra Manarbúa hét Thomas Wilson (1663-1755) biskup og stjórnmálamaður. Hann gaf út barnalærdómskver á Manar-gelísku 1707, og var það fyrsta bók prentuð á málinu. Árið 1722 fékk hann menn til að þýða Biblíuna, og luku þeir guðspjöllunum og postulasögunni, en aðeins Matteusarguðspjall var prentað 1748. Eftirmaður hans Mark Hildesley lauk verkinu; Nýja testamentið kom út 1767, og Biblían í heild 1772. Jón Ögmundarson. Jón biskup helgi með bók og biskupsstaf. – Mynd úr íslensku handriti frá 19. öld. Jón Ögmundarson – eða Jón Ögmundsson – (1052 – 23. apríl 1121), fyrsti biskup á Hólum í Hjaltadal. Jón var sonur hjónanna Ögmundar Þorkelssonar og Þorgerðar Egilsdóttur, en þau bjuggu á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Jón lærði fyrst hjá Ísleifi biskupi Gissurarsyni í Skálholti og hélt svo til frekara náms í Danmörku og Noregi. Hann varð samferða Sæmundi fróða Sigfússyni er þeir komu til landsins að loknu námi ytra. Biskup á Hólum. Jón bjó á Breiðabólstað þegar hann var tekinn til biskups á Hólum, fyrstur manna. Hafði Gissur biskup Ísleifsson þar hönd í bagga að því er sagt er. Jón fór utan eftir tilnefninguna og hélt til Rómar á fund páfa, sem gaf út skipun um að hann skyldi vígður til biskups. Hann var vígður 29. apríl 1106. Jón gerðist brátt umsvifamikill og lét mjög til sín taka í embættinu. Meðal þess sem hann kom til leiðar í embætti eru íslensku daganöfnin, en hann lét taka upp þau daganöfn, sem enn eru notuð í stað hinna fornu, sem hann taldi hafa heiðinn blæ. Jón rak skóla á Hólum og hélt þar erlenda kennara. Um Jón var rituð saga, Jóns saga Hólabiskups eða Jóns saga helga, sem segir frá ævi og störfum biskupsins og mannlífi á Hólastað. Jón var tvíkvæntur en átti ekki börn. Á alþingi var tekin upp helgi hans árið 1200, en hún hefur aldrei verið staðfest af páfastóli. Jón er verndari Kristskirkju í Reykjavík, og í kaþólsku kirkjunni á Íslandi er messudagur hans 3. mars, en þann dag voru bein hans tekin úr jörðu. Hann er sömuleiðis sagður helgur maður í dýrlingatali kaþólsku kirkjunnar í Noregi, þar minnst 23. apríl. Haraldur Sverrisson. Haraldur Sverrisson er bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Haraldur tók við bæjarstjórastólnum af Ragnheiði Ríkharðsdóttur 31. ágúst 2007. Græni bananakakkalakkinn. Græni bananakakkalakkinn (fræðiheiti: "Panchlora nivea") er lítil kakkalakkategund. Heimkynni. Græni bananakakkalakkinn fyrirfinnst á Kúbu og eyjum í Karíbahafi og meðfram Mexíkóflóa frá Flórída til Texas, en hefur þó sést allt að Charleston í Suður-Karólínu við vesturstrendur Atlantshafsins. Tengundin heldur sig við utandyra og telst því ekki meðal þeirra kakkalakka sem eru meindýr. Fullvaxta dýrin halda sig í runnum, trjám og öðrum jurtum en gyðlurnar fyrirfinnast oft undir drumbum og meðal annars grots. Tegundin laðast að björtum ljósum og er næturdýr. Líkamsbygging. Kvendýrið verður fullvaxta allt að 24 mm langt en karldýrið styttra eða 12-15 mm langt. Tegundin er grænleit með gular línur upp eftir síðunum. Hún er búin vængjum og sterk á flugi og einnig góð í klifri. Gyðlurnar eru brúnar eða svartar og grafa sig í jörð. Loftfælni. Loftfælni eða loftfirrð er eiginleiki lífvera, notaður við flokkun þeirra í örverufræði. Lífvera er sögð loftfælin ef hún leggur stund á loftfirrð efnaskipti og þarf því ekki súrefni til vaxtar og viðhalds, eða getur jafnvel ekki þrifist í nærveru súrefnis. Flokkun. Örloftháðar lífverur teljast ekki til loftfælinna lífvera þar sem þær nota súrefni til efnaskipta og eru háðar því. Þær þola hins vegar ekki að það sé til staðar í of miklu magni (meira en fáein µM). Loftfælnar lífverur er að finna hvar sem næringarríkt en súrefnissnautt umhverfi er að finna. Dæmi um slíkt umhverfi má finna í mýrlendi og í þörmum dýra. Knesset. Knesset (hebreska: כנסת‎, arabíska: الكنيست‎) er þing Ísrael og er staðsett í Givat Ram hverfinu í Jerúsalem. Givat Ram. Givat Ram (hebreska: גבעת רם‎) er hverfi í miðri Jerúsalemborg. Þing Ísraelsmanna, Knesset, sem og stjórnsýsluskrifstofur landsins eru staðsett í Givat Ram, ásamt til dæmis hæstarétti þess og Binyanei HaUma ráðstefnumiðstöðinni. Michelle Bachelet. Verónica Michelle Bachelet Jeria (fædd 29. september 1951) er chileskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti Chile. Hún er jafnframt fyrsta konan til að gegna því embætti. Juan Fernández-eyjar. Juan Fernández eyjurnar er eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi, um 667 kílómetra undan strönd Chile. Desventuradaseyjar. Desventuradaseyjar eru smár eyjaklasi um 870 kílómetra undan ströndum Chile. Hverfisgata 4-6a. Hverfisgata 4 - 6a er þriggja hæða skrifstofubygging á Hverfisgötu þar sem skrifstofur forsætisráðuneytisins, auk Þingvallanefndar eru meðal annars til húsa. Þingvallanefnd. Þingvallanefnd er nefnd á vegum Alþingis sem ætlað er að fara með yfirstjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þingvallanefnd varð til þegar Þingvellir voru friðlýstir með sérstökum lögum, sem samþykkt voru á Alþingi 7. maí 1928. Meðal verksviða nefndarinnar er að ráða þjóðgarðsvörð, sem annast daglegan rekstur og ræður annað starfsfólk. Nefndin fjallar oft um sumarbústaðabyggð, leyfi til bygginga og brot á samþykktum. Nefndin. Í nefndina eru aðalmenn: Álfheiður Ingadóttir formaður, Björgvin G. Sigurðsson varaformaður, Ragnheiður E. Árnadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Atli Gíslason og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Varamenn þeirra eru: Oddný G. Harðardóttir, Jón Gunnarsson, Þuríður Backman, Helgi Hjörvar, Vigdís Hauksdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Árni Johnsen. Sumarbústaðir á Þingvöllum. Þingvellir eru þjóðgarður og "friðlýstur helgistaður allra Íslendinga". Lóðum var samt sem áður úthlutað við vatnið suður af Hótel Valhöll og þykir líklegt að Þingvallanefndir hafi sætt miklum þrýstingi að úthluta lóðum við vatnið, enda þótti snemma mikið stöðutákn að eiga þar bústað. Frá árinu 1928 og fram yfir síðari heimsstyrjöld var þessum sumarbústaðalöndum í þjóðgarðinum úthlutað. Þá var úthlutað landi undir sumarbústaði á Gjábakka í byrjun áttunda áratugarins, en vegna mikilla mótmæla risu aðeins átta bústaðir þar og úthlutanir voru dregnar til baka. Til að fría sig skaðabótakröfum bauð Þingvallanefnd þeim sem höfðu fengið úthlutað lóðum nýjar lóðir á Kárastaðanesi. Margir tóku þann kostinn, en árið 1974 var það gefið út að ekki yrðu úthlutaðar fleiri sumarbústaðalóðir í þjóðgarðinum. Josef Fritzl. Josef Fritzl (f. 9. apríl 1935) er austurískur verkfræðingur. Hann komst í heimsfréttirnar þegar komst upp að hann hafði árum saman haldið dóttur sinni fanginni í kjallara húss sins og misnotað hana kynferðislega, nauðgað henni og beitt hana ofbeldi. Hann gat henni 7 börn (sem urðu þá bæði börn og barnabörn hans). Josef var einnig kærður og dæmdur fyrir nauðga 24 ára konu, árið 1967. Steingrímur Njálsson. Steingrímur Njálsson (fæddur 21. apríl 1942, dáinn 13. maí 2013) var íslenskur síbrotamaður. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og kynferðislega misnotkun á drengjum, ölvunarakstur, þjófnað og fleira. Á 9. áratugnum fóru fjölmiðlar að fjalla um brotaferil hans og persónulega hagi og hefur sú umfjöllun vakið mikla reiði hjá íslensku þjóðinni, sem hefur valdið því að Steingrími er víðast illa tekið og hafa meðal annars verið unnin skemmdarverk á eigum hans og hann beittur líkamlegu ofbeldi. Fjallað var um brotaferil hans í sjónvarpsþættinum Sönnum íslenskum sakamálum árið 2002. Baltnesk tungumál. Baltnesk tungumál eru ætt indóevrópskt tungumál sem samanstendur af baltneskunum tungumálinum lettnesku og litháísku og önnur útdauð tungumál sem töluð voru á svæðinu. Telúgú. Telúgú er dravídamál talað af um 50 milljónum á suðaustur Indlandi einkum í fylkinu Andra Pradess þar sem það hefur opinbera stöðu. Ritað með sérstöku stafrófi sem heimidir eru til um frá 7. öld en eiginlegar bókmenntir hafa varðveist á því frá 11. öld. Púndjabí. Púndjabí er indóaríst mál talað af um 70 milljónum manna á Indlandi og í Pakistan. Í Pakistan er það ritað með arabísku stafrófi en á Indlandi með svonefndu gúrmúkí-stafrófi. Kósalí. Kósalí er indóíranskt mál talað af um 20 milljónum í Madhíafylki á Indlandi. Kartvelsk mál. Kartvelsk mál eða suður-kákasísk mál eru málaflokkur innan kákasískra mála. Georgíska er helst kartvelskra mála en hin eru mingrelíska, svaníska, zaníska og lasíska. Kanaríska. Kanaríska er dravídamál. Mælendur er um 30 milljónir við Karnataka á Indlandi. Mark Hughes. Leslie Mark Hughes (fæddur 1. nóvember 1963) er knattspyrnustjóri Queen Park Rangers. Mark Hughes er frá Wales en hann spilaði 72 landsleiki fyrir þjóðina sína og skoraði 16 mörk. Hann spilaði sem framherji fyrir lið eins og Manchester United, Barcelona, Bayern Munchen, Chelsea og Everton. Á ferli sínum skoraði hann 163 mörk í 606 leikjum. Eftir að ferli hans lauk hóf hann þjálfaraferil sinn með því að taka við velska landsliðinu en hann þjálfaði það frá 1999-2004. Þess má geta að hann hætti árið 2002 að spila knattspyrnu, þremur árum eftir að hann hóf þjálfaraferil sinn. Sem þjálfari hefur hann þjálfað Blackburn Rovers, Manchester City, Fulham og nú loks Queens Park Rangers. Jeotgalicoccus. "Jeotgalicoccus" er ættkvísl Gram-jákvæðra, valfrjálst loftfælinna og saltþolinna eða saltkærra baktería (gerla). Ættkvíslin dregur nafn sitt af kóresku fiskisósunni "jeotgal", en úr slíkri sósu voru gerlar þessir fyrst einangraðir. Postuli. Jesús og postularnir við síðustu kvöldmáltíðina. Jesús segir að einn þeirra muni svíkja sig. Postuli – yfirleitt postularnir tólf – (gríska: απόστολος/"apóstolos" = sendiboði, boðberi) voru tólf lærisveinar Jesú Krists, sem hann sendi út til að kristna heimsbyggðina. Lærisveinarnir tólf. Strangt til tekið urðu lærisveinarnir ekki postular fyrr en eftir upprisu Krists (á hvítasunnu), og því er Júdas Ískaríot ekki talinn meðal postulanna. Tólfti postulinn. Eftir að Júdas Ískaríot sveik Krist og hengdi sig, voru postularnir aðeins ellefu. Samkvæmt Postulasögunni 1:23-26, ákváðu þeir sem eftir voru að útnefna nýjan postula. Þeir vörpuðu hlutkesti um það (fyrir hvítasunnu) og kom upp nafn Matthíasar postula. Þó að Matthías hafi verið valinn tólfti postulinn, er Páll postuli yfirleitt talinn sá tólfti, skv. gamalli hefð. Hann var ekki einn af lærisveinum Krists. Hann var farísei sem vann gegn Jesú, en varð fyrir vitrun og gerðist einn ötulasti talsmaður kristindómsins. Hann kallar sjálfan sig postula, sjá t.d. Rómverjabréfið 1:1 í Biblíunni. Aðrir postular. Í Hebreabréfinu er Jesús sagður fyrsti postulinn. Í Postulasögunni er Barnabas kallaður postuli. Georgískt larí. Larí (georgíska: ლარი; ISO 4217:GEL) er opinber gjaldmiðill Georgíu. Jangún. Jangún (búrmíska: ရန်ကုန်မြို့; enska: Yangon) er stærsta borg Mjanmar og fyrrverandi höfuðborg. Hún stendur við mót "Bagoár" og "Jangúnár" skammt frá Martabanflóa í Andamanhafi. Íbúar eru um fjórar milljónir. Mandalay. Mandalay er næststærsta borg Mjanmar og höfuðborg samnefnds héraðs í norðurhluta landsins. Hún stendur við Ayeyarvady og var höfuðborg landsins áður en Bretar hertóku hana árið 1885. Íbúar eru tæp milljón. Stjórnlagaþing Ítalíu. Stjórnlagaþing Ítalíu var stjórnlagaþing sem boðað var til eftir frelsun Ítalíu til að setja landinu nýja stjórnarskrá eftir síðari heimsstyrjöldina og hrun fasistastjórnarinnar 1943. Kosningarnar til þingsins fóru fram 2. júní 1946 og um leið fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort landið skyldi vera áfram konungsríki eða lýðveldi. Þetta voru fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu frá árinu 1924 og fyrstu kosningarnar þar sem kosningaréttur var almennur þannig að allir, 21 árs og eldri, bæði karlar og konur, höfðu kosningarétt. Mynd sem sýnir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um konungdæmið eftir héruðum. Stuðningur var miklu meiri við konungdæmið á Mið- og Suður-Ítalíu en Norður-Ítalíu. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu þau að 12,7 milljónir völdu lýðveldið en 10,7 konungdæmið þannig að Úmbertó 2. hélt í útlegð 13. júní 1946 ásamt fjölskyldu sinni. 18. júní lýsti stjórnlagadómstóllinn yfir afnámi konungdæmisins og stofnun lýðveldis. Þingkosningarnar voru hlutfallskosning eftir listum. Í kosningalögunum var gert ráð fyrir 573 fulltrúum, en sökum þess að kosningar gátu ekki farið fram í hlutum Bolzano, Trieste og Venezia Giulia þar sem þessi svæði voru ekki undir stjórn Ítala, voru aðeins 552 fulltrúar kjörnir. Kosningarnar fóru þannig að kristilegir demókratar fengu yfir 35% atkvæða og 207 fulltrúa, sósíalistar fengu tæp 21% og 115 fulltrúa, kommúnistar fengu 19% og 104 fulltrúa og frjálslyndir tæp 7% og 41 fulltrúa. Aðrir flokkar fengu 89 fulltrúa. Stjórnlagaþingið var sett 25. júní 1946 undir forsæti Giuseppe Saragat. Fyrsta verk þingsins var að kjósa tímabundinn ríkisstjóra þar til forsetakosningar gætu farið fram. Frjálslyndi stjórnmálamaðurinn Enrico de Nicola var kjörinn með miklum mun. Helsta hlutverk þingsins var að semja nýja stjórnarskrá og var því skipuð 75 þingmanna stjórnarskrárnefnd til að semja drög. Nefndin lauk störfum í janúar 1947. Umræður um texta stjórnarskrárinnar stóðu síðan frá mars þar til hún var að lokum staðfest 22. desember 1947. Auk þessa veitti stjórnlagaþingið 2., 3. og 4. ríkisstjórn De Gasperis stuðning, samþykkti fjárlög fyrir árin 1947 og 1948 og staðfesti friðarsamningana í París 10. febrúar 1947. 18. apríl 1948 voru fyrstu þingkosningarnar haldnar samkvæmt hinni nýju stjórnarskrá og fyrsta löggjafarþing lýðveldisins var sett 8. maí. Gogoyoko. Gogoyoko er íslenskt sprotafyrirtæki sem stendur á bavkið netsamfélagið og tónlistarveituna www.gogoyoko.com. Á gogoyoko.com geta tónlistarmenn og plötuútgáfur komið tónlist sinni á framfæri á alþjóðamarkaði, án milliliða. Tónlistaráhugamenn geta keypt tónlist beint frá listamönnum sjálfum, sem og plötuútgáfum, og hlustað á tónlist án greiðslu. Síðan er janframt vettvangur samskipta milli notenda og listamanna, sem líkja má við samfélagsvefi á borð við MySpace og Facebook. Höfuðstöðvar Gogoyoko voru til að byrja með í Árbæ í Reykjavík, en í byrjun 2009 flutti fyrirtækið í Mörkina. Í september 2010 flutti Gogoyoko á Hverfisgötu 18. Starfsemi þess fer einnig fram í Þýskalandi, Noregi, og Bretlandi. Gogoyoko.com opnaði á netinu í lokuðu prufunar-umhverfi, svokallaðri 'Alpha test' útgáfu, þann 15. nóvember 2008. Í Maí 2009 opnaði gogoyoko.com í 'Beta' prufunar-umhverfi og nokkrum dögum síðar var síðan opnuð listamönnum og almenningi á Íslandi. Stefnt er á opnun síðunnar á alþjóðavettvangi síðar árið 2009 og 2010. Bakgrunnur Gogoyoko. Gogoyoko var stofnað í Nóvember 2007 af tónlistarmönnunum Hauki Magnússyni og Pétri Úlfi Einarssyni, sem vildu búa til nýjan vettvang fyrir sig og aðra tónlistarmenn til koma tónlist sinni á framfæri á alþjóðavettvangi — og hafa jafnframt tekjur af verkum sínum. Reynir Harðarson, einn stofnenda CCP, er janframt einn af stofnendum Gogoyoko og situr í stjórn fyrirtækisins. Samkvæmt heimasíðu Gogoyoko var það reynsla stofnendanna af því að selja tónlist sína og koma henni á framfæri á alþjóðavettvangi, þar sem milliliðir tóku stóran hluti af kökunni og stjórn listamannanna á eigin verkum var lítil sem engin, sem varð til þess að þeir settu Gogoyoko á laggirnar. Sérstaða Gogoyoko. Í viðtali á Visir.is sagði Eldar Ástþórsson, fyrrverandi, talsmaður Gogoyoko að aðstandendur síðunnar ætli sér að koma fram með nýjar hugmyndir um hvernig tónlist er seld og dreifð á netinu. Í greininni kemur fram að Gogoyoko muni sameina eiginleika vefsíðna eins og Last Fm, Itunes og Myspace, en einnig bjóða upp á nýja eiginleika. „Það er mjög hörð samkeppni í þessu en enginn er að gera það sama og við. Við gerum okkur grein fyrir sérstöðu okkar og erum fullir sjálfstrausts. Við verðum að koma með eitthvað nýtt sem gagnast bæði neytendum og tónlistarfólki. Við gætum alveg eins gleymt þessu ef við gerðum það ekki.“ Á Gogoyoko geta listamenn og rétthafar tónlistar ákveðið verð á lögum og plötum og fylgst með sölunni í rauntíma. Þeir fá einnig hluta af þeim auglýsingatekjum sem skapast á Gogoyoko, í samræmi við spilun á verkum sínum. Samkvæmt heimasíðu Gogoyoko er gert ráð fyrir að listamenn og rétthafar tónlistar fái 40% af auglýsingatekjum og „byltingarkenndan“ skerf af sölu tónlistar — þar sem hægt er að stunda milliliðalaus viðskipi og engin söluþóknun tekin, aðeins þjónustu- og færslugjöld („transaction fees“). Ralph Simon, stjórnarformaður Mobilium Advisory Group og stofnandi útgáfufyrirtækjanna Zomba group and Jive Records, hefur verið áhugasamur um þróun og hugmyndafræði Gogoyoko. Eftir heimsókn sína til Reykjavík á You're in Control ráðstefnuna í október 2008 lýsti hann yfir hrifningu sinni á síðunni í grein sinni 'Hot Topics in Iceland at You Are in Control Conference' fyrir vefrit MIDEM ráðstefnunnar. Góðgerðarmál. Góðgerðarmál eru hluti af hugmyndafræði Gogoyoko og renna 10% af auglýsingatekjum fyrirtækisins til alþjóðlegra samtaka sem vinna á sviði góðgerðar- og umhverfismála. Notendur og listamenn eru jafnframt hvattir til að láta gott af sér leiða, listamenn geta gefið 10% sölu tónlistar sinnar til málefnis að eigin vali. Ekkert hefur enn verið gefið upp um hvaða samtök Gogoyoko vinnur með eða hvaða málefni notendur síðunnar og listamenn hennar geta stutt við. Í ágúst 2009 setti íslenska hljómsveitin múm út plötu sína 'Sing Along to Songs You Don't Know' í sölu á gogoyoko.com þar sem 10# af sölu plötunnar rann til samtakana Refugee United. Nafnið. Ekkert er sagt til um það á heimasíðu Gogoyoko hvaðan nafn síðunnar og fyrirtækisins kemur. Höfundar greinarinnar 'Gogoyokio — Fair play in music' velta því fyrir sér hvort nafnið sé sótt til Yoko Ono, ekkju John Lennons, sem átti sinn þátt í endalokum Bítlana og að með ljóðrænum hætti sé verið sé að vísa til endaloka tónlistariðnaðarins eins og við þekkjum hann í dag, og þar með nýja byrjun? Í viðtali við Markaðinn, sérblað Fréttablaðsins, segir Haukur Magnússon einn stofnenda Gogoyoko, að nafnið sé ekki vísun í ákveðna persónu og að „nafnið hafi marga vinkla“. „Í fyrsta lagi er mjög hressandi að skrifa það á lyklaborð, með sínum fjóru o-um. Það hefur vísun í gógó-gelluna og hvatningarorðin GOGO - að framkvæma sjálfur í staðinn fyrir að sitja úti í horni og væla.“ Hvað tenginguna við Yoko Ono varðar segir Haukur; „Það er náttúrulega mjög músíkalskt. Yoko er táknmynd skemmtilegra hluta, eins og friðar og góðgerðarstarfsemi...“ Spænska erfðastríðið. Spænska erfðastríðið var styrjöld í Evrópu sem stóð frá 1701 til 1714. Orsök styrjaldarinnar var möguleg sameining Spánar og Frakklands undir einum konungi af ætt Búrbóna sem hefði raskað valdajafnvægi Evrópu. Þetta varð til þess að hið Heilaga rómverska ríki, Bretland og Holland auk Savoja, Prússlands og Portúgals gerðu með sér bandalag gegn Spáni og Frakklandi. Spænsku ríkiserfðirnar. Andlát Karls 2. Spánarkonungs hratt styrjöldinni af stað. Það hafði lengi verið ljóst að Karl 2. Spánarkonungur myndi ekki ríkja lengi og myndi ekki eignast afkomendur vegna veikinda hans. Það voru einkum hin austurríska grein Habsborgara og franska konungsættin, Búrbónar, sem tókust á um ríkiserfðir á Spáni að Karli látnum. Loðvík erfðaprins (1661-1711) var sá sem átti mest tilkall til spænsku krúnunnar þar sem hann var eini lögmæti sonur Loðvíks 14. og spænsku prinsessunnar Maríu Teresu sem var eldri hálfsystir Karls. Auk þess var föðuramma hans Anna frá Austurríki systir Filippusar 4. föður Karls. Bæði María og Anna höfðu samt gefið eftir allt tilkall til ríkiserfða þegar þær giftust og auk þess var Loðvík ríkisarfi í Frakklandi sem hefði þýtt konungssamband milli heimsveldanna tveggja. Hinn möguleikinn var Leópold 1. keisari hins Heilaga rómverska ríkis af ætt Habsborgara. Hann og karl voru systkinabörn þar sem móðir hans var líka systir Filippusar 4. Að auki hafði Filippus í erfðaskrá sinni látið ríkiserfðirnar ganga til austurrísku Habsborgaranna. Þessi leið var líka vandkvæðum háð þar sem hún hefði endurreist hið gríðarmikla veldi Habsborgara sem síðast var undir einni stjórn á 16. öld á tímum Karls 5.. Þriðji möguleikinn var Jósef Ferdinand af Bæjaralandi sem var barnabarn Leópolds í kvenlegg þannig að hann tilheyrði ekki Habsborgurum heldur Wittelsbach-ættinni. Hann var því mun vænlegri kandídat þar sem valdataka hans fól í sér litla hættu á sameiningu við Frakkland eða keisaradæmið. Aðdragandi stríðs. Við lok Níu ára stríðsins 1697 komust Bretar og Frakkar að samkomulagi um að Jósef yrði ríkisarfi á Spáni en að hlutum spænska ríkisins í Evrópu yrði skipt. Spænska stjórnin mótmælti þessu og Karl 2. gerði erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Jósef Ferdinand að öllum löndum Spánar, ekki bara þeim sem Frakkar og Bretar vildu að hann fengi. Furstinn dó hins vegar úr bólusótt árið 1699 og vandamálið kom því aftur upp. England og Frakkland gerðu því nýtt samkomulag þar sem Karl erkihertogi var útnefndur ríkisarfi en lönd Spánar á Ítalíu gengu til Frakklands. Austurríkismenn voru ósáttir við þetta fyrirkomulag því þeir ásældust Ítalíu fremur en Spán. Andstaðan var jafnvel enn meiri á Spáni og að lokum samþykkti Karl 2. að útnefna Filippus, næstelsta son Loðvíks ríkisarfa, erfingja sinn. Frakkar, að áeggjan utanríkisráðherrans Jean-Baptiste Colbert af Torcy, féllust á þennan ráðahag þótt það myndi óhjákvæmilega kosta stríð við Austurríkismenn. Karl 2. lést 1. nóvember 1700 og 24. nóvember lýsti Loðvík 14. Filippus af Anjou konung spænska heimsveldisins. Vilhjálmur 3. Englandskonungur gat ekki farið í stríð við Frakka þar sem hann skorti stuðning innanlands og féllst því treglega á þennan ráðahag árið 1701. Loðvík gekk hins vegar of langt í því að tryggja yfirráð Frakka þegar hann bannaði verslun milli Spánar og Englands og Hollands. Bretar gerðu þá samkomulag við Hollendinga og Austurríkismenn þar sem þeir sættust á að Filippus yrði Spánarkonungur, en að spænsku héruðin á Ítalíu skyldu ganga til Austurríkis auk Spænsku Niðurlanda. Nokkrum dögum síðar lést Jakob 2. Englandskonungur í útlegð í Frakklandi og Loðvík lýsti því yfir að sonur hans Jakob Frans Stúart væri réttmætur konungur Englands. Þetta hafði þau áhrif á almenningsálitið í Englandi að Vilhjálmur fékk þann stuðning sem hann þurfti til að undirbúa stríð við Frakka. Hollendingar höfðu þá þegar tekið til við að koma sér upp her. Stríðið. Stríðið hófst á því að Austurríkismenn undir stjórn Evgeníusar af Savoja gerðu innrás á Ítalíu 1702. Þrátt fyrir stærri her tókst Frökkum ekki að hrekja þá þaðan. Anna Englandsdrottning sem tók við völdum eftir lát Vilhjálms 1702 hélt stríðsundirbúningi áfram og það ár leiddi John Churchill hertogi af Marlborough sameinaðan her Breta, Hollendinga og Þjóðverja gegnum Niðurlönd. 1704 ákváðu Frakkar að halda með fransk-bæverskan her til Vínarborgar. Marlborough hélt þá með sína heri gegnum Þýskaland um leið og Evgeníus hélt sínum her í norðurátt. Herirnir mættust í orrustunni við Blenheim þar sem Englendingar, Hollendingar og Austurríkismenn unnu afgerandi sigur. Afleiðingin var sú að Bæjaraland dró sig út úr styrjöldinni. Brátt voru Frakkar hraktir frá Ítalíu, Spænsku Niðurlöndum og Þýskalandi og þungamiðja styrjaldarinnar fluttist til Spánar. Ósigrar Frakka í styrjöldinni gerðu það að verkum að landið var á barmi hruns og Loðvík neyddist til að semja um frið. Hann samþykkti að láta bandamönnunum Spán eftir ef hann fengi að halda Napólí. Bandamennirnir vildu hins vegar að hann sendi sjálfur her til að varpa eigin barnabarni, Filippusi 5., af stóli á Spáni. Loðvík féllst ekki á þetta og ákvað því að berjast til síðustu stundar. Herir bandalagsins voru þá komnir í ógöngur; þeir náðu ekki afgerandi árangri á Spáni og í Frakklandi sjálfu. Stuðningur við styrjöldina fór minnkandi í Bretlandi og 1710 komust íhaldsmenn til valda í ríkisstjórninni en þeir studdu friðarumleitanir. Friðarsamningar. Kort sem sýnir landamæri Vestur-Evrópu eftir friðarsamningana. Með Utrecht-samningunum 1713 hættu Bretar og Hollendingar þátttöku í stríðinu, viðurkenndu Filippus sem Spánarkonung gegn því að hann afsalaði sér öllu tilkalli til frönsku krúnunnar. Savoja fékk Sikiley og hluta af hertogadæminu Mílanó en Karl 4. keisari fékk Spænsku Niðurlönd, konungsríkið Napólí, Sardiníu og stærstan hluta hertogadæmisins Mílanó. Spánn viðurkenndi yfirráð Portúgals yfir Brasilíu. Bretar fengu Gíbraltar og Menorka og Frakkar gáfu eftir tilkall sitt til landsvæða Hudsonflóafélagsins í Norður-Ameríku. Árið eftir gerðu Frakkar og Austurríkismenn með sér friðarsamninga í Rastatt og Baden 1714 en Barselóna, sem hafði stutt Karl keisara sem ríkisarfa, gafst ekki upp fyrir her Búrbóna fyrr en 11. september 1714 eftir langt umsátur. Network address translation. NAT (enska fyrir "Network Adress Translation") er tækni til að maska eða fela net á bak við eina IP tölu á internetinu. Þessi tækni er notuð fyrir þá notendur internets sem ekki hafa fasta IP tölu. Símafyrirtæki líta svo á að NAT sé hentug lausn á takmörkuðum fjölda IP talna, eða netheimilisfanga á internetinu. Þegar notandi án fastrar IP tölu sækir pakka frá internetinu þá skiptir sendingin um áfangastað, til dæmis á vefþjón. Þessi breyting er skráð niður, og vefþjónninn notar þessar upplýsingar til að finna endastöðina, þar sem pakkinn á að fara. Þetta er mjög gagnlegt til að spara IP tölur og er þetta mjög mikið notað til að gefa IPv4 (vinsælasta internet lags samskiptastaðallinn) til að hægt sé að gera flutninginn yfir í IPv6 (eða IP"ng") þægilegri. Þó er talið að flutningurinn sé óumflýjanlegur. Yfirlit. Um miðjan áttunda áratuginn varð NAT vinsæl tækni til að leysa vandamálið á skorti á IP tölum, í IPv4 kerfinu. Það hefur orðið að venju, og má finna ekki eingöngu hjá símafyrirtækjum í dag, heldur einnig beinum heimilisins og skrifstofunnar. Flest kerfi sem nota NAT gera það með því að leyfa mörgum notendum að nota sömu IP töluna. Gallinn við NAT, er hinsvegar sá, að það fylgir ekki eftir upphaflegum hugmyndum um IP staðalinn, flækir ferlið og gerir það óskilvirkt. NAT gefur ekki heildstæða mynd af innranetinu; því að öll umferð lítur út fyrir að hafa komið frá beini innra netsins. NAT felur í sér að endurskrifa þarf uppruna og áfangastað sendingar, og oftast einnig tölur nethliðs (e. port), þegar að sendinginn fer í gegnum beininn. Sérstakir algrímar, sem tryggja að upplýsingarnar séu réttar (e. checksums) þurfa einnig að vera endurskrifaðir. Í hefðbundni uppsetningu á NAT notar innranetið eitt af hinum ætluðu "einka" IP tölum. Einka IP tölur byrja ýmist á 192.168, 172.16 til 172.31 eða 10. Beinirinn tengist á þessi netheimilisföng, eða IP tölur. Beinirinn tengist jafnframt á IP tölu sem þekkist út á internetið. Þegar net umferð fer í gegnum beininn yfir á internetið, er áfangastaðnum breytt frá einka IP tölunum yfir á internet IP töluna. Beinirinn skráir hjá sér staðsetningu tölvunnar sem að sendingin kom frá og nethlið (e. port) og sendir umferðina áfram. Þegar að svar kemur frá netþjóninum sem samband var haft við, þá man beinirinn hvaðan beiðnin um upplýsingarnar komu og sendir upplýsingarnar frá netþjóninum þangað. Kraumur. Kraumur er sjálfstæður sjóður og starfsemi á vegum Auroru velgerðasjóðs sem hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn. Markmið Kraums er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Stuðningur og verkefni sjóðsins eru skilgreind með tilheyrandi samningi og fjárhags- og tímaáætlun. Framkvæmdastjóri Kraums er listamönnum til halds og trausts og annast tengsl sjóðsins við samstarfsaðila og fylgir því eftir að markmiðum samstarfs og stuðnings sé náð. Kraumur notast ekki við umsóknareyðublöð eða formleg umsóknarferli. Umsóknir og fyrirspurnir er varða styrki og samstarf eru afgreiddar af framkvæmdastjóra sjóðsins. Unnt er að sækja um með tilgreind verkefni en einnig getur framkvæmdastjóri haft frumkvæði að samningum við listamenn. Framkvæmdastjóri gefur nánari upplýsingar. Stofnun. Aurora velgerðasjóðurinn ákvað þann 23. janúar 2008 að stofna sjálfstæðan sjóð til stuðnings íslensku tónlistarlífi og veita 20 milljónir króna sem stofnfé sjóðsins. Ráðgert að Aurora leggi sjóðnum til 15 milljónir króna á árinu 2009 og annað eins árið 2010, alls 50 milljónir króna á árunum 2008-2010. Í rökstuðningi sjóðsstjórnar Auroru segir m.a.; „Íslenskt tónlistarlíf er sérstakt um margt, einkum vegna áberandi krafts og áræðis sem einkennir tónlistarfólk af yngri kynslóðinni. Sykurmolarnir og Björk ruddu braut í tónlistarútrás sem á sér enga hliðstæðu. Fjöldamargir tónlistarmenn fetuðu í fótspor þeirra með undraverðum árangri og nú er tónlistarlíf á Íslandi orðinn einn sterkasti þátturinn í ímynd lands og þjóðar út á við. Óvenjulegt samspil dægurtónlistar og sígildrar tónlistar getur orðið drifkraftur frekari landvinninga. Stuðningur við unga tónlistarmenn, til verkefna og samstarfs af ýmsu tagi, skýtur styrkari stoðum undir þennan mikilvæga vaxtarbrodd í íslensku menningarlífi.“ Stjórn og fagráð. Formaður stjórnar Kraums er Þórunn Sigurðardóttir, en meðstjórnendur Ásmundur Jónsson og Pétur Grétarsson. Framkvæmdastjóri er Eldar Ástþórsson. Í fagráði Kraums eiga sæti Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdarstjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar og SJÓN (Sigurjón Birgir Sigurðsson), rithöfundur. Starfsemi. Kraumur rekur skrifstofu í miðborg Reykjavíkur þar sem unnið er að því að „styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi.“ Á fyrsta starfsári sínu, árið 2008, hefur Kraumur unnið með rúmlega 20 listamönnum og hljómsveitum. Má þar nefna Mugison, Víking Heiðar Ólafsson, Amiina, FM Belfast, Ólöfu Arnalds og Dikta. Verkefni listamannanna hafa verið af ýmsum toga, allt frá tónleikahaldi og kynningu á innlendum og erlendum vettvangi til plötugerðar. Kraumur hefur jafnframt ýtt úr vör eigin verkefnum á borð við Innrásina og Kraumsverðlaunin. Kraumur hefur stutt og staðið fyrir þáttagerð um íslenska tónlist og tónlistarmenn á YouTube og annars staðar á internetinu. Sjóðurinn hefur jafnframt unnið með ungum listamönnum að skipulagningu tónleika í Fríkirkjunni, Íslensku óperunni og æfingahúsnæði nokkurra hljómsveita að Smiðjustíg 4A. Kraumur og Aurora velgerðarsjóður lögðu Náttúru-tónleikum Björk og Sigur Rós þann 28. júlí í Þvottabrekkunni í Laugardal lið. Á tónleikunum, sem voru öllum opnir án endurgjalds, komu einnig fram Ólöf Arnalds og Ghostigital ásamt Finnboga Péturssyni. Talið er að rúmlega 30 þúsund manns hafi sótt tónleikana, meðan um 2,5 milljónir fylgdust með þeim á netinu. Innrásin. Vorið 2008 setti Kraumur af stað átak til stuðnings tónleikahaldi innanland sem hlaut nafnið Innrásin. Markmið Innrásarinnar hefur verið að auka við möguleika íslenskra listamanna til tónleikahalds, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni. Rás 2 hefur stutt við Innrásina sem samstarfsaðili, m.a. með því að kynna og auglýsa þá tónleika sem farið hafa fram í tengslum við átakið. Meðal þeirra hljómsveita og listamanna sem Kraumur hefur stutt og unnið með í tengslum við Innrásina eru; Benni Hemm Hemm, Benny Crespo’s Gang, Bloodgroup, Borko, Dr. Spock, Elfa Rún Kristinsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Morðingjarnir, Njútón, Reykjavík!, Sign, Skátar og Sykur. Kraumsverðlaunin. Haustið 2008 hófst undirbúningur plötuverðlauna Kraums, Kraumsverðlaunin, sem boðað hafði verið til í apríl þetta sama ár. Verðlaununum er ætlað að „að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna — og verðlauna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika“. Kraumsverðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Ekkert umsóknarferli er fyrir listamenn eða plötuútagáfur, né þátttökugjöld. Verðlaunin hafa ekkert aldurstakmark, en markmið þeirra er engu að síður að einbeita sér að verkum yngri kynslóðar íslenskra hljómsveita og tónlistarmanna. Dómnefnd Kraumsverðlaunanna er skipuð 15 blaðamönnum, útvarpsmönnum og bloggurum sem hafa áralanga reynslu af að fjalla um og spila íslenska tónlist. Hugmyndafræði verðlaunanna er að sögn framkvæmdastjóra Kraums og hugmyndasmiðs verðlaunanna, Eldars Ástþórssonar, að einhverju leiti sótt til erlendra plötuverðlauna á borð við Mercury Awards í Bretlandi og Shortlist Awards í Bandaríkjunum. Kraumsverðlaunin eru þó frábrugðin að því leiti að fleiri en ein plata hlýtur verðlaunin og verðlaunin eru fólgin í stuðningi Kraums, sem kauðir verðlaunaplöturnar og dreifir þeim á valda aðila innan tónlistarbransans erlendis. Alls voru 20 breiðskífur tilnefndar til Kraumsverðlaunanna 2008. Af þeim hlutu sex breiðskífur sjálf verðlaunin; Agent Fresco fyrir Lightbulb Universe, FM Belfast fyrir How to Make Friends, Hugi Guðmundsson fyrir Apocrypha, Ísafold fyrir All Sounds to Silence Come, Mammút fyrir Karkara og Retro Stefson fyrir Montaña. Kraumsverðlaunin. Kraumsverðlaunin eru íslensk plötuverðlaun á vegum Kraums - tónlistarsjóðs sem fyrst voru veitt þann 28. nóvember 2008. Markmið verðlaunana er að kynna og styðja við íslenska plötuútgáfu, þá sérstaklega verk ungra listamanna og hljómsveita. Verðlauna og verkja athygli á því sem er nýtt og spenanndi í íslenskri tónlist ár hvert á sviði plötuútgáfu - og verðlauna þau verk sem sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Kraumur er sjálfstæður sjóður og starfsemi á vegum Auroru velgerðasjóðs sem hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn. Framkvæmd. Kraumsverðlaunin snúast ekki um eina einstaka verðlaunaplötu, heldur að viðurkenna og verðlauna fleiri titla. Dómnefnd skipuð aðilum úr fjölmiðlamönnum með reynslu af því að fjalla um og/eða spila íslenska tónlist í útvarpi og prenti sjá um valið á bæði tilnefningum til verðlaunanna og verðlaunaplötunum sjálfum. Dómnefnd þyggur ekki laun fyrir sína vinnu. Samkvæmt reglum Kraumsverðlaunanna er gert ráð fyrir að dómnefndin velji og verðlauni fimm breiðskífur sem koma út á árinu, þó með þeim fyrirvara að hægt sé að fjölga í þeim hópi ef sérstakt tilefni sé til. Í ár er tilefni, Kraumsverðlaunaplöturnar eru sex talsins. Kraumsverðlaunin eru ekki bundin neinni ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Ekkert umsóknarferli eða þátttökugjald er fyrir listamenn og plötuútagáfur. Verðlaunin hafa ekkert aldurstakmark, en markmið þeirra er engu að síður að einbeita sér að verkum yngri kynslóðar íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita. Verðlaun. Umgjörð Kraumsverðlaunanna er haldið í lágmarki, og yfirlýst markmið Kraums er frekar að setja fé í stuðning verðlaunaplöturnar. Vinninghafar verðlaunanna hljóta ekki verðlaunagrip, heldur eru þau fremst fólgin í viðurkenningu, kynningu - og plötukaupum og stuðningi Kraums á verðlaunatitlunum. Kraumur styðjur við Kraumsverðlaunaplöturnar með því að kaupa ákveðinn fjölda af plötunum og dreifa til starfsmanna tónlistarbransans erlendis, m.a. tónlistarhátíðir og umboðsskrifstofur, í samvinnu við [Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, ÚTÓN. Með þessu vill Kraumur auka við möguleika listamannanna bakvið verðlaunaplötur að koma verkum sínum á framfæri utan landsteinana. Hornhröðun. Hornhröðun kallast sú hröðun, sem hlutir verða fyrir á hringhreyfingu, táknuð með α. SI-mælieining: rad s-2. Í jafnri hringhreyfingu er stærð hornhröðunar fasti, en stefnan er inn að miðju hringsins. þar sem formula_2 er hornhraðinn og formula_3 er snertilhröðun og r krappageisli. þar sem formula_5 er hverfitregða hlutarins. Innrásin. Innrásin er átak á vegum Kraums — tónleikasjóðs sem ýtt var úr vör í apríl 2008. Markmið Innrásarinnar er að auka við möguleika íslenskra listamanna til tónleikahalds, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni. Rás 2 hefur stutt við Innrásina sem samstarfsaðili, m.a. með því að kynna og auglýsa þá tónleika sem farið hafa fram í tengslum við átakið. Meðal listamanna sem farið hafa í Innrásar-tónleikaferðir eru; Sign, Reykjavík!, Bloodgroup, Njútón, Elfa Rún Kristindóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Benni Hemm Hemm and Borko. Kraumur er sjálfstæður sjóður og starfsemi á vegum Auroru velgerðasjóðs sem hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn. Rás 2 rokkar hringinn. Hljómsveitir; Sign, Dr. Spock og Benny Crespo’s Gang Sumargleði Kimi Records – Tökum hringinn á þetta! Hljómsveitir; Benni Hemm Hemm, Borko, Morðingjarnir og Reykjavík! Telmann og tónlist á Íslandi — Heiðurs- og fagnarðartónleikaferð. Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðurleikari og Melkorka Ólafsdóttir, flautuleikari. Tónleikaferð farin til heiðurs því mikilvæga hlutverki sem kirkjur á Íslandi hafa þjónað í tónlistarlífi landsmanna gegnum aldirnar. Þorláksmessuslagurinn. Þorláksmessuslagurinn er heiti á átökum sem urðu milli lögreglu og mótmælenda á Lækjartorgi á Þorláksmessu 23. desember 1968. Þennan dag höfðu Æskulýðsfylkingin og Félag róttækra stúdenta skipulagt mótmæli gegn Víetnamstríðinu og hugðust meðal annars ganga upp Bankastræti og Skólavörðustíg. Þegar þau tilkynntu lögreglu um þessa fyrirætlun lagðist hún gegn henni á þeirri forsendu að þannig myndi gangan lenda í miðri jólaösinni á þessum götum en mótmælendur vildu ekki breyta fyrirhugaðri gönguleið. Þegar til kom myndaði lögreglan þá þrefalda röð þvert yfir Austurstræti á Lækjartorgi og þegar gangan kom þar að brutust út átök sem lyktaði með því að tólf mótmælendur voru handteknir. Mandarín. Mandarín eða mandarín kínverska (einfölduð kínverska: 官话; pinyin: Běifānghuà) er mest talaða tungumál jarðar. Um 850 milljónir manna hafa það að móðurmáli. Málið (eða mállýskan) skiptist í minnst átta mállýskur, þar á meðal putonghua sem er hin staðlaða mynd mandarín. Wu-kínverska. Wu eða Wu kínverska er eitt mest talaða tungumál heims (ca. 10. sæti). Það er næstalgengasta kínverska mállýskan, töluð af um 90 milljónum manna, mestmegnis í Sjanghæ-, Zhejiang- og Jiangsuhéruðum. Wu skiptist í fjölmargar mállýskur, þar á meðal shanghaihua. Lasa. Lasa eða Lhasa (tíbetska: ལྷ་ས་) er höfuðborg Tíbet. Guangdong. Guangdong (einfölduð kínverska: 广东; hefðbundin kínverska: 廣東; pinyin: Guǎngdōng) er fjölmennasta héraðið í Kína. Þar búa yfir 86 milljónir manna. Héraðið er þekkt fyrir mikla iðnframleiðslu, sérstaklega við mynni Perluár sem er eitt þéttbýlasta svæði jarðar. Iðnaðurinn laðar að mikin fjölda verkamanna frá öðrum héruðum og talið er að íbúafjöldinn sé að jafnaði 30 milljónum hærri af þeim sökum. Höfuðborg héraðsins er Guangzhou. Héraðið inniheldur þrjú sérstök efnahagssvæði: Shenzhen, Shantou og Zhuhai. Dauðís. Dauðís er í jarðfræðihugtak sem haft er um jökulís, sem er hættur að skríða og fær ekki viðbót frá ákomusvæði. Hann er venjulega þakinn jökulruðningi. Dauðís er einnig skilgreindur sem ísjaki eða íshröngl, sem hefur borist frá jökulbrún með jökulá eða jökulhlaupi og strandað á jökuláraurum eða hefur slitnað frá og setið eftir, þegar jökull hopar. Hainan. Hainan (海南) er stór eyja í Suður-Kínahafi og syðsta hérað Kína. Eyjan er jafnframt sérstakt efnahagssvæði og því eru nokkrar nýjar hafnir í byggingu. Hainan er einnig vinsæll ferðamannastaður meðal Kínverja og má þar nefna strandborgina Sanya sem dæmi. Shenzhen. Shenzhen er borg í Guangdonghéraði í Kína. Hún var fyrsta sérstaka efnahagssvæðið og jafnframt það best heppnaða. Borgin er skipulögð frá grunni. Árið 1979 stóð aðeins lítið fiskiþorp þar sem nú er ein af stærstu borgum Kína. Ungur aldur borgarinnar endurspeglast greinilega í nýtýskulegum byggingarstíl. Hún liggur beint norður af Hong Kong. Ricchi e Poveri. Angelo Sotgiu, Angela Brambati og Franco Gatti sem nú skipa hljómsveitina Ricchi e Poveri Ricchi e Poveri er ítölsk popphljómsveit sem stofnuð var árið 1967. Alls hefur sveitin selt meira en 20 milljónir platna. Saga. Ricchi e Poveri var stofnuð árið 1967 af Franco Gatti, Angela Brambati, Angelo Sotgiu og Marina Occhiena. Fyrsta opinbera framkoma þeirra var árið eftir þegar sveitin flutti lagið „L'ultimo amore“ í Cantagiro. Árið 1978 tók hljómsveitin þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með lagið „Questo Amore“. Þau lentu í 12. sæti með 53 stig. Árið 1981 hætti svo Marina Occhiena í hljómsveitinni. Ricchi e Poveri hefur tekið upp á bæði ítölsku og spænsku. Þekkt lög frá sveitinni eru meðal annnara „Mamma Maria“, „Se m'innamoro“, „Made in Italy“ og „M'innamoro di te“. Þá hefur lagið „Voulez Vous Danser“ verið endurútgefið sem íslenskt jólalag. Chongqing. Chongqing er borg og hérað í Kína. Hún er ein af fjórum borghéruðum landsins (allt héraðið er eitt sveitarfélag) en hefur þá sérstöðu að vera munn stærri að flatarmáli og sveitarfélagið er því að mestu sveit. Það inniheldur einnig minni borgir. Svæðið var hluti af Sichuanhéraði þar til 1997. Hubei. Jangste þar sem það rennur framhjá Wuhan Xiling gljúfur, eitt af Gljúfrunum þremur Hubei er hérað í Kína. Jangtsefljót rennur í gegnum héraðið m.a. um hin frægu Þrjú gljúfur þar sem Þriggja gljúfra stíflan er staðsett. Höfuðborg héraðsins er Wuhan. Wuhan. Wuhan er höfuðborg Hubeihéraðs í Kína. Hún er mikilvæg borg við Jangtsefljót. Wuhan gerðist vinabær Kópavogs í tengslum við kínverska menningarhátíð 2007. Guangzhou. a>eyja, Þar sem Evrópumenn fengu að stunda verslun á 18. og 19. öld Guangzhou (广州) er höfuðborg Guangdonghéraðs og þriðja stærsta borg Kína. Hún stendur skammt frá mynni Perluár. Jólamatur. Jólamatur er matur sem er borðaður á jólunum. Oft er átt við jólamáltíðina sem er borðuð ýmist borðuð á aðfangadag eða jóladag, en stundum er átt við mat sem er borðaður yfir jólatímabilð. Jólamatur er líkt og jólasiðir mismunandi milli landa. Skógsnes. Skógsnes (Snóksnes)er bújörð í Gaulverjabæjarhreppi nú Flóahreppi (Skógsnes, Skógsnes, Skógsnesi, Skógsness). Landamerki. Skjalinu var þinglýst 16. júní 1885. Þingl. 0,75, bókun 0,25. Úr Þrísteini — sem er hornmarkið að sunnanverðu á svæði því sem liggur að Partamýrinni — í Drottningarþúfu, úr henni í Teigsvörðu (Gauta-), sem er hornmark að norðaustanverðu þeim megin, þaðan í Leirgjá á móts við Mýraland; þaðan á móts við Gaflsland — eftir Garðlagi upp í Gullvöll; úr Þúfunni að austanverðu á Gullvelli í Gráugrjót, þaðan í Hamarsvörðu, þaðan á móts við Saurbæjarland í Vörðuna á Saurbæjarvatnsbakka; úr Saurbæjarvatni (syðst) í Fuglstapaþúfu, þaðan í Ferðamannahól, þaðan í Hamarsflóð á móts við Galtastaðaland; svo ræður Hamarslækur suður í Djúpakrók, þaðan eru mörkin eftir svonefndri Gróf og vestast í Flathóla, þaðan austast í Keldhóla, úr Keldhólavörðu í hornmark að sunnan sem stendur við Stararflóð, austur og uppaf Miklavatni — og þaðan austur í Þrístein, sem fyrst er nefndur. Ábúendatal. Heimild: Ábúendatal Gaulverjabæjarhrepps eftir: Halldór Gestsson og Pál Lýðsson Örnefni. Sigurjón Þ. Erlingsson safnaði 1955 eftir sögn Kristjáns E. Þorgeirssonar bónda í Skógsnesi. Upphaflegt heiti bæjarins er Snóksnes, en orðið Skógsnes er notað í daglegu tali. Vesturskurður (1) heitir skurðurinn fyrir norðan túnið. Rennur hann til suðvesturs. Rimarnir fyrir norðan skurðinn vestur undir mörkum (að sjá í Gaulverjabæ frá bænum) heita Svörturimar (2). Grænhóll (2a) heitir hóll rétt norðan við skurðinn að sjá í Syðri-Völl frá Skógsnesi. Fleiri litlir hólar eru við Grænhól, og heita þeir einu nafni Smáhólar (3). Smáhólaflóð (4) er fyrir norðan Smáhóla. Litlukot (5) heita tveir stórir hólar fyrir norðan Skógsnesveg að sjá í Vorsabæjarhól frá Skógsnesbæ. Fast vestan megin við Gaflsveginn, ca. 100 m ofan við beygjuna, er lítill hóll, sem heitir Valhóll (6) eða Valhöll (7). Allt land Skógsness (upp að mörkum) fyrir norðan þessa hóla heita Gömluengjar (8). Rétt suðaustan við norðvesturhornmark Skógsness er(+u) Hólmaflóð (9). (Erlingur Kristjánsson frá Skógsnesi segir að alltaf hafi verið talað um þetta/þessi flóð í fleirtölu) Rimarnir fyrir norðan Vesturskurð og austan við Gaflsveginn heita Leirsurimar (10). Þeir enda við Leirsuflóð (11), sem er austan við veginn ca. 200 m ofan við vegamótin við Skógsnesveg. Efst í túninu, sem er norðan við Vesturskurð, er hóll, sem Lauthóll (12) heitir. Norðaustur af bænum, ofan við Vesturskurð, er flóð, sem heitir Stóraflóð (13), en er venjulega kallað Stífluflóð (14). Hundhóll (15) heitir lítill hóll í túninu ca. 100 m norðaustur af bænum. Fyrir vestan Hundhól er lítil tjörn, sem heitir Skúmsflóð (16). Fast austan við bæinn inni í túninu eru mýrarlægðir og í þeim tvö flóð, sem heita Kálgarðaflóð (17). Í engjunum austur af bænum, rétt austur við markaskurðinn, að sjá norðan til við Efri-Sýrlæk frá Skógsnesi, er grasdæla slétt, sem heitir Stóradæl (18). Skammt suðaustur af Stórudæl er Litladæl (19). Gautateigur (20) heitir mýrin austur við markaskurðinn, sitt hvorum megin við veginn milli Skógsness og Parta. Gautateigsvað (21) heitir þar, sem vegurinn yfir skurðinn. Vaðið er rétt sunnan við brúna. Sunnan við veginn rúmlega miðja vegu austur að mörkum er Skrugguflóð (22). Skammt suðaustur af því er annað flóð, nafnlaust. Rétt suðaustan við það er enn eitt flóð, sem heitir Lómsflóð (23). Langaflóð (24) heitir flóð aflangt suðaustur af bænum að sjá af Skógsnesshlaði norðan til við Arabæ. Skammt suðaustur af Langaflóði er gulstarardæl, sem heitir Djúpadæl (25). Sunnan við Djúpudæl og fram að Miðskurði eru sléttur, sem heita einu nafni Þembudælur (26). Miðskurður (27) kemur úr Austurskurði (28) nokkuð sunnan við Gautateigsvað og rennur til suðvesturs í Miklavatn. Engjunum fyrir sunnan Miðskurð er skipt í þrjú hólf með tveimur flóðgörðum. Við vesturendann á efri garðinum er Frakkhóll (30). Á mörkum Skógsness, Arabæjar og Arabæjarhjáleigu er grasdæla, sem heitir Drottningardæl(-a) (31). Norðan við Drottningardæl er Kóngsdæl (33). Fyrir sunnan skurðinn, fram að Arabæjarhjáleigulandi, eru mörg smáflóð með rimadrögum á milli. Þau heita Langhólaflóð (34). Flóðin eru að sjá í Krók frá Skógsnesi. Fast vestan við flóðin eru hólar, samliggjandi flóðunum, frá skurði og fram að mörkum. Þeir heita einu nafni Langhólar (35). Í norðaustur af Langhólum, ofan við Miðskurð, eru hólar samfelldir, Heimarihólar (36). Austan við þá er Heimarihólaflóð (37), en vestan við þá er Hólmaflóð (38). Fyrir vestan það eru Borgarhólar (39). Vestan við Borgarhóla er Stakhóll (40), að sjá frá Skógsnesi skammt austan við Ragnheiðarstaði. Við Stakhól eru mörg flóð, sem heita Stakhólsflóð (41). Stefanía Jóhannesdóttir í Gegnishólaparti, sem uppalin er í Skógsnesi, segir þó, að Stakhólsflóð sé eitt flóð, sunnan við hólana. Drag (42) heitir lægð, sem liggur frá Heimarihólaflóði og heim undir veg austan við túnið. Þvert úr Draginu til vesturs er Þverkelda (43), sem endar við Kelduhóla (44). Þar breytir keldan um stefnu og gengur til suðurs og heitir þá Kelduhólaskurður (45) og endar í Miðskurði. Fyrir austan Kelduhóla eru þrjú flóð, sem heita Kelduhólaflóð (46). Kelduhólaskurður rennur í gegnum flóðin. Norðaustur af suðvesturhornmarki Skógsnesslands eru hólar í stefnu frá hornmarki í Kelduhóla. Þeir heita Flathólar (47). Úr efsta Kelduhól liggur flóðgarður og endar við Vesturskurð. Hann heitir Litligarður (48). Suðvestur af túninu er stór hóll, sem hét Gamlaborg (49), en hefir í seinni tíð verið kölluð Stóraborg (50). Þar hefir nú, 1956, verið byggt fjárhús. Skammt norðvestur af Stóruborg er annar minni hóll, sem nú er kominn í tún. Hann heitir Litlaborg (51), en hét áður Hústótt (52). Á milli þessara tveggja hóla er Borgarflóð (53). Norðaustur af Stóruborg, miklu nær bænum, er slétt túnflöt með hlöðnum garði í kring. Það heitir Gerði (54). Fast sunnan við Gerði er hóll, sem heitir Stekkur (55). Sunnan við Gerði er Gerðisflóð (56), var áður kallað Stekkjarflóð (57). Sunnan við túnið í Skógsnesi ca. 150 m suður af bænum er Fjárhúsflóð (58). Fjárhús munu hafa staðið inni í túninu norðan við flóðið, en eru löngu sléttuð út. Mitt á milli Gerðis og bæjar, þó heldur nær Gerðinu, heitir Stöðull (59). Gullvöllur¹ (60) Hóll sem er hornmark fyrir Hamarsbæi, Skógsnes og Gafl (Í jarðabók frá 1703 er sagt að þar hafi staðið bær sem komin sé í eyði) Markhóll² (61) Hraunstrýta með hundaþúfu norðvestan við Litlu-kot.(Þar sunnan við var alfaraleið milli bæja) Mógrafir (62) í mýrinni austan við Stífluflóð ¹ Heimild: Kristján Eldjárn Þorgeirsson bóndi í Skógsnesi f: 20. september 1922 ² Heimild: Kristján Eldjárn Þorgeirsson bóndi í Skógsnesi f: 20. september 1922 Bútasaumur. Bútasaumur (e. "Quilting") er aðferð við að sauma saman úr efnisbútum stærra verk, eins og teppi sem dæmi, úr minni efnisbútum, oftast með því að raða bútunum í mynstur eða mynd. Bengal. Bengal, Bangla eða Bongo er landsvæði í Suður Asíu þar sem Ganges og Brahmaputra sameinast og renna út í Bengalflóa. Svæðið skiptist milli Vestur Bengals og Bangladesh ("Austur Bengal"). Þéttbýli er mikið en þar búa yfir 200 milljónir manna, aðallega bengölskumælandi. Stærstu borgirnar eru Kolkata og Dakka. Evruseðill. Evruseðlar eru peningaseðlar hins sameiginlega gjaldmiðils ESB. Þeir voru fyrst settir í umferð 1. janúar 2002. Ólíkt evrumynt eru seðlarnir eins báðum megin í öllum þáttökuríkjum. Í stað einstakra þjóðlegra tákmynda sýna evruseðlarnir ímynduð dæmi frá tímabilum í listasögu Evrópu. Framhliðarnar sýna hlið eða glugga sem tákna „opinleika“ en bakhliðarnar sýna brýr, tákn um „samtengingu“. Fyrsta útgáfa (2002-2011). Fyrsta útgáfa sýnir skammstöfun Seðlabanka Evrópu á tungumálum 15 aðildarríkja ESB (1999). „Evra“ er skrifuð með latnesku og grísku letri. Skipt hefur verið um seðlabankastjóra einu sinni og eru því tvær mögulegar undirskriftir. Ráðgert er að ný útgáfa fari í umferð árið 2011. Þá verður fleiri skammstöfunum bætt við sem og Kýrillísku letri. Forboðna borgin. Forboðna borgin er Beijing, heimili keisara af Ming- og Qing-ættum. Hin eiginlega keisarahöll (Gugong), sem er nú hallarsafn, nær yfir meira en 110 ha. Umhverfis hana er 50 m breiður skurður fullur af vatni og 10,7 m hár múr. Ming-keisarinn Yongle (1403-1424) lét endurnýja fullkomlega á árunum 1406-1420. Evrumynt. Evrumynt er mynt hins sameiginlega gjaldmiðils ESB. Hún var fyrst sett í umferð 1. janúar 2002 en myntslátta hófst árið 1999. Bakhliðarnar eru mismunandi eftir útgáfulandi en mynt frá einu þáttökuríki er samt sem áður gjaldgeng í því næsta. Framhliðarnar eru eins í öllum þáttökuríkjum, með upphæð og nafn gjalmiðilsins ritað með latnesku letri. Gefnar eru út 8 upphæðir: 1, 2, 5, 10, 20 og 50 sent og 1 og 2 evrur. Fyrsta útgáfa (1999-2006). Fyrsta útgáfa sýndi einungis þáverandi 15 aðildarríki ESB. 1,2 og 5 sent voru eins og í 2007 útgáfunni. Jón Jónsson á Hafsteinsstöðum. Jón Jónsson (fæddur á Hóli í Sæmundarhlíð 6. janúar 1850, dó á Hafsteinsstöðum 20. mars 1939) var íslenskur bóndi og hreppsstjóri á Hafsteinsstöðum í Staðarhreppi í Skagafirði. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi og hreppsstjóri á Hóli og kona hans Sigríður Magnúsdóttir. Jón var elstur systkyna sinna og var því tiltölulega ungur sendur að heiman á vertíðir, einkum að Siglunesi og að Reykjum á Reykjaströnd. Hann fékk Hafsteinsstaði til ábúðar og bjó þar að mestu ásliðið 1879-1920 en þá tók Jón sonur hans við búinu. Jón þótti hagsýnn fjáraflamaður og fékk að auki góðan arf með konu sinni. Hann eignaðist því smám saman allmargar jarðir og jarðarparta um sýsluna og var á tímabili einn af mestu jarðeignamönnum í Skagafirði. Hann húsaði vel upp á Hafsteinsstöðum, sléttaði tún og girti og var forgöngumaður um bætta búskaparhætti. Í hreppstjóratíð sinni stundaði hann nokkuð málarekstur fyrir sveitunga sína og þótti slyngur málafylgjumaður. Í Skagfirskum æviskrám er honum þannig lýst að hann hafi verið lágur vexti en allþrekinn, knár og kappsfullur, skarpgreindur, fljótur að hugsa og skjótur til svars. Hann var víðlesinn og fjölfróður enda stálminnugur. Kona Jóns á Hafsteinsstöðum var Steinunn Árnadóttir, fædd á Ystamói í Fljótum 6. júlí 1851, dáin á Hafsteinsstöðum 29. desember 1933. Hún var dóttir Árna Þorleifssonar (1824-1889) hreppsstjóra í Ystamói og Valgerðar Þorvaldsdóttur (1834-1907) konu hans. Steinunn þótti búkona mikil og skörungur og stóð manni sínum hvergi að baki. Wensleydale. Wensleydale er dalur í austri Pennínafjallanna í Norður-Yorkshire í Englandi. Ure-áin er í dalnum. Wensleydale-ostur er tegund osts sem dregur nafn sitt af dalnum. Magnús Birgir Jónsson. Magnús Birgir Jónsson (fæddur 24. ágúst 1942 í Vestmannaeyjum) er íslenskur prófessor og doktor í búfjárrækt. Þá er hann einnig landsráðunautur í nautgriparækt (í hlutastarfi á móti Gunnfríði E. Hreiðarsdóttur) hjá Bændasamtökum Íslands. Nám og störf. Magnús lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1960 og B.Sc.-prófi (framhaldsdeild) þremur árum síðar. Lokaverkefnið nefndist „Hagkvæmni djúpvinnslu frá jarðfræðilegu sjónarmiði“. Magnús fór þá út til Noregs til frekara náms og lauk doktorsprófi í landbúnaðarfræðum frá Landbúnaðarháskólanum að Ási árið 1969. Doktorsritgerð hans hét „Variasjonsårsaker i melkeavdråtten hos Islandske kyr“. Þá var hann einnig í námsdvöl við Landbúnaðarháskólann í Edinborg 1980. Magnús var skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri á árunum 1972 til 1984 og aftur frá 1992 til 1999. Þá var hann rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri (forvera Landbúnaðarháskóla Íslands) frá stofnun hans 2001 til 2004. Hann var ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands á árunum 1963 til 1964 og tilraunastjóri hjá sambandinu árin 1970 til 1972. Einnig starfaði hann sem sérfræðingur í kynbótum hjá Norges Pelsdyrlag ("loðdýraræktarsamband Noregs"). Á árunum 1990 til 1992 var hann forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins. Frá árinu 2005 hefur Magnús gengt stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands auk þess sem hann hefur starfað sem kennari um árabil, bæði í bænda- og framhaldsdeild. Frá sumrinu 2007 hefur hann einnig verið landsráðunautur í nautgriparækt í hlutastarfi. Ritgerð um ríkisvald. Titilsíða "Ritgerðr um ríkisvald"frá 1690. "Ritgerð um ríkisvald" (á ensku: "Two Treatises of Government" eða "Two Treatises of Government: In the Former, The False Principles and Foundation of Sir Robert Filmer, And His Followers, are Detected and Overthrown. The Latter is an Essay concerning The True Original, Extent, and End of Civil-Government") er rit um stjórnmálaheimspeki eftir enska heimspekinginn John Locke og birtist fyrst nafnlaust árið 1689. Ritgerðirnar eru tvær en venjulega er titillinn hafður í eintölu á íslensku. Í fyrri ritgerðinni er sett fram gagnrýni á feðraveldi þar sem Locke gagnrýnir eða hrekur kenningar Roberts Filmer úr ritinu "Patriarcha" málsgrein fyrir málsgrein. Í síðari ritgerðinni setur Locke fram eigin stjórnspekikenningu sem byggist á hugmyndum um náttúrurétt og samfélagssáttmála. Cheddar. Cheddar er stórt þorp og hreppur í Sedgemoor í Somerset í Englandi. Þorpið er þekkt fyrir ost sem nefndur er eftir bænum, cheddar-ost, og einnig vegna Cheddar-gljúfursins. Cheddar-ostur. Cheddar-ostur er ensk ostategund kennd við þorpið Cheddar í Somerset, Englandi. Osturinn er harður og fölgulur á litinn og gerður úr kúamjólk. Cheddar-ostur er vinsælasti osturinn í Bretlandi og nær sala hans yfir 51% af ostamarkaði landsins. Eftirlíkingar af Cheddar eru algengar á Írlandi, í Bandaríkjum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku og Kanada. Osturinn hefur verið búinn til að minnsta kosti frá árinu 1170. The Ting Tings. The Ting Tings er ensk sjálfstæð rokk hljómsveit sem samanstendur af tveim félögum: Jules De Martino (gítar, trommur, söngvari) og Katie White (söngvari, gítar, bassatrumba). Þau er frá Leigh, Manchester og var hljómsveitin stofnuð desember 2004 í Salford. Þau hafa gefið út fjórar smáskífur hjá Columbia Records, þar á meðal „That’s Not My Name“ sem var komst í efsta sæti UK Singles Chart-vinsældalistans. Hljómplatan "We Started Nothing" kom út þann 19. maí 2008 og toppaði einnig í Bretlandi. Nestlé. Nestlé er alþjóðlegt matvælafyrirtæki með höfuðstöðvar í Vevey í Sviss, stofnað 1905 við samruna tveggja fyrirtækja. Nestlé er skráð í svissnesku kauphöllina sem "SWX" og árleg velta er 87 milljarðar svissneskra franka. Nestlé framleiðir m.a. neskaffi, súkkulaði og annað sælgæti, drykki, rjómaís, barnamat, krydd, frosinn mat og gæludýrafóður. Fákeppni. Fákeppni nefnist það þegar fáir aðilar eða fyrirtæki hafa yfirburðastöðu á tilteknum markaði og hafa einhvers konar samvinnu sín á milli til að hafa áhrif á verðmyndun á þeim markaði. Fákeppnisfyrirtækin geta, t.d. með verðsamráði, stjórnað verði á þeirri vöru sem er seld og keypt á viðkomandi markaði. Þegar aðeins er um einn, ráðandi aðila á markaðinum er talað um einokun. Anton Bruckner. Anton Bruckner (4. september 1824 – 11. október 1896) var austurrískur höfundur sem er þekktastur fyrir sinfóníur, messur og mótettur. James Prescott Joule. James Prescott Joule (24. desember 1818 – 11. október 1889) var enskur eðlisfræðingur og bruggari, sem fæddist í Salford í Lancashire. Joule, James Prescott Jawaharlal Nehru. Jawaharlal Nehru (14. nóvember 1889 – 27. maí 1964) var mikilvægur pólítískur leiðtogi indverska þjóðarráðsins ("Indian National Congress"), mikilvægur aðili í sjálfstæðisbaráttu Indlands og bæði fyrsti forsætisráðherra hins sjálfstæða Indlands og líka sá sem hefur þjónað lengst. Nehru, Jawaharlal Satyajit Ray. Satyajit Ray (; 2. maí 1921 – 23. apríl 1992) var bengalskur kvikmyndagerðarmaður frá Indlandi. Nýlendustefna. Safaríhjálmar eins og þessi urðu táknmynd nýlendustefnunnar. Nýlendustefna er sú stefna eins ríkis að leggja önnur ríki og ríkislaus landsvæði undir sig, koma þar á stjórnarfarslegum og menningarlegum yfirráðum með nýlendustjórn og byggja þau landnemum. Nýlenduveldið stjórnar nýlendunni með þeim hætti að nýta auðlindir hennar í eigin þágu, þar á meðal vinnu íbúa nýlendunnar, og sem markað fyrir sína eigin umframframleiðslu. Oft reynir nýlendustjórn einnig að koma á menningarlegum breytingum, t.d. hvað varðar tungumál, sbr. menningarleg heimsvaldastefna. Orðið heimsvaldastefna er notað um nýlendustefnu sem sækist eftir því að gera nýlenduveldið að heimsveldi. Mongólaveldið. Mynd sem sýnir útbreiðslu Mongólaveldisins 1206-1294. Mongólaveldið var stærsta samfellda ríki sögunnar og næststærsta heimsveldi sögunnar á eftir breska heimsveldinu. Það varð til við sameiningu mongólskra og tyrkískra þjóða þar sem Mongólía er nú og óx gríðarlega á tímum Gengiss Kan. Á síðari hluta 13. aldar náði það yfir Asíu endilanga, frá Japanshafi til Dónár í Evrópu og frá Hólmgarði til Kambódíu, 33.000.000 ferkílómetra svæði eða 22% af þurrlendi jarðarinnar, þar sem þá bjuggu um hundrað milljón manna. Þetta mikla heimsveldi var þó skammlíft og Gullna hirðin í Rússlandi og Jagataíkanatið í Mið-Asíu urðu í reynd sjálfstæð og neituðu að viðurkenna völd Kúblaí Kans. Þegar hann lést 1294 hafði Mongólaveldið klofnað í fjögur kanöt; Júanveldið í Kína sem líka ríkti yfir Mongólíu og var að nafninu til yfir hin hafin, Gullna hirðin í Rússlandi, Jagataíkanataið í Mið-Asíu og Ilkanatið í Mið-Austurlöndum þar sem Persaveldi hafði áður verið. Íðnet. a> íðnettengir (sem er oft kallaður RJ45). Íðnet (á ensku "ethernet") er staðarnet (LAN) sem notast við ákveðina nethögun ("network architechture"). Arnar Grétarsson (knattspyrnumaður). Arnar Grétarsson (fæddur 20. febrúar 1972) er íslenskur knattspyrnumaður sem leikur með Breiðabliki í Kópavogi. Áður hefur hann leikið með Rangers í Glasgow, Leiftri á Ólafsvík, AEK Athens F.C. í Aþenu og Lokeren í Belgíu. Arnar hefur leikið með íslenska landsliðinu í knattspyrnu, síðast árið 2004. Unix-legt. Skýringarmynd sem sýnir vensl UNIX-legra kerfa. UNIX-legt stýrikerfi (stundum ritað *nix) er stýrikerfi sem hagar sér líkt og UNIX-kerfi. Unix-legt kerfi keyrir sh forskriftir eða nauðalíkar. Unix-leg kerfi eru flest samsett úr stýrikerfiskjarna s.s. Linux, libc s.s. glibc, init og ýmsum notendaforritum, s.s. zsh og Xorg. XMLHttpRequest. XMLHttpRequest (XHR) er DOM API sem JavaScript frá ECMA, ActiveX frá Microsoft og önnur vafraforskriftumál geta notað til að senda XML-beiðni til vefþjóns, sem keyrir þá hugsanlega eitthvert forrit eða sendir til baka uppfærðar upplýsingar, til dæmis um úrslit íþróttaleikja. Þessi tegund af AJAX-kóðun ætti ekki að rugla saman við XML Domain Request (XDR) sem er minni útgáfa af XMLHttpRequest hönnuð af Microsoft. Sýnidæmi. Hér eru nokkur dæmi u XMLHttpRequest-kóða. Sigurður Jónsson í Ystafelli. Sigurður Jónsson í Ystafelli (f. á Litluströnd við Mývatn 28. janúar 1852, d. 16. janúar 1926) var íslenskur bóndi, stjórnmálamaður og atvinnumálaráðherra 1917-1920 fyrir Framsóknarflokkinn. Sigurður var sonur Jóns Árnasonar bónda á Skútustöðum og konu hans Þuríðar Helgadóttur, en ólst upp í Ystafelli í Köldukinn hjá ekkjunni Guðbjörgu Aradóttur og tók við búi hennar 1889. Hann var bóndi í Ystafelli til 1917 og stundaði einnig kennslu á yngri árum. Hann var einn af helstu forgöngumönnum samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi og var Samband íslenskra samvinnufélaga stofnað á fundi á Ystafelli 20. febrúar 1902. Sigurður var kjörinn alþingismaður 1916 á vegum Óháðra bænda en kom að stofnun Framsóknarflokksins þann 16. desember 1916. Hann var fyrsti ráðherra Framsóknarflokksins. Sigurður hætti búskap í Ystafelli þegar hann varð ráðherra og fluttist til Reykjavíkur en flutti aftur að Ystafelli þegar hann lét af embætti 1920 og átti heima þar til æviloka. Kona hans var Kristbjörg Marteinsdóttir. Ævisaga hans, "Sigurður í Ystafelli og samtíðarmenn", eftir Jón Sigurðsson, kom út árið 1965. Friedrich Julius Rosenbach. Friedrich Julius Rosenbach (f. 16. desember 1842 í Grohnde an der Weser í Neðra Saxlandi; d. 6. desember 1923 í Göttingen), einnig þekktur sem Anton Julius Friedrich Rosenbach'", var þýskur læknir og örverufræðingur, þekktastur fyrir að hafa sýnt fram á að stafýlókokkar og streptókokkar eru aðskildar lífverur. Faðir Friedrichs Juliusar var Bernhard Rosenbach yfirhéraðsdómari í Grohnde an der Weser, en hann var af þekktri niðursaxlenskri fræðimannaætt og afkomandi séra Johanns Philipps Rosenbach sem verið hafði sóknarprestur í Grone-hverfinu í Göttingen í þrjátíu ára stríðinu. Margir afkomenda Johanns Philipps gerðust læknar. Friedrich Julius Rosenbach hóf nám í náttúruvísindum 1863 við Háskólann í Heidelberg og nam síðar efnafræði hjá Friedrich Wöhler í Göttingen. Hann stundaði einnig nám í Vín, París og Berlín, og varði doktorsritgerð sína í læknavísindum í Göttingen 1867, en hún fjallaði um vefjaskemmdir af völdum silfurklóríðs. Árið eftir tók hann embættispróf sem læknir. Hann var herlæknir í prússnesk-franska stríðinu 1870-1871, en habíleraði þó 1871 og fjallaði nýdoktorsritgerð hans um virkni karbólsýru gegn ígerðum í sárum. 1873 varð hann prófessor ("außerordentlicher Professor") í skurðlækningum við háskólasjúkrahúsið í Göttingen. Árið 1920 var hann gerður að fullgildum heiðursprófessor ("ordentlicher Honorarprofessor") við læknaskólann í Göttingen. Rannsóknir Rosenbachs snerust fyrst og fremst um sýkingar í skurðsárum og önnur hagnýt málefni tengd skurðlækningum. Höfuðverk hans er oftast talið mónógrafían "Mikroorganismen bei Wundinfektionskrankheiten des Menschen" sem kom út 1884. Þar sýndi hann fram á að streptókokkar og stafýlókokkar eru aðskildar og aðgreinanlegar lífverur og greindi jafnframt á milli tveggja mismunandi tegunda stafýlókokka, "aureus" og "albus". Þann 12. maí 1877 kvæntist hann Franzisku Merkel, dótturdóttur Friedrichs Wöhler, fyrrum lærimeistara hans. Gatan "Rosenbachweg" í borgarhverfinu Weende í Göttingen er nefnd eftir honum. Við hana standa m.a. stúdentagarðar. Heimildir. Rosenbach, Friedrich Julius Rosenbach, Friedrich Julius Rosenbach, Friedrich Julius Listi yfir HTTP-stöðukóða. HTTP-stöðukóði er tala sem vefþjónn sendir til þess sem biður um vefsíðuna til að hann viti hvort beiðnin hafi komist, skilist og verið framkvæmd. Talan er samsett úr tveim hlutum, flokknum (fyrsta tölustafurinn) og undirkóðanum (síðustu tveim tölustöfunum). Ef allt fóra að óskum er stöðu kóðinn 200. Listinn hér að neðan virkar þannig að fyrst kemur stöðu kóðinn, svo venjuleg skilaboð sem fylgja (eins og „ekki fundin") lauslega snarað yfir á íslenzku og kannski útskýring á skilaboðunum. 1xx. -biður um búk beiðnir svosem í POST beiðnum. -viðbót frá Microsoft sem kemur fram í IE7 þegar URI (slóð) beiðnar er lengri en 2032 stafir. 2xx. -beiðnin hefur veri móttekin og nýtt svar er í vinnslu. -Beiðnin hefur verið móttekin og samþykkt. -Beiðnin hefur verið móttekin en svarið inniheldur engin gögn. -Athugið að aðeins hluta skjalsins hefur verið hlaðið niður. -Margir stöðu kóðar eiga við, frá WebDav. -Síðan er öðruvísi en upprunalega eintakið. 3xx. 3xx gefur til að kynna áframsendingu. -síðan hefur verið flutt endanlega á aðra slóð. -Síðan hefur verið flutt tímabundið á aðra slóð. -Síðan er eins og upprunalega eintakið. -Miðlarinn krefst þess að flytja þig tímabundið á aðra slóð. 4xx. 4xx gefur til kynna villu hjá biðlaranum, þ.e. vafranum í flestum tilvikum. 5xx. 5xx gefur til kynna villu hjá miðlaranum. HTTP-stöðukóðar Smyrill (fugl). Smyrill (fræðiheiti: "Falco columbarius") er lítill fálki, af ættbálki fálkunga, sem verpir í N-Ameríku, Evrópu og Asíu. Íslenski smyrillinn (fræðiheiti: "Falco columbarius subaesalon") verpir á Íslandi og Færeyjum. Uttar Pradesh. Uttar Pradesh (Hindí: उत्तर प्रदेश) er fjölmennasta ríki Indlands, með yfir 190 milljón íbúa sem flestir tala hindí. það er staðsett í Gangesdalnum og gerir fljótið það mjög frjósamt sem skýrir fólksfjöldann. Uttar Pradesh er jafnframt fjölmennasta stjórnsýslueining í heimi og hafa aðeins fimm lönd (Indland meðtalið) hærri íbúafjölda. Höfuðborg ríkisins er Lucknow. Punjab. Punjab er landsvæði í Suður-Asíu. Aðaltungumál íbúanna er Punjabi. Vestur-Bengal. Vestur-Bengal (bengalska: পশ্চিমবঙ) er eitt af ríkjum Indlands. Íbúafjöldinn er rúmlega 80 milljónir. Höfuðborg ríkisins er Kolkata sem einnig er ein sú stærsta á Indlandi. Tilvitnun. Tilvitnun er það þegar einhver hefur orðrétt eftir öðrum setningarhluta, setningu eða jafnvel fleiri setningar. Í texta er algengt að aðgreina tilvitnanir frá öðrum texta með gæsalöppum eða inndrætti þegar um er að ræða lengri texta. Í hugverkarétti er almennt gerð undanþága fyrir tilvitnanir, en þá er skilyrði að tilvitnunin sé ekki uppistaða þess verks sem inniheldur hana og að vísað sé til höfundar með venjubundnum hætti. Vifta (tölvubúnaður). Vifta er tölvubúnaður til að kæla tölvur. Hún situr í tölvukassanum, bæði í borðtölvum og fartölvu, og dregur loft inn í kassann til kælingar. Henni stýrir hitaskynjari. Tilgangur viftunnar eru að kæla þá íhluti tölvunnar (t.d. örgjörva, móðurborð eða skjákort) sem framleiða hita og gætu skemmst við ofhitnun. Vefþjónn. Vefþjónn er netþjónn (miðlari) sem miðlar gögnum á vefinn með HTTP-samskiptastaðlinum. Vefþjónar eru venjulega með DNS nafn sem byrjar á „www“ sem stendur fyrir World Wide Web, líklegast nefnt eftir fyrsta vafranum - WorldWideWeb. Dæmi um vefþjón eru http://www.wikipedia.org/ og http://is.wikibooks.org/. Íhaldsflokkurinn (Bretlandi). Flokkur íhaldsmanna og sambandssinna (enska: "Conservative & Unionist Party") sem er betur þekktur sem Íhaldsflokkurinn er breskur stjórnmálaflokkur. Hann var á rætur að rekja aftur til ársins 1678 en var formlega stofnaður árið 1834. Helstu stefnur flokksins eru íhaldsstefna, bresk sambandsstefna, frjálslynd íhaldsstefna og thatcherismi. Winston Churchill og Margrét Thatcher voru forsætisráðherrar fyrir flokkinn. David Cameron er núverandi forsætisráðherra Breta fyrir Íhaldsflokkinn. Akólí. Akólí er nílósaharamál mál talað af hálfri milljón manna í Norður-Úganda og Suður-Súdan. Flores. Flores er eyja í Asóreyjaklasanum. Hún er vestust þeirra og er þar með vestasti landshluti Evrópu. Á Flores búa um 4000 manns, flestir í bænum Santa Cruz, sem er á norðausturhluta eyjarinnar. Á miðri vesturströndinni er bærinn Faja Grande, sem er vestasti bær Evrópu. Þar búa um 200 manns. Um 4 kílómetra norð-norðvestur af Faja Grande rís gígtappinn Ilhéu do Monchique úr hafinu. Hann er vestasti klettur Evrópu. Hnattstaða hans er 39°29'43"N, 31°16'30"V. Keltnesk tungumál. a>. Keltnesku málin eru auðkennd með grænum lit. Útbreiðsla keltneskra tungumála á miðöldum. Skotland er auðkennt í heild, þó að skosk gelíska hafi verið töluð á hluta svæðisins. Keltnesk tungumál eru grein af flokki indóevrópskra mála. Í fornöld voru þau töluð í allri Mið- og Vestur-Evrópu, en takmarkast nú við ákveðin svæði á Bretlandseyjum og á Bretaníuskaga í Frakklandi. P-keltnesk og Q-keltnesk mál. Þessum fjórum flokkum er venjulega skipt í tvær greinar, en málfræðingar nota tvær ólíkar aðferðir við það. Önnur þeirra skiptir málunum í P-keltnesk og Q-keltnesk mál. Sem dæmi má nefna að "sonur" er "map" í P-keltneskum málum, en "mac" (borið fram "makk") í Q-keltneskum málum. Samkvæmt því eru gallísk og brýþonsk tungumál P-keltnesk, en gelísk og kelt-íberísk tungumál Q-keltnesk. Meginlandsmál og eyjamál. Önnur aðferð er að skipta keltneskum tungumálum í meginlandsmál og eyjamál. Undir meginlandsmál falla gallísk og kelt-íberísk tungumál, og undir eyjamál gelísk og brýþonsk tungumál. Samkvæmt þessari skiptingu hefur þróunin frá Q yfir í P orðið fyrir tilviljun á tveimur aðskildum svæðum. Bent er á önnur sameiginleg einkenni í eyjamáli, svo sem beygingu forsetninga og orðaröð. Samkvæmt þessari skilgreiningu er bretónska náskyld kornísku, og telst því eyjamál, þó að hún sé töluð á meginlandinu. Vitað er að á 5. og 6. öld flutti fólk frá Bretlandi til Bretaníuskaga, og er það væntanlega ástæðan fyrir þessum skyldleika málanna. Í bretónsku eru vissir þættir sem minna á meginlandsmál, og geta verið úr því máli sem var fyrir á svæðinu. Finna má góð rök fyrir báðum aðferðunum við flokkun keltneskra mála. Þessi ágreiningur snertir ekki skiptingu hinna lifandi keltnesku mála í gelísk og brýþonsk mál, heldur snýst hann aðeins um þróunarsögu málanna. Margt er óljóst um sum keltnesku tungumálin. Oft eru einu heimildirnar örfáar áletranir og frásagnir rómverskra sagnaritara. Tilgátan um P-keltnesk / Q-keltnesk tungumál Vifta. Vifta er rafknúinn vélbúnaður sem notaður er til að koma hreyfingu á loft eða annað gas. Viftur hafa oft viftuspaða sem snúast á öxli sem rafmangsdrifinn. Þær skiptast í viftur sem snúast á öxli og miðflóttaaflsviftur. Blake Lively. Blake Christina Lively (fædd 25. ágúst 1987) er bandarísk leikkona og fyrirsæta sem fer með hlutverk Serenu van der Woodsen í sjónvarpsþáttunum Gossip Girl. Hún hefur einnig leikið í kvikmyndum, eins og "Accepted" og "The Sisterhood of the Traveling Pants", "The Private Lives of Pippa Lee", "The Town","Green Lantern" og "Savages". Æska. Lively fæddist í Tarzana í Los Angeles og er dóttir leikaranna Ernie og Elaine Lively.Hún var alin upp sem baptisti. Hún er yngst af fimm systkinum; hún á bróðurinn Eric, hálfsysturnar Lori og Robyn og hálfbróðurinn Jason. Báðir foreldrar hennar og öll systkini hennar hafa verið, eða eru í, skemmtanabransanum. Í æsku tóku foreldrar Lively hana alltaf með í leiklistartímana sem þau kenndu því þau vildu ekki skilja hana eftir hjá barnapíu. Lively hefur sagt að það að horfa á foreldra sína kenna leiklist hafi hjálpað henni að ná grunnatriðum leiklistarinnar og eflt sjálfstraust hennar þegar hún varð eldri. Sem barn fór Lively með móður sinni tvisvar í viku í Disneyland til að þær gætu tengst betur. Lively hefur sagt að eftir allan þann tíma sem hún hefur eytt þar, finnist henni eins og hún hafi "alist upp í Disnleylandi". Í upphafi hafði Lively ekki mikinn áhuga á leiklist, en sumarið eftir þriðja árið í menntaskóla (e."high school") bað bróðir hennar, Eric, umboðsmanninn sinn um að senda hana í nokkrar áheyrnaprufur yfir sumartímann. Eftir nokkrar prufur fékk hún hlutverk Bridgetar í kvikmyndinni "The Sisterhood of the Traveling Pants". Livley tók upp atriðin sín fyrir myndina um sumarið. Ferill. Lively byrjaði leikferilinn 11 ára þegar hún lék í kvikmyndinni "Sandman" (1998) sem var leikstýrt af föður Lively. Lively á frumsýningu myndarinnar "The Sisterhood of the Traveling Pants 2 Hún lýsir hlutverkinu í kvikmyndinni sem pínulitlu. Lively birtist síðan í kvikmynd sem byggð var á bókinni "Gallabuxnaklúbburinn" (e. "The Sisterhood of the Traveling Pants") árið 2005 sem Bridget, ein af fjórum aðalpersónum. Frammistaða Lively í myndinni gaf henni tilnefningu til Teen Choice Awards. Árið 2006 lék hún ásamt Justin Long í "Accepted" en hún lék einnig lítið hlutverk í hrollvekjunni "Simon Says". Á meðan Accepted fékk ekki góðar viðtökur gagnrýnenda, hlaut Lively mikið lof fyrir frammistöðu sína. Árið 2007 lék Lively annað titilhlutverkið í "Elvis and Anabelle", þar sem hún lék Anabelle, stelpu sem berst við búlimíu og vonast til að vinnna fegurðarsamkeppni. Hún hlaut mikið lof fyrir frammistöðu sína og hefur verið vísað til hlutverksins sem það hlutverk sem gerði hana fræga. Lively var ráðin í sjónvarpsþáttaröðina Gossip Girl á CW-stöðinni, sem var frumsýnd í september 2007. Hún leikur Serenu van der Woodsen í unglingadramanu. Fyrsta tímaritaforsíðan hennar var nóvemberblað Cosmo Girl árið 2007 þar sem hún ræddi um menntaskólaárin og ferilinn áður en hún byrjaði að leika í Gossip Girl. Árið 2008 endurtók Lively hlutverk sitt í framhaldsmyndinni, "The Sisterhood of the Traveling Pants 2". Líkt og með fyrri myndina hlaut Lively mikið lof gagnrýnenda. Í nóvember 2009 hafði myndin halað inn yfir 44 milljónum dollara. Árið 2009 lék Lively Grabrielle DiMarco, lítið hlutverk í rómantísku gamanmyndinni "New York, I Love You", sem var framhald myndarinnar "Paris, je t'aime". Þrátt fyrir góða gagnrýni gekk myndinni illa í miðasölu. Eitt af bestu hlutverkum Lively til þessa er aukahluverkið í kvikmyndinni "The Private Lives of Pippa Lee" (2009) þar sem hún lék aðalpersónuna á yngri árum. Í október 2009 byrjaði Lively að taka upp atriði sín sem Krista Coughlin í kvikmyndinni "The Town" (2010) sem var byggð á skáldsögu Chuck Hogan, "Prince of Thieves". Kvikmyndin, þar sem Ben Affleck fer með aðalhlutverkið, kom út í Bandaríkjunum þann 17. september 2010 og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Lively lék Carol Ferris, aðal kvenhlutverkið og ástkonu Hal Jordan í ofurhetjumyndinni "Green Lantern" sem kom út í júní 2011. Alls halaði myndin inn 220 milljónum dala í miðasölu en þótti hins vegar ekki standast væntingar, þrátt fyrir að tekjur myndarinnar væru hærri en framleiðslukostnaðurinn. Lively lék í tónlistarmyndbandi við lag The Lonely Islands, "I Just Had Sex" ásamt Jessicu Alba í desember 2010. Árið 2012 lék hún í kvikmynd Oliver Stone, "Savages" ásamt Taylor Kitch, Aaron Johnson, Sölmu Hayek og John Travolta. Lively fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína og var lýst sem "klárri og nákvæmri þar sem hún leikur svo brotna, hjálparlausa sál". Lively átti að leika í mynd Steven Soderbergh's, "The Side Effects" en Rooney Mara fékk hlutverkið í hennar stað. Þrátt fyrir það var Lively valin sem andlit nýja Gucci ilmsins árið 2012, Guccie Premiere. Hún lék einnig í stuttmynd sem var leikstýrt af Nicolas Winding Refn fyrir ilminn. Einkalíf. Fyrir bandarísku forsetakosningarnar árið 2008 lýsti Lively yfir stuðningi sínum við forsetann Barack Obama. Livley og Penn Badgley léku í pro-Obama auglýsingu fyrir MoveOn.org. Árið 2011 var hún á árlegum lista tímaritsins TIME yfir 100 áhrifamesta fólkið. Til viðbótar útnefndi vefsíðan AskMen.com hana mest aðlaðandi konu ársins 2011 og tímaritið People útnefndi hana eina af þeim fallegustu á hvaða aldri árið 2012. Sambönd. Lively átti í ástarsambandi við leikarann Kelly Blatz á árunum 2004-2007, en þau voru æskuvinir. Lively var í sambandi með leikaranum Penn Badgley frá síðari hluta árs 2007 fram í september 2010. Hún átti þá í ástarsambandi við leikarann Leonardo DiCaprio frá miðjum maí fram í október 2011. Lively byrjaði með mótleikara sínum úr Green Lantern, Ryan Reynolds í október 2011. Í júní 2012 keyptu þau Reynolds hús í Bedford í New York, fyrir 2 milljónir dollara. Parið gekk í hjónaband þann 9. september 2012 á Mount Pleasant í Suður-Karólínu. Guðsgjafaþula. Guðsgjafaþula er síðasta skáldsaga Halldórs Laxness. Sagan er byggð á síldarævintýri millistríðsáranna og er talið næsta víst, að Óskar Halldórsson síldarspekúlant, sé fyrirrmynd höfuðpersónu sögunnar, Íslands-Bersa. Unnur Jökulsdóttir. Unnur Þóra Jökulsdóttir (f. 1955 í Reykjavík) er íslenskur rithöfundur, sem er meðal annars þekkt fyrir bækur sínar og Þorbjörns Magnússonar um siglingar á skútunni "Kríu" yfir Atlantshafið og Kyrrahafið. Clerks II. "Clerks II" er grínmynd frá árinu 2006 eftir leikstjórann og leikarann Kevin Smith. Tækifærissýking. Tækifærissýking er sýking orsökuð af örveru sem að öllu jöfnu er ekki sýkill í því umhverfi sem hún venjulega þrífst í. Almennt má segja að tækifærissýklar valdi ekki sýkingum í einstaklingum með óskerta ónæmisstarfsemi. Skerðing á starfsemi ónæmiskerfisins, hvort sem hún er af völdum sjúkdóma eða annarra þátta, skapar "tækifæri" til sýkingar. Tækifærissýkingar geta einnig orðið í einstaklingum með óskerta ónæmisstarfsemi ef ytri þættir verða til þess að örveran nær að vaxa og dafna í þeim hlutum líkamans sem eru henni alla jafna lokaðir. Dæmi um slíka tækifærissýkingu er þegar sár á húð verða til þess að gerlar berast af húðinni í blóðrásina og þaðan til annarra vefja líkamans. Gelíska. Útbreiðsla gelísku í Skotlandi árið 2001. Í skosku Hálöndunum eru tvímála vegaskilti orðin algeng. Gelísku örnefnin eru þar í fyrsta sæti. Gelíska – eða skosk gelíska – (á gelísku: "Gàidhlig", enska: "Gaelic") er keltneskt tungumál sem er talað í Skotlandi, einkum í skosku Hálöndunum og á Suðureyjum. Gelíska er náskyld írsku og mönsku, en öll þessi mál eru komin af fornírsku. Utan Skotlands hefur gelíska stundum verið kölluð "skoska", en það heiti er nú notað um þá mállýsku af ensku sem töluð er í Skotlandi, sjá skoska. Saga skoskrar gelísku. Á árabilinu 300–500 e.Kr. tóku stórir hópar fólks sig upp frá Írlandi og námu land í Skotlandi. Þeir kölluðu sig "Skota", og dró landið síðan nafn af þeim. Þeir voru fyrst einkum á svæðinu við Argyll, og breiddist tungumál þeirra og menning þaðan út. Tungumál þeirra sem fyrir voru í landinu, péttneskan og kumbrískan, létu undan síga. Deilt eru um hvort péttar eða piktar töluðu keltneskt mál, en vitað er að hinn írski Kólumkilli, sem boðaði trú meðal þeirra, varð að notast við túlk. Mál pétta vék með tímanum alveg fyrir gelísku og fornnorsku (sem breiddist út frá Orkneyjum eftir 900). Gelískan stóð sterkast í Skotlandi á 11. og 12. öld, en hún var þó aldrei töluð í öllu landinu. Eftir það fór hún að víkja fyrir máli innrásarmanna, fyrst Normanna, sem töluðu franska mállýsku, en síðan fyrir ensku, sem yfirstéttin og stjórnkerfið notaði. Um svipað leyti fór skoska gelískan að greinast frá írsku. Talsverður mállýskumunur er nú milli héraða, án þess þó að torvelda skilning. Írska og gelíska eru það lík mál, að þeir sem hafa góð tök á öðru málinu skilja hitt í meginatriðum. Munurinn er minnstur í þeim héruðum Skotlands sem næst eru Írlandi. Elsta handrit á skoskri gelísku er frá 12. öld (Book of Deer), og er málið þar náskylt írsku. Á 17. öld var svo komið að gelískan var fyrst og fremst bundin við vestanverð Hálöndin og Suðureyjar. Enska yfirstéttin vann markvisst að því að berja gelískuna niður. Þannig samþykkti enska þingið árið 1616 að „gelískan skyldi numin úr gildi og afmáð í Skotlandi“. Afdrifaríkir voru nauðungarflutningar fólks frá Hálöndunum á 18. og 19. öld. Gelískan lifði þó af og stendur nú sterkast á Suðureyjum, þar sem allt að 75% fólks talar málið í einstökum svæðum, einkum á ytri eyjunum, svo sem Ljóðhúsum (Lewis) og eyjunum þar suður af. Árið 2001 voru um 60.000 manns sem töluðu gelísku á Skotlandi, og tæplega 100.000 manns sem höfðu nokkra færni í málinu. Á 19. öld fluttist mikill fjöldi fólks frá Skotlandi til Norður-Ameríku. Þá var stofnuð nýlenda gelískumælandi Skota á Cape Breton í Nýja Skotlandi (Nova Scotia). Árið 1900 bjuggu þar um 100.000 manns, og töluðu 75% þeirra skoska gelísku. Þetta byggðarlag hefur átt undir högg að sækja, og margir flutt burt. Nú eru þar fáir eftir sem tala málið. Staða gelískunnar. Gelískan hefur lengi liðið fyrir að hafa ekki verið notuð í skólum og í stjórnkerfinu. Árið 2005 hlaut hún nokkra opinbera viðurkenningu þegar skoska þingið samþykkti lög um gelíska tungu, sem ætlað er að tryggja stöðu málsins. Skosku fræðslulögin frá 1872 tóku ekkert tillit til gelískunnar, og varð það til þess að mörgum kynslóðum var bannað að tala móðurmálið í skólanum. Hlutu margir barsmíðar fyrir. Nú er almennt viðurkennt að þetta hafi unnið tungunni óbætanlegt tjón. Breska ríkisstjórnin hefur staðfest tilskipun Evrópusambandsins um stöðu minnihlutamála, og á hún við gelísku, eins og velsku og írsku. Nýja testamentið var gefið út á skoskri gelísku árið 1767 og Biblían í heild 1801. Almennt var kirkjulegt starf þó á ensku í samræmi við opinbera stefnu. Á síðari árum hefur kirkjan þó tekið jákvæðari afstöðu til gelískunnar, þó að illa hafi gengið að fá gelískumælandi presta. Á Suðureyjum er gelískan nú notuð af héraðsstjórninni og kennd í skólum, í sumum þeirra er hún málið sem kennt er á. Árið 2006 var stofnaður í Glasgow unglingaskóli þar sem kennt er á gelísku. BBC starfrækir gelíska útvarpsstöð, og sumar sjónvarpsstöðvar eru með hluta dagskrár á gelísku. Gelísk áhrif á íslensku. Margir landnámsmenn á Íslandi komu frá norðurhluta Skotlands, eða eyjunum þar í grennd. Því er eðlilegt að nokkurra gelískra áhrifa gæti í íslensku, en stundum getur verið um írsk áhrif að ræða. Væringjar. Væringjar voru norrænnir víkingar sem voru á mála hjá keisaranum í Miklagarði í kringum árið 1000. Orðið var einnig haft í byrjun 20. aldar um unga Íslendinga sem fóru utan að leita sér fjár og frama meðal stórþjóða heimsins (sbr. Einar Benediktsson). Leighton Meester. Leighton Marissa Meester (fædd 9. apríl 1986) er bandarísk leik- og söngkona. Meester hlaut fyrst athygli fyrir að leika Blair Waldorf í unglingadrama-þættinum "Gossip Girl". Hún lék nýlega í kántrí-dramakvikmyndinni "Country Strong" (2010), hryllingsmyndinni "The Roommate" (2011) og rómantísku gamanmyndinni "Monte Carlo" (2011). Æska. Meester fæddist í Fort Worth, Texas. Hún er dóttir Constance og Douglas Meester og hefur lengst af búið í New York borg og Los Angeles. Eftirnafn Meester er þýðing úr hollensku og þýðir „meistar“ eða „kennari“. Móðir hennar var í fangelsi eftir að hafa tekið þátt í eiturlyfjahring sem smyglaði maríjúana frá Jamaíka til Bandaríkjanna. Hún fæddi Leighton á spítala og fékk að vera með henni í þrjá mánuði, áður en hún þurfti að snúa aftur í fangelsi til að klára að afplána dóminn, en þá sá amma Leighton um hana. Hún á bróður, Alexander, sem er 8 árum yngri. Meester segir að foreldrar hennar hafi alið hana upp á eðlilegan hátt, og þrátt fyrir afbrot þeirra í fortíðinni séu þau gott fólk með reynslu sem hafi aðeins gert hana opnari og fordómalausa. „Það kenndi mér að það er ekki hægt að dæma einhvern, sérstaklega foreldra þína, fyrir það sem þeir gerðu í fortíðinni, því fólk breytist.“ Í viðtali við tímaritið "Cosmopolitan" segir hún að það hefði geta orðið margt verra úr henni. Hún hefur sagt að móðir hennar sé tískufyrirmynd hennar. Meester ólst upp á Marco Island á Flórída þar sem hún tók þátt í bæjarleikhúsinu og var í kirkjukórnum. Þegar hún var 11 ára fluttu hún og móðir hennar til New York borgar.Meester gekk í Professional Children's skólann og byrjaði að vinna sem fyrirsæta fyrir Ralph Lauren og þáverandi ljósmyndara (nú leikstjóra) Sofiu Coppola. Hún hefur einnig tekið þátt í Limited Too herferðum ásamt leikkonunni Amöndu Seyfried. Meester kom fyrst fram í sjónvarpi sem vinkona fórnarlambs morðs í sjónvarpsþættinum "Law & Order". Þegar hún var 14 ára flutti Meester til Los Angeles, Kaliforníu, þar sem hún vildi stöðugri vinnu, og gekk í menntaskólana í Hollywood og í Beverly Hills. Hún skipti síðan yfir í lítinn einkaskóla og útskrifaðist ári fyrr. Leiklist. Eftir að hafa leikið í Alyssu Turner í "Law & Order" árið 1999, var Meester gestaleikkona í tveimur öðrum þáttaröðum áður en hún fékk stórt hlutverk í "Hangman's Curse" sem var byggð á metsölubók eftir Frank Peretti. Hún lék einnig í "Tarzan" sem entist aðeins í 8 þætti. Meester byrjaði þá að landa gestahlutverkum í öðrum þáttaröðum eins og "Crossing Jordan", "8 Simple Rules", "7th Heaven", "Veronica Mars", "24" og "Entourage". Árið 2005 fékk Leighton hlutverk í þáttaröðinni "Surface" sem Savannah Bennet. Meester lék í tveimur myndum árið 2006, "Flourish" og "Inside". Hún lék einnig gestahlutverk í "Numb3rs" og í þremur þáttum af "House". Hún fór einnig með gestahlutverk í ' og "Shark" og lék aðalkvenhlutverkið í hryllingsmyndinni "Drive-Thru". Árið 2007 fékk hún hlutverk Blair Waldorf í unglingadramaþættinum "Gossip Girl". Þátturinn er byggður á bókaflokki eftir Cecily von Ziegesar og fjallar um líf ungra fordekraðra unglinga í New York. Frammistaða hennar í þáttunum hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda, það mesta af leikurum þáttanna og hefur Blair verið lýst sem mest framúrskarandi persónu þáttanna, en hún hefur einnig hlotið mikið lof fyrir fataval sitt. Hún átti í ástarsambandi við meðleikara sinn í Gossip Girl, Sebastian Stan. Meester birtist í sjónvarpskvikmyndinni "The Haunting of Sorority Row" og lék hlutverk í "Remember the Daze". Hún lék eining í hryllingsmyndinni "Killer Movie" árið 2008. Meester fór með lítil hlutverk í gamanmyndunum "Date Night" (2011) og "Going the Distance" (2011). Hún lék í dramamyndinni "Country Strong" (2010) og í hryllingsmyndinni "The Roommate" (2011). Árið 2011 lék hún ásamt Selenu Gomez og Katie Cassidy í rómantísku gamanmyndinni "Monte Carlo" sem er lauslega byggð á bók Jules Bass, "Headhunters". Hún á að leika í "The Uncatchable Cowgirl Bandits of Nottingham, Texas" ásamt Amber Heard; í dramamyndinni "The Oranges" á móti Hugh Laurie; og hún hefur einnig gengið til liðs við leikaralið gamanmyndarinnar "That's My Boy" ásamt Adams Sandler, Andy Samberg og Milo Ventimiglia. Tónlist. Í apríl 2009 skrifaði Meester undir plötusamning við Universal Republic. Fyrsta opinbera smáskífa Meester, "Somebody to Love", ásamt R&B söngvaranum Robin Thicke fór í spilun 13. október 2009 og kom út á netinu daginn eftir. Meester sagði frá því að Lil Wayne hafði unnið með henni að einu laga hennar, "Make It Rain", sem hefur enn ekki komið út. Önnur smáskífa hennar "Your Love's a Drug" kom út 30. mars 2010. Meester syngur með Cobra Starship í lagi hans "Good Girls Go Bad", en lagið náði á Topp 10 Billboard Hot 100 listans og náði hæst í 7. sæti, ásamt því að syngja í lagi Stephen Jerzak, "She Said". Hún tók upp sína útgáfu af laginu "Christmas (Baby Please Come Home)" fyrir plötuna "A Very Special Christmas". Fyrir kvikmyndina "Country Strong" tók hún upp ábreiður af laginu "Words I Couldn't Say" með Rascal Flatts ásamt "A Little Bit Stronger" eftir Söru Evans sem eru í myndinni; en hún tók einnig upp lagið "Summer Girl" og dúettinn "Give In To Me" sem hún söng með Garrett Hedlund. Í október 2010 sagði Meester að hún hafði verið að vinna með hljómsveit sem heitir Check in the Dark og hefði verið að semja lög síðasta hálfa árið eftir að hafa fengið innblástur frá "Country Strong": „Ég hef bara verið að skemmta mér og samið frá hjartanu“. Hún sagði frá áhrifavöldum sínum, „Ég elska Neil Young og Joni Mithcell, þess konar tónlist, og ég held að hjarta mitt sé í lagaskrifum“. Einkalíf. Frá 2008 til 2010 átti Meester í ástarsambandi við leikarann Sebastian Stan. Í júlí 2011 höfðuðu Meester og móðir hennar mál gegn hvor annarri vegna fjárhagslegs stuðnings við yngri bróður hennar sem glímir við mörg heilsufarsleg vandamál. Kæra Meester fullyrðir að peningarnir sem hún sendi hafi verið misnotaðir af móður hennar; kæra móður hennar segir að Leighton hafi framið samningsbrot og misnotkun. Í nóvember 2011 lét Constance Meester 3 milljóna dala málsóknina niður falla. Sagt er að Leighton sé að sækja um fullt forræði yfir 17 ára bróður sínum, Alexander, sem hefur glímt við heilsufarsvandamál og gekkst nýlega undir aðgerð á heila. Stórhættulega strákabókin. "Stórhættulega strákabókin" er bresk handbók fyrir drengi skrifuð af bræðrunum Conn og Hal Iggulden. Meðal kafla í bókinni eru t.d. „Nauðsynlegur útbúnaður“, „Besta pappírsskutla í heimi“, „Sjö undur fornaldar“ og „Hnútagerð“. Bókin kom fyrst út árið 2006. Hún kom út staðfærð í íslenskri þýðingu árið 2008. Nimis. Nimis - yfirlitsmynd yfir verkið Nimis (eða Nímis) (latína: "of mikið, úr hófi keyrandi") er listaverk - þó sumir deili þar um - sem stendur við Kullaberg við suðvesturströnd Svíþjóðar. Kullaberg er sérkennileg klettaborg í Hauganesbæ (sænska: "Höganäs kommun") í Skáni. Nimis er aðallega gert úr rekaviði. Listaverkið, sem listamaðurinn kallar skúlptúr, er eftir Lars Vilks og hófst hann handa við verkið um 1980 og er enn í byggingu (árið 2008). Lars Vilks hefur síðan stofnað til fríríkis, sem hann nefnir Ladonien, og spannar það svæðið í kringum listaverkið. Garðaskóli. Garðaskóli er grunnskóli á unglingastigi, staðsettur í Garðabæ. Skólastjóri Garðaskóla er Ragnar Gíslason. Innan veggja Garðskóla er einnig hýstur alþjóðlegur skóli og félagsmiðstöð, Garðalundur. Ringo Starr. Ringo Starr (listamannsnafn Richard Starkey) (fæddur 7. júlí 1940, Liverpool) er enskur tónlistarmaður, söngvari, textahöfundur og leikari sem varð frægur sem trommuleikari Bítlanna. Ringo Íslandsfari. Ringo Starr hefur þrisvar komið til Íslands. Í fyrsta skiptið spilaði hann með Stuðmönnum á Verslunarmannahelgi í Atlavík árið 1984, og í annað skiptið kom hann 2007 til að heiðra minningu John Lennon vegna vígslu Friðarsúlunnar í Viðey. Í þriðja skiptið kom hann árið 2010 til að minnast John Lennon sem hefði orðið sjötugur það ár hefði hann lifað. Kynferðistvíbreytni. Kynferðistvíbreytni (eða kynferðistvímyndun og stundum kallað eingöngu tvíbreytni eða tvímyndun) er það þegar gagnstæð kyn sömu tegundar eru frábrugðin að stærð og/eða útliti. Gott dæmi um kynferðistvíbreytni tegundar er stokköndin, en "blákollurinn" (stokkandarsteggurinn) er mjög frábrugðin "kollunni". Skilaboðaskjóðan. Ævintýrasöngleikurinn "Skilaboðaskjóðan" er byggður á samnefndri bók Þorvaldar Þorsteinssonar sem kom út árið 1986 og naut mikilla vinsælda. Söngleikurinn var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhúsins í október árið 1993 í leikstjórn Kolbrúnar Haldórsdóttur og sló eftirminnilega í gegn. Jóhann G. Jóhannsson, núverandi tónlistarstjóri Þjóðleikhúsins, samdi tónlist fyrir verkið við texta Þorvaldar. Ný kynslóð ungra áhorfenda bauðst síðan að hverfa inn í ævintýraheim Skilaboðaskjóðunnar í nóvember 2007 og var Skilaboðaskjóðan endurlífguð að nýju í leikstjórn Gunnars Helgasonar. Sagan. Skilaboðaskjóðan segir frá Putta og Möddumömmu sem eiga heima í Ævintýraskóginum þar sem öll ævintýrin gerast. Þegar Nátttröllið rænir Putta til að breyta honum í tröllabrúðu, sameinast allir íbúar skógarins um að bjarga honum áður en sólin sest. En nornin, úlfurinn og stjúpan vilja ekki vera með og þá eru góð ráð dýr. British Airways. British Airways plc () er breskt flugfélag og eitt af stærstu flugfélagum Evrópu. Aðalflugvellir félagsins eru London Heathrow og London Gatwick. British Airways-hópurinn var myndaður þann 1. september 1974 úr BOAC og BEA. Þessi tvö fyrirtæki voru leyst upp þann 31. mars 1974 og sameinuð til að mynda BA. Fyrirtækið var einkavætt í febrúar 1987. British Airways er skráð í kauphöllina í London og er hluti af FTSE 100 vísitölunni. Óðaverðbólga. Óðaverðbólga er tegund verðbólgu sem fer gjörsamlega úr böndunum. Ekki er talað um óðaverðbólgu nema að mánaðarleg verðbólga mælist yfir 50%. Eitt þekktasta dæmi óðaverðbólgu er sú sem geisaði í Weimar lýðveldinu (Þýskalandi). Árið 1923 fékkst brauðhleifur sem var pund á þyngd fyrir 3 milljarða marka, pund of kjöti 36 milljarða og bjórglas 4 milljarða á flestum stöðum. Margir kenndu kaupmönnum af gyðingaættum um óðaverðbólguna. Verðbólga í Weimar-lýðveldinu. Þýsk frímerki frá þriðja áratugnum. Verðbólga í Weimar lýðveldinu var tímabil óðaverðbólgu í Þýskalandi (á þeim tíma Weimar-lýðveldið) frá 1921 til 1923. Óðaverðbólgan í Weimar-lýðveldinu var ekki fyrsta óðaverðbólgan, eða var ekki fyrsta óðaverðbólgan í Evrópu í þriðja áratugnum. Hins vegar var hún ein af frægum tilfellum óðaverðbólgu í sögunni. Internet Group Management Protocol. Internet Group Management Protocol (IGMP) er samskiptastaðall sem er notaður til að halda utanum IP multicast hópa. IGMP er notað af IP miðlum (netþjónum) og beinum. Einstaklingsnet. Personal Area Network er tölvunet í einstaklingsstærð, þ.e.a.s. tengir saman tvö eða fleiri tæki saman á svæði sem jafngildir lítilli skrifstofu eða svo. Netþjónn. Netþjónn er miðlari sem miðlar gögnum á net, hvort sem er lokuð innrinet eða á internetinu. Algengasta tegundin af netþjónum eru vefþjónar og póstþjónar. Netþjónar nota samskiptastaðla til að tengjast og skiptast á gögnum við biðlara. Dæmi um biðlara eru til dæmis heimilistölvur sem eru með vafra og leitarvélar og vefköngulær þeirra. Dæmi um samskiptastaðla eru TCP, IP, UDP, HTTP og SMTP. Jakobína Johnson. Jakobína Johnson (fædd: "Sigurbjörnsdóttir") (24. október 1883 – 7. júlí 1977) var vesturíslensk skáldkona og þýðandi. Hún fluttist 5 ára til vesturheims, og bjó fyrsti í Winnipeg og víðar í Manitoba, en síðar í Seattle í Bandaríkjunum þar sem hún lést. Hún þýddi mörg íslensk ljóð á ensku. Perth. Perth er með stærri borgum Ástralíu og höfuðborg fylkisins Vestur-Ástralía. Íbúar Perth eru 1,5 milljón. Chace Crawford. Christopher Chace Crawford (fæddur 18. júlí 1985) er bandarískur leikari og er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Nate Archibald í sjónvarpsþættinum "Gossip Girl" á CW-stöðinni. Æska. Crawford fæddist í Lubbock og ólst upp í Dallas,Texas. Faðir hans, Chris er húðlæknir og móðir hans, Dana, er kennari. Hann á einnig litla systur, fyrrum fegurðardrottninguna Candice Crawford. Hann bjó í Bloomington í Minnesota í fjögur ár og útskrifaðist frá menntaskólanum Trinity Christian Academy. Eftir menntaskóla flutti hann til Mailibu í Kaliforníu til að læra í Pepperdine háskólanum þar sem hann lærði fjölmiðlafræði. Hann átti erfitt með að ákveða sérgrein og skiptir yfir í viðskiptafræði. Ferill. Árið 2007 landaði Crawford hlutverki Nate Archibald í sjónvarpsþættinum "Gossip Girl". Hann lék í tónlistarmyndbandi Leonu Lewis við lagið „I Will Be“ sem kom út í janúar 2009 og þetta sama ár var Crawford útnefndur „Heitasti piparsveinn sumarsins“ af tímaritinu "People". Crawford skrifaði undir samning um að leika dópsalann White Mike í kvikmyndinni "Twelve" sem var leikstýrt af Joel Schumacher. Kvikmyndin, sem byggð er á samnefndri skáldsögu eftir Nick McDonnel, var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni 31. janúar 2010. Hann átti að leika aðalhlutverkið í endurgerð kvikmyndarinnar "Footloose" en hætti við. Zac Efron var einnig tengdur við verkefnið áður en hann hætti við. Kenny Wormald var að lokum ráðinn til að leika í myndinni. Í maí 2011 var tilkynnt um að Crawford hefði verið ráðinn til að leika í rómantísku gamanmyndinni "Responsible Adults" á móti leikkonunni Katie Holmes sem var skrifuð af Alex Schemmer og leikstýrt af Jon Poll. Hann mun leika hinn 22 ára gamla Baxyer Wood. Áætlað er að tökur hefjist í haust í Los Angeles. Í júní 2011 skrifaði Crawford undir samning um að leika suður-afrískan mann sem er sakaður um morð í nýrri óháðri kvikmynd sem er byggð á skáldsögu Nadine Gordimer frá árinu 1998, "The House Gun". Myndin segir sögu ríks, frjálslegs suður-afrísks manns, sem leikinn er af Pierce Brosnan, sem ræður hörundsdökkan lögmann til að verja son sinn Duncan (Crawford) þegar hann er sakaður um að myrða vin sinn. Kvikmyndinni verður leikstýrt af Bruce Beresford og skrifuð af Gordimer. Þann 12. júlí 2011 tilkynntu Lionsgate og framleiðendur kvikmyndarinnar "What to Expect When You're Expecting" sem er byggð á samnefndri bók eftir Heidi Murkoff, að Crawford hefði verið ráðinn til að leika í myndinni ásamt Cameron Diaz og Jennifer Lopez. Crawford mun leika Marco í einni af innri sögum myndarinnar. Myndin verður frumsýnd 11. maí 2012 í Bandaríkjunum. Einkalíf. Þann 4. júní 2010 var Crawford handrekinn í Plano, Texas með maríjuana í fórum sínum. Lögreglan sagði að Crawford hefði verið inni í bíl sem hafð iverið lagt þegar hann var handtekinn með minna en 60 g af marijuana. Crawford hélt því fram að hann væri saklaus og hefði bara verið á röngum stað á röngum tíma. Árið 2011 var tilkynnt um að ákærunni hefði verið vísað frá og sakavottorðið hans hreinsað ef hann mætti ákveðnum skilyrðum, þar á meðal 24 klukkustundir af samfélagsþjónustu og hefði samband við skilorðsmann sinn einu sinni í mánuði í eitt ár. Biðlari. Í tölvunarfræði er biðlari tölva eða hugbúnaður sem sækir upplýsingar til einhvers miðlara (annars hugbúnaðar eða tölvu í öðru tölvukerfi) í gegnum tölvunet. Biðlari getur líka hegðað sér sem miðlari þegar hann hefur náð í gögnin og sent önnur til baka. Tölva flokkast ekki sem miðlari þótt hún sendi beiðni um gögn eða svar um að gögnin hafi borist samkvæmt samskiptastaðli. Tölvunet. Tölvunet er hópur samtengdra tölva. Tölvunet er hægt að nota til að deila upplýsingum og gögnum á stafrænu formi. Tölvunet er hægt að flokka í flokka eftir stærð og gerð. Með gerð er bæði átt við gerð einingana sem tengir tölvurnar saman og samskiptastaðlana sem tölvurnar nota. Hér á eftir eru nokkrir flokkar tölvuneta eftir stærð. PAN. Personal Area Network eru tölvunet sem ná yfir mjög lítið svæði. Dæmi um PAN er samtenging tveggja tölva sem eru við hlið hver annarar. Einnig er það oftast PAN þegar skipst er á gögnum í gegnum Bluetooth. Staðarnet. Staðarnet (e. LAN) eru tölvunet sem ná yfir lítið svæði svo sem heimili, skrifstofu eða skrifstofubyggingar. Uppbygging staðarneta er oftast á þá leið að einn netþjónn sér um uppihald netsins þó einnig séu til aðrar gerðir staðarneta eins og jafningjanet sem styðjast við samskiptastaðla á borð við IP. Víðnet. Víðnet er skilgreint sem tölvunet sem nær yfir stórt svæði. Víðnet getur samanstaðið af mörgum minni netum, staðarnetum, sem hafa samskipti sín á milli með beinum (e. routers). Víðnet eru notuð til að sameina mörg önnur net þannig að hægt sé að hafa samskipti á milli þessara annars aðskildu neta, staðarneta. Brauðmolaslóð. Brauðmolaslóð er sérstök tegund leiðsagnar sem notuð er í viðmóti. Tilgangur hennar er að gefa notendum þann möguleika að sjá núverandi staðsetningu þeirra innan forrita eða skjala. Nafn hugtaksins kemur úr ævintýrinu Hans og Grétu. Ed Westwick. Edward „Ed“ Westwick (f. 27. júní 1987) er enskur leikari og tónlistarmaður sem er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Chuck Bass í sjónvarpsþættinum "Gossip Girl". Æska og ferill. Westwick fæddist í Stevenage í Hertfordshire á Englandi og er sonur Carole, sálfræðings, og Peter Westwick, háskólaprófessors. Hann ólst upp í Stevenage og æfði í National Youth-leikhúsinu í London. Hann heldur með Chelsea F.C. Hann byrjaði feril sinn á að birstast í breskum sjónvarpsþáttum eins og "Doctors as Holden", "Casualty" og "Afterlife". Hann lék einnig í kvikmyndunum "Breaking and Entering", "Children of Men" og "Son of Rambow". Árið 2007 var Westwick ráðinn í unglinga-dramaþáttinn "Gossip Girl" sem Chuck Bass. Eftir að þátturinn sló í gegn var hann útnefndur „kynþokkafyllsti maður á lífi“ árið 2008 af tímaritinu "People", birtist árið eftir á lista þeirra yfir „100 fallegustu“ ásamt öllum leikurum "Gossip Girl", vann tvö verðlaun árin 2008 og 2009 fyrir besta þorpara í sjónvarpi og var útnefndur sem vonarstjarna "GQ" árið 2010. "Entartainment Weekly" útnefndi persónu Westwicks, Chuck Bass, „best klæddu sjónarpsþáttapersónu ársins 2008“ (en deildi þó sætinu með persónu Leighton Meester, Blair Waldorf). Árið 2008 varð Westwick nýtt andlit K-Swiss en hann var annar meðlimur leikaraliðs "Gossip Girl" til að kynna íþróttafatnað (Leighton Meester auglýsti Reebok) og lék í hryllingsmyndinni "100 Feet" Árið 2009 lék Westwick hlutverk í framhaldsmynd "Donnie Darko" og lék einnig gestahlutverk í þriðju þáttaröð "Californication" en hann lék nemanda sem var dolfallinn aðdáandi vampírubókmennta. Í maí 2009 var hann nefndur við hlutverk Heathcliff í "Wuthering Heights". En í janúar 2010 fór kvikmyndin í hendur nýs leikstjóra sem ákvað að breyta leikaravalinu. Í janúar 2011 gekk Westwick til liðs við mynd Clint Eastwoo, "J. Edgar", en Leonardo DiCaprio fór með hlutverk J. Edgar Hoover, fyrsta forstjóra bandarísku Alríkislögreglunnar (FBI). Þetta sama ár lék hann í rómantísku gamanmyndinni "Chalet Girl" ásamt Felicity Jones. Hann las að hluta inn á hljóðbókarútgáfu "City of Fallen Angles" eftir Cassöndru Clare og las inn á aðra skáldsögu hennar úr bókaflokkinum "Clocwork Prince from The Infernal Devices". Westwick varð einnig alþjóðlegur frægur talsmaður Penshoppe, um mitt ár 2011. Hann á að leika í nýrri útgáfu af Róme og Júlíu, sem frændi Júlíu, Tíbalt ásamt Hailee Steinfeld. Einkalíf. Westwick hóf ástarsamband með mótleikkonu sinni úr "Gossip Girl", Jessicu Szohr árið 2008. Þau slitu sambandinu í maí 2010 og Westwick sagði í kjölfarið „kærustur eru of mikill höfuðverkur“ en þau byrjuðu aftur saman í stuttan tíma við tökur fjórðu þáttaraðar "Gossip Girl" í ágúst 2010. Í febrúar 2012 var tilkynnt um að Westwick og Szohr hefðu aftur tekið upp samband sitt. Fyrir utan leiklist var hann forsprakki bresku indie-rock hljómsveitarinnar "The Filthy Youth" sem samanstóð af honum, Benjamin Lewis Allingham, Jimmy Wright, Tom Bastiani og John Vooght. Á meðan hann er óvirkur meðlimur bandsins, aðallega vegna þess að hann vill einbeita sér að leiklistarferlinum, og hinir hljómsveitarmeðlimirnir eru búsettir í Bretlandi, hefur hann sýnt áhuga á því að stofna aðra hljómsveit í New York. Penn Badgley. Penn Dayton Badgley (fæddur 1. nóvember 1986) er bandarískur leikari. Hann er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Dan Humphrey í sjónvarsþáttaröðinni "Gossip Girl". Hann hefur einnig leikið í kvikmyndunum "John Tucker Must Die", "The Stepfather", "Easy A" og "Margin Call". Æska. Penn fæddist í Baltimore í Maryland og eyddi barnæsku sinni ýmist í Richmond í Virgínu og Seattle í Washington. Í Seattle gekk hann í Charles Wright-akademíska skólann (í Tacoma í Washington) og var hann í barnaleikhúsinu í Seattle. Hann byrjaði snemma að tala fyrir barna-útvarpsstöðvar. 11 ára, flutti Penn með móður sinni til Hollywood og byrjaði leiklistarferil sinn. Samkvæmt meðleikara Badgleys, Blake Lively, reyndi Penn einnig fyrir sér sem söngvari og gaf út smáskífu árið 1998. Fjórtán ára tók Penn California High School Proficiency Exam og byrjaði í Santa Monica-háskólanum. Eftir að hafa klárað tvö ár í Santa Monica-háskólanum fékk hann inngöngu sem 3. árs nemi í Háskólann í Suður-Kaliforníu (USC), 17 ára gamall. Þar tók hann inngöngupróf samkvæmt reglum. Byrjun. Í fyrsta sinn sem Penn komst á kreditlista var þegar hann talaði inn á leikinn Mario Golf 64 árið 1999 en hann segist aldrei hafa spilað leikinn sjálfur. Hann endurtók leikinn árið 2000 þegar hann talaði inn á leikinn Mario Tennis 64. Hann birtist fyrst í sjónvarpi í þætti af Will & Grace. Hann fór þá að koma fram í þáttum eins og Daddio, The Brothers Garcia og What I Like About You ásamt fleirum. Hann lék einnig Scott Tucker, yngri bróður Johns Tucker, í John Tucker Must Die. Á opnunarhelgi myndarinnar halaði myndin inn 14,3 milljónum dala,og lenti í 3. sæti yfir gróðamestu myndir helgarinnar. 2. nóvember, hafði myndin samtals halað inn 41 milljón dala. Stóru tækifærin. Fyrsta eftirtektarverða hlutverk Badgleys var hlutverk hans sem Philip Chancellor IV#8 í sápuóperunni The Young and the Restless (2000-2001). Hann var tilnefndur árið 2001 á Young Artist Award fyrir bestu frammistöðu í dagsjónvarpi fyrir þetta hlutverk. Árið 2002 lék hann í hálftíma seriunni Do Over. Hann lék Joel Larsen, 34 ára mann, sem fær annað tækifæri til þess að lifa lífinu sínu rétt vegna skrýtins slyss sem lætur hann fara aftur til ársins 1980 og er hann þá 14 ára. Þátturinn var frumsýndur á WB-stöðinni, sem er núna CW-stöðin. Hann kom fram í the Tonight Show með Jay Leno þegar Do Over var frumsýndur. Þessi sjónvarpsþáttur var afturkallaður stuttu seinna. Badgley kom seinna fram í Drive Thru og þá lék hann Van en í myndinni lék einnig meðleikkona hans í Gossip Girl, Leighton Meester. Sumir áhorfendur þekkja hann frá næsta verkefni hans sem Sam Tunney í The Mountain (2004-2005) en þátturinn hætti eftir 1. þáttaröðina. Það sama henti The Bedord Diaries, annan sjónvarsþátt þar sem Penn lék aðalhlutverkið. Á meðan þátturinn var vinsæll var hætt við hann. Í nýja unglingadramanu leikur Penn Dan Humphrey, son rokkstjörnu frá 10. áratugnum, Rufusar Humphrey (Matthew Settle). Hann leikur kærasta ríku stelpunnar, Serenu van der Woodsen (Blake Lively). Þátturinn snýst um líf unga og ríka fólksins sem ganga í fínan einkaskóla, á meðan þau stunda kynlíf, nota eiturlyf og kljást við önnur unglingavandamál. Hann leikur einnig í endurgerð myndarinnar The Stepfather frá árinu 1987. Einkalíf. Seint árið 2007 var tilkynnt að Penn væri byrjaður með mótleikkonu sinni úr Gossip Girl og fyrrverandi bekkjarfélaga í æsku, Blake Lively. Í maí 2008 hafði tímaritið People birt myndir af þeim tveimur að kyssast í fríi í Mexíkó. Þau tvö hafa talað meira opinberlega um samband sitt síðan þá. Þau hættu saman haustið 2010. Í október 2008 kom Penn fram ásamt Blake í MoveOn.org framboðsauglýsingu til stuðnings Barack Obama. Taylor Momsen. Taylor Michel Momsen (fædd 26. júlí 1993) er bandarísk leikkona, tónlistarmaður og fyrirsæta. Hún leikur persónuna Jenny Humphrey í þættinum "Gossip Girl". Hún er einnig þekkt fyrir hlutverk sitt sem Cindy Lou Who í Þegar Trölli stal jólunum og fyrir að vera forsprakki rokkhljómsveitarinnar "The Pretty Reckless". Æska. Taylor Momsen fæddist í St. Louis í Missouri og er dóttir Collette og Michale Momsen. Þar gekk hún í Our Lady of Lourdes-skólann og bjó í Potomac í Maryland þar sem hún gekk í Herbert Hoover miðskólann. Yngri systir hennar,Sloane Momsen, er líka leikkona. Momsen gekk í Professional Performing Arts menntaskólann (P.P.A.S.) í New York borg. Hún hefur einnig æft dans. Ferill. Hún byrjaði að leika þriggja ára, í auglýsingu fyrir Shake 'N' bake. Síðan fékk hún hlutverk í The Prophet's-leiknum. Árið 2000 fékk Taylor hlutverk Cindy Lou Who í myndinni How The Grinch Stole Christmas. Tveimur árum seinna fékk hún hlutverk í tveimur kvikmyndum: Hans og Gréta, þar sem hún lék Grétu, og, þar sem hún lék Alexöndru, dóttur forsetans. Ferill Taylor stóð tæpt í yfir þrjú ar, þangað til hún fékk aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni "Misconceptions" en þættirnir voru aldrei sýndir. Árið 2002 söng Momsen lögin Rúdólf með rauða nefið og One Small Voice, með Myru og Camille Winbush fyrir "School's Out! Christmas". Momsen lék´i kvikmyndinni "Save Shiloh" (2006) og "Underdog" (2007). Hún fór í prufur fyrir aðalhlutverkið í "Hannah Montana" og var hún meðal þriggja efstu en Miley Cyrus fékk hlutverkið. Síðan 2007 hefur hún leikið Jenny Humphrey í sjónvarpsþáttaröðinni "Gossip Girl" en þættirnir eru byggðir á samnefndum bókum eftir Cecily von Ziegesar. Áætlað er að Momsen verði fjarverandi stóran hluta 4. þáttaraðarinnar vegna þess að persónan fékk mikinn söguþráð í lok þriðju þáttaraðar. Í júní 2008, fjórtán ára að aldri, skrifaði Momsen undir samning við IMG-módelskrifstofuna. Í mars 2009 sagði Momsen í viðtali við tímaritið OK! að bandið hennar, "The Pretty Reckless" hefði nýlega skrifað undir samning við Interscope-plötufyrirtækið. Hún sagði einnig að hún skrifaði öll lögin, syngi og spilaði á gítar á plötunni. Momsen lenti í 76. sæti á lista People yfir 100 fallegasta fólkið. Taylor við opnun Metropolitan óperunnar 2008 Félagsháttafræði. Félagsháttafræði er aðferð í félagsfræði sem gengur út á að lýsa (en ekki skýra eða leggja mat á) þeim aðferðum sem fólk beitir við að skilja, skapa og viðhalda eigin samfélagsskipan með samskiptum sín á milli frá degi til dags. Hugtakið var búið til af bandaríska félagsfræðingnum Harold Garfinkel á 6. áratug 20. aldar. Garfinkel byggði þessa aðferð á hugmyndum Alfred Schütz sem aftur byggði kenningar sínar í félagsvísindum á fyrirbærafræði Edmund Husserl og víxlverkunarhyggju William James. Hann leit á félagsháttafræði sem aðgreinda frá hefðbundinni félagsfræði; munurinn fælist í því að meðan félagsfræði lýsir fyrirfram gefnum félagslegum veruleika með sérfræðihugtökum, þá lýsir félagsháttafræði þeim aðferðum og hugtökum sem fólk notar við hversdagslegar aðstæður til að skapa og skilgreina eigin félagslega veruleika. Lögbirtingablaðið. Lögbirtingablaðið er íslenskt tímarit þar sem birtast auglýsingar frá íslenskum stjórnvöldum vegna dómsmála, uppboða á vegum ríkisins, kröfulýsingar, stofnun og aflagningu félaga og annað það sem stjórnvöld vilja birta annað en lög og reglugerðir sem eru birt í Stjórnartíðindum. Lögbirtingablaðið kom fyrst út í byrjun árs 1908 en áður höfðu stjórnvöld haft þann háttinn á að bjóða út birtingu auglýsinga. Hannes Hafstein bar fram frumvarp um sérstakt Lögbirtingablað þar sem ýmsum þótti óhentugt að birtingarstaður auglýsinga gæti breyst frá ári til árs og eins þótti stjórninni óviðeigandi að birta auglýsingar í sumum dagblöðunum af pólitískum ástæðum. Frumvarpinu var mótmælt meðal annars á þeirri forsendu að með því yrði ríkissjóður ekki aðeins af tekjum vegna uppboðsins heldur þyrfti líka að bera hallann af rekstri blaðsins. Frumvarpið var þó samþykkt árið 1907. Frá árinu 2002 hefur blaðið verið aðgengilegt á Vefnum og 2005 var ákveðið að hætta prentútgáfu þess þótt áfram verði hægt að panta prentuð eintök. Trjálína. a>. Í forgrunni sjást trén eins og þau eru við trjálínuna, þ.e. kræklótt og kalin á annarri hliðinni. Trjálína eru útmörk þess svæðis þar sem skógur fær þrifist. Utan trjálínu geta tré ekki vaxið vegna óhentugra umhverfisaðstæðna sem yfirleitt stafa af of miklum kulda, of litlum loftþrýstingi eða of litlum raka. Flipi. Flipi er viðmótshluti sem auðveldar notendum að ferðast um myndrænt viðmót, með því að skipta um skjöl. Flipar eru vanalega ferhyrndir kassar með texta ofan á. Flipar eru oftast virkjaðir annað hvort með því að smella á þá með músinni eða með því að nota flýtihnapp; og þegar flipi er valinn auðkennist hann ("highlight"), til að auðveldara sé að greina á milli virkra og óvirkra flipa- en aðeins einn flipi getur verið virkur í einu. Mistress Barbara. Barbara Bonfiglio (f. 1975) betur þekkt sem Misstress Barbara er ítalskur plötusnúður. Hún er best þekkt fyrir lagið „Never Could Have Your Heart“ sem var notað í leiknum Midnight Club 2. Klemens 9.. Klemens 9. (28. janúar 1600 – 9. desember 1669) var páfi frá 1667 til dauðadags. Hann hét upphaflega Giulio Rospigliosi og var af aðalsættum frá Pistoia í Toskana. Hann gekk í jesúítaskóla og lærði síðan heimspeki við Háskólann í Písa. Hann var náinn samstarfsmaður Úrbanusar 8. og var í hans valdatíð sendur sem postullegur sendiherra til Spánar og hélt þeirri stöðu eftir að Innósentíus 10. tók við. Hann samdi söngbækur fyrir óperur. Lítið markvert gerðist í skammri valdatíð Klemensar 9.. Hann gegndi hlutverki sáttasemjara í friðarsamningunum eftir Valddreifingarstríðið 1668. Hann hélt áfram kaupum Páfastóls á listaverkum. Hann samdi við Gian Lorenzo Bernini um gerð englanna á Ponte Sant'Angelo í Róm og við Antonio Maria Abbatini um myndskreytingu kórsins í Sixtínsku kapellunni. Pistoia. Pistoia er borg við rætur Appennínafjalla nyrst í Toskana. Íbúar eru um 90 þúsund. Borgin er höfuðstaður samnefndrar sýslu. Borgin var upphaflega rómverskar herbúðir í baráttu þeirra gegn Lígúrum. Borgin var eyðilögð af Austurgotum árið 406 og varð hluti af veldi Býsans á Ítalíu eftir endurbyggingu hennar. Árið 1105 varð hún sjálfstætt borgríki. Borgin varð illa úti í borgarastyrjöldum gvelfa og gíbellína en tókst að halda sjálfstæði með því að leggja lag sitt til skiptis við Lucca og Flórens. 1402 lenti borgin þó að lokum undir yfirráðum Flórens og varð svo hluti af stórhertogadæminu Toskana. Sjókort. Bandarískt hafnarkort frá Puerto Rico. Sjókort eru kort sem sýna hafsvæði og eru ætluð sjófarendum til að sigla eftir. Þau sýna þannig oftast dýptarpunkta eða dýptarlínur, siglingaljós (vita og baujur), hættuleg sker og boða. Þau sýna líka kennileiti við strandlengjuna, svo sem hafnir, brýr og algeng mið í landi. Spilverk þjóðanna. Spilverk þjóðanna er íslensk hljómsveit sem varð til í Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1974. Hljómsveitin var þekkt fyrir frumlega texta og óvenjulega hljóðfæraskipan. Til að byrja með var fjöldi meðlima breytilegur og eingöngu var leikið á órafmögnuð hljóðfæri. Þegar hljómsveitin tók upp sína fyrstu plötu "Spilverk þjóðanna" („brúnu plötuna“) árið 1975 voru meðlimir sveitarinnar Valgeir Guðjónsson, Egill Ólafsson, Diddú (Sigrún Hjálmtýsdóttir) og Sigurður Bjóla. Hljómsveitin naut mikilla vinsælda frá upphafi til enda en tók að leysast upp eftir 1977 þar sem allir hljómsveitarmeðlimir voru farnir að sinna öðrum verkefnum. Hljómsveitin gaf þó út "Ísland" 1978 og "Bráðabirgðabúgí" 1979 sem var síðasta plata sveitarinnar. 1997 kom út safnplatan "Sagan" með tuttugu lögum af hinum plötunum. Spilverk þjóðanna lýsti því yfir árið 2010 að hljómsveitin myndi koma aftur saman árið 2011. Árni Björnsson. Árni Björnsson (f. 16. janúar 1932) er íslenskur þjóðháttafræðingur. Hann var forstöðumaður þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands frá 1969 til 2002. Hann er einkum þekktur fyrir skrif sín um íslenskar hátíðir og tyllidaga og siði og þjóðtrú sem tengjast þeim. Þekktasta verk hans er líklega "Saga daganna" (1977) en sú bók er jafnframt doktorsritgerð hans, sem hann varði 1993. Smáíbúðahverfið. Smáíbúðahverfið er hverfi í Reykjavík sem afmarkast af Bústaðavegi til suðurs og Rauðagerði til norðurs. En einnig Grensásvegi til vesturs og Byggðaenda til austurs. Réttarholtsvegur sker hverfið í tvennt, suður, norður og Sogavegur austur, vestur. Persónustyrkleikar og dyggðir. "Persónustyrkleikar og dyggðir" er er handbók um mennskar dyggðir og styrkleika og er gefin út af Values in Action Institute, sem er „non profit“ framtakak Manuel D. og Rhoda Mayerson stofnuninnar sem er stjórnað af Dr. Neal H. Mayerson. Bókin er fulltrúi fyrstu tilraunar þessarar rannsóknarmiðstöðvar til að til að gera grein fyrir og flokka jákvæða sálfræðlega eiginleika manna. Á sama hátt og "Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders" er notað til að aðstoða við greiningu of flokkun á andlegum sjúkdómum, er bókinni "Persónustyrkleikum og dyggðum" ætlað að vera kenningarlegur rammi fyrir rannsóknir á jákvæðum eiginleikum. Bókin gerir grein fyrir sex flokkum dyggða sem hver hefur sex undirflokka styrkleika. Jákvæður sálfræðilegur auður. Jákvæður sálfræðilegur auður er skilgreindur sem jákvætt ástand hjá einstaklingi sem er í þróun og einkennist af sjálfstrausti, bjartsýni, von og seiglu. Inngangur. Um aldir hefur sálfræðin fyrst og fremst verið að fást við andleg bágindi. Á síðasta hluta 10. áratugarins kom fram nýtt svið innan sálfræðinnar sem hefur verið kallað jákvæð sálfræði. Jákvæð stofnanahegðun. Jákvæð stofnanahegðun er skilgreind sem „rannsóknir og notkun á jákvæðum styrkleikum manna og sálfræðilegum möguleikum sem hægt er að mæla, þróa, og stjórna á skilvirkan hátt til að bæta frammistöðu á nútíma vinnustað“. (Luthans, 2002a. bls. 59) Jessica Szohr. Jessica Karen Szohr (fædd 31. mars 1985 í Menomonee Falls í Wisconsin) er bandarísk fyrirsæta og leikona. Hún er best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Vanessa Abrams í Gossip Girl. Æska. Szohr fæddist í Menomonee Falls í Wisconsin og er elst af fimm systkinum. Hún er hálf ungversk og afrísk-bandarískum ættum. Hún byrjaði að vinna sem fyrirsæta sex ára og fyrsta alþjóðlega herferðin var fyrir Quaker hafra þegar hún var tíu ára og lék í auglýsingu fyrir verslunina Kohl. Hún útskrifaðist seinna úr menntaskólanum í Menomonee Falls og flutti 17 ára til Los Angeles til að láta reyna á leiklistarferil. Ferill. Szohr vann fyrir sér með því að leika í hinum ýmsu þáttum í Bandaríkjunum í kringum 2000. Hún lék gestahlutverk í mörgum þáttum eins og t.d. "That's So Raven", "My Wife and Kids", "What I Like About You" og "Joan of Arcadia". Árið 2007 lék hún hlutverk Lauru í sex þáttum af "What About Brian". Hún lék einnig Samönthu Barrish í þremur þáttum af "CSI: Miami". Þetta sama ár fékk hún hlutverk Vanessu Abrams í unglingadramanu Gossip Girl. Hún varð reglulegur gestur í fyrstu þáttaröðinni eftir 14 þátt seríunnar. Þættirinir hafa verið endurnýjaðir fyrir fjórðu þáttaröðina. Jessica hefur leikið lítil hlutverk í kvikmyndum eins og "Somebody Help Me", "The Reading Room" og "Fired Up!". Í apríl 2010 var Jessica ráðin í rómantísku gamanmyndina "Love, Wedding, Marriage", ásamt Mandy Moore og Kellan Lutz og er verið að taka myndina upp í New Orleans. Árið 2010 komst Szohr í 16. sæti lista People yfir fallegasta fólk í heimi árið 2010. Jessica átti í ástarsambandi við meðleikara sinn í Gossip Girl, Ed Westwick en hann leikur Chuck Bass í þáttunum. Heimildir. Szohr, Jessica Grey's Anatomy. Grey's Anatomy er bandarískur lækna-dramaþáttur sem fylgist með lífi nema, deildarlæknum og lærifeðrum þeirra á Seattle Grace-Mercy West sjúkrahúsinu í Seattle, Washington. Fyrsti þátturinn, „A Hard Day's Night“ var sýndur þann 27. mars 2005 á ABC sjónvarpsstöðinni. Síðan þá hafa sex þáttaraðir verið sýndar. Þátturinn hefur verið endurnýjaður fyrir sjöundu þáttaröðina. Hún byrjar þann 23. september 2010. Þátturinn hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Í byrjun var þátturinn aðeins uppfylling fyrir Boston Legal en hann fékk mikið áhorf og horfðu 16,25 milljónir á fyrsta þáttinn. Þátturinn handhafi tveggja Emmy-verðlauna og tveggja Golden Globe verðlauna og er einn vinsælasti þáttur sögunnar. Leikarar og sögupersónur. Sögupersónurnar í þáttunum einkennast af hóp af skurðlæknakandídátum og mismunandi skurðlækna sem þjóna sem kennarar þeirra í bæði vinnu- og einkalífum þeirra. Framleiðandi þáttanna notaði tækni sem kallast „blind-ráðning“ ("blind-casting" á ensku), sem leiddi til þess að leikararnir urðu af mismunandi kynþáttarupprunum. Það var ráðið í öll hlutverk án þess að kynþættir sögupersónanna væru sérstaklega frágreindir, eins og handritshöfundurinn, Shonda Rhimes, hafði óskað eftir. Aðalpersónurnar fimm eru Meredith Grey (Ellen Pompeo), Alex Karev (Justin Chambers), George O'Malley (T.R.Knight), Izzie Stevens (Katherine Heigl) og Christina Yang (Sandra Oh). Þau byrja sem læknanemar á Seattle Grace-sjúkrahúsinu og verða svo deildarlæknar eftir fyrsta árið. Kennarinn þeirra er Miranda Bailey (Chandra Wilson), almennur skurðlæknir sem verður yfirmaður skurðdeildar seinna meir. Skurðdeildinni stýrir Richard Webber (James Pickens Jr.) sem átti í ástarsambandi við móður Meredith þegar Meredith var ung. Í liði Webbers er taugaskurðlæknirinn Derek Sheperd (Patrick Dempsey) og hjarta- og lungnaskurðlæknirinn Preston Burke (Isaiah Washington). Derek er kynntur sem ástarskot Meredith, á meðan Preston byrjar samband við Cristinu. All the Lost Souls. All the Lost Souls er önnur stúdíóplata James Blunt og kom út þann 17. september 2007. Landssamband framsóknarkvenna. Landssamband framsóknarkvenna (LFK) var stofnað þann 21. nóvember árið 1981. Í lögum sambandsins segir að meginhlutverk LFK sé að efla og hvetja til stjórnmálaþátttöku kvenna. LFK styður þannig við starf þeirra kvenfélaga sem eru starfrækt innan Framsóknarflokksins. Fimmta bindið í ritröðinni „Sókn og sigrar“ sem fjallar um sögu Framsóknarflokksins kom út árið 2006. Bindið fjallar um fyrstu 25 árin í sögu LFK. Heimsferðir. Heimsferðir er íslensk ferðaskrifstofa sem var stofnuð í mars árið 1992. Fyrirtækið er ein stærsta ferðaskrifstofa landsins. Starfsmenn Heimsferða eru um 30, bæði á Íslandi og á áfangastöðum fyrirtækisins erlendis. Heimsferðir eru hluti af Primera Travel Group. Ferðaskrifstofan Terra Nova er í eigu Heimsferða. Á meðal áfangastaða sem Heimsferðir hafa skipulagt ferðir til má nefna Montreal, Kúba, Barbados, Kanaríeyjar, Tenerife, Barcelona, Stuttgart, París, Prag, Búdapest, Kraká, Króatía, Róm, Sikiley, Rhodos, Costa del Sol, Fuerteventura, Benidorm og Mallorca. Terra Nova. Terra Nova er íslensk ferðaskrifstofa sem annast bæði ferðir erlendra ferðamanna til Íslands og utanlandsferðir fyrir Íslendinga. Fyrirtækið hét upphaflega "Ferðamiðstöð Austurlands" og var stofnað 1978 á Egilsstöðum sem umboðsskrifstofa fyrir Flugleiðir og þjónustuaðili við erlenda ferðamenn, fyrst og fremst frá Frakklandi. Stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins frá upphafi er franska ferðaskrifstofan Nouvelles Frontieres, nú TUI. Árið 1995 tók fyrirtækið við söluumboði fyrir þýska flugfélagið LTU. Árið 1997 flutti Ferðamistöð Austurlands höfuðstöðvar sínar til Reykjavíkur og tveimur árum síðar var nafni ferðaskrifstofunnar breytt í Terra Nova. Árið 2002 sameinuðust Terra Nova og ferðaskrifstofan Sól og úr varð ein af stærstu ferðaskrifstofum landsins. Í lok árs 2003 eignaðist svo ferðaskrifstofan Heimsferðir meirhluta í félaginu. Nú er Terra Nova annar stærsti innflytjandi erlendra ferðamanna til Íslands auk þess að bjóða utanlandsferðir til fjölda áfangastaða í Evrópu. Íslenska flugfélagið Primera Air annast leiguflug fyrir Terra Nova á Íslandi og önnur dótturfyrirtæki Heimsferða í Skandinavíu og á Írlandi. Það er í eigu Primera Travel Group sem er móðurfélag Terra Nova. Innan Primera Travel Group eru einnig Heimsferðir auk ferðaskrifstofanna Solresor í Svíþjóð, Bravo Tours í Danmörku, Solia í Noregi, Matkavekka og Lomamatkaat í Finnlandi og Budget Travel á Írlandi. Símon Dalaskáld. Símon Dalaskáld (2. júlí 1844 – 9. mars 1916) var íslenskt skáld og förumaður á 19. og 20. öld. Hann var Bjarnarson en tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali (Vesturdal og Austurdal) þar sem hann átti lengst af heimili þótt hann væri mikið á flakki, en margir halda raunar vegna kenninafnsins að hann hafi verið upprunninn í Dalasýslu. Hann var fæddur á Höskuldsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum, giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt, var um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum, fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var þó ekki umrenningur eða betlari, miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Símon var talinn það sem kallað er talandi skáld og orti oft jafnhratt og aðrir mæla óbundið mál. Talið er að fáir Íslendingar hafi samið jafn margar vísur og Símon, því utan þær rímur sem hann samdi, orti hann vísur um þúsundir manna um land allt. Þótt Símon væri farinn að gefa út kver með rímum sínum og öðrum kveðskap fyrir þrítugt lærði hann ekki að skrifa fyrr en á fimmtugsaldri og varð aldrei vel skrifandi. Þó gaf hann út fjölmarga rímnaflokka, tvær ævisögur - "Bólu-Hjálmars sögu" og "Sögu Eiríks Magnússonar (Mera-Eiríks)", og löngu eftir dauða hans kom út skáldsaga sem hann hafði skrifað, "Árni á Arnarfelli og dætur hans". Ladónía. Ladónía (sænska: "Ladonien") er örríki sem var stofnað árið 1996 sem hluti af mótmælum sænska listamannsins Lars Vilks vegna úrskurða um brottflutning tveggja listaverka hans í þjóðgarðinum í Kullaberg á Skáni. Listaverkin heita "Nimis" og "Arx" og eru risahöggmyndir gerðar úr rekaviði annars vegar en steypu hins vegar. Þau standa á strönd Kattegat rétt fyrir norðan Eyrarsund. 1999 bætti Vilks þriðju höggmyndinni, "Omfalos", við, en hún var fjarlægð árið 2001 og reikningurinn sendur Vilks. Enginn lagalegur grundvöllur er fyrir stofnun ríkisins og ekkert annað ríki eða alþjóðastofnun hefur viðurkennt það með formlegum hætti. Héðinn Svarfdal Björnsson. Héðinn Svarfdal Björnsson (f. 1974) er verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis (áður hjá Lýðheilsustöð). Þar hefur hann m.a. umsjón með verkefninu 'Heilsueflandi framhaldsskólar'. Héðinn Svarfdal Björnsson fæddist á Akureyri en hefur dvalið í Bandaríkjunum í fjórtán ár, Englandi í fimm ár og Kína í tæp tvö ár. Jafnframt hefur hann unnið í Svíþjóð og Þýskalandi til skemmri tíma. Hann er menntaður á félagsvísindasviði (sálfræði og félagssálfræði) og starfar nú sem verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, ásamt því að vera stjórnarformaður Léraðs ehf., fararstjóri (Kína, Bretland, Eystrasaltslönd og Karíbahaf), kennari hjá Áhugahvöt sf. (sem sérhæfir sig í kennslu á áhugahvetjandi samtali) og rithöfundur (bók hans, titluð "Háski og hundakjöt", hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin [2006]). HDMI. HDMI (High-Definition Multimedia Interface, íslenska: "hágæða magmiðlunar tengi") er tegund tengis oftast notað til að tengja Blu-ray spilara við háskerpusjónvarp eða tölvu(leikjatölvu) við flatskjá. HDMI tengi flytur bæði hágæða mynd og hljóð. Hægt er að nota HDMI tengi í staðin fyrir Radio Frequency (RF) samása kapal, composite video, S-Video, SCART, component video, D-Terminal, og VGA tengi. Private Practice. Private Practice er þáttur sem spunninn er úr Grey's Anatomy. Hann er framleiddur af Shondu Rhimes. Þættirnir snúast um líf Dr. Addison Montgomery þegar hún kveður Seattle Grace sjúkrahúsið, til þess að ganga til liðs við einkastofu í Los Angeles. Metorð. Metorð, myndvídd, tign eða stétt (enska, "rank") fylkis í línulegri algebru segir til um það hver vídd grunnsins er; og jafngildir línuvíddinni og líka dálkvíddinni þar sem dálkvíddin og línuvíddin hafa alltaf sama gildi. Meðorð fylkisins "A" er oft táknað með rithættinum rk("A") eða rank "A". Línuvídd (e. row rank) fylkisins "A" er hlutrúmið sem línuvigrar fylkisins "A" spanna, og dálkvídd (e. column rank) fylkisins "A" er hlutrúmið sem dálkvigrar fylkisins "A" spanna. Hvernig skal reikna metorð. Auðveldasta leiðin til að reikna metorð fylkis "A" er með því að nota Gauß-eyðingu. Stallað form fylkisins "A" er jafnt metorði fylkisins "A", og hægt er að reikna út metorðið með því að telja hve margar línur á stallaða forminu innihalda aðrar tölur en núll. 4×3. sem hefur þrjár raðir sem eru ekki núll. Af því sést að metorð þess er jafnt og 3. 4×4. sem hefur tvær raðir sem eru ekki núll. Af því sést að metorð þess er jafnt og 2. Annað dæmi. sem hefur tvær raðir sem eru ekki núll. Af því sést að metorð þess er jafnt og 2. Klemens 10.. Klemens 10. (13. júlí 1590 – 22. júlí 1676) var páfi frá 29. apríl 1670 til dauðadags. Hann hét Emilio Bonaventura Altieri og var af þekktri rómverskri aðalsfjölskyldu. Hann vann ýmis trúnaðarstörf fyrir Úrbanus 8., Innósentíus 10. og Klemens 9. sem gerði hann að kardinála rétt áður en hann dó. Í páfakosningunni á eftir náðist ekki tilskilinn meirihluti fyrir neinum þeirra kardinála sem helst voru í framboði svo lausnin var að kjósa Altieri, sem þá var orðinn áttræður. Hann neitaði í fyrstu og sagt er að þegar kom að krýningu hans hafi hann verið dreginn fram úr rúminu hrópandi „Ég vil ekki verða páfi!“ Fernisolía. Fernisolía (fernis eða gljákvoða) er vökvi úr viðarolíum sem er notaður til hlífðar og fegurðar málverka. Fernisolían er kennd við borgina Berenike í Egyptalandi en þaðan fluttu Grikkir á sínum tíma fernisolíu, og nefndu "verenike". Í latínu var hún nefnd "veronix" eftir gríska orðinu. Patti Page. Patti Page eða Clara Ann Fowler (8. nóvember 1927 - 1. janúar 2013) er bandarísk söngkona og ein af þekktustu söngkonum klassískrar popptónlistar. Hún var með söluhæstu listamönnum á 6. og 7. áratug 20. aldar og hefur selt yfir milljón hljómplötur til dagsins í dag. Meðal þekktustu laga hennar eru kántrýlagið „Tennessee Waltz“ (1950) og gamanlagið „(How Much Is That) Doggie in the Window“ (1953). Naked Eyes. Naked Eyes var skammlífur breskur skemmtarapoppdúett skipaður Pete Byrne og Rob Fisher sem sló í gegn með tveimur lögum árið 1983; fyrst með nýrri útgáfu gamals slagara eftir Burt Bacharach, „(There's) Always Something Left to Remind Me“ og síðan „Promises, Promises“. Önnur plata þeirra sem kom út 1984 seldist hins vegar illa og hljómsveitin hætti skömmu eftir það. Byrne vann eftir það sem hljóðversmaður en Fisher stofnaði annan dúett, Climie Fisher, sem átti slagarann „Love Changes (Everything)“ árið 1988. Burt Bacharach. Burt Bacharach á tónleikum 2008. Burt Bacharach (f. 12. maí 1928) er bandarískur tónsmiður og píanóleikari sem hefur samið mikinn fjölda af vinsælum lögum frá því snemma á 7. áratugnum fram á miðjan 9. áratuginn. Þekktastur er hann fyrir lög sín sem Dionne Warwick söng með texta eftir Hal David eins og „Walk On By“ (1963) og „Do You Know the Way to San Jose“ (1964), en hann hefur líka átt í samstarfi við fleiri textahöfunda og fjöldann allan af flytjendum. Lucio Dalla. Lucio Dalla (f. 4. mars 1943, d. 1. mars 2012) er ítalskur söngvari og lagahöfundur frá Bologna. Hann lék bæði einn og með ýmsum hljómsveitum á 7. áratugnum og naut nokkurra vinsælda en sló fyrst verulega í gegn undir lok 8. áratugarins í samstarfi við aðra höfunda á borð við Ron og Francesco De Gregori. Hann er þekktastur fyrir alþjóðlegu poppsmellina „Caruso“ (1986), „Attenti al lupo“ (1990) og „Canzone“ (1996). Hann samdi lagið Occhi di ragazza sem keppti í Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva árið 1970. Lagið var sungið af Gianni Morandi. Lagið fékk 5 atkvæði og lenti í 8. sæti. Prozac+. Prozac+ er ítölsk pönkpopphljómsveit, skipuð Gian Maria Accusani (textar, gítar, trommur, söngur), Evu Poles (gítar, söngur) og Elisabettu Imelio (bassi) frá Pordenone. Hljómsveitin var stofnuð árið 1995 og hefur starfað með hléum til dagsins í dag. Fyrsti smellur Prozac+ var „Pastiglie“ af fyrstu plötu þeirra 1996 en hljómsveitin sló fyrst í gegn með plötunni "Acidoacida" árið 1998. Árið 2000 reyndi hljómsveitin fyrir sér með útgáfu fyrir alþjóðlegan markað með enskri útgáfu af "Acidoacida" en náði ekki miklum árangri. Tónlist hljómsveitarinnar er fremur létt og fjörugt rokk en textarnir fjalla yfirleitt um hluti á borð við þunglyndi, einangrun, vanlíðan, eiturlyf og meðvitundarleysi. Tre allegri ragazzi morti. Hauskúpugríman sem hljómsveitarmeðlimir notast við. Tre allegri ragazzi morti (ítalska: „þrír kátir dauðir strákar“) er ítölsk pönkhljómsveit frá Pordenone stofnuð árið 1994. Hljómsveitin er skipuð myndasöguhöfundinum Davide Toffolo sem áður var í Great Complotto-hljómsveitinni Futuritmi (söngur, gítar), Enrico Molteni (bassi) og Luca Masseroni (trommur). Hljómsveitin notast við hauskúpugrímur á hljómleikum og í myndböndum. Hljómsveitin hefur gefið út tíu hljómplötur, þær síðustu undir sínu eigin merki La Tempesta frá 2000. Hljómsveitin sló fyrst í gegn með tónleikaplötu, "Piccolo intervento a vivo", árið 1997. Eftir það gáfu þeir út eina plötu fyrir BMG en stofnuðu stuttu síðar eigin útgáfu. Nornirnar. "Nornirnar" (ítalska: "Le streghe") er kvikmynd framleidd af Dino De Laurentiis frá 1967. Myndin er kaflamynd samsett úr fimm stuttmyndum eftir Franco Rossi, Luchino Visconti, Mauro Bolognini, Pier Paolo Pasolini og Vittorio De Sica. Hver stuttmynd fjallar um háskakvendi sem í fjórum af myndunum er leikin af Silvana Mangano. Annie Girardot leikur aðalhlutverkið í fyrstu myndinni. Clint Eastwood leikur í síðustu myndinni eftir De Sica. Tónlistin í myndinni er eftir Ennio Morricone og Piero Piccioni. Sebastian Ingrosso. Sebastian Ingrosso (fæddur Sebastian Carmi Ingrosso) er sænskur plötusnúður og framleiðandi. Hann er einn fjórmenninganna í Swedish House Mafia. Ævi. Sebastian Ingrosso ólst upp í Stokkhólmi. Hann vann að tónlist með æskuvini sínum Steve Angello. Þeir gengu undir nöfnum á borð "Buy Now", "Fireflies", "General Moders", "Mode Hookers", "Outfunk" og "The Sinners". Tónlist. Ingrosso semur aðallega house-tónlist og gefur hana út á eigin útgáfufyrirtæki, "Refune". Lagið „Yeah“, sem hann samdi með Steve Angello, var gefið út á "The Politics of Dancing 2" í flutningi Paul Van Dyk. Einnig sömdu Ingrosso og Angello lögin „Bodycrash“ og endurhljóðblönduðu „My Love“ (með Justin Timberlake) en þau hafa reynst vinsæl í útvarpi. Sebestian samdi lagið „Werk Bitch“ (aka „Work Bitch“) ásamt William Adams og Britney Spears. Lagið er fyrsta smáskífan af nýjustu stúdíó-plötu Britneyjar sem er væntanleg í lok þessa árs (2013). „Werk Bitch“ lagið og myndbandið verða gefin út vestanhafs 16.september næstkomandi. Piero Piccioni. Piero Piccioni (6. desember 1921 – 23. júlí 2004) var ítalskur píanóleikari og höfundur kvikmyndatónlistar í meira en 200 kvikmyndum. Hann er einkum þekktur fyrir sálardjass, fönk- og sófatónlist í ítölskum kvikmyndum frá 7. og 8. áratugnum. Hann vann einkum náið með leikstjórunum Francesco Rosi og Alberto Sordi. Jónas Stefánsson frá Kaldbak. Jónas Stefánsson frá Kaldbak (30. september 1882 – 9. september 1952) var vesturíslenskt ljóðskáld. Hann gaf út tvær ljóðabækur og birti mörg ljóð í Lögbergi og Heimskringlu. Jónas var frá Kaldbak í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann útskrifaðist úr Búnaðarskólanum á Hólum í Hjaltadal. Jónas fluttist vestur um haf árið 1913, settist að í Mikley og kvæntist þar Jakobínu Sigurgeirsdóttur prests að Grund í Eyjafirði. Hann kenndi sig þó alltaf við fæðingarstað sinn, Kaldbak. Skólasöngleikurinn. "Skólasöngleikurinn" (enska: "High School Musical") er bandarísk sjónvarpsmynd frá Disney Channel sem kom út 20. janúar 2006. Hún hefur unnið Emmy-verðlaunin, og er fyrsta myndin í High School Musical-röðinni. Hún varð vinsælli en nokkur önnur kvikmynd frá Disney Channel, sem leiddi til þess að "Skólasöngleikurinn 2" var gerð árið 2007 og ' árið 2008. Fjórða myndin hefur verið tilkynnt og er hún í vinnslu. Lögin úr myndinni var best selda plata í Bandaríkjunum árið 2006. HSM var myndin með mesta áhorfið á sínum tíma, með 7,7 milljón áhorfendur þegar hún var frumsýnd í Bandaríkjunum. Í Bretlandi horfðu 789.000 manns á frumsýninguna (og 1,2 milljón áhorfenda yfir alla fyrstu vikuna), sem gerði myndina að öðrum vinsælasta sjónvarpsdagskrárlið bresku Disney-stöðvarinnar það árið. 29. desember 2006 varð hún fyrsta Disney-stöðvarmyndin sem var sýnd á BBC. Með söguþræði sem er lýst af höfundi og mörgum gagnrýnendum sem nútímaútgáfu af Rómeó og Júlíu er High School Musical saga um tvo menntaskólanema á 2. ári, sem koma úr mismunandi klíkum skólans — Troy Bolton (Zac Efron, fyrirliði körfuboltaliðsins, og Gabriella Montez (Vanessa Hudgens), falleg og feimin stúlka sem er nýkomin í skólann og er fyrirmyndarnemandi í stærðfræði og eðlisfræði. Saman fara þau í prufur fyrir aðalhlutverkin í skólaleikritinu upp á grín og koma öllum í skólanum á óvart. Þrátt fyrir tilraunir annarra nemenda til þess að eyðileggja drauma þeirra standast Troy og Gabriella þrýsting og neikvæðni og hvetja hina til þess að ekki „stick to the status quo“ (vera hrædd við að fara út af svæðinu sem þau hafa verið sett á og geti ekki verið neitt annað en það...). High School Musical var kvikmynduð í East High School sem er í Salt Lake City, Utah, í sal Murray-skólans og í miðbæ Salt Lake City. Murray-skólinn var m.a. líka leiksvið í myndum eins og "Take Down" (1978), "Read It and Weep" (2006), "Minutemen" (2008) og ' (2008). Söguþráður. Stjarna körfuboltaliðsins í East High, Troy Bolton (Zac Efron), og stæðrfræði-snillingurinn Gabriella Montez (Vanessa Hudgens) hittast á Gamlárskvöld í partýi á skíðasvæði í jólafríinu. Þar taka þau þátt í karókí keppni og singha Start of Something New. Þau komast að því að það er frábær neisti á milli þeirra og enda á því að skiptast á símanúmerum. Viku seinna er móðir Gabriellu færð á nýjan vinnustað og Gabriella byrjar í East High sem er í Albuquerque í New Mexico þar sem Troy sér hana í heimastofunni. Eftir að hafa staðfest að þetta sé hún með því að hringja í hana fær Troy óvart eftirsetu ásamt Gabriellu, besta vini sínum og liðsfélaga Chad Danforth (Corbin Bleu), gáfuðustu stelpunni í skólanum, Taylor McKessie (Monique Coleman), og forsetum Leiklistafélagsins Ryan (Lucas Grabeel) og Sharpay Evans (Ashley Tisdale). Eftir umsjónartímann, hittast Troy og Gabriella aftur og þegar þau byrja að tala saman nálægt skráningarblaðinu fyrir vetrar-söngleikinn, sér Sharpay þau og heldur að Gabriella hafi áhuga á því að skrá sig. Með hjálp Ryans kemst Sharpay að því að Gabriella er Einsteinette og setur grein um öll verðlaunin sem hún hefur unnið í skáp Taylor. Rauðskinna. Rauðskinna (einnig nefnd: bók máttarins) er galdrabók sem samkvæmt þjóðsögunum er sögð grafin með Gottskálki grimma biskup. Af þeirri bók átti að vera hægt að læra svo ramma galdra, að hægt væri að sigra kölska sjálfan og ná valdi yfir honum. Sumstaðar segir að sá sem nær þeirri bók geti allt, hann verði voldugasti maður í heimi. Galdra-Loftur á að hafa reynt að vekja Gottskálk upp til að komast yfir Rauðskinnu. Gísli Konráðsson nefnir þrjá skólasveina, sem voru í vitorði með Lofti. En bráðlæti Lofts varð honum að falli, því strax þegar hann sá Rauðskinnu, þreif hann til hennar, en það var of snemmt og af misskilningi hringdi einn af félögum Lofts klukkunum og Gottskálk komst í gröfina með Rauðskinnu með sér. Hummus. Hummus er kjúklingabaunamauk úr soðnum kjúklingabaunum, hvítlauk, sítrónusafa, salti og ólífuolíu upprunnið í Mið-Austurlöndum. Einnig er í hummusi tahini (þ.e. sesamsmjör). Nafnið, hummus, er komið úr tyrknesku. Hummus er mjög vinsælt um öll Mið-Austurlönd, Tyrkland, Norður-Afríku og almennt í miðausturlenskum mat um allan heim. Hamlet. Hamlet er harmleikur eftir William Shakespeare og er frægasta leikrit höfundar og með frægustu verkum leikbókmenntanna. Hamlet var skrifað einhverntímann á tímabilinu 1599-1601 að því talið er. Sagan gerist að mestu á Helsingjaeyri í Danmörku og fjallar um krónprinsinn Hamlet sem hyggur á hefndir á frænda sínum Kládíusi sem hann grunar um að hafi myrt föður hans. Kládíus þessi hefur nýlega kvænst móður hans, Geirþrúði, en eina vísbending Hamlets um morðið eru orð vofu, sem sagðist vera faðir hans. Orð þau knýja hann samt til að takast á við líf og dauða, dyggð og syndir og aðstæður sínar. Leikritið fjallar einnig um svik, hefnd, blóðskömm og siðferðilega spillingu. Söguþráðurinn. Leikritið hefst á kaldri nóttu við hinn konunglega kastala, Elsinore (Helsingjaeyri) í Danmörku. Vörðurinn Francisco er að ljúka sinni vakt og Bernardo tekur við honum og yfirgefur sviðið. Þriði þjónninn, Marcellus, kemur inná sviðið ásamt Horatio, nánasta vini Hamlets. Verðirnir reyna að sannfæra Horatio um að þeir hafi séð kónginn, föður Hamlets, afturgenginn. Þegar Hamlet fréttir af þessu frá Horatio fer hann til að sjá drauginn sjálfur. Þetta kvöld birtist vofan og segir Hamlet að hann sé sál föður hans heitins og að Claudius, bróðir hans, hafi myrt hann með því að hella eytri í eyru hans. Vofan krefst þess að Hamlet hefni sín. Hamlet samþykkir að gera sér upp brjálæði til að koma í veg fyrir grunsemdir. Hann grunar hinsvegar áræðanleika vofunnar. Utan sviðs reyna Claudius og kona hans Gertrude (móðir Hamlets) að koma í veg fyrir að prinsinn af Noregi, Fortinbras, ráðist inn í ríki þeirra. Í uppnámi út af hegðun Hamlets og vaxandi brjálæði senda þau til hans tvo skólafélaga og vini, þá Rosencrantz og Guildenstern, að finna út ástæðu þessara skapbreytinga. Hamlet tekur hlýlega á móti vinum sínum en kemst fljótt að því að þeir voru sendir til að njósna um hann. Polonius er tryggasti ráðgjafi Claudiusar og sonur hans Leartes er að snúa aftur frá Frakklandi og dóttir hans Ophelia gengur með grasið í skónum á eftir Hamlet. Hvorki Polonius né Leartes halda að Hamlet taki sambandi þeirra Opheliu alvarlega og vara þeir hana báðir við. Stuttu eftir það verðu Ophelia efins vegna skrítnar hegðunnar Hamlets og tilkynnir föður sínum að Hamlet hafi ruðst inní herbergi hennar en aðeins horft á hana og ekkert sagt. Polonius gerir ráð fyrir að skíring hegðunnar hamlets sé vegna ofsaástar á dóttur hans og segir konungshjónunum frá því. Polonius og Claudius senda þá Opheliu til að njósna um Hamlet. Þegar hún endursendir bréf hans og í þögn sínni grunar hann hvað gangi á heimtar hún að hún fari í klaustur. Hamlet efast enn um trúverðugleika vofunnar, en koma leikara í kastalann gefur honum hugmynd um ráð. Hann mun sviðsetja morð föður hans og dæma sekt eða sakleysi Claudiusar af viðbrögðum hans. Hirrðin safnast saman til að horfa á leikritið. Hamlet býst við athugasemdum gegn um allt leikritið. Hinn mikilvægi þátturinn er að í þessu atriði birtast leikararnir. Viðvist leikaranna og leikritsins bendir til milivægs þema: að lífið er oft í ákveðna staði eins og leikrit. Þegar morðatriðið er kynnt rís Claudius snöggt úr sæti sínu og stormar út úr herberginu, sem Hamlet sér sem sönnun um sekt frænda síns. Hræddur um líf sitt sendir Claudius Hamlet í útlegð til Englands, undir vakandi augum Rosencrantz and Guildenstern, með bréf um að bréfberinn skuli líflátinn. Gertrude sendir eftir Hamlet í herbergi sitt og krefst útskýringa. Á leið sinni til Gertrude gengur Hamlet fram á Claudius í bæn, en hikar við að drepa hann, því sé maður myrtur í bæn eigi hann trygga inngöngu í himnaríki. Í svefnherberginu koma upp deilur á milli Hamlets og Gertrude. Polonius, sem liggur á hleri á bak við veggtjald, gefur frá sér hljóð og Hamlet í þeirri trú að það sé Claudius styngur af stjórnleysi í veggtjaldið og drepur Polonius. Vofan birtist og hvetur Hamlet til að fara vel með Gertrude en minnir hann jafnframt á að drepa Claudius. Ófær um að sjá vofuna sjálf tekur Gertrude þessu athæfi Hamlets sem sönnun fyrir geðveiki hans. Áður en skipið sem á að flytja Hamlet til Englands fer úr höfn felur Hamlet lík Poloniusar en segir þó Gertrude og konunginum að lokum hver staðsetning þess er. Heltekin af sorg vegna dauða Ploniusar reikar Ophelia um höllina og syngur ósæmilega söngva. Bróðir hennar, Leartes, snýr aftur frá Frakklandi niðurbrotinn af sorg vegna dauða föður hans og brjálæði systur hans. Hún sést í stutta stund á sviðinu vera að dreyfa jurutm og blómum. Claudius sannfærir Leartes um að hamlet beri einn ábyrgð á dauða föður hans og brjálæði systur hans. Fréttir berast um að Hamlet gangi ennþá laus, það var ráðist á skip Hamlets af sjóræningjum á leið hans til Englands, og sé snúinn aftur til Danmerkur. Claudius er ekki lengi að upphugsa mótleika. Hann leggur til að Leartes mæti Hamlet í einvigi með eiturborið sverð en gangi sú ráðagerð ekki eftir verði Hamlet boðið eitrað vín. Geartrude kemur óvænt in með þau tíðindi að Ophelia hafi drukknað. Í næsta atriði sjáum við tvo menn að taka gröf og ræða sín í milli augljóst sjálfsmorð Opheliu. Hamlet kemur inn á sviðið með Horatio og gantast í öðrum grafaranna, sem grefur upp hauskúpu af hirðfíflinu Yorick sem hafði verið hirðfíflið í höllinni þegar Hamlet var lítill. Líkför Opheliu nálgast, með Leartes í fararbroddi. Hamlet lýsir því yfir að hann hafi ætíð elskað Opheliu og leiðir það til rifrildis á milli hans og Leartes en þeir eru stoppaðir af. Víkur þá sögunni aftur til Helsingjaeyri, Hamlet segir Horatio frá því hvernig hann slapp og hvernig Rosencrantz og Guildenstern stóðu frammi fyrir dauðanum. Hirðmaðurinn Orsic truflar samræðurnar til þess að tilkynna Hamlet að hann hafi verið boðaður til einvígis við Leartes. Samtímis og einvígið hefst nálgast hersveit Fortinbras óðfluga. Leartes styngur hamlet með eitruðu sverðsblaðinu en hefur sjálfur hlotið banvæn meiðsli. Geartrude drekkur eitraða drykkinn og deyr. Á loka andartökunum sættast Leartes við Hamlet og afhjúpar morðsamsæri Claudiusar gegn konunginum. Sjálfur við dauðans dyr megnar hamlet að drepa Claudius og útnefnir Fortinbras réttmætann erfingja sinn. Þegar Fortinbras kemur segir Horatio honum alla sólasöguna og lætur Fortinbras jarða Hamlet í fullum heiðri. Heimildir. Víðfræg verk sem líkjast Hamlet er hægt að finna svo víða um heim (t.d. Ítalíu, Spáni, Skandinavíu, Byzantium og Arabíu) að kjarni "hetjan-er-fífl" þemans gæti mögulega verið indóevrópskur að uppruna. Fáeina aldagamla forvera Hamlets er hægt að bera kennsl á. Sú fyrsta er lítt þekkt skandinavísk fornsaga, Hrólfs saga Kraka. Sagan segir frá bræðrum tveim-Hróar og Helga-sonum kóngsins er var myrtur. Lengst af í sögunni eru þeir í dulargefum og ganga undir röngum nöfnum frekar en að gera sér upp geðveiki en röð atburða er önnur er sú sem Shakespeare notaði. Önnur sagan er rómverska goðsögnin um Brútus, skjalbundin í tvö aðskilin latnesk gangverk. Söguhetjan, Lucius (merkir ljóst, skínandi), breytir nafni sínu yfir í Brútus (merkir vitlaus, tregur), og leikur hlutverk heimskingja til að forðast örlög föður síns og bræðra, og drepur á endanum morðingja fjölskyldu sinnar. Norræni sautjándu aldar fræðimaðurinn, Torfaeus, bar íslensku hetjuna Amlóða og spönsku hetjuna Prince Ambales saman við Shakespeares Hamlet. Uppgerð geðveiki prinsins, óáætlað morðið á tryggasta ráðgjafa kónsins í herbergi móður hans og morð frænda síns eru meðal atriða sem þessar söguhetjur eiga sameiginlegt. Marga af áður upptöldum þáttum má sjá í fjórtándu aldar verkinu "Vita Amlethi" (Sagan af Amleth) eftir Saxo Grammaticus, hluti af Gesta Danorum. Skrifað á latnesnku, endurspeglar það hina klassísku rómansku ímynd um dyggðir og hetjuskap, og víða fáanlegt á dögum Shakespeares. Mikilvægar hliðstæður þess ná m.a. yfir uppgert brjálæði prinsins, skyndilegt brúðkaup móður hans við valdaræningjann, morð prinsins á njósnaranum. Heimullegt forritunarmál. Heimullegt forritunarmál er forritunarmál sem er oft gert sem brandari og ætlað fáum. Það er sjaldan ætlast til þess að heimulleg forritunarmál verði notuð til að búa til alvarleg forrit, en slík forrit eru oft vinsæl meðal tölvuþrjóta og sem hugðarefni eða tómstundaiðja. Nokkur heimulleg forritunarmál. * Benito Pérez Galdós. Benito Pérez Galdós (10. maí 1843 – 4. janúar 1920) var spænskur rithöfundur og leikskáld sem er þekktastur fyrir skáldsöguna "Episodios Nacionales" Kjördæmi. Kjördæmi er afmarkað landsvæði í lýðræðislegu ríki þar sem ríkisborgarar með kosningarétt geta kosið í þingkosningum. Mjög misjafnt er hversu mörg þingsæti eru í kjördæmum. Til eru einmennings- og tvímenningskjördæmi en einnig kjördæmi þar sem kosnir eru listar eftir hlutfallskosningu. Í Ísrael og Hollandi er allt landið eitt kjördæmi. Í Bretlandi eru (í kosningunum 2005) 646 einmennigskjördæmi sem þýðir að sá frambjóðandi í hverju kjördæmi sem hlýtur flest atkvæði kemst á þing. Hippi. Hippar voru upphaflega æskuhreyfing sem hóf göngu sína í Bandaríkjunum í byrjun sjöunda áratugarins og dreifðist síðan um allan heim. Orðið „hippi“ er dregið af orðinu "hipster" sem þýðir „sá sem fer eftir tískunni“ sem var yfir leitt notað yfir bítnikkara, listamenn sem fluttu sig í Haight-Ashbury hverfið í San Francisco. Þetta fólk tók upp gagnrýnin viðhorf bítnikkaranna til samfélagsins, myndaði sér sín eigin samfélög, hlustaði á psychedelic eða „skynörvandi“ rokk, tileinkaði sér kynlífsbyltinguna, og notaði eiturlyf eins og til dæmis kannabis efni og LSD til að kanna óþekkt mörk undirmeðvitundarinnar og vegna þess að það var tákn um frjálsan lífstíl. The Human Be-In tónleikarnir í janúar 1967, sem fram fóru í The Golden Gate-almenningsgarðinum í San Francisco, lögðu grunninn að vinsældum hippamenningarinnar sem leiddi af sér hið goðsagnakennda Summer of Love eða „sumar ástarinnar“ á vesturströnd Bandaríkjanna og Woodstock-hátíðina á austurströndinni árið 1969. Hippatískan og viðhorf hippanna höfðu mikil áhrif á menninguna, urðu áhrifavaldur í vinsælli tónlist, sjónvarpsefni, kvikmyndum, bókmenntum og hvers konar listum. Frá sjöunda áratugnum hafa mörg sjónarmið hippanna aðlagað sig að samfélaginu. Trúar- og menningaleg fjölbreytni, sem hipparnir aðhylltust, hafa hlotið heimslæga viðurkenningu, og austræn heimspeki og andleg hugtök hafa náð þó nokkurri hylli. Arf hippanna má sjá í nútíma samfélagi í ýmsu - s.s. í hollum mat, tónlistarhátíðum, kynlífsathöfnum og jafnvel internet byltingunni. Mjólká. Mjólká er á sem rennur í botni Borgarfjarðar í Arnarfirði, sem er á Vestfjörðum á Íslandi. Hafist var handa við byggingu virkjunnar í ánni árið 1956 og heitir sú virkjun Mjólkárvirkjun. Angelina Jolie. Angelina Jolie (fædd Angelina Jolie Voight 4. júní 1975) er bandarísk leikkona og sendiherra. Hún hefur unnið til þrennra Golden Globe-verðlauna, tvennra Screen Actors Guild-verðlauna og einna óskarsverðlauna. Jolie hefur verið kosin "Fallegasta kona heims" og er mikið skrifað um hana í slúðurblöðum. Þrátt fyrir að hafa leikið í kvikmyndinni Lookin' To Get Out sem barn ásamt föður sínum Jon Voight árið 1982, byrjaði leikferill hennar ekki fyrir alvöru fyrr en í Cyborg 2 árið 1993. Fyrsta aðalhlutverkið hennar í stórri mynd var í Hackers (1995). Hún lék í myndum um ævi George Wallace (1997) og Gia (1998). Báðar myndirnar fengu góða dóma gagnrýnenda og vann Angelina óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir framistöðu sína í drama-myndinni Girl, Interrupted árið 1999. Jolie varð frægari eftir að hafa leikið Löru Croft í árið 2001 og síðan þá hefur hún unnið sig á stall frægustu og hæst launuðu leikkvenna í Hollywood. Hún hefur átt mestri velgengni að fanga eftir að hafa leikið í hasar-gamanmyndinni Mr. & Mrs. Smith árið 2005 og teiknimyndinni Kung Fu Panda árið 2008. Eftir að hafa skilið við leikarana Jonny Lee Miller og Billy Bob Thorton býr Jolie núna með leikaranum Brad Pitt og hefur samband þeirra hlotið athygli um heim allan. Jolie og Pitt eiga þrjú ættleidd börn, Maddox, Pax og Zahara og einnig þrjú önnur börn, Shiloh, Knox og Vivienne. Æska og Fjölskylda. Jolie er fædd í Los Angeles í Kaliforníu og er dóttir leikaranna Jon Voight og Marcheline Bertrand. Hún er frænka Chip Taylor, systir James Haven og er guðdóttir Jacqueline Bisset og Maximilian Schell. Í föðurættina er Jolie af tékkóslóvakískum- og þýskum ættum og í móðurætt er hún frönsk-kanadísk. Eftir skilnað foreldranna árið 1976 voru Jolie og bróðir hennar alin upp hjá móður sinni, sem hafði yfirgefið leikferill sinn og flutt með þau til Palisades í New York. Sem barn horfði Jolie reglulega á kvikmyndir sem móðir hennar hafði leikið í og segir að það hafi aukið áhuga hennar á leiklist og að faðir hennar hafi ekki haft mikil áhrif á hana. Þegar Angelina var ellefu ára flutti fjölskyldan aftur til Los Angeles og ákvað Angelina að hún vildi læra leiklist og innritaðist í Lee Strasberg-leikhússtofnunina þar sem hún þjálfaðist í tvö ár og lék í nokkrum leiksýningum. Hún minntist þess seinna að þegar hún var nemandi í menntaskólanum í Beverly Hills að börn áhrifameiri fjölskyldna á svæðinu einangruðu sig. Móðir Jolie lifði á minni tekjum og gekk Angelina oft í notuðum fötum. Henni var strítt af öðrum nemendum sérstaklega út af því að hún var mjög mjó, gekk með gleraugu og var með spangir. Sjálfstraust hennar var í molum þegar henni mistókst sem fyrirsætu. Hún byrjaði síðan að skera sig og segir seinna „Ég safnaði hnífum og hafði alltaf ákveðna hluti í kringum mig. Einhvern veginn var siðurinn að skera mig og að finna sársaukann, kannski að finnast ég vera lifandi, varð nokkurs konar losun, einhvern veginn var það læknandi fyrir mig.“ Þegar Angelina var 14 ára hætti hún í leiklistartímum og vildi verða útfarastjóri. Á þessu tímabili klæddist hún svörtu og litaði hárið á sér fjólublátt. Tveimur árum seinna leigði hún íbúð yfir bílskúr nokkrum götum frá móður sinni. Hún sneri aftur í leiklistina og útskrifaðist úr menntaskóla. Jolie hefur alltaf verið í litlu sambandi við föður sinn. Þau reyndu að vera í sambandi um tíma og var hann með henni við tökur á Lara Croft árið 2001. Í júlí 2002 sendi Angelina inn beiðni um að breyta nafninu sínu í Angelina Jolie og taka út Voight-ættarnafnið; nafnabreytingin átti sér stað 12. september 2002. Í ágúst það sama ár sagði Voight að dóttir hans glímdi við alvarleg geðvandamál. Jolie sagði seinna að hún vildi ekki hafa meira samband við föður sinn og sagði: „Ég og faðir minn tölum ekki sman. Ég er ekki reið honum. Ég trúi því ekki að fjölskylda einhvers verði blóð hans, vegna þess að sonur minn er ættleiddur og fjölskylda er áunnin.“ Hún sagði líka að hún vildi ekki segja opinberlega hvers vegna hún vildi slíta sambandi við föður sinn en vegna þess að hún hafði ættleitt son fannst henni að það væri ekki gott fyrir hann að umgangast Voight. Vinna 1993-1997. Jolie byrjaði að vinna sem fyrirsæta þegar hún var 14 ára gömul og vann hún aðallega í Los Angeles, New York og London. Á þeim tíma kom hún fram í nokkrum tónlistarmyndböndum, meðal annars með Meat Loaf, Antonello Venditti og Lenny Kravitz. Þegar hún var 16 ára sneri hún aftur í leikhúsið og lék fyrsta hlutverk sitt. Hún byrjaði að læra af föður sínum, þar sem hún tók eftir því hvernig hann kannaði fólk til þess að verða eins og það. Samband þeirra á þessum tíma var ekki eins þvingað og áttaði Angelina sig á því að þau voru bæði dramadrottningar. Jolie kom fram í fimm myndum bróður síns, sem hann gerði á meðan hann gekk í USC Scool of Cinematic Arsts, en ferill hennar sem atvinnuleikari hófst árið 1993, þegar hún lék fyrsta aðalhlutverkið sitt í ódýru myndinni Cyborg 2, sem Casella „Cash“ Reese, næstum mannlegt vélmenni, hannað til þess að komast inn í höfuðstöðvar keppinautarins og svo sprengja sjálfa sig. Eftir aukahlutverk í óháðu myndinni Without Evidence lék Jolie Kate „Acid Burn“ Libby í fyrstu Hollywood-kvikmyndinni sinni, Hackers árið 1995, þar sem hún hitti fyrsta eiginmann sinn, Jonny Lee Miller. "New York Times" skrifaði að Katie (Angelina Jolie) skaraði fram úr. Það væri vegna þess að yggldi sig miklu meira og betur en meðleikarar sínir og væri sjaldséði kvenkyns tölvuhakkarinn sem situr við lyklaborðið í gegnsæjum bol. Þrátt fyrir þögult viðmót hefði ungfrú Jolie allt sem til þarf fyrir hlutverkið og hefði útlit föður síns, Jon Voight. Myndinni tókst ekki að hala inn miklum tekjum en gengi hennar batnaði þegar hún kom út á spólu. Hún lék Ginu Malacici í gamanmyndinni Love Is All There Is árið 1995, mynd lauslega byggðri á Rómeó og Júlíu og fjallaði um erjur tvegga ítalskra fjölskyldna sem áttu veitingastaði í Bronx í New York borg. Í myndinni Mojave Moon (1996) var hún yngst og hét Eleanor Rigby, sem fellur fyrir persónu Danny Aiello, á meðan hann reynir móður hennar sem leikin er af Anne Archer. Árið 1996 lék Jolie Margret „Legs“ Sadovsky, eina af fimm unglinsstúlkum sem mynda ótrúleg tengsl í kvikmyndinni Foxfire eftir að þær lúskra á kennara sem hafði verið að nota þær kynferðislega. "Los Angeles Times" skrifaði þetta um frammistöðu hennar: „Það tók nokkurn tíma að átta sig á þessari persónu en Jolie, dóttir Jons Voight, hefur þá nærveru að maður kemst yfir persónuna. Þrátt fyrir að sagan sé sögð af Maddy er Legs viðfangsefnið og hvati efnisins.“ Árið 1997 lék Jolie á móti David Duchonvy í spennumyndinni Playing God sem gerðist í undirheimum Los Angeles. Myndin fékk ekki góða dóma og var frammistaða Jolie gagnrýnd og hún sögð vera of góð til þess að leika kærustu glæpamanns. Eftir það lék hún í sjónvarpsmyndinni True Women, rómantískri-dramamynd sem gerist í bandaríska vestrinu og byggð á bók eftir Janice Woods Windle. Þetta ár lék hún í tónlistarmyndbandi við lagið Anybody Seen My Baby? með The Rolling Stones. Uppgötvun 1997-2000. Ferill Jolie byrjaði að takast á loft eftir að hún lék Corneliu Wallace í mynd um ævi George Wallace árið 1997 og vann hún Golden Globe-verðlaun og tilnefningu til Emmy-verðlauna fyrir frammistöðu sína. Myndin, sem leikstýrt var af John Frankenheimer, var lofsömuð af gagnrýnendum og fékk Golden Globe-verðlaun fyrir Bestu kvikmyndina gerða fyrir sjónvarp. Hún lék aðra eiginkonu fyrrum fylkisstjórans sem var skotinn og lamaður árið 1972 þegar hann bauð sig fram til forseta. Árið 1998 lék Jolie í Gia og lék ofurfyrirsætuna Giu Carangi. Myndin sýnsdi inn í heim kynlífs, eiturlyfja og tilfinningalegs drama, og sýndi líf Carangi og feril eftir að hún varð eiturlyfjafíkill og afneitun hennar og síðan dauða úr alnæmi. Vanessa Vance frá Reel.com sagði „Angelina Jolie varð fræg fyrir hlutverk sitt sem Gia og er auðvelt að sjá af hverju. Jolie er áköf í hlutverki sínu og fyllir hlutverkið spennu, sjarma og eftirvæntingar og er hlutverk hennar í þessari mynd fallegasta lestarslys sem nokkurn tímann hefur verið kvikmyndað.“ Annað árið í röð vann Jolie Golden Globe-verðlaun og var tilnefnd til Emmy-verðlauna. Hún vann einnig sín fyrstu Screen Actors Guild-verðlaun. Samkvæmt aðferð sem hún lærði í Lee Strasberg-leiklistarskólanum var Jolie oft í karakter þó að slökkt væri á myndavélunum í fyrstu myndum sínum og fékk hún það orðspor að það væri erfitt að vinna með henni. Á meðan tökum á Giu stóð sagði hún þáverandi eiginmanni sínum, Jonny Lee Miller, að hún myni ekki geta hringt í hann: „Ég myndi segja við hann: ‚Ég er ein; Ég er að deyja; Ég er samkynhneigð; Ég á ekki eftir að sjá þig í margar vikur‘.“ Þór Magnússon. Þór Eyfeld Magnússon (fæddur 18. nóvember 1937) er íslenskur fornleifafræðingur sem var þjóðminjavörður 1968-2000. Þór lauk stúdentsprófi frá MR 1958 og fil.kand.-prófi í fornleifa- og þjóðháttafræði frá Uppsalaháskóla 1963. Hann gerðist síðan safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands árið 1964 og gegndi því starfi til 1968 en tók þá við embætti þjóðminjavarðar, þegar Kristján Eldjárn var kjörinn forseti Íslands. Því embætti gegndi hann þar til hann lét af störfum árið 2000. Þór gegndi einnig fjölda trúnaðarstarfa, var meðal annars formaður húsafriðunarnefndar um 20 ára skeið, var í stjórn Hins íslenska fornleifafélags frá 1967 og formaður þess frá 1993, í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar um skeið og formaður Íslandsdeildar Sambannds norrænna safnmanna 1968-2000. Stafsetningarforrit. Stafsetningarforrit (eða stafrýnir) er hugbúnaður sem skimar texta í leit að stafsetningarvillum. Netfang. Þegar talað er um „netfang" er venjulega átt við tölvupóst-URI, þ.e.a.s. notendanafn og DNS-lén aðskilið með „att"-merki (@), venjulega borið fram „att" eða „hjá". Dæmi um netfang er „is@wikipedia.org" og „wikipedia@example.com". mailto:- forskeytið er skrásett hjá IANA og má því nota það til að tilgreina að um netfang sé að ræða þegar maður slær það inn í vafraglugga eða í tengli innfelldum í t.d. HTML. Einnig er hægt að bæta við eigindum (e. query) svo sem „subject" (yfirskrift) og „body" (efni) eftir ? í slóðinni. Dæmi um fullgilda netslóð til að senda „HALL'O" með uppikommu og o-i í stað ó) á „wikipedia@example.com" með yfirskriftinni „Prufa" er „mailto:wikipedia@example.com?subject=Prufa&body=HALL'O". Ef þið smellið á tengilinn þá opnast líklegast póstforrit með „wikipedia@example.com" í „to:" eða „til:" reitnum, „Prufa" í „subject" eða titill e.þ.h. reit og „HALL'O" í „body" eða efnis- reitnum. Sex daga stríðið. Sex daga stríðið var stríð milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Stríðið var háð 5.–10. júní árið 1967. Írak, Sádi-Arabía, Súdan, Túnis, Marokkó og Alsír lögðu einnig til hersveitir til stuðnings arabalöndunum. Í maí árið 1967 rak Nasser Egyptalandsforseti friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna frá Sínaí-skaga. Friðargæsluliðið hafði verið þar frá árinu 1957 í kjölfar innrásar ísraelskra, breskra og franskra hersveita í Súez-deilunni. Egyptaland kom fyrir 1000 skriðdrekum og um það bil 100.000 hermönnum við landamæri Ísraels og lokaði Tíran-sundi öllum skipum sem sigldu undir fána Ísraels eða fluttu hergögn eða mikilvæg efni til hergagnaframleiðslu. Gjörðir Egyptalands nutu mikils stuðnings frá öðrum arabalöndum. Þann 5. júní gerði Ísrael árás á flugher Egyptalands. Jórdanía hafði undirritað varnarsamning við Egyptaland 30. maí sama ár og gerði því árás á Vestur-Jersúsalem og Netanya. Í stríðslok hafði Ísrael náð yfirráðum yfir Sínaí-skaga, Gaza-svæðinu, Vesturbakka Jórdanár, Austur-Jerúsalem og Gólanhæðum. Afleiðingar stríðsins hafa enn í dag áhrif á stjórnmál Miðausturlanda. Talið er að í liðum arabalandanna hafi um 21 þúsund manns farist og um 45 þúsund særst en um 800 Ísraelsmenn létu lífið í átökunum og 2563 særðust. Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur. Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur - Vörumerki Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur - Plötumiði 78 r.p.m Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur - Plötupoki LP Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur - HSH var hljóðfæraverslun í Reykjavík. Árið 1938 keypti Sigríður Helgadóttir (1903 – 1954) hljóðfæraverslun Katrínar Viðar sem var til húsa í Lækjargötu 2. Breyttist nafnið þá í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur HSH. Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar fluttist verslunin í Vesturver, (Morgunblaðshúsið) við Aðalstræti. Eftir lát Sigríðar rak sonur hennar Helgi Hjálmsson verslunina fram til ársins 1975, þegar verslunin var lögð niður. Útgáfan. HSH hóf hljómplötuútgáfu árið 1945 en þá komu út þrjár hljómplötur með Guðmundi Jónssyni á merki His Master´s Voice. Árin 1951 - 1952 koma út fjórar plötur með M.A kvartettinum, einnig á merki His Master´s Voice en sú síðasta var sérmerkt HSH. Það var svo 1953 sem verslunin hóf að gefa út plötur á eigin merki. Meðal söngvara á HSH hljómplötum voru Ragnar Bjarnason, Alfreð Clausen, Brynjólfur Jóhannesson, Baldur og Konni, Skapti og Konni, Elly Vilhjálms, Ómar Ragnarsson, Haukur Morthens, Adda Örnólfs og Ólafur Briem. Fernando Arbex. Fernando Arbex (18. maí 1941 – 5. júlí 2003) var spænskur trommuleikari og lagahöfundur frá Madríd. Hann lék í bítlahljómsveitinni Los Brincos og stofnaði síðar hljómsveitina Barrabás sem átti alþjóðlega smellinn „Woman“ árið 1972. Samhliða hljómsveitarferlinum framleiddi hann og samdi lög fyrir tónlistarmenn á borð við Harry Belafonte, Nana Mouskouri, Rita Pavone og José Feliciano. Jom kippúr-stríðið. Jom kippúr-stríðið (oft umritað "yom kippur-stríðið") einnig nefnt ramadanstríðið eða októberstríðið var stríð milli Ísraels annars vegar og bandalags arabaríkja undir forystu Egyptalands og Sýrlands hins vegar. Stríðið var háð dagana 6.–26. október árið 1973. Stríðið hófst með sameiginlegri árás Egyptalands og Sýrlands á Ísrael á jom kippúr, hátíðisdegi gyðinga. Egyptar og Sýrlendingar héldu inn á Sínaískaga og Gólanhæðir tilsvarslega en þeim landsvæðum höfðu Egyptaland og Sýrland tapað í Sex daga stríðinu árið 1967. Fyrstu tvo sólarhringana varð Egyptum og Sýrlendingum þó nokkuð ágengt en eftir það snerist stríðsreksturinn Ísraelsmönnum í vil. Tveimur vikum seinna höfðu Sýrlendingar verið hraktir burt frá Gólanhæðum. Í suðri ráku Ísraelsmenn fleyg milli tveggja innrásarherja Egypta við Súesskurðinn og höfðu einangrað þriðja her Egypta þegar vopnahlé tók gildi. Talið er að milli 8500 og 15 þúsund Egyptar og Sýrlendingar hafi látið lífið í átökunum og milli 20 og 35 þúsund hafi særst. Í liði Ísraela létust 2656 manns og 7250 særðust. Stríðið hafði mikil áhrif á stjórnmál Miðausturlanda. Brotaregla. Brotaregla eða hlutfallsregla er regla í örsmæðareikningi til að finna afleiðu sem er kvóti ("hlutfall") tveggja annarra falla, sem eru diffranleg. Ef hægt er að skrifa fallið formula_1 sem Dæmi 1. en þá er afleiðan af formula_18 núll, og afleiðan af formula_3 formula_20. og þá sést að afleiðan af formula_1 sé formula_24. Dæmi 2. Afleiðan af formula_25 þar sem við segjum að Dæmi 3. en þá er afleiðan af formula_18 jöfn formula_36 og afleiðan af formula_3 jöfn og formula_38. Margfeldisregla. Margfeldisregla er formúla í örsmæðareikningi sem nota má til að finna afleiðu margfeldis tveggja falla. í Leibniz rithættinum. Gulldepla. Gulldepla eða norræna gulldepla (fræðiheiti: "Maurolicus muelleri") er lítill fiskur af silfurfiskaætt. Hún er 5-8 sm löng, silfruð að lit en bakið grænblátt og röð af ljósfærum á maganum. Gulldepla er miðsjávarfiskur sem finnst frá yfirborðinu allt að 1500 metra dýpi en er algengust á 150-250 metrum á næturnar en við 50 metra á daginn. Hún er algengust í heittempruðum sjó í Norður- og Suður-Atlantshafi þar á meðal vestast í Miðjarðarhafi og nyrst í Karíbahafi og í Suðaustur-Kyrrahafi. Hún lifir á rauðátu. Gulldepla finnst allt í kringum Ísland en hefur ekki verið nýtt í neinum mæli. Tilraunaveiðar á henni fóru fram snemma vors 2009 og aflinn var nýttur í bræðslu. Röskva (stúdentahreyfing). Röskva er hreyfing stúdenta við Háskóla Íslands, sem hefur boðið fram lista til Stúdentaráðs HÍ frá árinu 1988. Undirtitill hreyfingarinnar er "Samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands". Röskva er sem stendur með minnihluta fulltrúa í Stúdentaráði. Núverandi oddviti Röskvu í Stúdentaráði er Brynhildur Bolladóttir. Saga. Röskva var stofnuð í febrúar árið 1988 þegar tvær hreyfingar, Félag vinstri manna og Umbótasinnar, ákváðu að leiða saman hesta sína í sameiginlegu framboði gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta. Fyrsti formaður félagsins var Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi þingmaður og umhverfisráðherra. Röskva náði fyrst meirihluta í stúdentaráði árið 1992 og hélt honum allt til ársins 2002, þegar Vaka endurheimti meirihlutann. Röskva náði svo hreinum meirihluta á ný vorið 2007, sem hún hélt til vorsins 2009. Stefna. Röskva er félagshyggjuhreyfing og og er sem slík mótfallin hvers kyns áformum um upptöku skólagjalda og fjöldatakmarkana við Háskóla Íslands. Þá hefur það verið skoðun liðsmanna Röskvu að starf Stúdentaráðs skuli ekki einskorðast við hagsmunabaráttu innan veggja Háskólans, heldur eigi ráðið einnig að láta stærri samfélagsleg málefni sig varða, jafnvel þótt þau snerti fleiri en bara stúdenta við Háskóla Íslands. Röskva telur að Stúdentaráð sé pólitískt og eigi að beita þrýstiafli á stjórnvöld í stað þess að reyna að leysa málin alfarið af sjálfsdáðum. Skipulag. Röskva á níu fulltrúa í Stúdentaráði HÍ og þar af er einn sem á sæti í háskólaráði HÍ sem er æðsta ákvörðunarvald skólans. Þá á Röskva einnig fimm fulltrúa á háskólaþingi skólans, sem er reglulegur vettvangur samráðs- og stefnumótunar háskólans. Stjórnarmenn Röskvu eru þrettán og varamenn eru fimm. Selmdís. Selmdís er íslenskt kvenmannsnafn. Þjóðbókasafn. Þjóðbókasafn eða landsbókasafn er bókasafn sem ríkisstjórn einhvers ríkis tiltekur sérstaklega sem helsta safn upplýsinga þess ríkis. Yfirleitt hefur þjóðbókasafn það hlutverk að safna öllu því efni sem gefið er út á prenti í landinu. Sum þjóðbókasöfn safna einnig kvikmyndum og hljóðritum á sömu forsendum. Til þess að rækja þetta hlutverk sitt njóta þjóðbókasöfn gjarnan sérstakrar lagasetningar sem kveður á um skylduskil efnis til safnsins sem gildir um allar prentsmiðjur og útgefendur í landinu. Að auki sjá þjóðbókasöfn oft um varðveislu dýrmætra bókasafna, prentgripa og handrita. Í þjóðbókasöfnum er oftast aðeins hægt að fá aðgang að safnkostinum til notkunar á staðnum öfugt við almenningsbókasöfn sem yfirleitt leyfa útlán. Þjóðbókasöfn eru oft staðsett í stórum og glæsilegum byggingum. Þjóðbókasöfn sem njóta skylduskila eru stundum stofnuð af þjóðarbrotum, héruðum eða sjálfstjórnarsvæðum, sem ekki eru fullvalda, í þeim tilgangi að efla menningarlegt og pólitískt sjálfstæði. Almenningsbókasafn. Almenningsbókasafn er bókasafn sem er opið almenningi. Almenningsbókasöfn greina sig þannig frá vísindabókasöfnum og skólabókasöfnum sem ætluð eru minni hópum. Almenningsbókasöfn eru yfirleitt rekin af hinu opinbera (ríki eða sveitarstjórnum) fyrir almannafé. Almenningsbókasöfn eru talin gegna mikilvægu hlutverki hjá menningarþjóðum til að halda almenningi upplýstum og viðhalda háu menntunarstigi. Almenningsbókasöfn eru yfirleitt útlánsbókasöfn sem leyfa notendum að taka bækur með sér heim í stuttan tíma. Safnkostur almenningsbókasafna byggist yfirleitt á hlutum sem hafa almennt aðdráttarafl; bókmenntum, yfirlitsritum og aðgengilegum fræðiritum. Að auki bjóða almenningsbókasöfn yfirleitt upp á góða aðstöðu fyrir lestur dagblaða og tímarita og sérstaka aðstöðu fyrir börn. Háskólabókasafn. Háskólabókasafn er bókasafn sem tengist háskóla eða annarri skólastofnun á háskólastigi. Slík bókasöfn hafa tvíþætt hlutverk; annars vegar sem skólabókasöfn sem styðja við nám og kennslu við skólann, og hins vegar sem rannsóknarbókasöfn sem styðja við vísindarannsóknir kennara, nemenda og starfsliðs skólans. Skólabókasafn. Skólabókasafn er bókasafn í skóla sem sinnir þörfum nemenda, kennara og starfsliðs. Megintilgangur skólabókasafna er að styðja við nám og kennslu í skólanum. Skólabókasöfn bjóða oft upp á aðgang að tölvum og vinnuaðstöðu fyrir nemendur. Skólabókasöfn eru oftast útlánsbókasöfn. Háskólabókasöfn eru skólabókasöfn en gegna líka hlutverki rannsóknarbókasafns. Dónald Jóhannesson. Dónald Jóhannesson er skólastjóri í Grímsey. Hann hefur einnig starfað sem skólastjóri í Snælandsskóla. Kristján Kristjánsson (f. 1956). Kristján Kristjánsson (fæddur 1956) er íslenskur tónlistarmaður. SOS-barnaþorpin. SOS Barnaþorpin eru alþjóðleg barnahjálparsamtök sem taka að sér munaðarlaus og yfirgefin börn. Samtökin reisa húsaþyrpingar () þar sem börnin eignast heimili með SOS-móður og systkinum. Reynt er að búa börnunum eins heimilislegar og fjölskylduvænar aðstæður og nokkur kostur er. Börnin fá öllum grunnþörfum sínum mætt og njóta menntunar sem undirbýr þau fyrir sjálfstætt líf á fullorðinsárum. Mörg þeirra barna sem koma í barnaþorpin hafa upplifað erfiðar aðstæður og oft hörmulega atburði. Fagfólk kemur að uppeldi barnanna og hjálpar þeim að fóta sig í lífinu. Kostnaður við heimilishald, fæði, klæðnað, menntun, heilsugæslu og annar kostnaður vegna uppeldis og aðbúnaðar barna í barnaþorpum er greiddur af. Styrktarforeldrar styrkja ákveðið barn með fastri mánaðarlegri upphæð og fá af því myndir og fréttir. Þeir styrktarforeldrar sem svo kjósa geta einnig skrifað barni sínu og myndað þannig gagnkvæm tengsl. Styrktarforeldrum býðst einnig að heimsækja börnin í barnaþorpunum og kynnast þeim og lífinu í barnaþorpinu af eigin raun. SOS Barnaþorpin voru stofnuð í Austurríki árið 1949. SOS Barnaþorpin á Íslandi eru aðilar að og hófu formlega starfsemi á Íslandi árið 1989. Samtökin sinna barnahjálp í 132 löndum og eru barnaþorpin yfir 500 talsins. Skrúðganga. Skrúðganga er fólksfylking sem gengur við götu og er oft í búningum. Oft eru skrúðgöngur með lúðrasveitum og blöðrum. Skrúðgöngur gerast fyrir margar ástæður en eru yfirleitt til að halda eitthvað hátíðlegt. Snorkur. Snorkur er græja sem notuð er til að anda í kafi. Bygging hennar er stutt bogið rör sem leiðir í víðan enda sem er settur í munninn. Til eru mörg afbrigði af þessari græju. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (enska: "United Nations High Commissioner for Refugees") er stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem veitir flóttamönnum heims vernd og aðstoð. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stofnaði Flóttamannastofnunina árið 1951 og höfuðstöðvar hennar eru í Genf í Sviss. Upphaflega var tilgangur stofnunarinnar sá að aðstoða flóttamenn í Evrópu eftir Síðari heimsstyrjöldina. Hudsonfljót. Hudsonfljót er fljót sem rennur 507 km leið frá norðri til suðurs í austanverðu New York-fylki í Bandaríkjunum og myndar við ósana landamæri milli New York-borgar og New Jersey þar sem hún rennur út í Atlantshafið. Fljótið er nefnt eftir Henry Hudson, enskum manni sem sigldi fyrir Hollenska Austur-Indíafélagið og kannaði fljótið árið 1609. Í fyrstu var áin nefnd Mauritiusfljót af evrópskum landnemum og sagt er að Henry Hudson hafi nefnt fljótið því nafni í höfuðið á Maurice af Nassau. Elstu byggðalög evrópskra landnema á svæðinu voru flest við bakka fljótsins. Central Intelligence Agency. Inngangurinn að höfuðstöðvum CIA í Langley í Virginíu. Central Intelligence Agency eða CIA er greiningardeild og leyniþjónusta Bandaríkjanna sem storfnuð var árið 1947. CIA er arftaki Office of Strategic Services (OSS) sem stofnuð var í seinni heimsstyrjöldinni og var ætlað að samhæfa njósnastarfsemi hinna ýmsu stofnana Bandaríkjahers. CIA heyrir þó ekki undir Bandaríkjaher. Megin hlutverk stofnunarinnar er að safna og greina upplýsingar um ríkisstjórnir, fyrirtæki og ríkisborgara annarra landa til þess að geta ráðlagt bandarískum yfirvöldum við stefnumótun. Þar til í desember 2004 var CIA í raun megingreiningardeild bandarískra yfirvalda en þá voru sett lög um stofnun miðlægrar greiningardeildar, Director of National Intelligence (DNI), sem tók yfir hluta af starfsemi CIA. DNI er miðlæg greiningardeild sem starfar einnig með greiningardeildum annarra stofnana, svo sem alríkislögreglunnar FBI og greiningardeildum hersins, en samkvæmt lögum má CIA ekki fjalla um mál innan Bandaríkjanna. Höfuðstöðvar CIA eru í Langley í Virginíu. Antonio Negri. Antonio Negri, kallaður Toni Negri (f. 1. ágúst 1933) er ítalskur stjórnmálaheimspekingur sem var fyrst áberandi sem hugmyndafræðingur róttækra hópa vinstrimanna á 7. og 8. áratugnum, einkum á því tímabili sem er kallað „blýárin“ í sögu Ítalíu. Á síðari árum er hann einkum þekktur sem höfundur nýrrar útfærslu á gagnrýni marxismans á hugmyndafræði kapítalismans sem hann setur meðal annars fram í bókinni "Empire" (2000) sem hann samdi ásamt Michael Hardt. Bókin hafði stefnumótandi áhrif á andhnattvæðingarhreyfinguna. Ferill. Negri var virkur í ítalska sósíalistaflokknum frá unga aldri og átti síðan þátt í stofnun baráttuhópsins Potere Operaio 1968. Sá hópur leystist upp 1973 og hluti af félögunum gekk í hryðjuverkasamtökin Rauðu herdeildirnar sem rændu Aldo Moro árið 1978 en annar hluti stofnaði hreyfinguna Autonomia Operaia sem var hluti af óháðu hreyfingunni í Evrópu. Negri var í þeim hópi sem stofnaði Autonomia en hann var engu að síður handtekinn ásamt hundruðum annarra í kjölfar rannsóknarinnar á ráninu á Moro og ákærður fyrir ýmsar sakir, meðal annars að hafa skipulagt ránið sjálft. Allar þessar kærur voru felldar niður vegna skorts á sönnunargögnum og engin bein tengsl fundust milli Negri og Rauðu herdeildanna. Engu að síður var hann dæmdur fyrir „vopnaða uppreisn gegn ríkinu“ ("insurrezione armata contro i poteri dello stato") og „stofnun niðurrifssamtaka“ ("associazione sovversiva"). Hann var dæmdur 1984 í 30 ára fangelsi sem síðar var minnkað í 17 ár. Árið áður hafði hann hins vegar flúið til Frakklands þar sem hann fékk kennarastöðu við hinn róttæka Vincennes-háskóla í Saint-Denis í París. Negri dvaldi í útlegð í Frakklandi næstu fjórtán árin og naut þar verndar Mitterand-kennisetningarinnar sem fól í sér að Frakkar neituðu ítölskum stjórnvöldum kerfisbundið um framsal sakamanna sem dæmdir höfðu verið fyrir glæpi tengda stjórnmálastarfsemi frá árinu 1985. Hann kenndi við háskólann þar sem hann kynntist meðal annars póststrúktúralísku kenningasmiðunum Jacques Derrida, Michel Foucault og Gilles Deleuze. 1997 sneri hann loks aftur til Ítalíu til að ljúka refsingu sinni. Hann var látinn sitja hana af sér í stofufangelsi sem hann losnaði úr árið 2003. 2005 olli sú yfirlýsing hans að hann væri fylgjandi stjórnarskrá Evrópu miklum deilum meðal stuðningsmanna hans sem ásökuðu hann um að hafa snúist frá róttækni til frjálslyndisstefnu. Hann átti þátt í þeim breytingum sem Hugo Chávez gerði á stjórnarskrá Venesúela og var viðstaddur í þingi Venesúela þegar Chávez kynnti breytingarnar 15. ágúst 2007. Love Don't Cost a Thing (kvikmynd). "Love Don't Co$t a Thing" (e. "Ástin ko$tar ekki neitt") er unglinga-gamanmynd frá árinu 2003, skrifuð og leikstýrð af Troy Beyer. Nick Cannon og Christina Milian fara með aðalhlutverkin. Þá leika Steve Harvey, Kenan Thompson og Kal Penn einnig í henni. Myndin er lauslega byggð á myndinni "Can't Buy Me Love" frá árinu 1987. Söguþráður. Nördinn Alvin Johnson (Cannon) er frábærlega gáfaður og er á umhugsunarlista um skólastyrk í vélaverkfræði og hann er frábær í að hanna vélar. En hann vill ekki vera lúði lengur og vill hanga með vinsælu krökkunum. Örlítil heppni og að vera á réttum stað á réttum tíma gefur honum það tækifæri. Vinsælda-drottningin Paris Morgan (Milian) klessir bíl móður sinnar í leyfisleysi og vantar einhvern að gera við hann áður en mamma hennar kemst að því. Alvin borgar fyrir varahlutina og gerir við bílinn en í staðinn biður hann hana um að þykjast vera kærastan hans svo hann verði vinsæll í staðinn fyrir að kaupa varahlutinn sem hann vantar í vélina sína til þess að eiga betri líkur á að fá skólastyrkinn. Það virkar og Alvin breytist úr nörda yfir í vinsælan gaur. Hluti af samkomulaginu var að þau myndu hætta saman eftir tvær vikur, sem Al gerði í skólanum, án þess að Paris vissi af því. Þetta gerir Paris reiða vegna þess að henni finnst að hann sé búinn að eyðileggja orðspor hennar. Ekki aðeins það heldur gerði Alvin það mjög ókursteisislega. Að lokum fer Alvin að líta á sig sem „óbrjótanlegan“ og hann byrjar að rífa niður orðspor Parisar. Hann byrjar einnig að hunsa lúðalegu vini sína. Þegar kærasti Parisar (sem er í háskóla) hættir með henni af því að hann heldur að Paris og Alvin hafi verið saman biður Paris Al um að segja frá samningnum þeirra. En Al er orðinn svo sjálfumglaður að hann heldur að samningurinn hafi aldrei verið til. Paris segir þá öllum frá samningnum þeirra fyrir framan alla vinsælu krakkana og segir að hann hafi borgað henni fyrir að vera vinur sinn svo að hann myndi verða vinsæll. Alvin, rosalega vandræðalegur, verður aftur hann sjálfur og reynir að lifa sínu gamla lífi aftur með lúðalegu vinum sínum. En þeir vilja ekki taka við honum aftur. Sagan endar á körfuboltaleik skólans þegar Alvin stendur upp þegar einn körfuboltastrákanna fer að gera grín að honum og hótar að lemja Alvin. Alvin segist vera miður sín yfir því að skammast sín fyrir hvernig hann var (þegar hann var lúði). Þá öðlast hann virðingu vina sinna og allra nemendanna aftur. Seinna úti vill Drew (fyrrverandi kærasti Parisar) taka hana aftur en hún segir við hann: „Ég á mér aðra drauma“. Paris og Al sættast á endanum og kyssast þegar myndin endar. Alatri. Alatri er stærsta borg Latíum og fimmta stærsta borg Ítalíu. Í janúar 2006 voru íbúar borgarinnar 30.821. Óeiginlegt heildi. Óeiginlegt heildi eða óeiginlegt tegur er hugtak í örsmæðareikningi sem á við markgildi af ákveðnu heildi, er endapunkturinn á bili heildisins nálgast annaðhvort ákveðna rauntölu eða ∞ eða −∞ eða jafnvel er báðir endapunktarnir nálgast markgildi. Óeiginlegt heildi er markgildi má tákna með þar sem markgildi í einum eða báðum endapunktunum er tekið. Kaupstaður. Kaupstaður er heiti á þéttbýlisstað sem nýtur sérstakra réttinda sem verslunarstaður, með stjórnsýslu sem er aðgreind frá dreifbýlinu í kring (hefur „kaupstaðarréttindi“). Kaupstaðarréttindi voru sérstök réttindi sem kaupstaðir nutu og gátu meðal annars falið í sér eigin bæjarstjórn og bæjardómara og rétt til að reka verslun og iðnað. Orðið kauptún hefur verið haft um smærri þéttbýliskjarna sem ekki hafa formleg kaupstaðarréttindi. Á Íslandi voru kaupstaðarréttindi innleidd þegar einokunarverslunin var lögð niður 18. ágúst 1786. Þá fengu sex staðir kaupstaðarréttindi á Íslandi: Reykjavík, Grundarfjörður, Ísafjarðarbær, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Vegna ýmissa erfiðleika næstu ár varð vöxtur þessara kaupstaða hægari en við var búist og féllu kaupstaðarréttindi þeirra allra, annarra en Reykjavíkur, niður árið 1836. Næstu áratugi börðust margir þessara staða fyrir endurheimt kaupstaðarréttinda og fleiri staðir fengu slík réttindi. Kaupstaðarréttindi voru veitt með sérlögum frá Alþingi og nutu kaupstaðir þess að vera sérstakt lögsagnarumdæmi aðgreint frá sýslunni. Með nýjum sveitarstjórnarlögum árið 1986 gátu bæir orðið kaupstaðir að uppfylltum vissum skilyrðum svo ekki þurfti lengur sérlög til. Með lögum um framkvæmdavald í héraði 1989 voru sýslurnar síðan felldar niður sem sérstakt stjórnsýslustig og eftir það var í raun enginn munur á stjórnsýslu sveitarfélaga eftir því hvort þau teldust kaupstaðir, kauptún, bæir eða hreppar. Síðasti bærinn sem fékk formleg kaupstaðarréttindi á Íslandi var Sandgerði árið 1990. Leyniþjónusta. Leyniþjónusta er opinber greiningardeild sem safnar upplýsingum og greinir þær til þess að vernda þjóðaröryggi ríkisins. Leyniþjónustur safna upplýsingum meðal annars með njósnastarfsemi, samskiptaeftirliti, dulráðningum, samstarfi við aðrar stofnanir og greiningu á opinberum gögnum. Stundum eru leyniþjónustur einnig leynilögreglustofnanir sem vernda þjóðaröryggi með leynilegri lögreglustarfsemi og gagnnjósnum innanlands. Stundum eru leyniþjónustur sakaðar um að taka þátt í að ráða fólk af dögum, stunda vopnasölu, koma af stað byltingum og stunda áróðursstarfsemi erlendis til að tryggja þjóðarhagsmuni (til dæmis þjóðaröryggi og viðskiptahagsmuni) í heimalandi sínu. Greiningardeild. Greiningardeild er deild eða stofnun sem hefur það hlutverk að safna upplýsingum og greina þær til þess að geta veitt ráðgjöf við stefnumótun. Opinberar greiningardeildir sem starfa í þágu þjóðaröryggis kallast leyniþjónustur. Selma Jónsdóttir. Selma Jónsdóttir (22. ágúst 1917 – 5. júlí 1987) var íslenskur listfræðingur og fyrsti forstöðumaður Listasafns Íslands frá 1950 til dauðadags. Hún var fyrsta konan sem varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 16. janúar 1960. Í ritgerðinni sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum. Franco Rossi. Franco Rossi (19. apríl 1919 – 5. júní 2000) var ítalskur handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri frá Flórens. Hann hóf feril sinn sem aðstoðarleikstjóri og varð síðan frægur fyrir gamanmyndir sínar eins og farsann "Flagarann" ("Il seduttore") frá 1954 með Alberto Sordi í aðalhlutverki. Hann var einn af fyrstu ítölsku kvikmyndaleikstjórunum sem tók að sér að leikstýra þáttaröðum fyrir sjónvarp. Hann leikstýrði meðal annars þáttaröðinni "Quo Vadis" árið 1985. Louis Armstrong. Louis Daniel Armstrong (4. ágúst 1901 – 6. júlí 1971) var bandarískur jazztónlistarmaður, trompetleikari og söngvari. Armstrong, Louis Django Reinhardt. Django Reinhardt (23. janúar 1910 – 16. maí 1953) var belgískur sígauni sem spilaði jazztónlist. Hann er jafnan talinn upphafsmaður hins svokallaða sígaunajazz. Reinhardt, Django Giurtelecu Şimleului. Giurtelecu Şimleului (rúmenska: "Giurtelecu Şimleului") er bær í Rúmeníu. Árið 2002 bjuggu 1.055 íbúar í bænum. Aðþrengdar eiginkonur. "Aðþrengdar eiginkonur" (e. "Desperate Housewives") er bandarískur gaman-dramaþáttur sem er framleiddur af Marc Cherry og fyrirtæki hans Cherry Productions í samvinnu við ABC Studios. Þættirnir voru sýndir á ABC stöðinni á árunum 2004 - 2012 Sögusvið þáttanna er gatan Bláregnsslóð (e. "Wisteria Lane") í ímyndaða bandaríska bænum Fairview í hinu ímyndaða Arnarfylki (e. "Eagle State"). Þættirnir fylgjast með lífi hóps kvenna, séð með augum látinnar nágrannakonu þeirra. Þær kljást við vandræði í ástarlífinu og fjölskyldulífið en þær þurfa einnig að horfast í augu við þau leyndarmál, glæpi og þær ráðgátur sem leynast bakvið útidyrahurðina í hverfinu þeirra sem lítur út fyrir að vera fullkomið úthverfi á yfirborðinu. Nokkrar leikkonur fara með aðalhlutverkin: Teri Hatcher er Susan Mayer, Felicity Huffman er Lynette Scavo, Marcia Cross er Bree Van de Kamp og Eva Longoria er Gabrielle Solis. Brenda Strong talar inn á þættina sem hin látna Mary Alice Young og birtist einstöku sinnum í afturlitum eða draumum. Síðan þættirnir voru frumsýndir á ABC-stöðinni þann 3. október 2004 hafa þeir fengið góð viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda. Þættirnir hafa unnið fjölmörg Emmy-, Golden Globe- og Screen Actors Guild verðlaun. Alls horfði 21,6 milljón Bandaríkjamanna á fyrsta þáttinn og rúmlega 30 milljónir horfðu á lokaþáttinn. Árið 2007 voru þættirnir útnefndir vinsælustu þættirnir í heiminum, en um 120 milljónir manna horfðu á hvern þátt og voru þættinri í þriðja sæti yfir sjónvarpsþættina með mesta áhorfið í 20 löndum. Ennfremur voru þættirnir þeir þriðju tekjuhæstu árið 2010, en þeir þénuðu tæplega 3 milljónir bandaríkjadala á hverjum hálftíma. Þættirnir eru í 56. sæti á lista Entertainment Weekly yfir "Nýju klassísku sjónvarpsþættina". "Aðþrengdar eiginkonur" voru opinberlega endurnýjaðir fyrir áttundu þáttaröðina þann 17. maí 2011 og var sú þáttaröð sú síðasta. Síðasti þátturinn var sýndur þann 13. maí 2012 í Bandaríkjunum, en var sýndur fimmtudaginn 14. júní 2012 á RÚV. Framleiðsla. Hugmyndin að þáttunum kviknaði þegar Marc Cherry og móðir hans voru að horfa á frétt um Andreu Yates. Fyrir "Aðþrengdar eiginkonur" var Cherry þekktastur fyrir að framleiða og semja þætti fyrir Touchstone Television eins og "The Golden Girls" og "The Golden Palace". Til viðbótar hafði hann einnig meðframleitt þrjá gamanþætti; "The 5 Mrs. Buchanas", "The Crew" og "Some of My Best Friends", en enginn entist lengur en í eina þáttaröð. Til að byrja með gekk Cherry illa að fá sjónvarpsstöð til að sýna nýja þáttinn sinn - HBO, CBS, NBC, FOX, Showtime og Lifetime höfnuðu allar nýja þættinum. Á endanum ákváðu tveir nýir framleiðendur hjá ABC, Lloyd Braun og Susan Lyne, að gefa grænt ljós á þáttinn. Stuttu eftir það lét Disney reka bæði Braun og Lyne eftir að þau samþykktu annan nýjan drama þátt: "Lost". Stjórnendur ABC voru í fyrstu ekki ánægðir með nafnið á nýja þættinum, og lögðu til nöfnin "Bláregnsslóð", "The Secret Lives" og "Eiginkonur". Þrátt fyrir það voru "Aðþrengdar eiginkonur" kynntar til sögunnar þann 23. október 2003 og var þátturinn sagður vera blanda af "Knots LAnding" og "American Beauty". Cherry hélt áfram að vinna að þáttunum en Pratt var einungis aðalframleiðandi í fyrsta þættinum, en var þó viðloðinn við þættina sem framleiðandi fyrstu tvær þáttaraðirnar. Þan 18. maí 2004 kynnti ABC sjónvarpdagskrána 2003-2004 og voru "Aðþrengdar eiginkonur" á sunnudögum kl. 21:00-22:00. Þegar aðeins þrír þættir höfðu verið sýndir, tilkynnti ABC að "Aðþrengdar eiginkonur" ásamt "Lost" höfðu verið framlengd í heila þáttaröð. Þann 18. maí 2010 voru samningar við þættina endurnýjaðir í sjötta sinn, og var sjöunda þáttaröðin sýnd 2010-2011. Opnunarmynd. Upphafleg hugmynd að opnunarmynd, var hugmynd Cherrys. Eftir að hafa beðið sextán fyrirtæki um að búa til opnunarmyndir sem skýrðu best stemninguna í þáttunum, réði hann að lokum yU+co til að gera opnunarmyndina. Samkvæmt opinberri vefsíðu yU+co er hugmyndin á bakvið opnunaratriðið að "sýna anda þáttanna og á gamansamana hátt sýna hvernig konurnar eru staðsettar í samfélaginu samkvæmt stöðlum þess." Myndirnar í opnunaratriðinu eru teknar úr átta mismunandi málverkum sem sýna hlutverk kynjanna og samskipti þeirra í gegnum aldirnar. Fyrsta þáttaröð (2004-2005). Fyrsta þáttaröðin hófst þann 3. október árið 2004 og kynnir aðalpersónurnar fjórar: Susan Mayer, Lynette Scavo, Bree Van de Kamp og Gabrielle Solis ásamt fjölskyldum þeirra og nágrönnum á Bláregnsslóð. Aðalráðgáta þáttaraðarinnar er óvænt sjálfsmorð Mary Alice Young og innspil eiginmanns hennar og unglingssonar í atburðunum sem leiða að sjálfsmorði hennar. Bree reynir að bjarga hjónabandi sínu, Lynette berst við að finna leið til að sjá um krefjandi börn sin, Susan á í deilum við Edie Britt (Nocollette Sheridan) um ástir nágrannans Mike Delfino (James Denton), og Gabrielle reynir að komast hjá því að eiginmaður hennar, Carlos Solis (Ricardo Antonio Chavira) komist að því að hún haldi framhjá honum með unga garðyrkjumanninum, John Rowland (Jesse Metcalfe). Við lok fyrstu þáttaraðarinnar deyr eiginmaður Bree, Rex Van de Kamp (Steven Culp), og hann trúir því að hún hafi eitrað fyrir honum, Carlos kemst að því að Gabrielle er honum ótrú þegar John segir honum það sjálfur áður en Carlos er færður í fangelsi, Tom Scavo (Doug Savant) missir vinnuna og leyfir Lynette að vera fyrirvinna heimilsins, og Mike lendir í mikilli hættu þegar hann er skotinn af sínum eigin syni. Önnur þáttaröð (2005-2006). Önnur þáttaröð hófst þann 25. september 2005 og er aðalráðgáta hennar nýi nágranninn Betty Applewhite (Alfre Woodard), sem flytur á Bláregnsslóð um miðja nótt. Í gegnum þáttaröðina reynir Bree að sætta sig við að vera orðin ekkja, og byrjar ómeðvitað ástarsamband með manninum sem eitraði fyrir eiginmanni hennar, berst við áfengisfíkn og reynir árangurslaust að koma í veg fyrir að sambandið milli hennar og sonar hennar versni. Ástarlíf Susan verður enn flóknara þegar fyrrverandi eiginmaður hennar trúlofast Edie en er einnig hrifinn af Susan. Lynette snýr aftur til vinnu í auglýsingabransanum og verður að lokum yfirmaður eiginmanns síns og Gabrielle ákveður að vera trú eiginmanni sínum og hefur undirbúning fyrir barnseignir. Við lok þáttaraðarinnar keyrir tannlæknavinur Susan, Orson Hodge (Kyle MacLachlan), á Mike. Þriðja þáttaröð (2006-2007). Þriðja þáttaröðin hófst þann 24. september 2006. Í þriðju þáttaröðinni giftist Bree Orson, og verður fortíð hans og tenging hans við nýlega fundið lík að aðalráðgátu þáttaraðarinnar. Á meðan þarf Lynette að venjast því að hafa annað barn í húsinu þegar áður óþekkt dóttir eiginmanns hennar kemur. Scavo hjónin finna einnig fyrir spennu þegar Tom, eiginmaður Lynette, vill opna veitingastað. Gabrielle gengur í gegnum erfiðan skilnað, en finnur á endanum ást í örmum nýja bæjarstjórans. Edie sér tækifæri til að vinna Mike, sem þjáist af minnisleysi. Susan missir alla von um að minni Mike muni koma til baka og í sorgarferlinu hittir húm yndarlegan breskan mann, en eiginkona hans er í dái. Fjölskyldutengls Edie eru kynnt í gegnum þáttaröðina. Skotárás í matvöruverslun á svæðinu veldur því að tvær persónur þáttanna deyja og breytir lífi allra til frambúðar. Fjórða þáttaröð (2007-2008). Fjórða þáttaröðin hófst þann 30. september 2007 og er aðalráðgátan nýi nágranninn Katherine Mayfair (Dana Delany) og fjölskylda hennar, sem snýr aftur á Bláregnsslóð eftir 12 ára fjarveru. Dóttir hennar man ekkert eftir lífinu á Bláregnsslóð. Lynette berst við krabbamein; hin nýgifta (en jafnframt óhamingjusama) Gabrielle byrjar framhjáhald með fyrrum eiginmanni sínum, Carlos; Susan og Mike njóta lífsins sem gift hjón og komast að því að þau eiga von á barni; Bree þykist vera ólétt og ætlar sér að ala upp óskilgetið barn unglingsdóttur sinnar sem sitt eigið; og Edie beitir brögðum til að halda í nýju ástina í lífi sínu, Carlos. Samkynhneigt par frá Chicago - Lee McDermott (Kevin Rahm) og Bob Hunter (Tuc Watkins), flytja á Bláregnsslóð og flytja inn í húsið sem Betty, og seinna Gloria og Alma Hodge bjuggu í. Fellibylur ógnar lífi allra og öllu því sem íbúunum er kært. Við lok þáttaraðarinnar snýr fyrrverandi eiginmaður Katherine aftur og er drepinn. Á lokamínútum síðasta þáttarins er litið fimm ár fram í tímann: Bree er vinsæll matreiðslubókahöfundur og sonur hennar vinnur hjá henni; Gabrielle á börn; Tvíburarnir hennar Lynette eru nógu gamlir til að keyra; og Susan er ástfangin af nýjum manni. Fimmta þáttaröð (2008-2009). Fimmta þáttaröðin hófst þann 28. september 2008 og höfðu þá liðið fimm ár frá atburðum fjórðu þáttaraðar, með nokkrum afturhvörfum að atburðum sem gerðust í millitíðinni. Ráðgáta þáttaraðarinnar snýst um nýjan eiginmann Edie, Dave Williams (Neal McDonough). Dave er að leita hefnda á Bláregnsslóð (og það kemur seinna í ljós að hann ætlar sér að hefna sín á Mike). Susan tekst á við það að vera einstæð móðir og að eiga í nýju ástrsambandi við Jackson (Gale Harold), á meðan Mike byrjar með Katherine. Lynette og Tom komast að því að sonur þeirra á í ástarsambandi við gifta konu, og brennur næturklúbbur eiginmanns hennar þegar flestir íbúar Bláregnsslóðar voru þar inni að skemmta sér. Carlos og Gabrielle glíma við dætur sínar tvær, Juanitu og Celiu, þegar Carlos fær sjónina aftur. Bree og Orson eiga í hjúskaparvandræðum þar sem Bree einblínir of mikið á feril sinn og Orson byrjar að stela frá nágrönnunum. Það veldur því að ORson finnst liggjandi á götunni þegar Edie keyrir hratt í burtu frá húsinu sínu þegar hún kemst að því að Dave ætlar sér að drepa Mike og alla sem hann elskar; Edie sveigir til að keyra ekki á Orson og klessir á rafmangsstaur, stígur síðan út úr bílnum, en deyr síðan vegna rafstraums áður en hún getur komið upp um Dave. Það er seinna sem Susan útskýrir fyrir Dave að það hafi verið hún, ekki Mike, sem keyrði bílinn það kvöld sem kona og barn keyrðu framhjá stöðvunarskyldu, þar sem skiltið hafði fallið niður. Hefndaráætlun Dave breytist skyndilega þegar hann segir "Halló" við M.J. Delfino (Mason Vale Cotton), son Mike og Susan. Í fimmtu þáttaröðinni var 100. þátturinn og snerist hann um Eli Scruggs (Beu Bridges), allrahandamann sem lék stórt hlutverk í lífi allra kvennanna. Þessi þáttur innihélt afturhvörf og endurkomu persóna, þ.á m. Mary Alice, Rex Van de Kamp og Martha Huber (Christine Estabrook). Þáturinn var sýndur sunnudaginn 18. janúar 2009 í Bandaríkjunum. Sjötta þáttaröð (2009-2010). Sjötta þáttaröðin hófst sunnudaginn 27. september 2009. Aðalráðgáta þáttaraðarinnar snýst um nýja nágrannan Angie Bolen (Drea de Matteo) og fjölskyldu hennar. Fyrri helmingur þáttaraðarinnar einblínir einnig á ósætti milli Lynette og Gabrielle þegar Lynette reynir að lögsækja Carlos; dóttur Susan, Julie Mayer (Andrea Bowen), þegar ráðist er á hana af óþekktri manneskju; taugaáfall Katherine þegar hún missir Mike til Susan; og ástarsamband Bree við Karl Mayer (Richard Burgi), fyrrum eiginmann Susan. Ástarsamband Bree endar hörmulega þegar flugvél sem Karl leigði hrapar á byggingu þar sem þau tvö eru inni í ásamt Orson. Seinni hluti þáttaraðarinnar einblínir á það þegar Katherine gerir tilraunir í ástarlífinu; Lynette býður kyrkjara bæjarins að gista hjá þeim áður en hún kemst að hinu sanna; ósættinu milli Bree og sonar Rex sem hann átti áður en hann kynntist Bree; og lausn á Bolen-ráðgátunni. Sjöunda þáttaröð (2010-2011). Sjöunda þáttaröðin hófst þann 26. september 2010 og aðalráðgáta þáttaraðarinnar er endurkoma eiginmanns Mary Alice, Paul Young (Mark Moses) á Bláregnsslóð, og áætlarnir hans um að leita hefnda eftir að hafa verið gerður útlægur úr götunni. Þessi þáttaröð fylgist einnig með leyndarmálum nýrrar eiginkonu Paul, Beth Young (Emily Bergl) og áætlunum Feliciu Tilman (Harriet Sansom Harris) til að hefna systur sinnar, Mörthu Huber. Gabrielle og Carlos komast að því að dóttir þeirra, Juanita, er ekki raunveruleg dóttir þeirra, og fær það Gabrielle til að snúa aftir til heimabæjar síns, Las Colinas. Orson yfirgefur Bree, svo hún byrjar með smiðnum, Keith Watson (Brian Austin Green). Það kemur þó á daginn að samband þeirra mun aldrei ganga og byrjar Bree að lokum með rannsóknarlögreglumanninum Chuck Vance (Jonathan Cake). Vegna fjárhagsvandræða hefur Susan og fjölskylda hennar flutt úr götunni og Susan neyðist til að beita óhefðbundnum aðferðum til að þéna peninga. Besta vinkona Lynette úr háskóla, Renee Perry (Vanessa Williams) flytur í götuna og hrærir upp í hlutunum. Eftir að mótmæli í götunni fara úr böndunum neyðist Susan til að fara á biðlista fyrir líffæri. Carlos kemst að sannleikanum um dauða móður sinnar, sem endar að lokum vinskapinn milli Solis fjölskyldunnar og Bree. Lynette fær Tom til að taka nýju og spennandi starfi sem leiðir til vandræða í hjónabandinu. Síðasti þátturinn var tveggja klukkustunda langur og endar hann vandræðin milli Paul og Feliciu. Óvæntur gestur kemur á Solis heimilið, sem hefur áhrif í áttundu þáttaröðinni. Áttunda þáttaröð (2011-2012). Áttunda og síðasta þáttaröðin hófst sunnudaginn 25. september 2011. Þessi síðasta þáttaröð byrjar strax eftir kvöldmatarboðið sem var í lokaþætti sjöundu þáttaraðar, þegar stjúpfaðir Gabrielle, Alejandro Perez (Tony Plana), sem misnotaði hana í æsku, er drepinn af Carlos. Bree, Lynette og Susan ganga inn í þessar aðstæður og leggja á ráðin til að hylja það sem gerst hefur. Bree heldur áfram ástarsambandinu við Chuck í stuttan tíma, en hættir hins vegar með honum vegna þeirrar hættu sem fylgir sambandi þeirra. Chuck verður svo reiður að hann skoðar tilkynninguna um hvarf Alejandros og kemst mjög nálægt sannleikanum, áður en hann er myrtur. Þetta setur mikla pressu á vinskapinn og hætta Gabrielle, Lynette og Susan að tala við Bree, sem leiðir til þess að Bree fer aftur að drekka, með tilheyrandi afleiðingum, þar til Orson birtist og bjargar henni frá sjálfri sér, en aðeins vegna sinna hagsmuna. Eftir að það kemur í ljós að hann hefur fylgst með Bree alveg síðan Alejandro var myrtur og að það var hann sem myrti Chuck, hafnar Bree Orson, svo hann ákveður að senda sönnunargögn sem hann hefur safnað til lögreglunnar í Fairview, sem veldur því að Bree er ákærð fyrir morðið á Alejandro. Nýr nágranni, Ben Faulkner (Charles Mesure), flytur í götuna og hrífur Renee. Ben rekur verktakafyrirtæki sem byrjar fljótlega að byggja á Chapman skógarsvæðinu. En Ben gengur í gegnum mikil fjárhagsvandræði og leitar til hættulegra og óáreiðanlegra manna til að fá lán. Mike blandar sér í málin til að reyna að vernda Renee, en hann fær að gjalda fyrir það. Í fyrri hluta þáttaraðarinnar glímir Susan við samviskubitið sem fylgir morði Alejandro, en í seinni hlutanum reyna þau M.J. að sætta sig við dauða Mikes. Eftir að hafa myrt Alejandro þróar Carlos með sér áfengisfíkn, en Gabrielle fær hann til að fara í meðferð. Vegna slæmrar samvisku, ásamt nýlegum atburðum í götunni, ákveður Carlos að yfirgefa hálauna starf sitt til þess að fara að vinna við góðgerðarstarfsemi, sem verður til þess að Gabrielle neyðist til að verða stílisti í fatabúð. Tom flytur frá fjölskyldu sinni og Lynette reynir að sættast við það hversu hratt Tom jafnar sig, þar til hún kemst að því að hún er enn ástfangin af honum á ákveður að hún ætli að vinna hann aftur. Karen McCluskey (Kathryn Joosten) fær slæmar fréttir varðandi heilsu sína og ákveður að enda allt saman, en Bree fær hana til að skipta um skoðun. Síðasti þátturinn var tveggja klukkustunda langur og var sýndur sunnudaginn 13. maí 2010 í Bandaríkjunum. Hann fjallar um lok réttarhaldanna yfir Bree þar sem frú McCluskey færir mikla fórn sem gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Það er brúðkaup, fæðing og dauði, og framtíð húsmæðranna fjögurra kemur í ljós. Persónur og leikendur. Í fyrstu þáttaröðinni voru þrettán leikendur í þáttunum, allir titlaðir í byrjun þáttanna. Á öðru árinu voru nokkrir leikarar, aðallega börn og unglingar, sem höfðu verið gestaleikarar í þáttunum, orðin fastir leikarar en þau voru ekki titluð í byrjun. En þau voru sett í „Also Starring“ á eftir opnunaratriðinu með gestaleikurunum, þessu var haldið áfram í þriðju og fjórðu þáttaröðinni. Á meðal aðalleikaranna fjórtán í fyrstu þáttaröðinni voru fjórar aðalleikkonu: Teri Hatcher sem Susan Mayer, fráskilin móðir með góðan húmor fyrir drama og í leit að ástinni; Felicity Huffman sem Lynette Scavo, fyrrum viðskiptakona sem gerðist yfirstressuð heimavinnandi húsmóðir fjögurra barna; Marcia Cross sem Bree Van de Kamp, eiginkona sem virðist vera fullkomin en berst við að bjarga hjónabandinu; og Eva Longoria sem Gabrielle Solis, fyrrum fyrirsæta sem er föst í óhamingjusömu hjónabandi og fer að halda framhjá eiginmanni sínum með 17 ára gömlum garðyrkjumanni þeirra. Ennfremur lék Nicollette Sheridan Edie Britt, erkióvin Susan og var henni lýst sem "hórunni í hverfinu", sem með tímanum varð að fimmtu aðalpersónunni. Steven Culp lék Rex Van de Kamp, vansælan eiginmann Bree sem hafði leynda kynlífsóra, á meðan Ricardo Antonio Chavira lék eiginmann Gabrielle, Carlos Solis, harðan viðskiptamann sem leit aðallega á eiginkonu sína sem verðlaunagrip; og James Denton lék Mike Delfino, dularfulla nýja nágrannann sem Susan varð hrifin af. Brenda Strong talaði yfir þættina sem Mary Alice Young, sem birtist venjulega ekki fyrir framan myndavélina, og er það óvænt sjálfsmorð hennar í fyrsta þættinum sem er ráðgáta fyrstu þáttaraðarinnar. Mark Moses lék Paul Young, ekkil Mary Alice, sem lagði sig allan fram við að ástæða sjálfsmorðs eiginkonu hans héldist leynd; og Cody Kasch lék Zach Young, vandræða unglingsson Paul og Mary Alice, sem reyndist vera líffræðilegur sonur Mike. Loks fór Andrea Bowen með hlutverk hinnar umhyggjusömu og góður unglingsdóttur Susan, Julie Mayer; og Jesse Metcalfe lék John Rowland, ungling sem vann var bæði garðyrkjumaður Gabrielle og ástmaður hennar. Í annarri þáttaröðinni hættu Culp og Metcalfe sem fastir leikarar í þáttunum, en Rex dó úr hjartaáfalli og Gabrielle endaði ástarsamband sitt við John. Nokkrir leikarar sem höfðu farið með gestahlutverk í fyrstu þáttaröðinni urðu fastir leikarar í annarri þáttaröðinni, þ.á.m. Doug Savant sem Tom Scavo, eiginmaður Lynette sem í annarri þáttaröðinni hættir í vinnunni, ákveðinn í að vera heimavinnandi faðir; Brent Kinsman, Shane Kinsman og Zane Huett sem Preston, Porter og Parker Scavo, ærslafullir drengir Lynette og Tom; Shawn Pyfrom sem Andrew Van de Kamp, flókinn samkynhneigður sonur Bree; og Joy Lauren sem Danielle Van de Kamp, ákveðin systir Andrews. Alfre Woodard og Mehcad Brooks gengur til liðs við leikaraliðið sem Betty Applewhite og sonur hennar Matthew, sem fluttu í götuna um miðja nótt svo að nágrannarnir kæmust ekki að því að annar sonur Betty, Caleb - upphaflega leikinn af Page Kennedy, en síðar leikinn af NaShawn Kearse - væri læstur í kjallaranum. Eftir að hafa verið gestaleikari í nokkrum þáttum í fyrstu þáttaröðinni gekk Richard Burgi til liðs við leikaraliðið í annarri þáttaröðinni sem Karl Mayer, fyrrum eiginmaður Susan sem trúlofast Edie; og Roger Bart sem George Williams, lyfjasali Bree og síðar klikkaður unnusti hennar, sem hafði valdið dauða Rex. Bart, hins vegar, yfirgaf þættina í miðri þáttaröð vegna dauða George. Á meðan Applewhite ráðgátan var leyst í síðasta þætti annarrar þáttaraðar höfðu Woodard, Brooks og Kearse öll yfirgefið þættina þegar þriðja þáttaröðin hófst, en einnig Mark Moses þar sem Paul var sakaður um morð og læstur inni; Cody Kasch yfirgaf eining þættina þar sem Zach varð milljónamæringur eftir að veikur líffræðilegur afi hans lést og erfði hann að öllum sínum eigum; og Richard Burgi eftir að Karl var sagt upp af bæði Susan og Edie. Tvær viðbætur voru í leikaraliðinu fyrir þriðju þáttaröðina: Kyle MacLachlan sem Orson Hodge, sem giftist Bree og dimm fjölskyldusaga hans er aðalráðgáta þáttaraðarinnar; og Josh Henderson lék frænda Edie, Austin McCann, sem byrjar ástarsamband við Julie, en endar á því að gera Danielle ólétta og yfirgaf þættina í miðri þáttaröð. Í fjórðu þáttaröðinni var Rachel Fox bætt við leikaraliðið eftir að hafa leikið gestahlutverk í þriðju þáttaröð, og fór hún með hlutverk Kaylu Scavo, dóttur Tom frá fyrra "einnar nætur gamani". Dana Delany og Lyndsy Fonseca gengu einnig til liðs við þættina sem Katherine og Dylan Mayfair, móðir og unglingsdóttir sem bjuggu á Bláregnsslóð tólf árum áður, en höfðu flutt burt úr götunni. Neal McDonough bættist í leikarahóp "Aðþrengdra eiginkvenna" sem aðalpersóna í fimmtu þáttaröð. Hann lék Dave Williams, nýjan eiginmann Edie. Max og Charlie Carver voru ráðnir sem Preston og Porter Scavo, Joshua Logan Moore varð Parker Scavo og Kendall Applegate fór með hlutverk Penny Scavo. Madison De La Garza og Daniella Baltodano gengu einnig til liðs við þættina sem Juanita og Celia Solis, ungar dætur Carlos og Gabrielle Solis, en einnig Mason Vale Cotton sem M.J. Delfino, ungur sonur Susan og Mike. Pyfrom hætti sem Andrew Van de Kamp eftir fimmtu þáttaröðina og birtist aðeins í gestahlutverki síðustu árin, og Edie lést við lok fimmtu þáttarðar, svo Nicollette Sheridan yfirgaf leikaraliðið. Í sjöttu þáttaröð þáttanna gekk Bowen aftur til liðs við þættina sem aukaleikkona. Eftir að hafa verið gestastjarna í lokaþætti fimmtu þáttaraðarinnar varð Maiara Walsh reglulega leikkona í þáttunum. Drea de Matteo, Jeffrey Nordling og Beau Mirchoff gengu til liðs við leikaraliðið sem Angie, Nick og Danny Bolen og var koma þeirra aðalráðgáta þáttaraðarinnar. Kathryn Joosten varð aukaleikkona í þáttunum, eftir að hafa verið í gestahlutverki í fimm ár sem eldri nágrannakonan Karen McCluskey. Madison De La Garza, sem lék elstu dóttur Gabrielle, Juanitu, og Mason Vale Cotton, sem lék son Mike og Susan, M.J., urðu einnig aukaleikarar í þáttunum. Max Carver lék ekki í þáttunum fyrr en persóna hans, Preston, sneri aftur úr Evrópureisu með kærustunni sinni og varð hann því gestaleikari í þáttunum. Delaney sagði skilið við þættina þegar persóna hennar, Katherine, flutti til Parísar. Í sjöundu þáttaröðinni voru hlutverk Tuc Watkins og Kevin Rahm, sem léku samkynhneigða parið Bob Hunter og Lee McDermott, stækkuð og urðu þeir reglulegar persónur í þáttunum, og Kyle MacLachlan yfirgaf "Aðþrengdar eiginkonur". Moses sneri aftur til að endurtaka hlutverk sitt sem Paul Young í lokaþætti sjöttu þáttaraðar. Vanessa Williams gekk til liðs við leikaraliðið sem Renee Perry, gamall erkióvinur Lynette úr háskóla. Endurráðið var í hlutverk Penny og kom Darcy Rose Byrnes í stað Applegate. Jonathan Cake gekk til liðs við þættina við lok sjöundu þáttaraðar sem Chuck Vance, nýr kærasti Bree. Í áttundu þáttaröðinni, til viðbótar við Joosten, Watkins og Rahm, sem urðu aftur aukaleikarar, gekk Charles Mesure til liðs við leikaraliðið sem Ben Faulkner, byggingaverktaki sem laðast að Renee Perry. Ennfremur var tilkynnt seinni hluta árs 2011 að Bowen, Delany, MacLachlan, Pyfrom og Lauren myndu endurtaka hlutverk sín sem Julie Mayer, Katherine Mayfair, Orson Hodge, Andrew og Danielle Van de Kamp að einhverju leyti í þáttunum árið 2012. Top Gear. Top Gear er enskur BBC sjónvarpsþáttur um vélknúin ökutæki og alveg sérstaklega fólksbíla. Þátturinn hóf göngu sína árið 1977 sem „tímaritssjónvarpsþáttur“ um bíla. Í upphafi var hann öllu fræðilegri en hefur með tímanum orðið gamansamari. Top Gear hætti í sinni upprunalegu mynd árið 2001, en var hrundið af stað á ný árið 2002 með þáttastjórnendunum Jeremy Clarkson, Richard Hammond, James May og The Stig. Top Gear hefur unnið til Emmy verðlauna og um 350 milljón áhorfendur horfa á hann um allan heim. Á Íslandi er Top Gear sýndur á Skjá einum. Saga. Jeremy Clarkson, sem er þekktastur þeirra kynna sem voru með Top Gear fyrir árið 2002, bjó til nýtt form fyrir Top Gear ásamt framleiðandanum Andy Wilman. Þátturinn er með sína eigin braut í Dunsfold. Á brautinni prófar einkaökumaðurinn "Stig" sem þekkist ekki með öðru nafni, og stjörnur keppast við að ná sem bestum tíma á miðlungs bíl. Top Gear inniheldur "svala vegginn", þar sem bíladómar birtast á risastóru veggspjaldi og Top Gear flytur jafnframt bílafréttir. Sérstakur þáttur var um pólferð Top Gear. Í pólferðinni fóru Top Gear á segulnorðurpólinn. Landfræðilegi norðurpóllinn, er 1.300 kílómetrum norðar. Top Gear notaði bæði breyttan Toyota Hilux í ferðina, og hundasleða, til að athuga hvor væri fljótari. Íslenska fyrirtækið Arctic Trucks breytti bílnum og veitti jafnframt aðstoð á leiðinni. Top Gear og Ísland. Top Gear hefur nokkrum sinnum komið við sögu á Íslandi. Einn af þáttagerðarmönnum Top Gear hafði þegar gert sérstakan þátt um Ísland árið 1995 sem heitir Jeremy Clarkson's Motorworld. Eins og nafnið gefur til kynna, voru þættirnir komnir frá Top Gear kynninum Jeremy Clarkson. Richard Hammond endurtók þetta ævintýri Jeremy Clarksons, í Top Gear þegar hann fór á torfærubíl, sem knúinn var áfram á nítrusoxíði yfir vatn, í keppni við snjóvélsleða. Snjósleðinn vann þá keppni. Í þáttaröð átta, voru Top Gear á Íslandi við Jökulsárlón. Á lóninu kepptu þeir við frægan kajak ræðara, Shawn Baker, á móti fjórhjóladrifnum bíl. Kajakinn er með mótor, og bíllinn er Tomcat, en Tomcat er íslenskt fyrirtæki. Umdeilanlegast var þó þegar Top Gear þáttastjórnandinn James May fór upp að Fimmvörðuhálsi á meðan gosið þar stóð yfir í mars/apríl 2010. Hann fór á sama Toyota Hilux bílnum og notaður var í ferðinni á segulnorðurpólinn. Bílnum, Toyota Hilux, var breytt til að aka í kringum heitt hraun, bæði með stálþaki, og alkóhól kælibúnaði. Robert Koch. Heinrich Hermann Robert Koch (fæddur 11. desember 1843, dáinn 27. maí 1910) var þýskur læknir og örverufræðingur. Hann þróaði margar þeirra grunnaðferða sem enn eru notaðar við ræktun baktería og er því oft sagður „faðir bakteríufræðanna“. Hann er þekktastur fyrir uppgötvanir sínar í sýklafræði, einkum fyrir að hafa fundið orsakavalda miltisbrands, berkla og kóleru og fyrir skilgreiningu sína á þeim skilyrðum sem uppfylla þarf til að tiltekin örvera geti óyggjandi talist orsök ákveðins sjúkdóms. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1905 fyrir að uppgötva berklabakteríuna. Hann hafði mótandi áhrif á störf Paul Ehrlichs og Gerhard Domagks. Æviágrip. Robert Koch fæddist árið 1843 og ólst upp í námubænum Clausthal í Harzfjöllunum. Clausthal tilheyrði þá konungsríkinu Hannover en er nú í þýska sambandslýðveldinu Neðra-Saxland. Faðir hans, Hermann Koch, var embættismaður sem hafði umsjón með námarekstri á svæðinu (þ. "Bergvogt"). Móðir hans hét Mathilde og var Robert þriðji alls 13 barna þeirra hjóna. Robert var bráðgert barn og námsfúst, eins og sjá má á því að fimm ára gamall tilkynnti hann furðu lostnum foreldrum sínum að hann hefði kennt sjálfum sér að lesa með aðstoð dagblaða. Námsárin. Að lokinni menntaskólagöngu í Clausthal hélt Koch til Göttingen og hóf nám í læknisfræði við Georg-August-háskólann 1862. Þar var Jakob Henle prófessor í líffærafræði en hann hafði nokkru áður birt kenningu þess efnis að smitsjúkdómar bærust milli manna með smitbærum lífverum. Henle og kenningar hans áttu eftir að hafa mikil áhrif á fræðastarf Kochs. Hugur Kochs stóð á þessum árum mjög til ferðalaga og gældi hann við þá hugmynd að gerast skipslæknir en að læknanáminu loknu 1866 gaf hann þær hugmyndir upp á bátinn, í bili að minnsta kosti, og trúlofaðist æskuástinni sinni, Emmy Fraatz, prestsdóttur í Clausthal. Þau giftust árið eftir, þann 16. júlí 1867. Árið 1868 eignuðust þau sitt eina barn, Gertrude. Í millitíðinni hélt Koch til Berlínar og sótti námskeið í efnafræði. Þar kynntist hann meðal annars Rudolf Virchow sem átti eftir að hafa mikil áhrif á Robert. Þorpslæknirinn. Robert vann um stutt skeið á sjúkrahúsi í Hamborg (þ. "Allgemeine Krankenhaus") en gerðist svo þorpslæknir (þ. "Landarzt") og starfaði um nokkura ára skeið í ýmsum þorpum þáverandi Prússlands, síðast í Wollstein (nú Wolsztyn í Póllandi). Hann þjónaði einnig sem herlæknir í fransk-prússneska stríðinu 1870-1871. Árið 1876 birti hann niðurstöður rannsókna á miltisbrandi sem hann hafði unnið að í hjáverkum meðfram læknisskyldum sínum í Wollstein allt frá því Emmy gaf honum smásjá í afmælisgjöf 1871. Niðurstöður hans, einkum hvað vaðar hæfileika miltisbrandsbakteríunnar til að mynda dvalargró, vöktu mikla athygli og urðu til þess að honum var boðin staða við Keisaralegu heilbrigðisstofnunina (þ. "Kaiserliches Gesundheitsamt") í Berlín. Berlínarárin. Í Berlín þróaði Koch frekar aðferðir sínar til ræktunar baktería og rannsókna á þeim. Hann sneri sér fljótlega að því að finna orsök berkla og síðar kóleru. Í tengslum við þessar rannsóknir fékk hann tækifæri til að svala útþrá sinni og lagðist í langa rannsóknaleiðangra til Egyptalands, Indlands, Suður Afríku og Jövu. Rannsóknirnar skiluðu honum aukinni frægð og frama. Árið 1885 var hann gerður að prófessor við Charité háskólasjúkrahúsið í Berlín. Árið 1891 var stofnuð sérstök rannsóknastofnun, Hin konunglega prússneska rannsóknastofnun í smitsjúkdómafræðum (þ. "Das Königlich Preußische Institut für Infektionskrankheiten") sem hann veitti forstöðu. Nafn stofnuninnar var breytt 1912, tveimur árum eftir dauða Kochs, og heitir nú Robert Koch stofnunin. Skilnaður og annað hjónaband. Hjónaband þeirra Roberts og Emmy Koch reyndist ekki jafn heilladrjúgt og þau höfðu vonast til í upphafi og hafði verið nokkuð stirt milli þeirra hjóna allt frá því á Wollstein-árunum. Upp úr sauð þegar Koch felldi hug til ungrar leikkonu, Hedwig Freiberg að nafni. Hedwig var þá aðeins 17 ára, en hreifst mjög af þessum fræga vísindamanni og bauðst til að þjóna sem „tilraunadýr“ við rannsóknir hans á berklalyfinu "túberkúlín", sem hann var þá að þróa. Þau Emmy skildu en skilnaðir þóttu all smánarlegir á þessum árum. Koch kvæntist Hedwig 13. september 1893 og voru þau gift allt til dánardægurs hans 1910, en hann lést úr hjartaáfalli á heilsuhæli í Baden-Baden. Fræðastörf. Að dómi flestra sem hafa fjallað um sögu örverufræðanna mynda fræðastörf Kochs eina af meginstoðum þessarrar vísindagreinar á síðari helmingi nítjándu aldar og fram eftir þeirri tuttugustu. Hann hefur því verið nefndur „faðir bakteríufræðanna“ ásamt Pasteur. Að baki þeirri nafngift liggja annars vegar lykiluppgötvanir á borð við orsakir mannskæðra sjúkdóma eins og kóleru og berkla og hins vegar þróun á aðferðum við ræktun örvera og grunnrannsóknir á þeim sem enn eru í fullu gildi. Hér verður leitast við að greina frá helstu uppgötvunum og nýjungum Kochs og samstarfsfólks hans. Miltisbrandur og dvalargró. Mynd úr grein Kochs, "Aetiologie der Milzbrandkrankheit" frá 1876 Í Wollstein kom Koch sér upp heimagerðri rannsóknaraðstöðu sem hann notaði í frístundum við smásjárskoðun á blóðsýnum úr miltisbrandssýktum dýrum, en miltisbrandur var þá nokkur skaðvaldur í sveitum Prússlands. Minnugur kenninga síns gamla lærimeistara, Jakobs Henle, þess efnis að smásæjar, smitbærar lífverur bæru að öllum líkindum ábyrgð á smitsjúkdómum, beitti Koch nýju Carl Zeiss-smásjánni sinni og skimaði eftir mögulegum sýklum. Honum var einnig kunnugt um rannsóknir þeirra Casimir Davaine og Pierre Rayer í París sem höfðu fundið staflaga bakteríur í blóðsýnum miltisbrandssýktra dýra og leitt líkum að því að bakteríurnar væru sýklar en gátu ekki fært á það sönnur. Koch fann þessar sömu bakteríur, fann upp aðferð til að rækta þær í hreinrækt og gat þannig rannsakað lífsferli þeirra. Hann sá að þó bakteríurnar sem slíkar væru viðkvæmar og þyldu illa miklar breytingar á umhverfisaðstæðum, þá gátu þær myndað lítil, harðger korn, dvalargró, sem þoldu óhagstæð umhverfisskilyrði og gátu að því loknu spírað líkt og fræ plantna og myndað nýjar bakteríufrumur. Með rannsóknum sínum sýndi hann ekki aðeins fram á það á óyggjandi hátt að bakterían, "Bacillus anthracis", var miltisbrandssýkillinn, heldur gat hann einnig útskýrt hvernig hún smitaðist milli dýra. Hann sendi niðurstöður sínar til Ferdinands Cohn í Breslau en hann hafði þá skömmu áður lýst dvalargróum baktería fyrstur manna. Cohn hreifst mjög af rannsóknum Kochs, lét birta þær og bauð Koch að koma til Breslau til að sýna rannsóknaraðferðir sínar. Smásjármyndir. Ljósmyndatæknin var tiltölulega nýkomin til skjalanna á þessum árum og fýsti Koch mjög að beita henni til að festa það á mynd sem hann sá í smásjánni. Síðustu árin í Wollstein gerði hann umfangsmiklar tilraunir í þessa veru með nokkrum árangri. Smásjárljósmyndun varð þó ekki að mikið notaðri tækni fyrr en all löngu síðar. Hreinræktun, agar, Petriskálar. Í Wollstein hafði Koch fyrst og fremst ræktað bakteríur í vökvaæti og sóst eftir hreinræktun með því að raðþynna sýnin í dauðhreinsuðum þynningarvökva. Hann hafði þó, eins og Cohn og fleiri, ræktað bakteríur á niðursneiddum kartöflum og séð hvernig þær mynda kóloníur á yfirborði sneiðarinnar. Hann áttaði sig á því að með því að stinga platínuvír í eina kóloníu og strika hana út á aðra kartöflusneið gat hann fengið hreinrækt á föstu æti án þeirrar fyrirhafnar sem felst í raðþynningum. Kartöflur voru að mörgu leyti óhentugt og ómeðfærilegt æti og þegar til Berlínar var komið tók Koch til við að þróa aðrar leiðir til að rækta bakteríur á föstu yfirborði. Hann hóf tilraunir með gelatin og fleiri hlaupefni. Eftir ábendingu frá eiginkonu aðstoðarmanns síns, Angelinu Hesse sem kunni margt fyrir sér í sultuhleypingum, ákvað Robert að nota agar, sem enn í dag er staðal-hleypiefnið í föstu bakteríuæti. Hlaupið var svo steypt í skálum sem annar aðstoðarmaður Kochs, Julius Petri, hannaði og eru slíkar skálar nefndar Petriskálar. Berklabakterían. Mynd úr grein Kochs, "Aetiologie der Tuberkulose" frá 1882 Þegar Koch hóf störf hjá Heilbrigðisstofnuninni í Berlín 1880 einsetti hann sér að finna orsakavald lungnaberkla en þeir voru afar skæður sjúkdómur á þessum árum og voru valdir að hér um bil sjöunda hverju dauðsfalli í Evrópu. Þrátt fyrir að hann og fleiri hefðu sýnt fram á að smitsjúkdómar á borð við miltisbrand væru bornir af bakteríum líkt og Jakob Henle, Agostino Bassi og fleiri höfðu spáð fyrir um, þá var miasma-kenningin, sem sagði að farsóttir bærust með nokkurs konar eiturgufuskýi ("miasma"), enn þá ráðandi meðal lækna og fræðimanna. Með því að beita meðal annars hinum öflugu hreinræktar-aðferðum sem Koch og samstarfsfólk hans hafði þróað tókst honum von bráðar að sýna fram á það á óyggjandi hátt að berklar komu til vegna bakteríusýkingar og reyndist sýkillinn vera staflaga baktería sem síðar hlaut nafnið "Mycobacterium tuberculosis". Hann birti niðurstöður sínar í "Berliner Klinische Wochenschrift" og vakti greinin þegar mikla athygli. Kólera. Koch (3. frá hægri) og nokkrir samstarfsmenn hans í Egyptalandsleiðangrinum 1883. Næst beindi Koch sjónum sínum að öðrum mikilvirkum skaðvaldi þess tíma, kóleru. Árið 1883 gaus upp mikill kólerufaraldur við Miðjarðarhafið og fór Koch ásamt nemanda sínum, Georg Gaffky, í rannsóknaleiðangur til Alexandríu þar sem þeir unnu ásamt Frakkanum Émile Roux að því að leita að orsök veikinnar. Koch sannfærðist um að kommulaga bakteríur sem hann einangraði úr fórnarlömbum kólerunnar væru orsök hennar. Honum tókst þó ekki, þrátt fyrir þrotlausar rannsóknir að uppfylla öll þau skilyrði sem hann sjálfur hafði sett varðandi sönnun þess að tiltekin örvera valdi tilteknum sjúkdómi. Þegar faraldurinn í Egyptalandi var um garð genginn hélt Koch til Indlands þar sem kólera var landlæg og hélt rannsóknum sínum áfram. Hvorki Koch, Gaffky né Roux virðast hafa vitað af rannsóknum Filippo Pacini sem tæpum 30 árum áður hafði lýst hinum kommulagaða kólerusýkli án þess að fræðasamfélagið veitti því nokkra athygli en bakterían nefnist nú formlega "Vibrio cholerae" Pacini 1854. Túberkúlín ævintýrið. Á efri árum tók nokkuð að halla undan fæti hjá Koch, jafnt persónulega sem faglega, og gæðum rannsókna hans, sem framan af höfðu vakið verðskuldaða athygli, tók að hraka. Hann einsetti sér að finna bóluefni eða lyf gegn berklum og kynnti árið 1890 bóluefnið túberkúlín á læknaþingi í Berlín. Túberkúlín var efnablanda sem dregin hafði verið út úr "M. tuberculosis" í glýseról. Lyfinu var vel tekið í byrjun en þegar upp var staðið reyndist það ekki nothæft sem lyf og gerði jafnvel meira ógagn en gagn. Hins vegar reyndist það síðar hafa notagildi sem prófunarefni og þróaði Clemens von Piquet berklapróf sitt með túberkúlín sem prófefni. Arfleifð. Koch hafði ótvírætt mikil áhrif á framþróun örverufræða og sýklafræða, bæði í gegn um eigin verk eins og rakið er að ofan, og ekki síður í gegn um verk nemenda sinna og aðstoðarmanna sem margir áttu eftir að leggja mikið af mörkum. Meðal þeirra má nefna Nóbelsverðlaunahafana Paul Ehrlich og Emil von Behring. Nafni Kochs hefur einnig verið haldið á lofti á annan hátt, svo sem í gegnum Robert Koch stofnunina, Robert Koch verðlaunin og orðuna, kvikmynd Hans Steinhoffs frá 1939, "Robert Koch, der Bekämpfer des Todes", og fjölda frímerkja, styttna og minningarplatta um allan heim. Einnig er Koch-gígurinn á tunglinu nefndur eftir honum. Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar. Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar er íþróttafélag frá Reyðarfirði, stofnað 2007. Félagið leikur í utandeild Austurlands, Bikarkeppni UÍA (Malarvinnslubikarnum). Saga. Þó Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar sé stofnað árið 2007 nær saga félagsins aftur til ársins 2006 þegar það hóf starfsemi. Það ár spilaði liðið undir merkjum Súlunnar frá Stöðvarfirði og lék á Stöðvarfjarðarvelli. Gengi liðsins var undir væntingum og endaði liðið í 6.sæti af 6 liðum í B-riðli Malarvinnslubikarsins, með 7 stig úr 10 leikjum. Í Mars 2007 var félagið formlega stofnað og lék undir eigin nafni í Malarvinnslubikarnum það sumar. Árangur liðsins var góður og endaði liðið í 3.sæti af 9.liðum í keppninni með 16 stig úr 8 leikjum og markatöluna +25 (37-12). Reyndar sigraði liðið líka Vetrarbruna frá Djúpavogi 3-0 í 2.umferð keppninnar en þau úrslit voru ógild þegar Vetrarbruni sagði sig úr keppni. Árið 2008 skráði félagið sig til leiks í 3.deild karla. Eftir slakt gengi á undirbúningstímabilinu dróg félagið umsókn sína til baka og hélt áfram þáttöku sinni í Malarvinnslubikarnum. Þar var gengið ekki sem skildi og endaði liðið í 5.sæti af 6 liðum með 13 stig úr 10 leikjum. Eins undarlega og það kann að hljóma var Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar eina félagið í keppninni sem lék alla sína leiki það árið, en það helgast af því að Dýnamó Höfn sagði sig úr keppni áður en tímabilinu lauk. Þetta sama ár tók félagið einnig í fyrsta skipti þátt í VISA-bikarnum þar sem liðið sigraði Boltafélag Norðfjarðar í 1.umferð en datt út gegn Fjarðabyggð í 2.umferð. Stjórn og Starfsfólk. Ólafur Kristinn Kristínarson hefur verið formaður félagsins frá upphafi. Kjartan Bragi Valgeirsson var þjálfari félagsins tímabilið 2006 en Konráð Þór Vilhjálmsson 2007 og 2008. Á haustdögum 2008 tók Þórður Vilberg Guðmundsson svo við starfinu. Tenglar. Reyðarfjörður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (fæddur í Reykjavík 12. mars 1975) er íslenskur hagfræðingur, forsætisráðherra Íslands, formaður Framsóknarflokksins og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis. Menntun og fyrri störf. Sigmundur Davíð lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995 og B.S. prófi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands auk hlutanáms í fjölmiðlafræði 2005. Þaðan lá leið hans í skiptinám við Plekhanov háskóla í Moskvu og nám í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla. Að því loknu lagði hann stund á nám til DPhil gráðu í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála. Sigmundur Davíð hlaut Chevening-styrkinn til námsins í Oxford en hann er aðal-námsstyrkur bresku ríkisstjórnarinnar og er veittur hæfustu umsækjendunum frá 150 löndum ár hvert. Sigmundur Davíð var valinn ásamt átta öðrum úr um 200 umsækjendum á Íslandi. Sigmundur Davíð starfaði sem blaðamaður og sem fréttamaður og þáttastjórnandi á RÚV með námi 2000-2007. Þá var hann forseti Nordiska Ekonomie Studerander Union 2000-2002 og fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008-2010. Formennska í Framsóknarflokknum. Sigmundur Davíð var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi 18. janúar 2009 og tók hann við formennsku af Valgerði Sverrisdóttur. Hann hafði þá aldrei starfað í Framsóknarflokknum og skráði sig í hann mánuði áður en hann bauð sig fram til formennsku. Sigmundur Davíð hlaut 56% atkvæða í seinni umferð formannskosninganna á 30. flokksþingi framsóknarmanna 40,9% í fyrri umferðinni. Tveir aðrir voru í formlega í framboði. Á flokksþingi framsóknarflokksinns 2011 var hann endurkjörinn með 92% greiddra atkvæða, en samkvæmt lögum Framsóknarflokksins eru allir flokksmenn í kjöri. Þingstörf. Sigmundur Davíð var kjörinn á Alþingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður 25. apríl 2009. Hann hefur setið í utanríkismálanefnd fyrir Framsóknarflokkinn frá 2009, Íslandsdeild EFTA 2009-2011, Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2011- 2013, í starfshóp utanríkismálanefndar um Evrópumál og þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins af hálfu Alþingis. Með helstu baráttuefni Sigmundar Davíðs á stjórnmálaferilnum hans hafa verið Icesavedeilan og skuldamál heimilanna. Ásamt InDefence-hópnum og fleirum, barðist Sigmundur Davíð gegn því að Icesave-samningarnir yrðu samþykktir. Gagnrýni Sigmundar Davíðs snéri helst að ágöllum á samningunum; að fyrirvarar myndu ekki halda lagalega, greiðslurnar væru í erlendri mynt, vaxtagreiðslur væru svo verulegar að þjóðin myndi vera í ánauð vegna þeirra og að ekki hefðu verið kannaðar aðrar leiðir eins og möguleiki á skuldajöfnun við Breta vegna beitingar hryðjuverkalaga í efnahagshruninu 2008. Annað baráttumál Sigmundar Davíðs, skuldamál heimilanna, varð eitt helsta kosningamál alþingiskosninganna 2013. Hann hafði ásamt þingflokki framsóknarmanna lagt fram þrjár tillögur um lausn á vandanum á því kjörtímabili sem var að ljúka. 2009-2011 var það hin svokallaða "20% leið" og tillaga um samvinnuráð um þjóðarsátt. 2011-2012 átti hann þátt í að leggja fram þingsályktunatillögu um stöðugleika í efnahagsmálum og vefinn www.planb.is. Fyrsta ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihlutaríkisstjórn eftir Alþingiskosningarnar 2013 og var fyrsti ríkisstjórnarfundurinn haldinn 24. maí 2013. Um mitt sumar vakti það nokkra athygli þegar Sigmundur birti í Morgunblaðinu og á bloggi sínu pistil undir fyrirsögninni „"Fyrsti mánuður loftárása"“ þar sem hann setti út á það hversu harðri gagnrýni væri beint að núverandi ríkisstjórn sem væri aðeins nýtekin við stjórnartaumunum. Fjölskylda og einkalíf. Sigmundur Davíð ólst upp í Breiðholti en bjó í Washington í Bandaríkjunum milli 1982-1985 meðan faðir hans starfaði fyrir Alþjóðabankann. Foreldrar hans eru Gunnlaugur Sigmundsson framkvæmdastjóri og þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1995-1999, og Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir lífeindafræðingur og skrifstofustjóri. Sigmundur er kvæntur Önnu Stellu Pálsdóttur og þau eiga eina dóttur. Vakti það athygli þegar Sigmundur Davíð lýsti því yfir á heimasíðu sinni 2011 að hann væri farinn í megrun og hyggðist borða einungis íslenskan mat. Birti hann þyngdartölu sína á hverjum mánudegi á fésbókarsíðu sinni. Guðmundur Ólafsson (hagfræðingur). Guðmundur Ólafsson (fæddur 9. október 1947) er íslenskur hagfræðingur. Menntun. Rússneska og stærðfræði í St. Pétursborg 1968-69. Stærðfræði við Háskóla Íslands 1970-73. Heimspeki og málvísindi 1975-76. Cand oecon við Háskóla Íslands 1985-89. Störf. Guðmundur er lektor í hagfræði við Háskóla Íslands og er einnig lektor við Háskólann á Bifröst. Guðmundur heldur úti vikulegum útvarpsþætti á Útvarpi Sögu ásamt Sigurði G. Tómassyni. Kaupthing Singer & Friedlander. Kaupthing Singer & Friedlander er breskt fjármálafyrirtæki, upphaflega stofnað árið 1907 sem er með höfuðstöðvar í London, höfuðborg Bretlands. Það var keypt af Kaupþingi árið 2005. Framkvæmdastjóri Kaupthing Singer & Friedlander var Ármann Þorvaldsson. Í maí 2008 voru starfsmenn fyritækisins 773 talsins. Singer & Friedlander var stofnað af Julius Singer og Ernst Friedlander árið 1907. Einn þekktasti fyrrverandi starfsmaður fjármálafyrirtækisins er George Soros. Í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi notuðu bresk yfirvöld hryðjuverka lög til þess að færa eignarhald á Kaupthing Singer & Friedlander til hollenska netbankans ING Direct. Atvinnuleysi. Atvinnuleysi nefnist það þegar einstaklingur fær ekki atvinnu þegar hann leitar að henni, þótt hann sé fær um að vinna. Hlutfall atvinnulausra af vinnuafli er mikilvæg hagtala. Margar ástæður geta legið að baki atvinnuleysi í löndum. Peningamagnsinnar telja að aðalatriðið sé að halda verðbólgu í skefjum og þá muni hagvöxtur sjá til þess að atvinna skapist. Þeir sem aðhyllast hugmyndir John Maynard Keynes (Keynessinnar) líta hins vegar á það sem eitt af hlutverkum hins opinbera að örva hagkerfið með opinberum framkvæmdum, og þannig koma í veg fyrir atvinnuleysi. Atvinnuleysi á Íslandi. Atvinnuleysi á Íslandi á árunum 1991-2007. Skilgreiningu á atvinnuleysi er að finna í lögum um atvinnuleysistryggingar. Felur hún m.a. í sér að viðkomandi þarf að leita sér að atvinnu með virkum hætti og vera tilbúinn til þess að hefja vinnu, bjóðist hún, vilji hann þiggja atvinnuleysisbætur. Á Íslandi er velferðarkerfi sem tryggir m.a. grunnatvinnuleysisbætur. Félagsmálaráðherra fer með málefni atvinnuleysisbóta og setur reglugerð. Vinnumálastofnun sér um afgreiðslu atvinnuleysistrygginga. Á árunum 1991-2007 var atvinnuleysi á Íslandi að meðaltali 3,3%. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands er atvinnuleysi nú 7,7% eða hálfu prósenti lægra en það var í febrúar. Hlutfall þeirra sem eru í hlutastarfi en þiggja hlutfallslegar atvinnubætur fer hækkandi. Í janúar 2009 mældist atvinnuleysi 5,1% hjá körlum og 2,9% hjá konum, alls 4%. Atvinnuleysið er mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 10,8%. Frá fjórða ársfjórðungi 2007 til fjórða ársfjórðungs 2008 fjölgaði atvinnulausum um 3.900 manns. Sökum efnahagskreppunnar var spáð 10% atvinnuleysi í byrjun árs 2010 en atvinnuleysið í febrúar 2010 reyndist hið mesta sem hefur mælst á Íslandi— um 9,3% atvinnuleysi eða að meðaltali 15.026 manns. Það féll svo niður í 7,7% í nóvember 2010. Einkavæðing. Einkavæðing nefnist það þegar eignarhald á opinberu fyrirtæki eða stofnun er fært yfir til einkaaðila. Í víðari skilning getur þetta átt við hvers konar yfirfærslu á þjónustu eða rekstri frá hinu opinbera og til einkaaðila. Andstæðan við einkavæðingu, þegar ríkið kaupir eða tekur yfir rekstur af einkaaðila, nefnist þjóðnýting. Ríkissjóður Íslands. Ríkissjóður Íslands er sjóður í eigu íslenska ríkisins sem er notaður til að halda utan um skatta og tekjur, vegna umsýslu svokallaðs A-hluta í fjárreiðum ríkisins, og ráðstöfun þeirra. Vegna efnahagskreppunnar á Íslandi 2008–2009 er áætlað að skuldir ríkissjóðs umfram eignir aukist úr 8 milljörðum íslenskra króna í 563 milljarða. Vöruskiptajöfnuður. Vöruskiptajöfnuður er mismunurinn á andvirði útfluttra og innfluttra vara til og frá tilteknu landi á ákveðnu tímabili. Sé mismunirinn jákvæður er talað um "viðskiptaafgang" í kerfinu en sé hann neikvæður er talað um "viðskiptahalla". Vinnuafl. Vinnuafl er sá hluti þegna í ríki sem geta framkvæmt vinnu. Árið 2005 taldist vinnuafl heimsins vera um 3 milljarðar manna. Að öllu jöfnu er miðað við að viðkomandi einstaklingur hafi náð vinnualdri, þ.e. sé orðinn fullþroska en ekki kominn á ellilífeyrisaldur. Sumir einstaklingar geta ekki unnið sökum örorku. Arðsemi. Arðsemi er hlutfall hagnaðar eða taps af upphaflegri fjárfestingu. Það hlutfall er oftast mælt sem prósentutala. Búnaðarbanki Íslands. Búnaðarbanki Íslands var íslenskur banki, stofnaður árið 1929 með lagasetningu Alþingis. Hann tók til starfa 1. júlí 1930. Hann sameinaðist Kaupþingi og varð Kaupþing Búnaðarbanka árið 2003. Sá banki stytti síðar nafn sitt í Kaupþing banka, en nefndist eftir efnahagshrunið Nýi-Kaupþing banki sem síða varð að Arion banki í nóvember 2009. Alexander 7.. Alexander 7. (13. febrúar 1599 – 22. maí 1667), upphaflega Fabio Chigi, var páfi frá 7. apríl 1655 til dauðadags. Hann var frá Siena af hinni frægu Chigi-ætt. Hann lærði heimspeki, guðfræði og lögfræði við Siena-háskóla. Hann var skipaður rannsóknardómari á Möltu og síðar sendifulltrúi páfa í Köln til 1651. Þegar Vestfalíufriðurinn var saminn til að binda endi á Þrjátíu ára stríðið 1648 neitaði hann að taka þátt í samningaviðræðunum þar sem hann vildi ekki tala við fólk sem hann áleit trúvillinga og hann mótmælti samningnum sjálfum. Þremur árum síðar gerði Innósentíus 10. hann að ríkisritara. Þegar Innósentíus lést var hann kjörinn páfi, þrátt fyrir andstöðu Mazarins kardinála. Sama ár og hann var krýndur staðfesti hann endurskírn Kristínar Svíadrottningar í Róm. Hann átti alla tíð í deilum við Mazarin kardinála og gallikanista innan frönsku kirkjunnar. Hann dró taum Jesúíta gegn Jansenistum og hratt Formáladeilunni af stað þegar hann krafðist þess að allir klerkar í Frakklandi undirrituðu sérstakan formála gegn kenningum Jansenista. Hann studdi líka kröfur Spánar gegn Portúgal sem hafði lýst yfir sjálfstæði árið 1640. Beverly Hills 90210. Beverly Hills, 90210 er bandarískur unglinga-drama þáttur sem var sýndur á árunum 1990 – 2000 á FOX stöðinni í Bandaríkjunum og á mismunandi stöðvum um allan heim. Þátturinn var sýndur á Stöð 2 en Skjár Einn endursýndi þættina stuttu eftir að þeir kláruðust. Þættirnir snérust um líf ungu og ríku krakkanna í Beverly Hills í Kaliforníu, sem gengu í West Beverly menntaskólann og síðan Kaliforníu-háskóla eftir útskrift úr menntaskólanum. Þátturinn var gerður af Darren Star en Aaron Spelling og Sigurjón Sighvatsson framleiddu þáttinn. Talan 90210 er póstnúmer Beverly Hills. Þátturinn var upphaflega byggður á þeim breytingum sem tvíburarnir Brandon (Jason Priestley) og Brenda (Shannen Doherty) Walsh, gengu í gegnum þegar þau fluttu frá Minneapolis, Minnesota til Beverly Hills ásamt foreldrum sínum, Jim og Cindy. Til viðbótar við vinina og ástarsamböndin, kljást unglingarnir í Beverly Hills við vandamál eins og til dæmis nauðganir, alkóhólisma, ofbeldi, réttindi samkynhneigðra, misnotkun lyfja, sjálfsmorð unglinga, eyðni, unglinga-óléttur og fóstureyðingar. Þættirnir urðu vinsælir um sumarið '91, þegar FOX sýndi sérsaka sumar-seríu af þættinum á meðan aðrir þættir voru í sumarleyfi. Þættirnir urðu meðal vinsælustu þáttum FOX þegar það byrjaði 3 seríu sína þetta haust. Áhorfendum fjölgaði þegar aðalleikarar, sérstaklega Jason Priestley og Luke Perry urðu fyrirmyndir unglinga, á meðan leikkonurnar Shannen Doherty, Jennie Garth og Tori Spelling urðu frægar á öllum heimilum í Bandaríkjunum. Yfirlit. Þættirnir byrja með kynningu á Walsh-fjölskyldunni: Jim, Cindy, Brandon og Brenda, sem fluttu nýlega frá Minnsota til Beverly Hills í Kaliforníu vegna stöðuhækkunar Jims. Í fyrsta þættinum byrja Brandon og Brenda í West Beverly-menntaskólanum, þar sem þau kynnast restinni af persónum þáttarins: Kelly Taylor, Steve Sanders, Andrea Zuckerman, Dylan McKay, David Silver, Scott Scanlon og Donna Martin. Þátturinn fylgdist með einkalífi þeirra og starfsframa í gegnum byrjun fullorðinsáranna en kynnti einnig reglulega til leiks nýjar persónur þegar líða fór á þættina. Shannen Doherty. Eftir mikla spennu í leikaraliðinu, yfirgaf Shannen Doherty þættina í lok fjórðu seríu. Persóna Shannen, Brenda Walsh, var skrifuð úr þáttunum, þar sem hún flutti til London til að ganga í leiklistarskóla. Þó að fjarvera persónunnar hafi upphaflega verið áætluð í eitt ár sneri hún aldrei aftur, þrátt fyrir að vera nefnd nokkrum sinnum í þeim þáttum sem eftir voru. Í staðinn fyrir hana kom Tiffani-Amber Thiessen, sem lék slæmu stelpuna Valerie Malone. Shannen hefur leikið Brendu Walsh í þáttunum 90210 ásamt fyrrum meðleikurum sínum, Jennie Garth, Tori Spelling, Ann Gillespie og Joe E. Tata. Gabrielle Carteris. Gabrille Carteris yfirgaf þættina í lok fimmtu þáttaraðar. Persónan hennar, Andrea Zuckerman, breyttist mikið á milli menntaskóla og háskóla. Í menntaskóla var Andrea gáfaði ritstjóri blaðsins í West Beverly, var hrifin af Brandon og bjó ekki í nágrenni skólans. Í fjórðu þáttaröðinni (fyrsta árið í háskóla), hætti Andrea (en fer síðan aftur í skóla til að verða læknir), varð ólétt og giftist manni sem hún þekkir varla (Jesse Vasques) áður en árið er á enda. Óléttan var spunnin upp að beiðni Carteris, því hún var ólétt í alvörunni, varð mikil breyting fyrir persónuna og varð til þess að hún einangraðist frá hinum persónum þáttanna. Andrea Zuckerman hætti að lokum í þáttunum í lok fimmtu þáttaraðar vegna þess að hún ákvað að fara í Yale. Eftir að fimm ára samningur Carteris rann út, hætti hún í þáttunum til að stjórna sínum eigin spjallþætti sem entist aðeins í eitt ár. Carteris sneri aftur í Beverly Hills 90210 sem gestur í sjöttu, áttundu og tíundu seríu. James Eckhouse og Carol Potter. Báðir leikararnir hættu í þáttunum í lok fimmtu þáttaraðar við enda samningstímabilsins. Á menntaskólaárum þáttanna voru Jim og Cindy Walsh aukapersónur og gáfu Brandon og Brendu oft góð ráð, ásamt vinum þeirra en þau fengu sjaldan sinn eigin söguþráð. Þau eyddu mestum tíma sínum í að bregðast við þeim ýmsu hlutum sem Brenda, Brandon og seinna Valerie gerðu. Þegar þátturinn fer á háskólastigið renna Jim og Cindy enn meira inn í bakgrunnin þegar þátturinn verður meira eins og sápuópera og persónurnar verða fullorðnar, sem minnkar þörf þeirra fyrir ráð foreldranna. Í lok fimmtu þáttaröð fara persónurnar frá Beverly Hills til Hong Kong en eru gestir í sjöttu, sjöundu og áttundu þáttaröð. Þrátt fyrir að í lokin hafi allir meðlimir Walsh fjölskyldunnar yfirgefið þættina, heldur Walsh-heimilið áfram að vera stór hluti þáttanna. Þættirnir útskýrðu það þannig að Brandon sagði Steve að foreldrar hans hefðu gefið grænt ljós á það að hann byggi áfram í húsinu. Luke Perry. Luke Perry hætti í "Beverly Hills, 90210" í byrjun sjöttu þáttaraðar. Persóna Luke Perry, "Dylan McKay", ætlar sér að giftast Antoniu Marchette (Rebecca Gayheart), dóttur aðalstjórans (Stanley Kamel) sem fyrirskipaði dauða föður Dylans í þriðju þáttaröð. Dylan hafði í fyrstu, ætlað að nota Anotniu sem leið til að komast að föður hennar, en verður ástfanginn af henni í staðinn. Vegna þess að faðir hennar er ekki sáttur við þá hugmynd að dóttir hans giftist Dylan, ákveður hann að Dylan muni deyja. Hann ræður leigumorðingja til að drepa Dylan en drepur að lokum Antoniu sem keyrir bíl Dylans við fyrirfram ákveðin árekstur. Dylan er í sárum og ákveður að fara úr bænum, eftir að tengdafaðir hans ákveður að halda friðinn í erfidrykkju dóttur sinnar. Í þeim þáttaröðum sem Perry er ekki í, er það skýrt þannig að persónan hans, Dylan, hafi tekið aftur saman við Brendu og búi með henni í London. Perry sneri aftur í níundu þáttaröðinni en var nú titlaður sem „sérstakur gestur“ — eins og Heather Locklear var í Melrose Place. Hann játar við Kelly að hann hafi komið aftur vegna þess að hann saknaði vina sinna en allra mest saknaði hann hennar. Jason Priestley. Jason Priestley yfirgaf þættina í níundu þáttaröðinni. Hann var samt áfram titlaður sem framleiðandi þáttanna og leikstýrði hann nokkrum þáttum. Í þáttunum er Brandon enn að jafna sig eftir að hætt var við brúðkaup hans og Kelly, þegar honum er boðin vinna í Washington D.C., sem hann þiggur. Brandon var síðasti meðlimur Walsh-fjölskyldunnar sem yfirgaf þættina og birtist hann aðeins aftur í þáttunum í mynbandi til Donnu og Davids þegar þau gifta sig. Priestley var fyrsti leikarinn í þáttunum sem leikstýrði þætti. Fyrsta þátytaröð. Opnunaratriðið byrjar þegar bréfberi gengur upp að Walsh heimilinu í Minnesota. Hann skrifar síðan „Vinsamlegast áframsendið til 953 Hillcres Drive, Beverly hills, CA, 90210“. Næst kemur myndband af Beverly Hills með stórum stöfum á miðjum skjánum (bréfberinn var aðeins í fyrsta þættinum). Síðan birtist hver og einn leikari og nafnið með. Síðustu atriðin sýna Walsh-fjölskylduna saman. Lagið var samið af John E. Davis og var opnunaratriðið hannað af Kathie Broyles. Allir leikararnir eru: Jason Priestley, Shannen Doherty, Jennie Garth, Ian Ziering, Gabrielle Carteris, Luke Perry, Brian Austin Green, Douglas Emerson, Tori Spelling, Carol Potter og James Eckhouse. Ártíð. Ártíð (einnig dánardægur eða dánarafmæli) kallast sá tími sem liðið hefur frá dauða einstaklings. Aftast í Lundarbókinni er t.d. messudagatal þar sem ártíð Erlends biskups er rituð. A Cinderella Story. "A Cinderella Story" er rómantísk unglinga-gamanmynd með Hilary Duff og Chad Michael Murray í aðalhlutverkum og skrifuð af Leigh Dunlap. Kvikmynin er nútímaútgáfa af klassíska ævintýrinu um Öskubusku og inniheldur söguþráðurinn týndan farsíma en ekki glerskó. Myndinni var leikstýrt af Mark Rosman og fóru Jennifer Coolidge, Dan Byrd, Regina King, Julie Gonzalo og Lin Shaye með önnur hlutverk. Myndin fékk að mestu leyti neikvæða dóma gagnrýnenda en hún varð samt vinsæl og halaði inn rúmum 70 milljónum dollara. Söguþráður. Sam Montgomery (Hilary Duff) lifði ævintýralegu lífi með föður sínum, ekklinum Hal (Whip Hubley) þegar hún var 8 ára í úthverfi í Kaliforníu. Seinna opnar faðir hennar matsölustað sem hann nefnir eftir sér og verður ástfanginn af konu að nafni Fiona (Jennifer Coolidge), sem hann seinna giftist. Einn góðan veðurdag kemur jarðskjálfti og deyr faðir hennar í „Northridge-jarðskjálftanum árið 1994“ og skilur hana eftir hjá lýtaaðgerðasjúku-/laxaóðustjúpmömmunni og tveimur dætrum hennar, Briönnu (Madeline Zima) og Gabriellu (Andrea Avery). Átta árum seinna er Sam fyrirmyndarnemandi og hlýðir öllum fyrirmælum vondu stjúpmóður sinnar sem hefur breytt matsölustað föður hennar í bleikan stað og neyðir Sam til þess að vinna sem þjónustustúlka á staðnum. Til viðbótar við fjölskylduvandamálin verður Sam að takast á við vinsælu krakkana í skólanum, sérstaklega aðal-klappstýruna, Shelby Cummings (Julie Gonzalo). Sam treystir á besta vin sinn, Carter (Dan Byrd), og leynilegan skilaboðavin sinn, sem vill fara með henni í Princeton-háskóla. Hún veit ekki að skilaboðavinur hennar er Austin Ames (Chad Michael Murray), leikstjórnandi fótboltaliðsins, vinsælasti strákurinn í skólanum og kærasti Shelby, sem er með það á heilanum að vera vinsæl. Austin býður Sam á Halloween dansleikinn svo að þau geti hist í persónu. Austin hættir með Shelby nokkrum tímum fyrir ballið og segist vera ástfanginn af annarri stelpu. Á sama tíma neyðir Fiona Sam til þess að vinna á matsölustaðnum um kvöldið, fram að miðnætti. Rhonda (Regina King), lærimeistari og vinkona Sam á matsölustaðnum og Carter hjálpa Sam að fara á dansleikinn og fer hún sem Öskubuska, með grímu og í brúðarkjólnum hennar Rhondu. Hún hittir Austin á miðju dansgólfinu og trúir því ekki að hann sé leynilegi vinur hennar. Hann vinnur hana fljótt á sitt band og fara þau út saman. Þau dansa í garðskálanum og leika "Tíu spurningar" og kemur Sam ekki upp um það hver hún er. Á meðan er Carter í búning Zorro bjargar hann Shelby frá David, einum af vinum Austin sem er að reyna við hana. Rétt áður en Austin tekur grímuna af Sam, hringir síminn hennar og minnir hana á að klukkan er 15 mínútur í miðnætti og að hún þurfi að vera komin á matsölustaðinn fyrir tólf. Hún fer frá Austin áður en hann kemst að því hver hún er. Austin og Sam eru konungur og drottning ballsins en Öskubuska lætur ganga á eftir sér. Sam tekst að finna Carter og þau flýja ballið. Á leiðinni út missir Sam símann sinn í stiganum (sem kemur í staðinn fyrir glerskóinn). Austin, sem eltir hana, finnur símann og tekur hann, staðráðinn í því að komast að því hver Öskubuskan hans er. Sam kemur í skólann daginn eftir og sér að Austin hefur hafið allsherjar leit að Öskubuskunni sinni. Sam er ekki ennþá tilbúin til að afhjúpa sig fyrir Austin, sem heldur leitinni áfram. Sam segir Carter að ef hann segir Shelby að hann sé Zorro, þá muni hún segja Austin hver hún er. Eftir að Carter segir Shelby sannleikann þá hafnar hún honum. Eitt síðdegi finna vondu stjúpsysturnar leynilegu tölvupóstana hennar Sam. Eftir að hafa báðar reynt að segja Austin að þær séu Öskubuskan hans, enda þær á því að sýna Shelby og vinkonum hennar tölvupóstana. Systurnar telja Shelby trú um að Sam hafi stolið Austin viljandi, svo að þær setja saman leiksýningu úr tölvupóstunum fyrir hvatningarfund fótboltaliðsins til þess að niðurlægja Sam. Sýningin á sér stað fyrir framan allan skólann, einnig föður Austin, sem ætlar að vera viðstaddur til þess að hvetja Austin til þess að fara í USC að spila fótbolta. Austin hefur aldrei sagt föður sínum að hann langar í Princeton. Sár og niðurlægð fer Sam aftur heim og færir Fiona henni bréf frá Princeton sem segir að henni hafi verið hafnað um skólavist. Það er ekki satt, því Sam komst inn í Princeton en Fiona vildi ekki að Sam myndi yfirgefa matsölustaðinn og hendir hún rétta bréfinu. Daginn eftir á matsölustaðnum skella Brianna og Gabriella hurðinni svo að gítar með mynd af Elvis Presley á dettur af veggnum (sem þær kenna Sam síðan um) og rífur veggfóðrið og kemur gamla veggfóðrið í ljós með setningunni „Aldrei láta óttann við það að mistakast aftra þér í því að spila leikinn“. Sam les þetta upphátt og ákveður að hún hefur fengið nóg af stjúpfjölskyldunni og meðferðinni á sér. Hún hættir í vinnunni á veitingastaðnum, segir Fionu að hætta að ráðskast með sig og flytur inn til Rhondu, sem eins og hinir starfsmennirnir, segir upp. Vegna alls þessa fara allir kúnnarnir snemma. Sama kvöld og fótboltaleikurinn er stormar Sam inn í búningsklefa strákanna og talar við Austin og segir að hún hafi fengið nóg af því að vera tvær mismunandi manneskjur og segir að það að bíða eftir honum sé eins og að bíða eftir rigningu í þurrki, það sé tilgangslaust og valdi manni vonbrigðum. Carter hittir hana í skólanum og býður Sam á fótboltaleikinn með sér. Í hálfleik segir Shelby vinkonum sínum að hún og Austin verði byrjuð aftur saman innan tíðar. Í síðustu andartökum leiksins, á meðan liðið er allt saman fyrir næsta leik, sér Austin Sam yfirgefa leikvanginn. Þegar hann hleypur af vellinum grípur faðir hans í hann og spyr hann hvað hann sé eiginlega að gera, að henda draumnum sínum svona frá sér, segir Austin að hann sé í rauninn að henda frá sér draumi föður síns. Hann sættist við Sam og kyssir hana fyrir framan alla og það byrja allir að klappa fyrir þeim, allir nema Shelby og stjúpsysturnar. Á þessu sama augnabliki fer að rigna. Liðið vinnur leikinn þrátt fyrir að Austin hafi ekki spilað með. Í síðustu atriðum myndarinnar finnur Sam týnda erfðarskrá föður síns sem var falin af Fionu. Erfðarskráin segir að allar eigur hans fari til Sam. Hún notar þetta til þess að selja bíla Fionu, til þess að borga skólagjöldin og neyðir hana og stjúpsysturnar til þess að vinna á matsölustaðnum undir stjórn nýja meðeigandans, Rhondu. Carter leikur aðalhlutverkið í auglýsingu og nær loksins í stelpu, þrátt fyrir að sú stelpa sé ekki Shelby, heldur stelpan sem sér um tilkynningarnar í skólanum. Sam og Austin eru áfram saman og fara í Princeton. Úrslit Gettu betur (20. öld). 2000. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1999. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1998. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1997. Sigurvegari:Menntaskólinn í Reykjavík 1996. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1995. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1994. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1993. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1992. Sigurvegari: Menntaskólinn á Akureyri 1991. Sigurvegari: Menntaskólinn á Akureyri 1990. Sigurvegari:Menntaskólinn við Sund 1989. Sigurvegari: Menntaskólinn í Kópavogi 1988. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 1987. Sigurvegari: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 1986. Sigurvegari: Fjölbrautaskóli Suðurlands Úrslit Gettu betur (21. öld). 2013. 30 skólar taka þátt í keppninni. Sigurliðin 15 úr fyrstu umferð komust áfram í 2. umferð auk stigahæsta tapliðs. Dómarar: Þórhildur Ólafsdóttir og Atli Freyr Steinþórsson sem var í sigurliði MR árin 2002 og 2003. Fjögur stigahæstu liðin úr 2. umferð voru dregin á móti stigalægri liðum. Meðalskor í 3. umferð var 23,4 stig. Meðalskor vinningsliða: 25,5 Meðalskor tapliða: 21,3 Átta stigahæstu liðin úr 1. umferð voru dregin á móti átta stigalægri liðunum. Meðalskor í 2. umferð var 14,8 stig. Meðalskor vinningsliða: 20,8 Meðalskor tapliða: 8,8 Meðalskor í 1. umferð var 11,8 stig. Meðalskor vinningsliða: 16 Meðalskor tapliða: 7,6 2012. 29 skólar taka þátt í keppninni. Sigurliðin 14 úr fyrstu umferð komast áfram úr fyrstu umferð, eitt lið situr hjá og stigahæsta tapliðið fær einnig sæti í annarri umferð. Dómarar: Þórhildur Ólafsdóttir og Örn Úlfar Sævarsson Meðalskor í 8 liða úrslitum var 23,6 stig. Meðalskor vinningsliða: 28 Meðalskor tapliða: 19,3 Meðalskor í 2. umferð var 14,5 stig. Meðalskor vinningsliða: 20,4 Meðalskor tapliða: 8,6 Meðalskor í 1. umferð var 12,3 stig. Meðalskor vinningsliða: 17,4 Meðalskor tapliða: 7,1 2011. 30 skólar taka þátt í keppninni. Sigurliðin 15 úr fyrstu umferð komust áfram ásamt stigahæsta tapliðinu. Tími á hraðaspurningar var 90 sekúndur og síðan komu 12 bjölluspurningar og eitt tóndæmi í fyrstu umferð en tvö í annarri umferð. Dómari: Örn Úlfar Sævarsson Meðalskor í 8 liða úrslitum var stig. 22,6 Meðalskor vinningsliða: 26,8 Meðalskor tapliða: 18,5 Meðalskor í 2. umferð var 17,1 stig. Meðalskor vinningsliða: 21,5 Meðalskor tapliða: 12,6 Meðalskor í 1. umferð var 11,8 stig. Meðalskor vinningsliða: 15,9 Meðalskor tapliða: 7,7 2010. Þátttökuskólar eru 31 og hafa aldrei verið fleiri. Í 2. umferð var dregið í hverja keppni úr tveimur pottum. Í þeim voru annars vegar 8 stigahæstu sigurliðin úr 1. umferð og hins vegar 7 stigalægstu sigurliðin og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (sem sat hjá í 1. umferð). Þannig var þess gætt að stigahæstu liðin úr 1. umferð drægjust ekki hvert gegn öðru í 2. umferð. Meðalskor í 8 liða úrslitum: 25,9 stig Meðalskor í 2. umferð: 20,1 stig Meðalskor í 1. umferð: 17,8 stig Dómari: Örn Úlfar Sævarsson Spyrill: Eva María Jónsdóttir Stigavörður: Ásgeir Erlendsson 2009. Þátttökuskólar eru 29. Keppnin hófst mánudaginn 12. janúar og var útvarpað beint á Rás2. Fjölbrautaskóli Suðurnesja dróst ekki og sat því hjá í fyrstu umferð. Í útvarpshluta keppninnar voru hraðaspurningar lengdar í 100 sekúndur aftur en voru 90 sekúndur árið 2008. Dómari: Davíð Þór Jónsson Spyrill: Eva María Jónsdóttir Stigavörður: Ásgeir Erlendsson 2008. Sú breyting var gerð á fyrirkomulagi keppninnar í útvarpi að hraðaspurningar voru styttar úr 100 sekúndum í 80 og víxlspurningar felldar niður en í staðinn komu hefðbundnar bjölluspurningar. Í sjónvarpshlutanum varð sú breyting á frá fyrra ári að hraðaspurningar voru styttar úr 100 sekúndum í 90. 1. umferð hófst á Rás 2 þann 7. janúar og stóð út þá viku. Vikuna eftir fór fram 2. umferð, einnig í útvarpinu. Fyrsta sjónvarpskeppni ársins fór fram þann 8. febrúar en úrslitin þann 14. mars en þá kepptu Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn á Akureyri. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík Dómari: Páll Ásgeir Ásgeirsson Spyrill: Sigmar Guðmundsson 2007. 1. umferð hófst á Rás 2 þann 8. janúar og stóð út þá viku. Vikuna eftir fór fram 2. umferð, einnig í útvarpinu. Fyrsta sjónvarpskeppni ársins fór fram þann 23. febrúar en úrslitin þann 30. mars. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 2006. Sigurvegari: Menntaskólinn á Akureyri 2004. Sigurvegari: Verzlunarskóli Íslands 2003. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 2002. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík 2001. Sigurvegari: Menntaskólinn í Reykjavík Péturslögmálið. Péturslögmálið (eða Pétursreglan) (enska: "The Peter Principle") er það lögmál að „í stigskiptu valdakerfi hættir hverjum starfsmanni til að enda í því starfi þar sem viðkomandi er vanhæfur“. Péturslögmálið var sett fram af þeim Laurence J. Peter og Raymond Hull í bók sinni: "The Peter Principle", árið 1968. Péturslögmálið gerir ráð fyrir því að mönnum sé umbunað fyrir vel unnin störf með stöðuhækkunum, uns þeir færast yfir eigið getumark og þá verður árangur þeirra í starfi eftir því. Samkvæmt lögmálinu eru því flestar tröppur metorðastigans í stofnunum og fyrirtækjum skipaðar mönnum sem ættu í rauninni að vera einni tröppu neðar. How I Met Your Mother. How I Met Your Mother (eða Svona kynntist ég móður ykkar) er bandarískur gamanþáttur sem var frumsýndur á CBS stöðinni 19. september 2005. Þátturinn var búinn til af Craig Thomas og Carter Bays. Þættirnir gerast á Manhattan, New York borg og fylgjast með félags- og ástarlífum Ted Mosby (Josh Radnor) og vina hans Marshall Eriksen (Jason Segel), Robin Scherbatsky (Cobie Smulders), Lily Aldrin (Alyson Hannigan) og Barney Stinson (Neil Patrick Harris). Rauði þráðurinn í þáttunum er sá að aðalpersónan, Ted, með rödd Bob Saget, segir syni sínum og dóttur árið 2030 frá atburðunum sem leiddu til þess að hann kynntist móður þeirra. How I Met Your Mother hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og hefur alla tíð fengið gott áhorf. Þátturinn hefur unnið sex Emmy-verðlaun, og auk þess tilnefningu sem „Framúrskarandi gamanþáttaröð“ (2009). Tilkynnt var um 7. þáttaröðina í mars 2011 og hófust sýningar á henni 19. september 2011, en einnig var 8. þáttaröð staðfest. Þættirnir unnu áhorfendaverðlaun Bandaríkjanna árið 2012 í flokknum „Besta gamanþáttaröðin í sjónvarpi“ og Neil Patrick Harris var valinn besti leikari í gamanþætti. Framleiðsla. "How I Met Your Mother" er hugmynd Bays og Thomas, „skrifum um vini okkar og þá fáránlegu hluti sem við gerðum í New York“. Þeir byggðu á vináttu sinni við gerð persónanna, þar sem Ted er lauslega byggður á Bays, og Marshall og Lily lauslega byggð á Thomas og konu hans. Í fyrstu var kona Thomas, Rebecca, á móti því að hafa persónu byggða á sér í þáttunum, en samþykkti það ef þeir fengju Alyson Hannigan til að leika persónuna. Til allrar hamingju var Hannigan laus og var tilbúin til að leika í gamanþáttaröð. Barinn „MacLaren's“, þar sem hluti þáttanna gerist, er byggður á bar í New York-borg sem heitir McGee's. Hann hefur ímynd sem Carter Bays og Craig Thomas voru báðir hrifnir af og vildu koma inn í þættina. Nafn barsins kemur frá aðstoðarmanni Carter Bays, Carl MacLaren, en eigandi barsins heitir einmitt Carl. Venjulega er hver þáttur tekinn upp á yfir þremur dögum (flestir gamanþættir eru venjulega teknir á einum degi) og eru yfir 50 atriði í hverjum þætti með snöggum breytingum. Hláturs-upptakan er búin til seinna þegar áhorfendum er sýnd lokaútgáfa þáttarins. Vegna aukins gildissviðs þáttanna sagði Thomas að það væri ómögulegt að taka upp fyrir framan áhorfendasal. Seinni þáttaraðir hafa verið teknar upp fyrir framan áhorfendur við tilefni þar sem minna sett var notað. Opnunarlagið er hluti af laginu „Hey Beautiful“ með The Soldis, en Bays og Thomas eru meðlimir hljómsveitarinnar. Þættirnir í fyrstu þáttaröðinni byrjuðu oftast með opnunarlaginu. „Köld opnun“ hefur verið notuð síðan í annarri þáttaröð. Áhorfendur sjá einstaka sinnum börn Teds sitjandi í sófa og heyra hann tala við þau þegar hann segir þeim söguna af því hvernig hann kynntist móður þeirra. Thomas hefur sagt að Framtíðar-Ted sé óáreiðanlegur sögumaður, þar sem hann er að reyna að segja sögur, sem gerðust 20 árum áður, og þess vegna misminnir hann stundum. Óáreiðanleiki hans hefur komið fram í þáttum eins og „The Goat“, „Oh, Honey“ og „The Mermaid Theory“. Atriði sem sýnir móður barnanna og börnin var tekið upp í byrjun annarrar þáttaraðar sem endalok þáttanna. Þetta var gert vegna þess að leikararnir verða orðnir fullorðnir þegar lok þáttanna verða. Á meðan verkfalli bandarískra handritshöfunda stóð 2007-2008 hætti How I Met Your Mother framleiðslu, en þegar verkfallið endaði sneri þátturinn aftur þann 17. mars 2008 með níu nýja þætti. Það var einnig tilkynnt um tímabreytingar til að koma til móts við The Big Bang Theory. Samningar um fjórðu þáttaröðina voru undirritaðir 14. maí 2008 og fór nýja þáttaröðin í loftið 22. september 2008. Í september 2008 tilkynnti Lifetime sjónvarpsstöðin að þeir hefðu keypt endursýningarréttinn á How I Met Your Mother og höfðu borgað 725.000 dali fyrir hvern þátt. Samkvæmt fjögurra ára áætlun á stöðin að vera búin að sýna 110 þætti árið 2010 og leyfir allt að átta þáttaraðir. Við lok fjórðu þáttaraðar höfðu aðeins 88 þættir verið framleiddir og þess vegna var stöðin tilneydd til þess að sýna að minnsta kosti 22 þætti til viðbótar og tryggði það fimmtu þáttaröðina. Þann 19. maí 2009 var fimmta þáttaröðin tilkynnt. Daginn eftir tilkynnti CBS að How I Met Your Mother færi aftur á sinn upphaflega sýningartíma til að rýma fyrir nýjum gamanþætti, "Accidentally on Purpose". Þann 12. janúar 2010 var 100. þátturinn sýndur. Þá var einnig tilkynnt um sjöttu seríuna á CBS. Til að svara því að þátturinn væri að hætta sagði Craig Thomas: „Við erum mjög spenntir yfir því að þátturinn myndi lifa áfram" og að þeir væru stoltir af þættin og að það væri frábært að sjá að fólk vildi enn horfa. Þrátt fyrir það hafa leikarar þáttanna gefið það til kynna að ekki verði fleiri en átta þáttaraðir framleiddar. Fyrsta þáttaröð. Árið 2030 sest Ted Mosby (Bob Saget talar fyrir hann) niður með börnunum sínum til að segja þeim söguna af því hvernig hann kynntist móður þeirra. Sagan byrjar árið 2005, þegar Ted (Josh Radnor) er einhleypur, 27 ára arkitekt, sem býr með tveimur bestu vinum sínum úr háskóla; Marshall Eriksen (Jason Segel), lögfræðinema og Lily Aldrin (Alyson Hannigan), leikskólakennara, sem hafa verið saman í um níu ár, þegar Marshall biður hennar. Trúlofun þeirra veldur því að Ted fer að hugsa um hjónaband og að finna sálufélagann en það líst sjálfskipuðum besta vini hans, Barney Stinson (Neil Patrick Harris),ekki á. Barney er þekktur sem mikill kvennamaður og er starf hans óþekkt. Ted byrjar þá að leita að sálufélaganum og hittir hann ungan hvatvísan fréttaritara, Robin Scherbatsky (Cobie Smulders), sem hann verður fljótlega ástfanginn af. Robin vill hinsvegar ekki fara of fljótt í samband og ákveða þau að vera vinir. Framtíðar-Ted segir börnunum sínum að hún sé ekki móðir þeirra með því að tala um hana við börnin sín sem „Robin frænku“. Ted byrjar með bakarnum Victoriu sem hann hittir í brúðkaupi, og veldur það því að Robin verður afbrýðissöm og áttar sig á að hún ber tilfinningar til hans. Victoria flytur til Þýskalands á skólastyrk og reyna hún og Ted fjarsamband. Þegar Ted kemst að því að Robin er hrifin af honum, segir hann henni að hann sé hættur með Victroiu, þrátt fyrir að hann sé ennþá með henni. Þau enda næstum því í rúminu þegar Victoria hringir og Robin svarar óvart. Ted og Victoria hætta þá saman og Robin verður reið út í Ted en sættist síðan við hann og þau byrja saman. Á meðan fer Lily að hugsa um hvort að hún hafi misst af einhverjum tækifærum vegna sambands sísn við Marshall, og ákveður hún að fara á listanámskeið í San Francisco og hættir með Marshall í kjölfarið. Þáttaröðin endar á því að Ted kemur aftur í íbúðina, eftir að hafa eytt nóttinni með Robin í fyrsta skipti og finnur Marshall sitjandi í rigningunni með trúlofunarhring Lily. Önnur þáttaröð. Ted og Robin eru loksins saman og hryggbrotinn Marshall reynir að halda í lífinu án Lily. Lily áttar sig á að hún er ekki listamaður og snýr aftur til New York. Hún og Marshall byrja aftur saman og endar þáttaröðin á brúðkaupi þeirra. Barney tapar „slap bet“ sem leyfir Marshall að slá hann fimm sinnum hvenær sem er í framtíðinni, þegar Marshall vill, en það gerir hann tvisvar sinnum í þáttröðinni. Það kemur í ljós að Barney á svartan, samkynhneigðan bróður (Wayne Brady). Barney trúir því að Bob Barker sé faðir hans og fer hann til Kaliforníu til að taka þátt í þættinum "The Price is Right". Síðan komast allir í hópnum að því að Robin var kanadísk poppstjarna í byrjun 10. áratugarins og átti smellinn, „Let's Go To The Mall“. Barney horfir margoft á tónlistarmyndband lagsins. Í lokaþættinum, segir Ted Barney frá því að hann og Robin hafi ekki verið saman í nokkrun tíma, vegna mismunandi skoðana þeirra á hjónabandi. Þau sögðu ekki neinum frá því til að forðast það að draga athygli frá brúðkapi Marshalls og Lilyar. Barney endar þáttaröðina á orðunum „þetta verður sögu - bíddu eftir því“. Þriðja þáttaröð. Robin snýr aftur úr ferð til Argentínu með kærastanum Gael (Enrique Iglesias) og verður Ted að sætta sig við Robin er bara vinur hans. Marshall og Lily ákveða að flytja í sitt eigið húsnæði og verða ástfangin af íbúð sem þau hafa ekki efni á. Marshall kemst að því að Lily er haldin kaupæði og skuldi mikla peninga, sem kemur í veg fyrir að þau geti tekið hagstætt lán. Þrátt fyrir það geta þau keypt draumaíbúðina en komast þá að því að hún er illa staðsett og í mun verra ástandi en þau gerðu sér greinfyrir. Barney er sleginn í þriðja skiptið á þakkargjörðinni en Marshall kallar hátíðina „Slapsgiving“. Ted segir börnunum sínum að hann hitti móður þeirra í gegum sögu af gulu regnhlífinni hennar. Hann finnur regnhlífina á klúbbi og tekur hana heim með sér eftir að hafa farið í partý á degi heilags Patreks þar sem framtíðar-konan hans var, þrátt fyrir að þau hafi ekki hist. Ted reynir að heilla Stellu (Sarah Chalke), húðsjúkdómalækni sem hann fer til vegna vandræðalegs húðflúrs. Þetta leiðir til eftirminnilegs tveggja mínútna stefnumóts, sem inniheldur samtal, kvöldmat, kvikmynd, kaffi, tvær leigubílaferðir og koss, allt á innan við tveimur mínútum. Robin sefur hjá Barney eftir að hann huggar hana eftir sambandsslit, sem leiðir til þess að Ted vill ekki vera vinur hans lengur. Eftir það ákveður Ted að vera ekki vinur Barneys lengur. Á meðan fer ókunnug kona að eyðileggja tilraunir Barneys til að næla í stelpur. Það reynist vra Abby (Britney Spears), ritari Stellu, en hún er fúl út í hann fyrir að hafa ekki hringt í hana eftir að þau sváfu saman. Í lokaþættinum, eftir að Ted og Barney lenda í sitthvoru bílslysinu og lenda á spítala, endurnýja þeir vináttuna. Það kemur í ljós að Barney ber miklar tilfinningar til Robin og Ted biður Stellu að giftast sér. Fjórða þáttaröð. thumb Stella játast Ted. Robin tekur nýju starfi í Japan en hættir fljótlega og snýr aftur til New York til að fara í brúðkaup Teds. Stella yfirgefur Ted við altarið og byrjar aftur með barnsföður sínum, Tony. Barney glímir við tilfiningar sínar í garð Robin þegar fyrirtækið hans setur hann í framkvæmdarhóp nýs fyrirtækis, Goliath National Bank (GNB). Marshall og Lily flytja inn í nýju íbúðina og velta því fyrir sér hvort að þau séu tilbúin til að eignast börn. Robin verður sambýlingur Teds þegar hún fær starf sem stjórandi morgunþáttar sem fer í loftið klukkan fjögur á morgnana. Ted kemst að því að Barney er ástfanginn af Robin þegar Ted og Robin byrja að sofa saman til að koma í veg fyrir sífelldar deilur. Ted kemst að því að Lily hefur eyðilagt öll sambönd hans með konum sem henni líkaði ekki við og gæti hafa hjálpað til við sambandsslit hans og Robin. Robin og Ted enda á því að tala um það, og verður það til þess að vinátta þeirra verður betri. Þegar Barney sefur loksins hjá 200. konunni, eftir að hafa nuddað því framan í strák sem stríddi honum þegar hann var yngri, hugsar hann um hvað hann eigi að gera það sem eftir er lífsins en það gerir hann enn vissari um tilfinningar sínar í garð Robin. Þegar Ted er með gulu regnhlífina rekst hann á Stellu og Tony. Tony kemur seinna í heimsókn og vottar honum samúð sína eftir að hafa misst Stellu. Tony býður honum starf sem kennari í arkitektúr en Ted hafnar því. Í lokaþættinum kemst Robin að því að Barney er ástfanginn af henni. Ted ákveður að hann sé hættur að vera arkitekt og ákveður að fara að kenna frekar. Lokaþátturinn endar á því að Ted er að undirbúa sig fyrir fyrsta tímann og Framtíðar-Ted segir að ein af konunum í bekknum sé móðir þeirra. Fimmta þáttaröð. Ted byrjar fyrsta daginn sinn sem kennari, standandi í miðri kennslustofu - þrátt fyrir að móðirin hafi verið þar, reynist þetta þó ekki vera arkitektatíminn sem hann átti að vera að kenna. Barney og Robin hafa átt í kynferðislegu samabandi um sumarið og Lily læsir þau inni í herbergi og neyðir þau til að ákvarða hvað samband þeirra er. Eftir erfiðan tíma ákveða þau að hætta saman. Robin lýsir þessu þó þannig að þau séu "tveir vinir að byrja aftur saman". Barney snýr strax til eldri siða, og notar "leikjabókina" til að ná í konur. Í gegnum þáttaröðina sjást merki þess að Robin og Barney sjái eftir sambandinu. Ted byrjar samband með nemanda sem heitir Cindy (Rachel Bilson) og kemur í ljós að herbergisfélagi hennar sé framtíðar-konan hans. Robin hittir Don, nýjan samstarfsmann í morgunþættinum. Þrátt fyrir að henni líki ekki við hann í fyrstu byrja þau saman eftir nokkurn tíma og flytja inn saman. Í lok seríunnar hætta þau saman þegar Don tekur starfi í Chicago, þrátt fyrir að Robin hafi hafnað starfinu til að geta verið með honum. Marshall lemur Barney í fjórða sinn, aftur á þakkargjörðinni. Ted kaupir hús, sem þarfnast mikilla viðgerða, en það kemur seinna fram að þetta er húsið sem Ted mun búa í með fjölskyldunni. Lily og Marshall ræða hugmyndina um að eignast barn, þrátt fyrir að Lily sé óviss. Parið ákveður að láta það eiga sig þar til þau sjá síðasta tvífara hópsins. Að lokum sér Lily mann sem hún telur vera síðasta tvífarann, þó að restin af hópnum mótmæli því, sýnir það að þau eru bæði tilbúin til að eignast barn. Sjötta þáttaröð. Ted sér Cindy aftur með stelpu sem hann heldur að sé herbergisfélagi hennar en hún reynist vera kærasta Cindy sem hún giftist seinna. Það kemur fram að Ted hittir fyrst framtíðar-eiginkonu sína þegar hann þykist vera svaramaður í brúðkaupi (þar sem hann er úti í rigningunni án regnhlífar). Lily verður reið þegar Marshall segir fjölskyldunni sinni að þau séu að reyna að eignast barn, en þau leysa úr sínum málum. Móðir Barneys ákveður að selja húsið sem hann ólst upp í. Á meðan hann pakkar niður hlutunum úr húsinu, sjá James og Barney ósent bréf til Sam Gibbs, sem verður til þess að þeir finna föður James. Loretta býður Barney að vita hver faðir hans sé en Barney rífur það eftir að hann áttar sig á því hverju Loretta hefur fórnað sem einstæð móðir. Lily reynir að fá Robin til að eyða símanúmeri Dons og þrátt fyrir að það gerist ekki strax gleymir Robin að lokum númerinu og segist vera komin yfir sambandi. Nýi meðstjórnandi Robin, Becky, stelur kastljósinu og kemur það Robin í uppnám. Ted hafnar tilboði frá Goliath National Bank um að hanna nýjar höfuðstöðvar bankans en samþykkir það seinna. Höfuðstöðvar GNB eiga að vera byggðar þar sem nú er gamalt hús, sem reyndar er kennileiti byggingarlistar. Þetta verður til þess að Ted lendir í deilum við Zoey (Jennifer Morrison), fallega konu sem er reið yfir því að rífa eigi kennileitið. Zoey skráir sig í tíma Teds og fær nemendur hans til liðs við sig til að bjarga byggingunni. Barney uppgötvar að maðurinn sem hann kallaði frænda sinn þegar hann var lítill er í rauninni faðir hans en biður Robin um að minnast ekki á það við neinn. Robin segir sögu af gamalli vinkonu sinni frá Kanada, Jessicu Glitter (Nicole Scherzinger), og útskýrir að vinir vaxi í sundur. Ted sannar mál sitt með því að hringja í gamla vin sinn, Punchy, sem verður til þess að hann birtist í New York. Seinna biður hann Ted um að vera svaramaður í brúðkaupinu hans. Það virðist vera brúðkaupið í byrjun þáttaraðarinnar, þar sem Ted verður að halda ræðu, og þá bað Robin Ted um að vera svaramaðurinn í hennar brúðkaupi. Ted og vinir hans halda þakkargjörðina heima hjá Zoey og Ted og Zoey verða vinir, þrátt fyrir að þau beri miklar tilfinningar hvor til annars. Ted fer í bátsferð með eiginmanni Zoey, „Kapteininum“, á meðan „hafmeyjukenning“ Barneys hindrar Marshall í að eiga góðan kvöldverð með Robin. Þegar Marshall og Lily gætu verið ólétt hefur það djúpstæð áhrif á hópinn og neyðir þau til að endurskoða líf sín. Á meðan byrjar Robin í nýju starfi, Barney uppgötvar ánægjun sem fylgir því að gefa á jólunum og Ted byrjar á skyldum sínum fyrir brúðkaup Punchies. Marshall grunar að hann sé ástæða þess að Lily verður ekki ólétt eftir að hafa farið á fund með frjósemislækni, sem einnig reynist vera tvífari Barneys. Hann kemst að því að hann er fullkomlega frjór og er mjög hamingjusamur en fær seinna þær slæmu fréttir að faðir hans sé dáinn. Hópurinn reynir að styðja Marshall og Lily reynir að hjálpa mömmu hans á meðan jarðaförinni stendur en Marshall hefur nóg að hugsa um þegar hann áttar sig á að hann á eftir ein hljóðskilaboð frá föður sínum. Barney hringir í móður sína og segir að hann sé loksins tilbúinn til að hitta alvöru föður sinn. Ted er ástfanginn af Zoey, en þar sem Zoey er gift, slítur hann vináttunni. Zoey er líka ástfangin af Ted og sækir um skilnað frá eiginmanninum. Þar sem hvorugt veit hvernig hinu líður segir Marshall þeim það hvoru í sínu lagi og hann segir Ted líka frá skilnaði Zoey og þau kyssast. Sjöunda þáttaröð. Sjöunda þáttaröðin hefst með því að litið er inn í framtíðina þegar Ted er að hjálpa Barney að gera sig tilbúinn fyrir brúðkaupið sitt, en brúðurin er óþekkt. Í nútíðinni fær Marshall starf sem umhverfislögfræðingu á meðan Lily fæst við óléttuna. Barney sannar fyrir Noru að hann geti verið góður kærasti á meðan Robin ber enn tilfinningar til Barney. Robin fer í dómsskipaða meðferð, þar til sálfræðingurinn hennar, Kvein (Kal Penn), segir að honum finnist hún aðlaðandi og geti þess vegna ekki verið sálfræðingurinn hennar lengur. Þau byrja saman. Þegar framtíðar Ted hugsar um fellibylinn Irene, kemur í ljós að Lily og Marshall gátu barnið sitt í íbúð Barney, og Barney og Robin sofa saman. Barney og Robin átta sig bæði á því sem þau hafa gert og ákveða að hætta í sínum ástarsambödnum. En Robin ákveður hins vegar að vera áfram með Kevin, sem veldur Barney miklum vonbrigðum þar sem hann hætti með Noru. Marshall og Lily ákveða að þau vilji flytja til Long Island, eftir að afi og amma hennar bjóða þeim húsið sitt þar. Meet the Parents. "Meet the Parents" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2000 skrifuð af Greg Gilenna og leikstýrð Jay Roach (hann leikstýrði líka "Austin Powers"). Robert De Niro og Ben Stiller fara með aðalhlutverkin. Myndin fjallar um karlkyns hjúkrunarfræðing sem á ekki sjö dagana sæla þegar hann heimsækir foleldra kærustu sinnar. Myndarin var framleidd fyrir 55 milljónir $bandaríkjadala og myndin skilaði aftur þeirri upphæð á um ellefu dögum. Velgengni myndarinnar hvatti framleiðendur til þess að gera framhald árið 2004, "Meet the Fockers". Universal Studios og DreamWorks dreifðu myndinni. Hvítliðar. Hvítliðar er niðrandi orð notað um þá sem aðstoða lögreglu í átökum við róttæka hópa eða taka sig sjálfir til og berja á þeim sem mótmæla. Einnig er talað um að hvítliðar reyna að koma óorði á mótmælendur með því að ganga í raðir þeirra og vinna illvirki. Orðið hvítliði er einnig notað í niðrandi merkingu um hægrimann almennt. Orðið er notað vegna hliðstæðu við „Hvíta herinn“ sem barðist gegn bolsévikum í Rússnesku borgarastyrjöldinni 1917-1923. „Hvítur“ í þeirri merkingu var hefðbundinn litur konungssinna í Evrópu og myndaði auk þess andstæðu við „rauður“, þ.e. Rauða herinn sem bolsévikar skipulögðu. Í Nóvu-deilunni árið 1933 mættu „hvítliðar“ til að hindra mótmælendur á Torfunefsbryggju á Akureyri. Þeir strengdu kaðall sín á milli og reyndu ryðja bryggjuna og lá við slysum. Listi yfir mótmæli og óeirðir á Íslandi. Þetta er listi yfir helstu mótmæli og óeirðir á Íslandi þar sem fólk hefur komið saman til að sýna andstöðu sína við ríkjandi valdi eða til að sýna samstöðu í verkfalli. Þetta er einnig listi yfir óeirðir á Íslandi. Tengt efni. Mótmæli og óeirðir Mótmælin á Íslandi í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Alþingishúsið. Búið er að koma fyrir skilti á svölum hússins sem á stendur "Til sölu (kr) $ 2,100.000.000" og "IMF Selt". Mótmælin í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 eða Búsáhaldabyltingin voru vikuleg, jafnvel dagleg, mótmæli sem hófust eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008 og héldu áfram árið 2009. Samtökin Raddir fólksins, með Hörð Torfason í fararbroddi, héldu vikulega fundi á laugardögum á Austurvelli. Þegar á leið hófust ýfingar með lögreglu og mótmælendum. Allmargir voru handteknir og jafnvel barðir með kylfum og lögreglan var grýtt og ötuð skyri og hveiti. Þetta ástand fjaraði út og hluti mótmælenda tók að sér að mynda varnarmúr á milli herskárra mótmælenda og lögreglu og bar það árangur. Bónusfáninn dreginn að húni á Alþingishúsuinu, 8. nóvember 2008. Laugardaginn 8. nóvember var Bónusfáni dreginn að hún á Alþingishúsinu við mikinn fögnuð almennings sem var þá saman kominn á Austurvelli. Þegar lögregla hugðist handsama þann sem dró fánann að hún sá almenningur sem staddur var á Austurvelli til þess að Haukur Hilmarsson, fánadrengurinn, eins og hann var kallaður næstu vikur, kæmist undan. Áhlaup á Lögreglustöðina Hverfisgötu, 21. nóvember 2008. Föstudaginn 21 nóvember var Haukur handtekinn af lögreglunni fyrir að hafa klifrað upp í byggingarkrana í tengslum við mótmæli Saving Iceland á Kárahnjúkum 2005. Það var mál manna að tilgangur handtökunnar væri sá einn að taka hann "úr umferð" fyrir mótmælin um helgina. Í ræðu sinni á laugardagsmótmælunum daginn eftir fordæmdi Hörður Torfason handtökuna og hvatti viðstadda til að fylkja liði upp að lögreglustöðinni á Hverfisgötu, þar sem Haukur var í haldi. Milli 500 og eitt þúsund manns söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina þar sem slagorðin "Út með Hauk! Inn með Geir!" voru hrópuð. Mannfjöldinn braut sér leið í gegn um útidyr hússins, en var hrakinn frá af lögregluliði sem beitti piparúða. Um klukkan 18:00 bárust þær fréttir að Hauk hefði verið sleppt úr haldi, og að óþekktur aðili hefði greitt fyrir hann sekt þá sem hann hafði verið handtekinn fyrir að hafa ekki greitt. Mótmæli við Ráðherrabústaðinn, 9. desember 2008. Nokkrir tugi manns (tuttugu, skv. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en 30-40 samkvæmt öðrum sjónarvottum) komu saman við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu til að mótmæla ríkisstjórnarfundi sem þar fór fram. Hópurinn stillti sér upp í götunni og kom þannig í veg fyrir að ráðherrarnir kæmust að húsinu frá Tjarnargötu, en ráðherrarnir gengu þá inn bakdyramegin í gegnum garðinn ofan við húsið, neðan úr Suðurgötu. Í Morgunblaðinu var því slegið föstu að mótmælendur við Ráðherrabústaðinn væri sami "[h]ópur mótmælenda sem efndi til mótmæla í Alþingishúsinu [8. desember]" Tveir voru handteknir fyrir að hlýða ekki tilmælum lögreglu. Opinn borgarafundur. Opinn borgarafundur er breiðfylking fólks sem á það sameiginlegt að vera umhugað um lýðræðislegt stjórnarfar á Íslandi. Félagsskapurinn er ekki flokkspólítískur og er opinn öllum sem áhuga hafa. Þófaplanta. Þófaplanta kallast sú planta sem vex í eða myndar þúfur. Þetta gera plöntur til að verjast kælingu og eru blöðin oft þannig sett að þau hitni sem mest af sólarljósi. Algengastar eru þófaplöntur til fjalla og heimsskautssvæðum jarðar. Lambagras er dæmi þófaplöntu. Frostþurrkun (grafsiður). Frostþurrkun er ný aðferð við að búa lík til greftrunar sem er ætlað að koma í stað líkbrennslu eða hefðbundinnar greftrunar í kistu. Aðferðin hefur það að markmiði að auðvelda náttúrulegt niðurbrot líkamsleifanna og þess vegna má til að mynda ekki smyrja líkið. (Með tilliti til aðstæðna á Íslandi er þess reyndar að geta að vart er hægt að segja að líksmurning tíðkist hér.) Þeir, sem standa að aðferðinni, lýsa henni þannig að líkið sé fyrst kælt niður í –18°C og þar næst kælt enn frekar með fljótandi köfnunarefni. Við þetta verði líkaminn mjög stökkur og nægi þá að beita fremur litlum titringi til að sundra honum í smáar agnir. Duftið, sem þannig verði til, sé flutt í lofttæmt rými þannig að unnt sé að láta það, sem eftir er af raka, gufa upp. Loks fari duftið í gegnum málmskilju til þess að fjarlægja ígræði, svo sem hjartagangráða, og kvikasilfur úr tannfyllingum. Að þessu loknu er fyrirhugað að koma duftinu fyrir í öskju úr maíssterkju. Það er þá lyktarlaust og þolir langa geymslu þar sem allt vatn hefur verið fjarlægt. Líkamsleifarnar vega í þessu ástandi aðeins um 30% af upphaflegri þyngd, þar eð vatn er hér um bil 70% af líkamsþyngd mannsins. Þetta er þó nokkru meira en verður eftir af líkamanum við líkbrennslu. Greftrunin á að fara fram með þeim hætti að askjan með duftinu sé lögð grunnt í lífrænan jarðveg og verður hvorttveggja þá að mold á 6–12 mánuðum. Frostþurrkun líkamsleifa er enn á tilraunastigi en stefnt er að því að unnt verði að nota hana í tengslum við útfarir áður en langt um líður. Í Suður-Kóreu er hún þegar orðin lögleg. Aðferðin er þó umdeild og bíður enn fullrar viðurkenningar í upphafslandinu, Svíþjóð. Þar hafa m.a. komið fram efasemdir um virkni aðferðarinnar eins og henni er lýst, enda hafi engar sannanir verið lagðar fram fyrir henni opinberlega. Skunkakál. Skunkakál (fræðiheiti: "Symplocarpus foetidus") er lítið, illalyktandi blóm sem vex í votlendi. Það á heimkynni sín í austurhluta Norður-Ameríku frá Nova Scotiu og Suður-Quebec vestur til Minnesota og allt suður til Norður-Karólínu og Tennessee. Einnig vex það í norðaustur-Asíu, austur-Síberíu, norðaustur-Kína, Kóreu og Japan. Greiningareinkenni. Laufin eru stór; um 40 til 55 cm löng og 30 til 40 cm breið. Skunkakál blómstrar senmma á hverju vori og er blómið eini hluti plöntunnar sem sést upp úr jörðinni. Laufin koma seinna, en plantan getur brætt af sér 10 til 15 cm þykkan snjó með efnaskiptum. Forða til þess geymir blómið í stólparót sinni sem er oft 30 cm þykkur. Blómin 5 til 10 cm löng og fjólublá á litinn. Ef laufin eru særð eða rifin af plöntunni gýs upp fnykur. Barack Obama. Barack Hussein Obama yngri (fæddur 4. ágúst 1961) er 44. forseti Bandaríkjanna og fyrrverandi fulltrúi Illinois í öldungadeild bandaríska þingsins. Obama sigraði bandarísku forsetakosningarnar árið 2008. Samkvæmt heimildum sögudeildar bandarísku öldungadeildarinnar er Barack fimmti blökkumaðurinn sem setið hefur í öldungadeildinni og sá fyrsti sem gegnt hefur embætti Bandaríkjaforseta. Kona hans er Michelle, fædd Robinson, og dætur þeirra eru Malia Ann (f. 1998) og Natasha (f. 2001). Forsetakosningar 2008. Það var árið 1996 sem Barack Obama ákvað að fara út í stjórnmál, fjölskylda hans stóð þétt við bakið á honum og hjálpaði honum mikið, svo þann 10. febrúar árið 2007 tilkynnti Obama að hann ætlaði að bjóða sig fram til þess að vera fulltrúi Demókrataflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2008. Aðalkeppinautur hans var Hillary Clinton. Barátta þeirra var löng og tvísýn framan af en eftir því sem á leið jókst forskot Baracks Obama og lauk með því að Hillary Clinton játaði sig sigraða. Obama sigraði John McCain öldungadeildarþingmann í forsetakosningum 4. nóvember 2008. Hann var settur í embætti 20. janúar 2009. Varaforseti Obama er Joe Biden, öldungadeildarþingmaður. Svo miklar væntingar voru til Barack Obama, að ekki var víst að hann gæti risið undir þeim. Hann náði að heilla fólk um allan heim, meira að segja andstæðingar hans í Repúblikanaflokknum, þar á meðal. Bush og mótframbjóðandin John McCain gátu ekki annað en fagnað með honum þegar að hann fagnði sigrinum. Æska og menntun. Barack Obama fæddist í Honolulu á Hawaii þann 4. ágúst 1961. Faðir hans, Barack Hussein Obama eldri var skiptinemi þar, en hann kom þangað frá Kenýu. Móðir hans, Ann Dunham, kom frá Kansas, nánar tiltekið frá stærstu borg fylkisins, Wichita. Þau voru gift frá 1961 til 1964. Faðir hans fór aftur til Afríku eftir að hafa lokið háskólaprófi og sá son sinn aðeins einu sinni eftir það þegar Barack var 10 ára gamall. Obama eldri fórst í bílslysi 1984. Pabbi Barack Obama var svartur og var móðir hans hvít, þegar Barack Obama sagði frá uppvaxtarárum sínum þá sagðist hann varla hafa tekið eftir því að pabbi hans var svartur sem bik og mamma hans hvít eins og mjólk. Eftir skilnaðinn giftist Ann Dunham indónesískum manni, Lolo Soetoro, og bjuggu þau í Jakarta, þar sem Obama gekk í skóla til 10 ára aldurs. Árið 1971 sendi móðir hans hann til Honolulu á Hawaii til afa síns og ömmu, sem ólu hann upp eftir það. Ann skildi við Lolo Soetoro og bjó á Hawaii í 5 ár en fór þá aftur til Indónesíu og starfaði sem mannfræðingur. Hún greindist með krabbamein í legi og eggjastokkum árið 1994 og sneri þá aftur til Hawaii, þar sem hún dó 1995. Obama lauk skyldunámi í Honolulu og fór eftir það til náms í Los Angeles í tvö ár og síðan til New York, þar sem hann lagði stund á stjórnmálafræði og alþjóðasamskipti við Columbia University og útskrifaðist þaðan 1983 með BA gráðu. Árið 1988 hóf hann nám við Harvard Law School og útskrifaðist með doktorspróf í lögfræði 1991 með miklum heiðri ("magna cum laude"). Barack Obama var fyrsti blökkumaður til að verða forseti law review við Harvard. Eftir það fluttist hann til Chicago, og kenndi lögfærði við háskólann í Chicago. Friðarverðlaun Nóbels. Obama hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2009. Barack Obama fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir það að stuðla að samvinnu milli manna. Tenglar. Obama, Barack Obama, Barack Obama, Barack Obama, Brarack Djúpberg. Djúpberg er grófkristallað storkuberg, sem myndast djúpt í jörðu. Gosberg. Gosberg er storkuberg, sem myndast þegar kvika brýst upp úr jarðskorpunni. Gosberg er fínkornótt, dílótt eða glerkennt berg, sem myndast hefur í eldgosi og storknað hratt. Gosberg getur verið "súrt", sem merkir að hlutfall kísils í berginu sé hærra en 65% af þunga. Basískt gosberg, eins og t.d. basalt og blágrýti, hefur minna en 52% kísilinnihald, en "ísúrt" gosberg, t.d. andesít og íslandit, hefur hlutfall kísils milli 52-65%. Setningahlutar. Frumlag. "Frumlag er fallorð sem oftast er í nefnifalli. Frumlag táknar geranda setningarinnar. Ef það er í aukafalli, þ.e. stendur með ópersónulegri sögn, er það stundum kallað frumlagsígildi." Tumi er köttur. Hann er grár. Tuma finnst gott að vera hjá Jónasi. Norræna (ferja). Norræna (Norröna) er nafn á farþegaferju í eigu færeyska hlutafélagsins Smyril-Line. Nafnið hefur fyrirtækið notað síðan fyrsta ferja þess var tekin í notkun árið 1984, árið 2003 var tekið í notkun nýtt skip sem hlaut þetta nafn og var þá nafni eldra skipsins breytt í Norræna I (Norröna I), sem það bar þar til það var selt frá fyrirtækinu. Norræna hefur frá upphafi verið í áætlunarsiglingum milli Íslands og annarra Evrópulanda. Gamla Norræna. Gamla Norræna (Norröna I) var smíðuð árið 1973 í Rendsborg og bar þá nafnið „Gustav Wasa“. Árið 1984 komst hún eigu Smyril-Line og fékk nafnið Norröna og sigldi hún í áætlunum milli Íslands, Færeyja, Danmerkur og Noregs. Árið 2003 tók Smyril-Line í gagnið nýtt skip sem var sérsmíðað fyrir fyrirtækið og var því einnig gefið nafnið Norröna. Gamla ferjan siglir enn undir færeyskum fána en ber nú heitið „Logos Hope“ og gegnir hlutverki trúboðaskips og er í eigu félagsins „OM Ships International“. Nýja Norræna. Nýja Norræna er bílferja sem hefur upp á mikil þægindi að bjóða fyrir farþega. Hún var smíðuð í Lübeck í Þýskalandi árið 2003 og hóf áætlanasiglingar þá um vorið. Lengd skipsins eru 164m og breiddin 30m, um borð er pláss fyrir 1500 farþega og 800 bíla. Yfir sumartímann telur starfsmannafjöldinn um borð u.þ.b. 120 manns. Um borð í Norrænu eru klefar fyrir farþega, stór verslunarkjarni, veitingastaðir, barir, næturklúbbur, leiksvæði fyrir börn, spilakassasalur, sundlaug, líkamsræktarsalur o.fl. Kostnaður við smíði skipsins var um 100 milljón evrur, sem var stór biti fyrir Smyril-Line og lenti fyrirtækið í vandræðum um tíma. En með aðstoð Íslendinga, Hjaltlendinga og fleiri var það tryggt að Norræna yrði áfram færeyskt skip. Norræna er stærsta farþegaskip Færeyinga. Hún siglir milli ýmist Hirtshals í Danmörku, Þórshafnar í Færeyjum og Seyðisfjarðar á Íslandi. Myndir. 200px Nýjar raddir. Nýjar raddir eru samtök mótmælenda. Ástþór Magnússon er einn skipuleggjanda nýrra radda. 17. janúar 2009. Nýjar raddir efndu til samkomu við Austurvöll þann 17. janúar 2009 klukkan 15:15. Þar áttu umræður að hefjast með stuttu ávarpi og þá átti orðið að vera laust. Samtökin Raddir fólksins höfðu einnig skipulagt fund á Austurvelli á sama tíma, nánar tiltekið klukkan 15:00. Lögreglan mætti á staðinn og fjarlægði sendiferðabíl og annan búnað Nýrra radda. Í framhaldi kærðu Nýjar raddir framgöngu Lögreglustjórans í Reykjavík. InDefence. In Defence of Iceland (InDefence) hópurinn var stofnaður í október 2008 af nokkrum Íslendingum sem ofbauð framferði breskra stjórnvalda gegn Íslandi við bankahrunið 2008. InDefence hópurinn hefur að markmiði að beita sér fyrir upplýsingaöflun, málefnalegri umræðu og ekki síst að kynna og verja hagsmuni Íslands bæði innanlands og erlendis. InDefence hópurinn er þverpólitískur og meðlimir hans hafa mjög mismunandi skoðanir á stjórnmálum almennt. Öll vinna meðlima InDefence er unnin í sjálfboðavinnu. Icelanders are NOT terrorists. "Miðvikudaginn 8. október beitti breska ríkisstjórnin hryðjuverkavarnalögum gegn Íslendingum. Þessi afdrifaríka aðför að íslensku samfélagi kom okkur gersamlega í opna skjöldu og breytti erfiðri stöðu í efnahagslegt hrun. Við Íslendingar höfum lengi talið okkur vera góða vini Breta. Þjóðir okkar eiga langa sögu viðskipta, auk þess að vera nánir bandamenn í NATO og Evrópu. Með hverri klukkustund sem líður valda aðgerðir breskra stjórnvalda hagsmunum Íslendinga óbætanlegum skaða um víða veröld. Þetta fellir verðmæti eigna sem annars væri hægt að nýta til endurgreiðslu til eigenda sparifjárreikninga í íslenskum bönkum bæði í Bretlandi og á Íslandi. Aðgerðir breskra stjórnvalda stefna framtíð íslenskra fyrirtækja í hættu og einnig hag allrar þjóðarinnar, auk þeirra rúmlega 100.000 starfsmanna breskra fyrirtækja sem tengjast íslenskum aðilum. Í þessu sambandi viljum við ítreka að íslensk stjórnvöld hafa aldrei staðhæft annað en að þau hyggist standa við skuldbindingar sínar, þvert á fullyrðingar Alistair Darling fjármálaráðherra og Gordon Brown forsætisráðherra Breta. Í þessari tvísýnu stöðu er nauðsynlegt að við vinnum öll saman. Við getum ekki látið leiðtoga, eins og Gordon Brown, spilla samskiptum þjóðanna til langs tíma vegna skammtíma pólitísks ávinnings. Brown hefði aldrei brugðist við hruni banka hjá stærri og voldugri þjóð með því að brennimerkja þegna hennar sem hryðjuverkamenn og glæpamenn. Við Íslendingar förum þess á leit við ykkur, breska vini okkar, að þið standið með okkur í þeirri viðleitni að binda enda á diplómatískar erjur milli ríkisstjórna okkar. Það er von okkar að með því getum við komið í veg fyrir frekara efnahagslegt tjón í löndum okkar og hafið uppbyggingu og bætt það tjón sem orðið hefur. Icesave samningar (Icesave 1). InDefence hópurinn hefur barist gegn Icesave samningum síðan þeir voru fyrst undirritaður í júní 2009. Strax í byrjun júní sendi InDefence hópurinn frá sér fréttatilkynningu með fjölda spurninga sem snertu grundvallaratirði Icesave samninganna og þá gífurlegu áhættu sem Ísland tók á sig samkvæmt þeim. Meðal þess sem kallað var eftir var 15 ára greiðsluplan sem sýndi fram á að Íslendingar gætu greitt Icesave ábyrgðina samkvæmt samningnum. Málflutningi sínum til stuðnings benti hópurinn á fjölmargar skýrslur, umsagnir og álit erlendra og innlendra sérfræðinga sem InDefence hópurinn taldi staðfesta á ótvíræðan hátt málflutning sinn í Icesvae málinu. Hópurinn tók ríkan þátt í opinberri umræðu um Icesave málið og lagði áherslu á að afla og dreifa upplýsingum um Icesave samningana til almennings og Alþingismanna. Í júlí 2009 veitti hópurinn m.a. fjárlaganefnd Alþingis ítarlega umsögn um Icesave samningana Fyrirvaraleiðin. InDefence hópurinn studdi í ljósi aðstæðna hina svokölluðu fyrirvaraleið Alþingis sem fól í sér að lög um ríkisábyrgð á Icesave samningunum voru samþykkt á Alþingi með fyrirvörum sem færðu samningana nær markmiðum Brussel viðmiðanna. Skyldu lögin ekki taka gildi nema Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana., sem miðuðu að því að færa núverandi samninga nær Brussel viðmiðunum. Hópurinn lýsti því yfir að þeir fyrirvarar sem samþykktir voru á endanum gengju ekki nægilega langt og í raun þurfi að semja upp á nýtt í ljósi nýrra aðstæðna. Samkvæmt fréttatilkynningu var það álit hópsins að skynsamlegra væri að Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu þar sem fram kæmi að lánasamningarnir sem undirritaðir voru þann 5. júní væru ekki í samræmi við þau samningsmarkmið sem Alþingi samþykkti 5. desember 2008 og byggð voru á Brussel viðmiðunum sem samþykkt voru af öllum aðilum málsins í nóvember sama ár. Hópurinn taldi augljóst að forsendur endurskoðunarákvæðis lánasamningana sjálfra væru þegar komnar fram þar sem ljóst var að greiðslugeta Íslands hafði versnað til muna frá því 15. nóvember 2008. Á grundvelli þessa væri þvi full ástæða til að Alþingi krefðist endurupptöku lánasamninganna sjálfra. Icesave viðaukasamningar (Icesave 2). Þegar ljóst varð að ríkisstjórn Íslands hafði undirritað viðaukasamninga við Icesave samningana (Icesave 2) hóf InDefence hópurinn baráttu gegn hinum nýju samningum sem Alþingi samþykkti 30. desember 2009. Hópurinn birti meðal annars ítarlegan samanburð á innihaldi og ákvæðum fyrri Icesave samnings og viðaukasamningsins (Icesave 1 og 2) og hélt því fram að í viðaukasamningunum væri "fyrirvörum Alþingis kippt úr sambandi eða þeir afnumdir með öllu." Ennfremur sagði hópurinn að viðaukasamningurinn og tilheyrandi breytingar á lögum nr. 96/2009 væru "brunaútsala á fyrirvörum Alþingis í Icesave málinu, fyrirvörum sem settir voru til þess að Icesave samningar yrðu í samræmi við Brussel-viðmiðin." Meðal annarra sem hópurinn hélt fram að styddi málflutning sinn varðandi viðaukasamningana var ítarlegt lögfræðiálit bresku lögmannsstofunnar Mischon de Reya sem barst Alþingi í desember 2009, og greining Dr. Jóns Daníelssonar (London School of Economics) á kostnaði og áhættu af þáverandi Icesave samningum, sem birt var í janúar 2010 og ekki hefur verið hrakin. Áskorun til forseta Íslands um að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann 2. janúar 2010 voru forseta Íslands afhent nöfn 56.089 einstaklinga sem skrifuðu undir áskorunina á vefnum www.indefence.is. Af þeim sem undirrituðu áskorunina voru 92,9% 18 ára eða eldri. Áskorunina undirritaði því nærri fjórðungur allra kosningabærra manna á Íslandi. Svo fór að forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar þann 5. janúar 2010. Undirskriftasöfnunin var nokkuð gagnrýnd vegna þess að hægt var að skrifa hvaða nafn sem var inn á vefsíðuna. Var það hægt vegna þess að í stað þess að skráningar væru athugaðar samstundis voru undirskriftalistarnir samkeyrðir við Þjóðskrá eftir á og allar rangar skráningar fjarlægðar á þann hátt. Allar þær 56.089 undirskriftir sem afhentar voru forseta Íslands voru samkeyrðar við þjóðskrá á þennan hátt af óháðum aðila. Um 93% þessara 56.089 undirskrifta voru frá fólki 18 ára og eldra. Því rituðu rúmlega 23% kosningabærra manna á Íslandi áskorunina. Þessi fjöldi undirskrifta var hlutfallslega sambærilegur við að rúmar 11 milljónir Breta eða tæpar 3 milljónir Hollendinga skrifuðu nafn sitt á slíkan undirskriftalista. Til samanburðar má einnig nefna að á sínum tíma voru forseta afhentar 31.752 undirskriftir vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave viðaukasamninga (Icesave 2). Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram þann 6. mars 2010. Var þetta fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins 1944. Við atkvæðagreiðsluna voru alls 229.926 á kjörskrá eða 72,3% landsmanna. Af þeim greiddu 144.231 atkvæði eða 62,7% kjósenda. Kosningaþátttaka karla og kvenna var mjög svipuð, eða 62,9% hjá körlum og 62,6% hjá konum. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru greidd atkvæði um það hvort lög nr. 1/2010 ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Úrslit kosninganna urðu þau að gild atkvæði voru 136.991, auðir seðlar 6.744 og aðrir ógildir seðlar 496. Gild atkvæði féllu þannig að „já“ sögðu 2.599 kjósendur eða 1,9% en „nei“ sögðu 134.392 eða 98,1%. Lög nr. 1/2010 voru þar með felld úr gildi. Vefsíðan www.indefence.is. Vefsíðu samtakanna var hleypt í loftið 20. október 2008 og hefur aðallega þjónað tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi hefur síðan verið notuð til söfnunar undirskrifta í tveim stærstu undirskriftasöfnunum Íslandssögunnar. Rúmlega 83.000 manns skrifuðu undir yfirlýsingu á vefsíðunni sem InDefence hópurinn afhenti breska þinginu í mars 2009 til að mótmæla beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum (Icelanders are NOT terrorists). Í byrjun janúar 2010 voru forseta Íslands afhentar rúmlega 56 þúsund undirskriftir sem bárust í gegn um vefsíðuna til áskorunar á forseta að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Í öðru lagi hefur vefurinn þjónað sem upplýsingatæki InDefefnce hópsins. Þar eru fréttatilkynningar og ýmis skjöl hópsins birt auk margvíslegs annars efnis sem tengist Icesave málinu. Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar. Í ágúst 2010 þáðu samtökin Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, en Samband ungra sjálfstæðismanna veitti samtökunum verðlaunin fyrir framlag sitt í baráttunni gegn því að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður á Icesave-reikningunum. Það að samtökin skyldu taka við verðlaununum var umdeilt í ljósi þess að verðlaunin eru kennd við Kjartan Gunnarsson sem sat bæði í bankaráði Landsbankans sem og í endurskoðunarnefnd bankans sem bar lögum samkvæmt að ganga úr skugga um að nægilegt eftirlit væri með Icesave reikningunum. Jóhannes Þ. Skúlason, talsmaður Indefence, vísaði gagnrýni á bug því að það samrýmdist ekki stefnu né hugsjónum InDefence hópsins um að fara í manngreinarálit á grundvelli stjórnmálaskoðana. Öskra. Öskra er hreyfing byltingasinnaðra háskólanema við Háskóla Íslands. Duke Ellington. Duke Ellington í Frankfurt am Main árið 1965. Edward Kennedy Ellington betur þekktur sem Duke Ellington (29. apríl 1899 – 24. maí 1974) var bandarískt tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Hann fæddist í Washington-borg þar sem hann hóf feril sinn sem ragtime- og djasspíanóleikari og stofnaði sína fyrstu hljómsveit 1917. Nokkru eftir að Harlemendurreisnin hófst í upphafi 3. áratugarins fluttist hann til New York-borgar og 1932 fékk hljómsveit hans fastan samning við næturklúbbinn Cotton Club þar sem þeir léku næstu tíu árin. Cotton Club var næturklúbbur í miðju Harlem-hverfinu þar sem þeldökkir skemmtikraftar komu reglulega fram en gestir voru nær eingöngu hvítir. Að auki var vikulegur útvarpsþáttur sendur út frá staðnum sem varð til þess að skapa Ellington vinsældir erlendis. Á síðari hluta áratugarins varð dansvæn sveiflutónlist með stórsveitum vinsæl og að sama skapi minnkuðu vinsældir hinna flóknu djasstónsmíða Ellingtons. Hljómsveit hans átti þó stórleik í tónleikaferð um Evrópu rétt fyrir upphaf Síðari heimsstyrjaldar og gaf út hvern smellinn á fætur öðrum við upphaf 5. áratugarins. Eftir styrjöldina varð tónlist Ellingtons aftur undir í samkeppni við nýjar stefnur í djasstónlist þegar bebop-tónlistin kom fram á sjónarsviðið og sjónvarpið með áherslu á einsöngvara á borð við Frank Sinatra. Gullöld stórsveitanna var á enda. Á sama tíma missti hann marga lykilmenn úr hljómsveitinni. Undir lok 6. áratugarins endurheimti Ellington vinsældir sínar að miklu leyti. Lengri tónsmíðar hans nutu velgengni meðal djassáhugafólks og 1957 tók Ella Fitzgerald upp þriggja hljómplatna verk, "Duke Ellington Songbook", með hljómsveit Ellingtons. Hann fékkst líka við kvikmyndatónlist. Á 7. áratugnum átti hann samstarf við ýmsa aðra frumkvöðla djasstónlistar svo sem Count Basie, Coleman Hawkins og John Coltrane. Á sama tíma lék hann mikið um allan heim. Mörg eldri laga hans voru orðin að sígildum smellum sem öfluðu honum tekna. Duke Ellington fékk Heiðursverðlaun Grammy-verðlaunanna 1965, Frelsisorðu Bandaríkjaforseta 1969 og varð meðlimur í Frönsku heiðursfylkingunni árið 1973. Aaron Lennon. Aaron Lennon (fæddur 16. apríl 1987) er enskur knattspyrnumaður sem leikur með Tottenham Hotspur. Hann var yngsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann lék fyrsta leik sinn með Leeds United; 16 ára og 129 daga gamall. Hann var valinn leikmaður tímabilsins 2008-2009 af stuðningsmönnum Tottenham. Aaron Lennon var smávaxnasti leikmaðurinn á HM í Suður Afríku 2010. Kristján 5.. Kristján 5. (danska: "Christian d. femte"; 15. apríl 1646 – 25. ágúst 1699) var konungur Dansk-norska ríkisins frá 1670 til dauðadags. Hann var sonur Friðriks 3. og Soffíu Amalíu af Brunswick-Lüneburg. Hann giftist árið 1667 Charlotte Amalie af Hessen-Kassel og átti með henni átta börn, þar á meðal ríkisarfann Friðrik. Hann var fyrsti erfðakonungur Danmerkur sem tók við samkvæmt Konungslögum Friðriks 3. Kristján var vinsæll meðal alþýðu í Danmörku. Hann reyndi að ná Skáni aftur undir Danmörku í Skánska stríðinu 1675-1679 sem skilaði Dönum engum ávinningi. Hann leyfði alþýðufólki að fá stöður innan ríkisins meðal annars Peder Schumacher sem Kristján sló til greifa af Griffenfeld árið 1670 en um sama leyti tók hann upp nýju aðalstitlana „greifi“ og „fríherra“ í Danmörku. Kristján lét lögtaka Dönsku lög 1683 og Norsku lög 1687. Dóra Takefusa. Dóra Takefusa (fædd 8. janúar 1971) er íslensk sjónvarpskona, japönsk í föðurætt en á íslenska móður. Hún stýrði meðal annars stefnumótaþættinum "Djúpa laugin" á Skjá einum. Dóra er hálfsystir knattspyrnumannsins Björgólfs Takefusa. Kvísker. Kvísker er austasti bær í Öræfum og stendur undir Bæjarskeri, vestan við Breiðamerkursand. Á bænum bjuggu lengi sjö systkini en svokallaðir "Kvískerjabræður" eru kunnir fyrir fræðistörf og athuganir á ýmsum sviðum náttúrufræði. "Kvískerjabók" var gefin út árið 1998. Þar hefur lengi verið veðurstöð en 10. janúar 2002 mældist þar mesta sólarhringsúrkoma á Íslandi, 293,3 mm. Alþingiskosningar 2009. Alþingiskosningar voru haldnar 25. apríl 2009. Á kjörskrá voru 227.896 kjósendur, þar af konur 114.295 en karlar 113.601. Atkvæði greiddu 193.934 og var kjörsókn því 85,1%. Samfylkingin fékk flest atkvæði 29,8% og 20 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei fengið minna kjörfylgi í sögu sinni 23,7%, tapaði 12,9% frá fyrri kosningum og 10 þingmönnum, er nú með 16 þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk 14,8% fylgi - nokkru betra fylgi en skoðanakannanir höfðu spáð - og bættu við sig tveimur þingmönnum, hafa nú níu þingmenn. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fékk 21,7% atkvæða, bætti við sig fimm þingmönnum og er nú með 14 þingmenn er það mesta fylgi við flokkinn í tíu ára sögu hans. Frjálslyndi flokkurinn fékk eingöngu 2,2% fylgi en það dugði ekki til að fá þingmann inn, flokkurinn er því utan þings. Borgarahreyfingin sem var stofnuð stuttu fyrir kosningarnar fékk fjóra þingmenn kosna eða 7,2% fylgi. Lýðræðishreyfingin fékk 0,6% og virðist ekki hafa verið tekin alvarlega af kjósendum. Nokkur umræða hefur verið um að þrír stjórnmálaflokkar, sem saman mynda meirihluta hafa lýst því yfir að þeir styðji samningsviðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Kosningarnar voru fyrir margra hluta sakir sögulegar. Af 63 þingmönnum voru 27 nýir þingmenn kosnir til Alþingis og er það mesta endurnýjun á milli kosninga í sögu íslenska lýðveldisins. Konur á Alþingi eru 26 talsins eða 43% og hefur kynjahlutfallið aldrei verið jafnara. Átta þingmenn, sem sóttust eftir endurkjöri og voru ofarlega á framboðslistum, náðu ekki endurkjöri. Aldrei hafa fleiri skilað auðu á kosningum eða 3,2%. Samkvæmt skoðanakönnun sem unnin var af Gallup gerði ríflega fjórðungur kjósenda upp hug sinn um hvað þeir ætluðu að kjósa á kjördeginum sjálfum. Vegna aðildar að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) var eftirlitsmönnum frá stofnuninni boðið af íslensku fastanefndinni við hana að hafa eftirlit með kosningum á Íslandi. Skömmu seinna ákvað ÖSE að rétt væri að stofnuninn sendi eftirlitsmenn og er það í fyrsta skipti sem ÖSE hefur eftirlit með kosningum á Íslandi. Í tengslum við kosningarnar á sérstaklega að gefa gaum að kosningalöggjöfinni og hugsanlegum breytingum á henni, utankjörfundaratkvæðagreiðslu, fjölmiðlamálum og aðgangi eftirlitsmanna. Tíu starfsmenn á vegum ÖSE munu starfa hér í því augnamiði og skila af sér skýrslu að kosningunum loknum. Úrslit í einstökum kjördæmum. Kjörnir alþingismenn 2009 Aðdragandi kosninganna. Í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi urðu mótmæli tíð þar sem ein af kröfunum var að haldnar yrðu kosningar áður en núverandi kjörtímabil rynni út. Stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún vildi kosningar fyrr og var vantrauststillaga felld í nóvember 2008. Innan Samfylkingarinnar sem situr í ríkisstjórn var óeining um það hvort halda skyldi kosningar vorið 2009. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra Íslands, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra Íslands, lýstu því bæði yfir í nóvember 2008 að þau teldu að kosningar ættu að fara fram vorið 2009. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra Íslands, og Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, voru þá mótfallin því að kosið yrði í vor. Þann 21. janúar samþykkti Samfylkingarfélag Reykjavíkur ályktun um að stjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins yrði slitið og haldnar yrðu kosningar í síðasta lagi í maí. Fundurinn var haldinn í Þjóðleikhúskjallaranum og var troðið út úr dyrum og safnaðist mikið af fólki saman fyrir utan. Meðal þeirra sem tóku til máls voru Ágúst Ólafur Ágústsson, þáverandi varaformaður Samfylkingarinnar, og Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Þá tók Ingibjörg Sólrún undir kröfur um kosningar í vor en sagðist áfram skyldu vera í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Önnur ríkisstjórn Geirs Haarde féll 26. janúar 2009 en þá fór hann á fund forseta Íslands og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í kjölfarið var fyrsta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mynduð, ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, studd af Framsóknarflokknum. Það var fyrsta minnihlutastjórn á Íslandi síðan Ríkisstjórn Benedikts Gröndal var mynduð árið 1979 af Alþýðuflokknum. Gísli Baldur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður, sagði af sér sem formaður landskjörstjórnar þar sem hann var tilnefndur sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Framboðsmál. Í það minnsta 12 þingmenn sóttust ekki eftir endurkjöri en á Alþingi sitja 63 þingmenn. Meðal þeirra eru stjórnmálamenn með mikla reynslu og langan feril á Alþingi, s.s. Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Björn Bjarnason og Árni Mathiesen. Að minnsta kosti 90 fleiri einstaklingar voru í framboði í forvali eða prófkjöri fyrir Framsóknarflokk, Vinstri græna, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk. Borgarahreyfingin. Nýtt framboð kom fram undir nafninu Borgarahreyfingin – þjóðin á þing. Formaður framboðsins er Herbert Sveinbjörnsson. Í yfirlýsingu til fjölmiðla sagði að Borgarahreyfingin vilji lýðræðislegra stjórnarfar. Meðal þess sem hreyfingin hefur sett á oddinn er möguleiki stjórnmálaflokka til að leggja fram óraðaða lista fyrir kosningar þannig að kjósendur viðkomandi flokks raði sjálfir á listann í kjörklefanum. Þráinn Bertelsson rithöfundur gekk til liðs við Borgarahreyfinguna úr Framsóknarflokkinum. Framsóknarflokkurinn. Landsfundur Framsóknarflokksins var haldinn helgina 17.-18. janúar. Á þeim fundi var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kosinn formaður flokksins. Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi varaformaður og ráðherra flokksins, og Magnús Stefánsson, fyrrverandi ráðherra, hafa bæði tilkynnt að þau hyggist ekki bjóða sig fram á næsta þingi. Meðal þeirra sem tilkynntu fyrirhugað framboð fyrir Framsóknarflokkinn má nefna Þráin Bertelsson, rithöfund, og Guðmund Steingrímsson, sem gekk nýverið úr Samfylkingunni. Um miðjan febrúar dró Þráinn Bertelsson til baka yfirlýst framboð sitt og gekk til liðs við Borgarahreyfinguna. Frjálslyndi flokkurinn. Jón Magnússon gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á ný. Ekki hefur borið mikið á nýliðun hjá flokknum. Kristinn H. Gunnarsson gekk í Framsóknarflokkinn á ný. Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar, gekk í Frjálslynda flokkinn. Sturla Jónsson, vörubílstjóri sem var einn skipuleggjenda mótmæli vörubílstjóra á Íslandi 2008, var í framboði fyrir Frjálslynda flokkinn. Íslandshreyfingin. Ómar Ragnarsson tilkynnti snemma í febrúar að Íslandshreyfingin hygðist bjóða fram í öllum kjördæmum landsins. Í lok febrúar var þó komið annað hljóð í strokkinn því þá samþykkti stjórn Íslandshreyfingarinnar að hún sækti um að gerast aðildarfélag hjá Samfylkingunni. Því virðist ljóst að búið sé að leggja niður Íslandshreyfinguna sem slíka. L-listinn. L-listinn boðaði framboð til Alþingis í kosningunum 2009. Fyrir framboðinu fóru Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, og Þórhallur Heimisson prestur. Ekki var um að ræða stjórnmálaflokk heldur bandalag frjálsra frambjóðenda sem vildu efla lýðræði í landinu og vinna með því gegn ríkjandi flokksræði. Þann 3. apríl var tilkynnt að L-listinn drægi framboð sitt til baka vegna þeirra skilyrða sem ólýðræðislegar aðstæður sköpuðu nýjum framboðum á þessum stutta tíma sem liðinn var frá því ákvörðun var tekin um kosningar og þess að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir höfðu samþykkt á flokksþingum sínum að vera mótfallin aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samfylkingin. "Sjá einnig: Prófkjör Samfylkingarinnar 2009" Samfylkingin hélt landsfund sömu helgi og Sjálfstæðisflokkurinn dagana 26.-29. mars. Fjöldi nýrra framboða voru tilkynnt. Guðmundur Steingrímsson og Karl V. Matthíasson gengu báðir úr Samfylkingunni. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, tilkynnti að hann hygðist ekki bjóða sig fram til endurkjörs þar sem hann ætlar í nám erlendis. Sjálfstæðisflokkurinn. "Sjá einnig: Prófkjör Sjálfstæðisflokksins 2009" Geir Haarde tilkynnti þann 23. janúar að hann væri með krabbamein í vélinda og hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans sem haldinn var 26.-29. mars. Geir bauð heldur ekki fram í prófkjöri. 29 menn, þar af 12 konur, hyggjast buðu sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Settar voru takmarkanir við þá upphæð sem frambjóðendur máttu eyða í auglýsingar og kynningu fyrir prófkjörin, 2,5 milljónir á hvern frambjóðenda. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn helgina 27-29. mars. Á honum var Bjarni Benediktsson kosinn nýr formaður flokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir endurkjörin varaformaður. Einna mest eftirvænting var eftir niðurstöðu Evrópunefndar flokksins, en formennsku í Evrópunefnd hafði Kristján Þór Júlíusson, mótframbjóðandi Bjarna til formennsku flokksins. Niðurstaða landsfundarins var að hagsmunum Íslands væri best borgið utan ESB. (Viku fyrir kosningarnar lagði Illugi Gunnarsson það þó til fyrir hönd flokksins að Ísland tæki upp evruna í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn) Á fundinum hélt Davíð Oddsson ræðu þar sem hann nefndi skýrslu Endurreisnarnefndar flokksins „hrákasmíð“ og beindi gagnrýni sinni sérstaklega að Vilhjálmi Egilssyni, formanni nefndarinnar. Skömmu fyrir páska kom upp Styrkjamálið. Þá opinberaðist það að FL Group (nú Stoðir) og Landsbanki Íslands hefðu styrkt Sjálfstæðisflokkinn um samtals 30 milljónir króna hvor. Athygli manna beindist sér í lagi að hlutverki Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Litlar breytingar voru á framboðsmálum Vinstri grænna. Svandís Svavarsdóttir, sem áður hafði setið í borgarstjórn Reykjavíkurborgar fyrir VG tók fyrsta sæti í Reykjavík suður. Lilja Mósesdóttir, doktor í hagfræði, bauð sig fram í annað sætið. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tók fyrsta sætið í Suðvesturkjördæmi á, Ögmundi Jónassyni. Áherslur Vinstri grænna voru kynntar undir fyrirsögnunum „Velferð fyrir alla“, „Trygg atvinna“, „Ábyrg efnahagsstjórn“, „Aukið lýðræði“ og „Kröftug byggð“. Lýðræðishreyfingin. Lýðræðishreyfingin með Ástþór Magnússon í fararbroddi bauð fram í öllum kjördæmum. Lýðræðishreyfingin vakti nokkra athygli fyrir hugmyndir sínar um beint lýðræði, auknar þjóðaratkvæðagreiðslur í gegnum hraðbanka. Þessi stjórnmálahreyfing hefur einnig notast við þau vinnubrögð að auglýsa í fjölmiðlum eftir fólki á lista. Skoðanakannanir. Allt frá því að efnahagskreppan hófst haustið 2008 voru skoðanakannanir framkvæmdar og birtar oftar en í venjulegu árferði. Georg-August-háskólinn í Göttingen. Georg-August-háskóli ("Georg-August-Universität Göttingen"), eða Háskólinn í Göttingen, er háskóli í borginni Göttingen í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Hann var stofnaður 1734 af Georg II Englandskonungi og kjörfursta af Hannover. Skólinn er meðal þeirra virtustu í Þýskalandi. Gottingen Ragnar Bjarnason. Ragnar Bjarnason, oftast kallaður "Raggi Bjarna", (fæddur 22. september 1934) er íslenskur söngvari. Æviágrip. Hann fæddist í lítilli risíbúð að Lækjargötu 12a, sonur hjónanna Bjarna Böðvarssonar og Láru Magnúsdóttur sem voru bæði mikið tónlistarfólk. Móðir hans var ein fyrsta dægurlagasöngkona landsins og söng með Dómkirkjukórnum í marga áratugi. Faðir hans var hljómsveitarstjóri og hljómsveit hans sem bar nafn hans var landsfræg á sínum tíma. Ragnar hóf ekki tónlistarferil sinn sem söngvari, heldur sem trommuleikari, en þegar hann var 16 ára söng hann ásamt Sigurði Ólafssyni inn á lakkplötu tvö lög sem komu út áratugum seinna á safndiski í tilefni 75 ára afmælis hans. Árið 1954 komu svo út fyrstu plöturnar með söng Ragnars Bjarnasonar á plötumerkinu Tónika sem Músikbúðin gaf út alls fjórar plötur. Á árunum 1955 - 1956 söng Ragnar meðal annars með Hljómsveit Svavars Gests en árið 1956 varð hann söngvari hjá KK sextettinum. Á þeim tíma komu út nokkrar plötur bæði 78 og 45 snúninga á merki H.S.H. 1959 hætti Ragnar með KK sextettinum og gekk til liðs við hljómsveit Björns R. Einarssonar en stoppaði þar stutt og var kominn í Hljómsveit Svavars Gests árið 1960. Starfaði Ragnar þar til 1962 er hann flutti erlendis. Var erlendis til 1964 og við heimkomuna gekk hann aftur til liðs við Svavar en stofnaði sína eigin hljómsveit árið 1965 þegar Svavar hætti með sína hljómsveit. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar spilaði í 19 ár á Hótel Sögu en var lögð niður þegar urðu skipulagsbreytingar á hótelinu. Árið 1972 stofnaði Ragnar ásamt fleirum Sumargleðina og fór hún um landið þvert og endilangt árum saman og var gífurlega vinsæl. Tintron. Tintron er hellir og gervigígur í Gjábakkahrauni skammt frá veginum á milli Þingvalla og Laugarvatns. HMS Hood. HMS Hood sekkur eftir sprengingu, í forgrunni er HMS Prince of Wales HMS Hood var 48.000 lesta orustubeitiskip breska flotans. Kjölurinn var lagður 1916 hjá John Brown & Co skipasmíðastöðinni í Skotlandi, en skipinu var hleypt af stokkunum 1918. Var tekið í notkun af breska flotanum 1920, þá 42.000 tonn og stærsta herskip Breta. Tók þátt í leitinni að Bismarck í seinni heimsstyrjöldinni ásam orrustuskipinu Prince of Wales, en var sökkt að morgni 24. maí 1941 eftir snarpa sjóorustu við Bismark og Prins Eugen vestur af Íslandi. Aðeins þrír af 1421 sjóliðum komust lífs af. Guðmundur Árni Stefánsson. Guðmundur Árni Stefánsson (f. 31. október 1955 í Hafnarfirði) er íslenskur sendiherra, stjórnmálamaður og fyrrverandi ráðherra. Guðmundur er sonur Stefáns Gunnlaugssonar alþingismanns og konu hans Margrétar Guðmundsdóttur. Tveir bræður hans, Finnur Torfi Stefánsson og Gunnlaugur Stefánsson, hafa einnig verið alþingismenn. Guðmundur starfaði við blaðamennsku og þáttagerð í útvarpi þar til hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði fyrir Alþýðuflokkinn 1986. Því starfi gegndi hann þar til hann var kjörinn á þing 1993. Við stjórnarmyndun í júní sama ár varð hann heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og í júní 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Hann var í hópi yngstu leiðtoga Alþýðuflokksins og oft rætt um hann sem arftaka Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáverandi utanríkisráðherra og leiðtoga flokksins, en varð fyrir gagnrýni fyrir að hygla vinum og frændum þegar kom að embættisveitingum og ýmsum sporslum. Mest gekk á út af starfslokum Björns Önundarsonar tryggingayfirlæknis árið 1993. Varð þetta til þess að Guðmundur sagði af sér ráðherraembætti 11. nóvember 1994. Hann sat áfram á Alþingi þar til hann var skipaður sendiherra Íslands í Svíþjóð árið 2005. Þann 17. janúar 2012, afhenti hann Barack Obama Bandaríkjaforseta trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Washington D.C.. Guðmundur Árni og kona hans, Jóna Dóra Karlsdóttir, misstu tvo elstu syni sína í eldsvoða árið 1985. Þau eiga fjögur önnur börn. Angelicum. "Angelicum" er páfaháskóli í Róm á Ítalíu. Saga. "Angelicum" var stofnaður árið 1580 og nefndur eftir Tómas af Aquino (latína: "Collegium Divi Thomæ de Urbe"). Hallbjörg Bjarnadóttir. Hallbjörg Bjarnadóttir (11. apríl 1915 – 28. september 1997) var tónlistarmaður og skemmtikraftur. Hallbjörg var frá Brunnstöðum á Akranesi. Hún söng og samdi einkum djasslög og varð fyrst kvenna til að fást við djasstónlist. Hún átti tvíburasystur sem hét Kristbjörg eða Títa eins og hún var kölluð. Meðal þekktustu laga hennar má nefna Vorvísu við kvæði Jóns Thoroddsens, Björt mey og hrein við kvæði Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi og Ennþá man ég hvar. Systir hennar, Steinun, var einnig tónlistarkona. Hallbjörg lærði í Danmörku og bjó og starfaði þar lengi. Einnig bjó hún um tíma í Bandaríkjunum. Hún flutti til Íslands árið 1992. Náttúrumyndun. Náttúrumyndun er atburður eða fyrirbæri sem hefur ekki er af mannavöldum, þótt atburðurinn geti haft áhrif á menn (eins og bakteríur, öldrun, náttúruhamfarir). Dæmi um náttúrumyndun eru til dæmis eldgos eða veður. 19 (tala). 19 er náttúruleg tala á milli 18 og 20. Hún er frumtala. Möttull. Möttull jarðar er stærsta hvel jarðar og nær frá neðra borði jarðskorpunnar að ytra borði kjarna jarðar á um 2900 km dýpi. Möttullinn er þéttur og fastur niðri við kjarnann vegna mikils þrýstings. Bergið linast þegar ofar dregur og á um 200 km dýpi er hann seigfljótandi. Síðan verður hann fastur aftur á 100 km dýpi. Mötullinn er með mun málmríkari efnasambönd en jarðskorpan. Við mörk möttuls og kjarna er hitinn um 3250 °C. Þrátt fyrir þennan mikla hita er efnið á þessu dýpi í föstuformi. Hitastigið lækkar svo eftir því sem ofar dregur. Á um 200 km dýpi hefur þrýstingurinn lækkað verulega en hitinn er enn það mikill að bergið fer að linast (verður deigt). Það heldur áfram að linast eftir því sem nær dregur yfirborði og þrýstingi léttir en á 100 km dýpi harðnar það snögglega vegna þess að hitastigið fer þar ört lækkandi. Þetta deiga lag sem nær þá frá um 100 km dýpi og niður á 200 km dýpi kallast því deighvel. Sejny. Sejny, (litháíska: "Seinai") er bær í Póllandi. Íbúar voru 5 872 árið 2008. Sannmæliskenningin. Sannmæliskenningin um réttlæti er kenning Þorsteins Gylfasonar en hann hélt því fram að menn væru í rauninni að segja ósatt, þegar þeir ynnu ranglát verk, en satt, þegar þeir ynnu réttlát verk. Samkvæmt henni er réttlæti sannmæli og ranglæti svikmæli. Málfríður Einarsdóttir. Málfríður Einarsdóttir (23. október 1899 – 25. október 1983) var íslenskur rithöfundur og þýðandi. Hún er þekktust fyrir sérstakan og leikandi ritstíll sinn sem kemur best fram í fyrstu tveimur bókum hennar: "Samastaður í tilverunni" og "Úr sálarkirnunni". Málfríður fæddist í Munaðarnesi í Stafholtstungum. Hún var dóttir hjónanna Einars Bjarnasonar bónda þar og konu hans Kristjönu Björnsdóttur, ljósmóður. Málfríður lauk brottfararprófi frá Kennaraskóla Íslands 1921 og giftist 1928 Guðjóni Eiríkssyni, kennara. Hann lést árið 1970. Málfríður lagði stund á ritstörf um árabil. Auk skáldsagna og „minningarbóka“ hennar birtust kvæði og greinar eftir hana í dagblöðum og tímaritum og einnig þýddi hún bækur um ýmisleg efni. Málfríður hlaut viðurkenningu frá Menntamálaráði 1978. Andrej Tarkovskíj. Andrej Arsenjevitsj Tarkovskíj (Rússneska: "Андре́й Арсе́ньевич Тарко́вский") (4. apríl 1932 – 29. desember 1986) var sovéskur kvikmyndagerðarmaður, rithöfundur og óperuleikstjóri. Hann gerði aðeins sjö kvikmyndir í fullri lengd á ferli sínum, en hefur haft mikil áhrif á aðra leikstjóra. Kvikmyndir hans þóttu (og þykja) oft tormeltar en sjálfur lagði hann jafnan áherslu á að myndir hans ættu ekki að tjá hlutlægan veruleika heldur drauma, hugsanir og endurminningar. Guðrún Gísladóttir, leikkona, lék hlutverk völvunnar i síðustu kvikmynd Tarkovskíjs: "Fórninni" Svörtu munnmælin. Svörtu munnmælin (spænska: "La Leyenda Negra") er hugtak sem Julián Juderías setti fram árið 1914 í bók sinni: "La leyenda negra y la verdad histórica" (Svörtu munnmælin og hinn sagnfræðilegi sannleikur). Hugtakið er notað þegar talað er um hinar neikvæðu lýsingar á Spáni og Spánverjum í sagnfræðiritum þar sem þeir eru t.d. sagðir vera „grimmir“, „óbilgjarnir“ og „ofsafengnir“. Andstæða svörtu munnmælanna eru hvítu munnmælin. Bacillus anthracis. "Bacillus anthracis" er Gram-jákvæð, grómyndandi, valfrjálst loftsækin, staflaga baktería. Náttúrleg heimkynni hennar eru í jarðvegi þar sem hún brýtur niður plöntuleifar og annan úrgang. Hún er sýkill og berist hún í dýr eða menn getur hún valdið miltisbrandi. Saga. "B. anthracis" var fyrsta bakterían sem sýnt var óyggjandi fram á að ylli sjúkdómi, en það gerði Robert Koch árið 1876. Mycobacterium tuberculosis. "Mycobacterium tuberculosis" er nauðháð loftsækin baktería sem veldur berklum. Hún tilheyrir fylkingu geislagerla og flokkast því sem Gram-jákvæð þó hún litist reyndar illa eða ekki með hefðbundinni Gramlitun vegna vaxkenndrar slímhúðar úr mýkóliksýru sem umlykur frumurnar. Hún litast, hins vegar, vel með svokallaðri sýrufastri litun, eða Ziel-Nielsen litun, og er því gjarnan sögð sýruföst. Saga. Robert Koch uppgötvaði "M. tuberculosis" og lýsti henni í grein sem kom út 24. mars 1882 og nú þykir klassísk. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í læknis- eða lífeðlisfræði árið 1905 fyrir uppgötvun sína. Sjálfskviknun. Sjálfskviknun (sjaldnar skrifað sjálfkviknun) er úrelt kenning sem fjallar um upphaf lífsins í lífvana efni og segir að þetta sé daglegt brauð. Sjálfskviknun og orðaruglingur. Sjálfskviknun má ekki rugla saman við sjálfsíkviknun, eins og t.d. getur gerst þegar eldur kemur upp í fernisblautu sagi vegna efnahvarfa. Og sjálfskviknun má ekki heldur rugla saman við sjálfkveikju í sambandi við bíla. Né heldur má rugla sjálfskviknun við sjálfsíkveikju sem stundum er haft um hið sama og sjálfsíkviknun, en einnig um það þegar sjálfsprottinn eldur tekur sig upp í líkama manns (enska: "Spontaneous human combustion") sem á íslensku er þó oftast nefnt sjálfvakinn bruni. Týsgata. Týsgata er stutt gata í miðbæ Reykjavíkur sem teygir sig frá Þórsgötu í norðri til Skólavörðustígs í suðri. Carl Vogt. Carl Christoph Vogt (1817 – 1895) var svissneskur náttúrufræðingur og rithöfundur. Hann tók þátt í Bernaleiðangrinum og skrifaði um þetta ferðalag bókina "Nord-Fahrt entlang der Norwegischen Küste, nach dem Nordkap, den Insel Jan Mayen und Island" (útg. 1863). Leiðangurinn var farinn vorið 1861 og var það dr. Georg Berna, þýskur náttúrufræðingur, sem skipulagði og fjármagnaði leiðangurinn. Aðrir sem tóku þátt í þessum leiðangri voru Johann Heinrich Hasselhorst, þýskur myndlistamaður, Alexander Gressly, dýrafræðingur, og Alexander Herzen, læknir og lífeðlisfræðingur. Þeir silgdu á "Joacim Hinrich" frá Hamborg 29. maí 1861. Georg Berna. Georg Berna (fæddur 30. júní 1836, dáinn 18. október 1865) var þýskur náttúrufræðingur. Hann skipulagði og fjármagnaði leiðangur, sem farinn var á "Joacim Hinrich" frá Hamborg 29. maí 1861 til Noregsstranda, Jan Mayen og Íslands. Aðrir þátttakendur voru Carl Vogt (1817 – 1895) svissneskur náttúrufræðingur og rithöfundur, sem skrifaði bókina Nord-Fahrt (útg. 1863) um ferðalagið. Bókin hét fullu nafni: "Nord-Fahrt entlang der Norwegischen Küste, nach dem Nordkap, den Insel Jan Mayen und Island". Í Bernaleiðangrinum voru líka Johann Heinrich Hasselhorst, þýskur myndlistamaður — og myndir hans skreyttu bókina. Frummyndirnar eyðilögðust trúlega í loftárásunum á Frankfurt. Georg Berna sneri heim með íslenskan kvenbúning sem varðveittur var í kastala Berna í nágrenni Frankfurt í meira en öld, hann slapp heill umdan tveimur heimsstyrjöldum. Búningnum fylgdi skotthúfa, nisti og víravirkisbelti. Árið 1895 var tekin ljósmynd af búningnum í kastalanum. Johann Heinrich Hasselhorst teiknaði líka 1863 "Ladies on Horseback" sem hékk lengi í vinnustofu Berna. Auk þeirra voru í ferðinni: Alexander Gressly, dýrafræðingur og Alexander Herzen, læknir og lífeðlisfræðingur. Amanz Gressly. Amanz Gressly (17. júlí 1814 – 13. apríl 1865) var svissneskur jarðfræðingur og steingervingafræðingur. Hann er talinn einn af upphafsmönnum nútímajarðlagafræði og fornvistfræði. Hann tók þátt í Bernaleiðangrinum, sem þýski náttúrufræðingurinn dr. Georg Brenna skipulagði og fjármagnaði. Lagt var upp í leiðangurinn á "Joacim Hinrich" 29. maí 1861 til Noregsstranda, Jan Mayen og Íslands. Svisslendingurinn Carl Vogt, náttúrufræðingur og rithöfundur, var með í för og gaf út bókina "Nord-Fahrt" 1863. Alexander Herzen. Alexander Herzen (fæddur 6. apríl 1812, dáinn 21. janúar 1870) var læknir og lífeðlisfræðingur tók þátt í Bernaleiðangrinum, sem fór 20. maí 1861 frá Hamborg. Sólmyrkvi. Sólmyrkvi (sem til forna var nefnt myrkur hið mikla) er það kallað þegar tunglið fer fyrir sólu frá jörðu séð og skyggir þannig á hana að hluta til eða öllu leyti. Tunglmyrkvi kallast það þegar jörð myrkvar sólu frá tungli séð. Þá er jörðin í beinni línu á milli sólar og tungls og skuggi jarðarinnar lendir á yfirborði tunglsins. Sjálfvakinn bruni. Sjálfvakinn bruni (eða sjálfsíkveikja) er það þegar kviknar í fólki og líkami þess brennur af völdum sjálfsprottins elds. Líkaminn getur þá brunnið við svo mikinn hita að jafnvel beinin verða að ösku. Merki forsætis í Ráðherraráðinu. Aðildarríki ESB skiptast á að fara með forsæti í Ráðherraráðinu og því hafa verið sköpuð merki síðustu ár sem notuð eru á meðan hvert forsæti stendur yfir. Hamskiptin. Hamskiptin (eða Umskiptin) (þýska: "Die Verwandlung") er stutt skáldsaga (nóvella) eftir Franz Kafka sem kom út árið 1915. Sagan er ein af þekktari skáldverkum 20. aldar og fjallar um farandsölumanninn Gregor Samsa. Hann vaknar einn daginn í líki risavaxinnar bjöllu, og er því lýst hvernig Samsa og fjölskylda hans takast á við þessar miklu breytingar. Hamskiptin er sterklega tengd tilvistarstefnu enda má líta á söguþráðinn sem heimspekilegar vangaveltur um tilvist. Saxland. Saxland (þýska: "Freistaat Sachsen"; sorbíska: "Swobodny stat Sakska") er tíunda stærsta sambandsland Þýskalands með 18.414 km². Það er að sama skapi það sambandsland sem nær lengst til austurs. Í Saxlandi búa 4,3 milljónir manna og er þetta því sjötta fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Höfuðborgin er Dresden. Meðal markverðra náttúrufyrirbæra í Saxlandi má nefna fljótið Saxelfi, fjallgarðinn Erzfjöll ("Erzgebirge") og klettamyndirnar í Saxlenska Sviss ("Sächsiche Schweiz"). Lega. Saxland liggur austast í Þýskalandi og á löng landamæri að Tékklandi, en einnig að Póllandi. Fyrir norðan er sambandslandið Brandenborg, fyrir norðvestan er Sachsen-Anhalt og fyrir vestan eru Þýringaland (Thüringen) og Bæjaraland. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Saxlands samanstendur af tveimur láréttum röndum, hvíta að ofan og græna að neðan. Skjaldarmerkið samanstendur af svörtum og gulum röndum með grænni þverrönd yfir. Gulu og svörtu rendurnar eru upprunnar frá Askaníer-ættinni á 12. öld. Grænu þverröndinni var bætt við 1260. Þegar Askaníer-ættin dó út yfirtók markgreifinn frá Meissen þetta tákn og hefur það haldist síðan. Orðsifjar. Orðið Sachsen er upprunni af germanska ættbálknum saxa. Orðið saxi er dregið af gamla germanska orðinu sahs, sem merkir "sverð" eða "langur hnífur" (sbr. "að saxa" á íslensku). Söguágrip. Saxland var áður fyrr víðáttumikið svæði í norðurhluta núverandi Þýskalands. Það var Karlamagnús sem hertók mestan hluta svæðisins síðla á 8. öld og í upphafi þeirrar níundu. Svæðið sem myndar núverandi Saxland var þó ekki að fullu numið af germönum fyrr en með landnáminu mikla á 12. öld. Enn í dag býr slavneskur minnihluti í héraðinu. Flest bæja- og borgarheiti þar eru slavnesk að uppruna. Aðalvaldaættin í héraðinu var Askaníer-ættin. Furstinn í Saxlandi var kjörfursti í þýska ríkinu. 1485 klofnuðu héruðin Saxland og Þýringaland í tvö eigin héruð. Í 30 ára stríðinu á 17. öld var nær allt héraðið eyðilagt, en náði sér furðufljótt sökum mikilla auðlinda. Saxland var það hérað í Þýskalandi þar sem námugröftur var sem mestur, aðallega í Erzfjöllum ("Erz" merkir "málmgrýti" á þýsku). 1806 barðist Saxland við hlið Prússlands gegn Napoleon, en þýsku herirnir biðu mikinn ósigur við Jena og Auerstedt í þjóðarbardaganum mikla ("Völkerschlacht"). 1813 átti sér stað stórorrustan við Leipig er sameinaðir herir lögðu aftur til atlögu við Napoleon. Að þessu sinni sigruðu þýsku herirnir og í framhaldið af því voru Frakkar hraktir úr þýskum löndum. Saxar höfðu hins vegar stutt Napoleon síðustu tvö árin. 1815 kom til tals á Vínarfundinum að leysa Saxland algerlega upp sökum stuðnings saxa við Napoleon. Að lokum var fallist á að Prússland fengi 3/5 af landsvæði Saxlands, sem við það breyttist í núverandi landsvæði. Sachsen var þá konungsríki. Sachsen var einnig vagga þýskrar iðnbyltingar á 19. öld. 1866 gekk Saxland til liðs við Austurríki í stríði gegn Prússlandi, en tapaði. Saxland varð þannig hluti af Norðurþýska sambandinu undir forystu Prússlands. Þegar Þýskaland tapaði í heimstyrjöldinni fyrri ákvað Friedrich August III konungur Saxlands að afþakka. Konungsríkið var leyst upp og þess í stað var lýðveldi myndað með eigin stjórn (Freistaat Sachsen). Við lok heimstyrjaldarinnar síðari var Saxland hernumið af Sovétmönnum og 1949 varð það því hluti af Austur-Þýskalandi. 1952 leysti stjórnin í Austur-Berlín Saxland upp og var því skipt upp í þrjú héruð. 1990 var Þýskaland sameinað aftur og varð Saxland þá að sambandslandi. Neðra-Saxland. Neðra-Saxland (þýska: "Niedersachsen") er næststærsta sambandsland Þýskalands (á eftir Bæjaralandi) með rúmlega 47 þúsund km². Það er því tæplega helming á við Ísland að stærð. Íbúar eru tæplega átta milljónir og er Neðra-Saxland því fjórða fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Höfuðborgin er Hannover. Lega og lýsing. Neðra-Saxland liggur við Norðursjó norðarlega í Þýskalandi. Það umlykur borgríkið Bremen og liggur að auki að 8 öðrum sambandslöndum. Auk þess á Neðra-Saxland landamæri að Hollandi í vestri. Landið er að mestu leyti flatt, enda er meginþorri þess hluti af norðurþýsku lágsléttunni ("Norddeutsche Tiefebene"). Aðeins syðst er hálendi að finna, en þar eru Harzfjöllin. Mjög fá stöðuvötn eru í sambandslandinu. Þeirra stærst er Steinhuder Meer með aðeins 29 km². Helstu ár eru Saxelfur, Weser og Ems. Öll ströndin tilheyrir Vaðhafinu, en það er sá hluti Norðursjávarins þar sem gríðarlegur munur á flóði og fjöru gætir. Vaðhafið er á heimsminjaskrá UNESCO. Austurfrísnesku eyjarnar í heild tilheyra sambandslandinu. Helstu borgir eru Hannover, Brúnsvík og Osnabrück. Íslendingaborgin Cuxhaven er einnig í sambandslandinu. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Niedersachsens er þýski fáninn með skjaldarmerkinu fyrir miðju. Skjaldarmerkið sýnir hvítan prjónandi hest á rauðum grunni. Hesturinn er tákn saxa fyrr á tímum. Fáninn var samþykktur 1946 við stofnun sambandslandsins og staðfestur 1951. Tungumál. Opinbert tungumál í Neðra-Saxlandi er þýska og er háþýskan langalgengust. Í nyrstu héruðunum er einnig töluð lágþýska ("Plattdeutsch", sem aftur er skipt niður í fjórar mállýskur) og á Austurfrísnesku eyjunum er töluð frísneska. Allar þessar mállýskur eru verndaðar og reynt er að halda þeim við. Orðsifjar. Áður fyrr, á tímum Karlamagnúsar, bjuggu saxar í hartnær öllu Norður-Þýskalandi. Var landsvæðið því kallað Sachsen (Saxland). Seinna, þegar ríkinu var skipt, skiptist landsvæðið einnig upp með tímanum, allt eftir því hvaða furstar stjórnuðu hvar. 1946, eftir hertöku Breta, var ákveðið að landið skyldi heita Niedersachsen (Neðra-Saxland), þ.e. landið nær sjónum. Önnur saxnesk svæði í dag eru Saxland-Anhalt og bara Saxland, bæði í gamla Austur-Þýskalandi. Söguágrip. Á svæði núverandi Niedersachsen voru áður fyrr mörg furstadæmi og smærri sjálfstæð héröð og fríborgir. Það var Napoleon sem stofnaði til konungdæmisins Hannover í upphafi 19. aldar, sem Prússar hertóku og innlimuðu 1866. Héraðið Aldinborg var sænskt um tíma. Núverandi Niedersachsen var stofnað 1946 af breska hersetuliðinu. Baden-Württemberg. Baden-Württemberg er sambandsland í suðvestanverðu Þýskalandi. Það á landamæri að Bæjaralandi ("Bayern"), Rínarlandi-Pfalz ("Rheinland-Pfalz") og Hessen, auk Frakklands og Sviss. Íbúar eru tæpar 11 milljónir. Höfuðstaður Baden-Württembergs er Stuttgart, en meðal annarra borga má nefna Heidelberg, Freiburg, Baden-Baden, Karlsruhe, Mannheim og Ulm. Meðal markverðra náttúrufyrirbæra í Baden-Württemberg má nefna Rínarfljót, Svartaskóg og Bodenvatn. Fáni og skjaldarmerki. Fáninn samanstendur af tveimur láréttum röndum, svartri að ofan og gulri að neðan. Svarti liturinn stendur fyrir héruðin Württemberg og Hohenzollern. Guli liturinn stendur fyrir Baden. Fáninn var samþykktur 1953. Skjaldarmerkið sýnir þrjú svört ljón á gulum grunni. Þau eru merki Staufen-ættarinnar og hertoganna frá Sváfalandi ("Schwaben"). Til sitthvorrar handar eru hjörtur og griffill. Efst eru skildir gamalla héraða innan sambandslandsins. Miklar deilur risu um myndun skjaldarmerkisins og var það ekki samþykkt fyrr en 1954. Íþróttafélagið Höfrungur. Íþróttafélagið Höfrungur er íþróttafélag á Þingeyri sem stofnað var árið 1904. Heimavöllur þess er Þingvöllur. Höfrungur rekur íþróttastarf bæjarins og kemur að hátíðum og verkefnum með ýmsum hætti, s.s. þrettándabrennu, söngvakeppni og 17. júní-hátíðarhöldum. Höfrungur hefur skráð sig í VISA-bikar karla í knattspyrnu 2009 líkt og undanfarin tvö ár. Höfrungur Sundskáli Svarfdæla. Sundskáli Svarfdæla (Árni Hjartarson, apríl 2009) Sundskáli Svarfdæla er talinn vera ein fyrsta yfirbyggða sundlaug landsins. Sundskálinn var vígður sumardaginn fyrsta 1929 og er enn í notkun. Sundskáli Svarfdæla er reistur úr steinsteypu og með steyptu þaki. Laugin sjálf er 12,5 x 5 m. Vatn til laugarinnar var tekið úr volgum uppsprettum við Laugastein í hlíðinni ofan við skálann. Þar sért enn fallega hlaðinn inntaksbrunnur laugarvatnsins. Vatnið var ekki nema um 20°C heitt. Árið 1965 var borað eftir vatni sunnar í Laugahlíðinni. Þaðan fékkst um 30°C heitt vatn sem bæði var notað í laugina og til upphitunar í skólahúsnæðinu á Húsabakka en þar þurfti að skerpa vel á því. Sundskálinn var sjálfseignastofnun á vegum ungmennafélaganna í Svarfaðardal og Dalvík fram til 1966 en síðan í eigu Húsabakkaskóla og Dalvíkurskóla að jöfnu. Sundskálinn var í mikilli og samfelldri notkun bæði til kennslu og fyrir almenning allt þar til Sundlaug Dalvíkur var reist. Á tímabili voru útisamkomur haldnar við Sundskálann, t.d. lýðveldishátíðin 1944. Varhlið. Varhlið er sú hlið á klöpp sem veit undan skriðstefnu jökuls, eða m.ö.o. sú hlið sem hefur verið í vari og er því ekki mörkuð af núningi íssins. Sú hlið sem vissi gegn skriðstefnu jökulsins nefnist slithlið því á henni hefur ísinn mætt. Hvalbak í Hafnarfirði er t.d. jökulsorfin klöpp með ávala slithlið sem snýr að Flensborg en stöllótt varhlið sem snýr að læknum. Þjófnaður. Í lögfræði er þjófnaður skilgreindur sem glæpur og telst vera þegar einhver tekur ólöglega eignir annars manns. Þjófnaður getur verið mjög margvíslegur: innbrot, fjárdráttur, göturán, átroðningur, búðarþjófnaður og fjársvik. Sá sem fremur þjófnað nefnist "þjófur" eða "ræningi" og þeir munir sem viðkomandi stelur "þýfi". Bankahrunið á Íslandi. Bankahrunið á Íslandi eða Hrunið eins og það er oftast kallað í daglegu tali er heiti á gjaldþroti þriggja stærstu íslensku viðskiptabankanna haustið 2008 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi 2008–2011. Glitnir (í dag Íslandsbanki) var tekinn yfir af íslenska ríkinu þann 29. september, þann 6. október voru hin svonefndu neyðarlög sett, degi seinna, þann 7. október tók Fjármálaeftirlitið(FME) yfir rekstur Landsbanka Íslands og tveimur dögum seinna tók FME yfir Kaupthing banka (í dag Arion banki). Gjaldþrot bandaríska bankans Lehman Brothers í september 2008 setti Glitni í erfiða stöðu þar sem Glitnir reiddi sig á lán frá Lehman Brothers. Í lok september var því lýst yfir að Glitnir yrði þjóðnýttur að meirihluta. Þá fór af stað flókin atburðarrás sem leiddi til hruns hinna tveggja stóru íslensku viðskiptabankanna, Landsbankans og Kaupþings á aðeins rétt rúmlega viku. Afleiðingar Hrunsins urðu tilefni að milliríkjadeilum Íslands við Bretland og Holland vegna Icesavereikninga Landsbankans í þeim löndum. Alþingi Íslands skipaði sérstaka rannsóknarnefnd sem hafði það hlutverk að komast að því hverjar orsakir hrunsins voru. Rannsóknarnefndin skilaði af sér skýrslu 12. apríl 2010 og í kjölfarið var Geir Haarde kærður til landsdóms að ákvörðun Alþingis. Landsdómur sakfelldi Geir fyrir vanrækslu í starfi sínu sem forsætisráðherra, en gerði honum þó enga refsingu. Fram hafa komið kenningar á skjön við niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um að of mikil ríkisafskipti hafi orsakað hrun bankanna. Þjóðnýting Glitnis (29. september). Þann 29. september var tilkynnt að íslenska ríkið myndi eignast 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra eða um 84 milljarða íslenskra króna. Þær ástæður sem gefnar voru fyrir yfirtökunni voru þröng lausafjársstaða Glitnis og erfitt ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði að ef ekki hefði verið gripið til aðgerða þá hefði hlutafé bankans verið 0 og hann farið í þrot. Talið er að ein meginástæða fyrir erfiðleikum Glitnis hafi verið gjaldþrot bandaríska bankans Lehman Brothers sem átti í viðskiptum við Glitni. Nánast um leið og þetta var tilkynnt lækkaði alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's einkunnir sínar fyrir ríkissjóð sem og Íbúðalánasjóð. Lokað var fyrir öll viðskipti með fjármálasjóði Glitnis, og varð þetta til þess að Stoðir fór í greiðslustöðvun. Viðskipti með peningamarkaðssjóðinn Sjóð 9 og skuldabréfasjóðina Sjóð 1 og Sjóð 9 EUR voru til sérstakrar athugunar en opnað var aftur fyrir viðskiptum 1. október en þá hafði endurmat á virði Sjóðs 9 lækkað gengi hans um 7%. Seinna bárust fréttir af því að ríkissjóður hefði greitt 11 milljarða króna inn á Sjóð 9 vegna þess Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði verið í stjórn Sjóðs 9 frá því í byrjun árs 2008 og sjóðurinn mætti því ekki fara í þrot. Þetta reyndist rangt, hið rétta var að Glitnir hafði keypt skuldabréf Stoða í Sjóð 9 með eigin peningum. Óánægja hluthafa og stjórnenda. Daginn eftir voru sýnd viðtöl á RÚV og á Stöð 2 við Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleiganda Stoða sem var kjölfestufjárfestir í Glitni með 32% hlut. Jón sagði erlenda banka hafa lokað fyrir lánum til Glitnis með stuttum fyrirvara og þess vegna hafi verið ákveðið að leita til Seðlabankans eftir lánum gegn veðum. Þá kom einnig fram í viðtali við Þorstein Má Baldvinsson, stjórnarformann Glitnis, að Glitnir hefði boðið tvo "veðpakka" gegn láninu; annan metinn á 750 milljónir evra og síðari á 1.340 milljónir evra. Jón gagnrýndi yfirtökuna harkalega sem hann nefndi „"stærsta bankarán Íslandssögunnar"”; hann sagði enn fremur stjórn fyrirtækisins hafa verið „"stillt upp við vegg. Við sögðum fulltrúum ríkisstjórnarinnar að við teldum þessa leið alveg fráleita enda gæti hún haft víðtæk áhrif á allt fjármálakerfið hér á landi og væri í engu samræmi við eignasafn félagsins."“ Jón virtist þar með vera að ýja að því að pólitískar ástæður lægju að baki ákvörðuninni um að ríkið eignaðist hlutaféð á þessu verði. Daginn eftir barst nafnlaus ábending um að ekki hefði verið einhugur meðal stjórnar Stoða um yfirlýsinguna. Hætt við viðskipti Landsbankans (1. október). Þann 1. október gerði Straumur-Burðarás kaupsamning við Landsbankann um kaup á þremur dótturfyrirtækjum; "Landsbankinn Kepler" með 380 starfsmenn í 7 löndum; Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Spáni, Sviss, Þýskalandi og BNA. "Landsbankinn Securities" með 200 starfsmenn í Lundúnum og Edinborg og "Merrion Landsbanki" með 100 starfsmenn á Írlandi. Kaupverðið var ákveðið 380 m. evra, eða um 55 ma.k. Ekki varð af þessum kaupum vegna þess að þann 7. október yfirtók íslenska ríkið rekstur Landsbankans og því taldi stjórn Straums-Burðaráss ekki lengur vera forsendur fyrir samningnum. Honum var rift þann 10. október. Sama dag rauf gengisvísitala íslensku krónunnar 200 stiga múrinn og hafði þá aldrei verið hærri. Í fréttum kom fram að mögulegar lausnir til þess að koma á jafnvægi í íslensku efnahagslífi væru að selja Kaupþing til sænska bankans Skandinaviska Enskilda Banken, með því að íslenskir lífeyrissjóðir seldu erlendar eignir sínar og í þriðja lagi að leita ásjár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eftir stífa fundarsetur íslensku ríkisstjórnarinnar með ýmsum hagsmunaaðilum úr einkageiranum tilkynnti Geir H. Haarde að kvöldi 5. október að samkomulag hefði verið gert við íslensku bankana um að þeir myndu draga úr umsvifum sínum erlendis, með sölu á eignum sínum þar. Neyðarlög (6. október). Daginn eftir ávarpaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, íslensku þjóðina í ávarpi sem var sjónvarpað og útvarpað beint. Hann sagði efnahag íslensku viðskiptabankana nema margfalda landsframleiðslu á við íslenska ríkið sem væri „"svo smátt í samanburði"“. Hann lagði áherslu á að staða bankanna hefði versnað mikið, mjög hratt, að raunveruleg hætta væri á því að „"íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot"“ og að verkefni stjórnvalda á næstu dögum væri „"að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki."“ Geir lauk ávarpi sínu á hinum fleygu orðum "Guð blessi Ísland". Sérstök neyðarlög, "um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.", voru samþykkt samdægurs. Lögin heimiluðu fjármálaráðherra „"fyrir hönd ríkissjóðs... að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta."“ Talsverðar undanþágur frá lögum um fjármálafyrirtæki, starfsmenn þess og viðskipti, voru veittar frá beitingu þessara laga. Að auki var ríkissjóði heimilað að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur 20% af bókfærðu eigin fé. Ýmsar breytingar voru gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki, meðal annars var bætt við nýrri grein, með fyrirsögninni "Sérstakar ráðstafanir", þar sem Fjármálaeftirlitinu voru veittar umtalsverðar valdheimildir. Með þeim fyrirvara að tilefnið teljist til „"sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði"“ var Fjármálaeftirlitinu gert heimilt að stofna til hluthafafundar hjá fjármálafyrirtæki og eiga þar fulltrúa sem stýrir fundinum, hefur málfrelsi og tillögurétt. Væru aðstæður „"mjög knýjandi"“ hefði sá fulltrúi úrslitavald á fundinum, meðal annars til yfirtöku á rekstri og eignum fyrirtækisins en slíka ákvörðun þyrfti að rökstyðja skriflega til stjórnar fyrirtækisins, og til lögbærra eftirlitsaðila erlendis eftir atvikum. Lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta var einnig breytt. Þau lög lúta að Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fjárfesta og eiga „"að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laga þessara."“Lögum um húsnæðismál var einnig breytt. Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Landsbankans (7. október). Þann 7. október tók Fjármálaeftirlitið yfir rekstur Landsbankans, bankastjórar störfuðu eftir sem áður en við stjórn bankans tók sjálfstætt skipuð skilanefnd. Þetta var gert „"til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi"”. Sams konar ferli átti sér stað með rekstur Glitnis, og þar með var fallið frá kaupum ríkisins á 75% hlut í bankanum sem tilkynnt hafði verið um 29. september. Sama dag var Nýi Landsbanki Íslands hf. stofnaður, hann tók til starfa tveimur dögum seinna. Nýir vinir. Forsætisráðherra tók það sérstaklega fram að með þessum ummælum sínum átti hann ekki við Norðurlandaþjóðirnar sem hefðu gert gjaldeyrisskiptasamninga við Íslendinga. Skömmu síðar kom fram að engin formleg ósk hafi borist til Rússa frá Íslendingum um lán, að samningaviðræður hafi ekki verið hafnar og að engin ákvörðun hafi verið tekin um að veita Íslendingum lán. Seðlabankinn tilkynnti seinna sama dag að Ísland og Rússland myndu hefja viðræður innan fárra daga. Davíð Oddsson, bankastjóri sagði í viðtali við Bloomberg að fréttatilkynning Seðlabankans þess efnis að Íslendingar hafi fengið lán frá Rússum hafi ekki verið rétt og að rétt væri að þjóðirnar tvær ættu nú í viðræðum um hugsanlegt lán. Kastljósviðtal við Davíð Oddsson. Í afar umdeildu viðtali í Kastljósi sem sýnt var um kvöldið varði Davíð Oddsson seðlabankastjóri yfirtöku Glitnis og í svari hans kom meðal annars fram að „"þegar skuldirnar eru orðnar þannig að íslensku bankarnir þurfa 50-55 milljarða evra á þremur til fjórum árum næstu - og geta ekki útvegað sér það því þeir markaðir eru lokaðir - þá værum við að setja slíkan skuldaklafa á börnin okkar og barnabörnin, að það væri þrældómur fyrir annarra manna sök"“. Hann sagði að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru sambærilegar við aðgerðir bandarísku ríkisstjórnarinnar varðandi Washington Mutual sem er bandarískur sparisjóður sem fór í greiðslustöðvun 25. september 2008. Meðal þeirra sem gagnrýndu Davíð voru Richard Portes, sem áður hafði unnið afar jákvæða skýrslu um íslenskt viðskiptalíf fyrir Viðskiptaráð Íslands, skrifaði grein á vef Financial Times þann 12. október. Tilraunir Seðlabankans til þess að styrkja krónuna. Eftir að í ljós hafði komið að yfirlýsing Seðlabankans um lán frá Rússlandi hafi verið á misskilningi byggðar voru fleiri aðferðir reyndar til þess að laga gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Þeirra á meðal reyndi bankinn að festa gengi krónunnar við evru á genginu 131 krónur gagnvart evrunni. Í enskri fréttatilkynningu Seðlabankans biðlaði hann til annara banka að styðja sig í þessari viðleitni þar sem gengi krónunar væri óeðlilega lágt. Innan við sólarhringi eftir að þetta var reynt var fallið frá þessari tilraun. Tveimur dögum síðar setti Seðlabankinn gjaldeyrishömlur á íslenskar innlánsstofnanir. Meðal þeirra ráðstafana sem gripið var til var takmörkun á úttektarheimildum á kreditkortum erlendis og beiðnir um erlendan gjaldeyri fóru í gegnum nýtt póstfang Seðlabankans og var vöruflokkum forgangsraðað. Viðskiptabönkum var einnig gert að skila til Seðlabankans sundurliðun á gjaldeyrisviðskiptum í lok hver dags. Þann 15. október voru stýrisvextir Seðlabankans lækkaðir um 3,5%, úr 15,5% í 12%. Tæpum tveimur vikum seinna voru þeir hækkaðir á ný, um 6% í þetta skiptið í 18%. Yfirtakan á Kaupþing (9. október). Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Kaupþings 9. október. Aðgerðir breskra yfirvalda gegn Landsbankanum náðu einnig til Kaupþings þar eð degi áður var Kaupthing Singer & Friedlander, enskur dótturbanki Kaupþings, settur í greiðslustöðvun. Ríkið réði í framhaldinu til sín virta breska lögfræðistofu til þess að athuga lagalegan rétt sinn vegna falls Kaupþings. Þá höfðu þrír stærstu viðskiptabankar Íslands fallið. Í fjölmiðlum var rætt um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að enduruppbyggingu og lánveitingu til Íslands. Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur gefið þá skýringu á falli bankans, að sumarið 2008 hafi skuldatryggingarálag bankans hækkað þrátt fyrir góða stöðu hans, eins og fjármálaeftirlit Bretlands hafi staðfest í skýrslu sinni um Kaupthing Singer & Friedlander. Hann segir rógburði hafi verið dreift um bankann erlendis til þess að hafa áhrif á gengi bankans. Jafnvel að almannatenglar hafi verið ráðnir til þessa. Hann hefur einnig sagt að íslenska krónan hafi verið of óstöðugur gjaldmiðill fyrir banka af þessari stærðargráðu, að þjóðnýting Glitnis hafi verið mistök og setning neyðarlaganna sömuleiðis. Loks telur hann að Kaupþing hefði átt að ljúka yfirtökunni á hollenska bankanum NIBC þegar það stóð til fyrr á árinu og flytja höfuðstöðvarnar frá Íslandi og þangað. Þetta kvöld sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sig úr bankaráði Seðlabanka Íslands. Með því vildi hún axla ábyrgð sína á hruninu. Daginn eftir fór Ingimundur Friðriksson, einn þriggja bankastjóra seðlabankans í veikindafrí. Trúverðugleiki Íslands og íslenskra fyrirtækja var í lágmarki og næstu daga bárust fréttir af erfiðleikum venjulegra borgara, bílaeigenda sem höfðu tekið bílalán í erlendri mynt og stóðu nú frammi fyrir margföldum höfuðstól og inn- og útflutningsfyrirtækjum sem ekki gátu stundað venjuleg viðskipti. Þrýstingur tók að myndast á stjórn seðlabankans að segja af sér og var krafa Samfylkingarinnar um það opinber. Geir Haarde, sem hafði verið náinn samstarfsmaður Davíðs Oddssonar, vildi hins vegar ekki „persónugera vandann“. Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, hvatti ríkisstjórnina til að víkja stjórn seðlabankans. Íshús. Íshús voru byggingar sem notaðar voru til að geyma ís áður en ísskápar voru fundnir upp og urðu algengir. Yfirleitt voru íshús með manngerðum neðanjarðarherbergjum. Þau voru oftast byggð nálægt náttúrulegum uppsprettum vetraríss svo sem ferskvatnsstöðuvötnum. Ís á stöðuvötnum og snjór var skorinn og fluttur í íshúsin þar sem honum var pakkað í hálm eða sag til einangrunar. Þannig hélst ísinn kaldur allt fram á sumar og mátti nota hann allt fram á næsta vetur. Þannig var hægt að nota hann til að kæla drykki og ís á að sumarlagi. Stjórnlagaþing. Stjórnlagaþing er þing manna, sem stofnað er til í þeim tilgangi að semja nýja eða breyta eldri stjórnarskrá ríkis. Á máli lögfræðinnar er sagt að "stjórnarskrárgjafinn" (þ.e. fólkið) setji stjórnskipunarlög (þ.e. stjórnarskrána) en slíkt er ekki á færi löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins eða dómsvaldsins. Dæmi um stjórnlagaþing. Sem dæmi um stjórnlagaþing má nefna að 1848 var kosið til stjórnlagaþings í Danmörku og var útkoma þeirrar vinnu stjórnarskrá, sem afnam einræði í Danmörku og kom á þingbundinni konungsstjórn. Stjórnlagaþing Ítalíu var boðað 1946 til að setja landinu nýja stjórnarskrá eftir afnám flokksræðis fasista og þannig mætti áfram telja. Að öðrum stjórnlagaþingum ólöstuðum var frægasta stjórnlagaþing sögunnar haldið í Fíladelfíu í Bandaríkjunum á tímabilinu 25. maí til 17. september 1787. Þetta stjórnlagaþing er talið einn merkasti atburður í sögu Bandaríkjanna. Þar hittust 55 fulltrúar fylkja Bandaríkjanna, en meðal þeirra voru James Madison, George Washington og Benjamin Franklin. Formlega var tilgangur þingsins að breyta eldri stjórnarskrá. Í raun var þó ásetningur margra að skrifa nýja stjórnarskrá og varð sú raunin. Sú stjórnarskrá er í gildi enn í dag. Stjórnlagaþing Frakklands (Assemblée nationale constituante) var einnig frægt og stóð frá 9. júlí 1789 til 30. september 1791 en það tók við af Stéttarþingi Frakklands (Les États-Généraux) sem markaði upphaf Frönsku byltingarinnar. Á tímabilinu 17. júní til 9. júlí 1789 starfaði svokallaður Þjóðfundur um stjórnarskrá í Frakklandi (Assemblée nationale) áður en stjórnlagaþingið hófst. Stjórnarskrá Frakklands (Constitution de 1791) tók gildi er stjórnlagaþingið leystist upp og Löggjafarsamkoma Frakklands (L’Assemblée nationale législative) tók til starfa. Stjórnlagaþing á Íslandi. Frá því fyrir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hafa verið uppi hugmyndir um að efna til stjórnlagaþings, sem setti Íslandi stjórnskipunarlög. Þannig var á Alþingi sumarið 1942 rætt af miklum þunga um slíkt þing, en frá þeirri hugmynd var horfið síðar sama sumar. Árið 1949 sleit Framsóknarflokkurinn stjórnarsamstarfi á Alþingi og boðaði til kosninga. Meðal helstu kosningamála flokksins var að boðað skyldi til stjórnlagaþings en þær hugmyndir urðu ekki að veruleika. Næstu áratugi skaut hugmyndin upp kollinum af og til. Þannig hvatti Jóhanna Sigurðardóttir til boðunar stjórnlagaþings í pistli árið 1996 Hugmyndir í kjölfar falls bankanna. Í kjölfar bankahrunsins heyrðust raddir í þjóðfélaginu um að boða skyldi til stjórnlagaþings. Þannig var komið á fót vefsíðunni nyttlydveldi.is, auk þess sem ýmsir málsmetandi menn skrifuðu greinar um efnið og komu fram í fjölmiðlum. Hugmyndir Framsóknarflokksins. Á flokksþingi Framsóknarflokksins 19. janúar 2009 var samþykkt að efna skyldi til stjórnlagaþings. Í framhaldi af því gaf flokkurinn út yfirlýsingu 29. janúar 2009 þar sem greint var frá því að skilyrði þess að flokkurinn styddi minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna væri að flokkarnir tveir féllust á hugmyndir Framsóknarflokksins um að efnt yrði til stjórnlagaþings. Viðbrögð við hugmyndum Framsóknarmanna. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sögðust síðla dags 29. janúar 2009 hafa fallist á tillögur Framsóknarmanna í aðalatriðum. Lét Steingrímur J. Sigfússon þó í ljós efasemdir um fýsileika þess að kjósa til stjórnlagaþingsins þá um vorið, enda taldi hann frestinn of stuttan. Gæti slíkt tímahrak leitt af sér að þeir sem hefðu hug á að bjóða sig fram sæju sér það ekki fært. Sjálfstæðismenn tjáðu sig lítið um tillöguna en Björn Bjarnason, fráfarandi dómsmálaráðherra, lét þó hafa eftir sér á fundi Sjálfstæðismanna á Grand Hótel í Reykjavík 30. janúar að hann teldi breytingar á stjórnarskrá ekki brýnt verkefni. Stjórnlagaþingsferlið á Íslandi 2010 - 2011. Lög voru samþykkt á Alþingi um stjórnlagaþing. Helstu dagsetningar eru sem hér segir Þjóðfundur um stjórnarskrá 2010. Þjóðfundur með 1000 þátttakendum sem á að endurspegla þjóðina, verður haldinn 6. nóvember 2010, og er nánar nefndur Þjóðfundur til undirbúnings stjórnlagaþingi. Valmynd. Valmynd er í listi af skipunum í tölvunarfræði sem tölvum birtir notandanum. Segja mætti að skipanirnar séu flýtivísanir fyrir algengar skipanir til að notandinn þurfi ekki að leggja skipanir á minnið. Valmynd er hálfgerð andstæða skipanalínuviðmóts þar sem notandinn þar að skrifa inn skipanirnar. Hefðarkettirnir. "Hefðarkettirnir" (enska: "The Aristocats") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1970. Pó. Pó (latína: "Padus") er lengsta á Ítalíu. Hún á upptök sín við Monviso, rennur næst um Pósléttuna í norðurhluta landsins áður en hún rennur til sjávar í Adríahafi. Alls er Pó um 670 kílómetra löng. Nani. Luís Carlos Almeida da Cunha (fæddur 17. nóvember 1986), oftast kallaður Nani, er portúgalskur knattspyrnumaður. Hann leikur með Manchester United á Englandi. Hann kom til liðsins árið 2007 frá Sporting CP í Lissabon. Ævi. Nani fæddist í Praia á Grænhöfðaeyjum. Hann fluttist svo til Amadora á meginlandi Portúgals og varð vinur Manuel Fernandes sem er leikmaður Valencia CF á Spáni en er í láni hjá Everton á Englandi. Sporting CP. Nani Spilaði sinn fyrsta leik fyrir Sporting CP á tímabilinu 2005-2006. Hann spilaði svo 29 leiki á tímabilinu og skoraði fjögur mörk. Tímabilið 2006-2007 spilaði hann svo aftur 29 leiki en skoraði 5 mörk að þessu sinni. Manchester United. Manchester United tilkynntu kaup sín á Nani í maí 2007 og var kaupverðið talið vera um 14-17 milljónir punda. Hann fékk þann stimpil að vera hinn nýi Ronaldo, skiljanlega þar sem hann kom frá sama félagi og er með mjög svipaðan leikstíl. Vatnaíþróttir. Vatnaíþróttir eru íþróttir sem stundaðar eru í eða á vatni eða sjó. Hrafnsfjörður. Hrafnsfjörður er einn af hinum fimm Jökulfjörðum. Sagan segir að leiði Fjalla-Eyvindar sé við Hrafnsfjarðareyri í firðinum en það hefur ekki fengist staðfest. Í botni fjarðarins er hægt að ganga upp á Skorarheiði en hún er forn þjóðleið yfir á Hornstrandir. Einnig er sérkennilegur gígtappi úr stuðlabergi, yfir 100 metra hár sem heitir Gýgjarsporshamar í fjarðarbotninum. Hann er vinsæll viðkomustaður klettaklifrara en í honum eru boltar (tryggingaraugu) fyrir klettaklifur. Skorarheiði tengir fjarðarbotninn við Furufjörð en hann er í hinni vinsælu gönguleið um Hornstrandir. Grunnavík. Grunnavík er lítil vík í utanverðu fjarðarmynni Jökulfjarða. Þar er sumarábúð og rekin ferðaþjónusta að Sútarabúðum yfir sumarið. Þéttbýlt var áður í Grunnavík en síðustu ábúendur fóru þaðan árið 1962 en við það lagðist endanlega byggð af á Jökulfjörðum. Í botni Grunnavíkur er Staðardalur, grösugur og stuttur dalur sem liggur milli tveggja fjalla, Geirsfjalls og Seljafjalls. Dalurinn er umkringdur 700 metra háum hamraveggjum á báða bóga. Minnihlutastjórn. Minnihlutastjórn er ríkisstjórn í þingræðislandi sem hefur ekki öruggan þingmeirihluta á bak við sig. Yfirleitt þarf slík ríkisstjórn að hafa óbeinan stuðning þingmanna úr öðrum flokkum en að henni standa þ.e. viðkomandi þingmenn verja stjórnina vantrausti. Andstæða minnihlutastjórnar er meirihlutastjórn. Slíkar stjórnir eru taldar veikar stjórnir þ.e. eiga ekki auðvelt að koma sínum málum fram á þingi. Þær minnihlutastjórnir sem setið hafa á Íslandi hafa setið stutt og jafnvel verið undanfarar nánara samstarfs stjórnarflokks og þess flokks sem ver stjórnina vantrausti. Andstæðan við minnihlutastjórn er meirihlutastjórn þar sem stjórnmálaflokkar sem hafa til samans meiri en helming þingmanna á Alþingi koma sér saman um að mynda stjórn eða að einn flokkur nær slíkum meirihluta. Brynháfar. Brynháfar (fræðiheiti: "Placodermi") eru flokkur forsögulegra fiska sem voru uppi frá því seint á sílúrtímabilinu til loka devontímabilsins. Einkenni brynháfa voru margbrotnar brynplötur sem vörðu höfuð þeirra og frambol. Afgangurinn af skrokknum var ýmist ber eða með hreistur. Brynháfar voru með fyrstu kjálkadýrum jarðar. Kjálki þeirra þróaðist líklega út frá tálknbogum. Brynháfar eru rannsakaðir út frá steingervingum. Þeir voru ríkjandi tegund hryggdýra á devontímabilinu þegar þeir lifðu í sjó og vötnum um alla jörð. Holduggar. Holduggar eða skúfuggar (fræðiheiti: "Sarcopterygii") eru flokkur fiska með holdmikla ugga sem tengjast skrokknum með einu beini. Þessir uggar mynduðu síðan útlimi fyrstu ferfættu landdýranna, froskdýranna. Holduggar eru líka með tvo aðgreinda bakugga öfugt við hinn samtengda bakugga geislugga. Saga gervigreindar. Saga gervigreindar hófst sumarið 1956 en þá komu tíu manns saman til tveggja mánaða vinnufundar í Dartmouth í Bandaríkjunum. Tilgangur vinnufundarins var að koma saman þeim vísindamönnum sem höfðu áhuga á tauganetum og rannsóknum á greind. Fundurinn var að frumkvæði John McCarthy sem þá hafði nýlokið meistaranámi frá Princeton-háskóla og vann nú við Dartmouth College. Þessi fundur markar faglegt upphaf gervigreindar og kynnir til sögunnar þá menn sem standa í fylkingarbrjósti gervigreindar næstu 20 árin á eftir. þar kemur McCarthy fyrst fram með fagheitið „artificial intelligence“ eða gervigreind eins og það er nefnt á íslensku. Á fundinum kynntu Newell og Simon forritið Logic Theorist og sögðust hafa fundið með því forrit sem væri þess megnugt að hugsa á þann hátt sem ekki var bundinn við tölur og þar með aðskilið huga frá líkama. Stór orð en sönn ef reynt er að aðskilja tilfinningalega hugsun frá hugsun sem snýr að vinnslu upplýsinga. Forsaga. Þótt faglegur grunnur hafi verið lagður að gervigreind á þessum fundi þá á gervigreind sér lengri sögu. Árið 1943 skrifuðu Warren McCulloch og Walter Pitts fyrstu fræðilegu greinina sem eignuð er gervigreind. Þeir settu saman kenningar um virkni og uppbyggingu taugafruma í heilanum, kenningar Russells og Whiteheads um yrðingarökfræði og tölvunarkenningar Alans Turings. Niðurstaða þeirra var líkan af gervitaugafrumum sem hægt var að kveikja eða slökkva á með því að áreita nálægar frumur. Þeir sýndu fram á að niðurstöðu hvaða reiknanlegs falls formula_1 sem er, mátti ná með neti slíkra gervitaugafruma. Þeir vörpuðu því einnig fram í greininni að slík gervitauganet gætu lært. Þetta sannaði Donald Hebb sex árum síðar með því að finna upp einfalda aðferð til að uppfæra vigt tenginganna á milli eininganna (taugafrumnanna). Marvin Minsky og Dean Edmonds byggðu fyrstu gervitauganetstölvuna (SNARC) árið 1951 úr 3000 lömpum og sjálfstýringu úr B-24 sprengjuflugvél. Tölvan hafði 40 gervitauganetsfrumur eða eindir. Rekja má aðferðafræði bæði samtengingasinna (e. connectionism) og rökfræðisinna (e. logicism) innan gervigreindar til skrifa McCulloch og Pitts. Samtengingasinnar vinna með gervitauganet með það að markmiði að útskýra og hanna greind. Rökfræðisinnar leitast við að útskýra og hanna greind út frá rökfræðilegum forsendum. Fyrsta skeiðið. Framan af ríkti mikil bjartsýni í notkun gervigreindar. Newell og Simon þróuðu Logic Theorist áfram yfir í GPS (e. general problem solver), kerfi sem var hannað til þess að líkja eftir atferli manna við lausn vandamála. Herbert Gelenter hannaði GTP (e. geometry theorem prover) sem sannaði kenningar á grundvelli frumreglna líkt og Logic Theorist. Gelenter sá fljótlega að rökfræðin bauð upp á of margar mögulegar leiðir sem kanna þurfti í kerfinu og flestar enduðu án niðurstöðu. Hann hannaði því aðferðir til þess að flýta leit að niðurstöðu. Í febrúar 1956 var tölva sýnd í bandarísku sjónvarpi sem hafði lært dam. Þar hafði Arthur Samuel hjá IBM afsannað þá kenningu að tölvur gætu aðeins gert það sem þeim var sagt, því þetta forrit hans lærði dam fljótt og lék betur en höfundurinn. John McCarthy, sem þá var kominn til MIT skrifaði forritunarmálið LISP árið 1958 sem síðar varð vinsælt innan gervigreindar, sér í lagi í Bandaríkjunum. Sama ár skrifaði hann grein sem bar yfirskriftina „Programs with common cense“ og má þar sjá fyrsta fullkomna gervigreindarkerfið á pappír, sem hann nefndi „The advice taker“. Kerfið átti líkt og Logic Theorist og GTP að finna lausnir út frá þekkingu sinni en ólíkt Logic Theorist og GTP átti kerfið að geta aflað sér þekkingar sjálft og jafnframt breytt frumsendum (e. axioms) ef þurfa þótti og í eðlilegi keyrslu kerfisins. Aðgangur að tölvum var mjög takmarkaður á þessum tíma. McCarthy og félagar hans hjá MIT fundu því upp sameiginlegan keyrslutíma (e. time sharing) sem gjörbylti aðgangi að reikniafli, þetta gerist einnig 1958. Þessi hópur og þessi nýja uppfinning varð síðan kveikjan að stofnun „Digital Equipment Corporation“ eða DEC. McCarthy fór hins vegar til Stanfordháskóla og setti þar á stofn rannsóknarstofu í gervigreind þar sem lögð var áhersla á gerð og notkun almennra aðferða við rökfærslu. Fyrri gervigreindarveturinn. Væntingarnar voru miklar, líklega of miklar. Margt af því sem lagt var upp með brást þegar sýna átti árangur. Gott dæmi hvað þetta varðar voru forrit sem áttu að þýða milli tungumála og voru byggð á gervigreind, frægastur er líklega textinn úr ensk-rússnesku þýðingaforriti sem, þýddur aftur til baka á ensku, hljómaði „the vodka is good but the meat is rotten“ (vodkað er gott en kjötið þránað) sem átti að vera þýðing á „the spirit is willing but the flesh is weak“ (hugurinn er fús en holdið veikt). Vandamál af þessu tagi leiddu til þess að skipuð var nefnd á vegum Bandaríkjaþings til þess að gera úttekt á árangri af vinnu með gervigreind á þýðingum. Í kjölfarið hætti Bandaríkjastjórn að fjármagna rannsóknir á því sviði 1966. Áður en tíma-flækju kenningin (e. NP completeness theory) kom fram var almennt álitið að einungis þyrfti að auka afl örgjörva og innra minni til þess að kerfi gengju í flóknara umhverfi. Í gervigreind vann fólk með mjög takmarkað umhverfi, svonefnt örumhverfi (e. microworld) en þegar umhverfið varð flóknara var ekki nægjanlegt að bæta við minni og örgjörvaafli, það tókst ekki að sanna kenningar sem gengu í einfaldara umhverfi, sem er vitaskuld afleitt. Þetta var meginástæða þess að bresk stjórnvöld hættu 1973 að styrkja rannsóknir í gervigreind nema að litlu leyti. Marvin Minsky og Papert sögðu í bók sinni Perceptrons sem kom út 1969 að þó að tauganet gætu lært allt sem þau gátu lýst, þá gætu þau lýst afar litlu. Þetta olli því að allar rannsóknir á tauganetum lögðust af í áratug. Þeir félagar lýstu í bók sinni afar einföldum netum og áttu niðurstöður þeirra engan veginn við flóknari net, þær voru rangar að því leyti. Það er kaldhæðnislegt að sama ár og Perceptrons kom út fundu Bryson og Ho upp bakflutning villu (e. back-propagation) fyrir fjöllaga tauganet sem átti eftir að blása lífi í rannsóknir á tauganetum aftur um 1980. Endurvakning. Fyrstu sérfræðingakerfin (e. expert systems) litu dagsins ljós upp úr 1970. Það var sérfræðingakerfi Dendral frá þeim félögum í Stanford, Ed Feigenbaum, Bruce Buchanan og Joshua Lederberg sem ruddi brautina. Tilgangur þess var að finna uppbyggingu sameinda út frá upplýsingum um massa. Í kjölfarið fylgdi Mycin, sérfræðingakerfi til þess að finna blóðsýkingar. Feigenbaum og Buchanan nutu aðstoðar Edward Shortliffe við gerð kerfisins. Mycin var frábrugðið Dendral að því leiti að Mycin notaði tilbúnar reglur fengnar frá sérfræðingum í stað þess að vera grundvallað á almennum fræðilegum rökfræðireglum. Mycin notaðist einnig við loðna rökfræði (e. fuzzy logic) og gat því sagt til um líkur. Líklega er Prospector sérfræðingakerfið einna þekktast frá þessum tíma. Prospector var hannað hjá MRI til þess að finna málmgrýti og reyndist mjög gagnlegt. Árangur í tungumálaskilningi náðist ekki fyrr en vísindamenn gerðu sér grein fyrir að þekking á viðfangsefninu skiptir sköpum í gervigreind. Þegar áherslan fór af verkfærunum og aðferðafræðinni yfir á viðfangsefnið fóru hlutirnir að gerast. Eitt fyrsta sérfræðingakerfið á þessu sviði var SHRDLU en áherslan þar var á málfræðireglur sem leiddi til slæmra þýðinga, það þurfti skilning á viðfangsefninu. Málfræðingurinn Roger Schank hristi upp í vísindamönnum með því að segja að engin málfræði væri til og skrifaði fjölmörg kerfi þar sem áherslan var á málskilning fyrst og fremst. Með þetta að leiðarljósi skrifaði William Woods Lunarkerfið sem notaði venjulega ensku og var ætlað jarðfræðingum til rannsóknar á grjóti sem Appolo-geimflaugin kom með frá tunglinu. Hugmyndir Japana um fimmtu kynslóðar tölvuna 1981 varð að vítamínsprautu fyrir fagið, ekki síst vegna hræðslu annarra um japönsk yfirráð í tölvugeiranum. Þessi 10 ára áætlun Japana byggðist á því að hanna skynsaman vélbúnað byggðan á Prolog á svipaðan hátt og venjulegar tölvur byggðu á vélamáli. Blómaskeið. Á níunda áratug síðustu aldar má segja að gervigreind hafi orðið að iðnaði. Fyrirtæki sem sérhæfðu sig í gervigreind skutu upp kollinum og í flestum stærri fyrirtækjum voru reknar deildir eða hópar sem notuðu eða unnu að gerð sérfræðingakerfa. Rannsóknir á gervitauganetum sem höfðu að verulegu leyti grundvallast á eins lags perceptron-netum fyrir 1970 og höfðu lagst af eftir skrif Minskys og Paperts 1969, hófust nú aftur og má rekja upphaf endurlífgunarinnar til skrifa Rumelhart upp úr 1986. Fjöllaga gervitauganet höfðu sannað gildi sitt og nú hófst þróun sem enn sér ekki fyrir endann á. Hopfieldnet, Boltzmannvél og fleiri nýjungar litu dagsins ljós, en það var Cybenko sem setti fram sönnun um að tveggja laga gervitauganet gætu túlkað (eða áætlað) hvaða fall formula_1 sem er en eins lags gervitauganet gæti túlkað hvaða samfellt fall sem er (setning Cybenkos). Grannfræði fjöllaga gervitauganeta má að hluta rekja til rannsókna á erfðaalgrímum (e. genetic algorithms) sem heyra undir gervigreind og byggja á því að vélar læri með þróun. Grannfræði gervitauganeta er þó ekki komin lengra á veg en svo að í flestum tilfellum er byggt á reynslu og innsæi við hönnun gervitauganeta. Þó aðferðafræði LeCun um „optimal brain damage“ sé oft notuð við lágmörkun á einingum og aðferðafræði Marchand og Frean um viðbætur á einingum er það enn svo að grannfræði upphafsneta eru byggð á reynslu og innsæi. Flækjustig lærdómsferla gervitauganeta hefur verið rannsakað ítarlega. Niðurstöður Avrim Blum og Ron Rivest 1992 um leysanleika lærdómsferla gervitauganeta eru sannfærandi og sýna að þau eru „NP-fullkomin“ þ.e. þó fjöldi lægða vægisrýmisins sé veldisfall er víðvær kjörstaða vægja finnanleg. Fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrsta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð þann 1. febrúar 2009 eftir að upp úr samstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði rúmri viku áður. Stjórnin var minnihlutastjórn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og Samfylkingar; varin vantrausti af Framsóknarflokki. Í Alþingiskosningunum 25. apríl 2009 hlutu flokkarnir sem að ríkisstjórninni stóðu meirihluta þingsæta, og hófust þeir þá handa við myndun annarrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók síðan við 10. maí 2009. Þetta var fyrsta ríkisstjórnin sem Vinstri græn tóku þátt í, sú fyrsta sem Samfylkingin hafði forsæti í og sú fyrsta sem hlutföll kynjanna voru jöfn. Fyrsti mánuðurinn sem stjórnin sat við völd einkenndist af þeim áherslum sem ríkisstjórnin lagði á breytingar á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Einn þriggja Seðlabankastjóranna hætti í starfi en hinir tveir störfuðu uns ný lög um Seðlabankann voru staðfest af Forseta Íslands. Aristarkos frá Samos. Aristarkos frá Samos (um 310 f.Kr. – um 230 f.Kr.) var forngrískur stjörnufræðingur og stærðfræðingur. Hann lagði fyrstur fram sólmiðjukenninguna og hefur verið nefndur „hinn forni Kópernikus“. Wayfarer. Wayfarer er sextán feta (tæplega fimm metra) löng kæna með eitt mastur sem ber bermúdasegl og fokku. Þessir bátar eru ýmist úr viði eða glertrefjum. Hann er fremur borðhár og nægilega breiður til að þrír fullorðnir geti setið í honum. Þessi gerð var hönnuð af enska bátahönnuðinum Ian Proctor árið 1957. Wayfarer-bátar eru yfirleitt notaðir í styttri ferðir, en dæmi eru um að menn hafi farið í lengri ferðir eins og þegar Frank Dye sigldi slíkum báti frá Skotlandi til Íslands árið 1964. Hann skrifaði síðar ásamt eiginkonu sinni, Margaret Dye, bók um þessa ferð og aðra til Noregs, "Ocean Crossing Wayfarer: To Iceland and Norway in a 16ft Open Dinghy", sem kom út árið 1977. Nokkrir Wayfarer-bátar úr glertrefjum voru fluttir inn til Íslands eftir miðjan 8. áratuginn og 1978 var stofnað félag Wayfarer-eigenda á Íslandi. Ian Proctor. Ian Proctor (1918 – 1992) var enskur skútuhönnuður sem hannaði yfir hundrað gerðir kjölbáta og kæna. Hann var þekktastur fyrir kænur með létt og sveigjanleg álmöstur og stofnaði fyrirtækið Proctor Masts sem framleiddi álmöstur fyrir allar stærðir seglbáta. Sænska fyrirtækið Seldén keypti Proctor Masts árið 1997. Þekktustu kænurnar sem hann hannaði eru Wayfarer og Topper. Fellikjölur. Fellikjölur (stundum líka kallað sverð) er kjölur sem hægt er að taka upp og fella ofan í rauf og er notaður til að hindra drift. Fellikjölurinn var oftast aðeins notaður í seglbátum hér áður fyrr, s.s. jullum, en nú er farið að framleiða vélbáta sem hafa innbyggðan fellikjöl, og stundum eru bátar með tvo fellikili. Varast ber að rugla saman fellikjöl og veltikjöl. Fyrirtækið Seigla ehf á Akureyri fékk árið 2008 nýsköpunarverðlauninverðlaunin "Innovation Prize 2008" á norsku sjávarútvegssýningunni Norfishing í Þrándheimi í Noregi. Fellikjölurinn hafði verið í þróun hjá fyrirtækinu í nokkur ár og verið settur í nær alla stærri vélbáta hjá fyrirtækinu. Grünes Gewölbe. Grünes Gewölbe (íslenska: "Græna hvelfingin") er safn í Dresden, Þýskalandi, sem inniheldur stærsta safn dýrgripa í Evrópu. Safnið er hluti af Dresden-kastala. Það var Ágúst sterki Saxakonungur ("August dem Starken") setti safnið á stofn árið 1723. 470 (kæna). Heimsmeistararnir 2008, Erin Maxwell og Isabelle Kinsolving, sigla beitivind. 470 er 4,7 metra löng tvímenningskæna með bermúdasegl, fokku og belgsegl. Hún var hönnuð af franska skútuhönnuðinum André Cornu árið 1963. 470 varð alþjóðleg keppnisgerð 1969 og hefur verið Ólympíubátur frá því á leikunum 1976. Upphaflega var keppt í opnum flokki (karlar og konur saman) en frá 1988 hefur verið keppt í karla- og kvennaflokki. Íslendingar kepptu í þessum flokki á Ólympíuleikunum 1984 (Gunnlaugur Jónasson og Jón Pétursson) og Ólympíuleikunum 1988 (Gunnlaugur Jónasson og Ísleifur Friðriksson) þar sem þeir lentu í 23. og 22. sæti. Vök. Vök kallast op í ís, m.ö.o. op sem nær niður í vatn og er umlukið ís (ferskvatnsís) eða hafís. Vakir myndast líka í ám. Vök hefur einnig verið notað um það þegar "reif til í hálofti", þ.e. þegar skein í heiðan himin í skýjabreiðu. Þá var sagt að "vök væri í lofti". Smáþjóðaleikarnir. Smáþjóðaleikarnir eru alþjóðlegt íþróttamót þar sem þátttökulönd eru minnstu ríki Evrópu. Ólympíunefndir ríkjanna skipuleggja leikana. Leikarnir eru haldnir á tveggja ára fresti. Þeir fyrstu voru settir í San Marínó 1985. Þátttökulönd. Þátttaka miðast við ríki með minna en milljón íbúa. Núverandi þátttökulönd eru Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Keppnisgreinar. Á leikunum 2007 var keppt í karla- og kvennaflokki í tólf greinum Cornel West. Cornel West í Utah-háskóla 2008. Cornel Ronald West (fæddur 2. júní 1953) er bandarískur fræðimaður og samfélagsgagnrýnandi og prófessor við Princeton-háskóla. West er einkum þekktur fyrir stjórnmálarýni og siðferðisgagnrýni og fyrir að vera baráttumaður fyrir borgaralegum réttindum. Skrif hans fjalla flest um þátt kynþáttar kyns og efnahags í bandarísku samfélagi. Ritstýrð verk. West, Cornel Weegee. Weegee, réttu nafni Usher Fellig, (12. júní 1899 – 26. desember 1968) var ljósmyndari frá Zlothev í Austurríki þar sem nú heitir Úkraína. Hann var sonur gyðingahjóna sem fluttust með fjölskyldu sína til New York árið 1909 og settust að í innflytjendagettói á Manhattan, Lower East Side, en Weegee var þá tíu ára. Þar fékk hann nafnið Arthur Fellig. Weegee er þekktur fyrir myndir sínar af myrkrahliðum New York-borgar svo sem af slysum, morðum, ránum, slagsmálum, eldsvoðum, skemmdarverkum, myndum af óvenjulegu fólki, dvergum, klæðskiptingum, drykkjusjúklingum og fötluðum sem og fyrir myndir sínar af frægu fólki, leikurum og stjórnmálamönnum, en hann mun vera fyrsti paparazzinn sem sögur fara af. Menntun og störf. Weegee var sjálfmenntaður í ljósmyndun. Á ferli sínum starfaði hann fyrir fréttablöð á borð við PM Daily, New York Tribune, New York Post, World-Telegram, Daily News, Journal-American og New York Sun og tímarit á borð við "Life", "Look" og "Vouge". Hann starfaði fyrst í ljósmyndastúdíói sem fékkst við vegabréfamyndatökur en hóf síðan störf hjá Acme Newspictures Services sem aðstoðarmaður við framköllun. Hann var þá stundum sendur út til að taka myndir, einkum að næturlagi. Hann keypti sér eigin myndavél árið 1930 sem varð hans aðalverkfæri upp frá því. Vélin var af gerðinni Speed Graphic 4x5 með leifturljósi en þannig vélar eru samtvinnaðar amerískri fréttaljósmyndun á árunum 1930-1940. Árið 1936 hóf hann að starfa sem fréttaljósmyndari og næstu tíu árin þar á eftir vann hann í nánum tengslum við lögregluna í New York, fyrst með því að mæta í aðalstöðvar lögreglunnar á Manhattan en þangað bárust fyrstu fréttir af slysum, glæpum og öðrum hörmungum á nokkurs konar fréttarita. Þar fær hann viðurnefnið „Weegee“ sem er dregið af hugtakinu „Ouija borð“ sem er afbrigði af andaglasi en talið er að nafnið hafi hann fengið vegna undarlegs hæfileika síns til að þefa uppi fréttnæmt myndefni. Sumir vilja þó meina að nafnið sé tilkomið vegna þess að hann starfaði sem „gúmmísköfudrengur“ („squeegee boy“) hjá New York Times um 1920 en það starf var liður í framköllunarvinnsluferli og fólst í því að skafa bleytuna af ljósmyndum með gúmmísköfu þegar þær komu upp úr framköllunarvökvunum. Listamaðurinn. Í myndum hans speglast einstakt næmi fyrir tilfinningum fyrirmyndanna. Frétta og heimildaljósmyndun gefur sig út fyrir að vera (og fólk lítur oft þannig á) hlutlaus. Þannig er ljósmyndarinn óhlutdrægur athugandi sem skrásetur atburði. Þó er það svo að margir ljósmyndarar sýna sterka íhlutun í og taka afstöðu til málefna með myndgerð sinni. Nefna má samtíðarfólk Weegees svo sem Dorotheu Lange og Lewis Hine, en þau störfuðu meðal annars fyrir FSA (Farm Security Administration, 1935), sem með myndum sínum reyndu að hafa samfélagsleg áhrif. Sömuleiðis máLife nefna Robert Capa og Eugene Smith. Líkt og hjá Weegee eru myndir þessa fólks mótaðar af persónulegu viðhorfi. Þær segja talsvert um ljósmyndarann sjálfan. Þau segja söguna með sínu nefi. Einhvern tíma myndaði Weegee stórbruna í New York. Aðrir ljósmyndarar sem mynduðu sama atburð mynduðu húsbrunann sjálfan, en Weegee sneri sér við og myndaði örvæntingarfull andlit íbúanna sem höfðu sumir misst ættingja sína í brunanum. Svipuð vinnubrögð má sjá í áhrifaríkri mynd hans „Their first murder“ (1941) en þar snýr hann vélinni að áhorfendum sem virða fyrir sér lík manns sem hefur verið myrtur og frystir viðbrögð þeirra. Útkoman er óvænt og sláandi. Weegee hefur verið kallaður heimildaljósmyndari stórborgarinnar og vann sér orðspor sem helsti glæpaljósmyndari New York. Hann starfaði svo til alltaf sjálfstætt. Árið 1938 varð hann fyrstur fréttaljósmyndara til að fá leyfi til að hlera samtöl lögreglunnar í gegnum talstöðvarkerfi og útbjó bíl sinn, sem var athvarf hans á næturnar, með móttökugræjum fyrir tíðni lögreglunnar og slökkviliðsins. Þannig var honum auðið að fylgjast með því sem var í gangi. Glæpir voru aðalsmerki hans. Dauði. Weegee lést í New York 26. desember árið 1968. Heimildum virðist ekki bera saman um banamein hans. Sumsstaðar er talað um sykursýki, annarsstaðar um heilaæxli. Weegee hefur haft áhrif á marga ljósmyndara og má meðal annars nefna fólk á borð við Diane Arbus, Lee Friedlander, Larry Clark, Gary Winogrand, Les Krims og Eugene Richards. Fireball. Fireball eða Eldhnöttur er um fimm metra löng grunnrist tvímenningskæna með eina trapisu, belgsegl og kantaðan skrokk. Hún var hönnuð af Peter Milne árið 1962. Skrokkurinn er ýmist úr krossviði, trefjaplasti eða samsettur en má mest vera 80 kíló að þyngd. Á Íslandi voru nokkrir bátar af þessari gerð smíðaðir á 8. áratugnum, þeir fyrstu af félagsmönnum í Ými í Kópavogi 1972. Keppt var í flokknum til 1980. Michel Desjoyeaux. "Foncia" sem Desjoyeaux sigldi til sigurs í Vendée Globe 2008-09. Michel Desjoyeaux (f. 16. júlí 1965) er franskur siglingamaður sem hefur unnið fjölda úthafssiglingakeppna, þar á meðal eina erfiðustu keppni heims, Vendée Globe, tvisvar. Bakteríuþyrping. Bakteríuþyrping (eða kólonía) er sambýli bakteríu- eða fyrnufrumna sem vex á eða í föstu ræktunaræti á borð við agarhlaup. Oftast er hver kólonía ræktuð upp af einni stakri frumu og eru því allar frumur kóloníunnar hreinræktuð klón. Einföld og örugg aðferð til hreinræktunar bakteríustofns er því að stinga í staka kóloníu með dauðhreinni nál eða sáningarlykkju og strika henni út á ferskt, dauðhreint næringaræti. Ræktun örvera. a> filma) til þéttingar. Til hægri eru vökvaræktir í ræktunarglösum. Hér hefur verið sáð í glösin með pípetteringu og pípettuoddarnir látnir falla í ræktunarætið. Ræktun örvera er grunnaðgerð í örverufræði sem miðar að því að halda lífi í örverum og láta þær fjölga sér utan sinna náttúrlegu heimkynna, oftast á rannsóknastofunni. Notagildi. Það, að geta ræktað örverur við stýrðar aðstæður á rannsóknastofu er frumskilyrði ýmissa grunnrannsókna á lífefna- og lífeðlisfræði þeirra, svo og fyrir hagnýtingu þeirra í líftækni. Meðal dæma um notagildi örverurækta má nefna eftirfarandi. Aðferðir. Mikill fjöldi aðferða til ræktunar örvera hefur litið dagsins ljós frá því skipulegar ræktunartilraunir hófust um miðja 19. öld. Robert Koch og samstarfsfólk hans lagði grunninn að mörgum þeirra aðferða sem eru notaðar. Almennt má segja að við ræktun örvera sé ýmist reynt að líkja eftir umhverfisaðstæðum í náttúrlegum heimkynnum örveranna eða að besta ræktunaraðstæður með tilliti til kjörvaxtarskilyrða þeirra. Æti. Til að unnt sé að rækta örverur þurfa þær að geta vaxið í eða á ræktunaræti. Örveruætum má gróflega skipta í annars vegar "næringaræti" („komplex-æti“) og hins vegar "skilgreind æti" („synþetísk æti“). Næringaræti innihalda flókin eða óskilgreind efni eins og blóð, kjötseyði eða peptón (vatnsrofin prótín), en skilgreind æti innihalda eingöngu þekkt efni, hvert um sig í þekktu magni. Skilgreind æti eru gjarnan hönnuð þannig að þau uppfylli aðeins lágmarks næringarþarfir örverunnar sem rækta á ("lágmarksæti"). Æti má einnig flokka eftir því hvort þau eru föst, hálfföst eða fljótandi. Algengast er að föstum og hálfföstum ætum sé hleypt með agar og er hlaupið steypt í Petriskálar eða ræktunarglös. Sáning. Til að rækta örvur á rannsóknastofu er þeim sáð á eða í viðeigandi æti. Vanda þarf til sáningarinnar svo að forðast megi að menga ætið með bakteríum úr öðrum sýnum, andrúmslofti, öðru umhverfi og rannsóknamanninum sjálfum. Öll áhöld og ætið sjálft eru því dauðhreinsuð fyrir notkun, til dæmis með suðu í þrýstisjóðara eða í gasloga. Ef einangra á stakar bakteríutegundir úr sýninu er oftast nauðsynlegt að raðþynna sýnið í dauðhreinum þynningarvökva (t.d. sýrustillt saltlausn) svo að stakar, skýrt aðgreindar kóloníur myndist. Skömmtum úr þynningarlausninni er svo sáð með einhverri af etftirtöldum aðferðum. Einangrun og hreinrækt. Sagt er að örverur vaxi í hreinrækt ef engar aðrar lífverur eru til staðar í ræktunarætinu. Mikilvægt er að örvera sé í hreinrækt ef lýsa á einkennisþáttur hennar með óyggjandi hætti, en margar örverur eru háðar samlífi og vaxa því ekki í hreinrækt. Heimildir/Ítarefni. Kennslubækur í almennum örverufræðum innihalda jafnan ítarlega umfjöllun um ræktun örvera. Meðal algengra bóka sem stuðst er við í inngangsáföngum í örverufræðum í háskólum má nefna eftirfarandi. Aurelianus. Lucius Domitius Aurelianus (fæddur u.þ.b. 215, dáinn 275) var keisari Rómaveldis á árunum 270 – 275. Aurelianus var fæddur í Sirmium í skattlandinu Pannoniu (í núverandi Serbíu) inn í lítið þekkta fjölskyldu. Aurelianus vann sig upp metorðastigann í rómverska hernum og varð að lokum yfirmaður riddaraliðsins ("dux equitum"), í stjórnartíð Gallienusar keisara. Árið 270 var Aurelianus hylltur sem keisari af herdeildum í Sirmium. Claudius 2. keisari hafði þá nýlega dáið og hafði öldungaráðið þá lýst bróður hans, Quintillus, keisara. Herdeildirnar við norðurlandamæri ríkisins við Dóná vildu hinsvegar ekki styðja Quintillus og studdu því Aurelianus. Eftir að hafa sigrað hersveitir Quintillusar fékk Aurelianus einnig stuðning öldungaráðsins. Aurelianus hafði ekki verið við völd lengi þegar hann þurfti að verjast árásum germanskra þjóðflokka, því árið 270 réðist Juthungi þjóðflokkurinn tvisvar inn í Norður-Ítalíu og Vandalar einu sinni. Aurelianus sigraði þessa innrásarheri í nokkrum bardögum og hrakti þá á brott. Árið 271 gerðu myntsláttu-verkamenn uppreisn í Róm og í kjölfarið létu nokkur þúsund manns lífið á götum borgarinnar. Aurelianus kvað niður uppreisnina sem endaði eftir bardaga við herinn á Caelius-hæð. Áður en Aurelianus yfirgaf Rómarborg lét hann hefja byggingu mikils varnarmúrs í kringum borgina, Aurelianusarmúrsins. Bygging múrsins var viðbragð við hinni auknu ógn sem stafaði af innrásum Germana, en lítið var um varnir í Róm þar sem borginni hafði ekki verið ógnað af utanaðkomandi herjum í nokkur hundruð ár. Þegar Aurelianus varð keisari höfðu tvö stór svæði klofið sig frá Rómaveldi, annars vegar Gallíska keisaradæmið í vesturhlutanum og hinsvegar Palmýríska keisaradæmið í austurhlutanum. Bæði þessi svæði höfðu klofið sig frá Rómaveldi á árinu 260, á valdatíma Gallienusar. Aurelianus náði að leggja bæði þessi svæði aftur undir stjórn rómarkeisara, Palmýríska keisaradæmið árið 273 og Gallíska keisaradæmið árið 274. Aurelianus lét rómverskar herdeildir hins vegar yfirgefa Daciu sem hafði tilheyrt Rómaveldi frá því að Trajanus keisari hafði lagt svæðið undir sig árið 106. Dacia var eina landsvæðið, sem tilheyrði Rómaveldi, sem var norðan Dónár og því taldi Aurelianus að of erfitt og kostnaðarsamt yrði að verja svæðið gegn árásum germanskra þjóðflokka. Eftir þetta markaði Dóná norðurlandamæri Rómaveldis í Austur-Evrópu. Aurelianus var myrtur, árið 275, af undirmanni sínum þegar hann var á leiðinni í hernaðarleiðangur gegn Sassanídum. Þessi undirmaður er sagður hafa séð skjal þar sem stóð að hann og fleiri ættu að vera teknir af lífi, en skjalið hafði hins vegar verið falsað af öðrum aðstoðarmanni Aurelianusar. Trefjaplast. Trefjaplast er samsett efni úr plastefni (fjölliður) sem er styrkt með trefjum. Trefjarnar eru yfirleitt glertrefjar, aramíð eða koltrefjar og fjölliðurnar eru yfirleitt epoxý, vínýlesterar eða hitafast plast. Trefjaplast er algengt byggingarefni í flugvélum, bifreiðum og bátum. Skilyrði Kochs. Skilyrði Kochs (kallast einnig lögmál Kochs, skilyrði Kochs og Henles eða skilyrði Kochs og Loefflers) eru fjögur (upphaflega þrjú) skilyrði sem uppfylla þarf svo hægt sé að fullyrða án nokkurs vafa að orsakasamband sé milli tiltekinnar örveru og tiltekins sjúkdóms. Skilyrðin eiga rót sína í einu höfuðverka Jakobs Henle, en voru þróuð af Robert Koch og fyrst sett fram á prenti af aðstoðarmanni hans, Friedrich Loeffler árið 1883. Koch og samstarfsmenn hann beittu skilyrðunum til að styðja tilgátur sínar um orsakavalda miltisbrands og berkla, en þau hafa síðan verið mikið notuð í klínískri örverufræði. Djúprista. Djúprista skips er dýpt frá vatnslínu að kili. Djúpristan er þannig minnsta dýpt sem skip getur siglt í án þess taka niðri. "Djúpristumerki" á stefni skips sýna hversu djúpt það ristir. Út frá þeim er hægt að finna út þyngd farms með því að reikna út hversu miklu skipið ryður frá sér. Hleðslumerki á skrokknum sýna hversu djúpt skipið má rista án þess að eiga á hættu að sökkva vegna ofhleðslu. Fríborð. Mælieiningar skips. Fríborð er táknað með f. Fríborð er sá hluti skipsskrokks sem nær frá vatnsborði að brún efra þilfars sem er lægsti punktur þar sem sjór getur flotið inn í skipið. Á stærri skipum er fríborðið mælt frá hleðslumerki sem markar mestu öruggu djúpristu. Keppnisbátar eru með lágt fríborð til að spara yfirbyggingu og þyngd og auka þannig hraða. Hærra fríborð gefur betri vörn gegn öldugangi og meira rými innanborðs. Vatnslína. Vatnslína skips mælir lengd skipsins við vatnsborðið. Hún tekur þannig ekki tillit til atriða á skipsskrokknum sem eru neðan eða ofan vatnsborðs. Flestir bátar eru með slútandi stefni og skut þannig að mesta lengd skipsins getur verið nokkuð meiri en vatnslína þess. Vatnslína skips er mikilvæg mælieining til að reikna út aðra hluti, svo sem hversu miklu það ryður frá sér, skrokkhraða, flatarmál botnmálningar o.s.frv. Lóðlínulengd. Lóðlínulengd skips er lengd skipsskrokksins frá stýrisás (aftari lóðlínu) að lóðréttum skurðpunkti stefnis (fremri lóðlínu). Þessi mælieining er stundum notuð til að reikna út hleðslurými skips þar sem hún útilokar rými í stefni og skut sem oft er illa nothæft sem hleðslurými. Skrokkhraði. Skrokkhraði skips er þumalputtaregla sem gefur vísbendingu um hámarkshraða þess að jafnaði út frá því hversu mikið skipsskrokkurinn ryður frá sér miðað við hefðbundna hönnun sem ekki fleytir (planar) eða klýfur ölduna mjög vel. Skrokkhraði vísar til þess að þegar skipið nær tilteknum hraða verður vatnsmótstaðan svo mikil að það kemst ekki hraðar. Formúlan fyrir skrokkhraða virkar þegar um er að ræða mjög hefðbundna skipsskrokka en ef hönnun skrokksins er breytt geta skip auðveldlega náð upp fyrir þennan hraða án þess að plana. Í nútímaskipahönnun er því Froude-tala yfirleitt notuð fremur en skrokkhraði til að gefa vísbendingu um hámarkshraða. formula_1 þar sem formula_2 er vatnslína skipsins í metrum og formula_3 er hraði. Kjölur (skip). Seglskúta með kjölinn niður úr skrokknum. Kjölur skips er neðsti hluti skrokksins, sem teygir sig stafna á milli og myndar þannig „hryggjarsúlu“ skipsins. Kjölurinn gefur skipinu „kjölfestu“, þ.e. eykur stöðugleika þess og kemur í veg fyrir að það rási til hliðanna. Þegar hefðbundin tréskip eru smíðuð er kjöltréð fyrsti hlutinn sem lagður er í mótið og hinir hlutar skipsins smíðaðir utanum það. Talað er um að "leggja kjöl að skipi" og markar sú athöfn oft formlegt upphaf skipasmíðinnar. Ýmis konar hjátrú er tengd kjöltrjám. Djúpristur kjölur á nútímaseglskútum er hins vegar eins og uggi sem kemur niður úr skipinu og hefur þann tilgang að breyta hliðarátaki vinds í seglin í framhreyfingu. Annar tilgangur kjalarins er að verka sem ballest á móti hliðarátaki vindsins og koma í veg fyrir að báturinn fari á hliðina. Sumir farkostir, t.d. flatbytnur og svifnökkvar hafa ekki kjöl geta því siglt á grynnra vatni en kjölskip á kostanð kjölfestu. Dýpt. Dýpt kallast lóðrétt fjarlægð mæld frá yfirborði vökva eða jarðar, en einnig er talað um dýpt íláts eða keralds, sem gefur hugmynd um rúmtak þess. Öldudragi. Perustefni minnkar öldudraga með því að hafa áhrif á bógölduna. Öldudragi er dragi (vatnsmótstaða) sem hefur áhrif á hluti sem ferðast um yfirborð vatns, svo sem báta og sundmenn. Öldudragi er sú orka sem þarf til að ryðja vatninu úr vegi og mynda bógöldu og kjölfar. Fyrir sundmenn og skip með hefðbundnu lagi er öldudragi aðalmótstaðan sem þau mæta. Þegar ákveðnu hlutfalli milli hraða og lengdar er náð verður orkan sem þarf til að ryðja vatninu frá of dýr og viðkomandi nær ekki hraðar nema með stórauknum krafti. Skrokkhraði og Froude-tala eru notuð til að meta þennan hámarkshraða skipa. Hægt er að minnka öldudraga með ýmsu móti. Sundmenn reyna gjarnan að synda eins lengi og þeir geta í kafi, en um það gilda sérstakar reglur þegar keppt er í sundi. Skipsskrokkar eru hannaðir með hvössu stefni til að kljúfa ölduna. Með því er tilfærslunni dreift eftir endilöngu stefninu og draginn minnkar. Flest nútímaskip eru með perustefni sem býr til fremri öldu sem eyðir bógöldunni. Löng og mjó skip hafa minni mótstöðu en stutt og breið. Eins eru litlir bátar og hraðbátar hannaðir til þess að lyfta sér upp á bógölduna og fleyta eða plana á yfirborði vatnsins fremur en ryðja því frá sér þegar tilteknum hraða er náð. Bógalda. Bógalda er alda sem myndast við bóg skips á ferð í vatni. Þegar bógaldan dreifist út til hliðanna myndar hún kjölfar. Stór bógalda hægir ferð skipsins og getur auk þess skapað hættu fyrir minni báta og skemmt mannvirki í höfnum. Þess vegna eru skip yfirleitt hönnuð þannig að þau skapi sem minnsta bógöldu. Stærð bógöldu ræðst af ferð skips, djúpristu, yfirborðsöldum, dýpt vatns og lögun stefnis. Skip með mikla djúpristu og flatt stefni býr til stóra bógöldu meðan skip með hvasst stefni eða bátar sem fleyta á yfirborði vatnsins skapa minni bógöldu. Bógöldur eru rannsakaðar með straumfræðiútreikningum. Bógaldan flytur hreyfiorku frá skipinu og hægir því á því. Skipahönnun fæst því meðal annars við að minnka bógölduna og bæta þannig orkunýtingu. Flest stærri nútímaskip eru búin perustefni til að eyða bógöldunni. Kjölfar. Kjölfar er kvika eða iða sem verður til þegar lofttegund eða vökvi streymir umhverfis hlut. Kjölfarið verður til úr því efni sem hluturinn ryður frá sér. Í vatni verður til greinilegt kjölfar þegar farartæki sem bátur ferðast eftir yfirborði þess og nefnist það þá einnig varsími og stundum einfaldlega slóð. Fremst verður til bógalda sem dreifist síðan út til hliðanna og eyðist út. Orðsifjar og -notkun. Hugtakið „kjölfar“ er dregið af því að þetta er það „far“ sem fylgir skipskili í vatni og er það oft notað í orðasambandinu "í kjölfar" eða "í kjölfarið" sem gefur til kynna orsakasamhengi, sagnliðurinn "fylgja í kjölfar" eða "fylgja í kjölfarið" merkir að eitthvað leiði af eða er afleiðing einhvers og að "sigla í sama kjölfar og einhverjir" merkir að feta í fótspor þeirra eða þræða sömu leið og þeir. Það að "fara í kjölfar einhvers" merkir að fylgja viðkomandi. Verknaðarsögn. Verknaðarsögn er sögn sem segir frá verknaði en ekki breytingu á ástandi eða hreyfingu. Hraunfossar. Hraunfossar við Hvítá í Borgarfirði. Hraunfossar – (einnig nefndir Girðingar) – er samheiti á ótal tærum, fossandi lindum sem koma undan Hallmundarhrauni, sem á þessum stað er nefnt Gráhraun, og renna í Hvítá í Borgarfirði. Skammt frá Hraunfossum er bærinn Gilsbakki í Hvítársíðu, ferðamannastaðurinn Húsafell er þar í grennd og ekki er langt til Reykholts. Úrkoma sem fellur á hraunið og jarðvatn sem síast frá umhverfinu, rennur á milli hraunlaga og kemur fram við hraunjaðarinn og myndar Hraunfossa. Vatnið kemur fram undan hraunjaðrinum á um 1 km löngum kafla. Falla þar fram í Hvítá ótal bunur og fossar, um kletta og skógarkjarr, allan ársins hring. Rennslið frá lindunum er um 5 m³/s (rúmmetrar á sekúndu) og vatnshitinn um 3,5°C. Barnafoss er gljúfri í Hvítár ofan við Hraunfossa. Staðurinn er þekktur fyrir steinboga (brýr) sem áin hefur markað í bergið með ógnarkrafti sínum. Meðalrennsli árinnar er að jafnaði 80 m³/s en hefur í flóðum mælst allt að 500 m³/s. Þá flæðir áin upp úr þrengingunum og yfir nærliggjandi svæði eins og umhverfið ber með sér. Svæðið var friðlýst árið 1987. Harzfjöll. Harzfjöll er nyrsti fjallgarður Þýskalands. Þau liggja í Neðra-Saxlandi, Saxlandi-Anhalt og Þýringalandi. Fjöllin hétu upphaflega Hart, en það merkir "Fjallaskógur". Landafræði. Harzfjöll ná yfir rúmlega 2.200 km² landsvæði sem er um 110 km að lengd frá bænum Eisleben í suðaustri til Seesen í norðvestri, og um 30 til 40 km á breidd. Hæsti tindur Harzfjalla er Brocken, 1.141 m.y.s. Brocken er kunnur safnstaður fyrir nornir á Walpurgisnóttu fyrr á öldum. Harzfjöllum er gjarnan skipt í Efri- og Neðri-Harzfjöll ("Oberharz" og "Unterharz"). Efri-Harzfjöll einkennast af furu- og greniskógum, en í Neðri-Harzfjöllum eru blandaðir skógar og ræktarlönd. Saga. Harzfjöll byggðust fyrst fyrir um 1.000 árum, en fram að þeim tíma voru þau óaðgengileg sakir þéttvaxinna skóga. Ruðningu markarinnar sér enn stað í staðarnöfnum á svæðinu, en mörg þeirra bera viðskeytið "-rode", sem útleggja má sem "rutt rjóður". Škoda 105/120/125. 125-línunni á bílasamkomu í Bretlandi 2006. Skoda 105 er bifreið framleidd af Škoda frá 1976 til 1989. Hann var annar Skoda bíllinn með vélina aftur í. Þeir voru mjög algengir á Íslandi á 9. áratugnum. Nú eru mjög fáir eftir. Steypiflugvél. Steypiflugvél er sprengjuhlaðin orustuflugvél sem steypir sér beint niður að marki sínu úr mikilli hæð. Steypiflugið er til að hitta nákvæmar en ella og takmarkar um leið getu óvinavéla til hæfingar. Eftir að hafa sleppt sprengjunum hækkar hún síðan flugið. Vélar þessar voru nær eingöngu notaðar í seinni heimstyrjöldinni en tíðkuðust lítið eftir það. Finnagaldur. Orðið finnagaldur vísar til þeirra galdra sem Finnar voru þekktir fyrir í fornöld, sbr. hina íslensku sögn að "finnvitka" sem þýðir að fremja galdra á Lappavísu og þjóðtrúin íslenska á finnabrækur svo eitthvað sé nefnt. Áður var orðið oft nefnt í sömu andrá og moggalygi og rússagrýla, því sósíalistar tóku að tala um að moggamenn hefðu komið af stað finnagaldri. Orðið fékk því nýja merkingu um leið og það hafði verið notað um „samvinnuleysi“ Finna við Rússa, þar sem það var haft í deilunni sjálfri um það moldviðri sem af þessu spratt, og ádeilu Morgunblaðsins á alla sósíalista. Orðið finnagaldur er enn notað en hefur fengið aðra merkingu og um leið er hún nokkuð á reiki. Oftast er orðið samt haft um einhverskonar deilur og uppþot þar sem menn tvístrast í afstöðu sinni. Eða þar sem upp þyrlast moldviðri skoðana, þar sem öðrum finnst hinn aðilinn hafa miklu verri málstað að verja. Hannes Sigurbjörn Jónsson. Hannes Sigurbjörn Jónsson (f. 25. apríl 1975) er formaður KKÍ Hannes hóf afskipti af körfuknattleik 1989 þegar hann tók sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks og hann ásamt þeirri stjórn hóf að efla körfuboltan í Kópavogi þrátt fyrir að körfuboltadeildin væri þá 20 ára gömul hafði lítið starf verið í körfuboltanum í Kópavogi. Á árunum 1989-1995 efldist starfið innan Breiðabliks og á nokkrum árum varð Körfuknattleiksdeild Breiðabliks ein af stærstu körfuknattleiksdeildum landsins. Hannes starfaði í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar til ársins 1999 þar af sem formaður frá 1997. Hannes hefur setið í aðalstjórn Breiðabliks og ýmsum nefndum á vegum félagsins. Einnig hefur Hannes setið í stjórn UMSK. Árið 1999 tók Hannes sæti í stjórn KKÍ, 2001 tók hann við varaformennsku sambandsins og frá 2006 hefur hann verið formaður.Hannes tók sæti í fjárhagsnefnd FIBA Europe árið 2010. Í Alþingiskosningum 2013 sat hann í 14. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Björn Friðriksson. Björn Friðriksson (6. maí 1878 – 3. nóvember 1946) var kvæðamaður og hagyrðingur og einn helsti stofnandi Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem stofnað var árið 1929. Björn fæddist að Þorgrímsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Friðrik Gunnarsson hreppstjóri frá Mýrum í Miðfirði og Sigurlaug Gunnlaugsdóttir frá Óspaksstöðum í Hrútafirði. Björn var einn af sex börnum þeirra hjóna er komust á legg. Björn flutti að heiman þegar hann var 22 ára og stundaði lausamennsku við fiskveiðar og landbúnað. Björn giftist í maí 1903 Ingigerði Árdísi Björnsdóttur frá Vatnsenda í Vesturhópi. Þau hjón bjuggu í Húnavatnssýslu í yfir 20 ár. Hann byggði sér býli sem hann kallaði Engibrekku og bjó þar í sjö ár. Ekki var mikið um menntun að ræða þegar Björn ólst upp nema það sem nauðsynlegt var fyrir ferminguna. En Björn var vel gefinn og tókst af sjálfsdáðum að afla sér nokkurrar menntunar. Hann las mikið og skrifaði og var fjölfróður maður. Hann tók virkan þátt í félagsstörfum eins og sóknarnefnd, sveitastjórn og fleiru. Árið 1924 tók Björn sig upp með fjölskylduna og flutti til Reykjavíkur. Þar vann hann hjá Mjólkurfélaginu og Hafnargerð Reykjavíkur. Björn Friðriksson var einn af sterkustu frumkvöðlum þess að Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað. Það var stofnað árið 1929.Tilurð þess var að Björn var staddur með fjöldkyldu sinni á Þingvöllum og fengu þau þessa hugmynd að stofun félagsins. Tilgangur þess var að að stofna með sér félagsskap til varðveislu og verndar þeirrar listar, sem íslenskar rímnastemmur og stökur eru grundvallaðar á. Björn var ritari í fyrstu stjórn þess og formaður frá 1943 til 1946. Meðal Iðunnarfélaga voru systur Björns þær Ingibjörg, Sigríður og Þuríður. Björn þótt einstakur kvæðamaður og góður hagyrðingur þó að fátt hafi komið út eftir hann á prenti. Björn lést í Reykjavík 3. nóvember árið 1946. Sigla. Mynd tekin upp eftir mastri með seglum. Sigla er mastur sem ber uppi segl á seglskipum. Dragreipi. Dragreip(i) (falur, ráseil, bras eða upphal) er reipi sem notað er til að draga upp segl, fána eða rá. Á seglskipum er dragreipið yfirleitt skorðað í blökk til að ná meira átaki. Á sumum bátum er seglið dregið upp með tveimur dragreipum sem leika á hjólum (blökkum) í mastrinu, svo kölluðu hærra og lægra hjól. Til forna var "húnbora" gat á siglutoppi sem dragreip gekk í gegnum. Þeir menn sem sáu um dragreipið á bátum á öldum áður nefndust dragreipismenn. Dragreipismaður réð hversu hratt var siglt; hækkaði hann og lækkaði seglið eftir því hve mikið báturinn þoldi. Og þegar segltökumenn hryggjuðu inn seglið voru það oft dragreipismaðurinn sem sagði til um sjó og vind. Stundum var dragreipismanni fyrirskipað þannig: "Láttu krikta í nafni drottins" - en þá átti að gefa dragreipið eftir í hendi og lækka seglið. Varðtunna. Varðtunna (einnig masturskarfa, mers, húnkastali, siglukarfa eða útsýnistunna) er pallur á efri hluta stórsiglu skips eða öðru mastri þar sem maður stendur til að sjá vítt yfir og koma auga á eitt eða annað. Varðtunnan var til dæmis mönnuð til að koma auga á hættur framundan (sker eða önnur skip), til að sjá til lands og á hvalveiðiskipum til að koma auga á hval. Þeir sem hafðir voru í varðtunnu voru stundum nefndir "varðgæslumenn". Upphaflega var varðtunnan tunnulaga karfa sem bundin var við mastrið. Þar sem tunnan er lengst frá massamiðju skipsins fann sá sem þar stóð mest allra fyrir veltingi sem gat leitt til alvarlegrar sjóveiki, jafnvel hjá vönum sjómanni. Vegna þessa var litið á það sem refsingu að vera sendur í varðtunnuna. Bómustrekkjari. Bómustrekkjari eða kikker á seglskipum er band eða bulla sem er fest neðan á bómuna framanverða til að strekkja hana niður að framan sem breytir lagi seglsins. Venjulega liggur bómustrekkjarinn frá neðsta hluta mastursins skáhallt upp að bómunni. Venjulega þarf blakkir á línuna vegna þess hve mikið afl þarf til að strekkja á bómunni þegar seglin eru uppi. Á stærri skipum er bómustrekkjarinn yfirleitt einhvers konar bulla með dælu. Bómustrekkjarinn er eitt af þremur tækjum til að stjórna snúningi á stórsegli seglskútu. Hin tvö eru stórskautið og stórskautssleðinn. Hallmundarhraun. Hallmundarhraun er helluhraun sem talið er hafa myndast skömmu eftir landnám Íslands, einhvern tímann á 10. öld. Það er kennt við Hallmund þann sem Grettis saga segir að ætti sér bústað á þessum slóðum. Gígarnir sem hraunið rann frá eru upp undir Langjökli. Svo er að sjá sem hraunið hafi flætt úr tveimur aðalgígum. Annar gígurinn er í Jökulkróki austur af Eiríksjökli. Hinn er 6 km norðar, undir Jökulstöllum. Nýverið er farið að kalla hann Hallmund eða Hallmundargíg. Líklegt er að gosið hafi verið langvinnt og staðið í nokkur ár. Ekki er talið að mikil gjóska hafi myndast í gosinu en kvikustrókar og gosgufur hafa vafalítið stigið upp af eldvörpunum vikum og mánuðum saman. Breiðast er hraunið um 7 km og heildarlengd þess er 52 km. Í Hallmundarhrauni eru margir hellar, þeirra þekktastir eru Víðgelmir, Stefánshellir og Surtshellir. Við hraunjaðarinn eru náttúruperlurnar Hraunfossar og Barnafoss og ferðamannastaðurinn Húsafell. Barnafoss. Barnafoss í Hvítá, Borgarfirði. Á myndinni sést steinbogi yfir ána, niðri í gilinu. Barnafoss er foss í Hvítá, í þrengingum við jaðar Hallmundarhrauns rétt fyrir ofan Hraunfossa. Þar er steinbogi yfir ána, en engum er ráðlagt að reyna að fara yfir hann. Sagnir eru um annan steinboga á ánni á þessum stað sem nú er horfinn. Bogarnir neðan fossins hurfu á sjötta og sjöunda áratugnum, en boginn á gömlu fossbrúninni er alltaf þurr nema í flóðum. sjálf fossbrúnin er komin tugum metrum ofar en áður og er nú iðuflaumur þar sem áður var aðalafossinn. Erfið aðkoma er að steinboganum sem hefur alltaf heillað ofurhuga og stökk þar yfir aðkomumaður um miðja síðustu öld og síðast varð þar banaslys árið 1984. Til eru heimildir fyrir því að fossinn hafi áður verið nefndur "Bjarnafoss". Svæðið var friðlýst árið 1987. Þjóðsagan um Barnafoss. Sagan segir að steinbogi af náttúrunnar hendi hafi áður fyrr þjónað sem brú yfir Hvítá. En á jólum, endur fyrir löngu, hélt heimilisfólk í Hraunsási til kirkju á Gilsbakka í Hvítársíðu, sem er bær hinum megin við fossinn. Tveir ungir strákar voru skildir eftir á Hraunsási. Þeim leiddist og veittu heimilisfólkinu eftirför. Er þeir komu á steinbogann litu þeir niður, misstu jafnvægið og féllu í ána. Eftir það lét húsfrúin að Hraunsási höggva bogann niður. Tónlistarkennsla. Tónlistarkennsla er sú menntun nefnd sem snýr að tónlistarfræðslu. Kennslan felst í því að mennta einstaklinga eða hópa í hjóðfæraleik, söng og/eða tónfræði (s.s. að lesa nótur). Tónlistarkennsla er mörgum (verðandi) tónlistarmönnum lykilatriði til að ná að fullmóta hæfileika sína og skilja grundvallareglur tónlistar. Almenningshlutafelag.is. Vefsíðan almenningshlutafelag.is er síða á vegum Almenningshlutafélags um Morgunblaðið, sem er hópur fjárfesta sem komið var á fót með það að markmiðið að fjárfesta í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, þannig að eignaraðild þess verði sem dreifðust. Þann 4. febrúar lagi hlutafélagið inn óbindandi tilboð í Morgunblaðið hjá Nýja Glitni sem fer með hlutafé Árvakurs. Meðal einstaklinga sem standa að hópnum eru Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri samtaka fjárfesta, og Bogi Örn Emilsson, framkvæmdastjóri í Reykjavík. Dómkirkjan í Santiago de Compostela. Dómkirkjan í Santiago de Compostela er spænsk miðaldadómkirkja og sögð reist yfir gröf Jakobs postula. Hún var byggð á 11. og 12. öld og vígð árið 1128. Helgisögn sem þó er ekki studd neinum heimildum segir að Jakob hafi boðað kristni á Spáni og eftir að hann var höggvinn í Jerúsalem árið 44 hafi líkamsleifar hans verið fluttar til Galisíu og jarðsettar þar. Árið 829 var reist kirkja á staðnum þar sem hann var talinn grafinn og seinna reis dómkirkjan þar. Hún var endastöð á Jakobsveginum, pílagrímaleiðinni sem farin var að gröf postulans. Dómkirkjan varð þriðji mikilvægasti ákvörðunarstaður kristinna pílagríma á eftir Jerúsalem og Róm. Textavarp. 350 px Textavarp (e. "teletext") er fyrsti rafræni lesmiðillinn sem náði mikilli og almennri notkun. Með textavarpinu urðu nýjustu upplýsingar aðgengilegar almenningi þegar fólk hafði tóm, eða þörf, fyrir þær. Ekki bara fréttir gærdagsins í dagblaðaformi eða fréttir dagsins í fyrirfram tímasettum fréttatímum ljósvakamiðlanna. Sagan. Upphaflega var textavarp þróað á Englandi af BBC upp úr 1970 til þess að unnt væri að texta efni fyrir heyrnarlausa með texta sem hulinn væri í almennum útsendingum. Almenn útsending textavarps hófst hjá BBC árið 1976 og fyrstu sjónvarpsviðtækin með innbyggðum textavarpsmóttökurum komu á markaðinn 1977. Tæknin. Tæknin fólst í því að senda upplýsingarnar út á hluta af sjónvarpsmerkinu sem ekki var notað í annað (sk. VBI línum, vertical blanking interval). Fljótlega varð mönnum ljóst að hægt var að nota þessa tækni til þess að miðla fleiru en neðanmálstextum. Í stað textans voru sendar út heilu skjámyndirnar, síður. Venjulegri textavarpsútsendingu er skipt upp í síður sem síðan eru sendar út hver á eftir annarri. Síðurnar geta orðið allt að 800 og hver þeirra með 99 undirsíðum. Oftast eru þó ekki nema 3-500 síður sendar út samtímis því eftir því sem síðurnar eru fleiri tekur það viðtækin lengri tíma að finna þær, hringurinn verður stærri. Fréttir, dagskrárupplýsingar, veður, íþróttir og kauphallarupplýsingar urðu fljótlega mest lesnu síðurnar í textavarpi. Textavarp náði einkum vinsældum í Evrópu en í Bandaríkjunum og Kanada hefur textavarp aldrei náð verulegri útbreiðslu, nema sem miðill fyrir neðanmálstexta fyrir heyrnarskerta. Oftast þarf þó sérstakan móttakara fyrir textann, hann er ekki innbyggður í tækin eins og algengast er í Evrópu. Textavarp er í grunninn „útvarp“ (broadcast), eða einstefnumiðill, og þannig óháður notendafjölda, álagi, öfugt við t.d. vefinn sem er gagnvirkur og viðkvæmur fyrir álagi. Ekkert textavarp „fór niður“ 11. september 2001 eins og flestir fréttavefir gerðu. Textavarpið á Íslandi. Ríkisútvarpið hóf útsendingu textavarps á 25 ára afmæli sínu, 30. september 1991, þá sýndi könnun að sjónvarp með textavarpsmóttakara var á 17% íslenskra heimila. Árið 2005 var sjónvarp með textavarpi á nær öllum íslenskum heimilum og 33% þjóðarinnar notfærði sér þjónustu þess daglega eða oft á dag. 45% þjóðarinnar notuðu Textavarpið oftar en fimm sinnum í viku. var sett á vefinn haustið 1997 og var þá fyrsti ókeypis íslenski fréttavefurinn. Textavarp Sjónvarpsins var sniðið að norrænni fyrirmynd enda mikil samvinna milli norrænu sjónvarpsstöðvanna. Sérstaða Textavarpsins fólst einkum í upplýsingasíðum um færð og veður á vegum úti sem Vegagerðin tók saman. Þetta upplýsingakerfi var í upphafi einkum sniðið að Textavarpinu en síðar var það einnig þróað fyrir. Körfuknattleiksdeild Tindastóls. Körfuknattleiksdeild Tindastóls er deild innan Ungmennafélagsins Tindastóls sem hefur með körfuknattleik að gera. Meistaraflokkslið karla leikur í Iceland Express-deild karla. Mercedes-Benz GLK. Mercedes-Benz GLK er lítill lúxusjeppi sem var fyrst sýndir á bílasýningunni í Peking 2008 en var settur á markað 2009. Framleiðsla á GLK-týpunni hófst í Bremen í Þýskalandi árið 2008 og er GLK fyrsti jeppinn frá Mercedes-Benz sem er framleiddur þar. Hönnunin byggir að verulegu leyti á GL-jeppanum. En GLK-jeppinn byggir einnig á grunni C-týpunnar (W204). Þegar GLK kom fyrst á markað í Þýskalandi var eingöngu hægt að fá hann með fjórhjóladrifi. Tenglar. GLK Landakirkja. Landakirkja er kirkja í Vestmannaeyjum sem byggð var á árunum 1774 til 1778 og telst því þriðja elsta steinkirkja á Íslandi (eftir Viðeyjarkirkju og dómkirkjunni á Hólum). Fyrsta Landakirkja var reist árið 1573 Tyrkir brenndu hana í ráninu 1627. Mercedes-Benz CLS. Mercedes-Benz CLS er lúxusbifreið framleidd af þýska bifreiðaframleiðandanum Mercedes-Benz í Sindelfingen í Þýskalandi og Mercedes-Benz-Valdez verksmiðjunni í Santiago Tianguistenco í Mexíkó. Mercedes-Benz CLS er byggður á W211-grunninum sem E-týpan er einnig byggð á. CLS-týpan var fyrst sett á markað í Evrópu haustið 2004. Tenglar. CLS Arameíska. Arameíska er forn-semísk tunga sem á sér 3000 ára sögu. Arameíska er náskyld hebresku. Arameíska var rítuð með arameíska stafrófinu. Gimli. Gimli er sveitarfélag og kaupstaður í Manitoba-fylki í Kanada. Gimli er staðsett við Winnipegvatn og 75 km norður af Winnipeg sem er höfuðborg Manitoba. Gimli er stundum kallað „Höfuðstaður Nýja Íslands“. Íslendingar komu þangað fyrst 21. október 1875. Þangað fluttist stór hópur Íslendinga sem eru kallaðir Vesturfarar. Saga. Sveitarfélagið Gimli var stofnað í október árið 1875. Það var hluti af Northwest Territories rétt við Manitoba-fylki. Manitoba var stækkað árið 1881 og var hluti af Manitoba. Það var formlega tekið inn í Manitoba 1887. Árið 1876 geysaði slæm bólusótt í sveitarfélaginu. Þann 23. júlí 1983 komst sveitarfélagið í heimspressuna vegna Gimli Glider-atburðarins. Ferdinand 3. keisari. Ferdinand 3. (13. júlí 1608 – 2. apríl 1657) var keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 15. febrúar 1637 til dauðadags. Hann var elsti sonur Ferdinands 2. af ætt Habsborgara. Þegar Wallenstein var myrtur 1634 var Ferdinand gerður að herstjóra keisarahersins í Þrjátíu ára stríðinu og ásamt frænda sínum Ferdinand kardinála tókst honum að vinna sigur á sænska hernum í orrustunni við Nördlingen. Hann leiddi friðarviðræður keisaradæmisins við þýsku mótmælendafurstana 1635. Þegar hann tók við sem keisari hugðist hann reyna að semja um frið við Svía og Frakka en tókst ekki og stríðið hélt því áfram í ellefu ár. 1644 gaf hann þýsku furstadæmunum leyfi til að reka sjálfstæða utanríkisstefnu og minnkaði þannig völd keisarans í Þýskalandi. Vestfalíufriðurinn 1648 dró svo enn úr völdum hans með því að staðfesta að trú furstans væri trú ríkisins ("cuius regio, eius religio") og staðfesti sjálfstæði Hollands, Sviss, Savoja, og ítölsku hertogadæmanna Mílanó, Genúu, Mantúu, Toskana, Lucca, Módena og Parma, frá keisaradæminu. Nýja Ísland. Nýja Ísland er svæði í Kanada þar sem Íslendingar settust að í lok 19. aldar og er hluti af Manitoba. Landnámið í Nýja íslandi nefndist Vatnsþing og skiftist í fjögur byggðarlög er nefndust Víðirnesbyggð, Árnesbyggð, Fljótsbyggð og Mikleyjarbyggð. Jarðfræðileg staðsetning Nýja Íslands. Nýja Ísland er í Kanada, langt inni í meginlandi Norður-Ameríku, mitt á milli Atlandshafsins og Kyrrahafsins. Á ísaldartímabilinu fyrir um tíu þúsund árum var jökull yfir öllu norðanverðu meginlandi Ameríku. Þegar fór að hlýna og jökullinn hopaði myndaðist afar stórt jökullón sem var að flatarmáli um 350 þúsund ferkílómetrar að stærð sem jafngildir þrisvar til fjórum sinnum flatarmáli Íslands og náði yfir 200 metra dýpt. Á nokkrum þúsundum ára bráðnaði jökullinn alveg. Eitthvað af vatninu gat runnið til sjávar en það sem var eftir, varð að tveimur af stærri stöðuvötnum heims sem heita Winnipegvatn og Manitobavatn. Við vesturströnd Winnipegvatns er landsvæði sem var nánast óbyggt Evrópumönnum á áratugnum 1881 – 1890 (áratugurinn sem langmesta vesturfaraskeiðið var á Íslandi)en eitthvað af frumbyggjum bjó þar fyrir. Kanadastjórn úthlutaði íslendingum þetta landsvæði sem var nefnt Nýja Ísland og skiptist í fjórar byggðir. Burtþrá Íslendinga. Á tímabilinu 1846 – 1914 fluttust um 52 milljónir Evrópubúa til Ameríku. Þar af voru um 5% Norðurlandabúar sem voru rétt rúmlega 2,6 milljónir manns og þar af voru um 15 þúsund Íslendingar eða fimmtungur þjóðarinnar á þeim tíma. Sumir fengu heimþrá eða undu sér að einhverjum ástæðum ekki í Ameríku og fluttu aftur til Íslands en þeir eru ekki taldir með í þessum tölum. Á Íslandi var tímabilið 1881 – 90 mesta vesturfaraskeiðið, langflestir lögðu leið sína til Kanada og má ætla að það hafi stafað af áróðri stjórnvalda í Kanada sem voru í samvinnu við skipafélagið Allan Line. Innflytjendum bauðst meðal annars búskaparland til að búa á ókeypis. Margar ástæður voru fyrir þessari útþrá og ein af þeim var mikið kuldaskeið sem reið yfir landið. Öskrandi stórhríð skall á 30. maí 1871 svo fé fenti víða í kaf og lömb króknuðu. Um svipað leyti hlupu snjóflóð fram og hafís rak að landi. Askja átti einnig stóran þátt þegar hún gaus árið 1875 og lagði allt að 20 sm þykkt öskulag yfir stóran hluta Austurlands sem varð nánast óbyggilegt um tíma. Annars er ekki hægt að segja til um ástæðu hvers einstaklings fyrir sig því fólk hafði mismunandi ástæður og aðeins hægt að geta sér til um hið undarlegt sambland uppgjafar og hugprýði sem leiddi fólk útí þetta mikla ævintýri. Enginn vissi upp á hár hvað byði handan hafsins og því er óhætt að segja að fólk hafi tekið mikla áhættu því fólk hafði oft ekkert milli handanna þegar búið var að borga farmiðann til Kanada. Nýr heimur. Nýja Ísland skiptist í fjórar byggðir: Ísafoldarbyggð tilheyrði strangt til tekið ekki nýlendunni en þar var samt sem áður allnokkur byggð; Árborg tilheyrði ekki upphaflega landnáminu en er nú eitt helsta þéttbýlið eftir að lestarsamgöngur hófust; Íslendingafljót og Gimli urðu fljótlega tveir helstu pólar byggðarinnar og Gimli höfuðstaðurinn. Fyrstu landnemarnir komu til Nýja Íslands síðla hausts árið 1875. Svæðið taldist varla tilheyra hinum siðmenntaða heimi og fyrstu ummerki sem þeir urðu varir við um mannfólk voru híbýli indjána. Þeir voru eina fólkið sem hafði sest þar að og voru íslendingar því fyrsta hvíta fólkið til að búa þar. Það er ekki hægt að segja að fyrstu mánuðirnir hafi verið dans á rósum því vetur var fram undan og landnemarnir flestir alls lausir. Nýja Ísland var algjör nýlenda fyrir utan indjánana svo íslensku nýbúarnir þurftu að byrja algjörlega frá grunni og ekki bætti úr skák að þessi fyrsti vetur þeirra var ekki í blíðari kantinum. Fólk hófst handa við að smíða kofaskjól til að hýrast í um veturinn. Einn landnemanna, Skafti Arason, segir frá í lýsingu sinni á þessu nýja upphafi að ekki hafi þurft að byggja yfir neinn kvikfénað því af því tagi var ekkert til nema einn hvolpur sem honum hafði verið gefinn á leiðinni. Landkostir á Nýja Íslandi voru sagðir nokkuð góðir því landið var skógi vaxið en vel fallið til akuryrkju. Winnipegvatn var talið frekar fiskisælt og loftslag venjulega þurrt og heitt á sumrin en frekar kalt á veturna. Nýbúarnir náðu því að koma undir sig fótunum að lokum þrátt fyrir erfiðan vetur. Bóluvetur. Haustið 1876 kom annar hópur frá Íslandi í von um betra líf sem innihélt um 1200 manns og var nefndur stóri hópurinn. Það sem tók á móti þeim var hins vegar ekki fögur sjón því mikil veikindi og mannslát herjuðu á vesturfarana þetta sumar og haust. Það var ýmislegt sem hélst í hendur við að orsaka þessi veikindi og má þar nefna skort á hreinlæti. Hægt er að gera sér í hugarlund að við slíkar frumstæðar aðstæður sem þetta fólk bjó við, er ekki leikur einn að halda hreinlátt heimili. Matur var framandi og drykkjarvatn óhollt og þá sérlega íslendingum sem voru góðu vatni vanir. Eins vissu mæður oft ekki hvernig átti að komast til móts við steikjandi hita á sumrin sem olli börnum þeirra óþægindum. Þetta leiddi til veikinda og þá aðalega bólusóttar sem var virkilega skæð og drap marga. Škoda 130/135/136. Škoda 130 á Englandi 1989. Škoda 130 GL í Bratislava í Slóvakíu. Skoda 130 var arftaki 125 bílanna. Vélar í 130/135/136 heldur voru kraftmeiri en í eldri bílum. Skoda 130/135/136 voru síðustu Skoda-bílarnir með vélina aftur í. Robert Tchenguiz. Robert Tchenguiz (í. رابرت چنگیز) (f. 9. september 1960 í Teheran í Íran) er íransk/íraskur milljarðamæringur og viðskiptamaður sem sat í stjórn Exista sem átti stóran hlut í Kaupþingi fyrir bankahrunið. Hann hefur sérhæft sig sem fjárfestir í fasteignum og fyrirtækjum. Árið 2007 var hann, ásamt bróður sínum Vincent, í 78. sæti yfir ríkustu einstaklinga í Bretlandi og Írlandi og voru þeir metnir á £850 milljónir breskra punda. Fyrirtæki hans heitir R20. Robert er náinn vinur Philip Green sem hefur stundað viðskipti með Baugi. Ævi. Faðir hans, Victor Kedourie Molaaem, var íraskur gyðingur sem var í innsta koppi íranska shahsins. Victor flúði frá Írak til Íran árið 1948 og breytti ættarnafni sínu í Tchenguiz sem er vísun í Genghis Khan á persnesku. Eftir írönsku byltinguna fluttist fjölskyldan til London. Robert menntaðist alþjóðlegum almenningsskóla í Teheran en hélt svo til Bandaríkjanna og lauk námi við Pepperdine-háskóla í Malibu í Kaliforníu árið 1982. Þá starfaði hann á tímabili í World Trade Center í New York og stundaði viðskipti með olíu. Robert hefur hann átt í nánu samstarfi við bróður sinn Vincent. Sagt er að faðir hans hafi gefið Vincent og Robert myndarlega fjárhæð sem þeir nýttu til fjárfestinga í fasteignum í Hammersmith-hverfinu í London. Það rétta í þessu er að faðir hans skrifaði upp á veð til banka upp á miljón punda. Árið 1982 settu þeir á laggirnar Rotch Property Group sem varð með tíð og tíma stórt fasteigna-eignarhaldsfélag. Sem dæmi um nýleg viðskipti Roberts má nefna kaup ásamt öðrum í Shell-Mex House, skrifstofublokkir við Thamesá í London og kaup á 180 Shell-bensínstöðvum árið 2000 fyrir £300m sem þeir seldu 2006 fyrir £460m. Í maí 2007 seldi hann og mágur hans, Vivian Imerman, hluti sína í skoska viskíframleiðandanum Whyte and Mackay til United Breweries Group á Indlandi fyrir £595 milljónir breskra punda. Fréttir. Tchenguiz, Robert Metanvinnsla aðföng. Hægt er að blanda ýmsum efnum saman við framleiðslu á metangasi. Í álfsnesi er til að mynda ímislegt sorp á sorphaugum sem myndar gas, allt frá hálmi til svínaúrgangs. og svo allt heimilissorp einnig. það gas er notað á bíla, það er leitt með slöngu úr álsnesi uppá ártúnsholt þar sem N1 bensínstöð rekur áfillingarstöð. Í dag er einnig framleitt metan á suðurlandi í Hraunsgerði, en þar er áætlað að metangasframeliðsla muni sinna um 100 heimilisbílum, eða gefi frá sér um 100.000 m3 af gasi á ári. Erlendis er víða framleitt metangas til eldhúsnotkunar, við að elda mat. sérstaklega í þróunarlöndunum. Hólabrík. Hólabrík er altaristaflan í Hóladómkirkju. Hún er frá kaþólskum tíma og er í gotneskum stíl, að öllum líkindum gerð í Þýskalandi á 16, öld, enda er sagt að Jón Arason biskup hafi gefið kirkjunni hana á þriðja tug aldarinnar, þegar hann kom til landsins úr vígsluferð sinni. Bríkin er 170 cm á hæð og 340 cm á breidd þegar hún er opin. Bríkin sjálf er úr eik, gifsuð, máluð og gyllt með blaðgulli en líkneskin, súlurnar og skrautverkið sem prýða hana eru útskorin úr kirsuberjaviði, gifsuð og máluð. Hún hefur varðveist vel miðað við aldur og málningin og blaðgyllingin eru að mestu upprunaleg, en gert var við bríkina á árunum 1985-1989 og hún færð eins nálægt upprunalegu formi og mögulegt var. Þjóðsagan um Hólabríkina. Haustið 1550 var Jón Arason, síðasti kaþólski biskup Íslands, hálshöggvinn í Skálholti ásamt sonum sínum. Vorið eftir komu hermenn sem Danakonungur hafði sent til landsins að Hólum og rændu verðmætum munum úr Hólakirkju, þar á meðal Hólabríkinni. En er þeir voru komnir hálfa leið til skips síns með bríkina, þá sliguðust hestarnir undan þyngdinni og hermennirnir gátu henni hana hvergi hreyft og urðu því að skilja hana eftir. Er Hólamenn komu til að sækja Hólabríkina segir sagan að hún hafi reynst þeim létt og hestarnir skokkuðu með hana aftur í kirkjuna. Krossfestingin. Aðalmyndverkið á miðbríkinni af krossfestingunni á Golgatahæð og í bakgrunni er sögu annars ræningjans á krossinum fléttað saman við. Auk þess sjást turnar Jerúsalemborgar. Hinn þjáði Guðssonur hneigir höfuðið niður til hægri handar sinnar í átt til ræningjans sem iðraðist gjörða sinna. Fyrir ofan ræningjann flýgur engill með barn (sál) til himnaríkis. Vinstra megin við Krist er ræninginn sem iðraðist ekki og fyrir ofan hann flýgur björn með barn (sál) til helvítis. Hendur og fætur ræningjana eru blóði drifnar og brotnar sem gefur vísbendingar um pyntingar áður en þeir fóru á krossinn. Þrír englar flögra í kringum Krist og halda á bikurum sem blóð Krist drýpur í, þetta minnir á altarisgönguna þar sem drukkið er blóð Krists (messuvín). María Magdalena heldur um krossinn og horfir ástúðlega í átt til Jesús, á meðan Jóhannes postuli grípur Maríu Guðsmóður sem er við það að falla í öngvit af sorg. Hægra megin fyrir aftan Jóhannes eru tvær yngismeyjar frá Galíleu sem halda að sér höndum og horfa á. Hægra megin við krossinn eru tveir menn í marglitum klæðum og fyrir neðan þá eru brynjuklæddir riddarar á hestbaki, annar þeirra heldur á spjóti sem nær upp fyrir brjóst Krists. Þetta eiga að vera rómverskir riddarar þó klæðnaðurinn sé frá 15. öld eða svo. Vinstra megin við krossinn er maður á hestbaki sem heldur á spjóti með svampi fylltum ediki. Á bak við Krossfestinguna sést ræninginn sem iðraðist ekki gjörða sinna í gylltum klæðum og síðan aftur í brúnum leppum, þar sem maður reiðir bjúgsverð yfir ræningjanum og ætlar að höggva. Heilsuleikskóli. Heilsuleikskóli er leikskóli sem starfar eftir viðmiðum Heilsustefnunar. Unnur Stefánsdóttir þá leikskólastjóri í Skólatröð hafði árið 1995 frumkvæði að mótun stefnu, þar sem markmiðið er að auka gleði og vellíðan barna með áherslu á "næringu, hreyfingu og listsköpun". Samtök Heilsuleikskóla voru stofnuð í 2006 og sjá þau nú um að veita starfsleyfi. Upphaf heilstefnunnar. Þegar Unnur Stefánsdóttir var ráðin sem leikskólastjóri, fylgdi hún eftir þeirri hugmynd sinni að heilsa og hreisti yrðu aðaláhersluatriði leikskólans. Unnur hefur ávallt horft til þess að næring og hreyfing skipti miklu máli fyrir vellíðan og árangur í námi og starfi. Aðrir sem komu að frumkvöðlastarfi heilsustefnunnar voru leikskólakennararnir Arndís Ásta Gestsdóttir, Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir og Sigrún Hulda Jónsdóttir en margir aðrir hafa síðan komið að þróunarstarfi stefnunnar. Heilsubók barnsins. Heilsubók barnsins eru stöðluð matsblöð, sem kennarnir nota sér til stuðnings við athuganir á börnunum, en þau voru samin með hliðsjón að áhersluþáttum leikskólans. Á vori og haust eru skráðar upplýsingar um hæð og þyngd, heilsufar, fjarvera vegna veikinda, næring og svefn, leikur, félagsleg færni/lífsleikni, gróf- og fínhreyfigeta og þróun myndsköpunar. Þessar upplýsingar eru síðan notaður til þess að skýra frá stöðu barnanna í foreldrasamtölum. Þvottalaugarnar. left Þvottalaugarnar voru heitar laugar sem notaðar voru til þvotta af húsmæðrum og vinnukonum í Reykjavík frá því að þéttbýli myndast og allt fram á 20. öld. Þær voru staðsettar í Laugamýri sem var í landi hins forna býlis Laugarness. Afrennsli úr laugunum var í Laugalæk sem rann til sjávar á Kirkjusandi. Minjar um Þvottalaugarnar Þvottalaugarnar eru nú þurrar, en mjög dró úr notkun þeirra árið 1930 er Laugaveitan var virkjuð og markaði upphaf hitaveitu í Reykjavík. Á útivistarsvæðinu í Laugardal er hægt að skoða ummerki frá tíma Þvottalauganna. Þar eru fræðsluskilti um sögu lauganna og minnisvarði um framlag Thorvaldsenskvenna sem afhjúpaður var 19. nóvember 2005. Útilistaverkið "Þvottakona" (1958) eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara stendur í Laugardalnum til minningar um vinnu þvottakvenna. Heita vatnið í Þvottalaugunum voru vissulega hlunnindi þó nýtingunni fylgdi margvíslegt erfiði. „"Það var ekki fyrr en árið 1833 sem þar var reist hús svo hægt væri að þvo innandyra. Fyrir þeim framkvæmdum stóð Regner C. Ulstrup bæjar- og landfógeti og efndi til samskota í því skyni. Honum hafði blöskrað að sjá konur standa úti við þvotta að vetrinum, myrkranna á milli – ýmist í brennandi heitri gufu eða frostköldum næðingi. En árið 1857 fauk þetta skjól í illiviðri."“ Liðu nú hartnær 30 ár þar til frekari úrbætur urðu í málefnum þvottakvenna. Thorvaldsensfélagið gekkst fyrir því að reist var myndarlegt þvottahús árið 1887 sem það afhenti bæjarfélaginu til eignar 1889. Sama ár var tilbúinn vagnfær vegur frá Reykjavík inn í Laugardal, Laugavegurinn, sem var stórkostleg samgöngubót fyrir þvottakonurnar sem áður höfðu þurft að ganga vegleysu með þvottinn á bakinu. Notkun þvottalauganna minnkaði eftir 1909 þegar neysluvatn var leitt í hús í Reykjavík. Vegna fyrri heimstyrjaldarinnar varð svo mikill eldsneytisskortur að bæjarbúar fóru almennt að þvo í Þvottalaugunum á nýjan leik. Hvalstöðin í Hvalfirði. Hvalstöðin í Hvalfirði er hvalskurðar- og vinnslustöð í Hvalfirði, reist árið 1948 á vegum Hvals hf. til að unnt væri að landa og vinna hval þar. Engin önnur hvalstöð var þá starfandi á landinu en áður höfðu Norðmenn reist nokkrar stöðvar bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Var sú fyrsta reist í Álftafirði við Ísafjarðardjúp árið 1883. Hvalstöðin á Asknesi við Mjóafjörð var á sínum tíma talin afkastamesta hvalstöð í Norðurhöfum. Þessar stöðvar lögðust þó af upp úr 1910, þegar hvalastofnarnir við landið hrundu. Á fjórða áratug 20. aldar veiddu norsk verksmiðjuskip hval hér við land en árið 1935 var reist hvalstöð á Tálknafirði, sú fyrsta sem var í meirihlutaeigu Íslendinga, og starfaði hún í fimm ár, en þá lögðust hvalveiðar af vegna stríðsins. Árið 1948 var svo hvalstöðin í Hvalfirði reist undir Þyrilsklifi og notaðist meðal annars við bryggju, bragga og fleiri mannvirki sem Bandamenn höfðu reist þar á stríðsárunum. Um það leyti voru áform uppi um fleiri hvalstöðvar, svo sem í Örfirisey og á Patreksfirði, en ekki fengust leyfi til að reisa þær hjá atvinnumálaráðuneytinu þar sem talið var að ein hvalstöð gæti fullvel annað þörfinni. Hvalir voru skornir í hvalstöðinni á hverju sumri, frá því um hvítasunnu fram í miðjan september, næstu áratugi og störfuðu þar um hundrað manns þegar flest var. Þá voru skornir 300-400 langreyðar og sandreyðar á hverju sumri. Fyrstu áratugina var hvalurinn aðallega unninn í lýsi, mjöl og hundafóður en eftir að viðskipti við Japani hófust var farið að frysta kjötið til manneldis. Stöðin var starfrækt til 1989 en síðustu árin voru þó fáir hvalir skornir þar miðað við það sem áður var, síðasta sumarið 68 langreyðar og engin sandreyður. Í nóvember 1986 brutust tveir félagar í umhverfissamtökunum Sea Shepherd inn í Hvalstöðina og unnu þar mikil skemmdarverk á tækjum og búnaði og sökktu svo um nóttina tveimur hvalbátum sem lágu í Reykjavíkurhöfn. Þótt hvalveiðar leggðust af í tvo áratugi, var hvalstöðinni haldið við og sumarið 2009 hófst hvalskurður þar að nýju. Take That. Take That á tónleikum árið 2007. Take That er bresk drengjahljómsveit sem stofnuð var árið 1990 í Manchester á Englandi. Sveitin samanstendur af þeim Gary Barlow, Mark Owen, Jason Orange og Howard Donald og áður var Robbie Williams einnig meðlimur sveitarinnar. Er sveitin aðallega söngsveit en hafa einhverjir meðlimir sveitarinnar spila þó á hljóðfæri og semja lög og texta. Eftir stórkostlega velgengni á tíunda áratug síðustu aldar, þegar meðlimir voru enn þá fimm talsins, hefur bandið aftur náð vinsældum á síðustu árum, þó án Robbie Williams. Take That seldi yfir 60 milljón plötur á árunum 1991-1996. Áttu þeir meðal annars tvær mest seldu plötur áratugarins; Everything Changes árið 1994 og Greatest Hits árið 1996. Bandið hætti störfum árið 1996 en eftir að heimildamynd og „greatest hits“ plata voru gefnar út árið 2005 tilkynntu drengirnir að þeir ætluðu á tónleikaferð árið 2006; The Ultimate Tour. 9. maí 2006 var tilkynnt að Take That stefndi á að taka upp sína fyrstu stúdíóplötu (Beautiful World) í yfir 10 ár. Sveitin hefur nú einnig gefið út aðra plötu, The Circus og eru að undirbúa tónleikaferð 2009. Fyrstu árin (1989-1993). Árið 1989 ákvað Nigel Martin-Smith að setja saman breska drengjasveit. Hafði hann séð New Kids on the Block rísa hratt til frægðar í Bandaríkjunum og áttaði sig á því að það var engin sambærileg sveit í Bretlandi. Sú sýn sem Nigel Martin-Smith hafði var hins vegar fullorðinslegri og beindist frekar að unglingum en sú sakleysislega ímynd sem New Kids on the Block skartaði í fjölmiðlum. Áheyrnarprufur fyrir bandið voru haldnar um alla Manchesterborg, hvar Nigel Martin-Smith hitti öngvarann og blómstrandi lagahöfundinn Gary Barlow (þá 18 ára) og þótti strax mikið til hans koma. Gary Barlow hafði verið hafnað af stórum útgáfufyrirtækjum en hafði verið að spila lifandi tónlist á krám víðsvegar um Norður England. Hann hafði einnig unnið nokkrar samkeppnir og hafði samið A Million Love Songs aðeins 15 ára gamall. Aðrir sem komu í áheyrnarprófin voru hinn 17 ára Mark Owen, fyrrum fyrirsæta og knattspyrnumaður sem nú starfaði sem gjaldkeri í banka. Howard Donald, bílamálari, fyrrum fyrirsæta og skífuþeytir/breakdansari, var með þeim elstu til að taka þátt í prufunum, 21 árs að aldri. Jason Orange, 18 ára, var reyndur breakdansari en vann sem málari og veggfóðrari. Að lokum brá Nigel Martin-Smith á það ráð að auglýsa í fjölmiðlum og fann þannig fimmta meðlim sveitarinnar; Robbie Williams. Take That bjó til nýja leið í tónlistarbransanum og voru í raun frumkvöðlar þessarar tegundar tónlistar, strákasveitanna, utan Bandaríkjanna. Þeir byrjuðu með dansvænni lög til að koma til móts við dans- og diskósenuna sem þá var í gangi í Bretlandi. Á fyrstu árunum voru þeir snyrtilega til fara, yfirleitt klæddir í svartan leðurklæðnað en á hátindi frægðarinnar voru þeir þekktir fyrir fullorðinslegri ímynd. Á meðan sveitin var sem þekktust státuðu drengirnir af líkamsgötum ýmiss konar, húðflúrum, skeggvexti og, í tilfelli Howards, dreddum í hári. Tímamót urðu hjá Take That þegar þeir gáfu út lagið It Only Takes A Minute, endurútgáfu lags frá 1970, sem fór hæst í sjöunda sæti breska smáskífulistans. Góðum árangri var fylgt eftir með I Found Heaven og þar á eftir með fyrsta lagi Gary Barlow, A Million Love Songs. Komust bæði lögin á vinsældalista. Ábreiða þeirra af diskósmelli Barry Manilow, Could It Be Magic, varð þeirra stærsti smellur þegar þarna var komið við sögu og komst í þriðja sæti vinsældalista í Bretlandi. Fyrsta platan, Take That & Party, var gefin út 1992 og innihélt alla smelli drengjanna. Súperstjörnur (1993-1995). Platan Everything Changes var gefin út ári 1993 og var að stærstum hluta efni eftir Gary Barlow. Gaf þessi plata af sér fjórar smáskífur sem lentu í fyrsta sæti vinsældalista í Bretlandi; Pray, Relight My Fire, Babe og Everything Changes. Fimmta smáskífan, Love Ain‘t Here Anymore, komst í þriðja sæti vinsældalista. Með Everythings Changes öðlaðist sveitin alþjóðlega velgengni. Þó komst þeim ekki að komast inn á markað í Bandaríkjunum. Hins vegar var sveitin orðin vel þekkt í Evrópu og Asíu. Það var þó ekki fyrr en 1995 sem Take That fór í sína fyrstu stóru tónleikaferð. Það var árið 1994 sem Take That kom fram á forsíðum fjölda tímarita, allt frá Smash Hits til GQ, og að auki var framleiddur alls kyns varningur í þeirra nafni. Bækur, veggspjöld, límmiðar, dúkkur, skartgripir, húfur, bolir og tannburstar. Sveitin hóf einnig að fara tónleikaferðalög um Evrópu og seldust upp miðar á nánast alla tónleika þeirra í Englandi, Berlín og Mílanó. Take That hafði einnig öðlast risastóran kvenkyns aðdáendahóp enda sveitin álitin ný og spennandi og samanstóð af fimm laglegum piltum frá Manchester sem gátu „dansað, brosað og sungið samhljóm.“ Þetta leiddi af sér „Take That undrið“ um gjörvallt Bretland, vanalega undirstrikað með hópum táningsstúlkna sem komu saman hvar sem sveitin átti að koma fram. Á þessum tíma kom sveitin fram á fjölmörgum tónlistarverðlaunahátíðum eins og Brit Awards og Top of the Pops, enda fastagestir á slíkum hátíðum eftir að hafa sent frá sér fimm smelli í röð 1994. Þegar platan Nobody Else var gefin út árið 1995 komst fyrsta smáskífa plötunnar, Sure, strax á topp vinsældalista í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en önnur smáskífan kom út að Take That sá sína langvinsælustu smáskífu verða að veruleika. Back for Good fór í fyrsta sæti vinsældalista í 31 landi, víðsvegar um heiminn. Sveitin frumflutti lagið á Brit-verðlaununum 1995 og hlaut fyrir vikið frábæra dóma og undirtektir. Never Forget var svo síðasta smáskífan af samnefndri plötu. Platan var einnig þekkt fyrir að vera skopstæling af umslagi Bítlaplötunnar Sgt. Pepper‘s Lonely Hearts Club band. Brottför Robbie Williams og upplausn Take That (1995-1996). Í júlí 1995 yfirgaf Robbie Williams Take That og var myndaður við að skemmta sér á Glastonbury-hátíðinni með bresku rokkurnum í Oasis. Þeir fjórir sem eftir stóðu héldu áfram að kynna Nobody Else og kláruðu tónleikaferðalag í júlí 1995. Þann 13. febrúar 1996 tilkynntu meðlimir Take That að bandið yrði þá og þegar lagt niður. Þeir gáfu í kjölfarið út safndisk með bestu lögum sveitarinnar sem innihélt einnig nýja útgáfu Bee Gees lagsins How Deep Is Your Love. Smáskífan sú varð síðasta topplag sveitarinnar þar til bandið kom saman aftur nærri áratug síðar. The Ultimate Tour og Beautiful World (2005-2007). 14. nóvember 2005 kom út safnplata sem innihélt einnig áður óútgefið lag. Komst hún í efstu sæti breskra vinsældalista. Nýja lagið, Today I‘ve Lost You, var upprunalega skrifað til að fylgja eftir vinsældum Back for Good en var aldrei tekið upp. 16. nóvember 2005 kom Take That saman í heimildamyndinni Take That: For The Record fyrir ITV sjónvarpsstöðina. Í myndinni segja meðlimir sína sögu og skoðnir á upplausn bandsins og frá því hvað þeir hafa haft fyrir stafni þann áratug síðan sveitin laggði upp laupana. 25.nóvember 2005 héldu drengirnir blaðamannafund þar sem þeir tilkynntu að þeir hyggðust leggja upp í tónleikaför 2006. Tónleikaferðalagið, sem kallaðist Ultimate Tour, stóð frá apríl – júní 2006. Take That sneri aftur í tónlistarbransann eftir áratug og skrifaði undir samning við Polydor Records útgáfufyrirtækið sem sagður er hafa verið 3 milljón punda virði. Á einum mánuði seldist endurkomuplata sveitarinnar, Beautiful World, í 2,7 milljón eintökum í Bretlandi. Ólíkt fyrri plötum sveitarinnar, á hverjum Gary Barlow hafði samið langmest af efninu, þá voru öll lögin á nýju plötunni samin af meðlimum sveitarinnar öllum. Patience, smáskífan sem markaði endurkomu Take That var gefin út 20. nóvember 2006. Þann 26. nóvember 2006 fór Patience í fyrsta sæti vinsældalista í Bretlandi og var þá orðin níunda topplag Take That. Velgengni Take That hélt áfram 14.febrúar 2007 þegar sveitin kom fram á BRIT verðlaunahátíðinni á Earl‘s Court. Patience vann verðlaun fyrir bestu bresku smáskífuna það kvöld. Árið 2007 sömdu meðlimir Take That einnig lagið Rule the World fyrir kvikmyndina Stardust. Rule the World komst í annað sæti vinsældalista á Bretlandi og varð fimmta mest selda smáskífa ársins. 11.Octóber 2007 hófu Take That tónleikaför sína í Belfast á Írlandi. Þeir spiluðu á 49 tónleikum í Evrópu og var lokið í Manchester þann 23. desember. The Circus (2008-). Fyrsta smáskífa plötunnar The Circus, Greatest Day, var frumflutt í útvarpi 13. október 2008 og gefin út 24. nóvember sama ár. Hún komst í fyrsta sæti smáskífulistans 30. nóvember 2008. The Circus var gefin út í Bretlandi 1. desember 2008, komst í fyrsta sæti vinsældalistans og var þar í tvær vikur. Það var svo tilkynnt á Radio 1 þann 28. október 2008 að Take That ætluðu aftur í tónleikaferð í júní – júlí 2009. Miðar fóru í sölu 31. október og hafa nú selst yfir milljón miðar á Circus-tónleikana. Önnur smáskífa plötunnar, Up All Night var gefin út 2. mars 3009. Heimild. Greinin Take That á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30.janúar 2009. Að breyttu breytanda. Að breyttu breytanda (latína: "mutatis mutandis") er fast orðasamband sem þýðir: "að gerðum nauðsynlegum breytingum," eða m.ö.o. "að breyttu því sem breyta þarf". Orðasambandið vísar til þess er notuð er kennisetning eða meginregla sem þarfnast breytinga til að geta samsvarað nýjum reglum eða staðreyndum. Orðasambandið er liðfellt, þ.e. undanskilið er eitthvert nafnorð, t.d. "að breyttu breytanda máli/atriði"... og stendur breytanda sem hliðstætt lýsingarorð í hvorugkyni, eintölu, þágufalli. Orðasambandið er oft notað í rituðu máli til að forðast endurtekningar, og sést í lagamáli og heimspeki. Hér er átt við að „að því breyttu sem breyta þurfti“, þá hafi það sem kveðið var á íslensku á árunum kringum þjóðhátíðina verið dönsk ljóðlist, og það sem munaði var að íslensku kvæðin voru á íslensku og kveðin af Íslendingum... Varast ber villuna: Að breyttum breytanda, sem stundum sést, en hún kemur fyrir af því menn átta sig ekki á því að „breytanda“ er gömul hvorugkynsmynd. Kujalleq. Kujalleq (opinbert nafn á grænlensku:"Kommune Kujalleq") er sveitarfélag á suðurhluta Grænlands sem stofnað var 1. janúar 2009.. Kujalleq er minst af hinum fjórum nýju sveitarfélögum. Það nær yfir byggðarlögin (og samnefnd fyrrverandi sveitarfélög) Narsaq, Nanortalik og Qaqortoq ásamt fleiri minni byggðakjörnum. Íbúafjöldi í Kujalleq er um 8000, og flatarmál 32000 km². Í Qaqortoq er aðsetur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnanna. Kujalleq nær yfir syðsta hluta Grænlands og liggur aðeins að einu sveitarfélagi, Sermersooq. Labradorhaf (milli Grænlands og Labrador) liggur að vesturströnd Kujalleq og mætir Irmingerhafi (milli Íslands og Grænlands, suðvestur af Íslandi) við Hvarf (sem á grænlensku heitir Uummannarsuaq). Landslag einkennist af fjalllendi og djúpum fjörðum sem ná langt inn í land. Eystribyggð hinna fornu norrænu Grænlendinga liggur öll innan marka Kujalleq að undanskildu því svæði sem fornleifafræðingar nefna Millibyggðina. Qaasuitsup. Qaasuitsup (opinbert nafn á grænlensku: Qaasuitsup Kommunia) er sveitarfélag á vestur og norðvestur Grænlandi sem stofnað var 1. janúar 2009.. Það nær yfir byggðarlögin (og samnefnd fyrrverandi sveitarfélög) Kangaatsiaq, Aasiaat, Qasigiannguit, Ilulissat, Qeqertarsuaq, Uummannaq, Upernavik og Qaanaaq ásamt fleiri minni byggðakjörnum. Íbúafjöldi í janúar 2009 var um 18 000. Í Ilulissat er aðsetur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnanna. Qaasuitsup er 660.000 km² að flatarmáli, er það víðfeðmasta sveitarfélag í heimi. Í suðri liggur það að sveitarfélaginu Qeqqata og í suðaustur að sveitarfélaginu Sermersooq. Í norður og norðaustur liggur það að Þjóðgarði Grænlands. Suðurströnd Qaasuisup liggur við Diskó-flóa, sem gengur inn af Baffins flóa. Lengsti hluti strandarinnar liggur að Melville-flóa. Í norðvestri í grennd við Qaanaaq og Siorapaluk tekur Nares-sund við en það aðskilur Grænland frá Ellismere-eyju í Kanada. Qeqqata. Qeqqata (opinbert nafn á grænlensku: Qeqqata Kommunia) er sveitarfélag á norðvestur Grænlandi sem stofnað var 1. janúar 2009.. Það nær yfir byggðarlögin (og samnefnd fyrrverandi sveitarfélög) Maniitsoq og Sisimiut, og þar að auki Kangerlussuaq-svæðið. Íbúafjöldi var um 10.000 í janúar 2008. Í Sisimiut er aðsetur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnanna. Qeqqata er 115.500 km² að flatarmáli, og er það næst minnsta sveitarfélag á Grænlandi. Í suður og austur liggur sveitarfélagið að sveitarfélaginu Sermersooq. Í norður tekur Qaasuitsup sveitarfélagið við. Davis-sund tekur við í vestur, en handan við það er Baffins-eyja. Sermersooq. Sermersooq (opinbert nafn á grænlensku: Kommuneqarfik Sermersooq) er sveitarfélag á suðvestur og austurströnd Grænlands sem stofnað var 1. janúar 2009.. Innan sveitarfélagsins er Nuuk, höfuðstaður Grænlands. Íbúafjöldi í janúar 2008 er 20.998 og er þetta fjölmennasta sveitarfélag landsins. Það nær yfir byggðarlögin (og samnefnd fyrrverandi sveitarfélög) Ammassalik og Ittoqqortoormiit á austurströndinni, og Ivittuut, Nuuk og Paamiut á suðausturströndinni. Sveitarfélagið er 635.600 km² að flatarmáli og er það næst víðfeðmasta sveitarfélag í heimi eftir Qaasuitsup. Að sunnan liggar það að sveitarfélaginu Kujalleq. í norðvestur liggur Sermersooq að sveitarfélaginu Qeqqata, og en norðar að Qaasuitsup sveitarfélaginu. Í norður liggur það að Þjóðgarði Grænlands. Einu samgönguleiðirnar milli austur og vesturhluta sveitarfélagsins er reglubundið flug flugfélagsins Air Greenland. Flagahnoðri. Flagahnoðri eða meyjarauga (fræðiheiti: "Sedum villosum") er háplanta af helluhnoðraætt (Crassulaceae). Hann vex í rökum flögum og rökum, leirkenndum áreyrum. Blómin eru bleik. Mannsnef. Mannsnef er sá hluti andlits manna, sem skagar lengst fram (nef), og er aðsetur nasanna og lyktarskyns, en fyrir neðan það í mönnum er vinulágin. Sáldbeinið og "nasal septum" ræður lögun nefsins en það er aðallega gert úr brjóski. Karlmenn hafa oftast stærra nef en konur, en nef stækkar gjarnan með aldri. Rannsóknarnefnd Alþingis. Rannsóknarnefnd Alþingis er þriggja manna nefnd skipuð af Alþingi með lögum eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008. Tilgangur nefndarinnar var að rannsaka aðdraganda og orsakir hrunsins og birta þær upplýsingar í opinberri skýrslu. Nefndinni var fyrst og fremst ætlað að komast til botns í ábyrgð ráðherra, alþingismanna og opinberra embættismanna. Nefndin tók viðtöl við fyrrum bankastjóra bankanna í lok mars 2009. Síðast þegar sambærileg nefnd var skipuð var það vegna Hafskipsmálsins svokallaða árið 1985. Ákvörðun um hæfni Sigríðar. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, taldi þessi ummæli bera þess merki að hún hefði gert upp hug sinn til hluta rannsóknarefnisins. Jónas hélt því fram að ekki yrði tryggt að málefnaleg sjónarmið yrðu lögð til grundvallar og að réttaröryggi þeirra sem hagsmuni hefðu af réttri niðurstöðu nefndarinnar væri ógnað. Páll og Tryggvi komust sameiginlega að þeirri niðurstöðu að ummæli Sigríðar hefðu verið almenn og Sigríður væri því ekki vanhæf. Skýrslan. Skýrslan kom út þann 12. apríl 2010 og er hún fáanleg bæði á prenti og í netútgáfu. Hluti skýrslunar verður einnig þýddur yfir á ensku og birtur á netinu.Rannsóknarnefndin átti upprunalega að skila niðurstöðum sínum í skýrslu 1. nóvember 2009 en útgáfudegi skýrslunar var frestað nokkrum sinnum. Fyrst var rannsóknarnefndinni veittur frestur til að birta skýrsluna til 1. febrúar 2010. Útkomu skýrslunnar var síðan frestað aftur 25. janúar 2010 og enn aftur 26. febrúar. Ástæðan sem nefndin gaf upp á blaðamannafundi sama dag var að fleiri atriði hefðu fundist sem nefndin telur sig þurfa að gera grein fyrir. Sunfish. Börn læra að sigla á Sunfish. Sunfish er vinsæl grunnrist kæna hönnuð af bandaríska fyrirtækinu "Alcort" á 6. áratug 20. aldar. Hún er 4,2 metrar að lengd og vegur aðeins 59 kíló. Hún er með þríhyrnt latneskt segl sem er strengt á rá bæði að ofan og neðan. Báturinn var viðurkenndur sem alþjóðleg keppnisgerð árið 1981. Hægt er að tvímenna og þrímenna á Sunfish en oftast er aðeins einn sem siglir honum. Farsóttarhúsið. Farsóttarhúsið (eða Farsótt'") er hús að Þingholtsstræti 25. Húsið hefur verið notað fyrir athvarf fyrir útigangsmenn frá árinu 1970, en húsið var upphaflega byggt sem spítali árið 1884 (aðrar heimildir segja 1883) og var aðalsjúkrahús Reykjavíkur þangað til Landakotsspítali (hinn fyrri) tók til starfa árið 1902. Á þeim árum voru taugaveiki, barnaveiki og skarlatsótt útbreiddar á Íslandi. Sú starfsemi fór fram til ársins 1930, en þá var húsið tekið til afnota fyrir berklasjúklinga. Um 1940 hefst nýtt tímabil. Þá tóku að gera vart við sig hér á landi lömunarveiki, heilahimnubólga o.fl. Árið 1949 var byggð viðbygging við húsið og þar var sundlaug sem kom að miklu gagni við lækningu þeirra sem börðust við lömunarveiki. Þegar tókst að útrýma hinum ýmsu landlægu farsóttum skapaðist rúm fyrir aðra starfsemi í húsinu - t.d. lækningu geðbilaðra og þunglyndissjúklinga. Húsið var því um tíma bækistöð ungra lækna, og eins og segir í Morgunblaðinu 1953 „sem farið hafa inn a nýjar brautir í geðlækningum“. Nú er þar aðstaða útigangsmanna, og hefur verið frá því 1970. GP14. Fjórar kænur. Sú sem er fremst á myndinni er af gerðinni GP14. GP14 (skammstöfun fyrir "General Purpose" 14 fet) er 14 feta (4,2 metra) löng tvímenningskæna sem líka er hægt að róa hönnuð af breska skútuhönnuðinum Jack Holt árið 1949. Hún er hlutfallslega fremur þung (133 kíló) en líka mjög stöðug sem gerir hana að góðum kennslubát. Einar Þorgrímsson. Einar Þorgrímsson (fæddur 1949 í Reykjavík) er íslenskur rithöfundur og spennusagnahöfundur sem hefur skrifað nokkrar bækur til dæmis "Ógnir kastalans", "Leyndardómar eyðibýlisins" sem kom út 1971 og "Ógnvaldur skíðaskálans" sem kom út 1972 Einar Þorgrímsson fæddist í Reykjavík 30. september 1949, en er nú búsettur í Sandgerði. Hann skrifaði sína fyrstu barna- og unglingabók "Leynihellirinn" 1965, en gaf hana síðan út sjálfur 1970 (Bókaútgáfa Einars Þorgrímssonar). Hans önnur bók "Leyndardómar eyðibýlisins" kom út 1971, en samkvæmt frétt Alþýðublaðsins 29. desember það sama ár, varð hún vinsælasta íslenska barnabókin það árið. Bókin var endurútgefin 1992 af bókaútgáfunni Ísfólkið. Þriðja bókin " Ógnvaldur skíðaskálans" kom síðan út 1972. Fjórða bókin "Ógnir kastalans" kom út 1975. Fimmta og síðasta bókin "Myrka náman" kom síðan út árið 1976. Allar þessar bækur voru gefnar út af höfundinum sjálfum og eru ófáanlegar. Einar á söngtextann "Akureyri" á barnaplötu Ruthar Reginalds "Furðuverk", en lagið var endurútgefið á geisladisknum "Bestu barnalögin" árið 2003. Óútgefin handrit Einars Þorgrímssonar eru: Ógnvaldur undirdjúpanna, Villuvitinn, Manndýrið og Menn myrkursins. Einar gaf út sína fyrstu barnaplötu "Afríka Söngur dýranna" í júní 2013 sem inniheldur 12 frumsamin sönglög með frumsömdum textum. Sögumaður leiðir hlustendur um frumskóginn þar sem hann segir lítillega frá dýrunum og hljóðritar söng dýranna. Naggrísir. Naggrísir (fræðiheiti: "cavia porcellus") eru spendýr af ættbálki nagdýra. Þeir eru ættaðir frá Suður-Ameríku, nánar tiltekið löndum í Andesfjöllum eins og Bólivíu, Perú og Ekvador. Þeir hafa verið notaðir til matar, í fórnir í trúarlegum athöfnum, sem tilraunadýr og á seinni árum sem gæludýr. Talið er að þeir hafi átt sögu með manninum allt frá því um 5000 árum fyrir Krist. 14 tegundir eru til af naggrísum en aðeins þrjár þeirra eru hafðar sem gæludýr: "snögghærður", "rósettur" sem eru með síðari og úfnari feld og "angóru". Meðallíftími er 4 - 8 ár. Þeir treysta mikið á lyktarskyn og heyrn en sjá ekki eins vel. Аndrej Aršavin. Аndrej Sergevič Aršavin (fæddur Андре́й Серге́евич Арша́вин 29. maí 1981 í Leníngrad) er rússneskur knattspyrnumaður hjá Arsenal FC. Hann býr yfir mikilli knatttækni og er oft kallaður „hinn rússneski Pelé“. Hann sló í gegn með rússneska landsliðinu á EM 2009 þegar hann skoraði eitt mark gegn Hollandi og lagði upp tvö í 8-liða úrslitum. Hann byrjaði að spila með rússneska landsliðinu árið 2002 og hefur leikið 61 landsleiki og hefur skorað 16 mörk. Hann spilaði með Zenit Sankti Pétursborg frá árinu 2000 til 2009 áður en hann var seldur á 15 milljónir punda í janúar 2009 til Arsenal og gerði hann þriggja og hálfs árs samning. Hann getur spilað sem kantmaður, sókndjarfur miðjumaður eða annar framherji. Hann spilar í treyju númer 23 og er dýrasti leikmaður í sögu Arsenal. Jósefos Flavíos. Jósefos Flavíos, oft nefndur "Jósefos sagnaritari", (37 – um 100) var Gyðingur frá Galíleu og þekktur sem helsti sagnfræðingur Gyðinga á fornöld. Hann tók beinan þátt í uppreisn Gyðinga 64 – 70 og var viðstaddur eyðileggingu Jerúsalem og musterisins. Ævisaga. Jósefos var af góðum ættum presta og jafnvel æðstupresta. Í ævisögu sinni rekur hann ættir til Hasmónea, oftar þekktir sem Makkabear, en þeir stofnuðu sjálfstætt ríki í Palestínu á annarri öld fyrir okkar tímatal. Í upphafi stríðsins var hann tekinn til fanga af rómverska hershöfðingjanum Vespasíanusi sem sendur hafði verið af Neró keisara að berja niður uppreisnina. Hann lýsir því sjálfur í ævisögu sinni hvernig hann stjórnaði aðgerðum í Galíleu gegn Rómverjum en sveik félaga sína og gaf sig á vald Vespasíanusar hershöfðingja um leið og Rómverjar birtust. Þar sem hann var af góðum ættum og háttsettur meðal andstæðinganna hefur hann fengið sæmilega góða umönnun. Hann segist hafa spáð fyrir um það við Vespasíanus að hann yrði næsti keisari enda ættu messíasarspádómar Biblíunnar við hann. Þetta þótti með ólíkindum enda ekkert brottfararsnið á Neró keisara auk þess sem Vespasíanus var ekki af júlíönsku ættinni sem allir keisarar höfðu tilheyrt. Stuttu seinna framdi Neró sjálfsmorð og Vespasíanus lagði af stað til Rómar að heimta keisaratignina en Títus sonur hans tók við stjórn hersins. Samkvæmt Jósefosi voru þeir feðgar svo ánægðir með að spádómurinn hafði ræst að þeir ættleiddu hann inn í ætt sína, flavíönsku ættina, og nefnist hann Jósefos Flavíos (réttara Títus Flavíus Jósefus) eftir það. Vespasíanus varð keisari árið 69 og ríkti í tíu ár en Títus tók síðan við af honum og ríkti í tvö ár. Bækur Jósefusar. Bókin um "Gyðingastríðin" eru skrifuð að beiðni þeirra feðga Vespasíanusar og Títusar og kom væntanlega út stuttu eftir að stríðinu lauk endanlega árið 73. Hún er skrifuð á arameísku, móðurmál Jósefosar, en seinna þýddi hann hana á grísku með aðstoð annarra. Aðeins eru til grískar útgáfur af ritinu. Tuttugu árum seinna skrifaði hann helsta rit sitt, "Sögu Gyðinga" en þá var Dómítianus orðinn keisari, bróðir Títusar. Árið 97 skrifaði hann rit þar sem hann svarar gagnrýni á söguriti sínu. Grikkinn Apíon dró í efa að fornsögur af Gyðingum gætu verið sannar og benti meðal annars á að Heródótos sagnfræðingur sem skrifaði um þjóðir heims á fimmtu öld f.o.t. minnist ekkert á Gyðinga. Árið 99 skrifaði hann "ævisögu sína". Þá er flavíanska ættin fallin frá völdum fyrir nokkru og Trajanus orðinn keisari. Veðurmet á Íslandi. Þetta er listi yfir veðurmet á Íslandi. Alls hefur hiti yfir 30°C mælst 6 sinnum á Íslandi. Hæst fór hann í 36,0°C á Teigarhorni 24. september 1940 en það telst ekki met vegna þess að hitinn virtist rjúka upp þótt svalt væri bæði um morguninn og á öðrum tímum þegar veður var skráð. Útikennsla. thumb thumb Útikennsla er kennsluaðferð sem fer fram utandyra og reynir að fara skapandi leiðir við kennslu á bóklegum fögum sem venjulega eru kennd innandyra, til dæmis stærðfræði. Útikennsla er aðallega hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri. Útikennsla fer fram utan skólastofunnar og getur falið í sér margt í senn. Í henni er fjallað um viðfangsefnin á faglegan hátt, en jafnframt lögð áhersla á persónulega upplifun nemendanna og að þeim gefist tækifæri til að nota öll skilningarvitin við námið. Útikennslan höfðar til margra greindarþátta, til dæmis umhverfis og náttúrugreind, og á því að henta lang flestum nemendum. Útikennsla á sér marga öfluga málsvara og styðst við hugmyndir margra fræðimanna um mikilvæga þætti sem skipta máli við nám. Má til dæmis nefna að samkvæmt kenningum Aristótelesar, Jean-Jacques Rousseau, Jean Piaget og Johns Dewey næst meiri árangur í námi ef börn fá tækifæri til að nota fleiri en eitt skynfæri og beita öllum líkamanum við námið. Lev Vygotsky leggur mikla áherslu á samvinnunám og þá ekki síst samvinnu á milli kennara og nemenda í leit að þekkingu. Að mörgu er að hyggja þegar útikennsla er skipulögð, svo sem ákvæðum námsskrár um kennslu, hvar skólinn er staðsettur, hvernig nærumhverfi hans er og ekki síst hvar í námi nemendur eru staddir og þeim námsgreinum sem á að vinna í. Annað sem hefur áhrif á skipulagningu útikennslunar er stærð bekkjarins, aldur nemenda, reynsla þeirra af slíku námi og sérstaklega getu og þarfir þeirra. Þetta er það sem verður að hafa í huga þegar útikennsla er skipulögð og ekki má gleyma öryggisreglunum sem kennari setur upp fyrir nemendur. Markmið útikennslu. Markmið útikennslu eru margvísleg. Í útinámi kynnast nemendur náttúrunni og þeirri menningu og samfélagi sem þeir búa í. Einnig er aukin hreyfing barna mikilvæg, meira þol og betri hreyfifærni. Nemendur öðlast betri félagslega færni, þeir eru í miðju atburðanna, læra um lýðræðisleg vinnubrögð, að eiga samskipti hver við annan og taka ábyrgð. Annar kostur er sá að skilningur nemenda á náttúrunni, vísindum og umhverfi eykst. Tekist er á við fjölbreytileg verkefni við raunverulegar aðstæður. Aukin einbeiting og ró eftir hressandi útiveru í fersku lofti og betri tengsl nemenda við viðfangsefni kennslunnar vegna fjölbreyttari kennslu og námsaðferða eru einnig góðir kostir. Kvíðaraskanir barna. Kvíði og hræðsla eru eðlilegar tilfinningar sem börn líkt og fullorðnir þekkja. En ef kvíðinn verður mikill og tíður getur það haft mjög truflandi áhrif á líf þeirra. Rannsóknir hafa sýnt að algengi kvíðaraskana meðal barna er á bilinu 5,8-17,7%. Allar kvíðaraskanirnar greinast bæði hjá börnum og fullorðnum nema aðskilnaðarkvíði "(separation anxiety disorder)" sem greinist bara hjá börnum yngri en 18 ára. Í þessari grein verður fjallað um algengustu raskanirnar hjá börnum. Ofurkvíðaröskun. Það sem helst einkennir ofurkvíðaröskun eru þrálátar og truflandi áhyggjur eða kvíði sem eru ekki tengdar tilteknum fyrirbærum eða aðstæðum. Börn eiga erfitt með að stjórna þessum áhyggjum eða losna við þær. Áhyggjurnar beinast að frammistöðu á ýmsum sviðum, heilsu, fjölskyldu eða öðru. Þessi einkenni verða að hafa staðið yfir í sex mánuði eða meira til þess að hægt sé að greina börn með ofurkvíðaröskun. Að auki verða líkamlega einkenni að vera til staðar. Þau eru óróleiki, að verða auðveldlega þreyttur, eiga erfitt með einbeitingu, pirringur, vöðvaspenna og svefntruflanir. Fullorðnir verða að hafa þrjú eða fleiri af þessum einkennum en börn aðeins eitt eða fleiri. Einnig verða áhyggjurnar að vera það miklar að þær trufli klárlega líf fólks. Börn með ofurkvíðaröskun hafa oft áhyggjur af frammistöðu sinni í skóla eða í íþróttum jafnvel þó þau séu ekki í prófi eða mati. Þau leggja oft mikla áherslu á stundvísi og hafa áhyggjur af ýmsum hamförum, svo sem jarðskjálftum og stríði. Þau eru oft mjög hlýðin og hafa mikla tilhneigingu til að þóknast öðrum. Þau eru einnig oft óörugg með sig, hafa fullkomnunaráráttu og vinna þess vegna verkefni sín endurtekið þar sem þau sætta sig ekki við árangurinn. Þau leita líka mikið eftir viðurkenningu, hóli og hughreystingu. Meðalaldur barna þegar kvíðaröskun hefst er 8,8 ár. Aðskilnaðarkvíði. Aðskilnaðarkvíði er kvíðaröskun sem greinist einungis hjá börnum og unglingum en ekki fullorðnu fólki. Aðaleinkenni aðskilnaðarkvíða er mikill kvíði þegar börnin fara frá heimilinu eða frá þeim sem barnið er tilfinningalega tengt, til dæmis foreldrum. Kvíðinn kemur einnig fram þegar von er á þessháttar aðskilnaði. Kvíðinn er meiri heldur en hæfir þroska barnanna. Til þess að hægt sé að greina börn með aðskilnaðarkvíða verða einkennin að hafa verið til staðar í að minnsta kosti fjórar vikur og hafa hafist áður en barnið nær 18 ára aldri. Einnig þurfa einkennin að trufla líf barnanna á mörgum sviðum. Börn með aðskilnaðarkvíða hafa oft áhyggjur af því að eitthvað slæmt komi fyrir þau sjálf eða þá sem barnið er tilfinningalega tengt. Þegar börn vita að aðskilnaður er yfirvofandi gráta þau, halda fast í foreldrana eða þá sem barnið er tilfinningalega tengt, öskra eða grátbiðja þau um að fara ekki. Þau verða oft ofbeldisfull til þess að forðast aðskilnaðinn eða fá líkamlega einkenni, til dæmis magaverk. Aðstæður sem börn með aðskilnaðarkvíða forðast eru til dæmis að fara í skólann, að vera ein heima, að fara ein að sofa eða gista annars staðar en heima hjá sér. Oft fá þessi börn martraðir um aðskilnað. Afmörkuð fælni. Aðaleinkenni afmarkaðrar fælni er mikill ótti við ákveðin fyrirbæri eða aðstæður. Dæmi eru um að fólk hræðist dýr, blóð, lyftuferðir og flugferðir. Þessi ótti eða kvíði er óraunhæfur og ekki í samræmi við raunveruleikann. Fullorðnir átta sig á því að óttinn er meiri en eðlilegt er. Börn átta sig þó ekki á því hver óraunhæfur kvíðinn er og kvarta þess vegna sjaldan yfir honum. Oftast forðast fólk áreitið sem veldur kvíðanum en ef það gerir það ekki finnur það fyrir miklum kvíða og óþægindum. TIl þess að hægt sé að greina fólk með afmarkaða fælni mega einkennin ekki vera aldurstengd og þau þurfa að hafa truflandi áhrif á líf fólks. Fyrir fólk sem er yngra en 18 ára þurfa einkennin að hafa verið til staðar í sex mánuði eða lengur til að fá greiningu. Hjá börnum kemur kvíðinn fram sem grátur, reiðiköst, þau frjósa eða halda fast í einhvern sem þau treysta. Meðalaldur barna þegar kvíðaröskunin hefst er 7,8-8,4 ár en sjúkdómurinn virðist ná hámarki í kringum 10-13 ára aldur. Félagsfælni. Það sem helst einkennir félagsfælni er mikill, þrálátur og óraunhæfur kvíði í félagslegum aðstæðum eða aðstæðum þar sem framkvæma þarf athafnir að öðrum viðstöddum. Kvíðinn er sérstaklega mikill í aðstæðum þar sem möguleiki er að aðrir leggi mat á manneskjuna á einhvern hátt. Fólk hefur áhyggjur af því að það muni hegða sér á einhvern hátt eða sýna kvíðaeinkenni sem gætu leitt til niðurlægingar eða skammar. Fullorðnir gera sér grein fyrir því að kvíðinn sé óraunhæfur en börn gera það ekki alltaf. Þegar fólk með félagsfælni er í aðstæðum sem valda þeim kvíða kemur kvíðinn nánast strax og getur leitt til felmturskasts "(panic attack)". Börn með þennan kvíða geta farið að gráta, fengið reiðikast, haldið fast í foreldra sína eða flúið úr aðstæðunum. Til þess að hægt sé að greina fólk með félagsfælni þarf kvíðinn að trufla líf einstaklinganna og börn yngri en 18 ára þurfa að hafa haft einkennin í sex mánuði eða lengur. Félagsfælni getur verið almenns eðlis þar sem kvíðinn beinist að næstum öllum félagslegum aðstæðum eða sérhæfur þar sem hann beinist aðallega að einhverjum ákveðnum félagslegum aðstæðum. Meðalaldur barna þegar röskunin hefst er 11,3-12,3 ár. Heiður. Heiður, æra, drengskapur, sómi eða sæmd er mat á félagslegri stöðu manneskju og hve vel er hægt að treysta henni, dæmt út frá hegðun hennar. Howard Gardner. Howard Gardner er bandarískur sálfræðingur. Hann er þekktastur fyrir fjölgreindakenninguna. Gardner, Howard Fjölgreindakenningin. Fjölgreindakenningin er kenning eftir Howard Gardner sem skiptir greind í nokkur svið. Gardner skilgreinir greind sem Greind er líffræðileg/sálfræðileg geta til að vinna úr þekkingu/upplýsingum sem hægt er að nýta til að leysa mál eða skapa afurðir sem hafa gildi í menningu. Aðgerðagreining. Aðgerðagreining er ákveðin grein af hagnýttri stærðfræði sem notar stærðfræðileg líkön, tölfræði og reiknirit til þess að finna bestu lausn eða góða lausn á erfiðum vandamálum; til dæmis að finna stystu akstursleið eða lágmarka biðtíma viðskiptavina. Aðgerðagreining er vísindaleg aðferð sem stjórnendur geta notað til þess að ná markmiðum sínum. Yfirlit. Aðgerðagreining er oft nefnd í sambandi við bestun þó að í sumum viðfangsefnum aðgerðagreiningar séu ekki til þekktar aðferðir til að finna bestu lausn. Aðgerðagreining er nátengd iðnaðarverkfræði og iðnaðarverkfræðingar líta á aðgerðagreiningu sem mikilvægan hluta af sinni hæfni. Þær helstu og mikilvægustu aðferðir sem eru notaðar í aðgerðagreiningu eru tölfræði, bestun, líkindafræði, biðraðafræði, leikjafræði, myndgreining, ákvarðana greining og hermun. Vegna flókinna útreikninga sem aðgerðagreiningin krefst hefur aðgerðagreining einnig sterk bönd við tölvunarfræði og þeir sem vinna við aðgerðagreiningu nota bæði sérhönnuð forrit og hilluforrit. Helsta einkenni aðgerðagreiningar er að leitast við að meta skipulagsheildina í stað þess að einblína á ákveðna hluta hennar (þó það sé oft gert líka). Sá sem notast við aðgerðagreiningu við lausn nýs vandamáls þarf að ákvarða hvaða aðferð er mest viðeigandi að nota út frá eðli kerfisins, markmiði verkefnisins og tímaskorður og tölvugetu (computer power). Af þessari ástæðu er mannlegi þátturinn í aðgerðagreiningu mjög mikilvægur. Samtök og fagleg tímarit. Mörg samtök eru starfrækt sem hafa aðgerðagreiningu sem viðfangsefni. Hamskiptarit járns. Hamskiptarit (járn) sýnir hvernig efnahamur blöndu járns og kolefnis breytast eftir kolefnisinnihaldi og hita. Kolefni er mikilvægasta íblöndunarefni járns, en venjulega er miðað við hita að 1600[°C] og kolefnisinnihald frá 0 til 6,67% af þyngd eða 0% til 7%. Oft eru þó sýndir hlutar úr línuritinu fyrir þrengri bil í kolefnisinnihaldi og hitastigi. Dæmi um fasa er fljótandi efni frá 1446[°C] til 1528[°C] háð kolefnisinnihaldi og hita. Annað dæmi er "gammajárn" frá 721[°C] til 1487[°C] með kolefnisinnihald frá 0 til u.þ.b. 1,7% háð kolefnisinnihaldi og hitastigi eins og áður. Sjá línurit hér til hliðar. Cementít (Fe3C). Efnafræði heitið er Fe3C. Kolefnisinnihaldið er 6,67% af þyngd. Það er iðulega hörð stökk blanda sem er innskot i efnið og hefur lítið brotþol (u.þ.b. 0,03 [N/mm2]) enn mikið þrýstiþol og teningslaga byggingu. Þegar kolefnisatóm komast ekki lengur fyrir í lausn af ferríti og austeníti (vegna aukins kolefnisinnihalds eða lækkandi hita), myndast cementít, því það getur tekið upp meira af kolefni í krystalbyggingu sinni. Austenít (γ-járn). Einnig þekkt sem γ - járn, er efnablanda í föstu formi þar sem járn er blandað kolefni jafndreift um efnið (C). Krystallarnir hafa flatarfyllta byggingu (FCC). Austenít er yfirleitt ekki stöðugt, eða til, við stofuhita en allt stál er þó til í þessu ástandi ef hitastigið er nógu hátt. Sumar stálblöndur eru stöðugar í þessum einsleita fasa jafnvel niður í stofuhita. Austenít er mjúkt og formanlegt. Ferrít (α-járn). Einnig nefnt alfa-járn er í föstu formi blanda af kolefni (C) í litlu magni blandað í járn (Fe). Kristallurinn hefur miðlæga byggingu. Ferrít er mýksta ástandið í járn-kolefnislínuritinu. Mynd 2. Kristalbygging ýmisa fasa í járn-kolefnislínuritinu Perlít (α+Fe3C). Eutectoid blanda sem inniheldur 0,83% kolefni og myndað við 722[°C] og mjög hæga kælingu. Perlít er mjög fíngerð lagskipt blanda af ferríti og sementíti. Byggingingin samanstendur af ljósum bakgrunni úr ferríti og þunnum flögum úr cementíti. Ákveðið magn af kolefni og ákveðið magn af járni þarf til að mynda sementíti (Fe3C). Perlít þarf einnig ákveðið magn af sementíti og ferríti. Ef ekki er nægjanlega mikið magn af kolefni, þ.e.a.s. magnið er minna en 0,83%, mun kolefnið og járnið sameinast og mynda sameindina Fe3C þar til allt kolefnið er búið. Þetta sementít mun sameinast nauðsynlegu magni ferríts og mynda perlít. Leifarnar af ferríti verða eftir í efninu og mynda hreint ferrít sem ekki er bundið kolefni. Þetta óbundna ferrít er einnig þekkt sem proeutectoid-ferrít en það er annað mál. Stál sem inniheldur proeutectoít-ferrít er nefnt hypoeutectoít-stál. Ef samt sem áður er meira en 0,83% af kolefni í Austenítinu mun myndast perlít, og afgangs kolefni yfir 0,83% myndar sementít. Þetta viðbótar sementít fellur út í kornamörkunum. Þetta sementít er einnig þekkt sem proeutectoít sementít. Ledeburít (α+Fe3C). Ledeburít er eutektísk blanda af austeníti og cementíti. Það inniheldur 4,3% kolefni og er eutektískur punktur fyrir steypujárn. Ledeburít er í stálinu þegar kolefnið er yfir 2% sem eru skilin á járn-kolefnislínuritinu milli stáls og steypujárns. Delta-járn (δ). Delta-járn verður til við hitastig á bilinu 1400 til 1540 [°C]. Það getur verið í bland við bráð sem inniheldur allt að 0,50% kolefni, í bland við austenít með allt að 0,18% kolefni og jafndreift í efni sem inniheldur allt að 0,10% kolefni. Delta járn er með miðlæga kristal byggingu og segulmagnað eins og ferrít. Helgi Þorgils Friðjónsson. Helgi Þorgils Friðjónsson (fæddur 7. mars 1953 í Búðardal) er íslenskur myndlistarmaður. Hann ólst upp í Búðardal til fimmtán ára aldurs en fluttist þá til Reykjavíkur. Helgi stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1971-1976. Að því loknu fór hann til Haag og var í námi í De Vrije akademíunni og árið eftir í Jan van Eyck akademíunni í Maastricht í Hollandi. Námi sínu þar lauk hann árið 1979 og kom heim í kjölfarið. Helgi segir í bókinni Helgi Þorgils Friðjónsson, Sjónþing 13. október 1996, að hann hafi komið inn í Myndlista- og handíðaskólann sem hálfgerður sveitamaður. Hann þakkar kennurum sínum fyrir að taka sér vel en hann var í deild sem þá var kölluð Frjáls myndlistardeild. Þarna nefnir hann reyndar líka að seinna þegar hann var farinn að mála hafi kennarar sínir „snúið upp á sig gagnvart verkum sínum” (Hannes Sigurðsson, 1996). Málarinn Helgi. Helgi hafði unnið mikið með teikningar, grafík og texta. Þegar hann byrjar fyrst að vinna með málverkið á skólaárunum í Hollandi og þá hlítir hann öllum þeim reglum sem unnið var með á þeim tíma. Það þótti honum of flókið og vildi einfalda hlutina. Þá fer hann í að „yfirfæra skissuna á striga þ.e. að koma hugsuninni beint í málverkið” (Hannes Sigurðsson, 1996). Helgi segist vinna myndir sínar hrátt og að þær byggist á einhvers konar konsepti/hugmynd sem tengi hann við samnefndan áratug. Helgi tekur þátt í upphafi þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið nýja málverkið og kom fram um 1980. Helgi sýndi fyrst olíumálverk í Gallerí Sugurgötu 7 1980 og næst á sýningu í Norrænahúsinu 1981. Hann tók einnig þátt í stórum samsýningum eins og „Nýja málverkið” Nýlistasafninu og Gullströndin andar sem var haldin íJL-húsinu árið 1983. Tvær síðast nefndu sýningarnar vöktu mikla athylgi og umtal og hristu hressilega upp í myndlistarheiminum í landinu. Það var strax augljóst þarna að Helgi myndi skapa sér sérstöðu innan þess sem kallað er nýja málverkið. Á sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1987 má segja að Helgi hafi fyrst fengið viðukenningu á verkum sínum. Helgi var farinn að mála fígúrurnar, sem hafa síðan einkennt málverk hans, í kringum 1987 og voru málverkin á Kjarvalssýningunni í þeim dúr. Í myndunum má finna svo til öll helstu táknin sem hafa verið einkennandi í verkum Helga s.s. landslag, kentárar og englar. Helgi segir sjálfur að hann noti táknmál með „frekar léttum og óábyrgum hætti”. Hann segist vera að „stefna saman sögunni; mannkynssögunni og listasögunni”. Helgi notar mikið tilvitnanir í ævintýri og þjóðsögur með súrrealískum undirtóni en verkin verða þó aldrei í raun súrrealísk. Gunnar B. Kvaran segir í bók um Helga sem Listasafn Reykjavíkur gaf út árið 1989 að hugmyndin og myndefnið hafi ávallt gegnt jafn stóru hlutverki og hin formræna útfærsla í vekum hans. Helgi segist sjálfur vera að vinna með einsemd mannsins í verkum sínum. Þetta má m.a. sjá í því að fólkið/fígúrurnar myndunum snertast svo til aldrei, augu þess mætast ekki og það virðist varla vita hvert af öðru. Þetta ítrekar hann líka með því að mála konur jafnt sem karla nakta en án þess að höfða til kynhvatarinnar. Einsemdin alger. Samband manns og náttúru er stór þáttur í list Helga og landslagið sem slíkt fastur punktur í verkum hans. Hann hefur dvalið úti á landi og finnst mikið til náttúrunnar koma almennt. Helgi talaði um það á sjónþinginu í Gerðubergi í október 1996 að hann hafi átt frekar erfitt með að mála landslag fyrst þegar hann var að byrja að mála. Síðar meir hafi hann náð betra sambandi við það. Hann segir að oftast sé landslagið skáldskapur einn en í hveri mynd sé svona eitt og eitt sem hann tengi veruleikanum eins og t.d. stakur foss, fjall o.s.frv. Myndmálið í myndum Helga hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina – tákngervingin, formið og litræn framsetning. Gallerý gangurinn – the corridor. Helgi opnaði lítið sýningarými sem hann kallar „Gallerí gang” árið 1980 og hefur „Gangurinn“ verið starfandi síðan. Á heimasíðu Helga – http://www.helgi-fridjonsson.com/ - segir að megin markmiðið með rekstrinum sé að kynna myndlistarmenn og aðra fyrir nýjum erlendum listamönnum. Fjölmargir erlendir myndlistarmenn hafa sýnt hjá Helga og á síðunni segir að margir hverjir hafi komið aftur til Íslands ýmist til þess að sýna eða sem almennir ferðamenn. Með því að fá listamennina aftur til landsins finnst Helga að hann hafi náð markmiðum sínum með rekstri „Gangsins”. Green Globe 21. Green Globe 21 eru alþjóðleg samtök sem votta sjálfbær ferðaþjónustufyrirtæki um heim allan. Green Globe 21 samtökin eru sprottin út frá Staðardagskrá 21 sem samþykkt var á Ríó ráðstefnunni 1992. Það má síðan segja að Green Globe hafi verið stofnað árið 1994 með stuðningi Alþjóðamálaráðsins og Alþjóða ferðamálasamtakanna. Green Globe samtökin hafa staðla til þess að geta vottað um 30 mismunandi greinar ferðaþjónustunnar: Þar að auki votta samtökin samfélög og einstaka áfangastaði ferðamanna. Um Green Globe. hægt er að rekja hugmyndir um Green Globe samtökin til ársins 1992 þegar um 182 þjóðir samþykktu svokallaða Staðardagskrá á ráðstefnu í Ríó. Ástæða ráðstefnunnar var sú að beina sjónum að umhverfi og þróun þar sem ríki heims skuldbundu sig til að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við stefnumótun. Staðardagskrá 21 er áætlun sem öllum sveitastjórnum heimsins er ætlað að gera í samræmi við ályktun Ríó ráðstefnunnar. Hér er um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þar í hverju samfélagi um sig til þess að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun. Það má segja að Staðardagskrá 21 sé fyrst og fremst velferðaráætlun. Á undanförnum árum hafa mörg sveitafélög á Íslandi unnið að úrbótum í umhverfismálum með vinnu að Staðardagskrá 21. Green Globe byggir á Staðardagskrá 21 en er ólík henni meðal annars vegna þess að um er að ræða óháða umhverfisvottun þriðja aðila. Þetta veitir sveitafélögunum aðhald þar sem árangur er reglulega mældur og tekin út. Staðlarnir eru byggðir á Staðardagskrá 21 og og taka mið af viðkomandi landi. Green Globe á Íslandi. Haustið 2002 var haldinn kynningarfundur með sveitastjórnum sveitafélaganna þriggja á Snæfellsnesi, Snæfellsbæjar, Grundafjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar þar sem sú hugmynd var lögð fram að sveitafélögin tækju sig saman og ynnu að umhverfisvottun. Um var að ræða vottun frá hinum alþjóðlegu vottunarsamtökum Green Globe 21 sem votta meðal annars sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim. Hins vegar vottar Green Globe 21 ekki einungis sjálfbæra ferðaþjónustu heldur votta samtökin einnig samfélög. Sveitastjórunum leist vel á hugmyndina og töldu þeir að með þessu þá myndu sveitafélögin á Snæfellsnesi skapa sér sérstöðu sem vistvænt samfélag. Að lokum var jafnframt ákveðið að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull kæmi einnig að verkefninu sem fullgildur aðili. Til að byrja með var gengið til samninga við Green Globe Accreditation (GGA), sem sér um vottunarmál fyrir Green Globe 21 í Evrópu. Auk fulltrúa frá GGA voru fengnir þrír innlendir ráðgjafar til að koma að verkefninu, en það voru þau Guðrún og Gunnlaugur Bergmann frá Leiðarljósi ehf. og Stefán Gíslason frá Umís ehf. Þessum samningi á milli GGA og sveitafélaganna var hins vegar rift vegna þess að heimsforstjóri Green Globe 21 taldi að Snæfellsnesið væri sérstætt verkefni þar sem að um væri að ræða fyrstu vottun sveitafélaga á norðurhveli jarðar. Því var lagt til að verkefnið yrði alfarið fært í hendur innlendra ráðgjafa. Aðalskrifstofa Green Globe 21 í Canberra í Ástralíu hefur valið vinnu Snæfellsness að vottun sem sjálfbært samfélag, sem sérstakt frumherjaverkefni á heimsvísu. Snæfellsnesi er ætlað að verða fyrirmynd að því hvernig önnur sveitarfélög á Íslandi og annars staðar á norðurhveli jarðar geta unnið að sjálfbærri þróun á sínum svæðum. Verkefnið er því afar mikilvægt og getur mögulega haft mikil áhrif á framtíðarþróun sveitarfélaganna Til að hægt sé að votta samfélag samkvæmt Green Globe 21 staðlinum þarf verkefnið að vera undir forystu stjórnvalds. Í tilfelli Snæfellsness er slíkt stjórnvald Framkvæmdarráð Snæfellsness. Framkvæmdarráðið var formlega stofnað í febrúar árið 2004 og er því ætlað að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið af sveitafélögunum í tenglsum við vottunarferli Green Globe. Í samræmi við staðla Green Globe hafa sveitafélögin á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull komið sér saman um stefnu um sjálfbæra þróun á svæðinu. Þessi sameiginlega stefna sveitafélaganna tekur tillit til náttúru, umhverfis, efnahagslegra, félags- og menningarlegra þátta og gildir til ársins 2015. Þeim viðmiðum Green Globe sem þarf að mæta árlega var mætt í annað sinn á árinu 2006 og teljast þau vera annað þrepið í vottunarferlinu en það þriðja er vottunin sjálf. Í apríl 2008 komu svo fulltrúar á vegum Green Globe samtakanna til að gera úttekt á stofnunum sveitafélaganna á Snæfellsnesi og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Kjartan Bollason frá Háskólanum á Hólum stýrði úttektinni ásamt Stan Rogers frá Ástralíu. Samkvæmt bráðabirgða niðurstöðum þeirra Kjartans og Stans þá mæltu þeir með því við Green Globe að sveitafélögin fimm og þjóðgarðurinn fengju þriggja mánaða vottun síðasliðið sumar. Að þeim tíma liðnum yrðu ákveðin atriði að vera komin í lag því annars yrði vottunin dregin til baka. Það var síðan síðla sumars 2008 sem að Snæfellsnesið öðlaðist fullnaðarvottun Green Globe og er því fyrsta samfélagið á norður- hveli jarðar sem öðlast þessa vottun. Winnipeg. Winnipeg er höfuðborg og jafnframt stærsta borg Manitoba í Kanada. Winnipeg er sjöunda stærsta borg Kanada og þar búa yfir 60% íbúa Manitobafylkis eða um 700.000 íbúar. Winnipeg er nálægt landfræðilegri miðju Norður Ameríku. Nafnið „Winnipeg“ kemur úr Cree tungumálinu og merkir „gruggut vatn“ og vísar það til vatnsins í ám og vötnum á svæðinu. Winnipeg svæðið var viðskiptamiðstöð frumbyggja fyrir komu Evrópubúa til svæðisins um aldamótin 1800. Á seinni hluta 19. aldar og byjun 20. aldar var Winnipeg ein af ört stækkandi borgum Norður Ameríku og varð hún fljótt miðstöð flutninga og framleiðslu. Íbúar Winnipeg eru margir hverjir af Evrópskum uppruna og fjöldi tungumála er talaður á svæðinu. Auk ensku er þar töluð franska, þýska, Tagalog (en í Winnipeg er næst stærsta samfélag Filipseyinga í Kanada á eftir Toronto) og frumbyggja tungumál eins og Cree. Landfræði. Winnipeg liggur í botni Rauðárdalsins ("Red River Valley"). Svæðið er alveg flatt og það eru engar brekkur eða hæðir í borginni eða í nágrenni við hana. Hæð Winnipeg yfir sjávarmáli er 240m. Veðurfar. Winnipeg hefur rakt loftslag með miklum hitasveiflum eftir árstíðum. Hitinn er yfirleitt fyrir neðan frostmark frá miðjum nóvember fram í miðjan mars. Mesti kuldi sem mælst hefur var -47.8 °C þann 24.desember 1879. Sumur í Winnipeg geta svo verið ansi heit, en mesti hiti sem mældur hefur verið var 42.2 °C þann 11.júlí, 1936. Þrátt fyrir þessar miklu sveiflur í hita þá státar Winnipeg þó af titlinum Önnur sólríkasta borg Kanada. Samgöngur. Borgin státar af góðum lestarsamgöngum, almenningsvögnum og góðum þjóðvegum. Í Winnpeg er líka alþjóðaflugvöllurinn James Armstrong Richardson International Airport. Íslendingar í Winnipeg. Nokkur fjöldi Íslendinga er búsettur í Winnipeg og bæjum í kring í Manitobafylki. Íslenskur heiðurskonsúll hefur starfað í Winnipeg frá 1942, en árið 1999 var opnuð aðalræðisskrifstofa með útsendum diplómat. Ræðismaður Íslands í Winnipeg er nú Atli Ásmundsson. Stefnumótun. a> endurmetur stefnu sína reglulega og aðlagar að nýjungum og breyttum aðstæðum. Stefnumótun er langtímaáætlun ríkis, fyrirtækis eða stofnunar sem er hönnuð með það að leiðarljósi að ná ákveðnu markmiði. Stefnumótun vinnur þvert á fyrirtækið, hefur meðal annars áhrif á vörur, þjónustu, starfsmenn, birgja og viðskiptavini, og hefur í för með sér breytingar. Stefnumótun getur ekki farið fram án mikillar undirbúningsvinnu, þar sem innra og ytra umhverfi er skilgreint og skoðað ítarlega. Stefnumótun er eitt mikilvægasta starf stjórnenda fyrirtækis eða stofnunar og er stöðugt í þróun. Stefnumótun. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana eru þeir sem eiga frumkvæðið og leiða hina eiginlegu stefnumótun. Það má segja að stefnumótun sé leidd af forstjóra, samþykkt af yfirstjórn og innleidd af lykilstjórnendum fyrirtækisins. Það er þó gott að hafa í huga að starfsmennirnir sjálfir verða að taka þátt í hinum eiginlega undirbúningi þar sem umhverfið er skoðað og skilyrði sett fyrir stefnuna. Stefnumótun er sú leið sem fyrirtækið ætlar til að ná markmiðum sínum og ætti að vera í samræmi við það sem er að gerast í umhverfi fyrirtækis. Það þarf að vera hægt að aðlaga stefnuna að þeim breytingum sem geta átt sér stað í umhverfinu og stefnan ætti að vera án mótsagna. Stefna fyrirtækis eða stofnunnar er því endurskoðuð reglulega. "„Stefnumótun er óslitið ferli sem metur umhverfi fyrirtækis og stjórnar viðfangsefnum þess: Það metur helstu keppinauta, setur markmið og mótar áætlanir sem ætlaðar eru til að mæta því sem keppinautar fást við; endurmetur stefnuna árlega eða ársfjórðungslega (þ.e. reglulega) til þess að ákvarða hvernig hún hefur verið innleidd og hvort hún er að ná tilætluðum árangri eða þarf að vera endurmetin til að mæta breyttum aðstæðum, tækninýjungum, nýjum keppinautum, nýju efnahagslegu umhverfi, eða nýju félagslegu,- fjármála,- eða pólitísku umhverfi.“" Ferlið. Stefnumótun má skipta í þrjú ferli, mótun stefnu, innleiðingu og endurmat. Hverju stigi verður líst betur hér fyrir neðan. Mótun stefnu. Þeir sem hyggja á stefnumótun ættu að byrja á því að skoða umhverfi sitt. Skoða hvar þeir eru, hvert þeir vilja komast og hvernig þeir ætla að ná þangað. Þessar þrjár spurningar eru kjarninn þegar stefnumótun er undirbúin. Margs konar undirbúningsvinna fer vanalega fram þar sem fyrirtæki greina stöðu sína á markaði, skoða samkeppnina og tækifæri í þeim atvinnuvegi sem þau starfa í og jafnvel utan hans. Næsta skref fyrir fyrirtæki eða stofnun er síðan að setja sér framtíðarmarkmið, bæði til skammstíma og langtíma. Þessi markmið geta verið fjárhagsleg, lútið einungis að einingum innan fyrirtækisins eða verið yfirmarkmið fyritækisins eða stofnunarinnar. Út frá þessum markmiðum verður síðan hin eiginlega stefnuáætlun til. Innleiðing stefnu. Það er ekki einfalt að færa setta stefnu yfir á einingar fyrirtækis eða stofnunar, starfsfólk, vöruþróun, fjárhag, þjónustu, sölu og ráðgjöf svo eitthvað sé nefnt. Passa þarf samræmi milli deilda og sviða og að allir starfsmenn séu að stefna að sama markmiði. Mikilvægt er að tengja áætlanir við stefnu, fylgjast með og greina niðurstöður, bera saman viðmið og hvernig er framkvæmt, skoða gagnsemi og skilvirkni og endurmeta og bæta eins og þarf. Stjórnendur gætu til dæmis reynt að virkja sem flesta starfsmenn og til dæmis tilnefna ákveðna starfsmenn ábyrgja fyrir mismunandi verkefnum eða ferlum. Það er talið mikilvægt er að tryggja sveigjanleika og að nýja skipulagið styðji vel við vörur, þjónustu og helstu verkefni fyrirtæksins. Endurmat stefnu. Flestir eru sammála um að eitt mikilvægasta skref stefnumótunnar er endurmatið. Það er að segja að meta hvort þær breytingar sem gengið hefur verið í og hafa átt sér stað séu til góðs. Í stefnumótun fyrirtækja hafa Johnson og Scoles kynnt til sögunnar líkan þar sem stefnumarkandi valkostir eru bornir saman við þrjá þætti sem teljast til velgengni. Hentugleiki snýr að því að skoða hvort stefnan sé til dæmis fjárhagslega möguleg. Mun fyrirtækið eða stofnunin til dæmis ná fram stærðarhagkvæmni og hentar hún í því umhverfi sem fyrirtækið starfar í. Hagkvæmni snýr síðan að því hvaða bjargir fyrirtækið hefur að vinna úr til þess að koma stefnunni í framkvæmd. Með björgum er átt við fjármagn, mannauð, tíma og upplýsingar. Móttækileiki snýr að því hverjar væntingar helstu hagsmunaaðlila eru í garð stefnunnar. Helstu hagsmunaaðilar geta verið hluthafar, starfsmenn og viðskiptavinir og væntingar þeirra geta snúist um arð, áhættu og viðbrögð annarra hagsmunaaðila. Arður til dæmis er sú hagsbót sem helstu hagsmunaaðilar vænta (fjárhagsleg og ekki fjárhagsleg). Til dæmis vænta hluthafar meiri auðs, starfsmenn vænta framförum í starfsumhverfi þeirra og viðskiptavinir vænta þess að fá meira virði fyrir peninginn. Eyrarteigur. Eyrarteigur er jörð í Skriðdal, sem liggur samsíða Fljótsdal að austanverðu og er bærinn í um 25 km fjarlægð frá Egilsstöðum. Rétt fyrir ofan brúna á Þórisá í landi Eyrarteigs fannst kuml árið 1995. Þjóðvegur 1 eða svokallaður hringvegur liggur um Skriðdal milli Egilsstaða og Hafnar í Hornafirði. Í miðjum dalnum er Þingmúli (eða "Múlakollur"), lágt en einkennandi fjall sem til sést víða af Héraði. Þar undir var þingstaður Austfirðinga til forna og nefnast Múlasýslur eftir Þingamúlanum. Landnámsmaðurinn Ævar hinn forni bjó á Arnhólsstöðum í Skriðdal sem er rétt hjá Múlanum. Þaðan var einnig Björn Pálsson flugkappi og gerði hann m.a flugvöll fyrir neðan bæinn. Norður af Múlanum og rétt norðan við umrædda Arnhólsstaði er Eyrarteigur. Fjallið upp af bænum Eyrarteigi heitir Skúmhöttur og er 1229 m hátt, næst hæsti tindur í Austfjarðafjallgarðinum, Kistufell 1231 m er rétt norðan við Skúmhött. Á tindinn liggur þekkt gönguleið og má finna upplýsingar um hana í bæklingum, vefsíðum og bókum um gönguleiðir á Austurlandi/Íslandi. Rétt fyrir ofan brúna á Þórisá í landi Eyrarteigs fannst kuml árið 1995. Ekki sjást mikil ummerki um það en falleg og skemmtileg gönguleið er upp með gilinu sem Þórisáin rennur í. "Árið 1995 fannst fornmannsgröf rétt sunnan Þórisár í Skriðdal, spölkorn ofan við þjóðveginn. Þetta reyndist eitt merkasta kuml frá landnámsöld, sem fundizt hefur hér á landi. Ríkur höfðingi hefur veið heygður þar ásamt hesti sínum, vopnum og skartgripum. Grautarskál, sem fannst meðal munanna, vakti mikla athygli. Hún varð til þess, að sumir eigna kumblið landnámsmanninum Graut-Atla. Aðrir gizka á Ævar hinn forna. Kumlinu var komið fyrir með upphaflegum ummerkjum í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum." Margit Sandemo. Margit Sandemo (fædd 23. apríl 1924 í Valdres í Noregi) er norsk-sænskur rithöfundur. Hún er einna þekktust fyrir bækur sínar um "Ísfólkið", sem eru allt í allt 47 útgefin bindi. Hún hefur einnig skrifað marga aðra bókaflokka eins og "Galdrameistarann" og "Ríki ljóssins." Helsta sérkenni Margit Sandemo sem rithöfundar er ríkt ímyndunarfl, rómantík, spenna og yfirnáttúrulegir atburðir. Söguþræðir bóka hennar eru oft á tíðum flóknir og þræða sig á milli bóka. Í aðalhlutveki eru sérstakir töfragripir, gömul letur og tákn sem aðalpersónurnar reyna að ráða fram út til að leysa úr ráðgátunni í tíma, meðan þær berjast við ill öfl. Atburðirnir í skáldsögum hennar gerat í meirhluta í Evrópu á fyrri tímum og í byrjun nútímans, sérstaklega í Noregi og Íslandi. Stundum lenda aðalpersónurnar í ævintýrum í fjarlægari löndum eins og á Spáni og Austurríki. Miðalda kastalar, skógur sem er undir álögum og friðsæll herragarður eru meðal sögusviðs bóka hennar. Meðal fyrirmynda hennar eru að sögn Sandemo höfundar á borð við Shakespeare, Dostojevskíj, Tolkien, Agatha Christie og Kjersti Scheen. Hún las öll verk Shakesperes þegar hún var átta ára gömul og var ekki mikið eldri þegar hún byrjaði að lesa glæpasögur. Finnskur kvæðabálkur er þjóðþekktur sagnaskáldskapur um Finnska fólkið, Bangsímon eftir A.A. Milne og "Lér konungur" voru hennar uppáhald. Á fullorðinsárum hefur hún lesið mun minna því hún óttaðist ómeðvitaðan ritstuld. Hún segir að hún hafi einnig fengið listrænan innblástur frá finnskum málverkum Akseli Gallen-Kallela og Svartálfsmálverkum Garhard Munthe. Hún hefur einnig þegið innblástur frá klassískri tónlist eins og frá tónskáldunum Johann Sebastian Bach og Beethoven og einnig gömlu evrópsku sögunum. Fyrir utan þetta er hún hrifin af "Star Wars-myndum", hryllingsmyndum eins og "The Silence of the Lambs" stjórnað af Jonathan Demme og fyrstu sjónvarpsþáttirnir af og "X-files". Í hennar huga eru þó nýjustu þættirnir í seríunni hreint rusl. Pottaplanta. Pottaplöntur eru plöntur sem ræktaðar innandyra í heimahúsum og oftast í blómapottum. Umhverfi plantna er lokað og með loftslagsstýringu (t.d. stofa, vinnu- eða, frítímaherbergi, þjónustusvæði, salur). Andstætt við garðplöntur sem ræktaðar eru til notkunar utandyra. Hér er líka munur á kerplöntum sem ræktaðar eru til að standa úti yfir sumarið. Flestar pottaplöntur eru ræktaðar í sérstakri mold vegna þess að þeirra náttúrulegi jarðvegur er ekki í boði. Pottastærð stjórnar endanlegri stærð plöntu. Aðeins á stærri svæðum þar sem plöntur eru notaðar í heimahúsum, gróðurskálum, opinberum byggingum og skrifstofuhúsnæði eru stærri beð þar sem plönturnar standa í sínum náttúrulega jarðvegi. Eiginleikar pottaplantna. Pottaplöntur af mörgum tegundum þrífast í heimahúsum vegna aðlögunarhæfileika sinna að loftslagi í sínum náttúrulegu heimkynnum. Grunnskilyrði eru að plönturnar séu rétt staðsettar, fái rétt hitastig, birtu, vökvun o.fl. miðað við lífsskilyrði þeirra í heimkynnum sínum. Algengastar í ræktun eru þær tegundir sem aðlagast vel loftslaginu í heimkynnum mannsins. Á heimilum er lofthiti oftast milli 18°C og 21°C og rakastig um 60%. Oftast þurfa plöntur hærri raka en maðurinn, þess vegna þarf t.d. að úða plöntuna þar sem þær standa. Öruggt er að plöntur hafa mikilvæg áhrif á umhverfi mannsins. Þær binda skaðleg efni úr loftinu (eins og formaldehýð, ammóníak), búa til úr þeim kolefnissamtekningar og hreinsa með því andrúmsloftið (skv. staðfestum rannsóknum frá NASA). Heimkynni. Hitabeltisregnskógar. Flestar pottaplöntur eiga í heimkynni í hitabeltisregnskógum og nágrannasvæðum þeirra. Dagurinn er 12 klst. allan ársins hring og úrkoman regluleg yfir allt árið. Meðaltalshitastig er háð hæð svæðisins yfir sjó. Í regnskógum undir 600 m yfir sjó er hitastig reglulegt milli 24°C og 26°C, aftur á móti í regnskógum yfir 600 m er meðaltalshitastig hinsvegar aðeins um 10°C. Birtuhlutfall er mjög misjafnt og skriðular, jarðlægar jurtir þola vel skugga, klifurplöntur og ásætuplöntur þurfa meiri birtu. Sem dæmi um pottaplöntur úr hitabeltisregnskógum má nefna ættir eins og "Bromelia", "Orchidea" eða "Philodendron". Þessar plöntur skreyta mikið því þær líta vel út allt árið og þær þurfa engan hvíldartíma. Sjálfendurnýjanlegir skógar. Öfugt við hitabeltisregnskóga eru á þessu svæði regnlaus eða þurrklaus tímabil. Tegundir úr sjálfendurnýjanlegum skógum þurfa vaxtar- og hvíldartíma. Til að ná árangri við ræktun tegunda frá þessum svæðum þarf að hugsa um hvíldartímann. Dæmigerðar tegundir eru "Hippeastrum" og "Clivia miniata". Hitabeltisgresjur. Þær eru í hitabeltinu og þar er að finna margar undirtegundir landslags. Plöntur sem vaxa á þessum svæðum eru aðlagaðar þurrkatímum og lágum loftraka (þykkblöðungar og kaktusar). Stundum er æskilegt að hafa kallt á plöntunum til að ná fram blómgun næsta ár. Plöntur af hitabeltisgresjum eru t.d. "Echeveria", "Euphorbia", "Sansevieria trifasciata"). Hitabeltisskógar. Einkenni hitabeltisskóga er að daglengd breytist eftir árstímum og vetur eru vægir en með mikilli úrkomu. Á sumrin er hinsvegar sjaldan rigning og það getur orðið mjög heitt. Af þessum svæðum eru á heimilum okkar tegundir eins og "Myrtus", "Nerium oleander" og "Ficus". Temprað belti. Aðeins fáar tegundir af þessu svæði eru seldar sem inniplöntur. Nefna má "Hedera helix", "Saxifraga stolonifera" og "Carex". Þessar plöntur þrífast ekki nema við kaldar aðstæður. Skipting í hópa. Hægt er að skipta pottaplöntur upp í tvö aðalhópa: Blómstrandi plöntur (afturkomandi blóm) og græn- og blaðplöntur (sérstakt laufblöð). Alparós ("Azalea indica"), Hawairós ("Hibiscus rosa-sinensis"), Jólastjarna ("Euphorbia pulcherrima"), Pálsjurt ("Saintpaulia ionantha"), Alpafjóla ("Cyclamen persicum") Benjamínsfíkjutré ("Ficus benjamina"), Indíanafjöður ("Sansevieria trifasciata"), Bergflétta ("Hedera helix"), Mánagull ("Epipremnum aureum"), Rifblaðka ("Monstera deliciosa"), Stofufíkjutré ("Ficus elastica"), Tígurskrúð ("Codiaeum variegatum"), Piperax ("Peperomia caperata"), "Schefflera" -tegundir, Stofuáralia ("Fatsia japonica"), Sómakólfur ("Zamioculcas zamiifolia") Kóngaskáblað ("Begonia rex"), "Bromeliaceae, t.d. Sveigblað ("Aechmea fasciata"), Silfurfjöður ("Aphelandra squarrosa"), Veðhlaupari ("Chlorophytum comosum"), Gyðingurinn gangandi ("Tradescantia fluminensis"), Stofulind ("Sparmannia africana") Ammóníak. Ammóníak er efnasamband sem hefur efnaformúluna NH3. Það finnst yfirleitt sem gas með rammri lykt, og er ætandi og hættulegt. Gamli heimurinn. Gamli heimurinn er sá hluti jarðarinnar sem Evrópubúar þekktu á 15. öld fyrir landafundina miklu. Gamli heimurinn telur því Evrópu, Asíu og Afríku meðan Nýi heimurinn nær yfir Ameríku og (stundum) Eyjaálfu. Mary Higgins Clark. Mary Theresa Eleanor Higgings Clark Conheeney, oftast nefnd Mary Higgings Clark, (fædd 24. desember 1927 í Bronx í New York borg) er bandarískur rithöfundur. Allar 24 bækur hennar hafa komist á metsölulista í Bandaríkjunum og Evrópu. Clark, Mary Higgins Skyndihjálp. Skyndihjálp (eða hjálp í viðlögum, fyrsta hjálp) er hugtak haft um grunnaðhlynningu og aðstoð vegna veikinda eða slysa. Það eru gjarnan leikmenn, þ.e. ekki sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn, sem veita fyrstu hjálp og hlúa að sjúkling þar til sjúkraliðar eða önnur sérþjálfuð hjálp berst. Smávægileg veikindi og slys þarfnast stundum eingöngu þeirrar meðferðar sem felst í skyndihjálp, til dæmis smávægilegur skurður eða lítið brunasár. Slík hjálp felst að jafnaði í einföldum aðferðum, í sumum tilfellum getur hún skipt sköpum og jafnvel bjargað mannslífum. Grundvallaratriði. Hér sést hvernig tungan getur lokað öndunarveg, með því að sveigja höfuð afturábak kemst loft greiðar um öndunarveginn Nokkur atriði eru talin skipta megin máli í skyndihjálp. Fyrir það fyrsta þurfa þeir sem veita aðstoð að huga að eigin öryggi með því að tryggja öryggi á vettvang, verja sig gegn smiti eftir bestu getu o.s.frv. Því næst er það grunnskoðun á meðvitundarlausum sjúkling sem gjarnan er nefnd "ABC" sem stendur fyrir "a'"irway", "b'"reathing" og "c'"irculation" á ensku: Fyrst er athugað hvort öndunarvegur sé opinn og engir aðskotahlutir komi í veg fyrir öndun; því næst er athugað hvort sjúklingur geti andað að sjálfsdáðum og að lokum hvort hann hafi púls. Ef sjúklingur andar ekki er endurlífgun hafin með hjartahnoði. Sumar stofnanir sem kenna skyndihjálp bæta við fjórða skrefinu, ABCD. Þá stendur "D" ýmist fyrir "d'"eadly bleeding" eða "d'"efibrillation", þ.e. alvarleg blæðing eða hjartastilling með stuðtæki, en þetta er gjarnan talin hluti af þriðja skrefinu. Ef menn hafa hlotið viðeigandi þjálfun geta menn gert ítarlegri líkamsskoðun og ef sjúklingur er meðvitaður tekið niður sjúkrasögu. Varðveisla lífs. Til þess að varðveita líf einstaklings er mikilvægt að öndunarvegurinn sé opinn. Meðvitað fólk getur haldið eigin öndunarveg opnum en meðvitundarlausir einstaklingar geta þurft hjálp. Ef meðvitundarlaus sjúklingur andar þegar komið er að honum er honum venjulega velt í læsta hliðarstöðu. Í þessari stöðu rennur tungan síður niður í kok (og lokar þannig öndunarveginum) auk þess er minni hætta á því að hann drukkni í eigin ælu. Öndunarvegurinn getur einnig lokast ef aðskotahlutur festist í koki sem veldur þá köfnun. Þá er þrýst á kviðinn með sérstökum hætti, slegið á bakið eða hluturinn fjarlægður með höndunum. Þegar öndunarvegurinn hefur verið hreinsaður er athugað hvort sjúklingurinn andi. Ef hann andar ekki er endurlífgunaraðferðinni beitt, þ.e. andað fyrir sjúklingin með munn við munn aðferðinni og brjóstkassinn hnoðaður. Að flýta bata. Sá sem hefur hlotið þjálfun í skyndihjálp getur flýtt fyrir bata og bætt ástand sjúklingsins með því að búa um sár eða spelka brotna útlimi. Með þessum hætti gæti sá sem veitir aðstoðina lokið meðferð á sjúklingnum eða bætt líðan hans þar til sérþjálfuð aðstoð berst. Þjálfun. Margt í skyndihjálp er almenn skynsemi. Svo sem er líklegt að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að þrýsta á sár til þess að stöðva mikla blæðingu. Hins vegar er mikilvægt að verða sér út um kennslu í skyndihjálp til þess að geta veitt almennilega aðstoð. Þetta á sérstaklega við um alvarleg tilfelli þar sem menn gætu þurft að endurlífga sjúkling. Slíkar aðgerðir geta verið hættulegar og valdið meiri skaða ef þær eru ekki framkvæmdar rétt. Þjálfun er gjarnan fólgin í því að fólk sækir námskeið hjá viðurkenndum aðila. Það þarf einnig að sækja sér reglulega endurmenntun þar sem aðferðir við til dæmis endurlífgun eru sífellt endurskoðaðar. Stofnanir eins og Rauði krossinn bjóða reglulega upp á kennslu í skyndihjálp. Þar eru eðlileg viðbrögð kennd, forgangsröðun, hvernig á að opna öndunarveg, búa um sár og endurlífga svo eitthvað sé nefnt. Sjúkraliðaskólar bjóða gjarnan upp á ítarlegri námskeið þar sem hægt er að læra á sérhæfðan búnað, svo sem súrefnisgrímur, hjartastuðtæki, spelkur og stuðningsbretti. Sjávarlíftækni. Sjávarlíftækni, eða blá líftækni'", er undirgrein líftækni og hvílir sem slík á grunni örverufræði, lífefnafræði, erfðafræði, sameindaerfðafræði og verkfræði. Líkt og í líftækni almennt, þá eru helstu markmið sjávarlíftækninnar að finna og einangra lífvirk efni úr sjávarlífverum, nýta aukaafurðir sjávarútvegs og fiskvinnslu til verðmætasköpunar og nýta sjávarlífverur til framleiðslu lyfja og annarra verðmætra afurða. Upphafið. Úr nútíma rannsóknarstofu. Tekið til fyrir rannsóknarverkefni.Líffræði, líftækni og sjávarlíftækni haldast fast í hendur í gegnum söguna og í rauninni er um að ræða sama svið með mismunandi áherslum. Sögu líftækni má rekja allt frá 18. öld fyrir okkar tímatal, en elstu menjar um bruggun bjórs hjá Súmerum eru frá um 1750 f.o.t. Meðal annarrar fornrar líftækni má nefna að um 500 f.o.t notuðu Kínverjar myglaðar sojabaunir sem sýklalyf og 100 árum f.o.t notuðu þeir mulin blóm af körfublómaætt ("Asteraceae") sem skordýraeitur. Með tilkomu smásjár Jansens árið 1590 opnaðist lífvísindamönnum nýr og ókannaður heimur. Það stóð heldur ekki á nýjum uppgötvunum og mætti þar nefna uppgötvun Hookes á frumunni 1663 og hina afdrifaríku uppgötvun Leeuwenhoeks á bakteríum og frumdýrum ("Protozoa"). Þessar uppgötvanir leiða svo af sér mjög stórstígar framfarir á sviði lífvísinda á 18. og 19. öld. Upp úr miðri 19. öld verður svokölluð „gertækni“ (e. "zymotechnology") að mikilvægri fræði- og tæknigrein í Þýskalandi, Danmörku og víðar, en bjóriðnaðinum hafði þá mjög vaxið fiskur um hrygg. Í fyrri heimsstyrjöld fær „gertækni“ stóraukið vægi, en þá framleiddu Max Delbrück og samstarfsmenn hans ger á stórum skala til fóðurgerðar í Þýskalandi og Chaim Weizmann gerjaði maís og myndaði asetón til sprengjugerðar fyrir breska herinn. Það var þó ekki fyrir en árið 1919 sem fræðiheitið „líftækni“ ("Biotechnologie") kemur fyrst fram á sjónarsviðið í þýskri tungu í bók eftir ungverskan landbúnaðarverkfræðing. Meðal mikilvægra uppgötvana á fyrri helmingi 20. aldar má til dæmis nefna uppgvötun penisillíns 1928 (Alexander Fleming). Árið 1944 sýndu Avery, McCarty og MacLeod fram á að erfðaefnið er DNA. 1953 sýndu tveir vísindamenn (James Watson og Francis Crick) fram á þrívíða byggingu DNA. Árið 1955 var ensím sem kemur við sögu í kjarnsýrusmíð einangrað í fyrsta sinn. 1969 er ensím búið til í stýrðu umhverfi í fyrsta sinn. Í gegnum tíðina hefur líftækni og þar af leiðandi sjávarlíftæki tekið breytingum jafnt og þétt og í takt við tæknilegra framfarir mannkyns. Upphaf Sjávarlíftækni á Íslandi. Íslendingar hafa um langan aldur leitast við að auka geymsluþol og verðmæti sjávarfangs. Ýmsar gamlar geymsluaðferðir sem að meira eða minna leyti byggja á gerjun mætti nefna, svo sem kæsingu brjóskfiska, skreiðar- og saltfiskverkun. Skipulagðar rannsóknir á matvælum hefjast hér á landi með stofnun Efnarannsóknastofu landsins þegar árið 1906, en aukinn kraftur færist í þessar rannsóknir með tilkomu Atvinnudeildar Háskóla Íslands 1937 og 1965 er svo Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins stofnuð, en þar átti sér stað mikið þróunarstarf, meðal annars í líftækni. Má sem dæmi nefna rannsóknir Sigurðar Péturssonar gerlafræðings á roðaskemmdum í saltfiski og tilraunir Emilíu Martinsdóttur til framleiðslu á matarlími úr grásleppuhvelju. Á síðustu 15 til 20 árum hafa sprottið upp fyrirtæki sem starfa á sviði sjávarlíftækni. Einnig hefur átt sér stað sérhæfing innan sviðsins. Menntun sem tekur mið af sérþörfum á sviði sjávarlíftækni hefur verið aukin. Sjávarlíftækni er meðal helstu áherslusviða líftæknináms við Háskólann á Akureyri. a> við mikilvægar rannsóknir Íslenskir fræðimenn og rannsóknir. Sjávarlíftækni hefur lengi verið meðal áherslusviða rannsókna við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir. Verkefni sem íslenskir fræðimenn hafa unnið á þessu sviði hafa mörg skilað markverðum árangri og gert fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að auka arðbærni starfsemi sinnar með auknu verðmæti afurða og aukinni skilvirkni í framleiðslunni. Sjá má nýleg dæmi um rannsóknaverkefni og árangur þeirra á heimasíðu rannsóknasjóðsins AVS. Rannsóknir í sjávarlíftækni hafa einnig skilað af sér frumkvöðlastarfi og sprotafyrirtækjum. Nefna má sprotafyrirtækið BioPol sem nýlegt dæmi. Þess má geta að gögn um rannsóknir í sjávarlíftækni eru ekki alltaf gerð aðgengileg vegna samkeppnishagsmuna fyrirtækja eða vegna þess að verið er að sækja um einkaleyfi fyrir afurðum eða aðferðum. Stiklað verður frekar lauslega yfir nokkra fræðimenn og störf þeirra í textanum hér á eftir. Við lífefnaleit (e. "bioprospecting") er skimað í lífríkinu eftir áður óþekktum lífvirkum efnum og hugað að mögulegu notagildi þeirra. Á umliðnum árum hafa vísindamenn undir forystu Hjörleifs Einarssonar prófessors við Háskólann á Akureyri leitað fanga meðal botnlægra sjávarlífvera sem þrífast við hinar sérstæðu hverastrýtur í Eyjafirði. Sýni sem fengin hafa verið í sýnatökuleiðöngrum hafa verið unnin frekar á rannsóknarstofum og einangraðar úr þeim bakteríur með sértæka virkni. Jón Bragi Bjarnason, prófessor við Háskóla Íslands hefur unnið að rannsóknum á ensímum sem einangruð hafa verið úr sjávarlífverum. Jón Bragi telur að ensím sem unnin eru úr sjávarfangi hafi í ýmsu tilliti yfirburði yfir önnur ensím. Er það einkum tvennt sem skiptir máli. Annars vegar hversu hreint umhverfið er sem slík ensím eru hreinsuð úr ("lífverur úr hafinu í kringum ísland"). Og hins vegar vegna lágs hitastigs sem þessi sjávarensímin geta starfað við en flest ensím glata virkni sinnar við lágt hitastig. Í kringum þessa vinnu sína hefur Jón Bragi stofnað fyrirtæki sem framleiðir snyrtivörur. Úrgangur frá sjávarútvegi. a> fyrir hitakærar örverur frá hverastrýtum. Líftækni getur nýst við að finna hagkvæm not fyrir slóg, afskurð, úrgang og annað sjávarfang sem fellur til við vinnslu. Úrgangurinn verður þá að hráefni til framleiðslu lífvirkra efna eða annarra verðmætra afurða. Gjarnan er notast við bakteríur eða ensím þeirra til framleiðslunnar og getur þá verið um að ræða sjávarbakteríur sem einangraðar hafa verið sérstaklega vegna sérhæfni þeirra. Notkun erfðabreyttra baktería, þar sem viðeigandi lífvirkni hefur verið komið fyrir í erfðamengi þekktrar og meðfærilegrar bakteríu á borð við "E. coli" eða "B. subtilis", kemur líka til greina. Að nýta bakteríur til þessara hluta er að jafnaði ódýr kostur og í mörgum tilvikum hagkvæmari en nýting efnafræðilegra aðferða. Lífvirk prótein úr sjávarfangi. Glútamínrík peptíð hafa fundist í sjávarfangi sem örva orkuskipti við áreynslu. Einnig hafa fundist örveruhemjandi peptíð, sem oftast eru basísk prótein, úr sviljum og þá helst í laxfiskum og síld, sem eru virk gegn bakteríum og breyta eiginleikum annarra próteina. Nýting sjávarlífvera sem uppsprettur lyfja. Höfin þekja um 71% af yfirborði plánetunnar og ná yfir 99% af lífhvolfinu. Ný sóknarfæri hafa skapast þegar litið er til nýtingar á öðrum lífverum sem þrífast í hafinu, en þar er að finna mjög fjölbreytilegar aðstæður hvað varðar hita, birtu, þrýsting, seltu og sýrustig. Af þessum sökum er að finna í höfunum afar fjölbreytta bíótu lífvera og hefur aðeins hluti hennar verið rannsakaður með tilliti til þeirra líf- og lyfjavirku efna sem lífverurnar kunna að framleiða. Talið er að aðeins um 1% lífvera í höfunum séu að einhverju leyti rannsakaðar, einungis um 5% af höfum jarðar hefur verið kannaður til hlítar. Að ýmsu leyti vitum við meira um tunglið en höfin. Það má því nærri geta að mikil tækifæri liggja í lífkerfi hafsins og má ætla að þar sé nokkur fjöldi lífvera sem geta framleitt, eða innihalda sjálfar efni sem nýtast í lyfjaiðnaði, og fela hugsanalega í sér lækningu við sjúkdómum sem mannkynið hefur barist við lengi. Í Japan og Bandaríkjunum er mikil aukning á fjárstreymi til rannsókna á þessu sviði. Rannsóknir á þessu sviði sjávarlíftækni hafa sótt í sig veðrið á Íslandi sem annars staðar á síðustu árum. Á Íslandi er nú að finna fjölmörg sprotafyrirtæki sem sérhæfa sig að einhverju eða öllu leyti í iðnaði nátengdum sjávarlíftækni. Mjög stór hluti lyfja er byggður úr náttúruefnum sem eru unnin úr plöntum, dýrum eða örverum. Hingað til hefur aðallega verið notast við plöntur og örverur á landi en vísindamenn eru farnir að rannsaka sjávarlífið enn meira, enda hefur það upp á mikil lífríki að bjóða. Lífvirk efni eru gjarnan svokallaðar "annars stigs efnaskiptaafurðir", en það eru þau efni sem eru lífverunni í sjálfu sér ekki bráðnauðynleg til vaxtar en veita henni nokkurt forskot í baráttunni við að lifa af. Þessi efni geta til dæmis verið litarefni, ilmefni og bragðsterk efni sem lífveran framleiðir sér til varnar, til fæðuöflunar, samskipta og fleira. Í hafinu er allmikið og fjölbreytt lífríki og er það með vissa sérstöðu þar sem lífverurnar eru undir stöðugu áreiti vatnsins. Sjávarlífverurnar framleiða og gefa frá sér ýmis lífvirk efni sem eru mörg með áður óþekkta eiginleika sem talið er að geti nýst í lyfjaiðnaðinum. Einnig eru sum þessara efna með einhverja eiturvirkni sem gætu virkað gegn ýmsum bakteríum og/eða veirum. Það er til dæmis búið að finna og einangra ýmis efni sem virka sem verkjalyf, bólgueyðandi lyf, lyf gegn ýmsum sjúkdómum (m.a. krabbameini, malaríu, ms, AIDS) o.fl. Lífvirk efni. Lífvirk efni eru efni eða efnasambönd sem hafa einhver mælanleg áhrif á önnur efni eða efnaferla. Þessi efni geta haft heilsubætandi áhrif eða draga úr áhættu á ákv. sjúkdómum. Lífvirk efni geta virkað bæði á menn og dýr. Á síðunni um lífvirk efni má sjá nokkur efni sem fundist hafa í sjávarlífverum og hafa einhverja lyfjavirkni eða aðra heilsubætandi virkni. Dæmi um lífvirk efni og notkun þeirra. Dæmi um sjávarlíftækniafurðir sem eru á markaðnum í dag 2009 Markaðir. Markaðir fyrir líftækniafurðir úr sjávarfangi eru fjölbreyttir líkt og efnin sem verða til við framleiðsluna. Sem nýir orkugjafar, þá eru óteljandi möguleikar í nýtingu sjávarfangs til slíkrar vinnslu. Í vörn fyrir umhverfið þá er þörf fyrir umhverfisvæn efni með stuttan líftíma en öfluga virkni. Þar koma ensím sem einangruð eru úr sjávarlífverum að góðum notum. Er það sérstaklega vegna færni þeirra að vinna við lágt hitastig. Lífhreinsun. Lífhreinsun er notkun lífvera (oftast örvera) til að hreinsa upp mengun. Við hreinsun eru ýmis þyngri alkanefni og tjöruefni fjarlægð. Sum aromatísk olíuefni geta bundist við boðefnaviðtaka í lífverum og raskað efnaskiptum, samvægi eða þroskaferlum lífveranna. Olíuvinnsla, olíuhreinsun, olíuflutningur og olíuúrgangslosun skila um 3,2 MTn af olíuefnum í höfin árlega sem segir okkur að það hefur ótvíræð áhrif á lífríki sjávar en náttúrulegt hrip í gegnum jarðlög er afar hægt. Olíuvinnsla og olíuflutningar eiga sér sífellt oftar stað í viðkvæmu umhverfi og við það bætist að olíuvinnsla af sjávarbotni er mjög flókið ferli sem býður uppá marga möguleika á mengun og slysum. Erfðabreytingar á eldisfiskum. Er eldi á fiski framtíðin eða er um að ræða stefnu sem ekki er vert að leggja meiri fjármuni í? Þetta er spurning sem deilt er um í heiminum í dag. Ef fram heldur sem horfir má búast við því í náinni framtíð að meiri þungi verði lagður í að erfðabreyta þeim fiski sem nýttur er til manneldis. Nú þegar hafa verið gerðar tilraunir á laxi, þar sem genum er breytt á markvissan hátt til að hafa áhrif á vaxtahraða fisksins. Sem dæmi um þetta má nefna tilraunir þar sem gen fyrir framleiðslu vaxtarhormóns úr rauðlaxi ("Oncorhynchus nerka") var klónað í silfurlax ("Oncorhynchus kisutch") til að hraða vexti hans. Hugsunin sem liggur þar að baki er þá fyrst og fremst aukin vöxtur og betri fóðurnýting hjá þeim tegundum sem verður erfðabreytt. Hvíta húsið (Akranes). Hvíta húsið á Akranesi er tómstundahús fyrir unlinga á aldrinum 16-21 árs. Cunningham. Cunningham eða niðurhal er á seglskútu band til að strekkja framfald bermúdasegls niður við hálsinn og breyta þannig lagi seglsins. Þessi tækni heitir eftir bandaríska siglingamanninum og kappaksturshetjunni Briggs Cunningham sem átti upptökin að henni. Cunningham er einfaldlega lína fest við mastrið eða bómuna sem liggur í gegnum kósa neðarlega á framfaldinum og síðan í trissu og klemmu á þilfarinu. Þannig er hægt að strekkja eða slaka á framfaldinum milli cunninghamsins að neðan og dragreipisins að ofan og stilla hvort mesta belgvídd seglsins er framarlega eða aftarlega. Þetta er fínstillingaratriði sem á fremur við um kappsiglingarbáta en skemmtibáta. Enterprise (kæna). Enterprise er fjögurra metra löng tvímenningskæna hönnuð af breska skútuhönnuðinum Jack Holt árið 1956. Hún er opin með flotholt undir bekkjum og einkennandi blá segl. Hún er fremur óstöðug miðað við bát af þessari stærð og notast sjaldnast við belgsegl. Hún er einkum vinsæl í Bretlandi. Enterprise er alþjóðleg keppnisgerð viðurkennd af Alþjóða siglingasambandinu. Mirror. Mirror er vinsæl flatbotna einmenningskæna hönnuð af breska skútuhönnuðinum Jack Holt og sjónvarpsmanninum Barry Bucknell árið 1962. Hún heitir eftir breska dagblaðinu "Daily Mirror" sem styrkti verkefnið. Þeir notuðu nýja tækni við smíðina sem fólst í því að hefta og líma saman krossviðarborð. Hönnunin miðaðist við að hægt væri að smíða kænuna með einföldum verkfærum. Hún er til dæmis með flötu stefni sem gerir hana auðveldari í smíðum. Upphaflega var hún með gaffalsegl en nú orðið er algengara að notast við bermúdasegl og álmastur. Daily Mirror. "Daily Mirror" er breskt æsifréttablað stofnað árið 1903. Tvisvar í sögu blaðsins var efsta hluta dagblaðsins breytt í "The Mirror", frá 1985 til 1987 og aftur frá 1997 til 2002, sem er það sem blaðið er kallað í daglegu tali. "The Daily Mirror" er eina dagblað Bretlands sem hefur stöðugt stutt Verkamannaflokkinn síðan árið 1945. Alfred Harmsworth stofnaði dagblaðið þann 2. nóvember 1903 sem blað fyrir konur sem var skrifuð af konum, og það útskýrir nafnið. Sven Ole Fagernæs. Sven Ole Fagernæs (fæddur 12. mars 1945) er sýslumaður á Svalbarða. Fagernæs er norskur. U.M.F. Hvöt. U.M.F. Hvöt er ungmennafélag stofnað 22. desember 1907 og eru höfuðstöðvar þess staðsettar á Borg í Grímsnesi. Knattspyrnudeild Hvatar keppir nú í Sunnlensku utandeildinni og endaði liðið í 9. sæti deildarinnar sumarið 2008. Drekasvæðið. Drekasvæðið er hafsvæði í Norður-Íshafi, skammt frá Jan Mayen, sem er við Jan Mayen-hrygginn. Svæðið er innan landhelgi Íslands og gera íslensk stjórnvöld sér vonir um að þar megi finna jarðgas og olíu. Svæðið var boðið út til olíuleitar í janúar 2009. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafa unnið að jarðfræði- og jarðeðlisfræðilegum mælingum vegna undirbúningsvinnu fyrir olíuleitina. Í tengslum við þessa vinnu hafa allmörg ný örnefni orðið til, bæði á hafsvæðum og hafsbotni. Raunar á það einnig við um hafsvæði suður af landinu þar sem Íslendingar gera kröfur um nýtingarrétt. Svæðin sem hér um ræðir eru auk Drekasvæðis: í Ægisdjúpi (Síldarsmugunni) og á Bergrisanum (Hatton-Rockall). Nöfnin á svæðunum voru sótt til íslensku landvættanna sem sagt er frá í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu. Drekasvæðið er nefnt eftir drekanum sem fór ofan eftir dalnum í Vopnafirði og blés eitri. Bergrisinn var nefndur eftir risanum sem gekk fram á Vikarsskeiði með járnstaf í hendi. Frægasti dreki íslenskra bókmennta er Fáfnir og því eru mörg örnefni á Drekasvæðinu sótt í Völsungasögu. Helstu hryggir á botninum heita t.d. Fáfnir, Otur, Sigurður, Gunnar, Gjúki, Sörli og Erpur. Síðan má nefna Fáfnisrennu, Sörlabotn og Gjúkakrók. Lundúnaturn. Lundúnaturn (á ensku Tower of London, opinberlega Her Majesty’s Royal Palace and Fortress) er kastali í miðbæ Lundúna á Englandi og er við norðurbakka Tempsár. Hann er í hverfinu Tower Hamlets og er við svæðið sem heitir Tower Hill. Turninn var fyrst og fremst notaður sem virki, höll og fangelsi. Hann var líka notaður fyrir pyntingar og aftökur, sem hergagnabúr, ríkissjóður, dýragarður og myntslátta. Frá 1303 hefur turninn verið geymslustaður krúnudjásnanna. Bedford. Bedford er bær á Englandi og er höfuðbær Bedfordshire fylkisins. Hann er stór bær og er stjórnarmiðstöð úthverfisins. Árið 2005 var bærinn íbúafjöldi bæjarins 79.190, sem tekur með í reikninginn 19.720 manns sem búa í samliggjandi bænum Kempston. Ouse-á rennur gegnum borgina. Bedford var byggður á miðöldum sem kaupstaður fyrir aðliggjandi sveit. Skorarheiði. Skorarheiði er lág og óbrött heiði á milli Furufjarðar og Hrafnfjarðar. Á heiðinni eru mörk Hornstrandafriðlands. St Peter's College (Auckland). St Peter's College, Bro O'Driscoll Building (1939, additions 1944) St Peter's College í Auckland á Nýja Sjálandi er drengjaskóli sem var stofnaður 1939. Hann er leiðandi kaþólskra grunnskóla landsins og eingöngu ætlaður piltum á aldrinum 7-13 ára. "Amare et Servire" (To Love and To Serve) eru einkunarorð skólans og mætti þýða „að elska og þjóna“. Andrea Jónsdóttir. Andrea Sigríður Jónsdóttir (f. á Selfossi 7. apríl 1949) er þekktur útvarpmaður og plötusnúður, sem hefur verið tignuð Rokk Amma Íslands af fjölmiðlum. Andrea vann sem prófarkalesari á Þjóðviljanum árið 1972 og vann þar í meira en áratug. Hún fékk umsjón með sínum eigin þætti á Rás 2 árið 1984. Nú til dags hefur hún umsjón með þættinum "Popppressan" á Rás 2 og spilar einnig tónlist á skemmtistaðnum Dillon um helgar. Okraglak-sporkringluhúsið í Pila. Okraglak-sporkringluhúsið í Pila er sögufrægt sporkringluhús í Póllandi. Saga sporkringluhússins í Pila nær aftur til áranna 1870 – 1874 og tengist umfangsmikilli þróun járnbrauta á prússnesku yfirráðasvæði. Þetta tiltekna hús varð fyrirmynd margra bygginga af sömu gerð í Evrópu sökum þess að notuð var óvenjuleg arkitektískt lausn við hönnun þess. Reglubundinni starfsemi hússins var hætt á 10. áratug 20. aldar og féll í gleymsku eftir margra ára starfsemi. Borgarahópurinn í Pila réðst í það verkefni að bjarga þessu rismikla húsi. Hópurinn kostar kapps um að gera sporkringluhúsið að ferðamannastað með því að endurgera starfsemi járnbrautanna. Hjá hópnum vaknaði einnig hugmynd um að nýta húsið og hefur hann hvatt opinbera og einkaaðila að taka þátt í varðveislu hússins fyrir komandi kynslóðir. Lárus Guðmundsson. Lárus Guðmundsson (fæddur 12. desember 1961) er fyrrverandi knattspyrnumaður frá Íslandi. Hann var atvinnumaður sem spilaði sem framherji erlendis. Hann hefur nú snúið sér að þjálfun og þjálfaði Stjörnuna frá Garðabæ en er nú stjórnarformaður og þjálfari KFG (Knattspyrnufélags Garðabæjar). Ferill með félagsliðum. Lárus byrjaði ferilinn hjá Víkingi og náði síðar árangri í Þýsku Bundesliguni með Bayer Uerdingen og 1. FC Kaiserslautern. Landsliðsferill. Hann spilaði fyrst fyrir íslenska landsliðið árið 1980, lék alls 17 landsleiki og skoraði í þeim 3 mörk. Lárus lék sinn fyrsta landsleik 18 ára. Eflaust hefðu landsleikirnir orðið fleiri en 17 ef ekki hefði verið fyrir deilur hans og Tonys Knapp, fyrrverandi landsliðsþjálfara. Árangur erlendis. Lárus Guðmundsson skipar sér í nokkra sérstöðu yfir árangur í bikarkeppnum erlendis og það af fleiri en einni ástæðu. Lárus er sá eini sem hefur unnið bikarinn í tveimur löndum og sá eini sem hefur byrjað inn á í bikar­úrslitaleik og unnið bikarinn í einu af stóru löndunum (Englandi, Ítalíu, Spáni, Frakklandi og Þýskalandi). Lárus er líka aðeins einn af fjórum leikmönnum sem hafa náð að skora tvö mörk í bikarúrslitaleik. Lárus Guðmundsson varð fyrst bikarmeistari með Waterschei í Belgíu 1982 þegar hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Waregem og aðeins þremur árum seinna vann Lárus bikarinn í Vestur-Þýskalandi með liði sínu Bayer Uerdingen sem vann Bayern München 2-1 í úrslitaleik. Lárus lék vel í leiknum og átti þátt í sigur­markinu en Uerdingen lenti 0-1 undir. Markahæstur í Evrópukeppni. Lárus Guðmundsson lék um árabil sem atvinnumaður í Belgíu og Þýskalandi á 9. áratug síðustu aldar. Lárus var eldfljótur og brögðóttur markahrókur. Hann mætti mótbyr á ferli sínum og þurfti snemma að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla. Lárus er markahæsti leikmaður Íslands í Evrópukeppni frá upphafi, en hann hefur skorað tíu mörk í Evrópukeppni með Waterschei og Bayern Uerdingen. Gaulverjabær (Armoríku). Gaulverjabær er þorp í teiknimyndasögunum um Ástrík gallvaska og er heimabær Ástríks og félaga hans. Gaulverjabær er staðsettur í Armoríku, en svo hét nyrsta héraðið í Norðvestur-Frakklandi. Í teiknimyndasögunum náðu Rómverjar aldrei yfirráðum yfir Gaulverjabæ. Sjóðríkur seiðkarl. Sjóðríkur er í sögunum um Ástrík gallvaska seiðkarl sem býr til töfralyf sem gerir Gaulverja mjög sterka. Steinríkur fær þó aldrei töfralyfið þar sem hann datt í pottinn með töfralyfinu sem lítill strákur og fékk óvenju mikla krafta þá. Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er háskólasamfélag á Íslandi sem stofnað var vorið 2007. Aðsetur Keilis er í gömlu herstöðinni á Ásbrú, sem áður hét Vallarheiði og þar áður Keflavíkurflugvöllur. Keilir og Háskóli Íslands hafa gert samstarfssamning um að byggja upp alþjóðlegt háskólanám á Keflavíkurflugvelli í þeim tilgangi að laða til Íslands erlenda kennara og háskólanema og munu Keilir og Háskóli Íslands standa sameiginlega að þróun háskólanáms og kennslu, sérstaklega á sviðum orkuvísinda og umhverfismála, jarðvísinda, sjálfbærrar þróunar, verkfræði, ferðamála, lífríkis hafsins, norðurslóðarannsókna, samgöngumála, alþjóða- og öryggismála. Í samstarfssamningi er gert ráð fyrir að háskólanám við Keili verði vottað af Háskóla Íslands. Lykt. Lykt er heiti á skynjun með þeffærum ("lyktarskynfærum"). Lyktin kemur til vegna rokgjarnra efnasambanda, sem oftast eru við lágan styrk, og breiðast út um andrúmsloftið og eru numin að mismiklu leyti með "lyktarskyni" dýrs. Þeffæri flestra dýra, þ.á m. mannsins, eru í nefi. Margar jurtir og ávextir gafa frá sér lykt, og flestir hlutir í náttúrunni og hinum manngerða heimi gefa frá sér einhvers konar lykt. Dýr notast öllu meira við lyktardreifingu til samskipta en maðurinn en þó er sannað að undirliggjandi meðtakar séu í huga mannsins sem vinna úr lykt til samskipta, sbr. til dæmis samskipti kynjanna. Lykt og íslenskt orðfæri. Varast ber því að tala um góða lykt sem þef, eða vonda lykt sem angan. Richard Henry Dana. Richard Henry Dana yngri (1. ágúst 1815 – 6. janúar 1882) var bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður. Hann er einna þekktastur fyrir endurminningabók sína "Hetjur hafsins" (enska: "Two Years Before the Mast") sem fjallar um ferð hans á briggskipinu "Pilgrim" frá Massachusetts til Kaliforníu um Hornhöfða og heimferðina með skipinu "Alert" 1834-1836. Bókin er talin með sígildum verkum bandarískra bókmennta og átti þátt í því að sjóferðasögur komust í tísku næstu áratugina. Arturo Pérez-Reverte. Arturo Pérez-Reverte Gutiérrez (f. 25. nóvember 1951) er spænskur rithöfundur og blaðamaður sem er aðallega þekktur fyrir sögulegar skáldsögur á borð við bækurnar um Alatriste höfuðsmann, og spennusögur eins og "Dumasarfélagið" ("El club Dumas o la sombra de Richelieu") og "Refskák eða bríkin frá Flandri" ("La tabla de Flandes") sem gerast á Spáni eða við Miðjarðarhafið. Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögum hans. Þær þekktustu eru líklega "Níunda hliðið" eftir Roman Polanski (1999) og "Alatriste" eftir Agustín Díaz Yanes (2006). Stöð 3. Stöð 3 var íslensk sjónvarpstöð sem hóf útsendingar þann 24. nóvember 1995, en þeim lauk í febrúar 1997 og sameinaðist þá Stöð 2 og Sýn. Eigendur Stöðvar 3 voru Íslenska sjónvarpið hf, en hluthafi í því var Árvakur, útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins, Nýherji, Sambíóin, Japis og Texti, en alls voru hluthafar 15 og átti enginn einn meira en 10% í félaginu. Fyrsti framkvæmdastjóri Stöðvar 3 var Úlfar Steindórsson, en annar var Heimir Karlsson og sá þriðji og síðasti var Magnús E. Kristjánsson. Árið 1988 stóðu aðrir menn að hugsanlegri stofnun Stöðvar 3, en það voru Ísfilm hf. Eigendur Ísfilm voru SÍS, Haust hf, sem var fyrirtæki Indriða G. Þorsteinssonar, Jóns Hermannssonar og Ágústs Guðmundssonar, Almenna bókafélagið, Dagblaðið Tíminn, Frjáls fjölmiðlun hf og Jón Aðalsteinn Jónsson. ´Ísfilm hafði upphaflega innbyrðis útgáfufélag Morgunblaðsins og útgáfufélag Reykjavíkurborgar. En Ísfilm fór aldrei út í rekstur Stöðvar 3. Þeir deildu lengi vel um hvort þeir fengju að nota sama afruglara og Stöð 2, en úr því varð ekki. Það var ekki fyrr en 7 árum seinna að "Íslenska sjónvarpið" stofnaði og hóf rekstur Stöðvar 3. En sjónvarpstöðin átti í eilífum erfiðleikum, og helst með að útvega sér sína eigin myndlykla og kaupendur að þeim. Rekkverk. Hluti af rekkverki á seglskútu. Rekkverk eða ríling er handrið úr vírum eða stálteinum meðfram borðstokk eða stýrishúsi skips. Rekkverkið varnar því að fólk falli útbyrðis og skapar handfestu í veltingi. Covent Garden. Covent Garden er umdæmi í London á Englandi eystri á Westminster og suðurvestan á Camden. Það er aðallega verslunar- og skemmtanahverfi með mörgum götuleikurum. Það er mikill markaður í umdæminu, Covent Garden markaðurinn. Í svæðinu er líka Konungulega óperan sem er oft kölluð einfaldlega „"Covent Garden"“. Það hefur verið byggð á svæðinu síðan á dögum Rómaveldis þegar London hét "Londinium". Konungurinn Jón kallaði umdæmið „Convent Garden“ sem síðar breyttist í „Covent Garden“. Aldwych. Aldwych er staður og gata í Westminster í London í Englandi. Gatan er hálfmáni sem tengist við Strand á báðum endum. Waldorf Hilton-hótelið og Efnahagsmálaháskólinn í London eru við götuna. Nafnið er úr fornensku orðunum "eald" og "wic" sem þýða „gömul byggð“. Árið 1211 var umdæmið kallað "Aldewich". Hreiðar Már Sigurðsson. Hreiðar Már Sigurðsson (f. 19. nóvember 1970) var forstjóri Kaupþings fyrir bankahrunið. Hreiðar Már var handtekinn í lok skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara þann 6. maí 2010. Hann var sá fyrsti sem handtekinn var í kjölfar bankahrunsins 2008. Seinna sama dag var Magnús Guðmundsson, sem var bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg einnig handtekinn og færður til yfirheyrslu. Ævi og störf. Hreiðar ólst upp í Stykkishólmi og lauk stúdentsprófi við Verslunarskólann. Á háskólaárunum var Hreiðar Már í Stúdentaráði fyrir Vöku. Þar voru með honum fyrrverandi kollegar hans, þeir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans. Eftir að hafa lokið viðskiptafræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1994 gekk hann beint til liðs við Kaupþing, þar sem fyrir voru Bjarni Ármannsson og Sigurður Einarsson. Ármann Þorvaldsson bættist í hópinn sama ár. Hreiðar var síðan yfir Kaupþingi í New York frá 1998 til 2002 en þá var hann gerður að forstjóra Kaupþings. Eftir hrunið fluttist hann til Lúxemborgar og starfaði þar við ráðgjafafyrirtækið Consolium sem hann stofnaði ásamt Ingólfi Helgasyni, sem hafði starfað sem forstjóri Kaupþings á Íslandi. Hreiðar er kvæntur og á þrjú börn. Systir Hreiðars er Þórdís Sigurðardóttir. William Walton. William Walton (29. mars 1902 – 8. mars 1983) var breskt tónskáld. Æviágrip Walton. Walton fæddist á Englandi 29. mars árið 1902. William Turner Walton fæddist 29. mars árið 1902 í bænum Oldham. Faðir hans stjórnaði kirkjukór bæjarins og með því að fylgjast með og taka þátt í störfum hans kynntist Walton snemma helstu kórverkum vestrænnar menningar. 10 ára gamall byrjaði Walton sem kórdrengur við drengjakór Oxford háskólans og þegar fram liðu stundir hóf hann nám þar. Reyndar lauk Walton aldrei námi sínu í tónsmíðum, en þegar hann yfirgaf skólann 1920 voru mörg verk hans orðin vel þekkt og notið vinsælda merkra tónskálda, m.a. Hubert Parry og Ralph Vaughan Williams. Eitt af hans fyrstu stórum verkum, píanó kvartett, var frumfluttur 1923 í Salzburg á Alþjóðlegri hátíð nútímatónlistar (International Society for Contemporary Music) og var vel tekið. Verk hans Portsmouth Point varð svo til að festa Walton enn frekar í sessi sem einn af merkilegustu tónskáldum breta. Heimildir. Walton, William Sigurjón Þ. Árnason. Sigurjón Þ. Árnason (f. 24. júlí 1966) var bankastjóri Landsbanka Íslands fyrir bankahrunið. Hann starfaði við stundakennslu hjá Háskólanum í Reykjavík. Sigurjón lauk gráðu í vélaverkfræði við Háskóla Íslands árið 1992. Hann nam MBA-gráðu við Háskólann í Minnesota og enn frekara framhaldsmnám við Tækniháskólann í Berlín. Hann var ráðinn bankastjóri við Landsbankann í apríl 2003. Kjartan Ólafsson (Laxdælu). Kjartan Ólafsson var íslenskur kappi á söguöld. Hann var af ætt Laxdæla og er persóna í Laxdælu. Kjartan var sonur Þorgerðar Egilsdóttur, dóttur Egils Skallagrímssonar, og Ólafs pá. Kjartan var „allra manna vænstur þeirra er fæðst hafa á Íslandi“ eins og segir í Laxdælu. Þegar Kjartan var í æsku urðu ýfingar á milli hálfbræðranna Ólafs pá, föður Kjartans, og Þorleiks Höskuldssonar, en þegar þeir sættust bauðst Ólafur til að taka Bolla son Þorleiks í fóstur og ólust þeir Kjartan upp saman. Fóstbræðurnir Kjartan og Bolli fóru oft í Sælingsdalslaug og þar kom Guðrún Ósvífursdóttir oft til þeirra og fór mjög vel á með þeim Kjartani. En Kjartan hafði hug á að fara til Noregs og varð úr að hann keypti helming í skipi sem Kálfur Ásgeirsson átti og fóru þeir Bolli fóru út. Þeir ætluðu að vera í þrjá vetur en Guðrún var ekki sátt við það og skildu þau ósátt. Í Niðarósi í Noregi kynntust þeir Ólafi konungi Tryggvasyni eftir að þeir Kjartan höfðu keppst um að kaffæra hvor annan í ánni Nið. Þeir létu skírast eftir nokkurt þóf og vildi konungur að þeir færu heim og boðuðu Íslendingum kristni. En þegar þrír vetur voru liðnir og Bolli bjóst til heimfarar vildi konungur ekki láta Kjartan lausan og hélt honum og þremur öðrum Íslendingum í gíslingu. Hann bað þó Bolla að skila kveðju til frænda og vina á Íslandi og átti þar við Guðrúnu. Bolli gerði það þó ekki, heldur lét hann í það skína að Kjartan hefði lagt hug á Ingibjörgu konungssystur, sem þótti kvenna fegurst, og óvíst að hann kæmi aftur á næstunni. Síðan bað hann sjálfur Guðrúnar og þau giftust. Guðrún hafði þó áður sagt að hún mundi engum manni giftast meðan Kjartan væri á lífi en lét þó tilleiðast fyrir fortölur ættingja. Sumarið eftir kom Kjartan heim og sá honum enginn bregða við þegar hann komst að því að Guðrún og Bolli væru gift. Nokkru síðar kvæntist hann sjálfur Hrefnu, systur Kálfs Ásgeirssonar vinar síns. Brátt urðu erjur á milli Kjartans annars vegar og Bolla og Guðrúnar hins vegar. Meðal annars fór Kjartan með flokk manna að Laugum í Sælingsdal, þar sem Bolli og Guðrún bjuggu, umkringdi bæinn og hleypti engum út í þrjá daga, svo að fólk komst ekki til útikamars en þurfti að gera sín stykki inni og þótti það hin mesta skömm. Nokkru síðar frétti Guðrún að Kjartan væri á ferð í grenndinni og væri fáliðaður. Hún sagði bræðrum sínum og Bolla að fara að honum. Þeir vildu það ekki en hún ögraði þeim þá, kallaði bræður sína bændadætur og hótaði að skilja við Bolla. Þeir fóru þá. en þegar þeir fundu Kjartan sat Bolli hjá og börðust Ósvífurssynir lengi einir við hann. Þá spurði Kjartan Bolla af hverju hann hefði farið að heiman ef hann ætlaði að sitja hjá og Ósvífurssynir eggjuðu hann. Á endanum stóðst Bolli ekki eggjanirnar, spratt á fætur og vó Kjartan fóstbróður sinn með sverðinu Fótbít. Erlendur Jónsson (f. 1929). Erlendur Jónsson (8. apríl 1929) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld og fyrrverandi gagnrýnandi og kennari. Ævi. Hann fæddist 8. apríl 1929 á Geithóli í Staðarhreppi, Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Jón Ásmundsson, bóndi og organisti og Stefanía Guðmundsdóttir (1895 – 1973), ljósmóðir. Systkini hans sammæðra voru Ingibjörg (f. 1919), Salómon (f. 1921) og Hulda (f. 1922). Erlendur gekk menntaveginn, tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri og hóf að því loknu náms við Háskóla Íslands í íslensku og sagnfræði. Síðan í uppeldis- og kennslufræði og lauk því námi 1953. Þá nam hann enskar og amerískar samtímabókmenntir við Háskólann í Bristol í Englandi 1965 – 1966. Erlendur vann við skrifstofustörf í franska sendiráðinu 1953 – 1955. Hann starfaði síðan við kennslu í gagnfræðaskóla og síðar við Iðnskólann í Reykjavík frá árinu 1955 – 1999. Einnig starfaði hann sem bókmenntagagnrýnandi við Morgunblaðið frá árinu 1963. Frá árinu 1966 starfaði hann að ýmsum félagsmálum. Þá flutti hann fyrirlestra um afmarkað bókmenntaefni við heimspekideild Háskóla Íslands á árunum 1968 – 1975. Árið 1987 hlaut Erlendur 4. verðlaun í leikritasamkeppni Ríkisútvarpsins, fyrir leikrit sitt Minningar úr Skuggahverfi. Erlendur er kvæntur Mörtu Ágústsdóttur en hún er fædd 29. júní 1928 í Vestmannaeyjum. Gallienus. Publius Licinius Egnatius Gallienus (um 218 – 268) var keisari Rómaveldis á árunum 253 – 268. Á árunum 253 – 260 var Gallienus keisari ásamt föður sínum Valerianusi, en árið 260 var Valerianus tekinn til fanga af Sassanídum og eftir það var Gallienus einn keisari. Gallienus var keisari þegar tímabil sem einkenndist af óstöðugleika í Rómaveldi, og kallað hefur verið 3. aldar kreppan, var í hámarki. Í stjórnartíð hans var hið svokallaða Gallíska keisaradæmi myndað þegar herforinginn Postumus lýsti sjálfan sig keisara og var viðurkenndur sem slíkur í Gallíu, Hispaníu, Germaníu og á Bretlandi. Árið 268 gerði Aureolus, yfirmaður hersins í Mediolanum (Mílanó), uppreisn gegn Gallienusi og hóf Gallienus þá umsátur um borgina en var drepinn á meðan því stóð. Claudius 2., hershöfðingi, varð keisari í kjölfarið. Orrustan við Hastings. Orrustan við Hastings var orrusta sem háð var þann 14. október 1066 átta kílómetrum norður af Hastings í Austur-Sussex á Englandi. Orrustan markaði upphaf landvinninga Normanna á Englandi og má segja að hún hafi ráðið úrslitum um það að Normannar náðu yfirráðum í landinu og urðu þar yfirstétt. Normanski hertoginn Vilhjálmur bastarður kom með her sinn yfir Ermarsund 28. september og er sagt að í flota hans hafi verið 696 skip. Þremur dögum áður, þann 25. september, hafði Haraldur Guðinason Englandskonungur unnið sigur á her Haraldar harðráða Noregskonungs í orrustunni við Stanfurðubryggju, skammt frá Jórvík. Þegar hann frétti af innrásarliðinu flýtti hann sér suður á bóginn og hafði með sér þann hluta hers síns sem fær var til eftir bardagann við Norðmennina og reyndi að safna meira liði á leiðinni. Herirnir mættust við Hastings 14. október og varð þar harður bardagi sem lauk með falli Haraldar. Er sagt að hann hafi fengið ör í augað. Hann var annar af einungis tveimur enskum þjóðhöfðingum sem hafa fallið í orrustu (hinn var Ríkharður 3.). Fullnaðarsigur vannst þó ekki í orrustunni við Hastings. Lið Vilhjálms mætti töluverðri andspyrnu á næstu vikum en komst þó til London og var hann krýndur konungur Englands í Westminster Abbey á jóladag 1066. Orrustunni og aðdraganda hennar er lýst í útsaumsmyndum á hinum 70 metra langa Bayeux-refli. Viktoríutímabilið. Viktoríutímabilið var tímabil í sögu Bretlands sem náði frá júní 1837 til janúar 1901 þegar Viktoría Bretadrottning réð ríkjum í Bretlandi. Tímabilið var uppgangstími fyrir breskt samfélag. Menntuð millistétt gat myndast vegna breska heimveldsins og iðnvæddrar þróunar á Bretlandi. Íbúafjöldi Englands tvöfaldaði frá 16,8 milljónum árið 1851 til 30,5 milljóna árið 1901, á meðan íbúafjöldi Írlands minnkaði óðfluga frá 8,2 milljónum árið 1841 til 4,5 milljóna árið 1901. Bjarni Ármannsson. Bjarni Ármannsson (f. 23. mars 1968 á Akranesi) er íslenskur tölvunarfræðingur sem var bankastjóri Glitnis þar til í maí 2007 þegar Lárus Welding tók við af honum. Nafn hans hefur borið á góma eftir bankahrunið í lok árs 2008 enda var Glitnir fyrsti bankinn til að verða gjaldþrota. Í grein Sölva Tryggvasonar blaðamanns í DV kemur fram að miklar breytingar urðu í áherslum Glitnis eftir að Bjarni hætti þar störfum. Bjarni hefur vakið athygli fyrir starfslokasamning að fjárhæð 370 milljónir króna sem hann endurgreiddi í kjölfar bankahrunsins á Íslandi. Ári síðar í desember 2009, endurgreiddi hann yfirverð hlutafjár sem hann stjórn bankans greiddi fyrir bréf hans í bankanum við starfslok. Alls námu endurgreiðslur Bjarna tengd starfslokum hans 1.020 milljónum króna. Bjarni var fyrstur þeirra sem komu að íslensku fjármálakerfi til að viðkenna mistök varðandi uppbyggingu kerfisins. Það gerði hann í grein í Fréttablaðinu 5. janúar 2008, þar sem Í framhaldi af því fór hann í Kastljósviðtal þar sem hann baðst afsökunar og sagði frá endurgreiðslu starfslokasamnings. Bjarni kom einnig að fjárfestingu í Reykjavík Energy Invest í október 2007. Aðkomu hans þar lauk með þeim hætti að hann dró fjárfestingu sína til baka. Bjarni lauk B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og MBA-gráðu frá IMD í Sviss 1996. Lárus Welding. Lárus Welding (f. 1976) er íslenskur viðskiptafræðingur og fyrrverandi forstjóri Glitnis. Hann tók við starfi sem forstjóri Glitnis vorið 2007 en hafði verið framkvæmdastjóri Landsbanka Íslands í London frá 2003. Lárus tók við af Bjarna Ármannssyni. Lárus Welding er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, löggiltur verðbréfamiðlari og með próf í fjármálum frá UK Securities Institute í Bretlandi. Lárus starfaði hjá JHR endurskoðunarskrifstofu 1997-1999, hjá Seðlabanka Íslands 1998 og Fjárfestingabanka atvinnulífsins, FBA, síðar Íslandsbanka-FBA, árin 1999-2003. Málsókn Glitnis banka. Þann 11. maí 2010 var málsókn Glitnis banka á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur þingfest fyrir rétti í New York-fylki, þar sem þau eru ákærð fyrir það að „...hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemur meira en tveimur milljörðum dala...“. Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers er einnig ákært fyrir að „...greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau sviksamlegu viðskipti sem Jón Ásgeir og félagar komu í kring og sem að endingu leiddu til falls bankans í október 2008.“ Westminsterborg. Westminsterborg (e. "City of Westminster") er hverfi og borg í miðbæ London. Hún er vestan megin við Lundúnaborgina og norðan megin við Thames-ána, og er hluti innri London og inniheldur meginhlutan af Mið-London. Borgin inniheldur meirihluta West End-hverfisins í Lundúnum og er aðsetur ríkisstjórnar Bretlands, með Westminsterhöll, Buckinghamhöll, Whitehall og Konunglega dómsal réttlætisins. Árið 2001 var mannfjöldi borgarinnar 181.279. Fermíla. Fermíla er svæði að flatarmáli jafnt ferningi sem er 1 míla á hvern veg. FM Belfast. FM Belfast er íslensk hljómsveit, stofnuð árið 2005 í Reykjavík. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Árni Rúnar Hlöðversson, Árni Vilhjálmsson og Örvar Þóreyjarson Smárason. Þegar hljómsveitin kemur fram fylgja sveitinni oftar en ekki ásláttahljóðfæraleikarar. Þar á meðal má nefna Unnstein Manuel Stefánsson úr Retro Stefson, Egil Eyjólfsson, Björn Kristjánsson úr Borko, Maríu Hjálmtýsdóttur, Þórð Jörundsson úr Retro Stefson, Svanhvíti Tryggvadóttur, Hall Civelek og Sveinbjörn Pálsson. FM Belfast hefur gefið út tvær breiðskífur, "How to make friends" sem kom út haustið 2008 og "Don't want to sleep" í júní 2011. "How to make friends" kom út í Evrópu vorið 2010 á vegum þýsku plötuútgáfunnar Morr Music. Árið 2010 lék hljómsveitin á G! Festival í Færeyjum og árið 2010 á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku. Breiðskífur. "How to make friends (2008)" "Don't want to sleep (2011)" Courtney Love. Courtney Michelle Love (fædd "Courtney Michelle Harrison" þann 9. júlí 1964) er bandarísk rokksöngkona og leikkona. Hún er aðalsöngvari og textahöfundur hljómsveitarinnar Hole. Hún er einnig þekkt fyrir að hafa verið gift Kurt Cobain í tvö ár. Tímaritið Rolling Stone kallaði hana „umdeildustu konu í sögu rokksins“. Love, Courtney Love, Courtney Geirfuglarnir. Geirfuglarnir er íslensk hljómsveit. Þorkell Heiðarsson. Þorkell Heiðarsson er íslenskur líffræðingur (M.Sc.) og tónlistarmaður. Hann er í hljómsveitinni Geirfuglarnir.Hann þýddi bókina "Líf í köldu blóði" (e. "Life in Cold Blood") eftir David Attenborough. Eyvindur vopni. Eyvindur vopni Þorsteinsson sonur Þorsteins þjokkubeins, kom til Íslands frá Strind í Þrándheimi, ásamt bróður sínum Ref hinum rauða þar sem þeir urðu missáttir við Harald konung, og hafði sitt skip hvor þeirra. Refur varð afturreka og lét konungur drepa hann en Eyvindur kom í Vopnafjörð og nam fjörðinn allan frá Vestradalsá og bjó í Krossavík hinni iðri. Átti Eyvindur son sem Þorbjörn hét. Fríkirkjuvegur. Fríkirkjuvegur er gata í miðbæ Reykjavíkur sem liggur samhliða Tjörninni og tekur við af Sóleyjargötu í suðri. Í framhaldi af Fríkirkjuvegi til norðurs er Lækjargata. Við Fríkirkjuveg stendur Fríkirkjan (Fríkirkjuvegi 5), sem gatan er kennd við, Listasafn Íslands (Fríkirkjuvegi 7). Þar stendur einnig hið veglega hús Thors Jensens, að Fríkirkjuveg 11 og er nú í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, en Thor Jensen var langafi Björgólfs. Sú sala olli töuverðum deilum. Fríkirkjuvegur 11. Fríkirkjuvegur 11 er hús sem Thor Jensen, athafnamaður, lét reisa á árunum 1907-1908. Húsið þykir vera með glæsilegegri timuburhúsum í Reykjavík. Við það stendur frægur garður, sem nefndur er Hallargarðurinn og mun vera fyrsti sérhannaði almenningsgarðurinn í höfuðborginni. Húsið var friðað árið 1978, og árið 2008 var það selt Björgólfi Thor Björgólfssyni. Um það spunnust töluverðar deilur. Byggingarsaga. Thor Jensen hafði mikinn áhuga á húsasmíðum, og segir frá því í æviminningum sínum, að hann hafi farið í Landsbókasafnið og fengið lánaðar bækur um húsagerðarlist. Hann fékk í framhaldi af því Einar Erlendsson arkitekt til að gera uppdrætti að húsinu og var byggingarefni pantað frá Svíþjóð árið 1906. Þegar húsið var fullbúið bjó Thor Jensen í húsinu ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1937, en flutti þá lögheimili sitt að Lágafelli í Mosfellssveit. Eftir það bjó einn af sonum Thors í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1942 eignaðist Góðtemplarareglan húsið, en árið 1963 komst það í eigu Reykjavíkurborgar. Yfirsmiður var Steingrímur Guðmundsson, sem þá þótti einn vandvirkasti smiður sem þá starfaði í Reykjavík. Skrautmálun í miðgangi gerði Engilbert Gíslason málari. Útlit og nýjungar. Húsið er í ítölskum villustíl með klassísku skrauti sem keypt var frá Danmörku, en þar má t.d. nefna hinar jónísku súlur og endurreisnarpílárana. Gluggarnir eru í sveitserstíl, og hin séríslenska aðferð að klæða hús með bárujárni er látin renna saman við hinar klassísku stílgerðir. Þykir það hafa heppnast einstaklega vel. Ýmsar nýjungar tengdust húsinu. Vatnslögn var í húsinu, og var fyrsta hús í Reykjavík sem þannig var byggt. Thor lét grafa og sprengja u.þ.b. þriggja til fjögurra metra djúpan brunn og múra hann að innan. Úr brunninum var vatni dælt í vatnsgeymslu í kjallaranum sem síðan var dælt inn á vatnslagnakerfi hússins. Einnig var lagt fyrir rafmagni í húsið en það var framleitt með ljósavél. Herbergjaskipan og breytingar. Húsið er tvílyft og í því eru 15 herbergi, 6 niðri, ásamt eldhúsi, og 9 á efri hæðinni, 8 svefherbergi og lestrarstofa fyrir börnin. Engar breytingar hafa verið gerðar á húsinu frá upphafi nema að samkomusalur í kjallara var dýpkaður þegar Templarar áttu húsið. Húsið var tekið til gagngerra endurbóta að utan árið 1973-74, en umfangmestu breytingarnar fóru fram innanhús á árunum 1985-1989 á vegum Leifs Blumenstein. Húsið komst í eigu Reykjvíkuborgar 1963, en Æskulýðsráð Reykjavíkur fékk húsið til afnota árið 1964, en húsið þjónaði bæði sem skrifstofa og æskulýðsmiðstöð fyrir ráðið til ársins 1986. Sama ár sameinuðust Æskulýðsráð Reykjavíkur og Íþróttaráð Reykjavíkur undir nafninu Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR). Sala hússins 2008. Samkvæmt fréttablaði ÍTR "Táp og Fjör" í nóvember 2006, kom hugmyndin að sölu hússins upphaflega frá Birni Inga Hrafnssyni, þáverandi formanni ÍTR sem þá hafði aðstöðu í húsinu. Þegar síðan var farið að tala um það almennt að af sölunni yrði, urðu þó nokkrar deilur um söluna, sérstakelga vegna Hallargarðsins. En árið 2008 gekk salan í gegn, og kaupandinn var Björgólfur Thor Björgólfsson, barnabarnabarn Thors Jensens. Skráður eigandi þess er þó Novator F11 ehf. Söluverð hússins var 650 milljónir, og var kaupverðið staðgreitt þann 1. júlí. Vopnafjarðarflugvöllur. Vopnafjarðarflugvöllur er á bakka Hofsár, fyrir miðjum botni Vopnafjarðar. Óreglubundið flug hefur verið til Vopnafjarðar með einhverjum hætti frá 1954. Vopnafjarðarflugvöllur.. Flugvöllurinn er á bakka Hofsár, fyrir miðjum botni Vopnafjarðar. Rými til flugs í dalnum er nægt og aðflug því hindranalaust. Veðurfar er flugi fremur hagstætt og áreiðanleiki áætlunarflugs því góður, eða um 98%. Akstursfjarlægð frá þéttbýli í Vopnafirði er um 4 km. Flugvöllurinn þjónar einnig Bakkafirði en vegalengd þangað er 35 km. Flugstöðin. Flugstöðin er 215 m² að flatarmálim á einni hæð. Hún getur annað 50 manns. Flugstöð, með áföstum flugturni, var tekin í notkun árið 1988. Flug. Óreglubundið flug hefur verið til Vopnafjarðar með einhverjum hætti frá 1954. Í upphafi frá Reykjavík á vegum Björns Pálssonar, en um 1960 hófst áætlunarflug frá Akureyri, fyrst flugfélag á vegum Tryggva Helgasonar, er síðar varð Flugfélag Norðurlands og frá 1997 Flugfélag Íslands. Frá Egilsstöðum hófst, á vegum Björns Pálssonar, flug sem haldið var úti að sumarlagi (frá 1960 til 1968). Frá 1970 flaug Austurflug og frá 1972 Flugfélag Austurlands til 1997 er félagið hætti starfsemi. Daglegar flugferðir voru frá Akureyri og/eða Egilsstöðum frá árinu 1988 en hefur fækkað síðan. Saga. Land fékkst fyrir flugbraut 1953 og fyrstu framkvæmdir voru, í litlum mæli, 1954 og hafa staðið með mislöngum hléum síðan, en nú er flugbrautin lögð bundnu slitlagi. Flugbrautin var búin föstum ljósum um 1974. Fyrsta farþegaskýlið var sett upp 1954 en núverandi flugstöð er líklega fjórða byggingin. Hellisey. Hellisey er eyja í Vestmannaeyjaklasanum 3 km suður af Brandi, hún er um 0,1 km² og er gíglaga en líkt og í Brandi vantar suður hliðina á gíginn. Hellisey er á náttúruminjaskrá sökum náttúrufegurðar og mikils fuglalífs. Veiðifélag er um nýtingu í eynni og fer Svavar Steingrímsson bjargveiðimaður fyrir félaginu en það leigir eyna af Vestmannaeyjabæ, félagið er aðili að Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja. Helstu nytjar í eynni eru eggjataka, lundaveiði og hafsúla þar sem stálpaðir ungar eru teknir. Sauðfé hefur ekki verið haft í eynni síðan 1960. Uppganga er bæði vestan og austan megin og stendur veiðihúsið rétt við uppgönguna að vestan. Eldri uppganga er austanmegin í eynni sem ber heitið Sámur. Eyjan er að stærstum hlutan þakin grasi en mjög þétt fuglabyggð hefur þó sumsstaðar komið niður á gróðri, þar sem hún er lægst nýtur grass þó ekki við. Ljóð um eyjuna. Stærri úteyjarnar í Vestmannaeyjaklasanum hafa sín ljóð og vísur Hellisey státar af tveimur slíkum. Annað fjallar um sig í Stórhellum sem þykir erfiðasta sig í Vestmannaeyjum. Sumir vilja meina að Þórður hafi ort hana en aðrir á því að höfundur hennar sé Jón Dynkur. Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg, Hin vísan er saminn af þeim Árna Johnsen, Eygló Óskarsdóttur og Sigríði Magnúsdóttur ef marka má Dagbók Helliseyinga 25. júlí 1970 og fjallar um þá Steingrímsbræður, syni Steingríms Benediktsonar skólastjóra í Vestmannaeyjum, en þeir hafa farið fyrir eynni síðan snemma á sjöunda áratugnum. En skammt þar frá var Svavar Örnefni. Hellisey, líkt og aðrar eyjar í Vestmannaeyjaklasanum, státar af mörgum örnefnum Hér að neðan er listi yfir nokkur þau helstu úr Örnefnabók Þokels Jóhannessonar Selárdalslaug. Selárdalslaug stendur við bakka Selá og var byggð í sjálfboðavinnu af félagsmönnum Einherja árið 1950. Staðsetning. Selárdalslaug stendur við bakka Selár þar sem hún rennur í grunnu gljúfri. Leitun er að jafn fagurri staðsetningu fyrir sundlaug enda laugin rómuð fyrir umhverfi sitt. Laugin er nokkuð langt frá Vopnafjarðarkaupstað, 12km, þar af 3 km. langur afleggjari með bundnu slitlagi frá þjóðveginum. Aðstaða. Aðstaða er allgóð en ber þess merki að laugin er komin til ára sinna. Laugin sjálf er ekki mjög stór, 12,5 m á lengd og 6 m á breidd. Laugin er yfirleitt um þrjátíu og þriggja gráðu heit. Tveir, misheitir pottar eru við laugina. Sólbaðsaðstaða er við laugina á stórum trépalli með skjólveggjum. Þar eru einnig borð og stólar svo gestir geta borðað nestið sitt eða þegið kaffisopa sem boðið er upp á á gæslutíma. Skjólsælt er í gljúfrinu. Heita vatnið kemur upp úr heitri laug við sundlaugina, auk þess sem borholur frá seinni árum leggja sitt að mörkum. Saga. Laugin var byggð sumarið 1949 í samvinnu sveitarfélagsins og félagsmanna í Einherja, ungmennafélagi Vopnafjarðar. Byggðu þeir laugina að mestu í sjálfboðavinnu og var hún vígð sumarið 1950. Endurbætur hafa verið gerðar á lauginni og er hún í ágætu ástandi, ávallt hefur þess verið gætt að halda umhverfi laugarinnar snyrtilegu. Þá hefur verið hugað að aðgengismálumþannig að hreyfihamlaðir komast að sturtudyrum, sturtustóll er til staðar og lyfta fyrir hreifihamlaða. Þá eru konar tröppur með handriði ofan í grynnri enda laugarinnar. Fram undir 1975 var sundkennslu þannig háttað að nemendur dvöldu hálfan mánuð í vist í húsum laugarinnar og mun oft hafa verið glatt á hjalla á þessum sundnámskeiðum. Aurkeila. Aurkeila (skriðuvængur) er þykkur, uppmjór setbunki fyrir framan gil eða [gljúfur] í [fjall]shlíðum. Þar fellur jarðefnaset út þegar straumhraði vatns minnkar. Í aurkeilum finnast allir kornastærðaflokkar, allt frá sandi upp í stóra hnullunga og björg. Efnið er lagskipt. Aurkeilur eru algengar í öllum dölum Íslands, fallegar aurkeilur eru til dæmis í undirhlíðum Esju. Á aurkeilum er oft skriðuhætta. Sekúndubrot. Sekúndubrot er tímaeining sem spannar einn hundraðasta úr sekúndu. Eurostar. Eurostar er háhraðalest í Vestur-Evrópu sem tengir Lundúnir og Kent við París og Lille í Frakklandi og Brussel í Belgíu. Auk er takmarkuð þjónusta við Disneyland Resort Paris í Frakklandi. Lestir fara undir Ermarsundið um Ermarsundsgöngin. Lestirnar eru með 18 vögnum sem geta náð 300 km/klst. hraða. Eurostar var tekin í notkun 1994. Surtshellir. Surtshellir er lengsti og þekktasti hraunhellir á Íslandi, um 1.970 metrar á lengd. Surtshellir er í Hallmundarhrauni, á um 40 m dýpi í um 14 km frá Húsafelli og 60 km frá Borgarnesi. Hæð til lofts í aðalhelli er 8-10 m og 2-4 m í vesturenda hans. Innsti hluti hellisins hefur verið kallaður Íshellir því í honum myndast ísstrýtur. Íshellir er í senn greiðfærasti og fegursti hluti hellisins, en hellisgólf hallar nokkuð. Þá er seinfarið er um hellinn því í botni hans er víða stórgrýtt urð, sem fallið hefur úr þakinu. Á hellisþaki eru fimm op sem komast má um inn í hellinn. Opin hafa ýmist myndast við hrun eða sem útrásir fyrir hraunleðju. Þrír afhellar eru út frá fremsta hluta Surtshellis, Beinahellir, Hringhellir og Vígishellir hvar innan eru mannvirki, grjóthleðsla og fleiri hleðslur. Skammt frá Surtshelli er hellirinn Víðgelmir. Þak Surtshellir og Víðgelmir eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Sögur og sagnir. Surtshellir er kenndur við jötuninn Surt úr norrænni goðafræði. Í Landnámu og Harðarsögu segir frá vígamönnum sem eiga að hafa haft fylgsni sitt í hellinum. Þaðan er talið að Hellismannasaga sem Jón Árnason reit í þjóðsögusafn sitt hafi komið. Lightbulb Universe. Lightbulb Universe er fyrsta plata hljómsveitarinnar Agent Fresco, hún inniheldur 6 lög sem seinna voru flest endurútgefin á fyrstu stóru plötu þeirra A Long Time Listening. Platan kom út í desember 2008. Oxford English Dictionary. "Oxford English Dictionary" eða OED er yfirgripsmikil orðabók ensku sem er gefin út af Oxford University Press. Orðabókin er með 59 milljónum orðum í annarri útgáfu. Moorgate. Hliðið í Moorgate fyrir niðurrif. Moorgate voru bakdyr í borgarvegg Lundúna sem Rómverjar reistu upphaflega. Þeim var breytt í hlið á 15. öld. Hliðið var rifið árið 1762 en nafn þess hefur haldist á einni aðalgötunni í miðborg Lundúna. Nafnið „"Moorgate"“ á uppruna sinn að rekja til Moorfields sem var einn síðasti hluti bersvæðis í Lundúnaborg. Núna er hér fjármálamiðstöð, nokkrir fjárfestingarbankar og sögulegar og nýtískulegar skrifstofubyggingar. Docklands Light Railway. Docklands Light Railway (oft bara DLR) er léttlestarkerfi á Docklands-svæðinu, í Austur-London í Englandi sem opnaði þann 31. águst 1987. DLR rennur norður í Stratford, suður í Lewisham, vestur í Tower Gateway og Bank í Lundúnaborg og austur í Beckton, London City-flugvelli og Woolwich. Keyrðar eru lestirnar af tölvunum, og þær eru ekki yfirleitt mannaðar ökumönnum. Fyrirtækið Serco Group starfar DLR fyrir hönd Transport for London. Kerfið er í hlutaeigu fyrirtækisins DLR Limited, sem er hluti London Rail deildarinnar í Transport for London. Þessi deild starfar líka London Overground og London Tramlink, en ekki neðanjarðarlestakerfið. Árið 2006 ferðust 60 milljónir farþega með í DLR-kerfinu. Kerfið hefur verið lengt nokkrum sinnum, og það eru enn mannvirkjagerðir og áætlunar í vinnslu. Enda þótt sé DLR eins og önnur samgöngukerfi í London, geta DLR lestir ekki rennt í neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar, Crossrail eða öðrum lestakerfum í Bretlandi. Núverandi kerfið. Það er líka skutluþjónusta sem rennur frá Canning Town til Prince Regent sem er í þjónustu þegar er haldinn atburður í ExCeL-sýningarhúsinu til þess að gera venjulega þjónustuna tvöfalda. Járnbrautarstöð. Það eru tvær járnbrautarstöðvar í gangi í Poplar og Beckton, báðar eru með verkstæði og hliðarspor á bersvæði. Stratford (London). Stratford, upprunalega Stratford Langthorne'", er staður í borgarhlutanum Newham í Austur-London á Englandi. Hann verður aðalstaðsetning Ólympíuleikanna árið 2012 og vegna þess er hann í endurþróun núna. Í vinnslu eru nýtt samgöngukerfi, verslunarmiðstöð og íþróttahús sem verða búin fyir byrjun Ólympíuleikanna. Háskólinn í Austur-London (UEL) á stóra háskólalóð í Stratford, aðalbygging háskólans var byggð á 19. öldinni og er nú vernduð. Nafnið „"Stratford"“ er úr fornensku en orðið merkir „gata“ eða „vað“. Það var upphaflega nafn tveggja samliggjandi þorpa sem stóðu á báðum bökkum Lea-árinnar. Austur-London. Austur-London er norðausturhluti London í Englandi, fyrir norðan Thames-ána. Austur-London skiptist í borgarhlutana Barking og Dagenham, Hackney, Havering, Newham, Redbridge, Tower Hamlets og Waltham Forest. Flatarmál svæðisins er 318,64 ferkílómetrar og íbúar voru 1,5 milljónir árið 2004. Sumarólympíuleikarnir 2012 verða í Stratford í Austur-London. Gróður. Gróður eru lifandi verur sem tilheyra jurtaríkinu. Tré, grös, blóm og þörungar er allt gróður af ýmsu tagi. Það eru til um 350.000 gróðurtegundir, flokkað sem sjávargróður, landgróður, burknar o.s.frv.. Gróður þarf koltvísýring, sólarljós og vatn til ljóstillífunar, auk annarra næringarefna, til að lifa. Gróið land bindur því meiri koltvísýring heldur en gróðurlaust land (auðnir eða flög). Theodosius 1.. Flavius Theodosius (á íslensku nefndur Þeódósíus mikli) (11. janúar 347 – 17. janúar 395), einnig þekktur sem Theodosius 1. eða Theodosius mikli, var keisari Rómaveldis frá 379 til 395 og var síðasti keisarinn sem ríkti yfir öllu heimsveldinu. Nokkrum mánuðum eftir að Valens, keisari yfir austurhluta Rómaveldis, lést árið 378 var Theodosius útnefndur keisari yfir austurhlutanum af Gratianusi, sem þá var keisari í vesturhlutanum ásamt Valentinianusi 2. Gratianus lést í uppreisn árið 383 og Valentinianus 2. lést árið 393 og varð Theodosius þá einn keisari yfir öllu Rómvaveldi, en þurfti þó að verja stöðu sína gegn valdaræningjanum Eugeniusi. Eugenius og Theodosius mættust í bardaganum við Frigidus árið 394 þar sem Theodosius sigraði. Þegar Theodosius lést árið 395 var Rómaveldi varanlega skipt í austur- og vesturhluta og synir hans tóku við af honum, Arcadius í austurhlutanum og Honorius í vesturhlutanum. Theodosius gerði kristna trú að einu löglegu trúarbrögðunum í Rómvaveldi og batt þar með endanlega enda á stuðning ríkisins við hin hefðbundnu rómversku trúarbrögð. Leoncie. Leoncie er listamannsnafn indversk-íslenskrar söngkonu sem hefur stundum kallað sig „"Indversku prinsessuna"“ (e. "Indian Princess Leoncie") eða „"Ískryddið"“ (e. "Icy Spicy Leoncie"). Meðal laga hennar má nefna "Ást á pöbbnum", "Ástin" og "Wrestler". Lög hennar eru ýmist á ensku eða íslensku. Hún tók þátt í X-Factor í Bretlandi en komst ekki áfram. Eiginmaður hennar, Viktor, leikur oft í myndböndum hennar. Leoncie er fædd í Góahéraði á Indlandi. Hún hefur búið í Kanada og í Kópavogi og Sandgerði á Íslandi. Hún hefur sagt að faðir hennar hafi kennt henni á píanó og að hún hafi stundað nám við Trinity College of Music í Lundúnum. Leoncie er kaþólsk og segist fá innblástur við bænir. Hún fluttist frá Íslandi árið 2004. Eftir að hafa reynt fyrir sér á Íslandi ætlaði hún að öðlast heimsfrægð á tónlistarsviðinu út í löndum. Hún tók þátt í X-factor í Bretlandi en komst ekki áfram úr áheyrnarpurfunum. Árið 2012 sneri Leoncie aftur til Íslands og hélt tvenna tónleika fyrir fullu húsi. Hún staldraði stutt við. Þorleifur Jónsson. Þorleifur Jónsson (21. ágúst 1864 – 18. júní 1956) var alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins á árunum 1922 til 1928. Þorleifur fæddist í Hólum í Hornafirði og átti heima þar til æviloka. Hann var hreppstjóri í Hornafirði frá 1890 til 1944 og gegndi oftsinnis sýslumannsstörfum í Austur-Skaftafellssýslu. Hann var faðir Þorbergs Þorleifssonar, alþingismanns. Þröstur Leó Gunnarsson. Þröstur Leó Gunnarsson (fæddur 13. apríl 1961) er íslenskur leikari sem hefur leikið í mörgum kvikmyndum, til dæmis Nóa albínóa, Reykjavík Rotterdam og Brúðgumanum. Hann hefur unnið til verðlauna einu sinni. William Eggleston. William Egglestone (fæddur 27. júlí 1939) er bandarískur ljósmyndari þekktastur fyrir verk sitt "The Red Ceiling". Margar sögur eru til af William Eggleston og ein þeirra segir frá því að hann hafi verið fenginn til að taka myndir í brúðkaupi en lítið fór fyrir hefðbundinni myndatöku þar sem hann lá mest á bakinu og tók myndir af bláma himinsins. Eggleston er fæddur í Memphis í Bandaríkjunum árið 1939 og ólstu upp á bómullarbúgarði í Tallahatchie héraði, Mississippi. Hann segist hafa sótt þrjá háskóla óreglulega en ekki lokið prófi frá neinum þeirra. 1957 fékk hann sína fyrstu myndavél og ári síðar var hann búinn að kaupa Leica myndavél. Tímaritamyndir voru hans fyrstu kynni af ljósmyndum. 1960 eða þar um bil, komst hann yfir ljósmyndabækur Walkers Evans (1903-1975), Americans Photographs (1938) og bók Henri Cartier-Bressons (1908-2004)., The Decisive Moment (1952). (Holborn, 2004). Áhrifavaldar. Walker Evans hafði kynnst verkum Eugène Atgets hjá bandaríska ljósmyndaranum Berenice Abbott (1898-1991). Abbot hafði unnið sem aðstoðarmaður Man Rays (1924-1926) í París en auk þess hafði hún numið ljósmyndun hjá Atget um svipað leyt. Eftir fráfall Atget tókst henni að eignast mikinn hluta af ljósmyndasafni hans og flutti með sér til Bandaríkjanna. Mikið af þessum ljósmyndum hafa síðan ratað í safnageymslur Museum of Modern Art í New York. (MoMA). Evans, eins og svo margir aðrir ljósmyndarar, varð fyrir miklum áhrifum af myndum Atgets. Evans þóttist sjá í verkum Atgets hæverska en þunglyndislega sýn á umbreytingu borgarinnar í átt til nútímalegri uppbyggingar. Hann taldi sig einnig sjá í verkum Atgets næma sýn á umhverfi borgarinnar, æfða athygli, sérstaka tilfinningu fyrir ytri einkennum og áferð, hæfileika til þess að draga fram smáatriði og ljóðræna heildarsýn. (Marien, 2002 bls. 282). Hið óræða en sérstaka augnablik, hið óvenjulega í annars hversdagslegu umhverfi ásamt fyrrnefndum áherslum varð að yrkisefni Evans, Bressons og fleiri ljósmyndara. Báðir þessir ljósmyndarar höfðu sterk áhrif á Eggleston. Alfred Stieglitz, Photo-Secession hópurinn, F64, ljósmyndabók Roberts Franks The Americans (1959) og hugmyndir um hina nýju hlutlægni voru stórir áhrifavaldar í listljósmyndun þessa tíma í Bandaríkjunum. Stieglitz var umhugað um að hin nýja hlutlægni tæki mið af modernisma í málaralist en þó ekki á forsendum málverksins. Ljósmyndin átti að vera áreiðanleg heimild sem hefði fræðslulegt gildi. (Hanna, 2005). Eggleston átti eftir að snúast öndverður gegn þessum hugmyndum. The Red Ceiling og litljósmyndir Egglestons. Árið 1964 byrjar Eggleston að taka litljósmyndir, fyrst á negatífar ljósmyndafilmur en síðar á sjöunda áratugnum fer hann að nota pósitífar filmur. Þrátt fyrir að Eggleston hafi upphaflega verið mjög upptekinn af hvítri ljósmyndun þá verður hann stax spenntur fyrir litljósmyndun eftir fyrstu tilraunir sínar í þá veru. Árið 1967 fer hann með safn af litskyggnum til New York og hittir m.a. ljósmyndarana Diana Arbus, Lee Friedlander og Garry Winogrand. Myndir Eggleston vekja athygli þeirra og honum er bent á að tala við forstöðumann ljósmyndadeildar Museum of Modern Art (MoMA), John Szarkowski. Það verður síðan upphafið af undirbúningi fyrir sýningu Eggleston í MoMA árið 1976. Sýningin fékk hörmulega dóma en engu að síður er þessi sýning talin marka tímamót og vera upphafið af listrænni litljósmyndun eins og við þekkjum hana í dag. Ljósmyndin The Red Ceiling var meðal verka Eggleston á sýningu í MoMA. Viðhorf til listljósmyndunar á sjöunda og snemma á áttunda áratugnum voru töluvert frábrugðin því sem við þekkjum í dag. Jafnvel þó ljósmyndarar litu á sig sem listamenn þá var listljósmyndun nokkuð sér á báti og úr tengslum við aðra myndlist. Lögð var mikil áhersla á tæknilega hlið ljósmyndunar og lýsandi og augljóst innihald þeirra. Litljósmyndun þótti of nálægt fjölskyldumyndum eða yfirborðslegri og tilgerðarlegri litanotkun í auglýsingaiðnaði og fjölmiðlum. Litljósmyndun var álitin “vulgar” eins og Walker Evans sagði eitt sinn. (Kernan, 2001:66). Það hlýtur því að teljast nokkuð áræði af Eggleston að ráðast í litljósmyndagerð þegar flestir af samtímaljósmyndurum hans afneituðu litljósmyndun sem listformi. Jafnvel þó sýning Egglestons hafi fengið dræmar viðtökur í MoMA þá óx skilningur á því myndmáli sem hann lagði rækt við og ekki sakaði að hann hafði fengið þá viðurkenningu að sýna í MoMA. Verk hans voru þar í flokki með nútímalist, ljósmyndun varð smám saman viðurkennd sem einn angi nútímalistar. Gagnrýnendur sáu í ljósmyndum Egglestons ákveðið andóf við modernisman og frávik frá kröfu um heimildar eða frásagnarlegt gildi (e. "epic fictons") sem lengi hafði loðað við listljósmyndun modernismans. Andóf Egglestons var reyndar í takt við vaxandi andstöðu listamanna við modernisman. Á Ítalíu lýsti einn talsmanna Arte Povera hópsins, Celan því yfir að hið ofurvenjulega hefði gert innreið sína í heim listarinnar. Hið ómerkilega eða léttvæga hefði öðlast líf og tilveru. (Oddy, 2002, bls. 88). Gresja. Gresja eða steppa er gróðursvæði sem er of þurrt til að skógur getir þrifist og of rakt til eyðimörk myndist. Á steppum nálægt laufskógum er meginlandsloftslag en á steppum nærri eyðimörkum skiptast á þurrka- og regntímabil. Þorbergur Þorleifsson. Þorbergur Þorleifsson (f. 18. júní 1890, d. 23. apríl 1939) var alþingismaður Austur-Skaftfellinga árin 1934 - 1939 fyrir Framsóknarflokkinn. Vilhjálmur 3. Englandskonungur. Vilhjálmur 3. Englandskonungur (14. nóvember 1650 – 8. mars 1702) var Óraníufursti frá fæðingu og landstjóri yfir flestum sýslum Hollands frá 1672. 1689 varð hann Vilhjálmur 3. Englandskonungur og Írlandskonungur og Vilhjálmur 2. Skotakonungur. Hann vann sigur gegn tengdaföður sínum Jakobi 2. í dýrlegu byltingunni og ríkti ásamt konu sinni Maríu 2. þar til hún lést 28. desember 1694. Óraníufursti. Óraníufursti er aðalstitill sem tengist furstadæminu Óraníu í Suður-Frakklandi. Titillinn tilheyrir ættinni Óraníu-Nassá sem eru jafnframt erfingjar hollensku krúnunnar. Jafnframt þeim gerir ættin Hohenzollern tilkall til titilsins. Núverandi Óraníufursti er Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur og Georg Friðrik Prússaprins gerir tilkall til titilsins sem höfuð Hohenzollern-ættarinnar. Germálið. Germálið eða gereyðingarmálið var mikið hitamál veturinn 1978-1979 þegar fjármálaráðherra í annarri ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar, Tómas Árnason úr Framsóknarflokki vildi gera breytingar á lögum um einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki (ÁTVR) þannig að þau næðu líka til innflutnings á ölgerðarefnum sem fyrirtækið Áman hafði tekið að flytja inn árið 1973. Einkum stóð til að taka allt ger út af svokölluðum „frílista“ yfir vörur sem hver sem er mátti flytja inn. Sala á áfengum bjór var þá bönnuð en „bjórfrumvarp“ var reglulega lagt fram til að aflétta banninu. Slíkt frumvarp var hins vegar ekki samþykkt fyrr en árið 1988. Heimabruggun var með öllu bönnuð. Áfengisverzlun ríkisins hafði raunar haft einkarétt á innflutningi og sölu bæði pressugers og þurrgers frá 1928 og seldi þá pressugerið aðeins til bakara en þurrgerið mátti kaupa í náttúrulækningabúðum NLFÍ. Bakarar sem uppvísir urðu að því að selja pressuger áttu á hættu að vera sektaðir. Á 7. áratugnum var talsverð umræða um gerbakstur og námskeið haldin víða um land. Talað var um að gerbakstur væri hollari en bakstur með lyftidufti og barðist Húsmæðrafélag Reykjavíkur fyrir því að sala á geri yrði gefin frjáls líkt og í nágrannalöndunum. Um 1970 var ger svo sett á frílista sem þýddi að hver sem var mátti flytja það inn og selja. Árið 1973 hóf fyrirtæki Guttorms Einarssonar, Hafplast, innflutning á geri og malti sem þeir settu saman í „kitt“ fyrir heimabruggun öls og seldu. Umræða um þennan innflutning kom upp á Alþingi árið 1974 en lögreglurannsókn leiddi í ljós að ekkert var ólöglegt við hann. Guttormur stofnaði svo Ámuna, sérverslun með öl- og víngerðarefni, árið 1978. Meðal þeirra ástæðna sem nefndar voru í greinargerð með gereyðingarfrumvarpinu var að tekjur af áfengissölu ríkisins árið 1978 höfðu reynst langt undir væntingum og var heimabruggun kennt um. Var þessu gjarnan stillt upp þannig að ríkið hygðist banna sölu á geri annars staðar en í ÁTVR og koma á virku eftirliti með innflutningi gers og sætuefna á borð við malt sem hægt væri að nota í ölgerð. Fjöldi lesendabréfa barst blöðunum þar sem húsmæður óttuðust að þurfa að fara í vínbúðir ÁTVR eftir geri til baksturs yrði frumvarpið að veruleika. Í febrúar 1979 lögðu nokkrir þingmenn svo fram frumvarp um breytingar á áfengislöggjöfinni þar sem gert var ráð fyrir lækkun áfengiskaupaaldurs í átján ár og að opnunartími vínveitingastaða yrði gefinn frjáls. Þingmennirnir voru Ellert B. Schram, Vilmundur Gylfason, Friðrik Sophusson og Eiður Guðnason. Þeir færðu meðal annars þau rök fyrir máli sínu að þáverandi áfengislöggjöf væri gengin sér til húðar og að flestir landsmenn gerðust reglulega brotlegir við hana. Þessar breytingar náðu ekki í gegn en eins fór fyrir stjórnarfrumvarpi fjármálaráðherra sem dagaði uppi eftir nokkra umræðu vorið 1979 og kom aldrei til atkvæðagreiðslu. The Red Ceiling. The Red Ceiling er ljósmynd eftir bandaríska ljósmyndarann William Eggleston (f. 1939) The Red Ceiling eða rauða loftið. Ljósmyndin er nafnlaus en gengur undir nafninu The Red Ceiling. Stærð hennar er 35 x 55 cm. Myndin er tekin í gestaherbergi kunningja Egglestons, tannlæknis í Greenwood, Mississippi árið 1970. Prentunin er svo kölluð „dye-transfer“. Þessi aðferð var mikið notuð af auglýsingaiðnaðinum allt frá fimmta til níunda áratug síðustu aldar. Prentunin gaf mjög lifandi og sterka liti en framleiðslu þeirra efna sem þar til vinnslunnar var hætt 1993. Árið 1972 hóf Eggleston tilraunir með dye-transfer prentun á ljósmyndum og heillaðist af þeim eiginleikum sem prentunin gaf. Þetta er vandmeðfarin, tímafrek og dýr aðferð til stækkunar á myndum en uppáhald margra ljósmyndara. The Red Ceiling var önnur af tveimur fyrstu myndum hans sem prentaðar voru með þessu móti. Eggleston sendi John Szarkowski stax prentun af The Red Ceiling sem síðar varð meðal þekktustu mynda Egglestons. The Red Ceiling og litljósmyndir Egglestons. Árið 1964 byrjaði Eggleston að taka litljósmyndir, fyrst á negatífar ljósmyndafilmur en síðar á sjöunda áratugnum fer hann að nota pósitífar filmur. Þrátt fyrir að Eggleston hafi upphaflega verið mjög upptekinn af hvítri ljósmyndun þá varð hann stax spenntur fyrir litljósmyndun eftir fyrstu tilraunir sínar í þá veru. Árið 1967 fór hann með safn af litskyggnum til New York og hitti meðal annars ljósmyndarana Diana Arbus, Lee Friedlander og Garry Winogrand. Myndir Eggleston vöktu athygli þeirra og honum var bent á að tala við forstöðumann ljósmyndadeildar Museum of Modern Art (MoMA), John Szarkowski. Það varð upphafið af undirbúningi fyrir sýningu Eggleston í MoMA árið 1976. Sýningin fékk hörmulega dóma en engu að síður er þessi sýning talin marka tímamót og vera upphafið af listrænni litljósmyndun eins og hún er þekkt í dag. Ljósmyndin The Red Ceiling var meðal verka Eggleston á sýningu í MoMA. Viðhorf til listljósmyndunar á sjöunda og snemma á áttunda áratugnum voru töluvert frábrugðin nútímaviðhorfum. Jafnvel þó ljósmyndarar litu á sig sem listamenn þá var listljósmyndun nokkuð sér á báti og úr tengslum við aðra myndlist. Lögð var mikil áhersla á tæknilega hlið ljósmyndunar og lýsandi og augljóst innihald þeirra. Litljósmyndun þótti of nálægt fjölskyldumyndum eða yfirborðslegri og tilgerðarlegri litanotkun í auglýsingaiðnaði og fjölmiðlum. Litljósmyndun var álitin „vulgar“ eins og Walker Evans sagði eitt sinn. Það telst því nokkuð áræði af Eggleston að ráðast í litljósmyndagerð þegar flestir af samtímaljósmyndurum hans afneituðu litljósmyndun sem listformi. Jafnvel þó sýning Egglestons hafi fengið dræmar viðtökur í MoMA þá óx skilningur á því myndmáli sem hann lagði rækt við og ekki sakaði að hann hafði fengið þá viðurkenningu að sýna í MoMA. Verk hans voru þar í flokki með nútímalist, ljósmyndun varð smám saman viðurkennd sem einn angi nútímalistar. Gagnrýnendur sáu í ljósmyndum Egglestons ákveðið andóf við modernisman og frávik frá kröfu um heimildar eða frásagnarlegt gildi (e. "epic fictons") sem lengi hafði loðað við listljósmyndun modernismans. Andóf Egglestons var reyndar í takt við vaxandi andstöðu listamanna við modernisman. Á Ítalíu lýsti einn talsmanna Arte Povera hópsins, Celan því yfir að hið ofurvenjulega hefði gert innreið sína í heim listarinnar. Hið ómerkilega eða léttvæga hefði öðlast líf og tilveru. Eggleston gerði sér far um að mynda „lýðræðislega“ eins og hann kaus að kalla nálgun sína að viðfangsefninu. Með því móti vildi hann gefa öllu myndefni athygli, leita fyrir sér og prjóna úr jafnvel ómerkilegasta drasli og „banal“ fyrirbærum. Hann leitaðist því við að draga fram áhugaverð sjónarhorn, lita samspil og ljóðrænu í sterka myndræna heild og gera sér mat úr efnivið sem fáum öðrum dytti í huga að líta við. Hann reyndi hins vegar að forðast innantómar formrænar uppsetningar þar sem innihaldið er úr tengslum við myndræna framsetningu. Myndir hans lýsa gjarnan smekkleysi, sérstæðu mannlífi, öfgum og hrörnandi fegurð í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Eggleston hefur ferðast og tekið myndir víða hin síðar ár en gagnrýnendur hafa ekki verið eins sáttir við afraksturinn úr þeim ferðalögum. Eggleston hefur líkt myndbyggingu í myndum sínum við fána Suðurríkjanna. Þó erfitt sé að sjá samsvörun með mörgum mynda hans við kross línur fánans þá má vissulega sjá nálgun við kross myndbyggingu í mörgum mynda hans. Í The Red Ceiling má auðveldlega sjá miðlæga áherslu á ljósaperuna með hvítar rafmagnssnúrur sem geisla í hvert horn myndarinnar. Þrátt fyrir það er myndbyggingin ekki það formföst að hún festist í symetríu án nokkurar spennu. Flash-ljósið gefur rýminu dýpt þar sem verulegur munur er á byrtu í hornum herbergisins og við perustæðið þangað sem flash-ljósinu er beint. Allar línur, bæði hvítar rafmagnssnúrur og áberandi hornalínur gefa til kynna fjarvíddina og aukna dýpt. „Sometimes I like the idea of making a picture that does not look like a human picture“ er haft eftir Eggleston. Hann hefur einnig líkt þessu við sýn flugu eða barns. Að komast á slóðir þess óvenjulega þar sem ný sýn skapar nýja tilveru, opinberun hins óvænta og nýstárlega, gagnstætt hinu augljósa. Flash-ljósið lýsir upp perustæðið og það er slökkt á perunni. Perur eru vinsæl myndefni hjá Eggleston sem og glampandi málmhlutir og speglun í bílum. Kynlífsmyndir sem sést grilla í neðst til hægri á mynd gefa til kynna vafasama starfsemi þó raunin sé önnur. Það hvílir yfir myndinni óvissa um hvar myndin er tekin (fyrir flesta sem vita lítið um sögu myndarinnar) og á sama tíma tilfinning fyrir því að vera staddur á slóðum jaðarmenningar, í húsakynnum glæpamanna eða þaðan af verra. Sterkur og heitur rauður litur herbergisins minnir á kynlíf og glæpi, ást og blóð. Margar myndir Eggleston eiga það sameiginlegt með myndum Eugène Atgets (1857-1927) að þær þykja minna óþægilega á vettvang glæps. Glæps sem er í þann veginn að gerast eða hefur átt sér stað. Hinn sterki rauði litur undirstrikar þessar kenndir frekar en hitt. Rómversku Lundúnir. Borgarveggur Lundúna var byggður af Rómverjum. Rómversku Lundúnir (á latínu "Londinium") eiga við Lundúnir frá 47 e.Kr., þegar Lundúnaborg var byggð, allt til brotthvarfs Rómverja frá Bretlandi á 5. öld. Rómverjar byggðu upp Lundúnir sem borg eftir innrásina árið 43 e.Kr. sem Kládíus keisari leiddi. Þegar borgin var byggð var hún frekar lítil, einungis 350 ekrur að flatarmáli. Staða Lundúna á rómverskum tímum er ekki klár en borgin var ekki höfuðborg (Colchester í Essex var höfuðborg á þessum tíma). Rómverjar byggðu borgarvegg Lundúna, sem enn má sjá í dag. Vitaskip. Vitaskip er skip sem þjónar sama hlutverki og viti. Vitaskip eru notuð þar sem er af einhverjum ástæðum ekki hægt að reisa vita, til dæmis þar sem er mikið dýpi. Skipinu er þá lagt við ankeri um langan tíma. Nútímavitaskip voru fyrst sett upp í Bretlandi á 18. öld. Sums staðar urðu þau útbreidd en þar sem að jafnaði er hagkvæmara að reisa vita í landi en reka vitaskip var þeim yfirleitt skipt út við fyrsta tækifæri. Með tilkomu öflugra ljósbauja hefur vitaskipum fækkað verulega og eru þau nú flest orðin safngripir. Orðið er líka notað um þau skip sem Vitamálastofnun Íslands rak og notaði til að flytja og þjónusta vita. Dæmi um þetta er vitaskipið "Hermóður" sam var keyptur til Íslands af stofnuninni 1947 og fórst 1959 undan Reykjanesi með allri áhöfn. Jóhannes Eðvaldsson. Jóhannes Eðvaldsson er íslenskur fyrrverandi knattspyrnumaður. Hann lék lengst af með Val en einnig með Glasgow Celtic í Skotlandi. Hann á einnig að baki fjölmarga landsleiki með íslenska landsliðinu. London Heathrow-flugvöllur. London Heathrow-flugvöllur eða Heathrow (IATA: LHR, ICAO: EGLL) er flugvöllur í borgarhlutanum Hillingdon og er stærsti og fjölsóttasti flugvöllur Bretlands. Hann er þriðji fjölsóttasti flugvöllur heims fyrir alþjóðlega umferð. BAA á og stjórnar flugvellinum, og á og stjórnar fimm öðrum flugvöllum á Bretlandi. Heathrow er höfuðstöðvar British Airways, BMI og Virgin Atlantic. Hann er 22 km vestur af miðbæ Lundúna í sögufrægu sýslunni Middlesex og er með tveimur flugbrautum og fimm flugstöðvarbyggingum. Þar eð flugvöllurinn er vestur af Lundúnum verða flugvélar að fljúga yfir borgina til að lenda á honum. Clyde Tombaugh. Clyde William Tombaugh (4. febrúar 1906 – 17. janúar 1997) var bandarískur stjörnufræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað dvergreikistjörnuna Plútó árið 1930. Hann uppgötvaði líka marga loftsteina og vildi vísindalegar rannsóknir á fljúgandi furðuhlutum. Fet. Fet (skammstafað ft eða táknað með ‘) er lengdareining í nokkrum ólíkum mælieiningakerfum. Kerfi sem notast við fet eru meðal annars enskar mælieiningar, breskar mælieiningar og bandarískar mælieiningar. Lengd fets í metrum er mismunandi en er yfirleitt í kringum fjórðungur eða þriðjungur úr metra. Það eru þrjú fet í stiku ("yard") og tólf tommur í feti. Upphaflega var fet bara lengd mannsfótar frá hæl að stóru tá. En þar sem mannsfætur eru mjög misstórir var slík viðmiðun óhentug til lengdar. Algengasta viðmiðið í dag er alþjóðlegt fet sem Bandaríkin og Breska samveldið komu sér saman um árið 1958. Með því var hin alþjóðlega stika skilgreind sem 0,9144 metrar og fetið þriðjungur af henni, eða 0,3048 metrar. 505 (kæna). 505 er 5,05 metra löng tvímenningskæna með trapisu. Þessi kæna var hönnuð af John Westell árið 1954 fyrir franskt siglingafélag. Hönnunin byggir á hönnun stærri báts, "Coronet", sem Westell hannaði sem hraðskreiðan ólympíubát. Hönnun Coronet var full af nýjungum sem þá voru að ryðja sér rúms í kænusiglingum, en þrátt fyrir að hann reyndist hraðskreiðasti báturinn í prófunum í La Baule 1953 hlaut hann ekki náð fyrir augum nefndarinnar sem valdi Flying Dutchman í staðinn sem næsta ólympíubát. Frakkarnir sem höfðu séð prófanirnar í La Baule heilluðust hins vegar svo af bátnum að þeir báðu Westall um að hanna minni bát með sömu eiginleika. 505 er hönnunarflokkur þar sem bátslagið og seglabúnaður eru vandlega skilgreind en aðrir hlutar reiðans eru frjálsari sem auðveldar aðlögun bátsins að siglingamanninum. 505 hlaut viðurkenningu Alþjóða kappsiglingasambandsins sem alþjóðleg keppnisgerð árið 1955. Flying Dutchman. Flying Dutchman eða Hollendingurinn fljúgandi er hraðskreið 20 feta (6,06 metra) löng tvímenningskæna. Flying Dutchman er með mikinn seglaflöt og búin trapisu fyrir áhöfnina. Báturinn varð til vegna vonbrigða sem Conrad Gulcher varð fyrir með alþjóðlegu kappsiglingagerðina Tornado sem Alþjóða kappsiglingasambandið hafði átt upptökin að seint á 5. áratugnum og siglingafélag Gulchers, Konunglega siglingafélagið í Loosdrecht, hafði keypt sex eintök af. Hann fékk því skipahönnuðinn Uus Van Essen í lið með sér til að hanna nýja hraðskreiða tvímenningskænu og fyrsta eintakið af Flying Dutchman leit dagsins ljós haustið 1951. Upphaflega var báturinn með sama reiða og Tornado að viðbættu genúasegli og trapisu. FD var valinn ólympíubátur 1953 eftir prófanir í La Baule í Frakklandi. Europe (kæna). Europe eða Evrópukæna er einmenningskæna með eitt segl sem belgíski bátahönnuðurinn Alois Roland hannaði fyrst árið 1960 sem útgáfu af Moth. Síðar þróaðist hönnunin og Europe varð til sem sérstakur hönnunarflokkur. Europe miðast við 50-75kg þungan siglingamann. Bolurinn er úr trefjagleri og vegur 45 kíló. Hún er með keilulaga stefni og sveigðan botn. Seglið er úr dakroni og mastrið úr koltrefjum. Europe var tekin upp sem ólympíubátur fyrir kvennaflokk á sumarólympíuleikunum 1992. Á ólympíuleikunum 2008 var þeim skipt út fyrir Laser Radial. Sveinn Ólafsson. Sveinn Ólafsson (11. febrúar 1863 – 20. júlí 1949) var alþingismaður fyrir Suður-Múlasýslu frá 1916 til 1933. Þá var hann einn af stofnendum Framsóknarflokksins og var formaður flokksins á árunum 1920 til 1922. Sveinn fæddist í Firði í Mjóafirði. Hann stundaði nám í lýðháskólanum í Vanheim og Aulestad í Noregi á árunum 1881 – 1882 og tók gagnfræðipróf frá Möðruvöllum 1884. Hann stundaði framhaldsnám í Københavns Seminarium frá 1885 til 1886. Íslensku tónlistarverðlaunin 2008. Íslensku tónlistarverðlaunin 2008 voru afhending Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2008. Verðlaunin voru veitt 18. febrúar 2009 í sal Ríkisútvarpsins. Verðlaunaflokkum var fækkað verulega frá því sem verið hafði þar sem ekki voru sérstakir verðlaunaflokkar fyrir ólíkar gerðir tónlistar (sígilda, djass og rokk/popp) nema í flokknum „plata ársins“. Kynnir var Valgeir Guðjónsson en karlakórinn "Voces Masculorum" fluttu stutt söngatriði. Múgsefjun (hljómsveit). Múgsefjun er íslensk rokkhljómsveit stofnuð af gítarleikurunum Hjalta Þorkelssyni og Birni Heiðari Jónssyni árið 2004. Harmónikkuleikarinn Sveinn Ingi Reynisson og bassaleikarinn Brynjar Páll Björnsson gengu síðar í hljómsveitina. Í upphafi árs 2007 tók Eiríkur Fannar Torfason við stöðu trommuleikara. Það ár tók hljómsveitin upp sína fyrstu plötu, "Skiptar skoðanir", í Stúdíó Tanki á Flateyri. Platan kom út í byrjun árs 2008. Sumarið 2012 sendi hljómsveitin frá sér sína aðra breiðskífu sem er samnefnd sveitinni. Platan inniheldur 13 lög, þ.á.m. Sendlingur og sandlóa, Þórðargleði og Fékkst ekki nóg. Hljómsveitin spilar fremur léttleikandi rokktónlist með grípandi laglínum sem settar eru fram í meðvitað ofhlöðnum og flóknum útsetningum. Malbik. Malbik er slitlag sem haft er á götur, flugvelli og víðar og framleitt úr grjótmulningi og jarðbiki. Algengt er að hlutfall grjótmulnings í malbiki sé 93-95% en jarðbik 5-7%. Hvortveggja er síðan hitað upp og blandað saman við u.þ.b. 155-160°C. Að lokum er heitt malbikið valtað, til að þjappa því saman og fá slétt yfirborð. Leópold 1.. Leópold 1. (fullt nafn: "Leopold Ignaz Joseph Balthasar Felician"; 9. júní 1640 – 5. maí 1705) var keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1658 til dauðadags. Hann var sonur Ferdinands 3. og Maríu Önnu af Spáni. Bæði voru af ætt Habsborgara. Upphaflega átti eldri bróðir hans Ferdinand 4. Ungverjalandskonungur að erfa keisaratignina og Leópold hlaut því kirkjulega menntun, en þegar bróðir hans lést úr bólusótt árið 1654 varð Leópold að aðalerfingja föður síns. Flest árin sem Leópold ríkti átti hann í stríði, ýmist við Tyrkjaveldi eða Frakkland þar sem náfrændi hans, Loðvík 14., ríkti. Hann tók þó sjálfur aldrei þátt í herförum. Hann var undir miklum áhrifum frá Jesúítum og studdi gagnsiðbótina með ráðum og dáð. Hann var þríkvæntur og eignaðist sextán börn, en aðeins sex þeirra náðu fullorðinsaldri. Innósentíus 11.. Innósentíus 11. (16. maí 1611 – 12. ágúst 1689) var páfi frá 1676 til dauðadags. Hann hét upphaflega Benedetto Odescalchi og var frá Como þar sem hann hlaut menntun í jesúítaskóla. Eftir lögfræðinám í Róm og Napólí gegndi hann ýmsum ábyrgðarstöðum fyrir Páfaríkið og Innósentíus 10. gerði hann að kardinála. Síðar varð hann sendimaður páfa í Ferrara og biskup í Novara. Þar varð hann þekktur fyrir aðstoð sína við fátæka og sjúka. Þegar Klemens 9. lést kom Odescalchi helst til greina sem eftirmaður hans, en Frakkar settu sig gegn honum. Eftir lát Klemens 10. féllust þeir hins vegar á kjör hans en tengsl páfa við Loðvík 14. Frakkakonung voru alla tíð erfið. Innósentíus reyndi hvað hann gat til að minnka kostnað við rekstur rómversku hirðarinnar og barðist gegn frænddrægni og annarri spillingu í Páfagarði og reyndi þannig að koma böndum á árlegan halla ríkisrekstursins. Tokugawa Ietsuna. Tokugawa Ietsuna (japanska: 徳川 家綱; 7. september 1641 – 4. júní 1680) var sjógun eða herstjóri yfir Japan, sá fjórði af Tokugawa-ættinni. Hann var elsti sonur Tokugawa Iemitsu. Faðir hans lést 1651 þegar hann var aðeins tíu ára gamall og því var fimm manna stjórnarráð skipað til að stjórna landinu í hans nafni. Meðal þess sem Ietsuna þurfti að takast á við var óánægja ronin, samúræja án yfirboðara sem skipulögðu Keianuppreisnina gegn honum 1651. 1657 varð Meirekibruninn í Jedó og tvö ár tók að endurreisa borgina. Þegar Ietsuna tók sjálfur við völdum um tvítugt voru flestir ráðgjafar hans látnir. Eftir það voru ríkisár hans að mestu friðsæl. Aurangzeb. Aurangzeb (persneska: اورنگ‌زیب; fullt nafn: "Al-Sultan al-Azam wal Khaqan al-Mukarram Abul Muzaffar Muhiuddin Muhammad Aurangzeb Bahadur Alamgir I, Padshah Ghazi"; 4. nóvember, 1618 – 3. mars, 1707) var keisari Mógúlveldisins frá 1658 til dauðadags. Á valdatíma hans náði Mógúlveldið mestri stærð en um leið veiktist það vegna uppreisna. Þetta stafaði ekki síst af áherslu keisarans á bókstafstrú og sjaríalög en frjálslyndari viðhorf höfðu áður tíðkast hjá Mógúlkeisurum. Síðustu 25 árin var Aurangzeb fastur suður á Dekkanhásléttunni við að berja niður uppreisnir og eftir lát hans skrapp ríkið saman. Hans er því minnst sem síðasta stórveldiskeisara Mógúlveldisins. Jóhannes 1. Eþíópíukeisari. Jóhannes 1. (ge'ez: ዮሐንስ "yōḥānnis", amharíska: "yōhānnis"; ríkisnafn: አእላፍ ሰገድ "A'ilāf Sagad", „sá sem tugþúsundir hneigja sig fyrir“; um 1640 – 19. júlí 1682) var Eþíópíukeisari ("nəgusä nägäst" eða „konungur konunganna“) frá 1667 til dauðadags. Hann var fjórði sonur Fasilídesar af Salómonsætt. Minnugur yfirgangs jesúíta neyddi hann alla Evrópubúa í landinu til að ganga í eþíópísku kirkjuna eða fara ella í útlegð til Sennar í Súdan. Hann lét hengja sex fransiskana sem Alexander 7. páfi sendi til að reyna að snúa Eþíópíu til kaþólskrar kristni. Á hans tíma risu deilur innan kirkjunnar um eðli Krists, hvort hann hefði orðið eins efnis (ὁμοιούσιος) við guð við smurninguna, eða hvort hann væri sömu náttúru (μία φύσις) og guð. Fyrri skoðuninni var haldið fram af fylgjendum Ewostatewosar i Gojjam og þeirri síðari af munkum í klaustrinu Debre Libanos. Málið var síðar leyst á kirkjuþingi í valdatíð sonar Jóhannesar, Jósúa 1.. Undirtitill. Undirtitill (einnig þekkt sem undirfyrirsögn eða aukafyrirsögn) kallast það þegar annars titill eða önnur fyrirsögn er gefin bókum eða greinum til frekari útskýringar. Frægt dæmi um þetta er eitt frægasta verk Mary Shelley; "Frankenstein; or, the Modern Prometheus" (enska: „Frankenstein; eða Prómeþeifur nútímans“) þar sem undirtitillinn „Modern Prometheus“ er lýsindi fyrir þema bókarinnar. Oft er undirtitlum sleppt í nútímaútgáfum og er áðurnefnt verk oft gefið út einfaldlega undir nafninu "Frankenstein". Sporkringluhús. a>n er fyrir framan húsið í þessu tilfelli Sporkringluhús í Vestur-Virginíu (B&O Martinsburg West Roundhouse) Sporkringluhús (eða lestarstallhús) er hringlaga bygging reist kringum snúningspall (þ.e. sporkringlu), og er notuð sem geymsla eða verkstæði fyrir eimreiðar-vagna. Sporkringla. Sporkringla (eða skiptiskífa) er snúningspallur á sporbraut járnbrautarlesta þar sem hægt er að snúa vögnum eða eimreiðum við á punktinum. Sporkringlur eru mjög algengar á verkstæðum járnbrautarvagna, eins og t.d. í sporkringluhúsum. Kjarnaklofnun. Kjarnaklofnun er kjarnahvarf þar sem þungum frumeindakjarna er sundrað í aðra minni kjarna. Við kjarnaklofnun losnar bindiorka upphaflega frumeindakjarnans sem varmi eða rafsegulgeislun. Þessi bindiorka er mjög mikil og er hagnýtt til raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum og til að knýja skip og kafbáta. Margar gerðir kjarnorkusprengja nýta orku frá kjarnaklofnun til að valda gríðarlegu tjóni en þær sem nýta kjarnasamruna eru mun öflugri vegna þess hve miku meiri orku hann skilar. Alþingisbókin. "Alþingisbókin" var tímarit (ársrit) sem fjallaði um gerninga á Alþingi og var prentað í Skálholti 1696 og 1697. Einungis komu þau tvö tölublöð út, en 1704 var farið að gefa út Alþingisbækur nokkuð samfellt þar til Alþingi var lagt niður 1800. "Alþingisbókin" er talið fyrsta tímaritið sem kom út á Íslandi þótt efni þess hafi verið sértækt. Næsta tímarit sem gefið var út var mánaðarritið "Islandske Maaneds-Tidender" sem var kom út í Hrappsey 1773-1776 og var eins konar fréttaannáll. Hvítá (Borgarfirði). Hvítá í Borgarfirði er 117 km löng jökulá sem aðskilur Borgarfjarðarsýslu frá Mýrasýslu. Uppspretta Hvítár er við Eiríksjökul, hún rennur út í hafið nálægt Borgarnesi. Hvítá er 10. lengsta á Íslands. Þar er nokkur veiði. Barnafoss er í Hvítá en Hraunfossar renna í ánna. Málverk eftir Þorlák V. Stefánsson af Hvítá í Borgarfirði Djúnkusegl. Djúnka með skonnortureiða í Flórída. Djúnkusegl eru skáskorin ferhyrnd þversegl sem notuð eru á djúnkum sem voru algengasta skipsgerð á Kínahafi fyrr á öldum. Það sem helst einkennir djúnkusegl eru langbönd eða lektur sem liggja lárétt þvert í gegnum seglið með reglulegu millibili. Þessi bönd styrkja seglið, stífa það og auðvelda rifun. Á hefðbundnum djúnkum voru seglin venjulega á óstöguðum siglum sem stóðu í djúpum stellingum að neðan. Oftast eru þau fest á hallandi rá að ofan og bómu að neðan. Þegar seglið er rifað eða tekið saman er bóman dregin upp og seglið fellur saman við hana. Með því að festa skrúð og dragreipi við öll böndin er hægt að hafa góða stjórn á stærð seglsins og hæð um leið. Djúnkusegl henta best til að sigla undan vindi. Þau taka ekki í sig mikinn vind miðað við seglflöt þar sem langböndin halda þeim flötum. Skörungur. Virðulegur skörungur með handfangi og kröku Skörungur (eða eldskara) er járnfleinn sem notaður er til að skara í eldinn, þ.e. að pota inn í köstinn til að annaðhvort auðvelda súrefni að komast að eldibröndunum og ná þannig heitum logum upp aftur, eða til að breiða úr kolunum og ná fyrr fram glóðum. Skörungur og að skara í eldinn. Skörungur heitir svo vegna þess að hann er notaður tili að skara í eldinn og kemur sú sögn t.d. fram í orðasambandinu að "skara eld að sinni köku" sem merkir að efla hagsmuna sína og aðstöðu. Það að skara í eldinn er einnig nefnt að raka (sbr. "raka eld að sinni köku") eða kraka (sbr. kraka í eldinn). Skörungur er einnig sá eða sú nefnd sem er atkvæðamikil(l) og sópar að eða er kempa á einhverju sviði. Blendingsmál. Blendingsmál er einfaldað hjálparmál sem þróast sökum samskipta tveggja eða fleiri hópa (t.d. í viðskiptum) sem hafa ekki sameiginlegt tungumál. Hebron. Hebron er stærsta borgin á Vesturbakkanum í Palestínu, um 30 km. suður af Jerúsalem. Þar búa um 166 þúsund Palestínumenn og yfir 500 Gyðingar. Hebron er næst helgasta borgin í augum Palestínumanna á eftir Jerúsalem. Borgin er í fjallendi í 930 m hæð yfir sjó. Grófargil. Grófargil (Listagilið eða Kaupfélagsgilið) er bratt gil upp frá sunnanverðum miðbæ Akureyrar. Þar er Listasafnið á Akureyri, Kaffi Karólína og hið stóra hús Kaupfélags Eyfirðinga sem var byggt árið 1907 og stækkaði með viðbyggingum fram á fjórða áratug 20. aldar. Skilyrðissetning. Skilyrðissetning (stundum kallaðar „control statements“) eða stýrisetningar eru setningar sem stjórna flæði forrits. Fyrsta setningin er IF. Hún virkar þannig að ef skilyrðið sem sett er fram í haus IF setningarinnar stenst, er sönn, er sá kóði sem er innan IF setningarinnar keyrður. Framsetning IF setningar getur verið mismunandi og fer það bæði eftir persónulegum stíl manna og hversu mikill kóði er innan IF setningarinnar sem ræður því helst hvernig hún er útfærð. Þar sem við erum oft að vinna með skilyrði sem fela það í sér að vera tvíkosta þá er bætt við ELSE hluta við IF setninguna og þannig getum við látið eitthvað gerast ef frumskilyrði stenst, annars förum við í ELSE hlutann og keyrum þann kóða. Núna er virkni setningarinnar orðin þannig að ef IF skilyrðið stenst ekki, hoppar þýðandi forritsins yfir IF hlutann og keyrir ELSE hluta setningarinnar. Þessa útgáfu setningarinnar er því eðlilegast að nota þegar möguleikanir eru 2 og annar hvor þeirra þarf alltaf að keyra. Við getum ímyndað okkur að við séum að búa til forrit sem tekur við tölu frá notanda og ef hún er 2 eða hærri eigi að margfalda töluna með 2 annars skal hún margfölduð með 3. IF setningar geta líka haft IF setningar innra með sér (nested IF) dæmi um þetta er IF setningin hér að neðan Eins og sést á þessu er hægt að búa til mjög flókin tré af IF setningum og þau geta innihaldið eins margar IF setningar og forritaranum langar að búa til. En eins og gefur að skilja er það ekki mjög læsilegur forrits kóði ef þetta yrði gert í miklum mæli þess vegna er ágætis viðmið að nota IF setningar ef valmöguleikarnir eru 1 eða 2. Þegar valið er orðið meira er gott að ath hvort valið megi ekki útfæra með öðrum aðferðum. Þá kemur case setningin sér vel. Skoðum dæmi um hana Skoðum fyrst hvað case setningin hérna fyrir ofan er að gera. Switch(skilyrði) segir til um hvaða breytu er verið að fylgjast með í case setningunni. Forritarinn þarf svo að ákveða hvað útkomu þess skilyrðis sem hann vill fylgjast með og bregðast við. það fer síðan eftir því hvaða útkomu breytan hefur hvaða kóði er keyrður. Breytan, skilyrði, getur t.d. verið tala 1,2,3 og svo framvegis eða bókstafur a,b,c og svo framvegis. Athugið default þarf ekki að vera í case setningum en gott er að hafa það til þess að taka á óvæntri útkomu úr breytunni okkar. Þannig getum við t.d. bent notandanum á að hann hafi valið einhvern möguleika sem við gerðum ekki ráð fyrir og getum þá beðið hann um að velja aftur. Eins og sést á þessum case setningum hér að ofan er mjög hentugt að nota þær þegar valmöguleikarnir eru orðnir mjög margir vegna þess að uppsetning case setninga er þétt og taka þær þess vegna ekki mjög mikið pláss í kóða. Lang oftast koma case setningar í stað margra IF setninga því IF setninga tré verða mjög pláss frek í forritum. Síðasta skilyrðasetningin er do while setningin hún virkar þannig að kóðin á milli do while er keyrður þar til skilyrði setningarinnar hefur verið uppfyllt þá er keyrslu forritsins haldið áfram í næstu línu. Skoðum dæmi um do while Í dæminu hérna að ofan mun do while lykkjan keyra þar til ýtt er á x á lyklaboðinu þá heldur keyrsla forritsins áfram. Gott dæmi um notkun do while er t.d. til að endurtaka eitthvað aftur og aftur þar til notandi vill hætta keyrslu. Dæmi um þetta gæti t.d. verið spurning til notanda sem endurtekin er þar til ýtt er á x. Það gæti þá litið svona út í kóða. Farviður. Farviður er einu nafni nefnt allir þeir lausir hlutir er fylgja skipi og nauðsynlegir eru í hverri sjóferð, svo sem: möstur, árar, stjaki, skorður, stýri og stýrissveif, austurtrog og lóðahjól. Orðabók Eddu útskýrir farvið sem: "árar, reiði og stýri báts". Farviður er þó ekki veiðarfæri. Fjölbolungur. Fjölbolungur eða fjölbytna er bátur með fleiri en einn bol. Algengustu fjölbolungar eru tvíbytnur með tvo eins boli og þríbytnur með tvö flotholt og einn aðalbol í miðju þar sem káetan er. Fjölbolungar eru stöðugri en einbolungar þar sem bilið milli massamiðju og flotmiðju er meira. Þetta gerir það að verkum að hægt er að hafa bolina grennri og minnka vætt svæði og þar með öldudraga skipsins. Þannig geta fjölbolungar verið hraðskreiðari en önnur skip af sömu stærð. Fjölbolungar með seglum þurfa minni kjölfestu til mótvægis við hliðarátakið í seglið þar sem þyngd bolanna sjálfra myndar slíkt mótvægi. Þannig er hægt að gera fjölbolunga léttari og hraðskreiðari miðað við sama seglaflöt. Flest hraðamet í úthafssiglingum hafa verið sett af stórum fjölbolungum. Dímetýlkvikasilfur. Dímeþýlkvikasilfur er eldfimur, litlaus vökvi og sterkasta þekkta taugaeitrið. Það hefur lítillega sæta lykt og er ákaflega hættulegt. Það hefur mjög háan gufuþrýsting svo það gufar mjög hratt upp og það getur valdið heilaskaða að anda gufunni að sér. Dímeþýlkvikasilfur kemst í gegnum latex, bútýl og annað harðgert gúmmíefni og getur sogast upp í gegnum húðina. Hanskar sem notaðir eru á rannsóknastofum eru því ekki nægileg vörn gegn því. Því þarf að nota hanska úr gervigúmmíi eða aðra þétta hanska þegar efnið er meðhöndlað því aðeins örfáir míkrólítrar á húðina geta valdið dauða. Karen Wetterhahn, þekktur efnafræðingur, lést nokkrum mánuðum eftir að hún hellti örfáum dropum af efninu niður á latex-hanska sem hún var í. Eik (tré). Eik (fræðiheiti: "Quercus") er stórvaxið lauftré af beykiætt. Eikin myndar lítil, hörð aldin, svo nefnd "akörn", sem er vinsæl fæða íkorna og villisvína. Eikin er algengur smíðaviður og er t.d. oft notuð í skip og parkett. Í íslensku er eik oft haft einnig um tré almennt, eins og t.d. í orðasambandinu: "sjaldan fellur eplið langt frá eikinni" sem þýðir oftast að afkvæmið líkist foreldrinu. Karen Wetterhahn. Karen Wetterhahn (16. október 1948 – 8. júní 1997) var alkunnur prófessor í efnafræði við Dartmouth-háskóla og sérhæfði sig í upplægi eitraðra málma. Árið 1996 var hún að vinna með lífrænu kvikasilfursblöndu sem kallast dímeþýlkvikasilfur þegar hún hellti óvart einn eða tvo dropa niður á Latex-hanskann sem hún var í. Fimm mánuðum síðar tók hún eftir einkennum eins og svima og málörðugleikum. Þrátt fyrir afar langa og erfiða læknismeðferð versnaði henni á skömmum tíma og þremur vikum eftir að fyrstu einkennin fóru að koma í ljós, féll hún í svefndá og dó fáum mánuðum síðar, innan árs frá því að hún hellti á sig blöndunni. Dartmouth-skólinn hefur síðan stofnað verðlaun til að örva vísindaiðkun kvenna og alþjóðleg stofnun umhverfisheilsu vísinda viðheldur einnig árlegum verðlaunum í heiðri Karenar Wetterhahn. Klýfir. Klýfir eða brandaukasegl er þríhyrnt framsegl (stagsegl) sem fest er á stag sem nær frá bugspjóti að framsiglu framan við fokkuna sem er á stagi sem nær frá stefni að framsiglu. Klýfirnir geta verið tveir og heita þá ytri- og innri-klýfir. Á sumum skipum er lítið þríhyrnt segl, jagar, framan við klýfinn festur á stag sem nær frá enda bugspjóts að húni framsiglu. Jagar. Jagar er lítið þríhyrnt framsegl (stagsegl) sem fest er á stag sem nær frá enda bugspjóts að húni framsiglu á seglskipi með fleiri en eitt framsegl. Jagarinn er þannig framan og ofan við klýfinn sem er framseglið framan við fokkuna. Blindsegl. Eftirlíking af skip Kólumbusar, "Santa Maria", með eitt blindsegl á bugspjóti. Blindsegl er lítið ferhyrnt framsegl (rásegl) sem hangir á rá neðan í bugspjóti fremst á seglskipi. Þau heita blindsegl þar sem þau byrgja sýn fram fyrir skipið af aðalþilfarinu. Eiturvirkni. Eiturvirkni (eiturhrif eða eiturverkun'") er það þegar eiturefni ("toxin") hafa þau áhrif á lifandi veru að þau brjóta niður varnir hennar og veran missir eðlilega starfshæfni og getur þannig dregið hana til dauða. Eiturvirkni lyfja getur verið beint gegn óæskilegri veiru og með því getur eiturvirknin haft jákvæða niðurstöðu ef engir óæskilegir hlutar líffverunnar hafi verið upplægir fyrir virkninni. Eiturvirkni sumra sýklaefna getur samt gert þau óhæf til notkunar fyrir þá sem eru t.d. með ofnæmi. Afeitur er t.d. eiturefni sem hefur verið svipt eiturvirkni, t.d. með hitun eða efnaáhrifum og er stundum notað sem mótefnisvaki. Nálgunarhraði að marki. Nálgunarhraði að marki (enska: "Velocity made good" eða VMG) er siglingahugtak notað í kappsiglingum sem vísar til þess hluta af hraða seglskips sem færir það nær settu marki. Hugtakið er notað vegna þess að vegna vindstefnu getur báturinn oft ekki siglt beint að markinu. Seglskútur geta ekki siglt beint á móti vindi og hæsta mögulega beiting gefur ekki endilega mesta hraða. Til að komast sem hraðast að markinu þarf því að hámarka hraða miðað við stefnu eða nálgunarhraða að marki. Skipstjóri þarf því að vega og meta kosti þess að halda meira undan og ná meiri hraða eða beita hærra til að stefna nær markinu. Hægt er að reikna þetta út með einfaldri hornafræði: Ef markið er í norður og skipið er á fimm hnúta hraða miðað við að stefna 60° norðaustur en næði 5,2 hnútum ef það héldi undan um 5°, hvor leiðin væri betri? Svarið fæst með því að reikna út kósínus hornsins sinnum hraða í þeirri stefnu. Þar með fæst út að fyrri leiðin færir skipið norður á cos(60) * 5 = 2,5 hnúta hraða en sú síðari á cos(65) * 5,2 = 2,2 hnúta hraða. Fyrri leiðin færir skipið því hraðar að markinu en sú síðari. Ef munurinn væri meiri, t.d. ef skipið næði sex hnúta hraða miðað við 65° stefnu en aðeins fimm miðað við 60°, þá myndi þetta breytast þannig að síðari leiðin væri betri. Fleiri atriði þarf að meta þegar reynt er að finna rétta stefnu, svo sem hversu oft þarf að venda til að ná markinu (skipið missir ferð við að venda), ölduhæð og öldustefnu, drift, rek og staðbundna vinda. GPS-tæki sem ætluð eru fyrir siglingar reikna gjarnan út nálgunarhraða að marki, en siglingamenn geta líka notast við einfaldan vasareikni eða fyrirfram reiknaðar töflur með mismunandi gildi fyrir mismunandi horn. Amínósýra. Amínósýra er í eðlisfræði, sameind sem hefur bæði virka amín og karboxýlhópa. Þessar sameindir eru afar mikilvægar í lífefnafræði þar sem "amínósýra" er notað yfir alfa-amínósýrur með formúluna H2NCHRCOOH þar sem R er lífrænn tengihópur. Amínósýrur eru byggingarhlutar próteina, og haldast þær saman með peptíðtengjum. Ramallah. Horft yfir íbúðahverfi í Ramallah Ramallah er borg í Palestínu. Hún er á miðjum Vesturbakkanum við hliðina á al-Bireh og er íbúafjöldi hennar um 25.500. Ramallah er um 10 km fyrir norðan Jerúsalem og er núna stjórnarsetur Palestínumanna. Al-Bireh. Karlar í al-Bireh dansa þjóðdansa. al-Bireh er borg í Palestínu sem liggur að Ramallah. Margir brunnar og vatnslindir eru í borginni og er nafn hennar dregið af því. al-Bireh er staðsett á krossgötum milli norðurs og suðurs en úlfaldalestirnar fóru fá fornu fari milli Jerúsalem og Nablus. Árið 2006 var íbúafjöldi borgarinnar 39.538. Qalqilya. Qalqilya er borg í Palestínu á Vesturbakkanum. Qalqilyah er stjórnarsetur fyrir svæðið. Flestir íbúar eru bændur og höfðu þeir stöðug samskipti við bændur í Ísrael áður en varnargirðing var sett upp og tala því margir íbúar á þessu svæði bæði hebresku og arabísku. Borgin er sá staður á Vesturbakkanum sem næst er Miðjarðarhafinu og eru 12 km til strandar. Áætlað er að árið 2006 hafi íbúar verið um 38 þúsund. Borgin er umlukið af varnargirðingu Ísraelsmanna. Fjármálaverkfræði. Fjármálaverkfræði er undirgrein verkfræðinnar með áherslu á stærðfræðilega útreikninga fjármálaafurða og fjármálamarkaða. Verkfræðilegum aðgerðum eins og hermun, aðgerðagreiningu, tölfræði, stærðfræðilíkönum og fleiru er beitt til að leysa flókin vandamál ört vaxandi fjármálamarkaða. Fjármálaverkfræði eru tiltölulega ný fræði fyrir Íslendingum sem hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið. Hér verður stuttlega fjallað um þessa fræðigrein. Starfsvettvangur. Helstu störf fjármálaverkfræðinga felast í áhættustýringu, eignastýringu, afleiðu viðskiptum og fjárstýringu. Tækifærin eru þó mun fleiri, þetta eru einungis helstu sérsvið fjármálaverkfræðinga. Fjármálaverkfræði á Íslandi. Fjármálaverkfræði er frekar nýleg grein á Íslandi. Á Íslandi hófst kennsla í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík haustið 2005, fyrstu nemendurnir úr grunnnámi (BSc.) voru því útskrifaðir vorið 2008. Háskóli Íslands byrjaði að bjóða upp á framhaldsnám (MS) í fjármálaverkfræði haustið 2007. Háskólinn í Reykjavík tók einnig upp MS nám í fjármálaverkfræði haustið 2008. Grunnnám í fjármálaverkfræði er nú hægt að stunda við Háskólann í Reykjavík og meistaranám bæði við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Starfsheitið verkfræðingur. Starfsheitið verkfræðingur er lögverndað starfsheiti á Íslandi, því þarf tilskilin leyfi til að kalla sig verkfræðing. Ef viðkomandi er með BSc. í verkfræði eða sambærilegu fagi og MS á sama fagsviði eða svipuðu getur hann sótt um lögverndaða starfsheitið verkfræðingur hjá Verkfræðingafélagi Íslands. Matsnefnd VFÍ fer yfir umsóknina og ákveður hvort umsækjandi sé hæfur eður ei. Framlög til fjármálaverkfræðinnar. Fischer Black, Robert C. Merton og Myron Scholes eiga eitt helst framlag til fjármálaverkfræðinnar. Þeir fundu upp hina merku Black and Scholes formúlu sem er hornsteinn afleiðu útreikninga. Sprengidagur. Saltkjöt og baunir er íslenskur réttur sem borðaður er á fjölmörgum íslenskum heimilum á sprengidaginn en er þó alls ekki bundinn við hann eingöngu og var áður algengur allan ársins hring. Sprengidagur eða "sprengikvöld" er þriðjudagur í föstuinngangi fyrir lönguföstu, 7 vikum fyrir páska og getur borið upp á 3. febrúar til 9. mars. Elsta heimild um íslenska heiti dagsins tengist matarveislu fyrir föstuna. Er það í íslensk-latnesku orðasafni Jóns Ólafssonar Grunnvíkings frá því kringum 1735. Þar segir hann "Sprengikvöld" þýða orðrétt kvöld sprengingar, það er kvöld miklifenglegrar átveislu með alskonar meðlæti en nefnir einnig að þetta sé sveitamál. Kjöt þótti í kaþólskum sið ekki við hæfi föstuinngangsdagana tvo fyrir lönguföstu (mánudag og þriðjudag) og voru því oft miklar kjötkveðjuhátíðir sunnudaginn eða sunnudagskvöldið þar á undan. Kjötveislan kann við siðaskiptin að hafa flust frá sunnudagskvöldinu yfir á þriðjudaginn. Erlendis nefnist þessi dagur almennt „feiti þriðjudagur“ ("Mardi gras"). Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá árunum 1752-57 segir að „Kveld hvíta Týsdags heitir sprengikveld því þá fékk allt vinnufólk svo mikið að eta af hangikjöti sem framast gat í sig látið en ket var síðan ekki etið fyrr en á páskum.“ Hangikjöt var lengstum helsti veislukosturinn enda salt af skornum skammti. En frá síðasta hluta 19. aldar er vitað um "saltkjöt og baunir" á sprengidag og er sú hefð nú almenn. Heitið Hvíti týsdagur. Jón Sigurðsson reyndi að koma heitinu "hvíti týsdagur" inn í málið í almanaki sínu, Íslandsalmanakinu, árið 1853 en það náði aldrei fótfestu meðal almennings. Það virðist ekki hafa komist nema á nokkur önnur prentuð almanök og "Lagasafn handa alþýðu" uns það var fellt niður árið 1970. Sennilega hefur Jón talið hér vera gamalt og gleymt íslenskt heiti dagsins en eitt heiti hanns á Dönsku er "hvitetirsdag" og einnig er það til á Norsku sem "kvitetysdag". Orðsifjafræðingar telja þessa nafngift dregna af þeim sið að "fasta við hvítan mat" á þeim degi og borða þá aðalega hveitibollur í soðinni mjólk. Ýmis önnur nöfn eru til í norrænum málum svo sem "feitetysdag" og "smörtysdag" sem dæmi. Á ensku hefur hann verið kallaður "Pancake-Tuesday" og kemur það heiti fyrir í verki Shakespeare. Öll þessi nöfn hafa með mat að gera sem er vegna þess að í kaþólskum sið var þetta síðasti dagurinn sem mátti borða nægju sína fyrir lönguföstu. Rafael Pereira da Silva (1990). Rafael Pereira da Silva (fæddur 9. júlí 1990 í Rio de Janeiro) er brasilískur knattspyrnumaður sem leikur með Manchester United sem hægri bakvörður. Hann klæðist treyju númer 21. Hann kom til liðsins 1. júlí 2008 en lék fyrsta leik sinn 17. ágúst sama ár gegn Newcastle United. Hann er tvíburabróðir Fábio Pereira da Silva sem einnig leikur með Manchester United. Brjóstagras. Brjóstagras (fræðiheiti: "Thalictrum alpinum") er fjölært blóm af sóleyjaætt sem vex í móum, hlíðum og grasbölum. Það ber blóm í gisnum klösum og blómhlífarblöðin eru ljós-fjólublá. Í hverju blómi eru 8 fræflar sem hanga út úr blóminu. Hver frjóhnappur er í fyrstu gulur en verða þeir svo brúnir. Brjóstagras myndar hnetur sem sitja á slútandi stilk. Blómið er í heild um 6 til 20 cm hátt. Katalónsku löndin. Kort sem sýnir þau svæði þar sem katalónska er opinbert tungumál Katalónsku löndin eru þau svæði á Spáni stundum nefnd þar sem katalónska er töluð. Svæðið hefur enga lagalega skilgreiningu. Slóði. Slóði (eða hældrag) er sá hluti kjóls eða síðkjóls sem dregst við jörð. Slóði er einnig oft mikilvægur hluti af mikilfenglegum brúðkaupskjólum. Gásir. Gásir eða Gásakaupstaður var forn verslunarstaður á Gáseyri við mynni Hörgár í Eyjarfirði. Gásir voru helsti verslunarstaður Norðurlands á miðöldum. Staðurinn er um 11 km norðan við Akureyri. Sagan. Ekki er vitað hvenær verslun hófst á Gásum en elstu heimildir um hana eru frá seinni hluta 12. aldar en sú yngsta frá 1394. Greinilegt er af heimildum að Gásir voru aðal kauphöfn Norðurlands á 13. og 14. öld og fornleifar sem þar hafa verið rannskaðar eru einkum frá þeim tíma. Mögulegt er að kaupskip hafi komið að Gásum fram eftir 15. öld en ekki er ljóst hvers vegna staðurinn lagðist af og verslun færðist til Akureyrar. Ein kenningin er sú að framburður úr Hörgá, einkum vegna skriðufalla í Hörgárdal 1390, hafi gert höfnina ónothæfa fyrir stærri kaupskip en einnig er möguleg skýring að breyttir verslunarhættir á 15. öld, þegar ensk skip tóku að sigla til Íslands, hafi orðið til þess að siglingar þangað lögðust af. Í dag eru Gásir friðaðar samkvæmt íslenskum þjóðminjalögum og er í umsjón Fornleifaverndar ríkisins. Fornleifarannsóknir. Árið 1907 gerðu Daniel Bruun og Finnur Jónsson uppgröft á Gásum. 16 prufuholur og 4 sambyggðar búðartóftir voru grafnar upp. Þeir töldu að ummerkin sýndu að búðirnar hafi ekki verið ætlaðar til vetursetu, heldur hafi þær aðeins verið notaðar að sumarlagi. Árið 1986 gerðu Margrét Hermanns-Auðardóttir og Bjarni F. Einarsson rannsókn á Gásum. Grafnar voru 4 prufuholur og þar á meðal 1 í kirkjutóftinni. Á árunum 2001-2006 stóðu Minjasafnið á Akureyri, Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands fyrir rannsóknum. Markmið þeirra var að varpa ljósi á hvenær verslun hófst, hvers eðlis hún var og hvers vegna hún lagðist af og beindust þær rannsóknir að umsvifum á 14. og 15. öld. Í þessum rannsóknum voru niðurstöðurnar þær að Gásir hafi sennilegast verið líkari hafskipahöfnum nútímans, þar sem starfsemin snérist um uppskipun og útskipun, tollgæslu og landamæraeftirlit, en verslunin sjálf fór að mestu fram annars staða. Í kjölfar rannsóknanna var staðurinn kynntur fyrir almenningi og kynningarverkefni um staðinn komið á lagnirnar með Miðaldadögum. Fornleifafundir. Eitt stærsta safn leirkerjabrota frá miðöldum hefur fundist á Gásum. Flest brotin eru tímasett til 14. og 15. aldar og eru ensk eða þýsk að uppruna. Brot úr krukku sem var notuð undir smyrsl eða olíur hafa fundist. Vegna þessara funda hafa spurningar um álitamál á íslensku miðaldasamfélagi vaknað, þ.e. hvort að utanríkisverslun hafi skipt máli fyrir samfélagið í heild sinni eða hvort fyrst og fremst hafi verið verslað með munaðarvöru. Ekki er alveg ljóst hvort Gásakaupstaður og verslunarstaðir eins og hann hafi fyrst og fremst verið til vegna utanríkisverslunar eða hvort að Íslendingar hafi líka verslað þar hver við annan. Miðaldadagar. Miðaldadagar hafa verið haldnir ár hvert á Gásum síðan 2003 og er kynningarverkefni á staðnum og því sem hefur komið fram í rannsóknum á staðnum. Þar getur fólk komið og upplifað stemminguna sem var ríkjandi á markaðnum á miðöldum. Kaupskapur, handverk, leikir og matargerð sem endurspegluðu athafnir Gásakaupstaðar á miðöldum sem og alls kyns iðnaður er kynntur fyrir almenningi, eins og t.d. kolagerð og brennisteinsvinnsla. Kynlífsleikfang. Kynlífsleikfang (hjálpartæki kynlífsins eða kynlífstól) er leiktæki (unaðstæki) sem fólk notar til að stunda sjálfsfróun eða í kynlífi með öðrum. Þau líkjast oft mjög kynfærum mannsins og sum fást með titrara sem eykur á unaðinn. Lausanne. Lausanne er borg í Romandy í frönskumælandi-hluta Sviss. Borgin liggur við Genfarvatn um 50 km norðaustur af Genf. Hún er höfuðborg kantónunnar Vaud og Lausanne héraðs. Höfuðstöðvar Alþjóðaólympíunefndarinnar eru í Lausanne. Uppruni lífs. Upprunakenningar um líf á Jörðinni eru vísindakenningar sem leitast við útskýra hvernig líf kviknaði í árdaga og myndaði að lokum síðasta sameiginlega áa alls núverandi lífs á Jörðinni. Hér er því um að ræða náttúruvísindalega rannsókn á því hvernig lífverur á Jörðinni spruttu upp frá lífvana efni. Allar lifandi verur samanstanda af prótíni, en allt prótín samanstendur af amínósýrum („byggingarefni lífsins“) sem hafa raðað sér upp. Amínósýrur finnast náttúrulega vegna efnabreytinga sem tengjast ekki lífi og kjarnasýrur sjá um uppbyggingu þessara prótína, þannig að spurningin um það hvernig lífið varð fjallar virkilega um það hvernig fyrstu kjarnasýrurnar urðu til. Hugmyndin um sjálfskviknun lífs hefur verið í gildi upp að 19. öld, en hún fjallar um það að það sé daglegt brauð að líf spretti upp frá lífvana efni (eins og að maðkar verði til í rotnandi kjöti). Sú kenning er afsönnuð og talin úrelt núna. Saga upprunakenninga í lífvísindum. Uppruni lífvera hefur ugglaust verið mannskepnunni hugleikinn allt frá fyrstu tíð, enda hafa flest trúarbrögð, auk náttúruvísinda og ýmissa heimspekistefna, glímt við þessa snúnu ráðgátu. Hér verður stiklað á stóru yfir helstu upprunakenningar í sögu lífvísindanna. Sjálfkviknun. Sjálfkviknunarkenningin er venjulega rakin til Anaxímandrosar frá Míletos sem uppi var á 6. öld f.o.t., en sú útgáfa hennar sem mest var stuðst við á miðöldum, og raunar allt fram á 19. öld var tekin saman af Aristótelesi á 4. öld f.o.t. og kemur einna skýrast fram í 5. bók "Rannsókna á dýrum". Kenningnin, sem raunar stangast nokkuð á við hugmyndir Aristótelesar um sálina ("psykke") og hvernig hún berst milli kynslóða við æxlun, var í grófum dráttum á þá leið að auk æxlunar geti bæði plöntur og dýr fjölgað sér með sjálfkviknun á óútskýrðan hátt. Seinni tíma hugsuðir settu svo fram kenningar á þá lund að allir hlutir, jafnt dauðir sem lifandi, innihéldu "lífsandann". Þegar aðstæður urðu hagstæðar hvað varðar hlutföll frumefnanna fimm kviknaði líf og fullmótuð lífvera varð til í einu vetfangi. Kenningin var álitin útskýra fyrirbrigði eins og tilurð froska í regnblautum aur og möðkun kjöts og mjöls. Á 17. öld fóru að koma fram brestir í sjálfkviknunarkenningunni. Rannsóknir Williams Harvey og fleiri lækna og líffærafræðinga gáfu til kynna að öll dýr, jafnt smá sem stór, kæmu úr eggi ("omne vivum ex ovo") og Francesco Redi sýndi fram á það á sannfærandi hátt að kjöt maðkar ekki ef flugum er haldið frá því. Sjálfkviknunarsinnum óx þó ásmegin þegar Antonie van Leeuwenhoek uppgötvaði örverur skömmu síðar og var það viðtekinn sannleikur í vísindaakademíunum í London og París á 18. öld að bakteríur og aðrar örverur verði til fyrir sjálfkviknun þrátt fyrir að „æðri lífverur“ eigi sér alltaf áa. Ekki voru þó allir sáttir við þennan vísdóm. Lazzaro Spallanzani við háskólann í Pavia framkvæmdi umfangsmiklar tilraunir með hitun örvera í næringarríku seyði og taldi sig hafa sýnt fram á að örverur þyrftu að berast í seyðið, til dæmis með lofti, til að vöxtur gæti átt sér stað, en það var ekki fyrr en Louis Pasteur endurbætti og endurtók tilraunir Spallanzanis 1859 sem sjálfkviknunarkenningin þótti endanlega hrakin. Súpukenningin. a> á rannsóknastofu í ensímefnafræði 1938. Þessar óformlegu vangaveltur Darwins eru glettilega keimlíkar hugmyndum sem fram komu all löngu síðar, eiga grunn sinn í rannsóknum annars vegar rússneska lífefnafræðingsins Aleksandr Oparin og hins vegar enska erfðafræðingsins J. B. S. Haldane, og ganga gjarnan undir samheitinu „súpukenningin“ (e. "Primordial Soup Theory"). Í bók Oparins um uppruna lífsins sem fyrst kom út á rússnesku 1924 bendir hann á að súrefni andrúmsloftsins kemur í veg fyrir myndun ýmissa þeirra lífrænu efna sem ætla má að til staðar þurfi að vera svo líf geti myndast. Aðstæður hafi, hins vegar, verið allt aðrar í árdaga. Hann leggur til að einhvers konar ýrulausn lífrænna efna hafi myndast við loftfirrtar aðstæður fyrir tilstilli sólarljóss. Í ýrunum hafi átt sér stað frumstæð efnaskipti og þær hafi „vaxið“ og „fjölgað sér“ með því að renna saman og sundur. Haldane birti á svipuðum tíma hugleiðingar þess efnis að í hafinu hafi í árdaga myndast „heit, þunn súpa“ sameinda sem gátu eftirmyndast, en það leiddi af sér myndun fyrstu lífveranna. Nokkuð víst er að þeir Oparin og Haldane hafa ekki vitað af verkum hvor annars á þessum árum, enda eru kenningar þeirra ólíkar í ýmsum grundvallaratriðum þó þær eigi það sameiginlegt að telja upphaf lífsins hafa orðið úr ólífrænu efni í sjó eða vatni. Helst ber í því sambandi að nefna að tilgáta Oparins gerir ráð fyrir að hæfileikinn til efnaskipta myndist á undan hæfileikanum til eftirmyndunar, en hjá Haldane er þetta öfugt. Þetta eru því snemmbær dæmi um það sem nefnt hefur verið "eftirmyndunarkenningar" annars vegar og "efnakiptakenningar" hins vegar. Það voru svo Stanley Miller og Harold Urey sem sýndu fram á myndun ýmissa lífrænna efna, þar á meðal amínósýra úr ólífrænu efni við afoxandi aðstæður líkt og álitið er að hafi verið til staðar á Jörðinni í árdaga. Vaurien. Vaurien er 4,08 metra löng ódýr tvímenningskæna með einföldum seglbúnaði. Þessi kæna var hönnuð af Jean-Jacques Herbulot og kynnt á bátasýningu í París árið 1952. Á þeim tíma var hún kynnt með því að hún kostaði jafnmikið og tvö reiðhjól. Vaurien vegur tæp 100kg og er mjög stöðug með einfaldan reiða sem gerir hana að vinsælum byrjendabát. Listi yfir örverufræðinga. Hér er listi yfir nokkra þekkta örverufræðinga í stafrófsröð eftir ættarnafni. Listi yfir íslenska örverufræðinga. Hér er listi yfir nokkra íslenska örverufræðinga í stafrófsröð. Örverufræðingar Gísli Guðmundsson (1884-1928). Gísli Guðmundsson gerlafræðingur (f. 6. júlí 1884 í Hvammsvík í Kjós, d. 26. september 1928 í Reykjavík) var líklega fyrsti menntaði örverufræðingurinn á Íslandi. Hann var einnig frumkvöðull í atvinnulífi Reykvíkinga, stofnaði og rak gosdrykkjagerðina Sanitas 1905 og Smjörlíkisgerðina f 1918. Hann var einnig hvatamaður eða aðili að stofnun margra annarra matvælaframleiðslufyrirtækja á árunum í kring um 1920, svo sem Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, Brjóstssykurgerðarinnar Nóa og Mjólkurfélags Reykjavíkur Æviágrip. Gísli var sonur Guðmunds Guðmundssonar bónda í Hvammsvík og síðar daglaunamanns í Reykjavík og Jakobínu Jakobsdóttur frá Valdastöðum í Kjós. Árið 1898 flutti hann til Reykjavíkur með foreldrum sínum, en dvaldi þó lengstum hjá Jóni Jónssyni útvegsbónda í Melhúsum á Seltjarnarnesi. Hann tók strax virkan þátt í félagslífi Seltirninga, var formaður Framfarafélags Seltirninga í 12 ár, sat í skólanefnd hreppsins og stofnaði kóra Framfarafélagsins og KFUM. Nám í gosdrykkjagerð og stofnun "Sanitas". Um tvítugt hélt Gísli til náms í Svíþjóð. Hann lærði gosdrykkjagerð í "Hälsans Laboratorium" í Helsingjaborg og naut þar leiðsagnar Eriks Berselius efnafræðings og N. Viktorsen verkfræðings. Að námi loknu var hann tvo mánuði í Stokkhólmi þar sem hann kynnti sér gerð ávaxtasafa. Að því loknu hél Gísli heim og stofnaði gosdrykkjagerðina Sanitas ásamt þeim Jóni í Melshúsum og Guðmundi Ólafssyni óðalsbónda í Nýjabæ á Seltjarnarnesi. Að ráði Guðmundar Björnssonar, sem síðar varð landlæknir, var verksmiðjan reist á Seltjarnarnesi vegna þess að þar var brunnvatn mun hreinna en í Reykjavík og ólíklegra til að vera smitað taugaveikibakteríum. Þrátt fyrir það var allt vatn til gosdrykkjagerðarinnar gerilsneytt í loftþéttum katli. Nám í örverufræði. Hugur Gísla stóð mjög til þess að stofna ölgerð í tengslum við gosdrykkjagerðina og kom hann sér raunar upp litlu brugghúsi í tilraunaskyni. Hann rak sig þó fljótt á að hann skorti fullnægjandi þekkingu og kunnáttu í örverufræði. Hann sótti því í fyrstu undirbúningsnám hjá Ásgeiri Torfasyni efnaverkfræðingi og forstöðumanni Efnarannsóknastofu landsins og hélt síðan utan til náms í annað sinn árið 1910. Gísli fór víða í tæplega þriggja ára námsför sinni. Hann hóf nám í efnafræði og örverufræði ölgerðar í München, en síðan beindist hugur hans að sýklafræði og var hann meðal annars við rannsóknir á sárasóttarbakteríunni hjá August von Wasserman í Berlín. Hann starfaði einnig við bakteríurannsóknir í Düsseldorf, Vín, Liége og Kaupmannahöfn. Gerlarannsóknastofa Gísla Guðmundssonar. Þó Gísli hafi orðið sér úti um mikla bóklega og verklega þekkingu í örverufræði og fleiri greinum, þá hafði hann ekki lokið formlegu háskólaprófi. Hinn nýstofnaði Háskóli Íslands þáði því ekki boð Gísla um að hann tæki að sér verklega eða bóklega kennslu í sýklafræði fyrir læknanema þrátt fyrir að öðrum örverufræðimenntuðum einstaklingum væri ekki til að dreifa og Gísli nyti stuðnings landlæknis. Gísli hafði haft heim með sér frá Þýskalandi all nokkuð af rannsóknabúnaði og gat því komið sér upp sinni eigin rannsóknaraðstöðu, sem hann og gerði og birtust af og til auglýsingar í Læknablaðinu og Lögrjettu þar sem hann auglýsti þjónustu sína við gerla- og blóðrannsóknir. Milwaukee. Milwaukee er stærsta borg Wisconsin-fylkis og 25. stærsta borg Bandaríkjanna. 1. júlí 2006 voru íbúar borgarinnar 573.358 talsins en á stórborgarsvæðinu búa um 1,8 milljón manna. Borgin liggur við suðausturströnd Michigan-vatns. Úldnun. Úldnun er þess konar rotnun matvæla sem veldur ýldulykt. Oftast er um að ræða niðurbrot (dýra)prótína af völdum loftfælinna baktería með myndun ýldulyktandi amína, svo sem pútreskíns og kadaveríns. Úldnun er því afbrigði gerjunar. Fresno. Fresno er borg í Kaliforníu í Bandaríkjunum og höfuðsetur Fresno-sýslu. Borgin er næststærsta borg Kaliforníu sem ekki liggur við sjóinn á eftir San Jose. Fresno er í miðri Kaliforníu, milli Los Angeles og San Francisco. Íbúafjöldi borgarinnar var áætlaður 490.847 27. janúar 2009, sem gerir borgina þá fimmtu stærstu í fylkinu. Omaha. Omaha er stærsta borg Nebraska-fylkis í Bandaríkjunum. Borgin liggur við bakka Missouri-fljótsins. Árið 2008 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 432.921. Tulsa. Tulsa (borið fram "tölsa") er næststærsta borg Oklahoma-fylkis í Bandaríkjunum Árið 2007 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar 384.037 en um 900 þúsund manns búa á stórborgarsvæðinu. Vefur Karlottu. "Vefur Karlottu" (enska: "Charlotte's Web") er skáldsaga eftir bandaríska rithöfundinn E. B. White. Á frummálinu var hún fyrst gefin út árið 1952. Bókin er um svín sem sleppur við að vera slátrað og könguló sem heitir Karlotta. Ábyrgð. Ábyrgð: frumskuldbinding manneskju er sú að henni hefur verið gefið nafn og ætlast er til að hún gegni því. Manneskja er fædd og alin upp af öðrum sem gera tilkall til hennar. Hún er sonur, bróðir, frændi, vinur, nemandi o.s.frv. Smám saman lærist henni hver hún er. Hún lærir með því að taka á sig þær skuldbindingar sem aðrir ætlast til af henni. Hún lærir líka af þvi að taka eftir viðmóti og framkomu annarra gagnvart henni og því sem hún gerir sjálf. Hún hefur tekur á sig skuldbindingar löngu áður en hún kemst til vits og ára. Tilkall eða krafa annarra til manneskjunnar er því rót skuldbindinga hennar. Til að hún skilji hvað henni ber að gera, skyldur sínar, þarf hún að skilja kröfur annarra. Hún verður einnig að fallast á kröfur annarra. Það hefur hún gert löngu áður en spurningin um réttmæti og óréttmæti kemur upp í huga hennar og þar með áður en hin siðferðilega hlið málsins kemur í ljós. Hún tekur meðvitað á sig skyldur sínar að eigin frumkvæði. Hún skuldbindur sig með því að gefa loforð, gera saminga og taka að sér störf o.s.frv. Manneskjan getur staðið við skuldbindingar sínar á ólíka vegu. Skyldur og skuldbindingar reyna á skilning fólks og hæfileika til að gera sér grein fyrir hverju það er bundið; fólk getur haft skyldur og skuldbindingar án þess að átta sig á því sem í þeim felst. Í öðru lagi binda þær okkur til tiltekinna athafna, við eigum að gera vissa hluti og aðra ekki, það er ámælisvert að gera ekki það sem skyldan býður að við höfum skuldbundið okkur til. Hverjum og einum ber að uppgötva skyldur sínar og taka á sig þær skuldbindingar sem staða hans eða hennar krefst. Yfirstilling. a> sett upp til yfirstillingar á ABIT NF7-S. Yfirstilling (einnig þekkt óformlega undir lánþýðingunni á enska orðinu "overclock"; yfirklukkun) kallast það að keyra tölvubúnað á hærri tiftíðni (þ.e.a.s. fleiri tiftímar á sekúndu) en framleiðandi tölvunnar ætlaðist til. Þetta er oftast gert á einkatölvum til þess að fá betri afköst frá tölvunni. Gylfi Magnússon. Gylfi Magnússon á fundi fjármálaráðherra í Kaupmannahöfn, 4. desember 2009 Gylfi Magnússon (f. 1966) er dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sat sem efnahags- og viðskiptaráðherra utan þings á árunum 2009-2010. Gylfi hefur verið dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands frá árinu 1998. Gylfi útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með doktorsgráðu í hagfræði frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Eftir að önnur ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll í byrjun árs 2009 var Gylfi skipaður viðskiptaráðherra í minnihlutastjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Gylfi var fyrsti efnahags- og viðskiptaráðherra eftir að ný lög um stjórnarráð Íslands tóku gildi 1. október 2009. Verksvið ráðuneytisins stækkaði með því verulega. Undir það heyrði þá Seðlabanki Íslands og flest annað sem viðkemur stjórn efnahagsmála í stjórnsýslu ríkisins. Gylfi lét af ráðherraembætti 2. september 2010 og hélt aftur til starfa í Háskóla Íslands. Ragna Árnadóttir. Ragna Árnadóttir (f. 30. ágúst 1966 í Reykjavík) er íslenskur lögfræðingur og var dómsmálaráðherra Íslands utan þings í rúmlega eitt og hálft ár, 2009-2010. Eftir að önnur ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll í byrjun árs 2009 var Ragna skipuð dómsmálaráðherra í minnihlutastjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og sat í stjórninni til 2. september 2010. Áður var hún starfsmaður dómsmálaráðuneytisins frá 2002. Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri og frá Háskólanum í Lundi. Dyskolos. "Dyskolos" (á forngrísku δύσκολος) eða "Fýlupúkinn" er forngrískur gamanleikur eftir skáldið Menandros. Það er eina leikrit hans sem er varðveitt í fullri lengd og jafnframt eina leikritið sem tilheyrir hinum svonefnda nýja gamanleik sem er varðveitt í fullri lengd. Í varðveittum texta leikritsins eru þó gloppur. Leikritið var fyrst sett upp á Lenajuhátíðinni í Aþenu árið 316 f.Kr. en Menandros hlaut fyrir verkið fyrstu verðlaun í leikritasamkeppninni. Papyrus-brot frá 3. öld með leikritinu öllu fannst árið 1957. Bindiskylda. Bindiskylda er eitt af stjórntækjum Seðlabanka, ásamt lausafjárskyldu og stýrivöxtum, til að hafa stjórn á magni lausafjárs í umferð. Í stuttu máli er bindiskylda sett á lánastofnanir eins og viðskiptabanka og segir að ákveðið hlutfall af innlánum þess skuli fara á reikning hjá Seðlabankanum, þ.e.a.s. hluti innlána banka er lögð á reikning hjá Seðlabankanum og dregur þannig úr getu banka til útlána. Lausafjárskylda. Lausafjárskylda er eitt af þrem stjórntækjum Seðlabanka, ásamt bindiskyldu og stýrivöxtum, til að stjórna hagkerfi landsins. Ef sett er lausafjárskylda á lánastofnanir skyldar það stofnanirnar til að eiga fyrir ákveðnum hluta af innlánum sínum í lausafé. Fáni Kambódíu. Núverandi þjóðfáni Kambódíu var tekinn upp að nýju 1993 þegar konungsdæmið var endurreist eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Angkor Wat musterið Allt frá miðri 19. öld hefur fáni Kambódíu haft í miðju mynd af Angkor Wat. Núgildandi fáni hefur bláa fleti að ofan og neðan og breiðari rauðann flöt á milli. Hlutföll litaflatanna eru 1:2:1. Hlutföll fánans eru 2:3. Það er sami fáni og var valinn við sjálfstæði landsins frá Frakklandi árið 1948. Hann var notaður (nema á hernámstímum Japana í seinni heimsstyrjöldinni) þangað til 9. október 1970 þegar Lon Nol lýsti yfir stofnun Khmer Lýðveldisins. Ríki Rauðu khmeranna, Lýðræðislega Kampútsea, á árunum 1975 til 1979 notaði rauðann fána með Angkor Wat í gulum lit. Alþýðulýðveldið Kampútsea hafði svipaðan fána nema þar hafði musterið fimm en ekki þrjá turna. Enn aðrir fánar voru notaðir 1989-1991 og 1992-1993 þegar landið var undir yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna, UNTAC. Árið 1993 var fáni konungsríkisins að nýju þjóðfáni landsins. Brekkusnígillmítlar. áttfætlur sem búa á sniglum og brekkusníglum. Þeir eru mjög smáir (< 0.5 mm) og hvítir. Hrein fimmund. Hrein fimmund er annar yfirtónn yfirtónaraðarinnar á eftir áttundinni sem er fyrsti yfirtónninn. Hreina fimmundin er undirstöðu tónbil í dúr og moll kerfinu. Það má búa til fimmundahring út frá hreinum fimmundum sem ferðast alla krómatísku tónanna. Dæmi um hreina fimmund er tónbilið á milli C og G. Davíð Stefánsson (1973). Davíð Stefánsson (fæddur 14. október 1973) er íslenskt skáld. Hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur sem allar komu út hjá sjálfsútgáfuforlaginu Nykur sem Andri Snær Magnason stofnaði ásamt fleirum árið 1995. Árið 2008 gaf hann út kennslubókina "Tvískinnu" sem fjallar um tungumál og táknfræði í samhengi hversdagsmáls. Hann er einn af stofnendum ljóðavefjarins ljóð.is þar sem skráðir notendur geta gefið út ljóð. Vefurinn opnaði árið 2002. 2003 kom út safnritið "101.ljod.is" með úrvali ljóða af vefnum. Félagsstörf. Davíð var einn af þeim sem stóðu fyrir opnum borgarafundum í kjölfar Bankahrunsins á Íslandi haustið 2008. Hann tók þátt í forvali VG í Reykjavík fyrir þingkosningarnar 2009 og sat í fimmta sæti á framboðslistanum í Reykjavíkurkjördæmi-norður. Auk þess að hafa tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður, hefur hann gegnt formennsku í Reykjavíkurfélagi Vinstri grænna. Áður hafði Davíð setið í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga. Hann hefur setið í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 2006. Tónskratti. Tónskrattinn er tónbil sem skiptir áttundinni í tvennt. Það eru sex hálftónsbil frá grunntóni upp í tónskrattann og sex hálftónsbil aftur upp í áttundina. Í dúr og moll kerfinu hefur tónskrattinn verið útskýrður sem stækkuð ferund eða minnkuð fimmund. Saltpétur. Saltpétur, kalínítrat, kalísaltpétur eða kalíumnítrat (KNO3) er efnasamband kalí, niturs og súrefnis. Hann brennur hratt ef eldur er borinn að honum og er t.d. notaður í svart púður og reyksprengjur. Ketill. Ketill er eldhúsáhald eða heimilistæki sem haft er til að sjóða vatn til ýmissa nota, meðal annars til að laga te og ýmsa aðra heita drykki. Rafmagnskatlar eða hraðsuðukatlar, sem oftast eru úr plasti eða stáli, eru rafknúnir og hafa innbyggt hitaelement en aðrir katlar, sem eru úr málmi eða leir, eru settir á eldavélarhellu eða yfir opinn eld og hitaðir þannig. Orðið „ketill“ er upphaflega komið úr latínu, "catillus", sem þýðir lítil skál eða djúpur diskur. Áður fyrr hafði orðið ketill víðtækari merkingu á íslensku og var haft um potta - talað er um soðkatla í heimildum, meðal annars í Njálu: „Þar var maður úti hjá búð nokkurri er Sölvi hét. Hann sauð í katli miklum og hafði þá upp fært úr katlinum en vellan var sem áköfust.“ Nú á dögum er orðið ketill eingöngu haft um vatns- og tekatla. Reykjavík! Reykjavík! er íslensk rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð af heimspekinemunum Hauki S. Magnússyni og Bóasi Hallgrimssyni en fljótlega bættust fleiri meðlimir í röð hljómsveitarinnar. Hljómsveitin spilar áleitið melódískt þungarokk með keim af gleðipoppi. Fyrsta hljómplata sveitarinnar var tekin upp af Valgeiri Sigurðssyni og gefin út af 12 Tónum en sú síðari af Kimi Records. Glacial Landscapes, Religion, Oppression & Alcohol. Glacial Landscapes, Religion, Oppression & Alcohol er hljómplata með rokkhljómsveitinni Reykjavík! Platan var gefin út árið 2006 og var sama ár tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna. THE BLOOD. THE BLOOD er önnur hljómplata hljómsveitarinnar Reykjavík!. Platan er tekin upp í Gróðurhúsinu, hljóðveri Valgeirs Sigurðssonar. Upptökum stjórnaði Ben Frost. Haukur S. Magnússon. Haukur Sigurbjörn Magnússon (fæddur 14. febrúar 1981) er íslenskur tónlistarmaður og blaðamaður. Hann er ritstjóri tímaritsins Reykjavík Grapevine og gítarleikari hljómsveitarinnar Reykjavík! Bóas Hallgrímsson. Bóas Hallgrímsson er íslenskur tónlistarmaður. Hann er söngvari hljómsveitarinnar Reykjavík! en áður var hann forsöngvari hljómsveitanna Vígspá og Spitsign. Hrein ferund. Hrein ferund spannar fjögur skref í díatónískum tónstiga. Hún inniheldur 5 hálftónsbil. Sem dæmi er tónbilið milli C og F hrein ferund. Litningur. a> tengjast. (3) Stuttur armur. (4) Langur armur. Litningur uppbygging sem samanstendur af DNA og próteinum og fyrirfinnst í frumum. Orðið litningur er bein þýðing á gríska orðinu chromosoma sem kemur úr ("chroma", litur) og ("soma", kroppur) en þeir hétu það vegna þess að litningar litast mjög mikið af litunarefnum. Mikill munur er á milli litninga lífvera, en í frumum manna eru 46 litningar- þar af 22 pör samlitninga og eitt par kynlitninga. Tryggvi Þór Herbertsson. Tryggvi Þór Herbertsson (f. 17. janúar 1963) er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Menntun og ferill. Tryggvi var hljóðmaður á yngri árum t.d. hjá hljómsveitinni Greifunum og Bubba Mortens um leið og hann var eigandi Stúdíó Mjatar á árunum 1981-1986. Hann starfaði síðar sem fréttaklippari hjá Stöð 2 á árunum 1986-1989. Sumarstörf hans voru hjá Iðntæknistofnun og fjármálaráðuneytinu árið 1991. Tryggvi lauk iðnrekstrarfræðiprófi frá Tækniskóla Íslands árið 1992, M.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og doktorsprófi í hagfræði frá Árósaháskóla árið 1998. Tryggvi Þór var forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 1995 til 2006 auk þess sem hann sinnti kennslu við skólann frá 1996 til 2006. Frá áramótum 2008-2009 hefur hann verið prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Tryggvi er giftur Sigurveigu Maríu Ingvadóttur og á fjögur börn. Tryggvi og Björgólfur Guðmundsson. Eins og að framan segir starfaði Tryggvi Þór lengst af við Háskóla Íslands. Samkvæmt heimildum DV fór Tryggvi þess á leit við Björgólf Guðmundsson árið 2006 að sá síðarnefndi myndi kosta prófessorsstöðu í hagfræði sem Tryggvi ætlaði svo að gegna. Tryggvi, sem á þeim tíma var forstöðumaður hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á að hafa reifað hugmyndirnar fyrir samstarfsfólki sínu við háskólann á þann hátt að staðan yrði nefnd eftir Björgólfi. Samkvæmt heimildum DV var hugmyndin sú að Tryggvi átti að fá umtalsvert hærri laun en aðrir kennarar í hagfræði við Háskóla Íslands. Staðan hafi að sögn Tryggva átt að vera rannsóknarstaða við stofnunina. Samkvæmt DV varð ekkert úr þessum fyrirætlunum Tryggva þar sem hann tók síðar á sama ári við störfum forstjóra Askar Capital. Skýrsla fyrir olíufélögin. Árið 2004 réði íslenska olíufélagið Skeljungur Tryggva ásamt Jóni Þór Sturlusyni til þess að veita hagfræðilega greiningu á úrskurði Samkeppniseftirlitsins um samráð olíufélaganna. Komust þeir Tryggvi og Jón Þór að því að mjög hefði hallað á Skeljung í úrskurði Samkeppniseftirlitsins, raunar komust þeir að þeirri niðurstöðu að samráð olíufélaganna hefði ekki valdið neinni hækkun á olíuvörum. Var umrædd skýrsla gagnrýnd af Samkeppnisráði, sem benti á að skýrslan hefði verið pöntuð af lögmönnum sakborninganna í málinu. Þá taldi Samkeppnisráð það há skýrsluhöfundum að þeir hefðu aðeins fengið til umfjöllunar viðurlagakafla frumathugunarinnar, að þeir hafi ekki nýtt sér að fullu aðgang sem þeir höfðu að upplýsingum úr rekstri olíufélaganna og að þá skorti yfirsýn yfir framkvæmd sambærilegra mála erlendis og þá aðferðafræði sem gengur og gerist í málum sem þessum. Þessum ásökunum vísuðu skýrsluhöfundar á bug. Skýrsla fyrir Viðskiptaráð um fjármálastöðugleika á Íslandi. Árið 2006 kannaði hann sem forstöðumaður Hagfræðistofnunar fjármálastöðugleikann á Íslandi ásamt Frederic Mishkin, prófessor við Columbíu-háskóla sem síðar sama ár varð einn af seðlabankastjórum Bandaríkjanna. Skýrsla þeirra varð síðar umdeild, þar sem niðurstaða hennar var sú að raunhagkerfið á Íslandi væri traust sem margir túlkuðu sem heilbrigðisvottorð fyrir fjármálakerfið. Þá hafa ýmsir, til að mynda Robert Wade, prófessor við London School of Economics, haldið því fram að Tryggvi Þór hafi verið eini höfundur skýrslunnar, Frederic Mishkin hafi fengið greidda 135 þúsund dollara frá Viðskiptaráði Íslands fyrir það eitt að leggja nafn sitt við það sem Robert Wade kallar "rýra skýslu" Tryggva Þórs. Hefur hann sagt að hagfræðinemar hefðu fengið falleinkunn fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í skýrslunni. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að öldur hafi lægt að nokkru leyti eftir útgáfu skýrslunnar, en viðhorf útlendra fjárfesta hafði breyst til hins verra fram að útgáfu skýrslunnar árið 2006. Frederic Mishkin mátti sæta mikilli gagnrýni fyrir að breyta eftir hrun heiti skýrslunnar á ferilskrá sinni úr "Financial Stability in Iceland" (Fjármálastöðugleiki á Íslandi) í "Financial Instability in Iceland" (Fjármálaóstöðugleiki á Íslandi). Forstjóri Askar Capital. Árið 2006 varð hann forstjóri fjárfestingarbankans Askar Capital og var það frá stofnun hans til júlí 2008 þegar hann tók við stöðu sérstaks efnahagsráðgjafa Geirs Haarde forsætisráðherra. Í tilefni af opnun Aska Capital árið 2006 var Tryggvi Þór spurður af fréttastofu RÚV um hlutverk Aska. Sagði þá Tryggvi Þór: „Við ætlum að fara að bjóða upp á flókna fjármálalega gjörninga og fjármálalegar vörur fyrir stofnanafjárfestingar, fyrir viðskiptabankanna og fyrir ja, stóra fjárfesta.” Fréttamaðurinn fylgdi spurningunni eftir og bað Tryggva Þór um að nefna dæmi. Þá svaraði hann: „Ja, við gætum til dæmis nefnt einhverjar afleiður sem eru tengdar fasteignum í öðrum löndum eða, já til dæmis.” Notkun á bótasjóðum Sjóvár í fjárfestingar. Askar Capital höfðu umsjón með fjárfestingaverkefnum fyrir Sjóvá og Milestone. Verðmæti verkefnanna hljóp á hundruðum milljarða króna og voru meðal annars bótasjóðir Sjóvár notaðir til að fjármagna verkefninin. Eftir að upp komst um notkun bótasjóðanna gerði embætti sérstaks saksóknara húsleit í höfuðstöðvum Sjóvár, í höfuðstöðvum Milestone, á heimilum allra fyrrverandi stjórnarmanna og á heimili Þórs Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Sjóvár. Var það gert í tilefni rannsóknar á stórfelldu fjármálamisferli sem tengist starfsemi Milestone og Sjóvár. Rannsóknin snerist meðal annars að meintri misnotkun á bótasjóði Sjóvár en um sjóðinn gilda strangar reglur hvað varðar not á fé úr honum til fjárfestinga. Tryggvi Þór kveðst hafa vitað að bótasjóðir væru notaðir í fjárfestingarnar. Hann hafi gert sér fullkomlega grein fyrir því að verið væri að kaupa eignir inn í bótasjóðina, fjárfest hefði verið í ýmsu með slíkum sjóðum. Aftur á móti telur hann að notkun bótasjóðanna til fjárfestingar hafi verið lögleg. Svo fór þó að fjárfestingar fyrir fjármuni bótasjóðsins enduðu illa og árið 2008 var eignastaða Sjóvá var orðin það slæm að félagið átti ekki fyrir vátryggingaskuld sinni en það eru þeir fjármunir sem tryggingafélag skuldar viðskiptavinum sínum vegna greiddra iðgjalda, svonefndur bótasjóður. Á endanum þurfti íslenska ríkið að lána Sjóvá um 12 milljarða króna af fé skattgreiðenda sumarið 2009 svo það uppfyllti skilyrði um gjaldþol og gæti staðið við vátryggingaskuldbindingar sínar. Greiðslur frá Askar Capital. Nokkuð hefur verið gagnrýnt að Tryggvi Þór hafi þegið samtals 16,5 milljónir í greiðslu frá Askar Capital á sama tíma og hann gegndi stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra árið 2008. Tryggvi vísaði þó allri gagnrýni á bug og sagðist ekki geta ímyndað sér hvaða hagsmunaárekstrar ættu að geta átt sér stað. Aðkoma Tryggva Þórs að bankahruninu. Tryggvi Þór var fimmti efnahagsráðgjafi forsætisráðuneytisins frá upphafi. Sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra reyndi hann að sefa ótta útlendinga við að íslensku bankarnir yrðu gjaldþrota, t.d. með því að að lofa í breskum fjölmiðlum að íslenska ríkið ábyrgðist Icesave reikningana. Björgvin G. Sigurðsson, sem var bankamálaráðherra á tíma bankahrunsins, hefur gagnrýnt Tryggva Þór Herbertsson fyrir að halda mikilvægum upplýsingum frá sér við fall bankanna. Tryggvi gegndi því starfi efnahagsráðgjafa þar til hann sagði af sér seinnipart október 2008, en afsögnin kom í kjölfar þess að Tryggvi hafði verið mótfallinn yfirtöku ríkisins á Glitni. Tryggvi Þór á Alþingi. Tryggvi skipaði annað sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar 2009. Helsta kosningaloforð hans var að fella niður 20% af skuldum heimila og fyrirtækja. Ritdeila við Andra Snæ. Í september 2010 lenti Tryggvi í ritdeilu við rithöfundinn Andra Snæ Magnason. Fyrst birti Andri greinina „"Í landi hinna klikkuðu karlmanna"“ á vef sínum og í Fréttablaðinu. Í henni gagnrýndi hann stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda og notaði gífuryrði eins og „klikkaðir“, „óðir“ og „geðveikir“ til þess að lýsa „íslensku elítunni“ þar á meðal Tryggva Þór. Tryggvi Þór svaraði greininni með grein í Fréttablaðinu viku seinna undir fyrirsögninni "Alkemistinn". Svandís Svavarsdóttir. Svandís Svavarsdóttir (fædd 24. ágúst 1964) var umhverfis- og auðlindaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur verið alþingismaður fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð í Reykjavík frá árinu 2009. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur 2006-2009, þar til hún var kjörin á Alþingi. Menntun og fyrri störf. Svandís er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og lauk BA-prófi við Háskóla Íslands í almennum málvísindum og íslensku árið 1989. Hún gegndi ýmsum störfum fyrir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra á árabilinu 1992-2005, með hléum. Svandís er gift og á fjögur börn. Hún er dóttir Svavars Gestssonar, f.v. ráðherra og sendiherra. Stjórnmálaferill. Svandís hóf stjórnmálaferil sinn í Vinstri grænum skömmu eftir stofnun flokksins. Hún var formaður Reykjavíkurfélags VG frá 2003-2005 og framkvæmdastjóri flokksins 2005-2006. Borgarstjórn. Hún leiddi lista VG í borgarstjórnarkosningunum 2006, þegar samstarf R-listans leið undir lok og flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram undir eigin merkjum. Svandís varð staðgengill borgarstjóra þann 16. október 2007, eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk. Björn Ingi Hrafnsson sagði skilið við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins 11. október 2007, en dagana á undan hafði verið misklíð innan meirihlutans um tilveru útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. Reykjavik Energy Invest. Meirihlutinn samanstóð af borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Framsóknarflokks og F-lista. Samstarfinu lauk skyndilega í ársbyrjun 2008. Landsmál. Í febrúar 2009 tilkynnti Svandís um framboð sitt í forvali Vinstri grænna fyrir Alþingiskosningarnar 2009. Hún hlaut annað sætið, leiðtogasæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og var kjörin á Alþingi þann 25. apríl 2009. Hún tók við embætti umhverfisráðherra 10. maí 2009 og varð umhverfis- og auðlindaráðherra við stjórnkerfisbreytingar 1. september 2012. Svandís er í leiðtogasæti Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Alþingiskosningar 2013. Svein Harald Øygard. Svein Harald Øygard (f. 1960) er norskur hagfræðingur sem settur hefur verið bankastjóri Seðlabanka Íslands (tímabundið) með lögum sem samþykkt voru 26. febrúar 2009. Það var Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, sem lagði til að Svein yrði skipaður í stöðu bankastjóra við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslands. Svein var yfirmaður Oslóardeildar alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company. Svein starfaði sem skrifstofustjóri norska fjármálaráðuneytisins á árunum 1990-1994 og kom að endurbótum á skattakerfinu 1992. Hann starfaði einnig sem þingritari Norska verkamannaflokksins. Ráðning hans sem íslenskan seðlabankastjóra vakti mikla athygli í Noregi. Svein Harald telur að endurreisn efnahagslífsins grundvallist í aðlögun á raunhagkerfinu, peningastefnu sem stuðlar að stöðuleika, styrkingu ríkisfjármála og endurreisn skilvirks fjármálakerfis. Í starfi sínu segir hann að megináhersla hafði verið á að leggja grunn að endurreisn efnahags. Hann segir að íslenska kreppan var bankakreppa, skuldakreppa, fjárhagskreppa og gjaldeyriskreppa, allt á sama tíma. Það að kreppan hafi gerst öll í einu var mest krefjandi við starf hans á Íslandi. Sjöund. Hljómsveitin var stofnuð 1985 í Vestmannaeyjum og starfaði þar mestanpart. Hljómsveitin var stofnuð sem húshljómsveit hjá Pálma Lorenz og sá nánast um allann tónlistarflutning á veitingar og dansstaðnum Skansinn og pöbbanum sem hét Gestgjafinn. Meðlimir voru þá Birkir Huginsson á sax, Eiður Arnarsson á bassa, Hlöðver Guðnason gítar, Ómar Hreinsson trommur. Páll Viðar Kristinson á hljómborð, Pétur Már Jensson söngur, Þorsteinn Magnússon gítar. Eiður (Stjórnin og Toddmobil) og Þorsteinn (Eik, Þeyr, Bubbi-MX21, Frakkarnir, S.s.sól) fluttu sig á höfuðborgarsvæðið og inn komu Högni Hilmisson á bassa og Vignir Ólafsson á gítar. Hljómsveitin gaf út hljómplötu 1988 undir nafninu Gott í Bland. Vignir var þá hættur og genginn til liðs við Papanna. Vinsælustu lögin af þeirri plötu voru Pípan og tökulagið Ikki fara frá mær (The Weight) Hljómsveitin starfaði síðan sem húshljómsveit á Inghól Selfossi. Spilaði einnig mikið fyrir Ólaf Laufdal á Broadway og Hótel Íslandi og Sjallanum, og svo Edinborg í Keflavík. Hljómsveitin var með Eyjakvöld sem voru haldin á Selfossi og Keflavik í nokkur ár. Ýmsir listamenn frá og tengdir Vestmannaeyjum komu fram á þessum Eyjakvöldum og þá var boðið upp á hefðbundinn bjargveiðimannamatseðil og miklum söng og mikla þjóðhátíðarstenmmingu að hætti eyjamanna. Sjöund gaf þá út lagið Heimaslóð sem var tekið upp hjá Rúna Júl og er fáanlegt á safnplötunum Í brekkunni og Lögin í Dalnum. Hljómsveitin lagðist í dvala um 1993. Gluggi (tölvur). Gluggi er í tölvum kassalaga svæði sem inniheldur einhvert viðmót sem sýnir notandanum upplýsingar og leyfir notandanum að koma með ílagsgögn fyrir einhver forrit. Lidia Kopania. Lidia Kopania (fædd 15. maí 1978) er pólsk poppsöngkona frá Koluszki. Hún er söngkona hljómsveitarinnar Kind of Blue. Hún keppir fyrir hönd Póllands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2009 með laginu "I Don't Wanna Leave". Vöðvakerfið. Vöðvakerfið er skipan vöðva í líkama margra lífvera og þetta kerfi gerir henni mögulegt að hreyfa sig. Vöðvakerfið er samansett úr vöðvaþráðum sem eru úr mýósíni og aktíni. Í meðalstórum vöðva eru um 10 milljónir vöðvafrumna og eftir því ættu þær að vera um 6 billjónir í öllu vöðvakerfinu. Að mörgu leyti er maðurinn ólíkur spendýrunum, hvað vöðvakerfið snertir. Námslán. Námslán er lán sem er veitt til að greiða námskostnað. Námslán eru mjög mismunandi eftir því í hvaða landi námslánin eru veitt. Sumstaðar eru þau að hluta veitt sem styrkur. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð byggist kerfið upp á mánaðargreiðslum. Þar er hluti lána hugsaður sem styrkir – í Danmörku og Noregi eru styrkir rúmlega 60% en í Svíþjóð er styrkhlutinn 34%. Sænska frystihúsið. Sænska frystihúsið (eða Sænsk-íslenska frystihúsið) var fyrsta frystihúsið á Íslandi sem var sérstaklega byggt sem slíkt, og þegar húsið var reist var það stærsta hús á landinu. Húsið tók í fyrsta sinn á móti fiski til frystingar þann 18. febrúar 1930. Það hætti að taka móti fiski til útflutnings árið 1967-1968, en húsið var samt notað áfram. Árið 1974 flutti t.d. Kraftlyftingasamband Íslands í húsið, en Reykjavíkurborg útvegaði húsnæðið að frumkvæði Alberts Guðmundssonar, og þar æfðu menn fram í byrjun febrúar árið 1976. Frystihúsið var síðan rifið árið 1981 þegar það varð að víkja fyrir Seðlabankahúsinu. Kallíópa. Kallíópa (gríska: "Καλλιόπη, Kalliope") er ein af menntagyðjunum níu og leiðtogi þeirra, enda elst og talin vitrust þeirra. Hún er gyðja kveðskapar, hetjuljóða og mælsku. Einkenni. Helsta einkennistákn hennar er áletruð vaxtafla en í sumum heimildum er hún sögð bera ritrollu eða bók ásamt skriffærum. Enn aðrar heimildir segja hana bera gullkórónu á höfði. Í eldri heimildum (þ.e. fyrir klassíska tíma Grikklands) er hún sögð halda á lýru (hörpu). Fjölskylda. Kallíópa er dóttir Seifs og Mnemosyne, eins og allar hinar gyðjurnar níu. Sjálf er hún talin móðir Orfeifs og Línosar en heimildum ber ekki saman um faðernið, guðinn Apollon og Þrakíukonungurinn Ojagros koma báðir til greina. Aðrar heimildir nefna líka aðrar músur sem mögulegar mæður Línosar. Einnig er Hymen, guð hjónabands, oft nefndur sem sonur Kallíópu en sumar heimildir tilgreina aðrar músur sem móður hans eða jafnvel Afródítu. Enn fleiri hafa verið bendlaðir sem synir Kallíópu en eins og áður fer heimildum ekki alltaf saman. Artemismusterið. a>. Hann ímyndaði sér hofið í stíl við fyrritíma ítalskar kirkjur. Artemismusterið eða Artemisarhofið (forngríska: Ἀρτεμίσιον Artemision, latína: Artemisium) var eitt af sjö undrum veraldar. Það var byggt árið 550 f.Kr. í Efesos, sem nú tilheyrir Tyrklandi. Saga og eyðilegging. Bygging hofsins tók 120 ár. Krösos Lýdíukonungur hóf verkið og kostaði það en Kersifron teiknaði hofið. Það varð strax mikið aðdráttarafl fyrir Efesos og þangað komu kóngar, ferðalangar og fleiri sem vildu votta Artemis virðingu sína með fórnum og gjöfum. Þann 21. júlí árið 356 f.Kr. var hofið eyðilagt.Herostratos nokkur var drifinn af svo mikilli hvöt til þess að fá nafn sitt á spjöld sögunnar að hann kveikti í hofinu. Orðrómurinn um tortímingu hofsins barst fljótt um heiminn en Efesosbúar voru svo fokreiðir að hver sá sem nefndi Herostratos á nafn skyldi þegar verða líflátinn. En þá kemur forngríski sagnfræðingurinn Strabon til sögunnar því hann ritaði niður nafn hans og þannig er það þekkt í dag. Sömu nótt og hofið var eyðilagt fæddist Alexander mikli. Gríski sagnfræðingurinn Plútarkos sagði að Artemis hafi verið svo upptekin við fæðingu hans að hún hafi gleymt að bjarga hofinu sínu. Alexander bauðst seinna til að borga fyrir endurbyggingu hofsins en Efesosbúar afþökkuðu. Eftir dauða Alexanders árið 323 f.Kr. var það hins vegar gert og hafði myndhöggvarinn Skópas yfirumsjón með endurbyggingunni. Hún var svo eyðilögð í áhlaupi Gota árið 262 e.Kr., sem komu yfir Hellusund (Dardanellasund) og tortímdu í leiðinni mörgum borgum og kveiktu þá meðal annars í hofinu. Næstu tvær aldir urðu flestir Efesosbúar kristnir, svo Artemisarhofið missti trúarljóma sinn. Kristnir menn rifu það sem eftir var af hofinu og notuðu steinana í aðrar byggingar. Leiðangur frá British Museum fann byggingarlóð hofsins árið 1869 og eru gripir og höggmyndir frá endurgerð hofsins þar enn til sýnis. Í dag er aðeins ein súla eftir uppistandandi af hofinu á upprunalegum stað, sem nú er mýrlendi. Lýsing. Flestar lýsingar frá hofinu koma frá Pliníusi eldri. Það eru líka til aðrar frásagnir, þótt bæði stærðin og lýsingar á hofinu séu breytilegar. Samkvæmt Pliníusi var hofið 115 m langt og 55 m á breidd, aðeins gert úr marmara. Hofið er sett saman úr 127 jónískum súlum, hver um 18 m á hæð. Inni í hofinu var síðan mikið um fallega list. Þar voru höggmyndir eftir fræga gríska myndhöggvara, til dæmis Feidías sem gerði Seifsstyttuna, Skópas sem vann við grafhýsi Mausolos og fleiri. Listamaðurinn Fradmon skreytti hofið að utan, auk málverka og gyllti og silfraði styttur. Myndhöggvararnir kepptust meira segja sín á milli. Sumir stytturnar eru af Amazonunum, sem eru sagðar hafa stofnað Efesos. Fílon frá Býzantíon lýsir því einnig svo að öll hin undrin falli í skugga af mikilfengleika hofsins. Samtímafólk hofsins lýsti því einfaldlega sem fallegustu byggingu jarðar, svo glæsilegt var það. Grafhýsið í Halikarnassos. Grafhýsi Mausolos (forngríska: Μαυσωλεῖον Mausoleion) er við Halikarnassos (Bodrum, í Tyrklandi í dag) og var eitt af sjö undrum veraldar. Mausolos. Þegar Persar þöndu út konungsdæmi sítt út til Litlu-Asíu, gat konungurinn ekki stjórnað öllu ríkinu sjálfur, svo hann hafði staðbundna landsstjóra um allt veldið, svokallaða „satraps“. Mausolos var einn af þeim og stjórnaði konungsveldinu Karíu í vesturhluta Litlu-Asíu. Það var svo langt frá persnesku höfuðborginni að það var því næst sjálfstætt. Mausolos ríkti þar frá 377 – 353 f.Kr. og hafði Halikarnassos höfuðborg sína. Það er ekkert áhugavert að segja um líf Mausolos. Það er aðeins grafhýsi hans sem hann er þekktur fyrir. Artemisia, systir hans, fékk hugmyndina að því, svo það er mögulegt að smíðin hafi hafist fyrir dauða hans en var þó ekki tilbúið fyrr en kringum 350 f.Kr., þremur árum eftir dauða hans og einu ári eftir dauða Artemisiu. Saga grafhýssins. Hið gífurlega grafhýsi var byggt til að geyma lík Mausolosar en það var skýrt Mausoleion í höfuðið á honum og er orðið ‚mausoleum‘ notað í dag yfir mikil grafhýsi á nokkrum tungumálum. Það innihélt einnig líka konu hans og systur, Artemisiu, en það var hefð í Karíu fyrir því stjórnendur giftust systrum sínum. Forngrísku arkitektarnir Satýros og Pýþíos voru fengnir til að hanna gröfina og fjórir frægir grískir myndhöggvarar, þ.á m. Skópas, bættu við frísu eða skrautlínu um ytra borðið. Hofið stóð í einar 16 aldir og var í góðu ástandi þangað til það skemmdist verulega í jarðskjálfta. Árið 1404 var aðeins undirstaða hofsins þekkjanleg. Snemma á 15. öld gerðu Riddarar St. Johns af Möltu árás á svæðið og smíðuðu gríðarstóran kastala. Árið [1494 ákváðu þeir að styrkja hann og notuðu þá steinana úr Mausoleion. Um 1522 var næstum hver einasti steinn horfinn úr Mauseoleion. Enn í dag er hægt að sjá kastalann sem var reistur í Bodrum og er hægt að koma auga á fægðu steinana og marmarablokkirnar úr Mausoleion í veggjum kastalans. Einnnig er hægt að sjá höggmyndir úr grafhýsinu sem stóðust tímans tönn og eru til sýnis á British Museum. Svo er enn til byggingarlóð sjálfs Mausoleions, þar sem aðeins undirstaðan ein er enn til staðar. Lýsing. Ástæðan fyrir því að Antipater setti Mausoleion á listann er ekki vegna stærðar þess, heldur vegna fegurðar, forms, skreytingar og mikilfengleika. Það var staðsett á hæð og gnæfði yfir Halikarnassos. Grunnurinn var 40 x 30 m. Á honum var skreyttur þreppallur. Ofan á hann kom síðan greftrunarklefinn, umkringur súlum. Ofan á hann kom svo pýramídslaga þak sem var skreytt með styttum. Efst á toppnum prýddi stytta af stríðsvagni sem var togaður af fjórum hestum. Í heild var hann 45 m á hæð. Þetta var heldur óvenjuleg bygging í laginu og átti engan sinn líka. Annað sem var óvenjulegt fyrir hofið var að stytturnar voru af fólki og dýrum en ekki af guðum og gyðjum eins og var siður. Risinn á Ródos. Styttan af Apollon Helíos, nú kölluð "Risinn á Ródos", stóð upp yfir hafnarmynninu á grísku eyjunni Rhodos í Eyjahafinu og var reist af Karesi frá Lindos á 3. öld f.Kr. Hún er eitt af sjö undrum veraldar. Saga. Styttan á Rhódos. Eftir að Alexander mikli dó hafði hann ekki gert neinar áætlanir um hver skyldi taka við stórveldinu. Þess vegna brutust út deilur á milli hershöfðingjana hans, „diadokkiarnir“, þar sem þrír af þeim deildu veldingu hans í Miðjarðarhafinu. Á meðan deilunum stóð hélt Rhódos með Ptólemajos III. Þegar hann tók yfir Egyptalandi, þá var myndað bandalag sem stjórnaði stórum hluta af versluninni um austur Miðjarðarhaf. Antigonos, einn af hershöfðingjum Alexanders, var æstur yfir þessu. Árið 305 f.Kr. lét hann son sinn Demetríos, þá frægur hershöfðingi, gera árás á Rhódos með 40.000 manns. Hann lét smíða marga stóra umsátursturna. Sá fyrsti var borin á sex skipum en féll í hafið í roki áður en hann var notaður. Hann reyndi aftur, þá með mun stærri turn en Rhódosbúar gátu varið sig og hröktu hann tilbaka. Árið 304 f.Kr. sendi Ptólemajos mikinn skipflota þangað, svo her Demetríosar flúði og skyldu eftir mest af útbúnaði sínum. Til þess að halda upp á sigurinn, þá ákváðu Rhódosbúar að byggja risastyttu af verndara sínum, guðinum Apollon Helios. Eyðilegging. Styttan stóð í 56 ár þangað til Rhódos varð fyrir jarðskjálfta árið 226 f.Kr. styttan brotnaði í sundur við hnén og féll á land. Ptólemajos III bauðst til að borga fyrir endurbyggingu, en Rhódosbúar ráðguðust við véfrétt sem sagði þá hafa móðgað Helios, svo þeir neituðu boðinu hans. Leifar styttunnar lágu á jörðinni í meira en 800 ár og brotin voru víst svo mikilfengleg, líka liggjandi svona á jörðinni, að margir ferðuðust til að sjá þau. Pliníus eldri sagði að fáir gætu tekið um þumalinn og að hver fingur væri töluvert stærri en gengi og gerðist. Árið 654 e.Kr fönguðu Arabar Rhódos undir stjórn Muawiyah I og skv. annálum Þeofanesar, þá seldu þeir leifar styttunnar ferðasölumanni frá Edessu. Sagan segir að kaupandinn hafi látið brjóta leifarnar niður og svo látið flytja bronsstykkin á 900 kameldýrum heim til sín. Lýsing. Heimamaðurinn Kares var fenginn í hönnun verksins en hann hafði verið viðriðinn miklar styttur áður. Til eru mismunandi heimildir sem lýsa styttunni en henni er þó lýst sem svo að hún standi ofan á 15 m stórum marmara fótstalli nálægt höfninni. Innviðir hennar áttu að vera steinblokkir. Járnbjálkar voru svo festir við blokkirnar og utan á þá komu bronsplötur sem þurftu að vera vandlega steyptar og svo festar við járngrindina. Stór hluti bronsins sem var í styttunni var bræddur úr útbúnaðinum sem var skilinn eftir í árásinni. Sjálf styttan var svo um 34 m á hæð eða um 60 m allt í allt með stallinum. Samkvæmt Pliníusi eldri á verkið að hafa tekið 12 ár og hafi klárast árið 282 f.Kr. Samkvæmt sumum heimildum á styttan að hafa staðið klofvega yfir inngang hafnarinnar og eru til margar myndir og lýsingar sem sýna styttuna þannig. Því er hins vegar alfarið neitað af fræðimönnum og er talinn hugarburður seinni tíma. Það hefði þótt bæði ósæmilegt að sýna Helios í þessari stellingu og hefði verið mjög óhagkvæmt því þá hefði þurft að loka höfninni. Einnig hefði brotna styttan þá fallið í hafið í stað þess að vera á landi, svo allt bendir til þess að hún hafi í staðinn verið í hefðbundinni grískri stellingu, með fætur saman. Frelsisstyttan. Þótt styttan sé okkur nú horfin, þá er til mjög fræg stytta sem hefur styttu Helios að fyrirmynd. Það er Frelsisstyttan í New York en franski myndhöggvarinn Auguste Bartholdi varð fyrir innblástri frá hinni fornu styttu. Þær eru um það bil jafnstórar, þó að Frelsisstyttan standi á mun hærri stalli sem lætur hana virka stærri. Þær voru báðar reistar til að fagna frelsi, standa báðar við höfn og með fætur saman, kyndil í annarri hendi og báðar með geislakórónu. Reyndar eru til mismunandi lýsingar af Helíosstyttunni en í mörgum er henni einmitt lýst með kyndillinn og kórónuna og með skikkju um sig, þó enn aðrar lýsa honum með spjóti í einni hönd og notar hina til að skýla augunum fyrir sólu. Það er engu að síður margt sameiginlegt með þessum tveimur styttum. Húlahopphringur. Húlahopphringur (húlahopp eða húlagjörð) er leikfang sem er í laginu eins og hringur og er oftast úr plasti, þó til séu gjarðir úr viði. Húlahopphringar eru oftast íholir að innan. Leikfang þetta velta menn um mjaðmir sér og halda með hnykkjum um sig miðjan án þess að hönd komi þar nærri. Guðni Halldórsson. Guðni Halldórsson (fæddur 2. ágúst 1974) er kvikmyndaklippari. Jónas Fr. Jónsson. Jónas Fr. Jónsson (f. 1966) var forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) frá 18. júlí 2005 til 1. mars 2009. Hann sagði starfi sínu lausu að ósk þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar. Foreldrar Jónasar eru Jón Magnússon Alþingismaður og Halldóra Rafnar (f. 31. maí 1947) kennari og blaðamaður. MSG. Mónónatríum glútamat (einnig MSG, skammstöfun á "mono sodium glutomat") er þekkt undir ýmsum nöfnum, til dæmis "þriðja kryddið", bragðaukandi efni, MSG og E621. Það var fyrst einangrað í Japan árið 1907. Efnasambandið MSG verður til þegar eggjahvítuefni eru hituð upp í söltu umhverfi. Glútamiksýra, eitt af byggingarefnum eggjahvítuefna, myndar það þá við það að tengjast natríumfrumeindum. Efnið verður því til af sjálfu sér við framleiðslu á unnum kjötvörum, ýmsum mjólkurafurðum og fleiri matvælum sem eru rík af eggjahvítuefni. Bragðlaukar manna skynja bragðið af því, sem oft er kallað úmamí (eða kraftur), og tengja það við hátt innihald eggjahvítuefnis í fæðunni. Þar sem MSG styrkir og bætir bragð, eftir smekk flestra, er það notað sem bragðaukandi efni út í mat. Nú til dags er það framleitt í verksmiðjum, oft með því að hita maíssterkju, láta hana ganga saman við matarsalt og einangra svo MSG-ið. Það er svo mikið notað í allskonar tilbúnum réttum og er víða notað á veitingastöðum, sem og í snakki, kryddblöndum, ýmsum tegundum af jógúrti, léttostum, tilbúnum réttum og sósum, pylsum, skinkum svo eitthvað sé nefnt. Meint skaðsemi. Tortryggnisraddir hafa verið uppi um það áratugum saman, að MSG sé heilsuspillandi. Þrátt fyrir miklar rannsóknir á áhrifum MSG á heilsu, hefur ekki verið sýnt fram á að það hafi raunverulega heilsuspillandi áhrif. Þó hafa rannsóknir bent til að einhverjir geti haft ofnæmi eða óþol fyrir MSG í mat, og fengið óþægindi af neyslu þess af þeim sökum. Þótt ásakanir um skaðsemi efnisins hafi ekki verið sannaðar, eru margir smeykir við MSG og forðast það. Nýtt afl. Nýtt afl var stjórnmálahreyfing sem stofnuð var árið 2002 og bauð fram til Alþingis í kosningunum 2003. Meðal forystumanna í hreyfingunni var Jón Magnússon fyrrverandi Sjálfstæðismaður. Samtökunum tókst ekki að afla sér nógu mikils fylgis til að koma manni á þing, þrátt fyrir að hafa vakið talsverða athygli í aðdraganda kosninganna. Árið 2006 gekk Nýtt Afl til samstarfs við Frjálslynda flokkinn að frumkvæði Jóns Magnússonar, sem bauð sig fram á lista flokksins og varð 10. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður að loknum kosningum 2007. Jón yfirgaf Frjálslynda og Nýtt afl í febrúar 2009 þegar hann gekk á ný til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Tonle Sap. Á kortinu af Kambódíu má greinilega sjá mikilvægi Tonle Sap í landslaginu Tonle Sap (sem þýðir á khmer: "Vatnið mikla", "sap" þýðir stórt og "tonle" bæði stöðuvatn og fljót allt eftir samhengi) er mikið stöðuvatn og samnefnt fljót í Kambódíu. Vatnið er langstærsta stöðuvatn í Suðaustur-Asíu og eitt fiskríkasta vatn í heimi. Vatnasvæðið hefur verið valið af Menningastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, sem fágætt lífríki. Landlýsing. Útbreiðsla stöðuvatnsins á rigningar og þurrkatíma. Dökkblái liturinn sýnir yfirborð á þurrkatímanum og ljósblá liturinn það svæði sem fer meira eða minna undir vatn á rigningartímnanum Tonle Sap er sérstætt af tveimur megin orsökum: fljótið skiptir um rennsluátt tvisvar á ári og útbreiðsla stöðuvatnsins gjörbreytist allt eftir árstíma. Á þurrkatímanum frá nóvember og fram í maí rennur fljótið í Mekong-fljótið við Phnom Penh. Þegar rigningartíminn er kominn vel á veg í júní snýst fljótið við og stöðuvatnið margfaldast að flatarmáli. Hin mikla úrkoma sem monsúnvindarnir bera með sér og rignir yfir upptökusvæði Mekong-fljótsins allt frá Himalaja og suður eftir fjórfaldar vatnsmagnið í fljótinu miðaða við þurrkatímann. Vegna þess að stór hluti Kambódíu er flatt og láglent og vatnsmagn Mekong eykst miklu hraðar en Tonle Sap stíflast það síðar nefnda nánast og fer að renna upp í móti. Þegar Mekong-fljótið rennur upp í Tonle Sap stækkar stöðuvatnið frá 2.600 – 3.000 km² að flatarmáli upp í um það bil 10.400 km² (ef með er talið allt votlendissvæðið sem skapast er það nánast 25.000 km²). Meðaldýpt vatnsins eykst frá 2–3 metrum í um 14 m. Vatnsmagnið nær hámarki í september og er þá nánast einn þriðji hluti alls ræktanlegs lands í Kambódíu undir vatni. Á þurrkatímanum, frá desember fram til apríl, kemur nær helmingur vatnsmagnsins sem flæðir um árósa Mekong-fljóts í Víetnam frá Tonle Sap. Í lok október eða byrjun nóvember (við fullt tungl í mánuðinum "Kadeuk" í almanaki búddista) er haldin "Vatnahátíðin", "Bon Om Touk", helsta hátíð Kambódíumann. Þá snýst rennslið í fljótinu við en á ný og merkir það upphaf fiskivertíðarinnar. Lífríki. Fljótandi þorp Samskip stöðuvatns, votlendis, skóga og lækja skapa einstaklega ríkt lífríki í Tonle Sap og á öllu því svæði sem verður fyrir áhrifum af hinum árlegu sveiflum í vatnsmagni. Þar vaxa ýmsar trjáa og plöntutegundir sem hvergi annarstaða er að finna og eins fiskategundir, fugla, skriðdýra og spendýra. Á svæðinu má finna meir en 190 tegundir jurta og trjáa sem hafa aðlagst því að lifa ýmist á þurru landi, votlendi eða á kafi í vatni. Vísindamenn hafa greint meir en 400 fiskategundir, og eru um 70 þeirra veiddar til manneldis. Það veldur miklum áhyggjum að á síðustu árum hefur heildaraflinn minkað talsvert og mikið meir er af smá fiskum miðað við stóra en áður var. Sérlega hafa ýmsar tegundir stórra fiska minnkað mikið. Um hundrað fuglategundir lifa á og við vatnið, sérlega margar tegundir andafugla. Einnig má þar finna 23 tegundir af snákum og slöngum, 13 tegundir af skjaldbökum, krókódílar, apar, hlébarða og otra. Nytjar. Samgöngur á flóðtímanum Frá örófi alda hefur fiskimennska og hrísgrjónarækt verið aðalundirstaða mannlífs í Kambódíu og er enn undirstöðufæða landsmanna. Á Tonle Sap svæðinu búa um 3,6 milljónir og fiskiaflinn þaðan er um 75% af heildarfiskiafla Kambódíu eða um 255.000 tonn árlega. Um 60% af prótínneyslu Kambódíumanna kemur frá fiski. Tonle Sap er einnig mikilvæg samgönguleið, sérlega milli Siem Reap á norðurströndinni og höfuðborginnar Phnom Penh í suður. Hið árlega flæði Mekong inn yfir Tonle Sap svæðið ber með sé gífurlega mikinn framburð næringarefna. Það er forsenda lífríkisins í vatninu en einnig forsenda hrísgrjónaræktar þar sem hún byggir á því að akrarnir liggi undir vatni hluta árs. Nokkrar stórar vatnsvirkjarnir hafa þegar verið byggðar í Mekong-fljótinu, bæði í Kína og Laos, og eru enn fleiri í undirbúningi. Þessar virkjunarframkvæmdir eru mikið áhyggjuefni allra sem hafa afkomu af Tonle Sap svæðinu og ekki síður líffræðinga enda munu þær eiga eftir að hafa mikil áhrif á vatnsmagn og flæði. Minnkandi fiskiafli er meðala annars rakinn til þessara breytinga á flæði. Mannlíf. Lágmynd í Angkor-musterinu Mikilvægi Tonle Sap fyrir menningu og lífsviðhorf Kambódíumanna er auðvita mikið. Þungamiðja hins forna Khmer-veldis var við Tonle Sap og má enn sjá minnjar um það í Angkor-musterinu sem er við norðurströnd vatnsins, og núverandi höfuðborg er þar sem Tonle Sap fljótið mætir Mekong-fljótinu. Íbúar á svæðinu hafa aðlagast hinum árlega sveiflum í vatnsmagni, hefur byggingarstíll þeirra þróast í svo nefnd fljótandi þorp. Þau eru þó ekki fljótandi heldur eru allar byggingar byggðar á háum stólpum svo að þær standi upp úr vatninu þegar flæði er sem mest. Umferð fer þá öll fram á bátum og sundkunnátta er mikil. Bleiki pardusinn. Bleiki pardusinn er röð gamanmynda um franska rannsóknarlögreglumanninn Jacques Clouseau. Fyrsta myndinn í röðinni var "Bleiki pardusinn" árið 1963. Peter Sellers lék þar aðalhlutverkið sem síðan hefur fyrst og fremst tengst honum þótt aðrir leikarar hafi spreytt sig á því. Flestar myndirnar voru í leikstjórn Blake Edwards og með tónlist eftir Henry Mancini. Nafn myndanna er dregið af gimsteininum sem söguþráður fyrstu myndarinnar snýst um. Bleikur pardus kemur fyrir ásamt Clouseau í teiknimynd í titilatriði hverrar myndar við undirleik tónlistar Mancinis, nema í "Skot í myrkri" og "Clouseau lögregluforingi". Persónan var teiknuð af Hawley Pratt fyrir DePatie-Freleng Enterprises. Þessi persóna fékk brátt sína eigin þáttaröð. Akrópólishæð. Akrópólishæð (gríska: Ακρόπολη Αθηνών, Akropole Aþenon) í Aþenu er þekktasta háborg heimsins. Hún rís 150 m yfir sjávarmáli í borginni og er 3 hektarar að flatarmáli. Þekktasta hof háborgarinnar er Meyjarhofið (gríska: Παρθενών, Parþenon). Goðsagan. Guðirnir voru búnir að skipta á milli sín öllu Grikklandi og Póseidon og Aþena voru að rífast um það hvort þeirra ætti að vera guð borgarinnar, sem við þekkjum nú sem Aþenu, svo íbúarnir efndu til keppni á Akrópólishæð. Sá guð sem gæfi þeim betri gjöf yrði guð borgarinnar. Póseidon byrjaði og stakk þríforkinum sínum í jörðina og út kom sjór og lofaði þeim góðum viðskiptum sjóleiðis. Íbúar borgarinnar voru orðnir þreyttir á sjóorrustum og voru því ekki svo hrifnir af sjónum því að hann minnti þá of mikið á stríð. Síðan kom Aþena og stakk stafnum í Akrópólis og upp óx ólívutré. Íbúarnir voru mjög hrifnir, því að tréð táknaði ræktun og velmegun. Þá varð Aþena gerð að verndargyðju borginnar og borgin nefnd í höfuðið á henni. Þeir heiðruðu og virtu Póseidon samt sem áður jafn mikið. Hofið Erekþeion var notað til að dýrka báða þessa guði. Fyrir tíma Períklesar. Fyrir meira en 2300 árum síðan byggðu Forn-Grikkir mestu hofin og fallegustu stytturnar úr marmara. Hin falllegustu voru þó þau hof sem voru byggð á Akrópólishæð. Frumbyggjar Aþenu byggðu fyrir um 4000 árum veggi um Akrópólishæð og bjuggu til einhvers konar virki. Þar ríktu fyrstu konungarnir. Fyrir 2500 árum byrjuðu að rísa hin fyrstu hof og altari Aþenu. 90 árum síðar fundu Lakeddónarnir Akrópólishæð þakta marmarahofum og híbýlum. Þeir eyðilögðu híbýlin en stoppuðu í lotningu og skildu hofin eftir í heilu lagi. Árið 480 f.Kr. eyðlögðu Persarnir allt á Akrópólishæð og drápu verndara hennar. En á aðeins 13 árum höfðu Þemistókles og Kímon hreinsað burt rústirnar og endurbyggt veggina. Períkles. Períkles (495 – 429 f.Kr.) var mikils metinn stjórnmálamaður í Aþenu. Í hans tíð blómstraði Aþena og er sá tími oft kallaður öld Períklesar. Períkles tók við af Þemistóklesi við að byggja Akrópólis árið 447 f.Kr. Hann fékk höggmyndarann Feidías til þess að hafa umsjón yfir uppbyggingunni en sjálfur hafði hann yfirumsjón. Einnig fékk hann arkitektana Iktinos og Kallíkrates með í verkið. Á þessum tíma, 5. öld f.Kr., náði Akrópólishæð þeirri lögun sem hefur haldist til dagsins í dag. Akrópólis seinni tíma. Í Frelsisstríði Grikkja sem var háð á árunum 1821 – 1830 dundi tvívegis fallbyssuhríð á Akrópólishæð. Helst skemmdist Erekþeion en Meyjarhofið varð líka fyrir skemmdum en þó eru enn nokkrar flatamyndir hofsins á sínum stað. Í dag hefur hluti af súlunum verið endurreistar og yfirbyggingin sett upp eftir upphaflegri mynd. Meyjarhofið hefur misst alla sína litadýrð en það er ákaflega fagurt í skjóli nætur þegar máninn varpar birtu sinni á það. En Akrópólis er nú að keppast við enn stærri öfl en nokkru sinni áður því mengunin í Aþenu er að eyðileggja hofin. Nú er verið að laga og endurbæta hofin, auk þess að minnka mengunina. Eldra hof Aþenu. Hið forna hof Aþenu var hof á Akrópólishæð en nú er aðeins grunnur þess sjáanlegar. Grunnflötur hofsins var notaður sem fyrirmynd að nokkrum hofum sem tileinkuð voru Aþenu Polias, verndara borgarinnar. Þau nýttu sér öll grunninn af eldri mýkenskri höll. Síðustu hofin eru tímasett allt til 5. aldarinnar f.Kr. og voru ef til vill byggð í kringum 525 f.Kr. Það var viðarstytta (gríska: ξόανον, xoanon) af Aþenu við hofið sem er sögð hafa fallið af himnum. Persar eyðilögðu hvortveggja hofið og styttuna með eldi árið 480 f.Kr. Hofið var svo endurbyggt að hluta til og var notað til ársins 406 f.Kr., þegar ný viðarstytta af Aþenu hafði verið sett í stað hinnar og færð í Erekþeion, nú fullgerð. Erekþeion. Erekþeion (gríska: Έρέχθειον, Erekþeion) er hof á Akrópólishæð í Aþenu. Hofið var byggð til að koma í staðinn fyrir Eldra hof Aþenu og var líka tileinkað og skírt í höfuðið á Erekþeifi. Sá var einn af þjóðsögulegu konungum Aþenu, seinna gerður að guði og stundum líkt við sjálfan Póseidon. Það var byrjað að byggja það í Níkiasfriðinum (421 – 415 f.Kr.) en var svo truflað vegna endurupptöku stríðsins og var ekki lokið við það fyrr en um 406 f.Kr. Á þeim tíma tók það við hlutverki Eldra hofi Aþenu og var tileinkað Aþenu Polias. Hofið er sagt vera byggt á staðsetningunni þar sem Póseidon rak stafinn sinn í stein til að fá sjó flæða fram og þar sem Aþena lét olívutré vaxa. Það hefur forsal á austurhliðinni, risaverönd á norðurhliðinni og hina frægu-Karýatids verönd á suðurhliðinni, með súlum sem mynda konur. Aðalhofið var skipt í tvo hluta, tileinkað dýrkun tveggja aðalguða Attíku, Aþenu og Póseidon-Erekþeifi. Myndræma, hugsanlega að sýna fæðingu Erekþeifs, prýðir ytra borð byggingunnar. Áfir. Áfir er vökvi sem verður eftir þegar smjör er unnið úr rjóma, en til að rjómi geti orðið að smjöri er hann strokkaður. Áfir voru áður nýttar til drykkjar og í ýmsan mjólkurmat. Stytta Aþenu Promakkosar. Stytta Aþenu Promakkosar (forngríska: Ἀθηνᾶ Πρόμαχος) var stytta sem stóð á Akrópólishæð í Aþenu. Nafnið „promakkos“ þýðir „sú sem berst í fremstu víglínu“. Ástæðan fyrir þeirri nafngift er sú, að borgað var fyrir hana með fjármunum sem Grikkir fengu í bætur af höndum Persa eftir orrustuna við Maraþon. Saga. Bronsstyttan var 7 m á hæð og stóð auk þess á 2 m háum marmarapalli beint fyrir framan Propylaea sem er inngangshofið að Akrópólíshæð. Svo há var styttan að efsta hluta spjótsins sem Aþena hélt á og hjálm hennar mátti sjá frá sjónum. Styttan er eftir Feidías og var hún fullbúin áður en byrjað var að byggja hofin á Akrópólishæð eða í kringum 456 f.Kr. Hún er því með elstu verkum Feidíasar. Styttan var víðfræg meðan hún var og hét. Styttan stóð í ein 1000 ár, þangað til hún var flutt til Konstantínópel árið 465 en þar var hún geymd ásamt öðrum frægum grískum bronsstyttum. Þar voru verkin undir verndarvæng Austrómverska ríkisins. Styttan var síðan endanlega eyðilögð árið 1203 af hjátrúarfullum hópi kristinna manna þegar krossfararnir sátu um borgina. Propylaea. Propylaea (forngríska: Προπύλαια, Propylaia) er inngangshofið á Akrópólishæð og staðsett á vesturhluta hæðarinnar. Til forna. Orðið „propylaea“ þýðir einfaldlega „inngangur“ en Propylaea Akrópólishæðar er sá frægasti. Propylaea var hannað af Mnesíklesi en hann hafði mikið og erfitt starf fram undan vegna plássleysis og ójöfnu á þeim stað sem innngangurinn átti að rísa. Mnesíkles leysti þetta þó með prýði og hannaði glæsilegan og samræman inngang úr hvítum marmara. Propylaea var skipt í miðbyggingu og tvær útbyggingar. Norðurhluti inngangsins, Pinakoþeke, var notaður sem listagallerí þar sem listaverk voru sýnt á viðarplötum. Miðhluti Propylaea hafði tvær framhliðar, innri og ytri. Ytri framhliðin var styrkt af dórískum súlum en sú innri af jónískum súlum. Ástæðan fyrir því var plássleysið innanhúss en jónísku súlurnar eru mun mjórri en þær dórísku. Loftið í Propylaea var skreytt. Tilbyðjendur þurftu að losa sig við allar óheilagar hugsanir og jarðneskar tilfinningar áður en þeir gengu inn. Seinni tíma. Propylaea náði að standast af sér gríska, rómverska og býsanska tímabilið, alveg ósnortið. Það skaddaðist þó töluvert í sprengingu árið 1656. Svo var reistur turn á suðurhliðinni, annaðhvort frá veldi Frakka eða Ottómanna, en sá var rifinn árið 1874. Frá árinu 1984 hefur hluti hofsins verið endurreistur undir leiðsögn Dr. Tanos Tanoulas og er notað sem inngangur fyrir ferðamannaflauminn sem skoðar Akrópólishæð. Þórlindur Kjartansson. Þórlindur Kjartansson (fæddur 7. júlí 1976) var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna þann 16. október 2007. Handklæðisdagur. Handklæðisdagurinn er haldinn hátíðlegur 25. maí ár hvert af aðdáendum rithöfundarins Douglas Adams til að heiðra minningu hans og var fyrst haldinn tveim vikum eftir að hann lést 11. maí 2001. Þennan dag ganga aðdáendur rithöfundarins um með handklæði, sem er tilvísun í frægasta verk hans, Leiðarvísir puttaferðalangsins um himingeiminn. Hof Aþenu Nike. Hof Aþenu Nike er hof á Akrópólishæð í Aþenu. Það var byggt á suðvesturhorni hæðarinnar og blasir því við á hægri hönd þegar gengið er í gegnum Propylaea. Hofið var hannað af Kallíkratesi, þeim sama og hannaði Meyjarhofið. Honum var sagt að hanna það af stjórnarráðinu í Aþenu sama ár og Grikkir undirrituðu friðarsáttmála við Persana, 448 f.Kr. Þó var ekki byrjað að byggja það fyrr en árið 427 f.Kr. og því lauk árið 424 f.Kr. Hann hannaði það í jónískum stíl og gerði hofið einnig í smærra lagi en þrátt fyrir smæð sína þótti hofið hafa mikinn þokka. Það hefur fjórar súlur beggja megin. Á einni hlið myndræmunnar (frísunnar) er sýnd ráðstefna guðanna og á hinum þremur eru myndir af bardögum. Brjóstvirki (handrið) með lágmynd af Nike (sigurgyðjunni) er svo umhverfis hofið. Hofið er byggt á þeim stað er áður stóð einhvers konar altari sem var byggt sama ár og Panaþenísku leikarnir voru stofnaðir, 556 f.Kr. Í þessu hofi tilbáðu Aþeningar Aþenu og báðu hana um sigur í stríðum. Elevsinion. Elevsinion var hof sem stóð neðst í Akrópólishæð í Aþenu, neðan við innganginn Propylaea. Gyðjan Demeter var dýrkuð í hofinu og allt sem tengdist elevsísku launhelgunum var einnig geymt þar. Hofið gegndi mikilvægu hlutverki í panþenísku leikjunum. Upphaflega var aðaldýrkunarstaður gyðjunnar í Elevsis, ekki langt frá Aþenu. Þegar borgríkið var síðan sameinað í ríki Aþenu var ákveðið að hafa hof henni til helgunar á Akrópólishæð og var það byggt í kringum 480 f.Kr. Hofið var byggt yfir eldri grunn hofs sem var frá kringum 550 f.Kr. Lítill framherji. Lítill framherji er ein af fimm stöðum í körfubolta. Litlir framherjar eru yfirleitt fljótari og liðugri heldur en kraftframherjar og miðherjar, en eru ekki endilega minni. Staðan er yfirleitt sögð vera sú fjölhæfasta af stöðunum fimm. Flestir litlu framherjarnir í NBA eru á milli 1,96 og 2,08 á hæð. Dæmi um fræga litla framherja eru Julius Erving, Dominique Wilkins, Sölvi Már Davíðsson, Larry Bird, James Worthy, Scottie Pippen, LeBron James, Hedo Turkoglu og Bernard King. Helgistaður Artemisar Brauróníu. Helgistaður Artimesar Brauróníu eða Brauróneion var helgistaður tileinkaður gyðjunni Artemis Brauronia á Akrópólishæð í Aþenu. Helgistaðurinn var staðsettur í suðvesturhluta Akrópólishæðarinnar, á milli Kalkoþeku og Propylaeu. Artemis Brauronia, gyðja meðgöngu og fæðingu, átti aðalhelgistað sinn í Brauron, borgríki á austurströnd Attíku. Þegar tilbiðjendur hennar fluttu sig að mestu til borgarinnar var hofið byggt. Brauróneion innihélt viðarstyttu (xoanon) af gyðjunni. Konur sem tilbáðu hana sveipuðu styttuna gjarnan klæðum. Árið 346 f.Kr. var síðan önnur viðarstytta reist henni til heiðurs, mögulega verk eftir Praxíteles skv. Pausaníasi. Vesturhluti Brauróneion var byggt á leifum eldri mýkensks vígveggjar. Hofið sjálft er þó allt að mestu horfið, fyrir utan fáeina vegggrunna á austurhlutanum og nokkrar kalksteinaleifar. Inngangurinn er enn sjáanlegur sem sjö tröppur höggnar út í bergið. Dagsetning yfir byggingarlok helgistaðarins er ekki með öllu þekkt, en árið 430 f.Kr. er almennt viðurkennt af fræðimönnum þar sem nágranninn Propylaea er frá svipuðum tíma. Akarníumenn. "Akarníumenn" (á forngrísku: Ἀχαρνεῖς ("Akkarneĩs"); á latínu: "Acharnenses") er elsta varðveitta leikritið eftir forngríska gamanleikaskáldið Aristófanes. Það var fyrst sett á svið árið 425 f.Kr. og var uppfærslan kostuð af Kallistratosi. Verkið vann fyrstu verðlaun í gamanleikjakeppninni á Lenajuhátíðinni. "Akarníumenn" er meðal annars þekkt fyrir boðskap sinn um að ljúka beri Pelópsskagastríðinu og fyrir viðbrögð höfundar við málsókninni sem Kleon höfðaði gegn honum ári áður — Kleon hafði ákært Aristófanes fyrir að rægja Aþenumenn í leikritinu "Babýlóníumenn" sem ekki er varðveitt. Riddararnir. "Riddararnir" (á forngrísku: Ἱππεῖς ("Hippeîs"); á latínu: "Equites") er næsteslta varðveitta leikritð eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það vann fyrstu verðlaun í gamanleikjakeppninni á Lenajuhátíðinni árið 424 f.Kr. Leikritið er öðru fremur ádeila og árás á aþenska stjórnmálamanninn Kleon. Skýin. "Skýin" (á forngrísku: Νεφέλαι ("Nefelai"); á latínu: "Nubes") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Leikritið gerir grín að fræðurum og heimspekingnum Sókratesi, sem er gerður að tákngervingi hreyfingar fræðaranna. Leikritið var fyrst sett á svið árið 423 f.Kr. og fékk ekki góðar móttökur. Endurskoðuð útgáfa leikritsins er varðveitt og er hún frá því um 416 f.Kr. Í endurskoðuðu útgáfunni stígur skáldið sjálft á svið og skammar áheyrendur fyrir að hafa lélega kímnigáfu. Vespurnar. "Vespurnar" (á forngrísku: Σφήκες ("Sfēkes"); á latínu: "Vespae") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það vann til annarra verðlauna á Lenajuhátíðinni árið 422 f.Kr. Friðurinn (leikrit). "Friðurinn" (á forngrísku: Εἰρήνη ("Eirēnē"); á latínu: "Pax") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það var fyrst sett á svið árið 421 f.Kr. og vann til annarra verðlauna á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu það ár. Í leikritinu gerir Aristófanes meðal annars grín að harmleikjaskáldinu Evripídesi og stjórnmálamanninum Kleoni. Fuglarnir (leikrit). "Fuglarnir" (á forngrísku: Ὄρνιθες ("Orniþes"); á latínu: "Aves") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það var fyrst sett á svið árið 414 f.Kr. á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu. Leikritið er, ólíkt flestum öðrum leikritum Aristófanesar, ekki ádeila á tiltekinn einstakling eða atburð. Það er talið sækja innblástur sinn til Sikileyjarsóknar Aþeninga í Pelópsskagastríðinu árið 415 f.Kr. Lýsistrata. "Lýsistrata" (á forngrísku: Λυσιστράτα ("Lysistrata"); á latínu: "Lysistrata") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Titill verksins þýðir „sú sem leysir upp her“. Leikritið var fyrst sett á svið í Aþenu árið 411 f.Kr. Í leikritinu sannfærir Lýsistrata konur Grikklands um að neita körlum sínum um kynlíf til að neyða þá til að semja frið í Pelópsskagastríðinu. Uppátækið veldur mikilli togstreitu milli kynjanna. Konur á Þesmófóruhátíð. "Konur á Þesmófóruhátíð" (á forngrísku: Θεσμοφοριάζουσαι ("Þesmoforiazousai"); á latínu: "Thesmophoriazusae") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það var fyrst sett á svið (líklega) á Díonýsosarhátíðinni í Aþenu árið 411 f.Kr. Froskarnir. "Froskarnir" (á forngrísku: Βάτραχοι ("Bátrakkoi"); á latínu: "Ranae") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Það var fyrst sett á svið á Lenajuhátíðinni í Aþenu árið 405 f.Kr. og hlaut fyrstu verðlaun. Í leikritinu segir frá keppni Æskýlosar og Evripídesar um hvor teljist besta harmleikjaskáldið. Þingkonurnar. "Þingkonurnar" (á forngrísku: Ἐκκλησιάζουσαι ("Ekklēsiazousai"); á latínu: "Ecclesiazusae") er gamanleikur eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes. Leikritið var fyrst sett á svið í Aþenu árið 392 f.Kr.. "Þingkonurnar" er næstyngsta varðveitta leikritið eftir Aristófanes. Auðurinn. "Auðurinn" (á forngrísku: Πλοῦτος ("Ploutos"); á latínu: "Plutus") er yngsti varðveitti gamanleikurinn eftir forngríska gamanleikjaskáldið Aristófanes sem var samið árið 388 f.Kr. Leikritið ber nokkur einkenni þróunar frá „gamla gamanleiknum“ svonefnda til „nýja gamanleiksins“, sem varð til á 4. öld f.Kr. Dallas Mavericks. Dallas Mavericks er körfuknattleikslið í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Höfuðstöðvar liðsins eru í Dallas í Texas. Liðið var stofnað árið 1980 og hefur síðan þá unnið tvo riðilstitla og einn deildartitil. Samkvæmt "Forbes tímaritinu" er liðið það sjöunda verðmætasta í bandarískum körfubolta, metið á um 466 milljónir bandaríkjadali; verðmætari lið eru New York Knicks, Los Angeles Lakers, Chicago Bulls, Detroit Pistons, Cleveland Cavaliers og Houston Rockets. Liðið varð NBA meistari 2011 eftir sigur á Miami Heat þar sem Dirk Nowitzki var kosinn MVP úrslitakeppninnar. Þjóðarflokkurinn. Þjóðarflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður 1. mars 1987 í aðdraganda kosninga til Alþingis sama ár. Flokkurinn lagði mesta áherslu á byggðamál og að reyna að stöðva fólksflóttann frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Meðal baráttumála var að komið yrði á landshlutastjórnum sem sæju meðal annars um innheimtu skatta, til að draga úr miðstjórnarvaldi Reykjavíkur. Fyrsti formaður flokksins var Pétur Valdimarsson. Í Alþingiskosningunum 1987 bauð flokkurinn fram í öllum kjördæmum nema Reykjavík, Reykjanesi og Suðurlandi. Í Alþingiskosningunum 1991 fór flokkurinn í kosningabandalag við Flokk mannsins, sem skipaði flestöll sæti á framboðslistunum á höfuðborgarsvæðinu meðan Þjóðarflokkurinn var ráðandi úti á landi. Þrátt fyrir kosningabandalagið kom Þjóðarflokkurinn heldur engum manni á þing í kosningunum 1991. Bestur var árangurinn í Norðurlandskjördæmi eystra, rúmlega 1.000 atkvæði. Oddviti Þjóðarflokksins í kjördæminu var Árni Steinar Jóhannsson. Þegar ljóst varð að Þjóðarflokkurinn myndi ekki bjóða fram í þingkosningunum 1995, gekk Árni Steinar til liðs við Alþýðubandalagið og óháða og náði kjöri sem varaþingmaður. Hann varð síðar þingmaður fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð kjörtímabilið 1999-2003. L-listinn. L-listi fullveldissinna var listi sem hugðist bjóða fram til Alþingis í kosningunum 2009. Fyrir framboðinu fóru Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, og Þórhallur Heimisson prestur. Ekki var um að ræða stjórnmálaflokk heldur bandalag frjálsra frambjóðenda. Listinn dró framboð sitt til baka 3. apríl með vísan í þau ólýðræðislegu kosningalög sem gerði nýjum framboðum erfitt fyrir að komast á þing. L-listinn benti einnig á að sú kúvending sem búist var við að Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn myndi gera í afstöðu sinni til ESB gekk ekki eftir, en L-listinn hafði sjálfstæði í Evrópumálum sem eitt sitt stærsta baráttumál. Hreyfingin mun áfram starfa sem frjáls framboðs- og sjálfstæðishreyfing. Samkvæmt vef framboðsins töldu frambjóðendur að „fullveldi landsins sé forsenda fyrir endurreisn efnahags og þess að hér geti þrifist lýðræði“ og að þeir hafni „alfarið öllum hugmyndum um ESB aðild“, þar með talið hugmyndum um aðildarviðræður, en hugmyndir hafa verið áberandi hjá öðrum stjórnmálaöflum um að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið og kjósa um niðurstöðuna, eða kjósa um hvort eigi að fara í aðildarviðræður yfirhöfuð. Frambjóðendur segjast jafnframt vera „talsmenn hófsamra borgaralegra gilda og hafna öfgum hvort sem er frá hægri eða vinstri“. Eftir kosningarnar tóku nokkrir aðilar sem höfðu staðið að L-listanum sig saman og stofnuðu Samtök fullveldissinna sem hafa síðan þá mótað stefnuskrá og tekið þátt í stjórnmálastarfsemi af ýmsu tagi. Samtökin voru til að mynda meðal virkra þáttakenda í skipulagningu og framkvæmd undirskriftasöfnunar gegn lögum nr. 13/2011 um ríkisábyrgð vegna svokallaðra Icesave-III samninga og börðust fyrir synjun laganna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu á vordögum 2011. Reyklaust púður. Reyklaust púður er sprengifimt efni, ljóst á lit, sem notað er sem drifefni í skotvopnum og einnig í alls konar flugeldum. Svart púður er fyrirrennari reyklausa púðursins. Kordít er eldri tegund reyklauss púðurs og er ekki lengur framleitt. Sigfús Sigfússon. Sigfús Sigfússon (stundum nefndur Sigfús Sigfússon frá Eyvindará) (14. október 1855 – 6. ágúst 1935) var mikilvirkur þjóðsagnaritari og er þekktastur fyrir verk sitt: "Íslenskar þjóðsögur og sagnir" sem fyrst var gefið út í 16 bindum á árunum 1922 – 1959 og síðan í tíu bindum á árunum 1981 – 1991. Sigfús þótti gríðarlega afkastamikill þjóðsagnasafnari á sínum tíma og barst hróður hans sem slíks víða. Sigfús fæddist í Miðhúsum. Hann var sonur hjónanna "Sigfúsar Oddssonar" og "Jóhönnu Þorsteinsdóttur" frá Mjóanesi. Sigfús ólst hins vegar upp á Skeggjastöðum í Fellum en dvaldi tíðum á Eyvindará og kenndi sig jafnan við þann bæ. Sigfús lauk námi frá Möðruvallaskóla 1891 og starfaði síðan um hríð sem kennari á Héraði en fluttist síðan til Seyðisfjarðar þar sem hann bjó og starfaði lengst af ævi sinnar. Á efri árum flutti Sigfús til Reykjavíkur og síðustu æviárin dvaldi hann á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund. Minnisvarði um Sigfús stendur í landi Miðhúsa, á hæð skammt frá vegamótum Eiða- og Seyðisfjarðarvegar. Hann var afhjúpaður 6. ágúst 1985, en þá voru 50 ár frá andláti Sigfúsar. Heimastjórnarsamtökin. Heimastjórnarsamtökin voru íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður 10. mars 1991 í aðdraganda kosninga til Alþingis sama ár. Flokkurinn lagði áherslu á að tryggja sjálfstæði Íslands gagnvart Evrópubandalaginu og stóð gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt hvöttu Heimastjórnarsamtökin til aukinnar valddreifingar og að lágmarkslaun væru lögbundin. Formaður framkvæmdastjórnar flokksins var Tómas Gunnarsson. Heimastjórnarsamtökin voru stofnuð fáeinum vikum fyrir þingkosningar. Aðstandendur framboðsins höfðu verið í viðræðum við ýmsa aðila um kosningabandalag eða sameiginlegt framboð, svo sem Þjóðarflokkinn, Flokk mannsins og félaga í Borgaraflokknum. Jafnframt kom til tals að Samtök um jafnrétti og félagshyggju, sérframboð Stefáns Valgeirssonar úr kosningunum 1987 kæmi að framboðinu. Ekkert varð úr þessum áformum, en Stefán Valgeirsson tók þó sæti neðarlega á framboðslista í Norðurlandskjördæmi eystra. Heimastjórnarsamtökin buðu alls staðar fram á landinu nema í Vestfjarðakjördæmi, en fengu innan við þúsund atkvæði og engan mann kjörinn. Flokkurinn kærði framkvæmd kosninganna til Alþingis og vísaði meðal annars í að framboðum hefði verið mismunað í fjölmiðlum og áróður hefði verið á kjörstöðum. Kæran bar engan árangur og lognaðist flokkurinn útaf skömmu síðar. Auður Lilja Erlingsdóttir. Auður Lilja Erlingsdóttir (f. 1979) er íslenskur stjórnmálamaður með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hún er framkvæmdastjóri Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, þar á meðal formennsku í ungliðahreyfingu Vinstri grænna 2006 - 2008. Hún var í þriðja sæti lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í Alþingiskosningunum 2007 og hefur setið á Alþingi sem varamaður. Stjórnmálaflokkurinn. Stjórnmálaflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður í ársbyrjun 1978. Formaður hans og oddviti var Ólafur E. Einarsson. Meginstefnumál Stjórnmálaflokksins voru þrenn. Í fyrsta lagi að breyta stjórnarskránni til að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdavald. Í öðru lagi að einfalda skattkerfið. Og í þriðja lagi að leggja aðstöðugjald á herstöðina á Miðnesheiði. Stjórnmálaflokkurinn bauð fram í Reykjavíkurkjördæmi og Reykjaneskjördæmi í Alþingiskosningunum 1978 en hafði ekki erindi sem erfiði, fékk tæp 500 atkvæði eða um 0,4%. Flokkurinn lognaðist út af skömmu síðar. Sílamáfur. Sílamáfur (fræðiheiti "larus fuscus") er fremur stór máfur. Hann líkist svartbaki en er minni og nettari. Sílamafur er dökkgrár á baki og vængjum en annars staðar hvítur. Ungfuglar eru dökkbrúnflikróttir. Vængbroddar eru mjög dökkir. Fætur eru gulir og er rauður blettur fremst á neðra skolti. Augun eru gul. Sílamávur mun hafa byrjað að verpa á Íslandi á þriðja áratug síðustu aldar. Vetrarheimkynni hans eru í Marokkó. Svartbakur. Svartbakur (fræðiheiti "Larus marinus", sem þýðir á latínu „hafmáfur“ eða „sjávarmáfur“) er stærstur máfa og er oft nefndur veiðibjalla. Hann er svartur og hvítur á lot, goggur hans er gulur og sterklegur og rauður blettur finnst fremst í neðri skolti. Fætur svartbaksins eru ljósbeikir og augu hans ljós. Svartbakur getur vegið rúm 2 kg og vænghafið getur orðið allt að 1,5 metrar. Hann verpir snemma á vorin í dyngju á jafnsléttu og eru eggin að meðaltali þrjú talsins, og tekur það þau um fjórar vikur að klekjast út. Svartbakur verður kynþroska við 4-5 ára aldur. Svartbakur er staðfugl á Íslandi og hefur þeim fjölgað mjög á Íslandi vegna aðgangs að lífrænum úrgangi sem kemur aðallega frá sjávarútveginum. Stofnstærð er talin í kringum 20 þúsund varppör. Hin ýmsu nöfn. Svartbakurinn sem stundum er kallaður "veiðibjalla" eða "bjalla" er stundum líka nefndur "kaflabringur", "kaflabrinki" og "skári". Fótstig. Fótstig (pedall, pedali eða fetill) er spaði sem stigið er á t.d. á reiðhjóli til að knýja hjólið áfram eða er stiginn þegar hemlað er (sbr. t.d. bremsupedali). Fótstig er einnig að finna á mörgum orgelum, stundum til að pumpa í þau hljóm, en sérstaklega undir þeim sem leikið er á með fótunum. Stundum er slíkt fótstig einnig nefnt "fótrim", sérstaklega ef slíkur spaði stýrir tónhæð, endurómi eða hljómblæ hljóðfæris (sbr. píanó). Fótstig má einnig finna á dýrabogum, eins og segir í bók Theódórs Gunnlaugssonar: "Á refaslóðum". Fótstigið í dýrabogum er gikkurinn sem lokar honum, þ.e.a.s. þegar dýrið stígur á fótstigið þá hrekkur boginn saman. Á rokk nefnist fótstigið "fótafjöl" eða "dútré". Borð. Borð kallast húsgagn sem samanstendur af plötu sem er haldið uppi af borðfótum. Platan á svo að geta borið hluti eins og mat eða borðbúnað, til að auðvelda fólki að nálgast þá þegar setið er á stól. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (f. 1972) er íslenskur stjórnmálamaður. Hún er með BA-gráðu í sagnfræði frá Harvard og meistaragráðu í heimspeki frá Cambridge í Englandi. Guðfríður Lilja varð ung kunnur skákmaður og varð 13 ára íslandsmeistari kvenna í skák. Hún varð fyrst kvenna til að gegna formennsku í Skáksambandi Íslands og Skáksambandi Norðurlanda. Hún hóf afskipti af stjórnmálum fyrir Alþingiskosningarnar 2007 og tók þátt í forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem haldið var sameiginlega fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar hafnaði hún í fjórða sæti og tók í kjölfarið annað sætið á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Guðfríður Lilja var varaþingmaður 2007-2009 og gegndi á sama tíma starfi framkvæmdastjóra þingflokksins. Í febrúar 2009 tilkynnti Guðfríður Lilja um framboð sitt í forvali Vinstri grænna fyrir Alþingiskosningarnar 2009, þar sem hún stefnir á efsta sæti í suðvesturkjördæmi. Við sama tækifæri tilkynnti Ögmundur Jónasson, þingmaður flokksins í kjördæminu, að hann styddi Guðfríði Lilju í toppsætið og stefndi sjálfur á annað sæti. Maki Guðfríðar Lilju er Steinunn H. Blöndal, hjúkrunarfræðingur og eiga þær saman þrjú börn. St. Pancras-lestarstöðin. St Pancras-lestarstöðin er stór lestarstöð í St Pancras-svæðinu í miðborg Lundúna, rétt hjá Bókasafni Bretlands og King’s Cross-lestarstöðinni. Hún var tekin í notkun árið 1868 af Midland Railway. Stöðin tengist Ermasundsgöngunum, og þar með Frakklandi, og einnig Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar. Stöðin er einnig þekkt vegna byggingarlistar sinnar. Legkökuát. Legkökuát eða fylgjuát kallst það þegar spendýr éta fylgjuna sem fylgir afkvæmum þerra eftir að hafa gotið. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins 2009. Þetta er listi yfir þá frambjóðendur sem taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til Alþingiskosninga 2009. Brad Friedel. Brad Friedel (fæddur 18. maí 1971) er bandarískur markmaður í knattspyrnu sem leikur með Aston Villa á Englandi. Prófkjör Samfylkingarinnar 2009. Þetta er listi yfir þá frambjóðendur sem taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar til Alþingiskosninga 2009. Hugmyndaráðuneytið. Hugmyndaráðuneytið er íslenskt samfélagsverkefni sem byggir á sjálfboðavinnu og tók til starfa 10. janúar 2009. Hugmyndaráðuneytið stendur fyrir reglulegum hópfundum þar sem frumkvöðlar, hugsuðir og fagmenn frá ólíkum sviðum atvinnulífins, háskólunum og stjórnsýslunni hittast og skiptast á hugmyndum, reynslusögum, hlusta á fyrirlestra, mynda tengsl og veita hverjum öðrum stuðning til framkvæmda. Áhersla er lögð á jákvæðni og tækifæri. Hugmyndaráðuneytið leggur einnig sín lóð á vogaskálarnar í málefnum þar sem það telur sig geta látið gott af sér leiða. Hugmyndaráðuneytið hittist alla laugardaga á hentugum stað í Reykjavík og er aðgangur ókeypis. Ráðuneytið rekur einnig frétta- og bloggsíðu. Íþróttafélagið Huginn. Íþróttafélagið Huginn er íþróttafélag á Seyðisfirði. Það var stofnað árið 1913, og innan félagsins hafa margar íþróttagreinar verið iðkaðar, svo sem knattspyrna, handbolti, skíða, sund, blak, badminton og frjálsar íþróttir. Starfið hefur verið hvað öflugast undanfarin ár í knattspyrnu, auk þess sem skíðaiðkun hefur átt stóran sess, enda er skíðasvæðið í Stafdal, í Seyðisfirði. Árið 2008 var stofnað skíðafélagið SKÍS(Skíðafélagið í Stafdal) og er það sameiginlegt skíðfélag Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs, hætti þá skíðaiðakun undir merkjum Hugins. Þar að auki hefur blak sótt í sig veðrið á Seyðisfirði og hefur félagið sent lið til keppni á Öldungamóti í blaki bæði í karla og kvennaflokki um árabil. Íþróttafélagið Huginn hefur aðsetur í íþróttahúsi bæjarins sem er byggt við félagsheimilið Herðubreið. Heimavöllur knattspyrnuliðs Hugins er staðsettur við Garðarsveg, innan við sjúkrahús bæjarins og leikskóla. Hann er oft kallaður Seyðisfjarðarvöllur eða Garðarsvöllur, sem er þá vísun í götuna sem völlurinn liggur hjá. Knattspyrna. Árin 2001 og 2002 léku Huginn og Höttur sameiginlega undir nafninu Huginn/Höttur í 3.deild. Bæði árin lenti liðið í 3.sæti D-riðils á eftir Fjarðabyggð og Leikni Fáskrúðsfirði. Árið 2003 lenti Huginn í 3.sæti D-riðils á eftir Hetti og Fjarðabyggð. Markahæstu menn liðsins voru Tómas Arnar Emilsson sem skoraði 9 mörk í 15 leikjum, Guðmundur Þórir Guðjónsson sem skoraði 8 mörk í 13 leikjum og Jóhann Björn Sveinbjörnsson sem skoraði 8 mörk í 14 leikjum. Árið 2004 lenti Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildar á Íslandi og fór því í úrslitakeppnina. Þar sigraði liðið Hvöt og Skallagrím áður en það sigraði Fjarðabyggð í úrslitaleiknum um 1.sætið og varð því 3.deildarmeistari 2004. Markahæsti leikmaður liðsins var Sveinbjörn Jónasson með 9 mörk, 4 í riðlakeppninni og 5 í úrslitakeppninni. Árið 2005 endaði Huginn í 8.sæti 2.deildar (C-deild) og hélt því sæti sínu. Markahæsti leikmaður liðsins var Mikael Nikulásson með 8 mörk í 18 leikjum. Árið 2006 endaði Huginn í 10. og síðasta sæti 2.deildar (C) og féll því niður í 3.deild. Markahæsti leikmaður liðsins var Jeppe Opstrup, sem skoraði 10 mörk í 15 leikjum. Árið 2007 endaði Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildarinnar á Íslandi og fór því í úrslitakeppnina. Þar tapaði liðið fyrir BÍ/Bolungarvík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Markahæsti leikmaður liðsins var Sveinbjörn Jónasson en hann skoraði 15 mörk í 12 leikjum í 3.deild. Árið 2008 endaði Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildarinnar á Íslandi og fór í úrslitakeppnina. Þar tapaði liðið aftur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en í þetta skipti fyrir Skallagrím. Markahæsti leikmaður liðsins var Birgir Hákon Jóhannsson með 13 mörk í 12 leikjum, en hann hafði komið til liðsins frá Hetti fyrir tímabilið. Árið 2009 endaði Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildarinnar á Íslandi og fór í úrslitakeppnina, þriðja árið í röð. Enn og aftur féll liðið úr keppni í fyrstu umferð úrslitanna eða 8 liða úrslitum. Í þetta skiptið var það KV sem fór áfram á kostnað Hugins. Markahæsti leikmaður Hugins 2009 var Friðjón Gunnlaugsson með 6 mörk úr 17 leikjum. Árið 2010 endaði Huginn í 5 sæti D-riðils 3. deildarinnar á Íslandi. Markahæstir voru Friðjón Gunnlaugsson og Jack Hands með 5 mörk hvor. Árið 2011 endaði Huginn aftur í 5. sæti D-riðils 3. deildarinnar á Íslandi. Markahæstur var Birgir Hákon Jóhannsson með 6 mörk. Árið 2012 endaði Huginn í 1. sæti D-riðils 3. deildarinnar á Íslandi. Liðið komst því í úrslitakeppnina og lék við Ægi frá Þorlákshöfn í 8 liða úrslitum. Fyrri leikurinn fór fram í Þorlákshöfn og lauk með sigri Ægis, 1-0. Seinni leikurinn fór fram á Seyðisfirði og lauk honum með jafntefli, 1-1. Huginn datt þar með úr leik um að keppa um sæti í 2. deild, en ávann sér rétt til þess að leika í nýrri 10 liða 3. deild á næsta ári. Huginn Huginn Huginn Beitiás. Beitiás er stillanleg laus rá til að halda kulborðshorni (hálsi) á skautasegli úti. Annar endi beitiássins er festur neðarlega á mastrið og hinn endinn í hálsinn. Með því móti er hægt að stilla bæði kulborðshornið (hálsinn) og bakborðshornið (klóna). Þegar beitiás er ekki til staðar þarf hins vegar að festa hálsinn við borðstokkinn að framanverðu þegar sigldur er hliðarvindur eða beitivindur. Á nútímaseglskipum með langsegl er beitiás notaður til að halda kulborðsskauti belgsegls úti. Loggortusegl. Loggortusegl er ferhyrnt rásegl þar sem ráin er fest við sigluna nær öðrum enda hennar og hinn endinn hífður upp. Loggortusegl er að sumu leyti eins og ferhyrnd útgáfa af latnesku segli. Þessi seglagerð var algengust í Norður-Frakklandi þar sem hún var notuð á loggortum, ein- eða tvímastra seglskipum sem voru aðallega notuð til fiskveiða. Toppsegl á skonnortum eru líka stundum loggortusegl. Latneskt segl. Latneskt segl, latínarsegl eða latínsegl (úr ítölsku: "a la trina" „þríhyrnt“) er þríhyrnt rásegl sem hangir neðan á langri rá sem hangir skáhallt á mastrinu. Þessi tegund segla kom fram á sjónarsviðið í Miðjarðarhafinu í fornöld en varð síðar algengust á skipum Araba á Miðjarðarhafi og Indlandshafi þar sem hún er einkennandi fyrir dá og felúkkur. Ein algeng tegund kæna, Sunfish, er með latneskt segl. Turtildúfa. Turtildúfa (fræðiheiti: "Streptopelia turtur") er fugl af dúfnaætt og er flækingur á Íslandi. Útópía. Útópía eða staðleysa er hugtak sem er notað um einhvern stað sem á þó að vera betri staður í samanburð við nútíðina. Bergshús. Bergshús er lágt timburhús sem áður stóð við Skólavörðustíg 10, nánar til tekið á neðra horni Bergstaðastrætis, vinstra megin götunnar á gatnamótum Skólavörðustígs. Ofan við Bergshús var Kjaftaklöpp. Þórbergur Þórðarson bjó í Bergshúsi og er húsið vettvangur margra frásagna í bókinni "Ofvitinn". Húsið var flutt upp á Árbæjarsafn árið 1989. Alexíus Árnason lögregluþjónn reisti húsið í kringum 1865. Húsið var kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld, frá því um 1885 og var Þórbergur leigjandi hjá honum. Eiríkur Ólafsson frá Brúnum bjó um tíma í húsinu og einnig Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld. Bergshús var íbúðarhús fram til um 1960 en frá þeim tíma var rekin verslun í húsinu. Síðast var þar rekin leikfangaverslun. Ofvitinn. Ofvitinn er sjáfsævisaga Þórbergs Þórðarsonar sem kom fyrst út árið 1940. Reiki. Reiki er aðferð sem á að hafa lækningarmátt. Notast er við handayfirlagningu og orkustöðvaopnun. Enn hefur ekki verið sýnt fram á lækningarlegt gildi reiki með óyggjandi hætti. Stormsegl. Stormsegl er lítið þríhyrnt langsegl sem er sett upp þegar hvasst er til að halda skipinu upp í vindinn og auka stöðugleika þess til hliðanna. Stormsegl eru ekki hönnuð til að knýja skipið áfram, jafnvel þótt mönnum hafi tekist að beita stormseglum sér til bjargar á vélarvana bátum. Stormsegl eru gjarnan í áberandi rauðum eða appelsínugulum lit úr styrktum gúmmídúk eða öðru sterku efni. Á seglskipum er stormseglið ýmis fest á stórsigluna í stað stórseglsins eða hengt á framstagið. Á vélbátum er það yfirleitt fest á mastur nálægt stefninu. Gennaker. Gennaker er ósamhverft belgsegl sem er sett upp þegar siglt er undan vindi. Nafnið er dregið af því að það er eins konar millistig milli belgsegls ("spinnakers") og genúasegls. Gennaker er festur að ofan í mastrið og fremra horn hans að neðan í stefnið eða í bugspjót að framan. Aftara hornið leikur svo laust. Gennaker hefur meiri seglflöt en genúasegl en minni en hefðbundið belgsegl. Hann nær hins vegar víðara horni vindáttar en hefðbundið belgsegl. Gennaker virkar þannig vel í hliðarvindi meðan belgsegl hentar aðeins til að sigla lens eða bitahöfuðsbyr. Gennaker er líka auðveldari í notkun en hefðbundið belgsegl þar sem fremra horn hans er alltaf fast. Þegar á að venda með gennaker er aftara hornið tekið fram fyrir framstagið og strengt aftur hinum megin. Langsegl. Mynd af spritsegli á rómversku skipi frá 3. öld e.Kr.. Langsegl er segl sem liggur langsum eftir skipinu fremur en þvert á það (sbr. þversegl). Langsegl eru meðal annars öll stagsegl, bermúdasegl, gaffalsegl, loggortusegl, spritsegl og latnesk segl. Slík segl henta betur þegar siglt er upp í vindinn (krussað eða slagað) en þegar siglt er undan vindi. Nútíma kappsiglingaskútur (bermúdaslúppur) notast því við belgsegl til að nýta vindinn betur þegar haldið er undan. Bermúdasegl og gaffalsegl eru fest að neðan á bómu sem sveiflast til þegar vent er. Dæmi um skip sem aðeins eru búin langseglum eru t.d. slúppa (einmastra), gaflkæna (tvímastra) og skonnorta (fjölmastra). Barkskip eru að hluta með langsegl og að hluta með þversegl. Stórsegl. Stórsegl seglskips er stærsta seglið á stórsiglu þess. Á skipi með þverseglum er stórseglið venjulega stærsta og neðsta seglið á stórsiglunni. Á skipi með langseglum er stórseglið neðsta og stærsta seglið sem fest er aftan við stórsigluna á bómu að neðan. Nútíma bermúdaslúppur notast við eitt þríhyrnt bermúdasegl sem stórsegl aftan við mastrið og fokku eða genúafokku framan við það. Rúllustórsegl er fest við sérstakan búnað sem gerir mögulegt að rúlla seglinu upp inni í bómunni eða mastrinu. Hrökkbrauð. Hrökkbrauð (eða hleifabrauð) er þunnt, stökkt og gerlaust brauð sem er upprunnið á Norðurlöndum. Hrökkbrauð er oftast úr (rúg)mjöli og vatni og er bakað á plötu. Upprunalega var hrökkbrauð úr rúgmjöli eingöngu, en núorðið er stundum blandað hveiti saman við. Hrökkbrauð er hvortveggja framleitt hringlaga og með gat í miðjunni, til að hægt sé að hengja það upp á búrslár, en einnig í ferköntuðum einingum. Á Norðurlandi er hrökkbrauð stundum kallað hrökkkex. Afturstag. Afturstag er hluti af fastreiða skips og liggur frá húni siglu að þverbita í skutnum. Afturstagið myndar mótvægi við framstagið og er mikilvægt til að stilla sveigju á mastrinu og þar með lag stórseglsins og framseglsins. Afturstagið er ekki nauðsynlegt til að halda stórsiglunni uppi þar sem skrúðið og framstagið nægja til þess. Það er fyrst og fremst ætlað til að stilla sveigjuna á mastrinu. Meiri sveigja dregur úr belg stórseglsins sem eykur beitingarhæfni en dregur jafnframt úr krafti. Eva Joly. Eva Joly (fædd Eva Gro Farseth'") (5. desember 1943) er norsk-franskur dómari, rannsóknardómari og evrópuþingmaður sem hefur sérhæft sig í baráttu gegn fjármálaspillingu. Árið 1994 varð hún yfirrannsóknardómari ("juge d’instruction") þegar hún varð lykilmaður í stærsta spillingarmáli sem upp hefur komið í Frakklandi þegar olíufélagið Elf Aquitaine var grunað um misferli. Rannsóknir hennar leiddu til dóms og sakfellingar yfir fjölda háttsettra embættis- og stjórnmálamanna. Þræðir þessa máls lágu víða, m.a. til Þýskalands þar sem nafn Helmut Kohl tengdist vafasömum viðskiptum og meintum mútugreiðslum. Hún fluttist 18 ára gömul til Frakklands, starfaði sem au pair og lærði lögfræði í kvöldskóla og sérhæfði sig í fjármálalögfræði. Þann 10. mars 2009 var Eva ráðin sem sérstakur ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins 2008. Hún hafði gagnrýnt fámenni þess rannsóknarhóps sem rannsaka á bankahrunið, og skort á fagmönnum í alþjóðlegri fjármálaspillingu. Eva Joly starfaði sem ráðgjafi í 18 mánuði áður en hún hætti til að einbeita sér að forsetaframboði sínu í Frakklandi. Í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna árið 2012 hlaut Eva Joly sem einungis 2.31% atkvæða. Í síðari umferð studdi hún frambjóðanda flokks sósíalista François Hollande. Vanhankaupunginselkä. Vanhankaupunginselkä (sænska: "Gammelstadsfjärden") er mýrlendur flói rétt hjá Helsinki í Finnlandi. Flóinn er náttúruverndarsvæði ásamt hluta umdæmisins Viikki. All Out Of Luck. "All Out Of Luck" er lag frá breiðskífu Selmu Björnsdóttur "I Am" sem hún söng í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1999. Hún lenti í öðru sæti með 146 stig, en Charlotte Nilson fulltrúi Svíþjóðar sigraði með laginu "Take Me To Your Heaven". Lagið varð vinsælt um alla Evrópu og seldist í yfir sex þúsund eintökum á Íslandi og var tekjuhæsta smáskífa á landinu í fimmtán ár. Fagurtúkani. Fagurtúkani (fræðiheiti: "Ramphastos dicolorus") er fugl sem er aðallega að finna í Suður- og Austur-Brasilíu, austurhluta Paragvæ og norð-austasta hluta Argentínu. Hann á sér aðallega óðul í Atlantshafsfrumskóginum (spænska: "Mata Atlántica"). Hraðeind. Hraðeind eða tachyon-eind (enska: tachyon frá grísku, "takhyónion", úr, "takhýs", „hraður“) kallast fræðilegar öreindir sem fara hraðar en ljósið. Ástæðan fyrir því að tilvist þeirra er ekki í ósamræmi við afstæðiskenninguna er sú að afstæðiskenningin segir að enginn hlutur með massa geti ferðast um á ljóshraða en möguleiki sé að hlutur ferðist með hraða hærri en ljóshraði en verði þá alltaf á hærri hraða en ljóshraði, þ.e. ekki er hægt að hægja á hraðeind niður fyrir ljóshraða. Manndráp. Manndráp er lögfræðilegt orð fyrir drápið manns sem er talið að vera minna vítavert en morð. Lögin aðgreina gráðu glæparefsinæmis með brotavilja (lat. "mens rea"). Til að fremja morð þarf hugarástandið að vera illgirnilegt, en til að fremja manndráp má benda til ólíkra aðstæðna. Jan Pieterszoon Sweelinck. Málverk af Sweelinck frá 1606. Jan Pieterszoon Sweelinck (f. apríl eða maí 1562, d. 16. október 1621) var hollenskur organisti, tónskáld og kennari. Ævi hans og verk spanna tímabilið frá lok Endurreisnar til barokktónlistar. Hann var fæddur í Deventer í Hollandi og var elsti sonur organistans Peter Swybbertszoon og konu hans Elske Jansdochter Sweeling dóttur skurðlæknis. Hann er talinn fyrsti tónsmiðurinn til þess að semja orgelfúgu sem hefst á laglínu í einni rödd sem við bætast aðrar raddir smám saman þar til margra radda fúgu er náð með hápunkti og afleiðingu. Hugmynd sem síðar varð fullkomnuð og margnotuð á barrokktímanum af J.S. Bach. Skorradalur. Skorradalur er syðstur af Borgarfjarðardölum og liggur milli Skarðsheiðar, Dragafells og Botnsheiðar að sunnan og Skorradalsháls að norðan. Norðan við hálsinn er Lundarreykjadalur, sem tilheyrir Borgarfjarðarsveit, og fylgja mörkin milli sveitarfélaganna vatnaskilum á hálsinum. Dalurinn er um 25 km á lengd en Skorradalsvatn þekur mestallan dalbotninn; það er rúmlega 16 km langt og 14,7 ferkílómetrar. Í því er silungsveiði. Andakílsá rennur úr vatninu. Byggðin í dalnum var aðallega norðan vatnsins og svo austan og vestan við það, þótt fáeinir bæir væru líka sunnan við vatnið. Nú eru margir bæjanna komnir í eyði en þess í stað er töluvert mikil sumarbústaðabyggð í dalnum og gert ráð fyrir aukningu hennar. Í dalnum hefur verið stunduð skógrækt frá því um miðja 20. öld og eru hlíðar hans víða skógi vaxnar. Skorradalur er sjálfstætt sveitarfélag, Skorradalshreppur. Þar var 61 íbúi 1. desember 2009. Punktur. Punktur („.“) er greinarmerki sem er oftast notað til að tákna lok setningar eða málsgreinar í tungumálum. Það er til dæmis notað við endann á þessari setningu. Unicode og US-ASCII stafir nr. 46 eða codice_1 (codice_2) vísa til punkts. George Pólya. George Pólya (13. desember 1887 – 7. september 1985) var ungverskur stærðfræðingur. Hann er sérstaklega þekktur fyrir þrautalausnir og kenndi kennurum hvernig hvetja mætti nemendur til að leysa þrautir og skipuleggja vinnu sína. Heimild. Pólya, George Lofnarblóm. Lofnarblóm eða lavender (fræðiheiti: "Lavandula") er ættkvísl ilmblóma og lækningajurta af varablómaætt. Jurtirnar eru upprunnar við Miðjarðarhaf og eru notaðar til að búa til lofnaðarilmvatn. Kristþyrnir. Kristþyrnir eða jólaviður (fræðiheiti: "Ilex aquifolium") er tré af kristþyrnaætt, sem vex einkum í Mið- og S-Ameríku, en einnig í V- og N-Evrópu. Það er sígrænt og getur orðið allt að 10 m að hæð. Blöðin eru leðurkennd og dökkgræn að ofan með hvassa þyrni á bylgjuðum jaðrinum. Blóm eru hvít og ilmandi, en berin dimmrauð og lítið eitt eitruð mönnum, valda t.d. uppköstum og niðurgangi sé þeirra neytt. Sæmundur fróði Sigfússon. Sæmundur fróði Sigfússon (1056 – 22. maí 1133) var goðorðsmaður og prestur í Odda á Rangárvöllum. Hann er hvað frægastur meðal almennings fyrir að hafa verið í Svartaskóla og fyrir að hafa klekkt á skrattanum oftar en einu sinni, og á t.d. samkvæmt þjóðsögum að hafa komið ríðandi frá meginlandi Evrópu á baki kölska sem var þá í selslíki. Faðir Sæmundar var Sigfús Loðmundarson prestur í Odda, Loðmundssonar, Svartssonar, Úlfssonar aurgoða. Úlfur var sonur Jörundar Hrafnssonar landnámsmanns á Svertingsstöðum, sonar Hrafns heimska Valgarðssonar. Móðir Sæmundar var Þórey dóttir Eyjólfs halta, sonar Guðmundar ríka Eyjólfssonar. Oft er sagt að Sæmundur hafi verið fyrstur Íslendinga til að stunda nám í Frakklandi en þess ber að geta að á þessum tíma var landsvæðið sunnan við Saxland og austan við Rín oft kallað Franconia og má vera að hann hafi lært þar. Enginn eiginlegur háskóli var þó til í Evrópu á þessum tíma svo að Sæmundur hefur líklega stundað nám við klausturskóla eða á einhverju biskups- eða fræðasetri. Svo mikið er víst að hann fór ungur utan til náms og var þar lengi. Hann kom líklega heim einhverntíma á árunum 1076-1078. Sæmundur settist að í Odda eftir heimkomuna, vígðist til prests og lét reisa kirkju helgaða heilögum Nikulási. Hann hélt skóla í Odda og var talinn einn lærðasti maður síns tíma. Hann skrifaði um söguleg efni, svo sem Noregskonunga. Rit hans eru öll glötuð en líklega voru þau rituð á latínu. Þá var hann einnig einn ritbeiðenda að Íslendingabók Ara fróða og Ari bar bókina undir hann þegar hann var búinn að skrifa hana. Oddur Snorrason munkur vitnar einnig til rita Sæmundar í Ólafs sögu Tryggvasonar og einnig er vitnað í hann í Landnámabók. Hann stóð að lögtöku tíundar á Ísland á árunum 1096 til 1097 ásamt Gissuri Ísleifssyni biskupi og Markúsi Skeggjasyni lögsögumanni og að hans ráði settu biskuparnir Þorlákur Runólfsson og Ketill Þorsteinsson kristnirétt hinn eldri 1123. Vegna lærdóms Sæmundar hefur það orð snemma farið af honum að hann væri fjölkunnugur og hafa orðið til ýmsar þjóðsögur um galdrakunnáttu hans og viðskipti við Kölska. Frægust þeirra er sagan af því þegar Sæmundur kom heim úr Svartaskóla og fór yfir hafið á baki Kölska, sem var í selslíki. Þá sögu má finna hjá William af Malmesbury í "Gesta regum Anglorum" en þar er söguhetjan Gerbert af Aurillac, seinna Sylvester 2. páfi (d. 1003). Kona Sæmundar var Guðrún, dóttir Kolbeins Flosasonar lögsögumanns, og voru börn þeirra Eyjólfur prestur í Odda, Loðmundur, Þórey og Loftur faðir Jóns Loftssonar. Ópíum. Ópíum er deyfi- eða kvalastillandi lyf unnið úr ópíumvalmúa eða draumsóley. Ópíum inniheldur morfín og kódín. Draumalandið (kvikmynd). Draumalandið er íslensk heimildamynd sem byggð er á samnefndri bók Andra Snæs Magnússonar. Myndin fjallar um stóriðju á Íslandi og sér í lagi hina umdeildu Kárahnjúkavirkjun. Græna byltingin (Reykjavík). a>i var hluti af „grænu byltingunni“. Græna byltingin var almennt heiti á framkvæmdaáætlun Reykjavíkur um umhverfi og útivist sem átti að gilda frá 1974 til 1983. Græna byltingin var sérstakt kosningamál Sjálfstæðismanna fyrir sveitarstjórnarkosningar 1974 og var hrint í framkvæmd þar sem þeir héldu meirihluta sínum. Græna byltingin gekk út á að rækta upp opin svæði í borginni, gera átak í hreinsun og frágangi á minni spildum inni í hverfunum og leggja hjólreiða- og gangbrautir. Nafnið var ekki sótt í grænu byltinguna sem gekk út á að auka matvælaframleiðslu í heiminum með þróun í landbúnaði heldur var vísun í svokallaða „svarta byltingu“ þegar vegir í borginni voru malbikaðir á 6. og 7. áratugnum. Sama ár og „græna byltingin“ hófst var hleypt af stokkunum „blárri byltingu“ með stofnun veiði- og fiskiræktarráðs Reykjavíkurborgar sem átti að efla lax- og silungsrækt í ám og vötnum sem borgin átti ítök í. Tilgangurinn var meðal annars að auka möguleika borgarbúa til að njóta veiði í þessum vötnum og útivistar við þau. Ráðið starfaði til 1983 þegar verkefni þess voru flutt til umhverfismálaráðs. Hluti af hugmyndunum sem tengdust grænu byltingunni var bætt aðstaða fyrir sportbáta og var upphaflega gerð sú tillaga að hafa vélbátahöfn norðan megin við Geldinganes en seglbátahöfn sunnan megin. Þá var þegar lítil smábátahöfn í Elliðavogi sem var mjög gagnrýnd vegna nálægðar við ósa Elliðaáa. Ekkert varð af þessum fyrirætlunum, en 1978 samþykkti borgarstjórn smábátahöfn vestan megin í Elliðavogi þar sem félagið Snarfari kom sér upp aðstöðu. Framkvæmdum sem kenndar voru við grænu byltinguna var ítarlega lýst í Morgunblaðinu. Flokkarnir í minnihluta gagnrýndu grænu byltinguna oft, meðal annars á þeim forsendum að hún stangaðist á við gildandi aðalskipulag, að þar hefði fátt komið til framkvæmda, að hún væri of dýr fyrir borgarsjóð og að grænu svæðin stæðu í vegi fyrir úthlutun atvinnuhúsnæðis til iðnfyrirtækja sem flyttust umvörpum til nágrannasveitarfélaga. Eins var áætlunin gagnrýnd fyrir að festa í sessi stór óbyggð svæði milli hverfa og vinna þannig gegn þéttingu byggðar. Eftir sveitarstjórnarkosningar 1978 lentu Sjálfstæðismenn í minnihluta og hætt var að tala um grænu byltinguna. Sama ár kom út samnefnt lag á plötunni "Ísland" með Spilverki þjóðanna þar sem segir meðal annars: „Margar eru nefndirnar/en hvurnig er með efndirnar/sem sumir lofuðu sumum?“ sem endurómaði þá skoðun að minna hefði orðið úr grænu byltingunni en lofað hafði verið í upphafi. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 1982 sagði borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna, Davíð Oddsson, að stefna flokksins í umhverfismálum væri óbreytt frá því sem áður hefði verið og þá kölluð „græna byltingin“. Humall. Humall (fræðiheiti: "Humulus lupulus"), nytjaplanta af humlaætt er hávaxin vafningsjurt með hærðum blöðum og sérstæðum blómkollum sem notaðir eru til bjórgerðar. Humlarnir eru þó ekki aðeins til bragðbætis, heldur er einnig ætlað að verja bjórinn fyrir skemmdum, helst gegn skjaðaki. Humall var ekki notaður í gerð öls fornmanna. Humall er tvíbýlisjurt rétt eins og t.d. hampur ("Cannabis sativa"). Fossárdalur. Fossárdalur er dalur sem gengur upp af Berufirði. Dalurinn er prýddur háum hamraveggjum allt um kring. Dalurinn dregur nafn sitt af Fossá sem fellur út eftir í dalnum í fleiri en 30 fossum, mismunandi að stærð. Í dalnum er nú einn bær sem heitir Fossárdalur en dalnum er skipt upp í þrjár jarðir. Það eru Eiríksstaðir eftir bæ sem að var syðramegin í dalnum, Eyjólfsstaðir eftir síðasta bæ sem fór í eyði þegar bændurnir byggðu sér nýtt íbúðarhús og kölluðu það Fossárdalsbæinn sem er um 600 m innar í dalnum heldur en Eyjólfsstaðir. Síðast er það svo Víðines sem að heitir eftir bæ sem fór í eyði árið 1944. Ummerki hafa fundist um allt að 14 býli í dalnum sem hafa verið fyrir Svarta dauða. Gosi (kvikmynd 1940). "Gosi" (enska: "Pinocchio") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á samnefndri skáldsögu ítalska höfundarins Carlo Collodi. Myndin var frumsýnd þann 7. febrúar 1940. Kvikmyndin var önnur kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Ben Sharpsteen, Hamilton Luske, Norman Ferguson, T. Hee, Wilfred Jackson, Jack Kinney og Bill Roberts. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundar voru Aurelius Battaglia, William Cottrell, Otto Englander, Erdman Penner, Joseph Sabo, Ted Sears og Webb Smith. Tónlistin í myndinni er eftir Leigh Harline og Ned Washington. Gosi. "Gosi" (ítalska: "Pinocchio") er skáldsaga eftir ítalska rithöfundinn Carlo Collodi. Á frummálinu var hún fyrst gefin út árið 1883. Hun Sen. Hun Sen forsætisráðherra Kambódíu Hun Sen (f. 4. apríl 1951 eða 5. ágúst 1952, heimildum ber ekki saman) er núverandi forsætisráðherra Kambódíu og hefur verið helsti valdmaður í landinu allt frá 1979. Hann ber nú opinberan heiðurstitilinn "Samdech Akkak Moha Sena Pedey Decho". Hann er helsti ráðamaður í Alþýðuflokki Kambódíu sem hefur verið við völd allt frá innrás Víetnama 1979 sem gerð var til að hrekja Rauðu khmerana frá völdum. Sjálfur hafði Hun Sen verið liðsmaður Rauðu khmeranna þar til að hann flúði land 1977. Unglingsár. Hun Sen er sonur fátækra bóndahjóna í Kampong Cham í austurhluta Kambódíu sem liggur að landamærum Víetnam. Menntaferill Hun Sen er óljós en sennilegast lauk hann einungis fimm ára barnaskóla. Hann tók hins vegar snemma þátt í pólitískri baráttu. Hann varð félagi í Kommúnistaflokki Kampútseu (sem varð þekktara undir gælunafni Sihanouk prins á hreyfingunni, á frönsku "Khmer Rouge" - "Rauðu Khmerarnir") árið 1968. Hun Sen þótti harðsnúinn og fékk fljótlega forystustöður í hersveitum kommúnista í austurhluta Kambódíu. Hann særðist illilega nokkrum sinnum og missti meðal annars vinstra augað. Fylgismaður Pol Pot. Þegar Rauðu khmerarnir endanlega sigruðu yfir hermönnum Lon Nols og hertóku Phnom Penh 1. apríl 1975 var Hun Sen orðinn yfirmaður hersveita kommúnista í austurhluta Kambódíu. Rauðu khmerarnir höfðu þá ráðið yfir mest öllu landinu að stærstu borgunum undanteknum allt frá 1970. Með öllu er óljóst að hvaða marki Hun Sen tók þátt í þeim ofsóknum og morðum sem Rauðu khmerarnir undir forystu Pol Pots stunduðu eftir valdatökuna 1975. Hann sjálfur og stuðningsmenn hans hafa sem fæst orð um þennan tíma en andstæðingar hans haldi því fram að hann hafi tekið fullan þátt í aðgerðum stuðningsmanna Pol Pot. Hitt er vitað að Hun Sen flúði til Víetnam seint á árinu 1977. Þar var honum vel tekið og var hann sendur í pólitíska skólun til Hanoi. Ráðamaður. 30. desember 1978 réðist 110000 manna herlið Víetnama inn í Kambódíu og tókst á skömmum tíma að hrekja Rauðu khmeranna út úr Phnom Penh og ná völdum i stórum hluta landsins. Þegar Víetnamar kynntu nýja stjórn 10. janúar 1979, og um leið stofnun "Alþýðulýðveldisins Kampútsea", var Hun Sen gerður utanríkisráðherra, einungis 27 ára gamall, og hélt hann því embætti þangað til 1990. 1985 tók hann einnig við embætti forsætisráðherra og hefur gegnt því síðan að undanteknu 1992 og hluta af 1993 þegar landið var undir stjórn Sameinuðu þjóðanna. Víetnamar höfðu fjölda hermanna í Kambódíu allt fram til 1993 og höfðu í raun tögl og haldir á stjórn landsins. Það var þó ekki svo að stjórnin í Phnom Penh hafði yfirráð yfir öllu landinu. Skæruliðar Rauðu khmeranna héldu áfram skærum og höfðu yfirráð yfir Kardimommufjöllunum og allstóru svæði í vesturhluta landsins við landamæri Taílands. Árið 1982 mynduðu þeir bandalag við sveitir Sihanouk prins og hægristjórnmálamannsins og hershöfðingjans Son Sann og sameinuðust í baráttu gegn hernámi Víetnama. Vesturlönd, undir forystu Bandaríkjanna, og Kína studdu þetta bandalag og hélt það fulltrúastöðu Kambódíu í Sameinuðu þjóðanna þar til 1991. Sovétríkin og fylgiríki þeirra studdu Alþýðulýðveldið Kampútseu, meðal annars var Austur-þýska öryggislögreglan Stasi fengin til að byggja upp öryggisþjónustu í landinu og er hún enn mikilvægur valdaþáttur og tæki Hun Sen. Á árunum 1979 til 1989, á tíma Alþýðulýðveldisins, ríkti í landinu formlega flokksræði þar sem "Byltingarflokkur Kambódískrar alþýðu" (sem stofnaður var í Víetnam 1979) var eini löglegi stjórnmálaflokkurinn. Árið 1991 skipti flokkurinn um nafn og hefur heitið síðan "Alþýðuflokkur Kambódíu". Hun Sen hefur verið forystumaður flokksins allt frá 1985. Um haustið 1991 tókst að ná friðarsamningi milli allra helstu fylkinga í Kambódíu og tók þá við yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna (UNTAC) fram að kosningum 1993. Rauðu khmerarnir yfirgáfu samningana 1992 og héldu áfram allt einangraðri baráttu fram til 1997. Niðurstaða kosninganna 1993 var að flokkur stuðningsmana Sihanouk prins, FUNCINPEC, vann mikinn sigur. Þrátt fyrir það mynduðu þeir samvinnustjórn með Alþýðuflokki Kambódíu og urðu foringjar flokkanna, Hun San og Ranariddh prins (sonur Sihanouks) báðir forsætisráðherrar. Árið 1997 framkvæmdu stuðningsmenn Hun Sen valdarán í landinu og voru hundruðir stuðningsmanna og leiðtoga FUNCINPEC drepnir. Þrátt fyrir það voru kosningar á ný 1998 og voru þá þessir tveir flokkar nokkuð jafnsterkir og mynduðu stjórn á ný. En í raun hafði Alþýðuflokkurinn styrkt stöðu sína mjög með því að setja sína menn á allar valdstöður ekki síst á landsbyggðinni. Hafa þeir haldið því áfram og er nú landið í raun aftur orðið einflokksríki þó svo að aðrir flokkar séu formlega leifðir og frjálsar kosningar haldnar. Fyrir utan að vera aðalráðmaður Kambódíu er Hun Sen einnig sá alríkasti í landinu. Hann, ásamt konu sinni og börnum og nánustu samstarfsmönnum innan flokksins, hefur sölsað undir sig námur, landsvæði og aðrar eignir auk þess að njóta stöðugs straums mútufjár allstaðar að í þjóðfélaginu. Einkamál. Hun Sen kvæntist Bun Rany árið 1976 í hópvígslu skipulagðri af Rauðu Khmerunum, þau höfðu þó valið að kvænast andstætt mörgum öðrum á þessum tíma þar sem stjórnvöld völdu maka. Þau hjón eiga sex börn og er ein dóttirin ættleidd. Það vakti talsverða athygli 2007 þegar sú dóttir gerði kunnugt að hún væri lesbísk og Hun Sen gerði tilraun til að afættleiða hana. Hestfjall (Árnessýslu). Hestfjall er 371 metra hátt fjall í Grímsnesi í Árnessýslu. Það stendur við Hvítá á móts við Hraungerðishrepp og Skeið. Það er eitt af einkennisfjöllunum í miðri sýslunni. Norðan við fjallið er stöðuvatnið Hestvatn. Hestfjall er eldfjall frá ísöld. Það hefur grágrýtisþekju ofan á bólstrabergi. Hæst er fjallið að norðanverðu þar sem heita Hesteyru. Samkvæmt þjóðsögu liggja göng undir Hestfjall og í þeim felur sig skrímsli sem stundum sést úti í miðri Hvítá. Ef skrímsli þetta skríður burt úr göngum sínum fellur Hvítá um göngin og þornar þá farvegurinn fyrir neðan þau. Hestfjall (Önundarfirði). Hestfjall er 702 metra hátt fjall í botni Önundarfjarðar. Að fjallinu liggja tveir dalir; Korpudalur að norðan og Hestdalur að sunnan. Undir fjallinu er bærinn Hestur sem getið var í Gísla sögu Súrssonar (hét áður Undir Hesti). Hestfjall (Borgarfirði). Hestfjall er 221 metra hátt fjall í Andakíl og endinn á Skorradalshálsi milli Skorradals og Lundarreykjadal. Norðvesturhlíðin er mjög brött og í henni er einkennandi berggangur. Manitoba. Manitoba er eitt af fylkjum Kanada. Höfuðborg Manitoba er Winnipeg og fólksfjöldi árið 2008 var 1.207.959. Hestvatn. Horft til norðurs yfir Hestvatn og Hvítá. Hestvatn er 6 km² stórt stöðuvatn í Grímsnesi, norðan Hestfjalls. Það er allt að 60 metra djúpt og nær um 12 metra niður fyrir sjávarmál. Vatnið mun hafa myndast fyrir um 10.000 árum, þegar ísaldarjökullinn hörfaði, og eru sjávarsetlög á botni þess. Afrennsli úr Hestvatni er um Slauku, sem áður hét Hestlækur, út í Hvítá. Þegar mikið er í Hvítá getur hún runnið í vatnið svo vatnsyfirborð þess hækkar. Andakíll. Andakíll kallast landsvæðið frá Hafnarskógi að Grímsá norðan Skarðsheiðar við sunnanverðan Borgarfjörð. Láglendi Andakíls er mýrlent með bröttum fjöllum ofar. Tveir dalir liggja að Andakíl; Skorradalur og Lundarreykjadalur. Um sveitina rennur svo laxveiðiáin Andakílsá en í henni er Andakílsárvirkjun sem tekin var í notkun árið 1947. Nær Hvítá eru flæðiengjar og víða má sjá gamla sjávarbakka eftir hærri sjávarstöðu. Andakíll tilheyrir í dag Borgarbyggð en var áður sér hreppur; Andakílshreppur. Í Andakíl er þéttbýlisstaðurinn Hvanneyri. Nafnið Andakíll. Andakílsá er vatnsmikil bergvatnsá sem á upptök sín í Skorradalsvatni og fellur til sjávar við ósa Hvítár við Borgarfjarðarbrú. Kíll þýðir djúpur, lygn lækur sem líður hægt fram, en hefur einnig aukamerkingarnar síki, lón eða grasivaxin lægð með blautum jarðvegi í botni. Gajukenningin. Gajukenningin (eða gaiakenningin) er sú kenning sem heldur því fram að lífverur jarðar stjórni efnasamsetningu lofthjúpsins, steinhvolfsins og vatnshvolfsins. Nafnið á kenningunni vísar til grísku gyðjunnar Gaju (Gaiu). Kenningin kom fyrst fram í skrifum James Lovelock árið 1979 sem fékk þessa hugmynd er hann starfaði við athuganir á reikistjörnum hjá NASA. Upphaflega var þetta óvísindaleg tilgáta en í seinni tíð hefur hún verið tekin alvarleg og reynt hefur verið að sannreyna hana með tilraunum. Hagall. Hagall er rún sem samsvarar nútíma h-i. Hagall er líka nafn á galdrastafi. Kumari. Kumari er lifandi gyðja í Nepal. Stúlka úr búddista-fjölskyldu af höfuðborgarsvæðinu, sem talin er vera endurholdgun á gyðjunni Taleju, er tekin í guðatölu eftir að hafa þreytt nokkur próf. Í kringum 4-5 ára aldur þurfa stúlkurnar að þreyta próf og þar má til dæmis nefna að vera óhræddar lokaðar einar inni í herbergi með öskrandi djöflum og hausum af dauðum dýrum. Stúlkurnar bera titilinn þar til að fyrstu blæðingum þeirra kemur en nafnið „kumari“ þýðir einfaldlega „hrein mey“. Snjómaður. Snjómaðurinn ógurlegi er goðsagnakennd vera. Sögur allt frá 15. öld herma að til sé loðin vera, sem gengur upprétt í Himalayafjöllunum. Af heimamönnum er þessa vera kölluð "yeti". Fjöldinn allur af leiðangrum hefur verið farinn til að annaðhvort sanna eða afsanna tilvist hans. Enn sem komið er hefur enginn getað komið með áþreifanlegar sannanir fyrir tilvist hans en goðsögnin lifir enn góðu lífi. Katalónska Húsið á Íslandi. Katalónska húsið á Íslandi var stofnað í Reykjavík á Íslandi þann 10. júlí 2008 og heitir á katalónsku Casal Català a Islàndia. Þann 18. nóvember 2008 var félagið viðurkennt opinberlega af katalónsku héraðsstjórninni sem katalónskt félag starfrækt erlendis. Stofnun. Félagið var stofnað að frumkvæði tveggja einstaklinga; Xavier Rodríguez og Svanlaugar Rós Ásgeirsdóttur. Þau tvö skrifuðu samþykktir félagsins og leituðu að stofnmeðlimum, bæði katalónskum og öðrum áhugamönnum um Katalóníu. Og með þessu var fyrsta Katalónska félagið stofnað á Íslandi. Tilgangur. Aðal tilgangur félagsins er að kynna bæði tungumál og menningu Katalóníu á Íslandi. En frá stofnun félagsins hefur helsta markmið þess verið að Katalónar og aðrir áhugamenn um Katalóníu á Íslandi hittist og njóti katalónskrar menningar og samskipta hvert við annað. Félagar. Nú eru 19 félagar skráðir í félagið og eru það bæði Katalónar, Íslendingar og fólk frá öðrum héruðum Spánar. Katalónska húsið er opið fólki frá öllum menningarheimum, trúarbrögðum og þjóðernum. Svart púður. Brunahraði fer einkum eftir kornastærð, hlutföllum og gerð viðarkola. Reyklaust púður hefur tekið við af svartpúðri, sem drifefni fyrir skotvopn. Eldflauganammi. Eldflauganammi (enska: "rocket candy" eða "r candy") er efni sem er notað fyrir minni eldflaugar til þess að skjóta þeim á loft. Eldflauganammi er drifefni úr saltpétri, sykri, sírópi, vatni og er það soðið saman í potti í tvo klukkutíma. Evhemerismi á miðöldum. Miðalda-evhemerismi er útfærsla af klassískum evhemerisma. Þegar kristin trú varð hin ríkjandi trú á norðurlöndum fékk hin norræna kirkja að halda áfram því verki sem hófst í Rómaveldi hinu forna. Í krstinni trú eru skilin skýr á milli trúarbragðanna og iðkunar þeirra annars vegar og galdra hins vegar. Þetta eru skil sem að ekki eru til staðar í heiðni. Þessi rétttrúnaðarsýn kirkjunnar á heiðin trúarbrögð er það sem að innan rannsóknarsögunnar kallast evhemerismi. Hin miðalda kristna kirkja skýrði heiðin trúarbrögð út frá þessari kenningu. Kenningin inniheldur í raun tvær ólíkar útskýringar á heiðnum trúarbrögðum sem í þessari kristnu miðalda útgáfu hafa hér runnið saman í eina. Í fyrsta lagi er litið á guðina sem raunverulegar manneskjur. Manneskjur sem að annaðhvort sjálfar hafa gefið sig út fyrir að vera guðir í lifanda lífi og krafist þess að vera tilbeðnir sem slíkir eða þá að tilbeiðsla þeirra hefur hafist eftir dauða þeirra. Oft er talið að þetta hafi verið þekktir menn í sínu samfélgi, til dæmis kóngar eða stríðshetjur. Til tilbeiðslunar heyrði að gera styttur af þessum guðum sínum. Í öðru lagi hljóta þessar manneskjur að hafa verið í sambandi við djöfla til að öðlast þann mátt sem til krefst til að láta tilbiðja sig sem guð. Þessar tvær útskýringar á heiðnum trúarbrögðum renna saman í eitt í evhemerisma miðalda á efirfarandi hátt: Þegar manneskjan dó sem að tilbeðin var sem guð í lifnda lífi, tók djöfulinn sem hún hafði gert samning við sér bólfestu í styttunni sem að tilbeiðendur hennar höfðu gert af henni. Á þennan hátt fór fólk að tilbiðja djöfla þegar það ætlaði að tilbiðja látna forfeður eða konunga. Þetta var útskýring miðalda kirkjunnar á heiðni og vitaskuld var hún heimfærð á hina norrænu guði. Samkvæmt evhemerisma miðalda eru heiðnu guðirnir því djöflar og trúin á þá þar með villutrú. Evhemerismi. Evhemerismi er sú kenning að goðsagnir eigi sér rætur í sögulegum atburðum. Kenningin er nefnd eftir gríska rithöfundinum Evhemerosi sem var uppi seint á 4. öld f.Kr. Dæmi um evhemerisma er þegar sagt er að æsir hafi verið „menn frá Asíu". Hörgulsjúkdómur. Hörgulsjúkdómar (eða hörgulkvillar) (fræðiheiti: "avitaminosis") eru þeir sjúkdómar nefndir einu nafni sem orsakast af skorti á næringarefnum (vítamínskorti). Hörgulsjúkdómar stafa oftast af langvarandi neyslu á fæði sem inniheldur of lítið af einu eða fleiri næringarefnum. Dæmi: skyrbjúgur (C-vítamínskortur). Fyrrum voru hörgulsjúkdómar oft greindir sem smitsjúkdómar. Af skýrslum frá vanþróuðum ríkjum má ráða að tugir milljóna manna deyi ár hvert af hungri og hörgulsjúkdómum og vegna ófullnægjandi læknisþjónustu. Sprungurein. Sprungurein er hópur af litlum sprungum sem koma allar út frá sömu móðurkvikunni. Eldstöðvarkerfi. Eldstöðvakerfi er sprungugrein með gossprungum, siggengjum og sigdölum og oftast með megineldstöð um miðbikið, sem þiggur kviku frá sömu kvikuuppsprettu. Ef eldvirkni, sprungur, brotalínur, siggengi, og sigdalir á gosbeltunum eru skoðuð í samhengi kemur í ljós að þau mynda aflöngu belti sem raða sér eftir skástígu kerfi eftir gosbeltunum. Þessi aflöngu belti hafa verið nefnd sprungureinar. Í miðju sprungureina virðist virknin vera mest og hafa í mörgum þeirra hlaðist upp mikil eldfjöll. Slík eldfjöll eru nefnd megineldstöð og undir þeim eru svokölluð kvikuhólf. Askja getur myndast í kjölfar mikils sprengigoss þar sem þakið yfir kvikuhólfinu brestur og hringlaga landsig verður í megineldstöðinni. Fyrst myndast Sprungurein, síðan kvikuhólf, megineldstöð. Eldstöðvakerfi er í stuttum orðum: Í miðju sprungureina virðist virknin hafa í mörgum þeirra hlaðist upp mikil eldfjöll. Slík eldfjöll eru kölluð megineldstöð og undir þeim eru svokölluð kvikuhólf. Eldstöðvakerfið á Íslandi er talið vera eitt af því stærsta í heiminum. Aðal ástæðan fyrir því er möttulstrókurinn sem kemur upp undir Vatnajökli. Sælgæti. Sælgæti, einnig kallað nammi eða gotterí, er haft um matvöru sem neytt er sem ábætis eða millimáls oft í formi lítilla bita sem innihalda mikinn sykur. Sælgæti er oftast selt í skrautlegum umbúðum, og sem dæmi um sælgæti mætti nefna brjóstsykur, karamellur og súkkulaði. Samheiti. Sælgæti á sér nokkur samheiti á íslensku. Mætti þar til dæmis nefna þau algengustu sem eru "sætindi", "gotterí" og "nammi", en hin tvö síðarnefndu nálgast það að vera barnamál. Orðin "humall" og "kostgæti" er einnig haft um sælgæti, en eru frekar sjaldgæf. Sömuleiðis orðið "dáði", sem er bæði haft um sælgæti og góðan bita. Gamlar slettur sem notaðar voru um sælgæti voru t.d. orðin "slikkerí" og "sleng". Á Akureyri tala menn oft um sælgæti sem "bolsíur" (et. bolsía), þó oftast sé það orð haft um brjóstsykur, og er gömul dönskusletta. Á Húsavík nota menn orðið "mæra" um sælgæti (sbr. t.d. Mærudagar). "Sætmeti" er einnig haft um sætindi og sætan mat. Hiksti. Hiksti er krampi i þindinni sem veldur snöggri innöndun sem stöðvast síðan jafn snögglega við það að bilið á milli raddbandanna lokast, en það veldur einmitt hljóðinu sem fylgir þessum kvilla. Algengasta orsök hiksta er sú að fólk kann sér ekki hóf, hvort heldur í mat eða drykk. Þegar fólk borðar eða drekkur of mikið þenst maginn út og þrýstir á þindina. Ekki er vitað hvort hiksti gegni einhverju lífeðlisfræðilegu hlutverki, en margir geta sér til um að það hafi eitthvað með það að gera að fóstur fá hiksta við að gera einskonar öndunaræfingar í móðurkvið, afþví þau geta náttúrulega ekki andað að sér lofti þegar þau eru þarna í kafi í legvatni. Svo heldur þetta áfram sem óþæginlegur kvilli í fullorðnum. Lágt hlutfall af koltvíildi í blóði gerir hiksta verri, og með að halda inní sér andanum á maður að geta læknað hiksta, en þá eykst koltvíildishlutfall blóðs. Einnig er hægt að lækna hiksta með að anda að sér koltvíildi. Til eru ýmis önnur ráð við hiksta, til dæmis að kyngja þrisvar án þess að anda á milli, sem truflar hikstann með því að örva kokið, toga í vísifingurna, gleypa mintu, eða drekka ísvatn að standa á höndum eða halda niðri í sér andanum, að manni bregði eða sé bilt við. Að nudda neðri hluta vélindans með holsjá hefur stundum hjálpað til að lækna hiksta. Í sumum tilvikum hefur verið gripið til þess að skadda þindartaugina, en ekki er mælt með því. Í neyð hefur verið gripið til lyfja. Til eru mörg húsráð um hvernig lækna á hiksta, en ekki hefur nein verið sannreynd ennþá. Oftast varir hiksti aðeins í stuttann tíma, en það eru þó undantekningar á því. Charles Osbourne, sem á heimsmet fyrir að vera lengst með hiksta, fékk hiksta árið 1922 og hikstaði stanslaust í meira en 60 ár. Hann hikstaði 40 sinnum á mínútu, en það minnkaði síðan í 20 sinnum. Hann átti erfitt með svefn og þjáðist af blóðnösum og uppköstum. Hann var tvígiftur og átti 8 börn. Hann dó um ári eftir að hann hætti að hiksta. Einokun. Einokun (alþjóðlega orðið "monopoly" er dregið af grísku orðunum "monos " sem þýðir "einn" og "polein" sem þýðir "að selja") er hagfræðilegt hugtak sem vísar til þess þegar tiltekinn einstaklingur eða fyrirtæki hefur nægilegt vald yfir tiltekinni vöru eða þjónustu á markaði til þess að geta ákvarðað að miklu leyti aðgengi annarra að henni. Þar sem einokun fyrirfinnst er takmörkuð eða engin samkeppni, það fyrirtæki sem er í einokunarstöðu nær því stærri markaðshlutdeild en ef um fullkominn markað væri að ræða. Tíminn. Tíminn var íslenskt dagblað, stofnað 1917, sem þjónaði lengi vel sem málgagn Framsóknarflokksins. Það var lagt niður árið 1996. Hugmyndin af útgáfu blaðsins Tímans kom upp árið 1916 þegar Framsóknarflokkurinn var stofnaður. Fyrsta blaðið kom út þann 17. mars árið 1917 og var blaðinu miðað að bændastéttinni. Hópurinn sem stóð að stofnun blaðsins var frekar sundurleitur um sum atriði um samræmi milli hópsins og stefnu Framsóknarflokksins. Þrátt fyrir þessa sundurleytni tengdist þessi 20 manna stofnendahópur tengslum í gegnum ungmennafélögin, samvinnuhreyfinguna og áhuga þeirra á landbúnaðarmálum. Upphaflega kom tíminn vikulega út og árið 1930 voru gefin út tvö blöð á viku. Fyrsti ritstjóri Tímans var Guðbrandur Magnússon en hann gegndi því starfi aðeins í nokkra mánuði en þá tók Tryggvi Þórhallsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, við og starfaði þar til hann varð forsætisráðherra árið 1927. Árið 1938 var Tíminn gerður að almennilegu dagblaði og miklar breytingar gerðar á blaðinu. Þær áttu upphaf sitt þegar Þórarinn Þórarinsson var ráðinn ritstjóri og gegndi hann því starfi í 46 ár. Nouriel Roubini. Nouriel Roubini (fæddur 29. mars 1959) er hagfræðiprófessor við New York University. Hann lauk doktorsprófi í alþjóðahagfræði frá Harvard og kenndi við Yale og vann um tíma hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), Alþjóðabankanum, Seðlabanka Bandaríkjanna og Seðlabanka Ísrael. Roubini er þekktur fyrir að hafa sagt fyrir um að spákaupmennska myndi sökkva alþjóðahagkerfinu. Hann tilkynnti AGS í september 2006 að kreppa væri í aðsigi, húsnæðismarkaður myndi hrynja, áfall yrði á markaði með olíu, traust neytenda myndi minnka og djúp kreppa myndi skella á. Hann spáði því að eigendur húseigna myndu ekki geta staðið í skilum og það myndi valda því að trilljónir dollara sem bundnar væru í húsnæðislánum myndu falla og þetta myndi stöðva fjármálakerfi heimsins. Lýsing hans á núverandi kreppu hefur þótt nákvæm og er Roubini nú eftirsóttur ráðgjafi í hagfræði. Nouriel Roubini fæddist í Istanbul, Tyrklandi þann 29. mars árið 1959. Foreldrar hans eru gyðingar frá Íran. Hann fluttist til Teheran í Íran þegar hann var tveggja ára gamall. Hann bjó síðar í Ísrael og í Ítalíu og stundaði þar nám en flutti til Bandaríkjanna þegar hann fór í doktorsnám við Harvard háskóla. Hann er núna bandarískur ríkisborgari og talar ensku, persnesku, ítölsku og hebresku. Hann er ókvæntur. Tenglar. Roubini, Nouriel Hollywood (skemmtistaður). Hollywood var skemmtistaður að Ármúla 5 í Reykjavík sem sérhæfði sig í diskótónlist, tískusýningum og almennum glamúr. Staðurinn var opnaður 2. mars 1978 og lauk starfsemi sinni árið 1987. Áður en Hollywood opnaði var þar staður sem hét "Sesar", en Ólafur Laufdal tók við rekstri hans, breytti staðnum og nafninu og rak hann með konu sinni Kristínu Ketilsdóttur. Þau seldu svo reksturinn árið 1987. Opið var alla daga vikunnar, nema á miðvikudögum því á þeim degi var bannað að selja og veita áfengi á Íslandi. Rúmu ári eftir opnun Hollywood var önnur hæð byggð ofan á skemmtistaðinn. Við það stækkaði hann um helming og barirnir urðu átta. Inni á staðnum var auk þess sjoppa þar sem selt var sælgæti, sokkabuxur, snyrtivörur og samlokur og annað smálegt. Einnig var hægt að kaupa þar ísmola við lokun á kvöldin og hafa með sér í heimapartíin. Helstu plötusnúðar staðarins voru þeir: Leópold Sveinsson, Ásgeir Tómasson, Gísli Sveinn Loftsson (Áslákur), Halldór Árni Sveinsson og Daddi dídjei. Árið 1985 stóð til að breyta húsi Vörumarkaðarins í risavaxið Hollywood, en úr því varð ekki. Hollywood í dægurlagatextum. „"Og svo frétti ég af keppninni í Hollywood / Þar sem bíll af Datsun-gerð í veði var / Svo ég skellti mér í chiffonkjól, batt hár í hnút / og viti menn ég sigur úr býtum bar."“ Í lagi Bítlavinafélagsins, "Þrisvar í viku", segir frá tvítuga töffaranum Auðbirni sem „"...fer í ljós þrisvar í viku og mætir reglulega í líkamsrækt. Hann fer í Hollywood um helgar með mynd af bílnum í vasanum."“ Á plötunni "Ísland" syngur Spilverk þjóðanna um hippann sem „"forðum í Tjarnarbúð fríkaði út"“ en „"er nú fastagestur í Hollywood'", mænir á meyjar og vídeó og dreymir um Alfa Rómeó"“. Borgarahreyfingin. Borgarahreyfingin – þjóðin á þing er stjórnmálahreyfing sem var stofnuð 2009 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi og bauð fram til Alþingiskosninganna 2009. Skoðanakannanir sýndu jafnt og þétt vaxandi fylgi við hreyfinguna frá því að framboðið var fyrst tilkynnt til fjölmiðla, þann 23. febrúar 2009 og stóð það í 6,2% síðustu daga fyrir kosningar. Í kosningunum náði Borgarahreyfingin fjórum þingsætum, en hefur ekkert í dag. Borgarahreyfingin varð til við samruna Samstöðu-hópsins og hópa sem verið hafa að starfa að lýðræðismálum í Borgartúni 3. Framboðið hlaut nafnið Borgarahreyfingin og tengt því er unnið mikið grasrótarstarf. Á vef Borgarahreyfingarinnar stendur að hún „vilji hreinsa út spillingu, koma á virkara lýðræði og skýrri þrískiptingu valdsins“. Borgarahreyfingin styður persónukjör og hefur lýst því yfir að hreyfingin verði lögð niður eftir að markmiðum hennar hefur verið náð. Meðal annara stefnumála er andstaða við verðtryggð lán, þjóðaratkvæðagreiðslur óski 7% þjóðarinnar þess og stjórnlagaþing haustið 2009. Merki Borgarahreyfingarinnar — appelsínugul slaufa — vísar til appelsínugula borðans sem mótmælendur sem mótmæltu friðsamlega báru. Bréfabindi. Bréfabindi er mappa sem er notuð til að geyma gatablöð (til dæmis skjöl og gögn) sem eru haldin inn með þvingum sem renna í gegnum götin. Þvingur eru yfirleitt með fjöðrum sem eru hringlaga í lögun. Þvingurnar eru tvær, þrjár eða fjórar og blað er gatað með gatara tveimur eða fleirum götum með 80 millimetra bili og þvingurnar þurfa því að passa í þau bil. Bréfabindi eru tiltæk í mörgum stöðluðum pappírsstærðum og rúmtökum. Saga. Bréfabindið var fundið upp í Þýskalandi árið 1886 af Friedrich Soennecken og líka í Svíþjóð, af sænskum manni árið 1889. Bréfabindi (hér eftir talað um sem: „möppur“) eru stundum úr plasti en einnig eru til möppur úr þykkum pappír og stáli eða öðrum málmblöndum en eru einnig til úr frumefnum, eins og til að mynda: áli. Engin takmörk eru fyrir því úr hverju möppur eru gerðar. Framleiðsla. Hin venjulega mappa er búin til úr allt að 19 mismundandi pörtum. Áður fyrr þurfi möppugerðamaður að setja saman möppur í höndunum sem var oft tímafrekt en nú til dags eru oftast notaðar möppuvinnuvélar til þess og getur möppuverksmiðja framleitt margar möppur í takt við eftirspurn. Almennt notagildi. Möppur má oft finna í hillum, sem eru á skrifstofum þar sem starfsmenn þurfa að geta fundið gögnin sín hratt og örugglega. Oftar en ekki eru þannig möppur merktar með miða, sem er límdur á kjöl möppunnar, og á hann er skrifað ártal eða eitthvað annað sem auðkennir þessa möppu frá annarri möppu eða öðrum möppum svo möppueigandinn viti nákvæmlega hvað er í þessari möppu þegar hann ber hana augum. Stundum er líka svæði á kili möppunnar sem ætlaður er til merkingar, til dæmis á samanbrjótannlegum pappamöppum, og þá þarf ekki miðann en á sumum möppum er líka plastræma á kili hennar þar sem möppueigandi smeygir pappírsræmu sem að er búið að merkja á tilhlýðilegan hátt og það má líka skipta miðanum út fyrir annan miða ef að eigandinn vill breyta virkni möppunnar. Gögn eru í auknum mæli geymd í tölvumöppum, þ.e. stafrænum gögnum, sem að hægt er að prenta út svo að hægt sé að kynna sér þau og síðan má koma þeim fyrir í hefðbundinni merktri möppu. Frægar möppur. Josef Fritzl notaði möppu við réttarhöldin yfir sér til að fela sig fyrir fólki.. Stærsta mappa heims var búin til í Las Vegas, Bandaríkjunum, af Impact Enterprises. Sú mappa er 113 cm á breidd x 155 cm á hæð og er í Heimsmetabók Guinness. Möppur í dægurmenningu. Hljómsveitin Bandaríska Bedford Drive samdi lag um möppur sem heitir 3 Ring Binder Circus en í því lagi er mappan látin merkja möppu kærleikans, sem er ást tveggja einstaklinga í sambandi, tilvísun í möppur í textanum útlegst á íslensku: Þú og ég erum í þriggja þvinga möppu sirkús.. Penni. Penni (frá latínu "pinna", fjöður) er skriffæri sem er notað til að láta blek á yfirborð, sem er yfirleitt pappír. Það eru margar tegundir penna til, svo sem kúlupenni, lindarpenni, áherslupenni og merkipenni. Í gamla daga, áður en nútímapennar voru fundnir upp, voru fjaðrir notaðar í stað penna. Saga penna er gömul. Fornegyptar notuðu reyrstafi til að skrifa á papýrusblöð. Fyrsti lindarpenninn með blekíláti var fundinn upp á 10. öldinni, en nútímalindapenninn var fundin upp árið 1827 af frönskum námsmanni. Árið 1938 byrjaði Ungverjinn László Bíró að vinna að kúlupenna sem notar litla kúlu til að flytja blekið. Að lokum var merkipenni fundinn upp á sjöunda áratugnum í Japan. Đồng Hới. Kort sem sýnir staðsetningu sveitarfélagsins Đồng Hới er sveitarfélag í sýslunni Quang Binh í héraðinu Bac Trung Bo í Víetnam. Íbúar voru 103.988 árið 2006. Donghoiflugvöllur er 6 kílómetrum fyrir norðan sveitarfélagið. Hanastélsáhrif. Hanastélsáhrif eða hanastélshrif er hæfileikinn til að einbeita sér að ákveðnu hljóðáreiti þó að mörg önnur áreiti séu einnig til staðar. Það að geta hlustað á einn viðmælanda þó fram fari mörg önnur samtöl allt um kring og önnur bakgrunnshljóð trufli. Áhrif þessi eru hluti þeirra eiginleika sem heyrnarkerfið býr yfir og gerir manninum kleift að tala saman á hávaðasömum stöðum. Hanastélsáhrifin geta komið fram, bæði þegar maðurinn er að einbeita sér að ákveðnu hljóði í umhverfinu og þegar ákveðið áreiti fangar athygli hans skyndilega. Til dæmis, þegar maður er að tala við kunningja í fjölmennu boði, getur hann samt sem áður heyrt það sem kunninginn segir, jafnvel þótt hávaðinn sé mikill. Þá hunsar hann önnur áreiti, þ.e. umhverfishljóð og það sem fólkið í kringum okkur er að segja. Ef einhver síðan kallar nafnið hans þá tekur hann strax eftir því, þrátt fyrir að hafa ekki verið að hlusta á neitt nema kunningjann. Athyglin gerir manni kleift að einblína á það sem skiptir máli þá stundina en hunsa það sem minna máli skiptir. Um er að ræða "heyrnar-útgáfu" af forgrunns-bakgrunns fyrirbærinu þar sem "forgrunnur" merkir hljóðið sem athyglin beinist að en "bakgrunnur" merkir öll önnur hljóð (samtöl annarra, tónlist o.fl.) Tilraunir og kenningarlegar nálganir. Colin Cherry var fyrstur til að lýsa áhrifunum og gefa þeim nafn árið 1953. Stærsta hluta fyrstu rannsókna á þessu sviði má rekja til vandamála í flugumferðarstjórnun á fyrri hluta sjötta áratugs síðustu aldar. Á þeim tíma fengu flugumferðarstjórar skilaboð frá flugmönnum í gegnum hátalara í flugturninum. Stundum töluðu margir flugmenn í einu og raddir þeirra blönduðust saman í einum hátalara og gerði flugumferðarstjórunum mjög erfitt fyrir. Cherry (1953) gerði skynjunartilraun þar sem þátttakendur voru beðnir um að hlusta á tvö ólík skilaboð úr einum hátalara, og á sama tíma áttu þau að reyna að aðskilja þau. Út frá athugunum hans getum við séð að hæfileikinn til að aðgreina hljóð frá bakgrunnshljóði er byggður á einkennum hljóðanna, svo sem kyni þess sem talar (röddin sem sagði skilaboðin), úr hvaða átt hljóðin koma, tónhæð og talhraða. Á sjötta áratug síðustu aldar framkvæmdi Broadbent tilraun með tvíhlustarsláttur (þátttakendur heyra tvö ólík hljóðáreiti sem birt eru samtímis í sitthvort eyrað): Þátttakendur voru beðnir um að hlusta á ólík taláreiti sem birt voru í sitthvort eyrað samtímis (með því að nota heyrnartól). Út frá niðurstöðum þessarar rannsóknar taldi hann að hægt væri að hugsa um huga okkar sem talstöð sem taki við mörgum rásum í einu. Það sé því nokkurs konar hljóð sía sem velur úr hvaða „rásir“ við veitum athygli af öllum þeim hljóðum sem við heyrum. Broadbent kom með þá tilgátu að sían sjálf væri á milli skynjunarinnar og vinnsluminni (sem hann kallaði þá skammtíma geymslu) og hún sé til staðar til að koma í veg fyrir ofhleðslu á minni. kenning kallast því Síukenning Broadbent. Einhver gögn eru til sem styðja kenningu hans, þó hún hafi verið gagnrýnd af sumum (Norman o.fl). Til eru sönnunargögn sem benda til þess að einkenni áreitisins sé ekki það eina sem skipti máli. Áreiti á borð við það þegar nafn einstaklings er kallað fara í gegnum síuna og við veitum því athygli. Þrátt fyrir að umhverfishljóðin í boðinu fari almennt fram hjá okkur þegar við erum í samtali við einhverja einstaklinga og veitum því einu athygli sem þeir segja, þá heyrum við samt ef nafnið okkar er kallað annars staðar í salnum. Treisman (1960) fann sannanir sem bentu til þess að sían hækki þröskuld þeirra áreita sem við tökum ekki eftir og áreitið komist í gegn ef það er nógu mikilvægt eða hefur merkingu fyrir okkur. Deutsch og Deutsch (1963) komu með aðra útgáfu af Síukenningu Broadbent og taldi að ástæðan fyrir því að áreitið kæmist í gegn væri mikilvægi þess að við svöruðum áreitinu. Þetta fyrirbæri er enn mikið rannsakað, í mönnum sem og í "computer implementations". Taugavirkni mannsheilans er ekki alveg þekkt enn þá. Tungnahryggsjökull. Tungnahryggsjökull er stærsti jökull á Tröllaskaga og situr hátt innst í afdölum Kolbeinsdals. Hann myndar ekki samfellda hjarnbreiðu því hann er klofinn í tvennt af Tungnahrygg en hryggurinn skilur Austur- og Vesturdal Kolbeinsdals að. Vestari jökullinn er 6,3 km2 og tengist Barkárdalsjökli í Hólamannaskarði. Eystri jökullinn er rúmlega 4,8 km2 og nær skækill af honum suður yfir skörðin til Barkárdals. Upp af jöklinum gnæfa háir hnjúkar 1300-1400 m háir (ef farið er eftir Herforingjaráðskortunum en nokkru hærri ef farið er eftir AMS og DMA kortunum). Upp af jöklinum að vestan rís Múrinn mikli, samfelldur klettaveggur undir efstu brúnum margra kílómetra langur. Fjallvegir. Um Tungnahryggsjökul eru gamlir fjallvegir sem farnir hafa verið frá aldaöðli milli byggða. Þetta eru annarsvegar Hólamannavegur eða Hólamannaskarð og hins vegar Tungnahryggsleið. Báðar leiðir hefjast við Baugasel í Barkárdal og enda á Hólum í Hjaltadal. Ef farinn er Hólamannavegur er farið upp úr dalbotni Barkárdals og upp á Barkárdalsjökul. Þaðan er haldið um Hólamannaskarð. Þar tengist Barkárdalsjökull Tugnahryggsjökli vestari. Gengið er áfram á jökli undir dökkum hamraveggnum Múrsins og farið niður í botn Víðinessdals. Leiðin er auðrötuð því klettaveggurinn varðar veginn. Hún er skemmri en aðrir fjallvegir úr Hörgárdal til Hóla en torfærari og lengri á háfjöllum og talin ófær hestum. Gæta þarf að sér gagnvart jökulsprungum. Fyrr á tímum var þessi leið tíðfarin. Tungnahryggsleið (stundum nefnd Tungnahryggsjökull) liggur frá Baugaseli í Barkárdal inn undir dalbotn. Þar er mjór hryggur, Tungnahryggur, sem liggur upp norðurhlíð dalsins. Um hann brött en góð gönguleið. Farið er upp í skarðið austan við Eiríkshnjúk. Þar er komið upp á jökulinn sjálfan. Síðan er gengið eftir jöklinum niður með Leiðarhnjúkum og niður í Kolbeinsdal. Þessi leið var jafnan heldur fáfarin. Tungnahryggsskáli. Á Tungnahryggsjökli er Tungnahryggsskáli. Hann var reistur 1982 og stendur vestan í Tungnahrygg, milli austur- og vesturjökulsins. Hann er í um 1200 m y.s. og standa ekki aðrir skálar hærra nema þeir sem Jöklarannsóknafélag Íslands hefur byggt á Vatnajökli og Langjökli. Skálinn er góður viðkomustaður fyrir þá sem fara Hólamannaveg eða Tungnahryggsleið enda er hann miðja vegu á milli þeirra á jöklinum. Hann er einnig vinsæll áningarstaður vélsleðamanna. Sagan. Tungnahryggsjökull er ekki nefndur í fornritum. Hans er fyrst getið í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar en þar er sagt að hann sé oft farinn milli sveita í Skagafirði og Eyjafirði. Nudd. Nudd er það að nudda líkamann til heilsubótar, og er til dæmis lækningaraðferð við gigt, streitu, gegn bakeymslum eða til flýta lækningu íþróttameiðsla. Kambeðla. Kambeðla eða "Stegosaurus" var risaeðla sem uppi var á síðari hluta Júratímabilsins, fyrir um 145-150 milljónum ára. Kambeðlan hafði plötur á baki sem mynduðu tvær raðir af kömbum og er nafnið dregið af því. Ekki er fullvíst hvaða tilgangi kambarnir gegndu en líklegast er talið að þeir hafi annars vegar verið varnartæki og hins vegar hafi eðlan notað þá til að tempra líkamshita sinn. Á halanum hafði hún fjóra hvassa gadda sem hún gat notað sér til varnar með því að slá halanum til. Kambeðlan var stórvaxin, gat orðið allt að 9 metrar á lengd, 4-5 metrar á hæð og um 4,5 tonn á þyngd. Heilabú hennar var hins vegar mjög lítið; heilinn var á stærð við valhnetu, 3 sentímetrar á lengd og um 75 grömm. Kambeðlan var jurtaæta og hefur líklega helst lifað á burknum, köngulpálmum og mosa. Kambeðlan var útbreidd í Norður-Ameríku en menjar um hana hafa einnig fundist í Evrópu. Eygló Harðardóttir (stjórnmálamaður). Eygló Þóra Harðardóttir (fædd 12. desember 1972 í Reykjavík) er félagsmálaráðherra. Eygló tók sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins þegar Guðni Ágústsson fyrrverandi formaður flokksins sagði af sér þingmennsku. Á flokksþingi Framsóknarflokksins 16. – 18. janúar 2009 var Eygló kjörin ritari flokksins og endurkjörin á flokksþingi 2011. Eygló skipaði annað sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 2009 og var 7. þingmaður kjördæmisins. Í Alþingiskosningunum 2013 var hún leiðtogi Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi og er 2. þingmaður kjördæmisins. Menntun. Eygló útskrifaðist úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1992. Hún lauk Fil.kand prófi í listasögu frá Stokkhólmsháskóla árið 2000 og stundaði framhaldsnám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands frá 2007 Þingstörf. Eygló hefur setið á Alþingi fyrir Suðurkjördæmi frá nóvember 2008. Hún tók sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins þegar Guðni Ágústsson fyrrverandi formaður flokksins sagði af sér þingmennsku. Fyrir Alþingiskosningarnar 2009 skipaði hún annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og er 7. þingmaður kjördæmisins. Eygló sat í heilbrigðisnefnd, iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd Alþingis árin 2008-2009. Hún sat í menntamálanefnd og viðskiptanefnd árin 2009-2011 og allsherjar- og menntamálanefnd árið 2011. Á árunum 2009-2010 sat hún í þingmannefnd til að fjalla um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Eygló á nú sæti í velferðarnefnd og er varamaður í efnhags- og viðskiptanefnd og allsherjar- og menntamálanefnd Eygló var formaður verðtrygginganefndar efnahags- og viðskiptaráðherra, en nefndin hafði það hlutverk að leita leiða til að draga úr vægi verðtryggingar. Einkalíf. Eiginmaður Eyglóar er Sigurður E. Vilhelmsson. Þau eiga tvær dætur og búa í Vestmannaeyjum. John Beddington. John Beddington (fæddur 1946) er vísindalegur ráðgjafi ríkisstjórnar Bretlands og prófessor í hagnýtri líffræðitölfræði við Imperial College í London. Hann lauk doktorsprófi frá University of Edinburgh árið 1973. Hann er sérfræðingur í hagfræði og líffræði sem tengjast sjálfbærri þróun og endurnýjanlegum auðlindum m.a. hvað varðar fiskveiðistjórnun. Dögg Pálsdóttir. Dögg Pálsdóttir (fædd í Reykjavík 2. ágúst 1956) er sjálfstætt starfandi lögmaður og hefur frá Alþingiskosningum árið 2007 verið fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður. Hún tók tvívegis sæti á Alþingi veturinn 2007 – 2008. Hún lenti í 6 sæti í prófkjörinu árið 2009, Reykjavíkurkjördæmi suður. Fjárfestingafélagið "Insolidum", sem var í eigu Daggar og sonar hennar, Páls Ágústs Ólafssonar, varð gjaldþrota og dæmt í Hérðasdómi og hæstarétti til að greiða Saga Capital tæpar 300 miljónir króna. Ólafur Þór Hauksson. Ólafur Þór Hauksson (10. mars 1964) er sýslumaður á Akranesi og var skipaður í embætti sérstaks saksóknara í kjölfar Bankahrunsins 2008. Störf Ólafs sem sérstakur saksóknari. Þann 13. janúar 2009 réð Björn Bjarnason, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, að höfðu samráði við fulltrúa allra þingflokka í allsherjarnefnd Alþingis, Ólaf sem sérstakan saksóknara í kjölfar bankahrunsins 2008. Ólafur mun veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti sem rannsaka á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar bankahrunsins, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn. ISO 216. ISO 216 er alþjóðlegur staðall fyrir pappírsstærðir sem er í notkun í flestum löndum heims í dag. Hann er staðall sem skilgreinir A4-pappírsstærðin sem er almennt tiltæk. Staðallinn er grundvallaður á þýska DIN 476-staðlinum frá 1922. ISO 216 er með þremur sniðhlutföllum: A, B og C (C er staðall fyrir umslög). A-röð. formula_1 A0 hefur flatarmál af 1 m². Stærðin sem er oftar notuð er A4 (210 × 297 mm). A4 er 6mm tæpari og 18 mm lengri en „Letter“ (216 × 279 mm) pappírsstærðin sem er notuð í Bandaríkjunum. Mengun. Reykháfar gefa frá sér mengun. Mengun er það þegar aðskotaefni komast út í umhverfið þar sem þeir geta valdið óstöðugleika, röskun, skaða og óþægindi í vistkerfinu. Mengun getur verið kemískt efni eða orka eins og hávaði, hiti eða ljós. Mengunarvaldar geta komið fyrir náttúrulega en þeir kallast aðskotaefni þegar þeir eru meira en náttúrulegt magn. Menguðustu borgirnar eru í Aserbaídsjan, Indlandi, Kína, Perú, Rússlandi, Sambíu og Úkraínu. Borgin Linfen í Kína er talin mengaðast borg í heimi. Vændi. Vændi nefnast þau viðskipti þegar einhver leyfir öðrum einstaklingi að eiga við sig kynmök gegn gjaldi. Vændi er einnig haft um skipulagða atvinnustarfsemi þar sem "melludólgur", "hórumangari" eða "pútnamangari" lifa á því að selja aðgang að líkama skjólstæðinga sinna, og veita þeim einhverskonar vernd og/eða húsnæði í staðinn. Kvenkyns hórumangarar ganga venjulega undir nöfnum eins og "hórumamma" eða "mellumamma" og stundum líka "flyðrumóðir". Þær konur sem stunda vændi eru kallaðar ýmist "vændiskonur", "hórur", "mellur", "skækjur" eða "portkonur" o.s.frv., og karlmaður sem selur sig konum kallast "gígalói" eða "karlhóra". "Hommaknapi" er karlmaður sem selur sig öðrum karlmönnum. Íslenskir feministar, þ.á m. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, alþingismaður, vilja „segja mansali stríð á hendur“ með því að banna kaup á vændi með lögum, þó bein tengsl þeirra tveggja sé ekki með öllu skýr.. Viku fyrir kosningar 2009 var hegningarlögum breytt, þ.a. kaup á vændi verða framvegis resfiverð. Þjóðarblóm. Þjóðarblóm er blómtegund sem þjóð hefur annaðhvort valið sér sem einkennisblóm þjóðar sinnar eða hefur orðið einkennistákn þjóðar með ólíkum leiðum, t.d. sem upphafleg prýði á skjaldarmerkjum. Sjór. Sjór er lítið haf eða hluti hafs sem mætir landi. Ekki er til nákvæm skilgreining og stundum ræður málvenja því hvort talað er um haf eða sjó. Til dæmis er talað um Tyrrenahaf og Jónahaf en Norðursjó enda þótt Norðursjór sé stærri en Jónahaf og Tyrrenahaf. Einnig eru til dæmi um stöðuvötn sem heita höf: Kaspíahaf og Dauðahaf sem dæmi. Hornafræði. Hornafræði er svið innan flatarmálsfræði og stærðfræðinnar sem fjallar um þríhyrninga, einkum rétthyrnda þríhyrninga. Hornafræðin fjallar um tengslin milli hliða og horna þríhyrninga. Svín (ættkvísl). Svín eru ættkvísl klaufdýra innan ættar svína. Úlfaldar. Úlfaldar eru ættkvísl innan úlfaldaættar. Drómedari ("camelus dromedarius") er tegund úlfalda með einn hnúð á bakinu en kameldýr ("camelus bactrianus") eru tegund úlfalda sem hefur tvo hnúða á bakinu. Náttúruleg heimkynni þeirra eru í eyðimörkum Vestur-Asíu og Mið- og Austur-Asíu tilsvarslega. Úlfaldar verða að jafnaði 40-50 ára gamlir. Fullvaxinn úlfaldi getur verið allt að 1,85 m á hæð á herðakamb en við hnúðinn getur hann verið allt að 2,15 m á hæð. Hnúðurinn getur verið um 75 cm hár. Úlfaldar geta náð alt að 65 km/klst hraða á spretti en hlaupið lengri vegalengdir á 40 km/klst hraða. Jón Nordal. Jón Nordal (fæddur 6. mars 1926) er íslenskt tónskáld og píanóleikari. Jón er sonur hjónanna Ólafar og Sigurðar Nordals. Hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík, m.a. undir handleiðslu Árna Kristjánssonar píanóleikara og Jóns Þórarinssonar tónskálds, sem áður var nemdandi og aðstoðarmaður Paul Hindemiths; útskrifaðist sem píanóleikari árið 1948 og ári síðar í tónsmíðum. Þaðan lá leiðin til Zurich, þar sem hann stundaði nám á árunum milli 1949 og 1951 hjá þeim Willy Burkhard í tónsmíðum og Walter Frey í píanóleik. Hann dvaldi í útlöndum til ársins 1957, í Kaupmannahöfn, París og Róm og sótti sumarnámskeið í nútímatónlist í Darmstadt þar sem hann hitti maðal annars helstut framúrstenfmenn síns tíma, svo sem Stockhausen, Nono, Maderna og Ligeti og varð auk. þess fyirr miklum áhrifum frá tónlist Antons Weberns. Þegar hann var kominn heim hóf hann störf hjá sínum gamla skóla sem kennari og varð skólastjóri árið 1959. Jón Nordal var einn af stofnendum Musica Nova og fyrsti formaður þess. Jón vakti fyrst athygli á sér sem tónskáld með fiðluverkinu „Systurnar í Garðshorni“, sem flutt var á listamannaþinginu 1945. Síðan með hljómsveitarverkinu „Concerto grosso“ (1950). Ennfremur með konsert fyrir píanó og hljómsveit, sem flutt var í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu 10. desember 1957, og lék þá höfundurinn sjálfur píanóhlutverkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem Wilhelm Schleuning, ríkishljómsveitarstjóri í Dresden stjórnaði sem gestur. Píanókonsertinn er frábrugðinn píanókonsertum í klassískum stíl að því leyti, að mjög er dregið úr forustuhlutverki einleikshljóðfærisins. Konsertinn er í einum þætti og er veigamikið tónverk. Af öðrum tónsmíðum eftir hann, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt, er „Sinfonietta seriosa“ (Bjarkamál), ennfremur konsert fyrir píanó og hljómsveit í einum kafla (Brotaspil) og Adagio fyrir flautur, hörpu og strengjasveit. Karlakórlög eftir Jón, sem „Fóstbræður“ hafa sungið, hafa vakið verðskuldaða athygli. Í stuttu máli, þá hefur Jón samið hljómsveitarverk, kammermúsíkverk, einleiksverk fyrir píanó, fiðlu, karlakórlög og einsöngslög. Sem tónskáld er hann sjálfstæður og sérkennilegur, er í snertingu við þær hræringar sem eru í nútímanum og hefur fullkomið vald á tónsmíðatækni. Jón Nordal er eitt eftirtektarverðasta tónskáldið af hinni yngri kynslóð. Jón hefur komið opinberlega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í verkum eftir sjálfan sig og önnur tónskáld. Páll Hreinsson. Páll Hreinsson (fæddur 20. febrúar 1963) er hæstaréttardómari og var skipaður í rannsóknarnefnd um bankahrunið í desember 2008. Þá þegar hafði Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, verið skipaður í nefndina en auk þeirra tveggja er Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum í nefndinni. Tryggvi Gunnarsson (umboðsmaður Alþingis). Tryggvi Gunnarsson (fæddur 10. júní 1955) er umboðsmaður Alþingis og var skipaður í nefnd um bankahrunið árið 2008. Sigríður Benediktsdóttir. Sigríður Benediktsdóttir (fædd 26. apríl 1972) er kennari og aðstoðarmaður deildarforseta ("associate chair") við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Hún var skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið árið 2008. Auk hennar eru þeir Páll Hreinsson, hæstaréttadómari og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis í nefndinni. Sigríður lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla árið 2005. Tristan da Cunha. Tristan da Cunha er lítill eldvirkur eyjaklasi í suðurhluta Atlantshafsins. Eyjarnar eru afskekktasti eyjaklasi í heimi þar sem búið er að staðaldri, og stundum nefndar: „einmanalegasta eyja í heimi“ og þá átt við stærstu eyjuna sem er sú eina sem er í byggð. Tristan da Cunha er í 2816 km frá Suður Afríku og 3360 km frá Suður-Ameríku. Eyjarnar lúta breskum lögum og eru í stjórnsýslusambandi við Sankti Helenu sem er hjálenda Bretlands og er staðsett 2430 km til norðurs. Eyjarnar skiptast í grófum dráttum í fjórar eyjar: "Tristan da Cunha" sem er 98 km², auk nokkurra óbyggðra eyja: Eyjan ókleifa ("Inaccessible Island") og Næturgalaeyjarnar ("Nightingale Islands"). Hin litla Gough-eyja ("Gough Island"), sem er 91 km², og er staðsett 395 km suðuaustur af megineyjunni, telst einnig til eyjaklasans. Eyjarnar heita eftir portugölskum sjóliðsforingja, sem fann þær árið 1506. Höfuðborg Tristan da Cunha nefnist Edinborg sjö heimshafa ("Edinburgh of the Seven Seas"), en sem heimamenn nefna einfaldlega "The Settlement" („Nýlendan“). Eldgos og brottflutningur. Í október 1961 gaus eldfjallið á Tristan da Cunha með þeim afleiðingum að eyjarskeggjar, alls 284 talsins, urðu að yfirgefa eyjuna og voru fluttir til Bretlands. Hið konunglega breska vísindafélag komst að þeirri niðurstöðu í lok goss, eftir rækilega athugun, að eyjan væri eftirleiðis óbyggileg. Eftir að hafa dvalist í Englandi í 18 mánuði efndu íbúarnir til kosninga og ákváðu 148 gegn 5 að snúa aftur til Tristan da Cunha. Hinir 5 sem höfðu verið á móti því að snúa aftur sneru þó brátt aftur líka og aðeins sjö ungar stúlkur í hópnum fundu sér maka og sneru aldrei aftur. Kangxi. Kangxi (kínverska: 康熙帝; pinyin: "Kāngxīdì"; Wade-Giles: "K'ang-hsi-ti"; mansjúríska: "Enkh Amgalan Khaan", 4. maí, 1654 – 20. desember, 1722) var þriðji keisari Kingveldisins og annar í röð þeirra sem ríkti yfir hinu sögulega Kína. Hann ríkti í 61 ár og er þar með sá keisari Kína sem ríkt hefur lengst og einn af þaulsætnustu þjóðarleiðtogum sögunnar. Kangxi tók við völdum aðeins sjö ára gamall og framan af var stjórnin í höndum fjögurra fjárhaldsmanna og keisaraekkjunnar Xiaozhuang. Ríkisár Kangxis einkenndust af friði að mestu eftir áratugalangar borgarastyrjaldir. Hann vann sigur á Lénsveldunum þremur, útlagastjórn sjóræningjans Zheng Jing á Tævan og Rússaveldi í norðvestri þar sem Kína stækkaði landamæri sín svo þau náðu yfir það sem í dag nefnist Mongólía. Shunzhi. Shunzhi (kínverska: 順治帝; pinyin: "Shùnzhìdì"; mongólska: "Eyebeer Zasagch Khaan", 15. mars, 1638 – 5. febrúar, 1661) var annar keisari Kingveldisins og sá fyrsti þeirra sem ríkti yfir hinu sögulega Kína frá 1643 til dauðadags. Hann varð keisari fimm ára gamall við lát föður síns Huang Taiji en stjórnin var í höndum tveggja fjárhaldsmanna, Dorgon og Jirgalang, auk móður Shunzhis, keisaraekkjunnar Xiaozhuang. Ári eftir að hann tók við völdum náði her Kingveldisins Beijing á sitt vald og lýsti því yfir að það ríkti yfir Kína sem lögmætur arftaki Mingveldisins. Andspyrna hélt þó áfram til 1662 þegar Zhu Youlang, síðasti keisari Mingveldisins, lést. Hannah Montana. Hannah Montana eru sjónvarpsþættir fyrir börn og unglinga sem Disney-sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum framleiðir. Þættirnir, sem hófu göngu sína 24. mars 2006, hafa unnið til Emmy-verðlauna. Miley Cyrus leikur aðalhlutverkið (Miley Stewart/Hönnuh Montana) en þegar hún var 12 ára fór hún í prufur hjá Disney og sögðu þeir hana of unga til að leika í þáttunum. Þegar hún byrjaði komu hæfileikar hennar hins vegar í ljós og hún fékk hlutverkið. Hún fékk föður sinn í prufur líka og hann fékk hlutverk sem faðir Hönnuh í þáttunum. Fjórða og síðasta þáttaröðin heitir Hannah montana forever. Sýningum lauk á fjórðu þáttaröðinni 2010. Moskítóflugur. Moskítóflugur (eða stungumý) eru algeng ætt skordýra af ættbálki tvívængja sem lifa víða um heim. Moskítóflugur lifa ekki á Íslandi. Til hennar teljast um 2700 tegundir. Nokkrar tegundir moskítóflugna í hitabeltinu bera malaríu milli manna. Heyrnarskerðing. Heyrnarskerðing er þegar geta manns til þess að heyra, þ.e. nema og greina hljóðáreiti, minnkar eða hverfur að öllu leyti. Ýmsar orsakir geta verið fyrir heyrnarskerðingu, allt frá líffræðilegum orsökum til umhverfisorsaka Arabískt letur. Arabískt letur er skrifmál sem er notað til að skrifa ýmis tungumál í Asíu og Afríku, svo sem arabísku, farsí og úrdú. Það er næstútbreiddasta letur heims á eftir því latnseska. Arabíska stafrófið var fyrst notað til þess að skrifa texta á arabísku, meðal annars Kóraninn, trúarrit íslamstrúar. Arabíska stafrófið breiddist út með íslam. Þegar arabíska stafrófið var tekið til þess að skrifa önnur tungumál en arabísku voru ýmsir nýir stafir teknir inn eftir þörfum. Arabísk letur er skrifað frá hægri til vinstri, með tengiskrift, og það inniheldur 28 grunnstafi (arabíska stafrófið). Það er skilgreint sem abdsjad vegna þess að stuttir sérhljóðar eru sjaldnast skrifaðir. Arabíska stafrófið. Arabíska stafrófið hefur 28 bókstafi. Önnur tungumál sem tekið hafa upp sama letur hafa bætt við aukastöfum og breytt hljóðum þeirra lítilega. Bókstafir hafa mismunandi útlit eftir því hvaða stafir koma á undan og á eftir. Sumir stafir tengjast aldrei öðrum megin. Kínverskir stafir. Kínverskir stafir eða Han-stafir eru myndletur sem notað er til þess að skrifa kínversku. Fjöldi kínverskra stafa er um 47 þúsund en stór hluti þeirra er sjaldan notaður. Kannanir í Kína benda til þess að til þess að vera læs á kínversku þurfi maður að þekkja milli þrjú og fjögur þúsund stafi. Enda þótt skrifa megi orð með einum kínverskum staf þarf í flestum tilvikum tvo eða þrjá stafi til að tákna hvert orð. Það er vegna þess að í myndletrinu táknar hver mynd orðstofn eða rót. Náttúra. Náttúra er í víðum skilningi efnisheimurinn og þau lögmál sem um hann gilda. Oftast er þó náttúra skilgreind sem andstæða þess sem er manngert; þá teljast til dæmis stöðuvötn og goshverir, fjöll og skógar til náttúrunnar en ekki vegir, brýr og önnur mannvirki. Einnig getur orðið „náttúra“ vísað til plöntu- og dýralífs. Orðið „náttúra“ er komið úr latínu ("natura") sem í grunninn merkir "meðfæddur eiginleiki", "ásköpuð tilhneiging" eða "fæðing". Latneska orðið var notað til að þýða forngríska orðið "fysis" (φύσις), sem í upphafi merkti tilurð ("genesis") hluta, endanlegar efnislegar uppsprettur ("arke") þeirra eða áskapaða eiginleika jurta og dýra og jafnvel annarra hluta. Búnaðarbálkur (Eggert Ólafsson). Búnaðarbálkur er 160 erinda kvæði sem Eggert Ólafsson orti á 18. öld. Það tilheyrir upplýsingaröldinni. Kvæðið var hugsað sem leiðbeiningar um búskaparhætti og tileinkaði Eggert mági sínum séra Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal verkið. Kvæðið skiptist í þrjá hluta, fyrsti hlutinn nefnist Eymdaróður, annar kallast Náttúrulyst og þriðji ber nafnið Munaðardæla. Í Eymdaróði lýsir Eggert dökkum hliðum þjóðlífs, sakar fólk sinnar samtíðar um heimsku í stað visku og gagnrýnir hjátrú og fáfræði. Í Eymdaróði er lýst drungalegu lífi hjá hjátrúarfullum og lötum bónda. Notar Eggert óspart orð eins og myrkur og þoka um líf hans. Eggert hvetur til að á heimilum sé guðrækni í hávegum höfð og að húslestrar séu stundaðir ásamt sálmasöng. Dagný (Sönglag). Dagný er lag eftir Sigfús Halldórsson við samnefnt kvæði eftir Tómas Guðmundsson. Það er stundum nefnt eftir upphafsorðum kvæðisins: „Er sumarið kom yfir sæinn“. Kynmök. Kynmök eru kynlífsathöfn þar sem æxlunarfæri karldýrs eru sett inn í æxlunarfæri kvendýrs. Með kynmökum frjóvgar karldýrið kvendýrið og þannig fjölga þau sér. Kynmök manna eru einnig nefnd "samfarir". Manneskjur hafa gjarnan samfarir ánægjunnar vegna. Kappakstur. Kappakstur er akstursíþrótt sem til er í mörgum afbrigðum. Kappakstur er ein vinsælasta íþróttin sem sýnd er í sjónvarpi. Artemis. Stytta af Artemis á Louvre-safninu í París í Frakklandi. Artemis (Ἄρτεμις) var forngrísk gyðja. Hún var ein af Ólympsguðunum tólf og naut mikilla vinsælda í Grikklandi hinu forna. Artemis var dóttir Seifs og Letóar og tvíburasystir Apollons. Hún var veiðigyðja og gyðja meydóms og veiða. Rómversk hliðstæða hennar var gyðjan Díana. Frægt hof, Artemisarhofið, var tileinkað Artemis í borginni Efesos og var eitt af sjö undrum veraldar. Kerberos. Kerberos (á forngrísku: Κέρβερος) var í grískri goðafræði þríhöfða hundur sem gætti inngangs að Hadesarheimi. Í sumum heimildum er hann sagður hafa haft 50 höfuð. Hann hleypti öllum inn en engum út. Kerberosi bregður víða fyrir í forngrískum og latneskum bókmenntum. Apollon. Apollon (á forngrísku: "Ἀπόλλων") var guð í grískri goðafræði og einn af Ólympsguðunum tólf. Rómverjar tóku snemma upp dýrkun á Apolloni frá Grikkjum og kölluðu Apollo. Apollon var guð spásagna og sannleikans, tónlistar og kveðskapar, ljóss og lækninga. Stundum var hann álitill sólarguð, ekki síst á helleníska tímanum. Apollon var sonur Seifs og Letóar og tvíburabróðir veiðigyðjunnar Artemisar. Boginn var táknmynd þeirra beggja en Apollon var stundum álitinn guð bogfiminnar. Apolloni var helguð véfrétt í Delfí þar sem hann var einkum dýrkaður sem spádómsguðinn Apollon. Sem lækningaguð var hann álitinn geta bæði verndað heilsu og læknað og sent sjúkdóma og plágur. Sem guð tónlistar var táknmynd hans lýran sem Hermes bjó til handa honum. Díonýsos. Díonýsos (á forngrísku Διόνυσος eða Διώνυσος) var í grískri goðafræði guð víns, ölvunar, frjósemi og innblásturs. Dýrkun hans er upprunnin í Þrakíu og breiddist þaðan út. Díonýsos var sonur Seifs og Semele, dóttur Kadmosar konungs, en í sumum heimildum er hann sagður sonur Seifs og Persefónu. Hann þekktist einnig undir nafninu Bakkos (Bakkus í rómverskri goðafræði). Díonýsos var verndarguð leikhússins. Einkennistákn hans er vín, pardus og geithafur. Jerry Fodor. Jerry Alan Fodor (fæddur 1935 í New York borg) er bandarískur heimspekingur. Hann er prófessor í heimspeki við Rutgers-háskóla í New Brunswick í New Jersey. Fodor fæst einkum við hugspeki, málspeki og vitsmunavísindi. Ritstýrð verk. Fodor, Jerry Fodor, Jerry Fodor, Jerry Alkestis. Alkestis (Ἄλκηστις) var prinsessa í grískri goðafræði sem var þekkt fyrir ást sína á manni sínum, Admetosi. Hún var dóttir Pelíass konungs í Jolkos og annaðhvort Anaxibíu eða Fýlomökku. Skáldið Evripídes gerði sögu hennar vinsæla með leikriti sínu um hana. Sagan segir að Pelías konungur hafi heitið Alkestis hverjum þeim manni sem fyrstum tækist að láta ljón og villisvín (eða björn) fyrir vagn. Admetosi tókst það með hjálp Apollons og kvæntist hann Alkestis. Eftir brúðkaupið gleymdi hann þó að færa Artemis fórn og kom því að rúmi sínu fullu af snákum. Enn kom Apollon honum til bjargar með því að fylla örlaganornirnar og fékk þær til að lofa að Admetosi að hann fengi að lifa ef einhver vildi deyja í hans stað. Enginn bauðst til þess, ekki einu sinni aldraðir foreldrar Admetosar, fyrr en Alkestis tók af skarið. Síðar bjargaði Herakles henni frá Hadesarheimum. Admetos og Alkestis áttu einn son, Evmelos, sem tók þátt í Trójustríðinu, og eina dóttur, Perímelu. Hermes. Hermes (á forngrísku Ἑρμῆς) var í grískri goðafræði einn af Ólympsguðunum tólf og var fæddur af Maju. Hann var jafnframt sendiboði guðanna, og fylgdi sálum látinna að ánni Styx. Rómversk hliðstæða hans var Merkúríus. Hermes var verndarguð fjárhirða og verslunar, ferðamanna og þjófa. Hann er gjarnan sýndur í listum á vængjuðum skóm eða með vængjaðan hatt og með Hermesarstafinn. Heimavinna. Heimavinna er það verkefni sem kennarar fela nemendum, það sem þeim er uppálagt að "læra heima". Nemendur eiga að vinna heimavinnu sína þegar þeir eru ekki í tíma, og yfirleitt fer hún fram—eins og nafnið ber með sér—heima hjá viðkomandi barni. Heimavinnan er oftast hugsuð sem verkefni sem vinna á án hjálpar kennara. Almenn heimavinnuverkefni eru t.d. að lesa, skrifa eða vélrita. Reglugerð. Reglugerð er afleidd löggjöf sem sett er af ráðherra fyrst og fremst í þeim tilgangi að skilgreina nánar framkvæmd laga. Á Íslandi eru reglugerðir birtar í B-deild "Stjórnartíðinda". Stefnuljós. Nútímabifreið með stefnuljós kveikt að framan. Stefnuljós eru bílljós á hliðum bíla sem eiga að gefa til kynna að ökumaður bifreiðar ætli að beygja. Nútímabifreiðar eru með minnst tvö stefnuljós á hvorri hlið, að framan og aftan. Isabel Martínez de Perón. María Estela Martínez Cartas de Perón (f. 4. febrúar 1931) er fyrrverandi forseti Argentínu frá 1974 til 1976. Hún er líka þriðja eiginkona annars fyrrum forseta, Juan Perón. Eftir lát hans tók hún við völdum sem varaforseti hans. Þar sem Juan lést eftir aðeins níu mánuði í embætti hefði Isabel getað ríkt sem forseti í rúm þrjú ár, eða til 1977. Hún var fyrsta konan sem varð þjóðarleiðtogi án aðalstitils. Dulfræðingurinn José López Rega var helsti ráðgjafi hennar sem leiddi til vaxandi óreiðu í stjórn landsins. Hann stofnaði Andkommúníska bandalagið, vopnaðan hóp sem stóð að fjölda morða á pólitískum andstæðingum Perón næstu tvö ár. Hryðjuverk og efnahagsörðugleikar urðu til þess að vinsældir hennar sem leiðtoga urðu fljótt að engu og að lokum var henni steypt af stóli af herforingjabyltingu undir stjórn yfirmanns herafla Argentínu, Jorge Rafael Videla, árið 1976. Eftir valdaránið var Isabel haldið í stofufangelsi í fimm ár en 1981 fór hún í útlegð til Spánar. Hún var áfram formlega leiðtogi Perónistaflokksins ("Partido Justicialista") þar til hún sagði af sér formennsku 1985. Árið 2007 var hún handtekin á Spáni vegna mannshvarfa í Argentínu í valdatíð hennar. Argentína krafðist framsals hennar en Spánn neitaði árið eftir. Listi yfir skíðasvæði á Íslandi. Þetta er listi yfir skíðasvæði á Íslandi. Blóðughófi. Blóðughófi var hestur Freys samkvæmt nafnaþulum Snorra Sturlusonar. Loðvík 18.. Loðvík 18. (17. nóvember 1755 – 16. september 1824) eða Louis Stanislas Xavier de France var konungur Frakklands frá 1814-1824, að frátöldum hundrað dögum Napóleons Bónaparte 1815. Foreldrar Loðvíks voru Loðvík ríkisarfi Frakklands og María Josepha af Saxlandi. Afi hans var Loðvík 15. Þegar hann fæddist var hann fjórði í erfðaröðinni á eftir föður sínum og tveimur eldri bræðrum. Elsti bróðirinn dó níu ára að aldri en sá næstelsti, Louis Auguste, varð konungur þegar Loðvík 15. dó og nefndist þá Loðvík 16. Loðvík flúði ásamt konu sinni til Niðurlanda 1791 og dvaldist í útlegð til 1814. Bróðir hans, Loðvík 16., var tekinn af lífi 1793 og bróðursonurinn, Loðvík 17., dó vorið 1795. Þá hafði franska konungdæmið raunar verið lagt niður en Loðvík lýsti sig þó konung og tók sér nafnið Loðvík 18. Á næstu tveimur áratugum dvaldi hann víða í Evrópu, meðal annars í Veróna, Kúrlandi (Lettlandi), Varsjá og Englandi. Napóleon afsalaði sér völdum í apríl 1814 og Loðvík 18. sneri aftur sem konungur. Napóleon fór í útlegð til Elbu en sneru aftur 1815 í hundrað daga og Loðvík flúði aftur til Niðurlanda. Eftir ósigur Napóleons við Waterloo sneri hann svo aftur og settist á konungsstól. Frakklandi var sett ný stjórnarskrá árið 1814 og þar var dregið verulega úr völdum konungsins. Konungsstjórnin var þingbundin en kosningaréttur afar takmarkaður. Loðvík, sem var fremur frjálslyndur í skoðunum, að minnsta kosti miðað við arftaka sinn, reyndi fyrst í stað að taka virkan þátt í stjórn landsins en eftir hundrað dagana dró verulega úr afskiptun hans. Loðvík var greindur og ágætlega menntaður, mjög bókhneigður og sat löngum við lestur marga klukkutíma á dag. Hann var hins vegar lítið fyrir hreyfingu og útiveru en var mikill matmaður og varð snemnma mjög feitur. Á efri árum var hann illa haldinn af gigt og átti oft erfitt með gang. Hann giftist Marie Josephine prinsessu af Savoy 14. maí 1771 og var þá aðeins 15 ára. Hún var tveimur árum eldri og var sögð ófríð, óhefluð, óþrifin og leiðinleg; hvað sem til er í því var hjónabandið ekki hamingjusamt og munu þau ekki hafa haft samræði fyrstu árin. Hún varð þó tvisvar barnshafandi en missti fóstur í bæði skiptin og eignuðust þau enga erfingja. Marie Josephine fylgdi manni sínum í útlegð en dvaldist í Þýskalandi. Hún var þó með honum í Englandi frá 1808 og dó þar 13. nóvember 1810. Loðvík 18. dó 1824 í Versölum og tók yngri bróðir hans, Karl 10., við af honum. Blek. Blek er vökvi sem inniheldur ýmis litarefni og er notað til að lita yfirborð til að framleiða mynd, texta eða hönnun. Það er notað til að draga eða skrifa með penna, bursta eða fjöður. Þykkari blek eru notuð í leturprentun og steinprentun. Blek er flókin blanda sem getur innihaldið leysiefni, litarefni, trjákvoður, smurolíur, yfirborðsvirkt efni og önnur efni. Innihaldið ber margvíslegan tilgang og getur haft áhrif á útlit bleksins þegar það er þurrt. Hermann Stefánsson. Hermann Stefánsson er íslenskur rithöfundur. Jón Hallur Stefánsson. Jón Hallur Stefánsson er íslenskur rithöfundur. Umslag. Umslag er umbúðartegund, yfirleitt úr pappír eða pappa, og er hannað til að bera bréf, reikninga eða gjafakort og er oftast sent með póstinum. Á umslaginu er oftast flipi með límrönd sem lokur því. Frímerki er oft límt á umslag sem skal sent í póst. United Parcel Service. United Parcel Service (, oft skammstafað sem UPS) er stærsta smápakkasendingafyrirtækið í heimi. UPS ber út meiri en 15 milljónir smápakka daglega á 6,1 milljónir viðskiptavini í 200 löndum um allan heim. Síðan 2005 hefur fyrirtækið verið viðriðið flutningar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins hafa verið í Sandy Springs í Georgíu í Bandaríkjunum síðan 1991. Fyrirtækið var stofnað þann 28. ágúst 1907 með nafni „American Messenger Company“. Nafnið „United Parcel Service“ var tekið í notkun árið 1919. Fyrirtækið er þekkt fyrir brúna vörubíla sína. UPS vinnur líka eigið flugfélag sitt með höfuðstöðvum í Louisville í Kentucky. Höfuðstöðvar UPS á Íslandi eru í Keflavíkflugvelli (starfaðar af umboðsaðilanum Express ehf.), en vinnslur eru aðallega í Brussel í Belgíu. The Postal Service. The Postal Service er bandarísk sjálfstætt rokk hljómsveit sem samanstendur af söngvara Ben Gibbard og framleiðanda Jimmy Tamborello, og var stofnuð árið 2001. Fyrsta og eini breiðskífa hljómsveitarinnar var gefin út þann 18. febrúar 2003 og heitir "Give Up". "Such Great Heights" var frægasta lagið af breiðskífunni. Warwick. Warwick er rúmlega 25 þúsund manna bær og höfuðstaður sýslunnar Warwickshire á Englandi. Bærinn stendur við ána Avon, 18 km sunnan við borgina Coventry. Sagan segir að engilsaxar hafi fyrst reist bæinn til varnar gegn víkingum árið 914. Bréf. Bréf eða sendibréf er skrifuð skilaboð frá einum aðila til annars. Hlutverk bréfa hefur breyst mikið síðan 19. öldin en einu sinni var bréfið eina leiðin til að hafa samband við einhvern á áreiðanlegan hátt. Samskiptatækni hefur þróast og þess vegna er bréfið ekki svo mikilvæg samskiptaleið. Ritsími, sími, símbréf og Internetið hafa öll haft áhrif á skrift og sendingu bréfa. Núna er tölvupóstur notaður helst í stað bréfa. Stundum eru bréf enn notuð í dag, sérstaklega í formlegum aðstæðum. Venjulega er bréf sett í umslag og svo í póstkassa, í gegnum póstinn. Hans Alan Tómasson. Hans Alan Tómasson (fæddur 1975) er myndlistarmaður fæddur á Íslandi. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2001 og hefur haldið úti vinnustofu samfleytt síðan þá. Samhliða listsköpun hefur Hans Alan unnið dagleg störf og starfar nú sem teiknari fyrir tölvuleikjafyrirtækið CCP. Samfélagssáttmáli. Samfélagssáttmálinn er meginhugtak svonefndra sáttmálakenninga um eðli og undirstöður mannlegs samfélags, siðferðis og réttmæti ríkisvalds. Hugmyndin er í grófum dráttum sú að óskrifaður sáttmáli ríki um að einstaklingar gefi upp tilkall sitt til tiltekinna réttinda en feli ríkisvaldi í hendur valdstjórn til þess að viðhalda reglu í samfélaginu og tryggja öryggi þegnanna. Yfirleitt er því ekki haldið fram að menn hafi bókstaflega komist að samkomulagi un undirstöður samfélagsskipunarinnar á einhverjum tilteknum tíma heldur ríki samkomulagið á svipaðan hátt og samkomulag ríkir um merkingu orða í tungumálinu. Sáttmálakenningar eru til í mörgum afbrigðum. Þær hafa verið notaðar til að réttlæta konungsstjórn, frjálshyggju og félagshyggju. Sáttmálakenningar voru þungamiðjan í þeirri hugmynd að réttmætti valdhafanna byggi á samþykki þegnanna og voru hornsteinninn í heimspekilegri réttlætingu lýðræðisins sem kom fram á 17. og 18. öld. Flestar sáttmálakenningar byrja á einhvers konar greiningu á ímynduðu samfélagi án ríkisvalds og félagslegrar skipunar; þetta ástand er venjulega nefnt „náttúrulegt ástand“. Í slíku ástandi, segja flestar sáttmálakenningar, eru einu hömlurnar á einstaklinginn máttur hans og samviska. Ýmsar útfærslur eru síðan til á svarinu við spurningunni hvers vegna skynsamur einstaklingur hefur hag af því að láta eftir hluta af frelsi sínu til þess að koma á félagslegri skipan og valdstjórn. Vísi að sáttmálakenningu má finna í ritum forngríska heimspekingsins Platons en sáttmálakenningar urðu þó ekki vinsælar fyrr en á nýöld. Helstu kenningasmiðir sáttmálakenninga voru þeir Thomas Hobbes (1651), John Locke (1689) og Jean-Jacques Rousseau (1762). Merkasti sáttmálakenningahöfundur 20. aldar var John Rawls (1971). Samfélagssáttmálinn. "Samfélagssáttmálinn" ("Du contrat social") er rit um stjórnmálaheimspeki eftir franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau sem kom fyrst út árið 1762. Í ritinu setur Rousseau fram stjórnspekikenningu sína, sem er sáttmálakenning. Kenningunni var ætlað að taka á þeim félagslegu vanköntum sem Rousseau hafði þegar bent á í ritinu "Orðræðu um ójöfnuð" (1754). Skynsemi. Skynsemi er geta hugans til að draga ályktanir eða finna ástæður og gefa skýringar þegar maður dregur ályktanir, alhæfir, fellir dóma eða myndar sér skoðanir, tekur ákvarðanir og leysir vandamál. Franski heimspekingurinn René Descartes skilgreindi skynsemina sem hæfileikann til að „vega og meta og greina rétt frá röngu“. Skynsemin er í þessum skilningi oft talin andstæða geðshræringa. Skyldusiðfræði. Skyldusiðfræði eða skyldufræði er hver sú siðfræðikenning sem einblínir á réttmæti athafna og telur að það felist einkum í ásetningi gerandans og ástæðum hans til athafna, svo sem skyldurækni, virðingu fyrir réttindum annarra og svo framvegis. Skyldusiðfræði í þessum skilningi er andstæð leikslokasiðfræði sem segir að réttmæti athafnar felist í afleiðingum hennar. Áhrifamesta skyldusiðfræðikenningin er siðfræðikenning Immanuels Kant. Herculaneum. Kortið sýnir svæðið sem varð fyrir áhrifum frá gosinu í Vesúvíus í ágúst 79. Herculaneum (á ítölsku "Ercolano") var forn rómversk borg í Kampaníu við Napólíflóa. Borgin grófst undir öskulagi í ágúst árið 79 þegar Vesúvíus gaus. Af þessum sökum eru rústir hennar vel varðveittar. Fornleifauppgröftur hefur farið fram á svæðinu á 20. og 21. öld og margar merkar minjar komið í ljós. Árið 1981 fundust mannabein í Herculaneum og síðan þá hafa um 150 beinagrindur fundist. Herculaneum var lítil en auðug borg þegar gosið varð. Meðal þess sem hefur fundist er bókasafn, sem er nefnt Papýrusvillan, en mörg forn rit sem voru áður óþekkt fundust þar, meðal annars rit epikúrískra höfunda. Síðar kom í ljós að villan hafði áður verið í eigu Luciusar Calpurniusar Pisos Caesoninusar, tengdaföður Júlíusar Caesar. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2009. Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva 2009 var 54. Eurovisionkeppnin. Hún var haldin 12. - 16. maí 2009 í Olympic Indoor Arena í Moskvu í Rússlandi. Sigurvegari keppninnar var norðmaðurinn Alexander Rybak og lagið hans "Fairytale",sem fékk 387 en það er 95 stigum meira en nokkurt lag hefur fengið í keppninni (áður áttu hinir finnsku Lordi metið sem var 292 stig frá árinu 2006). Ísland fékk annað sætið, Aserbaídsjan fékk það þriðja, Tyrkland fjóðra og Bretland náði 5. sætinu en það er besti árangur Breta síðan árið 2002. Eftir mikla gagnrýni á atkvæðagreiðslukerfinu frá árinu 2007 var aftur ákveðið að hafa starfandi dómnefnd sem starfaði með símakosningunni í undankeppnunum. 42 lönd tóku þátt að þessu sinni; Slóvakía tilkynnti um endurkomu sína í keppnina á meðan San Marínó hætti í keppninni vegna fjárhagsvandræða. Lettland og Georgía tilkynntu að þau myndu ekki taka þátt en það var seinna tilkynnt að þau myndu samt sem áður taka þátt. Samt sem áður tók Georgía ekki þátt eftir að EBU hafnaði því lagi sem þeir höfðu valið. Leikvangurinn. Keppnin var haldin í Rússlandi eftir sigur þeirra árið 2008 í keppninni í Belgrad, Serbíu með lagi Dima Bilan, "Believe". Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands, sagði að keppnin yrði haldin í Moskvu. Stöð 1 lagði til að keppnin yrði haldin í Olypmic Indoor Arena í Moskvu og fór þessi tillaga fyrir samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) og staðfesti tillöguna þann 13. september 2008. Upp kom orðrómur um að það þyrfti að breyta byggingunni mikið en þess þurfti ekki, byggingin tekur 25 þúsund manns í sæti. Stöð 1 sem sýndi frá keppninni kynnti undir-lógó keppninnar þetta árið þann 30. janúar 2009. Það var byggt á "Fantasíu-fugli", sem getur verið notaður í mörgum litum. Eins og fyrri ár var það kynnt með aðal-lógói keppninnar. 2009 var fyrst árið síðan 2001 sem keppnin hafði ekkert slagorð. Sviðið var hannað af John Casey, hönnuði frá New York, og var byggt á þemanu um nútímalegt Rússland. Casey, sem hafði áður hannað sviðið árið 1997 í Dublin, hafði einnig tekið þátt í að hanna fyrir keppnirnar árið 1994 og 1995. Þátttakendur. Samkvæmt lista yfir þátttakenudr frá EBU, höfðu 42 lönd staðfest þátttöku sína þetta árið, m.a. Slóvakía sem sneri aftur til keppni eftir 11 ára fjarveru. Georgía tilkynnti upphaflega þáttöku sína en hætti við vegna mótmæla í Suður-Ossetia árið 2008 gegn stefnum stjórnar Rússlands, en ákvað seinna að taka þátt, en ákvörðunin var innblásin af sigur þeirra í Junior söngvakeppni evrópskra sjónvarpssstöða 2008, og að Rússland hafi gefið þeim 12 stig í þeirri keppni. Landið hætti endanlega við þátttöku vegna þess að lagið þeirra innihélt pólitískar ádeilur. Upp kom orðrómur um að San Marínó og Mónakó ætluðu að snúa aftur til að keppa. San Marínó ætlaði sér upphaflega ekki að taka þátt vegna slæms gengis árið áður en þurfti að lokum að draga sig úr keppni vegna fjárhagsvandræða. Lattneska sjónvarpsstöðin sem sýnir frá keppninni þar í landi (LTV), hafði tilkynnt um það þann 17. desember 2008 að landið myndi ekki taka þátt þetta árið, þremur dögum eftir að lönd áttu að staðfesta þátttöku sína. Þetta kom upp vegna 2,8 milljóna evru skulda LTV, sem hindraði það að þeir gætu borgað þátttökugjaldið. LTV staðfesti að þeir hefðu látið EBU vita að fjarvera Letta byggðist eingöngu á fjárhagsvandræðum. LTV átti síðan umræður við EBU til að reyna að finna lausn svo að landið gæti keppt. Þann 20. desember 2008 tilkynnti LTV að Lettland tæki ekki þátt og að EBU og Stöð 1 hefðu verið sammála um að sekta landið ekki um að hafa dregið sig úr keppni of seint. LTV tilkynnti einnig um að landið myndi vera með í keppninni árið 2010. Það var hins vegar tilkynnt um að Lettland tæki þátt í keppni þessa árs, þann 12. janúar 2009. Hvert land valdi sitt lag í gegnum sitt eigið kerfi. Sum lönd völdu sitt lag gegnum innri val, þar sem stöðin valdi bæði lögin og flytjendurna, á meðan aðrir héldu keppnir þar sem almenningur valdi lagið, flytjandann eða bæði. Árið 2009 höfðu tvö lönd valið keppanda sem hafði keppt áður. Þeir sem sneru aftur voru Chiara sem keppti fyrir Möltu árin 1998 og 2005, og Sakis Rouvas sem keppti fyrir Grikkland 2004. Friðrik Ómar, meðlimur í Eurobandinu sem keppti fyrir Íslands hönd árið 2008, söng bakraddir að þessu sinni. Snið. Úrslitakeppnin fór fram þann 16. mars 2009 í "Olympic Indoor Arena" í Moskvu, Rússlandi en undankeppnirnar tvær voru haldnar 12. og 14. maí. 37 lönd tóku þátt í undankeppnunum en "stóru löndin fjögur" (Frakkland, Þýskaland, Spánn, Bretland) og gestgjafinn fóru í úrslitin. Til viðbótar við löndin sem komust sjálfkrafa í úrslitin, voru einnig í úrslitum tíu lönd úr hvorri undankeppni, svo alls kepptu 25 atriði á úrslitakvöldinu. Úrslit. 2009 Jóhanna Guðrún Jónsdóttir. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir eða Yohanna eins og hún kallar sig utan Íslands (fædd 16. október 1990 í Kaupmannahöfn, Danmörku) er íslensk söngkona. Hún var þekkt barnastjarna á Íslandi eftir að hafa gefið út fyrstu plötu sína árið 2000. Hún er þekktust utan Íslands fyrir að hafa náð öðru sæti með flutningi lagsins „"Is it true?"“, sem var framlag Íslands til Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva 2009 sem haldin var í Moskvu. Æska. Jóhanna Guðrún fæddist í Kaupmannahöfn í Danmörku þann 16. október 1990. Foreldrar hennar voru Jón Sverrir Sverrisson, rafmagnsfræðingur, og Margrét Steinþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Hún segist hafa byrjað að syngja áður en hún lærði að tala. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur þegar hún var aðeins tveggja ára gömul og bjó þar í sex ár en fluttist þá til Hafnarfjarðar. Jóhanna stefndi alltaf að því að verða söngkona frá því að hún var ungbarn. „Það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér en að syngja og ég hafði alltaf mjög mikinn áhuga á því að syngja fyrir aðra. Alveg frá því að ég var pínulítil.“ Áhugi hennar á tónlist óx og þegar hún var átta ára gömul tók hún þátt í söngvakeppni ásamt 100 öðrum börnum. María Björk, söngkennarinn sem stóð fyrir keppninni, varð hrifin af Jóhönnu sem lenti í sjötta sæti og fannst hún vera mjög efnileg. María bauð Jóhönnu inngöngu í söngskólann sinn fyrir börn þar sem hún lærði grundvallaratriðin í flutningi á lögum. Eftir að hafa tekið eitt námskeið í skólanum ákváðu þær María og Jóhanna að gefa út plötu. Upphaf. Jóhanna Guðrún áritar eintök af plötunni „Ég sjálf“ Árið 1999 hóf Jóhanna vinnu að fyrstu plötunni sinni „"Jóhanna Guðrún 9"“. Á plötunni voru íslenskar útgáfur erlendra laga, þar á meðal „"Genie in a Bottle"“ og „"Torn"“. Umboðsmaður og tónlistarkennari Jóhönnu, María Björk, sá um söng og upptökustjórn við gerð plötunnar en á henni voru ellefu lög. Lagið "„Bíóstjarnan mín“" var gefið út sem smáskífa og komst í topp tíu á vinsældalista á Íslandi. Páll Rósinkranz söng einnig á móti Jóhönnu í íslenskri útgáfu lagsins "„I'll Be There“" sem á íslensku hét "„Mundu mig“". Platan kom út á tíu ára afmælisdegi Jóhönnu, þann 16. október 2000 og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Um það bil hálfu ári seinna hafði fyrsta hljómplata hennar selst í yfir 10.000 eintökum. Fljótlega sneri Jóhanna aftur í upptökuverin og fór að vinna að annarri plötu sinni „"Ég sjálf"“. Platan kom út árið 2001 og var ekki síður vinsæl en sú fyrri. Jóhanna var á þeim tíma ein vinsælasta barnastjarna Íslands og kom oft fram á skemmtunum. Hún höndlaði athyglina vel, enda fannst henni hún vera nokkuð eðlileg. „Ég þekkti lítið annað. Þetta var það sem ég vildi og stefndi að“. Jólin 2002 gaf hún svo út síðustu plötuna sína í sex ár, „"Jól með Jóhönnu"“. Á plötunni voru mörg fræg jólalög þar á meðal „"Heims um ból"“. Skólaganga hennar var ekki hefðbundin vegna tónlistarinnar en það urðu aldrei nein vandamál sem fylgdu fræðginni og aldrei var hún lögð í einelti, „Auðvitað er alltaf einhver aukaleg athygli og einhver slæm athygli sem fylgir þessu en ég náði alveg að útiloka hana“. Unglingsárin. Eftir að „"Jól með Jóhönnu"“ kom út tók hún sér frí frá sviðsljósinu en það var sameiginleg ákvörðun Maríu og foreldra hennar. Þau ákváðu að hún gæti snúið aftur þegar hún væri tilbúin. Jóhanna eyddi mestöllum tíma sínum í upptökuverinu til þess að æfa og þróa söngrödd sína þó að hún væri ekki lengur að gefa út plötur. Hún notaði þennan tíma til þess að þróa sig og finna réttu stefnuna í tónlistinni. Frá ellefu ára aldri þangað til að hún var fimmtán ára gömul ferðaðist Jóhanna mikið til New York og Los Angeles á fundi til þess að æfa sig og undirbúa framtíðina. Henni gafst tækifæri til þess að vinna með mörgum þekktum listamönnum og öðru hæfileikaríku fólki. Hún gerði heila plötu með Lee Horrocks, lagahöfundi, og Rick Wade sem var stór stjörnuútgefandi í Bandaríkjunum á þeim tíma. Platan var aldrei gefin út. Jóhanna gerði samning við Sony þar sem Tommy Mottola var upptökustjóri en hann vildi bíða með að gefa út plötu þangað til að hann hefði sjálfur stofnað sitt eigið útgáfufyritæki. Mottola vildi bíða þar til hún yrði átján ára svo að röddin hennar gæti þróast meira en Jóhönnu fannst það vera of langur tími. Hún rifti samningnum en hélt samt sem áður áfram að vinna með Wade. Butterflies and Elvis. Í lok ársins 2008 gaf Jóhanna út sína fyrstu plötu í sex ár, Butterflies and Elvis. Hún starfaði þá undir nafninu Yohanna og hafði skrifað flest lögin á plötunni ásamt Lee Horrocks sem framleiddi einnig plötuna ásamt Maríu Björk. Hún valdi sviðsnafnið Yohanna af því að hún var orðin þreytt á því að heyra Bandaríkjamenn kalla sig „djóhana“. Platan var að mestu tekin upp í Los Angeles. Jóhanna kallaði þessa plötu fyrstu „fullorðins“ plötuna sína enda hafði hún eytt mörgum árum í undirbúning. Platan var gefin út í mörgum Evrópuríkjum þar á meðal Danmörku, Noregi, Finnlandi, og Svíþjóð þar sem hún lenti í tuttugasta sæti á vinsældalistanum. Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Jóhanna flytur lagið "Is it true?' í Moskvu' Stuttu eftir að "„Butterflies and Elvis“" var gefin út, hafði Óskar Páll Sveinsson samband við Jóhönnu og bað hana um að syngja lagið "„Is It True?“" í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Jóhanna flutti lagið í fyrstu undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins 2009 þann 10. janúar og var það annað tveggja laga sem komust áfram það kvöld. Úrslitin fóru fram þann 14. febrúar og var Jóhanna síðust af átta flytjendum með lag sitt. Yfir 69.000 atkvæði voru greidd í atkvæðagreiðslunni og lag Jóhönnu var kosið 19.076 sinnum og bar hún sigur úr brýtum með næstum því tíu þúsund fleiri atkvæði heldur en lagið sem var í öðru sæti, "„Undir Regnbogann“", með Ingó. Jóhanna gaf út takmarkaða útgáfu af „"Butterflies and Elvis"“ eftir að hafa unnið keppnina þar sem að „"Is It True?"“ var bætt við plötuna. Lagið var gefið út sem smáskífa og komst inn á topp tíu á vinsældalistum á Íslandi og í Finnlandi, Grikklandi, Noregi, Svíþjóð, og Sviss. Jóhanna fór í kynningarferð til bæði Bretlands og Hollands til þess að auglýsa lagið áður en hún ferðaðist til Moskvu. Hún flutti "„Is it true?“" í UK Eurovision Preview veilsunni í London þann 17. apríl og daginn eftir á Eurovision Promo tónleikunum í Amsterdam. Einni viku seinna lagði Jóhanna af stað til Moskvu og æfingar hófust fyrir undankeppnina. Andrew Lloyd Webber sem samdi breska lagið taldi Ísland vera aðalkeppinaut sinn í keppninni. Á einni af æfingunum áður en undankeppnin átti sér stað var salurinn hljóður eftir hvert og eitt lag þangað til Jóhanna kom og þá stóð salurinn upp og klappaði henni lof í lófa. Íslandi var spáð velgengni í keppninni og var spáð sjötta sæti í aðalkeppninni af mörgum, en aðrir giskuðu á allt frá átjanda til fyrsta sætis. Þriðjudaginn 12. maí átti fyrri undankeppnin sér stað og Jóhanna flutti lagið sitt tólfta af átján. Þegar að tíu löndin sem að komust áfram voru tilkynnt var Ísland kynnt síðast og voru áhorfendur farnir að kalla „Iceland“ (Ísland) í salnum. Jóhanna var í fyrsta sæti í undankeppninni með 174 stig og var aðeins 2 stigum á undan Tyrklandi sem var í öðru sæti. Öll lönd fyrir utan Ísland höfðu greitt Jóhönnu atkvæði. Þann 16. maí var aðalkeppnin haldin og var Jóhanna sjöunda í röðinni af 25 flytjendum, á eftir flytendum Portúgals og á undan flytjanda Grikklands. Þegar atkvæðagreiðsla hófst raðaði Jóhanna inn stigum frá upphafi. Þó að keppandi Noregs, Alexander Rybak, hafi verið langt á undan öðrum keppendum, var mikil keppni um annað sætið, aðallega á milli Ísland og Aserbaídsjans. Síðasta landið sem greiddi atkvæði var Noregur og gáfu þeir Aserbaídsjan tíu stig sem að skaut þá eitt stig fyrir ofan Ísland og varð allur salurinn æstur. Norðmenn gáfu svo Íslendingum tólf stig sem að skaut Jóhönnu aftur upp í annað sætið með 218 stig. Heilsa. Frá átta ára aldri hefur Jóhanna glímt við liðagigt. Hún er einnig með sjálfsofnæmi sem er talið vera tilkomið vegna gigtarinnar. Það kemur fram í lithimnubólgu í auga og varð fyrst vart árið 2008. Á þeim tíma stundaði Jóhanna söngnám í Danmörku þegar hún tók eftir því að annað auga hennar varð rautt og svo grátt. Hún var blind á því um tíma af því að augað bólgnaði svo mikið og olli það miklum sársauka. Eftir að hafa farið þrisvar sinnum á spítala í Danmörku, þar sem hún var greind með frjókornaofnæmi, fékk hún vinkonu sína til þess að hjálpa sér við að senda móður sinni, sem er hjúkrunarfræðingur, myndir í tölvupósti. Móðir hennar taldi það útilokað að þetta væri frjókornaofnæmi og sendi hana til Íslands með fyrsta flugi. Hún lögð inn á spítala við heimkomu þar sem hún var í tíu daga. Óvíst var hvort að hún fengi sjónina á auganu aftur en sterar voru settir í augað á hálftíma fresti allan sólarhringinn. Bólgur hafa oft blossað upp í auganu síðan en hún hefur þó haldið sjóninni á auganu. Snorri Ásmundsson. Snorri Ásmundsson (f. 1966 á Akureyri) er íslenskur myndlistamaður þekktur fyrir að hafa lýst því fram opinberlega að hann hyggist bjóða sig fram til sveitarstjórnarkosninganna 2002 þá með framboðið Vinstri hægri snú, til forsetakosninganna 2004 gegn Ólafi Ragnari Grímssyni og loks til formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2009. Norodom Sihanouk. Norodom Sihanouk, (fæddur 31. október, 1922, lést 15. október 2012) var konungur í Konungsríkinu Kambódía þar til hann sagði af sér 7.október 2004 frá því haðfi hann titilinn „Konungsfaðir (á khmer: "Preahmâhaviraksat") Kambódíu“. Eins og venja er með konungsfólk er það persónunafn Sihanouks sem notað er og er hann þekktastur með prinstitillinn viðtengdan. Í Kambódíu er ættarnafnið haft fyrst og er það í samræmi við nafnahefð flestra þjóða í austurhluta Asíu. Sihanouk gengdi svo mörgum og margvíslegum opinberum stöðum allt frá 1941 að "Heimsmetabók Guinness" segir hann vera þann stjórnmálamann sem hefur haft margbreytilegastan ferill í ríkisstjórnarstörfum. Þar á meðal var hann tvisvar kóngur, tvisvar þjóðhöfðingi með titilinn prins, einu sinni forseti, tvisvar sinnum forsætisráðherra og einu sinni þjóðhöfðingi án titils. Þar að auki verið í forsæti fyrir útlagastjórn. Margar af þessum stöðum hafa verið einungis formlegar og án í raun nokkurs valds, til dæmis síðasta tímabilið sem konungur Kambódíu. Norodom Sihanou hafði einungis fullt vald og nánast einræði frá 9. nóvember 1953 (þegar Kambódía fékk fullt sjálfstæði) fram að 18. mars 1970 (þegar honum var steypt af stóli af Lon Nol og fylgismönnum hans). Sihanouk leikstýrði og skrifað handrit að allmörgum kvikmyndum, skrifað bækur, samið sönglög og söng inn allmargar plötur. Fyrstu ár. Sihanouk var uppalinn í Phnom Penh, þáverandi höfuðborg í frönsku nýlendunni Kambódía. Hann gekk þar í eina skólann sem var starfandi þar, ef burtséð er frá klausturskólum, og fór öll kennsla fram á frönsku. Hann hélt síðan til Saigon í Víetnam í menntaskólanám við „Lycée Chasseloup Laubat“ sem ætlaður var yfirstéttarbörnum Indókína og þar sem einnig var einungis kennt á frönsku. Hann var einnig stuttan tíma við nám í herskóla í Frakklandi. Þegar móðurafi hans, Sisowath Monivong þáverandi konungur Kambódíu, lést í apríl 1941, völdu frönsku nýlenduyfirvöldin að ganga fram hjá föður Sihanouks og þess í stað hann sem konung. Hann var krýndur konungur í september 1941. Sihanuk þótti á þessum tíma vera spjátrungur og hafa helst áhuga á unaðssemdum lífsins og engan áhuga hafa á stjórnmálum. Ráðamaður. Það kom þó fljótlega í ljós að Sihanouk reyndist ekki vera allur þar sem Frakkar höfðu haldið hann vera. Í seinni heimsstyrjöldinni hertóku Japanir Kambódíu og raunar alla Suðaustur-Asíu. Formlega hélt Sihanouk titlinum konungur á sama hátt og áður og franska Vichy-stjórnin var formlega nýlendustjóri. Í stríðslok 1945 lýstu Japanir yfir stálfstæði Kambódíu en franska hersveitir lögðu fljótlega undir sig landið að nýju. Hugmyndin um sjálfstæði landsins hafði þó fengið mikinn hljómgrunn og fljótlega fór Sihanouk konungur að styðja þær kröfur og taka forystu í andófi við Frakka. Þetta gerðist samhliða samskonar hreyfingum um allt Indókína, í Víetnam og Laos. Undir forystu Sihanouks tókst landinu að ná sjálfstæði frá Frökkum 9. nóvember 1953. Sihanouk sætti sig ekki við að vera neinn skrautfugl og sagði af sér embætti konungs 2. mars 1955. Faðir hans, Norodom Suramarit, var þá krýndur konungur. Sihanouk tók hinsvega að sér embætti forsætisráðherra. Þegar faðir Sihanouks lést 1960, var hann valinn þjóðhöfðingi í þjóðaratkvæðagreiðslu, en valdi að heldur kalla sig prins en konung eða forseta. Árið 1963 var stjórnarskránni breytt þannig að hann var gerður að þjóðhöfðingja ævilangt og enn með titilinn prins. Sihanouk ásamt Maó Zedong og öðrum ráðamönnum í Kína. Frá vinstri Mao Zedong, Peng Zhen, Norodom Sihanouk og Liu Shaoqi. Myndin tekin 1956. Allt eftir því sem Víetnamstríðið magnaðist á sjöunda áratug tuttugustu aldar og allt Indókínasvæðið sogaðist inn í átökin aðlagaðist stjórnarstefna Sihanouks að, í hans augum, viðleitni til að tryggja hlutleysi og fremur öðru öryggi Kambódíu sem sjálfstæðs lands. Að mati Sihanouks þýddi það að standa með nágrannaríkjum sínum. Semma árs 1965 gerði hann samning við kínverska alþýðulýðveldið og Norður Víetnam sem heimilaði her Norður Víetnam að setja upp herstöðvar í austurhluta Kambódíu og einnig að leifa flutninga á kínverskum hergögnum til Víetnam gegnum Kambódíu. Í staðin keypti kínverska ríkið hrísgrjón frá Kambódíu á uppsprengdu verði. Þrátt fyrir að Sihanouk endurtæki í ræðum sínum á þessum tíma að kommúnisminn myndi sigra og að kenningar maóista væru áhugaverðar þá var hann ekki tilbúinn að hjálpa þeim til valda í Kambódíu. Á árunum 1966 og 1967 lét Sihanouk framkvæma pólitískar hreinsanir og hrakti með því marga vinstrisinna í hendur kommúnista sem tóku upp skæruliðabaráttu gegn stjórninni í Phnom Penh. Það var þá sem Sihanouk skapaði hugtakið "Rauðu khmerarnir - Khmer Rouge". Vinátta hans við Kína varð líka öllu óþýðari meðan kínverska menningarbyltingin stóð sem hæst. Samtímis litu Bandaríkin og stuðningslönd þeirra á Sihanouk sem algjöran andstæðing í baráttunni gegn kommúnistum. Bandaríkin hófu sprengjuárásir í smærri stíl í austurhluta Kambódíu þegar 1965 til að reyna að koma í veg fyrir herflutninga Norður-Víetnama. Þrátt fyrir að þessar árásir væru leynilegar stórjukust þær frá 18. mars 1969. Frá 4. október 1965 fram að 15 ágúst 1973 vörpuðu bandarískar herflugvélagar 2,756,941 tonnum af sprengjum yfir landið (til samanburðar má nefna að Bandamenn vörpuðu samanlagt rúmum 2 miljónum tonna af sprengjum í allri seinni heimsstyrljöldinni). Pólitískur stuðningur við Sihanouk innanlands og erlendis í lok sjöunda áratugsins var því orðin takmarkaður. Settur af. Þann 18. mars 1970 var Sihanouk prins í ferðalagi erlendis þegar þegar sitjandi forsætisráðherra, Lon Nol, með aðstoð Bandaríkjanna setti Sihanouk af sem þjóðhöfðingja. Lon Nol fékk nánast alræðisrétt með tilvísun til stríðsástandsins og Khmer Lýðveldið tók við af Konungsríkinu Kambódía. Eftir valdaránið flúði Sihanouk til Peking og tók að vinna með Rauðu khmerunum og varð opinber stuðningsmaður þeirra í baráttunni við stjórn Lon Nols í Phnom Penh. Sihanouk mætti fljótlega í Kambódíu á þeim svæðum sem Rauðu khmerarnir stjórnuðu og notuðu þeir það óspart í áróðri innan og utanlands. Stuðningur Kambódíumanna við Rauðu khmerarna jókst mjög þegar Sihanouk lýsti yfir stuðningi við þá. Stór hluti þessara nýju stuðningsmanna hafði litla kunnáttu og eða áhuga á kommúnismanum heldur studdu konungin. Þegar Khmer Lýðveldið féll fyrir hersveitum Rauðu khmeranna í apríl 1975 var Sihanouk gerður að táknrænum þjóðhöfðingja með Pol Pot sem raunverulegum stjórnanda. Ári seinna, 4. apríl 1976, Var Sihanouk neyddur til að segja af sér og var settur í stofufangelsi. Eftir innrás Víetnama 1979 tókst Rauð khmerunum að senda Sihanouk til New York til að flytja ræðu gegn innrás Víetnama. Hann flutti síðan til Kína og bjó einnig nokkur ár í Norður-Kóreu. Innrás Víetnam inn í Kambódíu í desember 1978 hrökkti stjórn Rauðu kheranna frá höfuðborginni og smám saman frá meirihluta landsins. Þrátt fyrir framgöngu Rauðu kheranna og reynslu Sihanouks af henni, ekki síst gagnvart honum sjálfum og fjölskyldu hans, valdi hann að taka upp samstarf við þá að nýju. árið 1982 tók hann upp formlegt samstarf um baráttu gegn hernámsliði Víetnama. Sihanouk varð forseti útlagastjórnar þriggja aðila, fyrir utan Rauðu kheranna var það flokkur Sihanouks, Funcinpec, og flokkur hægristjórnmálamannsins Son Sann sem nefndur var FPNLF. Útlagastjórnin var nefnd á ensku "Coalition Government of Democratic Kampuchea" (CGDK). Stuðningur Bandaríkjanna. Frá miðjum níunda áratugnum og fram á þann tíunda studdu Bandaríkin stuðningsmenn Sihanouks, bæði með fjármagni og hernaðaraðstoð (og þar með óbeint Rauðu khmerana). Þetta í samræmi við kenningu Reagans um hvernig berjast ætti gegn áhrifum Sovétríkjanna. Konungsríkið endurreist. Eftir langdregnar samningaviðræður milli útlagastjórnarinnar og stjórnarinnar í Phnom Penh tókst að ná samning um frið í landinu 1991 og var hann undirritaður í París. Rauðu khmerarnir yirgáfu þó samningin fljótlega. Sihanouk snéri nú aftur til Kambódíu í nóvember 1991 eftir þrettán ára útlegð. Nú sem þjóðhöfðingi án tiils. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1993, var konungsríkið endurreist og Sihanouk á nýjan leik orðin konungur Kambódíu. Sihanouk dvalist þó mest erlendis, sérlega í Peking, og bar við slæmri heilsu en samstarfið við Hun Sen og hans menn var ekki hið auðveldasta. Afsögn. Sihanouk sagði af sér konungstitlinum 7. október 2004 og bar við heilsubresti. Hann lést úr magakrabba 15. október 2012. Einn af sonum Sihanouks, Norodom Sihamoni var valin sem nýr konungur 14. október 2004. Fjölskyldumál. Sihanouk var formlega giftur sjö sinnum og var fram í andlát formlega giftur fjórum eiginkvennanna (en einungis ein þeirra er drottning) auk þess sem hann hafði aðrar opinberar hjákonur. Með þessum konum eignaðist hann 14 börn sem eru opinberlega kennd við hann. Þar á meðal stjórnmálamanninn Norodom Ranariddh og núverandi kóng í Kambódíu, Norodom Sihamoni. Af þessum 14 börnum voru 6 myrt af Rauðu khmerunum 1975-1976 og ein af eiginkonum Sihanouks. Þrifill. Þrifill (fræðiheiti: "Labroides dimidiatus") er lítil fisktegund sem lifir við kóralrif í Indlandshafi, stórum hluta Kyrrahafs en einnig í innhöfum á borð við Rauðahaf. Hann lifir samlífi við aðra fiska og hreinsar sníkjudýr og dauðar hreisturflögur af hreistri þeirra. Á móti fær hann bæði næringu og öryggi. Allir þriflar hefja lífsferil sinn sem hrygnur. Þær halda sig í hópi sem samsettur er úr 6-8 fiskum, þar af er bara einn hængur. Þegar hængur drepst skiptir sterkasta hrygnan um kyn og æxlast við hinar hrygnurnar. Brasilískt jiu-jitsu. Brasilískt jiu-jitsu er íþrótt sem er best lýst sem gólfglímu. Lögð er áhersla á vogarafl umfram styrk en brasilískt jiu-jitsu er hannað fyrir veikari einstakling á móti stærri og sterkari. Það hentar því fólki af öllum stærðum og gerðum. Markmiðið er að ná yfirburðarstöðu gagnvart andstæðingnum og fá hann til að gefast upp með lás, svæfingu eða einhvers konar taki. Yfirburðarstaða telst þá einhvers konar staða þar sem andstæðingurinn getur ekki meitt mann en maður getur meitt andstæðinginn eða fengið hann á einhvern hátt til að gefast upp. Uppruni. Brasilískt jiu-jitsu á uppruna sinn í japönsku Kodokan júdói en hefur verið í þróun af Gracie fjölskyldunni í Brasilíu bróðurpartinn af 20. öldinni. Stofnandi þess telst vera Hélio Gracie sem lærði af japönskum júdómeistara á 3. áratug síðustu aldar ásamt bræðrum sínum. Brasilískt jiu-jitsu fór að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og vinsælda á 10. áratugnum. Royce Gracie vann UFC-keppnina (Ultimate fighting championship) í fyrsta skiptið sem hún var haldin árið 1993 og svo aftur 1994 og 1996. Þar var keppni milli manna sem æfðu hinar ýmsu bardagalistir, svo sem hnefaleika, karate, júdó, tae kwon do og glímu. Gracie var minnsti keppandinn en vann þó auðveldan sigur á keppinautum sínum án þess að kýla varla né sparka. Bardagaaðferðir. í brasilísku jiu-jitsu er lögð áhersla á gólfglímutækni og lásatök til að yfirbuga andstæðinginn. Yfirburðir stærri og sterkari andstæðings liggja í þyngri höggum og stærra athafnasvæði en með glímu á jörðinni eru þessir yfirburðir að mestu útilokaðir. Meirihluta af þeim tökum sem notuð eru til að yfirbuga andstæðinginn eru hægt að skipta í tvo stóra flokka, liðamótatök og kverkatök. Með liðamótataki er yfirleitt tekinn fyrir útlimur og hann teygður þannig að liðamótin fara út fyrir sitt eðlilega hreyfisvið. Þrýstingur er svo aukinn á liðamótin á ákveðin hátt og sleppt ef andstæðingurinn getur ekki sloppið úr því og gefur til kynna uppgjöf. Uppgjöf er gefin til kynna með því að slá laust á gólf eða andstæðing með flötum lófa. Í flestum keppnum eru liðamótalásar sem beint er að hnjám, ökklum og mænu bannaðir vegna mikillar hættu á meiðslum. Hins vegar eru margir liðamótalásar leyfðir sem beinast að sveigjanlegri liðamótum, svo sem úlnlið, olnboga og öxlum. Fleiri lásar eru leyfðir í keppnum eftir því sem keppendur hafa meiri þjálfun. Kyrkingatak, sem truflar blóðflæði til heilans, getur valdið meðvitundarleysi ef andstæðingur gefst ekki nógu fljótt upp. Önnur kverkatök, svokölluð „air chokes“ eru ekki eins árangursrík og geta valdið meiðslum. Óalgengara yfirbugunartak, sem má kalla samþjöppunarlás, verður þegar vöðva andstæðings er þrýst að hörðu, stóru beini, oft sköflung, sem veldur miklum sársauka. Þessir lásar eru yfirleitt ekki leyfðir í keppnum vegna hættu á að rífa vöðvavef. Sérkenni brasilísks jiu-jitsu. Brasilískt jiu-jitsu á notkun á vogarafli, liðamótatökum og kverkatökum sameiginlega með júdó og hefðbundnu jiu-jitsu. Ólíkt brasilísku jiu-jitsu er hefðbundið jiu-jitsu ekki keppnisíþrótt og þar eru notuð spörk og kýlingar. Í nútíma júdó er lögð meiri áhersla á byltur og standandi bardaga. Í brasilísku jiu-jitsu eru leyfðar fleiri aðferðir til að færa bardagann í gólfið, eins og að draga andstæðinginn í gólfið og að henda sér í gólfið þegar maður hefur náð taki á andstæðingnum. Mikið af tökum og aðferðum sem beitt eru í brasilísku jiu-jitsu eru þau sömu og voru í Kodokan júdói, en hinsvegar hefur júdó þróast meira í þá átt að leggja meiri áherslu á standandi bardaga og byltur, fækkað liðamótabrögðum sem leyfileg eru í keppnum og að gera það áhorfendavænna. Það sem greinir brasilískt jiu-jitsu sterkast frá júdó er áherslan á gólfvinnu í brasilísku jiu-jitsu, á móti áherslu á byltur í júdó. Stigagjöf í keppnum er einnig mjög ólík. Stíllega eru þessar tvær íþróttir einnig nokkuð ólíkar. Gracie fjölskyldan vildi skapa þjóðlega bardagaíþrótt, með áhrifum frá brasilískri menningu. Þau lögðu líka áherslu á „náinn“ bardaga (e. full-contact fighting) og sjálfsvörn. Einkunnarkerfi. Einkunnarkerfi í brasilísku jiu-jitsu byggist á lituðum beltum sem tákna aukna kunnáttu innan sjálfsvarnaríþróttarinnar. Svipuð kerfi eru til í öðrum sjálfsvarnaríþróttum eins og til dæmis í júdó. Krakkabeltin eru tengd aldri. Við fjögurra ára aldur ná þau gráa beltinu, við sjö ára aldur það gula, 10 ára aldur fyrir það appelsínugula og loks þrettán ára fyrir græna beltið. Aldurinn er hugsaður út frá því að einstaklingar æfi í ár eða meira á milli belta. Til dæmis til að ná fjólubláa beltinu fyrir sextán ára aldur þarf að eyða tveimur árum að minnsta í græna beltinu en einu ári til að ná því fyrir sautján ára aldur. Tíminn á milli fullorðinsbeltana eru tvö ár á milli þess bláa og fjólubláa, eitt og hálft ár á milli þess fjólubláa og brúna og eitt ár á milli brúna beltisins og þess svarta. Auk þess eru hæfiskröfurnar fyrir svarta beltið nítján ára aldur, að vera meðlimur að alþjóðasamtökum BJJ, hafa farið á skyndihjálparnámskeið og hafa náð prófi sem dómari á síðustu tólf mánuðunum. Alþingiskosningar 1942 (október). Alþingiskosningar 1942 (október) voru seinni Alþingiskosningarnar sem haldnar voru árið 1942 vegna breytinga á kosningalögum. Þær fóru fram 18. október það ár. Ju jitsu. Ju jitsu, jujitsu, ju jutsu, jujutsu, jiu jutsu eða jiu jitsu er japönsk sjálfsvarnarlist sem byggir meðal annars á notkun vogarafls, liðamótataka, kverkataka, högga, sparka og taugapunkta í líkama andstæðingsin til þess að yfirbuga hann. Sumir skólar kenna einnig notkun hefðbundinna japanskra vopna. Ju jitsu var þróað af japönskum samúræum. Hugtakið "ju jitsu" varð ekki til fyrr en á 17. öld en bardagalist samúræanna er þó töluvert eldri og á líklega uppruna sinn að rekja til 13. aldar. Margar nútímasjálfsvarnaríþróttir eru komnar frá ju jitsu og má þar nefna júdó, aikido hapkidó og brasilískt jiu-jitsu en auk þess hafa mörg afbrigði af karate orðið fyrir áhrifum frá ju jitsu. Hefðbundið ju jitsu er þó ekki keppnisíþrótt. Fókýlídes. Fókýlídes var forngrískt skáld frá borginni Míletos. Hann var samtímamaður skáldsins Þeognis frá Megöru sem var fæddur um 560 f.Kr. Ekkert af kvæðum Fókýlídesar er varðveitt í heild sinni og brot úr verkum hans eru tiltölulega fá. Kvæðið "Ποίημα νουθετικόν" eða "γνωμαι" ("poiema nouþetikon" eða "gnomai"), sem er 230 línur að lengd og varðveitt í heild sinni, er eignað honum en er nú talið vera eftir óþekktan en mun yngri höfund. Gagnrýnin hugsun. Gagnrýnin hugsun er yfirveguð hugleiðing um hvort maður ætti að fallast á eða hafna fullyrðingu eða fresta dómi um hana og með hversu mikilli vissu maður ætti að fallast á hana eða hafna henni. Páll Skúlason skilgreinir gagnrýna hugsun svo: „Gagnrýnin er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni“. Gagnrýnin hugsun á jafnt við um skoðanamyndun og ákvarðanatöku. Hún tekur til greina vitnisburð, reynslu og rök og felur gjarnan í sér túlkun og mat á vitnisburði, rökum og upplýsingum og samhengi þeirra og mikilvægi, sem og mat á hvaða mælikvarði eða aðferðafræði er viðeigandi til að skera úr um málið. Gagnrýnin hugsun reiðir sig ekki einungis á rökfestu heldur einnig á nákvæmni, skýra hugsun og sanngirni eftir því sem á við. Nýja-Bretland. Nýja-Bretland er eyja í Bismarck-eyjaklasanum í Papúa Nýja-Gíneu. Milli eyjunnar og Nýju-Gíneu í vestri er Dampier-sund og milli hennar og Nýja-Írlands í austri er Georgssund. Helstu bæir á eyjunni eru Kokopo og Kimbe. Fyrstur Evrópubúa til að stíga fæti á eyjuna var William Dampier 27. febrúar 1700. Aðdráttarvara. Aðdráttarvara einnig þekkt sem beita eða agn er vara sem seld er annaðhvort á lágu verði, á kostnaðarverði eða jafnvel undir kostnaðarverði til þess að lokka að viðskiptavini. Magnús Ingimarsson. Magnús Ingimarsson hljómlistarmaður og prentsmiður, (f. á Akureyri 1. maí 1933 - d. 21. mars 2000). Magnús var landskunnur tónlistarmaður, útsetjari og píanóleikari. Kistan. Kistan er íslenskt vefrit um hugvísindi og menningu. Norodom Sihamoni. Sihamoni konungur Norodom Sihamoni (fæddur 14. maí 1953) er konungur Kambódiu. Hann er sonur Norodom Sihanouks og konu hans Norodom Monineath Sihanouk. Sihamoni var valinn konungur eftir að faðir hans hafði sagt af sér konungsembættinu árið 2004. Æviágrip. Sihamoni á opinberlega 13 systkini en einungis eitt þeirra, yngri bróðir hans Norodom Narindrapong (fæddur 1954 og lést 2003), var alsystkin. Það er ekki alveg ljóst hver formleg staða móður hans var gagnvart föðurnum, Sihanouk prins, þegar Sihamoni fæddist. Hún var dóttir kambódískrar prinsessu, Pomme Peang og fransk-ítalsks bankamans, Jean-François Izzi. Sennilega var hún ein af fjölmörgum opinberum og óopinberum hjákonum Sihanouks þegar hún varð ólétt af Sihamoni. Samkvæmt vefsvæði um konungaættir giftust Sihanouk og Monineath tvisvar, 12. apríl 1952, þegar hún var 15 ára, og aftur 5. mars 1955 og þá öllu hátíðlegra. Hún fékk síðarmeir titilinn drottning og ber hann enn. Sihamoni hefur dvalist stærsta hluta lífsins utan Kambódíu. Árið 1962 var hann sendur, níu ara gamall, til Tékkóslóvakíu. Þar bjó hann fram til 1975 og gekk í grunnskóla og menntaskóla og lærði síðar ballettdans og músík við listaháskóla. Hann lék 1967 aðalhlutverk í kvikmynd föður síns, "Le petit price" og vann árið 1971 fyrstu verðlaun í Tékkóslóvaskri keppni í klassískum balletdansi. Árið 1975 hélt hann frá Prag og fór í kvikmyndanám í Norður-Kóreu. Hann lét að vilja föður síns 1977 og flutti til Kambódíu. Þar var hann settur í stofufangelsi af Rauðu khmerunum ásamt öðrum í konungsfjölskyldunni fram að innrás Víetnama í Kambódíu 1979. Sihamoni flutti síðan til Frakklands 1982 og bjó þar þangað til hann var kallaður heim til að taka við embætti konungs 2004. Í Frakklandi dansaði hann, kenndi og setti upp danssýningar. Sihamoni hafði eigin danshóp í Frakklandi, "Ballet Deva". Sihamoni er ókvæntur og á engin börn. Opinberlega er hann sagður lifa í ævilöngu skírlífi (eða eins og faðir hans, Sihanouk prins sagði: „célibataire à la manière de Jean-Claude Brialy“. Brialy var þekktur samkynhneigður franskur kvikmyndaleikari). Það að Sihamoni mun ekki eignast erfingja er hins vegar ekki vandamál í Kambódíu þar sem hefð og núverandi stjórnarskrá segir að velja eigi kóng úr röðum konungsfjölskyldunnar, það er ekki sjálfsagt, og hefur í raun verið sjaldgæft, að elsti sonurinn taki við embætti. Skjaldarmerki Kambódíu. Forn fyrirmynd skjaldarmerkisins, lágmynd á stein Skjaldarmerki Kambódíu hefur verið opinbert merki konungsríkisins Kambódíu allt frá því að landið fékk sjálfstæði frá Frökkum 1953. Fyrirmyndina er að finna frá tímum Jayavarman VI konungs (1090-1107). Lýsing. Á merkinu standa tvö þjóðsagnadýr sitt hvoru megin. "Gajasimha" (ljón með fílarana) stendur til vinstri en hægra megin er "singha" (ljón). Dýrin styðja hvert sína fimmhæða sólhlíf. Efst í miðju er kóngakóróna og geislar af henni. Neðan við kórónuna eru tvær skálar hver ofan a annarri og ofan á þeirri efri liggur sverð. Milli sverðsins og kórónunnar er tákn á khmer fyrir hið heilaga hljóð Óam. Neðantil á merkinu er þrjú orð á khmer: 170px - "preah'jao" (hans hágöfgi eða hér konungur) - "krung" (svæði eða land, hér ríki) - "Kampuchea" (Kamputsea), það er "Konungur í Konungsríkinu Kambódía". Saga. Þegar konungsdæmið af afnumið 1970 var skjaldarmerki einnig lagt af. Á næstu áratugum voru ýmsar útgáfur af skjaldarmerki notaðar allt eftir stjórnum, allar stíliseraðar útgáfur af Angkor Wat. Þegar konungsdæmið var endurreist 1993 var þetta skjaldarmerki tekið upp a nýju. Lon Nol. Lon Nol (fæddur 13. nóvember 1913, dáinn 17. nóvember 1985) var stjórnmálamaður og hershöfðingi í Kambódíu. Hann gegndi embætti forsætisráðherra í tvígang og var auk þess varnarmálaráðherra. Þegar Norodom Sihanouk var erlendis, 18. mars 1970, framkvæmdi Lon Nol valdarán í landinu, setti Sihanouk af og afnumdi konungsveldið og stofnaði "Khmer Lýðveldið". Óvíst er hversu stóran þátt Bandaríkin áttu í valdaráninu en vitað er að þau höfðu mikinn áhuga á því að koma Sihanouk frá völdum. Lon Nol krafðist þess að hersveitir Norður-Víetnam og skæruliðar frá Suður-Víetnam yfirgæfu Kambódíu. Austurhluti Kambódíu hafði orðið mikilvæg fluttningaleið og baksvæði í baráttunni gegn bandaríkjaher og bandamönnum þeirra í Víetnam. Rauðu khmerarnir hófu harða baráttu gegn stjórn Lon Nol og fengu Sihanouk prins í lið með sér. Fljótlega varð staðan sú að Lon Nol réði einungis yfir höfuðborginni, Phnom Penh, og nokkrum öðrum stærri borgum en kommúnistarnir, undir forystu Pol Pots, réðu yfir landsbyggðinni. Fyrsta apríl 1975 gafst Lon Nol upp og flúði til Bandaríkjanna, Rauðu khmerarnir tóku Phnom Penh 17. apríl og tæmdu borgin á næstu dögum. Forsprakkar Khmer Lýðveldisins og fjölskyldur þeirra sem ekki komust úr landi voru öll drepinn. Lon Nol lést í Bandaríkjunum 17. nóvember 1985. Páll Melsteð (sagnfræðingur). Páll Melsteð (13. nóvember 1812 – 9. febrúar 1910) var íslenskur sagnfræðingur, sýslumaður og alþingismaður. Ævi. Páll var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal, sonur Páls Melsteð amtmanns og fyrri konu hans, Önnu Sigríðar Stefánsdóttur Melsteð. Hann lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1834 og lifði lengst allra þeirra sem þaðan höfðu útskrifast. Hann fór svo utan og stundaði lögfræðinám við Kaupmannahafnarháskóla en lauk ekki prófi, heldur kom heim 1840, fór að búa á Brekku á Álftanesi og stundaði barnakennslu. Hann var settur sýslumaður í Árnessýslu í fjarveru föður síns 1845-1846 og aftur 1848-1849. Árið 1846 flutti hann til Reykjavíkur og varð þar forstöðumaður Landsprentsmiðjunnar. Hann var líka ritari konungsfulltrúa á Alþingi 1845-1849 og þjóðfundarfulltrúi Snæfellinga 1851 og var einn þeirra fáu sem ekki tóku undir mótmæli Jóns Sigurðssonar („vér mótmælum allir“), enda var faðir hans forseti fundarins. Á árunum 1849-1854 var hann settur sýslumaður í Snæfellsnessýslu og sat fyrst í Stykkishólmi, síðan á Búðum og loks í Bjarnarhöfn. Árið 1855 fór hann aftur út til náms og lauk lögfræðiprófi í janúar 1857. Hann var settur sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1858-1862 og málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1862-1886. Alþingismaður Snæfellinga var hann 1858-1864. Hann var lengi stundakennari í sögu við Lærða skólann og fastur kennari 1886-1894. Hann stofnaði ásamt Þóru konu sinni Kvennaskólann í Reykjavík 1874 og kenndi við hann til 1889. Hann samdi allmargar kennslubækur í mannkynssögu sem lengi voru notaðar og endurminningar hans, sem hann hafði sjálfur skráð, komu út árið 1912. Fyrri kona Páls (30. desember 1840) var Jórunn Ísleifsdóttir (14. maí 1816 – 21. ágúst 1858), dóttir Ísleifs Einarssonar háyfirdómara og seinni konu hans Sigríðar Gísladóttur. Af átta börnum þeirra komust aðeins þrjú upp. Sonurinn Páll lést um tvítugt, Sigríður giftist ekki en Anna giftist Stefáni Stephensen klausturhaldara. Seinni kona Páls (13. nóvember 1859) var Þóra Melsteð (18. desember 1823 – 21. apríl 1919), dóttir Gríms Jónssonar amtmanns og konu hans, Birgitte Cecilie Breum. Þau voru barnlaus. Austur-Frísland. Austur-Frísland (lágsaxneska: "Oostfreesland", þýska: "Ostfriesland") er strandhérað norðvestan við þýska fylkið Neðra-Saxland. Austur-Frísland er á milli Vestur-Fríslands (sem er hluti Hollands) og Norður-Fríslands í Slésvík-Holtsetalandi. Utan við strönd Austur-Frísland eru Austurfrísnesku eyjarnar. Héraðið skiptist í umdæmi Aurich, Leer, Wittmund og borgina Emden. Markgreifi. Markgreifi / markgreifynja er arfgengur aðalstitill í nokkrum Evrópulöndum og nýlendum þeirra. Hugtakið er líka notað yfir hliðstæða titla í Kína og Japan. Í aðalsmannatali Bretlands er markgreifi lægra settur en hertogi en hærra settur en jarl. Stundum fengu erfingjar hertoga þennan titil. Upphaflega var markgreifi lénsherra yfir mörk, það er landi við landamæri ríkisins, samanber norsku fylkin Þelamörk og Heiðmörk. Síðar varð markgreifinn einfaldlega næsti aðalstitill fyrir ofan greifa. Eitt eða fleiri barónsdæmi eða greifadæmi gátu tilheyrt markgreifadæmi. Á 18. öld varð markgreifatitillinn hirðtitill í Frakklandi og fjöldi nýrra markgreifa- og greifatitla varð til. Stórhertogi. Stórhertogi og stórhertogynja eru aðalstitlar sem eru aðallega notaðir í Vestur-Evrópu yfir sjálfstæða höfðingja yfir stórum héruðum eða fylkjum. Samkvæmt hefðinni heyrir stórhertogi undir konung. Stórfursti er í sumum löndum sambærilegur titill. Titillinn hefur líka sums staðar verið notaður sem kurteisistitill (án þess að í honum felist raunveruleg landaforráð) barna þjóðhöfðingja. Fursti. Fursti og furstynja eru titill þjóðhöfðingja sem ríkir yfir furstadæmi. Furstar eru þannig oftast sjálfstæðir þjóðhöfðingjar sem ekki heyra undir konung (en geta þó heyrt undir keisara). Nú á dögum er titillinn notaður í nokkrum löndum þar sem gerður er greinarmunur á sjálfstæðum (eða fyrrum sjálfstæðum) furstum og furstum sem eru einfaldlega hluti af aðlinum. Í Evrópu eru nú aðeins þrjú sjálfstæð furstadæmi: Mónakó, Andorra og Liechtenstein. Stórfursti. Stórfursti og stórfurstynja eru titlar þjóðhöfðingja yfir stórfurstadæmi sem heyrir undir keisara en er talinn æðri einföldum fursta. Engir sjálfstæðir stórfurstar eru lengur til og þegar síðustu stórfurstadæmin (Litháen, Transylvanía og Finnland) hurfu í Fyrri heimsstyrjöld höfðu þau þegar um langt skeið heyrt undir aðra þjóðhöfðingja sem notuðu stórfurstatitilinn aðeins sem hluta af titlum sínum. Erkihertogi. Erkihertogi og ekihertogaynja eru aðalstitlar sem eru æðri hertoga en lægri en þjóðhöfðingi landsins, hvort sem hann er keisari, konungur eða fursti. Þessi titill var aðeins notaður í hinu Heilaga rómverska ríki þar sem allir meðlimir keisarafjölskyldunnar aðrir en keisarinn notuðu hann. Hann var því sambærilegur við "prins" í öðrum löndum. Nú nota fyrstu 73 meðlimir Habsborgara í erfðaröðinni að hásæti keisarans þennan titil þar sem það er löglegt. Prins. Prins og prinsessa (úr latínu: "princeps", „fyrstur“ sbr. fursti) eru heiti barna þjóðhöfðingja eða eiginmanns/eiginkonu ríkjandi konungs. Prins og prinsessa sem eru næst í röðinni að hásætinu eru kölluð krónprins/krónprinsessa. Hugtakið á rætur að rekja til rómverska lýðveldisins þar sem leiðtogi öldungaráðsins var oft kallaður "princeps". Þennan titil tók fyrsti keisari Rómaveldis (og heimsins), Ágústus, upp og notaði ásamt öðrum titlum. Sums staðar hefur tíðkast að ríkisarfi fái einnig titil eins og í tilviki ríkisarfanna í Bretlandi (prinsinn af Wales) og á Spáni (prinsinn af Astúrías). Algengara er að ríkisarfar fái einfaldlega lén með þeim titlum sem þeim fylgja. Friðrik krónprins Danmerkur er þannig til dæmis greifi af Monpezat. Hertogi. Hertogi og hertogaynja (úr fornlágþýsku: "hėritogo" „herforingi“; sbr. fornháþýsku: "hėrizogo", „herforingi“) eru aðalstitlar sem oft hafa verið æðstu aðalstitlar landa, næst á eftir konungi og drottningu. Upphaflega var titillinn notaður af Rómverjum yfir herforingja (latína: "Dux Bellorum"). Á miðöldum var hertogi aðalsmaður sem ríkti yfir sveitahéraði, hertogadæmi, og var æðri greifum sem ríktu í borgum. Með einveldinu varð titill hertoga að heiðurstitli án yfirráða yfir landi með þeirri undantekningu að Lúxemborg var gerð að stórhertogadæmi í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Aðall. Aðall er heiti á ákveðinni stétt fólks sem oftast er sú valdamesta og auðugasta í tilteknu landi. Aðalsstétt nýtur auk þess ákveðinna sérréttinda. Aðalsmenn og -konur bera ákveðna titla sem ganga í arf til barna þeirra ásamt þeim réttindum sem titlinum fylgja. Einhvers konar aðall hefur verið til í samfélögum þar sem lénskerfi hefur einhvern tíma verið til. Á Vesturlöndum nútímans eru aðalstitlar yfirleitt aðeins heiðurstitlar og fela ekki í sér nein sérréttindi. Jarl. Jarl er aðalstitill sem á uppruna sinn á Norðurlöndum. Upphaflega var jarl þar æðsti titill aðalsmanns og var yfirleitt aðeins um einn eða tvo jarla að ræða samtímis. Menn voru einkum skipaðir jarlar af þremur ástæðum: þeir voru landstjórar með vald konungs í nýlendum eins og yfir Orkneyjum (Eyjajarlar) eða yfir Íslandi (Gissur jarl), þeir fóru með vald konungs heima fyrir ef konungur var ekki orðinn myndugur eða ef hann var veikur eða fjarverandi (Hákon galinn), börn konungs sem ekki erfðu krúnuna fengu þennan titil í sárabætur og eins krónprinsar og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar. Titillinn var því að mörgu leyti sambærilegur við hertogatitil eða embætti varakonungs í Evrópu. 1237 fékk Skúli Bárðarson titilinn „hertogi“ og í það lagður sá skilningur að hann stæði jörlunum ofar. Hákon háleggur var líka hertogi áður en hann varð kóngur. Í Frakklandi var Göngu-Hrólfur gerður hertogi yfir Normandí í kjölfar friðarsamninga milli Víkinga og Karls einfalda árið 911. Höfuðstaður Normandí var borgin Rouen sem Víkingar kölluðu „Rúðuborg“. Hertogarnir yfir Normandí voru því kallaðir Rúðujarlar á Norðurlöndunum sem aftur bendir til jafngildis jarlstitils og hertogatitils á miðöldum. Á Bretlandseyjum var titillinn tekinn upp af Engilsöxum sem lén þar sem áður voru sjálfstæð konungsríki þegar England var sameinað í eitt ríki eftir innrás og landnám Víkinga. Lönd jarls voru þannig oft miklu stærri en einstök skíri og jarlinn gat innheimt skatta og haldið eigin hirð. Eftir innrás Normanna urðu skírin að stærstu stjórnsýslueiningu ríkisins og yfir þau voru settir jarlar sem við það urðu jafngildir greifum á meginlandi Evrópu og jarlar máttu ekki lengur innheimta eigin skatta. Hinrik 2. Englandskonungur gerði síðar átak í að draga úr völdum jarlanna með því að eyðileggja eða taka yfir kastala þeirra og gera þá háða konungsvaldinu. Fógetar urðu sjálfstætt stjórnvald í skíri óháð jarlinum. Síðar hafa tengsl jarla og skíra í Englandi rofnað. Nú eru þrettán jarlar í Englandi og nokkrir í Wales og í Skotlandi. Vísigreifi. Vísigreifi (varagreifi eða undirgreifi og samsvarandi kvenkyns titill er vísigreifynja) er aðalstitill sem er æðri en barón en neðar en greifi. Upphaflega var vísigreifi embættisheiti fulltrúa greifa en á hámiðöldum varð það að arfgengum aðalstitli. Í Bretlandi komst á sú hefð að titla erfingja jarls eða markgreifa vísigreifa. Barón. Barón eða fríherra og barónessa (úr frankversku: "baro", „frjáls maður“) eru aðalstitlar. Barón er lægsti titillinn sem tilheyrir lendum aðli eða háaðli. Neðan við stöðu baróns er lágaðallinn, riddarar og skjaldsveinar. Í Bretlandi var barón upphaflega landeigandi sem svarið hafði konungi trúnaðareið. Baróns-/fríherratitlar voru teknir upp í Svíþjóð 1561 og í Dansk-norska ríkinu árið 1671. Fáveldi. Fáveldi, fáveldisstjórn eða fámennisstjórn (stundum nefnt fámennisræði eða oligarkí) er stjórnarfar sem vísar til þess þegar stjórn (oftast ríkis) er í höndum fárra í krafti erfða, auðmagns, hernaðarlegra ítaka eða trúarlegra yfirráða. Hið alþjóðlega orð "oligarkí" (gríska: Ὀλιγαρχία: Oligarkía) er myndað úr tveimur orðum ὀλίγος, sem merkir fáir og ἀρχή sem merkir ræði (ráð, forræði) eða veldi. Óformlega getur hugtakið fáveldi vísað til fámenns hóps sem vegna einhverskonar sérréttinda hefur komist til valda. Hið nýja Rússland sem varð til eftir fall Sovétríkjanna hefur t.d. stundum verið tengt við fáveldisstjórn sökum ítaka stórfyrirtækja og margmiljarðamæringa við stjórn landsins. Michael Ende. Michael Andreas Helmuth Ende (12. nóvember 1929 – 28. ágúst 1995) var þýskur rithöfundur sem skrifaði ævintýri og barnabækur sem nutu gríðarlegra vinsælda. Tvær af þekktustu bókum hans hafa verið þýddar á íslensku; "Mómó" frá 1973 og "Sagan endalausa" frá 1979, en eftir henni voru gerðar nokkrar kvikmyndir, sú fyrsta árið 1984. Sjávarfallaorka. Sjávarfallaorka er endurnýjanleg og umhverfisvæn orka sem fæst með því að umbreyta hreyfiorku sjávarfallastrauma í rafmagn eða annan nothæfan orkumiðil. Nýting sjávarfalla á sér langa sögu í Evrópu, eða allt frá miðöldum. Víða í Frakklandi og á Englandi voru litlar sjávarfallamyllur notaðar við að þreskja korn. Þrátt fyrir það þá er nýting sjávarfalla til raforkuframleiðslu ekki algeng og eru einungis nokkrar dæmi um slíkt í heiminum í dag. Það gæti þó breyst á komandi árum þar sem mörg tilraunarverkefni eru í gangi víðsvegar um heiminn og mikil þróun á búnaði til nýtingar sjávarfallaorku hefur átt sér stað undanfarið. Sjávarfallaorka hefur þann kost fram yfir bæði vind- og sólarorku að vera mun fyrirsjáanlegri orkuuppspretta. Það er vel þekkt að sveiflur eru í straumhraða sjávar eftir flóði og fjöru, þar sem straumurinn dettur niður á rúmlega 6 tíma fresti. Þó þessar sveiflur séu bæði vel þekktar og fyrirsjáanlegar þá verður það að teljast ókostur með tilliti til raforkuframleiðslu að straumurinn skuli detta reglulega niður, þar sem samsvarandi sveiflur yrðu í afli raforkuvirkjunar. Hegðun sjávarfalla. Sjávarföll eru sjávarbylgja sem stafar af aðdráttarafli tunglsins, og að litlu leyti sólarinnar á jörðina. Það er vel þekkt að flóð og fjara eru tvisvar á sólarhring en það er vegna þess að sveifla sjávarfallabylgjunnar er rúmlega 12,4 tímar. Sjávarfallabylgjan ferðast frá austri til vesturs og þegar fyrirstaða myndast á úthöfunum, eins og Ísland er, fer bylgjan umhverfis fyrirstöðuna og magnast vestan megin við hana. Af þeirri ástæðu er munur á flóði og fjöru mestur á vestanverðu landinu en mjög lítill á landinu austanverðu. Virkjun sjávarfalla. La Rance stífluvirkjunin í Frakklandi Fyrri kosturinn hefur verið reyndur á nokkrum stöðum í heiminum og er þekktasta virkjunin La Rance stífluvirkjunin í Frakkalandi. Hún er jafnframt fyrsta stífluvirkjunin í heiminum, tekin í notkun 1966, og hún er einnig sú stærsta, með 240 MW uppsett afl. Túrbínum er komið fyrir í stíflunni sem sjá um að framleiða rafmagn þegar vatni streymir þar í gegn. Þótt rafmagnsframleiðsla með þessari aðferð sé endurnýjanleg þá mun slík stífluvirkjun seint teljast umhverfisvænn kostur. Það stafar einna helst af því að slíkar virkjanir krefjast stórra stíflumannvirkja sem ná þvert yfir sund eða fjörð. Seinni kosturinn, að virkja hreyfiorkuna án stíflu er tæknin sem flestir horfa til í dag og flest þróunarverkefni byggja á. Töluvert minni umhverfisáhrif hljótast af slíkum streymisvirkjunum þar sem þær þarfnast hvorki stíflna né lóna. Útreikningur á afli straumvirkjana. Straumvirkjanir nýta aðeins hluta af því afli vatnsins sem streymir í gegnum þær. Nýtni straumvirkjana er skilgreint sem það afl sem fæst út úr virkjuninni sem hlutfall af aflinu sem er í vatnsstraumnum. Oftast er nýtnin á bilinu 20 – 25 % og er mest talað um 40% nýtni, en nýtnin breytist með straumhraða þannig að meðalnýtnin er lægri. Þetta er frekar lág nýtni í samanburði við fallvatnsvirkjanir sem hafa 100% fræðilega nýtni. Einhver töp verða þó við framleiðslu rafmagns úr snúningsaflinu,og er algengt að raunveruleg nýtni fallvatnsvirkjana sé á bilinu 85 – 95%. Skrúfuhverflar. Skrúfuhverflavirkjanir líkjast mjög hefðbundnum vindmillum með mjó og löng skrúfublöð sem gefa hámarks snúningsvægi við ákveðinn straumhraða. Þar sem eðlismassi vatns og sjós er töluvert hærri en lofts og straumhraði vatnsins oftast hægari en vindurinn, tekur hönnun mið af því og skrúfublöðin því styttri og hlutfallslega breiðari en hjá vindmillum. Þessar virkjanir þykja henta vel til nýtingar á sjávarföllum þar sem dýpi er nægjanlegt. Gegnumstreymishverflar. Gegnumstreymishverflar eru ólíkir skrúfuhverflum að því leyti að snúningsás hverfilsins er hornrétt á straumstefnuna, en ekki samsíða eins og í tilfelli skrúfuhverfla. Vatnið streymir í gegnum þá og tvö eða þrjú vængjalöguð blöð með straumlínulöguðu þversniði sem liggja í sömu stefnu og snúningsásinn og í ákveðinni fjarlægð frá ásnum. Engu máli skiptir í hvaða átt straumurinn stefnir svo framalega sem hann er hornréttur á snúningsásinn þar sem hverfillinn snýst þegar vatn streymir í gegnum hann. Þessi eiginleiki er hentugur þegar virkja þarf sjávarstrauma sem breyta reglulega um stefnu. Darrieus/Davis hverflar. Ein þekktasta tegund gegnumstreymishverfla er kennd við franska uppfinningamanninn Georges Darrieus sem fann upp vindmyllu með þessa eiginleika árið 1927. Nú hefur kanadíska fyrirtækið Blue Energy þróað gegnumstreymishverfil fyrir vatn sem það kallar Davis hverfil, eftir aðilanum sem þróaði hana út frá uppfinningu Darrieus. Hverflar Blue Energy hafa nýtni upp á 20 –25% og byggist hugmyndin á að þvera straumvatn með lóðréttum hverflum sem geta náð niður á allt að 70 m dýpi. Gorlov hverflar. Rússneskur verkfræðingur og fyrrum prófessor að nafni Alexander M. Gorlov hefur endurbætt Darrieus gegnumstreymishverfla þannig að nýtni þeirra hefur aukist úr 23% upp í 35%. Hönnunin byggist á því að snúið er upp á blöð hverfilsins þannig að hverfillinn verður gormlaga eða skrúfulínulaga í stefnu snúningsássins. Þetta gerir það að verkum að hverfillinn titrar minna, er hljóðlátari og þolir meira álag heldur en Darrieus hverfillinn. Gorlov fékk einkaleyfi á uppfinningunni árið 2001 og sama ár veitti Ameríska vélaverkfræðingafélagið (American Society of Mechanical Engineers) honum hin virtu Thomas A Edison einkaleyfaverðlaun fyrir uppfinninguna. Það sem gerir Gorlov hverfla áhugaverða er hin háa nýtni miðað við aðrar þekktar lausnir og hversu einföld hönnunin er. Hver hverfill er lítill í samanburði við aðrar lausnir og því ætti að vera auðveldara að koma þeim fyrir í íslenskum straumvötnum og nýta sjávarfallastrauma. Virkjunarkostir á Íslandi. Engar sjávarfallavirkjanir eru sem stendur á Íslandi. Hér á landi eru þó nokkur svæði sem gætu hentað til slíkra framkvæmda. Einna helst væru það svæði á vestanverðu landinu sem kæmu til greina, þar sem munur á flóði og fjöru er hvað mestur. Í Breiðafirði getur munurinn á flóði og fjöru orðið rúmlega 5 metrar en munurinn er hvergi meiri en það hér á landi. Þar magnast einnig straumhraðinn upp þar sem sjávarfallabylgjan þarf að þröngva sér milli eyja og sverja inn í Hvammsfjörðinn. Óvíst er hversu hagkvæm sjávarfallavirkjun í Breiðafirði væri, en hagkvæmni slíkrar virkjunar fer fyrst og fremst eftir straumhraða og rennsli í gegnum virkjunina sem og nýtni hennar. Kögun hf. Kögun hf er ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað í Reykjavík þann 29. desember 1988. Fyrirtækið var stofnað fyrir tilstilli utanríkisráðuneytisins til að taka þátt í smíði íslenska loftvarnarkerfisins, öðru nafni IADS-ratsjárkerfið, sem var byggt upp á vegum NATO. IADS stendur fyrir "Iceland Air Defense System". Kerfið var komið í gagnið 1994, og eftir það sáu Íslendingar alfarið um rekstur þess undir stjórn Ratsjárstofnunar, en Kögun hf var undirverktaki stofnunarinnar og sá um viðhald og þróun hugbúnaðar IADS. Forstjóri fyrirtækisins lengst af var Gunnlaugur Sigmundsson en árin 2006 - 2009 var Bjarni Birgisson forstjóri. Gunnlaugur er faðir Sigmundar Davíðs alþingismanns. Kögun var sameinað Skýrr í nóvember 2009 ásamt fleiri upplýsingatæknifélögum og er í dag hluti af Advania hf. Upphaf félagsins. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins, Þróunarfélag Íslands hf og Félag íslenskra iðnrekenda, forveri Samtaka iðnaðarins, komu að stofnun Kögunar í samráði við ýmis hugbúnaðarfyrirtæki. Utanríkisráðherra á þessum tíma var Jón Baldvin Hannibalsson. Við stofnun átti Þróunarfélag Íslands hf 70% hlutafjár, en 37 hugbúnaðarfyrirtæki innan FÍI áttu 0,7% hlut hvert. Þá átti FÍI sjálft lítinn hlut í fyrirtækinu. Hlutafé við stofnun var 20 milljónir króna. Í fyrstu stjórn félagsins sátu þeir Geir Gunnlaugsson, Gunnlaugur Sigmundsson, Þorgeir Pálsson, Sigurður Hjaltason og Örn Karlsson. Fyrsti stjórnarformaður var Gunnlaugur Sigmundsson. Hann varð síðar forstjóri fyrirtæksins. Starfsemi Kögunar var fyrstu árin aðallega í Bandaríkjunum í samvinnu við "Hughes Aircraft Company", "Computer Sciences Corporation", "ASEA Brown Boveri" og fleiri fyrirtæki. Árið 1993 seldi Þróunarfélagið hlut sinn í fyrirtækinu til félagsins sjálfs og starfsmanna þess. Árið 1995 fluttist starfsemin að mestu til Íslands. Fyrirtækið varð síðan umboðsaðili Navision á Íslandi. Árið 1996 var fyrirtækið skráð á Opna tilboðsmarkaðinn, en árið 2000 voru hlutabréf þess skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Fyrstu fjóra mánuði ársins 1997 hækkaði gengi hlutabréfa fyrirtæksins um 277 prósent og hafði þá hækkað um 400 prósent frá fyrstu skráningu. Nafnið Kögun. Þórhallur Vilmundarson hjá Örnefnastofnun kom með tillögu að nafni félagsins. Kögun merkir "að litast um" eða "skima", samanber örnefnið Kögunarhóll, sem þýðir útsýnishæð. Fólgið fall. Fólgið fall er stærðfræðilegt fall sem hefur fylgibreytu sem er ekki skýrt táknuð í sambandi við frumbreytu. Dæmi um fólgið fall er t.d. formula_1 þar sem breytan formula_2 er fólgið fall af formula_3. Fólgin deildun. Fólgin deildun (einnig þekkt sem fólgin diffrun, óbein deildun eða óbein diffrun) er aðgerð í örsmæðareikningi sem hægt er að framkvæma á fólgnum föllum. Þessi aðferð notast við keðjuregluna. Athygli almannatengsl. Athygli ehf. er almannatengslafyrirtæki var stofnað 15. mars 1989. Lengst af voru starfsmenn fjórir til fimm talsins en á síðustu árum hefur fyrirtækið þróast í alhliða ráðgjafar- og útgáfufyrirtæki sem þjónustar einkum fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og ríkisstofnanir. Ráðgjafar Athygli eru flestir þrautreyndir blaða- og fréttamenn og hafa áratuga reynslu í fjölmiðlun. Þeir eru sérfræðingar á sviði almannatengsla sem hafa nýtt menntun sína og reynslu til að bæta og byggja upp ímynd fjölda viðskiptavina Athygli á liðnum árum. Auk þess að þjónusta viðskiptavini sína er Athygli með umsvifamikla útgáfu, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Athygli er með höfuðstöðvar að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík en rekur einnig starfsstöð að Hafnarstræti 82 á Akureyri. Starfsmenn Athygli eru: Atli Rúnar Halldórsson, Árni Þórður Jónsson, Bryndís Nielsen, Gunnar E. Kvaran, Valþór Hlöðversson, Guðmundur Þorsteinsson, Ingunn Hauksdóttir, Jóhann Ólafur Halldórsson og Hjördís Guðmundsdóttir. Italo Svevo. Italo Svevo (Aron Hector Schmitz; 19. desember 1861 – 13. september 1928) var ítalskur rithöfundur og athafnamaður. Hann fæddist í Trieste sem þá tilheyrði Austurrísk-ungverska keisaradæminu (til 1920). Hann var af vel stæðri gyðingafjölskyldu sem rak uppruna sinn til Ungverjalands. Hann hlaut menntun í þýsku og viðskiptafræði. Fyrirtæki föður hans varð gjaldþrota 1880 svo Schmitz hóf störf við banka og tók að skrifa í blöð undir dulnefni. 1892 gaf hann út sína fyrstu skáldsögu "Una vita" („Líf“) undir dulnefninu Italo Svevo. 1898 kom síðan út "Senilità" („Elliglöp“). Hvorug skáldsagan vakti nokkra athygli. 1907 hóf hann enskunám við Berlitz-enskuskóla í Trieste. Þar kynntist hann James Joyce sem kenndi við skólann og hvatti hann til að halda áfram að skrifa. 1923 gaf hann út "La coscienza di Zeno" („Samviska Zenos“) sem eru æviminningar aðalpersónunnar og endurspegla að stórum hluta ævi Svevos sjálfs. Þessi skáldsaga vakti ekki meiri athygli en þær fyrri þar til Joyce kynnti hana fyrir frönskum gagnrýnendum tveimur árum síðar. Um leið hóf ítalska skáldið Eugenio Montale að hæla bókinni opinberlega. Við þetta varð Svevo að bókmenntastjörnu. Hann náði þó ekki að ljúka við fjórðu skáldsögu sína, "Il vecchione o Le confessioni del vegliardo" („Gamlinginn eða Játningar öldungsins“) þar sem hann lést eftir bílslys í skíðabænum Bormio árið 1928. MP Fjárfestingabanki. MP Fjárfestingabanki (eða MP banki) er íslenskur banki sem varð til árið 2003 úr "MP Verðbréfum hf", sem Margeir Pétursson stofnaði árið 1999 ásamt Sverri Kristinssyni og Ágústi Sindra Karlssyni. Þeir áttu 10% hluti hvor, en Margeir 80% hluti. Stofnhlutafé var 100 milljónir króna. Árið 2003 fékk bankinn fjárfestingabankaleyfi og bauð þá alhliða fjárfestingabankaþjónustu. MP banki fékk fullt viðskiptabankaleyfi í október 2008 og hóf að taka við innlánum og séreignarsparnaði til viðbótar við fyrri starfsemi. Fyrsta útibú MP banka var opnað 11. maí 2009 í Borgartúni 26. 11. apríl 2011 lögðu yfir 40 innlendir og erlendir fjárfestar MP banka til 5,5ma í nýtt hlutafé og ný stjórn tók við. Núverandi forstjóri bankans er Sigurður Atli Jónsson. MP banki sérhæfir sig í þjónustu við minni og meðalstór fyrirtæki ásamt því að veita fjárfestum og efnameiri einstaklingum alhliða þjónustu á sviði fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar. Mótorprótein. Mótorprótein er hópur sameindamótora sem geta hreyft sig eftir ákveðnu yfirborði. Þau eru drifin af ATP og umbreyta þannig efnaorku í hreyfiorku. Notkun í frumum. Algengasta og augljósasta dæmið um mótorprótein er próteinið mýósín sem drífur samdrátt vöðvaþráða í dýrum. Þá eru þau einnig drifkrafturinn að baki virkum flutningi próteina og flutningi bóla og frumulíffæra í umfryminu. Kínesín og dynein koma hins vegar að því að aðskilja litninganapörin við mítósu og meiósu. Dynein er einnig að finna í svipum og er því mikilvæg við hreyfingu frumna, t.d. hjá sáðfrumum. Mótorprótein sem vinna á frumugrindinni. Mótorprótein sem nota frumugrindina við tilfærslu sína skiptast í tvo hópa; aktín-mótorprótein, sem skríða eftir aktínþráðum í frumugrindinni, og þau sem vinna á örpíplunum. Þá vinna þær ýmist frá plús-enda þráðanna eða mínus-enda þeirra. Sum mótorprótein bera með sér farm en önnur breyta hreinlega formi frumunnar. Mýósín. Mýósín er stór próteinfjölskylda aktín-mótora. Þau samanstanda af tveimur sterkum keðjum með mótorhaus og tveimur minni keðjum. Nafn þeirra er dregið af gríska orðinu yfir vöðva enda gegna mýósín því lykilhlutverki að stjórna samdrætti vöðvaþráða. Þau eru einnig mikilvæg þegar kemur að frumuskiptingu. Alls eru þekktir 18 mýósín-flokkar. Kínesín. Kínesín er hópur mótorpróteina sem skríða eftir örpíplunum. Þeir aðstoða litninga við að færa sig úr stað í mítósu en einnig flytja þeir hvatbera, Golgí-fléttur og bólur um í heilkjarnafrumum. Kínesín samanstanda oftast af tveimur sterkum keðjum með mótorhaust sem gengur ýmist í átt að plús- eða mínusenda örpíplanna. Alls eru þekkt 14 kínesín-prótein auk annarra líkra próteina sem er ekki hægt að flokka í ákveðna flokka. Dyneín. Dyneín eru mótorprótein sem geta runnið eftir örpíplunum. Þau eru mun stærri og flóknari próteinflókar en kínesín og mýósín. Dyneín koma við sögu í bifhárum og svipum. Mótorprótein í plöntum. Blómplöntur hafa ekki dyneínmótora heldur stóran hóp af ólíkum kínesínpróteinum. Mörg þeirra eru sérhæfð til að vinna í mítósu og flytja nýja frumuvegg út úr miðju frumunnar sem er í skiptingu. Landfræðilegt upplýsingakerfi. GIS stendur fyrir „geographic information system“ eða landfræðileg upplýsingakerfi. Þessi kerfi eru notuð við að greina og birta landfræðileg gögn. Valgeir Guðjónsson. Valgeir Guðjónsson (f. 1952) er íslenskur tónlistarmaður, tónskáld og textahöfundur. Valgeir var meðal stofnenda Stuðmanna 1974-1988 og Spilverks þjóðanna 1975-1979. Jakob Frímann Magnússon. Jakob Frímann Magnússon (f. 1953) er íslenskur tónlistarmaður, tónskáld og kvikmyndagerðarmaður. Jakob stofnaði hljómsveitina Stuðmenn um 1970 ásamt Valgeiri Guðjónssyni. Vilhjálmur Vilhjálmsson (söngvari). Vilhjálmur Vilhjálmsson - Glugginn hennar Kötu - 1972 Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson (f. 11. apríl 1945, d. 28. mars 1978) í Merkinesi í Höfnum á Suðurnesjunum var íslenskur tónlistarmaður. Hann var bróðir Ellyar Vilhjálms, söngkonu. Æviágrip. Vilhjálmur Vilhjálmsson fæddist þann 11. apríl 1945 í Merkinesi í Höfnum á Suðurnesjunum og ólst þar upp, yngstur í hópi fimm systkina. Á uppvaxtarárum sínum var Vilhjálmur allajafna kallaður Hólmar. Faðir hans var Vilhjálmur Hinrik Ívarsson, var þekktur harmonikuleikari og söngmaður. Vilhjálmur hafði munstrað sig í Lagadeild Háskóla Íslands en skipti þó fljótlega yfir í læknisfræði. Hann hafði eignast son 1963 með konu sinni og vegna þess og ekki síður vegna námsins varð hann að afla tekna. Um mitt ár 1970 fluttist Vilhjámur til Lúxemborgar eftir að hafa lokið flugnámi. Árið 1973 söng hann lagið Sæl, þú nú sefur en það er lagið Silence is golden með íslenskum texta Ómars Ragnarssonar, í sjónvarpsþættinum Kvöldstund. Þetta mun vera eina upptakan sem til er af laginu. Vilhjálmur lést í umferðarslysi í Lúxemborg þann 28. mars 1978, þar sem hann var við störf á vegum Arnarflugs. Þá einungis á 33 aldurs ári. Xfce. Xfce er skjáborðsumhverfi fyrir Unix og önnur Unix-lík stýrikerfi (t.d. Linux, Solaris eða BSD), þótt að samkvæmt sé einnig hægt að keyra það undir IRIX, Mac OS X og Windows. Það er hannað til þess að þurfa minna vinnsluminni og keyra hraðar en önnur skjáborðsumhverfi—sem er einkar hentugt þar sem vinnsluminni er af skornum skammti, til dæmis í eldri og getuminni tölvum. Það notar GTK+ líkt og GNOME. Dreift eignarhald. Dreift eignarhald (eða dreifð eignaraðild) er hugtak í viðskiptafræði og á (oftast) við það þegar ríkiseign er seld með skilyrðum um að enginn einn eða tveir aðilar eigi meirihluta í fyrirtækinu, heldur að eignarhald þess sé dreift á marga aðila. Dreift eignarhald er talið koma í veg fyrir áhættusækni eigenda. Dreift eignarhald og einkavæðing bankanna á Íslandi. Ríkisstjórnin á Íslandi einkavæddi ríkisbankanna árið 2002 með því að selja þá kjölfestufjárfestum. Áður hafði verið talað um að viðhafa dreifða eignaraðild við sölu þeirra. Sú aðgerð, að gefa dreift eignarhald upp á bátinn við sölu bankanna, var talin ein helsta orsök á bankahruninu árið 2008 og efnhagskreppunni sem fylgdi í kjölfarið. 8. ágúst sama ár sagði Davíð að þó nú væri í tísku að tala um kjölfestufjárfesta teldi hann að „í bankastofnun geti alveg dugað að stærstu eignaraðilar, sem komi til með að hafa leiðbeinandi forystu um reksturinn, eigi eignarhluti á bilinu 3% til 8% til dæmis“. Hann taldi hins vegar ekki æskilegt að einn aðili eða skyldir aðilar réðu 30%-40% eignarhlut í bankastofnun. Þann 7. ágúst árið 1999 hélt hann hinu sama fram og sagði: „Íslenzka þjóðríkið er þannig vaxið, að það er ekki hollt fyrir það að vera í höndunum á mjög fáum aðilum.“ Þegar ríkið síðan tók tilboði fjárfesta í 51% hluta í FBA, sagði Davíð Oddson við þeirri athugasemd, að hætta væri á að eignarhald dreifðist á færri hendur í eftirsölu hlutabréfa í FBA, að rétt væri að að átta sig á því að margir fjárfestanna sem að kaupunum á FBA koma hefðu víðtæka reynslu og væru þekktir fjárfestar. Sama dag lét Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, þau orð falla að lagasetning um dreifða eignaraðild væri óþörf, og bætti við: „Þetta eru fyrst og fremst fagfjárfestar og ég held að þeir muni passa upp á það sjálfir að enginn einn fjárfestir verði ráðandi í bankanum. Þegar reynslan af sambærilegri einkavæðingu ríkisstofnana er skoðuð í Danmörku og Svíþjóð kemur í ljós að dreifð eignaraðild hefur haldist á eftirmarkaði.“ Þegar svo kom að sölu Landsbankanum og Búnaðarbankanum árið 2002 höfðu engin lög verið sett. Fréttablaðið sagði frá því í grein, sem skrifuð var árið 2005 um sölu bankanna, að Davíð Oddsson hefði fallið frá kröfu sinni um dreifða eignaraðild eftir að hafa talað við Björgólf Guðmundsson í síma. Valgerður Sverrisdóttir, sem þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lét þau orð þá falla, eftir að Samson hafði keypt 45,8% í Landsbankanum, að dreifð eignaraðild yrði aldrei tryggð nema með lögum. Og bætti við að EES samningurinn „heimili hins vegar ekki slíka lagasetningu og því sé tómt mál að tala um tryggingu fyrir slíku. Viðskiptum verði vart stjórnað“. Eignarhald á bönkum á Norðurlöndum. Eignarhald á bönkum á Norðurlöndum var kannað árið 1999 vegna sölu bankana á Íslandi. Í könnuninni kom í ljós að stærstu hluthafar í dönsku bönkunum Den Danske Bank, Unibank og Jyske Bank voru lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir. Eignarhlutur eins sjóðsins var 14,1% og var það stærsti hlutur sem einstakur aðili átti í dönskum banka. Í Svíþjóð var stærsti einstaki eignarhluturinn 18,6% í Foreningssparbanken í eigu stofnunar sem sparisjóðir eiga en annars fer stærsti eignarhlutinn ekki yfir 10%. Norska ríkið var stærsti hluthafinn í tveimur bönkum þar í landi, en það átti 52% í Den Norske Bank og 35% í Christiania Bank. Í Union Bank of Norway var Chase Manhattan Bank stærsti hluthafinn með 5,22% eign. Einkavæðing bankanna 2002. Einkavæðing bankanna 2002 var einkavæðing sem fór fram árið 2002 með sölu á ríkisreknum bönkum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum, í hendur einkaaðila. Einkavæðingin var alla tíð nokkuð umdeild og varð enn umdeildari eftir bankahrunið 2008. Bent hefur verið á að ef öðruvísi hefði verið farið að hefði þenslan á hagkerfinu ekki orðið jafn mikil á jafn skömmum tíma. Einnig hefur verið gagnrýnt að ekki var fylgt upprunalegri settri stefnu um að bankarnir skyldu verða í dreifðri eignaraðild. Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðinganefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. Aðdragandi. Einkavæðing bankanna hófst í raun árið 1998 með einkavæðingu Fjárfestingabanka atvinnulífsins sem síðar rann saman við Íslandsbanka 15. maí árið 2000. Í framhaldi af einkavæðingu FBA töldu menn sig hafa fengið nokkra reynslu af einkavæðingu banka og í framhaldi af því voru Landsbankinn og Búnaðarbankinn einkavæddir árið 2002. Íslenska ríkið seldi 45,8% hlut sinn í Landsbankanum þann 19. október 2002 fyrir 12,3 milljarði króna. Kaupandinn var eignarhaldsfélagið Samson sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar.Tæpum mánuði seinna eða þann 16. nóvember sama ár seldi ríkið 45,8% hlut sinn í Búnaðarbankanum á 11,9 milljarða króna. Kaupendurnir voru hinn svokallaði S-hópur en hann samanstóð af Eglu ehf., Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og Vátryggingafélagi Íslands. Ankylosaurus. Ankylosaurus var risaeðla kölluð gaddeðla á Íslensku. Áhættusækni. Áhættusækni er það þegar fjárfestar eða fyrirtæki (aðallega bankar) setja fjármagn sitt í áhættusamar fjárfestingar eða lán sem geta brugðið til beggja vona, annaðhvort haft mikla tekjumöguleika í för með sér eða mikið tap. Andstæða áhættusækni er "áhættufælni". Áhættusækni íslensku bankanna frá því þeir voru einkavæddir er sagður vera einn þátturinn í íslenska bankahruninu árið 2008. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði árið 2003 að áhættusækni fjárfestingarbankanna vera rök fyrir aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, sagði aftur á móti mikilvægt að viðskiptaumhverfið á Íslandi væri svipað og í viðskiptalöndunum. Pistlahöfundur á tímaritinu Vísbending setti strax spurningamerki við áhættusækni íslenskra fyrirtækja í þáverandi viðskiptaumhverfi, árið 1999. Kjölfestufjárfestir. Kjölfestufjárfestir er fjárfestir í fyrirtæki (t.d. banka) sem á fjármagn til að eignast ráðandi hluta í því. Að loknum kaupum eignast kjölfestufjárfestir mjög virkan hluta í fyrirtækinu og ræður því töluverðu um stjórnun þess. Hugtakið varð til á Íslandi um 1999, þegar umræður hófust um einkavæðingu bankana. Hugtakið hefur þó verið á reiki, enda misjafnt hvað menn eiga við með kjölfestu í eignarprósentum talið, þó allir viti hvað fjárfestir er. Í júní árið 2001, lýsti t.d. Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, kjölfestufjárfestum með þessum orðum: „Með kjölfestufjárfesti í almennri umræðu er átt við aðila, sem á umtalsverðan virkan eignarhlut í banka en ekki ráðandi hlut. Þannig samrýmist slík aðild markmiðinu um dreifða eignaraðild.“ Í Kastljósi þann 9. febrúar 2010 sagði Hróbjartur Jónatansson lögmaður, að kjölfestufjárfestir gæti reynst eitrað fyrirbæri, og átti þá við þá skuggastjórn sem starfar í nafni meirihlutaeignar getur stjórnað án þess að vera í stjórn fyrirtækis og haft boðvald sem auðvelt er að misnota. Krosseignatengsl. Krosseignatengsl eru innbyrðis eignatengsl líkra og/eða ólíkra fyrirtækja sem eru í eign sömu manna. Slík tengsl geta verið mjög flókin og erfitt að hafa yfirsýn yfir þau, sérstaklega þegar eignir hafa færst á fáar hendur eða sömu menn eiga virka hluti í mörgum ólíkum fyrirtækjum sem eru kannski skráð á ólík eignarhaldsfyrirtæki. Krosseignatengsl geta valdið því að menn sitja beggja megin borðsins og geta því verið að „semja við sjálfa sig“. Þau geta einnig haft þau áhrif að til verður ósýnileg fákeppni. Krosseignatengslin á Íslandi á árunum 2000-2008 eru sögð eiga töluverða sök á bankahruninu sem varð 2008 og efnhagskreppunni sem kom í kjölfar þess. Southampton. Southampton er hafnarborg í Hampshire á suðurströnd Englands norðan við Wight-eyju. Íbúar eru um 230.000. Áður fyrr var borgin helsta miðstöð skipasmíða í Englandi. Höfnin er stærsta flutningahöfn við Ermarsund og sú fjórða stærsta í Englandi. Jacobi-fylki. Jacobi-fylki kallast fylki allra fyrsta stigs hlutafleiðna af einhverju falli, sem er nefnt í höfuðið á stærðfræðinginum Carl Gustav Jacob Jacobi. Fjórflokkakerfið. Fjórflokkakerfið eða fjórflokkurinn er óformlegt hugtak sem er notað í íslenskri stjórnmálaumræðu og vísar til þess að undantekningalaust í stjórnmálasögu Íslands hafa fjórir flokkar fengið nær öll atkvæði í Alþingiskosningum þótt fleiri flokkar hafi boðið fram. Upphaf þessa má segja að sé árið 1930 þegar íslenskir kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum. Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn voru báðir stofnaðir árið 1916 en hægrivængurinn varð sameinaður í einum flokk árið 1929, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð til. Fáum flokkum hefur tekist að ógna stöðu fjórflokksins en oftar en ekki hefur að minnsta kosti eitt framboð í viðbót komist á þing. Í alþingiskosningunum 1987 klauf Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar sig úr Sjálfstæðisflokknum og tók af honum mikið fylgi. Engu að síður fengu flokkarnir fjórir samanlagt um það bil 75% atkvæða. Upprunalega var hugtakið fjórflokkurinn notað af Vilmundi Gylfasyni og Bandalagi jafnaðarmanna. Skaffall. Skaffall er mataráhald sem er samruni skeiðar og gaffals og dregur nafn sitt af þeim. Skafflar hafa verið í framleiðslu síðan á 19. öld og eru einkum notaðir í stórum mötuneytum sökum fjölhæfni þeirra. Jafnhallaferill. Jafnhallaferlar kallast línur með sömu hallatölu, sem eru oft notaðar til að sýna venjulegar diffurjöfnum myndrænt. Alþingiskosningar 1931. Alþingiskosningar 1931 voru kosningar til Alþingis Íslands sem fóru fram 12. júní 1931. Á kjörskrá voru 50.617 manns og kosningaþátttaka var 78,2%. Niðurstöður kosninganna urðu þær að ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar hélt velli með fjögurra þingmanna meirihluta en aðeins 35% atkvæða á bak við sig vegna þess ójafnvægis sem var milli atkvæðavægis í dreifbýlum kjördæmum og þéttbýlum. Niðurstöður kosninganna þóttu samt mikill varnarsigur fyrir Framsóknarflokkinn eftir Þingrofsmálið þá um vorið. Alþingiskosningar 1934. Alþingiskosningar 1934 voru kosningar til Alþingis sem haldnar voru 24. júní 1934. Á kjörskrá voru 64.338 en kosningaþátttaka var 81,5%. Eftir kosningarnar mynduðu Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn Stjórn hinna vinnandi stétta undir forsæti Hermanns Jónassonar. Alþingiskosningar 1927. Alþingiskosningar 1927 voru kosningar til Alþingis Íslands sem fóru fram 9. júlí 1927. Á kjörskrá voru 46.047 manns og kosningaþátttaka var 71,5%. Niðurstöður kosninganna urðu þær að Íhaldsmenn misstu meirihluta sinn á þingi og við tók ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar, Framsóknarflokki. Boogie woogie. Boogie woogie er pardans úr fjölskyldu sveifludansa. Hann er bæði sósíaldans og keppnisdans. Að leika af fingrum fram og tónlistartúlkun. Í mörgum dönsum er notast við kóreógraferingu. Það þýðir að dansararnir hafa undirbúið röð skrefa sem eru dönsuð við tónlistina. Oft er kóreógraferingin löguð þannig að hún falli eins og flís við rass við ákveðið lag. Í boogie woogie er ekki notast við kóreógraferingu heldur er dansinn saminn jafnóðum á dansgólfinu. Maður gæti ímyndað sér að ókóreógraferaður dans tveggja einstaklinga einkenndist af ósamhæfðum og tilviljanakenndum hreyfingum, en sú er ekki raunin. Eitt af því sem gerir boogie woogie að spennandi dansi að horfa á og dansa er að dansararnir hafa þróað með sér tilfinningu fyrir tónlistinni og geta túlkað hana í sameiningu. Góð boogie woogie pör geta dansað við ríkulegt úrval tónlistar þannig að það virðist næstum kóreógraferað, meiri að segja þó þau hafi aldrei heyrt tónlistina áður! Að leiða og fylgja. Í kóreógraferuðum dansi vita bæði herrann og daman hvað gerist næst, svo í raun væri hægt að dansa án leiðingar (að frátöldum þeim skrefum sem krefjast líkamlegrar snertingar, t.d. lyftum). Að herrann leiði og daman fylgi gerir okkur kleyft að leika af fingrum fram í boogie woogie. Góðir boogie woogie dansarar eru hæfileikaríkir í að leiða og fylgja. Að leiða og fylgja gerir boogie woogie dönsurum kleift að að dansa við og túlka stórt úrval tónlistar - með hvaða félaga sem er! Á danskvöldum getur maður oft séð tvo einstaklinga sem hafa aldrei hist áður dansa frábærlega við tónlist sem þau hafa aldrei heyrt áður. Þannig er það innbyggt í boogie woogie að vera sósíal dans. Fótaburður. Í öllum sveifludönsum finnast grunnskref. Þessi skref eru endurtekin í gegnum mestallan dansinn og ákvarða "áferð" dansins. Í boogie woogie finnast mörg mismunandi grunnskref, en þau hafa það öll sammerkt að nota sex slög í tónlistinni. Eitt þeirra atriða sem gerir boogie woogie frábrugðinn öðrum sveifludönsum er að grunnskrefin eru oft hröð, íburðarmikil og tápmikil á meðan efri hluti líkamans er í mun meiri ró. Ísland. Kennsla í boogie woogie hófst á Íslandi með stofnun Háskóladansins haustið 2007 en skyldir dansar hafa verið dansaðir á landinu áður fyrr. Salsa (dans). Salsa er dans af spænskum uppruna og er sambland af mörgum dansstílum sem má einna helst rekja til Karíbahafsins og Suður-Ameríku. Salsa þróaðist út frá mambo, danzón, guaguancó, cuban son og öðrum suðuramerískum dönsum. Hvortveggja í dansinum og salsa tónlistinni má finna sterk afrísk áhrif. Salsa er yfirleitt dansaður sem pardans en hann býður einnig upp á einstaklingsspor eða hringdansa með mörgum pörum þar sem allir dansa við alla. Listræn tjáning og félagsdans er stór hluti af salsa en hann er einnig notaður sem keppnisdans og sýningardans. Mismunandi tegundir. Til eru mismunandi tegundir af salsa, "LA-stíll", "New York-stíll" og "Kúbustíll". Í LA-stíl og New York-stíl dansar parið á beinni línu, þar sem herrann færir sig af línunni á meðan daman færist fram og til baka eftir línunni en í Kúbustíl dansar daman meira í kringum herrann. Helsti munurinn á LA-stíl og New York-stíl felst í því hvar áhersla á taktinn er. Í LA-stíl hefst grunnsporið á fyrsta takti í tónlistinni en í New York-stíl hefst grunnsporið á öðrum takti. Grunnsporin eru þó öll sex takta spor. Undir Kúbustíl mætti síðan flokka rueda de casino eða salsa rueda. Salsa rueda þróaðist í Havana á Kúbu, á árunum 1950-1960. Hér mynda pör dansara hring og danssporin eru kölluð af stjórnanda. Flest sporin fela í sér að skipt er um dansfélaga og því dansa allir við alla. Milli dansspora er síðan dansað grunnspor. Swing & rock'n'roll. Swing & rock’n’roll er dans. Um dansinn. Þegar amerískir swing-dansar náðu til Noregs blönduðust þeir við dansa sem voru þar fyrir og úr varð swing & rock’n’roll. Fótaburðurinn í dansinum er ekki flókinn en dansinn býður upp á fjölbreytni í sporum og mörg stílbrigði. Hjá mörgum flinkum dönsurum má sjá að þeir hafa blandað saman mismunandi stílum og fundið þannig stíl sem hentar þeim best. Hægt er að dansa við bæði hæga og hraða tónlist en tæknin í dansinum breytist með hraðanum. Við hæga tónlist getur parið stöðugt reitt sig á stuðning frá hvoru öðru en eftir því sem herðist á tónlistinni þurfa einstaklingarnir að vera í jafnvægi óstuddir. Í dansinum er hægt að gera bæði stökk og lyftur og herrar geta dansað við fleiri en eina og fleiri en tvær dömur í einu. Fær dansari getur breytt „groov-inu“ eftir því hvernig tónlistin er. Hip hop (dans). Hip hop dans er dansstíll, aðallega götudansstíll, sem yfirleitt er dansaður við hip hop tónlist eða hefur þróast sem hluti af hip hop menningu. Í sínum víðasta skilningi nær hugtakið yfir danstegundir eins og breakdans, popping, locking, krumping og fleira. Sá dansstíll sem fyrst og fremst er tengdur hip hop er breakdans. Breakdans kom fyrst fram í New York snemma á áttunda áratugnum og varð lykilpartur í þróun hip hop menningar. Funkstíll (til dæmis popping og locking) varð til í Kaliforníu á sjöunda og áttunda áratugum 20. aldar og varð hluti af hip hop menningunni þegar hún náði til vesturstrandar Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að breakdans og upprunalegi funkstíllinn líti út fyrir að vera ólíkir þá er margt sameiginlegt með þeim. Til dæmis eru báðir byggðir að miklu leyti á spuna, eiga uppruna sinn á götunni og dansað er við sömu tónlist. Seint á níunda áratugnum fór hip hop tónlist að breytast og í framhaldi af því komu fram nýir hip hop dansstílar. Flestir þeirra voru dansaðir í uppréttri stöðu, öfugt við breakdansinn sem inniheldur mikið af sporum sem gerð eru á gólfinu. Á síðustu árum hefur hip hop dans þróast yfir í þyngra og harðara form, í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í hip hop tónlist. Í dag er hugtakið hip hop notað yfir alla þá ólíku dansstíla sem orðið hafa til út frá breakdansi og popping og locking. En yfirleitt þegar talað er um hip hop er verið að meina dansstílana sem dansaðir eru uppréttir – svokallað new school hip hop. Bankaleynd. Bankaleynd er þagnarskylda sem hvílir á fjármálastofnunum um að leyna upplýsingum um innri færslur, viðskipti og viðskiptavini, en stundum einnig laun bankastjóra og annað sem varðar bankann og telst til trúnaðarupplýsinga. Margir gagnrýna stranga bankaleynd og telja hana auka fyrirgreiðslu, spillingu og verðbólgubrask. Árið 1976 var talið mikilvægt að endurskoða reglurnar um bankaleynd. Þá átti að gera bankakerfið gagnsærra vegna óðaverðbólgunnar sem þá var, en með breytingunum áttu banka- og útlánastofnanir að verða heiðarlegri og hlutlægari við lánveitingar. Tveimur árum seinna, árið 1978, var lagt fram frumvarp sem átti að aflétta vissri bankaleynd og gera t.d. mögulegt að upplýsa um hverjir skulduðu meira en 6 miljónir um áramót. Altflauta. Maður framkallar hljóð í altblokkflautuna með því að blása í munnstykkið í munnstykkinu er blokk sem framkallar hlóð.Blokkflautur eru með átta göt en geta framkallað 25 mismunandi tóna í minnsta lagi. Blokkflautur eru mjög góð hljóðfæri fyrir byrjendur af því að þær eru svo einfaldar og gott að læra t.d.nóturnar og fingrasettninguna. Blokkflautur eru af ætt tréblásturshljóðfæra og eru annaðhvort úr tréi eða plasti í blokkflautuættini eru: blokksópramflauta, blokkaltflauta, blokktenórflauta og blokkbassaflauta. Blokkflauta er sömu ætt og pjáturflautan og okkarínan. Saga. Á miðöldum voru blokkflautur alveg gríðarlega vinsælar og kunnu um það bil allir á þær, smalar léku fyrir kindur og menn til að ganga í augn á konum. En þær töpuðu þó nokkru af vinsældum sínum í kringum 1800 af því þá komu ný hljóðfæri eins og klarinett, óbó og þverflauta. Blokkflauturnar endurheimtu þó nokkuð af fyrri vinsældum á tuttugustu öld af því að þær eru einföld og góð hljóðfæri. Flauta er blásturshljóðfæri sem að fundið var upp fyrir 30.000 til 37.000 árum. Útlendingastofnun. Útlendingastofnun er ein af undirstofnunum innanríkisráðuneytisins. Stofnunin var sett á fót árið 1937 en starfsemi hennar var endurskipulögð af Agnari Kofoed-Hansen árið 1939. Hann hafði um sumarið lokið námskeiði hjá SS-sveitum þýskra nasista og verið skipaður í embætti lögreglustjórans í Reykjavík í kjölfarið. Í upphafi og til ársins 2002 hét stofnunin Útlendingaeftirlitið en nafninu var breytt með nýjum lögum um útlendinga sama ár (nr. 96/2002). Stofnuninni er skylt að starfa eftir útlendingalöggjöf Íslenska ríkisins sem „gildir um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvelja hér á landi, en útlendingur telst hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt“. Umfangsmesti þátturinn í starfsemi stofnunarinnar er útgáfa dvalarleyfa. Útlendingaeftirlitið hefur oft verið harðlega gagnrýnt fyrir harða stefnu þess gegn flóttamönnum sem sækja um pólitískt hæli á Íslandi og stofnunin endurtekið verið sökuð um að fara ekki að lögum við vinnslu hælisumsókna. Sumir hafa velt því upp hvort Útlendingastofnun starfi enn samkvæmt þeim nasísku sjónarmiðum sem lögð voru henni til grundvallar við stofnun hennar. Otto Hahn. Otto Hahn (8. mars 1879 – 28. júlí 1968) var þýskur efnafræðingur og Nóbelsverðlaunahafi í efnafræði árið 1944. Hann var fyrstur til að kljúfa frumeindakjarna og hefur verið kallaður „faðir kjarneðlisfræðinnar“ og „upphafsmaður atómaldarinnar“. Tilraunirnar við kjarnaklof framkvæmdi Hahn í Berlín í Þýskalandi með aðstoðarmanni sínum Dr. Meitner Árið 1955 hét hann á forystumenn þjóðanna að útrýmja kjarnorkuvopnum. Tilvísanir. Hahn, Otto Hahn, Otto Euler-aðferð. Mynd af því hvernig Euler-aðferðin virkar. Ferillinn sem reynt er að finna er blár og nálgunin er rauð. Euler-aðferð er aðferð í stærðfræði og tölvunarfræði er fyrsta stigs töluleg leið til að leysa venjulegar diffurjöfnur með ákveðnu upphafsgildi. Hún er nefnd í höfuðið á Leonhard Euler. Kóbaltsprengja. Kóbaltsprengja er svokölluð söltuð sprengja, kjarnorkusprengja sem hefur kóbalt í skel sinni í stað stáls eins og venjuleg kjarnorkusprengja. Kóbaltsprengjan var hugmynd Leó Szilárd, sem sagði að geislavirkni hennar væri miklu öflugri en venjuleg kjarnorkusprengja, þar eð samrunanifteindirnar myndu breyta kóbaltinu í samsætuna kóbalt-60, sem er kraftmikill gamma-geislagjafi með helmingunartímann 5 ár. Geislavirkni venjulegrar kjarnorkusprengju er miklu minni. Áhrif geislavirka úrfellisins fara eftir því hvaða samsætur mynda söltin. Otto Hahn sagði að eingöngu þyrfti tíu kóbaltsprengjur til að gera út af við allt mannkynið þegar hann hét á forystumenn þjóðanna að útrýma kjarnorkusprengjum árið 1955. Alþingiskosningar 1937. Alþingiskosningar 1937 voru kosningar til Alþingis sem haldnar voru 29. júní 1937. Á kjörskrá voru 67.195 en kosningaþátttaka var 87,9%. Niðurstöður kosninganna urðu þær að Framsóknarflokkurinn bætti við sig fjórum þingmönnum en Alþýðuflokkurinn tapaði tveimur. Stjórn hinna vinnandi stétta hélt því velli en staða Alþýðuflokksins innan hennar var mun veikari. Kommúnistaflokkurinn fékk þrjá þingmenn í fyrsta og eina skiptið í sögu sinni en flokkurinn sameinaðist hluta Alþýðuflokks og myndaði Sameiningarflokk alþýðu - Sósíalistaflokkinn ári síðar sem fékk sex þingmenn í fyrri kosningunum 1942 og tíu í þeim síðari. Alþingiskosningar 1923. Alþingiskosningar 1923 voru kosningar til Alþingis sem voru haldnar 27. október 1923. Á kjörskrá voru 43.932 og kosningaþátttaka var 75,6%. Náttúrulagaflokkurinn. Náttúrulagaflokkurinn var stjórnmálaflokkur sem bauð fram fyrir Alþingiskosningar 1995 með listabókstafinn N. Flokkurinn byggði á hugmyndafræði TM-Sidhi-hugleiðslu sem Maharishi Mahesh Yogi setti fram um miðjan 8. áratug 20. aldar. Flokkurinn vildi þannig stofna „samstillingarhópa“ sem myndu hugleiða til að eyða streitu úr samfélagsvitundinni og skapa þannig grundvöll fyrir framfarir. Flokkurinn byggði á breskri fyrirmynd þar sem náttúrulagaflokkur hafði boðið fram fyrir þingkosningar 1992. Flokkurinn fékk 957 atkvæði í kosningunum og engan mann kjörinn. Hann bauð ekki fram aftur. Samtök um jafnrétti og félagshyggju. Samtök um jafnrétti og félagshyggju voru stjórnmálaflokkur stofnaður um sérframboð Stefáns Valgeirssonar sem hafði yfirgefið Framsóknarflokkinn í aðdraganda þingkosninga 1987. Flokkurinn bauð aðeins fram á Norðurlandi eystra með listabókstafinn J þar sem hann fékk 1893 atkvæði (12,11%) og einn mann, Stefán Valgeirsson, kjörinn. Eftir að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk um mitt ár 1988 var önnur ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar mynduð með stuðningi Alþýðubandalagsins og Samtakanna sem nægði henni til að ná meirihluta í annarri deild þingsins. Ríkisstjórnin stóð því tæpt þar til Borgaraflokkurinn gekk til liðs við hana ári síðar. Fyrir kosningarnar 1991 buðu Samtökin fram lista með Borgaraflokknum á Norðurlandi eystra. Lene Espersen. Lene Espersen (fædd 26. september 1965) er formaður danska íhaldsflokksins og er viðskipta- og iðnaðarráðherra Danmerkur. Í september 2006 ók hún á konu á littlu mótorhjóli þegar hún var á leið til flugvallarins í Kaupmannahöfn. Fyrir vikið missti hún ökuréttindi þar til hún tók prófið aftur í mars 2007 og þurti að borga sekt að upphæð 1500 dkr. Espersen, Lene Lilo & Stitch. "Lilo & Stitch" er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Pictures. Myndin var frumsýnd þann 21. júní 2002. Höfundar hennar og leikstjórar eru Chris Sanders og Dean DeBlois. Framleiðandinn var Clark Spencer. Myndin fjallar um Stitch, litla bláa geimveru sem er afrakstur genaransókna; og Lilo, unga stelpu frá Hawaii sem vingast við Stitch þegar hann er gerður útlægur frá reikistjörnu sinni. Myndin var að mestu gerð í Orlando í Florida. Hún var flokkuð sem PG í Bandaríkjunum. Zoom 8. Zoom 8 er lítil átta feta (2,65m) löng einmenningskæna hönnuð fyrir börn og unglinga. Hún var hönnuð af finnsk-sænska skútuhönnuðinum Henrik Segercrantz árið 1991 og hugsuð sem millistig milli Optimist-kænunnar og stærri kænugerða eins og Europe. Hún er vinsæl í Norður-Evrópu, einkum í Svíþjóð og Danmörku. Zoom 8 hlaut viðurkenningu sem alþjóðleg keppnisgerð árið 2003. Tasar. Tasar er fjórtán feta (4,3m) löng tvímenningskæna, hönnuð af ástralska skútuhönnuðinum Frank Bethwaite árið 1975. Hún var hugsuð sem fjölskyldubátur sem gæti rúmað karl og konu saman eða einn fullorðinn og tvö börn þannig að þyngd áhafnar væri samtals um 140kg. Kjölurinn vegur 68 kíló og breidd bátsins er 1,75m sem gerir hann mjög stöðugan. Tasar er aðallega vinsæl í Ástralíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Byte (kæna). Byte er tólf feta (3,7m) löng einmenningskæna úr glertrefjum framleidd af PS2000 í Kanada og af Topper Sailboats í Bretlandi áður en þeir hættu framleiðslu glertrefjabáta. Byte er hönnuð fyrir einn siglingamann sem vegur 54-66kg. Hún er með eitt stórsegl og ekkert framsegl og er þannig einföld í meðförum. Þessi gerð er einkum vinsæl í Bandaríkjunum og Kanada. Uppþvottavél. Uppþvottavél er heimilistæki notað til að vaska upp diska og eldhúsáhöld. Þær eru notuð á heimilum og á veitingahúsum. Uppþvottavél notar heitt vatn og þvottaefni til að fjarlægja óhreinindi í staðinn fyrir að skrúbba. Margar uppþvottavélar geta líka þurrkað upp með hitarist. Stundum er nauðsynlegt að setja salt í vélina með þvottefninu. Josephine Cochrane fann upp nútímauppþvottavélina árið 1886. Hún var knúin með höndunum. Cochrane var rík og vaskaði aldrei upp en hún fann upp uppþvottavélina af því að þjónar hennar brutu oft diskana. B14 (kæna). B14 er fjórtán feta (4,3m) grunnrist tvímenningskæna hönnuð árið 1986 af ástralska siglingamanninum Julian Bethwaite sem smækkuð útgáfa af 18 feta tvímenningskænu. Hún er bæði með framsegl og laust bugspjót fyrir gennaker. B14 er einkum vinsæl í Bretlandi og Ástralíu. Finn (kæna). Finn er rúmlega fjórtán feta (4,5m) einmenningskæna hönnuð árið 1949 af sænska bátahönnuðinum Rickard Sarby fyrir sumarólympíuleikana 1952 í Helsinki. Kænan hefur verið ólympíubátur samfellt síðan þá. Finn-kænan er með eitt segl en stóran seglaflöt (10m²) og því krefjandi viðfangs. Hún er hönnuð fyrir einn siglingamann sem vegur um 100 kíló. Kænan sjálf vegur 120 kíló. Lagrange-margfaldarar. Langrange-fallið (nefnt í höfuðið á Joseph Louis Lagrange) er aðferð í stærðfræðilegri bestun sem hjálpar til við að finna hágildi og lágildi falls sem er hátt þvingunum. Svo mynd 1 til hægri sé tekin sem dæmi þá er takmarkið að Star. Star er um sjö metra langur opinn tvímenningskjölbátur. Hann var hannaður árið 1910 af bandaríska skútuhönnuðinum Francis Sweisguth og fyrstu bátarnir voru smíðaðir í Port Washington í New York-fylki. Star hefur verið ólympíubátur frá 1932. Hræranlegar hátíðir. Hræranlegar hátíðir eru kristilegir hátíðisdagar sem ber upp á mismunandi mánaðardögum almannaksársins en breytast í samræmi við þann mánaðardag sem páskar kom upp á en hvernig þeir falla að árinu er reiknað eftir flókinni formúlu. Breytilegt er eftir kirkjudeild hverjir dagarnir eru, þó flestar hafi þá sem þekktastir eru í vesturkirkjunni. Hræranlegir hátíðisdagar eru einnig í öðrum trúarbrögðum. Eftirlaunafrumvarpið. Eftirlaunafrumvarpið var frumvarp sem var lagt fyrir Alþingi 10. desember árið 2003 og var það samþykkt hinn 15. desember sama ár og urðu að lögum þegar forseti staðfesti þau hinn 20. desember. Þau sneru að hækkun eftirlauna forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Frumvarpið var samþykkt með 30 atkvæðum, nei sögðu 14, 11 sátu hjá, 7 voru í leyfi og fjarstaddur var 1. Eftirlaunafrumvarpið var mjög umdeilt á þingi og meðal almennings. Hefur það verið nefnt "eftirlaunaósóminn" af sumum gagnrýnendum þess. Frumvarpið var flutt af formönnum allra stjórnmálaflokkanna. Þeir voru á þeim tíma Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson. Sumir hafa þó aldrei þegið þessi eftirlaun, Davíð Oddsson hefur til að mynda aldrei þegið þau þó svo hann hafi átt rétt á þeim frá október 2005. Eftir bankahrunið árið 2008 var málið tekið upp að nýju á þingi. Nýtt eftirlaunafrumvarp var svo samþykkt í desember sama ár og tóku lögin gildi 1. júlí 2009. Markmiðið með nýju lögunum var að færa lífeyriskjör ráðamanna nær því sem á við um almenning og koma þannig til móts við mikla gagnrýni sem hin lögin hlutu. Ingvar (kútter). Ingvar var kútter sem fórst í ofsaveðri þann 7. apríl árið 1906, skammt undan landi í Viðey og fórust allir um borð, samtals 20 menn (sumar heimildir segja 19). Slys þetta er talið eitt það hörmulegasta sjóslys við Íslandsstrendur, enda urðu margir Reykvíkingar sjónvarvottar að slysinu án þess að nokkur gæti komið áhöfninni til bjargar. Í þessu sama óveðri strönduðu einnig tvö þilskip við Mýrar og fórust þar með allri áhöfn, þannig að alls fórust 68 menn á þessum degi (aðrar heimildir segja 70). Dagurinn eftir slysið var pálmasunnudagur, sem var lýst sem alldauflegum, og var öll Páskavikan í Reykjavík sannkölluð sorgarvika. Skipstjóri Ingvars var Tyrfingur Magnússon og stýrimaður Júlíus Arason. Marígull. Marígull (fræðiheiti: "Echinus esculentus") er skrápdýr af ætt ígulkerja. Það finnst við strendur Norð-Vestur Evrópu allt niður á 1200 metra dýpi. Maríugull lifir við Ísland og er annað algengasta ígulkerið þar, hitt er skollakoppur. Ærumeiðingar. Ærumeiðing er þegar ráðist er á sjálfsvirðingu manns með móðgunum, aðdróttum og útbreiðslu meiðandi ummæla sem spilla mannorði, heiðri eða virðingu hans. Trémaðkur. Trémaðkur (eða trjámaðkur) (fræðiheiti: "Teredo norvegica") er ormlaga samloka af timburmaðkaætt sem lifir í N-Atlantshafi. Fremst á líkamanum eru örsmáar, hvassar skeljar og með þeim borar trémaðkurinn göng í timbur. Göngin húðar hann síðan að innan með kalki. Trémaðkur verður allt að 30 sm langur og veldur oft miklum skaða á bryggjustólpum, skipum og öðru tréverki í sjó. Leturhumar. Leturhumar (fræðiheiti: "Nephrops norvegicus") er skjaldkrabbategund sem telst til botndýra. Leturhumar getur orðið allt að 17 sm að lengd og 300-400 g að þyngd. Leturhumar er veiddur til matar við Ísland, aðallega umhverfis Vestmannaeyjar og víðar undan suðurströnd landsins. Leturhumarinn hefur nafn sitt af því að á plötunum sem þekja hann er eins og stafakrot. Hunter S. Thompson. Hunter Stockton Thompson (18. júlí 1937 – 20. febrúar 2005) var bandarískur blaðamaður og rithöfundur, sem er frægastur fyrir skáldsögu sína: "Fear and Loathing in Las Vegas". Tenglar. Thompson, Hunter S. Markmaður. Markmaður eða markvörður er leikmaður í íþróttum, til dæmis knattspyrnu eða handknattleik, sem ver mark fyrir sókn andstæðinga sinna. Arktínos. Arktínos frá Míletos (á forngrísku: Ἀρκτῖνος Μιλήσιος) var forngrískt skáld, sem var sagður hafa ort kvæðin "Eþíópíukviðu" og "Fall Tróju". Kvæði þessi eru ekki varðveitt en endursögn á efni þeirra er varðveitt frá 5. öld. "Eþíópíukviða" var í fimm bókum og var nefnd eftir honum eþíópíska Memnoni, sem varð bandamaður Trójumanna að Hektori látnum. Kvæðið tók upp þráðinn þar sem honum sleppti í "Ilíonskviðu" Hómers. Kvæðinu lauk með dauða g útför Akkillesar og deilu Ajasar og Ódysseifs um hver skyldi hreppa vopn hans. "Fall Tróju" eða "Iliou Persis" sagði frá Trójuhestinum, Sínoni og Laókóoni og falli borgarinnar. Leskes. Leskes var forngrískt skáld. Hann var sagður hafa ort "Litlu Ilíonskviðu". Talið er að Leskes hafi verið frá eynni Lesbos og hafi verið uppi um miðja 7. öld f.Kr. Þótt kvæðið sé glatað eru um þrjátíu línur varðveittar úr því, en auk þess er varðveittur útdráttur úr efni kviðunnar frá síðfornöld. "Litla Ilíonskviða" hefst þar sem "Eþíópíukviða" skilur við og er eins konar framhald hennar, en framhald "Litlu Ilíonskviðu" er að finna í kvæðinu "Iliou persis" („Fall Tróju“). Lóðrétt samþætting. Lóðrétt samþætting er hugtak í viðskiptafræði sem vísar til ákveðinnar tegundar framleiðslustjórnunar. Lóðrétt samþætt fyrirtæki mynda eins konar stigveldi og eru í sameiginlegri eigu. Það telst lóðrétt samþætting þegar einn og sami eigandi fyrirtækis á fyrirtæki sem framleiðir, flytur og selur vöruna. Sem dæmi um lóðrétta samþættingu má nefna sölu olíu á Íslandi en í því tilviki eiga fyrirtæki sem reka bensínstöðvarnar einnig fyrirtækið sem sér um birgðahald og dreifingu. Andstaðan við lóðrétta samþættingu er lárétt samþætting. Lóðrétt samþætting á sér oft stað þar sem markaður stjórnast af fáum eða jafnvel einum aðila. Ödipúsarkviða. "Ödipúsarkviða" (á forngrísku: Οἰδιπόδεια) var söguljóð um Ödipús. Kvæðið, sem var um 6600 ljóðlínur, er nú glatað; einungis þrjú stutt brot eru varðveitt. Það var í fornöld eignað skáldinu Kinæþoni frá Spörtu. Þebukviða. Þebukviða var forngrískt söguljóð sem fjallaði um niðja Ödipúsar. Einungis brot eru varðveitt úr kvæðinu. Andri Óttarsson. Andri Óttarsson (fæddur 15. maí 1975) er lögfræðingur. Hann var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá október 2006, en þann 10. apríl 2009 sagði hann af sér vegna styrkjamála sem upp höfðu komið nokkrum dögum áður. Við starfi hans tók Gréta Ingþórsdóttir. Andri lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Hann starfaði síðan hjá Lögmönnum við Austurvöll og varð meðeigandi í lögmannsstofunni 2004. Árið 2005 lagði hann stund á meistaranám við Raoul Wallenberg stofnunina og Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Soling. Soling er 27 feta (8,15 metra) langur opinn kjölbátur hannaður af norska bátahönnuðinum Jan Herman Linge árið 1965. Þessi gerð var valin fyrir sumarólympíuleikana 1972 og var ólympíubátur fram að sumarleikunum 2000. Báturinn vegur rúmt tonn og gert er ráð fyrir tveggja til þriggja manna áhöfn. Kristín Ingólfsdóttir. Kristín Ingólfsdóttir er rektor Háskóla Íslands. Hún tók við stöðu rektors árið 2005 af Páli Skúlasyni. Hún hefur verið skipuð í embætti annað kjörtímabil frá 1. júlí 2010. Kristín starfaði áður sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Kristín útskrifaðist úr eðlisfræðideild, stundaði nám í efnafræði og frönsku í Frakklandi og lyfjafræðinám við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi (PhD) frá lyfjafræðideild King's College, University of London 1983. Rannsóknir Kristínar hafa einkum beinst að lyfjaefnafræðilegri greiningu á efnum í íslenskum plöntum og sjávarlífverum sem hafa bólgueyðandi, veiruhemjandi, bakteríuhemjandi og ónæmisörvandi virkni sem og efnum sem hemja vöxt illkynja frumna. Kristín hefur flutt erindi fyrir fagfólk í heilbrigðisvísindum víða um heim auk fjölda erinda og námskeiða fyrir innlend fagfélög, félagasamtök og almenning. Auk kennslu-, vísinda- og stjórnunarstarfa við Lyfjafræðideild sat Kristín í fjármálanefnd háskólaráðs HÍ, deildarráði Læknadeildar og stjórn Reykjavíkur apóteks. Kristín sat í stjórn Rannsóknarráðs Íslands og var varamaður í stjórn Vísindasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Kristín var formaður vísindanefndar Krabbameinsfélags Íslands og fulltrúi Íslands í stjórn Nordisk Forskerutdannings Akademi (NorFA, nú NordForsk). Kristín hefur unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir heilbrigðisráðuneytið, átti um árabil sæti í Lyfjanefnd ríkisins og Lyfjanefnd Lyfjastofnunar og hefur tekið þátt í starfi evrópsku lyfjamálastofnunarinnar (EMEA). Kristín er nú stjórnarmaður í Samtökum norrænna háskóla (NUS) og stjórnarmaður í Samtökum evrópskra háskóla (EUA). Kristín hóf rektorstíð sína með því að hrinda af stað í víðtæku samráði sem miðar að því að Háskóli Íslands nái afburðaárangri í kennslu og vísindum. Eftir fjögurra ára eftirfylgni sést markverður árangur, staðfestur með alþjóðlegum mælikvörðum sem lagðir eru á störf háskóla. Birtingum rannsóknaniðurstaðna í kröfuhörðustu alþjóðlegum (ISI) tímaritum hefur fjölgað um 84%, doktorsnám hefur verið styrkt verulega og árlegur fjöldi doktorsvarna hefur meir en tvöfaldast. Háskóli Íslands hefur stóraukið samstarf við fremstu háskóla í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu og stúdentum við HÍ bjóðast í æ ríkara mæli tækifæri til að stunda hluta af námi sínu við slíka háskóla. Mikil áhersla hefur verið lögð á að bæta kennslu og innleiða nýja kennsluhætti. Yfirgripsmiklar stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar hafa verið gerðar í Háskóla Íslands til að bæta stjórnun og þjónustu og auðvelda skólanum að ná markmiðum sínum. Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands voru sameinaðir 1. júlí 2008. Stúdentar við Háskóla Íslands eru nú um 14.500 stúdentar við Háskóla Íslands og hefur fjölgað um 45% á fjórum árum. Erlendir stúdentar eru um 1.100 talsins. Kristín var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007 fyrir framlag til menntunar og rannsókna. Hún var sæmd Mykolas Romeris verðlaununum af Mykolas Romeris háskólanum í Vilnius í Litháen árið 2006. Kristín hefur sem rektor flutt fjölda erinda innanlands og utan. Af nýlegum erindum má nefna: Fræ til framtíðar - menntun, vísindi, nýsköpun á ráðstefnu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (feb. 2009); Menntun á tímum endurreisnar á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins (mars 2009); Changes in Challenging Times við Harvard háskóla, Boston (mars 2009); Role of Universities in Times of Economic Recovery við Waseda og Kinki háskólana í Japan (okt. 2009); Framkvæmd fjárlaga 2010: Áætlanagerð, ákvarðanataka og aðgerðir á ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Fjármálaráðuneytisins (nóv. 2009); Road to Equality – Overcoming Barriers á ráðstefnu kvenrektora frá Evrópu og Asíu, Istanbúl, Tyrklandi (apríl 2010); Sino-Icelandic Collaboration in Research and Higher Education við Fudan háskóla, Shanghai, Kína (maí 2010). Kristín er gift Einari Sigurðssyni, forstjóra. og Auðhumlu svf. Þau eiga tvær dætur, Hildi Einarsdóttur, rafmagnsverkfræðing hjá Össuri hf. og Sólveigu Ástu Einarsdóttur, nemanda í Menntaskólanum í Reykjavík. Nobunaga Oda. Nobunaga Oda (japanska: 織田 信長,23. júní 1534 – 1582) var einn af valdamestu lénsherrum (daimyo) í Japan á sextándu öld. Það tímabil hefur verið nefnt sengoku-öldin (japanska:戦国時代) eða þriggja ríkja öldin, í sögu Japans. Hugtakið daimyo hefur gjarnan verið þýtt sem barón á íslensku en hér verður notast við orðið lénsherra sem er meira lýsandi. Sengoku-öldin einkenndist af blóðugum átökum borgarastyrjaldar. Nobunaga bar aðeins titilinn lénsherra en var þó valdameiri en bæði keisarinn og sjóguninn, sem var yfirmaður hersins. Ævi hans var undirlögð af bardögum og átökum við aðra valdamenn ríkisins. Flest öllum átökunum lauk með sigri Nobunaga en farsæld hans á bardagavellinum hjálpaði honum að leggja grunninn að sameiningu Japans undir eina stjórn. Sérviska hans og ráðsnilld hefur gert Nobunaga að einni þekktustu persónu japanskrar sögu. Æskuárin. Nobunaga fæddist 23. júní árið 1534 í Nagoya-kastala. Hann var fyrsti sonur foreldra sinna og þar með arftaki Oda-ættarinnar. Faðir hans hét Nobuhide Oda og móðir hans Tsuchida Gozen. Aðeins tveggja ára að aldri var Nobunaga gerður að stjórnanda Nagoya-kastalans og fljótlega fór fólk að hafa orð á undarlegri hegðun hans. Það sem sætti mestri furðu var að hann lék sér stundum við önnur börn án þess að huga sérstaklega að stöðu sinni í samfélaginu. Sérstakur áhugi hans á skotvopnum varð til þess að hann fékk viðurnefnið Owari no Outsuke (japanska:尾張の大うつけ) eða „flónið af Owari-héraði“. Á þessum tíma voru skotvopn álitin villimannsleg enda þóttu þau skorta þá siðfágun og glæsileika sem einkenndu sverðfimi samúræjastéttarinnar. Nobunaga Oda varð lénsherra eftir andlát föður síns árið 1551, þá aðeins 17 ára. Sagan segir að Nobunaga hafi verið með alls kyns ólæti við jarðarför föður síns og meðal annars kastað reykelsum að altarinu. Uppeldisfaðir og lærimeistari Nobunaga fann fyrir svo mikilli skömm eftir þetta að hann framdi seppuku (sjálfsmorð). Skyndilegt brottfall lærimeistarans hefur eflaust verið talsvert áfall fyrir Nobunaga sem lét síðar byggja hof til heiðurs honum. Þrátt fyrir að Nobunaga væri erfingi að lénsherratitli föður síns, landi og eignum, þá skiptist Oda-ættin í ólíkar fylkingar sem allar höfðu augastað á stól ættföðurins. Andstæðingar Nobunaga fylktu sér ýmist að baki bróður hans, Nobuyuki, eða föðurbróður hans, Nobutomo. Nobunaga bar þó sigur úr býtum. Fyrst myrti hann frænda sinn Nobutomo og tók yfir Kiyoshi-kastala og gerði að höfuðsetri sínu næstu tíu árin. Bræðurnir Nobunaga og Nobuyuki tókust síðan á í bardaganum við Inó þar sem Nobunaga fór einnig með sigur af hólmi. Að beiðni móður þeirra hlífði Nobunaga lífi bróður síns. Skömmu seinna komst Nobunaga að því að Nobuyuki var að undirbúa aðra uppreisn. Nobunaga gerði sér þá upp veikindi og lét kalla á bróður sinn. Þegar Nobunyuki kom stakk Nobunaga bróður sinn til bana. Árið 1559 hafði Nobunaga barið niður alla andstöðu innan Oda-ættarinnar og fest sig í sessi sem lénsherra. Lénsherrann. Nobunaga lét sér ekki nægja að takast á við ættmenni sín á þessum fyrstu árum sem lénsherra. Á sama tíma sýndi hann fádæma kænsku og innsýn í stjórnmál með því að ná valdi yfir shugo (nokkurs konar yfirmaður) lénsherranna í nágrenninu. Ákveðni og kraftur Nobunaga vakti reiði og afbrýðisemi margra annarra ættarhöfðingja. Hernaðarlegir yfirburðir Nobunaga komu svo í ljós í orrustunni við Okehazama. Í þeirri orrustu vann Nobunaga sigur á Yoshitomo Imagawa með um 1800 manna herliði en samkvæmt sögunni samanstóð herlið Imagawa-ættarinnar af tuttugu og fimm þúsund manns. Nobunaga kom upp búðum á orrustuvellinum og fyllti þær af strábrúðum og fánum svo það liti út fyrir að hermenn hans biðu átekta. Á meðan undirbúningurinn stóð yfir í herbúðum Imagawa-ættarinnar réðst Nobunaga á þá aftan frá og kom þeim algerlega í opna skjöldu. Bent hefur verið á að hernaðarlegir yfirburðir Nobunaga hafi stafað af breyttri efnahagsstjórn sem byggði á auknu verslunar- og viðskiptafrelsi. Þannig tókst Nobunaga til dæmis að sjá fyrir nægum birgðum fyrir hermenn sína. Úrslit orrustunnar við Okehazama ollu því að Imagawa-ættin missti nær öll sín völd í landinu. Oda-ættbálkurinn frá Owari ætlaði greinilega að láta til sín taka í innanríkismálum Japans þar sem Nobunaga fór fremstur í flokki. Djöflakóngurinn. Ítök Nobunaga Oda jukust til muna eftir að hann gerði bandalag við Motoyasu Matsudaira (síðar þekktur sem Tokugawa Ieyasu) þrátt fyrir að ættirnar hefðu lengi eldað saman grátt silfur. Hann gifti systur sína inn í Asai-ættina í norðri og styrkti þar með stöðu sína í kringum höfuðborgina Kyoto. Eftir að hafa sigrað Sato-ættina og lagt undir sig Inabayama-kastala árið 1567 settist Nobunaga að í kastalanum með hirð sína. Hann endurskírði kastalann og þorpið í kring, Gifu, og bjó til nýtt innsigli fyrir sjálfan sig sem á stóð Tenka Fubu (japanska:天下布武) sem mætti útleggja sem ‚himneskur hermáttur á jörðu‘. Þar með hafði Nobunaga opinberað ætlun sína um að sameina allt Japan undir sinni stjórn. Ári síðar leitaði Ashikaga Yoshiaki til Nobunaga eftir hernaðarlegri aðstoð við að ná völdum á Ashikaga-sjógunaþinginu. Nobunaga greip tækifærið og réðst með fullum hermætti inn í Kyoto og gerði Yoshiaki að sjógun landsins. Nobunaga var boðinn titillinn kanrei, sem er nokkurs konar ráðgjafi sjógunsins, en hann afþakkaði þar sem hann vildi frekar minnka völd sjógunsins og stjórna á bak við tjöldin. Í kjölfarið reiddist Yoshiaki og hófst handa við að safna liði gegn Nobunaga. Margir lénsherrar og héraðshöfðingjar réðust gegn Nobunaga og Oda-ættinni en með aðstoð Tokugawa Ieayasu (áður Motoyasu Matsudaira) tókst Nobunaga að halda stöðu sinni sem valdamesti maður Japans og binda enda á Ashikaga-sjógunastjórnina. Í orrustunni við Nagashino árið 1575 uppgötvaði Nobunaga hernaðarráð sem átti eftir að veita honum yfirburði í mörgum átökum. Gallinn við að nota skotvopn í bardaga var hversu langan tíma það tók að hlaða þau upp á nýtt. Nobunaga leysti þetta með því að raða skotliðinu upp í þrjár raðir þar sem ein röð hermanna skaut, á meðan hinar tvær beygðu sig niður og hlóðu rifflana. Andstæðingar Nobunaga Oda og Tokugawa Ieayasu áttu fá svör við þessari skyndilegu og öflugu innkomu skotvopna á vígvöllinn. Árið 1582 var Nobunaga búinn að tryggja völd sín í Kyoto og á Kanto-sléttunni. Árangur hans hafði hinsvegar kostað marga lífið. Nobunaga var orðinn þekktur fyrir að sýna litla samúð með andstæðingum sínum og hlífa fáum. Sá sem áður hafði verið nefndur „flónið af Owari“ varð nú þekktur sem Ma - O (japanska:魔王) eða „djöflakóngurinn“. Viðurnefnið fékk hann í kjölfar herferðar sinnar gegn búddamunkum Enrayaku-klaustursins á hinu helga Hei-fjalli í Kyoto. Klaustrið var álitið menningarlegt tákn á þessum tímum en Nobunaga lét sér fátt um finnast og brenndi það til grunna ásamt því að fyrirskipa líflát á 3-4 þúsund mönnum, konum og börnum. jesúítinn Luis Frois lýsti Nobunaga sem trúlausum einræðisherra en Frois naut sérlegrar góðvildar við hirð Nobunaga, enda leit japanski lénsherrann svo á að kristin trú væru tækifæri til að losna við afskiptasama búddamunka. Á orrustuvellinum gaf Nobunaga engin grið og eru til margar grimmdarsögur af aðförum Oda-hersins á vígvellinum. Styrkur Nobunaga lá hinsvegar í þessari meintu grimmd og hefur verið bent á að hugsanlega sé mikið af þessum sögum uppspuni kominn frá Nobunaga sjálfum til að fylla óvini sína af ótta. Einnig á hann að hafa notað grimmdina til að aga samúræja úr yfirbuguðu herliði til hlýðni. Það gerði hann með því að segja þeim að traustir samúræjar fengju að ganga í lið hans en óhollir yrðu að fremja sepukku eða yrði grimmilega refsað. Hvað sem því líður þá hefur orðstír Nobunaga í seinni tíð verið meira í átt við fágaðan og yfirvegaðan samúræja frekar en harðstjóra. Bent hefur verið á að Nobunaga hafi ætlað að ná völdum yfir Japan með því að verða viðurkenndur sem menningarlegur valdhafi (japanska:文 ‘bun’) jafnt sem hernaðarlegur (japanska:武 ‘bu’). Á hann meðal annars að hafa notað japönsku teathöfnina sem menningarlegt vopn í þessum tilgangi. Seinni tíma frásagnir af persónu hans lýsa fágun frekar en grimmd eða harðneskju, eins og til dæmis í kowaka-leikritinu Atsumori þar sem Nobunaga dansar fyrir hermenn sína áður en þeir ráðast til atlögu gegn Imagawa-hernum, en atriðið er bein tilvísun í eina af frægustu forn-sögum Japans, Sagan um Heike (japanska:平家物語, ‘Heike monogatari). Í þjóðsögum er Nobunaga einnig lýst sem auðmjúkum manni líðandi stundar sem hafi meðal annars útbúið hrísgrjónin fyrir hermenn sína í orrustunni við Okehazama. Ferill Nobunaga náði hápunkti árið 1582, eftir að hann hafði lagt flesta andstæðinga sína af velli og var að undirbúa árás í eyjuna Shikoku. Sama ár var hann svikinn af herforingja sínum Mitsuhide Akechi sem kom Nobunaga að óvörum í Honno-ji-klaustrinu og neyddi hann til að fremja seppuku-sjálfsmorð. Ellefu dögum síðar var Mitsuhide Akechi myrtur í orrustunni við Yamazaki af Hashiba Hideyoshi. Sameining Japans. Sagan segir að Toyotomi Hideyoshi (áður Hashiba), sá sem náði hefndum fyrir Nobunaga, hafi byrjað sem skósveinn en síðar orðið hershöfðingi. Bóndasonurinn sem varð að hershöfðingja hélt svo starfi Nobunaga áfram og sameinaði allt Japan árið 1590 með aðstoð Tokugawa Ieyasu. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa verið dyggir fylgjendur Nobunaga og stefnu hans um sameinað Japan. Eftir dauða Nobunaga steig Toyotomi Hideyoshi upp til valda og eru þau tímamót öllu jafnan talin marka upphafið af Azuchi-Momoyama-tímabilinu (1574-1600) í sögu Japans. Því tímabili lauk þegar Toyotomi lést og Ieyasu tók við og hófst þá Tokugawa-tímabilið. Þessir þrír félagar eru taldir eiga heiðurinn af því að sameina allt Japan undir einni stjórn. Eitt frægasta orðatiltæki Japans er á þessa leið: „Oda lamdi saman hrísgrjónaköku landans, Hideyoshi verkaði hana og Ieyasu settist niður og snæddi hana“. Landsvæði Nobunaga og Tokugawa í frásögnum af bardögum og hernaðarátökum Nobunaga fer ekki leynt að hann hefur verið grimmilegur harðstjóri sem brást illa við hverskyns mótlæti og hefur viðurnefni hans, djöflakóngur, eflaust verið réttlætanlegt á þessum tíma. Í því samhengi má ekki gleyma því að Nobunaga fæddist og ólst upp í borgarstyrjöld þar sem skortur á augljósum leiðtogum og yfirvaldi gerði stríðsherrum kleift að ríða um héruð og drepa mann og annan. Þrátt fyrir að hann gerði það á grimmilegan hátt þá batt Nobunaga enda á eitt blóðugasta tímabilið í sögu Japans fram að seinni heimsstyrjöld. Á þeim tíma sem hann var við völd afrekaði hann meðal annars að afnema stéttarkerfi sem hafði verið við lýði í þúsund ár frá Heian- og Nara-tímabilinu, minnkaði afskipti ríkisvalds af verslun og lagði grunninn að friðartímum næstu 300 ár og sameinuðu Japan. Nobunaga er því gjarnan minnst með virðingu og jafnvel þakklæti í japönskum þjóðsögum og menningu. Að lokum má minnast á að ein af aðalpersónum í kvikmyndinni Kagemusha eftir leikstjórann Akira er byggð á ævi Nobunaga. Heimildir. Oda, Nobunaga Funkþátturinn. Funkþátturinn er útvarpsþáttur á útvarpsstöðinni X-ið 97.7. Þátturinn fjallar um elektróníska tónlist. Hann fór fyrst í loftið í sömu viku og útvarpsstöðin var stofnuð. Fyrsti stjórnandi þáttarins var Þorsteinn Hreggviðsson (einnig þekktur sem Þossi) en árið 1998 tók Baldur Ingi Baldursson (einnig þekktur sem Don Balli Funk) við þættinum. Snemma árs 2008 bættist Sveinbjörn Pálsson (einnig þekktur sem Terrordisco) við sem meðstjórnandi þáttarins. Haustið 2011 bættist Símon Guðmundsson eða Símon FKNHNDSM við hóp stjórnanda þáttarins. X-ið. X-ið 977 er útvarpsstöð í eigu 365 miðla sem spilar mestmegnis rokktónlist. Saga stöðvarinnar. X-ið fór í loftið í nóvember 1993. Fyrstu tónlistastjórar stöðvarinnar voru Sigmar Guðmundsson og Björn Baldvinsson. Stöðin var stofnuð af félaginu Aflvakinn hf. sem rak fyrir útvarpsstöðina Aðalstöðin. Lagnavefurinn lagnaval.is. Lagnaval.is er upplýsingavefsíða um val á vatnslagnaefni fyrir íslenskar aðstæður. Vefsíðan gefur ráðleggingar um val á lagnaefni fyrir helstu búsvæði landsins út frá efnagreiningum á neyslu- og hitaveituvatni. Notandi síðunnar getur því valið sitt búsvæði og fundið út hvaða lagnaefni hentar fyrir heitt og kalt kranavatn. Að sama skapi má sjá hvaða lagnaefni hentar fyrir mismunandi hitakerfi, þ.e. gegnumstreymis-, hringrásar-, gólfhita- og snjóbræðslukerfi. Þá er einnig gefinn möguleiki á að slá inn einhverja tiltekna efnagreiningu og fá ráðgjöf miðað við hana. Þeir eiginleikar vatnsins sem þá eru settir inn, eru þeir sem skipta meginmáli fyrir lagnavalið. Fyrir kalt vatn eru eiginleikarnir sýrustig vatnsins (pH) og styrkur koltvíoxíðs (CO2), súrefnis (O2), klórs (Cl), kalsíum (Ca) og magnesíum (Mg). Fyrir hitaveituvatn eru þetta sömu þættir og áður en að auki hitastig vatnsins og styrkur brennisteinsvetnis (H2S), kísiloxíðs (SiO2) og flúors (F). Finna má upplýsingar um mismunandi gerðir lagnaefnis á vefsíðunni og birtur er listi yfir greinar sem tengjast hugmyndafræði síðunnar. Einnig eru gefnir tenglar inn á heimasíður ýmissa fyrirtækja, stofnana og veitna. Tunglmyrkvi. Tunglmyrkvi nefnist það þegar sól, jörð og tungl mynda beina línu í þessari röð. Þá gengur tunglið inn í skugga jarðarinnar og myrkvast af þeim sökum. Sá sem staddur væri á yfirborði tunglsins sæi myrkvann sem sólmyrkva, því að jörðin skyggði þá á sólina frá honum séð. Sigurður B. Sívertsen. Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði) var prestur á Útskálum. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sigurðssonar prests á Útskálum og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809 - 1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra. Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út. Hard Candy (kvikmynd). "Hard Candy" er sálfræðispennumynd sem fjallar um barnaníðing og 14 ára stelpuna sem hann gerir tilraun til að snara. Leikstjóri myndarinnar var David Slade, og hún var skrifuð af Brian Nelson. Aðalleikarar eru Patrick Wilson og Ellen Page. Kvikmyndin frumsýndi þann 14. apríl 2006. Hard Candy (Madonna breiðskífa). "Hard Candy" er ellefti breiðskífa af bandarískum lagasmið Madonna og var gefin út þann 25. apríl 2008 af Warner Bros. Records útgáfunni. Hún er síðust breiðskífa gefin út með útgáfunni fyrir „Greatest Hits“ breiðskífan og merkir endalok 25 ára hljóðritunar. Justin Timberlake kemur fram í aðalsmáskífu breiðskífunnar „4 Minutes“ og hún var númer eitt í 27 löndum. Yngling. Yngling er kjölbátur hannaður af norska bátahönnuðinum Jan Herman Linge sem vildi smíða minni útgáfu af Soling fyrir yngri siglingamenn. Hann hannaði Yngling árið 1967. 1979 var báturinn viðurkenndur sem alþjóðleg keppnisgerð Yngling er tæp 21 fet á lengd (6,37 metrar) og vegur 645 kíló. Hann var valinn keppnisbátur í kvennaflokki á Ólympíuleikunum 2004 og 2008. Wallpaper*. "Wallpaper*" er tímarit sem er gefið út af Time Inc. og fjallar einkum um list, hönnun, skemmtun, tísku, ferðalög og fjölmiðla. Það var stofnuð árið 1996 í London af kanadíska blaðamanninum Tyler Brûlé. "Wallpaper*" gefur út líka handbækur um borgir, þar á meðal eina um Reykjavík. Staðkvæmdarvara. Staðkvæmdarvara (einnig nefnt staðgengisvara eða staðgengdarvara) nefnist sú vara sem í hagfræðilegum skilningi getur komið í stað annarrar vöru. Sem dæmi má nefna smjörlíki og smjör til steikingar á mat, olíu eða gas til upphitunar húsa. Lögmál framboðs og eftirspurnar verða til þess að þegar verð vöru sem á sér staðkvæmdarvöru hækkar eykst eftirspurnin eftir staðkvæmdarvöru(num). Jón Jósep Snæbjörnsson. Jón Jósep Snæbjörnsson, oftast kallaður Jónsi, (fæddur 1. júní 1977) er íslenskur söngvari. Hann er söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum. Hann söng lagið "Heaven" í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2004 og lenti í 19. sæti. Dísilolía. Dísilolía er eldsneytisolía, sem notuð er á dísilvélar. Hún dregur nafn sitt af þýska verkfræðingnum Rudolf Christian Karl Diesel (1858 – 1913). Hann fann upp dísilvélina þegar hann vann að því að finna upp vél með betri nýtni en gufuvélin hafði. Upphaflega hannaði Diesel vélina til að ganga á koladufti, næst gerði hann tilraunir með grænmetisolíu og loks með dísilolíu sem unnin var úr hráolíu. Dísilolíu sem unnin er úr hráolíu, lífdísilolíu og Fischer-Tropsch-dísilolíu. Dísilolía sem unnin er úr hráolíu. Hægt er að vinna dísilolíu úr hráolíu með þrepaeimingu við um það bil 200 – 350 °C við 1 atm þrýsting. Dísilolían samanstendur aðallega af kolvetniskeðjum með fjölda kolefnisatóma á bilinu 10 – 18. Auk þess inniheldur hún mismikið af brennisteini, köfnunarefni og öðrum óhreinindum eftir því hvernig hráolían, sem hún er unnin úr, er samsett. Eðlismassi dísilolíu sem unnin er úr hráolíu er um 0,85 kg/l eða um 18% meiri en eðlismassi bensíns. Olían inniheldur milli 18 og 30% meiri orku á rúmmál en bensín. Lífdísilolía. Lífdísilolíu er hægt að framleiða úr grænmetisolíu eða dýrafitu. Lífdísilolía úr grænmetisolíu. Breyta má grænmetisolíu með umesterun þannig að hægt sé að nota hana á dísilvélar. Lífdísilolía hefur örlítið minna orkuinnihald en dísilolía sem unnin er úr hráolíu. Hún inniheldur einnig minna magn af brennisteini og arómatískum efnasamböndum. Algengast er að lífdísilolía sé framleidd úr sojabaunaolíu (soybean oil) eða repjuolíu (rapeseed). Sojabaunaolía er mikilvæg í fæðuframleiðslu og er framleiðsla lífdísilolíu úr henni frekar dýr vegna þess hve eftirsótt hún er á matvælamarkaði. Lífdísilolía mengar minna og er umhverfisvænni en olía sem unnin er úr hráolíu og hægt er að nota hana á dísilvélar án þess að breyta þurfi vélunum á nokkurn hátt. Grænmetisolíur eru endurnýjanleg auðlind og er orkuinnihald þeirra svipað og dísilolíu sem unnin er úr hráolíu. Taka verður samt með í reikninginn að mikil notkun á grænmetisolíu til dísilframleiðslu getur haft áhrif á fæðuframleiðslu og jafnvel valdið hungursneyðum í þróunarlöndunum. Hægt er að nýta notaða matarolíu sem fellur til, til dísilolíuframleiðslu. Sú framleiðsla er hins vegar flóknari sökum óhreininda í olíunni. Lífdísilolía úr dýrafitu. Mikið fellur til af dýrafitu í heiminum sem hægt væri að nýta til lífdísilolíuframleiðslu. Sú framleiðsla er hins vegar flóknari. Fischer-Tropsch-dísilolía. Fischer-Tropsch dísilolía er framleidd úr efnasmíðagasi. Með Fischer-Tropsch-aðferðinni er hægt að framleiða olíu úr efnasmíðagasi sem samanstendur af passlega löngum kolvetniskeðjum til að hægt sé að nota hana á dísilvélar. Æskilegt er að dísilolía sé úr sem hæstu hlutfalli af beinum kolvetniskeðjum. Afurð Fischer-Tropsch aðferðarinnar er hins vegar blanda beinna kolvetniskeðja auk ýmissa annarra afurða, svo sem ekki beinna kolvetniskeðja og óhreininda. Olían þarf því að fara í gegnum ýmsar hreinsanir áður en hægt er að nota hana á dísilvélar. Dísilolía sem framleidd er á þennan hátt inniheldur minna af brennisteini og köfnunarefni en aðrar dísilolíur (fer eftir hráefni). He's Just Not That Into You (kvikmynd). "He's Just Not That Into You" (eða "Hann er ekki nógu skotinn í þér") er bandarísk rómantísk gamanmynd byggð á samnefndri sjálfshjálparbók eftir Greb Behrendt og Liz Tuccillo, sem var byggð á hluta af "Sex and the City". Myndin er framleidd af fyrirtæki Drew Barrymore, Flower Films. Í myndinni leika meðal annars Ben Affleck, Jennifer Aniston, Drew Barrymore, Scarlett Johanson, Justin Long, Jennifer Connelly, Ginnifer Goodwin, Kevin Connelly og Bradley Cooper; en Ken Kwapis leikstýrir myndinni. Beitistaðir. Beitistaðir er bær í Leirársveit. Þar var prentsmiðja Landsuppfræðingafélagsins frá 1815 til 1819 er hún var flutt til Viðeyjar. Hjalti Gestsson. Hjalti Gestsson (fæddur 10. júní 1916 að Hæl í Gnúpverjahreppi, látinn 6. október 2009) er íslenskur búfræðikandídat og fyrrverandi ráðunautur. Hann hefur verið mikilvirkur innan íslenskrar búfjárræktar. Menntun og störf. Hjalti lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938. Hann varð búfræðikandídat frá Búnaðarskólanum í Kaupmannahöfn 1941 og lauk þaðan framhaldsnámi tveimur árum síðar. Hjalti vann hjá Landsøkonomisk Forsøgslaboratorium í Kaupmannahöfn á námsárum sínum þar í borg. Þá var hann ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands frá 1946 til 1986, er hann lét af störfum 70 að aldri. Þá var hann einnig framkvæmdastjóri sambandsins á árunum 1959 til 1986. Auk þess sat hann í bændaskólanefnd í Skálholti, stóð að búnaðarkennslu í Stóru-Sandvík og var stundakennari við Bændaskólann á Hvanneyri frá stofnun framhaldsdeildarinnar árið 1949 til 1957. Stuttu eftir að Hjalti kom til starfa hjá Búnaðarsambandinu setti hann saman dómstiga sem notaður var við kúadóma. Dómskali þessi var notaður á öllum kúasýningum frá 1951 til 1976 og er enn undirstaðan í nýja kerfinu sem notað er við dóma í dag. Hjalti stjórnaði fjárskiptum vegna mæðiveiki í Árnessýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu og Reykjavík í byrjun 6. áratugarins. Þá var hann hvati að því að lambhrútasýningar yrðu teknar upp. Þangað til höfðu einungis verið sýndir fullorðnir hrútar. Lambhrútasýningarnar urðu fljótt vinsælar og stuðla að því að stytta ættliðabilið í íslenskir sauðfjárrækt. Þá stuðlaði hann að stofnun Hrossaræktarsambands Suðurlands. Árið 2006, þegar Hjalti varð níræður, var haldin ráðstefna honum til heiðurs þar sem fluttir voru fyrirlestrar um ýmis efni innan íslenskrar búfjárræktar. Klárhestur. Klárhestur (eða klár) kallast sá hestur sem býr yfir fjórum gangtegundum, þ.e. að hann býr ekki yfir skeiði. Þessir hestar kallast einnig "klárhestar með tölti" til að undirstrika að þeir kunni að tölta. Klárhestar keppa í sér grein sem kallast B-flokkur. Samkeppniseftirlitið. Samkeppniseftirlitið (áður Samkeppnisstofnun) er íslensk ríkisstofnun sem starfar sem eftirlitsstofnun eftir lögum um samkeppni og heyrir undir viðskipta- og efnahagsráðuneyti Íslands. Nánar tiltekið er tilgangur þess „að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“ Samkeppniseftirlitið sér sérstaklega um að framfylgja greinar 53 og 54 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem Ísland er aðili að. Samkeppniseftirlitið fylgist með opinberum aðilum sem einkafyrirtækjum og félagasamtökum. Meðal þekktra mála sem stofnunin hefur tekið fyrir má nefna samráð olíufélaganna. Saga. Samkeppnislög voru upprunalega sett árið 1993 og þá var Samkeppnisstofnun stofnuð. Þessu fyrirkomulagi var breytt með setningu nýrra samkeppnislaga árið 2005 þar sem hluta af verkefnum Samkeppnisstofnunar voru færð yfir til Neytendastofu. Samkeppniseftirlitið tók til starfa 1. júlí 2005 og var Samkeppnisstofnun þá lögð niður. Grænmetisolía. Grænmetisolía er olía sem er unnin úr ávöxtum, hnetum og fræum. Efnasmíðagas. Efnasmíðagas (enska: "synthesis gas" eða "syngas") er gas sem samanstendur af H2 og CO í misstórum hlutföllum. Efnasmíðagas er hægt að mynda með gösun úr mismunandi kolvetnisuppsprettum, til dæmis úr kolum eða úr ýmiskonar lífmassa, svo sem viði, hálmi, matarafgöngum, rusli eða skólpi. Hústaka. Hústaka er verknaður sem felst í að flytja í yfirgefið eða autt húsnæði, oftast íbúðarhúsnæði sem hústökufólkið hvorki á, leigir né hefur heimild til að nota. Hústaka er algengari í borgum en sveitum og sérstaklega algeng þegar borgir, borgarhverfi eða einstök hús eru í niðurníðslu. Hústaka á Íslandi. Þann 9. apríl 2009 flutti hústökufólk inn í hús við Vatnsstíg 4 í Reykjavík. Fríbúð. Fríbúð er verslun með notaðan varning þar sem allt er ókeypis. Sæhrímnir. Sæhrímnir er göltur í Valhöll sem Einherjar hafa sér til matar. Sæhrímni er slátrað á hverjum degi, en er alltaf heill að kvöldi, og aldrei er svo mikill mannfjöldi í Valhöll, að þeim endist ekki flesk galtarins. Dragon. Dragon er 8,9 metra langur tvímenningskjölbátur hannaður af norska skútuhönnuðinum Johan Anker árið 1929. Frá 1948 til 1972 var Dragon Ólympíubátur. Upphaflega voru þeir allir úr viði en frá því snemma á 8. áratugnum var farið að framleiða þá úr glertrefjum. Reiðanum hefur líka verið breytt í tímans rás til að taka mið af nýjum kröfum. Róbert Rínarfursti. Róbert Rínarfursti, greifi af Pfalz við Rín og hertogi af Bæjaralandi (17. desember 1619 – 29. nóvember 1682) var frægur herforingi í her konungssinna í Ensku borgarastyrjöldinni og einn af þeim fyrstu sem nýttu sér messótintu við gerð prentmynda. Hann var þriðji sonur Friðriks 5. kjörfursta af Pfalz og Elísabetar Stúart, dóttur Jakobs 1. Englandskonungs, og fæddist í Prag þar sem faðir hans var konungur einn vetur áður en Ferdinand 2. keisari lagði landið undir sig með hervaldi. Fjölskyldan hraktist við það í útlegð til Hollands. Elsti bróðir hans, Friðrik Hinrik, drukknaði 1629 og faðir hans lést þremur árum síðar. 1633 hóf hann feril sem hermaður í her Friðriks Hinriks Óraníufursta og tók þátt í Áttatíu ára stríðinu gegn Spáni. Hann tók líka þátt í Þrjátíu ára stríðinu í Þýskalandi en var tekinn til fanga og haldið í fangelsi í Linz í Austurríki. 1641 var honum sleppt með því skilyrði að hann tæki ekki upp vopn gegn keisaranum framar. 1642 skipaði móðurbróðir hans, Karl 1. Englandskonungur, hann foringja yfir riddaraliði konungssinna í Ensku borgarastyrjöldinni. Hann þótti djarfur og snjall foringi og tryggði konungssinnum marga sigra, þótt mistök hans hefðu líklega kostað þá sigurinn í orrustunni við Edgehill. Í nóvember 1644 var hann gerður að hershöfðingja. Í orrustunni við Naseby gegn hinum nýskipaða New Model Army kostuðu ráðleggingar hans konungssinna stóran hluta hersins og staða hans versnaði til muna. Eftir orrustuna taldi hann stríðið tapað og hvatti konung til að semja um frið við þingið sem Karl hafnaði. Róbert gaf þá þinghernum eftir Bristol í september 1645 og gegndi engum ábyrgðarstöðum í her konungssinna eftir það. 1646 dæmdi þingið hann útlægan. Róbert hélt til Frakklands þar sem hann stjórnaði flokki útlægra Englendinga í lokakafla Þrjátíu ára stríðsins. Skömmu síðar sættist hann við Karl og var skipaður foringi yfir lítilli flotadeild konungssinna. Hann hélt í langa og illa heppnaða herför sem lyktaði með ósigri í sjóorrustu gegn Robert Blake, flotaforingja þingsins. Róbert flúði þá til Vestur-Indía þar sem hann lifði á sjóránum. Á tíma Stúart-endurreisnarinnar sneri hann aftur til Englands þar sem Karl 2. skipaði hann í leyndarráð sitt og fékk honum lífeyri. Hann varð aftur flotaforingi og stýrði enska flotanum í sjóorrustum við Hollendinga í Öðru stríði Englands og Hollands 1665 – 1667 og Þriðja stríði Englands og Hollands 1672 – 1674 þar sem hann beið ósigra í orrustunni við Schooneveld og orrustunni við Texel. Á þessum árum bjó hann með leikkonunni Margaret Hughes og átti með henni dótturina Rupertu. Hann lést árið 1682 og var jarðsettur í Westminster Abbey. Antoon van Dyck. Antoon van Dyck (einnig skrifað Anthonis, Antonio, Anthonie, Anton og Anthony; 22. mars 1599 – 9. desember 1641) var flæmskur listmálari af Antwerpen-skólanum. Hann er einkum þekktur fyrir mannamyndir sínar af fjölskyldu og hirð Karls 1. Englandskonungs sem höfðu mikil áhrif á málaralist á Bretlandseyjum næstu tvær aldirnar. Van Dyck lærði hjá Hendrick van Balen, stofnaði vinnustofu með Jan Brueghel yngri og varð síðar aðalaðstoðarmaður Rubens sem var einn þekktasti listmálari Evrópu þess tíma og hafði mikil áhrif á van Dyck. Árið 1620 fór hann fyrst til Englands að undirlagi Buckinghams hertoga. Þar sá hann verk Tizianos í fyrsta skipti. Ári síðar hélt hann í námsreisu til Ítalíu þar sem hann hélt sig næstu sex árin. 1632 sneri hann aftur til Englands þar sem Karl 1. var að reyna að lokka helstu listamenn Evrópu til hirðar sinnar. Í Englandi sló hann í gegn og varð sérstakur hirðmálari Karls 1. en hann og drottningin Henríetta María sátu vart fyrir hjá neinum öðrum listamanni. Sum verka hans voru gerð í nokkrum eintökum og send sem gjafir til annarra þjóðhöfðingja. Hann varð enskur borgari 1638 og giftist hirðmey drottningar. Hann lést í London og var grafinn í Gömlu Pálskirkjunni. Hörður Torfason. Hörður Torfason (fæddur 4. september 1945) er íslenskt söngvaskáld og brautryðjandi á því sviði sem og mörgum öðrum. Menntaður leikari frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins vorið 1970 starfað einnig sem leikstjóri frá 1971 og mannréttinda baráttumaður og sem slíkur stofnandi, hugmyndasmiður, framkvæmdaraðili og talsmaður Radda fólksins árið 2008 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi. Hann stóð einnig fyrir áhrifaríkum mótmælum við Menntamálaráðuneytið sumarið 2008 vegna máls Poul Ramses. Hann var fyrstur á Íslandi til að koma opinberlega úr skápnum þá þjóðþekktur maður. Hugmyndasmiður og aðalstofnandi Samtakanna '78. Hann hefur skrifaði leikrit og ljóð, leikið fjölmörg hlutverk á sviði og nokkur í kvikmyndum, leikstýrt um 50 sviðsuppsetningum og hannað og smíðað leikmyndir við þær flestar. Sem hugmyndasmiður Búsáhaldabyltingarinnar og mannréttinda baráttumaður hefur hann farið víða um heim og haldið fyrirlestra um aðferðir sínar. Haustið 2008 kom út ævisaga hans Tabú, skráð af Ævari Erni Jósepssyni. Með fyrstu plötu sinni sem hann tók upp sumarið 1970 "Hörður Torfason syngur eigin lög" hafði hann gríðarleg áhrif á íslenska tónlist og urðu margir til að taka hann sér til fyrirmyndar. Hörður hefur oft verið nefndur "Þjóðleikhús landsbyggðarinnar" því áratugum saman ferðaðist hann hringinn í kringum landið amk. einu sinni á hverju ári með tónleika. Hann hefur starfað sjálfstætt síðan 1973 þeas. tónleikar hans og önnur starfssem hefur ekki stuðst við styrkveitingar peningamanna eða fyrirtækja. Hörður hefur sent frá sér 23 plötur. Hörður er sonur hjónanna Torfa Benediktssonar og Önnu Kristinsdóttur. Hann er næstelstur sex systkina. Raddir fólksins. Raddir fólksins er félagsskapur pólitískra aðgerðasinna sem var stofnað 2008 í kjölfar efnahagskreppunnar sama ár. Helsti stofnandi samtakanna var Hörður Torfason, trúbadúr. Raddir fólksins stóð fyrir fundum á hverjum laugardegi á Austurvelli frá 15. nóvember 2008 til 14. mars 2009. Varmadæla. Varmadæla er búnaður sem leggur til vinnu við að flytja varma frá köldum hlut til heitari, og nýta varma frá vélum t.d. frystihúsa, frárennsli hitaveitu og jarðvarma með lágu hitastigi og eru tæknilega eins gerðar og kæliskápur. Varmadælur eru þó ýmist nýttar til upphitunar eða kælingar. Ísskápur er dæmigerð kælivarmadæla. Á Íslandi er notkun varmadæla til upphitunar ekki algeng, en ástæðurnar eru hár stofnkostnaður varmadælu og lágt raforkuverð til húshitunar. Varmadælur eru hins vegar algengari víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi. Nánast allar nýbyggingar í Svíþjóð eru til að mynda útbúnar varmadælum. Í Bandaríkjunum eru þær yfirleitt notaðar til kælingar en til upphitunar á Norðurlöndunum. Saga. Upphaf nútíma varmadæla og kælivéla má rekja til vísindagreinar sem William nokkur Thomson (1824-1907) ritaði árið 1852. Grein þessi bar titilinn "„On the economy of the heating or cooling of buildings by means of currents of air“". Orkuferli varmadælu hafði áður verið skilgreint í tengslum við 2. lögmál varmafræðinnar, en það var franski vísindamaðurinn Sadi Carnot (1786-1832) sem það gerði og er ferlið kennt við hann, Carnot ferli. Útbreiðsla varmadæla náði ekki neinu marki fyrr en á seinni hluta 20. aldar, en kælivélar hafa hins vegar verið notaðar frá því fyrir aldamótin 1900. Lágt orkuverð og kostnaður við varmadælubúnað stóð útbreiðslu varmadæla fyrir þrifum. Olíukreppan svokallaða á áttunda áratug 20. aldar og aukin umhverfisvitund áttu þátt í að áhugi manna á varmadælum jókst. Varmaorkuna, sem framleidd er með varmadælu, má nýta á ýmsan hátt. Dæmi um á hvaða sviðum má nýta hana eru húshitun, sundlaugar, sjávardýraeldi og iðnaður. Þegar varmadælur eru nýttar til húshitunar sparast um 60-80% af frumorkunotkun sé borið saman við orkugjafaformin jarðefnaeldsneyti og beina rafhitun. Ef varmadæla gengur fyrir endurnýjanlegri orku, stuðlar hún að minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda komi hún í stað orkugjafa sem knúinn er áfram af bruna jarðefnaeldsneytis. Þessir orkusparandi og umhverfisvænu eiginleikar áttu mikinn þátt í fjölgun varmadæla á Norðurlöndunum og víðar á síðari hluta 20. aldar. Virkni varmadæla. Vinnsluhringrás varmadælu; 1. eimsvali, 2. þensluloki, 3. eimir, 4. þjappa. Byggingareiningar hefðbundinnar varmadælu eru dælubúnaður, leiðslur, þjappa, þensluloki og tveir varmaskiptar sem mynda lokað kerfi. Varmaskipti eru nýtt í þessu lokaða kerfi í vinnsluhringrás (sjá mynd), þar sem vinnslumiðillinn er ýmist í vökva- eða gasfasa. Varmaskiptarnir tveir eru kallaðir eimir og eimsvali. Í eiminum eiga varmaskipti sér stað við uppgufun en í eimsvalanum eiga þau sér stað við þéttingu gass í vökva. Þjappan gegnir því hlutverki að þjappa saman gasi, en við það eykst þrýstingur þess og hitastig þess hækkar. Þenslulokinn gegnir því hlutverki fyrst og fremst að minnka þrýsting og lækka hitastig vinnslumiðils og ná þannig vinnsluþrýstingi eimis. Þjappan og þenslulokinn sjá um að viðhalda hringrás í kerfinu. Raforku þarf til að starfrækja allan þann búnað sem tilheyrir varmadælu. Í flestum tilfellum getur þurft að koma varmamiðli að eimi varmadælunnar og krefst það þá orku til viðbótar. Orkuhagkvæmni varmadælu ræðst því af nýtni búnaðar dælunnar, en einnig helstu lögmálum varmafræðinnar. Glögglega má sjá að ef nýtni vélbúnaðar er slök og litlum varma má ná úr vinnslumiðli, verður orkuhagkvæmnin frekar lítil í samræmi við það. Á móti kemur að samanburður við hefðbundna rafhitun er varmadælu í hag, þar sem sömu varmaorku má ná með mun minni raforkunotkun. Aflstuðull varmadælu. formula_1 Ársvarmastuðull varmadælu "(e. SPF – Seasonal Performance Factor)" er fundinn á sambærilegan hátt út frá hlutfalli heildarvarmaorku og –raforku á ársgrundvelli. Ársvarmastuðull er ein af forsendum arðsemisútreikninga varmadælu. Þegar hitabil á milli varmalindar og varmaþega eykst, lækkar aflstuðull varmadælu. Vinnslumiðlar. Vinnslumiðlar sem notaðir eru í varmadælum eru margir og fjölbreyttir að gerð, en sífellt eru nýjar tegundir vinnslumiðla að bætast við. Val á vinnslumiðli byggir á því að nýting varmans sé eins hagkvæm og við verður komið. Ýmislegt fleira ræður þó einnig valinu, til að mynda vinnsluþrýstingur, stöðugleiki, hvarfgirni við olíu og málma, eituráhrif og eldfimi. Mikilvægt er einnig að auðvelt sé að greina leka vinnslumiðils. Aðallega hafa verið notuð freonefni (CFC) sem vinnslumiðlar, en þar sem þau eru talin hafa skaðleg áhrif á ósónlag jarðar, hefur verið horfið frá notkun þeirra. Dæmi um slíkt efni er R-22 eða CHClF2. Vetnisflúorkolefni (HFC) hefur tekið við af R-22 en til þess efnaflokks tilheyra t.d. R-134a, R-143a, R-404A og er R-407C mest notað á Norðurlöndum fyrir varmadælur í dag. flestar loft/loft varmadælur nota R-410A sem henntar vel bæði til kælingar og hitunar. Það hitastig sem óskað er eftir að fá úr tiltekinni varmadælu til húshitunar, hefur þó nokkuð að segja um hvaða vinnslumiðill notaður er. Áður en HFC miðlar tóku við af R-22, var sá síðarnefndi notaður í flestum tilfellum þegar óskahitastig var ekki hærra en 55 °C. Vilji menn fá hærra hitastig en 60 °C, er algengast að R-134a sé sá vinnslumiðill sem notaður er, en einnig má nefna própan. Með própani má ná vatnshita upp á um 65 °C, en það getur hentað ágætlega fyrir vatnsofnakerfi. Gerðir varmadæla. Flokka má gerðir varmadæla eftir því hver fasi varmauppsrettunnar er, sem varmadælan nýtir sér, og í hvaða fasa varmafrástreymið frá dælunni er. Berg/loft varmadæla. Berg/loft varmadæla nýtir bergvarma og skilar frá sér heitu eða köldu lofti. Berg/vatn varmadæla. Berg/vatn varmadæla nýtir í raun berghita sem varmalind. Varmaskipti verða þá í borholu við bergið þannig að vatn í holunni miðlar varma bergsins í varmaskiptavökva sem leiddur er að varmadælunni. Varmaskiptavökvinn getur sem dæmi verið frostlögur, etanól eða saltvatn. Ísogs- og ásogsvarmadælur. Ísogs- og ásogsvarmadælur hafa þá sérstöðu að vera keyrðar svo að segja eingöngu á varmaorku í stað raforku. Þessar tvær gerðir varmadæla eru stundum nefndar efnavarmadælur, þar sem uppgufun og upplausn vinnslumiðils stjórnast af eiginleikum efna og efnunum sjálfum. Vinnsluferli þeirra, sem er ólíkt hefðbundnu varmadæluferli, lýsir sér þannig að vökvalausn eða fast efni dregur í sig gufu við lágan þrýsting og sleppir henni við háan þrýsting. Gufan er losuð úr lausninni eða fasta efninu með varma, yfirleitt frá gasloga. Loft/loft varmadæla. Loft/loft varmadæla nýtir varmalind sem er í loftfasa og skilar frá sér heitu eða köldu lofti. Yfirleitt er hægt að snúa við flæði vinnslumiðilsins þannig að varmadælan geti ýmist kælt eða hitað. Þetta er ódýrasta útfærsla varmadæla og selst þessi gerð vel í löndum nálægt miðbaug, en síður í löndum þar sem meiri þörf er á upphitun en kælingu. Árið 2005 var þessi gerð algengust allra varmadæla á heimsmarkaði. Loft/vatn varmadæla. Loft/vatn varmadæla getur til dæmis nýtt lofthita utandyra til þess að hita upp vatn innanhúss. Dæmi um þetta er svokölluð "Eco Cute" varmadæla. Vatn/loft varmadæla. Vatn/loft varmadæla nýtir varma úr vatni og skilar frá sér heitu eða köldu lofti. Vatn/vatn varmadæla. Vatn/vatn varmadæla virkar þannig að varmalindin getur verið volgra allt niður í 4°C eða laug og eftir að varmaskipti hafa átt sér stað, skilar dælan frá sér heitu vatni. Heita vatnið má svo nýta t.d. til húshitunar, en vatnshitinn frá hefðbundnum varmadælum er reyndar yfirleitt ekki hærri en 55  °C en á móti kemur að bakrás er um 47°C þannig að kerfið keyrir á mun meiri hraða og með látt delta T. Upphitun húsnæðis hér á landi með varmadælum, hefur í flestum tilfellum verið með vatn/vatn varmadælum. Erlendis hafa hins vegar loft/loft varmadælur verið algengastar og þá gjarnan útbúnar þannig að þær geti bæði dælt frá sér köldu og heitu lofti. Vatn/vatn varmadæla notar minnstu raforku á framleiddan varma allra varmadæla. Helstu vandkvæði við notkun vatn/vatn varmadælu eru hættur á stíflum og tæringum í leiðslum og dælum. Líkur á slíkum vandræðum eru mestar þegar vatn í varmalind er salt, t.d. sjór, en ráðlagt er í slíkum tilfellum að varmaskiptar séu úr títan málmi eða ryðfríu stáli. Varmalindir. Dæmi um varmalindir sem hægt er að nýta með varmadælum eru sjór, vötn og dragár, grunnvatn, útiloft, jarðvarmi og jafnvel vatn úr iðnaðarfrárennsli og skólpvatn. Jarðvarmi. Varmauppsprettur sem upprunnar eru frá jarðvarma og nota má sem varmalind varmadælu eru lindir, volgrur, laugar og þess háttar. Hentugast er að hitastig varmalindarinnar sé á bilinu 4-20 °C því ef hitinn er hærri má einfaldlega nýta hann beint til dæmis til gólfhitunar. Munur hvort að hitastig sé 4 eða 20°C er magnið af vatni sem þarf, reikna þarf út miða við hitastig hversu mikið magn þarf, hægt er að nota heitara vatn heldur en 20°C en flestir kælimiðlar þola ekki heitara en 20°C því hefur oft verið notað heitara vatn með því að taka úr því nokrar gráður. T.D. í gegnum spíral í hitakút eða blanda það með köldu vatni. Þegar grunnvatn er nýtt sem varmauppspretta er algengast að boraðar séu grunnar holur og vatni dælt úr þeim. Hægt er að fá um 8,4 kWt ef grunnvatni við 4 °C er dælt með hraðanum 1 L/s. Ef aflstuðull varmadælu væri 3,5 og rafafl þjöppumótors 3,4 kW, fengjust um 12 kW af vatni við 35-40 °C sem nýta mætti með gólfhitakerfi til upphitunar einbýlishúss með rúmtakið 500 m3. Ná má varma úr þurru bergi með því að leggja slöngur með frostlagarblöndu í 100-200 m djúpar borholur. Varminn úr berginu hitar þá blönduna og hún kemur heitari upp en hún fór niður í holuna. Kosturinn við að nýta slíka varmalind er að hiti er stöðugur yfir árið og býður því upp á jafnan rekstur varmadælu. Sjór. Við Ísland mætast tveir hafstraumar; Golfstraumurinn og Austur-Grænlandsstraumurinn. Grein úr Golfstraumnum kemur upp að suðurströnd Íslands og streymir vestur með ströndinni út fyrir Reykjanes og tekur þá stefnuna norður að Vestfjörðum. Straumurinn greinist í tvennt úti fyrir Vestfjörðum þar sem meginhlutinn streymir vestur að Grænlandi en minni hlutinn heldur áfram til norðausturs. Sjávarhiti við Ísland er hæstur við Suður- og Vesturland. Á vetrum getur sjávarhiti verið í kringum 5 °C við Vestmannaeyjar, svo dæmi sé tekið, en úti fyrir Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi getur hitastig sjávar verið einungis í kringum 1 °C. Á sumrin munar minna á sjávarhita og er hann þá á bilinu 10-12 °C umhverfis landið. Sjórinn við Suður- og Vesturland getur því hentað ágætlega sem varmalind fyrir varmadælur. Hægt er að ná varmanum úr sjónum í raun á tvenns konar hátt. Annað hvort er sjórinn tekinn beint inn í eimi varmadælunnar eða varmaskiptir notaður. Sjór er mjög tærandi og hætta getur verið á því að hann blandist kælimiðli. Því getur verið varasamt að taka hann beint inn í eiminn. Þegar varmaskiptir er notaður, hitar sjórinn frostlagarblöndu í hringrás eimis og varmaskiptis. Hafa þarf í huga að reikna út rétta lengd á lögnum sem liggja út í sjó til þess að verða ekki fyrir hitatapi sem getur myndast ef lagnir eru of stuttar. Ennfremur geta varmaskiptar verið dýr búnaður sem þarfnast reglulegs viðhalds og hentar sá búnaður því frekar stórum varmadælum 300kW +. Möguleiki á að nýta sjó sem varmalind fyrir minni varmadælukerfi, felst í því að leggja plastslöngur út í sjóinn og dæla kælimiðli varmadælunnar um þær. Þannig tekur kælimiðillinn í sig varma frá sjónum á leið sinni um slöngurnar og kemur til baka við hærra hitastig. Dæmi um þetta er Thermia Robust 35kW varmadæla í Björgunarsveitarhúsinu á Rifi og liggja þar í höfninni 1200m af lögnum þar sem frostlögur hringrásar til þess að sækja varman í sjó. Orkusparnaður er töluvert meiri en lagt var af stað upp með. Útiloft. Þrátt fyrir að útiloft sé algengasta varmalind sem notuð er fyrir varmadælur, hentar það ekkert sérstaklega vel sem varmagjafi. Ókostir útilofts eru t.d. að þegar varmaþörf er mest er útiloftið náttúrulega kaldast en afköst varmadælu minnka almennt um 4% fyrir hverja gráðu í hitastigslækkun varmalindar. Hrímmyndun á eimi getur einnig verið vandamál þegar hitastig nálgast frostmark. Helstu kostir við útiloft sem varmalind er aftur á móti hversu aðgengilegt það er og að mögulegt er að nota loft/loft varmadælur á sumrin til kælingar. Varmadælur á Íslandi. Ekki hefur verið mikið um að varmadælur séu notaðar á Íslandi. Elsta dæmið er líklega þegar varmadæla var notuð til þess að hita rafal í Búrfellsvirkjun árið 1969. Nokkur reynsla af rekstri varmadæla er hjá Norðurorku á Akureyri, en nánar er fjallað um það hér að neðan. Fram til ársins 2005 höfðu flestar varmadælur sem notaðar hafa verið á Íslandi verið af vatn/vatn gerð. Eitt skemmtilegt dæmi um notkun varmadæla hérlendis, er að í Smáralind er varmi frá eimsvala kælivélar nýttur með varmadælu til þess að hita upp loft í loftræstikerfum. Varmadælur Norðurorku. Í apríl árið 1984 var tekin í notkun varmadæla af Sabroe gerð hjá Norðurorku á Akureyri, sem þá hét Hitaveita Akureyrar. Varmadælan var kerfi tveggja raðtengdra varmadæla sem skilaði samtals 2,6 MWt. Notaður var vinnslumiðill af freon gerð, en í dag er notkun slíkra miðla óheimil vegna umhverfisáhrifa. Varmi úr 40 °C heitu bakrennslisvatni frá veitunni og reyndar einnig að hluta úr kælivatni mótoranna, var nýttur til þess að hita 62 °C heitt vatn úr borholu í Glerárdal í 78 °C. Kaup þessarar varmadælu voru talin hafa verið réttmæt og skilaði hún fyrirtækinu hagnaði þegar upp var staðið. Hún var rekin í 14 ár og var þá skipt út fyrir nýja varmadælu. Líkt og eldri varmadælan var sú nýja, sem tekin var í gagnið í febrúar 1998, samsett úr tveimur raðtengdum varmadælum. Varmaafköst þessarar varmadælu eru að hámarki um 4 MWt og er vinnslumiðillinn ammóníak. Bakrennslisvatn við 27 °C er leitt inn á varmadæluna á tvískiptan hátt. Því er annars vegar skipt inn á eimi, þar sem varmi er tekinn úr vatninu og það kælt niður í 5 °C. Restin fer inn á eimsvala þar sem 27 °C heitt vatnið er hitað í 52 °C. Vatnið sem kælt er, hitnar að nýju í 95 °C við niðurdælingu í jarðhitakerfið á Laugalandi. Módernismi. Módernismi er stefna eða tímabil í listum sem nær frá seinni hluta 19. aldar til miðbiks eða seinnihluta þeirrar tuttugustu. Módernismi var einnig áhrifamikill á 20. öld á öðrum sviðum vestrænnar menningar, svo sem í stjórnmálum, hugvísindum og hönnun. Hugtakið módernismi er einnig notað til þess að lýsa ákveðnu menningarástandi, tíðaranda og afstöðu manna til tíma og framþróunar. Póstmódernismi tók við af módernismanum á 20. öld. Súludans. Súludans á við hvers kyns dans, gjarnan klámfenginn, þar sem dansarinn notar lóðrétta súlu sem leikmun. Súludans tíðkast á nektardansstöðum ("súlustöðum") en hefur einnig náð fótfestu sem líkamsrækt. Merkjasending. Bókstafurinn „P“ með tveimur flöggum. Merkjasending er samskiptakerfi notað til að flytja upplýsingar með flöggum, stöfum, diskum, spöðum eða stundum með hönskum. Upplýsingar eru miðlaðar af stöðu flagganna og þær eru lesnar þegar flögg eru kyrrstæð. Merkjasending var tekin upp og notuð víða á 18. öldinni um borð skipa, til dæmis var hún notuð í orrustunni við Trafalgar. Nútímamerkjasending var fundin upp á þeim tíma, og notar flögg held með höndum. Þetta kerfi er notað ennþá í dag úti á sjó og fyrir neyðarsamskipta í dagsljósi eða með lýstum stöfum í staðinn fyrir flögg að kvöldi til. Strikamerki. Strikamerki eða strikalykill er framsetning gagna sem vélar geta lesið. Breidd strikanna og bilanna táknar gögnin. Stundum eru strikamerki með mynstum af ferningum, punktum, sexhyrningum og öðrum rúmfræðilegum mynstum. Strikamerki voru fyrst notuð til að gera kassa í stórmörkuðum sjálfvirkari og þau eru notuð hvarvetna í dag fyrir þetta. Þau geta verið lesin af skönnum eða strikamerkjalesarum. Hægt er að nota farsíma að lesa strikamerki með ljósmyndavélunum sínum, og í Japan eru flestir farsímar með hugbúnaði til þess. Ruslatunna. Ruslatunnum stillt upp í hring. Ruslatunna (eða sorptunna) er ílát notað til að geyma rusl um stundarsakir. Ruslatunnur eru oftast gerðar úr plasti eða málmi og eru yfirleitt hafðar fyrir utan íbúðarhús eða í sérstökum geymslum í fjölbýlishúsum. Flestar ruslatunnur eru með stóru loki til að þær lykti ekki. Í eldhúsum eru notaðar "ruslakörfur" til að geyma sorp frá eldamennsku eins og hýði og umbúðir. Sumar tegundir eru með fótstigi (pedala) til að opna þær og loka (oftast nefndar "geispur"). Yfirleitt eru ruslakörfur í heimahúsum fóðraðar með pokum til að auðveldara sé að tæma þær í ruslatunnurnar. Stórmarkaður. Stórmarkaður er verslun sem selur mat og heimilisvörur. Hann er stór og er honum skipt í ýmsar deildir með göngum. Í stórmarkaði eru seldar fleiri vörur en í hefðbundinni matvöruverslun. Stórmarkaðir samanstanda oft af kjöt-, mjólkur-, ávaxta-, grænmetis- og brauðdeildum að ógleymdum hillum fyrir niðursuðuvörur og ýmsar aðrar vörur. Í sumum löndum má einnig selja áfengi í stómörkuðum. Stórmarkaðir selja oft hreinsivörur, lyf og föt. Verð varanna er oft lægra en í öðrum verslunum og nauðsynjavörur (eins og brauð, mjólk og sykur) eru oft seldar undir kostnaðarverði. Til þess að hagnast selja stórmarkaðir alls fleiri vörur og aðrar vörur á hærri verði. Viðskiptavinir versla með innkaupakerrum og setja vörur í hana sjálfir. Þegar viðskiptavinir eru búnir að velja sér vörur fara þeir að kassa og borga fyrir vörurnar. Stórmarkaðir eru oft keðjufyrirtæki eða svæðisleyfi. Kjartan Gunnarsson. Kjartan Gunnarsson (fæddur 4. október 1951) er íslenskur lögfræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa verið framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í 26 ár en því starfi gegndi hann frá því um haustið 1980 fram í október 2006 en starfaði jafnframt við hlið Andra Óttarssonar til 4. janúar 2007. Hann var kosinn í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins eftir landsfund hans 1977 og starfar þar enn. Hann hefur líka verið bankaráðsmaður í Landsbankanum og stjórnarformaður VÍS. Hann hefur löngum verið mikill stuðningsmaður og vinur Davíðs Oddssonar. Össur Skarphéðinsson kallaði Kjartan "fixer" þegar Kjartan sagði starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Ævi. Kjartan er sonur Gunnars A. Pálssonar hrl og Guðrúnar Jónsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi árið 1972 og stundaði eftir það laganám við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1978. Kjartan Gunnarsson var kjörinn formaður SUS árið 1977 eftir harðar kosningar. Hann stundaði síðan nám í herfræði við Varnarmálaháskóla norska varnarmálaráðuneytisins á árunum 1979-1980. Kjartan lék biskup Íslands í kvikmyndinni Myrkjahöfðingjanum árið 1999. Þegar styrkjamálið kom upp í Sjálfstæðisflokknum í apríl 2009 var haft eftir Kjartani að hann hefði hvergi komið nálægt því að taka við styrkjunum, en Bjarni Benediktsson hélt hinu gagnstæða fram. Bjarni dró síðar til baka þessi orð sín og sagði að Búðarkassi. Búðarkassi er vél notuð í verslun sem reiknar út færslur og skrásetur þær. Búðarkassar eru oft með peningaskúffu til að geyma peninga og geta prentað kvittun fyrir viðskiptavininn. Yfirleitt nota gjaldkerar búðarkassar. Yfirleitt getur peningaskúffan einungis vera opnuð þegar færslan er búin nema ef sérstakur lykill er notaður. Þetta er til að minnka líkur á þjófnaði og raunar voru búðarkassar fyrst fundnir upp til að sporna við þjófnaði starfsfólks. Fyrstu búðarkassarnir voru vélrænir og gátu ekki prentað kvittanir. Starfsfólk átti að slá hverja færslu inn í búðarkassa og þegar þrýst var á heildarhnappinn opnaðist skúffan og bjalla hringdi svo að umboðsmaður verslunarinnar vissi af færslunni. Sumir búðarkassar eru með hnappi sem heitir „engin sala“ og opnar peningaskúffu og skrásetur opnun skúffunnar. Sumir aðrir búðakassar þurfa að lykilorð sé skráð inn til þess að hægt sé að nota þá. Búðarkassar eru oft með strikamerkjalesarum, vigtun og útstöðvum fyrir kredit- og debetkort. Í auknum mæli eru búðarkössum skipt út fyrir tölvur með sölustaðahugbúnaði. Í dag skanna þessar vélar strikamerki (sem er yfirleitt UPC) fyrir hverja vöru, leita að verði vörunnar í gagnagrunni, reikna út afslætti fyrir vörur á útsölu, reikna út söluskatt, skrásetja tíma og dagsetningu færslunnar, skrásetja sundurliðun og greiðsluaðferð færslunnar og vista heildarupphæð færslunnar. Smásala. Smásala er þegar vörur eru keyptar frá heildsala, framleiðanda eða innflytjanda og seldar áfram í verslun eða búð, póstverslun eða vefverslun. Smásala er síðasta stig dreifibrautarinnar og er ólík heildsölu. Verslanir eru oft á verslunargötum eða í verslunarmiðstöðvum. Verslunarmiðstöð. Verslunarmiðstöð er bygging eða byggingar þar sem eru margar verslanir og önnur þjónusta í þéttum kjarna svo að viðskiptavinir geta gengið á milli auðveldlega. Ef miðstöðin er í fleiri en einu húsi eru oftast gangar eða yfirbyggðir stígar á milli þeirra svo að fólk getur gengið milli verslana hvernig sem viðrar. Verslunarmiðstöðvar eru hannaðar til að skapa hagstætt umhverfi fyrir verslunarferðir og þar eru yfirleitt ókeypis bílastæði, veitingastaðir og ýmis þægindi sem gera viðskiptavinum ferðina auðveldari, svo sem rúllustigar, loftkæling ef þess er þörf og fleira. Verslunarmiðstöðvar eru ýmist miðsvæðis í bæjum og borgum eða í úthverfum. Ein þekktasta verslunarmiðstöð heims og sú stærsta í Bandaríkjunum er Mall of America í Bloomington í Minnesota, en þar eru yfir 520 verslanir. New South China Mall í Dongguan í Kína er raunar mun stærri að flatarmáli en miðstöðin hefur verið nær tóm frá því að byggingin var tilbúni 2005 og þar eru aðeins örfáar verslanir þótt rými eigi að vera fyrir 2350 slíkar. Á Íslandi eru tvær stórar verslunarmiðstöðvar: Kringlan og Smáralind. Rúllustigi. Rúllustigi er stigi sem flytur fólk á milli hæða í byggingu. Hann er með mótor sem keyrir samföst stigaþrep sem færast upp eða niður á brautum og leyfir stigaþrepunum að vera láréttum. Rúllustigar eru notaðir um allan heim til að flytja fólk þegar lyftur munu vera óhentugar. Staðir þar sem rúllustigar eru notaðir eru deildaverslanir, verslunarmiðstöðvar, flugvellir, almenningssamgangnakerfi, ráðstefnuhús, hótel og almenningsbyggingar. Rúllustigar hafa marga kosti. Þeir geta flutt margt fólk og rúllustigar taka ekki meira pláss sem hefðbundinn stigi. Það er enginn biðtími til að nota rúllustiga ólíkt lyftum. Rúllustigar á Íslandi. Fyrsti íslenski rúllustiginn var settur upp vorið 1963 í verslunarmiðstöðinni "Kjörgarði" Laugavegi 59. Rúllustiginn vakti mikla athygli og þótti tækniundur sem minnti á erlendar stórborgir. "„Getur fólk stigið í neðstu tröppuna og staðið kyrrt meðan hún flytur það upp á næstu hæð, og er að þessu mikið hagræði.“" Þeir rúllustigar sem síðar hafa verið settir upp á landinu, hafa langflestir tengst verslunarmiðstöðvum. Jón Baldvinsson. Jón Baldvinsson (fæddur 20. desember 1882 á Strandseljum við Ísafjarðardjúp, dáinn 17. mars 1938) var íslenskur stjórnmálamaður. Jón stundaði prentnám í Prentsmiðju Þjóðviljans á Ísafirði og á Bessastöðum árin 1897 – 1901 og starfaði svo sem prentari á Bessastöðum árin 1901 – 1905 og í Gutenberg í Reykjavík 1905 – 1918 og var formaður Hins íslenska prentarafélags 1913 – 1914. Hann var forstjóri Alþýðubrauðgerðarinnar í Reykjavík 1918 – 1930 og bankastjóri Útvegsbankans frá 1930 til æviloka en hafði setið Í bankaráði Landsbankans 1928 – 1930. Jón var forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Alþýðuflokksins árin 1916 – 1938. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1918 – 1924. Jón sat á Alþingi fyrir Reykvíkinga 1920 – 1926 en var landskjörinn þingmaður 1926 – 1938 Árin 1933 – 1938 var hann forseti sameinaðs þings. Jón var fyrsti flutningsmaður að frumvarpi til laga um hvíld sjómanna, sem voru kölluð "vökulögin". Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson (fæddur 22. júlí 1955 á Húsavík) er íslenskur rithöfundur. Móðir hans er Þorgerður Kristjana Aðalsteinsdóttir og stjúpfaðir hans var Árni G. Jónsson. Aðalsteinn ólst upp á Öndólfsstöðum í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu. Hann stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan stúdentsprófi 1976 og tónlistarnám hjá Tónlistarskóla Reykjavíkur og Tónskóla Sigursveins. Eftir stúdentspróf lagði hann stund á íslensku í Háskóla Íslands. Hann starfaði sem blaðamaður í tvö ár en frá 1978 hefur hann aðallega lagt stund á ritstörf. Ásamt ritstörfum hefur Aðalsteinn starfað sem tónlistarmaður, meðal annars með hljómsveitinni Hálft í hvoru. Tónlist. Aðalsteinn Ásberg hefur lagt stund á tónlistarsköpun og flutning samhliða ritstörfum. Hann var einn af þeim sem stofnuðu tónlistarhópinn Vísnavinir. Hann var framkvæmdarstjóri Félags tónskálda og textrahöfunda á árunum 1988 -1998. Hótel. Hótel eða gistihús er fyrirtæki sem lætur fólk greiða fyrir gistirými, þ.e. fyrir að fá að dvelja (og sofa) í herbergi eða svítu. Sumstaðar þarf að greiða aukalega fyrir herbergi með baðherbergi og loftkælingu. Áður fyrr var aðstaða einfaldari og samanstóð af herbergi með rúmi, skáp og þvottaskál. Núna er hótelaðstaða oftast vandaðari. Ekki er óvanalegt að í herbergjunum sé sími, vekjaraklukka, sjónvarp, tenging við Netið og minibar. Stór hótel eru mörg hver með aðra aðstöðu eins og veitingahús, sundlaug, barnaheimili og fundarsali. Í sumum hótelum eru máltíðir ókeypis og oftlega er morgunmatur gestum að kostnaðarlausu. Orðið „hótel“ er komið af frönska orðinu "hôtel" sem á við franskt raðhús. Hitastigull. Hitastigull er mælikvarði á hitaaukningu, með fjarlægð. Hitastigull jarðar er hitaukning með dýpi frá yfirborði, ýmist mældur í gráðum á selsíus á metra °C/m (eða °C/km) eða í kelvin á metra K/m. Ef hiti fellur með fjarlægð er frekar talað um "hitafallanda". Stærðfræðilega má túlka hitastigul/-fallanda, sem bratta ferils hitans, sem fall af fjarlægð. Utan flekamarka er hitastigullinn um 25°C á hvern kílómetra á flestum svæðum jarðar. Yfirleitt er miðað við jörðina þegar talað er um hitastigul en hugtakið má einnig yfirfæra á aðrar reikistjörnur. Innri hiti jarðar stafar af þeim hita sem eftir stendur frá því að jörðin fyrst myndaðist (um 20%) og hitanum sem myndast við orkuna sem losnar úr læðingi við klofnun geislavirkra samsætna (um 80%). Helstu geislavirku samsætur í jörðinni eru kalíum-40, úran-238, úran-235 og þóríum-232. Við miðju jarðar er hitastigið um 7000 K og þrýstingurinn um 360 GPa. Þar sem að mestur hiti stafar af niðurbroti geislavirkra samsætna, telja vísindamenn að snemma í sögu jarðar, áður en samsætur með stuttan helmingunartíma brotnuðu allar niður, hafi hitamyndun í jörðinni verið mun meiri. Hitamyndun í jörðinni var tvöföld á við það sem nú er fyrir um 3 milljörðum ára, sem þýðir að hitastigull jarðar var mun hærri. Iðustreymi og flekahreyfingar hafa auk þess verið mun meiri sem sést á því að storkuberg eins og kómatít myndaðist en það myndast ekki lengur á jörðinni. Háhitasvæði. Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C en lághitasvæði þau svæði þar sem hámarkshiti er undir 150°C á sama dýpi. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir. Uppruni orkunnar. Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni. Saga jarðhitanýtingar. Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð. Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW. Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu. Á Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og forvera þeirra Orkustofnun fara fram víðtækar jarðhitarannsóknir og þar er Jarðhitaskóli Sameinuðuþjóðanna til húsa. Raforkuframleiðsla. Á háhitasvæðum er styrkur uppleystra efna í jarðhitavatni töluvert meiri en á lághitasvæðum og fer hann almennt eftir jarðfræðilegum eiginleikum svæðanna og lekt berggrunns hver efnin eru og í hve miklum mæli þau finnast. Magnið eykst eftir því sem hitastig vatnsins er hærra. Algengustu efnin í jarðhitavatni eru kísill Si, natríum Na, kalíum K, magnesíum Mg, járn Fe, klór Cl og flúor F. Það er hins vegar styrkur koldíoxíðs CO2, brennisteinsvetnis H2S og vetnis H2 í vatninu sem gerir það að verkum að vatnið er súrt og því erfitt að nýta það til neyslu. Því er algengast að á háhitasvæðum séu vatnið og gufan nýtt til raforkuframleiðslu og eru fjórar gerðir virkjana algengastar. Þurrgufuvirkjun. Þar sem eingöngu er að finna yfirhitaða ("e. superheated") jarðgufu, þ.e. 180-225°C heita og við 4-8 MPa þrýsting, er þurrgufuvirkjun notuð til rafmagnsframleiðslu. Gufa úr borholu leidd í hverfil þar sem hún þenst út. Við það snúast blöð hverfilsins og þessi vélræna orka býr til rafmagn. Þrýstingur gufunnar hefur þá minnkað til muna og hún er því næst kæld í þéttiturni. Að lokum er affallsvatninu dælt aftur ofan í jörðina. Nýtni þurrgufuvirkjana nær sjaldnast 20% vegna styrks uppleystra gastegunda á borð við koldíoxíð CO2 og brennisteinsvetni H2S sem ekki þéttast. Vegna aukinnar þekkingar á áhrifum útblásturs þessara gróðurhúsalofttegunda auk annarra er reynt eftir fremsta megni að skila sem mestu aftur ofan í jörðina þó svo að í eldri og frumstæðari virkjunum hafi affallsvatn og –gufa verið losuð í andrúmsloftið. Eins þreps gufuvirkjun. Í þessa tegund virkjunar er ýmist notað heitt jarðvatn undir miklum þrýstingi eða vatn sem hefur orðið að gufu á leið sinni að yfirborðinu. Þá er yfirleitt um vatnsgufu að ræða við 155-165°C og 0,5-0,6 MPa þrýsting. Vatninu er breytt í gufu ("e. flashing") og gufan skilin frá því vatni sem eftir verður og líkt og í þurrgufuvirkjun notuð til að keyra hverfil sem svo knýr rafal. Í fyrra tilfellinu, með vatn við háan þrýsting er nauðsynlegt að nota búnað sem leiðir til uppgufunar og skilur jafnframt gufu frá vatni. Fyrir vatn sem þegar hefur orðið að gufu er búnaður settur upp fyrir framan hverfilinn til þess að koma í veg fyrir að vatn komist í hann. Að lokum er affallsvatninu dælt niður í jörðina. Ef ekkert vatn fer til spillis eru um 85% framleidds massa skilað aftur í jarðhitakerfið miðað við einungis um 15% í þurrgufuvirkjun. Tveggja þrepa gufuvirkjun. Tveggja þrepa virkjun er, eins og nafnið gefur til kynna, eins þreps virkjun að viðbættu einu þrepi. Það vatn sem ekki verður að gufu í fyrra þrepinu er leitt í lágþrýstitank. Þrýstifallið verður til þess að gufa myndast og hún keyrir annan hverfil. Vatnið úr borholunni nýtist mun betur og því eykst framleitt afl um 20-25% miðað við eins þreps virkjun. Þar sem búnaðurinn er flókari er stofn- og viðhaldskostnaður hærri en ella. Þetta er jafnframt algengasta tegund jarðhitavirkjana í dag. Hellisheiðarvirkjun er dæmi um tveggja þrepa gufuvirkjun. Tvívökva gufuvirkjun. Slík virkjun nýtir annan vökva með lægra suðumark en vatn, oft bútan C4H10 eða pentan C5H12. Varmaskiptir flytur varmaorku jarðhitavatnsins yfir í vinnsluvökvann sem þenst út og verður að gufu sem svo knýr hverfil líkt og í virkjunum sem þegar hefur verið minnst á. Vatnið sjálft kemst aldrei í snertingu við búnaðinn og því hentar þetta ferli vel á háhitasvæðum þar sem töluvert magn er uppleystra efna. Tæringu er haldið í lágmarki og þar af leiðandi viðhaldskostnaði einnig. Þetta ferli er hins vegar orkufrekt: um 30% framleidds afls fara í viðhalda þrýstingi jarðhitavatns og auka þrýsting vinnsluvökva. Einungis um 100 tvívökvavirkjanir voru starfandi árið 2004. Umhverfisáhrif. Óhjákvæmilegt er að rask verði við borun og uppsetningu virkjunar. Framkvæmdir hafa víðtæk áhrif á jarðlög, vatnsborð, gróður, lífríki og umhverfi bæði ofan og neðanjarðar. Þá fylgir borun og prófunum töluverð hávaðamengun, en hávaði í 10 m fjarlægð frá blásandi borholu er um 120-130 dB. Hávaði frá virkjun í vinnslu er hins vegar álíka og frá öðrum orkuverum. Í upphafi vinnslu lækkar grunnvatnsborðið sem leiðir til þess að landið sígur örlítið. Um er að ræða lækkun af stærðargráðu nokkrir mm til nokkurra cm. Verði landsig mikið getur það leitt til skemmda á búnaði og rörum neðanjarðar en einnig á nærliggjandi byggingum og vegum. Þar sem háhitasvæði er iðulega að finna á virkum rekbeltum og sprungusveimum er nauðsynlegt að taka tillit til þess við hönnun og uppsetningu virkjunar. Jarðskjálftar, eldsumbrot og kvikuhlaup milli kvikuhólfa geta einnig raskað borunum og rekstri virkjunar. Útlitsbreytingar á yfirborði, bæði tímabundnar og varanlegar, geta orðið vegna jarðhitavirkjana. Nátturlegar laugar og hverir og önnur sérkenni hvers háhitasvæðis fyrir sig geta horfið eða skemmst en reynt er að koma í veg fyrir varanleg spjöll. Sjónmengun vegna jarðhitavirkjana felst að mestu leyti í mannvirkjum og vegum við virkjanasvæði og er hún óhjákvæmileg. Vinnsla fer hins vegar að mestu fram neðanjarðar og dreifikerfi eru það einnig. Mengun frá jarðhitavirkjunum hlýst mestmegnis af efnalosun uppleystra gasa í jarðgufu á borð við koldíoxíð CO2 og brennisteinsvetni H2S en einnig vetni H2, metan CH4 í minna mæli. Útblástur þessara gastegunda er þó mun minni en frá orkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Á sumum háhitasvæðum finnst vottur af þungmálmum, ýmissa salta og karbónat efna í jarðhitavatninu en eins og áður hefur komið fram er meirihluta affalsvatns dælt aftur niður í jörð og því gætir áhrifa þeirra lítið sem ekkert í umhverfi virkjana. Nýting jarðhita á Íslandi. Þó nokkrar jarðhitavirkjanir sem framleiða rafmagn eru starfræktar á Íslandi. Þar má nefna jarðgufuvirkjun í Bjarnarflagi sem Landsvirkjun rekur og nemur orkuvinnsla hennar 18 GWh á ári. Í Kröflustöð er raforkuframleiðsla 60 MW með fullu afli. Nesjavallavirkjun framleiðir 120 MW af rafmagni. Vert er loks að nefna Svartsengi sem Hitaveita Suðurnesja rekur en þar er framleiðslugetan er 75 MW. Nýjasta jarðhitavirkjunin á Íslandi er á Hellisheiði og framleiðir hún í dag 214 MW. Frændhygli. Frændhygli (einnig frænddrægni eða frændahygling) kallast það að sýna vinum eða fjölskyldumeðlimum hlutdrægni eða hygla þeim vegna fjölskyldutengsla við viðkomandi frekar en út af hæfileikum eða hæfni. Dæmi um "frændhygli" er t.d. það að bjóða ættingja starf þegar aðrir hæfari umsækjendur hafa einnig sótt um. Árni M. Mathiesen var sakaður um frændhygli árið 2007 þegar hann skipaði Þorstein Davíðsson, son Davíðs Oddssonar í stöðu héraðsdómara, en umsækjendur sem metnir voru hæfari en Þorsteinn gerðu síðar athugasemdir við ráðningu hans. Groupe Danone. Groupe Danone (þekkt sem Dannon í Bandaríkjunum) er franskt matvinnslufyrirtæki sem er staðsett í París. Það selur ferskar mjólkurafurðir af öllu tagi og mesta magn af flöskuvatni í heimi. Danone á mörg vörumerki af flöskuvatni, eins og t.d. Evian og Volvic, auk þess matar- og barnamatar-vörumerki eins og Actimel, Activia og Cow & Gate. Fyrirtækið var stofnað árið 1919 í Barselónu á Spáni. Tíu árum seinna var fyrsta verksmiðjan opnuð í Frakklandi. Eldraunin. Eldraunin (e. "The Ordeal: My Ten Years in a Malaysian Prison") er sannsöguleg bók um unga franska konu, Beatrice Saubin, sem tvítug fer á flakk um heiminn og í Malasíu kynnist hún ungum, myndalegum og auðugum Kínverja, Eddy Tan Kim Soo, sem notar hana til að smygla fíkniefnum án vitundar hennar, en í tösku hennar fundu tollverðir fimm kíló af heróíni. Eddy Tan Kim Soo fannst hvergi og var Saubin fyrst vesturlandabúa til að vera dæmd til dauða með henginu í Malasíu, en dóminum var síðan breytt í lífstíðarfangelsi. Hún sat í fangelsi í Malasíu í tíu ár uns hún var náðuð og henni sleppt. Ford Motor Company. Ford Motor Company () er bandarískur bifreiðaframleiðandi. Fyrirtækið er staðsett í Dearborn í Michigan og var stofnað 16. júní 1903 af Henry Ford. Ford á mörg bílavörumerki eins og Lincoln, Mercury og sænska vörumerkið Volvo. Ford á einnig stóra hluti í Mazda og Aston Martin. Velgengni fyrirtækisins hófst árið 1908 þegar Ford T-bíllinn var settur á markað þann 12. ágúst 1908. Ford ruddi brautina í fjöldaframleiðslu bíla, með einkennandi færibandaframleiðslu. Aðferðir Henry Ford við framleiðslu bíla kallast fordismi og var hugtakinu fyrst varpað fram fyrir 1914. Samtök herskálabúa. Samtökin leystust svo upp um 1960 þegar tók að fættast um bragga og braggahverfi. Tiger Woods. Eldrick Tont Woods oftast kallaður Tiger Woods (fæddur 30. desember 1975) er bandarískur atvinnumaður í golfi en afrek hans skipar honum sess meðal bestu kylfinga heims. Woods hefur unnið fjórum sinnum Masters-mótið, þrisvar sinnum U.S. Open, þrisvar British Open og fjórum sinnum PGA Championship. Ordabok.is. Skjáskot heimasíðu ordabok.is á ensku. Orðabók.is er vefsíða þar sem hægt er að leita að orðum á íslensku, ensku eða dönsku og þýða á milli þessara tungumála. Orðabókin er með fallbeygingum fyrir nafnorð og lýsingarorð og hefur gagnagrunn af kennimyndum sagnorða. Notendur þurfa að gerast áskrifendur til þess að nota tvítyngdu orðabókina en hægt er að nota beygingarlýsingu orðabókarinnar án áskriftar. Hægt er að nota vefsíðuna á íslensku eða ensku. Vefsíðan gefur líka út Tölvuorðabókina, sem er hugbúnaður fyrir Microsoft Windows og gerir notendum kleift að nota orðabókina án innskráningar á vefsíðuna. Notendur þurfa að vera með sérstaka áskrift til að nota hana. Annar hugbúnaður sem vefsíðan gefur út er Málfar, leiðréttingaforrit sem er líka hannað fyrir Windows. Þann 24. mars 2009 gaf vefsíðan út fyrstu íslensku stafsetningarorðabókina á netinu og þann 10. apríl voru 1.036 ný uppflettiorð sett inn á vefsíðuna. Andrés Indriðason. Andrés Indriðason (fæddur 7. ágúst 1941 í Reykjavík) er íslenskur barna- og unglingabókahöfundur. Æska og menntun. Foreldrar hans voru Indriði Jóhannsson lögregluþjónn og Jóna Kristófersdóttir. Andrés stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi árið 1963. Hann stundaði síðar nám í ensku við Háskóla Íslands. Hann stundaði nám í kvikmyndagerð í Danmörku á árunum 1965-1966. Störf. Andrés starfaði sem enskukennari á árunum 1963-1965. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Þegar Sjónvarpið var stofnað árið 1965 hóf Andrés vinnu þar við dagskrágerð og starfaði þar til 1985. Eftir það hefur Andrés aðallega helgað sig ritstörfum. Bækur hans hafa verið gefnar út í Þýskalandi, Austurríki, Sviss og Danmörku. Andrés var upphafsmaður þáttanna Gettu betur, sem eru eitt vinsælasta sjónvarpsefni RÚV frá upphafi. Gösun. Gösun nefnist það ferli þegar kolefnisríku efni er breytt í efnasmíðagas með því að hvarfa það við súrefni og gufu. Þrýstingur og hitastig gufunnar fer eftir hráefninu sem verið er að gasa og hlutfalli H2 og CO sem sóst er eftir, en algengustu hitastigin eru frá nokkur hundruð °C upp í yfir 1000°C við þrýsting frá rúmlega 1 atm upp í 30 atm. Hægt er að gasa með andrúmslofti í stað hreins súrefnis en þá inniheldur afurðin köfnunarefni, er „óhreinni“ og inniheldur minni orku á þyngdareiningu. Heimildir. Boyle, Godfrey. (2004). "Renewable Energy: Power for a Sustainable Future." New York: Oxford University Press Inc. Thomas Malthus. Thomas Robert Malthus (13. febrúar 1766 – 23. desember 1834) var enskur prestur, hagfræðingur og félagsfræðingur. Á sviði hagfræðinnar setti Malthus fram hugtaktið renta. Malthus setti fram nýstárlegar kenningar á sviði lýðfræði. Einna þekktust er kenning hans um að fæðuframboð ykist eftir jafnmunaröð (með samlagningu) en að mannfólk fjölgaði sér eftir jafnhlutfallaröð (veldisvexti). Þessi ályktun hans leiddi svo að annarri ályktun, sem nefnd hefur verið Gildra Malthusar, þess efnis að tekjur fólks hafi lítið batnað fram að Iðnbyltingunni vegna þess að allar tæknilegar og félagslegar framfarir hafi ávallt orðið til aukinnar fólksfjölgunar frekar en batnandi lífsgæða. Tenglar. Malthus, Thomas Malthus, Thomas Stökkull (tannhvalur). Stökkull (fræðiheiti: "Tursiops truncatus") einnig nefndur höfrungur og dettir er meðalstór tannhvalur og er ein af tveimur tegundum í ættkvíslinni "Tursiops". Þeir eru hluti af ættinni "Delphinidae" og eru meðal algengustu höfrunga á hafsvæðinu við sunnanvert Ísland. Lýsing. Stökklar eru sennilegast þekktasta höfrungategundin og sú sem líffræðingar hafa rannsakað mest. Hvalurinn er grár á lit og er dekkri á baki en á kvið en litaskil ekki skörp. Hann er gildvaxinn og hefur breiðari haus og skrokk en flestar tegundir höfrunga. Trýnið er stutt og afmarkað frá kúptu enninu. Hornið er miðsvæðis á bakinu og er fremur stórt og eins eru bægslin hlutfallslega stór og aftursveigð. Munur er á stærð fullvaxinna dýra, tarfarnir eru ívið lengri en kýrnar, um 2,5 og allt að 4,1 metra en kýrnar 2,4 til 3,7) en talsvert gildvaxnari og þyngri. Vitað er að stökklar geta orðið allt að 40 ára í dýragörðum en virðast villtir verða yfirleitt um 20 ára. Útbreiðsla og hegðun. Stökkla má finna á hitabeltis- og heittempruðum hafsvæðum allt í kringum jörðina og er víða algengur. Þetta er ein algengasta tegund höfrunga við Ísland og er hafsvæðið suður af landinu á nyrðri útbreiðslumörkum tegundarinnar. Eins og aðrir höfrungar eru stökklar hópdýr, oftast um 15 til 20 dýr, en á hafi úti geta þeir verið mun fleiri tugir eða hundruð. Einfarar eru þó einnig algengir hjá báðum kynjum. algengt er að sjá stökkul í slagtogi við aðrar höfrungategundir sérlega grindhvali. Stökklar éta fjölda tegunda fiska og smokkfiska auk rækju og er af mörgum álitin vera sú hvalategund sem sýnt hefur mesta aðlögunarhæfni. Meirihluti fæðutegunda eru botnfiskar en uppsjávartegundir eru einnig algengar. Samvinna við veiðar er algeng meðal stökkla og smala þeir bráðinni saman í hóp og gera svo árás. Djúpsjávarfiskar sem fundist hafa í maga stökkla benda til að þeir geti kafað allt að 500 metra dýpi. En þeir hafa einnig lært að notfæra sér fæðu sem til fellur frá fiskiskipum. Helsta hætta stökkla eru árásir hákarla og bera þeir oft ör eftir hákarlskjafta. Veiðar og fjöldi. Stofnstærð stökkla í heiminum er óþekkt, sést tegundin yfirleitt í öllum hvalatalningaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunnar við Ísland og ekkert gefur til kynna að henni sé að fækka hér við land. Veiðar hafa verið stundaðar á tegundinni víða um heim, meðal annars í Svartahafi, í Perú, Sri Lanka og við Japan. Við Færeyjar veiðast árlega stökklar í blönduðum hópum með grindhval. Beinar veiðar á stökkli hafa aldrei verið stundaðar við Ísland. Án efa eru stökklar sú tegund hvala sem algengust hefur verið til sýningarhalds í sædýrasöfnum. Smugan. Smugan er íslenskt vefrit, að í eigu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og einstaklinga. Smugan hefur verið fréttamiðill íslensks félagshyggjufólks, umhverfissinna og vinstrimanna, frá því hún var stofnuð í október 2008. Lilja Skaftadóttir, einn aðaleigenda DV, er annar stærsti eigandi Smugunnar. Ritstjóri Smugunnar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. Eignarhald. Smugan er í eigu Útgáfufélagsins Smugunnar ehf.. Stærstu eigendur Útgáfufélagsins Smugunnar eru Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem á 40,24% og Lilja Skaftadóttir sem á 23,81%. BBQ-sósa. BBQ-sósa, einnig kölluð grillsósa eða barbecuesósa, er sósa sem er upprunnin í Bandaríkjunum, svo kölluð þar sem BBQ er hljóðstytting af barbecue, eða grill. Sósurnar eru af ýmsum toga, innan Bandaríkjanna finnast margar mismunandi hefðir varðandi innihald sósunnar og álíka er að finna í ýmsum löndum. Á Íslandi er þekktasta grillsósan blanda af tómötum og púðursykri. Rákahöfrungur. Rákahöfrungur (fræðiheiti: "Stenella coeruleoalba") einnig nefndur rákaskoppari er fremur lítill tannhvalur og er ein af tveimur tegundum í ættkvíslinni "Delphinus" (höfrungar). Þeir eru hluti af ættinni "Stenella" (skopparar) og sú eina af fimm skopparategundum sem fundist hefur við Ísland. Lýsing. Rákahöfrungur er grannvaxinn og straumlínulaga, bolurinn sívalur fremst en þynnist aftur. Trýnið er langt og mjótt og afmarkað frá aflíðandi enni. Litamynstur er flókið og samanstendur af blásvörtum, gráum og hvítum litum. Munstrið er misjafnt eftir einstaklingum en meginþáttur eru blásvartar eða gráar rákir sem liggja frá augum annars vegar aftur að bægslunum og hins vegar aftur eftir hliðunum. Bakið að framanverðu og hornið er dökkt en hliðarnar ljósgráar og kviðurinn hvítur. Hornið er fremur stórt, miðsvæðis á bakinu og aftursveigt. Bægslin eru lítil og hvöss. Kynin eru svipuð að stærð, um 1,7 til 2,4 metrar á lengd og um 150 til 165 kg á þyngd. Útbreiðsla og hegðun. Rákahöfrungur er öllu fremur úthafstegund og er fremst að finna á hitabeltis- og heittempruðum hafsvæðum milli 40°N og 40°S. Tegundin heldur sig helst í sjó sem er 10° til 22 °C. Rákahöfrungur er algengasta höfrungategundin í Miðjarðarhafi. Ísland er talsvert norðan við meginútbreiðslusvæði rákahöfrunga og telst sem flækingur við landið. Fæðan er ýmsar tegundir smokkfiska, uppsjávarfiska og miðsjávarfiska, oftast minni en 18 cm á lengd. Talið er að rákahöfrungar geti kafað niður að 700 metra dýpt. Rákahöfrungar eru félagslyndir eins og aðrar höfrungategundir, meðalstærð hópa í Kyrrahafi eru um 100 einstaklingar en í Norður-Atlantshafi um 30 til 40. Ekki er þó óalgengt að rekast á hópa þar sem þúsundir einstaklinga haf safnast saman. Rákahöfrungar eru mjög hraðskreiðir og fara gjarnan á stökk í stórum hópum. Veiðar og fjöldi. Rákhöfrungar eru sennilegast ein algengasta hvalategund á úthöfum. Líffræðingar áætla að um tvær miljónir einstaklinga séu á Kyrrahafssvæðinu og um 100 þúsund í Miðjarðarhafi. Óþekkt er um heildarfjölda í Atlantshafi. Norðursnjáldri. Norðursnjáldri (fræðiheiti: "Mesoplodon bidens"), einnig svínhvalur, er meðalstór tannhvalur og er ein af tveimur tegundum í ættkvíslinni "Ziphius" (svínhveli). Þeir eru hluti af ættinni svínhvalir ("Ziphiidae") og sú eina sem fundist hefur við Íslandi af þeim fimm tegundum sem fundist hafa í Norður-Atlantshafi. Lýsing. Norðsnjáldri er 5 til 5,5 metra á lengd og allt að 1,5 tonn á þyngd. hausinn er fremur lítill og frammjór, undir hausnum eru tvær húðfellingar sem liggja samsíða kjálkabeinunum. Trýnið er meðallangt of ekki afmarkað frá enninu. Oftast eru dýrin grá á lit, dekkri á baki en á kviði. Hornið er fremur lítið og fyrir aftan miðju á bakinu. Bæglsin eru lítil en þó hlutfallslega stærri en á öðrum svínhvölum. Það sérkennilegasta við norðursnjáldra og aðra svínhvali er að dýrið hefur bara eitt par af tönnum. Kýr norðursnjáldra eru þó tannlausar. Tennur tarfanna eru framan við miðju kjálkabeinsins. Útbreiðsla og hegðun. Norðursnjáldri hefur einungis fundist í Norður-Atlantshafi og er bundin við úthaf. Í hvalatalningum Hafrannsóknastofnunnar við Ísland hefur tegundin einungis fundist sunnan við landið. Lítið er vitað um fæðu norðursnjáldra, en sennilegast lifa þeir jöfnum höndum af fiskum og smokkfiskum. Oftast halda dýrin sig í minni hópum 2 til 3 dýr en hafa sést í hópum með allt að 15 dýrum. Veiðar og fjöldi. Afar lítið er vitað um útbreiðslu og fjölda norðursnjáldra og byggir tegundalýsing á rannsóknum á örfáum dýrum. Gyðingaharpa. Gyðingaharpa (munngígja og stundum einnig nefnd júðaharpa) er hljóðfæri sem haldið er að munni (vörunum) og er með þunnri stálfjöður sem slegin er með fingri og blásið létt. Munnhol þess sem leikur á gyðingahörpuna myndar hljómbotn. Gyðingaharpan er eingöngu kennd við gyðinga en tengist gyðingdóminum ekki neitt. Johann Georg Albrechtsberger, kennari Beethovens, samdi að minnsta kosti sjö konserta fyrir gyðingahörpu, mandóru og strengjahljóðfæri. Jötundys. Jötundys frá 3200 f.Kr. við Tustrup-dysjarnar og er sú stærsta á Austur-Jótlandi Jötundys (tröllastofa eða graftarhellir) er grafhýsi frá yngri steinöld sem er hlaðið úr stórgrýti. Dys (gröf). Dys er upphækkuð gröf eða grafhýsi úr grjóti. Á fyrri hluta nýsteinaldar voru dysjar í Evrópu gerðar úr fjórum til fimm uppreistum steinum og tveimur sem lagðir voru ofan á. Oft voru þær þó aðeins huldar jarðvegi og steinum raðað í hring ("hringdys") eða ferhyrning ("langdys") umhverfis. Á Íslandi var fólk dysjað ef ekki þótti tilefni til greftrunar með viðhöfn og voru dysjarnar gerðar úr hrúgu af grjóti. Illþýði og galdramenn voru t.d. yfirleitt dysjuð eða urðuð, þ.e. fleygt yfir þau grjóti og lítt vandað til þessara síðustu híbýla þeirra. Íslensku dysjarnar tengjast því lítt þeim sem tíðkuðust á meginlandi Evrópu. Hringdys. Hringdysjar eru svo nefndar þegar haugurinn, sem gerður hefur verið um dysina, er hringlaga. Í þessum dysjum er venjulega aðeins ein steinkista, gerð af fimm hellusteinum, einum á hverja hlið og einum, sem er lagður yfir. Eru steinkistur þessar oft ekki nema hálfur metri á breidd, en 1,25 metrar að lengd. Eitt lík hefur að jafnaði verið jarðsett í slíkri kistu. Langdys. Langdysjar eru þannig gerðar, að haugurinn um dysina er aflangur, ferkantaður og í dysinni sjálfri eru oft margar steinkistur af áðurnefndri gerð. Margar langdysjur eru yfir tuttugu metrar á lengd og sex til átta metra breiðar, en dæmi eru til að þær geti verið á annað hundað metrar á lengd. Vatnsstígur. Vatnsstígur er gata í miðbæ Reykjavíkur og liggur frá Hverfisgötu niður að Skúlagötu. Þvert á Vatnsstíg, milli Skúlagötu og Hverfisgötu, liggur Lindargata. Milli Lindargötu og Hverfisgötu er Veghúsastígur og teygir sig frá Klapparstíg að Vatnsstíg. Hústökufólk í Skuggaprýði. Í apríl 2009 birtust fréttir um hústökufólk í húsi sem stendur við Vatnsstíg 4, og hefur stundum gengið undir nafninu "Skuggaprýði". Þann 15. apríl réðst óeirðarlögregla inn í húsið og handtók 22. Mjög mismunandi skoðanir voru vegna aðgerðanna, enda húsin í eigu fyrirtækja sem tengjast útrásarvíkingum. Líffæramyndun. Líffæramyndun er hluti ef því þegar fóstur þroskasten þar sem innri líffæri lífveru myndast út frá útlaginuen, miðlaginuen og innlaginuen. Líffæramyndun á sér stað í manneskju í þriðju til áttundu viku í móðurlífi. Auður djúpúðga Ketilsdóttir. Auður djúpúðga Ketilsdóttir (stundum einnig nefnd Unnur (Laxdæla) eða Uður) var landnámskona í Dölum og ættmóðir Laxdæla. Samkvæmt Eyrbyggju nam hún „öll Dalalönd í Breiðafirði, í milli Skraumuhlaupsár og Dögurðarár, og bjó í Hvammi“. Ekki má rugla Auði djúpúðgu Ketilsdóttur við Auði djúpúðgu Ívarsdóttur. Þorsteinn rauður var eini sonur Ólafs og Auðar. Hann var í Suðureyjum með móður sinni eftir að faðir hans féll og giftist þar Þuríði dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga magra. Hann herjaði á Skotland og varð vel ágengt, svo vel að hann gerðist konungur Skota, en þeir gerðu uppreisn gegn honum og felldu hann á Katanesi. Faðir Auðar var þá látinn og bjóst hún ekki við að fá neina uppreisn eða bætur fyrir son sinn. Nánustu ættmenn Auðar voru þá flestir fyrir vestan haf en um 886 fór Björn bróðir hennar til Íslands, litlu síðar Helgi bróðir hennar og svo Þórunn hyrna systir hennar og Helgi magri mágur hennar. Auður lét að sögn Laxdælu gera knörr á laun úti í skógi en þegar skipið var fullbúið hélt hún af stað til Íslands með fríðu föruneyti, tengdadóttur sinni og börnum hennar, öðru frændliði og fólki; í Landnámu segir að á skipi hennar hafi verið tuttugu frjálsbornir karlmenn. „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna,“ segir í Laxdælu. Mestur virðingarmaður af fylgdarmönnum Auðar var Kollur, sem seinna nefndist Dala-Kollur. Þau sigldu fyrst til Orkneyja og stóðu þar við einhvern tíma. Þar segir Laxdæla að Auður hafi gift Gró sonardóttur sína, dóttur Þorsteins, og var dóttir hennar Grélöð, kona Þorfinns jarls Torf-Einarssonar Rögnvaldssonar Mærajarls, og voru Orkneyjajarlar frá þeim komnir. Síðan hélt Auður til Færeyja og staðnæmdist þar einnig um tíma. Þar gifti hún Ólöfu dóttur Þorsteins og frá henni komu Götuskeggjar, ein ágætasta ætt í Færeyjum. Þegar til Íslands kom braut Auður skip sitt á Víkarsskeiði við Ölfusá, en fólk bjargaðist. Hún hélt þá til Helga bróður síns á Kjalarnesi og hann bauð henni að vera um veturinn með helming liðs síns en það þótti henni ekki nógu stórmannlega boðið. Hún hélt þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns og hann bauð henni að vera með allt sitt lið. Það þáði hún en um vorið hélt hún inn í botn fjarðarins og nam Dalalönd öll kringum Hvammsfjörð, frá Skraumudalsá að sunnan til Dögurðarár að norðan og valdi sér bústað í Hvammi. Hún gaf nokkrum skipverjum sínum, frjálsbornum og leysingjum, lönd í landnámi sínu. Þegar Auður var orðin ellimóð hélt hún mikla veislu í Hvammi og gifti um leið Ólaf feilan, sonarson sinn, Álfdísi barreysku. Þar gaf hún Ólafi bústað sinn og eignir og öðrum vinum sínum góðar gjafir og réð þeim heilræði og sagði að veislan skyldi standa í þrjá daga og vera erfidrykkja sín. Hún dó svo og var grafin í flæðarmáli eins og hún hafði sjálf mælt fyrir, því að hún var skírð og vildi ekki liggja í óvígðri mold, en engin kirkja var á landinu og sjálfsagt enginn prestur. Eftir dauða henna spilltist trú ættmenna hennar og þeir urðu heiðnir. Skáldsagan "Auður" eftir Vilborgu Davíðsdóttur rithöfund, sem kom út haustið 2009, segir frá unglingsárum Auðar djúpúðgu. Þrepaeiming. Þrepaeiming er aðferð notuð til að skipta blöndu niður eftir einstökum efnum hennar. Þrepaeiming er oftast notuð í iðnaði til að skipta hráolíu niður eftir sameindum þeirra. Hráolía inniheldur þúsundir mismunandi kolvetnissameinda og suðumark þeirra hækkar eftir því sem fjöldi kolefnisatóma sameindanna fjölgar. Þrepaeiming er sérstök tegund af eimingu. Þrepaeiming hráolíu. Áður en þrepaeiming hefst er olían hituð þar til léttari sameindir hennar hafa gufað upp. Olíunni og gasinu er þá dælt inn á þrepaeimingarturn þar sem þyngstu sameindirnar (sem ekki hafa gufað upp) falla til botns. Hinar sameindirnar færast upp turninn. Þrepaeimingarturninn er hæðaskiptur með mismunandi hitastigi á hverri hæð, kólnandi eftir því sem ofar kemur. Í hvert skipti sem gasið færist upp milli hæða kemst það í kaldara umhverfi þar sem þyngstu sameindirnar falla út en þær léttari halda ferð sinni áfram upp turninn þar til toppi hans er náð. Dæmi um þrepaeimingu er þegar hráolía er fyrst hituð í rúmlega 400 °C við 1 atm þrýsting. Við það gufa öll efnasambönd olíunnar upp sem innihalda 20 eða færri kolefnisatóm. 400 °C heitri olíu-gasblöndunni er dælt inn á þrepaeimingarturninn þar sem fljótandi hluti olíunnar fellur á botninn. Það sem gufar upp fer upp turninn og fellur út eftir því sem kólnar þegar ofar kemur í turninum. Botnfallinu neðst í turninum má svo til dæmis dæla inn á annan þrepaeimingarturn með minni þrýstingi og/eða hærra hitastigi þar sem hægt er að aðskilja sameindirnar sem innihalda fleiri en 20 kolefnisatóm. Sandlægja. Sandlægja (einnig nefndur gráhvalur eða klakkur) (fræðiheiti: "Eschrichtius robustus") er stór skíðishvalur og er eina tegundin í sinni ættkvísl. Fannst áður á öllu norðurhveli jarðar, en er nú útdauður í Norður-Atlantshafi. Lýsing. Sandlægja er gildvaxinn og hausinn fremur stuttur og mjór. Séður að ofan er hann þríhyrningslaga og neðan á höfði eru 2 til 5 húðfellingar. Kjafturinn er niðursveigður rétt framan við augun. Hvalurinn er dökkflikróttur eða ljósgrár á litinn og oft vaxinn hrúðurkörlum. Hvalurinn hefur ekkert eiginlegt horn en 6 til 12 lága hnúða á afturhluta baksins. Bægslin eru breið og fremur stutt og sporðurinn breiður. Blástursholan er hjartalaga séð að aftan og blástur fremur lágur (3 til 4,5 metrar). Í hvorum skolthelmingi eru 130 til 180 skíði. Kynin eru svipuð að stærð, um 15 metrar á lengd og allt að 45 tonn á þyngd. Útbreiðsla og hegðun. Sandlægju er nú einungis að finna í Kyrrahafi og eru einungis til tveir stofnar af honum, annar undan ströndum Kaliforníu en hinn undan ströndum Kóreu. Strandlægjan er sá stórhvalur sem heldur sig mest að ströndum á grunnsævi ólíkt flestum hinna skíðishvalanna og ferðast í allt að 8 þúsund kílómetra og er það lengsta sem þekkist meðal spendýra.. Sandlægjan er einstök meðal skíðishvala vegna þess að hann lifir mest á botndýrum. Hann syndir þá eftir botninum, rótar honum upp með neðri kjálkanum og síar þá úr marflær, burstaorma, kuðunga, samlokur og sæbjúgu. Auk þess síli og síldartegundir í minna mæli. Sandlægjan étur nánast eingöngu á um fimm mánaða tímabili frá maí fram í október. Hann étur um 170 tonn þá 130-140 daga sem hann aflar sér fæðu en það er um 1089 kg á dag að meðaltali. Sandlægjan er einræn að sumarlagi, sjást þá helst einstaklingar eða smá hópar, 3 til 5 dýr. En þeir safnast saman í stóra hópa í seinni hluta nóvember og sérlega í desember og er þá fengitími í hámarki. Meðgöngutími er um 11 til 13 mánuðir og virðast kýrnar eignast afkvæmi annað hvert ár. Veiðar og fjöldi. Frá 1846, þegar amerískir og evrópskir hvalveiðimenn uppgötvuðu æxlunarstöðvar sandlægjunnar í Kyrrahafi, og fram að aldamótum 1900 fóru fram gífurlega miklar veiðar á þessum hvölum og var þeim því sem næst útrýmt. Tegundin var þó ekki friðuð fyrr en 1946 en hefur fjölgað mikið síðan og er stofninn nú talinn vera um 27,000 dýr. Sandlægja var á öldum áður algeng í Norður-Atlantshafi og var útbreidd við bæði strendur Evrópu og Ameríku auk þess sem hún fannst við Ísland. Ekki er vitað hvers vegna tegundin dó út í Atlantshafi á seinni hluta 17. aldar en sennilega hafa veiðar átt hlut í því. Dísilvél. Dísilvél eru brunahreyflar sem gengur fyrir dísilolíu. Hún dregur nafn sitt af þýska verkfræðingnum Rudolf Christian Karl Diesel (1858 – 1913) sem fann upp dísilvélina þegar hann vann að því að finna upp vél með betri nýtni en gufuvélin hafði. Upphaflega hannaði Diesel vélina til að ganga á koladufti, næst gerði hann tilraunir með grænmetisolíu og loks með dísilolíu sem unnin var úr hráolíu. Dísilvélar ganga fyrir olíum sem innihalda kolvetniskeðjur sem samanstanda af um það bil 10 til 18 kolefnisatómum. Því til samanburðar ganga bensínvélar fyrir olíum sem innihalda kolvetniskeðjur úr um það bil 5 til 10 koletnisatómum. Kolvetniskeðjur dísilolíu hafa lægri sjálfskviknunarhitastig en kolvetniskeðjur bensíns, því þurfa dísilvélar ekki kerti til að kveikja í olíunni líkt og bensínvélar þurfa. Díselvélar brenna eldsneyti undir eigin þrýstingi, ferlið fer fram þannig að eldsneyti er sprautað inn í brunarýmið með dísum eftir að lofti hefur verið þjappað í rýminu. Við þetta kviknar í olíunni undan þrýstingi. Ólíkt bensínvélum, sem að blandar bensín og lofti saman áður en að kveikt er í eldsneytinu, þarf díselvélin ekki kerti til þess að kveikja í eldsneytinu. Til að fá kveikihraðan sem mestan er díselolíunni dælt inn í brunaholið undir háum þrýstingi. Þess hærri þrýstingur, þess betra niðurbrot á úðanum og brunatíminn verður styttri. (aukin snerpa) Styrkjamálið. Styrkjamálið var hneykslismál, sem kom upp skömmu fyrir páska 2009, þegar í ljós kom að stjórnmálaflokkar höfðu þegið óvenju háa styrki skömmu áður en lögum um fjárstuðning við stjórnmálaflokka var breytt á þann veg að sett var hámarksupphæð, 300 þúsund krónur sem stjórnmálaflokkar máttu taka við á ári frá lögaðilum. Samfylkingin. Kaupþing, stærsti styrkveitandinn, tengist bæði Ólafi og bræðrunum Ágústi og Lýði. Málið vakti athygli fjölmiðla þó minna en styrkir Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin gaf strax út hverjir það voru sem gáfu fé til flokksins þótt greinamunur væri gerður á aðalfélagi og aðildarfélögum. Styrkir til aðildarfélaga voru þó gefnir upp síðar. Var styrkjamálið óheppilegt fyrir Samfylkinguna í ljósi þess að samkvæmt opinberum ársreikningum Samfylkingarinnar fyrir þetta ár var heildarupphæð allra styrkja frá einstaklingum og fyrirtækjum 10 milljónum króna lægri. Samfylkingin fór aðra leið en Sjálfstæðisflokkurinn sem skilaði styrkjunum og setti málið í hendur umbótanefndar sem skilaði skýrslu sinni í byrjun árs 2010. Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegið óvenjulega háa fjárstyrki, m.a. frá Landsbankanum og FL Group í október 2006. Alls voru þetta um 250 milljónir króna. Sjálfstæðisflokkurinn hafði nýlega haldið landsfund í skugga bankahrunsins og Búsáhaldabyltingarinnar þar sem Bjarni Benediktsson var kosinn nýr formaður en Geir Haarde bauð sig ekki fram til endurkjörs. Málið vakti mikla athygli fjölmiðla og virtist tímasetningin sérlega óheppileg þar sem alþingiskosningar voru haldnar í lok apríl. Formleg afstaða Sjálfstæðisflokksins varðandi málið er að það hafi verið mistök þáverandi forustumanna innan flokksins að taka við styrkjunum. Ákveðið var að endurgreiða styrkina á löngum tíma, án vaxta og verðbóta, en á því sjö ára tímabili sem endurgreiðslan á að taka, frá því styrkirnir voru veittir, er ljóst að verðgildi endurgreiðslunnar verður miklu minna en upphaflegu styrkirnir. Andri Óttarsson sagði af sér sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Atburðarás. Í lok mars 2009 birti Ríkisendurskoðun lögum samkvæmt útdrátt úr ársreikningi íslenskra stjórnmálaflokka. Í tilviki Sjálfstæðisflokksins kom fram að Neyðarlínan hafði styrkt flokkinn um 300.000 krónur. Þetta þótti fréttnæmt vegna þess að 6. gr. laga um fjármál stjórnmálaflokka segir að stjórnmálaflokkum sé óheimilt að taka við styrkjum frá fyrirtækjum í að meiri hluta í eigu, eða undir stjórn, ríkis eða sveitarfélaga. Styrknum frá Neyðarlínunni til viðbótar tók Sjálfstæðisflokkurinn við 40 þúsund króna styrk frá Orkubúi Vestfjarða. Í fréttatilkynningu frá Andra Óttarssyni, þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, sagðist hann harma þau mistök sem urðu við móttöku styrkjanna, þau yrðu endurgreidd. Þann 7. apríl 2009 kom í ljós að FL Group, áður leiðandi fjárfestingafyrirtæki á Íslandi, hafði að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins styrkt hann 25 milljónir þann 29. desember 2006. Þann 1. janúar 2007 tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en sem næmu 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðila. Andri Óttarsson var framkvæmdastjóri þegar þetta var en sagði að flokkurinn hafi ekki frekar en aðrir flokkar verið með opið bókhald fyrir þann tíma og að flokkurinn hyggðist að svo stöddu ekki tjá sig um einstök fjárframlög til flokksins sem áttu sér stað fyrir setningu laganna. Degi seinna, 8. apríl, kom í ljós að Landsbankinn hafði styrkt Sjálfstæðisflokkinn um 30 milljónir. Í fréttatilkynningu frá Geir H. Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, sama dag sagðist hann bera fulla ábyrgð á viðtöku styrkjanna. Þar kom ennfremur fram að í tilviki styrksins frá FL Group um væri að ræða heildarsummu styrkja frá nokkrum fyrirtækjum sem FL Group sæi um að koma til skila. Bjarni Benediktsson, þá nýkosinn formaður flokksins, sagði viðtöku styrkjanna „stangast gróflega á við þau gildi sem ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn starfi eftir.“ Kjartan Gunnarsson, sem verið hafði framkvæmdastjóri í 26 ár, frá árinu 1980, sagðist ekkert vita um umrædda styrki. Þá var greint frá því í sömu frétt að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði ekki fyrirspurnum „um meint frumkvæði hans að styrkjunum tveimur.“ Þar var verið að vísa til fréttar Morgunblaðsins, þar sem vitnað var til heimildarmanna um að Guðlaugur hefði haft milligöngu um að nokkur fyrirtæki, um tíu talsins, leggðu flokknum til styrk. Hvert þeirra myndi leggja til um þrjár milljónir króna þannig að undir forystu FL-Group fengjust um 25 milljónir króna í flokkssjóðinn. Þar með var ýjað að því að styrkurinn frá FL Group væri í raun réttri frá fleiri fyrirtækjum. Andri Óttarsson hafði verið framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá haustinu 2006 þegar hann tók við af Kjartani Gunnarssyni. Tveimur dögum seinna, föstudaginn 10. apríl, sagði Andri af sér. Í opinberri yfirlýsingu sagðist hann hvorki hafa átt frumkvæði að því að hafa samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu né tekið ákvörðun um að þiggja styrkina. Einnig kom fram að hann hefði starfað samhliða Kjartani sem framkvæmdastjóri til áramóta 2006/2007. Á þeim tíma sem gengið var frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tæki við styrkjunum. Samkvæmt frétt Vísis.is vissi Kjartan af styrkjunum. Hann vildi þó ekki viðurkenna það þegar hann var spurður beint að því. Bjarni Benediktsson hélt því fram að bæði Kjartan Gunnarsson og Andri Óttarsson hefðu vitað af risastyrkjunum tveimur. Þann 11. apríl kom í ljós að Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður Vífilfells hf. sem framleiðir Coke á Íslandi og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi yfirmaður verðbréfadeildar Landsbankans, höfðu milligöngu um að útvega Sjálfstæðisflokknum styrki annars vegar frá FL Group og hins vegar Landsbankanum í lok árs 2006. Á þeim tíma sat Þorsteinn í stjórn FL Group. Þeir sögðu í yfirlýsingu að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði haft samband við þá og greint frá bágborinni fjárhagslegri stöðu Sjálfstæðisflokksins. Í framhaldi hafi hann ekki haft frekari afskipti, upphæð styrkjanna hefði verið ákveðinn af fyrirtækjunum og stjórn flokksins ákveðið að veita þeim viðtöku. Grunsemdir um tengsl við REI-málið. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, benti á að styrkirnir hefðu borist flokknum „nokkrum mánuðum áður en að fulltrúar flokksins komu að fyrirtækinu REI sem hafi væntanlega verið ábatasamt fyrir þá aðila sem voru að gefa flokknum þessa fjármuni“ Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi tilgáta prófessorsins hafi við rök að styðjast. en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagðist telja að engin tengsl væru milli styrkjamálsins og REI-málsins. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt um vangaveltur Gunnars Helga varðandi tengsl styrkjanna við REI-málið: „"Mig undrar, að Gunnar Helgi skuli ekki í þessum orðum sínum sýna meiri nákvæmni en að líta á Sjálfstæðisflokkinn sem geranda í REI-málinu. Þar eins og varðandi ofurstrykina voru einstaklingar innan flokksins, sem fóru offari. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna klofnaði vegna REI-málsins. Meirihlutinn lagðist gegn framgangi þess. Þingflokkur sjálfstæðismanna og miðstjórn Sjálfstæðiflokksins leggst gegn ofurstyrkjunum og ákveðið hefur verið að endurgreiða þá.... Skyndiályktanir fræðilegra álitsgjafa má afsaka í hita leiksins en illa ígrundaðar yfirlýsingar um mál, eins og REI-málið, sem gerðist fyrir fáeinum misserum, er ekki unnt að setja í sömu skúffu. Gunnar Helgi fellur einfaldlega í sömu gryfju og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, sem kjósa hvorki að segja alla sögu REI-málsins, þegar þeir ræða þessa ofurstyrki, né segja frá fordæmingu miðstjórnar, þingflokks og formanns Sjálfstæðisflokksins á ofurstyrkjunum.Heiður Sjálfstæðisflokksins verður ekki metinn til fjár. Hann er því meira virði en 55 milljónirnar, sem verða endurgreiddar. Hann er einnig meira virði en greiðasemi við þá, sem telja sér sæma að misnota nafn og virðingu flokksins til ósæmilegrar fjáröflunar eða í öðrum tilgang"”. Litningsendi. a> úr manni. Litningsendarnir litast ljósir á þessarri mynd. Litningsendi, einnig kallaður telómer eða oddhulsa er kirnaröð á enda línulegra litninga. Röðin samanstendur af TTAGGG endurtekinni nokkur þúsund sinnum. Litningsendinn ver erfðaupplýsingar litningsins gegn skaða sem annars yrði vegna þess að litningurinn styttist við hverja afritun. Stóragjá. Stóragjá er neðanjarðarlaug í hrauninu við Mývatn, ekki langt frá gatnamótunum við Reykjahlíð og var í eina tíð vinsæll baðstaður. Í raun er Stóragjá tvær neðanjarðarlaugar sem liggja samhliða, önnur ætlað karlmönnum, hin konum. Núorðið er ekki talið ráðlegt að baða sig í lauginni vegna saurgerla sem fundist hafa í henni. Hitastig vatnsins er um 29 °C. Mannvirkjagerð. Í byggingarlist og byggingarverkfræði, er mannvirkjagerð aðferð sem samanstendur af byggingu grunngerðar. Mannvirkjagerð er verk fjölverkavinnslu og samhæfingar. Verk mannvirkjagerðar er stjórnað af verkefnisstjóra. Nauðsynlegt er að skipuleggja mannvirkjagerðaverk ítarlega svo að þau gangi vel. Hönnun, umhverfisáhrif, tímaáætlun, fjárhagsáætlun, öryggi, auðfáanleiki efna, vörustjórnun og lögmæti eru öll mikilvægir þættir í mannvirkjagerð. Skápur. Skápur gerður úr viði og gleri, með leirvörum. Skápur er tegund húsgagna oft gerð úr viði og notuð inni á heimilum til að geyma hluti til dæmis eins og mat og leirvörur eða föt, svo að þau séu vernduð frá ryki og óhreinindum. Skápur getur líka átt við litla geymslu. Stundum er hægt að ganga inn í stærri skápa. "Þurrkskápur" er stór skápur oft með vatnshitara og hillum til að geyma þurr föt, rúmföt og handklæði. Málrækt. Málrækt er það þegar málhafi leggur rækt við málfar og vandar mál sitt án þess að úr verði ofvöndun. Málrækt er einnig hugtak sem haft er um þá menningarstefnu þar sem lögð er áhersla á að efla tungumálið sem samskipta- og tjáningartæki í víðum skilningi og gæta þess að breytingar á því verði ekki svo gagngerar að sögulegt samhengi rofni. Fánamálið. Fánamálið voru deilur, sem urðu 1913, milli hóps Íslendinga og danskra stjórnvalda á Íslandi um þjóðfána Íslendinga. Danskir sjóliðar stöðva róður manns með Hvítbláinn að húni. Bátur Einars Péturssonar og fáninn hvítblái eru nú til sýnis í sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík. Sverrir Kristjánsson. Sverrir Kristjánsson (7. febrúar 1908 – 26. febrúar 1976) var íslenskur sagnfræðingur, þýðandi og rithöfundur. Ritsafn hans kom út árið 1981 í fjórum bindum. Sverrir var sonur Bárðar Kristjáns Guðmundssonar verkamanns og Guðrúnar V. Guðmundsdóttur. Hann varð stúdent frá MR 1928 og nam síðan sagnfræði við háskólann í Kaupmannahöfn og um skeið í Berlín. Eftir að hann kom heim frá námi vann hann sem kennari í Reykjavík í nokkur ár. Þá starfaði hann við rannsóknir og skrásetningu bréfa og skjala í Ríkisskjalasafni Dana Bókhlöðu konungs og National Museum 1956-1958. Sverrir samdi ótal bóka um sagnfræðileg efni og þýddi bæði leikrit og skáldsögur. Eyjólfsstaðir. Eyjólfsstaðir í Fossárdal er gamalt íbúðarhús og þar hefur lengst verið búið af öllum bæjum í Fossárdalnum. Síðustu ábúendur þar voru Eyþór Guðmundsson og Alda Jónsdóttir sem byggðu síðan nýjan bæ innar í dalnum. Í gamla bænum á Eyjólfsstöðum er nú rekið gistiheimili. Það hefur verið gert upp að hluta. Tvíhlustarsláttur. Tvíhlustarsláttur er þegar tvö ólík hljóð eru spiluð í sitt hvort eyra á sama tíma. Kósi. Neðst eru sex kósar, þá fjögur hök og tveir kósar efst. Kósi (kós eða kóssi) er hlíf, oftast úr málmi en líka úr plasti eða öðru efni, til varnar sliti innan í gati eða lykkju sem band leikur í. Á reimuðum skóm eru tveir ristarflipar og á hvorumtveggja þeirra er oftast röð kósa sem skóþvengjum er þrætt í gegnum. Kósar eru líka algengir á beislum, beltum og seglum. Kósar eru einnig notaðir sem skraut á fatnaði, án nokkurs sérstaks tilgangs. Í hestamennsku er talað um að "ríða kósa af" og merkir að "ríða í einum fleng" eða "flengríða", þ.e. greitt. Stoðnet. Stoðnet er búnaður sem notaður er í læknisfræðilegum tilgangi við að halda líkamlegu holi opnu, svo sem æðum eða öðrum rásum líkamans sem sjúkdómar eða slys hafa skaddað. Kviksjá. Kviksjá (skrautstokkur, skraut(flygsu)kíkir eða kaleidóskóp) er rörlaga leikfang sem er alsett speglum að innanverðu sem endurspegla litlar skrautflygsur, t.d. glerbúta og perlur, sem hafa verið komið fyrir í rörinu. Þegar síðan er horft í kviksjána má sjá samhverf form og með því að snúa henni ummyndast þau og breytast. Kviksjáin var þekkt í Grikklandi til forna, en Sir David Brewster enduruppgötvaði hana árið 1816 og fékk einkaleyfi fyrir henni árið 1817. Charles Rollin. Titilsíða "Histoire Romaine" eftir Charles Rollin frá 1741. Charles Rollin (30. janúar 1661 – 13. september 1741) var franskur sagnfræðingur. Hann var sonur iðnaðarmanns en fékk styrk til náms í Collége du Plessis þar sem hann lagði stund á guðfræði en tók ekki prestsvígslu. Tuttugu og tveggja ára gamall fékk hann stöðu við háskólann og 1687 stöðu kennara í mælskufræði. 1684 varð hann rektor við Parísarháskóla. Hann var jansenisti sem kostaði hann rektorsstöðuna og kom í veg fyrir að hann fengi inngöngu í Frönsku akademíuna. Hann mótmælti páfabullunni "Unigenitus" opinberlega. Þekktustu verk Rollins eru verk um fornöldina sem hann gaf út á efri árum; "Histoire ancienne des Égyptiens, des Carthaginois, des Assyriens, des Babyloniens, des Mèdes et des Perses, des Macédoniens, des Grecs" sem kom út 1730-1738 og "Histoire romaine depuis la fondation de Rome jusqu’à la bataille d’Actium" sem kom út 1741. Steven Gerrard. Steven George Gerrard (f. 30. maí 1980 í Whiston, Merseyside, Englandi) er enskur knattspyrnumaður sem leikur með Liverpool F.C. í ensku deildinni. Gerrard er fyrirliði liðsins. Með Liverpool hefur hann unnið einn FA-bikar, 3 Deildarbikara, einn UEFA-bikar og einn Meistaradeildarbikar. Hann er þekktur fyrir sterk og hröð hlaup, skotkraft og nákvæmni og sem hjarta Liverpool-liðsins. Hann er einnig fyrirliði enska landsliðsins. Braunau am Inn. Braunau am Inn er bær í fylkinu Efra Austurríki í Austurríki. Áætlaður íbúafjöldi árið 2008 var 16 þúsund. Gyllinæð (hljómsveit). Dauðapönksljómsveitin Gyllinæð var stofnuð vorið 1999 af gítarleikaranum Danna (Daníel Ívar Jensson), söngvaranum Gústa (Ágúst Hróbjartur) og trommuleikaranum Magga (Magnús Magnússon). Þeir voru 14 - 15 ára. Hljómsveitin vakti strax mikla athygli. Kom reglulega fram í morgunþætti Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarr á X-inu; Skjár 1 sýndi heimildarmynd um hljómsveitina. Sýningu á þættinum var frestað um nokkrar vikur eftir að hafa verið auglýstur grimmt. Ástæðan var sú að maður í næsta húsi við æfingaskúr hljómsveitarinnar hótaði Skjá 1 öllu illu ef eitthvað kæmi fram um hann í þættinum. Hljómsveitin eldaði grátt silfur saman við manninn og hafði samið um hann lagið "Djöflakallinn með sleggjuna". Maðurinn var hátt settur ríkisstarfsmaður og Skjár 1 klippti allt um hann úr þættinum og varð að vinna nýtt efni til að bæta inn í staðinn. Gyllinæð deildi í sjónvarpsþætti við Snorra í Betil sem hélt því fram að rokkið sé músík djöfulsins. Þátturinn varð umtalaður og Gyllinæð spilaði eitt lag í þættinum á meðan Snorri hljóp út og hélt fyrir eyrun. Einu hljómleikar Gyllinæðar á íslensku sviði utan útvarps- og sjónvarpsþátta var í versluninni Spútnik. Þar spilaði Gyllinæð með hljómsveitunum Mínus og Bisund. Um haustið var Gyllinæð boðið að spila á 400 manna hljómleikum í Ammassalik á austurströnd Grænlands. Þar varð Gústa á að æla á sviðið pizzu sem hann hafði nýlega lokið við að borða hráa og frostna. Til að gera gott úr þessu hellti hann yfir sig kveikjaragasi og kveikti í sér. Danni mölbraut þá gítarinn sinn með því að marglemja honum í sviðið og magnara, Maggi sparkaði trommusettinu út í sal og í sameiningu rústaði tríóið sem uppi stóð af hljóðnemum, hátölurum og öðru. Við þetta varð hlé á hljómleikunum á meðan bæjarbúar útveguðu ný hljóðfæri og græjur. Næstu daga var um fátt meira rætt í grænlenskum fjölmiðlum. Færeyskir fjölmiðlar sögðu einnig frá uppákomunni, sem og að sjálfsögðu íslenskir. Í kjölfarið hófust blaðadeilur um hljómsveitina og símatímar útvarpsstöðva loguðu. Þar var því meðal annars haldið fram að þessir 14 - 15 ára drengir væru dópistar og vond fyrirmynd. Tvö tímarit sem höfðu tekið viðtal við Gyllinæð hættu við að birta viðtölin vegna þessa málflutnings. Dagblöðin tóku þeim mun ítarlegri viðtöl við strákana. Árið 2000 fór minna fyrir Gyllinæð. Lagið "Kristjana með gyllinæð" kom út á safnplötunni "Tyrkland" sem var gefin út til styrktar fórnarlömbum jarðskjálfta. Lagið fékk nokkra útvarpsspilun, bæði hérlendis og í Færeyjum og Grænlandi. Þá var hljómsveitinni boðið að spila á stærstu grænlensku rokkhátíðinni, Nipiaa Rock Festival í Aasiat á vesturströnd Grænlands. Einróma umsögn fjölmiðla var að Gyllinæð hafi algjörlega stolið senunni á rokkhátíðinni. Þarna spiluðu um 10 þungarokkshljómsveitir frá Kanada, Danmörku og Færeyjum. Gagnrýnendur sögðu að Gyllinæð hafi kennt þeim hvernig á að afgreiða alvöru þungt rokk. Bassaleikarinn Bjarni Móhíkani úr hljómsveitinni Sjálfsfróun var með í för til að þyngja hljóminn. Þetta reyndist vera svanasöngur hljómsveitarinnar. Strákarnir lentu í slagsmálum hver við annan og tímabundnum vinslitum. Maggi fór að spila með hljómsveitinni Andláti og síðar Shadow Parade. Hjaltalín. Hjaltalín er íslenskt ættarnafn. Á Íslandi bera 111 manns ættarnafnið. Fyrsti maðurinn til að bera Hjaltalínsnafnið var Jón Oddson Hjaltalín (1687-1755). Hann var vinnupiltur á Reykjum í Hjaltadal. Talið er að Hjaltalínsnafnið sé dregið af nafni dalsins, Hjaltadalur. Seinna varð Jón lögréttumaður og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Grettisbeltið. Grettisbeltið er elsti verðlaunagripur á Íslandi og er veitt í glímu á Glímukeppni Íslands. Fyrst var keppt um Grettisbeltið á Akureyri hinn 20. ágúst 1906. Sá sem ber Grettisbeltið er titlaður "glímukóngur". Metanól. Metanól, einnig þekkt sem metýl alkóhól, karbinól, tréspíri, viðaralkóhól eða viðarspíri, er efnasamband með efnaformúluna CH3OH (oft skrifað sem MeOH). Það er einfalt alkóhól og er léttur, rokgjarn, litarlaus, eldfimur og eitraður vökvi með mjög sérstakri lykt sem er mjög svipuð en aðeins sætari en lyktin af etanóli (drykkjar alkóhól). Við stofuhita er efnið litarlaus vökvi og er notaður sem frostvari, leysir, eldsneyti og sem geymsla fyrir etanól. Metanól er einnig notað til að búa til biodiesel, í gegnum umestrunar-hvarf. Metanól er framleitt náttúrulega í loftfirrðum hvörfum í mörgum tegundum baktería og er því náttúrulegt í umhverfinu. Þar af leiðandi er lítill prósentuhluti af metanólgufu í andrúmsloftinu. Eftir nokkra daga frá því að metanól sem er í umhverfinu varð til, hvarfast það við súrefni með hjálp sólarljóssins og myndar koldíoxíð og vatn. 2 CH3OH + 3 O2 → 2 CO2 + 4 H2O Metanól-bruni er nánast alveg litarlaus þegar sólin skín, sem veldur aukinni hættu í umhverfinu. Vegna þess að metanól er eitrað er það vanalega notað sem íblöndunarefni fyrir etanól, sem notað er í iðnaði. Þessi viðbót af metanóli losar notendur iðnaðaretanólsins við það að greiða háan áfengisskatt sem væri annars lagður á etanólið eins og allt annað drykkjaráfengi. Metanól er oft kallað viðarspíri vegna þess að það var eitt sinn framleitt sem aukaafurð við þurreimingu á trjám. Nú er það búið til með fjölþrepa ferli. Jarðgasi eða kolagasi og gufu er komið fyrir í bræðsluofni til að búa til vetni og kolmónoxíð. Vetnið og kolmónoxíðið hvarfast svo við mikinn þrýsting og með hjálp hvata og myndar metanól. Saga. Forn-Egyptar voru þeir fyrstu sem vitað er um að hafi notað metanól, eða blöndu með metanóli í, sem þeir fengu úr hitasundrun á við. Hreint metanól var hins vegar fyrst einangrað árið 1661 af Robert Boyle, með því að eima limvið. Efnið fékk þá nafnið „pyroxylic spirit“. Árið 1834 komust efnafræðingarnir Jean-Baptiste Dumas og Eugene Peligot að frumeindasamsetningu metanóls. Þeir kynntu þá nafnið methylene sem þýðir á grísku vínviður. Orðið átti að þýða „alkóhól búið til úr við“ en hafði gríska málfræðivillu. Orðið „methanol“ varð svo til árið 1892 og er það stytting á „Methyl Alchohol“. Árið 1923 fundu efnafræðingarnir Awin Mittasch og Mathias Pier leið til þess að þess að breyta blöndu af kolmónoxíði, koldíoxíði og vetni í metanól. Nútíma metanólframleiðsla hefur verið gerð auðveldari með hjálp hvata (vanalega kopar), sem er hægt að framkvæma við lægra hitastig. Nútíma metanól sem búið er til við lægri þrýsting var þróað af ICI (Imperial Chemical Industries) á 7. áratug 20. aldar með tækni sem Johnson Matthey hefur einkarétt á en Johnson er einn aðal leyfisveitandi heimsins af metanól tækni. Notkun metanóls sem eldsneyti á farartæki fékk mikla athygli á meðan olíukreppunni stóð á 8. áratugnum vegna þess að það var auðfáanlegt, ódýrt og umhverfisvæmt. Um miðjan 10. áratuginn voru yfir 20 þúsund bílar sem gengu bæði fyrir metanóli og bensíni voru kynntir í Bandaríkjunum. Bílaframleiðendur hættu að framleiða farartæki sem keyrð voru á metanóli í lok 10. áratugarins og einbeittu sér að etanól farartækjum í staðinn. Þó svo að tæknin með metanólbílana bar góðan árangur, þá hafði hækkun í verði þau áhrif að áhuginn minnkaði. Framleiðsla. Til þess að fá rétta jafnvægið fyrir metanólframleiðsluna Þó að jarðgas sé hagkvæmasta og mest notaða „hráefnið“ við metanól framleiðslu, þá er hægt að nota annað. Metanól er einnig unnið úr kolum, aðallega í Kína. Auk þess hefur framför í tækni orðið til þess að hægt er að framleiða metanól úr lífmassa. Framleiðslumöguleikar á Íslandi. Hugmyndir hafa verið uppi um að nota kolmónoxíð sem losnar frá Íslenska Járnblendifélaginu ef ofnum yrði lokað en óvíst er að það sé framkvæmanlegt. Einnig er hægt að fá kolmónixíð með gösun á lífmassa og sorpi. Koldíoxíðið sem losnar frá Svartsengi (háhitasvæði) á hverju ári eru 80 þúsund tonn. Úr þessu magni ert hægt að framleiða um 55 þúsund tonn af metanóli. Raforkan sem þyrfti að nota við vetnisframleiðsluna væri 10,3 kWh á hvert kg metanóls Snemma árs 2008 undirrituðu Mannvit hf. og íslensk-ameríska fyrirtækið Carbon Recycling International ehf. samstarfssamning um að hanna og byggja verksmiðju sem breytir koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjunum í metanól, fljótandi eldsneyti fyrir bíla og önnur farartæki. Þetta yrði fyrsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum. Árleg afkastageta verksmiðjunnar, sem verður reist á Reykjanesi, verður 4,5 milljón lítrar af metanóli sem blandað verður bensíni í hlutföllunum 5 á móti 95. Sú blanda hækkar oktangildi eldsneytisins og stuðlar að hreinni brennslu og betri nýtingu þess. Enn fremur eykur blandan afl bensínbíla, jafnt nýrra sem eldri, án þess að nokkurra vélarbreytinga verði þörf. Áætlað var að bensínblandan standi ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu til boða frá og með maí 2009. Notkun. Lang stærsti hluti notkunar metanóls fer í að búa til önnur efni. Um 33% af metanóli er breytt í formaldehýð, sem er svo notað til að búa til margvíslegar vörur eins og plast, krossvið, málningu og sprengiefni. Metanól einnið notað til þess að búa til trígýseríð, sem er notað til að búa til biodiesel. Önnur efni sem hægt er að nota Metanól í framleiðslunni er dímetýl eter. Hægt er að blanda DME við olíu og hita upp hús og einnig er hægt að nota það á bílvélar í staðin fyrir dísilolíu. Eldsneyti á bíla. Metanól er notað í takmörkuðu magni sem eldsneyti á brunahólfsvélar. Erfiðara er að kveikja í metanóli heldur en bensíni og brennur aðeins með einum áttunda af varma bensíns. Metanól er notað í mörgum kappaksturskeppnum í Bandaríkjunum, meðal annars í Monster Truck. Metanól er notað sem eldsneyti á ýmsar gerðir flugvéla, bíla, vörubíla og annarra kappaksturbíla og tækja. Ástæðan er sú að metanól gefur meiri kraft, hröðun og er ekki eins eldfimt og bensín. Sumir kappakstursmenn hafa blandað metanóli við bensín og nituroxíð til þess að gefa ökutækjum sínum aukinn kraft. 6 CH3OH + Al2O3 → 2 Al(OCH3)3 + 3 H2O Tæringarvandamálið hefur verið reynt að leysa með því að bæta við efnum í eldsneytið sem virka sem tæringarvörn. Hægt er að blanda litlu magni af metanóli í bensín til að nota á bíla, ef notaður er leysir og tæringarvari.The European Fuel Quality Directive heimilar allt að 3% af metanóli, auk sama magns af leysi, sé sett í bensín sem er selt í Evrópu í dag. Kínverjar nota meira en einn milljarð gallona af metanóli á hverju ári sem eldsneyti, bæði sem íblöndunarefni í bensín og sem eldsneyti á metanólfarartæki. Eitrun. Metanól eða tréspíri finnst í ýmsum iðnaðarvörum, til dæmis rúðuhreinsivökvum, frostlegi og leysiefnum. Metanól frásogast hratt frá meltingarvegi og hámarksþéttni næst í blóði eftir 0,5-1 klst frá inntöku. Dreifingarrúmmál er um 0,6 L/kg og próteinbinding er engin. Helmingunartími metanóls er 14-18 klst. Um 20% af metanóli útskilst á óbreyttu formi um lungu og nýru. Afgangurinn er brotinn niður í lifur af alkóhól dehýdrógenasa sem hvatar oxun metanóls í formaldehýð og formaldehýð dehýdrógenasa sem hvatar oxun formaldehýðs í maurasýru. Maurasýran brotnar síðan niður í koldíoxíð og vatn. Metanólið sjálft er tiltölulega lítið eitrað og veldur einungis vægum ölvunaráhrifum, eitrunareinkenni metanóleitrunar stafa fyrst of fremst af maurasýrunni. Einkenni metanóleitrunar koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir 12-24 klst eftir inntöku, þ.e. eftir að maurasýra hefur myndast í nægjanlegu magni til að valda eitrun. Einkenni eitrunarinnar eru sljóleiki, sjóntruflanir (getur endað sem varanleg blinda), ógleði, uppköst, kviðverkir, rugl, höfuðverkir, krampar, meðvitundarleysi og svæsin efnaskiptasýring. Meðhöndlun metanóleitrunar byggist á því að leiðrétta efnaskiptasýringuna og að hamla frekara niðurboti metanóls með því að gefa lyfið fómepizól (4-methýlpýrazól) sem er sértækur hamlari á alkóhóldehýdrógenasa eða með því að gefa etanól sem er samkeppnishvarfefni fyrir alkóhóldehýdrógenasa. Þetta lengir helmingunartíma metanóls í 40-80 klst. Í svæsnum tilfellum getur þurft að grípa til blóðskilunar. Gjöf á fólínsýru er talin geta aukið niðurbrot maurasýru í koldíoxíð og vatn. Eitrunarskammtar af metanóli eru mjög einstaklingsbundnir en lífshættulegur skammtur er talinn vera 1-2ml/kg af hreinu metanóli en til eru dæmi um varanlega blindu og dauðsföll eftir mun lægri skammta eða 0,1 ml/kg. Ibiza. Ibiza (stundum skrifað Íbíza eða Íbísa á íslensku) (katalónska: "Eivissa") er ein Baleareyjum í Miðjarðarhafi, nokkuð vestur af Majorku. Ibiza tilheyrir Spáni. Ibiza er stundum nefnd „eyjan hvíta“ eftir hvítmáluðu húsunum á eyjunni. Majorka. Majorka (spænska og katalónska: "Mallorca") er ein af Baleareyjunum í Miðjarðarhafi og tilheyrir Spáni. Nafn eyjarinnar kemur úr latínu: "insula maior", "stærri eyja"; síðar "Maiorica". Aðrar nálægar eyjar eru Menorka, Ibiza og Formentera. Menorka. Menorka er ein af Baleareyjunum í Miðjarðarhafi og tilheyrir Spáni. Nafn eyjarinnar er komið úr latínu: "balearis minor", síðar "Minorica" og merkir "minni eyja" en það er væntanlega vegna nálægð hennar við Majorku, sem er á latínu nefnist: "insula maior" eða "stærri eyja". Formentera. Formentera (forníslenska: Forminterra) er ein af Baleareyjunum í Miðjarðarhafi og tilheyrir Spáni. Norður af Formentera er lítil eyja sem nefnist Espalmador (spænska: "Illa de s'Empalmador"). Formentera er sex kílómetra suður af Íbíza. Nafn eyjarinnar er sagt komið af latneska orðinu "frumentarium", sem þýðir „kornhlaða“. Debetkort. Debetkort er rafrænt kort gefið út af bönkum og er notað í stað peninga. Upphæðin er millifærð beint af bankareikningi kaupanda. Debetkort koma í stað ávísana. Debetkort eru notuð líkt og kreditkort víða til viðskipta gegnum síma og á Internetinu. Hægt að nota debetkort til að taka út peninga úr hraðbanka. Hauggas. Hauggas er gas sem verður til við rotnun lífrænna efna við loftfirrðar aðstæður á ruslahaugum og í kirkjugörðum. Hauggas er jarðgas úr metani, koldíoxíði og snefilgösum. Auðvelt er að aðskilja metan frá hauggasinu með hreinsiaðgerðum og nota það í bifreiðaeldsneyti og einnig má nota það beint til raforkuframleiðslu. Allen Iverson. Allen Ezail Iverson (fæddur 7. júní 1975 í Hampton í Virginíu) er bandarískur atvinnumaður í körfubolta með Philadelphia 76ers í National Basketball Association (NBA). Hann spilaði fyrst með Philadelphia 76ers og kom sér á framfæri þar. Hann raðaði inn stigum og var oftast stigahæstur í leikjum þrátt fyrir það hversu lítill hann er (1,83 m). Tímabilið 2000-2001 var hann einn eftirsóttasti og dýrasti leikmaðurinn í NBA. Ávísun. Ávísun er yfirleitt í gildi um óákveðinn tíma eftir að hún er gefin út en í sumum löndum eru ávísanir í gildi í aðeins sex mánuði og gildistími veltur á útgáfustað. Orðið "tékki" er dregið af enska orðinu "cheque" eða "check", sem er dregið af franska orðinu "cheque". Þetta orð er upphaflega dregið af arabíska orðinu "ṣakk" (صكّ) sem er sjálft dregið af persneska orðinu "chak". Hugtak af ávísunum hefur verið notað síðan á 9. öld í Mið-Austurlöndum. Í dag hefur dregið mjög úr notkun ávísana í Evrópu og sérstaklega í Þýskalandi, Belgíu, Austurríki og á Norðurlöndunum. Til dæmis í Svíþjóð eru ávísanir fullkomlega úreltar og í Finnlandi hættu bankar að gefa út ávísanir árið 1993. Í sumum evrópskum löndum eins og Bretlandi, Írlandi og Frakklandi eru ávísanir enn þá notaðar svolítið. Í Norður-Ameríku eru ávísanir enn þá notaðar víða. Árið 2001 voru 70 milljarðar ávísana skrifaðar í Bandaríkjunum. Aðgangshindrun. Aðgangshindrun er hagfræðilegt hugtak, með sérstaka skírskotun til virkrar samkeppni, sem vísar til þess þegar fyrirtæki sem hefur í hyggju að hefja innreið sína á tilteknum markaði er gert erfitt fyrir. Hugtakið getur einnig vísað til þess ef einstaklingi er meinað að starfa í ákveðinni iðn eða starfi sökum krafna um löggildrar menntunar. Ásbrú. Ásbrú er nýtt nafn á þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað á fyrrum varnarsvæði Nató við Keflavíkurflugvöll á Miðnesheiði. Háskólasvæðið Ásbrú er innan bæjarmarka Reykjanesbæjar. Á svæðinu starfar meðal annars Keilir Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Saga. Í október árið 2006 yfirgaf bandaríski herinn fyrir fullt og allt varnarstöð sína við Keflavíkurflugvöll eftir tæplega 60 ára dvöl á Miðnesheiði. Þegar mest var, þá bjuggu 5.700 íbúar á stöðinni og taldist hún eitt stærsta byggðalag landsins. Varnarstöðin var langstærsti vinnuveitandi á Reykjanesskaga til margra áratuga og hafði gríðarleg áhrif á alla menningu á svæðinu. Þegar herinn fór þá var lögð fram áætlun um fá, markviss verkefni, sem áttu að skapa virði fyrir svæðið sem fyrst. Sérstakt félag, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., eða Kadeco, var stofnað til að koma varnarstöðinni í borgaraleg not. Fyrstu skrefin voru að Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, var stofnaður vorið 2007 en að stofnun Keilis kom Háskóli Íslands auk fjölda öflugra fyrirtækja. Fyrirtækið Háskólavellir keypti árið 2008 stóran hluta íbúðahúsnæðis á svæðinu til þess að byggja upp háskólagarða fyrir námsfólk. Í dag búa um 1.700 manns í þessum háskólagörðum. Framtíðarþróun. Meðal fyrirætlana um framtíð svæðisins má svo nefna að Verne Global hyggst reisa gagnaver á svæðinu sem mun verða eitt af tuttugu stærstu gagnaverum í heimi. Sú stefna hefur verið mörkuð að gera Ásbrú að einu fremasta frumkvöðlasvæði landsins. Fyrstu skref í þá veru voru tekin þegar frumkvöðlasetrið Eldey var opnað í september 2008. Framtíðarstefnumótun Ásbrúar leggur áherslu á að byggja upp klasa á tveimur sviðum: Annars vegar á tækifærum byggðum á grænni orku, en þar nálægt eru mörg áhugaverðustu orkufyrirtæki landsins. Og hinsvegar á heilsusviði þar sem fjölmargir aðilar hafa sýnt því áhuga að koma af stað heilsugtengdri starfsemi á svæðinu. Vorið 2009 opnaði Jónína Benediktsdóttir detox-meðferðarmiðstöð á Ásbrú. Smábátur. Smábátur er bátur undir 15 brt. (brúttótonn), vanalega byggður nú til dags úr trefjaplasti en smábátar eru þó líka til úr stáli og timbri. Timbrið er að lúta í lægra haldi fyrir plastinu þar sem viðhaldskostnaður á timbrinu er meiri. Smábátar eru flokkaðir í tvo flokka, þ.e. í smábáta og krókabáta. Krókabátar eru undir 6 brt. og eru vanalega á handfærum eða línuveiðum. Smábátar stunda aðallega bolfisksveiðar þ.e. veiðar á þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Einnig stunda smábátar grásleppuveiðar með þar til gerðum grásleppunetum. Smábátar eru staðsettir um allt land þó einna helst við Vestfirði þar sem skjólgóðir firðir skýla þeim fyrir íslenskri veðráttu og stutt er að sækja aflann. Annars eru smábátar um allt land þó einna síst við Suðurland og Suð-Vesturland, þar sem á þar vantar meira skjól fyrir þessa litlu og opnu báta til að þeir geti sótt aflann sinn. Línubátur. Línubátur eða línuveiðiskip er bátur eða skip sem notast við línu sem veiðarfæri. Þau geta verið undir 15 brt. (brúttótonn) og allt að 670 brt. Línubátar (undir 15 brt.) eru vanalega byggðir úr trefjaplasti og hafa eitt þilfar, þeir sækja helst til í bolfiskinn og svo grásleppu. Línubátar sækja helst á miðin nærri landi eða við grunnsævi. Línuskipin (yfir 15 brt.) eru byggð aðallega úr stáli og eru þilskip og hafa vanalega tvö þilför. Þau sækja í bolfisk en hafa þó einnig sótt í grálúðu undan Vesturlandi, Vestfjörðum og Suð-Austurlandi. Það er þó varla stundað lengur þar sem grálúðustofninn er í lágmarki. Aflinn er ýmist ísaður í kör eða frystur um borð, það á þó bara við allra stærstu línuskipin. Dragnótarbátur. Dragnótarbátur er eins nafnið gefur til kynna bátur á dragnótarveiðum. Dragnótarbátar eru smíðaðir úr stáli og timbri og eru á bilinu 50-300 brt. Uppistöðuafli dragnótarskipa er bolfiskur og flatfiskur. Dragnótarbátar stunda veiðar við sléttan og mjúkan botn og eru helstu veiðisvæðin þeirra á Suður- og Vesturlandi. Nokkra veiði er þó að finna á Norðurlandi þá helst í Skagafirði og á Skjálfandanum. Dragnótarbátar geta einnig stundað netaveiðar á tilteknu tímabili ársins og eru þar af leiðandi oft kallaðir vertíðarbátar, það er að segja að þeir skipta um veiðarfæri á milli vertíða eftir því hvað hentar betur til þess að veiða aflann. Netaskip. Netaskip stunda netaveiðar en eru oftar en ekki líka á öðrum veiðarfærum á öðrum árstímum til að nýta sem best skipið yfir árið. Þau geta verið á línuveiðum, dragnótaveiðum og togveiðum. Þau geta verið frá 5 brt. (brúttótonn) til 320 brt. og eru aðallega smíðuð úr stáli, timbri og trefjaplasti. Stærri skipin eru aðalega á bolfiskveiðum sunnan við land á meðan smærri skipin eru frekar á grásleppuveiðum með bolfiskveiðunum. Uppsjávarskip. Uppsjávarskip eru þau skip sem stunda veiðar á fisktegundum sem eru ofarlega í sjónum, ber þar helst að nefna síld, loðnu, kolmunna og nú nýlega makríl. Uppsjávarskip geta bæði verið svokölluð tankskip og þá með enga vinnslu um borð og er aflinn landaður annað hvort í bræðslu eða í landvinnslu. Þá geta uppsjávarskip einnig verið að veiða og vinna aflann og eru því í raun frystiskip. Uppsjávarskip nota annað hvort flottroll eða hringnætur til þess að veiða aflann. Flest uppsjávarskip nú til dags geta stundað hvortveggja. Fjölveiðiskip. Fjölveiðiskip eru skip sem geta stundað bæði botnfiskveiðar og uppsjávarfisksveiðar. Í dag er einungis eitt slíkt til á landinu og er það Vilhelm Þorsteinsson EA-11, það skip getur bæði stundað botntrollsveiðar, flottrollsveiðar og nótaveiðar. Fjölveiðiskip hafa frystitæki og vinnslu um borð og geta því unnið aflann um borð, eða bara beint í tanka og landað í vinnslu eða bræðslu (uppsjávarfisk). Kosturinn við þessi skip fyrir útgerð að það getur sent skipið á nánast hvaða veiðar sem er, t.d. tekið loðnuvertíðina í febrúar-mars, farið svo á grálúðuveiðar fram í maí, farið á kolmunna maí-júní, farið svo á síldina fram á haust o.s.frv. Handfæri. Handfæri er elsta veiðarfærið, og til þeirra teljast elstu öngulveiðarfærin. Besta lýsingin á veiðarfærinu er það að það er mjög einfalt, öngull sem er fastur við línu sem veiðimaðurinn heldur svo á. Nú á dögum hefur tækninn gert okkur kleift að tengja við þetta tölvustýrðri handrúllu sem hefur rúllu, færi, slóða og svo sökkur. Rúllan er fest við borðstokkinn og á henni er 50-200 m langt færi en á enda þess er festur 6-8 m langur slóði. Við slóðann eru hnýttir taumar og á þeim eru önglarnir, en á enda slóðans er sökka. Tölvustýrð rúlla er svo tengd fiskleitunartæki sem hefur að geyma á hvaða dýpi fiskurinn er. Færinu er slakað niður að botni eða á það dýpi sem fiskurinn heldur sig, síðan sér rúllan um að hífa og slaka til skiptist til að lokka fiskinn þar til fiskurinn er búinn að bíta á. Þá dregur hún færið um borð og sagan endurtekur sig uns báturinn er fullur. Á handfæri er aðallega veiddur þorskur en þó líka ufsi, og aðrar botnfisktegundir veiðast líka en í mun minna magni. Veiðarnar standa aðallega yfir sumarmánuðina og þá eingöngu á opnum smábátum undir 6 brt. (brúttótonn) að stærð. Lára miðill. Ingibjörg Lára Ágústsdóttir (oftast nefnd Lára miðill) (15. apríl 1899 – 6. febrúar 1971) var íslenskur miðill sem varð uppvís að svikum árið 1940 og var dæmd í eins árs fangelsi. Lára ólst upp hjá ólst upp hjá Ingibjörgu Einarsdóttur, móðurmóður sinni og Árna Símonarsyni manni hennar á Eystri-Hellum og síðar Arnarhóli í Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu. Henni bauðst að fara í vist til Reykjavíkur á heimili Einars Kvarans rithöfundar og kynntist þar miðilsfyrirbærum. Hún starfaði sem miðill, greindi sjúkdóma gegnum síma og leitaði að týndum hlutum og spáði fyrir um atburði. Lína (veiðarfæri). Línuveiðar við Hastings eftir William Miller Fiskilína hefur þróast frá færinu og samanstendur af lóði, taumum og krókum. Á lóðinni eru 40-50 cm langir taumar með um eins og hálfs metra millibili. Á enda taumanna er einn öngull. Stærð önglanna fer eftir hvaða fisktegund á að veiða. Hver lóð hefur um 100 öngla og 4 lóðir eru tengdar saman í svokallaðan bjóð/bala. Það er misjafnt eftir því hve skipin eru stór hvað notaðir eru margir balar allt frá 10 upp í 40 í einni setningu en þá getur línan verið allt að 22 km á lengd með 16,000 króka. Línan er látin liggja í 1-3 klst. og svo dregin um borð. Það fer líka eftir því hvort balarnir eru handbeittir eða ekki. Illa hefur gefist að nota gervibeitu við Ísland. Beitan er oftast síld, loðna eða smokkfiskur en einnig er notaður makríll og kúfiskur. Línan er beitt sjálfvirkt í svonefndum línubeitingarvélum um leið og lagt er. Á landróðrabátum er línan beitt í landi. Á línuveiðum er aðallega verið að veiða þorsk, steinbít, ýsu, keilu, grálúðu, löngu, ufsa, lúðu, tindabikkju og túnfisk. Samgæði. Samgæði nefnast þau gæði í hagfræði sem allir geta neytt og neysla einhvers eins kemur ekki í veg fyrir neyslu annars. Sem dæmi um samgæði má nefna landvarnir og andrúmsloft. Rubeus Hagrid. Rubeus Hagrid er góðvinur Harrys Potter og vill honum allt gott. Hann má ekki galdra en hann felur sprotann sinn í regnhlíf. Hann vinnur sem skógarvörður í Hogwart. Hann Hagrid byrjaði að vinna hjá Hogwart árið 1933 Hagrid sagði Harry að hann væri galdramaður á ellefta afmælisdaginn sinn og hjálpaði honum einnig að kaupa inn fyrir skólann. Hann gaf honum ugluna Hedwig í ellefu ára afmælisgjöf. Harry, Ron og Hermione heimsækja Hagrid stundum í frístundum sínum og Hagrid reynist þeim tryggur vinur. Fiskinet. Fiskinet samanstanda af ferköntuðu neti með flotteini að ofan, blýteini eða steinateini að neðan og brjósti eða tóg á hliðunum. Til að veiða sem flesta fiska í netin þurfa netin að vera sem ósýnilegust fiskunum. Því er reynt að nota sem grennst garn og er það oftast úr næloni, sem er bæði sterkt og sveigjanlegt. Einnig er oft notaður grár litur sem er nánast ósýnilegur í sjónum. Lagnet eru net sem eru lögð við sjávarbotn og eru til í mörgum mismunandi útfærslum og er þá talað um þorskanet, ýsunet, grásleppunet, kolanet, silunganet o.s.frv. Mismunurinn felst einkum í möskvastærð en einnig er munur á efni, stærð og gerð netanna. Veiðarnar byggjast á því að fiskurinn syndi á netið og festist í því og oftast fer garnið undir tálknlokin. Þorskanet eru einkum notuð á vetrarvertíð við veiðar á þorski er hann gengur til hrygningar seinni hluta vetrar. Lágmarksmöskvastærðin er 139,7 mm (5 1/2 tommur). Oft eru þó notaðir mun stærri möskvar við þorskveiðar, eða allt að 254 mm (10 tommum). Netin eru 30-70 möskva djúp og um 50 metra löng. Nokkur net eru í hverri trossu og nokkrar trossur lagðar af hverju skipi. Netin eru látin liggja í 1-2 sólarhringa áður en þeirra er vitjað en miklu getur munað á gæðum fisks eftir því hve lengi hann liggur í netunum. Ýsunet eru svipuð þorskanetum að stærð og gerð en hafa heldur smærri möskva, 140-150 mm og eru eingöngu notuð sunnan- og suðvestanlands. Hringnót. Hringnót er einnig nefnd herpinót eða snurpunót. Hringnætur eru stærstu veiðarfæri sem notuð eru á Íslandsmiðum hvað þyngd og umfang varðar, meðalsíldarnót er um 40 tonn. Þær eru mest notaðar við veiðar á loðnu og síld en undanfarin ár má segja að tveir þriðju hlutar aflamagns af íslenskum miðum hafi komið í hringnót. Mest af aflanum fer til lýsis- og mjölframleiðslu, en nú á dögum er reynt að hámarka aflaverðmætið með því að frysta hann annaðhvort út á sjó eða í landi. Hringnót er netgirðing sem lögð er hringinn í kringum fiskitorfu. Hringnót samanstendur úr aflöngum netstykkjum úr næloni sem eru saumaðar saman lóðrétt og mynda mjög stórt net. Meðalsíldarnót er 550 m löng og 180 m djúp. Á efri brún netsins eru flot sem halda netinu á floti og við neðri brún netsins er teinn sem á eru festar blýsökkur til að þyngja netið. Einnig eru snurpuhringir festir á neðri brún netsins og í gegnum þá þræddur snurpuvír. Netið er lagt utan um torfuna og neðri teinninn látinn síga til að komast niður fyrir torfuna. Nótinni er lokað að neðan með því að hífa snurpuvírinn inn. Því næst er annar endi nótarinnar dreginn inn í skipið og minnkar þá nethringurinn þar til aðeins lítill netpoki er við hliðina á skipinu og í honum liggur fiskurinn. Fisknum er svo dælt upp í skipið með svokallaðri fiskidælu. Hringnótin er einnig afkastamesta veiðarfærið við Ísland, þ.e.a.s. tekur mestan afla. Botnvarpa. Mynd af týpísku botntrolli séð frá hlið. Botnvarpa eða botntroll er með mikilvægustu veiðarfærum sem notuð eru á Íslandsmiðum og hefur verið aðlöguð margvíslegum veiðiskap, allt frá botnfiskaveiðum til rækjuveiða. Hún er notuð á mismiklu dýpi, allt frá 80 m og niður á 1500 m dýpi. Togvírar liggja frá skipinu að hlerunum. Um borð eru togvírarnir vafðir upp á tromlu. Hlerarnir eru járnhlerar sem eru festir þannig að þeir mynda horn á togstefnuna og leita því út til hliðanna vegna viðnáms. Grandarar eru festir við hlerana með bakstroffum (vírar) og halda vörpunni opinni þegar hlerarnir toga í þá. Grandararnir eru einnig festir við vængi vörpunnar. Á efri brún netsins er höfuðlína sem er festa fyrir flotkúlur sem halda netinu lóðréttu opnu og á neðri brún netsins er fótreipi sem á eru gúmmíhjól og er hlutverk þeirra að halda vörpunni á botninum og varna því að fiskarnir komist undir netið, en varna einnig að varpan festist í ójöfnum á botninum. Fiskar sem eru á botni þar sem botnvarpa kemur, flýja og synda á undan vörpunni. Að lokum gefast þeir upp á sundinu og lenda þá í netinu(pokanum). Flotvarpa. Flotvarpa eða flottroll er fyrst og fremst notuð við veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg en er nú einnig orðin mjög mikilvæg í veiðum á síld, loðnu, kolmunna og núna nýlega veiðum á makríl. Flotvörpur eru afar stór veiðarfæri og eru oft nefndar gloríutroll, en nafngiftin mun eiga rætur í þróunarferli vörpunnar hérlendis fyrir um áratug. Flotvörpur eru á margan hátt frábrugðnar botnvörpum að gerð enda dregnar miðsævis og snerta sjaldan botn. Í þeim er oftast nælon eða enn léttari sterk efni (dynex) til að létta vörpuna í drætti. Möskvar eru yfirleitt stærri en í botnvörpu þó að sömu ákvæði gildi um möskvastærð við botnfiskveiðar, þ.e. 135 mm eða 155 mm lágmarksmöskvastærð eftir veiðisvæðum. Þess má geta að netop vörpunnar getur verið um 23.000 fermetrar en það samsvarar samanlagðri stærð fimm fótboltavalla. Nú er komin á markaðinn ný gerð flotvörpu, svonefnt þantroll, með auknum stöðugleika og rými við netopið. Þantrollið lofar góðu við veiðar á loðnu, síld, kolmunna og makríl. WiCell á Íslandi. WiCell á Íslandi hefur aðsetur í Grafarvogi, Reykjavík. Fyrirtækið er ekki rekið í hagnaðarskyni en markmið þess er að bæta grunnþekkingu, menntun, aðferðir, rannsóknir og þjálfun vísindamanna í stofn fósturvísa. Frumkvöðullinn Dr. James Thomson var sá fyrsti til að einangra fósturvísi. Fyrirtækið er styrkt af ríkinu. Markmið WiCell á Íslandi er að beita örflögutækni sem þróuð hefur verið af NimbleGen til að skoða sérhæfingamynstur stofnfruma. Leður. Verkfæri notuð til að handleika leður. Leður er efni búið til með því að súta húðir af dýrum, mest af nautgripum en einnig svínum, fiskum og fleiri dýrum. Sútun umbreytir skinni í sterkt, varanlegt og fjölhæft efni sem er notað til að búa til ýmsa hluta svo sem skó og fatnað. Leður og viður voru undirstaðan fyrir margvíslega forntækni. Leðuriðnaður er ólíkur loðskinnaiðnaði, mikilvægi hráefnanna greinir þá að. Í leðuriðnaði eru hráefnin aukaafurðir kjötiðnaðar og kjöt er meira virði en leður. Aftur á móti notar loðskinnaiðnaðir hráefni sem er meira virði en kjötið og er kjötið í því tilviki talið aukaafurð. Uppstoppun notar líka skinn af dýrum en oft er bara notað höfuðið og hluti bakhliðar. Skinn og húðir nýtast líka til að framleiða lím og matarlím. Sé leðrið soðið er talað um soðleður. Áður fyrr var uppi sú hugmynd að við suðu væri leður ætt sem leðursúpa og gæti nýst þar sem fæða var af skornum skammti. Eftir því sem samfélagið þróaðist varð soðleðrið meira notað í brynjur og til að styrkja hús. Nú til dags hefur komið til þess að menn borða leður þegar við blasir að þeir svelti annars, til að mynda biskup einn, sem var að svelta í hel og sauð leðurskó sína og komst þannig lífs af með því að borðaði þá. Í seinni tíð hefur komið fram gervileður sem notað er á sambærilegan hátt og leður eins og bólstrun á húsgögnum, skógerð og gerð fatnaðs en gevileður er mun ódýrara en venjulegt leður. Lím. Sterkt lím notað í heimilum. Lím er vökvi sem er stundum þykkur og notaður til að líma eða tengja muni saman. Lím getur verið náttúrulegt eða tilbúið. Sum nútímalím eru geysilega sterk og eru mikilvæg í mannvirkjagerð og iðnaði. Allar tegundir efna geta verið límdar en það er sérstaklega gagnlegt til að líma þunnt efni. Yfirleitt þarf lím yfirvegaðan hita til þess að það bindi. Lím geta leitt hita eða rafmagn eða alls ekki. Fyrstu límin voru trjákvoða og hafa þau verið notuð í 80.000 ár, en neanderdalsmenn notuðu trjábörk frá birkum til að gera lím. MÓSA. MÓSA (fræðiheiti "Methicillin-resistant Staphylococcus aureus (MRSA)") er skammstöfun fyrir meticillín-ónæmur "Staphylococcus aureus". "Staphylococcus aureus" er gram-jákvæður kúlulaga baktería sem finnst í klösum sem líkjast mjög vínberja klösum. "Staphylococcus aureus" er mjög algeng bakteriutegund sem finnst á húð manna og í nefi. MÓSA eru bakteríur sem eru ónæmar fyrir venjulegum sýklalyfjum (methicillin, dicloxacillin, nafcillin, oxacillin o.fl) and the cephalosporins. MÓSA sýkingar eru sérstakt vandamál í spítölum, fangelsum og dvalarheimilum þar sem sem sjúklingar með opin sár, tæki sem tengt eru líkama og bælt ónæmiskerfi er hættara við smiti en almenningi. Hjartavernd. Hjartavernd er samtök sem voru stofnuð árið 1964 og þremur árum seinna Rannsóknarstöð Hjartaverndar. Áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga. Sú rannsókn hefur staðið yfir í meira en 30 ár og hefur orðið grundvöllur þekkingar hérlendis á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Hjartavernd hefur gefið út Tímarit Hjartaverndar í 38 ár. Starfsmenn eru rúmlega 40 og samanstandur af breiðum hópi fólks sem vinnur saman að því að framkvæma rannsóknir á sem vísindalegastan og áreiðanlegastan hátt. GTK+. Skjámynd af GIMP 2.4 þar sem viðmótshlutum eins og hnöppum, valmyndum og flipum er stýrt af GTK+. GTK+ eða GIMP Toolkit er verkvangsóháð viðfangasafn fyrir myndræn viðmót. GTK+ er, ásamt Qt, vinsælasta viðfangasafnið fyrir X gluggaumhverfið. Það var upphaflega þróað fyrir myndvinnsluforritið GIMP árið 1997. GTK+ er frjáls hugbúnaður og gefið út með LGPL-hugbúnaðarleyfinu. Það er hluti af GNU-verkefninu. Nemendur Verkfræði- og Náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Verkfræði- og Náttúruvísindasvið Háskóla Íslands skptist í svið, innan hvers sviðs eru námsleiðir. Hver deild heldur reglulega fundi þar sem málefni sem snetra deildina eru tekin fyrir. Sviðið heldur líka regluega fundi þar sem málefni sem snerta sviðið eru tekin fyrir. Nemendur deildanna hafa rétt á fulltrúm inná þessa fundi, þessir fulltrúar hafa fullan þátttöku og atkvæðisrétt. Harry Potter og eldbikarinn. Á fjórða ári sínu í Hogwarts tók Harry þátt í Þrígaldraleikunum sem voru þá haldnir í fyrsta skipti í yfir 100 ár. Hann var yngsti keppandinn og hefði í raun ekki átt að taka þátt en brögðum var beitt til að hann yrði fyrir valinu. Sá sem stóð fyrir því var yfirlýstur stuðningsmaður Voldemorts og sá hann einnig til þess að Harry stæði uppi sem sigurvegari leikanna þar sem bikarinn var leiðarlykill sem flutti hann beina leið til Voldemorts og þjóna hans. Þar var Harry notaður, gegn eigin vilja, í athöfn til að endurreisa hinn myrka herra. Eftir mikið og erfitt einvígi við Voldemort komst Harry þó heilu og höldnu heim til Hogwarts þar sem hann gat sagt frá því sem fram hafði farið um kvöldið. Harry Potter og Fönixreglan. Harry Potter og Fönixreglan ("enska:" "Harry Potter and the Order of the Phoenix") er fimmta bókin í röðinni um Harry Potter eftir J. K. Rowling. Sagan fjallar um erfiðleika Harry Potters á fimmta árinu sínu í Hogwartsskóla galdra og seiða, m.a. ógnvænlega endurkomu hins ógurlega Voldemorts, U.G.L.U - prófin og afskiptasemi galdramálaráðuneytisins. Þetta er lengsta bókin í röðinni og kom út 21. júní 2003 af Bloomsbury í Bretlandi. Bókafélagið Bjartur gefur bækurnar út á Íslandi. Gerð hefur verið kvikmynd eftir bókinni sem kom út árið 2007 og einnig hafa verið gerðir tölvuleikir af EA-leikjum. Harry Potter of Fönixreglan hefur unnið nokkur verðlaun. Kynning efnisins. Í gegnum fjórar fyrri bækurnar í seríunni hefur aðalpersónan, Harry Potter, sem hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika sem fylgja því að þroskast og að vera frægur galdramaður. Þegar Harry var barn, drap mesti galdramaður í heimi, Voldemort, foreldra Harrys en hvarf skyndilega eftir að hafa reynt að drepa Harry. Þetta varð til þess að Harry varð frægur á svipstundu og var hann settur í fóstur hjá mugga-frændfólki sínu (fólk sem getur ekki galdrað), Petuniu frænku og Vernoni frænda. Harry kemur inn í galdrasamfélagið ellefu ára gamall og gengur í Hogwartsskóla galdra og seiða. Hann verður vinur Ron Weasley og Hermione Granger og verður hinn mikli Voldemort á vegi hans sem er að reyna að safna kröftum. Eftir að hafa snúið aftur eftir sumarfrí, er ráðist á nokkra nemendur í Hogwarts eftir að hinn sögulegi "Leyniklefi" er opnaður. Harry endar átökin með því að drepa brasilíuslöngu og sigrar aðra hindrun Voldemorts. Næsta ár heyrir Harry að morðinginn Sirius Black sé að fylgjast með honum. Þrátt fyrir strangar varnir í Hogwarts hittir Harry Sirius og í lok þriðja ársins í skólanum kemst Harry að því að Sirius Black er guðfaðir hans. Á fjórða árinu sínu tekur Harry þátt í þrígaldraleikunum. Við lok leikanna verður Harry vitni að því þegar Voldemort fær fullan styrk. Efnisútdráttur. Þessi saga byrjar þegar Harry og frændi hans, Dudley, verða fyrir árás vitsuga. Harry notar galdra til að losna við þær og hann er sendur í viðtal í galdramálaráðuneytinu. Það kemur fljótt í ljós að viðtalið er réttarhöld og þrátt fyrir góðar tilraunir galdramálaráðherrans, er hann sýknaður. Vegna þess að Voldemort er snúinn aftur endurvekur Dumbledore fönixregluna, leynilegt samfélag sem vinnur að því að sigra Voldemort, dráparana (fylgismenn Voldemorts) og vernda fórnarlömb Voldemorts, m.a. Harry. Þrátt fyrir að Harry hafi lýst endurkomu Voldemorts tekur galdramálaráðuneytið hann ekki alvarlega og neitar því að Voldemort hafi snúið aftur. Auris. Auris er íslenskt líftæknifyrirtæki sem þróar nýja útvortis meðferð við bráðri miðeyrnabólgu og að tryggja örugga og árangursríka markaðssetningu meðferðarinnar með því að leita eftir samvinnu við alþjóðleg lyfjafyrirtæki með sterka stöðu á þessu sviði. Auris hefur sótt um einkaleyfi á þessari meðferð, sem felur í sér sérhannaða eyrnatappa sem innihalda rokgjörn efni. Auris stefnir að því að framkvæma forklínískar rannsóknir til að standa sterk að vígi til að leita eftir öflugum samstarfsaðila til áframhaldandi þróunar. ART Medica. ART Medica er íslenskt fyrirtæki sem sinnir rannsóknum á ófrjósemi og annast tæknifrjóvgun. Fyrirtækið á rætur að rekja til tæknifrjóvgunardeildar sem komið var á fót innan kvennadeildar LSH árið 1991 til að bæta úr þörf á tæknifrjóvgunum en fram að því höfðu íslensk pör sem þurftu á tæknifrjóvgun að halda þurft að leita til útlanda. Upphaflega var áætlað að 100-150 pör yrðu meðhöndluð árlega en brátt kom í ljós að þörfin var brýnni og starfsemi jókst. Fyrst í stað var aðeins um að ræða glasafrjóvgunarmeðferð þar sem notaðar voru kynfrumur frá parinu sjálfu en eftir að deildin var stækkuð árið 1996 var unnt að frysta fósturvísa og annast smásjárfrjóvganir. Árið 2000 hófust glasafrjóvgunarmeðferðir með gjafaeggjum. Í október 2004 var starfsemin flutt í sérhannað húsnæði og varð um leið einkarekin undir nafninu ART Medica. Læknarnir Guðmundur Arason og Þórður Óskarsson reka fyrirtækið. Á ART Medica eru árlega gerðar um 300-320 glasa- og smásjárfrjóvganir, 300 tæknisæðingar, 500 sæðisrannsóknir og 80-90 pör fá meðferð þar sem settir eru upp frystir fósturvísar. Fyrsta barnið sem til varð við glasafrjóvgun á Íslandi fæddist árið 1992 en yfir 1000 börn hafa fæðst síðan þá. Gulllax. Gulllax (fræðiheiti: "Argentina silus") er fisktegund í Norður-Atlantshafi. Hann lifir á 100-1400 metra dýpi, yfirleitt miðsævis og á leir- og sandbotni. Hann hefur langan bol, stutta sterklega stirtlu og djúpsýldan sporð. Augun eru stór en kjafturinn lítill, hann hefur einn stuttan bakugga og veiðiugga á stirtlu. Gulllaxinn er gulllitaður á hliðunum, dökkur á baki og ljós á kviði. Hreistrið er mjög stórt en laust, og dettur því auðveldlega af þegar hann er veiddur í botnvörpu. Hann virðist því vera grár þegar hann hefur verið veiddur. Heimkynni. Gulllax á heimkynni sín í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann frá sunnanverðum Svalbarða í Barentshafi suður í Skagerak og Norðursjó. Hann er algengur við Biskayaflóa, og vesturströnd Bretlandseyja og þaðan norður til Íslands og Færeyja. Í Norðvestur-Atlantshafi er hann við Grænland í litlum mæli, og frá Davissundi og suður til Georgsbanka við Bandaríkin. Hér við land hefur gulllax fundist allt í kringum landið en hann sést sjaldnar norðan- og austanlands. Helsta útbreiðslusvæði hans hér er frá Rósagarði undan Suðausturlandi vestur með landinu, allt vestur á Halamið og Djúpál. Gulllax er miðsævis- og botnfiskur á leir- og sandbotni. Hann er algengastur á 300-600 m, en finnst á 100-1400 metra dýpi. Hann heldur sig við botn á daginn en syndir upp í sjó á nóttunni. Á veturna heldur hann sig á meira dýpi en kemur á grynnra vatn með vorinu. Fæða. Aðalfæða gulllax eru helst smákrabbadýr eins og ljósáta og marflær en einnig pílormar, smokkfiskar, ýmsar marglyttu-, möttuldýra- kambhveljutegundir og smáfiskar. Vöxtur og lífssaga. Gulllaxinn við Ísland hrygnir allt árið um kring en mest í maí til júlí, eða í nóvember til desember. Hrygningin virðist eiga sér stað víða á útbreiðslusvæðinu. Egg gulllaxins eru tiltölulega stór, 3-3,5 mm og er fjöldinn á bilinu 10.000-40.000 stk. Eggin eru djúpsviflæg og það eru seiðin einnig í fyrstu. Nýklakin eru þau um 7,5-8 mm, en þegar þau hafa fengið útlit fullvaxta gulllax eru þau um 60 mm að lengd. Frá 6 ára aldri vaxa hrygnur heldur hraðar en hængar og er þessi munur orðinn um 2,5 cm við 18 ára aldur. Hrygnur eru því heldur stærri en hængar þegar þær verða kynþroska. Um 50% hænga verða kynþroska 36-37 cm langir en hrygnur 37-38 cm, sem svarar til þess að hængar verði kynþroska um 8 ára aldur en hrygnur um 9 ára. Hann vex tiltölulega hratt þangað til, en eftir það dregur úr vexti. Hrygnur virðast líka vera heldur langlífari en hængar. Þyngd er mjög svipuð hjá báðum kynjum við sömu lengd og vegur 41 cm langur fiskur að jafnaði um 0,5 kg og 50 cm langur fiskur um 1,0 kg. Gulllaxinn getur orðið a.m.k. 25-30 ára gamall og kynþroska er náð þegar hann er 8-12 ára og um 36-40 cm langur. Hér við land hefur veiðst yfir 70 cm stór gulllax en í veiði er hann algengastur 38-50 cm, þ.e. 8-20 ára fiskur. Lengdardreifing er nokkuð mismunandi eftir svæðum, og oftast eru margir árgangar í aflanum. Nýliðun virðist nokkuð jöfn frá ári til árs, því einstaka árgangar skera sig ekki úr. Gulllaxinn við Ísland vex hraðar og verður stærri en gulllax á öðrum hafsvæðum. Akthelia. Akthelia ehf. er sprotafyrirtæki sem byggir á niðurstöðum rannsókna við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Félagið vinnur að þróun lyfja gegn bakteríusýkingum. Lyf þessi verka á annan hátt en hefðbundin sýklalyf og yrði því um að ræða nýja meðferð gegn sýkingum. Lyfin gætu meðal annars reynst gagnleg gegn sýklastofnum sem eru ónæmir fyrir algengum sýklalyfjum. Biocule. Biocule eða Lífeind er íslenskt líftæknifyrirtæki var stofnað árið 2001. Lífeind er rannsóknar- og þróunarfyrirtæki í líf- og erfðatækni sem þróar og markaðsetur nýjar aðferðir til að einangra beint, úr flóknum erfðaefnissýnum, DNA sameindir með óeðlilega byggingu. Markmið félagsins er að finna öfluga tækni til að einfalda rannsóknir á flóknum erfðasjúkdómum á Íslandi. Unnið er að markaðsetningu á alþjóðlegum vettvangi þar sem aðferðir félagsins hafa mun víðtækara notagildi. Biogels. Biogels eða Lífhlaup er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1998 og vinnur aðallega að þróun lyfjasamsetningar til meðferðar á munnangri og vinnslu á bakteríudrepandi lípíði. Ásamt því er unnið að þróun filma við lyfjagjöf og er samvinnuverkefni með nokkrum fyrirtækjum og háskólum í Evrópu. Loðskinn. Loðskinn eða loðfeldur er það hár sem er á skinni dýra (og ekki á mönnum). Það getur verið stutt eða langt; lengd loðfeldsins veltur á tegund dýrsins. Spendýr sem eru ekki með loðfeld eru stundum sagðar vera „hárlausar“, til dæmis eru sumar hundategundir hárlausar. Loðskinn er notað af mönnum til að gera föt. Notkun loðskinna er umdeild; eru frömuðir dýravelferðar mótfallnir því að drepa dýr til þess að vinna loðskinn. Meira en 40 milljónir dýra eru drepnar árlega vegna loðskinnanna, þar af eru 30 milljónir loðskinnarækt. EnCode. EnCode eða Íslenskar lyfjarannsóknir ehf. er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1999. Það getur á grunni rannsókna á þeim erfðaþáttum sem hafa áhrif á lyfjasvörun meðal annars boðið viðskiptavinum upp á að skipuleggja klínískar lyfjarannsóknir, ákvarðað lyfjaskammta út frá mismunandi arfgerð sjúklinga og styrkt stöðu lyfja sem þegar eru komin á markað með þróun lyfjaerfðafræðilegra prófa sem spá fyrir um lyfjasvörun einstaklinga. Encode er einkafyrirtæki stofnað af Þór Sigþórsson árið 1999. Encode er frumkvöðull á sínu sviði á Íslandi sem fyrsta CRO (Contract research organisation) og veitir ítarlegar klínískar rannsóknir og þróunarþjónustu til lyfjaiðnaðar. Encode vinnur náið með Decode en árið 2000 varð Encode dótturfyrirtæki Decode. Fiskey. Fiskey eða Fiskeldi Eyjafjarðar er íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki sem var stofnað á Hjalteyri við Eyjafjörð 28. maí 1987 og voru stofnendur sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar. Rannsóknir sneru að umhverfisþáttum sjávar í Eyjafirði eins og hitastigi, seltu og súrefni ásamt tegundasamsetningu og dreifingu dýrasvifs í firðinum. Gerð var athugun með smálúðu og þegar grunnrannsóknum lauk 1988 var tekin ákvörðun um að hefja framleiðslu lúðuseiða. Markmiðið var að þróa aðferðir til fjöldaframleðslu á seiðum og vera með fyrstu fyrirtækjum í heiminum til að markaðssetja eldislúðu. Árið 1990 voru fyrstu seiðin framleidd og félagið varð fyrst í heiminum ti að framleiða lúðuseiði í eldisstöð. Fyritækið hefur unnið ýmis verðlaun fyrir nýsköpun og uppbygging þess hefur verið jöfn og stöðug. Í dag eru um 25 seiðastöðvar í Noregi, Skotlandi og Kanada. Fiskey hefur verið í nánu samstarfi við Matís þar sem aðallega hefur verið unnið með bætibakteríur. Haliotis. Haliotis er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2000 með áherslu á framleiðslu fræja fyrir sáningu bújarða. Í dag fást þeir líka við vinnslu á rauðum sæeyrum í markaðsstærð. Fyrirtækið er staðsett á Norðurlandi en aðstæður þar eru mjög hagstæðar fyrir slíka framleiðslu. Grafísk hönnun. Grafísk hönnun er fag eða aðferð til að setja fram upplýsingar, þekkingu, áróður og þess háttar. Ýmsar aðferðir eru notaðir til að skapa og sameina tákn, myndir og/eða orð til þess að skapa sjónræna framsetningu hugmynda og tilkynninga. Grafískir hönnuðir geta notað prentlista-, myndlista- og síðuskipulagstækni til að framleiða verk. Aðferðum grafískrar hönnunar er meðal annars beitt við hönnun á tímaritum, auglýsingum, umbúðum og vefsíðum. Fagfélag grafískra hönnuða á Íslandi er Félag íslenskra teiknara. IceProtein. IceProtein er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2005. Fyrirtækið er bæði hluti af matvælamarkaði og heilbrigðismarkaði en það notar fiskinn sjálfan fyrir fiskiðnað og svo próteinin fyrir heilbrigðismarkaðinn. Markmið fyrirtækisins er að framleiða og selja hágæða prótein úr fiskafurðum. Ludvig Holm-Olsen. Ludvig Holm-Olsen (9. júní 1914 – 10. júní 1990) var norskur textafræðingur, og prófessor við Háskólann í Björgvin. Hann var rektor þar 1960–1965 og átti þá mikinn þátt í stækkun háskólans. Hann er einkum þekktur fyrir rannsóknir sínar á Konungs skuggsjá og Sverris sögu. Æviágrip. Foreldrar: Peter Olsen (1866–1950) skipstjóri, og kona hans Louise Holm (1885–1969). Ludvig Holm-Olsen fæddist í Tromøy (nú Arendal) á Austur-Ögðum. Hann varð stúdent frá Frogner-skóla í Osló 1932, og cand. mag. frá Háskólanum í Osló 1940, með norsku sem aðalgrein. Hann var styrkþegi í norrænni textafræði við Háskólann í Osló 1945–1949, og varð síðan dósent þar. Á árunum 1941–1949 vann hann að tæmandi skrá um orðaforðann í Konungs skuggsjá, fyrir fornnorska orðabók (Gammelnorsk ordboksverk). Liður í því var útgáfa hans á aðalhandriti Konungs skuggsjár, 1945, ásamt brotum úr norskum handritum þess verks, og úrvali leshátta úr íslenskum handritum. Doktorsritgerð hans (1952) fjallaði um handrit Konungs skuggsjár. Þar lagði hann grunninn að vísindalegri útgáfu verksins, sem hann vann lengi að, en tókst ekki að ljúka. Sýnishorn kom út 1970. Hann tók að sér að ljúka útgáfu á handritinu AM 81a fol. (Skálholtsbók yngstu), sem Albert Kjær hóf árið 1910, og gaf Ludvig út tvö síðustu heftin, 1947 og 1986. Í þessu handriti eru Sverris saga, Böglunga sögur og Hákonar saga Hákonarsonar. Í tengslum við það sökkti hann sér niður í rannsóknir á Sverris sögu og birti um söguna merka ritgerð: "Studier i Sverres saga", 1953. Á efri árum sínum vann hann að því að kynna hina fornu bókmenningu fyrir almenningi, og má þar t.d. nefna bókina "Lys over norrøn kultur", sem er mjög gott yfirlit um sögu norrænna fræða í Noregi. Ludvig Holm-Olsen var prófessor í norrænni textafræði við Háskólann í Björgvin 1953–1981. Sem deildarforseti 1956–1958 og rektor 1960–1965 þurfti hann að helga sig stjórnunarstörfum og áætlanagerð fyrir stofnun sem var í örum vexti. Til að efla sína eigin deild lagði hann t.d. áherslu á að efla bókasafnið, og útvegði dýrmætt bókasafn föðurbróður síns, Magnúsar Olsen, og ljósmyndir af norskum miðaldahandritum í öðrum söfnum. Hann var ritstjóri tímaritsins Maal og minne 1951–1984 og var í ritstjórn Arkiv för nordisk filologi 1963–1990. Hann varð félagi í Norsku vísindaakademíunni 1953, var sæmdur St. Ólafs-orðunni 1967 og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Í tilefni af sjötugsafmælinu var gefið út heiðursrit: "Festskrift til Ludvig Holm-Olsen på hans 70-årsdag den 9. juni 1984", með greinum fjölmargra fræðimanna. Þar er einnig ritaskrá afmælisbarnsins. Ludvig Holm-Olsen giftist 1941, kona hans var Elsa Dorothea Triseth (f. 1913). Íslensk fjallagrös. Íslensk fjallagrös ehf er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1993 en síðan árið 2001 hafa Prokaria ehf og Líf hf verið eigendur fyrirtækisins. Fyrirtækið framleiðir heilsuvörur úr íslenskum fjallagrösum "(Cetraria islandica)" sem safnað er í óbyggðum Íslands og flytur út vörur til meginlands Evrópu. Rannsóknir á fjallagrösum (in vitro) benda til að virku efnin, fjölsykrur og fléttusýrur mýki slímhúð í hálsi og maga og auki líkamlegan styrk, andlegan og líkamlegan kraft og almenna vellíðan. Markmið fyrirtækisins er að nýta auðlindir Íslands á sjálfbæran hátt og þróa og framleiða vörur sem eru hentugar og aðgengilega fyrir fólk. Íslenskur Kúffiskur. Íslenskur kúffiskur er íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki sem var stofnað árið 1996. Í byrjun var unnið við vinnslu á kúfskel og seinna voru keyptir bátar svo fyrirtækið sá bæði um veiðar og vinnslu. Framleitt er kúffiskkjöt til Bandaríkjanna, sem er helsti markaður fisksins, Færeyja og hér heima. Einnig hefur verið framleiðsla á þykkni. Kúffiskur er notaður í matvælaiðnaði og þá helst í súpuframleiðslu. Indriðahús. Indriðahús er friðað timburhús á Akureyri að Aðalstræti 66. Það var barnaskóli á árunum 1872-1877. Húsið reisti Grímur Grímsson Laxdal árið 1842. Umbúðir. Umbúðir eða pökkun er það sem er notað til að umlykja og vernda vörur svo að þær geti verið fluttar tryggilega. Umbúðir vernda vöru í skiptum, geymslu, sölu og notkun. Þær þurfa að verið hannaðar til að uppfylla þarfir vörunnar og merkingar eru mikilvægir þegar maður er að hanna umbúðir. Merkingar eiga oft að fara eftir staðbundnum lögum. Tákn oft á umbúðum. Það eru oft mörg tákn og upplýsingar á umbúðum. Til dæmis eru strikamerki, UPC-númer, vörumerki, upplýsingar um endurvinnslu, upplýsingar um næringu fyrir matavörur og upplýsingar um flutning öll yfirleitt á umbúðum. Kerecis. Kerecis er þróunarfyrirtæki á sviði lækningarvara. Fyrirtækið vinnur m.a.a að þróun á nýrri tegund lækningavara sem hjálpa til við endurnýjun vefja. LindGen. LindGen er fyrirtæki í eigu bandarísku rannsónastofnunarinnar Cold Spring Harbor Laboratories. LindGen vinnur t.d. að sérhæfðum rannsóknum í erfðarannsóknum þar sem notaðar eru örflögur við meingenaleit og upplýsingaöflun um erfðamengi mannsins. Línuhönnun. Línuhönnun er verkfræðistofa sem einnig hefur um árabil starfrækt fjölhæfa rannsóknastofu sem veitir viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf þegar kemur að úrlausnum á margvíslegum verkefnum. Rannsóknastofan sinnir verkefnum á sviði jarðtækni, umhverfisvöktunar, steinsteypurannsókna og fleira. Línuhönnun starfar skv. vottuðu gæðastjórnunarkerfi (ISO 9001) og umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001). Vara. Vara er það sem er framleitt með vinnslu, það er að segja það sem kemur út úr framleiðsluaðferð. Í viðskiptum eru vörur seldar og keyptar; vörur eru keyptar af neytendum eða öðrum fyrirtækjum. Vörur er hannaðar til að uppfylla kröfur og þarfir markaðs. Í framleiðslu eru vörur keyptar sem hráefni og seldar sem fullgerðar vörur. MentisCura. Mentis Cura er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2004. Í fyrstu einbeitti fyrirtækið sér að því að þróa aðferðir til að greina heilabilanir og sérstök áhersla var lögð á Alzheimer. Einnig er komin af stað þróun magnbundinna aðferða til þess að aðstoða við greiningu á ofvirkni í börnum og á frumstigi eru rannsóknir sem snúa að greiningu á þunglyndi. Lýsi (fyrirtæki). Lýsi er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1938 og byggir á gríðarmikilli þekkingu sem safnast hefur í áranna rás. Frá upphafi hefur starfsemin byggst á framleiðslu þorsklýsis en nú hafa bæst við þorsklýsi, omega-3 lýsi, laxalýsi, túnfisklýsi, hákarlalýsi, loðnulýsi, skvalen og ýmsar mjöltegundir. Afurðir fást úr íslenskum sjó en fyrirtækið byggir einning á hráefni úr öðrum höfum og nýtur mikilvægra sambanda við sjávarútvegsfyrirtæki í mörgum löndum. LÝSI leggur mikla áherslu á gæði og gæðastjórnun þegar kemur að framleðislu vörunnar enda er varan heilsuvara, ætluð til manneldis. Árið 2007 öðlaðist LÝSI GMP leyfi frá Lyfjaeftirliti ríkisins til að framleiða lyf og hlaut einnig Útflutningsverðlaun forseta Íslands fyrir árnagur í sölu og markaðsmálum, framsýni í vöruþróun og eflingu þekkingar og færni á sínu sviði. NimbleGen. NimbleGen er fyrirtæki sem vinnur með DNA. Með því að skoða genamengin, kynnast þau betur hvernig þau starfa og geta þá unnið með genatjáningu og fleira í þeim dúr. NorðurÍs. NorðurÍs hf. er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1999 af Norðri ehf. Það fyrirtæki er í eigu vísindamanna og sérfræðinga sem á undanförnum árum hafa unnið að rannsóknum á kuldavirkum ensímum og hvernig hægt er að nýta ensímin í iðnaði. Meðal þess sem NorðurÍs hefur þróað eru aðferðir til að framleiða NorðurBragð. NorðurBragð er frosið þykkni sem kallar fram ferskt og gott sjávarbragð. NorðurBragð er unnið úr sjávarfangi og er algjörlega án íblöndunarefna. Það hentar í alla rétti þar sem kalla á fram sjávarbragð. Notkunarmöguleikarnir takmarkast eingöngu af hugmyndaauðgi matreiðslumeistarans. Oculis. Oculis Inc. er fyrirtæki sem var stofnað árið 2003, tilgangur fyrirtækisins er að búa til lyf sem verka sértækt á augað, sérstaklega við sjúkdómum í aftari hluta augans. Búin hafa verið til lípíðsambönd í augnlæknalyf. Orf Líftækni. ORF líftækni er íslenskt hlutafélag stofnað árið 2000. Fyrirtækið framleiðir sérvirk prótein fyrir til rannsókna í heilbrigðisvísindum og hefur þróað nýstárlega aðferð, Orfeus™. Kerfið byggir á því að nýta fræ byggplöntunnar sem smiðju próteinanna. Með þessu kerfi er hægt að lækka framleiðslukostnað próteinanna verulega og auka gæði þeirra. ORF Líftækni hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði í heiminum. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi á heimsvísu á sínu sviði í framleiðslu verðmætra sérvirkra próteina. Áhersla er lögð á framleiðslu og sölu á svokölluðum vaxtarþáttum og hefur fyrirtækið meira en eitt hundrað vaxtarþætti í framleiðslu á mismunandi stigum. Fyrirtækið hlaut Nýsköpunarverðlaunin árið 2008. Nafn fyrirtækisins vísar til opins lesramma (e. "Open Reading F'"rame") sem fyrirtækið notar í framleiðslu sinni. Primex. Primex er fyritæki sem hóf starfsemi sína árið 1997 og er í dag leiðandi í heiminum í framleiðslu, þróun og sölu kítinafurða. Kítínverksmiðjan sjálf og bragðefnavinnsla er á Siglufirði en þróunardeild er í Reykjavík. Primex ehf er fyrirtæki í sjávarlíftækni sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á einstaklega tæru kítini og kítósani. Markmið fyrirtækisins er að kynna og markaðssetja vísindalega áreiðanlegt og nýstárlegt efni til nota í fæðubótarefni, snyrtivörur, matvæli og sem hjálparefni í lyfja- og lækningavörur. Prokaria. Prokaria er líftæknideild Matís og var stofnað var árið 1998. Fyrirtækið vinnur að þróun afurða fyrir matvæla-, efna-, heilsu-, og lyfjaiðnað sem byggir á aðferðafræði líftækni, örverufræði og sameindalíffræði. Strax í upphafi var lögð áhersla á hitakærar örverur og ensím úr þeim og í dag er mikið af starfsemi deildarinnar byggð á áralöngum rannsóknum Prokaria á ensímum sem einangruð hafa verið úr hitakærum örverum. Stór þáttur í starfseminni felst í skimun og könnun á nýjum ensímum úr lífverum sem lifa við jaðarskilyrði lífs, háan hita, mikinn kulda, lágt sýrustig og svo framvegis til nota í iðnaði. Erfðagreiningasvið sem beytir erfðagreiningum í kynbótasafni í rannsóknum á stofnerfðafræði dýra var svo bætt við Prokaria árið 2004. Rannsóknaþjónustan Sýni. Rannsóknaþjónustan Sýni býður upp á ráðgjöf og þjónustu við matvælafyrirtæki og fóðurframleiðendur. Boðið er upp á örverumælingar, til dæmis vegna mats á ferskleika, efnagreiningar vegna krafna um næringargildismerkingar, aðstoð við uppsetningu og viðhald innra eftirlits, hreinlætiseftirlit og ýmis konar fræðslu og námskeið fyrir starfsfólk í matvæla- og fóðuriðnaði. Á prófunarstofu örverugreininga er boðið upp á örverugreiningar fyrir matvæla- og fóðuriðnað. Mælingarnar er meðal annars hægt að nota til að meta ferskleika hráefni, áætla geymsluþol og meta hreinlæti við meðhöndlun matvæla og persónulegt hreinlæti. Fyrirtækið starfrækir einu einkareknu prófunarstofuna á þessu sviði sem fengið hefur faggildingu skv. IST EN ISO/IEC 17025 staðlinum fyrir algengustu efna- og örveruprófanir. Saga Medica. SagaMedica er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2000 og þróar og framleiðir jurtir úr íslenskri náttúru sem hafa lækningamátt. Forsenda starfseminnar er sú tiltrú að heimsmarkaður fyrir náttúrvörur fari vaxandi á næstu árum sérstaklega á þeim vörum sem grundvallast á gæðum hráefnis og framleiðslu og vísindalegum rannsóknum. Fyrirtækið notar ætihvönn í vörur sínar sem markaðsettar eru bæði hér heima og erlendis. Nýlega hafa náttúrulyf eins og Jóhannesarjurt verið sett á markað hér á landi en sífellt er verið að gera rannsóknir á virkni nýrra jurta. Íslensk löggjöf greinir náttúruvörur og náttúrulyf frá lyfjum. Náttúruvörur innihalda náttúruefni sem annað hvort eru fæðubótarefni eða teljast á annan hátt geta haft hollustugildi. Fæðubótarefni eru hluti af flokknum náttúruvörum og eru þær vörutegundir sem innihalda aðallega vítamín og steinefni. Sero. Sero er sjávarlíftæknifyrirtæki og hefur starfað síðan 1999 við þróun ýmissa gerða bragðkjarna fyrir matvælaiðnað. Ensím eru notuð til að brjóta niður prótein við framleiðslu sjávarbragðefnanna. Nú er unnið að því að þróa frekari bragðefni og bragðhvata úr þangmjöli til manneldis og koma því á framfæri sem íslensku lífrænt vottuðu bragðefni og bragðhvata til matvælaframleiðslu. Fyrirtækið hefur einnig í samvinnu við Háskólann á Akureyri þróað aðferðir til að vinna verðmætan próteinvökva úr grásleppu. Stofnfiskur. Stofnfiskur er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1991 er vísinda- og þekkingarfyrirtæki á sviði fiskeldis, einkum er varðar kynbætur fiska. Upphaflega var mest áhersla lögð á kynbætur fyrir hafbeit en samfara því var hafinn undirbúningur að kynbótum fyrir laxeldi með vali á stofnum. Síðustu árin hefur mest áhersla verið lögð á sölu hrogna og ráðgjafarþjónustu til laxeldis. Fyrirtækið stefnir að því að geta ávallt boðið fiskeldi góðan efnivið sem tekur framförum á hverju ári. Áhersla er lögð á að nýta til fullnustu þá tækni að geta stýrt hrygningartíma og er þannig komið til móts við þarfir hverrar eldisstöðvar með tilliti til afhendingartíma á hrognum. Það eykur afköst stöðvanna, lækkar seiðaverð og skilar betri árangri í eldi. Stofnfiskur er stærsti framleiðandi á Íslandi á laxahrognum. Fyrirtækið er leiðandi í kynbótarannsóknum fyrir fiskeldi en býður einnig upp á hrognaframleiðslu, kynbætur fyrir fiskeldi, rannsóknir og ráðgjöf.er íslenskt fyrirtæki sem er stærsti framleiðandi á Íslandi á laxahrognum. ValaMed. ValaMed er fyrirtæki stofnað árið 2007 með því markmiði að gera lyfjameðferð við krabbameini hnitmiðaðri með því að gera lyfjanæmispróf á krabbameinsfrumum viðkomandi sjúklings fyrir meðferðina. Aðferðin er ekki ný, en er í örum vexti í löndunum umhverfis okkur og eðlilegt að bjóða hana Íslendingum. Jafnframt því að bæta meðferð er verið að kynna til sögunnar það viðhorf, að gera beri læknismeðferð einstaklingsbundnari. ValaMed mun hafa þetta að leiðarljósi. Ræktun krabbameinsfrumna er þjónusturannsókn í samvinnu við krabbameinslækni og skurðlækni sjúklings, þegar það á við. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir fram á hvaða lyf eru mjög ólíkleg til að gagnast í meðferðinni. Í hverri rannsókn eru skoðuð viðbrögð krabbameinsfrumna við 5-10 bestu lyfjum fyrir þá tegund krabbameins sem viðkomandi hefur. Niðurstaðan er ekki bindandi á nokkurn hátt fyrir krabbameinslækninn, einungis ein af mörgum leiðum sem nothæfar eru til að finna bestu lyfjameðferðina. Þörungaverksmiðjan. Þörungaverksmiðjan er íslensk verksmiðja sem var stofnuð árið 1975 og er sú eina sinnar tegundar á landinu. Fyrirtækið er mikið mannvirki og er framleiðsla þess lífrænt vottuð. Verksmiðjan nýtir þörungagróður á grunnsævi Breiðafjarðar og jarðhitann til að þurrka þang- og þaramjöl. Þangið er skorið með fljótandi slátturvélum og flutt í netum til verksmiðjunnar. Verksmiðjan er stærsti einstaki vinnuveitandinn í Reykhólahreppi og starfa þar um 20 manns. Rauð líftækni. Rauð líftækni er líftækni sem snýst um framleiðslu lyfja og aðra beitingu líftæknilegra aðferða í heilbrigðisvísindum. Sem dæmi mætti nefna framleiðslu insúlíns í erfðabreyttum bakteríum, skimun eftir nýjum sýklalyfjum í náttúrlegum þýðum baktería og annarra lífvera, og þróun lækninga sem byggja á breytingum í erfðamengi sjúklings (genalækningar). Sem dæmi um íslenskt fyrirtæki sem byggir starfsemi sína á rauðri líftækni mætti nefna Genís, en innan þess er unnið að þróun á notkun kítíns við bæklunarskurðlækningar með ígræðslu í beinvef. Kítín er einangrað úr rækjuskel og er fjölsykra. Efnið á að koma í veg fyrir að örvefur myndist og í staðinn eðlilegur vefur. Einnig vinnur fyrirtækið að þróun lyfja við mörgum alvarlegustu sjúkdómum samtímans eins og hjartaáföllum og blóðtappamyndunum. Þá eru erfðarannsóknir notaðar til að komast að líffræðilegum orsökum og lyf skilgreind út frá því. Græn líftækni. Græn líftækni fjallar um notkun líftækni í landbúnaði. Hér má nefna dæmi á borð við kynbætur plöntuyrkja í frumuræktum og erfðabreytingu plöntuyrkja til að auka þol þeirra gegn ákveðnu umhverfisáreiti (t.d. þurrki eða ágangi skordýra). Einnig er hægt að nota erfðabreytingu til framleiðniaukningar í landbúnaði. Með erfðatækni er hægt að flytja erfðaefni úr einni lífveru yfir í aðra sem verður þá erfðabreytt. Meðal algengra erfðabreyttra nytjaplantna má nefna ýmis yrki af tómötum og maís. Þannig er fyrirtækjum kleift að lækka framleiðslukostnað. Það þýðir að vörur verða ódýrari og hægt að svara eftirspurn með fljótari hætti en áður. Ekki er mikið um einhvers konar erfðabreytingar á jurtum eða matvælum á Íslandi og ekki hafa verið sett nein sérstök lög um innflutning þeirra. Bandaríkin standa fremst hvað þetta varðar. Íslenskir bændur hafa frekar staðið að hefðbundnum kynbótum jurta. Kynbætur. Kynbætur er þegar stýrð blöndun erfðaefnis mikið skyldra lífvera á sér stað yfir margar kynslóðir. Grá líftækni. Grá líftækni er líftækni sem fjallar um förgun úrgangs, svo sem skólps og sorps, með aðstoð lífvera. Tveggja þrepa skólphreinsun, þar sem stýrt bakteríuþýði brýtur niður ýmis næringarefni í skólpi, er dæmi um gráa líftækni. Ísland hefur staðið framarlega í framleiðslu metans úr sorpi. Fyrirtæki sækjast í nýjar leiðir við förgun sorps og hafa einnig hafið moltugerð úr sorpi. Þá eru hitakærar örverur notaðar við niðurbrot lífræns úrgangs við loftháðar aðstæður. Universal Product Code. Universal Product Code (e. "alhliða vörunúmer") er tegund strikamerkis sem notuð er víða í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi til að fylgjast með vörum í verslunum. Kerfið var fundið upp árið 1970 af George Laurer sem starfaði hjá IBM og var útkoma rannsóknarverkefnis. UPC-kerfið var tekið í notkun árið 1973. Skannað var sá fyrsta vara með UPC-númeri á kassa í stórmarkaði í Bandaríkjunum 26. júní 1974 (enda þótt hefðu nokkrar verslanir UPC-skannar á bakvið verslunina á undan þessu). UPC-númer samanstendur af tólf tölum, það eru engir bókstafir eða rittákn í kóðunni. Það eru ýmsar tegundir UPC, viðbótarbókstafur eftir á bókstöfunum "UPC" benda á númerstegund. Til dæmis er UPC-A almennasta tegund UPC. George J. Laurer. George J. Laurer (fæddist 23. september 1925) þróaði Universal Product Code-kerfið árið 1973. Hann var verkfræðingur hjá IBM og var bað til að finna upp mynstrið notað fyrir Universal Product Code. Hann hætti störfum árið 1987 og hann heldur 25 einkaleyfi. Hann býr núna í Norður-Karólínu. Skanni. Skanni er inntakstæki sem skannar myndir, prentaðan eða handskrifaðan texta eða hluti og umbreytir þeim í stafrænum myndum. Skannar eru notaðir í heimilum og skrifstofum til að setja á stafrænt form myndir og skjöl og setja þær í skráageymslu. Er líka hægt að skanna hluti með þrívíddarskönnum fyrir iðnhönnun og ýmislegt. Fyrsti skanni var fundinn upp árið 1957 af Russell Kirsch og var tromluskanni. Nútímaskannar nota ljósflögur (CCD) til að ná myndum. Með hugbúnaði er hægt að umbreyta myndunum í breytanlegum texta, þessi aðferð kallast ljóskennsl stafa (OCR). Margir skannar eru hannaðir til að skanna A4 og A3 pappírsstærðirnar. Margir skannar geta líka skannað skyggnur með sérhæfðu millistykki. Í dag eru sjálfstæðir skannar sjaldgæfari, yfirleitt eru skannar hluti fjölnotatækja. Sacharias Jansen. Sacharias Jansen (1588 – 1628) var hollenskur sjóntækjafræðingur best þekktur fyrir að finna upp fyrstu smásjána. Hann hefur einnig verið orðaður við fyrsta sjónaukann. Jansen, var samhliða sjóntækjafræðinni farandsölumaður hann var ekki allur þar sem hann var séður og var talin viðriðin við ýmsar falsanir á ferlinum. Það er almennt talið að Jansen hafi búið til fyrstu a almennu smásjána árið 1595. En þar sem Jansen var afskaplega ungur á þessum tíma þá er talið víst að faðir hans hafi verið hin raunverulegi uppfinningarmaður smásjárinnar. Fyrsta smásjáinn var fær um að stækka 9x og voru gæðin ekki hin ákjósanlegustu. Þó svo að þessi fyrsta smásjá hafi ekki hlotið neinn fram svona fyrst um sinn sem tæki fyrir vísindamenn, þá flaug fiskisagan og hugmyndafræðin að baki smásjárinnar dreifðist um alla Evrópu. Það leiða ekki á löngu þar til tækjasmiðir í Evrópu voru farnir að smíða mun fullkomnari og betri smásjár. Fjölnotatæki. HP Photosmart C3180 fjölnotatæki til notkunar á heimilum. Fjölnotatæki geta yfirleitt prentað ljósmyndir beint úr minniskorti með minniskortalesara eða USB-tengingu við ljósmyndavél. Hlutverk ljósritunarvéla næst með skanna sem getur prentað beint úr prentaranum. Þessi skanni getur líka sett á stafrænt form myndir til notkunar á tölvu. Fjölnotatæki sem geta sent símbréf tengjast beint við símalínu. Fjölnotatæki eru fáanleg í mörgum stærðum til ólíkra nota, til dæmis eru fjölnotatæki sem notuð eru á skrifstofu almennt stór og hönnuð til þyngri notkunar. Almennir geislaprentarar eru yfirleitt hannaðir til heimilisnota en almennir bleksprautur eru minni og hannaðir til léttari notkunar. Sammala.is. Sammala.is var undirskriftasöfnun áhugamanna til stuðning umsóknar Íslands um inngöngu í ESB í aðdraganda kosninga 2009. Universal Serial Bus. Universal Serial Bus (USB) er í tölvufræði tengibraut til að tengja jaðartæki við tölvur. USB-tengibraut var hönnuð til að auðvelda tengingu tækja við tölvur og gera gangþjál skipti möguleg (það er að segja notandi þarf ekki að endurræsa tölvuna áður en hann tengir tækið og eftir að hann aftengir það). USB-tækni er alhliða og alls staðar nálæg. Hún getur tengt allar tegundir tækja, eins og tölvumýs, lyklaborð, lófatölvur, leikjastýri, stýripinni, skanna, stafrænar ljósmyndavélar, prentara, fjölspilara, vasaminni og harða diska. Fyrir mörg tæki er USB stöðluð tenging. Frá og með 2008 eru 2 milljarðar USB-tækja seldir árlega og 6 milljarðar hafa verið seldir fram að þessu. USB-staðallinn var kynntur í fyrsta sinn árið 1994. Papýrus. Papýrus (úr grísku: πάπυρος "papyros") eru þunn blöð, lík pappír (sem dregur nafn sitt af honum), unnin úr stönglum papýrusreyrs ("Cyperus papyrus") sem í fornöld var algeng votlendisplanta í Nílarósum. Forn-Egyptar notuðu þennan reyr til skipasmíða, til að vefa úr mottur og til að framleiða papýrus. Papýrus var aðalritmiðill Egypta og notaður bæði fyrir stutt skilaboð og áletranir og fyrir lengri bókmenntaverk og skrár. Lengri papýrushandritum var rúllað upp á kefli, en papýrusinn skemmist ef hann er brotinn saman. Papýrusinn er einfaldur og ódýr í framleiðslu þar sem nóg er af reyr, en hann er aftur á móti viðkvæmur fyrir bæði of miklum raka og of miklum þurrki. Papýrus og bókfell voru notuð sem ritmiðlar samhliða í eitt og hálft árþúsund, en á miðöldum varð bókfellið ofan á. Vatnsafl. Vatnsafl (eða "vatnsorka") er orka unnin úr hreyfiorku eða stöðuorku vatns. Vatn er orkumiðill og vatnsorka er sú orka sem vatn býr yfir á vissum stað í náttúrulegri hringrás sinni, en mikil orka felst í vatnsföllum. Vatn sem rennur til sjávar ber orku sem fólgin er í falli þess. Vatnsafl er virkjað til þess að framleiða rafmagn. Það er gert þannig að vatnið er látið falla, og þungi þess og fallhæð nýtt til þess að knýja túrbínur. Því meira vatnsmagn og fallhæð, því meiri orka. Gríðarleg orka leynist í vatnsföllum og er hún nýtt til að framleiða rafmagn út um víða veröld. Íslendingar hafa verið duglegir í að nýta sér þá gríðarlegu möguleika sem þeir hafa í virkjun vatnsfalla og eru með fremstu þjóðum á því sviði. Í kjölfar mikilla umræðna um hækkun hitastigs jarðar og vakningar í umhverfismálum, hafa kröfur um gæði orkugjafa aukist. Orka er frumskilyrði fyrir því að nútíma samfélög geti þrifist. Stanslaust er gerð krafa til meiri orku og er þróun á beislun orkunnar í sífelldri framför. Orkugjafa má flokka sem endurnýjanlega- og óendurnýjanlega orkugjafa, Vatnsafl flokkast með endurnýjanlegum orkugjöfum. Dæmi um annars konar endurnýjanlega orkugjafa en vatnsafl má nefna jarðvarma og vindorku. Hlutfall vatnsorku af heildar orkunotkun Íslendinga hefur aukist mikið síðustu ár. Hringrás vatnsins er knúin af sólarorku og í miðri hringrásinni er vatnið látið framleiða rafmagn til ýmissa nota. Vatnsafl er í raun óbein sólarorka. Sólin veldur uppgufun og hluti af vatninu rignir niður og staldrar við ofar en við upphaf ferðar. Vatnsafl er nýtingarmesti endurnýjanlegi orkugjafinn en úr vatnsorkunni fást 92% af allri þeirri raforkuframleiðslu sem á annað borð er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Vatnsafl virkjað. Vatnsafl er virkjað og breytt í rafmagn í vatnsaflsvirkjunum. Með vatnsaflsvirkjun er vatnsfallið nýtt og er fallhæðin og þungi vatnsins notaður til þess að snúa túrbínu og framleiða rafmagn. Meiri fallhæð og meira vatnsmagn gefa meira afl. Þegar orka er unnin úr vatnsfallinu er verið að breyta stöðuorku í hreyfiorku. Sú orka sem fæst úr vatnsföllum er mæld í wöttum(w) og orkumagnið ræðst að stærstum hluta af því vatnsmagni sem er á ferðinni og eins af fallhæð vatnsins. Einföld jafna fyrir orkuna sem fæst er P=kQH, þar sem P stendur fyrir aflið, k er fasti, Q er vatnsmagn í lítrum/sek og H stendur fyrir fallhæð. Sanxia túrbínan í Þriggja gljúfra stíflunni. Vatn rennur í þrýstivatnspípunum inn í rafstöðina og fer framhjá stórum lokum sem hægt er að opna og loka snögglega. Hreyfiorkan er beisluð með því að láta vatnið snúa hverfilhjóli. Við það snýst segulmagnað hjól í rafalanum. Utan með því eru koparvafningar og við hreyfingu segulsins fer rafstraumur að renna um vafningana. Rafstraumurinn er síðan leiddur um háspennulínur út í raforkukerfið. Uppistöðu lónin eru tilkomin vegna þess að rafmagn er ekki hægt að geyma, það verður að nota um leið og það er framleitt. Á Íslandi er notað meira rafmagn á veturna en á sumrin, en rennsli áa er mest á sumrin og minnst á veturna. Til þess að tryggja næga orku á veturna eru ár því stíflaðar og mynduð lón þar sem vatni er safnað á sumrin og það geymt til vetrarins þegar því er miðlað eftir þörfum til virkjana. Það fer eftir veðurfari hversu mikið rafmagn er hægt að framleiða. Þegar vel árar í vatnsbúskap er hægt að framleiða rafmagn umfram það sem mannvirkjunum er ætlað að skila árlega. Þetta rafmagn er selt á lægra verði til fyrirtækja gegn því að skerða megi afhendingu þegar illa árar í vatnabúskapnum. Ótryggt rafmagn er einkum selt til þeirra sem annars nota innflutt eldsneyti til hitunar. Dæmi um slíkt eru fiskimjölsverksmiðjur en þær geta skipt yfir í olíukyndingu á bræðsluofnum ef rafmagnið þverr. Vatnsafl er eina endurnýjanlega orkan sem nú þegar framleiðir stóran hluta af orku mannkyns á samkeppnishæfu verði. Framleiðir um 17% raforku í heiminum, en yfir 90% af endurnýjanlegri orkuframleiðslu heims. Uppsett afl er sú tala sem virkjunin getur að hámarki framleitt. Raforkuframleiðsla virkjana með sama uppsetta aflið getur verið afar mismunandi. 100 MW virkjun sem er á fullum afköstum allt árið = 8765 klukkutíma framleiðir þá 876.000 MWh. Afköstin er þó venjulega mun minni oft á bilinu 6-7000 klst. á ári. Afl: 0,66 • 1000 kg • 9,82 m/s² • 185,3 m = 1.200.000 W = 1.200 kW. Talsvert afl tapast alltaf og uppgefið afl Rjúkandavirkjunar er 900 kW Saga vatnsaflsvirkjana. Maðurinn hefur nýtt sér vatnsafl í ýmsum formum frá örófi alda. Grikkir voru farnir að nota vatnshjólið fyrir 2000 árum. Vatnsorka var mikið notuð fyrr á öldum til mölunar, sögunar og vatnsmiðlunar. Saga vatnsaflsvirkjana á Norðurlöndum er yfir 700 ára gömul. Tækninni hefur fleygt fram, í byrjun var notast við vatnsmyllur og kraftur vatnsins nýttur í að mala korn. Um aldamótin 1900 fóru menn svo að framleiða rafmagn með vatnsafli. Á Íslandi. Árið 1904 var fyrsta vatnsaflsvirkjunin sett upp á Íslandi. Jóhannes J. Reykdal réðst í að koma þessu stórvirki upp einn og óstuddur og Hafnarfjörður varð fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi. Fyrsti rafallinn var 9 kW 230 volta rakstraumsrafall frá Frognerkilens Fabrik í Ósló. Hann snérist 620 snún. á mín. og vó 1,5 tonn. Í kjölfar virkjunarinnar í hafnarfirði fóru hjólin að snúast, og árið 1915 var uppsett afl smárafstöðva á Íslandi komið í 370 kW. Árið 1950 voru komnar 530 smávirkjanir út um allt land. Fyrsta virkjun sem náði að 10 MW var Írafossvirkjun og hún var gangsett árið 1953. Árið 1965 er Landsvirkjun stofnuð og markaðssetning raforku hefst. Fyrsta virkjun sem náði að 200 MW var Búrfellsvirkjun og hún var gangsett árið 1969. Tæplega 30 virkjanir stærri en 10 MW voru byggðar á árunum 2000 – 2006. Árið 2007 var stærsta vatnsaflsvirkjun Íslands, Kárahnjúkavirkjun gangsett, 650 MW. Árið 2007 var heildaraflið komið í 1852 MW. Það gerir um 11,9 TWh á ári Hluti vatnsafls af orkunotkun. Tæknilega mögulegt vatnsafl í heiminum hefur verið áætlað um 15.000 TWh. Heimsframleiðslan var 2700 TWh árið 2000. Framleiðslan hefur aukist um ca 50TWh ári. Heldur þó ekki við aukningu í raforkunotkun. 1990 -2000 var framleiðsluaukning vatnsaflsvirkjana 24% en raforkunotkun jókst um 30%. Hlutur vatnsafls í raforkuframleiðslu fór niður um 1% á þessu tímabili. Stærstu framleiðslulöndin árið 2002: Canada 345 TWh, Brasilía 288 TWh, USA 264 TWh, Kína 231 TWh, Rússland 167 TWh, Noregur 129 TWh. Stærsta stífla heims er í byggingu, Þriggja gljúfra stíflan í Kína, Uppsett afl 18,2 GW og mun framleiða 84.7 TWh. Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW og uppgefin orkuvinnslugeta er 4.600.000 MWh á ári, munurinn á þessum tvemur virkjunum er gríðarlega mikill. Á Íslandi. Íslendingar eru duglegir í nýta sér innlendar orkulindir. Tæplega 82% af allri orku sem notuð er hér á Íslandi er innlend og kemur frá endurnýjanlegum orkulindum. Hlutfall vatnsorku af hlutfallslegri notkun Íslendinga hefur aukist verulega frá árinu 1945. Af innlendu orkunni voru árið 2007 um 15% af heildarnotkun frá vatnsafli og 67% frá nýtingu jarðgufu og munar þar mestu um hitaveitu til húshitunar. Afganginn, um 18%, fáum við frá innfluttum orkugjöfum, fyrst og fremst eldsneyti, 15,6% (bensín og olía), og munar þar mestu um fiskveiði- og bílaflotana, og 2,2% frá kolum. Stærstu vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eru: Kárahnjúkar 690 MW, Búrfell 270 MW, Hrauneyjafoss 210 MW, Sigalda 150 MW og Blanda 150 MW. Virkanlegt heildarafl vatnsorku hér á landi er talið vera um 50 TWh þegar búið er að meta hvaða kostum yrði sleppt með tilliti til náttúruverndar. Árið 2007 nam raforkuvinnsla innanlands um 12.000 GWh og þar af komu um 70% vinnslunnar frá vatnorkuverum, eða 8.400 GWh. Umhverfisáhrif vatnsaflsvirkjana. Vatnsföll eru virkjuð annaðhvort með straumvirkjun eða stífluvirkjun en alltaf þarf þó að koma fyrir stöðvarhúsi og setja upp túrbínur sem virkja vatnsaflið. Til viðbótar þá þarf fyrir stífluvirkjun að byggja stíflu fyrir lón. Þetta skapar mikið rask í umhverfinu og fórnarkostnaður umhverfissins getur verið mjög mikill. Til þess að átta sig betur á umfangi vatnsaflsvirkjana höfum við gott dæmi á Íslandi. Kárahnjúkavirkjun er stærsta vatnsaflsvirkjun á Íslandi og er ein umdeildasta framkvæmd Íslands fyrr og síðar, gríðarmiklar umræður hafa verið um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar eins og skiljanlegt er þegar um er að ræða svo umfangsmikla framkvæmd. Kárahnjúkavirkjun tekur um 66 km² lands undir lón og stíflur. Áhrifasvæði er áætlað um 3000 km². Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á ósnortið víðerni við norðurjaðar Vatnajökuls er verulegt. Nærri lætur að víðernið muni skerðast um alls 925 km², einkum vegna Hálslóns og Hraunaveitu. Sjónræn áhrif af Kárahnjúkavirkjun eru sem dæmi: mannvirki; einkum stíflur, vegir og skurðir, haugsvæði og efnisnámur, miðlunarlón sem skapa nýtt og breytt landslag, breytilegt fjöruborð lóna, einkum Hálslóns, sem veldur fokhættu úr strandsvæðum og getur birgt sýn til landsins, minna og tærara vatn neðan stíflumannvirkja að stöðvarhúsi, sem kemur fram í skertu rennsli fossa og minni dyn í gljúfrum, dekkra vatn neðan stöðvarhúss vegna aukins magns uppleystra efna, breytingar á rennsli jökulánna í byggð, ýmist til aukins eða minna vatns, aurar Jökulsár á Dal gróa upp þar sem áin fær afmarkaðan farveg, neikvæð hughrif vegna skerðingar á víðernum. Straumvirkjanir og fallvatnsvirkjanir. Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi breyta fallhæð vatnsins í þrýsting til framleiðslu raforku og flokkast því ekki sem straumvirkjanir. Fallvatnsvirkjanir nýta allt að 90% orkunnar sem er í fallhæðinni Straumvirkjanir nýta hins vegar hluta af hreyfiorku straumvatns til orkuframleiðslu þar sem nýtnin er 20 –40%. Fremri-Kot. Fremri-Kot er innsta býli í Norðurárdal við rætur Öxnadalsheiðar. Áður nefndist býlið "Hökustaðir" og er þess getið í Landnámabók, þar sem Örreksheiði upp frá Hökustöðum er sögð kennd við landnámsmanninn Þorbrand örrek. Örnefnið Örreksheiði er nú óþekkt. Hökustaða er einnig getið í Sturlungu því þangað kom Eyjólfur ofsi Þorsteinsson með lið sitt á leið til Flugumýrarbrennu haustið 1253 og setti þar gæslumenn svo ekki bærist njósn þaðan um komu brennumanna. Þorgils skarði Böðvarsson kom líka við þar á leið til bardagans á Þveráreyrum 1255. Líklega breyttust nöfn Hökustaða og Þorbrandsstaða ekki í Fremri-Kot og Ytri-Kot fyrr en á 16. eða 17. öld, hugsanlega í kjölfar skriðufalla sem gætu hafa lagt jarðirnar í eyði um skeið. Mikil skriðuföll urðu svo í Norðurárdal 6. júlí 1954 eftir stórrigningar sem gengið höfðu yfir sólarhringinn á undan. Margar skriður féllu þá á land Fremri-Kota, eyðilögðu stærstan hluta túnsins og eyddu fjárhúsi og hlöðu, hesthúsi og haughúsi. Mikill hluti þjóðvegarins eyðilagðist einnig og Valagilsá, sem rennur á landamerkjum Kota og Silfrastaðaafréttar, sópaði af sér brúnni og ruddi burt varnargarði. Húsfreyjan á Fremri-Kotum var ein heima með fimm ung börn og ætlaði hún að leita skjóls með þau í fjárhúsinu, sem hún taldi á öruggari stað en bæjarhúsið, og var komin með þau út á hlað en þá kom mikil skriða sem staðnæmdist rétt ofan við íbúðarhúsið og skemmdist það ekki, en fjárhúsið sópaðist burtu. Systkinin og skáldin Ólína Jónasdóttir (1885-1956), Hallgrímur Jónasson (1894-1991) kennari og Frímann Ágúst Jónasson (1901-1988) skólastjóri voru alin upp á Fremri-Kotum og kennd við bæinn. Jón Bragi Bjarnason. Jón Bragi Bjarnason (15. ágúst 1948 - 3. janúar 2011) var doktor í lífefnafræði og prófessor í þeirri grein við Háskóla Íslands. Hann var um tíma stjórnarformaður Raunvísindastofnunar Háskólans. Jón Bragi stofnaði og rak fyrirtækið Ensímtækni ehf. sem framleiddi snyrtivörur undir merkinu "Dr. Bragi" og notaði í þær virk ensmím úr sjávarfangi. Sjávarútvegur. Sjávarútvegur er hugtak sem erfitt er að skilgreina á einn hátt. Orðið "fisheries" er oft notað yfir sjávarútveg í enskumælandi löndum og sjávarútvegsfræðingar kalla sig gjarnan "fisheries scientists" á ensku. Þó á hugtakið "fishing industry" líklega betur við. Sjávarútvegur snýst ekki bara um fiskveiðar. Hann er í raun allt ferlið frá rannsóknum á umhverfi auðlindarinnar, þ.e. hafinu og allt þar til afurðin er komin á disk neytenda á innlendum eða alþjóðlegum mörkuðum. Aðalmarkmið sjávarútvegs er því ekki að veiða fisk, heldur að selja fiskafurðir. Sindurefni. Sindurefni eru atóm eða sameindir sem hafa eina eða fleiri óparaðar rafeindir og eru þess vegna mjög hvarfgjarnir. Mikilvægasti radikalinn í efnahvörfum andrúmslofts jarðar er OH radikalinn sem tekur þátt í mörgum hvörfum. Ætihvönn. Ætihvönn, erkihvönn, englahvönn, englarót, höfuðhvönn eða einfaldlega hvönn (fræðiheiti: "Angelica archangelica" eða "Archangelica officinalis") er tvíær jurt af sveipjurtaætt. Fyrra árið vaxa aðeins blöð, en seinna árið nær holur stofninn allt að tveggja metra hæð. Ætihvönn hefur örvandi áhrif á ónæmiskerfið og er mjög virk gegn veirum. Breytileiki í virkni plantna eftir vaxtarstöðum hefur verið rannsakaður. Rannsóknir sýna að hvannalauf hafa aðra virkni en fræ. Einnig hefur virkni efna úr íslenskum lækningajurtum verið borin saman við erlendar náttúruvörur úr sams konar jurtum sem vaxa á suðlægari slóðum. Virkni íslensku jurtanna hefur reynst mun meiri. Þetta staðfestir tiltrú manna á íslenskum lækningajurtum frá víkingatímanum. Brún líftækni. Unnið að hreinsun eftir mengunarslys þegar Olíuskipið Exxon Valdez fórst. Brún líftækni eða umhverfislíftækni er beiting líftæknilegra aðferða við verndun og hreinsun umhverfis. Lífhreinsun er það ferli þegar örverur (þörungar, sveppir og bakteríur) eru notaðar til þess að brjóta niður og breyta spilliefnum í efni sem eru hættuminni eða hættulaus. Í öllum tilfellum eru notuð náttúruleg efnahvörf örvera, bæði hefðbundin og óhefðbundin. Lífhreinsun er notuð meðal annars þegar um mengunarslys er að ræða. Fordismi. Fordismi er hugmyndafræði fjöldaframleiðslunnar. Hún er nefnd eftir Henry Ford. Fordismi einkennist af færibandinu sem olli því að framleiðslan gekk hraðar og fjöldaframleiðslu staðlaðrar vöru fyrir fjöldamarkað. Havering (borgarhluti). Havering (e. "London Borough of Havering") er borgarhluti í Austur-London á Englandi, og er hluti ytri London. Höfuðborg borgarhlutans er Romford, og aðrar aðalborgirnar eru Hornchurch, Upminster og Rainham. Borgarhlutinn er úthverfasvæði með mörg hús og miklar víðáttur. Ólíkur þeim er Romford stór bær með margar verslanir og næturlíf. Havering nær niður við Thames-ána og er svæði í endurþróun. Árið 2007 var hann með mannfjölda 226.200 manna í 93.200 heimilum. Flatarmál borgarhlutans er 111,4 ferkílómetrar. Hann var stofnaður árið 1965. Efnahagskreppan á Íslandi hafði áhrif á borgarhlutann því hann var með 12,5 milljónum breskra punda hjá íslenskum bönkum. Hvít líftækni. Hvít líftækni eða iðnaðarlíftækni er svið innan líftækninnar sem snýr að iðnaði. Í hvítri líftækni eru notaðar lifandi frumur eins og mygla, gersveppir eða bakteríur, eða ensím þeirra, til að framleiða hinar ýmsu afurðir. Frumurnar eru því notaðar sem lífrænar efnasmiðjur og geta ýmist verið náttúrlegar („villigerð“) eða erfðabreyttar. Meðal afurða sem framleiddar eru með aðferðum hvítrar líftækni má nefna ýmis sýklalyf, vítamín, bóluefni og prótein til lækninga, auk ensíma til iðnaðar- eða heimilisnota, svo sem í þvottaefni. Efni framleidd úr endurnýjanlegum hráefnum eða lífmassa er annað dæmi um hvíta líftækni. Lífmassi eins og mjölvi, sellulósi, grænmetisolía og landbúnaðarúrgangur er notaður til að framleiða efnasambönd, plast sem brotnar niður í náttúrunni, nýja trefjar og lífrænt eldsneyti ásamt fleiru. Ensím eru notuð í öllum þessum tilfellum í framleiðsluferlinu. Etanól, til dæmis, er endurnýjanlegt eldsneyti sem er framleitt úr lífmassa. Það hefur mikla möguleika á að koma í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Þetta mun hafa hlutlaus áhrif á gróðurhúsaáhrifin og getur lagt margt af mörkum við að draga úr hlýnun jarðar. Hvít líftækni getur hjálpað til við að tryggja að komandi kynslóðum sé ekki stefnt í hættu með þeim umhverfisvandamálum sem steðja að okkur í dag. Borgarhlutar í London. Borgarhlutarnir í London eru þau 32 stjórnarsvæði í stóru Lundúnasvæðinu. Innri London samanstendur af tólf borgarhlutum og Lundúnaborginni, ytri London er með hina tuttugu borgarhluta. Borgarhlutunum er stjórnað af bæjarstjórnum sem eru kosnar til fjögurra ára. Þeir eru raunverulega yfirvöld sem sjá um bæjarþjónustu á svæðinu eins og skóla, félagsþjónustu, sorphreinsun og vegi. Borgarhlutakerfið var skapað árið 1963 og var tekið í notkun þann 1. apríl 1965 með sköpun stórs Lundúnasvæðisins. Arðgreiðsla. Arðgreiðslur eru tekjur sem menn hafa af hlutabréfum sem þeir eiga í fyrirtækjum. Ef fyrirtæki eru rekin með hagnaði er þessi hagnaður eða hluti hans greiddur út til eigenda fyrirtækjanna og þá verða til tekjur sem kallast arðgreiðslur. Fangamark. Fangamark er upphafsstafir nafns, nokkurs konar nafntákn. Fangamark manns sem nefnist Guðmundur Sigurðsson er G.S, og fangamark Ólafs Kjartans Guðmundssonar er Ó.K.G.. Fyrirtæki nota sumhver fangamark, eins og til dæmis KEA sem er fangamark Kaupfélag Eyfirðinga sem er staðsett á Akureyri, en með því að sleppa punktunum verður stundum til eiginlegt fyrirtækjanafn. Fangamark er oftast notað sem stytting á eiginnafni, til dæmis þegar menn gera sér skrautleg einkennismerki, svo sem stimpil eða límmiða til að merkja til dæmis bækur sínar með (Ex Libris) og sumir listamenn nota það til undirritunar verka sinna, til dæmis málverka. Orðið fangamark er ekki talið tengjast orðinu fangi á neinn hátt, heldur orðinu fang í merkingunni veiði, fengur, afli. Fang er í eignarfalli fleirtölu fanga. Talið er að fangamark sé þannig tilkomið, að menn hafi merkt aflaföng, svo sem reka, hval eða annað úr sjó, með upphafsstöfum sínum, og þannig hafi orðið fangamark orðið til. Samheitið eignarmark er til dæmis stundum notað þegar menn nota fangamark sitt til að merkja sér eign sína. Eignarmark getur þó einnig verið einfalt tákn, sem þarf ekki að tengjast fangamarki viðkomandi á neinn hátt. Er það oft kallað búmark. Lýðræðishreyfingin. Lýðræðishreyfingin er stjórnmálahreyfing sem var stofnuð 1998 og bauð í fyrsta skipti fram til Alþingiskosninganna 2009 og fékk þá 0,6% atkvæða. Jón Ásbergsson. Jón Ólafur Ásbergsson (f. 31. maí 1950 á Ísafirði) er framkvæmdastjóri Íslandsstofu. Foreldrar hans voru Hólmfríður "Sólveig" Jónsdóttir og Sigurmar "Ásberg" Sigurðsson, sýslumaður og síðar borgarfógeti. Kona Jóns er María Dagsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau þrjá syni. Eftir stúdentspróf (MR 1969) hóf Jón nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands og lauk því 1974. Hann stundaði nám í University of Arkansas í eitt ár á námstímanum. Hann hóf störf sem framkvæmdastjóri Loðskinns á Sauðárkróki, síðan framkvæmdastjóri Hagkaups hf. og eftir það framkvæmdastjóri Útflutningsráðs. Hann var formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, varaþingmaður um skeið, var í stjórn Stjórnunarfélags Íslands og hefur gegnt fleiri trúnaðarstörfum. Jón var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslensks atvinnulífs og útflutnings á árinu 2010. Útlendingahatur. Útlendingahatur er að vera illa við eða óttast útlendinga eða fólk sem er mjög ólíkt manni sjálfum. Útlendingahatur getur átt við ótta við fólk frá öðrum löndum, annarri menningu, öðrum menningarkima, eða fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð. Nýir innflytjendur eru oft fórnarlömb útlendingahaturs en hópar sem hafa verið í landinu í langan tíma geta líka verið fórnarlömb þess. Það er að segja að þetta fólk sé hópur sem þykir ekki hluti þjóðfélagsins. Útlendingahatur getur einnig verið óbeit á menningartáknum og áhrifum af annarri menningu. Einangrunarstefna er tengd við útlendingahatur en er ekki svo lýst. Urður Verðandi Skuld (fyrirtæki). Urður Verðandi Skuld er líftæknifyrirtæki, stofnað 1998, sem leggur stund á rannsóknir á sviði krabbameins. Í janúar 2006 tók deCODE fyrirtækið yfir en rekur það áfram í rannsóknum á sviði krabbameins. Vlastimil Hort. Hort leikur fjöltefli árið 1997. Vlastimil Hort (f. 12. janúar 1944) er tékkneskur stórmeistari í skák. Hann var einn af sterkustu skákmönnum heims á 7. og 8. áratugnum og var oft orðaður við heimsmeistarakeppnina en tókst aldrei að keppa um heimsmeistaratitilinn. Hort er einkum frægur fyrir að hafa, í undankeppni fyrir heimsmeistarakeppnina í Reykjavík árið 1977 gefið andstæðingi sínum, Boris Spasskí, hvíldardaga sína svo Spasskí næði að jafna sig af veikindum í stað þess að krefjast vinnings. Hann tapaði svo fyrir Spasskí á mótinu. Hann setti heimsmet í fjöltefli við sama tækifæri á Seltjarnarnesi 24. apríl þegar hann keppti við 550 manns á rúmum sólarhring. GIMP. GIMP (stendur nú fyrir GNU Image Manipulation Program en áður General Image Manipulation Program) er frjálst myndvinnsluforrit fyrir rastamyndir á borð við stafrænar ljósmyndir. Þróun forritsins hófst árið 1995 að undirlagi Spencer Kimball og Peter Mattis. Það er núna hluti af GNOME-verkefninu. Til eru útgáfur GIMP fyrir ýmis stýrikerfi s.s. Linux, Unix, Windows og Mac OS X. Rastamynd. Rastamynd stækkuð til að sýna hvern punkt fyrir sig. Rastamynd eða punktamynd er gagnagrind sem inniheldur fylki af pixlum eða lituðum dílum sem saman mynda stafræna tvívíða mynd á tölvuskjá eða pappír. Rastamyndir eru geymdar í myndaskrám í nokkrum ólíkum myndasniðum. Þau algengustu eru JPEG, GIF, TIFF, RAW, PNG og BMP. Andstæða rastamyndar er vigurmynd eða línuteikning sem geymir upplýsingar um línur og form fremur en punkta. Í rastamynd hefur hver punktur, eins og hann er í skjáminni tölvunnar, ákveðna litadýpt sem er skilgreind sem sá fjöldi bita sem inniheldur upplýsingar um litinn. Í átta bita mynd eru átta bitar sem innihalda upplýsingar um lit punktsins og myndin í heild getur þannig innihaldið 255 mismunandi litatóna. Rastamyndir eru háðar skjáupplausn. Ef þær eru stækkaðar verða þær pixlaðar og missa gæði. Algeng myndvinnsluforrit til að vinna með rastamyndir eru Adobe Photoshop og GIMP. Flest myndvinnsluforrit nota RGB-litakerfið en sum styðja líka önnur litakerfi á borð við CMYK fyrir prentvélar. Vigurmynd. Skýringarmynd sem sýnir muninn á stækkun vigurmyndar og rastamyndar. Vigurmynd eða línuteikning er tölvuskrá sem inniheldur upplýsingar um þau grunnform (punkta, línur, boglínur og marghyrninga) sem mynda eina tvívíða mynd. Vigurmyndir eru þannig ólíkar rastamyndum þar sem hver punktur myndarinnar er geymdur í fylki. Með talsverðri einföldun má segja að í myndvinnslu með tölvu séu vigurmyndir oftast notaðar fyrir teikningar en rastamyndir fyrir ljósmyndir. Andstætt rastamynd sem tapar gæðum (verður pixluð) við stækkun, er hægt að stækka og teygja vigurmynd að vild án þess að gæðin minnki. Dæmi um algeng teikniforrit til að vinna með vigumyndir eru Adobe Illustrator, Adobe Flash, Inkscape og CorelDRAW. Algeng myndasnið fyrir vigurmyndir eru CGM, EPS, SVG, PDF og SWF. Samruni (málfræði). Samruni (fræðiheiti: "contaminatio") er það þegar tvennskonar orðalag (orðatiltæki, föst orðasambönd og einstök orð) blandast saman, einkum vegna svipaðrar merkingar. Með öðrum orðum þá slengir líku saman. Varast ber að rugla saman nykruðu máli og samruna. Samruni er oftast ekki talinn til fyrirmyndar, enda merki um versanandi málvitund eða alltént ruglanda. Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, sagði þó einu sinni að samrunar væru misleiðinlegir, og yrði stundum úr þessu "spélegt tal". „En stundum hefur venjan helgað sumar gerðir samruna, þær sem einhvern tíma hafa verið hlægilegar“. Þó er það ekki merki um að samruni sé orðið viðurkennt mál að hann þyki fyndinn. SVG. SVG (stendur fyrir Scalable Vector Graphics eða „stækkanlegar vigurmyndir“) er myndasnið fyrir vigurmyndir (bæði stillimyndir og hreyfimyndir) sem notast við XML-staðalinn. SVG er opinn staðall þróaður af W3C frá árinu 1999. Þar sem SVG-skjöl eru XML-skjöl er hægt að breyta þeim með hvaða XML-ritli sem er eða venjulegum textaritli en algengast er að notast við teikniforrit sem styðja SVG-sniðið á borð við Adobe Illustrator og Inkscape. Hægt er að skrifta SVG-myndir með ECMAScript til að gera þær gagnvirkar og hreyfa þær til. SVG er hannað með það fyrir augum að nýtast við vefhönnun og flestir nútímavafrar eru með innbyggðan stuðning fyrir sniðið (mikilvæg undantekning er Internet Explorer sem þarf íforrit til að sýna SVG-myndir). Skjáborðsumhverfið GNOME hefur stutt SVG (í gegnum GTK+ og Cairo) frá 2005. Inkscape. Inkscape er frjálst teikniforrit til að vinna með vigurmyndir. Forritið útfærir SVG-sniðið sem eigið snið en styður mörg önnur vigurmyndasnið og útflutning í PNG-rastamynd. Forritið er öflugt teikniforrit sem styður allar helstu teikniaðgerðir, umbrot texta (m.a. fyrir flóknar skriftir) og litakerfi. Yfirlýst markmið með forritinu er að vera fullkomin útfærsla á SVG-sniðinu með stuðningi við CSS en talsvert vantar enn upp á það. Forritið býður t.d. ekki upp á gerð gagnvirkra mynda og hreyfimynda eða notkun SVG-leturgerða. Breiðvísun. Breiðvísun er hugtak í málfræði þegar orðaröð gerir að verkum að óljóst er til hvers tilvísunarfornafnið sem vísar og getur það valdið misskilningi. Breiðvísun flokkast gjarnan sem stílgalli. Dæmi: "Ég sá hest á vagninum sem mig langar í". Hér veldur breiðvísun því að hægt er að ruglast á því hvort viðkomandi langi í vagninn eða hestinn. Oftast er hægt að forðast breiðvísun með umorðun, t.d.: "Á vagninum sá ég hest sem mig langar í". Hér er tilvísunin skýr, tilvísunarfornafnið er við hliðina á orðinu sem það vísar til, en þannig forðast menn breiðvísun. Cairo. Cairo (upphaflega Xr) er frjálst forritasafn sem er ætlað að vera samræmt forritunarviðmót fyrir vigurmyndir. Það var upphaflega hannað fyrir notkun í X-gluggakerfinu en síðan þá hafa komið út útfærslur fyrir Win32 GDI, Mac OS X Quartz, BeOS, 2 og OpenGL-umhverfi. Cairo er meðal annars notað af GTK+ og Mozilla-verkefninu til að teikna upp bæði viðmótshluta og myndrænt innihald. X-gluggakerfið. Skjámynd af X-gluggakerfinu án allrar yfirbyggingar. X-gluggakerfið (oft aðeins kallað X eða X11) er myndrænt viðmót (gluggakerfi) fyrir nettengdar tölvur. Það var upphaflega þróað sem hluti af Athena-verkefninu sem snerist um þróun tölvunets í Massachusetts Institute of Technology árið 1984. Kerfið var nefnt X þar sem það var hugsað sem arftaki annars kerfis, W-gluggakerfisins sem var þróað fyrir stýrikerfið V. X var fyrsta gluggakerfið sem var algerlega óháð bæði stýrikerfi og söluaðila. X-gluggakerfið er nú aðallega notað á Unix-legum stýrikerfum á borð við Linux og FreeBSD. Apple OS X studdi X11 í útgáfu 10.3 til 10.7 í forritinu X11.app en vísar nú á frjálsa XQuartz verkefnið í staðinn. Kerfið er hannað sem biðlaraþjónusta þar sem notendaforritin eru biðlarar sem óska eftir tilteknu myndrænu úttaki (glugga) frá X-þjóni (miðlara). X-þjónninn sendir á móti inntaksboð á borð við músahreyfingar, lyklaborðsslátt o.s.frv. aftur til forritsins. X-gluggakerfið er hægt að setja upp þannig að gluggaþjónninn sé á einni vél (t.d. annarri tölvu eða nettengdum prentara) en forritin sem nýta sér hann á annarri vél. Myndrænt viðmót. Myndrænt viðmót er notendaviðmót sem gerir notendum kleift að eiga samskipti við tölvur og önnur tæki með myndum fremur en textaskipunum. Dæmigert myndrænt viðmót notar táknmyndir og sjónrænar vísanir andstætt skipanalínuviðmóti þar sem notandinn skrifar skipanir til að láta vélina gera eitthvað. Í myndrænu viðmóti getur notandinn yfirleitt átt beint við viðmótshluta (viðföng) á borð við táknmyndir, glugga, hnappa, flipa o.s.frv. Hugtakið myndrænt viðmót er yfirleitt aðeins notað til að lýsa tvívíðu almennu notandaviðmóti en ekki sérhæfðu myndrænu viðmóti eins og t.d. viðmóti tölvuleiks eða viðmóti fyrir þrívíða miðla. Gagnstæðistenging. Gagnstæðistenging er smáorðið og aðaltengingin en, sem Sigurður Guðmundsson skólameistari kallaði „gáfaðasta orð tungunnar“. Hvort sínum megin við gagnstæðistenginguna er tíðum eitthvað sem stendur hvað gegn öðru. Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, sagði að „gáfaðir menn, sem geta séð mál eða hlut frá fleiri en einni hlið, nota hana oft.“ Gagnstæðistengingin gerir mönnum kleift að setja dálítið spurningamerki við það sem sagt var á undan, eða mynda skörp skil milli þess sem fram var komið áður. Sigurður skólameistari notaði ljóðið "Á glæsivöllum," eftir Grím Thomsen til að útskýra gagnstæðistenginguna. Í lokaerindi þess ljóðs, er en, sem allt ljóðið hverfis um. Enska orðið while. Gagnstæðistengingin á sér ekki augljósa skyldleikahliðstæður í samstofna málum, en merkingalegar hliðstæður (dönsku: "men", latínu: "sed", þýsku: "aber", ensku "while"). En enska orðið while er oft misþýtt á íslensku sem "(á) meðan", þegar þar ætti að standa en, því while er ekki síður aðaltenging en tíðartenging. Er þetta algeng villa. GDK. GDK (stendur fyrir GIMP Drawing Kit) er frjálst forritasafn sem hjúpar grunnteikniaðgerðir gluggakerfisins sem liggur undir. GDK var upphaflega þróað ofan á X-gluggakerfið fyrir myndvinnsluforritið GIMP. Það liggur á milli X og GTK+ og sér um grunnaðgerðir eins myndsetningu grunnforma, rastamynda, bendla, leturgerða o.s.frv. GDK er venjulega sett upp sem hluti af GTK+ og útgáfur þess fylgja útgáfum GTK. Frá útgáfu 2.8 hefur það notað Cairo fyrir útfærslu vigurmynda á SVG-sniði. Gluggakerfi. Gluggakerfi eða gluggaumhverfi er hluti myndræns viðmóts, sérstaklega í skjáborðsumhverfi, sem styður við útfærslu gluggastjóra og myndar grunnstuðning við annan vélbúnað á borð við skjákort, mýs, teiknibretti og lyklaborð. Í sumum tilvikum eru gluggakerfin samfelldur hluti af stýrikerfinu og ekki skýr greinarmunur á því og öðrum stýrikerfishlutum. Dæmi um slíka samfellu er í Windows Vista þar sem gluggakerfið er innifalið í gluggastjóranum Desktop Window Manager. Dæmi um aðskilið gluggakerfi er Quartz Compositor í Mac OS X og X-gluggakerfið. Skjáborðsumhverfi. Skjáborðsumhverfi er ákveðin tegund af myndrænu viðmóti sem byggir á skrifborðslíkingunni og er algengt á flestum tegundum einkatölva í dag. Dæmigert skjáborðsumhverfi inniheldur táknmyndir, glugga, hnappastikur, möppur, skjáborð og skjáborðsviðföng. Í skjáborðsumhverfi er hægt að færa hluti til með músinni, draga þá í ruslafötu, setja algengustu aðgerðir á skjáborðið eða stikur, klippa og líma skjöl og hluti, draga skjöl milli forrita, o.s.frv. Lykilhugbúnaður í skjáborðsumhverfi eru gluggakerfið, gluggastjórinn og viðfangasafnið, auk notendaforrita sem nýta sér þjónustu umhverfisins. Gluggastjóri. Gluggastjóri er hugbúnaður sem stýrir staðsetningu, útliti og hegðun glugga í gluggakerfi í myndrænu viðmóti. Flestir gluggastjórar eru skrifaðir fyrir tiltekið skjáborðsumhverfi. Þeir bera ábyrgð á því hvernig gluggarnir raðast á skjáinn, sjá um að stækka, minnka og færa glugga til á skjánum og teikna ramma og gluggastiku kringum gluggana. Ýmsir nútímagluggastjórar breyta gluggum fyrst í skyndiminni og breyta síðan bæði þeim og umhverfi þeirra áður en þeir birtast á skjánum. Með þessu móti er hægt að setja skugga undir glugga, fletta gluggum í þrívídd o.s.frv. Skarhjálmur. Skarhjálmur sem lagður hefur verið yfir kerti Skarhjálmur er lítil hjálmur á löngu skafti og er notaður til að slökkva á kerti (kæfa ljósið). Hjálmurinn er lagður yfir logann sem stendur upp af rakinu á kertinu og þannig kafnar ljósið. Tæki þetta á sér mörg heiti á íslensku og eru mörg þeirra lýsandi, eins og t.d. "ádrepa", "kertalok", "ljósabani", "ljós(a)drepur", "ljósakæfa", "ljósaslökkvari", "ljóslok", "logakæfa", "skarhús" og "skarpanna". Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, mælti sérstaklega með orðinu skarhjálmur. Nicolai. Kristinn Nicolai (listamannsnafn: Nicolai) (fæddur 1959) er íslenskur myndlistarmaður. Stíl hans hefur verið lýst sem "barrokk og ról". Næfrakolla. Næfrakolla (sjávarbörkur eða fjörubörkur) er samanvafinn sjórekinn trjábörkur. Brenndur innanhúss til að gefa frá sér góða lykt. Óþörf tvítekning. Óþörf tvítekning eða tátólógía (en líka upptugga, jagstagl eða tvíklifun) (fræðiheiti: "tautologia") er hugtak í málfræði sem vísar til þess þegar eitthvað er endurtekið til óþurftar, t.d. þegar sama hugtak er endurtekið með samheiti eða öðru orðalagi. Hugtökin upptugga, jagstagl og tvíklifun eru í eðli sínu óþarfa tvítekningar og lýsa því ágætlega fyrirbærinu. Eðliseignarfall. Eðliseignarfall (fræðiheiti: "Genitivus qualitatis") er eignarfall sem gefur til kynna eiginleika sem stýrandi orð hefur í setningu og notast ekki við forsetningar. Eðliseignarfall var algengara að fornu en að nýju og gætir áhrifa frá latínu. Athugið að þegar sagt er t.d. að einhver sé maður mikillar ættar, þá er spurning hvort réttara væri að flokka það sem upprunaeignarfall. Leibniz-rithátturinn. Leibniz-rithátturinn er ritháttur í örsmæðareikningi sem er nefndur í höfuðið á stærðfræðinginum Gottfried Wilhelm Leibniz, en rithátturinn notast við merkingar eins og d"x" and d"y" til að tákna afleiður. Ef "y" er t.d. fall af breytunni "x" þá mátti tákna afleiðuna af "y" m.t.t. "x" þar sem vinstri hlið jöfnunnar er Leibniz-rithátturinn og hægri hlið jöfnunnar er Lagrange-ritháttur fyrir afleiðu "f" af "x". Kolmúli. Kolmúli (lýsingur) er algengasti matfiskur í Buenos Aires í Argentínu. Hann er af ætt fiska er nefnist á latínu merluccius (sbr. www.nomen.at), en á kastilíönsku (argentínska) merluza. Venjulega er hann matreiddur sem fisksnitzel (milanesa de la merluza), þ.e. pressað, roð- og beinlaust flak í brauðraspi; yfirleitt djúpsteikt. Kolmúli er lausholda fiskur, en góður til matar (steikingar) sé hann ferskur. Pílormar. Pílormar (fræðiheiti: "Chaetognatha") eru ein fáliðaðasta dýrafylkingin, einstaka tegundir geta þó verið mjög algengar og skipa veigamikinn sess í svifi hafsins. Þeir lifa eingöngu í sjó. Pílormar eru gegnsæir og straumlínulaga með ugga og sporð. Þá eru þeir einnig góð sunddýr. Að framanverðu hafa þeir augu og gadda. Pílormar eru mikilvirk rándýr þar sem þeir éta allt sem tönn festir á. Slímdýr. Amöbur, slímdýr, eða teygjudýr (sjaldnar angalýjur eða ömbur) er undirflokkur frumdýra (og því einfruma lífverur) sem hreyfa sig úr stað með því að teygja bungur á frumuhimnunni sem sem fyllist jafnskjótt af umfrymi. Þessi útskot kallast skinfætur. Frumdýr. Frumdýr eru einfruma lífverur sem líkjast dýrum að lifnaðarháttum, eru ófrumbjarga og geta flest hreyft sig úr stað. Gródýr. Gródýr (fræðiheiti: "Apicomplexa") er hópur frumdýra sem öll eru sníklar. Þau fjölga sér með gróum og nota oft tvo hýsla eins og mýrarköldusýkillinn, sem notar moskítófluguna til að berast á milli og notar síðan hryggdýr eins og mann til að þroskast í. Gamli kennaraskólinn. Gamli kennaraskólinn er hús að Laufásvegi 81, þar sem Kennaraskóli Íslands var til húsa frá 1908, þegar húsið var nýreist, eða ári eftir að skólinn var stofnaður með lögum. Húsið er friðað. Í kjallara hússins var skólastjóraíbúð, og þar bjó t.d. Freysteinn Gunnarsson, rithöfundur og skólastjóri, í yfir 40 ár ásamt konu sinni Þorbjörgu. Bjarni Jónsson frá Vogi. Bjarni frá Vogi (13. október 1863 – 18. júlí 1926) var alþingismaður, háskólakennari, ritstjóri oog rithöfundur. Bjarni er meðal almennings einna þekktastur fyrir að hafa ljáð vindlum nafn sitt og fyrir að hafa þýtt fyrri helminginn af "Faust" eftir Goethe á íslensku. Bjarni fæddist í Miðmörk undir Eyjafjöllum. Hann var þingmaður Dalamanna á árunum 1908 þar til hann lést. 1915 var hann skipaður dósent í latínu og grísku við Háskóla Íslands og gegndi því starfi til æviloka. Vann alla ævi jöfnum höndum að ritstörfum og fékk styrk til þeirra 1914 – 1915 af opinberu fé. Bjarni var kunnur íslenskumaður og var kunnur nýyrðasmiður. Árið 1912 var honum falið að búa til íslenskt heiti í stað orðsins "fótbolti". Hann stakk upp á heitinu knattspyrna og öðlaðist það þegar þegnrétt í tungumálinu. Vindlar frá Hollandi. Við alþingismanninn Bjarna frá Vogi voru lengi vel kenndir hollenskir vindlar sem voru framleiddir af Sigarenhandel A. Van Zanten. Vindlategund þessi var flutt inn til Íslands með hléum, en var líka seld í Hollandi. Það voru þeir Brautarholtsbræður, Eyjólfur, Sigurður og Guðmundur Jóhannssynir sem fyrst létu framleiða umrædda vindla, en það gerðu þeir þegar þeir ráku tóbaksverslun í Austurstræti 12 í upphafi 20. aldar. Vindlarnir voru seldir á Íslandi allt fram á níunda áratuginn. Á hverjum vindlakassa stóð orðrétt: BJARNI FRÁ VOGI - N.V. Sigarenhandel, A. Van Zanten, Rotterdam - Utrecht. Mynd var af Bjarna á kassanum og íslensku fánalitirnir. Svínaflensufaraldurinn 2009. Svínaflensufaraldurinn 2009 er sjúkdómsfaraldur sem nýr stofn af H1N1 inflúensuveirunni er valdur að. Faraldurinn uppgötvaðist í mars 2009. Dánartíðni þeirra sem sýkjast af svínaflensunni er lægri en dánartíðni þeirra sem smituðust af fuglaflensunni, en á móti kemur að svínaflensufaraldurinn breiðist hraðar út og smitast á milli manna ólíkt fuglaflensunni. Óttast er að svínaflensan gæti orðið að heimsfaraldri en þann 29. apríl hækkaði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin viðbúnaðarstig vegna farsóttarhættu í heiminum í 5. stig en viðbúnaðarstig Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vegna farsóttarhættu eru alls 6. Svínaflensa eða svínainflúensa hefur þó komið upp áður en hún greindist fyrst í mönnum á 6. áratug 20. aldar. Einkenni svínainflúensu eru um margt lík einkennum annarrar inflúensu, þ.e. hiti, vöðvaverkir og einkenni frá öndunarfærum. Útbreiðsla á Íslandi. Tilkynnt var um fyrsta tilfelli af svínaflensu á Íslandi þann 23. maí 2009. Sá smitaði kom til landsins frá New York og veiktist hann skömmu eftir komuna til Íslands. Tilkynnt var um annað tilfelli þann 9. júní 2009. Sá smitaði var sextugur karlmaður á höfuðborgarsvæðinu sem hafði komið til landsins frá Bandaríkjunum. Gunsemdir höfðu áður vaknað um tilfelli á Íslandi en þær reyndust ekki á rökum reistar. Haraldur Briem sóttvarnalæknir tilkynnti þann 28. apríl að tveir einstaklingar sem komu til Íslands frá Bandaríkjunum myndu gangast undir læknisrannsókn vegna vægra og óljósra einkenna. Hann sagði þó ólíklegt að um svínaflensu væri að ræða. 29. apríl kom í ljós að ekki var um svínaflensu að ræða. Íslendingar eru í nánu sambandi við Alþjóða heilbrigðisstofnunina, sóttvarnastofnanir í Evrópu (ECDC), Bandaríkjunum (CDC) og Evrópusambandið varðandi eftirlit og viðbrögð. Upprunalega benti Landlæknir fólki sem ætlaði að ferðast annaðhvort til Mexíkó eða Bandaríkjanna (sérstaklega til Kaliforníu og Texas) að hafa varann á og hafa samband við lækni undir eins ef þau fara að finna fyrir einkennum svínaflensu en seinna var fólki ráðlagt gegn því að ferðast til Mexíkó nema nauðsyn bæri. Þann 28. apríl var það tilkynnt að farþegar sem kæmu til landsins frá Bandaríkjunum eða Mexíkó yrðu undir eftirliti og ef þeir sýndu minnstu einkenni inflúensu þá myndu þeir undirgangast læknisrannsókn. Svínainflúensan er næm fyrir lyfjunum Tamiflu og Relenza en á Íslandi eru til birgðir af þeim fyrir þriðjung þjóðarinnar. Devanagari. Devanagari (hindí: देवनागरी, "Devanāgarī"), einnig kallað nagari, er ritkerfi Indlands og Nepal. Ritkerfið var fundið upp á 11. öld út frá fornri skrift sem nefnist brahmi. Vegna þess að miklar bókmenntir á sanskrít voru gefnar út með skriftinni, mörg telja devanāgarī vera opinbera ritkerfið fyrir málið, þó að það hafir aldrei verið neitt til. Skriftin er skrifuð frá vinstri til hægri, notar ekki hástafi, er ein abúgída, samanstendur af 48 bókstöfum; 34 samhljóðum og 14 sérhljóðum, og nánast allir stafirnir bera einkennandi línu sem gengur í gegnum stafinn að ofan. Devanāgarī er notað til að skrifa hindí, maratí og nepölsku. Frá því á 19. öld hefur það verið mest notaða skrift fyrir sanskrít. Skriftin er líka notuð fyrir bojpurí, gujarí, paharí (garvalí og kúmaní), konkaní, magahí, maítilí, marvarí, bilí, nevarí, santalí, tarú og stundum sindí, sérpu og kasjmirí. Áður fyrr var hún notuð til að skrifa gújaratí. Nafnið devanāgarī er upprunið af tveimur orðum úr sanskrít; "deva" kemur af orðinu „guð“ eða „guðlegur“ og "nāgarī" kemur af orðinu „borg“ og má lauslega þýða sem „skrift guðsborgar“ eða „hin guðlega skrift“. Ritvél. Standard typewriter keyboard layout used in India Unicode fyrir Devanāgarī. Svið Devanāgarī Unicode er U+0900.. U+097F. Sandgræðsla. Sandgræðsla var verkefni á vegum ríkisins sem hófst þann 8. júlí 1907 á Reykjasandi á Skeiðum og fólst í að hefta sandfok sem þá ógnaði miklum hluta sveitarinnar. Sandgræðsla var upphafið að landgræðslustarfi á Íslandi, enda hét Landgræðsla ríkisins áður "Sandgræðsla Íslands". Fyrsta sumarið, árið 1907, voru gerðir 700 faðmar af grjótgörðum og þurfti að flytja grjótið langan veg á hestvögnum. Þessti grjótgarður er enn sjáanlegur á Reykjasandi. Margir unnu að sandgræðslunni (í sandgræðsluvinnu) og á fyrstu árunum var unnið undir umsjón skógræktarsjórans K. Hansen. 1912 var byrjað að hlaða í svonefnda Lyngkvísl. Um hana rann áður allt vatn úr Langholtsskurði norðvestur í Beraflóð og lónaði þar uppi. En síðar þegar hlaðið var upp í kvíslina rann vatnið austur og suður á sandana og dreifði sér þar. Hélt það sandinum blautum svo hann náði síður að fjúka þó hvasst væri. GATT. Almennur samningur um tolla og viðskipti eða GATT (úr ensku: "General Agreement on Tariffs and Trade") voru fjölþjóðlegir samningar um viðskipti og tolla sem hófust 1947 og lauk 1994 þegar Alþjóðaviðskiptastofnunin var stofnuð. Samningalotur GATT og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. ! colspan="66" style="background:lightgray;" | Samningalotur GATT og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar Klingongskt ritmál. Í Star Trek kvikmyndunum og sjónvarpsþáttunum hafa Klingonar sitt eigið ritmál til að skrifa Klingonska tungumálið. Samkvæmt orðabók Mark Okrand's, "The Klingon Dictionary" kallast stafrófið "pIqaD", en engar nánari upplýsingar eru gefnar um það. Þegar Klingongsk tákn eða stafir eru notuð í kvikmyndunum eða þáttunum, er það aðeins til skreytinga, og líkja eftir raunverulegri skrift. Fyrirtækið Astra Image hannaði táknin (sem nú eru notuð til að "skrifa" Klingonsku) fyrir ', þótt táknin séu oft ranglega tileinkuð Michael Okuda. Þeir byggðu stafina á merkingum bardaga-geimskipa Klingona (Klingon battlecruiser) sem voru aðeins þrír stafir, fyrst búnir til af Matt Jeffries. Einnig voru táknin byggð á táknum úr Tíbetska stafrófinu, vegna þess hve oddhvöss skrift þeirra er. Það átti að sýna ást Klingona á hnífum og eggvopnum. Brahmi. Brahmi er fornt ritkerfi frá Suður-Asíu. Það er atkvæðisstafróf frá um 500 f.Kr. Brahmi er með mikilvægari ritkerfi heims ef tekið er mið af áhrifum þess á önnur ritkerfi. Mörg elstu sögulegu rit sem fundist hafa á Indlandi eru skráð með Brahmi. Brahmi er forfaðir hundruða ritkerfa sem finnast í suður, Suðaustur- og Austur-Asíu. Meðal annars tælensku, tíbesku og japönsku svo dæmi séu tekin. Tíbeska. Tíbeska er flokkuð sem tibesk-burma tungumál frá sino-tibetan tungumálaflokki. Tíbeska er töluð af um 6 milljónum manna á svæði í austurhluta Mið-Asíu, þar á meðal Tíbet, Qinghai, Sichuan, Kashmir og á Norður Indlandsskaga í Baltistan, Ladakh, Nepal, Sikkim, og Bútan. Lhasa tíbeska er töluð af um það bil 150.000 manns sem hafa flutt frá nútíma Tíbet til Indlands og annarra landa. Upphaf tíbesks leturs má rekja til Thonmi Sambhota um miðjan 7. öld. Thonmi Sambhota, ráðherra af Songtsen Gampo (569-649), var sendur til Indlands til að læra listina að skrifa og við endurkomu hans var kynnt tíbesk skrift. Form stafanna er byggt á Indic stafrófinu á þeim tíma en það að sérstök Indic skrift er innblástur í tíbeskt stafróf er umdeilt. Tíbeskt letur er skrifað í ýmsum mismunandi útgáfum. Það algengasta í hefðbundnum Buddhist texta er kallað u-Chen. Það letur er einnig notað í allri Vestur Dharma útgáfum af texta þegar upprunalega tíbeska er innifalinn. U-Chen letrið er einnig notað í öllum tíbeskum-enskum orðabókum. U-Chen er ekki fyrsta letrið sem tíbesk börn læra því þau læra fyrst annað flóknara. U-Chen er gott fyrir vestræna Buddhist nemendur til að byrja á að læra. Það sem kallast tíbeskt stafróf er í raun samansafn af samhljóðum en ekki stöfum eins og við þekkjum úr íslenska stafrófinu. Tíbeskt letur hefur að geyma 30 samhljóða. Það sem er sérstakt við þessa samhljóða er að allir innihalda þeir stafinn a. Hljóðið er borið fram sem „ah“. Þetta hljóð var kennt af Búdda í Prajnaparamita Sutras og á hljóðið að standa fyrir hinni fullkomnu visku í einum bókstaf. Tíbeska er lesin frá vinstri til hægri og niður líkt og í íslensku. Tungumálið sem er talað í dag er kallað Colloquial tíbeska meðal Vestrænna fræðimanna. Í tíbesku eru fjórar helstu mállýskur, fólk frá mismunandi svæðum getur átt erfitt með að skilja hvort annað. Allgengasta mállýskan er á svæðinu í kringum höfuðborgina, Lhasa. Önnur mynd af tungumálinu, sem finnst í núverandi letri, er kölluð Modern Literary Tíbet. Klingon. Klingonar er tilbúinn þjóðflokkur stríðsmanna sem búinn var til fyrir Star Trek heiminn. Þeir komu margoft fram sem illmenni í upprunalegu Star Trek þáttaröðinni (') og öllum fimm ótengdu framhaldsþáttaröðunum auk sjö kvikmynda. Klingonar voru þróaðir af handritshöfundinum Gene L. Coon, Klingonar voru manngervingar, dökkir á hörund með litla virðingu, ætlaðir sem táknsaga um kaldastríðið sem að þá var í fullum gangi. Með auknu fjármagni til förðunar og tæknibrellna, voru Klingonarnir algjörlega endurhannaðir í kvikmyndinni ' árið 1979. Í seinni myndum og ótengdu framhaldþáttaröðinni ', voru hernaðarlegir þættir Klingona bættir með aukinni virðingu og strangari reglur í hernaði. Einn þeirra þátta sem búinn var til fyrir nýju Klingonana var Klingonska. Pepsideildin. Pepsideildin er efsta deild bæði í karla- og kvennaflokki í knattspyrnu á Íslandi. Deildirnar eru nefndar eftir aðalsyrktaraðila þeirra, Pepsí. Gullfoss (skip, 1950). MS Gullfoss var 3858 lesta farþegaskip Eimskipaféalgsins, hleypt af stokkunum 1950 hjá Burmeister og Wain í Kaupmannahöfn. Tók rúmlega 200 farþega og gekk allt að 15,5 hnúta. Hætti siglingum hjá Eimskipafélaginu 1972 og er því síðasta farþegaskip Íslendinga, sem notað var í millilandasiglinum. Eldra farþegaskip Eimskipafélagsins heit einnig Gullfoss og var tekið í notkun 1915. Súna. Súnur eða mannsmitanlegir dýrasjúkdómar (þ.e. "dýrasjúkdómur sem leggst á menn" fyrir árið 2006) kallast smitsjúkdómar (dýrasjúkdómar) sem geta borist milli dýra og manna. Nautaat. "Nautabani feykir nautaveifu fyrir framan bola af kyni bos taurus ibericus" Nautaat (spænska: "corrida de toros") er athöfn sérræktaðra mannýgra nauta ("bos taurus ibericus") og skrautklæddra nautabana ("torero") í hringleikahúsi eða þar til gerðum leikvangi. Nautaat er þjóðaríþrótt Spánverja og hefur verið afar vinsælt á Spáni frá seinni hluta 17. aldar en á líklega uppruna sinn að rekja til Krítar. Nautaat er mest stundað á Spáni en líka í Mexíkó, Kólumbíu, Perú og Ekvador. Sömuleiðis í Suður-Frakklandi, en með dálítið öðrum hætti. Í Portúgal berst nautabaninn ("rejoneador") við nautið á hestbaki, en þar er nautið aðeins skutlað með krókörvum en ekki drepið. Margir fordæma nautaat, og líta á það sem illa meðferð á skepnum. Aðrir hafa haldið því fram að nautategund sú sem notuð er í atinu myndi deyja út ef nautaöt myndu leggjast af. Spánverjar líta einnig á nautaatið sem hluta af þjóðareðli sínu, og margir eru stoltir af þessum menningararfi. Andstæðan gegn nautaati eykst þó með hverju ári. Spænskt nautaat. Nautaatið skiptist í þrennt og er hver þáttur afmarkaður með lúðrablæstri. Venjulega eru sex naut í hverju ati sem þrír nautabanar skipta jafnt á milli sín. Í fyrstu er nautið hleypt inn á nautaatssviðið ("plaza de toros") og þar fylgist nautabaninn með hreyfingum þess, les í hvernig það athafnar sig og hvernig það leggur undir sig höfuðið þegar það ræðst til atlögu o.s.frv.. Nautabaninn berst síðan við nautið með litríka dulu ("capote de brega") að vopni og æsir nautið til árásar með ýmsum aðferðum og hefur til þess aðstoðarmenn ("cuadrilla"). Aðstoðarmenn nautabanans eru oftast sex: þrír örvasveinar ("banderilleros"), tveir lensuknapar ("picador") sem eru á hestum sem er huldir leður- eða viðarbrynju ("peto") og svo einn sverðsveinn ("mozo de espada"). Örvasveinar er þeir sem hlaupa til og stökkva að nautinu og skutla það með 75 sentímetra löngum pappírsskreyttum krókörvum ("banderillas") í herðarkambinn. Hlutverk lensuknapana er að veikja hálsvöðva nautsins með því að stinga þá með lensu. Nautabaninn forðast atlögur nautsins með því að sveifla dulunni til hliðar við sig og sýnir þannig kjark sinn og uppsker fögnuð áhorfenda. Lokahnykkurinn nautaatsins er þegar nautabaninn dregur fram sverðið og rauðu nautaveifuna ("muleta") og gengur fram til náðarhöggsins ("hora de verdad"), stund sannleikans, sem er þegar hann stingur sverðinu niður milli herðablaðana og beint í hjartað. Það þykir mjög gott ef það tekst í fyrstu tilraun. Mayar. Svæði þar sem Mayar bjuggu. Mayarnir eru menningarþjóð frá Mið-Ameríku, þekkt fyrir að hafa þróað eina skrifaða tungumálið í Ameríku fyrir komu Kólumbusar. Einnig eru þeir þekktir fyrir myndlist, arkitektúr, stærðfræði og stjarnfræði. Samfélag. Samfélag Maya varð til og óx stöðugt á tveimur fyrstu árþúsundum fyrir Krist en margar borgir þeirra náðu menningarlegu hámarki á fyrsta árþúsundi eftir Krist og fram að komu Spánverja. Á hápunkti sínum var samfélag Maya eitt það þéttbýlasta og menningarlega auðugasta í heimi. Samfélag Maya á margt sameiginlegt með öðrum nærliggjandi menningarsamfélögum í miðameríku sem má rekja til mikilla samskipta og samruna menningarheima þeirra. Framfarir eins og skrift, steinskrift og dagatalið varð ekki upprunalega til í samfélagi Maya en þeirra menning fullkomnaði þessa hluti. Áhrif Maya má rekja svo langt sem inní mitt Mexíkó, meira en 1000 km frá landsvæði þeirra. Utan aðkomandi áhrifa er að gæta í list og arkitektúr Maya sem talið er að megi rekja til menningar- og viðskiptalegra samskipta, frekar en til markvissra landvinninga.Maya letrið var kallað „hieroglyphics“ eða „hieroglyphs“ af fyrstu evrópsku landkönnuðunum á 18. og 19. öld. Hieroglyphs mætti þýða sem stílfærða mynd af hlut sem táknar orð, atkvæði eða hljóð. Tungumál. Um langan tíma töldu fræðimenn að Maya letrið stæði alls ekki fyrir neitt tungumál né að það væri fullklárað leturkerfi. Fyrstu straumhvörfin í afkóðun á Maya letrinu voru í kringum 1950. Það var rússneska þjóðháttafræðingsins, Yuri Valentinovich Knorosov, að þakka en hann kom með þá tillögu að letrið táknaði allavega að hluta til hljóð og stæði fyrir Yucatec Mayan tungumálið. Mayar voru samansafn af mörgum þjóðum með öðruvísi en tengdri menningu, tungumáli og trúarbrögðum. Af mörgum Maya tungumálum voru aðeins 2 til 3 skrifuð niður í áðurnefndu „hieroglyphs“ leturkerfi. Maya letrið samanstóð af margþátta táknum, sem voru vandvirknislega máluð á leir, veggi og pappír gerðan úr trjáberki. Táknin voru einnig grafin í við og stein. Mörg þeirra sem máluð voru hafa enst jafn vel og þau sem grafin voru. Það er almennt talið að hægt sé að lesa í kringum 3/4 af Maya letrinu nú á dögum með þónokkuri nákvæmni, nægilega mikilli til þess að gefa okkur vitneskju um uppbyggingu þess. Útlitsbyggingin á Maya letrinu er áhugaverð. Hún samanstendur af mörgum ferhyrningum sem er raðað í beinar línur og í margar raðir. Hver og einn ferhyrningur er fullur af smáatriðum sem samanstanda af allt frá einu til 5 stafatáknum sem mynda oft heil orð eða orðasambönd. Í Maya letrinu eru í kringum 550 tákn sem voru fyrir heil orð og 150 sem tákna atkvæðishljóð. Einnig voru í kringum 100 tákn sem stóðu fyrir nöfn á stöðum og nöfn Guðanna. Það er talið að 300 tákn hafi verið í almennri notkun. Mörg tákn stóðu fyrir sömu atkvæðishljóðin. Aflestur Maya letursins var ekki eins augljós og það leit út fyrir við fyrstu sýn. Þar sem táknunum er raðað eftir grindarkerfi þá myndi maður halda að lesið væri í annaðhvort röðum eða dálkum. Í raun er letrið lesið í dálkapörum, sem þýðir að fyrsta táknið er efst til vinstri, það næsta strax á eftir því og hið þriðja beint undir því fyrsta, hið fjórða undir öðru tákninu og svo framvegis. Útkoman er eins konar „zig zag“ aflestur. Þegar þú kemst á botninn á þessu dálkapari, þá verður þú að fara alla leið upp og hefja lesturinn á fyrsta tákni í næsta dálkapari. Fræðimenn merkja lárétt dálkapör með bókstöfum og lóðrétt með tölustöfum. Því myndi röðin sem lesið er í vera svona: A1, B1, A2, B2 osfrv. þangað til þú kemst á botninn. Þá hefst lesturinn á C1, D1, C2, D2 o.s.frv. Ráðning í maya letrið var langt og erfitt vinnuferli. Rannsakendum á 19. og 20. öld tókst að ráða í tölukerfið og búta úr textum sem tengdust stjörnufræði og Maya dagatalinu, en skilningur á heildinni var fræðimönnum ráðgáta. Á fjórða áratugnum skrifaði Benjamin Whorf nokkrar birtar og óbirtar ritgerðir þar sem hann taldi sig geta ráðið í málhljóðshluta skriftarkerfisins. Þótt að afmörkuð atriði í ráðningu Whorfs hafi verið afsönnuð síðar meir þá má segja að meginhlutinn, þ.e.a.s. að Maya híróglífur einkenndust af atvikshljóðum, hafi verið á rökum reist. Undir það tók Yuri Knorozov, en hann átti stóran þátt í því að ráða í Maya letrið. Árið 1952 birti hann greinina "Ancient Writing Of Cental America", þar sem hann hélt því fram að hið svokallaða „de Landa“ stafróf sem var að finna í handriti Diego de Landa biskups, "Relacion de las Cosas de Yucatan", væri einmitt gert úr atkvæðishljóðum frekar en stafrófi með hefðbundnum bókstöfum. Hann þróaði enn frekar ráðningarkerfi sitt í greininni "The Writing of the Maya Indians" og birti þýðingar á handritum Maya í bók sinni "Maya Hieroglyphic Manuscripts", sem kom út árið 1975. Frá og með 9. áratugnum hefur verið sýnt fram á að flest táknin mynda ákveðin atkvæði og jafnframt hefur ráðning í letrið gengið hratt og örugglega síðan þá. Sigurður Pétursson (1907-1994). Sigurður Helgi Pétursson gerlafræðingur (f. 19. maí 1907 á Skammbeinsstöðum í Holtum, d. 15. desember 1994 í Reykjavík) var einn af frumherjum örverurannsókna á Íslandi, en er trúlega þekktastur fyrir rannsóknir sínar á örveruskemmdum í söltuðum fiskafurðum, svo sem jarðslaga og roðaskemmdum í saltfiski og aflitun saltaðra grásleppuhrogna. Starfsferill. Sigurður varði doktorsritgerð sína um mjólkursýrubakteríur af "Thermobacterium" (nú "Lactobacillus") ættkvísl við Christian-Albrechts háskólann í Kiel í Þýskalandi 1935. Að námi loknu hóf hann störf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík þar sem hann starfaði við mjólkureftirlit í tíu ár, lengst af (frá 1937) meðfram rannsóknastörfum við Iðnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands (HÍ). Hann fluttist svo árið 1960 með gerlarannsóknastofu sína til rannsóknastofu Fiskifélags Íslands, sem varð að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) árið 1965. Hann var deildarstjóri gerlarannsókna allt til þess er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1976. Fræðastörf. Sigurður kom víða við í rannsóknum sínum. Meðal sérstakra hugðarefna hans voru saltkærar örverur og örveruskemmdir í saltfiski. Saltfiskur var meðal verðmætustu útflutningsafurða íslendinga á þeim árum sem Sigurður hóf sinn rannsóknaferil og höfðu skemmdir á honum verulega efnahagslega þýðingu. Einkum voru það þrenns konar skemmdir sem höfðu valdið miklu tekjutapi í saltfiskiðnaðinum, en þetta voru mygluskemmdir af völdum jarðslaga, illa lyktandi roðaskemmdir af völdum saltkærra fornbaktería og guluskemmdir (sem síðar var sýnt að væru fyrst og fremst af völdum kopars) og átti Sigurður stóran þátt í rannsóknum sem miðuðu að því að halda þessum skemmdum í skefjum. Meðfram rannsóknastörfum sínum við HÍ og Rf var Sigurður virkur þátttakandi í jafnt alþýðlegri sem sérhæfðri miðlun vísinda og fræða. Hann ritstýrði Tímariti Verkfræðingafélags Íslands frá 1946 til 1949, var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1951 til 1955 og ritstjóri Náttúrufræðingsins frá 1956 til 1965. Jafnframt var hann iðinn við að skrifa læsilegar og aðgengilegar greinar í Náttúrufræðinginn og önnur tímarit, svo sem Frey og Ægi um ýmis efni tengd náttúru Íslands og raunvísindum. Georgíska stafrófið. Georgíska stafrófið (georgíska: ქართული დამწერლობა [kartuli damts'erloba], sem þýðir bókstaflega „georgískt letur“) er stafróf sem notað er til þess að skrifa georgísku og nokkur önnur mál í suðurhluta Kákasus. Stafrófið heitir Mkhedruli (მხედრული, „riddaramennska“ eða „hernaður“) og er þriðja georgíska stafrófið sem tekið er í notkun. Höfundur Georgíska stafrófsins var konungur Georgíu Parnavaz I. Iberia og uppahafsár þess talið vera 284 f.Kr.. Georgíska hefur verið rituð með þremur mismunandi stafrófum í gegnum tíðina en saga ritaðs máls í Georgíu hófst á 4-5 öld. Georgía tók upp kristni árið 330 og átti það sinn þátt í að fyrsta stafrófið leit dagsins ljós. Það stafróf heitir asomtavruli (ასომთავრული,„hástafir“) orðið kemur frá aso (ასო, „stafur“, „gerð“) og mtavari (მთავარი, „aðal“, „megin“, „helstu“, „höfuð“). Þetta stafróf gengur einnig undir nafninu mrgvlovani (მრგვლოვანი, „hringlaga“) orðið er skylt orðinu mrgvali (მრგვალი, „hringur“). Annað stafrófið sem notað var kom fram á 9. öld og heitir nuskhuri (ნუსხური „lítið“, „smátt“). Nuskhuri er skylt orðinu nuskha (ნუსხა „birgðaskrá“, „dagskrá“). Þetta stafróf var mest notað í trúarlegum verkum en hefur einnig verið notað með asomtavruli stafrófinu en þá eru asomtavruli stafirnir notaðir sem hástafir. Það stafróf sem notað er í dag heitir mkhedruli (მხედრული, „riddaramennska“ eða „hernaður“). Það kom fyrst fram á 11. öld og var notað fyrir allan þann texta sem var ekki trúarlegs eðlis þar til á 18. öld en þá tók þetta stafróf einnig við khutsuri stílnum en það kallast stíllinn þegar hin tvö stafrófin eru notuð saman þ.e. asomtavruli fyrir hástafi og nuskhuri fyrir lágstafi. Mkhedruli er skylt orðinu mkhedari (მხედარი, „hestamaður“, „riddari“ eða „stríðsmaður“); khutsuri er skylt orðinu khutsesi (ხუცესი, „öldungur“ eða „prestur“). Öll georgísku stafrófin hafa bara einn ritunarhátt á hverjum staf þ.e. þar eru ekki notaðir hástafir og lágstafir heldur bara einn stafur sem táknar bæði. En eins og áður kom fram er asomtavruli stafrófið stundum notað sem hástafir. Héraðsskjalasöfn á Íslandi. Héraðsskjalasöfn á Íslandi eru tuttugu. Þau starfa skv. lögum nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og reglugerð nr. 283/1994 um héraðsskjalasöfn. Þau eru sjálfstæðar skjalavörslustofnanir á vegum sveitarfélaga og lúta faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Fyrstu lög um héraðsskjalasöfn nr. 7/1947 heimiluðu stofnun slíkra safna og var hið fyrsta þeirra, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga stofnað það ár. Á grundvelli laganna frá 1947 var sett reglugerð nr. 61/1951 um héraðsskjalasöfn. Með lögum nr. 13/1969 um Þjóðskjalasafn var lögð áhersla á ákvæði laganna frá 1947 um yfirumsjón Þjóðskjalasafnsins með héraðsskjalasöfnum. Með lögum um Þjóðskjalasafnið 1985 varð til heildarlöggjöf um opinber skjalasöfn á Íslandi. Héraðsskjalasöfn lúta forstöðu héraðsskjalavarðar á hverjum stað. Hlutverk héraðsskjalasafna er að heimta inn og varðveita skjöl sveitarfélaga og stofnana þeirra á safnsvæði sínu. Einnig að leita eftir því að fá til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnsvæðinu. Undirflokkur inflúensu A H1N1. H1N1 er undirflokkur af inflúensu A og algengasta orsök inflúensu í fólki. Sum afbrigði af H1N1 sýkja menn svo sem afbrigðið sem olli spænsku veikinni árið 1918. Önnur afbrigði af H1N1 eru svínaflensa og fuglaflensa. Inflúensufaraldurinn árið 1918 dró 50-100 milljónir manns til dauða frá 1918-1919. Í mars og apríl 2009 braust út svínaflensufaraldur í Mexíkó. Elliott 6m. Elliott 6m er sex metra langur þriggja manna opinn kjölbátur hannaður af nýsjálenska skútuhönnuðinum Greg Elliott árið 2000. Þessi gerð hefur verið valin sem keppnisbátur fyrir tvíliðakeppni í kvennaflokki í siglingum fyrir Sumarólympíuleikana 2012 í staðinn fyrir Yngling. Hönnun bátsins hefur þó verið breytt fyrir ólympíuleikana þannig að seglaflötur hefur verið minnkaður. Elliott var áður með sleðann fyrir stórskautið á stýrisbitanum þannig að ekkert væri fyrir áhöfninni á sjálfu þilfarinu en í nýrri hönnun bátsins er sleðinn framar. Cadet. Cadet er lítil kæna fyrir einn til tvo siglingamenn ætluð til kennslu. Hún var hönnuð af breska skútuhönnuðinum Jack Holt fyrir tímaritið "Yachting World" árið 1947. Cadet er með stórsegl, fokku og belgsegl. Upphaflega var báturinn smíðaður úr krossviði en síðari ár er hann yfirleitt gerður úr trefjagleri. Hann vegur 54 kíló. Þessi gerð er aðallega vinsæl í Bretlandi og Argentínu. Svínaflensa. Svín geta borið inflúensuvírusa sem aðlagaðir eru mönnum og fuglum. Svínaflensa er smitandi öndunarsjúkdómur sem herjar yfirleitt á svín og orsakast af inflúensuveiru. Fólk sem vinnur með svín og svínaafurðir getur sýkst af afbrigðum af svínaflensu og getur vírusinn stökkbreyst þannig að svínaflensa geti smitast milli manna. Talið er að afbrigðið sem olli Svínaflensufaraldrinum 2009 sé þannig stökkbreyting af H1N1 afbrigði Möguleikhúsið. Möguleikhúsið er atvinnuleikhús sem fæst einkum við uppsetningu leiksýninga fyrir börn og unglinga. Möguleikhúsið var stofnað árið 1990 og fyrsta verkefni þess var leikritið "Grímur og galdramaðurinn" sem var samið fyrir 17. júní það ár. Contender. Contender er hraðskreið einmenningskæna hönnuð af ástralska skútuhönnuðinum Bob Miller (sem síðar kallaði sig Ben Lexcen) árið 1967. Upphaflega var hún hugsuð sem mögulegur staðgengill Finn-kænunnar á Sumarólympíuleikunum 1968. Contender er með masturstaug sem siglingamaðurinn getur hangið í til að beita meiri þyngd gegn hliðarátakinu í seglin. Baybayin. Baybayin eða alibata (þekkt sem tagalog-letur í Unicode kerfinu) er fyrrum spænskt filipeykst skriftarkerfi sem upprunnið er frá java-letri (forn Kawi). Skriftarkerfið er þekkt sem hluti af brahmic fjölskyldunni (og einnig sem angi af vatteluttu stafrófinu) og er það talið hafa verið fyrst notað á 14. öld. Það hélt áfram að vera í notkun á nýlendutíma Spánverja á Filipseyjum allt til seinni hluta 19. aldar. Filippeyska baybayin-skriftarkerfið er eitt af nokkrum sjálfstæðum stafrófum frá suðaustur asískum eyjum svo sem Súmötru, Java og Sulawesi sem flest eru abúgídur og sem að eiga uppruna sinn að rekja til forn Indlands og deila sömu sanskrít einkennum, þar sem hver samhljóði er borin fram með sérhljóða endingu-kommur eru notaðar sem einkenni fyrir aðra sérhljóða (sá tiltekni sérhljoði bregður oft fyrir í Sanskrít og líklega einnig í öðrum Filippeyskum tungumálum). Samt sem áður eiga ekkert af þessum filippeysku baybayin-skriftum sínar ýtarlegu sögulegar heimildir sem hafa verið útbreiddar í aldar raðir. Baybayin skriftarkerfið tilheyrir abugida-kerfinu sem notar samsetningu samhljóða og sérhljóða. Hver bókstafur, skrifaður á sínu venjubundna formi, hefur samhljóðaendingu með sérhljóðanum A. Til að búa til aðra samhljóða endingar en með öðrum sérhljóðum er tákni komið fyrir, annaðhvort fyrir ofan samhljóðann (til að búa til E eða I sérhljóða) eða fyrir neðan samhljóðann (til að búa til O eða U). Táknið kallast "kudlit". "Kudlit" kemur ekki fyrir á sérhljóðum sem standa stakir. Sérhljóðar hafa sitt eigið tákn. Vestur-Evrópusambandið. Aðilar • Aukaaðilar • Áheyrnarfulltrúar • Bandamenn Vestur-Evrópusambandið er varnar- og öryggisbandalag Vestur-Evrópuþjóða stofnað árið 1948. Upphaflegir meðlimir voru Bretland, Frakkland, Belgía, Lúxemborg og Holland. Tilgangur bandalagsins var að stuðla að efnahagslegri endurreisn Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina, að ríkin kæmu til aðstoðar ef á eitt þeirra væri ráðist, og að stuðla að aukinni samvinnu og sameiningu innan Evrópu. 1954 urðu Vestur-Þýskaland og Ítalía aðilar að bandalaginu. Frá síðustu aldamótum hafa verkefni bandalagsins smátt og smátt verið færð til Evrópusambandsins í samræmi við sameiginlega öryggis- og varnarstefnu ESB og sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu ESB. Ísland varð aukaaðili að sambandinu árið 1992. Blindraletur. a> fyrir „fyrsti“) ritað með blindraletri. Blindraletur er ritmál sem blindir nýta sér til þess að lesa og skrifa. Það var hannað af frakkanum Louis Braille árið 1821. Hver stafur samanstendur af sex punktum sem raðað er í tvo dálka og mynda þannig ferhyrning. Punktarnir eru ýmist flatir eða upphleyptir og hefur því hvert tákn sextíu-og-fjórar (26) birtingamyndir, þar með talið tákn þar sem engir punktar eru uppleyptir. Táknin eru lesin með fingurgómi, sem strokið er yfir textann. Táknunum má lýsa með því að nefna upphleyptu punktana. Fyrri dálkurinn geymir punkta 1 – 3 og sá seinni punkta 4 – 6. Til dæmis myndu punktar 1-3-4 mynda tákn með þremur upphleyptum punktum, þ.e. bæði efsti og neðsti punkturinn í vinstri dálkinum og efsta punktinum í þeim hægri. Á milli hverra lína af blindraletri er bil, rétt eins og í hefðbundu ritmáli, sem auðveldar lesandanum að greina á milli þeirra. Greinamerki eru táknuð með þar-til-gerðum táknum. Blindraletur er byggt að samskiptamáta sem Charles Barbier þróaði fyrir Napóleon. Napóleon hafði óskað eftir dulmáli sem gerði hermönnum hans kleift að hafa hljóðlát samskipti að næturlægi án þess að nota ljós og var það nefnt nátt-mál. Kerfi Barbier var of flókið fyrir hermennina, og var hafnað af hernum. Árið 1821 hitti hann Luis Braille í miðstöð blindra í París, Frakklandi. Braille kom auga á aðal-galla kerfisins, þ.e. að ómögulegt var að lesa hvert tákn án þess að færa fingurinn, sem erfiðaði samfelldan lestur. Lausn Braille fólst í sex-punkta kerfinu sem gjörbylti skrifuðum samskiptum blindra. CP/M. CP/M (stendur fyrir Control Program for Microcomputers eða „stýriforrit fyrir örtölvur“) er stýrikerfi sem upphaflega var þróað fyrir tölvur með Intel 8080 og Intel 8085 örgjörva. Höfundur kerfisins var Gary Kildall hjá Intergalactic Digital Research sem þróaði fyrstu útgáfu þess 1973-1974. CP/M var algengt stýrikerfi á einkatölvum frá 1975 til 1985. Senna setti fyrirtækið á markað fjölnotendaútgáfu af kerfinu sem hét M. Fyrsta útgáfa MS-DOS líktist mjög CP/M. Tagalog. Tagalog er tungumál sem talað er í Filippseyjum og er töluð af um það bil 22 miljónum manna. Þau tungumál sem hafa haft mikil áhrif á tagalog eru spænska, enska, hindí, arabíska, sanskrít, gamla malayska, kínverska, japanska og tamílska. Tagalog er talað víðsvegar um Filipseyjar og um allan heim. Tagalog er meðal annars 5 stærsta tungumálið í Bandaríkjunum en u.þ.b. 1.4 milljón manna tala það, eins tala um 235 þúsund manns það í Kanada. Heiti tungumálsins „tagalog“ hefur uppruna sinn frá orðinu „tagailog“ þar sem tagá þýðir frumbyggi frá og orðinu ílog sem þýðir fljót. Úr samsetningu orðanna má lesa út „fljótabúi“. Lítið er vitað um sögu tungumálsins, þó eru kenningar þess efnis frá tungumálasérfræðingum eins og Dr. David Zorc og Dr. Robert Blust að uppruna tagalog þjóðflokksins megi rekja til norðaustur Mindanao eða austur Visayas. Fyrstu skiflegu heimildirnar af tagalog eru frá árinu 900 og notuð hluta til með tungumálunum sanskrít, malayska og javanska. Fyrsta bókin sem vitað er um að hafa verið skifuð á tungumálinu er "Doctrina Cristiana", skrifuð árið 1593. Bókin var skrifuð á spænsku og í tveimur útgáfum af tagalog, ein útgáfan er skrifuð í baybayin skriftarkerfinu og hin á latnesku. Árið 1937 var tagalog valið af „the National Language Institute“ sem undirstaða að þjóðartungumáli Filipseyja. Tveimur árum síðar eða 1939 kallaði Manuel L. Quezon þjóðartungumálið „Wikang Pambansâ“. Tuttugu árum síðar, árið 1959, var það endurnefnt af menntamálaráðherranum Jose Romero sem filipiska. Tilgangurinn var að gefa tungumálinu landlægari brag og merkingu í stað þjóðlegri. Þessi breyting fékk ekki samþykki allra og sér í lagi þeirra sem ekki eru af tagalog uppruna t.d. Cebuanos fólki. Árið 1971 kom aftur upp ágreiningur varðandi tungumálið sem leiddi til sáttar en þá var tungumálið kallað „Filipino“ í stað „Pilipino“ og rataði það meðal annars inn í nýja stjórnarskrá sem skrifuð var árið 1987. Örtölva (tölva). Örtölva er tölva sem er búin örgjörva þ.e.a.s. miðverki sem er allt í einni samrás. Örtölva er líka tölva sem tekur lítið pláss andstætt stórtölvu eða smátölvu. Margar örtölvur eru búnar lyklaborði og skjá og eru þannig líka einkatölvur. Þetta hugtak var algengt á 7. og 8. áratug 20. aldar en er nú nánast horfið þar sem allar tölvur eru nú búnar örgjörva og því ekki lengur þörf á að taka það fram. Fornpersneska. Við fyrstu sýn líkist Fornpersneska letrið, fleigrúnum Súmera og Akkadiana, það er að segja er samsett úr fleiglaga táknum, sem hafa verið pressuð í leir eða hoggin í stein. Lögun og gerð táknanna er þó ekki með beina samsvörun í eldri málin. Fornpersar héldu í fleigrúnarformið einfaldlega vegna hefðarinnar og hugsanlega þar sem það var auðveld leið til að letra í leirplötur og á steinveggi. Fræðimenn í dag eru flestir sammála að fornpersneska hafi verið fundið upp um 525 f.Kr. til að letra á minnsvarða um afrek kóngsins Dareiosar fyrsta, hins mikla, sem voru gerðir í Behistum. Hann lét gera sérstakt Persneskt stafróf af þessu tilefni. Fundist hafa áletranir, töflur og innsigli með fornpersnesku letri í Íran, Tyrklandi og Egyptalandi. Það þróaðist yfir í miðpersnesku málið, sem líka er þekkt sem pahlavi, og svo að lokum yfir í nútíma persnesku. Fornpersneskan flokkast sem hljóðletur, þar sem meirihluti táknanna eru hljóðtákn. En það inniheldur einnig myndletur. Það hefur einungis þrjá sérhljóða A, I og U. Stakir samhljóðar, sem eru hluti af samhljóðaröð eða eru endi á atkvæði eru ritaðir sem hljóðtákn eins og þeir stæðu með sérhljóðanum A. Þetta hefur verið gert til að auðvelda ritunina en þegar lesið er úr tákninu (sem hluta af orði) fellur A-hljóði burt. Fornpersneskan er elsta þekkta persneska tungumálið, sem flokkast til Vestur-íranskra tungumála. miðperskneska (Pahlavi) og nýja perskneska (íranska) hafa þróast beint frá fornpersnesku. Í dag er persneska letrað með perso-arabísku letri. Nöfn konunga höfðu mikla þýðingu þegar kom að því að ráða úr letrinu. Tilraunir til að ráða úr fornperskneskum fleigrúnum hófust um 1711 þegar áletranir Dareiosar voru birtar í Chardin. Árið 1802, áttaði Friedrich Münter sig á því að ákveðnar letursamsetningar hlutu að vera orðið „kóngur“. Georg Fredrich Grotefend hélt svo áfram með verkið og áttaði svo á því að eftir konunganöfnum var oft þessi texti „mikli konungur“, „konungur konunguna“ og nafn föður konungsuns. Áframhaldandi framfarir byggðu á vinnu Grotefends og um 1847 höfðu flest táknin verið ráðin. Hebreskt stafróf. Hebreska stafrófið (hebreska: אָלֶף-בֵּית עִבְרִי‎,) er eitt abdsjad sem samanstendur af 22 stafagerðum. Einnig má finna lítið breyttar útgáfur stafanna í nokkrum öðrum tungumálum innan Samfélags gyðina en þar ber helst að nefna jiddísku, ladino og judeo arabísku. Fimm stafagerðir hafa mismunandi bitringamyndir þegar þau koma fyrir aftast í orði. Hebreska er skrifuð frá hægri til vinstri. Fjöldi stafa, uppröðun, nöfn og hljóðfræði eru sams konar og í Arameíska stafrófinu en bæði tungumálin notuðust við fönikískt stafróf á undir lok annarar aldar fyrir Krist. Samkvæmt nútíma fræðimönnum er nútíma ritmál hebresku byggt á aramísku ritmáli frá þriðju öld f.Kr. en gyðingar höfðu notað það til þess að skrifa hebresku frá því um á 6. öld f. Kr. Fyrir þann tíma notuðust gyðingar við gamalt hebreskt ritmal en það er byggt á fönísku ritmáli frá því á 10. öld f.Kr. en það ritmál er notað enn í dag í trúarlegum verkum. Sanitas (gosdrykkjagerð). Sanitas var gosdrykkjaverksmiðja sem var stofnuð 28. nóvember 1905. Fyrirtækið stofnaði Gísli Guðmundsson gerlafræðingur, Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ og Jón Jónsson í Melshúsum. Fyrirtækið hóf starfsemi sína á Seltjarnarnesi, nánar tiltekið í Melshúsatúninu. Árið 1916 keypti Loftur Guðmundsson, hinn kunni kvikmyndagerðarmaður, fyrirtækið en seldi það Sigurði Waage árið 1924. Undir stjórn Sigurðar óx Sanitas og dafnaði að Lindargötu 9 í Reykjavík, þar sem verkamannafélagið Dagsbrún var síðar til húsa. Árið 1939 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag og skömmu síðar urðu þáttskil er Sanitas hf. fékk einkaumboð fyrir Pepsi Cola og var það fyrsta umboð þessa þekkta bandaríska gosdrykkjar í Evrópu. Árið 1958 flutti fyrirtækið að Köllunarklettsvegi í Reykjavík og var jafnframt aukið við vélakostinn. Sigurður Waage var framkvæmdastjóri Sanitas hf. til dauðadags árið 1976. Tóku sonur hans Sigurður S. Waage og tengdasonur Björn Þorláksson við framkvæmdastjórn. Þeir gengu fljótlega frá samningi við Sana hf. á Akureyri, sem þá var orðið meirihlutaeign Páls G. Jónssonar, um að Sanitas hf. dreifði öli fyrir Sana hf. Sanitas hf. átti í verulegum rekstrarörðugleikum um þetta leyti og lenti fljótlega í vanskilum við Sana hf. á Akureyri. Páll keypti síðan hluti í Sanitas hf. til að styrkja fyrirtækið og efla dreifingarnet þess. Sanitas og Sana hf. voru sameinuð 1978. Nafni Sanitas var breytt í Víking hf. árið 1994 og 1997 sameinaðist fyrirtækið Sól hf og til varð Sól-Víking. Það fyrirtæki sameinaðist síðan Vífilfelli undir merkjum þess síðarnefnda. Icecross. Icecross var íslensk hljómsveit sem gaf út eina samnefnda plötu árið 1973. Flying Junior. Heimsmeistarakeppnin í siglingu á Flying Junior í San Francisco-flóa árið 2007. Flying Junior er tvímenningskæna hönnuð í Hollandi af Uus van Essen og Coen Gulcher á árunum 1954-1955 sem minni útgáfa af Flying Dutchman til kennslu og þjálfunar fyrir unga siglingamenn. Flying Junior er rúmir fjórir metrar að lengd með stórsegl, fokku og belgsegl. OK (kæna). OK er fjögurra metra löng einmenningskæna hönnuð af danska bátasmiðnum Knud Olsen árið 1957. OK er undirbúningsbátur fyrir Finn og hefur því fylgt eftir breytingum á hönnun þess síðarnefnda í gegnum tíðina. OK var ódýr og einföld í smíðum og með einfaldan seglabúnað. Hún varð geysivinsæl í Evrópu á 7. og 8. áratug 20. aldar en dalaði hratt á þeim 9.. Bjørnstjerne Bjørnson. Bjørnstjerne Martinus Bjørnson (8. desember 1832 – 26. apríl 1910) var norskur rithöfundur og skáld. Bjørnstjerne er t.d. höfundur ljóðsins að norska þjóðlaginu: "Ja, vi elsker dette landet." Bjørnstjerne hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1903 og er í Noregi talinn einn af hinum fjóru stóru ("De fire store") ásamt Henrik Ibsen, Jonas Lie og Alexander Kielland. Tenglar. Bjørnson, Bjørnstjerne Martinus Bjørnson, Bjørnstjerne Martinus Svante August Arrhenius. Svante August Arrhenius (fæddur 19. febrúar 1859 í Svíþjóð, dáinn 2. október 1927) var sænskur vísindamaður, upprunalega eðlisfræðingur, en hann var einn af stofnendum vísinda eðlisefnafræðirinnar. Hann var sonur Svante Gustaf Arrhenius og Carolinu Christinu Thunberg. Árið 1884 skrifaði hann doktorsritgerð um jónir og eiginleika þeirra. Kenning hans var ekki viðtekin í fyrstu en hann hlaut að lokum Nóbelsverðlaun í efnafræði árið 1903 fyrir hana. Arrhenius, Svante August Splash (kæna). Splash-kænur í keppni árið 2007. Splash er 3,6 metra löng einmenningskæna hönnuð af hollenska skútuhönnuðinum Jac de Ridder árið 1986. Hún var hugsuð sem framhald fyrir siglingamenn sem vaxnir væru upp úr Optimistum. Hún er smíðuð úr glertrefjum og vegur 55 kg. Musto Performance Skiff. Musto Performance Skiff á undanhaldi Musto Performance Skiff er 4,55 metra löng, mjög hraðskreið flatbotna einmenningskæna. Hún er með vængi, masturstaug og bugspjót fyrir gennaker. Hún var hönnuð árið 1999 af Joachim Harpprecht fyrir prófanir fyrir nýja ólympíukænu árið 2000 þar sem hún vann allar keppnirnar. Musto Skiff nær meira en 20 hnúta hraða og er þannig einn af hraðskreiðustu einmenningsseglbátum sem til eru. Jack Holt. Jack Holt (1912-1995) var breskur skútuhönnuður frá London sem átti mikinn þátt í að gera kænusiglingar vinsælar á árunum eftir síðari heimsstyrjöld með hönnun ódýrra báta úr krossviði. Holt hannaði eða tók þátt í hönnun yfir 40 bátsgerða. Meðal þeirra þekktustu eru Mirror, Cadet, Enterprise, GP14 og International 14. International 14. International 14 er fjórtán feta (4,27 metra) löng tvímenningskæna. International 14 er þróunargerð sem leyfir breytingar innan ramma ákveðinna reglna sem gilda fyrir gerðina. Upphaflega hétu þessar kænur National 14 og byggðu á reglum sem settar voru um kappsiglingar ólíkra fjórtán feta kæna í Bretlandi í upphafi 20. aldar. Reglurnar eru í stöðugri þróun og taka mið af nýjungum í kænusiglingum. Eldri bátar þessarar gerðar verða þannig úreltir eftir því sem reglurnar þróast. Safabóla. Safabóla er bóla eða blaðra í frumum sem er full af vatni og úrgangsefnum. Í dýrafrumum eru safabólurnar margar og litlar en í plöntufrumunum eru þær stórar og fáar. Þeim mun stærri sem safabólurnar eru þeim mun stærri eru frumurnar en frumur geta þrjúhundruðfaldað stærð sína þegar safabólurnar draga mikið vatn í sig. Háskólinn í London. Háskólinn í London er stór sambandsháskóli staðsettur aðallega í London á Englandi. Hann samanstendur af 31 hlutdeildarfélögum: 19 sérstökum skólum og 12 rannsóknarstofnunum. Hann er líka stærsti háskólinn á Bretlandi miðað við nemendafjölda í fullu námi; það er 135.090 nemendur á háskólalóð. Háskólinn var stofnaður árið 1536 af konunglegri stofnskrá sem sameinaði "London University" (í dag University College London) og King's College (núna King's College London). Framhaldsnemar mega nota letrin „Lond.“ ("Londiniensis") á eftir nafninu sínu. Imperial College London var fyrrum hluti háskólans en skildi við þann 9. júlí 2007. Skólarnir níu starfa að mörgu leyti eins og sjálfstæðir háskólar. Die Sprache. Die Sprache (isl. „tungumálið“) er alþjóðlegt ritrýnt tímarit um málvísindi sem var stofnað árið 1949 af Paul Kretschmer, Wilhelm Havers og Wilhelm Czermak. "Die Sprache" er sérhæft í indóevrópskum málvísindum. Tímaritið kemur út tvisvar á ári hjá bókaforlaginu Harrassowitz (Wiesbaden). Núverandi ritstjóri er Heiner Eichner í samstarfi við Hans Christian Luschützky, Robert Nedoma, Oskar E. Pfeiffer, Chlodwig H. Werba (háskólanum í Vínarborg) og Klaus T. Schmidt. Till Ugluspegill. Hrekkjalómurinn Till Ugluspegill með "uglu" og "spegil", sem voru táknmyndir hans Till Ugluspegill (en oftast aðeins nefndur Ugluspegill) var þýskur flakkari og hrekkjalómur sem uppi var á fyrri hluta 14. aldar (dáinn 1350). Ugluspegill er þekktastur fyrir hrekkjabrögð sín og eru til um hann margar sögur. Sögunum var síðan safnað saman í lok 15. aldar og þær gefnar út 1515. Ugluspegill andaðist í Mölln og er þar grafinn og hefur legsteinn hans staðið þar síðan á 16. öld. Í Schöppenstedt er Ugluspegilssafn. Sögurnar um Ugluspegil komu út á íslensku árið 1956 í þýðingu Eiríks Hreins Finnbogasonar. Nefndist bókin: "Till Ugluspegill - Ærsl og strákapör". Alan Aldridge. Alan Aldridge (fæddur 1943 í London) er breskur listamaður, búsettur í Los Angeles. Starfsferill hans hófst árið 1965 þegar hann hóf störf við myndskreytingar á bókakápur fyrir fyrirtækið Penguin Books. Eftir að hafa unnið þar í tvö ár fékk Aldridge stöðu sem yfirmaður listadeildarinnar. Þar fékk hann tækifæri til að kynna sinn stíll. Árið 1968 stofnaði hann sitt eigið hönnunarfyrirtæki, INK, sem gerði meðal annars grafískar myndir fyrir Bítlana og Apple. Milli áranna 1960 og 1970 myndskreytti hann fjöldann allan af plötuumslögum og hjálpaði þar með við mótun grafísks stíls þessa áratugar. Aldridge hannaði seríu af bókakápum vísindaskáldsagna fyrir Penguin Books. Hann varð svo umtalaður eftir myndskreytingar sem hann gerði fyrir Bítlana. Frægasta verk hans er líklega myndabókin The Butterfly Ball and the Grasshopper Feast(1947). Tenglar. Aldridge, Alan Regnfang. Regnfang (fræðiheiti: "Tanacetum vulgare") er ilmjurt af körfublómaætt. Regnfang er harðgerð jurt og lifir jafnvel áratugum saman í afræktum görðum eyðibýla og er jafnan hin gróskulegasta. Regnfang hefur einnig verið nefnt rænfang, reinfáni, daggarsmali, leiðabuski og ormagras á íslensku. Markaðsbrestur. Markaðsbrestur nefnist það þegar framleiðsla á vöru eða þjónustu á markaði er ekki skilvirk. Með því er átt við að hagkvæmara sé að skipuleggja framleiðsluna með öðrum hætti. Sem dæmi um markaðsbresti má nefna: einokunar- og fákeppnismarkaði, samgæði og ytri áhrif. Markaðsbrestir eru oft notaðir sem réttlæting á inngripi hins opinbera. Andstæða markaðsbrests hefur verið nefndur ríkisbrestur. Íslandsklukkan (myndlistarverk). Íslandsklukkan er útilistaverk eftir Kristin E. Hrafnsson. Hún er í eigu Akureyrarbæjar og er staðsett á Sólborgarsvæðinu við Háskólann á Akureyri þar sem hún „vísar til þeirrar árvekni sem einkennir gott háskólafólk“. Listaverkið var sigurframlag Kristins í samkeppni sem Akureryrarbær efndi til árið 2000 í tilefni þúsaldarafmælis kristnitöku og fyrstu ferða Íslendinga til Norður-Ameríku. Linkol. Linkol eða steinkol eru tegund af kolum sem hafa lægra kolefnisinnihald og meira magn af rokgjörnum efnum en harðkol. Þau brenna með gulleitum loga og reyk. Gísli Jónsson (íslenskufræðingur). Gísli Jónsson (14. september 1925 – 26. nóvember 2001) var íslenskufræðingur og kennari en er þekktastur sem höfundur þættina um "íslenskt mál" í Morgunblaðinu sem hann skrifaði á árunum 1979-2001. Gísli fæddist á Hofi í Svarfaðardal og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Jón Gíslason bóndi og smiður á Hofi og kona hans Arnfríður Sigurhjartardóttir sem ættuð var frá Urðum í Svarfaðardal. Gísli lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1946 og kandídatsprófi í norrænum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1953 jafnframt prófi í uppeldis- og kennslufræðum. Gísli starfaði sem þingskrifari á námsárum sínum og frá 1951 sem kennari við MA, fyrst lausráðinn en skipaður árið 1953 og starfaði þar alla tíð. Gísli sá um útvarpsþáttinn "Daglegt mál" á RÚV veturinn 1977-1978. Gísli var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins 1959-1971 og sat á þingi öðru hverju og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fjölmörg rit liggja eftir Gísla, meðal annars Saga KEA, Saga Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, Saga MA, Fullveldi Íslands og fleiri, einnig þýðingar og ritgerðir og hann bjó fjölmargar bækur til prentunar. Þá er nýverið komin út "Nýja limrubókin" sem hefur að geyma ritgerð um limrur. Notendaforrit. Notendaforrit eða notendahugbúnaður er hugbúnaður sem notandi á bein samskipti við og notar til að vinna sína vinnu á notendatölvu gagnstætt kerfishugbúnaði og miðbúnaði sem venjulegur notandi (ekki kerfisstjóri) á sjaldan í beinum samskiptum við. Dæmi um algeng notendaforrit eru ritvinnsluforrit, töflureiknar, myndvinnsluforrit og netvafrar. Notendaforritum er stundum skipt í nokkra flokka eftir því hvaða markaði þau eru ætluð; t.d. fyrirtækjahugbúnaður, þróunarhugbúnaður, kennsluhugbúnaður o.s.frv. 49er. 49er er hraðskreið, flatbotna tvímenningskæna hönnuð af ástralska skútuhönnuðinum Julien Bethwaite sem nýr ólympíubátur fyrir prófanir 1996. 49er var fyrst notuð sem keppnisbátur á Sumarólympíuleikunum 2000 í Sydney. Hönnun hennar byggir á hönnun áströlsku 18 feta kænunnar. Hún er með langt bugspjót fyrir gennaker, vængi út frá hliðunum og masturstaug fyrir bæði stýrimann og miðskipsmann. 29er er minni þjálfunarútgáfa fyrir 49er með einni masturstaug. RuneScape. Runescape er þrívíddar net leikur. Hann kom út 2001 frá Jagex og Andrew Gower gerði hann ásamt bróður sínum Paul Gower. Hann er mest spilaði browser based-netleikur í heimi. Leikurinn er frír. Það þarf samt að borga ef maður vill fá svokallað membership til að bæta leikmanninn þinn. Árlega er haldið svokallað RuneFest þar sem Runescape leikmenn úr öllum heimshornum hittast og spila og hafa það gaman. Jagex er orðið miklu stærra fyrirtæki útaf leiknum og allir sem vinna þarna er yfir 100 manns. Jagex hefur oft unnið verðlaunir fyrir runescape t.d. Best MMORPG of the year (MMORPG stendur fyrir Massive Multiplayer Online RolePlaying Game). Umframbyrði. Umframbyrði eða allratap í hagfræði nefnist óskilvirkni á framboði og eftirspurn á vöru þannig að Pareto-kjörstöðu er ekki náð. Með öðrum orðum kaupir fólk vöruna eða þjónustuna og hlýtur ekki ábata af eða kaupir ekki vöruna sem það hlyti ábata af. Umframbyrði er það tap sem hlýst af markaðsbresti og sem dæmi um slíka má nefna einokunarmarkaði og ytri áhrif. Fleiri ástæður geta verið, til að mynda skattar, niðurgreiðslur, verðþök eða lágmarksverð. Þ.e.a.s.. Þ.e.a.s. stendur fyrir „það er að segja“ Dyngjufjöll. Dyngjufjöll er eldvirkur fjallgarður í Ódáðahrauni, 15 km norður af Vatnajökli, hér um bil mitt á milli Skjálfandafljóts að vestan og Jökulsár á Fjöllum að austan. Megineldstöðin Askja er í Dyngjufjöllum. Jakobína Sigurðardóttir. Jakobína Sigurðardóttir (8. júlí 1918 – 29. febrúar 1994) var íslenskur rithöfundur og skáld. Jakobína fæddist í Hælavík í Sléttuhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu og ólst upp þar fram á unglingsár. Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, er bjó í Hælavík en varð síðar símstöðvarstjóri á Hesteyri, og kona hans, Stefanía Halldóra Guðnadóttir húsfreyja. Jakobína stundaði nám við Ingimarsskólann í Reykjavík og nam utanskóla við Kennaraskóla Íslands í hálfan vetur. Árið 1949 fluttist hún að Garði í Mývatnssveit, þar sem hún síðan var húsfreyja. Eiginmaður hennar var Þorgrímur Starri Björgvinsson, bóndi í Garði. Jakobína var með þekktustu rithöfundum landsins á sinni tíð og var í heiðurslaunaflokki listamanna á efri árum. Systir Jakobínu er Fríða Á. Sigurðardóttir, rithöfundur. Ritverk. Skáldsögurnar Dægurvísa, Snaran og Lifandi vatnið voru allar valdar sem framlag Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda. Jakobína hlaut bókmenntaverðlaun Ríkisútvarpsins 1979. Fríða Á. Sigurðardóttir. Fríða Áslaug Sigurðardóttir (11. desember 1940 – 7. maí 2010) var íslenskur rithöfundur. Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 1990 fyrir skáldsöguna "Meðan nóttin líður" og síðan Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992 fyrir sömu bók. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Fríða var systir Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu. Corona (hljómsveit). Corona er ítölsk eurodance-hljómveit stofnuð í Massa í Toskana árið 1993 af hópi í kringum útsetjarann Francesco Bontempi. Auk Bontempis voru þátttakendur í verkefninu Francesco Alberti, Graziano Fanelli, Ivana Spagna, Theo Spagna, Antonia Bottari, Annerley Gordon og Fred Di Bonaventura. Olga de Souza voru fengnar til að syngja og Olga de souza varð andlit hópsins út á við sem „Corona“. Fyrsti slagari sveitarinnar var „Rhythm of the Night“ 1994 1995: „Baby Baby“ og „Try Me Out“. Hópurinn gaf út plötuna "Walking On Music" árið 1998 sem náði ekki neinum vinsældum, en Bontempi og Olga de Souza héldu áfram samstarfi með nýrri plötu árið 2000. De Souza gaf að síðustu út plötu með eigin efni árið 2006 undir nafninu Corona. Heimastjórn. Heimastjórn er þar sem hluti ríkis krefst að honum sé gefinn meiri sjálfsstjórn af miðstjórninni. Til dæmis var Íslandi gefin heimastjórn af Danmörku áður en það varð sjálfstætt ríki (Grænland og Færeyjar voru líka gefin heimastjórn en eru ekki enn sjálfstæð ríki). Á Bretlandi er heimastjórn venjulega krafa landanna sem standa saman sem Bretland (sérstaklega Skotlands, Norður-Írlands og Wales) um aukin völd. Mikilvægt er að taka fram að heimastjórn er ólík sambandsstjórnarstefnu eins og í Kanada, Þýskalandi, Sviss og Bandaríkjunum. Sambandsstjórnarstefna ábyrgist að fylki er til, en til að koma á heimastjórn þarf að breyta lagasetningu og hana er hægt að afturkalla. Stafræn mynd. Stafræn mynd er framsetning myndar í tvíundakerfi og getur verið annaðhvort vigur- eða rastamynd. Yfirleitt á við heitið „stafræn mynd“ rastamynd. Stafrænir ljósmyndavélar og skannar geta skapað stafrænir rastamyndar. Til að búa til vigurmyndar á maður að nota hönnunarforrit og skapa mynd með höndunum. Notendur geta notað hugbúnað til að horfa á myndir, eins og vafrar eða ljósmyndaforrit. Google Chrome. Google Chrome er vafri frá Google sem byggir á WebKit-umbrotsvélinni. Fyrsta útgáfan af Google Chrome var betaútgáfa fyrir Microsoft Windows gefin út þann 2. september 2008 og fyrsta stöðuga útgáfa vafrans kom út 11. desember 2008. Samkvæmt W3Counters nota 31,5% Chrome af öllum sem nota vafra, í apríl 2013. Chrome er því vinsælasti vafri heims.. Útgáfur af Chrome fyrir Linux og Mac OS X hafa verið til frá útgáfu 5.0 sem kom út árið 2010 en opinberar betaútgáfur fyrir þessi stýrikerfi komu út 8. desember 2009. Stærstur hluti af frumkóða Chrome var gefinn út undir frjálsu hugbúnaðarleyfi árið 2008 undir heitinu Chromium og þróaður áfram í opnu ferli. Vafrinn notar nýtt verklag til að sýsla með vefsíður; til dæmis er hver flipi keyrður í aðskildum ferli. Google Chrome var líka fyrsti vafrinn sem flutti flipastiku upp í titilstiku þegar heilskjáshamur var virkjaður. Örn Arnarson (skáld). Örn Arnarson (dulnefni Magnúsar Stefánssonar) (12. desember 1884 – 25. júlí 1942) var íslenskt skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir ljóðabók sína "Illgresi" sem kom út árið 1924. Þekktustu ljóð hans eru til dæmis "Stjáni blái" og "Íslands Hrafnistumenn", en hið síðarnefnda varð síðan innblásturinn að nafni Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna. Magnús Stefánsson fæddist að Kverkártungu á Langanesi í Norður-Múlasýslu. Einn vetur stundaði hann nám í Flensborgarskóla og annan í Kennaraskólanum. Hann birti fyrstu ljóð sín í Eimreiðinni árið 1920 undir dulnefninu Örn Arnarson og hélt því upp frá því. Fjórum árum síðar gaf hann út sína frægustu bók, "Illgresi". Náttúrulegt umhverfi. a> er fjöllótt svæði þar sem mannshöndin hefur ekki komið nærri. Náttúrulegt umhverfið er ólík manngerðu umhverfi sem samanstendur af því sem menn hafa búið til eða hafa umtalsverð áhrif á. Maður lítur á svæði sem náttúrulegt umhverfi ef áhrif af mönnum eru neðan við nokkurn þröskuld. Jarðvísindi eru öll vísindi sem eru fjalla um Jörðina. Jarðvísindi skiptist í fimm aðalfræðigreinar: landafræði, jarðfræði, jarðeðlisfræði, landmælingafræði og haffræði. Þessar fræðigreinar nota eðlisfræði, efnafræði, líffræði, tímatalsfræði og stjörnufræði til að byggja eigindlegan og magnbundinn skilning jarðkerfisins. Í jarðvísindum er yfirleitt talað um fjögur hvolf: jarðskorpu, vatnshvolf, andrúmsloft og lífhvolf sem eru í samræmi við berg, vatn, loft og líf. Stundum tala fræðimenn einnig um freðhvolf og jarðvegahvolf sem samsvara hvort um sig ísi og jarðvegi. The Edge. David Howell Evans (fæddur 8. ágúst 1961), þekktastur sem The Edge eða Edge, er írskur hljómborðs-, gítarleikari og aðalbakraddasöngvari hljómsveitarinnar U2. Árið 2003 komst hann í 24. sæti á lista "Rolling Stone" yfir 100 bestu gítarleikara allra tíma. Frumuskipting. Frumuskipting er aðferð þar sem fruma, sem heitir "móðurfruma", skiptist í tvær eða fleiri frumur, sem heita "afkvæmis-" eða "dótturfrumur". Yfirleitt er frumuskipting lítill hluti í stærra ferli sem heitir frumuferill. Fyrir heilkjörnunga heitir aðferðin jafnskipting og afkvæmisfrumur geta skipst aftur. Samsvarandi tegund frumuskiptingar fyrir dreifkjörnunga heitir tvískipting frumu. Það er til önnur tegund frumuskiptingar í heilkjörnungum þekkt sem rýriskipting þar sem fruma umbreytist varanlega í kynfrumu sem getur ekki skipst aftur fram að frjóvgun. Frumuskipting jafngildir æxlun fyrir einfrumunga eins og slímdýr, af því að heil ný lífvera er sköpuð. Fyrir stærri lífverur, það er að segja fjölfrumunga, getur jafnskipt frumuskipting vísað á afkvæmi. Til dæmis geta jurtir vaxið úr afklippu. Frumuskipting leyfir lífveru sem æxlast kynferðislega að þróast úr okfrumu sem er aðeins ein fruma (og varð hún sjálf til af frumuskiptingu kynfruma). Þegar vexti lífverunnar er lokið gegnir frumuskipting hlutverki endurnýjunar og viðgerða. Í dæmigerðri mannveru verða um það bil 10.000 trilljónir frumuskiptinga á æviskeiðinu. Frumuhringur. Frumuhringur eða frumuferill kallast það þegar fruma undirbýr sig fyrir skiptingu. Í dreifkjörnungum fer fram tvískipting frumunnar. Í heilkjörnungum skiptist frumuhringurinn í tvo fasa; annars vegar interfasa þar sem fruman safnar þeim næringarefnum sem hún þarf fyrir jafnskiptingu og til að afrita DNA; og hins vegar jafnskiptingu þar sem fruman skiptir sér í tvær dótturfrumur. Frumuhringurinn er nauðsynlegur til að gera fullvaxta lífveru úr frjóvgaðri okfrumu en einnig sem liður í endurnýjun hárs, húðar og blóðfrumna. Okfruma. Okfruma er fyrsta þrepið í tilurð einstakrar nýrrar lífveru þegar hún samanstendur af aðeins einni frumu. Orðið er notað líka til að eiga við hóp fruma sem verður til eftir fyrstu frumuskiptingarnir en réttara heiti hans er kímfruma. Okfruma verður yfirleitt til við frjóvgun tveggja einlitninga, það er að segja eggfrumu frá kvenkyns einstaklingi og sæðisfrumu frá karlkyns einstaklingi sem sameinast til að gera tvílitning. Svo inniheldur okfruma DNA frá bæði móðurinni og föðurnum og hún hefur allar nauðsynlegar erfðaupplýsingar til að mynda nýjan einstakling. Í spendýrum fer eggfruman eftir frjóvgun niður eggjaleiðara og skiptist á meðan í tvennt án að breyta stærð. Þessi mítósufrumuskipting heitir klofnun. Öll spendýr fara í gegnum okfrumaþrep lífsins. Okfrumur verða að fósturvísum og síðan að fóstri. Mannleg okfruma er til í um fjóra daga og verður kímblaðra á fimmti degi. Niklas Rådström. Pär Kristian Niklas Rådström (fæddur 12. apríl 1953 í Stokkhólmi) er sænskur rithöfundur og handritahöfundur. Niklas Rådström lagði stund á kvikmyndafræði og heimspeki. Hann skrifar skáldsögur en einnig ljóð og leikrit. Ritverkaskrá. Rådström, Niklas Daniel Radcliffe. Daniel Jacob Radcliffe (fæddur 23. júlí 1989) er enskur leikari, sem er þekktastur fyrir að leika Harry Potter. Hann hefur einnig komið fram í nokkrum sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Hann lék í leikritinu Equus sem var bæði sýnt í London og New York og var tilnefndur til Drama Desk Award fyrir leik sinn í því. Eignir hans eru metnar á 20 milljónir punda. Radcliffe, Daniel Sæðisfruma. Sæðisfruma er einlitna kynfruma karldýra. Sæðisfruma rennur saman við eggfrumu til að mynda okfrumu. Okfruma er er tvílitna og getur orðið að fósturvísi. Sæðisfrumur gefa tvílitna afkvæmum helming allra nauðsynlegra erfðaupplýsinga. Í spendýrum ræðst kyn afkvæmis af sæðisfrumunni: sæðisfruma með Y-litningi orsakar karlkynsafkvæmi (XY) og sæðisfruma með X-litningi orsakar kvenkynsafkvæmi. Anton van Leeuwenhoek var fyrsti maðurinn til að rannsaka sæðisfrumur árið 1677. Blæðing. Blæðing er það blóðæð rofnar þannig að blóð tekur að renna út úr blóðrásarkerfinu eða þegar einhverjum er "vakið blóð" eða "vekur sér blóð". Blætt getur innvortis úr æðum, sem ekki sést á ytra borði, og útvortis en þá blæðir út um húð eða slímhúð, svo sem leggöng, munn, nef eða endaþarmsop. Heilt blóðlát heitir aftöppun blóðs, og mikið blóðlát heitir (e. "desanguination"). Heilbrigðum einstaklingi getur blætt 10–15% af heildarblóðmagni líkamans án alvarlegra afleiðinga. Þegar menn gefa blóð er oftast tekið 8–10% af blóðmagni blóðgjafans. Blæðing gengur nærri lífi manns þegar hún orsakar blóðþurrð eða blóðþrýstingsfall. Líkaminn getur notað ýmis verklög til að geyma samvægi líkamisins. Nokkrir sjúkdómar eins og dreyrasýki geta aukið áhættu blæðinga. Athugið vel að blæðingar í fleirtölu er oft haft um tíðir kvenna, sbr. "vera á blæðingum". Blæðingar. Blæðingar (tíðir eða klæðaföll) er regluleg losun blóðs og legslímuleifa úr legi kynþroska kvenna. Hjá konum, sem enn eru í barneign, verða blæðingar á u.þ.b. 28 daga fresti og vara í 2–7 daga. Björgunarafrekið við Látrabjarg (kvikmynd). "Björgunarafrekið við Látrabjarg" er íslensk heimildarmynd sem tekin var upp og gerð af Óskari Gíslasyni. Hún fjallar um björgunarafrekið við Látrabjarg þegar togarinn "Dhoon" strandaði við bjargið 12. desember 1947. Myndin var tekin upp ári síðar og kom út árið 1949. Í henni eru notaðar myndir sem teknar voru þegar annar breskur togari, Sargon, strandaði við Örlygshöfn ári síðar en Dhoon. IKEA. IKEA er fjölþjóðlegt (áður sænsk) fyrirtæki, sem framleiðir og selur húsgögn pökkuð í flatar umbúðir, aukabúnað, hreinlætistæki, eldhúsinnréttingar og matvæli í verslunum sínum um allan heim. Fyrirtækið var brautryðjandi í sölu á ódýrum flatpökkuðum húsgögnum og er núna stærsti framleiðandi húsgagna í heimi. IKEA var stofnað árið 1943 af Ingvar Kamprad í Svíþjóð, og er núna í eigu hollensks fyrirtækis (Inter IKEA Systems) sem er stjórnað af Kamprad-fjölskyldunni. IKEA er skammstöfun sem samanstendur af upphafsstöfum stofnandans (Ingvar Kamprad), bóndabæjar þar sem hann varð fullorðinn (Elmtaryd) og safnaðarins síns (Agunnaryd í Smálöndum). Fyrirtækið selur vörur í verslunum sínum og á netinu í nokkrum löndum. Það er með 296 verslanir í 36 löndum; flestar verslanir eru í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Asíu og Ástralíu. Þýskaland er stærsti markaðurinn fyrir IKEA með 44 verslanir; Bandaríkin eru næststærsti markaðurinn með 36 verslanir. Verslanir eru þekktar fyrir stórar bláar byggingar með einstefnuskipulagi og án margra glugga. Þær eru hannaðar til að hvetja viðskiptavininn til að sjá alla verslunina en það er yfirleitt flýtileiðir svo að viðskiptavinnurinn megi fara í önnur svæðin fljótt. Fyrsta verslunin opnuð árið 1958 í Svíþjóð. Þór IV (skip). Varðskipið Þór, nánar tiltekið "Þór IV", er íslenskt varðskip, sem sjósett var í ASMAR skipasmíðastöðinni í Síle, 28. apríl 2009. Þór er 4.250 brúttótonn, 93,65 m á lengd og 16 á breidd. Hann er knúinn tveimur 4.500 kW aðalvélum með ganghraða allt að 19,5 hnútum og dráttargeta er 120 tonn. Skipstjóri er Sigurður Steinar Ketilsson. Þór er hannaður af Rolls Royce Marine í Noregi með norska varðskipið Harstadt sem fyrirmynd. Klettafjallageit. Klettafjallageit (fræðiheiti: "Oreamnos americanus") er spendýr af undirætt geitfjár. Náttúruleg heimkynni þeirra er í fjallendi Norður-Ameríku. Geiturnar hafa hvíta ull og bæði hafrar og huðnur hafa dökk horn. Geiturnar eru að jafna um 1 meter á herðar og vega milli 45 og 130 kg. Klettafjallageitur eru mjög fótvissar í bröttum klettum og nota lagklaufir á afturfótum til að auka fótfestuna. Ástandið. Bandarískir hermenn að æfingu með fallbyssu á Íslandi í júní 1943. Ástandið er orð sem haft er um þau áhrif sem íslenskir karlmenn töldu að herseta Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni (1940–45) hefðu haft á íslenskt kvenfólk. Á meðan hæst stóð slagaði fjöldi erlenda hermanna á Íslandi hátt upp í fjölda íslenskra karlmanna. Þessir erlendu hermenn gerðu margir hverjir hosur sínar grænar fyrir íslenskum konum og er áætlað að hundruðir íslenskra kvenna hafi gifst hermönnum. Þessi samskipti íslenskra kvenna og erlendra setuliðsmanna féllu ekki alltaf vel í kramið og voru þær konur sem lögðu lag sitt við þá sakaðar um föðurlandssvik og vændi svo eitthvað sé nefnt. Þegar Bretar hertóku Ísland flykktist fólk út á götu til að fylgjast með hermönnunum og tók þá fólk eftir að stelpurnar voru sérstaklega hugfangnar af þeim. Strax var farið að ræða um hvaða áhrif þetta gæti haft og hvatt var til þess að hafa lágmarks samskipti við setuliðið en það reyndist erfitt því margir Íslendingar voru komnir með vinnu hjá þeim. Skipuð var nefnd sem skilaði svartri skýrslu um málið, kom í ljós að vændi var orðið algengt. Stjórnvöld reyndu árangurslitlar aðferðir við að draga úr kynnum íslenskra stúlkna og setuliðsins en með tímanum minnkaði ástandsumræðan og vorið 1945 lauk stríðinu og setuliðið hélt heim á leið. Koma hersins. Þann 10. maí 1940 komu til Reykjavíkur þrjú bresk herskip og lögðust að bryggju. Bresku hermennirnir gengu á land og í tilkynningu sem þeir gáfu út voru þeir komnir til að verja landið gegn innrás Þjóðverja og báðu um vinsamlegar móttökur. Fjöldi Reykjavíkurbúa fór niður að höfn til að fylgjast með þessum nýju gestum. Í Alþýðublaðinu daginn eftir var birt grein um komu hersins og var talað við lögregluna sem var á staðnum til að tryggja að allt færi vel fram. Lítið var um mótmæli en þó var eitt sem hún var óhress með og það var hversu nærgöngular sumar íslensku stelpnanna voru við hermennina. Varaði blaðið við því og sagði að vegna þessa hefðu hermennirnir verið of frjálslegir gagnvart konunum og hvatti til þess að lögreglan fengi aukið vald til þess að bregðast við þessu. Umræða um ástandið. Það leið því ekki nema einn dagur þar til að umræðan um „ástandið“ var farin af stað. Fólk slúðraði sín á milli og blöðin birtu annað slagið fréttir þess efnis, flestir voru sammála um að þær konur sem væru í tygjum við setuliðið væru föðurlandssvikarar og gálur. Á þeim tímapunkti var ljóst að eitthvað þyrfti að gera í málinu og því bauð þáverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson öllum skólastjórum landsins til fundar við sig haustið 1940. Þar voru málin rædd og samið var „Ávarp til þjóðarinnar“ sem aðallega var beint til foreldra barna í skólum landsins. Þar var hvatt til gætni og varúðar í samskiptum við setuliðið, skemmtanir á vegum skólanemenda verði haldnar aðeins fyrir þá sjálfa og skorður verði settar á útivist barna í þéttbýli, sem sagt að hafa eins lítil samskipti við hermennina og hægt væri. Í október sama ár var annar fundur haldinn á vegum fjórtán æskulýðssamtaka í Reykjavík. Við lok fundar var samþykkt ályktun sem hljóðaði svo að öll starfsemi æskulýðsfélaganna hvort sem það væru íþróttaæfingar, dansleikir eða skátamót ættu að fara fram innan íslenskra vébanda og setuliðið fengi ekki aðgang að þeim. Hvatt var til hógværðar í samskiptum við setuliðið, en annars að hafa eins lítil samskipti við það og hægt væri. En margir íslendingar voru þegar komnir með atvinnu hjá hernum, hvort sem það var að reisa herstöðvar, leggja vegi eða þvo af þeim þvott. Skemmtistaðir og veitingastaðir spruttu upp líkt og gorkúlur og sprúttsalar höfðu vart undan. Því var erfitt á þessum tímapunkti að fara að takmarka samskipti Íslendinga við þá. Skemmtanir setuliðsins. Setuliðið var þó duglegt að halda skemmtanir og matarboð og bauð stundum bæjarbúum sem oft þáðu boðið. Sitt sýndist hverjum um þetta en þegar setuliðið á Akureyri fékk ráðhús bæjarins lánað til að halda dansleik og bauð „vinum“ sínum þá tóku nokkrir menntaskólapiltar sér stöðu fyrir utan ráðhúsið og skráðu hjá sér þær stúlkur sem inn gengu. Listinn var svo birtur í Verkamanninum daginn eftir og innihélt hann nöfn 65 stúlkna. Þó voru ekki allir sáttir með menntaskólapiltana og skammaði skólameistari Menntaskólans á Akureyri þá og sagðist myndu taka hart á því ef að slíkt ætti sér stað aftur. Næst þegar dansleikur á vegum setuliðsins var haldinn á Akureyri mættu aðeins 40 stúlkur þannig að segja má að uppátæki strákanna hafi árangur borið. Þó voru allsstaðar skemmtistaðir, hótel og búllur þar sem hermenn og íslenskar stúlkur gátu hist og urðu þar margir íslenskir piltar afbrýðisamir sem stundum endaði með slagsmálum. Ástandsnefndin. Þann 7. júlí 1941 kom bandaríski herinn til að leysa af breska setuliðið. Það var á allra vörum að bandarísku hermennirnir væru snyrtilegri, myndarlegri og síðast en ekki síst áttu þeir meiri peninga og voru því meira áberandi í skemmtanalífinu og í verslunum heldur en þeir bresku. En nú voru sögusagnir um vændi orðnar ansi háværar og skrifaði því Vilmundur Jónsson landlæknir, bréf til dómsmálaráðuneytisins. Þar stóð m.a. að lögreglan teldi að stúlkubörn á aldrinum 12-16 ára væru sum hver komin út í vændi. Nú varð ríkisstjórnin að bregðast við og var ein hugmyndin að herstjórnin myndi flytja inn vændiskonur fyrir lið sitt, en það gerðist þó ekki. Þess í stað var skipuð nefnd. Ástandsnefndin var hún kölluð og í henni sátu þrír karlmenn. Eftir mánaðalanga vinnu skilaði hún af sér skýrslu um málið. Þar kom fram að lögreglan væri með lista yfir 500 konur á aldrinum 12-61 árs, sem hún teldi að hefðu mjög náin samskipti við setuliðið. Af þeim væru um 150 17 ára og yngri. Af þessum 500 konum væru að minnsta kosti 129 orðnar mæður og væri barnafjöldinn ekki minni en 255 börn. Í lok skýrslunnar var tekið fram að lögreglustjórinn teldi að þeir væru bara með niðurstöður um fimmtahluta kvenna í Reykjavík og því mætti margfalda þessar tölur með 5. Þessi skýrsla mætti þónokkurri andstöðu, meðal annars var gagnrýnt að hún var nánast öll unnin upp úr gögnum úr skjalageymslu lögreglunnar, í nefndinni hafi setið þrír karlmenn en engin kona og að ekki var gerður greinarmunur á konum sem væru giftar eða trúlofaðar hermönnum og þeim sem stunduðu vændi. Setuliðið var óhresst með skýrsluna og hóf sína eigin rannsókn á ástandinu og urðu niðurstöður þeirrar rannsóknar ekki nærri jafn sláandi og hjá ástandsnefndinni. Aðgerðir stjórnvalda. Hinn 9. desember 1941 undirritaði Sveinn Björnsson ríkisstjóri tvö frumvörp sem áttu að veita ríkinu aukið vald til að taka á ástandinu. Annað frumvarpið hljóðaði svo að skylda mætti landsmenn til að ganga með skilríki á sér frá 12 ára aldri og þeir væru skyldugir til að sýna lögreglu og dyravörðum skilríkin ef þess væri óskað. Í hinu frumvarpinu var lagt fram að stofnaður skyldi unglingadómstóll sem myndi dæma í málum barna yngri en 18 ára sem sökuð væru til dæmis um lauslæti, drykkjuskap og slæpingshátt og væri þá hægt að senda þau í vist á hælum sem ríkisstjórnin ætlaði að koma á fót. Að lokum voru samþykkt ný lög sem tóku á málum þeirra sem leiddu ungmenni inn á glapstigu þ.e. hórmangara, en þekkt var að nokkrir Íslendingar væru farnir að stunda þá iðju á þessum tíma og gat slíkt brot varðað allt að fjögurra ára fangelsi. Ríkið kom á fót nokkrum hælum fyrir unglinga en það verkefni tókst illa og var þeim flestum lokað innan tveggja ára. Tilraunir stjórnvalda til að bæta vandann voru bæði marklitlar og ekki nógu vel ígrundaðar, þær aðferðir sem þau reyndu seinna meir báru lítinn árangur og gerðu lítið til að bæta ástandið. Kynni íslenskra stúlkna og hermanna leiddu stundum af sér þunganir. Þegar svo bar undir áttu stúlkurnar rétt á meðlögum frá hermönnunum. En oftar en ekki gátu hermennirnir komið sér undan þeirri ábyrgð og þurftu þá stúlkurnar að þiggja styrki frá hinu opinbera. En einnig kom fyrir að pör giftu sig og voru hermannabrúðkaup 332 talsins hér á landi. Eftir því sem tíminn leið minnkaði umræðan um ástandið og að lokum tók stríðið enda. Í maí 1945 var tilkynnt um sigur bandamanna og þá fór setuliðið að halda heim. Alfreð Flóki. Alfreð Flóki Nielsen (19. desember 1938 – 18. júní 1987) var íslenskur myndlistarmaður. Hann sérhæfði sig í teikningu og var eini íslenski teiknarinn á sínum tíma. Myndir hans hafa vakið mikla athygli, þær eru myrkar, erótískar og grófar. Myndir hans hafa oftar en ekki valdið mikilli hneykslun meðal almennings. En margir heillast af listargáfu Flóka og sjá fegurðina í myndum hans. Alfreð Flóki var íslenskt séní sem dó langt fyrir aldur fram. Bernskuár. Hann fæddist á Óðinsgötu í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir Nielsen og Alfreð Nielsen. Guðrún var dóttir Ingibjargar og Guðmundar Helgasonar frá Reykjum. Alfreð Nielsen var danskur í föðurætt, faðir hans hét Niels Christian Nielsen og vann hjá Det forenede Dampskibselskab DFDS, móðir hans hét Guðlaug Ólafsdóttir. Foreldrar Ingibjargar fluttust að Hlíð í Reykjavík árið 1917. Þau fluttu þaðan á Óðinsgötu 4 þar sem Guðmundur hafði reist stórhýsi og þar ólst Alfreð Flóki upp fyrstu tólf árin sín. Þaðan flutti Alfreð Flóki og fjölskyldan hans á Bárugötu 18. Alfreð Flóki fæddist fyrir tímann, móðir hans var sex mánuði á sjúkrahúsinu með blauta lungnabólgu og því tók Ingibjörg móðuramma Flóka að annast hann á meðan. Upp frá því svaf hann alltaf inni hjá ömmu sinni á Óðinsgötunni, hann kallaði ömmu sína alltaf mömmu en móður sína kallaði hann Tótu. Menntun og störf. Flóki gekk í Austurbæjar- og Miðbæjarskóla, hann teiknaði mikið á næturnar og las. Amma hans samdi við skólakerfið um að hann mætti mæta seinna í skólann svo hann gæti sofið út. Flóki vann aðeins á þrem almennum vinnustöðum á sinni ævi og í stuttan tíma hverju sinni. Fyrsta vinna hans var hjá unglingavinnunni, Tóta lét hann hætta í vinnunni, fannst vinnan of erfið fyrir hann. Aðra vinnuna fékk hann árið 1952 þegar Flóki var 13 ára, þá var hann fenginn til að mála húsmódel fyrir Iðnsýninguna í Reykjavík. Honum fannst það skelfilegt púl. Þriðja vinnan og sú síðasta var Flóki verkstjóri hjá Sameinaða gufuskipafélaginu og fól það í sér að vakta pakkhúsið. Flóki var aldrei neinn vinnumaður í sér, það var aðs myndlistin sem komst að. Jóhann Briem listmálari og teiknikennari kenndi Flóka í Gaggó-Vest. Hann hafði hvað mest áhrif á Flóka og var valdur þess hvaða braut Flóki hélt. Flóki gekk í Myndlista og handíðaskólann og fór strax sínar eigin leiðir. Það var fljótt sagt um Flóka að hann væri enginn málari heldur frekar teiknari og grafíker. Flóki fór svo út til Danmerkur þegar hann var 19 ára gamall að læra í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn og stundaði hann mesta málaradeildirnar þar. Ástir. Alfreð Flóki kynntist Bríet Héðinsdóttur. Þau hittust í febrúar 1959. Ástarsamband þeirra byrjaði eftir áramót 1960. Samband þeirra lauk sumarið 1961. Flóki og Jette Marid Andersen voru elskendur Ingibjörg Alfreðsdóttir varð svo unnusta hans á hans eldri árum. Alfreð Flóki kynntist Anette Bauder Jensen árið 1963, þau giftur sig svo 6. júlí 1963 í Reykjavík. Þau eignuðust saman soninn Axel Darra Flókason 4. júlí 1964 og er hann eina barnið hans Flóka. Þau skildu svo að lokum eftir sjö ára hjónaband. Flóki var mikið fyrir sopann en það varð honum þó ekki að falli. Þann 18. júní 1987 dó Alfreð Flóki snögglega aðeins 48 ára að aldri. Banamein hans var arfgeng heilablæðing. Myndlistin. Flóki var undrabarn í myndlistinni. Fyrsta teikningin hans varð til í Landsveitinni þar sem hann fór í sveit þegar hann var lítill, hann teiknaði svo allar götur síðan. Fyrstu myndlistarsýninguna sína hélt Flóki þegar hann var aðeins 19 ára gamall. Nær allar myndirnar seldust. Alfreð Flóki notaði penna ýmsar tegundir af litakrít, bleki og kolkrít í myndirnar sínar. Flóki hallaðist að 19. aldar symbolistum og súrealistum. Myndir Flóka eru myrkar og dularfullar, fegurð þeirra óhugnaleg. Hvatir og kynórar Flóka birtast í myndum hans sem hafa hneyglsað fólk. Fólk túlkar þó myndir hans á mismunandi hátt. Danski gagnrýnandinn Virtus Schade segir myndir Flóka ekki klámfengnar heldur þær séu æxlun og fæðing. Margt sem kemur fram í myndum hans er sprottið úr undirvitundinni. Kvenlegar konur og óhugnalegir menn einkenna myndir Flóka. Fólk kann að meta myndir eftir Flóka. Sýningar með myndum eftir hann eru vel sóttar og eftirspurn eftir myndum hans er stöðugt að aukast. Myndir hans hafa einnig vakið mikla athygli erlendis. Myndefnið er aðalega flugur, alsberar konur. Gagnrýni. Gagnrýni er mat eða dómur á einhverju svo sem listaverki, hugsun eða framleiðslu og getur verið allt frá einni athugasemd eða stuttri blaðagrein upp í heila bók. Íslenska orðið gagnrýni merkir "rýni til gagns", þ.e. að eitthvað sé skoðað nytsamlega, en getur einnig þýtt "rýnt í gegnum" (sbr. gagnsæi). Sá sem gagnrýnir er nefndur gagnrýnandi. Fjallganga. Fjallganga er íþrótt, tómstundagaman eða atvinna þar sem maður gengur, fer í gönguferð eða í útilegu eða klifrar upp fjöll. Eggfruma. Eggfruma eða egg er einlitna kynfruma kvendýra. Dýr og kímplöntur hafa báðar eggfrumur. Eggfruman er frjóvguð inni í kvenkynslíkama og verður að fósturvísi í leginu. Í kvenmönnum verða eggfrumur til í eggjastokkum. Allar eggfrumur eru til staðar í kvenmanni við fæðingu. Þær þroskast með aðferð sem heitir eggmyndun. Eggfruma er ein stærsta fruma manna og hægt er að sjá hana með berum augum. Eggfruma manna er um það bil 100–200 µm að stærð. Ósamansett húsgögn. Ósamansett húsgögn er tegund húsgagna sem maður á að setja saman sjálfur. Þessi tegund húsgagna er keypt í mörgum hlutum og er seld í flötum kassa. Kassinn inniheldur leiðbeiningar fyrir eigandann svo að hann geti sett húsgögn saman. Saga. Ósamansett húsgögn voru fyrst fundin upp af sænska tækniteiknaranum Gillis Lundgren. Lundgren fékk hugmynd þegar hann reyndi að setja borð í bílinn sinn. Samkvæmt frásögnum braut hann fætur af borðinu svo að hann gæti sett borðið í bílinn og setti það saman aftur heima hjá sér. Hann ræddi um hugmyndina við atvinnurekanda sinn, IKEA, sem slík húsgögn að rekstrargrundvelli sínum. Ósamansett húsgögn eru vinsæl hjá viðkskiptavinum sem vilja spara fé og borga ekki fyrir sendingu vara. Þessi tegund húsgagna er yfirleitt einföld að setja saman og þarfa að eigandi að nota einföld verkfæri. Stafrænt sjónvarp. Kort af kerfum notuðum til að senda út stafrænt sjónvarp um allan heim. Stafrænt sjónvarp er útsending og móttaka kvikmynda og hljóða með stafrænum merkjum ólíkt flaumrænum merkjum sem flaumrænt sjónvarp notar. Fyrsta land til að hætta við útsendingu flaumrænna merkja var Lúxemborg árið 2006. Síðan hafa Holland, Finnland, Andorra, Svíþjóð, Sviss, Þýskaland og Portúgal gert sömuleiðis. Mörg lönd hafa aðferðir í vinnslu til að skipta í stafrænni útsendingu. Til dæmis í Bandaríkjunum er dagsetning skiptingarinnar 12. júní 2009. Á Bretlandi verður skipt fyrir 2012. Sérstaklega í stórum löndum er skiptingaraðferð sein og erfið því er margt fólk með gamalt sjónvarpstæki. Mörg kerfi eru notuð til að varpa út stafrænni útsendingu. Vinsælustu kerfi eru DVB í Evrópu og Austur-Asíu og ATSC í Norður-Ameríku. Hægt er að senda út HDTV með stafrænum merkjum. Stöðlakot. Stöðlakot (áður Stuðlakot) er steinbær í miðbæ Reykjavíkur sem stendur við Bókhlöðustíg 6. Húsið er líklega reist árið1872 í núverandi mynd, og er hugsanlega elsti steinbærinn í Reykjavík. Jón Árnason, nefndur hinn ríki, eignaðist Stöðlakot árið 1850 og átti kotið til dauðadags 1874. Hann stóð að gagngerðri endurbyggingu bæjarins 1872 og hlóð með grjóti. Herma sagnir að til þess hafi verið notað tilhöggvið grjót sem af gekk við byggingu Hegningarhússins. Bendir þetta til þess að Stöðlakot sé elsti steinbærinn í Reykjavík. Stöðlakot hét um tíma "Narfabær". Bókhlöðustígur. Bókhlöðustígur er brött gata í miðbæ Reykjavíkur sem nær frá Þingholtsstræti niður að Lækjargötu. Laufásvegur endar í norðri við Bókhlöðustíg, sömuleiðis Miðstræti. Við Bókhlöðustíg stendur einn elsti steinbærinn í Reykjavík og nefnist Stöðlakot. Við Bókhlöðustíg er "Frímerkjahúsið" og þar var lengi starfræktur söluturninn "Hallinn". TED (ráðstefna). TED (enska: "Technology, Entertainment, Design" — íslenska: "Tækni, skemmtun, hönnun") er árleg ráðstefna sem hefur skilgreint ætlunarverk sitt sem svo að það sé að „dreifa hugmyndum sem eiga það skilið að heyrast.“ Fyrirlestrarnir eru allir frekar stuttir, og spanna efni eins og til dæmis vísindi, listir, hönnun og stjórnmál, menntun og menning, viðskipti, hnattræn málefni, tækni og þróun og skemmtanir. Þau sem talað hafa á þessum ráðstefnum er til dæmis: Al Gore og Bill Clinton, Sylvia Earle og Dave Eggers, Murray Gell-Mann og Bill Gates. Á heimasíðu TED er hægt að nálgast fyrirlestrana, og er það gert til að hugmyndirnar fari sem víðast. Efnarannsóknastofa landsins. Efnarannsóknastofa landsins, einnig nefnd Rannsóknastofa landsins, Rannsóknastofan eða (eftir 1918) Efnarannsóknastofa ríkisins var stofnuð árið 1906 til að sinna efnagreiningum og öðrum rannsóknum í þágu landbúnaðar og iðnaðar á Íslandi. Fyrsti forstöðumaður (og lengi vel eini starfsmaður) stofnunarinnar var Ásgeir Torfason efnaverkfræðingur og veitti hann henni forstöðu allt til dánardægurs í september 1916. Að Ásgeiri látnum tók Gísli Guðmundsson gerlafræðingur við forstjórastöðunni og gegndi henni til 1921, þegar Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur tók við. Árið 1937 rann Efnarannsóknastofan, ásamt Matvælaeftirlitinu og gerlarannsóknastofu Mjólkursamsölunnar, inn í nýstofnaða Iðnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðherra (áður umhverfisráðherra) er sá ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem fer með umhverfis- og auðlindamál. Umhverfisráðuneytið var stofnað 1990, en hefur frá þeim tíma tekið við ýmsum nýjum verkefnum. Síðustu breytingar áttu sér stað 1. september 2012 og urðu til þess að nafni ráðuneytisins var breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Jón Kr. Ólafsson. Jón Kristján Ólafsson (fæddur á Bíldudal 22. ágúst 1940, í húsi sem nefnt var Nes) er íslenskur söngvari. Foreldrar hans voru Sigurósk Sigurðardóttir (f. 1900, d. 1964) og Ólafur Jóhann Kristjánsson (f. 1898, d. 1943). Fyrstu skref sín sem söngvari steig Jón Kr. í kirkjunni á Bíldudal hjá sóknarprestinum, séra Jóni Kr. Ísfeld. Fimmtán ára var hann kominn úr mútum og í kór kirkjunnar sem hann svo stýrði frá sextánda ári. Kórstarfi sinnti Jón Kr. af alúð fram undir aldamótin síðustu. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2009. Úrslitaleikur meistaradeildar Evrópu 2009 fór fram á Stadio Olimpico í Róm þann 27. maí 2009. Barcelona fór sem sigur úr bítum, 2-0, í leik gegn Manchester United. Haffjarðarey. Haffjarðarey (upprunalega nefnd Hafursfjarðarey) er stærsta eyjan af Hausthúsaeyjum í Eyjahreppi á Mýrum. Þar var sóknarkirkja Eyjahrepps sem helguð var heilögum Nikulási á katólskum tíma. Hún var þar fram til ársins 1563, en þá lagðist hún niður vegna þess að presturinn og margt sóknarfólk drukknaði á leið í land. Seinna fór að blása upp á eyjunni og sáust oft mannabein þar upp úr sandinum og var lengi vel verið að tína þau saman og flytja til kirkju. Kristján Eldjárn og Jón Steffensen, prófessor, grófu síðan í garðinum á Haffjarðarey árið 1945 og tóku bein til rannsókna. Haraldur Bessason. Haraldur Bessason (14. apríl 1931 – 8. apríl 2009) var íslenskur fræðimaður og rithöfundur og um tíma rektor Háskólans á Akureyri og prófessor við íslenskudeild Manitoba-háskóla í þrjá áratugi. Hann ritstýrði auk þess "Lögbergi-Heimskringlu" og "Tímariti hins íslenska þjóðræknisfélags" um árabil og skrifaði greinar og bækur. Haraldur var fyrsti rektor Háskólans á Akureyri árin 1987 til 1994 og var seinna kjörinn fyrsti heiðursdoktor háskólans árið 2000. Haraldur Bessason fæddist í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði. Foreldrar hans voru: Elinborg Björnsdóttir kennari (1886-1942) og Bessi Gíslason hreppstjóri(1894-1978). Fórnarkostnaður. Fórnarkostnaður er hagfræðilegt hugtak sem vísar til andvirði næst besta valmöguleika sem stóð til boða þegar tiltekin ákvörðun er tekin. Við allar ákvarðanatökur þarf að vega og meta hvern valmöguleika og taka ákvörðun. Eftir því sem meira er í húfi, til að mynda ef fyrirtæki þarf að taka ákvörðun um hvaða vörur eigi að framleiða, því flóknari verða slíkir útreikningar. Fórnarkostnaður er þannig lykilhugtak þegar kemur að úrlausn mála vegna skorts og nýtni efna. Annað dæmi sem hægt er að gefa er fórnarkostnaður þess að fara í vikufrí frá vinnu. Fórnarkostnaðurinn í því tilviki er þá vinnutapið. Sigursveinn Magnússon. Að loknu nám hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar stundaði Sigursveinn Magnússon framhaldsnám við Royal Academy of Music í London og síðar við Western Michigan University í Bandaríkunum. Þessi ár lagði hann stund á nám í hornleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn. Síðar nam hann við Tónlistarháskólann í Vínarborg og dvaldi eitt námsár í Danmörku. Ásamt störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að skipulagsmálum á sviði tónlistar, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum. Jóhannes Birkiland. Jóhannes Birkiland (fæddur Jóhannes Stefánsson) (10. ágúst 1886 – 9. júlí 1961) var íslenskur rithöfundur og skáld. Hann er þekktastur fyrir bók sína ' sem út kom árið 1945. Hann skrifaði einnig ljóð og tvær skáldsögur á ensku, "The House of Seven Demons" og "Love and Pride". Jóhannes fæddist á stórbýlinu Uppsölum í Blönduhlíð austan Héraðsvatna í Skagafirði. Foreldrar hans voru Stefán Sveinsson, bóndi að Uppsölum, næsta bæ við Bólu og Steinunn Lárusdóttir, ráðskona hans. Um hann orti Megas söngtextann Birkiland. Baffinsland. Baffinsland (líklega sama eyja og fornmenn nefndu Helluland) er fimmta stærsta eyja heims, 507.451 ferkílómetrar. Hún er hluti af sjálfstjórnarsvæðinu Nunavut í Kanada og er stærst af kanadísku heimskautaeyjunum. Eyjan er næstum því fimm sinnum stærri en Ísland. Eyjan er nefnd eftir enska landkönnuðinum William Baffin, sem kom þangað árið 1616. Baffinsfjöll liggja eftir norðausturströnd eyjarinnar og þar eru há og hrikaleg fjöll, þar á meðal Óðinsfjall (Mount Odin) og Ásgarðsfjall (Mount Asgard), bæði yfir 2000 metrar á hæð. Þórsfjall (Mount Thor) er aðeins 1675 metra hátt en þar er talið vera hæsta lóðrétta standberg í heimi, 1250 m. Á miðri eynni er Barnesjökull en hann fer stöðugt minnkandi. Höfuðstaður Nunavut, Iqaluit, er syðst á eynni. Þar eru einnig nokkrir aðrir þéttbýlisstaðir og er íbúafjöldi eyjarinnar um 11.000 manns. Beóþúkkar. Beóþúkkar (enska: "Beothuk") voru frumbyggjar Norður-Ameríku sem bjuggu á Nýfundnalandi þegar Evrópubúar komu þar á 15. og 16. öld, og eru taldir vera sú ættkvísl indíana sem norrænir menn nefndu Skrælingja. Með dauða Shanawdithit árið 1829, sem talinn er síðasti lifandi indíáninn af kyni Beóþúkka, var ættkvísl þessi opinberlega talin útdauð. Bergstaðastræti. Bergstaðastræti er gata í miðbæ Reykjavíkur sem nær frá Njarðargötu að Skólavörðustíg og liggur samhliða Nönnugötu sem framlengist í Óðinsgötu og fyrir neðan Bergstaðstræti er Laufásvegur á kafla, sömuleiðis Grundarstígur og Ingólfsstræti. Nirvana (búddismi). Nirvana er mikilvægur þættur í heimssýn í trúarbrögðunum búddisma og jaínisma. Það er einnig notað í hindúisma þó hugtakið moksa yfir sama fyrirbæri sé mun algengara. Hugtakið nirvana er ekki notað á nákvæmlega sama hátt í þessum trúarbrögðum en þýðir að losna úr samsara, keðju endurfæðinga og þjáninga. Á sanskrít er orðið nirvāņa (निर्वाण), og á palí nibbāna (निब्बान). Orðið nirvana/nibbana er samsett úr ni[r]- (ni, nis, nih) sem þýðir „út, burtu, fjarverandi“, og rótinni vâ[na] (á palí vâti) sem má þýða sem „blása“. Þýðingin verður því blása burtu, slökkva, langanir, hatur, öfundsýki og blekkingar. Búddisminn skilgreinir lífið sem þjáningu og frá henni verður ekki komist vegna þess að allar lífverur eru fastar í hinni eilífu hringrás endurfæðingar. Orsök þjáningarinnar er löngun eða binding og það sem nefnt er „hugareitrið“ (hatur, græðgi, blekking og öfundsýki). Að uppná nirvana ber því með sér að losna úr fjötrum endurfæðingarinnar. Leiðin þangað er að fylgja hinni áttföldu leið sem Búdda kenndi. Nirvana er ekki samsvarandi kristnum eða múslímskum hugmyndum um „himnaríkið“, það er persónulegt eilíft líf eftir hinn holdlega dauða. Nirvana er hins vegar jafnvægi og innsæi þess sem hefur séð í gegnum blekkingar bindinga og „hugareitursins“, það er því hugsanlegt að uppná nirvana í lifandi lífi. Búdda talaði um þetta sem „það óskapaða“, „hið óbundna“, „hið ódauðlega“. Freysteinn Sigurðsson. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur (4. júní 1941 – 29. desember 2008) var einn helsti forystumaður íslenskra náttúrufræðinga um árabil og í fararbroddi í félagsmálum þeirra. Foreldrar hans voru Sigurður Ásgeirsson bóndi á Reykjum í Lundarreykjadal og kona hans Valgerður Magnúsdóttir kennari. Námsferill. Freysteinn lauk stúdentsprófi frá Laugarvatni 1959, þá nýorðinn 18 ára. Þá um haustið hélt hann til Þýskalands og hóf nám í jarðeðlisfræði við háskólann í Mainz (Johannes Gutenberg Universität). Þar var hann með hléum til 1963, því árið 1961 lenti hann í slysi sem setti umtalsvert strik í námsferilinn. Á árunum 1965-1975 lagði hann svo stund á jarðvísindi við háskólann í Kiel (Christian Albrechts Universität) og lauk þaðan diploma-prófi. Störf. Freysteinn Sigurðsson starfaði hjá Raforkumálastjóra og á Orkustofnun í áratugi. Strax árið 1958 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður við mælingar og þar mun áhugi hans á jarðfræðum hafi kviknað. Á háskólaárunum var hann áfram sumarmaður við jarðhitarannsóknir og mælingar ár eftir. Að námi loknu 1975 varð hann fastráðinn starfsmaður á Orkustofnun. Viðfangsefni hans voru einkum tengd vatnajarðfræði, vatnafari, grunnvatni og neysluvatnsmálum. Fyrstu rannsóknarskýrslur Freysteins eru frá 1964. Í maí 1982 var hann ráðinn deildarstjóri á Vatnsorkudeild (síðar Rannsóknarsvið) Orkustofnunar yfir jarðfræðikortlagningu. Þann 1. febrúar 1999 fór hann síðan á Auðlindadeild Orkustofnunar. Þar var ábyrgðarsvið hans hagnýt jarðefni. Freysteinn lagði mikla stund á íslenska vatnajarðfræði. Um það skrifaði hann ótal skýrslur og greinargerðir og einnig fræðilegar ritgerðir í vísindarit. Einnig er hann höfundur að mörgum jarðfræði- og vatnafarskortum sem gefin voru út á vegum Orkustofnunar og fleiri Sérsvið hans var grunnvatn og lindir, uppruni vatnsins, rennslisleiðir neðanjarðar, rennslismagn og efnainnihald. Á seinni hluta starfsferils síns vann hann mikið að vatnsverndarmálum og lagði gjörva hönd á lagabálka um vatn og vatnsvernd. Hann íslenskaði fjölmörg heiti og hugtök í fræðum sínum, grunnhugtök vatnsverndarinnar, brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði, eru t.d. frá honum runnin. Freysteinn var sérstaklega heiðraður á norrænni ráðstefnu um neysluvatn á vegum Norðurlanda-deildar IWA (International Water Association), sem haldin var í Reykjavík sumarið 2006. Þá hlotnuðust honum verðlaunin „Pump Handle Award“ ársins 2006, sem veitt eru fyrir einstakt framlag í þágu betra og heilnæmara neysluvatns. Freysteinn ritaði Árbók FÍ 2004, Borgarfjarðarhérað. Félagsmál. Freysteinn var baráttumaður fyrir hag og kjörum náttúrufræðinga sem og náttúruvernd. Hann var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) 1986-1988 og efldi félagið verulega í sinni tíð. Hann var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) 1990-2001, og var kjörinn heiðursfélagi þess 2005. Freysteinn var einn af stofnendum Oddafélagsins og stjórnarmaður þar frá upphafi, stjórnarmaður í Landvernd til dauðadags. Einnig var hann stofnfélagi og driffjöður í Gildi heilagrar Barböru á Íslandi en hún er verndardýrlingur jarðfræðinga. Einkahagir. Freysteinn kvæntist Ingibjörgu Sveinsdóttur lyfjafræðingi þann 29. september 1962. Þau bjuggu lengst af á Kársnesbraut í Kópavogi. Svefnherbergi. Svefnherbergi er herbergi þar sem fólk hvílist eða sefur. Svefnherbergi innihalda t.d. rúm (eða bedda) og húsgögn eins og t.d. fataskáp og kommóðu. Í flestum húsum eru tvö eða fleiri svefnherbergi. Stærsta svefnherbegi hússins er yfirleitt svefnstaður foreldra. Minni svefnherbergi eru oftast fyrir börn eða gesti. Stundum eru svefnherbergi með eigin baðherbergi. Rúmföt eins og tíðkast á Norðurlöndum eru frábrugðin rúmfötum annars staðar. Trölladeig. Trölladeig er leikfangaleir sem búinn er til úr hveiti, salti, vatni og stundum smá matarolíu. Í því eru engin eiturefni en á hinn bóginn er gjarnan settur matarlitur í deigið til að gera það litríkara. Það er notað í leikskólum og heimahúsum og hentar jafnt fyrir lítil og stór börn. Mótaða hluti er hægt að þurrka í ofni við 80°C. Herbergi. Teikning sem sýnir herbergjaskipan í húsi. Herbergi er hugtak í byggingarlist og haft um vissa einingu í húsi sem er aðgreint frá öðru rými. Herbergi eru yfirleitt með dyr(um) (og í dyrunum oftast hurð) og á útvegg(jum) er oftast gluggi eða gluggar. Í húsi eru ýmsar tegundir herbergja með mismunandi hlutverk, eins og t.d. baðherbergi, eldhús og svefnherbergi. Eldhús. Eldhús er herbergi sem notað er til að elda og undirbúa mat. Í mörgum eldhúsum er einnig framreiddur matur og hann snæddur við borð. Ef eldhúsið er hluti af stærra herbergi, sem notað er í annað, þá nefnist það eldhúskrókur. Á Vesturlöndum er yfirleitt ofn, t.d örbylgjuofn í eldhúsum sem og ísskápur (og stundum einnig frystir). Þar er líka vaskur með heitu og köldu vatni til að nota við eldamennskuna og til að vaska upp, þó oft sé uppþvottavél í nútímaeldhúsi. Í eldhúsum eru oft skáparaðir til að geyma mat og leirtau. Eldhús eru oft samkomustaður fjölskyldunnar og vina, jafnvel þó ekki sé verið að matbúa sérstaklega. Ölvisholt brugghús. Ölvisholt brugghús er bjórframleiðandi í Flóahreppi í Árnessýslu með framleiðslugetu um 300 tonn af bjór á ári. Helstu bjórtegundir Ölvisholts eru: Freyja, Skjálfti, Móri og Lava. Mölln. Mölln er um 19 þúsund manna bær í Slésvík-Holtsetalandi í Þýskalandi. Bærinn var stofnaður á 12. öld í hertogadæminu Lauenburg og varð áfangastaður á Gömlu saltleiðinni. Á 14. öld komst bærinn undir stjórn Hansaborgarinnar Lýbiku. Mölln er þekktur sem ætlaður dánarstaður Till Ugluspegils sem er sagður hafa látist þar 1350. Ýmis minnismerki eru tileinkuð honum í bænum. Baðherbergi. Baðherbergi er herbergi þar sem maður þvær sér. Þar er yfirleitt bað eða sturta fyrir þvott. Það getur verið einungis bað eða sturta eða samsetning beggja. Til viðbótar er það yfirleitt klósett og vaskur en stundum eru þau í aðgreindu herbergi. Financial Times. "Financial Times" ("FT") er breskt dagblað um alþjóðleg viðskipti. Það kemur út í London á hverjum morgni og er prentað á 24 stöðum. Aðalkeppinautur dagblaðsins er "Wall Street Journal", bandarískt dagblað með höfuðstöðvar í New York. James Sheridan stofnaði "Financial Times" ásamt bróður sínum árið 1888. Það keppti við fjögur önnur viðskiptadagblöð og keypti síðasta keppinaut sinn, "Financial News", (stofnað árið 1884) árið 1945. "FT" sérhæfir sig um viðskipta- og fjármálafréttum með sjálfstæðu ritstjórnarviðhorfi. Blaðið er prentað á stórum bleikum pappír. Það er eina dagblaðið á Bretlandi sem segir daglega frá Kauphöllinni í London og heimsmarkaði. Listi yfir bresk dagblöð. Þetta er listi yfir bresk dagblöð; það er að segja dagblöð sem koma út á Bretlandi. Vetrarblóm. Vetrarblóm (fræðiheiti: "Saxifraga oppositifolia") er jurt af steinbrjótsætt sem ber rauð eða rauðfjólublá blóm. Vetrarblóm vex víða á norðurslóðum og til fjalla sunnar, t.d. í norðurhluta Bretlands, Ölpunum og í Klettafjöllunum. Vetrarblóm vex í klettum, á melum og rindum. Það er algeng um allt Ísland. Greiningareinkenni. Sprotar vetrarblóms eru jarðlægir og oft um 5 til 20 cm á lengd. Laufblöðin eru 3-4 mm og öfugegglaga. Blómin eru 10 til 15 mm í þvermál. Þau eru rauð eða rauðfjólublá. Jöklasóley. Jöklasóley (fræðiheiti: "Ranunculus glacialis") er blóm af sóleyjaætt. Jöklasóley vex víða til fjalla í Evrópu (í Ölpunum, Karpatafjöllum, Pýreneafjöllum og víðar), á Skandinavíuskaga, Íslandi, Færeyjum, Jan Mayen, Svalbarða og austurhluta Grænlands. Jöklasóley velur sér vaxtarstað í grjótskriðum, grýttum melum eða í klettum hátt til fjalla. Greiningareinkenni. Blöð jöklasóleyjar eru stilklöng og handflipótt eða handskipt. Þau eru hárlaus og gljáandi. Blómin eru hins vegar hvít í fyrstu og verða svo dumbrauð. Þau eru 2-2,5 cm í þvermál. David Thomas. David Arthur Thomas er enskur skútuhönnuður sem er þekktastur fyrir hönnun lítilla og stórra kjölbáta sem hafa notið mikilla vinsælda. Hann er sjálfur þekktur kappsiglingamaður. Meðal þekktra skútutegunda sem hann hefur hannað eru Hunter-bátarnir og Sigma 33 og Sigma 38, sem eru allir þægilegir skemmtibátar sem hafa jafnframt reynst góðir keppnisbátar. Hann átti líka þátt í hönnun stórrar stálskútu fyrir BT Global Challenge, Challenge 67. Bátar David Thomas hafa notið mikilla vinsælda og verið algengir á Íslandi. Hann hefur tvisvar verið fenginn til að hanna skútur sérstaklega fyrir íslenska siglingamenn. Secret 26-bátarnir hans, smíðaðir á Íslandi frá 1987, hafa átt mikilli velgengni að fagna í siglingakeppnum við Ísland. Land’s End. Land’s End (kornbreska: "Penn an Wlas") er höfði við Penwith-nes nálægt Penzance í Cornwall á Bretlandi. Hann er vestasti punktur Bretlands. Hið goðsagnakennda land Lyonesse, sem minnst er á í þjóðsögunni um Arthur konung, er sagt hafa verið úti fyrir ströndum Land’s End. Staðurinn er oft notaður til að mæla lengd Bretlands frá suðri til norðurs. Framsetningin „frá Land’s End til John o’ Groats“ vísar til fjarlægðar frá Land’s End til þorpsins John o’ Groats í Skotlandi. John o’ Groats. Höfn og hús í þorpinu. John o’ Groats (gelíska: "Taigh Iain Ghròt") er þorp á skoskum hálöndunum. Það er þekkt sem nyrsti punktur á Bretlandi en raunar er það Dunnet Head. Þorpið er eftirtektarvert því það er oft notað til að mæla lengd Bretlands frá norðri til suðurs. Framsetningin „frá Land’s End til John o’ Groats“ vísar til fjarlægðar frá John o’ Groats til höfðans Land’s End á Cornwall. Það er vinsælt hjá ferðamönnum hvaðanæva að. Mannfjöldi þorpsins er um það bil 300. Norðurdalur (Breiðdal). Norðurdalur er dalur í Suður-Múlasýslu og er annar tveggja dala sem liggja inn af Breiðdal þar sem hann klofnar um fjallið Kleifarháls. Norðurdalur er þrengri en Suðurdalur. Þar eru nokkrir bæir. Suðurdalur (Breiðdal). Suðurdalur er syðri dalur Breiðdals. Um hann liggur Þjóðvegur 1 sem svo liggur upp á Breiðdalsheiði. Samhliða dalnum er Norðurdalur en Tóarfjall skilur dalina að. Persónugerving. Persónugerving er líkingarmál í skáldskaparfræðum þar sem fyrirbrigði sem ekki eru mennsk eru gædd mannlegum eiginleikum. Persónugerving er að hluta til andstæða hlutgervingar, en hlutgerving er þegar lifandi vera fær eiginleika dauðra hluta. Heimsljós. Heimsljós er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom út í fjórum hlutum á árunum 1937-1940, en heildarútgáfa skáldverksins kom fyrst út árið 1955. Bókin skiptist í: "1." Ljós heimsins "2." Höll sumarlandssins "3." Hús skáldsins "4." Fegurð himinsins. Halldór notaði dagbækur Magnúsar Hj. Magnússonar (1873-1916) skálds við samningu bókarinnar auk ýmissa annarra aðfanga. Nafnið Heimsljós er sótt í síðustu ljóðlínur kvæðisins "Söknuður" eftir Jónas Hallgrímsson: "Hnigið er heimsljós,/himinstjörnur tindra./Eina þreyi eg þig". Bókin fjallar um ævi Ólafs Kárasonar Ljósvíkings, baráttu hans við raunveruleikann og hvernig hann samræmir hann skáldsýn sinni. Stóriburkni. Stóriburkni (Fræðiheiti: "Dryopteris filix-mas") er burknategund af þrílaufungsætt. Stóriburkni er stærstur íslenskra burkna, og vex í gjám og kjarri. Hann verður allt að 80-100 sm hár og er með tvífjaðurskipt blöð. Frílisti. Frílisti er hugtak í hagfræði og haft um lista eða skrá yfir vörur, sem ekki þarf innflutningsleyfi fyrir, þó svo innflutningshöftum sé beitt, þ.e. vörulisti sem á tímum haftastefnu stjórnvalda inniheldur vörur (oftast nauðsynjavörur) sem má flytja inn án tilskilina leyfa. Frílistinn tíðkaðist á Íslandi frá gengisfellingunni árið 1939 og í árslok 1940 mátti kalla að 40-45% innflutningsins væru á frílista. En heimsstyrjöldin setti strik í reikninginn og frílistinn var afnuminn að kröfu Breta og margvísleg höft og skömmtun fylgdu í kjölfarið. Byrjað var að afnema skömmtunina í júní mánuði árið 1950, og skömmtunarskrifstofan var lögð niður í september 1950. Eftir það var skömmtun aðeins miðuð við niðurgreiðslu á verðlagi vara, eins og smjörlíki og fleiri vörutegunda. Hinn 1. júní 1960 voru 60% innflutnings til landisins gefin frjáls, það er frílistinn var færður upp í 60% innflutnings. Ríkisstjórnin ákvað í byrjun hvers árs að höfðu samráði við Seðlabanka heildarupphæð leyfaúthlutunar í frjálsum gjaldeyri. Upphæðinni var skipt milli vöruflokka og nefndist upphæð hvers vöruflokkskvóti hans. Leyfaveitingar fyrir innflutningi frá vöruskiptalöndum voru í samræmi við viðskiptasamninga, sem voru í gildi við hvert einstakt land, en þeim fylgdu vörulistar. Vöruskiptalöndin á 7. áratugum voru Austur-Þýskaland, Brasilía, Pólland, Rúmenía, Rússland, Tékkóslóvakía og Ungverjaland. Rússland (Sovétríkin) var langmikilvægasta vöruskiptalandið og kom um 51% innflutnings frá þessum löndum frá því 1965. Vörutegundum á frílista fjölgaði ár frá ári á 7. áratugnum. Haustið 1965 voru gólfteppi, skyrtur og nærföt sett á frílista svo að dæmi sé nefnt. Fyrir kom þó, að vörur væru teknar af frílista og mun þetta stundum hafa verið gert með hag innlends iðnaðar fyrir augum. Einnig kom fyrir í þrengingunum 1967-1968 og um miðbik 8. áratugsins, að vörur væru teknar af frílista til að draga úr innflutningi og gjaldeyriseyðslu. Akureyri.net. Akureyri.net er íslenskur fréttavefur í eigu Pedromynda á Akureyri. Vefurinn hóf göngu sína 26. júlí árið 2005 en var endurnýjaður frá grunni þann 17. apríl 2009. Vefurinn flytur fréttir frá Akureyri og nágrannasveitarfélögum auk þess að fjalla um íþróttir og menningarlíf. Þá er á síðunni atburðadagatal bæjarins. Ritstjóri Akureyri.net er Örlygur Hnefill Örlygsson. Annað ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Önnur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum 10. maí 2009 eftir kosningarnar 25. apríl 2009. Hún er mynduð af Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og hafði í upphafi kjörtímabils 34 manna meirihluta á Alþingi. Frá 11. október 2012 hefur stjórnin verið minnihlutastjórn sem hefur reitt sig á stuðning óháðra þingmanna. Forysta ríkisstjórnarinnar hefur boðað til rótækra breytinga á ráðuneytunum. Þeim á að fækka í níu í lok kjörtímabilsins, sameina á landbúnaðar, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytið í atvinnumálaráðuneyti, stofna nýtt innanríkisráðuneyti sem sér um mannréttindamál, dómsmál, samgöngumál og málefni sveitarfélaga, einnig á að leggja niður viðskiptaráðuneytið og stofna nýtt efnahagsráðuneyti sem tekur við mörgum málaflokkum sem áður voru í forsætisráðuneytinu, s.s. Seðlabanki Íslands og Hagstofu og einnig einhverjum málaflokkum í fjármálaráðuneytinu. Þetta eru bara nokkrar af þeim breytingum sem boðaðar eru. Icesave-deilan. Ekki var einhugur innan stjórnarliða um Icesave-samkomulagið í upphafi en fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon lagði fram frumvarp á Alþingi um ríkisábyrgð á þeim innistæðum. Ekki var víst hvort frumvarpið nái í gegn því einungis þurfti þrjá stjórnarliða til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu eða sitja hjá til að fella það. Tveir óbreyttir þingmenn VG lýstu sig á móti samkomulaginu, þau Atli Gíslason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Einnig lýsti Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra yfir efasemdum um samkomulagið en á endanum greiddu allir stjórnarliðar frumvarpinu atkvæði sitt, er fyrirvörum hafði verið bætt við er vörðuð veitingu ríkisábyrgðar. Félag eldri borgara á Álftanesi. Félag eldri borgara á Álftanesi eða FEBÁ á aðild að Landssambandi eldri borgara. FEBÁ, var stofnað 26. júní 1997. Stofnfélagar voru 40 en eru nú, í byrjun árs 2009 orðnir 82 talsins. Meðalaldur félagsmanna er tæplega 73 ár. Landssamband eldri borgara. var stofnað 19. júní 1989 á Akureyri af níu félögum eldri borgara víðs vegar um landið. Árið 2009 eru 53 félög í LEB með yfir 18.000 félagsmenn. Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes. FEB í Reykjavík - FEB í Kópavogi - FEB í Garðabæ - FEB Hafnarfirði - FEB á Álftanesi - FEB Suðurnesjum - FEB í Mosfellsbæ Vesturland. FEBAN Akranes og nágrenni - FEB Borgarnesi - FEB í Borgarfjarðardölum - Aftanskin FEB Stykkishólmi - FEB Eyrarsveit - FEB Snæfellsbæ - FEB í Dalasýslu og Reykhólahrepp - FEB Ísafirði - FEB Bolungarvík - FEB Önundarfirði - FA í V. Barðastrandasýslu - FEB í Strandasýslu Norðurland. FEB Vestur Húnavatnssýslu - FEB í Húnaþingi - FEB Skagafirði - FA Siglufirði - FEB Akureyri - FA Eyjafirði - FA Dalvík og nágrenni - FEB Ólafsfirði - FEB Húsavík - FEB Þingeyjarsveit - Félag eldri Mývetninga - FEB Öxarfjarðarhéraði - FEB við Þistilfjörð Austurland. FEB Vopnafirði og Bakkafirði - FEB Fljótsdalshéraði - Framtíðin, FEF á Seyðisfirði - FEB Borgarfirði eystra - FEB Reyðarfirði - FEB Norðfirði - FEB Eskifirði - FEB Suðurfjörðum - FEB Djúpavogi - Félag eldri Hornfirðinga Suðurland. FEB Selfossi - FEB í Biskupstungum - FEB Skeiða og Gnúpverjahreppi - FEB Hveragerði - FEB Þorlákshöfn - FEB Eyrarbakka - Félag eldri Hrunamanna - FEB Rangárvallasýslu - Samherjar, FEB Mýrd. og A-Eyj. - FEB í Skaftárhreppi - FEB Vestmannaeyjum Genaflökt. a> (tíðni 1,0) er mun hraðara í smærri stofnum. Genaflökt (einnig genarek) er hugtak í stofnerfðafræði sem á við þau áhrif sem tilviljun hefur á þróun erfðaefnis lífvera, en genaflökt er mest áberandi í litlum stofni. Nánar til tekið er genaflökt áhrif á samsætutíðni í stofni lífvera sem verða af völdum handahófs við mökun og æxlun. Orsök genaflökts er tölfræðileg og liggur í úrtaksskekkju: Það, að þeir einstaklingar sem skila afkvæmum til næstu kynslóðar séu slembiúrtak úr stofninum, auk þess að hending ræður meðal tvílitna lífvera hvaða samsætur komast milli kynslóða, veldur því að samsætutíðnin breytist með tíma og ákveðnar samsætur geta horfið úr genasjóði stofnsins. Áhrif genaflökts eru því ávallt til aukinnar einsleitni og eru því minni sem stofnstærðin er meiri. Genaflökt er eitt af undirstöðuatriðum þróunar, ásamt náttúruvali, stökkbreytingum og búferlaflutningum. Ólíkt náttúruvali er genaflökt handahófskennt, en ræðst ekki af hæfni lífveranna til að þrífast í umhverfi sínu. Stofnerfðafræðingar áttuðu sig snemma á því að genaflökt getur átt sér stað, en nokkur ágreiningur hefur verið um mikilvægi þess í þróun lífvera. Ronald Fisher taldi það í besta falli smávægilegt, en síðan Motoo Kimura setti fram hlutleysiskenningu sína hefur genaflökt fengið aukið vægi í stofnerfðafræðilegum reiknilíkönum. Suðurdalur (Héraði). Suðurdalur er dalur í Fljótsdalshreppi. Um hann rennur Kelduá og vegur númer 934 liggur um dalinn. Innarlega skiptist hann í Þorgerðarstaðadal og Villingadal. Fyrir mynni dalsins rennur Jökulsá á Dal. Græn orka. Græn eða umhverfisvæn orka er hugtak sem notað er yfir umhverfisvæna orku eins og sólarorku, vindorku, vatnsorku og jarðvarma. Kjarnorka er stundum talin með. Græn orka hefur þann meginkost að fela ekki í sér losun koltvísýrings og mengun. Græn orka er ekki endilega endurnýjanleg orka. Oftast er talað um græna orku í tengslum við orkunotkun heimila og fyrirtækja þar sem orkuframleiðendur eru í samkeppni sín á milli. Aðalstræti 10. Aðalstræti 10 er íslenskt hús sem stendur við Aðalstræti í Reykjavík. Það var reist árið 1762 og er elsta hús í miðbæ Reykjavíkur. Húsið var byggt sem hluti af Innréttingum Skúla Magnússonar. Saga hússins fram á 20. öld. Tveir skildir í húsinu vísa til uppbyggingar 8 húsa Innréttingana sem voru reist við mikinn fjárstuðning danska ríkisins. Húsið var byggt árið 1762 fyrir bókhaldara Innréttinganna, klæðageymslu og lóskurð. Þar var íbúð undirforstjóra Innréttinganna en húsið var nefnt „Kontor- og Magazinhus“. Þegar innréttingarnar voru seldar um aldamótin 1800 keypti kaupmaðurinn Westy Petreus húsið. Árið 1807 fékk biskup Íslands það til íbúðar og var það þá nefnt Biskupsstofan. Biskup og kona hans hans bjuggu í húsinu til 1849. Jens Sigurðsson síðar rektor Lærða skólans bjó í húsinu 1855-1868 og hjá honum mun bróðir hans Jón Sigurðsson hafa búið þegar hann kom til Alþingis frá Kaupmannahöfn. Á eftir Jens bjuggu í húsinu landlæknir, Matthías Johannessen kaupmaður og fleiri. Húsið á 20. öld. Árið 1926 keyptu hinir þjóðkunnu kaupmenn, Silli og Valdi, húsið og ráku þar verslun í um hálfa öld. Frá árinu 1984 voru ýmsir veitingastaðir starfræktir þar, meðal annars „Fógetinn“. Endurgerð og hönnun. Reykjavíkurborg keypti húsið árið 2001 og hóf að færa það til upprunalegs horfs. Á neðri hæð gamla hússins er Reykjavíkurborg með aðstöðu til sýningarhalds. Að baki hússins var byggt nýtt hús og ný tengibygging úr gleri sem tengir gamla húsið við það nýja. Í nýbyggingunni er starfrækt verslunin Kraum sem selur íslenska hönnunarvöru. Klein-flaska. Klein-flaska er hugtak í stærðfræði sem á við óáttanlegt yfirborð sem líkist flösku með teygðan stút. Stúturinn er sveigður og stingst í gegnum hliðarflöt flöskunnar án þess að rjúfa hann og tengist síðan við botn hennar innan frá, þannig að þar er opið inn í stútinn. Þetta fyrirbæri hefur enga brún og aðeins einn flöt. Þýski stæfræðingurinn Felix Klein lýsti Klein-flöskunni fyrstur árið 1882, og er flaskan kennd við hann. Norðurdalur (Héraði). Norðurdalur er dalur á Fljótsdal. Hann liggur samsíða Suðurdal og um hann rennur Jökulsá í Fljótsdal. Í dalnum er stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar við Teigsbjarg. Bakskautslampi. Bakskautslampi eða myndlampi (einnig þekktur sem CRT (e. "cathode ray tube")) er rafeindalampi með rafeindabeini og flúrljómandi skjá. Hann getur flýtt fyrir og beygt til hliðar geislar til að skapa myndir í formi ljóss. Það sem er skapað af lampanum getur verið myndir (fyrir sjónvörp og tölvur), bylgjur (sveiflusjá), ratsjá, og svo framvegis. Bakskautslampar sem geta sýnt litaðar myndir eru með þremur aðskildum rafeindabeinum og gefa frá sér grænt, blátt og rautt ljós. Þeir nota túpu úr gleri sem er stór, djúp, þung og frekar brothætt. Þess vegna eru bakskautslampar í hnignun því eru til núna aðrar tæknir eins og LCD og plasma sem hafa ekki þessa ókosti. Fyrsta gerð bakskautslampans var fundinn upp árið 1897 af þýskum eðlisfræðingi Ferdinand Braun og var þekkt sem „Braun-túpa“. Flatir bakskautslampar voru framleiddir af Sony en hafa núna verið lagðir niður. Ratsjá. Ratsjá eða radar er tækni sem notar rafsegulbylgjur til að reikna út fjarlægð, hæð, átt og hraða hluta (hvort sem þeir hreyfast eður ei), til dæmis flugvéla, skipa, ökutækja, veðurfars og svo framvegis. Orðið radar varð til úr enskri skammstöfun "RADAR" sem stendur fyrir "radio detection and ranging". Þessi skammstöfun var fyrst notuð árið 1941. Ratsjárkerfi eru með sendi sem sendir út örbylgjur eða útvarpsbylgjur. Bylgjurnar endurspeglast í viðtakanda sem er yfirleitt á sama stað og sendandi. Enda þótt merkið sem sent er til baka sé veikt getur það verið magnað og sýnt á skjá. Þess vegna getur ratsjá fundið það sem hljóð eða ljós væri of veikt til að finna. Fluguveiði. Silungur sem veiddur hefur verið á stöng Fluguveiði er stangveiðiaðferð. Hún hefur tíðkast frá fornu fari til að að veiða silung og lax með öngli. Veitt er á yfirborðinu (þurrfluguveiði) eða neðan yfirborðs (púpuveiði). Silungsveiði á þurrflugu er stunduð á yfirborði. Þurrfluguveiði er stangveiði sem stunduð er með línu og eftirlíkingu af flugum sem fljóta. Fram mjókkandi taumur, sem venjulega er úr nyloni, er settur milli línu og flugu. Ólíkt sökkfluguveiði (púpum), er taka fisksins sýnileg, skyndileg og æsandi. Þótt silungur neyti 90% fæðu sinnar undir yfirborðinu eru þau 10% sem silungurinn neytir á yfirborðinu meira en nóg til að halda flestum veiðimönnum við efnið. Þurrflugur eru stundum ginningar (attractors) eins og Royal Wulff, eða náttúrulegar eftirlíkingar eins og fiðrildi sem búin eru til úr elgs hárum. Byrjandi kann að kjósa heldur að byrja með flugu sem er auðvelt að sjá eins og Royal Wulff ginningarflugu eða vorflugu eftirlíkingu eins og Parachute Adams eða mýflugu, fallhlífin (the Parachute) á Parachute Adams lætur veiðimaðurinn fluguna lenda jafn mjúklega og raunverulega flugu á yfirborðinu sem hefur að auki þann kost að gera fluguna mjög sýnilega ofan vatnsborðs. Að sjá fluguna kemur að sérstaklega góðum notum fyrir byrjanda. Flugan ætti að lenda mjúklega þegar hún er látin falla á vatnið með tauminn beint út frá flugulínunni. Forðast skal að hreyfing á línunni raski náttúrulegu reki flugunnar, tækni sem nefnd er lögun (mending) er notuð til að hafa stjórn á þessu. Vegna þess að vatnsföll hafa hraðari eða hægari straum oft samsíða, getur flugan yfirtekið eða verið yfirtekin af línunni, sem þar með raskar reki flugunnar. Lögun(mending)er tækni sem þar sem veiðimaðurinn lyftir og hreyfir þann hluta línunar sem réttir línuna af við rek flugunar. Hreyfingin getur verið bæði uppstreymis og niðurstreymis allt eftir straumnum sem ber línuna. Að læra að laga línuna er oft mun einfaldara ef veiðimaðurinn hefur fluguna í sjónmáli. Þegar fiskurinn hefur verið veiddur og honum landað, kemur fyrir að flugan flýtur ekki vel lengur, stundum er hægt að þurrka hana með því að „Fals-kasta“ henni (lína ekki látin lenda og er kastað fram og til baka í loftinu). Í sumum tilfellum er hægt að þurrka fluguna með litlum þurrkklút eða hún er sett í ílát sem er fullt af þurrflugufitu sem er vatnsþolin. Helsta aðferðin ef flugan flýtur ekki, er einfaldlega að setja á aðra flugu, líka eða alveg eins, þar til upprunalega flugan hefur þornað að fullu, að auki er gott að skipta stöðugt um flugu á meðan á veiðum stendur. Þurrfluguveiði við littlar ferskvatnsár getur verið einkar árangursríkt ef veiðimaður skríður eins langt frá bakkanum og mögulegt er og læðist hljóðlega gegnt straumi. Silungar liggja oft rangsælis við strauminn og mest af fæðu þeirra berst með straumnum. Af þessari ástæðu er athygli fisksins oftast upp í strauminn; flestir veiðimenn færa sig og veiða „Upp með straumnum“ staðsettir fyrir neðan staðinn sem þeir halda að fiskurinn liggi. Silungar ráðast á fæðu sína við straumbrot þar sem straumþyngra og straumminna vatn mætast. Fyrirstöður í straumnum eins og stórir steinar eða nálægir hylir, skapa lástraums umhverfi þar sem fiskurinn liggur og biður fæðu án þess að þurfa að nýta mikla orku. Með því að kasta uppstreymis í hægari hluta straumskila, getur veiðimaður fylgst með frjálsu reka|reki flugunnar niður strauminn. Helsta áskorunin við straumvatnsveiði er að setja fluguna niður af nákvæmni, til dæmis innan nokkurra sentímetra frá straumbrjótandi steini með ekki of löngu kasti. Sé þetta rétt gert virðist flugan fljóta með straumnum líkt og hún sé ekki föst við flugulínuna. Veiðimaðurinn verður að vera á varðbergi fyrir tökunni í þeim tilgangi að reisa stöngina og festa öngulinn í bráðinni! Vísnabók Guðbrands. Vísnabók Guðbrands er vísnabók sem Guðbrandur Þorláksson gaf út árið 1612. Í henni er mikið safn andlegra ljóða, allt í allt ein tvö hundruð og fimmtíu kvæði, en auk þess nokkur sem kalla mætti veraldleg kvæði. Vísnabók Guðbrands kom út í nýrri útgáfu árið 2000. Skessujurt. Skessujurt (fræðiheiti "Levisticum officinale") er stórvaxin jurt sem venjulega 1 -1½ metri á hæð en getur þó orðið yfir 2 metrar. Hún er sem skyld sellerí og eru laufblöð og fræ eru notuð til að krydda mat. Skessujurt blómgast í júlí og eru blómin gulgræn að lit. Skessujurt er bæði verið notuð til lækninga og matargerðar og eru laufin notuð sem krydd en jarðstöngull og rót til lækninga. Á miðöldum var skessujurt gjarnan ræktuð við klaustur. Félag eldri borgara í Reykjavík. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er stærsta félagið innan Landssambands eldri borgara með yfir 8 þúsund félagsmenn. Félagið var stofnað 15. mars 1986. Félag eldri borgara í Kópavogi. Félag eldri borgara í Kópavogi er í Landssambandi eldri borgara. Malena Ernman. Malena Ernman (fædd í Uppsala 4. nóvember 1970) er sænsk óperusöngkona, sem keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2009 með lagið „La voix“. Ernman, Malena Indíánahnúður. Indíánahnúður (fræðiheiti "Ipomoea tricolor") er vafningsjurt sem verður 2-4 metra há. Laufblöðin eru spírallöguð, 3-7 sm löng. Blómin eru blá 4-9 sm í þvermál og er algengast að þau séu blá með hvítri til gulri miðju. Jurtin er af sumum talið illgresi þar sem hún vex hratt og myndar mikið magn af fræum Fræ jurtarinnar innihalda beiskjuefni (lýting) og hafa frá fornu fari verið notuð til að kalla fram ofskynjun. Astekar kölluðu fræ jurtarinnar "tlitliltzin" sem þýðir svart og í Suður-Ameríku eru fræin einnig kölluð "badoh negro". Centerpartiets Ungdomsförbund. Centerpartiets Ungdomsförbund CUF er ungliðahreyfing Sænska miðjuflokksins (Centerpartiet). Hreyfingin er stofnuð árið 1917 og á m.a. aðild að Nordiska Centerungdomens Förbund. Nordiska Centerungdomens Förbund. Nordiska Centerungdomens Förbund (NCF) var stofnað árið 1965. Samtökin eru samstarfsvettvangur ungliðahreyfinga norrænna miðjuflokka. Þrír Íslendingar hafa gengt forsæti í samtökunum, þau G. Valdimar Valdemarsson 1993-1994, Finnur Þór Birgisson 2000-2001 og Fanný Guðbjörg Jónsdóttir 2008-2009. Svensk Ungdom. Svensk Ungdom er ungliðahreyfing Sænska þjóðarflokksins (Svenska folkpartiet) í Finnlandi. Hreyfingin er stofnuð árið 1943 og á m.a. aðild að Nordiska Centerungdomens Förbund. Ålandsk Ungcenter. Ålandsk Ungcenter er ungliðahreyfing Álandseyska miðjuflokksins (s. "Åländsk Center"). Hreyfingin á m.a. aðild að Nordiska Centerungdomens Förbund. Senterungdommen. Senterungdommen er ungliðahreyfing Norska miðjuflokksins (Senterpartiet). Hreyfingin er stofnuð árið 1949 og á m.a. aðild að Nordiska Centerungdomens Förbund. Suomen Keskustanuoret. Suomen Keskustanuoret er ungliðahreyfing Finnska miðjuflokksins (Suomen Keskusta). Hreyfingin á m.a. aðild að Nordiska Centerungdomens Förbund. Keskustan Opiskelijaliitto. Keskustan Opiskelijaliitto eru samtök námsmanna í Finnska miðjuflokknum (Suomen Keskusta). Hreyfingin á m.a. aðild að Nordiska Centerungdomens Förbund. Blaðlaukur. Blaðlaukur eða púrra (fræðiheiti: "Allium ampeloprasum" var. "porrum" eða "Allium porrum") er grænmeti sem tilheyrir laukætt eins og laukur og hvítlaukur. Blaðlaukur er ræktaður til átu. Æti hluti blaðlauks er ljós en afgangurinn er grænn stilkur. Blaðlaukur er vanalega skorinn í þunnar sneiðar. Hann er matreiddur soðinn, steiktur eða hrár. Kynjafræði. Kynjafræði er þverfagleg fræðigrein sem telst til félagsvísinda. Aðaláhersla er lögð á að skoða og greina hlutverk kyns og kyngerfis í samfélaginu. Einnig er stétt og þjóðerni skoðað út frá sjónarhóli kynjafræðinnar, sem og aðrar birtingarmyndir valdatogstreitu í samfélaginu. Kyngerfissjónarhornið er alltaf sameiginlegi nefnarinn. Út frá sjónarhorni kyngerfis er litið svo á að samfélagið sé í stöðugri mótun af samskiptum kynjanna. Hugmyndir um kyn og kyngerfi má finna í allri mannlegri reynslu og gjörðum, en kynjafræðin lítur svo á að þar sé að finna myndunarstað félagslegra strúktúra. Kynjafræði getur því snúist um yfirgrípandi efnislegar greiningar á deilingu valdsins yfir í að kortleggja óformlegan valdastrúktúr í afmörkuðu samhengi. Sjónarhorn kynjafræðinnar er notað í fjölda annarra faga. Kynjafræðin á uppruna sinn að rekja til kvennafræði, fag sem varð til á áttunda áratugnum. Kynjafræði í dag inniheldur kvennafræði, karlafræði og hinsegin fræði. Gunnar Bragi Sveinsson. Gunnar Bragi Sveinsson (f. á Sauðárkróki 9. júní 1968) er utanríkisráðherra og oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann var kjörinn á Alþingi í alþingiskosningum 2009 fyrir Framsóknarflokkinn og er 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis. Gunnar Bragi lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 1989 og atvinnulífsfélagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1995. Gunnar Bragi sat í sveitarstjórn Skagafjarðar 2002-2010. Gunnar Bragi var þingflokksformaður Framsóknarflokksins 2009-2013 og hefur gegnt embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins frá 23. maí 2013. Alfred Schütz. Alfred Schütz (13. apríl 1899 – 20. maí 1959) var austurrískur lögfræðingur, heimspekingur og félagsfræðingur af gyðingaættum. Hann er einkum þekktur sem upphafsmaður fyrirbærafræðilegrar nálgunar á kenningar Max Webers í félagsvísindum. Hann tók þátt í Vínarhringnum. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 1939 þar sem hann fékk stöðu við New School of Social Research í New York-borg. Í Bandaríkjunum varð hann fyrir áhrifum frá gagnhyggju og rökfræðilegri raunhyggju. Gangspil. Hluti af líkani sem sýnir fullmannað gangspil. Gangspil er spil sem notað er til þess að draga þunga hluti upp, t.d. akkeri í skeið eða minni báta á land og létta þar með undir setningu. Gangspil á Íslandi, sem voru algeng í fjörum, voru einnig nefnd "bátsspil", "vinduspil" eða "gangvinda". Fyrst er þeirra getið hér á landi 1762. Stefán Jónsson (1923-1990). Stefán Jónsson (9. maí 1923 – 17. september 1990) var íslenskur rithöfundur, alþingismaður og útvarpsmaður. Félag eldri borgara í Borgarfjarðardölum. Félag eldri borgara í Borgarfjarðardölum er í Landssambandi eldri borgara. Fjallahlynur. Fjallahlynur (fræðiheiti "Acer spicatum") er hlyntegund sem upprunnin er í norðausturhluta Norður-Ameríku frá Saskatchewan til Nýfundnalands og suður til Pennsylvaníu. Hann vex einnig hátt til fjalla í suður Appalachiafjöllum norður að Georgíu. Fjallahlynur er runni eða lítið lauftré og verður 3 - 8 metra hár með umfangsmikilli krónu og stuttum bol og mjóum greinum. Laufin eru 6-10 sm löng. Bringubein. Bringubein (eða brjóstbein) (fræðiheiti: "os sternum") er mjótt og flatt bein þar sem rifbeinin koma saman; bringubeinið heldur því brjóstkassanum saman og verndar hjartað. Í manninum eru sjö efstu rifin tengd við bringubeinið og í skyndihjálp er stutt bilkvæmt á það með báðum höndum þegar notast er við hjartahnoð. Bringubeinið í fuglum nefnist "skip". Enginn fiskur hefur bringubein nema síldin. Félag eldri borgara Selfossi. Félag eldri borgara á Selfossi er í Landssambandi eldri borgara Skosku hálöndin. Skosku hálöndin eru fjöllótt svæði í Skotlandi. Svæðið nær yfir norðvestur helming landsins, en mörkin eru ekki skýr í suðri og austri. Hálöndin eru strjálbýl sökum fjölmargra fjallgarða sem gnæfa yfir svæðinu. Hæstu fjöll Bretlands eru í skosku hálöndunum, eins og Ben Nevis sem er hæst. Náttúrufegurð er þar víða mikil. Á 18. öld fór fólki að fækka mikið í hálöndunum. Hefðbundnir lifnaðarhættir voru bannaðir eftir jakobísku uppreisnina 1745, og olli það fyrstu bylgju mannfækkunar. Nauðungarflutningar fólks af svæðinu (Highland Clearances) og flutningur í þéttbýli með iðnbyltingunni leiddu líka til mannfækkunar. Þéttleiki byggðar í hálöndunum er minni en í Svíþjóð, Noregi, Papúa Nýju-Gíneu og Argentínu. Á fyrri öldum voru Hálöndin nær algelískt svæði, en markvisst var unnið að því að berja gelískuna niður. Hún lifir þó enn norðvestan til á svæðinu og á Suðureyjum, og hefur fengið ákveðna viðurkenningu á síðari árum. Selena Gomez. Selena Marie Gomez (f. 22. júlí 1992) er bandarísk leik- og söngkona og góðgerðarsendiherra fyrir UNICEF sem er best þekkt fyrir að leika Alex Russo í Disney Channel þáttunum "Wizards of Waverly Place". Hún fór síðar að leika í kvikmyndum og hefur leikið í sjónvarpskvikmyndunum "Another Cinderella Story", ' og "Princess Protection Program". Hún lék í fyrsta skipti í leikhúsi í verkinu "Ramona og Beezus" Gomez er einnig aðalsöngkona og stofnandi popphljómsveitarinnar Selena Gomez & The Scene sem hefur gefið út tvær gull-smáskífur, "Kiss & Tell" og "A Year Without Rain". Gomez hefur einnig sungið lög fyrir kvikmyndirnar "Tinker Bell", "Another Cinderella Story" og "Wizards of Waverly Place" eftir að hafa skrifað undir samning við Hollywood Records. Selena Gomez er fyrrverandi kærasta ungstirnisins Justins Bieber. Hún er nýlega búinn að gefa út plötu en vinsælasta lagið á henni mun vera lagið „Come and Get It“. Sagt er að það sé samið um fyrrverandi kærastann hennar. Gomez, Selena Gomez, Selena Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni. Félag eldri borgara á Akranesi, FEBAN er í Landssambandi eldri borgara. Kjörnir alþingismenn 1983. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1983. Félag eldri borgara í Garðabæ. Félag eldri borgara í Garðabæ er í Landssambandi eldri borgara. Félag eldri borgara Hafnarfirði. Félag eldri borgara Hafnarfirði er í Landssambandi eldri borgara Félag eldri borgara Suðurnesjum. Félag eldri borgara Suðurnesjum er í Landssambandi eldri borgara Félag aldraðra í Mosfellsbæ. Félag aldraðra í Mosfellsbæ er í Landssambandi eldri borgara. Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni, FaMos, var stofnað 1. október 2002 fyrir íbúa Mosfellsbæjar og nágrennis 60 ára og eldri. Tengt efni. Landssamband eldri borgara Félag eldri borgara Borgarnesi. Félag eldri borgara Borgarnesi er í Landssambandi eldri borgara. Aftanskin félag eldri borgara Stykkishólmi. Aftanskin félag eldri borgara Stykkishólmi er í Landssambandi eldri borgara Félag eldri borgara Eyrarsveit. Félag eldri borgara Eyrarsveit er í Landssambandi eldri borgara Ricardo Carvalho. Ricardo Alberto Silveira Carvalho (fæddur 1978 í Portúgal) er portúgalskur knattspyrnumaður sem spilar með Real Madrid. Áður spilaði hann með Chelsea. Carvalho er varnarmaður. Carvalho, Ricardo Alacarte. Skjámynd af Alacarte í Ubuntu Linux. Alacarte er forrit fyrir GNOME-skjáborðsumhverfið sem auðveldar notandanum að ráða því hvað birtist í aðalvalmynd umhverfisins. Karl 2. Spánarkonungur. Karl 2. Spánarkonungur (6. nóvember 1661 – 1. nóvember 1700) var síðasti konungur Spánar af ætt Habsborgara. Auk Spánar ríkti hann yfir nær allri Ítalíu (nema Fjallalandi, Páfaríkinu og Feneyjum), Spænsku Niðurlöndum og Spænska heimsveldinu sem náði frá Mexíkó til Filippseyja. Þessu gríðarstóra ríki var þó tekið að hnigna hratt, bæði efnahagslega og stjórnarfarslega, löngu áður en Karl tók við völdum. Karl 2. var óvenjuilla haldinn af erfðagöllum sem stöfuðu af innræktun meðal hinna spænsku Habsborgara kynslóð fram að kynslóð. Hann var með svo áberandi trjónumunn að hann gat varla tuggið og tunga hans var svo stór að hann drafaði þegar hann talaði. Vegna þessara veikinda ólst hann upp í mjög vernduðu umhverfi og hlaut enga menntun. Vegna veikinda hans bjuggust flestir við því að ríkisár hans yrðu skammvinn en hann lifði lengur en búist var við, þótt honum tækist ekki að eignast ríkisarfa. Karl gerði Filippus af Anjou, barnabarn Loðvíks 14., að erfingja sínum. Þetta þýddi að við lát hans fékk Loðvík í reynd yfirráð yfir hinu gríðarmikla Spánarveldi. Þetta varð til þess að hin stórveldin brugðust við og Spænska erfðastríðið braust út. Netþjónabú. Netþjónabú, gagnamiðstöð eða gagnaver er bygging notuð til að hýsa tölvukerfi í því augnamiði að flytja og geyma gögn. Það inniheldur útbúnað eins og netþjóna, aðstöðu fyrir gagnageymslu, fjarskiptakerfi og raftengingar. Netþjónabú þurfa víðtæka loftkælingu sökum þess að þjónarnir gefa frá sér mikinn hita. Netþjónabú getur verið eitt herbergi eða nokkrar hæðir í byggingu eða heil bygging. Sókn. Sókn er grunneining stjórnskipulags kirkjunnar. Innan íslensku þjóðkirkjunnar eru á þriðja hundrað sóknir. Ein eða fleiri sóknir sem þjónað er af sama sóknarpresti mynda saman prestakall. Erfðatækni. Erfðatækni (genatækni eða erfðaverkfræði) er líftækni þar sem erfðafræðileg og sameindalíffræðileg þekking er hagnýtt til að framkalla breytingar á erfðamengi lífvera, og þar með á lífefnafræðilegum stjórnunarferlum þeirra og hvarfarásum. Tæknin felst í því að aðferðum sameindaklónunar er beitt til að eyða, bæta við eða breyta einu eða fleiri genum í erfðamengi viðfangslífverunnar, sem þá er sögð erfðabreytt. Notagildi erfðatækni er mikið í grunnrannsóknum á starfsemi einstakra gena og genaafurða í lífverum, en tæknin hefur einnig verið hagnýtt utan rannsóknastofunnar, svo sem til framleiðslu lyfja í erfðabreyttum smiðjum, erfðabreyttra matvæla og jafnvel gæludýra. Icesave. Icesave var vörumerki innlánsreikninga á netinu sem Landsbanki Íslands bauð í Bretlandi og í Hollandi. Þessi þjónusta stóð viðskiptavinum í þessum löndum til boða þar til í október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi í kjölfar efnahagslegrar lægðar sem staðið hafði frá byrjun árs. Alls voru viðskiptavinir þessarar þjónustu um 350 þúsund talsins, nokkru fleiri en íslenska þjóðin. Við fall Landsbankans urðu reikningarnir óaðgengilegir en stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi tóku þá ákvörðun að greiða innstæðueigendum upp að þeim mörkum sem þau höfðu áður ábyrgst vegna þarlendra banka. Í kjölfarið þróaðist milliríkjadeila á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar um það hvort og þá að hvaða marki Ísland bæri ábyrgð á reikningunum og því einnig ábyrgð á endurgreiðslu til Bretlands og Hollands. Þrjár tilraunir voru gerðar til þess að semja um málið. Í fyrsta skiptið samþykkti Alþingi endurgreiðslusamning með fyrirvörum sem Bretar og Hollendingar felldu sig ekki við. Í annað skiptið samþykkti þingið endurgreiðslusamning sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði staðfestingar og vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samningurinn var felldur með miklum meirihluta. Þriðji samningurinn um Icesave fór áþekka leið og var felldur i þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Þegar ljóst var að samningaleiðin var fullreynd hóf eftirlitsstofnun EFTA undirbúning málsóknar fyrir EFTA-dómstólnum vegna meintra brota Íslands á skyldum sínum samkvæmt samningi um evrópska efnahagssvæðið. Dómur féll 28. janúar 2013 með því að Ísland var sýknað af öllum liðum málsins. Upphaf Icesave. Landsbankinn hafði þá verið á breska innlánsmarkaðnum í þrjú ár og heildarinnlán þar námu um 200 milljörðum króna, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. Í ársskýrslu Landsbankans fyrir árið 2007 kom fram að sökum undirmálslánakreppunnar í Bandaríkjunum og þeirrar lausafjárþurrðar sem henni fylgdi hefði Landsbankinn leitast við „að styrkja verulega fjármögnunargrunn sinn og draga mjög úr vægi markaðsfjármögnunar en leggja þeim mun meiri áherslu á almenn innlán“. Þar kom einnig fram að ákveðið hefði verið að hefja sem andsvar við áhyggjum markaðsgreinenda vegna vandamála íslensks efnahags árið 2006. Í lok árs 2007 höfðu 128 þúsund Icesave-reikningar verið stofnaðir. Stjórnendur. Lykilstjórnendur í Landsbankanum á því tímabili sem Icesave varð að veruleika voru þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson. Í bankaráði sátu Björgólfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson, Þór Kristjánsson, Þorgeir Baldursson, forstjóri Odda og einn af eigendum Þórsmarkar ehf (sem er eigandi Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið) og Guðbjörg Matthíasdóttir, afhafnakona í Vestmannaeyjum. Svafa Grönfeldt kom í stað Guðbjargar í bankaráðinu er hún hætti en Svafa átti ekki þátt í stofnun Icesave. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hélt því fram í Fréttablaðinu þann 21. ágúst 2009 að ríkið ætti að láta stjórnendur sæta ábyrgð og krefja þá til að borga upp í Icesave skuldirnar úr eigin vasa. Fyrir hrun. Í byrjun júli 2008 spáði Bert Heemskerk, bankastjóri Rabobank, eins stærsta banka í Hollandi, því að Landsbankinn færi á hausinn og að þeir Hollendingar sem lagt höfðu peninga sína inn Icesave-reikning bankans myndu líklega aldrei sjá þá aftur. Þessi orð lét hann falla í umræðuþætti í ríkissjónvarpi Hollands. Hann líkti Landsbankanum við tyrkneska banka, sem njóta ekki trausts í Hollandi. Þann 8. júlí sagðist Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, ekki skilja hvað Heemskerk gengi til með orðum sínum. Pláss væri fyrir alla á markaðnum. Hann teldi þó að Heemskerk væri að tala um litlu bankana sem hefðu að undanförnu komið sterkir inn á innlánamarkaðinn í Hollandi og ógnuðu ef til vill stöðu Rabobank. Heemskerk var harðlega gagnrýndur fyrir orð sín heima fyrir og sögðu sérfræðingar að hann væri hræddur við þá samkeppni sem framundan væri á markaði. Á fundi kröfuhafa Landsbanka Íslands 28. febrúar 2009 kom fram að þann 14. nóvember 2008 hafi andvirði innlána hjá útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi numið samtals 1.330 milljörðum króna sem er um 90% vergar landsframleiðslu Íslands. Samningar um Icesave. Þann 19. október 2009 skrifaði ríkisstjórn Íslands undir samning um greiðslur vegna tjóns af völdum Icesave ásamt fulltrúum Breta og Hollendinga. Margir þingmenn voru harðorðir við umræður og atkvæðagreiðsluna í þinginu og olli málið miklum deilum. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindingana var samþykkt í atkvæðagreiðslu á Alþingi þann 30. desember með 33 atkvæðum gegn 30. Atkvæðagreiðslan tók þrjár klukkustundir. Þann 5. janúar 2010 neitaði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, að skrifa undir lögin. "Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?" 2.599 svöruðu: „Já, þau eiga að halda gildi.“ 134.397 svöruðu: „Nei, þau eiga að falla úr gildi.“ Ógild atkvæði voru 7.235. Þar af voru 6.744 seðlar auðir en 491 atkvæði var ógilt af öðrum ástæðum." Nei sem hlutfall af öllum atkvæðabærum mönnum: 58,4% Fyrri þjóðaratkvæðagreiðsla. Út frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslan var stofnuð samninganefnd skipuð með Lee Buchheit í fararbroddi. Nefndin var skipuð af öllum flokkum alþingis. Aðrir nefndarmenn en Bucheit eru: Guðmundur Árnason, Einar Gunnarsson og Jóhannes Karl Sveinsson ráðuneytistjórar, Lárus Blöndal lögmaður og Don Johnston til ráðgjafar. Í kjölfarið sendu Íslendingar frá sér tilboð um samning, með kúluláni á breytilegum vöxtum frá 2012 til 2016. Samningsnefndin tók fram í tilboðinu, að þeir myndu ekki fallast á samning þar sem Bretar og Hollendingar myndu hagnast á samningunum. Bretar og Hollendingar svöruðu með móttilboði, þar sem væru 2 vaxtalaus ár, 2009-2010, á fljótandi vöxtum. Löndin tvö sögðu að þessi samningur væri þeirra besta boð. Eftir nokkra upplýsingafundi á milli ríkjanna kom álit EFTA. EFTA var gagnrýnið á viðbrögð Íslands. Í álitinu segir að íslenska ríkið ætti að sjá til þess að lögum um TIF væri framfylgt, vegna þess að Icesave málið væri óleyst. Ekki stendur þó beint í áliti EFTA að íslenska ríkið ætti að borga Icesave. Alþingi svaraði ekki áliti EFTA og fór málið því til EFTA dómstólsinns. Allar samningsumleitanir um Icesave gætu þó haft enga meiningu. Landsbankinn er að höfða mál gegn þeirri kröfu að heildsölu- og peningamarkaðslán njóti forgangs í útgreiðslu úr þrotabúi gamla Landsbankans. Málið er fyrir dómstólum og vilji svo til að málið verði dæmt Landsbankanum í hag, þá fellur ekkert á íslenska ríkið af skuldbindingum Icesave miðað við núverandi mati á endurheimtuhlutfalli eignasafns bankans. 9. desember 2010 komst samninganefnd Íslands, Hollands og Bretlands að niðurstöðu. Núverandi samningur er endurgreiðslusamningur. Samningurinn er í breskum pundum og evrum. Samningurinn er til ársins 2024 en er framlengjanlegur til ársins 2042. Framlengingin virkar þannig að ef heildargreiðslur fara yfir 40 milljarða, hækkar lánstíminn um eitt ár við hverja 10 milljarða aukalega. Vextir af láninu frá október 2009 til 2016 eru 3,3% til Bretlands og 3% til Hollands. Eftir þann tíma er miðað við CIRR vexti, sem eru reiknaðir mánaðarlega. Núverandi CIRR vextir eru 2,27% til Bretlands og 2,32% til Hollands. Í samningnum er jafnframt að finna 5% þak, miðað við tekjur ríkisins, gjaldfellingarákvæði, vanefndarúrræði, fjárhæðaviðmið og greiðslufresti. Komi upp ágreiningur um samninginn fer ágreiningurinn fyrir Alþjóðagerðardómstólinn í Haag. Lög um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninginn voru samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2011. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands neitaði að staðfesta lögin með undirskrift sinni 20. febrúar og vísaði þeim til þjóðaratkvæðis. Seinni þjóðaratkvæðigreiðslan. 2011 var haldin 9. apríl 2011. Lögunum var hafnað með um 60% á móti 40% (nákvæmlega 59,7% með og 40,1% á móti), sem var meira en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna. Dómur EFTA-dómsstólsins þann 28. janúar 2013. EFTA-dómstóllinn sýknaði þann 28. janúar 2013 Íslenska ríkið af öllum kröfum ESA í Icesave málinu. Hægt er að nálgast dóm EFTA dómstólin, og yfirlýsingu frá EFTA um málið á íslensku. Félag eldri borgara Snæfellsbæ. Félag eldri borgara Snæfellsbæ er innan Landssambands eldri borgara. Félag eldri borgara í Dalasýslu og Reykhólahreppi. Félag eldri borgara í Dalasýslu og Reykhólahrepp er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Ísafirði. Félag eldri borgara Ísafirði er innan Landssambands eldri borgara. Efnahagur Bretlands. a> er stærsta fjármálamiðstöð í heiminum. Efnahagur Bretlands er eitt stærsta efnahagskerfi á Evrópu. Bretland er kapítalist þróað land. Efnahagskerfið er það sjötta stærsta í heimi að nafnverði landsframleiðslu og sjöunda stærsta miðað við kaupmáttarjöfnuð. Það er annað stærsta efnahagskerfi í Evrópusambandinu miðað við kaupmáttarjöfnuð og þriðja stærsta að nafnverði landsframleiðslu. Efnahagur Bretlands hefur dregist aftur úr Frakklandi sökum hruns bresks punds gegn evrunnar. Kaupmáttarjöfnuður landsins á mann er átjándi hæsti í heimi. Bretland er meðlimur í G8, Breska samveldinu, OECD, WTO og ESB. Bretland var upphafsland iðnvæðingarinnar á 18. og 19. öld og var á þeim tíma drifkraftur í heimshagkerfinu. Með annarri iðnbyltinguninni undir lok 19. aldar tóku Bandaríkin við forystuhlutverkinu í efnahagskerfi heimsins. Heimsstyrjaldirnar tvær og fall breska heimveldsins á 20. öldinnni veiktu alþjóðlega stöðu Bretlands sem efnahagsveldis. Nú í byrjun 21. aldarinnar gegnir Bretland þó enn mikilvægu hlutverki í efnahag heimsins vegna mikillar landsframleiðslu og stöðu Lundúna sem einnar mikilvægustu fjármálamiðstöðvar í heimi. Bretland er eitt alþjóðavæddasta land í heiminum. Höfuðborg landsins London er stórfelld fjármálamiðstöð fyrir alþjóðaviðskipta. Borgin er ein af þremur „stjórnmiðstöðvum“ fyrir efnahag heimsins (með New York og Tokyo). Bretland samanstendur af hagkerfum (í lækkandi stærð) Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands. Árið 1973 varð Bretland meðlimur í Evrópubandalaginu sem er núna ESB eftir Maastrichtsáttmálinn árið 1993. Félag eldri borgara Bolungarvík. Félag eldri borgara Bolungarvík er innan Landssambandi eldri borgara. Félag eldri borgara Önundarfirði. Félag eldri borgara Önundarfirði er innan Landssambandi eldri borgara. Félag aldraðra í V. Barðastrandasýslu. Félag aldraðra í V. Barðastrandasýslu er innan Landssambandi eldri borgara Félag eldri borgara í Strandasýslu. Félag eldri borgara í Strandasýslu er innan Landssambandi eldri borgara Konungsríkið Stóra-Bretland. Konungsríkið Stóra-Bretland (enska: "Kingdom of Great Britain") var ríki í norðvestur Evrópu sem var til frá 1707 til 1801. Það kom til þegar konungsríkið Skotland og konungsríkið England sameinuðust með Sambandslögunum 1707 sem mynduðu eitt konungsríki sem innihélt heila eyju af Stóra-Bretlandi. Stakt þing og ríkisstjórn staðsett í Westminster stjórnuðu nýja konungsríkið. Konungsríkin tvö höfðu saman einvaldan: Jakob 6., sem varð konungur Englands þegar Elísabet 1. dó árið 1603. Hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Írlands tók við af konungsríkinu Stóra-Bretlandi árið 1801 þegar konungsríkið Írland sameinaðist við það með Sambandslögunum 1800. Félag eldri borgara Vestur Húnavatnssýslu. Félag eldri borgara Vestur-Húnavatnssýslu er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara í Húnaþingi. Félag eldri borgara í Húnaþingi er innan Landssambands eldri borgara. Swansea. Swansea (velska: "Abertawe", fornnorræna: "Sveinsey") er borg og sýsla í Wales. Hún er önnur þéttbyggðasta borg í Wales eftir Cardiff og er þéttbyggðasta sýsla í Wales eftir Cardiff og Rhondda Cynon Taff. Swansea er við sendna strönd í Suður-Wales. Á 19. öld var Swansea aðalmiðstöð kopariðnaðarins. Árið 2007 var íbúafjöldi borgarinnar um það bil 228.100 manns. Félag eldri borgara Skagafirði. Félag eldri borgara Skagafirði er innan Landssambands eldri borgara. Félag aldraðra Siglufirði. Félag aldraðra Siglufirði er innan Landssambands eldri borgara. Félag eldri borgara Akureyri. Félag eldri borgara Akureyri er innan Landssambands eldri borgara Félag aldraðra Eyjafirði. Félag aldraðra Eyjafirði er innan Landssambands eldri borgara Félag aldraðra Dalvík og nágrenni. Félag aldraðra Dalvík og nágrenni er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Ólafsfirði. Félag eldri borgara Ólafsfirði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Húsavík. Félag eldri borgara Húsavík er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Þingeyjarsveit. Félag eldri borgara Þingeyjarsveit er innan Landssambands eldri borgara Feneyjatvíæringurinn. Feneyjatvíæringurinn (eða Tvíæringurinn í Feneyjum'") er umfangsmikil alþjóðleg myndlistarsýning helguð samtímalist sem er haldin annað hvert ár (oddatöluár) í Feneyjum. Tengd hátíðinni eru líka Kvikmyndahátíðin í Feneyjum og Sýning byggingarlistar í Feneyjum ("Mostra di Architettura di Venezia"). Tvíæringurinn hefur verið haldinn frá því 1895. Árið 1907 hófu einstök ríki að reisa sérstaka sýningarskála í Giardini di Castello fyrir listamenn sína og nú eru þar um 30 varanlegir sýningarskálar. Noregur, Svíþjóð og Finnland sameinuðust um einn skála, Norræna skálann, sem Sverre Fehn hannaði árið 1962 en Danmörk var áður búin að reisa skála sem Carl Brummer teiknaði og sem Peter Koch síðar stækkaði. Ísland tók fyrst þátt árið 1960 með verkum Ásmundar Sveinssonar og Jóhannesar Kjarval og sýndi fyrst annaðhvort á alþjóðlegu sýningunni eða sem gestur í danska eða Norræna skálanum. Þegar Finnar ákváðu að taka þátt í Norræna skálanum 1984 tóku Íslendingar eldri timburskála þeirra á leigu, en skálann hannaði Alvar Aalto og var ætlað að standa tímabundið. Árið 2007 ákváðu Finnar að nota hann sjálfir og því sýndi Steingrímur Eyfjörð fyrir Íslands hönd í Palazzo Bianchi Michiel við Canal Grande það ár og Ragnar Kjartansson mun einnig sýna þar 2009. Erfðamengi. Erfðamengi, eða genamengi er hugtak sem notað er í erfðafræði og lífupplýsingafræði sem safnheiti yfir allt erfðaefni í lífveru, jafnt gen sem önnur svæði kjarnsýranna. Í erfðamenginu eru fólgnar allar arfbærar upplýsingar og því ætti í grundvallaratriðum að vera hægt að endurgera starfhæfa lífveru út frá erfðamenginu, væru allir þroska- og stjórnunarferlar lífverunnar þekktir til fullnustu. Konungsríkið England. Fáni Englands sem er enn þá í notkun í dag. Konungsríkið England var ríki í Norðvestur-Evrópu frá 927 til 1707. Konungsríkið England náði yfir tvo þriðjunga af suðurhluta Stóra-Bretlands og sumar af litlum eyjunum við Stóra-Bretland. Í dag er þetta lögfræðilegt svæði England og Wales. Uppruni Englands sem sameinaðs ríkis byrjaði á 9. eða 10. öld. Wales kom undir stjórn Englands með hernáminu Bretlands og Wales kom undir lög Englands árið 1535. Árið 1707 varð England hluti konungsríkisins Stóra-Bretlands með Sambandslögunum 1707 sem sameinuðu Skotland, Wales og England. Aðsetur konungsfjölskyldunnar var í Winchester í Hampshire en Westminster og Gloucester höfðu næstum jafna stöðu — sérstaklega Westminster. Westminsterborg hafði orðið raunveruleg höfuðborg Englands í byrjun 12. aldarinnar. London var höfuðborg konungsríkisins fram að sameiningu við Skotland árið 1707. Í dag er London enn þá talin að vera höfuðborg Englands. Konungsríkið Skotland. Fáni Skotlands sem er enn þá í notkun í dag. Konungsríkið Skotland (gelíska: "Rìoghachd na h-Alba", skoska: "Kinrick o Scotland") var ríki í Norðvestur-Evrópu sem var til frá 843 til 1707. Ríkið, sem var á norðurhluta Stóra-Bretlands, náði yfir þriðjung eyjunnar. Það hafði landamæri við England og var sameinað við landið árið 1707 með Sambandslögunum 1707 til að mynda konungsríkið Stóra-Bretland. Síðan 1482 hefur svæði konungsríkisins miðast við Skotland nútímans. Fyrir utan meginland Skotlands samanstóð konungsríkið af yfir 790 eyjum. Edinborg var höfuðborg konungsríkisins Skotlands. Árið 1700 var íbúafjöldi Skotlands um það bil 1,1 milljón manns. Markfæði. Markfæði er heiti notað innan matvælafræða og matvælaiðnaðar um matvæli sem markaðssett eru sem heilsubótarefni og er neytt sem slíkra fremur en til að fullnægja grunnnæringarþörfum. Til að kallast markfæði þarf fæðan því að hafa sannanlega jákvæð áhrif á heilsu manna umfram það grunnhlutverk allra matvæla að leggja manninum til næringarefni. Meðal algengra afurða sem taldar eru til markfæðis má til dæmis nefna lýsi og ýmis matvæli bætt með lífvirkum efnum á borð við vítamín, stanól estera og lifandi mjólkursýrugerla. Ræktunartankur. Ræktunartankur, gerjunarílát, gilker eða fermentor er sérútbúið ílát til ræktunar örvera eða annarra frumna með það að markmiði að framleiða afurðir, svo sem frumumassa, einfrumuprótín eða tiltekna efnaskiptaafurð. Ræktunartankar eru því grunnútbúnaður til framleiðslu á hvers kyns líftækniafurðum. Tankarnir geta verið af ýmsum stærðum og gerðum eftir notkun. Rannsóknastofutankar til skimunar eftir afurðarmyndandi frumum taka gjarnan rúmmál upp á fáeina millilítra, en ekki er óalgengt að tankar til verksmiðjuframleiðslu gerjunarafurða taki þúsundir rúmmetra. Ílát sem nefna mætti ræktunartanka hafa verið notuð til framleiðslu gerjaðra matvæla, svo sem bjórs, víns og sojasósu, um árþúsund, en nútíma ræktunartankar eru öllu þróaðri og gefa kost á nákvæmri stýringu ýmissa umhverfis- og næringarþátta, svo sem á hitastigi, blöndunarhraða, froðumyndun, sýrustigi, súrefnisstyrk, magni og hlutföllum næringarefna og ýmsu fleiru. Stofnerfðafræði. Stofnerfðafræði (einnig nefnt hóperfðafræði) fjallar um þróun stofns í erfðafræði og hvernig erfðavísar og arfgerðir dreifast um stofninn, sökum náttúruvals, genaflökti, stökkbreytinga og genastreymis. Enska heitið á stofnerfðafræði er. Stofnerfðafræði tekur á umfjöllunarefnum eins og aðlögun og tegundamyndun. Ölduselsskóli. Ölduselsskóli er grunnskóli í Reykjavík. Hann er staðsettur í Ölduseli 17, Reykjavík. Skólinn. Ölduselsskóli tók til starfa haustið 1975. Nemendur voru þá tæplega 100 og kennarar 4 auk tveggja stundakennara og skólastjóra. Að vori fyrsta skólaárs voru nemendur 104, tveimur árum síðar 590, 799 árið 1980 en hámarki var náð skólaárið 1982-1983 en þá voru nemendur 936. Eftir það fór að fækka, niður í 602 árið 1990 og 532 árið 1993. Undanfarin þrjú ár hafa nemendur verið um 520 og er nú heldur að fjölga aftur í yngstu bekkjardeildunum. Starfsmenn skólans eru 69 þar af 43 kennarar að skólastjórnendum meðtöldum. Skólastjórn. Skólastjórinn er Börkur Vigþórsson og aðstoðarskólastjórinn er Aðalheiður Diego Hjálmarsdóttir. Konungsríkið Írland. Konungsríkið Írland (írska: "Ríocht na hÉireann") var það sem írska ríkið var kallað frá 1541 með "Crown of Ireland Act 1542" lögunum af írska þinginu. Nýi einvaldurinn skipti um lávarðartign Írlands. Hinrik 8. varð fyrsti konungur Írlands síðan 1169. Koungsríkið Írland hætti að vera til þegar Írland varð hluti Stóra-Bretlands til að mynda Bretland árið 1801. Félag eldri Mývetninga. Félag eldri Mývetninga er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Öxarfjarðarhéraði. Félag eldri borgara Öxarfjarðarhéraði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara við Þistilfjörð. Félag eldri borgara við Þistilfjörð er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Vopnafirði og Bakkafirði. Félag eldri borgara Vopnafirði og Bakkafirði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Fljótsdalshéraði. Félag eldri borgara Fljótsdalshéraði er innan Landssambands eldri borgara Framtíðin, Félag eldra fólks á Seyðisfirði. Framtíðin, Félag eldra fólks á Seyðisfirði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Borgarfirði eystra. Félag eldri borgara Borgarfirði eystra er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Reyðarfirði. Félag eldri borgara Reyðarfirði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Norðfirði. Félag eldri borgara Norðfirði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Eskifirði. Félag eldri borgara Eskifirði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Suðurfjörðum. Félag eldri borgara Suðurfjörðum er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Djúpavogi. Félag eldri borgara Djúpavogi er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri Hornfirðinga. Félag eldri Hornfirðinga er innan Landssambands eldri borgara Iker Casillas. Iker Casillas (f. 20. maí 1981 í Madríd) er spænskur knattspyrnumaður. Hann er markvörður Real Madrid. Casillas, Iker Petr Čech. Petr Čech (f. 20. maí 1982 í Plzeň í Tékkóslóvakíu) er tékkneskur knattspyrnumaður sem spilar með Chelsea á Englandi. Hann er 1,96 m að hár markvörður. Hann hefur spilað fyrir Viktoria Plzeň, Chmel Blšany, Sparta Prague og Rennes. Hann var kosinn í lið Evrópumeistaramótsins 2004. Hann hefur jafnframt fengið verðlaun sem besti markvörðurinn í Meistaradeild Evrópu fyrir tímabilin 2004/2005, 2006/2007 og 2007/2008. Ferill. Čech fæddist í Plzeň, Tékkóslavakíu þar sem nú er Tékkland. Hann byrjaði fótbolta iðkun sjö ára að aldri. Uppeldisfélag hans var FC Viktoria Plzeň. Hann skipti yfir í félagið Chmel Blšany 30. október 1999 og varð fljótt lykileikmaður í liðinu. Rennes. Eftir að hafa spilað í eitt tímabil með Sparta Prague uppskar hann árangur með undir 21 árs landsliðinu. Eftir vítaspyrnu í úrslitaleik evrópumeistaramótinu og sigur landsliðsins uppskar hann mikla athygli frá erlendum félögum. Arsenal reyndi að fá til sín leikmanninn en fékk ekki vinnuréttindi fyrir hann. Í júlí 2002 fór Čech til franska klúbbsins Stade Rennes. Chelsea. 2003 kom Čech til reynslu til Chelsea. Claudio Raneri hafði áform um að gera Čech að varamarkverði liðsins. Eftir að fyrsta tilboði Chelsea var hafnað, samþykkti Rennes annað tilboð félagsins og leikmaðurinn fór til Chelsea á 7 milljónir breskra sterlingspunda og skrifaði undir fimm ára samning. Tímabilið 2004/2005. Þegar að aðalmarkvörður Chelsea, Carlo Cudicini, brotnaði í olnboga varð Čech settur í byrjunarlið félagsins. Hann hélt hreinu í deildarleik á móti Manchester United og 5. mars 2005 hafði hann haldið hreinu í 1.025 mínútur. Þetta met féll síðar af markverði Manchester United, Edwin van der Sar. Tímabilið 2005/2006. Á tímabilinu fékk liðið eingöngu 22 mörk á sig og varði ensku deildina. Čech skrifaði undir nýjan samning 1. febrúar 2006 sem framlengdi dvöl hans hjá Chelsea til 2010. Tímabilið 2006/2007. Petr Čech með sérsmíðaðan hjálm frá Adidas. Čech fór í minniháttar axlaraðgerð 27. júní 2006 til að fyrirbyggja frekari meiðsli. 14. október sama árs var hann að keppast við að ná boltanum af Stephen Hunt á fyrstu 20 sekúndum leiksins. Hné Stephen Hunts lenti í höfði Čech og skildi hann eftir meðvitundarlausan. Eftir nokkrar mínótur var honum skipt út fyrir Carlo Cudcini sem varð jafnframt meðvitundarlaus seinna í sama leik. Fyrirliðinn John Terry stóð síðustu mínúturnar í markinu. Čech fór í skurðaðgerð fyrir brotna höfuðkúpu og gat ekki spilað fyrir félagið fyrr en í október 2006. Hans fyrsti leikur eftir meiðslin var á móti Liverpool 20. janúar 2007 sem félagið tapaði 2-0. Hann spilaði með sérsmíðaðan hjálm í leiknum og hélt því áfram á meðal höfuðlag hans var áfram veikt. Hann hélt 810 mínótum hreinum og í enda tímabilsins varð hann fyrsti leikmaður ensku deildarinnar að halda hreinu í úrslitaleik, gegn Manchester United í deildarbikarnum. Tímabilið 2007/2008. Í fyrsta leik tímabilsins fékk Chelsea 2 mörk á sig gegn Birmingham City en vann leikinn 3-2 og setti met í fjölda heimaleikja án taps. 7. nóvember 2007 lenti Čech í ökklameiðslum í Evrópumeistaramótinu gegn Scalke 04. Eftir að hafa lent í öðrum meiðslum gegn Tottenham og á æfingu 7. apríl 2008 hafði hann misst af 22 leikjum á tímabilinu. Heimildir. Čech, Petr Álmur. Álmur (fræðiheiti "Ulmus glabra") er hávaxið lauftré með breiða og hvelfda krónu, tré sem á heimkynni í Evrópu, Litlu-Asíu og Kákasus. Álmur getur orðið 40 metra hár. Félag eldri borgara Biskupstungum. Félag eldri borgara Biskupstungum er innan Landssambands eldri borgara Sigurður Gunnarsson. Sigurður Gunnarsson eða Siggi Gunn (fæddur 11. september 1959) er íslenskur handknattleiksmaður. Sigurður lék einnig fótbolta með Víkingi og íslenska unglingalandsliðinu áður en hann valdi að einbeita sér að handbolta. Sigurður lék upphaflega handknattleik með Víkingi upp yngri flokka félagsins og varð m.a. bikarmeistari bæði með 2.flokki og meistaraflokki 1978. Sigurður vann annars marga titla með meistaraflokki, 3 sinnum Reykjavíkurmeistari, bikarmeistari fimm sinnum og Íslandsmeistari þrisvar sinnum. Sigurður var ávallt meðal markahæstu manna og var markakóngur íslandmótsins 1987-88 og kjörinn besti sóknarmaður Íslandsmótsins 1987-88 og 1989-90. Sigurður var kjörinn íþróttamaður Vestmannaeyja 1989 og þjálfari ársins í efstur deild Íslandsmótsins 1990-1991. Sigurður lék með Bayer Leverkusen í Þýskalandi árið 1981-82 og með spænska liðinu Coronas Tres De Mayo frá árinu 1984-1987. Sigurður var 3. markahæsti maður Spænsku deildarinnar 1985 og valinn í lið ársins það árið. Árin 1988-1996 lék Sigurður og þjálfaði lið ÍBV í Vestmannaeyjum og gerði þá meðal annars að bikarmeisturum 1991. Sigurður þjálfaði lið Hauka tvö tímabil árin 1996 - 1998 og varð liðið Bikarmeistari árið 1997. Sigurður þjálfaði síðar lið Bodö Handballklubb og Stavanger handball í Noregi áður en hann tók við Stjörnunni og síðar kvennaliði FH. Áður en það varð þjálfaði hann lið Víkinga eitt tímabil og undir hans stjórn komst Víkingur í fyrstu deild aftur. Sigurður var valinn besti leikmaður íslenska unglingalandsliðsins í Skien í Noregi árið 1977, þar sem liðið lenti í 2. sæti og besti sóknarmaður 21 árs landsliðsins sem keppti í Danmörku árið 1979. Sigurður lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland árið 1978 í Færeyjum 1978 og þann síðasta árið 1990. Sigurður var einn af þeim sem vann B-keppnina í París 1989, tók þátt í tvennum Olympíukleikum, Los Angeles 1984 og Seol 1988. Sigurður varð 6 markahæsti leikmaðurinn í Los Angeles og var valinn í Heimsliðið árið 1985. Hann tók þátt í HM í Sviss 1986 og Tékkóslóvakíu 1990. Sigurður varð Evrópumeistari lögreglumanna árið 1984 og valinn besti leikmaðurinn í keppninni. Félag eldri borgara Skeiða og Gnúpverjahreppi. Félag eldri borgara Skeiða og Gnúpverjahreppi er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Hveragerði. Félag eldri borgara Hveragerði er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Þorlákshöfn. Félag eldri borgara Þorlákshöfn er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Eyrarbakka. Félag eldri borgara Eyrarbakka er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri Hrunamanna. Félag eldri Hrunamanna er innan Landssambands eldri borgara Stefán I. Þórhallsson. Stefán I. Þórhallsson (fæddur 30. apríl 1974) er íslenskur slagverksleikari og meðlimur í hljómsveitinni Á móti sól. Sævar Helgason. Sævar Helgason (fæddur 26. júlí 1973) er íslenskur gítarleikari og meðlimur í hljómsveitinni Á móti sól. Þórir Gunnarsson. Þórir Gunnarsson (fæddur 2. ágúst 1969) er íslenskur bassaleikari og meðlimur í hljómsveitinni Á móti sól. Á móti sól. Á móti sól er hljómsveit sem í eru þeir Guðmundur Magni Ásgeirsson söngvari, Sævar Helgason gítarleikari, Heimir Eyvindarson hljómborðsleikari, Þórir Gunnarsson bassaleikari og Stefán Ingimar Þórhallsson trommuleikari. Hljómsveitin var stofnuð haustið 1995 og eru Þórir og Heimir þeir einu sem eftir eru af upprunalegum meðlimum. Stefán gekk til liðs við hljómsveitina vorið 1997, Sævar vorið 1998. Magni bættist í hópinn haustið 1999. Félag eldri borgara Rangárvallasýslu. Félag eldri borgara Rangárvallasýslu er innan Landssambands eldri borgara Samherjar, Félag eldri borgara Mýrdal- og Austur-Eyjafj.hr.. Félag eldri borgara Mýrdal- og Austur-Eyjafj.hr. er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara í Skaftárhreppi. Félag eldri borgara í Skaftárhreppi er innan Landssambands eldri borgara Félag eldri borgara Vestmannaeyjum. Félag eldri borgara Vestmannaeyjum er innan Landssambands eldri borgara Carl Larsson. Carl Larsson (28. maí 1853 í Stokkhólmur – 22. janúar 1919 í Falun) var sænskur listmálari. Larsson, Carl Gaulverjabær. Gaulverjabær er bær í Flóahreppi. Af honum dró hreppurinn Gaulverjabæjarhreppur nafn sitt. Stjörnuepli. Stjörnuepli (eða stjörnueplatré) (fræðiheiti: "Chrysophyllum cainito") er hitabeltistré af kvoðutrésætt sem á uppruna sinn að rekja til láglendis Mið-Ameríku og Karíbaálfu. Tréð vex hratt og getur orðið allt að 20 metra hátt. Flöskuker. Flöskuker (fræðiheiti: "Lagenaria siceraria") er tegund graskera af graskersætt sem er oft notað til að búa til ílát, hljóðfæri eða hina ýmsu listmuni. Gunnar Þ. Andersen. Gunnar Þorvaldur Andersen (9. ágúst 1948) er forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Hann starfaði hjá Landsbanka Íslands frá 1991 til 2003, síðast sem framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs. Þar áður starfaði hann meðal annars sem stjórnandi hjá Helly-Hansen í Noregi og Pepsi Cola Company í Bandaríkjunum og sem fjárfestingarfulltrúi í fjárreiðudeild Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hann hafði umsjón með fjárfestingum lífeyrissjóðs Sameinuðu þjóðanna. Gunnar er með MBA gráðu frá Háskólanum í Minnesota og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Sinfónía Nr. 6 (Beethoven). Sinfónía nr. 6 eftir Beethoven er ein af frægustu sinfóníunum hans. Frægasti parturinn heitir Sveitasinfónían. Genasamsæta. Genasamsæta eða einfaldlega samsæta kallast mismunandi afbrigði af sama geni, en hver genasamsæta ákveður eiginleika eins og blóðflokk eða augnlit. Grein (flokkunarfræði). Grein er hópur í vísindalegri flokkun lífvera sem inniheldur einn sameiginlegan forföður og alla afkomendur (sifja) hans. Þeir afkomendur sem kvíslast út frá greinum eru einstofna. Líta má á hugtakið grein í flokkunarfræði sem trjágrein- ef grein er klippt af tré (þ.e. þróun tegunda) þá samanstendur trjágreinin sem klippt var af af neðsta hluta greinarinnar (sameiginlega forföðurinn) og öllum öngunum sem kvíslast út frá neðri hluta greinarinnar (afkomendur). Fastanefndir Alþingis. Allir þingmenn eru kosnir í sérstakar fagnefndir sem starfa innan þingsins. Þetta er listi yfir fastanefndir Alþingis. The Resistance. "The Resistance" er fimmta breiðskífa ensku rokkhljómsveitarinnar Muse. Platan kom út 14. september 2009. Viskí. Viskí eða viský (gelíska: "uisge beatha") er brenndur áfengur drykkur gerður úr korni. Algengast er að maltað bygg myndi megin uppistöðu kornblöndunnar, en ómaltað bygg, maltaður eða ómaltaður rúgur, hveiti og maís eru einnig notuð í sum viskí. Uppruni orðsins. Heitið "viskí" er alþjóðlegt og hefur borist í flest mál úr ensku, þar sem skosk og kanadísk viskí eru jafnan stafsett "whisky", en írsk og bandarísk viskí stafast "whiskey". Upphaflega kemur heitið þó úr gelísku, en þar nefnist það "uisge beatha" ("uisce beatha" með írskri stafsetningu), sem þýðir bókstaflega "vatn lífsins". Gelíska heitið er því bein þýðing á latneska heitinu "aqua vitae", en svo nefndust brenndir drykkir í Evrópu allt frá miðöldum. Þess má geta að viskí var um tíma nefnt "bretaveig" á íslensku Helstu gerðir. Viskí, eða svipaðir drykkir, er framleitt í flestum kornræktarlöndum, en algengast er að viskí sé flokkað eftir annars vegar upprunalandi og hins vegar kornsamsetningu. Framleiðslan. Framleiðsla viskís er fremur flókið ferli sem býður upp á mikinn fjölbreytileika afurða. Helstu skrefin eru þó í meginatriðum svipuð á milli framleiðenda og fer hér á eftir gróf lýsing á almennu ferli. Fyrstu skrefin minna nokkuð á bjórgerð, en það má með nokkrum sanni halda því fram að viskí sé einfaldlega eimaður og þroskaður bjór. Mesking. Kornið er fyrst malað í heppilega kornastærð og því blandað saman við volgt vatn í svokölluðu meskikeri. Blandan er hituð með hægri hræringu upp að 64 °C, en við það hitastig hafa amýlasar kornsins mesta virkni og brjóta nú niður sterkju kornsins í tvísykrur og aðrar smærri einingar. Þegar seigfljótandi vökvinn hefur verið við 64 °C í hér um bil hálfa klukkustund er hann þynntur og hitastigið hækkað til að draga sem mest af sykrunum úr hratinu og í vökvann. Algengt er að vökvinn nái um 85 °C og sé látinn standa við það hitastig í um 15 mínútur. Hratið er nú skilið frá og vökvinn, sem nú nefnist "meski", er kældur. Gerjun. Meskið fer nú í gerjunartank og geri sáð út í. Gersveppurinn, sem venjulega er af tegundinni "Saccharomyces cerevisiae" gerjar sykrurnar úr korninu og myndar alkohól ásamt bragðefnum og koldíoxíði. Við gerjunina myndast einnig varmi og helst hitastigið í gerjunartankinum við um 35 °C á meðan á gerjun stendur, en hún tekur venjulega um þrjá sólarhringa. Afurðin, sem inniheldur um 5 til 10% alkohól, nefnist "gambri" og minnir um margt á bjór. Brennsla. Þessu næst er gambrinn "brenndur" eða "soðinn", en sú aðgerð er í raun tvö- til þreföld eiming í þar til gerðum "kötlum" eða "eimum". Í hverri viskíbrennslu eru því að minnsta kosti tveir koparkatlar, "gambraketillinn" (e. "wash still") og "brenniketillinn" (e. "spirit still"). Koparinn í kötlunum leikur lykilhlutverk, því hann hvarfast við eiminn og fjarlægir úr honum ýmis brennisteinssambönd sem annars gæfu óþægilegt bragð. Hér er gambrinn soðinn og eimnum safnað þar til áfengisstyrkurinn er hér um bil 75%. Þéttur eimurinn er síðan þynntur lítillega með vatni (algengur lokastyrkur er um 70% alkohól). Þroskun. Að brennslu lokinni er vökvanum dælt í ámur þar sem hann þroskast í nokkurn tíma. Lögum samkvæmt skal skoskt viskí þroskast í að minnsta kosti þrjú ár. Þroskunin felst meðal annars í því að vínandinn gufar upp að hluta og vökvinn sem eftir situr drekkur í sig litar-, ilm- og bragðefni úr viðnum. Best þykir að tunnurnar séu úr eik og hafi áður innihaldið púrtvín eða rauðvín. Lake District. a> á beit upp í fjöllum. Lake District (e. "Vatnahérað", einnig þekkt sem The Lakes eða Lakeland á ensku) er svæði og þjóðgarður á Bretlandi. Svæðið er á Norðvestur-Englandi og er vinsælt hjá ferðamönnum. Lake District er frægt sökum vatna og fjalla (e. "fells") sinna og er tengt við ljóðskáld af 19. öldinni eins og William Wordsworth, Samuel Taylor Coleridge og Robert Southey sem allir skrifuðu um það. Þessi ljóðskáld þrjú eru þekkt sem Lake Poets á ensku. Lake District er einn af fjórtán þjóðgörðum á Bretlandi. Það liggur að öllu leyti í Cumbria-sýslu og er eitt af fáum fjöllóttum svæðum á Englandi. Allt land á Englandi sem er yfir 3000 fetum (um það bil 600 metrum) yfir sjávarmáli liggur í þjóðgarðinum. Scafell Pike, stærsta fjallið Englands, er í Lake District og er um 973 metra yfir sjávarmáli. Umdæmið er um 55 km langt og breitt. Pennínafjöll. Kort af Pennínafjöllum á Bretlandi. Pennínafjöll (e. "Pennines") er lágur fjallgarður í Norður-Englandi og Suður-Skotlandi. Hann aðskilur Norðvestur-England frá Yorkshire-sýslu og norðaustrinu. Fjallgarðurinn er oft talinn að vera „hryggur Englands“ og er á samfelldu svæði frá Peak District í Derbyshire-sýslu, í gegnum Yorkshire-dali, umhverfis Norður- og Vestur-Manchester, West Pennine Moors og Cumbrian Fells til Cheviot Hills við landamæri Skotlands og Englands. Fjallshryggurinn er talinn vera eitt af fegurstu svæðum á Bretlandi. Sumir hlutar hans eru í þjóðgörðum en enginn þjóðgarður nær yfir hann allan. Hæsti tindur svæðisins er Cross Fell í austur Cumbria og nær hann 893 m hæð yfir sjávarmáli. Linditré. Linditré (eða lindi) (fræðiheiti: "Tilia cordata") er tré af stokkrósaætt. Linditré eru fræg að fornu og nýju og þeirra oft getið í skáldskap. Á Bárugötu 16 í Reykjavík er gamalt linditré. Avestar. Avestar eru framandi lífverur í bókum Ólafs Gunnars Guðlaugssonar um Albert tunglkráku. Þeir eru ævaforn og framandi kynþáttur. Avestar eru flóttamenn frá plánetunni Aeos, sem má finna í Pleiadies-stjörnukerfinu. Spaðaíþrótt. Spaðaíþrótt er íþrótt sem er leikin með spaða. En það er badminton, tennis, borðtennis og squash. Þorfinnur karlsefni. Þorfinnur karlsefni frá Reynistað í Skagafirði var íslenskur landkönnuður sem nam land á Vínlandi ásamt konu sinni Guðríði Þorbjarnardóttur. Helstu heimildir um Þorfinn eru Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða. Þar eignuðust þau son sinn Snorra Þorfinnsson og var hann talinn fyrsta hvíta barnið sem fæddist í Ameríku. Ekki er vitað hvar þau numu land en talið er að það gæti verið nálægt L'Anse aux Meadows. Einar Jónsson, myndhöggvari, gerði styttu af Þorfinni sem er í Philadelphia í Bandaríkjunum. Þorfinnur og Guðríður fluttust til Íslands og settust fyrst að á föðurleifð Þorfinns á Reynistað en bjuggu síðar í Glaumbæ. Nýsköpunarfyrirtæki. Nýsköpunarfyrirtæki er fyrirtæki sem eyðir yfir 10% af árlegri veltu í rannsóknir og þróun. LeBron James. LeBron Raymone James (fæddur 30. desember 1984 í Akron í Ohio) er bandarískur körfuknattleiksmaður sem leikur fyrir Miami Heat í NBA-deildinni. James er lítill framherji. Hann var valinn nýliði ársins árið 2004 og besti leikmaður deildarinnar árið 2009. Hann var valinn besti leikmaður stjörnuleiksins 2006, 2008. hann er kallaður The King James, LeBron Clyde Drexler. Clyde Austin Drexler (fæddur 22. júní 1962 í New Orleans í Louisiana) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður í NBA-deildinni. Drexler var skotbakvörður. Hann var tíu sinnum valinn í stjörnuleik NBA-deildarinnar og var valinn í hóp 50 bestu leikmanna deildarinnar frá upphafi árið 1996. Drexler vann gullverðlaun á sumarólympíuleikunum árið 1992 og NBA-meistaratitil með Houston Rockets árið 1995. Drexler, Clyde Dwyane Wade. Dwyane Tyrone Wade, Jr. (fæddur 17. janúar 1982) er bandarískur körfuknattleiksmaður sem leikur fyrir Miami Heat í NBA-deildinni. Wade er skotbakvörður. "Sports Illustrated" nefndi hann íþróttamann ársins árið 2006. Wade leiddi Miami Heat til sigurs í úrslitum NBA-deildarinnar árið 2006 og var valinn besti leikmaður úrslitaviðureignarinnar. Wade, Dwayne Scottie Pippen. Scottie Maurice Pippen (fæddur 25. september 1965) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður í NBA-deildinni. Pippen lék lengst af fyrir Chicago Bulls og vann sex sinnum til meistaraverðlauna í deildinni með liðinu. Pippen lék stöðu lítils framherja. Pippen var valinn í hóp 50 bestu leikmanna NBA-deildarinnar frá upphafi árið 1996. Dennis Rodman. Dennis Keith Rodman (fæddur 13. maí 1961) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður í NBA-deildinni. Hann lék stöðu kraftframherja með Detroit Pistons, San Antonio Spurs, Chicago Bulls, Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks. Rodman þótti góður varnarmaður og átti deildarmetið í fráköstum árin 1989, 1990, 1996, 1997, 1998. Rodman, Dennis Karl Malone. Karl Anthony Malone (fæddur 24. júlí 1963) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður í NBA-deildinni. Hann lék lengst af stöðu kraftframherja með Utah Jazz. Malone var tvisvar sinnum valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar. og skoraði á ferli sínum fleiri stig (36.942 stig) en nokkur annar að undanskildum Kareem Abdul-Jabbar. Malone, Karl John Stockton. John Houston Stockton (fæddur 26. mars 1962) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður. Hann var leikstjórnandi fyrir Utah Jazz. Hann er talinn einn besti leikstjórnandi allra tíma og á metið í NBA-deildinni í fjölda stoðsendinga og stolinna bolta. Stockton, John David Robinson. David Maurice Robinson (fæddur 6. ágúst 1965) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður sem var miðherji fyrir San Antonio Spurs allan feril sinn í NBA-deildinni. Robinson gegndi áður herþjónustu í bandaríska sjóhernum og hlaut því viðurnefnið "aðmírállinn". Robinson, David Isiah Thomas. Isiah Lord Thomas III (fæddur 30. apríl 1961) er bandarískur körfuknattleiksþjálfari og fyrrverandi körfuknattleiksmaður í NBA-deildinni. Hann var leikstjórnandi fyrir Detroit Pistons frá 1981 til 1994 og vann meistaratitil með liðinu 1989 og 1990. Hann var valinn í hóp 50 bestu leikmanna NBA-deildarinnar frá upphafi. Thomas, Isiah Shaquille O'Neal. Shaquille Rashaun O'Neal (fæddur 6. mars 1972), víða þekktur undir gælunafni sínu Shaq, er bandarískur körfuknattleiksmaður. Hann er af mörgum talinn einn besti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi. O'Neal hóf feril sinn með Orlando Magic en lék síðar með Los Angeles Lakers og Miami Heat og vann meistaratitla með báðum liðum, þrisvar sinnum með Los Angeles Lakers en einu sinni með Miami Heat síðar lék hann með Phoenix Suns. Nú leikur hann fyrir Boston Celtics. O'Neal er miðherji. Neðanmálsgreinar. O'Neal, Shaquille Dwight Howard. Dwight David Howard (fæddur 8. desember 1985) er bandarískur körfuknattleiksmaður. Hann er miðherji fyrir Orlando Magic en getur einnig leikið stöðu kraftframherja. Howard var valinn varnarleikmaður ársins í NBA-deildinni árið 2009. Howard, Dwight Dirk Nowitzki. Dirk Werner Nowitzki (fæddur 19. júní 1978 í Würzburg í Þýskalandi) er þýskur körfuknattleiksmaður sem leikur fyrir Dallas Mavericks í NBA-deildinni. Nowitzki er kraftframherji. Nowitzki, Dirk Charles Barkley. Charles Wade Barkley (fæddur 20. febrúar 1963) er bandarískur fyrrverandi körfuknattleiksmaður. Barkley var á sínum tíma einn besti kraftframherji NBA-deildarinnar. Hann var valinn besti leikmaður deildarinnar árið 1993 og var valinn í hóp 50 bestu leikmanna deildarinnar frá upphafi. Hann vann gullverðlaun með bandaríska landsliðinu í körfuknattleik á Ólympíuleikunum 1992 og 1996. Í NBA-deildinni lék hann fyrir Philadelphia 76ers, Phoenix Suns og Houston Rockets. Barkley, Charles Derrick Rose. Derrick Martell Rose (fæddur 4. október 1988) er bandarískur körfuknattleiksmaður sem er leikstjórnandi Chicago Bulls. Hann var valinn nýliði ársins í NBA-deildinni árið 2009. Rose, Derrick Rafmagnsgítar. a> með fingrabretti úr hlyn og einfalda tónnema til hægri. Rafmagnsgítar er gítar sem notar tónnema til að breyta sveiflum stálstrengja í rafstraum sem síðan er magnaður upp með magnara og breytt í hljóð aftur með hátalara. Straumurinn sem gítarinn gefur frá sér er stundum leiddur gegnum gítareffekta sem breyta sveiflunni. Raunsæi. Raunsæi er bókmenntastefna sem barst til Íslands seint á 19. öld. Raunsæju skáldin horfðu mest á nútímann í leit að yrkisefninu. Samið var um raunveruleikann, ekki eins og í rómantíkinni, og ekkert var fegrað. Þá var ekki skrifað um kóngafólk og þá sem háttsettir voru, heldur fátæktina og nauðina. Raunsæismenn voru kallaðir siðleysingjar og smekkleysingjar. Þjóðmálastofnun. Þjóðmálastofnun er sjálfstæð rannsóknarstofnun innan Háskóla Íslands. Forstöðumaður hennar er Stefán Ólafsson prófessor. Markmið Þjóðmálastofnunar er að efla rannsóknir og upplýsingamiðlun á sviði velferðar, atvinnu og þjóðfélagsbreytinga. Stofnunin er virkur þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og hluti af nýju norrænu öndvegissetri í velferðarrannsóknum (NCoE - Nordic Center of Excellence in Welfare Research). Þjóðmálastofnun gengst fyrir rannsóknum á fjölþættum sviðum þjóðmála, með sérstaka áherslu á velferðarmál, atvinnumál og þjóðfélagsbreytingar. Stofnunin gerir frumrannsóknir í félagsvísindum, vinnur úr fyrirliggjandi gögnum, birtir bækur, fræðilegar ritgerðir, skýrslur og fréttabréf, gengst fyrir ráðstefnum, námskeiðum og leggur doktorsnámi við Háskóla Íslands lið með námskeiðum og upplýsingamiðlun. Útbreiðsla búddisma. Aðalsvæði búddisma og helstu verslunarleiðir á fyrstu öld e.Kr. Búddismi er upprunnin á Indlandi og á sér 2500 ára gamla sögu. Upphafsmaður trúarinnar var indverski prinsinn Siddharta Gátama, sem síðar hlaut tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Frá því að Gátama Búdda setti fram kenningar sínar um leiðir úr þjáningu endurholdgunar um 500 árum f.Kr. og fram á 13. öld e.Kr. var búddismi helstu trúarbrögð á Indlandi, jafnhliða hindúisma, jaínisma og öðrum kenningum. Indverski keisarinn Asoka sem uppi var á þriðju öld f.Kr. styrkti mjög stöðu búddisma og sendi trúboða víða um lönd. Meðal annars er vitað um að búddískir trúboðar fóru allt til Sýrlands og Egyptalands á þessum tíma. Á næstu öldum tók hins vegar búddisma hægt og sígandi að hnigna á Indlandi samfara endurvakningu hindúisma. Afgerandi fyrir afdrif búddismans voru innrásir Húna á sjöttu öld og ekki síst múslima á elleftu öld, þar að kom að trú á kenningar Búdda leið því sem næst algjörlega undir lok á meginlandi Indlands í upphafi þrettándu aldar. Kenningar Búdda höfðu borist víða þegar fylgi við þær þvarr í upphafslandi trúarinnar. Íbúar Sri Lanka höfðu snúist til búddisma á þriðju öld f.Kr og hefur trúin allt síðan verið höfuðtrú (annarra en minnihlutahóps tamíla sem eru hindúar). Á fimmtu öld e.Kr settist indverski trúfræðingurinn Buddhaghosa að á Sri Lanka og skrifaði þar helstu grundvallarrit sem skilgreina þá grein búddisma sem nefnd er theravada. Á sjöundu öld e.Kr. barst búddismi til Tíbet og varð á skömmum tíma helsta trú landsins. Búddisminn í Tíbet mótaðist einkum af þeim dulspekistraum búddisma sem nefndur er "madhyamika" og af helgiiðkunum þeim sem nefndar eru tantra. Á fyrstu fimm öldum e.Kr. náði búddismi festu í öllum löndum Suðaustur-Asíu. Á þessum tíma höfðu hinar ýmsu greinar búddisma allar fylgjendur á þessu svæði en theravada-greinin varð smám saman allsráðandi þar sem nú er Kambódía, Laos og Taíland. Í Víetnam varð hins vegar mahayana-greinin gegnum kínversk menningaráhrif mun sterkari. Þar sem nú er Indónesía og Malasía hurfu kenningar Búdda fyrir trúboði múslima á elleftu öld þó svo að áhrif búddisma (og hindúisma) megi enn finna í trúarheimi almennings í þessum löndum. Búddastytta í Afghanistan byggð um 550 e. Kr eins og hún leit út áður enn talíbanar sprengdu hana árið 2001. Styttan var um 55 metrar á hæð Kenningar Búdda urðu útbreiddar í Mið-Asíu allt frá fyrstu öld e.Kr. Þar sem nú eru löndin Afghanistan, Úsbekistan, Kirgisistan og héraðið Sinkíang í Kína var búddismi ein aðaltrú allt fram á elleftu öld e.Kr. þegar útbreiðsla íslam hófst fyrir alvöru á þessu svæði. Við upphaf fimmtándu aldar hafði íslam nánast algjörlega yfirtekið trúarlíf fólks í Mið-Asíu. Eins og á flestum öðrum svæðum varð trúarkenning og trúarhefð búddista fyrir miklum áhrifum frá eldri hefðum og öðrum trúarkenningum á þessu svæði. Má þar meðal annars nefna sjamanisma, saraþústratrú og nestorianskri kristni. Meðal annars er talið af ýmsum fræðimönnum að bodhisattvan Amitabha hafi verið undir áhrifum frá kenningum saraþrústratrúar. Á fyrstu öld e.Kr. fóru kenningar Búdda að berast til Kína eftir verslunarleiðum frá Mið-Asíu og hófst með því fjögurra alda aðlögunartími að eldri hefðum og trúarhugmyndum. Hugtök búddismans voru einkum skilgreind í anda og aðlöguð kenningum daóismans. Meðal annars var það allmennt talið að Laosi, mikilvægasti skapandi daóismans, hafi endurholdgast í Indlandi sem Gátama Búdda. Það var ekki fyrr en á fimmtu öld sem helstu helgirit búddismans voru þýdd úr sanskrít og palí yfir á kínversku. Það var nánast eingöngu hugmyndir mahayana-greinarinnar sem bárust til Kína. Tíbetsk mandala, notuð við hugleiðslu Á sjöttu öld sköpuðust fjölmargar nýjar greinar innan búddismans í Kína. Hinar ýmsu greinar lögðu mismunandi mikla áherslu á mismunandi helgirit og sköpuðu eigin hefð kennimanna. Meðal mikilvægra greina má nefna "tien-tai" og "hua-jen" og ýmsar dulspekigreinar með uppruna í "madhyamika" og "jógakara". Tvær mikilvægustu greinarnar voru þó annars vegar "tjan" (einnig ritað "ch'an") sem á japönsku heitir zen, þar sem hugleiðsla er helsta leið að uppná „skyndilegri uppljómun“, og hins vegar kenningin um "Hið hreina land" sem taldi bænaþulur með nafni Búdda Amitabha leiða til endurfæðingu í paradís hans. Frá sjöundu öld fór kínverski búddisminn að mæta aukinni andstöðu frá konfúsíanisma og daóisma. Yfirvöld fóru einnig að sýna fjandskap við búddisma og stakk vaxandi veldi sangha (munka og nunnureglur) mjög í augun sérlega þar sem þær voru undaþegnar frá sköttum. "Keisarinn Wu-tsung" hóf miklar ofsóknir á hendur búddistum árið 845 og hefur hreyfing kínverskra búddista ekki náð sér að fullu eftir það. Einu greinarnar sem höfðu áfram mikið fylgi voru "Tjang" (Zen) og kenning "Hins hreina lands". Þegar komið var fram á þréttándu öld hafði konfúsíanismi að nýju náð algjörum menningarlegum og heimspekilegum yfirtökum í Kína. Búddismi barst til Japan frá Kína og að miklu gegnum Kóreu á sjöttu til áttundu öld. Það voru einkum greinarnar zen og kenning Hins hreina lands sem náðu fótfestu og þá einkum eftir þrettándu öld. Í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar sköpuðust allmargar nýjar greinar búddisma í Japan, má þar nefna Soka Gakkai sem óx frá þeirri grein sem Nichiren (1222–1282) skapaði á þrettándu öld og Risshokoseikai en báðar þessar greinar hafa fengið marga fylgismenn. Skúmur. Skúmur (fræðiheiti: "Catharacta skua") er fugl af kjóaætt. Skúmurinn tilheyrir ættbálki strandfugla (fjörunga) og er stór, dökkleitur sjófugl, sem minnir töluvert á ránfugl. Skúmurinn er sjófugl á norðurhveli jarðar sem verpir á Íslandi, Færeyjum, Skotlandi, Noregi og Svalbarða. Mesking. Mesking eða moðhitun er aðgerð í bruggun ýmissa korn- og ávaxtadrykkja, svo sem víns, bjórs og viskís, og vinnslu sumra annarra matvæla, til dæmis tabaskósósu. Tilgangur meskingar er að leyfa hinum náttúrlegu niðurbrotsensímum hráefnisins að brjóta niður lífrænar fjölliður á borð við sterkju og prótín til að auðvelda aðgengi gers að næringu og hráefni til gerjunar. Afurð meskingarinnar er kölluð meski eða virt og er gerinu sáð þar út í að lokinni síun og kælingu niður fyrir 40°C. Snælandsskóli. Snælandsskóli er grunnskóli í Kópavogi sem var stofnaður 1974. Mislingar. Mislingar er mjög smitandi veirusjúkdómur í börnum, lýsir sér með rauðum útbrotum í andliti og á bol. Mislingar eru einn sá smitslægasti veirusjúkdómur sem til er, en veiran sem veldur sjúkdómnum nefnist "morbilli". Mislingar á íslensku. Mislingar hafa gengið undir ýmsum nöfnum á Íslandi, svo sem: "dílasótt", "flekkusótt", "krefðusótt", "meislingasótt" (og "mislingasótt") og "mislitasótt". Mislingar á Íslandi fyrr á öldum. Sumarið 1846 gengu mislingar á Íslandi. Sóttin barst út hingað með dönsku skipi til Hafnarfjarðar í lok maímánaðar og breiddist þaðan út um allt Suðurland. Þaðan barst hún, einkum með skólapiltum, bæði norður og vestur og hlífði engum manni. Af mislingum og afleiðingum þeirra munu hafa u.þ.b. 2000 manns látist á öllu landinu. Í Reykjavík gerði sóttin allmikinn usla og mátti svo heita, að þar sæist varla nokkur maður á ferli suma dagana meðan sóttin geisaði. Annar afar slæmur mislingafaraldur geisaði hér á landi árið 1882. Stóri kampalampi. Stóri kampalampi (fræðiheiti "Pandalus borealis") er rækjutegund sem algeng er á 50 til 700 m dýpi í köldum sjó á leirbotni. Lífshættir. Pandalus borealis lifir á dýpi milli 10 og 500 m, vanalega á leirbotni í sjó sem er milli 2 °C og 14 °C heitur.Stóri kampalampi étur meðal annars plöntu- og dýrasvif en rækjan sjálf er mikilvæg fæða fyrir ýmsa nytjafiska eins og þorsk. Afli stóra kampalampa sem veiddur er á Íslandsmiðum og víðar í Norður Atlantshafi er um 70% af um 500 þúsund tonna heildararafla af öllum rækjutegundum sem veiddar eru í heiminum. Breytingar á sjávarhita hafa áhrif á rækjuna sem og þorskur í sjónum. Þegar þorskstofnar hrundu við Kanada uxu rækjustofnar. Meira virðist um rækju þegar sjór er kaldur. Lífsferill. Rækjulirfur klekjast út á sama tíma og vorblóminn í hafinu er í hámarki og er þroskun eggja rækjunnar háð hitastigi. Þroskunartíminn er þannig mislangur eftir botnhita og getur hækkun sjávarhita valdið því að rækjulirfur klekist út of snemma til þess að nýta sér hámark vorblóma plöntusvifs. Hver rækja er á ævi sinni bæði kvendýr og karldýr. Þær eru í fyrstu karldýr. Rækja á grunnslóð skiptir um kyn við 3-4 ára aldur og er hún þá 16 -21 mm á lengd. Á djúpslóð verða þessi kynskipti þegar rækjan er orðin 5-6 ára og 22-24 mm á lengd. Norður af Íslandi er hitastigið á hrygningarslóð rækjunnar um 1°C og þroskunartíminn um 10 mánuðir. Veiðar. Hraukur af "P. borealis" rækjum Stóri kampalampi er mikilvæg sjávarafurð sem hefur verið nýtt frá byrjun 19. aldar í Noregi.Þessi rækjutegund er kaldsjávartegund og er langmest veidda kaldsjávarrækjutegund í heiminum. Veiðar hófust við Ísland árið 1935 í Ísafjarðardjúpi. Frekari fróðleik um það má lesa. Úthafsveiðar hófust 1975. Stofnstærð var mjög há en féll niður eftir 1996. Rækjur. Rækjur eru tíarma liðdýr af ættbálk skjaldkrabba. Þær eru botndýr finnast víða í bæði ferskvatni og á saltvatni. Rækjur eru tvíkynja, þær eru karldýr fyrstu æviárin en breytast svo í kvendýr. Rækjutegundir við Ísland. Rækjutegundin stóri kampalampi (Pandalus borealis) er algengasta rækjutegundin við Ísland og sú eina sem er nýtt hér við land. Hún er langmest veidda kaldsjávarrækjutegund í heimi. Rækjutegundin litli kampalampi (Pandalus montaqui) veiðist stundum með stóra kampalampa. Sameindaklónun. Yfirlitsmynd yfir sameindaklónun þar sem markröðin er klippt út með skerðiensímum og límd í hringlaga genaferju með lígasa. Genaflutningur og val þeirra baktería sem tekið hafa upp genaferjuna eru lykilskref í sameindaklónun. Hér inniheldur genaferjan, auk markraðarinnar, DNA-röð sem veitir þol gegn ákveðnu sýklalyfi. einungis þær bakteríur sem tekið hafa upp genaferjuna geta vaxið í æti sem inniheldur sýklalyfið. Sameindaklónun er samheiti yfir nokkrar erfðatæknilegar aðferðir sem miða að því að einangra tiltekna kirnaröð úr erfðamengi ákveðinnar lífveru og fjölfalda hana í annarri. Sameindaklónun er mikið notuð í sameindalíffræði við grunnrannsóknir á starfsemi og stjórnun gena, en einnig í líftækni, svo sem við framleiðslu prótínraðbrigða og erfðabreyttra lífvera. Varast ber að rugla sameindaklónun saman við klónun eða einræktun, þar sem markmiðið er að framleiða erfðafræðilega einsleitar lífverur. Tæknin. Við sameindaklónun er ákveðinn DNA-bútur klipptur út úr erfðamengi upphafslífverunnar og límdur inn í genaferju (til dæmis plasmíð). Ferjunni er síðan komið fyrir í viðtakafrumu, til dæmis í bakteríunni "E. coli", sem meðhöndlar hana eins og sitt eigið erfðaefni og afritar hana fyrir hverja frumuskiptingu. Bakterían er svo látin fjölga sér ört og við það fjölfaldast erfðaefnið. Askøy. Askøy er sveitarfélag í Hordaland-fylki í Noregi. Samlagningarandhverfa. Samlagningarandhverfa (einnig samlagningarumhverfa) einhverrar tölu formula_1, er hugtak í stærðfræðinni sem á við tölu sem jafngildir núlli eða samlagningarhlutleysu þegar hún er löggð saman við formula_1. Samlagningarandhverfa tölunnar formula_3 væri þá talan formula_4, þar sem ef talan formula_3 og samlagningarandhverfa hennar formula_4 eru lagðar saman fæst 0. Samlagningarandhverfa tölunnar formula_7 er þá formula_8 vegna þess að samlagningarandhverfa tölunnar formula_8 er formula_7 og samlagningarandhverfa tölunnar formula_13 er formula_14 þar sem Heiltölur, ræðar tölur, tvinntölur og rauntölur eiga sér allar samlagningarandhverfu. Efnablanda. Efnablanda er blanda sem inniheldur mismunandi sameindir, þ.e. sameindir ólíkra frumefna og greinist í einsleitar efnablöndur ("homogeneous mixtures") og misleitar efnablöndur ("heterogeneous mixtures"). Ungmennasamband Skagafjarðar. Ungmennasamband Skagafjarðar er samband íþróttafélaga í Skagafirði og var stofnað 17. apríl 1910. Fyrstu stjórn sambandsins skipuðu Brynleifur Tobíasson sem var formaður, Árni J. Hafstað sem var ritari og Jón Sigurðsson sem var gjaldkeri. Innan UMSS eru stundaðar eftirfarandi íþróttagreinar: akstursíþróttir, frjálsar íþróttir, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfuknattleikur, vetraríþróttir og sund Núverandi formaður er Jón Daníel Jónsson Ungmennasamband Eyjafjarðar. Ungmennasamband Eyjafjarðar eða UMSE var stofnað 8. apríl 1922. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga. Ungmennasamband Austur-Húnvetninga eða USAH var stofnað 30. mars 1912. Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga. Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga eða USVH var stofnað 26. janúar 1930. Ungmenna og íþróttasamband Ólafsfjarðar. Ungmenna- og íþróttasamband Ólafsfjarðar var stofnað 29. júní 1951. 25. maí 2009 sameinaðist UÍÓ svo Íþróttabandalagi Siglufjarðar undir nafninu Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar. Héraðssamband Þingeyinga. Héraðssamband Þingeyinga eða HSÞ varð til við sameiningu Héraðssambands Suður Þingeyinga og Ungmennasambands Norður Þingeyinga 9. júní 2007. Héraðssamband Suður Þingeyinga var upphaflega stofnað 31. október 1914. Ungmenna- og íþróttafélagið Smári. Ungmenna- og íþróttafélagið Smári var stofnað 1995 þegar fjögur félög í framanverðum Skagafirði sameinuðst um íþróttastarfsemi. Þessi félög voru Glóðafeykir, Fram, Framför og Æskan. Ungmennafélagið Glóðafeykir. Ungmennafélagið Glóðafeykir var stofnað í Akrahrepp í Skagafirði á vordögum 1926 og var starfandi til 1995 þegar íþróttafélög í framanverðum Skagafirði sameinuðust undir merkjum Ungmenna- og íþróttafélagsins Smára. Félagið hét eftir fjallinu Glóðafeyki. Stofnfélagar voru 27, 15 karlar og 12 konur og var fyrsti formaðurinn Björn Sigtryggsson á Framnesi. Upphaflegur tilgangur félagsins var að glæða félagslíf í hreppnum með málfundum, íþróttum, skemmtunum og nytsamlegri vinnu. Uppúr 1945 fór að dofna yfir félaginu og 1965 slökknaði algerlega á starfseminni. 1953 var farin skemmtiferð til Siglufjarðar á vegum félagsins auk þess sem plöntur voru gróðursettar á tveimur heimilum en 1954 fóru 30 félagsmenn í skemmtiferð austur í Þingeyjarsýslu. Árið 1961 var Félagsheimilið Héðinsminni á Stóru-Ökrum vígt og var Glóðafeykir einn eigenda þess. Aðrir eigendur voru Kvenfélag Akrahrepps og hreppsfélagið. 12. apríl 1974 var félagið svo endurvakið á fundi í Héðinsminni og stóð fyrir íþróttastarfsemi og félagslífi næstu árin. T.d. var félagið nálægt því að komast í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu 1982. 1994 tók félagið minningarreit um Bólu-Hjálmar sem gerður hafði verið í Bólu að sér sem fósturbarn og var það verkefni á vegum UMFÍ. Félagið lognaðist svo út af 1995 þegar íþróttafélög í framanverðum Skagafirði sameinuðust undir merkjum Ungmenna og íþróttafélagsins Smára. Frjálsar íþróttir. Frjálsar íþróttir voru lengi stór hluti af starfi félagsins. Árið 1986 fór héraðsmót UMSS fram í fyrsta skipti utan Sauðárkróks á Feykisvelli. Sveit Glóðafeykis endaði í öðru sæti í stigakeppni mótsins með 142 stig en Tindastóll sigraði með 153, í þriðja sæti varð Grettir með 32 stig. Hluti héraðsmótsins 1988 fór einnig fram á Feykisvelli. Þar bar helst til tíðinda að Gunnlaugur Skúlason úr Glóðafeyki bætti 37 ára gamalt héraðsmet Stefáns Guðmundssonar alþingismanns í 3000 m hlaupi. Sem fyrr sigraði Tindastóll stigakeppni mótsins, nú með 160 stig en Glóðafeykir varð númer 2 með 81,5 stig og Grettir í þriðja með 61,5 stig. Á héraðsmóti sem haldið var 16. og 17. júní 1956 vann Glóðafeykir til einna verðlauna. Sigurður Björnsson varð þriðji í 3000m hlaupi á tímanum 11 mín og 35 sekúndur. 1958 tóku keppendur frá félaginu þátt í héraðsmótum UMSS. Félagið hlaut 3 stig í stigakeppni á móti fullorðinna og á drengjamóti sem haldið var 9. ágúst sigraði Sigurður Björnsson (1927)|Sigurður Björnsson í hástökki en hann stökk 1,55m. Knattspyrna. Sumarið 1957 tók félagið þátt í knattspyrnumóti Skagafjarðar og mætti Hjalta og Tindstól. Liðið tapaði báðum leikjunum og fór svo að Tindastóll sigraði í mótinu. Sumrin 1982 og 1983 lék meistaraflokkur félagsins í 4. deild í knattspyrnu. Fyrra árið var liðið nálægt því að komast upp úr riðlinum en þurfti sigur í lokaleiknum á heimavelli gegn Reyni frá Árskógsströnd. Eftir leikinn skrifaði Morgunblaðið "Árangur Glóðafeykis er einkar athyglisverður og verða þeir eflaust sterkir að ári, ef þeir fá þjálfara! Þeir fengu ekki ekki spjald í allt sumar, prúðir strákar það!" Það gekk þó ekki eftir og endaði félagið næst neðst sumarið 1983. Sumarið 1991 lék félagið sína síðustu leiki í meistaraflokki þegar tekið var þátt í Héraðsmóti UMSS. Þrjú lið tóku þátt auk Glóðafeykis en það voru Tindastóll, Neisti og Þrymur. Körfuknattleikur. Körfuknattleikur var stundaður í nafni Glóðafeykis í mörg ár, mest mönnum til skemmtunar og voru æfingar í Miðgarði. Veturinn 1991-92 sendi félagið lið til keppni í Íslandsmóti 10. flokks og var það skipað leikmönnum úr Varmahlíðarskóla og þjálfaði Gunnar Sigurðsson liðið. Veturinn á eftir tók félagið þátt í Íslandsmóti meistaraflokks. Liðið var í Norðurlandsriðli ásamt Þrym, Íþróttafélagi Laugaskóla, Völsungi, Dalvík, USAH og USVH. Riðillinn var leikinn á þremur helgum á Sauðárkróki, Húsavík og Blönduósi. Skák. 1958 sigraði skáksveit félagsins í Héraðsmóti UMSS og hlaut að launum Axelsbikarinn. Í sveitakeppni UMSS árið 1973 varð sveit Glóðafeykis í öðru sæti á eftir Tindastóli. Skotfimi. Árið 1977 voru 4 iðkendur í skotfimi frá Glóðafeyki skráðir í kennsluskýrslur ÍSÍ.. Sund. Á sundmóti UMSS þann 7. júlí 1963 í sundlaug Sauðárkróks átti Glóðafeykir keppendur en hlaut þó engin stig í stigakeppni mótsins. 1968 fór héraðsmót UMSS fram í sundlauginni í Varmahlíð og þar vann Herdís Hjaltadóttir til bronsverðlauna í 25m marvarðasundi stúlkna en hún keppti fyrir Glóðafeyki. Stúlknasveit félagsins varð einnig í þriðja sæti í 4x50m boðsundi með frjálsri aðferð. Félagið fékk því 5 stig í stigakeppni mótsins. Fráleiðsla. Fráleiðsla er stundum skilgreind sem sérstök útgáfa af tilleiðslu. Líkt og í tilleiðslu leiðir niðurstöðurnar ekki sjálfkrafa af forsendunum heldur er reynt að finna líklegustu tilgátuna til að skýra eitthvað tilvik. Bandaríski heimspekingurinn Charles Sanders Peirce leit á fráleiðslu sem einu aðferðina til að skapa nýja þekkingu. Samsara. Samsara (komið úr palí og sanskrít संसार|संसार) er hringferli endurholdgunar kallað í hindúisma, búddisma, jaínisma og meðal síka. Sá sem er fastur í hringferli endurholdgunar er nefndur "samsari". Orðið samsara þýðir að fljóta eða streyma fram en er oftast þýtt sem endurholdgun, endurfæðing. Hugtakið lýsir þeim skilningi á tilverunni að allt lifandi fæðist, deyi og fæðist að nýju. Í trúarbrögðum af indverskum uppruna er mikilvægt að reyna að losna undan þessu hringferli endurholdgunar og er það nefnt moksha í hindúisma og nibbana í búddisma. Eins og alheimurinn hefur þetta hringferli hvorki uppruna né endi og er óendanlegt. Hindúar trúa því að eftir andlátið flytji sálin (sem nefnd er atman) inn í nýja lífveru. Atman deyr ekki heldur lifir áfram í endalausri röð endurholdgana. Búddistar trúa ekki á tilveru einstaklingsbundnar sálar, þeir trúa að ópersónubundin meðvitund sé kjarni lífs og það sé þessi meðvitund sem endurholdgist í nýju formi. Það er að segja að einstaklingurinn sem slíkur endurholdgast ekki. Bodhisattva-kenningin innan mahayana-búddisma eru þó undantekning frá þessari hugmynd. Stæða (stærðfræði). Stæða (kallast einnig stærðtákn og sjaldan algebruleg stæða) er hugtak í stærðfræði sem á við réttsköpuð segð sem samanstendur af tölum og breytum sem eru tengd með reikniaðgerðum (eins og samlagningu (+), frádrætti (-), margföldun (*) o.s.frv.), dæmi um stæðu væri til dæmis Lars Løkke Rasmussen. Lars Løkke Rasmussen (fæddur 15. maí 1964 í Vejle) er fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur (2009 - 2011) og formaður stjórnmálaflokksins Venstre. Á árunum 2001 til 2007 var hann innanríkis- og heilbrigðisráðherra í þremur ríkisstjórnum Anders Fogh Rasmussen og hinn 23. nóvember 2007 tók hann við stöðu fjármálaráðherra, einnig í ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen. 5. apríl 2009 tók Anders Fogh Rasmussen við stöðu aðalritara NATO og tók Lars Løkke Rasmussen þá við embætti forsætisráðherra Danmerkur. Lars Løkke Rasmussen er lögfræðingur að mennt og hefur verið þingmaður á löggjafarþingi Danmerkur, Folketinget, frá árinu 1994. Þá var hann einnig borgarstjóri í Fredriksberg frá 1998 til 2001. Hann er ekki skyldur Anders Fogh Rasmussen þótt báðir beri þeir sama ættarnafn. 3. oktober 2011, Helle Thorning-Schmidt tok vid embaetti forsaetisradherra. Rasmussen, Lars Løkke Þykkvalúra. Þykkvalúra (fræðiheiti: "Microstomus kitt") eða sólkoli er flatfiskur af flyðruætt. Hún á heimkynni sín í grunnum höfum í Norður-Evrópu, þar sem hún lifir á sand- eða leirbotni í um 200 metra dýpi. Þykkvalúran hefur lengi verið í hávegum höfð sem matfiskur þó ekki hafi verið mikið veitt af henni við Íslandsstrendur, hún kemur mest sem aukafli við veiðar á kola enda heldur hún sig á svipuðum slóðum og þeir. Lýsing. Þykkvalúra eða sólkoli er beinfiskur, nokkuð hár og þykkur. Haus þykkvalúrunnar er lítill og kjafturinn smár og endastæður. Varirnar eru þykkar og tennurnar á skoltum hennar fremur smáar á dökku hliðinni, en stærri á þeirri ljósu. Augu þykkvalúrunnar eru smá og uggar hennar eru svipaðir og annarra flatfiska, bakugginn nær frá styrtlunni og fram á haus, en raufaruggi hennar nær frá rauf og aftur að styrtlu. Eyr- og kviðuggarnir eru frekar smáir og sporðurinn meðal stór. Hreistrið er slétt og smátt, roðið þykkt og slímugt og þess vegna er þykkvalúran mjög hál viðkomu, rákin er greinileg og bein, en þó með boga yfir eyruggann. Stærð þykkvalúrunnar er oftast um 20-40 cm, en stærsta sem veiðst hefur á Íslandi er 63 cm, en hún á að geta náð að minnsta kosti 66 cm lengd og 2 kg. Þykkvalúran er rauðgrá eða rauðbrún á dökku hliðinni með dökkum blettum, en ljós á vinstri hliðinni. Heimkynni. Heimkynni þykkvalúrunnar eru í Norðaustur-Atlantshafi, frá Hvítahafi og suður til Noregs, inn í Skagerak, Kattegat og til Danmerkur. Hún lifir í Norðursjónum og allt í kring um Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Hún lifir einnig við Færeyjar, og auðvitað Ísland. Við Ísland er þykkvalúran allt í kringum landið, hún er algengust í hlýja sjónum suðvestan-, sunnan- og suðaustanlands, en lítið er um hana á kaldari slóðum. Fæða og óvinir. Þykkvalúran er botnfiskur sem lifir mest á malar-, sand- eða leirbotni við 20-250 metra dýpi. Fæða þykkvalúrunnar eru smábotndýr, burstaormar, slöngustjörnur, smákuðungar, skeljar, marflær og ýmsir fleiri hryggleysingjar, auk þess sem hún étur smáþörunga, fiska; sandsíli og loðnu aðallega. Lífshættir. Þykkvalúran hrygnir á 50-70 metra dýpi við suður- og suðvesturstöndina. Hrygningin hefst í maí og lýkur í ágúst. Eggin eru 1,15-1,45 mm í þvermál og klakið tekur 8 daga miðað við 8-10 °C. Lirfan er um 4,7-5,5 mm við klak. Þegar lirfurnar hafa náð um 15-20 mm leita þær til botns og lifa þar. Vöxtur þykkvalúrunnar fer eftir fæðuframboði, líkt og hjá öðrum fiskum. Hængarnir vaxa hraðar en hrygnurnar en þær taka þó fram úr hængnum með aldrinum, og verða einnig eldri. Nytsemi. Talsvert hefur verið veitt af þykkvalúrunni, en árið 1937 fór afli Íslendinga í 3000 tonn, en hafði verið um og undir 2000 tonnum áður. Heildarafli á Íslandsmiðum árið 1950 var um 2200 tonn og var hann í kringum það (1500-2500) fram til 1965-6, en afli minnkaði þá og var orðinn nánast ekki neinn í kringum 1976-7. En þegar kom að því að kvótakerfið var sett á hófst sókn í þykkvalúruna aftur og hefur hún aukist jafnt og þétt síðan með sveiflum, og er nú komin í um 2500 tonn. Fyrir kvótaárið 2008/2009 er mælt með veiðum uppá 1600 tonn. Þykkvalúran er helst veidd í botntroll og net og mest er flutt út af þykkvalúrunni með gámaflutningi og næstmest er hún fryst í landi. Þreföld tvenna. Þreföld tvenna er hugtak í körfubolta og á við um það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu (þ.e. 10 eða meira) í þremur af eftirfarandi fimm: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum. Ef leikmaðurinn hefur tvo tugi eða meira í þremur flokkum, t.d. 20 stig, 20 fráköst og 20 stoðsendingar, er talað um tvöfalda þrefalda tvennu. Algengast er að leikmaður nái þrefaldri tvennu með tíu eða fleiri stigum, fráköstum og stoðsendingum. Hugtakið sjálft varð til þegar Bruce Jolesch, upplýsingafulltrúi Los Angeles Lakers var að lýsa fjölhæfni Magics Johnson. Þreföld tvenna er álitin vísbending um góða alhliða frammistöðu leikmanns. Í NBA-deildinni í Bandaríkjunum eru þrefaldar tvennur tiltölulega sjaldgæfar og yfirleitt ná jafnvel framúrskarandi leikmenn ekki nema tíu á hverju leiktímabili (sem er 82 leikir). Þrefaldar tvennur eru sjaldgæfari í leikjum undir FIBA-reglum en þá eru leikir einungis 40 mínútna langir en ekki 48 mínútur eins og í NBA-deildinni. Þrefaldar tvennur í NBA-deildinni með vörðum skotum eða stolnum boltum. Eftirfarandi eru þekkt tilvik en fleiri eru hugsanlega til. Þetta er næst algengasta samsetning þrefaldrar tvennu. Þessu afreki hefur verið náð að minnsta kosti 46 sinnum á síðustu 22 árum. Nokkrir leikmenn hafa náð þessu afreki oftar en einu sinni. Þrefaldar tvennur sem ekki hafa sést Fjórföld tvenna. Fjórföld tvenna er hugtak í körfubolta og á við um það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu í fjórum af eftirfarandi fimm: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum. Þeir sem voru nærri því að ná fjórfaldri tvennu. 3. mars 1990 náði Hakeem Olajuwon, leikmaður Houston Rockets, 29 stigum, 18 fráköstum, 10 stoðsendingum og 11 vörðum skotum í leik gegn Golden State Warriors. Eftir leikinn var talan hins vegar leiðrétt og fjöldi stoðsendinganna sagður níu. NBA-deildin telur þetta tilfelli því ekki sem fjórfalda þrennu. Fimmföld tvenna. Fimmföld tvenna er það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu í "öllum" af eftirfarandi fimm: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum. Slíkt afrek hefur aldrei verið unnið. Tvöföld tvenna. Tvöföld tvenna er hugtak í körfubolta og á við um það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu í tveimur af eftirfarandi fimm: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum. Fimm í fimm. Fimm í fimm er hugtak í körfubolta og á við um það þegar leikmaður nær að minnsta kosti fimm öllum eftirfarandi fimm flokkum: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum. Hakeem Olajuwon (sex sinnum) og Andrei Kirilenko (þrisvar sinnum) eru einu leikmenn NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum sem hafa náð þessu afreki oftar en einu sinni. Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar. Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar var stofnað 25. maí 2009 þegar Íþróttabandalag Siglufjarðar og Ungmenna- og íþróttasamband Ólafsfjarðar voru sameinuð. Fyrsti og núverandi formaður þess er Guðný Helgadóttir. Íþróttabandalag Siglufjarðar. Íþróttabandalag Siglufjarðar var stofnað 9. desember 1945. 25. maí 2009 sameinaðist ÍBS svo Ungmenna- og íþróttsambandi Ólafsfjarðar undir nafninu Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar. Pípulögn. Pípulögn nefnist það kerfi af pípum (rörum) sem leiðir heitt og kalt vatn og inn og út úr byggingum og skolp út. Við hvers kyns pípulagnir þarf að beygja fjölda af rörum, saga þau, snitta og pakka með hampi og skrúfa þau svo saman með píputengjum („fittings“) sem eru tengistykki milli röra. Við pípulagnir er t.d. notast við vatnsleiðslurör úr málmi svo sem úr stáli, járni eða kopari og skolprör sem oftast eru steypt eða úr plasti. Pípulagnir, þ.e. að leggja pípulagnir, er löggilt iðngrein sem snýr að því að leggja pípulögn í byggingar, viðhalda henni og breyta. Maður sem hefur lært pípulagnir nefnist "pípulagningamaður" eða "pípari". Mót í pípulögnum. Keppt er í pípulögnum víða um heim. Til er "Norðurlandakeppni í pípulögnum". Í þeirri keppni keppa fimm ungir menn sem mega ekki vera eldri en 22 ára. Þeir sem keppa leggja á sig mikla þjálfun hjá sér reyndari mönnum. Keppnin er oftast háð fyrir opnum tjöldum inni á miðri lagnasýningu, þar sem fjölmörg fyrirtæki sýna rör, tengi og tæki sem tengjast pípulögnum. Í þrjá daga leggja þeir leiðslur t.d. úr svörtum stálrörum, sem þeir hita og beygja, logsjóða síðan, leggja eirlagnir og fosfórslaglóða og leggja ryðfrí stálrör með þrýstitengjum. Allt unnið eftir teikningum þar sem frávikin eru knöpp og undir árvökulum augum fimm dómara. Efstu menn fara síðan á heimsmeistaramótið í pípulögnum. Memfis (Egyptalandi). Memfis (úr grísku: "Μέμφις"; fornegypska: "inb hD" „hvítur veggur“) var höfuðborg Gamla ríkisins í Egyptalandi hinu forna frá um 2700 f.Kr. til um 2200 f.Kr. Á tíma Miðríkisins var hún höfuðstaður 1. umdæmis Neðra Egyptalands. Borgarrústirnar eru um 20km sunnan við núverandi höfuðborg Egyptalands, Kaíró. Gríska nafnið Memfis (Μέμφις) er dregið af heiti pýramída Pepis 1. Menefer ("mn nfr") sem farið var að nota um borgina frá átjándu konungsættinni. Höfuðguð borgarinnar var Ptah og sagnkonungurinn Menes var sagður hafa reist hof þar honum til heiðurs. Egypski sagnaritarinn Maneþon notaði heitið "ḥw.t-k3-Ptḥ" („hús lífsanda ("ka") Ptah“) yfir borgina sem á grísku varð Aί γυ πτoς (Ai-gy-ptos), en þaðan er heiti Egyptalands fengið. Þrettánda konungsættin. Þrettánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem ríkti á tímum Miðríkisins. Valdatíð hennar náði frá um 1790 f.Kr. til um 1649 f.Kr. Höfuðborg ríkisins var í Memfis. Þessari konungsætt tilheyrir mikill fjöldi konunga. Konungsættin skarast að hluta við fjórtándu konungsættina sem ríkti frá Xóis. Fjórtánda konungsættin. Fjórtánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem oftast er talin til Miðríkisins. Hún skarast við bæði þrettándu konungsættina og fimmtándu konungsættina sem telst til annars millitímabilsins. Valdatíð hennar nær frá um 1790 f.Kr. til um 1630 f.Kr.. Þessi konungsætt ríkti aðallega yfir Nílarósum og var sögð hafa stjórnað frá borginni Xóis á eyju í ósunum. Nú er talið að fyrsta höfuðborg þessarar ættar hafi verið Avaris en að hún hafi flutt til Xóis eftir að fimmtánda konungsættin lagði Avaris undir sig. Um 76 konungar eru nefndir á Tórínópapýrusnum. Margir af þeim konungum koma hvergi fyrir í öðrum heimildum og sum nöfnin eru talin nær örugglega skálduð. Maneþon segir ekki annað um þessa konungsætt en að hún hafi talið sjötíu konunga sem ríktu frá Xóis. Fimmtánda konungsættin. Fimmtánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem oftast er talin til annars millitímabilsins. Valdatíð hennar nær frá um 1674 f.Kr. til um 1530 f.Kr.. Konungar þessarar konungsættar voru „útlendingar“ (hyksos) sem báru semísk nöfn. Þeir ríktu frá Avaris í Nílarósum. Avaris. Avaris (úr grísku: "αυαρις"; fornegypska: "ḥw.t-wˁr.t", „hús umdæmisins“) var hafnarborg austast í Nílarósum og höfuðborg Egyptalands hins forna á tímum fimmtándu konungsættarinnar. Borgin var eyðilögð þegar Kamósis hélt í herför gegn hyksoskonungunum um 1550 f.Kr.. Síðar reisti Tútmósis 3. þar höll sem var skreytt með mínóískum freskum. Ramses 1. reisti sér höfuðborgina Per-Ramses rétt norðan við Avaris sem á endanum varð hluti af þeirri borg. Sextánda konungsættin. Sextánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem telst til annars millitímabilsins. Konungar þessarar konungsættar voru „útlendingar“ (hyksos) sem báru sumir semísk nöfn en aðrir egypsk. Þeir ríktu yfir ýmsum hlutum Neðra Egyptalands á tímabilinu frá um 1620 f.Kr. til um 1540 f.Kr. Nöfn þeirra eru eingöngu þekkt af fornleifum en Maneþon talar um 32 útlenda konunga sem ríktu í 518 ár. Ekki er vitað um ríkisár þessara konunga. Sautjánda konungsættin. Sautjánda konungsættin er í sögu Egyptalands konungsætt sem telst til annars millitímabilsins. Þessi konungsætt telur egypska konunga sem ríktu aðeins yfir Efra Egyptalandi frá Þebu samhliða fimmtándu og sextándu konungsættunum sem ríktu yfir hlutum Neðra Egyptalands. Síðustu tveir konungar þessarar ættar hófu stríð gegn hyksoskonungunum í Neðra Egyptalandi sem lyktaði með því að löndin tvö voru aftur sameinuð og átjánda konungsættin tók við völdum. Tuttugasta og áttunda konungsættin. Tuttugasta og áttunda konungsættin í sögu Egyptalands er hluti af Síðtímabilinu. Hún telur aðeins einn konung, Amyrtaios frá Saís, sem gerði uppreisn gegn Artaxerxesi 2. og ríkti frá 404 f.Kr. til 399 f.Kr. Hann var síðan sigraður og drepinn af Neferítesi 1. frá Mendes, stofnanda tuttugustu og níundu konungsættarinnar. Tuttugasta og níunda konungsættin. Tuttugasta og níunda konungsættin í sögu Egyptalands er hluti af Síðtímabilinu. Hún nær frá 398 til 380 f.Kr. og telur fjóra konunga. Þessi konungsætt tók við völdum eftir að Neferítes 1. sigraði Amyrtaios í orrustu og lét síðan taka hann af lífi í Memfis. Neferítes gerði Mendes í austurhluta Nílarósa að höfuðborg sinni. Eftir lát hans tókust tvær fylkingar á um völdin, sonur hans, Hernebka, og valdaræninginn Psammútis, sem sigraði. Honum var síðan steypt af stóli sama ár af Hakor sem sagðist vera barnabarn Neferítesar. Sonur hans, Neferítes 2., tók við eftir lát hans 380 f.Kr. en ríkti aðeins í fjóra mánuði og var steypt af stóli af Nektanebosi 1., stofnanda þrítugustu konungsættarinnar. Þrítugasta konungsættin. Þrítugasta konungsættin í sögu Egyptalands er hluti af Síðtímabilinu. Hún nær frá 380 f.Kr. til 343 f.Kr. og telur fjóra konunga. Þessi konungsætt barðist gegn Persaveldi undir stjórn Artaxerxesar 3. sem á endanum tókst að leggja landið aftur undir sig. Síðasti konungur Egypta, Nektanebos 2. flúði til Núbíu. Gullgríma frá tíma 30. konungsættarinnar Aegyptus (rómverskt skattland). a>ar öðrum megin og Egyptalandi hinum megin í líki konu sem situr á kornkörfu. Aegyptus var rómverskt skattland stofnað árið 30 f.Kr. eftir sigur Octavíanusar á Kleópötru, drottningu Egyptalands, og Markúsi Antoníusi. Octavíanus innlimaði Egyptaland í Rómaveldi og skipaði Gaius Cornelius Gallus fyrsta landstjóra þar. Skattlandið náði yfir mest af því sem í dag telst til Egyptalands fyrir utan Sínaískaga en Rauðahafsströndin varð ekki hluti af því fyrr en í valdatíð Cládíusar. Aegyptus átti landamæri að skattlöndunum Creta et Cyrenaica (Krít og Kyrenaiku) í vestri og Iudaea (Júdeu) í austri. Aegyptus var mikilvægt kornræktarsvæði. Gríska var stjórnsýslumál í skattlandinu og latína náði þar aldrei góðri fótfestu. Kristni var boðuð þar af Markúsi guðspjallamanni sem stofnaði patríarkadæmi í Alexandríu árið 33 e.Kr. Þegar Rómaveldi skiptist í tvennt varð Egyptaland hluti af Austrómverska ríkinu og hnignaði hægt. Árið 415 voru gyðingar reknir frá Alexandríu og heimspekingurinn Hýpatía myrt af kristnum múgi sem markar endalok hellenískrar menningar. Persaveldi Sassanída reyndu að vinna landið af Býsantíum um 620. Arabíski herforinginn 'Amr ibn al-'As lagði svo landið undir Ómar mikla kalífa 640-641. Egyptar, sem þá voru lítt hallir undir keisaradæmið, veittu ekki mikla mótspyrnu. Genaflæði. Genaflæði og genastreymi eru hugtök í stofnerfðafræði sem eiga við flutning genasamsætna frá einum stofns lífvera til annars; t.d. þegar einstaklingur flyst búferlum. Fornkonungar Egyptalands. Fornkonungar Egyptalands eru fyrstu konungarnir sem nefndir eru í áletrunum frá því áður en löndin tvö voru sameinuð og fyrsta konungsættin varð til. Þetta tímabil nær frá upphafi helgirúna um 3100 f.Kr. til um 3000 f.Kr. Það er stundum kallað núllkonungsættin. Á þessum tíma komu upp nokkrir voldugir konungar í Efra Egyptalandi sem skiptist í þrjú ríki kringum borgirnar Þinis, Nagada og Hierakonpólis. Í Þinis og Hierakonpólis var átrúnaður á Hórus ríkjandi en Set í Nagada. Brátt féll Nagada fyrir innrás frá Þinis sem lagði Neðra Egyptaland undir sig í framhaldinu. Fyrstu áletranirnar með helgirúnum eru frá þessum tíma. Einnig hafa fundist merki um egypskar nýlendur í Suður-Ísrael frá þessum tíma. Fornleifafræðilega er þetta tímabil síðasti hluti Nagada III-menningarinnar sem er síðasti hluti nýsteinaldar/upphaf bronsaldar í sögu Egyptalands. Lítið er vitað með vissu um konunga þessa tímabils. Nefndir eru tveir Sporðdrekakonungar, Ka, Iry-Hor og Narmer (stofnandi fyrstu konungsættarinnar), en þetta gætu eins verið nöfn á sama konungi eða sagnkonungar. Forsaga Egyptalands. Forsaga Egyptalands nær frá upphafi fastrar búsetu manna í Nílardal á nýsteinöld og koparöld frá um 6000 f.Kr. þar til merki fara að sjást um ritmál um 3100 f.Kr.. Stuttu síðar eru Efra Egyptaland og Neðra Egyptaland fyrst sameinuð í eitt ríki undir fyrstu konungsættinni. Föst búseta var drifin áfram af vaxandi þurrki sem skapaði hina gríðarstóru eyðimörk Sahara. Egypsk gröf frá um 3400 f.Kr.. Leirkerin eru með svörtum toppi sem einkennir leirmuni frá þessum tíma. Á þessum tíma hófu Egyptar landbúnað, gerð stórra bygginga úr steini og leirhleðslum og notkun málma. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós nokkur þróunarstig menningar í Nílardal. Nernst-jafnan. þar sem E° er staðalspenna, n er fjöldi þeirra rafeinda sem flytjast og Q jónamargfeldi. Magnús Olsen. Magnús Olsen – (fullu nafni Magnus Bernhard Olsen) – (28. nóvember 1878 – 16. janúar 1963) var norskur málvísindamaður, og prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í Osló 1908-1948. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir á rúnaristum, örnefnum og dróttkvæðum. Æviágrip. Magnús Olsen fæddist í Arendal. Magnús varð stúdent 1896, nam síðan við Háskólann í Osló og lauk kandídatsprófi í málfræði 1903. Hann var í hlutastarfi við Háskólabókasafnið í Osló frá 1899, og frá 1904 var hann styrkþegi við háskólann. Árið 1908, þegar hann var þrítugur, tók hann við af kennara sínum, Sophus Bugge, sem prófessor í "fornu norsku og íslensku máli og bókmenntum" (frá 1921 hét greinin "norræn textafræði"). Magnús Olsen var á sínum tíma einn kunnasti fræðimaður Noregs á sviði norrænna fræða. Sérstaða hans var að beita mörgum fræðigreinum í senn til að varpa ljósi á viðfangsefnin. Hann gaf út 7 hefti af "Edda- og skaldekvad" með skýringum. Hann vann stórvirki við útgáfu á rúnaristum, fyrst með því að aðstoða Sophus Bugge við að ljúka útgáfu á eldri rúnaristum Norðmanna, síðan með útgáfu á fyrstu fimm bindunum af yngri rúnaristunum. Að vísu höfðu þeir Sophus Bugge, Olof Rygh og Ingvald Undset unnið þar mikla undirbúningsvinnu. Hann tók þátt í að ljúka verki Oluf Ryghs um norsk bæjanöfn ("Norske Gaardnavne") og gaf út 3 bindi. Hann setti fram hugmyndir um tengsl örnefna við trúar- og þjóðfélagsaðstæður í heiðnum sið, einkum í bókunum: "Hedenske kulturminder i norske stedsnavne" (1915) og "Ættegård og helligdom, norske stednavn sosialt og religionshistorisk belyst" (1926). Þriðja bókin: "Hva våre stedsnavn lærer oss" (1934) er læsilegt yfirlit um efnið. Hann leyfði sér talsvert innsæi og hugmyndaflug við fræðistörf sín, og gekk þar stundum lengra en síðar var talið gott og gilt. Hann stofnaði tímaritið "Maal og Minne" árið 1909, og var ritstjóri þess í 40 ár. Magnús Olsen var í Norsku vísindaakademíunni frá 1904, og í Konunglega norska vísindafélaginu (DKNVS). Hann var sæmdur St. Ólafs orðunni 1945, og hlaut einnig íslensku fálkaorðuna og sænsku Nordstjerne-orðuna. Hann þáði heiðurslaun frá norska ríkinu frá 1952. Magnús Olsen dó í Osló 1963. Kona hans var Gjertud, f. Kjær. Faðir hennar var Albert Kjær bókavörður. Norrænufræðingurinn Ludvig Holm-Olsen var bróðursonur Magnúsar. Steinselja. Steinselja (fræðiheiti: "Petroselinum crispum") er græn tvíær jurt sem notuð sem krydd og stundum líka sem grænmeti. Blöð steinselju eru notaðu á svipaðan hátt og kóríander. Tvo afbrigði af steinselju eru notuð sem græmeti: steinselja með hrokkin blöð eða slétt blöð ("P. neapolitanum"). Steinselja með hrokkin blöð er oft notuð til skrauts t.d. með smurbrauði. Rótarsteinselja ("Petroselinum crispum" var. "tuberosum") er með miklu þykkari rót en afbrigðin sem rækuð eru vegna blaðanna. Steinselja vex vel í djúpum pottum sem henta vel fyrir stólparót. Steinselja sem vex innandyra þarf minnst fimm klukkustunda sól á dag. Steinselja er oft notuð í garðlöndum með öðrum gróðri m.a. vegna þess að hún dregur að sér ránskordýr eins og geitunga. Þannig er steinselja notuð með tómatarækt. Tröllahvönn. Tröllahvönn eða tröllajurt (fræðiheiti: "Heracleum mantegazzianum") er stórvaxin sveipjurt sem upprunnin er í Kákasus og Mið-Asíu. Jurtin getur orðið 2-5 m há og stundum allt að 7 m. Tröllahvönn líkist venjulegri hvönn nema er miklu stórvaxnari. Tröllahvönn er fjölær og fjölgar sér með rótarskotum. Blómin eru hvít og eru blómsveipirnir allt að 80 sm í þvermál. Tröllahvönn er talin til ágengra tegunda. Hún hefur verið flutt inn til Evrópu sem skrautplanta en breiðst út í náttúrunni og myndað þéttar breiður þar sem skilyrði eru góð. Tröllahvönn er algeng meðfram árbökkum í Bretlandi. Hún var kynnt í Frakklandi á 18. öld og var þá vel tekið af býræktendum. Tröllhvönn myndar eiturefni þannig að safi af tröllahvönn getur valdið bruna á hörundi í sólarljósi eða í UV-geislum. Húðin verður rauð og klæjar undir. Börn ættu ekki að vera á svæðum þar sem tröllahvönn vex og nota ætti hlífðarfatnað (líka hlífðargleraugu) ef þarf að grafa upp eða flytja slíkar plöntur. Ef húð kemst í snertingu við safa tröllahvannar þá á að þvo húðsvæðið vel með sápu og vatni og forðast sólarljós í nokkra daga. Ágeng tegund. Ágeng tegund er plöntu- eða dýrategund sem flutt hefur verið í ný heimkynni til ræktunar eða annarra nota en hefur breiðst út og valdið tjóni á villtri náttúru eða ræktarlandi. Slík útbreiðsla er talin ógn við líffræðilega fjölbreytni. Enon. Enon er rokk-hljómsveit frá New York-borg í New York-fylki í Bandaríkjunum. Enon byrjaði að spila árið 1999. Maal og Minne. "Maal og Minne", fremri kápa 1915. Maal og Minne er norskt tímarit, sem kemur út tvisvar á ári og „birtir fræðilegar greinar sem varpa m.a. ljósi á norskt mál, mállýskur og málheimildir af öllu tagi, miðaldabókmenntir, norsk örnefni og þjóðfræði.“ Tímaritið var stofnað árið 1909 af Magnúsi Olsen, og er gefið út á vegum Bymålslaget af forlaginu Det Norske Samlaget. Í "Maal og minne" eru birtar ritrýndar greinar og ritdómar á norsku, en einnig er heimilt að birta þar efni á dönsku, sænsku, ensku og þýsku. Þar hafa birst greinar eftir íslenska fræðimenn. Langlúra. Langlúra (fræðiheiti: "Glyptocephalus cynoglossus") er flatfiskur af flyðruætt, fremur langvaxinn og þunnur. Hún er stóreyg og ljós-rauðgrá að ofan, en hefur svartar flykrur á neðra borði. Langlúran finnst beggja vegna Atlantshafs, allt í kringum Ísland en langmest sunnan og vestan við landið. Hún er botnfiskur líkt og aðrir flatfiskar og lifir helst á ýmiskonar smádýrum og smáfiskum. Langlúran þykir afbragðs matfiskur og hefur afli á Íslandsmiðum verið á bilinu eitt til tvö þúsund tonn undanfarin ár. Lýsing. Langlúran er beinfiskur, langur og flatur. Hún hefur lítinn haus, smáan kjaft og tennur hennar eru litlar og þéttstæðar. Hægri hlið hennar er dökk á meðan vinstri hlið hennar er ljós með þéttum svörtum dílum á. Augu langlúrunnar eru stór. Bakuggi hennar byrjar til hliðar við vinstra auga hennar og nær hann aftur að styrlu, en styrtlan er bogadregin í endann, frekar löng og mjó. Vinstra auga langlúrunnar er einnig aftar en það hægra. Hreistur hennar er smátt, og rák hennar er bein nema að hún beygir ofan við eyruggann. Langlúra getur orðið allt að 78 cm. Á Íslandsmiðum hefur þó ekki mælst stærri langlúra en 66 cm. Litur langlúrunnar á hægri hlið er dökkur, rauðgrár eða brúnn. Heimkynni. Heimkynni langlúrunnar eru í Norður-Atlantshafi. Í NA-Atlantshafi lifir hún frá Múrmansk til Noregs, og niður með Noregi inn til Danmerkur. Í Norðursjó lifir hún við Bretland, Færeyjar og Ísland. Í NV-Atlantshafi er hana að finna við Norður-Ameríku og við nýja Skotland. Á Íslandsmiðum er langlúran útbreidd, mest er hún sunnan- og vestanlands, en minna er um hana fyrir austan og norðan. Lífshættir. Langlúran er botnfiskur og vill hún helst halda sig á leir- eða sandbotni. Mesta dýpi sem langlúran hefur fundist á eru 1400 m. Við Ísland er hún þó mest veidd á 25-500 m dýpi. Langlúran þolir breitt hitastig, eða frá -1°C og upp í 10°C. Hrygning langlúrunnar á sér stað í mars og varir fram í júní. Hrygningin fer fram við suður- og vesturströnd Íslands. Egg hennar eru smá og klekjast út á 8 dögum. Lirfurnar eru þá um 5 mm. Þegar seiðin hafa náð 4-5 cm á lengdina hverfa þau til botns. Vöxturinn er hægur og fer eftir aðstæðum, þ.e. hita og fæðu. Hrygnan stækkar hraðar en hængurinn, og er aldur hennar talinn vera allt að 14-16 ára. Fæða og óvinir. Fæða langlúrunnar eru mest burstaormar, smákrabbar, skeldýr og slöngustjörnur. Hún étur þó einnig aðra fiska og þá helst litla fiska á borð við sandsíli og mjóna. Óvinir langlúrunnar er ýmsir ránfiskar á borð við þorsk og ufsa. Ýmis sníkjudýr herja einnig á hana eins og aðra fiska, þá bæði inn og útvortis. Nytsemi. Langlúran hefur verið nýtt hér frá 1986 að einhverju marki, en þá fóru menn að sækja beint í hana og varð aflinn 4600 tonn, en minnkaði strax eftir það. Undanfarin ár hefur hann aukist aftur og er nú um 2200 tonn, en Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að kvótinn verði ekki meiri en 1600 tonn vegna lélegrar nýliðunar. Langmest af aflanum kemur í net og mest af honum frystur í landi. Skrápflúra. Skrápflúra (fræðiheiti: "Hippoglossoides platessoides") er þunnur flatfiskur af flyðruætt. Hún hefur snarpari viðkomu en ættingjar sínir vegna hreistursins sem er mun grófara, en þaðan fær hún nafn sitt. Flúran lifir helst á sand- eða leirbotni eins og flestir flatfiskar og nærist þar á ýmsum smádýrum til að byrja með en stækkar svo við sig. Skrápflúran er einn af þeim fiskum sem hefur nýlega uppgötvast sem verðmæt tegund og hefur hún orðið mikilvægari á síðustu 20 árum. Í dag eru árlega veidd nokkur þúsund tonn af fiski þessum við Ísland. Lýsing. Skrápflúran er frekar langvaxin, þunn og breið. Haus er miðlungsstór, kjaftur frekar stór og ná skoltar aftur móts við mitt hægra auga. Augu eru stór og er vinstra augað nokkuð aftar en það hægra. Uggar eru venjulegir flatfiskuggar og smáyddur í miðjuna. Hægri hliðin er rauðgrá, stundum dökkgrá, vinstri hliðin er hvít eins og á öðrum flatfiskum. Hreistur er hrjúft og stórgert eins og nafn hennar bendir til. Lífshættir. Skrápflúran er botnfiskur sem heldur sig helst á leir- og leðjubotni á 5-250 m dýpi. Hrygning skrápflúru við Ísland er í júní-júlí aðallega á 50-100 m dýpi allt í kringum landið. Eggin eru nokkuð stór, 2,6-3,3 mm í þvermál. Fyrst eru þau sviflæg en sökkva síðan. Klak tekur um 11-14 daga við 4 °C heitan sjó. Lirfan er á bilinu 4-6 mm við klak. Þegar seiðin eru 2-4 cm löng leita þau til botns og hafa fengið útlit foreldra sinna. Lengsta skrápflúran sem veiðst hefur við Ísland var 56 cm og veiddist hún suðaustur af Glettinganesi árið 1992. Fæða. Fæða er aðallega allskonar botndýr, skeldýr, bustaormar og krabbadýr. Einnig eitthvað af sniglum, fiskseiðum og öðrum smáfiskum. Stærri skrápflúran étur aðallega loðnu og litla fiska. Nytsemi. Skrápflúran er einn algengasti fiskurinn hér við land í fjölda talið, en þar sem hún er svo smá þá er lífmassi stofnsins ekki stór. Hér áður fyrr var henni hent frá borði þar sem ekki var markaður fyrir hana, en nú er hún seld á markaði erlendis. Kvóti fyrir fiskveiðiárið 2008/2009 er 1.072 tonn en þó er mjög lítið búið að veiða af þeim kvóta ennþá eða rétt um 17%. Á síðasta kvótaári var kvótinn 1.000 tonn eða 267 þorskígildi, þar sem að þorskígildisstuðull skrápflúru var 0,29 það árið. Mest var veitt af skrápflúru árið 1996 eða um 6.500 tonn. Hólar (hverfi). Hólahverfi er hverfi í Efra-Breiðholti í Reykjavík. Paul Engemann. Paul Engemann (fæddur 2. júní 1953) er bandarískur tónlistarmaður sem þekktastur er fyrir lag sitt „Scarface (Push It to the Limit)“ sem notað var í kvikmyndinni "Scarface" árið 1983. Með Giorgio Moroder átti Engemann eitt lag á þýska vinsældalistanum; „Reach Out“. Lagið komst hæst í 81. sæti bandaríska vinsældalistans en varð jafnframt opinbert lag 33. sumarólympíuleikanna sem haldnir voru í Los Angeles árið 1984. Þá gaf hann einnig út lögin „American Dream“ árið 1984 (ásamt Giorgio Moroder), „Face To Face“ (1985), „Shannon's Eyes“ (1985, 1986), „Brain Power“ (var notað í kvikmyndinni "Summer School" árið 1987), „To Be Number One“ (1990) og „NeverEnding Story“ (2000). Paul Engemann var aðalsöngvari hljómsveitarinnar Device sem gaf einungis út eina breiðskífu sem sveitin kallaði "22B3". Hún kom út árið 1986 og á henni var smáskífan „Hanging on a Heart Attack“ sem komst í 35. sæti bandaríska smáskífulistans. Engemann tók sér einnig sæti í hljómsveitinni Animotion árið 1988, þá aðalsöngvari ásamt leikkonunni Cynthia Rhodes. Lagið „Room to Move“ var notað í kvikmyndinni "My Stepmother Is an Alien". Animotion leystist upp 1990. Daddi Cool. Daddi Cool (fæddur í Makeni í Síerra Leóne) er gíneskur reggítónlistarmaður fæddur í Síerra Leóne. Daddi Cool var sendur í herþjónustu fyrir Síerra Leóne en flúði land snemma í borgarastríðinu í landinu og settist að í Kónakrí, höfuðborg Gíneu. Árið 1998 gaf hann út þekktustu breiðskífu sína hingað til; "Daddi Cool". Fyrsta smáskífan hans var "Waloo" sem þýðir „stopp“ á susu-máli. Lagið mótmælir því að íbúar Afríku afliti hörund sína en það var vinsælt um alla Vestur-Afríku — sérstaklega í Gíneu og Sierra Leone. Alex Turner. Alexander David Turner (fæddur 6. janúar 1986) er enskur tónlistarmaður, meðlimur Arctic Monkeys og The Last Shadow Puppets. Hann er söngvari og spilar á gítar í báðum sveitunum. Hann er aðal textaritari Arctic Monkeys en hann og Miles Kane semja saman alla texta fyrir The Last Shadow Puppets. Arctic Monkeys. Alex Turner gekk í skólann Stocksbridge í Sheffield með Andy Nicholson og Matthew Helders, þeir, ásamt nágranna Alex Jamie Cook, stofnuðu Arctic Monkeys árið 2002. Ástæðan fyrir því að í byrjun hafi Arctic Monkeys gefið fría geisladiska með tilraunum þeirra og svokölluðum „demo's“ er því að þegar Tuner vann á bar þá gerðist það oft að hljómsveitir komu til hans og buðu honum að kaupa geisladiska með þeim á 3 pund stykkið. Hann var svo pirraður á þessu að hann ákvað að gefa frekar diska þegar þeir voru að troða upp frekar en að selja þá bakatil. Sagt er að ástæðan fyrir því að Turner byrjaði að læra á gítar er vegna hljómsveitarinnar sem þeir sóttu aðallega áhrif í, Oasis. Hann hefur alltaf verið aðal textaritari fyrir Arctic Monkeys en þrátt fyrir það þá viðurkenndur þeir ekki strax að þeir myndu semja textana sjálfir. og reyndur að fá aðra söngvara til að gera það fyrir sig. "„I'll think about something and I'll be writing, penning something down and I'll keep building on that. The best stuff comes when I’ve got a melody and a rhythm so I know how many syllables each line is going to have and then build it up from there, and make it a whole thing, and try and pay attention to every aspect.“" The Last Shadow Puppets. Bandið var stofnað í ágúst 2007 þegar Turner tók upp plötu með Miles Kane, útgefandinn var James Ford. Kane tilkynnti verkefnið þann 2. Ágúst 2007. Verkefnið inniheldur Turner og Kane í aðalsöng ásamt því að spila á gítar og bassa og Ford er á trommum. Tríóið kallar sig The Last Shadow Puppets og hafa gefið út diskinn "The Age of the Understatement" og var gefið útt 21 Apríl 2008. Nágranninn minn Totoro. er anime-kvikmynd frá árinu 1988 gerð af japanska anime myndverinu Studio Ghibli, skrifað og myndstýrt af hinum fræga teiknara Hayao Miyazaki. Ósérplægni. a> af hendi rakna mætti teljast ósérplægið. Ósérplægni kallast meðvituð og óeigingjörn umhyggja fyrir velferð annarra, sem kemur oft fram með því að veita aðstoð og greiða eða með því að sýna hjálpsemi og samvinnu. Börn þroska með sér ósérplægni er þau þroskast og eldast, en 2 ára krakkar reyna að sýna ósérplægni. Ósérplægni sést síður hjá drengjum en stelpum á leikskóla- og grunnskólaaldri, og er það aðallega vegna samkeppni og feðraveldisins. Athlete (hljómsveit). Athlete er ensk sjálfstætt rokkhljómsveit sem kom saman í Deptford í London. Hún samanstendur af Joel Pott (söngvari og gítar), Carey Willetts (bassagítar og bakraddir), Stephen Roberts (trommur og bakraddir) og Tim Wanstall (hljómborð og bakraddir). Í seinni tíð hefur Jonny Pilcher af Weevil verið að spila með hljómsveitinni. Stórfiskaleikur. Stórfiskaleikur er leikur þar sem einn þátttakandi stendur á miðjum vellinum og hann kallast „Hákarlinn“. Hinir þátttakendur leiksins nefnast „ litlu fiskarnir“ og þeir standa á öðrum enda vallarins. Þegar Hákarlinn klappar eiga litlu fiskarnir að hlaupa yfir á hinn enda vallarins og Hákarlinn á að reyna að klukka þá. Sá sem er klukkaður gengur í lið með Hákarlinum og sá sem stendur einn eftir vinnur en engu að síður þarf hann að vera klukkaður. Erlendur biskup. Stytta af Erlendi biskupi á vesturgafli Niðarósdómkirkju. Erlendur biskup (d. 13. júní 1308) var biskup í Kirkjubæ, Færeyjum 1269 – 1308. Erlendur biskup hefur líklega verið fæddur um 1240, ekki vitað hvers son hann var. Hann var fyrst kórsbróðir í Björgvin, en var vígður Færeyjabiskup í janúar 1269. Hann var mikilhæfur maður og hafði umtalsverð áhrif í kirkjumálum og stjórnmálum, bæði í Færeyjum og Noregi. Hann var t.d. einn sjö biskupa sem voru viðstaddir krýningu Eiríks Magnússonar Noregskonungs í Björgvin 25. júlí 1280. Erlendur bjó í Kirkjubæ í Færeyjum og lét m.a. byggja Magnúsarkirkjuna eða Múrinn þar. Árið 1298 átti hann, ásamt Sigurði lögmanni í Færeyjum og á Hjaltlandi, frumkvæði að því að Sauðabréfið var samið, en það er réttarbót fyrir Færeyjar, sem Hákon háleggur hertogi staðfesti. Sauðabréfið er elsta skjal sem varðveitt er úr Færeyjum. Hugsanlegt er að Erlendur hafi verið viðstaddur krýningu Hákonar háleggs Noregskonungs í Niðarósdómkirkju 1. nóvember 1299, en engar heimildir eru til um það. Þann 5. desember 1305 tók Erlendur þátt í því að vígja Árna Sigurðsson biskup í Björgvin. Þar var Hákon háleggur einnig viðstaddur. Stöðu Erlends má einnig sjá af því að nafn hans kemur fyrir í skjölum hátt settra samtímamanna hans. T.d. er hann meðal 16 kirkjuhöfðingja sem undirrita skjal, 10. desember 1305, þar sem Hákon háleggur gefur konu sinni, Eufemiu frá Rügen, Bygdøy við Osló. Seinna versnaði samband Erlends við Hákon konung, þegar upp komu þungar ásakanir á hendur honum. Einkum var Erlendi gefið að sök að vilja ráða öllu í Færeyjum og sölsa undir kirkjuna allar jarðeignir þar. Margt bendir til að kaþólska kirkjan hafi aldrei náð undir sig eins miklu landi og völdum í Færeyjum eins og á dögum Erlends biskups. Þjóðsagan segir að Erlendur hafi fallið í bardaga í dómkirkjunni í Kirkjubæ, í eins konar borgarastríði milli norður- og suðurhluta eyjanna. Mun sennilegra er þó að hann hafi flúið til Noregs vegna vaxandi ólgu meðal íbúanna, sem sættu sig ekki við óhóflega græðgi og fjárkröfur af hálfu kirkjunnar. Í bréfi sem Árni biskup í Björgvin skrifaði 22. júní 1308 til biskupanna á Íslandi og Grænlandi, kemur fram að Erlendur hafi dáið 13. júní 1308, líklega í Björgvin. Það liðu 4 eða 5 ár þar til eftirmaður hans var skipaður, því að Árni biskup í Björgvin og Jörundur erkibiskup í Niðarósi gátu ekki komið sér saman um hver skyldi taka við. Að lokum hafði Jörundur erkibiskup (og Hákon konungur) sitt fram, með milligöngu Nikulásar erkibiskups í Uppsölum, og varð Loðinn frá Borgundi biskup í Færeyjum. Hugsanlegt er að Erlendur sé grafinn í Kirkjubæ. Árið 1420 lét Jón þýski biskup í Færeyjum, taka upp bein Erlends, því að vísbendingar voru um að hann væri heilagur maður. Hefur hann síðan af mörgum verið talinn meðal norrænna dýrlinga. Á vesturgafli dómkirkjunnar í Niðarósi er stytta af Erlendi biskupi, en hún er ekki gömul. Jakob Jakobsen. Jakob Jakobsen, á færeysku frímerki. Jakob Jakobsen (á færeysku stundum Jákup Jakobsen) (22. febrúar 1864 – 15. ágúst 1918) var færeyskur málfræðingur, þjóðfræðingur og rithöfundur. Hann var fyrsti Færeyingurinn sem tók doktorspróf og fjallaði ritgerðin um norræna málið á Hjaltlandi (norn). Tungumál og bókmenntir Færeyja og Hjaltlands voru höfuðviðfangsefni hans. Æviágrip. Foreldrar hans voru: Hans Nicolai Jacobsen (1832–1919) frá Þórshöfn, og Johanne Marie Hansdatter (1816–1899) frá Sandey (Sandoy). Jakob var yngstur þriggja barna, hann átti tvær eldri systur, Sigrid Niclasen (1854–1927) og Önnu Horsbøl (1856–1940). Faðir hans var bókbindari og rak bókaverslun í Þórshöfn. Verslunin, H. N. Jacobsens Bókahandil, var stofnuð 1865 og er enn starfrækt; hún er elsta bókaverslun í Færeyjum og setur skemmtilegan svip á miðbæinn, timburhús með torfþaki. Jakob Jakobsen fór í gagnfræðaskólann í Þórshöfn, þar sem í ljós komu góðar námsgáfur á sviði tungumála. Þegar hann var 13 ára fór hann til Kaupmannahafnar og varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum vorið 1883. Hann fór svo í Háskólann og brautskráðist vorið 1891 með dönsku sem aðalgrein og frönsku og latínu sem aukagreinar. Árið 1897 hlaut hann doktorsnafnbót fyrir verk sitt "Det norrøne sprog på Shetland" ("Norræna málið á Hjaltlandi"). Eftir það starfaði hann eingöngu sem fræðimaður, þó að hann frá 1914 væri að nafninu til dósent við Háskólann í Aberdeen. Hann fór í margar rannsóknarferðir, til Færeyja, Hjaltlands, Orkneyja og Skotlands, en komst ekki til Suðureyja og Manar eins og hann hafði hugsað sér. Hann bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Í háskólanum kynntist Jakob Jakobsen Íslendingnum Boga Th. Melsteð og höfðu þau kynni talsverð áhrif á hvert áhugamál hans beindust. Reyndar sinnti Jakobsen nokkuð íslenskum fræðum síðar á ævinni, þýddi Gunnlaugs sögu ormstungu yfir á færeysku (1900) og gaf út Austfirðinga sögur í fræðilegri útgáfu. Jakobsen og færeyska. Jakob Jakobsen vann mikið í þágu færeyskra bókmennta. Á árunum 1886–1891 vann hann með V. U. Hammershaimb að sýnisbók færeyskra bókmennta ("Færøsk Antologi"), sem var tímamótaverk. Mikilvægasta framlag hans til færeyskra bókmennta var þó "Færøske folkesagn og æventyr" ("Færeyskar þjóðsögur og ævintýri") sem kom út 1898–1901. Þjóðsögunum hafði hann safnað á ferðum sínum um eyjarnar. Þetta þjóðsagnasafn hefur svipaðan sess í Færeyjum og Þjóðsögur Jóns Árnasonar hér á landi, og átti mikinn þátt í að festa nútíma færeysku í sessi sem ritmál. Hann safnaði einnig þjóðkvæðum úr munnlegri geymd, rannsakaði færeysk örnefni og bjó til mörg nýyrði. Hann var fyrstur til að benda á keltnesk örnefni í Færeyjum. Árið 1889 kynnti Jakob Jakobsen færeyska stafsetningu byggða á nýrri fræðigrein, hljóðfræði. Náin samsvörun átti að vera milli framburðar og ritháttar til þess að börn ættu auðvelt með að læra réttritun. Miklar deilur urðu í Færeyjum um stafsetningarmálin, og var stafsetningu Jakobsens hafnað. Jakobsen og Hjaltlandseyjar. Dr. Jakob Jakobsen er lykilmaður í menningarsögu Hjaltlandseyja. Á eyjunum var talað norrænt mál (kallað „norn“) fram á 16. öld, en eftir það fór það að láta undan síga fyrir skosku. Jakobsen dvaldist þar á árunum 1893–1895 og safnaði síðustu leifunum af norræna málinu. Með því nam hann nýtt land fyrir norræn fræði. Auk doktorsritgerðarinnar (1897) gaf hann út undirstöðurit um mállýskur og örnefni á Hjaltlandi. Höfuðverk hans kom út í fjórum heftum á árunum 1908–1921: "Etymologisk ordbog over det norrøne sprog paa Shetland". Verkinu var ekki lokið þegar Jakobsen féll frá, 1918, og tók Finnur Jónsson að sér að ljúka fjórða heftinu, sem var ekki fullgert frá hendi Jakobsens. Orðabókin kom út í enskri þýðingu 1928–1932. Jakobsen sinnti einnig fleiri þáttum í menningu Hjaltlandseyja, t.d. fjallaði hann um örnefni og þjóðhætti á eyjunum. Honum entist ekki aldur til að vinna úr gögnum sínum frá Orkneyjum, en birti grein um það efni 1911. Systir Jakobs Jakobsens, Anna Horsbøl, veitti honum mikinn fjárhagslegan stuðning við rannsóknir sínar. Eftir að hann dó þýddi hún höfuðverk hans yfir á ensku, eins og hann hafði hugsað sér að gert yrði. Sumarið 1918 gekkst Jakob Jakobsen undir uppskurð í Kaupmannahöfn, sem leiddi hann til dauða 15. ágúst 1918. Hann var þá aðeins 52 ára. Á 100 ára afmæli Jakobs Jakobsens, árið 1964, var "Fróðskaparrit", 13. bindi, helgað minningunni um hann. Þar eru ritgerðir 24 fræðimanna og ritaskrá hans. Stórsameind. Stórsameind (einnig risasameind) er hutak í lífefnafræði sem á við fjölliðu, en stórsameindir skiptast aðallega í fjóra flokka; kjarnasýrur, prótein, fjölsykrur og lípíð. Verpa eggjum. Verpa eggjum er leikur þar sem þarf einn bolta, einn eða fleiri leikmenn og húsvegg. Hvernig er leikið. Leikmenn standa í röð fyrir framan vegginn og sá sem er fyrstur tekur boltann og kastar honum í vegginn. Um leið og boltinn skoppar til baka hoppar leikmaðurinn yfir boltann með fæturna í sundur, þannig að hann fari á milli fótanna, líkt og hann sé að verpa eggi. Sá sem er næstur í röðinni grípur og gerir það sama. Leikmaðurinn fer svo aftast í röðina og þannig gengur leikurinn eins lengi og leikmenn hafa þrek og þol til. Rafha. Rafha er fyrirtæki í Hafnarfirði sem í um það bil hálfa öld framleiddi raftæki, en hefur nú hætt framleiðslu þeirra og sérhæfir sig í innflutningi á raftækjum og innréttingum. Fyrirtækið var stofnað þann 29. október 1936 og sérhæfði sig fyrst í framleiðslu rafmagnseldavéla en síðar allra helstu heimilistækja. Framleiðsla Rafha var talin vera til ómetanlegs hagræðis á styrjaldarárunum, auk þess sem hún sparaði ríkinu drjúgan gjaldeyri. Í árslok 1960 hafði verksmiðja fyrirtækisins framleitt 86.000 raftæki af meira en þrjátíu gerðum, fyrir utan 11.000 ljósatæki. Árið 1986 opnaði Rafha 700 fermetra verslunarhúsnæði í gömlu verksmiðjunni í Hafnarfirði. Nikulás Friðriksson var einn af aðalhvatamönnum þess, að verksmiðjan Rafha var stofnuð, en hann útvegaði í öndverðu sambönd við norska verksmiðju, sem tryggðu það að Rafha gat þegar í byrjun haft fullkomnustu framleiðslu á boðstólum. Nikulás vildi að sem flest raftæki og áhöld væru búin til í landinu sjálfu, sem dæmi má nefna öll hitunartæki, straujárn, potta og pönnur, þvottavélar, kæliskápa og margt fleira. Hann vildi efla iðnaðinn á allan máta, því að máltæki hans var í þeim efnum hið fornkveðna, að sjálfs er höndin hollust. Avenged Sevenfold. Avenged Sevenfold er bandarísk Metal hljómsveit frá Huntington Beach í Kaliforníu sem var stofnuð árið 1999. Fyrsta platan þeirra kom út árið 2001 og nefnist Sounding the Seventh Trumpet, svo komu Waking the Fallen (2003), City of Evil (2005), Avenged Sevenfold (2007) og nýjasta platan þeirra sem kallast Nightmare (2010). Einnig hafa þeir gefið út nokkrar smáskífur svo sem "Warmness on the Soul" • "Second Heartbeat" • "Unholy Confessions" • "Burn It Down" • "Bat Country" • "Beast and the Harlot" • "Seize the Day" • "Walk" • "Critical Acclaim" • "Almost Easy" • "Afterlife" • "Crossroads" • "Dear God" • "Scream" • "Nightmare" • "Welcome to the Family" • "So Far Away" • "Not Ready to Die" Hljómsveitin hefur „mýkst“ frá fyrstu plötunni, nú syngja þeir nánast eingöngu fremur en að öskra. Saga Sveitarinnar. Hljómsveitin var stofnuð árið 1999 og upphafsmeðlimirnir voru: M Shadows, Zacky Vengeance, The Rev og Matt Wendt. M Shadows stakk upp á nafninu frá sögunni um Lips Of Deceit úr Biblíunni, jafnvel þótt að hljómsveitin sé ekki sú trúaðasta. Á árunum 1999 og 2000 gáfu þeir út tvær smáskífur og fyrsta plata þeirra var gefin út þegar meðlimir sveitarinnar voru 18 ára og enn í skóla. Eftir að Synyster Gates, aðal gítaristinn gekk í bandið var lagið „To End The Rapture“ tekið upp aftur með öllum meðlimum Avenged Sevenfold. Eftir það komu fram 2 plötur: „City of Evil“ (2005–2007) og „Avenged Sevenfold“ (2007-2008) og svo kom Nightmare (2010) Sem var tileinkuð The Rev sem lést 28.desember 2009. Fernando de Noronha. Loftmynd af Fernando de Noronha Fernando de Noronha er brasilískur eyjaklasi í suðurhluta Atlantshafs sem samanstendur af 21 eyju sem eru í um það bil 354 km fjarlægð frá meginlandi Brasilíu. Eyjaklasinn tilheyrir Pernambucofylki. Kerfi. Kerfi er hópur af aðilum sem standa saman til að mynda samofna heild. Kerfi getur verið manngert eða náttúrulegt, enda getur það verið algerlega óhlutbundið. Ýmis vísindi fjalla um kerfi, til dæmis kerfisverkfræði og kerfiskenning. Subsonica. Subsonica er ítölsk rokk- og elektrófönkhljómsveit frá Tórínó. Hún var stofnuð árið 1996 af Samuel Umberto Romano (söngur), Max Casacci (söngur og gítar) og Enrico Matta (trommur), Davide Dileo (hljómborð) og Pierpaolo Peretti Griva (bassi). Griva hætti árið 1999 og Luca Vicini tók þá við. Fyrsta smáskífa þerra, "Istantanee", náði strax töluverðum vinsældum sumarið 1997. Vinsældir hljómsveitarinnar hafa haldist nær óslitið síðan. Einar Magnússon. Einar Magnússon (17. mars 1900 – 12. ágúst 1986) var rektor Menntaskólans í Reykjavík frá 1965 til 1970. Hann hóf störf við skólann aðeins 22 ára gamall, og starfaði við skólann til sjötugs, þar af síðustu 5 árin sem rektor. Flúðir Nílar. Flúðir Nílar eru sex staðir milli Asvan og Kartúm þar sem áin Níl grynnist og hindrar siglingar upp og niður eftir fljótinu. Áður fyrr voru þessar flúðir helstu hindranir á samgöngum eftir ánni. Flúðirnar eru númeraðar upp eftir ánni (frá norðri til suðurs). Fyrstu flúðirnar eru í Egyptalandi en hinar fimm eru í Súdan. Gaudeamus igitur. Gaudeamus igitur er söngtexti á latínu og lag sem oft er sungið í tengslum við útskrift stúdenta og háskólanema. Söngurinn er þekktur frá árinu 1287 og er þekkt drykkjuvísa við marga forna háskóla og sem skólasöngur margra háskóla og stúdentafélaga. Söngtextinn fjallar um lífsgleði og hve lífið sé stutt. Hollenska Austur-Indíafélagið. Hollenska Austur-Indíafélagið (hollenska: "Vereenigde Oost-Indische Compagnie" eða VOC, bókst. „Sameinaða Austur-Indíafélagið“) var hollenskt verslunarfélag stofnað árið 1602 með einkarétt á verslun og nýlenduþróun í Asíu sem gilti til 21 árs. Félagið var fyrsta alþjóðlega stórfyrirtæki heims og það fyrsta sem gaf út hlutabréf. Á hátindi sínum hafði það nánast völd á við sjálfstætt ríki; gat háð stríð við önnur ríki, gefið út peninga, og stofnað nýlendur. Blómaskeið Hollenska Austur-Indíafélagsins stóð í eina og hálfa öld. Það greiddi 18% arð af hlutabréfum árlega í næstum 200 ár þótt það væri oft umfram eiginlegan hagnað fyrirtækisins. Ferill félagsins er nátengdur gullöld Hollands. Um miðja 18. öld tók fyrirtækinu að hnigna, að hluta vegna breytinga á verslun innan Asíu og aukins innflutnings frá plantekrum í Ameríku til Evrópu og að hluta vegna spillingar innan fyrirtækisins sjálfs. Fjórða stríð Englands og Hollands 1781-1784 olli því gríðarlegum skaða. 1796 var það þjóðnýtt og 1800 var það formlega leyst upp. Batavíska lýðveldið (franskt leppríki) tók skuldir þess og eigur yfir. Nýlendur félagsins í Austur-Indíum urðu Hollensku Austur-Indíur sem síðar varð nútímaríkið Indónesía. Rauði herinn. Rauði herinn var her Sovétríkjanna sem Lenín stofnaði á tímum rússnesku byltingarinnar. Árið 1930 var Rauði herinn orðinn einn stærsti her sögunnar. Mensjevikar. Mensjevikar voru rússneskir kommúnistar aðrir en bolsévikar. Bolsévikar. Bolsévikar voru rússneskir kommúnistar aðrir en mensjevikar. Orðið þýðir „stuðningsmenn meirihlutans“ en nafnið var dregið af því að í kosningum um aldamótin 1900 fengu þeir meirihluta atkvæða. Rauðliðar var her bolsévika kallaður. Gúmmístígvél. Gúmmístígvél eru stígvél, oftast gerð úr gúmmíi eða PVC. Þau eru notuð þegar unnið er í bleytu, slabbi og óhreinindum eins og jarðvegi eða mykju, til að halda fótunum þurrum. Oftast eru þau hnéhá eða tæplega það. Hærri stígvél eru oft kölluð "bússur" eða "klofstígvél". Upphaflega voru stígvél yfirleitt gerð úr leðri. Á 18. öld notuðu hermenn, þó einkum yfirmenn, hnéhá leðurstígvél með tá sem mjókkaði fram í odd og hentuðu því vel þegar setið var á hestbaki. Slík stígvél, sem kennd voru við Hesse í Þýskalandi, urðu einnig vinsæl meðal óbreyttra borgara. Um aldamótinn 1800 lét Arthur Wellesley, fyrsti hertoginn af Wellington, skósmiðinn sinn breyta slíkum stígvélum þannig að þau voru þrengri en áður og náðu aðeins upp á miðjan kálfa. Nýju stígvélin voru gerð úr mjúku kálfskinni og þóttu nógu fín til að hægt var að klæðast þeim í samkvæmislífinu. Þau urðu fljótt mjög vinsæl og voru nefnd eftir hertoganum og kölluð "Wellington boots" eða "Wellingtons" á ensku. Árið 1852 fann Charles Goodyear upp aðferð til gúmmísuðu. Hiram Hutchinson keypti af honum einkaleyfi á framleiðslu skófatnaðar með þessari nýju tækni. Hann hóf fjöldaframleiðslu á stígvélunum í Frakklandi og þau urðu brátt geysivinsæl meðal almennings, sem þurfti sannarlega á vatnsheldum skófatnaði að halda við vinnu sína á ökrum, í námum, á sjó og annars staðar og hafði áður aðallega notast við tréskó. Í Englandi voru hin nýju gúmmístígvél þó áfram kennd við Wellington hertoga þótt þau ættu fátt sameiginlegt við stígvélin sem hann hafði látið skósmiðinn sinn gera. Vinsældir gúmmístígvélanna jukust enn í fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem þau komu sér mjög vel í bleytuslabbinu í skotgröfunum. Þau breiddust svo út um heiminn og eru sérstaklega vinsæl í norðlægum löndum, svo sem Kanada og á Norðurlöndum. Nefna má að áður en finnska fyrirtækið Nokia ruddi sér rúms á farsímamarkaði var það einna þekktast fyrir framleiðslu á gúmmístígvélum. Nú eru stígvélin einnig úr PVC og öðrum gerviefnum en eru þó oft kölluð gúmmístígvél. Græn og svört gúmmístígvél hafa löngum verið algengust en PVC-stígvél eru oft mjög litskrúðug og mynstruð, einkum þau sem ætluð eru börnum. Á Íslandi fóru gúmmístígvél fyrst að sjást um eða rétt eftir aldamótin 1900 og voru orðin algeng um 1920. Þau hafa einnig verið nefnd "vatnsstígvél" og "vaðstígvél". Tengistafur. Tengistafur (eða bandstafur) er sérhljóð (eða s) á milli orðliða sem er ekki hluti af orðstofni né fallendingu. Helstu tengistafir eru i (eins og í eldiviður), u (eins og í ráðunautur) og s (eins og í leikifimishús). Venjulega eru samsetningar orða í íslensku með þrennum hætti: "Stofnsamsetningar" (ráðhús) (fast samsett), "eignarfallssamsetningar" (ráðsmaður) (laust samsett) og "tengistafasamsetningar" (ráðunautur). U-ið í orðunum bekkjunautur og sökunautur er til dæmis tengistafur. Önnur dæmi um tengistafi eru: Ökumaður, linditré, fellibylur, skipulag og hoppukastali. Lófalestur. Lófalestur (eða handlínaspá) er það þegar lesið er í lófa til að spá fyrir um framtíðina. Lesið er í línur lófans ("söxin"), en í lófanum teljast vera þrjár grunnlínur: Hjarta-, höfuð- og ævilínan. Hljóðavíxl. Hljóðavíxl er hljóðbreyting sem breytir því í hvaða röð fónem birtast í orði. Dæmi um hljóðavíxl er til dæmis "corcodilus" í staðinn fyrir "crocodilus" í latínu og hljóðbreytinging í orðinu „viðra“ þegar spurt er hvernig virði í staðinn fyrir að spyrja hvernig viðri í íslensku. 29er. 29er-keppni í Árósum í Danmörku. 29er er hraðskreið flatbotna kæna hönnuð af ástralska skútuhönnuðinum Julian Bethwaite og hugsuð sem undirbúningskæna fyrir 49er. Fyrsta eintakið var smíðað árið 1998. 29er er 4,45 metra löng tvímenningskæna með hátt mastur, eina masturstaug og stutt bugspjót fyrir gennaker. 29erXX er ný útgáfa af þessari kænu með sama skrokk en enn stærri seglaflöt og tvöfalda masturstaug. Snipe. Snipe á siglingu í Póllandi. Snipe eða snípa er 15,5 feta (4,7 metra) löng tvímenningskæna hönnuð af bandaríska skútuhönnuðinum William F. Crosby árið 1931. Snipe er með einfaldan seglabúnað, eitt framsegl og stórsegl. Báturinn hefur þróast hægt í gegnum tíðina þannig að eldri bátar úreldast síður. 420 (kæna). 420 er 4,2 metra löng tvímenningskæna hönnuð af franska skútuhönnuðinum Christian Maury árið 1958. Báturinn er hannaður fyrir tvo unga siglingamenn samtals 110-130 kg að þyngd. Þessi kæna er notuð sem þjálfunarbátur fyrir 470. Báturinn er stöðugur og þolir siglingu í miklum vindi og öldugangi. Árið 2007 tók 29er við af þessari gerð sem tvímenningskæna fyrir ungt fólk á ISAF Youth Worlds-móti Alþjóða siglingasambandsins. Narewka. Narewka er lítið þorp austast í miðhluta Póllands. Íbúar voru 780 árið 2006. O tempora o mores! "O tempora o mores" er fræg tilvitnun eftir Cíceró á latínu í ræðum hans gegn Catilinu og er þýtt sem „Hvílíkir tímar! Hvílíkir siðir!“ og er upprunalega útgáfan notuð í lok Erfðahyllingarinnar. Landsvala. Landsvala (fræðiheiti: "Hirundo rustica") er fugl af svöluætt. Landsvalan hefur langa vængi og klofið stél. Hún er dökk að ofan og á höfði, ljós á kviði og með rauða bletti á framhálsi og enni. Landsvalan veðir skordýr á flugi og lifir í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Norður-Afríku. Landsvalan er árviss flækingur á Íslandi og hefur gert sér hreiður þar og orpið. Upp. "Upp" er bandarísk Disney kvikmynd frá árinu 2009 framleidd af Walt Disney. Kvikmyndin var frumsýnd í Bandaríkjunum 29. maí 2009 og var tíunda kvikmynd Disney-Pixar í fullri lengd. Aðalpersónur eru Carl Fredricksen og Russell. Leikstjórar voru Pete Docter og Bob Peterson. Handrit skrifuðu Pete Docter, Bob Peterson og Thomas McCarthy. Tónlistin er eftir Michael Giacchino. Solveig Rafnsdóttir. Solveig Rafnsdóttir (um 1470 – um 1562) var síðasta abbadís í nunnuklaustrinu á Reynistað. Hún gerðist nunna þar árið 1493, var vígð abbadís á áttunda degi jóla 1508 og var það þar til klausturlifnaður lagðist af 1551. Solveig var af miklum höfðingjaættum. Faðir hennar var Rafn „eldri“ Brandsson lögmaður (um 1420-1483) og móðir hennar var Margrét Eyjólfsdóttir, dóttir Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum. Bróðir Solveigar var Brandur prestur á Hofi í Vopnafirði og síðast príor á Skriðuklaustri. Hrafn faðir Solveigar deildi við Ólaf biskup Rögnvaldsson og var í banni þegar hann lést. Kann að vera að það hafi átt þátt í að Solveig gekk í klaustur. Hún tók við stjórn klaustursins eftir að Agnes Jónsdóttir abbadís dó 1507 og stýrði því af röggsemi, áttí í ýmsum málaferlum og hélt vel á rétti sínum og klaustursins. Í skrá um eignir klaustursins frá 1525 kemur fram að það átti þá 42 jarðir í byggð og sjö eyðijarðir, 114 nautgripi, 520 kindur og 33 hross. Þegar klausturlifnaður var lagður af við siðaskiptin voru nunnurnar ekki hraktar á brott, heldur fengu þær að vera áfram á Reynistað meðan þeim entist aldur og haga lífi sínu eins og þær voru vanar. Var þeim sem höfðu umboð klaustursins gert að skyldu að sjá nunnunum fyrir framfærslueyri. Solveig stýrði klaustrinu áfram en hafði þó engin ráð yfir eignum þess. Þessari stöðu hélt hún áfram til dauðadags, sem heimildir greinir á um hvort var 1561, 1562 eða 1563. Er talið fullvíst að það sé Solveig Rafnsdóttir. Fíkjutré Benjamíns. Fíkjutré Benjamíns (eða Waringin-tré) (fræðiheiti: "Ficus benjamina") er fíkjutré sem á uppruna sinn að rekja til suður og suðaustur Asíu og Ástralíu. Fíkjutré Benjamíns er þjóðartré Tælendinga. Tréð getur orðið allt að 30 metra hátt við náttúrlegar kringumstæður. Skálmarnes. Skálmarnes er nes við norðanverðan Breiðafjörð. Nesið tilheyrði Múlahrepp til forna, en tilheyrir nú Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Nesið er í laginu eins og þríhyrningur, breitt að sunnanverðu en mjókkar til norðurs. Skálmarfjörður er austan við nesið en Kerlingarfjörður vestan við. Skálmarnesfjall þekur nesið að mestu. Hlíðarnar að vestan og austanverðu eru brattar en undirlendi mest að sunnarverðu. Búseta. Um aldir var blómleg byggð á nesinu en föst búseta hefur lagst af. Vegslóði liggur um vestanvert nesið. Vegurinn er afar mjór og erfitt er fyrir bifreiðir að mætast. Vestasti bærinn á nesinu er Fjörður, sem var lengi næst stærsta jörðin í Múlasveit. Næsti bær frá Firði er Deildará, svo Hamar og Ingunnarstaðir. Austasti bærinn á nesinu er Skálmarnesmúli, eða Múli. Jörðin hefur verið höfuðból sveitarinnar og kirkjustaður að fornu og nýju. Búskapur lagðist af á Skálmarnesi í kringum 1980, en flestum bæjarhúsunum er enn haldið við og mannlíf blómlegt yfir sumartímann. Páskaegg. Páskaegg kallast sérstakt skraut, sem er annaðhvort skreytt egg, eða í laginu eins egg og notað er til að fagna páskum eða vorkomu. Í kristni tákna páskaegg tóma steindys Jesús, Uppruni. Algengast í gegnum tíðina hefur verið að páskaegg væru máluð hænuegg Almennt hafa egg í gegnum tíðina verið tákn um frjósemi og endurfæðingu og voru það löngu fyrir tilkomu kristindómsins. Það að skreyta eggjaskurn er forn siður. Fundist hafa 60 þúsund ára gömul skreytt strútsegg í Afríku sem dæmi. Algengt var að setja skreytt strútsegg og tákngervinga strútseggja úr gulli og silfri í grafir bæði meðal forn Súmera og Egypta fyrir meira en fimmþúsund árum síðan. Meðal kristinna eru páskaegg rakin til frumkristinna söfnuða í Mesapotamíu þar sem tíðkaðist að rjóða egg til minningar um að blóði krists var úthellt með krossfestingunni. Hin kristna kirkja tók samt ekki formlega upp þann sið að tengja páskaeggin við upprisuna fyrr en 1610 en það gerði Páll páfi V. Þótt siðurinn hafi í gegnum aldirnar verið að nota máluð hænuegg, hafa þau í seinni tíð að miklu leyti verið leyst af hólmi með súkkulaðieggjum eða eggjum úr plasti eða álíka efni sem fyllt hafa verið með sælgæti. Á Íslandi eru súkkulaðiegg, fyllt með sælgæti og málsháttur settur með, nær alsráðandi. Robert Graves. Robert Ranke Graves (24. júlí 1895 – 7. desember 1985) var enskt ljóðskáld, þýðandi og skáldsagnahöfundur. Hann leit þó fyrst og fremst á sig sem ljóðskáld en hann skrifaði á þeim nótum hina sögulegu stúdíu á innblæstri skáldskapar, "The White goddess", sem hefur haft umtalsverð áhrif. Frægastur meðal almennings er hann þó fyrir skáldsögu sína "Ég, Kládíus" en BBC gerði fræga sjónvarpsþætti eftir þeirri bók. Bókin kom út á íslensku árið 1946 í þýðingu Magnúsar Magnússonar ritsjóra. Tenglar. Graves, Robert Graves, Robert Galba. Servius Sulpicius Galba (24. desember 3 f.Kr. – 15. janúar 69 e.Kr.) var rómverskur keisari í um sjö mánuði, frá 8. júní 68 til 15. janúar 69. Galba var fyrsti keisarinn á ári keisaranna fjögurra. Galba varð keisari eftir að Neró hafði misst allan stuðning og í kjölfarið framið sjálfsmorð. Galba hafði opinberlega lýst andstöðu við Neró um vorið 68, þegar hann var landstjóri í Hispaniu Tarraconensis á Íberíuskaga. Herdeildir hans lýstu hann keisara og fljótlega fékk hann stuðning herdeilda víðs vegar um heimsveldið. Eftir dauða Nerós, sumarið 68, lýsti öldungaráðið hann keisara og hélt hann þá til Rómar til að tryggja stöðu sína. Galba reyndi að koma fjármálum ríkisins í lag eftir mikla eyðslusemi Nerós, og neitaði m.a. að borga hermönnum sínum fyrir hollustu þeirra. Þetta gerði hann óvinsælan og hann missti því smám saman stuðning hersins. Þann 1. janúar 69 hylltu tvær herdeildir í Germaniu Superior, landstjórann Vitellius, sem keisara. Nokkrum dögum seinna fékk Otho, sem hafði verið landstjóri í Lucitaniu og einn af fyrstu stuðningsmönnum Galba, lífvarðasveit keisarans til þess að steypa Galba af stóli og lýsa sig keisara. Þann 15. janúar 69 var Galba stunginn til bana af stuðningsmanni Otho og í kjölfarið varð Otho keisari. Miðkerfisvökvi. Miðkerfisvökvi (fræðiheiti: "liquor cerebrospinalis") er heila- og mænuvökvi, þ.e. vökvi sem umlykur heila og mænu og fyllir holrými þessara líffæra. Landpóstur. Landpóstur var embættismaður sem fyrrum annaðist póstferðir á Íslandi. Landpóstar fóru milli bæja á póstsvæði sínu með lest klyfjahesta og höfðu póstlúður til að láta vita af komu sinni. Landpóstar voru þekktir menn á sínum tíma vegna þeirra harðinda og erfiðleika sem þeir urðu við að etja á ferðum sínum. Titillinn landpóstur er enn notaður, en er hafður um þá sem bera út póst í strjálum sveitum. Samkvæmt tilskipun frá árinu 1776 skyldu landpóstur fara þrisvar á ári þrjár póstleiðir þ.e. frá Suður-Múlasýslu, Þingeyjarsýslu og Ísafjarðarsýslu til Suðvesturlands. Fyrsta ferð landpóstar var farin 1782. Frá árinu 1786 skyldu vera fjórir aðalpóstar og tveir aukpóstar. Hlutverki landpósta lauk upp úr 1900 með bættum samgöngum. Kingston (Jamaíka). Kingston er höfuðborg Jamaíku, og er á suðausturströnd landsins. Borgin var stofnuð árið 1692 og er mikilvæg hafnarborg. Fjallafura. Fjallafura (fræðiheiti "Pinus mugo") er furutegund sem vex í hátt til fjalla í Evrópu og finnst í Pýreneafjöllum, Ölpunum, Erzgebirge, Karpatafjöllum, norður Apenninefjöllum og fjöllum á Balkanskaga í 1000 m til 2200 m hæð en sums staðar í 200 m hæð í Þýskalandi og Póllandi og upp í allt að 2700 m í suðurhluta Búlgaríu og í Pýrenaafjöllum. "Pinus mugo" subsp. "uncinata" í 2200 m hæð í fjalllendi Frakklands. Þessar furutegundir eru mikið notaðar í görðum, sérstaklega lágvaxna afbrigðið subsp. "mugo". Oft eru slíkar fjallafurur gróðursettar til að hindra aðgang svo sem undir gluggum því nálarnar stinga. "P. mugo" er talið til ágengrar tegundar í hálendi Nýja Sjálands. Batman. "Batman" eða "Leðurblökumaðurinn" er teiknimyndasöguhetja sem Bob Kane og Bill Finger sköpuðu. Samnefnt tímarit kom fyrst út í maí árið 1939. Uppruni. Batman er grímupersóna Bruce Wayne og er verndari Gotham City. Hjá honum býr Alfred Pennyworth, einkaþjónn hans. Aðstoðarmaður hans er Robin. Auk þeirra er James Gordon, lögrelustjóri Gotham City, góður vinur Batmans. Bruce missti foreldra sína þegar hann var mjög ungur. Þjófur myrti þau eftir að að þau voru nýkomin úr leikhúsi. Þjófurinn falaðist eftir peningum þeirra en Wayne eldri neitaði og varð Bruce vitni að morðinu á foreldrum sínum. Óvinir. Helstu óvinir Leðurblökumannsins eru Jókerinn, Mörgæsin, Mr. Freeze, The Riddler, Scarcrow og Killer Moth. Auður Vésteinsdóttir. Auður Vésteinsdóttir (10. öld) var kona Gísla Súrssonar. Hún var dóttir Vésteins Végeirssonar og Hildar Bjartmarsdóttur, konu hans. Auður og Gísli bjuggu fyrst á Sæbóli í Haukadal í Dýrafirði, síðan á Hóli í Haukadal og loks í Geirþjófsfirði. Þeim varð ekki barna auðið en ólu upp fósturdóttur sem hét Guðríður. Auður var systir Vésteins Vésteinssonar, sem sagan gefur í skyn að Þorkell, bróðir Gísla hafi drepið. Fyrir það morð drap Gísli hins vegar Þorgrím goða, sem var mágur hans, giftur Þórdísi Súrsdóttur. Fyrir það varð Gísli sekur og var hann lengur í sekt en nokkur annar maður á Íslandi að Gretti Ásmundarsyni frátöldum. Börkur hinn digri var seinni maður Þórdísar og að auki bróðir Þorgríms goða. Hann var því til eftirmála gagnvart Gísla, mági sínum. Börkur fékk Eyjólf gráa bónda í Otradal til að annast málið fyrir sig. Eyjólfur fór til Geirþjófsfjarðar og hafði vissu fyrir því að Gísli færi þar huldu höfði. Fór hann með digran silfursjóð og reyndi að múta Auði til að framselja Gísla. Hún lét líklega í fyrstu og taldi silfrið og sópaði því síðan niður í pyngju. Að því búnu sló hún með silfurpyngjunni svo fast sem hún gat í andlit Eyjólfi, sem fékk miklar blóðnasir af högginu. Las hún honum pistilinn og sagði þá meðal annars: „... Engin von var þér þess að eg myndi selja bónda minn í hendur illmenni þínu. Haf nú þetta og með bæði skömm og klæki. Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig. En þú munt ekki að heldur fá það er þú vildir.“ Með það hvarf Eyjólfur grái til baka í það skiptið og hafði mikla skömm af för sinni. Eftir dráp Gísla fór Auður ásamt Gunnhildi mágkonu sinni (ekkju Vésteins) til Danmerkur og tóku þær kristna trú í Heiðabæ (Hedeby, þá í Danmörku en nú í Þýskalandi). Fóru þær síðan í suðurgöngu til Rómar og komu aldrei til baka. Ekkert er vitað um ævilok þeirra. Otho. Marcus Salvius Otho (28. ágúst 32 – 16. apríl 69) var rómverskur keisari frá 15. janúar til 16. apríl árið 69. Hann var annar keisarinn á ári keisaranna fjögurra. Otho var vinur Nerós keisara þegar þeir voru ungir, en vináttan endaði árið 58 þegar eiginkona Othos, Poppea Sabina, skildi við hann til þess að giftast Neró. Otho var eftir þetta skipaður landstjóri í Lucitaniu (núverandi Portúgal). Þegar Galba, landstjóri í Hispaniu Tarraconensis, gerði uppreisn gegn Neró, árið 68, varð Otho einn af fyrstu stuðningsmönnum uppreisnarinnar. Galba náði fljótlega völdum en þegar stjórn hans riðaði til falls snemma árs 69, vegna óvinsælda á meðal hermanna og öldungaráðsmanna, hætti Otho að styðja hann. Otho fékk þá lífvarðasveit keisarans í lið með sér til þess að taka völdin, og þegar Galba var drepinn 15. janúar 69 af stuðningsmanni Othos varð hann keisari. Nokkrum dögum áður en Otho tók völdin í Róm höfðu herdeildir í Germaniu Superior hyllt Vitellius, landstjóra í skattlandinu, sem keisara. Otho vildi fresta átökum við Vitellius þangað til honum bærist liðsauki frá herdeildum við Dóná en í mars hélt Vitellius með sinn herafla til Ítalíu og hélt Otho þá af stað til að mæta honum. Herir þeirra mættust í bardaga á norður-Ítalíu og vann Vitellius afgerandi sigur. Tveimur dögum seinna, 16. apríl 69, framdi Otho sjálfsmorð og varð Vitellius keisari að honum látnum. Ólafur Thorlacius. Ólafur Thorlacius (stundum nefndur Ólafur Thorlacius riddari) (1762-1815), var verslunar- og útgerðarmaður á Bíldudal. Hann var frá Hlíðarhúsum í Reykjavík, sonur hjónanna Þórðar Sighvatssonar og Ingiríðar Ólafsdóttur Thorlacius. Ólafur naut mikillar virðingar og varð riddari af Dannebrog. Todmobile - Todmobile. Todmobile var önnur breiðskífa íslensku hljómsveitarinnar Todmobile. Hún kom út í nóvember 1990 og varð metsöluplata. Árið 2009 var platan valin í 49. sæti yfir bestu plötur Íslandssögunnar af notendum Tónlist.is. Þorgerður Egilsdóttir. Þorgerður Egilsdóttir (10. – 11. öld) var húsfreyja á Goddastöðum og í Hjarðarholti í Laxárdal í Dalasýslu. Hún var kona Ólafs páa Höskuldssonar og því tengdadóttir Melkorku og Höskuldar Dala-Kollssonar. Þorgerður var dóttir Egils Skalla-Grímssonar og hét eftir Þorgerði brák, sem var ambátt Skalla-Gríms og fóstra Egils. Þau Þorgerður og Ólafur áttu átta börn, þar á meðal Kjartan Ólafsson, og auk þess fóstruðu þau Bolla bróðurson Ólafs. Þegar Egill á Borg, faðir Þorgerðar, missti son sinn, Böðvar, í sjóslysi í Borgarfirði ætlaði hann að svelta sig til bana. Þá var Þorgerður sótt vestur og með klókindum gat hún fengið karlinn til að hætta í sveltinu og yrkja frekar kvæði. Þá varð kvæðið Sonatorrek til. Um Þorgerði er fjallað í Egils sögu og í Laxdæla sögu. Todmobile. Todmobile er íslensk popp-/rokkhljómsveit stofnuð af Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, Andreu Gylfadóttur og Eyþóri Arnalds árið 1988. Fyrsta hljómplata þeirra, "Betra en nokkuð annað", kom út fyrir jólin 1989 og fékk mjög góða dóma. Önnur plata sveitarinnar, "Todmobile", kom út fyrir jólin 1990 og varð metsöluplata. 1993 ákvað hljómsveitin að hætta. Þorvaldur Bjarni og Andrea stofnuðu Tweety árið eftir og Eyþór hóf samstarf við unnustu sína, Móeiði Júníusdóttur, í dúettinum Bong. 1996 kom Todmobile aftur saman og gaf út diskinn "Perlur og svín". Eftir það hefur hljómsveitin komið saman við sérstök tækifæri þótt oft hafi langt liðið á milli. 2003 gaf hún út diskinn Sinfónía, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og árið 2006 kom út sjötta breiðskífa þeirra, undir nafninu Ópus 6. IPhone 3G S. iPhone 3G S er snjallsími sem getur tengt við netið. Hann er framleiddur af Apple Inc. sem kynnti farsímann 8. júní 2009. Farsíminn er með snertiskjá og HSDPA. iPhone 3G S verður sett á markað 19. júní í sex löndum. Fulham. Fulham er staður í suðvestur London í hverfinu Hammersmith og Fulham. Fulham er staðsettur á milli Putney og Chelsea. Áður fyrr var Fulham í biskupsdæminu „Fulham og Gibraltar“, og var Fulham-höll embættislegt heimili biskupsins af London. Þrjú knattspyrnulið eru staðsett í Fulham: Fulham F.C., Chelsea F.C. og Queens Park Rangers. Krösos. Krösos (eða Krösus) (gríska: "Κροῖσος") (595 f.Kr. – u.þ.b. 547? f.Kr.) var síðasti konungur Lýdíu, sonur Alyattes II. Krösos gafst upp fyrir Persum í kringum 547 f.Kr. Fall hans hafði mikil áhrif á Forn-Grikki og varð þeim fast viðmið í dagatalinu. Krösos var mjög þekktur fyrir auðlegð sína, og í sumum tungumálum er talað um að einhver sé „ríkur sem Krösos“ eða „ríkari en Krösos“. Kringvarp Føroya. Kringvarp Føroya er ríkisrekinn fjölmiðill í Færeyjum sem rekur bæði sjónvarps- og útvarpsstöð. Kringvarp Føroya er staðsett í höfuðstaðnum Þórshöfn. Sjónvarp og útvarp færeyja voru sameinuð þann 1. janúar 2005, eftir tillögu frá mennta og menningaráðherranum Jógvan á Lakjunni. Forstjóri Kringvarps Færeyja er Annika M. Jacobsen. Sjónvarp Færeyja. Sjónvarp færeyja er ríkisrekin sjónvarpstöð í Færeyjum. Samningur var gerður við fyrsta forstöðumann stöðvarinnar, Jógvan Asbjørn Skaale, í mars 1983 til fimm ára. Stöðin hóf útsendingar opinberlega 1. apríl 1984 og var kominn í fullan rekstur þann 1. september 1984. Útvarp Færeyja. Útvarp færeyja er ríkisrekin útvarpstöð í Færeyjum. Hún var stofnuð árið 1957 og hóf útsendingar þann 6. febrúar 1957. Fyrsti útvarpstjóri stöðvarinnar var Axel Tórgarð og eftirmaður hans var Niels Juel Arge. Open BIC. Open BIC eða O'pen BIC er lítil einmenningskæna frá franska pennaframleiðandanum Bic. Open BIC eru hugsaðir sem keppnisbátar fyrir börn og unglinga sem vaxin eru upp úr Optimist. Open BIC eru þríhyrndir plastbátar með eitt stórsegl úr plastfilmu. Mastrið er staðsett nálægt stefni bátsins. Þeir eru 2,75 metrar á lengd og vega 45 kg án seglabúnaðar. Besta þyngd siglingamanns er 65kg en mesta þyngd 90kg. Hægt er að nota reiða af Optimist á Open BIC þannig að þeir sem uppfæra geta látið nægja að kaupa aðeins skrokkinn í byrjun. Jarðsprengja. Jarðsprengja er vélgeng sprengja sem er komið fyrir á eða rétt undir yfirborði jarðar og springur við högg eða þrýsting, til dæmis frá manni eða ökutæki. Í seinni heimsstyrjöld voru lagðar jarðsprengjur víða á Íslandi, til dæmis í Miðdal á Mosfellsheiði. Landsnefndin fyrri. Landsnefndin fyrri var nefnd sem Kristján 7. skipaði árið 1770 og átti að rannsaka bága stöðu Íslendinga og legggja á ráðin um hvernig hagur landsmanna yrði bættur. Nefndin sat á rökstólum á árunum 1770-1771. Nefndarmenn voru: Andreas Holt, vararæðismaður í Kristjaníu, formaður, Þorkell Jónsson Fjeldsted, lögmaður í Færeyjum og Thomas Wildekilde kaupmaður á Eyrarbakka. Ritari nefndarinnar var skipaður Eyjólfur Jónsson, síðar konunglegur stjörnuskoðari. Nefndarmenn ferðuðust um Ísland sumarið 1770 og gerðu ákveðnar tillögur um atvinnu- og fjármál. Nefndin skilaði síðan skýrslu árið 1771. Sérstök skrifstofa var stofnuð í Kaupmannahöfn árið 1773 til að fjalla um þessi mál, ásamt þeim sömu fyrir Færeyjar og Grænland. Skrifstofan var undir stjórn Jóns Eiríkssonar konferensráðs. Sama ár var stofnaður fyrir tilstyrk nefndarinnar Framfarasjóður Íslands ("Mjölbótasjóðurinn"). Hlutverk Jóns Eirikssonar, sem var fulltrúi stjórnarinnar um Íslandsmál í Rentukammerinu, var að koma tillögum nefndarinnar í lagaform og reka á eftir því, að þau kæmust í framkvæmd, eftir því sem kostur var á. Þannig voru í frammi hafðar miklar fyrirætlanir um umbætur í landbúnaði. Og talsverðar tilraunir voru gerðar með þilskipaútgerð. Um álit Landsnefndarinnar spratt einnig löggjöf um vegagerð, póstmál og heilbrigðismál. En einna umfangmestu lögin voru jarðræktarlög, er oftast gengu undir nafninu „þúfnatilskipunin“. Þar átti að skylda bændur til að slétta ákveðið flatarmál í túnum sínum ár hvert og hefjast handa við að reisa girðingar. Enn fremur voru sett lög um nýbýli. Minna varð þó úr þessum framkvæmdum en búist var við í upphafi vegna þess að skömmu síðar dundu Móðuharðindin yfir. Sérstakur saksóknari. Enginn sótti um. Björn Bjarnason skipaði þá Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Akranesi í embættið þann 13. janúar 2009. Á heimasíðu sérstaks saksóknara segir svo um hlutverk hans. Eva Joly. Þann 8. mars 2009 tók Egill Helgason, blaðamaður og sjónvarpsmaður, viðtal við Evu Joly, sem er einn fremsti rannsakandi efnahagsbrota í Evrópu og hafði viðtalið mikil áhrif á umræðuna á Íslandi. Hún sagði síðan á opnum fundi í Háskólanum í Reykjavík, þann 10. mars, að það væri brandari að einungis fjórir starfsmenn væru við störf hjá embætti sérstaks saksóknara. Ólafur Þór tók undir með henni og fagnaði gagnrýni hennar. Þann 18. mars 2009 var stutt viðtal við Ólaf á RÚV varðandi það að hann hefði ekki hafið rannsóknir á neinum efnahagsbrotum að eigin frumkvæði, en við það tækifæri nefndi hann að innan við 10 heimildarmenn hefðu verið kallaðir til yfirheyrslu. Hann vildi ekki nefna hverjir það voru. Fyrstu verkefni. Þann 24. mars kom fram að umfang embættis sérstaks saksóknara gerði ráð fyrir því að fastir starfsmenn hans verði allt að sextán talsins, en þá eru ekki taldir með þeir erlendu sérfræðingar sem reiknað er með að starfi með saksóknaranum. Starfsmennirnir gætu því orðið allt að tuttugu á þessu ári, var haft eftir Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra. Björn Jónsson (lyfsali). Björn Jónsson (eða Björn Jónsson í Nesi) (1. nóvember 1738 – 19. september 1798) var lyfjafræðingur og fyrsti lyfsali á Íslandi með full réttindi til lyfsölu en þau veittu ráðamenn í Kaupmannahöfn þann 18. mars árið 1772. Endurholdgun. Hjól lífsins, kínversk lágmynd frá 12. öld sem sýnir hringrás endurholdgunar Endurholdgun eða endurfæðing (sem hefur einnig aðra merkingu í sumum kristnum söfnuðum sem andleg endurfæðing) er sú hugmynd að lífverur, og í mörgum tilfellum einungis menn, snúi aftur til lífs eftir dauðan í nýjum líkama. Þessi hugmynd er í trúarlegum skilningi einkum trúarbrögðum af indverskum uppruna svo sem hindúisma, búddisma og jaínisma. Í þessum trúarbrögðum er endurholdgunin tengd hugmyndinni um karma, lögmál orsaka og afleiðinga. Hugmyndin þekktist einnig í grískri heimspeki og dulspeki og var þar af orfeifskum og pýþagórískum uppruna en var áberandi í platonisma. Flestir söfnuðir í abrahamísku trúarbrögðunum, gyðingdómi, kristni og íslam afneita endurholdgun. Ein grunnhugmynd þessara trúarbragða er að við kveiknun mannlegs lífs öðlist einstaklingurinn sál og að jarðlífi loknu eigi hún eilíft líf, í paradís eða hugsanlega helvíti. Það eru þó til innan þessara trúarbragða eða tengdar þeim, greinar sem aðhyllast hugmyndina um endurholdgun, má þar nefna antroposofa innan kristni, nokkrar greinar súfista innan íslam og kabbalistar í gyðingdómi. Á seinustu áratugum hefur trú á endurholdgun aukist mjög á Vesturlöndum meðal annars á Íslandi og er einungis að nokkru leyti tengt Nýaldarhreyfingum. Endurholdgun í austrænum hugmyndheimi. Öll trúarbrögð af indverskum uppruna eiga það sameiginlegt að álíta endurholdgun vera sjálfsagðan kjarna lífsins. Þau greinir hins vegar á um hvað það sé sem flyst milli tilverustiga. Aðalspurningin er hvort það sé eins konar persónukjarni (sál - atman sem hins vegar er skilgreind á mismunandi vegu í þeim trúarbrögðum sem nota það hugtak, til dæmis í hindúisma og jaínisma) eða ópersónubundin meðvitund sem endurholdgast. Helstu hugmyndir um eðli endurholdgunar í inverskættuðum trúarbrögðum, karma, samsara, og moksha/mukti (sem nefnt er nirvana/nibbana af búddistum), eru ævafornar og með öllu óvíst hvenær þær komu fyrst fram. Endurholdgun í hindúisma. Það er í raun á mörkunum að vera rétt að fjalla um hindúisma sem samstæða heild þar sem undir því hugtaki eru margar mismunandi greinar og kenningar. Þær hafa þó allar sameiginlegt að álíta endurholdgun vera sjálfsagðann og óumdeilanlegan hluta tilverunnar. Hringferli endurholdgana er nefnt samsara í hindúisma. Það er fjallað um eðli „dauðans eftir dauðan“ þegar í elstu Vedabókunum (það var faið að skrifa þær um 1500 f.Kr en þær eiga sér enn eldri munnlega forsögu) og hugmyndin um endurholdgun gerð að einni grunkenningu þess sem smám saman verður að hindúisma. Í því safni af elstu vedatextunum sem nefnt er "Saṃhitās" er tilveran sögð vera skiljanleg og möguleg að stjórna. Guðirnir höfðu gefið mönnunum hinn veraldlega heim og það var hægt að hafa áhrif á þá með bænum, sálmasöng, helgiathöfnum og með því að færa þeim fórnir. Helgiathafnir eru enn mjög mikilvægur þáttur í trúarlífi hindúa. Í "Upanishadritinum", sem skrifuð voru um 700 f.Kr., fóru Indverskir heimspekingar hins vegar að sjá tilveruna sem blekkingu ("maja") og raunveruleikinn ("sat") fremur séður sem óbreytanlegt einingarlögmál alheimsins sem ýmist er nefnt "rita" (eðli hlutana), "Brahman" (hin óendalegi) eða "atman" (sálin). Hinn veraldlegi heimur virtist skiptast upp í óendanlegri hringrás, þessi hringrás var nefnd "samsara" (óendanleg umbreyting eða stöðug hreyfing). Í Upanishadritinum er hugtakið samsara tengt kenningunni um karma og þar með mótaðist trú hindúa á því að lífið byggi á gerðum fyrri tilverustiga. Karma er lögmál orsaka og afleiðinga sem gerir hvern einstakling ábyrgan fyrir framtíð sinni með þeim hugsunum, orðum og gjörðum sem hann velur á hverju tilverustigi. Svo lengi sem einstaklingurinn er fastur í samsara heldur hringrás lífs og dauða áfram með þeim þjáningum og erfiðleikum sem því fylgja. Takmarkið er því að losna úr kvöðum samsara en leiðin þangað er torsótt. Upanishadritin fjalla meðal annars um hvernig leitast megi eftir því að feta þá leið og er heimspekileg undirstaða þeirra kenninga sem mynda búddisma og jaínisma. Samkvæmt hindúismanum er maðurinn guðlegur að eðli en svo lengi sem hann öðlast ekki fullkomna meðvitund um sitt sanna eðli verður hann að flytja frá líkama í líkama. Ef einstaklingurinn hefur haft mjög slæmar hugsanir, illt umtal og slæmar gjörðir þarf hann að „brenna upp karma“ í formi jurtar eða dýrs í næsta lífi. En ef meðvitundin um hið sanna guðlega eðli vex smám saman gegnum ótaldar endurholdganir losnar einstaklingurinn úr fjötrum samsara. Meðvitundin yfirvinnur karma og endurholdgununum líkur með því að maðurinn nær því sem nefnt er "moksha" (einnig "mukti") og er þar með frjáls frá þeim fjötrum sem hafa bundið sjálfið við fæðingu og dauða. Innan hindúismans eru fjölmargar og mismunandi skilgreiningar á því hvað taki við þegar maðurinn hafi uppnáð moksha. Þrír meginstraumar innan hindúismans hafa hver sína leið til að losna undan þjáningu endurholdgunar: leið þekkingarinnar ("Jnana jóga"), leið gjörða ("Karma jóga"), leið Guðsástar ("Bhakti jóga"). Einnig er algengt að skilgreina fjórðu leiðina (meðal annars af kennimanninum Vivekananda), "Raja jóga", eða „konungsjóga“, sem er aðferð jógaæfinga og hugleiðslu. Endurholdgun í búddisma. Búddisminn tók hugtakið samsara frá hindúismanum þó svo að hugtakið sé frábrugðið á ýmsan hátt. Búddistar trúa ekki á tilveru einstaklingsbundnar sálar, þeir trúa að ópersónubundin meðvitund sé kjarni lífs og það sé þessi meðvitund sem endurholdgist í nýju formi. Það er að segja að einstaklingurinn sem slíkur endurholdgast ekki. Boddhisatva kenningin innan mahayana-búddisma eru þó undantekning frá þessari hugmynd. Samkvæmt heimsmynd búddista eru öll fyrirbrigði, huglæg jafnt sem hlutlæg, í stöðugri breytingu. Huglæg og hlutlæg fyrirbæri verða til í margbreytilegu og flóknu orsakasamhengi, eftir lengri eða skemmri tíma taka þau að breytast þar til að þau hverfa og birtast í nýju formi. Öll huglæg og hlutlæg fyrirbæri hafa áhrif á önnur fyrirbæri í óendanlegum vef orsaka og afleiðinga. Þetta gildir fyrir öll fyrirbæri nema nirvana, nirvana hefur ekki áhrif á neitt annað og er óbreytanlegt. Vegna þess að öll fyrirbæri eru tengd í óendalegum vef orsaka og afleiðinga hefur tilveran ekkert upphaf. Búddisminn skilgreinir lífið sem þjáningu og frá henni verður ekki komist vegna þess að allar lífverur eru fastar í hinni eilífu hringrás endurholdgunar. Hún fer frá einu tilverustigi til annars eftir því sem hún hefur unnið til með breytni sinni á hverju æviskeiði, því sem kallað er karma. Karma þýðir „að gera“ og er lögmál orsaka og afleiðinga. Með mikilli einföldun má segja að góðar gerðir uppskeri góða aðbúð og slæmar gerðir leiði til slæms aðbúnaðar. Lífverur endurfæðast á mismunandi gerfum allt eftir karma hvers og eins. Sum gervi bera með sér mikla þjáningu og mannverur geta endurfæðst sem dýr. En ekkert þessara tilverustiga er eilíft heldur undirorpið hnignun, dauða og endurfæðingu. Búddistar telja það sérlega jákvætt að endurfæðast sem mannvera því sambandið og jafnvægið milli þjáningar og hamingju í mannlífinu opna möguleika á því að skynja eðli tilverunnar, losa sig úr samsara og ná nirvana. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný. Í búddismanum er engin guð sem dæmir eða verðlaunar, karma er algjörlega ópersónulegur kraftur. Lifandi verur skap sinn eigin karma með hegðun og hugsun. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný og uppná nibbana. Endurholdgun í vestrænum hugmyndheimi. Hugmyndir um endurholdgun eða endurkomu sálarinnar í nýju gervi hafa fundist í ýmsu formi í hugmyndaheimi vesturlandamanna um aldaraðir þó svo það hafi yfirleit verið jaðarhugmyndir utan alfaravegs heimspeki og trúarlífs. Endurholdgun í fornöld. Gríski heimspekingurinn Pýþagóras (d. um 500 f.Kr.) setti fram hugmyndir um möguleika á endurkomu eftir dauðan í nýju lífi. Díogenes Laertíos, gríski heimspekingurinn sem uppi var um ár 200 e.Kr, segir frá því að Pýþagóras hafi einu sinni þekkt sál dáins vinar síns í hundi sem var barinn. Sjálfur sagði Pýþagóras að hann væri tróverska hetjan Evforbos endurholdgaður. Kenningin um endurkomu sálarinnar var einnig tekin upp af grísk-sikileyska heimspekinginum Empedóklesi (um 490-430 f.Kr.) og af Platoni (427—347 f.Kr.). Empedókles sagði: „Ég hef þegar verið piltur og stúlka, runni, fugl og ómæltur fiskur í hafinu“. Platon hélt því fram að maðurinn endurfæddist í samsvörun við það þekkingarstig sem sá látni hafði náð. Þeir sem væru mest upplýstir fæddust meðal annars sem heimspekingar og listamenn. Þeir lægstu fæddust sem kúgarar. Kristnir gnostikerar í frumkristni töldu sálina flytja í nýjan jarðneskan líkama eftir dauðan. Í raun er litið vitað um kenningar þeirra annað en frá andstæðingum þeirra, þáverandi leiðtogum kristinna. Irenaeus (f. um 120, d. um. 200) var einn af mikilvægustu guðfræðingum í frumkristni og biskup í Lyon. Hann skrifaði gegn gnostikerunum í "Contra Heresies", og afskrifað allar kenningar um endurholdgun eða endurkomu sálarinnar í jarðneska tilveru eftir dauðann og taldi þær í algjörri andstæðu við kristna trú. Þessi skoðun Irenaeusar hefur verið allsráðandi innan kristinnar kirkju frá þeim tíma. Origenes (185 – 254 e.Kr.), sem var kristinn guðfræðingur undir sterkum platonskum áhrifum varði að nokkru hugmyndir um endurkomu sálarinnar sérlega það að sálin hefði verið til áður en hún tekur sér bólfestu í jarðneskum líkama. Origenes viðurkenndi þó að kenningin um endurholdgun og endurkomu sálarinnar samrýmdist ekki Nýja testamentinu. Nýplatonistinn Plótínos (205 - 270 e.Kr) varði kenningar um endurkomu sálarinnar. Hann áleit endurholdgun vera möguleika sálarinnar að læra góðsemi með því að fara í gegnum fleiri tilverustig. Að honum frágengnum urðu kenningar um endurholdgun fágætar í vestrænu trúarlífi og voru það einkum gnostískir hópar (og þá oft á laun) sem viðhéldu hugmyndinni. Það var ekki fyrri en í lok 19. aldar sem þessi hugmynd var endurvakinn í stærri stíl en þá í nánum tengslum við indverskar og aðrar austrænar hugmyndir um karma. Norræn goðafræði. Sváfa heldur hinum deyjandi Helga í fyrstu holdgun þeirra af þremur. Í fornsögum norrænna manna eru frásagnir um trú á endurholdgun. Meðal annars er það að finna í "Eddukvæðunum". Í "Helgakviðu Hjörvarðssonar" er sagt frá því að Helgi Hjörvarðsson og ástkona hans, valkyrjan Sváfa, fæddust að nýju sem Helgi Hundingabani og valkyrjan Sigrún. Ástarsaga þeirra Helga og Sigrúnar er umfjöllunarefni í "Völsungakviðu" og "Helgakviðu Hundingsbana". Þau fæddust í þriðja sinn og voru þá nefnd Helgi Haddingjaskati og valkyrjan Kára Hálfdanardóttir, en kvæði það sem um þau fjallaði, "Káruljóð", er einungis til í aðlöguðu formi í "Hrómundar sögu Gripssonar". Ekki er ósennilegt að trú á endurholdgun hafi verið algeng meðal norrænna manna til forna enda segir sá sem skráði Eddukvæð: „Þat var trúa í forneskju, at menn væri endrbornir, en þat er nú kölluð kerlingavilla“ en var kristni tekin við er kvæðið var skráð. Forsætisráðuneyti Íslands. Forsætisráðuneyti Íslands eða Forsætisráðuneytið er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður forsætisráðuneytis er forsætisráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Dóms­mála- og mannréttindaráðuneyti Íslands. Dóms­mála- og mannréttindaráðuneyti Íslands eða Dóms­mála- og mannréttindaráðuneyti var eitt af ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands áður en það sameinaðist samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneyti til þess að mynda innanríkisráðuneyti. Æðsti yfirmaður dóms­mála- og mannréttindaráðuneytis var dóms­mála- og mannréttindaráðherra og æðsti embættismaður þess var ráðuneytisstjóri. Félags- og tryggingamálaráðuneyti Íslands. Félags- og tryggingamálaráðuneyti Íslands eða Félags- og tryggingamálaráðuneyti var eitt af ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands áður en það sameinaðist heilbrigðisráðuneyti til þess að mynda velferðarráðuneyti. Æðsti yfirmaður var félags- og tryggingamálaráðherra og æðsti embættismaður þess var ráðuneytisstjóri. Fjármálaráðuneyti Íslands. Fjármálaráðuneyti Íslands eða Fjármálaráðuneytið er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður er fjármálaráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Karma. Karma (úr sanskrít: कर्म, einnig á palí: कम्म "kamma") er andlegt hugtak sem þýðir að allar gjörðir, líkamlegar jafnt sem huglægar, valdi afleiðingum. Þessar afleiðingar birtast í næstkomandi tilverustigum. Þetta er grundvallarkenning í öllum trúarbrögðum af indverskum uppruna, svo sem búddisma, hindúisma, jaínisma og síkisma. Samkvæmt búddisma, hindúisma og jaínisma er karma lögmál orsaka og verkana. Allar gjörðir, allar hugsanir, öll viðbrögð orsaka verkanir. Verkanir karma fylgja lögmáli og eru á engan veginn bundnar yfirvegun alheimsdómara eða guða. Í karma finnst engin refsing eða náð og í raun hvorki góð eða slæm karma. Allar gjörðir valda karma. Takmarkið er því ekki að uppná góðan karma heldur að losna frá því að skapa karma. Karma í hindúisma. Í hindúisma er karma séð sem óumbreytanlegt lögmál þar sem meðvitaðar jafnt sem ómeðvitaðar gjörðir eru hluti af flóknu kerfi orsaka og afleiðinga, kerfi sem er í raun óskiljanlegt fyrir þá sem eru bundnir í karma. Markmið hindúa, eins og það er sett fram í helgiritinu Bhagavad Gita, er að tileinka sér þannig lífsmáta að hann hætti að skap karma (karma er hvorki gott né slæmt). Með því að takmarka sköpun nýs karma nálgast jiva-atma, það er sál einstaklingsins, lokatakmarkið að uppná moksha eða frelsun. Karma í búddisma. Búddistar leggja áherslu á að karma skapist einungis af meðvituðum gjörðum. Lögmál orsaka og afleiðinga er því í höndum einstaklingsins og með réttum gjörðum og réttum hugsunum getur einstaklingurinn að lokum losnað úr hringrás samsara, endurholdgun í nýja þjáningu lífsins. Trúbrot. Trúbrot var íslensk rokkhljómsveit sem var stofnuð af nokkrum meðlimum hljómsveitanna Hljóma og Flowers árið 1969. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og Shady Owens úr Hljómum og Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson úr Flowers. Hljómsveitin er aðallega þekkt fyrir framsækna rokktónlist og sýrurokk. Árni Johnsen átti hugmyndina að nafni hljómsveitarinnar. 1970 hættu bæði Shady og Karl í hljómsveitinni og Magnús Kjartansson tók við á hljómborð. Stuttu síðar hætti Gunnar Jökull og Ólafur Garðarsson tók við trommuleik. Meðlimir Trúbrots flugu til Kaupmannahafnar 7. október 1970 til að leika í dönskum klúbbum í hálfan mánuð, áður en stefnan var sett á Wifoss-stúdíóið þar sem Philip Wifoss hljóðritaði Undir áhrifum og notaði til þess nýja 10 rása upptökuvél sem þótti mikið undur. Þegar platan kom á markað í nóvember sama ár var henni hælt á hvert reipi. Hún þótti framsækin, metnaðarfull og textarnir, sem voru flestallir á ensku, þrungnir þjóðfélagslegum skírskotunum. Því var haldið fram að Undir áhrifum ætti fullt erindi á alþjóðamarkað. Þrátt fyrir góðar viðtökur gagnrýnenda voru kaupendur á öðru máli og stóð platan engan vegin undir væntingum þeirra. 1971 Gengu þeir Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson aftur til liðs við hljómsveitina og Ólafur Garðarsson fór yfir í Náttúru. Í þessari mynd gerði hljómsveitin meistaraverkið...Lifun, sem var saminn og æfð á sex vikum og flut á tónleikum í Háskólabíói 13 mars það sama ár. Hljómsveitin hélt til Lundúna eftir tónleikana og hljóðritaði verkið fyrir Tónaútgáfuna í Morgan Studios og Sound Techniques 18. og 19. mars undir stjórn Gerrys Boys. Þegar platan kom út þótti útlit hennar nýstárlegt þar sem umslagið var afskorið á hornunum og myndaði sexhyrning. stóð hljómsveitin að útihátíð í Saltvík í samstarfi við Æskulýðsráð Reykjavíkur. Þar tróðu margar af helstu þjóðlagarokkstjörnum Íslands upp. Eftir hátíðinna hvarf Karl af landi brott og skaut næst upp hausnum í Náttúru 1972 í þessari mynd hélt sveitinn áfram og gerði plötuna Mandala sem hljóðrituð var í Kaupmannahöfn, Danmörku eftir allt Lifunar ævintýrið treysti Tónaútgáfan sér ekki til að halda áfram samstarfi við Trúbrot. Því ákváðu þeir að gefa hana út sjálfir og veðsetti Rúnar Júl hús sitt til að koma plötunni út. Hljómsveitin var frá upphafi áberandi í tónlistarlífinu á Íslandi og voru miklar væntingar bundnar við hana. Hneykslismál á borð við fíkniefnamál, Saltvíkurhátíðina (sem þótti einkennast af mikilli drykkju ungmenna) og kæra Jóhanns Hjálmarssonar á hendur hljómsveitinni vegna ritstuldar reyndust henni erfið. Vonir um plötusölu erlendis brugðust líka og þótt plötur sveitarinnar seldust vel á Íslandi dugði það ekki til. Hljómsveitin var lögð niður vorið 1973. Sandsúlungur. Sandsúlungur (fræðiheiti: "Suillus variegatus") er ætur pípusveppur sem myndar svepprót með furutrjám. Stafurinn er fremur þykkur og verður ljósblár ef hann er skorinn. Hatturinn verður 6-13 sm í þvermál, gulur og loðinn en verður slímugur ef hann blotnar. Á Íslandi hefur Sandsúlungur aðeins fundist við Rauðavatn. Aðþrengdar eiginkonur (1. þáttaröð). thumb Fyrsta þáttaröðin af "Aðþrengdum eiginkonum" fór af stað á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC þann 3. október 2004 og lauk henni 22. maí 2005. Til viðbótar við þættina 23 var einn auka þáttur sem hét „Sorting Out the Dirty Laundry“ (e. Óhreini þvotturinn tekinn frá) og var hann sýndur 24. apríl 2005. Fyrsta þáttaröðin var sýnd í Bretlandi 5. janúar 2005 – 1. júní 2005. Það voru engin bil á milli þátta. Írland var alltaf einum degi á undan Bretlandi. Þættir 22 og 23 voru sýndir saman í Evrópu. Persónur & leikendur. Í fyrstu þáttaröðinni af Desperate Housewives voru þrettán persónur þar af fimm aðalleikkonur en einnig Rex Van de Kamp, Carlos Solis, Paul, Zach, Mary Alice Young, Julie Mayer, John Rowland og Mike Delfino. Framleiðsla. Auk Marc Cherry sem aðal-framleiðanda bættust Tom Spezialy og Michael Edelstein við á meðan Kevin Murphy var meðframleiðandi. Cherry og Spezialy skrifuðu einnig flesta þættina. Hinir höfundar seríunnar voru m.a. Kevin Murphu, John Pardee og Joey Murphy, Alexandra Cunningham, Jenna Bans, Kevin Etten, Josh Senter, Chrish Black, Adam Barr, David Schulner, Katie Ford, Oliver Goldstick, Patty Lin og Tracey Stern - en margir voru einnig framleiðendur. Sjö leikstjórar unnu við þættina þessa þáttaröðina: Larry Shaw (sem einnig var einn af framleiðendunum), Arlene Sanford, Jeff Melman, Fred Gerber, David Grossman, John David Coles og Charles McDougall. Útdráttur. Þættirnir byrja á sjálfsmorði Mary Alice Young (Brenda Strong), sem talar yfir þættina í gegnum móðuna miklu. Sjálfsmorð Mary Alice skilur eftir sig ráðgátu um eiginmann hennar Paul Young (Mark Moses) og son hennar Zach (Cody Kasch) og dularfullu leikfangakistuna, sem Paul grefur upp undan sundlaug fjölskyldunnar. Seinna kemur í ljós að hún inniheldur beinagrindarleifar dauðrar konu. Sagan kemur í ljós í gegnum fjórar vinkonur og nágranna Mary Alice. Hver og ein hefur sína eigin sögu sem tengist því að vera aðþrengd eiginkona: klaufska einstæða móðirin Susan Mayer (Teri Hatcher), sem er að leita að ást; fullkomna húsmóðirin Bree Van de Kamp (Marcia Cross), móðir tveggja vandræða unglinga, sem reynir að bjarga hjónabandinu sínu; hin gifta Lynette Scavo (Felicity Huffman) sem reynir að vera súper fjögurra barna móðir á meðan hana langar að fara aftur að vinna; og snobbaða, fyrrum fyrirsætan Gabrielle Solis (Eva Longoria sem reynir að stöðva eiginmann sinn í að komast að framhjáhaldi hennar, og kemst síðan að því að hún er ólétt. Í þessari fyrstu þáttaröð leysist ráðgátan í kringum Mary Alice Young sem framdi sjálfsmorð og einnig leysist ráðgátan í kringum dularfulla „píparann“ Mike Delfino (James Denton) sem kemst að örlögum fyrrum kærustu sinnar Deirdre sem var eiturlyfjafíkill. Í enda þáttaraðarinnar, kemur það í ljós að 15 árum fyrr hét Mary Alice Angela Forrest, og hún og eiginmaður hennar keyptu son Deirdre, Dana, og flúðu þau síðan til Fairview (bærinn sem þættirnir gerast í) til þess að ala upp barnið (sem bar nú nafnið Zach) sem sinn eigin. Þegar Deirdre finnur þau vill Mary Alice ekki leyfa henni að fá son sinn aftur. Þegar Deirdre er ásökuð um að vera komin aftur í eiturlyfin, lemur hún Paul og ætlar að sækja son sinn. Mary Alice, staðráðin í að stoppa hana, stingur hana með hníf. Hún deyr stuttu eftir það og athugar Mary Alice handlegginn á Deirdre til að leita að sprautuförum (hún er þurr) og segir Paul að losa þau við líkið og setur hann Deirdre í leikfangakistu Zachs og grefur hana undir botninum í sundlauginni í garðinum. Allt þetta gerist á meðan hinn fjögurra ára Zach fylgist með úr stiganum. Mary Alice reiknar ekki með að einn nágranna hennar, Martha Huber komist að leyndarmáli sínu í gegnum systur Mörthu, Feliciu Tilman (sem Mary Alice hafði unnið með áður en hún flutti til Fairview). Eftir að hún kemst að leyndarmálinu, reynir Martha að kúga Mary Alice. Í staðinn fyrir að horfast í augu við aðstæður, drepur Mary Alice sig. Seinna, þegar Paul kemst að þessu, drepur hann Mörthu eftir að hún segist ekki sjá eftir að hafa kúgað þau. Paul segir Mike (fyrrum ástmanni Deirdre) þetta þegar hann fer með Paul í eyðimörkina, og ætlar að drepa hann, en skilur hann eftir þar þegar hann áttar sig á því að Zach er sonur sinn. Það kemur á óvart að eiginmaður Bree, Rex (Steven Culp) deyr af eitrun stuttu eftir að George Williams, lyfjafræðingur sem er ástfanginn af Bree, á við hjartalyf Rex og Bree tefur viljandi læknisaðstoð fyrir Rex. Hegðun Bree orsakast af reiði út í Rex vegna þess George sagði henni (en hann laug) að Rex hefði talað um kynlíf þeirra hjóna við samstarfsmenn sína, eða nánar tiltekið um það að Bree væri að reyna að fullnægja þörfum BDSM þörfum Rex. Vitellius. Aulus Vitiellius Germanicus (24. september 15 – 22. desember 69) var keisari Rómaveldis frá 16. apríl til 22. desember árið 69. Vitellius var þriðji keisarinn á ári keisaranna fjögurra. Vitellius var skipaður landsstjóri í Germaniu Inferior, í desember 68, af Galba sem þá var keisari. Galba var óvinsæll á meðal hermanna í Germaníu vegna þess að hann neitaði að borga þeim fyrir hollustu þeirra. Herdeildirnar í Germaniu gerðu þvi uppreisn gegn Galba þann 1. janúar 69, og hylltu í kjölfarið Vitellius sem keisara. Innan nokkurra daga var Galba tekinn af lífi í Róm, en þó ekki af neinum hliðhollum Vitelliusi heldur af stuðningsmanni Otho. Otho var í kjölfarið viðurkenndur sem keisari af öldungaráðinu. Herdeildir Vitelliusar og Othos mættust í bardaga á Norður-Ítalíu í mars árið 69, þar sem Vitellius hafði mun stærri her og vann afgerandi sigur. Vitellius kom til Rómar um sumarið 69 og var hylltur sem keisari. Síðar um sumarið bárust þó fréttir af því að hersveitir í austurhluta Rómaveldis höfðu lýst hershöfðingjann Vespasíanus keisara. Vespasíanus hlaut fljótlega stuðning hermanna víða í heimsveldinu og herir þeirra Vitelliusar mættust svo á Norður-Ítalíu um haustið 69. Að þessu sinni beið Vitellius afgerandi ósigur. Í desember, þegar staðan var orðin vonlaus fyrir Vitellius, reyndi hann að segja af sér en hann var að lokum drepinn af hermönnum Vespasíanusar. Með dauða Vitelliusar lauk borgarastríðinu sem hófst við dauða Nerós og með Vespasíanusi hófst valdatími flavísku ættarinnar. Heilbrigðisráðuneyti Íslands. Heilbrigðisráðuneyti Íslands eða Heilbrigðisráðuneytið var eitt af ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands áður en það sameinaðist félags- og tryggingamálaráðuneyti til þess að mynda velferðarráðuneyti. Æðsti yfirmaður var heilbrigðisráðherra og æðsti embættismaður þess var ráðuneytisstjóri. Sjúkra- og slysatryggingar almannatrygginga og sjúklingatryggingu. Iðnaðarráðuneyti Íslands. Iðnaðarráðuneyti Íslands eða Iðnaðarráðuneytið er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður er iðnaðarráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneyti Íslands. Samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneyti Íslands eða Samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneytið var eitt af ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands áður en það sameinaðist dóms­mála- og mannréttindaráðuneyti til þess að mynda innanríkisráðuneyti. Æðsti yfirmaður var samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðherra og æðsti embættismaður þess var ráðuneytisstjóri. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti Íslands. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti Íslands eða Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti Íslands eða umhverfis- og auðlindaráðuneytið er eitt af 8 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður er umhverfis- og auðlindaráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Utanríkisráðuneyti Íslands. Utanríkisráðuneyti Íslands eða Utanríkisráðuneytið er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður er utanríkisráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Efnahags- og viðskipta­ráðuneyti Íslands. Efnahags- og viðskipta­ráðuneyti Íslands eða Efnahags- og viðskipta­ráðuneyti er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður er Efnahags- og viðskipta­ráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Þarmagerlar. Þarmagerlar (latína: "Enterobacteriaceae") er fremur stór ætt baktería sem inniheldur meðal annarra sýkla á borð við "Salmonella enterica" og "Escherichia coli". Ættin er sú eina innan ættbálksins "Enterobacteriales", en hann hefur raunar ekki enn öðlast formlega flokkunarfræðilega stöðu. Helstu einkenni. Þarmagerlar eru staflaga bakteríur, gjarnan 1-5 μm að lengd. Líkt og allir próteógerlar eru þeir Gram-neikvæðir. Þeir eru valfrjálst loftsæknir og gerja sykrur með myndun mjólkursýru við loftfirrðar aðstæður. Flestar tegundir eru kvikar. Höttur. Íþróttafélagið Höttur er íslenskt íþróttafélag sem er staðsett á Egilsstöðum. Félagið keppir í knattspyrnu, körfubolta, og fimleikum Steindepill. Steindepill (fræðiheiti: "Oenanthe oenanthe") er fugl sem var áður flokkaður með þröstum en telst nú til grípa. Steindepillinn er varpfugl á Íslandi. Hann er einnig þekktur sem Steinklappa og er það tilvísun í hljóðið sem hann gefur frá sér; líkt og steinum sé barið saman. Steindepillinn tekur breytingum eftir árstíðum. Í sumarbúningi er karlfuglinn blágrár á kolli, hnakka og baki, svartur frá nefi og aftur um augu og niður, á vængjum, og aftast á stéli (eins og T á hvolfi), mógulur á bringu og kverk, en fölari að neðanverðu. Rák ofan við augu er hvít og gumpur sömuleiðis. Kvenfuglinn er hins vegar móbrúnn á kolli, hnakka og baki. Augnrák sést varla og litur á vængjum er mósvartur, það er að segja mun ljósari en á karlfuglinum. Kverk og bringa eru mó- eða fölgul, kviður ljósastur. Nef beggja kynja er svart, og einnig fætur og augu. Á haustin er karlfuglinn gulbrúnni allur, og þar af leiðandi ekki ósvipaður kvenfuglinum. Og eins geta karlfuglar í fyrsta sumarbúningi líkst kvenfuglum. Honum er lýst sem skjótum á fæti, flugið lágt, tyllir sér oft og hossar sér þá með rykkjum og bukki, og þenur út stélfjaðrir um leið. Farflug steindepils er lengsta farflug sem menn þekkja hjá spörfugli. Fuglinn flýgur allt að 30 þúsund kílómetra til og frá varpstöðvunum á norðurslóðum til vetursetu sunnan Sahara í Afríku. Eiríkur á Brúnum. Eiríkur Ólafsson (oftast nefndur Eiríkur á Brúnum) (19. nóvember 1823 – 14. október 1900) var íslenskur bóndi og mormóni. Hann er frægastur fyrir ferðasögur sínar og sagnaþætti sem út komu í einni bók um miðja 20. öld. Eiríkur var fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í skáldsögu hans "Paradísarheimt". Eiríkur bjó að Brúnum undir Eyjafjöllum í 23 ár. Á síðustu búskaparárum sínum, árið 1876, tók hann sér ferð á hendur til Kaupmannahafnar til að skoða sig um og ef til vill jafnframt til að hitta góðhest sem Valdimar prins hafði fengið hjá honum þegar hann var hér á ferð í fylgd með konunginum föður sínum tveimur árum áður. Eiríkur fluttist að Ártúnum í Mosfellssveit árið 1887. Þar tók hann mormónatrú og fór til Utah í Bandaríkjunum árið 1881 og var þar í 8 ár. Var hann þá einu sinni sendur hingað heim til trúboðs og var þá illa tekið. Eiríkur sagði skilið við mormónatrú árið 1889 og fluttist þá heim til Íslands og lést í Reykjavík árið 1900. Eiríkur, Þórbergur og Laxness. Þórbergur Þórðarson varð einna fyrstur til að minnast á sögu Eiríks á prenti í bók sinni "Ofvitanum" sem kom ut á árunum 1940-1941. Þórbergur segir sögu hans í kaflanum "Bófell aldanna" vegna þess að Eiríkur hafði einu sinni verið íbúi í Bergshúsi. Árið 1946 kom svo út rit Eiríks á einni bók á vegum Ísafoldarprentsmiðju. Vakti sú útgáfa mikla athygli. Eiríkur varð síðar fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í skáldsögu hans "Paradísarheimt" sem kom út 1960. Sandölduorrustan. Sandölduorrustan var orrusta milli Spánar og Frakklands, Hollands og Englands sem átti sér stað 14. júní nærri Dunkerque. Báðir herirnir voru undir stjórn frægra franskra herforingja, sá spænski undir Loðvík 2. Condé og sá franski/enski/hollenski undir stjórn Turennes. Orrustan var hluti af Frönsku borgarastyrjöldinni ("Fronde") og Stríði Englands og Spánar 1654-1660. Herdeildir úr New Model Army vöktu athygli í orrustunni fyrir einstaka þrautseigju þar sem þær börðust með her Turennes. Útlægir enskir konungssinnar börðust hins vegar með spænska hernum. Meðal þeirra var Jakob Stúart sem síðar varð Jakob 2. Englandskonungur. Orrustunni lauk eftir tveggja stunda bardaga með sigri Frakka. Spænsku herirnir misstu um 6000 menn en þeir frönsku aðeins 400. Eftir orrustuna fékk Enska samveldið yfirráð yfir Dunkerque samkvæmt samkomulagi sem þeir höfðu gert við Mazarin kardinála. Sagt var að þennan dag hefði borgin verið spænsk að morgni, frönsk á hádegi og ensk að kvöldi. Richelieu kardináli. Armand Jean du Plessis de Richelieu, kardináli-hertogi af Richelieu (9. september 1585 – 4. desember 1642) var franskur stjórnmálamaður frá París og einn valdamesti maður Frakklands í valdatíð Loðvíks 13.. Meginþættir stefnu hans voru aukin miðstýring í Frakklandi með því að brjóta á bak aftur andstöðu við konungsvaldið og kaþólsku kirkjuna frá húgenottum og franska aðlinum, og eins andstaða við veldi Habsborgara í Evrópu. Stjórnmálaferill. Hann var skipaður biskup af Luçon árið 1607 samkvæmt tillögu Hinriks 4. 1614 var hann kjörinn fulltrúi kirkjunnar fyrir héraðið Poitou á síðasta franska stéttaþingið (fyrir tíma Frönsku byltingarinnar) árið 1614. Þar var hann áberandi talsmaður fyrir sérréttindum kirkjunnar. Skömmu síðar var hann tekinn í þjónustu Önnu frá Austurríki, eiginkonu Loðvíks 13. og varð handgenginn Concino Concini, ítölskum ráðgjafa konungsmóðurinnar Mariu de'Medici. 1616 var Richelieu skipaður ríkisritari konungs og gerður ábyrgur fyrir utanríkismálum. 1617 var hins vegar gerð hallarbylting undir forystu Charles de Luynes gegn Maríu og Concini með samþykki Loðvíks. Concini var dæmdur til dauða og María var hneppt í stofufangelsi. Við þetta missti Richelieu öll völd. 1618 sendi konungur hann í útlegð til Avignon. Þegar María reyndi að leiða uppreisn nokkurra aðalsmanna árið 1619 bað konungur Richelieu um að hafa milligöngu um friðarsamning á milli mæðginanna þar sem hann var talinn helsti trúnaðarmaður Maríu. Richelieu tókst vel upp og þegar de Luynes lést 1621 reis stjarna hans hratt. 1622 gerði Gregoríusi 15. páfi hann að kardinála samkvæmt tillögu konungs. Hann varð einn helsti ráðgjafi konungs í átökum hans við húgenotta 1622 og tók sæti í ríkisráði hans í apríl 1624. Þar blés hann til samsæris gegn forsætisráðherra konungs Charles de La Vieuville, sem var handtekinn fyrir spillingu sama ár. Richelieu tók síðan sæti hans. Fahrenheit. Fahrenheit er mælieining hita. Hún er nefnd eftir eðlisfræðingnum Daniel Gabriel Fahrenheit (1686–1736), sem setti hana fram árið 1724. Selsíuskvarðinn hefur leyst Fahrenheit af hólmi á flestum stöðum. Fahrenheit er þó enn notaður til daglegs brúks í Bandaríkjum Norður Ameríku og nokkrum öðrum löndum eins og Belize. Frostmark vatns er 32° í Fahrenheit (°F) en suða kemur upp við, miðað við staðalþrýsting. Almagestur. Almagestur (arabíska: الكتاب المجسطي, "al-kitabu-l-mijisti", íslenska: "Hin mikla bók") er íslensk útgáfa af latneskri útgáfu (almagest) af arabíska nafninu og er haft um helstu stjarnfræði- og landafræðirit Ptólemajosar, hins rómverska stærð-, landa- og stjörnufræðings. Orðið var líka haft um önnur safnrit af svipuðu tagi frá miðöldum. Peter Griffin. Peter Löwenbräu Griffin teiknimyndapersóna úr bandarísku teiknimyndaþáttunum Family Guy. Hann er írsk-amerískur (en fæddist í Mexíkó). Millinafnið Löwenbräu kom fram í þættinum Peter Peter Caviar Eater. Poitou. Poitou (í forníslensku: Peituland) var hérað í Vestur-Frakklandi sem náði yfir svæði sem í dag tilheyrir umdæmunum Vendée, Deux-Sèvres og Vienne. Höfuðstaður héraðsins var borgin Poitiers þar sem greifinn af Poitiers sat. Hluti héraðsins er núna hluti af héraðinu Poitou-Charentes. Luçon. Luçon er bær í Vendée-sýslu í Vestur-Frakklandi í héraðinu Pays de la Loire en tilheyrði áður héraðinu Bas-Poitou. Íbúar eru um 10.000. Í bænum eru dómkirkjan í Luçon og miðstöð biskupsdæmisins. Hann var því kallaður andleg höfuðborg Bas-Poitou. Polarkreis 18. Polarkreis 18 er þýsk hljómsveit frá Dresden. Hún gaf út tvær plötur: "Polarkreis 18" (árið 2007) og "The Colour Of Snow" (2008). Vinsælasta smáskifan í Þýskalandi var "Allein allein" af annarri plötunni. Mónaða. Mónaða (úr grísku μονάς monas: eining, eind; monos: einn) var, samkvæmt Pýþagórasi og fylgismönnum hans, hugtak sem táknaði guð eða hina fyrstu veru eða heild allra vera. Mónaðan var uppsprettan eða hinn Eini án rjúfanlegra einda. Mónöður Leibniz. Eitt þekktasta dæmi heimspekisögunnar um tilraun til þess að útskýra samsetningu veruleikans er svokölluð mónöðufræði þýska heimspekingsins Gottfrieds Wilhelms Leibniz. Samkvæmt þeim samanstendur veruleikinn af óefnislegum eindum — mónöðum — sem hvorki geta eyðst né virkað hver á aðra og hafa frá sköpun heimsins starfað saman í fyrirfram stilltri samhljóðan. Með öðrum orðum þá byggist mónaða Leibniz á því að alheimurinn sé samræmd heild, gerð úr óbreytanlegum grunneiningum. Þær eru í senn andlegar og efnislegar og spegla alheiminn hver á sinn hátt. Ísis. Veggmálverk af Ísisi frá 14. öld f.Kr. Ísis (fornegypska: 3st, "Aset"; forngríska: Ίσις, "Isis") er egypsk frjósemis- og móðurgyðja, systir og kona Ósírisar og móðir Hórusar. Hún er sýnd sem kona með tákn hásætis á höfði. Hún er verndari manna og oft sýnd með barnungan Hórus á handleggnum. Ísis tók yfir nokkur af hlutverkum kýrgyðjunnar Haþor og er þannig stundum sýnd með horn á höfði líkt og Haþor. Dýrkun Ísisar, sem var tilbeðin mjög víða í Rómaveldi, er talin undanfari dýrkunar Maríu meyjar í kristni. Maístöng. Maístöng er gamalt frjósemistákn sem sumar þjóðir, aðallega Svíar, reisa á miðsumri. Maístöngin tengist orðinu maí sem merkir vorlauf, en með þeim skreyttu menn heimili sín hér áður fyrr. Miðsumarshátíð Svía ("Midsommar") halda þeir á föstudegi eða laugardegi á tímabilinu 20-26 júní, og halda þá maígleði. Talið er að ástæða þess að hátíðin var ekki haldin í maí í Svíþjóð sé sú að þá fundu menn ekki þau lauf sem menn notuðu á meginlandi Evrópu við gerð maístangarinnar. Maístöngin í Svíþjóð er skreytt beykilaufi, blómum og marglitum borðum. Þingflokkur framsóknarmanna. Þingflokkur Framsóknarflokksins kýs sér þriggja manna stjórn í upphafi hvers þings, formann og tvo meðstjórnendur, til eins árs í senn. Alþingiskosningarnar árið 2007. Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku þann 11. nóvember 2008. Helga Sigrún Harðardóttir, annar varaþingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, tók sæti hans. Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku þann 17. nóvember 2008. Eygló Harðardóttir, fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, tók sæti hans. Alþingiskosningarnar árið 2009. Ásmundur Einar Daðason gekk til liðs við þingflokkinn þann 1. júní 2011. Fangavaktin. Fangavaktin er sjónvarpsþáttaröð sem var frumsýnd 27. september 2009 og er þriðji hluti Vakta-seríunnar (þar sem fyrsti og annar hlutinn voru Næturvaktin og Dagvaktin). Fangavaktin fjallar um þá Georg Bjarnfreðarson, Ólaf Ragnar Hannesson og Daníel Sævarsson og ævintýri þeirra. Þáttaröðin er sýnd á Stöð 2. Meðal aukaleikara í Fangavaktinni eru Björn Thors, Ólafur Darri Ólafsson, Ingvar E. Sigurðsson og Sigurður Hjaltason. Þættirnir voru að hluta til teknir upp í fangelsinu Litla hrauni. Bjarnfreðarson. "Bjarnfreðarson" er íslensk kvikmynd sem var frumsýnd 26. desember 2009. Tökur hófust í júní 2009 og þeim lauk í ágúst sama ár. "Bjarnfreðarson" er framhald Vaktaseríanna ("Næturvaktin", "Dagvaktin" og "Fangavaktin") og er lokakaflinn í sögu Georgs Bjarnfreðarsonar, Ólafs Ragnars Hannessonar og Daníels Sævarssonar. Unuhús. Unuhús er hús að Garðastræti 15 í Grjótaþorpinu, Vesturbænum, Reykjavík. Húsið var þekkt sem miðpunktur menningar í upphafi 20. aldar. Fastagestir Unuhúss voru til dæmis Stefán frá Hvítadal, Steinn Steinarr, Halldór Laxness, Nína Tryggvadóttir og Þórbergur Þórðarson, en hinn síðastnefndi skrifaði bók sem nefndist: "Í Unuhúsi" eftir frásögn Stefáns frá Hvítadal. Húsið er nefnt eftir "Unu Gísladóttir" sem uppi var á árunum 1855 til 1924. Hún hafði kostgangara og leigði út herbergi í húsinu. Fæðið var ódýrara hjá henni en annars staðar í Reykjavík og húsnæðið sömuleiðis. Af þeim sökum dróst fólk að henni sem lítil auraráð hafði og átti hvergi höfði sínu að að halla. Una þessi var móðir Erlendar í Unuhúsi, en sökum áhuga hans á menningu og listum, og vegna lágrar verðlagningar móður hans, varð Unuhús aðsetur ungra skálda og listamanna auk margra annarra. Garðablágresi. Garðablágresi (fræðiheiti "Geranium pratense") er jurt af blágresisætt. Jurtin verður 0,7-1,2 m há og blómgast í júlí. Blómin eru stór í þéttum blómskipunum. Blöðin skiptast í 7-9 blaðhluta. Roald Dahl. Roald Dahl (fæddur 13. september 1916, dáinn 23. nóvember 1990) var breskur rithöfundur. Hann fæddist í Wales en átti norska foreldra. Hann skrifaði margar vinsælar barnabækur og smásögur. Dahl, Roald Sven Nordqvist. Sven Nordqvist (f. 30. apríl 1946 í Helsingborg), er sænskur barnabókahöfundur, teiknari og myndskreytari. Hann er þekktastur fyrir að hafa skrifað bækurnar um "Pétur og köttinn Brand" ("Pettson och Findus") Nordqvist, Sven Samlitningur. Samlitningur eða líkamslitningur (einnig A-litningur og sjaldan líkfrumulitningur) kallast þeir litningar sem eru ekki kynlitningar. Í mönnum fyrirfinnast almennt 44 samlitningar (22 samlitningapör), þar sem 23. litningaparið samanstendur af X- og Y-litningunum (kynlitningunum). Það eru jafn margir samlitningar í konum og körlum. Bandamanna saga. Bandamanna saga er eina Íslendingasagan sem gerist að öllu leyti eftir söguöld, nánar tiltekið skömmu eftir 1050. Hún gerist að mestu í Miðfirði í Húnaþingi og á alþingi á Þingvöllum. Hún er vel sögð og í gamansömum tón, og um leið hörð gagnrýni á höfðingjastéttina. Náin tengsl virðast vera milli Bandamanna sögu og Ölkofra þáttar. Um söguna. Sagan segir frá feðgunum Ófeigi Skíðasyni á Reykjum í Miðfirði og Oddi syni hans. Þeir eiga ekki skap saman og fer Oddur ungur að heiman og gerist sjómaður og fer síðan að fást við verslun. Hann auðgast fljótt, kaupir skip og fer í verslunarferðir til Noregs. Eftir nokkur ár er hann orðinn vel efnaður og kaupir jörðina Mel í Miðfirði (Melstað), sem er beint á móti Reykjum, kaupir goðorð og gerist sveitarhöfðingi. Hann lendir brátt í málaferlum og kemur þá í ljós að hann kann lítið fyrir sér á því sviði. Þegar hann er kominn í ógöngur, birtist faðir hans og fær snúið dómnum með lagaþekkingu og fégjöfum. Þeir sem í hlut áttu una illa við sinn hlut og mynda bandalag 8 höfðingja um að fá Odd dæmdan fyrir formgalla og fyrir að múta dómsmönnum. Hyggjast þeir gera eignir Odds upptækar, enda eftir miklu að slægjast. Þegar allt virðist komið í óefni fyrir Oddi á alþingi, grípur faðir hans aftur til sinna ráða, nær með klókindum að rjúfa samstöðu bandamanna og er Oddur dæmdur í óverulegar sektir. Sögunni lýkur með því að Oddur sættist við föður sinn og giftist dóttur eins af bandamönnum. Sagan er varðveitt í tveimur gerðum. Lengri gerðin er í Möðruvallabók (M), frá síðari hluta 14. aldar. Styttri gerðin er í Konungsbók (K) (GKS 2845 4to), sem er frá 15. öld. Þessar tvær gerðir eru ólíkar um margt, þó að allur þorri efnisins sé hinn sami. Munurinn liggur m.a. í stílnum, M er margorðari (um 20% lengri en K) og „stíllinn flýtur þar í breiðara farvegi“. Mjög skiptar skoðanir hafa verið meðal fræðimanna um hvor gerðin sé upphaflegri og hvert samband þeirra sé. Norski fræðimaðurinn Hallvard Magerøy hefur í seinni tíð manna mest rannsakað söguna, og samdi hann doktorsritgerð um hana. Niðurstaða hans var að báðar gerðir sögunnar ættu sameiginlegan ritaðan uppruna og að lengri gerðin væri eldri og ætti að vera aðaltexti í útgáfu. Björn M. Ólsen segir um söguna: „Hvernig sem á Bandamanna sögu er litið, verður að telja hana með hinum merkustu Íslendinga sögum. Hún er sannkallaður gimsteinn í bókmenntum vorum.“ Hallvard Magerøy. Hallvard Magerøy (15. janúar 1916 – 15. nóvember 1994) var norskur textafræðingur, og prófessor í íslensku við Háskólann í Osló. Hann er meðal annars þekktur fyrir rannsóknir sínar á Bandamanna sögu. Æviágrip. Foreldrar: Nils Magerøy (1883–1961) kennari og Sofia Apeland (1892–1922). Hallvard Magerøy fæddist í Borgundi við Álasund í Vestur-Noregi. Hann varð stúdent í Volda 1936, cand. phil. í norrænum fræðum frá Háskólanum í Osló 1946, með latínu og sögu sem aukagreinar. Næstu þrjú árin var hann á rannsóknarstyrk og var þá um tíma í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Hann var lektor í norsku við Háskóla Íslands 1949–1952, síðan styrkþegi hjá norska rannsóknaráðinu til 1956 þegar hann vann að doktorsritgerð sinni og lauk doktorsprófi 1958 með riti sínu "Studiar i Bandamanna saga". Hann vann svo við útgáfu Norska fornbréfasafnsins til 1962, varð þá dósent í norrænum fræðum við Óslóarháskóla og loks prófessor í íslensku þar 1974, uns hann fór á eftirlaun í árslok 1983. Hallvarður gaf út og þýddi íslensk fornrit og ritaði margt um þau efni og menningarleg samskipti Íslands og Noregs. Auk Bandamanna sögu fjallaði hann sérstaklega um Ljósvetninga sögu og Böglunga sögur, en allar þessar sögur eru til í fleiri en einni gerð. Niðurstaða hans um Bandamanna sögu var að báðar gerðir sögunnar ættu sameiginlegan ritaðan uppruna og að lengri gerðin væri eldri og ætti að vera aðaltexti í útgáfu. Ekki voru allir fræðimenn sáttir við þetta, því að styttri gerðin var af þungavigtarmönnum talin upprunalegri. Hallvarður svaraði gagnrýni þeirra í tímaritsgrein 1966 og eru viðhorf hans til sögunnar nú viðurkennd af flestum. Eftir 1970 vann hann með Finn Hødnebø að nýrri útgáfu konungasagna sem kom út 1979 í tilefni af 800 ára afmæli Snorra Sturlusonar. Hóf hann þá rannsóknir á Böglunga sögum og gaf þær út í fræðilegri útgáfu 1988. Hallvarður aðylltist „íslenska skólann“ eða bókfestukenninguna í fornsagnarannsóknum, þ.e. að Íslendingasögurnar séu verk menntaðra rithöfunda, sem styðjast við munnmæli, ýmis rit og eigið ímyndunarafl. Hann var ágætur latínumaður og nýtti sér það í rannsóknum sínum. Flestar ritsmíðar Hallvarðs eru á nýnorsku. Hallvarður fékk ungur áhuga á Íslandi og íslenskum fræðum. Hann kom fyrst til Íslands árið 1947, fór þá á Snorrahátíðina í Reykholti og dvaldist á Hólum í Hjaltadal, þar sem hann æfði sig í íslensku. Árið 1949 kom hann hingað með konu sinni og var sendikennari í norsku við Háskóla Íslands í þrjú ár. Þau hjónin héldu síðan tengslum við landið og komu hér oft, enda tengdist það starfi þeirra beggja. Árið 1974 hafði Hallvarður forgöngu um það að Norðmenn gáfu Árnastofnun á Íslandi veglega bókagjöf, í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Ludvig Holm-Olsen átti þar einnig hlut að máli. Hallvarður arfleiddi Háskólann í Volda (Høgskulen i Volda) að bókasafni sínu, og bréfum frá Helga Valtýssyni rithöfundi, en þeir skrifuðust á um árabil. Hallvarður birti grein um Helga í tímaritinu "Syn og segn" 1963. Í tilefni af 75 ára afmæli Hallvarðs, 15. janúar 1991, var gefið út heiðursrit: "Norroena et Islandica", með úrvali greina eftir hann. Þar er einnig ritaskrá Hallvarðs. Hallvarður var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1983. Hallvarður giftist 1949, kona hans var Ellen Marie Magerøy (1918–2009) listfræðingur, fædd Olsen. Þau eignuðust þrjú börn: Nils Are, Jostein og Ingeborg. Eykt. Eykt er heiti á tímalengd, sem er einn áttundi hluti sólarhringsins eða því sem næst þrjár klukkustundir hver. Eyktamörk eru þegar ein eykt endar og sú næsta byrjar. Eyktamörkin gengu undir ákveðnum heitum og voru helstu tímaviðmiðanir í daglegu tali. Þau hétu: miðnætti (kl. 24=0), ótta (kl. 3), miður morgunn eða rismál (kl. 6), dagmál (kl. 9), hádegi (kl. 12), nón (kl. 15), miður aftann (eða miðaftann) (kl. 18) og náttmál (kl. 21). Einnig var orðið eyktamark haft um viðmiðunarstaði, svo sem fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt. Huang Xianfan. Huang Xianfan (skrifað með hefðbundnum kínverskum táknum: 黃現璠, með einfölduðum táknum: 黄现璠, umskrifað með pinyin: Huáng Xiànfán, umskrifað með aðferð Wade-Giles: Huang Hsien-fan) (f. 13. nóvember 1899, d. 18. janúar 1982) var kínverskur sagnfræðingur, þjóðfræðingur, málvísindamaður og alþýðufræðimaður. Hann var einnig upphafsmaður þeirra háskólann í Lijian,og stofnanda Skóli i Bagui. Huang er almennt talinn meðal helstu brautryðjenda í kínverskur mannfræði á 20. öld. Æviágrip. Huang fæddist í Fusui í Guangxi-héraði. Hann varð stúdent frá menntaskóla árið 1922. Huang hóf nám í málvísindi 1923, en brátt kom í ljós að hann hafði meiri áhuga á sagnfræði, og þá einkum sögu Kína.Á námsárunum hafði hann einsett sér að verða sagnfræðingur. Þá nam hann kínverskur sagnfræðisagnfræði og mannfræði við Kennara háskólann í Beijing, og brautskráðist þaðan með gráðu í fornaldarsögu og mannfræði árið 1935. Hann hélt þá til Japans þar sem hann stundaði framhaldsnám við háskólann i Tókýó, og brautskráðist þaðan lokið meistaraprófi í kínverskur fornaldarsögu árið 1937. Eftir að Huang kom aftur heim, árið 1938 varð hann lektor Háskólann í Guangxi. Hann var vinsæll fyrirlesari, bæði í Háskólanum og utan hans. 1940, fékk hann stöðu sem dósent við Háskólann í Guangxi og árið 1941 var Huang skipaður prófessor í sagnfræði við Háskólann. Hann var prófessor í sagnfræði við Kennara háskólann í Guangxi 1953-1982. Árið 1954 var Huang kosinn á þing. Huang sérhæfir sig í sögu Kína hins forna, bæði stjórnmálasögu og þjóðernisminnihlutisögu. Hann skrifaði einnig fjölda blaða- og tímaritagreina um íslensk málefni, sagnfræði, þjóðfræði og fleira. Frægustu rit hans eru Kínverskur Sagnfræði, Sagnfræði i Zhuang(kínverskur þjóðernisminnihluti). Skrifum hans má skipta í þrjú tímabil. Huang er almennt talinn meðal helstu brautryðjenda í kínverskur þjóðfræði og stofnanda zhuangskum fræðum(enska:Zhuang studies).Hann varð einhver mesti fræðimaður i kínverskur þjóðernisminnihluti á 20. öld. Áttflötungur. Áttflötungur er margflötungur með átta flötum. Allir fletir reglulegs áttflötungs eru þríhyrningslaga, þar sem þríhyrningarnir eru jafnhliða og eins. Plötusnúður. Plötusnúður er sá kallaður sem tekur að sér að leika tónlist af plötum fyrir áheyrendur, oftast dansandi áhorfendur á skemmtistöðum. Fyrstu plötusnúðar á Íslandi störfuðu í Tónabæ og með þeim allra fyrstu var Pétur Steingrímsson. Fyrsti íslenski kvenplötusnúðurinn var Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, síðar alþingismaður. Hún var plötusnúður í Glaumbæ. Lirfa. Lirfa (eða dólpungur) er eitt þróunarstig skordýra sem hefur gengið í gegnum fyrstu myndbreytingu. Lirfur líta stundum allt öðruvísi út en skordýrið sjálft, t.d. er tólffótungurinn mjög ólíkur fiðrildinu sjálfu. Gangur tólffótungsins nefnist "kryppugangur", en lirfan hefur þrjú fótapör á fremstu liðunum en tvö pör af gangvörtum á aftasta lið og færir sig úr stað með kryppugangi ("fetar sig áfram"). Lirfur eru oft mikill skaðvaldur á trjám og gróðri. Nöfn hinna ýmsu lirfa. Lirfa brunnklukkunnar nefnist vatnsköttur, lirfa mýflugunnar nefnist híðormur og lirfa maðkaflugunnar nefnist maðkur. Kálormur (einnig nefndur bröndungur) er fiðrildislirfa, meindýr í káli, og haft um ýmsar tegundir getur verið að ræða. Ellen Marie Magerøy. Ellen Marie Magerøy – áður Ellen Marie Olsen – (4. febrúar 1918 – 11. desember 2009) var norskur listfræðingur, lengi fyrsti safnvörður við embætti Þjóðminjavarðar í Osló. Hún var einkum þekkt fyrir rannsóknir sínar á íslenskum útskurði og íslenskum drykkjarhornum frá fyrri öldum, en fékkst einnig við norska skurðlist og listasögu. Æviágrip. Foreldrar: Johannes Hartvig Olsen (1885–1928) teiknari og Ingeborg Marie Gudbrandsen (1882–1930). Ellen Marie fæddist í Osló og ólst þar upp – að hluta hjá tveimur frænkum sínum. Hún varð stúdent 1938, fór svo í Háskólann og lærði listasögu. Á árunum 1945–1947 dvaldist hún við nám og rannsóknir í París, og fór þá einnig til Englands, Hollands og Belgíu. Afrakstur af þeirri vinnu var bók hennar um "Hollensk innimálverk frá 17. öld", sem var unnin upp úr meistararitgerð hennar í listasögu við Háskólann í Osló 1949. Árið 1949 kom Ellen Marie hingað til lands með eiginmanni sínum sem varð sendikennari í norsku við Háskóla Íslands. Þau dvöldust hér í þrjú ár, til 1952, og kynntust hér fjölda manns. Þá fékk Ellen Marie áhuga á útskurði í íslenskum söfnum, einkum Þjóðminjasafni Íslands. Snerist drjúgur hluti af rannsóknum hennar um það efni. Árið 1969 varði hún doktorsritgerð við Háskólann í Osló um jurtaskreytið í íslenskum tréskurði frá fyrri öldum (prentuð 1967). Hún samdi einnig ítarlegt rit um íslensk drykkjarhorn (2000) og fjölda greina um svipuð efni, sbr. ritaskrá. Eftir að Ellen Marie hafði lokið doktorsritgerð sinni hóf hún störf hjá embætti þjóðminjavarðar (Riksantikvaren) við Akershúsvirki í Osló, og starfaði þar í um 20 ár, lengst af sem fyrsti safnvörður. Ellen Marie hélt nánum tengslum við Ísland og kom hér oft. Hún fékk margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín, m.a. riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu, 2005. Ellen Marie giftist 1949 Hallvard Magerøy, síðar prófessor í íslensku við Háskólann í Osló. Þau eignuðust þrjú börn: Nils Are, Jostein og Ingeborg. Tækniháskóli Darmstadt. Tækniháskólinn í Darmstadt ("Technische Universität Darmstadt", "TU Darmstadt") er eini tækniháskólinnn í Hessen. Hann er einn af stærstu tækniháskólunum í Þýskalandi og telst til virtustu háskóla Þýskalands. TU Darmstadt var stofnaður 1877 fyrir Ludwig IV, hertoga í Hessen. Darmstadt Chemnitz. Chemnitz (sorbíska: "Kamjenica", 1953–1990: "Karl-Marx-Stadt") er þriðja stærsta borg Saxlands, á eftir Leipzig og Dresden. Hún er staðsett við rætur Erzfjallanna og tekur nafn sitt af ánni Chemnitz sem rennur í gegn um hana. Nafnið er komið úr sorbísku og mun þýða "Steiná". Chemnitz er getið í saxlenskum skjölum allt frá árinu 1143, en þar var þá Benediktínaklaustur og þróaðist byggð þar í kring fram eftir öldum. Á tímum iðnbyltingarinnar óx Chemnitz mjög ásmegin og varð meðal mikilvægustu iðnaðarborga Þýskalands. Hún var því stundum uppnefnd "Saxlenska Manchester". Í dag myndar Chemnitz ásamt Zwickau einn af þremur máttarstólpum "Saxlenska þríhyrningsins", en svo nefnist svæðið sem afmarkast af Chemnitz-Zwickau, Leipzig-Halle og Dresden og í búa um þrjár og hálf milljón manna. Tækniháskólinn í Chemnitz er þriðji stærsti háskóli Saxlands með um 10.000 stúdenta. Þjóðhagsstofnun. Þjóðhagsstofnun var ríkisstofnun sem var komið á fót árið 1974 og kom í stað hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og tók við öllum verkefnum hennar. Hún heyrði undir forsætisráðherra og „átti að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum“. Meðal verkefna hennar var að færa þjóðhagsreikninga, semja þjóðhagsspár og áætlanir og semja yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskapsins og horfur í þeim efnum. Hún spáði því m.a. fyrir um hagvöxt og verðbólgu, gerði úttekt á stöðu atvinnuveganna o.s.frv. Annaðist auk þess hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórnina og lét alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál og einnig aðilum vinnumarkaðarins eftir því sem um samdist. Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002 í stjórnartíð Davíðs Oddsonar, sem þá var forsætisráðherra. Þjóðhagsstofnun lögð niður. Árið 1988, þegar Þorsteinn Pálsson var forsætisráðherra, voru uppi hugmyndir um að leggja Þjóðhagsstofnun niður og láta Hagstofuna sjá um þann hluta starfseminnar sem sneri að upplýsingasöfnun. Þetta kom til eftir að Þorsteinn varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með Þórð Friðjónsson, forstjóra stonunarinnar. Mikill atgervisflótti hafði verið úr stofnunni, að sögn vegna óánægju með Þórð, en nýtt fólk hafði komið í staðinn en deildar meiningar voru um hæfni þess, helst vegna ónógrar þjálfunar. Auk þess var uppi orðrómur um það úr öðrum áttum að menn vissu aldrei hvort spár stofnunarinnar væru hlutlausar eða háðar vilja ríkisstjórnarinnar. Sagt var að þetta hafði drepið mikilvægi stofnunarinnar á dreif. Hugmyndin um að leggja niður Þjóðhagsstofnun eða sameina hana Hagstofunni voru þó ekki nýjar af nálinni. Sama ár var unnið að úttekt á stöðu atvinnu- og efnahagsmálum í Byggðastofnun, Þjóðhagsstofnun og í Seðlabankanum til handa forsætisráðherra vegna efnahagsástandsins, og Þorsteinn Pálsson sagði í vitali við Alþýðublaðið að... Davíð Oddson var strax þeirrar skoðunar í kringum aldamótin 2000 að hagfræðingar Þjóðhagsstofnunar gengu of langt í svartsýni í spám sínum. Árið 2001 hélt hann því fram að stofnunin áttaði sig ekki á því að verðbólguspár hennar væru ekki nákvæmnisvísindi, eins og hann orðaði það, en var þeim sammála að öðru leyti. Í apríl árið 2002 lagði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fram frumvarp um að Þjóðhagsstofnun skyldi lögð niður. Við umræður frumvarpsins sagði Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, að frumvarpið væri ekkert annað en hrein hefndaraðgerð vegna þess að Davíð Oddssyni hefði ekki hugnast þær spár sem Þjóðhagsstofnun hafði lagt fram, hefndaraðgerð sem kosta myndi íslenska ríkið á bilinu 50 til 100 miljónir króna. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri græna, sagði að engin efnahagsleg rök mæltu með frumvarpinu og Sverrir Hermannsson, þáverandi formaður Frjálslynda flokksins, sagði m.a. að með því að færa verkefni Þjóðhagsstofnunar til fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands væri greinilega verið að færa þau nær valdhöfunum; ríkisvaldinu sjálfu. Í sama mánuði skrifaði Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun, grein í Morgunblaðið og sagði að ef „stofnunin verði lögð niður verður ekki til sjálfstæð stofnun sem fjallar um efnahagsmál. Samkvæmt frumvarpi því sem lagt hefur verið fram í ríkisstjórn verður gerð efnahagsspáa færð til fjármálaráðuneytis og gæti því ekki talist óháð.“ Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, sagði við umræður frumvarpsins að menn teldu sig ekki aðeins sjá „langtímasparnað, ekki bara hagræðingu til lengri tíma, heldur einnig betri nýtingu á starfsfólki, mannafla og öðru sem þarna tilheyrir og bætta verkaskiptingu. Það hefur t.d. alltaf verið mikið álitaefni hvort gerð þjóðhagsreikninganna ætti að vera hjá þessari stofnun eða hvort hún ætti að vera á Hagstofunni.“ Frumvarpið var samþykkt þann 29. apríl árið 2002. 33 þingmenn sögðu já, 22 nei, 8 voru fjarstaddir. Peder Severin Krøyer. Peder Severin Krøyer 23. júlí 1851 – 21. nóvember 1909 var danskur listmálari og myndhöggvari. Hann er þekktur sem forsprakki málara sem kenndir eru við Skagen en þangað fór hann á hverju sumri. Þessi hópur er þekktur sem Skagamálararnir. Tenglar. Krøyer, Peder Severin Michael Ancher. "Den syge pige"Málað af Michael Ancher "Skagbo"Teiknað af Michael Ancher 1884 Michael Ancher var (9. júní 1849 – 19. september 1927) danskur listmálari. Hann var ásamt konu sinni Anna Ancher einn af Skagamálurunum. Á danska þúsundkrónaseðlinum er mynd af þeim hjónum. Tenglar. Ancher, Michael Skagamálarar. Skagamálarar, einnig nefndir Skagenmálarar, var heiti yfir norræna listamannanýlendu á Skagen í Danmörku en listamennirnir settust þar að til að að mála í þeirri sérstöku birtu sem sögð var þar. Meðal Skagamálaranna voru P.S. Krøyer, Christian Krohg og hjónin Michael Ancher og Anna Ancher. Christian Krohg. Christian Krohg (13. ágúst 1852 – 16. október 1925) var norskur listmálari, rithöfundur og blaðamaður og einn af Skagamálurunum. Tenglar. Krohg, Christian Ekta grískt brúðkaup. Ekta grískt brúðkaup (enska: "My Big Fat Greek Wedding") er bandarísk gamanmynd sem er skrifuð af Niu Vardalos og leikstýrt af Joel Zwick. Myndin var fimmta tekjuhæsta kvikmyndin árið 2002 í Bandaríkjunum, með 241.438.208 dollara gróða, og tekjuhæsta rómantíska-gamanmyndin í sögunni. Hún er líka tekjuhæsta myndin sem hefur aldrei verið á toppi vinsældalistanna. Á 76. Óskarsverðlaunahátíðinni var hún tilnefnd fyrir besta handritið. Söguþráður. Myndin fjallar um Fotulu „Toulu“ Portokalos, grísk-ameríska konu (Nia Vardalos, sem einnig skrifaði handritið), sem verður ástfangin af sögukennaranum Ian Miller (John Corbett). Myndin sýnir einnig baráttu hennar við fjölskyldu sína, sem er mjög stolt af menningu sinni, siðum og gildum og vill halda þeim í fjölskyldunni og stundum er sambandið erfitt en það endar allt vel. Toula er að ganga í gegnum snemmbúna miðaldra-tilvistarkreppu. Þegar hún er þrítug, er hún eina konan í fjölskyldunni sinni sem hefur „fallið“ í grískum siðum (fjölskyldan hennar ætlast til þess að hún giftist Grikkja, eignist grísk börn og gefi öllum að borða þangað til þau deyja). Í staðinn er Toula föst í því að reka fjölskyldufyrirtækið, veitingastaðinn „Dancing Zorba's“. Miðað við systur sína, Athenu (Stavroula Logothetis), er Toula uppstökk, bitur manneskja sem getur varla látið minnstu drauma sína og þrár rætast. Toula, sem er nú þrítug, óttast að líf hennar verði svona til frambúðar. Á veitingastaðnum, rekst hún á Ian Miller (John Corbett), kennara (persónan deilir fyrsta nafni með jafn-grískum eiginmanni í Vardalos fjölskyldunni, Ian Gomez, sem leikur aukahlutverk í myndinni). Með hjálp móður sinnar Mariu (Lainie Kazan), talar hún föður sinn „Gus“ (Michael Constantine) á það að hún fari í háskólann og taki námskeið í tölvum og segir hún að það geti hjálpað til við viðskiptin á veitingastaðnum. Þar sem henni er meira annt um útlit sitt nú en áður fyrr, skiptir hún út ljótu gleraugunum sínum fyrir linsur og byrjar að farða sig og klæðast aðlaðandi kjólum. Tilkynningataflan í skólanum kynnir námskeið fyrir tölvur á ferðaskrifstofum. Frænka Toulu, Volua, rekur ferðaskrifstofu og ákveður Toula að skipta um starf og fer að vinna hjá frænku sinni. Með hjálp móður sinnar og frænku tekst þeim að telja föður Toulu (með því að láta hann halda að hann eigi hugmyndina) á að hún fari að vinna á ferðaskrifstofunni svo að Voula geti verið meira með eiginmanninum sínum sem rekur fatahreinsun. Toulu líður mun betur í nýju vinnunni, sérstaklega þegar hún sér að Ian er fyrir utan og er að horfa á hana í gegnum gluggann. Þau kynna sig loksins fyrir hvort öðru og fara á stefnumót. Ian fattar ekki strax að Toula er uppstöka gengilbeinan frá Zorba's en þegar hann kemst að því segir hann Toula að hann vilji verja meiri tíma með henni. Hún heldur sambandinu leyndu fyrir fjölskyldunni þar til nokkrum vikum seinna þegar Gus (faðir hennar) kemst að því. Gus verður fúll út í Toulu því að Ian er ekki grískur. Ian biður um leyfi til þess að fá að halda áfram að hitta Toulu. Gus neitar, en Toula og Ian halda samt áfram að hittast. Ian biður Toulu og hún játast honum og neyðist Gus til þess að samþykkja samband þeirra. Ian samþykkir strax að vígjast inn í grísku rétttrúnaðarkirkjuna til þess að vera nógu góður fyrir Toulu og er skírður á hefðbundinn hátt. Í páskaveislufjölskyldunnar segist hann vera grænmetisæta — sem veldur fjölskyldunni miklum áhyggjum — og hann á erfitt með að bera fram grísk orð. Árið heldur áfram að líða og brúðkaupsplönin fara í rúst þegar ættingjar Toulu fara að „hjálpa“ henni; faðir hennar krefst þess að allir í kirkjunni komi í athöfnina, móðir hennar pantar boðskortin en stafar nöfn foreldra Ians vitlaust og frænka Toulu, Nikki, pantar brúðarmeyjarkjólana. Toula verður mjög hrædd þegar hún kemst að því að foreldrar hennar hafa boðið allri fjölskyldinni í það sem átti að vera þægilegur og lítill kvöldverður með Miller-hjónunum, sem eru óvön svona mikilli samheldni í fjölskyldunni. Brúðkaupsdagurinn rennur upp með vandræðum og hamagangi en brúðkaupið sjálft gengur hnökralaust fyrir sig. Allir fara í veisluna og Miller hjónin (uppfull af glösum af ouzo) byrja að una sér vel í gríska partýstílnum. Gus heldur ræðu og býður Ian og foreldra hans velkomin í fjölskylduna. Gus og Maria hafa keypt gjöf handa ungu hjónunum: hús við hliðina á þeirra húsi. Lokaatriði myndarinnar sýnir lífið hjá þeim nokkrum árum seinna þegar þau eiga dóttur sem þau ala upp að grískum sið. Kýros mikli. Kýros mikli, einnig þekktur sem Kýros eldri, (um 600 f.Kr. eða 576 f.Kr. – 530 f.Kr.) var fyrsti konungur Persaveldis og stofnandi þess. Hann var sonur Kambýsesar 1. af akkæmenísku ættinni. Kýros ríkti í 29 eða 30 ár. Á valdatíma hans lagði Persaveldi undir sig nær allar þjóðir í Miðausturlöndum, mikið af Suðvestur-Asíu og Mið-Asíu, frá Egyptalandi og Hellusundi í vestri til Indus-fljóts í austri. Veldi hans var stærsta heimsveldi sögunnar á hans tíma. Kýros virti hefðir og trúarbrögð þeirra landa sem hann lagði undir sig. Aðþrengdar eiginkonur (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "Aðþrengdum eiginkonum" fór af stað á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC þann 25. september 2007 og lauk henni 21. maí 2006. Til viðbótar við þættina 23 voru tveir auka þættir: „All The Juicy Details“ (e. Öll safaríku smáatriðin) og „The More You Know, The Jucier It Gets“ (e. Því meira sem þú veist, því safaríkara verður það). Þrátt fyrir að þættirnir hefðu enn mikið áhorf var viðhorf áhorfenda til þáttarins öðruvísi en í fyrstu seríunni. Persónur & leikendur. Með undantekningum um Rex Van de Kamp og John Rowland, voru aðalleikarar annarrar þáttaraðarinnar þeir sömu. Nýjar persónur eins og Bett, Matthew og Caleb Applewhite og nokkrir fyrrum gestaleikarar voru titlaðir sem aðalleikarar: Tom Scavo, Karl Mayerm Andrew og Danielle Van de Kamp, George Williams, og Preston, Porter og Parker Scavo. Söguþráður. Með ráðgátuna um sjálfsmorð Mary Alice svo gott sem leysta, var búin til ný dularfull persóna og nágranni, Betty Applewhite. Þessi þáttaröð snýst um Betty og húsmæðurnar sem reyna að komast að sannleikanum um skrýtnu og dularfullu hljóðin sem berast úr kjallaranum hjá henni. Saga Susan. Susan fann sjálfa sig flækta í frekar flóknum og stundum pirrandi ástar-aðstæðum við fyrrverandi eiginmann sinn, Karl, Mike, nýja ástarævintýrið Dr. Ron McCready, og nágrannakonuna Edie, sem innihélt það að Edie brenndi húsið hennar Susan eftir að Karl hætti með henni fyrir Susan. Susan hafnaði svo Karl til þess að geta verið með Mike, en Mike varð síðan fórnarlamb nýs vinar Susan og Bree, tannlæknisins Orsons, þegar hann keyrði á Mike þegar hann var að fara að biðja Susan en Orson flúði strax af vettvangi slyssins. Saga Lynette. Lynette berst við framann sinn í auglýsingum og vaxandi gremju Tom, eiginmanns hennar. Tom er fúll yfir því að Lynette hafi rekið hann (hún var fúl yfir því að hann hafi fest hana heima á meðan hann var að vinna). Lynette lét Tom fá starf á auglýsingastofunni sem hún vann á en þegar yfirmaður hennar neyddi hana til þess að skrifa kynlífs-skilaboð til eiginkonu hans, kenndi yfirmaður Lynette Tom um þegar konan hans trúði því ekki að hann hefði skrifað skilaboðin og krafðist hún þess að eiginmaður hennar myndi reka hvern þann sem hafði skrifað skilaboðin. Þegar yfirmaðurinn hótaði að opinbera leynilegar upplýsingar um Tom, kýldi Tom manninn, sem rotaðist, og var Tom síðan rekinn. Yfirmaður Lynette sagði henni síðar að Tom hefði upp á síðkastið farið reglulega til Atlantic City. Lynette hélt að Tom væri að halda framhjá en komst síðan að því að hann var að heimsækja barnið sitt, sem hafði komið út úr einnar nætur gamani sem hann átti áður en hann giftist Lynette. Mamma barnsins krafðist ellefu ára meðlags, sem Lynette og Tom áttu ekki fyrir. Til þess að fá hana í burtu, ákváðu þau að borga henni mikla peninga til þess að láta allar kröfurnar um meðlag hverfa. Einstæða móðirirn notaði peningana hins vegar til þess að borga af húsi nálægt Bláregnsslóð, til þess að vera nær Tom. Saga Bree. Bree glímir við það að vera ekkja, og eftir að hún kemst að því að George myrti Rex, hjálpar hún eki George þegar hann ætlar að fremja sjálfsmorð til þess að biðja Bree um að elska hann. Það að George hafi myrt Rex, fær Bree til þess að drekka, og notfærði sonur hennar, Andrew sér það til þess að komast fjær móður sinni (og gefur Bree honum aðgang að sjóði sem foreldrar hennar höfðu stofnað fyrir hann). Bree er miður sín að segja frá því að sonur hennar sé samkynhneigður við föður sinn og stjúpmóður og láta þau sjóðinn hverfa. Á sama tíma, hittast Bree og Justin (kærasti Andrews) og tala saman, sem lætur Bree komast að því hversu rangt hún hafði fyrir sér að líta niður á son sinn fyrir að vera samkynhneigður. Bree ætlar sér að brúa bilið á milli móður og sonar með AA leiðbeinanda/kærasta sínum, sem var óvirkur kynlífsfíkill, og tældi Andrew hann til þess að sofa hjá sér til þess að skemma fyrir móður sinni. Gerðir Andrews fá Bree til þess að skilja son sinn eftir úti á víðavangi. Andrew telur að hann "hafi unnið" og það að illu gerðir hans gegn móður sinni hafi allt verið partur af planinu til þess að fá Bree til þess að hata sig, þar sem að í huga Andrews var það betra að móðir hans hataði hann fyrir allar illu gerðir hans, en ekki bara fyrir að vera samkynhneigður. Bree svaraði með því að hún hafi aldrei hætt að elska hann skilyrðislaust upp að þessari stundu, og Bree sagði syni sínum að ef hann teldi að hún hataði hann fyrir að vera eins og hann er, þá geti hún ekki elskað hann. Eftir að Danielle hljópst á brott með kærastanaum sínum, Matthew Applewhite, skráði Bree sig inn á geðheilsu-stofnun. Þegar Bree komst að því að Matthew er morðingi, flýr Bree af stofnuninni, og kemst loksins til Daneille og bjargar henni frá Matthew á meðan hann hélt byssu við höfuðið á henni. Serían endar á því að Bree þyggur blóm frá Orson Hodge og býður honum inn. Saga Gabrielle. Gabrielle rekur ástmann/garðyrkjumanninn sinn og ætlar að ætlar sér að bjarga hjónabandinu, eftir að hafa rekist á Caleb Applewhite sem varð til þess að hún missti ófætt barn sitt. Á meðan var eiginmaður hennar Carlos sýknaður af öllum sökum með hjálp frá mjög aðlaðandi nunnu, sem tælir Carlos þegar Gabrielle sér ekki til. Til þess að ná sáttum við Carlos fyrir að hafa sofið hjá öðrum mannim leyfir Gabrielle Carlos að sofa einu sinni hjá einhverri konu sem hann vill. Eftir að hafa mistekist að tæla Lynette, endaði Carlos á því að sofa hjá ráðskonunni, Xiao-Mei, sem var staðgöngumóðir þeirra hjóna svo hún yrði ekki flutt úr landi. Í enda seríunnar kemst Gabrielle loksins að því að þau voru að sofa saman og hendir Carlos út úr húsinu á meðan hún krefst þess að þernan haldi áfram að vinna fyrir hana þangað til barnið fæðist. Saga Edie. Edie byrjar með fyrrverandi eiginmanni Susan, Karl. Húsið hennar er loksins endurbyggt eftir að Susan kveikti óvart í því. Edie og Susan halda áfram að vera illa við hvor aðra og verður Susan afbrýðissöm þegar Julie og Edia byrja að vera vinkonur. Karl flytur inn til Edie en gerir það skýrt að hann elski Susan og muni enda sambandið við Edie ef Susan vildi hann aftur. Susan hafnar Karl og að lokum biður hann Edie og hún játast honum. Karl skiptir um skoðun og slítur trúlofuninni en samt ekki fyrr en eftir að hann sefur hjá Susan. Þegar Edie kemst að því geldur hún greiðann og kveikir í húsinu hennar Susan. Susan reynir að fá Edie til þess að játa glæpinn þegar Susan er með falinn upptökubúnað. Edie fattar það og eltir Susan og nær upptökunni en síðan hrasar hún og dettur undir býflugnabú. Edie berst við flugurnar og á meðan horfir Susan á. Susan heimsækir Edie á spítalann og reynir að semja við hana en Edie neitar og segir henni að hún sé alltaf hjálparvana og það sé þess vegna sem fólk hjálpar henni, ekki vegna þess að það elskar hana. Saga Betty. Betty Applewhite (Alfre Woodard) flytur til Bláregnsslóðar með sonum sínum Matthew og Caleb og sínum eigin leyndarmálum. Fjölskyldan hadði flúið til Fairview þegar Caleb var sakaður um morðið á kærustu Matthews og hélt hún Caleb fanga í kjallaranum. Þrátt fyrir að Betty hafi bannað fjölskyldu sinni að hafa einhver samskipti við nágrannana, verður það erfitt þegar Caleb sleppur úr kjallaranum og brýst inn í hús Gabrielle, sem varð til þess að henni brá og datt niður stigann. Matthew byrjaði með Danielle, dóttur Bree. Á endanum komst Betty að því að það var Matthew en ekki Caleb sem hafði drepið fyrrverandi kærustu Matthews. En þegar hún hafði komist að sannleikanum var Danielle flúin með Matthew og sú kveðja sem Danielle skildi eftir fyrir Bree varð til þess að Bree skráði sig inn á geðheimili. Þegar Betty náði í Bree og sagði henni að Danielle væri í hættu, flúði hún af heimilinu og náði í þau bæði. Bree sagði Danielle sannleikann um Matthew en dóttir hennar neitaði að trúa henni. Þegar Bree ætlaði að stöðva þau að fara dró Matthew upp byssu og hótði að skjóta hana. Þrátt fyrir sjokk Danielle, reyndi hann að fara en var skotinn af skyttu á vegum lögreglunnar. Þegar morðóði sonurinn var dáinn tók Betty Caleb og yfirgaf Bláregnsslóð. Saga Mary Alice. Ekkill Mary Alice, Pal, kom til Bláregnsslóðar til þess að finna son sinn Zach, og til að sættast við það að Mike var líffræðilegur faðir Zach. Til að flækja málin sneri Felicia Tilman (Harriet Sansom Harris) aftur, systir Mörthu Huber. Felicia varaði Noah Taylor, föður Deirdre, við tilveru Zach og ákvað Noah að eftirláta Zach veldi sitt. Felicia var reið við Mike að hafa ekki drepið Paul og byrjaði að skera af sér nokkra putta og taka nóg blóð úr líkama sínum til þess að sviðsetja blóðugt morð og ramma til þess að Paul hafi drepið Feliciu. Úr fangelsinu bað Paul Zach um að biðja Noah um peninga svo það væri hægt að verja hann. Noah neitaði því og sagði Zach vera veikan, og sagði að hann ætti ekki lengur skilið að erfa veldið sitt og ætlaði að breyta erfðaskránni sinni. Með hvatningu Noah, slökkti Zach á tækinu sem hafði haldið Noah lifandi og erfði Zach allt veldi afa síns. Þegar hann áttaði sig á nýjum auði sínum, endaði Zach þáttaröðina á því að segja „föður“ sínum (sem hafði logið að honum varðandi morðið á frú Huber) að hann gæti ekki heimsótt hann í fangelsið í nokkurn tíma og biður aðstoðarmann Noah að kaupa nýjan farsíma svo að faðir hans gæti ekki náð í hann, greinilega búinn að ná sér í skapið til þess að reka stórveldið. Miðverk. Miðverk tölvu er rafrás sem keyrir forrit. Miðverk tölva hefur breyst gríðarlega í gegnum tíðina, en grunnvirkni þess hefur haldist sú sama í megindráttum. Miðverkið sækir skipanir úr minni, þýðir þær yfir á skipanamengi tölvunnar, keyrir þær og skrifar úttakið í minni, eftir tiltekinni tíðni sem gefur vísbendingu um reiknihraða. Örgjörvi er samrás sem útfærir alla þætti miðverksins á einni kísilflögu. Þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið á 8. áratug 20. aldar en fram að því var miðverkið samsett úr mörgum íhlutum í einni rafrás. Gilsárteigur. Gilsárteigur er tvíbýli 12 kílómetra norðaustur frá Egilsstöðum. Gilsárteigur dregur nafn sitt af Gilsá sem rennur á mörkum jarðanna Gilsárteigs og Ormsstaða. Robert De Niro. Robert De Niro árið 2008. Robert Mario De Niro yngri (f. 17. ágúst 1943) er bandarískur leikari, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hann er þekktur fyrir að beita kerfisleiklist í hlutverkum skapþungra persóna. Hann vann sín fyrstu Óskarsverðlaun fyrir aukahlutverk í kvikmynd Coppolas "Guðföðurnum 2" árið 1974 en er einkum þekktur fyrir hlutverk sín í mörgum kvikmyndum Martins Scorseses á borð við "Leigubílstjórann" (1976) og "Góða gæja" (1990). Rómantísk gamanmynd. Rómantísk gamanmynd er tegund af gamanmynd þar sem meginþráður myndarinnar er ástarsaga. Rómantískar gamanmyndir eru arftakar svokallaðra screwball-gamanmynda þar sem furðulegar uppákomur, misskilningur og ærsli einkenna samdrátt elskendanna. Rómantískar gamanmyndir eru yfirleitt mun alvarlegri en screwball-myndir og farsar og einkennast gjarnan af söguþræði þar sem söguhetjurnar kynnast, skilja (oft ósáttar) en gera sér síðan smátt og smátt grein fyrir að þær eru „skapaðar hvor fyrir aðra“. Rómantískar gamanmyndir hafa alltaf góðan endi þar sem söguhetjurnar ná saman í lokin. Söguþráður af þessu tagi er vel þekktur t.d. úr verkum Shakespeares á borð við "Ys og þys út af engu". Tónabær. Tónabær er félagsmiðstöð rekin af ÍTR í Safamýri í Reykjavík en var áður í Skaftahlíð 24. Félagsmiðstöðin tók til starfa 8. febrúar 1969. Músíktilraunir voru haldnar í Tónabæ frá upphafi árið 1982, en hafa frá 2003 verið í samstarfi við Hitt húsið. Tónabær var lengst af í austurenda hússins að Skaftahlíð 24 þar sem áður var veitinga- og skemmtistaðurinn Lídó (sem húsið allt var oft nefnt eftir). Árið 2000 ákvað Reykjavíkurborg að selja sinn hlut í húsinu til Þyrpingar og Tónabær flutti þá í húsnæði á Fram-svæðinu í Safamýri. Þyrping réðist í miklar endurbætur á húsnæðinu við Skaftahlíð en gekk illa í fyrstu að fá leigjendur að því. Þar voru meðal annars kosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins og Lína.net um tíma. 2003 tók Fréttablaðið húsnæðið á leigu og síðar hófu 365 miðlar þar starfsemi. Naustahverfi. Naustahverfi er hverfi í Akureyri. Byggð var ný Bónus verslun þar. Hverfið er nefnt eftir bænum Naust. Steindyragil. Steindyragil er árgljúfur sem Þverá í Svarfaðardal fellur um á leið sinni úr Þverárdal (Bakkadal) og til Svarfaðardalsár. Gljúfrið er á mörkum jarðanna Þverár og Steindyra. Þveráin er á mörkum Tjarnar- og Urðasóknar. Gljúfurveggirnir eru úr þykkum blágrýtislögum með rauðum millilögum sem skorin eru af lóðréttum berggöngum. Lögin eru um 10 milljón ára. Fallegur foss er í gljúfrinu, 12-15 m hár, nefndur Steindyrafoss. Annar foss, um 10 m hár, er nokkru ofar. Upp með Steindyragili liggur merkt gönguleið að Nykurtjörn. Gilið er vinsæll viðkomustaður ferðafólks og ganga að Steindyrafossi er stutt og þægileg en þó ekki fyrir lofthrædda. Þarna er fjölbreyttur gróður og blómskrúð á vorin og þar verpa oft hrafnar og smyrlar og stundum fálkar. Neðan við árgljúfrið er gömul hlaðin fjárrétt á árbakkanum, Steindyrarétt, sem var í notkun fram yfir miðja 20. öld. Ofan við Steindyragil eru Bakkabjörg, berghlaupsskál í fjallshlíðinni og neðan þeirra urðarhólar sem ná fram á gljúfurbarminn. Léttlestakerfi höfuðborgarsvæðisins. Léttlestakerfi höfuðborgarsvæðisins er hugmynd að framtíðarsýn almenningssamgangna á höfuðborgarsvæði Íslands. Þær miðast að því að tengja saman hverfi svæðisins með léttlestum og þannig bjóða upp á hraðvirkan og sjálfbæran ferðakost. Hugmyndir hafa einnig komið upp um umfangsmeira snarlestakerfi Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 koma fram hugmyndir að sporbundnum almenningssamgöngum innan borgarinnar. Þar er stungið upp á þremur leiðum sem tengjast við Kringluna. „Leið sem lægi frá landfyllingu við Ánanaust um miðborg, Landspítala, Lund og Smáralind í Kópavogi, um Mjódd, Breiðholt, Vatnsenda og Norðlingaholt væri rúmlega 13 km að lengd og miðað við 10 stöðvar gæti þessi leið náð til rúmlega 30 þúsund íbúa og rúmlega 20 þúsund starfa. Slík léttlest færi vel í göturýminu í miðborginni, myndi víða rúmast auðveldlega innan helgunarsvæða stofnbrauta en þyrfti að fara um göng um Kópavogsháls og frá Kringlusvæðinu að Vatnsmýri og víðar. Meðalstofnkostnaður, þar með talin bygging stöðva, gæti verið í kringum 1,5 milljarður á km og þá er miðið við spor í báðar áttir. Önnur 13 km, sem lægi frá háskóla- og vísindaþorpi í Vatnsmýri, um Kringlusvæðið, Skeifu-Fen, Bryggjuhverfi/Elliðaárvog, hátæknihverfi á Keldum, um kjarnann í Hamrahlíð og austur eftir Úlfarsárdal sem samtals 9 stöðvum, næði til ríflega 33 þúsund íbúa og 15 þúsund starfa. Samtals næðu þessar tvær leiðir til 60 þúsund manns og 37 þúsund starfa.“ Ráðgjafar fengnir til að framkvæma hagkvæmnisathugun komust að þeirri niðurstöðu að ekki væri hagkvæmt að ráðast í slíkar framkvæmdir sökum þess hve dreifbýlt svæðið væri og að samgögnur væru nú þegar frekar greiðar. Þessi athugun mat þó einungis hagkvæmni varðandi kostnað ekki ekki önnur þjóðhagslega áhrif, svo sem nýtingu innlendrar orku og bættrar lýðheilsu. Metró-hópurinn. Eftir fyrstu umræðu tillögunnar var hún send til samgöngunefndar Alþingis til skoðunar þar ýmsir hópar voru fengnir til að skila áliti. Aðskilið kerfi. Snarlestarkerfi yrði algjörlega aðskilt annarri umferð, hvort sem um ofanjarðar- eða neðanjarðarkerfi væri að ræða. Það myndi auka skilvirkni kerfisins og stytta ferðatíma. Aðskilið kerfi gagnast einnig allri annarri umferð, hvort heldur sem er akandi, gangandi eða hjólandi. Neðanjarðarkerfi myndi ekki taka götupláss, sem þá hægt væri að ráðstafa til annarra nota. Innandyra biðstæði. Íslenskt verðurfar stendur í vegi fyrir að núverandi kerfi geti orðið vinsælt. Fjöldi stöðva kemur í veg fyrir að hægt sé að reisa viðunandi biðskýli. Kerfi sem byggir á neðanjarðar samgöngum hefur í för með sér að hvert biðstæði væri innandyra. Slíkt gæti orðið sá hvati til notkunar sem léttlestakerfi gæti ekki boðið upp á. Hljóðmengun. Hljóð af neðanjarðarlestasamgöngum myndu takmarkast innan kerfisins, svo sem á biðstöðvum. Aðrir staðir myndu ekki verða kerfisins var. Ókostur þess að fara í umfangsmeira snarkerfi er aukinn kostnaður. Hópurinn gerir ráð fyrir að lagning kerfisins myndi kosta um þrjá milljarða króna á hvern kílómetra og hver lestastöð kosti um einn milljarð króna. Einar Kristjánsson, sviðstjóri þjónustusviðs Strætó bs., dró kostnaðartölur sérfræðingana í efa og benti á að í svipuðu kerfi, sem verið væri að reisa í Kaupmannahöfn, kostaði hver kílómetri það sem samsvarar 14 milljörðum ISK (miðað við verðlag 2005) og taldi ólíklegt að Íslendingar gætu gert það fyrir minna. „Miðað við þær kostnaðartölur sem eru hjá Dönunum, þá yrði heildarkostnaður vegna þessa um 204 milljarðar króna en miðað við tölurnar í umsögninni mætti ætla að þeirra kostnaður yrði um 36 milljarðar fyrir lestarsporin og 12 milljarðar fyrir lestarstöðvar, eða samtals 48 milljarðar fyrir byggingu kerfisins.“ „Í ofangreindum tölum er einungis stofnkostnaður vegna byggingarframkvæmda, Ekki er reiknað með kaupum á lestum eða með rekstri kerfisins.“ Bóksala. Bóksala er það að versla með bækur og er síðasti áfanginn á birtingarferli bókar. Menn sem stunda bóksölu er nefndir "bóksalar", og þeir sem versla með notaðar bækur "fornbókasalar". Orðið bóksala á íslensku getur einnig þýtt bókaverslun. Kaş. Kaş er lítill hafnarbær í Antalyahéraði í Suður-Tyrklandi, bærinn er 168 km vestan við borgina Antalya. Samkvæmt talningu árið 2007 bjuggu 5.922 manns í Kaş. Saga. Þetta svæði í Tyrklandi hefur verið í byggð síðan á steinöld. Talið er að Kaş hafi verið stofnað af Lycia-fólki og á tungumáli þeirra hét Kaş "Habesos" eða "Habesa". Mikilvægi bæjarins á þeim tíma sést á því að þar var einn stærsti greftrunarstaður þeirra. Forn-Grikkir nefndu borgina "Antifellos" eða "Antífilos" þar sem bærinn þjónaði sem höfn fyrir borgina Fellos. Á tímum Rómaveldis var "Antifellos" þekkt fyrir útflutning á svömpum og timbri. Plinius eldri minntist á bæinn í fimmtu bók í riti sínu "Naturalis Historia". Eftir 395 varð "Antifellos" hluti af Austrómverska keisaradæminu og fram eftir Miðöldum var biskupsdæmi þar. Í kjölfar krossfaranna sóttu Arabar stíft að "Antifellos" og lögðu undir sig sem "Andifli" sem var nú hluti af Soldánsdæminu Rüm í Anatólíu undir stjórn Seljúktyrkja. Eftir að Seljúkveldið leið undir lok komst svæðið undir stjórn Tyrkjaveldis. Tyrkjaveldi leið undir lok 1922 og þá, strax eftir að Tyrkland hafði lýst yfir sjálfstæði, skiptust Grikkland og Tyrkland á fólki eftir stríð þeirra á milli. Þá yfirgaf meirihluti bæjarbúa bæinn þar sem þau voru grískt að uppruna. Snemma á tíunda áratug 20. aldar tók ferðamannaiðnaðurinn við sér í Kaş. Ferðamennirnir voru aðallega frá Bretlandi og Þýskalandi. Þessi mikla aukning af ferðamönnum þýddi að mikil uppbygging tók við sem er umdeild. Dráttarvél. Dráttarvél (eða traktor) er vélknúið ökutæki, sem er aðallega notað til dráttar og til að knýja annað tæki, til dæmis vagna, jarðvinnslutæki, sláttuvélar og fleira. Dráttarvélar eru mikið notaðar við landbúnaðarstörf og sömuleiðis til dæmis við garðrækt í borg. Nýyrði. Orðið dráttavél kom fram nokkuð snemma, á fyrstu áratugum 20. aldar, og hafði náð vissri fótfestu en þótti of langt í samsetningum. Þá var reynt að búa til hæfara nýyrði, til dæmis "dragi" og "dragall" og voru höfð um dráttarvél en þau náðu aldrei fótfestu. Dráttarvél hafði loks yfirhöndina og er notað jöfnum höndum ásamt orðinu „traktor“, sem er latína og þýðir „sá sem dregur“. Hafursfjarðarorusta. Hafursfjarðarorusta er talin einn mikilvægasti atburður í sögu Noregs og átti mikinn þátt í landnámi Íslands. Helsta heimildin um Hafursfjarðarorustu er "Haralds saga hárfagra" í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Orustunnar er einnig getið í Egils sögu en Þórólfur Kveldúlfsson barðist þar með Haraldi og særðist. Sumir hafa álitið að Egils saga hljóti að vera rituð af Snorra, en Snorri var niðji Egils Skallagrímssonar. Skrifaði Svíinn Per Wieselgren sérstaka ritgerð um að svo geti ekki verið, því að orðalag Egils sögu og Heimskringlu sé of ólíkt ("Forfattarskapet till Eigla", 1927). Þessu mótmælti þó Sigurður Nordal. Orustan. Í Hafursfjarðarorustu barðist Haraldur hárfagri við fjóra smákonunga í Hafursfirði, skammt sunnan við Stafangur, og sigraði. Orustan hefur verið dagsett 18. júlí 872 og er 18. júlí haldinn hátíðlegur sem „Hafursfjarðardagurinn“, en nákvæm tímasetning orustunnar er þó óþekkt. Sumir sagnfræðingar telja að hún hafi verið háð skömmu eftir 880 og reikna það út frá aldri Haralds. Eftir orustuna náði Haraldur yfirráðum í Vestur-Noregi og gat með réttu talið sig konung Noregs. Annars var sameining Noregs ferli sem tók margar aldir. Þegar Haraldur féll frá skiptist landið milli sona hans í nokkur smáríki. Noregur sameinaðist ekki að fullu fyrr en Knútur ríki varð konungur í öllu landinu um 1028 og síðar þegar Haraldur harðráði braut á bak aftur andstöðu höfðingja á Upplöndum eftir 1060. Á þessum tíma réðu danskir konungar miklu Austanfjalls í Noregi. Margt bendir til að smákóngarnir frá Ögðum og Þelamörk hafi í raun verið lénsmenn Danakonungs og verið gerðir út til að brjóta Harald á bak aftur, því að hann ógnaði ítökum Danakonungs á svæðinu og meðfram ströndum Skagerak. Nútímarannsóknir og minnismerki. Kafarar hafa leitað í Hafursfirði að minjum um orustuna, en ekkert hefur fundist. Óvíst er hvar nákvæmlega orustan var, en því hefur verið haldið fram að vígið sem Kjötvi konungur flýði í sé við „Ytrabergið“ í sveitarfélaginu Sola. Þar hefur verið reistur minnisvarði, sem var afhjúpaður af Ólafi konungi á 1100-ára hátíðinni 1972. Árið 1983 var reist minnismerki um Hafursfjarðarorustu við Mylluvík (Møllebukta) innarlega í Hafursfirði: Sverð í kletti. Á Hafursfjarðardeginum 18. júlí 1872 var reistur minnisvarði, Haraldshaugurinn, við Haugasund í Vestur-Noregi. Þá var haldið upp á það að 1000 ár voru liðin frá Hafursfjarðarorustu. Fullyrt hefur verið að Haraldur hárfagri hafi verið grafinn þar í grennd. Engar samtímaheimildir eru til um orustuna, og því má draga í efa að hún hafi verið háð. Engu að síður er hún mikilvægur kapítuli í sögu Noregs vegna áhrifa sögunnar á sjálfsmynd Norðmanna. Silfrastaðir. Silfrastaðir er bær og kirkjustaður í mynni Norðurárdals í Skagafirði. Land jarðarinnar er mjög víðáttumikið, nær frá Bóluá í Blönduhlíð fram að Kotá í Norðurárdal, og er mestur hluti þess fjallendi, Silfrastaðafjall. Það hefur nú að mestu verið skipulagt sem skógræktarland. Áður tilheyrði öll Silfrastaðaafrétt jörðinni en hún var seld sveitarfélaginu 1896 ásamt hjáleigunum Hálfdanartungum og Krókárgerði í Norðurárdal, sem komnar voru í eyði og hafa ekki byggst aftur. Skilarétt hreppsins, Silfrastaðarétt, er á eyrinni fyrir neðan bæinn. Torfkirkja sem áður var á Silfrastöðum, byggð 1842, er nú í Árbæjarsafni í Reykjavík. Kirkjan sem þar er núna er áttstrend að lögun, byggð árið 1896 (vígð 12. júlí). Inni í Norðurárdal, skammt frá brúnni yfir Norðurá, gengur höfði fram á eyrarnar sem heitir Skeljungshöfði og á honum er allstór steinn sem kallast Skeljungssteinn. Í gegnum hann eru tvö göt og segir þjóðsagan að draugurinn Skeljungur hafi verið bundinn við steininn en þetta munu reyndar vera för eftir trjáboli sem hraun hefur runnið yfir. Steinninn er friðaður. Bólu-Hjálmar skráði þjóðsöguna um Skeljung og Grím Skeljungsbana. Í Sturlungu er talað um að Eyjólfur ofsi Þorsteinsson og menn hans hafi komið við í Skeljungsskála á leið sinni til Flugumýrarbrennu og er ekki ólíklegt að þar hafi þá verið bær. Sverð í kletti. "Sverð í kletti". Knappurinn á stærsta sverðinu minnir á kórónu. Sverð í kletti — (norska: "Sverd i fjell") — er minnismerki innst í Hafursfirði, skammt sunnan við Stafangur í Vestur Noregi. Verkið er til minningar um Hafursfjarðarorustu árið 872, þegar Haraldur hárfagri sameinaði Noreg í eitt ríki. Verkið er eftir einn kunnasta listamann Noregs, Fritz Røed frá Bryne, og var afhjúpað af Ólafi Noregskonungi 7. maí 1983. Þetta eru þrjú stór sverð sem standa upp úr kletti við Mylluvík (Møllebukta) innarlega í Hafursfirði. Sverðin eru um 9 m há og eru eftirlíkingar sverða sem fundist hafa í Noregi. Stærsta sverðið táknar sigurvegarann, Harald konung hárfagra, minni sverðin tvö tákna smákóngana sem biðu ósigur í orustunni. Minnismerkið er einnig friðartákn: Sverðin eru föst í kletti, sem gefur til kynna að þau verði aldrei notuð framar. Aðþrengdar eiginkonur (3. þáttaröð). Not Everything Comes Out in the Wash Þriðja þáttaröðin af "Aðþrengdum eiginkonum" fór af stað á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC þann 24. september 2006 og lauk henni 20. maí 2007. Til viðbótar við þættina tuttugu og þrjá voru tveir aukaþættir: „Tími til þess að koma öllu á hreint“ (e. "Time To Come Clean") og „Safaríkustu bitarnir“ (e. "The Juciest Bites") og voru þeir sýndir 3. september 2006 og 1. apríl 2007. Persónur & leikendur. Leikaraliðið í Aðþrengdum eiginkonum í þriðju þáttaröð innihélt sömu persónur og fyrri þáttaröð. Orson Hodge varð regluleg persóna, eftir smá hlutverk í annarri þáttaröð. Nýjar persónur voru meðal annars Austin McCann, Alma og Gloria Hodge, Kayla og Nora Huntington, Ridley saksóknari, Ian Hainsworth, Carolyn Bigsby, Travers McLain og Victor Lang. Vegna fjölda þátta sem Laurie Metcalf, Kathryn Joosten, Dougrey Scott og Kiersten Waren höfðu leikið í voru þau tilnefnd ásamt leikaraliðinu til verðlaunanna Screen Actors Guild Award fyrir bestu búningana í gamanþáttaröð, heiður sem fer venjulega aðeins til aðalleikaranna. Framleiðsla. Þegar framleiðendurinir Tom Spezialy og Michael Edelstein hættu gengu Joe Keenan og George W. Perkins til liðs við aðalframleiðandan Marc Cherry. Á meðan Perkins hafði verið við þættina frá fyrstu þáttaröð, hafði Keenan verið aðalframleiðandi Fraiser-þáttanna og var glænýr í liðið. March Cherry, Kevin Murphy, Joey Murphy, John Pardee, Alexandra Cunningham, Jenna Bans, Kevin Etten, Josh Senter og Dahvi Waller héldu áfram sem handritshöfundar og til viðbótar var framleiðandinn Joe Keenan en einnig Susan Nirah Jaffee, Bob Daily, Brian Alexander, Christian McLaughlin, Jef Greenstein og Valerie Ahern. Sex leikstjórar störfuðu við þáttaröðina: Larry Shaw og David Grossman héldu áfram eins og Wendley Stanzler á meðan David Warren, Matthew Diamond og Sanaa Hamri leikstýrðu fyrstu þáttunumm sínum. Söguþráður. Aðal ráðgáta þáttaraðarinnar snýst um nýjan eiginmann Bree, Orson Hodge. Í enda annarrar þáttaraðar keyrði Orson á Mike Delfino og voru ástæður þess ekki kunnar á þeim tíma. Orson er grunaður um að halda fram hjá konunni sinni, Ölmu (sem var haldið fram að væri dáin), og drepið konum að nafni Monique Pollier, og er undir stöðugum grun húsmæðranna og annarra nágranna, sérstaklega Mike, sem er efstur á lista yfir grunaða á morði Monique. Það flækir málin að móðir Orsons, Gloria Hodge, og Alma koma til Bláregnsslóðar og taka málin í sínar eigin hendur. Húsmæðurnar eru færðar saman í þessari þáttaröð til þess að komast að hinu sanna og til að raða saman brotunum úr fortíð Orsons saman, á meðan þær glíma við sín eigin líf sem eru að valda þeim miklum vandræðum. Saga Susan. Susan Mayer er komin yfir fyrrverandi eiginmann sinn, Karl, sem er ekki lengur aðalpersóna, aðeins aukapersóna. Nýja ást Susan, Mike, er í dái eftir að Orson Hodge (Kyle MacLachlan) keyrði á hann og hefur Susan verið dugleg að heimsækja hann á spítlann. Á göngum spítalans hittir hún mann að nafni Ian Hainsworth (Dougray Scott) og er konan hans, Jane, í dái. Þau fá sér kaffi saman og fara út saman og á endanum sofa þau saman. Þegar Mike vaknar úr dáinu í þriðja þættinum er Edie við hlið hans og þjáist hann af minnisleysi og hefur enga hugmynd um samband sitt við Susan. Edie, sem heldur áfram að hata Susan, notfærir sér minnisleysi Mikes og sannfærir hann um að Susan hafi komið mjög illa fram við hann og þvingar Edie Mike til þess að verða hrifinn af sér. Mike er seinna handtekinn fyrir grun um morð; Edie hættir svo með honum. Susan reynir að hjálpa Mike út úr morðmálinu; Ian, sem er afbrýðissamur út í tilfinningar Susan til Mike, nær Mike út úr fangelsi með því skilyrði að hún hafi aldrei samband við Mike aftur. Að Jane látinni trúlofast Ian og Susan. Mike segir Susan að hann vilji hana aftur og þau kyssast. Susan áttar sig á því að hún verður að gera upp á milli Ian og Mike - og hún velur Ian. En hann sér tilfinningar hennar til Mike og fer hann til Englands og slítur trúlofuninni. Susan eltir Mike inn í skóginn og kemst að því að hann hefur yfirgefið Bláregnsslóð. Hún finnur hann og þau byrja aftur saman. Þau trúlofast. Susan skipuleggur brúðkaupið þeirra - sem er sama dag og brúðkaup Gabrielle og bæjarstjórans. Brúða-stríð fer í gang og Susan áttar sig á því að hún vill bara giftast Mike og það skipti ekki máli hvar eða hvenær það sé. Um nóttina eftir brúðkaup Gaby kemur Susan Mike á óvart með litlu brúðkaupi úti í skóginum og þau giftast. Saga Lynette. Lynette Scavo á erfitt með að glíma við enn annað barn, Kaylu Huntington (Rachel Fox), í fjölskyldunni. Móðir Kaylu, Nora (Kiersten Warren), átti einnar nætur gaman með Tom áður en Tom og Lynette giftust og hefur hún troðið sér inn í fjölskylduna og er það erfitt fyrir Scavo fjölskylduna, sérstaklega Lynette. Lynette er óþreyjufull að finna mann handa Noru, þar sem hún vill hana út úr húsinu eins mikið og hægt er. Þess vegna parar hún Noru saman með Carlos. Nora er drepin sem gísl í stórmarkaðnum á meðan Lynette situr við hliðina á henni, og eftirlætur hún Kaylu til Tom og Lynette. Inni í stórmarkaðnum er Lynette skotin í handlegginn. Kayla hatar Lynette vegna þess að áður en Nora dó var hún alltaf að segja Kaylu að Lynette væri að reyna að stela henni. Þegar Lynette reynir að tengjast Kaylu verður Kayla ill og reynir meira að segja að eyðileggja æskudúkku Lynette. Ekki þarf Lynette aðeins að glíma við Noru og Kaylu heldur einnig þá staðreynd að Tom ætlar að opna pizzastað, sem gæti komið fjölskyldunni í hræðileg fjárhagsleg vandræði. Lynette hættir í vinnunni sinni til þess að hjálpa Tom að reka pizzastaðinn. Lynette þarf að reka staðinn þegar Tom þarf að hætta vegna bakmeiðsla. Hún ræður nýjan framkvæmdarstjóra, Rick, sem hún verður hrifin af. Hún borðar með honum áður en hún fer heim á kvöldin. Eitt kvöldið er staðurinn rændur og Lynette og Rick eru læst inni í frystinum yfir nóttina. Tom skoðar síðan myndband úr öryggismyndavél og sér þau inni í frystinum og verður hann þá tortrygginn um samband þeirra. Hann fer með Rick í hádegismat og spyr hvort að hann sofi hjá konunni sinni, og Rick segir nei, en Tom segir honum að hann þurfi samt sem áður að hætta. Þá segir Rick Lynette að hann beri tilfinningar til hennar sem leiðir til þess að hún þarf að reka hann svo að ekkert gerist á milli þeirra sem gæti eyðilagt hjónaband hennar og Tom. Hún er mjög óánægð í hjónabandinu með Tom. Hann reynir að plata hana til þess að tala við „vin“ sinn sem í raun er hjónabandsráðgjafi. Lynette rífst við Tom heima og hann ýtir henni af rúminu og hún lendir með hausinn í náttborðinu og fer hann með hana á spítalann til þess að athuga með heilahristing. Á spítalanum segja þeir Lynette að hún sé líklegast með krabbamein. Eftir að greiningin er staðfest kemur móðir Lynette til hennar og hjálpa henni að berjast við krabbameinið. Saga Bree. Bree Van de Kamp og Orson Hodge trúlofast í byrjun þáttaraðarinnar og giftast í öðrum þættinum. Stuttu áður en þau leggja af stað í brúðkaupsferðina fær Bree áfall þegar hún sér umfjöllun umson sinn, Andrew, í sjónvarpsþætti um heimilislaust fólk. Hún hættir við brúðkaupsferðina og fer að finna Andrew en hann tekur á móti henni með reiði og mótþróa þegar hún finnur hann í súpueldhúsi. Eftir að Bree kemur heim sér Orson hvað Bree hefur mikið samviskubit og fer sjálfur að leita að Andrew. Honum tekst að finna hann og býður honum í hádegismat. Andrew snýr heim daginn eftir og þakkar Orson fyrir og byrjar hægt og rólega að sættast við Bree. Fjölskyldan ákveður að leyfa Andrew að fara í leiklistarbúðir. Stóra ráðgáta þáttaraðarinnar snýst um fortíð Orsons, sem inniheldur fyrstu konuna hans, Ölmu, og myrta konu að nafni Monique Pollier. Persónuleg málefni Orsons flækja húsmæðurnar inn í málið. Það kemur hægt og rólega fram að fyrrverandi kona Orsons var kona sem hét Alma og ætlaði hún að yfirgefa eiginmann sinn. Það er ráðgáta hvernig hjónaband þeirra endaði en Bree veltir því fyrir sér hvort hann hafi myrt hana. Lögreglan finnur lík konu og halda þeir að það sé Alma en komast loks að því að þetta er hjákona Orsons, Monique. Uppgvötunin á símanúmeri Mikes skrifað á handlegginn á þeirri myrtu leiðir grun lögreglunnar að Mike, sem á endanum er handtekinn. Móðir Orsons, Gloria, flytur inn til hans og Bree á svipuðum tíma og Alma snýr aftur á lífi og í góðu formi (hún fór frá Orson vegna framhjáhalds hans). Það kemur seinna fram að símanúmer Mikes var á handlegg Monique vegna þess að hún átti í vandræðum með lagnirnar. Það kemur einnig fram að Gloria drap Monique í „sjálfsvörn“ eftir að hún sagði Monique að halda sig frá Orson. Orson er dópaður upp og nauðgað af Ölmu en áttar sig loks á því að hann mun aldrei koma aftur til hennar. Gloria læsir Ölmu inni á háaloftinu og reynir að drepa Bree. Bree, sem hefur fundið sönnunargögn um dauða Monique (poki fullur af tönnum úr henni), dettur úr stiga þegar hún er að reyna að ná tannapokanum og fær heilahristing. Alma sleppur af háaloftinu en aðeins til þess að detta niður af þakinu og deyja. Gloria reynir að drepa Bree en Andrew bjargar henni; hann kom snemma heim af opnun pizzastaðarins hjá Tom vegna þess að Danielle kom og sagðist ekki þurfa að vera hjá Bree lengur vegna þess að Gloria hafi komið og ætlað að sjá um hana. Eftir að Andrew flýtir sér heim rotar Gloria hann og reynir enn og aftur að drepa Bree. Orson kemur síðan og bjargar Bree og Gloria fær hjartaáfall og veldur því að hún er alveg lömuð í líkamanum en með heilann í lagi. Orson heimsækir hana einungis til þess að hún sjái hann ganga út um dyrnar í síðasta skipti. Orson notar líka plat-sjálfsmorðsbréf skrifað af Ölmu og pokann með tönnunum til þess að losa Mike af öllum grun. Bree og Orson fara loksins í brúðkaupsferðina sína. Marcia Cross (Bree) sást ekki í síðustu þáttunum vegna þess að hún var í barneignarfríi. En í lok þáttaraðarinnar kemur Bree aftur og öllum að óvörum, ólétt. Bree þykist vera ólétt til þess að fela alvöru óléttu dóttur sinnar, Danielle. Við sjáum Bree fjarlægja poka, sem hún notaði til þess að sýnast vera ólétt. Hins vegar er Danielle falin á stað langt í burtu. Bree og Orson hyggjast fela óléttu Danielle og ala upp barnið hennar sem þeirra eigið. Saga Gabrielle. Gabrielle Solis og eiginmaður hennar, Carlos, skilja snemma í þáttaröðinni. Í fyrsta þættinum er staðgöngumóðirin þeirra, þernan Xiao-Mei, sett í rúmið vegna óléttunnar. Gabrielle er ófúsi — og viðbjóðslegi — umsjónarmaður, og hótar Xiao-Mei að hún þurfi að fara aftur til Kína í hvert skipti sem hún er of kröfuhörð. Xiao-Mei fæðir barnið í öðrum þættinum en þá kemur fram að vegna mistaka er það ekki barn Carlos og Gabrielle, heldur er það svart barn. Fósturvísirinn þeirra hafði víxlast við einhvern annan og lent hjá öðru pari. Xiao-Mei flytur inn í íbúð eftir fæðinguna, sem Carlos og Gaby borga fyrir. Á meðan skilnaðurinn hjá Carlos og Gaby stendur yfir reynir hún að hitta aðra menn. Eftir að skilnaðurinn hefur gengið í gegn byrjar Gaby að kenna ungum stúlkum hitt og þetta um fyrirsætustörf með fyrrverandi stílistanum sínum, Vern. Faðir einna stelpanna, Amy Pearce, er ekkill að nafni Bill og byrja hann og Gabrielle rómantískt samband. En stuttu eftir að þau byrja saman kemst Gabrielle að því að hún á leyndan aðdáanda. Hún heldur að aðdáandinn sé Carlos að reyna að eyðileggja samband hennar og Bill en það kemur seinna fram að aðdáandinn var Zach Young, sem nú er milljarðamæringur (afi hans dó og eftirlét honum allt sitt veldi). Gabrielle þolir hann ekki en þegar Susan biður Gaby um að fá Zach til þess að borga lögfræðing fyrir Mike samþykkir hún að fara á stefnumót með honum. Zach og Gabrielle verða „vinir“ en þegar hún snýr sér að öðrum mönnum verður hann ofbeldisfullur. Hann byrjar að eyðileggja sambönd hennar, sem á endanum leiðir til þess að hann lýgur um að þau hafi sofið saman. Carlos kemur upp um málið og segir að hún myndi muna eftir því að hafa sofið hjá honum. Þá biður Zach hennar en Gabrielle hendir honum út. Stuttu eftir það byrjar hún með Victor Lang, stjórnmálamanni í framboði til bæjarstjóra, og þau giftast. En þegar Gaby leitar að Victor í brúðkaupsveislunni til þess að kynna hann fyrir Bree og læðist hún inn í herbergi þar sem hún heyrir Victor og föður hans vera að ræða það hvernig hann fékk Gaby til þess að giftast sér; hann vildi aðeins giftast henni til að tryggja sér atkvæði minnihlutahóps. Svo tala þeir um að Victor sé eiginmaðurinn núna og taki allar ákvarðanir. Gaby fer og finnur Carlos einnig leiðan inni í herbergi. Þau kyssast og það er ýjað að því að þau hafi sofið saman. Saga Edie. Edie Britt er enn reið út í Susan. Eftir að það var keyrt á Mike var Edie alltaf á spítalanum og sannfærir Mike um það að Susan hafi komið hræðilega fram við hann. Hún lætur Mike einnig trúa því að hann hafi aldrei elskað Susan og að hann hafi verið ástfanginn af Edie síðan hann sá hana fyrst. Susan ætlar að hitta Mike og sér hann og Edie vera að gera það í sjúkrahúsrúminu og hleypur Susan út. Þetta veldur því að það er enn meiri spenna á milli hennar og Susan. Að lokum byrja Mike og Edie saman en það samband er ekki langlíft. Eftir að Mike losnar af spítalanum er hann handtekinn fyrir morðið á Monique Pollier og Edie hættir með honum. 18 ára frændi Edie, Austin McCann (John Henderson), flytur til hennar í byrjun þáttaraðarinnar. Dóttir Susan, Julie, þolir hann ekki í byrjun, en að lokum er neisti á milli þeirra. Eftir að hafa setið í gegnum gíslatöku í stórmarkaðnum byrja þau saman, Susan til mikillar skelfingar. Edie varar Julie við Austin en hún sefur hjá honum þrátt fyrir það. En Julie veit ekki að Austin heldur fram hjá henni með Danielle. Julie lætur Edie þykjast vera mamma sín svo að hún geti útvegað henni pilluna án þess að Susan komist að því. Sonur Edie, Travers, er hjá henni í mánuð og biður hún Carlos um að passa einstöku sinnum. Þeim kemur vel saman og Edie verður fljótt hrifin af Carlos og reynir við hann. Þau byrja saman en Edie hefur áhyggjur af því að það sé bara vegna Carlos. Hún ræður lögræðing til þess að fá sameiginlegt forræði yfir syni sínum en Carlos fær hana til þess að hætta við það og sannfærir hana um að hann verði ennþá hjá henni þegar Travers er farinn. Eftir að Travers fer til pabba síns vill Edie að Carlos flytji itl hennar. Carlos og Mike deila saman húsi en þegar Mike flytur inn til Susan tekur Carlos við leigusamningnum hjá frú Simms, sem býr á hjúkrunarheimili. Edie heimsækir hana og segir henni svo að Carlos sé alkahólisti, noti eiturlyf og hyggist nota húsið hennar sem stað til þess að hitta hórur. Frú Simms riftir samningnum við Carlos og sonur hennar segir honum að hann sé rekinn úr húsinu. Edie býður Carlos stað til að búa á en hann grunar að hún hafi átt einhvern þátt í þessu öllu saman. Hann verður reiður þegar hann kemst að því að hún laug að öðru fólki til þess að fá hann til þess að flytja inn til sín. Hún segir honum síðan að hún gæti verið ólétt. Eftir að þau komast að því að hún er ekki ólétt leggur hún til að hann verði hjá henni og þau reyni að eignast barn. Hún byrjar á pillunni vegna þess að hana langar ekki að eignast börn með honum nema hann elski hana. Þegar Carlos leitar í veskinu hennar að peningum til þess að borga blaðadrengnum finnur hann getnaðarvörnina hennar Edie. Í brúðkaupi Gabrielle segir Carlos Edie að hann viti um pillurnar og hún reynir að biðjast afsökunar en hann fyrirgefur henni ekki. Í enda þáttaraðarinnar sést Edie loka bréfi sem er til hennar „ástkæra“ Carlos og hún hengir sig í slæðu. Saga Mary Alice. Andi Mary Alice heldur áfram að fylgjast með hverfinu og talar yfir þættina. Í sextánda þættinum, Eiginmaðurinn minn, svínið, (e. My Husband, the pig) kemur dáinn eiginmaður Bree, Rex Van de Kamp (Steven Culp), í staðinn fyrir Mary Alice, sem kemur aftur til þess að tala yfir þáttinn frá sjónharhorni karlmanns. Lynette Scavo dreymir oft um síðasta skiptið sem hún talaði við Mary Alice, sem gerðist nokkrum mínútum áður en hún skaut sig. Lynette kvelur sig yfir því að hafa ekki reynt að bjarga Mary Alice. Eftir gíslatökuna þar sem tveir voru drepnir og Lynette var skotin í handlegginn, dreymdi hana síðasta drauminn um Mary Alice. Þá svaraði Mary Alice að Lynette að hún gæti ekki hjálpað sér en hún gæti gert annað. Að njóta þessa fallega dags sem var þá. Mary Alice talar yfir þáttinn og segir: „Þetta var í síðasta skiptið sem Lynette dreymdi mig og hennar vegna er ég þakklát“. Vikarsskeið. Vikarsskeið, (Víkarsskeið) eða Vikrarskeið er talið vera Hrauns- og Hafnarskeið vestan við ós Ölfusár, þ.e. á milli Þorlákshafnar og Ölfusáróss. Nafnið kemur fyrir í nokkrum fornritum en óvissa er um hvernig á að stafsetja það, heimildum ber ekki saman. Reyndar segir í Harðar sögu að Vikarsskeið sé við Þjórsá, en það er talið vera misskilningur söguhöfundar. Á Vikarsskeiði birtist bergrisinn sem telst einn landvættanna. Í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu segir um sendiboðann sem Haraldur Gormsson Danakonungur sendi í hvalslíki til Íslands: „Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeið. Þar kom í móti honum bergrisi, og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuð hans hæra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum.“ Jötuninn sem í Njáls sögu „stendur með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp“ er ekki hinn eiginlegi landvættur, þó að hann sé eflaust sömu ættar. Á Vikarsskeiði braut Auður djúpúðga eða Unnur djúpúðga skip sitt þegar hún kom til Íslands. Bambi (kvikmynd). "Bambi" er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á skáldsögu "Bambi, A Life in the Woods" eftir austurríska rithöfundinn Felix Salten. Kvikmyndin var leikstýrð var af David Dodd Hand og frumsýnd í New York, þann 13. ágúst 1942. Kvikmyndin var fimmta kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Aðalpersónur eru dádýrið Bambi, foreldrar hans, vinafólk hans Thumper (kanína) og Flower (skunkur), æskuvinkona hans, og framtíðarförunautur Faline. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundar voru Larry Morey, Perce Pearce, og Gustaf Tenggren. Tónlistin í myndinni er eftir Frank Churchill og Edward Plumb. Árið 2006 var gerð framhaldsmynd, "Bambi 2", sem var aðeins dreift á mynddiski. Fiat Uno. Fiat Uno er bifreið framleidd af Fiat. Hann var framleiddur á Ítalíu frá 1983 - 1995 en annars staðar frá 1983 til þessa dags. Gerðirnar hétu eftir hestöflum, t.d. 45, 55, 60, 75, 90. Fiat Uno var arftaki Fiat 127. Fiat Uno var kosinn bíll ársins 1984. Fiat Uno var boðinn sem 3 eða 5 dyra hlaðbaki. Árið 1985 var svo boðið upp á Fiat Uno Turbo, sem var hraðskreiðari og sportlegri. Holurt. Holurt (fræðiheiti: "Silene uniflora") er háplanta af hjartagrasaætt sem ber fimmdeild blóm með hvítum krónublöðum sem hafa bleikfjólubláan belg. Það vex á melum eða söndum og oftast vaxa margir stönglar upp af sömu rót. Í hverju blómi eru 10 fræflar og ein fræva með 5 til 6 stílum. Stönglarnir eru 10 til 25 sm á lengd og gjarnan jarðlægir. Önnur nöfn á holurt eru meðal annars flugnablóm, flugnabú, laxerarfi (vegna laxerandi áhrifa jurtarinnar), fálkapungur, geldingagras, blöðrujurt, galtarpungur, melapungur og prestapungur. Algengur misskilningur er að holurtin sé flugnaæta en flugur vilja stundum álpast niður í belginn. Gnitaheiði. Gnitaheiði var aðsetur Fáfnis sem lá þar á gullinu í ormslíki þar til Sigurður Sigmundsson drap hann og var eftir það nefndur Fáfnisbani. Bræður nefndust Reginn og Fáfnir. Þeir voru synir Hreiðmars bónda sem fékk óvæntan auð í sonargjöld þegar æsir drápu fyrir honum Otur, sem þá var í oturslíki. Þeir fylltu svo belg hans með gulli sem Loki hafði kúgað út úr dvergnum Andvara. Dvergurinn vildi fá að halda eftir einum gullbaug en Loki gaf sig ekki og fékk bauginn en Andvari lét þá bölvun fylgja að hver sem hann ætti myndi láta líf sitt. Þennan sjóð fékk Hreiðmar bóndi en synir hans, Reginn og Fáfnir ágirntust gullið og drápu föður sinn. Fáfnir sveik svo Regin, hirti gullið og hélt með það á Gnitaheiði. Þar lúrði hann á gullinu og breyttist í langan, stóran og mikinn orm (sbr. að liggja sem ormur á gulli). Loks tók Reginn til sinna ráða, fóstraði ungan og vaskan kappa og fékk hann til að koma með sér og sigrast á Fáfni. Það var Völsungurinn Sigurður Sigmundsson og hann sigraðist á Fáfni og var eftir það nefndur Fáfnisbani. Pepsi. Pepsi Cola er kolsýrður gosdrykkur frá Pepsi Co. Hann inniheldur sykur eða sírópsblöndu, koffín og litarefni. Ytri-Kot. Ytri-Kot er eyðibýli í Norðurárdal í Akrahreppi. Til forna hét bærinn "Þorbrandsstaðir" og er talinn hafa verið landnámsjörð Þorbrandar örreks. Þorbrandur landnámsmaður er sagður hafa verið afar gestrisinn og látið gera eldhús svo mikið að allir þeir menn sem þar fóru um skyldu bera klyfjar í gegn og fá mat ef þeir vildu. Ytri-Kot og Fremri-Kot voru líka löngum viðkomustaður ferðamanna og á Ytri-Kotum var var rekin bensínsala fyrir ferðalanga um 1940. Árið 1954 féllu miklar skriður í dalnum í kjölfar stórrigninga og urðu miklar skemmdir á túninu á Ytri-Kotum en húsin sluppu. Jörðin var þá farin í eyði fyrir tveimur árum og því ekkert fólk þar en farþegar í tveimur bílum sem voru á ferð um dalinn sluppu við illan leik. Enn meiri skemmdir urðu á Fremri-Kotum. Ytri-Kot eru nú í eigu bænda á Fremri-Kotum og nytjuð þaðan. Ilja Métsjníkoff. Ilja Iljitsj Métsjníkoff (rússneska: Илья Ильич Мечников) (einnig ritað "Elie Metchnikoff" eða "Ilya Mechnikov") (16. maí 1845 – 15. júlí 1916) var rússneskur örverufræðingur, þekktastur fyrir rannsóknir sínar á ónæmiskerfinu. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í læknis- og lífeðlisfræði 1908 fyrir uppgötvun sína á agnaáti hvítra blóðfrumna. David Bergey. David Hendricks Bergey (f. 27. desember 1860 í Skippack í Pennsylvaníu; d. 5. september 1937 í Fíladelfíu) var bandarískur læknir og örverufræðingur. Hann var þekktastur fyrir rannsóknir tengdar tegundagreiningu og flokkunarfræði baktería og fyrir að ritstýra fyrstu útgáfu uppsláttarritsins "Bergey's Manual of Determinative Bacteriology". Ævi og störf. Að loknu læknanámi við Pennsylvaníuháskóla starfaði David Bergey um nokkurt skeið sem læknir í smábænum "North Wales", skammt utan við Fíladelfíu, en 1893 hóf hann störf á rannsóknastofu í sýklafræði við Pennsylvaníuháskóla. Hann hlaut lektorsstöðu 1903 og hóf þá kennslu í bakteríufræðum við skólann. Hann varð prófessor 1926. Bergey hafði vítt áhugasvið og snerust rannsóknir hans um meðal annars um berkla, rotvarnarefni fyrir matvæli, agnaát frumna og ofnæmi. Auk kennslu og rannsókna var Bergey virkur í fræðasamfélaginu og var forseti bandaríska örverufræðafélagsins um skeið. Bergey's Manual. Árið 1923 kom í fyrsta sinn út uppsláttarritið "Manual of Determinative Bacteriology" og var Bergey aðalritstjóri þess, en í því voru teknar saman á kerfisbundinn hátt flokkunarfræðilegar upplýsingar um þekktar bakteríutegundir til að auðvelda tegundagreiningu óþekktra baktería. Ritið hlaut góðar móttökur hefur síðan komið út í átta útgáfum til viðbótar, undir nafninu "Bergey's Manual of Determinative Bacteriology". Auk þess hafa litið dagsins ljós tvær útgáfur af "Bergey's Manual of Systematic Bacteriology", en það er enn ítarlegra verk með flokkunarfræðilega, fremur en hagnýta, áherslu. Það er til marks um þau áhrif sem Bergey og „handbækur“ hans hafa haft á samfélag örverufræðinga, að "Handbókarsjóður Bergeys" ("Bergey's Manual Trust") veitir eftirsótt verðlaun ("Bergey Award") til örverufræðinga sem lagt hafa af mörkum mikilvægt framlag til flokkunarfræði örvera, og orðu ("Bergey Medal") til örverufræðinga sem helgað hafa farsælan feril rannsóknum á flokkunarfræði örvera. Fritz Røed. Fritz Røed (15. ágúst 1928 – 20. desember 2002) var norskur myndhöggvari frá Bryne í Rogalandi. Þekktasta verk hans er "Sverð í kletti", þrjú stór sverð sem standa upp úr kletti í Hafursfirði og eru minnismerki um Hafursfjarðarorustu og sameiningu Noregs í eitt ríki. 2004 var höggmyndagarður helgaður verkum Fritz Røed opnaður í Bryne. Bíll ársins. Bíll ársins er viðurkenning sem nokkur evrópsk bílatímarit veita árlega. Núverandi skipuleggjendur verðlaunanna eru tímaritin "Auto" (Ítalíu), "Autocar" (Bretlandi), "Autopista" (Spáni), "Autovisie" (Hollandi), "L'Automobile Magazine" (Frakklandi), "Stern" (Þýskalandi) og "Vi Bilägare" (Svíþjóð). Guðmundur Böðvarsson. Guðmundur Böðvarson (1. september 1904 – 3. apríl 1974) var íslenskt skáld, þýðandi og bóndi. Guðmundur fæddist að Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði og bjó þar mestalla ævi sína. Hann vakti athygli með fyrstu ljóðabók sinni, "Kyssti mig sól", árið 1936. Alls gaf hann út tíu frumsamdar ljóðabækur og þýddi auk þess, tólf kviður úr "Gleðileiknum guðdómlega" eftir Dante Alighieri. Auk þess gaf hann út eina skáldsögu, þrjú sagnasöfn og skrifaði ótal greinar, enda var hann virkur í pólitískri baráttu, einkum gegn bandarískri hersetu á Íslandi. Guðmundur sat mörg ár í hreppsnefnd í Hvítársíðu og var í nokkur ár formaður skólanefndar Reykholtsskóla. Guðmundur kvæntist frænku sinni Ingibjörgu Sigurðardóttur frá Hvammi í Hvítársíðu, árið 1931 og bjó með henni þangað til hún lést 1971. Þau eignuðust þrjú börn saman. HIV-veira. HIV-veira (stundum kölluð eyðniveira) er skaðleg veira í mönnum, sem getur valdið eyðni. Veiran, sem er alheimsfaraldur, smitast með blóði, sæði, leggangavökva og brjóstamjólk. Sambærilegar veirur finnast einnig í dýrum. Polyresin. Polyresin er efnablanda sem auðvelt er að nota til að móta og steypa hluti. Þegar efnið harðnar verður það nánast óbrjótanlegt. Polyresin er vinsælt til að móta skrautmuni. Dagur Sigurðarson. Dagur Sigurðarson (6. ágúst 1937 - 19. febrúar 1994) var íslenskt skáld, þýðandi og myndlistarmaður. Hann er meðal þekktustu bóhema og andborgara á Íslandi á 20. öld. Foreldrar Dags voru Sigurður S. Thoroddsen verkfræðingur og Jakobína Margrét Tulinius kennari. Dagur útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1960. Lög unga fólksins (hljómplata). "Lög unga fólksins" er breiðskífa (barnaplata) með hljómsveitinni Hrekkjusvín sem var samstarfsverkefni Spilverks þjóðanna og Þokkabótar. Platan kom út haustið 1977. Allir textar plötunnar eru eftir Pétur Gunnarsson en lögin eru eftir Valgeir Guðjónsson og Leif Hauksson. Pétur og Spilverkið höfðu skömmu áður unnið saman að uppsetningu leikritsins "Grænjaxla" og gerð plötunnar Sturlu sem kom út sama ár. Platan var endurútgefin á geisladiski af Senu árið 1998. Árið 2009 var hún valin í 17. sæti yfir 100 bestu plötur Íslandssögunnar af notendum vefjarins Tónlist.is. Mjallhvít og dvergarnir sjö. "Mjallhvít og dvergarnir sjö" (enska: "Snow White and the Seven Dwarfs") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1937. Myndin er byggð á ævintýrinu um Mjallhvíti. Hefðarfrúin og umrenningurinn. "Hefðarfrúin og umrenningurinn" (enska: "Lady and the Tramp") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin var frumsýnd þann 22. júní 1955. Kvikmyndin var fimmtánda kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Clyde Geronimi, Wilfred Jackson og Hamilton Luske. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundar voru Erdman Penner, Joe Rinaldi, Ralph Wright, Don DaGradi og Joe Grant. Tónlistin í myndinni er eftir Oliver Wallace. Árið 2001 var gerð framhaldsmynd, ', sem var aðeins dreift á mynddiski. Orkustofnun. Orkustofnun er ríkisstofnun sem starfar undir yfirstjórn iðnaðarráðuneytisins. Að auki skal Orkustofnun annast eftirlit með fyrirtækjum sem starfa samkvæmt raforkulögum (nr. 65/2003). Eftirlit stofnunarinnar varðar setningu tekjumarka og eftirlit með gjaldskrám fyrir sérleyfisstarfsemi raforkufyrirtækja, bókhaldslegan aðskilnað fyrirtækja sem stunda mismunandi starfsemi samkvæmt lögunum og eftirlit með gæði raforku. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðuþjóðanna (JHS) starfar innan vébanda Orkustofnunar. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) voru fyrrum hluti Orkustofnunar en eru nú sjálfstætt ríkisfyrirtæki. Laufey Valdimarsdóttir. Laufey (standandi) með Bríeti móður sinni Laufey Valdimarsdóttir (1. mars 1890 – 9. desember 1945) var íslensk kvenréttindakona. Hún var dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur ritstjóra Kvennablaðsins og Valdimars Ásmundssonar ritstjóra "Fjallkonunnar". Bróðir hennar var Héðinn Valdimarsson stjórnmálamaður og verkalýðsforingi. Laufey lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík fyrst kvenna árið 1910 með 1. einkunn og hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla en lauk ekki prófi þaðan. Hún varð formaður Kvenréttindafélags Íslands árið 1927 og fyrsti formaður Mæðrastyrksnefndar 1928. Hún lést í París þar sem hún var á leið á alþjóðaþing kvenna í Sviss. Lightning. Lightning er nítján feta (tæplega sex metra) löng þrímenningskæna hönnuð af bandaríska skútuhönnuðinum Olin Stephens árið 1938. Hún er búin bermúdasegli, fokku og belgsegli. Skrokkurinn er 320 kg að þyngd og kjölurinn einn er 60 kg, smíðaður úr stáli, þannig að báturinn nálgast það að vera stöðugur eins og lítill kjölbátur með kjölfestu. RS Feva. RS Feva er tólf feta (3,6 metra) löng tvímenningskæna hönnuð af enska skútuhönnuðinum Paul Handley árið 2002. Báturinn er vinsæll keppnisbátur fyrir unga siglingamenn. Hann er ýmist búinn fullsprekuðu bermúdasegli, fokku og gennaker (RS Feva XL) eða einu ósprekuðu stórsegli (RS Feva S). RS Tera. RS Tera er 9,5 feta (2,9 metra) löng einmenningskæna hönnuð af enska skútuhönnuðinum Paul Handley árið 2005 og hugsuð sem keppnis- eða æfingabátur fyrir unga siglingamenn. Hún varð alþjóðleg keppnisgerð hjá Alþjóða siglingasambandinu árið 2007. RS Tera er steypt úr hitadeigu plasti og vegur aðeins 33 kg án reiða. Moth. Moth er heiti á nokkrum gerðum ellefu feta (3,3 metra) langra einmenningskæna sem hafa verið vinsælar í enskumælandi löndum frá því á 4. áratug 20. aldar. International Moth-bátar eru þekktastir fyrir að vera spaðabátar sem lyfta sér upp úr vatninu á ferð. Saga. Moth varð til í Bandaríkjunum þegar gerðin var formlega skráð undir heitinu „International Moth Class Association“ eða IMCA árið 1932. Fyrstu bátarnir voru smíðaðir í Atlantic City árið 1929 en mjög svipaði bátar höfðu þá þróast í Inverloch í Ástralíu frá 1928 og mynduðu þar gerðina „Inverloch Eleven Footer“. 1933 breyttu Ástralir heiti gerðarinnar í Moth, þrátt fyrir að sá munur væri á reiða gerðanna tveggja að bandarísku seglin voru minni og mastrið styttra en á þeim áströlsku. Eftir Síðari heimsstyrjöldina urðu bandarísku Moth-bátarnir vinsælir í Evrópu. Ein af þeim tegundum sem þar þróaðist varð síðar sérstök gerð, svokölluð Evrópukæna. Ástralir hófu um það leyti baráttu fyrir því að reglur yrðu rýmkaðar svo þeirra Moth-bátar gætu tekið þátt í alþjóðlegum mótum. 1971 bjó IMCA til nýjar reglur sem samþykktu stærri fullsprekuð segl eins og á áströlsku bátunum, og líka hliðarvængi sem þá voru nýkomnir fram. Um leið var skipulagi IMCA breytt þannig að samtökin urðu alþjóðleg en ekki aðeins bandarísk. Við þetta snarminnkaði þátttaka Bandarískra Moth-siglara í mótum og þróun gerðarinnar fluttist til Evrópu og Ástralíu. Áhugi á hefðbundnum bandarískum Moth-bátum jókst síðan aftur í Bandaríkjunum á 9. áratugnum og frá 1990 hefur verið keppt á svokölluðum „Classic Moth“. Paulínia. Paulínia er borg í Brasilíu með yfir 80 þúsund íbúa (2008). Gunnsteinn Sigurðsson. Gunnsteinn Sigurðsson (fæddur 26. ágúst 1950 í Vestmannaeyjum) var bæjarstjóri Kópavogs 2009-2010. Hann tók við embættinu af Gunnari Birgissyni 1. júlí 2009. Gunnsteinn var fyrst kjörinn í bæjarstjórn Kópavogs 2002 og var bæjarfulltrúi þar til 2010 þegar hann gaf ekki kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Gunnsteinn er kennaramenntaður og var kennari við Digranesskóla í 20 ár. Að loknu framhaldsnámi í Kaupmannahöfn var hann ráðinn aðstoðarskólastjóri Smáraskóla og 1997 var hann svo ráðinn skólastjóri Lindaskóla. Svartfuglinn. Svartfuglinn er gönguhátíð sem haldin hefur verið árlega á sunnanverðum Vestfjörðum frá árinu 2006. Hátíðin er fjögurra daga hátíð sem haldin er síðustu helgina í júlí ár hvert. Markmið hátíðarinnar er að gefa fólki tækifæri til að kynnast náttúruperlum, menningu og sögu svæðisins með þátttöku í gönguferðum með leiðsögn og ýmsum uppákomum sem staðið er fyrir. Svæði hátíðarinnar er Arnarfjörður, Tálknafjörður og Patreksfjörður auk norðanverðs Breiðafjarðar. Svartfuglinn dregur nafn sitt af tvennu. Annars vegar er það svartfuglinn í Látrabjargi, stærsta fuglabjargi Evrópu og stærstu álkubyggð heims (álkan er svartfuglstegund). Hins vegar er þetta tilvísun í nafnið á leikriti Gunnars Gunnarssonar, Svartfugl, sem fjallar um morðin á Sjöundá. Ein af aðal áskorunum gönguhátíðarinnar er einmitt flóttaleið Bjarna á Sjöundá sem hann fór þegar hann strauk úr gæsluvarðhaldi hjá sýslumanninum á Haga á Barðaströnd og gekk fyrir Stálfjallið og yfir að Sjöundá. Sú leið er talin ófær öllum nema þaulkunnugum enda þarf þar að gæta að sjávarföllum og þræða einstigi í snarbröttum klettum. Hugmyndasmiður og skipuleggjandi hátíðarinnar er Hjörtur Smárason Gönguleiðir. Meðal þeirra gönguleiða sem boðið hefur verið upp á á hátíðinni er Látrabjargið þar sem gengið er eftir bjarginu frá Geldingarskorardal að Bjargtöngum, slóðir Gísla Súrssonar í Geirþjófsfirði, biskupagatan úr Sellátrum við Tálknafjörð, gegnum Krossadal og yfir í Selárdal við Arnarfjörð, göngu frá Melanesi framhjá Sjöundá og yfir í surtarbrandsnámurnar í Stálfjalli auk fleirri gönguleiða. Aðþrengdar eiginkonur (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "Aðþrengdum eiginkonum" fór af stað á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC þann 30. september 2007 og var einn aukaþáttur sem hét „Leyndarmál og Lygar“ (e. "Secrets and Lies"), sem var sýndur 23. september. Handristhöfundaverkfallið hafði áhrif á þessa þáttaröð, sem seinkaði framleiðslu þáttanna eftir tíunda þáttinn. Framleiðendur þáttanna ætluðu að geyma tíunda þáttinn fram í desember og var þá síðasti þáttur fyrir verkfallið níundi þáttur seríunnar. Ellefti þátturinn „Sunnudagur“ (e."Sunday") var sýndur í Bandaríkjunum og Kanada þann 13. apríl 2008, meira en þremur mánuðu eftir að 10. þátturinn var sýndur. Þáttaröðin innihélt sautján þætti, fimmtán í venjulegri lengd, og síðan tveggja tíma lokaþátt þann 18. maí, sem gerir fjórðu þáttaröðina að stystu þáttaröðinni til þessa. Söguþráður. Aðal ráðgáta þáttaraðarinnar er um fjölskyldu sem snýr aftur á Bláregnsslóð eftir 12 ára fjarveru. Katherine Mayfair kemur til Bláregnsslóðar frá Chicago með (nýja) eiginmanninum sínum, Adam, og dóttur sinni Dylan. Dylan var einu sinni besta vinkona Julie, en Dylan man ekkert eftir Julie, eða eftir því að hafa búið á Bláregnsslóð. Katherine er ánægð að hitta Susan, gömlu vinkonu sína, þrátt fyrir að henni komi ekki vel saman við Bree. Katherine segir að hún hafi komið aftur til þess að hugsa um Lillian, veika frænku sína en samtöl milli Katherine og eiginmanns hennar benda til annars. Saga Susan. Susan er loksins gift Mike Delfino en á erfitt með að vera ánægð þar sem hún er hrædd um að Mike sé ekki eins hamingjusamur og hann gæti verið. Susan heldur að hún sé veik og verður tilfinningasöm og hangir samband hennar og Mike á bláþræði. Þegar hún kemst að því að hún er ólétt verður hún himinlifandi, en Julie á erfitt með að búa í sama húsi og Mike og rekast skoðanir þeirra sífellt á. Mike og Julie segja síðan Susan að hún þurfi að velja á milli þeirra tveggja, og halda sig við ákvörðun sína. Susan biður Bree um númerið hjá kvensjúkdómalækninum hennar eftir að henni finnst kjánalegt að fara til Adams, sem er kvensjúkdómalæknir og eiginmaður Katherine. Hún fæðir son að nafni MJ í næstsíðasta þættinum. Saga Lynette. Lynette Scavo er með krabbamein og felur það með því að vera með hárkollu sem er lík hennar hári. Enginn veit um krabbameinið nema Tom, maðurinn hennar, og Stella, mamma hennar, sem er hjá Lynette og systrum hennar. Tom og Stella reyna að sannfæra hana um það að allt verði mun auðveldara ef hún segði öllum sannleikann. Eftir hafa misst alla orku og þjáðst af þreytu og ógleði segir hún öllum sannleikann. Krabbamein Lynette truflar Gabrielle og lætur henni líða illa, vegna þess að faðir hennar dó úr krabbameini. Vandamál Lynette með Stellu halda áfram, á meðan Stella bakar skúffuköku með hassi í til þess að Lynette losni við ógleðina og fái orkuna aftur. Þrátt fyrir veikindin vill Lynette líta vel út fyrir Tom og kaupir hárkollu til þess að koma honum til en honum líður ekki vel með það að sofa hjá veikri manneskju og tilfinningar Toms um veikindi Lynette koma fram. Katherine Mayfair fer í taugarnar á Lynette þegar hún vill bjóða sig fram sem forseti íbúaráðs götunnar og losna við ýmsa hluti á Bláregnsslóð og Lynette býður sig fram á móti henni; hún tapar vegna atkvæðis Susan. Hún fyrirgefur Susan seinna. Eftir að hún drepur meindýr á heimilinu verður hún reið út í krabbameinið en læknirinn hennar sendir mann til hennar til þess að segja að hún sé laus við krabbameinið, nú er eina meindýrið sem Lynette þarf að losna við er móðir hennar. Þegar Stella heyrir samtalið milli þriggja dætra sinna verður Stella leið og fer án þess að láta vita. Nokkrum dögum seinna, eftir stanslausa leit, kemur Lynette heim og finnur stjúpföður sinn í eldhúsinu. Til þess að fá Stellu heim fara Lynette og Glenn (stjúpfaðir hennar) í almenningsgarðinn að hitta Stellu því hún var búin að hringja í Glenn og biðja hann um að hitta sig þar til þess að láta hana hafa peninga. Þegar Stella sér Lynette, verður hún reið yfir því að þau hafi platað hana. Í ringulreiðinni segir Glenn við Lynette að hann hafi ekki farið frá Stellu vegna þess að hún hélt framhjá honum, heldur vegna þess að hann var samkynhneigður. Allt endar með því að Stella samþykkir að búa heima hjá Glenn, vegna þess að hann var með auka herbergi. Fjölskylda Lynette felur sig hjá Karen McCluskey þegar fellibylur gengur yfir. En húsið eyðileggst þegar Lynette og Karen eru ekki inni í húsinu á meðan fellibylurinn gengur yfir, og þær tvær sleppa úr hruninu. Það kemur fram að Ida Greenberg kom öllum fjölskyldumeðlimum Lynette undir stigann, svo að þau lifðu af. Hins vegar dó Ida vegna þess að það var ekki nóg pláss undir stiganum. Hún þurfti að sitja úti í horni og dó þegar húsið brast. Saga Bree. Bree Hodge þykist vera ólétt af barni Danielle svo að hún geti ætleitt það og alið upp án þess að einhver viti að það sé barn Danielle. Hún kemur að nokkrum hindrunum á leiðinni, þegar eldri kona vill snerta magann á henni og þegar grill-gaffli er stungið í falska magann hennar. Fyrrverandi tengdamóðir Bree kemst að fölsku óléttu Bree en lofar að halda því leyndu. Danielle missir vatnið í hrekkjavökupartýi Bobs og Lees á meðan hún er klædd sem Bree og Adam Mayfair, sem lofar að segja engum leyndarmálið, tekur á móti Benjamin Hodge. Danielle ákveður að Bree ali barnið upp og fer frá Fairview, líklegast til þess að fara í háskóla. Bree lætur síðan umskera Benjamin þrátt fyrir mótmæli Orsons. Til viðbótar við umskurðinn ætlar Bree að ala Benjamin upp í því sem kallað er „fjölskyldurúm“, þar sem Benjamin sefur uppí hjá henni og Orson. Eftir rifrildi við matarborðið byrjar Orson að sofa á sófanum á meðan Andrew flytur út eftir að hafa verið merktur sem „mistök“. Stuttu eftir það fer Bree að heimsækja Andrew og kemst loks að því að sonur hennar er orðinn að manni og að honum hafi tekist það vel. Saga Gabrielle. Gabrielle Lang er ósátt í hjónabandi sínu við Victor. Hún vill byrja aftur með Carlos og þrátt fyrir að hann vilji það líka finnst honum að hann beri skyldur gagnvart Edie, sem þóttist fyrirfara sér til þess að fá Carlos aftur. Hún kemst að leyndum auðlindum hans í banka erlendis og notar auðinn til þess að kúga hann til þess að vera í sambandinu. Edie fær kynsjúkdóm úr ljósabekk sem hún lætur Carlos fá og hann gefur Gabrielle hann sem lætur Victor fá hann. Edie setur brotin saman og áttar sig á því hvað er í gangi. Hún ræður einkaspæjara og kemst að því að Carlos og Gaby eru saman. Edie sýnir Victor myndirnar með vonum um að hann geri eitthvað slæmt við Carlos. Í bátsferð langt úti á hafi segir Victor Gabrielle að hann viti um framhjáhaldið og tekur hann svartan poka út úr skápnum. Þegar Gabrielle óttast um að pokinn innihaldi byssu lemur hún hann í hausinn með ár, sem veldur því að hann dettur út fyrir. Hún hittir Carlos í landi og þau komast að því að það var alls ekki byssa í pokanum, aðeins peysa. Þau fara aftur út á sjó og finna Victor og draga hann aftur um borð. Victor og Carlos fara að slást. Þegar Victor er við það að drepa Carlos með hníf lemur Gabrielle Victor aftur út fyrir með árinni. Í þetta sinn finnst Victor ekki. Gabrielle og Carlos áætla að Victor sé daínn og koma aftur í land og senda bátinn aftur út á sjó á sjálfstýringunni og reyna að láta dauða Victors líta út fyrir að vera slys — og að þau hafi ekki komið nálægt honum. Tveir rannsóknarlögreglumenn koma að húsi Gabrielle og spyrja hana um hvar Victor sé að finna og á eftir fylgir samtal með Carlos og símtal frá Edie og finnst Victor lifandi, ómeðvitundarlaus á ströndinni og er farið með hann á spítala. Gabrielle skilur Carlos eftir heima og fer á spítalann og segja rannsóknarlögreglumennirnir að Victor muni ekki neitt. En eftir að mennirnir fara segir Victor að hann muni allt, en hann segir ekki hvað hann muni gera við upplýsingarnar. Hann er að lokum drepinn af grindverki sem stingst í gegnum magann á honum á meðan fellibylnum stendur. Gabrielle kemst að því í útför Victors að hún fá ekki krónu af peningunum hans vegna þess að hann vissi af framhjáhaldinu. Eftir að verða blindur og missa alla peningana sína í útlenda bankanum segir Carlos Gaby ekki frá blindunni, fyrr eftir að hún heyrði það frá Edie. Saga Edie. Edie Britt sást síðast þegar hún var að hengja sig eftir að Carlos hætti með henni. En það kemur fram að Edie var aðeins að þykjast hengja sig til þess að fá Carlos til sín aftur. Carlos finnst hann vera ábyrgur fyrir Edie og tekur hana aftur, þrátt fyrir að vera ástfanginn af Gaby. Hún kemst að leyndum auðlindum Carlos í útlendum banka og notar auðinn til þess að kúga Carlos svo hann verði lengur hjá henni. Edie fær kynsjúkdóm úr ljósabekk sem hún lætur Carlos fá, sem lætur Gabrielle fá sem að lokum smitar Victor. Edie setur brotin saman og kemst að því hvað er í gangi. Hún ræður einkaspæjara sem tekur myndir af Gaby og Carlos að kyssast. Edie sýnir Victori myndirnar og vonast til þess að hann geri Carlos eitthvað slæmt. Gaby og Edie tala saman þegar fellibylurinn gengur yfir og gjaldkerinn hans Carlos lætur Edie óvart fá upplýsingarnar um útlenda bankareikninginn, þegar hann heldur að Edie sé Gaby. Eftir ryskingar fjúka blöðin í burtu og neyðast þær báðar til þess að flýja fellibylinn og fara inn í kjallara hjá Edie þar sem þær neyðast til þess að endurmeta og laga samband sitt, sem hefur verið brothætt síðan úr síðustu þáttaröð. Seinna í þáttaröðinni kemst Edie að því að Benjamin er raunverulega sonur Austin og Danielle en ekki Bree og Orson. Eftir að Edie reynir að kúga Bree með þessum upplýsingum segir Bree hinum þremur sannleikann. Allar fjórar tala við Edie. Edie sést síðast tala við son sinn um að hún komi að heimsækja hann á Mæðradaginn og hann eigi eftir að eyða mun meiri tíma með henni héðan í frá. Fimm ár fram í tímann. Í lok 4. þáttaraðar eru spóluð fimm ár fram í tímann, ar sem við sjáum Susan koma heim úr póker með stelpunum til ónafngreinds manns (leikinn af Gale Harold), sem hún kyssir, og virðist búa með. Það var ekki þekkt á þeim tíma hvað kom fyrir Mike og M.J. (áður þekktur sem Maynard). Lynette kemur heim til Tom og sér lögreglubíl fyrir utan húsið. Lögreglumaður er að tala við Tom um að eitt barna hans hafi stolið bíl. Þegar Lynette segist ætla að tala við Porter um þetta, vegna þess að hann fór á unglingaheimili venga svona atviks, segir Tom að í þetta skiptið hafi það verið Preston. Bree kemur heim eftir póker og Andrew tekur á móti henni og segir henni að það sé kona frá New York Time í símanum og hún vilji taka viðtal við hana (þar sem hún er frægar matreiðslubókahöfundur) og Orson Hodge kallar á hana og Bree segir Andrew að konan þurfi að taka viðtalið á morgun vegna þess að hana langi til þess að fara í freyðibað með eiginmanninum sínum. Gabrielle fer upp lítið máluð og sér dætur sínar, Juanitu og Celiu Solis, leika sér með málningardótið hennar og kjólana. Edie sést ekki en á þessum tíma verður hún gift og undirbýr sig að snúa aftur á Bláregnsslóð, sem verður ráðgáta fimmtu þáttaraðar. Katherine, sem nú er sjötta aðalpersónan, kemur heim úr póker og þá eru skilaboð á símsvaranum. Skilaboðin eru frá Dylan sem var að koma frá París, sem segir móður sinni spennt frá því að kærastinn hennar hafi beðið hennar undir Eiffel-turninum. Soay. Soay er nafn nokkurra skoskra eyja. Það er dregið af "so-ey" eða Sauðey sem norrænir menn nefndu eyjurnar. Auður djúpúðga Ívarsdóttir. Auður djúpúðga Ívarsdóttir – (Auður hin djúpúðga eða djúpauðga, var uppi um 700) – var dóttir Ívars víðfaðma konungs í Svíþjóð, Danmörku og víðar á Norðurlöndum. Hún var móðir Haralds hilditannar, sem sagt er frá í ritunum "Sögubroti af fornkonungum", "Hversu Noregur byggðist" og "Hyndluljóðum". Ekki má rugla Auði djúpúðgu Ívarsdóttur við Auði djúpúðgu Ketilsdóttur sem var landnámskona á Íslandi. Ívar víðfaðmi faðir hennar gifti hana Hræreki konungi af Sjálandi, en vissi þó að hún vildi heldur eiga Helga bróður hans. Þau Auður og Hrærekur eignuðust soninn Harald hilditönn. Ívar víðfaðmi sagði Hræreki að Auður héldi fram hjá honum með Helga, og varð það til þess að Hrærekur drap Helga bróður sinn. Ívar lét þá drepa Hrærek og lagði undir sig Sjáland. Auður flýði þá til Garðaríkis með son sinn Harald hilditönn, giftist Ráðbarði konungi þar og eignuðust þau soninn Randver. Ívar faðir hennar varð afar reiður yfir því að Auður hafði gift sig án hans leyfis. Þrátt fyrir háan aldur lagði hann af stað til Garðaríkis til að sækja hana, en dó á leiðinni. Haraldur hilditönn fór þá til Svíþjóðar til að taka við konungdæminu eftir afa sinn og naut til þess stuðnings Ráðbarðs stjúpföður síns. Garðaríki. Garðaríki eða Garðaveldi er gamalt norrænt nafn á þeim hluta Rússlands, sem á víkingaöld var að hluta numinn af norrænum mönnum, einkum Svíum og stjórnað af þeim um tíma. Þeir lögðu einkum undir sig svæði í grennd við stærstu árnar og fljótin, allt suður að Kænugarði, og nýttu árnar sem siglingaleiðir suður til Svartahafs og jafnvel Kaspíahafs. (Stundum var notuð styttingin "Garðar" um Garðaríki). Einnig var oft notað nafnið Austurvegur – "að fara í Austurveg" – (stundum "Austurlönd" eða "Austurríki"). Loks var Garðaríki stundum kallað Svíþjóð hin mikla eða Svíþjóð hin kalda (t.d. í Heimskringlu), sem vísar til þess að þetta var aðal útrásarsvæði Svía á víkingaöld. Þeir lögðu einnig undir sig landsvæði víða meðfram ströndum Eystrasalts, sem sum hver eru sænskumælandi enn í dag, t.d. í Finnlandi. Nafnið "Garðaríki" er venjulega talið merkja „ríki hinna víggirtu borga“, og er sennilega dregið af röð sænsk-slavneskra borga meðfram rússnesku stóránum. Aldeigjuborg var þeirra nyrst. "Garður" er af sömu rót og slavneska orðið "grad" eða "gorod" = „borg“ eða „virki“. Garður þýðir m.a. veggur, varnarveggur, virki, en fór síðar að vísa einnig til þess sem var innan virkisveggjanna, þ.e. borgarinnar. Þegar Svíar fóru að sækja inn á svæðið voru þeir af innfæddum kallaðir "Rus". Talið er að nafnið sé dregið af finnska nafninu á Svíþjóð ("Ruotsi") eða því eistneska ("Rootsi"). Þróun stjórnmála leiddi síðar til þess að farið var að nota þetta nafn um Garðaríki: Rússland. Annars hafa komið fram fleiri kenningar um uppruna nafnsins Rússar. Í fornsögunum og öðrum norrænum heimildum er "Hólmgarður" (Novgorod) talinn höfuðborg Garðaríkis. Aðrar borgir sem eru nefndar í fornsögunum eru Aldeigjuborg (Staraya Ladoga eða Gamla Ladoga), Kænugarður (Kiev), Palteskja (Polotsk), Smaleskja (Smolensk), Súrsdalar (Suzdal), Móramar (Murom), og Ráðstofa (Rostov). Lýsingarorðið "gerskur" var stundum notað um hluti eða menn sem komu frá "Garðaríki". Halldór Laxness kallar eina bók sína "Gerska ævintýrið" (1938), hún fjallar um Rússland þess tíma, séð með augum hans. (Dæmi eru um að "gerskur" eða "girskur" sé notað um þá sem koma frá Miklagarði). Nicolas Appert. Nicolas Appert (17. nóvember 1749 – 1. júní 1841) var franskur kryddbakari og uppfinningamaður. Hann er stundum nefndur „faðir niðursuðunnar“. Hollensk málfræði. Hollenska hefur enn fallbeygingu, en hún er nánst takmörkuð við fornöfn og föst orðasambönd og hefur að öðru leyti dottið að mestu úr málinu. Tæknilega er enn gerður greinarmunur á málfræðilegu karl- og kvenkyni, en í reynd má segja að nú séu aðeins tvö málfræðileg kyn í hollensku, hvorugkyn (ákv. gr. het) og samkyn (ákv. gr. de), líkt og í dönsku. Beygingakerfi nafnorða og sambanda þeirra hefur verið einfaldað til muna, og líkist fremur því enska en því þýska. Sundrunarefni. Sundrunarefni er efni sem bætt er í upplausn til að hindra að hún setjist til eða fari í kekki. Sundrunarefni eru m.a. notuð til að hreinsa olíumengun í hafi en olía brotnar hægt niður við venjulegar kringumstæður því hún er samsafn af löngum keðjum ur kolefnis- og vetnisatómum. Sundrunarefni draga úr yfirborðsspennu milli vatns og olíu með því að sundra olíu í minni dropa. Niðurbrot olíu eykst því olía dreifist um vatnið og yfirborð olíu sem snertir vatnfasa eykst. Sundrunarefni valda því einnig að olía dreifist um vatnið en flýtur ekki aðeins á yfirborðinu. Áfengisskattur. Áfengisskattur er álagning sem ríkið setur á áfengi og telst til neyslustýringarskatta. Á Íslandi er skattur á áfengi 53-71 kr á hvern cl af hreinum vínanda umfram lágmark, mismunandi eftir því hvers konar vöru er um að ræða en það þýðir að áfengisskattur á hverja ½ lítra bjórdós er um 80 krónur. Sum ríki hafa engan áfengisskatt. Eyja hinna dauðu (málverk). Eyja hinna dauðu (þ. "Die Toteninsel") er þekktasta málverk svissneska symbolistans Arnold Böcklins (1827-1901). Hann málaði nokkrar útgáfur af málverkinu á árunum 1880-1886 og eina mynd sem hann nefndi "Eyja lífsins". Eftirprentanir af Eyju hinna dauðu voru vinsælar víða um Evrópu — rússneski rithöfundurinn Vladimir Nabokov sagði þau vera að finna á hverju heimili í Berlín. Sigmund Freud, Vladimir Lenin og Georges Clemenceau voru með eftirprentun í skrifstofum sínum. Lýsing. Allar útgáfurnar sýna litla eyju fyrir miðju sem er nánast autt sker umkringt vatni. Hvergi í bakgrunninn glittir í land við sjóndeildarhringinn. Einhverskonar híbýli eru þó á eyjunni þar sem sést að búið er að höggva í steininn innganga og op sem minna á forna grafreiti. Einnig er búið að byggja höfn sem hægt er að leggja báta að. Við hafnarmynnið er bátur sem stefnir að eyjunni og í honum virðast vera tvær manneskjur. Önnur rær bátnum en hin virðist vera hvítklædd kona sem stendur bein í baki á bátnum fyrir framan líkkistu eiginmanns síns. Á miðri eynni eru nokkur sýprusviðartré - sem hefð er fyrir að gróðursetja í kirkjugörðum og tengjast dauðanum - og ná rétt upp fyrir klettaveggina sem mynda hálfhring í kringum þau. Böcklin útskýrði aldrei verkið en hann á þó að hafa sagt um það að það væri draumi líkast og ætti að kalla fram kyrrð. Nafnið á málverkinu var ekki valið af Böcklin heldur af listaverkasalanum Fritz Gurlitt árið 1883. Í bréfi sem Böcklin sendi þeim sem upprunalega lagði inn pöntun fyrir málverkinu, Alexander Günther, nefndi hann verkið "Eyja hinna dauðu". Talið er að Böcklin hafi haft að fyrirmynd Enska kirkjugarðinn í Flórens, en Böcklin átti heima í Flórens þegar hann málaði verkin. Í kirkjugarðinum var dóttir hans, Maria, grafin en hún lést aðeins sjö mánaða gömul. Böcklin missti alls átta börn af þeim 14 sem hann eignaðist. Eyjan sem Böcklin hefur hugsanlega notað sem fyrirmynd er Pondikonisi, lítil eyja nærri Korfú eða Ponza í Tyrrenahafi. Túlkun. Leiða má líkum að því að ræðarinn eigi að tákna Karon, persónu úr grískri goðafræði, sem ferjaði sálir þeirra, sem nýlega höfðu dáið, yfir ána, sem aðskildi heim hinna lifandi og hinna dauðu. Samkvæmt því væri vatnið annað hvort áin Styx eða Akkeron og áfangastaðurinn því dvalarstaður hinna látnu. Áhrif. Íslenski myndhöggvarinn Einar Jónsson ferðaðist til Flórens fljótlega eftir aldamótin 1900 og sagði svo í ævisögu sinni: „"Sérstakur yndisleiki hvíldi hér yfir öllu. Þetta var önnur veröld en fyrir norðan Alpana. Ég fór að bera umhverfið saman við landslagsmyndir, sem ég hafði séð frá Ítalíu, en fannst það ekki líkt þeim, nema helst málverkum Arnolds Böcklins einmitt þess málara, sem legið var á hálsi fyrir það, að verk hans væru óraunveruleg. Nú sá ég, að sú gagnrýni var út í bláinn, að Böcklin vissi lengra en nef hans náði og túlkaði með pensli sínum dýpri og sannari skynjun á náttúrunni en þá, sem aðeins tekur til hins sýnilega yfirborðs."“ Listi yfir friðuð hús á Íslandi. Þetta er listi yfir friðuð hús á Íslandi. Jón Sigurðsson (verkalýðsforingi). Jón Sigurðsson (12. maí 1902 - 6. júlí 1984) var stofnandi og fyrsti formaður Sjómannasambands Íslands. Ævi. Jón fæddist í Hafnarfirði. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, fiskmatsmaður, og fyrri kona hans, Guðný Ágústa Gísladóttir, en hún lést úr berklum árið 1910. Jón var í miðið af börnum þeirra fimm. Eftir barna- og gagnfræðaskólanám í Hafnarfirði og Ási í Ásahreppi stundaði hann sjóvinnustörf á skútum, bátum og togurum. Árið 1934 varð hann fyrsti erindreki Alþýðusambands Íslands samkvæmt skipunarbréfi frá Jóni Baldvinssyni, forseta sambandsins, en varð síðar fyrsti framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, sem hann gegndi með hléum 1940 - 1944. Þá var hann ritari Sjómannafélags Reykjavíkur 1932 - 1934 og 1951 - 1961 og formaður félagsins 1967 - 1971. Var í framboði til Alþingis í Austur-Húnavatnssýslu 1933 og aftur 1937, en féll í bæði skiptin fyrir Jóni Pálmasyni á Akri. Fór fram í þriðja sinn fyrir Alþýðuflokkinn í alþingiskosningunum árið 1942 og þá á Akureyri, en féll líka í það skiptið. Starfsmaður Pósts og síma 1945-1948. Varð aftur framkvæmdastjóri ASÍ 1949 - 1954. Kenndi ungum jafnaðarmönnum fundarsköp og ræðumennsku á vegum Alþýðuflokksins á tímabilinu 1940-1950. Í sölunefnd setuliðseigna 1945 - 1947. Framkvæmdastjóri Félags sérleyfishafa 1955-1958. Forstjóri Innflutningsskrifstofunnar 1958-1960. Skrifstofustjóri hjá Verðlagsstjóra 1961 - 1966 og 1968 - 1972. Þann 24. febrúar 1957 gerðist hann einn af helstu hvatamönnum að stofnun Sjómannasambands Íslands. Á framhaldsstofnfundinum í október það sama ár var hann kjörinn formaður Sjómannasambandsins og gegndi þeirri stöðu samfleytt til 1976 meðfram öðrum störfum. Hann sat í miðstjórn Alþýðusambandsins með hléum frá 1938 - 1976. Sat í Verðlagsráði sjávarútvegsins frá stofnun þess 1961 - 1977, þar af formaður 1966 - 1968. Í hafnarstjórn Reykjavíkur 1958 - 1963. Formaður hússtjórnar Norræna hússins frá opnun þess 1968 - 1979. Í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1934 - 1937 og 1974 - 1976. Í verðlagsnefnd 1960 - 1980. Í stjórn Alþýðuflokksins 1934 - 1976, þar af 25 ár í framkvæmdastjórn flokksins. Stofnandi og formaður Verkalýðsmálanefndar flokksins í 20 ár. Var í mörgum stjórnskipuðum nefndum. Var fastur fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar á alþjóðaþingum, svo sem þingum ITF, ICFTU, auk samnorrænna fiskiráðstefna, sem voru haldnar til skiptis í hverju Norðurlandanna fyrir sig. Þá var hann ævinlega boðinn á þing Alþýðusambandanna á Norðurlöndum. Var fulltrúi Íslands á 25. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York árið 1970. Þá var hann einn af föstum ræðumönnum á hátíðarsamkomum verkalýðshreyfingarinnar á 1. maí ár hvert. Rak ásamt eiginkonu sinni Fjölritunarstofu Jóhönnu Guðmundsdóttur 1948 - 1976. Heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Hólmavíkur, Bifreiðastjórafélaginu Frama og í Alþýðuflokknum. Sæmdur gullmerki Sjómannadagsráðs 1976 og riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 1973. Ritstjóri Neista, blaðs jafnaðarmanna á Siglufirði 1935-1937. Ritstjóri Sæfara, blaðs Sjómannasambands Íslands 1958. Jón lést í Reykjavík 6. júlí 1984. Jón var tvíkvæntur. Seinni kona hans var Jóhanna Guðmundsdóttir frá Seyðisfirði, bókari og framkvæmdastjóri (f. 30. júlí 1909 - d. 9. nóvember 1985). Þau eignuðust eina dóttur, en fyrir átti Jón fjögur börn af fyrra hjónabandi. Ævintýri Jóns og Gvendar. Ævintýri Jóns og Gvendar er fyrsta íslenska kvikmyndin sem talist getur alíslensk. Ástæða þess að hún er talin vera fyrst er vegna þess að hún er samin, framleidd og henni leikstýrt af íslendingi, en hið þríeina verk vann Loftur Guðmundsson. Hann samdi ævintýrið sem stuttmynd og hafði bandarískar gamanmyndir sem fyrirmynd. Ævintýri Jóns og Gvendar var frumsýnd í Nýja bíói þann 17. júní árið 1923. Í myndinni léku nokkrir þekktir leikhúsleikarar þess tíma en aðalhlutverkin léku Tryggvi Magnússon og Eiríkur Beck. Myndin er því miður að mestu glötuð en tveggja mínútna brot er varðveitt í Kvikmyndasafni Íslands. Voyager 2. Voyager 2 geimfarið er ómannað könnunarfar sem var skotið á loft 20. ágúst 1977. Það fór framhjá Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus áður en það fór út fyrir endimörk sólkerfisins. Búist er við því að geimfarið sendi frá sér boð allt til 2025. Aðþrengdar eiginkonur (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröðin af "Aðþrengdum eiginkonum" fór af stað á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC þann 28. september 2008 og lauk henni 17. maí 2009. Þessi þáttaröð gerist fimm árum eftir að sú fjórða endaði og heldur áfram að fylgjast með lífum íbúanna á Bláregnsslóð, Susan Mayer, Lynette Scavo, Bree Hodge, Gabrielle Solis, Edie Britt og Katherine Mayfair, séð í gegnum augu dauðs nágranna þeirra, Mary Alice Young. Þáttaröðin snýst um þriðja eiginmann Edie, Dave Williams. Þáttaröðin fangaði athygli fjölmiðla þegar tilkynnt var um að Edie Britt, leikin af Nicollette Sheridan, myndi deyja um miðja þáttaröðina. Edie talar inn á þættina "Look Into Their Eyes" og "You See What The Know" eftir dauða hennar. Þáttaröðin fékk minnsta áhorf sem þættirnir hafa fengið. Þátturinn "Marry Me a Little" fékk minnsta áhorfið með 12.3 milljónir áhorfenda. Þrátt fyrir það eru þættirnir er meðal þeirra 10 vinsælustu í Bandaríkjunum. Framleiðsla. Þáttaröðin, gerist á árunum 2013-2014 eftir fimm ára hoppið frá þáttaröð fjögur ef áætlað er að þættirnir hafi gerst í nútíðinni í fyrri þáttaröðum. Upptökur hófust 7. júlí 2008 og kláruðust í mars 2009. Það var mikið pælt í fimmtu þáttaröðinni, þar sem mikið af málum voru óleyst þegar fjórða þáttaröð endaði, svo sem brottför Edie Britt, og hvort hún myndi einhvern tímann snúa aftur eftir atburði þattarins "Mother Said". Þegar það var spurt um fráhvarf Edie, sagði Marc Cherry (framleiðandi þáttanna) að „hún muni ekki koma aftur í nokkur ár“, en þá er hann að tala um fimm ára stökkið. Edie sneri aftur til Bláregnsslóðar með nýjan eiginmann, Dave, sem leikinn var af Neal McDonough, sem bættist við leikaraliðið sem einn af aðalleikurunum. Það voru einnig uppi pælingar um það hvort að Mike Delfino myndi snúa aftur, eftir lokaatriðið í fjórðu þáttaröð, fimm árum eftir, sem sýndi Susan í örmum annars manns, Jackson (Gale Harold). Örlög Mike voru síðar tilkynnt af James Denton, sem leikur Mike, þegar hann sagði tímaritinu People að hann myndi snúa aftur sem Mike Delfino í fimmtu þáttaröðinni. Hann sagði einnig að Mike og Susan hefðu skilið. Þann 14. október 2008, slasaðist Gale Harold illa í mótorhjólaslysi. Karakterinn hans, Jackson, leikur mikilvægt hlutverk í þættinum "City on Fire" þar sem hann bjargar nokkrum íbúum Bláregnsslóðar úr brennandi næturklúbbi. Cherry sagði að Harold hefði verið að leika í atriðum alla vikuna og það ætti að taka upp þetta atriði á fimmtudegi, sama dag og slysið varð. Marc Cherry sagði að þeir myndu bíða eftir úrskurði læknis áður en þær myndu ákveða framhaldið, en það þýddi samt að það þyrfti að gera einhverjar breytingar: "Við vitum að við þurfum að endurskrifa nokkur atriði" sagði hann. Nicollette Sheridan hefur yfirgefið Aðþrengdar eiginkonur. Persónan hennar, Edie Britt, dó í slysi, þar sem bíllinn hennar klessti á rafmagnsstaur. Leikaralið. Teri Hatcher, Felicity Huffman, Marcia Cross, Eva Longoria Parker, Nicollette Sheridan, Ricardo Anonio Chavira, Doug Savant, Kyle MacLachlan, Dana Delany, Brenda Strong og James Denton snú öll aftur í leikaraliðinu, og gengur Shawn Pyfrom til liðs við þau. Önnur viðbót er Neal Mcdonough sem Dave Williams, á meðan nýir leikarar bætast í hópinn til þess að leika Scavo-börnin, til að mynda Charlie Carver, Max Carver, Joshua Logan Moore og Kendall Applegate. Á meðal þeirra sem snúa einnig aftur eru Andrea Bowen, þrátt fyrir að vera ekki í aðalleikaraliðinu en er titluð sem sérstök gestastjarna, en Joy Lauren, Brent Kinsman og Shane Kinsman hafa ekki lengur hlutverk í þáttunum, en leika gestahlutverk. Susan Meyer. Í byrjun þáttaraðarinnar á hún í ástarsambandi við húsmálarann sinn, Jackson Braddock, sem hún heldur leyndu fyrir öllum. Afturhvarf sýnir að hún og Mike lentu í bílslysi og Susan var heltekin af þeim sem voru í hinum bílnum og létust, sem varð til þess að hjónaband þeirra endaði. Söguþráður Susan snýst aðallega um M.J., son hennar og Mike, samband hennar við Jackson og álit hennar á samband Katherine og Mike og tilfinningalega samband Katherine og M.J. Susan byrjar í nýrri vinnu sem aðstoðar-myndmenntakennari og er kysst af samkynhneigðum yfirmanni sínum. Hún þar líka að kljást við Karl og son hans og Julie, sem á í ástarsambandi við kennarann sinn, mun eldri mann. Jackson og Susan ætla að gifta sig, svo að hann geti verið áfram í Bandaríkjunum, þar sem hann er frá Kanada og landvistarleyfið hans er runnið út. Eftir dauða Edie hefur Susan áhyggjur af Dave, og segir honum sannleikann um bílslysið. Þetta verður til þess að Dave breytir áætlunum sínum um hefnd, frá Mike, yfir á hana. Í lokaþættinum sést Dave miða á Susan og M.J. í bíl og er tilbúinn að keyra á þau, en það er einmitt það sem gerðist þegar kona hans og dóttir urðu fórnarlömb í bílslysinu sem Susan og Mike höfðu lent í. Í framtíðarsýn sést Mike giftast konu, Katherine eða Susan. Það reynist vera Susan. Lynette Scavo. Strákarnir hennar Lynette sem eru með ADHD eru orðnir unglingar og mikið af söguþræði Lynette snýst um þá; sérstaklega Porter. Porter átti í ástarsambandi við Anne Schilling, og kenndi eiginmaður hennar Porter um að það kviknaði í næturklúbbnum hans. Porter flúði til Stellu sem olli Lynette áhyggjum. Lynette þarf líka að kljást við Tom, sem er að ganga í gegnum tilvistarkreppu og vill fara aftur í háskóla, stofna rokkband (með Mike, Carlos, Orson og Dave), kaupir húsbíl og dettur í þunglyndi eftir að hann neyðist til þess að selja pizzastaðinn. Lynette endaði þáttaröðina á því að halda að hún hefði fengið krabbamein aftur en hún reynist vera ólétt, af tvíburum - aftur. Þættir Aðþrengdra eiginkvenna. Aðþrengdar eiginkonur er bandarískur sjónvarpsþáttur sem var frumsýndur á ABC stöðinni þann 3. október 2004 í Bandaríkjunum. Aðþrengdar eiginkonur fylgist með lífum fjögurra kvenna - Susan (Teri Hatcher), Lynette (Felicity Huffman), Bree (Marica Cross) og Gabrielle (Eva Longoria) - með augum Mary Alice (Brenda Strong), látins nágranna og vinkonu. Alls voru 180 þættir sýndir í átta þáttaröðum. Fyrsta þáttaröð: 2004–2005. Fyrsta þáttaröðin fór í loftið 3. október 2004 (í Bandaríkjunum) og innihélt hún alls 23 þætti og einn auka þátt. Þátturinn byrjar með dularfullu sjálfsmorði Mary Alice Young á fallegum degi í úthverfunum, í götu sem heitir Bláregnsslóð. Mary Alice, sem talar yfir þættina eftir dauða sinn, átti fjórar vinkonur: Bree Van de Kamp, hina fullkomnu móður sem átti tvo unglinga og reynir að bjarga hjónabandinu sínu; Lynette Scavo, fjögurra barna móðirin og er eiginmaður hennar alltaf á ferðalögum; Susan Mayer, fráskilda móðirin sem leitar að ástinni og finnur hana hjá nýja nágrannanum, Mike Delfino, sem á sitt eigið leyndarmál; og Gabrielle Solis, snobbuðu fyrrverandi módeli sem heldur framhjá eiginmanninum sínum. Á meðan þær reyna að vera góðar eiginkonur og mæður reyna vinkonurnar fjórar að komast að því af hverju Mary Alice framdi sjálfsmorð. Þær uppgötva kúgunarbréf til Mary Alice í dótinu hennar og kasettu sem kastar fram raunverulega nafninu hennar, Angela, og skrýtin hegðun eiginmanns hennar fær þær til að kafa dýpra í mál vinkonu sinnar. Kársnesskóli. Kársnesskóli er grunnskóli í vesturbæ Kópavogs sem tók fyrst til starfa 1957. Í honum gengdu börn skólaskyldu allt að 12 ára aldri þegar þau fóru svo í gagnfræðaskóla, iðulega Þinghólsskóla (stofnaður 1969). Þann 1. ágúst 2001 voru skólarnir tveir sameinaðir undir nafni Kársnesskóla. Skólinn er til húsa við Skólagerði (gamli Kársnesskóli) og við Kópavogsbraut (gamli Þinghólsskóli). Nemendur skólans eru um 500. Digranesskóli. Digranesskóli er grunnskóli í Kópavogi sem var stofnaður 1964. Kópavogsskóli. Kópavogsskóli er grunnskóli við miðbæ Kópavogs sem tók fyrst til starfa 12. janúar 1949. Hann er elsti grunnskóli bæjarins og gengdi skólahúsið fyrst um sinn hlutverki skrifstofu, guðshúss og félagsheimilis ásamt fleiru. Þinghólsskóli. Þinghólsskóli var gagnfræðaskóli í vesturbæ Kópavogs sem tók fyrst til starfa 1. október 1969 að Kópavogsbraut 58. Fyrsta árið nefndist skólinn "Gagnfræðaskóli Vesturbæjar í Kópavogi". Flutt var í fyrsta hluta nýs húsnæðis í Vallargerði 20. febrúar 1971, fram að þeim tíma starfaði skólinn á þremur stöðum í Vesturbænum og svo langt var á milli kennslustaða að aka varð með kennara á milli þeirra í frímínútunum. Þann 1. ágúst 2001 var skólinn sameinaður Kársnesskóla undir nafni Kársnesskóla. Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) er sjóður sem er ætlað að gefa íslenskum námsmönnum tækifæri til náms án tillits til efnahags. Sjóðurinn veitir lán til háskólanáms á Íslandi og við erlenda skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms á Íslandi. Lánasjóðnum er einnig heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán stundi þeir lánshæft sérnám. Flateyjarskagi. Flateyjarskagi, einnig þekktur sem Gjögraskagi eða Flateyjardalsskagi er skaginn sem liggur á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Grenivík er innarlega á skaganum vestanverðum, en utan hennar og nærliggjandi býla er skaginn allur í eyði. Fram á miðja tuttugustu öld var byggð á skaganum í Fjörðum, á Flateyjardal og Látraströnd, auk Keflavíkur, eins afskekktasta bæjar landsins. Skaginn var lengst af nafnlaus en í upphafi 21. aldar fór mönnum að þykja þörf á nafni en ekki náðist samkomulag um hvert það skyldi vera. Skaginn skiptist á milli Grýtubakkahrepps, sem nú er í Eyjafjarðarsýslu, og Þingeyjasveitar og var kosið um nöfn í báðum sveitarfélögum árið 2010. Íbúar Grýtubakkahrepps kusu nafnið Gjögraskagi með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða en í Þingeyjasveit hlaut nafnið Flateyjarskagi langflest atkvæði. Þá var ákveðið að leita álits Örnefnanefndar, sem mælti með nafninu Flateyjarskagi, en fram hefur komið að íbúar Grýtubakkahrepps sætta sig illa við það og er líklegast að bæði heitin verði áfram notuð um skagann. Effendi. Effendi (arabíska: أفندي Afandī; persneska: آفندی) er hefðartitill hjá Tyrkjum álíka og lávarður eða herra og er nokkurskonar ávarpsnafn heldri manna og lærðra manna sem ekki hafa nafnbæturnar Pasha eða Bey. Ásbjörn Óttarsson. Ásbjörn Óttarsson (fæddur 16. nóvember 1962) er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Menntun. Ásbjörn lauk skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1983. Samningur um vatnsréttindi. Ásbjörn samþykkti sem forseti bæjarstjórnar Snæfellsnesbæjar samning við fyrirtækið Iceland Glacier Products sem felur í sér að fyrirtækið eigi einkarétt á vatni sem kemur úr lindum undir Snæfellsjökli. Umrætt fyrirtæki er skráð á Íslandi en tengt félagsneti í Lúxemborg og Cayman eyjum í gegnum Sextant Capital Management Incorporated í Kanada. Vakti samningurinn nokkra athygli, en Sextant Capital Management Incorporated og forsvarsmaður þess, Hollendingurinn Otto Spork, höfðu þegar samningurinn var gerður verið til rannsóknar hjá kanadíska fjármálaeftirlitinu vegna gruns um stórfellt fjármálamisferli. Í Kanada rak Spork Sextant Stategic Opportunities Hedge Fund, vogunarsjóð sem yfirvöld gruna um græsku. Um 230 fjárfestar töldu sig svikna, voru eignir Sextant frystar í desember 2008 og skipaði kanadíska verðbréfaeftirlitið í kjölfarið skiptastjóra yfir sjóðinn. Sjálfur taldi Ásbjörn ekkert athugavert við að gera samning við fyrirtæki Spork til 95 ára, félagið verði að hafa sínar tryggingar enda fjárfestinginn mikil. Ólöglegar arðgreiðslur. Ásbjörn er framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Nesvers hf. og eini stjórnarmaður. Hinn 20. janúar 2010 upplýsti DV að Ásbjörn hefði greitt sér arð úr fyrirtæki sínu þrátt fyrir að það hefði skilað tapi á liðnu rekstrarári. Árið 2007 greiddi hann sér og sínum 20 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2006, þrátt fyrir að á því ári hafi verið tap á rekstri fyrirtækisins. Slíkt er brot á lögum um hlutafélög nr. 2/1995, þar sem segir í 99. gr.: "Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa." Þegar upp komst um Ásbjörn endurgreiddi hann féð og í viðtali við Kastljósið 26. janúar það ár svaraði Ásbjörn fullyrðingu spyrilsins Helga Seljan um að hann hefði brotið lögin svo: „ég gerði það ekki viljandi.“ Naut Ásbjörn fulls stuðnings forystu Sjálfstæðisflokksins og sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hinn 27. janúar 2010: "Hann hefur játað á sig mistök og gert það sem hann getur til að bæta fyrir það sem var í ólagi. Þar með finnst mér að þetta eigi ekki að hafa áhrif á hans stöðu sem þingmanns eða vegna þeirra trúnaðarstarfa sem hann gegnir." Ásmundur Einar Daðason. Ásmundur Einar Daðaon (fæddur 29. október 1982) er alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og formaður félags sauðfjárbænda í Dalasýslu. Áður en Ásmundur Einar var kjörinn á þing starfaði hann sem sauðfjárbóndi á Lambeyrum í Dalasýslu og rak hann þar innflutnings- og sölufyrirtæki með vörur fyrir landbúnað til 2011. Ásmundur er menntaður sem búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 2002 og árið 2007 lauk hann B.Sc.-próf í almennum búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Ásmundur Einar sat í stúdentaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, Hvanneyri, 2001-2002, var formaður þess 2004-2005. Formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu 2005-2010 og Formaður svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Dölum 2005-2007. Þá sat hann í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands 2009. Ásmundur var þann 15. nóvember 2009 kosinn formaður Heimssýn, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Ásmundur Einar var kjörinn á þing fyrir Vinstrihreyfinguna-grænt framboð en sagði sig svo úr þingflokki þeirra þegar hann studdi vantrauststillögu á ríkisstjórnina 13. apríl 2011. Sagði Ásmundur að hann studdi ríkistjórnina ekki í mörgum málum þar á meðal Evrópumálunum. Ásmundur Einar var einn þeirra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar sem hafði miklar efasemdir við Icesave samkomulagið og sat meðal annars í fjárlaganefnd á þeim tíma, var hann beittur miklum þrýstingi að samþykkja málið. Þann 1. júní 2011 gekk Ásmundur Einar til liðs við Framsóknarflokkinn. Ásmundur Einar var kjörin aftur á þing vorið 2013 þá fyrir Framsóknarflokkinn. Skipaði hann annað sæti lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. Hótel Valhöll. Hótel Valhöll var gistihús á Þingvöllum sem upphaflega var reist árið 1898 við svonefnda Kastala, sem eru hólar niður af gamla veginum sem liggur úr Almannagjá. Veturinn 1928-1929 var húsið hlutað sundur og dregið á sleðum vestur yfir Öxará í tilefni af Alþingishátíðinni 1930. Í áranna rás var byggt við hótelið og það endurbætt. Hótelið stóð gegnt Þingvallakirkju og Þingvallabænum. Það brann til kaldra kola þann 10. júlí 2009. Hið upphaflega hótel Valhöll teiknaði Sigfús Eymundsson bóksali og var það reist við Kastala. Tvisvar var byggt við húsið á þeim stað og einnig voru reist tvö minni hús til viðbótar í grendinni tengd því. Í upphafi þriðja áratugar 20. aldar var byrjað að ræða um að færa hótelið, enda þótti hótelið ekki augnayndi þar sem það stóð og auk þess mjög „illa byggt“, „óvandað í alla staði“ og „svefnherbergin flest óboðleg til gistingar þeim sem góðum húsum eru vanir“, að áliti Þingvallanefndar árið 1925. Árið 1930 var hótelið svo endurreist gegnt Þingvallakirkju og Þingvallabæ. Lokhljóð. Lokhljóð eru samhljóð sem myndast við að það lokast fyrir útstreymi loftsins um munninn. Lokhljóðin íslensku. Sex lokhljóð eru í íslensku og eru þau annaðhvort hörð eða mjúk. BMW. BMW (skammstöfun fyrir Bayerische Motoren Werke AG) er þýskur bílaframleiðandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1916. Höfuðstöðvar þess eru í München í Þýskalandi. Saga fyrirtækisins. Upphaflega framleiddi BMW flugvélahreyfla en var fyrirskipað að hætta framleiðslu þeirra eftir fyrri heimsstyrjöldina samkvæmt Versalasamningnum. Árið 1923 tók fyrirtækið að framleiða vélhjól þegar banninu var smátt og smátt aflétt og bifreiðar um 1928-1929. Hringlaga vörumerki BMW táknar hreyfingu flugvélahreyfils, hvíta spaða sem kljúfa bláan himininn. Þessa útskýringu kom BMW þó ekki með fyrr en árið 1929, tólf árum eftir hönnun þess. Merkið var þróað út frá merki Rapp Motorenwerke, fyrirtækisins sem BMW óx út frá, en hugmyndin var upprunalega fengin frá fána Bæjaralands. Þegar hergagnaframleiðsla Þjóðverja hófst aftur á fjórða áratugi 20. aldar fór fyrirtækið að framleiða hreyfla fyrir þýska flugherinn (Luftwaffe). Á stríðsárunum framleiddi BMW yfir 30 þúsund hreyfla og voru sumir þeirra byltingakenndir. Eftir stríðið tók að syrta í álinn hjá fyrirtækinu og árið 1959 var alvarlega íhugað að leggja starfsemina niður. Þó var ákveðið að halda henni áfram og leggja aukna áherslu á bifreiðasmíði. Keypt var leyfi á framleiðslu ítalska smábílsins Iso Isetta og í hann sett breytt útgáfa af BMW-bifhjólavél. Með þessu hlaust nægur hagnaður til að halda fyrirtækinu á floti og komast á skrið aftur. Frá árinu 1959 hefur fjölskylda sem ber nafnið Quandt átt 46% hlut í fyrirtækinu en afgangurinn er í eigu almennra hluthafa. Gjögur (S-Þingeyjarsýslu). a> til vinstri. Framan í fjallinu sést glitta í vitann á Gjögurtá. Gjögur, Gjögrar eða Gjögurfjall er ysta fjall á Flateyjarskaga, 721 m á hæð. Fram úr fjallinu gengur lítið nes sem kallast "Gjögurtá" og markar það mynni Eyjafjarðar austan megin. Austan fjallsins er Keflavík, en sunnan þess eru Látrar. Gjögurfjall er einnig nyrsta fjall Látrafjalla, en svo nefnist fjallgarðurinn upp af Látraströnd allt inn að Kaldbak fyrir ofan Grenivík. Læragjá. Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei. Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: "Volga", "Beruvík", "Læralind", "Dóná" og "Rasslind", en var oftast nefndur Læragjá. Eðlishvöt. Eðlishvöt (frumhvöt eða eðlisávísun og áður fyrr nefnd náttúruhvöt) er arfgeng tegundarbundin tilhneiging lífveru til (sérstakra) athafna. Eðlishvöt er því það háttalag lífveru sem virðist koma fram svo að segja af sjálfsdáðum og þarf lítillar eða engrar æfingar við. Þar sem ekki þarf til dæmis að kenna köttum að veiða mýs er það eðlishvötin sem fær hann til þess. Eðlishvötin er þó orðið að nokkuð úreltu hugtaki meðal vísindamanna. Nauthólsvík. Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega. Í Nauthólsvík var áður fyrr vinsælt að stunda sjóböð en það lagðist af þegar mælingar leiddu í ljós mikla mengun vegna klóaks sem leitt var út í Fossvoginn. Slíkri losun var hætt á ofanverðri 20. öld og árið 2000 var Ylströndin opnuð í Nauthólsvík, lokuð, grunn vík þar sem heitt vatn er leitt út í sjóinn. Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu. Íþróttabandalag Reykjavíkur. Íþróttabandalag Reykjavíkur (skammstafað ÍBR) er bandalag íþróttafélaganna í Reykjavík. Það var stofnað 31. ágúst árið 1944, en áður hafði Íþróttasamband Reykjavíkur starfað í bænum. Aðildarfélög ÍBR eru 66 talsins. Bandalagið veitir ýmsa styrki og viðurkenningar til aðildarfélaga og er tengiliður þeirra við Reykjavíkurborg. Félagið er aðili að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ). Reykingabann. Reykingabann er bann við reykingum á opinberum stöðum og vinnustöðum. Reykingar eru bannaðar í mörgum löndum á opinberum stöðum eins og veitingahúsum og börum, einnig í almenningssamgöngutækjum eins og strætisvögnum og flugvélum. Takmark reykingabanns er að koma í veg fyrir áhrif óbeinna reykinga sem eru taldar stuðla að hjartasjúkdómum, krabbameinum, lungnaþembu og fleiri sjúkdómum. Reykingabönn geta líka dregið úr eldhættu og sprengihættu þar sem sprengiefni eru handleikin, aukið hreinlæti þar sem matur er búinn til, dregið úr magni rusls, minnkað orkunotkun loftræstikerfa og stuðlað að því að reykingamenn hætti reykingum. Reykingabann á opinberum stöðum á Íslandi gekk í gildi árið 2007. Krá. Krá (eða bar) er veitinga- og skemmtistaður, þar sem er hægt að kaupa og neyta áfengra drykkja, t.d. bjórs, víns og hanastéla. Þar má gjarnan finna barstóla og skenk, en við hann situr fólk gjarnan við drykkjuna. Sumar krár bjóða einnig upp á skemmtanir eins og t.d. tónlist eða stuttar leiksýningar. Krá og önnur nöfn. Á íslensku eru til mörg nöfn sem merkja krá. Krá og bar er nokkurnveginn það sama, en orð eins og "knæpa" og "búlla" eru lituð af viðhorfi þess sem þau notar til staðarins (sömuleiðis "brennivínshola" og danska slettan "rekstrasjón"). "Drykkjustofa" og "drukkstofa" eru gömul heiti yfir bar eða krá. Enska slettan pöbb er meira haft um enska eða írskar krár, hvar sem þær eru að finna í heiminum, en hér á Íslandi er orðið einnig haft um krár almennt (sbr. "Ég fór á pöbbarölt í gær"). Á ensku er tavern viss tegund af krá þar sem boðið er upp á mat. Á íslensku nefnist slíkt hús "öldurhús" eða "tavernishús". Öldurhús er þó einnig haft um krár almennt. Svo eru það orð eins og "skytningur" og "skytningsstofa" og "vínstúka". Skytningur er gamalt íslenskt orð og þannig þýtt í "Orðabók Eddu": "drykkjusamkoma eða drykkjustofa þar sem hver galt fyrir það sem hann drakk". Skytningsstofa er samheiti en þó aðeins haft um drykkjustofuna sjálfa. "Vínstúka" er annað heiti yfir vínbar, þ.e. stað þar sem meiri áherslu er lagt á vín en t.d. sterkt vín eða bjór. Boston Red Sox. Boston Red Sox er bandarískt hafnaboltalið frá Boston, Massachusetts. Liðið leikur í austurriðli Ameríkudeildar MLB. Fenway Park hefur verið heimavöllur liðsins frá árinu 1912. Liðið var stofnað árið 1901 sem eitt af átta liðum Ameríkudeildarinnar. Liðið hafði yfirburði í þessari nýstofnuðu deild og varð fyrst liða til að vinna World Series árið 1903. Eftir World Series keppnina árið 1918 var fimmti titillinn í höfn en þá tók við lengsta tímabil sem nokkurt lið í MLB hefur verið án meistaratitils. Endir þessa taptímabils var markaður árið 2004 þegar liðið vann sinn sjötta World Series titil. Sjöundi og nýjasti meistaratitill liðsins var unninn árið 2007. Melges 24. Melges 24 er 24 feta (7,3 metra) langur opinn kjölbátur sem er oftast notaður sem kappsiglingabátur með tveggja til fimm manna áhöfn. Hann var hannaður af bandaríska fyrirtækinu Pugh árið 1992 og er framleiddur af Melges Performance Sailboats. Báturinn er með fokku og bermúdasegl og er búinn gennaker sem er festur á laust bugspjót að framan. Samanlagður seglaflötur er 1000 ferfet (um 93 fermetrar). H-bátur. H-bátur (H-ið stendur fyrir grísku heimilisgyðjuna Hestíu) er 27 feta (8,3 metra) langur kjölbátur hannaður af finnska skútuhönnuðinum Hans Groop árið 1967. Hugmyndin var að hanna bát sem gæti tekið við af hinum geysivinsæla Nordisk Folkbåt sem bæði kappsiglingaskúta og skemmtisiglingaskúta. Nokkrum árum síðar gerði danski bátasmiðurinn Paul Elvstrøm breytingar á gerðinni sem gerðu H-bátinn að betri kappsiglingabát. H-báturinn er með 750 kg kjöl úr járni. Heildarþyngd skrokksins er eitt og hálft tonn. Í káetu er svefnpláss fyrir 3-4. H-bátur er ein vinsælasta einsleita kjölbátagerðin í Evrópu. Hann er einkum algengur á Norðurlöndunum og á meginlandinu. New York Yankees. New York Yankees er hafnaboltalið frá Bronx í New York-borg. Liðið leikur í austurriðli Ameríkudeildar MLB. Heimaleikvangur liðsins heitir Yankee Stadium. Sá völlur var tekinn í notkun árið 2009 sem arftaki eldri leikvangs sem bar sama nafn. Liðið er sigursælasta lið MLB-deildarinnar með 27 World Series-titla að baki og 40 Ameríkudeildarsigra. Hraunkúla. Hraunkúla (einnig þekkt undir nafninu eldfjallaegg og hraunbomba) eru egglaga kvikumolar, sem myndast við eldgos. Hraunkúlur verða til þegar kvika með molum úr föstu efni (svokallaðir hnyðlingar) tætist í sundur í sprengingu, til dæmis ef vatn í hæfilegu magni kemst að henni. Sprengjuögnunum má einna helst líkja við högl úr haglabyssu. Umhverfis molana er kvikuhjúpur. Þessi hjúpur verður að egglaga kúlu er molinn þeytist áfram í fluginu. Hraunkúlur úr Vestmannaeyjagosinu árið 1973 kveiktu í mörgum húsum og særðu björgunarmenn. John Hinckley yngri. John Warnock Hinckley yngri (fæddur 29. maí 1955) reyndi að myrða Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna í Washington, D.C. þann 30. mars 1981. Morðtilraunin var að hans sögn gerð til að reyna að hrífa leikkonuna Jodie Foster. Hinckley var dæmdur ekki sekur sökum geðveilu og hefur verið undir eftirliti síðan. Hesteyrarfjörður. Hesteyrarfjörður er nyrstur Jökulfjarða við norðanvert Ísafjarðardjúp. Í honum stendur þorpið Hesteyri sem fór í eyði um miðja 20. öld og þar fyrir innan er Hvalstöðin að Stekkeyri sem einnig er í eyði. Böglunga sögur. Böglunga sögur – öðru nafni Hákonar saga Sverrissonar, Guttorms Sigurðarsonar og Inga Bárðarsonar – er konungasaga, sem fjallar um konungana í Noregi og átökin milli birkibeina og bagla frá því að Sverrir Sigurðarson dó árið 1202 þar til Hákon Hákonarson varð einn konungur Noregs 1217. Böglunga sögur eru aðalheimildin um sögu Noregs á þessu tímabili, en eru ekki eins vel samdar og Sverris saga. Böglunga sögur eru varðveittar í tveimur gerðum, styttri gerð (A), sem nær yfir árabilið 1202–1209, og lengri gerð (B) um allt tímabilið 1202–1217. Styttri gerðin er varðveitt í tveimur fornum handritum, en lengri gerðin er aðeins til í brotum, og svo heil í danskri þýðingu Peders Claussøns frá því um 1600 ("Norske Kongers Chronica"). Sveinbjörn Egilsson þýddi hana á íslensku og var þýðingin prentuð í Fornmanna sögum, 9. bindi, ásamt danska textanum. (Til er önnur íslensk þýðing sem Ásgeir Jónsson Stadfeldt gerði 1812, e.t.v. í tengslum við útgáfuna sem þá var í undirbúningi. Er í handriti í British Museum). Í Böglunga sögum er fjallað um sex konunga eða konungsefni, þrjá birkibeina: Hákon Sverrisson sem var konungur 1202–1204, Guttorm Sigurðsson 1204 og Inga Bárðarson 1204–1217; og þrjú konungsefni bagla: Inga Magnússon (d. 1202), Erling steinvegg 1204–1207 og Filippus Símonarson 1207–1217. Böglunga sögur eru beint framhald af Sverris sögu. Eldri og styttri gerðinni (A) lýkur með brúðkaupi Filippusar árið 1209. Hún er sennilega samin skömmu eftir 1210 og er sjónarhornið yfirleitt hjá böglum, þó að höfundurinn sé tiltölulega hlutlaus í frásögn sinni. Í yngri og lengri gerðinni er frásögninni haldið áfram þar til Ingi konungur deyr, 1217. Hún mun vera samin um 1220 af manni sem vildi auka hlut birkibeina í sögunni, og eru viðaukar við fyrri hlutann af því tagi. Framhald sögunnar er fremur sundurlaust, og henni lýkur á mjög jákvæðri lýsingu á Inga konungi, sem bendir til að höfundurinn hafi staðið honum nærri. Athyglisvert er að sjá hvernig gerðirnar tvær fjalla um atburðina frá sjónarhóli beggja deiluaðila, án þess þó að gengið sé á svig við sannleikann. Nafnið "Böglunga sögur" var notað í "Hákonar sögu gamla" í handritinu Gullinskinnu sem brann 1728, og á vel við eldri gerðina sem fylgir frekar böglum eftir. Þetta er ein saga, en fleirtölumyndin „sögur“ vísar til þess að sagan fjallar um nokkra konunga. Hallvard Magerøy taldi mest lýsandi að nota nafnið: "Saga birkibeina og bagla", en gömul hefð er fyrir nafninu "Böglunga sögur". Höfundar beggja gerðanna eru óþekktir, en vísbendingar eru um að þeir hafi verið Íslendingar. Handrit og útgáfur. Sagan hefur verið þýdd á dönsku, norsku, nýnorsku og tvisvar á latínu, í síðara skiptið af Sveinbirni Egilssyni, sjá Scripta historica Islandorum, 9. bindi. Í norskri hátíðarútgáfu konungasagna, 1979, er efni beggja gerðanna steypt saman í eina heild í norsku þýðingunni. Bar (þrýstingur). Bar er mælieining fyrir þrýsting. 1 bar er skilgreint sem 100.000 pasköl þ.e er skilgreint sem 100kPa(kílóPascal). Það er lítið eitt minna en 1 loftþyngd, sem er skilgreind sem 101325 pasköl. Loftþrýstingur er oft gefinn upp í millibörum (mb) en 1 mb er einn þúsundasti úr bari. Þannig er 1 mb jafnt og 1 hektópaskal (100 paskal), sem er sú eining sem nú er miðað við víðast hvar þegar loftþrýstingur er mældur. Búrfellshyrna. Búrfellshyrna, Búrfellsdalur t.v., Grýtudalur t.h. Búrfellshyrna er fjall í innanverðum Svarfaðardal. Það nær 1.091 metra hæð á hæsta tindi. Neðan undir fjallinu eru bæirnir Búrfell og Hæringsstaðir. Sitt hvorum megin við það eru stuttir afdalir, Búrfellsdalur og Grýtudalur. Í Búrfellsdal er Búrfellsjökull, lítill daljökull sem vakið hefur athygli jöklafræðinga því hann hleypur fram á nokkurra áratuga fresti og er því svokallaður hlaupjökull. Suðursveit. Suðursveit er sveit í Austur-Skaftafellssýslu. Hún nær frá Heinabergsvötnum vestri og vestur fyrir Nýgræður allangt fyrir vestan Jökulsá á Breiðamerkursandi. Sveitin er um 50 km frá austur- til vesturmarka. Suðursveit var frá miðri 18. öld sérstakt hreppsfélag – Borgarhafnarhreppur. Suðursveit skiptist í fjögur byggðahverfi. Austasta hverfið var kallað Mörk og þar voru bæirnir Skálafell, Sævarhólar, Smyrlabjörg, Uppsalir og Hreggsgerði. Næsta bæjarhverfi var Borgarhöfn og síðan Miðþorp en þar eru Kálfafellstaður, Brunnar, Brunnavellir, Jaðar, Leiti og Kálfafell. Vestasta bæjarhverfið frá Steinasandi til Breiðamerkursands var áður fyrr Fellshverfi en nú Sunnansandabæir en þar eru bæirnir Steinar (seinna Sléttaleiti), Breiðabólstaður, Gerði, Hali, Reynivellir og Fell. Þórbergur Þórðarson fæddist á Hala í Suðursveit. Jón Eiríksson konferensráð fæddist á Skálafelli 1728. Steinasandur. Steinasandur er sléttlendi milli Kálfafells og Steinafjalls í Austur-Skaftafellssýslu. Hann er um 25 km² að stærð. Um Steinasand falla Steinavötn. Um 1960 var farið að rækta sandana og sáð í Steinasand, Breiðamerkursand og Kolgrímusand. Smyrlabjörg. Smyrlabjörg er jörð í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu. Smyrlabjörg voru kóngsjörð og var jarðardýrleiki tólf hundruð. Þegar kóngsjarðirnar í Austur-Skaftafellssýslu voru seldar 1836 þá voru Smyrlabjörg seld á 602 ríkisdali með tveimur kúgildum. Borgarhöfn. Borgarhöfn er sveitabær í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu. Kirkja var í Borgarhöfn til forna og talið að hún hafi verið reist þar um árið 1000. Kirkjan var aflögð árið 1708. Öll jörðin Borgarhöfn var að fornu mati 80 hundruð. Fyrir árið 1743 voru 60 hundruð af jörðinni kóngseign en það ár gaf konungur kirkjunum á Kálfafellsstað og Einholti 30 hundruð hvorri. Kálfafell (Suðursveit). Kálfafell í Hornafirði er bær í Suðursveit. Bærinn er einnig nefndur Kálfafell í Fellshverfi og Kálfafell eystra. Búið hefur verið á Kálfafelli frá því snemma á söguöld. Í Njálu segir að Kolur Þorsteinsson, frændi Síðu-Halls, hafi búið á Kálfafelli en hann tók trú af Þangbrandi presti. Kirkja var snemma reist á Kálfafelli og var hún fyrst bændakirkja en komst undir forsjá biskups í Staðamálum og skiptist þá Kálfafell í tvennt milli bóndans og kirkjunnar. Kálfafell innra varð þá bændaeign en Kálfafell ytra kirkjustaður, Kálfafellsstaður. Músareyra. Músareyra (fræðiheiti: "Cerastium alpinum") er fjölært blóm af hjartagrasaætt. Það ber hvít hvít krónublöð sem eru klofin í endann. Krónublöðin eru þriðjungi til helmingi lengri en bikarblöðin og þannig þekkist jurtin frá vegarfa sem er annars nokkuð líkur. Blómin eru 1,5 til 2 sm í þvermál og í þeim eru 10 fræflar. Frævan er oftast með 5 stílum. Jurtin er öll hærð og á stilknum eru gagnstæð, stilklaus blöð. Músareyra vex í malarkenndum jarðvegi, mólendi og brekkum á Grænlandi, Kanada og norðurhluta Evrópu. Til eru þrjár undirtegundir af músareyra. Tungljurt. Tungljurt eða lásagras (fræðiheiti: "Botrychium lunaria") er burkni af naðurtunguætt sem vex um alla Evrasíu og frá Alaska til Grænlands sem og á suðurhveli jarðar, s.s. í Suður-Ameríku og Ástralíu. Tungljurtin ber eitt blað sem skipist í geldan og gróberandi hluta. Neðri hlutinn er geldur og á honum eru hálfmánalaga smáblöð, mjög þéttstæð. Þessi smáblöð eru 0,5 til 1 sm á lengd en 1 til 1,5 sm á breidd. Efri hlutinn er gróberandi og ber 2 til 6 sm langan klasa af gróhirslum. Tungljurt vex í þurrlendi – aðallega í mó- og vallendi. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú hét tungljurt áður lásagras og átti hún að geta opnað læsta lása væri hún borin upp að þeim. Einnig var sú trú að ef hestar stigu á tungljurt myndi detta undan þeim skeifa. Golden Gate-brúin. Golden Gate-brúin er hengibrú yfir Golden Gate-sund (á íslensku „Gullna hliðið“) þar sem San Francisco-flói og Kyrrahafið mætast. Auk þess að vera eitt helsta kennileyti San Francisco og Kaliforníu þjónar brúin sem mikilvægt samgöngumannvirki með því að tengja San Francisco við Marin-sýslu. Þegar smíði brúarinnar lauk árið 1937 var hún lengsta hengibrú veraldar og hélt þeim titli til ársins 1964. Nú er hún sú áttunda lengsta og sú önnur lengsta í Bandaríkjunum, á eftir Verrazano-Narrows-brúnni í New York-borg. Kálfafellsstaður. Kálfafellsstaður er kirkjustaður í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu. Kirkja hefur verið á Kálfafellstað í margar aldir. Þar var torfkirkja til ársins 1885 en þá var reist timburkirkja sem eyðilagðist algjörlega nokkru seinna í miklu fárviðri 7. janúar 1886, svonefndum Knútsbyl. Lík­nesk­i a­f Óla­fi helga­, hinum forna­ d­ýrlingi sta­ða­rins er eini hluturinn sem fa­nnst heill eftir a­ð k­irk­ja­n fa­uk­. Það er nú va­rðveitt á Þjóðminja­sa­fni. Aðra­r sögur segja­ a­ð völva­n ha­fi verið í ætt við Óla­f helga­ og ha­fi Núna er steypt kirkja á Kálfafellsstað en hún var reist 1926-27. Vigfús Benediktsson (Galdra-Fúsi) var um tíma prestur á Kálfafellsstað. Torfhildur Hólm rithöfundur er frá Kálfafellsstað en faðir hennar Þorsteinn Einarsson var prestur þar. Farþegi. Farþegi er manneskja sem ferðast í eða á farartæki en sér ekki um að stjórna eða aka ökutækinu. Í almenningssamgönguiðnaðinum er orðið „farþegi“ notað til að lýsa fólkinu sem notar almenningssamgöngutækið, til dæmis fólki sem ferðast í strætisvögnum eða lestum en ökumaðurinn er ekki kallaðar farþegi. Sömuleiðis er starfsfólkið sem vinnur um borð í flugvélum (eins og flugfreyjur) ekki talið að vera farþegar. Járnbrautarteinar. Járnbrautarteinar eru sérstakur vegur sem lest fer eftir. Teinar eru einnig slangur/samheiti fyrir spangir (til tannréttingar). Haustfeti. Haustfeti (fræðiheiti: "Operophtera brumata") er lítið fiðrildi af fetaætt. Haustfetinn verpir eggjum sínum á trjágreinar. Þar bíða þau vors og klekjast þegar brum fer að springa. Lirfurnar eru allt fram eftir júní að vaxa. Þær éta laufblöð margra trjátegunda og geta skaðað þau verulega. Karldýrin eru nokkuð áberandi. Þau sitja oft í verulegum fjölda á húsveggjum, gulgrá á lit. Á lygnum kvöldum laðast haustfetinn gjarnan að útiljósum eða ljósum í gluggum. Kvendýrin eru öllu óásjálegri og verða fæstir þeirra varir. Í stað vængja hafa þau aðeins örlitla vængstúfa. Haustfeti á Íslandi. Fyrstu fiðrildin birtast á Íslandi upp úr miðjum september, en flest þó ekki fyrr en í október. Stöku haustfetar sjást fram í miðjan nóvember. Haustfeti er útbreiddur um allt sunnanvert landið og hefur auk þess fundist á Akureyri. Hann er ekki kresinn í fæðuvali og sækir á flestöll lauftré sem ræktuð eru hér á landi. Haustfetinn varð að töluverðri plágu á Akureyri árið 1976-1977. Engeyjarætt. Engeyjarætt er rakin til hjóna, sem bjuggu í Engey á fyrri hluta 19. aldar, þeirra Ólafar Snorradóttur (1783-1844), sem fædd var og uppalin í eyjunni og Péturs Guðmundssonar (1786-1852) sem fæddur var í Örfirisey og alinn upp þar og í Skildinganesi. Þau eignuðust átta börn, sem upp komust og eignuðust fjölda afkomenda, sem flestir settust að á Seltjarnarnesi og í Vesturbæ Reykjavíkur. Raunar má segja að velflestir niðjar þeirra sem nú (árið 2011) telja nær fimm þúsund, búi enn á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins eitt barna þeirra flutti af svæðinu, Guðríður (1812-1889) sem varð prestmaddama austur á landi og á fjölda afkomenda þar og í Húnaþingi. Engeyjarættin er kennd við Engey á Kollafirði. Þorkell Sigurbjörnsson. Þorkell Sigurbjörnsson var íslenskur tónlistarmaður. Hann er höfundur lagsins við sálminn Heyr himna smiður. Hann lést á líknardeild landspítalans í kópavogi þann 30. janúar árið 2013 aðeins 74 ára gamall. Hann samdi einnig lagið dúfa á brún fyrir skólakór Öldutúnsskóla fyrir þó nokkurum árum síðan. Þema 18. landsmóts barnakóra sem haldið var í Kópavogi þá 19-21 apríl 2013 var Þorkell og C- hópurinn söng lagið dúfa á brún undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Matkempingur. Matkempingur (eða ætisveppur) (fræðiheiti "Agaricus bisporus") er kampsveppstegund og algengur matsveppur. Á Íslandi hefur svepparæktun nánast einskorðast við þessa tegund, en tveir stofnar hennar eru algengastir, hvítir og brúnleitir. Ræktun. Ræktun á "Agaricus bisporus" hófst í Frakklandi þegar grasafræðingurinn Olivier de Serres tók eftir að þegar sveppaþræðir voru fluttir á nýjan stað þá uxu þar upp sveppir. Í fyrstu fór svepparækt þannig fram að ræktendur leituðu að stöðum á túnum og engjum þar sem sveppar uxu og settu moldina þar út í rotmassa. Árið 1893 var fundin aðferð til að framleiða hreint sveppaþel. Ræktuðu sveppirnir voru í fyrstu ljósbrúnir en árið 1926 fann sveppabóndi í Pennsylvaníu hvítt afbrigði í svepparækt sinni og varð það vinsælt og er þetta stökkbreytta afbrigði nú mikið ræktað. Kampsveppir. Kampsveppir eða ætisveppir (fræðiheiti: "Agaricus") eru stór ættkvísl hattsveppa. Ættkvíslin telur yfir 300 tegundir sem margar eru ætar en sumar eitraðar. Ættin telur tvo algengustu ætisveppi heims, matkemping ("Agaricus bisporus") og túnætisvepp ("Agaricus campestris") en sá fyrrnefndi er algengasti ræktaði sveppur í heimi. Einkenni kampsveppa eru kjötmikill hattur með fanir. Gróprentið er brúnt. Stafurinn er beinn og með leifar af himnu sem ver fanirnar á ungum sveppum en myndar síðan hring á stafnum. Nýja England. Staðsetning Nýja Englands í Bandaríkjunum. Nýja England (New England) er svæði á norðausturhorni Bandaríkjanna sem afmarkast af Atlantshafi, Kanada og New York-fylki. Fylki Nýja Englands eru sex talsins; Maine, New Hampshire, Vermont, Massachusetts, Rhode Island, og Connecticut. Breski fáninn. Breski fáninn er þjóðfáni Bretlands. Núverandi hönnun fánsins var tekin í notkun við sameiningu Írlands og Stóra-Bretlands árið 1801. Á ensku er fáninn kallaður „Union Flag“ eða „Union Jack“. Fáninn samanstendur af rauðum krossi sankti Georgs (verndardýrlingur Englands), með hvítum brúnum, settum yfir krossi sankti Patricks (verndardýrlingur Írlands), sem eru báðir settir yfir krossi sankti Andreas. Réttu hlutföll fánsins eru 1:2. Hins vegar notar breski herinn hlutföll 3:5. Exmoor. Exmoor er þjóðgarður við strönd Bristol-sundsins á Suðvestur-Englandi. Þjóðgarðuinn næ yfir tveimur sýslum, 71% af garðinum er í Somerset og 29% af honum er í Dorset. Helit flatarmál þjóðgarðsins er 692,8 km², sem inniheldur hæðóttar lyngheiðar og 55 km af strönd. Exmoor er að mestu leyti upplendi með dreifðum íbúum sem búa aðallega í litlum þorpum og smáþorpum. Höfuðbyggðirnar eru Porlock, Dulverton, Lynton og Lynmouth; sem eru samtals 40% íbúar þjóðgarðsins. Exmoor var einn fyrsti þjóðgarður á Bretlandi, og varð til árið 1954. Hann dregur nafn sitt af Exe-ánni. Austur-England. Austur-England er ein af níu embættislegum landshlutum á Englandi. Landshlutinn varð til árið 1994 og hefur verið notað í tölfræðilegu skyni frá 1999. Hann inniheldur sýslurnar Essex, Hertfordshire, Bedfordshire, Cambridgeshire, Norfolk og Suffolk. Frá og með manntalinu árið 1999 var íbúafjöldi 5.388.140. Austur-England er að mestu leyti lágt; hæsti punkturinn í landshlutanum er 249 m yfir sjávarmáli. Peterborough, Luton og Southend-on-Sea eru þéttbyggðustu borgirnar í landshlutanum. Suðaustur-England. Suðaustur-England er ein af níu embættislegum landshlutum á Englandi. Landshlutinn varð til árið 1994 og hefur verið notað í tölfræðilegu skyni frá 1999. Hann inniheldur sýslurnar Austur-Sussex, Berkshire, Buckinghamshire, Hampshire, Kent, Oxfordshire, Surrey, Vestur-Sussex og Wighteyju. Frá og með manntalinu árið 2001 var íbúafjöldi 8.000.550. Hæsti punkturinn í landshlutanum er 297 m yfir sjávarmáli. Brighton og Hove eru þéttbyggðasta borgin á Suðaustur-Englandi, en það eru líka stór áhrif frá nærliggjandi borginni London. Zakim Bunker Hill-brúin. Leonard P. Zakim Bunker Hill Memorial-brúin (yfirlett stytt í Zakim Bunker Hill-brúin) er stagbrú sem brúar Charlesá í Boston í Massachusetts. Brúin tók við af Charlestown High-brúnni og er hún breiðasta stagbrú veraldar. Meginhluti brúarinnar heldur uppi fjórum akreinum í hvora átt en auk þeirra eru tvær akreinar sem standa á svifbitum fyrir utan kapla brúarinnar. Þessar tvær akreinar sameinast aðalveginum á norðurbakkanum. Suðvestur-England. Suðvestur-England er einn af níu embættislegum landshlutum á Englandi. Hann er stærsti landshlutinn á Englandi og er 23.828 km² að flatarmáli. Hann inniheldur sýslurnar Cornwall, Devon, Dorset, Gloucestershire, Somerset og Wiltshire, og líka Syllinga. Landshlutinn er svæði sem yfirleitt nefnist West Country á ensku og inniheldur mikið af Wessex. Nyrsti punkturinn á Suðvestur-Englandi, Chipping Campden, er eins nærri við Skotland og hann er við Cornwall. Íbúafjöldinn er 4.928.458. Suðvestur-England er þekkt fyrir að búa til Cheddar-ost sem varð til í þorpinu Cheddar í Somerset-sýslunni. Rjómate (e. "cream tea") frá Devon sýslunni og eplasafi eru líka frægar útflutningsvörur frá landshlutanum. Svæðið er líka þekkt fyrir Eden-verkefnið, Aardman Animations, Glastonbury-hátíðina og strendurnar í Cornwall þar sem er hægt að bruna á brimbretti. Það eru tveir þjóðgarðar og fjórar heimsminjaskrár UNESCO inni í Suðvestur-Englandi. Norðaustur-England. Norðaustur-England er einn af níu embættislegum landshlutum á Englandi. Hann inniheldur sýslurnar Durham, Norðymbraland, Tyne og Wear og svæðið Tees Valley. Á ensku er sögulega nafn sýslunnar Northumbria (Norðhumbría) en þetta nafn er ekki lengur notað í daglegu tali. Stærsta borgin í landshlutanum er Newcastle upon Tyne, aðrar merkilegar borgir í svæðinu eru Sunderland, Durham, Middlesbrough og Darlington. Hæsti punkturinn í landshlutanum er í Cheviot og er 815 m yfir sjávarmáli. Almennt er svæðið hæðótt og strjálbýlt í norður- og vesturhlutunum og er þéttbýlt og plægjanlegt í suðri og í austri. Landshlutinn er þekktur fyrir náttúrufegurð, til dæmis eru Northumberland-þjóðgarðurinn og Pennínafjöllin staðsett þar. Norðaustur-England er líka mikilvægur sögulegur staður, dómkirkjan í Durham og Hadríanusarmúrinn eru í svæðinu eru líka bæði heimsminjaskrár UNESCO. Norðvestur-England. Norðvestur-England er einn af níu embættislegum landshlutum á Englandi. Landshlutinn samanstendur af sýslunum Cumbria, Lancashire, stórborgarsvæðinu Manchester, Merseyside og Cheshire. Íbúafjöldinn er 6.853.200. Landshlutinn er bundinn af Írlandshafinu í vestri og Pennínafjöllum í austri. Norðvestur-England spannar frá skosku landmælin nyrðra til fjallanna í Wales syðra. Hæsti punkturinn í landshlutanum (og líka hæsti punkturinn á Englandi) er Scafell Pike í Cumbria, sem er 978 m yfir sjávarmáli. Það eru tvö stór þéttbýli sem beina að Manchester og Liverpool. Þessi þéttbýli ná yfir suðurhluta landshlutsins og eru líka stærstu íbúamiðstöðvar á Norðvestur-Englandi. Norðurhlutar svæðisins, með Lancashire og Cumbria, eru almennt strjálbýlir. Vestur-Miðhéruð (landshluti). Vestur-Miðhéruð (e. "West Midlands") er einn af níu embættislegum landshlutum á Englandi og nær yfir vesturhelming svæðisins sem nefnist Miðhéruð. Önnur stærsta borgin á Bretlandi, Birmingham, er í þessum landshluta. Það er til stórt þéttbýli í vestur-Miðhéruðum sem inniheldur borgirnar Dudley, Solihull, Walsall og West Bromwich. Borgin Coventry er líka í landshlutanum en er aðskilin af öðrum þéttbýlunum. Landslag svæðisins er fjölbreytt. Í austurhlutunum eru stór þéttbýli en það eru fleiri landsbyggðar í vestursýslunum Shropshire og Herefordshire sem liggja að Wales. Lengsta áin á Bretlandi sem heitir Severn rennur suðaustur inni í svæðinu, í gegnum Shrewsbury og Worcester, og Ironbridge Gorge sem er heimsminjaskrá UNESCO og var fæðingarstaður Iðnbyltingarinnar. Í Staffordshire sýslunni er staður nefnist Potteries, hópur borga sem inniheldur Stoke-on-Trent, og líka Staffordshire Moorlands svæðið sem liggur að Peak District-þjóðgarðinum. Það eru fimm náttúrufegurðarstaðir í landshlutanum. Stratford-upon-Avon er í Warwickshire sýslunni og var fæðingarstaður William Shakespeares. Það er líka til sýsla sem heitir Vestur-Miðhéruð sem varð til árið 1974. Sýslan nær yfir hluta Staffordshire, Worcestershire og Warwickshire. Austur-Miðhéruð. Austur-Miðhéruð (e. "East Midlands") er einn af níu embættislegum landshlutum á Englandi og næ yfir austurhelming svæðisins sem nefnist Miðhéruð. Landshluttinn samanstendur harkalega af sýslunum Derbyshire, Leicestershire, Rutland, Northamptonshire, Nottinghamshire og mikið af Lincolnshire. Punkturinn þar sem sýslurnar ná saman nefnist Trent Lock. Íbúafjöldinn er 4.172.179. Hæsti punkturinn í landshlutanum er Kinder Scout sem er 636 m yfir sjávarmáli. Berggrunnurinn þar er aðallega úr kalksteini og það eru líka nokkur lítil olíusvæði. Yorkshire og Humber. Kort af Yorkshire og Humber. Yorkshire og Humber er einn af níu embættislegum landshlutum á Englandi. Hann næ yfir mest af hefðbundinni sýslunni Yorkshire og hlutann af Lincolnshire sem var hluti Humberside frá 1974 til 1996. Árið 2006 var íbúafjöldinn 5.142.400. Hæsti punkturinn í landshlutanum er Whernside sem er 737 m yfir sjávarmáli. Höfuðborgirnar í svæðinu eru Leeds, Sheffield, Kingston upon Hull, York, Scunthorpe and Grimsby. Grimsby. Grimsby (áður Great Grimsby, stundum nefndur Grímsbær á íslensku) er hafnarbær við ósa árinnar Humber í Lincolnshire á Englandi. Áður fyrr hét borgin „Great Grimsby“ til aðgreiningar frá fiskiþorpinu Little Grimbsy, 14 km sunnar, nærri Louth. Á ensku nefnist fólk frá Grimbsy "Grimbarians". Íbúafjöldi bæjarins er tæplega 90.000. Saga. Grimsby er líka nefnd í Dómsdagsbókinni: þegar hún var skrásett voru 200 íbúar í bænum, prestur, mylla og ferja (líklega til að flytja fólk yfir Humber-ána). Á 12. öld þróaðist Grimsby í hafnar- og verslunarbæ. Jóhann landlausi gaf bænum stofnskrá árið 1201 og fyrsti bæjarstjórinn tók við embætti árið 1218. Efnahagsmál. Fiskveiðar og fiskvinnsla eru aðalatvinnuvegirnir í Grimsby. Hámarkinu var náð á sjötta áratug 20. aldar þegar Grimsby var mesti fiskveiðibær í heimi. Vegna útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar og þorskastríðanna við Ísland hafa fiskveiðar dregist saman á undanförum áratugum. Stærsti fiskmarkaður á Englandi er þó enn í dag í Grimsby en mikið af þeim fiski sem þar er seldur er fluttur inn frá öðrum höfnum eða í gámum frá Íslandi. Í dag eru mörg matvælavinnslufyrirtæki í Grimsby, um það bil 500 alls, og Grimsby er ein stærsta fiskvinnslumiðstöð í Evrópu. Reisibrú. Reisibrú (einnig kölluð vængjabrú) er hreyfanleg brú þar sem einn eða tveir partar (oft nefndir vængir) hennar lyftast upp á annan enda til að hleypa skipaumferð framhjá. Reisibrýr eru algengasta gerð hreyfanlegra brúa sökum þess hve hratt þær opnast og hve lítillar orku þær krefjast. Margliðufall. fyrir öll formula_3 þar sem formula_4 er ekki neikvæð heiltala og formula_5 eru stuðlar. Ef formula_4 hefði gildið formula_7 væri margliðufallið svona og væri það þá af fimmtu gráðu. Dæmi um margliðufall af fimmtu gráðu væri t.d. en að ofan er formula_10, formula_11, formula_12, formula_13, formula_14 og formula_15. Margliðufall verður núll í núllstöð margliðunnar, en einnig ef margliðan er núllmargliða, en þá er margliðufallið vitaskuld alltaf núll. Hlutfall tveggja margliðufalla, þar sem nefnarinn er ekki núllmargliða, nefnist rætt fall. Rætt fall. Hérna er fallið formula_1teiknað en það er rætt fall af annarri gráðu. Rætt fall er fall, sem er hlutfall tveggja margliðufalla. Þegar margliðufall er skilgreint fyrir eina breytu formula_2 þá er rætt fall táknað á forminu þar sem formula_4 og formula_5 tákna margliðuföllin formula_6 og formula_7 og formula_8 er ekki núllmargliða. Ræða fallið formula_3 nefnist svo eiginlegt ef formula_10 sem er gráða margliðunnar formula_11 er lægri en formula_12 sem er gráða margliðunnar formula_13. Ef formula_10 er hins vegar hærra en formula_12 kallast fallið óeiginlegt. Umrita má rætt fall með margliðudeilingu. Bradford. Bradford er borg í Vestur-Yorkshire sýslunni á Englandi. Bradford er við fjallsrætur Pennínafjallanna, 13,8 km vestur af Leeds og 20,9 km norðvestur af Wakefield. Henni var gefin stofnskrá árið 1897. Íbúafjöldi borgarinnar er 497.400. Bradford er hluti stórborgarsvæðis Vestur-Miðhéraðanna þar sem meira en 1,5 milljónir búa. Það eru 293.717 íbúar í miðbæ Bradford. Á 19. öldinni varð Bradford miðstöð vefnaðariðnaðarins og var stór ullarframleiðandi. Hann var uppgangsbær á Iðnbyltinginni og var ein fyrsta iðnvædda borg í heimi. Bradford er stundum kölluð „ullarborg heimsins“. Það er líka merkileg viktoríansk byggingarlist í borginni. Vefnaðariðnaðinum hnignaði frá miðri 20. öldinni. Núna er Bradford ferðamannastaður en það eru líka mörg erfið félagsleg vandamál í Bradford eins og afiðnvæðing og kreppa. Í dag er Bradford innflutningarstaður, til dæmis er mikill innflutningur frá Pakistan. The Dodos. The Dodos er rokk-hljómsveit frá San Francisco í Bandaríkjunum. The Dodos byrjaði að spila árið 2005. Dugga. Dugga var lítið fiskiskip sem enskir fiskimenn notuðust við til úthafsveiða í Norðursjó og við Ísland á 16. og 17. öld. Duggur voru yfirleitt með eina stórsiglu þversiglda, en hugsanlega með gaffalsegli að aftan og eina litla messansiglu aftast með loggortusegli á, og bugspjót að framan með stagseglum. Einfaldur reiðabúnaður gerði það að verkum að auðvelt var að athafna sig við borðstokkinn þegar veitt var með línu og neti. Duggur voru hlutfallslega breiðar og borðháar. Þær voru 13 tonn að stærð, um 15 metra langar og 4,5 metra breiðar. Þær drógu einn léttabát til að áhöfnin kæmist í land. Sumar voru búnar fallbyssum og notaðar sem herskip í stríði. Sjómenn á duggum voru kallaðir „duggarar“. Stoke-on-Trent. Stoke-on-Trent (oft einfaldlega Stoke) er borg í Staffordshire-sýslu á Englandi. Hún er hluti þéttbýlis sem er yfir 19 km langt og 93 km² að flatarmáli. Með Newcastle-under-Lyme og Kidsgrove myndar hún þéttbýlið sem heitir Potteries. Þetta svæði og Staffordshire Moorlands mynda saman Norður-Staffordshire þar sem íbúafjöldinn var 457.165 árið 2001. Íbúafjöldi borgarinnar er 239.700. Stoke-on-Trent varð opinberlega borg árið 1925. Borgin myndaðist úr sex bæjum og þorpum sem voru upprunnalega aðskilin. Þessar byggðir sameinuðust í byrjun 20. aldarinnar og mynduðu borgina eins og hún er í dag. Nýja borgin dró nafn sitt af gömlu byggðinni Stoke-upon-Trent, af því að höfuðjárnbrautarstöðin var þar. Eftir sameininguna varð Hanley aðalverslunarmiðstöð borgarinnar. Þrjár aðrar borgir sem eru hluti Stoke-on-Trent eru Tunstall, Longton og Fenton. Hún er talin vera heimili leirkerasmiðjuiðnaðsins á Englandi og nefnist oft The Potteries. Fyrrum var hún aðallega iðnvædd borg en í dag er hún miðstöð þjónustugreina og dreifingarfyrirtækja. Borgin hefur eigin borgarstjóra. The Washington Post. Útgáfa "Washington Post" frá 21. júlí 1969 með fyrirsögninni „Örninn er lentur — Tveir menn ganga á Tunglinu“. "The Washington Post" er mest lesna dagblað í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Það er líka elsta dagblað borgarinnar og var stofnuð árið 1877. Blaðið leggur áherslu á stjórnmál, bæði innanlands og erlendis. Það er prentað á breiðum pappír með ljósmyndum í litum og líka svart á hvítu. Á virkum dögum inniheldur það höfuðhlutann, sem inniheldur forsíðuna, þjóðlega- og alþjóðlegafréttir, stjórnmálafréttir, ritstjórnargreinar og skoðunar, og á eftir því koma hlutar um bæjarfréttir, íþróttir, viðskipti, tísku og smáauglýsingar. Útgáfan sem kemur út á sunnudögum inniheldur fyrrgreinda alla hluta og líka "Outlook" (skoðunar og ritstjórnargreinar), "Style & Arts" (tísku og list), "Travel" (ferð), "Comics" (teiknimyndasyrpur), "TV Week" (sjónvarpsdagskrá) og "Washington Post Magazine". Dagblaðið er í eigu móðurfélagsins The Washington Post Company sem stjórnar líka vefsíðunum Washingtonpost.Newsweek Interactive og Washingtonpost.com. Árið 1889 setti John Phillip Sousa saman "The Washington Post March" fyrir blaðið sem varð einar vinsælastu samsetningar göngutónlistar í heimi. Ein merkilegustu atvik dagblaðsins var þegar blaðamenn Bob Woodward og Carl Bernstein byrjuðu rannsókn um Watergate-hneykslið. Þessi rannsókn stuðlaði stórlega að uppsögn Richards Nixon. Síðan Leonard Downie, Jr. varð ritstjóri dagblaðsins árið 1991 hefur unnið "The Washington Post" yfir 25 Pulitzer-verðlaun, helmingi fleiri en 47 verðlaunanna sem blaðið hefur unnið. Blaðinu var gefið sex verðlaun árið 2008, flest verðlaun sem eitt blað hefur alltaf unnið á sama ári. Şalom. Şalom (hebreska: שָׁלוֹם, íslenska: "friður") er tyrkneskt-gyðinga vikublað sem gefið hefur verið út síðan 29. október 1947 í Istanbúl. Tyrkneskt-gyðinga blaðamaður Avram Leyon stofnaði blaðið. Höfuðstöðvar blaðsins eru í Istanbul í Tyrklandi. Útgefandi "Şalom" er fyrirtækið Gözlem Gazetecilik Basın ve Yayın A.Ş.. Stjórnarformaður "Şalom" er İvo Molinas, og ritstjóri er Yakup Barokas. Það er gefið út á tyrknesku, fyrir utan eina blaðsíðu sem er skrifuð á ladino. Það kemur út vikulega í um 5.000 eintaka upplagi. Tahítíska. Tahítíska er tungumál sem tilheyrir ástrónesísku mála-ættinni. Það er skrifað með latínuletri og á um 125.000 mælendur á Tahítí, Nýju Kaledóníu og Nýja Sjálandi. Það er enn fremur notað sem nokkurs konar sameiginlegt samskiptamál um alla Frönsku Pólinesíu. Níunda hliðið. "Níunda hliðið" (e. "The Ninth Gate") er kvikmynd frá árinu 1999 sem byggð er á bókinni "Dumasarfélagið" eftir Arturo Pérez-Reverte. Myndin fjallar um söluaðila gamlla bóka að nafni Dean Corso (Johnny Depp) sem flækist í sérstrúarsöfnuð sem hittist árlega á mörg hundruð ára ártíð Aristides Torchia. Haraldur Johannessen. Haraldur Johannessen (fæddur 25. júní 1954) er ríkislögreglustjóri og fyrrverandi fangelsismálastjóri. Haraldur hefur verið ríkislögreglustjóri frá því hann var skipaður í febrúar 1998 til fimm ára. Hann var skipaður á ný 2003 og 2008 án auglýsingar. Hjördís Hákonardóttir, nú hæstaréttardómari, kvartaði til kærunefndar jafnréttismála. Nefndin taldi Harald hæfari til starfans. Haraldur hóf embættisferil sinn á embætti ríkislögmanns árið 1986, skipaður þangað af þáverandi fjármálaráðherra Jóni Baldvini Hannibalssyni. Hann var svo skipaður fangelsismálastjóri 1. október 1988 af Jóni Sigurðssyni þv. dómsmálaráðherra. Árið 1996 var Haraldur skipaður af þáv. dómsmálaráðherra Þorsteini Pálssyni til embættis varalögreglustjóra í Reykjavík. Hann gegndi því embætti til 1. febrúar 1998 er hann var valinn úr hópi 9 umsækjenda til að gegna nýju embætti ríkislögreglustjóra. Holtsetaland. Kort af Jótlandi sem sýnir Slésvík og Holtsetaland (gult). Holtsetaland er nyrsta landsvæði Þýskalands, milli Saxelfar og Egðu sunnan við landamæri Danmerkur eins og þau lágu áður. Það er hluti af þýska fylkinu Slésvík-Holtsetaland. Höfuðstaður Holtsetalands var hafnarborgin Kiel. Karlamagnús lagði svæðið undir sig um 800 í herför sinni gegn Söxum. Holtsetaland varð greifadæmi undir hertogadæminu Saxlandi árið 1111. Greifadæmið var í höndum Schauenburg-ættarinnar sem fékk líka danska greifadæmið Slésvík á 14. öld. 1459 dó ættin út og lénin tvö gengu til Danakonungs. 1474 var Holtsetaland gert að sjálfstæðu hertogadæmi innan hins Heilaga rómverska ríkis. 1490 var hertogadæminu skipt í tvo hluta Holtsetaland-Lukkuborg sem heyrði undir Danakonunga, og Holtsetaland-Gottorp sem önnur grein af ætt Aldinborgara fékk í sinn hlut. Þeir hertogar voru oft í bandalagi með Svíum, Prússum eða Rússum gegn Dönum. 1773 ákvað Danakonungur að skipta á greifadæminu Aldinborg fyrir Gottorp-hluta Holtsetalands. Holtsetaland var hluti af Þýska bandalagsríkinu frá 1815 til 1864 þótt það væri enn í konungssambandi við Danmörku. Eftir lát Friðriks 7. kom upp deila um ríkiserfðir þar sem Kristján 9. erfði krúnuna í gegnum móður sína. Þetta leiddi til stríðs, Annars Slésvíkurstríðsins, milli Þýska bandalagsríkisins og Danmerkur sem Danmörk tapaði. Slésvík og Holtsetaland voru brátt sameinuð í eitt hérað, Slésvík-Holtsetaland, sem heyrði Prússlandi til. Eftir Seinni heimsstyrjöld var búið til sjálfstjórnarfylkið Slésvík-Holtsetaland með höfuðstað í Kiel. Kílarvikan. Sögulegar skipsgerðir og nútímaskútur taka saman þátt í „skrúðsiglingu“ á Kílarvikunni 2007. Kílarvikan (þýska: "Kieler Woche") er röð kappsiglinga og tengdra viðburða sem haldin er í Kíl í Holtsetalandi síðustu heilu vikuna í júní ár hvert. Kílarvikan stærsti siglingaviðburður heims þar sem 5000 siglingamenn taka þátt á 2000 skipum. Á sama tíma er haldin tónlistarhátíð í borginni og umhverfis hana. Skipulag Kílarvikunnar er í höndum siglingafélaganna í Kíl, Hamborg og Wannsee. Upphaflega var hátíðin hefðbundin siglingakeppni, fyrst haldin 1882, en hefur síðan undið upp á sig. Einn eftirtektarverðasti hluti hátíðarinnar er keppni og sýning á hásigldum skipum og öðrum sögulegum seglskipagerðum. Chuck (sjónvarpsþáttur). "Chuck" er bandarískur hasar-gamanþáttur búinn til af Josh Schwartz og Chris Fedak. Þættirnir snúast um Chuck Bartowski sem var ósköp venjulegur nörd sem lifði afar óspennandi lífi þar til hann opnaði tölvupóst frá gömlum skólafélaga, sem nú vinnur hjá CIA, og mötuðu skilaboðin hann á öllum hættulegustu leyndarmálum CIA. Hann varð þannig mikilvægasta leynivopn sem til er og örlög heimsins hvíla á herðum hans. Eftir tveggja mánaða „Björgum Chuck“-herferð á vegum aðdáenda fékk "Chuck" grænt ljós á þriðju þáttaröðina sem inniheldur 19 þætti. Stór samningur á milli NBC og Subway-veitingastaðarins var einnig kynntur til þess að mæta kostnaði við gerð þáttaraðarinnar. Fjórða þáttaröðin var samþykkt í maí 2010 og pantaði NBC 13 þætti en bætti svo 11 þáttum til viðbótar og innihélt fjórða þáttaröðin 24 þætti. Í maí 2011 pantaði NBC fimmtu þáttaröðina sem er í senn lokaþáttaröðin af "Chuck" og samanstendur af 13 þáttum. Söguþráður. Chuck Bartowski (Zachary Levi) er á þrítugsaldri, býr í Burbank í Kaliforníu og vinnur sem tölvusérfræðingur í Nerd Herd-þjónustunni í Buy More-verslun, stórri raftækjaverslun, með besta vini sínum, Morgan Grimes (Joshua Gomez). Chuck er gáfaður er skortir metnað. Systir hans, Ellie (Sarah Lancaster) og kærastinn hennar, Devon „Captain Awesome“ Woodcomb (Ryan McPartlin) eru læknar sem eru stöðugt að hvetja Chuck til að koma sér á rétta braut, bæði í einkalífinu og í vinnunni. Sama kvöld og afmælisveisla Chucks er, fær hann tölvupóst frá fyrrum herbergisfélaga sínum í Stanford, Bryce Larkin, sem nú er CIA-fulltrúi. Þegar Chuck opnar skeytið hlaðast öll leyndarmál bandarísku ríkisstjórnarinnar inn í heilann á honum. Bæði NSA og CIA vilja fá leyndarmálin til baka og senda þau bestu fulltrúana sína á vettvang — John Casey (Adam Baldwin) frá NSA og Söruh Walker (Yvonne Strahovski) frá CIA til að ná leyndarmálunum. Eftir að Bryce Larkin stal leyndarmálunum og eintak ríkisstjórnarinnar eyðilagðist þegar Bryce reyndi að flýja, og þegar Chuck sér upplýsingarnar fyrir sér þegar hann sér eitthvað sem er í gagnagrunninum (svo sem andlit, raddir, upplýsingar, kóðar o.fl.), verður hann nýja leynivopn ríkissjtórnarinnar og neyðist til þess að hjálpa þeim með nýju þekkingunni sinni að berjast við hryðjuverkamenn og fleiri glæpamenn. Til þess að gæta fyllsta öryggis verður Chuck að halda þessu öllu saman leyndu fyrir fjölskyldu sinni og vinum, sem neyðir Casey og Walker til þess að finna sér venjulegan stað í lífi Chucks; Sarah þykist vera kærasta Chucks og fær vinnu á veitingastað nálægt Buy More (í fyrstu þáttaröðinni er það Wienerlicious en nú Orange Orange), á meðan Casey fær starf í Buy More sem sölumaður. Fyrsta þáttaröð (2007-2008). Í fyrstu þáttaröðinni þarf Chuck fljótt að aðlagast hinum banvæna njósnaheimi undir verndarvængjum Söruh Walker og Johns Casey majór. Chuck reynir líka að komast að því hvers vegna Bryce sendi honum gagnagrunninn. Önnur þáttaröð (2008-2009). Chuck situr fastur með Intersect-tölvuna í heilanum í sér og reynir að finna Orion, manninn sem bjó til Intersect-tölvuna. Fulcrum, óvinanjósnahópur er líka að leita að honum. Ellie og Devon undirbúa brúðkaupið sitt og vill Chuck finna föður þeirra Stephen J. Bartowski. Þriðja þáttaröð (2010). Í þriðju þáttaröðinni reynir Chuck að stjórna nýju Intersect-tölvunni - Intersect 2.0 sem gerir honum kleift að öðlast ýmsa hæfileika. Sarah og Casey eiga að þjálfa Chuck að verða njósnari og Morgan kemst að leyndarmáli Chucks. Njósnahópurinn "The Ring" er nýr óvinur Bartowski-teymisins. Fjórða þáttaröð (2010-2011). Í fjórðu þáttaröð reynir Chuck að finna móður sína, Mary Bartowski, sem hvarf þegar hann var tíu ára. Ellie og Devon eiga von á barni og Chuck ákveður að biðja Söruh að giftast sér. Rússneski vopnasalinn Alexei Volkoff er aðalóvinur Bartowski-teymisins. Fimmta þáttaröð (2011-2012). Chuck og Sarah Bartowski hafa stofnað Carmichael Industries, sjálfstætt starfandi njósnafyrirtæki. Morgan er nú með Intersect 2.0 og þarf Chuck að leiðbeina honum. Casey hittir gamla ástkonu sína Gertrude Verbanski sem rekur Verbanski Corp, aðalkeppinaut Carmichael Industries. Margir óvinir úr fortíðinni koma aftur en fyrrum CIA-fulltrúinn Nicholas Quinn er aðalskúrkurinn og ætlar sér að ná nýrri útgáfu af Intersect - Intersect 3.0. Hugmynd. Josh Schwartz og Chris Fedak skrifuðu handritið af fyrsta þættinum sem var gefið grænt ljós á í janúar 2007. Schwartz og Fedak gengu báðir í háskólann í Suður-Kaliforniu og fékk Fedak Schwartz í lið með sér. Joseph Mcginty Nichol, sem var með-framleiðandi Schwartz í The O.C., leikstýrði fyrsta klukkutímanum af þáttaröðinni og varð síðan einn af aðalframleiðundunum í gegnum fyrirtæki sitt, Wonderland Sound and Vision. Fedak, Peter JOhnson, Scott Rosenbaum, Matthew Miller og Allison Adler voru með-framleiðendur. NBC sýndi fyrsta þáttinn fyrr en ætlað var og pantaði seinna 12 þætti til viðbótar. 26. nóvember 2007 var tilkynnt að þættirnir yrðu að annarri þáttaröð, með 22 þáttum. Ráðningar. Zachary Levi og Adam Baldwin voru fyrstir til þess að vera ráðnir í febrúar 2007 í hlutverk Chuck Bartowski og NSA fulltrúann Major John Casey. Fedak hafði alltaf haft Baldwin í huga fyrir hlutverk Johns Casey og fannst framleiðundunum hann passa fullkomlega í hlutverkið. Nýliðinn Yvonne Strahovski var valin sem aðalleikkonan í hlutverk CIA fulltrúans Söruh Walker í sama mánuði. Ráðningarnar héldu áfram út mars og urðu Sarah Lancaster, Joshua Gomez og Natalie Martinez fyrir valinu í hlutverk Dr. Ellie Bartowksi (eldri systir Chucks), Morgan Grimes (besti vinur Chucks) og Kayla Hart (nágranni Chucks sem er hrifin af honum). Persónan Kayla Hart var ekki með þegar tökur byrjuðu vegna þess að Fedak og Schwartz fannst það vera of ólíklegt og flókinn söguþráður að tvær konur væru að rífast yfir Chuck. Seinna nafni Morgans var breytt í „Grimes“ og seinna nafni Söruh var breytt í „Walker“ en það var áður „Kent“. Viðtökur. Þrátt fyrir mikla stöðuhækkun frá NBC og með náð fyrir augum gagnrýnenda voru áhorfstölurnar ekki mjög góðar vegna harðrar samkeppni við smelli frá ABC (Dancing with the Stars), FOX (House), og CBS (How I Met Your Mother, The Big Bang Theory) á mánudögum. Áhorfstölurnar báru einnig vott af verkfalli handritshöfunda í fyrstu þáttaröðinni. Gagnrýnendur. Fyrstu viðbrögð við Chuck voru góð. Tímaritið "Rolling Stone" setti þáttinn á „We Like to Watch“-listann haustið 2007 og sagði að þátturinn ætti eftir að slá í gegn. Chucks lenti á lista "USA Today" yfir 10 bestu þætti 2007 og þau sögðu frammistöðu Zachary Levi vera frábæra og gaf þættinum þrjár stjörnur af fjórum. Þegar árið 2008 fór að nálgast enda fylgdu fleiri gagnrýnendur í kjölfarið. Í desember það ár nefndi tímaritið Time þáttinn einn af 10 bestu þáttum ársins, fleiri aðilar fylgdu í kjölfarið og sást það að þátturinn var orðinn mjög vinsæll og gagnrýnendur kepptust við að lofa hann. Pittsburgh Post-Gazette sagði að Chuck væri einn af fáum ljósum blettum í sjónvarpi 2008. Verðlaun. Fyrsta þáttaröðin af Chuck fékk mjög mikla athygli. Þátturinn var nefndur nokkuð oft í IGN verðlaununum 2007. Ásamt því að vinna heiðurinn af Bestu nýju sjónvarpsþáttaröðinni vann Sarah Walker verðlaun fyrir Besti sjónvarpskarakterinn og Chuck og Sarah unnu Couple That We Rooted for the Most. Chuck var einnig tilnefndur fyrir Besta nýja gamanþáttaröðin Á People's Choice Awards árið 2008 en tapaði fyrir Samantha Who?. Chuck var líka tilnefndur fyrir „Outstanding Main Title Design“ það ár en vann ekki. Vesturgermönsk tungumál. Germönskum málum í Evrópu er skipt í norður- (blá) og vesturgermönsk (græn, gul og appelsínugul) mál. Vesturgermönsk tungumál eru stærsti af þremur hefðbundnum undirflokkum germönsku málanna og er þar átt við mál eins og ensku, hollensku og afríkönsku, þýsku, frísnesk tungumál og jiddísku. Hinir tveir hefðbundnu undirflokkarnir eru norður- og austurgermönsk mál. Josh Radnor. Joshua „Josh“ Radnor (fæddur 29. júlí 1974) er bandarískur leikari sem er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Ted Mosby í gamanþættinum How I Met Your Mother Ferill. Árið 2001 fékk Radnor aðalhlutverkið í Off Centre en hlutverkið féll að lokum til Eddie Kaye Thomas. Árið 2002 lék hann á Broadway í uppfærslu af The Graduate, með Jason Biggs á móti Kathleen Turner og Aliciu Silverstone. Í júlí 2008 lék hann á móti Jennifer Westfeldt í leikritinu Finks, skrifað af Joe Gilford og leikstýrt af Charlie Stratton. Einkalíf. Josh fæddist í Bexley Ohio og er sonur Alans Radnor, lögræðings. Hann ólst upp í Bexley, úthverfi Columbus þar sem hann gekk í gyðinga-skóla og fór í sumarbúðir. Radnor útskrifaðist frá menntaskólanum í Bexley og fór síðan í Kenyon háskólann þar sem hann fékk Paul Newman verðalunin. Radnor fékk meistaragráðuna sína í leiklist í NYU Tisch School of the Arts. Radnor býr í Los Angeles og er í sambandi með leikkonunni Lindsay Price sem lék í sjónvarpsþættinum Lipstick Jungle Heimildir. Radnor, Josh Jason Segel. Jason Jordan Segel (fæddur 18. janúar 1980) er bandarískur leikari, handritshöfundur og tónlistarmaður, sem er þekktur fyrir vinnu sína með framleiðandanum Judd Apatow í stuttu sjónvarpsþáttaröðinni Freaks and Geeks and Undecleared, kvikmyndirnar Forgetting Sarah Marshall, Knocked Up, I Love You Man, og Bad Teacher en einnig fyrir hlutverk sitt sem Marshall Eriksen í How I Met Your Mother. Æska. Segel fæddist í Los Angeles í Kaliforníu og ólst upp í Pacific Palisades í Kaliforníu. Segel gekk í Episcopal Church-affliated skólann, þrátt fyrir að vera gyðingur. Hann kláraði miðskólann og menntaskólann í Harvard-Westlake skólanum þar sem hæð hans (193 cm) hjálpaði honum í körfuboltanum. Hann vonaðist til þess að geta orðið leikari eftir skóladaga sína og lék í bæjarleikhúsinu í uppfærslu af Palisades Playhouse. Ferill. Hann er þekktur fyrir hlutverk sitt sem „Freak“ Nick Andopolis í skammlífum drama-gaman þætti á NBC, Freaks and Geeks, um hóp af menntaskólakrökkum í úthverfi Detroit um 1980. Hann samdi sjálfur lag fyrir persónuna sína, Nick, til þess að syngja fyrir aðalkvenpersónuna, Linsay (Linda Cardellini), í þættinum. Hún og Segel voru saman í nokkur ár eftir að þátturinn hætti. Það var sagt að hún hafi hætt með honum vegna þess að hann þyngdist um 10 kíló en það kom seinna í ljós að yfirlýsingin var útúrsnúningur úr brandara. Segel hafði fast gestahlutverk í CSI: Crime Scene Investigation sem Neil Jansen og í Undeclared sem Eric. Hann leikur núna Marshall Eriksen í gamanþættinum How I Met Your Mother sem fór af stað 19. september 2005. Hann hefur leikið í myndum eins og til dæmis Slackers, SLC Punk!, The Good Humor Man og Dead Man on Campus. Árið 2007 lék hann í Knocked Up sem var leikstýrt af framleiðanda Freaks and Geeks, Judd Apatow. Segel lék aðalhlutverkið í Forgetting Sarah Marshall árið 2008, mynd sem hann skrifaði og Apatow framleiddi með Shaunu Robertson, fyrir Universal. Nýjasta myndin hans er I Love You Man og kom hún út 20. mars 2009. Heimildir. Segel, Jason Cobie Smulders. Jacoba Fransisca Maria „Cobie“ Smulders (fædd 3. apríl 1982) er kanadísk leikkona og fyrrverandi módel, sem er best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Robin Scherbatsky í þáttunum How I Met Your Mother Einkalíf. Smulders fæddist í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada og á hún hollenskan föður og breska móður. Hún var nefnd eftir hollenskri frænku sinni, 'Jacoba', en vegna þess fékk hún viðurnefnið „Cobie“ Sem barn vildi Smulders annaðhvort verða læknir eða sjávarlíffræðingur en fékk áhuga á leiklist í menntaskóla og kom hún fram í nokkrum skólaleikritum. Hún kláraði menntaskóla árið 2000 í Lord Byng Secondary skólanum með háar einkunnir, og var kosin „Most Respected“. Hún var uppgvötuð af fyrirsætubransanum á unglingsárum og varð alþjóðleg fyrirsæta og fór meðal annars til New York, Karabíska hafsins, París, Japan, Mílanó, Grikklands, Afríku og Þýskalands. Smulders býr núna í Los Angeles, Kaliforniu. 26. nóvember 2008 tilkynnti TV Guide að Smulders og kærastinn hennar Taran Killam eigi von á sínu fyrsta barni vorið 2009. Tilkynning Smulders kom aðeins mánuði á eftir tilkynningu meðleikkonunnar Alyson Hannigan. Cobie Smulders eignaðist fyrsta barn sitt, stelpu að nafni Shaelyn Cado Killam, 16. maí 2009. 28. janúar 2009 var tilkynnt að Smulders og Killam eru trúlofuð. Leikferill. Fyrsta hlutverkið hennar var sem gestaleikari í þáttaröðinni Jeremiah og hefur hún leikið í nokkrum sjónvarpsþáttum síðan, síðast sem tíður gestur í The L Word. Fyrsta varanlega hlutverkið hennar var í skammlífa sjónvarpsþættinum Veritas: The Quest; annað hlutverk hennar var í sjónvarpsþættinum sem hún er mest þekkt fyrir í dag, How I Met Your Mother þar sem hún leikur sjónvarpskonuna Robin Scherbatsky, sem einnig er kanadísk. Smulders lék Mariu Hill í Marvel-ofurhetjumyndinni The Avengers sem kom út 27. apríl 2012. Heimildir. Smulders, Cobie Neil Patrick Harris. Neil Patrick Harris (fæddur 15. júní 1973) er bandarískur leikari og töframaður. Hann er þekktastur fyrir aðalhlutverkin í Doogie Howser, M.D., sem og kvennabósinn Barney Stinson í How I Met Your Mother. Einnig er hann þekktur fyrir leik sinn í Harold & Kumar-myndunum þar sem hann leikur sjálfann sig. Hann var einnig kynnirinn á 61 Tony Verðlaununum sunnudaginn 26. apríl 2009. Æska. Harris fæddist í Albuquerque í New Mexico í Bandaríkjunum og ólst upp í Ruidoso í sama fylki. Hann á eldri bróður sem heitir Mark og byrjaði Neil að leika vegna þess að hann elti bróður sinn í áheyrnarprufu í fjórða bekk þar sem hann fékk síðan hlutverk Toto í skólauppsetningu af Galdrakarlinum í Oz. Hann gekk í La Cueva menntaskólann í Albuquerque og var alltaf virkur í leikritum og söngleikjum. Harris var frábær nemandi og útskrifaðist með sóma árið 1991. Hann var þremur árum á undan skólafélaga sínum Freddie Prinze Jr. Ferill. Harris byrjaði ferill sinn sem barnaleikari og var hann uppgvötaður af Mark Medoff í leiklistarbúðum í Las Cruces í New Mexico. Medof fékk hann til að leika í myndinni Clara's Heart árið 1998 með Whoopi Goldberg og fékk hann Golden Globe tilnefningu. Árið 1998 lék hann einnig í Purple People Eater, sem var barna-fantasía. Árið eftir náði hann aðalhlutverki í Doogie Howser, M.D., og var hann aftur tilnefndur til Golden Globe verðlaunanna. Eftir að fjórða þáttaröð Doogie Howser endaði árið 1993, lék Harris nokkur gestahlutverk í sjónvarpi, áður en hann tók að sér hlutverk í kvikmynd sem fullorðinn maður í myndinni Animal Room. Síðan þá hefur kvikmyndaferill hanns innhaldið aukahlutverk í myndum eins og The Next Best Thing, Undercover Brother, Starship Troopers og svo í Harold & Kumar Go to White Castle og Harold & Kumar Escape from Guantanamo Bay en í báðum myndunum lék hann uppdópaðan, og tilbúna útgáfu af sjálfum sér. Frá 1999 til 2000 lék Harris með Tony Shalhoub í grínþættinum Stark Raving Mad, sem entist í 22 þætti. Hann hefur leikið aðalhlutverk í fjórum myndum. Harris hefur unnið á Broadway í bæði söngleikjum og dramatískum hlutverkum. Hann lék Tobias Ragg árið 2001 í tónleikaútgáfu af Sweeney Todd. Árið 2002 lék hann með Anne Heche í Proof. Árið 2003 tók hann hlutverk Emcee í Cabaret að sér með Deboruh Gibson og Tom Bosley. Árið 2004 lék hann tvöfalt hlutverk í Balladeer og Lee Harvey Oswald á Broadway í tónlistarútgáfu af Assassins. Hann söng einnig hlutverk Charles (fyrst leikinn af Anthony Perkins) í upptöku Nonesuch í Evening Primrose. Hann hefur einnig leiki Mark Cohen í söngleiknum RENT. Núverandi hlutverk Neils er Barney Stinson í gamanþættinum How I Met Your Mother, kvennabósa sem færði honum Emmy-tilnefningar árin 2007 og 2008. 26. apríl 2009 var Harris kynnir á 7. árlegu Land-verðlaununum. Harris var kynnir á 63 Tony-verðlaununum 7. júní 2009. Hann verður einnig kynnir á Primetime Emmy-verðlaununum þann 20. september 2009. Harris mun leika í myndinni Beastly, með Alex Pettyferog Vanessu Hudgens. Hann mun leika blindan leiðbeinanda í skólanum. Myndin á að koma út 30. júlí 2010. Hann mun einnig leika aðalhlutverkið í gamanmyndinni The Best and the Brightest sem áhyggjulaus faðir sem rífur fjölskyldu sína upp með rótum frá Delaware til fína hverfisins í New York City. Einkalíf. Í nóvember 2006 eftir að spurst hafði út um rómantískt samband á milli Harris og leikarans David Burtka á netinu, kom Harris út úr skápnum í People. Hann hafði verið samkynhneigður í einkalífinu og í leikhúsinu, en sagði, „Fjölmiðlar hafa alltaf verið góðir við mig, og þar til nýlega hafði ég átt nokkuð eðlilegt líf. En núna virðist það vera svo að áhugi á einkalífi mínu og samböndum hafi aukist. Svo, í staðinn fyrir að hunsa þá sem vilja birta skoðanir sínar án þess að tala við mig, mun ég vera tilbúinn til þess að svara öllum sögusögnum og þh. og er ég nokkuð stoltur af því að segja að ég er mjög hamingjusamur samkynhneigður maður og lifi lífi mínu til hins fyllsta og finnst ég vera mjög heppinn að vinna með frábæru fólki í bransa sem ég elska“. Harris og Burtka komu samn á Emmy-verðlaunahátíðina í september 2007 sem opinbert par í fyrsta skipti. Neil og David hafa verið saman síðan í apríl 2004. Harris hefur talað um Burtka sem „betri helming sinn“ og „frábæran kokk“. Harris er aðdáandi töfrabragða og er sjálfur töframaður eins og persónan hans í How I Met Your Mother. Hann vann töfraverðlaun Tannen's Magic Louis árið 2006 og hélt World Magic-verðlaunin árið 2008. Heimildir. Harris, Neil Patrick Alyson Hannigan. Alyson Lee Hannigan-Denisof (fædd 24. mars 1974) er bandarísk leikkona. Hún er best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Lily Aldrin í How I Met Your Mother, Willow Rosenberg í sjónvarpsþáttaröðinni Buffy the Vampire Slayer og Michelle Flaherty-Levenstein í fjórum fyrstu American Pie myndunum. Æska. Hannigan fæddist í Washington, D.C. og er dóttir Emilie Posner, fasteignasala, og Al Hannigan, vörubílstjóra. Alyson er gyðingur eins og öll móðurfjölskylda hennar en á einnig ættir að rekja til Írlands. Foreldrar hennar skildu ári eftir að hún fæddist og var hún aðallega alin upp af móður sinni í Atlanta. Þrátt fyrir að Hannigan hafði komið fram í myndinni Active Parenting sem ungabarn og leikið í auglýsingu árið 1978 var það ekki fyrr en hún flutti til Los Angeles árið 1985 að hlutirnir fóru að gerast og leiklistarferillinn byrjaði fyrir alvöru. Þar sem hún bjó hjá móður sinni gekk hún í Norður-Hollywood menntaskólann og gekk vel í áheyrnarprufum á umboðsmönnum á meðan hún heimsótti föður sinn í Santa Barbara. Eftir menntaskólann stundaði hún nám í Kaliforníu-háskóla. Ferill. Fyrsta alvöru hlutverk Alyson var í myndinni My Stepmother Is an Alien, vísindaskáldsögu-grímynd frá árin 1988; og var einn af meðleikurum hennar leikarinn Seth Green, sem seinna meir lék kærastann hennar í þáttunum um Buffy. Árið 1989 fékk hún fyrsta hlutverkið sitt í sjónvarpsþáttaröð þegar hún var ráðin í skammlífu þáttaröðina Free Spirit. Á 10. áratugnum lék hún mestmegnis í auglýsingum. Árið 1997 var Hannigan ráðin í hlutverk "Willow Rosenberg", bestu vinkonu Buffy, í sjónvarpsþættinum Buffy the Vampire Slayer (hún kom í staðinn fyrir Reff Regan sem lék Willow í ósýnda 25 mín. fyrsta þættinum). Þátturinn varð vinsæll og Hannigan varð þekkt andlit, sérstaklega eftir að hafa leikið í unglingamyndum eins og til dæmis American Pie, American Pie 2, Boys and Girls og American Wedding. Þegar Buffy hætti sýningum árið 2003 var Hannigan að fá 250.000 dollara fyrir hvern þátt. Hún var einnig gestaleikari í þættinum Angel þar sem hún endurtók hlutverk sitt sem Willow í nokkrum þáttum. Snemma árið 2004 lék Hannigan á West End, og lék í sviðsuppsetningu af When Harry Met Sally, á móti Luke Perry. Árið 2005 fór Hannigan aftur að leika í sjónvarpsþáttum og lék þá hlutverk Lily Aldrin í grínþættinum How I Met You Mother en var síðan einnig fastur gestaleikari í þáttunum Veronica Mars sem "Trina Echolls". Í febrúar 2006 lék Hannigan "Juliu Jones" í Data Movie. Einkalíf. Hannigan var einu sinni með Ginger Fish í Marilyn Manson. Hún giftist seinna leikaranum Alexis Denisof (sem lék Wesley Wyndam-Price í Buffy/Angel) í Two Bunch Palms Resort í Desert Hot Springs í Kaliforníu þann 11. október 2003. Þau keyptu hús á Santa Monica. Dóttir þeirra, Satyana Denisof, fæddist á 35 ára afmæli Hannigan. Heimildir. Hannigan, Alyson Þrígaldraleikarnir. Þrígaldraleikarnir er í bókunum um Harry Potter eftir J.K. Rowling keppni í galdralistum. Í keppninni keppa þrír skólar um sigur. Þeir eru Beauxbatons, sem er franskur galdraskóli, Durmstrang líklega í þýskalandi eða Búlgaríu, því það er ráðgáta hvar skólin er. Og að lokum Hogwart - skóli galdra og seiða. Keppnin fer þannig fram að fyrst skrá keppendur sig og verður hver og einn sem skráir sig að hafa náð 17 ára aldri. Aldurstakmörk voru ekki fyrst um sinn en vegna óheppilegra dauðsfalla var sá hátturinn tekinn upp. Eftir að hafa skráð sig - þ.e. sett bréfmiða með nafni sínu á ofan í eldbikarinn - velur sjálfur eldbikarinn þrjá einstaklinga, einn úr hverjum skóla til keppninnar. Þá þarf að leysa þjár þrautir, þó ekki allar í einu, og dómararnir gefa stig frá núll upp í 10 fyrir hverja þraut fyrir sig. Dómarar Þrígaldraleikanna eru skólastjórar skólanna og nokkrir aðrir. Sá vinnur keppnina sem fær flest stig og stendur uppi sem sigurvegari ef viðkomandi er á lífi. Dauðsföllin hafa farið fækkandi í aldanna rás enda hafa dómararnir reynt að koma í veg fyrir þau. Skóli sigurvegara heldur svo keppnina að ári. Bárujárn (tónlistarstefna). Bárujárn er tónlistarstefna er kom upp á áttunda áratugnum og óx upp úr þungarokki, frumkvöðlar á bárujárni voru meðal annars breska hljómsveitin Judas Priest en best þekktustu eru líklega hljómsveitir eins og Iron Maiden. Harry Potter og viskusteinninn (kvikmynd). Harry Potter og viskusteinninn er bresk ævintýramynd frá árinu 2001 og er byggð á samnefndri sögu eftir J.K. Rowling. Myndinni er leikstýrt af Chris Columbus og er þetta fyrsta myndin í hinum vinsæla myndaflokki um Harry Potter. Sagan fjallar um Harry Potter, strák sem kemst að því á ellefu ára afmælisdaginn að hann er galdramaður, og er sendur í Hogwartsskóla Galdra og Seiða til þess að byrja galdralærdóm sinn. Myndin skartar Daniel Radcliffe sem Harry Potter í aðalhlutverki, ásamt Rupert Grint og Emmu Watson sem bestu vinum Harrys, Ron Weasley og Hermione Granger. Fullorðnir leikarar í myndinni eru Richard Harris, Maggie Smith, Robbie Clotrane, Alan Rickman og Ian Hart. Warner Bros. keypti kvikmyndaréttinn á bókinni árið 1999. Framleiðsla hófst árið 2000, þegar Columbus var valin úr fáum leikstjórum. Rowling krafðist þess að allt leikaraliðið væri breskt eða írskt, til þess að þjóðernið væri það sama í myndinni og í bókinni. Rowling samþykkti einnig handritið sem skrifað var af Steve Kloves. Myndin er að hluta til tekin í upptökustúdiói Leavsden en einnig á sögufrægum stöðum í landinu. Myndin kom út í Bretlandi og Bandaríkjunum í nóvember árið 2001. Fyrir utan frábæra dóma skilaði myndin 976 milljóna dala hagnaði um allan heim og var tilnefnd til þriggja verðlauna. Önnur, þriðja, fjórða, fimmta og sjötta bókin hafa einnig verið kvikmyndaðar en það verða tvær myndir gerðar eftir sjöundu bókinni og er áætlað að þær komi út árið 2010. Söguþráður. Harry Potter er nokkuð eðlilegur ellefu ára strákur, sem býr hjá leiðinlegum ættingjum sínum, Dursley-fjölskyldunni. Á ellefu ára afmælisdaginn kemst Harry að því hjá ókunnugum manni, Rubeus Hagrid, að hann er galdramaður og er frægur í galdraheiminum fyrir að hafa lifað af drápsbölvun hins illa Voldemorts þegar Harry var aðeins eins árs. Voldemort drap foreldra Harrys en morð Harrys misheppnaðist og varð aðeins ör eins og elding í laginu eftir á enni Harrys. Harry er síðan boðið að hefja nám í Hogwartsskóla. Harry kemst frá frænda sínum og frænku og byrjar í Hogwartsskóla og lærir galdra og eignast nýja vini en líka óvini á meðal nemenda og starfsmanna. Voldemort hafði næstum dáið og hefur verið í felum í tíu ár en planar að koma aftur sem hinn Myrki Herra og ráða ríkjum eins og hann gerði eitt sinn, í gegnum viskusteininn, sem hlýðir aðeins eiganda sínum. Harry og vinir hans, Hermione Granger og Ron Weasley komast að ráðabruggi Vodlemorts og reyna að stela steininum sem er geymdur í vel vörðum neðanjarðarklefa í Hogwarts. Persónur og leikarar. Rowling krafðist þess persónulega að leikararnir væru allir Breskir. Susie Figgis var ráðin til að finna leikara í hlutverkin. Opnar áheyrnarprufur voru haldnar fyrir þrjú aðalhlutverkin og máttu aðeins bresk börn taka þátt. Áheyrnarprufurnar voru í þremur liðum, og átti sá sem var í prufunni að lesa blaðsíðu úr Harry Potter og viskusteininum og ef hann væri kallaður aftur, átti hann að spinna upp atriðið þar sem nemendurnir koma í Hogwarts og var þeim gefnar nokkrar blaðsíður úr handritinu og áttu að lesa þær fyrir framan leikstjórann. 11. júlí árið 2000 hætti Figgis starfi sínu og kvartaði yfir því að Columbus hafi ekki fundist þúsundir barna sem komu í áheyrnarprufur þess verðug að leika í myndinni. Þann 8. ágúst árið 2000 völdu framleiðendurnir hinn óþekkta Daniel Radcliffe og nýliðana Emmu Watson og Rupert Grint, úr þúsundum barna til þess að leika hlutverk Harrys, Hermione og Rons. Wolverhampton. Wolverhampton (borið fram) er borg í Vestur-Miðhéruðum sýslunni á Englandi. Árið 2004 var íbúafjöldinn um það bil 239.100 manns og þéttbýlið sem umkringir borgina hafði íbúafjölda 251.462 manns. Hún er þrettánda þéttbyggðasta borgin á Englandi. Áður var Wolverhampton hluti Staffordshire sýslu en hefur verið hluti Vestur-Miðhéraða sýslunnar síðan árið 1974. Hún dregur nafn sitt af Frú Wulfrun sem stofnaði borgina árið 985, nafnið varð til úr engilsaxneska orðinu "Wulfrūnehēantūn" sem þýðir „bú eða girðing Wulfrunar“. Eins gæti nafnið verið dregið af dönskum leiðtoga sem hét Wulfere. Nafnið „Wulfruna“ er notað víða í borginni. Nafnið er oft skammstafað sem "W’ton" eða "Wolves". Slagorð borgarinnar er „Out of darkness, cometh light“. Íbúar Wolverhampton nefnast "Wulfrunians". Borgin var upprunalega bær með markað sem sérhæfði sig í ullarverslun. Á meðan og eftir Iðnbyltingin varð borgin merkileg iðnaðarmiðstöð með námugrefti (aðallega kola, kalksteins og járns) og framleiðslu stáls, japanlakks, lása, mótorhjóla og bifreiða. Í dag eru höfuðatvinnugreinarnar verkfræði og þjónustugeiri. Zachary Levi. Zachary Levi (fæddur 29. september 1980) er bandarískur sjónvarpsleikari og er þekktur fyrir hlutverk sín sem Kipp Steadman í "Less than Perfect" og sem Chuck Bartowski í "Chuck". Æska. Levi fæddist sem "Zachary Levi Pugh" í Lake Charles í Loisiana og er miðjubarn en hann á tvær eldri systur. Sem barn ólst hann upp um allt landið áður en hann eignaðist varanlegt heimili í Ventura í Kaliforníu. Hann byrjaði að leika í leikhúsi 6 ára og lék aðalhlutverk í uppfærslum af Grease, The Outsiders, Oliver, The Wizard of Oz og Big River. Ferill. Levi lék aukahlutverk í sjónvarpsmyndinni Big Shot: Confessions of a Campus Bookie. Hann lék Kipp Steadman í gamanþáttunum Less Than Perfect. Hann lék einnig kærasta Jane, persónu Charismu Carpenter, í sjónvarpsmyndinni See Jane Date. Levi átti að leika aðalhlutverkið í sjónvarpsþætti sem hét Three en þátturinn var aldrei sýndur. Levi landaði hlutverki Chucks í samnefndri þáttaröð og var henni gefnir 13 þættir á NBC og var þátturinn frumsýndur 24. september 2007 og fékk fulla þáttaröð árið eftir. Sumarið 2008 var Levi nefndur einn af „Top Thirty People Under Thirty“. Einkalíf. Lítt þekkt staðreynt um Levi er að hann er trúaður kristinn maður. Þrátt fyrir frama-nafn hans er hann ekki gyðingur. Levi var einu sinni með kanadísku leikkonunni Missy Peregrym. Hann er núna með söngkonunni Caitlin Crosby. Heimildir. Levi, Zachary Hornsíli. Hornsíli (fræðiheiti: "gasterosteus aculeatus") er ein af tólf tegundum síla innan ættarinnar "gasterosteidae". Þessar tegundir lifa á norðurhveli jarðar. Hornsíli finnst nánast um allt norðurhvelið ýmist í fersku vatni, ísöltu eða söltu. Hornsílin eru smáir fiskar frá 5 til 10 sentímetrar að stærð en mjög mikill breytileiki er á stærð ólíkra afbrigða. Orðið hornsíli. Hornsíli draga nafn sitt af broddum sem eru á bakinu framan við bakuggann. Hornsílið hefur þrjá slíka brodda enda kallast hornsílið á ensku "threespine stickleback". Aðrar tegundir ættarinnar hafa fleiri eða færri slíka brodda, til dæmis er evrópska tegundin "spinachia spinachia" með fimmtán brodda á bakinu og norður-ameríska tegundin "apeltes quadracus" með fjóra brodda. Æxlun hornsíla. Atferli hornsíla er mjög sérstakt, sérstaklega hjá hængnum sem á hrygningartíma sér um eggin og seiðin og breytir um lit og verður rauður, enda kallaður "rauðkóngur" þegar þannig er á honum statt. Hrygingartími hornsíla er á vorin, en þá byggir hornsílishængurinn eggjunum eins konar hús úr plöntuhlutum og fleiru, sem hægt væri að kalla hreiður, og er það á stærð við mannshnefa. Þegar þessum undirbúningi er lokið, fær hann hrygnu — með góðu eða illu — til að synda inn í hreiðrið. Er hún hefur hrygnt þar, rekur hann hana burt. Hængurinn frjóvgar svo eggin með sviljasafa og tekur sér varðstöðu við hreiðrið og ver það af miklum ákafa. Hann gætir ekki aðeins eggjanna allan tímann sem þau eru að klekjast, heldur lítur einnig eftir seiðunum um skeið, eftir að þau eru komin úr eggjunum. Syndi þau úr hreiðrinu, eltir hann þau uppi, tekur í munninn og syndir með þau að hreiðrinu og hreinlega spýtir þeim inn í það aftur. Seiðin halda til í hreiðrinu í u.þ.b. eina viku áður en þau taka að bjarga sér sjálf. Fæðuhættir. Hornsíli afla sér fæðu á mismunandi hátt og eru fæðuhættir þeirra breytilegir eftir búsvæðum. Oftast samanstendur fæða þeirra af smáum sjávar- eða ferskvatnshryggleysingjum sem þau finna í botnsetinu til dæmis tubifex-ormum. Dæmi um breytileika í atferli hornsíla er hvernig þau bera sig að í fæðuleit í botnseti. Í stöðuvötnum stingur hornsílið trýninu beint 90° í botnsetið en hornsíli sem lifa í straumvatni stinga trýninu í 45° við botn. Nýplatonismi. Nýplatonismi er sú platonska heimspeki nefnd sem varð til á 3. öld e.Kr. en hugtakið "nýplatonismi" varð þó ekki til sem heiti á þessari heimspeki fyrr en á 18. öld; fram að þeim tíma nefndist hún einfaldlega platonismi. Heimspeki þessi byggði á kenningum forngríska heimspekingsins Platons og var einkum mótuð af Plótínosi. Meðal annarra mikilvægra nýplatonista má nefna Porfyríos, Jamblikkos og Próklos Nýplatonismi hafði gríðarlega mikil áhrif á frumkristni, meðal annars hugsuði á borð við Ágústínus frá Hippó, pseudo-Díonýsíos, Bóethíus, Johannes Scotus Eriugena og Bonaventura. Einnig hafði nýplatonismi mikil áhrif á íslamska hugsuði og gyðinglega heimspekinga, svo sem al-Farabi og Maímonídes og naut auk þess mikilla vinsælda á Ítalíu á endurreisnartímanum. Heimspeki. Samkvæmt nýplatonismanum trónir hið Eina eða frummynd hins góða (sem er sama verundin) á toppi stigveldis raunveruleikans. Hið Eina — eða veran sjálf — er uppspretta alls sem er og getur af sér, líkt og spegilmynd af sjálfri sér, Hugann ("nous") — en Hugurinn geymir heim frummyndanna. Heimssálin er svo eftirmynd Hugans rétt eins og Hugurinn er afurð hins Eina. Heimssálin getur síðan af sér verundir efnisheimsins, sem annars er ekki til. Raunveruleikinn er því ein heild, lifandi og gædd sál. Sálin vill sleppa úr haldi efnisheimsins og snúa aftur til uppruna síns, Hugans. Neyðarlögin. "Neyðarlögin" kölluðust íslensk lög nr. 125/2008, sem öðluðust gildi 6. október 2008 í upphafi bankahrunsins 2008. Í lögunum fólust víðtækar lagaheimildir íslenska ríkisins til aðgerða á fjármálamörkuðum. Lögin áttu að „gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í hvívetna, koma í veg fyrir að þjóðin verði á skuldaklafa næstu áratugina og bjarga því sem bjargað verður miðað við núverandi aðstæður“ eins og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sagði. Frumvarpið ("Frumvarp um fjármálamarkaði") var samþykkt með 50 atkvæðum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins samþykktu það en 12 þingmenn Vinstri grænna og Frjálslyndra sátu hjá. Lögin fólu í sér mjög róttækar heimildir um inngrip stjórnvalda á fjármálamarkaði. Lögin tóku þegar gildi, en ekki við útgáfu Stjórnartíðinda. Platonismi. Platon, rómversk eftirgerð grískrar marmarastyttu frá síðari hluta 4. aldar f.Kr. Platonismi er heimspeki forngríska heimspekingisins Platons en þó einkum eins og hún var í meðförum eftirmanna hans, sem gjarnan litu á hana sem kerfisbundna heimspeki eða heimspekikerfi. Stundum er orðið „platonismi“ einnig notað um hluthyggju, einkum hluthyggju um altök eða tölur. Platonismi hafði gríðarlega mikil áhrif á vestræna hugsun, heimspeki og trú, þar á meðal gyðingdóm, frumkristni og íslamska hugsun. Frumspeki og þekkingarfræði: Eðli raunveruleikans. Megin uppistaðan í platonisma er frummyndakenningin. Kenningin kveður á um að raunveruleikinn samanstandi af óbreytanlegum frummyndum sem ekki verða skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Á hinn bóginn er efnisheimurinn samkvæmt kenningunni eins konar eftirmynd af heimi frummyndanna. Frummyndirnar gegna fjórþættu hlutverki í kenningu Platons: frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, merkingarfræðilegu og siðfræðilegu hlutverki. Þær eru raunverulegar og stöðugar verundir, ólíkt efnisheiminum sem er sífellt "verðandi" en "er" aldrei neitt og þannig eru þær frumspekileg kjölfesta. Af því að þær "eru" í orðsins fylltsu merkingu eru þær viðföng þekkingar en efnisheimurinn er á hinn bóginn einungis viðfang brigðulla skoðana og þannig gegna þær þekkingarfræðilegu hlutverki. Frummyndirnar eru einnig merkingarmið hugtaka og gegna þannig merkingarfræðilegu hlutverki. Að lokum gegna þær siðfræðilegu hlutverki en eins og fram kemur í 6. bók "Ríkisins" er stigskipting meðal frummyndanna og efst trónir frummynd hins góða. sem allir góðir hlutir líkjast eða eiga hlutdeild í; þannig er hið góða, sem er gildishlaðið altak, í raun orsök og undirstaða annarra frummynda sem saman mynda raunveruleikann og eru orsakir og undirstöður efnisheimsins. Frummyndakenningin kemur fyrir í nokkrum samræðum, þar á meðal í "Fædoni", "Ríkinu", "Samdrykkjunni", "Parmenídesi" og "Tímajosi" en er einnig afar mikilvæg í ritum síðari platonista og nýplatonista, sem töldu að frummynd hins góða væri sama frummyndin og hið eina, sem um er rætt í "Parmenídesi". Sálarfræði: ódauðleiki og upprifjun. Hin svonefnda upprifjunarkenning Platons, sem er sett fram í samræðunni "Menoni", er nátengd frummyndakenningunni. Kenningin kveður á um að allt nám sé upprifjun sálarinnar á meðfæddri þekkingu á frummyndunum. Hugmyndin um ódauðleika og endurfæðingu sálarinnar tengist meðal annars upprifjunarkenningunni en Platon taldi, líkt og aðrir platonistar síðar, að sálin væri ódauðleg og að hún endurfæddist í nýjan líkama að lífinu loknu. Í "Fædoni" er ódauðleiki sálarinnar til umræðu. Þar er líkamanum meðal annars lýst sem fangelsi sálarinnar. Platon hafði einnig kenningu um þrískiptingu sálarinnar, sem hann setti fram í "Ríkinu" og notaði þar meðal annars til að útskýra breyskleika. Þessir þrír hlutar sálarinnar voru skynsemi, skap og löngun. Það er eðli skynseminnar að sækjast eftir sannleika og þekkingu og henni er líka eðlislægt að stjórna. Skapið leitar eftir viðurkenningu og er því er eðlilegt að styðja skynsemina en löngunin leitar eftir ánægju, einkum í formi matar, drykkjar og kynlífs en sækist einnig eftir peningum. Hugmyndina um þrískiptingu sálarinnar er ekki að finna í "Fædoni" og "Menoni" þar sem sálin virðist vera lögð að jöfnu við það sem Platon kallar í "Ríkinu" skynsemishluta sálarinnar. Í "Fædoni" virðist á hinn bóginn margt af því sem gjarnan er talið til sálarlíf mannsins eignað líkamanum, þar á meðal lystin í mat, drykk og kynlíf. Siðfræði: Sálin og dygðirnar. Öll siðfræði platonista byggir einnig á frummyndakenningu og sálarfræði Platons. Samkvæmt siðfræði þeirra er dygð þekking, þar sem þekking á frummynd hins góða er megin uppistaðan. Sálarhlutarnir þrír, skynsemi, skap og löngun, hafa hver um sig sína dygð, þ.e. viska, hugrekki og hófsemi en réttlætið er sú dygð sem sameinar hinar dygðirnar. Akademían. a> til forna sýnir staðsetningu Akademíunnar í norðvesturjaðri borgarinnar. Platonismi á rætur að rekja til þeirra kenninga og raka sem sett eru fram í samræðum Platons. Í samræðunum er Sókrates oftast aðalpersónan og annaðhvort rannsakar skoðanir annarra eða reifar eigin kenningar. (Á hinn bóginn kemur Platon aldrei sjálfur fyrir í samræðum sínum og talar því aldrei í eigin persónu). Enn fremur eru til heimildir um óskrifaðar og óbirtar kenningar Platons, sem einungis þeir kynntust sem hlýddu á samtöl hans og fyrirlestra í Akademíunni en það var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu. Skólinn hélt áfram starfsemi sinni öldum saman eftir andlát Platons. Sögu hans má skipta í þrjú tímabil: gömlu Akademíuna, mið-Akademíuna og nýju Akademíuna. Helstu hugsuðir gömlu Akademíunnar voru fyrrum samstarfsmenn Platons en þeir tóku við stjórn skólans að honum látnum: Spevsippos, frændi Platons, var fyrsti forstöðumaður skólans að frænda sínum látnum og stýrði honum til ársins 339 f.Kr. Þá tók Xenókrates við stjórn skólans til ársins 314 f.Kr. Pólemon tók við af honum og stýrði skólanum til ársins 269 f.Kr. en þá tók Krates við stjórninni og stýrði skólanum til ársins 266 f.Kr. Meðal annarra heimspekinga sem störfuðu við gömlu Akademíuna má nefna Aristóteles, Evdoxos, Herakleides frá Pontos, Krantor og Filippos frá Ópús. Allir þessir hugsuðir voru sammála Platoni um margt en sumir þeirra geta þó ekki talist platonistar nema í víðum skilningi (til dæmis Aristóteles). Spevsippos og Xenókrates reyndu báðir að tvinna saman pýþagóríska talnaspeki og ýmsar hliðar á heimspeki Platons. Árið 266 f.Kr. varð Arkesilás forstöðumaður Akademíunnar. Þá breyttust áherslur skólans mjög og hann varð efahyggjuskóli. Mörgum af samræðum Platons, einkum þeim elstu, lýkur án neinnar niðurstöðu. Akademísku efahyggjumennirnir töldu að hér væri að finna kjarnann í heimspeki Platons: í raun væri ekki hægt að komast að niðurstöðu um neitt. Þetta skeið skólans er nefnt mið-Akademían. Það einkenndist fyrst og fremst af deilum við stóumenn, þar sem Arkesilás og fylgjendur hans gagnrýndu stóíska þekkingarfræði, sem lýsti því hvernig öðlast mætti óhagganlega þekkingu. Arkesilás færði rök fyrir því að samkvæmt kenningum stóumanna væri ekki hægt að vita neitt en sjálfur tók hann aldrei undir forsendur þeirra og hélt engum fram sjálfur. Lakýdes, Evandros, Telekles og Hegesínos fylgdu í kjölfar Arkesilásar sem stjórnendur Akademíunnar. Tímabil nýju Akademíunnar hófst árið 155 f.Kr. þegar Karneades varð skólastjóri. Nýja Akademían var enn efahyggjuskóli en þó var áherslumunur á afstöðu Arkesilásar og Karneadesar; samkvæmt sumum túlkunum (þegar í fornöld) hélt Karneades fram einhvers konar sennileikahyggju, sem leyfði að eitthvað þætti sennilegt þótt möguleikanum á fullvissu (og þar með eiginlegri þekkingu) væri ætíð hafnað. Kleitomakkos tók við af Karneadesi og Fílon frá Larissu tók við af honum. Þá tók við Antíokkos frá Askalon, sem að endingu beindi Akademíunni frá efahyggjunni en akademísk efahyggja hafði þá þegar mildast mjög og orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki. Fílon og Antíokkos voru síðustu akademísku heimspekingarnir sem störfuðu innan Akademíunnar sem stofnunar. Mið-platonismi. Saga mið-platonisman (sem ekki má rugla saman við mið-Akademíuna) hófst um 90 f.Kr. þegar Antíokkos frá Askalon hafnaði efahyggjunni. Platonisminn hafði þá þegar orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki samtímis því sem efahyggjan mildaðist en varð nú einnig fyrir áhrifum frá aristótelískri heimspeki. Í mið-platonisma voru frummyndirnar taldar innbyggðar í mannlega skynsemi og efnisheimurinn var talinn vera lifandi vera, gædd sál — heimssálinni. Plútarkos var mikilvægastur mið-platonistanna. Á þessum tíma hafði platonisminn áhrif á pýþagóríska heimspeki hjá Númeníosi frá Apameu) og gyðinglega heimspeki hjá Fíloni frá Alexandríu). Nýplatonismi. Á þriðju öld e.Kr. varð til ný og öflug útgáfa af platonskri heimspeki sem hefur síðan á 18. öld tíðkast að kalla nýplatonisma. Upphafmaður nýplatonismans var Plótínos en hann kvaðst hafa lært frá Ammóníosi Sakkas. Þá voru ýmsar dylhyggjukenningar prjónaðar saman við kenningar mið-platonismans. Samkvæmt nýplatonismanum trónir hið Eina eða frummynd hins góða (sem er sama verundin) á toppi stigveldis raunveruleikans. Hið Eina — eða veran sjálf — er uppspretta alls sem er og getur af sér, líkt og spegilmynd af sjálfri sér, Hugann ("nous") — en Hugurinn geymir heim frummyndanna. Heimssálin er svo eftirmynd Hugans rétt eins og Hugurinn er afurð hins Eina. Heimssálin getur síðan af sér verundir efnisheimsins, sem annars er ekki til. Raunveruleikinn er því ein heild, lifandi og gædd sál. Sálin vill sleppa úr haldi efnisheimsins og snúa aftur til uppruna síns, Hugans. Nemandi Plótínosar, Porfyríos, og eftirmaður hans, Jamblikkos, þróuðu áfram nýplatonska heimspeki í andstöðu við kristni. Akademían var sett á fót á ný en mikilvægasti stjórnandi hennar bar Próklos (dáinn 485). Akademían starfaði áfram til ársins 529 en þá lét Jústiníanis Rómarkeisari loka henni. Platonismi og kristni. a>, urðu fyrir miklum áhrifum frá platonisma. Platonismi hafði áhrif á kristni í gegnum Klemens frá Alexandríu og Origenes og kirkjufeðruna frá Kappadókíu, Basil frá Caesareu, Gregoríos frá Nyssa og Gregoríos frá Nazianzos. Ágústínus frá Hippó var einnig undir miklum áhrifum frá platonisma, einkum í gegnum Marius Victorinus. Platonismi var á miðöldum ríkjandi heimspekistefna. Margar platonskar hugmyndir eru nú rótgrónar í kristinni trú. Kristnir álitu frummyndirnar vera hugsanir guðs og að hið Eina væri guð, líkt og platonistar höfðu haldið fram. Platonismi hafði einnig áhrif á bæði austrna og vestræna dulhyggju, sem og á vestræna og íslamska heimspeki. Aristóteles varð á hinn bóginn áhrifamikill á 13. öld ekki síst í gegnum Tómas af Akvínó sem þó var í mörgum atriðum platonsk. Á 16., 17, og 19., öld höfðu samræður Platons sjálfs mikil áhrif á trúarlega hugsuði á Englandi. Verrazano-Narrows-brúin. Verrazano-Narrows-brúin er tveggja hæða hengibrú sem tengir New York-borgarhlutana Staten Island og Brooklyn hjá Narrows-sundi. Brúin er nefnd í höfuðið á ítalska landkönnuðinum Giovanni da Verrazzano, fyrsta Evrópubúanum til að komast að New York-höfn og Hudsonfljóti í gegn um Narrows-sund. Brúin spannar 1.298 m og var stærsta hengibrú heims þegar hún opnaði árið 1964, þar til Humber-brúin í Englandi bætti metið árið 1981. Í dag hefur brúin lengsta haf hengibrúar í Bandaríkjunum og það áttunda lengsta í heimi. Gríðarstórir stólpar hennar eru sjáanlegir frá stórum hluta New York-stórborgarsvæðisins, þar á meðal af stöðum innan allra fimm borgarhlutanna. Brúin gegnir mikilvægu hlutverki í stofnvegakerfi svæðisins. Á henni er upphafsstaður New York-maraþonsins. Mið-platonismi. Mið-platonisi (sem ekki má rugla saman við mið-Akademíuna) er það tímabil í sögu platonismans sem tók við af nýju Akademíunni og varði fram að tíma nýplatonismans. Saga mið-platonismans hófst um 90 f.Kr. þegar Antíokkos frá Askalon hafnaði efahyggjunni sem einkenndi mið- og nýju Akademíuna. Platonisminn hafði þá þegar orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki samtímis því sem efahyggjan mildaðist en varð nú einnig fyrir áhrifum frá aristótelískri heimspeki. Í mið-platonisma voru frummyndirnar taldar innbyggðar í mannlega skynsemi og efnisheimurinn var talinn vera lifandi vera, gædd sál — heimssálinni. Plútarkos var mikilvægastur mið-platonistanna. Á þessum tíma hafði platonisminn áhrif á pýþagóríska heimspeki hjá Númeníosi frá Apameu) og gyðinglega heimspeki hjá Fíloni frá Alexandríu). Fikret Alomerović. Fikret Alomerović (fæddur 3. desember 1970, Skopje) er makedónskur knattspyrnumaður. Skúlason ehf. Skúlason ehf er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í símasölu og markaðsþjónustu. Eigendur þess eru tveir: Skulason UK Ltd, sem á um 80%, og Vestmannaeyjabær, sem á um 20%. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Jóhannes B. Skúlason. Frá árinu 2005 hefur fyrirtækið legið undir grun um svokölluð kyndiklefasvik (enska: "boiler room scam"), en það eru svik sem eru stunduð frá skrifstofum og þeir sem starfa við þau hafa gjarnan ekki hugmynd um að þeir séu að vinna fyrir glæpamenn. Þannig er viðskiptavininum lofað ýmist vöru sem kemur aldrei eða er gölluð, eða jafnvel einhvers konar hlutabréfum, sem síðan reynast verðlaus. Í júní 2009 var Jóhannes B. Skúlason handtekin á Heathrow flugvelli vegna rannsóknar bresku lögreglunnar á stóru fjársvikamáli og grun um peningaþvætti. Þann 5. október 2005 gerði Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit á einkaheimili og hjá Skúlason ehf í Reykjavík. Húsleitin var gerð fyrir bresku lögregluna sem rannsakaði fjársvikamál sem tengdist fyrirtækinu. Svikin eru talin vera kyndiklefasvik, en talið var að Skúlason hefði stundað kerfisbundna sölu hlutabréfa í fyrirtækjum með blekkingum, röngum og villandi upplýsingum um fyrirtæki og lofuðu skráningu bréfana í kauphöll. Hin meintu svik hljóðuðu upp á 200 miljónir króna. Flestir hluthafanna keyptu hlutaféð af spænsku fyrirtæki í gegnum síma. Peningamarkaðssjóður. Peningamarkaðssjóður (eða skammtímasjóður) er tegund verðbréfasjóða sem fjárfestir að mestu í víxlum eða skammtímaskuldabréfum. Dæmi um íslenska peningamarkaðssjóði voru Sjóður 9 og Peningamarkaðssjóður SPRON. Skipsflak. Skipsflak (eða rekald) eru leifar skips sem hefur eyðilagst, þ.e. hefur annaðhvort sokkið eða liðast stundur þar sem skipið strandaði. Sameinuðu þjóðirnar áætla að það séu yfir 3 milljónir slipsflaka samtals á sjávarbotni eða strandstað. Það er margt sem orsakar það að skip verður að skipsflaki, til dæmis: léleg hönnun, hafvillur, illviðri, hernaður, sjórán, eldur eða að skipinu hafi verið sökkt viljandi. Í sjávarfornleifafræði eru skipsflök mikilvæg þar eð þau geta varðveitt merkilegar sögulegar upplýsingar, til dæmis lögðu rannsóknir á Mary Rose skipsflakinu margt til um upplýsingar um sjómennsku, hernað og líf á 16. öldinni. Herskipsflök geta sagt mikið um orrustuna sem átti sér stað þar sem skipið sökk. Skipsflök geta verið hættuleg, til dæmis geta olíulekar skaðað umhverfið mikið. Skipsflök verða sjaldnast fræg, en það eru vissulega til dæmi þess, eins og til dæmis "Titanic", "Britannic", "Lusitania" og "Estonia". Það eru líka mörg skipsflök sem hafa verið yfirgefin eða skipunum hafi verið sökkt af ásettu ráði, yfirleitt eru það lítil fiskiskip og eru ekki ýkja merkileg fyrir sagnfræðinga. Nothæft efni úr skipi sem er rifið í sundur nefnist "slátur". Los Angeles Lakers. Los Angeles Lakers er körfuboltalið frá Los Angeles í Kaliforníu sem spilar í NBA deildinni. Heimavöllur liðsins er Staples Center sem liðið deilir með keppinautum sínum, Los Angeles Clippers og systraliðinu Los Angeles Sparks sem leikur í WNBA. Lakers eru núverandi NBA meistarar eftir sigur þeirra á Orlando Magic 14. júní árið 2009. Það var 15 titill liðsins sem er næstbesti árangur í NBA á eftir erkifjendunum Boston Celtics sem hafa unnið 17. Í júní 2010 unnu Los Angeles Lakers sinn 16. NBA meistaratitil í æsispennandi úrslitakeppni gegn Boston Celtics. Sigurinn færði Lakers einu skrefi nær Boston Celtics, sem hafa unnið 17 titla, en ekkert lið hefur unnið þá fleiri. Þrjú hæstu liðin eru Boston Celtics með 17 titla, Los Angeles Lakers með 16 og Chicago Bulls með 6. Félagið var stofnað árið 1946 í Detroit í Michigan áður en það flutti til Minneapolis, þaðan sem liðið sótti nafn sitt úr gælunafni fylkisins, „Land of 10.000 Lakes“. Liðið vann fimm meistaratitla áður en það flutti til Los Angeles í 1960-1961 NBA leiktíðinni. Jón Magnússon (skáld). Jón Magnússon (17. ágúst 1896 – 21. febrúar 1944) var íslenskt skáld og þekktastur fyrir ljóðabók sína "Bláskógar". Hann fæddist í Fossakoti í Andakíl, Borgarfirði, en fluttist til Reykjavíkur árið 1916. Fyrsta braglínan í öðru erindi ljóðsins "Líknargjafinn þjáðra þjóða" varð að kjörorðum Landhelgisgæslunnar árið 2001. Orðin eru: "Föðurland vort hálft er hafið". Ljóðið birtist í ljóðasafninu Bláskógar sem kom út árið 1945, en birtist upphaflega 1940 í Sjómannablaðinu Víkingi. Golden Gate. Golden Gate (á íslensku „Gullna hliðið“) er sund í Bandaríkjunum á milli San Francisco-flóa og Kyrrahafs. Golden Gate-brúin hefur brúað sundið frá árinu 1937. Sundið er þekkt fyrir dýpt sína og kröftuga hafstrauma frá Kyrrahafinu. „Gullna hliðið“ skilur að Kyrrahafið og San Francisco-flóa. 8 mR. Finnska áttan "Sagitta" hönnuð af Charles Nicholson árið 1929. Átta metra kjölbátur (8 mR eða átta) er gerð af kappsiglingaskútum sem eru smíðaðar samkvæmt alþjóðlegu metrareglunni. Reglan skilgreinir tiltekna jöfnu með tilteknum málum bátsins og útkoman úr henni á að vera átta. "Átta metra" á því ekki við um lengd bátsins, en átta metra kjölbátar eru að jafnaði um fimmtán metrar að lengd. Áttur geta verið mjög ólíkar innbyrðis. Áttur voru notaðar sem Ólympíubátar frá Ólympíuleikunum 1908 til 1936. 6 mR. Sex metra kjölbátur (6 mR eða sexa) er gerð af kappsiglingaskútum sem eru smíðaðar samkvæmt alþjóðlegu metrareglunni. Reglan skilgreinir tiltekna jöfnu með tilteknum málum bátsins og útkoman úr henni á að vera sex. "Sex metra" á því ekki við um lengd bátsins, en sex metra kjölbátar eru að jafnaði um ellefu metrar að lengd. Sexur geta verið mjög ólíkar innbyrðis. Sexur voru notaðar sem Ólympíubátar frá Ólympíuleikunum 1908 til 1952. Sexan átti sitt blómaskeið á 3. og 4. áratugnum og skútuhönnuðir kepptust við að hanna sem hraðskreiðastar útgáfur. Hún þótti vera dýr og óaðgengileg fyrir almenning. Um 1930 var farið að keppa á ódýrari fimm metra skútum og 1949 var alþjóðlegi 5,5 metra kjölbáturinn skilgreindur. Það markaði endalok vinsælda sexunnar. Frá 9. áratugnum hefur áhugi á sexunni vaxið aftur og keppnir eru reglulega haldnar í flokknum. Madrassa. Madrassa trúarskóli þar sem nemendur læra "Kóraninn" utanað. Orðið er arabískt að uppruna. Fastnet-keppnin. Kletturinn Fastnet sem keppnin er nefnd eftir. Fastnet-keppnin er ein af þekktustu úthafssiglingakeppnum heims. Hún er haldin annað hvert ár. Keppendur sigla 608 sjómílur frá Cowes á Wight-eyju, umhverfis Fastnet Rock suðaustur af Írlandi, suður fyrir Syllinga og til hafnar í Plymouth. Keppnin var stofnuð að undirlagi breska siglingamannsins Weston Martyr árið 1925. Alþjóðlega úthafsreglan var tekin upp sem forgjafarkerfi árið 1975. Stormur þar sem vindur fór upp í ellefu vindstig í hviðum leiddi til dauða fimmtán keppenda í keppninni 1979. Eftir það var reglum breytt til að auka öryggi keppenda. 1985 var keppnin enn í fréttum þegar risaskútan "Drum" missti tilraunakjöl sem hún var búin og hvolfdi þannig að öll áhöfnin, þar á meðal poppsöngvarinn Simon Le Bon, festust undir henni. Öllum var bjargað af breska sjóhernum. Frá 2007 hefur Rolex verið aðalstyrktaraðili keppninnar. Maywood, Illinois. Maywood er borg í fylkinu Illinois í Bandaríkjunum. Borgin er vestur af Chicago. Árið 2000 var fjólksfjöldi borgarinnar 26.987. Megan Fox. Megan Denise Fox (fædd 16. maí 1986 í Oak Ridge í Tennessee) er bandarísk leikkona. Eftir að hafa náð góðum árangri sem fyrirsæta vildi hún reyna fyrir sér sem leikkona og árið 2001 fékk hún hlutverk í kvikmyndinni "Holiday in the Sun" sextán ára gömul. Síðar lék Megan á tímabili gestahlutverk í nokkrum þáttum á borð við "What I Like About You", "Two and a Half Men", og "Ocean Ave". Árið 2004 lék hún við hlið Lindsay Lohan í myndinni "Confessions of a Teenage Drama Queen". Árið 2007, eftir að Megan hafði verið þrjú ár í Hollywood, fékk hún hlutverk í stórmyndinni "Transformers". Sú mynd sló í gegn og meðal annars fékk Megan "Teen Choice Awards verðlaunin" fyrir leik sinn í myndinni. Lítið fréttist af leikkonunni eftir frumsýningu "Transformers" eða þangað til ' kom út í byrjun árs 2009. Í kjölfarið á frumsýningu "Transformers 2" jukust vinsældir Megan gríðalega og var hún valin kynþokkafyllsta kona heims af blaðinu "Sandbox" í Bandaríkjunum. Fox, Megan Dalur. Dalur er sá þáttur landslags þar sem aflíðandi láglendi er inni á milli fjalla eða hæðarbakka. Flestir dalir á Íslandi eru jökulsorfnir og því með U-laga þversniði. Aðrir hafa V-laga þversnið. Brattari dalir kallast gljúfur eða gil og eru þeir oftast sorfnir vegna árfarvegs. Sléttugrunn. Sléttugrunn eru fiskimið sem liggja út frá Melrakkasléttu austan við Öxarfjarðardjúp. Þar voru áður mikilvæg síldarmið og úthafsrækjumið. Ultimate 20. Ultimate 20 eða U20 er rúmlega 20 feta (6,35 metra) langur lokaður kjölbátur með bugspjót og fellikjöl hannaður fyrir kappsiglingar. Hann var hannaður af hópi skútuhönnuða sem taldi meðal annars Jim Antrim og Larry Tuttle árið 1994. Hann er einkum vinsæll í Norður-Ameríku. Hugmyndin var að hanna hraðskreiðan keppnisbát með þægilegt innra rými sem hægt væri að flytja á kerru. Romulus Augustus. Mynt með mynd af Romulusi Augustusi Romulus Augustus (fæddur um eða eftir 460, dáinn eftir 476) (einnig nefndur Romulus Augustulus) var síðasti keisari Vestrómverska keisaradæmisins. Nafn hans er einnig ritað Rómúlus Ágústus eða Rómúlus Ágústúlus á íslensku. Viðurnefnið Augustulus er niðrandi og má þýða sem „litli Augustus.“ Romulus var skipaður keisari, 31. október 475, af föður sínum, Orestes, eftir að hinn síðarnefndi hafði náð Ravenna, höfuðborg Vestrómverska ríkisins, á sitt vald. Julius Nepos, keisari, flúði þá til Dalmatíu þar sem hann hélt völdum á litlu svæði til ársins 480, og gerði þar áfram tilkall til keisaratitilsins. Keisari Austrómverska ríkisins viðurkenndi reyndar aldrei Romulus Augustus sem keisara, heldur einungis Julius Nepos. Romulus var aðeins unglingur þegar hann varð keisari og hið raunverulega vald lá hjá föður hans, Orestes. Vestrómverska ríkið hafði minnkað talsvert áratugina á undan og á tíma Romulusar náði það yfir lítið stærra svæði en Ítalíuskagann. Orestes var tekinn af lífi af germönskum málaliðum, undir forystu hershöfðingjans Odoacer, í ágúst árið 476. Nokkrum dögum seinna, eða 4. september, knúði Odoacer Romulus til þess að segja af sér sem keisari. Odoacer gerði sjálfur ekki tilkall til keisaratitils og skipaði engan annan í stöðuna. Afsögnin er því álitin marka endalok um 1200 ára samfelldrar sögu Rómaveldis í vestri. Lítið sem ekkert er vitað með vissu um líf Romulusar eftir afsögnina, en þó er talið að Odoacer hafi leyft honum að fara til ættingja sinna í Campaníu. Tilberi. Tilberi er kvikindi í íslenskri þjóðtrú, einskonar sending, sem menn (aðallega konur) sköpuðu með hjálp galdra og fjölkynngi úr mannsrifi, og geymdu á sér berum, oft vafið í gráan flóka. Tilberarnir voru notaðir til að laumast á næstu bæi og sjúga kýr og ær annars fólks og flytja heim mjólkina í hús tilberamóður. Sumstaður á landinu er tilberinn einnig nefndur snakkur, en það orð er þó oftast haft um annað kvikindi, þó það eigi sér líka hefð sem samheiti. Tilberinn átti svipaðan uppruna og snakkurinn. Menn náðu sér í mannsrif í helgri mold, geymdu á beru brjósti sér, og er farið var til altaris spýttu menn helguðu messuvíni í barm sér á rifið, eigi sjáldnar en þrisvar uns það lifnaði. Tilberinn var mjólangur sem rif og því ólíkur snakki í lögun, enda ætlaður aðallega til að sjúga málnytupening nágranna og færa heim í sér að húsbónda sinna. Gubbaði hann þá venjulega inn um búrglugga í ílát. Þegar hann kom, aðvaraði hann húsfreyju með þessum orðum: „Fullur beli, mamma“. Svaraði hún þá: „Láttu þá lossa, sonur,“ eða: „Gubbaðu í strokkinn, strákur.“ Sjaldan skorti þá húsfreyju smjör, en ærið þótti það glypjulegt og varð að froðu, ef gert var yfir því eða í það krossmark. Sumir segja að orðið hafi að „karmolum“ sem eins og hreyttust út um allt. Smjör þetta nefndist tilberasmjör. Þær konur, sem héldu þessa þjóna, tóku sér blóð innan læris, vöfðu tilberana um mitti sér og létu þá sjúga sárið. Þær voru nefndar "tilberamæður" og voru jafnan ærið ótútlegar að sjá. Tilberar lögðust yfir malir búpenings og sugu með báðum endum. Urðu þeir stundum offullir og spúðu úr báðum endum á leiðinni heim. Sögðust gamlir menn hafa þekkt eftir þá skrámurnar víða á grjóti og móþúfum. REXX. REXX eða REstructured eXtended eXecutor er túlkað, formgert forritunarmál hannað af Mike Cowlishaw hjá IBM í byrjun níunda áratugarinns. REXX er einkanlega ætlað til að stjórna aðgerðum stýrikerfa og annara hugbúnaðarpakka og hefur því mjög einfalda uppbyggingu, til dæmis eru einungis 23 skipanir til staðar. Snakkur. Snakkur er er kvikindi í íslenskri þjóðtrú, einskonar sending, sem menn (aðallega konur) sköpuðu með hjálp galdra og fjölkynngi úr mannslegg. Orðið snakkur er einnig haft um tilbera almennt, en oftast er snakkurinn sérstök tegund af sendingu, og vefur utan um sig, ólíkt tilberanum sem sýgur í sig. Snakkar og tilberar standa samt hvortveggja í nánu sambandi við uppvakninga rétt eins og útburðir við afturgöngur. Eini munurinn í sköpunarsögu þeirra er svo að tilberinn er úr mannsrifi, en ekki mannslegg. Snakkurinn er þannig vakinn, að maður tekur mannslegg úr helgaðri mold í kirkjugarði og geymir á beru brjósti sér, er svo til altaris og spýtir helguðu messuvíni í barm sér á snakkinn, eigi sjaldnar en þrisvar. Polemon. Polemon eða Pólemon (á forngrísku: Πολέμων; dáinn 270 eða 269 f.Kr.) frá Aþenu var platonskur heimspekingur og fjórði skólastjóri Akademíunnar frá 314 eða 313 til 270 eða 269 f.Kr. Hann var nemandi Xenokratesar og taldi að heimspeki ætti að stunda fremur en að læra hana. Polemon taldi að hin æðstu gæði væru fólgin í því að lifa í samræmi við náttúruna. Æviágrip. Polemon var sonur Fílóstratosar, auðmanns með stjórnmálaítök. Í æsku mun hann hafa skort sjálfsstjórn. Dag einn er hann var um þrítugt ruddist hann með látum inn í skóla Xenokratesar ásamt vinum sínum en varð dolfallinn er hann heyrði umræðurnar sem Xenokrates átti við nemendur sína í mestu makindum þrátt fyrir skarkalann — svo vildi til að þær fjölluðu um sjálfsstjórn — að hann lét af ólátaganginum og gerðist nemandi Xeonkratesar. Meðal nemenda Polemons voru Krates frá Aþenu, sem var ástsveinn hans, og Krantor, auk Zenons frá Kítíon, upphafsmanns stóuspekinnar, og Arkesilásar, upphafsmanns akademískrar efahyggju. Díogenes Laertíos segir að Polemon hafi látist úr hárri elli. Krates tók við af honum sem skólastjóri Akademíunnar. Heimspeki. Díogenes Laertíos segir að Polemon hafi fylgt Xenokratesi náið eftir í öllum málum. Hann taldi að heimspeki ætti að æfa fólk í breytni sinni en ekki í rökræðugetu og vangaveltum. Hann var alvörugefinn maður og virðulegur og var stoltur af stjórn sinni á geðshræringum sínum. Hann dáðist að Hómer og Sófóklesi öðrum skáldum fremur og er sagður hafa lýst þeim svo að Hómer væri epískur Sófókles en Sófókles tragískur Hómer. Ritverk. Díogenes Laertíos segir að Polemon hafi skilið eftir sig fjölmargar ritgerðir en engin þeirra var varðveitt í síðfornöld. Norges gamle love indtil 1387. Norges gamle love indtil 1387 – skammstafað NGL – er heildarútgáfa á norskum lögbókum og réttarbótum (til 1387), sem varðveittar eru. Árið 1830 samþykkti norska Stórþingið að leggja fram fé til að gefa út hin fornu lög og réttarbætur Noregs. Rudolf Keyser tók við verkinu 1834 og vann að því mörg ár með Peter Andreas Munch, að skrifa upp handrit í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Á árunum 1846–1849 komu svo út fyrstu þrjú bindin: "Norges gamle love indtil 1387". Síðar var haldið áfram með útgáfuna, og gaf Gustav Storm út 4. bindið 1885, og loks gaf hann út 5. bindið 1895 í samvinnu við Ebbe Hertzberg. Í 5. bindinu eru skrár og ítarlegt orðasafn yfir lögbækurnar. Útgáfan er enn að miklu leyti í fullu gildi, þó að gotneskt letur sem lagatextarnir eru prentaðir með, sé ekki aðgengilegt nútímalesendum. Nokkrir íslenskir lagatextar eru í útgáfunni. Fyrsta bindi. Í fyrsta bindi eru lögbækur og réttarbætur frá því fyrir 1264, þ.e. frá dögum Hákonar gamla og eldri. Antisþenes. Antisþenes (á forngrísku: Ἀντισθένης; um 445 – um 365 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og fylgjandi Sókratesar. Antisþenes nam fyrst mælskulist hjá Gorgíasi en varð síðar hliðhollur Sókratesi. Hann þróaði siðfræðikenningar Sókratesar og boðaði meinlætalíf og dygðuga breytni. Hann var stundum álitinn upphafsmaður hundingjastefnunnar. Æviágrip. Antisþenes var fæddur um 445 f.Kr. og var sönur Antisþenesar frá Aþenu. Móðir hans var af þrakískum ættum. Hann barðist í orrustunni við Tanagra árið 426 f.Kr. Antisþenes nam fyrst mælskulist hjá Gorgíasi en gerðist síðan fylgjandi Sókratesar og var viðstaddur við andlát hans. Hann fyrirgaf aldrei ákærendum lærimeistara síns og er sagður hafa átt þátt í að láta refsa þeim. Hann barðist í orrustunni við Levktra árið 371 f.Kr. og er sagður hafa borið saman sigur Þebumanna á Aþeningum við skólapilta sem gegnju í skrokk á lærimeistara sínum. Heimildir greinir á um hvenær hann lést; segja sumar að hann hafi andast sjötugur en aðrar að hann hafi andast eftir 366 f.Kr. Díogenes Laertíos segir að ritsafn hans hafi fyllt tíu bækur en ekkert er varðveitt nema brot úr þeim. Hann virðist hafa haldið upp á samræðuformið en í sumum þeirra gagnrýndi hann harkalega samtímamenn sína, Alkibíades, Gorgías og Platon. Cicero segir að hann hafi verið greindur mjög en síður lærður ("homo acutus magis quam eruditus"). Hann var kaldhæðinn, hnyttinn og elskur að orðaleikjum. Siðfræði. Siðfræði Antisþenesar var undir miklum áhrifum frá Sókratesi. Frá honum þáði Antisþenes meðal annars í arf þá skoðun að dygðin væri undirstaða siðferðisins en ekki ánægjan. Antisþenes kenndi að allt sem vitringurinn (þ.e. fullkomlega vitur maður) gerði samræmdist í öllu dygðinni. Á hinn bóginn væri ánægja ekki einungis óþörf heldur væri hún beinlínis mannskemmandi og af hinu illa. Sagt er að hann hafi jafnvel talið sársauka og slæmt orðspor til heilla.. Hann á að hafa komið orðum að þessu með því að segja „Fremur vildi ég vera vitstola en upplifa ánægju.“ Þó er líklegt að hann hafi ekki fyrirlitið alla ánægju, heldur einungis líkamlega ánægju og þá ánægju sem fellst í því að svala gervilöngunum, því hann er einnig sagður hafa lofað ánægjuna sem sprettur úr sál manns og ánægjuna sem hlýst af sannri vináttu. Hann taldi að hin æðstu gæði væru í því fólgin að lifa dygðugu líferni virtue í samræmi við náttúruna. Náttúruspeki. Í ritum sínum um náttúruspeki hélt hann fram kenningu um eðli guðanna, sem kvað á um að þótt fólk tryði á marga guði væri samt bara til einn guð í raun og veru. Hann hélt því einnig fram að guðinn líktist engu á jörðu niðri og væri mönnum því fullkomlega óskiljanlegur. Rökfræði. Antisþenes hélt því fram að allar skilgreiningar og umsagnir væru annaðhvort röksannindi eða ósönn. Antisþenes og hundingjarnir. Antisþenes var um síðir álitinn upphafsmaður hundingjastefnunnar en það er þó alls óvíst að hann hefði kannast við það. Aristóteles getur Antisþenesar oft í ritum sínum og fylgjenda hans, antisþenistanna, en aldrei í tengslum við hundingjana eða Díogenes frá Sínópu. Mörgum sögum fer af því að Díogenes hafi elt Antisþenes á röndum og orðið hliðhollur fylgjandi hans en þó er óvíst hvort þeir hafi í raun hist. Á hinn bóginn er sitthvað líkt í speki Antisþenesar annars vegar og hundingjanna hins vegar, svo sem áherslan á meinlætalíf. Frostaþingslög. Frostaþingslögin fornu. Frostaþingslögin fornu voru til í einu heillegu skinnhandriti frá því um 1260 ("Codex Resenianus"), í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, sem brann 1728. Til eru pappírsuppskriftir sem Árni Magnússon lét gera, og er textinn því varðveittur að töluverðu leyti. Auk þess eru til brot úr fjórum skinnhandritum í Ríkisskjalasafni Noregs, þau elstu frá fyrri hluta 13. aldar. Kristinrétturinn úr Frostaþingslögunum fornu er betur varðveittur. Hann er yfirleitt prentaður eftir handritinu AM 60 4to, frá því skömmu eftir 1300, en fleiri skinnhandrit eða brot eru til af honum. Íslenska lögbókin Járnsíða var samin með hliðsjón af Frostaþingslögunum, og eru margir kaflar teknir nánast orðrétt upp. Því hefur verið hægt að nota Járnsíðu til þess að leiðrétta ýmislegt í texta norsku lögbókarinnar. Þekktasta tilvitnun í Frostaþingslögin er: "„Að lögum skal land vort byggja, en eigi að ólögum eyða“." Þetta spakmæli finnst ekki annars staðar í norskum ritum, en er einnig í Járnsíðu og Njáls sögu, 70. kafla, þar sem það hljóðar svo: "„Með lögum skal land vort byggja, en [eigi] með ólögum eyða“." Norska útgáfan virðist leggja áherslu á að menn eigi að fara eftir lögunum, þ.e. fara að lögum. Frostaþing. Minnisvarði á Þinghæðinni við Lögtún. Frostaþing eða Frostuþing – (norræna: "Frostuþing") – var að fornu sameiginlegt þing fyrir "Þrændalög" og nálæg fylki. Frostaþing var eitt af fjórum landshlutaþingum í Noregi, og var haldið við bæinn Lögtún í sveitarfélaginu Frostu eða Frosta í Norður-Þrændalögum, sjá hnit. Á nálægum bæ, Lögsteini, er klettahæð sem talið er að geti verið „lögbergið“ þar sem þingmenn voru ávarpaðir. Frostaþing hafði ásamt Gulaþingi meira vægi í norska stjórnkerfinu en landshlutaþingin austanfjalls í Noregi. Upphaf og umdæmi. Óvíst er hvenær Frostaþingið kom til, en heimildir benda til þings þar eftir 900, og e.t.v. er það mun eldra. Síðar bættust við Mæri og Raumsdalur og Naumdælafylki. Frostaþingslögin giltu einnig í Norður-Noregi, og var Hálogaland síðar laustengt Frostaþingi, en þó með sérstakt þing. Jamtaland (Jämtland) og Herjárdal (Härjedalen), nú í Svíþjóð, höfðu svipaða stöðu á meðan Norðmenn höfðu þar ítök. Sunnmæri, sem var um tíma undir Frostaþingi, var síðar (e.t.v. eftir 1100) vegna legu sinnar lagt undir Gulaþing. Að fornu var Eyraþing í Niðarósi annar þingstaður fyrir Þrændalög, og er deilt um hver verkaskipting þessara tveggja þinga var. Í heimildum frá um 1400 er í stað Frostaþings-lögmanns farið að tala um lögmanninn í Þrándheimi. Vitað er um þinghald á gamla þingstaðnum (Frostu) árin 1560 og 1572, en fyrir 1594 var búið að flytja þinghaldið til bæjarins í Þrándheimi (Niðarósi). Nú á dögum er í Noregi millidómstig, sem skiptist í 6 umdæmi, m.a. „Frostating lagmannsrett“, sem nær yfir fylkin Norður-Þrændalög, Suður-Þrændalög og Mæri og Raumsdal, og er haldið í Þrándheimi. Þinghaldið. Á 12. öld var Frostaþing sett á Pétursmessu-aftann, þ.e. 28. júní, en Magnús lagabætir lét færa þingsetningu yfir á Bótólfsmessu-aftann (16. júní). Alls voru tilnefndir 400 þingmenn úr Þrændalögum, og 85 frá Norðmæri, Raumsdal og Naumudal. Þeir fengu bóndafé eða þingfararfé úr heimahéraði. Menn áttu að mæta fastandi á þingið, og bannað var að flytja öl á þingstaðinn. Prestur „sá er bók skal ráða“ (þ.e. lesa upp lögbókina) setti þingið með því að hringja stóru klukkunni í kirkjunni í Lögtúni. Síðar sá lögmaðurinn um það verk. Með styrkingu konungsvaldsins í Noregi veiktist löggjafarhlutverk landshlutaþinganna. Þó þurfti Magnús lagabætir að leggja lögbækur sínar undir þingin til staðfestingar til þess að þær teldust vera gild lög. Þingin voru einnig dómþing og samráðsvettvangur um stjórn fylkjanna og úrlausn mála. Þau höfðu því einnig stjórnmálalegt hlutverk, þó að það sé e.t.v. ekki að fullu ljóst. Frostaþings-innsiglið. Frostaþings-innsiglið sýnir Magnús konung lagabæti á Jónsmessu 1274, þar sem hann situr í hásæti og afhendir lögmanninum á Frostaþingi Frostaþingslögin nýju, þ.e. Frostaþings-útgáfuna af Landslögum Magnúsar lagabætis. Innsiglið er varðveitt á bréfi sem dagsett er 1. júní 1453, sjá "Diplomatarium Norvegicum" VIII, no. 349. Andhverfanlegt fylki. þar sem I"n" táknar "n"-sinnum-"n" einingarfylki og margföldunin er venjulegt fylkjamargfeldi. Fylkið B kallast andhverfa eða umhverfa fylkis og aðgerðin að finna B "fylkjaumhverfing" eða "fylkjaandhverfing". Fylki, önnur en ferningsfylki eru ekki andhverfanleg og nefnast sérstæð, óandhverfanleg, óumhverfanleg eða óregluleg fylki., en ferningsafylki er andhverfanlegt þá og því aðeins að ákveða þess er ekki núll og að stéttin sé jöfn stærð fylkisisns. Krantor. Krantor (á forngrísku: Κράντωρ) var forngrískur heimspekingur sem starfaði í gömlu Akademíunni. Æviágrip. Krantor var fæddur líklega um miðja 4. öld f.Kr. í Soli í Kilikíu. Hann fluttist til Aþenu til þess að geta lagt stund á heimspeki og varð nemandi Xenokratesar og vinur Polemons. Hann lést á undan Polemoni og Kratesi frá Aþenu. Ritverk. Ritverk hans voru fjölmörg en þau eru ekki varðveitt. Svo virðist sem hann hafi einkum ritað um siðfræði. Rit hans virðast hafa verið lesin og vel þekkt í Rómaveldi á 1. öld f.Kr. en rómverska skáldið Hóratíus vísar meðal annars í þau. Mestra vinsælda virðist ritið "Um sorg" hafa notið sem var ritað handa vini hans Hippóklesi við andlát sonar hins síðarnefnda. Cicero virðist hafa byggt þriðju bók "Samræðna í Tusculum" á þessu riti. Stóuspekingurinn Panætíos lýsti því sem „gullnu“ riti sem menn ættu að læra utanað orðrétt. Krantor raðaði lífsgæðunum í eftirfarandi röð: dygð, heilsa, ánægja, auður. Ted Mosby. Theodore „Ted“ Evelyn Mosby er skálduð persóna í sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother og er hann leikinn af Josh Radnor. Ted er hugarsmíð framleiðendanna Carter Bays og Craig Thomas. Hann er aðalpersónan; þátturinn snýst um Ted Mosby þegar hann er orðinn gamall árið 2030 og er að segja börnunum sínum sögur frá því að hann var ungur (ein saga í hverjum þætti), alveg þangað til að hann kynntist móður þeirra. Æska. Ted, aðalpersónan, er frá "Shaker Heights í Ohio, og útskrifaðist úr Wesleyan-háskólanum og er arkitekt. Í Wesleyan var hann stjórnandi útvarpsþáttar sem karakterinn Dr. X og kom hann ýmsum málum á framfæri en var í rauninni skapaður til þess að koma reiði Teds frá honum. Hann festist einu sinni undir platsteini í verslunarmiðstöð í Ohio þegar hann var níu ára („Slap Bet“). Saga persónunnar. Ted er rómantískur og getur ekki beðið eftir því að giftast og eignast fjölskyldu. Eftir að besti vinur hans, Marshall Eriksen, trúlofast ákvæður Ted að byrja að leita að sálufélaga sínum. Hann er ákveðinn í að vera frumlegur og stelur bláu, frönsku horni (e. „The Smurf Penis“), hornið var umræðuefni á fyrsta stefnumótinu hans með Robin. Einnig er hann alltaf merksispjald á hrekkjavökunni og vonast til þess að hitta „Slutty Pumpkin“, konu sem var í graskersbúning þegar hann hitti hana í hrekkjavökupartýi. Um tíma er hann með bakara sem heitir Victoria, sem hann hitti í brúðkaupi vinar síns. Hún ákveður að taka skólastyrk í virtum matreiðsluskóla í Þýskalandi og láta þau reyna á fjarsamband, sem endist ekki, að miklu leyti vegna tilfinninga sem Ted ber til Robin. Vinskap has og Robin er ógnað þegar hann segir að Victoria hafi hætt með honum áður en hún gerði það og kyssast hann og Robin. Stuttu eftir þetta reynir Ted í síðasta skiptið að vinna hjarta Robin og ræður bláan strengja-kvintett til þess að spila í íbúðinni hennar þegar hún kemur heim. Hún getur ekki gefið honum svar en eftir að hún festist í íbúðinni sinni á meðan óvæntur stormur gengur yfir (sem Ted hafði dansað fyrir), ákveður hún að fylgja tilfinningum sínum. Eftir næstum ár saman hætta þau saman og Ted heldur ekki lengur að Robin sé sú eina sanna en segir ekki hver eiginkona hans í framtíðinni verður. Robin er samt sem áður „frænka“ krakkanna. Í nokkurn tíma hefur Ted sagst vera „vomit-free since '93“ (þ.e. ælulaus síðan '93), sem þýðir að hann hefur ekki ælt síðan árið 1993. En í þættinum „Game Night“ kemur það fram að þetta er ekki satt og að hann hafi ælt á dyramottu Robin. Hann kann táknmál og hefur sterka tilhneigingu til þess að leiðrétta allt sem fólkið í kringum hann segir. Það kemur fram í þættinum „No Tomorrow“ að í partýi á degi Heilags Patreks, sem hann og Barney fóru í, að eiginkona Teds hafi verið þar og að hann hafi hitt hana þar. Þegar hann fer aftur á partýstaðinn morguninn eftir að leita að símanum sínum, tekur hann upp gularegnhlíf, sem sést fjúkandi í vindinum í fyrsta þættinum. Hann er einnig annar meðlimur hópsins sem á bíl (bláan Toyota Camry Hybrid) eftir að hafa fengið kauphækkun í vinnunni í þættinum „The Chain of Screaming“. Í enda þáttarins ákveður Ted að selja bílinn sinn til að hjálpa Marshall í vandræðum sínum. Í þættinum „The Goat“ segir Ted Barney að hann vilji ekki lengur vera vinur hans eftir að hann braut bræðralögin (e. bro-code) þegar hann svaf hjá Robin. Þeir sættast að lokum í þættinum „Miracles“ eftir þeir lentu báðir í slysi (Ted í leigubílaárekstri og það var keyrt yfir Barney þegar hann var á leiðinni til Teds á spítalanum). Í lok þriðju þáttaraðar kemur einnig fram að á 31. afmælisdegi Teds muni Robin búa í íbúðinni. Í lok „Miracles“ biður Ted Stellu. Stella játar og á meðan Ted er enn ástfanginn af henni áttar hann sig á því að hann veit ekki mikið um hana. Á brúðkaupsdaginn býður Ted Tony (barnsföður Stellu) í brúðkaupið svo að Lucy, dóttir þeirra, geti komið í brúðkaupið. Á endanum fer Stella aftur til Tonys og skilur Ted eftir, eyðilagðan. Hann felur sig fyrir henni og ætlar að tala við hana þegar hann sér hvað hún, Tony og Lucy eru hamingjusöm fjölskylda. Hann jafnar sig á misheppnaða brúðkaupinu þegar hann sefur hjá stelpu í „The Naked Man“. Hann býr núna með Robin, þar sem hann hafði auka herbergi og vantaði hana stað til að búa á; og reyna þau að vera vinir með hlunnindum (friends við benefits) og kemst Ted að því að Barney er ástfanginn af Robin. Ted hafði einnig nýlega verið ráðinn til að hanna nýjar höfuðstöðvar Goliath National bankans. Bankinn rak Ted hinsvegar og tók Ted þá starfi sem Tony bauð honum, að vera prófessor í arkitekt í Columbia-háskólanum. Einnig kemur í ljós að eiginkona Teds var í tímum hjá honum. Tjaldur. Tjaldur (fræðiheiti: "Haematopus ostralegus") er vaðfugl af ættbálki strandfugla og af tjaldaætt. Er hann þjóðarfugl Færeyja. Einkenni. Tjaldurinn er meðal stærstu vaðfugla. Hann er svartur að ofan og niður að bringu, en hvítur undir. Fætur eru rauðbleikir og gildvaxnir, og goggurinn rauðgulur og langur, hliðflatur og lítið eitt uppsveigður. Gumpur er hvítur og augu rauð. Útbreiðsla. Tjaldar eru útbreiddir varpfuglar við strendur Norðvestur-Evrópu. Varpútbreiðsla er einnig nokkuð samfelld um miðbik Austur-Evrópu og Vestur-Asíu slitrótt austast í norðanverðri Asíu. Á Íslandi eru tjaldar algengir varpfuglar á láglendi í öllum landshlutum, einkum í grennd við sjó en sums staðar leita þeir nokkuð inn til lands. Á sumrin halda tjaldar sig aðallega í sand- og malarfjörum, á leirum eða öðrum landsvæðum nærri ströndu. Þeir sækja einnig talsvert á tún og upp með ám langt inn til landsins en á veturna halda þeir eingöngu til með ströndum. Tjaldar halda gjarna hópinn margir saman og getur verið talsverður atgangur og hávaði í þeim. Fæða. Í fjörum lifa Tjaldar mest á kræklingi og öðrum skeldýrum sem þeir opna með sterkbyggðum goggi sínum en á landi á ýmsum skordýrum og ormum eins og ánamaðk. Varp. Sandfjörur og malarfjörur, grandar og fjörukambar eru helstu varpstaðir tjalda. Á varptímanum halda þeira sig einnig á melum, snöggum óræktarmóum, áreyrum og túnum. Stundum verpa tjaldar jafnvel á umferðareyjum eða í órækt rétt við umferðaræðar í þéttbýli. Á síðustu árum hafa þeir einnig orpið á byggingum í Reykjavík þar sem möl er á þökunum. Hreiðurlautin er nokkuð misdjúp, stundum talsvert djúpur bolli en oftast grunn skál. Yfirleitt raða fuglarnir smásteinum eða skeljabrotum í skálina en einnig smákvistum eða þangklóm. Egg í hreiðri eru venjulega þrjú en stundum fjögur eins og er algengast hjá vaðfuglum. Tjaldseggin eru brún eða gráleit með svörtum rákum og því vel til þess fallin að falla inn í umhverfi sitt. Þau eru mun kringlóttari og snubbóttari í mjórri endann en önnur vaðfuglsegg, sem jafnan eru perulaga. Eggin klekjast út á tuttugu og einum til tuttugu og sjö dögum og skiptast kvenfuglinn og karlfuglinn á að liggja á eggjunum. Deilitegundir. Tjaldurinn skiptist í þrjár deilitegundir: "ostralegus" sem finnst í Evrópu, "longipes" sem finnst í Mið-Asíu og Rússlandi og "osculans" sem finnst á Kamtsjaka og norðurhluta Kína. Íslenskir tjaldar eru með aðeins lengri vængi og sterklegra nef en þeir erlendu og út frá þessum ytri einkennum lýstu fuglafræðingar fyrri ára þeim sem sérstakri deilitegund, "Haematopus ostralegus malacophaga". Miðað við núverandi hugmyndir fræðimanna um breytileika í fuglastofnun og skiptingu þeirra í deilitegundir er þessi skipting þeirra hinsvegar ekki lengur talin eiga rétt á sér. Tjaldur á Íslandi. Tjaldar halda gjarna hópinn margir saman og talsverður hávaði í þeim. Tjöldum hefur fjölgað á Íslandi það sem af er þessari öld. Í byrjun aldarinn voru þeir langalgengastir við Faxaflóa og Breiðafjörð en sjaldséðari með ströndum á landinu norðvestan- og norðanverðu. Nú halda þeir sig einnig mun meira inni í landi en áður. Þessi umskipti eru að einhverju leyti talin tengja hlýnandi veðurfari framan af öldinni en aukin ræktun kann einnig að hafa haft sín áhrif þar sem tjaldar leita talsvert á tún til þess að afla sér fæðu. Flestir íslenskir tjaldar eru farfuglar en slæðingur, 2.000 - 3.000 fuglar, halda til við suður- og vesturströndina á veturna en þeim fer þó fækkandi sem og fleiri vaðfuglum sem hafa haft vetursetu hér á landi. Farfuglar fara að sjást á ströndum í seinni hluta mars en heldur seinna inn til landsins eftir vetrardvöl erlendis. Frá varpstöðvunum hverfa fuglarnir í lok ágúst og byrjun september. Tjaldar verpa hvarvetna með ströndinni. Álitið er að á Íslandi kunni vera um 10.000 - 20.000 varppör sem er tiltölulega lítill hluti af heildarstofni tegundarinnar í heiminum. Marshall Eriksen. Marshall Eriksen er skálduð persóna í sjónvarpsþættinum How I Met Your Mother og er Marshall leikinn af Jason Segel. Hann er hugarfóstur Carter Bays og Craig Thomas. Marshall er besti vinur Teds Mosby og er eiginmaður Lily Aldrin. Marshall er lögmaður og á sér þann draum að verða umhverfislögfræðingur til að bjarga umhverfinu en vinnur nú sem lögfræðingur á banka til þess að eignast peninga. Saga persónunnar. Marshall hitti Ted Mosby og Lily Aldrin fyrsta daginn í háskóla. Hann er lögfræðingur úr Columbia-háskólanum og er upphaflega frá St. Cloud í Minnesota. Í fjórðu þáttaröð kemur fram að hann er troðslumeistari í Nicollet-sýslu í Minnesota og er gælunafnið hans "Hvíta Vindmyllan". Hann getur ekki lengur troðið vegna þess að hann þjáist af dansaramjöðm. Þrátt fyrir að vera um tveir metrar á hæð er hann minnstur af karlmönnunum í sinni fjölskyldu. Marshall notar oft orðið „lawyered“ þegar hann er að skýra mál sitt í hinum ýmsu deilum þar sem hann notast við staðreyndir og tölur. Þetta orð hefur orðið einkennisorðið hans. Marshall er mjög tryggur vinum sínum, sérstaklega besta vini sínum, Ted. Í lok fyrstu þáttaraðarinnar hætta hann og Lily við brúðkaupið sitt vegna þess að hún ákveður að fara til San Francisco til þess að láta drauma sína rætast (að verða málari) og slítur hún þá trúlofuninni. Hann og Lily endurvekja sambandið um miðja aðra þáttaröðina og trúlofast aftur og eru gift í 12 sekúndur í þættinum „Atlantic City“. Brúðkaupið þeirra er í tveimur síðustu þáttum annarrar þáttaraðar. Marshall skaut óvart tappanum á kampavínsflöskunni, sem hann var að opna þegar Lily játaðist honum, í augað á henni. Í annað skipti (líka óvart) stakk hann hana með sverði þegar hann og Ted voru að skylmast yfir hvor ætti að vera í íbúðinni eftir að hann og Lily giftu sig. Marshall er mjög góður í leikjum og kemur það fram í þættinum „Game Night“. Hann vinnur alltaf, sem verður til þess að vinir hans láta hann stjórna spilakvöldum, í skiptum fyrir það að hann sleppi því að spila. Marshall tók þessu sem áskorun á það að hann þyrfti að búa til spil, svo að hann gerir það og skýrir spilið Marshgammon, sem inniheldur það besta úr öðrum spilum. Það kemur fram í fyrstu þáttaröð að hann, bræður hans og pabbi hafi búið til leik sem þeir spila á hverri þakkargjörð: KörfuÍsBolti (e."BaskIceBall") en Marshall viðurkennir að leikurinn sé bara afsökun fyrir því að karlarnir í fjölskyldunni vilji slást. Þegar vinahópurinn var í spilavítinu í Atlantic City í samnefndum þætti var Marshall sá eini sem fattaði klikkaða kínverska leikinn sem Barney var að spila. Í háskóla spiluðu Marshall og Ted leik sem hét Zitch Dog á ferðalagi, sem kemur fram í „Arrivederci, Fiero“. Marshall vann meira að segja þegar hann var sofandi. Einnig er Marshall mjög góður dansari eins og fram kemur í þættinum „Okay, Awesome“. Hann eyddi nokkrum mínútum inni á baðherbergi að leita að verkjalyfjum og kom út í frábæru formi. Marshall elskar mat. Í þáttum eins og „The Pineapple Incident“ og „Drumroll, Please“ hefur Marshall meiri áhyggjur af því hvað var verið að borða á meðan aðrar persónur hafa áhuga á ástarlífi Ted. Hann borðar mjög mikið og sameinar mat eins og popp og ís. Marshall hefur áhuga á ótta og yfirnáttúrulegum hlutum, sérstaklega í þjóðsögum. Hann trúir heitt á drauga og draugasögur. Marshall og Lily fór í brúðkaupsferðinni sinni til Skotlands svo að hann gæti séð Loch Ness-skrímslið. Hann harðneitar að heimsækja heita norðvesturhluta Bandaríkjanna vegna þess að hann er hræddur við Stórfót þrátt fyrir að segjast ekki vera hræddur við hann en honum finnst að allir ættu að vera á varðbergi. Marshall neyðist til þess að fara í atvinnuviðtal hjá stórfyrirtækinu sem Barney vinnur hjá eftir að Lily segir honum að hún sé í stórri skuldasúpu. Þetta eyðileggur það að Marshall geti orðið umhverfislögfræðingur (eða hippalögræðingur úr fjöllunum samkvæmt Barney). Þegar Marshall var sextán ára fékk hann Fieroinn sinn frá eldri bræðrum sínum eftir nokkur próf. Kassetta með laginu „I'm Gonna Be (500 Miles)“ með The Proclaimers er föst í tækinu í Fieroinum og hefur spilað endalaust í gegnum árin. Kaldhæðnislega losnar kassettan með laginu loksins þegar Marshall vottar bílnum viðringu sína eftir að Fieroinn dó rétt eftir að hafa keyrt 200.000 mílur. Það kemur fram í lok þáttarins að þegar Marshall var unglingur hafði hann sett kassettuna í tækið og sagt að þetta væri besta lag í heimi og að hann yrði aldrei leiður á því. Marshall hefur verið aðdáandi hljómsveitarinnar Chumbawamba síðan Ted sagði að Barney væri fastur inni í höfðinu á honum eins og lag með Chumbawamba. Þegar hópurinn situr á kínverskum veitingastað sem hafði áður verið íbúð Lily og er að borða kvöldmat í áttunda þætti fyrstu þáttaraðar er verið að spila eina af gömlu kassettunum hennar Lily sem Marshall hafði gefið henni í háskóla. Marshall segir: „Ég elska þetta lag, ég hef ekki heyrt það í langan tíma“. Lily segir honum að þetta sé líklega lag af kassettunni sem hann gaf henni og hann segir „Já, ókei“. Seinna í laginu koma skilaboð frá Marshall til Lily sem hljóma svona: „Ég elska þig Lily, gleðilegan Valentínusardag árið 1998“. Lagið er Tubthumping með Chumbawamba. Æska. Marshall er yngstur af þremur bræðrum. Hann ólst upp í St. Cloud í Minnesota. Það kemur sterklega fram að Marshall hafi mátt þola ofbeldisfulla æsku. Með bræðrum sínum tveimur og föður sínum spilar Marshall ofbeldisfullan leik sem þeir bjuggu til og heitir KörfuÍsBolti. Þessi leikur inniheldur engar reglur og er eiginlega bara afsökun svo að þeir geti slegist með áhöldum eins og skautum, hokkíkylfum, körfuböltum og fleiru. Marshall þurfti að ganga í gegnum margar kvalafullar skipanir frá bræðrum sínum til að eignast Fieroinn. Marshall og bræður hans eru alltaf að finna upp á nýjum leiðum til að slást. Þrátt fyrir að Marshall hafi þróað með sér mikla hæfileika í þessum efnum vegna slagsmálann finnst honum ekki gaman að nota hæfileikana. Þetta kemur fram þegar Marshall tekur á öðrum manni sem er að strjúka rassinn á Lily til að fjarlæga vínberjablett. Marshall hótar að ráðast á manninn en eftir að komast að því að hann er samkynhneigður kemst hann yfir það og segist aldrei hafa slegist áður. Einu aðstæðurnar þar sem Marshall notar slagsmálahæfileika sína er til þess að verja Ted. Þegar þeir eru að setja brúðkaupsboðskort í umslög lofar Marshall að hann muni alltaf standa með Ted í slagsmálum. Konurnar. Marshall og Lily giftu sig fyrir stuttu í tveimur athöfnum. Fyrsta athöfnin var draumbrúðkaupið þeirra, lítil athöfn utandyra þar sem Ted og Robin voru einu gestirnir og Barney framkvæmdi athöfnina. Eftir að pressan um að giftast hafði horfið fóru Marshall og Lily inn í stóra brúðkaupið sitt aðeins til að þóknast þeim sem höfðu komið í brúðkaupið. Lily ákvað að halda ættarnafninu sínu en verða ekki Lily Eriksen. Framtíðar-Ted hefur sýnt Marshall og Lily sem gamalt par, enn hamingjusamlega gift árið 2029. Sem hjón deila þau öllu með hvort öðru. Í öðrum þætti sést hvar Lily og Marshall eru að plana það að sofa saman, svo fer myndavélin aðeins aftar og þá sést að Ted er að hlusta og biður þau um að sleppa því en þau hunsa hann oft (þetta gerðist meira að segja í brúðkaupinu þeirra og fyrsta skiptið sem að þau sváfu saman var Ted viðstaddur). Slap Bet. Barney tapaði veðmálinu (e. "slap bet") þegar hann og Marshall veðjuðu um það hvort að Robin væri kanadísk-klámstjarna. Hann valdi refsinguna fimm kinnhesta frá Marshall sem geta verið slegnir hvenær sem er, í staðinn fyrir tíu kinnhesta strax. Eftir hvern kinnhest hélt Marshall ræðu um það hversu oft hann hafði slegið Barney hingað til. Díogenes hundingi. Díogenes eða Díógenes (á forngrísku Διογένης ὁ Σινωπεύς, "Diogenes ho Sinopeus"; um 412 f.Kr. eða 404 f.Kr. – 323 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur af skóla hundingja frá borginni í Sínópu (núna Sinop í Tyrklandi). Díogenes er einna þekktastur fyrir að hafa búið í tunnu og fyrir að hafa svarað Alexander mikla, þegar sá hinn sami spurði hann hvort hann gæti gert eitthvað fyrir hann: „Já, skyggðu ekki á sólina“ (eða „Stígðu frá sólinni“). Díogenes fluttist ungur til Aþenu þar sem hann gerðist samkvæmt sumum heimildum nemandi Antisþenesar. Díogenes kenndi að maður skyldi lifa lífinu í samræmi við náttúruna og af þeim sökum ætti maður að virða að vettugi samfélagslegar reglur en stunda strangt meinlætalíf. Sumar heimildir greina frá því að Díogenes hafi látið eftir sig ýmis ritverk, þar á meðal bókmenntaverk en ekkert er varðveitt af þeim. Morgunfrú. Morgunfrú eða gullfífill (fræðiheiti "Calendula officinalis") er jurt af körfublómaætt. Jurtin hefur frá fornu fari verið notuð til lækninga og til að lita föt, mat og snyrtivörur. Lauf og blóm eru æt og er blómum bætt í rétti sem krydd og í stað saffrans. Laufblöðin eru oft beisk á bragðið og eru notuð í salat. Auðvelt er að rækta morgunfrúr á sólríkum stöðum. Yvonne Strahovski. Yvonne Strahovski (fædd 30. júlí 1982) er áströlsk leikkona. Hún hefur birst í nokkrum áströlskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Sarah Walker í þáttunum Chuck. Æska. Strahovski fæddist í Marobubra, í úthverfi Sydney, sem "Yvone Strezechowski" og á hún pólska foreldra sem höfðu flúið Pólland. Stafsetning nafns hennar þótti of erfið og varð "Yvonne Strahovski" leikaranafn hennar þegar hún byrjaði að leika í Chuck og fann framleiðandanum Josh Schwartz það best fyrir hennar sakir að breyta nafninu en það varð einnig auðveldara að bera nafnið hennar fram. Yvonne gekk í Santa Sabina menntaskólann í Strathfield. Hún útskrifaðist úr háskólanum í Vestur-Sydney með B.A. gráðu í framkomu. Ferill. Yvonne talar reiprennandi pólsku og notaði þá kunnáttu í þáttunum „Chuck Versus the Wookiee“, „Chuck Versus the Three Words“ og „Chuck Versus the Honeymooners“. Þrátt fyrir að hún leiki Ameríkana í þáttunum talaði hún með miklum áströlskum hreim í „Chuck Versus the Ex“. Einkalíf. Yvonee átti í sambandi við ástralska leikarann Matt Doran á árunum 2006-2007. Árið 2009 varð hún í 94. sæti á lista Maxim yfir 100 heitustu konur í heimi. Heimildir. Strahovski, Yvonne Sarah Lancaster. Sarah Beth Lancaster (fædd 12. febrúar 1980) er bandarísk leikkona. Hún er þekkt fyrir hlutverk sín sem Rachel í Saved By The Bell: New Class og sem Madison Kellner í Everwood. Hún var einnig gestaleikari í Scrubs sem Lisa-í-gjafabúðinni sem JD var hrifinn af — hún lék einnig Marjorie í What About Brian. Árið 2005 lék hún í sjónvarpsmyndinni Living With the Enemy með Mark Humphrey. Frá 2007-2012 lék Lancaster aukahlutverk í þáttaröðinni Chuck sem Dr. Eleanor „Ellie“ Bartowski-Woodcomb. Æviágrip. Sarah var fædd og uppalin í Overland Park í Kansas með yngri bríður sínum Daniel og foreldrunum Barböru og Michael sem voru húsmóðir og fasteignasali. Starf Michaels flutti þau svo til Mission Viejo í Kaliforníu þar sem Sarah tók tíma í kvikmynda- og sjónvarpsleik hjá R.J. Adams. Hæfileikar Söruh redduðu henni umboðsmanni sem hjálpaði 13 ára Söruh að landa hlutverki Rachel í Saved by the Bell: The New Class árið 1993. Á þessum tíma var henni kennt á tökustað og tók hún tíma í háskóla Kaliforníu til þess að flýta útskrift sinni úr menntaskóla. Eftir útskrift flutti hún til Los Angeles til að láta reyna á leiklistarferilinn. Sarah landaði gestahlutverkunum í þáttum eins og: Sabrinu - unglinsnorninni, Vík Milli Vina (Dawson's Creek), That '70s Show, Scrubs og. Hún fékk einnig aukahlutverk í þáttunum Everwood (sem Madison Kellner sem Ephram verður hrifinn af) og Boston Public. Lancaster lék einnig afbrýðissama kærustu sem verður raðmorðingi í kvikmyndinni Lovers Lane. Ýmis fróðleikur um Söruh Lancaster. Aðrir hæfileikar Söruh eru meðal annars átta ára þjálfun í djass- og funk-dansi. Sarah er ekkert skyld leikaranum Burt Lancaster en hún viðurkennir að hafa verið oft spurð um þetta. Hún segir að eftir að hafa alist upp í Kansas hafi hún orðið aðdáandi Jayhawks-körfuboltaliðsins. Lancaster segir að henni hafi alltaf verið alveg sama um fótboltaliðið en hún hafi gerst aðdáandi árið 2008. Hún segist hafa tattú en viðurkennir að vera of feimin til þess að segja hvar það er. Adam Baldwin. Adam Baldwin (fæddur 27. febrúar 1962) er bandarískur leikari. Hann er þekktur fyrir hlutverk sín sem Animal Mother í Full Metal Jacket, Ricky Linderman í My Bodyguard, Knowle Rohrer í The X-Files, Jayne Cobb í Firefly og sem Marcus Hamilton í Angel. Hann er ekkert skyldur Baldwin-bræðrunum. Baldwin leikur NSA-fulltrúann John Casey í gamanþáttaröðinni Chuck. Æska. Balwin fæddist í Chicago í Illinois. Hann gekk í New Trie Township miskólann í Winnetka í Illinois og vann einu sinni fyrir sér sem vörubílstjóri. Ferill. Eftir að hafa birst í fjölmörgum myndum síðan 1980, hefur Baldwin vakið athygli í hlutverkum eins og Ricky Linderman í My Bodyguard (1980) og stærri hlutverkum eins og í D.C. Cab (1983), Full Metal Jacket (1987), Independence Day (1996) og Serenity (síðan 2005). Önnur verk hans eru meðal annars Radio Flyer (1992), From the Earth to the Moon (1998), The X-Files ("Knowle Rohrer"), Smoke Jumpers (1996), The Cape, Men in Black: The Series, Stargate SG-1, Angel, The Inside, NCIS og endurgerðinni frá 2005 á Poseidon ævintýrinu. Hann lék einnig í sjónvarpsþáttaröðinni Day Break sem Chad Shelten árið 2006. Baldwin vann SyFy-verðlaunin árið 2006 fyrir besta leikara í aukahlutverki í hlutverki sínu sem Jayne Cobb í sjónvarpsþættinum "Firefly". Heimildir. Baldwin, Adam Ryan McPartlin. Ryan McPartlin (fæddur 3. júlí 1975 í Chicago, Illinois) er bandarískur leikari. Æska. Ryan er fæddur og uppalinn af Steve og Lois McPartlin í Geln Ellyn í Illinois (úthverfi Chicago). McPartlin útskrifaðist með gráðu í framkomu frá háskólanum í Illinois. Hann var meðlimur Fighting Illini fótboltaliðsins og var verðlaunaður fyrir að spila árið 1994. Eftir útskrift ákvað Ryan að eyða sex mánuðum í Ástralíu og Nýja Sjálandi til þess að uppgvöta heiminn og ákveða hvað hann ætlaði að gera í framhaldinu. Hann komst að því að hann vildi verða leikari, svo hann flutti til Suður-Kaliforníu til að láta draum sinn rætast. Ferill. Ryan varði nokkrum árum í það að vera Abercrombie & Fitch-módel. Fyrsta leiklistarhlutverk Ryans var í The Nanny með Fran Drescher. McPartlin hefur verið best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Hank Bennett í sápuóperunni Passions en hann kom í staðinn fyrir Dalton James frá apríl 2001 til apríl 2004. McPartlin vann með Drescher aftur sem Riley Martin í gamanþættinum Living With Fran. Hann lék miklu yngri kærasta. McPartlin fór í áheyrnarprufu fyrir hlutverk Clark Kent/Superman í nýju kvikmyndinni Superman Returns en fékk ekki hlutverkið. Frá 2007-2012 lék hann Devon „Captein Awesome“ Woodcomb í Chuck. Einkalíf. Hann hefur verið giftur leikkonunni Danielle Kirlin síðan 26. október 2002. McPartlin, Ryan Ránargata. Ránargata er íbúagata í Gamla Vesturbænum. Gatan liggur frá Garðastræti í austri til Framnesvegs í vestri. Götuna skera Ægisgata, Stýrimannastígur og Bræðraborgarstígur. Við götuna eru um 50 hús, bæði einbýlishús og fjölbýlishús. B.Ed.. Bachelor of Education (skammstafað B.Ed.) er háskólagráða sem er veitt að loknu þriggja eða fjögurra ára löngu námi á grunnstigi, það er á fyrsta stigi háskólanáms. Gráðan er veitt að loknu námi í kennsluvísindum. Þrændalög. Þrændalög (norska: "Trøndelag") er landshluti í Noregi sem skiptist í tvö fylki: Suður-Þrændalög og Norður-Þrændalög. Þrændalög eru 41.262 ferkílómetrar að stærð (12,7 % af flatarmáli Noregs) og þar bjuggu 411.362 manns 1. oktober 2007 (8,7 % af íbúum Noregs). Þéttleiki byggðar er tæplega 10 íbúar á ferkílómetra. Að fornu var nafnið Þrándheimur einnig notað um byggðirnar umhverfis Þrándheimsfjörðinn. Fyrri liðurinn, „Þrándur“, getur verið mannsnafn, en vísar líklega frekar til fólksins sem bjó þar, sem var kallað Þrændir. Nafnið „Þrændalög“ er dregið af því að þetta varð snemma sameiginlegt stjórnsýslusvæði, með sameiginlega löggjöf. Danalög á Englandi er hliðstæð nafngift. Stundum er talað um Þrændalög sem Mið-Noreg, því að landshlutinn er mitt á milli Norður-Noregs og Suður-Noregs. Suður-Noregur skiptist svo í Austurlandið, Suðurlandið og Vesturlandið. Vegna landfræðilegrar legu og að nokkru leyti sameiginlegrar stjórnsýslu eru landshlutarnir Norðmæri og Raumsdalur hluti af Mið-Noregi, en Sunnmæri telst hluti af Vesturlandinu og þar með Suður-Noregi. Óopinber höfuðborg Þrændalaga er Þrándheimur í Suður-Þrændalögum, sem að fornu hét Niðarós. Í Þrændalögum og á Norðmæri tala menn sérstaka mállýsku af norsku. Dave Allen. David Tynan O'Mahoney (6. júlí 1936 – 10. mars 2005) betur þekktur sem Dave Allen, var írskur skemmtikraftur. Hann gerði nokkrar sjónvarpsþáttaraðir fyrir Channel 9 í Ástralíu, og ITV og BBC í Bretlandi. Þættirnir voru blanda af uppistandi hans sjálfs og leiknum grínatriðum. Þessir þættir nutu gríðarlegra vinsælda og höfðu mikil áhrif á breska gamanþætti seinni tíma. Hann var þekktastur fyrir að sitja jakkafataklæddur í háum stól með sígarettu og viskýglas við hendina meðan hann sagði brandara. Hann var yfirlýstur trúleysingi og brandararnir snerust oft um kaþólsku kirkjuna og ensku biskupakirkjuna. Port Vila. Loftmynd af miðborg Port Vila. Port Vila er höfuðborg og stærsta borg Vanúatú. Hún stendur á suðurströnd eyjarinnar Efate í sýslunni Shefa. Íbúafjöldi árið 1999 var um 30 þúsund. Aðalatvinnugreinar í Port Vila eru landbúnaður og fiskveiðar þótt ferðaþjónusta, einkum frá Nýja Sjálandi og Ástralíu, fari vaxandi. Frosta. Mynd tekin sunnarlega á Frostu, horft út á Þrándheimsfjörð. Frosta er byggðarlag, skagi og sveitarfélag í Norður-Þrændalögum. Að austan liggur Frosta að sveitarfélaginu Levanger. Á Frostu var að fornu eitt af fjórum landshlutaþingum í Noregi: Frostaþing. Það var í grennd við bæinn Lögtún. Þar er steinkirkja frá því um 1500, en áður var þar timburkirkja sem notuð var við þinghaldið. Við vesturodda Frostu er eyjan Tötra í Þrándheimsfirði, milli Frostu og Leksvik. Norðarlega á eynni eru rústirnar af Tötru-klaustri, sem stofnað var 1207. Sunnar á eynni var árið 1999 ákveðið að stofna nunnuklaustur. Hornsteinninn var lagður árið 2003, og klaustrið tekið í notkun sumarið 2006. Robin Scherbatsky. Robin Scherbatsky (fullt nafn Robin Charles Scherbatsky, Jr. eða "Robin Sparkles") er persóna búin til af "Carter Bays" og "Craig Thomas" fyrir sjónvarpsþáttinn How I Met Your Mother og er hún leikin af kanadísku leikkonunni Cobie Smulders. Ættarnafnið hennar er tilvitnun í eina aðalpersónuna í skáldsögunni "Anna Kernina". Æska. Faðir Robin, Robin Charles Scherbatsky, Sr., var ákveðinn í því að eignast dreng, svo að Robin var alin upp eins og hún væri strákur. Það breyttist þegar Robin var 14 ára og faðir hennar sá hana kyssa strák úr hokkíliðinu og hann áttaði sig á því að hún var dóttir hans eftir allt saman. Robin flutti svo til móðir sinnar; á sama tíma var hún fyrirsæta og tók upp smáskífuna "Let's Go To The Mall" undir nafninu "Robin Sparkles". Eftir að hafa fylgt laginu eftir með tónlistarmyndbandi og sungið lagið í allmörgum verslunarmiðstöðvum í Kanada fékk hún fóbíu fyrir því að fara í verslunarmiðstöðvar. Robin tók upp annað lag á eftir "Let's Go To The Mall" og hét það "Sandcastles in the Sand". Þegar Robin varð fullorðin fór hún að skammast sín fyrir að hafa verið stjarna í Kanada og þrátt fyrir að fyrirlíta aðferðir föður síns þegar hún var að alast upp, nýtur hún enn vindla, hokkís, viskís og byssa. Saga persónunnar. Robin var fréttalesari hjá "Metro New 1" fréttastöðinni í New York en sér núna um sinn eigin morgunþátt sem fer í loftið klukkan fjögur (á morgnana). Hún bjó í Park Slope hvefinu í Brooklyn, alveg þangað til að hún missir vinnuna (áður en hún byrjar í morgunþættinum) og neyðist til að flytja inn til fyrrverandi kærastans síns, og aðalpersónu þáttanna, Ted. Robin hefur gert margt vandræðalegt í beinni sem mönun frá Barney, meðal annars að segja "geirvarta", rassskellt sjálfa sig og gripið í brjóstin sín. Í "Mary the Paralegal" vinnur Robin verðlaun fyrir fréttina sína um syngjandi hundinn, Pickles (súrar gúrkur), og fer á verðlaunaafhendinguna með vinum sínum (verðlaunin heita "Local Area Media Awards" eða "LAMA"). Hún fer þangað með samstarfsmanni sínum, Sandy Rivers, til þess að gera Ted afbrýðissaman. Robin er eina aðalpersónan sem reykir sígarettur alsgáð (Marshall viðurkenndi að hann reykti stundum þegar hann væri fullur og Lily reykti á brúðkaupsdaginn sinn) en það virðist vera að engin af aðalpersónunum fyrir utan Barney viti af þessu. Ted spurði hana um þetta í "Moving Day" og Robin svarar honum neitandi en síðan sést hún reykjandi í baðkerinu heima hjá sér seinna í þættinum. Hún hefur mikla þekkingu á vindlum og naut þess með Barney í þættinum "Zip, Zip, Zip" á vindlabar með glasi af viskíi en einnig fleiri þáttum. Robin hefur einnig mikinn áhuga á byssum og er áskrifandi að tímaritinu "Guns & Ammo" og fer lætur Marshall fara með sér í skotfimi til þess að komast yfir Lily. Hún notar oft orðið „literally“ (þ.e. „bókstaflega“) eins og Ted bendir á í þriðju þáttaröð. Samkvæmt Ted getur hún ekki logið án þess að flissa en hún hefur oft logið vel í gegnum þættina. Það kemur einnig fram í "The Goat" að á 31. afmælisdegi Ted muni Robin búa með honum í íbúðinni. Það gerist í þættinum "Not a Father's Day" þegar Robin flytur inn til Ted eftir að hafa komið aftur frá Japan. Framtíðar-Ted segir líka af Robin hafi ferðast um heiminn og búið í mörgum mismunandi löndum. Margir héldu að Robin væri móðir barna Teds, en það kemur fram í fyrsta þættinum að hún er það ekki þegar Ted segir í enda þáttarins; "Og þannig kynntist ég frænku ykkar, Robin". Þrátt fyrir það verður Robin mikilvægur hluti af lífi Teds. Sambönd. Þeim tekst að byggja sambandið upp aftur og í enda fyrstu þáttaraðar játar Ted aftur að hann sé hrifin af Robin en hún ætlaði í útilegu með Metro News One og var hún með samstarfsmanni sínum, "Sandy", til þess að gera Ted afbrýðissaman. Ferðinni er hins vegar aflýst vegna veður sem Ted sjálfur hafði orsakað með því að dansa regndans. Robin ákveður að fylgja tilfinningum sínum þegar Ted fer til hennar þetta kvöld og byrja þau tvö loksins saman. Sambandið endar næstum ári seinna í lokaþætti annarar þáttaraðar, aftur, vegna þess að þau vilja mismunandi hluti í samböndum sínum; það er þá sem Ted hættir að sjá Robin sem hina einu réttu. Vinátta Ted og Robin eftir sambandsslitin er vandræðaleg og á þakkargjörðinni ákveða þau að hætta að hittast. Í sama þætti átta þau sig á því að vinátta þeirra er mikilvæg fyrir þau bæði og halda þau áfram að vera góðir vinir. Eftir "Not a Father's Day", hefur Robin flutt inn í gamla herbergi Marshalls og Lily í íbúð Teds. Þau reyna að vera vinir-með-hlunnindum en Ted ákveður að enda það eftir að Barney játar að bera tilfinningar til Robin. Fyrrum samband hennar og Ted virðist skapa spennu á milli hennar og nýlegri sambanda Teds. Í "Slap Bet" notar Barney hin ýmsu sambönd sín (meðal annars mann í Malasíu til að finna myndband Robin við lagið "Let's Go To The Mall". Í enda þriðju þáttaraðar, í þættinum "Sandcastles in the Sand", kyssast Robin og Barney á meðan þau horfa á seinna myndband Robin, "Sandcastles in the Sand". Í næsta þætti ("The Goat") kemur fram að þau sváfu saman. Hún krefst þess að „þetta hafi aldrei gerst“ og er með samviskubit og hún biður Ted afsökunar, að henni hafi liðið illa vegna þess að kærastinn hennar úr menntaskóla var að hætta með henni í annað sinn. Ted tekur afsökunarbeiðninni en verður reiður út í Barney. Restina af þriðju þáttaröð halda Barney og Robin áfram að þykjast að þau hafi ekki sofið saman. Í fyrsta þætti fjórðu þáttaraðar ("Do I Know You?") segir Barney Lily að hann sé ástfanginn af Robin þó að hann hafi engar áætlanir um það að tjá henni ást sína og vera í sambandi með henni. Hann reynir á endanum að segja henni hvernig honum líður en er stoppaður af Robin sem segir að samband með vini muni aldrei ganga. Í lokaþætti seríunnar, "The Leap", eftir nokkrar árangurslausar tilraunir, játa Barney og Robin loks að þau beri tilfinningar til hvors annars. Tonkinflói. Tonkinflói er grunnt hafsvæði í Suður-Kínahafi sem markast af Víetnam í vestri, Kína í norðri og kínversku eynni Hainan í suðri. Nafn flóans er dregið af nafni víetnamska héraðsins Tonkin. Tonkinflói er aðeins um 60 metra djúpur en 90.000 ferkílómetrar að stærð. Rauðá rennur út í flóann. Helstu borgir eru Haiphong í Víetnam, Beihai á meginlandi Kína og Haikou á Hainan. Mosi frændi. Mosi frændi var íslensk hljómsveit stofnuð af sex nemendum í MH í október árið 1985 og kom fyrst fram á tónleikum í Norðurkjallara MH í apríl árið eftir. Þá um haustið gaf sveitin út þrettán laga snældu sem fékk heitið "Suzy Creamcheese for President" en hefur oftast verið þekktari sem „Sandý Saurhól“ en það stóð einmitt á framhlið umslagsins. Snældan var tekin upp í Norðurkjallaranum. Önnur hliðin var með frumsömdum lögum en hin með misfrumlegum paródíum af þekktum lögum. Tónleikar í tengslum við útkomu spólunnar vöktu nokkra athygli og blaðaskrif og í framhaldinu var Mosa frænda boðið að setja lög á safnsnældu frá útgáfufyrirtæki Dr. Gunna Erðanúmúsík sem kallaðist "Snarl 2". Mosinn hélt áfram að skipuleggja og halda tónleika sem vöktu mismikla lukku meðal áhorfenda og blaðamanna. Sumir töluðu um „menntaskólahúmor á fyrsta stigi rotnunar“, og Ari Eldon sem þá var bassaleikari í pönkhljómsveitinni Sogblettum, lagði til í blaðadómi um tónleika Mosans á Hótel Borg að best væri fyrir alla ef þessi hljómsveit hætti að koma fram. En aðrir blaðamenn voru hrifnari, einna helst Þorsteinn J. Vilhjálmsson sem skrifaði í tónleikaumfjöllun: „Mosi Frændi er með skemmtilegri fyrirbærum í músíklífinu um þessar mundir. Kaldhæðnislegir útúrsnúningar er stefna út af fyrir sig. Sveitin er leitandi og óhrædd við að ráðst á garðinn þar sem hann er hæstur. Virðingarvert.“ Kvöld eitt þegar tekið var að vora var sá sami Þorsteinn Joð að stýra útvarpsþætti sínum á Bylgjunni og fékk hlustendur til þess að semja með sér popptexta sem átti að sameina allt það versta í íslenskri textagerð. Mosi frændi setti sig í samband við Þorstein og bauðst til að semja lag við textann. Lagið, „Katla kalda“ vakti hrifningu ráðamanna á Bylgjunni sem fjármagnaði stúdíóupptöku af laginu. Það hljómaði síðan linnulaust í útvarpi sumarið 1988 og var þaulsætið á vinsældalistum stöðvanna. Um svipað leyti og lagið sló í gegn, skráði Mosi frændi sig í Músíktilraunir (sem hljómsveitin Katla kalda) og komst í úrslit. Þótt Mosinn hefði ekki erindi sem erfiði á úrslitakvöldinu var ákveðið að ráðast í að gefa út smáskífu sem leit dagsins ljós í júlímánuði. Platan kom út í 500 eintaka upplagi sem seldist upp. Lagið á B-hliðinni, „Ástin sigrar (?)“ komst í takmarkaða útvarpsspilun en útvarpsstöðvar á borð við Útrás og Útvarp Rót gerðu því betri skil en Rás 2, Bylgjan og Stjarnan. Þegar hér var komið sögu var þó þreyta komin í samstarfið og um haustið 1988 ákváðu meðlimir Mosa Frænda að láta gott heita. Kveðjutónleikar þeirra voru haldnir 18. nóvember 1988 í Norðurkjallara MH. Þegar Ármann trommuleikari kvæntist haustið 2004 ákváðu meðlimir sveitarinnar að koma saman og taka nokkur lög í brúðkaupsveislunni. Í framhaldi af því fæddist sú hugmynd að halda endurkomutónleika þótt lítið gerðist í þeim málum í fyrstu. Á vordögum 2009 hófust þó æfingar og lék Mosi Frændi opinberlega í þrígang þetta sumar - fyrst sem leynigestur á pönktónleikum á Sódómu Reykjavík, því næst í beinni útsendingu á Rás 2 og loks á hinum eiginlegu "comeback" tónleikum á Grand Rokk 13. ágúst 2009. Meðal þeirra sem stigu á stokk með Mosa Frænda þetta kvöld voru Felix Bergsson og Páll Óskar Hjálmtýsson. Ári síðar lék Mosi frændi á "reunion" skólasystkina sinna úr MH, sem haldið var í Hugmyndahúsi Háskólanna. Mosi frændi lifnaði svo enn og aftur við árið 2013 og hélt tónleika á Gamla Gauknum þann 8. maí ásamt Skelk í bringu, Saktmóðigum, Fræbbblunum og Hellvar. Á þeim tónleikum voru frumflutt fjögur ný lög, "Útrásarvíkingurinn snýr aftur", "Ekkert hef ég lært", "Aulinn Atli" og "Nakin nótt" en síðasttalda lagið fékk nafn og texta aðeins nokkrum dögum fyrir tónleikana. Í tilefni af aldarfjórðungsafmæli Kötlu köldu ákvað Mosi frændi nefnilega að auglýsa eftir söngtexta við nýtt lag og var það gert í samvinnu við útvarpsþáttinn "Poppland" á Rás 2. Höfundur textans heitir Jón Benjamín Einarsson og hefur skrifað nokkur leikrit. Suðaustur-Evrópa. Kort sem sýnir staðsetningu Evrópu. Kort sem sýnir staðsetningu Suðaustur-Evrópu. Suðaustur-Evrópa er heimshluti sem er tiltölulega nýlega farið að tala um í Evrópu. Orðið var upphaflega notað yfir Balkanlöndin þar sem nafn Balkanskagans þótti hafa neikvæðar tilvísanir. Síðan þá hefur þetta heiti verið víkkað út og nær nú einnig yfir Kýpur, Evrópuhluta Tyrklands, Rúmeníu og Moldóvu sem ekki var hefð fyrir því að tala um sem Balkanlönd áður. Í þessari stækkuðu mynd nær Suðaustur-Evrópa yfir þau svæði sem Tyrkjaveldi réði í Evrópu þegar það var sem stærst. Ungverjaland og Úkraína eru sjaldnar talin með í þessum heimshluta. Algengara er að telja Ungverjaland til Mið-Evrópu og Úkraínu til Austur-Evrópu. Kákasuslöndin eru líka yfirleitt talin til Austur-Evrópu fremur en Suðaustur-Evrópu. Fáni Bandaríkjanna. Fáni Bandaríkjanna samanstendur af sjö láréttum rauðum línum með sex hvítum línum inni á milli og bláum rétthyrningi í efra horninu alsettum fimmtíu hvítum stjörnum. Stjörnurnar tákna fimmtíu fylki Bandaríkjanna og línurnar þrettán tákna upprunalegu nýlendurnar þrettán sem risu gegn bresku krúnunni og mynduðu Bandaríkin. Fáninn er einnig kallaður "Stars and Stripes", "Old Glory" og "The Star-Spangled Banner" (sem er einnig nafn þjóðsöngs landsins). Ruðningsáhrif. Ruðningsáhrif er hugtak í hagfræði og er haft um veiklun atvinnugreina á tilteknu svæði við það að þar hefst atvinnurekstur sem hinn eldri getur ekki keppt við í launum o.fl. Hugtakið er nýlegt, en dæmi um ruðningsáhrif leynast víða í fortíðinni, t.d. þegar uppsveifla í sjávarútvegi olli því á Íslandi að gengi krónunnar hækkaði upp úr öllu valdi og strádrap iðnaðinn. Sams konar áhrif eru talin hafa rutt bændafólki úr sveit til útgerðarbæjanna, en í bæjunum var verðmætasköpun meiri og þar með hægt að standa undir betri launakjörum og lífskjörum en í sveitinni. Á Íslandi telja sumir einnig að fjárfestingar í iðnaði séu taldar undirrót hás gengis sem dregur úr starfsemi í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Ruðningsáhrif eru stundum eignuð stóriðjuframkvæmdum og áhrifum þeirra en flest bendir til þess að innstreymi fjármagns vegna þessara miklu fjárfestinga sé einungis hluti af skýringunni. Lily Aldrin. Lily Aldrin er persóna í sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother og er hugarfóstur Carter Bays og Craig Thomas. Hún er leikin af bandarísku leikkonunni Alyson Hannigan. Hún er eiginkona Marshall Eriksen og er besta vinkona Robin Scherbatsky. Lily er leikskólakennari og listmálari. Gengisvísitala. Gengisvísitala er hugtak í hagfræði sem sýnir samanlagt gengi gjaldmiðla viðskiptalandanna gagnvart krónunni eða gjaldmiðli viðkomandi lands þar sem gengisvísitalan er reiknuð út. Ef gengisvísitalan á Íslandi er há er krónan veik. Erlendu gjaldmiðlarnir hafa mismunandi vægi við útreikning á vísitölunni, en á Íslandi hefur Evran mest og Bandaríkjadalur næst mest. Vægi gengisvísitölu fer eftir því hversu mikil viðskipti viðkomandi gjaldmiðlasvæði á við viðmiðandi myntsvæði. Raungengi. Raungengi er hugtak í hagfræði er þegar búið er að leiðrétta gengið fyrir verðlagsbreytingu í löndum gjaldmiðlanna, þ.e.a.s. raungengi á mælikvarða verðlags eins og sagt er. Þegar verðlag hækkar til dæmis um 10% í einu landi umfram hækkun í öðru ætti myntin að veikjast um 10% til þess að raungengið standi í stað. Kenningin er sú að raungengi eigi að haldast nokkuð stöðugt til lengri tíma litið, enda sé ekki eðlilegt að verðlag sé mjög mismunandi eftir löndum, nema vegna flutningskostnaðar og slíks. Reglulega er verð á Big Mac borið saman í mismunandi löndum og má segja að þá sé verið að finna út „raungengi á mælikvarða Big Mac“. Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna. Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna (á ensku: "Declaration of Independence") var samþykkt þann 4. júlí árið 1776. Í yfirlýsingunni kom fram að þrettán nýlendur á austurströnd Bandaríkjanna — þá í stríði við Breta — væru nú sjálfstæð ríki án afskipta breska heimsveldisins. Þar er ennfremur að finna formlega útskýringu á því hvers vegna kosið hafði verið um sjálfstæði 2. júlí, rúmu ári eftir að bandaríska frelsisstríðið braust út. Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna (á ensku "Independence Day") er haldinn hátíðlegur 4. júlí ár hvert. Sagnfræðingar hafa þó deilt um dagsetningu undirritunarinnar, þó að yfirlýsingin hafi verið samþykkt 4. júlí. Flestir eru á þeirri skoðun að undirritunin hafi farið fram 2. ágúst 1776, tæpum mánuði síðar. Aðalhöfundur yfirlýsingarinnar var Thomas Jefferson. Jóhann 4. konungur Portúgals. Jóhann 4. (portúgalska: "João IV de Portugal"; 18. mars 1603 – 6. nóvember 1656) var konungur Portúgals frá 1640 til dauðadags. Hann var sonur Þeodósíusar 2. hertoga af Braganza og barnabarn Katrínar hertogaynju sem hafði gert tilkall til portúgölsku krúnunnar áður en Filippus 2. Spánarkonungur náði sínu fram í portúgölsku ríkiserfðadeilunni árið 1580 þegar Spánn og Portúgal gengu í konungssamband. Þar sem Braganza-ættin taldi sig lögmæta ríkisarfa í Portúgal var Jóhann alinn upp með það fyrir augum að hann yrði konungur. Jóhann var hylltur sem konungur eftir að vaxandi óánægja með stjórn Filippusar 3. hafði leitt til uppreisnar meðal portúgalska aðalsins og kaupmanna 1. desember 1640. Filippus var þá upptekinn við Þrjátíu ára stríðið í Evrópu og Sláttumannaófriðinn í Katalóníu. Jóhann gerði bandalag við Frakka og Svía en barðist jafnframt gegn ásókn Hollendinga á verslunarstöðum í Vestur- og Austur-Indíum. Valdaránið leiddi til langdregins stríðs milli Portúgals og Spánar sem lauk ekki fyrr en með Lissabonsáttmálanum 1668, eftir lát Jóhanns. Jóhann 4. lést árið 1656 og sonur hans, Alfons 6. tók við völdum. Dóttir hans, Katrín af Braganza, giftist Karli 2. og varð drottning Englands árið 1662. Fáni Finnlands. Fáni Finnlands (á finnsku "Suomen lippu") er hvítur með bláum skandinavískum krossi. Fáninn var tekinn í notkun eftir að þjóðin fékk sjálfstæði frá Rússum árið 1918 en hönnunin er frá 19. öld. Blái liturinn er sagður tákna himininn og hin þúsund vötn landsins en hvíti liturinn snjóinn er hylur landið að vetri. Eskill (fyrirtæki). Eskill var íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað árið 1999 af mönnum úr einum árgangi úr Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands og einum hönnuði. Fyrirtækið sérhæfði sig í veflausnum. Fyrirtækið er núna hluti af Advania samstæðunni. Michelin. Michelin er vörumerki SCA Compagnie Générale des Établissements Michelin sem er alþjóðlegt fyrirtæki sem að á rætur sínar að rekja til Frakklands. Það er stærsti framleiðandi hjólbarða í heiminum en auk Michelin vörumerkisins framleiðir það undir merkjum B.F. Goodrich og Uniroyal, erlendis er fyrirtækið einnig þekkt fyrir framleiðslu á leiðsögubókum og fyrir Michelin stjörnur sem að er gæðamerki veitt veitingahúsum og gististöðum. Kirjálabotn. Staðsetning Kirjálabotns ("Gulf of Finland") með afstöðu til Eystrasaltsins. Kirjálabotn eða Finnski flói (á finnsku: "Suomenlahti", sænsku: "Finska viken", rússnesku: "Финский залив", eistnesku: "Soome laht") er austasti angi Eystrasaltsins. Flóinn nær frá Finnlandi í norðri til Eistlands í suðri og allt til Sankti Pétursborgar í austri þar sem áin Neva rennur í hann. Meðal annarra stórborga við flóann má nefna Helsinki og Tallinn. Austurhluti flóans tilheyrir Rússlandi en Rússar hafa þar sumar af sínum mikilvægustu olíuhöfnum. Flóinn hefur í gegn um tíðina reynst Rússum afar mikilvægur vegna staðsetningar Sankti Pétursborgar innst í honum. Maurljón. Maurljón (eða sandverpur) (fræðiheiti: "Myrmeleontidae") er skordýr af ættbálki netvængna. Til eru um 600 tegundir maurljóna í hitabelti og heittempruðu beltunum. Lirfur ýmissa tegunda maurljóna grafa trektlaga holur í sand og dyljast á botni þeirra. Þær veiða smáskordýr sem nálgast holuna með því að ausa þau sandi svo þau missa fótfestuna og velta ofan í holuna. Kleitomakkos. Kleitomakkos (á forngrísku: Κλειτόμαχος, 187 f.Kr. – 109 f.Kr.), fæddur Hasdrúbal, var karþóskur heimspekingur sem nam í Aþenu frá 146 f.Kr. undir leiðsögn Karneadesar. Kleitomakkos tók við af Karneadesi sem skólastjóri Akademíunnar árið 129 f.Kr. Hann var efahyggjumaður eins og lærimeistari hans. Ekkert er varðveitt af ritum hans, sem fjölluðu um heimspekileg viðhorf Karneadesar, en Cicero studdist við þau í sumum af ritum ritum sínum og eru þau meðal mikilvægustu heimilda um Kleitomakkos. Æviágrip. Kleitomakkos fæddist í Karþagó árið 187 f.Kr. og hét þá Hasdrúbal. Hann kom til Aþenu þegar hann var um fertugt árið 146 f.Kr. Þar kynntist hann upphafsmanni nýju akademíunnar, heimspekingnum Karneadesi, og gerðist nemandi hans. Kleitomakkos nam þó einnig stóuspeki og kenningar aristótelískra heimspekinga. Árið 129 f.Kr. varð hann skólastjóri Akademíunnar að Karneadesi látnum Hann kenndi áfram í Aþenu að minnsta kosti til ársins 111 f.Kr. því þá mun Crassus hafa hlýtt á hann þar. Fílon frá Larissu tók við stjórn Akademíunnar að Kleitomakkosi látnum. Ritverk. Ekkert er varðveitt nema titlar verka hans sem fylltu um 400 bækur. Helsta markmið hans var að gera grein fyrir heimspekilegum viðhorfum kennara síns, Karneadesar. Cicero mat rit hans mikils og studdist að einhverju marki við þau í ritun ssinna eigin verka, þar á meðal "De Natura", "De Divinatione" og "De Fato". Tvö af ritum Kleitomakkosar voru tileinkuð kunnum Rómverjum, skáldinu Gaiusi Luciliusi og ræðismanninum Luciusi Marciusi Censorinusi og gefur það til kynna að rit hans hafi verið lesin í Róm. Gleðibankinn. Gleðibankinn er dægurlag sem söngflokkurinn ICY flutti í Eurovision þegar Ísland tók þátt í fysta skiptið 1986. Brúðubíllinn. Brúðubíllinn er brúðuleikhús undir stjórn Helgu Steffensen sem hefur aðsetur í sendiferðabíl. Brúðleikhúsið setur upp flestar sýningar sínar í görðum og barnaheimilum á höfuðborgarsvæðinu og víðar á Ísland. Sýningar fara aðallega fram að sumri til. Brúðubíllinn hóf fyrst starfsemi í júní 1980 og hefur starfað síðan þá. Sýningar eru í júní og júlí á hverju ári og hvortveggja mánuðinn eru frumsýnd leikrit. Þekktasta brúðan er Lilli sem var ásamt Helgu umsjónarmaður Stundarinnar okkar á árunum 1987-1994. Stikilsber. Stikilsber (fræðiheiti: "Ribes uva crispa" eða "Ribes grossularia") eru ber af runna sem vex villtur víða í norðanverðri Evrópu og Norður-Ameríku og þrífst ágætlega í görðum hérlendis. Stikilsber hafa þó ekki verið algeng hér hingað til. Stikilsberjarunninn er nokkuð harðgerður og fljótur til á vorin en þarf gott skjól og fremur hlýtt sumarveður til að berin þroskist. Þau þola hins vegar dálítið frost og þykja jafnvel betri fyrir vikið. Greinarnar eru þyrnóttar og runnarnir oft fremur þéttir. Berin eru oftast ljósgræn en geta einnig verið rauðleit og fleiri litbrigði þekkjast. Ber sumra afbrigða eru svolítið hærð. Fuglar sjá þau oftast í friði. Þau eru frekar súr og eru yfirleitt ekki borðuð eins og þau koma fyrir, heldur soðin í sultu eða kryddsultu ("chutney"), notuð í bökur, búðinga o.fl. Skjaldarmerki Finnlands. Skjaldarmerki Finnlands er prýtt gylltu ljóni með kórónu á höfði. Bakgrunnurinn er rauður alsettur níu hvítum rósum. Í stað hægri framlappar hefur ljónið hönd vopnaða sverði. Afturlappirnar standa á sveðju. Skjaldarmerkið varð opinbert árið 1978 en var búið til um árið 1580. Náttúruminjasafn Íslands. Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna Íslands. Hlutverk þess er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Náttúruminjasafnið er afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags, sem stofnað var 16. júlí 1889, en bygging myndarlegs náttúrugripasafns í Reykjavík var eitt helsta markmið stofnenda félagsins, og nú, heilli öld síðar og 20 árum betur, er það enn baráttumál félagsins að þjóðin eignist slíkt safn. Annað afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags er rannsóknastofnunin Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú stofnun hafði umsjón með Náttúrugripasafni Íslands fram til vorsins 2008, en þá var sýningarsölunum tveimur að Hlemmi lokað. Náttúrufræðistofnun Íslands er ekki safn, því hlutverki sinnir Náttúruminjasafnið. Með setningu Safnalaga (lög nr. 106/2001) var tekið skref í þá átt að þjóðin eignist almennilegt safn í náttúrufræðum sem hæfir landi og þjóð. Í lögunum er ríkisstofnunin Náttúruminjasafn Íslands gerð að einu þriggja höfuðsafna landsins. Annað skref var stigið árið 2007 með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands (lög nr. 35/2007) þar sem kveðið er á um hlutverk og skipan í starfsemi stofnunarinnar. Húsnæðismál safnsins. Náttúrugripasafn Íslands breyttist árið 1965 í Náttúrufræðistofnun Íslands. Sýningar voru 1967-2008 í tveimur sölum á jafnmörgum hæðum að Hlemmi 3-5. Safn í eigu Akureyrarbæjar var opið nokkur ár en hefur nú verið lokað í rúman áratug Akureyri. Safninu á Hlemmi var lokað vorið 2008. Umræður um nýtt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun annar vegar og Náttúruminjasafnið hins vegar hafa lengi staðið nokkurn tíma, en safnið er enn á hrakhólum meðan stór hluti safnkostsins er í vörslu Náttúrufræðistofnunar. Umræður voru um það árið 2004 að Náttúrugripasafn Íslands væri vel staðsett í Skagafirðinum, en þær hugmyndir fengu lítið brautargengi. Sama er að segja um aðra staði út um land, enda safninu best fyrir komið í Reykjavík. Árið 1989 var ákveðið að byggja nýtt hús yfir stofnunina í Vatnsmýrinni en árið 2007 var þeirri lóð úthlutað til Listaháskóla Íslands sem fljótlega skipti á lóðinni og annarri lóð við Laugaveg í eigu eignarhaldsfélagsins Samson Properties. 2006 komst safnið enn til umræðu þegar rafmagn var óvart tekið af geymslum sem hýstu safngripi með þeim afleiðingum að 2000 gripir eyðilögðust og í desember sama ár gaf sig heitavatnslögn í húsnæðinu við Hlemm með þeim afleiðingum að heitt vatn flæddi um sýningarrýmið. Eftir það var einn verðmætasti gripur safnsins, uppstoppaður geirfugl, fluttur á Þjóðminjasafn Íslands. 2007 leit loks út fyrir að húsnæðisvandinn myndi leysast þegar samið var við Ístak um byggingu nýs húss í Urriðaholti í Garðabæ. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustungu að húsinu 1. júlí það ár og áætlað var að stofnunin myndi flytja í nýtt húsnæði haustið 2009. Dráttur varð á byggingunni en Náttúrufræðistofnun flutti inn í nýtt húsnæði í október 2010. Náttúruminjasafn Íslands er til húsa að Brynjólfsgötu 5, 107 Reykjavík. Þar er skrifstofuaðstaða en sýningarsali vantar enn. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Tímaritið Náttúrufræðingurinn er félagsrit Náttúrufræðifélagsins Benedikt Gröndal, yngri, fyrsti formaður HÍN. Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) eru íslensk félagasamtök sem stofnuð voru 16. júlí árið 1889. Enskt heiti: The Icelandic Natural History Society. Tilgangur félagsins er að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu sem snertir náttúrufræði og tengdar greinar. Félagið stendur fyrir fræðslufyrirlestrum um náttúrufræðileg efni mánaðarlega, frá október til maí, að jafnaði síðasta mánudag hvers mánaðar. Fræðsluferðir til alhliða náttúruskoðunar eru farnar að sumarlagi. Innganga í félagið er öllum heimil. Hið íslenska náttúrufræðifélag gefur út félagsbréf og dreifir til félagsmanna sinna. Fyrstu formenn félagsins voru Benedikt Gröndal skáld og náttúrufræðingur (1889-1900), Helgi Pjeturss jarðfræðingur og nýalisti (1900-1905) og Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur (1905-1940). Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur gegndi formennsku félagsins 2002-2009 en núverandi formður er Árni Hjartarson, jarðfræðingur. Tímaritið Náttúrufræðingurinn er félagsrit Náttúrufræðifélagsins. Náttúrugripasafn. Einn aðaltilgangurinn með stofnun HÍN var „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi.“ Slíku safni var ætlað að vera landssafn, sem hefði setur sitt í höfuðborg landsins. HÍN stofnaði síðan og rak náttúrugripasafn í 58 ár, á tímabilinu 1889–1947, eða þangað til safnið var afhent ríkinu til eignar og rekstrar, ásamt vænum húsbyggingarsjóði, sem félagið hafði safnað í tímans rás. Náttúrugripasafnið þróaðist síðan í Náttúrufræðistofnun Íslands. Safnið var lengi hluti af stofnuninni og hafði sýningaraðstöðu á Hlemmi. Árið 2007 voru sett ný lög um Náttúruminjasafn Íslands og nú er unnið að því að skapa því viðunandi sess koma upp nýrri sýningaraðstöðu. Af þessu sést að Náttúrufræðistofnunin og Náttúruminjasafnið eru bæði afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags. Heimildir. Ragnhildur Sigrún Björnsdóttir 2007: Vísindin efla alla dáð. Hið íslenzka náttúrufræðisfélag. MA-ritgerð, Háskóli Íslands, 140 bls. St. Louis. Saint Louis er borg í Missouri í Bandaríkjunum. Borgin var stofnuð árið 1763 rétt sunnan við ármót Mississippi- og Missourifljóts. Borgin var nefnd í höfuðið á Lúðvíki níunda Frakklandskonungi. Áætlaður íbúafjöldi St. Louis árið 2008 var 354.361. Racibórz. Raciborz er borg í miðhluta Póllands. Íbúar voru 56.727 árið 2008. So You Think You Can Dance. So You Think You Can Dance ("Danskeppni - stjörnuleit") er bandarískur raunveruleikaþáttur, sem sýndur var á FOX-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum. Þættirnir fóru fyrst í loftið þann 20. júlí 2005 og hefur svipaðan tilgang og American Idol þættirnir, það er að finna næstu stórstjörnur, en hér er verið að leita að stjörnum danslistarinnar. Simon Fuller og Nigel Lythgoe unnu hugmyndavinnuna að þáttunum en þeir eru framleiddur af 19 Entertainment og Dick Clark Productions. Mismunandi keppendur eru valdir í þáttunum, allt frá óþekktum götudönsurum til sigurvegara í alþjóðlegum keppnum. Allir keppendur verða að vinna sig í gegnum langt og strangt ferli og þurfa að geta dansað hina ýmsu stíla, með hinum ýmsu dansfélögum í hverri viku til þess að kanna danssvið þeirra. Þátturinn var sá vinsælasti sumarið 2006 hjá áhorfendum 18-49 ára. Kynnir fyrstu þáttaraðarinnar var Lauren Sánchez en núverandi kynnir þáttanna er hin breska Cat Deeley. Í ágúst 2006 var einnig tilkynnt um það að þættirnir yrði framleiddir á Nýja Sjálandi, í Úkraínu, Tyrklandi, Ísrael, Kanada, Þýskalandi, Grikklandi, Póllandi, Malasíu, Hollandi, Suður Afríku og Ástralíu ásamt nokkrum öðrum löndum. So You Think You Can Dance heldur áheyrnarprfur í stórum borgum í Bandaríkjunum og leitar að bestu dönsurunum í hverri borg. Dansarar á hinum ýmsu sviðum eru hvattir til að koma í prufur. Salsa, samkvæmisdans, hip hop, götudans, nútímadans, jazz, ballet og fleiri gerðir dansara hafa komið í áheyrnarprufur í þáttunum til þess að vinna aðal verðlaunin, bíl, 250.000 dollara í beinhörðum peningum, danshlutverk í sýningu Celine Dion í Las Vegas og titilinn "Vinsælasti dansari Bandaríkjanna" (e. "America's Favorite Dancer"). Í fyrstu fjóru þáttaröðunum hafa sigurvegararnir verið Nick Lazzarini, Benji Schwimmer, Sabra Johnson og Joshua Allen. Þátturinn hefur unnið 3 Emmy verðlaun fyrir framúrskarandi dansspor. Ferlið. Dansarar koma í áheyrnarprufur í von um að fá miða í næstu umferð. Í fyrstu þáttaröðinni var næsta umferð haldin í Hollywood. Síðan í annarri þáttaröð hefur önnur umferðin verið haldin í Las Vegas. Til þess að spara tíma eru flestar prufurnar klipptar út eða styttar. Í fyrstu þáttaröðinni var 50 efstu dönsurunum skipt í hópa, og eyddi hver hópur tíma með fimm mismunandi danshöfundum í viku og á endanum völdu danshöfundarnir efstu 16 dansarana. Í öllum þáttaröðunum eftir þá fyrstu hefur það verið þannig að hver keppandi í Vegas dansar fyrir framan dómarana, sem velja svo topp 20 hópinn, byggt á frammistöðu hvers og eins. Eftir fyrstu þáttaröðina breyttist form þáttarins frá því að dansararnir skiptu um félaga í hverri viku til þess að í topp 20 hópnum höfðu þau sama félaga þangað til að tíu efstu dansararnir voru eftir. Á milli topp 20 og topp 10, kjósa áhorfendur um frammistöðu paranna en ekki einstaklinganna. Þegar topp 10 dansararnir eru eftir draga keppendurnir nafn félagans úr hatti eins og dansinn þá vikuna. Einnig dansar hver keppandi sóló og hafa þá áhorfendur það tækifæri að kjósa einstaklinginn en ekki parið. Í lokaþættinum dansa allir við alla. Báðir karlarnir dansa saman, báðar stelpurnar dansa saman og báðar stelpurnar dansa við báða strákana. Í úrslitum lokaþáttarins velja dómararnir uppáhalds dansinn sinn það haustið og er sá dans endurtekinn (dansinn er auðvitað ekki eftir dómarann sjálfan). Svo eru líka sérstakir gestadansarar og óvæntir atburðir. So You Think You Can Dance hefur verið vinsæll í fimm ár og er sjötta þáttaröðin á leiðinni. Þáttaraðir. † Í fyrstu þáttaröðinni var prósenta keppenda látin fylgja með þegar þau fengu að vita stöðu sína. Í hverri þáttaröð hefur sigurvegarinn aðeins fengið sæti og þess vegna eru sæti keppenda ekki á hreinu og eru keppendurnir í þeirri röð sem þeir voru látnir vita stöðu sína. Í fjórðu þáttaröðinni var Katee Shean valin "Vinsælasti kvenkyns dansari Bandaríkjanna" og leiddi það í ljós að hún fékk fleiri atkvæði en Courtney Galiano. Fyrsta þáttaröð. Kynnir fyrstu þáttaraðarinnar var Lauren Sanchez. Úrslitaþátturinn var sýndur 5. október 2005. Sigurvegarinn var Nick Lazzarini, sem fékk yfir 37,6 % atkvæða. Lazzarini vann 100.000 dali og afnot af íbúð rétt hjá Central Park í New York í eitt ár. Melody Lacayanga var í öðru sæti. Önnur þáttaröð. Þátturinn fór af stað 12. maí 2005 og voru áhorfendur leiddir í gegnum áheyrnarprufurnar. Cat Deeley varð nýr kynnir. Efstu 20 dansararnir voru kynntir þann 8. júní og var sigurvegarinn Benji Schwimmer útnefndur "Vinsælasti dansari Bandaríkjanna" 16. ágúst 2006 eftir 16 milljónir atkvæða á úrslitakvöldinu. Travis Wall var í öðru sæti. Schwimmer komst næstum því ekki í topp 20 hópinn og var hann fyrsti vara-dansarinn inn í hópinn ef að einhver karlkynsdansaranna myndi detta út. Það gerðist, annað árið í röð, þegar Hokuto „Hok“ Konishi gat ekki haldið áfram keppni vegna þess að hann gat ekki fengið landvistarleyfið sitt framlengt svo að hann gæti tekið þátt. Schwimmer kom í staðinn og hélt áfram að heilla dómarana jafnt sem áhorfendur og vann þar með keppnina. Það voru nokkrar breytingar frá árinu áður. Nýjum dansstílum var bætt við og var verðlaunaféð hækkað úr 100.000 dölum í 250.000 dali og einnig var bætt við nýjum bíl og eins árs danshlutverki í sýningu Celine Dion í Las Vegas. Þriðja þáttaröð. Opnar áheyrnarprufur fyrir þriðju þáttaröð byrjuðu snemma í október 2005 og voru haldnar prufur í New York, Chicago, Los Angeles og Atlanta. Eins og í fyrri þáttaröð voru þeir góðu sendir til Las Vegas. Upptökur frá áheyrnarprufunum voru sýndar á FOX-sjónvarpsstöðinni 24. maí 2007. Cat Deeley sneri aftur sem kynnir og Nigel Lythgoe sneri aftur sem fastur dómari. Samkvæmisdrottningin Mary Murphy settist svo við hlið Nigels sem fastur dómari í fyrsta skipti. Peningaverðlaunin voru hækkuð upp í 250.000 dollara. Í lokaþætti seríunnar (16. ágúst 2007) var tilkynnt að þættirnir myndu snúa aftur fjórða árið í röð. Sabra Johnson stóð uppi sem sigurvegari en Danny Tidwell lenti í öðru sæti. Fjórða þáttaröð. Áheyrnarprufur fyrir þáttaröðina byrjuðu í Texas 17. janúar og voru haldnar á sex stöðum til viðbótar út mars 2008. Þátturinn sneri aftur með tveggja klukkustunda byrjunarþátt þann 22. maí 2008. Cat Deeley var áfram kynnir og dómararnir voru líkt og áður Nigel Lythgoe og Mary Murphy. Þessi þáttaröð tók inn nýja dansstíla, meðal annars Bollywood og nýja danshöfunda, meðal annars hip hop tvíeykið Tabithu og Napolepn D'umo. Vinningsféð var aftur 250.000 dollarar, titillinn "Vinsælasti dansari Bandaríkjanna" og tilboð í hlutverk í Step Up 3D. Í lokaþættinum var Joshua Allen krýndur sigurvegari, á meðan Katee Shean vann 50.000 dollara þegar hún var kosin "Vinsælasti kvendansari Bandaríkjanna". Fimmta þáttaröð. Áheyrnarprufurnar fóru af stað í New York 13. nóvember 2008 og héldu áfram til Miami, Los Angeles, Denver, Memphis og Seattle. Fyrsti þátturinn fór í loftið 21. maí 2009. Louis van Amstel gekk til liðs við danshöfunda þáttarins og Shane Sparks sneri aftur sem danshöfundur á meðan hann er í pásu frá "America's Best Dance Crew". Verðlaunin voru áfram 250.000 dollarar og titillinn "Vinsælasti dansari Bandaríkjanna". Sjötta þáttaröð. FOX hefur tilkynnt um að það verði sjötta þáttaröð af dansi, sem fer í loftið miðvikudaginn 9.september 2009 (í Bandaríkjunum). Áheyrnarprufur voru haldnar í Boston, Atlanta, Los Angeles, New Orleans, Phoenix og Salt Lake City. Emmy Verðlaun. † Wade Robson og Mia Michaels deildu sigrinu með Rob Marshall og John Deluca. ‡ Handhafar verðlaunanna verða tilkynntir 20.september 2009. Engel Lund. Engel Lund (14. júlí 1900 – 15. júní 1996) var dönsk-íslensk söngkona og var þekkt sem þjóðlagasöngkona víða um heim. Hún var einnig þekktur tónlistarkennari í Reykjavík eftir 1960. Hún var af dönskum ættum en fæddist á Íslandi og ólst hér upp til ellefu ára aldurs. Engel Lund var oft nefnd Gagga. Foreldrar hennar voru "Michael Lars Lund", lyfsali í Reykjavíkurapóteki, og kona hans, "Emilie Marie Magdalene Hansen". Hún lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1919 og lagði síðan stund á söngnám í Kaupmannahöfn, París og Þýskalandi. Frá árinu 1933 var hún á nær stanslausum tónleikaferðalögum, en hún settist að í London í síðari heimsstytjöldinni og starfaði lengi þar. Hún var þekkt sem þjóðlagasöngkona víða um heim og hafði það fyrir sið að ljúka öllum tónleikum á íslensku þjóðlagi og oftast varð lagið "Litlu börnin leika sér" fyrir valinu. Engel fluttist aftur til íslands þegar hún hætti að syngja opinberlega árið 1960. Hún var lengi kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og kenndi nemendum sínum heima við fram undir nírætt. Árið 1960 gaf hún út plötu og bók um íslensk þjóðlög og skýringar við þau. Einnig má nefna að Sigurður Nordal skrifaði um hana þekkta grein sem hann kallaði "Litla stúlkan í apótekinu" í sambandi við fyrstu tónleikaferð hennar á íslandi, en greinin birtist upphaflega í tímaritinu Unga Ísland árið 1947 og síðan í Félagsbréfum Almenna bókafélagsins 1961 og í Morgunblaðinu 1980. Engel Lund var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu m.a. fyrir kennslustörf og þátt sinn í að kynna íslensk þjóðlög á erlendri grund. Engel var ógift og barnlaus en hún átti marga vini og velunnara á Íslandi. So You Think You Can Dance (5. þáttaröð). So You Think You Can Dance er bandarískur raunveruleikaþáttur og danskeppni og er þátturinn sýndur á FOX-sjónvarpsstöðinni. Fimmta þáttaröðin fór í loftið 21. maí 2009 og sneru Nigel Lythgoe og Mary Murphy aftur sem fastir dómarar og Cat Deeley var áfram kynnir. Jeanine Mason var krýnd sigurvegari keppninngar þann 6. ágúst (þáttur sýndur 31. ágúst á Íslandi) og er hún önnur konan sem sigrar keppnina. Útsláttartafla. Keppendunum er raðað í þá röð sem þeir detta út. Lagið fyrir kvenkyns keppendur sem detta út er "Already Gone" með Kelly Clarkson. Lagið fyrir karlkyns keppendurna sem detta út er "On Your Own" með Green River Ordinance. Fyrsta vika (10. júní 2009)v. "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Adam Shankman Önnur vika (17. júní 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Lil' C Þriðja vika (24. júní 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Toni Basil Fjórða vika (1. júlí 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Mia Michaels Fimmta vika (8. júlí 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Tyce Diorio Sjötta vika (15. júlí 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Debbie Allen Sjöunda vika (22. júlí 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Mia Michaels, Ellen DeGeneres Áttunda vika (29. júlí 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Lil' C Níunda vika (5. ágúst 2009). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Adam Shankman Leysnitafla. Leysnitafla er tafla yfir jónir sem segir til um hvort botnfall myndist við blöndun þeirra við aðrar jónir eða hvort þær haldist uppleystar. Eftirfarandi tafla sýnir leysanleika mismunandi efnablanda við þrýstinginn 1 atm og við stofuhita (um 293,15 K). Hver sá reitur sem merktur er „auðleyst“ táknar að út komi vatnslausn. Sé reiturinn merktur „smá auðleyst“ eða „torleyst“ myndast botnfall við blöndun jónanna (oftast í föstu formi). Reitir merktir „annað“ geta þýtt að útkoma blöndunar gæti orðið mismunandi. Fengrani. Fengrani (fræðiheiti: "Silurus glanis") er af fengranaætt. Fengrani er stærsti vatnafiskur Evrópu. Fengrani getur orðið allt að 4,5 metra langur og 300 kíló að þyngd. Hann finnst í ám og vötnum norður Evrópu, en mest í Mið-Evrópu og Vestur-Asíu. Hann nærist einkum á fiski, froskum og smáfuglum og litlum spendýrum. Murr ehf. Murr ehf er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir kattamat úr innlendum hráefnum. Fyrirtækið var stofnað vorið 2008 á Súðavík. OS/2. OS/2 er stýrikerfi fyrir x86 og AMD64 samhæfðar einkatölvur, upprunalega hannað í samvinnu IBM og Microsoft. Fyrsta útgáfa þess var sett á markaðinn 1987 og studdi 80286 og stærri örgjafa. Útgáfa 2 og nýrri voru þróaðar af IBM einu og styðja 80386 og stærri örgjafa. IBM hætti þróun kerfisins árið 2007 en bandaríska fyrirtækið Serenity Systems tók við og heitir það nú eComStation OS/2 var fyrsta stýrikerfið sem að var þýtt á Íslensku, en IBM á Íslandi réð Orðabók Háskólans til verksins, var sú þýðing notuð sem grunnur er Finder var þýddur á Íslensku nokkrum árum seinna. IBM á Íslandi. IBM á Íslandi var íslenskt útibú bandaríska tölvurisans IBM. Fyrirtækið var stofnað fyrsta maí 1967 og var Ottó A. Michelsen forstjóri þess frá upphafi til ársins 1982. IBM á Íslandi var lagt niður 1992 og rekstur þess tekin yfir af Nýherja Kasia Struss. Kasia Struss (fædd Katarzyna Strusińska, 23. nóvember 1987 í Ciechanów) er pólsk fyrirsæta. Struss, Kasia Ceedata. Ceedata Ltd. var breskur tölvuframleiðandi staðsettur í East Molesey, Surrey sem framleiddi einkatölvur og fjölnotendatölvur í ódýrari kantinum. Fyrirtækið var stofnsett á seinni hluta áttunda áratugsins og framleiddi tölvubúnað byggðan í kring um Zilog Z80 örgjafann sem notaðist við M stýrikerfið en þó meira við M fjölnotendakerfið, en seinna meir bauð Ceedata einnig uppá búnað byggðan á Intel 8088. Fyrirtækið lagðist niður um miðjan níunda áratuginn. Atari. Atari Inc var bandarískt fyrirtæki stofnað af Nolan Bushnell árið 1972 og var það fyrsti framleiðandi leikjatölva í heiminum. Atari var selt Warner Communications árið 1976 og 1984 var hugbúnaðar og spilakassadeildir fyrirtækisins tekinar út og stofnað nýtt fyrirtæki í kring um þær kallað Atari Games sem var síðan selt Namco ári seinna. Aðalreksturinn var hinnsvegar seldur Idek Tramielski (eða Jack Tramiel) að mestu leiti og var fyrirtækið endurnefnt Atari Corp. Atari Corp var lagt niður 1996 og eignir fyrirtækisins teknar yfir af JTS, vörumerkið Atari hefur verið í eigu ýmsa tölvuleikjaframleiðenda síðan þá. So You Think You Can Dance (1. þáttaröð). So You Think You Can Dance er bandarískur raunveruleikaþáttur og danskeppni og er þátturinn sýndur á FOX-sjónvarpsstöðinni. Fyrsta þáttaröðin fór af stað 20. júlí 2005. Nick Lazzarini var krýndur sigurvegari þann 5. október 2005 í úrslitaþættinum og fékk að launum 100.000 dollara og afnot af íbúð í New York í eitt ár. Áheyrnarprufur. Opnar áheyrnarprufur fyrir "Vinsælasta dansara Bandaríkjanna" fóru fram í Chicago, New York og Los Angeles. Alls voru 50 dansarar, 25 karlar og 25 konur sem heilluðu dómarana og var þeim hleypt áfram í næstu umferð, sem var "Hollywood Vikan", þar sem kraftar þeirra og hæfni voru könnuð af danshöfundunum Alex Da Silva, Brian Friedman, Dan Karaty, Miu Michaels og Mary Murphy. Útsláttartafla. Keppendur eru í þeirri röð sem þeir duttu úr keppni. Frammistöður. Frammistöður keppenda voru alltaf dæmdar af Nigel Lythgoe ásamt öðrum dómurum sem voru gestadómarar í þáttunum: Brian Friedman, Dan Karaty, Mia Michaels og Mary Murphy. Í þeim vikum sem þau voru ekki dómarar áttu þau dansa í þættinum. Disklingur. Disklingur er diskur húðaður segulnæmu efni sem að er notaður sem handbær geymsla tölvugagna, diskurinn er hýstur í plasthlíf til að vernda yfirborð disksins fyrir fingraförum, disklingurinn er notaður með disklingadrifi sem að les og skrifar á disklinginn. Fyrstu disklingarnir voru settir á markað árið 1971 af IBM en þeir voru þróaður upp úr hljóðritunardiski sem að IBM seldi á sínum tíma, diskarnir fengu enska heitið "floppy" þar sem hljóðritunardiskarnir voru úr örþunnu PVC og ekki hafðir í hlífðarhulstri, nafnið hélst á stafrænu útgáfunni. Sony 90mm disklingur framleiddur af Mitshubishi Almenningur notaði disketturnar sérstaklega til þess að deila upplýsingum og einnig til þess að eiga afrit af tölvugögnum sínum. Framfarir á þessu sviði voru ekki miklar fyrstu þrjá áratugina eða svo nema þá hvað varðar stærðir á diskettunum. Disklingar eru ennþá notaðir í tölvugeiranum einkanlega í iðntölvum og þar sem að þarf að halda við eldri tölvukerfum en er að öðru leiti úrelt tækni sem að hefur vikið fyrir geisladiskum og ýmsum USB gagnageymslum. Fræbbblarnir. Fræbbblarnir er íslensk pönkhljómsveit úr Kópavogi sem að var stofnuð árið 1978 af nokkrum nemendum úr MK. Sveitin var dugleg að spila á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum og náði að gefa út nokkrar breið- og smáskífur áður en hún var lögð niður árið 1983. Fræbbblarnir komu aftur saman árið 1996 og hafa spilað reglulega síðan auk þess að hafa gefið út tvo geisladiska með nýu og gömlu efni. Z80. T34BM1 - Rússnesk eftirlíking af Z80Z80 er 8 bita örgjörvi sem að er framleiddur af bandaríska fyrirtækinu Zilog. Z80 var hannaður af Masatoshi Shima og Federico Faggin sem voru aðalhönnuðir 4004, 8008 og 8080 örgjörvanna fyrir Intel og má líta á hann sem öflugri útgáfu af 8080. Fyrsta útfærslan var sett á markað árið 1976 og hefur verið í framleiðslu alla tíð síðan, en Z80 var vinsælasti örgjörvi til notkunar í einkatölvum frá 1976 til 1984 og er ennþá notaður í iðntölvum. Þó að M stýrikerfið hafi upprunalega verið hannað fyrir 8080 voru langflestar vélar sem keyrðu það kerfi byggðar í kring um þennan örgjörva. Auk þess að vera mest seldi örgjörvi allra tíma er Z80 einnig sá er hefur komið út í flestum útgáfum en yfir 100 framleiðendur hafa komið fram með útfærslu af honum, flestar með leyfi frá Zilog veksmiðjunni en mýgrútur af verksmiðum í Austur-Evrópu, Suður-Ameríku og Asíu framleiddu einnig eftirlíkingar. Útvíkkaði rauntalnaásinn. Útvíkkaði rauntalnaásinn eða -talnalínan er talnalína rauntalna formula_1 ásamt tveimur stökum, sem ekki eru tölur, þ.e. "plús óendanlegt" (formula_2) og "mínus óendanlegt" (formula_3), táknuð með formula_4. Nauðsynlegt er að nota útvíkkuðu talnalínuna þegar reiknað er með stærðum, sem geta orðið ótakmarkaðar, t.d. í örsmæðareikningi og líkindafræði. Skilgreining. formula_5 Kraftwerk. Kraftwerk á tónleikum í Stokkhólmi 8. febrúar 2004 Kraftwerk er þýsk hljómsveit stofnuð árið 1970 af Ralf Hütter og Florian Schneider-Esleben en þeir höfðu áður unnið saman í hljómsveitinni Organisation. Margliðudeiling. Margliðudeiling er stærðfræðileg aðferð til að "deila" einni margliðu í aðra. Þannig fæst margliða af sama stigi, eða lægra en margliðan í teljara ásamt ræðu falli. Dæmi. Ef q("x") er fasti, þ.e. "núllta stigs margliða", þá breytist stig margliðu p"(x") ekki, aðeins stuðlarnir, en r("x") verður núllmargliða. Andrésína Önd. Andrésína Önd er teiknimyndapersóna sem Walt Disney skapaði og er kærasta Andrésar Andar. Hún kom fyrst fram í teiknimyndinni Mr. Duck Steps Out árið 1940. Hún er skapmikil eins og Andrés en hefur oftast betri stjórn á skapi sínu. Fyrsta kærasta Andrésar hét Donna Önd og kom fram í stuttri teiknimynd árið 1937 en ekkert framhald varð á því sambandi og það liðu þrjú ár áður en Andrésína kom til sögunnar. Oft er þó talið að Andrésína sé ný útfærsla á Donnu og þá miðað við að Andrésína eigi rætur að rekja aftur til 1937. Ekki er ljóst hvort Andrés og Andrésína eru skyld eða hvort það er tilviljun að þau bera sama nafn. Þau eru hins vegar tengd í gegnum þríburana Ripp, Rapp og Rupp en þeir eru synir bróður Andrésínu og systur Andrésar. Þríburarnir Mjöll, Drífa og Fönn eru aftur á móti systurdætur Andrésínu. Í sumum sögum búa þær hjá henni en í öðrum eru þær aðeins í heimsókn. Þótt Andrésína og Andrés séu einhvers konar par eru þau ekki trúlofuð og í mörgum sögum keppir Hábeinn Heppni við Andrés um hylli Andrésínu. Kíví. Kíví (einnig nefnt kívíávöxtur eða loðber) er ber sem vex á vínviðartegundunum Actinidia deliciosa og Actinidia chinensis. Loðber eiga uppruna sinn í suðurhluta Kína en eru oft tengd við Nýja Sjáland sökum þess að Actinidia chinensis var flutt þangað í byrjun tuttugustu aldar og þar ræktað nýtt afbrigði kallað Actinidia deliciosa sem gaf af sér eilítið stærri ber. Frá Nýja Sjálandi voru loðber síðan flutt til vesturlanda á sjötta áratug síðustu aldar og þá undir nöfnunum "melonette" og síðar sem "Kiwifruit", en það seinna var upprunalega vörumerki sem auka átti sölu. En upphaflega nefndist kívíávöxturinn "kínverskt stikilsber" (en: Chinese gooseberry) sem hefur oftast verið misþýtt sem kínverskt gæsaber á íslensku, en gooseberry er stikilsber. Ígulber. Ígulber (eða rambutan) (fræðiheiti: "Nephelium lappaceum") er venjulega haft um loðin aldin trjáa af sápuberjaætt. Ígulberjatrén vaxa í suðaustanverðir Asíu. Aldin trjánna, ígulberin, eru skærrauð og alsett kræklóttum öngum. Aldinkjötið er hvítt, sætt og safaríkt og inni í því er harður kjarni (fræið) sem er óætt. Ígulber eru skyld litkaberjum ("Lychee") enda ekki ósvipuð útlits. Willem Buiter. Willem Hendrik Buiter (fæddur 26. september 1949 í Haag) er hollenskur hagfræðingur. Í apríl 2008 skrifaði hann skýrslu um stöðu bankanna fyrir Landsbankann, ásamt eiginkonu sinni Anne Sibert. Um miðjan júlí sama ár var skýrslan uppfærð og kynnt íslensku ríkisstjórninni. Innan ríkisstjórnarinnar var þó komist að þeirri niðurstöðu að skýrslan gæti haft of neikvæð áhrif á markaðinn, þannig að ákveðið var að stinga henni undir stól. Tenglar. Buiter, Willem Þórir dúfunef. Dúfunefsfell á Kili er sagt kennt við Þóri dúfunef, sem á að hafa hleypt Flugu þar í kapp við Örn nokkurn, en Fluga var svo miklu fljótari en hestur Arnar að Þórir sneri henni og mætti Erni á miðju skeiði. Hryssan Fluga var móðir góðhestsins Eiðfaxa, sem fluttur var til Noregs og varð þar sjö manna bani á einum degi. Fluga týndist í feni á Flugumýri og er bærinn sagður kenndur við hana. Hjálmólfur (landnámsmaður). Hjálmólfur var landnámsmaður í Skagafirði og er sagður hafa numið land ofan um Blönduhlíð en landnámi hans er ekki nánar lýst í Landnámabók. Af því sem sagt er um takmörk næstu landnáma sést þó að hann hefur numið land frá Djúpadalsá suður til Bóluár. Landámsjörðin er ekki þekkt en þess hefur verið getið til að hann hafi búið á Úlfsstöðum. Kollsveinn rammi. Kollsveinn rammi var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land á milli Gljúfurár í Viðvíkursveit og Þverár í Blönduhlíð. Landnámsjörð hans nefndist Kollsveinsstaðir samkvæmt Landnámabók en sá bær er ekki lengur til og óvíst hvar hann var. Landnáma segir að hann hafi haft blót á Hofsstöðum. Gunnólfur (landnámsmaður). Gunnólfur var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land norðan frá Þverá í Blönduhlíð suður til Glóðafeykisár (nú Hvammsár). Landnámabók segir að hann hafi búið í Hvammi en í landáminu eru tveir bæir með því nafni, Hjaltastaðahvammur og Flugumýrarhvammur. Tungu-Kári. Tungu-Kári var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam Norðurárdalinn sunnanverðan og Kjálka fram að Stekkjarflötum og bjó í Flatatungu. Eftir því sem Landnáma segir bjuggu afkomendur hans á Silfrastöðum. Önundur vís. Önundur vís(s) var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land í Austurdal, fyrst dalinn austanverðan frá Merkigili en síðan segir Landnámabók að hann hafi, þegar hann varð þess áskynja að Eiríkur Hróaldsson í Goðdölum ætlaði að fara og helga sér vesturhluta dalsins, flýtt sér að skjóta logandi ör yfir Austari-Jökulsá og helgað sér þannig vestanverðan Austurdal með eldi. Landnáma segir að hann hafi búið „milli á“ og er talið að Ábær hafi verið landnámsjörð hans. Hávarður hegri. Hávarður hegri var landnámsmaður í Skagafirði. Hann er raunar ekki talinn upp meðal landnámsmanna í Landnámabók en þar er heldur ekkert sagt frá því hver nam land í Hegranesi. Þar segir aftur á móti frá því að er Kráku-Hreiðar Ófeigsson braut skip sitt við Borgarsand kom Hávarður hegri til hans og bauð honum til sín og var Hreiðar um veturinn í Hegranesi. Af þessu er ljóst að Hávarður hefur verið landnámsmaður þar en ekki er vitað hver landnámsjörðin var. Kjálki (Skagafirði). Kjálki er lítið byggðarlag í Skagafirði og tilheyrir Akrahreppi. Kjálki nær frá Norðurá og inn með Héraðsvötnum að Grjótárgili, sem er á landamerkjum jarðanna Keldulands á Kjálka og Stekkjarflata í Austurdal. Nú (2009) eru tveir bæir í byggð á Kjálka, Kelduland og Flatatunga. Blönduhlíð. Blönduhlíð er byggðarlag í austanverðum Skagafirði og tilheyrir Akrahreppi. Sveitin liggur meðfram Héraðsvötnum og nær sunnan frá Bóluá og norður að Kyrfisá en þar tekur Sveitarfélagið Skagafjörður við. Flestir bæir í Akrahreppi sem nú eru í byggð tilheyra Blönduhlíð. Vallhólmur. Vallhólmur er flatlendisflæmi í Skagafirði miðjum, myndað af framburði Héraðsvatna en reyndar líka gamall hafsbotn, og afmarkast að mestu af Héraðsvötnum að austan og Húseyjarkvísl og síðan Vindheimamelum að vestan. Norðan við Hólminn tekur Eylendið við en það nafn er reyndar stundum látið ná yfir hann líka. Hólmurinn er marflatur og sléttur svo að þar sést varla þúfa að undanskildum tveimur hæðum sem rísa upp af sléttunni, Skiphóli og Vallholti. Utan í Vallholti eru tveir samnefndir bæir, Syðra- og Ytra-Vallholt, og þar skammt frá var Vallalaug, sem oft er nefnd í Sturlungu og öðrum fornum heimildum. Af öðrum bæjum í Hólminum má nefna Velli og Löngumýri. Fáeinir bæir í austanverðum Vallhólmi, sem nú eru í eyði, tilheyra Akrahreppi og bendir það til þess að Héraðsvötn hafi áður runnið vestar en nú, a.m.k. á kafla. Vallhólmur eða Hólmurinn er grösugur og þar var um árabil starfrækt graskögglaverksmiðja sem nú hefur hætt starfsemi. Hólmurinn þykir líka afbragðsgóður skeiðvöllur og þar hefur jafnan verið mikið um hesta. Flugumýri. Flugumýri er bær og kirkjustaður í Blönduhlíð í Skagafirði, við rætur Glóðafeykis, höfuðból að fornu og nýju. Bærinn er landnámsjörð Þóris dúfunefs og er samkvæmt því sem segir í Landnámabók kenndur við hryssuna Flugu, mikið góðhross sem Þórir átti. Saga. Á Flugumýri hefur jafnan verið stórbýli og þar hafa ýmsir höfðingjar búið. Á Sturlungaöld var Flugumýri eitt af höfuðbólum Ásbirninga og þar bjó Kolbeinn ungi Arnórsson frá 1233 til dauðadags 1245. Ekkja hans gaf biskupsstólnum á Hólum jörðina en Gissur Þorvaldsson keypti hana af stólnum, settist þar að vorið 1253 og byggði þar upp stóran bæ. Hann naut hans þó ekki lengi því að 22. október um haustið, eftir brúðkaupsveislu Halls sonar Gissurar og Ingibjargar Sturludóttur, komu óvinir Gissurar að Flugumýri og reyndu að brenna hann inni. Flugumýrarbrenna er vafalaust þekktasti atburðurinn í sögu Flugumýrar. Árið 1360 eignaðist Hólastóll jörðina aftur þegar Jón skalli Eiríksson biskup keypti hana og var hún í eigu stólsins upp frá því, allt þar til hann var lagður niður um aldamótin 1800 og stóljarðir seldar. Á fyrri öldum voru prestastefnur í Hólabiskupsdæmi oftast haldnar á Flugumýri. Bærinn var læknissetur á fyrri hluta 19. aldar, þegar Ari Arason fjórðungslæknir bjó þar. Kvennaskóli Skagfirðinga var á Flugumýri 1880-1882 en þá var hann lagður niður. Nú er stórt hrossabú á Flugumýri og þar er einnig rekin ferðaþjónusta. Staðhættir. "Virkishóll" er fyrir ofan bæinn á Flugumýri, upp við Glóðafeyki, og eru þar fornminjar sem kunna að vera rústir af virki, líklega frá tíma Sturlunga. Þær eru friðlýstar. Inn með fjallinu gengur dalur sem heitir Flugumýrardalur að sunnan, en Hvammsdalur að vestan. Áin sem um hann rennur heitir nú Hvammsá en hét áður Glóðafeykisá. Þverdalur sem heitir Ranghali skerst úr dalnum til norðausturs og er um hann gömul gönguleið yfir í Hjaltadal. Flugumýrarkirkja. Kirkja hefur verið á Flugumýri frá fornu fari og er hennar fyrst getið í Sturlungu, þegar sagt er frá Flugumýrarbrennu, en þá var Gissur Þorvaldsson studdur í kirkjuna og hjúkrað þar eftir að hann kom upp úr sýrukerinu. Hallur sonur hans var líka borinn þangað með banvæn sár og dó hann í kirkjunni. Kirkjan á Flugmýri var helguð Pétri postula. Núverandi kirkja var reist 1929-1930. Henni er þjónað frá Miklabæ. Flugumýrarbrenna. Flugumýrarbrenna 22. október 1253 var einn af stórviðburðum Sturlungaaldar. Gissur Þorvaldsson, Haukdælingur og einn helsti fjandmaður Sturlunga, fluttist norður í Skagafjörð vorið 1253 og settist að á Flugumýri í Blönduhlíð. Hann vildi sættast við Sturlunga og hluti af þeirri sáttagerð var gifting Halls, elsta sonar Gissurar og konu hans, Gróu Álfsdóttur, og Ingibjargar, 13 ára dóttur Sturlu Þórðarsonar af ætt Sturlunga. Var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri um haustið með mikilli viðhöfn. Ekki voru þó allir Sturlungar sáttir við þetta og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson, tengdasonur Sturlu Sighvatssonar, safnaði liði í Eyjafirði, fór með á fimmta tug vel vopnaðra manna yfir Öxnadalsheiði og var kominn að Flugumýri seint að kvöldi 21. október, þegar flestir voru gengnir til náða. Réðust þeir til inngöngu en varð lítið ágengt og þegar Eyjólfur ofsi sá um nóttina að hætt var við að menn úr héraðinu kæmu til liðs við Gissur og menn hans brá hann á það ráð að kveikja í húsunum. 25 manns fórust í eldinum, þar á meðal Gróa kona Gissurar og synir hans þrír, en Gissur sjálfur bjargaðist með því að leynast í sýrukeri í búrinu. Ingibjörg Sturludóttir bjargaðist einnig úr eldinum. Skáldsagan Ofsi eftir Einar Kárason er byggð á frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu. Haugsnesbardagi. Herfylkingarnar táknaðar með steinhnullungum. Her Ásbirninga til vinstri býr sig til að taka á móti Sturlungum úr suðri en þeir birtast skyndilega úr austurátt. Krossarnir á sumum steinanna tákna þá sem féllu í bardaganum. Haugsnesbardagi, 19. apríl 1246, var ein af stórorrustum Sturlungaaldar og mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Þar börðust Sturlungar (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar og Ásbirningar (Skagfirðingar), sem Brandur Kolbeinsson stýrði. Hann hafði á sjötta hundrað manna í sínu liði en Þórður kakali nærri fimm hundruð og voru það því yfir þúsund manns sem þarna börðust og tíundi hver féll, eða yfir eitt hundrað manns. Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar. Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og gátu komið Skagfirðingum að óvörum, svo að þeir voru illa viðbúnir. Þórður kakali hafði líka komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta með sér. Margir þeirra sem féllu voru drepnir á flótta, þar á meðal Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga. Hann var höggvinn á grundinni fyrir ofan Syðstu-Grund og var þar síðan reistur róðukross og nefndist jörðin Syðsta-Grund eftir það Róðugrund í margar aldir. Sumarið 2009 var kross endurreistur á Róðugrund til minningar um bardagann og var hann vígður 15. ágúst 2009. Miklibær í Blönduhlíð. Miklibær er kirkjustaður og prestssetur í Blönduhlíð í Skagafirði. Elsta heimild um kirkju á Miklabæ er frá 1234, en í Sturlungu segir frá því að þá lét Kolbeinn ungi vega þar Kálf Guttormsson og Guttorm son hans. Miklibær kom töluvert við sögu á Sturlungaöld, einkum í Örlygsstaðabardaga. Þar gisti Sturla Sighvatsson með hluta af liði sínu nóttina fyrir bardagann og þangað flúðu bræður hans, Kolbeinn og Þórður, og leituðu griða í kirkjunni en neyddust að lokum til að koma út og voru þá teknir og höggnir ásamt fleirum. Þekktasti prestur sem verið hefur á Miklabæ er án efa Oddur Gíslason, (1740-1786), sem varð prestur þar 1768. Hann tók sér ráðskonu sem Solveig hét og varð hún ástfangin af honum en hann vildi hana ekki og eftir að hann kvæntist annarri konu 1777 varð Solveig sinnisveik og reyndi hvað eftir annað að fremja sjálfsmorð. Það tókst henni að lokum 11. apríl 1778, er hún skar sig á háls. Hún var jarðsett utan kirkjugarðs eins og þá var gert við þá sem förguðu sér sjálfir. Sagt var að hún gengi aftur. Nokkrum árum seinna, þann 1. október 1786, fór séra Oddur til messugjörðar á Silfrastöðum en skilaði sér aldrei aftur úr þeirri ferð. Miklar þjóðsögur urðu til um hvarf séra Odds og var sagt að Solveig hefði dregið hann og jafnvel hestinn einnig ofan í gröf sína en raunar fannst hesturinn strax morguninn eftir og í bréfi sem skrifað er 1789 kemur fram að lík séra Odds hafði fundist þá um vorið í læknum Gegni fyrir neðan bæinn. Núverandi kirkja á Miklabæ var reist árið 1973 eftir að eldri kirkja brann. Í kirkjugarðinum á Miklabæ er leiði Bólu-Hjálmars Jónssonar og Guðnýjar konu hans. Gottskálk Þorvaldsson (1741-1806), faðir Bertels Thorvaldsen myndhöggvara, var prestssonur frá Miklabæ. Stóru-Akrar. Gamli bærinn á Stóru-Ökrum, að hluta til frá tíma Skúla Magnússonar. Stóru-Akrar eða Akrar er bær í miðri Blönduhlíð í Skagafirði og höfðingjasetur fyrr á öldum. Bæir standa þétt í nágrenni Stóru-Akra og kallast þar Akratorfa. Á Stóru-Ökrum bjó Björn prestur Brynjólfsson á fyrri hluta 14. aldar og afkomendur hans um langan aldur. Sonur Björns var Brynjólfur ríki Björnsson (d. 1381) og síðan Björn sonur hans (d. um 1403). Dóttir hans var Sigríður, sem giftist seinni manni sínum, Þorsteini Ólafssyni lögmanni í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi 1408 en vitnisburður um brúðkaupið er síðasta örugga heimild um búsetu norrænna manna þar. Einkadóttir þeirra var kölluð Akra-Kristín. Hún var fyrst gift Helga Guðnasyni lögmanni en síðar Torfa Arasyni hirðstjóra. Dóttir hennar og Helga var Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum. Dætur Ingveldar og Þorleifs, Guðný og Helga, eignuðust Akra eftir foreldra sína og bjó Guðný, sem kölluð var Akra-Guðný, lengi á jörðinni með manni sínum, Grími Jónssyni lögmanni. Hinn hlutann eignaðist Gunnar Gíslason á Víðivöllum. Dóttir hans var Solveig kvennablómi, kona Arngríms lærða, og virðist Arngrímur hafa búið þar um tíma og seinna Jón sonur hans. Hann seldi Eggert Jónssyni jörðina árið 1630 og bjuggu afkomendur hans þar þangað til 1743, þegar hún var seld Skúla Magnússyni,, sýslumanni Skagfirðinga og síðar landfógeta. Hann byggði þar á árunum 1743-1745 myndarlegan torfbæ sem búið var í til 1938 og stendur enn að hluta. Hann er undir umsjá Þjóðminjasafns Íslands og hefur verið endurgerður. Kirkja var á Stóru-Ökrum frá því snemma á öldum en hún var lögð niður með konungsbréfi 1765. Héðinsminni er félagsheimili Akrahrepps og er á Stóru-Ökrum. Húsið var byggt á árunum 1919-1921 og vígt 13. júní 1921. Það var reist fyrir fé sem Símon Eiríksson bóndi í Litladal gaf í minningu sonar síns, Skarphéðins Símonarsonar, sem drukknaði í Héraðsvötnum við Grundarstokk 15. nóvember 1914. Húsið var upphaflega nefnt "Héðinshöll" en þó venjulega kallað "Þinghúsið". Á árunum 1960-1961 var það endurbætt mjög mikið og stækkað og hlaut þá nafnið Héðinsminni. Um 1990 var húsið enn stækkað og endurbætt. Þar var skóli hreppsins um áratuga skeið, allt þar til hann var lagður niður árið 2006. Þórðarhöfði. Þórðarhöfði á Höfðaströnd er 202 m hár klettahöfði sem gengur út í austanverðan Skagafjörð, rétt norðan við Hofsós, og setur mikinn svip á umhverfi sitt. Til að sjá virðist höfðinn vera eyja en hann er landfastur, tvö lág eiði, Höfðamöl og Bæjarmöl, tengja hann við land og á milli þeirra er 10 ferkílómetra stórt sjávarlón, Höfðavatn. Í því er ágæt bleikjuveiði. Snemma á 20. öld lagði Jóhann Sigurjónsson skáld til að gerð yrði hafskipahöfn í vatninu en af því varð ekki. Þórðarhöfði er gömul eldfjallarúst. Afar fallegar stuðlabergsmyndanir eru í berginu en þær sjást best af sjó. Höfðaströnd. Höfðaströnd er byggðarlag á ströndinni kringum Hofsós við austanverðan Skagafjörð. Syðsti bær byggðarlagsins er Gröf en ystur er Höfði. Sveitin er kennd við Þórðarhöfða, sem setur mikinn svip á landslagið. Innan við hann er Höfðavatn, stærsta vatn í Skagafirði, en það er þó raunar fremur sjávarlón. Frá Höfðaströnd var löngum töluverð útgerð, ekki aðeins frá Hofsósi, heldur einnig frá Bæjarklettum í landi Bæjar á Höfðaströnd, og risu þar þurrabúðir þar sem íbúar lifðu á fiski og fuglaveiðum við Drangey, auk nokkurra grasnytja. Aðalverslun héraðsins var í Hofsósi á Höfðaströnd frá því um 1600, þegar hafnaraðstæður við Kolkuós versnuðu til muna, og fram undir lok 19. aldar, þegar Sauðárkrókur tók við sem helsti verslunarstaður Skagafjarðar. Einnig var verslun í Grafarósi á Höfðaströnd frá því um 1840 til 1915. Höfðaströnd var áður hluti af Hofshreppi en tilheyrir Sveitarfélaginu Skagafirði eftir sameiningu hreppa í héraðinu. Tveir kirkjustaðir eru á Höfðaströnd, Hof og Gröf, en þar er gamalt bænhús frá síðari hluta 17. aldar sem var endurvígt 1953. Töluverð uppbygging hefur verið á Höfðaströnd á síðustu árum og er Listasetrið Bær dæmi um hana. Höfðavatn. Höfðavatn á Höfðaströnd í Skagafirði er vatn eða sjávarlón sem myndast á milli strandarinnar og Þórðarhöfða. Lágir malargrandar tengja höfðann við land beggja vegna vatnsins og nefnist sá ytri Höfðamöl en sá syðri Bæjarmöl. Um hann er afrennsli vatnsins en ósinn lokast oft er sjórinn ber möl í hann og þá hefur hann stundum verið hreinsaður með vinnuvélum. Vatnið er misjafnlega salt eftir því hve sjór á greiða leið inn í það og hefur það mikil áhrif á silungsveiði í vatninu. Höfðavatn er um 10 km² og meðaldýpið er 3,9 metrar. Jóhann Sigurjónsson skáld barðist fyrir því á árunum 1917-1919 að gerð yrði hafskipahöfn í vatninu og þaðan stundaðar síldveiðar. Af því varð þó ekki og þær hugmyndir voru lagðar til hliðar við lát Jóhanns. Amorsbogi. Amorsbogi er útlínur efrivara á mönnum. Vinulág er ofan amorsboga. So You Think You Can Dance (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af So You Think You Can Dance fór í loftið 25. maí 2006 og var Cat Deeley nýr kynnir þáttarins. Þann 16. ágúst var Benji Schwimmer krýndur sigurvegari annarrar þáttaraðar og fékk hann 100.000 dollara, nýjan bíl og eins árs samning við sýningu Celine Dion í Las Vegas. Áheyrnaprufur. Prufur voru haldnar í New York, Los Angeles í Kaliforníu, Chicago í Illinois og Charleston í Suður-Karólínu. Vegas vikan. 116 dönsurum var hleypt í næstu umferð, vikuprógramm á Aladdin hótelinu (núna "Planet Hollywood Resort and Casino") í Las Vegas í Nevada. Þjálfunin innihélt hip-hop dans frá Shane Sparks, sömbu frá Mary Murphy með aðstoð frá fyrrum keppendanum "Artem Chigvinsev", nútímadans frá Miu Michaels og þjálfun frá Brian Friedman, sem sagði dansinn sinn vera blöndu af jazz og hip-hop. Upprunalega hópnum var fækkað niður í 41 og fækkuðu dómararnir þeim síðan niður í 20. Útsláttartafla. Keppendur eru í þeirri röð sem að þeir duttu úr keppni. Lagið sem var spilað þegar konur duttu út var "Suddenly I See" með KT Tunstall, á meðan lagið sem var spilað þegar karlar duttu út var "It's the end of the Road" með Matt Goss. Fyrsta vika (14. júní 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Dan Karaty Önnur vika (21. júní 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Shane Sparks, Mia Michaels "Sérstakt atriði": Keppendur úr þriðju þáttaröð; Hokuto „Hok“ Konishi, keppandi úr fyrstu þáttaröðinni Ryan Conferido og "Sickstep Crew"ið Þriðja vika (28. júní 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Olisa Thompson, Cicely Bradley "Sérstakt atriði": Lindy hop heimsmeistarar "Hop, Swing, and a Jump" („Traffic Jam“ — Bill Elliott) Fjórða vika (5. júlí 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Dan Karaty "Sérstakt atriði": Lil' C og the "Neph Squad" („Spaz Meter“ — The J-Squad) Fimmta vika (12. júlí 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Brian Friedman Sjötta vika (19. júlí 2006). "A.T.H.": Í þessari viku byrjuðu keppendur að draga nafn dansfélagans úr hatti og dansaði hver keppandi tvo dansa og síðan sóló. "Dómarar": Nigel Lythgoe, Olisa Thompson, Cicely Bradley, Jean-Marc Généreux Sjöunda vika (26. júlí 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Dan Karaty Áttunda vika (2. ágúst 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Mia Michaels Níunda vika (9. ágúst 2006). "Dómarar": Nigel Lythgoe, Mary Murphy, Brian Friedman "Sérstakt atriði": Síðustu fjórir keppendurnir flytja dans eftirWade Robson („SexyBack“ — Justin Timberlake) Gissur Þorvaldsson. Gissur Þorvaldsson (1208 – 1268), oft nefndur Gissur jarl, var íslenskur höfðingi á Sturlungaöld. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Þorvaldar Gissurarsonar í Hruna og Þóru yngri Guðmundsdóttur, konu hans. Hann tók ungur við Haukdælagoðorði, varð helsti foringi Sunnlendinga og gerði bandalag við Kolbein unga, leiðtoga Ásbirninga í Skagafirði, gegn Sturlungum. Unnu þeir sigur á liði Sturlunga í Örlygsstaðabardaga 1238 og urðu við það valdamestu höfðingjar landsins, ekki síst eftir að Gissur lét drepa Snorra Sturluson 1241 að kröfu Hákonar Noregskonungs. Gissur hafði gerst lénsmaður konungs og eins var um Þórð kakala Sighvatsson, sem var helsti höfðingi af ætt Sturlunga sem eftir lifði. Eftir Haugsnesbardaga 1246, þar sem Þórður vann sigur á Ásbirningum, héldu þeir Gissur og Þórður til Noregs um haustið og skutu máli sínu til konungs, sem úrskurðaði Þórði í vil og kyrrsetti Gissur í Noregi. Var hann sýslumaður í Þrándheimi næstu árin en fór þó í suðurgöngu til Rómar 1248. Þórður fór heim og var nær einráður á Íslandi næstu árin en 1250 kallaði konungur hann út aftur og nú var það hann sem var kyrrsettur. Gissur fór aftur á móti heim 1252 ásamt Þorgils skarða Böðvarssyni og átti að reyna að koma landinu undir veldi Noregskonungs. Hann vildi reyna að sættast við óvini sína en þeir voru ekki allir sama sinnis og haustið 1253 gerðu þeir aðför að honum á Flugumýri í Skagafirði, þar sem hann var þá sestur að, og reyndu að brenna hann inni. Gissur slapp úr Flugumýrarbrennu með því að fela sig í sýrukeri en missti alla fjölskyldu sína. Konungur stefndi honum aftur til Noregs 1254 því að honum þótti seint ganga að koma Íslandi undir krúnuna. Gissur sneri aftur heim með jarlsnafnbót en varð ekkert ágengt og það var ekki fyrr en 1262 sem Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd og samþykktu Gamla sáttmála, sem stundum var nefndur Gissurarsáttmáli. Hann átti í nokkrum erjum eftir að heim kom, einkum við Oddaverjann Þórð Andrésson, sem hann lét drepa 27. september 1264. Þar lýkur Sturlungu og er fátt vitað um síðustu ár Gissurar, sem þá bjó á Stað í Reynisnesi (Reynistað) og lést 12. janúar 1268. Hann mun hafa áformað að ganga í klaustur en lifði ekki svo lengi; gaf þó Reynistað til stofnunar nunnuklausturs fyrir dauða sinn. Fyrri kona Gissurar, sem hann giftist 1224 þegar bæði voru 15-16 ára var Ingibjörg, dóttir Snorra Sturlusonar, og áttu þau einn son sem dó ungur. Þau skildu. Fylgikona Gissurar, sem hann kvæntist loks 1252, var Gróa Álfsdóttir og áttu þau synina Hall og Ísleif en einnig átti Gissur soninn Ketilbjörn. Gróa og synirnir þrír fórust öll í Flugumýrarbrennu. Eftir brennuna tók Gissur sem frillu Ingibjörgu Gunnarsdóttur frá Geitaskarði í Langadal og unni henni brátt mikið. Talið er að þau hafi eignast eina dóttur, Þóru. So You Think You Can Dance (3. þáttaröð). So You Think You Can Dance er bandarískur raunveruleikaþáttur og danskeppni sem er sýndur á FOX sjónvarpsstöðinni. Þriðja þáttaröðin fór í loftið þann 24. maí 2007. Cat Deeley sneri aftur sem kynnir. Nigel Lythgoe sneri aftur sem fastur dómari og gekk til liðs við hann samkvæmisdansarinn Mary Murphy. Síðasta dómarasætið var fyllt af gestadómara. Eftir 16 milljón atkvæði var Sabra Johnson krýnd sem sigurvegari þann 16. ágúst og fékk hún 250.000 dollara í verðlaun og titilinn "Vinsælasti dansari Bandaríkjanna". Cat Deeley. Catherine Elizabeth „Cat“ Deeley (fædd 23. október 1976) er bresk og þekkt sem plötusnúður, sjónvarpskynnir og fyrrum fyrirsæta. Hún var kynnir í þáttunum "Stars in their Eyes" á árunum 2004 - 2006 og byrjaði hún sem kynnir í So You Think You Can Dance í annarri þáttaröðinni árið 2006. Cat er 179 cm há. Sighvatur Sturluson. Sighvatur Sturluson (1170 – 1238) var einn helsti höfðingi Sturlunga á fyrri hluta 13. aldar. Hann var sonur Sturlu Þórðarsonar (Hvamm-Sturlu) og Guðnýjar Böðvarsdóttur konu hans og albróðir þeirra Þórðar og Snorra Sturlusona. Sighvatur ólst upp í Hvammi í Dölum og bjó þar framan af, á Staðarfelli, í Hjarðarholti og á Sauðafelli, en árið 1215 flutti hann til Eyjafjarðar, settist að á Grund og varð héraðshöfðingi Eyfirðinga og Þingeyinga. Árið 1222 fór hann ásamt Sturlu syni sínum í herför til Grímseyjar, þar sem Guðmundur Arason biskup hafði þá búið um sig, til að hefna fyrir dráp elsta sonar síns, Tuma, sem biskupsmenn felldu á Hólum þá um veturinn. Kirkjan leit þá för alvarlegum augum og sættir náðust ekki fyrr en Sturla fór fyrir hönd þeirra feðga beggja í suðurgöngu til Rómarborgar í yfirbótarskyni fyrir Grímseyjarför. Þegar Sturla kom aftur heim 1235 hóf hann þegar tilraunir til að ná landinu öllu undir sig og faðir hans og bræður drógust inn í þá baráttu og átök Sturlu við Gissur Þorvaldsson og Kolbein unga, sem lauk með Örlygsstaðabardaga 1238. Þar féll Sighvatur og fjórir synir hans. Sighvatur, sem farinn var að nálgast sjötugt, féll sunnan við gerðið á Örlygsstöðum, þar sem Kolbeinn ungi og menn hans unnu á honum. Sighvatur var skáldmæltur en mjög lítið er varðveitt af kveðskap hans. Kona hans var Halldóra Tumadóttir, systir Kolbeins og Arnórs Tumasona og því föðursystir Kolbeins unga, og áttu þau sjö syni og tvær dætur, Steinvöru Sighvatsdóttur húsfreyju á Keldum og Sigríði Sighvatsdóttur húsfreyju á Grund. Elsti sonurinn, Tumi, var drepinn á Hólum 1222 sem fyrr segir, Þórður kakali var í Noregi, en hinir fimm voru allir þátttakendur í Örlygsstaðabardaga. Sturla féll þar, Markús særðist til ólífis og var svo veginn á Víðivöllum, Þórður yngri og Kolbeinn flúðu í kirkju á Miklabæ og voru teknir þaðan og höggnir með öxi föður síns, Stjörnu. Tumi yngri náði að flýja en var drepinn fáeinum árum síðar. Þórður Sturluson. Þórður Sturluson (1165 – 1237) var íslenskur höfðingi og goðorðsmaður á 12. og 13. öld af ætt Sturlunga, sonur Sturlu Þórðarsonar (Hvamm-Sturlu) og konu hans Guðnýjar Böðvarsdóttur. Hann var elstur af skilgetnum sonum Sturlu en albræður hans voru Sighvatur og Snorri Sturlusynir. Þórður var sá eini bræðranna sem ekki var drepinn. Hann giftist Helgu dóttur Ara sterka Þorgilssonar, goða á Stað á Ölduhrygg á Snæfellsnesi, tók við goðorði föður hennar og settist að á Stað. Þau skildu og Þórður giftist Guðrúnu Bjarnadóttur. Sonur þeirra, Böðvar, bjó á Stað og tók við veldi föður síns. Sonur hans var Þorgils skarði Böðvarsson. Þriðja kona Þórðar var Valgerður Árnadóttir. Þórður átti einnig mörg börn með frillu sinni, Þóru, og eru þekktastir synirnir Ólafur hvítaskáld og Sturla Þórðarson sagnaritari. Lucius Verus. Lucius Aurelius Verus (15. desember 130 – 169) var keisari Rómaveldis á árunum 161 – 169. Hann tók við keisaratigninni, ásamt Markúsi Árelíusi, þegar Antónínus Píus lést, en Antónínus hafði árið 138 ættleitt þá báða með það fyrir augum að þeir myndu taka við af honum. Verus stjórnaði herleiðangri Rómverja gegn Pörþum á árunum 162 – 166. Stríðið snerist í fyrstu um yfirráð yfir Armeníu, því Parþar höfðu steypt af stóli konungi sem var hliðhollur Rómverjum. Rómverjar hröktu Parþa frá Armeníu og settu aftur á valdastól konung hliðhollan sér. Því næst réðust Rómverjar inn í Parþíu og hertóku höfuðborgina, Ctesiphon. Borgin var rænd og rupluð af rómverska hernum og höll keisarans lögð í rúst. Lucius sneri til baka til Rómar, og fagnaði sigrinum ásamt Markúsi, með mikilfenglegum hætti. Þegar herinn hélt til baka frá Parþíu, árið 167, barst með honum plága sem breiddist út og varð að faraldri sem geisaði í mörg ár. Markús og Lucius héldu árið 168 til landamæra ríkisins við Dóná til þess að bregðast við síendurteknum árásum germanskra þjóðflokka. Þeir sneru þó fljótlega til baka þar sem átökunum var þá lokið í bili. Á leiðinni aftur til Rómar, snemma árs 169, varð Verus skyndilega veikur og lést. Kolbeinn ungi Arnórsson. Kolbeinn Arnórsson (1208 – 22. júlí 1245), sem ætíð var kallaður Kolbeinn ungi til aðgreiningar frá Kolbeini Tumasyni föðurbróður sínum, var skagfirskur höfðingi á 13. öld. Hann var af ætt Ásbirninga, helstu valdaættar í Skagafirði á Sturlungaöld, sonur Arnórs Tumasonar goðorðsmanns á Víðimýri og konu hans, Ásdísar (eða Aldísar) Sigmundardóttur frá Valþjófsstað. Faðir hans lést í Noregi 1221 og varð Kolbeinn því mjög snemma höfðingi ættarinnar. Hann bjó í Ási, á Víðimýri og á Flugumýri. Kolbeinn deildi við Guðmund Arason biskup eins og föðurbróðir hans og nafni hafði gert. Lét hann hneppa biskupinn í varðhald og sat hann þar uns hann dó 1237. Helstu óvinir Kolbeins voru þó Sturlungar. Eftir að Sturla Sighvatsson hóf valdabrölt sitt gengu þeir Kolbeinn og Gissur Þorvaldsson í bandalag gegn honum og Sighvati föður hans og mættu Sturlungar örlögum sínum í Örlygsstaðabardaga. Eftir bardagann var Kolbeinn allsráðandi norðanlands. En árið 1242 kom Þórður kakali, bróðir Sturlu, til landsins og sýndi brátt leiðtogahæfileika sína; þótt hann væri mjög fáliðaður fyrst í stað tókst Kolbeini ekki að vinna sigur á honum. Þeim laust saman í Flóabardaga 1244 og fór Þórður halloka, enda með meira en helmingi færri menn, en tókst þó að sleppa. Kolbeinn sigldi til Vestfjarða og tók eða eyðilagði öll skip sem hann fann þar. Hann náði þó ekki Þórði og lést sjálfur ári síðar, 22. júlí 1245. Sumarið eftir má segja að veldi Ásbirninga hafi lokið í Haugsnesbardaga. Þar féll foringi þeirra, Brandur Kolbeinsson, frændi Kolbeins unga. Kolbeinn ungi var fyrst giftur Hallberu, dóttur Snorra Sturlusonar og síðar Helgu, dóttur Sæmundar Jónssonar í Odda. Þeir Gissur Þorvaldsson voru því báðir fyrrverandi tengdasynir Snorra. Kolbeinn var barnlaus. Tempest. Tempest er tveggja manna, 22 feta langur kjölbátur hannaður af breska bátahönnuðinum Ian Proctor árið 1964 að frumkvæði Alþjóða siglingasambandsins. Báturinn var ólympíubátur 1972 og 1976 þegar hann tók við af Star sem tvímenningskjölbátur. Árið 1980 var Star aftur tekinn inn og Tempest datt út. Tempest er búinn stórsegli, fokku og belgsegli. Hann er með masturstaug fyrir einn. Þórður kakali Sighvatsson. Þórður Sighvatsson kakali (1210 – 1256) var íslenskur höfðingi á 13. öld, af ætt Sturlunga. Hann var einn sjö sona Sighvatar Sturlusonar. Þegar faðir hans og bræður voru felldir á Örlygsstöðum 1238 var hann í Noregi og hafði dvalist þar við hirð konungs. Árið 1242 sneri hann heim og þótt Kolbeinn ungi hefði þá lagt ríki Sturlunga undir sig og réði öllu á Norðurlandi, fór Þórður þegar að safna liði gegn honum. Það gekk hægt í fyrstu en þó fékk hann smátt og smátt menn til fylgis við sig, einkum úr Dölunum og af Vestfjörðum. Í júní 1244 hélt hann með skipaflota frá Ströndum áleiðis til Eyjafjarðar til að reyna að ná föðurleifð sinni, en á sama tíma kom Kolbeinn ungi siglandi úr Skagafirði með mikið lið og mættust flotarnir á Húnaflóa. Upphófst þá Flóabardagi. Honum lauk með því að Þórður hörfaði undan en áður hafði Kolbeinn beðið afhroð. Kolbeinn lést ári síðar og gaf í banalegunni Þórði eftir veldi föður hans í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Átökum var þó ekki lokið. Brandur Kolbeinsson, frændi Kolbeins unga, tók við völdum í Skagafirði og tókust þeir Þórður kakali á í Haugsnesbardaga 1246. Þórður hafði betur en Brandur féll og lauk þar með veldi Ásbirninga. Þar með réði Þórður öllu Norðurlandi. Gissur Þorvaldsson, höfðingi Haukdæla og valdamesti maður á Suðurlandi, var annar helsti óvinur Sturlunga en ekki kom þó til átaka á milli þeirra Þórðar, heldur varð það úr að þeir fóru til Noregs og skutu máli sínu til Hákonar konungs. Hann úrskurðaði Þórði í vil og sendi hann til Íslands til að reyna að ná landinu undir veldi Noregs, en kyrrsetti Gissur. Næstu þrjú árin bjó Þórður í Geldingaholti í Skagafirði og var valdamesti maður á Íslandi. Konungi þótti honum þó ganga seint að koma landinu undir krúnuna og var hann kallaður aftur til Noregs 1250, en Gissur sendur heim í staðinn. Þórður var næstu árin í Noregi og líkaði það illa, en konungur leyfði honum ekki að fara heim fyrr en árið 1256. Áður en til heimferðar kæmi varð Þórður þó bráðkvaddur (11. október 1256). Þórður giftist ekki en átti nokkur börn. Viðurnefnið kakali er talið geta þýtt einhver sem klakar eða gaggar og gæti bent til þess að Þórður hafi stamað. Fleiri skýringar eru þó til á viðurnefninu. Hairspray (2007). Hairspray er bandarísk söngvamynd frá árinu 2007. Hún kom út í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi þann 20. júlí 2007. Kvikmyndin er byggð á samnefndum Broadway-söngleik og lauslega byggð á kvikmynd með sama nafni frá árinu 1988. Myndin á að gerast í Baltimore í Maryland árið 1962 og fylgist hún með glaðværa unglingnum Tracy Turnblad þegar hún reynir að koma sér á framfæri sem dansari í sjónvarpsþætti bæjarins og berst á móti kynþáttafordómum. Myndin er gerð eftir handriti samnefndrar myndar frá árinu 1988 og úr bókinni eftir Thomas Meehan og Mark O'Donnell fyrir leikritið eftir Leslie Dixon og er kvikmyndinni leikstýrt af Adam Shankman en hann samdi einnig alla dansana. Hairspray inniheldur lög úr söngleiknum sem eru samin af Marc Shaiman og Scott Wittman. Myndin fékk góða dóma frá byrjun og halaði inn miklum peningum og bætti metið fyrir mestu tekjur söngvamyndar á fyrstu sýningarhelgi og hélt Hairspray titilinum fram í júlí 2008 þegar kvikmyndin Mamma Mia! kom út og seinna í október. Hairspray er fjórða tekjuhæsta söngvamynd í kvikmyndasögu Bandaríkjanna á eftir Grease, Chicago og MAMMA MIA! USA Network hefur keypt sýningarréttin á Hairspray. Adam Shankman og John Waters eru að vinna að annarri mynd. Brandur Kolbeinsson. Róðukross til minningar um Brand Kolbeinsson, reistur á staðnum þar sem hann var höggvinn. Brandur Kolbeinsson (1209 -19. apríl 1246) var íslenskur höfðingi á 13. öld, goðorðsmaður á Reynistað í Skagafirði af ætt Ásbirninga. Faðir hans var Kolbeinn kaldaljós Arnórsson og móðir hans Margrét dóttir Sæmundar Jónssonar í Odda. Voru þeir Brandur og Kolbeinn ungi þremenningar að ætt. Kolbeinn ákvað á banabeði sumarið 1245 að Brandur frændi hans skyldi fá öll mannaforráð í Skagafirði og tók hann þar með við ríki Ásbirninga, það er Skagafirði og Húnaþingi. Vorið eftir kom Þórður kakali með mikið lið til Skagafjarðar en Brandur tók á móti með næstum jafnfjölmennt lið og mættust þeir í Haugsnesbardaga. Þar beið lið Brands lægri hlut og féllu um sjötíu manns en nærri fjörutíu úr liði Þórðar. Brandur komst á hest en náðist á milli Syðstu-Grundar og Mið-Grundar og var færður upp á grundina fyrir ofan Syðstu-Grund og höggvinn þar. Þar var síðar settur upp róðukross. Sumarið 2009 var aftur settur upp róðukross fyrir ofan Syðstu-Grund og var hann vígður 15. ágúst. Jón Adolf Steinólfsson skar krossinn út og hafði Ufsakrist sem fyrirmynd. Kona Brands var Jórunn Kálfsdóttir Guttormssonar. Kolbeinn ungi lét drepa föður hennar og bróður fyrir það eitt að Kálfur var vinur Sighvatar Sturlusonar og var það talið til verstu níðingsverka Sturlungaaldar. Synir þeirra hjóna, Brandur og Þorgeir, voru barnungir þegar faðir þeirra féll. Sturla Sighvatsson. Sturla Sighvatsson (1199 – 1238) var íslenskur höfðingi á 13. öld. Hann var einn helsti foringi Sturlunga og tók við goðorði þeirra um 1220, en Sighvatur faðir hans fluttist þá í Eyjafjörð. Þeir feðgar áttu í deilum við Guðmund Arason Hólabiskup, og veturinn 1222 var Tumi Sighvatsson eldri, bróðir Sturlu, veginn af mönnum biskups á Hólum. Biskup sigldi með lið sitt til Grímseyjar um vorið til að reyna að komast undan hefnd feðganna, en þeir Sighvatur og Sturla eltu hann þangað og náðu honum eftir mikið blóðbað og fóru hraklega með hann. Sólveig Sæmundsdóttir. Árið 1223 kvæntist Sturla Solveigu dóttur Sæmundar Jónssonar í Odda en Snorri Sturluson föðurbróðir hans mun einnig hafa haft hug á henni. Þau bjuggu á Sauðafelli í Dölum. Sturla liðsinnti sonum Hrafns Sveinbjarnarsonar þegar þeir brenndu Þorvald Vatnsfirðing inni 1228 til að hefna fyrir föður sinn. Í janúar næsta vetur komu synir Þorvaldar að Sauðafelli að næturlagi, en Sturla var ekki heima. Þeir drápu og meiddu marga heimilismenn. Sturlu bárust fréttir af Sauðafellsför þar sem hann sat í laug á Reykjum í Miðfirði. „Sturla spurði, hvort þeir gerðu ekki Sólveigu. Þeir sögðu hana heila. Síðan spurði hann einskis.“ Suðurganga Sturlu. Á endanum fór svo að þeir Sturla og Guðmundur biskup sættust og var hluti af sættinni að Sturla skyldi fara til Rómar á fund páfa til að gera yfirbót vegna illrar meðferðar á biskupi í Grímseyjarför. Suðurgangan hófst árið 1233 og eftir viðkomu í Noregi gekk Sturla suður til Rómar, þar sem hann skriftaði og var leiddur fáklæddur milli höfuðkirkna og hýddur. Tók hann þeirri meðferð karlmannlega en „flest fólk stóð úti og undraðist, barði á bjóst sér og harmaði þegar svo fríður maður var svo hörmulega leikinn og máttu eigi vatni halda bæði konur og karlar.“ Sturla kom við í Noregi á heimleiðinni og gerðist lendur maður Hákonar konungs og tók að sér að koma Íslandi undir veldi hans. Örlygsstaðabardagi. Við heimkomuna hóf hann þegar að auka við veldi sitt og tókst meðal annars að bola Snorra föðurbróður sínum úr landi og leggja veldi hans undir sig. Þá sneri hann sér að Gissuri Þorvaldssyni, foringja Haukdæla, og sveik hann á Apavatnsfundi og þvingaði hann til að sverja sér trúnaðareið. Gissur taldi sig þó á engan hátt bundinn af eiðnum og gerði þegar bandalag við Kolbein unga, foringja Ásbirninga. Er Sturla hélt norður í Skagafjörð til að leggja undir sig ríki Kolbeins, ásamt föður sínum, söfnuðu þeir Gissur og Kolbeinn mun fjölmennara liði sem einnig var betur búið. Þeir feðgar biðu ósigur í Örlygsstaðabardaga og féllu þar. Sturla hafði gamalt spjót sem hét "Grásíða" sér til varnar en það var svo lélegt að það bognaði hvað eftir annað og þurfti hann að stíga á það til að rétta það. Margir menn unnu á honum en það var Gissur Þorvaldsson sem veitti honum banahöggið. Mað Solveigu konu sinni átti Sturla dæturnar Guðnýju húsfreyju í Garpsdal og Þuríði konu Hrafns Oddssonar og soninn Jón. Einnig átti Sturla dæturnar Þuríði, konu Eyjólfs ofsa, og Ingunni, konu Sæmundar Ormssonar Svínfellings. Kynval. Kynval (einnig kynbundið val og kynjað val) er tegund af náttúruvali sem veldur breytileika innan tegundar út af samkeppni milli meðlima af sömu tegund. Víðivellir. Víðivellir er bær í Blönduhlíð í Skagafirði, gamalt höfuðból þar sem oft bjuggu höfðingjar, til dæmis ýmsir sýslumenn Skagafjarðarsýslu. Kirkja var á Víðivöllum til forna en var aflögð 1765. Dálítill jarðhiti er á tveimur stöðum í landi jarðarinnar og þar var steypt upp sundlaug árið 1937-38 og var notuð til sundkennslu fram yfir 1960 en nýtt eitthvað lengur til sunds. Eyðibýlið Örlygsstaðir er í landi Víðivalla. Þar var Örlygsstaðabardagi háður 21. ágúst 1238 og er talið að þar hafi barist hátt í þrjú þúsund manns. Minnisvarði um bardagann var afhjúpaður 21. ágúst 1988, 750 árum eftir að hann var háður. Á Víðivöllum fór fram síðsta aftaka í Skagafirði 1789. Var þar hálshöggvin kona úr Fljótum sem hafði fætt barn sumarið áður, fyrirkomið því og grafið. Frá 1809-1842 bjó þar Pétur Pétursson prófastur með Þóru Brynjólfsdóttur konu sinni og þar ólust upp synir þeirra, þeir Jón Pétursson háyfirdómari, Pétur Pétursson biskup og Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður, um skeið forstöðumaður íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn, oft nefndir Víðivallabræður. Minnisvarði um bræðurna var reistur skammt frá bænum 1998. Í Íslandsheimsókn Kristjáns konungs 10. sumarið 1936 kom hann við á Víðivöllum ásamt fylgdarliði og borðaði hádegisverð í tjaldi á Víðivallatúni. Stuttermabolur. Stuttermabolur er tegund fatnaða, sem er dregin yfir höfuðið til að hylja búkinn. Bolur er yfirleitt án talna, flibba eða vasa og með kringlóttu hálsmáli og stuttum ermum. Ermarnar á stuttermabol hylja axlirnar en hylja ekki olnboga. Stuttermabolur sem er lengri eða styttri en þetta telst ekki stuttermabolur. Stuttermabolir eru yfirleitt gerðir úr bómulla- eða pólýesterþráðum (eða blöndu tveggja). Stuttermabolir eru prjónaðir saman með peysusaumi sem gefur þeim mjúka áferð. Stuttermabolir geta verið skreyttir með texta eða myndum og eru stundum notaðir til auglýsinga. Stuttermabolir eru fáanlegir handa körlum, konum og börnum og eru vinsælir hjá öllum aldurshópum. Upprunalega voru stuttermabbolir notaðir sem nærföt, en nú eru stuttermabolir stundum eina flíkin á búknum (fyrir utan brjóstahaldara eða nærskyrtu). Nú á dögum eru stuttermabolir stundum notaðir til sjálfstjáningar og auglýsinga. Núllfylki. formula_1 El Hierro. El Hierro (gælunafn "Isla del Meridiano") er spænsk eyja. Hún er minnsta og suðvestasta Kanaríeyja við strönd Vestur-Afríku í Atlantshafinu. Hún liggur á hnitunum 27°45'N og 18°00'V. Mannfjöldi eyjunnar er 10.162 (árið 2003). Bóla. Bóla er eyðibýli í Blönduhlíð í Skagafirði. Bærinn, sem var hjáleiga frá Uppsölum, hét áður Bólstaðargerði og var lengst af í eyði á 18. öld og fram til 1833, er Hjálmar Jónsson skáld byggði þar bæ og kallaði fyrst Bólugerði en síðan Bólu og það nafn hafði jörðin eftir það. Skammt frá bænum fellur Bóluá niður fjallið í sjö fossum í hrikalegu gili, Bólugili. Þar bjó tröllkonan Bóla eftir því sem þjóðsögur hermdu. Bóla er helst þekkt fyrir búsetu Bólu-Hjálmars þar á árunum 1833-1843 en henni lauk eftir að gerð var þjófaleit hjá honum. Minnisvarði um Hjálmar var reistur í Bólu 1955. Bóla fór í eyði 1976. Ásbirningar. Ásbirningar voru ein helsta valdaætt landsins á 12. öld og fram eftir Sturlungaöld. Ríki þeirra var í Skagafirði og síðar austanverðu Húnaþingi og í fáein ár eftir Örlygsstaðabardaga má segja að þeir hafi verið einna valdamesta ætt landsins. Ættin var komin í beinan karllegg af landnámsmanninum Öndótti, er bjó í Neðra-Ási í Hjaltadal, en kennd við ættföðurinn Ásbjörn Arnórsson, sem uppi var á 11. öld. Sonarsonur hans, goðorðsmaðurinn Kolbeinn Arnórsson (d. 1166) átti tvo syni, Arnór og Tuma. Sonur Arnórs var Kolbeinn kaldaljós, bóndi á Reynistað, en á meðal barna Tuma voru Kolbeinn Tumason skáld, er átti í hörðum deilum við Guðmund Arason biskup og féll í Víðinesbardaga 1208, Arnór Tumason goðorðsmaður á Víðimýri og Halldóra Tumadóttir, kona Sighvats Sturlusonar á Grund í Eyjafirði. Sonur Arnórs, Kolbeinn ungi, sem bjó á Víðimýri, er líklega þekktastur Ásbirninga. Hann tók mjög ungur við leiðtogahlutverkinu og var einn af valdamestu mönnum landsins til dauðadags. Þá tók Brandur Kolbeinsson á Reynistað, sonur Kolbeins kaldaljóss, við sem leiðtogi Ásbirninga en við fall hans í Haugsnesbardaga ári síðar má segja að veldi þeirra hafi liðið undir lok. Kolbeinn Tumason. Kolbeinn Tumason (um 1171 – 9. september 1208) goðorðsmaður á Víðimýri var skagfirskur höfðingi í lok 12. aldar og upphafi þeirrar 13., leiðtogi Ásbirninga og einn valdamesti maður Norðurlands. Hann var sonur Tuma Kolbeinssonar goðorðsmanns í Ási í Hegranesi og Þuríðar, dóttur Gissurar Hallssonar af ætt Haukdæla. Hann átti mikinn þátt í því að Guðmundur Arason prestur á Víðimýri var kjörinn biskup á Hólum 1201, og hefur sjálfsagt talið að hann yrði sér hliðhollur og leiðitamur en svo fór ekki. Guðmundur vildi gera Hólastól óháðan veraldlegu valdi og varð fljótt úr fullur fjandskapur þeirra. Biskupinn bannfærði Kolbein 1206. Í september 1208 fóru Kolbeinn, Arnór bróðir hans og Sigurður Ormsson, höfðingi Svínfellinga, til Hóla með sveit manna, og kom þá til bardaga er nefndur hefur verið Víðinesbardagi. Steinar voru einhver helstu vopn Íslendinga í átökum 13. aldar og Kolbeinn fékk stein í ennið sem varð bani hans. Kolbeinn var skáld gott og fyrir bardagann orti hann sálminn "Heyr, himna smiður", sem enn er í íslensku sálmabókinni og er elsti sálmur sem til er á íslensku og raunar elsti sálmur Norðurlanda. Kona Kolbeins var Gyðríður Þorvarðardóttir og var faðir hennar föðurbróðir Guðmundar biskups. Þau áttu ekki börn. Skömmu eftir að Kolbeinn féll í Víðinesbardaga eignaðist Arnór bróðir hans son er nefndur var eftir honum en alltaf kallaður Kolbeinn ungi. Víðinesbardagi. Víðinesbardagi var orrusta sem háð var 9. september árið 1208 í landi jarðarinnar Víðiness í Hjaltadal, rétt hjá biskupssetrinu á Hólum. Kolbeinn Tumason og Guðmundur biskup Arason höfðu átt í hörðum deilum og Kolbeinn kom til Hóla með 400 manna lið ásamt Arnóri bróður sínum og Sigurði Ormssyni Svínfellingi og krafðist þess að fá afhenta menn úr sveit biskups, sem hann taldi sig eiga sökótt við. Biskupinn neitaði og þá kom til átaka. Biskupsmenn voru töluvert færri, en eftir að Kolbeinn fékk stein í höfuðið og höggið reyndist banvænt, hörfuðu aðkomumenn undan. Fyrir bardagann orti Kolbeinn sálminn "Heyr, himna smiður", sem er elsti sálmur sem til er á íslensku. Arnór Tumason. Arnór Tumason (1182 - 1221) goðorðsmaður á Víðimýri var skagfirskur höfðingi á 13. öld, sonur Tuma Kolbeinssonar í Ási og Þuríðar Gissurardóttur. Hann var leiðtogi Ásbirninga eftir að Kolbeinn bróðir hanns féll í Víðinesbardaga 1208. Hann hélt áfram deilum við Guðmund biskup Arason og neyddist biskup til að flýja Hóla, var á hrakningi um landið næstu árin og hraktist síðan til Noregs þar sem hann var í nokkur ár. Hann kom aftur til Íslands 1218 en Arnór fór til Hóla, tók biskupinn höndum og hafði hann í haldi í heilt ár. Arnór fór til Noregs haustið 1221 ásamt konu sinni, Ásdísi Sigmundardóttur, bróðurdóttur Sigurðar Ormssonar Svínfellings, og tveimur yngstu börnum þeirra, Kolbeini unga og Arnbjörgu, sem síðar giftist Órækju syni Snorra Sturlusonar. Eldri dætur þeirra voru Sigríður, kona Böðvars Þórðarsonar á Stað og móðir Þorgils skarða, og Herdís, kona Böðvars Þórðarsonar í Bæ. Arnór veiktist í Noregi og dó um jólin 1221. Tumi Sighvatsson. Tumi Sighvatsson eldri (1198 – 4. febrúar 1222) var elsti sonur Sighvatar Sturlusonar og Halldóru Tumadóttur. Þegar Sighvatur flutti til Eyjafjarðar frá Sauðafelli í Dölum skildi hann næstelsta soninn, Sturlu, eftir þar og gerði hann að héraðshöfðingja. Tumi vildi fá mannaforráð líka en faðir hans neitaði. Þá fór Tumi til Hóla haustið 1221 og hrakti Guðmund Arason biskup út í Málmey en snemma næsta árs komu menn biskups til Hóla að næturlagi, náðu Tuma og drápu hann, en biskup flúði með menn sína til Grímseyjar. Tumi virðist hafa verið ofstopamaður og safnað um sig fylgisveinum af svipuðum toga og í Sturlungu segir: „... lagðist sá orðrómur á að enginn flokkur hefði verið jafn óspakur og sá er fylgdi Tuma Sighvatssyni og svo sjálfur hann.“ Íslandít. Íslandít er tegund af járnríku ísúru gosbergi. Nafnið var búið til í kringum árið 1960 af breska jarðfræðingnum Ian Carmichael sem vann að doktorsritgerð um Þingmúla-eldstöðina í Skriðdal. Íslandít er fremur dökkt, stundum alveg svart og glerkennt, þétt og lítið um blöðrur í því. Einnig getur það verið með rauðleitum blæ vegna oxunar. Ef slegið er í grjótið klingir það með skærum hljómi. Styrkur járns í íslandíti fer vaxandi með auknum styrk kísiloxíðs (SiO2) öfugt við bergsyrpur á meginlöndunum. Ingibjörg Sturludóttir. Ingibjörg Sturludóttir (f. 1240) var dóttir Sturlu Þórðarsonar sagnaritara og Helgu Þórðardóttur konu hans. Faðir hennar og Gissur Þorvaldsson ákváðu sumarið 1253 að hún skyldi giftast Halli, elsta syni Gissurar, sem líklega var þá átján ára, til að tryggja sættir Sturlunga og Haukdæla. Brúðkaup þeirra var haldið á Flugumýri 18. október 1253 en er veislunni var lokið og flestir gestir farnir heim komu óvinir Gissurar og brenndu bæinn. Hallur brúðgumi, bræður hans báðir og móðir þeirra fórust í Flugumýrarbrennu en Ingibjörg bjargaðist naumlega því einn brennumanna, Kolbeinn grön Dufgusson, sem var frændi hennar, sótti hana inn í eldinn og bar hana til kirkju. Ingibjörg giftist síðar (9. nóvember 1259) Þórði Þorvarðarsyni í Saurbæ í Eyjafirði. Sleitu-Björn Hróarsson. Sleitu-Björn Hróarsson var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land frá Gljúfurá (nefnd Grjótá í Landnámabók en það er talin ritvilla) út að Deildará (nú Grafará á Höfðaströnd). Þetta var mjög stórt landnám og náði yfir hálfa Viðvíkursveit, Hjaltadal, Kolbeinsdal, Óslandshlíð og hluta af Höfðaströnd og Deildardal. Sleitu-Björn hefur því verið einn af fyrstu landnámsmönnum í Skagafirði og síðar fengu þrír aðrir landnámsmenn, þeir Öndóttur, Kolbeinn Sigmundarson og Hjalti Þórðarson, hluta af landnámi Sleitu-Bjarnar. Hann bjó á Sleitu-Bjarnarstöðum, sem nú heita Sleitustaðir. Margir telja að Sleitu-Björn sé sami maður og Sléttu-Björn, landnámsmaður í Saurbæ, og hafi Sleitu-Björn þá yfirgefið landnám sitt í Skagafirði og flutt sig vestur en aðrir segja að hér sé um tvo menn að ræða og benda meðal annars á að sagt er frá niðjum beggja og er ekkert sameiginlegt með þeim upptalningum. Auk þess bjuggu niðjar Sleitu-Bjarnar í Skagafirði og Þorvarður Spak-Böðvarsson í Neðra-Ási var dóttursonur hans. Öndóttur (landnámsmaður). Öndóttur kráka Erlingsson var landnámsmaður í Skagafirði. Hann lenti skipi sínu í Kolbeinsdalsárósi (Kolkuósi) og keypti land af Sleitu-Birni Hróarssyni, frá Gljúfurá út að Kolku, og tók landnám hans yfir utanverða Viðvíkursveit og neðstu bæina í Hjaltadal. Öndóttur bjó í Viðvík en Þorvarður Spak-Böðvarsson, sonarsonur hans, bjó í Ási (Neðra-Ási) í Hjaltadal og byggði þar kirkju árið 984 ef marka má frásögn Kristni sögu og er það þá fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi. Ásbirningar voru afkomendur Öndótts í beinan karllegg. Kolbeinn Sigmundarson. Kolbeinn Sigmundarsson var landnámsmaður í Skagafirði. Frásögn Landnámabókar um mörk landnáms hans eru óljós og í rauninni virðist hann samkvæmt henni hafa numið sama svæði og Sleitu-Björn. Líklegt er talið að í rauninni hafi hann numið allan ofanverðan Kolbeinsdal og Hjaltadal en síðar látið Hjalta Þórðarsyni Hjaltadalinn eftir. Um landnámsjörð hans er ekki vitað. Móðir hans var systir Þorsteins svarfaðar, landnámsmanns í Svarfaðardal. Í Svarfdæla sögu segir að Kolbeinn hafi brotið skip sitt við Kolbeinsey og farist þar og hafi eyjan hlotið nafn af honum. Hjalti Þórðarson. Hjalti Þórðarson var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam "Hjaltadal að ráði Kolbeins", segir í Landnámabók. Kolbeinn Sigmundarson hefur því látið honum eftir ofanverðan Hjaltadal, sem hann hafði sjálfur fengið hjá Sleitu-Birni, en haldið sjálfur Kolbeinsdal. Hjalti bjó á Hofi. Sagt er að synir hans hafi haldið föður sínum veglegustu erfidrykkju sem haldin hefur verið á Íslandi og þar hafi verið tólf hundruð boðsgestir og allir virðingarmenn leystir út með gjöfum. Í Landnámu segir einnig frá því að Hjaltasynir fóru vestur á Þorskafjarðarþing en þegar þeir gengu til þings voru þeir svo glæsilega búnir að menn héldu að sjálfir Æsir væru þar á ferð. Sonarsonur Hjalta var Þorbjörn öngull, banamaður Grettis. Höfða-Þórður Bjarnarson. Höfða-Þórður Bjarnason var landnámsmaður í Skagafirði og segir í Landnámabók að hann hafi verið sonur "Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hryggs, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar". Hann nam Höfðaströnd frá Hofsá og út að Hrolleifsdalsá í Sléttuhlíð og bjó á Höfða. Í Landnámu er sagt að Þorgerður kona Þórðar hafi verið dótturdóttir Kjarvals Írakonungs og eru nöfn ellefu sona þeirra og átta dætra talin upp. Á milli landnáma Sleitu-Bjarnar og Höfða-Þórðar, eins og þeim er lýst í Landnámabók, er eyða sem tekur yfir hálfan Unadal og hálfan Deildardal. Líkur hafa verið leiddar að því að þarna hafi verið sérstakt landnám sem gleymst hafi í upptalningunni, enda er talað um Una í Unadal á öðrum stað í Landnámu. Hrolleifur mikli Arnhallsson. Hrolleifur mikli var landnámsmaður í Skagafirði. Hann var bróðursonur Sæmundar suðureyska, landnámsmanns í Sæmundarhlíð. Hrolleifur kom að sögn Landnámabókar ásamt móður sinni, sem hét Ljót, til hafnar í Borgarfirði en þar var land allt fullnumið svo að þau fóru norður í land og gátu hvergi á leiðinni fundið ónumið land fyrr en í Skagafjörð kom. Sæmundur vísaði þeim út á Höfðaströnd til Höfða-Þórðar og Hrolleifur fékk hluta af landnámi hans, Hrolleifsdal sunnanverðan. Hrolleifur stóð þó ekki lengi við því að hann lenti í átökum út af kvennamálum, drap son nágranna síns og var gerður héraðsrækur. Sæmundur frændi hans sendi hann þá til vinar síns, Ingimundar gamla á Hofi í Vatnsdal. Hrolleifur lenti þar í deilum við syni Ingimundar út af veiði í Vatnsdalsá en er Ingimundur, sem orðinn var gamall og blindur, ætlaði að ganga á milli skaut Hrolleifur spjóti í gegnum hann. Synir Ingimundar eltu Hrolleif uppi og drápu hann. Stapi. a> er einn þekktasti stapi Íslands Stapi (eða móbergsstapi) er sérstök gerð eldfjalla sem myndast í eldgosi undir jökli eða íshellu. Gosefnin hlaðast upp í því rými sem bráðnar undan hita gossins. Fyrst um sinn hleðst upp gjóska og bólstraberg en þegar gosið hefur hlaðið sig upp fyrir mörk jökulsins og gosrásin einangrast frá vatninu hefst hraungos. Þegar jökullinn hverfur stendur eftir reisulegt kringlótt fjall með bröttum hamrabrúnum og lítilli dyngju á annars flötum toppi. Að minnsta kosti fjörutíu stapar eru á Íslandi. Þeir mynduðust á kuldaskeiðum ísaldar en ekki er vitað til þess að slíkur hafi myndast undir núverandi jöklum landsins. Þekktasti stapi landsins er Herðubreið í Ódáðahrauni en Eiríksjökull er sá stærsti. Rauðhólar. Rauðhólar eru þyrping gervigíga við suðaustur útjaðar Reykjavíkur sem tilheyrir Heiðmörk. Gervigígarnir mynduðust fyrir um 4600 árum þegar Elliðaárhraun rann. Upphaflega voru þeir 80 talsins en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari. Rauðhólar hafa verið friðlýstir frá árinu 1961 og fólkvangur frá árinu 1974. Les Paul. Lester William Polsfuss, þekktur sem Les Paul (fæddur 9. júní 1915 í Waukesha, Wisconsin, lést 13. ágúst 2009 í White Plains, New York) var bandarískur tónlistarmaður og uppfinningamaður. Hann þróaði rafmagnsgítara sem nutu mikilla vinsælda og margir rokktónlistarmenn tóku ástfóstri við. Hann var jafnframt áhrifamikill í hljóðritun og er einn upphafsmanna hljóðsetningar. Hann var 94 ára gamall þegar hann dó úr lungnabólgu. Heimildir. Paul, Les H-dagurinn. H-dagurinn þann 26. maí 1968 er dagurinn sem umferð á Íslandi færðist af vinstri akrein yfir á þá hægri. Breytingin gerðist klukkan 6 árdegis. "„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur hér á landi.“" Umferðarnefnd var falið að sjá um undirbúninginn. Heildarkostnaður nam rúmlega 33 milljónum króna vegna strætisvagna og 12 milljónum króna vegna umferðarmannvirkja. 1662 skiltum um allt land var skipt út aðfararnóttina sjálfa og höfðu þá alls 5727 skilti verið færð til. Eina slysið vegna breytinganna þann dag var drengur á hjóli sem fótbrotnaði. MGMT. MGMT, hét upprunalega „The Management“ („The Management“ var notað af annarri hljómsveit og þess vegna var heitið stytt í „MGMT“), er bandarískur dúett frá Brooklyn í New York sem samanstendur af Ben Goldwasser og Andrew VanWyngarden. Þeir voru upprunalega skráðir hjá Cantora Records, en núna eru þeir skráðir hjá Columbia Records/Red Ink/Sony árið 2006. Þann 5. október 2007 tilkynnti tónlistartímaritið Spin.com að MGMT væri „hljómsveit dagsins“. Þann 14. nóvember 2007 nefndi tímaritið "Rolling Stone" MGMT sem topp 10 „Artist to Watch“ ársins 2008. Hljómsveitin fékk 9. sæti í "Sound of 2008 top 10" könnuninni af BBC. Þeir voru líka nefndir mest spilaðasta hljómsveit ársins 2008 á Last.fm vefsíðunni. Í október 2007 var gefið út fyrsta plata eftir hljómsveitinni "Oracular Spectacular" sem vann 12. sæti á breska vinsældalistanum og 6. sæti á ástralska vinsældalistanum. "NME" nefndi hana besta plata ársins 2008. Oracular Spectacular. Fyrsta plata MGMT er "Oracular Spectacular". "Oracular Spectacular" hefur skotið hljómsveitinni MGMT upp á stjörnuhimininn. Í tónlistardómi Rjómans, íslensks vefrits um tónlist, segir að "Oracular Spectacular" er ein af þessum fágætu plötum sem hreinlega kalla á að vera spilaðar aftur og aftur." Íslenska rokk útvarpstöðin Xið-977, valdi Oracular Spectacular sem plötu vikunnar þann tuttugasta og annan apríl, árið 2008. Jónsi, úr hljómsveitinni Sigur Rós, tók þekju á laginu "Time to Pretend". Lagið er að finna á plötu MGMT, "Oracular Spectacular". Jónsi flutti þekjuna í þættinum Live Lounge, á útvarpstöðinni BBC Radio 1. Congratulations. "Congratulations", er seinni plata MGMT. Platan "Congratulations" er blanda af mörgum tónlstarstefnum, eins og sækadeliku, mod-rokks, freak-folk, 80’s nýbylgju og pönks. "Congratulations" hefur hlotið lof íslenskra gagnrýnenda. Í tónlistardómi Rjómans, segir að "Congratulations" er hálfgerð rússibanareið þar sem óvæntar beygjur, hringsnúningar, dýfur, hólar og hæðir kasta hlustandanum til og frá". Rjóminn gefur plötunni "Congratulations" í einkunn 4 af 5 mögulegum. Rjóminn valdi jafnframt lag af plötunni Congratilations, "Song for Dan Treacy" á lista 10 bestu erlendu lögin 2010. Umsögn Popplands, þátt Rásar eitt um popptónlist, er á svipaða leið. Poppland valdi plötuna, "Congratulations", sem erlenda plötu vikunnar, þann þriðja maí árið 2010. Ekki eru þó allir sammála íslensku tónlistarspekingunum á vefritinu Rjómanum, og í útvarpsþættinum Popplandi. Í yfirlýsingu frá MGMT, þá báðust þeir afsökunar á plötu sinni, "Congratutions". Forsprakkar sveitarinnar, þeir Andrew VanWyngarden og Ben Goldwasser segja að platan innihaldi enga smelli, og þeir séu hissa á að plötufyrirtæki þeirra, Sony/Columbia hafi leyft þeim að gefa plötuna út. Pólýkarbónat. Pólýkarbónat eða PC er hitaþolið og höggþolið plastefni. Það er hitadeigt plast og fjölliða. Hitadeigt plast. Hitadeigt plast er plastefni sem er hægt að bræða og móta aftur og aftur. Granít. Granít er stórkornótt tegund af súru djúpbergi. Helstu frumsteindir þess eru kvars og feldspat og innan við 10% bergsins eru dökkar steindir. Granít getur verið allt frá því að vera bleikt til dökkgrátt og jafnvel svart. Sökum þéttleika og hörku þess er granít vinsælt sem iðnaðargrjót. Meðalþéttleiki þess er 2,75 g/sm3. Bergtegundin finnst aðeins á einum stað á Íslandi eða í Slaufrudal í Lónasveit. Það er ljóst yfirlitum eins og granófýr en grófara. Tungnafellsjökull. Tungnafellsjökull er jökull og eldstöð norðvestur af Vatnajökli. Hæsti tindur jökulsins er um 1.540 metra yfir sjávarmáli. Jökullinn er um 48 ferkílómetrar. Jöklar á Íslandi. Jöklar á Íslandi þekja nú um 11% af flatarmáli landsins (um 11.400 km2 af 103.125 km2). Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu, þekur um 8% landsins. Stærstu jöklana er að finna á sunnanverðu landinu og í miðju þess. Ástæðan er sú að þar er meiri úrkoma en norðanlands. Áætlað er að um 20% heildarúrkomu á Íslandi falli á jöklana. Ásýnd jöklanna breytist hratt og stór hluti þeirra eru skriðjöklar. Allir íslenskir jöklar eru þíðjöklar. Helstu jöklar Íslands. Þessir þrettán stærstu jöklar Íslands eru um 11.181 km2 að flatarmáli en allir jöklar landsins eru um 11.400 km2. Afkoma jökla á Íslandi. Talið er að síðasta kuldaskeiði ísaldar hafi lokið fyrir um 10 þúsund árum og hlýskeið gengið í garð. Líklega var Ísland alveg jökullaust (eða því sem næst) fyrir 9 þúsund árum. Tímabilið frá þeim tíma og þar til fyrir 2.500 árum einkenndist af mjög mildu veðurfari. Fyrir 2.500 árum kólnaði í veðri og núverandi jöklar tóku að myndast. Jöklarnir hafa sennilega náð hámarki um aldamótin 1900 en hafa síðan þá dregist hratt saman. Frá árinu 1995 hafa jöklarnir dregist enn frekar saman. Til dæmis hefur Vatnajökull rýrnað að meðaltali um 4 km3 á ári sem samsvarar því að allur jökullinn þynnist um hálfan metra árlega. Spáð hefur verið að jöklarnir munu halda áfram að hopa ört á þessari öld og afrennsli þeirra aukast til muna á fyrri hluta aldarinnar, en nú kemur um 20% árrennslis úr jöklum. Þessi farglosun mun valda landrisi, einkum á suðausturhluta landsins, en einnig hefur verið spáð fyrir um hækkandi stöðu sjávar. Landris ku ekki munu verða á suðvesturlandi vegna landsigs sem hefur orðið þar. Eldur og ís. Margir íslensku jöklanna liggja yfir eldstöðvum. Grímsvötn og Bárðarbunga eru til dæmis stórar eldstöðvar undir Vatnajökli. Askja Grímsvatna er um 100 km2 og askja Bárðarbungu um 60 km2. Eldgos undir jöklum verða oft á tíðum í kjölfar jökulhlaupa en jökulhlaupin losa um þrýsting á eldstöðinni. Stundum er atburðarásin í hina áttina þar sem eldgos kemur af stað jökulhlaupi. Ein helsta vá vegna jökulhlaupa á Íslandi er hlaup úr Mýrdalsjökli vegna eldgoss í Kötlu en þaðan hafa einnig runnið stærstu hlaup Íslandssögunnar. Sumir jöklar eru yfir jarðhitasvæðum og bráðnar því stöðugt af þeim. Þau fjöll sem myndast í eldgosum undir jökli nefnast móbergsstapar. Stapar eru mun hærri og reisulegri en dyngjur sem myndast við gos á jökullausu svæði. Um 40 móbergsstapar eru á Íslandi. Eiríksjökull er stærsti stapi landsins. Gossip Girl (1. þáttaröð). Gossip Girl er bandarískur unglinga-drama þáttur sem er byggður á vinsælum bókaflokki eftir Cecily von Ziegesar. Bókaflokkurinn var þróaður í sjónvarpsþátt af Josh Schwartz og Stephanie Savage. Þáttaröðin var sýnd á CW-stöðinni frá 19. september - 19. maí 2008 og samanstóð hún af 18 þáttum sem segja söguna af endurkomu Serenu van der Woodsen í fína hverfið í New York borg eftir dularfullt hvarf hennar í heimavistarskóla í Connecticut á meðan vefsíðan Gossip Girl fylgist með henni. Leikarar. Það voru níu aðalpersónur í þáttaröðinni. Blake Lively lék hina frjálslegu Serenu van der Woodsen, fyrrum aðalstelpuna í fína hverfinu sem snýr aftur eftir að hafa farið skyndilega í heimavistarskóla í Connecticut en Kelly Rutherford lék móður hennar, Lily, sem er margfráskilin. Leighton Meester lék drottningu skólans (Queen Bee), Blair Waldorf, sem er allt annað en glöð þegar besta vinkona hennar snýr aftur. Penn Badgley lék utangarðs miðstéttarstrákinn, Dan Humphrey og var Matthew Settle faðir hans, Rufus, fyrrum rokkstjörna sem fór að selja málverk og Taylor Momsen var systir Dans, Jennu, nýnemi sem reynir að passa inn í hópinn í Constance Billard skólanum. Chace Crawford lék kærasta Blair, Nate Archibald, sem er hrifinn af Serenu. Ed Westwick lék „playerinn“ og „slæma strákinn“ Chuck Bass. Í fyrstu átti Jessica Szohr aðeins að vera aukapersóna en hún lék æskuvin Dans, Vanessu Abrams. Szohr fékk samning eftir fjórtánda þáttinn. Kirsten Bell ljáði "Gossip Girl" rödd sína, en bloggið hennar er þekkt úti um alla borg og er skoðað af flestum unglingum í fína hverfinu. Nokkrar aukapersónur stækkuðu söguþráðinn, meðal annars Connor Paolo sem lék bróður Serenu, Eric van der Woodsen, sem hafði verið í meðferð eftir sjálfsmorðstilraun. Margaret Colin lék móður Blair, Eleanor Waldorf, tískuhönnuð. Colin tók við hlutverkinu af Florenciu Lozanu sem lék hlutverkið í fyrsta þættinum. Michelle Trachtenberg] leikur Georginu Sparks, stelpu úr fortíð Serenu sem snýr aftur eftir að hafa flúið úr meðferð í Utah. Sam Robards og Francie Swift léku foreldra Nates, Howard og Annie Archibald. Nicole Fichella og Nan Zhang léku vinkonur Blair, Isabel Coates og Kati Farkas. Aðrir meðlimir klíku Blair eru Amanda Setton sem Penelope Shafai og Dreama Walker sem Hazel Williams. Aðrar aukapersónur voru Zuzanna Szadkowski sem þerna blair, Dorota Kishlovsky, Robert John Burke sem faðir Chucks og margmiljónamæringurinn Bart Bass, Susan Misner sem eiginkona Rufusar, Alison Humphrey og John Shea sem faðir Blair, Harold Waldorf og William Abadie sem lífsförunauturhans, Roman. Tindfjallajökull. Tindfjallajökull er jökull á sunnanverðu Íslandi. Jökullinn er um 19 km2 að flatarmáli. Hæsti tindur Tindfjallajökuls er Ýmir sem er 1.462 metra hár og dregur nafn sitt af jötninum Ými í norrænni goðafræði. Undir jökulhettunni er eldkeila, er stórgos varð þar fyrir 54.000 árum. Persónur í How I Met Your Mother. Ted Evelyn Mosby. Leikinn af Josh Radnor. Aðalpersóna þáttanna er Ted, arkitekt sem útskrifaðist úr Wesleyan-háskólanum og hugsar of mikið samkvæmt Barney. Ted er fæddur og uppalinn í Shaker Heights í Ohio. Ted bjó með vinum sínum, Marshall og Lily, sem hann hitti í háskóla, alveg þangað til að þau fluttu út í þriðju þáttaröð. Eftir að Marshall trúlofast ákveður Ted að reyna að finna sálufélaga sinn eða "þá einu réttu" og heldur hann að Robin sé sú rétt í fyrstu tveimur þáttaröðunum. En í lok fyrsta þáttarins segir Ted að Robin sé Robin frænka við börnin sín. Þegar hann er að jafna sig á sambandsslitunum við Robin lendir hann í því að fá sér fiðrildatattú neðst á bakið. Ted varði líka einu sinni skólafélaga sinn í slagsmálum. Skólafélaginn var svo þakklátur að þegar hann varð klámststjarna tók hann sér sviðsnafnið "Ted Mosby" til þess að þakka honum. Það eina sem er vitað um framtíð Ted er að hann eignast son og dóttur, sem eru unglingar. Marshall Eriksen. Leikinn af Jason Segel. Marshall hitti Ted og Lily á fyrsta ári í Wesleyan-háskólanum. Hann er í Columbia-lagaskólanum og er frá St. Cloud í Minnesota. Þrátt fyrir að vera 193 cm á hæð er hann minnstur í fjölskyldu sinni. Marshall ákvað að verða lögfræðingur vegna þess að hann hafði svo mikinn áhuga á lögum um verndum umhverfisins. Auðvitað tók hann starfi hjá stóru fyritæki þar sem eini viðskiptavinur hans var skemmtigarður sem braut fjölmörg lög um öryggi. Hann skiptir seinna um starf og gengur til liðs við hóp lögfræðinga hjá Goliath National-bankanum, sem Barney vinnur líka hjá. Marshall er mjög góður í leikjum og hefur mikinn áhuga á mat og óvenjulegum hlutum, sérstaklega Loch Ness-skrímslinu (en hann kallar "hana" Nessie). Lily Aldrin. Leikin af Alyson Hannigan. Hún er leikskólakennari. Lily er gift Mashall Eriksen og ólst upp í Brooklyn í New York. Lily dreymir um að verða fræg listakona og málar Barney nakinn þegar hann borgar henni 5.000 dollara. Hún þjáist einnig af kaupæði og skuldar mikla peninga. Henni tekst að halda þessu leyndu fyrir Marshall þangað til þau sækja um lán en hún kemst einnig að því að listaverkin hennar hafa róandi áhrif á dýr (nema fugla sem virðast ekki „geta meðtekið listina hennar“). Barney Stinson. Leikinn af Neil Patrick Harris. Hann er daðrari, elskar jakkaföt, finnst gaman að spila laser-tag og framkvæma töfrabrögð sem innihalda oft eld og hann notar oft orðin „awesome“ (ísl. „geggjað“) og „legendary“ (ísl. „sögufrægur“) og Ted finnst hann nota þau allt of mikið. Barney var trúlofaður í háskóla og þegar hún hætti með honum (hann var enn þá hreinn sveinn) kemur samkynhneigði svarti bróðir hans honum til bjargar og semur við konu um að sofa hjá Barney. Konan sagði að hann hefði verið "geggjaður" (awesome) og "sögufrægur" (legendary) (samkvæmt beiðn frá bróður Barney) og fékk Barney mikið sjálfstraust. Áður en Barney missti sveindóminn var hann síðhærður hippi og ætlaði að ganga í friðarsveitina. Hann vinnur núna hjá Goliath National-bankanum en það er óvíst hvað hann gerir þar. Í byrjunarþætti fjórðu þáttaraðar kemur fram að Barney er ástfanginn af Robin og þróast þær tilfinningar í þættinum "The Goat". Robin Scherbatsky. Leikin af Cobe Smulders. Robin er sjónvarpsfréttakona á fréttastöð í New York. Mestalla aðra þáttaröðina á hún í ástarsambandi við Ted eftir að Ted hafði eytt síðasta árinu í að vera hrifinn af henni. Snemma í fyrstu þáttaröðinni kemur fram að hún giftist ekki Ted en verður "Robin frænka" fyrir börnum Teds. Þrátt fyrir að þau hætti saman verða þau áfram góððrir vinir þrátt fyrir einhverja kynferðislega spennu í þriðju þáttaröðinni, sem sést best þegar Robin kemur heim frá Argentínu með fallegan brúnan mann upp á arminn. Eins og leikkonan Cobie Smulders er Robin frá Kanada. Sem unglingur var hún poppstjarna og var sviðsnafnið hennar Robin Sparkles. Hún túraði um verslunarmiðstöðvar í Kanada til að fylgja smellinum sínum eftir, "Let's Go to the Mall". Í fjórðu þáttaröðinni flytur Robin inn til Ted eftir að segja upp starfi sínu sem fréttamaður í Japan. Hún er nú umsjónarmaður morgunþáttar sem fer í loftið klukkan fjögur á morgnana. Sonur og dóttir Teds Mosby. Ekki er mikið vitað um þau, nema það að þau vita ekki enn þá hvað varð til þess að Ted hitti móður þeirra og þau eru á efri unglingsárunum árið 2030, sem þýðir að þau hafi fæðst rétt eftir 2010. Þegar Ted er á þrítugsaldrinum vildi hann greinilega nefna börnin sín Luke og Leia því að í "Milk" er Ted sagt að sverja við ófæddu börnin sín og hann segir „Ég sver við Luke og Leiu“. Dóttirin er leikin af Lyndsy Fonsecaog sonurinn er leikinn af David Henrie. Carl. Barþjónn á barnum MacLaren's sem er oft heimsóttur af aðalpersónunum. Í fyrsta þættinum á hann í sambandi við stelpu frá Líbanon. Í "The Pineapple Incident" skrifar hann símanúmerið sitt á handleggin á Ted þegar hann er vel drukkin sem segir að það eigi að hringja í þetta númer ef hann týnist. Þrátt fyrir að það komi aldrei fram í þáttunum segja höfundarnir Carter Bays og Craig Thomas að ættarnafn Carls sé MacLaren's og að hann eigi barinn. Joe Nieves, sem leikur Carl, fékk hlutverkið eftir að atriði sem hann átti að leika í var tekið úr þættinum en enginn sagði honum það svo að hann mætti á tökustað í fullum búning (hann átti að leika lögregluþjón). Þar sem enginn vildi segja honum að atriðinu hans hefði verið sleppt var honum gefið hlutverk Carls. Gengilbeinan Wendy. Leikin af Charlene Amoia. Wendy er gengilbeina á MacLaren's. Hún er oft í bakgrunninum en átti í stuttu sambandi við Barney í þættinum "Platinum Rule". Hún hefur komið fram í alls 11 þáttum. James Stinson. Leikinn af Wayne Brady. Barney er svartur og samkynhneigður bróðir Barney sem finnst einnig gaman að vera í jakkafötum og hagar sér eiginlega alveg eins og Barney. Hann er giftur og hann á einn ættleiddan son með eiginmanni sínum. Hann kemur fram í tveimur þáttum. Victoria. Leikin af Ashley Williams. Hún er bakari í bakaríinu Buttercup. Hún og Ted hittast í brúðkaupsveislu þar sem hún gerði tertuna og eyða þau kvöldinu saman með því skilyrði að þau muni aldrei hittast aftur til þess að eyðileggja ekki kvöldið. Loforðið er snemma brotið og þau byrja saman. Það verður flókið þegar henni er boðinn skólastyrkur í virtan matreiðsluskóla í Þýskalandi. Þau ákveða að reyna fjarsamband en það gengur ekki upp og þau hætta saman. Kemur fram í sex þáttum. Stella. Leikin af Söruh Chalke. Húðlæknir Teds sem fjarlægir fiðrildatattúið af mjóbakinu á honum. Ted reynir að sannfæra hana um að fara út með sér í þættinum Ten Sessions. Stella neitar alltaf og segir Ted að hún þurfi að einbeita sér að dóttur sinni en fer að lokum á tveggja mínútna stefnumót með Ted. Hún og Ted byrja saman stuttu seinna. Framtíð hennar og Teds fer öll í loft upp þegar hún skilur hann eftir við altarið. Kemur fram í nokkrum þáttum í þriðju þáttaröð og að minnsta kosti fimm þáttum í fjórðu þáttaröð. Brad. Leikinn af Joe Manganiello. Vinur Marshalls úr skólanum. Brad og Marshall fara að vera saman eftir að þeir verða einhleypir aftur. Hann kemur einnig í steggjapartýið hans Marshalls og brúðkaupið. Hann er í fjórum þáttum. Sandy Rivers. Leikinn af Alexis Denisof (alvöru eiginmanni Alyson Hannigan. Hún er fyrrverandi samstarfsmaður Robin. Sandy er alltaf að biðja Robin um að fara á stefnumót með sér þangað til að eitt kvöldið segir hún já og gerir Ted mjög afbrýðissaman. Áður en þetta gerist er hann uppáhald Teds og Marshalls þar sem þeim fanns gaman að hlæja að honum þegar hann las upphátt upp úr blaðinu á morgnana í beinni útsendingu. Hann yfirgefur MetroNews One (fréttastöðin þar sem hann og Robin vinna) fyrir CNN og kemur Robin í staðinn fyrir hann. Hún kemur fram í þremur þáttum. Katie Scherbatsky. Leikin af Lucy Hale. Hún er yngri systir Robin og kemur fyrst fram í First Time in New York þar sem hún kemur í heimsókn. Hún kemur fram í einum þætti. Heather Mosby. Leikin af Erin Cahill. Hún er óábyrga yngri systir Teds. Heather kemur fram í þættinum Little Minnesota. Ranjit. Leikinn af Marshall Manesh. Leigubíla- og limmósínubílstjóri frá Bangladesh sem keyrir aðalpersónurnar um einsöku sinnum og drekkur einu sinni kampavín með þeim á MacLaren's. Hann keyrir líka glæsivagninn rétt eftir að Marshall og Lily eru búin að gifta sig. Hjálpar Ted á tveggja mínútna stefnumótinu með Stellu og keyrir Barney og Ted í þrítugsafmæli Teds í þættinum The Goat. Hann kemur fram í sex þáttum. Hammond Druthers. Leikinn af Bryan Cranston. Yfirmaður Teds í fyrirtækinu sem hann vinnur hjá þangað til að Ted kemur með betri teikningu en hann í þættinum Aldrin Justice. Kemur fram í tveimur þáttum. Trudy. Leikin af Danicu McKellar. Stelpan sem endar í rúminu með Ted eftir að Barney sannfærir hann um það hann hugsi of mikið. Hún kemur í tveimur þáttum. Penelope. Leikin af Amy Acker. Penelope er stelpa sem svaf hjá Barney tvisvar og kennir Ted hvernig á að dansa rengdans. Hún kemur fyrir í einum þætti. Chloe. Leikin af Morenu Baccarin. Chloe er stelpa sem vinnur á kaffihúsi og á í stuttu ástarsambandi við Marshall og byrjar einnig á því að kalla Barney "Swarley". Amy. Leikin af Mandy Moore. Hún er stelpa sem Ted hittir á McLaren's og notar hana til þess að komast yfir Robin. Hún stelpur flösku af tekíla af barnum. Hún fer með vel drukkinn Ted og fær hann til þess að fá sér fyrsta húðflúrið sitt. Abby. Leikin af Britney Spears. Hún er móttökudama Stellu. Abby er mjög drífandi og heimskuleg og verður rosalega hrifin af Ted þegar hann er að reyna að tæla Stellu. Barney endar á því að sofa hjá henni og svo ákveða þau að sína Ted hvað það er fáránlegt að vera í sambandi, þar sem þeim líkar ekki þegar hann er á föstu. Abby virðist samt enn þá vera ástfangin af Ted og á erfitt með að átta sig á því að samband hennar of Barney er ekki ekta. Kemur fram í tveimur þáttum. Scott. Leikinn af Tom Lenk. Hann er gaur sem vinnur á kaffihúsinu sem bendir Lily á Chloe og er einnig með merkispjald sem stendur "Brian" á. Prófessor Lewis. Leikin af Jane Seymour. Nýlega fráskilinn lagaprófessor sem kennir Marshall og er álitin „fjallaljón“ af Barney, sem reynir að "temja hana". Kóreskur Elvis. Kóreskur maður sem klæðir sig upp eins og Elvis og hangir með hópnum eftir að hafa hitt Barney, Marshall og Lily þegar þau fóru í karókí eftir að Marshall og Barney losnuðu úr vinnunni. Stuart. Góður vinur Teds og Marhsalls sem kemur með þeim í steggjapartý Marshalls. Stuart var að fara að giftast öðrum vini þeirra, Claudiu, þegar Ted vildi koma með gest í brúðkaupið þeirra og Claudia missti næstum vitið því að það gátu ekki komið fleiri. Ted fer í kringum Claudiu og talar við Stuart og spyr hvort að hann megi koma með Robin í brúðkaupið hans og Stuart játar því. Þetta verður til þess að Stuart og Claudia hætta saman en Ted kemur þeim aftur saman. Hann kemur líka fram í Intervention þar sem þau tjá honum áhyggjur sínar af drykkjuvanda hans. Kemur fram í fjórum þáttum. Þórisjökull. Þórisjökull er jökull og stapi suðvestur af Langjökli. Hæsti tindur jökulsins er um 1.350 metra yfir sjávarmáli. Jökullinn er um 32 ferkílómetrar. Fjallið Ok er norðvestan við jökulinn en á milli Oks og Þórisjökuls liggur Kaldidalur, forn þjóðleið. Þórisdalur er á milli Þórisjökuls og Geitlandsjökuls. Nýi stíllinn keisarans. "Nýi stíllinn keisarans" (enska: "The Emperor's New Groove") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2000. Þrándarjökull. Þrándarjökull er jökull og eldstöð á Austurlandi. Hæsti tindur jökulsins er um 1.236 metra yfir sjávarmáli. Jökullinn er um 22 ferkílómetrar. Þrándarjökull er í 20 kílómetra fjarlægð frá Vatnajökli í austurátt. Víðimýri. Víðimýri er bær í Skagafirði, fyrir sunnan og ofan Varmahlíð, og tilheyrði Seyluhreppi áður. Bærinn er gamalt höfuðból og var í lok 12. aldar og á 13. öld bústaður helstu höfðingja héraðsins af ætt Ásbirninga, frá Kolbeini Tumasyni til Kálfs sonar Brands Kolbeinssonar, sem vitað er að bjó þar 1262. Á 17. og 18. öld var jörðin löngum sýslumannssetur. Víðimýri hefur nú verið skipt niður í átta eða níu sjálfstæðar jarðir. Snorri Sturluson lét eftir því sem segir í Sturlungu gera virki á Víðimýri um 1220 og mátti að sögn sjá menjar þess fram á 20. öld en þá var allt sléttað. Kirkja hefur sennilega verið á Víðimýri frá því um eða eftir kristnitöku og frægastur presta þar fyrr á öldum er Guðmundur Arason, síðar biskup. Núverandi kirkja var reist 1834. Á fyrstu áratugum 20. aldar reyndu bæði sóknarbörn og kirkjuyfirvöld að fá bóndann á Víðimýri, Steingrím Arason, til að rífa kirkjuna og byggja nýja en hann vildi það ekki og árið 1934 keypti Þjóðminjasafnið kirkjuna. Síðan þá hefur hún verið endurbætt mikið og þykir gersemi og frábært sýnishorn af gamalli íslenskri byggingarhefð. Kirkjan er úr torfi og timbri og var það Jón Samsonarson alþingismaður sem sá um smíði hennar. Torfajökull. Torfajökull er eldstöðvakerfi og jökull norðan við Mýrdalsjökul og sunnan við Þórisvatn. Hæsti tindur Torfajökuls er um 1.190 metra hár. Jökullinn er um 15 ferkílómetrar. Torfajökulssvæðið er mesta ríólítsvæði á Íslandi og næstmesta háhitasvæði á eftir Grímsvötnum. Á svæðinu er stærsta askja landsins. Torfajökull gaus síðast um árið 1480 en einnig er vitað af gosi árið 872. Hrafntinnuhraun myndaðist í gosinu um 872 en súru hraunin við Landmannalaugar, Námshraunin og Laugahraun mynduðust í gosinu árið 1480. Reynistaður. Reynistaður, áður Staður í Reynisnesi, er bær í Skagafirði. Reynistaður er gamalt höfðingjasetur. Þorfinnur karlsefni var frá Reynistað og bjó þar um tíma með konu sinni Guðríði Þorbjarnardóttur eftir að þau sneru aftur frá Vínlandi. Staður var á Sturlungaöld eitt af höfuðbólum Ásbirninga. Þar bjó Kolbeinn kaldaljós, einnig nefndur Staðar-Kolbeinn, og síðan sonur hans Brandur Kolbeinsson. Gissur Þorvaldsson eignaðist Reynistað síðar og má ef til vill segja að þar hafi þá orðið jarlssetur, því að Gissur hafði fengið jarlsnafnbót. Gissur gaf Reynistað til stofnunar nunnuklausturs. Hann dó 1268 en Reynistaðarklaustri var þó ekki komið á fót fyrr en 1295 og starfaði þar til siðaskipta. Þá var klaustrið lagt niður en nunnurnar fengu að vera þar áfram til æviloka. Engar rústir eða aðrar sýnilegar menjar um klaustrið er að finna á Reynistað en nokkur örnefni tengd klaustrinu eru þar. Klaustrið eignaðist fjölda jarða sem komust í eigu konungs eftir siðaskipti en umboðsmenn hans önnuðust umsjón þeirra og kölluðust klausturhaldarar. Margir þeirra bjuggu á Reynistað og má nefna Odd Gottskálksson lögmann, feðgana Sigurð Jónsson (d. 1602) og Jón Sigurðsson lögmann (d. 1635), Jens Spendrup sýslumann, Halldór Vídalín Bjarnason, föður Reynistaðarbræðra, sem bjó á Reynistað 1768-1800 og ekkju hans, Ragnheiði Einarsdóttur, sem var klausturhaldari 1803-1814, og Einar stúdent Stefánsson, afa Einars Benediktssonar skálds. Þegar gamli bærinn á Reynistað var rifinn 1935 var bæjardyraportið látið standa en það er með stafverksgrind af þeirri gerð sem tíðkaðist hér á 18. öld. Það var seinna flutt til og byggð við það steinsteypt skemma en árið 1999 var portið reist nálægt upphaflegum stað og hlaðnir að því torfveggir og torf sett á þakið. Það er nú friðað og í vörslu Þjóðminjasafnsins. Kirkja hefur verið á Reynistað frá fornu fari og var núverandi kirkja, sem er úr timbri, vígð 1870. Hún er nú friðuð. Sagt er að Gissur jarl sé grafinn undir gólfi kirkjunnar. Vallalaug. Vallalaug er heit uppspretta í landi Ytra-Vallholts í Vallhólmi í Skagafirði. Laugin er miðsvæðis í héraðinu og þar var samkomustaður og stundum þingstaður fyrr á öldum. Þar var Sturla Sighvatsson með menn sína fyrir Örlygsstaðabardaga 1238 og stundum er getið um að menn hafi komið saman við Vallalaug. Seinna var þar þriggja hreppa þing (fyrir Akrahrepp, Seyluhrepp og Lýtingsstaðahrepp) og kemur þingstaðurinn oft við sögu í gömlum dómum og öðrum heimildum. Seinast mun hafa verið þingað við Vallalaug um miðja 18. öld. Laugin má nú heita horfin þar sem hún var virkjuð til hitaveitu. Ógreinilegar tóftir eru nálægt lauginni, líklega af gömlum búðum. Hvalasafnið á Húsavík. Hvalasafnið á Húsavík er safn á Húsavík, við Skjálfandaflóa á Norð-austurlandi. Það var stofnað 1997 og er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Upphaflega var lítil sýning í sal félagsheimilisins á efri hæð Hótels Húsavíkur. Ári seinna flutti safnið í um 200 m² rými á efri hæð „Verbúðanna“ við höfnina. Safnið hét þá Hvalamiðstöðin á Húsavík. Gestafjöldi óx jafnt og þétt og því var nauðsynlegt að flytja safnið í stærra húsnæði sem hentaði starfsemi þess betur. Árið 2000 keypti Hvalamiðstöðin gamla sláturhús Kaupfélags Þingeyinga (sem var byggt 1931 og hætt notkun á 9. áratugnum) og gerði það upp og opnaði svo nýtt safn í júní 2002. Árið 2004 var nafni safnsins breytt í Hvalasafnið á Húsavík. Sýningin óx hratt, árið 2005 var líffræðisalnum bætt við en þar er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar um vistfræði hafsins, líffræði og lífeðlisfræði hvaldýra. Sýningarsvæði safnsins er nú 1600 m². Safnið. Tilgangur safnsins er að fræða almenning um vistkerfi hafsins og tegundir hvaldýra, með áherslu á tegundir í Norður-Atlantshafinu. Í vísindahlutanum er að finna kynningu á rannsóknum safnsins sem hafa vaxið síðan 2001 og eru nú grunnur alþjóðlegrar samvinnu og útgáfu. Árið 2007 hlaut safnið formlega viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins sem fræðastofnun. Sýningarsvæðið. Sýning Hvalasafnsins er á 1.600 m² svæði á tveimur hæðum. Áhersla er lögð á vandaða framsetningu efnis. Skýringarmyndir og náttúrulegir sýningargripir vekja áhuga gesta og ímyndunarafl og hvetja til lestrar fræðandi texta. Á neðri hæðinni er að finna sýningu um vistkerfi hafsins sem kynnir gestum búsvæði og vistfræði hvala. Þar er líka að finna upplýsingar um þróun, líffærafræði og lífeðlisfræði hvaldýra. Búkur hrefnukálfs var endurgerður utanum hluta beinagrindar til að sýna líkamsbyggingu hvala á aðgengilegan hátt. Aðrir hlutar sýningarinnar fjalla um tegundir hvala í Norður-Atlantshafi, náttúrusögu þeirra, hvalreka, hvalaskoðun og hvalveiðar Íslendinga fyrr og nú. Sérstakt herbergi er tileinkað höfrungum með áherslu á algengustu tegundir við Ísland. Háhyrningar fá sérstaka umfjöllun, þar á meðal frægasti íslenski háhyrningurinn, Keikó. Tvær heimildarmyndir um hvalveiðar og átökin milli hvalveiða og hvalaskoðunar eru til sýnis. Þar sem fjallað er um hljóð hvala og bergmálstækni er meðal annars gagnvirkur tölvuleikur sem nota má til að fræðast um hljóð hvala. Á efri hæð safnsins er „hvala-galleríið“ en þar er að finna beinagrindur af níu tegundum hvala. Fyrsta beinagrindin sem sett var saman var af norðsnjáldra (Mesoplodon bidens) árið 1998, næstu grindur voru af hrefnu (Balaenoptera acutorostrata) og búrhval (Physeter macrocephalus). Aðrar beinagrindur eru af hnúfubak (Megaptera novaeangliae), háhyrningi (Orcinus orca), skugganefju (Ziphius cavirostris), andarnefju (Hyperoodon apmullatus) og grindhval (Globicephala melas). Árið 2004 fékk safnið að gjöf frá Grænlandi afar áhugaverða beinagrind af náhval (Monodon monoceros). Sjálfboðaliðastarf. Safnið hefur frá upphafi staðið fyrir alþjóðlegu sjálfboðaliðaprógrammi sem á sinni tíð var nánast óþekkt á Íslandi. Sjálfboðaliðarnir hafa flestir verið háskólanemar í líffræði eða skyldum greinum. Sjálfboðaliðarnir eru daglegri starfsemi safnsins ómetanlegir, með þeim er unnt að halda safninu opnu allan daginn, alla daga sumarsins. Sjálfboðaliðarnir þýða kynningartexta, vinna að sýningunni sem stöðugt er verið að bæta og taka þátt í rannsóknarverkefnum safnsins. Þeir eiga möguleika á að fræðast um hvali og upplifa þá í sínu náttúrulega umhverfi. Þeir verða fljótt færir um að veita gestum sérfræðileiðsögn um safnið og geta oft veitt fræðslu og upplýsingar á mörgum tungumálum. Sjálfboðaliðarnir taka þátt í rannsóknum safnsins á hvölum en þær hafa staðið yfir um árabil. Hvalaskoðunarbátar eru nýttir til að nálgast hvalina og fara sjálfboðaliðar í eina ferð á dag til að afla nauðsynlegra gagna vegna rannsókna. Gagnabanki safnsins er uppfærður jafn óðum og notaður af rannsakendum til áframhaldandi fræðistarfa. Hvalarannsóknin. Rannsókn Hvalasafnsins byrjaði árið 1998 en gögnin sem var aflað voru send til annarrar stofnunar. Nokkrum árum seinna ákvað safnið að gera sitt eigið gagnasafn. Í samráði við annað af hvalskoðunarfyrirtækjum bæjarins, Norðursiglingu, var ákveðið að starfsfólk Hvalasafnsins gæti farið í hvalaskoðunarferðir á sumrin til að safna gögnum. Safnið er einnig í samstarfi við bæði háskóla og aðra rannsakendur. Hingað til hefur rannsóknin aðallega snúist um svokallaða ljósmyndagreiningu, þar sem bornar eru saman myndir af hvölum og greindir í sundur einstaklingar innan tegundar. Einnig er kannað vistkerfi og öndunar mynstur hvalanna. Neðribyggð. Allmörg nýbýli og smábýli hafa verið byggð í sveitinni á síðari árum og á nýbýlinu Varmalæk úr landi Skíðastaða var lengi verslun og vísir að svolitlu þorpi. Óvíst er hver nam land á Neðribyggð því Landnámabók greinir ekki frá því en þess hefur verið getið til að byggðin hafi annaðhvort verið hluti af landnámi Álfgeirs, sem nam Efribyggð, eða að hún hafi verið landnám Þorviðar, sem virðist samkvæmt Landnámu hafa numið sama land og Vékell hamrammi. Fremribyggð. Fremribyggð er byggðarlag í framanverðum Skagafirði og tilheyrði áður Lýtingsstaðahreppi. Nafnið er þó sjaldan notað nú á tímum. Fremribyggð tekur við af Neðribyggð sunnan við Mælifellsá og liggur meðfram Svartá. Þar eru nokkrir bæir, meðal annars prestssetrið Mælifell. Landnámsmaðurinn Vékell hamrammi nam land á Fremribyggð og bjó á Mælifelli. Raunar er Þorviður nokkur einnig sagður hafa numið þetta svæði. Vékell hamrammi. Vékell hamrammi var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land á Fremribyggð, ofan frá Gilá (nú Gljúfurá) til Mælifellsár og bjó á Mælifelli. Raunar er Þorviður landnámsmaður einnig sagður hafa numið þetta land en það er trúlega misskilningur höfundar Landnámu. Vékell fór suður á fjöll í könnunarferð og „kom til hauga þeirra er heita Vékelshaugar; hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur“. Álfgeir (landnámsmaður). Álfgeir var landnámsmaður í Skagafirði og nam land á Efribyggð, eða eins og segir í Landnámabók „um Álfgeirsvöllu og upp til Mælifellsár og bjó á Álfgeirsvöllum“. Austurmörk landnámsins eru þó óljós því Landnáma segir ekkert um það hver nam land á Neðribyggð og kann að vera að landnám Álfgeirs hafi einnig náð þangað. Sveitarnafnið Álfgeirsvellir er óþekkt en bær með því nafni hefur verið þarna frá fornu farið og má vel vera að Landnámuhöfundur hafi ruglast því hann virðist hafa verið ókunnugur í Skagafirði. Þorviður (landnámsmaður). Þorviður var landnámsmaður í Skagafirði. Landnám hans var í Lýtingsstaðahreppi en óljóst er hvar því að samkvæmt Landnámabók virðast þeir hafa numið sama svæði, milli Mælifellsár og Giljár (nú Gljúfurár), hann og Vékell hamrammi. Þess hefur verið getið til að Þorviður hafi numið Neðribyggð alla eða mestalla, en í Landnámabók er ekkert sagt um hver nam þá sveit. Hugsanlegt er líka að Þorviður hafi numið landið á undan og yfirgefið það en Vékell hafi síðan numið það að nýju. Tungusveit (Skagafirði). Tungusveit er byggðarlag í Skagafirði og mun nafnið áður hafa náð yfir mestallan Lýtingsstaðahrepp, en nú nær það einungis yfir tunguna sem er á milli Héraðsvatna og Svartár, frá Vallhólmi fram að mynni Svartárdals og Vesturdals. Tungan er oft kölluð Reykjatunga, eftir kirkjustaðnum Reykjum í Tungusveit. Hún er löng og mjó og þar er fjöldi bæja. Lögtún. Lögtún er bær í sveitarfélaginu Frosta eða Frostu í Norður-Þrændalögum, í grennd við staðinn þar sem Frostaþing var háð. Ekki er vitað hvort nafnið var í eintölu eða fleirtölu, og sumir fræðimenn hafa giskað á að hin forna nafnmynd hafi verið "Lagatún", en "Lögtún" er hliðstætt nafn og "Lögberg". Lögtúns-kirkja er forn steinkirkja við bæinn Lögtún. Talið er að lögbókin með Frostaþingslögunum hafi verið geymd í kistu í kirkjunni, og einnig signet lögmannsins. Í kirkjunni er altaristafla sem var skorin út 1652, og máluð 1655. Samkvæmt Frostaþingslögunum var kirkja hér skömmu fyrir 1200, og líklega mun fyrr. Núverandi steinkirkja er talin byggð um eða eftir 1500, en hún gæti þó verið mun eldri að stofni til. Hún var aðalkirkja byggðarlagsins fram til 27. desember 1862, þegar ákveðið var að byggja nýja kirkju við Presthús (Frosta kirke). Sú kirkja var vígð 24. október 1866. Gamla kirkjan var árið 1903 afhent Fornminjafélaginu í Noregi (Fortidsminneforeningen) gegn því að henni yrði haldið við. Nú er hún opin ferðamönnum á sumrin, og einnig notuð fyrir brúðkaup, skírnir og annað tilfallandi helgihald, auk tónleika. Hrosskell (landnámsmaður). Hrosskell var landnámsmaður í framanverðum Skagafirði, nam Svartárdal og bjó á Írafelli (áður Ýrarfelli). Í Landnámabók segir að hann hafi numið Svartárdal og Ýrarfellslönd en Írafell telst nú til Svartárdals, hvað sem áður hefur verið. Þetta svæði var upphaflega hluti af landnámi Eiríks Hróaldssonar en hann lét Hrosskeli eftir hluta þess. Hrosskell sendi Roðrek þræl sinn í landkönnunarferð suður Mælifellsdal en hann fór ekki nema skammt suður á bóginn. Nágrönnum hans, Vékeli hamramma og Rönguði sendimanni Eiríks í Goðdölum, tókst mun betur upp við landaleitina. Eiríkur Hróaldsson. Eiríkur Hróaldsson var landnámsmaður í framanverðum Skagafirði. Hann nam land neðan frá Gljúfurá og Svartá, Svartárdal, Vesturdal og Reykjatungu og samkvæmt Landnámabók einnig Austurdal en það stangast þó á við það sem segir um landnám Önundar þar. Landnámið er mjög stórt og fengu aðrir landnámsmenn síðar hluta þess. Í Landnámabók segir að hann hafi numið Goðdali alla. Nafnið Goðdalir er nú eingöngu bæjarnafn en virðist í Landnámu notað um alla dalina þrjá. Eiríkur bjó á Hofi í Goðdölum (nú Hofi í Vesturdal). Hann sendi þræl sinn sem Rönguður hét suður á fjöll að kanna landið. Rönguður fór suður með Blöndukvíslum og upp á Kjöl og fann þar mannsspor sem lágu sunnan að. Þá áttaði hann sig á að þarna væri hægt að komast milli landshluta. Má því segja að Rönguður hafi fundið Kjalveg fyrstur manna. Kvennalandslið Íslands á EM 2009. Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu tók þátt í EM 2009, úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu landsliða kvenna. Leiðin á EM. Landsliðið varð í öðru sæti í riðli 3 og fór því í umspil við Íra sem það vann. Þar með tryggði landsliðið sér sæti í úrslitakeppninni sem er haldin í Finnlandi. Á meðan á undankeppninni stóð fylgdu Þóra Tómasdóttir og Hrafnhildur Gunnarsdóttir þeim eftir og tóku upp heimildarmyndina "Stelpurnar okkar" sem var frumsýnd 14. ágúst 2009 í Háskólabíói. Úrslitakeppnin. Þann 5. ágúst 2008 var tilkynnt hvaða 22 leikmenn yrðu í leikmannahópi Íslands í úrslitakeppninni. Nokkrir leikmenn sem leikið höfðu í undankeppninni höfðu forfallast vegna meiðsla og komust því ekki með. Leikir Íslands. Ísland var í B-riðli ásamt Frökkum, Þjóðverjum og Norðmönnum. Öll liðin nema Ísland komust áfram í 8-liða úrslit. Úlfljótur (landnámsmaður í Skagafirði). Úlfljótur var landnámsmaður í Skagafirði og nam Langaholt (nú Langholt) fyrir neðan Sæmundarlæk (nú Sæmundará) og líklega allt austur að Héraðsvötnum, þótt þess sé ekki getið sérstaklega. Ekki er vitað hver landnámsjörðin var en Glaumbær og Geldingaholt urðu helstu höfuðbólin í landnáminu. Sæmundur suðureyski. Sæmundur suðureyski var landnámsmaður í Skagafirði. Hann hafði áður verið í víkingaferðum með Ingimundi gamla og er hans getið í Vatnsdæla sögu. Hann kom til Íslands og lenti skipi sínu í Gönguskarðsárósi. Síðan nam hann Sæmundarhlíð alla en það nafn náði þá yfir miklu stærra svæði en nú er, allt út að Gönguskarðsá, en nú nær Sæmundarhlíð ekki nema út að Reynistað. Austurmörk landnámsins voru við Sæmundará, sem heitir Staðará neðst, og síðan Héraðsvötn og hefur Sæmundur því einnig numið þau byggðarlög sem nú kallast Staðarsveit og Borgarsveit. Óljóst er hver syðri mörk landnámsins voru því að í einu handriti Landnámabókar er Sæmundur einnig sagður hafa numið land undir Vatnsskarði. Þetta var því mjög stórt landnám og líklega hefur Sæmundur verið með allra fyrstu landnámsmönnum í Skagafirði. Landnámsjörð Sæmundar er ýmist kölluð Sæmundarstaðir eða Geirmundarstaðir í handritum Landnámabókar en heitir nú Geirmundarstaðir. Það er þó engin stórjörð; helstu höfuðbólin í landnámi Sæmundar eru Reynistaður og Sjávarborg. Skefill (landnámsmaður). Skefill var landnámsmaður í Skagafirði. Í Landnámabók segir að hann hafi lent skipi sínu í Gönguskarðsárósi í sömu viku og Sæmundur suðureyski og tekið svæðið milli Gönguskarðsár og Sauðár í óleyfi af landnámi Sæmundar en Sæmundur hafi látið kyrrt liggja. Samkvæmt því sem segir um landnám Eilífs arnar í Landnámu hefur landnám Skefils þá aðeins verið svæðið milli ánna en það stenst varla, þetta hefði þá verið minnsta landnám á Íslandi. Líkur hafa þess vegna verið leiddar að því að Skefill hafi einnig numið Gönguskörð og Reykjaströnd en allt land fyrir sunnan Gönguskarðsá hafi tilheyrt landnámi Sæmundar og þar með bæjarstæði Sauðárkróks. Eilífur örn Atlason. Eilífur örn Atlason var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land á Skaga utan frá Mánaþúfu. Það örnefni er týnt og alveg óvíst hvar á austurströnd Skagans það var. Eilífur örn nam líka Laxárdal og samkvæmt Landnámabók einnig til Gönguskarðsár og þar með Gönguskörð og Reykjaströnd en líkur hafi verið leiddar að því að landnámið hafi ekki náð svo langt inn eftir, heldur aðeins yfir Skaga og Laxárdal, en Skefill hafi numið Gönguskörð og Reykjaströnd. Allt er þó óvíst um þetta. Landnámsjörð Eilífs arnar er líka óþekkt en hún var í Laxárdal. Sonur hans, Atli hinn rammi, er sagður hafa búið á Eilífsfjalli eða Eilífsfelli en það bæjarnafn er nú óþekkt. Fjallið Tindastóll, sem gnæfir yfir landnámi Eilífs, hét áður Eilífsfjall. Í upptalningu Landnámabókar á landnámsmönnum í Húnaþingi er eyða í röðinni frá landnámi Holta í Langadal og að landnámi Hólmgöngu-Mána úti á Skagaströnd, fyrir utan Fossá, og hefur sú kenning verið sett fram að landnám Eilífs arnar hafi náð þvert yfir Skagann, en sú tilgáta er talin ósennileg. Debrecen. Debrecen er önnur stærsta borg Ungverjalands og höfuðstaður Hadju-Bihar sýslu í Austur-Ungverjalandi. Evrópumeistaramót landsliða í knattspyrnu kvenna 2009. Evrópumeistarakeppni kvenna í knattspyrnu 2009 var haldin í Finnlandi dagana 23. ágúst til 10. september 2009. Gestgjafarnir Finnar fengu í heimsókn 11 önnur landslið sem unnu sér þátttökurétt þar með sigri í undanriðlum eða umspili. Leikið var í þremur riðlum, þar sem tvö efstu lið hvers riðils komust áfram í 8-liða úrslit ásamt tveimur af þeim liðum sem urðu í 3. sæti sín riðils. Þjóðverjar vörðu titil sinn, og hömpuðu bikarnum fimmtu keppnina í röð. Heimildir. 2009 Selás. Selás sem tilheyrir Árbæ, er í austurhluta borgarinnar. Þaðan er víðsýnt, Bláfjöll blasa við í austri og til vesturs blasir höfuðborgin og í fjarska má sjá Snæfellsjökul í góðu skyggni. Austur af Selásnum er Rauðavatn og enn lengra er Hólmsheiði. Í Seláshverfi er grunnskóli, Selásskóli. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu. Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu er í 15. sæti styrkleikalista FIFA og hefur tekið tvisvar sinnum þátt í Evrópumeistarakeppni kvenna á EM 2009 og EM 1995. Liðið tók þátt í Heimsmeistarakeppni kvenna á HM 2007 og HM 2011. Frá árinu 2009 hefur liðið tekið þátt í Algarve Cup í Portúgal. Saga kvennalandsliðsins. Íslenska kvennalandsliðið var stofnað árið 1981. Fyrsti leikur liðsins var á sama ári, gegn Skotum, þar sem skotarnir unnu naumlega 3-2. Kvennalandsliðið tók síðan þátt í fyrsta skipti í Evrópukeppni ári síðar. Árið 1984 hætti kvennalandsliðið í evrópukeppninni. Ákvörðunin var gerð af Knattspyrnusambandi Íslands, og mikil óánægja var á meðal landsliðskvenna sem söfnuðu 2.129 undirskriftum gegn ákvörðun KSÍ. Fyrir ákvörðun KSÍ hafði liðið spilað 6 leiki í evrópukeppninni frá stofnun kvennalandsliðsins. Ákvörðuninn þýddi jafnframt að liðið gæti ekki keppt í evrópsku keppninni fyrr en 1987. Á árinu 1987 tók við að kvennalandsliðið var lagt niður, og var ekki endurvakið fyrr en 1993. Einu ári eftir endurvakningu kvennaliðsins komst liðið í átta liða úrslit Evrópukeppninnar og munaði litlu, að liðið fengi að leika í úrslitakeppni Heimsmeistarakeppninnar. Ásta B. Gunnlaugsdóttir, knattspyrnukona var jafnframt valin knattspyrnumaður ársins. Á árinu 2001 urðu tvær landsliðstelpur atvinnumenn í Bandaríkjunum, þær Rakel Ögmundsdóttir og Margrét Ólafsdóttir. Sama ár komst KR í fyrsta keppni í Evrópukeppni. Kvennalandsliðið sjálft komst jafnframt í undankeppni heimsmeistarakeppninnar. Þremur árum síðar spilaði kvennalandsliðið í fyrsta skipti innanhús. Á árinu 2008 urðu straumhvörf hjá kvennalandsliðinu. 10 landsliðskonur urðu atvinnumenn, þær Guðbjörg Gunnarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðný B. Óðinsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Edda Garðarsdóttir, Ólína Viðarsdóttir, Ásta Árnadóttir, Þóra Helgadóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir. Kvennalandsliðið var á sama tímabili það fyrsta A-liða Íslands sem komst í lokakeppni stórmóts. Þjálfarar kvennalandsliðsins. Sigurður Hannesson 1981-1984 Logi Ólafsson 1993-1994 Kristinn Björnsson 1995-1996 Vanda Sigurgeirsdóttir 1997-1999 Þórður Georg Lárusson 1999-2000 Logi Ólafsson 2000 Jörundur Áki Sveinsson 2000-2003 Helena Ólafsdóttir 2003-2004 Jörundur Áki Sveinsson 2004-2006 Sigurður Ragnar Eyjólfsson 2007-núverandi Eyjólfur ofsi Þorsteinsson. Eyjólfur ofsi Þorsteinsson (d. 19. júlí 1255) var einn af foringjum Sturlunga eftir að Þórður kakali hvarf úr landi 1250. Hann var frá Hvammi í Vatnsdal og kona hans, Þuríður, var óskilgetin dóttir Sturlu Sighvatssonar og frillu hans Vigdísar Gíslsdóttur. Kolfinna Þorsteinsdóttir, systir Eyjólfs, var líka ein af frillum Þórðar kakala. Þegar Gissur Þorvaldsson sneri heim frá Noregi 1252, vildi hann sættast við Sturlunga, meðal annars með því að gifta Hall son sinn Ingibjörgu Sturludóttur. Eyjólfur ofsi bjó þá í Geldingaholti í Skagafirði en Gissur kvaðst ekki vilja hafa hann í héraðinu. Flutti hann þá að Möðruvöllum í Hörgárdal og virtist í fyrstu ætla að sætta sig við veru Gissurar í Skagafirði. Kona hans manaði hann þá í votta viðurvist að hefna föður síns, og safnaði Eyjólfur þá liði. Nóttina eftir að brúðkaupsveislunni lauk kom hann með flokk manna úr Eyjafirði og brenndi bæ Gissurar á Flugumýri. Kona Gissurar og synir brunnu þar inni en hann slapp sjálfur. Gissur leitaði hefnda eftir Flugumýrarbrennu en tókst ekki að ná Eyjólfi. Eftir að Gissur hvarf til Noregs 1254, deildu Eyjólfur og Þorgils skarði um yfirráð yfir Skagafirði. Þeim lauk með Þverárfundi, bardaga á Þveráreyrum í Eyjafirði 19. júlí 1255, þar sem Eyjólfur féll. Skáldsagan "Ofsi" eftir Einar Kárason (2008) er byggð á frásögn Sturlungu af brennunni og aðdraganda hennar, og vísar nafn bókarinnar til Eyjólfs ofsa. Þess ber þó að geta að bókin er skáldsaga en ekki sagnfræðiverk, og er t.d. persónulýsing Eyjólfs ofsa talsvert ólík frásögnum Sturlungu. Kristianstads DFF. Kristianstads DFF er knattspyrnufélag frá Kristianstad í Svíþjóð. Félagið var stofnað 1998 þegar Kristianstads FF sameinaðist Wä IF. Félagið leikur í Damallsvenskan, efstu deild kvenna í Svíþjóð. Þjálfari þess er Elísabet Gunnarsdóttir. Guðbjörg Gunnarsdóttir. Guðbjörg Gunnarsdóttir (f. 18. maí 1985) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur nú með Djurgårdens IF Dam. Þorgils skarði Böðvarsson. Þorgils Böðvarsson skarði (1226 – 22. janúar 1258) var íslenskur höfðingi á 13. öld. Hann var af ætt Sturlunga, sonur Böðvars Þórðarsonar Sturlusonar og Sigríðar Arnórsdóttur Tumasonar, systur Kolbeins unga. Viðurnefnið kom til af því að Þorgils var fæddur með skarð í vör en fyrr á öldum var ekki algengt að þeir sem þannig var ástatt um kæmust á legg. Árið 1244 fór Þorgils til Noregs og var við hirð Hákonar konungs, sem lét lækni græða skarðið í vör Þorgils og er það fyrsta lýtaaðgerð sem vitað er til að gerð hafi verið á Íslendingi. Árið 1252 sendi konungur Þorgils til Íslands með Gissuri Þorvaldssyni og áttu þeir að reyna að koma landinu undir vald konungs. Þorgils reyndi að ná yfirráðum yfir ríki því sem Snorri Sturluson frændi hans hafði ráðið í Borgarfirði og settist að í Reykholti. Hann var óvæginn og harður, bakaði sér óvinsældir og hraktist á endanum út á Snæfellsnes á föðurleifð sína, Stað á Ölduhrygg. Eftir að Gissur fór aftur til Noregs eftir Flugumýrarbrennu vildi Þorgils reyna að ná yfirráðum í Skagafirði, sem hann taldi sig eiga tilkall til þar sem hann var Ásbirningur í móðurætt, en Eyjólfur ofsi Þorsteinsson vildi einnig ná völdum í Skagafirði. Þeir börðust á Þveráreyrum í Eyjafirði 1255 og þar féll Eyjólfur. Nokkru síðar var Þorgils orðinn höfðingi yfir öllum Norðlendingafjórðungi. Hann lenti þó fljótt í deilum við Svínfellinginn Þorvarð Þórarinsson á Grund, tengdason Steinvarar Sighvatsdóttur á Keldum, sem gerði kröfu um arf eftir Þórð kakala bróður sinn. Deilunum lauk með því að Þorvarður tók Þorgils af lífi á Hrafnagili í Eyjafirði aðfaranótt 22. janúar 1258. Eftir víg hans hraktist Þorvarður burt úr Eyjafirði. Þorgils skarði var ókvæntur en átti dóttur, Steinunni, með Guðrúnu Gunnarsdóttur frillu sinni, systur Ingibjargar sem var fylgikona Gissurar Þorvaldssonar síðustu ár hans. Djurgårdens IF Dam. Älvsjö í úrslitaleik UEFA-Women's Cup Final 2005 í Potsdam, Þýskalandi Djurgårdens IF (einnig Djurgården Damfotboll, áður Djurgården/Älvsjö) er kvennalið knattspyrnufélagsins Djurgårdens IF frá Stokkhólmi. Félagið varð til við sameiningu kvennaliða Djurgårdens IF og Älvsjö AIK árið 2003. Félagið er í 51% eigu Djurgården og 49% eigu Älvsjö. Íslensku landsliðskonurnar Guðbjörg Gunnarsdóttir og Katrín Jónsdóttir spila með liðinu. Hólmfríður Magnúsdóttir. Hólmfríður Magnúsdóttir (f. 20. september 1984) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur nú með Philadelphia Independence. Á árinu 2010 var hún valin sem knattspyrnukoma ársins af KSÍ. Skarð í vör. Skarð í vör og skarð í góm eru tveir náskyldir fæðingargallar sem geta orðið þegar samruni á efri vör og/eða gómi fósturs verður fyrir truflun. Vörin myndast ásamt nefinu á fimmtu til sjöundu viku og getur truflunin orðið öðru megin eða báðum megin við miðnesisgrófina og skarðið ýmist eitt eða tvö. Oftast nær skarðið í gegnum tanngarðinn en stundum er það þó eingöngu í vörinni sjálfri. Gómurinn myndast seinna, á sjöundu til tólftu viku. Þá vaxa hliðar hans saman og mynda skil milli munnhols og nefhols en ef vöxturinn truflast verður gat þar á milli, svokallað gómskarð. Ef einstaklingur er með bæði góm- og vararskarð sem ná saman kallast það alskarð. Þetta er tiltölulega algengur fæðingargalli og er talið að eitt af hverjum 600-800 börnum fæðist með hann. Nú á tímum er skarð í vör og góm lagfært með skurðaðgerðum og þarf í flestum tilvikum nokkrar aðgerðir. Fyrsta aðgerð er oft gerð fljótlega eftir fæðingu til að auðvelda barninu að nærast og síðan eru fleiri aðgerðir gerðar á næstu mánuðum eða árum. Aðgerðir af þessu tagi takast yfirleitt mjög vel og örin verða lítið áberandi. Einstaklingar með skarð í vör eða góm þurfa þó í mörgum tilvikum á umfangsmiklum tannréttingum að halda. Sýking í miðeyra er líka mjög algeng meðal barna sem þannig er ástatt um og getur valdið heyrnarleysi eða heyrnar- og talgöllum sem þarf að lagfæra. Barn með klofna vör á oftast erfitt með að sjúga brjóst eða pela og þarf því að gefa því vökva með skeið eða stútkönnu. Barni með klofinn góm er mun hættara við sýkingum en ella. Þetta varð til þess að fyrr á öldum dóu flest börn með skarð í vör á fyrstu vikum eða mánuðum og þurfti oftast mikla natni til að halda lífi í þeim. Það tókst þó stundum og þótt flestir sem komust á legg og voru með skarð í vör yrðu að sætta sig við gallann var snemma farið að gera aðgerðir til að reyna að laga hann og í "Bald's Leechbook", enskri lækningabók frá 9. öld, er greinargóð lýsing á því hvernig sauma eigi saman skarð í vör. Slík aðgerð var gerð á Þorgils skarða Böðvarssyni af lækni við norsku hirðina 1245 og er það fyrsta lýtaskurðaðgerð sem vitað er til að gerð hafi verið á Íslendingi. Fasarit. Fasarit fyrir dæmigert efni sem kemur fyrir sem fast efni, vökvi og gas. Fasarit eða hamskiptarit er rit í eðlisefnafræði, verkfræði og steindafræði sem sýnir hvernig hamur efna breytist eftir hita, þrýsting eða hlutfall íblöndunarefna. Ásta Árnadóttir. Ásta Árnadóttir (f. 9. júní 1983) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur nú með Tyresö FF í Svíþjóð. Ásta er þekkt fyrir flikk-flakk innköst og hefur gert þar sem hún sýnir hvernig á að gera það. Tyresö FF. Tyresö Fotbollsförening er sænskt knattspyrnufélag frá bænum Tyresö í Svíþjóð. Félagið var stofnað 1971 og er með lið bæði í karla- og kvennaflokkum. Sigurður Ragnar Eyjólfsson. Sigurður Ragnar Eyjólfsson (f. 1. desember 1973) er íslenskur knattspyrnuþjálfari og fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu. Hann er nú landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og hefur verið fræðslustjóri KSÍ síðan 2002. Þann 20. desember framlengdi hann samning sinn við KSÍ til ársins 2012. Haukdælir. Haukdælir voru ein helsta valdaætt landsins frá því á landnámsöld og fram undir lok 13. aldar. Þeir eru kenndir við Haukadal í Biskupstungum en komnir í beinan karllegg frá Ketilbirni gamla, landnámsmanni á Mosfelli í Grímsnesi. Teitur sonur hans er sagður hafa byggt fyrstur bæ í Skálholti. Sonur hans var Gissur hvíti Teitsson, sem kom mikið við sögu kristnitökunnar og var faðir Ísleifs Gissurarsonar, fyrsta biskupsins í Skálholti. Einn þriggja sona Ísleifs var Gissur Ísleifsson biskup en annar var Teitur prestur í Haukadal, fósturfaðir Ara fróða, og hann er talinn ættfaðir Haukdæla. Hallur, sonur Teits, átti að verða biskup í Skálholti en andaðist í Hollandi á heimleið frá Róm árið 1150. Hann átti einn son, Gissur Hallsson stallara Sigurðar konungs munns og síðar lögsögumann og fræðimann í Haukadal. Gissur átti fjölda barna, þar á meðal Magnús biskup, Hall ábóta á Helgafelli, Þuríði móður Kolbeins Tumasonar og Þorvald Gissurarson í Hruna (d. 1235), föður Gissurar Þorvaldssonar sem er þekktastur allra Haukdæla og varð jarl yfir öllu Íslandi. Ekki er fullvíst hvenær Haukdælir höfðu náð öllum völdum í Árnesþingi en það hefur verið á 11. öld eða snemma á 12. öld og samsvaraði valdasvæði þeirra nokkurn veginn Árnessýslu eins og hún er nú. Á Sturlungaöld voru þeir ein af fáum áberandi valdaættum í landinu og voru lengst af í bandalagi við Ásbirninga gegn Sturlungum. Þorvaldur Gissurarson. Þorvaldur Gissurarson (d. 1. september 1235) goðorðsmaður í Hruna var íslenskur höfðingi á 12. og 13. öld. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Gissurar Hallssonar í Haukadal og Álfheiðar Þorvaldsdóttur konu hans. Bræður hans voru Hallur ábóti á Helgafelli og í Þykkvabæ og Magnús biskup í Skálholti. Þorvaldur bjó í Hruna í Hrunamannahreppi frá 1182 og var helsti leiðtogi Haukdæla á fyrsta fjórðungi 13. aldar. Þorvaldur var prestvígður og árið 1225 eða 1226 stofnaði hann með tilstyrk Snorra Sturlusonar Ágústínusarklaustur í Viðey. Hann varð sjálfur kanúki þar og stýrði klaustrinu til dauðadags 1235. Þorvaldur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Jóra, dóttir Klængs Þorsteinssonar biskups, og áttu þau fimm syni. Einn þeirra var Björn, fyrri maður Hallveigar Ormsdóttur, sem síðar giftist Snorra Sturlusyni. Annar var Teitur Þorvaldsson lögsögumaður í Bræðratungu. Síðari kona Þorvaldar var Þóra yngri, dóttir Guðmundar gríss Ámundasonar, allsherjargoða á Þingvöllum (d. 22. febrúar 1210). Sonur þeirra var Gissur Þorvaldsson. Helgafellsklaustur. Helgafellsklaustur var munkaklaustur á Helgafelli í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Klaustrið var Ágústínusarklaustur og var upphaflega stofnað í Flatey á Breiðafirði árið 1172 og nefndist þá Flateyjarklaustur en var flutt að Helgafelli 1184 eða 1185, þar sem það var svo til siðaskipta. Fyrsti ábótinn var Ögmundur Kálfsson. Helgafellsklaustur var mennta- og fræðamiðstöð. Þar var gott bókasafn og þar voru skrifaðar margar bækur. Meðal annars er talið að Skarðsbók hafi verið rituð þar. Klaustrið var auðugt og við siðaskipti átti það nær allar verstöðvar og útvegsjarðir á utanverðu Snæfellsnesi. Árið 1425 skutu sveinar hirðstjóranna Hannesar Pálssonar og Balthazars van Damme mann til bana í kirkjugarðinum og brutu klaustrið og var kirkjan og klaustrið talið vanhelgað næstu árin, allt þar til Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup kom árið 1429 og hreinsaði kirkju, klaustur og kirkjugarð og helgaði að nýju. Árið 1540 kemur fram í skjölum að þá eru þrír bræður í klaustrinu auk Halldórs Tyrfingssonar ábóta og hétu þeir Ólafur, Jón og Gunnar. Árið 1542 gaf konungur út bréf þar sem Halldóri ábóta var boðið að halda skóla í klaustrinu en það var svo tekið aftur og ári síðar tók Gleraugna-Pétur Einarsson klaustrið og allar eigur þess tekið undir konung. Klaustrið og eitt hundrað jarðir sem því fylgdu voru leigð umboðsmönnum og kallaðist það Stapaumboð. Árið 1550 segir í konungsbréfi að í klaustrinu séu aðeins tveir munkar og þeir hegði sér ósæmilega. Konungur fól Laurentius Mule hirðstjóra og Marteini Einarssyni biskupi að koma á skóla á Helgafelli og áttu tekjur klaustursins að ganga til skólahalds en af því varð heldur ekki í þetta skipti. Jón Arason reið til Helgafells sama ár, vígði klaustrið að nýju, en það rann út í sandinn þegar Jón var handtekinn og svo líflátinn um haustið og var þá klausturhaldi á Helgafelli lokið. Svartá í Skagafirði. Svartá er bergvatnsá í vestanverðum Skagafirði, innarlega. Allmikið lindavatn er í ánni inn til hálendisins en dragáreinkennin fara vaxandi er utar dregur. Hún kemur upp á Eyvindarstaðaheiði og rennur um Svartárdal og síðan milli Neðribyggðar og Reykjatungu. Þar er foss í ánni sem heitir Reykjafoss. Nokkru neðan hans, í grennd við Vindheimamela breytir áin um nafn og heitir eftir það Húseyjarkvísl. Hún fellur neðan við Varmahlíð og til Héraðsvatna skammt fyrir innan Glaumbæ. Í fornritum kemur fram að Jökulsá, eða hluti af Héraðsvötnum, rann þá vestur með Vindheimabrekkunum, og rann Svartá þá í jökulvatnið á þeim stað sem áin skiptir nú um nafn. Margar ár á Íslandi bera nafnið Svartá. Flestar falla þær í jökulár og vatn þeirra, eða öllu heldur árbotninn, sýnist mjög dökkleitur, jafnvel svartur, í samanburði við hið ljósa og skollitaða jökulvatn. Þetta hefur vafalítið oftast orðið tilefni nafngiftarinnar. Svartárdalur í Skagafirði. Svartárdalur er dalur í framanverðum Skagafirði og tilheyrði áður Lýtingsstaðahreppi en er nú hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði. Hann er fremur stuttur og þar eru fáir bæir og sumir komnir í eyði. Landnámsjörðin Írafell er í dalnum. Um hann rennur áin Svartá. Annar Svartárdalur og önnur Svartá eru handan við fjallið Húnavatnssýslumegin og er þessum nöfnum stundum ruglað saman vegna nálægðar. Vesturdalur. Vesturdalur er dalur sem liggur úr botni Skagafjarðar og sker sig langt inn í miðhálendið. Samhliða honum liggur Austurdalur. Þeir eru umluktir háum og bröttum fjöllum. Neðsti bær í Vesturdal að vestan er kirkjustaðurinn Goðdalir og skammt þar fyrir innan rennur Vestari-Jökulsá fram úr Hofsdal, sem gengur til suðurs inn í hálendið og er mjög langur. Hann er þröngur og óbyggður. Áin sem rennur eftir Vesturdal og fellur í Vestari-Jökulsá heitir aftur á móti Hofsá og er bergvatnsá að mestu. Hún er kennd við Hof, landámsjörð Eiríks Hróaldssonar, sem er þar fyrir innan og átti land allt suður að Hofsjökli. Austan megin í dalnum eru nokkrir bæir, svo sem Bjarnastaðahlíð, Litlahlíð og Gil, og langt frammi á dalnum er eyðibýlið Þorljótsstaðir, sem lengi var fremsti bærinn þótt fleiri bæir væru framar á dalnum fyrr á öldum. Framan við Þorljótsstaði þrengist dalurinn mjög en er þó víða ágætlega gróinn, enda eru hér góð beitilönd og má víða sjá merki um búsetu. Inni í dalbotninum er svo Hraunþúfuklaustur, rústir þar sem þjóðsögur segja að eitt sinn hafi verið munkaklaustur sem lagst hafi af í Svartadauða en þar hafi síðar fundist ýmsir munir, svo sem kirkjuklukka. Engar heimildir eru þó til um klaustur eða aðra mannvist þarna og hefur þess verið getið til að rústirnar séu af gangnakofum. Vestari-Jökulsá. Vestari-Jökulsá eða Jökulsá vestri er jökulá í Skagafirði. Upptök hennar eru í norðvesturhorni Hofsjökuls í mörgum kvíslum sem sameinast svo og falla til norðurs. Áin rennur fyrst um tiltölulega hallalítið og slétt land og síðan í djúpu gljúfri, Þröngagili, og síðan eftir löngum dal uns hún fellur til norðausturs ofan í Vesturdal. Þar rennur Hofsá í ána og síðan fellur hún stuttan spöl eftir Vesturdal, sameinast Austari-Jökulsá við Tunguháls og eftir það nefnast árnar Héraðsvötn. Rætt hefur verið um að virkja Jökulsárnar báðar og hafa ýmsir virkjunarmöguleikar verið skoðaðir þótt oftast sé rætt um virkjun við Villinganes, skammt neðan við ármótin Aðrir vilja friðlýsa árnar. Boðið er upp á flúðasiglingar bæði á Vestari- og Austari-Jökulsá og þykja árnar henta einkar vel til þeirra. Austari-Jökulsá. Austari-Jökulsá eða Jökulsá eystri er jökulá í Skagafirði. Hún kemur upp við norðanverðan og norðaustanverðan Hofsjökul í nokkrum meginkvíslum og rennur alllanga leið til norðurs áður en komið er ofan í innstu drög Austurdals. Hún rennur svo langa leið norður dalinn og falla í hana margar þverár. Innan til í dalnum fellur áin á eyrum en þegar niður undir Skatastaði kemur er að henni djúpt og víða hrikalegt gljúfur. Við bæinn Kelduland koma Austari- og Vestari-Jökulsá saman og mynda Héraðsvötn, sem renna líka í gljúfrum fyrsta spölinn. Áin er straumhörð, einkum þegar í gljúfrin kemur, og þykir henta sérlega vel til flúðasiglinga. Áætlanir hafa verið gerðar um að virkja ána eða árnar báðar en þau áform eru mjög umdeild og vilja sumir friðlýsa árnar. Sandra Sigurðardóttir. Sandra Sigurðardóttir (f. 2. október 1986) er íslensk knattspyrnukona sem leikur í stöðu markvarðar fyrir Stjörnuna. Glóðafeykir. Glóðafeykir er fjall í austanverðum Skagafirði, í miðjum Blönduhlíðarfjöllum beint á móti Varmahlíð, svipmikið, burstmyndað og klettótt ofan til en þó fremur auðgengt. Glóðafeykir, sem oft er kallaður Feykir eða Feykirinn er 910 m hár. Djúpir dalir ganga inn í Tröllaskagafjallgarðinn beggja vegna Glóðafeykis, Flugumýrardalur að norðan en Dalsdalur að sunnan. Tveir bæir standa uppi undir fjallsrótum, Flugumýri að norðan og Djúpidalur í mynni Dalsdals. Sagt er að Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns Arasonar biskups, hafi sumarið 1551 falið sig í tjaldi í Húsgilsdragi á bak við Glóðafeyki fyrir hermönnum sem Danakonungur sendi til Hóla. Ungmennafélag sem starfaði í Akrahreppi frá því snemma á 20. öld og til 1995 var nefnt eftir fjallinu, Ungmennafélagið Glóðafeykir. Héraðsfréttablaðið Feykir er einnig kennt við fjallið. Þóra Björg Helgadóttir. Þóra Björg Helgadóttir (f. 5. maí 1981) er íslensk knattspyrnukona og reyndasti markmaður íslenska landsliðsins. Hún leikur nú með Kolbotn IL í Noregi. Hún er yngri systir Ásthildar Helgadóttur fyrrum landsliðskonu í knattspyrnu. Afrek. Áttfaldur Íslandsmeistari með Breiðabliki og KR. Sexfaldur bikarmeistari með Breiðabliki og KR. Viðurkenningar. Íþróttamaður Kópavogs 2005 og 2006. Djúpidalur (Skagafirði). Djúpidalur er bær í Blönduhlíð í Skagafirði og stendur í mynni Dalsdals, sem gengur inn til austurs sunnan við fjallið Glóðafeyki. Dalurinn greinist um Tungufjall (eitt af þremur með því nafni í Blönduhlíðarfjöllum) og ganga álmurnar langt inn í fjallgarðinn. Um dalinn fellur Djúpadalsá eða Dalsá og er í djúpu og allhrikalegu gili í dalsmynninu. Hún hefur myndað víðáttumiklar eyrar á láglendinu sem eru nú að gróa upp. Þar á eyrunum var Haugsnesbardagi háður 1246. Kirkja eða bænhús var í Djúpadal fyrr á öldum en lagðist af snemma á 18. öld. Mera-Eiríkur Bjarnason, sem var bóndi í Djúpadal frá 1733, var frægur fyrir hrossaeign sína og átti í útistöðum við Skúla Magnússon sýslumann á Stóru-Ökrum, sem reyndi að sanna á hann tíundarsvik en tókst ekki. Frá Mera-Eiríki er Djúpadalsætt og búa afkomendur hans enn í Djúpadal. Oddur V. Gíslason. Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Oddur var prestur, fyrst að Lundi í Borgarfirði frá 1875, svo á Stað í Grindavík var þar frá 1878 til 1894 þegar hann fluttist til Kanada og tók við preststörfum í Nýja Íslandi þangað til hann fluttist til Chicago og fór að læra til læknis á gamalsaldri og útskrifaðist kominn á áttræðisaldur. Oddur talaði fyrir því að sjómenn tækju upp að sigla á þilskipum í stað róðrarbáta. Björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík er nefnt eftir Oddi. Oddur stóði í mikilli útgáfustarfsemi, gaf meðal annars út fyrstu kennslubókina í ensku hér á Íslandi, gaf út fjölmörg rit tileinkuð sjómönnum og árið 1892 gaf hann út rit sem kallaðist "Sæbjörg" og fjallaði um ýmis mál sem honum þótti geta farið betur á Íslandi. Árið 2008 setti atvinnuleikhúsið GRAL upp einleikssýningu um Odd sem kallaðist "21 manns saknað" og lék Víðir Guðmundsson í þeirri sýningu í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Verkið var svo aftur sett á svið á Act Alone hátíðinni á Ísafirði sumarið 2009. Stevie Ray Vaughan. Stevie Ray Vaughan (fæddur 3. október 1954, látinn 27. ágúst 1990) var bandarískur gítarleikari, söngvari og lagahöfundur. Gefnar hafa verið út 18 plötur með honum fram til þessa. Árið 2003 valdi "Rolling Stone-tímaritið" hann sem sjöunda mesta gítarleikara allra tíma og árið 2007 valdi tímaritið "Classic Rock" hann sem þriðju viltustu gítarhetjuna. Stærsta hluta ferilsins lék hann með hljómsveitinni Double Trouble, en með þeim öðlaðist hann frægð fyrir rafmagnaðan blúsgítarleik sinn. Fuerteventura. Fuerteventura er stærst Kanaríeyja utan við strönd Vestur-Afríku í Atlantshafinu. Heavisidefall. Heavisidefall, þrepafall Heaviside eða "þrepafallið" er ósamfellt fall, skigreint á mengi rauntalna þannig að það tekur gildið einn fyrir allar tölur stærri eða jafnar núlli, en núll annars. Stærðfræðileg skilgreining. formula_2 Í sumum tilfellum er notast við gildið ½ í "t" = 0. Silfurberg. Silfurberg er tært afbrigði af kristölluðum kalksteini (kalsít eða kalkspat) og er mjög fágætt utan Íslands enda gjarnan kennt við Ísland á erlendum tungumálum, sbr. "Iceland spar" á ensku. Ekkert silfur er í silfurbergi, en nafnið er dregið af því að það er silfurtært. Silfurberg klofnar vel í tígla og klýfur ljósið í tvo geisla sem sveiflast hornrétt hvor á annan. Þessir eiginleikar greina silfurberg frá öðrum kalksteini. Efnasamsetningin er kolsúrt kalk (kalsíum karbónat), Ca[CO3], harkan er 3 og eðlismassinn 2,71. Rannsóknir. Danski fræðimaðurinn Rasmus Bartholin lýsti fyrstur hinu tvöfalda ljósbroti í silfurbergi í bók sinni "Experimenta crystalli Islandici" (1669). Síðan hafa fjölmargir vísindamenn byggt rannsóknir á því, svo sem Christian Huygens, Isaac Newton og margir fleiri. Rekur Leó Kristjánsson þá sögu í neðangreindum ritgerðum. Helgustaðanáma. Mesta silfurbergsnáma hér á landi er á Helgustöðum við Reyðarfjörð. Stærstu og tærustu kristallarnir hafa fundist þar á dálitlu svæði í holum og bergsprungum fullum af rauðleitum leir, og virðist leirinn hafa verndað kristalana. Í Helgustaðanámu var silfurberg fyrst sótt á 17. öld, en ekki var farið að vinna það fyrr en um 1804, og ekkert að ráði fyrr en eftir 1850. Vinnslan stóð síðan með hléum fram um miðja 20. öld. Stærstu silfurbergskristallar sem fundist hafa komu úr Helgustaðanámu, og voru margir þeirra alveg tærir og gallalausir. Flestir þeirra fóru í vinnslu, en nokkrir eru á söfnum erlendis. Um aldamótin 1900 fékkst úr námunni stærsti kristallinn sem sögur fara af, um 300 kg að þyngd, en því miður var hann klofinn niður til vinnslu og er ekki til nákvæm lýsing á honum. Silfurberg er mjög stökkt og viðkvæmt í vinnslu og þarf því að grafa eftir því með handverkfærum, helst tréfleygum. Silfurbergið þolir illa högg og koma þá brestir í það. Ef mikið er um bresti missir silfurbergið tærleikann og verður hvítleitt. Slíkt silfurberg var kallað „rosti“. Talið er að miklar skemmdir hafi orðið á silfurberginu í Helgustaðanámu þegar sprengiefni var notað í vinnslunni. Aðrar námur. Silfurbergsnáma er í Hoffellsdal í Hornafirði og var unnið þar öðru hverju um miðja 20. öld. Í Djúpadal við Djúpafjörð er silfurberg, en aldrei hefur verið unnið þar neitt að ráði. Þá hefur það fundist hjá Ökrum á Mýrum, en lítið er þar af nothæfu silfurbergi. Fyrir utan þessa fjóra staði má víða finna smáagnir af silfurbergi í holum og sprungum. Utan Íslands hefur silfurberg verið unnið á Spáni, Síberíu, Japan, Suður-Afríku og á 2–3 stöðum í Bandaríkjunum. Notkun. Íslenska silfurbergið var áður mikið notað í ljósfræðitæki, en nú eru gjarnan notuð plastefni með áþekka eiginleika. Guðjón Samúelsson húsameistari notaði silfurberg til skrauts í nokkrum byggingum, t.d. Landakotskirkju, Þjóðleikhúsinu og Háskóla Íslands. Eftir að farið var að steina hús að utan, var stundum blandað dálitlu af silfurbergi í steininguna til þess að glampaði á hana í sólskini. Óstaðfestar tilgátur eru um að silfurbergskristallar hafi verið notaðir sem sólarsteinar á miðöldum. Nýlegur fornleifauppgröftur, þar sem silfurberg fannst í Bresku herskipi frá 16. öld, bendir samt til þess að það hafi séð einhverja notkun sem siglingarleiðatæki. Auður Capital. Auður Capital er fjármálafyrirtæki sem var stofnað árið 2007. Stofnendur þess voru Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu stofnenda, starfsmanna og athafnakvenna. Auður hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti FME. Kolbeinsdalur. Kolbeinsdalur er dalur í austanverðum Skagafirði, næst norðan eða austan við Hjaltadal og liggur samhliða honum til austsuðausturs uns Hjaltadalur sveigir til suðurs hjá Hólum en Kolbeinsdalur beint til austurs. Þar sem þeir liggja samsíða er milli þeirra langur ás, oftast bara kallaður Ásinn. Austast er lægð milli ássins og fjallanna er heitir Hálsgróf eða Grófin og liggur akfær vegur þar yfir. Nokkru innar sveigir dalurinn aftur til suðausturs. Að austanverðu eru þverdalirnir Heljardalur og Skíðadalur, og nokkru innar svokölluð Ingjaldsskál. Kolbeinsdalsá eða Kolka rennur um dalinn, sem sagður er kenndur við landnámsmanninn Kolbein Sigmundarson. Neðsta hluta hans á aftur á móti Sleitu-Björn Hróarsson að hafa numið og er jörðin Sleitustaðir eða Sleitu-Bjarnarstaðir, í eða neðan við mynni dalsins, kennd við hann. Jörðin Smiðsgerði þar skammt frá er einnig í byggð, en annars er dalurinn nú allur í eyði. Innst skiptist Kolbeinsdalur í tvennt um svokallaðan Tungnahrygg, og eru dalirnir oftast kallaðir Austurdalur og Vesturdalur. Upp af hryggnum, fyrir dalsbotninum, er Tungnahryggsjökull. Á Tungnahryggnum, skammt frá jöklinum er skáli eða sæluhús, Tungnahryggsskáli, sem dreginn var á staðinn 1982, og stækkaður 1991. Hinn gamli og fjölfarni fjallvegur um Heljardalsheiði úr Svarfaðardal og í Hóla liggur að hluta um neðanverðan Kolbeinsdal. Fornar þjóðleiðir úr Kolbeinsdal. Ógreiðfær jeppavegur er út dalinn að vestanverðu. Bæir í Kolbeinsdal. Kolbeinsdalur var áður albyggður, en er nú kominn í eyði. Allir þessir bæir voru í Hólahreppi. Landfræðilega má segja að Sleitustaðir geti bæði verið í mynni Kolbeinsdals, og einnig talist innsti bær í Óslandshlíð. Í dalnum eru rústir nokkurra selja og fornbýla. "Bakki" var fornbýli á milli Skriðulands og Saurbæjar, en virðist hafa verið lagt undir Skriðuland að mestu leyti. Innan við Skíðadalsá er Nautasel. Þar eru allmiklar rústir eftir selstöðu frá Hólum í Hjaltadal. Kolbeinsdalsafrétt. Innsti hluti Kolbeinsdals tilheyrði á fyrri öldum biskupsstólnum á Hólum, en flestar jarðir í Hólahreppi og Viðvíkursveit áttu þó rétt á afréttarlandi þar. Þegar afréttin var smöluð var henni skipt í eftirtalin svæði. Afréttin hefur verið stækkuð í nokkrum áföngum, og hefur innstu eyðibýlunum verið bætt við hana, til og með Skriðulandi að austan, og Fjalli og hluta Unastaða að vestan. Á eyrum Heljarár er forn grjóthlaðin rétt sem notuð var fram á 20. öld, en hún er nú skemmd af flóði í ánni. Sleitustaðir. Sleitustaðir eða Sleitu-Bjarnarstaðir (Sleitubjarnarstaðir) er bær í Kolbeinsdal í austanverðum Skagafirði, eða raunar utan við mynni dalsins þótt hann teljist til hans. Bærinn er kenndur við landnámsmanninn Sleitu-Björn Hróarsson. Þar er svolítill vísir að þorpi, nokkur íbúðarhús, bílaverkstæði, bensínstöð og sjoppa. Frá Sleitustöðum var lengi töluverð rútuútgerð og höfðu Sleitustaðamenn meðal annars sérleyfi á Siglufjarðarleið. Sleitustaðavirkjun. Á Sleitustöðum er einkarekin virkjun í Kolku sem selur rafmagn inn á dreifikerfi RARIK. Sleitustaðavirkjun var tekin í notkun 1985. Afl virkjunarinnar er 200 kw. Eigandi hennar er einkafyrirtækið Sleitustaðavirkjun ehf. Kolka (Kolbeinsdalsá). Kolka eða Kolbeinsdalsá (áður líka Kolbeinsá) er á sem á upptök í Tungnahryggsjökli og er oft nokkuð jökullituð. Næst upptökum skiptist áin í tvær kvíslar (um Tungnahrygginn), heitir sú eystri Kolka og sú vestari Tungnahryggsá; stundum eru þær kallaðar Austurá og Vesturá. Kolka fellur eftir endilöngum Kolbeinsdal í Skagafirði og síðan norður með Óslandshlíð og til sjávar í Kolkuósi. Eftir að hafa runnið samhliða góðan spöl, koma Hjaltadalsá og Kolka saman neðan við bæinn Þúfur í Óslandshlíð, og heitir áin Kolka eftir það. Báðar árnar eru straumharðar með köflum og voru miklir farartálmar áður en þær voru brúaðar. Þær henta til flúðasiglinga þegar mikið vatn er í þeim. Árið 1985 var gerð einkarekin virkjun í Kolku við Sleitustaði, og selur hún rafmagn inn á dreifikerfi Rarik. Þar er stífla sem takmarkar fiskgengd upp eftir ánni. Talsverð silungsveiði er í Kolku (sjóbleikja), meiri en í Hjaltadalsá. Neðan við stíflu safnast oft fyrir mikið af fiski, en þar fyrir ofan er staðbundinn urriði. Reynt hefur verið að rækta upp lax í ánum og hefur það borið nokkurn árangur, þó að laxveiði sé þar ekki mikil. Stangveiðifélag Reykjavíkur er með árnar og er hægt að kaupa veiðileyfi. Óslandshlíð. Óslandshlíð er byggðarlag út með austanverðum Skagafirði og er framhald norðurhlíðar Kolbeinsdals út með ströndinni, undir Óslandshlíðarfjöllum. Innsti bærinn, næst Sleitustöðum, heitir Hlíðarendi en yst eru Miðhús og síðan tekur Deildardalur við inn til landsins en utan við Grafará er Höfðaströnd með sjónum. Sveitin er kennd við bæinn Ósland, utarlega í hlíðinni. Deildardalur. Deildardalur er dalur í Skagafirði austanverðum, liggur upp frá Höfðaströnd til suðausturs á bak við Óslandshlíðarfjöllin. Nokkru innan við byggðina deilist hann í Seljadal eða Austurdal og Vesturdal og á milli þeirra er Tungufjall, mjótt og hvasst eins og fleygur. Um dalinn rennur Deildará, sem heitir Grafará neðar. Í botni dalsins er Deildardalsjökull. Nokkrir bæir eru í dalnum. Ný rétt var tekin í notkun þann 8. september, 2007 í Deildardal en á Deildarlalsafrétt eiga allmargar jarðir í Óslandshlíð go á Höfðströnd upprekstur. Grafará (Höfðaströnd). Grafará er bergvatnsá í austanverðum Skagafirði og er hún kennd við bæinn Gröf á Höfðaströnd. Áin rennur um botn Deildardals og heitir þar "Deildará", síðan milli Óslandshlíðar og Höfðastrandar hjá Gröf og til sjávar í Grafarósi, rétt sunnan við Hofsós. Nokkur veiði er í ánni, aðallega sjóbleikja, en þó hefur fengist þar bæði urriði og lax. Grafarós. Grafarós á Höfðaströnd, skammt sunnan við Hofsós, er ós Grafarár og þar lentu skip stundum fyrr á öldum. Þar var komið á fót verslun árið 1835 og var þar um skeið annar helsti verslunarstaður héraðsins. Verslunin var lögð niður árið 1915. Þar sjást rústir eftir verslunar- og íbúðarhús og eru þær friðlýstar. Gröf á Höfðaströnd. Gröf er innsti bær á Höfðaströnd við austanverðan Skagafjörð. Þar fæddisst Hallgrímur Pétursson sálmaskáld árið 1614. Á 17. öld fékk Gröf það hlutverk að vera aðsetur biskupsekkna og ein þeirra sem þar bjuggu lengst var Ragnheiður Jónsdóttir, ekkja Gísla biskups Þorlákssonar. Gísli maður hennar, sem dó 1684, mun hafa látið reisa kirkjuna eða bænhúsið sem enn stendur í Gröf eða endurbyggja hana úr eldra guðshúsi, en í Gröf hafði verið bænhús í kaþólskum sið og áfram eftir siðaskipti. Grafarkirkja er með minnstu guðshúsum og er elsta kirkja landsins að stofni til og jafnframt eina stafkirkjan. Guðmundur smiður Guðmundsson í Bjarnastaðahlíð í Vesturdal, helsti smiður Skagfirðinga á 17. öld, sem gerði skírnarfontinn í Hóladómkirkju, er talinn hafa skreytt kirkjuna og hugsanlega einnig smíðað hana. Kirkjan var lögð niður með konungsbréfi 1765 eins og margar aðrar kirkjur og síðan lengi notuð sem skemma. Hún komst í umsjá Þjóðminjasafnsins 1939 og gerð upp um 1950 en þá reyndist viðurinn svo fúinn að honum var öllum skipt út og nýjar fjalir sniðnar og útskornar nákvæmlega eftir þeim gömlu. Hún var endurvígð 1953. Kirkjugarðurinn var um sama leyti endurhlaðinn eftir veggjaleifum sem enn mótaði fyrir og er hann hringlaga. Klukknaportið er nýtt en smíðað í stíl við kirkjuna. Mansöngur. Mansöngur er ástarsöngur til konu en man þýðir kona. Mansöngur í kveðskap er ortur undir kvæðum hætti, það er rímnahætti, og er oftast formáli rímu í rímnaflokki. Þar yrkir höfundur, venjulega karlkyns, um konu sem hann hefur lagt ást á en oftast þó ekki fengið. Þess vegna eru mansöngvar oft tregafullir en þeir breyttust síðar og fjölluðu þá í auknum mæli um önnur efni, til dæmis um ættjarðarást eða leiða yfir því að fáir kunni að meta kveðskapinn. Unadalur. Séð inn eftir Unadal hjá Hofi. Unadalur er dalur við austanverðan Skagafjörð og liggur til austurs upp frá Hofsósi, norðan við Deildardal. Hann er fremur breiður og þar er töluvert undirlendi og nokkrir bæir. Áin sem rennur um dalinn heitir Unadalsá ofan til en Hofsá neðar. Mjög snjóþungt er oft í dalnum á veturna. Fyrir botni Unadals er Unadalsjökull, einn af fjölmörgum daljöklum Tröllaskagans. Um hann liggur forn fjallvegur til Svarfaðardals. Í Landnámu er ekkert sagt um hver nam norðurhluta Deildardals og suðurhluta Unadals en hins vegar er þar talað um Una í Unadal og getur verið að hann hafi verið landnámsmaður þar en fallið niður í frásögn Landnámuhöfundar. Hofsá á Höfðaströnd. Hofsá þar sem hún rennur hjá Hofi. Hofsá er bergvatnsá á Höfðaströnd í Skagafirði. Áin kemur úr Unadal og heitir þar Unadalsá en breytir um nafn er hún kemur út úr dalsmynninu og liggja þar að henni sléttar grundir þar sem hún liðast framhjá kirkjustaðnum Hofi og til sjávar á Hofsósi. Hof á Höfðaströnd. Hof á Höfðaströnd er bær og kirkjustaður í Skagafirði, skammt ofan við Hofsós. Þar var prestssetur áður. Hofskirkja er timburkirkja, reist á árunum 1868-1870 og er hún friðuð. Hof var höfuðból og þar bjuggu oft höfðingjar fyrr á öldum, svo sem Brandur Jónsson lögmaður (d. 1494), Hrafn Brandsson yngri, sem bjó þar áður en hann náði Glaumbæ af Teiti Þorleifssyni, og Magnús Björnsson lögréttumaður, sonarsonur Jóns Arasonar. Skúli Magnússon, síðar landfógeti, bjó líka á Hofi fyrstu árin sem hann var sýslumaður Skagfirðinga. Pálmi Jónsson, stofnandi Hagkaupa, fæddist á Hofi 3. júní 1923 og ólst þar upp. Lilja dóttir hans og maður hennar, Baltasar Kormákur, hafa keypt Hof og ráðist þar í allmiklar framkvæmdir, meðal annars reist íbúðarhús sem hönnuðirnir hjá Studio Granda fengu Sjónlistarverðlaunin 2007 fyrir. Það var einnig tilnefnt til Arkitektaverðlauna Evrópusambandsins. Úlfsstaðir. Úlfsstaðir er bær í framanverðri Blönduhlíð í Skagafirði og hefur verið giskað á að jörðin sé landnámsjörð Hjálmólfs (eða Hjálmúlfs) sem þarna nam land og kennd við hann. Úlfshaugur er á milli Úlfsstaða og Kúskerpis og er sagt að þar liggi Hjálmúlfur. Hann var heiðinn og á að hafa sagt erfingjum sínum að hann vildi vera heygður þar sem minnstar líkur væru til að klukknahljóð heyrðist. Úlfshaugur er mitt á milli kirknanna á Silfrastöðum og Miklabæ en þegar þjóðsagan varð til hefur líklega verið gleymt að kirkja var á Úlfsstöðum í kaþólskri tíð en var snemma lögð af, svo að ekki hefur Úlfur sloppið við klukknahringingarnar. Þar sem kirkjugarðurinn hafði verið var kartöflugarður seinna og komu öðru hverju upp mannabein með kartöflunum. Paolo Villaggio. Paolo Villaggio (f. 30. desember 1932) er ítalskur rithöfundur, leikari og leikstjóri. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem ólánsami skrifstofumaðurinn Ugo Fantozzi sem er leiksoppur bæði valdamikilla stjórnenda og eigin metnaðar. Fantozzi var efni tíu gamanmynda frá 1975 til 1999 en kom upphaflega fram í útvarpsþætti sem Villaggio stýrði árið 1968. 1971 kom út bók með stuttum sögum af ævintýrum Fantozzi sem varð grunnur fyrir handrit fyrstu kvikmyndanna. Villaggio, Paolo Villaggio, Paolo Villaggio, Paolo Deltufallið. Deltufallið, stundum kallað Deltufall Diracs til heiðurs eðlisfræðingsins Paul Diracs, er ósamfellt fall, sem er óendanlegt í einum punkti, en núll annars staðar. Fallið er táknað með gríska bókstafnum δ. Yfirborð. Með yfirborði hlutar er átt við tvívíðan flöt, sem afmarkar hlutinn frá öðrum hlutum og umhverfinu. Í grannfræði er yfirborð tvívíð grannvíðátta. Í þremur víddum má hugsa sér hlut sem mengi allra punkta hlutarins, en jaðar mengisins mundi þá samsvara yfirborði hans. Með yfirborði vökva í eðlis- og efnafræði er átt við láréttan flöt vökvans, sem er samsíða yfirborði jarðar. Pappírsblað hefur tvö yfirborð, en kleinuhringur, Möbiusarborði og Kleinflaska aðeins eitt. Guðný Böðvarsdóttir. Guðný Böðvarsdóttir (um 1147 – 7. nóvember 1221) var íslensk kona á 12. og 13. öld, dóttir Böðvars Þórðarsonar í Görðum á Akranesi. Hún giftist Hvamm-Sturlu 1160 og átti með honum fimm börn, dæturnar Helgu og Vigdísi og synina Þórð, Sighvat og Snorra Sturlusyni. Eftir lát Sturlu 1183 tók Guðný saman við Ara sterka Þorgilsson, en hann dó 1188. Guðný bjó áfram í Hvammi um langt skeið en síðustu æviárin dvaldi hún í Reykholti og dó þar. Hún fóstraði Sturlu Þórðarson, sonarson sinn, og arfleiddi hann að eigum sínum en Snorri tók arfinn undir sig eftir lát hennar. Stenka Rasín. Stenka Rasín (1630 – 1671) leiddi uppreisn Don-Kósakka gegn Rússakeisara á sautjándu öld en hjó einnig strandhögg við bakka Volgu og fleiri fljóta í Rússlandi. Hann hefur verið kallaður nokkurs konar Hrói höttur Rússlands. Endalok hans urðu þau að menn keisarans náðu honum og tóku af lífi. Minning hans lifir fram á þennan dag, ekki síst vegna samnefnds söguljóðs sem notið hefur vinsælda. Jón Pálsson frá Hlíð (1892 – 1938) þýddi kvæðið á íslensku. Theravada búddismi. Theravada eða teravada (ath. að framburðurinn er aldrei þeravaða, tannmælt önghljóð, það er þ og ð, eru ekki til í neinum af þeim helstu málum sem notuð eru þar sem theravada-hefðin er ríkjandi, (palí, helgimálið), singalíska, taí, laoska og khmer) (á palí: "theravāda"; á sanskrít: स्थविरवाद "sthaviravāda";, „kenning öldunganna“, eða „hin forna kenning“) er elsta trúarhefð búddista og hefur um aldir verið helsta trú íbúa Sri Lanka (um 70% íbúa fylgja þessari trúarhefð) og einnig í flestum meginlandslöndum suðaustur Asíu, (Kambódíu, Laos, Burma og Taílandi). Minnihlutahópar í suðaustur Kína og í Víetnam auk fleiri landa fylgja einnig þessari trúarhefð búddista. Endurvakning búddisma á Indland á síðustu ártugum hefur mjög aukið fjölda áhanganda en þeir eru taldir vera yfir 100 miljónir samanlagt. Önnur aðalgrein búddismans nefnist mahayana Saga. Theravāda-trúarhefðin á rætur í þeim hópi sem nefndur er Vibhajjavādasem mótaðist um árið 250 f.Kr. á stjórnartíma Asoka keisara á Indlandi. Hugtakið „theravada“ er dregið af sanskrítarnafninu Tāmraparnīya, sem þýðir „Sri Lanka-arfleiðin“. Það er ekki með öllu ljóst hvenær farið var að kenna þessa hefð við Sri Lanka en fylgjendur hennar telja hana hafa mótast við þriðja þing búddista sem haldið var ár 250 f.Kr. Þar sem sanskrít var og er notað sem helgimál var hefðin upphaflega nefnd "sthaviras" en þeir sem nota palí kölluðu hana "theras". Orðin „sthaviras“ (á sanskrit) og „theras“ (á palí) þýða bókstaflega "öldungarnir". Samkvæmt söguhefðinni var það Mahinda, einn af sonum Asoka Indlandskeisara, sem fyrstur boðaði búddisma á Sri Lanka á þriðju öld fyrir Krist. Eitt af því sem Mahinda gerði var að stofna þá munkareglu sem eru upphaf allra munkareglna í Theravada-búddisma. Asoka keisari er einnig sagður hafa sent trúboða til lands sem nefnt var "Suvannabhumi". Ekki ber sagnfræðingum saman um hvar þetta land var en það hefur verið á því svæði sem nú er láglendissvæði Burma, Taílands, Laos, Kambódíu eða Malaysíu. Vitað er að sú þjóð er nefnd er Mon og búsett var á láglendissvæði núverandi Burma snerist til theravada-búddisma þegar á þriðju öld f.Kr. Fornleifafundir sýna að Mon-þjóðin hafði náin samskipti við suðurhluta Indlands og Sri Lanka á þesum tíma. Þjóðflokkur Burma tóku upp trú Mon-þjóðarinnar eftir að þeim tókst að leggja undir sig Thaton konungsríki Mon-þjóðarinnar árið 1057. Á sama hátt tók Taí-þjóðflokurinn upp trú Mon eftir að þeim tókst að leggja Haripunjaya, annað konungsríki Mon-þjóðarinnar undir sig árið 1292. Með theravada-búddismanum fylgdi stafagerð palí og er hún uppruni ritmála Taílands, Laos og Kambódíu. Palí hefur einnig haft gífurlega mikil áhrif á tungumál þessara landa, ekki ósvipað og latína á tungumál Vestur-Evrópu. Heimspeki. Grundvallarhugmynd theravada-búddisma er sú að það sé ekki til neinn guð, lífið sé þjáning og sé endurtekið genum endurfæðingu einstaklingsins í alls kyns lífsformum og endurfæðingin stjórnist af gjörðum undanfarandi lífs. Þessi trúarhefð byggir á því sem á palí er nefnt Vibhajjavada, sem bókstaflega þýðir „kenningin um skilgreiningu“. Samkvæmt þessari kenningu er einungis hægt að öðlast innsýn gegnum reynslu, rannsókn og röksemdafærslu en ekki gengum blinda trú. Rit theravadin-hefðarinnar leggja þó einnig áherslu á nauðsyn þess að fara að ráðum viturra manna. Takmark þeirra er fylgja theravada-hefðinni er frelsi frá þjáningunni. Það er hægt að uppná þessu frelsi gegnum nibbana, sem bindur endi á hina eilífu hringrás fæðingar, elli, sjúkdóma og dauða, "samsara". Samkvæmt theravada-hefðinni er fljótasta leiðin (en ekki sú eina) til að uppná nibbana að fylgja kenningum Búddha og gerast Arhat (einnig skrifað Arahant) ("Sá verðugi"). Samkvæmt kenningum theravada-greinarinnar er hægt að uppná nibbana innan eins lífs en fyrir þá flesta tekur það ómældan fjölda endurfæðinga þar sem viska bætist við visku að losna undan þjáningu samsara. Helgirit. Sutta og Vinaya-hlutar Tipitaka er að miklu leyti samstæðar þeim textum sem er að finna í svo nefndum Agamas-textum sem eru grundvallartextar mahayana-hefðarinnar. Fræðimennum ber því saman um að þetta séu elstu textar búddismans. Sennilegast bárust palíritsafnið til Sri Lanka þegar á tímum Ashoka Indlandskeisara (f. 301 f.Kr., d. 232 f.Kr.). Þeir voru hins vegar ekki skráðir á blað fyrr en á síðustu öld f.Kr. heldur voru varðveittir í munnlegri hefð. Greinar innan mahayana-hefðarinnar hafa allmikinn fjölda frásagna — sútra — sem ekki er að finna í Tripitaka, theravada búddistar líta á þær sem apókrýf verk, það er að þær séu ekki orð Búdda. Það ber einnig a hafa í huga að búddistar álíta ekki þessi verk heilög eða æðri opinberanir á þann hátt sem kristnir menn líta á Biblíuna eða múslímar á Kóraninn. Leikmenn og munkar. Ungum dreng eru færð ný föt Af hefð hefur theravada-hefðin gert talsverðan mun á kröfum til venjulegra leikmanna annars vegar og munka (og áður einnig nunna) hins vegar sem hafa valið að helga líf sitt andlegri viðleitni. Þó möguleiki leikmanna til andlegs vaxtar sé viðurkenndur í theravada þá er allt önnur áhersla á það í mahyana og vajrayana hefðunum. Hlutverk leikmanna er einkum að safna safna verðleikum (sem á palí er nefnt punna), til dæmis með því að gera góðverk. Að færa munkum mat og aðrar gjafir, gefa klaustrum og musterum gjafir, brenna reykelsi og kveikja á kertum við líkneski af Búdda og lesa úr trúarritum eru meðal helstu leiða til að safna verðleikum. Karlar geta orðið munkar þegar þeir hafa náð tvítugsaldri. Yngri drengir geta þó gengið í klaustur allt frá sjö ára aldri, þeir raka höfuðið og ganga í rauðgulum klæðum eins og munkarnir. Sumir þessara drengja velja þegar þeir ná tvítugsaldri að gerast munkar en jafn algengt er að þeir yfirgefi klaustrin og gerast leikmenn. Í þeim löndum þar sem theravada er ráðandi er það venja að allir ungir menn gerist munkar í ákveðin tíma. Getur það verið allt frá nokkrum vikum til nokkurra ára. Að yfirgefa munkaregluna er ekki litið hornauga af theravada búddistum. Sögulega hafa munkaklaustrin verið einu menntastofnanirnar í theravada-löndunum og eru enn mikilvægar í því samhengi. Ari Þorgilsson sterki. Ari sterki Þorgilsson (d. 18. júní 1188) var íslenskur goðorðsmaður á 12. öld. Hann bjó á Stað á Ölduhrygg á Snæfellsnesi og var sonur Þorgils prests á stað, sonar Ara fróða. Ari átti hálft Þórsnesingagoðorð. Hann var kvæntur Kolfinnu, dóttur Gissurar Hallssonar, og átti með henni eina dóttur, en eftir lát Hvamm-Sturlu 1183 tók hann saman við Guðnýju Böðvarsdóttur ekkju hans og "gerðust með þeim kærleikar miklir", eins og segir í Sturlungu. Þau Guðný fóru síðar til Noregs en áður gekk Þórður sonur Guðnýjar að eiga Helgu dóttur Ara og fékk forræði yfir búi hans og goðorði. Ari dó í Noregi; hann var að bera langskipsrá með öðrum mönnum en þeir hlupu undan af því að þeir vissu að hann var sterkari en aðrir menn en hann sligaðist undan ránni og beið bana. Guðný kom aftur heim eftir lát hans og bjó lengi í Hvammi. Jón Loftsson. Jón Loftsson (1124 – 1. nóvember 1197) var íslenskur goðorðsmaður á 12. öld og talinn mesti höfðingi landsins á sinni tíð. Hann var af ætt Oddaverja, sonur Lofts Sæmundssonar í Odda, sem var sonur Sæmundar fróða, og Þóru (d. um 1175) laundóttur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Hann ólst upp í Konungahellu í Noregi til 1135, en fór þá til Íslands með foreldrum sínum, sem bjuggu í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum, og síðar í Odda á Rangárvöllum eftir að Eyjólfur bróðir Lofts lést 1158. Jón Loftsson var mikill stjórnmálaskörungur og fór með öll goðorð í Rangárþingi. Hann var talinn vitrasti maður landsins, var vinsæll og var mjög oft leitað til hans til að dæma í málum og sætta menn. Hann var þó harður í horn að taka og í staðamálum fyrri (1179) veitti hann Þorláki helga Skálholtsbiskupi harða mótspyrnu. Þar var tekist á um kröfu kirkjunnar um forræði yfir kirkjustöðum og vann Jón sigur í þeirri deilu, þótt kirkjuvaldið hefði betur síðar og brytist undan hinu veraldlega valdi. Á þessum tíma var kirkjuvald og veraldlegt vald mjög samtvinnað og faðir og afi Jóns voru prestar en sjálfur var hann djákni að vígslu. Hann stofnaði líka klaustur á Keldum á Rangárvöllum en það var skammlíft. Í Odda var mikið fræða- og menningarsetur. Árið 1181 leitaði séra Páll Sölvason í Reykholti liðsinnis Jóns í deilum við Hvamm-Sturlu og þvingaði Jón Sturlu til að ganga til sátta en bauð honum í staðinn að fóstra Snorra son hans, sem þá var þriggja ára. Snorri ólst upp í Odda til 19 ára aldurs og hlaut þar menntun sína. Kona Jóns var Halldóra Brandsdóttir og áttu þau tvö börn, Solveigu konu Guðmundar gríss Ámundasonar á Þingvöllum og ömmu Gissurar Þorvaldssonar, og Sæmund Jónsson goðorðsmann í Odda. Jón átti einnig nokkrar frillur og með þeim allmörg börn. Þekktastir eru þeir Páll biskup í Skálholti og Ormur Breiðbælingur. Móðir þeirra var Ragnheiður Þórhallsdóttir, systir Þorláks helga. Sæmundur Jónsson. Sæmundur Jónsson (1154 – 7. nóvember 1222) var íslenskur goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann bjó í Odda á Rangárvöllum og var af ætt Oddaverja, sonur Jóns Loftssonar í Odda og afkomandi Sæmundar fróða. Hann erfði ríki föður síns og naut mikillar virðingar. Um daga hans fór þó veldi Oddaverja heldur hnignandi, einkum eftir lát Páls biskups bróður Sæmundar 1211, og í valdabaráttu Sturlungaaldar voru þeir í aukahlutverki þótt þeir væru enn ein helsta höfðingjaættin og Sæmundur og börn hans kæmu víða við sögu. Sæmundur var tvígiftur og átti einnig börn með frillum sínum. Á meðal barna hans má nefna Hálfdan á Keldum, mann Steinvarar Sighvatsdóttur, Helgu síðari konu Kolbeins unga, Solveigu konu Sturlu Sighvatssonar, Margréti konu Kolbeins kaldaljóss og móður Brands Kolbeinssonar, og Harald, Andrés, Vilhjálm og Filippus, sem allir voru goðorðsmenn nema Vilhjálmur, sem var prestur í Odda. Nöfn þeirra bræðra voru nýstárleg á sinni tíð og voru þeir hver um sig með allra fyrstu Íslendingum til að bera nafn sitt. Raunar hélst frumleiki í nafngjöfum áfram í ættinni því að á meðal barna bræðranna má nefna Theobaldo og Kristófórus Vilhjálmssyni og Randalín Filippusdóttur, og sonarsonur eins þeirra hét Karlamagnús. F-4 Phantom II. McDonnel Douglas F-4 Phantom II McDonnel Douglas F-4 Phantom II McDonnell Douglas F-4 Phantom II er tveggja sæta, tveggja hreyfla orrustuþota og létt sprengjuflugvél sem McDonnell Aircraft þróaði fyrir bandaríska sjóherinn. Vélin reyndist fjölhæf og var tekin í notkun af bandaríska sjóhernum, landgönguliðinu og flughernum. Vélin var notuð í Víetnamstríðinu. Vélin var fyrst tekin í notkun árið 1960 og var notuð á 7., 8. og 9. áratugnum en var svo skipt út fyrir F-15 Eagle og F-16 Fighting Falcon þoturnar í flughernum; F-14 Tomcat og A-18 Hornet þoturnar í sjóhernum og F/A-18 í landgönguliðinu. Hún var enn í takmarkaðri notkun í Persaflóastríðinu en notkun hennar var endanlega hætt árið 1996. Ellefu aðrar þjóðir notuðu F-4 Phantom II vélar, það á meðal Ísrael og Íran. Alls voru 5195 F-4 Phantom II-vélar framleiddar á árunum 1958 til 1981. Northrop F-5. Northrop F-5A/B Freedom Fighter og F-5E/F Tiger II eru léttar orrustuþotur, hannaðar af Northrop í Bandaríkjunum. Framleiðsla vélanna hófst á 7. áratugnum en vélarnar eru enn í notkun í flugherjum víða um heim. F-8 Crusader. F-8 Crusader (upphaflega F8U) er bandarísk eins hreyfils orrustuþota sem var framleidd af Vought. Hún leysti af hólmi Vought F-7 Cutlass. Fyrstu tilraunagerðinni af F-8 var flogið í febrúar árið 1955. Hún var síðasta bandaríska orrustuþotan sem hafði vélbyssu sem meginvopn. Þotan var notuð í Víetnamstríðinu. F-14 Tomcat. Grumman F-14 Tomcat er bandarísk tveggja hreyfla, tveggja sæta orrustuþota. Hún var megin orrustuþota bandaríska sjóhersins á árunum 1974 til 2006. Vélin leysti af hólmi F-4 Phantom II, sem verið hafði megin orrustuþota sjóhersins. Vélin var einnig seld til Írans árið 1976 og er enn í notkun þar. Bandaríski sjóherinn lét af notkun vélarinnar árið 2006 en þá tók F Super Hornet við sem megin orrustuþotan. F-15 Eagle. F-15 Eagle er bandarísk tveggja hreyfla orrustuþota sem var hönnuð og framleidd af McDonnell Douglas (nú Boeing) til þess að ná og halda yfirráðum í lofti. Vélin var hönnuð fyrir flugher Bandaríkjanna og flaug fyrst í júlí árið 1972. Búist er við að F-15 vélar verði í notkun til ársins 2025. Smíðaðar hafa verið um tólfhundruð F-15 vélar en auk bandaríska flughersins eru þær í notkun hjá flugherjum Japans, Ísraels og Sádi-Arabíu. Skeiðsvatn. Skeiðsvatn er lítið stöðuvatn í Vatnsdal sem er afdalur út frá Svarfaðardal milli bæjanna Skeiðs og Kots. Mikið berghlaup hefur fallið úr Skeiðsfjalli og myndað mikla urðarhóla í dalsmynninu. Innan við þá myndaðist vatnið, það er í um 230 m y.s. Vatnsdalsá fellur úr því til Svarfaðardalsár. Smásilungur er í vatninu en hann er lítið veiddur. Engin byggð er í Vatnsdal og hefur aldrei verið en þar eru gamlar seljarústir enda var þar haft í seli allt frá landnámsöld ef marka má frásagnir Svarfdælu. Katrín Jónsdóttir. Katrín Jónsdóttir (f. 31. maí 1977) er íslensk knattspyrnukona og fyrirliði íslenska landsliðsins. Hún leikur nú með Val. Katrín lauk læknisnámi í Noregi samhliða knattspyrnuiðkun með Kolbotn og er nú starfandi læknir. Gúmmí. Gúmmí er efni sem var upprunalega gert úr latexi sem finnst inni í trjákvoðu sumra plantna. Nú á dögum er hægt að búa til gúmmí úr gerviefnum, og í dag er mestu gúmmísins búið til úr gerviefnum. Um það bil 42% gúmmísins búið til árið 2005 var framleitt úr náttúrulegum efnum. Í dag er mikið gúmmí framleitt í Asíu, árið 2005 var 94% gúmmí heimsins búið til í Asíu. Yfirleitt er náttúrulegt gúmmí búið til með trjákvoðu frá "Hevea brasiliensis" trénu, í daglegu tali gúmmítré. Þessi tegund er notuð af því hún framleiðir meiri trjákvoðu þegar hún er særð. Notað er náttúrulegt gúmmí í mörgum tilgöngum, aðallega í dekkjum og pípum. Talið er að gúmmí sé gúmmílíki, það er teygjanlegt efni. Apavatnsför. Apavatnsför kallast fundur Sturlu Sighvatssonar og Gissurar Þorvaldssonar við Apavatn vorið 1238. Sturla kom þá ásamt Böðvari Þórðarsyni frænda sínum að vestan með hátt á fjórða hundrað manna og gerði Gissuri, sem þá bjó á Reykjum í Ölfusi, orð að finna sig við Apavatn. Gissur átti sér einskis ills von og kom með aðeins 40 manna hóp með sér og er þeir höfðu rætt saman um stund lét Sturla menn sína handtaka Gissur og afvopna menn hans. Hann sagðist ætla sér meiri hlut en öðrum mönnum á Íslandi en Gissur væri eini maðurinn sem hann óttaðist. Síðan lét hann Gissur sverja sér trúnaðareið og heita því að fara úr landi. Gissur sagðist síðar telja að Sturla hefði hugleitt að taka hann af lífi. Sagt var að er þeir riðu frá Apavatni hefði Sturla verið heldur ófrýnn en Gissur hinn kátasti. Síðan reið allur flokkurinn til Reykja og var þar haldin mikil átveisla; Gissur sendi eftir nautum um Grímsnes og Ölfus til veislunnar. Síðan var ákveðið að Ormur Svínfellingur tæki að sér að gæta Gissurar þar til honum yrði komið í skip. Gissur fór þó fljótlega þaðan, enda var þá bandamaður hans Kolbeinn ungi kominn suður um Kjöl með marga menn með sér. Fóru þeir með þrettán hundruð manna flokk vestur í Dali á eftir Sturlu en ekki kom þó til bardaga í það sinnið. Þessir atburðir voru undanfari Örlygsstaðabardaga seinna um sumarið. Ormur Jónsson Svínfellingur. Ormur Jónsson Svínfellingur (d. 5. september 1241) var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 13. öld. Hann var sonur Jóns Sigmundssonar (d. 14. júlí 1212) á Valþjófsstað og síðar Svínafelli og konu hans, Þóru eldri (d. 1203), dóttur Guðmundar gríss Ámundasonar. Hálfbræður hans voru Brandur ábóti í Þykkvabæ og biskup á Hólum og Þórarinn goðorðsmaður (d. 1239), faðir Þorvarðar og Odds Þórarinssona. Ormur var sagður vinsælastur af öllum óvígðum höfðingjum á þeim tíma því að hann leiddi hjá sér þann hernað og óöld er flestir hinna vöfðust í en hélt hlut sínum óskertum. Ormur bjó fyrst á Svínafelli í Öræfum en síðar í Skál á Síðu. Kona hans var Álfheiður Njálsdóttir. Synir þeirra voru Sæmundur Ormsson (um 1227 - 13. apríl 1252, sem giftist Ingunni dóttur Sturlu Sighvatssonar, og Guðmundur Ormsson (um 1235 - 13. apríl 1252). Ögmundur Digur-Helgason í Kirkjubæ, sem giftur var föðursystur þeirra, lét taka þá af lífi og segir frá þeim atburðum í Svínfellingasögu. Einnig áttu þau soninn Orm, sem fæddist eftir lát föður síns og varð síðar höfðingi Svínfellinga, og dótturina Þóru, sem giftist Kráki Tómassyni af ætt Seldæla, dóttursyni Þórðar Sturlusonar. Laundóttir Orms var Oddný, sem giftist Finnbirni, syni Digur-Helga, hirðmanni og umboðsmanni Hákonar gamla. Hann lést af sárum sem hann hlaut á Þverárfundi. Ontario. Ontario (eða Ontaríó) er fylki í mið-austur Kanada. Fylkið er það fjölmennasta og næststærsta að flatarmáli á eftir Quebec. Landamæri Ontario liggja að kanadíska fylkinu Manitóba í vestri og Quebec í austri en í suðri eru fimm bandarísk fylki (frá austri til vesturs); Minnesota, Michigan, Ohio, Pennsylvania og New York. Höfuðborg Ontario er Toronto sem er að auki fjölmennasta borg Kanada. Majónes. Majónes eða majonsósa er þykk sósa, yfirleitt hvít eða ljósgul á lítinn. Sósan er þeyta búin til úr olíu, eggjarauðum og ediki eða sítrónusafa með salti. Í Frakklandi er stundum bætt við sinnepi til bragðbætis, en á Spáni og Menorku er ólífuolíu bætt við sósuna en aldrei sinnepi. Hægt er að búa til aðrar sósur úr majonesi, til dæmis kokkteilsósu. Majónes má þeyta með hrærivél, rafmagnsblandara eða með þeytara og gaffli. Sósan er gerð með því að þeyta kröftuglega saman olíu og eggjarauður. Ólían og vatn í eggjarauðunum mynda grunn þeytunnar og lesitín úr eggjarauðunum er þeytiefni sem gerir blönduna stöðuga. Sé sinnepi bætt við verður sósan bragðsterkari auk þess sem sinnepið inniheldur dálítið lesitín. Erna Björk Sigurðardóttir. Erna Björk Sigurðardóttir (f. 30. desember 1982) er íslensk knattspyrnukona og fyrirliði Breiðabliks. Ferill. Erna hefur orðið þrefaldur Íslandsmeistari með Breiðabliki (2000, 2001 og 2005) og þrefaldur bikarmeistari með Breiðabliki (1998, 2000 og 2005). Hún hefur leikið víða erlendis, meðal annars í nokkra mánuði í Danmörku þar sem hún lék með dönsku liði og einnig fékk hún styrk til þess að spila fótbolta og stunda háskólanám í Texas, USA. Viðurkenningar. Viðurkenningar hafa verið margar í gegnum tíðina líkt og Íþróttamaður Kópavogs og leikmaður umferðarinnar í Pepsideild kvenna. Órækja Snorrason. Órækja Snorrason (1205 – 24. júní 1245) var sonur Snorra Sturlusonar og frillu hans Þuríðar Hallsdóttur. Hann ólst upp hjá föður sínum í Reykholti. Eftir að synir Þorvaldar Vatnsfirðings voru teknir af lífi 1232 eftir Sauðafellsför setti Snorri Órækju yfir veldi hans á Vestfjörðum. Þar þótti hann sýna mikinn yfirgang og safnaði hann til sín óþjóðalýð, ræningjum og ofstopamönnum. Ekkja Þorvaldar, Þórdís systir Órækju, átti síðar vingott við Odd Álason á Söndum í Dýrafirði og lét Órækja telja sér trú um með falsbréfi að þau sætu á svikráðum við hann, fór að Oddi og tók hann af lífi 13. janúar 1234. Oddur var vinur Sturlu Sighvatssonar og þegar Sturla sneri aftur úr Rómarför sinni náði hann Órækju á sitt vald og lét menn sína fara með hann upp í Surtshelli, þar sem þeir áttu að blinda hann og gelda. Ekki tókst það þó vel og Órækja læknaðist af sárum sínum en fór úr landi og gekk meðal annars suður til Rómar. Hann kom aftur heim með föður sínum 1239. Eftir víg Snorra hefndi Órækja hans meðal annars með því að drepa stjúpbróður sínn, Klæng Bjarnarson, sem hafði deilt við Snorra um arf eftir Hallveigu Ormsdóttur móður sína og var með í för er Snorri var drepinn. Hann safnaði svo liði um Borgarfjörð og fór að Gissuri Þorvaldssyni. Börðust þeir í Skálholti í janúar 1242 en Sigvarði biskupi tókst að stöðva bardagann. Síðar þetta ár náðu Gissur og Kolbeinn ungi Órækju og Sturlu Þórðarsyni á sitt vald með svikum við Hvítárbrú og ráku þá úr landi. Órækja dó í Noregi 1245. Kona Órækju var Arnbjörg Arnórsdóttir (f. 1215), systir Kolbeins unga. Vatnsfirðingar. Vatnsfirðingar voru ein helsta valdaætt landsins á 12. öld, en þegar kom fram á Sturlungaöld hafði veldi þeirra hnignað þótt þeir séu stundum taldir sjötta valdaættin (hinar voru Sturlungar, Ásbirningar, Haukdælir, Oddaverjar og Svínfellingar). Ættin er kennd við Vatnsfjörð við Ísafjarðardjúp, þar sem hún hafði búið frá landnámsöld. Helstu höfðingjar ættarinnar voru Snorri Þórðarson (d. 1. október 1194) og sonur hans Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur (d. 6. ágúst 1228). Frá honum segir í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, en Þorvaldur drap Hrafn árið 1213. Synir Hrafns brenndu Þorvald inni á Gillastöðum í Króksfirði 1228 og nutu við það liðsinnis Sturlu Sighvatssonar. Ungir synir Þorvaldar, Þórður og Snorri, reyndu að hefna föður sins í Sauðafellsför en Sturla náði þeim síðar og felldi þá 8. mars 1232. Þar með má segja að veldi Vatnsfirðinga hafi lokið. Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur. Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur (d. 6. ágúst 1228) var goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann bjó í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp og var höfðingi Vatnsfirðinga þegar Sturlungaöld hófst. Þorvaldur var sonur Snorra Þórðarsonar í Vatnsfirði og Jóreiðar Oddleifsdóttur konu hans. Hann virðist hafa verið ójafnaðarmaður. Ungur að árum var hann í nokkur ár hjá Hrafni Sveinbjarnarsyni frænda sínum á Eyri í Arnarfirði og fór mjög vel á með þeim, en er Þorvaldur tók við Vatnsfjarðargoðorði að föður sínum látnum, 1194, urðu algjör umskipti og Þorvaldur hataðist við Hrafn. Gerði hann þrjár ferðir yfir fjöllin til að reyna að ná Hrafni. Loks tókst það og hann lét taka Hrafn af lífi á Eyri 4. mars 1213. Elstu synir Hrafns, Sveinbjörn og Krákur, voru á barnsaldri þegar faðir þeirra var drepinn, en seinna leituðu þeir liðsinnis Sturlu Sighvatssonar og fóru síðan að Þorvaldi og brenndu hann inni á Gillastöðum í Króksfirði 1228. Þorvaldur var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Kolfinna Einarsdóttir. Árið 1224 gifti Snorri Sturluson honum Þórdísi laundóttur sína og var hún nokkrum áratugum yngri en Þorvaldur. Börn þeirra voru Einar goðorðsmaður í Vatnsfirði og Kolfinna. Þorvaldur átti líka nokkrar frillur og með þeim allmörg börn. Þekktastir eru synirnir Þórður og Snorri Þorvaldssynir, sem reyndu að hefna föður síns þegar þeir fóru í Sauðafellsför. Sósa. Í matreiðslu er sósa vökvi eða stundum hálffast efni sett á aðrar matvörur eða notað í undirbúningi annarra matvara. Yfirleitt eru sósur ekki borðaðar einar, þær bæta bragði, vætu og glæsibrag við annan rétt. Orðið "sósa" er dregið af frönsku orðinu "sauce", upprunalega tekið frá latnesku orðinu "salsus", sem þýðir saltað. Til þess að heita sósa þarf að vera vökvi en sumar sósur (eins og salsa eða chutney) mega innihalda fleiri föst hráefni en fljótandi efni. Sósur eru mikilvægur hluti eldamennsku um allan heim. Sósur geta verið keyptar sem tilbúin vara, eins og sojasósa, eða gerðar af kokki, eins og jafningur. Sósur fyrir salöt heita salatsósur. Lasanja. Lasagna (eintala, borið fram á ítölsku; lasagne í fleirtölu) er annars vegar ákveðin tegund af pasta í blöðum eða plötum og einnig réttur sem fullu nafni heitir "lasagne al forno" á ítölsku (það þýðir „lasanja eldað í ofni“). Uppruni. Upprunalega merkti heitið "lasagna" ílátið sem rétturinn var eldaður en nú er það eingöngu haft um réttinn sjálfan og pastaplöturnar. Yfirleitt er rétturinn talinn upprunninn á Ítalíu en þó er orðið "lasagna" dregið af grísku orðinu "λάσανα" ("lasana") eða "λάσανον" ("lasanon") sem þýðir „pottpallur“. Lasanja á sér líka ævafornar rætur og í Grikklandi, á Balkanskaga og víða í Arabalöndunum eru eldaðir áþekkir réttir en þar er reyndar yfirleitt ekki haft pasta á milli laga, heldur grænmeti af ýmsu tagi, svo sem eggaldin- eða kartöflusneiðar. Þó eru dæmi um að pasta sé notað, til dæmis í gríska réttinum "pastitsio", þar sem oftast eru notaðar makkarónur eða annað pípulaga pasta. Pastaplöturnar. Lasanjaplötur eru ýmist þurrkaðar (og þá forsoðnar fyrir notkun) eða ferskar og þá oft búnar til á staðnum. Þær eru yfirleitt rétthynrndar, stundum stórar, "lasagnoni", eða minni en þessar hefðbundnu og kallast þá "lasagnette". Stundum er spínati blandað saman við deigið svo plöturnar verða grænar að lit og kallast lasanja sem gert er úr slíkum plötum "Lasagne verdi" eða grænt lasanja. Í ítölsku lasanja er gjarna hlutfallslega mun meira af pasta en í lasanja sem gert er í öðrum löndum. Mismunandi tegundir lasanja. Lasanja alla bolognese sett saman. Rétturinn er lagskiptur og í formið eru á víxl sett lög af pastaplötum og sósu eða sósum, og síðan er osti stráð yfir eða þá að hann er hafður á milli laga. Á Suður-Ítalíu er oftast notuð kjötsósa (ragù) og eða tómatsósu en á norðanverðri Ítalíu er yfirleitt notuð béchamel-sósa (uppstúf) í lasanja. Í "lasagne alla bolognese" eru aðalhráefnin til dæmis bolognese-sósa, parmesanostur og béchamel-sósa krydduð með múskati. Til eru margar ólíkar útgáfur, mismunandi eftir héruðum, og eftir að lasanja varð vinsæll réttur í öðrum löndum hafa margvíslegar nýjar útgáfur komið fram. Misjafnt er hvaða ostar eru notaðir í lasanja en algengastir eru ricotta-ostur, parmesan-ostur og mozzarella-ostur. Sá síðastnefndi er sérlega algengur í lasanja frá suðurhluta Ítalíu þar sem hann er upprunninn þar um slóðir. Í öðrum löndum eru notaðar ýmsar tegundir af osti og í Bandaríkjunum eru uppskriftir að fjögurra eða fimm osta lasanja algengar. Lasanja á Íslandi. Lasanja sást varla á Íslandi svo heitið gæti fyrr en snemma á 9. áratug 20. aldar. Í Heimilistímanum árið 1975 er talað um „italska spaghettiréttinn lasagna, sem er lag af breiðu spaghetti, til skiptis með sterku kjötfarsi, lauk, hvítri sósu og osti“ og síðan eru gefnar leiðbeiningar um hvernig eigi að búa til slíkan rétt en nota pönnukökur í staðinn fyrir pasta, enda fengust lasanjaplötur þá varla hérlendis. Innflutningur þeirra hófst um eða skömmu fyrir 1980 og eftir það jukust vinsældir réttarins jafnt og þétt. Listi yfir Ubuntu útgáfur. Nýjasta útgáfa af Ubuntu; 9.04 ("Jaunty Jackalope"). Ubuntu er stýrikerfi sem er byggt á Debian sem kemur út tvisvar sinnum á ári. Ubuntu 4.10 (Warty Warthog). Ubuntu 4.10 ("Warty Warthog") var fyrsta útgáfan af Ubuntu sem kom út þann 20. október 2004 sem byggði á Debian. Ubuntu 5.04 (Hoary Hedgehog). Ubuntu 5.04 ("Hoary Hedgehog") sem kom út 8. apríl 2005 var önnur útgáfa af Ubuntu. Ubuntu 5.10 (Breezy Badger). Ubuntu 5.10 ("Breezy Badger") er þriðja útgáfa af Ubuntu sem kom út 12. október 2005, og bætti við Usplash, möguleika að breyta valmyndinni ("alacarte" sem kemur af "à la carte"; „af matseðlinum) og einfalda leið til að skipta um tungumál. Ubuntu 6.06 LTS (Dapper Drake). Ubuntu 6.06 ("Dapper Drake") kom út 1. júní 2006 og var fjórða útgáfa af Ubuntu. Ubuntu 6.10 (Edgy Eft). Ubuntu 6.10 ("Edgy Eft") kom út 26. október 2006, og inniheldur Apport, Tomboy og F-Spot. Ubuntu 7.04 (Feisty Fawn). Ubuntu 7.04 ("Feisty Fawn") sem kom út 19. apríl 2007 var sjötta útgáfa af Ubuntu, en Canonical hætti stuðningi við 7.04 þann 19. október 2008. Ubuntu 7.10 (Gutsy Gibbon). Ubuntu 7.10 ("Gutsy Gibbon") kom út 18. október 2007 og var sjönda útgáfa af Ubuntu. Með Ubuntu 7.10 fylgdi GIMP 2.4, GNOME 2.20, Mozilla Firefox 2.0, OpenOffice.org 2.3, and Pidgin 2.2. Ubuntu 8.04 LTS (Hardy Heron). Ubuntu 8.04 ("Hardy Heron") kom út 24. apríl 2008 og var önnur LTS útgáfan. Fyrsta útgáfan sem bætti Wubi uppsetningarforritinu við Live geisladiskinn. Ubuntu 8.10 (Intrepid Ibex). Íslensk útgáfa af Ubuntu 8.10 ("Intrepid Ibex"). Ubuntu 8.10 ("Intrepid Ibex") er níunda útgáfa af Ubuntu sem kom út 30. október 2008 sem bætti nettengingu, Ubuntu Live USB creator og gestaaðgangi sem leyfir öðrum að nota tölvnuna með takmörkuðum réttindum. Ubuntu 9.04 (Jaunty Jackalope). Íslensk útgáfa af Ubuntu 9.04 ("Jaunty Jackalope") Ubuntu 9.04 ("Jaunty Jackalope") er tíunda útgáfa af Ubuntu sem kom út 23. apríl 2009, en þetta er nýjasta útgáfan sem verður stutt til októbers 2010. Ubuntu 9.04 bætti ræsitímann og bætti við netþjónustum, forritum og tilkynningum. 9.04 er líka fyrsta útgáfa af Ubuntu sem leyfir notendum að velja ext4 sem skráakerfi. Ubuntu 9.10 (Karmic Koala). Ubuntu 9.10 ("Karmic Koala") er ellefta útgáfa Ubuntu kem kemur út þann 29. október 2009. Ubuntu 10.4 (Lucid Lynx). Ubuntu 10.4 ("Lucid Lynx") er tólfta útgáfa Ubuntu sem á að koma út þann 29. apríl 2010. Ubuntu 10.10 (Maverick Meerkat). Ubuntu 10.10 ("Maverick Meerkat") er þrettánda útgáfa Ubuntu sem á að koma út í Október 2010. Sauðafellsför. Sauðafellsför í janúar 1229 var eitt af níðingsverkum Sturlungaaldar. Sturla Sighvatsson hafði liðsinnt sonum Hrafns Sveinbjarnarsonar þegar þeir fóru að Þorvaldi Vatnsfirðingi og brenndu hann inni á Gillastöðum í Króksfirði 1228. Þórður og Snorri, synir Þorvaldar með frillu hans Helgu Ormsdóttur, voru ungir og Snorri raunar aðeins 14 ára en Þórður nokkrum árum eldri. Þeir vildu hefna sín á Sturlu og er gefið í skyn að Snorri Sturluson hafi hvatt þá til þess. Veturinn eftir brennuna fóru þeir að næturlagi að Sauðafelli í Dölum, þar sem Sturla bjó þá, en hann var ekki heima. Þeir rændu bæinn, unnu mikil spjöll, hjuggu allt sem fyrir var og inn í hvert rúm í skálanum, drápu nokkra heimilismenn og særðu aðra illa. Þeir ógnuðu Solveigu Sæmundardóttur, konu Sturlu, sem lá á sæng, en meiddu hvorki hana né börn hennar og Þórður sagði að tvennt þætti sér verst, að Sturla var ekki heima og að hann gat ekki tekið hana á brott með sér. Síðan héldu þeir á brott. Sturla hefndi Sauðafellsfarar þegar hann lét drepa Þorvaldssyni báða 8. mars 1232. Þar með má segja að veldi Vatnsfirðinga hafi lokið. Skíð. Skíð eða Skye á ensku (gelíska: "An t-Eilean Sgitheanach" eða "Eilean a' Cheó") er stysta og nyrsta eyja Suðureyja á Skotlandi. Eyjan er 1.656 km² að stærð. Það eru margir skagar á eyjunni sem liggja út frá fjöllóttri miðju eyjunnar. Enda þótt talið hafi verið að gelískt heiti eyjunnar lýsi þessu formi er þó deilt um uppruna þess. Það hafa verið íbúar á Skíð frá miðsteinöldinni og heillengi var eyjunni stjórnað af fornnorrænum mönnum. Atburðir 19. aldarinnar minnkuðu gífurlega íbúafjöldann, sem er í dag 9.232 manns. Mannfjöldinn hefur aukist um 4% frá manntali ársins 1991. Þessi íbúafjölgun er ólík þróuninni á öðrum skoskum eyjum. Stærsti bærinn á eyjunni er Portree sem er vel þekktur vegna fagurrar hafnar sinnar. Höfuðatvinnugreinar eyjunnar eru ferðaþjónusta, landbúnaður, fiskveiði og viskíeiming. Um það bil 30% íbúa eyjunnar tala gelísku. Skíð er tengd við meginlandið með brú og henni er stjórnað af Highland Council. Eyjan er þekkt fyrir fagurt landslag, líflega menningu og söguslóðir og mikið dýralíf eins og gullörn, krónhjört og lax. Hungur. a> hefur farið hækkandi undanfarin ár. Hungur er tilfinning sem kemur fyrir þegar maður þarf að borða. Sedda er tilfinningin þegar hungur er farið. Óþægileg tilfinning hungurs verður til í undirstúkunni og er losuð gegnum viðtaka í lifrinni. Enda þótt það einstaklingur geti lifið af í nokkrar vikur án þess að borða eitthvað byrjar hungurstilfinning yfirleitt eftir nokkrar klukkustundir án þess að borða. Að vera svangur er talið vera afar óþægilegt. Þegar maður borðar mat hverfur hungurstilfinningin. Orðið „hungur“ er líka notað til að lýsa ástandi fólks sem lifir við viðvarandi hungur. Næring. Næring er það þegar frumum og lífverum er gefið nauðsynlegt efni (í formi matar) til þess að lifa af. Hægt er að koma í veg fyrir og draga úr mörgum heilsuvandamálum með hollustufæði. Mataræði lífverunnar er það sem hún étur og ræðst af því sem lífverunni líkar vel við að éta. Næringarráðgjafar eru einstaklingar sem sérhæfa sig í næringarfræði, áætlanagerð máltíða, efnahagsmálum, undirbúningi og svo framvegis. Þeir eru útlærðir til að gefa einstaklingum (bæði heilbrigðum og veikum) og samtökum örugg ráð um hvað er best að borða. Vont mataræði getur verið hættulegt heilbrigði einstaklingsins og valdið sjúkdómum eins og skyrbjúg, taugakröm og prótínkröm og sjúkdómum sem ógna heilbrigði eins og offitu og efnaskiptaheilkennum auk þess þrálátra kerfabundinna sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og beinþynningu. Næringarefni. Höfuðtegundur næringarefnanna eru sjö: fita, kolvetni, prótín, steind, trefjaefni, vatn og vítamín. Þessar næringarefnistegundur má flokkað sem undirstöðufrumefni (sem maður þarf í miklu magni) eða snefilefni (sem maður þarf minna af). Undirstöðufrumefni samanstanda af kolvetni, trefjaefni, prótínum og vatni. Snefliefni eru vítamín og steindir. Undirstöðufrumefnin (fyrir utan trefjaefni og vatn) gefa orku sem er mæld með Júlum eða kílókaloríum. Kolvetni og prótín gefa 17 kJ (4 kkal) af orku á hvert gramm og fitur gefa 37 kJ (9 kkal) á hvert gramm. Vítamín, steindir, trefjaefni og vatn gefa enga orku en eru öll nauðsynleg af öðrum ástæðum. Kolvetnis- og fitusameindir samanstanda af kolefnis-, vetnis- og súrefnisfrumeindum. Kolvetni getur verið einfaldar einsykrur (glúkósi, frúktósi og galaktósi) eða flóknar fjölsykrur (mjölvi). Fitur eru þríglýseríð gerð úr fitusýrueinliðum festum við glýseról. Sumar en ekki allar fitusýrur eru nauðsynlegar í mataræðinu, það er að segja að þær geti ekki myndast í líkamanum. Prótínsameindir innihalda niturfrumeindir. Einliður prótínsins sem innihalda nitur eru amínósýrur, á meðal þeirra eru sumar nauðsynlegar amínósýrur. Þær eru ekki notaðar í efnaskiptum. Ef þær eru notaðar sem orka íþyngir losun nitursins nýrum. Önnur snefliefni eru andoxunarefni (e. "antioxidants") og jurtaefni (e. "phytochemicals"). Flestar matvörur innihalda blöndu allra næringarefnistegunda. Maður þarf sum næringarefni reglulega en önnur öðru hverju. Ójafnvægi næringarefna geta valdið heilsubresti (bæði ofgnótt eða skortur næringarefnis). Næringarkvilli. Næringarkvilli eða eldiskvilli er hvers kyns sjúkdómur sem leggst á menn (og dýr) vegna ójafnvægis í fæði, það er að segja vannæringar eða ofnæringar af einhverju tagi. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir (f. 15. september 1981) er íslensk knattspyrnukona sem leikur nú með Djurgårdens IF Dam. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir (f. 16. nóvember 1982) er íslensk knattspyrnukona sem leikur nú með Val ásamt Eddu sambýliskonu sinni. Þórdís Snorradóttir. Þórdís Snorradóttir var íslensk kona á 13. öld en um fæðingar- og dánarár hennar er ekki vitað. Hún var laundóttir Snorra Sturlusonar en móðir hennar hét Oddný. Árið 1224 gifti Snorri hana Þorvaldi Vatnsfirðingi, sem var orðinn roskinn og mörgum áratugum eldri en Þórdís, og tengdist hjónabandið sættum þeirra Snorra og Þorvaldar, sem höfðu átt í deilum. Þau bjuggu í Vatnsfirði og áttu saman tvö börn, Kolfinnu og Einar. Þórdís var á Gillastöðum í Króksfirði með manni sínum 6. ágúst 1228, er Hrafnssynir brenndu hann þar inni, og var hún dregin út um op á vegg og bjargaðist. Stjúpsynir hennar, Þórður og Snorri, tóku þá við veldi föður síns þótt ungir væru en Þórdís vildi ekki fara í Reykholt til föður síns þótt hann vildi fá hana til sín. Ekki löngu síðar eignaðist hún barn með manni sem kallaðist Ólafur Æðeyingur en var síðan í tygjum við Odd Álason bónda á Söndum, og voru kærleikar miklir með þeim að því er segir í Sturlungu. Eftir að Sturla Sighvatsson drap Þorvaldssyni 1232 tók Þórdís við búi í Vatnsfirði en Snorri setti Órækju son sinn til að hafa mannaforráð þar vestra þar til Einar sonur Þórdísar væri fullvaxinn og hraktist Þórdís frá Vatnsfirði að Mýrum í Dýrafirði og neitaði aftur að fara til föður síns. Órækja taldi systur sína og Odd sitja á svikráðum við sig og fór að Oddi, sem þá bjó á Eyri í Arnarfirði, og drap hann 13. janúar 1234. Þórdís bjó í Vatnsfirði eftir að Órækja fór þaðan og virðist hafa ráðið mestu við Ísafjarðardjúp um tíma, jafnvel þar til Einar sonur hennar var fullvaxinn. Oddur Álason. Oddur Álason (Ólason) (d. 13. janúar 1234) var íslenskur höfðingi á Sturlungaöld. Hann bjó á Söndum í Dýrafirði og var sonur Ála hins auðga Oddssonar. Oddur var mikill vinur og bandamaður Sturlu Sighvatssonar. Hann giftist Steinunni dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar en upp úr 1230 var hann í kærleikum við Þórdísi Snorradóttur, ekkju Þorvaldar Vatnsfirðings. Órækja bróðir hennar, sem þá fór með héraðsvöld við Ísafjarðardjúp, taldi þau sitja á svikráðum við sig eftir að honum barst í hendur bréf sem síðar þótti víst að væri falsað og fór að Oddi, sem þá var á Eyri við Arnarfjörð og lét drepa hann. Oddur átti nokkur börn með konu sinni. Þekktastur er Hrafn Oddsson hirðstjóri og riddari en einnig má nefna Herdísi konu Svarthöfða Dufgussonar. Sif Atladóttir. Sif Atladóttir (f. 15. júlí 1985) er íslensk knattspyrnukona sem leikur nú með Val. Hún er dóttir fyrrverandi landsliðsmannsins Atla Eðvaldssonar. Dóra Stefánsdóttir. Dóra Stefánsdóttir (f. 27. apríl 1985) er íslensk knattspyrnukona. Hún hefur verið fyrirliði U-17, U-19 og U-21 landsliðanna. Hún leikur nú með LdB FC Malmö. Þann 15. desember 2010 ákvað hún að hætta í fótbolta. Edda Garðarsdóttir. Edda Garðarsdóttir (f. 15. júlí 1979) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur nú með KIF Örebro DFF í Svíþjóð ásamt Ólínu sambýliskonu sinni. Edda er dóttir Garðars Sigurðssonar fyrrum alþingismanns. Sæmundur Ormsson. Sæmundur Ormsson (um 1227 – 13. apríl 1252) var goðorðsmaður á Sturlungaöld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Orms Jónssonar Svínfellings (d. 1241) og konu hans Álfheiðar Njálsdóttur. Hann var unglingur er faðir hans lést en tók þó við mannaforráðum og búi á ættarjörð sinni, Svínafelli. Guðmundur bróðir hans (f. um 1235) var í fóstri í Kirkjubæ á Síðu hjá Steinunni föðursystur sinni og manni hennar, Ögmundi Helgasyni staðarhaldara. Ögmundur þótti seilast til valda eftir lát Orms en Sæmundi líkaði það illa og varð af mikill fjandskapur. Sæmundur gekk að eiga Ingunni laundóttur Sturlu Sighvatssonar árið 1248 og er sagt að Þórður kakali föðurbróðir hennar hafi eggjað hann til að láta ekki hlut sinn fyrir Ögmundi. Sæmiundur sótti Guðmund bróður sinn úr fóstrinu hjá Ögmundi og reyndi á næstu árum tvisvar að sækja að honum. Brandi ábóta (síðar biskup), föðurbróður Sæmundar og mági Ögmundar, tókst loks að gera sætt milli þeirra en Ögmundur hélt ekki sættina. Steinunn kona hans, sem hafði hvatt mjög til sátta, lést 31. mars 1252 og er tæpum tveimur vikum síðar, þegar Ögmundur frétti að Sæmundur og Guðmundur væru fámennir á ferð skammt frá Kirkjubæ, tók hann þá höndum og líflét þá, þótt Guðmundur fóstursonur hans bæði um grið. Erla Steina Arnardóttir. Erla Steina Arnardóttir (f. 18. maí 1983) er íslensk knattspyrnukona. Hún lék eitt tímabil í bandarísku deildinni W-League en hefur að mestu leikið í Svíþjóð, hún er nú leikmaður Kristianstads DFF. Guðmundur gríss Ámundason. Guðmundur gríss Ámundason (d. 22. febrúar 1210) var íslenskur höfðingi á 12. öld. Hann var allsherjargoði og prestur á Þingvöllum og hefur sennilega verið af ætt Ingólfs Arnarsonar þótt ekki sé vitað hvernig sú ættrakning er. Bróðir hans var Magnús, faðir Árna óreiðu Magnússonar, goðorðsmanns í Brautarholti og Saurbæ á Kjalarnesi. Guðmundur var virtur og vinsæll höfðingi og var sagt um hann að hann hefði fleira veitt fyrir guðs sakir en flestir menn aðrir. Hann lét síðar frá sér allar eigur sínar og gerðist munkur. Kona Guðmundar var Solveig (um 1151 – 1193), dóttir Jóns Loftssonar. Dætur hans hétu báðar Þóra og þóttu bestu kvenkostir á Íslandi. Þóra eldri giftist Jóni Sigmundssyni af ætt Svínfellinga og var sonur þeirra Ormur Svínfellingur. Þóra yngri giftist Þorvaldi Gissurarsyni; þeirra sonur var Gissur Þorvaldsson. Synir Guðmundar voru Magnús góði, sem kjörinn var Skálholtsbiskup 1236 en fékk ekki vígslu, og Þorlákur, faðir Staða-Árna Þorlákssonar biskups. Katrín Ómarsdóttir. Katrín Ómarsdóttir (f. 27. júní 1987) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur með KR. Ormur Jónsson Breiðbælingur. Ormur Jónsson Breiðbælingur (d. 6. ágúst 1218) var íslenskur goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann var af ætt Oddaverja, sonur Jóns Loftssonar og frillu hans, Ragnheiðar systur Þorláks helga. Hann var albróðir Páls Skálholtsbiskups og hálfbróðir Sæmundar Jónssonar í Odda. Hann bjó á Breiðabólstað í Fljótshlíð og var kenndur við bæ sinn. Hann þótti spekingur að viti og hið mesta göfugmenni. Páll sonur Sæmundar bróður hans drukknaði í Noregi 1216 og kenndi Sæmundur Björgvinjarkaupmönnum um lát hans og heimtaði miklar fébætur af kaupmönnum á Eyrarbakka. Ormur bróðir hans reyndi að koma vitinu fyrir hann en það stoðaði ekki og Sæmundur gerði mikinn varning upptækan, en því reiddust kaupmenn sem von var. Sumarið 1218 fór Ormur út í Vestmannaeyjar til að sækja kirkjuvið sem hann átti og Jón sonur hans með honum. Réðust þá kaupmenn sem þar voru á þá og drápu. Ormur átti ekki skilgetin börn en Sæmundur bróðir hans lét óskilgetnum börnum hans eftir allan arf eftir hann, sem þau áttu þó ekki rétt til samkvæmt lögum. Ein dóttir hans var Hallveig Ormsdóttir, er fyrst giftist Birni Þorvaldssyni en gerði síðan helmingafélag við Snorra Sturluson. Önnur var Þuríður, sem giftist Tuma yngri Sighvatssyni. Björn Þorvaldsson. Björn Þorvaldsson (um 1190 – 17. júní 1221) var íslenskur goðorðsmaður á Sturlungaöld. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Þorvaldar Gissurarsonar og fyrri konu hans, Jóru dóttur Klængs Þorsteinssonar biskups. Björn kvæntist Hallveigu Ormsdóttur og bjuggu þau fyrst á Stokkseyri en fluttu á Breiðabólstað í Fljótshlíð vorið 1219, eftir að Ormur Breiðbælingur faðir Hallveigar var drepinn í Vestmannaeyjum. Björn þótti efnilegur höfðingi en var ákafamaður í skapi. Þegar Snorri Sturluson kom heim frá Noregi 1220 kastaðist í kekki með þeim Birni og sakaði Björn Snorra um að standa í vegi fyrir því að Norðmenn bættu fyrir víg Orms tengdaföður hans. Skömmu síðara urðu harðar deilur um eignarhald á skóglendi milli Bjarnar og Lofts biskupssonar og í drykkjuveislu í Odda um veturinn fór allt í háaloft. Lauk deilunum með því að Loftur og Sæmundur Jónsson í Odda fóru að Birni og felldu hann í bardaga á Breiðabólstað 17. júní 1221. Hallveig kona Björns varð skömmu eftir lát hans ríkasta kona á Íslandi. Hún gerði helmingafélag við Snorra Sturluson og bjó með honum til dauðadags. Synir hennar og Björns voru þeir Klængur (1216 - 26. desember 1241), fóstbróðir Sturlu Sighvatssonar, og Ormur (um 1219 - 28. apríl 1250), goðorðsmaður á Breiðabólstað. Þeir deildu við Snorra stjúpföður sinn um arf eftir móður sína og var Klængur með í aðförinni að Snorra haustið 1241. Órækja Snorrason drap hann í hefndarskyni. Loftur biskupssonur. Loftur Pálsson biskupssonur (d. 1261) var íslenskur höfðingi á Sturlungaöld. Hann var af ætt Oddaverja, sonur Páls biskups Jónssonar í Skálholti og konu hans Herdísar Ketilsdóttur (drukknaði í Þjórsá 17. maí 1207) og var jafnan nefndur Loftur biskupssonur. Hann bjó fyrst í Skarði á Landi eins og faðir hans áður. Hann var hinn fríðasti maður og þótti vænn til höfðingja, segir í Sturlungu. Þorvaldur Gissurarson sagði um Loft að honum og Katli bróður hans (d. 1215) væri ólíkt farið, því Ketill vildi mönnum hvarvetna gott, en Loftur mælti hvarvetna gott til manna. "Loftur liggur í Eyjum / bítur lunda bein / Sæmundur er á heiðum / etur berin ein." Þorvaldur og Loftur sættust þó nokkru síðar og fór Loftur til Noregs um haustið og var útlægur næstu þrjú árin en kom þá heim og settist að í Hítardal. Hann var einn þeirra sem fóru með Gissuri Þorvaldssyni að Snorra í Reykholti 1241. Seinast bjó Loftur á Borg á Mýrum en endaði ævina sem kanúki í klaustri. Kona hans var Þorbjörg Grímsdóttir. Rakel Logadóttir. Rakel Logadóttir (f. 22. mars 1981) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur með Val. Sara Björk Gunnarsdóttir. Sara Björk Gunnarsdóttir (f. 29. september 1990) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur með LdB FC Malmö í Svíþjóð. Dóra María Lárusdóttir. Dóra María Lárusdóttir (f. 24. júlí 1985) er íslensk knattspyrnukona. Hún hefur spilað allan sinn feril með Val. Dóra María er samningi hjá íslensku umboðsskrifstofunni Sportic. Rúnakvæði. Rúnakvæði eru þrjú kvæði frá miðöldum þar sem nöfn rúnatáknanna eru, engilsaxneskt, norskt og íslenskt. Íslenska og norska rúnakvæðið fjalla um hin 16 tákn "yngri rúnaraðarinnar", engilsaxneska rúnakvæðið fjallar um 26 tákn úr hinni svo nefndu e"ngilfrísísku rúnaröð". Engilsaxneska kvæðið er talið vera frá lokum tíundu aldar en kann að vera eldra. Norska kvæðið er sennilega frá lokum tólftu aldar og það íslenska frá fimmtándu öld. Það íslenska er oft nefnt Þrídeilur af því að þrjú vísuorð eru höfð um hverja rún. Öll eru kvæðin ólík en svipa þó til hvers annars. Í kvæðunum eru bæði heiðnar og kristnar kenningar. Fyrir utan þessi þrjú kvæði er rúnalisti í 9. aldar handrit sem nefnt er "Abecedarium Nordmannicum". Óvíst er um hlutverk rúnakvæðanna, hugsanlegt er að þær hafi verið rímaðar minnisgreinar yfir röð rúnatáknanna, snauðar að djúphygli eða merkingu. En þau gætu allt eins búið yfir fornri merkingu þó að erfitt sé að ráða í hana nú á dögum. Hugsanlega hafa þau átt að hjálpa við að hugfesta ákveðna merkingu þegar unnið var að göldrum; þau gætu einnig falið í sér dulmál um launhelgar einstakra rúna. Íslenska rúnakvæðið. Íslenska rúnakvæðið er yngst af þeim rúnakvæðum sem varðveist hafa og er sennilega samið með hliðsjón af eldri kvæðum til dæmis því sem nefnt er norska rúnakvæðið. Íslenska rúnakvæðið til í þremur handritum, öll á Arnamagnæanske Institut í Kaupmannahöfn. Það elsta er AM 687, frá því um það bil ár 1500, þar eru rúnirnar letraðar í upphafi hverrar vísu en ekki nöfnin. AM 461, frá 16. öld, þar eru nöfn rúnanna en ekki þær sjálfar. Það yngsta er AM 413, afrit af handriti frá 16. öld í "Runologia" Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (1732-52). Íslenska rúnakvæðið er samið í bragarhætti þeim er nefndur er ljóðaháttur. Norska rúnakvæðið. Norska rúnakvæðið var fyrst prentað og þá með rúnatáknunum í "Danica Literatura Antiquissima" sem saman var tekið af Olaus Wormius og gefið út 1636. Það var afritað af handriti frá 13. öld sem var á Háskólabókasafni Kaupmannahafnar en hvarf í brunanum 1728. Norska rúnakvæðið er samið í bragarhætti þeim sem nefndur er fornyrðislag. Hver braglína fornyrðislags hefur tvö ris en breytilegan fjölda áherslulausra atkvæða. Stuðlasetning tengir saman tvær og tvær línur en rím er ekkert. Engilsaxneska rúnakvæðið. Engilsaxneska rúnakvæðið var sennilega samið á 8. eða 9. öld og varðveittist í handriti frá 10. öld sem nefnt var "Cottonian Otho B.x, 165a - 165b", en það hvarf í bruna ásamt mörgum öðrum handritum 1731. Það hafði áður verið prentað í riti George Hickes, "Linguarum Veterum Septentrionalium Thesaurus", 1705. Allar seinni útgáfur kvæðisins eru gerðar eftir bók Hickes. Abecedarium Nordmannicum. Teikning Wilhelm Grimm af Abecedarium Nordmannicum Textinn er blanda af fornnorrænu, fornsaxísku og fornþýsku og hefur sennilega haft danska fyrirmynd. Fyrir utan rúnanöfnin og rúnirnar er textinn hljóðlík orð sem sennilegast áttu að auðvelda að læra rúnaröðina utanað. Sólarsteinn. Sólarsteinn var steinn (kristall?) sem norrænir menn til forna notuðu til að sjá stefnu til sólar í skýjuðu veðri, sem var gagnlegt við siglingar. Aðferðin byggist á því að slíkir steinar skauta sólarljós. Sólarsteinarnir kunna auk þess að hafa verið notaðir til að kveikja með eld. Kenningar og tilvitnun. Óstaðfest tilgáta er um að íslenskt silfurberg (kalkspat) hafi verið notað sem sólarsteinn, en fleiri tegundir kristalla koma einnig til greina, til dæmis kordíerít sem finnst meðal annars í Suður-Noregi. Danski fornleifafræðingurinn Thorkild Ramskou skrifaði bók um sólarsteina og rannsakaði notagildi þeirra. Taldi hann að með þeim mætti greina stefnu til sólar með um 5 gráða nákvæmni. Sólarsteinn fannst í skipinu Alderney, sem sökk árið 1592. Því hafa verið settar fram tilgátur um að slíkir steinar hafi verið notaðir samhliða áttavita. Kæfa. Kæfa eða paté er réttur gerður úr blönduðu farsi af einhverju tagi sem oftast er bakað í formi við hægan hita í ofni eða vatnsbaði þannig að það binst saman og myndar mjúkan massa sem hægt er að bera fram í sneiðum eða smyrja á brauð. Ef farsið er gert úr kjöti eða lifur er spekki oft blandað saman við til að binda það saman, en í fisk- og grænmetiskæfur er gjarnan notað matarlím í sama tilgangi. Stundum er kæfan bökuð í deigi þannig að formið er klætt að innan með þunnu brauðdeigi sem myndar skorpu utan á kæfunni. Vatnsbað. Vatnsbað er í matargerð aðferð til að hita mat hægt og tempra hitastig svo að það fari ekki yfir tiltekinn hámarkshita, ýmist í potti eða ofni. Aðferðin gengur út á að nota tvöfalt ílát eða tvö ílát þar sem hið stærra inniheldur vökva (oftast vatn) og situr á eldavélarhellu eða ofngrind en minna ílátið inniheldur matinn og situr í því stærra. Með þessu móti verður maturinn aldrei heitari en sem nemur suðumarki vökvans í ytra ílátinu. Vökvinn eða gufan frá honum dreifir líka hitanum betur en hellan eða ofninn gerir og tryggir hægari og jafnari upphitun. Þegar hitað er í vatnsbaði á eldavélarhellu má nota sérstaka, tvöfalda potta, pott sem hitaþolin skál er sett yfir (og snertir þá oft ekki vökvann svo að það er gufan frá því sem hitar innihald skálarinnar) eða jafnvel lítinn pott sem settur er ofan í annan stærri. Þegar eldað er í vatnsbaði í ofni er sjóðheitt vatn sett í ofnskúffu eða steikarfat og annað minna fat eða form sett þar ofan í. Vatnsbað á eldavélarhellu er meðal annars notað til að þykkja sósur eins og béarnaise-sósu, þar sem suða myndi kekkja eða skilja sósuna, til að bræða súkkulaði, gera vanillusósu og fleira slíkt, og einnig til að halda ýmsum mat heitum. Vatnsbað í ofni er meðal annars notað til að baka crème brûlée og aðra eggjabúðinga, ýmis paté, ostakökur og fleira. Frilla. Frilla (byrgiskona eða launkona) er hjákona eða ástkona kvænts manns. Orðið frilla var einnig fyrir siðaskipti haft um sambýliskonu katólsks prests. Frillur eru stundum einnig nefndar "lagskonur" eða "tíðleikakonur", þó það séu almennari hugtök. Að fornu var talsvert um það að höfðingjasynir tækju sér frillur áður en þeir giftust, og stundum héldu höfðingjar frillur eftir að þeir gengu í hjónaband (sbr: "taka e-a frillutaki"). Stundum gat frillulífið verið svipað óvígðri sambúð, það er að viðkomandi maður tók stúlkuna til sín af því að honum leist vel á hana, en hún var of ættsmá til að hann gæti kvænst henni. Þegar hann svo gekk í hjónaband með stúlku sem talin var álíka ættstór og hann, var frillunni vísað til foreldrahúsa eða henni fundinn hæfilegur maki. Hreint frillulífi var hins vegar þegar kvæntir menn héldu frillur, annað hvort á eigin heimili eða á nálægum bæjum. Frillubörn voru óskilgetin og höfðu minni rétt en skilgetin börn. Í kaþólskri tíð máttu prestar ekki kvænast, sem reyndist mörgum erfitt. Þeir fóru því oft í kringum kirkjulögin og tóku sér frillur eða ráðskonur. Við upphaf sambúðar var þá stundum haldin veisla sem var eins og brúðkaupsveisla að öðru leyti en því að ekki var um neina kirkjulega athöfn að ræða. Orðið „friðill“ er samsvarandi orð um karlmann, það er ástmaður giftrar konu. Orðin „friðill“ og „frilla“ (frið-la => frilla) fela það í sér að viðkomandi sé til að friða ástríðurnar. Svínfellingar. Svínfellingar voru ein af helstu valdaættum Íslands frá því á 12. öld og fram yfir Sturlungaöld. Ættin er kennd við Svínafell í Öræfum og þar var helsta höfuðból hennar löngum en smám saman færðu Svínfellingar út kvíarnar og í upphafi 13. aldar er talið að þeir hafi ráðið öllum Austfirðingafjórðungi. Þeir koma þó minna við átök Sturlungaaldar en hinar stóru valdaættirnar, ef til vill vegna þess hve langt þeir voru frá aðalátakasvæðunum. Þó drógust þeir stundum inn í deilurnar, enda voru þeir tengdir hinum ættunum með mægðum og skyldleika á ýmsan hátt. Sigurður Ormsson bjó á Svínafelli á síðari hluta 12. aldar og átti mikið undir sér en árið 1202 tók hann við staðarforráðum á Hólum þegar Guðmundur Arason varð biskup þar. Jón Sigmundarson bróðursonur hans tók þá við goðavaldinu. Synir hans voru þeir Brandur biskup, Ormur Svínfellingur og Þórarinn, faðir Odds og Þorvarðar Þórarinssona, sem voru helstu höfðingjar ættarinnar upp úr miðri 13. öld. F-16 Fighting Falcon. Lockheed Martin F-16 Fighting Falcon er bandarísk orrustuþota sem General Dynamics þróaði upphaflega fyrir flugher Bandaríkjanna. F-16 vélin þykir afar fjölhæf og skýrir það vinsældir hennar en hún er notuð af flugherjum að minnsta kosti 25 þjóða víða um heim. Yfir 4400 vélar hafa verið smíðaðar frá því að framleiðsla hófst árið 1976. General Dynamics seldi framleiðslu vélanna til Lockheed-samsteypunnar árið 1993, sem síðar varð Lockheed Martin eftir samruna við Martin Marietta árið 1995. Áformað er að F-35 Lightning II, sem tekin verður í notkun árið 2011, leysi F-16 vélarnar af hólmi í flugher Bandaríkjanna. F-15E Strike Eagle. F-15E Strike Eagle er bandarísk orrustuþota, þróuð á 9. áratug 20. aldar á grunni F-15 orrustuþotunnar. F-15E var hönnuð til þess að geta gert árásir á skotmörk á landi auk þess að tryggja yfirráð í lofti. F/A-18 Hornet. McDonnell Douglas (nú Boeing) F/A-18 Hornet er bandarísk orrustuþota, sem er hönnuð til þess ráðast á skotmörk bæði á landi og í lofti. F/A-18 var byggð á YF-17 og hönnuð fyrir sjóher og landgöngulið Bandaríkjanna en er einnig notuð af flugherjum ýmissa ríkja. F/A-18 leysti af hólmi F-14 vélar bandaríska sjóhersins. F/A-18E/F Super Hornet. Boeing F/A-18E/F Super Hornet er bandarísk orrustuþota hönnuð á grunni A-18 Hornet vélarinnar en er þyngri öflugri. F/A-18E er eins sætis útgáfa vélarinnar en F/A-18F er tveggja sæta útgáfa vélarinnar. Framleiðsla vélanna hófst í september árið 1997 en bandaríski sjóherinn tók vélarnar í notkun árið 1999. Sigurður Ormsson. Sigurður Ormsson (d. 1235) var íslenskur goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Orms Jónssonar (um 1115 - 1191) og Helgu Árnadóttur. Hann tók við búi í Svínafelli í Öræfum 1179 þegar faðir hans gerðist munkur og þótti mikill höfðingi. Hann átti í deilum við Þorlák helga í staðamálum fyrri og sagði þá meðal annars að „norrænir menn og útlendir mega eigi játa undan oss vor réttindi“. Hann lét þó undan en Jón Loftsson veitti biskupi svo harða mótspyrnu að honum varð lítið ágengt. Sigurður var mikill vinur Kolbeins Tumasonar og mægður honum og þegar Guðmundur Arason tók við biskupsembætti á Hólum flutti Sigurður frá Svínafelli norður í land og tók við staðarforráðum á Hólum að beiðni Kolbeins og Guðmundar. Fljótlega kastaðist þó í kekki með þeim biskupi annars vegar og Sigurði og Kolbeini hins vegar og haustið 1208 gerðu þeir biskupi aðför. Í Víðinesbardaga, 9. september, féll Kolbeinn en Sigurður hörfaði undan með liðið. Hann bjó lengi á Möðruvöllum en var síðustu árin munkur í Munkaþverárklaustri og dó þar. Sigurður var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Sigríður systir Kolbeins Tumasonar en eftir lát hennar gekk hann að eiga stjúpmóður hennar, Þuríði Gissurardóttur. Kolbeinn og Arnór Tumasynir og Halldóra systir þeirra, kona Sighvatar Sturlusonar, voru því stjúpbörn hans. Tumi eldri Sighvatsson, dóttursonur Þuríðar, ólst upp hjá þeim og einnig dætur Arnórs, Sigríður (móðir Þorgils skarða) og Herdís. Bróðir Sigurðar var Sigmundur goðorðsmaður á Valþjófsstað (d. 1198). Jón sonur hans tók við goðorðum Svínfellinga og síðan Ormur Svínfellingur sonur hans. F-22 Raptor. Lockheed Martin/Boeing F-22 Raptor er bandarísk orrustuþota. Hún var hönnuð til þess að tryggja yfirráð í lofti en getur einnig ráðist á skotmörk á landi og framkvæmt raftækni-hernaðaraðgerðir. Lockheed Martin Aeronautics og Boeing Integrated Defense Systems framleiða vélina í sameiningu. Hver F-22 Raptor vél kostar 137,5 milljónir bandaríkjadala í framleiðslu. Flugher Bandaríkjanna hefur pantað 187 vélar en rúmlega 145 hafa verið smíðaðar (í ágúst 2009). F-35 Lightning II. Lockheed Martin F-35 Lightning II er bandarísk eins hreyfils orrustuþota sem getur framkvæmt sprengjuárásir. Oddur Þórarinsson. Oddur Þórarinsson (1230 – 14. janúar 1255) var íslenskur höfðingi á Sturlungaöld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Þórarins Jónssonar og Helgu Digur-Helgadóttur og bróðir Þorvarðar Þórarinssonar. Oddur bjó á Valþjófsstað eins og faðir hans. Þegar Gissur Þorvaldsson fór til Noregs 1254 eftir Flugumýrarbrennu setti hann Odd yfir ríki sitt í Skagafirði og dvaldi hann í Geldingaholti en aðfaranótt 14. janúar um veturinn komu þeir Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson þangað og felldu Odd eftir frækilega vörn, en hann var sagður vígfimasti maður landsins á þeim tíma. Kona Odds var Randalín Filippusdóttir, sonardóttir Sæmundar Jónssonar í Odda, og bjó hún áfram á Valþjófsstað eftir dráp Odds. Þau áttu tvö börn, Guðmund gríss og Ríkizu. Meðlæti. Kalkúnakóteletta borin fram með salati og kartöflumús. Meðlæti er matur sem borinn er fram með réttinum sem ætlunin er að borða. Með kjötréttum er t.d. algengt að bera fram einhvers konar grænmeti og sterkjuríka fæðu á borð við kartöflur, brauð eða hrísgrjón. Í sumum löndum er meðlætið borðað af sama diski og aðalrétturinn en í öðrum er það borðað af sérstökum diskum. Í fyrra tilvikinu er meðlætið yfirleitt innifalið í pöntun á aðalrétti á veitingastöðum (sem hluti af réttinum) en í því síðara velur gesturinn hvaða meðlæti hann pantar. Sniðill. Sniðill er lína sem sker feril a.m.k. tvisvar sinnum. Ef sniðill sker feril í punktum A og B, og B látinn fara óendanlega nálægt A þá stefnir hallatala sniðilsins á hallatölu snertils ferilsins í punktinum A. Þorvarður Þórarinsson. Þorvarður Þórarinsson (d. 31. mars 1296) var íslenskur goðorðsmaður og riddari á Sturlungaöld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Þórarins Jónssonar (d. 1239), hálfbróður Orms Svínfellings og Brands biskups, og konu hans Helgu Digur-Helgadóttur, systur Ögmundar Helgasonar staðarhaldara í Kirkjubæ. Þorvarður bjó fyrst á Hofi í Vopnafirði. Eftir að Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson felldu Odd bróður hans í Geldingaholti í janúar 1255 leitaði hann hefnda og á Þverárfundi 12. júlí 1255 börðust þeir Þorgils skarði saman við Eyjólf ofsa og felldu hann. Þorvarður settist þá að á Grund í Eyjafirði, þar sem Eyjólfur hafði búið, og eftir að fréttist af láti Þórðar kakala í Noregi gerði hann tilkall til yfirráða þar fyrir hönd tengamóður sinnar, Steinvarar Sighvatsdóttur, systur Þórðar, en Þorgils skarði taldi sig hafa umboð konungs fyrir valdatilkalli í Eyjafirði og varð af fjandskapur á milli þeirra sem lauk með því að Þorvarður sveikst að Þorgils og drap hann á Hrafnagili aðfaranótt 22. janúar 1258. Þetta þótti níðingsverk og var Þorvarði ekki vært í Eyjafirði eftir það. Hann flutti síðan suður að Keldum til tengdafólks sins og bjó síðast á Arnarbæli í Ölfusi. Kona Þorvarðar var Solveig, dóttir Hálfdanar Sæmundssonar og Steinvarar Sighvatsdóttur á Keldum. New York-háskóli. New York-háskóli (e. New York University eða NYU) er einkarekinn rannsóknarháskóli í New York-borg. Megin háskólasvæðið er í Greenwich Village á Manhattan. Skólinn var stofnaður árið 1831 og er stærsti einkarekni háskóli Bandaríkjanna með yfir 50 þúsund nemendur. Við skólann kenna 6755 háskólakennarar en starfsfólk skólans er á sextánda þúsund. Háskólasjóður NYU nemur 2,5 milljörðum Bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru "perstare et praestare" sem er latína og þýðir „varðveita og skara fram úr“. Fanndís Friðriksdóttir. Fanndís Friðriksdóttir (f. 9. maí 1990) er íslensk knattspyrnukona. Hún var fyrirliði U-19 landsliðsins á EM U-19 2009 í Hvíta-Rússlandi. Fanndís leikur með Breiðabliki. Þjált fall. Þjált fall er fall sem hefur samfellda afleiðu yfir eitthvert mengi. T.d. eru öll margliðuföll þjál yfir allt rauntölumengið. Guðný Björk Óðinsdóttir. Guðný Björk Óðinsdóttir (f. 27. september 1988) er íslensk knattspyrnukona. Hún leikur nú með Kristianstads DFF í Svíþjóð. Kristín Ýr Bjarnadóttir. Kristín Ýr Bjarnadóttir (f. 1. febrúar 1984) er íslensk knattspyrnukona. Hún lenti í langvinnum meiðslum 2004 en sneri aftur 2007. Kristín leikur með Val. Kristín hefur rappað undir listamannsnafninu "Kido" og verið í hljómsveitinni "Igore". Rakel Hönnudóttir. Rakel Hönnudóttir (f. 30. desember 1988) er íslensk knattspyrnukona sem leikur í stöðu framherja fyrir sameinað lið Þórs og KA. Sigvarður Þéttmarsson. Sigvarður Þéttmarsson (d. 1268) var biskup í Skálholti frá 1238. Hann var norskur og hafði verið ábóti í Selju. Biskupslaust varð á báðum biskupsstólunum og kusu Íslendingar biskupsefni og sendu til erkibiskups en hvorugt biskupsefnið fékk vígslu. Sá sem kjörinn var til biskups í Skálholti var Magnús sonur Guðmundar gríss. Hákon konungur vildi efla áhrif sín á Íslandi og fékk erkibiskup til að setja Norðmenn á báða biskupsstólana. Sigvarður flæktist fljótt inn í ýmis deilumál Sturlungaaldar og í janúar 1242, þegar Órækja Snorrason réðist að Gissuri Þorvaldssyni, sem þá var staddur í Skálholti, stöðvaði Sigvarður bardagann með því að koma alskrýddur út úr kirkjunni ásamt prestum sínum og hefja bannsöng yfir Órækju. Sigvarður biskup var erlendis á árunum 1250-1254 og gegndi þá Brandur Jónsson biskupsembættinu á meðan. Þegar Jörundur Þorsteinsson var vígður til biskups á Hólum 1267 var Sigvarður biskup orðinn svo aldraður og vanheill að Jörundur var skipaður yfir allt landið. Sendi hann Árna Þorláksson í Skálholt sem fulltrúa sinn, Sigvarði til liðsinnis, og var Árni svo kosinn biskup þegar Sigvarður andaðist ári síðar. Tacoma Narrows-brúin (1940). Upprunalega Tacoma Narrows-brúin var opnuð 1. júlí 1940 og hrundi 7. nóvember sama ár. Brúin er einnig þekkt sem Galloping Gertie vegna sterkra vinda á svæðinu. Hengibrúin spannaði Tacoma Narrows-sund á milli Tacoma og Kitsap-skaga í Washingtonfylki í Bandaríkjunum. Önnur brú var byggð sem arftaki hennar á sama stað árið 1950 og árið 2007 var sú nýjasta reist samhliða hinni. Hrun brúarinnar hafði varanleg áhrif á vísindi og verkfræði. Ófáar kennslubækur í eðlisfræði skýra frá atburðinum sem afbragðs dæmi um neydda hljómun þar sem vindurinn veitti lotubundna tíðni sem jafngilti eigintíðni brúarinnar. Hrunið leiddi einnig til aukinna rannsókna á vængsniðum brúa með tilliti til loftstreymis, en þær rannsóknir höfðu mikil áhrif á hengibrúarsmíði eftir 1940. Á þeim stutta tíma sem brúin stóð uppi var hún þriðja lengsta hengibrú heims, á eftir Golden Gate-brúnni og George Washington-brúnni. Fulltrúalýðræði. Fulltrúalýðræði kallast sú tegund lýðræðis þar sem kjósendur kjósa sér fulltrúa til þess að fara með völd, ólíkt beinu lýðræði þar sem kjósendur geta m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslu haft bein áhrif á ákvarðanir sem eru teknar. Í fulltrúalýðræði er vald kjörinna fulltrúa oft takmarkað með ákvæðum í stjórnarskrá. Hvíta húsið (Washington, D.C.). Hvíta húsið er opinbert aðsetur Bandaríkjaforseta staðsett að Pennsylvania Avenue 1600 í norðvesturhluta Washington, D.C. Hvíta húsið er líka þekkt sem frægasta hús Bandaríkjanna. BRIC. BRIC löndin Brasilía, Rússland, Indland og Alþýðulýðveldið Kína. BRIC er upphafsstafaheiti í hagfræði sem notað er til að tákna nýmarkaðina Brasílíu, Rússland, Indland og Alþýðulýðveldið Kína ("e. China"). Heitið var upphaflega notað af hagfræðingnum Jim O'Neill árið 2001 í ritgerðinni "Building Better Global Economic BRICs". Í ritgerðinni "Dreaming With BRICs: The Path to 2050" er því haldið fram að BRIC löndin verði árið 2050 í hópi 6 stærstu hagkerfa heims. Fyrsti fundur ríkjanna fjögurra var haldinn 16. júní 2009 í Yekaterinburg, Rússlandi Suður- og Vesturamt. Suður- og Vesturamt var íslenskt amt sem varð til 15. maí 1770 þegar Íslandi var skipt niður í tvö ömt. Suður- og Vesturamt og Norður- og Austuramt. Amtinu var síðan skipt upp í tvö ömt, Suðuramt og Vesturamt árið 1787 en síðan sameinuð aftur árið 1872 með tilkomu embættis landshöfðingja. Amtið var síðan lagt af árið 1904 þegar Íslendingar fengu heimastjórn. Vaxtamunarviðskipti. Vaxtamunarviðskipti ("e. carry trade") kallast það þegar fjárfestar nýta sér muninn á vöxtum gjaldmiðla í mismunandi löndum. Fá t.d lán í löndum þar sem stýrivextir eru lágir og kaupa síðan skuldabréf í löndum þar sem stýrivextir eru háir og hagnast þannig á vaxtamuninum. Vaxtamunarviðskipti á Íslandi. Fyrir bankahrunið 2008 tíðkaðist útgáfa á s.k. jöklabréfum sem var nokkuð flókinn fjármálagjörningur. Það voru erlend skuldabréf gefin út erlendis af erlendum fjármálastofnunum í samstarfi við íslenskar fjármálastofnanir. Mikið var um að gefin væru út jöklabréf í evrum. Erlendir fjárfestar högnuðust því um stund á háu gengi íslensku krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðli þar sem jöklabréfin voru gefin út. Jón Daníelsson og Gylfi Zoega halda því fram í skýrslu sinni "Hagkerfi býður skipbrot" að vaxtarmunarviðskipti hafi átt þátt í bankahruninu á Íslandi árið 2008. Í bók sinni Why Iceland? fullyrðir Ásgeir Jónsson, fyrrverandi yfirmaður greiningardeildar Kaupþings það sama. Oddaverjar. Oddaverjar voru íslensk höfðingjaætt á 12. og 13. öld, kenndir við bæinn Odda á Rangárvöllum og var veldi þeirra mest í Rangárvallasýslu. Ættfaðir þeirra var Sæmundur fróði, sem gerði Odda að fræðasetri og hóf staðinn til mikillar virðingar. Sú virðing jókst enn þegar Loftur sonur hans giftist Þóru, laundóttur Magnúsar berfætts. Sonur þeirra var Jón Loftsson. Hann var mesti höfðingi landsins um sína daga og stóð á móti tilraunum Þorláks biskups helga til að ná valdi á kirkjustöðum. Eftir dauða hans tók Sæmundur sonur hans við goðorðum ættarinnar en Páll, launsonur Jóns, varð biskup í Skálholti. Eftir að Páll biskup lést 1211 fór veldi Oddaverja hnignandi. Þeir eru jafnan taldir með helstu valdaættum Sturlungaaldar en áttu þó fremur lítinn þátt í erjum og styrjöldum tímabilsins. Þórður Andrésson, sonarsonur Sæmundar Jónssonar, sem Gissur Þorvaldsson lét taka af lífi 1264, hefur verið kallaður síðasti Oddaverjinn. Concorde. Concorde (fullt nafn Aérospatiale-BAC Concorde) var hljóðfrá farþegaflugvél knúin af þrýstihverfli. Flugvélin var smíðuð með samvinnu Englendinga og Frakka af flugvélaframleiðendunum Aérospatiale og British Aircraft Corporation. Fyrsta flug Concorde-flugvélar var árið 1969 en 27 ára þjónustutíð þeirra hófst árið 1976. Flugvélin gat flogið á allt að 2.000 km/klst. Concorde flugu reglulega yfir Atlantshafið frá London Heathrow- og París Charles de Gaulles-flugvöllunum til John F. Kennedy-flugvallar í New York og Washington Dulles-flugvallar. Flugið tók helming tíma annarra flugvéla. Aðeins 20 flugvélar voru gerðar og þróun þeirra var ekki arðbær. Auk þess fengu flugfélögin Air France og British Airways fjárframlög frá ríkisstjórnum sínum til kaupa á vélunum. Vegna einnar brotlendingar Concorde-vélar og hryðjuverkanna 11. september 2001 var ákveðið að taka Concorde úr notkun þann 26. nóvember árið 2003. Concorde-flugvélar voru þekktar um allan heim og eru enn í dag helgimyndir flugatvinnugreinarinnar. Háhýsi. Háhýsi eru há hús, oft byggð í borgum þar sem landrými er takmarkað. Háhýsi urðu vinsæl við uppfinningu lyftunnar. Hlébarði. Hlébarði (fræðiheiti: "Panthera pardus") er minnsta tegund af fjórum innan ættkvíslar stórkatta ("Panthera"). Hinar þrjár tegundirnar eru tígrisdýr, ljón og jagúar. Hlébarðinn er einnig sá stórköttur sem er í minnstri útrýmingarhættu. Fundur. Fundarsalur þar sem fundir eiga sér stað. Fundur er formlegur atburður þar sem fólk kemur saman til að mæla um sérstakt atriði. Fundir eru oft haldnir í viðskiptum og stjórnmálum til þess að taka ákvarðanir svo að allir geti sagt skoðanir sínar og gefið hugmyndir. Nú á dögum geta fundir farið fram í síma (símafundur) eða á netinu (veffundur) með nútímatækni, vegna þess að fólk getur talað saman án þess að vera á sama stað. Í dag eru fundir geysilega hversdagslegir og er oft sagt að fundir sem eru ekki skipulagðir og framkvæmdir vel geti verið tíma- og auðlindasóun. Oft er skrifuð fundarskrá fyrir setningu fundar sem telur þau atriði sem til umræðu skulu vera. Meðan á fundi stendur er oft haldin fundargerð sem skrásetur allt sem er rætt. Yfirleitt eiga viðskiptafundir sér stað í fundarsal sem er sérstakur salur í byggingu með borði, stólum og aðstöðu eins og myndbandssýningarvél og töflu. Sendimastur. Sendimastur er stórt loftnet. Oftast er það grind með snúru. Það þarf að vera hátt svo að sendingin dreifist betur. Það tekur á móti sendingum frá gervitungli. Sjónvarpsmastur tekur á móti myndum frá gervitungli en útvarpsmastur tekur á móti hljóð-örbylgjum og dreifir þeim. Einnig eru til sendimastur með gervihnattadiskum. Vanalega eiga fyrirtæki eins og símafyrirtæki og fjölmiðlar slík tæki til að senda myndirnar í afruglarana. Þórður Andrésson. Þórður Andrésson (d. 27. september 1264) var íslenskur höfðingi í lok Sturlungaaldar og bjó á Stóruvöllum. Hann var af ætt Oddaverja, sonur Andrésar Sæmundssonar (um 1200 - 26. maí 1268) goðorðsmanns í Eyvindarmúla og Skarði, sonar Sæmundar Jónssonar í Odda, en móðir Þórðar er óþekkt. Þórður var helsti foringi Oddaverja upp úr miðri 13. öld en bræður hans, þeir Magnús Agnar, Eyjólfur og Brandur fylgdu honum að málum. Þórður átti í deilum við Gissur Þorvaldsson og reyndi oftar en einu sinni að brugga honum banaráð, sendi meðal annars sonum Brands Kolbeinssonar bréf og vildi fá þá til að ganga í bandalag við sig og bana Gissuri en þeir létu Gissur vita. Bræður Þórðar sóttu að Gissuri haustið 1264 þar sem hann var fáliðaður á ferð við Hvítá (Þórður var sjálfur skammt undan) en Gissur slapp frá þeim og safnaði liði. Komið var á sáttafundi en Gissur afvopnaði bræðurna og fór með þá að Þrándarholti í Gnúpverjahreppi. Þar var Þórður höggvinn en bræðrum hans gefin grið. Áður en Þórður var tekinn af lífi bað hann Gissur að fyrirgefa sér það sem hann hefði gert á hlut hans en Gissur svaraði: „Það skal ég gera þegar þú ert dauður.“ Þórður hefur verið kallaður síðasti Oddaverjinn því að þótt bræður hans lifðu eftir og margir aðrir af ættinni var valdaskeiði hennar endanlega lokið við lát hans. Solveig Sæmundardóttir. Solveig Sæmundardóttir (d. 1244) var íslensk kona á Sturlungaöld. Hún var af ætt Oddaverja, dóttir Sæmundar Jónssonar í Odda og Valgerðar Jónsdóttur, sem bjó á Keldum á Rangárvöllum og var kölluð Keldna-Valgerður. Sæmundur faðir Solveigar lést 1222 og hafði mælt svo fyrir að hún skyldi fá jafnan arfshlut og bræður hennar en venjulega fengu dætur hálfan hlut á við syni. Snorri Sturluson var fenginn til að annast skiptingu arfsins. Hann gisti þá á Keldum hjá þeim mæðgum og er sagt að hann hafi dregið mjög taum Solveigar við arfaskiptin, enda mun honum hafa litist vel á hana, en hann var þá skilinn við konu sína. En stuttu seinna giftist Solveig Sturlu Sighvatssyni bróðursyni Snorra og líkaði honum það illa. Solveig flutti að Sauðafelli með manni sínum og bjuggu þau þar síðan. Sturla var ekki heima þegar Þorvaldssynir komu að næturlagi í janúar 1229 í Sauðafellsför og drápu og særðu heimilisfólkið, ógnuðu Solveigu, sem lá á sæng, með blóðugum vopnum en meiddu hana þó ekki og ekki heldur móður hennar og börn. Þegar Sturlu bárust fréttirnar er sagt að hann hafi spurt að því einu hvort Solveig væri ómeidd. Þau áttu dæturnar Guðnýju og Þuríði og soninn Jón. Eftir að Sturla var drepinn á Örlygsstöðum fór hún til Noregs með börnin sumarið 1240 og fól Sturlu Þórðarsyni að annast bú sitt, en kom aftur með sömu ferð og Þórður kakali sumarið 1242. Hún dó tveimur árum síðar. Dufgussynir. Dufgussynir voru nafnkunnir bræður á Sturlungaöld, liðsmenn Sturlunga og frændur. Þeir voru synir Dufgusar Þorleifssonar (Dufgúsar) bónda á Sauðafelli í Dölum, Hjarðarholti og Stafholti, en Þuríður móðir hans var laundóttir Hvamm-Sturlu. Bræðurnir voru fjórir: Svarthöfði, Kolbeinn grön, Björn drumbur og Björn kægill (eða Kægil-Björn). Þeir þóttu hraustir og miklir bardagamenn og voru jafnan í liði Sturlunga, fyrst með Sturlu Sighvatssyni og síðar meðal annars með Þórði kakala og koma mjög víða við sögu í Sturlungu. Kægil-Björn var veginn af mönnum Kolbeins unga í Króksfirði 18. apríl 1244, sagður hafa dáið hlæjandi. Björn drumbur var í brúðkaupinu á Flugumýri 1253, en þegar hann reið heim úr veislunni mætti hann brennumönnum á Öxnadalsheiði og í hópi þeirra var bróðir hans, Kolbeinn grön. Björn drumbur vildi ekki fara með þeim að Gissuri. Hann er talinn hafa verið friðsamastur þeirra bræðra; bjó í Hjarðarholti og lifði fram yfir 1284 en var dáinn 1289. Kolbeinn var við brennuna og sótti Ingibjörgu Sturludóttur frænku sína inn í eldinn og bjargaði henni. Gissur jarl lét drepa hann á Espihóli í Eyjafirði 1254. Svarthöfði kvæntist 1240 Herdísi, dóttur Odds Álasonar, og bjuggu þau á Eyri í Arnarfirði. Synir þeirra voru Áli, faðir Steinunnar konu Hauks Erlendssonar lögmanns, og Björn, sem giftist Ingibjörgu Gunnarsdóttur, frillu Gissurar Þorvaldssonar, eftir lát hans. Svarthöfði var í liði Hrafns Oddssonar á Þverárfundi 1255 og særðist þar; eftir bardagann kom Þorgils skarði að honum við bænhúsvegg á Þverá þar sem hann var „særðr meiðsla sárum, höggvinn um þvert andlitið, bað hann griða heldr ákafliga, Þórgils gaf honum grið“. "Dufgus" er gelískt nafn og merkir svarthöfði eða hinn dökkhærði (dubh = svartur, dökkur / gaoisid = hár, hrosshár). Nafnið "Svarthöfði Dufgusson" bendir til að menn hafi vitað hver var merking orðsins "Dufgus". Sokkur. Sokkar eru ofin eða prjónuð fatategund sem maður setur á fæturna og eru hannaðir til að vernda fæturna og halda þeim heitum. Sokkar vernda skófatnað líka og halda honum hreinum. Dæmigerði fóturinn er með um 250.000 svitakirtla sem gefa frá sér um það bil 250 ml af svita á hverjum degi. Sokkur geta drukkið í sig þennan svita og dregið hann upp á svæði þar sem hann getur verið gufað upp af loftinu. Í köldu umhverfi geta sokkar geymt þá vætu sem fæturnir gefa frá sér og hindra kal. Upprunalega voru sokkar gerðir úr skinnum sem var safnað saman og bundin um ökklana. Á 8. öldinni f.Kr. gerðu Grikkir sokka úr dýrahári til hlýju. Rómverjar sveipuðu fæturna með leðri og ofnum dúkum. Á 5. öldinnni klæddist heilagt fólk á Evrópu sokkum til að tákna hreinleika. Fyrir árið 1000 urðu sokkar auðstákn á milli aðalsins. Við uppfinningu prjónavélarinnar árið 1589 gátu sokkar verið prjónaðir sex sinnum fljótar en með höndunum. Árið 1938 var nælon fundið upp en fram að því voru sokkar yfirleitt gerðir úr silki, bómull og ull. Við uppfinningu nælonsins var byrjað að blanda tveimur eða fleiri þráðum og er sú aðferð enn í notkun í dag. Nú á dögum tíðkast sokkar og hægt er að kaupa margar og fjölbreyttar gerðir þeirra. Tumi Sighvatsson yngri. Tumi Sighvatsson yngri (1222 – 19. apríl 1244) var Íslendingur á Sturlungaöld, sonur Sighvatar Sturlusonar og Halldóru Tumadóttur og hét eftir Tuma bróður sínum sem drepinn var á Hólum skömmu áður en hann fæddist. Tumi yngri var í Örlygsstaðabardaga 1238 með föður sínum og fjórum bræðrum og var sá eini þeirra sem komst af, hljóp ásamt fleirum upp í Miðsitjuskarð fyrir ofan Örlygsstaði og komst þar yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Eftir bardagann virðist Kolbeinn ungi ekki hafa talið ómaksins virði að elta hann uppi. Þegar Þórður kakali kom til landsins 1242 gekk Tumi þegar til liðs við hann og barðist með honum. Hann var á Reykhólum vorið 1244 og þar náði Kolbeinn ungi honum á sitt vald og tók hann af lífi. Hann baðst griða en menn Kolbeins sögðu að hann skyldi hafa sömu grið og bræður hans höfðu fengið á Örlygsstöðum. Tumi var kvæntur Þuríði, dóttur Orms Breiðbælings, og áttu þau einn son, Sighvat. Þjóðgarður. Þjóðgarður er svæði lands í eigu ríkisstjórnar þar sem maður má ekki byggja upp mannvirki og er mengunarlaust. Þjóðgarðar eru til um allan heim og eru skilgreindir alþjóðlega af IUCN. Stærsti þjóðgarður í heimi er Þjóðgarður Grænlands sem var stofnsettur árið 1974. Samkvæmt IUCN eru þjóðgarðar heimsins 6.555 (árið 2006). Þjóðgarðar á Íslandi. "Grein Þjóðgarðar á Íslandi" Teitur Ísleifsson. Teitur Ísleifsson margláti (d. 1111) var íslenskur höfðingi á 12. öld, prestur í Haukadal og ættfaðir Haukdælaættar. Teitur var sonur Ísleifs, fyrsta biskups í Skálholti, og Döllu Þorvaldsdóttur konu hans. Hann ólst upp hjá Halli Þórarinssyni í Haukadal. Þar ólst Ari fróði líka upp og kallar hann Teit fóstra sinn, vitnar oft til hans í Íslendingabók og segir að hann hafi verið sá maður er hann kunni spakastan. Haukadalur var mikið fræðasetur og Teitur kenndi mörgum öðrum ungum mönnum. Þar á meðal voru tveir biskupar, Þorlákur Þórhallsson og Björn Gilsson. Kona Teits var Jórunn eða Jóreiður Einarsdóttir. Dóttir þeirra var Rannveig, kona Hafliða Mássonar goðorðsmanns á Breiðabólstað í Vesturhópi. Sonur Teits og Jórunnar var Hallur Teitsson biskupsefni. Hallur Teitsson. Hallur Teitsson (d. 1150) var íslenskur prestur og höfðingi á 12. öld. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Teits Ísleifssonar í Haukadal og bróðursonur Gissurar biskups. Hann bjó í Haukadal og var talinn einn mesti fræðimaður síns tíma. Þegar Magnús Einarsson Skálholtsbiskup fórst í eldsvoða árið 1149 var Hallur kosinn biskup. Hann fór þá í suðurgöngu til Rómar en andaðist í Treckt (Utrecht) í Hollandi á heimleiðinni. Í "Hungurvöku" segir að hann hafi verið svo lærður að þegar hann var í suðurgöngu sinni talaði hann hvar sem hann kom hverrar þjóðar mál sem innborinn væri. Kona hans var Þuríður Þorgeirsdóttir og sonur þeirra var Gissur Hallsson. Gissur Hallsson. Gissur Hallsson (um 1125 – 27. júlí 1206) var íslenskur goðorðsmaður, stallari og lögsögumaður á 12. öld. Gissur var af ætt Haukdæla, sonur Halls Teitssonar biskupsefnis í Haukadal og konu hans Þuríðar Þorgeirsdóttur. Þorlákur biskup Runólfsson tók hann í fóstur en hann dó í ársbyrjun 1133 og hefur Gissur þá líklega farið aftur til foreldra sinna. Hann hefur svo ferðast suður í löndum sem ungur maður því að þegar Klængur Þorsteinsson biskup kom heim úr vígsluferð sinni sumarið 1152 var Gissur með honum og hafði þá meðal annars verið í Bari og Róm á Ítalíu. Í Sturlungu segir að hann hafi skrifað bók um suðurferðir sínar og var hún líklega á latínu. Þar segir einnig að Gissur hafi verið stallari Sigurðar konungs, föður Sverris konungs. Þegar Gissur kom heim giftist hann og bjó í Haukadal. Hann var lögsögumaður 1181-1201. Hann naut mikillar virðingar og þótti mikill fræðimaður. Hann lét rita Hungurvöku, sögu fyrstu Skálholtsbiskupanna. Síðari hluta ævinnar dvaldi hann löngum í Skálholti. Kona Gissurar var Álfheiður Þorvaldsdóttir, systir Guðmundar dýra. Börn þeirra voru Kolfinna kona Ara sterka Þorgilssonar, Þuríður kona Tuma Kolbeinssonar (og móðir Kolbeins Tumasonar) og síðar Sigurðar Ormssonar, Hallur lögsögumaður og síðar ábóti, Þorvaldur Gissurarson og Magnús biskup. Gissur átti líka nokkur börn með frillum sínum. Grímseyjarför. Grímseyjarför var herför sem þeir feðgar Sighvatur Sturluson og Sturla Sighvatsson fóru til Grímseyjar vorið 1222 með um 300 manna lið til að hefna fyrir drápið á Tuma Sighvatssyni eldri þá um veturinn. Menn Guðmundar biskups Arasonar höfðu drepið Tuma á Hólum og biskup hafði síðan forðað sér út í Grímsey. Með honum var um sjötíu manna lið undir stjórn Arons Hjörleifssonar og Eyjólfs Kárssonar, sem voru meðal helstu stuðningsmanna biskups og þóttu miklir kappar. Feðgarnir réðust til landgöngu með lið sitt en biskupsmenn tóku hraustlega á móti þótt þeir væru miklu færri. Aron og Sturla voru gamlir fóstbræður en höfðu orðið saupsáttir og börðust þeir í fjörunni. Aron var særður mörgum sárum og talinn dauður en þegar Sturlumenn voru farnir frá kom Eyjólfur Kársson þar að, sá að Aron var með lífsmarki, kom honum í bát ásamt nokkrum mönnum og lét róa með hann til lands en varð sjálfur eftir og tók til við að skemma báta feðganna. Þegar lið þeirra kom að varðist hann hetjulega en féll loks. Aron lifði aftur á móti lengi eftir þetta (d. 1255). Tólf af mönnum biskups féllu í Grímsey og fleiri voru meiddir, til dæmis voru tveir prestar úr liði hans geltir. Hins vegar er sagt að yfir þrjátíu af mönnum feðganna hafi drukknað á leið til lands. Sighvatur og Sturla þóttu hafa aukið sæmd sína með því að hefna Tuma en aftur á móti leit kirkjan árásina á biskupinn og prestana mjög alvarlegum augum og kom ekki til sátta fyrr en áratug síðar, þegar Sturla fór í suðurgöngu til Rómar í yfirbótarskyni fyrir Grímseyjarför. Rutgers-háskóli. Rutgers, The State University of New Jersey, þekktari sem Rutgers University eða Rutgers, er ríkisrekinn háskóli í New Jersey í Bandaríkjunum. Hann er stærsti háskóli ríkisins með þrjú háskólasvæði: í New Brunswick og Piscataway, í Newark og í Camden. Skólinn var stofnaður árið 1766 og hét þá Queen's College. Hann er áttundi elsti háskóli Bandaríkjanna. Í upphafi var skólinn einkarekinn og er annar tveggja skóla frá nýlendutímabilinu sem síðar varð ríkisrekinn (hinn skólinn er College of William and Mary.) Rutgers var ríkisháskóli New Jersey með lagasetningu árið 1945 og 1956. Háskólavæðið í Newark tilheyrði áður "Newark-háskóla", sem sameinaðist Rutgers árið 1946. Skólinn býður upp á BA-gráður og MA-gráður í yfir eitthundrað námsgreinum og fræðasviðum og doktorsgráður og verknámsgráður í yfir áttatíu námsgreinum og fræðasviðum. Við skólann starfa rúmlega 2700 háskólakennarar og 6400 aðrir starfsmenn. Tæplega 39 þúsund nemendur stunda grunnnám og tæplega 14 þúsund stunda framhaldsnám. Norður-Karólínuháskóli í Chapel Hill. Norður-Karólínuháskóli í Chapel Hill (e. University of North Carolina at Chapel Hill, stundum nefndur UNC eða UNC, Chapel Hill) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Chapel Hill í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Háskólinn er aðalháskóli ríkisháskólakerfisins í Norður-Karólínu og elsti háskólinn í ríkinu. Skólinn tók til starfa árið 1795 og er elsti ríkisrekni háskólinn í Bandaríkjunum. Við skólann starfa tæplega 3300 háskólakennarar en tæplega 18 þúsund nemendur stunda grunnnám og á níunda þúsund stunda framhaldsnám við skólann. Háskólasvæðið þekur þrjá ferkílómetra. Einkunnarorð skólans eru "lux libertas" sem eru latína og þýða „ljós og frelsi“. Kaliforníuháskóli. Kaliforníuháskóli (e. University of California eða UC) er ríkisrekið háskólakerfi í Kaliforníu í Bandaríkjunum Auk Kaliforníuháskóla eru tveir aðrir ríkisreknir háskólar í Kaliforníu en þeir eru Ríkisháskólinn í Kaliforníu (e. California State University) Alþýðuháskólar Kaliforníu (e. California Community Colleges system). Í raun samanstendur hver þessara stofnana af mörgum háskólum sem njóta nokkurs sjálfstæðis. Í Kaliforníuháskóla eru skráðir nemendur rúmlega 191 þúsund talsins. Fyrsti háskólinn sem tilheyrir Kaliforníuháskóla var Kaliforníuháskóli í Berkeley, sem var stofnaður árið 1868 en nýjasti skólinn og sá tíundi í röðinni er Kaliforníuháskóli í Merced, sem tók til starfa haustið 2005. Í öllum skólunum tíu sem mynda Kaliforníuháskóla er boðið upp á |bæði grunnnám og framhaldsnám, nema í Kaliforníuháskóla í San Francisco þar sem einungis er boðið upp á framhaldsnám og nám í lækna- og heilbrigðisvísindum og í Lagaskólanum í Hastings sem býður einungis upp á nám í lögfræði. Samson ehf. Samson Samson Global Holdings var félag sem var stofnað þann 4. september árið 2002 og var í eigu félaganna Rosetta og Rainwood, sem eru í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Samson fór í þrot í kjölfar bankahrunsins og er talið að heildarskuldir þrotabúsins nemi 80 milljörðum króna. Félagið fór í greiðslustöðvun eftir yfirtöku ríkisins á Landsbankanum. Worcester. Worcester (borið fram) er borg og höfuðbær í Worcestershire-sýslunni í Vestur-Miðhéruðum á Englandi. Worcester liggur um það bil 48 km suðvestan Birmingham og 47 km norðan Gloucester. Íbúar eru um 94.000 manns. Dómkirkjan í Worcester, byggð á 12. öldinni, hefur útsýni yfir Severn-áinni sem rennur um miðju borgarinnar. Síðasta orrusta ensku borgarastyrjaldarinnar var háð í Worcester þann 3. september 1651. Borgin er fæðingarstaður tónskáldsins Edwards Elgar. Worcestershire-sósa er frægasta útflutningsvara borgarinnar og er seld um allan heim. Sósan er enn sett á flöskur í Worcester. Gloucester. Gloucester (borið fram) er borg og höfuðbær í Gloucestershire-sýslunni á Suðvestur-Englandi. Borgin liggur nærri landamærunum við Wales og á Severn-ánni og er um það bil 51 km norðaustan Bristol og 72 km suðvestan Birmingham. Gloucester var stofnuð árið 48 e.Kr. af Rómverjum sem "Glevum" og henni var gefin fyrsta stofnskráin árið 1155 af Hinriki 2.. Nú á dögum er aðalatvinnugrein borgarinnar þjónusta og þar eru staðsettar margar fjármála- og viðskiptastofnanir. Borgin er heimili bankans Cheltenham & Gloucester og var mikilvæg fyrir geimiðnaðinn. Novator. Novator er fjárfestingarfélag sem er í 70% eigu Samson ehf sem er eignarhaldsfélag sem er í stærstu eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Novator var stofnað árið 2008. Í kjölfarið voru stofnum ýmis félög í eigu Björgólfs með nafninu Novator, þar meðal annars voru 9 stofnuð í Luxemborg. Þau eru Novator Pharma, Novator Pharma I, Novator Finco, Novator Finance Bulgaria, Novator Medical Sweden, Novator Telecom Poland, Novator Telecom Bulgaria, Novator Credit Luxembourg og Novator Telecom Finland. Í október árið 2007 var Samskiptafyrirtækið Nova, sem sérhæfir sig í 3G tækninni, var stofnað sem dótturfélag Novators. Kaup á Actavis. Samson fjárfesti í Pharmaco árið 2000 og sama ár sameinaðist Pharmaco Balkanpharma og svo Delta árið 2001. Árið 2004 var Pharmaco breytt í Actavis Novator Pharma keypti Actavis sem var þá í stærstu eigu Samson ehf sem einnig er félag Björgólfs, fyrir 1000 milljarða króna og voru þau kaup fjármögnuð af Deutsche bank. Það var jafnframt stærsta einstaka lán bankans Lán Novators Pharma fyrir kaupin á Actavis nam 700 milljörðum króna í ágúst 2009. Þorleifur Þórðarson. Þorleifur Þórðarson (um 1185 – 1257) var íslenskur goðorðsmaður á Sturlungaöld. Hann var frændi Sturlunga, sonur Þórðar Böðvarssonar prests í Görðum á Akranesi, bróður Guðnýjar konu Hvamm-Sturlu og móður Snorra Sturlusonar, og konu hans Snælaugar Högnadóttur. Hálfsystir Þorleifs, dóttir Snælaugar fyrir hjónaband var Guðrún Hreinsdóttir, sem um árabil var frilla Snorra og móðir Ingibjargar Snorradóttur. Þeir Þorleifur og Snorri voru góðir vinir. Faðir Þorleifs lést 1220 og tók hann þá við goðorðinu og bjó í Görðum. Hann var einn helsti höfðingi Borgfirðinga og þegar Sturla Sighvatsson fór að seilast til aukinna valda á Vesturlandi stóð hann fast á móti. Sturla hrakti Snorra burt úr Borgarfirði vorið 1236 en vorið eftir söfnuðu þeir frændurnir liði um Suðurnes og Borgarfjörð. Sturla kom þó með fjölmennara lið og eftir að Snorri hafði forðað sér börðust Þorleifur og Sturla í Bæjarbardaga 1237. Þorleifur beið þar lægri hlut og neyddist til að fara í útlegð næstu árin. Hann sneri aftur þremur árum síðar og tók við búi sínu að nýju. Bræður Þorleifs voru þeir Böðvar Þórðarson (um 1187 - 1264) í Bæ í Bæjarsveit, sem giftur var Herdísi Arnórsdóttur systur Kolbeins unga, og Markús Þórðarson (f. um 1190) á Melum í Melasveit. Þeir bræður komu allir töluvert við sögu á Sturlungaöld. Alfred Jodl. Alfred Jodl (10. maí 1890 – 16. október 1946) var herforingi (þ. "Generaloberst") í Þriðja ríkinu og var annar af æðstu stjórnendum þýska hersins í síðari heimsstyrjöld. Hann var sóttur til saka í réttarhöldunum í Nürnberg, fundinn sekur og dæmdur til dauða. Jodl var hengdur sem stríðsglæpamaður árið 1946. Jodl, Alfred Wilhelm Keitel. Wilhelm Bodewin Gustav Keitel (22. september 1882 – 16. október 1946) var þýskur hershöfðingi (þ. "Generalfeldmarschall") í Þriðja ríkinu. Hann var æðsti yfirmaður þýska heraflans (þ. "Oberkommando der Wehrmacht") í síðari heimsstyrjöld. Keitel var sóttur til saka fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Nürnberg réttarhöldunum, fundinn sekur og dæmdur til dauða. Hann var hengdur sem stríðsglæpamaður þann 16. október árið 1946. Keitel, Wilhelm Aron Hjörleifsson. Aron Hjörleifsson (um 1200 – 1255) var íslenskur kappi á Sturlungaöld og er af honum sérstök saga, "Arons saga Hjörleifssonar". Hann var af Snæfellsnesi, sonur Hjörleifs Gilssonar og konu hans Sigríðar Hafþórsdóttur. Þau bjuggu í Bjarnarhöfn og síðar Miklaholti. Bróðir hans var Ólafur ábóti í Helgafellsklaustri. Aron var að hluta alinn upp hjá Þorláki Ketilssyni í Hítardal. Þar var Sturla Sighvatsson einnig í fóstri og voru þeir Aron nær jafnaldrar og miklir vinir framan af, en á unglingsárum urðu þeir ósáttir. Eyjólfur Kársson í Flatey var kvæntur Herdísi dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar, frænku Arons, og fór hann til þeirra þegar hann var um 15 ára að aldri. Eyjólfur var mikill stuðningsmaður Guðmundar biskups og urðu þeir Aron brátt helstu kapparnir í liði því sem fylgdi biskupi. Þeir voru í aðförinni að Tuma Sighvatssyni á Hólum í janúar 1222 og fóru með biskupi til Grímseyjar um vorið. Þegar feðgarnir Sturla og Sighvatur komu í Grímseyjarför að hefna Tuma voru Aron og Eyjólfur fyrir liði biskupsmanna sem reyndi að varna þeim landgöngu. Aron og Sturla börðust af kappi og var Aron særður mörgum sárum og talinn dauður, en þegar Eyjólfur kom að honum skömmu síðar sá hann að Aron var lifandi, kom honum í bát með nokkrum mönnum en fór ekki sjálfur með. Hann reyndi að eyðileggja báta feðganna til að Aroni yrði ekki veitt eftirför og féll sjálfur eftir frækilega vörn. Aron komst í land, greri innan tíðar sára sinna og fór austur á land og síðan allt suður í Svínafell í Öræfum, þar sem Ormur Jónsson Svínfellingur tók hann höndum. Þórarinn bróðir Orms bjargaði Aroni og fór með hann leynilega allt vestur á Snæfellsnes og að Rauðamel, þar sem móðir hans bjó þá. Faldi hún Aron í helli um skeið en síðan fór hann vestur á firði og leyndist þar víða og síðar á Snæfellsnesi, en Sturla reyndi oft að ná honum og er sú saga öll hin ævintýralegasta. Á endanum komst hann til útlanda. Hann fór í pílagrímsferð til Jórsala (Jerúsalem) og gerðist síðan hirðmaður Hákonar Noregskonungs, sem hafði mikið dálæti á honum, fékk honum gott kvonfang og lét hann hafa umsjón með stóru baðhúsi en því embætti fylgdu miklar tekjur og komst Aron til mikillar virðingar í Björgvin. Hann liðsinnti Þórði kakala þar síðar, þegar hann var í fjárhagskröggum. Aron kom tvívegis til Íslands aftur en dó í Noregi 1255. Miklar sögur munu hafa gengið af Aroni og Ólafur hvítaskáld orti um hann drápu, og eru brot úr henni varðveitt. Náttúrufræðingurinn. Náttúrufræðingurinn er íslenskt tímarit þar sem birtar eru greinar um náttúrufræði, jafnt fræðilegar greinar sem og almennan fróðleik. Ritið er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN). Lögð er áhersla á að gera íslenskum náttúrurannsóknum sem best skil og á aðgengilegan hátt þannig að áhugasamir leikmenn sem og fræðimenn hafi gagn af. Tímaritið er ritrýnt að hluta. Venja er að gefa út fjögur tölublöð á ári, en oft eru tvö tölublöð gefin út saman. Eldri árgangar af Náttúrufræðingnum (1931-2006) eru aðgengilegir á vefnum Tímarit.is. Náttúrufræðingurinn var stofnaður af Guðmundi G. Bárðarsyni, jarðfræðingi, og Árna Friðrikssyni, fiskifræðingi og kom fyrst út árið 1931. Hið íslenska náttúrufræðifélag keypti ritið árið 1941. Árið 1996 gerðu HÍN og Náttúrufræðistofnun Íslands með sér samning um umsjón þess síðarnefnda með ritstjórn tímaritsins en frá 2006 hefur Náttúrufræðistofa Kópavogs haft umsjá með útgáfunni. Núverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins er Hrefna Berglind Ingólfsdóttir. Halldóra Tumadóttir. Halldóra Tumadóttir (um 1180 – 1247) var íslensk kona á Sturlungaöld. Hún var af ætt Ásbirninga og Haukdæla, dóttir Tuma Kolbeinssonar og konu hans Þuríðar, dóttur Gissurar Hallssonar í Haukadal, og því systir þeirra Kolbeins og Arnórs Tumasona. Stjúpfaðir hennar var Sigurður Ormsson á Svínafelli í Öræfum og þar ólst hún að einhverju leyti upp. Halldóra giftist Sighvati Sturlusyni 1197 og bjuggu þau framan af í Dölum en fluttust árið 1215 að Grund í Eyjafirði og bjuggu þar síðan, þar til Sighvatur og fjórir synir þeirra féllu í Örlygsstaðabardaga 1238. Þótt bæði Kolbeinn ungi og Gissur Þorvaldsson væru náfrændur Halldóru hröktu þeir hana frá Grund ásamt Tuma yngri, sem einn lifði af sonum hennar fyrir utan Þórð kakala, sem var í Noregi. Hún hitti Þórð þegar hann kom í land á Gásum 1242 og lifði að sjá hann verða valdamesta mann landsins því að hún dó haustið 1247. Þá lifði Þórður einn af sjö sonum þeirra Sighvats en auk þess áttu þau dótturina Steinvöru. Fyrsta stríð Englands og Hollands. Fyrsta stríð Englands og Hollands var röð sjóorrusta háð milli flota Hollenska lýðveldisins og Enska samveldisins 1652 til 1654. Stríðið var það fyrsta í röð fjögurra styrjalda milli landanna á 17. og 18. öld. Átökin hófust vegna deilna um verslun Hollendinga í enskum nýlendum og stuðning þeirra við útlæga enska konungssinna. Enskir sjóræningjar herjuðu á hollensk kaupskip og fiskiskip og enski flotinn hertók 27 kaupskip sem rofið höfðu hafnbann gegn ensku nýlendunni Barbados snemma árs 1652. 1651 samþykkti enska þingið siglingalög sem meinuðu öðrum en enskum skipum vöruflutninga til enskra hafna. Lögunum var stefnt gegn hinni öflugu milliríkjaverslun Hollendinga. Upphaflega gekk Hollendingum betur og þeir náðu yfirráðum yfir Ermarsundi og Norðursjó fyrir árslok 1652, en í mars 1653 tókst enska flotanum að hrekja skip Hollendinga úr Ermarsundi. Enski flotinn var betur búinn herskipum en sá hollenski þar sem Hollendingar höfðu lagt meiri áherslu á uppbyggingu landhers árin á undan. Eftir orrustuna við Scheveningen 10. ágúst 1653 þar sem Hollendingar biðu ósigur hófust langar friðarviðræður. Oliver Cromwell reyndi fyrst að fá Holland til að gerast aðili að Enska samveldinu, síðan að fá þá til að hætta stuðningi við Dani gegn Svíum og loks að reka enska konungssinna úr landi, en Hollendingar neituðu þessu öllu. Að lokum var samið um frið 8. maí 1654 með Westminster-sáttmálanum þar sem Hollendingar féllust á að einungis ensk skip eða skip frá upprunalandi varningsins hefðu leyfi til vöruflutninga til enskra hafna. Stjórnmálahneyksli. Pólitísk hneyksli er hneyksli sem tengir stjórnmálamenn eða embættismenn ríkisins við athafnir þar sem þeir hafa tekið þátt í eða eru flæktir inn í ólöglega, spillta eða siðlausa gjörninga. Pólitískt hneyksli getur falið í sér brot á landslögum eða áform um slíkt. Sum pólitísk hneyksli eru kynlífshneyksli þar sem stjórnmálamaður kemur við sögu. Fons. Fons ehf. er íslenskt fjárfestingarfélag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Fyrirtækið sérhæfði sig í fjárfestingum í fyrirtækjum sem það taldi hafa mikla framtíðarmöguleika til vaxtar og hagræðingar. Meðal eigna Fons má nefna Securitas á Íslandi, Plastprent, sænsku ferðaskrifstofuna Ticket og hlut í bresku leikfangakeðjunni Hamleys. Saga félagsins. Í desember 2006 keypti Fons allan hlut Straums Burðaráss í 365 hf. og átti eftir kaupin 9,23% hlut í 365 hf. Í nóvember 2007 keypti Fons á ný 7,5% hlut í 365 hf. en kaupverðið var rúmlega 600 milljónir kr. Eftir kaupin átti Fons 23,5% hlut í 365 hf. Í desember 2007 keypti Fons tæplega 6,9% hlut í FL Group fyrir 10 milljarða. Í ágúst árið 2008 seldi Fons hlut sinn í bresku verslunarkeðjunni Iceland. Að sögn Pálma Haraldssonar ætlaði Fons að einbeita sér að rekstri Northern Travel Holding, sem er annað félag í eigu Fons. Fons eignaðist Northern Travel Holding að fullu í september 2008 eftir að það keypti 34,8% hlut Stoða í Northern Travel Holding. Í desember 2008 kom í ljós að Fons ehf. var eigandi félagsins Stím ehf., sem áður hét FS37 ehf. Í nóvember 2007 lánaði Glitnir FS37 ehf., sem var stofnað þann 23. október 2007, 19,6 milljarða króna fyrir kaupum á hlutabréfum í Glitni sem bankinn sjálfur seldi. Þann 14. nóvember 2007 keypti FS37 ehf. hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir 24,8 milljarða en tveimur dögum síðar breytti FS37 ehf. heiti félagsins í Stím ehf. FL Group var stærsti eigandinn í Glitni og átti tæpan þriðjun í bankanum en Fons var einn af stærstu eigendum FL Group. Gjaldþrot. Þann 30. apríl 2009 var Fons tekið til gjaldþrotaskipta. Kröfur í félagið voru í fyrstu sagðar nema 20 milljörðum króna en síðar var greint frá því að kröfur í félagið næmu 40 milljörðum króna. Stærstu kröfuhafarnir voru þrotabú stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings, Landsbanka og Glitnis. Áður en Fons var lýst gjaldþrota var félagið Astraeus fært frá Fons til annarra félaga í eigu Pálma Haraldssonar. Astraeus er breskt flugfélag sem leigir flugvélar til Iceland Express. Fons hafði einnig átt 92% hlut í Iceland Express en seldi hlutinn til Fengs, sem einnig er í eigu Pálma Haraldssonar, í nóvember 2008, áður en Fons var lýst gjaldþrota. Nokkur umræða skapaðist í íslenskum miðlum um þessar eignafærslur á milli félaga í eigu Pálma Haraldssonar rétt fyrir gjaldþrot Fons en skiptastjóri Fons hefur upplýst að verið sé að skoða hvort hægt sé að rifta samningi þess efnis. Undir lok árs 2005 er Iceland Express var í sölumeðferð hjá Kaupþingi var söluverð þess metið á 3-4 milljarða króna. Í maí 2009 seldi þrotabú Fons hlut sinn í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket Travel Group. Fons átti 29,26% hlut í Ticket en seldi hann til Braganza AS á um 620 milljónir íslenskra króna á þáverandi gengi. Steinvör Sighvatsdóttir. Steinvör Sighvatsdóttir (d. 17. október 1271) var íslensk kona á Sturlungaöld. Hún var af ætt Sturlunga, dóttir Sighvatar Sturlusonar og Halldóru Tumadóttur. Um 1230 giftist hún Hálfdani, syni Sæmundar Jónssonar í Odda, og bjuggu þau á Keldum á Rangárvöllum. Hálfdan blandaði sér lítið í deilur samtíðarmanna sinna en Steinvör var ekki jafnafskiptalítil, enda var fjölskylda hennar jafnan í miðdepli átakanna og faðir hennar og sex bræður féllu fyrir vopnavaldi. Steinvör virðist hafa verið mikilsvirt af samtíðarmönnum og haft meiri áhrif en gerðist almennt um konur á þeim tíma. Þegar Þórður kakali bróðir hennar átti í deilum við sunnlenska bændur haustið 1242 úrskurðaði hún í málum þeirra ásamt Sigvarði Skálholtsbiskupi og var ákveðið að ef þau yrðu ekki sammála skyldi Steinvör ráða. Þegar Þórður dó 1256 var Steinvör eini erfingi hans því að börn hans voru öll óskilgetin. Hún setti Þorvarð Þórarinsson, mann Solveigar dóttur sinnar, til að annast ríki hans í Eyjafirði en hann lenti í deilum við Þorgils skarða, sem taldi sig eiga tilkall til valda þar, og lauk þeim með því að Þorvarður vó Þorgils en hraktist síðan burt úr Eyjafirði. Steinvör og Hálfdan áttu líka þrjá syni, Loft (um 1233 - 19. júní 1312), riddara á Grund í Eyjafirði, Sighvat, riddara á Keldum, og Sturlu. Hálfdan Sæmundsson. Hálfdan Sæmundsson (d. 25. apríl 1265) var íslenskur goðorðsmaður á Sturlungaöld. Hann var af ætt Oddaverja, óskilgetinn sonur Sæmundar Jónssonar í Odda og Þorbjargar frillu hans. Alsystkini hans voru Björn í Gunnarsholti og Helga, seinni kona Kolbeins unga. Um 1230 kvæntist hann Steinvöru dóttur Sighvatar Sturlusonar og bjuggu þau á Keldum á Rangárvöllum. Hálfdan var friðsemdarmaður og blandaðist lítt inn í deilur Sturlungaaldar þótt hann væri nátengdur mörgum helstu deiluaðilunum og færðist undan höfðingjahlutverkinu; óhlutdeilinn og hélt sér lítt fram um flesta hluti, eins og segir í Sturlungu. Öðru máli gegndi um konu hans, hún var herskárri. Hör. Hör eða lín er efni sem er unnið úr stráum hörplöntunnar ("Linum usitatissimum"). Í einu hörstrái eru 30-40 þættir sem eru jafn langir stráinu en hver þáttur er gerður úr mörgum þráðum sem hver er 0,5-7 cm langur. Fínustu hörvörurnar eru gerðar úr löngu þáttum hörstrásins sem geta verið allt að 100 cm að lengd en ódýrari vörur eru gerðar úr stuttu þráðunum sem afgangs verða við framleiðsluna. Eiginleikar Hörs. Hör þolir vel sólarljós. Vatnsdrægni hörs er svipuð og hjá bómull. Hör hrindir frá sér þurrum óhreinindum en blaut óhreinindi setjast í þræðina og skilja eftir sig bletti. Hör er eftirsótt til fatagerðar í heitari löndum vegna rakadrægni og vegna þess að einangrunargildi er lítið, enda eru þræðirnir vel varmaleiðandi. Hör er ekki eins slitsterkt og bómull og þolir því illa þvott og hleypur. Hör hefur þó meira togþol en bómull. Helgastaðabardagi. Helgastaðabardagi var bardagi á milli fylgismanna Guðmundar biskups Arasonar og liðs þeirra Sighvatar Sturlusonar og Arnórs Tumasonar á Helgastöðum í Reykjadal 29.-30. ágúst 1220. Guðmundur hafði verið á flakki um landið og var í Reykjadal um sumarið með hundrað manna lið. Bændum þótti nóg um átroðninginn og gerðu þeir Sighvati og Arnóri boð og þeir komu með lið með sér norður. Biskup var þá að vígja kirkju á Helgastöðum. Menn hans bjuggust til varnar í kirkjugarðinum og eftir nokkurn bardaga var umsátur um kirkjuna um nóttina. Um morguninn „gjörðu þeir vígfleka af röptum ok bera hann at lundi þeim er stód sunnan á gardinum ok grafa þar nú gardinn undir flekanum“ og þegar þeim tókst að rjúfa skarð í garðinn flúðu biskupsmenn í kirkjuna. Flestir manna biskups fengu grið, þar á meðal Eyjólfur Kársson, en biskup hélt áfram flakki sínu og endaði suður í Odda, þar sem hann var um veturinn hjá Sæmundi Jónssyni. Pólýester. Nærmyndir af skyrtu úr pólýester. Pólýester er tilbúið plastefni unnið úr hráefni sem kemur úr olíuiðnaðinum. Gerviefni komu til sögunnar 1931 og hefur þróun þeirra verið hröð síðan. Pólýester var uppgvötvað af ensku fyrirtæki árið 1941. Það er vinsælasta gerviefnið og er mest notaða textílefnið fyrir utan bómul. Eiginleikar pólýesters. Pólýester er mjög gott íblöndunarefni. Bómullar- og pólýester-blöndur eru vinsæl blanda vegna þess að hún heldur flestum eiginleikum náttúruefnisins og fær til viðbótar góða eiginleika pólýesters. Pólýester er mjög slitsterkt, hefur góðan togstyrk og þolir vel teygingar og endurteknar beygingar. Það þolir vel sólarljós og veðrast vel. Það hleypur ekki, er krumpufrítt og hefur stuttan þurrktíma. Pólýester hefur frekar litla raka- og vökvadrægni og er lítið einangrandi. Það verður rafmagnað og dregur þá ryk og þurr óhreinindi að sér. Blautum óhreinindum er þó auðvelt að ná úr vegna lítillar vökvadrægni. Eyjólfur Kársson. Eyjólfur Kársson (d. 1222) var íslenskur bóndi á Sturlungaöld og einn helsti kappinn í liði fylgismanna Guðmundar Arasonar biskups. Hann var Húnvetningur og bjó fyrst í Vatnsdal. Þar átti hann í erjum við Miðfirðinga sem tengdust ekkju sem hann átti vingott við. Snorri Sturluson kom á sættum og Eyjólfur fór vestur í Arnarfjörð og giftist þar Herdísi, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri. Hann settist að á Rauðasandi og lenti þar í deilum við Gísla Markússon í Saurbæ, sem „þóttu fylgdarmenn Eyjúlfs glepja konur þær, er honum gazt at“, og urðu blóðug átök á milli þeirra. Eyjólfur flutti síðar út í Flatey á Breiðafirði 1217. Þar kom Aron Hjörleifsson til hans. Haustið 1218 tók Arnór Tumason Guðmund biskup á Hólum og hafði hann í stofufangelsi í Ási um veturinn en lét draga hann á börum suður á Hvítárvelli um vorið. Eyjólfur frétti af þessu, þótti biskup hart leikinn, kom að næturlagi að Hvítárvöllum, bjargaði biskupi og fór með hann út í Flatey. Þar var biskup um veturinn en vorið 1220 fór Eyjólfur með honum norður í land og var þar meðal annars í Helgastaðabardaga. Sumarið 1221 var biskup á Hólum með lið sitt en þá kom Tumi Sighvatsson og hrakti hann burt. Fór biskup út í Málmey og var þar um veturinn og voru Eyjólfur og Aron með honum ásamt fleirum. 4. febrúar fóru biskupsmenn að Hólum og drápu Tuma og flúðu svo til Grímseyjar eftir páska. Þangað komu Sighvatur og Sturla sonur hans í Grímseyjarför að hefna Tuma og voru Eyjólfur og Aron helst fyrir vörninni. Eyjólfur bjargaði Aroni en lét sjálfur lífið og er sagt að vörn hans hafi þótt afar frækileg; öxi hans var höggvin sundur en þá varðist hann með árum og voru fjórar höggnar sundur fyrir honum áður en hann féll. Hrafn Oddsson. Hrafn Oddsson (um 1225 – 22. nóvember 1289) var íslenskur goðorðsmaður, hirðstjóri og riddari á Sturlungaöld. Hrafn var af ætt Seldæla, elsti sonur Odds Álasonar á Söndum, sem Órækja Snorrason drap, og konu hans Steinunnar, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar. Hann bjó fyrst á Eyri í Arnarfirði en síðar á Sauðafelli, í Stafholti og seinast í Glaumbæ í Skagafirði. Hann var í liði Þórðar kakala í Flóabardaga og var á skipi með Svarthöfða Dufgussyni, mági sínum. Hann kvæntist Þuríði (um 1228 – 1288), dóttur Sturlu Sighvatssonar og Solveigar Sæmundardóttur árið 1245 og settust þau að á Sauðafelli í Dölum. Þá var Kolbeinn ungi fallinn frá, Þórður kakali hafði náð völdum og Hrafn gat fengið hluta af mannaforráðum Sturlu í Dalasýslu. Þegar Þórður fór til Noregs 1250 skipti hann umsjón með veldi sínu á milli stuðningsmanna sinna og réðu þeir Hrafn, Sturla Þórðarson og Þorleifur Þórðarson í Görðum fyrir Vesturlandi. Þegar Þorgils skarði kom til landsins 1252 kom til átaka um völd á milli hans, Hrafns og Sturlu. Hrafn var boðinn til brúðkaups Ingibjargar Sturludóttur og Halls Gissurarsonar á Flugumýri haustið 1253 en þegar hann kom í Skagafjörð kom sendimaður Eyjólfs ofsa, svila hans, og sagði honum frá því að fyrirhugað væri að fara að Gissuri og vildi fá hann til að vera með. Hrafn neitaði og reyndi að hafa brennumenn ofan af áforminu en sagði heldur ekki Gissuri frá nema undir rós. Hann var kominn til Hóla þegar brennan var en hitti brennumenn þar á eftir og fór með þeim þaðan til Eyjafjarðar. Hrafn og Gissur sættust vorið 1254 en Gissur sagði seinna að hann vissi ekki hvað hefði hlíft Hrafni á þeim fundi því hann hefði áður verið ákveðinn í að meiða hann, blinda eða gelda. Gissur fór út þá um sumarið en um veturinn fóru svilarnir Hrafn og Eyjólfur ofsi að Oddi Þórarinssyni í Geldingaholti, sem Gissur hafði sett yfir Norðurland, og drápu hann. Þorvarður Þórarinsson bróðir Odds og Þorgils skarði söfnuðu liði og börðust við betur búið og fjölmennara lið Odds og Eyjólfs á Þveráreyrum í Eyjafirði í júlí 1255. Eyjólfur féll á Þverárfundi en Hrafn flúði og staðnæmdist ekki fyrr en í Skagafirði. Um 1260 flutti Hrafn sig í Stafholt og hrakti fyrst Snorra son Sturlu Þórðarsonar úr héraðinu og svo Sturlu sjálfan úr landi 1263. Gissur Þorvaldsson og Hrafn sættust endanlega á Alþingi 1262. 1270 gerði Magnús konungur Hrafn og Orm Ormsson Svínfelling handgengna menn sína og hirðstjóra og skipaði þeim allt Ísland en Ormur drukknaði við Noreg sama ár svo að Hrafn var einn hirðstjóri. Hann átti í hörðum deilum við kirkjuvaldið síðustu árin (staðamál síðari) og lét hvergi undan í þeirri baráttu. Árið 1288 fóru þeir Staða-Árni biskup saman til Noregs og þar dó Hrafn árið eftir. Synir Hrafns og Þuríðar voru þeir Jón korpur í Glaumbæ í Skagafirði og Sturla riddari en dæturnar hétu Hallkatla, Valgerður og Þorgerður. Þverárfundur. Þverárfundur eða Þverárbardagi var ein af orrustum Sturlungaaldar, háður á Þveráreyrum í Eyjafirði 19. júlí 1255. Þar var tekist á um völd og áhrif á Norðurlandi eftir brottför Gissurar Þorvaldssonar til Noregs árið áður. Annars vegar voru þeir Eyjólfur ofsi Þorsteinsson, foringi brennumanna í Flugumýrarbrennu, og svili hans Hrafn Oddsson, sem höfðu um veturinn farið að Oddi Þórarinssyni, sem Gissur hafði sett yfir Skagafjörð, og drepið hann. Í hinum flokknum var Þorvarður Þórarinsson bróðir Odds, sem var að leita hefnda, og með honum Þorgils skarði Böðvarsson, sem taldi sig eiga tilkall til valda í umboði konungs, og Sturla Þórðarson. Þeir komu með lið bæði austan af landi og úr Borgarfirði og mættu þeir liði Eyjólfs og Hrafns á Þveráreyrum. Þótt heldur fleiri væru í liði þeirra svilanna og það væri ívið betur vopnað höfðu Þorgils og Þorvarður þó betur. Eyjólfur ofsi féll en Hrafn lagði á flótta. Bardaginn á Þveráreyrum var ekki sérlega mannskæður, þar féllu ekki nema 16-17 manns en margir særðust, þar á meðal Svarthöfði Dufgusson, sem var í liði Hrafns mágs síns. Ferdinand Cohn. Ferdinand Julius Cohn (fæddur 24. janúar 1828, dáinn 25. júní 1898) var þýskur grasafræðingur og örverufræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað hitaþolin dvalargró, en sumar bakteríur, til dæmis "Bacillus" og "Clostridium" tegundir, mynda slík gró til að verjast óhagstæðum umhverfisaðstæðum á borð við hátt hitastig eða næringarefnaskort. Hann var einnig meðal þeirra sem fyrst reyndu að flokka bakteríur á kerfisbundinn hátt. Ævi. Cohn fæddist í gyðingahverfinu í Breslau (nú Wrocław í Póllandi) í prússneska héraðinu Neðri-Slésíu. Hann bjó í Breslau mestan hluta ævinnar. Skólaganga. Ferdinand litli Cohn þótti undrabarn. Hann var læs tveggja ára, hóf barnaskólagöngu fjögurra ára og fór í menntaskóla sjö ára. Faðir hans, Issak Cohn, var auðugur kaupmaður og gat því kostað þessa óvenju snemmbæru skólagöngu. Í menntaskóla fór að bera á verulegri heyrnarskerðingu sem hamlaði námi hans að einhverju leyti, en þrátt það hóf hann nám við háskólann í Breslau 1842, aðeins fjórtán ára gamall. Hann lagði stund á heimspeki og grasafræði, en þar sem hann var gyðingur var honum meinað að taka lokapróf. Hann fór því til Berlínar 1846 þar sem hann lauk doktorsnámi tveimur árum síðar, aðeins nítján ára. Meðal leiðbeinenda hans í Berlín var Christian Ehrenberg og kveikti hann áhuga Cohns á hinum „smásæju dýrum“, en svo kölluðust örverur á þessum tíma. Aftur til Breslau. Um það leyti sem Cohn var að ljúka doktorsnámi sínu geisuðu óeirðir í Berlín, en þetta var byltingarárið 1848, og mun hann hafa tekið einhvern þátt í þeim. Hvort sem það var vegna stjórnmálaskoðana hans, gyðingdóms eða af öðrum ástæðum, þá hlaut hann ekki háskólakennarastöðu í Berlín og flutti því aftur heim til Breslau 1849. Hann þáði kennarastöðu við háskólann þar og gegndi henni það sem eftir var, varð dósent 1859 og prófessor 1872. Hann stofnaði rannsóknastofnun í plöntulífeðlisfræði við skólann og stóð fyrir útgáfu ritrýnda tímaritsins "Beitrage zur Biologie der Pflanzen". Cohn var hlédrægur maður svo eftir var tekið. Hann kvæntist fremur seint á ævinni (1867) og var kona hans Pauline Reichenbach. Fræðastörf. Í upphafi ferils síns fékkst Cohn meðal annars við rannsóknir á einfrumu þörungum. Hugo von Mohl hafði þá nýverið lýst umfrymi plöntufrumna, en Cohn áttaði sig á að margt var líkt með umfryminu og hinu „formlausa lífsefni“ frumdýra sem Félix Dujardin hafði nefnt "sarcode". Hann dró þá ályktun að umfrymið innihéldi alla meginþætti lífsins og vakti þessi kenning hans töluverða athygli. Í tengslum við þörungarannsóknir sínar komst Cohn að þeirri niðurstöðu að bakteríuna "„Vibronia“" ætti að flokka með plöntum vegna ýmissa atriða sem lík voru með henni og þörungum. Bakteríur höfðu fram til þessa verið álitnar dýr, einkum vegna þess að sumar þeirra eru kvikar og geta hreyft sig úr stað með aðstoð svipna, en vegna niðurstöðu Cohns tóku margir að flokka bakteríur sem plöntur. Um miðja 19. öld átti sér stað mikil umræða um uppruna lífsins og mögulega sjálfkviknun baktería. Jafnvel eftir að Pasteur hafði birt hinar frægu niðurstöður sínar úr svanahálsflöskutilraunum sínum 1859 voru ekki allir sannfærðir um að sjálfkviknun gæti ekki átt sér stað ef réttar aðstæður væru fyrir hendi. Meðal þeirra var Henry Charlton Bastian og birti hann niðurstöður sem virtust sýna að líf gat kviknað í seyði úr næpum og osti sem soðið hafði verið í lokuðum flöskum í 10 mínútur. Cohn endurtók tilraunir Bastians, en gekk lengra og einangraði og rannsakaði bakteríurnar sem uxu upp í seyðinu, en þær reyndust vera eingöngu af formgerð ættkvíslarinnar "Bacillus". Hann tók eftir því að við vissar aðstæður tóku frumurnar að gildna í annan endann og mynda þar nokkurs konar korn sem endurvarpaði sterklega ljósi smásjárlampans. Hann setti fram þá tilgátu að kornin væru sambærileg við gró sveppa og plantna og gerði tilraunir sem staðfestu hana og sýndu að gróin voru að miklum mun hitaþolnari en fullvaxin bakterían. Cohn sýndi því fram á að sjálfkviknun átti sér ekki stað í seyði Bastians, heldur gátu sumar þeirra baktería sem fyrir voru í seyðinu myndað hitaþolin dvalargró sem þoldu suðuna og spíruðu þegar seyðið kólnaði að nýju. La Gomera. La Gomera ein hinna sjö eyja í Kanaríeyjaklasanum utan við strönd Vestur-Afríku í Atlantshafinu og sú næstminnsta. Tekanna. Tekanna er ílát notað til að laga te með sjóðandi vatni. Teið er ýmist í tepoka eða laust, þá þarf tesíu, annaðhvort til að halda laufunum meðan þau liggja í bleyti eða til að grípa þau þegar teinu er hellt. Tekönnur eru yfirleitt með opi með loki efst, þar sem vatnið og teið er sett inn, handfangi og stút sem teinu er hellt í gegn yn. Sumar tekönnur eru með innbyggðar tesíur innaná stútnum. Lítið loftop er í lokinu til að teið drjúpi ekki og skvettist þegar því er hellt. Nú á dögum er tehetta oft notuð svo að teið trekki betur eða innihald tekönnunnar kólni ekki of fljótt. Áhugafólk um tedrykkju hitar gjarnan tekönnuna með sjóðandi vatni og þurrkar hana síðan áður en það lagar te. Líkan af tekönnu er oft notað í þrívíddarhönnun til prófana. Gyrðir Ívarsson. Gyrðir Ívarsson (d. um 1360) var norskur biskup í Skálholti 1349–1360. Hann var af Ágústínusarreglu, ábóti í Jónskirkju í Björgvin, og var vígður 1350 af Salómon Björgvinjarbiskupi því þá var erkibiskupslaust í Noregi eftir Svartadauða. Hann kom til landsins 1351. Næstu sumur vísiteraði hann Sunnlendingafjórðung og var bróðir Eysteinn Ásgrímsson stundum með honum. Þeir fóru báðir til Noregs 1355 og var þá biskupslaust í landinu en Gyrðir kom aftur árið eftir. Eysteinn kom 1357 og með honum Eyjólfur Brandsson kórsbróðir og voru þeir einhvers konar eftirlitsmenn erkibiskups. Eysteinn og Gyrðir áttu í hörðum deilum og varð með þeim fullur fjandskapur. Eysteinn orti níð um biskupinn, sem bannfærði hann á móti. Þeir sættust þó að fullu. Sumir segja að Eysteinn hafi ort Lilju í yfirbótarskyni fyrir níðið en þó er líklegt að kvæðið sé ort fyrr. Gyrðir biskup sigldi til Noregs árið 1360 eða 1361 og fórst skipið í hafi og biskup með. Jón Indriðason. Jón Indriðason var norskur biskup í Skálholti á árunum 1339 – 1341. Hann hafði verið prestur á Selju í Noregi. Hann kom með skipi til Hvalfjarðar 24. ágúst 1339 en biskupstíð hans var stutt því hann dó 16. mars 1341. Þórarinn Sigurðsson. Þórarinn Sigurðsson var norskur biskup í Skálholti. Hann var vígður 1362, kom til landsins árið eftir en dó 1364. Hann innleiddi boðunardag Maríu hérlendis. Oddgeir Þorsteinsson. Oddgeir Þorsteinsson (d. 15. ágúst 1381) var norskur biskup í Skálholti á 14. öld. Hann er nefndur Oddgeir kanúki í skipan Ólafs erkibiskups í Niðarósi 1351. Hann kom til landsins með biskupsvígslu 1366 og vísiteraði Austfirði 1367 og Vestfirði 1368. Hann fór til Noregs 1372, kom aftur 1373 og svo sigldi hann aftur út 1379 og dó af slysförum í Niðarósi þegar hann ætlaði aftur til Íslands 1381, féll ofan í skipslúku eða skipsbát og höfuðkúpubrotnaði. Mikael (biskup). Mikael var danskur biskup í Skálholti á 14. öld. Hann hafði verið embættismaður í páfagarði en kom til Íslands 1383 eða 1385 með biskupsvígslu. „Þá urðu hér á landi sýsludeilur miklar, og margar nýjungar gjörðar af Michael biskupi“, segir í Árbókum Espólíns við árið 1386. Sumarið eftir fór biskupinn til Austfjarða og í þeim leiðangri tók hann völdin af Þorgerði abbadísi í Kirkjubæ en vígði Halldóru Runólfsdóttur í staðinn en hún var svipt völdum stuttu síðar. Mikael fór til Danmerkur og sagði af sér biskupsdómi 1391 „og hafði hann verið til lítilla nytsemda“. Vilchin Hinriksson. Vilchin Hinriksson (Vilkin) var biskup í Skálholti á 14. öld (d. 1405). Hann var danskur príor og þegar Mikael biskup kom til Danmerkur og sagði Skálholtsbiskupsdæmi lausu fór Vilchin til Rómar og fékk Skálholtsstól hjá páfa en ekki er víst hvort hann var vígður þar eða í Niðarósi. Hann kom til Íslands með svokölluðu Heinreksskipi seint í ágúst 1394 og byrjaði á að fara í Skálholt og halda þar sjö daga veislu þar sem var "veitt svo ríkmannlega að hver drakk sem hann lysti nótt og dag og var ei drukkið annað en þykkt öl og enn dýrara". Vilchin þótti mun meiri skörungur og nytsemdarmaður en aðrir erlendir biskupar sem voru í Skálholti; hann viðrétti kristindóminn og leiðrétti siðu manna. Hann lét skrá mikla máldagabók (Vilkinsmáldaga) þar sem skráðar voru allar upplýsingar sem til voru um eignir hverrar kirkju um sig. Hann bætti líka kirkjuna og aðrar byggingar á staðnum, pantaði veggtjöld hjá nunnunum í Kirkjubæ til að skreyta stóru stofuna í Skálholti, og greiddi niður skuldir svo að biskupsstóllinn varð skuldlaus, en fyrirrennarar hans höfðu sumir eytt um efni fram, einkum Mikael. Vilkin var í Skálholti er Svarti dauði gekk þar og er sagt að hann hafi lifað einn eftir af vígðum mönnum ásamt tveimur leikmönnum. Hann fór til Noregs sumarið 1405, þar sem hann dó um veturinn. Jón (biskup). Jón (d. 1413) biskup í Skálholti snemma á 15. öld, hafði áður verið ábóti við Mikaelsklaustur (Munklífi) í Björgvin. Föðurnafn hans er óþekkt og ekkert vitað um ætt hans og uppruna. Hann er stundum kallaður "Jón danski" í heimildum en óvíst er hvort hann var danskur eða norskur. Hann hlaut biskupsvígslu 1406, en Vilkin Hinriksson Skálholtsbiskup hafði andast í Noregi árið áður, kom til Íslands 1408 og söng fyrstu messu sína á landinu 8. september. Hann var í rauninni eini biskupinn á landinu alla biskupstíð sína því að Pétur Nikulásson Hólabiskup hafði farið úr landi 1402 og kom ekki aftur og eftirmaður hans, Jón Tófason, kom fyrst til landsins 1419. Árið 1409 fór Jón í vísitasíuferð norður í land en annars er fátt vitað um biskupstíð hans. Hann dó síðla árs 1413, úr holdsveiki að því er segir í heimildum. Í bréfi sem Jóhannes páfi XXIII sendi biskupinum í Lýbiku og dagsett er 23. júlí 1413 er fjallað um veikindi Skálholtsbiskups og segir þar að hann sé yfirkominn af sjúkdómnum svo að hold og bein hrynji af höndum og fótum. Innsigli merkt Jóni Skálholtsbiskupi fannst í jörðu í Árósum í Danmörku árið 1879 og er talið að þar sé um þennan Jón að ræða. Bacillaceae. "Bacillaceae" er ætt Gram-jákvæðra gerla innan ættbálksins "Bacillales". Ættin samanstendur af ört vaxandi fjölda ættkvísla, en þekktust þeirra er "Bacillus" og dregur ættin nafn sitt af henni. Flestir meðlimir ættarinnar eru staflaga, ófrumbjarga gerlar og geta margir þeirra myndað dvalargró. Flestar tegundir ættar eru loftháðar eða valfrjálst loftsæknar, en einstaka tegundir eru þó loftfælnar. Kvikir gerlar innan ættarinnar eru oftast með kringstæðar svipur. Flestir meðlimir ættarinnar eru skaðlausir mönnum, en einstaka sýkla er þó þar að finna, til dæmis "Bacillus anthracis" og "Bacillus cereus". Bacillus. "Bacillus" er ættkvísl Gram-jákvæðra, staflaga gerla innan ættarinnar "Bacillaceae". Þeir eru ýmist nauðháð eða valfrjálst loftsæknir, katalasa-jákvæðir og geta myndað dvalargró. Þeir finnast víða í náttúrunni, eru til dæmis algengir í jarðvegi. Vistfræði. Meðlimir "Bacillus" ættkvíslarinnar búa yfir fjölbreyttum efnaskiptum og fá því þrifist í ýmiss konar umhverfi. Þeir eru algengir í jarðvegi, þar sem þeir taka þátt í niðurbroti plöntu- og dýraleifa, en margar "Bacillus" tegundir seyta meltingarensímum út í umhverfið sem brjóta niður fjölsykrur, prótín og aðrar lífrænar fjölliður. Margar tegundir ættkvíslarinnar, svo sem hin vel þekkta "B. subtilis", finnast í miklu magni í rótarhveli plantna sem nýta sér þau næringarefni sem falla til við starfsemi gerilsins. Sumar tegundirnar, svo sem "B. azotofixans" og "B. pumilus", eru færar um að binda köfnunarefni andrúmsloftsins og mynda ammoníumsölt sem plöntur geta nýtt sér. Aðrar "Bacillus" tegundir, svo sem "B. thuringiensis", "B. anthracis" og "B. cereus" eru sýklar manna, dýra eða plantna. Saga. "Bacillus" er meðal best þekktu ættkvísla örverufræðanna, en Ferdinand Cohn skilgreindi hana fyrstur manna árið 1872. Rannsóknasaga þessara gerla er þó enn lengri, því tegund sú sem Cohn nefndi "B. subtilis" hafði þá um nokkurt skeið verið til rannsóknar hjá hinum þekkta náttúrufræðingi og smásjárskoðanda Christian Ehrenberg sem nefndi hana "Vibrio subtilis" þegar árið 1835. Orsay-minjasafnið. Orsay-minjasafnið (franska: Musée d'Orsay) er listasafn í París í Frakklandi. Safnið var stofnað árið 1986. Það er 57.400 m² að stærð. Árið 2007 heimsóttu 3.200.000 manns safnið. Safi Persakonungur. Safi (1611 – 11. maí 1642) var keisari (sja) yfir Persaveldi á tímum Safavídaríkisins. Hann var elsti sonur Mohammed Baqir elsta sonar Abbas mikla sem lét myrða eða blinda alla syni sína af ótta við að þeir hygðust fremja valdarán. Safi var krýndur 28. janúar, 1629. Hann skipti sér lítið af stjórn ríkisins sem var frá 1634 í höndum stórvesírsins Saru Taqi. Safi lét myrða alla þá sem hugsanlega gætu átt tilkall til krúnunnar, þar með talið háttsetta hirðmenn og herforingja. Í valdatíð hans náði Tyrkjaveldi Bagdad sem það hélt fram að Fyrri heimsstyrjöldinni og Mógúlveldið náði Kandahar aftur á sitt vald. 1639 gerðu Persar og Tyrkir með sér Zohab-sáttmálann sem færði Tyrkjum alla Mesópótamíu. Háeyrarflóðið. Háeyrarflóðið var sjóflóð í miklum útsynningi 2. janúar 1653 sem olli miklu tjóni á suðvesturlandi, frá Grindavík að Flóa. Hús skemmdust einkum í Eyrarbakkahreppi. Á Eyrarbakka drukknuðu skepnur í húsum. Mest tjón varð á bæjunum Háeyri og Hrauni. Einn maður drukknaði í Einarshöfn þar sem honum tókst ekki að flýja, en níu fórust á skipi frá Eyrarbakka í sama veðri. Krónan (verslun). Krónan er verslunarkeðja lágvöruverðsverslana á Íslandi. Krónan sker sig frá Bónus að því leyti að hún er með eigið kjötborð og salatborð. Alls eru 12 verslanir frá Krónunni á landinu. Viðeyjarklaustur. Viðeyjarklaustur var munkaklaustur í Viðey á Kollafirði og var af Ágústínusarreglu. Það er ýmist talið stofnað 1225 eða 1226 og er oftar miðað við síðara árið því að það ár var klaustrinu settur máldagi. Þorvaldur Gissurarson stofnaði klaustrið með tilstyrk Snorra Sturlusonar og hvatningu Magnúsar biskups, bróður síns. Það var fyrsta klaustrið í Sunnlendingafjórðungi og má gera ráð fyrir að einn hvatinn til klausturstofnunar hafi verið sá að menn vildu halda sáluhjálpargjöfum og áheitum í heimahéraði. Þorvaldur keypti Viðey, lagði hana til stofnunar klaustursins og settist sjálfur í það og var forstöðumaður en kallaðist þó ekki ábóti eða príor. Fyrsti príor klaustursins var Styrmir Kárason hinn fróði en fyrsti ábótinn var Arnór Digur-Helgason. Viðey var menntasetur, vitað er að þar var ágætur bókakostur, eins og kemur m.a. fram í bókaskrá í Vilkinsmáldaga. Þar voru líka skrifaðar ýmsar bækur. Algengt var að aldraðir höfðingjar gengju í klaustur síðustu æviár sín og vitað er að Gissur Þorvaldsson hafði hug á að gerast munkur í Viðey en entist ekki aldur til. Þegar Magnús biskup vígði klaustrið gaf hann því tekjur sínar af svæðinu milli Botnsár og Hafnarfjarðar. Viðeyjarklaustur var ekki ríkt í fyrstu en auðgaðist fljótt, eignaðist margar jarðir, einkum í nágrenni klaustursins og á Suðurnesjum, og varð eitt ríkasta klaustur landsins. Í Viðey var rekið stórbú og klaustrið hafði einnig tekjur af æðarvarpi, af laxveiði í Elliðaám og af útgerð, en það átti marga báta í ýmsum verstöðvum. Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup aflagði Ágústínusarreglu í Viðey 1344 og klaustrið varð aðsetur Benediktsmunka til 1352 en þá tók Ágústínusarreglan aftur við. Klaustrið starfaði með blóma til 1539 en á hvítasunnudag það ár kom Diðrik frá Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, og hertók klaustrið með mönnum sínum, sem rændu og rupluðu, misþyrmdu munkunum og ráku þá burt. Jón Arason biskup á Hólum fór suður í herför 1550, lagði Viðey undir sig og rak burt hirðstjórann Laurentius Mule, endurreisti klaustrið og lét reisa virki í kringum það. Endurreisnin stóð þó ekki lengi því Jón biskup var handtekinn um haustið og tekinn af lífi ásamt sonum sínum. Klaustrið var endanlega lagt af við siðbreytinguna. Viðey komst í eigu konungs eins og aðrar klaustureignir. Vestur-Noregur. Í Vestur-Noregi er víða stórbrotið landslag. Aurlandsfjörður, Aurlandsvangen og Flåm. Vestur-Noregur, Vesturlandið eða Vestlandið ("Vestlandet") er vesturhluti Noregs, og nær yfir 4 fylki: Mæri og Raumsdal, Sogn og Fjarðafylki, Hörðaland og Rogaland. Vestur-Noregur er sá hluti Noregs sem er næstur Íslandi. Vesturlandið er 58.582 ferkílómetrar að flatarmáli og þar bjuggu 1.253.610 manns 1. júlí 2009. Landshlutinn er í öðru sæti í Noregi með tilliti til mannfjölda (26,0%) og í þriðja sæti hvað flatarmál snertir (18,1%). Þéttleiki byggðar er 21,4 íbúar á ferkílómetra. Á Hörðalandi eru 37,7% íbúafjöldans, Rogalandi 33,8%, Mæri og Raumsdal 19,9% og Sogni og Fjarðafylki 8,5%. Í Vestur-Noregi eru 121 sveitarfélög sem skiptast í 15 héruð. Það eru fjórar sýslur í Vestlandsrådet. Stærsta borgin er Björgvin, og sú næst stærsta er Stafangur. Alls eru þar um 22 þéttbýlisstaðir með meira en 5.000 íbúa. Aðrir landshlutar í Noregi eru Suður-Noregur, Austur-Noregur, Mið-Noregur (eða Þrændalög) og Norður-Noregur. Tungumál. Vestur-Noregur hefur sérstöðu vegna þess hvað nýnorska er mikið notuð þar. Að vísu notar meirihluti íbúanna (56%) þá gerð norsku sem nefnd er bókmál og er það er ríkjandi í stærstu borgunum. Utan þeirra er nýnorska ríkjandi í Sogni og Fjarðafylki (97%) og Mæri og Raumsdal (54%), en á Hörðalandi og Rogalandi eru þeir sem nota nýnorsku í minnihluta (42% og 26%). Flest sveitarfélög í Sogni og Fjarðafylki, á Sunnmæri (nema í Álasundi) og Hörðalandi (nema í Björgvin, Askey og Odda) nota nýnorsku sem opinbert ritmál. Nýnorskan er einungis samræmt ritmál, talmálið er mjög breytilegt og skiptist í mállýskur eftir héruðum. Aðeins 13% þeirra sem nota nýnorsku búa utan Vesturlandsins. Efnahagur og atvinnulíf. Í Vestur-Noregi er mjög blómlegt atvinnulíf, og stendur landshlutinn undir um 70% af þjóðarframleiðslu Norðmanna. Stafangur er höfuðborg olíuiðnaðarins í Noregi, en áður fyrr voru fiskveiðar og landbúnaður mikilvægustu atvinnugreinar í Vestur-Noregi. Christen Købke. Christen Schiellerup Købke (26. maí 1810 – 7. febrúar 1848) var danskur listmálari og var einn af hinum svonefndu gullaldarmálurum Danmerkur. Málverk hans hanga uppi í Þjóðlistasafninu í London og Louvre í París. Tenglar. Købke, Christen Schiellerup Akademísk röðun háskóla. Röðun. Taflan hér að neðan hefur að geyma lista áranna 2003 til 2008 yfir alla þá skóla sem voru í sæti eitthundrað eða ofar eitthvert áranna sex. Teitur Þorvaldsson. Teitur Þorvaldsson (d. 1259) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Þorvaldar Gissurarsonar í Hruna og hálfbróðir Gissurar Þorvaldssonar. Teitur var prestvígður og bjó í Bræðratungu. Hann var lögsögumaður 1219-1221 og aftur 1236-1247. Hann var sagður vitur maður og hóglyndur og stuðla að sáttum manna. Ekki er vitað hver kona Teits var en sonur hans var Klængur Teitsson, bóndi í Bræðratungu og Haukadal og síðast kanúki í Viðeyjarklaustri. Hallur Gissurarson. Hallur Gissurarson (d. 1230) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld og síðar munkur og ábóti, bæði í Helgafellsklaustri og Þykkvabæjarklaustri. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Gissurar Hallssonar lögsögumanns og konu hans Álfheiðar Þorvaldsdóttur. Hann var bróðir Þorvaldar Gissurarsonar og Magnúsar biskups í Skálholti. Hallur tók við lögsögumannsembætti af föður sínum árið 1203 og gegndi því til 1209. Þá sagði hann af sér og gekk í klaustur í Þykkvabæ en hann var prestvígður eins og margir íslenskir höfðingjar á hans tíð. Hann var kjörinn ábóti í klaustrinu eftir að Jón Loftsson sagði af sér 1221 og vígður sama ár en Magnús biskup bróðir hans fékk hann til að verða í staðinn ábóti í Helgafellsklaustri því ábótinn þar, Ketill Hermundarson, hafði látist. Jón Loftsson varð þá ábóti áfram í Þykkvabæ. Hann dó svo 1224 og Hallur fluttist þá yfir í Þykkvabæjarklaustur árið 1225 og var þar ábóti til dauðadags 1230. Hallur var sagður góður prestur og göfugur. Kona hans var Herdís, systir Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri. Þau áttu eina dóttur en einnig átti Hallur soninn Magnús. Sámur sonur Magnúsar var gestur í brúðkaupinu á Flugumýri 1253 og var höggvinn þar í rúmi sínu. Teitur Einarsson. Teitur Einarsson (d. 1258) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld. Hann tók við embættinu á Alþingi 1253 með ráði Gissurar Þorvaldssonar. Líklegt er talið að hann hafi verið frændi Gissurar, sonur Einars Þorvaldssonar hálfbróður hans. Á sama þingi var lögtekið að guðs lög skyldu ráða ef þau greindi á við landslög. Teitur gegndi lögsögumannsembættinu í fimm ár. Ekki er vitað hvar hann bjó en hann var veginn á Austfjörðum seinni hluta árs 1258 eða hugsanlega fyrri hluta árs 1259. Ketill Þorláksson (lögsögumaður). Ketill Þorláksson (d. 11. febrúar 1273) var íslenskur lögsögumaður og prestur á 13. öld. Faðir hans var Þorlákur Ketilsson goðorðsmaður í Hítardal og víðar. Ketill giftist Halldóru, dóttur Þorvaldar Gissurarsonar og systur Gissurar jarls, árið 1221 og bjuggu þau í Hítardal. 1224 seldi Ketill Lofti biskupssyni Hítardal, þegar hann kom aftur úr útlegð sinni, en keypti sjálfur Skarð ytra á Landi og bjó þar til um 1235. Þá flutti hann aftur vestur og var prestur á Kolbeinsstöðum til dauðadags 1273. Ketill var lögsögumaður 1259-1262 og gegndi því embættinu þegar Gamli sáttmáli var gerður. Sonur þeirra Halldóru var Þorleifur hreimur Ketilsson lögsögumaður. Þorleifur hreimur Ketilsson. Þorleifur Ketilsson hreimur (d. 1289) var íslenskur lögsögumaður á 13. öld og síðastur lögsögumanna á Íslandi. Hann var sonur Ketils Þorlákssonar lögsögumanns og tók við af honum 1263. Móðir hans var Halldóra Þorvaldsdóttir, alsystir Gissurar jarls. Hann var mikið með Gissuri móðurbróður sínum og er fyrst nefndur þegar Órækja Snorrason fór að Gissuri í Skálholti í ársbyrjun 1242, þá var hann sendur til að safna liði í Grímsnesi og Ölfusi. Hann gæti þá hafa verið um tvítugt. Hann fór til Noregs með Gissuri 1246 og í suðurgöngu til Rómar 1249. Hann var í brúðkaupinu á Flugumýri 1253 en reið burtu daginn fyrir Flugumýrarbrennu, var með Gissuri að elta uppi brennumenn og fór til Noregs með honum 1254. Hann var líka með Gissuri þegar Þórður Andrésson og bræður hans fóru að honum í Bræðratungu 1264. Hann var sagður hreystimenni. Kona hans var systir Gróu Álfsdóttur, konu Gissurar, en ekki er vitað hvað hún hét. Þorlákur sonur þeirra bjargaðist úr Flugumýrarbrennu, tíu ára að aldri, og loguðu föt hans þegar hann hljóp út. Þorleifur var þrisvar lögsögumaður, fyrst 1263-1266, svo 1268 í eitt ár og síðast 1271 í eitt ár, síðastur í röð lögsögumanna. Í sumum annálum er sagt að Sigurður Þorvaldsson (eða Guðmundsson) hafi verið kosinn lögsögumaður 1266 en aðrar heimildir nefna hann ekki en segja að Þorleifur hafi verið lögsögumaður í fjögur ár. Um Sigurð þennan er ekkert vitað, hafi hann á annað borð verið til. Washington-háskóli. Washinton-háskóli (University of Washington eða UW) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Seattle í Washington í Bandaríkjunum, stofnaður árið 1861. Hann er stærsti háskóli norðvesturríkjanna í Bandaríkjunum og meðal elstu ríkisháskóla á vesturströndinni. Skólinn hefur þrjú háskólasvæði en auk aðalháskólasvæðisins í Seattle eru einnig háskólaútibú í Tacoma og Bothell. Við skólann starfa tæplega 6 þúsund háskólakennarar og aðrir starfsmenn eru á 17. þúsund. Nemendur eru tæplega 43 þúsund talsins en rétt rúmlega 30 þúsund þeirra stunda grunnám og um 13 þúsund framhaldsnám. Einkunnarorð skólans eru "lux sit" (á latínu) og þýða „megi vera ljós“. Vanderbilt-háskóli. Vanderbilt-háskóli (e. Vanderbilt University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum, stofnaður árið 1873. Skólinn er nefndur í höfuðið á Corneliusi Vanderbilt, sem veitti eina milljón Bandaríkjadala til stofnunar skólans. Vanderbilt, sem hafði sjálfur aldrei komið til suðurríkjanna, taldi að gjöfin og skólinn með starfsemi sinni hjálpuðu til við að græða þau sár sem borgarastyrjöldin bandaríska hafði valdið. Við upphaf 21. aldar stunda um 12.000 nemendur frá öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og yfir 90 löndum um allan heim nám við Vanderbilt-háskóla. Tæplega 3400 háskólakennarar starfa við skólann. Háskólasjóður skólans er um 2,9 milljarðar Bandaríkjadala. Vanderbilt-háskóli er gjarnan talinn meðal 20 bestu háskóla landsins. Texas-háskóli í Austin. Texas-háskóli í Austin (e. The University of Texas at Austin eða UT Austin) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Austin í Texas í Bandaríkjunum og er aðalháskóli háskólakerfisins í Texas. Skólinn var stofnaður árið 1883. Yfir 50 þúsund nemendur stunda nám við skólann og um 16.500 háskólakennarar og annað starfsfólk starfar þar. Á árunum 1883 til 1967 hét skólinn einfaldlega Texas-háskóli (e. University of Texas). Kaliforníuháskóli í Riverside. A. Gary Anderson Hall í Riverside Kaliforníuháskóli í Riverside (e. University of California, Riverside, UC Riverside eða UCR) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Skólinn var stofnaður árið 1907. Við skólann starfa á sjötta hundrað háskólakennarar og þar stunda rúmlega 18 þúsund nemendur nám. Einkunnarorð skólans eru "fiat lux" (á latínu) og þýða „verði ljós!“ Haukur Erlendsson. Haukur Erlendsson (d. 3. júní 1334) var íslenskur lögmaður og riddari á 14. öld. Hann var sonur Erlendar sterka Ólafssonar lögmanns en móðir hans hét Jórunn. Líklega bjó hann á Vesturlandi eða Vestfjörðum framan af ævi. Hann varð lögmaður sunnan og austan 1294 og gegndi því embætti til 1299 en þá er hann kominn til Noregs og þar komst hann til metorða. Hann var orðinn lögmaður í Ósló 1302 og kominn í ríkisráð konungs árið eftir. 1304 var hann herraður og gerður að Gulaþingslögmanni. Þá flutti hann til Björgvinjar og var ýmist þar, í Ósló eða á Íslandi eftir það. Hans er getið í heimildum á Íslandi 1306-1308 og stóð þá meðal annars með Árna Helgasyni biskupi að stofnun lærðra manna spítala í Gaulverjabæ. Hann var í Björgvin 1310 og í Ósló 1309, 1318 og 1319. Vitað er að hann var Gulaþingslögmaður 1321 og 1322. Eftir það er hans hvergi getið í heimildum næstu árin og má vera að hann hafi verið á Íslandi 1322-1329. 1330 var hann í Noregi en kom til Íslands 1331 "með boðskap konungsins um kvennamál og það fleira sem þar fylgdi", segir í "Skálholtsannál". Hann hefur svo farið út aftur því að hann dó í Björgvin 1334. Skinnhandritið Hauksbók er kennd við Hauk lögmann en í henni er samsafn af ýmsum ritum, meðal annars Landnámu, Kristni sögu, Fóstbræðrasögu, Völuspá og fleiru. Sumt er ekki til í neinu öðru handriti. Haukur mun hafa skrifað hana að einhverju leyti sjálfur og er rithönd hans elsta rithönd nafngreinds Íslendings sem vitað er um. Einnig hefur hann haft nokkra skrifara. Í henni er einnig ýmiss konar fróðleikur, þar á meðal stærðfræðikafli, Algorismus, og er það elsti stærðfræðitexti sem til er á norrænu máli. Haukur virðist hafa verið vel menntaður og fjölfróður með áhuga á alls konar fróðleik. Hauksbók er skrifuð á fyrsta áratug 14. aldar og kann að vera að Haukur hafi notað hana til að koma sér á framfæri í Noregi og auka virðingu sína. Kona Hauks lögmanns var Steinunn Áladóttir (d. 1361). Áli faðir hennar var sonur Svarthöfða Dufgussonar. Hún bjó á Íslandi eftir lát manns síns. Eina barn þeirra sem vitað er um með vissu var Jórunn, sem varð abbadís í Kirkjubæjarklaustri 1344 og kallaðist þá Agnes. Haukur átti líka son sem hét Svarthöfði. Sonur hans var Áli eða Óli Svarthöfðason prestur í Odda, sem sagður er hafa dáið fyrstur manna hérlendis úr Svartadauða í Botnsdal í Hvalfirði vorið 1402. Ormur Ormsson. Ormur Ormsson (1242 - 26. september 1270) var íslenskur goðorðsmaður og hirðstjóri á 13. öld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Orms Jónssonar og Álfheiðar Njálsdóttur konu hans. Faðir hans lést áður en hann fæddist og eldri bræður hans, Sæmundur og Guðmundur Ormssynir, voru drepnir 1252, þegar Ormur var tíu ára. Hann tók við goðorðum Svínfellinga þegar hann hafði aldur til. Árið 1264 varð hann síðastur íslenskra höfðingja til að sverja Noregskonungi skatt og var Ísland þar með allt komið undir konung. Árið 1270 var Ormur gerður að hirðstjóra sunnan og austan á móti Hrafni Oddsyni, sem varð hirðstjóri norðan og vestan. Hann naut þeirrar upphefðar þó ekki lengi því að hann drukknaði við Noreg sama haust. Kaliforníuháskóli í Irvine. Kaliforníuháskóli í Irvine (e. University of California, Irvine, UC Irvine eða UCI) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Irvine í Kaliforníu, stofnaður árið 1965. Hann er einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Nafn skólans á rætur að rekja til Irvine Company, sem gaf 400 hektara landsvæði í skiptum fyrir einn Bandaríkjadal og seldi 210 hektara til viðbótar til Kaliforníuháskóla. Árið 1971 skipulögðu Kaliforníuháskóli og Irvine Company borg utan um háskólasvæðið og hlaut hún borgarréttindi sem Irvine. Rúmlega 22 þúsund nemar stunda grunnnám við Kaliforníuháskóla í Irvine og á sjötta þúsund til viðbótar stunda framhaldsnám þar. Tæplega 2700 háskólakennarar kenna við skólann. Kaliforníuháskóli í Davis. Loftmynd af Kaliforníuháskóla í Davis. Kaliforníuháskóli í Davis (e. University of California, Davis, UC Davis eða UCD) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Davis í Kaliforníu í Bandaríkjunum og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla: Skólinn var stofnaður árið 1905 sem University Farm og var þá útibú frá UC Berkeley. Nemendur við skólann eru rúmlega 31 þúsund talsins en við skólann kenna tæplega 2100 háskólakennarar. Kaliforníuháskóli í Santa Barbara. Storke Tower í Santa Barbara. Kaliforníuháskóli í Santa Barbara (e. University of California, Santa Barbara, UC Santa Barbara eða UCSB) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Tæplega 1100 háskólakennarar starfa við skólann en tæplega 20 þúsund nemendur stunda þar nám. Kaliforníuháskóli í Los Angeles. Royce Hall er ein af fjórum elstu byggingum skólans. Kaliforníuháskóli í Los Angeles (e. University of California, Los Angeles, þekktastur sem UCLA) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Hann var stofnaður árið 1919. Við skólann kenna rúmlega 4 þúsund háskólakennarar en þar stunda tæplega 39 þúsund nemendur nám; um 27 þúsund þeirra stunda grunnnám en um 12 þúsund stunda framhaldsnám. Kaliforníuháskóli í San Diego. Kaliforníuháskóli í San Diego (e. University of California, San Diego, UC San Diego eða UCSD) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í San Diego í Kaliforníu í Bandaríkjunum og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Skólinn var stofnaður árið 1960. Við skólann stunda rúmlega 22 þúsund nemendur grunnnám og rúmlega 5 þúsund nemendur framhaldsnám. Suðurganga. Þýskt miðaldakort yfir pílagrímaleiðir til Rómar, athuga ber að suður snýr upp á við Suðurganga er heiti sem Íslendingar höfðu á miðöldum um pílagrímsferðir helgra staða suður í löndum. Oftast var farið til Rómar en einnig tíðkuðust suðurgöngur til annarra helgra staða, svo sem Santiago de Compostela á Spáni eða jafnvel allt til Jórsala (Jerúsalem). Fjölmargir Íslendingar fóru í suðurgöngu á miðöldum og hafa þær sjálfsagt hafist þegar við kristnitöku. Í Njálu er sagt að Flosi Þórðarson hafi farið í suðurgöngu eftir Njálsbrennu og Kári Sölmundarson einnig. Hin víðförla Guðríður Þorbjarnardóttir gekk til Rómar og gerðist einsetukona þegar hún kom heim. Í gestabók klaustursins í Reichenau, þar sem skráð eru nöfn allra pílagríma sem þar komu við á 9., 10. og 11. öld, er að finna 39 nöfn karla og kvenna sem sögð eru vera frá Hislant terra (Íslandi). Margir fóru líka í suðurgöngu á 12. og 13. öld og í Sturlungu eru nefndir fjölmargir Íslendingar sem gengu suður. Frægust er frásögnin af Sturlu Sighvatssyni, sem leiddur var um Róm og hýddur en konur og karlar máttu ekki vatni halda að sjá svo fríðan mann jafnhörmulega leikinn. Gissur Þorvaldsson, Kolbeinn ungi, Órækja Snorrason og fleiri höfðingjar gengu líka suður. Nikulás ábóti á Munkaþverá (d. 1159) skrifaði leiðarlýsingu fyrir pílagríma og studdist þar við eða þýddi erlendar leiðarlýsingar. Gissur Hallsson skrifaði ferðabók sem hét "Flos peregrinationis" og mun hún hafa verið á latínu en hún er nú glötuð. Margir pílagrímar fóru fótgangandi til Rómaborgar og tók ferðin þá langan tíma, oft nokkur ár. Þorvaldur Vatnsfirðingur er til dæmis sagður hafa verið þrjú ár í sinni ferð. Höfðingjar fóru þó oft ríðandi og voru mun fljótari í förum. Sumir lögðu lykkjur á leið sína og heimsóttu marga staði, til dæmis Hrafn Sveinbjarnarson, sem fór fyrst til Kantaraborgar á Englandi, síðan til Iliansborgar (St. Giles), þá til Santiago de Compostela á Spáni og að lokum til Rómar. Sumir voru reyndar fljótir í ferðum þótt fótgangandi væru; Ketill prestur, sendimaður Guðmundar biskups Arasonar, fór gangandi til Rómaborgar í erindum biskups og var svo feginn þegar honum tókst að fá páfabréfið sem hann var sendur til að sækja að hann hljóp norður eftir löndum, allt norður til Rostock. Páll biskup Jónsson virðist hafa haft áhyggjur af tíðum suðurgöngum presta því að hann lét telja bæði presta og kirkjur í biskupsdæminu, þar sem hann vildi leyfa prestum að fara ef þess væri gætt að nægir væru eftir hverju sinni til að sinna prestþjónustu. Margir sneru aldrei aftur, veiktust á leiðinni og dóu. Þórlaug dóttir Páls prests Sölvasonar í Reykholti og Þórir auðgi maður hennar höfðu eignast nokkur börn saman en þau dóu öll og hét Þórlaug þá Rómarferð. Maður hennar var tregur til en lét þó til leiðast "fyrir ástar sakir við hana" en þau dóu bæði í ferðinni og einnig barn sem þau eignuðust í Noregi og skildu eftir það. Páll prestur og Hvamm-Sturla deildu um arf eftir þau og leiddu þær deilur á endanum tl þess að Snorri Sturluson fór í fóstur í Odda. Margvíslegar ástæður voru fyrir suðurgöngum. Oft voru þær eingöngu af trúarlegri þörf, vegna áheita eða farnar í yfirbótarskyni af eigin hvötum en menn voru líka oft dæmdir til suðurgöngu eða hún var hluti af sættagerð. Sumir áttu líka erindi við páfa. Suðurgöngur héldu áfram á 14. öld þótt sennilega hafi dregið úr þeim og á 15. og 16. öld virðast fáir hafa farið. Þó er til dæmis sagt um Helga Höskuldsson (d. um 1560) ábóta á Þingeyrum að hann hafi farið þrisvar til Rómar. Þeir voru færri sem fóru í Jórsalaferðir en Björn Einarsson Jórsalafari fór þó þangað 1406 og kona hans með honum. Hann skrifaði eða lét skrifa bók um ferðir sínar en hún er ekki lengur til. Sjá einnig. Vegur Ólafs helga Kaliforníuháskóli í San Francisco. Mission Bay Campus í San Francisco Kaliforníuháskóli í San Francisco (e. University of California, San Francisco, UC San Francisco eða UCSF) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í San Francisco í Kaliforníu í Bandaríkjunum og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Hann var stofnaður árið 1873. Skólinn er í fremstu röð í heilbrigðisvísindum. Í skólanum er ekki boðið upp á grunnnám, heldur einungis framhaldsnám og nám í heilbrigðisvísindum. Við skólann starfa tæplega 1700 háskólakennarar og fræðimenn og þar nema tæplega 3 þúsund nemendur. Kaliforníuháskóli í Berkeley. Kaliforníuháskóli í Berkeley (e. University of California, Berkeley, einnig nefndur Berkeley og UC Berkeley) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Berkeley í Kaliforníu í Bandaríkjunum: SKólinn er einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla og jafnfram elstur þeirra, stofnaður árið 1868 þegar einkaskólinn College of California og hinn ríkisrekni Agricultural, Mining, and Mechanical Arts College sameinuðust. Við skólann stunda rúmlega 25 þúsund nemendur grunnnám og rúmlega 10 þúsund nemendur framhaldsnám. Suður-Kaliforníuháskóli. Suður-Kaliforníuháskóli (e. University of Southern California, USC,SC eða Southern California) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1880 og er hann því elsti einkarekni rannsóknarháskóli Kaliforníu. Við skólann stunda rúmlega 16 þúsund nemendur grunnnám og rúmlega 17 þúsund framhaldsnám. Á fjórða þúsund háskólakennarar starfa við skólann auk tæplega 1400 lausráðinna háskólakennara og á níunda þúsund annarra starfsmanna. Háskólasjóður skólans nemur 3,6 milljörðum Bandaríkjadala. Árið 2012 var háskólinn númer 24 (ásamt UCLA og University of Virginia) á lista yfir bestu háskóla Bandaríkjanna samkvæmt U.S. News & World Report. Einkunnarorð skólans eru (á latínu) "palmam qui meruit ferat" og þýða „sá beri pálmann sem verðskuldar hann“. Tækniháskólinn í Kaliforníu. Tækniháskólinn í Kaliforníu (e. California Institute of Technology eða Caltech) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1891. Skólinn leggur mikla áherslu á raunvísindi og verkfræði. Við skólann stunda nám um 2100 nemendur; þar ar um 900 grunnnám og um 1200 framhaldsnám. Etrúska. Etrúska var tungumál talað á Norður-Ítalíu fyrir innrás Rómverja. Það getur hugsast að etrúska deili uppruna með lemnísku og retísku sem heitir frumtyrsenska (eða frumtyrrenska). Stafróf Etrúra kom frá Grikkjum. Lengsti samfelldi texti sem varðveist hefur er einungis 300 orð. Af kunnuglegum orðum sem eru ef til vill af etrúskum uppruna má nefna orðið „persóna“ sem er komið úr latneska orðinu "persona" sem merkti gríma en það er hugsanlega komið frá etrúska orðinu "fersu" sem merkti gríma. Saga. Rétt eins og Rómverjar þá voru Etrúrar innfæddir íbúar Ítalíuskagans, en ekki aðfluttir frá Litlu-Asíu, eins og sögusagnir herma. Á 6. öld f.kr. höfðu þeir komið upp tólf borgríkjum um miðjan Ítalíuskagann. Menningaráhrif þeirra teygðu sig alla leið suður að Napólí og voru þeir töluvert stærri en nágrannar sínir, Rómverjar. Etrúrar voru fyrsta menningarþjóðin á Ítalíuskaganum sem lærði að skrifa. Í framhaldi af því deildu þeir kunnáttu sinni með öðrum þjóðum, m.a. Rómverjum. Aldrei hefur verið gerð fyllilega grein fyrir því að etrúska tungumálð tengist á nokkurn hátt öðrum tungumálum jarðar. Vandamálið er að það hefur einfaldlega ekki fundist nógu mikill samfelldur texti til þess að geta greint tungumálið almennilega. Þó er vitað um svipaða stafi og orð úr fönísku, en þau eru afar stutt og fá og hefur því fræðimönnum ekki tekist að þýða etrúska tungumálið nógu vel. Framburður. Í þessari töflu er gerð grein fyrir hinum ýmsu breytingum sem gerðar hafa verið á etrúska stafrófinu. „Hefðbundin etrúska“, sem var meira eða minna eins og evboísk gríska, var ekki töluð en aftur á móti notuð við kennslu þeirra sem gátu lesið. „Forn-etrúska“ stafrófið var í notkun frá 8. öld til 4. aldar f.kr. áður en Etrúrar urðu hluti af Rómaveldi. „Síðetrúska“ var notuð frá 4. öld f.kr. fram á 1. öld e.kr þegar tungumálinu var meira eða minna skipt út fyrir latínu og dó svo út í kjölfarið. Eins og taflan sýnir þá er etrúska stafrófið upprunnið úr evboísk-grísku stafrófi. Það útskýrir tilurð stafanna F og Q og einnig notkunina á H fyrir "[h]"-hljóðið og X fyrir "[ks]"-hljóðið. Lögun bókstafana og átt rituninnar benda til þess að stafrófið hafi verið teiknað í þessari mynd fyrir almenna stöðlun gríska stafrófsins. Etrúska tungumálið hafði ekki eins mikið af hljóðum og það gríska, þannig að jafnvel þó Etrúrar hafi notast við gríska stafrófið þá notuðu þeir alls ekki alla bókstafina (t.d. B, Δ, Ζ, Ο). Þar að auki breyttu þeir hljómi bókstafsins Γ yfir í "[k]" hljóð sem varð til þess að í dag eru bókstafirnir orðnir þrír sem standa fyrir það hljóð, C, K, og Q. Etrúrar ákváðu að nota þá alla en í mismunandi samhengi: K kemur á undan A, C á undan I og E, og Q á undan V. Bókstafurinn F stóð fyrir annað hvort [w]- eða [v]-hljóðið, eins og í evboískri grísku, en Etrúrar höfðu engu að síður "[f]"-hljóðið. Snemma í myndun stafrófsins var stafurinn (HF) notaður til þess að skrifa "[f]"-hljóðið en var seinna meira skipt út fyrir bókstafinn 8. Áhrif. Etrúska stafrófið varð grunnurinn að fjölda annara stafrófa, eins og til dæmis oskanska stafrófsins, úmbríska stafrófsins og hugsanlega rúnaleturs. Latneska stafrófið, sem varð að einu útbreiddasta stafrófi heims, er afkomandi etrúska stafrófsins. Illinois-háskóli í Chicago. Loftmynd af Illinois-háskóla í Chicago tekin 1994 Illinois-háskóli í Chicago (e. University of Illinois at Chicago eða UIC) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum. Hann er hluti af Illinois-háskóla og er stærsti háskólinn á Chicago-stórborgarsvæðinu. Rúmlega 15 þúsund nemendur stunda þar grunnnám og tæplega 7 þúsund stunda framhaldsnám. Við skólann starfa um 2300 háskólakennarar. Chrzanów. Chrzanów er bær í Suður-Póllandi þar sem búa 39.356 manns (2008). Bærinn er staðsettur í Małopolskie sýslu. Hún er við ána Chechło. Flatarmál 38,31 km². Illinois-háskóli. Illinois-háskóli (e. University of Illinois) er stofnun sem samanstendur af þremur háskólum í Illinois í Bandaríkjunum: Illinois-háskóla í Urbana-Champaign, Illinois-háskóla í Chicago og Illinois-háskóla í Springfield. Skólinn var stofnaður árið 1867 Tilskipun. Tilskipun, eða forsetatilskipun á Íslandi, eru bindandi fyrirmæli af hálfu þjóðhöfðingja, oft forseta eða konungs. Í sumum löndum hefur heitið neikvæða tengingu í alræðistilburði í daglegu máli. Tilskipun getur einnig átt við tilskipanir Evrópusambandsins (e. "directive"), sem eru bindandi fyrir aðildarríkin en gefur þeim eftir hvernig skal framfylgja þeim. Þannig að ríkin geti tekið tillit til séraðstæðna hjá sér. Tilskipanir ber að innleiða í landsrétt ólíkt reglugerðum bandalagsins sem hvorki á, né má innleiða í landsrétt. Tilskipanir geta myndað bein réttaráhrif fyrir þegna bandalagsríkjanna. Kaliforníuháskóli í Merced. Verfræði- og raunvísindabyggingin í Merced Kaliforníuháskóli í Merced (e. University of California, Merced, UC Merced eða UCM) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Merced í San Joaquin-dalnum Kaliforníu í Bandaríkjunum og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Skólinn var stofnaður árið 2005. Við skólann stunda um 3200 nemendur nám. Kaliforníuháskóli í Santa Cruz. Loftmynd af Kaliforníuháskóla í Santa Cruz Kaliforníuháskóli í Santa Cruz (e. University of California, Santa Cruz, UC Santa Cruz eða UCSC) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Santa Cruz í Kaliforníu í Bandaríkjunum og einn þeirra tíu háskóla sem mynda Kaliforníuháskóla. Skólinn var stofnaður árið 1965. Iowa-háskóli. Iowa-háskóli (University of Iowa) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Iowa-borg í Iowa í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður þann 25. febrúar árið 1847. Nemendur við skólann eru rúmlega 30 þúsund en tveir af hverjum þremur stunda grunnnám. Tæplega 2200 háskólakennarar kenna við skólann. Rice-háskóli. William Marsh Rice-háskóli, betur þekktur sem Rice-háskóli (e. William Marsh Rice University eða Rice University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Houston í Texas í Bandaríkjunum, sem var stofnaður árið 1912. Um 6600 nemendur stunda nám við skólann og tæplega 2 þúsund háskólakennarar starfa þar. Háskólasjóður skólans nemur 3,9 milljörðum Bandaríkjadala. Háskólinn í Rochester. Háskólinn í Rochester (e. University of Rochester eða UR) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Rochester í New York-fylki. Skólinn var stofnaður árið 1850. Nemendur við skólann eru á níunda þúsund. Purdue-háskóli í West Lafayette. Purdue-háskóli í West Lafayette (e. Purdue University) er aðalháskóli Purdue-háskóla í Indiana í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður 6. maí árið 1869. Tæplega 40 þúsund nemendur stunda þar nám og á sjöunda þúsund háskólakennarar og fræðimenn starfa þar. Reglugerð (ESB). Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur þýtt enska orðið regulations sem reglugerðir. Ekki eru allir sammála þeirri þýðingu og má sem dæmi nefna lagaprófessorinn Sigurð Líndal. Reglugerðir Evrópubandalagsins eru bindandi fyrir aðildarríkin. Ekki þarf að innleiða reglugerðir sérstaklega inn í landsrétt til að hann taki gildi og raunar má ekki innleiða reglugerðir inn í landsrétt. Það er svo að ekki myndist nein vafaatriði um túlkun. Reglugerðir eru auk þess gefnar út á öllum opinberum tungumálum bandalagsins. Reglugerðir geta myndað bein réttaráhrif fyrir þegna bandalagsríkjanna. Justinianus 1.. Flavius Petrus Sabbatius Iustinianus (483 – 13. eða 14. nóvember 565), þekktur sem Justinianus 1. eða Justinianus mikli, var keisari Austrómverska keisaradæmisins á árunum 527 – 565. Justinianus var fæddur Petrus Sabbatius inn í bændafjölskyldu af lágri stétt, en varð einn af æðstu embættismönnum ríkisins þegar móðurbróðir hans, Justinus 1., varð keisari árið 518. Justinus ættleiddi Petrus Sabbatius og gerði hann að erfingja sínum og tók hann sér þá nafnið Justinianus, sem hann er þekktur undir. Um 525 giftist Justinianus Theodoru, sem var fyrrum vændiskona og um 20 árum yngri en hann. Justinianus varð keisari þegar Justinus lést árið 527. Valdatíð hans er einna helst minnst fyrir mikla hernaðarsigra sem gerðu honum kleift að innlima stór svæði í Vestur-Evrópu og Norður-Afríku sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Justinianus var þó ekki herstjórnandi sjálfur, heldur var það hershöfðinginn Belisarius sem vann flesta sigrana fyrir hann. Belisarius lagði undir sig konungsríki Vandala í Norður-Afríku, á tveimur árum, 533-534, og héldu Austrómverjar því svæði þangað til seint á sjöundu öld, þegar múslimar unnu það af þeim. Það tók mun lengri tíma að vinna konungsríki Austgota á Ítalíu, þar sem Belisarius og annar hershöfðingi, Narses, börðust í um tuttugu ár eða frá 535 til 554. Austrómverjar höfðu ítök á Ítalíuskaganum næstu aldirnar en yfirráðasvæði þeirra fór þó smám saman minnkandi. Justinianus sendi einnig herafla til Íberíuskagans, þar sem var konungsríki Vestgota, og var svæði á sunnanverðum skaganum lagt undir vald keisarans. Justinianus lét gefa út mikinn lagabálk, sem kallaður er "Corpus iuris civilis" á latínu, og varð hann síðan grundvöllur laga í ríkinu eftir hans dag, sem og í mörgum öðrum ríkjum í Evrópu. Bálkurinn er safn laga og tilskipana frá Rómaveldi auk útskýringa. Justinianus stóð fyrir miklum byggingaframkvæmdum í Konstantínópel og víðar. Frægust þeirra bygginga sem risu á þessum tíma er án efa Hagia Sophia (eða Ægisif á íslensku) sem er eitt mikilfenglegasta dæmið um austrómverskan arkitektúr og verkfræði. Mikil plága breiddist út um ríkið á valdatíma Justinianusar og varð að farsótt um mest alla Evrópu. Plágan hefur líklega dregið tugi milljóna manna til dauða, enda geisaði hún af og til í marga áratugi. Justinianus sjálfur fékk veikina en lifði af. Theodora, eiginkona Justinianusar, lést úr krabbameini árið 548. Eftirmaður Justinianusar var Justinus 2., sem var systursonur hans, en Justinianus átti engin börn. Goðorðsmaður. Goðorðsmaður var titill, sem á þjóðveldisöld var notaður um mann sem átti, eða hafði á hendi goðorð eða mannaforráð. Goðorðsmenn höfðu að mörgu leyti svipað hlutverk og alþingismenn nú á dögum, þ.e. þeir áttu sæti á alþingi, en þeir fóru einnig með ákveðið framkvæmda- og dómsvald í heimahéraði sínu, stóðu fyrir héraðsþingum og fylgdu eftir dómum. Yfirleitt bjuggu þeir á stórbýlum, þar sem voru kirkjustaðir, og sáu um rekstur kirkna, þar til staðamál risu. Goðorðsmenn voru stundum kallaðir goðar (eintala: goði), einkum í heiðnum sið, og höfðu þá einnig trúarlegt hlutverk. Þeir réðu fyrir hofi og stjórnuðu blótum. Flórída-háskóli. Century Tower var byggður árið 1953 Flórída-háskóli (e. University of Florida eða UF) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Gainesville í Flórída í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1853. Tæplega 52 þúsund nemendur stunda nám við skólann en þar af stunda tæplega 36 þúsund grunnnám og um 16 þúsund framhaldsnám. Rockefeller-háskóli. Rockefeller-háskóli (e. Rockefeller University) er einkarekinn háskóli á Manhattan í New York-borg í Bandaríkjunum. Skólinn leggur megináherslu á grunnrannsóknir í lífvísindum. Skólinn var stofnaður árið 1901 og hét þá Rockefeller Institute for Medical Research en nafni skólans var breytt árið 1965. Háskólasjóður skólans nemur tveimur milljörðum Bandaríkjadala. Northwestern-háskóli. Northwestern-háskóli (e. Northwestern University eða NU) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Evanston í Illinois í Bandaríkjunum. SKólinn var stofnaður árið 1851. Rúmlega 18 þúsund nemendur stunda nám við Northwestern-háskóla og tæplega 3 þúsund háksólakennarar og fræðimenn starfa þar. Háskólasjóður skólans nemur 5,34 milljörðum Bandaríkjadala. Washington-háskóli í St. Louis. Brookings Hall á svæði háskólans í St. Louis. Washington-háskóli í St. Louis (e. Washington University in St. Louis) er einkarekinn rannsóknarháskóli í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1853 og nefndur eftir George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna. Rúmlega 12 þúsund nemendur stunda nám við skólann, um helmingur þeirra stundar grunnnám og helmingur framhaldsnám. Háskólasjóður skólans nemur 4,05 milljörðum Bandaríkjadala. Einkunnarorð skólans eru (á latínu) "per veritatem vis" og þýða „styrkur í gegnum sannleikann“. Ögmundur Helgason. Ögmundur Helgason var íslenskur höfðingi á 13. öld og staðarhaldari í Kirkjubæ á Síðu. Hann var sonur Digur-Helga Þorsteinssonar (d. 1235), sem einnig var staðarhaldari í Kirkjubæ, og tók við af honum. Á meðal bræðra hans voru Arnór Helgason ábóti í Viðeyjarklaustri og Finnbjörn Helgason, hirðmaður og umboðsmaður Noregskonungs, sem dó af sárum sem hann fékk á Þverárfundi 1255, en hálfsystir þeirra var Helga Digur-Helgadóttir, móðir Þorvarðar og Odds Þórarinssona. Kona Ögmundar var Steinunn systir Orms Jónssonar Svínfellings. Þegar Ormur andaðist 1241 var Sæmundur, elsti sonur hans, á unglingsaldri en Guðmundur bróðir hans sjö ára og bauð Ögmundur honum fóstur. Það kom hins vegar fljótt í ljós að Ögmundur notaði tómarúmið sem skapast hafði við fráfall Orms til að auka völd sín á kostnað hins unga höfðingja Svínfellinga og kom fljótlega til fjandskapar milli þeirra. Sæmundur sótti Guðmund bróður sinn úr fóstrinu, fékk Ögmund dæmdan sekan á þingi og háði féránsdóm í Kirkjubæ. Brandur ábóti í Þykkvabæjarklaustri, föðurbróðir Sæmundar og mágur Ögmundar, sætti þá. Steinunn kona Ögmundar hafði hvatt mjög til sátta og gengið í kirkju og beðið þess að ekki kæmi til vandræða með manni hennar og frænda á meðan hún lifði. Hún dó 31. mars 1252 og tæpum tveimur vikum síðar, þegar Ögmundur frétti að Sæmundur og Guðmundur væru fámennir á ferð skammt frá Kirkjubæ, tók hann þá höndum og lét fyrst höggva Sæmund. Þá „mælti Guðmundur til Ögmundar: Gott væri enn að lifa og vildi ég grið, fóstri. Ögmundur svaraði: Ekki þorum vér það nú, fóstri, og var hann þá rauður sem blóð.“ Síðan var fóstursonur hans höggvinn. Ögmundur var gerður héraðsrækur eftir vígin og flutti hann að Dal undir Eyjafjöllum. Friðleifur (landnámsmaður). Friðleifur var landnámsmaður í Skagafirði og er í Landnámu sagður hafa verið gauskur í föðurætt en flæmskur í móðurætt. Hann nam land í Sléttuhlíð út að Stafá, en syðri mörk landnámsins eru óljós. Talað er um Friðleifsdal og Friðleifsdalsá en hvorugt nafnið er nú þekkt og hefur þess verið getið til að landnámið hafi náð frá Hrolleifsdalsá, sem samræmist því sem segir um landnám Höfða-Þórðar. Landnámsjörð Friðleifs er sögð heita Holt en nú heitir engin jörð á þessu svæði því nafni. Nafar-Helgi. Nafar-Helgi var landnámsmaður í Fljótum í Skagafirði og kom til landsins með sama skipi og Þórður knappur nágranni hans. Hann nam land frá Flókadalsá, austanverðan Flókadal og Austur-Fljót að Tungnaá í Stíflu. Nafar-Helgi bjó á Grindli í Fljótum. Kona hans var Gró hin (snar)skyggna. Þórður knappur Bjarnarson. Þórður knappur Bjarnarson var landnámsmaður í Fljótum í Skagafirði. Hann kom til landsins með Nafar-Helga og lentu þeir skipi sínu í Haganesvík. Hann nam Stíflu ofan við Stífluhóla og bjó á Knappsstöðum í Stíflu, þar sem jafnan síðan var helsti bær sveitarinnar og kirkjustaður. Bárður Suðureyingur. Bárður Suðureyingur var landnámsmaður í Fljótum í Skagafirði. Lýsingin á mörkum landnáms hans í Landnámu stenst ekki og örnefnið Mjóvadalsá, sem þar kemur fyrir, þekkist nú ekki. Talið er líklegast að landnám hans hafi náð ofan frá Stífluhólum til Brúnastaðaár. Brúni hvíti Háreksson. Brúni hvíti Háreksson var landnámsmaður í Fljótum í Skagafirði. Hann nam nyrsta hluta Fljótanna, frá Hraunum og sennilega inn að Brúnastaðaá, og bjó á Brúnastöðum. Landnáma kallar hann ágætan mann, segir að hann hafi verið sonur Háreks Upplendingajarls og tekur fram að hann hafi farið til Íslands að fýsi sinni (ótilneyddur). Stífla (Skagafirði). Stífla er byggðarlag í Fljótum í Skagafirði, innri hluti Fljótadalsins. Upphaflega átti heitið við hólaþyrpingu sem er þvert yfir dalinn og var ýmist kölluð Stífla eða Stífluhólar en nafnið færðist seinna yfir á sveitina innan við hólana. Þar var áður sléttur, gróinn og fallegur dalur, þar sem áður voru allmargir bæir. Stífluá rann um sveitina en breytti um nafn við Stífluhóla og hét eftir það Fljótaá. Um 1940 var ákveðið að virkja ána til að afla rafmagns fyrir Siglufjörð og hófust framkvæmdir árið 1942. Stífla var gerð í gljúfrum í Stífluhólum og var Skeiðsfossvirkjun vígð 1945. Innan við hólana var vatn, Stífluvatn, en það stækkaði til muna við virkjunina og fóru lönd margra jarða undir vatn að miklu leyti og sumar þeirra lögðust í eyði. Vatnið er nú 3,9 ferkilómetrar. Kallíkles. Kallíkles (Καλλικλης) er persóna í samræðunni "Gorgíasi" eftir Platon. Hann er Aþeningur og nemandi mælskufræðingsins Gorgíasar. Í samræðunni heldur Kallíkles því fram að það sé eðlilegt og réttlátt að hinir sterkari ríki yfir þeim veikari og að það sé ósanngjarnt af hinum veikari að hefta hina sterkari með lögum. J.J.C. Smart. John Jamieson Carswell „Jack“ Smart, þekktastur sem J.J.C. Smart, (fæddur 16. september 1920 – 6. október 2012) var ástralskur heimspekingur. Hann fékkst einkum við frumspeki, vísindaheimspeki, hugspeki, trúarheimspeki og stjórnspeki. Smart, J.J.C. Smart, J.J.C. Smart, J.J.C. Ernest Sosa. Ernest Sosa er bandarískur heimsekingur og prófessor í heimspeki við Rutgers-háskóla. Sosa tók við stöðu prófessors við Rutgers í janúar árið 2007 en gegndi áður stöðu prófessors í heimspeki við Brown-háskóla síðan 1964. Sosa fæst einkum við þekkingarfræði, frumspeki og hugspeki Hann er ritstjóri tímaritanna "Nous" og "Philosophy and Phenomenological Research". William Lycan. William G. Lycan (fæddur 26. september 1945 í Milwaukee í Wisconsin) er bandarískur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Norður-Karólínuháskóla í Chapel Hill. Lycan kenndi um árabil við Ríkisháskólann í Ohio. Lycan fæst einkum við hugspeki, málspeki, þekkingarfræði og frumspeki. Lycan er málsvari verkhyggju, sem gengur undir nafninu „"homuncular functionalism"“ (manntrítilsverkhyggja). Hann er einnig kunnur gagnrýnandi þekkingarfræðilegrar naumhyggju. Helstu ritverk. Lycan, William Lycan, William Lycan, William Ríkisháskólinn í Pennsylvaníu. Ríkisháskólinn í Pennsylvaníu (e. The Pennsylvania State University eða einfaldlega Penn State) er bandarískur ríkisháskóli í Pennsylvaníufylki. Skólinn, sem samanstendur af 24 háskólasvæðum (e. "campus") víðs vegar um fylkið, er afar stór. Heildar nemendafjöldi er að jafnaði um 80.000, þar af um helmingur á "University Park" háskólasvæðinu í bænum State College. "Penn State" er ekki hvað síst þekktur í Bandaríkjunum fyrir íþróttir, en mikill fjöldi afreksmanna í íþróttum hefur numið og æft við skólann. Varast ber að rugla "Penn State" saman við "Penn" (Pennsylvaníuháskóla í Fíladelfíu). Sléttuhlíð. Sléttuhlíð er byggðalag við austanverðan Skagafjörð og nær frá Höfðahólum og út til Stafár. Þar gengur ströndin töluvert til vesturs um leið og fjöllin sveigja heldur til austurs þannig að undirlendið breikkar að mun frá því sem er á utanverðri Höfðaströnd. Láglendið er þó ekki slétt því þar er langt fell, 173 m á hæð, á milli tveggja aflangra stöðuvatna sem heita Knappsstaðavatn og Sléttuhlíðarvatn. Á milli fellsins og fjallanna er láglend kvos, fremur gróðursæl, og þar eru nokkrir bæir, þar á meðal kirkjustaðurinn Fell. Þar var Hálfdan Narfason prestur fyrr á öldum og er sagður hafa verið göldróttur. Vestan við Fellið er eyðibýlið Fjall. Þar fæddist Sölvi Helgason (Sólon Íslandus). Tveir dalir ganga inn í fjallgarðinn upp frá Sléttuhlíð. Sunnar er Hrolleifsdalur, sem sagður er kenndur við landnámsmanninn Hrolleif og er nú allur í eyði, og Skálárdalur, sem aldrei hefur verið byggður. Úr honum rennur Skálá og fellur í Hrolleifsdalsá, sem bugðast til sjávar sunnarlega í sveitinni. Sléttuhlíð var áður í Fellshreppi en er nú hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði. Fell í Sléttuhlíð. Fell er bær og kirkjustaður í Sléttuhlíð í Skagafirði. Þar var áður prestssetur en það var lagt niður 1891. Núverandi kirkja í Felli var reist 1881-1882. Þekktastur presta í Felli er Hálfdan Narfason, sem sagður var rammgöldróttur. Hann dó í Felli 1568 og hafði þá verið mjög lengi prestur þar. Seinna voru feðgarnir Erlendur Guðmundsson (d. 1641) og Guðmundur Erlendsson (um 1595–1670) prestar í Felli samfleytt í rúm 80 ár, frá 1585-1668. Mjög mikið er varðveitt af kvæðum eftir Guðmund, bæði sálmar og annar andlegur kveðskapur, söguleg kvæði, erfiljóð og fleira. Ólafur Davíðsson þjóðsagnasafnari fæddist í Felli 1863. Hrolleifsdalur. Hrolleifsdalur er dalur sem liggur til suðausturs inn í Tröllaskagafjallgarðinn upp frá Sléttuhlíð við austanverðan Skagafjörð. Dalurinn er sagður kenndur við Hrolleif landnámsmann. Fáeinir bæir voru í Hrolleifsdal en þeir eru nú allir komnir í eyði. Hrolleifsdalsá rennur um dalinn og síðan til sjávar í sunnanverðri Sléttuhlíð. Nokkrar skógarleifar eru í dalnum, þær einu sem finna má í Skagafirði að frátöldum skógarleifum í Vesturdal, og kallast þar Geirmundarhólsskógur. Hann hefur verið friðaður um langt árabil en hefur átt erfitt uppdráttar vegna mikilla snjóþyngsla í dalnum. Nokkur jarðhiti er í Hrolleifsdal og er vatn úr borholu í landi eyðibýlisins Bræðraár nú leitt til Hofsóss. Kvars. Kvars er ein algengasta steindin á Íslandi. Það finnst bæði sem frumsteind þá aðallega í súru storkubergi eða sem síðsteind og þá oftast sem holu- og sprungufylling. Lýsing. "Kvars" er hvítt, mjólkuhvítt eða grálett á litinn. Með glergjláa og bárótt eða óslétt brotsár. Kristallar eru sexstrendir. Útbreiðsla. Finnst í graníti, granófýri og líparíti. Algengt sem holufyllign í þóleiíti og er einnig algeng sem stein í myndbreyttu bergi svo sem gneisi. Notkun. Kvars hefur verið notaður í glergerð og sem slípiefni í sandpappír, fægilög, sápu og steinsteypu. Glimmer. Glimmer eða bíótít er steind sem er gerð úr vatnsblönduðu kalíum-ál-sílikati. Lýsing. Hefur þunna plötulaga kristala. Það er dökkbrúnt eða svart á litinn og hefur skelplötugljáa og eru flögurnar stökkar. Útbreiðsla. Glimmer finnst aðallega í innskotum sem hefur fallið úr kvikuvessum á lokastigi storknunar. Algengustu afbrigðin eru dökkt glimmer (bíótít) og ljóst glimmer (múskóvít) sem eru báðar algengar í myndbreyttu bergi þá aðallega gneisi og gljáflögubergi t.d. graníti. Notkun. Glimmer er góð einangrun og hefur verið notuð í raftæki, rúður og málningu. Stærstu glimmernámur heims eru á Indlandi. Djúpadalsá (Skagafirði). Djúpadalsá eða Dalsá er bergvatnsá í Blönduhlíð í Skagafirði. Hún kemur úr Dalsdal eða Djúpárdal, sem gengur langt inn í Tröllaskagafjallgarðinn til austurs, sunnan við Glóðafeyki, en sunnan við ána heitir dalurinn Akradalur og tilheyrir Stóru-Ökrum. Dalurinn klofnar um Tungufjall og þar rennur Tungufjallsá í Dalsá úr norðaustri. Upptök Dalsár eru í Grænuvötnum, sem eru í um 900 metra hæð. Í dalsmynninu, rétt hjá bænum Djúpadal, rennur Dalsáin í djúpu klettagili en þegar því sleppir taka við víðáttumiklar, þríhyrningslaga eyrar, grýttar ofan til en uppgrónar neðan til, og hefur áin flæmst fram og aftur um eyrarnar og skipt um farveg hvað eftir annað þótt nú haldi varnargarður henni í farvegi syðst á eyrunum, milli bæjanna Syðstu-Grundar og Minni-Akra. Í júlí 1954, þegar stórrigningar gengu yfir Norðurland og skriðuföllin miklu urðu í Norðurárdal og ollu miklum skemmdum á Ytri-Kotum og Fremri-Kotum, stíflaðist áin af skriðuföllum frammi á Dalsdal en braust síðan fram með miklum krafti í ofsaflóði og flæmdist þá víða um eyrarnar og olli skemmdum á gróðri og girðingum. Á Dalsáreyrum var Haugsnesbardagi háður árið 1246 og hefur áin þá runnið mun utar en nú og vígvöllurinn verið sunnan hennar. Frumsteind. Frumsteindir er flokkur steinda sem kristallast úr bergkviku eða falla út úr kvikuvessum um leið og bergið verður til. Síðsteindir verða hins vegar til í bergi löngu eftir að bergið sjálft myndast. Frumsteindir flokkast í kvars, feldspat, pýroxen, ólivín. Einnig eru glimmer og hornblendi en þau finnast í storkubergi þegar vatn er bundið í kristölunum. Andesít. Andesít er ísúr bergtegund og er millistig á milli líparíts og basalts. Lýsing. Er straumflögótt, dulkornótt og dökkt eða svar á litinn. Kísilsýrumagnið er á bilinu 52-67% og eru brotsár óregluleg með hvassar brúnir. Er nánast dílalaust. Grunnmassi er glerkenndur með smásæjum kristöllum. Útbreiðsla. Andesít er gosberg og kemur upp sem hraun og gjóska í eldgosum. Finnst í megineldstöðvum og myndar þykk hraunlög þar sem útbreiðsla er oftast lítil. Hekla hefur oft gosið andesíti og mörg af þeim hraunum sem runnið hafa frá fjallinu á sögulegum tíma eru andesíthraun. Biksteinn. Biksteinn er glekennt líparít með fitugljáa sem hefur orðið til við skjóta storknun. Lýsing. Biksteinn er ummynduð hrafntinna sem hefur tekið vatn í sig og tapað gljáanum, enda töluvert líkur hrafntinnu, en er oftast öðruvísi á litinn: móleitur, grænn, gulur eða rauðleitur, en þó oft svartur. Úbreiðsla. Hann er víða að finna á slóðum megineldstöðva. Biksteinn er t.d. að finna við Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði. Gjall. Gjall glerkennt basalt eða andesít, blöðrótt eða frauðkennt. Það er oftast svart eða rauðleitt á litinn. Uppruni og útbreiðsla. Myndast í hraungígum úr hraunslettum og strókum sem fallið hafa til jarðar umhverfis gígopið. Gjallbingir hlaðast upp mjög hratt og haldast lengi heitir. Rakt heitt loft er andar upp úr þeim valda oxun járnsteinda og rauðum lit. Vikur-og aska myndast í þeytigosum þar sem vatn hefur komist í gosrásina og breyst í gufu.Katla og Grímsvötn hafa spúið basaltösku mest allra íslenskra eldfjalla. Viðvíkursveit. Viðvíkursveit er byggðarlag í Skagafirði austan Héraðsvatna, frá mörkum Akrahrepps við Kyrfisá og út að Kolku og að austan að mynni Hjaltadals, og er þetta sama svæði og Viðvíkurhreppur náði yfir fyrir sameiningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sá hluti sveitarinnar sem er sunnan Gljúfurár kallast Hofsstaðapláss og er oft ekki talinn til Viðvíkursveitar. Ofan (austan) við sveitina er Viðvíkurfjall en fyrir vestan hana eru fyrst Héraðsvötn og svo Lónssandur utan við Austurósinn. Landnámsmaður sveitarinnar hét Öndóttur og bjó hann í Viðvík, austast í sveitinni. Niður með Kolku og út að Kolkuósi kallast Brimnes og þar voru áður Brimnesskógar, sem nefndir eru í Landnámu, en er nú blásin holt. Nú hefur hópur áhugafólks tekið sig saman um að endurheimta Brimnesskóga með því að nota eingöngu fræ frá þeim litlu skógarleifum sem enn eru í Skagafirði og hafa vaxið þar frá landnámsöld, aðallega í Geirmundarhólsskógi í Hrolleifsdal. Tvær smáeyjar eru fyrir landi, Lundey og Elínarhólmi. Hofstaðapláss. Hofstaðapláss eða Hofstaðabyggð er byggðarlag í austanverðum Skagafirði, kennt við kirkjustaðinn Hofstaði. Það tilheyrði Viðvíkurhreppi á meðan hann var til og er oft talið hluti af Viðvíkursveit. Hofstaðapláss tekur við af Blönduhlíð (eða Brekknaplássi) við Kyrfisá, á milli Ytri-Brekkna og Svaðastaða, og nær út að Gljúfurá. Að vestan nær sveitin nær sveitin niður að Héraðsvötnum og þar eru bæirnir Syðri- og Ytri-Hofdalir neðan þjóðvegarins. Fyrir ofan veginn eru Svaðastaðir syðst en þaðan er frægt hrossakyn. Utar eru Hofsstaðir, þar sem sagt er að landnámsmaðurinn Kollsveinn rammi hafi haft hof sitt, og þar fyrir utan er Hofstaðasel, sem þrátt fyrir selsnafnið þótti góð jörð og var einu sinni sýslumannssetur. Brekknapláss. Brekknapláss er ysti hluti Blönduhlíðar í Skagafirði, frá Þverá út að Kyrfisá. Þar eru nokkrir bæir. Syðst er Þverá, fæðingarstaður séra Jóns Steingrímssonar eldprests. Nokkru utar eru Syðri-Brekkur. Þaðan var Hermann Jónasson forsætisráðherra, faðir Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra, og er minnisvarði um hann þar. Viðvík. Viðvík er bær í Viðvíkursveit í austanverðum Skagafirði, fremst í mynni Hjaltadals, sunnan Hjaltadalsár, og höfuðból sveitarinnar frá fornu fari. Þar hefur verið kirkjustaður um langan aldur; kirkju er fyrst getið þar 1189 og þá var Guðmundur góði heimilisprestur í Viðvík. Prestssetur var þar um tíma en nú er kirkjunni þjónað frá Hólum. Núverandi kirkja var byggð 1886 en turninn 1893. Viðvík er landnámsjörð Öndótts, sem nam Viðvíkursveit en seinna bjó þar Þorbjörn öngull, banamaður Grettis sterka. Eftir því sem segir í Grettis sögu flutti Þorbjörn höfuð Grettis heim til sín í Viðvík og geymdi það þar í salti um veturinn í útibúri, sem síðan kallaðist Grettisbúr. Á Sturlungaöld bjó Þorgils skarði Böðvarsson í Viðvík um tíma og er jarðarinnar oft getið í Sturlungu. Þar segir meðal annars frá fjörugu samkvæmislífi þar árið 1255: „Í Viðvík var gleði mikil og gott að vera, leikar og fjölmenni mikið. Það var einn Dróttinsdag, að þar var dans mikill, kom þar til fjöldi manna. Hámundur prestur frá Hólum hafði sungið á Miklabæ í Óslandshlíð um daginn; og ríður hann í Viðvík til dans, og var þar að leik, og dáðu menn mjög dans hans. En er hann kom til Hóla rak [Heinrekur] biskup hann úr kirkju með hrakningum og vildi eigi sjá hann. En er Þorgils vissi það, bauð hann presti til sín. En er Hámundur prestur birti það fyrir vinum sínum, þá tók biskup hann í sætt fyrir bæn manna; en hann var við hann aldrei jafn-vel sem áður.“ Seldalur. Seldalur í Norðfjarðarsveit. Hólafjall er ofan bæjar. Hengifoss í Hengifossá fellur úr Oddsdal niður í Seldal. Hátún í bak. Seldalur er dalur og samnefndur bær í Norðfirði og tilheyrir Fjarðabyggð. Seldalur er einn þriggja dala sem ganga inn úr Norðfjarðarsveit. Syðstur er Oddsdalur, þá Seldalur og nyrstur er Fannardalur. Dalir þessir eru kjarri vaxnir og vel fallnir til útivistar. Há fjöll girða Seldal, sunnan hans eru Hátún (747 m) og Svartafjall (1021 m) en að norðan rís Hólafjall (1001 m) og Hólafjallseyra. Fyrir botni dalsins í vestri er klettóttur fjallshryggur, lægst er Lambeyrarskarð, um það liggur gamall fjallvegur til Eskifjarðar. Seldalur er fremur stuttur og eftir honum rennur Selá með mörgum fallegum fossum. Bæjarfoss er niður af Seldalsbænum, ofar eru Melshornafoss og Víðimýrafoss. Aðrir fossar eru Gvendarfoss og Réttarfoss sem er við skilarétt Norðfirðinga. Réttin nefndist Dalarétt og var notuð fram yfir 1960. Hengifossá fellur úr Oddsdal niður í Seldal í háum fossi, Hengifossi. Á mótum Hengifossár og Seldalsár er allmikil frístundabyggð. Ein bújörð var í dalnum, Seldalur. Þar var fyrst byggt um miðja 19. öld. Þar var stundaður hefðbundinn búskapur fram yfir 1990. Jörðin er í eigu Seldælinga. Seldalsbærinn liggur í um 150 m hæð yfir sjávarmáli. Í Seldal er sums staðar skriðu- og snjóflóðahætta. 1917 féll snjóflóð á fjárhús. 12. nóvember 1968 féllu tvær skriður og eyðilögðu tún, girðingar og skurði. Kúrdíska. Kúrdíska (kúrdíska: "Kurdî" eða كوردی) er tungumál talað af Kúrdum í Vestur-Asíu. Hún er ólík mörgum öðrum tungumálum úr því að hún er ekki stöðluð og er ekki opinber tungumál lands, það er að segja kúrdíska samanstendur af mörgum náskyldum mállýskum sem eru talaðar á stóru svæði sem spannar nokkur þjóðríki og myndar nokkra svæðisbundna staðla (t.d. kúrmanji í Tyrklandi og sorani í Norður-Íraki). Í dag er orðið „kúrdíska“ notað til að lýsa nokkrum tungumálum sem töluð eru af Kúrdum, aðallega í Íran, Írak, Sýrlandi og Tyrklandi. Kúrdíska tilheyrir norðvestur-írönsk tungumálum sem flokkast síðan til indóíranskar málaættar í indóevrópskri málaættinni. Náskyldustu málin eru balochi, gileki og talysh sem eru öll í norðvestur-írönsku málaættinni. Pasdú. Pasdú er íranskt mál talað af 11 milljónum manna í Pakistan og 8 milljónum í Afganistan. Það er ritað með arabísku letri. Kúí. Kúí er dravídamál á Norðaustur-Indlandi sem á 600 þúsund mælendur. Það á í vök að verjast fyrir oríja sem umlykur kúí-svæðið eins og haf umlykur eyju. Oxford Circus. Oxford Circus eru gatnamót í West End í London, þar sem Oxford Street og Regent Street mætast. Oxford Circus-neðanjarðarlestarstöðin er undir gatnamótunum. Gatnamótin voru byggð upp í byrjun 19. aldar og hönnuð af John Nash. Gatnamótunum var breytt árið 2009 í X-gatnamót eins og í Shibuya í Tókýó, þannig að vegfarendur geta gengið á ská yfir gatnamótin. Nýju gatnamótin voru opnuð í byrjun nóvember. Helstu verslanir við Oxford Circus eru Nike Town, H&M, Topshop/Topman, United Colors of Benetton og Tezenis. Minjasafn um tónskáldið Georg Friedrich Händel er þar rétt hjá. Gerhard Domagk. Gerhard Johannes Paul Domagk (fæddur 30. október 1895, dáinn 24. apríl 1964) var þýskur örverufræðingur sem þekktastur er fyrir að hafa uppgötvað fyrsta súlfalyfið, en svo nefnast súlfonamíð sýklalyf sem notuð voru áður en beta-laktam sýklalyf komu á markað. Fyrir uppgötvun sína var honum úthlutað Nóbelsverðlaununum í læknis- og lífeðlisfræði árið 1939. Stjórnvöld nasista í Þýskalandi meinuðu honum þó að veita verðlaununum viðtöku. West End (London). West End er hverfi í Mið-London á Englandi. Innan þess eru margir ferðamannastaðir borgarinnar, höfuðstöðvar ýmisa fyrirtækja og verslana og West End-leikhúsin. Farið var að nota nafnið undir lok 19. aldarinnar um svæðið vestan Charing Cross. Í West End er stærsta verslunarhverfi í Evrópu og þar er fjöldi veitingahúsa, hótela, bara og næturklúbba. West End-svæðið er vestan við það svæði sem borgin náði yfir á tímum Rómverja og á miðöldum. Svæðið varð vinsælt hjá yfirstéttunum af því að vegna ríkjandi vindátta lagði reyk frá borginni sjaldan þangað. Það var líka nærri konungshöllinni og síðar þinghúsinu í Westminster. West End er að mestu innan Westminsterborgar (sem er einn af 32 borgarhlutum í London). Svæðið byggðist upp á 17., 18. og 19. öld og þar voru byggðar hallir, dýr raðhús, tískuverslanir og skemmtistaðir. Á svæðunum næst City of London: Holborn, Seven Dials og Covent Garden, bjuggu aðallega fátæklingar, en á 19. öldinni voru þessi svæði enduruppbyggð. Heitið West End er notað bæði um skemmtistaðina og leikhúsin umhverfis Leicester Square og Covent Garden, verslunarhverfið sem er umhverfis Oxford Street, Regent Street og Bond Street og um þann hluta Mið-London sem liggur vestan við City. Sýklafræði. Sýklafræði er sú grein örverufræðanna sem snýst um rannsóknir á sýklum, meinvirkni þeirra og faraldsfræði. Þorkell vingnir Skíðason. Þorkell vingnir Skíðason var landnámsmaður í Skagafirði og Húnaþingi því að landnám hans náði yfir sýslumörkin. Hann nam land á Vatnsskarði, en byggðin þar, sem telur aðeins örfáa bæi, kallast á Skörðum, og síðan Svartárdal og var því meginhluti landnáms hans í Húnaþingi. Ekki er þó víst hvort hann nam allan Svartárdal eða aðeins austan Svartár. Óvíst er hvoru megin sýslumarka Þorkell bjó og þar með hvort hann skuli teljast með húnvetnskum eða skagfirskum landnámsmönnum. Leicester Square. Leicester Square (borið fram) er torg eingöngu fyrir fótgangendur í West End í London, á Englandi. Torgið liggur í Westminsterborg vestan við Charing Cross Road, norðan Trafalgar Square og austan við Piccadilly Circus. Nú á dögum er svæðið umkringt af kvikmyndahúsum, veitingahúsum, kráum, næturklúbbum og er yfirleitt mjög fjölsótt, sérstaklega um helgar. Leicester Square er miðpunktur kvikmyndahúsanna í London og það er eitt götumerki á torginu með nafninu „Theatreland“. Talið er að kvikmyndahúsið með flestum sætum (yfir 1600) og stærsta tjaldið sé við torgið. Torgið er aðalstaðurinn í London þar sem stórar frumsýningar eiga sér stað. London Film Festival er haldin árlega á torginu. Í miðju torgsins liggur lítill garður þar sem er stytta frá 19. öldinni af William Shakespeare, umlukin af höfrungum. Á hverju horni garðsins er brjóstmynd, þessar brjóstmyndir sýna vísindamanninn Isaac Newton; Joshua Reynolds, fyrsta forseta Royal Academy; skurðlækninn John Hunter og málarann William Hogarth. Piccadilly Circus. Piccadilly Circus er fræg gatnamót og torg í West End í Westminsterborg í London. Gatnamótin voru lögð árið 1819 til þess að tengja Regent Street við stóru verslunargötuna Piccadilly. Orðið "circus", sem er úr latínu og þýðir "hringur", táknar hér hringlaga torg á gatnamótum. Í dag tengist Piccadilly Circus við Shaftesbury Avenue, The Haymarket, Coventry Street (og síðan Leicester Square) og Glasshouse Street. Gatnamótin eru nærri helstu verslunar- og skemmtistöðum í miðju West End-hverfinu. Á Piccadilly Circus mætast mikilvægar samgönguæðar og það hefur orðið að ferðamanna- og samkomustað þar sem alltaf er margt um manninn. Það er alltaf mikil umferð um götur sem liggja að Piccadilly Circus og gangandi vegfarendur eru fjölmargir. Piccadilly Circus er þekkt fyrir stór neonljósaskilti á húsinu norðan við gatnamótin, Shaftesbury-minnisgosbrunninn og styttu af bogamanni sem flestir þekkja sem "Eros" (raunverulega "Anteros"). Gatnamótin eru umkringd nokkrum byggingum. Þær merkustu eru London Pavilion og Criterion Theatre. Piccadilly Circus-neðanjarðarlestarstöðin er beint undir gatnamótunum. Hólmgöngu-Máni. Hólmgöngu-Máni var landnámsmaður í Húnaþingi og Skagafirði og nam ysta hluta Skagans. Að vestanverðu náði landnám hans frá Fossá á utanverðri Skagaströnd, spölkorn sunnan við Kálfshamarsvík, en óljóst er hvar mörkin voru að austan því að örnefnið Mánaþúfa, sem Landnáma miðar við, er nú týnt. Landnámsjörð hans var Mánavík, yst á Skaga, Húnavatnssýslumegin við sýslumörkin. Gönguskörð. Gönguskörð eru byggðarlag og dalur í vestanverðum Skagafirði, rétt norðan og vestan við Sauðárkrók, inn á milli Molduxa að sunnan og Tindastóls að norðan. Þegar komið er skammt inn í Gönguskörðin klofna þau í þrjár álmur. Sú syðsta liggur suður í Víðidal á Staðarfjöllum, sú í miðið liggur til suðvesturs og heitir þar Kálfárdalur en sú þriðja og breiðasta liggur norður með Tindastóli. Gönguskarðsá rennur um skörðin og safnar í sig mörgum smærri ám. Nokkrir bæir eru enn í Gönguskörðum en margir eru komnir í eyði. Í dalsmynninu norðanverðu, undir Tindastóli, er bærinn Skarð, sem líklega hét áður Gönguskarð. Við hann var Skarðshreppur kenndur. Skíðaland Sauðárkróksbúa er í Tindastóli og margar vinsælar gönguleiðir eru á þessu svæði. Gönguskarðsá. Gönguskarðsá er bergvatnsá í Skagafirði sem rennur til sjávar í Gönguskarðsárósi rétt norðan við Sauðárkrók. Hún kemur úr Gönguskörðum og er dragá sem safnar í sig vatni úr mörgum smærri ám, bæði ofan úr Tindastóli og Molduxa og fjallendinu þar á milli. Hún er straumhörð og erfið yfirferðar í vatnavöxtum og hefur verið mjög mannskæð; sagt er að nærri tuttugu manns hafi drukknað þar. Einn þeirra var Guðmundur, faðir söngvarans Stefáns Íslandi, sem drukknaði í ánni vorið 1917. Í Landnámu er sagt frá því að sumir landnámsmanna hafi lent skipum sínum í Gönguskarðsárósi en þar hefur engin lending verið í margar aldir. Áin hefur nú verið brúuð niðri við ósinn en eldri brú var nokkru ofar. Gönguskarðsá var virkjuð á árunum 1947-1949 og vatn leitt úr litlu lóni ofan við Sauðárkrók og að aflstöð nyrst í bænum. Á miðri pípunni er jöfnunarturn (þrýstivatnsturn) úr steinsteypu, hinn fyrsti á landinu. Vorið 2007 gaf aðveitupípa Gönguskarðsárvirkjunar sig og varð mikið tjón þegar aur og vatn flæddu inn í hús í kaupstaðnum. Reykjaströnd. Séð yfir Skagafjörð til Reykjastrandar og Tindastóls. Reykjaströnd er byggðarlag í Skagafirði vestanverðum, undir Tindastól. Reykjaströnd hefst við Gönguskarðsárós og liggur norður með endilöngu fjallinu út á svokallaðan Landsenda. Undirlendið er ekki breitt en víða vel gróið og þarna eru þó allnokkrir bæir. Þekktastir þeirra eru Fagranes, sem lengi var kirkjustaður og prestssetur, og ysti bærinn, Reykir, sem ströndin er kennd við. Þar er Grettislaug. Á Reykjum er lítil höfn og þaðan er farið í siglingar til Drangeyjar. Þaðan var áður nokkurt útræði. Reyknesingar höfðu áður töluverðar nytjar af Drangey og einnig voru þar nokkur hlunnindi af reka. Áður var unnt að komast af Reykjaströnd norður fyrir Tindastól til Sævarlands á Laxárdal á stórstraumsfjöru um Fjöruveg, sem svo var kallaður, en hann er nú ófær. Einnig mátti komast um Tæpugötu uppi í fjallinu en hún er þó illfær og háskaleg. Sunnan við sveitina var svo Gönguskarðsá, sem var oft ófær og var talin hættulegasta á sýslunnar. Reykstrendingar ferðuðust því mikið á sjó þegar þeir þurftu að bregða sér af bæ. Borgarsveit. Borgarsveit er byggðarlag í Skagafirði, inn af fjarðarbotninum vestanverðum, og nær frá vesturósi Héraðsvatna að Sauðárkróki og suður fyrir bæinn Gil, en þar tekur Staðarsveit við. Út við sjóinn er sandflæmi sem kallast Borgarsandur og er nú gróið upp að miklu leyti. Þar er flugvöllur Sauðárkróks, Alexandersflugvöllur. Sveitin er kennd við kirkjustaðinn Sjávarborg, sem stendur á klettaborg á miðju flatlendinu upp af Borgarsandi. Vestan við hana er stöðuvatn, Áshildarholtsvatn, og við enda þess er heit uppspretta þar sem Hitaveita Sauðárkróks fær orku sína. Fjallið fyrir ofan sveitina heitir Molduxi. Borgarsveit tilheyrði áður Skarðshreppi en er nú hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði. Loðinn leppur. Loðinn leppur (d. 1288) (norska: "Loden Lepp") var norskur hirðmaður og sendimaður Noregskonungs. Hann kom til Íslands árið 1280 ásamt Jóni Einarssyni og höfðu þeir með sér nýja lögbók, sem síðan hefur verið kennd við Jón og kölluð Jónsbók, og vildu fá hana lögtekna. Magnús lagabætir hafði látið gera bókina en hann dó raunar vorið 1280 og þeir Jón og Loðinn komu því í umboði Eiríks sonar hans. Þeir ferðuðust um landið með bókina en um veturinn var Loðinn á Seltjarnarnesi og veitti allstórmannlega að sögn. Íslendingar fengu að kynna sér bókina um veturinn og virðist ekki alls kostar hafa líkað það sem þeir lásu, þótti konungsvaldið fullfyrirferðarmikið í hinum nýju lögum og refsingar of harðar, og Árna biskupi og klerkavaldinu þótti hlutur kirkjunnar ekki nógu góður. Þegar samþykkt bókarinnar var tekin fyrir á Alþingi 1281 voru því margar mótbárur gegn henni og Íslendingar neituðu að samþykkja hana nema með ýmsum breytingum. Loðinn leppur brást hart við, varð „mjög heitur at búkarlar skyldu gera sig svá digra at þeir vildu skipa lögum“. Hann kvað konunung hafa rétt á að setja hér lög og Alþingi mætti ekki setja sig á móti vilja hans; þingheimur skyldi samþykkja alla bókina en svo mætti gera athugasemdir seinna og reyna að ná fram breytingum. Þetta sjónarmið hlaut engan hljómgrunn, hvorki hjá leikmönnum né Árna biskupi, og Íslendingar kváðust „eigi mundu tapa svá frelsi landsins“. Þá breytti Loðinn um aðferð og reyndi að sundra samstöðu Íslendinga, meðal annars með þvi að gagnrýna íslensku tíundina og kvað hana okur, en hér var tekin tíund af dauðum hlutum (eignarskattur), sem ekki var gert annars staðar, þar var tíundin tekjuskattur. „Þér biskuparnir heimtið tíund af sylgjum ok silfurbeltum, koppum ok kirnum ok öðru dauðu fé, ok undra ek mik, hví landsbýit þolir yðr slíkar óhæfur, ok gerid eigi norræna tíund at eins, þá sem gengur um allan heiminn ok einsaman er rétt ok lögtekin,“ er haft eftir Loðni í Árna sögu biskups. Biskupinn mótmælti þessu og sagði að páfi hefði sagt að tíundin ynni engri sálu tjón. Á endanum náðist málamiðlun og Jónsbók var samþykkt með lófataki að undanskildum fáeinum köflum sem ákveðið var að vísa til konungs og erkibiskups og reyna að fá fram breytingar, en hvaða kaflar þetta voru eða hvernig tilraunir til breytinga gengu er ekki vitað. Réttarbætur komu þó fram nokkrum sinnum á næstu áratugum. Loðinn hafði ferðast víða á vegum Magnúsar lagabætis og Hákonar gamla, fylgdi meðal annars Kristínu dóttur Hákonar til Spánar þegar hún var send þangað 1258 til að giftast Filippusi Kastilíuprinsi og var seinna sendur til Túnis og Egyptalands í erindum konungs. „Þessi Loðinn hafdi verid nokkrum sinnum med sendingum Magnúss konungs til ýmissa landa ok svá út í Babiloniam; var hann af þessu frægr mjök,“ stendur í Árna sögu biskups. Loðinn leppur dó 1288. Loðinn hefur fengið ill eftirmæli á Íslandi og er oft gripið til nafns hans þegar rætt er um útlendinga sem þykja sýna Íslendingum yfirgang eða reyna að þvinga þá til að samþykkja eitthvað óhagstætt. Paul Ehrlich. Paul Ehrlich (fæddur 14. mars 1854, dáinn 20. ágúst 1915) var þýskur læknir og örverufræðingur. Hann stundaðir rannsóknir á ýmsum sviðum heilbrigðisvísinda, einkum sýklafræði og lyfjafræði. Hann er þekktastur fyrir að hafa ásamt Sahachiro Hata uppgötvað fyrsta sértæka sýklalyfið, salvarsan, en það drepur sárasóttarbakteríuna. Hann er einnig þekktur fyrir rannsóknir sínar á sjálfsofnæmi og er einn af upphafsmönnum lyfjameðferðar gegn krabbameini. Ásamt Emil von Behring vann hann að þróun bóluefnis gegn barnaveiki. Hann deildi nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði árið 1908 með Ilja Métsjníkoff. Ævi og störfum Ehrlichs voru gerð skil í kvikmyndinni "Dr. Ehrlich’s Magic Bullet" frá 1940. Edward G. Robinson fór með hlutverk hans í myndinni. Lennart Torstenson. Lennart Torstenson (ritaði sjálfur "Linnardt Torstenson"; 17. ágúst 1603 – 7. apríl 1651) greifi af Ortala var einn af frægustu herforingjum Svía í Þrjátíu ára stríðinu. Foreldrar hans hröktust í útlegð við valdatöku Karls hertoga og Torstenson var alinn upp hjá skyldmennum. Fimmtán ára varð hann herbergisþjónn Gústafs 2. Adolfs og fylgdi honum á herförum hans. 1626 var hann merkisberi í sænska hernum og tók þátt í orrustunni við Wallhof. 1628 varð hann yfirliðþjálfi í herdeild Gustavs Horn og fékk sína eigin herdeild 1629. Hann varð ofursti 1630 og settur yfir stórskotalið sem var lykilþáttur í herförum Svía í Þýskalandi. 1632 var hann síðan skipaður „hershöfðingi stórskotaliðsins“ en sama ár var hann tekinn til fanga. Hann var í haldi í Ingolstadt en sleppt við fangaskipti ári síðar. 1634 var hann skipaður „ríkisbirgðameistari“ með ábyrgð á birgðaflutningum til herdeildanna. Þegar Johan Banér lést var Torstenson skipaður í hans stað. 1641 varð hann því yfirhershöfðingi sænsku herjanna í Þýskalandi og landstjóri í Sænsku Pommern. Sjálfur var hann mótfallinn því að taka við stöðunni þar sem hann þjáðist af veikindum eftir fangavistina og gat því illa setið hest auk þess sem sænski herinn var á þeim tíma mest skipaður málaliðum sem voru erfiðir viðfangs. Þrátt fyrir það leiddi hann vel heppnaða herför í gegnum Brandenburg og Silesíu inn í Mæri þar sem herinn tók borgina Olmütz. Í annarri orrustunni við Breitenfeld 23. október 1643 gersigraði hann her keisarans en skömmu eftir það var honum skipað að ráðast með allan herinn inn á Jótland í stríði sem síðan hefur verið kennt við hann. Hraði herfararinnar kom Dönum algerlega í opna skjöldu og þeir komu engum vörnum við. Deild úr her keisarans undir stjórn Matthias Gallas reyndi að loka hann inni á Jótlandi en tókst það ekki og Torstenson hélt sama ár í aðra herför gegnum Þýskaland og vann afgerandi sigur á keisarahernum í orrustunni við Jankov í Bæheimi. Þar stöðvaðist herförin vegna sjúkdóma og hann hélt aftur til Saxlands með herinn. 1646 lét hann af stjórn hersins vegna krankleika og Carl Gustaf Wrangel tók við. Kristín Svíadrottning heiðraði hann við heimkomuna og 1647 var hann gerður að fríherra yfir Virestad og greifa yfir Ortala. Frá 1648 til 1651 var Torstenson landstjóri yfir landamærahéruðunum Vestur-Gautlöndum, Dalslandi, Vermalandi og Hallandi. Konkaní. Konkaní er indóarískt tungumál. Mælendafjöldi er um tvær milljónir. Málsvæðið er Góa á Suðvestur-Indlandi við Arabíuflóa. Það er ritað með latínustafrófi og devanagarí-stafrófi. Spænska heimsveldið. Kort sem sýnir öll þau lönd sem hafa á einhverjum tíma verið hluti af Spænska heimsveldinu. Spænska heimsveldið var fyrsta heimsveldi sögunnar og eitt af þeim stærstu. Það náði yfir nýlendur og yfirráðasvæði Spánar í sex heimsálfum og stóð frá 15. öld til síðari hluta 20. aldar. Upphaf. Upphaf Spænska heimsveldisins má rekja til hjónabands Ferdinands og Ísabellu árið 1469 en við það sameinuðust öll lönd Kastilíu og Aragón í eitt ríki. Kastilía hafði áður lagt Kanaríeyjar undir sig og Aragón tilheyrðu meðal annars Sardinía og Suður-Ítalía. 1492 hélt Kristófer Kólumbus síðan til Vestur-Indía sem hann lagði undir Spán. Páfi staðfesti tilkall Spánar með páfabullunni "Inter caetera" árið 1493 og með Tordesillas-sáttmálanum 1494 var heiminum utan Evrópu skipt í áhrifasvæði Portúgala og Spánar. Þegar Karl 1. Spánarkonungur varð jafnframt keisari yfir hinu Heilaga rómverska ríki árið 1519 var sagt að sólin settist aldrei í ríki hans. 1580 gengu Spánn og Portúgal síðan í konungssamband og heimsveldið náði hápunkti sínum. Spánverjar áttu þá atvinnuher sem talinn var nánast ósigrandi. Hnignun heimsveldisins. 1640 klauf Portúgal sig frá Spáni og 1643 beið spænski herinn ósigur fyrir þeim franska í orrustunni við Rocroi. Ósigurinn er gjarnan látinn marka endalok spænsku gullaldarinnar. 1648 viðurkenndu Spánverjar svo sjálfstæði Hollands sem hafði í reynd staðið frá 1581. Spænska heimsveldinu tók að hnigna hratt og með Spænska erfðastríðinu misstu þeir öll völd í Evrópu utan Íberíuskagans. Hið mikla nýlenduveldi Spánar utan Evrópu átti þó blómaskeið á 18. öld þótt oft kæmi til átaka við Breska heimsveldið. Napóleonsstyrjaldirnar mörkuðu upphafið að endalokunum fyrir þetta nýlenduveldi. Spænski flotinn eyðilagðist að stórum hluta í orrustunni við Trafalgar 1805 og 1806 hófst sjálfstæðisbarátta nýlendnanna í Rómönsku Ameríku sem leiddi til missis nánast allra nýlendnanna í Nýja heiminum, nema Kúbu og Púertó Ríkó, um 1826. Eftir ósigur í stríði Spánar og Bandaríkjanna 1898 misstu Spánverjar síðustu nýlendur sínar í Ameríku, Asíu og Eyjaálfu. Afríka. Í Afríku átti Spánn fáar nýlendur utan Kanaríeyja og Miðbaugs-Gíneu (sem þeir fengu frá Portúgal í skiptum fyrir stærstan hluta þess lands sem nú er Brasilía), en á 19. öld hófu Spánverjar að auka áhrif sín í Norður-Afríku. 1848 lögðu þeir Islas Cafharinas við strönd Marokkó undir sig og 1884 fengu þeir viðurkennt forræði yfir Vestur-Sahara. 1911 skiptu Spánn og Frakkland Marokkó á milli sín. Þegar Franska Marokkó fékk sjálfstæði 1956 létu Spánverjar Spænsku Marokkó eftir við hið nýja ríki en héldu samt borginni Sidi Ifni og Vestur-Sahara. Eftir þrýsting frá alþjóðasamfélaginu veittu Spánverjar Miðbaugs-Gíneu sjálfstæði 1968 og létu Marokkó Sidi Ifni eftir 1969. 1975 hurfu þeir frá Vestur-Sahara en staða þess svæðis er enn umdeild. Eftir standa eyjarnar og borgirnar Ceuta og Melilla á norðurströnd Marokkó sem Marokkó gerir tilkall til. Áhrif. Áhrif Spænska heimsveldisins voru meðal annars þau að spænska er töluð í flestum löndum Rómönsku Ameríku og Spænsku Austur-Indíum og rómversk-kaþólska er ríkjandi trúarbrögð í þessum löndum. Hljómsveitin XIII. Hljómsveitin XIII eða "þrettán" var stofnuð snemma árs 1993. Upphaflegir meðlimir voru Hallur Ingólfsson (söngur, gítar og trommur), Eiríkur Sigurðsson (gítar) og Guðmundur Þórir Sigurðsson (bassi). Þeir félagar höfðu allir verið saman í hljómsveitinni Bleeding Volcano sem gaf út einn geisladisk, "Damcrack", árið 1992. XIII fór í stúdíó um páskana 1993 og tók upp demó sem þeir gáfu út á kassettu sem bar nafnið "Fruits". XIII var iðin við að spila á tónleikum en enginn trommuleikari var ráðinn í sveitina heldur var notast við upptökur af trommuleik Halls á tónleikum. Eitt lag af "Fruits", lagið „Thirteen“ fór á safnplötuna "Íslensk tónlist 1993" og hlaut talsverða útvarpsspilun. Árni Matthíasson sagði í plötudómi sínum að þetta væri besta lag plötunnar. Salt. XIII hóf upptökur á sinni fyrstu breiðskífu "Salt" um veturinn 1993 en Guðmundur hafði þá sagt skilið við þá félaga. XIII náði samningi um útgáfu Salt við Spor. Jón Ingi Þorvaldsson var ráðinn bassaleikari sveitarinnar og Salt kom út árið 1994. Salt þótti þung og menn fóru mikinn í gagnrýni í fjölmiðlum. Salt seldist hins vegar ágætlega og er fyrir löngu orðin ófáanleg. Salt fékk góða umfjöllun í erlendum tónlistartímaritum en var ekki fylgt eftir með tónleikum. Einnig birtust nokkur viðtöl við sveitina í rokktímaritum erlendis. Tónlist XIII var oftast skilgreind sem „New Wave/Goth“. Serpentyne. Í ársbyrjun 1995 hætti Eiríkur í XIII og við gítarnum tók Gísli Már Sigurjónsson. Upptökur á annarri breiðskífu XIII, "Serpentyne", hófust um sumarið og kom hún út árið 1995. Þótt yfirbragð "Serpentyne" væri ekki eins myrkt og á "Salt" var hún síst aðgengilegri. Flóknar útsetningar og miklar pælingar í gangi. XIII hafði ákveðið að segja poppaðri endurtekningu stríð á hendur og þó um sé að ræða vers og viðlög, þá eru útsetningarnar breyttar þegar kaflarnir koma fyrir næst. Umslag "Serpentyne" þótti mjög vandað og supu stjórnendur Spor kveljur þegar þeir fengu reikninginn. Birgir Jónsson var nú genginn til liðs við XIII sem trommuleikari sveitarinnar og gerði það XIII að enn kröftugri tónleikasveit. Mikið var spilað og nú skyldi fara erlendis og vinna lönd. Nýjir samstarfsaðilar voru með Spor fyrir dreifingu erlendis. Þetta gafst mun betur og fór talsverð kynning fram í kringum útgáfu "Serpentyne" í Evrópu árið 1996. Einhver þreyta var þó komin í samstarfið og þar sem tónleikaferðirnar létu á sér standa leystist sveitin eiginlega upp sem hljómsveit um haustið 1996. Lok samstarfsins við Spor. Hallur Ingólfsson, forsprakki hljómsveitarinnar, reyndi þó að halda boltanum á lofti varðandi útgáfur erlendis. Samstarfinu við Spor var formlega slitið og Hallur fór á stúfana til þess að reyna að ná samningum beint við erlend útgáfufyrirtæki. Um haustið 1997 bauðst XIII að fara í tónleikaferð um Þýskaland á vegum Semaphore. Þá var hóað saman tiltækum mönnum. Birgir Jónsson sat við trommurnar, Sigurður Geirdal lék á bassa og upptökumaður XIII, Ingvar Jónsson lék á hljómborð. XIII lék á 15 tónleikum víðsvegar um Þýskaland ásamt hljómsveitunum Sieges Even og Avalon. Tónleikadómar í þýsku rokkpressunni um XIII voru afbragðsgóðir. Einn þeirra tók meira að segja svo stórt upp í sig að kalla XIII „best geymda leyndarmál rokksins“. Eftir tónleikaferðina héldu þeir félagar hver í sína áttina. Þarna urðu kaflaskil. Sambandið við Semaphore fjaraði út og útgáfubransinn dróst sífellt saman þar sem hann varð stöðugt verr fyrir barðinu á ólöglegu niðurhali. Halli tóks þó að lenda samningi við frönsku útgáfuna 13bis sem var þá orðin stærsta sjálfstæða útgáfa Frakklands. Magnifico Nova. Talsverð stefnubreyting hafði orðið í tónlistinni og var stafsetningu „XIII“ breytt í „Thirteen“ en það þótt neytendavænni útfærsla. Undir því nafni kom út breiðskífan "Magnifico Nova" árið 2002. Hallur vann plötuna að öllu leyti einn. Auk hefðbundinna hljóðfæra notaði Hallur töluvert af „rusl-slagverki“ að hætti Einstuerzende Neubauten. Á Íslandi tók Edda útgáfan að sér að dreifa "Magnifico Nova". Nærri má geta að innan við 200 eintök séu til af "Magnifico Nova" á Íslandi. Dómar voru þokkalegir. Arnar Eggert Thoroddssen birti dóm í "Morgunblaðinu" undir fyrirsögninni „Sáttur“. Lagið „Supernatural“ fékk talsverða útvarpsspilun og komst í 7. sæti á vinsældarlista X977. Einir tónleikar voru haldnir á Íslandi af tilefni útgáfu "Magnifico Nova" í mars árið 2002. Þá skipuðu Thirteen auk Halls, Gísli Már Sigurjónsson á gítar, Össur Hafþórsson á bassa, Hannes Heimir Friðbjörnsson á trommur og Jón Örn Arnarson á slagverk. Wintersun. Árið 2003 lauk Hallur við gerð nýrrar breiðskífu fyrir 13bis. Þeir lentu í kjölfarið samstarfi um útgáfu á Thirteen við Edel í Þýskalandi. Talsvert var liðið frá því að Hallur lauk við plötuna og bauð 13bis Halli að gera þær breytingar á plötunni sem hann vildi fyrst að Þjóðverjarnir voru til í að leggja peninga í þetta með þeim. Til að gera langa sögu stutta þá tók Hallur alla plötuna upp aftur. Fékk Axel Flex Árnason til að hljóðblanda og mastera og snemma árs 2004 var diskurinn "Wintersun" tilbúinn. Útgáfan var hins vegar alltaf að frestast. Í janúar 2005 var diskurinn framleiddur og gerður tilbúinn til dreifingar. Babb kom þó í bátinn þar sem dreifingaraðili 13bis, Sony, vildi ekki dreifa titlum sem seljast undir 5000 eintökum í forsölu. Þar strandaði málið og platan hefur því ekki enn komið út. Sumarið 2009 kom hljómsveitin nokkrum sinnum saman á ný í hljóðveri Halls og var þá skipuð þeim Eiríki Sigurðssyni, gítarleikara, Birgi Jónssyni, trommuleikara og Jóni Inga Þorvaldssyni bassaleikara auk Halls. Þótt allir hefðu þeir verið liðsmenn XIII á einhverjum tímapunkti höfðu þeir aldrei leikið saman með þessa liðsskipan. Eftir nokkrar æfingar kom til tals að halda eina tónleika og varð það úr að skipulagðir voru tónleikar ásamt hljómsveitinni Sólstafir og fóru þeir fram laugardaginn 12. september, sem vill til að bar upp á afmælisdag Halls. Norðfjarðarsveit. Norðfjarðarsveit er sveit í Norðfirði. Salt (hljómplata). "Salt" er fyrsta breiðskífa með hljómsveitinni XIII sem kom út árið 1994. Upptökur á plötunni hófust veturinn 1993 og hún var hljóðblönduð í vöruskemmu í Hafnarfirði af Ingvari Jónssyni. Íslenska útgáfufélagið Spor gaf út plötuna á Íslandi og farið var í útrás í útgáfu plötunnar erlendis. Steinar Berg, stjórnandi útgáfufélagsins Spor, lenti útgáfu Salt í Evrópu undir merkjum No Bull Records. No Bull Records var nýstofnaður rokkhluti hins mikla Koch útgáfuveldis sem aðallega hefur gefið út klassíska tónlist. Hafði Steinar á orði að aldrei hefði verið jafn fyrirhafnarlítið að lenda erlendum plötusamningi og fyrir plötuna Salt. Platan seldist ágætlega og er orðin ófáanleg í dag. Litið er á Salt sem safneintak. Námsflokkar Reykjavíkur. Námsflokkar Reykjavíkur er elsta fullorðinsfræðslustofnun landsins stofnuð árið 1939. Forstöðumaður Iðunn Antonsdóttir. Neðri-Ás. Neðri-Ás er bær í Hjaltadal í Skagafirði. Upphaflega hét jörðin Ás en skiptist síðar í tvennt og bærinn Efri-Ás var reistur svolítið innar í dalnum. Neðri-Ás er í dalsmynninu að norðan, undir ásnum sem er á milli Hjaltadals og Kolbeinsdals. Þorvarður Spak-Böðvarsson bjó í Ási seint á 10. öld. Hann gerðist kristinn og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi. Eina heimildin um kirkjubygginguna er að vísu Kristni saga, sem rituð var nærri 300 árum seinna, en við fornleifauppgröft í Neðra-Ási á árunum 1998-1999 var grafinn upp grunnur að kirkju sem örugglega var frá því fyrir 1104 og sennilega frá því um árið 1000. Kirkja hefur því risið í Ási mjög snemma. Í Kristni sögu er sagt að kirkja Þorvarðar, reist úr viði sem fluttur var inn frá Englandi, hafi enn staðið í tíð Bótólfs biskups (1238-1246), en reyndar kom í ljós við uppgröftinn að þrjár kirkjur höfðu verið í Ási og sú síðasta hafði brunnið, líklega um 1300. Einnig voru grafnar upp um 100 grafir í kirkjugarðinum og virtust þær nær allar frá því fyrir 1104. Hugsanlegt er að hætt hafi verið að nota garðinn þegar biskupsstóll var stofnaður á Hólum 1106. Geldingaholt. Geldingaholt er bær í Skagafirði vestan Héraðsvatna og var áður í Seyluhreppi. Bærinn stendur á samnefndri hæðarbungu sem rís upp frá Vallhólminum austan við Langholt, skammt norðan Varmahlíðar. Austan við Geldingaholt rennur Húseyjarkvísl og kallast þar Holtskvísl. Geldingaholt var eitt af stórbýlum Skagafjarðar og þar bjuggu ýmsir höfðingjar fyrr á öldum. Þórður kakali bjó þar um tíma, áður en hann var kallaður út á fund Noregskonungs. Þá setti hann Odd Þórarinsson til forráða en Eyjólfur ofsi Þorsteinsson og Hrafn Oddsson gerðu aðför að honum í janúar 1255 og var Oddur veginn eftir harða vörn. Þegar Gissur Þorvaldsson var kallaður á konungsfund árið 1254 eftir Flugumýrarbrennu setti hann Odd Þórarinsson yfir ríki sitt í Skagfirði og sat Oddur í Geldingaholti. Þeir Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson ásamt harðsnúnu liði úr her Sturlunga fóru að Oddi þá um veturinn og drápu hann. Í Geldingaholti var kirkja til 1765 og var hún helguð Pétri postula. Hólastóll átti Geldingaholt og rak þar bú um margra alda skeið. Langholt. Langholt er byggðarlag í Skagafirði vestan Héraðsvatna og jafnframt langt holt eða ás sem liggur frá Reykjarhóli við Varmahlíð og norður undir Reynistað. Suðurhluti Langholts tilheyrði áður Seyluhreppi en norðurhlutinn Staðarhreppi en nú er hvorttveggja hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði. Þjóðvegurinn frá Varmahlíð til Sauðárkróks liggur um Langholtið. Allmargir bæir eru á Langholti og standa þeir allir austan í holtinu, sem er gróðursælt og þéttbýlt. Sunnarlega á holtinu er Seyla (Stóra-Seyla), sem Seyluhreppur dró nafn af, og skammt þar fyrir utan Ytra-Skörðugil, þar sem fræðaþulurinn Gísli Konráðsson bjó lengi. Á miðju holtinu er kirkjustaðurinn Glaumbær, þar sem nú er Byggðasafn Skagfirðinga. Langholtinu lýkur við Staðará (Sæmundará), sunnan við Reynistað. Súrt berg. Súrt berg eða súrberg er kísilríkt berg, venjulega ljósleitt. Aðalsteindir eru kvars og feldspat en á Íslandi aðallega natríumfeldspat - albít/ólígóklas - en minna um kalífeldspat. Eftir kísilmagni hefur storkuberg verði flokkað gróflega í þrennt Eftir því sem bergkvikan er súrari því seigari er hún og því er súrt hraun mjög þykkt eins og Laugahraun og hrúgast upp sem gúll. Pýroxen. Pýroxen er ein af frumsteindum storkubergs. Lýsing. Pýroxen er flokkur af magnesíum-járn-kalsíum-ál-silikötum. Það er svart eða dökkgrænnt á lit og með strendingslaga kristalla. Útbreiðsla. Pýroxen er aðalfrumsteindin í basalti og gabbrói. Það finnst sem dílar í nokkrum gerðum basalts og ankaramíts. Ágít er algengasta tegundin á Íslandi. Hornblendi. Hornblendi er dökkur langrákóttur frumsteinn í súru og ísúru storkubergi og tilheyrir amfóbólflokki silikata. Lýsing. Hann er með glergljáa og ógegnsær og kristallar eru sexstrendingslaga. Litur svartur. Hornblendi á Íslandi. Hornblendi er mjög fágætt á Íslandi en hefur fundist sem dílar í andesít- eða dasítinnskotum í Breiðdal og Króksfirði. Díórít. Díórít er stórkornótt, ísúrt djúpberg sem líkist andesíti og dasíti að samsetningu. Útbreiðsla. Sjaldgæft hér á landi. Lýsuskarð ofan við Lýsuhól á Snæfellsnesi er innskot úr ísúru bergi sem hugsanlega er díórít. Innskot sem líkist díóríti að grófleika og hefur að geyma hornblendi finnst við Króksfjörð í Austur-Barðarstrandasýslu Granófýr. Granófýr (míkrógranít) er súrt djúpberg. Lýsing. Er smákornótt eða stórkornótt sem líkist líparíti í samsetningu. Litur ljósleitur eða gráleitur. Úbreiðsla. Granófýr hefur storknað í fremur smáum berghleifum og eitlum. Það finnst á sömu stöðum og gabbró, eins og í Eystra- og Vestrahorni á Suðausturlandi og Lýsuhyrnu á Snæfellsnesi. Jaðarlífvera. Jaðarlífvera eða jaðarvera er lífvera sem getur lifað við umhverfisaðstæður sem eru fjandsamlegar eða erfiðar flestum öðrum lífverum á Jörðinni. Flestar jaðarlífverur eru örverur. Ólivínbasalt. Lýsing. Dulkornótt eða fínkornótt, gráleitt þegar það er ferskt grágrýti en dökknar við ummyndun og morknar sundur við veðrun. Ólivín er oft mjög greinilegt. Blöðrur mynda oft rákir frá hraunbotni og upp eftir berginu. Blöðrurákir í berginu geta verið grófkristallað og eru frumsteindirnar auðveldar að sjá með berum augum. Nokkuð er af zeólítum en ekki kvarssteinum. Uppruni og útbreiðsla. Algengt gosberg myndar bæði beltótt og einföld hraun eða hraunlög. Beltunin sést best í dynjuhraunum. Reykjavíkur grágrýtið er ólivínbasalt, einnig finnst það í hömrum Ásbyrgis og í veggjum Almannagjáar. Fornt, smávegis ummyndað ólivínbasalt er meginefni fjallanna beggja vegna Ljósavatnsskarðs og auðrekjanlegar syrpur eru framan í Múlafjalli í Hvalfirði. Ólivínbasalt er talið myndast við hlutbráðnun úr möttulbergi eða við hlutkristöllun úr píkríti uppi í skorpunni. Þóleiít. Þóleiít er blágrýti sem er tegund basalts. Lýsing. Það er dulkornótt og dökkt, oft gráleitt þegar það er ferskt. Vanalega straumflögótt, aðallega miðhlauti hraunlagana. Flögunin kemur fram sem móleitar, flatar rákir í þverkubbuðu hraunstáli. Rákirnar eru blöðróttar og kristallarnir eru stórir en í grunnmassanum. Uppruni og útbreiðsla. Myndar um 50% af hraunlagastaflanum hér á landi. Myndar syrpur af þunnum hraunlögum kringum megineldstöðvarnar, upprunnum í tíðum eldgosum þeirra, eða sem þykk, stök hraunlög, upprunnin í sprungusveimum eldstöðvakerfanna. Þóleitít er talið myndast við hlutkristöllun ólivínbasalt, þ.e. útfellingar krómíts og ólivíns í kvikuþróm innan jarðskorpunnar. Dílabasalt. Lýsing. Í flestum gerðum basalts er að finna díla þ.e. stóra kristalla í dul-eða fínkornóttum grunnmassa. Slíkt basalt nefnist dílabasalt. Algengustu dílarnir eru feldspatdílar, ólivíndílar og pýroxendílar eru einnig algengi. Sé fleiri en ein tegund díla í berginu þá kallast það tví-eða þrídílótt. Ef það er lítið af feldspati en mikið af ólivíni og pýroxeni þá kallast það pikrít eða ankaramít. Talað er um stakdílótt berg ef dílaþéttleikinn er 5% af rúmtaki bergsins. Uppruni og útbreiðsla. Dílabasalt myndar um það bil 10% af basalti hraunstaflans á Íslandi. Það myndar stundum lög og lagasyrpur sem hægt er að rekja langar leiðir og hægt er að nota þau sem „leiðalög“ við jarðfræðikortalagningu. Dílarnir uxu í kvikuhólfinu neðanjarðar og blönduðust kvikunni sem bar þá til yfirborðs í eldgosum. Eru ofast af öðrum uppruna en bergið sem þeir finnast í. Pikrít. Lýsing. Pikrít er basalt með mjög lítið af kísilsýru og morar af grænum ólivíndílum. Grunnmassinn er fínkornóttur, grár eða ljósgrár. Mjög blöðrótt berg. Helstu steindir plagíóklas-feldspat, pýroxen, ólivín og málmsteindir. Dílar af ólivíni mjög áberandi í berginu. Uppruni og útbreiðsla. Pikrít er fágætt gosberg. Tengist þóleiít-bergröðinni. Hefur fundist á Reykjanesskaga þá helst á Háleyjabungu og Lágfelli. Einnig að finnast við suðvesturhluta Miðfells austan Þingvallavatns. Það er frumstætt basaltafbrigði þ.e. líkist frumbráð þeirri sem verðir til í möttlinum. Ankaramít. Lýsing. Dílótt alkalískt basalt með mikið af dökkum steindum. Grunnmass fínn eða smákornóttur. Það er annaðhvort blöðrótt eða þétt. Dílar aðallega pýroxen og ólivín. Uppruni og útbreiðsla. Ankaramít finnst á útbreiðslusvæðum alkalíbasalts í kringum Eyjafjallajökul þá bæði sem hraun og berggangar. Sem gangberg þekktast neðan undir Hvammsmúli. Talið myndast sem hlutbráð úr peridótíti í möttlinum undir hliðargosbeltum. Perlusteinn. Perlusteinn sem hefur þanist út við hitun Perlusteinn er glerkennt afbrigði af líparíti. Lýsing. Perlusteinn er grár, sallakenndur með fitu- og glergljáa. Vanalega dökkar kúlur eða smáeitlar í honum. Brotnar við veðrun og myndar perlulaga kúlur. Vatnsríkur með í kringum >5% vatnsinnihald. Út af vatninu þá þenst hann út þegar hann er hitaður. Perlusteinn og biksteinn eru eldfjallagler eins og hrafntinna. Hrafntinna myndast þar sem eldvirkni er súr. Ef of mikið vatn er bundið í kviku þegar hún kólnar myndast perlusteinn eða biksteinn. Uppruni og útbreiðsla. Finnast aðallega með líparítkviku sem hefur komið upp í vatni eða jökli og storknað áður en vatnið skildist frá. Finnst mjög mikið í Prestahnúki austan við Kaldadal og í Loðmundarfirði Leirsteinn. Leirsteinn er fínkornótt hörðnuð bergmylsna. Lýsing. Það sem oftast er kallað leirsteinn er hörðnuð méla silt. Leirsteinn er upprunalega vatnaset eða sjávarset. Lagskipt sem er oftast nær lárétt. Hægt er að finna lög af harðnaðri gosösku og kísilgúr (díatómíti) Zeólítar. Zeólítar eru flokkur holufyllinga sem hafa efnasamsetningu natríums, kalíum og/eða kalsíum álsiliköt er innihalda laust bundið vatn. Þegar loft er þurrt og hiti er vægur þá missa þeir vatnið en taka það upp aftur í röku lofti. Lýsing. Oftast nær hvítir eða glærir. Leysast upp í heitri saltsýru eða við kólnun þá skilst út kísilhlaup. Hafa gler-eða skelplötugljáa. 48 tegundir hafa verið nefndar og hér á landi finnast um 20 tegundir af þeim. Greining og flokkun. Greindir eftir lögun í þrjá aðalflokka Uppruni. Zeólítar myndast við ummyndun og holufyllingu bergs. Þegar vatn leikur um bergið þá hitnar það og því sem meir sem það leitar dýpra og mest af því kemst í snertingu við nýlegt kvikuinnskot. Við hitnun þá leysist vatnið og ýmis efni úr berginu og nýjar steindir koma í staðinn. Ef vatnið kólnar þá falla steinefnin út. Ef holur eða sprungur eru í berginu þá fyllast þær af steinefnum og mynda sprungu- og holufyllingar. Wadih Saadeh. Wadih Sa'adeh (arabíska: وديع سعادة) er líbanskt-ástralskt skáld og blaðamaður sem fæddist í Líbanon árið 1948. Hann hefur starfað sem blaðamaður í Beirút, London, París og Reykjavík en flutti til Ástralíu árið 1988. Þá varð hann ritstjóri hjá "Annahar", líbönsku dagblaði gefnu út í Sydney. Hann hefur gefið út 12 ljóðabækur á arabísku og sumar þeirra hafa verið þýddar á ensku, þýsku, frönsku, spænsku og önnur tungumál. Hann hefur tekið þátt í mörgum ljóðahátíðum, í Ástralíu og um allan heim. Gagnrýnendur telja Wadih Sa'adeh hafa sérstaka rödd í nútímalegri arabískri ljóðlist. Tenglar. Saadeh, Wadih Saadeh, Wadih Skólesít. Lýsing. Ferstrendir, smá íflatir, nálarlaga en samliggjandi kristallar mynda samvaxna sveipi er geisla hver frá einum punkti. Litlaus eða hvítt, glergljái eða daufan silkigljáa. Brotsár óslétt eða hrufótt. Kristalnálar 1-3 cm á lengd. Útbreiðsla. Algengt í ólivínbasalti frá Tertíer, finnst einnig með öðrum zeólítum á borð við mesólíti, kabasíti, thomsoníti og analsími. Hefur fundist við Teigarhorn, Reyðarfirði og Vesturhorni. Mesólít. Mesólít er smágerð geislaknippi eða brúskar. Lýsing. Kristallar hármjóir og kristalnálar um 3 cm á lengd. Nálarnar stökkar og brotna ef komið er við þær. Oftast hvítt, hálfglært eða grátt. Með gler- eða silkigljáa og brotsár óslétt. Útbreiðsla. Algengt með skólesíti í ólivínbasalti frá Tertíer. Finnst með kísilsnauðum zeólítum og er önnur af mesólít-skólesít holufyllingabelti blágrýtismyndunarinnar. Hefur fundist í Skagafirði, Austfjörðum og Suðausturlandi. Mordenít. Mordenít er zeólíti sem hefur hárfína sveigjanlega þræði og brúska sem eru mjúkir viðkomu. Lýsing. Myndar þéttan massa undir brúskunum og í fylltum holum. Kringum 0,5 cm á lengd en 2 cm langar nálar hafa fundist hér á landi. Líkist baðmullarbrúskum eða myglukenndri skán, oft með silkigljáa. Oftast hvítt en getur stundum verið rauðbrúnt. Úrbreiðsla. Algengust zeólíta. Finnst í þóleiíti og kísilríku bergi. Finnst oft með kalsedóni, kvarsi og epistilbíti. Hefur fundist í Hvalfirði, á Skarðsheiði og Þorskafjarðarheiði. Thomsonít. Lýsing. Kristallar blaðlaga,ílangir og þunnir strendingar. Liggja þétt saman í geislóttri hvirfingu og mynda kúlur með örfínum hrufum á yfirborðinu. Oftast mjólkurhvít en rauðleitt og brúnt líka. Hálfgengsætt með gler- og skelplötugljáa. Nálarnar um einn cm á lengd. Útbreiðsla. Algeng í ólivínbasalti og er oft með kabasíti, levyni, phillipsíti og kalsíti. Hefur fundist í Hvalfirði, Breiðdal, Skarðsheiði og á Esju. Laumontít. Laumontít er steinefni flokkað annaðhvort með geislóttum eða plötulaga zeólítum. Lýsing. Laumontít myndar þunna, aflanga kristalla. Oftast nær hvítt á lit en stundum fölbleikt eða rauðbrúnleitt líka. Algeng lengd um 0,5 cm, lengri nálar hafa fundist. Oftast lausir í holum bergsins, verða að mylsnu þegar bergið brotnar niður. Útbreiðsla. Algengt í djúp rofnum berglagastafla eða þar sem hitin er frá jarðhita í megineldstöðvum. Myndast við allt að 230°C. Neðsta zeólítabeltið kennt við Laumontít. Blátt fólk. Blátt fólk kemur fyrir í þjóðsögum og sögnum úr ýmsum heimshlutum en í einstaka tilvikum eru þessar sögur sannar og er þar oftast um að ræða fólk sem er með sjaldgæfan víkjandi erfðasjúkdóm, svonefndan arfgengan methemóglómíndreyra (methemoglobinemia), sem gerir að verkum að hörundið verður bláleitt. Til að sjúkdómurinn komi fram þarf fólk að erfa þau gen sem sjúkdómnum valda frá báðum foreldrum. Líkur á að þetta gerist aukast til muna við skyldleikaræktun, því séu foreldrarnir skyldir hafa þeir að jafnaði fleiri gen sameiginleg. Þekktasta dæmið er Fugate-ættin, sem bjó á einangruðu svæði uppi á fjöllum Kentucky í Bandaríkjunum. Ættfeður þeirra báru genið og svo var einnig um aðra ætt í nágrenninu. Þegar einstaklingar úr þessum fjölskyldum eignuðust börn á fyrri hluta 19. aldar saman kom sjúkdómurinn fram. Kostir í makavali voru afar takmarkaðir og því var mikið um að náskyldir einstaklingar eignuðust saman börn, sem jók svo aftur líkurnar á sjúkdómnum. Nú eru til lyf sem halda kvillanum algjörlega í skefjum svo að fólk með methemóglómindreyra heldur eðlilegum húðlit. "Blámaður" merkti líka sama og blökkumaður á íslensku og í fornnorrænu máli og Afríka var kölluð "Blámannaland" eða "Bláland", enda eru orðin blár og blakkur komin af sömu rót. Phillipsít. Phillipsít er steinefni, sem er algengt á Íslandi en lítt auðkennilegt enda smágert. Það er flokkað í zeólítum. Lýsing. Phillipsít er litlaust eða hvítt, fölbrúnt við veðrun. Glergljái, hálfgengsætt með smáa kristala sem eru 0,5 cm á lengd. Koma fyrir annaðhvort sem stakir kristalar með krossmynstri vegna tvíburavaxtar eða samvaxið í geislóttar kúlur í þyrpingum. Útbreiðsla. Phillipsít finnst aðallega í ólivínbasalti í efsta hluta jarðalagastaflans. Finnst oft með kabasíti, levyni og thomsoníti en samt ekki í sömu holum. Gismondín. Gismondín er steind sem er oftast geislótt og smágerð. Lýsing. Gismondín er tært eða hvítt og myndar mattar hálfkúlur eða staka kristala eins og tvíodda pýramídar. Stærð gismondíns er í kringum 0,5 cm. Útbreiðsla. Gismondín er sjaldgæft og finnst aðallega í stórdílóttu basalti og ólivínbasalti Garronít. Garronít er steind sem myndar geislóttar þéttar samvaxnar kristalþyrpingar. Lýsing. Garronít er mjólkurhvítt eða litlaust, glegljái, 1 cm stórar holufyllingar og fylla út í holuna. Útbreiðsla. Garronít finnst í ólivínbasalti. Aðalfundarstaðir á Íslandi eru Austurland þá sem útbreidd syrpa af dílabasalti á Grænavatnsporfýr í 700-900 m. hæð yfir sjávarmáli. Garronít er fremur sjaldgæft en hefur síðastliðin ár fundist á Vesturlandi. Cowlesít. Cowlesít er steind sem myndar kúlulaga hvirfingar. Lýsingar. Cowlesít myndar gráa eða hvíta, mjög litla blaðlaga, afar þunna kristala er enda í oddi. Lengd er innan við einn mm. Gler- og skelplötugljái. Útbreiðsla. Cowlesít finnst í ólivínbasalti, þá helst með levyni. Það er sjaldgæft á Íslandi og fáir fundarstaðir þekktir, finnast við Mjódalsá í Borgarfirði. Stilbít. Lýsing. Stilbít myndar frekar plötulaga kristala er vaxa út í horn til enda. Það kemur fyrir sem þyrping af jafnhliða sexhyrndum kristölum. Stilbít er mjólkurhvítt en líka glær,hálfglær og líka lituð afbrigði sem geta verið rauðbrún eða grænlit. Það er bæði með glergljáa og skelplötugljáa. Eru 1-2 cm langir en geta verið allt að 5-10 cm á lengd. Útbreiðsla. Algengust zeólíta. Finnst í holufylltu basalti. Á Íslandi er það einnig að finna í þóleiíti neðarlega í blágrýtisfjöllunum á Austfjörðum. Heulandít. Lýsing. Hálfglært, stundum glært í nýopnuðum holum, ekki oft rauðleitt. Myndar allþykkt trapisulaga kristalbúnt með afsneidd horn er koma í klösum eða þyrpingum. Er 0,5-2 cm á stærð. Þekkt á löguninni. Útbreiðsla. Með algengustu zeólítum og er oft í samfloti með stilbíti. Finnst í þóleiti, mest neðarlega í blágrýtisfjöllum. Finnst vel á Austfjörðum á Íslandi. Epistilbít. Lýsing. Epistilbít myndar þrístrenda, aflanga og frekar þykka hvíta eða glæra og oft rauðleit eða grænleit kristala er þynnast til jaðranna. Myndar oft tvíbura verður tígullaga í mynd. Kristalstærð 0,5-1 cm, fundist allt að 3 cm hér á landi. Kristallarnir oft samvaxnir og mynda klasa eða knippi. Útbreiðsla. Fágætt, finnst í þóleiíti neðarlega í blágrýtisfjöllum. Helstu fundarstaðir á Íslandi eru Austfirðir, Vesturland í Hvalfirði og Borgarfirði Levyn. Levyn er meðlimur að Zeólíta flokknum. Lýsing. Myndar glæra eða hvíta glergljáa þunna kristala með sexkanta útlínum. Levyn þekkist best þar sem kristalarnir standa óreglulega á rönd í holunum. Tvíburarvöxtur algengur. Útbreiðsla. Algengt í ólivínbasalti, þá í kabasít-thomsonít-belti blágrýtisfjallanna. Oft eitt og sér í holum. Yugawaralít. Yugawaralít er fágætt og fundarstaðir fáir á Íslandi. Lýsing. Myndar glæra, oft hvíta, þunna kristala. Kristalar oft smáir en oft einn cm á stærð, þá ílangar plötur og með glergljáa Útbreiðsla. Yugawaralít finnst í vel ummynduðu andesíti og þóleiíti í jarðinum á fornum jarðhitakerfum. Það hefur fundist í Hvalfirði. Eríonít. Eríonít er bergtegund, í flokknum Zeolítar. Erónít er þráðótt og þétt samvaxnið í knippi. Lýsing. Mynda liðótta flata þræði sveigjanlega og mjúka viðkomu. Hvítt með skelplötugljáa. Oft 2-3 cm á lengd. Útbreiðsla. Sjaldgæft, finnst í þóleiíti og ólivínbasalti á blágrýtissvæðum. Þekkt á Tröllaskaga Austfjörðum og við Hvalfjörð Kabasít. Kabasít er steind og tilheyrir Zeólítum. Lýsing. Kabasít myndar hvíta, glæra næstum teningslaga kristala. Gjarnan samvaxnir (tvíburar), glergljái. Litur getur verið gulbrúnn eða roðlitað. Oftast nokkrir mm en geta verið allt að 1,5 cm. Geta komið fyrir í mismunandi formum eftir því hvaða hliðar á samvöxnum kristölum koma fram. Útbreiðsla. Algengasta allra zeólíta á Íslandi. Einkennissteind efsta zeólítabeltsins. Analsím. Analsím er algengt og auðþekkjanlegt á kristalforminu og sterkum glergljáa. Lýsing. Analsím finnst sem aðskildir kristalar eða liggja saman í klösum. Stærðin 0,2-0,5 cm. Útbreiðsla. Algeng og finnst í ólivínbasalti. Finnst sem analsímbelti í blágrýtisfjöllunum á Íslandi. Apófyllít. Apófyllít er flokkur steinda sem tilheyrir Zeólítum. Lýsing. Apófyllít myndar ferstrenda kristala með afsneiddum hornum. Algengasta stærðin er um 1-2 cm en þó hafa fundist miklu stærri. Finnst einnig sem flögur. Hefur glergljáa og skelplötugljáa. Glært, hvítt, oft grænleitt, gulleit eða rauðleitt. Myndar staka kristala eða þyrpingar. Útbreiðsla. Algengt með zeólítum í ólivínbasalti. Finnst í öllum zeólítabeltunum. Gýrólít. Lýsing. Myndar blaðlaga sexstrenda kristala. Hvítt með silki-eða glergljáa. Vex í knippum eða hnúðum. Stærð 0,5-1 cm. Útbreiðsla. Finnst í ólivínbasalti eftir að kemur niður í mesólít-skólesít-beltið Ranakollar. Ranakollar er dýrategund sem er engöngu á Nýja Sjálandi. Hún er hluti af ætt þar sem hún er eina núlifandi tegundin. Á miðlífsöld mátti finna tegundir ættarinnar á landi og í sjó, sem bæði skordýraætur og jurtaætur. Ranakollar hafa verið verndaðir síðan 1985. Þeir eru 60 cm löng næturdýr. Haldast virkir með lágan líkamshita allt niður í 6°C en nota sólina til að hækka líkamshitann á daginn. Lifa einkum á hryggleysingjum og einstaka smáhryggdýrum. Hafa tvær tannraðir í efra gómi. Lifa í holum þá gjarnan gömlum sjófuglaholum. Gísli Konráðsson. Minnismerki um Gísla Konráðsson við Glaumbæ í Skagafirði. Gísli Konráðsson (18. júní 1787 – 2. febrúar 1877) var bóndi, alþýðufræðimaður og sagnaritari á 19. öld. Eftir hann liggur geysilega mikil fróðleikur af ýmsu tagi og hafa sum verka hans verið gefin út að honum látnum. Æska og mótun. Gísli fæddist á Völlum í Vallhólmi í Skagafirði og voru foreldrar hans Konráð Gíslason, bóndi og smiður á Völlum, og þriðja kona hans, Jófríður Björnsdóttir. Konráð var hreppstjóri og ágætlega stæður en Jófríður var á vergangi eftir Móðuharðindin þegar Konráð tók hana á heimili sitt 1785 og giftist henni skömmu síðar. Hann var þá á sjötugsaldri (f. 1722) en hún um tvítugt. Konráð dó 1798 og nokkru síðar giftist Jófríður aftur bróðursyni hans, Gottskálk Egilssyni. Hann var fæddur 1783 og var því rúmlega 60 ára aldursmunur á eiginmönnum Jófríðar. Gísli naut engrar menntunnar í æsku nema hvað honum var kennt að þekkja stafina en hann bjó sér til blek og kenndi sér sjálfur að skrifa. Móðir hans, sem var nærri ólæs, hélt honum að tóvinnu en hann naut þess að henni þótti mjög gaman að kvæðum og sögum og gat oft komið sér undan verki með því að kveða eða segja sögur. Eftir að faðir Gísla dó vildi presturinn í Glaumbæ taka hann til sín og kenna honum því að hann sá hve auðvelt hann átti með nám en móðir hans og stjúpi vildu það ekki. Vorið 1804 fór Gísli fyrst suður á Álftanes til sjóróðra eins og Skagfirðingar gerðu um aldir og þá má segja að skrifaraferill hans hafi byrjað því að hann afritaði sögur fyrir sjálfan sig og aðra í landlegum, enda þótti hann hafa fallega rithönd og var mjög afkastamikill. Hann hafði erft jarðarpart eftir föður sinn og hafði hug á að nota andvirði hans til að mennta sig en af því varð ekki þar sem hann var þá kominn með unnustu og var reyndar með tvær í takinu. Önnur ól honum barn haustið 1807 en um sumarið hafði hann kvænst hinni, Efemíu Benediktsdóttur, og var þá nýorðinn tvítugur. Elsti sonur þeirra, Konráð Gíslason, fæddist sumarið 1808. Alls eignuðust þau 9 börn. Bóndi og fræðimaður. Þau hjón bjuggu á Löngumýri í Vallhólmi 1808 – 1817, Húsabakka í Vallhólmi 1817 – 1820 og á Ytra-Skörðugili á Langholti 1820 - 1837. Öll árin reri Gísli suður á Álftanesi á vetrarvertíð, vann að búi sínu á sumrin og skrifaði hvenær sem tóm gafst, auk þess sem hann orti mikið. Framan af skrifaði hann aðallega upp eftir bókum og handritum, auk þess sem hann sá um ýmsar skriftir fyrir hreppstjóra, presta og aðra embættismenn í nágrenninu. Í vertíðarferðum sínum hafði hann komist í kynni við Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla, og afritað mikið fyrir hann. Hallgrímur tók Konráð son Gísla að sér, útvegaði honum skólastyrk og kenndi honum, allt þar til Konráð fór til háskólanáms 1831. Þeir feðgar sáust aldrei aftur en skrifuðust á í yfir 40 ár. Gísli og Jón Espólín sýslumaður voru miklir vinir og fræddist Gísli mikið af Espólín, sem hvatti hann áfram við skriftir. Hann kynntist líka Sigurði Breiðfjörð og skiptist á ljóðabréfum við hann og Gísli og Hannes Bjarnason prestur á Ríp ortu ýmislegt saman, til dæmis Andrarímur. Gísli hætti búskap 1837 og fóru þau hjónin þá til dóttur sinnar á Syðra-Skörðugili og voru þar næstu þrjú ár en fóru þá á búa aftur á Húsabakka í félagi við dóttur og tengdason. Þar var annar alþýðufræðimaður hjá honum um tíma, Daði Níelsson hinn fróði. Gísli var hreppstjóri 1839 – 1850 og líkaði það illa, þótti starfið annasamt og erfitt. Atvinnufræðimaður í Flatey. Efemía kona Gísla dó vorið 1846 og árið 1850 fluttu hann og Indriði yngsti sonur hans vestur í Króksfjörð og þurfti þrjá hesta til að flytja bækur Gísla. Fljótlega eftir að hann kom vestur komst hann í kynni við konu, Guðrúnu Arnfinnsdóttur, en ættingjum hans mun ekki hafa líkað það og varð úr að þau fluttu út í Flatey á Breiðafirði og giftust þar 1851. Þau áttu einn son sem dó nokkurra ára gamall og var Guðrún þá dáin. Í brúðkaupinu voru ýmsir embættismenn og höfðingjar úr Breiðafjarðarbyggðum og varð að samkomulagi að Gísli ánafnaði Framfarastiftun Flateyjar bókasafni sínu gegn framfærslu þeirra hjóna til æviloka. „Hætti Gísli eftir það heyvinnu og var þá sjötugur að aldri, en skrifaði síðan vetur og sumar, og mátti þetta kalla hádegi ævi hans,“ segir Gísli um sjálfan sig í ævisögu sinni. Hann fékk til búsetu hálft hús í Flatey, Norskahús, og þar sat hann nótt og dag og skrifaði með bókastafla allt í kring, allt til dánardags. Rökvísindi. Rökvísindi er sú grein vísindanna sem skoðar og greinir rökkerfi. Hallgrímur Scheving. Hallgrímur Scheving (13. júlí 1781 – 31. desember 1861) var fræðimaður og kennari í Bessastaðaskóla. Hann var talinn einn mesti menntamaður Íslendinga á sinni tíð og hafði mikil áhrif á Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og aðra Fjölnismenn og fylgjendur þeirra. Hallgrímur var fæddur á Grenjaðarstað í Aðaldal, sonur séra Hannesar Scheving Lárussonar og konu hans Snælaugar (Snjálaugar) Hallgrímsdóttur. Hann gekk í Hólaskóla og var í síðasta stúdentahópnum sem útskrifaðist þaðan vorið 1802, en síðan var skólinn lagður niður. Hann fór svo til háskólanáms í Kaupmannahöfn, lærði málfræði og lauk doktorsprófi í fornmálum. Árið 1810 fór hann að kenna við Bessastaðaskóla og kenndi þar latínu í 36 ár og svo í fjögur ár eftir að skólinn var fluttur til Reykjavíkur 1846. Hallgrímur og Bjarni Thorarensen voru skólabræður í Kaupmannahöfn og miklir áhugamenn um íslenska tungu, málfræði og fornnorræn fræði. Á Bessastððum vann Hallgrímur að orðasöfnun og hafði oft nemendur skólans sem skrifara, þar á meðal Konráð Gíslason og Skafta Tímóteus Stefánsson. Hann safnaði bæði orðum úr fornmáli og samtímamáli, svo og málsháttum og fleiru. Hann mun hafa haft í hyggju að semja stóra orðabók. Hún kom þó aldrei út, en hins vegar nýttust orðasöfn hans seinni tíma fræðimönnum. Hann var líka áhugasamur um náttúruvísindi. Þeir Sveinbjörn Egilsson kenndu samtímis við skólann áratugum saman og höfðu mótandi áhrif á unga menntamenn á fyrri hluta 19. aldar. Hallgrímur varð yfirkennari í Lærða skólanum þegar skólinn flutti til Reykjavíkur 1846. Hann hætti kennslu 1850 og dó í Reykjavík á gamlársdag 1861. Peisistratos. Peisistratos (gríska: "Πεισίστρατος") (fæddur á 6. öld f.Kr., dáinn 527 eða 528 f.Kr.) var harðstjóri í Aþenu frá 546 til 527/8 f.Kr. Breiðbogi. Breiðbogi eða gleiðbogi er heiti ferils, eins keilusniðanna, sem myndar tvo aðskilda óendanlega ferla, sem eru spegilmyndir hvors annars. Almenn jafna fyrir breiðboga er á forminu formula_1 þar sem "a" og "b" eru rauntölur og formula_2 og formula_3 eru hnit miðjupunkts breiðbogans. Algengt dæmi um breiðboga er umhverfan, þ.e. fallið y = 1/x, sem er sýnt á mynd hér til hægri. Þessi jafna fæst með breytuskiptum í almennu jöfnunni og snúningi um 45°. Hannes Bjarnason. Hannes Bjarnason (14. janúar 1777 – 9. nóvember 1838) var prestur og skáld í Skagafirði. Hann var fæddur í Djúpadal í Blönduhlíð, sonur Bjarna Eiríkssonar og konu hans Sigríðar Jónsdóttur en afi hans var Mera-Eiríkur Bjarnason, ættfaðir Djúpadalsættar. Hann varð stúdent frá Hólaskóla 1801 og var í næstsíðasta árgangi sem þaðan var útskrifaður. Hannes sótti á næstu árum um ýmis prestsembætti en fékk ekki og var talið að það mætti að einhverju leyti rekja til vísnagerðar hans og orðbragðs. Hann kvæntist Sigríði Jónsdóttur frá Litla-Dunhaga í Hörgárdal og bjuggu þau á ýmsum jörðum í austanverðum Skagafirði við fremur þröngan kost. Hannes varð loks prestur á Ríp í Hegranesi 1829 og gegndi því embætti til dauðdags. Bróðurdóttir Hannesar var Efemía Benediktsdóttir, kona Gísla Konráðssonar sagnaritara, og voru þeir Hannes og Gísli vinir og ortu saman, meðal annars "Andrarímur", sem komu út 1834 og urðu mjög vinsælar. Hannes orti líka "Rímur af Skanderbeg epirótarkappa", þjóðhetju Albana (1861) og "Rímur af Hálfdani konungi gamla og sonum hans" (1878). Hann orti einnig fjölmargar lausavísur, ekki allar mjög prestslegar, sem urðu fleygar. Hjaltadalsá. Hjaltadalsá er í Hjaltadal í Skagafirði. Hún á upptök í Hjaltadalsjökli og rennur eftir endilöngum dalnum og falla þar til hennar margar þverár og lækir. Neðan til er mikið um flúðir og smáfossa í ánni og hún er víða straumhörð og ströng. Spölkorn neðan við bæinn Sleitustaði renna Hjaltadalsá og Kolka saman og heitir áin eftir það Kolka til sjávar. Hjaltadalsá er oft jökulskotin en Kolka þó mun oftar og meira og er oft mikill litarmunur á ánum þar sem þær renna saman. Hjaltadalsá er veiðiá (eins og Kolka). Þar veiðist einkum sjóbleikja og stöku sinnum lax. Stangaveiðifélag Reykjavíkur er með árnar og er hægt að kaupa veiðileyfi. Miklavatn (Skagafirði). Miklavatn í Borgarsveit er stöðuvatn í Skagafirði, skammt fyrir innan botn fjarðarins að vestanverðu. Vatnið er aflangt, liggur samhliða Vestari-Héraðsvötnum og mjókkar heldur til norðurs. Úr norðurendanum er afrennsli í Vötnin. Það kallast Víkin og þar norðan við er suðurendi Alexandersflugvallar. Umhverfis Miklavatn er víðlent votlendi með miklu fuglalífi og var það friðlýst 1977. Umferð um svæðið er bönnuð frá 15. maí til 15. júlí ár hvert. Svæðið er á skrá BirdLife International um alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Tumi Kolbeinsson. Tumi Kolbeinsson (d. 1184) var íslenskur goðorðsmaður á 12. öld. Hann var af ætt Ásbirninga, óskilgetinn sonur Kolbeins Arnórssonar (d. 1166), en móðir hans er óþekkt. Hann bjó í Ási í Hegranesi og var sagður mikill höfðingi. Hálfbróðir hans var Arnór, faðir Kolbeins kaldaljóss og afi Brands Kolbeinssonar. Fyrri kona hans hét Guðrún Þórisdóttir og áttu þau eina dóttur, Sigríði, sem fyrst giftist Ingimundi Þorgeirssyni presti en skildi við hann og giftist Sigurði Ormssyni Svínfellingi. Síðari kona Tuma var Þuríður, dóttir Gissurar Hallssonar af ætt Haukdæla, og áttu þau saman börnin Kolbein, Halldóru, Arnór og Álfheiði. Eftir lát Tuma giftist Þuríður Sigurði Ormssyni, sem þá var orðinn ekkjumaður, og bjuggu þau í Svínafelli en Þuríður gekk að síðustu í klaustur. Hún er sögð hafa dáið 1225. Heyr, himna smiður. Heyr, himna smiður er sálmur eftir Kolbein Tumason, oftast talinn ortur rétt fyrir Víðinesbardaga haustið 1208, þar sem Kolbeinn féll, en þó kann að vera að hann sé ortur eitthvað fyrr. Þetta er elsti varðveitti sálmur Norðurlanda og er nú oftast sunginn við lag sem Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld gerði við hann. Einnig er lag eftir Sigvalda Kaldalóns sem er sungið við þennan texta. Hann er þrjú erindi, er enn í íslensku sálmabókinni og er oft sungin, ekki síst við jarðarfarir. Kolbeinn var andstæðingur Guðmundar Arasonar biskups og klerka hans en var um leið mikill trúmaður og virðist hafa verið ágætlega menntaður. Texti sálmsins er hátíðlegur og skáldlegur en um leið tiltölulega auðskilinn nútímafólki þótt einstök orð og líkingar þurfi skýringa við. Ufsakristur. Ufsakristur er einn af dýrgripum Þjóðminjasafn Íslands og svo nefndur vegna þess að hann er fenginn frá Ufsakirkju í Svarfaðardal. Ufsakristur er talinn elsta kristsmynd sem varðveitt er á Íslandi, þó erfitt sé að fullyrða um slíkt. Gripurin er talinn íslensk smíð frá því um 1200, og er einn af sjö lykilgripum Þjóðminjasafnsins. Ufsakristur kom til Þjóðminjasafnsins eftir að Ufsakirkja fauk og eyðilagðist í kirkjurokinu mikla aldamótaárið 1900. Þegar ný kirkja var byggð voru gripir hennar endurnýaðir og með biskupsráði voru nokkrir munir hennar seldir Forngripasafninu m.a. til að standa straum af byggingarkostnaði. Þessir gripir þóttu þá allt eins eiga heima á safni og í kirkju. Ufsakristur er skorinn úr birki og hefur áður verið róða á róðukrossi sem nú er glataður. Hann er í rómönskum stíl, teinréttur með arma teygða beint út til hliðanna, með lendaklæði, sítt hár og kórónu. Ufsakristur hefur verið málaður, enda má enn greina smávegis leifar af málningunni. Eftirmynd af gripnum er til sýnis á byggðasafninu á Hvoli á Dalvík. Till Lindemann. Till Lindemann (fæddur 3. janúar 1963 í Leipzig, Austur-Þýskalandi) er söngvari þýsku hljómsveitarinnar Rammstein. Lindemann, Till Okenít. Okenít er steind í zeólítaflokknum. Lýsing. Okenít er hvítt, sjaldan glært með daufum gler- eða skelplötugljáa. Þráðlaga, mynda þétta fyllingu og daufu geislótt mynstri. Stundum finnast það smáar kúlur með örfínum nálum og minna baðmullarhnoða. Stærð nokkrir cm. Útbreiðsla. Okenít finnst í ólivínbasalti þá neðst í blágrýtisfjöllunum. Einnig að finnast með apófyllíti. Taumasít. Taumasít er steind í zeólítaflokknum. Lýsing. Taumasít er hvítt og litlaust, gler- og skelplötugljáa. Þráðóttir kristalar, þéttur ógreinilegur geislóttur massi. Vatnsríkt og hefur lága eðlisþyngd. Útbreiðsla. Fágætt en má finna með apófyllíti, okeníti, mesólíti og skólesíti í ólivínbasalti. Á Íslandi hefur það fundist í sýnum úr Hvalfirði. Reyerít. Reyerít er steind í zeólítaflokknum. Lýsing. Reyerít er hvítt, matt. Með gler- eða daufan skelplötugljáa. Blaðlaga og kristallarnir mynda smáar flögur. Fljótt að molna niður. Útbreiðsla. Fágætt, þó að finna í holufylltu basalti í analsím- og mesólít-skólesít beltunum. Má finna í samfloti við gýrólít og analsím. Íslendinga saga. Íslendinga saga er stærsta verkið í Sturlungu og er nær helmingur safnritsins. Þar segir frá atburðum sem gerðust á Íslandi á árunum 1183-1262, einhverjum mestu umbrotatímum Íslandssögunnar. Sturla Þórðarson er meginhöfundur verksins og kann að hafa skrifað það allt. Hann var sjálfur náskyldur eða tengdur mörgum af helstu persónum sögunnar og tók þátt í ýmsum stórviðburðum tímabilsins. Þrátt fyrir það þykir honum takast merkilega vel að halda hlutlægni í frásögn sinni. Frásögnin þykir einnig mjög raunsæ, lýsingar á bardögum og öðrum örlagaviðburðum eru ekki fegraðar, heldur er tilgangsleysi ofbeldis og voðaverka látið koma skýrt fram og samúðin er með þeim sem tapar, hvort sem það eru frændur Sturlu eða óvinir. Því þykir sagan yfirleitt trúverðug heimild um íslenskt samfélag og sögu á 13. öld. Ilvaít. Ilvaít er steind í zeólítaflokknum. Lýsing. Svart með daufan málmgljáa. Ílangar, smá rákótta strendinga eða kubblaga flötunga. Stærð 2-4 mm kristallar. Útbreiðsla. Ílavít er nauðafágætt á Íslandi, aðeins er vitað um það á tveimur stöðum í Hvalfirði þar sem það finnst í vel ummynduðu þóleiítbasalti. Bergkristall. Lýsing. Bergkristall er kristallað afbrigði af kvarsi. Hann er litlaus, gegnsær og hefur oft vel formaða sexhliða pýramída í oddinn. Kristalsúlan oftast hvít- eða gráleit en oddurinn gegnsær. Stærðin er misjöfn, allt frá því að vera innan við mm og upp í tugi cm. Stærstu bergkristallar sem fundist hafa hérlendis eru 10-20 cm að lengd. Ametýst er litað afbrigði af bergkristal sem mikið er notað sem skrautsteinn og í skartgripi. Ametýst er sjaldgæft á Íslandi. Önnur litarafbrigði af bergkristal eru reykkvars og sítrín. Útbreiðsla. Bergkristal má finna sem holufyllingu neðst í hraunlagastafla og sem sprungufylling í háhitakerfum. Finnst djúpt í rofnum megineldstöðvum og sem sprungufylling inni í og við jaðra á djúpbergsinnskotum. Bergkristall finnst víða um land en hann er þó mun algengari í hinum eldri hluta berglagastaflans en þeim yngri. Sítrín. Lýsing. Sítrín er gulleitt afbrigði af kvarsi. Smágert og hálfgegnsætt á Íslandi. Liturinn er vegna járnhydroxíðs. Útbreiðsla. Mjög sjaldgæft en finnst sem holufylling í grennd við djúpbergsinnskot. Þegar það hitnar myndast ametýst gulleitt. Talið að sítrín fái gula litinn frá hitanum frá innskotum. Ametýst. Ametýst (ametyst eða blákvars) er bláleitt afbrigði af kvarsi. Lýsing. Ametýst er fjólublátt afbrigði af kvarsi en líkist annars bergkristal. Gegnsæir eða hálfgegnsæir. Stærð 15-20 cm á lengd, 4-5 cm breidd. Útbreiðsla. Finnst sem sprungu- og holufylling í vel ummynduðu storkubergi. Á Íslandi má finna ametýst í Hornafirði, Lóni, Borgarfirði eystra og Gerpi. Reykkvars. Lýsing. Reykkvars er mó-og brúnleitt afbrigði af kvarsi. Liturinn talinn stafa áli í kristalgerðinni eða vegna áhrifa af geislaverkum efnum. Útbreiðsla. Reykkvars finnst sem holu- eða sprungufylling í djúpbergi. Jón murtur Snorrason. Jón murtur Snorrason (1203 – 21. janúar 1231) var sonur Snorra Sturlusonar og konu hans Herdísar Bersadóttur. Í Sturlungu er sagt að hann hafi verið smávaxinn í bernsku og því verið kallaður murtur. Þegar Jón var 17 ára sendi Snorri hann til Noregs sem gísl til að tryggja frið milli Björgvinjarkaupmanna og Íslendinga. Hann kom svo aftur þremur árum síðar og þá setti faðir hans hann til forræðis í ýmsum málum fyrir sig og virðist hafa haft traust á honum, enda þótti Jón gott höfðingjaefni. Hann var eini skilgetni sonur Snorra og átti að erfa mannaforráð hans. En þegar Jón vildi kvænast Helgu, dóttur Sæmundar Jónssonar í Odda, og bað föður sinn um fé til kvonmundar og Stafholt í Borgarfirði til ábúðar vildi Snorri ekki verða við því. Jón var mjög ósáttur við þetta og ákvað að fara til Noregs í staðinn. Snorri lét þá undan en það var um seinan, Jón fór út haustið 1229 og fór til Skúla jarls. Þar var honum vel tekið og gerðist hann hirðmaður Skúla og skutilsveinn. Hann fór svo til Björgvinjar og þar bjuggu þeir saman í herbergi hann, Gissur Þorvaldsson mágur hans og maður að nafni Ólafur svartaskáld. Þeir voru peningalausir en virðast hafa svallað mikið. Kvöld eitt um miðjan janúar komu þeir heim Ólafur varði þjónustumennina en Jón barði hann með spýtu. Gissur tók Jón og hélt honum. Ólafur hjó þá í höfuð Jóns með handöxi og hljóp svo burt. Sár Jóns virtist ekki mikið í fyrstu, hann fór í bað og sat að drykkju, en stuttu síðar hljóp illt í sárið og hann dó. Þegar Gissur kom heim næsta sumar sór hann eið að því fyrir Snorra tengdaföður sínum að hann hefði ekki verið í vitorði með Ólafi. Kristobalít. Lýsing. Kubblaga, smágert, hvítt og gljáa. Stakir kristalar inn á blöðrum og stundum sem skánir. Útbreiðsla. Kristóbalít finnst í blöðrum í gosbergi þá sem útfelling á lokastigi storknunar. Er einnig að finna í litlum mæli í ópal, bæði holufyllingum og kísilhnúðri. Kalsedón. Kalsedón (líka þekkt sem glerhallur eða draugasteinn) er kvarssteinn. Lýsing. Kalsedón er kísilsteind myndlaus en smágerð, þráðótt. Hálfgegnsætt daufur gler-eða fitugljáa. Hvítleitt eða gráleitt, aðrir litir hafa fundist einnig. Útbreiðsla. Kalsedón er algeng holufylling í þóleiítbasalti og líparíti. Oftast yst en kvars innst. Ónyx. Lýsing. Ónyx er afbrigði af kalsedóni. Útbreiðsla. Ónyx er algeng holufylling í þóleiítbasalti, finnst með kalsedóni og kvarsi þá innst í holunum. Jaspis. Jaspis er steind og afbrigði af kalsedóni. Nafnið er ævafornt og má rekja til Biblíunnar. Lýsing. Jaspis er ógegnsær og hefur engan gljáa. Striklitur með aðkomuefni í sér, aðallega járnsambönd og leir. Hann er oftast gulur, grænleitur, rauður og móleitur á litinn. Blár jaspis er til en finnst sjaldan. Útbreiðsla. Jaspis er stærsta holufylling er finnst á Íslandi. Stórar blokkir allt að 50-100 kg hafa fundist. Finnst í basalti og líparíti en er líka að finna í lögum. Þekktasti fundarstaður Hestfjall, Borgarfirði. Regent Street. Regent Street um jólin árið 2006. Regent Street er ein af helstuverslunargötum í West End-hverfinu í London. Gatan er vinsæl hjá ferðamönnum og íbúum London og er fræg fyrir jólaljósaskreytingar sem þar eru settar upp ár hvert. Nafn götunnar er vísun í Georg krónprins (seinna Georg 4.), sem var ríkisstjóri (enska: "regent") Bretlands á árunum 1811-1820 í veikindum föður síns. Gatan er oft tengd við arkitektinn John Nash þótt allar þær byggingar við götuna sem hann teiknaði séu nú horfnar nema kirkjan [All Souls Church við nyrðri enda götunnar. Gatan var fullbyggð árið 1825 og er eitt af elstu dæmunum um nútíma borgarskipulag í Englandi, þar sem hún sker sig gegnum 17. og 18. aldar götuskipunina sem fyrir var á svæðinu. Hún liggur frá St. James’s í suðri og í gegnum Piccadilly Circus og Oxford Circus að All Souls Church. Þaðan liggja göturnar Langham Place og Portland Place norður að Regent’s Park. Öll hús við götuna eru flokkuð sem verndaðar byggingar. Nú á dögum eru margar þekktar verslanir við Regent Street, til dæmis Apple, Austin Reed, Hamley’s og Liberty. Oxford Circus-neðanjarðarlestarstöðin er við Oxford Circus, þar sem Oxford Street sker Regent Street. Ópall. Ópall er steind oft notuð í skartgripum. Lýsing. Myndlaust afbrigði af kvarsi er inniheldur 3-13% af bundnu vatni. Léttari og linari en aðrir kvarssteinar. Litur ljósleitur eða mjólkurlitur, ógegnsær eða hálfgegnsær. Aðkomuefni hafa fundist í ópalnum eins og: grár, móleitt, grænn og rauður. Útbreiðsla. Ópall er algengur á Íslandi þá sem holu- eða sprungufylling og finnst í ólivínbasalti. Myndast í bergsprungum þegar volgt vatn hefur runnið um steindina. Smávottur af ópali hefur fundist á Íslandi. Verslunargata. Verslunargata er gata í miðjum bæ eða borg þar sem fjölda verslana er að finna. Við verslunargötur eru oftast fataverslanir, skartgripaverslanir og aðrar slíkar verslanir sem seljamunaðarvörur. Framhliðar slíkra verslana eru oft með aðaldyrum og stórum gluggum sem snúa út að götunni. Verslunargötur er oft að finna saman á einu svæði og mynda saman verslunarhverfi. Í litlum borgum er aðeins ein aðalverslunargata eða tvær, en í stærri geta þær verið æði margar. Nú á dögum eru verslunarmiðstöðvar mjög vinsælar sem hefur valdið hnignun mörgum verslunargötum um heim allan. Karbónöt. Karbónöt eru steindir sem hafa einn eða fleiri málma. Það eru til um 60 karbónatsteindir sem flestar eru sjaldgæfar. 4% af jarðskorpunni er mynduð úr karbónötum þá aðallega kalsíumsamböndum. Karbónatsteindir eru mikilvægar í lífríki sjávar. Margar skeljar lífvera eru byggðar úr kalsíti og aragóníti eins og, kóralar. Kalsít. Kalsít eða kalkspat er steind sem finnst í ýmsum myndum. Nafnið dregið af efnasamsetningunni og kleyfninni. Lýsing. Kalsít finnst í mörgum kristalformum og nokkur afbrigði eru til. Þó eru kubb- og skáteningslaga form algengust. Þunnir, plötulaga kristallar finnast í hitasoðnu bergi á gömlum háhitasvæðum. Kalsít getur verið hvítt eða tært, en einnig finnast gulleit, rauðleit og bleik afbrigði. Kalsít hefur glergljáa. Silfurberg er tært afbrigði kalsíts. Það leysist upp í vatni sem inniheldur kolsýru. Freyðir í þynntri saltsýru og er það besta leiðin til þess að greina kalsít. Útbreiðsla. Kalsít fellur út í vatni óháð hita. Það finnst á nokkrum stöðum á Íslandi og er algengt sem holufylling umhverfis megineldstöðvar. Kalsít var unnið úr námu við Mógilsá í Esju. Sykurberg. Sykurberg gulbrúnt afbrigði af kalsíti, óáþekkt kandíssykri en þaðan kemur nafnið. Lýsing. Litur stafar af járnsamböndum. Stærð kristala 1-4 cm. Útbreiðsla. Á Íslandi er sykurberg þekktast sem holufylling í Tjörneslögunum en finnst einnig í basalti. Charing Cross. Charing Cross er hnútapunktur í Mið-London þar sem Strand, Whitehall og Cockspur Street koma saman og er sá miðpunktur sem er notaður til að mæla fjarlægðir frá London. Charing Cross er sunnan megin við Trafalgar Square í Westminster og dregur nafnið sitt af Eleanorkrossi sem var rifinn árið 1647 en þar stendur nú stytta af Karli 1. á hestbaki. Charing Cross var upprunulega þorp sem hét Charing en er nú umlukið og runnið saman við London, og því ekki lengur til sem slíkt. Stór lestarstöð er í Charing Cross og þaðan er hægt að ferðast með lestum til suðvesturhluta Englands. Aragónít. Aragónít með sömu efnasamsetningu og kalsít. Nafnið dregur af héraðinu Aragon á Spáni. Lýsing. Geislar grófari en hjá zeólítum og sjást í þversprungum. Þegar það er ferskt þá er það glært og glergljáandi. Finnst veðrað, gráleitt og gljái daufur. Útbreiðsla. Finnst allvíða á Íslandi, þá aðallega á háhitasvæðum. Holufylling í storkubergi, þá aðallega í andesíti og basalti. Óstöðugt við venjulegan hita og þrýsting. Þegar aragónít er hitað upp í 400 °C án auka þrýstings, þá umbreytist það í kalsít. Til er hvítt afbrigði af aragóníti sem kallast járnblóm. Útlitið líkist kóralgróðri en ekkert járn finnst í því, þó að það myndst við veðrun járnsambanda. Skúli jarl Bárðarson. Skúli Bárðarson (1189 – 24. maí 1240), oft kallaður Skúli jarl, var jarl og frá 1237 hertogi í Noregi. Hann var hálfbróðir Inga Bárðarsonar konungs og var gerður að jarli 1217, skömmu fyrir dauða Inga. Skúli reyndi að gera tilkall til ríkisins en varð ekki að ósk sinni og Hákon Hákonarson var tekinn til konungs. Skúli sat í Niðarósi og stýrði þriðjungi ríkisins á móti konungi en þar sem konungurinn var aðeins tólf ára stýrði Skúli í raun öllu ríkinu fyrstu árin. Þegar Snorri Sturluson var í Noregi 1218-1220 var Skúli líklega á hátindi valdaferils síns og þeir Snorri urðu vinir og bundust traustum böndum. Þegar Snorri fór heim gaf jarlinn honum skip og margar aðrar stórgjafir en Snorri orti í staðinn kvæði um jarl og konung þegar heim kom. Þegar Hákon konungur varð fullveðja dró smátt og smátt úr valdi Skúla og líkaði honum það illa. Samband þeirra Hákonar hafði verið ágætt framan af en fór versnandi, ekki síst eftir að Hákon flutti aðalaðsetur sitt suður til Óslóar. Þó var reynt að bæta tengsl þeirra með því að Hákon gekk að eiga Margréti, dóttur Skúla og konu hans Ragnhildar Jónsdóttur, árið 1225. Eftir 1230 jókst ósættið á milli Skúla og Hákonar konungs enn þótt mikið væri reynt til að sætta þá og árið 1236 var hann settur út úr ríkisráðinu en var árið eftir gerður að hertoga, fyrstur Norðmanna. Þá var líka ákveðið að hann ætti ekki lengur að stýra þriðjungi landsins en fengi þó þriðjung allra skatttekna. Þetta sætti Skúli sig ekki við og í nóvember 1239 lét hann hylla sig konung á Eyraþingi þótt menn erkibiskups reyndu að koma í veg fyrir það og hann væri bannsunginn fyrir vikið. Hann kvaddi upp her móti Hákoni konungi og hélt suður til Björgvinjar, þar sem konungur var, en hann hörfaði undan til Óslóar, þar sem þeir börðust sumarið 1240. Þar fór Skúli halloka en tókst að flýja við illan leik norður til Niðaróss. Þangað komu menn konungs um vorið að leita hans. Skúli leitaði hælis í klaustrinu í Helgisetri en konungsmenn kveiktu í klaustrinu og drápu Skúla þegar hann kom út. Snorri Sturluson hafði verið í Noregi hjá Skúla 1237-1239. Höfðu þeir þá mikið rætt saman og er sagt að Skúli hafi sæmt Snorra jarlsheiti. Hákon leit á þetta sem landráð við sig og fól Gissuri Þorvaldssyni að senda Snorra til Noregs eða drepa hann að öðrum kosti, sem Gissur lét ekki segja sér tvisvar. Norskir sagnfræðingar hafa á síðari árum deilt mikið um þá Skúla jarl og Hákon og hefur Skúla ýmist verið lýst sem landráðamanni, hetju og stjórnsnillingi eða mistækum og fremur veikum stjórnmálamanni. Virt. Virt eða virtur er sætur vökvi sem látinn er gerjast til að búa til öl í til dæmis bjór- eða viskýframleiðslu. Virtin er fengin með því að skola sykrur (aðallega maltósa) úr hrostanum sem verður til við meskingu malts. Ölger breytir síðan sykrunum í áfengi. Áfengismagnið er reiknað út með því að bera saman eðlisþyngd virtarinnar fyrir og eftir gerjun með sykurflotvog. Sæmundará. Sæmundará. Horft frá Sæmundarhlið austur yfir Langholt. Sæmundará er bergvatnsá í vestanverðum Skagafirði. Hún kemur upp í Vatnsskarði, í Vatnshlíðarvatni og Valadal, sveigir til norðurs þegar niður úr skarðinu kemur og rennur meðfram endilangri Sæmundarhlíð. Við endann á Langholti sveigir hún til austurs og rennur síðan niður með túninu á Reynistað og sveigir svo aftur til norðurs og að lokum í Miklavatn. Eftir að hún beygir er hún yfirleitt kölluð "Staðará", kennd við Reynistað. Áin er oftast fremur vatnslítil og er kölluð "Sæmundarlækur" í Landnámu. Áin er ágæt veiðiá og veiðist þar bæði lax og sjóbleikja. Staðarsveit (Skagafirði). Staðarsveit er byggðarlag í vestanverðum Skagafirði, en nafnið er raunar ekki mikið notað nú á tímum. Að sunnan eru mörkin við enda Langholts og Sæmundarhlíðar og síðan liggur sveitin undir Staðaröxl og út að landamerkjum Birkihlíðar og Gils, en þar tekur Borgarsveit við. Bæirnir standa flestir neðst í fjallsrótunum en þar fyrir vestan eru miklar flatlendisbreiður, víða mjög votlendar, og um þær rennur Staðará (Sæmundará) út í Miklavatn. Sveitin er kennd við Reynistað, sem áður hét Staður í Reynisnesi, en af öðrum bæjum má nefna höfuðbólið Vík. Löngumýri. Löngumýri (eða Langamýri) er bær í Vallhólmi í Skagafirði, á flatlendinu út og austur af Varmahlíð. Þar fæddist Konráð Gíslason málfræðingur árið 1808. Árið 1944 stofnaði Ingibjörg Jóhannsdóttir frá Löngumýri kvennaskóla, Húsmæðraskólann á Löngumýri, á föðurleifð sinni og tókst henni af miklum dugnaði og harðfylgi að byggja skólann upp og stunduðu mörg hundruð stúlkur þar nám næstu áratugi. Ingibjörg stýrði skólanum sjálf til 1967 en gaf þá þjóðkirkjunni jörðina gegn því að starfsemin héldi þar áfram. Húsmæðraskóli var á Löngumýri fram á 8. áratug aldarinnar. Þá var hann lagður niður vegna lítillar aðsóknar en í staðinn kom sjálfseignarstofnun á vegum kirkjunnar með ýmiss konar starfsemi. Dólómít. Lýsing. Kristalfletir kúptir, glært eða hvítt getur verið rauðleitt. Á Íslandi aðallega gulleitt vegna aðkomuefna. Er annaðhvort með gler- eða skelplötugljáa. Útbreiðsla. Dólómít er fágætt á Íslandi. Það finnst í djúpbergsinnskotum, oft finnast málmsteindir með því. Dólómít er mjög algengur kristall/bergtegund í fjöllum erlendis. Síderít. Síderít tilheyrir hópi Karbónata og er sjaldgæft á Íslandi. Lýsing. Á Íslandi finnst "Síderít" sem smákúlur og geislóttar innst inni. Finnst einnig sem plötulaga kristalar. Gulleitt, brúnleitt eða rauðbrúntt. Oft með glergljáa. Útbreiðsla. Síderít finnst á sprunguflötum í basalti þar sem heitt vatn hefur leikið um eða í samblandi við málmsteindir við jaðra djúpbergsinnskota. Flúorít. Flúorít tilheyrir hópi Karbónat steinda. Flúorít nafnið kemur frá efnasamsetningunni og vísar til hversu auðvelt hægt er að bræða steindina en hún hefur verið notuð sem efni í stál-og álframleiðslu. Lýsing. Tenings- eða áttflötungar, tvíburavöxtur algengur. Stærð kristala 0,5-5 cm. Kúlur eða hvirflingar með blaðlaga geislun. Grænleitt eða dauffljólublátt. Hálfgegnsætt með glerljáa. Útbreiðsla. Finnst á Íslandi við jaðra granófýrinnskota og sem ummyndum í rótum rofinna megineldstöðva. Hefur fundist í Lýsuhyrnu á Snæfellsnesi en er líka að finna í Breiðdal. Barýt. Barýtkristallar í Dólómíti frá Cumbria, Englandi Barýt eða barít tilheyrir hópi Karbónata og er nafnið dregið af efnasamsetningunni og þyngdinni. Lýsing. Flatir og blaðlaga kristalar. Hvítt eða gráleitt, hálfgegnsætt. Eðlisþyngdin er aðaleinkenni barýts. Útbreiðsla. Myndast úr kvikuvessum, í grennd við djúpbergsinnskot. Fágætt, stærð kristala 3-5 cm. Á Íslandi hefur barýt fundist við megineldstöðvar á Austfjörðum. Halít. Halít eða steinsalt er natrínklóríð í formi steindar; aðaleinkenni er saltbragðið Lýsing. Hvítleitt eða grátt. Teningslaga kristallar, tvíburavöxtur finnst stundum. Leysist auðveldlega í vatni og með saltbragð. Útbreiðsla. Er algeng víða í náttúrunni þar sem sjór eða salt vatn gufar upp. Gráleitar útfellingar í móbergi þar sem vatn hefur leyst út úr berginu. Á Íslandi finnst halít í Mýrdal, Surtsey og Eldfelli. Stærsta útfelling er úr jarðsjó á Reykjanesi. Málmsteinar. Málmsteinar eru mjög sjaldgæfir á Íslandi. Nokkrar málmsteindir hafa fundist á Íslandi þá er það aðallega sambönd málms og súrefnis (oxíð) eða málms og brennisteins (súlfíð), ásamt málmkarbónata. Algengustu steindirnar eru járnsteindir, þó súlfíðsteindir má finna í jarðhitakerfum og við jaðra megineldstöðva. Brúnjárnsteinn. Brúnjárnsteinn (eða Límonít) er málmsteinn og vísar nafnið til mýrarrauða. Lýsing. Dökkbrúnn eða gulbrúnn, oft rauðleitur á litinn. Er ógegnsær með engan gljáa eða daufan málmgljáa. Blendingshópur af náttúrulegum járnhýdroxíðum. Útbreiðsla. Myndast við oxun steinda sem innihalda járn. Þar á meðal magnetít sem finnst í basalti. Afbrigði af brúnjárnsteini: Mýrarrauði sem myndast þegar jarðvegssýrur leysa járnið úr berginu sem flyst með vatninu og síðan fellur út við afsýringu. Járninnihaldið getur verið allt að 65%. Áður fyrr þá var hann notaður í járnvinnslu. Hematít. Hematít (járnglans) er járnoxíð og inniheldur ekki vatn. Lýsing. Stórkristallað, stálgrátt eða svartleitt. Smákristallað, rautt eða rauðbrúnt. Segulmagnast við upphitun, rauðu millilögin næst hrauninu sterk af segulmögnun. Útbreiðsla. Myndast við oxun á magnetíti í storkubergi eða útfelling við hveri og þar sem gosgufur renna um. Aðalmálmgrýtið sem unnið úr erlendis. Afbrigði: Rauðjárnsteinn, nafn á smákornótta hematítafbrigðinu, einkennir rauðu millilögin. Magnetít. Magnetít tilheyrir hópi málmsteina og er segulmögnuð steind. Nafnið er dregið af segulmögnuninni í steindinni en upprunalega nafnið er tekið af staðnum Magnesia í Makedóníu. Lýsing. Smáir og svartir teningslaga kristalar. Ógegnsætt með málmgljáa. Útbreiðsla. Frumsteinn í storkubergi. Finnst í basalti og andesíti. Veldur segulmögnun í þessum bergtegundum. Má finna líka í æðum jarðhitasvæða. Haganesvík. Séð yfir Hópsvatn til Haganesvíkur. Haganesvík er bæjahverfi og áður lítið kauptún í Fljótum í Skagafirði. Mikil útgerð var í Fljótum fyrr á öldum, ekki síst hákarlaútgerð, og í Haganesvík voru lengi þurrabúðir. Haganesvík varð svo löggiltur verslunarstaður árið 1897 og Einar Guðmundsson bóndi á Hraunum, flutti þangað árið 1901 verslun sem hann hafði áður haft heima hjá sér frá 1879. Seinna var hann verslunarstjóri Gránufélagsins til 1910. Hinar sameinuðu íslensku verslanir tóku svo við rekstrinum og ráku verslun sína til 1922, en frá árinu 1919 var kaupfélag, Samvinnufélag Fljótamanna, starfandi í Haganesvík og rak þar verslun fram á 8. áratug 20 aldar. Þá sameinaðist það Kaupfélagi Skagfirðinga, sem rak verslunina áfram. Í Haganesvík var líka reist sláturhús og frystihús. Höfnin er ótrygg, enda fyrir opnu hafi, en steinsteypt bryggja var gerð árið 1951. Póstafgreiðsla og símstöð var í Haganesvík og einnig félagsheimili. Hnignun Haganesvíkur hófst þegar vegarstæðið var fært á núverandi stað, þá varð staðurinn úr leið og ekki leið á löngu þar til verslunin var færð að Ketilási. Nú eru aðeins nokkur íbúðarhús eftir í Haganesvík. Þaðan eru þó gerðar út nokkrar trillur. Barð (Fljótum). Barð er bær og kirkjustaður í Fljótum í Skagafirði. Bærinn stendur undir svipmiklu fjalli sem nefnist Barð(ið) og snýr hvassri egg í átt til sjávar. Barð var stórbýli með mörgum hjáleigum og þar bjó fyrr á öldum höfðingjaætt sem nefnd var Barðverjar. Jörðin var prestssetur frá fornu fari en það var lagt af 1970 og kirkjunni þjónað frá Hofsósi. Núverendi kirkja var reist árið 1889 og er friðuð. Jarðhiti er á Barði og í gömlum heimildum er minnst á Barðslaug; þar var til dæmis prestur nokkur drepinn árið 1252. Þar var síðar gerð sundlaug og enn seinna var byggður heimavistarskóli við laugina, Sólgarðar. Þar er nú útibú frá Grunnskólanum austan Vatna. Oxford Street. Oxford Street er stór verslunargata í miðborg London. Um það bil 300 verslanir eru við götuna og hún er fjölsóttasta og þéttasta verslunargata í Evrópu. Gatan fékk nafn sitt af því að hún var upprunalega hluti af veginum sem tengdi London við Oxford og hófst í Newgate í London. Gatan er um 2,5 km að lengd og nær vestan frá Marble Arch við norðausturhorn Hyde Park, í gegnum Oxford Circus til St Giles’ Circus þar sem gatan sker Charing Cross Road og Tottenham Court Road. Framhald hennar til austurs heitir New Oxford Street að High Holborn. Margar aðrar megingötur í London skera Oxford Street, til dæmis Park Lane, Bond Street og Regent Street. Framhald Oxford Street vestan megin við Marble Arch er Bayswater Road. Svo ligggur leiðin áfram yfir Notting Hill við Holland Park Avenue og breytist í Uxbridge Road við Shepherd’s Bush-hringtorgið. Við Uxbridge tekur við þjóðvegurinn sem tengir London og Oxford. Saga. Vegurinn sem fer vestan er Oxford Street. Þar sem gatan liggur nú var eitt sinn rómversks vegar sem hét "Via Trinobantina", tengdi Hampshire við Colchester og varð seinna aðalvegurinn inn og út úr borginni. Á fyrri öldum var gatan þekkt ýmist sem Tyburn Road (eftir Tyburn-ánni sem rann sunnan hennar og nú undir henni), Uxbridge Road, Worcester Road eða Oxford Road. Í dag er nafnið Uxbridge Road enn notað um hluta vegarins á milli Shepherd’s Bush og Uxbridge. Fangar voru fluttir eftir götunni frá Newgate-fangelsinu að gálga sem stóð við Tyburn nærri Marble Arch og vegna þess varð hún alræmd. Um 1729 var farið að kalla götuna Oxford Street. Undie lok 18. aldar keypti jarlinn af Oxford marga af ökrunum sem umkringdu götuna og var svæðið síðan byggt upp og þróað. Það varð vinsælt hjá götuskemmtikröftum af ýmsu tagi og skemmtistaðir eins og Pantheon voru reistir þar. Á 19. öld varð svæðið þekkt fyrir verslanir sínar. Oxford Street í dag. Umferð er stundum ógreið um Oxford Street, bæði á gangstéttum, þar sem mikið er um ferðamenn og viðskiptavini verslananna, og á götunni sjálfri, því að margir strætisvagnar ganga um hana. Á gangstéttunum má líka yfirleitt finna nokkra predikara, fylgendur Hare Krishna og ýmsa pólitíska hópa sem eru að mótmæla eða kynna stefnu sína. Jólaljós. Fyrir jólin er gatan skreyt með jólaljósum. Um miðjan nóvember eða í lok mánaðarins er einhver frægur fenginn til að kveikja á ljósunum og þau eru höfð kveikt fram á þrettándakvöld. Ljósin voru fyrst sett upp árið 1959, fimm árum efir að farið var að skreyta Regent Street með jólaljósum. Árið 1967 var samdráttur í London og þá var hætt að setja upp ljósin en byrjað aftur 1978 þegar leysisýning var haldin í Oxford Street. Samgöngur. Vegna þess hve umferðin um götuna er gífurlega mikil lagði borgarstjóri Lundúna ásamt fleirum upp á að Oxford Street yrði gerð að göngugötu en komið yrði upp sporvögnum til að flytja fólk um götuna. Hætt var við þessa áætlun vegna efnahagskreppunnar. Nú eru uppi áform um að byggja upp tvær lestarstöðvar fyrir Crossrail-verkefnið við Bond Street og Tottenham Court Road. Supernatural. "Supernatural" er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um tvo bræður sem ferðast um Bandaríkin og berjast og leita uppi djöfla, drauga og önnur yfirnáttúruleg fyrirbæri. Höfundurinn að þættinum er Eric Kripke. Alls hafa átta þáttaraðir verið gerðar. Þann 11. febrúar, 2013 tilkynnti CW sjónvarpsstöðin að Supernatural hafi verið endurnýjuð fyrir níundu þáttaröðinni. Framleiðsla. Supernatural er framleitt af Warner Bros. Television Production Inc., í samstarfi við Wonderland Sound and Vision. Framleiðslustjórar eru McG, Eric Kripke og Robert Singer. Fyrrverandi framleiðslustjóri er Kim Manners en hann lést úr lungnakrabbameini árið 2009. Höfundurinn Eric Kripke skipulagði söguþráðinn aðeins fyrir fimm þáttaraðir, en vegna aukinna áhorfa í seríum fjögur og fimm, sóttist CW sjónvarpsstöðin eftir 6. seríu. þá staðfesti Kripke að hann myndi ekki snúa aftur sem yfirhöfundur, en hann myndi vera sérstakur ráðgjafi sem og framleiðslustjóri, en láta Sera Gamble taka yfir sem yfirhöfund. Tilkynnt var 3. maí 2012 að yfirhöfundurinn Sera Gamble myndi stíga til hliðar og í hennar stað kæmu Jeremy Carver og Robert Singer. Tökustaðir. Þó að fyrsti þátturinn væri tekinn upp í Kaliforníu, þá fara aðalupptökurnar fram í Vancouver, Bresku Kólumbíu, með eftirvinnsluna í Kaliforníu. Upptökur stoppuðu í desember 2007, eftir aðeins tólf þætti vegna 2007-2008 verkfall handritshöfunda. Upprunalega átti að taka upp 22 þætti en vegna verkfallsins var serían stytt niður í 16 þætti, með fjóra seinustu þættina tekna upp í apríl og maí 2008. Þróun þáttarins. Samkvæmt Eric Kripke, þá átti þátturinn upprunalega að vera vikulegar sögur af skrímslum þar sem Sam og Dean voru í aukahlutverki, svona nokkurnveginn vikulegar hryllingsmyndir. En eftir aðeins nokkra þætti, tóku Kripke og framleiðslustjórinn Bob Singer eftir því hversu vel Jared Padalecki og Jensen Ackles náðu vel saman. Þá ákváðu þeir að breyta sögunni þannig að hún væri meira um bræðurna sjálfa en skrímslin, þannig að hver þáttur er unninn í kringum bræðurna og hvaða skrímsli þeir eru að leita af hverju sinni. Söguþráður. Supernatural segir frá Sam Winchester (Jared Padalecki) og Dean Winchester (Jensen Ackles), bræður sem berjast við verur sem venjulegt fólk heldur að sé ekki til. Bræðurnir misstu móður sína í bruna þegar Sam var 6 mánaða og Dean var 4 ára. Bruninn virðist hafa verið orsakaður af yfirnáttúrulega öflum. Eftir lát móður þeirra helgaði faðir þeirra John Winchester (Jeffrey Dean Morgan) líf sitt og þeirra í að elta uppi það sem drap konu hans í leit að hefndum. Bræðurnir ólust upp á ferðalaginu með föður þeirra, þar sem þeir lærðu að berjast við þessi yfirnáttúruleg öfl. Mikið af söguþráðunum eru byggðir á bandarískum þjóðsagnarpersónum á borð við vampírur, varúlfa og drauga. Fyrsta þáttaröð. Fyrsta þáttaröðin hefst þegar Dean dúkkar allt í einu upp í íbúð Sam í Stanford-háskóla. Þar leggur hann áherslu á að faðir þeirra hafi horfið í miðri veiðiferð og þarf aðstoð Sams í leit sinni að honum. Til að byrja með er Sam mjög tregur til þess að hjálpa Dean en á endanum samþykkir hann að hjálpa Dean með því skilyrði að þetta sé eina skiptið. Á meðan þeir eru að leita að föður þeirra þá er Jess, kærasta Sam, drepin af sömu öflum og drap móður þeirra. Eftir lát hennar verður Sam ákveðnari í að finna það sem drap hana og leita hefnda. Bæði Sam og Dean fara á veiðarnar um Bandaríkin endilöng í leit sinni að vísbendingum hvar faðir þeirra gæti verið. Önnur þáttaröð. Meginsagan fjallar um leit bræðranna að Guleygða Djölfinum og hvaða plön djöfullinn hafði í huga fyrir Sam. Nóttina sem móðir þeirra dó smitaðist Sam af djöflablóði, sem gerir það að verkum að hann hefur dulræna hæfileika. Svo virðist sem djöfullinn gerði það sama við önnur börn, sem bræðurnir kynnast í gegnum seríuna. Einnig kynnast þeir nýjum bandamönnum: Ellen, Jo og Ash sem hjálpa þeim af og til eins og Bobby, sem er gamall vinur föðurs þeirra. Endi seríunnar skiptist í tvo hluta: í fyrri hlutanum hefur djöfullinn safnað saman þessum einstöku krökkum saman í yfirgefnu bæ. Þar eiga þau að berjast til dauða þangað til eitt þeirra stendur eftir. Sam er drepinn af þeim eina sem eftir stendur og deyr í örmum Deans. Dean sem getur ekki staðið dauða Sam, ákveður að selja sál sína fyrir líf Sams og fær aðeins eitt ár til þess að kveðja Sam áður en hann fer til helvítis. Þriðja þáttaröð. Meginsagan liggur í kringum bræðurna þá sérstaklega Sam sem reynir allt sem hann getur að bjarga Dean frá því að fara til helvítis. Á leiðinni kynnast þeir djöfli sem kallast Ruby, sem hefur mikinn áhuga á Sam og segist geta hjálpað honum að bjarga Dean. Einnig kynnast þeir Belu Talbot sem "safnar" og selur dulræna hluti og er mikill þyrnir í augum þeirra. Á endanum ná bræðurnir að finna djöfulinn sem heldur samningi Deans, sem heitir Lilith. Hvorki Sam né Ruby ná að bjarga Dean áður en hann er sendur til helvítis. Fjórða þáttaröð. Meginsagan fjallar um baráttu bræðranna við Lilith og áætlanir hennar að leysa Lúsífer úr helvíti. Dean rís upp úr helvíti eftir að hafa verið bjargaður af englinum Castiel samkvæmt fyrirskipun Guðs. Sam hefur öðlast meiri hæfileika með aðstoð Ruby þá fjóra mánuði sem Dean var dáinn. Svo virðist sem Dean var lífgaður við til þess að stoppa áætlun Liliths í að rjúfa þau 66 innsigli sem þarf til þess að leysa Lúsífer úr helvíti. Í lokaþættinum drepur Sam, Lilith, en morð hennar er loka innsiglið. Svo virðist sem englarnir vildu að innsiglin yrðu rofin, þar sem þeir telja að Dean getur unnið Lúsifer og boðað komu paradísar til jarðar. Einnig kemur í ljós að Ruby hafi notað Sam allan tíma en er síðan drepin af Dean. Þar sem Sam drap Lilith og rauf á endanum seinasta innsiglið, þá er Lúsífer loksins laus úr helvíti. Fimmta þáttaröð. Meginsagan fjallar um baráttu bræðranna við Lúsífer og komandi heimsendi. Gengum seríuna berjast bræðurnir bæði við djöfla og engla, til þess að komast undan því að verða "vessel" fyrir Michael og Lúsifer. Eiga þeir erfitt með að vinna Lúsifer, en þeir ná að vinna hina fjóra hestamenn heimsendsins, sem geyma hringana sem geta sent Lúsifer aftur til helvítis. Hinn yfirvofandi heimsendir sendir Dean, Sam, Castiel og Bobby í mikið tilfinningastríð gegn sjálfum sér og hvor öðrum. En með stuðningi frá hvor öðrum ná þeir að endalokum í stríði sínu gegn Lúsifer. Sjötta þáttaröð. Meginsagan er leit bræðranna að sálu Sams og stríð þeirra gegn Crowley og Eve (móður allra skrímsla). Sjötta þáttaröðin byrjar ári eftir að Sam fór til helvítis og Dean lifir hamingjusömu lífi með Lísu og Ben. Sam snýr aftur og Dean kynnist nýjum armi af Campbell fjölskyldunni ásamt afa þeirra Samuel. Á samatíma reynir Castiel að koma á friði í himnaríki. Sjöunda þáttaröð. Meginsagan fjallar um baráttu bræðranna gegn Leviathans og yfirmanni þeirra Dick Roman. Sjöunda þáttaröðin hefst á því að Castiel lýsir því yfir að hann sé guð. Kemst hann svo fljótlega að því að Leviathans eru einnig inn í honum og eru að brjótast út úr honum. Sam og Dean ná að loka öllum sálunum aftur inn í Purgatory fyrir utan Leviathans sem drepa Castiel áður en þau hverfa. Einnig er fylgst með baráttu Sams við ofsóknir Lúsifers og það tilfinningastríð sem bræðurnir fara í gegnum vegna andláts Bobbys. Áttunda þáttaröð. Meginsagan fjallar um leit bræðranna að leiðum til að loka hliðum Helvítis fyrir full og allt. Áttunda þáttaröðin byrjar á því að Dean snýr aftur til jarðar frá Purgatory án Castiels. Flutti hann með sér í líkama sínum sál vampírunnar Benny sem hann kynntist í Purgatory. Dean kemst að því að árið sem hann var í burtu hætti Sam að veiða og byrjaði í sambandi með dýralækninum Amelia. Aðrir þættir tengdir þættinum. Þó að staðsetning og sagan breytist í hverri viku þá eru ákveðnir þættir sem eru reglulegir. Klassísk rokktónlist. Ein af megin ákvörðunum Eric Kripke við gerð þáttarins var sú að í hverjum þætti myndi klassísk rokktónlist vera spiluð. Ástæðan var sú að hann vildi ekki þá „lélegu“ tónlist sem sjónvarpsstöðin var þekkt fyrir í öðrum þáttum sem hún sýndi. Dean er látinn vera mikill aðdáendi klassískrar rokktónlistar og þunga rokks sem hann hlustar í á kassettum í bílnum. Eru lögin oft notuð í tengslum við ákveðna senur og þætti, ásamt því að þeir nota nöfn margra söngvara sem dulnefni í þáttunum. Colt-skambyssan. Colt-skammbyssan með þrettán upprunalegum kúlum Colt skambyssan og þær þrettán upprunalega byssukúlur voru búnar til af sjálfum Samuel Colt árið 1835 fyrir yfirnáttúrulegan veiðimann. Samkvæmt þjóðsögunni getur allt sem er skotið úr byssunni drepið allt sem er yfirnáttúrulegt sem annað getur ekki gert. Byssan er líka lykillinn að Hliðinu til Helvítis. Sex byssukúlur hafa verið notaðar áður en hún lendir hjá veiðimanni að nafni Daniel Elkins. Þegar bræðurnir eru að rannsaka óvenjulega dauða hans, þá renna þeir á sjálfa byssuna með hjálp föður þeirra. Einnig komast þeir í kynni við vampírur sem stólu byssunni ásamt því að drepa Elkins. Vampírurnar gefa John Winchester-byssuna í staðinn fyrir vampírugísl en hann gefur hana til Azazel í fyrsta þætti annarrar þáttaraðar í staðinn fyrir líf Deans. Í lok annarrar þáttaraðar er byssan notuð til að drepa Azazel og eftir það er haldið að byssan sé ónýt. En með hjálp Ruby þá nær Bobby að gera við hana og búa til nýja byssukúlur. Þegar líður á þriðju þáttaröð stelur Bella byssunni og gefur hana til Liliths til þess að komast undan samningi sem hún hafði gert við hana tíu árum áður. Í fimmtu þáttaröðinni þá lætur Becky þá vita að djöfullinn Crowley er með byssuna, sem hann lætur þá fá í staðinn fyrir að dreaa Lúsifer. Seinna meir þá lætur Lúsifer þá vita að aðeins fimm hlutir geta drepið hann og byssan er ekki hluti af því. Byssan sést aftur þegar bræðurnir ferðast til ársins 1861, þegar þeir hitta sjálfan Samuel Colt, Dean týnir byssunni sem lendir í hlut bareigandans Elkins sem var forfaðir Daniel Elkins, sem átti byssuna í byrjun fyrstu þáttaraðar. Impala. Chevrolet Impala 1967 er bíll Deans, sem faðir hans gaf honum á 18 ára afmælisdegi hans og er mikilvægast eign hans. Faðir hans keypti hann árið 1973 eftir að Dean sannfærði hann um að bíllinn væri betri en 1968 VW sendibíll, í þættinum „In the Beginnig“, þegar Castiel sendir Dean aftur í tímann. Bíllinn hefur að gefa Kansas bílnúmer KAZ 2Y5, sem er tilvitnun í Kansas (sem er heimafylki bræðranna) og 2005 fyrir árið sem þátturinn var frumsýndur. En í þættinum „What Is and What Should Never Be“ þá er komin ný bílplata með númerið CNK 80Q3, er það vegna þess að bræðurnir eru að flýja undan FBI. Bíllinn er mjög mikilvægur í þættinum enda eina faratæki bræðranna í þáttaröðinni. Í fyrsta þættinum kemur fram að í skottinu má finna mismunandi vopn sem bræðurnir nota við veiðarnar. Í sjöundu þáttaröðinni, þá þurftu bræðurnir að skipta um bíl eftir að tveir "Leviathans" í líki bræðranna gerast morðóðir um endilangt landið í bíl sem líkist Impala bílnum. Roadhouse. Kemur fyrst fram í annarri þáttaröð og er rekið af Ellen og Jo, sem eru mæðgur. Roadhouse er oft stoppistaður fyrir aðrar veiðimenn eins og bræðurnir. Eiginmaður Ellenar og John voru einu sinni samstarfsaðilar, þangað til það kemur í ljós að John var valdurinn að láti eigimans Ellenar. Ash er tölvusnillingur sem býr í Roadhouse. Hann hjálpar oft bræðunum að finna upplýsingar varðandi yfirnáttúruleg öfl. Í „All Hell Breaks Loose, Part 1“ koma Dean og Bobby að staðnum og finna það brunnið til kaldra kola, sem fylgjendur Azazel gerðu. Í „All Hell Breaks Loose, Part 2“ kemur í ljós að Ellen er á lífi og allir aðrir eru látnir þar á meðal Ash. Samkvæmt Eric Kripke hataði hann Roadhouse og því var það ákveðið að eyðileggja það. Þar sem það virkaði ekki að hafa heimili þar sem þetta er þáttur sem aðalpersónurnar ferðast mjög mikið og þurfa ekki heimili. Hnífur Rubys. Ruby átti hníf sem hafði þann eiginleika að geta drepið djöfla. Hnífurinn var mikið notaður í þriðju og fjórðu þáttaröð, þá aðallega til þess að drepa djöfla. Í dag þá eru strákarnir með hnífinn eftir að hafa drepið Ruby í enda fjórðu þáttaraðar. Singer Salvage Yard. Bílagarður sem er í eigu Bobbys Singer og er rekinn af honum, auk þess sem hann er oft notaður sem felustaður fyrir bræðurnar. Í þættinum „Are you there God? It's me, Dean Winchester“ kemur fram að Bobby hafi búið til „panic room“ í kjallara húsins. Herbergið er búið til úr járni-þakið salti og nokkrar djöfla gildrur í kring. Herbergið er nokkrum sinnum notað í fjórðu þáttaröð. 66 innsiglin. Um 600 innsigli koma í veg fyrir að Lúsífer getur sloppið út, aðeins þarf að rjúfa 66 af þeim til þess að hann geti orðið laus. Fyrsta innsiglið þarf að vera „réttlátur maður“ sem spillir blóði í helvíti. Djöfullinn Lilith sér til þess að Dean fer til helvítis og ákvörðun hans í að pynta sálu þá rofnar fyrsta innsiglið. Eftir þetta þá er það auðveldara fyrir Lilith að rjúfa innsigli til þess að Lucifer getur orðið laus. Seinasta innsiglið er rofið af Sam sjálfum þegar hann drepur Lilith í lokaþætti fjórðu þáttaraðar. Vandræði með yfirvöldin. Þar sem Dean og Sam fá ekki borgað fyrir veiðarnar, þá vinna þeir inn sér pening með kreditkorta-fölsunum, pólerspili og billjardsvindli. Enn fremur hafa rannsóknir þeirrar oft sett þá öfugmegin við lögin, þar sem þeir hafa vanhelgað grafir, villað á sér heimildir sem fulltrúar ýmissa opinbera starfsmanna, ásamt inbrotum. Þeir hafa verið rangsakaðir um morð og bankarán af shapeshifter, Dean er talin vera hættulegur og eftirlýstur maður og báðir bræðurnir hafa verið eltir uppi af ýmsum lögreglumönnum, þó aðallega af FBI fulltrúanum Victor Henricksen. Þar sem þeir eru eftirlýstir þá hafa þeir notað dulnefni sem oftast eru nöfn tónlistarmanna. Í þættinum „Jus in Bello“ í þriðju þáttaröð eru Sam og Dean taldir vera dauðir eftir sprengingu í skrifstofu og fangelsi sýslumannsins í Monument-sýslu í Colorado, með því hefur FBI hætt að leita þeirra. Náðu bræðurnir að halda sig frá varðanalögum þangað til í sjöndu þáttaröðinni þegar "Leviathan" klónuðu bræðurnar. Klónar þeirra gengu blóðug drifnan berseksgang um bandaríkjin í von sinni að bræðurnir kæmu úr felum. Sam og Dean eru handteknir af lögreglunni í Iowa í bæ þar sem þeir börðust við "Hook Man" í fyrstu þáttaröðinni. "Leviathans" klónarnir reyna að drepa bræðurnar en þeir ná að drepa klónanna í staðinn. Fótgetinn, sem hafði orðið vitni að því þegar "Leviathans" drápu menn hans, hjálpar bræðrunum með því að láta sem þeir hafi látið lífið. Verðlaun og tilnefningar. Acedemy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Þorgeir Þorgeirson. Þorgeir Þorgeirson (30. apríl 1933 - 30. október 2003) var íslenskur rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður. Hann er einna þekktastur fyrir að hafa þýtt "Alexis Sorbas" eftir Nikos Kazantzakis og margar bóka William Heinesen á íslensku. Hann er einnig þekktur fyrir greinaskrif sín, baráttu sína við Mannréttindadómstólinn í Evrópu og deilur sína við íslenska ríkið sem snerist um að fá leyfi til að skrifa Þorgeirson með einu s-i. Æviágrip. Þorgeir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953. Þá lærði hann þýsku, sálfræði og listasögu við háskólann í Vínarborg 1953 til 1954, dvaldi á Spáni 1954, lærði sjónvarpsleikstjórn í París 1955 til 1956 og kvikmyndastjórn í listaakademíunni í Prag 1959 til 1962. Þorgeir gerði kvikmyndina "Maður og verksmiðja" í anda evrópsku framúrstefnunnar árið 1968. Þorgeir starfaði við kvikmyndagerð 1962 til 1972 samhliða leiðsögustörfum hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Hann vann við ýmis ritstörf, þýðingar og leikstjórn í útvarpi frá 1962. Kennari var hann við Leiklistarskóla SÁL árin 1973 til 1976. Þorgeir vann gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu 1992 eftir að hafa verið dæmdur í Hæstarétti fyrir greinaskrif um lögregluna í Morgunblaðið 1983. Í greinni reifaði Þorgeir nokkur atvik sem hann taldi sig hafa heimildir fyrir, og kom þar fram að lögreglan beitti oftsinnis ofbeldi í starfi sínu og hafi menn hlotið líkamstjón af, jafnvel örkuml. Í greinum Þorgeirs notaði hann orð eins og „einkenniskædd villidýr“, „einkennisklædd óargadýr“ og „lögregluhrottar“. Morgunblaðið tók fram í tilkynningu sinni um andlát Þorgeirs að dómurinn hefði haft áhrif á íslenskt réttarfar. Eiginkona Þorgeirs var Vilborg Dagbjartsdóttir, rithöfndur. Eric Kripke. Eric Kripke (fæddur 24. apríl 1974 í Toledo í Ohio) er bandarískur sjónvarpshöfundur, leikstjóri og framleiðandi. Hann þekktastur fyrir að vera höfundur sjónvarpsþáttanna Supernatural og Revolution. Einkalíf. Kripke er fæddur í Toledo, Ohio. Bjó hann til heimagerðar kvikmyndir með vinum sínum til þess að sýna öðrum stúdentum. Stundaði nám við "USC School of Cinematic Arts" þaðan sem hann útskrifaðist árið 1996. Kripke er giftur og á einn son. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpsverkefni Kripke er frá 2003 þar sem hann þróaði og skrifaði sjónvarpsþáttinn "Tarzan" fyrir "The WB" sjónvarpsstöðina en aðeins átta þættir voru gerðir. Árið 2005 þróaði hann og skrifaði sjónvarpsþáttinn "Supernatural" sem var tekin upp af "The WB" sjónvarpsstöðinni en er núna sýndur á "The CW" sjónvarpstöðinni. Kripke tók stöðu framleiðslustjóra og yfirhandritshöfundar við þáttinn. Kripke yfirgaf þáttinn eftir fimmtu þáttaröðina. Kripke er enn titlaður sem framleiðlustjóri og sem sérstakur ráðgjafi við þáttinn en til þessa hafa verið framleiddar átta þáttaraðir. Í ágúst 2011, var tilkynnt að Kripke væri að þróa seríu fyrir "The CW" sjónvarpstöðina, sem myndi vera byggð á DC Comics persónunni Deadman en ekkert varð úr verkefninu. Kripke þróaði nýja séríu sem heitir Revolution sem var tekin upp af "NBC" sjónvarpstöðinni haustið 2012. Kripke er titlaður sem framleiðslustjóri ásamt J.J. Abrams. Þátturinn var frumsýndur 17. September 2012 á NBC sjónvarpstöðinni. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndaverkefni Kripke voru kvikmyndirnar "Battle of the Sexes" og "Truly Committed" sem hann sjálfur skrifaði handritið að og leikstýrði árið 1997. Árið 2005 skrifaði hann handritið að hryllingsmyndinni "Boogeyman". Verðlaun og tilnefningar. Árið 2008 þá var hann nefndur einn af "meisturum hrollvekjunnar" af TelevisionWeek fyrir starf sitt í sjónvarpi. Kínahverfi. Kínahverfi (e. "Chinatown") er borgarhluti sem margt fólk af kínversku bergi brotnu hefur gert að bækistöð sinni fjarri Kína sjálfri. Yfirleitt fyrirfinnast mörg kínversk veitingahús og verslanir og götur eru þar oft mjög litskrúðugar. Kínahverfin leynast víða í Austur-Asíu, Suðaustur-Asía, Ameríku, Ástralasíu og Evrópu. Hverfin voru áður fyrr talin lokuð samfélög en eru nú á dögum talin markverðar viðskipta- og ferðamannamiðstöðvar. Sum Kínahverfi eru líka fjölmenningastaðir. Mörg Kínahverfi hinna ýmsu borga eru vinsælir ferðamannastaðir en önnur eru lifandi samfélög og sum eru blanda hvort tveggja. Sum hverfin eru þó fátækrahverfi eða endurþróuð svæði. Í sumum Kínahverfum eru aðeins töluð kínverska og oft býr þar fólk sem skilur ekki móðurmál viðkomandi lands. Götumerki eru ósjaldan á kínversku og þýdd á móðurmál viðkomandi staðar. Náttúrugripasafnið í London. Náttúrugripasafnið í London (e. "Natural History Museum") er eitt af þremur minjasöfnum við Exhibition Road í South Kensington í London (önnur eru Vísindasafnið og Victoria og Albert-safnið). Safnið hýsir líf- og jarðsýnishorn sem samanstanda af yfir 70 milljónum hluta í fimm söfnum: grasafræði, skordýrafræði, steindafræði, steingervingafræði og dýrafræði. Safnið er frægt um allan heim fyrir að vera rannsóknamiðstöð sem sérhæfir sig um flokkunarfræði, greiningu og verndun. Vegna aldurs stofnunarinnar eru söfnin mjög verðmæt á sögulegan og vísindalegan hátt, eins og sýnishorn söfnuð af Charles Darwin. Bókasafnið á Náttúrugripasafninu inniheldur víðtæk bóka-, tímarita-, handrita- og listaverkasöfn tengd við verk og rannsóknir vísindadeildanna. Til að fá aðgang að bókasafninu þarf að panta tíma. Safnið er frægt fyrir að hafa stórt risaeðlabeinasafn og íburðarmikinn arkitektúr — stundum er safnið talið að vera "náttúrudómkirkja" — stóra afsteypan af freyseðlu ("Diplodocus") í aðalholinu er dæmi um þetta. Safnið var upprunalega sett saman af söfnum úr Þjóðminjasafni Bretlands. Safnsbyggingin, hönnuð af arkitektinum Alfred Waterhouse, var opnuð árið 1881. Náttúrugripasafnið og Jarðfræðisafnið sameinuðust árið 1935. Selfridges. Selfridges er deildaverslunarkeðja á Bretlandi, stofnuð af Bandaríkjamanninum Harry Gordon Selfridge. Höfuðverslunin er í Oxford Street í London og er önnur stærsta verslunin á Bretlandi á eftir Harrods. Verslunin við Oxford Street opnaði þann 15. mars 1909 og í seinni tíð opnuðu þrjár aðrar verslanir í Trafford (1998) og Exchange Square (2002) í Manchester og sú síðasta í Bullring í Birmingham (2003). Stofnandinn skapaði aðferðir enn í notkun af deildaverslunum í dag, til dæmis sýndi hann vörur svo að viðskiptavinir gætu séð þær áður en þeir keyptu. Einnig setti hann upp ilmvatnsbúðarborð að framanverðu verslunar sem varð mjög arðbært. Talið er að til Harrys eða Marshalls Field megi rekja orðtakið „the customer is always right“ eða „viðskiptavinurinn hefur ávallt rétt fyrir sér“ sem var notað víða í auglýsingum fyrir verslunina. Harry hélt líka sýningar í versluninni, til dæmis var fyrsta opinbera sjónvarpssýningin á fyrstu hæð í Selfridges árið 1925. Verslanirnar eru þekktar fyrir að hafa merkilegan arkitektúr, verslunin í Oxford Street var hönnuð af arkitektinum Daniel Burnham. Verslunin í Birmingham er skrýtin í formi og þakin með 15.000 diskum úr áli. Þjóðbókasafn Bretlands. Þjóðbókasafn Bretlands (enska: "British Library") er þjóðbókasafnið á Bretlandi. Það er í London og er stærsta rannsóknarbókasafn í heimi. Í safninu eru yfir 150 milljónir safngripa á öllum þekktum tungumálum og sniðum: bækur, tímarit, dagblöð, hljóðrit, einkaleyfi, gagnagrunnar, kort, frímerki, veggspjöld, teikningar og fleira. Bækur í safninu eru um það bil 25 milljónir, að ógleymdum handritum, þau elstu frá 300 f.Kr.. Aðeins eitt bókasafn er stærra en Þjóðbókasafn Bretlands, þ.e. Library of Congress í Bandaríkjunum. Samkvæmt enskum lögum um prentskil skal Þjóðbókasafnið fá eintök allra bóka sem gefnar eru út á Bretlandi og Írlandi, og allra erlendra bóka sem dreift er á Bretlandi. Bókasafnið kaupir líka margt útgefið efni erlendis frá. Bætt er við safnið um það bil þremur milljónum eintaka árlega. Bókasafnið varð sérstök stofnun árið 1973, en áður var það hluti Þjóðminjasafns Bretlands. Íslensk handrit. Í Þjóðbókasafni Bretlands eru nokkur hundruð íslensk handrit. Sum þeirra útvegaði Sir Joseph Banks, en hann fór í rannsóknarferð til Íslands árið 1780. Flest handritin keypti safnið af Finni Magnússyni árið 1837. 50. Árið 50 (L) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á fimmtudegi. Maríusvunta. Maríusvunta (fræðiheiti "Ulva lactuca") er blaðlaga grænþörungur sem er 5 - 15 sm á lengd og 3 - 10 sem á breidd en getur orðið mikið stærri á lygnum stöðum. left Blaðið festist með stilk á stein. Maríusvunta vex um alla fjöru. Grænhimna ("Monostroma gervillei") og marglýja ("Ulvaria obscura") eru líkar maríusvuntu og erfitt að greina þessar tegundir sundur. Jeanine Mason. Jeanine Mason (fædd 14. janúar 1991 á Miami á Flórída) er kúbversk-bandarískur dansari á nútímasviði. Hún er best þekkt fyrir framkomu sína og sigur í fimmtu þáttaröðinni af So You Think You Can Dance sem er sýndur á FOX-sjónvarpsstöðinni. Haustið 2009 mun Jeanine hefja nám við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Hún er yngsti dansari sem nokkurn tímann hefur unnið þessa keppni. Loftur Guttormsson. Loftur ríki Guttormsson (f. um 1375, d. 1432) var íslenskur höfðingi, sýslumaður, hirðstjóri og riddari á 15. öld. Loftur var af ætt Skarðverja, sonur Guttorms Ormssonar í Þykkvaskógi í Miðdölum, sonar Orms Snorrasonar á Skarði, og konu hans Soffíu, dóttur Eiríks auðga Magnússonar á Svalbarði og Möðruvöllum í Eyjafirði. Loftur átti eldri bróður, Jón, sem bjó í Hvammi í Hvammssveit og var fyrri maður Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur. Jón dó 1403 í Svarta dauða og áttu þau Kristín ekki börn sem upp komust. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Loftur er fæddur en faðir hans var veginn í Snóksdal 26. maí 1381. Talið er að hann hafi verið í útlöndum laust eftir aldamótin 1400, þegar Svartidauði gekk um Ísland, en árið 1406 var hann kominn til Íslands. Árið 1414 virðist hann hafa verið við hirð Eiríks konungs af Pommern og er sagður hafa fengið riddaratign. Hann hafði höggorm í skjaldarmerki sínu. Hann varð hirðstjóri norðan og vestan 1427 og hafði það embætti til dauðadags 1432. Loftur virðist hafa verið vinsæll og friðsamur og notið virðingar. Hann mun hafa verið í vinfengi við Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup og var ráðsmaður Hólastóls 1430-1431. Loftur var einn af auðugustu Íslendingum á sinni tíð, er talinn hafa auðgast mjög á sjávarútvegi og skreiðarútflutningi en erfði líka stórfé, m.a. eftir ættmenni sín sem dóu í Svarta dauða. Hann átti fjöldamargar jarðir og hafði mörg bú en mest dvaldi hann á Möðruvöllum í Eyjafirði, að minnsta kosti síðari hluta ævinnar. Sagt er að hann hafi haldið sig ríkmannlega og riðið með átján til tuttugu sveina á milli stórbúa sinna. Þegar hann lést var auður hans svo mikill að skilgetnir synir hans tveir fengu hvor um sig í arf 11 1/2 hundrað hundraða í fasteignum auk annarra eigna, dæturnar helming á við synina og svo gaf hann fjórum óskilgetnum sonum sínum 9 hundruð hundraða. Í annálum er talið að hann hafi átt 80 jarðir. Fylgikona Lofts var Kristín Oddsdóttir, dóttir Odds lepps Þórðarsonar lögmanns. Loftur virðist hafa unnað henni mikið og til hennar orti hann ástarkvæði, "Háttalykil", en hann var skáld gott þótt fátt sé varðveitt af kveðskap hans. Þar segir meðal annars: "Meinendur eru mundar / mínir frændur og þínir", sem líklega þýðir að ættingjar þeirra hafi komið í veg fyrir að þau giftust en ekki er vitað hvers vegna; sennilega hafa þau verið of skyld en ekki vitað hvernig þeim skyldleika var háttað. Synir þeirra voru Ormur Loftsson hirðstjóri norðan og vestan, Skúli í Garpsdal og Sumarliði á Vatnshorni. Loftur átti líka soninn Ólaf, sem bjó á Helgastöðum í Reykjadal og í Reykjahlíð við Mývatn, en ekki er vitað hver móðir hans var. Kona Lofts var Ingibjörg, dóttir Þorvarðar Pálssonar sýslumanns á Eiðum, og dó hún sama ár og Loftur. Börn þeirra voru Ólöf ríka, Þorvarður ríki á Möðruvöllum, Eiríkur slógnefur á Auðbrekku og Grund í Eyjafirði og Soffía húsfreyja á Meðalfelli. Gossip Girl (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af Gossip Girl, bandarískum unglingadrama-þætti var sýnd á CW-stöðinni frá 1. september 2008 fram til 18. maí 2009 og innihélt 25 þætti, þ.á.m. þáttinn „Valley Girls“ sem einblíndi á Lily van der Woodsen (Kelly Rutherford/Brittany Snow) og fjölskyldu hennar í Los Angeles árið 1983. Yfirlit. Þáttaröðin fylgist með lífum fordekruðu unglinganna Serenu van der Woodsen, Blair Waldorf, Dan Humphrey, Nate Archibald, Jenny Humphrey og Chuck Bass. Þau ganga í fínan einkaskóla í efri-austurhluta Manhattan í New York borg. Í þáttunum er einnig móðir Serenu; Lily van der Woodsen, og faðir Jenny og Dan; Rufus Humphrey, ásamt Vanessu Abrams sem er frá Vermont. Söguþráður. Það er lokaárið hjá okkar áskæru unglingum og „dramað“ er í hámarki. Að sækja um háskóla er aðeins lítill hluti af sögunni, þegar nýjar ástir (og sumar svo ekki nýjar ástir) blómstra og visna, hneyksli eru hvert sem litið er og bandalög breytast hraðar en „Blaðurskjóðan“ nær að senda út uppfærslur. Fjölskyldur og orðspor eru eyðilögð og búin til; eins auðæfi. Það mun jafnvel reyna á hin sterkustu vinatengsl. London Gatwick-flugvöllur. London Gatwick-flugvöllur eða Gatwick (IATA: LGW, ICAO: EGKK) er annar stærsti flugvöllur í London og annar fjölsóttasti á Bretlandi á eftir Heathrow-flugvelli. Árið 2008 var hann 28. fjölsóttasti flugvöllur í heimi eftir fjölda ferðamanna, og sá 9. fjölsóttasti eftir fjöldi alþjóðlegra ferðamanna. Hann er fjölsóttasti flugvöllur í heimi með eina flugbraut. Gatwick er 5 km norðan megin við Crawley í Vestur-Sussex, og 45,7 km sunnan megin við London. Flugvöllurinn er í eigu og undir stjórn BAA, sem á og stjórnar sex öðrum breskum flugvöllum. Fjöldi ferðamannanna náði hámarki árið 2007 þegar í fyrsta sinn notuðu yfir 35 milljónir manna flugvöllinn. Samt sem áður dróu úr fjölda ferðamanna um 2,9% árið 2008 þegar 34.205.887 manns og 263.653 flugvélar notuðu flugvöllinn. Haldið var upp á 50 ára afmæli flugvallarins árið 2008, Elísabet 2. Bretadrottning opnaði flugvöllinn þann 9. júní 1958. Yfirleitt starfa leiguflugfélög ekki frá Gatwick, heldur nota þau hann sem höfuðstöðvar fyrir London og suðaustursvæði Englands. Flugfélögin Aer Lingus, British Airways, EasyJet og Virgin Atlantic hafa höfuðstöðvar í Gatwick. Það eru líka sum leiguflugfélög staðett þar, til dæmis Monarch Airlines, Thomas Cook Airlines og Thomson Airways. Jared Padalecki. Jared Tristan Padalecki (fæddur 19. júlí 1982) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Gilmore Girls og Supernatural. Einkalíf. Padalecki er fæddur og uppalinn í San Antonio í Texas og er af pólskum ættum föður megin. Padalecki byrjaði að taka leiklistartíma þegar hann var tólf ára. Jared stundaði nám við "James Madison High School" í San Antonio og var nefndur kandídat fyrir "2000 Presidential Scholars Program". Árið 1998 unnu Padalecki og vinur hans Chris Cardenas "National Forensic League" ríkiskeppnina í "Duo Interpretation". Padalecki vann "Claim to Fame"-keppnina sem Fox sjónvarpsstöðin hélt árið 1999 þar sem hann kom fram á Teen Choice verðlaunahátíðinni. Þar kynntist hann núverandi umboðsmanni sínum. Eftir að hafa útskrifast úr menntaskóla árið 2000, þá fluttist hann til Los Angeles, til þess að koma sér áfram í leiklistinni, þrátt fyrir að hafa ætlað í nám við Texas-háskólann í Austin. Jared var trúlofaður leikkonunni Sandra McCoy en þau hættu síðan saman í apríl 2008 og staðfesti Jared það á Supernatural Dallas ráðstefnunni til þess að stoppa orðróma. Þann 27. janúar 2010 giftist Jared leikkonunni Genevieve Cortese en þau kynntust við tökur á Supernatural. Jared og Genevieve eignuðust sitt fyrsta barn í mars 2012. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshutverk Padaleckis var árið 2000 í sjónvarpsmyndinni "Silent Witness". Sama ár var honum boðið hlutverk í Gilmore Girls sem Dean Forester, sem hann lék til ársins 2005. Hefur hann síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Supernatural sem Sam Winchester. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Padaleckis var árið 1999 í "A Little Inside". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við New York Minute, House of Wax þar sem hann lék á móti Paris Hilton, Elisha Cuthbert og Chad Michael Murray og Friday the 13th. Croydon (borgarhluti). Croydon (e. "London Borough of Croydon") er borgarhluti í Suður-London og er hluti ytri London. Hann er 82 km² að flatarmáli og er stærsti borgarhluti í London eftir íbúatölu. Croydon er syðsti borgarhluti í London. Nú er hann mikilvæg viðskipta-, fjármála- og menningarmiðstöð. Árið 2007 var íbúatala um það bil 339.500 manns. Borgarhlutinn dregur nafnið sitt af borginni Croydon sem liggur í miðju borgarhlutans. Um þessa borg er talað í Dómsdagsbókinni og hefur vaxið úr litlum bæ með markað í einu þéttbyggðustu svæðum við útjaðra London. Stærsta verslunarhverfið utan við Mið-London er staðsett í Croydon. Það er sporvagnakerfi sem starfar um borgarhluta, Croydon Tramlink, sem er eina sporvagankerfið enn í þjónustu í London. Bromley (borgarhluti). Bromley (e. "London Borough of Bromley") er borgarhluti í Suðaustur-Lundúnum og er hluti ytri London. Höfuðborg borgarhlutans er Bromley. Hann er stærsti borgarhluti í Lundúnum að flatarmáli (152,8 km²). Greenwich-baugurinn rennur í gegnum borgarhlutann. Árið 2007 var íbúatala um það bil 300.700 manns. Lewisham (borgarhluti). Lewisham (e. "London Borough of Lewisham") er borgarhluti í Suðaustur-London og er hluti innri London. Höfuðborg borgarhlutans er Lewisham og ráðhúsið er staðsett í Catford. Greenwich-baugurinn rennur í gegnum borgarhlutann. Árið 2007 var íbúatala um það bil 258.500 manns. Greenwich (borgarhluti). Greenwich (e. "London Borough of Greenwich", borið fram) er borgarhluti í Suðaustur-London og er hluti innri London. Nokkrar mikilvægur byggingar í Greenwich eru stjörnuathugunarstöðin Royal Observatory, Háskólinn í Greenwich og Þúsaldarhvelfingin. Greenwich-baugurinn rennur í gegnum borgarhlutann. Árið 2007 var íbúatala um það bil 223.100 manns. Jensen Ackles. Jensen Ross Ackles (fæddur 1. mars 1978), er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Smallville og Supernatural. Fjölskylda. Jensen er fæddur og uppalinn í Dallas, Texas og er af enskum, írskum og skoskum ættum. Jensen var búinn að ákveða að fara í nám og læra íþróttalækningar við Tækniskólann í Texas og gerast sjúkraþjálfari en í staðinn þá fór hann til Los Angeles og byrjaði leiklistarferil sinn. Eftir að hafa verið saman í þrjú ár, þá giftist Jensen, leikkonunni Danneel Harris úr "One Tree Hill" þann 15.maí 2010 í Dallas, Texas. Þann 7. janúar, 2013 var tilkynnt að Jensen og Danneel ættu von á barni. Leikhús. Jensen lék á móti Lou Diamond Phillips í "A Few Good Men" við Casa Mañana Theatre í Fort Worth, Texas, sem Lt. Daniel Kaffee. Leikritið var sýnt frá 5. til 10. júní 2007 og fékk Jensen mikið lof fyrir leik sinn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Ackles var árið 1996 í "Wishbone". Árið 1997 þá var honum boðið hlutverk í sápuóperunni Days of Our Lives sem Eric Brady, sem hann lék til ársins 2000. Jensen vann "Soap Opera Digest" verðlaunin árið 1998 sem besti karlkynsnýliðinn og var tilnefndur þrisvar sinnum (1998, 1999 og 2000) sem "framúrskarandi ungur leikari í drama-seríu" til Daytime Emmy verðlaunanna. Jensen var annar í röðinni fyrir Clark Kent í Smallville, sem féll í skaut Tom Welling. Eftir að hafa misst af þessu tækifæri þá fékk hann aukahlutverk í sjónvarpsþættinum Dark Angel árið 2001 sem raðmorðinginn Ben/X5-493, "bróðir" aðalpersónunnar Max/X5-452(leikin af Jessica Alba). Persóna hans dó í þættinum en Jensen birtist aftur í þættinum þá sem reglubundinn í annarri þáttaröð, þá sem hinn skynsamlegi klóni Bens, Alec/X5-494. Jensen var með þættinum þangað til að hann hætti árið 2002. Jensen sneri aftur til Vancouver (þar sem "Dark Angel" var tekinn upp) árið 2004 til þess að vera reglubundinn leikari í "Smallville". Þar lék hann Jason Teague aðstoðarþjálfara ruðningsboltaliðsins. Hefur hann síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Supernatural sem Dean Winchester. Jensen hefur leikstýrt tveim þáttum af Supernatural. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Ackles var árið 2004 í "The Plight of Clownana" og hefur hann síðan þá komið fram í tveim öðrum kvikmyndum "Ten Inch Hero" og "My Bloody Valentine" Tenglar. Ackles, Jensen Dvalargró. Dvalargró eru harðger hylki sem sumar Gram-jákvæðar bakteríur mynda innan frumunnar til að vernda erfðaefni sitt við ólífvænlegar umhverfisaðstæður, svo sem hátt eða lágt hitastig eða sýrustig, næringarefnaskort eða þurrk. Breytist umhverfisaðstæður og verði lífvænlegar að nýju geta dvalargróin „spírað“ og myndað nýjar, starfhæfar frumur. Dvalargróin eru mun þolnari en starfhæfar frumur gagnvart ýmsu umhverfisáreiti, svo sem hitun, þurrkun, útfjólublárri geislun, jónandi geislun og sótthreinsiefnum. Þau geta verið lífvænleg um lengri tíma, jafnvel öldum saman. Bakteríur sem mynda innræn dvalargró er eingöngu að finna innan fylkingarinnar "Firmicutes", til dæmis í ættkvíslunum "Bacillus", "Clostridium", "Paenibacillus" og "Sporosarcina". Aðrar grómyndandi bakteríur, svo sem geislagerlar og myxógerlar, mynda gró sem minna meira á gró sveppa og jurta og eru ekki staðsett inni í frumunni. Sumar aðrar bakteríur geta aukið þolni sína gegn umhverfisáreiti á annan hátt, til dæmis með myndun varnarhjúps (e. "cyst") utan um frumuna. Jón Pétursson (háyfirdómari). Jón Pétursson (16. janúar 1812 – 16. janúar 1896) sýslumaður, alþingismaður og háyfirdómari var fæddur á Víðivöllum í Blönduhlíð í Skagafirði og voru foreldrar hans Pétur Pétursson prófastur á Víðivöllum og síðari kona hans, Þóra Brynjólfsdóttir. Bræður hans voru þeir Pétur Pétursson biskup og Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður og voru þeir oft kallaðir einu nafni Víðivallabræður. Jón varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1834, sigldi svo til Kaupmannahafnar og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1841. Síðan var hann sýslumaður, fyrst í Eyjafjarðarsýslu, svo í Strandasýslu, þá í Borgarfjarðarsýslu og að lokum í Mýra- og Hnappadalssýslum. Árið 1850 varð hann dómari í landsyfirdómi og 1877 var hann gerður að háyfirdómara (dómstjóra). Því embætti gegndi hann til 1889. Hann gegndi jafnframt ýmsum öðrum embættum og trúnaðarstörfum. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1859-1887. 1846 festi Jón kaup á nýlegu húsi, sem síðar varð Laugavegur 1 og bjó þar til dauðadags. Fyrri kona Jóns var Jóhanna Sofía Bogadóttir (7. febrúar 1823 – 21. maí 1855), dóttir Boga Benediktssonar á Staðarfelli og Jarþrúðar Jónsdóttur. Á meðal barna þeirra voru tvíburarnir séra Pétur og séra Brynjólfur. Seinni kona Jóns var Sigþrúður (19. mars 1830 – 17. október 1912), dóttir séra Friðriks Eggerz í Akureyjum og Arndísar Pétursdóttur. Á meðal barna þeirra voru hinir kunnu Sturlubræður. Fjárréttir í Norðfirði. Þetta er listi yfir fjárréttir í Norðfirði. Innri London. Innri London (e. "Inner London") er heiti sem lýsir þeim hópi borgarhluta í London sem myndar innri hluta Stór-Lundúnasvæðisins. Þessi hópur borgarhluta er umkringdur af ytri London. Svæðið var skilgreint opinberlega árið 1965 við myndun borgarhlutakerfisins fyrir tölfræðilegan tilgang. Skilgreining svæðisins hefur breyst með tímanum. Varast ber að rugla saman "Innri London" og "Mið-London", sem merkir annað. Lundúnaborg var ekki hluti sýlsunnar London, og er ekki borgarhluti, en maður má taka hana með innri London. Ytri London. Ytri London (e. "Outer London") er heiti sem lýsir þeim hópi borgarhlutanna í London sem myndar ytri hluta Stór-Lundúnasvæðisins. Þessi hópur borgarhluta umkringir innri London. Svæðið var skilgreint opinberlega árið 1965 við myndun borgarhlutakerfisins í tölfræðilegum tilgangi. Borgarhlutarnir eru þau svæði sem voru ekki í gömlu sýslunni London. Skátafélagið Víkingur. Skátafélagið Víkingur er skátafélag á Húsavík. Það var stofnað árið 1940. Næturlíf. Næturlíf er orð notað til að lýsa skemmtun sem er vinsæl um kvöld og fram á morgun. Næturlíf á sér stað á kráum, börum, veitingahúsum og í næturklúbbum. Það er aðallega fyrir táninga og unga fullorðna; þessir skemmtistaðir selja yfirleitt áfengi og spila tónlist hátt. Stundum er starfsemi í vændishúsahverfi talin að vera næturlíf. Netkorn. Netkorn, ríbósóm eða rípla er frumulíffæri og var uppgötvað á miðjum 6. áratug 20. aldar af rúmenska vísindamanninum George Palade og hlaut hann fyrir nóbelsverðlaunin í líðfeðlis- og læknisfræði árið 1974. Alþjóðheitið ríbósóm er af því dregið að í þessum kornum er ríbósóm kjarnsýra (RNA). auk þess eru í þeim prótín. Úthverfi. Úthverfi eða útborg er svæði sem liggur útan við borg þar sem eru mörg hús og víðáttur. Þau eru yfirleitt léttbyggð og þar eiga heima margir vinnuferðalangar sem vinna í miðborg. Úthverfi getur verið gamall bær eða þorp sem hefur verið byggður upp við útþenslu stærri borgarinnar. Byggingar eins og skólar, stórmarkaðir og litlar verslanir finnast í úthverfum, en yfirleitt finnast ekki stór fyrirtæki eða stóriðja. Úthverfi voru byggð um allan heim á 20. öldinni vegna betri og ódýrari flutningatækja. Oft eru metin vera ófrjó og leiðinleg. Konunglegi grasagarðurinn í Kew. Konunglegi grasagarðurinn í Kew (e. "Royal Botanic Gardens, Kew" eða "Kew Gardens") er grasagarður og hópur gróðurhúsa á milli hverfanna Richmond og Kew í suðvestur-London á Englandi. Hann er mikilvægur ferðamannastaður og rannsóknarstofnun í grasafræði. Þar vinna 700 manns og honum eru veittar 56 milljónir breskra punda árlega. Um það bil tvær milljónir ferðamanna heimsóttu garðinn árið 2008. Hann var stofnaður árið 1759 og hélt upp á 250 ára afmælið árið 2009. Forstjórinn er Stephen Hopper og hann sér um stærsta safn lifandi jurtanna í heimi. Yfir 650 vísindamenn vinna þar. Í lifandi söfnunum eru yfir 30.000 jurtategundum og í jurtasafninu eru yfir sjö milljónir niðurlagða jurta (þetta er stærsta safn jurta í heimi). Í bókasafni garðsins eru yfir 750.000 bækur og það eru um 175.000 myndir og teikningar af jurtum í myndsafninu. Bloomsbury. Bloomsbury er hverfi í Mið-London í suðurhluta borgarhlutans Camden og er þekkt fyrir að hafa mikil torg og garða. Í Bloomsbury eru margar akademískar stofnanir og nokkrir spítalar, á svæðinu eru Þjóðminjasafn Bretlands, Royal Academy of Dramatic Art og British Medical Association. Á svæðinu eru líka Senate House-bókasafn háskólans í London, nokkrar deildar háskólans og nokkrir skólar innan hans, svo sem (University College London, Birkbeck, London School of Hygiene and Tropical Medicine, School of Pharmacy, School of Oriental and African Studies og Royal Veterinary College). Spítalarnir í hverfinu eru Great Ormond Street-spítali, Breski taugafræðaspítalinn og University College Hospital. Numb3rs. "Numb3rs" er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fylgir eftir bræðrunum Don Eppes (Rob Morrow) og Charlie Epps (David Krumholtz). Don er FBI alríkisfulltrúi á meðan Charlie er stærðfræðisnillingur. Höfundarnir að þættinum eru Nicolas Falacci og Cheryl Heyton. Framleiðsla. Hugmyndin að Numb3rs kom fyrst fram í kringum 1990 þegar Nick Falacci og Cheryl Heuton, höfundar þáttarins, mættu á fyrirlestur með Bill Nye, vinsælum vísindakennara. Forsenda þáttarins er sams konar og það sem Colin Bruce hafði ímyndað sér fyrir Sherlock Holmes persónu, ásamt sjónvarpsþætti með Mathnet hluti sem gerður var fyrir börn sem kallaðist "Square One". Framleiðendur. Þátturinn var framleiddur af framleiðslufyrirtækinu "Scott Free Productions" sem er í eigu Ridley Scott og Tony Scott, í samvinnu við "CBS Television Studios" (upprunalega "Paramount Television", en varð síðan "CBS Paramount Television"). Tökustaður. Þátturinn átti að gerast við við Tækniháskólann í Massachusetts en þessu var breytt og hinn ímyndaði CalSci var búinn til. Senur fyrir skólann eru teknar upp í kringum Tækniháskólann í Kaliforníu (Caltech) og Suður-Kaliforníuháskólann. Senur fyrir fjölskylduheimili Epps er Craftsman home, húsið sjálft kemur fram í fyrstu þáttaröðinni og eigendur þess eru David Raposa og Edward Trosper. Frá annarri þáttaröð var notast við eftirlíkingu af húsinu. Söguþráður. Þátturinn snýst aðallega um sambandið á milli bræðranna og föður þeirra, Alan Epps, (Judd Hirsch) og tilraun þeirra til að berjast við glæpi í kringum Los Angeles. Fyrsta þáttaröð. Fyrsta sería sýnir hvernig sambandið á milli Don og Charlie þróast með hjálp föður þeirra. Don vinnur náið með alríkisfulltrúunum Terry Lake og David Sinclair. Á meðan Charlie sækist eftir hjálp og stuðningi frá prófessor Larry Fleinhardt og doktorsnemanum Amita Ramanujan. Aðeins þrettán þættir voru framleiddir og Sabrina Lloyd sem lék Terry Lake var skipt út fyrir Diane Farr sem leikur Megan Reeves. Önnur þáttaröð. Í annarri þáttaröð verða nokkrar breytingar á leikaraliðinu, tveir nýir alríkisfulltrúar, Megan Reeves og Colby Ranger, bætast við en Terry Lake flytur til Washington. Charlie á við nokkur stærðfræðivandamál að stríða, ásamt því að hann byrjar að vinna að nýrri kenningu, Cognitive Emergence Theory. Larry selur húsið sitt og byrjar að lifa frjálslegum lífsstíl auk þess sem hann byrjar rómantískt samband við Megan Reeves. Amitu er boðin prófessorsstaða við Harvard-háskóla en á erfitt með að ákveða hvort hún eigi að fara eða vinna í sambandi sínu við Charlie. Alan byrjar að vinna aftur og fara á stefnumót en á erfitt með að komast yfir missi konu sinnar. Bæði Alan og Charlie dreymir hana. Þriðja þáttaröð. Charlie og Amita byrja saman, sama gera Larry og Megan, þá sérstaklega eftir að henni var rænt. Amita á erfitt með að koma sér fyrir sem CalSci prófessor og Larry lýsir yfir að hann sé að fara út í geim í sex mánuði, sem hefur mikil áhrif á Charlie. Dr. Mildred Finch, nýráðinn yfirmaður CalSci Eðlis-, stærðfræði- og stjörnufræðideildarinnar, kemst upp á kant við Charlie og samstarfsmenn, ásamt því að Alan byrjar að deita hana. Á meðan þá byrjar Don að slá sér upp saman með alríkisfulltrúanum Liz Warner en fer að hafa áhyggjur um sitt eigið siðferði og byrjar að fara til ráðgjafa. Charlie hittir ráðgjafa Dons og eftir það þá skilja þeir hvor annan betur. Alan hjálpar til sem ráðgjafi vegna þekkingar sinnar á verkfræði. Larry kemur aftur tilbaka frá geimstöðinni, ásamt því að lokaþættirnir sýna að Colby var tvöfaldur útsendari fyrir Kínverja. Mestu breytingar er fjarvera leikarana Peter MacNicol (lék í 24) og Diane Farr (ólétt), ásamt því að breytingar urðu á hvernig listi leikarana kemur upp í byrjun þáttarins. Fjórða þáttaröð. Þáttaröðin byrjar á því að Colby Granger strýkur úr fangelsi og síðan kemst í ljós að hann var þrefaldur útsendari. Hann byrjar aftur að vinna hjá FBI. Don og Liz hætta saman og á hún erfitt með traust Dons. Foreldrar Amitu koma í heimsókn. Megan á erfitt með vinnu sína og biður Larry um hjálp. Don byrjar að deita Robin Brooks sem er saksóknari. Megan flytur til Washington D.C. og Charlie lendir í rifrildi við Don vegna máls. Það hefur þær afleiðingar að Charlie sendur ákveðnar upplýsingar til vísindamanna í Pakistan sem hefur þær afleiðingar að Charlie missir öryggispassa sinn og er handtekinn. Með þessu getur hann ekki hjálpað Don lengur, Charlie viðurkennir að vinna hans hjá FBI hefur meiri áhrif á hann en hann hélt. Fimmta þáttaröð. Þáttaröðin byrjar á því að kærurnar gegn Charlie eru lagðar niður og á endanum fær hann öryggispassa sinn aftur. Don byrjar að fræðast meira um gyðingatrú. Nýr meðlimur bætist hjá FBI í formi Nikki Betancourt, Liz er boðin stöðuhækkun en afþakkar hana. Alan er kominn í nám í CalSci og þjálfa körfuboltaliðið þar. Don verður fyrir hnífaárás og Charlie sakar sjálfan sig fyrir það. Charlie ákveður að einbeita sér meira að vinnu sinni hjá FBI. Í lokaþættinum er Amitu rænt og liðið reynir að finna hana. Eftir að henni er bjargað þá biður Charlie hana um að giftast sér. Svar hennar er óvitað. Sjötta þáttaröð. Þáttaröðin byrjar með trúlofun Charlie og Amitu. Stuttu á eftir þá hættir Larry við að fara og vinna hjá CERN í Geneva og hættir að vera með námskeið fyrir næstu önn og Charlie uppgvötar að Larry er enn og aftur að fara og skilja alla vinnu sína hjá Charlie. Don kemst að því að fyrrverandi leiðbeinandi hans er svikull, sem kemur niður illa á Don þegar hann þarf að skjóta leiðbeinanda sinn. Charlie og Don komast að því að Alan hefur misst mikið af peningum sínum. Eftir smá töf yfirgefur Larry LA en finnur land til sölu rétt fyrir utan borgina. Alan ákveður að byrja að vinna aftur sem tölvubúnaðs ráðgjafi. David óskar eftir aðstoð frá Don varðandi vinnuferil innan alríkislögreglunnar. Charlie og Amita byrja að skipuleggja brúðkaup sitt og ákveða að ganga í prógram sem kallast Big Brothers Big Sisters of America til þess að æfa sig í foreldrahlutverkinu. Verðlaun og tilnefningar. Höfundar þáttarins, Nicolas Falacci og Cheryl Heuton, hafa unnið til nokkurra verlauna fyrir þáttinn, þar á meðal fékk Carl Sagan verðlaun fyrir almennings skilning á vísindum árið 2006. Jafnframt fékk hann "National Science Boards Public Service" verðlaunin árið 2007. Túlkunin á stærðfræðinni. Nokkrir stærðfræðingar vinna sem ráðgjafar fyrir hvern þátt. Stærðfræðin sem er notuð í þættinum er raunveruleg. Þrátt fyrir hversu vel stærðfræðin er raunverulega sett fram bæði á töflu og tali, þá er hún ekki megin markmiðið hjá starfsliði Numb3rs, samkvæmt Cheryl Heuton, öðrum af höfundum þáttarins. Kennsluprógram sem kallast We All Use Math Every Day býður upp á kennsluráð byggt á stærðfræðinni sem kemur fram í þættinum. Prógramminu er stýrt af fyrirtækinu Texas Instruments í sambandi við landsamtök kennara í stærðfræði í Bandaríkjunum. Efnið sem er búið til af kennurunum og stærðfræðingunum er ætlað fyrir nemendur í skólum. Bók sem kallast "The Numbers Behind Numb3rs: Solving with Mathematics" var gefin út í ágúst 2007. Var hún skrifuð af Keith Delvin og Dr. Gary Lorden, ráðgjafa fyrir þáttinn. Bókin útskýrir þær stærðfræðiaðferðir sem hafa verið notaðar af FBI og öðrum lögregludeildum. Síðan þátturinn var frumsýndur, þá hefur Prof. Mark Bridger (Norheastern University) haldið uppi netsíðu sem útskýrir þá stærðfræði sem kemur fram í hverjum einasta þætti. Wolfram Reasearch (framleiðandi Mathematica), sem er aðal stærðfræðiráðgjafinn, fer yfir handrit og gefur upplýsingar um bakgrunn stræðfræðina sem er notuð. Frá fjórðu þáttaröð hafa þeir sett upp heimasíðu með CBS sem kallast „The math behind Numb3rs“. Áhyggjuefni frá stærðfræðingum. Að minnsta kosti einn stærðfræðiráðgjafi við þáttinn hefur lýst áhyggjum sínum yfir því hvernig stærðfræðin er notuð, þar sem hún er sett inn eftir að handritið hafi verði skrifað, í staðinn fyrir að hafa ráðgjafann með á öllum stigum framleiðslunnar. Aðrir hafa lýst áhyggjum yfir því hvernig kvenstærðfræðingum er lýst, ásamt sambandinu á milli Charlie Epps og Amitu Ramanujan. Listi yfir Numb3rs-þætti (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröð "Numb3rs" var frumsýnd 13. júní 2005 og sýndir voru 13 þættir. Listi yfir Numb3rs-þætti (2. þáttaröð). Önnur þáttaröð Numb3rs var frumsýnd 23. september 2005 og sýndir voru 24 þættir. Listi yfir Numb3rs-þætti (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröð Numb3rs var frumsýnd 22. september 2006 og sýndir voru 24 þættir. Listi yfir Numb3rs-þætti (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröð Numb3rs var frumsýnd 28. september 2007 og sýndir voru 18 þættir.Vegna verkfalls handritshöfundanna þá voru aðeins tólf þættir gerðir en sex bættust við eftir að því lauk. Listi yfir Numb3rs-þætti (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröð Numb3rs var frumsýnd 3. september 2008 og sýndir voru 23 þættir. Nupur Holding S.A.. Nupur Holding hét áður Brown Holding. Félagið er í eigu Pálma Haraldssonar, og er móðurfyrirtæki Fengs. The Closer. "The Closer" er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um lögreglufulltrúann Brenda Leigh Johnson (Kyra Sedgwick) frá Georgíu sem flytur til Los Angeles, í þeim tilgangi að leiða forgangs morðsrannsóknar deild. Höfundurinn að þættinum er James Duff. Framleiddar voru sjö þáttaraðir og var fyrsti þátturinn frumsýndur 13. júní 2005. Framleiðendur. Þátturinn var framleiddur af Shephard/Robin fyrirtækinu í samstarfi við Warner Bros. Television. Þann 10. desember 2010 tilkynnti sjónvarpsstöðin TNT að sjöunda þáttaröðin af The Closer yrði seinasta þáttaröðin og hafði ákvörðunin verið tekin af Kyra Sedgwick sjálfri. Í janúar 2011 var tilkynnt að sex þáttum hefðu verið bætt við lokaþáttaröðina til að byggja upp söguþráðinn fyrir nýju systurseríuna. Þann 18. maí 2011 tilkynnti TNT að systraserían myndi kallast "Major Crimes" og að leikkonan Mary McDonnell sem leikur Kaptein Sharon Raydor myndi fara með aðalhlutverkið. Tökustaður. Þátturinn er aðallega tekinn upp í Santa Clarita í Kaliforníu og "Warner Brothers Burbank Studíóinu" í Burbank Kaliforníu. Söguþráður. Þátturinn fylgir eftir lögreglufulltrúanum Brenda Leigh Johnson sem flytur til Los Angeles, í þeim tilgangi að leiða forgangs morðsrannsóknar deild. Gegnum þáttaraðirnar þá verða breytingar á bæði einkalífi hennar og innan raða lögreglunnar, meðal annars breytingar á starfssemi deildararinnar sem breytist í forgangs manndráps deild og á endanum í stórglæpa deild. Þættir. Hver þáttur fjallar um samfélagið í Los Angeles og tengingu þess við lögregluna. Þátturinn snýst um flókin mál eins og pólitík, persónuleg réttmæti og djúpstæðar spurningar um hið góða og hið illa. Ásamt því þá má sjá samskiptin á milli lögreglufulltrúanna sjálfra innan deildarinnar. Fyrsta þáttaröð. Þema fyrstu þáttaraðarinnar er einsömul kona í karlaheimi og í nýrri borg. Áhorfendur fá að fylgjast með hvernig Brendu tekst á við þessar nýju breytingar í lífi sínu. Önnur þáttaröð. Þema þáttaraðarinnar er félagsskapur, sést það vel í byrjun seríunnar bæði innan LAPD lögreglunnar og í einkalífi Brendu. Ólíklegur félagsskapur myndast á milli Brendu og Taylor. Samband Brendu og Fritz verður alvarlegra þegar þau ákveða að flytja inn saman. Þriðja þáttaröð. Þemað þriðju þáttaraðar er fjölskylda. PHD deildin er nú heildstæð og sögur þeirra fjalla um hvernig hún vinnur sem fjölskylda og þarf að ráða við fjármagnsleysið. Þættirnir í seríunni kanna fjölskyldumál, byrjar það með tvíkvæni og endar þegar tvær fjölskyldur lenda í óvæntum aðstæðum saman. Einnig má sjá hvernig serían skoðar fjölskyldulífið í Bandaríkjunum, fjölskyldu leyndarmál sem margar þeirra þurfa að horfast í augu við. Í lífi Brendu kynnast áhorfendur föður hennar í fyrsta sinn. Brenda horfist í augu við persónuleg heilsuvandamál á meðan samband hennar við Fritz tekur stórt skref fram á við. Fjórða þáttaröð. Þema fjórðu þáttaraðarinnar er kraftur. Brenda og forgangs manndráps deild eigast við kraft fjölmiðla í þessari þáttaröð þegar fréttaritari Los Angeles Times fylgir þeim eftir en með sitt eigið efni í huga. Kraftur réttarkerfisins og þeirra sem nota það og misnota það er skoðað gegnum þáttaröðina, ásamt þeim krafti sem byssuofbeldi hefur áhrif á líf fólks. Í einkalífinu þá þarf Brenda að kljást við þann kraft sem þarf til þess að skipuleggja brúðkaup sitt, með smá hjálp frá Clay og Willie Rae Johnson. Gagnstætt fyrri þáttaröðum sýndi fjórða þáttaröðin 10 sumarþætti, sem luku 15. september 2008, og komu svo aftur í janúar 2009 með fimm auka þætti. Fimmta þáttaröð. Þema fimmtu þáttaraðarinnar eru breytingar. Söguefni sem er að þróast vegna þráhyggju Brendu á lögfræðingnum sem komst undan í þættinum „Power of Attorney“ úr fyrri þáttaröð. Sjötta þáttaröð. Þema sjöttu þáttaraðarinnar er aðdráttarafl. Deildin hefur flutt í nýtt húsnæði sem hentar engan veginn morðrannsóknum né viðtölum. Brenda tekur mikilvæga ákvörðun sem hefur bæði áhrif á vinnuumhverfið og hjónabandið. Sjöunda þáttaröð. Þema sjöunda þáttaraðarinnar er ást og missir. Brenda þarf að takast á við málaferli gagnvart henni í tengslum við dauða Turrell Baylor í lok þáttarins "War Zone" í seríu 6. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films DVD útgáfa. Warner Home Video hefur gefið allar sjö þáttaraðirnar af "The Closer" á DVD á svæði 1. Sauðafell. Sauðafell er bær í Miðdölum í Dalasýslu og stendur undir felli með sama nafni. Bærinn er nefndur í Landnámu, kemur við sögu í Sturlungu og var einnig sögusvið atburða á siðaskiptatímanum. Sauðafell telst landnámsjörð, því að Erpur Meldúnsson, leysingi Auðar djúpúðgu, fékk Sauðafellslönd og bjó á Sauðafelli. Á 10. öld bjó þar að því er segir í Laxdælu Þórólfur rauðnef, sem var hetja mikil. Þá er sagt að á Sauðafelli var allra manna gisting, enda er bærinn í þjóðbraut. Seinna bjó Máni sonur Snorra goða á Sauðafelli og síðan Ljótur sonur hans, en um 1200 keypti Sighvatur Sturluson jörðina og bjó þar og síðan Sturla sonur hans. Þekktasti atburðurinn sem tengist Sauðafelli er án efa Sauðafellsför í janúar 1229 og þau níðingsverk sem þá voru framin. Á 16. öld átti Daði Guðmundsson í Snóksdal bú á Sauðafelli. Jón Arason biskup kom haustið 1550 með Birni og Ara sonum sínum og flokki manna og settist í bú Daða. Daði safnaði þá liði og tókst að króa þá feðga af í kirkjugarðinum á Sauðafelli og handtaka þá. Þeir voru svo fluttir til Skálholts og hálshöggnir þar 7. nóvember 1550. Að afloknu stúdentsprófi 1884 dvaldi Árni Þórarinsson, síðar prestur á Snæfellsnesi, um sumarið á Sauðafelli hjá Guðmundi Jakobssyni og Þuríði systur Árna og segir m.a. frá banvænni taugaveiki sem kom þá upp á Sauðafelli. Frá séra Jakobi Guðmundssyni, presti á Sauðafelli og þingmanni Dalamanna, segir skemmtilega í 4. bindi ævisögu Árna prests Þórarinssonar, á Snæfellsnesi. Kirkja var á Sauðafelli til 1919 en var þá rifin og lögð af þegar ný kirkja var reist á Kvennabrekku. Anna Maria Jopek. Anna Maria Jopek (fædd 14. desember 1970) er pólsk söngkona, textahöfundur og tónskáld. Hún leikur djass, popp og þjóðlagatónlist. Mið-London. Mið-London (e. "Central London") á við þau hverfi í London sem eru næst miðborginni. Engin opinber skilgreining er til á svæðinu sem menn nefna Mið-London og varast ber að rugla því saman við innri London. Mið-London nær yfir um það bil 26 km² svæði, og er báðum megin við Thamesána. Réttarríki. Þröng merking: Formlegir eiginleikar laga, s.s. framvæmanleg, skiljanleg, birt og almenn svo eitthvað sé nefnt. Víð merking: Lágmarksskilyrði sem efni laga þarf að uppfylla, svo grundvallar mannréttindi sé virt. CSI. "CSI" er fjölmiðlafyrirtæki byggt á bandarískum sjónvarpsþáttum sem voru stofnaðir af höfundinum Anthony E. Zuiker og eru sýndir á CBS sjónvarpsstöðinni. Þættirnir fjalla um réttarrannsóknarmenn sem rannsaka hin ýmsu morðmál. Yfirlit. Þættirnir eru sýndir í 200 löndum með áhorfendur í kringum 2 milljarða, nokkrar útgáfur hafa verið þróaðar fyrir markaðinn þar á meðal bækur, teiknimyndasögur og tölvuleikir. „Við byrjuðum árið 2000 og urðum mjög vinsæl en áhorfið jókst um helming eftir 11. september 2001,“ segir Zuiker, í heimildarmynd um áhrif CSI. „Fólk var hlaupandi til okkar eftir huggun, þar sem það var að leita eftir réttlæti í CSI — hjálpaði það þeim að til væru fólk eins og persónur okkar sem voru að leysa hin ýmsu morðmál og glæpi. Enda var 11. september einn stærsti vettvangur glæps í heiminum.“ Seríu-litur. Hver sería af CSI hefur sinn eiginn lit tengdan með stafrænum lit sem er lagaður í eftirvinnslunni. CSI: Crime Scene Investigation liturinn er aðallega grænn og hvítur, CSI: Miami er aðallega dökk-gulur eða gull, og CSI: New York er aðallega kóbolt blátt og grátt en eftir fyrstu þáttaröð var litnum fyrir CSI: NY breytt þar sem hinn dökki-blái og grái litur var of viðbjóðslegur og þungur. Heimildarmyndir. Vegna vinsælda þáttanna í Bretlandi hefur sjónvarpsstöðin "Five" búið til tvær heimildarmyndir um CSI. Sú fyrsta hét "The Real CSI" sem fjallaði um raunveralega réttarrannsóknarmenn og vinnu þeirra. Seinni myndin hét "True CSI" þar sem farið í það hvernig réttarrannsóknir hafa hjálpað til að leysa ýmis fræg rannsóknarmál. Í þessari mynd var notast við leikara sem endusköpuðu ákveðin atriði í málunum. Á fyrri hluta ársins 2007 þá var breska sjónvarpsstöðin "ITV", með sérstaka heimildarmynd "Tonight With Trevor McDonald" þar sem farið var yfir hvað CSI effect hefur haft mikil áhrif á menninguna og samfélagið í heildina. Þá sérstaklega hvernig það hefur breytt réttarkerfunum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Vegna vinsælda þáttanna þá hafa orðið til raunveruleikaþættir og heimildarmyndir, eins og "The First 48" og "North Mission Road". Sögurþræðir milli sería. Sögurþræðir á milli CSI-þáttanna hefur verið gerð nokkrum sinnum. Á milli annarra þátta. "CSI" hafði söguþráðs-skipti við "Two and a Half Men", fyrsti hluti var, „Fish in a Drawer“, er innihélt réttarrannsókn á morði í Two and a Half Men og í, „Two and a Half Deaths“, innihélt morð á sápuóperu leikara. Höfundar frá báðum þáttunum skrifuðu fyrir hvor annan. Tónlist. Titillögin eru öll spiluð af The Who Teiknimyndasögur. Nokkar teiknimyndasögur hafa verið skrifaðar út frá öllum þrem seríunum, útgefandi er IDW Publishing. Meðal höfunda er Max Allan Collins. Leikir. CSI-fyrirtækið hefur gefið út nokkra tölvuleiki, sem eru byggðir á Las Vegas og Miami. Gameloft hefur líka gefið út hreyfanlega leiki (mobile games) byggða á þáttunum. Þar að auki þá hafa verið gerðar nokkur borðspil gerð út frá CSI: LV og CSI: Miami allt gefið út af Specialty Board Games Inc. Sýning. Chicago Museum of Science & Industry opnaði sýningu til heiðurs CSI þann 25. maí 2007, sem kallast: „CSI: The Experience“. Að auki má finna leik á heimasíðunni þar sem hægt er að þjálfa sig upp í réttarlíffræði, vopnum og værkfæra greiningu, eiturefnafræði og krufningu. Tímarit. "Titan Magazines" gefur út "CSI Magazine" (fyrst gefið út um miðjan nóvember 2007). Tímaritið inniheldur blöndu af viðtölum og yfirlitsgreinum tengt heimi CSI og fólkinu bakvið þættina. Hægt er að nálgast tímaritið í Bandaríkjunum og Bretlandi. Bækur. Allmargar bækur hafa verið gerðar byggt á þáttunum. Höfundar eru meðal annarra Max Allan Collins (CSI), Donn Cortez (CSI: Miami) og Stuart M. Kaminsky (CSI: NY). Listaverk. CSI-listaverk er kallast CSI: The DVD Collection hefur verið gert af Ge Fabbri, þar sem skoðað eru þættirnir á DVD með tímariti og litið á leikiara, persónur og þættina og hinar ýmsu tæknilegu aðferðir. was produced by Ge Fabbri Leikföng. Samt sem áður hafa þau verið gagnrýnd af "Parents Television Council". Skemmtigarður. „CSI: Live“ hefur verið sýnt í Six Flags Magic Mountain, skammt frá Los Angeles, þar sem rannsóknarmenn reyna að finna út hver er morðinginn á galdrasýningu, með áhorfendur sem hugsanlegir morðingar. Sýningin hefur verið sýnd í Freestyle Music Park á Myrtle Beach í Suður-Karólínu. Bessastaðaskóli. Bessastaðaskóli var eina íslenska menntastofnunin á árunum 1805-1846. Hann tók við af Hólavallarskóla en Lærði skólinn (síðar Menntaskólinn í Reykjavík) var arftaki hans. Skólinn var á Bessastöðum á Álftanesi. Upphaf skólans. Húsakynni Hólavallarskóla, sem var á Hólavelli við Reykjavík frá 1785, voru afar léleg og héldu hvorki vatni né vindi. Þurfti að hætta skólahaldi um miðjan vetur 1804 og árið 1805 var því ákveðið að flytja skólann í Bessastaðastofu, sem var eitt af fáum steinhúsum landsins og hafði verið reist á árunum 1761-1766 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Trampe stiftamtmaður vildi heldur búa í Reykjavík og lét skólanum Bessastaðastofu eftir. Nemendur. Skólinn skiptist í efri og neðri bekk og hafði hvor sína stofu niðri en auk þess var þar borðstofa. Skólasveinar sváfu á loftinu. Kennarar bjuggu yfirleitt á jörðum í nágrenni skólans og héldu þar búfénað. Fyrsta veturinn sem skólinn starfaði voru þar 27 nemendur, sá yngsti 17 ára en sá elsti 28 ára. Annars voru yfirleitt 40 piltar í skólanum en 50 síðasta veturinn sem hann starfaði á Bessastöðum. Árið 1809 var ákveðið að þeir sem teknir væru í skólann skyldu ekki vera eldri en 18 ára en undanþágur frá því voru mjög oft gefnar. Framan af útskrifuðust að jafnaði 6-8 stúdentar á ári. Flestir nemendur skólans voru synir embættismanna og betri bænda. Þeir sem ekki áttu auðuga aðstandendur gátu þó sótt um skólaölmusu (námsstyrk) sem nam 40 ríkisdölum á ári en var hækkað árið 1815 upp í 60 ríkisdali. Alls var úthlutað 24 heilum ölmusum á ári. Ölmusan gekk beint til bryta skólans og fór í að borga fæðiskostnað. Námsgreinar. Kennarar voru þrír til 1822 en þá var mælingafræði bætt við námsgreinar og kennsla í reikningslist aukin og þá bættist fjórði kennarinn við. Kennt var í 37 tíma á viku, frá 1. október til loka maímánaðar, og kennslugreinarnar voru: Guðfræði og skilgreining Nýja testamentisins, gríska, hebreska, latína, danska, mannkynssaga, landafræði, íslenskar stílæfingar, reikningur og mælingarfræði. Nemendur voru prófaðir tvisvar sinnum á ári, um miðjan vetur og aftur um vorið. Flutningur. Meginhlutverk skólans var tvíþætt, annars vegar að búa nemendur undir framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla en hins vegar að mennta presta því að stúdentspróf úr skólanum dugði til að fá prestvígslu. Fjórðungur til þriðjungur stúdentanna fór til náms í Kaupmannahöfns að loknu stúdentsprófi. Að því kom að þetta fyrirkomulag þótti ekki geta gengið upp nema með því að fjölga bekkjum en til þess þurfti stærra húsnæði. Varð því úr eftir umræður í allmörg ár að skólinn var fluttur til Reykjavíkur, þar sem Lærði skólinn tók til starfa haustið 1846. Kennarar. Svo til allir menntamenn og embættismenn Íslands sem voru ungir menn á fyrri hluta 19. aldar stunduðu nám í skólanum og skólinn átti því mikinn þátt í þróun íslenskra mennta og menningar á öldinni. Þar gegndu kennarar hans lykilhlutverki. Fyrsti rektor (lector) skólans var Steingrímur Jónsson, síðar biskup. Jón Jónsson í Lambhúsum (kennari frá 1805) tók við af honum 1810 og stýrði skólanum allt þar til hann fluttist til Reykjavíkur, eða í 36 ár. Þá tók Sveinbjörn Egilsson við en hann hafði verið kennari við skólann frá 1819. Aðrir kennarar við skólann voru málvísindamaðurinn Hallgrímur Scheving (frá 1810), Björn Gunnlaugsson náttúruvísindamaður (frá 1822), Guttormur Pálsson (1805-1807), Jón Jónsson málfræðingur (1807-1817), Árni Helgason (1817-1819) og Gísli Magnússon málfræðingur (1845-1846). Hólavallarskóli. Hólavallarskóli eða Reykjavíkurskóli var starfræktur í Reykjavík frá 1785 (kennsla hófst raunar ekki fyrr en 1786), þegar ákveðið var að leggja Skálholtsstól niður og Skálholtsskóla um leið en flytja biskupsembættið og skólann til Reykjavíkur, og til 1804, en 1805 var hann fluttur til Bessastaða. Húsakynni. Upphaflega hugmyndin var að byggja skólann á Austurvelli en hann reyndist of blautur og var þá ákveðið að reisa húsið á Melshúsalóð en kennarabústaði á Hólakotslóð þar við hliðina. 1600 ríkisdalir voru veittir til að koma upp skólahúsi úr timbri en það fé dugði ekki til og var því húsið minnkað og því breytt til að spara sem mest. Þó varð húsið tvöfalt dýrara en áætlað hafði verið. Kennsla hófst þar haustið 1786. Í húsinu voru fimm stofur niðri en þær nýttust þó verr en fyrirhugað hafði verið því að fé sem ætlað hafði verið til kennarabústaða dugði hvergi nærri til og kennararnir bjuggu því hvor í sinni stofu. Skólasveinar, sem voru um 30, sváfu í átta rúmum uppi á lofti. Húsið var illa smíðað, var ákaflega kalt og gisið, hriplekt og einnig dimmt, því gluggarnir voru litlir. Aðbúnaður. Þegar skólinn var fluttur var ákveðið að kennarar fengju laun sín greidd ársfjórðungslega í peningum og þeir nemendur sem nytu ölmusu (skólastyrks) skyldu líka fá hana greidda í peningum en sjá sér sjálfir fyrir mat. Áður hafði ölmusan verið í formi fæðis. Skólapiltar urðu því að lifa á skrínukosti eða koma sér sjálfir í fæði í einhverjum af kotunum í kring og ganga þangað í hvaða veðri sem var. Ölmusan sem skólasveinar fengu dugði hvergi nærri til framfæris og séra Árni Helgason sagði seinna: „Fátækt þekkti ég að heiman, en sultinum kynntist ég fyrst í skóla." Fæðið var svo lélegt og einhæft að margir skólapiltar fengu skyrbjúg. Þegar við bættist kuldinn og aðbúnaðurinn í húsinu var ekki að furða þótt sumir þeirra biðu varanlegt heilsutjón af skólavistinni. Kennsla og nám. Skólameistari Hólavallaskóla var Gísli Þórðarson Thorlacius. Hann var mjög drykkfelldur og mætti oft ekki til kennslu dögum saman og þegar frá leið hætti hann alveg að mæta. Páll Jakobsson, sem verið hafiði konrektor og settur skólameistari í Skálholti var áfram konrektor í Hólavallarskóla en hann var einnig drykkfelldur og orðinn roskinn og þar kom að hann flutti burt úr bænum og að Esjubergi en hélt þó starfi sínu að nafninu til. Skólastjórn og kennsla var því að mestu í höndum settra kennara, fyrst Jakobs Árnasonar, systursonar Páls, sem síðar varð prestur í Gaulverjabæ, og síðar Guttorms Pálssonar, sem varð prestur í Vallanesi. Einnig kenndu við skólann um lengri eða skemmri tíma þeir Brynjólfur Sigurðsson, Arnór Árnason og Jóhann Árnason. Þegar þeim Gísla og Páli var veitt lausn frá embætti 1804 hafði hvorugur þeirra sést í skólanum í mörg ár. Í skólanum var kennd latína, gríska, Nýjatestamentisfræði og svolítið í sögu, landafræði og reikningi. Engin kennsla var í íslensku eða dönsku en piltunum þó sagt að þeir ættu að læra þetta. Bókakostur var svo lítill að stundum voru 8 skólasveinar um eina bók. Verst mun ástandið hafa verið fyrstu árin, þegar Gísli og Páll áttu að heita að vera við kennslu, en skánaði þegar settu kennararnir tóku við. Skólinn fluttur. Af öllu þessu var skólinn illa þokkaður og margir voru tregir til að senda syni sína þangað vegna lélegs aðbúnaðar. Og þegar konungsboð kom um það haustið 1801 að leggja skyldi Hólaskóla niður og Hólavallarskóli varð eini skóli landsins varð óánægjan svo mikil að farið var að leita annarra úrræða. Á endanum varð úr að flytja skólann á Bessastaði og var það gert árið 1805, en veturinn 1804-1805 var enginn opinber skóli á Íslandi. Leoníd Bresnjev. Leoníd Iljitsj Bresnjev (rússneska: Леонид Ильич Брежнев; 1. janúar 1907 – 10. nóvember 1982) var sovéskur stjórnmálamaður og aðalritari sovéska kommúnistaflokksins. Bresnjev, Leoníd Skálholtsskóli. Skálholtsskóli var skóli sem rekinn var á biskupsstólnum í Skálholti frá því á seinni hluta 11. aldar og til 1785, þó líklega alls ekki óslitið nema frá 1552. Skólinn var ásamt Hólaskóla helsta menntastofnun þjóðarinnar. Hlutverk hans var alla tíð fyrst og fremst að mennta menn til að gegna prestsembættum en fyrir suma var hann einnig undirbúningur undir framhaldsnám erlendis. Upphaf skóla á Íslandi. Elsta dæmið sem þekkt er um að Íslendingur hafi verið settur til mennta er þegar Gissur hvíti fór til Saxlands með Ísleif son sinn og kom honum þar í nám. Ísleifur kom aftur til Íslands um 1030 og er ekki ólíklegt að hann hafi þá farið að kenna öðrum en víst er að eftir að hann kom heim með biskupsvígslu 1057 og settist að í Skálholti fór hann fljótt að taka unga menn til læringar og kenna þeim prestleg fræði. Því er hefð að miða upphaf Skálholtsskóla við árið 1056, vígsluár Ísleifs, þótt víst sé að skólahald hafi ekki hafist þar fyrr en að minnsta kosti ári síðar. Skólar voru líka á Hólum eftir að þar kom biskupssetur, í Haukadal hjá Teiti syni Ísleifs og í Odda hjá Sæmundi fróða og Oddaverjum, svo og við sum klaustrin. Ekki er mikið vitað um námsgreinar í þessum fyrstu skólum en þar hefur verið kenndur lestur og skrift, guðfræði og latína, svo og messusöngur. Skólinn í kaþólskum sið. Skólahald hélt áfram í Skálholti eftir daga Ísleifs og sagt er um Þorlák Runólfsson biskup að hann hafi tekið marga menn til læringar og hafi þeir orðið góðir kennimenn og lærdómsmaðurinn Klængur Þorsteinsson biskup kenndi prestlingum. Þorlákur helgi Þórhallsson kenndi kennimönnum „ástsamlega allt embætti þat, er þeir voru skyldir at fremja, með sínum vígslum,” segir í 12. kafla af "Þorláks sögu hinni elstu". Eftir daga Þorláks helga er í rauninni nær ekkert vitað um skólahald í Skálholti allt til daga Stefáns Jónssonar, sem var biskup 1491-1518 og má gera ráð fyrir að skólahald hafi verið slitrótt, enda var oft biskupslaust árum saman; sumir erlendir biskupar komu aldrei til landsins og sumir aðrir hafa líklega haft takmarkaðan áhuga á skólahaldi. Menn fengu oft prestvígslu þrátt fyrir litla sem enga menntun og árið 1307 var til dæmis ýmsum prestum í Skálholtsbiskupsdæmi vikið úr embætti fyrir fáfræði sakir. Sumir biskupanna voru þó vel menntaðir sjálfir og má vel vera að þeir hafi haft skóla í Skálholti þótt þess finnist ekki getið í heimildum. Stefán biskup Jónsson var ágætlega menntaður, hafði lært í Frakklandi og víðar, og hélt latínuskóla í Skálholti, að minnsta kosti frá því fyrir 1493 til eftir 1507. Honum stýrði Ásbjörn prestur Sigurðsson, sem sömuleiðis var lærður í Frakklandi. Ögmundur Pálsson biskup hafði sömuleiðis lært í Frakklandi og Belgíu og hafði ýmsa vel menntaða unga menn í þjónustu sinni svo að ekki er ólíklegt að einhvers konar skóli hafi verið í Skálholti um hans daga. Skólinn eftir siðaskipti. Við siðbreytinguna í Skálholtsbiskupsdæmi 1542 skipaði konungur svo fyrir að skólar skyldu stofnaðir á klaustrunum og eignir klaustranna ganga til þeirra en það var þó strax tekið aftur. En árið 1552 skipaði konungur Páli Hvítfeld höfuðsmanni að koma hér á latínuskólum, bæði í Skálholti og á Hólum. Skyldi setja vel lærðan og guðhræddan skólameistara yfir hvorn skóla, svo og heyrara (kennara). 24 piltar voru í hvorum skóla um sig og skyldu þeir fá góðan mat og drykk eftir landsvenju, vaðmál til fata og hverjir tveir piltar saman rekkjuvoð annaðhvert ár. Eitt atriði var þó í fyrirmælum konungs sem Íslendingar treystu sér ekki til að fara eftir en það var að veita skólapiltum öl daglega. Skólinn átti líka að vera bæði vetur og sumar en eftir því var aldrei farið. Helstu kennslugreinar voru guðfræði og latína. Um 1600 var farið að kenna grísku og frá 1649 átti að kenna reikningslist en af því varð þó minna en til stóð. Ný tilskipun var svo gefin út 1743 og samkvæmt henni átti líka að kenna hebresku, lítið eitt í heimspeki, íslensku, dönsku, reikning og sagnfræði. Endalok Skálholtsskóla. Ástand skólans var orðið bágborið og fjárhagur þröngur þegar um 1775, enda var árferði þá erfitt og hallæri í landinu, en í Suðurlandsskjálftanum 1784, í miðjum Móðuharðindunum, hrundu öll hús í Skálholti nema dómkirkjan. Skólahald féll niður um veturinn og í stað þess að endurreisa hann var ákveðið að flytja bæði skólann og biskupsstólinn til Reykjavíkur. Tók því Hólavallarskóli við haustið 1785. Skólameistarar Skálholtsskóla eftir siðaskipti. Lengi framan af voru skólameistarar ungir, vel menntaðir menn af góðum ættum, oft nátengdir biskupunum, sem voru að bíða eftir að fá góð embætti. Þeir gegndu því sjaldnast starfinu nema örfá ár. Bergvatn. Bergvatn er tært (rennandi) vatn, sem er ýmist lindavatn eða tært yfirborðsvatn í ám og lækjum. Ár með bergvatni kallast "bergvatnsár". Jökulvatn, mýravatn og annað óhreint vatn er ekki bergvatn. Jökulvatn. Jökulvatn er leysingavatn úr jökli. Ár með jökulvatni kallast "jökulár". Oftast er grugg og ýmis uppleyst efni í jökulvatni. Fínasta gruggið sest ekki á botninn þó að vatnið standi lengi, eins og sjá má í Lagarfljóti. Þegar jökulvatn kemur í sjó falla agnirnar þó smám saman til botns. Í straumhörðum jökulám getur verið mikill aurburður, sem skiptist í svifaur og botnskrið. Naustahvammur. Naustahvammur var hjáleiga frá Nesi í Norðfirði, leystist upp sem bújörð og varð að þéttbýli. Vesturlönd. Vesturlönd eru þau lönd sem eru á vesturhveli jarðar og er orð notað til að lýsa menningu og þjóðfélagi þessara landa. Skilgreining orðsins hefur breyst með tímanum og getur hafa orðið til í Grikklandi hinu forna og Rómaveldi. Smám saman uxu þessi heimsveldi í austur og suður, og þau sigruðu margar aðrar stórar siðmenningar og seinna uxu þau í norður og vestur til að ná yfir Mið- og Vestur-Evrópu. Oftast eru lönd Evrópu (einkum Vestur-Evrópu) og Norður-Ameríku talin til vesturlanda en einnig lönd Suður-Ameríku og jafnvel Eyjaálfa vegna menningartengsla. Å (bókstafur). Å er 27 bókstafurin í finnsku og sænsku stafrófunum og 29 í dönsku og norsku stafrófunum. Fyrir utan vera notað í þessum norrænum tungumálum er bókstafurinn "Å" notaður í nokkrum fleiri málum m.a. norðfrísnesku, vallónsku og samískum málum. "Å" er ekki notað í finnsku nema í finnlands-sænskum nöfnum og bókstafurinn er nefndur "ruotsalainen o" ("sænskt o"). Framburður. Bókstafurinn "Å" á skandinavískum málum samsvarar næstum framburðinum á bókstafnum "O" á íslensku. En er í raun tvö hljóð, eitt stutt og annað langt. Saga. Bókstafurinn Å er upphaflega langt a-hljóð, IPA /aː/, og var skrifað "aa" á norrænum málum á miðöldum. Þegar á leið miðaldir breytist langa a-hljóðið /aː/ í nútíma å-hljóð. Á sama hátt og "æ", "ä", "ö" og "ø" (sem upphaflega var skrifað sem "ae" annars vegar og hins vegar sem "oe") varð bókstafurinn "å" til þegar spara átti pláss við skriftir og "aa" var skrifað með því að setja eitt a ofan á annað. Við útgáfu Nýja testamentisins á sænsku 1526 var "a" með litlu "o" fyrir ofan notað í stað "aa'. "Aa" var notað í norskri stafsetningu í stað "å" þangað til 1917 og í dönsku þangað til 1948. Í þessum málum er enn algengt að skrifa "Aa" í stað "Å/å" í nöfnum t.d. "Braaten", "Aabenraa" og "Aalborg". Ealing. Ráðhúsið í Ealing í Ealing Broadway. Ealing er bær í borgarhlutanum Ealing í Vestur-London. Hann er í úthverfum og staðsettur um það bil 12,4 km vestan megin við Charing Cross. Bærinn dregur nafnið sitt úr saxnesku nafni "Gillingas". Á Englandi er hann þekktastur fyrir kvikmyndaverin Ealing Studios. Þessi kvikmyndaver eru þau elstu í heimi og eru þekkt fyrir að framleiða gamanleikina "Kind Hearts and Coronets", "Passport to Pimlico", "The Ladykillers" og "The Lavender Hill Mob". BBC tók við stjórn veranna árið 1955 og svo var bærinn í sjónvarpsþáttum eins og "Doctor Who" og "Monty Python's Flying Circus". Nokkrar kvikmyndir hafa verið framleiddar í þessum verum, til dæmis "Notting Hill", "The Importance of Being Earnest" og '. Ingunn Arnórsdóttir. „Þar var og í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hún lægri í sögðum bóklistum, kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi aðeins með orðum munnnáms, heldr og með verkum handanna." Ingunn Arnórsdóttir var líka einn heimildarmanna Odds Snorrasonar munks á Þingeyrum þegar hann skrifaði Ólafs sögu Tryggvasonar. Ingunnarskóli í Grafarholti í Reykjavík er kenndur við Ingunni Arnórsdóttur. Knightsbridge. Knightsbridge (borið fram /ˌnaɪts.bɹɪdʒ/) er gata sem gefur nafnið sitt glæsilegu hverfi vestan megin við Mið-London. Gatan rennur við suðurhlíð Hyde Park, vestan Hyde Park Corner, og spannar Westminsterborg og konunglega borgarhlutann Kensington og Chelsea. Brompton Road er gata sem rennur frá lestarstöðinni í hverfinu. Knightsbridge er þekkt fyrir að vera auðugt og það er geysilega dýrt að eiga heima á svæðinu. Þar eru margar fræðslu- og menningarstofnanir og verslanir sem selja munaðarvörur. Deildaverslanirnar Harrods og Harvey Nichols eru í hverfinu. Nokkrir tískuhönnuðir eru í hverfinu, til dæmis Jimmy Choo og Manolo Blahnik. Það eru líka á svæðinu útibú bankans Coutts sem er notaður af Bretadrottninginni. Það eru tvö tónlistarhús í Knightsbridge: Cadogan Hall við Sloane Street, sem kynnir popp- og klassíska tónlist, og Royal Albert Hall, stórt tónlistarhús þar sem eru haldnir tónlistar- og íþróttaatburðir. Á svæðinu eru líka nokkrir listaverkauppboðsmarkaðir eins og Bonhams, auk þess nokkrir litlir salar. Margir ríkustu einstaklingar í heimi eiga heima í Knightsbridge. Það er neðanjarðarlestarstöð í hverfinu sem líka heitir Knightsbridge, stöðinni er þjónað af Piccadilly-leið neðanjarðarlestarkerfis Lundúnaborgar. Mayfair. Mayfair er hverfi í Mið-London inni í Westminsterborg. Hverfið er afmarkað af Hyde Park í vestri, Oxford Street í norðri, Piccadilly og Green Park í suðri, og Regent Street í austri. Það dregur nafnið sitt af hátíðinni "May Fair" sem gerðist árlega í tvær vikur, á staðnum sem er í dag Shepherd Market. Hátíðin byrjaði þar árið 1686, þegar hún var haldin í Haymarket, en var bönnuð árið 1764 og svo flutti í Fair Field í hverfinu Bow af því fólki sem bjó á svæðinu mislíkaði hún. Hverfið er í bresku útgáfu borðspilsins Monopoly og vegna þess er þekkt sem mjög dýrt og virt. Fagranes. Fagranes er bær á Reykjaströnd í Skagafirði, austan undir Tindastól. Þar var áður kirkjustaður og prestssetur en kirkjan var lögð niður 1892 og prestssetrið flutt til Sauðárkróks. Í kirkjunni var forn prédikunarstóll, talinn frá dögum Guðbrands Þorlákssonar biskups. Hann er nú í Þjóðminjasafni. Á Fagranesi býr nú Jón Eiríksson sem kallaður er Drangeyjarjarl og hefur lengi nytjað Drangey og viðhaldið lendingaraðstöðu þar. Hann stundar siglingar með ferðamenn til eyjarinnar og hefur byggt upp lendingaraðstöðu á Reykjum. Hann stóð líka fyrir uppbyggingu Grettislaugar á Reykjum 1992. Á Fagranesi er minnisvarði um Gretti sterka Ásmundarson, sem sagður er hafa verið grafinn í kirkjugarðinum þar - það er að segja skrokkurinn, hausinn hafði Þorbjörn öngull með sér á brott. Sjávarborg. Sjávarborg er bær í Borgarsveit í Skagafirði, rétt innan við Sauðárkrók, og stendur á klettaborg sem rís upp úr sléttlendinu austan við Áshildarholtsvatn. Út að ströndinni liggja Borgarmýrar og síðan Borgarsandur, sem var áður víðáttumikið sandflæmi en er nú mikið gróinn upp, en sunnan við land jarðarinnar er Miklavatn. Jarðhiti er í landi Sjávarborgar og fær Hitaveita Sauðárkróks þaðan vatn sitt, fyrst frá uppsprettu við Áshildarholtsvatn en seinna úr borholu á Borgarmýrum, sem nú eru raunar í landi Sauðárkróks. Sjávarborg var eitt af stórbýlum héraðsins og var í eigu Ásbirninga á 13. öld. Þar bjuggu ýmsir höfðingjar og á 18. öld bjó þar Þorlákur Markússon (d. 1736), höfundur Sjávarborgarannáls. Nú býr annar fræðimaður á Sjávarborg, Kristmundur Bjarnason, sem skrifað hefur tugi bóka, einkum héraðssögur og ævisögur. Vitað er að kirkja var á Sjávarborg að minnsta kosti frá því í byrjun 14. aldar og sennilega mun lengur. Þar var líka lengi prestssetur. Kirkjan var lögð af þegar kirkja var reist á Sauðárkróki 1892 en kirkjuhúsið ekki rifið, heldur nýtt af bændum á Sjávarborg. Það var svo endurbyggt á árunum 1973-1975 og endurvígt það ár. Kirkjan er friðuð og í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Hún er af elstu gerð íslenskra timburkirkna. Ríp. Ríp (áður stundum Rípur) er bær og kirkjustaður suðaustan til í Hegranesi í Skagafirði. Ríp er gamalt orð sem getur þýtt klettur eða melhryggur. Sem hliðstæðu má nefna bæinn Ribe á Jótlandi. Víðlendar engjar eru á Eylendinu neðan við bæinn, austur að Héraðsvötnum, en Vötnin hafa stundum runnið þar um og 1713 lá til dæmis aðalengi jarðarinnar á eyju austan við aðalkvíslina og nýttist ekki, svo að presturinn þurfti að kaupa mestallt hey sitt. Kirkju er fyrst getið þar árið 1318 og prestsetur var þar frá 1575 til 1907. Rípurbrauð þótti heldur rýrt og prestar þar voru oftast í tölu fátækari presta. Rímnaskáldið Hannes Bjarnason var prestur þar 1829-1839 og eftir lát hans tók séra Jón Reykjalín við. Kirkjunni er nú þjónað frá Hólum. Núverandi kirkja er frá 1924. Goðdalir. Goðdalir eru bær og kirkjustaður í Vesturdal í Skagafirði. Ef marka má Landnámabók náði Goðdalanafnið yfir mun víðara svæði, jafnvel alla Skagafjarðardali, Vesturdal, Austurdal og Svartárdal, en ekkert er þó vitað um það með vissu. Goðdalir eru neðsti bær í Vesturdal vestan ár og þar eru sléttar og víðar, grösugar grundir. Fjallið fyrir ofan bæinn heitir Goðdalakista. Fyrst er getið um prest í Goðdölum á 11. öld. Þar var prestssetur til 1904 og sátu þar margir kunnir prestar. Nefna má Skúla Magnússon, afa og alnafna Skúla fógeta, sem þótti mikillátur mjög; sagan segir að þegar hann var á ferðalagi hafi hann kallað til þeirra sem hann mætti: „Víkið úr vegi, góðir hálsar, hér kemur Goðdalapresturinn!“ Prestssetur var í Goðdölum til 1907. Núverandi kirkja er reist 1904 úr viðum kirkju frá 1885, sem fauk í fárviðri árið áður. Kirkjan var flutt til og gerð upp á árunum 1994-1997. Hún er friðuð. Símon Dalaskáld hvílir í Goðdalakirkjugarði og var honum reistur þar legsteinn árið 1976. Páll Guðbrandsson. Páll Guðbrandsson (1573 – 10. nóvember 1621) var íslenskur sýslumaður, sonur Guðbrandar Þorlákssonar biskups og Halldóru Árnadóttur konu hans. Páll lærði í Hólaskóla og fór síðan út til náms í Kaupmannahafnarháskóla 1600-1603 en er sagður lítið hafa stundað námið, enda þótti hann ekki bókhneigður, en drykkju og skemmtanir þeim mun meira, og þótti föður hans það miður. Hann var skólameistari á Hólum í eitt ár eftir heimkomuna en kvæntist þá og varð sýslumaður í Húnavatnssýslu og umboðsmaður Þingeyraklaustursjarða. Hann bjó á Þingeyrum frá 1607. Páll var vinsæll, enda höfðinglundaður og gestrisinn, og þótti góður búmaður. Kona Páls var Sigríður (1587-1633) dóttir Björns Benediktssonar sýslumanns á Munkaþverá en móðir hennar var Elín, dóttir Staðarhóls-Páls og Helgu Aradóttur. Á meðal barna þeirra voru Þorlákur Pálsson bóndi og lögréttumaður í Víðidalstungu, Benedikt Pálsson bartskeri og klausturhaldari og Björn Pálsson sýslumaður á Espihóli. Vigfús Gíslason. Vigfús Gíslason (1608 – 14. apríl 1647) var skólameistar á Hólum og í Skálholti og síðan sýslumaður í Árnes- og Rangárþingi á 17. öld. Vigfús var sonur Gísla Hákonarsonar lögmanns í Bræðratungu og Margrétar Jónsdóttur konu hans. Hann fór ungur utan til náms, fyrst við Kaupmannahafnarháskóla og stundaði síðan nám við hollenskan háskóla. Hann kom heim tvítugur að aldri, var þá talinn með lærðustu mönnum og var þegar gerður að skólameistara á Hólum. Þar var hann tvo vetur (1628-1630) en síðan aðra tvo vetur skólameistari Skálholtsskóla. Ekki var hann vinsæll hjá skólasveinum, sem þótti hann gera of miklar námskröfur, og í Skálholti hættu einhverjir námi og komu ekki aftur fyrr en hann var farinn frá skólanum. Hann varð sýslumaður 1632 og bjó á Stórólfshvoli. Kona hans var Katrín ríka Erlendsdóttir (1612 – 12. mars 1693), dóttir Erlendar Ásmundssonar sýslumanns og lögréttumanns á Stórólfshvoli og Salvarar Stefánsdóttur konu hans. Hún var mikill kvenskörungur og bjó lengi á Stórólfshvoli eftir lát manns síns. Á meðal barna þeirra voru Gísli Vigfússon skólameistari á Hólum og síðar bóndi á Hofi á Höfðaströnd, Jón Vigfússon eldri, sýslumaður á Stórólfshvoli og Jón Vigfússon yngri, biskup á Hólum. Þorleifur Skaftason. Þorleifur Skaftason (9. apríl 1683 – 16. desember 1748) var íslenskur prestur og prófastur á 18. öld, þekktur fyrir lærdóm og gáfur. Hann var talinn fjölkunnugur og eru til ýmsar þjóðsögur tengdar meintri galdrakunnáttu hans. Þorleifur var fæddur að Bjarnastöðum í Unadal í Skagafirði, sonur Skafta Jósepssonar sem síðar var prestur og lögréttumaður á Þorleifsstöðum í Blönduhlíð og konu hans Guðrúnar Steingrímsdóttur. Í manntalinu 1703 er hann sagður þjónustumaður á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð. Hann lærði í Hólaskóla og var árið 1707 vígður dómkirkjuprestur á Hólum. Þegar Jón Einarsson heyrari, sem átti að taka við skólameistaraembættinu, dó í Stórubólu 1707 áður en hann náði að setjast í embættið var Þorleifur settur skólameistari um stundarsakir. Því starfi gegndi hann aðeins í nokkra mánuði og sveinarnir voru aðeins 20 vegna bólunnar. Þorleifur var prestur á Hólum 1707-1724 og prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi frá 1708. Síðan fékk hann Múla í Aðaldal 1724 og var prófastur í Þingeyjarprófastsdæmi frá 1734 til dauðadags. Hann gegndi biskupsstörfum 1740 eftir dauða Steins biskups Jónssonar og aftur 1745 þegar biskupslaust var um tíma. Hann var vel lærður og hafði orð á sér fyrir að vera góður kennari. Hann kenndi mörgum unglingum og bjó þá undir skólanám og sumir útskrifuðust frá honum sem stúdentar, þar á meðal Gísli Magnússon biskup og Skúli Magnússon fógeti, sem raunar varð stjúpsonur Þorleifs. Þorleifur var sagður góður söngmaður, mikill kennimaður og mikill kraftajötunn. Það orð lá á að hann væri fjölkunnugur, sumir sögðu rammgöldróttur, og er sagt að hann hafi til dæmis verið fenginn til að blessa Siglufjarðarskarð og hrekja burt óvætti sem þar átti að hafa aðsetur. Hann blandast einnig inn í sögur af Galdra-Lofti, enda var hann dómkirkjuprestur á Hólum um daga hans. Sagt er að þegar Ludvig Harboe fór að svipast um eftir biskupsefni 1741 hafi Þorleifur í Múla komið sterklega til greina en galdraryktið hafi spillt fyrir honum og ekki síður að hann þótti drykkfelldur og lítill fjármálamaður. Þorleifur drukknaði í lítilli keldu sem aldrei hafði verið talin mönnum hættuleg og kenndu sumir göldrum um. Nafn fyrstu konu Þorleifs er ekki þekkt. Önnur kona hans (g. 27. október 1709) var Ingibjörg Jónsdóttir; Jón Þorsteinsson faðir hennar var bróðir Einars biskups, ráðsmaður á Hólum og bóndi og lögréttumaður á Nautabúi. Þau áttu mörg börn og eru miklar ættir frá þeim komnar. Þriðja kona hans var Oddný Jónsdóttir, móðir Skúla Magnússonar fógeta, sem þá var orðin ekkja, og segir Jón Espólín að hún hafi játast honum með því skilyrði að hann kenndi sonum hennar. Þau áttu ekki börn. Beint lýðræði. Beint lýðræði er form lýðræðis þar sem vald til stjórnmálaákvarðana er falið almenningi á þingi þar sem kosið er um þær. Andstæðan við beint lýðræði er fulltrúalýðræði. Í því tilviki kýs almenningur þingmenn sem sitja á þingi í umboði þeirra. Innan ramma fulltrúalýðræðis rúmast þó dæmi um notkun beins lýðræðis; til að mynda notkun þjóðaratkvæðagreiðslna. Gagnrýni á notkun beins lýðræðis. Megin rökin gegn beinu lýðræði við almenna afgreiðslu og setningu laga, jafnvel í fámennu ríki eins og til dæmis Íslandi, eru þau að í fyrsta lagi gæfist ekki tími til þess að hver og einn fengi að tjá sig um efnið; í öðru lagi snúast lög í mörgum tilvikum um flókin úrlausnarefni sem krefjast sérþekkingar og í slíkum tilvikum gætu kjósendur almennt ekki verið nægilega vel upplýstir um viðfangsefnið; loks er engin trygging fyrir því að heildaryfirsýn yrði yfir lagasetningu, í einu tilviki gætu lög sem ykju útgjöld ríkisins verið samþykkt og því næst væru skattar lækkaðir. Niðurstaðan yrði þá sú að kostnaður ríkisins ykjist á sama tíma og tekjur lækkuðu og afleiðingin sú að ríkissjóður væri rekinn með tapi. Georg Kr. Lárusson. Georg Kristinn Lárusson (f. 21. mars 1959) er forstjóri Landhelgisgæslunnar og fyrrverandi forstjóri Útlendingaeftirlitsins, en því starfi gegndi hann frá 1999 til ársins 2005. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 og framhaldsnámi við lagadeild Kaupmannarhafnarháskóla. Hann var dómarafulltrúi við Borgardóm Reykjavíkur 1985-89 og settur bæjarfógeti og sýslumaður í Dalasýslu, Strandasýslu og í Kópavogi á tímabilinu 1989-92. Hann var skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum á árunum 1992-1998. Georg var skipaður varalögreglustjóri í Reykjavík 1998-1999, og settur lögreglustjóri í Reykjavík 1998. Torg. Torg er víðátta í miðborg sem er oft malbikuð eða með garð í miðju (stundum finnast torg inni í görðum). Þau eru almenningsstaðir þar sem fólk má koma saman. Samkomur eins og markaðir, tónleikar, mótmæli og fleira eiga sér stað á torgum. Torg eru yfirleitt umkringd af litlum verslunum eins og bakaríum, kaffihúsum og fatabúðum. Oft er gosbrunnur, minnismerki eða stytta í miðju torgs. Yfirleitt eru torg ferhyrnd í formi og maður getur farið á þau með götum. Árni Oddsson. Árni Oddsson (1592 – 10. mars 1665) var íslenskur lögmaður á 17. öld og er þekktastur fyrir að hafa undirritað erfðahyllinguna á Kópavogsfundi 1662 nauðbeygður og sumir segja tárfellandi. Árni var fæddur í Skálholti, sonur Odds Einarssonar biskups og Helgu Jónsdóttur konu hans. Hann fór til náms í Kaupmannahöfn 1609, kom aftur 1612 og var þá tvítugur að aldri. Faðir hans var þekktur fyrir dugnað sinn við að koma ættmennum í embætti og Árni var þegar gerður að skólameistara Skálholtsskóla og gegndi því embætti til 1615. Raunar var ekki einsdæmi að svo ungir menn fengju skólameistaraembætti. Árið 1617 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að reka erindi fyrir föður sinn, sem átti í útistöðum við Herluf Daa höfuðsmann, og kom aftur til landsins árið eftir og unnu þeir feðgar svo málið gegn Daa eða Herlegdáð eins og Íslendingar áttu til að kalla höfuðsmanninn í háðungarskyni. Frásagnir af heimkomu hans eru allar með miklum þjóðsagnablæ en þær segja að Herluf Daa hafi bannað kaupmönnum að flytja Árna til landsins en honum tókst á endanum að komast í Vopnafjarðarskip og lenti í Vopnafirði þegar fjórir dagar voru til þings (í sumum sögunum er hann jafnvel sagður hafa komist með göldrum til Íslands). Hann keypti tvo úrvalshesta en þegar upp á Jökuldal kom hafði hann sprengt þá báða undan sér. Þá keypti hann brúnan hest og reið honum einhesta þvert yfir landið og stóðst á endum að hann kom í Almannagjá þegar kallað var á hann í þriðja og síðasta sinn og vann málið. Hvað sem til er í þessu er víst að Árni hlaut mikla sæmd og frægð af málinu. Árni varð Skálholtsráðsmaður 1620. Árið 1632 varð hann svo lögmaður sunnan og vestan og hélt því embætti í 32 ár. Einnig var hann sýslumaður í Árnnesþingi og umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða. Hann þótti sinna embættum sínum vel og af dugnaði og bera hag landsmanna fyrir brjósti, enda var hann vinsæll. Hann þótti enginn sérstakur gáfumaður en farsæll í störfum sínum. Hann bjó lengst á Leirá í Leirársveit. Sumarið 1662, þegar Árni stóð á sjötugu, kom Henrik Bjelke höfuðsmaður til landsins til að láta Íslendinga undirrita erfðahyllingu við konung. Sögur segja að ýmsir hafi verið tregir til, þar á meðal Árni Oddsson, en Bjelke hafi hótað að beita hervaldi og þá hafi Árni undirritað yfirlýsinguna og tárfellt um leið. Samtímaheimildir staðfesta ekki þessa frásögn en Árni sagði af sér lögmannsembættinu á næsta þingi; hafði reyndar verið búinn að segja því af sér áður en látið undan óskum almennings um að hann sæti lengur. Sögunni um tárvota vanga Árna var hins vegar mjög haldið á lofti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld. Árni drukknaði eða varð bráðkvaddur í laug á Leirá 10. mars 1665. Fyrri kona hans var Helga dóttir Jóns Vigfússonar sýslumanns á Galtalæk en hún dó úr bólusótt eftir fárra ára hjónaband. Síðari kona hans, sem hann kvæntist 1617, var Þórdís Jónsdóttir (1600 - 1. september 1670) frá Sjávarborg í Borgarsveit. Á meðal barna þeirra voru Sigurður Árnason lögréttumaður í Leirárgörðum og Helga kona Þórðar Jónssonar prests og fræðimanns í Hítardal. Brahúí. Brahúí er dravídamál talað af 200.000 manns í Íran. Umlukt málum af annarri grein indóevrópskra mála, þ.e. írönskum málum. Kornbreska. Kornbreska er keltneskt mál, sem var einkum talað á Kornval-skaga (Cornwall) á Bretlandi. Kornbreska dó út á 18. öld og er seinasti mælandi talin hafa verið Dorothy Pentreath, dáin 1777. Á síðustu áratugum hefur verið reynt að endurvekja málið og er það nú talað af um 3.500 manns. Þar af eru nokkur börn sem alast upp með kornísku að móðurmáli. Bretónska í Frakklandi er runnin frá forn-kornísku. Hún tilheyrir brýþonskri grein keltneskra mála. Textadæmi. Agan Tas ni, eus y’n nev,bennigys re bo dha hanow.Re dheffo dha wlaskor,Dha vodh re bo gwrys y’n nor kepar hag y’n nev.Ro dhyn ni hedhyw agan bara pub dydh oll,ha gav dhyn agan kammweythkepar dell evyn nynidhe’n re na eus ow kammwul er agan pynn ni;ha na wra agan gorra yn temptashyon,mes delyrv ni dhiworth drog.Rag dhiso jy yw an wlaskor,ha’n galloes ha’n gordhyans,bys vykken ha bynari.Yndella re bo! Jean-Marie Le Pen. Jean-Marie Le Pen 22. september 2007 Jean-Marie Le Pen (fæddur 20. júní 1928) er franskur stjórnmálamaður. Hann talar bretónsku að móðurmáli. Le Penn er menntaður sem lögfræðingur en var nokkurn tíma í hernum og tók þátt í stríðinu í Alsír þegar það land lýsti yfir sjálfstæði frá Frakklandi. Le Pen, Jean-Marie Svartbók kommúnismans. Háskólaútgáfan gaf bókina út á íslensku þann 31. ágúst árið 2009. Íslenska útgáfan er 828 blaðsíður og hefur ISBN 978-9979-548-39-3. "Svartbók kommúnismans" er bók, sem fjallar um glæpi kommúnistastjórna á 20. öld. Höfundar eru nokkrir franskir fræðimenn. Stéphane Courtois var ritstjóri og skrifar formála hennar, eftirmála og tvo kafla. Nicolas Werth skrifar lengstu greinina, sem er um ógnarstjórn Leníns og Stalíns í Rússlandi og síðar Ráðstjórnarríkjunum 1917–1953. Jean-Louis Margolin skrifar tvær langar ritgerðir, um Kína í valdatíð Maós 1949–1976 og Kambódíu undir stjórn rauðu kmeranna 1975–1979. Bókin kom fyrst út í Frakklandi haustið 1997 undir heitinu "Le livre noir du communisme: Crimes, terreur, répression". Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor þýddi bókina á íslensku og var ritstjóri hennar. Mannfall af völdum kommúnista. Í formála "Svartbókarinnar" reynir Stéphane Courtois að taka saman, hversu margir hafi týnt lífi af völdum kommúnista. Samtals eru þetta nær 100 milljónir manna, sem flestar hlutu hörmulegan dauðdaga. Courtois telur, að kommúnisminn verðskuldi þess vegna jafnafdráttarlausa siðferðilega fordæmingu og nasisminn. Umræður um efni "Svartbókarinnar". Evrópuráðið samþykkti í janúar 2006, þar sem glæpir kommúnistastjórna á tuttugustu öld voru fordæmdir. Ári eftir útkomu "Svartbókar kommúnismans" í Frakklandi birtist þar "Svartbók kapítalismans" ("Le Livre Noir du Capitalisme"), og var hún bersýnilega tekin saman í andmælaskyni við "Svartbókina". Hún hefur enn ekki verið þýdd á íslensku. Fyrri heimildir um glæpi kommúnista. "Morgunblaðið" og fleiri íslensk blöð þreyttust ekki heldur á að upplýsa íslenskan almenning um ódæði kommúnistastjórnanna í austri. "Morgunblaðið" birti til dæmis 1924 greinaflokk eftir sænska málfræðinginn Anton Karlgren, prófessor í slavneskum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla, endursagði greinar breska blaðamannsins Malcolms Muggeridge um hungursneyðina miklu í Úkraíu 1932–1933 og skýrði frá vonbrigðum franska rithöfundarins Andrés Gide með Rússlandsferð sína 1936. Einnig birti það í árslok 1945 greinaflokk Arthurs Koestler, „Trúin á Sovét,“ og greinaflokk um blóðbaðið í Kína 1949 eftir valdatöku kommúnista, sem séra Jóhann Hannesson trúboði skrifaði 1952. Því má segja, að "Svartbókin" fylli frekar út í myndina, sem til var af kommúnismanum, og dýpki fremur en að þar komi margt á óvart. Lögurinn (Svíþjóð). Lögurinn (sænska: "Mälaren") er þriðja stærsta stöðuvatn Svíþjóðar á eftir Væni ("Vänern") og Veitum ("Vättern"). Persónur í Gossip Girl. Þessi grein inniheldur upplýsingar um persónur í bandaríska unglingadrama-þættinum Gossip Girl. Þáttaröðin er byggð á vinsælum samnefndum bókaflokki eftir Cecily von Ziegesar. Þættirnir á því að kynna Serenu van der Woodsen (Blake Lively) og bestu vinkonu hennar, Blair Waldorf (Leighton Meester), kærasta Blair, Nate (Chace Crawford), besta vin Nate, Chuck (Ed Westwick), og aðra íbúa fína hverfisins í New York. Í Brooklyn búa Dan (Penn Badgley) og Jenny Humphrey (Taylor Momsen) og Vanessa Abrams (Jessica Szohr) og flækjast þau í líf fína fólksins þrátt fyrir að vera ekki hluti af hverfinu þeirra. Aðrar aðalpersónur eru Lily Bass (Kelly Rutherford) móðir Serenu og Rufus Humphrey (Matthew Settle), fyrrverandi rokkstjarna og faðir Dans og Jenny. Hin alræmda Gossip Girl talar yfir þættina (Kristen Bell). Aðalpersónur. Eftirfarandi persónur hafa leitt aðalsöguþráðinn og eru í þeirri röð sem þau birtast í kreditlistanum í hverjum þætti. Serena van der Woodsen. Blake Lively fer með hlutverk Serenu van der Woodsen Leikin af Blake Lively. Serena van der Woodsen er aðalstelpan í fína hverfinu og besta vinkona Blair Waldorf. Í fyrsta þættinum kemur hún heim úr heimavistarskóla í Connecticut en vinir hennar vita ekki af hverju hún kemur til baka, og ekki heldur hvers vegna hún yfirgaf Manhattan ári áður. Serena van der Woodsen er jarðbundin, miðað við aðra íbúa hverfisins, en hún virðist fá ástarsambönd (Dan, Nate) og tækifæri (tískumyndatökur) á silfurfati. Fortíð Serenu sem aðal partýstelpan verður til þess að hún yfirgefur Manhattan vegna dularfullra ástæðna. Endurkoma hennar er enn dularfyllri. Í fyrstu þáttaröðinni deilir hún við hatursfulla Blair og glímir við at vik með Nate og nýtt ástarsamband við Dan. Ástarsamband hennar við Dan þarf fyrst að ganga í gegnum endurkomu bestu vinkonu hans, Vanessu, og Serenu og Vanessu, hvernig Dan tekur hinni eiginlegu Serenu og því formlega samfélagi sem hún býr í. Samband þeirra endar í brúðkaupi móður hennar og Bart Bass vegna fyrrum vinkonu Serenu, Georginu. Í annarri þáttaröðinni reyna Dan og Serena að endurlífga samband sitt en þau þurfa að horfast í augu við það þau geta ldrei verið saman, Dan á í sambandi við aðra stelpu og lendir í hneyksli með kennara og þau komast að því að foreldrar þeirra eiga barn saman. Í þessari þáttaröð tekur mamma Serenu, Lily, Chuck Bass að sér og verður hann stjúpbróðir Serenu. Hún yfirgefur Manhattan yfir sumartímann og snýr aftur í þriðju þáttaröðinni sem stórstjarna. Hún var með Nate en ákvað að hætta með honum. Sernea fór til Parísar með bestu vinkonu sinni, Blair, til að reyna að finna sjálfa sig og ákveða hvort hún vilji vera með Nate eða Dan. Þegar hún kemur til baka eru þeir báðir í föstu sambandi. Serena ákveður að skrá sig í Columbia-háskóla. Á fyrsta árinu sínu í Colubmia þurfti hún að glíma við mikið: samnemanda að nafni Juliet Sharp, sem reynir að eyðileggja líf hennar; falsaða undirskrift móður sinnar, sem sendi enskukennara hennar í þriggja ára fangelsi svo Serena gæti snúið aftur í Constance skólann; yngri bróður hennar, Eric, sem verður aftur þunglyndur; og frænku hennar, Charlie, sem er í rauninni stúlka að nafni Ivy, sem ráðin var af Carol Rhodes til að halda Lily frá raunverulegri dóttur sinni og ná í peninga frá henni á meðan Ivy „Charlie“ féll fyrir Dan en langaði síðan að taka eigið líf eftir að hafa ekki tekið lyfin sín. Blair Waldorf. Leighton Meester leikur Blair Waldorf Leikin af Leighton Meester. Blair Cornelia Waldorf er drottning félagslífs Manhattan og Constance Billard menntaskólans. Hún er einkabarn og kynnt sem dóttir fráskilinnar móður sem er fatahönnuður og samkynhneigðs föður og hefur hún verið kærasta Nate Archibald til langs tíma, þó að hún hafi fallið fyrir besta vini hans, Chuck Bass. Blair er oft lýst sem hrokafullri, grunnhygginni, gáfaðri og slóttug. Þrátt fyrir að vera stíf og hafa litlar áhyggjur af því sem er í kringum hana, hefur hún „unnið fyrir öllu sem hún hefur fengið“, ólíkt Serenu, og þrátt fyrir að vera snobbuð er hún góð vinkona og lítur alltaf vel eftir þeim sem henni þykir vænt um. Blair þarf að horfast í augu við hrörnandi samband hennar og Nates og nýtt samband við Chuck í fyrstu þáttaröðinni á meðan hún þarf að endurheimta stöðu sína sem „Queen Bee“ eftir valdabaráttu við Jenny Humphrey. Chuck skilur hana eina eftir um sumarið og það gefur henni tíma til að eiga í stuttu sambandi við breskan hefðarmann í annarri þáttaröðinni. Samband hennar við Chuck breytist þegar hann reynir að fá hana aftur og hún reynir að viðurkenna tilfinningar sínar í garð hans en hún verður þreytt á öllu sem tengist menntaskóla þar til umsókn hennar í Yale er stofnað í hættu. Höfnun á inngöngu í Yale breytir lífsáætlun hennar og tekur hún aftur upp samband við Nate í von um að komast aftur á rétta braut en hún áttar sig á því að honum var aðeins ætlað að vera „menntaskólakærastinn“ hennar. Við lok annarrar þáttaraðarinnar hafa Blair og Chuck hafið ástarsamband sem heldur áfram inn í næstu þáttaröð og verður að algjörri ringulreið í lokin. Fjórða þáttaröðin sýnir Blair þar sem hún reynir að taka á tilfinningum sínum í garð Chuck og Dans og vilja hennar til að vera framakona en prinsinni Louis veitir henni þau tækifæri en ást hans þýðir að hún þarf að sleppa takinu af Chuck. Dan Humphrey. Penn Badgley fer með hlutverk Dan Humphrey Leikinn af Penn Badgley. Daniel „Dan“ Humphrey er sonur Rufusar Humphrey, rokkstjörnu sem opnaði listagallerí, og Allison Humphrey. Hann er eldri bróðir Jenny Humphrey. Hann hittir Serenu van der Woodsen fyrst í partýi þar sem hún virtist vera sú eina sem talaði við Dan, þegar hún heilsaði honum. Hann verður strax ástfanginn af Serenu og er honum sökkt inn í heim hennar þegar hann fer að ganga í St. Jude's skólann. Dan vill verða rithöfundur og tileinkar fyrsta ljóðið sitt Serenu og verður seinna aðstoðarmaður frægs rithöfundar. Hann dreymdi upphaflega um að fá inngöngu í Dartmouth-háskólann en ákvað síðar að reyna að komast inn í Yale, þar sem þar væri betri ensku-deild. Nýleg sambandsslit hans við Serenu veldur breytingum í samböndum hans við konur en hann ber enn tilfinningar til hennar, sem leiðir til þess að Serena hættir með Aaron og þau endurnýja samband sitt þar til þau komast að því að foreldrar þeirra eiga barn saman. Hann verður síðan þátttakandi í skandal sem inniheldur kennarann Rachel Carr, sem endar að lokum samband þeirra í síðasta sinn. Hann gengur nú í NYU eftir að hafa tapað peningum sínum í peningasvindli sem innihélt Poppy Lifton og nýjan kærasta Serenu, Gabriel Edwards. Samband Rufusar og Lilyar leiðir að lokum til hjónabands og er Dan fljótur að tileinka sér hinn auðuga lífstíl fjölskyldunnar. Dan verður þekktur meðal nýnemanna í NYU — ólíkt Blair sem verður útskúfuð úr félagslífinu — og byrjar Dan með Hollywood leikkonunni Oliviu Burke. Þau hætta saman þegar Olivia sér að Dan og Vanessa bera tilfinningar hvort til annars. Í fjórðu þáttaröðinni byrjar Dan að eyða tíma með Blair og verða þau nánir vinir. Nate Archibald. Chace Crawford er Nate Archibald Leikin af Chace Crawford. Nathaniel „Nate“ Archibald er fastur á milli Serenu og Blair en hann á rómantíska sögu með þeim báðum. Hann er „gullni-drengurinn“ en hefur þó oft þurft að taka mikilvægar ákvarðanir. Besti vinur hans er Chuck Bass. Eftir að sambandi hans við Blair lýkur á hann í stuttu ástarsabandi við Vanessu Abrams. Þegar faðir hans neyðist til að flýja New York undan Alríkislögreglunni (FBI), byrjar Nate ástarsamband við eldri gifta konu, hertogynjuna Catherine Mason Beaton. Sambandið breytist fljótlega í sáttmála um kynlíf fyrir peninga þegar reikningar Archibald-fjölskyldunnar eru frystir. Frosnu reikningarnir verða til þess að hann flytur tímabundið til Humphrey-fjölskyldunnar. Hann verður hrifinn af Jenny en sú hrifning verður aldrei að ástarsambandi. Í annarri þáttaröðinni lætur hann reyna á samband við Vanessu en þegar Nate kemst aftur í samband við afa sinn, hrörnar sambandið og hann hættir að lokum með Vanessu fyrir Blair. Þau hætta fljótlega saman og hann fer í ferð um Evrópu það sumar. Hann snýr aftur í þriðju þáttaröðinni og á þá í „Rómeó & Júlíu“-sambandi við Bree Buckley en að lokum er hann notaður af Bree til að ná hefndum á Carter Baizen sem endar samband þeirra í brúðkaupi Rufusar og Lilyar. Hann átti einnig í sambandi við Rainu Thorpe í fjórðu þáttaröðinni. Chuck Bass. Ed Westwick fer með hlutverk Chuck Bass Leikinn af Ed Westwick. Charles Bartholomew „Chuck“ Bass er tortrygginn, veraldarvanur, myndarlegur og heillandi. Chuck er ekki hræddur við að lifa lífinu fram á ystu nöf. Hann hefur verið besti vinur Nates síðan í barnæsku en orðspor hans sem kvennamaður gerir þá að algjörum andstæðum. Hann er einkasonur Bart Bass og því er haldið fram að móðir hans sé dáin (dó við barnsburð). Í fyrstu er hann sýndur sem „slæmi strákurinn“ í hópnumm en Chuck sýnir fljótlega á sér betri hlið þegar hann lánar Nate tíu þúsund dali til að ná sér upp úr spilaskuldum, verður ástfanginn af Blair, og er góður stjúpbróðir Serenu og Erics. Hann og Blair verða loksins par við lok fyrstu þáttarðar, en óöryggi Chucks og ótti við að hleypa einhverjum nálægt sér verða til þess að hann skilur Blair eftir á þyrlupalli þegar þau ætla í ferð til Evrópu. Í annarri þáttaröðinni snúast gjörðir Chuck aðallega um að vinna Blair, að átta sig á hver hann er og berjast við djöfla sína, dauða föðurs síns og að berjast við illgjarna frænda sinn, Jack Bass. Lily tekur hann fljótlega að sér og verður hún lögráðamaður hans og stjúpmóðir til að bjarga fyrirtæki föður hans, Bass Industries (B.I.) frá Jack. Við lok annarrar þáttaraðar segir Chuck Blair loksins að hann elski hana og þau kyssast. Þriðja þáttaröðin byrjar á því að Chuck og Blair eru í leikjum til að halda sambandi sínu áhugaverðu og Chuck fer að reyna að koma sér úr skugga föður síns. Hann finnur líffræðilega móður sína en treystir henni ekki strax. Hún er vissulega móðir hans en lýgur og segist ekki vera það eftir að hún svíkur hann með því að vera í samráði við Jack Bass en þau höfða mál gegn Chuck of taka af honum hótelið hans. Chuck gerir samning við Jack um eigendaskipti hótelsins fyrir kynlíf með Blair og platar hana síðan til að vera með í því. Jack segir Blair allt, hún hættir með Chuck þrátt fyrir að hann segi að hún hafi gert það sjálfviljug. Þau sættast um stund við lok þáttaraðarinnar og Chuck er við það að biðja hennar þegar Dan segir frá því að Chuck hafi sofið hjá Jenny. Blair segir honum þá að hún vilji aldrei tala við hann aftur og Chuck fer til Prag og er skotinn þegar hann reynir að verja trúlofunarhringinn. Honum er bjargað af Evu, ungri franskri konu sem nær að halda dökkum persónuleika hans í skefjum, þar til hin öfundsjúka Blair rekur hana frá New York. Chuck leitar hefnda og byrjar að hrella fyrrum ástkonu sína við hvert tækifæri, en það plan leiðir þau saman að lokum. Þau hætta þó saman vegna þess að þeim finnst þau þurfa að þroskast í hvort í sínu lagi og ákveða að bíða eftir hvort öðru en Chuck byrjar með Rainu Thorpe og Blair byrjar með Louis prins. Þegar Chuck fréttir að trúlofun Blair og Louis verður hann bálreiður og brýtur glugga og meiðir auk þess Blair og sýnir þar með sína dökku hlið. Í fimmtu þáttaröðinni gerir hann allt til að reyna að finna til, en ekkert virkar. Að lokum tekst honum þó að breytast til hins betra. Jenny Humphrey. Taylor Momsen fór með hlutverk Jenny Humphrey í þáttunum Leikin af Taylor Momsen í þáttaröðum 1-4. Jennifer Tallulah „Jenny“ Humphrey er kynnt sem nýnemi í Constance Billard. Hún þráir að passa inn hjá þeim vinsælu og er þekkt sem „Queen Bee Wanna-Be“, það er að segja sú sem vill verða vinsælust. Jenny er áhrifagjörn og verður fljótlega peð nokkurra persóna. Hún, ásamt öðrum stelpum, er hrifin af Nate Archiblad. Hún á einnig í mjög góðu sambandi við bróður sinn, Dan, sem kemur sér vel þegar hún þarfnast ósjaldan hjálpar vegna slæmrar dómgreindar. Jenny dreymir um að verða hönnuður og öll vinna hennar borgar sig loks þegar hún fær bréf um að hún sé orðin lærlingur hjá Eleanor Waldorf. Þegar Jenny finnst Eleanor vera að misnota sér hæfileika hennar, tekur hún saman við „slæmu stúlkuna“ og fyrirsætuna Agnes, til að koma á fót sinni eigin línu, J Humphrey Designs, með skelfilegum afleiðingum. Hún snýr aftur í Constance og byrjar hægt og rólega að verða sjálfstæðari og móta sinn persónuleika. Við lok annarrar þáttaraðar er hún krýnd drottning skólans (þ.e. „Queen Bee“). Í þriðju þáttaröðinni byrjar staða hennar sem drottning að grafa undan vináttu hennar og Erics og hennar eigin persónuleika. Hún byrjar því með eiturlyfjasala og reynir að missa meydóminn með honum, en hættir við á síðustu stundu. Við lok þriðju þáttaraðar endar hún á því að missa meydóminn með Chuck. Þá var hún látin flytja til móður sinnar. Í fjórðu þáttaröð snýr Jenny aðeins aftur til Manhattan þegar Blair og Chuck lokka hana þangað. Hún svarar í sömu mynt með því að segja frá sambandi hennar við Chuck. Næsta koma hennar tengist blekkingu þar sem Vanessa og Juliet vilja eyðileggja orðspor Serenu. Þegar planið fer úr böndunum tekur fjölskyldan hennar hana föstum töku eftir að Vanessa segir að Jenny hafi upphaflega verið á bak við allt saman. Hún yfirgefur New York og flytur til Hudson fyrir fullt og allt eftir það. Það kemur fram í fyrsta þætti fimmtu þáttaraðar að Jenny gengur nú í Central Saints Martins háksólann fyrir Listir og Hönnun í London, Englandi. Vanessa Abrams. Jessica Szohr lék Vanessu Abrams Leikin af Jessicu Szohr í þáttaröðum 1-4, þar sem hún var aukapersóna í þáttum 6-11 í 1. þáttaröð og aðalpersóna frá 14. þætti 1. þáttaraðar. Vanessa Marigold Abrams er æskuvinkona Dan Humphrey. Áður en Dan byrjaði ástarsamband með Serenu, voru hún og Dan óaðskiljanleg og þau þróuðu með sér gagnkvæma hrifningu, sem hvarf þegar hún flutti til Vermont. Ári seinna snýr hún aftur til að búa með stóru systur sinni, á sama tíma og Dan reynir að láta sambandið við Serenu ganga. Þrátt fyrir að bera enn tilfinningar til Dan, gerir hún ekkert í málunum þegar hún sér að Dan er raunverulega ástfanginn af Serenu. Seinna byrjar hún samband með Nate Archibald, en þau hætta saman fyrir sumarið, en byrja þó aftur saman við lok þess. Ólíkt öðrum persónum þáttanna var Vanessu kennt heima, enda var hún alin upp af félagslyndum foreldrum sem fyrirlíta nútímasamfélag, og hefur þess vegna tíma til að vinna á kaffihúsi sem bætt var við gallerí Rufusar á meðan hann var í burtu yfir sumarið. Eftir miklar flækjur með Nate, sem innihéldu meðal annars sumarást hans með Catherine Mason og þau vandamál sem fylgdu því, stutt samband hans við Jenny og endurkoma hans í Vanderbilt-fjölskylduna, endar samband þeirra, þegar Nate og Blair byrja aftur saman. Nate bað hana um að sækja um háskóla, og það skilar henni í NYU-háskólann. Við byrjun 3. þáttaraðar byrjar Vanessa samband með Scott Rosson, en hún neyðist til að sleppa honum vegna þeirra afleiðinga sem hann gæti haft á samband Rufusar og Lilyar. Hún byrjar þá „haltu mér-slepptu mér“ samband við Dan. Í 4. þáttaröð er sambandi hennar við Dan komið í hættu þegar hún kemst að því að Dan gæti enn borið tilfinningar til Serenu, og að hann gæti verið faðir barns Georginu. Vanessa álítur sig alltaf vera utangarðs í hinu skammfeilna samfélagi ríka fólksins, verður hún vinkona Juliet Sharp og þær skipuleggja (ásamt Jenny) niðurbrot Serenu. Hún einangrar sig frá Dan vegna vináttu sinnar við Juliet og er hún því gerð útlæg og samfélagi þeirra ríku. Við lok 4. þáttaraðar ákveður hún að yfirgefa Manhattan og skilja allt eftir, þar á meðal Dan, og hefja nýtt líf, sem nemi í Barcelona á Spáni. En áður en hún fer, stelur hún uppkasti að skáldsögu Dans og fer með það til útgefanda sem býður Vanessu peninga fyrir bókina (þar sem nafn Dans kemur ekki fram). Vanessa segir að höfundurinn muni koma fram eftir að bókin sé gefin út en hún biður hins vega útgefandann umað senda henni peningana á nýja heimilisfangið hennar í Barcelona, þar sem hún segist ætla að koma peningunum til Dans. Ivy Dickens/Charlie Rhodes. Ivy Dickens, leikin af Kaylee DeFer, gekk til liðs við þættina í síðari hluta fjórðu þáttaraðar sem aukapersóna og varð aðalpersóna í þeirri fimmtu. Hún kom til New York og þóttist vera frænka Serenu og Erics, Charlotte „Charlie“ Rhodes. Þegar Charlie kemur til Manhattan, verður hún undrandi yfir lífstíl ættingja sinna, sérstaklega frænku sinnar Serenu. Þrátt fyrir mótmæli móður hennar, Carol, ákveður Charlie að lengja dvöl sína á Manhattan. Hún fer að horfa hýru auga til Dan og ákveður að kúga Vanessu svo að honum líki vel við hana. Vandamál kemur upp þegar geðræn vandamál Charlie fara að valda fína fólkinu áhyggjum, svo Charlie ákveður að yfirgefa New York. Í Miami kemur það fra mað Charlie er í rauninni leikkona sem gengur undir nafninu Ivy, sem var ráðin af Carol til að nálgast margra milljarða reikning Charlie, en einnig til að halda henni frá fjölskyldu sinni. Í fyrsta þætti fimmtu þáttaraðar kemur það í ljós að Ivy hefur flutt til Los Angeles með kærasta sínum, Max. Serena, sem hefur verið í Los Angeles síðan í byrjun sumarsins, hittir Ivy á veitingastaðnum sem hún vinnur á og býður henni í hádegismast. Ivy heldur áfram að leika Charlie á meðan hún er með Serenu. Eftir að Serena býður „Charlie“ með sér til New York, er Ivy efins í fyrstu, en ákveður síðan að fara og fer frá Max. Þegar þær koma til New York hittir hún Carol. Ivy kúgar Carol og segir henni að hún muni ljóstra upp leyndarmáli þeirra, nema hún leyfi henni að vera í New York sem Charlie. Carol samþykkir þetta hikandi og yfirgefur New York. Á meðan hún dvelur í New York er Ivy uppgötvuð af Diönu Payne, áhrifamikilli fjölmiðlakonu sem á dagblaðið "The Spectator" en Diana hittir einnig Max sem er í New York að leita að Ivy. Þrátt fyrir að Serenu, CeCe, Lily og Rufusi sé sagður sannleikurinn, ákveður ekkert þeirra að trúa honum. Á meðan dansleikur, sem Lily hélt til að hjálpa „Charlie“ að komast inn í samfélagið í New York, stendur yfir, sendir Ivy ábendingu til Gossip Girl þar sem hún deilir staðsetningu bíls Blair og Chuck sem þau ætluðu að nota til að komast í burtu, til að draga athygli frá sjálfri sér til að komast hjá því að leyndarmál hennar yrði afhjúpað. Þegar Chuck og Blair lenda á spítala eftir bílslys ákveður Ivy að yfirgefa New York. Einkaspæjari sem Lily ræður til að finna „Charlie“, finnur hina raunverulegu Charlottoe Rhodes sem hefur búið í New York undir dulnefninu Lola sem móðir hennar veit ekki af. Ivy snýr til New York þar sem hún hittir Charlie, en þær voru saman í leiklistartímum í Miami. Hún fer síðan frá New York og getur ekki sagt Lily frá mikilvægu leyndarmáli. Ivy er tímabundið hjá CeCe sem er mikið veik og er þess vegna á hjúkrunarheimili í Hamptons-hverfinu. Þegar CeCe er lögð inn á spítala vakna upp grunsemdir hjá Lolu, hvers vegna Ivy notar nafnið hennar, og leiðir það til þess að stóra leyndarmál Ivy og Carol er upplýst. Ivy er síðan hent út úr fjölskyldunni af Serenu og dauði CeCe fylgir í kjölfarið. Við upplestur erfðaskrárinnar kemur það í ljós að allar eignir CeCe renna til Ivy, Lily og Carol til mikillar reiði. Þetta gefur til kynna að CeCe hafi vitað af leyndarmáli Ivy áður en hún dó. Ivy hendir þá Rufus og Lily út úr íbúðinni sem hún erfði og gerir það að takmarki sínu að vera samþykkt í Efri-Austurhluta Manhattan. Lily Humphrey. Kelly Rutherford er Lily Humphrey Leikin af Kelly Rutherford. Lillian „Lily“ Celia Humhprey (áður Rhodes, Van der Woodsen og Bass) er (fjöl)fráskilin, fyrrum ballerína úr yfirstétt og móðir Serenu og Eric van der Woodsen, líffræðileg moðir Scott Rosson, fósturmóðir Chuck Bass og stjúpmóðir Dan og Jenny Humphrey. Lillian á litríka sög sem fyrrum „grúppía“ bands föður Dan og Jennyar, Rufusar, sem hún vill helst ekki viðurkenna. Hún var gift Bart Bass áður en hún giftist Rufusi Humphrey. Áður en hún giftist Bart Bass skildi hún við Dr. William van der Woodsen. Þrátt fyrir stöðugar áhyggur af ímynd sinni og stöðu í samfélaginu er hægt að gera ráð fyrir því að hún hafi lifað jafn undanlátssöm líferni og Serena á sínum villtu árum. Hún og Serena eru mjög líkar og er helst hægt að sjá það þegar hún grætur og er ófær um að taka ákvarðanir, sem sést oft hjá Serenu. Það kemur í ljós að hún var einnig lögð inn á stofnun þegar hún var nítján ára líkt og sonur hennar Eric. Það kom seinna í ljós að það var ekki vegna sjálfsvígstilraunar, heldur vegna þess að hún var ólétt af barni Rufusar. Sonurinn sem hún gaf til ættleiðingar, Scott, kemur til New York til að finna þau. Rufus og Lily sneru aftur til New york og byrjuðu saman. Lily er leikin af Brittany Snow þegar horft er til baka. Hún ættleiðir Chuck Bass í annarri þáttaröðinni eftir dauða Barts. Í síðasta þætti annarrar þáttaraðar trúlofast Rufus og Lily og giftast í fimmta þætti þriðju þáttaraðar. Í fjórðu þáttaröðinni veður Lily „amma“ eftir Georginu og Dan. Dan og Georgina nefna barnið Milo Humphrey. Það kemur seinna í ljós að Dan er ekki líffræðilegur faðir Milo. Það kom einnig í ljós að Lily hafði látið færa Ben Donovan í fangelsi fyrir að hafa átt í „ástarsambandi“ við Serenu, sem var orðrómur í skólanum sem Serena gekk í í Connecticut. Eins og kemur fram í þeim hlutum sem horft er til baka, var faðir hennar tónlistarframleiðandi og hún ólst upp í Montecito, Kaliforníu. Rufus Humphrey. Matthew Settle fer með hlutverk Rufusar Humphrey Leikinn af Matthew Settle. Rufus Humphrey er fyrrum rokkstjarna og hjónaband hans hefur farið í vaskinn. Hann er einnig eigandi listagallerís. Hann er ákveðinn í að gefa börnum sínum tveimur góða menntun og skráir þau í einkaskóla sem verður til þess að hann rekst oftar en einu sinni á fyrrum kærustu sína, Lily van der Woodsen. Hann skilur við eigikonu sína, Allison Humphrey, sem átti í ástarsambandi við mann að nafni Alex. Hann á í erfiðleikum sem einstæður faðir að eiga við börnin sem eru að fullorðnast, sérstaklega hin sterkviljaða Jenny, og leitar oft hjálpar hjá Lily. Þrátt fyrir að hann og Lily reyni að endurvekja samband sitt áður en Lily gifti sig, ákveður hún á endanum að vera vinur Rufusar og giftast Bart Bass. Eftir dauða Barts, hefja þau aftur ástarsamband þegar þau leita að syni sínum. Í síðasta þætti annarrar þáttaraðar trúlofast Rufus og Lily og í giftast í fimmta þætti þriðju þáttaraðar. Kristen Bell er Blaðurskjóðan (e. "Gossip Girl") Í fjórðu þáttaröðinni trúi Rufus ekki Georginu þegar hún segir að hún og Dan eigi son, Milo Humphrey. Í þættinum „Double Identity“ í fjórðu þáttaröðinni finnur Rufus auðkennisarmband Milos, sem segir að Milo er í öðrum blóðflokki en Dan. Gossip Girl. Rödd hennar er Kristen Bell. „Gossip Girl“ talar yfir þættina og er óséð persóna sem heldur úti bloggsíðu sem er oft heimsótt af unga fólki fína hverfisins og hærir hún oft upp í lífi aðalpersónanna. Nafn hennar og útlit eru óþekkt en henni tekst þó að táldraga lesendurna með orðaleikjum og hneysklandi fréttum sem hún getur skrifað með hjálp ábendinga frá íbúum fína hverfisins. Hún hefur tvisvar sinnum forðast uppgötvun þegar bloggsíðunni hennar var næstum lokað vegna atviksins milli Dan og ungfrú Carr; og þegar Serena reyndi að hitta hana í eigin persónu en mistókst. Hún sýndi persónueinkenni í fjórðu þáttaröðinni, í þættinum „The Townie“ þar sem hún brást við beiðni frá Blair um staðsetningu Juliet með heimilisfangi og skilaboðunum „finndu tíkina“, sem sýndi að hún kann ekki að meta þá sem ógna stöðu hennar og bloggsíðunnar. Í þrettánda þætti fimmtu þáttaraðar kemur í ljós að Georgina Sparks situr fyrir framan tölvuna og skrifar sem Gossip Girl en í eftirfylgjandi þáttum viðurkennir hún fyrir eiginmanni sínum að hin raunverulega Blaðurskjóða hefur yfirgefið vettvanginn. Howard Archibald. Leikinn af Sam Robards í þáttaröðum 1, 2 og 4. Howard „Kapteinninn“ Archibald er faðir Nate Archiblad. Howard er hvítflibba-glæpamaður og fyrrum kókaínfíkill. Hann flýr Manhattan til að komast hjá handtöku, enn háður kókaíni og Nate kýlir föður sinn áður en hann nær að komast inn í glæsivagninn sinn og flýja til Dóminíska lýðveldisins. Í annarri þáttaröðinni, þegar hann sneri aftur til New York, til að taka Nate og móður hans með sér, setur Nate honum valkosti. Annaðhvort færi hann aftur til Dóminíska lýðveldisins og talaði aldrei aftur við fjölskyldu sína eða gæfi sig fram hjá lögreglunni. Howard ákvað að gera þaðrétta og ákvað að fara til lögreglunnar. Í fjórðu þáttaröðinni fær Howard senda skilnaðarpappíra í fangelsið, aðeins nokkrum mánuðum áður en hann losnar. Þegar hann losnar úr fangelsinu fær hann vinnu hjá Russell Thorpe. Eleanor Waldorf. Leikin af Florenciu Lozano í fyrsta þættinum en Margaret Colin eftir það. Eleanor Waldorf-Rose metnaðarfullur tískuhönnuður og móðir Blair Waldorf. Áratuga langt hjónaband hennar og föður Blair, Harold Waldorf, endaði þegar Harold skildi við hana til að láta reyna á ástarsamband við franska karlkyns-fyrirsætu, Roman. Það er gefið í skyn í gegnum afturlit að Eleanor vissi um tvíkynhneigð Harolds. Fatalína hennar Eleanor Waldorf Designs er seld í verslununum Barney's og Bendel's. Hún keppir einnig við Marc Jacobs og hafði eitt sinn Jenny Humphrey sem nema. Samband hennar og Blair er heldur stirt en Jenny segir Blair að Eleanor elski Blair „á sinn eigin hátt“. Eric van der Woodsen. Leikinn af Connor Paolo. Eric van der Woodsen er yngri bróðir Serenu og erfingi Van der Woodsen-auðsins en sjálfsvígstilraun hans verður aðalástæða heikomu Serenu. Samkynhneigð hans kemur í ljós í síðari hluta fyrstu þáttaraðar, eftir að kærastinn hans, Asher, þykist eiga í ástarsamband við Jenny Humphrey. Vinskapur hans og Jenny lagast eftir afsakanir og fyrirgefningar í byrjun annarrar þáttaraðar. Þau verða fljótlega bestu vinir í gegnum aðra þáttaröðina. Það slettist þó upp á vinskapinn í þriðju þáttaröðinni eftir að Jenny tekur við hlutverki "Queen Bee", en fljótlega reynir Eric að laga sambandið eftir að Serena lendir í slysi. Hann byrjar þá með Jonathan Whitney en samband þeirra fer í vaskinn eftir að Eric leggur of hart að hefna sín á Jenny. Í næstu þáttaröð byrjar hann með strák sem heitir Elliot. Isabel Coates. Leikin af Nicole Fiscella í þáttaröðum eitt, tvö og fjögur. Isabel Coates er trygg vinkona Blair og er enn vinkona hennar þrátt fyrir dvínandi vinsældir hennar sem Queen Bee. Hún var besta vikona Kati Farkas og átti það til að klæðast sömu fötum og hún. Í fyrstu þáttaröðinni birtust hún og Kati oft í draumórum Blair sem Audrey Hepburn og á einum tímapunkti birtast hún og Kati einnig í draumum Dans. Hún er píanisti. Isabel og Penelope valda nýjum deilum á milli Blair og Serenu þegar drottningartitillinn fer frá Blair til Serenu. Gegnsæi kjóllinn sem hún ætlaði sér að vera í á Snjókornaballinu er notaður til að niðurlægja Vanessu. Isabel, Penelope og Nelly Yuki eru allar viðstaddar þegar þær ákveða að titla Emmu Boardman sem nýju drottninguna en Jenny hreppti titilinn. Bæði Isabel og Penelope neita báðar að láta stelpu frá Brooklyn halda uppi arfleið þeirra en Blair sannfærir þær um það. Isabel, ásamt Kati, sneri aftur við lok fjórðu þáttaraðar á endurfundum Constance. Kati Farkas. Leikin af Nan Zhang í þáttaröðum eitt, fjögur og fimm. Kati Farkas er trygg vinkona Blair þar til hún missir stöðu sína sem „Queen Bee“. Hún var besta vinkona Isabel Coates og klæddist oft sömu fötum og hún. Í fyrstu þáttaröðinni birtust hún og Isabel oft í Audrey Hepburn draumórum Blair og á einum tímapunkti voru hún og Isabel einnig í draumum Dans. Bróðir Kati á íbúð en þar hélt Blair upp á sautján ára afmælið sitt sem leiddi til þess að Blair og Chuck héldu áfram leynilegu sambandi sínu í fyrstu þáttaröðinni. Foreldrar hennar flytja með hana aftur til Ísrael eftir vorleyfið. Kati sneri aftur með Isabel fyrir endurfundi Constance í lokaþætti fjórð þáttaraðar. Í fimmtu þáttaröðinni snýr Kati aftur til að berjast við fyrrum þernur Blair, Penelope og Jessicu, til að vera brúðarmey Blair. Bart Bass. Leikinn af Robert John Burke síðan í fyrstu þáttaröð. Bartholomew „Bart“ Bass er milljarðamæringur, faðir Chuck og stofnandi Bass Industries og var giftur Lily van der Woodsen. Fjölskylda hans bjó á New York Palace hótelinu sem hann átti. Hann þénaði peningana sína sjálfur, ólíkt þeim sem búa í fína hverfinu sem hafa fengið þá í arf. Hann var stjórnsamur við fjölskyldu sína, óvæginn í viðskiptum og sýndi Chuck litla væntumþykju og það kemur í ljós að það er vegna þess að sonur hans bar ábyrgð á dauða hans (móðir Chucks dó við fæðinguna). Stundum virðist honum vera umhugað um son sinn og biður hann um að vera svaramaður í brúðkaupinu sínu. Bart hrósaði Chuck í ræðu sinni og sagði að hann væri stoltur af skuldbindni hans við Blair. Í annarri þáttaröðinni, með hjálp frá Dan, reyna hann og Chuck að laga samband sitt en hann deyr skyndilega í bílslysi. Í þriðju þáttaröðinni birtist hann sem draugur þegar ár er liðið síðan hann dó. Í fimmtu þáttaröðinni kemur í ljós að Bart átti í ástarsambandi við Diönu Payne sem endaði á því að hún varð ólétt að Chuck. Þegar verið er að leita að leyndarmáli Diönu kemur í ljós að hann er enn á lífi. Dorota Kishlovsky. Leikin af Zuzönnu Szadkowski síðan í öðrum þætti. Dorota Kishlovsky er pólks þerna Waldorf-fjölskyldunnar og þykir mjög vænt um Blair. Þrátt fyrir að Blair sé oft leiðinleg við hana sér Blair hana sem móðurímynd. Í vefþáttaröðinni „Chasing Dorota“, kemur í ljós að hún er í rauninni pólsk greifynja og á leyndan eiginmann, Stanislaw. Hún flúði fjölskyldu sína til Bandaríkjanna og fór að vinna hjá Waldorf fjölskyldunni árið 2004. Hún skilur að lokum við eiginmann sinn og trúlofast Vanya, rússneska dyraverðinum í byggingunni sem van der Woodsen-fjölskyldan býr í. Í þættinum „The Treasure of Serena Madre“ kemur í ljós að hún er ólétt að barni Vanya og í þættinum „The Unblairable Lightness of Being“ giftast hún og Vanya. Hún eignast dótturina Anastasiu í lokaþætti seríunnar og hún og Vanya flytja til Queens, inn í íbúð sem Cyrus keypti handa þeim. Í fyrsta þætti 5. þáttaraðar kemur í ljós að hún er ólétt að öðru barni sínu. Hún kemst einnig að því að Blair er ólétt og er ánægð fyrir hennar hönd en heldur því leyndu. Í fimmtu þáttaröð eignast Dorota soninn Leo. Carter Baizen. Leikinn af Sebastian Stan í þáttaröðum eitt, tvö og þrjú. Carter Baizen útskrifaðist úr St. Jude's og er óvinur Nate og Chuck. Það er minnst á það að hann hafi snúið baki við foreldrum sínum og missti því fjölskylduauðinn og neyddist til að taka málin í sínar hendur með því að móta sína eigin framtíð, eitthvað sem Nate langar mikið að gera. Nate lítur upp til hans í fyrstu þar til Carter reynir að ná af honum peningum í pókerleik. Hann verður seinna fylgdarsveinn Serenu á kynningarballinu (ball sem er haldið fyrir ungar konur til að kynna þær fyrir samfélaginu) og er kýldur af Nate eftir að Chuck fær Nate til að halda að Carter hafi áhuga á Blair. CeCe hafði hringt í Carter viku fyrir ballið og segir Serenu það sem breytir áliti Serenu á ömmu sinni. Í annarri þáttaröðinni kemur Carter aftur til New York með hinni dularfullu Elle en endar á því að sofa hjá Blair. Hann yfirgefur síðan New York þegar Serena og Chuck taka saman höndum. Í lokaþætti annarrar þáttaraðar snýr Carter aftur til New York til að segja Serenu að hann hafi fundið föður hennar. Í fyrsta þætti þriðju þáttaraðar kemur í ljós að hann og Serena eyddu sumrinu í Evrópu að leita að föður hennar. Í ljósi þess að Serenu mistókst að ná athygli föður síns segir Carter Serenu að hann beri tilfinningar til hennar og þau kyssast. Samband þeirra endar þegar það kemur í ljós að hann yfirgaf frænku Bree Buckley við altarið og vann sér þannig inn reiði Buckely fjölskyldunnar þegar Bree og frænkur hennar hringja á meðan brúðkaup Rufusar og Lilyar stendur yfir til að fara með Carter til Texas til að vinna í olíuverksmiðju til að borga skuld sína. Serena veðjar á pókerleik til að frelsa Carter og mistekst. Hún tekur þá málin í sínar eigin hendur og fær hann lausan en Carter neitar að taka upp þráðinn í sambandi þeirra og segir að hann hefði heldur viljað að Serena hefði ekki bjargað honum svo hann gæti bætt sig. Carter heldur áfram að ljúga þegar hann segir Serenu frá nákvæmri staðsetningu föður hennar. Serena hverfur með honum sem veldur togstreitu í sambandi hennar við Nate. Serna kemst seinna að því að hann hafði vitað hvar faðir hennar var staðsettur alveg síðan þau byrjuðu saman en hann hafði haldið upplýsingunum frá henni til að komast nær henni. Hún neyðir hann þá út úr limósínunni. Anne Archibald. Leikin af Francie Swift á þáttaröðum eitt, tvö og fjögur. Anne Archibald (áður van der Bilt) er móðir Nate Archibald. Í fyrstu þáttaröðinni hjálpar hún eiginmanni sínum í viðskiptum hans við Eleanor Waldorf. Hún lofaði eitt sinn Eleanor Waldorf að gefa Blair Cornelius Vanderbilt trúlofunarhringinn sinn svo að Nate og Blair gætu trúlofast en þegar Blair kemst að þeim vandræðum sem Nate á í við föður sinn endar hún sambandið. Í annarri þáttaröðinni eru reikningarnir hennar frystir í kjölfarið á handtöku eiginmanns hennar og húsið þeirra á Manhattan er tekið svo Nate þarf að dvelja um stund hjá Humphrey-fjölskyldunni. Orðspor Anne Archibald var einnig í hættu þegar Chuck veitti henni lán eftir að hafa selt næturklúbbinn sinn, Victrola, en það veldur því að Nate slítur vináttunni við Chuck. Það leysist úr fjárhagsvandræðum hennar þega Nate sannfærir föður sinn um að fara til Alríkislögreglunnar og játa syndir sínar og hún grætur þegar eiginmaður hennar er handtekinn. Stuttu áður en eiginmaður hennar losnar úr fangelsi sækir hún um skilnað. Harold Waldorf. Leikinn af John Shea í þáttaröðum eitt, tvö og fimm. Harold Waldorf er faðir Blair sem flutti til Frakklands til að búa með ástmanni sínum, Roman. Hann gerir venjulega graskersböku á Þakkargjörðinni en hefur ekki gert hana síðan á síðustu Þakkargjörð þeirra Blair, áður en hann kom út úr skápnum og flutti til Evrópu. Hann snýr aftur yfir hátíðarnar með ástmanni sínum, Roman, fyrirsætu sem fyrrverand eiginkona Harolds, Eleanor, notaði eitt sinn í tískusýningu. Blair líkar ekki við Roman eftir að hann fótbrotnar og býður þess vegna fyrrverandi kærasta Romans sem reiðir Harold. Harold talar við Blair um atvikið og sýnir henni síðan lífið sitt í Frakklandi með myndbandi. Hann býr núna á vínekru í Frakklandi og á köttinn Cat, nefndur eftir kettinum í uppáhalds bíómynd Blair, "Breakfast at Tiffany's". Hann snýr aftur í Þakkargjörðarþætti annarrar þáttaraðar en Blair heldur að móðir hennar hafi ekki boðið honum og þau deila graskersböku. Hann gefur Blair hundinn Handsome Dan en hún ákveður að kalla hann Handsome. Á meðan ráðabrugg Blair, sem kveikti neista í sambandi milli ungfrú Carr og Dans og olli næstum lokun Gossip Girl síðunnar, stendur yfir sannfærir hún föður sinn og foreldrana á skólaráði Constance-St. Jude's með því að sýna þeim mynd af Dan með ungfrú Carr og tryggir þannig inngöngu sína í Yale-háskólann. Þegar hann heyrir samtal Blair um að myndin sé fölsuð og ekkert sé til í orðrómnum, ræðir Harold við Blair og segir henni að hann hafi séð aðra hlið á henni og að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með hana, af því að hann hafi óbeint logið fyrir hana. Hann segir Blair síðan að sá háskóli sem hún fari í skipti ekki máli, heldur sú manneskja sem hún muni verða. CeCe Rhodes. Leikin af Caroline Lagerfelt í þáttaröðum 1-5. Celia "CeCe" Rhodes er móðir Lily og amma Serenu og Erics. Hún býr í Montecito í Kaliforníu og heimsækir Lily, Serenu og Eric í New York nokkrum sinnum á ári. Hún er mjög rík, afturhaldssöm, ströng, ógnandi, snobbuð og hátt sett í samfélaginu og lítur niður á alla sem eru miðstéttar- eða lágstéttarfólk. Hún veldur sambandsslitum Rufusar og Lilyar þegar hún lét Lily velja milli fjölskylduauðsins og Rufusar. Lily fannst henni vera ógnað og valdi því fjölskylduauðinn. CeCe reyndi einnig að valda sambandsslitum á milli Serenu og Dan með því að fá Carter Baizen (sem kemur úr auðugri fjölskyldu) til að fara með henni á kynningardansleikinn. Í fyrstu þáttaröðinni beitti hún dóttur sína og barnabarn brögðum þegar hún sagðist vera með hræðilegan sjúkdóm og sagði að læknarnir hefðu fundið "eitthvað" í lungunum. Þrátt fyrir að viðurkenna seinna að hún hafi logið til að fá samúð, sást hún seinna taka töflur. Kaldur og ráðsamur persónuleiki hennar breytist á einni sekúndu þegar hún hleyir Dan inn í Hvítu veisluna með því að gera hann að fylgdarmanni sínum, sem sýnir að henni þykir vænt um Serenu. Pierre Corneille. Málverk af Corneille eftir óþekktan listamann. Pierre Corneille (6. júní 1606 – 1. október 1684) var franskt leikskáld og eitt af „stóru leikskáldunum þremur“ í Frakklandi á 17. öld ásamt Moliére og Jean Racine. Hann hefur verið kallaður faðir franska harmleiksins. 1634 fékk hann stöðu leikskálds hjá Richelieu kardinála en skömmu síðar hætti hann þar sem honum þótti kröfur kardinálans of strangar. 1635 var fyrsti harmleikurinn hans, "Medea", settur upp. Ári síðar var þekktasti harmleikur hans, "Le Cid", gefinn út. Verkið varð gríðarlega vinsælt en Franska akademían (sem hafði verið stofnuð árið áður að undirlagi Richelieus) taldi verkið gallað þar sem það fylgdi ekki reglum Aristótelesar um einingu atburðarásar, tíma og staðar. Deilurnar um "Le Cid" urðu til þess að Corneille hætti um tíma að skrifa. Þegar hann sneri aftur með "Hóras" 1640 (sem hann tileinkaði Richelieu) hélt hann sig við reglur harmleiksins. 1643 komu svo út "Cinna" og "Polyeuctus". Þessir þrír harmleikir eru ásamt "Le Cid" kallaðir fjórleikur Corneilles. Eftir miðjan 5. áratuginn voru vinsældir Corneilles hvað mestar en neikvæð gagnrýni um eitt verka hans fékk hann til að hætta skrifum aftur árið 1652. 1659 sneri hann aftur en síðari verk hans náðu ekki sömu vinsældum og þau fyrri. Taylor Swift. Taylor Alison Swift (fædd 13. desember 1989) er bandarísk söngkona og lagasmiður, gítarleikari og leikkona. Árið 2006 gaf hún út sína fyrstu smáskífu, "Tim McGraw" og í október sama ár gaf hún út fyrstu hljóðversplötuna sína, "Taylor Swift", sem gaf af sér fimm smáskífur og varð þreföld platínum plata. Fyrir vikið fékk Swift tilnefningu til 50. Grammy-verðlaunanna sem „besti nýliðinn“. Í nóvember 2008 gaf Taylor út plötuna, "Fearless" og í kjölfarið fékk Swift fjögur Grammy-verðlaun, meðal annars fyrir „plötu ársins“ á 52. Grammy-verðlaununum. "Fearless" og "Taylor Swift" voru í þriðja og sjötta sæti í lok ársins og höfðu selst í 2,1 milljónum og 1,5 milljónum eintaka. Fearless var á toppi Billboard 200-listans samfleytt í ellefu vikur, og hefur engin plata verið efst svo lengi síðan árið 2000. Swift var útnefnd listamaður ársins af Billboard-tímaritinu árið 2009. Swift gaf út þriðju stúdíóplötuna sína, "Speak Now" þann 25. október 2010 sem seldist í 1.047.000 eintökum í fyrstu söluvikunni. Árið 2008 seldust plöturnar hennar í samanlagt fjórum milljónum eintaka, sem gerir hana að söluhæsta tónlistarmanni ársins í Bandaríkjunum, samkvæmt Nielsen SoundScan. Í dag hefur Swift selt yfir 16 milljónir platna um allan heim. Æska. Swift fæddist þann 13. desember 1989, og er eina dóttir hjónanna Andreu Gardner og Scott Kingsley Swift. Hún fæddist og ólst upp í Wyomissing, Pennsylvaníu. Móðuramma hennar, Majorie Finlay, var óperusöngkona. Swift á yngri bróður, Austin. Þegar Taylor var í fjórða bekk vann hún ljóðakeppni með þriggja blaðsíðna ljóði sem bar nafnið „Skrímsli í skápnum mínum“ (e. "Monster in my closet"). Þegar hún var 10 ára kenndi tölvuviðgerðarmaður henni þrjú gítargrip sem kveikti áhuga Swift á því að læra á hljóðfæri. Eftir það samdi hún fyrsta lagið sitt „Lucky You“. Hún byrjaði að semja lög reglulega og notaði það sem leið til að hjálpa sér að takast á við það hvað henni gekk illa að passa inn í skólanum. Hún var fórnarlamb eineltis og samdi oft lög til að takast á við tilfinningar sínar. Swift byrjaði að koma fram í karókíkeppnum, á bæjarhátíðum og öðrum atburðum í heimabæ sínum. Þegar hún var tólf ára eyddi hún heilu sumri í að skrifa 350 blaðsíðna skáldsögu sem hefur ekki verið gefin út. Fyrstu stóru tónleikarnir hennar voru á Bloomsburg hátíðinni. Swift gekk í Hendersonville menntaskólann en hafði áður verið kennt heima (e. "homeschooled"). Árið 2008 útskrifaðist Swift úr menntaskóla. Stærsti áhrifavaldur Swift er Shania Twain. Aðrir tónlistarmenn sem hafa áhrif á hana eru meðal annars LeAnn Rimes, Tina Turner, Dolly Parton og amma hennar. Þrátt fyrir að amma hennar hafi verið óperusöngkona hefur smekkur Swift alltaf verið í átt að sveitatónlist. Á yngri árum sínum var hún mjög hrifin af Patsy Cline og Dolly Parton. Hún þakkar einnig Dixie Chicks fyrir að sýna henni hvað það er hægt að hafa mikil áhrif með því að "teygja mörkin". 2000-05: Upphaf tónlistarferils. Þegar Swift var 11 ára fór hún í fyrsta skipti til Nashville og vonaði að hún gæti fengið plötusamning með því að koma demó-upptökunni sinni á framfæri. Hún lét öll plötusamningsfyrirtæki fá eintak en henni var hafnað. Eftir að Swift sneri aftur til Pennsylvaníu, var henni boðið að syngja á Opna Bandaríska tennismótinu; og fékk hún mikla athygli eftir að hafa sungið þjóðsönginn. Hún byrjaði að semja lög og spila á 12-strengja gítar þegar hún var tólf ára. Hún fór að heimsækja Nashville reglulega og samdi lög með lagahöfundum þar. Þegar hún var fjórtán ára ákvað fjölskyldan hennar að flytja í úthverfi Nashville. Þegar Swift var fimmtán ára hafnaði hún plötusamningi hjá RCA Records vegna þess að fyrirtækið vildi hafa hana á þróunarsamningi. Eftir að hafa sungið á stað lagahöfunda í Nashville, The Bluebird Café, fangaði hún athygli Scott Borchetta sem bauð henni samning hjá nýja plötufyrirtækinu sínu, Big Machine Records. Hún varð einnig yngsti meðlimurinn sem hefur nokkurn tímann verið ráðinn hjá Sony/AtV Tree auglýsingastofunni en hún var fjórtán ára. 2006-08: "Taylor Swift". Swift gaf út fyrstu smáskífuna sína, "Tim McGraw", um mitt árið 2006 og náði það 6. sæti á Billboard Hot Country Songs listanum. Fyrsta sólóplatan hennar "Taylor Swift" kom út 24. október 2006. Platan náði strax góðu sæti á Billboard 200 listanum og seldist í 39 þúsund eintökum fyrstu vikuna. Hún náði 1. sæti á Billboard Top Country-plötulistanum og 5. sæti á Billboard 200. Platan eyddi átta vikum samfleytt á toppnum á Top Country-plötulistanum og var á toppnum í 24 af 91 viku. Einu kántrí-tónlistarmennirnir sem hafa haldið plötunni sinni á toppi listans í 20 vikur eða meira eru The Dixie Chicks og Carrie Underwood. Tónlistarmyndbandið við „Tim McGraw“ veitti Swift verðlaun fyrir framúrskarandi myndband ársins 2007 á CMT-tónlistarverðlaununum. 15. maí 2007 flutti Swift lagið á Kántrí-tónlistarverðlaununum. Swift hefur verið opnunaratriði fyrir Tim McGraw og Faith Hill. Hún hefur einnig verið upphitunaratriði fyrir George Straid, Brad Paisley og Rascal Flatts. Önnur smáskífa plötunnar "Taylor Swift", „Teardrops on My Guitar“, kom út 24. febrúar 2007. Um mitt ár 2007 náði lagið 2. sæti á kántrí-Billboard listanum og 33. sæti á Billboard Hot 100. Lagið var endurútgefið og náði sú útgáfa 13. sæti á Billboard Hot 100 listanum. Í október 2007 var Swift útnefnd Lagahöfundur/Tónlistarmaður ársins af sambandi lagasmiða í Nashville og er hún yngsti tónlistarmaðurinn sem hefur hlotið þessi verðlaun. Þriðja smáskífa plötunnar, „Our Song“, var sex vikur á toppi kántrí-listans og náði 16. sæti á Billboard Hot 100 og 24. sæti á Billboard Pop 100. Swift tók upp hátíðarplötu, "Sounds of the Season: The Taylor Swift Holiday Collection", sem var aðeins seldur í versluninni Target seinni hluta árs 2007. Swift var tilnefnd til Grammy-verðlauna árið 2008 í flokknum „besti nýliðinn“ en tapaði fyrir Amy Winehouse. Vinsæla smáskífa Swift, „Picture to Burn“, var fjórða smáskífa fyrstu plötu hennar. Lagið náði 3. sæti á bandaríska kántrílistanum vorið 2008. „Should've Said No“ varð önnur toppsmáskífa Swift. Sumarið 2008 gaf Swift út "Beautiful Eyes" sem var eingöngu seld í Wal-Mart. Fyrstu vikuna seldist platan í 45 þúsund eintökum og náði 1. sæti á Billboard kántríplötulistanum og 9. sæti á Billboard 200. Þá var fyrsta platan hennar í 2. sæti þessa sömu viku og er hún fyrsti tónlistarmaðurinn síðan árið 1997 til að eiga plötur í tveimur efstu sætunum samtímis á kántríplötulistanum. 2008-09: "Fearless". Nýjasta plata Swift, "Fearless", kom út í Bandaríkjunum þann 11. nóvember 2008. Platan náði strax toppi Billboard 200 listans og seldist hún í 592 þúsund eintökum fyrstu vikuna og eru það hæstu sölutölur kántríplötu árið 2008. Platan var einnig sú plata söngkonu sem seldist í flestum eintökum fyrstu söluvikuna árið 2008 og í fjórða sæti yfir allar plötur á eftir Lil Wayne, DC og Coldplay. Fyrsta smáskífan, „Love Story“, varð mjög vinsæl, bæði á kántrí- og popplistum. Fyrstu söluvikuna seldist platan í 129 þúsund eintökum á netinu. Þetta gerir Swift að söluhæsta tónlistarmanninum á netinu í kántríbransanum. Það gerir hana einnig að fjórða söluhæsta tónlistarmanninum síðan Nielsen SoundScan byrjaði að halda tölur um netsölu platna árið 2004. Eftir átta vikur í sölu hafði "Fearless" selst í meira en 338 þúsund eintökum á netinu sem er best selda kántríplata á netinu. Í öðru sæti er platan "Taylor Swift" með 236.000 seldar plötur síðan 18. apríl 2009. Í fyrstu vikunni voru alls sjö lög af "Fearless" á Billboard Hot 100 listanum. Með „White Horse“ í 13. sæti var það sjötta lagið hennar á topp 20 árið 2008, ársmet fyrir tónlistarmann á Billboard Hot 100. Af 13 lögum á "Fearless" hafa ellefu af þeim verið á Hot 100 listanum. Lag af plötunni, „Change“, var valið sem hluti af tónlist til að styðja Bandaríska landsliðið fyrir sumar Ólympíleikana árið 2008. Lagið var einnig hluti af tónlistinni fyrir ústendingarpakka sjónvarpstöðvarinnar NBC um Ólympíuleikana. Aðal smáskífa plötunnar, „Love Story“, kom út 12. september 2008. "Fearless" platan inniheldur m.a. tónlistarmyndband lagsins sem er byggt á sögunni um Rómeó og Júlíu. Lagið náði 2. sæti á lista mest seldu lagana á iTunes og 4. sæti á Billboard Hot 100. Vegna vinsælda lagsins var uppi hugmynd um að gera lagið að einkennislagi Swift. Fimmtán vikum eftir að lagið fór í spilun varð „Love Story“ einnig fyrsta kántrí-lagið sem náði efsta sæti Top 40 lista Nielsen í sextán ára sögu listans. Önnur smáskífa "Fearless", „White Horse“, kom út 8. desember 2008. Tónlistarmyndband lagsins var frumsýnt á CMT þann 7. febrúar 2009. Þrátt fyrir að lagið hafi misst efsta sætið á Billboard Hot-kántrí listanum þann 11. apríl 2009 náði lagið efsta sætinu á nokkrum öðrum listum. „Forever & Always“, annað lag af plötunni, var byggt á sambandi Swift við söngvarann Joe Jonas. Hún var fyrsti tónlistarmaður í sögu Nielsen SoundScan til að eiga tvær plötur á Top 10 listanum í lok árs. Hún var einnig fyrsta söngkonan í sögu kántrí-tónlistar til að einoka fyrsta sæti Billboard 200 listans. Um miðjan janúar 2009 varð Swift fyrsta kántrí söngkonan til að ná tveggja milljóna markinu í borguðu niðurhali á þremur mismunandi lögum. Swift er tónlistarmaður Billboard Top Country listans og Hot Country lagahöfundur ársins 2008 en hún er einnig söluhæsti tónlistarmaður sama árs. Í janúar 2009 tilkynnti Swift „Fearless-tónleikatúrinn“ um Norður-Ameríku og var áætlað að heimsælja 52 borgir í 28 fylkjum í Bandaríkjunum og Kanada næstu sex mánuðina. Túrinn fór af stað 23. apríl í Evansvillie í Indiana. Í sama mánuði kom Swift í fyrsta skipti fram í Saturday Night Live. 8. febrúar 2009 söng Swift lagið „Fifteen“ með Miley Cyrus á 51. Grammy verðlaununum. Við lok vikunnar 8. febrúar 2009 var smáskífa Swift, „Love Story“, orðin tekjuhæsta niðurhalslag í sögu tónlistar. Síðan Swift gaf út aðra plötuna sína, "Fearless", hefur hún gefið út eitt nýtt lag, „Crazier“, fyrir myndina '. Á 44. árlegu kántrí-verðlaununum fékk Swift verðlaun fyrir plötu ársins sem flytjandi og framleiðandi "Fearless". Swift er yngsti tónlistarmaðurinn sem hefur unnið verðlaun ACM fyrir plötu ársins. Akademían verðlaunaði hana fyrir afrek á ferlinum sem eru meðal annars að selja fleiri plötur árið 2008 en nokkur annar flytjandi, framúrskarandi árangur fyrstu plötunnar og heimsfrægu smáskífuna „Love Story“. Akademían heiðraði einnig framtak Swift til að hjálpa sveitatónlist að ná til yngri hlustenda. Seinni hluta apríl 2009 hafði Swift selt yfir fjórtán milljónir laga í borguðu niðurhali. 18. apríl 2009 hélt Swift fría, einkatónleika fyrir nemendur í Bishop Ireton miðskólanum, litlum kaþólskum skóla í Alexandríu í Virginíu eftir að skólinn vann keppnina TXT 2 WIN á vegum Verizon Wireless. Nemendur skólans sendu yfir 19.000 smáskilaboð til Verizon í mánaðarlangri keppni. Swift spilaði í um klukkutíma á skemmtidegi skólans. 8. október 2009 tilkynnti opinbera heimasíða hennar að þó það væri uppselt á alla tónleika Fearless-túrsins myndi hann snúa aftur 37 sinnum árið 2010. 11. nóvember 2009 var Swift yngsti tónlistarmaðurinn til að vinna verðlaun samtaka sveitatónlistar fyrir „skemmtikraft ársins“ og er ein af aðeins sex konum sem hafa unnið þennan mesta heiður sambandsins. 14. nóvember 2009 setti Swift met með því að hafa flest lög sem söngkona hefur átt á Billboard Hot 100 listanum í einu, með átta smáskífur af endurútgáfu Fearless. Til viðbótar lenti lagið „Two Is Better Than One“ með Boys Like Girls þar sem Swift söng einnig í, í 80. sæti þessa sömu viku. Þetta gefur henni sex ný lög sem eru þau flestu sem nokkur söngkona hefur gefið út í einu. Þegar „Fifteen“ náði 38. sæti á listanum í nóvember 2009 varð hún sún söngkona sem hafði átt flest lögin á topp 40 þennan áratuginn en Beyoncé átti metið. „Fifteen“ varð tuttugasta smáskífa Swift sem lenti á topp 40 listanum. „Two Is Better Than One“ með Boys Like Girls og lag John Mayer, „Half of my Heart“, náðu 40. og 25. sæti en hún syngur í báðum lögunum. "Fearless" var mest selda platan í Bandaríkjunum árið 2009 með 3,2 milljón eintök seld það ár. Swift náði 1. og 2. sæti á lista Nielsen yfir tíu mest spiluðu lögin það árið með „You Belong With Me“ og „Love Story“. Hún toppaði einnig lista yfir tíu mest spiluðu lögin í útvarpinu með 1,29 milljón spilanir og 46 milljón spilanir á netinu. Atvik á kvikmyndaverðlaunum MTV. Áætlað var að Swift myndi koma fram þann 13. september 2009 á MTV tónlistarmyndbandaverðlaunin 2009 (VMA). Þetta var í fyrsta skipti sem Swift var boðið að spila á verðlaununum og varð hún fyrsti kántrí-tónlistarmaðurinn til að vinna VMA merðlaunin. Á meðan Swift var á sviðinu að taka við verðlaunum fyrir besta myndband söngkonu fyrir lagið „You Belong With Me“, kom söngvarinn/rapparinn Kanye West upp á sviðið og tók hljóðnemann af Swift og sagði að myndbandið við lag Beyoncé, „Single Ladies (Put a Ring on It)“, sem tilnefnt var í sama flokki, væri „eitt af bestu tónlistarmynböndum allra tíma“ og bauluðu margir áhorfendur á West á meðan atvikinu stóð. Þegar Beyoncé vann seinna verðlaun fyrir besta tónlistarmyndband ársins fyrir „Single Ladies (Put a Ring on It)“, kallaði hún Swift upp á svið til að klára ræðuna sína. Eftir verðlaunaafhendinguna baðst West afsökunar á þessu atviki í bloggi (sem seinna var fjarlægt). Hann var gagnrýndur af mörgum stjörnum eftir atvikið og var hann jafnvel gagnrýndur af sjálfum forsetanum, Barack Obama, en hann lét þau ummæli falla eftir að viðtali við hann var lokið. West baðst afsökunar aftur á bloggi sínu og baðst opinberlega afsökunar daginn eftir atvikið í þætti Jay Leno. 15. september 2009 talaði Swift um atvikið í "The View" þar sem hún sagði að í fyrstu hefði hún verið spennt að sjá West á sviðinu en hafi síðan orðið fyrir vonbrigðum með hann. Hún sagði að West hefði ekki talað við hana í kjölfar atviksins. Eftir að hafa birtst í "The View", baðst West afsökunar í eigin persónu og Swift tók beiðninni. 2010-: "Speak Now". Taylor á verðlaunaafhendingu Time þar sem hún var verðlaunuð. Taylor gaf út lagið „Today Was a Fairytale“ í janúar 2010 og var lagið eingöngu selt í versluna iTunes. Lagið var notað í kvikmyndinni "Valentine's Day" þar sem hún lék í fyrsta skipti í kvikmynd.Lagið fór strax í 2. sæti Billboard Hot 100 listans en lagið er sjötta lag hennar á topp 10 listanum og það 23. sem nær inn á topp 40. Lagið seldist í meira en 325 þúsund „eintökum“ fyrstu vikuna og sló Swift þar met. Lagið er einnig fyrsti smellur Swift sem fer á topp kanadíska listans. Í febrúar 2010 lagði Swift aftur af stað með "Fearless" túrinn og heimsótti fimm borgir í Ástralíu. Um miðjan júlí 2010 sagði Billboard frá því að ný plata Swift myndi bera nafnið Speak Now. Platan kom út þann 25. október 2010. Swift ssamdi öll lögin á plötunni í Arkansas, New York, Boston og Nashville. Miðvikudaginn 4. ágúst 2010 lak fyrsta smáskífan, „Mine“, á netið, og ákvað Big Machine Records í kjölfarið að flýta útgáfu smáskífunnar. Leikferill. Árið 2008 fékk Swift fyrsta hlutverkið sitt í tónlistarmyndbandi Brad Paisleys við lagið „Online“. Þetta sama ár tók Swift upp heimildarmynd fyrir MTV og bar hún nafnið „MTV's Once Upon a Prom“ ("Einu sinni á lokaballi") og heimildarmynd með Def Leppard fyrir CMT sem hét „CMT Crossroads“ ("Krossgötur CMT") sem var frumsýnd 7. nóvember 2008. Swift starfaði með Jonas Brothers í þrívíddar tónleikakvikmynd þeirra, "Jonas Brothers: The 3D Concert Experience". Myndin var frumsýnd 27. febrúar 2009 í Norður-Ameríku og halaði inn 12,7 milljónum dala fyrstu sýningarhelgina. Swift lék í fyrsta skipti í sjónvarpsþætti í ' þann 5. mars 2009. Alls horfðu 20,8 milljónir manna á þáttinn. Swift birtist lítillega í tónlistarmyndbandi Kellie Pickler við lagið „Best Days of Your Life“. Hún birtist einnig í ' og var hún titluð sem „kona sem syngur í hlöðunni“. Myndin kom út 10. apríl 2009. Sjónvarpsþátturinn "Dateline NBC" sýndir klukkutíma langan þátt um Swift í maí 2009. Þátturinn bar nafnið "Dateline NBC: Á ferð með Taylor Swift" og innihélt hann myndbrot úr túrarútunni, atriði af tónleikum og æfingum. Taylor kom síðan í "Saturday Night Live" í nóvember 2009 en hún var einnig tónlistargestur þáttarins. Árið 2010 lék Swift fyrsta alvöru hlutverkið sitt í kvikmynd þegar hún lék hlutverk Feliciu í rómantísku gamanmyndinni "Valentine's Day". Góðgerðarstarfsemi. 21. september 2007 hjálpaði Swift við að koma af stað herferð til að vernda börn gegn Internetinu. Hún gekk til liðs við Phil Bredesen, ríkisstjóra Tennessee, til að koma í veg fyrir kynlífsglæpi á netinu. Árslanga herferðin, ásamt lögreglustjóraembætti Tennessee, dreifði öryggisupplýsingum um netið og málefnum sem foreldrar og nemendur um allt ríkið ættu að hugsa um. Snemma árið 2008 gaf Swift bleika Chevy-pallbílinn sem henni hafði verið gefinn frá plötufyrirtækinu sem hún er á samning hjá, til verkefni Victory Junction Gang og í júní 2008 gaf Swift allan ágóða plötusölu sinnar það árið til Rauða krossins, samtaka krossins í Nashville sem hjálpar til eftir náttúruhamfarir og bandaríska Rauða krossins sem hjálpar til eftir náttúruhamfarir. Swift gaf Rauða krossinum í Iowa 100,000 dali til að hjálpa fórnarlömbum Iowa flóðsins árið 2008. Swift hefur gengið til liðs við Sound Matters til að fá fólk til að „axla ábyrgð á því sem það hlustar á.“ Swift lánaði stuðning sinn Victorian Bushfire Appeal til að taka þátt í tónleikum Sound Relief í Sydney og er það stærsta framlag nokkurs tónlistarmanns hjá Sound Relief til ástralska rauða krossins. Swift gaf lokaballskjólinn sinn sem safnaði tólfhundruð dollurum til góðgerðarmála á DonateMyDress.org. Þann 20. nóvember 2009 eftir að hafa sungið fyrir herferð BBC, Children in Need, tilkynnti Swift, Sir Terry Wogan að hún myndi gefa verkefninu 13 þúsund pund af sínum eigin peningum til að styrkja verkefnið. Á afmælisdaginn sinn, 13. desember, gaf Swift 250,000 til skóla um allt landið sem hún hafði annaðhvort gengið í eða tengst á einhvern hátt. Taylor Swift hefur gefið skópar með eiginhandaráritun sinni á sólanum til Wish Upon a Hero-sjóðsins sem safnar peningum fyrir konur með krabbamein. Swift gaf 500 þúsund dali til fórnarlamba flóðanna í Tennessee í maí 2010. Einkalíf. Árið 2008 átti Swift í ástarsambandi við poppsöngvarann Joe Jonas sem endaði í nóvember þetta sama ár. Swift sagði að lagið „Forever & Always“ á plötunni "Fearless" væri innblásið af sambandsslitum þeirra. Swift átti einnig í sambandi við Twilight leikarann Taylor Lautner árið 2009 og fyrri hluta árs 2010. Seinni hluta árs 2010 byrjaði Swift með leikaranum Jake Gyllenhaal Heimildir. Swift, Taylor Alison The Big Bang Theory. "The Big Bang Theory" er bandarískur gamanþáttur sem er búinn til og framleiddur af Chuck Lorre og Bill Prady og fór í loftið 24. september 2007. Þátturinn gerist í Pasadena í Kaliforníu og snýst um líf tveggja karlmanna á þrítugsaldri sem eru eðlisfræðingar. Annar þeirra (Leonard) er tilrauna-eðlisfræðingur en hinn (Sheldon) er kennilegur eðlisfræðingur og búa þeir á móti fallegri ljóshærðri þjónustustúlku sem reynir að komast áfram í skemmtanaiðnaðinum (Penny). Nördaskapur og gáfur Leonards og Sheldons eru langt frá því Penny á að venjast í mannlegri hegðun og almennri skynsemi og er það grundvöllur fyrir skemmtanagildi þáttanna. Tveir álíka nördalegir vinir þeirra, Howard og Rajesh, eru líka aðalpersónur. Þátturinn er framleiddur í samstarfi Warner Bros. Television og Chuck Lorre Productions. Í mars 2009 var tilkynnt um að þátturinn hefði verið endurnýjaður fyrir þáttaraðir þrjú og fjögur. Í ágúst 2009 vann þátturinn TCA verðlaun fyrir bestu gamanþáttaröðina og Jim Parsons vann verðlaun fyrir frammistöðu sína í gamanþáttaröð. Helga Sigurðardóttir. Helga Sigurðardóttir (17. ágúst 1904 – 26. ágúst 1962) var skólastjóri Húsmæðrakennaraskóla Íslands og höfundur fjölda matreiðslubóka. Hún hafði mikil áhrif á mótun íslenskra matarhefða um miðja 20. öld. Helga fæddist á Akureyri, dóttir Sigurðar Sigurðssonar, síðar búnaðarmálastjóra, og Þóru Sigurðardóttur. Föðursystir hennr var Jóninna Sigurðardóttir matreiðslubókarhöfundur. Hún ólst upp á Hólum í Hjaltadal, þar sem faðir hennar var skólastjóri Bændaskólans á Hólum. Árið 1922 fór hún til náms í húsmæðraskóla í Danmörku og síðan í húsmæðrakennaraskóla Birgitte Berg-Nielsen og lauk þaðan húsmæðakennaraprófi 1926. Helga fór þá heim og stundaði matreiðslu og kennslu næstu árin, lengst af við Austurbæjarskóla. Helga gaf út fyrstu matreiðslubók sína, "Bökun í heimahúsum", árið 1930 og næstu árin kom hver bókin af annarri, þar á meðal kennslubókin "Lærið að matbúa". Helga innleiddi fjölda nýjunga í íslenskri matargerð, fylgdist vel með því sem var að gerast í nágrannalöndunum og hvatti húsmæður óspart til að nota meira af grænmeti og ávöxtum og bæta matarvenjur og næringu. Árið 1942 var Húsmæðrakennaraskóli Íslands stofnaður, en fyrir því hafði Helga lengi barist, og varð hún fyrsti skólastjóri hans, gegndi því starfi allt til dauðadags og mótaði alla húsmæðrafræðslu í landinu næstu áratugina. Fimm árum síðar kom út bókin "Matur og drykkur", yfirgripsmikil grunnbók sem varð helsta uppflettirit Íslendinga um matargerð og uppskriftir næstu áratugi. Sumarið 2009 kom út 6. útgáfa bókar Helgu, "Matur og drykkur", og er það ljósmynduð 3. útgáfa bókarinnar frá 1954, sem var síðasta útgáfan sem Helga gekk sjálf frá. Helstu ritverk. Auk þeirra bóka sem hér eru taldar sendi Helga frá sér ýmsar minni bækur og bæklinga. Margar bóka hennar komu út í mörgum útgáfum og oft mikið breyttar, því að hún var stöðugt að endurskoða og bæta við. Kvennafræðarinn. Kvennafræðarinn er bók um matreiðslu, hússtjórn og fleira eftir Elínu Briem, skólastýru Kvennaskólans á Ytri-Ey á Skagaströnd og stofnanda Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Bókin var ein fyrsta íslenska matreiðslubókin og hafði mikil áhrif á íslenska matargerð. Þegar Elín Briem réðist í að skrifa bók sína seint á 9. áratug 19. aldar var engin matreiðslubók tiltæk á íslensku þótt tvær bækur hefðu raunar komið út áður, "Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur" eftir Mörtu Maríu Stephensen (en í rauninni líklega að mestu eftir Magnús Stephensen mág hennar) árið 1800 og "Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl." eftir Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur, sem út kom 1858. Hvorug náði mikilli útbreiðslu svo að einu matreiðslubækurnar sem íslenskar húsmæður áttu kost á voru danskar, svo sem matreiðslubók maddömu Mangor, sem var mikið notuð hér á landi en miðaðist við danskar aðstæður. Elín stýrði skólanum á Ytri-Ey 1883-1895 og hefur við gerð bókarinnar án efa nýtt sér efni sem hún hefur útbúið til kennslu í skólanum auk þess sem hún hefur viðað að sér í húsmæðrakennaranámi sínu í Kaupmannahöfn á árunum 1881-1883. Um þrír fjórðu bókarinnar er mataruppskriftir en einnig er fjallað um næringu og heilsu, hreinlæti og þrif, þvotta og fleira. Kvennafræðarinn kom út um áramótin 1888-1889 og náði strax miklum vinsældum seldist strax í 3000 eintökum og var endurprentuð fjórum sinnum, síðast 1911. Bókin hafði veruleg áhrif á íslenska matargerð og einnig á hússtjórn, hreinlæti og margt annað. Arthur Koestler. Arthur Koestler (f. 5. september 1905 í Búdapest, d. 1. mars 1983 í Lundúnum) var ensk-ungverskur rithöfundur og baráttumaður gegn kommúnisma í kalda stríðinu. Hann var af gyðingaættum, gerðist ungur blaðamaður í Þýskalandi og gekk þá leynilega í þýska kommúnistaflokkinn. Ferðaðist hann meðal annars um Sovétríkin haustið 1932. Hann var fréttaritari bresks blaðs í spænska borgarastríðinu og slapp þá naumlega við að vera tekinn af lífi, á meðan hann var í haldi þjóðernissinna Franciscos Franco herforingja. Upp úr því hvarf hann frá kommúnisma og skrifaði skáldsöguna "Myrkur um miðjan dag", sem kom út á íslensku 1947. Þar reyndi hann að skýra játningar sakborninganna í Moskvu-réttarhöldunum svokölluðu, sem Stalín hélt 1938 yfir nokkrum helstu keppinautum sínum um völdin í rússneska kommúnistaflokknum. "Morgunblaðið" birti í árslok 1945 útdrátt úr ritgerðum Koestlers um Ráðstjórnarríkin undir heitinu „Trúin á Sovét“, og olli hann áköfum blaðadeilum. Koestler var ritstjóri greinasafnsins "Guðinn sem brást", sem kom út á íslensku 1950, en þar sögðu sex kunnir menntamenn frá vonbrigðum sínum með kommúnismann. Tengt efni. Koestler, Arthur Koestler, Arthur Jan Valtin. Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs (f. 17. desember 1905 í Mainz, d. 1. janúar 1951 í Betterton í Maryland í Bandaríkjunum), var þýskur kommúnisti og rithöfundur, sem síðar snerist gegn kommúnisma og gerðist bandarískur ríkisborgari. Í bókinni "Úr álögum" (Out of the Night), sem kom út á íslensku í tveimur hlutum, 1941 og 1944, lýsti hann þátttöku sinni í neðanjarðarstarfsemi kommúnista í Evrópu á fjórða áratug. Fyrra bindi bókarinnar olli áköfum deilum á Íslandi. Margarete Buber-Neumann. Margarete Buber-Neumann (f. 21. október 1901 í Potsdam, d. 6. nóvember 1989 í Frankfurt am Main) var þýskur kommúnisti og gift kommúnistaleiðtoganum Heinz Neumann. Eftir að þau hjónin flýðu undan nasismanum til Ráðstjórnarríkjanna, voru þau handtekin í hreinsunum Stalíns. Heinz var skotinn, en Margarete send í fangabúðir í Karaganda í Kasakstan. Skömmu eftir griðasáttmála Stalíns og Hitlers í ágúst 1939 var hún afhent nasistum ásamt mörgum öðrum þýskum kommúnistum og send í fangabúðir í Ravensbrück. Hún bar vitni í frægum réttarhöldum í París 1949, þegar flóttamaður frá Ráðstjórnarríkjunum, Víktor Kravtsjenko, höfðaði meiðyrðamál gegn frönsku kommúnistatímariti og vann það. Þvertók tímaritið fyrir það, að í Ráðstjórnarríkjunum væru menn geymdir af stjórnmálaástæðum í þrælkunarbúðum. Bók Margarete Buber-Neumann um reynslu sína í þrælkunarbúðum Stalíns og Hitlers, "Konur í einræðisklóm" (Als Gefangene bei Stalin und Hitler), kom út á íslensku 1954. Víktor Kravtsjenko. Víktor Andrejevítsj Kravtsjenko (rússneska: Виктор Андреевич Кравченко (f. 11. október 1905 í Jekaterínoslav, d. 25. febrúar 1966 á Manhattan í New York-borg), var rússneskur embættismaður, sem sótti um hæli í Bandaríkjunum 1944 af stjórnmálaástæðum. Hann skrifaði síðan bókina "Ég kaus frelsið" (I chose Freedom) um reynslu sína, og kom hún út á íslensku 1950. Þegar kommúnistatímaritið "Les Lettres françaises" gerði harða árás á Kravtsjenko, höfðaði hann meiðyrðamál gegn því. Vöktu réttarhöldin, sem fóru fram í París 1949, heimsathygli. Var meðal annars deilt um, hvort þrælkunarbúðir væru í Ráðstjórnarríkjunum, og leiddi Kravtsjenko fram fjölda vitna, sem setið höfðu í slíkum búðum, þar á meðal Margarete Buber-Neumann. Hafði Kravtsjenko sigur í deilunni, þótt honum væru aðeins dæmdar táknrænar bætur. Tengt efni. Stéphane Courtois o. fl.: "Svartbók kommúnismans", þýð. og ritstj. Hannes H. Gissurarson. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2009. 828 bls. Fannardalsrétt. Fannardalsrétt er fjárrétt í Norðfirði, um 600 metrum í suðaustur frá Fannardalsbænum. Hún var hlaðin úr grjóti á 19. öld. Hallstein-kenningin. Hallstein-kenningin (nefnd eftir þýska stjórnmálamanninum Walter Hallstein) var lykilþáttur í utanríkisstefnu Vestur-Þýskalands milli 1955 og 1970. Hún fólst í því að Vestur-Þýskaland myndi ekki eiga í stjórnmálasambandi við neitt það ríki sem viðurkenndi Austur-Þýskaland. Þessi stefna var afnumin árið 1970 þegar samband ríkjanna breyttist. Stefnan varð stöðugt erfiðari í framkvæmd og oft var hún alls ekki virt, eins og þegar Vestur-Þýskaland tók upp stjórnmálasamband við Sovétríkin árið 1955, en í öllum tilvikum var fundin einhver afsökun. Opinberlega var hætt að fylgja Hallstein-kenningunni eftir þegar Willy Brandt varð kanslari 1969 og setti fram nýja austurstefnu ("neue Ostpolitik") sem var ætlað að bæta sambúð ríkjanna. Gladio-áætlunin. Gladio-áætlunin (eftir ítalska orðinu yfir gladius, stutt sverð) var skipulegt samstarf leyniþjónusta Ítalíu (SISMI) og CIA um að koma á fót andspyrnuhópum sem gætu tekið til starfa ef Sovétríkin myndu leggja löndin undir sig. Gladio-áætlunin gekk út á að koma fyrir leynilegum vopnabúrum, sjúkrahúsum og annarri aðstöðu og þjálfa hópa fólks til að hægt væri að koma undan mikilvægum stjórnmála- og vísindamönnum ef til innrásar kæmi, og vinna gegn hernámsyfirvöldum með undirróðursstarfsemi og hryðjuverkum. Gladio-áætlunin var gerð árið 1951 þegar Kóreustríðið var hafið og talin var raunveruleg hætta á árás úr austri. Hún var svo leynileg að einungis fáeinir stjórnmálamenn og herforingjar vissu af henni. 1990 viðurkenndi Giulio Andreotti forsætisráðherra tilvist áætlunarinnar opinberlega og aðrir ítalskir stjórnmálamenn, eins og Francesco Cossiga sem var varnarmálaráðherra á árunum 1966-1970, staðfestu orð hans. Talið er að hópar innan áætlunarinnar hafi tekið þátt í að vopna hópa hægriöfgamanna og skipuleggja hryðjuverk á blýárunum 1969-1980. Svipaðir vopnaðir Stay behind-hópar störfuðu í mörgum Atlantshafsbandalagsríkjum og nokkrum hlutlausum ríkjum. Eftir uppljóstranirnar á Ítalíu var gerð formleg opinber krafa um upplausn allra slíkra hópa, meðal annars af Evrópuþinginu. Opinberar rannsóknir hafa farið fram á starfsemi hópanna í Ítalíu, Sviss og Belgíu. Friðland Svarfdæla. Friðland Svarfdæla Fuglaskoðunarhús á bakka Tjarnartjarnar. Friðland Svarfdæla var stofnað árið 1972. Það er um 8 km² að flatarmáli og nær frá sjó við ósa Svarfaðardalsár og spannar flatan dalbotninn beggja vegna ár að merkjum Tjarnar og Grundar. Þarna líður áin fram, lygn og í breiðum sveigum. Bakkar hennar eru þurrir og vaxnir valllendisgróðri. Fjær ánni eru votlendari svæði og mýrarflákar. Nokkrar grunnar tjarnir eru innan svæðisins umluktar vatnagróðri. Þær eru Tjarnartjörn, Saurbæjartjörn, Hrísatjörn og Flæðatjörn. Upp af flatlendinu rísa lágir höfðar eða hólar, Hrísahöfði, Ingólfshöfði og Lambhaginn. Stórir flákar friðlandsins flokkast undir þá tegund gróðurríkis sem kallast flæðimýri. Fuglalíf er mikið og fjölskrúðugt innan friðlandsins og þar verpa yfir 30 tegundir árlega. Friðlandið er vinsælt útivistarsvæði og náttúruperla. Merktar reið- og gönguleiðir liggja um það og sérstakt fuglaskoðunarhús er á bakka Tjarnartjarnar skammt neðan við Húsabakkaskóla. Friðlýsingin felur í sér að innan svæðisins má ekki raska landi á neinn hátt, þó er hefðbundin nýting leyfð s.s. beit. Taka skal tillit til dýralífs og gróðurfars. Öll skotveiði er bönnuð. Bandung-ráðstefnan. Bandung-ráðstefnan eða Ráðstefna um málefni Asíu og Afríku var fundur ríkja í Asíu og Afríku 18. – 24. apríl 1955 í Bandung í Indónesíu. Ráðstefnan var skipulögð af Indónesíu, Búrma, Pakistan, Seylon og Indlandi og framkvæmdastjóri hennar var Ruslan Abdulgani, ráðuneytisstjóri í indónesíska utanríkisráðuneytinu. Yfirlýst markmið með ráðstefnunni var að efla efnahagslegt og menningarlegt samstarf Afríku- og Asíuríkja og standa gegn nýlendustefnu og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Fulltrúar 29 ríkja með samanlagt yfir helming allra íbúa jarðarinnar tóku þátt í ráðstefnunni. Hún leiddi meðal annars til stofnunar Samtaka hlutlausra ríkja. Uppreisnin í Austur-Þýskalandi 1953. Uppreisnin í Austur-Þýskalandi 1953 var hrina mótmæla gegn stjórn Austur-Þýskalands 16. og 17. júní 1953. Óeirðirnar hófust með verkfalli verkamanna í byggingariðnaði í Austur-Berlín 16. júní vegna óánægju með aukna vinnuskyldu og aðrar aðgerðir stjórnvalda til að rétta við efnahag landsins sem var í molum. Mótmælin undu hratt upp á sig og daginn eftir voru fjölmenn mótmæli um allt land. Stjórnin sá að hún réði ekki við ástandið og óskaði því eftir aðstoð Sovéska hersins. Þýski alþýðuherinn var líka kallaður út og til átaka kom í Austur-Berlín. Ekki er vitað með vissu hve margir féllu en fjöldi þekktra fórnarlamba er aðeins 55. Fjöldahandtökur fylgdu í kjölfarið og á næstu dögum voru mótmælin smám saman brotin á bak aftur. Austurblokkin. Austurblokkin eða Sovétblokkin var hugtak sem notað var yfir kommúnistaríkin í Austur-Evrópu, þar á meðal aðildarríki Varsjárbandalagsins auk Júgóslavíu og Albaníu sem rufu tengsl sín við Sovétríkin 1948 og 1960. Austurblokkin myndaðist eftir sókn Sovétmanna inn í Evrópu í Síðari heimsstyrjöldinni og baráttu andspyrnuhreyfinga gegn leppstjórnum og hernámsstjórnum fasista og nasista. Flest ríkin í Austurblokkinni voru leppríki Sovétríkjanna og bæði stjórnmálum, fjölmiðlun, landamæravörslu og efnahagslífi var stjórnað þannig að þau samrýmdust fyrirmælum og hagsmunum Moskvuvaldsins. "Járntjaldið" kallaðist ímynduð landamæri, sem skildu að Austurblokkina og Vestur-Evrópu. Félagsheimilið í Hnífsdal. Félagsheimilið í Hnífsdal er félagsheimili Hnífsdælinga og stendur Nýfrjálshyggja. Nýfrjálshyggja er óljóst hugtak notað um frjálshyggju, stjórnleysisstefnu eða lágríkisstefnu, eða sambland af öllu. Hugtakið er einkum notað af andstæðingum frjálshyggju og hefur þá neikvæðan blæ. Það var fyrst notað af Alexander Rüstow árið 1938. Hinar ýmsu myndir nýfrjálshyggjunnar. Enda þótt fæstir frjálshyggjumenn kalli sig nýfrjálshyggjumenn hefur hugtakið nýfrjálshyggja þó verið notað um ýmis ólík afbrigði frjálshyggju. Íhaldsfrjálshyggja. Stundum er orðið „nýfrjálshyggja“ haft um íhaldsfrjálshyggju, sem sameinar félagslega íhaldssemi hefðbundinnar íhaldsstefnu annars vegar og einstaklingshyggju, trú á frjálsan markað og takmörkuð ríkisafskipti hins vegar. Meðal fulltrúa íhaldsfrjálshyggju í stjórnmálum má nefna Ronald Reagan og Margréti Thatcher. Íhaldsfrjálshyggja sótti meðal annars innblástur til Chicago-hagfræðinganna og austurrísku hagfræðinganna og fékk byr undir báða vængi í valdatíð Reagans og Thatcher. Vegna endurnýjaðra áhrifa frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum og Bretlandi á þessum tíma var þetta afbrigði frjálshyggju stundum nefnt nýfrjálshyggja. Lágríkisfrjálshyggja. Lágríkisfrjálshyggja hefur einnig verið nefnd nýfrjálshyggja en aðaláhersla lágríkisfrjálshyggjunnar er á eignarrétt, frjálsan markað og eins lítil ríkisafskipti og mögulegt er. Hún er á hinn bóginn ekki (endilega) innblásin af félagslegri íhaldssemi íhaldsstefnunnar. Meðal þeirra sem haldið hafa fram lágríkisfrjálshyggju má nefna bandaríska heimspekinginn Robert Nozick sem varði slíka kenningu í riti sínu "Stjórnleysi, ríki og staðleysa" (e. "Anarchy, State and Utopia"). Áherslur lágríkisfrjálshyggjunnar höfðu ekki verið áberandi í ritum frjálshyggjuhugsuða á 18. og 19. öld, svo sem Adams Smith og Johns Stuarts Mill og því þótti andstæðingum lágríkisfrjálshyggjunnar, sem margir hverjir sóttu einnig innlástur til klassískrar frjálshyggju, við hæfi að nefna hana nýfrjálshyggju. Nokkrir hinna róttækustu lágríkissinna hafna jafnvel lágríkinu, til dæmis David Friedman og Murray Rothbard, sem telja, að leysa megi öll mál á frjálsum markaði. Slíkir lágríkissinnar eru oft taldir stjórnleysingjar. Golden Earring. Golden Earringþessi hljómsveit var stofnuð 1961 af 13 ára George Kooymans og 15 ára nágranna hans, Rinus Gerritsen. Hljómsveitin hét fyrst The Tornados, en þeir skiptu yfir í Golden Earrings þegar þeir föttuðu að The Tornados var í notkun. Og 's'-inu í Golden Earrings var svo sleppt. Hljómsveitin er enn þá starfandi. Gríniðjan. Gríniðjan framleiddi ýmsa þætti svo sem Heilsubælið frá 1986 til 1987, Fasta liði eins og venjulega árið 1985 og Imbakassann á árunum 1992-1993. Í Gríniðjunni voru Laddi, Pálmi Gestsson, Gísli Rúnar Jónsson, Júlíus Brjánsson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Arnar Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Ragnheiður Steindórsdóttir og Hrönn Steingrímsdóttir. Jóninna Sigurðardóttir. Jóninna Sigurðardóttir (11. apríl 1879 – 19. september 1962) var matreiðslukennari og matreiðslubókarhöfundur sem hafði mikil áhrif á þróun íslenskarar matargerðar á fyrri hluta 20. aldar. Jóninna var dóttir Sigurðar Jónssonar og Helgu Sigurðardóttur á Draflastöðum í Fnjóskadal og ólst þar upp. Hún fór í Kvennaskólann á Akureyri 18 ára að aldri og hélt síðan til Noregs til að nema hússtjórn og var þar í hálft ár. Þá fór hún til Danmerkur og stundaði þar hússtjórnar- og kennaranám. Hún kom heim sumarið 1903, fékk þá styrk hjá Búnaðarfélagi Íslands til að ferðast um og kenna húsmæðrum og stundaði farkennslu í matreiðslu um allt Norðurland næstu árin. Námskeið hennar nutu mikilla vinsælda og voru mörg kvenfélög stofnuð í kjölfar þeirra. Árið 1907 hóf Jóninna matreiðslukennslu í húsnæði Gróðrarstöðvarinnar á Akureyri og rak þar nokkurs konar matreiðsluskóla í nokkur ár. Þar lagði hún meðal annars áherslu á að kenna fólki að nota heimaræktaðar matjurtir, ber og annað. Árið 1915 keypti hún hús og hóf þar greiðasölu og hótelrekstur undir nafninu Hótel Goðafoss. Hótelið rak hún fram til 1945. Jóninna hafði mikinn áhuga á að stofna húsmæðraskóla á Akureyri og beindi kröftum sínum mjög að því síðari hluta ævinnar. Skólinn tók til starfa haustið 1945 og var Jóninna fyrsti formaður skólanefndar. Þekktust er Jóninna fyrir matreiðslubók sem hún sendi frá sér árið 1915 eftir hvatningu og með tilstyrk George H. F. Schrader, auðugs, þýskættaðs Bandaríkjamanns sem var tíður gestur á Akureyri. Bókin kallaðist "Matreiðslubók fyrir fátæka og ríka" og var henni mjög vel tekið, hún seldist strax upp og var endurútgefin þegar árið eftir. Jóninna bætti svo miklu við bókina fyrir næstu útgáfu, sem kom út 1927 og hét aðeins "Matreiðslubók". Þar íslenskar Jóninna meðal annars nær öll hráefnisheiti, talar til dæmis um eiraldin, tröllasúru og stenglur fyrir apríkósur, rabarbara og makkarónur. Einnig var hitaeiningatafla við hverja uppskrift. Bókin var endurútgefin 1943 í stærra broti og endurprentuð 1945 en skömmu síðar kom út bókin "Matur og drykkur" eftir Helgu Sigurðardóttur, bróðurdóttur Jóninnu, og má segja að hún hafi ýtt Matreiðslubók Jóninnu til hliðar sem helstu matreiðslubiblíu Íslendinga. Jóninna var sæmd riddarakrossi Fálkaorðunnar 1959. Hún lést á Akureyri 19. september 1962, tæpum mánuði á eftir Helgu bróðurdóttur sinni. Vopnin kvödd. thumb "Vopnin kvödd" (enska: "A Farewell to Arms") er skáldsaga eftir Ernest Hemingway sem hann byggði á starfi sínu sem sjúkrabílstjóri í fyrri heimsstyrjöldinni. Vopnin kvödd kom út árið 1929 og í íslenskri þýðingu Halldórs Laxness 1941. Sjúkrabíll. Sjúkrabíll er bifreið sem er sérútbúin til að flytja sjúka eða slasaða að sjúkrahúsi þar sem gert er að sárum þeirra eða þeir sjúkdómsgreindir. Sjúkrabílar eru stórir bílar sem eru þannig innréttaðir að hægt er að skjóta rúmi með niðurfellanlega fætur inn í bílinn og veita þar fullkomna skyndihjálp. Um borð í sjúkrabílum nútímans er oft tveir sjúkraflutningamenn og einn læknir. Konunglega danska vísindafélagið. Konunglega danska vísindafélagið (danska: "Videnskabernes Selskab" - fullu nafni: "Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab") var stofnað 13. nóvember 1742 til að efla vísindi og tækni í Danmörku. Frumkvæðið að stofnun félagsins áttu Johan Ludvig Holstein greifi, Hans Gram prófessor og konunglegur sagnaritari, Erik Pontoppidan yngri prófessor í guðfræði og Henrik Henrichsen (síðar Hielmstierne) ritari í danska Kansellíinu. Þann 11. janúar 1743 fékk félagið konunglega vernd og stuðning Kristjáns 6. og við sama tækifæri kom fram að stefna þess væri að rannsaka sögu, staðhætti og tungumál Danmerkur og Noregs. Öðrum fræðigreinum var svo fljótlega bætt við. Vísindafélaginu er skipt í tvær deildir, hugvísindadeild (upphaflega sögu- og heimspekideild) og náttúruvísindadeild (upphaflega stærðfræði- og náttúruvísindadeild). Aðaláherslan er á frumrannsóknir. Frá árinu 1745 hefur félagið gefið út ritraðir og einstök rit á sviði náttúruvísinda og hugvísinda. Á árunum 1763–1843 lét félagið kortleggja Danmörku og hertogadæmin, og fékkst þannig fyrsta áreiðanlega staðfræðikort af landinu. Kortin voru unnin í mælikvarða 1:20.000, en gefin út í mælikvarða 1:120.000. Annað verkefni félagsins var dönsk orðabók ("Videnskabernes Selskabs Ordbog"), sem kom út á árabilinu 1793–1905 í 8 bindum, en var orðin úrelt áður en útgáfu lauk. Félagið á og rekur nokkra vísinda- og styrktarsjóði og skipar stjórn Carlsbergsjóðsins úr hópi félagsmanna. Félagið hefur einnig um langan aldur skilgreint og auglýst fjölda verðlaunaverkefna. Í Konunglega danska vísindafélaginu eru um 250 danskir og 250 erlendir félagsmenn. Af þeim dönsku er ⅓ í hugvísindadeildinni og ⅔ í náttúruvísindadeildinni. Félagið á stóra fasteign með góðu bókasafni við Dantes Plads í miðbæ Kaupmannahafnar, þar sem fundir eru haldnir annan hvern fimmtudag. Vísindafélagið og Ísland. Fljótlega eftir stofnun félagsins beindust sjónir félagsins að Íslandi, sem varð til þess að tveir ungir stúdentar, Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, voru sendir í rannsóknarferðir til Íslands. Ferðuðust þeir um landið 1750 og 1752–1757 og söfnuðu náttúrugripum fyrir félagið og undirbjuggu ítarlegt rit um náttúru landsins: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem kom út í Kaupmannahöfn 1772. Ferðabókin er gagnmerkt rit og mikilvæg heimild um land og þjóð. Nokkrir Íslendingar hafa verið félagsmenn eða heiðursfélagar í Vísindafélaginu danska, t.d. Björn M. Ólsen og Finnur Jónsson. Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir. Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir (1813 – 1861) eða Þ.A.N. Jónsdóttir var íslensk húsmóðir og matreiðslubókarhöfundur á 19. öld og var einna fyrst íslenskra kvenna til að senda frá sér bók. Þóra var fædd í Danmörku, dóttir séra Jóns Jónssonar helsingja, sonar séra Jóns Jónssonar lærða í Möðrufelli. Jón helsingi átti danska konu, Helenu Jóhönnu Andrésdóttur Olsen, og hétu öll börn þeirra þremur nöfnum, sem var mjög fátítt á þeim árum. Fjölskyldan flutti til Íslands 1824 og settist að í Möðrufelli, þar sem Þóra ólst upp. Hún giftist Indriða Þorsteinssyni gullsmið og bjuggu þau í Indriðahúsi á Akureyri. Árið 1858 gaf Þóra út bók sína, sem heitir "Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl." og er skráð samin af Þ.A.N. Jónsdóttur. Bókin er 244 blaðsíður og hefur að geyma fjölda mataruppskrifta. Margar þeirra eru þýddar úr erlendum bókum, oftast dönskum, en Þóra hefur lagt sig fram um að finna íslensk heiti á hráefni og rétti og smíða þau þar sem þau voru ekki til þótt mörg hafi ekki náð fótfestu. Hún notar til dæmis orðið vöðlubjúga um rúllupylsu og "ragout" og "frikasse" þýðir hún sem lystarspað og spaðmusl. Hún leggur líka áherslu á hreinlæti við matargerðina, sem stundum var ábótavant á þessum tíma, enda aðstæður slæmar, og segir: „Það er ekki nóg að katlar og pottar og annað þess konar skíni eins og sól í heiði á búrshillunni, ef þeir eru eins og farðakoppar að innan. Það er heldur ekki nóg að eldhús, eða búrsborðið sje eins og hvítt traf, ef allt annað sem því er skylt, er ekki eins umleikið. En því er miður, að þetta brennur víða við, og öllum er það í augum uppi, hvernig maturinn muni vera, þar sem svo er háttað.“ Þess má geta að bók Þóru var önnur í röð prentaðra íslenskra matreiðslubóka. Sú fyrsta var "Einfalt matreiðslukver fyrir heldri manna húsfreyjur" sem kom út árið 1800 eftir Mörtu Maríu Stephensen. Ekki er þó fullljóst hvort hún er í raun höfundur kversins og því má vel segja að bók Þóru hafi verið ein sú fyrsta sem út kom eftir íslenska konu. Þorsteinn Hallgrímsson (1752-1792). Þorsteinn Hallgrímsson (1752 – 1792) var prestur í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd frá 1785 til dauðadags. Foreldrar hans voru sr. Hallgrímur Eldjárnsson prófastur og Ólöf Jónsdóttir. Fyrri kona Þorsteins var Jórunn Lárusdóttir Scheving (1754-1783) frá Urðum. Seinni kona hans var Elín Halldórsdóttir (1746-1829). Hallgrímur átti níu börn með konum sínum. Þekktir urðu fjórir synir hans og Jórunnar sem allir urðu prestar og þjónuðu víða við Eyjafjörð á fyrstu áratugum 19. aldar. Þetta voru sr. Kristján Þorsteinsson, sr. Hallgrímur Þorsteinsson á Hrauni faðir Jónasar, sr. Stefán Þorsteinsson á Völlum og sr. Baldvin Þorsteinsson á Upsum. Dalarétt. Dalarétt eru fjárréttir í Norðfirði. Réttin var lögrétt Norðfirðinga. Staðarstaður. Staðarstaður (áður Staður á Ölduhrygg) er bær og prestssetur í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Staðarstaður (stundum "Staðastaður") var mikil hlunnindajörð, þótti eitt besta prestakall landsins og þar hafa margir þekktir menn verið við bú. Sagnaritarinn Ari Þorgilsson fróði er talinn hafa búið á Staðarstað á 12. öld. Sonarsonur hans, Ari Þorgilsson sterki, bjó á jörðinni seinna á öldinni, síðan tengdasonur Ara sterka, Þórður Sturluson og á eftir honum sonur hans og sonarsonur, Böðvar Þórðarson og Þorgils skarði Böðvarsson. Síðar varð Staðarstaður prestssetur og þar sem jörðinni fylgdu mikil hlunnindi var staðurinn eftirsóttur. Margir þeirra presta sem þangað völdust voru af höfðingjaættum eða þóttu líklegir til frama. Fjórir prestar frá Staðarstað urðu biskupar (Marteinn Einarsson, Halldór Brynjólfsson, Gísli Magnússon og Pétur Pétursson) og Hallgrímur Sveinsson biskup, sonur séra Sveins Níelssonar, ólst þar upp. Af síðari tíma prestum má nefna Kjartan Kjartansson, sem var prestur á árunum 1922-1938, var hugvitsmaður og viðgerðarmaður og er talin ein fyrirmyndin að séra Jóni prímusi í Kristnihaldi undir Jökli og Þorgrím V. Sigurðsson, sem var prestur á Staðarstað 1944-1973. Þorgrímur var skólamaður mikill og jafnvígur á flestar greinar og var hann síðastur íslenskra kennimanna til að halda heimaskóla að gömlum sið og búa unglinga undir framhaldsnám. Í kirkjugarðinum á Staðarstað er svokallaður Franskireitur, þar sem grafnir eru tæplega 40 Frakkar er drukknuðu þegar sex franskar skútur fórust úti fyrir Staðarsveit og með þeim yfir hundrað skipverjar árið 1870. Ýmsir þekktir menn koma einnig við sögu Staðarstaðar. Oddur Sigurðsson lögmaður var fæddur á Staðarstað. Galdra-Loftur Þorsteinsson dvaldi hjá prestinum á Staðarstað og fór þaðan í sinn síðasta róður. Jóhann Jónsson skáld var fæddur á Staðarstað og einnig Ragnar Kjartansson myndhöggvari. Minnisvarði um Ara fróða eftir Ragnar var reistur á Staðarstað 1981. Núverandi kirkja á Staðarstað er steinkirkja og var reist á árunum 1942-1945. Í henni eru meðal annars listaverk eftir Tryggva Ólafsson og Leif Breiðfjörð. BeOS. BeOS var stýrikerfi fyrir einkatölvur sem Be Inc. byrjaði að forrita árið 1991. Í fyrstu var það forritað fyrir tölvuna BeBox. Kerfið var hannað fyrir notkun af stafrænum fjölmiðlum og var skrifað í C++ til að gera forritun þægilega. Kerfið notar 64-bita skráakerfið BFS. BeOs er samþýðanlegt staðlinum POSIX og getur verið notað með skipanalínuviðmót með Bash, enda þótt það sé ekki byggt á Unix. BeOs var sett á markað til þess að keppa við Microsoft Windows og Mac OS. BeOS náði hins vegar ekki neinni markaðshlutdeild að ráði sem leiddi á endanum til upplausnar fyrirtækisins. Eignir þess voru seldar til Palm, Inc. Stýrikerfið er í dag notað af áhugamönnum, og hafa nokkur verkefni verið sett á fót til að reyna að koma þróun þess aftur í gang. Í dag er einungis eitt slíkt verkefni í virkri þróun, Haiku, sem er í raun útfærsla á stýrikerfinu skrifuð upp á nýtt frá grunni. Carlsbergsjóðurinn. Carlsbergsjóðurinn – (danska: "Carlsbergfondet") – er styrktarsjóður stofnaður af ölgerðarmeistaranum Jacob Christian Jacobsen árið 1876. Sjóðurinn á 30,3% í Carlsbergfyrirtækinu. Samkvæmt ákvörðun stofnandans skipar Vísindafélagið danska stjórn sjóðsins, sem er skipuð fimm mönnum. Carlsbergsjóðurinn hefur haft mikla þýðingu fyrir vísindastarfsemi í Danmörku. Söguágrip. Árið 1882 tók sjóðurinn við langstærstu eign sinni, brugghúsinu "Gamle Carlsberg". Samkvæmt stofnskránni skyldi Carlsbergsjóðurinn ávallt eiga 51% af hlutafénu í fyrirtækinu, sem í dag heitir "Carlsberg A/S". Í maí 2007 heimilaði yfirstjórn sjóðamála (Civilstyrelsen) breytingu á stofnskránni þannig að Carlsbergsjóðurinn skuli eiga að minnsta kosti 25% af hlutafénu, og ráða 51% atkvæða á aðalfundi, sem er hægt af því að hlutafénu er skipt í tvo flokka, A- og B-hluti, þar sem A-hlutirnir hafa tífalt atkvæðavægi á við B-hlutina. Þá átti sjóðurinn 51,3% af hlutafénu, og skiptust hlutirnir þannig milli A- og B-hluta, að sjóðurinn réð yfir 81,9% atkvæða. Árið 2008 var efnt til hlutafjárútboðs til að víkka út starfsemi fyrirtækisins, og minnkaði eignarhlutur sjóðsins þá í 30,3% og atkvæðavægið í tæp 73%. Árið 1881 stofnaði sonur J. C. Jacobsen, Carl Jacobsen, nýja bjórgerð, Ny Carlsberg, og auðgaðist brátt á rekstrinum. Hann var mikill listunnandi og varði mestum hluta tekna sinna til kaupa á listaverkum, gömlum og nýjum og varð safn hans á heimsmælikvarða. Jafnframt varði hann stórfé til að skreyta Kaupmannahöfn með listaverkum, og má þar nefna "Litlu hafmeyna" við Löngulínu og "Gefjunargosbrunninn". Safn sitt, "Ny Carlsberg Glyptotek", gaf hann í almennings eigu. Til að tryggja framtíð safnsins gaf hann Carlsbergsjóðnum Nýju Carlsberg verksmiðjurnar árið 1902, og var um leið stofnaður Nýi Carlsbergsjóðurinn, til stuðnings listum og listfræðum. Hann er sjálfstæð stofnun innan Carlsbergsjóðsins. Árið 1970 voru Tuborg-verksmiðjurnar sameinaðar Carlsberg, en það breytti ekki starfsemi Carlsbergsjóðsins að öðru leyti en því að hann tók við rekstri "Tuborgsjóðsins" árið 1991. Carlsbergsjóðurinn hefur frá upphafi séð um rekstur Carlsberg Laboratorium og Söguminjasafnsins í Friðriksborgarhöll. Starfsemi Carlsbergsjóðsins. Carlsbergsjóðurinn hefur til umráða íbúðarhús J. C. Jacobsens á verksmiðjusvæðinu í Valby. Húsið er kallað "Carlsberg Akademi" og er með 400 m² aðstöðu til ráðstefnuhalds og 200 m² íbúð fyrir vísindamann. Carlsbergsjóðurinn gefur út árbók með greinasafni um starfsemi fyrra árs. Carlsbergsjóður og Ísland. Steindór Steindórsson frá Hlöðum hefur tekið saman yfirlit um styrki sem Carlsbergsjóður hefur veitt til Íslenskra vísindarannsókna. Skiptir hann yfirlitinu í þrjú tímabil. Auk þess veitti sjóðurinn marga styrki til danskra vísindamanna og stofnana sem fengust við rannsóknir sem tengdust Íslandi, má þar nefna Daniel Bruun og Kristian Kaalund, og Árnasafn í Kaupmannahöfn. Dýna. Dýna (í gömlu máli nefnd hvílbeður eða undirsæng) er undirlag í rúmi og er til að auðvelda mönnum hvíld og svefn. Dýnur sitja oftast á gormbotni eða rimlagrind í rúmum, en eru líka stundum hafðar á beru gólfinu. Orðið "sæng" hefur lengi verið haft um ábreiðu í rúmi, en áður fyrr einnig um þykka sæng sem var fyllt af fiðri, dúni eða gervitrefjum til að hafa undir sér í rúmi. Orðið "ílega" er almennt haft um búnað í rúmi (sæng, undirsæng o.s.frv.). Áður fyrr voru dýnur fylltar náttúrulegum efnum eins og hálmi eða fjöðrum. Nú á dögum eru dýnur gerðar úr gormavirki eða fylltar af efni eins og latexi eða tilbúnum svampi úr pólýúretani eða öðru plastefni. Sumar dýnur eru fylltar með lofti eða vatni (sbr. vatnsdýnur), eða náttúrulegu trefjaefni eins og futoni. Yfirleitt er dýnuhlíf sett utan um dýnuna til að verja lakið og rúmfötum. Dýnur fást í ýmsum stærðum. Dönsku hertogadæmin. Dönsku hertogadæmin er hugtak sem var notað um Slésvík og Holtsetaland eftir 1474, þegar Holtsetaland varð hertogadæmi eins og Slésvík. Á árabilinu 1815-1864 náði hugtakið einnig yfir Láenborg. Hertogadæmið Slésvík var danskt lén, en Holtsetaland og Láenborg voru þýsk lén. Konungur Danmerkur var því bæði hertogi og lénsherra í Slésvík, en sem hertogi (eða meðhertogi) í Holtsetalandi var hann lénsmaður Þýskalandskeisara. Rúm (húsgagn). Rúm (eða rekkja'") er húsgagn sem er notað til að hvíla sig á, sofa í og til að hafa samfarir. Yfirleitt samanstendur rúm af dýnu sem liggur ofan á viðargrind eða gormbotni. Höfuðgafl og fótagafl eru andstæðar hliðar í rúmi. Flestir nota kodda sem höfuðstoð, og teppi eða sæng til að halda sér hlýju, en ásamt laki og sængurverum nefnist það einu nafni rúmföt eða sængurföt. Saga. Upprunalega voru rúm ekki annað en hálmhrúga á beru gólfinu. Seinna tóku menn að lyfta svefnstæðinu frá gólfhæð til að forðast gegnumtrekk, óhreinindi og plágur. Egyptar notuðust við há rúmstæði og til að komast upp í þau klifruðu menn upp stiga. Rekkjur þessar voru hlaðnar púðum, koddum og dregið fyrir þær með tjöldum ("lokrekkjutjöldum") til umlykja þær. Yfirstéttin í Egyptalandi svaf í rekkjum úr gylltum viði, hægindi þeirra ýmist úr steini, timbri eða málmi. Í "Ódysseifskviðu" segir af rekkju og er líklega elsta frásögn af rúmstæði. Í kviðunni segir frá brúðkaupsrúmi Ódysseifs og konu hans Penelópu, en það var úr gríðarstórum olíuviði sem stóð þar sem þau giftust. Hómer lýsti eining tréverki rekkjanna sem voru með ígreypingum úr gulli, silfri og fílabeini. Forngríska rúmið var með ramma úr timbri, höfuðgafli og voru þakin skinnum. Síðar var rúmstæðið spónlagt dýrum viðum — stundum klætt fílabeini og þakið skjaldbökuskel með fætur úr silfri — en líka oft úr bronsi. Rómverjar gerðu sér dýnur úr reyr, heyi, ull eða fjöðrum og höfðu litla púða til skrauts og þæginda. Rómverskar rekkjur voru tveggja manna og með höfuðgafli. Rúmstæði þeirra voru há og gengið upp stiga til þess að komast í þær. Öl. Öl er samheiti yfir drykki, sem framleiddir eru í ölgerð, ýmist áfenga drykki eins og bjór, eða lítið áfenga eins og léttöl og maltöl. Dæmi eru um að óáfengir sykurdrykkir eins og kók, límónaði og aðrir gosdrykkir séu kallaðir "öl", en framleiðsluaðferðin er önnur og er það því villandi. Staðarfell. Staðarfell er bær og kirkjustaður á Fellsströnd í Dalasýslu, áður höfðingjasetur og stórbýli um langan aldur en frá 1927 var þar húsmæðraskóli og frá 1980 starfsemi á vegum SÁÁ. Bærinn stendur á fremur mjórri undirlendisræmu undir samnefndu fjalli, sem er bratt og klettótt. Staðarfell er mikil hlunnindajörð og þar bjuggu jafnan höfðingjar. Þorvaldur Ósvífursson, fyrsti maður Hallgerðar langbrókar, bjó þar, eða á Meðalfellsströnd undir Felli, eins og segir í Njálu. Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu, bjó á Staðarfelli á 12. öld. Á fyrri hluta 19. aldar bjó þar fræðimaðurinn Bogi Benediktsson, sem skrifaði mikið um ættfræði og fleira og er þekktastur fyrir ritið Sýslumannaævir. Sýslumenn Dalamanna sátu oft á Staðarfelli og Hannes Hafstein bjó þar til dæmis í eitt ár 1886-1887. Á fyrstu áratugum 20. aldar bjuggu hjónin Soffía Gestsdóttir og Magnús Friðriksson á Staðarfelli. Einkasonur þeirra drukknaði ásamt fleirum af bát sem hvolfdi fyrir landi jarðarinnar 1920 og í minningu hans gáfu foreldrarnir jörðina til stofnunar húsmæðraskóla. Skólinn hóf starfsemi 1927 og starfaði til 1976. Árið 1980 var svo endurhæfingarstöð á vegum SÁÁ komið á fót í húsnæðinu og hefur hún verið rekin þar síðan. Staðarfellskirkja var vígð árið 1891 og er friðuð. Hvammur í Dölum. Hvammur í Dölum er bær og kirkjustaður í Hvammssveit í Dalasýslu. Bærinn er fornt höfðingjasetur og landnámsjörð og síðar var þar prestssetur. Auður djúpúðga Ketilsdóttir nam að sögn allt land meðfram Hvammsfirði og bjó í Hvammi. Ólafur feilan sonarsonur hennar bjó svo í hvammi og sonur hans, Þórður gellir, sem þótti einhver helsti höfðingi Vestlendinga á 10. öld. Eftir hann bjó sonur hans, Þórarinn fylsenni, í Hvammi og síðan Skeggi sonur hans. Dalurinn sem Hvammur er í, Skeggjadalur, er sagður kenndur við hann. Skeggi er líka sagður hafa byggt fyrstu kirkju í Hvammi en það er þó mjög óvíst. Á 12. öld bjó svo Hvamm-Sturla Þórðarson á jörðinni og Snorri Sturluson er fæddur þar. Eftir lát Sturlu bjó Guðný Böðvarsdóttir ekkja hans þar lengi en enginn sona þeirra kaus sér bústað í Hvammi. Teitur Þorleifsson ríki, lögmaður norðan og vestan, bjó þar á fyrri hluta 16. aldar og gaf guði og kirkjunni Hvamm 1531. Ögmundur Pálsson biskup lét svo Daða í Snóksdal hafa Hvamm og fleiri jarðir og af því urðu deilur þeirra Jóns Arasonar, sem lauk þegar Daði handtók biskup og hann var síðan hálshöggvinn. Nokkru síðar var Hvammur gerður að prestssetri og á meðal presta þar má nefna séra Ketil Jörundarson, afa Árna Magnússonar, sem var fróðleiksmaður. Árni ólst upp í Hvammi hjá honum. Séra Þórður Þórðarson var þar 1721-1739 og skrifaði Hvammsannál. Það orð lá á að prestar væru afar þaulsætnir í Hvammi og afar fáir færu þaðan. Hvammskirkja var vígð 1884. Á Krosshólaborg í landi Hvamms er minnismerki um Auði djúpúðgu. Sagt er að hún hafi beðist fyrir þar á borginni. Skarð á Skarðsströnd. Skarð á Skarðsströnd er bær og kirkjustaður í Dalasýslu. Skarð var talin besta jörð við Breiðafjörð og raunar eitt helsta höfuðból landsins, mikil hlunnindajörð og henni fylgir fjöldi eyja og hólma. Bændur á Skarði voru jafnan ríkir og áttu mikið undir sér. Jörðin er í landnámi Geirmundar heljarskinns en hann bjó á Geirmundarstöðum samkvæmt Landnámabók. Líklegt er talið að afkomendur hans hafi fljótlega flutt sig að Skarði og sé svo hefur jörðin ef til vill verið í eigu sömu ættar frá landnámsöld. Sá fyrsti af ætt Skarðverja sem staðfest er að hafi búið á jörðinni er Húnbogi Þorgilsson, sem sumir telja að hafi verið bróðir Ara fróða en í Sturlungu er hann sagður sonur Þorgils Oddasonar. Snorri sonur Húnboga var lögsögumaður 1156-1170. Sonarsonur hans var Snorri Narfason, sem kallaður var Skarðs-Snorri og er í Sturlungu sagður manna auðugastur í Vestfjörðum. Hann var prestvígður eins og faðir hans og Narfi sonur hans. Narfi Snorrason (d. 1284) fékk sérstaka undanþágu erikbiskups frá því að skilja við konu sína þegar prestar fengu fyrirmæli um að gera það. Þrír synir hans, Þórður, Þorlákur og Snorri, urðu allir lögmenn. Sonur Snorra var Ormur lögmaður, sem varð gamall og bjó mjög lengi á Skarði. Sonarsonur hans var Loftur Guttormsson, sem átti bú á Skarði þótt hann byggi aðallega á Möðruvöllum, og frægust allra Skarðverja á miðöldum voru Ólöf ríka dóttir Lofts og maður hennar, Björn Þorleifsson hirðstjóri. Björn var drepinn af Englendingum í Rifi 1467 en Ólöf hefndi hans grimmilega, handtók að sögn suma Englendingana, flutti þá heim að Skarði og þrælkaði þá þar, lét þá meðal annars leggja steinstétt heim að Skarðskirkju sem enn sér fyirir. Hún bjó áfram á Skarði eftir dauða hans. Solveig dóttir hennar bjó svo á Skarði eftir móður sína og ættin síðan áfram til þessa dags. Höfn Skarðverja hefur frá alda öðli verið í Skarðsstöð. Þaðan hefur jafnan verið útgerð og nú er þar smábátahöfn. Verslun var þar frá 1890-1911. Við Skarð eru kenndar tvær frægar skinnbækur, Skarðsbók Jónsbókar, skrautlegasta og glæsilegasta fornhandrit sem varðveist hefur, og Skarðsbók postulasagna. Hæll. Hæll kallast aftasti hluti á fæti. Hann situr fyrir neðan hælbeinið ("calcaneus") sem er neðst á leggnum og spannar yfir bakhlið hælbeinsins. Hönd. Hönd er útlimur með fingrum sem finnst á enda hvors handleggs hjá prímötum. Hún er það líffæri sem er notað til að handleika umhverfið. Í fingurgómum er hæsti þéttleiki taugaenda í líkamanum og þeir gefa mikla snertiskynssvörun og geta flutt geysilega nákvæmlega. Þess vegna er líkamsvitundin mjög tengd við hendurnar. Eins og með önnur líffæri í pörum (augu, eyru, leggir), er hvorri hendi stjórnað af gagnstæðu heilahveli. Þannig er forgangshöndin fyrir athafnir sem nota eina hönd, eins og skrift með penna, mismunandi hjá hverjum manni. Á mörgum spendýrum eru útlimir eins og hendur til að ná tökum á einhverju, eins og til dæmis hrammar og klær. Þessir útlimir eru ekki taldir vera hendur. Til þess að kallast hönd er nauðsynlegt að á útlimnum sé þumall. Þess vegna eru prímatar einu dýrin sem hafa eiginlegar hendur. Hægt er að snúa þumli um 90° svo að hann sé lóðréttur handleggi en aðeins er hægt að snúa hinum fingrum um 45°. Helmut Newton. Helmut Newton (fæddur Helmut Neustädter) (f. 31. október 1920 – d. 23. janúar 2004) var þýsk-ástralskur ljósmyndari. Jesse McKinley sagði að “hann væri hugmyndaríkur og margir sem reyndu að líkja eftir honum, hann var tískuljósmyndari þar sem að stíll hans voru ögrandi svarthvítar myndir fullar af erótískri spennu sem voru máttarstólpur Vogue og fleiri útgefanda”. Yngri ár. Newton var fæddur í Berlín sonur Köru,Claire” (née Marquis) og Max Neustädter sem var hnappa-verksmiðjueigandi. Fjölskilda hans voru gyðingar. Newton gekk í skólann Heinrich-von-Treitschke-Realgymnasium og einnig The American School í Berlín. Hann hafði áhuga á ljósmyndun frá 12 ára aldri þegar hann keypti sína fyrstu myndavél, hann vann fyrir þýska ljósmyndarann Yca (Elise Neulander Simon) frá árinu 1936. Með sí aukandi kúganir og takmarkanir sem voru settar á gyðinga með Nuremberg lögunum þýddi það að faðir hans missti verksmiðjuna (stjórnina) þar sem hann framleiddi hnappa og sylgjur, hann var um tíma sendur í fangabúðir í "Kristallnacht", 9. nóvember 1938, sem að lokum leiddi til þess að fjölskyldan neyddist til að yfirgefa þýskaland. Foreldrar Newtons flúðu til Suður-Ameríku. Hann fékk gefið út vegabréf rétt eftir að hann varð 18 ára, og fór þá frá Þýskalandi þann 5. desember 1938. Í Trieste fór hann um borð í "Conte Rosso" (ásamt um það bil 200 öðrum sem voru að flýja nasistana), og var ferðinni heitið til Kína. Eftir að hann kom til Singapúr komst hann að því að hann gæti verið þar um tíma og um stund sem ljósmyndari fyrir The Straits Times og síðar sem portreit ljósmyndari. Árin í Ástralíu. Meðan Newton var í Ástralíu höfðu bresk yfirvöld upp á honum og tóku hann, og sendu hann til Ástralíu um borð í Queen Mary, og kom hann til Sydney 27.september 1940. Þeir sem teknir voru voru síðan færðir í Tatura herstöðina í Victoria með lest í leiðsögn vopnaðra varða. Hann var látin laus 1942, og um tíma vann hann við að týna ávexti í Norður-Victoria. Í apríl 1942 gekk hann í ástralska herinn og varð vörubílstjóri. Eftir stríðið árið 1945, varð hann breskur ríkisborgari og breytti nafni sínu í Newton árið 1946. Árið 1948 giftist hann leikkonunni June Browne, sem að kom framm undir sviðsnafninu June Brunell. Hún seinna varð árangursríkur ljósmyndari undir kaldhæðnislega dulnefninu Alice Springs (eftir Mið-Ástralska bænum Alice Springs). Árið 1946 setti Newton upp stúdíó í tískuhverfinu Flanders Lane í Melbourne og vann þar við tísku og leikhúsljósmyndun í velgengnisárunum eftir stríð. Hans fyrsta deilda sýning var í mai 1953 með Wolfgang Sievers, sem einnig var þýskur flóttamaður eins og Newton sem einnig hafði þjónað herskildu í sömu deild. Sýningin,New Visions in Photography” (Ný sjón á ljósmyndun) var sýnd á Federal hótelinu í Collins Street og var sennilega það fyrsta sem sást af,New Objectivity” ljósmyndun í Ástralíu. Newton fór í samstarf með Henry Talbot, sem einnig var þýskur gyðingur sem einnig hafði verið sendur í Tatura, og hans samstarf við stúdíóið hélt áfram jafnvel eftir 1957 þegar hann fór frá Ástralíu til London. Stúdíóið fékk nýtt nafn, Helmut Newton og Henry Talbot”. London 1950. Ört vaxandi orðspor Newtons sem tískuljósmyndari var heldur betur verðlaunað þegar hann tryggði sér umboð til að varpa ljósi á ástralska tísku í sértakri viðbót við Vogue tímaritið sem var birt í janúar 1956. hann vann síðan 12 mánaða samning við breska Vouge og fór til London í febrúar 1957, og skildi Talbot eftir til að sjá um reksturinn. Newton fór frá tímaritinu áður en samningurinn hans rann úr og fór þá til París, þar sem hann vann fyrir frönsk og þýsk tímarit. Hann snéri aftur til Melbourne í mars 1959 þar sem hann fékk samning hjá Ástralska Vouge. París 1960. Newton settist að og kom sér fyrir í París 1961 og hélt áfram að vinna sem tískuljósmyndari. Myndir eftir hann birtust í ýmsum tímaritum svo sem eins og, einna stærst, franska Vogue og Harper's Bazaar. Hann setti sér sérstakan stíl sem var einstaklega erótískur, stílfærðar tökur og oft með sadó-masókistu og þráhyggjulegu andrúmslofti. Hjartaáfall sem hægði á Newton árið 1970, en hélt alltaf ótrauður áfram og jók vinnumagnið smá saman, það sem síðan var eftirteknarmest var myndasería hans árið 1980 "Big Nudes", sem setti hornsteininn fyrir erotic-urban stílinn, sem var síðan undirstrikað með einstaklega góðum teknískum hæfileikum. Newton vann einnig að portreit myndum og einnig stórfenglegri rannsóknum (more fantastical studies). Newton tók líka þó nokkuð af myndum fyrir Playboy, þar á meðal myndir af Nastassja Kinski og Kristine DeBell. Upprunaleg prent af myndum hans síðan í ágúst 1976 myndir af DeBell, "200 motels, or How I Spent My Summer Vacation" voru seldar á uppboði úr skjalasafni Playboy til Bonhams árið 2002 fyrir 21,075 dollara, og til Christies í desember 2003 fyrir 26,290 dollara. “Þrír strákar frá Pasadena” (Three boys from Pasadena). Í júní 2009, setti June Browne Newton saman minningar sýningu tileinkaða Helmut í kringum þrjá ljósmyndara sem höfðu lært lengi undir stjórn Helmut en það voru þeir: Mark Arbeit, Just Loomis og George Holz. Allir höfðu þeir verið ljósmyndanemar hjá The art Center Collage of design skólanum í Pasadena í Kaliforníu árið 1979 þegar þeir urðu aðstoðarmenn Newtons til langstíma, og allir þrír fóru síðan seinna af stað með sinn eigin ljósmyndaferil. Sýningin var frumsýnd í Helmut Newtons Foundation í Berlín og saman stóð af þeirra myndum,,contact sheets” og bréfum frá þeirra tíma með Helmut. Andlát. Á hans eldri árum átti Newton bæði heima í Monte Carlo og Los Angeles í Kaliforníu. Hann lenti í slysi 23. janúar 2004, þegar bíll hans varð stjórnlaus og fór utan í vegg í heimreið hjá Chateau Marmont sem hafði í nokkur ár verið hans aðsetur í suðurhluta kaliforníu. Hann lét lífið á Cedars-Sinai Medical Center. Aska hans er grafin við hliðin á Marlene Dietrich hjá Städtischer Friedhof III í Berlín. Robert Pattinson. Robert Thomas Pattinson (f. 13. maí 1986) er enskur leikari, fyrirsæta og tónlistarmaður. Hann er þekktastur fyrir að leika persónuna Edward Cullen í kvimyndinni "Twilight". Bacary Sagna. Bacary Sagna (fæddur 14. febrúar 1983) er franskur knattspyrnumaður sem leikur í stöðu varnarmanns hjá enska úrvalsdeilarliðinu Arsenal og franska landsliðinu. Hann byrjaði atvinnuferill sinn hjá franska félaginu Auxerre. Sagna, Bacary Vísindafélag Íslendinga. Vísindafélag Íslendinga var stofnað 1. desember 1918 til að efla vísindastarfsemi í landinu. Frumkvæði að stofnun þess áttu Ágúst H. Bjarnason og Sigurður Nordal prófessorar við Háskóla Íslands. Um félagið. Þó að 1. desember 1918 sé talinn stofndagur félagsins var fyrsta stjórn félagsins kosin 19. janúar 1919. Hana skipuðu: Ágúst H. Bjarnason forseti, Einar Arnórsson ritari og Guðmundur Finnbogason gjaldkeri. Félagsmenn voru upphaflega þeir fastir kennarar við Háskóla Íslands, er þess óska. Félagsmenn eru annars vegar „reglulegir félagsmenn“ sem búa hér á landi, og „bréfafélagar“ sem búsettir eru erlendis. Upphaflegur fjöldi félagsmanna var 13, en samkvæmt lögum félagsins máttu þeir mest vera 36. Nú eru reglulegir félagsmenn 144 og að auki þeir sem náð hafa sjötugsaldri og bréfafélagar. Félagið heldur vanalega fund seinasta miðvikudag í hverjum vetrarmánuði. Núverandi stjórn (2009) skipa Einar Sigurbjörnsson forseti,Halldór Ármannsson gjaldkeri og Helga Kress ritari. Félagið hefur gefið út yfir 60 rit, "Rit Vísindafélags Íslendinga", og er einna mest rit í fjórum bindum um "Heklugosið 1947–1948". Seinast gaf Vísindafélagið út "Afmælisrit 1918–1998" árið 2000. Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright. Á vegum Vísindafélagsins er starfræktur Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright, sem stofnaður var á hálfrar aldar afmæli Vísindafélagsins 1. desember 1968. Sjóðurinn veitir árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi vísindastörf, og var fyrst úthlutað úr sjóðnum 1969, þegar Sigurður Nordal hlaut þann heiður. Formaður stjórnar sjóðsins hefur frá upphafi verið dr. Sturla Friðriksson, og hefur hann ritað bók um stofnanda sjóðsins, Ásu Guðmundsdóttur Wright. Jeffrey Dean Morgan. Jeffrey Dean Morgan (fæddur 22. apríl 1966) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Grey's Anatomy, Supernatural, Weeds og Watchmen. Einkalíf. Morgan er frá Seattle og er af skoskum ættum. Hann lék körfubolta í framhaldsskóla og háskóla, þangað til hnémein stoppaði hann. Vann sem grafískur listamaður þangað til hann hjálpaði vini sínum að flytja til Los Angeles. Morgan fjölskyldunafnið er upprunalega frá Llandaff, Glamorgan, Glamorganshire, Wales, og afkomendur gegnum kvennmenn og óskilgetna blóðlínu frá Játvarði 3. Englandskonungi og Pedro 1. konungi af Kastilíu. Nýr ættleggur kom til Nýja Englands kringum 1600 og á meðal afkomenda eru höfundurinn Charles Edward Ives, forsetinn Millard Fillmore, Rockefeller fjölskyldan, frumkvöðullinn Daniel Boone (f. Daniel Morgan Booone), höfundurinn Tennessee Williams (f. Thomas Lanier Williams), höfundurinn Zelda Sayre (kona F. Scott Fitzgerald), leikkonan Katharine Hepburn (f. Katharine Houghton Hepburn), leikarinn Humphrey Bogart (f. Humphrey Deforest Bogart), uppfinningamaðurinn George Washington Gale Ferris Jr. og höfudurinn Laura Ingalls Wilder (f. Laura Elizabeth Ingalls). Morgan var giftur einu sinni þegar hann var ungur, samkvæmt viðtali við hann úr "Playgirl" frá 1997. Lítið er vitað um hjónabandið annað en það endaði í skilnaði. Morgan byrjaði með leikkonunni Hilarie Burton úr "One Tree Hill" þáttunum árið 2009 og eignuðust þau son í mars, 2010. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Morgans var árið 1995 í "Extreme". Frá 1996-1997 þá lék hann lækninn Edward Marcase í "The Burning Zone". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við ER, Monk og JAG. Morgan kom fram í þrem sjónvarpsþáttum á sama tíma árið 2005-2006 sem þrjár mismunandi persónur: sem John Winchester í Supernatural sem hinn dularfulli faðir Sams (Jared Padalecki) og Deans (Jensen Ackles); sem hjartasjúklingurinn Denny Duquette í Grey's Anatomy sem var í rómantísku sambandi við Dr. Isobel "Izzie" Stevens; sem Judah Botwin í Weeds. Það sem er merkilegast við þessar persónur er að þær dóu allar, tvær af þeim á skjánum. Leikur hann núna Ike Evans í sjónvarpsþættinum Magic City. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Morgans var árið 1991 í "Uncaged". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Dillinger and Capone", "All Good Things", "Taking Woodstock", "Shanghai" og "Texas Killing Fields". Morgan lék hinn keðjureykjandi Grínara (The Comedian) í Watchmen, byggt á teiknimyndasögu Alans Moore árið 2009. Morgan lék síðan hinn snjalla Clay í myndinni "The Losers" sem byggð er á samnefndri teiknimyndasögu árið 2010. Tenglar. Morgan, Jeffrey Dean Húnbogi Þorgilsson. Húnbogi Þorgilsson var íslenskur höfðingi á 12. öld. Hann bjó á Skarði á Skarðsströnd og er sá fyrsti af ætt Skarðverja sem öruggt er að hafi búið þar en búseta ættarinnar hefur haldist á Skarði til þessa dags. Ekki er víst hver faðir Húnboga var. Í Sturlungu er hann sagður sonur Þorgils Oddasonar en hann hefur einnig verið talinn sonur Þorgils Gellissonar og þá bróðir Ara fróða. Er það meðal annars byggt á því að afkomendur Þorgils áttu hálft Þórsnesingagoðorð en afkomendur Ara hinn helminginn. Húnbogi virðist hafa verið friðsemdarmaður og dregst að minnsta kosti ekki inn í svæsnar illdeilur Hafliða Mássonar og Þorgils Oddasonar, nema hvað þess er getið að hann, Þórður Gilsson faðir Hvamm-Sturlu og aðrir heiðarlegir menn hafi reynt að hafa meðalgöngu þegar Hafliði kom í Dali 1120 að heyja féránsdóm eftir Þorgils. Kona Húnboga var Yngveldur Hauksdóttir og sonur þeirra Snorri Húnbogason lögsögumaður á Skarði. Misha Collins. Misha Collins (Misha Dmitri Tippens Krushnic) (fæddur 20. ágúst 1974) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í 24 og Supernatural. Einkalíf. Collins fæddist í Boston, Massachusetts en ólst upp í Greenville. Stundaði síðan nám í félagslegri þróunarkenningu (Social Theory) við Chicago-háskólann. Eftir námið fékk hann lærlingastöðu í Hvíta Húsinu þegar Bill Clinton var forseti. Misha sagði skilið við draum sinn í pólitíkinni til þess að verða leikari. Misha hefur verið giftur Victoria Vantoch síðan 2002 og saman eiga þau tvö börn. Hefur gefið út ljóðin "Baby Pants" og "Old Bones" sem má finna í 2008 útgáfunni af Columbia Poetry Review #21. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Collins var árið 1998 í „Legacy“. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við NYPD Blue, NCIS, Monk, og Tuck. Náði hann svo athygli áhorfenda sem Alexis Drazen í 24. Hefur hann síðan 2008 verið sérstakur gestaleikari og sem aðalleikari í Supernatural sem engillinn Castiel. Fyrir hlutverk sitt sem Castiel þá las hann Opinberunarbókina til þess að undirbúa sig. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Collins var árið 1999 í Liberty Heights. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Moving Alan, Girl, Interrupted, Karla og The Grift. Tenglar. Collins, Misha Snorri Húnbogason. Snorri Húnbogason (d. 1170) var íslenskur lögsögumaður og goðorðsmaður á 12. öld. Hann bjó á Skarði á Skarðsstönd og var af ætt Skarðverja. Snorri var sonur Húnboga Þorgilssonar á Skarði og Yngveldar Hauksdóttur konu hans. Hann var prestvígður. Lögsögumaður var hann í 14 ár, frá 1156 til dauðadags. Hann virðist hafa verið friðsemdarmaður eins og faðir hans og blandaðist ekki inn í hatrammar deilur nágranna sinna, Hvamm-Sturlu og Einars Þorgilssonar í Tungu. Kona Snorra var Ingveldur Atladóttir og synir þeirra voru Þorgils (d. 1201) á Skarði, prestur í Skarðsþingum, Narfi (d. 1202) á Skarði og Álfur á Ballará. Sonur Narfa, Skarðs-Snorri, tók við búi á Skarði eftir lát föður síns og föðurbróður. Skarðs-Snorri Narfason. Snorri Narfason eða Skarðs-Snorri (um 1175 – 13. september 1260) var íslenskur höfðingi á 13. öld. Hann bjó á Skarði á Skarðsströnd og segir Sturlunga hann hafa verið auðugasta mann í Vestfjörðum. Snorri var sonur Narfa Snorrasonar á Skarði, sonar Snorra Húnbogasonar, og konu hans Guðrúnar Þórðardóttur. Þórður bróðir hans var tengdafaðir Sturlu Þórðarsonar. Snorri var prestvígður og stundum kallaður "Snorri Skarðsprestur". Hann var friðsamur eins og Skarðverjar voru flestir og tókst að komast óskaddaður hjá öllum erjum og ófriði Sturlungaaldar en var oft fenginn til að reyna að koma á griðum og sættum eða dæma í málum. Hann var þó góður vinur Sighvatar Sturlusonar og Sturlu sonar hans og voru synir hans oft með Sturlungum í herferðum þeirra. Kona Snorra var Sæunn Tófudóttir og áttu þau nokkra syni. Bárður og Sigmundur hlutu báðir örkuml í Örlygsstaðabardaga og lágu á Silfrastöðum um veturinn. Seinna stýrðu þeir búi sem faðir þeirra átti á Reykhólum og þar var Bárður drepinn með Tuma Sighvatssyni 1244 en um Sigmund er ekki vitað. Bjarni Snorrason bjó í Skarði eftir föður sinn, sem varð gamall og dó 1260. Narfi Snorrason var prestur á Kolbeinsstöðum en tveir af þremur sonum hans, Þórður og Snorri, bjuggu á Skarði. Monk. Monk er bandarískur lögreglu sakamála-grínþáttur sem var búinn til af Andy Breckman og leikur Tony Shaloub titilpersónuna, Adrian Monk. Þátturinn var sýndur ár árunum 2002 - 2009 og er aðallega dularfull þáttaröð, þrátt fyrir að stundum sé drungalegt andrúmsloft og skemmtileg grínatriði. Þátturinn er frábrugðinn sambærilegum þáttum vegna þess að titilpersónan, Monk, ásamt frábærum hæfileika hans við að leysa glæpi, þjáist hann af ýmsum geðsjúkdómum sem aukið hafa við alvarlega áverka af dauða eiginkonu hans, Trudy og eru móta þessi sérkenni hans persónuleikann að mestu. Þættirnir fór af stað þann 12. júlí 2002 á USA sjónvarpsstöðinni. Hún fékk góða dóma og er ein af ásæðum aukins áhorfs sjónvarpsstöðvarinnar. Áttundu og síðustu þáttaröðinni lauk þann 4. desember 2009. Þættirnir eiga metið yfir mesta áhorf lögreglu-dramaþáttar í sjónvarpi en The Closer átti metið áður. Monk setti metið með þættinum "Mr. Monk and the End - Part II", lokaþættinum en 9,4 milljónir manna horfðu á þáttinn. Söguþráður. Adrian Monk var rannsakandi hjá lögreglunni í San Francisco þangað til Trudy, eiginkona hans, var myrt með bílasprengju í bílastæðahúsi, og trúir Monk því að sprengjan hafi verið ætluð honum. Dauði Trudy verður til þess að hann fær taugaáfall. Hann var látinn hætta störfum hjá lögreglunni, gerðist einbúi og neitaði að yfirgefa húsið sitt í yfir þrjú ár. Hann kemst loksins út úr húsinu með hjálp hjúkrunarkonunnar Sharonu Fleming (Bitty Schram). Þetta gerði það að verkum að hann getur unnið sem einkaspæjari og ráðgjafi fyrir morðdeild lögreglunnar, þrátt fyrir að þjást áfram af mikilli árátturöskun sem hafði aukist mikið eftir slysið. Hömlulausir ávanar Monk eru fjölmargir, ásamt fóbíum sem flækja stöðuna, svo sem hræðsla við sýkla og bolla. Monk er hrædddur við 312 hluti, m.a. mjólk, maríubjöllur, harmónikkur, hæð, ófullkomnun og áhættu. Árátturöskunin og fóbíurnar leiða oft til vandræðalegra atvika og valda vanræðum fyrir Monk og fólkið í kringum hann, þegar hann rannsakar hin ýmsu mál. Þessir sömu gallar, aðallega árátturöskunin, eru það sem hjálpar honum að leysa málin, t.a.m. frábært minni hans, sérstakt hugarfar og athygli á smáatriði. Í þættinum "Mr. Monk and His Biggest Fan" hefur Marci Maven (Sarah Silverman) sett saman lista yfir allt það sem Adrian hræðist og sett myndir á tölvuskjáinn sinn af þeim. Í öðrum þættir reynir hann að sigrast á óttanum með því að gera alls konar hluti sem reyna á fóbíurnar hans. T.a.m. reynir hann að drekka mjólk, klifra upp stiga, halda á maríubjöllu og þegar hlutum var dreift óreglulega yfir borð, gat hann ekki stjórnað sér lengur og raðaði hlutunum upp. Lögreglustjórinn Lelan Stottlemeyer (Ted Levine) og undirmaður hans Randall "Randy" Disher (Jason Gray-Stanford) hringja í Monk þegar þeir eiga í vandræðum með rannsókn. Stottlemeyer verður oft pirraður á Monk en virðir vin sinn og fyrrum kollega og hans frábæru rannsóknaraðferðir, en Disher gerir það einnig. Alveg síðan í æsku hefur Monk haf mjög næmt auga fyrir smáatriðum sem gerir honum kleift að koma auga á minnsta ósamræmi, finna munstur og gera tengingar sem öðrum mistekst. Monk heldur áfram að leita að upplýsingum um morð eiginkonunnar, eina málið sem honum hefur ekki tekist að leysa og tekst það að lokum í síðasta þættinum. Sharona ákvað að giftast fyrrverandi eiginmanninum og flytja aftur til New Jersey svo Natalie Teeger (Traylor Howard) er ráðin sem nýr aðstoðarmaður Monks; hún er ekkja og móðir ellefu ára stelpu (nú 17 ára). Monk á bróður sem heitir Ambrose (John Turturro) og hálfbróður, Jack yngri (Steve Zahn) sem Monk finnur í fimmtu þáttaröðinni. Hann hittir síðan Jack eldri í sjöundu þáttaröð í "Mr. Monk's Other Brother". Aðalpersónur. Persónan Natalie Teeger kom fyrst fram í miðri þriðju þáttaröð þegar leikkonan Bitty Schram sem lék hjúkrunarkonu Monk, Sharonu Fleming, hætti í þáttunum eftir samningságreining. Nýja leikkonan, Traylor Howard, hafði ekki enn sést í þáttunum og var óspennt yfir þrýstingi yfirmanns síns að sækja um starf Sharonu. Hún sótti samt um og fékk starfið. Þrátt fyrir að hafa fengið "kalt" viðmót aðdáenda þáttarins í fyrstu, tókst henni fljótlega að fylla í skarð Sharonu. Höfundurinn Andy Breckman sagði: "Ég mun alltaf vera þakklátur Traylor vegna þess að hún kom þegar þátturinn var í klemmu og bjargaði barninu okkar [...] Við urðum að taka fljóta ákvörðun og það eru ekki allir þættir sem lifa það af. Ég var dauðhræddur." Narfi Snorrason. Narfi Snorrason (um 1210 – 1284) var íslenskur prestur á Sturlungaöld. Hann var af ætt Skarðverja, sonur Skarðs-Snorra Narfasonar og Sæunnar Tófudóttur konu hans. Narfi hlaut prestvígslu hjá Guðmundi biskupi góða. Hann kvæntist Valgerði, dóttur Ketils Þorlákssonar prests og lögsögumanns á Kolbeinsstöðum í Hnappadal og konu hans Halldóru Þorvaldsdóttur, systur Gissurar jarls. Hann settist að á Kolbeinsstöðum hjá tengdafólki sínu 1253 og var þar prestur til dauðadags. Narfi var vinsæll og þótti mikilsháttar. Þegar boð kom um það frá erkibiskupi að prestum skyldi bannað að giftast og þeir sem væru þegar kvæntir skyldu skilja við konur sinar en missa vígslu ella fékk hann sérstaka undanþágu hjá erkibiskupi og hélt bæði konu sinni og prestsvígslu. Þau hjónin áttu þrjá syni, Þorlák, Þórð og Snorra, sem urðu allir lögmenn. Þorlákur bjó á Kolbeinsstöðum en hinir tveir á Skarði, sem Narfi hefur erft vegna þess að Bjarni bróðir hans, sem þar bjó, hefur líklega dáið barnlaus. Þórður Narfason. Þórður Narfason (d. 1308) var íslenskur lögmaður á 13. öld og bjó á Skarði á Skarðsströnd. Hann var af ætt Skarðverja, sonur Narfa Snorrasonar prests á Kolbeinsstöðum og Valgerðar Ketilsdóttur konu hans. Gissur jarl var ömmubróðir hans. Þórður fluttist að Skarði eftir lát Bjarna föðurbróður sins, sem var barnlaus, og bjó þar til dauðadags. Hann var lögmaður norðan og vestan 1296-1297 og aftur 1300, þá í umboði Bárðar Högnasonar hins norræna. Þekktastur er Þórður þó fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta og sagnaritunar því það mun hafa verið hann sem steypti mörgum sögum saman í Sturlungu eins og hún hefur varðveist, en þær sögur sem hann notaði eru nú allar glataðar nema Hrafns saga Sveinbjarnarsonar. Helga kona Sturlu Þórðarsonar og Narfi faðir Þórðar voru bræðrabörn og vitað er að Þórður dvaldi hjá Snorra veturinn 1271-1272, þá líklega um tvítugt. Ekki er getið um konu Þórðar og hann virðist hafa verið barnlaus. Snorri bróðir hans tók við búi á Skarði eftir hann. Snorri Narfason. Snorri Narfason (d. 9. mars 1332) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd. Snorri var sonur Narfa Snorrasonar prests á Kolbeinsstöðum og Valgerðar Ketilsdóttur konu hans. Eldri bræður hans báðir, Þorlákur og Þórður, voru einnig lögmenn. „Þeir voru allir vitrir menn og vel mannaðir“ segir í "Árna sögu biskups". Snorri var mikill vinur Árna biskups. Hann mun hafa búið í Árnessýslu þar til Þórður bróðir hans féll frá 1308 en þá flutti hann að Skarði og tók við búi þar. Hann var lögmaður norðan og vestan 1320-1329. Síðasta lögmannsár hans er sagt frá því að hann lét skera sundur vébönd kringum lögréttu á Alþingi. Ástæðan er ókunn en þetta þótti óhæfa og var hann sviptur lögmannsembættinu næsta vor. Kona Snorra hét Þóra en um ætt hennar er ekkert vitað með vissu. Synir þeirra voru Guðmundur Snorrason og Ormur Snorrason lögmaður. Samantha Smith. Samantha Smith (fædd 4. nóvember 1969) er bandarísk leikkona og þekkt fyrir að leika í bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hún hefur meðal annars verið í Transformers, Supernatural, Two of a Kind og Jerry Maguire Einkalíf. Smith fæddist í Sacramento, Kaliforníu. Hefur hún hefur mætt á Supernatural-aðdáendaráðstefnur á borð við "Salute to Supernatural (2008) í Chicago", "Salute to Supernatural (2009) í L.A." og "Asylum (2009) í Birmingham, Englandi". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Smith var árið 1996 í Seinfeld og síðan þá hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "The Pretender", "Caroline in the City", Cold Feet, "Family Law", "Philly", NYPD Blue, Criminal Minds, "Trust Me" og House. Árið 2005 þá var Smith boðið hlutverk í Supernatural sem Mary Winchester, móðir Deans og Sams, sem hún hefur leikið með hléum síðan þá. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Smith var árið 1996 í Jerry Maguire þar sem hún lék á móti Tom Cruise. Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Rockin´ Good Times", "Dragonfly" og Transformers. Tenglar. Smith, Samantha Guðmundur Ormsson. Guðmundur Ormsson (um 1360 – 1388) var íslenskur höfðingi á 14. öld. Hann var af ætt Skarðverja, sonur Orms Snorrasonar lögmanns á Skarði á Skarðsströnd. Guðmundur virðist hafa verið mesti ribbaldi. Um jólin 1385 fór hann ásamt öðrum manni, Eiríki Guðmundssyni, að manni sem hét Þórður Jónsson og tóku þeir hann höndum. Ormur faðir hans nefndi svo dóm yfir Þórði þessum og var hann dæmdur til dauða og hálshöggvinn. Ekkert er vitað um ástæður en þess hefur verið getið til að Þórður kunni að hafa verið bróðir Þorsteins Jónssonar, sem vó Guttorm, bróður Guðmundar og son Orms, í Snóksdal nokkrum árum áður og þeir hafi verið að hefna þess, en allt er óvíst um það. Hvað sem því líður þótti verkið níðingsverk og hlutu feðgarnir mikið ámæli fyrir. Eitthvað fleira hefur gengið á því sagt er í annálum 1386 frá því að menn Guðmundar Ormssonar hafi rænt og ruplað í Sunnlendinga- og Vestfirðingafjórðungi. Á endanum var þeim Guðmundi og Eiríki ekki vært á Íslandi og fóru þeir út um sumarið. Eiríkur kom aftur ári síðar og hafði þá hlotnast hirðstjóratign, en hann var raunar veginn árið eftir. Guðmundur Ormsson hvarf aftur á móti 1388 í Færeyjum um nótt með undarlegum hætti, að því er segir í annálum. Dóttir hans var Þorbjörg, kona Guðna Oddssonar á Hóli í Bolungarvík. Vélþýðing. Vélþýðing er þýðing á texta eða tali úr einu tungumáli á annað gerð með tölvu og þar til gerðum hugbúnaði. Einföld gervigreind getur aðeins þýtt einstök orð, en sé um flóknari útbúnað að ræða getur hún notast við textasöfn og borið kennsl á orðasambönd, þýtt orðatiltæki og einangrað undantekningar. Nú á dögum er til þýðingarhugbúnaður sem leyfir notandanum að fá betri þýðingar sem henta atvinnugrein sinni (til dæmis veðurspám), sem bætir útkómur þýðingarinnar af því magnið af mögulegum orðum er minni. Þessi aðferð virkar vel á sviðum þar sem notast er við formlegt málfar. Af þessum ástæðum eru vélþýðingar skjala sem eru á formlegt málfar betri en þýðingar á daglegu tali eða frumlegum texta. Stundum eru útkómur vélþýðinganna betri með aðstoð af mönnum, til dæmis að benda á vélinni öll orðin í texta sem eru nöfn getur oft skapað betri þýðingar. Með þessum aðferðum hefur vélþýðing gert þýðingu dálítið sjálfvirka og auðveldara fyrir menn. Stundum geta vélþýðingar verið notaðar án breytinga, til dæmis fyrir veðurspár. Saga. Vélþyðing varð til sem hugtak á 17. öldinni. Árið 1629 stakk René Descartes upp á því að væri alheimstungumál sem hefði hugmyndir á nokkrar tungur með sama tákn. Í Georgetown-tilrauninni á sjötta áratugunum, vél þýddi sjálfkrafa yfir sextíu setningar úr rússnesku á ensku. Tilraunin gekk mjög vel og ávann sér mikla fjármögnun fyrir vélþýðingarrannsóknir. Höfundar rannsóknanna sögðust finna lausn fyrir vélþýðingarvandamálið eftir þremur til fimm ára. Ræktunaræti. Þessar bakteríukóloníur vaxa á ræktunaræti sem hleypt hefur verið með agar og steypt í petriskál. Ræktunaræti, oft einfaldlega nefnt æti, er vökvi eða hlaup til ræktunar örvera eða annarra frumna. Æti eru mismunandi að samsetningu eftir því hvaða frumur á að rækta í þeim. Tvær megingerðir ræktunaræta eru annars vegar æti til frumuræktar, það er, ræktunar einstakra frumugerða úr dýrum eða plöntum, og hins vegar örveruæti, það er, æti til ræktunar baktería, fyrna eða gersveppa. Almenn örveruæti. Örveruætum má gróflega skipta í annars vegar "næringaræti" („komplex-æti“) og hins vegar "skilgreind æti" („synþetísk æti“). Næringaræti innihalda flókin eða óskilgreind efni eins og blóð, kjötseyði eða peptón (vatnsrofin prótín), en skilgreind æti innihalda eingöngu þekkt efni, hvert um sig í þekktu magni. Meðal algengra næringaræta má nefna "heila- og hjartaseyði" (e. "brain-heart infusion broth"), "tryptón-soja seyði" (e. "tryptic soy broth") og "Luria-Bertani seyði". Einnig mætti nefna ölmeski eða brauðdeig sem dæmi um æti fyrir ræktun gersveppa, og hrámjólk sem dæmi um æti fyrir mjólkursýrubakteríur við gerð sýrðra mjólkurafurða á borð við súrmjólk eða jógúrt. Í skilgreindum ætum er efnasamsetning ætisins að fullu þekkt. Það má því hafa fulla stjórn á því hvaða næringarefni eru til staðar og þannig stjórna að vissu marki þeirri starfsemi sem fruman getur lagt stund á. Þau eru meðal annars notuð til að finna út úr því hvaða næringarefni örverurnar geta nýtt sér og hver ekki. Skilgreind æti innihalda gjarnan, auk orkugefandi næringarefna á borð við sykrur eða amínósýrur, ýmis sölt, steinefni og vítamín. Þau eru gjarnan hönnuð þannig að þau uppfylli aðeins lágmarks næringarþarfir örverunnar sem rækta á og kallast þá "lágmarksæti". Æti má einnig flokka eftir því hvort þau eru föst, hálfföst eða fljótandi. Algengast er að föstum og hálfföstum ætum sé hleypt með agar og er hlaupið steypt í Petriskálar eða ræktunarglös. Agarhlaupið myndar fast yfirborð sem örverurnar geta vaxið á og myndað kóloníur. Fáar örveru geta brotið niður agar og nýtt sér hann sem næringu, og því helst hlaupið á föstu formi. Frumuræktaræti. Frumuræktaræti eru alla jafna flóknari að gerð en örveruætin og þurfa að innihalda þau hormón og vaxtarþætti sem stjórna vexti viðeigandi vefjagerða í lifandi dýri eða plöntu af þeirri tegund sem um ræðir. Í ræktunarætum fyrir dýrafrumur eru hormónin gjarnan fengin með því að bæta blóðvökva í ætið. Algengt er að frumurnar vaxi á föstu yfirborði undir ræktunarætinu, sem þá er á formi vökva. Sérhæfð örveruæti. Mikill fjöldi sérhæfðra örveruæta til hefur verið hannaður. Nefna má til dæmis svokölluð "valæti", en það eru æti sem aðeins tiltekinn hópur örvera getur vaxið á, og "greiningaræti", en það eru æti þar sem tiltekin gerð örvera gefur tiltekna svörun (veldur til dæmis litarbreytingu í ætinu). Sem einfalt dæmi um valæti má nefna æti sem sýklalyfjum hefur verið bætt í, en í slíku æti geta aðeins sýklalyfjaþolnar örveru vaxið. Sama ætið getur verið bæði val- og greiningaræti. Vatnabuffall. Vatnabuffall (fræðiheiti: "Bubalus bubalis") er taminn asískur nautgripur sem er einnig vinsæll búpeningur í Suður-Ameríku, suður Evrópu og norður Afríku og víða annars staðar. Amanda Bynes. Amanda Laura Bynes (f. 3. apríl 1986) er bandarísk leikkona, fyrrverandi kynnir á "Nickelodeon", grínisti, fatahönnuður og söngkona. Eftir að hafa leikið í nokkrum vinsælum sjónvarpsþáttaröðum ("All That" og "The Amanda Show") og verið í "Nickledon" í nokkur ár, sneri hún sér að kvikmyndum og lék í nokkrum kvikmyndum sem voru ætlaðar unglingum meðal annars "She's the Man" (2006) og "Hairspray (2007). Árið 2006 var Amanda valin ein af "25 heitustu stjörnunum undir 25 ára" af Teen People's og árið 2007 var hún í fimmta sæti á lista Forbes yfir tekjuhæstu stjörnurnar undir 21 árs, með 2,5 milljónir dollara í tekjur. Æska. Amanda Laura Bynes fæddist í Thousand Oaks í Kaliforníu og er dóttir Lynn, aðstoðarkonu tannlæknis og skrifstofustjóra, og Rick Bynes, tannlæknis og grínista. Byens á tvö eldri systkini, Tommy (f. 1974), kírópraktor og Jillian (f. 1983), sem er með B.A.-gráðu í sögu frá UCLA og hefur einnig leikið. Amma hennar og afi eru frá Toronto, Ontario. Faðir Amöndu er kaþólskur og móðir hennar er gyðingur; hún hefur sagt að hún sé gyðingur en hefur einnig sagt „ég er ekki búin að ákveða mig enn [með trú]“. „Ég veit ekki alveg hverju ég trúi“. Ferill. Árið 1993 var Amanda þjálfuð sem leikkona af Arsenio Hall og Richard Pryor í grínbúðum og byrjaði hún að leika fagmannlega þegar hún var sjö ára þegar hún lék í auglýsingu fyrir Buncha Crunch nammi. Þegar hún var barn lék hún einnig í sviðsuppfærslum af Annie, The Secret Garden, Music Man og The Sound of Music. Eftir að hafa farið í leiklistartíma, varð Amanda fastur liðsmaður leikaraliðsins í "Nickelodeon's Figure It Out" og "All That" (bæði árið 1996). Hún var áfram aðalleikari í þáttunum "All That" þangað til að þættirnir hættu árið 2000 þrátt fyrir að hún hafi birst í sketsunum síðan hún byrjaði að undirbúa sinn eigin þátt, "The Amanda Show". The Amanda Show innihélt blöndu af gamansömu atriðum og sketsum, meðal annars Amöndu Bynes að leika Trudy dómara, dómara sem var byggður á Judy dómara sem dæmir alltaf krökkunum í hag og Penelope Taynt, stelpu sem er heltekin af Amöndu. Amanda lék í fyrstu kvikmyndinni sinni árið 2002, "Big Fat Liar", þar sem hún lék á móti Frankie Muniz. Fyrsta aðalhlutverkið hennar var í kvikmyndinni "What a Girl Wants", árið 2003 þar sem hún lék Daphne Reynolds. Í myndinni lék hún á móti Colin Firth, Oliver James og Kelly Preston. Síðan lék hún í sjónvarpsþáttunum What I Like About You og talaði inn á og Robots. Hún lék síðan í þætti af "The Nightmare Room" sem Danielle Warner og í "Arliss" sem Crystal Dupree. Hún var á forsíðu Vanity Fair í júlí 2003 ásamt níu öðrum ungum Hollywood-leikkonum, m.a. Lindsay Lohan, Hilary Duff, Alexis Bledel, Raven-Symoné, Evan Rachel Wood, Mary-Kate og Ashley Olsen og Mandy Moore. Þrátt fyrir að hún sé oft borin saman við þær sagði Amanda: „Það er eins og að vera sæta stelpan í menntaskólapartýi. Ég var aldrei sú stelpa. Ég var með hrikalega mikið af unglingabólum og var óörugg með sjálfa mig. Ég var hávaxin og mjó. Mér fannst ég alls ekki vera falleg og strákum fannst ég ekki vera falleg. Það er ástæðan fyrir því að ég fór út í grínið.“ Hún sagði líka að það væru hennar tengsl við unglinga gætu stafað af því að hún „er líkari þeim en einhverjir aðrir frægir, eða eitthvað svoleiðis“. Árið 2006 lék Amanda í kvikmyndinni She's the Man, gamanmynd byggð á sögu Williams Shakespeare. Í myndinni dulbýst persóna Amöndu sem bróðir sinn til þess að geta spilað fótbolta með strákaliðinu þegar stelpaliðið er lagt niður. Framleiðendurnir vildu upphaflega að söngvarinn Jesse McCartney myndi leika bróður Amöndu þar sem þeir sáu eitthvað líkt með þeim í útliti en McCartney var upptekinn. James Kirk leikur bróðurinn í myndinni. Í kringum það þegar myndin var að koma út sagði Amanda að hún væri að byrja að leika í fullorðinslegri hlutverkum og henni finnst að hún sé ennþá að þróa leiklistarhæfileikana sína og að fullorðnast sem leikkona og sagði að hún yrði betri með hverju hlutverkinu. Bynes lék síðan í annarri rómantískri-gamanmynd, Lovewrecked sem var tekin upp á undan She's the Man en kom út á eftir henni. Hún lék síðan Penny Pingleton í Hairspray árið 2007 sem er kvikmynd gerð eftir vinsælum Broadway-söngleik. Síðan lék hún í annarri gamanmynd, Sydney White, og kom myndin út 21. september 2007. Myndin er byggð á sögunni um Mjallhvíti og dvergana sjö, þar sem Amanda leikur nema á fyrsta ári í háskóla og á erfitt með að passa inn í hópinn. Sara Paxton og Matt Long léku líka í myndinni. Árið 2008 lék hún í sjónvarpsmyndinni "Living Proof" sem nema-aðstoðamaður Harry Connick yngri, sem býr til Herceptin-lyfið fyrir konur með brjóstakrabbabein. Í apríl 2009 lék Bynes í 1. þætti af sjónvarpsþáttaröðinni "Canned", en þáttaröðinni tókst ekki að fara í loftið. Amanda átti að leika aðalhlutverkið í gamanmyndinni "Post Grad". Alexis Bledel kom í hennar stað. Í júní 2009 skrifaði Bynes undir tveggja kvikmyndasamning við Screen Gems. Önnur kvikmyndin á að vera unglina-gamanmynd, "Easy A", og leika Emma Stone og Lisa Kudrow líka í myndinni. Amanda endurtekur síðan hlutverk sitt sem Penny Pingleton í annarri myndinni af Hairspray. Ferill sem hönnuður. Árið 2007 skrifaði Amanda undir fimm ára samning við Steve & Barry's um að búa til nýja fatalínu. Nýja línan fór í búðir þann 16. ágúst 2007. Einkalíf. Bynes útskrifaðist úr menntaskólanum í Thousand Oaks í gegnum einstaklingsbundið nám (þó hún hafi gengið í La Reina menntaskólann í Thousand Oaks í einhvern tíma) og hefur sagt frá löngun sinni til þess að fara í New York-háskóla (NYU) í nálægri framtíð. Hún hefur flutt í íbúð í Hollywood í Kaliforníu en flutti seinna aftur heim til foreldra sinna. Amanda hefur áhuga á listmálun og tískuhönnun og hefur sagt að hún sé „stelpan sem á þá stærstu martröð að týna snyrtitöskunni sinni á ferðalagi“. Árið 2007 talaði hún á mót því að verða villt Hollywood-stjarna. „Ég held að ég fari eins mikið út og ég hef verið að gera... sem er ekki mikið. Mér finnst gaman að dansa og svoleðis en það er ekki gott fyirr þig að drekka, á allan hátt. Það er ekki gott fyrir húðina á þér; það lætur þér líða hræðilega. Svo að ég drekk ekki.“ Hún sagði þetta sumarið 2007 í sjónvarpsþætti og í mörgum viðtölum. Hún sagði Access Hollywood; „Mér finnst gaman að vera með fjölskyldunni minni og vinum og ég þarf ekki að fara á klúbba til þess að skemmta mér.“ Í viðtali í desember 2007 lýsti hún því hvað foreldrar hennar kenndu henni um alkóhól. Hún hefur einnig sagt að hún sé að endurmeta hvernig hún eigi að verja frítímanum sínum. Í janúarblaði "Cosmopolitan" árið 2009 sagði Amanda: „Ég er vön því að vera þekkt sem stelpan sem er á móti klúbbum. En ég er að finna jafnvægið á milli. Ég get drukkið [áfengi] og dansað ef mig langar til þess. Þú verður að fara út til þess að hitta fólk og stráka. Ég er á því skeiði að ég vil bara hafa gaman.“ Heimildir. Bynes, Amanda She's the Man. She's the Man er bandarísk rómantísk-gamanmynd frá árinu 2006 með Amöndu Bynes í aðalhlutverki. Myndinni er leikstýrt af Andy Fickman og er lauslega byggð á leikriti Williams Shakespeare, "Twelfth Night". Aðrir leikarar myndarinnar eru Channing Tatum og David Cross. Hún kom út 17. mars 2006 í Bandaríkjunum og Kanada; 6. apríl í Ástralíu og 7. apríl í Bretlandi. Söguþráður. Viola Hastings (Amanda Bynes) er menntaskólastelpa sem spilar fótbolta en kemst síðan að því að stelpnaliðið í skólanum hennar, Cornwall, hefur verið lagt niður. Eftir að hafa lagt til að fá að spila með strákunum, og verið neitað, finnur hún leið til þess að spila með erkifjendum Cornwall, Illyria. Tvíburabróðir Violu, Sebastian (James Kirk) sem líkist henni í útliti, á að fara í Illyria sem nýr nemandi. En hann vill frekar fara með hljómsveitinni sinni til London að spila þar. Sebastian biður Violu um að hylma yfir honum með því að hringja í skólann og segja að hann sé veikur og foreldrum þeirra (sem eru skildir) að hann sé hjá hinu foreldrinu. Viola ákveður í staðinn að þykjast vera Sebastian og ganga til liðs við strákaliðið í fótbolta í Illyria. Hún vonar að hún geti sigrað Cornwall og niðurlægt ástúðlegan en jafnframt kynþáttamismunarann og fyrrum kærastann, Justin (Robert Hoffman) sem hefur dregið úr henni kjark til þess að ganga í liðið. Með hjálp vina sinna, Paul (Jonathan Sadowski), Kiu (Amanda Crew) og Yvonne (Jessica Lucas), verður Viola fljótlega Sebastian. Í Illyria lendir Viola í herbergi með Duke Orsino (Channing Tatum), sætum strák sem er líka í fótboltaliðinu. Kia og Yvonne samþykkja að hjálpa Violu að búa sér til orðspor sem getur gert hana vinsæla og þykjast vera ástfangnar af Sebastian bróður hennar. Viola, í dulargervi, hættir líka með kærustu alvöru Sebastians, Monique (Alex Breckenridge), þar sem hún þolir hana ekki. Duke og vinir hans kaupa atriði Violu, Kiu og Yvonne og fer að líka vel við hana en hæfileikar Violu í fótboltanum eru ekki nógu góðir svo að hún komist í aðalliðið sem fær að keppa á móti Cornwall. Það lítur allt út fyrir það að Viola geti ekki keppt á móti Cornwall eftir allt saman. Eftir að hafa eytt miklum tíma með Duke, áttar Viola sig á því að hún er ástfangin af honum. En Duke er hrifinn af annarri stelpu, vísindafélaga Violu, Oliviu (Laura Ramsey). Í skiptum fyrir hjálp Violu til þess að fá Oliviu út með sér samþykkir Duke að hjálpa Violu að komast í aðalliðið. Aukaæfingarnar borga sig þegar Dinklage þjálfari (Vinnie Jones) færir hana upp í aðalliðið. Þann tíma sem Viola hefur verið í Illyria hefur hún ruglað alla með því að vera með túrtappa í töskunni sinni, fengið bolta í klofið og að hún finni ekki til, skyndileg kvenleg álit hennar og svo skyndilega breytast í karlmannlegri álit. Gold skólastjóri hefur einnig séð hana klóra sér undir hárkollunni og heldur að hún þjáist af hárlosi (e. male pattern baldness). Þegar hér er komið við sögu er Olivia orðin hrifin af „Sebastian“. Þar sem Sebastian er ekki hrifinn af henni, ákveður Olivia að fara út með Duke til þess að gera hann afbrýðissaman. Á meðan komast Monique og Malcolm Feste (James Snyder) (sem er hrifinn af Oliviu og er afbrýðissamur út í Violu sem Sebastian) að því að Viola er að leika Sebastian. Söguþráðurinn flækist þegar hinn raunverulegi Sebastian snýr aftur frá London, fyrr en áætlað var. Þegar hann kemur til Illyria, hleypur Olivia að honum og kyssir hann. Duke sér það og heldur að herbergisfélaginn hans hafi svikið hann. Hann fleygir Violu út úr herberginu. Daginn sem stóri leikurinn fer fram, koma Monique og Malcolm upp um Violu við Gold skólastjóra (David Cross). En vegna þess að Viola hefur sofið yfir sig, er hinn raunverulegi Sebastian settur á völlinn og spilar í þeirri stöðu sem systir hans á að vera í. Skólastjórinn stoppar leikinn, ákveðinn í því að komast að sannleikanum, en Sebastian sannar að hann sé raunverulega strákur með því að girða niður um sig. Í hálfleik útskýrir Viola stöðuna fyrir Sebastian og þau skipta um stöðu. Duke er ennþá mjög reiður út í „Sebastian“ og neitar að gefa Violu boltann. Hún reynir að útskýra fyrir honum að hún sé í rauninni stelpa, og sannar það fyrir Duke og öllum með því að sýna á sér brjóstin. Þjálfarinn ákveður að láta Violu halda áfram að spila og segir þjálfaranum frá Cornwall að í Illyria sé enginn kynjamismunun. Illyria vinnur leikinn í framlenginu þegar Viola skorar með því að plata fyrrum kærastann sinn, Justin. Allir í Illyria verða sáttir eftir sigurinn, nema Duke sem er sár út í Violu. Hún býður Duke á dansleik í sveitaklúbbnum sem mamma hennar er í með því að senda bróður sinn með pakka af osti (sem tengist því þegar hún lagði til að hann myndi tala um ost við Oliviu) og boðskort á ballið. Hún býður eftir honum í garðinum en ruglar saman Duke og manninum sem kveikir á úðurunum í garðinum, vegna skuggans. Duke endar á því að birtast fyrir aftan Violu. Síðan fara þau á ballið, þar sem þau eru kynnt saman á sviðinu og kyssast. Við lok myndarinnar sýnir það Violu og Duke að leika saman í fótboltaliðinu í Illyria. Melasól. Melasól (oft einnig nefnd draumsóley) (fræðiheiti: "Papaver radicatum") er plöntutegund af draumsóleyjaætt. Hún er heimskautajurt sem til dæmis finnst á Grænlensku eyjunni, Eyju kaffiklúbbsins (d. "Kaffeklubben Ø", gl. "Inuit Qeqertaat"), sem talin er nyrsta eyja heims, sem gerir Melasól, ásamt Vetrarblómi ("purple saxifrage") sem einnig finnst á eyjunni, þá jurt sem vex nyrst allra jurta. Algengust er hún á Nunavut svæði Kanada, einnig vex hún á Norður-Grænlandi og Svalbarða. Í Noregi og Svíþjóð finnst hún aðeins á litlum mjög norðlægum fjalla svæðum. Á Íslandi er hún algeng í melum norðvestanlands og á Austfjörðum. Lýsing. Hún hefur langa og gilda stólparót og ganga upp af henni einn eða fleiri 5-20 sentímetra langir stönglar sem bera skærgul, hvít og bleik blóm. Hvít og bleik litarafbrigði einnig til og eru alfriðuð. Blómgast í júní og júlí. Blöðin fjaðurskipt, grágræn og mynda stofnhvirfingu. Öll er jurtin er stinnhærð. Tegundin er allbreytileg og hefur verið skipt í undir- og deilitegundir. Tvö af nöfnum hennar eru kennd við vaxtarstað og blómið, "melasól" og "melasóley". Hún er einnig þekkt undir nöfnunum "draumsóley", "skaftleggjuð svefnurt", "svefngras" og "svefnurt". Sennilega eru þessi heiti af erlendum toga og benda til þess að jurtin hafi verið talin svæfandi væri hennar neytt. Nafnið "snjóblómstur" er þekkt úr einni heimild. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal segir jurtina vera lækningarjurt og hafa svæfandi kraft og að blóm sem legið hafa í sterku víni séu góð við brjóstveiki, hreinsi þykkt og gruggugt blóð. Einnig telur hann gott að leggja blómin við ennið og gagnaugun til að lækna höfuðverk. Á öðrum stað er aftur á móti sagt að melasólin sé eitruð og að ekki megi neyta hennar. Magnús berfættur. Magnús berfættur (1073 – 1103) var konungur Noregs á árunum 1093 – 1103. Hann var herskár konungur og hefur oft verið kallaður síðasti víkingakonungurinn. Magnús var launsonur Ólafs kyrra Noregskonungs. Móðir hans var Þóra Jónsdóttir, frilla Ólafs. Ólafur kyrri var friðsemdarmaður sem ríkt hafði í Noregi í 26 ár en Magnús virðist fremur hafa líkst Haraldi harðráða afa sínum. Hann var tvítugur þegar faðir hans dó og var þegar tekinn til konungs í Víkinni en Upplandahöfðinginn Steigar-Þórir, sem hafði fóstrað Hákon, son Magnúsar bróður Ólafs kyrra, lét taka hann til konungs í Upplöndum og fékk hann einnig tekinn til konungs í Þrændalögum með því að lofa Þrændum alls kyns réttarbótum og ívilnunum og hét að aflétta þeirri kvöð að gefa konungi jólagjafir. Því ríktu þeir Magnús og Hákon Þórisfóstri saman eitt ár og var ekki mjög friðvænlegt milli þeirra en þá veiktist og dó Hákon skyndilega og Magnús var einn konungur. Hann elti Þóri uppi og lét hengja hann en refsaði Þrændum grimmilega. Magnús sigldi svo suður á bóginn og rændi og ruplaði í Danmörku og Svíþjóð og vildi stækka ríki sitt en tókst með naumindum að sleppa undan Svíum á flótta. Friður var svo saminn á Konungahellu sumarið 1101 og var ákveðið að landamæri ríkjanna skyldu vera eins og þau höfðu áður verið. Magnús vann því engin lönd með herferðinni til Svíþjóðar en fékk hins vegar Margréti dóttur Inga Svíakonungs fyrir eiginkonu og var hún síðan kölluð friðkolla. Magnús fór í vesturvíking 1098-1099; fór fyrst til Orkneyja og tók Orkneyjajarla til fanga, hélt síðan til Suðureyja og síðan Manar og allt suður til Wales og herjaði og rændi. 1102 fór hann aftur af stað með mikinn her og hugðist styrkja ríki sitt á Bretlandseyjum og herja á Írlandi og fékk raunar Mýrkjartan (Muircheartach Ua Briain) Írakonung í lið með sér. Þeir unnu Dyflinni og mestalla austurströnd Írlands en þegar halda skyldi heim á leið fór Magnús á land með hluta liðs síns í könnunarferð. Þá komu Írar að þeim, ráku þá í sjálfheldu í mýrlendi og þar féll konungur. Magnús átti engin börn með Margréti drottningu sinni en með frillum átti hann synina Eystein, Sigurð Jórsalafara og Ólaf og dæturnar Ragnhildi og Þóru, konu Lofts Sæmundssonar frá Odda og móður Jóns Loftssonar. Konungahella. Konungahella. Myndskreyting við Sögu Magnúsar blinda og Haraldar gilla, útg. 1890. Konungahella var miðaldabær í Bohúsléni sem áður var hluti af Noregi, en hefur tilheyrt Svíþjóð frá árinu 1658. Á 12. öld var bærinn stundum aðalaðsetur Noregskonunga og helsta valdamiðstöð ríkisins. Konungahella var rétt vestan við þar sem nú er sænski bærinn Kungälv. Bærinn var áður rétt við suðurlandamæri Noregs og því hernaðarlega mikilvægur, auk þess sem þar var blómlegur verslunarstaður. Konungar Norðurlanda hittust þar oft þegar semja þurfti frið eða semja um hjúskap eða annað. Sigurður Jórsalafari reisti þar kastala og gerði bæinn að höfuðstað sínum. Vegur Konungahellu var mestur á fyrsta þriðjungi 12. aldar. Árið 1135 réðust Vindar á Konungahellu, brenndu kastalann og rændu bæinn, og segir Snorri Sturluson að Konungahella hafi aldrei náð að rétta almennilega úr kútnum eftir það og Björgvin tók við höfuðstaðarhlutverkinu. Bærinn var þó áfram mjög mikilvægur vegna legu sinnar, fram á 14. öld að minnta kosti. Jón Loftsson í Odda ólst upp í Konungahellu til ellefu ára aldurs. Úr bálki hrakfalla. "Úr bálki hrakfalla" (enska: "A Series of Unfortunate Events") er röð þrettán skáldsagna eftir bandaríska rithöfundinn Lemony Snicket (Daniel Handler). Bækurnar komu fyrst út í Bandaríkjunum á árabilinu 1999 - 2006. Fyrstu fjórar bækurnar hafa komið út í íslenskri þýðingu Snorra Hergils Kristjánssonar og Helgu Soffíu Einarsdóttur. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2000. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2000 var 45. skipti sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin, en hún var haldin í Globen í Stokkhólmur í Svíþjóðar frá 13. maí árið 2000. Niðurstöður. 2000 Tungumálaætt. Tungumálaætt eða bara málaætt á við hóp af tengdum tungumálum sem eiga upptök sín úr einu frummáli. Hægt er að einangra öll tungumál í ætt því þau skipta með sér sérstökum eiginleikum. Sum tungumál eru ekki í tungumálaætt, þessi mál eru talin að vera einangruð tungumál. Svínafell. Svínafell er bær í Öræfum (Öræfasveit), gamalt stórbýli og höfðingjasetur. Svínfellingar, ein helsta höfðingjaætt Sturlungaaldar, voru kenndir við Svínafell. Svínafell var í landnámi Þorgerðar, ekkju Ásbjörns Heyangur-Bjarnarsonar, sem dó í hafi á leið til Íslands, og sona þeirra. Einn þeirra hét Össur, sonur hans var Þórður freysgoði og hans sonur Flosi Þórðarson (Brennu-Flosi), sem bjó á Svínafelli um árið 1000. Afkomandi bróður Flosa, Sigmundur Þorgilsson goðorðsmaður á Svínafelli, sem dó í Rómarför 1118, var talinn með helstu höfðingjum landsins og voru Svínfellingar afkomendur hans. Síðastur þeirra var Ormur Ormsson á Svínafelli, sem fékk ásamt Hrafni Oddssyni forráð yfir öllu Íslandi 1270 en náði ekki að njóta þeirra því að hann drukknaði við Noregsstrendur sama ár. Árni Þorláksson biskup fæddist í Svínafelli 1237. Kirkja var á bænum til forna. Svínafell hefur verið í eigu og ábúð sömu ættar frá 1783. Þar er nú rekinn blandaður búskapur og ferðaþjónusta. Þar er sundlaug sem kallast Flosalaug og er hún kynt með hita frá sorpbrennsluofni sem gengur undir nafninu Brennu-Flosi. Mjög veðursælt er í Svínafelli eins og í Skaftafelli en sviptivindar geta verið mjög snarpir og hafa oft valdið tjóni. Hreyfingin. Hreyfingin eru íslensk stjórnmálasamtök sem stofnuð voru 18. september 2009 eftir klofning úr Borgarahreyfingunni. Borgarahreyfingin, hafði upprunalega fengið fjóra þingmenn eftir kosningar 2009 en var án þingmanns eftir þennan klofning. Mahāyāna. Mahajana (eða Mahayana) er orð úr sanskrít sem þýðir „farið mikla“, „stóri vagninn“ eða „hin mikli farkostur“ og er ein af tveimur aðalgreinum búddismans, en hin er Theravada. Hefðirnar tvær skildust að á fyrstu öld eftir Krist, en kenningarnar sem einkenna mahajana voru settar fram þegar á fjórðu öld f.Kr. Mahajana-hefðin heitir á sanskrít महायान mahāyāna", kínversku: 大乘, "Dàshèng"; japönsku: 大乗, "Daijō"; kóreönsku: 措铰, "Dae-seung"; víetnömsku: "Đại Thừa"; tíbetönsku: "theg-pa chen-po" og á mongólsku: "yeke kölgen". Mahajana er ekki ein samstæð kenning eða trúfélag heldur fremur samheiti yfir margar ólíkar hefðir og einkennist af fjölmörgum kenningum og heimspekilegum hugmyndum. Fyrir utan það safn kenninga Búdda sem nefnt er Tripitaka-textarnir hafa hinar ýmsu hefðir innan mahajana fjölmörg önnur helgirit og túlkanir sem eru allfrábrugðnar og sumar andstæðar sameiginlegum grundvallarritum búddismans Grundvallarkenningin sem aðskilur mahajana frá theravada-hefðinni er kenningin um "shunjata", „eðli tómleikans“. Shjunjata er túlkun á einni af grunnhugmyndum alls búddisma, kenningunni um "anatman" eða "anatta". Samkvæmt þessari kenningum er ekki til neitt eiginlegt „sjálf“ eða „sál“ sem sé sé kjarni einstaklingsins á mismunandi tilverustigum. Samkvæmt theravada-hefðinni ber að skilja anatman þannig að sjálfsmeðvitun og persónuleiki séu fjötrar og blekking. Þegar einstaklingurinn hefur losnað undan þessari blekkingu losnar hann undan hringrás endurfæðingar og dvelur í nirvana. Samkvæmt mahajana-hefðinni hafa hvorki lífverur né önnur fyrirbæri sjálfstæða tilveru en fá form og einkenni í samspili við önnur fyrirbæri. Shunjata er hinn hreini raunveruleiki allra hluta, fyrirbæra og lífvera án birtingarforms og einkenna. Fyrir mahayana-búddista er það miklu virðingarmeira og eftirsóknarverðara að gerast bodhisattva en verða arhat og ná nirvana sjálfur sem er kjarni Theravada-kenningarinnar. Bodhisattva er sá sem er upplýstur en kýs að fresta nirvana og í þess stað velur að aðstoða aðra í andlegri þróun. Hann rýfur því ekki samsara heldur áfram að vera í hringrás endurfæðingarinnar. Í viðbót við Tripitaka-textana nota mahayana-búddistar allmarga seinni tíma helgitexta, allflestir þeirra skráðir um ár 100 e.Kr. Mahayana-búddistar nota hugtök úr indverska tungumálinu sanskrít og helgirit þeirra, ásamt Tripitaka, eru upphaflega á því tungumáli. Þar að auki eru ýmsar greinar innan mahayana sem nota hugtök úr öðrum málum. Innan mahayana eru margar greinar sem hafa mjög mismunandi túlkun á ýmsum atriðum kenningarinnar og aðferðum að uppná uppljómun. Má þar nefna ýmsar vajrayana-greinar sem einkennast mjög af dulúð og leyndardómum, tíbetskan búddisma sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá vajrayana, "zen" (sem heitir "Tjan" á kínversku og "sön" á kóresku) sem einkum snýst um hugleiðslu, og grein hins "Hreina lands" sem treystir helst á aðstoð búddans Amitabha við að ná nirvana. Mahayana-greinar búddisma eru megintrú eða mikilvæg trúarbrögð í Japan, Kína, Kóreu, Mongólíu og Víetnam. Spýting. Spýting (eða það að spýta'") er það að þenja út (eða strengja) skinn eða roð og festa með trépinnum eða nöglum til þurrkunar. Eftir að skinn voru fituhreinsuð og þvegin voru þau spýtt til dæmis á húsgafl torfhúsa og venjulega þá hlið sem lengst bar við sólu. Ull var til dæmis rotuð af sauðskinnum en það "rota skinn" var haft um það þegar skinn var lagt í bleyti (efnalausn) til að losa hár af þeim. Skinnin voru síðan vandlega skafin og þvegin og þar eftir spýtt á vegg. Það að spýta skinn var gert til að auka endingu þeirra, en er allt annað og einfaldara verklag en sútun skinna. Nafnorðið spýting er næstum aldrei notað í íslensku, enda oftast talað um "að spýta skinn". Ekki má rugla spýtingu við það sem í nefnifalli er kallað "spýtingur" og var áður fyrr haft um pakka af vaðmáli. Fredric Lehne. Fredric Lehne (fæddur Fredric G. Lehne, 3. febrúar 1959) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Men in Black, Lost og Supernatural. Einkalíf. Lehne fæddist í Buffalo, New York. Lehne var meðlimur að "Salt City Playhouse (Salt City Center for the Performing Arts) ".. Lehne hefur komið fram í leikritum eftir Shakespeare, Moliere og Ibsen á Broadway. Lehne er giftur Sherley Naples og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Lehne var árið 1978 í "In the Beginning". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Dallas, "China Beach", "Matlock", NYPD Blue, ER, Chicago Hope, "The X Files", Cold Case, Criminal Minds, Bones, The Closer og. Árið 2004 þá var Lehne boðið gestahlutverk í Lost sem US Marshal Edward Mars sem hann lék með hléum til 2010. Lehne var með gestahlutverk í Supernatural sem Azazel sem hann lék frá 2006-2010. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Lehne var árið 1979 í "Being There". Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Dream Lover", Con Air, Men in Black og "Dynamite". Tenglar. Lehne,Fredric Nicki Lynn Aycox. Nicki Lynn Aycox (fædd 26. maí 1975) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Supernatural, Providence, Ed og Over There. Einkalíf. Aycox er fædd í Hennessey í Kingfisher County,Oklahoma. Getur talað þýsku, elskar breskt fólk og ástralska menn samkvæmt viðtali í "Jack" tímaritinu. Segist geta rekið ætt sína til frumbyggja N-Ameríku. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Aycox var árið 1996 í "Weird Science". Hefur hún síðan þá komið fram í þáttum á borð við "3rd Rock from the Sun", Ally McBeal, "The X Files" og Dark Angel. Árið 1999 þá var Aycox boðið gestahlutverk í Providence sem Lily Gallagher. Aycox lék í Ed sem Stella Vessey sem hún lék frá 2002-2004. Síðan árið 2005 þá var henni boðið hlutverk í Over There sem Brenda Mitchell. Frá 2006-2008, þá var Aycox með gestahlutverk í Supernatural sem Meg Masters. Aycox lék Christina Rush í Cold Case frá 2004-2010. Lék síðan eitt af aðalhlutverkunum í Dark Blue sem Jaimie Allen frá 2009-2010. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Aycox var árið 1997 í "Defying Gravity" og hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Dogwalker", "Rave Macbeth", "Jeepers Creepers II" og "Perfect Stranger". Tenglar. Aycox, Nicki Lynn Bítnikki. Bítnikkar voru bandarískir rithöfundar á 6. áratug 20. aldar, sem afneituðu viðteknum hegðunarreglum og gildismati samfélagsins, einkum efnishyggju og valdi vanans, og tömdu sér málfar, klæðaburð og lifnaðarhætti í samræmi við þá afneitun. Kansellíið. Kansellíið (danska "Kancelli" eða "Kancelliet") var stjórnarskrifstofa konungsríkisins Danmerkur og átti rætur að rekja til miðalda. Frá miðri 15. öld var það í Kaupmannahöfn sem miðstöð stjórnsýslu, lagt niður 1848. Danska kansellíið. "Danska kansellíið" var frá 1454 fram að stjórnarskrárbreytingunni 1848 stjórnarskrifstofa konungsríkisins Danmerkur og afgreiddi öll málefni ríkisins. Undir kansellíinu var sérstök deild, "rentukammer", sem sá um fjármál ríkisins. Málefni hertogadæmanna voru afgreidd í "þýska kansellíinu". Kansellíinu var lengst af stjórnað af "kanslara" og var sú skrifstofa sem tók við bréfum og erindum, og þar voru mál afgreidd og gengið frá bréfum og tilskipunum konungs. Þegar einveldi var komið á 1661, voru stjórnardeildir (kollegier) endurskipulagðar og verkaskiptingu breytt. Kansellíið fór þá með yfirstjórn dóms-, kirkju- og fræðslumála, en kirkjumál voru á árabilinu 1737–1791 lögð undir kirkjustjórnarráð. Forsetar kansellísins og annarra stjórnardeilda sátu í Leyndarráði konungs (gehejmekonseil), þar sem mikilvægustu mál hlutu afgreiðslu. "Danska kansellíið" var lagt niður með konunglegri tilskipun 24. mars 1848 og skipt í "forsætisráðuneyti", "innanríkisráðuneyti", "dómsmálaráðuneyti" og "kirkjumálaráðuneyti". Verkefni Rentukammersins gengu til "fjármálaráðuneytis". Stjórnarskrá Danmerkur ("Grundloven") var undirrituð af Friðrik 7. 5. júní 1849. Þá breyttist Danska ríkið formlega úr einveldi í þingbundna konungsstjórn. Málefni Íslands heyrðu undir Danska kansellíið, sem var alltaf kallað "Kansellíið". Voru þau talin hluti af málefnum Noregs þar til Noregur fór undan dönsku krúnunni 1814. Með auglýsingu konungs 24. nóvember 1848 var í fyrsta sinn stofnuð sérstök stjórnardeild fyrir íslensk mál, undir forstöðu Brynjólfs Péturssonar lögfræðings. Þýska kansellíið. "Þýska kansellíið" varð til 1523 og var í fyrstu í Gottorp-höll í Slésvík, en var síðar flutt til Kaupmannahafnar. Það hlaut þetta nafn af því að stjórnsýslumálið var þýska. Það var annars vegar sú stjórnardeild sem sá um utanríkismál, og hins vegar æðsta stjórn hertogadæmanna sem lutu dönsku krúnunni, en voru ekki hluti af konungsríkinu Danmörku. Um þann hluta kansellísins var venjulega notað nafnið: "Tyske Kancellis Indenrigske Afdeling". Árið 1770 voru utanríkismálin sett undir sérstaka stjórnardeild. Árið 1806 var nafni Þýska kansellísins breytt í "Slesvig-Holstenske Kancelli", og eftir að Láenborg varð danskt hertogadæmi, 1816, hét það "Slesvig-Holsten-Lauenborgske Kancelli". Við kerfisbreytinguna 1849 var þýska kansellíið lagt niður, og heyrðu málefni hertogadæmanna eftir það undir ráðuneytin fyrir Slésvík, Holtsetaland og Láenborg. Skjalasafn kansellísins. Árið 1928 afhenti Ríkisskjalasafn Danmerkur Þjóðskjalasafni Íslands meginhluta þeirra skjala kansellísins, sem snerta íslensk málefni. Eru þau varðveitt þar sem sérstök deild: "Kansellískjöl". Elstu gögn í skjalasafni kansellísins sem varða Ísland, eru frá 1514. Jim Beaver. James Norman „Jim“ Beaver, Jr. (fæddur 12. ágúst 1950) er bandarískur leikari, leikritahöfundur, handritshöfundur og kvikmyndafræðingur. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í Deadwood og Supernatural. Fjölskylda. Beaver fæddist í Laramie, Wyoming og er af frönskum og enskum uppruna (fjölskyldunafnið var upprunalega de Beauvoir)og móðir hans er af skosku-þýsku-Cherokee ætterni. Jim bjó öll æskuárin sín í Irving, jafnvel á meðan faðir hans predikaði í samfélögunum í kring. Þó að hann hafi komið fram í nokkrum grunnskóla leikritum, þá sýndi hann lítinn áhuga á leiklist, en hellti sér í kvikmyndasöguna og hafði áhuga á að vera rithöfundur, með útgáfu stuttra saga í menntaskólanum. Á meðan hann var í háskólanámi, giftist Beaver samnemanda, Debbie Young í ágúst 1973, sambandið brotnaði upp fjórum mánuðum seinna (þó að skilnaðurinn fór ekki í gegn fyrr en 1976). Í nokkur ár eftir að hann flutti til Kaliforníu, þá bjó hann með leikaranum Hank Worden, sem hefur verið vinur Jims síðan úr æsku. Árið 1989, eftir fjögra ára samaband, giftist Beaver leikonunni/leikarastjóranum Cecily Adams og saman áttu þau eina dóttur. Cecily dó úr lugnakrabbameini árið 2004. Æviágrip hans frá árinu 2003 um greiningu konu hans með lugnakrabbamein, "Life's That Way", var gefin út haustið 2007. Herþjónusta. Tveimur mánuðum eftir að hafa útskrifast úr menntaskóla, þá elti Beaver nokkra vini sína og skráði sig í landgögnuliðið. Eftir grunnþjálfun við Marine Corps Recruit Depot San Diego, þá var Beaver þjálfaður sem örbylgju talstöðvar tæknimaður. Hann gegndi herþjónustu í Marine Corps Air Ground Combat Center Twentynine Palms og í Marine Corps Base Camp Pendleton áður en hann var fluttur til 1st Marine Division nálægt Da Nang í Suður Víetnam árið 1970. Var hann talstöðvarmaður hjá 1st Marine Regiment og síðan sem foringi yfir samskiptadeildinni. Kom aftur til Bandaríkjanna árið 1971 og lauk herþjónustu sem undirliðsþjálfi og var aktívur í Marine Forces Reserve þangað til 1976. Nám. Eftir að hafa klárað herþjónustuna fluttist hann aftur til Irving, Texas, og vann stutt hjá Frito-Lay. Hann skráði sig í nám við Oklahoma Christian University, þar sem hann fékk áhuga á leiklist. Frumraun hans í leikhúsi var lítið hlutverk í The Miracle Worker. Árið eftir fluttist hann yfir í Central State University (núna þekktur sem University of Central Oklahoma). Lék hann í nokkrum leikritum í háskólanum og studdi sjálfan sig með því að keyra leigubíla, sem sýingarstjóri kvikmynda, viðgerðarmaður í tennis klúbbi og áhættumaður í skemmtigarði. Einnig vann hann sem fréttamaður og kynnir fyrir jass og klassíska tónlist á útvarpsstöðinni KCSC. Á meðan hann var í háskóla, þá byrjaði hann að skrifa og kláraði nokkur leikrit og gaf einnig út fyrstu bók sína um leikarann John Garfield, þó enn í námi. Beaver útskrifaðist með gráðu í Oral Communications árið 1975. Hann stoppaði stutt í framhaldsnámi áður en hann snéri aftur heim til Irving, Texas. Leikhús. Jim Beaver kom fyrst fram sem atvinnuleikari í október, 1972, þá enn sem stúdent í "Rain," eftir W. Somerset Maugham við Oklahoma Theatre Center í Oklahoma borg. Eftir að hafa snúið aftur til Texas, þá vann hann í nærlægjum leikhúsum í kringum Dallas, með því að styðja sjálfan sig sem kvikmyndahreinsir og sem sviðsmaður við ballettinn í Dallas. Fékk inngöngu inn í Shakespeare Festival of Dallas árið 1976, og lék í nokkrum uppfærslum. Árið 1979, þá var hann ráðinn af Actors Theatre of Louisville til þess að skrifa þrjú leikrit ("Spades," "Sidekick," og "Semper Fi"), og var tvisvar sinnum lokaþátttakandi í ríkiskeppninni Great American Play Contest (fyrir "Once Upon a Single Bound" og "Verdigris"). Ásamt því að skrifa leikrit, þá hélt hann áfram að skrifa fyrir kvikmyndatímarit og í nokkur þá var hann greinahöfundur, gagnrýnandi og aðal rithöfundur fyrir National Board of Review of Motion Pictures tímaritið "Films in Review". Árið 1979 fluttist hann til New York, þar sem hann vann stöðugt á leiksviði og á sýningarferðum, ásamt því að skrifa leikrit og rannsaka ævi leikarans George Reeves (verkefni sem hann vann að milli vinna). Hann kom fram í leikritum á borð við:"The Hasty Heart" og "The Rainmaker" í Birmingham, Alabama og "L'Alouette (The Lark)" í Manchester, New Hampshire. Ferðaðist Beaver síðan um landið sem Macduff í "Macbeth" og í "The Last Meeting of the Knights of the White Magnolia". Á þessum tíma þá skrifaði hann bókina "Movie Blockbusters" fyrir gagnrýnandann Steven Scheuer. Handritshöfundur. Árið 1983, fluttist hann til Los Angeles, til að halda áfram að rannsaka ævi George Reeves. Hann vann í ár sem kvikmynda skjalavörður fyrir the Variety Arts Center. Eftir upplestur á leikriti hans "Verdigris," var honum boðið inngöngu við Theatre West-félagið í Hollywood, þar sem hann heldur áfram sem leikari og leikritahöfundur. "Verdigris" var framleitt og fékk góðar móttökur og Beaver skráði sig hjá umboðsaðilanum Triad Artists. Byrjaði hann strax að skrifa sjónvarpsþætti fyrir ýmsar sjónvarpsseríur, á meðal annars "Alfred Hitchcock Presents" (fékk hann tilnefningu árið 1987 CableACE Award fyrir fyrsta sjónvarpshandrit sitt, þá þennan þátt), "Tour of Duty", og "Vietnam War Story". Verkfall höfunda árið 1988 (Writers Guild of America) breytti lausamennsku höfunda á markaðnum, og frami Beavers sem sjónvarps höfundur stoppaði. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Beavers var árið 1978 í sjónvarpsmyndinn "Desperado". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Matlock", "Paradise", "Nasty Boys", "Santa Barbara", "NYPD Blue", "The X Files", The West Wing, Big Love, The Unit, Criminal Minds og Psych. Árið 2004, var Beaver ráðinn til þess að leika í villtra vesta þættinum Deadwood sem Whitney Ellsworth, gullgrafari sem var oft lýstur sem „Gabby Hayes með Tourette sjúkdóminn“. Síðan tók hann að sér hlutverk fógetans Charlie Mills í míniseríunni Harper's Island. Beaver lék stórt gestahlutverk í Supernatural frá 2006-2012. Hefur síðan 2011 verið gestaleikari í Justified sem Shelby Barlow. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Beavers var árið 1977 í "Semi-Tough". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Warnings", "Defense Play", "Sister Act", "Bad Girls", "Magnolia", "Next" og "Dark and Stormy Night". Hélt áfram að rannsaka ævi Reeves og árið 2005 vann sem ráðgjafi fyrir myndina "Hollywoodland" um dauða George Reeves. Tenglar. Beaver, Jim Marcellus (d. 1460). Marcellus de Niveriis (d. 1460) var þýskur Fransiskusarmunkur og ævintýramaður sem var skipaður Skálholtsbiskup 15. apríl 1448 og hafði þann titil til dauðadags þótt aldrei kæmi hann til Íslands. Falsbréfasali og strokufangi. Ekkert er vitað um ætt og uppruna Marcellusar nema hvað hann er talinn fæddur í þorpinu Nivern an der Lahn, ekki langt frá Koblenz. Hann virðist hafa verið mjög vel menntaður en fyrst er vitað um hann þegar hann var handtekinn fyrir sölu falsaðra aflátsbréfa í Lübeck árið 1426 og flúði úr fangelsi þar. Næst fréttist af honum í þjónustu Henry Beauforts kardínála, sem var erindreki Marteins V. páfa í Þýskalandi. Þegar kom upp úr dúrnum að Marcellus var strokufangi var hann aftur settur í fangelsi í Köln, strauk en náðist aftur og var þá meðal annars leiddur allsnakinn um stræti og hæddur og jafnvel hengdur táknrænni hengingu. Í ágúst 1428 var hann dæmdur í ævilangt fangelsi. Hann var hafður í haldi í turni erkibiskupssetursins í Brühl suður af Köln við illan aðbúnað. Þaðan skrifaði hann yfirmönnum kirkjunnar bænarbréf sem varðveist hafa og urðu þau til þess að honum var sleppt úr haldi og fékk uppreisn æru, að sögn eftir að hafa læknað erkibiskupinn af hættulegum sjúkleika. Hann fékk svo prestsembætti í Neuss árið 1431. Hann sat þó ekki á friðarstóli þar og árið 1439 var hann bannfærður en virðist þó hafa setið sem fastast til 1442 og virðist hafa notið mikilla vinsælda sóknarbarna sinna. Hann settist þá að í Köln og bjó þar um tíma. Skálholtsbiskup og erkibiskupsefni. Árið 1447 varð Nikulás V. páfi og Marcellus flýtti sér til Rómar, kom sér í mjúkinn hjá honum og fékk hann til að skipa sig biskup í Skálholti. Hann virðist hafa dvalist lengi í Róm og komist þar í kynni við marga mektarmenn. Hann hélt svo til Danmerkur, þar sem Kristján 1. var nýtekinn við konungdómi, kynnti sig sem sérlegan sendimann páfa og var fljótur að koma sér í mjúkinn hjá hinum unga konungi. Hann fylgdi konungi til Noregs sumarið 1450 og krýndi hann konung Noregs í Niðarósdómkirkju. Honum tókst meira að segja að fá konung til að lýsa nýkjörinn erkibiskup ólöglega kosinn og útnefna Marcellus sem erkibiskupsefni. Fór svo Marcellus til Rómar að fá páfa til að staðfesta erkibiskupstignina en þá var páfi búinn að fá fréttir af afbrotaferli hans og var hann úthrópaður alræmdur skálkur. Hann flúði því frá Róm áður en hann yrði dæmdur og fór norður til Kölnar, þar sem hann fékkst meðal annars við lækningar og falsaði páfabréf sér til viðurværis. Hann var handtekinn haustið 1451 en tókst að flýja einu sinni enn. Vorið 1452 var Marcellus bannfærður af páfanum sjálfum, sem um leið sendi Kristjáni 1. boð um að veita honum ærlega ráðningu ef hann næði honum á sitt vald. Um leið skipaði hann virtan kennimann, Hinrik Kaldajárn, erkibiskup í Niðarósi, og er hann talinn merkasti klerkur sem það embætti hlaut á miðöldum. Eitt helsta hlutverkið sem páfi fól honum var að bæta úr þeim skaða sem Marcellus hafði valdið. Hann kom til Kaupmannahafnar og tókst að fá konungu til að samþykkja sig sem erkisbiskup í stað Marcellusar en þegar Hinrik var farinn norður til Niðaróss tókst Marcellusi fljótt að komast innundir hjá kóngi að nýju og leggja fram alls konar bréf sem sýndu að illa hafði verið farið með hann, en þau bréf voru raunar útbúin af Marcellusi sjálfum. Eftir mikíl átök og mikla pólitíska refskák og undirferli varð úr sumarið 1454 að Hinrik Kaldajárn sagði af sér og hélt suður til Rómarborgar en Marcellus varð þó ekki erkibiskup. Kanslari Danakonungs. Kristján 1. lét gera upptækar allar eignir sem Kölnarbúar áttu í danska ríkinu til að hefna fyrir illa meðferð þeirra á Marcellusi hirðmanni sínum. Úr þessu urðu langvinnar deilur sem lauk ekki fyrr en meira en áratug eftir dauða Marcellusar. Marcellus sat við hirð Danakonungs og var í miklum metum, hafði kanslaranafnbót, var ráðgjafi konungs, kirkjumálaráðherra og einn af áhrifamestu mönnum Danmerkur og raunar Norðurlanda allra. Á Íslandi var hins vegar lítið um hann vitað, enda kom hann aldrei til landsins og ekki verður þess vart að hann hafi skipt sér mikið af málefnum Íslands. Hann hirti tekjur af Skálholtsstól, var lénsherra af Vestmannaeyjum og hafði umboð til að selja Englendingum verslunarleyfi á Íslandi. Hann vann flesta íslenska höfðingja til fylgis við sig en þó er vitað að hann bannfærði Jón Pálsson Maríuskáld af einhverri ástæðu. Andrés Garðabiskup, líklega útnefndur af Marcellusi til biskupstignar í Görðum á Grænlandi þótt hann færi þangað aldrei, var umboðsmaður hans á Íslandi. Marcellus drukknaði af skipi undan strönd Svíþjóðar í ársbyrjun 1460. Eftirmaður hans var Jón Stefánsson Krabbe. Jón Stefánsson Krabbe. Jón Stefánsson Krabbe (d. 27. febrúar 1465) var danskur biskup í Skálholti frá 1462 og var síðastur í röð erlendra biskupa þar. Öfugt við fyrirrennara sinn, Marcellus, sem aldrei sást á Íslandi, kom Jón Krabbe til landsins, líklega þegar haustið 1462, og var um kyrrt til dauðadags. Hann hafði verið kanúki í Niðarósi og er hugsanlega sami maður og Johannes Krabbe sem var annar fulltrúi norsku kirkjunnar á kirkjuþingi í Basel 1437. „Eðalmaður nokkur,“ segir Jón Espólín í Árbókunum, og bætir við: „... við hans útkomu löguðust ýmsir hlutir, er aflaga höfðu farið, meðan enginn réttur biskup var“. Glærfrymi. Glærfrymi eru tengd netkorn í frymnisneti. Netið er mettað og heldur vatni. 2015. Árið 2015 (MMXV) verður í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á fimmtudegi. 2016. Árið 2016 (MMXVI) verður í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjar á föstudegi. Fyrirhugaðir atburðir. Ólympíuleikar verða haldnir í Rio de Janeiro, Brasilíu 2017. Árið 2017 (MMXVII) verður í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á sunnudegi. 2018. Árið 2018 (MMXVIII) verður í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á mánudegi. 2019. Árið 2019 (MMXIX) verður í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjar á þriðjudegi. 2020. Árið 2020 (MMXX) verður í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjar á miðvikudegi. ISO 3166-2. ISO 3166-2 er sá hluti ISO 3166 staðalsins sem skilgreinir kóða fyrir undirskiptingar (t.d. hérað eða fylki) alla landanna skilgreind í staðlinum ISO 3166-1. Undirskiptingar í ISO 3166-1. Eftirfarindi undirskiptingar í ISO 3166-2 hafa líka kóða í ISO 3166-1. Englar. Svæðið Angeln í Norður-Þýskalandi þaðan sem Englar komu. Englar voru þjóðflokkur sem bjó á svæðinu Angeln í Slésvík-Holtsetalandi í Norður-Þýskalandi. Eftir að Rómverjar yfirgáfu Bretland tóku Englar og nokkrir aðrir þjóðflokkar, svo sem Jótar og Saxar, sig upp og námu þar land. Að sögn Beda prests, voru þeir friðsamir í fyrstu en lögðu svo landið undir sig með hervaldi. Í Englandi stofnuðu Englar konungsríkin "Nord Angelnen" (Norðymbraland), "Ost Angelnen" (Austur-Anglía) og "Mittlere Angelnen" (Mersía). Nafnið „England“ er dregið að nafni þjóðflokksins. Normannar lögðu undir sig England árið 1066. Þeir kölluðu alla ættflokkana sem bjuggu þar Engilsaxa í höfuðið á Englum og Vestursöxum. Vestursaxar höfðu myndað öflugt ríki, konungsríkið England, á fyrri hluta 10. aldar. Svæðin Austur-Anglía og Norðymbraland (e. "Northumbria") eru enn í dag þekkt undir upprunalegum nöfnum sínum. Á víkingaöld náði Norðymbraland yfir mun stærra svæði en nú, þ.e. einnig yfir suðausturhluta Skotlands (allt til Edinborgar), og suður til árinnar Humber. Nafnið "Norðymbraland" merkir raunar „landið norðan Humbru“. Orðið "Englar" hefur verið til í nokkrum myndum, elst er latneska orðið "Anglii" sem kemur fyrir í ritinu "Germanía" eftir Tacitus. Reynistaðarbræður. Reynistaðarbræður voru tveir ungir bræður frá Reynistað í Skagafirði sem fórust ásamt þremur förunautum sínum á Kili í vetrarbyrjun 1780 og hafa örlög þeirra verið mönnum ráðgáta allar götur síðan. Fjárkaupaferð. Fjárkláðanum sem geisaði á Norðurlandi seint á 18. öld var útrýmt með niðurskurði á sýktum svæðum. Í Skagafirði var skorið niður 1778-1779, þar á meðal á Reynistað hjá Halldóri Vídalín klausturhaldara og Ragnheiði Einarsdóttur konu hans. Sumarið 1780 sendu hjónin ráðsmann sinn, Jón Austmann Þorvaldsson, sem sagður er hafa verið hreystimenni mikið, suður á land til að kaupa nýjan fjárstofn og með honum Bjarna son sinn. Síðar um sumarið sendu þau Sigurð Þorsteinsson á Daufá, landseta sinn, einnig suður til að aðstoða við reksturinn og með honum Einar son sinn, sem var 11-12 ára. Ekki er vitað fyrir víst hve gamall Bjarni var, það kemur ekki fram í neinni samtímaheimild. Jón Espólín segir löngu seinna að hann hafi verið um tvítugt og í síðari tíma frásögnum er hann yfirleitt sagður 19 ára en Hannes Pétursson skáld hefur leitt að því góð rök að hann hafi verið 14 ára og styðst meðal annars við dagbókarfærslu Nikulásar Magnússonar á Halldórsstöðum, systursonar Reynistaðarbræðra, sem skrifuð var þegar bein þeirra voru jarðsett. Feigðarferð. Fimmti maðurinn slóst í för með þeim syðra, Guðmundur Daðason úr Mýrdal. Þeir félagar keyptu tæplega 200 kindur, aðallega í Skaftafellssýslu, og voru líka með 16 hesta í för. Þeir urðu seinir fyrir um haustið og lögðu ekki á fjöllin fyrr en um mánaðamótin október-nóvember. Þá var allra veðra von og kom jafnvel til tals að drengirnir yrðu eftir syðra og Bjarni settist í Skálholtsskóla um veturinn. Þó varð ekki af því. Ferðalangarnir komust með reksturinn upp á Kjalveg og allt norður fyrir Kjalfell. Þar tjölduðu þeir við hraunborg sem síðan hefur verið kölluð Beinahóll eða Líkaborg og eftir það veit enginn hvað gerðist. Sögur segja að norðanstórhríð hafi brostið á og staðið dögum saman og þeir félagar þá dáið úr vosbúð en ýmsar aðrar kenningar hafa verið settar fram, meðal annars sú að a.m.k. bræðurnir hafi kafnað af loftleysi í þéttu vaðmálstjaldinu þegar snjór hlóðst að því. Það var komið fram á jólaföstu þegar Reynistaðarhjón sendu menn suður að spyrjast fyrir um ferðir þeirra og var annar þeirra Björn Illugason vinnumaður á Reynistað. Þegar sendimennirnir komu aftur með þær fregnir að Reynistaðarmenn hefðu lagt á fjöll meira en mánuði fyrr var ljóst hvað orðið var. Líkfundir - með 65 ára millibili. Tjaldið fannst um vorið og dauðir hestar og kindur allt í kring en í tjaldinu voru aðeins tvö lík. Þeir sem fyrstir fundu tjaldið töldu sig raunar hafa séð þrjú eða fjögur lík en höfðu ekki aðgætt það betur, enda tjaldið fallið, líkin tekin að rotna og mikill fnykur í tjaldinu. Þeir sem komu næstir á eftir að tjaldinu, Björn Illugason, Jón Egilsson bóndi á Reykjum og Sigurður sonur hans, töldu sig aðeins hafa séð tvö lík og þegar sendimenn Reynistaðahjóna komu að sækja líkin fundust lík bræðranna og Jóns Austmanns hvergi þrátt fyrir mikla leit. Líklegt er talið að Jón Austmann hafi freistað þess að komast til byggða eftir hjálp en af honum fannst aldrei tangur né tetur þótt þjóðsögur segi raunar að hönd hafi fundist í Blöndugili sem talin var af honum. Bein bræðranna – eða bein sem talin eru vera þeirra – fundust 65 árum seinna, dysjuð undir steinahrúgu skammt frá Kjalvegi en þó býsna langt frá Beinahóli. Voru þau flutt að Reynistað og jarðsett þar 11. nóvember 1846 að viðstöddum fáeinum ættingjum. Líkránsmálið. Miklar sögur fóru fljótt á kreik í Skagafirði og víðar um að einhverjir hefðu komið að tjaldinu um sumarið áður en líkin voru sótt, rænt þau og falið lík bræðranna. Þó bendir fátt til þess að þeir hafi haft margt fémætt með sér og vandséð í hvaða tilgangi menn hefðu átt að drösla rotnuðum líkum með sér langar leiðir til að urða þau. En af þessu urðu málaferli gegn þeim Birni Illugasyni, Jóni á Reykjum og Sigurði, sem stóðu árum saman og lauk þeim þannig að sakborningunum var dæmdur synjunareiður í héraði, sem var svo staðfestur á Alþingi, með þeim orðum að ekki nokkurs staðar finndust bevís fyrir því að sakborningarnir voru sekir. Aldrei var gengið eftir synjunareiðunum. Þjóðsögur og hjátrú. Fáir atburðir í Íslandssögunni hafa orðið tilefni fleiri þjóðsagna en örlög Reynistaðarbræðra. Alls konar sögur fóru af stað tengdar þeim, hvarfi þeirra, förunautum þeirra og þeim sem áttu að hafa komið að þeim og falið líkin. Sögnin um „bölvun Reynistaðarbræðra“ er líka alþekkt en það er sú hjátrú sem verið hefur uppi hjá sumum afkomendum systkina þeirra bræðranna að engan dreng af ættinni megi nefna Bjarna og enginn – eða að minnsta kosti enginn karlmaður – megi klæðast grænu eða ríða bleikum hesti. Hjá sumum af ættinni mun þessi trú vera mjög sterk enn í dag en aðrir jafnskyldir hafa aldrei tekið mark á henni, ganga grænklæddir frá hvirfli til ilja ef þeim sýnist svo og virðist ekki verða þeim að meini. Saga Englands. Saga Englands hefst með komu manna fyrir nokkrum þúsundum ára síðan. Neanderdalsmenn náðu því svæði sem nú er kallað England, innan Bretlands, fyrir 230.000 árum síðan. Þar hófst látlaus mannabúseta fyrir 12.000 árum síðan, undir lok síðustu ísaldar. Á svæðinu eru fjölmargar leifar frá miðsteinöld, nýsteinöld og bronsöld, eins og Stonehenge og Avebury. Á járnöld bjuggu þeir Keltar sem kallaðir eru Fornbretar í Englandi, eins og í öllum hlutum Stóra-Bretlands suðan við Firth of Forth í Skotlandi. En þar bjuggu líka nokkrir ættflokkar frá Gallíu. Árið 43 e.Kr. hófust landvinningar Rómverja á Bretlandi og héldu Rómverjar stjórn héraðsins Brittaníu fram á 5. öld. Fráhvarf Rómverja úr landinu gerði innrás Engilsaxa mögulega og er hún oft talin vera uppruni landsins England og Englendinga. Engilsaxar voru hópur ýmissa Germana sem stofnuðu nokkur konungsríki sem urðu mikilvæg veldi á svæðinu þar sem nú eru England og suðurhlutar Skotlands. Tungumál þeirra var fornenska, en hún útrýmdi fyrra tungumáli Keltanna, bresku. Engilsaxar börðust við ríki í Wales, Cornwall og "Hen Ogledd" („gamla norðrið“, þeir landshlutar í Norður-Englandi og Skotlandi þar sem töluð voru brýþonsk tungumál) og börðust einnig sín á milli. Víkingar gerðu margar árásir á Englandi eftir árið 800 e.Kr. og fornnorrænir menn tóku stjórn á stórum hluta þessa svæðis. Á þessu tímabili reyndu nokkrir stjórnendur að sameina ýmis engilsaxnesku konungsríkjanna. Það varð til þess að konungsríkið England myndaðist fyrir 10. öldina. Árið 1066 sigruðu og unnu Normannar land á Englandi. Það voru mörg borgarastríð og orrustur við önnur lönd á miðöldum. Á endurreisninni var England undir stjórn Túdor-ættarinnar. England sigraði Wales á 12. öldinni og þá sameinuðust England og Skotlandi á 18. öldinni og mynduðu konungsríkið Stóra-Bretland. Á eftir Iðnbyltinguna stjórnaði Bretland stóru heimsveldi um allan heim, sem var það stærsta í heimi. Mörg lönd í heimsveildinu urðu sjálfstæð undan Bretlandi á 20. öldinni en það hafði mikil áhrif á menningu þeirra og leyfir enn áhrifunum. Forsögulegt. Suðurhluti þess sem varð Brittanía var fyrsti hluti landsins sem menn bjuggu í, vegna loftslags svæðisins á síðustu ísöld. Rómverska Bretland (Brittanía). Júlíus Caesar gerði innrás í suðurhluta Bretlands árin 55 og 54 f.Kr. og skrifaði um það í ritinu "Gallastríðið" að mannfjöldi Suður-Brittaníu var stór og líkur mannfjölda Niðurlandanna, sem talaði frumgermanskt tungumál. Málmpeningar hafa verið fundnir sem á eru letruð nöfn sumra leiðtoganna af gjörólíkum ættflokkum sem bjuggu á því svæði sem var Brittania. Fram að landvinningum Rómverja á Bretlandi var fjöldi íbúanna tiltölulega stöðugur og fyrir fyrstu innrás Júlíusar Caesars talaði mannfjöldi þess svæðis sem var Vestur-Bretland keltneskt mál sem talið var vera forveri breskra tungumálanna. Eftir fráhvarf Júlíusar Caesars lenti Bretland aftur í stjórn Forn-Bretanna. Rómverjar byrjuðu að vinna land á Bretlandi á ný árið 43 e.Kr. undir stjórn Claudíusar keisara. Þeir innlimuðu allt það svæði sem er nú Wales og England á næstu fjörutíu árum og smám saman tóku þeir stjórn mikils hluta af Skotlandi. Bretland eftir Rómverja. Stjórn Rómverja á Bretlandi brotnaði niður um árið 410 og Germanir settust að í Englandi. Saman voru þeir þekktir sem Engilsaxar og á meðal þeirra voru Jótar frá Jótlandi, margir Saxar frá norðvesturhluta Þýskalands og Englar frá því sem er núna Angeln í Slésvík-Holtsetalandi. Fyrir þessi landnám gerðu nokkrir Frísar innrás í Bretlandi um árið 250. Engilsaxar byrjuðu að gera innrás á Bretlandi á miðri 5. öldinni og héldu áfram að gera gera innrásir í nokkrar aldir. Jótar voru aðalhópur landnámsmanna í Kent, á Wighteyju og þeim hlutum Hampshire nálægt ströndinni. Saxar voru ríkjandi á öllum öðrum svæðum sunnan við Thames-ána og í Essex og Middlesex. Englar voru aðallega í Norfolk, Suffolk og Miðhéruðum í norðri. Mannfjöldi Bretlands minnkaði mjög eftir Rómverjatímabilið. Minnkun virðist hafa orsakast af plágu og bólusótt. Vitað er að plága Justinianusar hafi borist á svæðið um Miðjarðarhafið á 6. öldinni og kom til Bretlands í fyrstu árið 544 eða 545 þegar hún var komin til Írlands. Annálar "Annales Cambriae" töluðu um dauða Maelgwn Gwynedd konungs vegna þessarar plágu árið 547. Engilsaxneskir landvinningar og stofnun Englands. Konungsríki og ættflokkar í Bretlandi um árið 600 e.Kr. Um árið 495 í orrustinni við Mons Badonicus sigruðu Fornbretarnir Engilsaxana, sem hindraði engilsaxneska framrás í vestur í nokkra áratugi. Til eru sönnunargögn frá engilsaxneskum kirkjugörðum um fráhvarf nokkurra byggða þeirra og að frumbyggjar stóðust innrásarmenn um árið 500. Útþensla engilsaxneska svæðisins hélt afrám á 6. öldinni. Í orrustunni við Deorham sem háð var árið 577 sigruðu Vestursaxar og olli það töku borganna Cirencester, Gloucester og Bath. Það gerði Engilsöxum kleift að fara fram í Bristolsundið og þá klauf það Forn-Breta í West Country frá þeim í Wales. Sigur í orrustunni við Chester um árið 616 var svipaður og klauf Wales frá Forn-Bretum sem bjuggu í Cumbria. Smám saman fóru Saxar fram í West Country á sjöundu, áttundu og níundu öldunum. Fyrir miðja sjöttu öldina höfðu Englar neytt Breta að svæðinu sem er nú Wales í vestri. Sjökonungaríkið og kristnitaka. Kristnitaka hófst á Stóra-Bretlandi um það bil árið 600 e.Kr., keltneska kristnitakan í norðaustri og Rómversk-kaþólska kirkjan í suðaustri voru báðar áhrifamiklar. Ágústín, fyrsti erkibiskup af Kantaraborg, tók við embætti árið 597. Árið 601 skírði hann fyrsta kristna engilsaxneska konunginn Aðalbjart af Kent. Síðasti heiðinn engilsaxneskur konungurinn Penda af Mersíu dó árið 655. Síðasti heiðni jóski konungurinn, Arwald af Wighteyjunni, var drepinn árið 686. Engilsaxneska trúboðið byrjaði á meginlandi Evrópu á 8. öldinni sem olli kristnitöku Frankaríkisins fyrir árið 800. Víkingainnrásin. Samkvæmt Annál Engilsaxa var fyrsta skráð árás Víkinganna árið 793 í munkaklaustri á eyjunni Lindisfarne. Hins vegar voru Víkingar búnir að setjast að á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum og er mögulegt að það hafi verið margar aðrar óskráðar árásir á undan árásinni á Lindisfarne. Samkvæmt heimildum var gerð árás á Jónu í Suðureyjum árið 794. Koma Víkinganna truflaði þjóðfélag og stjórnmál á Bretlandi. Danaárásirnar stöfuðu af sigri Alfreðar mikla í Edington árið 878. En á þeim tíma hafði Norðhumbría leyst upp, Mersía skipist í tvennt og Austur-Anglía var ekki lengur til. Víkingar gerðu sömuleiðis árásir í norðri og voru ástæða þess að konungsríkið Alba var myndað, sem síðar varð Skotland. Landnám Norðmanna og Dana hafði mikil áhrif á ensku. Mörg grundvallarorð í nútímalegri ensku eru komin af fornnorrænu en mörg hundruð orð sem eru notuð oftast eru komin af fornensku. Einnig eru mörg staðarnöfn á svæðum þar sem Víkingar settust að upprunalega úr fornnorrænu. Svæðin sem voru undir stjórn Dana er talin vera Danalög. Sameining Englands. Árið 899 dó Alfreð mikli og svo kom Játvarður eldri, sonur hans, til ríkis. Játvarður og Aðalráður af Mersíu byrjuðu að byggja virki og bæi eftir stíl Alfreðar. Þegar Aðalráður dó tók konan sín hásæti og héltu áfram að byggja. Við dauða Játvarðar tók Aðalsteinn af Mersíu hásæti. Aðalsteinn héltu áfram að byggja og stækka konungsríkið og varð fyrsti konungur yfir landið sem nú heitir England. England undir stjórn Dana og landvinningar Normanna. Norðurmenn gerðu innrás aftur í England á 10. öld. Stjórn Aðalráðar ráðlausa stóð löngu yfir en loksins missti hann af konungsríkinu sínu þegar Sveinn tjúguskegg réðst svo inn í England. Þegar Sveinn dó fékk Aðalráður konungsríkið sitt aftur. Upp frá þessum tíma dó Játmundur járnsíða, sonur Aðalráðar, sem gerði Knúti ríka, syni Sveins, kleift að verða Englandskonungur. Undir stjórn hans varð konungsríkið stjórnarmiðstöð yfir heimsveldi sem innihélt bæði Danmörk og Noreg. Synir Knúts tóku hásætið eftir að hann dó, en árið 1042 varð Játvarður góði konungur, sem var innfæddur Englendingur. Játvarður átti engann son, þess vegna voru mikil átök yfir erfðaröðina þegar hann dó árið 1066. Guðini jarl af Wessex, eftirmenn Knúts og Normannar allir reyndu að taka hásæti. Loks varð Haraldur Guðinason konungur, talið er að Játvarður góði hefði boðið honum sætið á dánarbeði. Vilhjálmur bastarður, Haraldur harðráði og Sveinn Ástríðarson allir kröfðust hásætisins. Játgeir Ætheling var með þá bestu kröfu, en hann var of ungur og ekki víða vinsæll. Stjórn hans stóð yfir í nokkra daga. Í september 1066 lenti Haraldur harðráði í Norður-England með 15.000 menn og 300 langskip (í hverju skipi voru 50 menn). Með hann var Tostig Guðinason, sem bauð honum stuðning. Haraldur Guðinason sigraði Harald harðráða og Tostig í orrustunni við Stafnfurðubryggju. Þann 28. september 1066 gerði Vilhjálmur bastarður innrás í England sem þekkt er sem landvinningar Normanna á Englandi. Þann 14. október barðist Haraldur harðráði við hann í orrustunni við Hastings, eftir að ganga frá Yorkshire með hernum sínum. Haraldur var drepinn á orrustuvelli og jóladaginn 1066 varð Vilhjálmur Englandskonungur. Normannska England. Við normannska landvinninga breytist átt sögu Englands mikið. Vilhjálmur skipaði að Dómsdagsbókin væri skrifuð, skrá yfir landið og eigir mannfjöldans, svo að hann gæti lagt skatt á fólkið. Sökum hennar er hægt að sjá að megnið af landi varð í eigu Normanna í bara tuttugu ár á eftir innrásina. Þeir einokuðu allar stöðurnar hjá ríkísstjórninni og kirkjunni. Vilhjálmur og mennirnir sínir töluðu normannska frönsku í þingi bæði í Englandi og Normandí. Notkun þessa tungumáls stóð yfir í nokkrar aldir og hafði mikil áhrif á þróun nútímaensku. Á miðöldum voru mörg borgarastríð, stríð við önnur lönd og uppreisnir. England var algerlega sjálfbært og það framleiddi sjálft korn, mjólkurafurðir, nautakjöt og lambakjöt. Hagkerfið var byggt á ullarverslun; ull frá Norður-Englandi var flutt út til borga í Flæmingjalandi, þar sem hún var unnin að fataefni. Textíliðnaður varð vel grunninn í Englandi fyrir 15. öldina. Hinrik 1., fjórði sonur Vilhjálmar bastarðs, erfði hásætið eftir bróður sinn, Vilhjálm 2., árið 1100. Hinrik var líka þekktur sem „Henry Beauclerc“ vegna góðrar menntunar sinnar. Hann vann mikið að því að bæta samskipti milli Engilsaxa og Engilnormanna. Þegar Vilhjálmur Adelin sonur hans dó árið 1120 ónýttist það verk hans þó að ýmsu leyti og erfðadeilur vörpuðu dökkum skugga á sögu Englands næstu áratugi. Pieter de Hooch. "Bakgarðurinn" málað í Delft 1658. Pieter de Hooch (20. desember 1629 – 24. mars 1684) var hollenskur listmálari. Hann fæddist í Rotterdam en lærði myndlist hjá Nicolaes Berchem í Haarlem. Hann flutti til Delft þar sem hann varð hluti af Delftskólanum eins og Johannes Vermeer og lærði meðal annars af Carel Fabritius og Nicolaes Maes. Líkt og þeir fékkst hann aðallega við myndir úr hversdagslífi, kráarsenur og myndir af hermönnum, en eftir að hann giftist Jannetje van der Burch árið 1654 tóku myndir hans fremur að snúast um heimilið og fjölskyldulífið. Hann varð félagi í Lúkasargildi 1655 og flutti til Amsterdam 1661. Eftir 1670 urðu myndir hans dekkri og íburðarmeiri og sýndu hefðarfólk og hallir. Sumir telja að gæðum mynda hans hafi hrakað á þessum tíma vegna veikinda hans. Hann lést á geðveikrahæli við Kloveniersburgwal í Amsterdam. Eþíópíukeisari. Eþíópíukeisari (ge'ez: ንጉሠ ነገሥት, „konungur konunganna“) var arfgengur titill þjóðhöfðingja Eþíópíu frá miðöldum þar til keisaradæmið var lagt niður 1974. Titillinn „konungur konunganna“ var notaður af einstaka ráðamönnum frá fyrri tíð en fyrst með reglubundnum hætti af Jekúnó Amlak, sem kom Salómonsættinni til valda árið 1262. Titillinn fól í sér að undirmenn hans, sérstaklega landstjórarnir í Gojjam, Welega og Shewa, fengu titilinn negus, eða konungur. Titill eiginkvenna keisarans var "ətege" og keisaraynjan Zauditu (1876-1930) notaði þann titil fremur en "nəgusä nägäst" meðan hún ríkti yfir landinu. Meishō. Meishō keisaraynja (japanska: 明正天皇 "Meishō-tennō"; 9. janúar, 1624 – 4. desember, 1696) var keisaraynja í Japan og 109. Japanskeisarinn samkvæmt hefðbundinni röð. Hún var sjöunda konan sem settist í hásæti Japans. Hún tók við af föður sínum, Mizunoo öðrum og ríkti frá 1629 til 1643. Talið er að faðir hennar hafi í raun ríkt í hennar nafni. Hún sagði af sér embætti og hálfbróðir hennar, Kōmyō annar, tók við. Botníska verslunarbannið. Frá Gävle á austurströnd Svíþjóðar sem myndaði suðurmörk botníska verslunarbannsins ásamt Åbo á vesturströndinni. Botníska verslunarbannið (sænska: "bottniska handelstvånget") var lykilþáttur í innanríkispólitík Svíþjóðar á stórveldistímanum. Þegar bannið var í gildi var öllum kaupstöðum á Norrlandi og Finnlandi bannað að senda skip sunnar en til Stokkhólms og Åbo og bannað að versla við erlend skip. Í reynd þýddi þetta algjört bann við beinum samskiptum við útlönd. Bannið kemur fyrst fyrir í staðarlögum Magnúsar Eiríkssonar smek 1357 en misvel gekk að tryggja að það væri virt. Með verslunartilskipunum 1614, 1617 og 1636 var það fest í sessi. Það var í reynd lagt niður í valdatíð Karls 11. 1672-1696 en það ár var því aftur komið á. Verslunarbannið var oft tilefni deilna þar til það var endanlega lagt niður árið 1766. Rúghússamsærið. Rúghússamsærið var samsæri sem snerist um að myrða Karl 2. Englandskonung og Jakob bróður hans (og ríkisarfa) árið 1683. Ætlunin var að ráðast á bræðurna þegar þeir riðu framhjá Rúghúsinu, sveitasetri þekkts lýðveldissinna, Anthony Ashley Cooper, jarls af Shaftesbury. Þá stóð til að konungurinn og bróðir hans yrðu á heimleið frá veðreiðum í Newmarket 1. apríl en 22. mars kom upp mikill eldsvoði í Newmarket þannig að aldrei varð neitt úr árásinni. Fréttir af samsærinu láku samt út og konungur nýtti sér það til að handtaka marga leiðtoga „sveitaflokksins“ (sem síðar urðu Viggarnir) og taka suma þeirra af lífi. Ä. Ä og ä er tuttugasti og áttundi bókstafurinn í finnsk-sænska stafrófinu. Ä er einnig notað í þýsku, finnsku, eistnesku og slóvakísku en er þó ekki talið eiginlegur bókstafur í þýsku. Framburður. Ä er borið ætíð fram sem [æ] í finnsku; í sænsku og eistnesku er það ýmist [æ] og [ɛ], til dæmis í sænsku orðunum "här" [hæ:r] og "väg" [vɛ:g]. Framburður á bókstafnum ä samsvarar framburðinum á æ í dönsku og norsku. Saga. Bókstafurinn Ä á uppruna í því að iðulega var skeytt saman A og E (sjá einnig Æ) í einn bókstaf til þess að spara pláss í latneskum miðaldahandritum. Þar sem skrifa átti "ae" var "e"-ið sett ofan á "a"-ið. Þetta var síðan einfaldað með því að setja tvo punkta í stað e-sins. Í sænsku (hvorki finnska né eistneska voru þá orðin ritmál) var bókstafurinn æ mun algengari en ä allt fram á 16. öld en fór síðan að snúast við undir þýskum áhrifum. Rajastaní. Rajastaní eru nokkur indó-arísk mál. Helst þeirra er marvarí. Þau eru töluð í Rajastan-fylki á Vestur-Indlandi en einnig í Pakistan. Hindí er þó opinbert mál Rajastan-fylkis. Þau eru töluð af um 25 milljónum manna. Indóarísk tungumál. Indóarísk tungumál tilheyra indó-írönsku grein indó-evrópsku túngumálaættarinnar. Þau eru um fimm hundruð og eru töluð af 700 milljónum á norður og miðhluta Indlands. Kasmíríska. Kasmíríska er dardískt mál talað af 3 milljónum. Það er ritað með arabísku letri af múslimum en sarada stafrófi af öðrum. Sarada stafrófið er skylt devanagarí-stafrófinu. Aseníska. Aseníska er malasískt mál talað af 3 milljónum. Það er skrifað með latínuletri. Talað af Asenum sem búa í Asen-fylki nyrst á Súmötru. Elamíska. Elamíska er útdautt stakmál. Það var talað af Elamítum sem bjuggu í Elam sem nú heitir Kúsisdan í suðvesturhluta Írans. Þess er getið í Bilbíunni. Elamítar notuðu myndletur fyrir 5 þúsund árum en tóku fljótlega upp fleygrúnaletur. Dardísk tungumál. Dardísk tungumál eru grein indóarískra mála töluð í Pakistan, Austur-Afganistan og í nokkrum hlutum Indlands. Nokkur tungumál í ættinni eru nangalamí, kalamí, kovarí og kasmíríska. Taílenska. Tælenska (ภาษาไทย "Phasa Thai") er þjóðlegt og opinbert tungumál Tælands og móðurmál Tælendinga. Hún er töluð af um 65 milljónir manna. Tælenska er skrifuð með tælensku letri. Tælenska er beygingarlaust mál, engar beygingarendingar sýna tölu, föll, kyn eða tíðir. Guðmundur Guðmundsson í Bjarnastaðahlíð. Skírnarfonturinn í Hóladómkirkju, þekktasta verk Guðmundar. Guðmundur Guðmundsson í Bjarnastaðahlíð (um 1618 – um 1700) var íslenskur útskurðarmeistari og smiður á 17. öld, oft kallaður Guðmundur snikkari eða Guðmundur bíldur (bíldskeri). Hann er helsti fulltrúi barokkstílsins meðal íslenskra listamanna og áhrifamikill maður í íslenskum tréskurði á sínum tíma. Guðmundur var sonur Guðmundar Guðmundssonar bónda og lögréttumanns í Bæ í Bæjarsveit og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Faðir hans drukknaði undan Seltjarnarnesi árið 1618 frá konu sinni og tíu ungum börnum. Þrátt fyrir það komust flestir bræður Guðmundar til mennta og sjálfur fór hann til Kaupmannahafnar og lærði þar bíldskurð. Þar komst hann í kynni við barokkstílinn og flutti hann með sér heim, einkum það afbrigði hans sem kallað er brjóskbarokkstíll. Guðmundur var talinn mesti hagleiksmaður sins tíma. Hann vann við smíðar og myndskurð víða um land. Mesta verk hans var Skálholtskirkja (Brynjólfskirkja) en hann var yfirsmiður hennar að hluta. Kirkjan var reist um 1650 en var rifin 200 árum síðar. Allmörg verk Guðmundar hafa varðveist. Þekktastur er skírnarfonturinn í Hóladómkirkju, sem ber ártalið 1674 og er merktur Guðmundi. Skírnarfontinn, sem er skorinn úr grænlensku klébergi, gerði hann fyrir Gísla Þorláksson biskup og Ragnheiði Jónsdóttur þriðju konu hans, en hann var lengi í þjónustu þeirra. Meðal annars er hann talinn hann hafa skorið út altari og vindskeiðar í kirkjunni í Gröf á Höfðaströnd, þar sem Ragnheiður bjó lengi. Önnur þekkt verk hans eru meðal annars útskorin og máluð altaristafla úr kirkjunni á Reykjum í Tungusveit, eikarkista með ártalinu 1680 og fangamarki Ragnheiðar biskupsfrúar. Kona Guðmundar var Halldóra Guðmundsdóttir (f. 1634). Þau bjuggu í Bjarnastaðahlíð í Vesturdal í Skagafirði og er Guðmundur jafnan kenndur við þann bæ. Íslensk kjötsúpa (sjónvarpsþáttur). "Íslensk kjötsúpa" var íslenskur sjónvarpsþáttur, stjórnaður af Erpi Eyvindarsyni. Hann tók viðtöl við íslenskan almenning og oftast einstaklinga í skrautlegri kantinum. Erpur kom fram undir nafninu Johnny National. Hann gekk fram af mörgum en heillaði aðallega þá sem yngri voru. Þáttaröðin "Johnny International" tók við þegar "Íslensk kjötsúpa" hætti. Bréf frá Íslandi. Bréf frá Íslandi (enska: "Letters from Iceland") er bók eftir W. H. Auden og Louis MacNeice sem kom út árið 1937 og var skrifuð eftir að þeir ferðuðust um Ísland árið 1936. Bókin er bæði í bundnu og óbundnu máli. Ormur Loftsson. Ormur Loftsson (um 1400 – um 1446 (?)) var íslenskur hirðstjóri á 15. öld. Hann var af ætt Skarðverja, sonur Lofts ríka Guttormssonar hirðstjóra og Kristínar Oddsdóttur frillu hans. Hann varð hirðstjóri norðan og vestan 1432 eftir lát föður síns en óvíst er hve lengi hann hafði það embætti. Þar sem Ormur var óskilgetinn átti hann ekki erfðarétt eftir föður sinn en Loftur var svo auðugur að hann gat gefið fjórum óskilgetnum sonum sínum stórfé. Ormur kvæntist árið 1434 Solveigu, dóttur Þorleifs Árnasonar í Auðbrekku, Glaumbæ og Vatnsfirði og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur, og fékk með henni mikið fé. Þau bjuggu í Víðidalstungu og áttu synina Einar og Loft Ormsson Íslending. Solveig tók síðar saman við Sigmund prest Steinþórsson og átti með honum nokkur börn, þar á meðal Jón Sigmundsson lögmann. Líklega hefur Ormur enn verið lifandi þegar Solveig og Sigmundur fóru að vera saman en óvíst er hvenær hann dó. Holti Þorgrímsson. Holti Þorgrímsson (d. 1348) var Norðmaður sem var hirðstjóri á Íslandi frá 1346 til dauðadags. „Kom út Holti bóndi Þorgrímsson með hirðstjórn yfir öllu landinu, og var honum skipað að sjá um konungseignir,“ segir í annálum við árið 1346. Hann studdi norðlenska bændur í baráttu þeirra gegn landa sínum Ormi Áslákssyni biskupi, sem gekk hart fram við að heimta af þeim fé. Þó virðist hann ekki hafa aflað sér vinsælda því að við árið 1348 stendur í annálum: „Andaðist Holti hirðstjóri og hörmuðu það fáir.“ Holti var að öllum líkindum fyrsti hirðstjórinn sem hafði aðsetur á Bessastöðum og ekkja hans gaf mikið fé til Bessastaðakirkju eftir lát hans. Úgarít. Úgarít er útdautt semískt tungumál kennt við borgina Ugarit í Sýrlandi. Hún fannst árið 1928 af frönskum fornleifafræðingum. Fundist hafa textar frá 13-15 öldinni f.Kr. og geyma þeir goðsagnir Kananíta sem bjuggu við botn Miðjarðarhafs fyrir komu Ísraela. Úýgúríska. Úýgúríska (ئۇيغۇرچە‎ "Uyghurche Уйғурчә", eða ئۇيغۇر تىلى‎ "Uyghur tili Уйғур тили") er tyrkískt tungumál í altísku málaættinni. Hún er töluð í Xinjiang-héraði í Kína, Úsbekistan, Afganistan og Kasakstan. Um það bil 10 milljónir tala úýgúrísku. Hawaiíska. Hawaiíska ("ʻŌlelo Hawaiʻi") er pólýnesiskt tungumál sem dregur nafn sitt af eyjunni Hawaiʻi, stærsta eyjunni í eyjaklasanum þar sem hún varð til. Hawaiíska og enska eru opinber tungumál í fylkinu Hawaii. Hawaiíska er tungumál í útrýmingarhættu og frá og með 2000 töluðu minni en 0,1% íbúá Hawaii málið. Síðan árið 1949 hefur verið reynt að vernda tungumálið. Í málinu koma aldrei tveir samhljóðar fyrir í röð og ekkert orð endar á samhljóða. Ennfremur á málið heimsmet fyrir flesta sérhljóða í röð eða 8 en havæíska orðir fyrir staðfestu, hooiaioia, á þann sérkennilega heiður. Bíharísk tungumál. Bíharísk tungumál eru tungumálahópur í indóarísku tungumálaættinni. Tungumál maítílí, bópúrí og magahí eru öll í hópnum. Sebúanó. Sebúanó ("Sinugboanon") er ástrónesískt tungumál talað af 20 milljónum á Filippseyjum. Það er skrifað með latneska stafrófinu. Tungumálið dregur nafn sitt af eyjunni Sebú. Elsti texti á málinu sem varðveist hefur er hrafl frá Antóníó Pígafetta sem var á fyrstu hnattar-hringsiglingu Magellan. Nafnorð hafa ekkert málfræðilegt kyn með hugsanlegri undantekningu við spænsk tökuorð. Lýsingarorð tölubeygjast ekki með einni mikilvægri undantekningu þar sem mæli-lýsingarorð mynda fleirtölu með innskeyttu géi. Sjá töflu. Nepalska. Nepalska ("नेपाली") er indóarískt tungumál í indóevrópsku ættinni. Það er samskiptamál í Nepal og er líka talað í Bútan, hlutum Indlands og hlutum Mjanmars. Það er eitt af 23 opinberum tungumálum í Indlandi. Nepalska er tengt hindí og úrdú. Um það bil 20 milljónir manna tala nepölsku sem móðurmál. Koptíska. Koptíska eða koptísk egypska ("Met. Remenkēmi") er afróasískt tungumál sem talað var í Egyptalandi fram á 17. öld. Egypska byrjaði að nota gríska stafrófið á 1. öldinni. Síðar varð til koptískt letur sem var breytt gerð gríska stafrófsins. Nú á dögum eru mælendur koptísku um 300 manns. Núna er egypsk arabíska höfuðtungumál Egyptalands. Orðið „koptíska“ kemur einfaldlega frá gríska orðinu yfir egypsku „Aegyptos“. Koptísk áletrun, frá 3. öld eftir Krist. Sámur frændi. Sámur frændi (enska: "Uncle Sam") er táknmynd Bandaríkjanna og oftast nær bandaríska ríkisins. Persónugervingur þessi kom fyrst fram í stríðinu 1812 og fyrsta myndin af honum birtist árið 1852. Hin fræga mynd af Sámi frænda á herkvaðningarveggspjaldi J.M. Flaggs sem var gert 1917: "I want YOU for U.S.Army", byggðist á andliti Flaggs sjálfs og tónlistarmannsins Walter Bottts. Greinar stærðfræðinnar. Stærðir. Mælingar á stærðum og aðferðir við að gera slíkar mælingar. Breyting. Aðferðir til þess að lýsa og höndla breytingar stærðfræðilegra falla og breytingar milli talna. Bygging. Skilgreiningar á stærð, samhverfni og stærðfræðimynstur. Strjál stærðfræði. Strjál stærðfræði felur í sér aðferðir sem eiga við um hluti sem geta eingöngu tekið á sig fastákveðin, aðgreind gildi. Hagnýt stærðfræði. Hagnýt stærðfræði notast við alla stærðfræðilega þekkingu til þess að leysa raunveruleg verkefni. Mikilvægar setningar. Setningar sem hafa heillað stærðfræðinga og aðra. Mikilvægar tilgátur. Hér eru nokkur óleyst vandamál í stærðfræðinni. Grundvöllur og aðferðir. Aðferðir við að skilja eðli stærðfræðinnar hafa áhrif á það hvernig stærðfræðingar leggja stund á stærðfræði. Semísk tungumál. Semísk tungumál eru ætt tungumála og mállýskna töluð af yfir 567 milljónum í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríka og Horni Afríku. Þau eru grein afróasísku tungumálaættarinnar og eina grein í þessum ætt sem er töluð í báðum Afríku og Asíu. Stærsta semíska tungumálið er arabíska og hafa 322 milljónir sem tala hana sem móðurmál. Hinar stærstu eru amharíska (27 milljónir), tigrinya (6,7 milljónir) og hebreska (5 milljónir). Mörg ólík letur eru notuð til að skrifa semísk tungumál, nokkur dæmi eru úgarítiskt, fönikískt, aramískt, hebreskt, sýriskt, arabískt og suðurarabískt. Orðið „semískur“ er dregið af Shem, sónur Nóa í Biblíunni. Færeyska stafrófið. Nokkur miðaldahandrit frá 14. öld hafa varðveist sem voru skrifuð á færeysku. Danska var hins vegar um aldaraðir eina ritmálið í Færeyjum. Það var ekki fyrr en Venceslaus Ulricus Hammershaimb (1819-1909) lagði fram tillögu um færeyskt nútímastafróf 1846 að færeyskan endurreis sem ritmál. Fyrsta færeyska tímaritið, "Føringatiðindi", kom út 1890. Stafróf Hammershaimb var mjög sniðið eftir íslensku og íslenskum fornritum og lítið aðlagað nútíma færeysku og færeyskum framburði og hefur mjög verið gagnrýnt fyrir það. Framburður. Athuga ber að Ð er ekki til í upphafi orða og er yfirleitt ekki borið fram (og aldrei eins og ð á íslensku) en þar sem "ð" er fyrir framan "r" er það stundum borið fram sem [ɡ]. Trafalgar Square. Trafalgar Square eða Trafalgar torg er torg í Mið-London í Englandi. Vegna staðsetningar torgsins er það vinsæll ferðamannastaður og eitt frægasta torg í Bretlandi og í heimi. Nelson-súlan (Nelson’s Column), er á miðju torginu með fjórum styttum af ljónum í kring. Nokkrar aðrar styttur og höggmyndir eru á torginu, og oft er þar sýning á samtímalist. Stundum eru mótmælafundir haldnir á torginu. Torgið dregur nafn sitt af orrustunni við Trafalgar (árið 1805), þar sem Bretar unnu sigur á Frökkum í Napóleonsstyrjöldunum. Horatio Nelson flotaforingi stjórnaði þar flota Breta til sigurs, en féll sjálfur. Upphaflega var áætlað að nafn torgsins yrði „King William the Fourth’s Square“ en George Ledwell Taylor stakk upp á að nafni væri „Trafalgar Square“. Trafalgar Square er fjórði vinsælasti ferðamannastaður í heimi, 15 milljónir manna koma á torgið árlega. Eiríkur Sveinbjarnarson. Eiríkur Sveinbjarnarson (f. um 1277, d. 1342) var íslenskur riddari og hirðstjóri á 14. öld og bóndi í Vatnsfirði. Eiríkur var sonur Sveinbjarnar Sigmundssonar í Súðavík (d. 1290), sem var dóttursonur Hrafns Sveinbjarnarsonar. Nafn konu Sveinbjarnar og móður Eiríks er óþekkt en þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Einars Þorvaldssonar í Vatnsfirði, sonar Þorvaldar Vatnsfirðings, banamanns Hrafns. Hákon háleggur Noregskonungur gerði Eirík að riddara 1316 og hann varð hirðstjóri norðan og vestan árið 1323 og hélt því embætti allt til 1341. Hann leigði Flugumýri af Hólabiskupi og hefur trúlega haft þar bú. Kona Eiríks var Vilborg Sigurðardóttir (d. 1343) og er talið að faðir hennar hafi verið Sigurður seltjörn Sighvatsson og Valgerðar Hallsdóttur seinni konu hans. Sonur þeirra var Einar Eiríksson bóndi í Vatnsfirði, faðir Björns Jórsalafara. Ketill Þorláksson hirðstjóri. Ketill Þorláksson (d. 7. október 1342) var íslenskur riddari og hirðstjóri á 14. öld. Hann bjó á Kolbeinsstöðum. Ketill var af ætt Skarðverja, sonur Þorláks lögmanns Narfasonar á Kolbeinsstöðum og sonarsonur Skarðs-Snorra. Móðir hans hét Helga Nikulásdóttir og var afkomandi Sturlu Þórðarsonar. Ketill hafði sýsluvöld á Vestfjörðum frá 1312. Hann fór til Noregs 1313, gerðist handgengin Hákoni háleggi, fékk herranafnbót og kom heim 1314 með konungsbréf sem samþykkt voru á Alþingi árið eftir. Hann var einn andstæðinga Auðunar rauða Hólabiskups og var stefnt út til Noregs 1319 ásamt Snorra lögmanni föðurbróður sínum og Hauki Erlendssyni. Ketill kom aftur út 1320 með hirðstjóranafnbót og fór um landið árið eftir og lét menn sverja Magnúsi konungi Eiríkssyni trúnaðareiða, en hann var þá nýtekinn við ríki þriggja ára að aldri. Ketill kom meðal annars að deilumálum um Möðruvallaklaustur 1327 eða 1328. Árið 1330 er hans getið í hópi tiginna gesta í frægu brúðkaupi í Haga á Barðaströnd. Hann sigldi 1332 og kom aftur 1334, sigldi enn 1336 og virðist ekki hafa komið aftur fyrr en 1340. Hugsanlegt er að hann hafi verið hirðstjóri allt til 1341 með Eiríki Sveinbjarnarsyni en hefur sjálfsagt haft einhverja umboðsmenn eða fógeta fyrir sig þegar hann var erlendis. Kona Ketils var Una Guttormsdóttir, systir Jóns skráveifu, en ætt þeirra systkina er ekki þekkt. Nahúatl. Nahúatl var tungumál Asteka og á það sér enn 1 milljón mælenda í Mexíkó. Varðveist hefur talsvert af rituðu efni frá 16. öld á latínuletri sem virðist að mestu komið frá spænskum trúboðum. Navajóíska. Navajóíska er tungumál Navajó-indíjána. Það telst til NA-Dene mála auk tuttugu annarra. Enn í dag tala yfir 140 þúsund manns málið. Þorlákur Narfason. Þorlákur Narfason (d. 15. mars 1303) var íslenskur lögmaður og riddari á 13. öld. Hann bjó á Kolbeinsstöðum í Hnappadalssýslu. Þorlákur var af ætt Skarðverja, sonur Narfa Snorrasonar prests á Kolbeinsstöðum og Valgerðar Ketilsdóttur konu hans og eldri bróðir þeirra Þórðar og Snorra Narfasona. Segir í "Árna sögu biskups" að þeir bræður hafi allir verið vitrir menn og vel mannaðir. Þorlákur var lögmaður norðan og vestan, fyrst 1290-1291, þá 1293-1295 og síðast 1298-1299. Annálar geta oft um ferðir hans til og frá landinu í tengslum við baráttu Íslendinga fyrir réttarbótum og hann andaðist í Konungahellu í Noregi. Kona Þorláks var Helga dóttir Nikulásar Oddssonar í Kalmanstungu, sem verið hafði einn helsti kappinn í liði Þórðar kakala. Einn sona þeirra var Ketill Þorláksson hirðstjóri. Anúbis. a>s. Grafhýsismálverk frá 13. öld f.Kr. Anúbis (fornegypska: "Inpw" eða "Anpw"; forngríska: "Ἄνουβις") er guð líksmurninga og greftrunar samkvæmt egypskri goðafræði. Anúbis hafði líkama manns en höfuð af sjakala. Elsta heimildin sem minnist á Anubis eru pýramídatextar frá tímum Gamla ríkisins í Egyptalandi hinu forna, þar sem hann er tengdur við greftrun konungsins. Hann var höfuðguð hinna dauðu og tengdist múmíugerð og ferð hins látna til undirheima, en á tíma Miðríkisins tók Ósíris við þessu hlutverki og Anúbis varð fyrst og fremst guð smurningarinnar. Hugsanlega hefur þetta hlutverk hans tengst ótta við að sjakalar græfu upp lík hinna dauðu og ætu þau. Á tímum Ptólemajaveldisins var Anúbis settur saman við gríska guðinn Hermes og dýrkaður sem Hermanúbis. Ólafur Bjarnarson. Ólafur Bjarnarson (d. 2. september 1354) var hirðstjóri á Íslandi á 14. öld. Ekkert er vitað um ætt hans eða bústað en hann kann þó að hafa búið á Keldum á Rangárvöllum og verið sonarsonur Sighvatar Hálfdanarsonar, sonar Hálfdanar Sæmundssonar og Steinvarar Sighvatsdóttur á Keldum. Það er þó hrein tilgáta og aðrir telja að hann hafi verið norskur. Hann kom til landsins 1350 með hirðstjórn yfir allt landið og hafði hana sennilega til dauðadags. Hann fór til Noregs 1353 og drukknaði ári síðar ásamt Guðmundi tengdasyni sínum, syni Snorra Narfasonar lögmanns á Skarði, þegar þeir héldu í suðurgöngu til Santiago de Compostela á Spáni. Ekki er vitað hver kona Ólafs var en börn hans voru Þórdís, kona Guðmundar Snorrasonar, og Björn Ólafsson bóndi í Hvalsnesi, sagður einn helstu bænda landsins 1358. Grænlenska stafrófið. Þar að auki er bókstafirnir "b, c, d, h, x, y, z, w, æ, ø" og "å" notaðir í tökuorðum og nöfnum af erlendum uppruna. Grænlenska er sem ritmál ólík öðrum inúítamálum, byggir það á því að grænlenska fékk staðlað ritmál snemma. Það var Samuel Kleinschmidt sem skapaði grænlenskan ritstaðal um miðja 19. öld. Þessi staðall var í gildi fram til 1973 þegar núverandi staðall tók gildi. Í eldra staðlinum var meðal annars notaður sérstakur bókstafur ĸ (Ux0138 í Unicode), í nýja staðlinum er bókstafurinn Q notaður í stað ĸ. Iceland Review. "Iceland Review" er elsta tímarit um Ísland gefið út á ensku. Það birtir frásagnir um íslenskt þjóðfélag, stjórnmál, menningu, tónlist, myndlist, bókmenntir og atburði. Þar eru líka viðtöl við kunna Íslendinga, greinar um ferðalög til Íslands o.fl. Páll Stefánsson er sá ljósmyndari sem hefur birt flestar ljósmyndir í tímaritinu, einkum síðustu árin. "Iceland Review" er gefið út ársfjórðungslega og var stofnað í agúst 1963. Tímaritið er með vefsíðu sem birtir daglegar fréttir um Ísland á ensku og þýsku. Einingarlögin. Þau lönd sem voru aðilar að Evrópubandalaginu árið 1986. Einingarlögin er alþjóðlegur sáttmáli sem settur var árið 1986. Einingarlögin voru fyrsta stóra endurskoðunin á Rómarsáttmálanum sem stofnaði Evrópubandalagið. Með Einingarlögunum var komið á tímaramma á það ferli sem leiða ætti að sameiginlegum frjálsum markaði innan Evrópubandalagsins en lengi hafði staðið til að ná því markmiði. Stefnt var að því að ljúka því fyrir 31. desember 1992. Með sáttmálanum var einnig komið á sameiginlegri utanríkisstefnu í formi Evrópska Stjórnmálasambandsins sem seinna varð að Sameiginlegri utanríkis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins með setningu Maastrichtsamningsins. Einingarlögin voru samin á ráðstefnu sem haldin var frá september 1985 til janúar 1986. Einn af hvötum þess að til þeirra var stofnað var sú aukna spenna sem hlaupið hafði í kalda stríðið milli stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Löggjafarþing allra aðildarríkja EB nema Danmerkur samþykktu Einingarlögin en í kjölfarið var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku þar sem þau voru samþykkt. Kólaskagi. Kólaskagi er skagi í norðvesturhluta Rússlands og er hluti af Múrmansk-umdæminu. Kólaskagi skilur að Barentshaf í norðri og Hvítahaf í austri og suðri. Sjökonungaríkið. Sjökonungaríkið (á ensku „heptarchy“, komið úr grísku ἑπτά + ἀρχή sjö + ríki) er haft um engilsaxnesku konungaríkin sjö á miðöldum, en það voru ríki sem síðar sameinuðust og mynduðu konungsríkið England. Skotland og Wales voru einnig talin vera smákonungsríki. Orðið á ensku hefur verið notað síðan á 16. öld. Sjökonungaríkið var til á tímabilinu frá 500 e.Kr. til ársins 850 e.Kr. sem flokkast til hinna myrku miðalda. Nú á dögum nota sagnfræðingar ekki orðið "heptarchy", þar eð þeim finnst það geigandi lýsing á stöðu Bretlands á þessum tíma. Hins vegar er það enn í notkun í daglegu tali. Danalög. Danalög eru hér sýnd með gulum lit. Danalög (enska: "Danelaw" eða "Danelagh", fornenska: "Dena lagu", danska: "Danelagen") var heiti sem haft var um þann hluta Englands sem var undir stjórn norrænna manna á víkingaöld, þ.e. Norður- og Vestur-England. Heitið varð til á 11. öld til að auðkenna það svæði þar sem víkingar settust að á 9. öld. Héruðin í Danalögum voru Norðymbraland, Austur-Anglía og borgirnar fimm: Leicester, Nottingham, Derby, Stamford og Lincoln. Danalög voru auðugt svæði, sérstaklega Jórvík, og voru þess vegna skotspónn árása víkinga. Átök við konungsríkin Wessex og Mersíu veiktu Danalög. Loks komust þau undir stjórn Játvarðs eldra og urðu hluti konungsríkisins Englands. Kali. Kali (sanskrít: काली, bengalska: কালী, Kālī), einnig þekkt sem Kalika (bengalska: কালিকা, Kālikā) er gyðja innan hindúismans og stendur sem tákn fyrir eilífa orku alheimsins. Nafnið Kali þýðir „svört“ en hefur einnig farið að tákna „kraft tímans“ (kala). Kali er gyðja tíma, dauða og umbreytinga. Táknmyndir Kali sýna hana oftast sem myrka og ofbeldisfulla ófreskju og er hún einnig álitin tákn gjöreyðingar. Flóknari tantrísk fræði hafa gefið hlutverki hennar víðtækari skilgreiningu allt að því að gera hana að „hinum endanlega veruleika“ eða Brahman. Hún hefur stundum verið dýrkuð sem Bhavatarini (bókstaflega: frelsari alheimsins). Kali birtist sem fylgitákn guðsins Shiva og oftast sýnd standa ofan á líkama hans. Hún er tengd við margar aðrar gyðjur hindúismans líkt og Durga, Bhadrakali, Sati Rudrani, Parvati og Chamunda. Hún er fremst meðal Dasa-Mahavidyas, tíu grimmu tantrísku gyðjunum. Orðsifjar. Kālī er kvenkynið af kāla "svartur, dökkur litur". Í helgiritinu Mundaka Upanishad er minnst á Kali sem eina af sjö tungum Agni, Rigvedískum guði eldsins, því hefur tungan orðið áberandi á táknmyndum gyðjunar. Nafnið birtist einnig sem eitt af formum Durga í Mahabharata 4.195 og sem nafn á illum kvenkyns anda í Harivamsa 11552. Einsheitið kāla, (tími), getur í öðru samhengi þýtt "dauði", og þó verið á sama tíma frábrugðið kāla (svartur). Tengslin eru séð í "Mahābhārata", sem sýnir kvenkyns veru bera burtu anda dauðra stríðsmanna og dýra. Hún er kölluð kālarātri (sem Thomas Coburn, sagnfræðingur, þýðir sem "nótt dauðans") og kālī (sem, líkt Coburn bendir á, getur verið séð sem hennar raunverulega nafn eða sem "hin svarta"). Tengsl Kali við sorta og myrkur er andstæða við fylgdarmann hennar Shiva, þar sem líkami hans er oftast þakin hvítri ösku af bálfarasvæðum (sanskrít: śmaśāna) þar sem hann hugleiðir. Uppruni. Samkvæmt David Kinsley er fyrst minnst á Kali í hindúisma sem fjarlæga gyðju tengda stríði um 600 f.Kr. Helgirit á borð við Agni Purana og Garuda Purana lýsa skelfilegri ásjónu hennar og tengja hana við lík og stríð. Elstu heimildirnar um Kali ná aftur að öld Riveda. Ratri Sooka innan Rigveda kallar hana í raun gyðjuna 'Ratri' og upphefur hana sem frumkraft alheimsins. Rigveda. Ljóðaviskan eða Rigveda er elsta og merkasta helgirit Indverja. Talið er að það hafi verið fullmótað um 800 f.Kr. Ljóðaviskan er elst hinna svokallaðra Veda-bóka. Hún er safn lofsöngva, helgisiða og lífspeki sem orðið hefur til á tímabilinu 1500-500 f.Kr. Ljóðaviskan talar um Aría sem herskáar hetjur en úthúðar andstæðinga þeirra. Rigveda telur lagskiptingu í indversku samfélagi 1000-500 f.Kr. þar sem brhmanar voru efstir, þá hermenn og embættismenn, svo kaupmenn, handverksmenn og landeigendur og þá bændur og vinnulýður koma frá guðunum. Brahman. Brahman (Sanskrit: ब्रह्मन्, brahman, nefnifall brahma, ब्रह्म) er samkvæmt hindúisma hinn óhagganlegi, eilífi, huglægi, yfirskilvitlegi og guðdómlegi veruleiki alls efnis, orku, tíma, rúms, tilurðar og alls sem liggur handan þessa heims. Samtök hlutlausra ríkja. Kort af meðlimum Samtaka hlutlausa ríkja. Fullgildir meðlimir eru með dökkbláum lit og áheyrnarríki eru með ljósbláum lit. Samtök hlutlausra ríkja (enska: "Non-Aligned Movement" eða NAM) eru alþjóðasamtök ríkja sem ekki tilheyra tilteknum valdablokkum í alþjóðastjórnmálum. Samtökin voru stofnuð að undirlagi Jawaharlal Nehru, forsætisráðherra Indlands, Gamal Abdul Nasser, fyrrum forseta Egyptalands og Joseph Broz Tito, forseta Júgóslavíu í kjölfar Bandung-ráðstefnunnar árið 1955. Fyrsta opinbera ráðstefna samtakanna var í Belgrad árið 1961. Tilgangur samtakanna var að standa vörð um sjálfstæði og öryggi aðildarríkjanna í heimi vaxandi átaka milli risaveldanna á tímum Kalda stríðsins. Samstarf ríkjanna varð þó aldrei jafnmikið og þeirra ríkja sem tilheyrðu Varsjárbandalaginu og NATO og mörg þeirra gerðust í reynd bandalagsríki annars risaveldanna. Suðaustur-Asíubandalagið. a>, forseti Filippseyja, situr fyrir miðri mynd. Suðaustur-Asíubandalagið (enska: "Southeast Asia Treaty Organization" eða SEATO) voru alþjóðasamtök og varnarbandalag ríkja í Suðaustur-Asíu og bandalagsríkja þeirra sem varð til við undirritun Manilasáttmálans 8. september 1954. Hugmyndin á bak við bandalagið var að skapa eins konar Atlantshafsbandalag í Suðaustur-Asíu gegn útbreiðslu kommúnisma á tímum Kalda stríðsins, en bandalagið var þó aldrei með sameiginegan herafla. Bandalagið var formlega lagt niður 30. júní 1977. Allar ákvarðanir SEATO þurftu einróma samþykki aðildarríkjanna. Bandaríkjamenn reyndu að virkja SEATO í Kambódíu og Víetnam en höfðu ekki erindi sem erfiði vegna andstöðu Frakka og Filippseyinga. Fljótlega eftir það leystist bandalagið upp. Kali Yuga. Kali Yuga (Devanāgarī: कलियुग, bókstaflega: „öld Kali“, einnig „öld lasta, ódyggða, hnignunar, spillingar“), er síðasta stigið af þeim fjórum sem heimurinn og siðmenning manna gengur í gegnum samkvæmt "yuga" hringrásinni sem lýst er í Indverskum helgiritum. Önnur stig eða aldir eru Satya Yuga, Treta Yuga og Dvapara Yuga. Samkvæmt stjarnfræðiritinu Surya Siddhanta, sem myndar grunninn af öllum almananökum hindúa og búddista, þá hófst Kali Yuga á miðnætti þann 18. febrúar 3102 f.Kr. Margir hindúar telja þessa dagsetningu einnig vera daginn sem Krishna lést eftir að hafa hlotið banvænt sár eftir örvarodd. Flestar túlkanir á helgiritum hindúismans staðhæfa að heimurinn og mannkynið sé að ganga í gegnum Kali Yuga núna á samtíma okkar. Margir líkt og Swami Sri Yukteswar, David Frawley og Paramhansa Yogananda trúa því aftur á móti að heimurinn sé aðeins að nálgast upphaf Dvapara Yuga. Kali Yuga í hefðbundnum skilningi stendur yfir í 432.000 ár. Hindúar trúa því að siðmenning manna hnigni á meðan Kali Yuga stendur. Öldin er kölluð „myrka öldin“ eða „járnöldin“ því mannkynið er eins langt frá guðdómnum og það mögulega kemst. Siðferði og réttsýni (Dharma) innan hindúismans er oft sýnt á táknfræðilegan hátt sem tarfur eða naut. Á Satya Yuga, fyrsta stigi eða öld hringrásarinnar hefur nautið fjórar lappir en eftir því sem hvert nýtt "yuga" gengur í garð dregur úr siðferði og réttsýni, því sverfast fætur nautsins. Á öld Kali, sem á að vera okkar nútíma öld, er réttsýni og siðferðiskennd orðin aðeins fjórðungur af því sem það var á „gullöldinni“ (Satya Yuga), svo dharma-nautið er orðið einfætt. Kali Yuga er kennd við djöfulinn Kali og varast ber að rugla honum saman við gyðjuna Kālī. Orðið Kali í tengslum við Kali Yuga þýðir „erfiði“, „misklíð“, „ágreiningur“ eða „rifrildi“. Leiðtogar og þjóðhöfðingjar. Þjóðhöfðingjar verða óskynsamir: þeir munu skattleggja ósanngjarnlega og þjóðir verða fjárkúgaðar. Leiðtogar munu ekki lengur álíta það skyldu sína að upphefja andlegan göfga eða verja göfuglyndi: þeir munu verða hættulegir heiminum. Fólksfluttningur milli landa verður yfirdrifin, fólk mun sækjast eftir því að komast til landa í leit að æti og betra lífi þar sem kornmeti og hveiti eru aðal fæðutegundin. Mannleg samskipti. Fégræðgi og heift taka völdin. Menn munu ekki skeyta um hvorn annan á götum úti og nafnleysi einkennir samskipti manna. Dharma (réttsýni) verður hunsað. Tilgangslaust ofbeldi, fólk mun myrða og misþyrma hvoru öðru án neinnar réttlætanlegrar ástæðu og það mun ekki sjá neitt rangt við að gera slíkt. Losti og hórdómur hljóta félagslega viðtekningu, kynferði og kynlíf verða séð sem miðpunkturinn í lífi fólks, sem leiðir að því að börn allt niður í 16 - 13 ára gömul munu verða þunguð og eignast afkvæmi. Syndir munu aukast veldislega á meðan dygðir og heiður hætta að þrífast og að lokum hverfa. Innantóm loforð, fólk mun lofa upp í ermina á sér aðeins til að svíkja loforð sín strax aftur. Fólk mun misnota vímugefandi drykki og efni. Lærimeistarar (kennarar) munu ekki lengur bera virðingu fyrir nemendum sínum né nemendur fyrir lærimeisturum, nemendur munu reyna að valda lærimeisturum sínum tjóni. Andleg leiðsögn mun verða smánuð og áhangendur karma munu taka vald yfir hugum allra manna. Samfara ofbeldi og dauða verður fátækt áberandi alls staðar. Menn munu eyðileggja náttúru, drepa tré og engin virðing verður borin fyrir dýrum. Kjötát verður mjög áberandi. Menn munu fyrirlíta störf sín og nota hvert tækifæri til að komast undan skyldum sínum. Veður og náttúra. „"Þegar blóm vaxa innan blóma og ávextir innan ávaxta þá mun Kali Yuga líða undir lok. Úrhelli mun falla úr skýjum óháð árstíðum þegar dregur að endalokum Kali Yuga"“ Samuel Kleinschmidt. Samuel KleinschmidtSamuel Petrus Kleinschmidt (27. febrúar 1814 – 8. febrúar 1886) var trúboði herrnhutera á Grænlandi og málvísindamaður af þýskum og dönskum ættum. Hann fæddist 27. febrúar 1814 þar sem þá hét Lichtenau en nú er nefnt Alluitsoq í sveitarfélaginu Kujalleq á Suður-Grænlandi. Lichtenau var þá trúboðsstöð herrnhuttera og sem stofnuð var 1774 og var lögð niður árið 1900. Hann lést 8. febrúar 1886 í Noorliit sem nú er hluti af Nuuk. Samuel var sonur þýska trúboðans Konrad Kleinschmidt og danskrar konu hans, Christina Petersen. Samuel var því alinn upp með þrjú tungumál, dönsku, þýsku og grænlensku. Samuel Kleinschmidt var við nám í Þýskalandi frá 1823 þar til að hann sneri aftur sem trúboði til Grænlands 1840. Samuel Kleinschmidt hafði gífurleg áhrif á þróun grænlensku, sérlega sem ritmál. Hann gaf út "Grammatik der Grönländischen Sprache" á þýsku árið 1851 og vakti þegar mikla athygli málvísindamanna. Árið 1871 var orðabók hans "Den grønlandske ordbog" gefin út og var það fyrsta dansk-grænlenska orðabókin. Hann gaf út fyrstu bókina sem skrifuð hafði verið á grænlensku 1858: "Nunalerutit, imáipoĸ: silap píssusianik inuinigdlo ilíkarsautínguit" ("Landafræði: lítil bók um heiminn og mannlífið"). Jafnfram þessu samdi Samuel grænlenska réttritunarbók sem mótaði allt grænlenskt ritmál allt fram til 1973 þegar ný stafsetning tók gildi. Hann þýddi einnig Biblíuna í heild sinni fyrstur manna á grænlensku og þá úr grísku og hebresku. Hann hóf kennslu við seminaríið (kennaraskólann) í Nuuk 1859 eftir að honum hafði verið sagt upp frá trúboðsstöðinni. Störf Samuel Kleinschmidts einkenndust af vísindalegri nákvæmni og miklum áhuga á öllu grænlensku. Haft er eftir honum: „Af tilbøjelighed er jeg grønlandsk“ („Ég er Grænlendingur af tilhneigingu“). Í Nuuk er grunnskóli sem nefndur er eftir honum, Atuarfik Samuel Kleinschmidt. Kænusiglingar. Kænusiglingar eru siglingar á kænum, þ.e. litlum seglbátum án kjölfestu. Lykilþættir í kænusiglingum eru beiting segla, kjalarins, bátsskrokks, áhafnar og val siglingaleiðar. Þyngd og staða áhafnarinnar ræður miklu um halla bátsins þar sem kjölurinn er ekki þyngdur. Kænusiglingar eru stundaðar sem afþreying, íþrótt og líkamsrækt. Kænusiglingar eru keppnisgrein á Sumarólympíuleikunum og er þá keppt í tegundarflokkum. Á Sumarólympíuleikunum 2012 var keppt í þremur einmenningsflokkum; Laser og Finn (karlar), Laser Radial (konur), og þremur tvímenningsflokkum; 470 og 49er (karlar) og 470 (konur). Í blönduðum kænukeppnum er oftast notast við Portsmouth-tölu sem forgjöf fyrir hvern flokk, en líka er til kerfi sem byggir á frammistöðu keppenda í fyrri keppnum. Þróun kænusiglinga. Upphaf kænusiglinga í afþreyingarskyni má rekja til loka 19. aldar. Kænurnar hafa þróast mikið frá þeim tíma og er breiddin í bátsgerðum gríðarleg. Sem dæmi um nýjungar í hönnun kæna á 20. öld má nefna planandi bátsskrokka Uffa Fox og notkun masturstauga til að áhöfnin geti staðið á borðstokknum og hallað sér aftur (4. áratugurinn), hönnun Jack Holt á ódýrum kænum úr krossviði sem jók mjög vinsældir íþróttarinnar eftir síðari heimsstyrjöld og ný, léttari byggingarefni á borð við ál, trefjaplast og hitadeigt plast sem urðu áberandi eftir 1970. Hannes Eggertsson. Hannes Eggertsson (um 1485 – 1533) var norskur umboðsmaður konungs og hirðstjóri á Íslandi á 16. öld. Hann er kallaður Hans í sumum samtímaheimildum og skrifar nafn sitt þannig sjálfur. Faðir Hannesar var Eggert Eggertsson, lögmaður í Víkinni, sem var aðlaður af konungi 1488. Hann var veginn á bænum Skógi í Víkinni 1493. Móðir Hannesar hét Jóhanna Matthíasdóttir. Hannes kom til Íslands upp úr 1510, líklega í erindum Danakonungs eða sem umboðsmaður hirðstjóra. Hann var fullmektugur eða fógeti Sørens Andersen Norby frá 1514 og gegndi hirðstjórastarfinu í raun en Norby virðist hafa haldið hirðstjóranafnbótinni til 1517, þegar Týli Pétursson tók við. Hirðstjóratíma Týla lauk 1520 og hafði hann hug á að fá hann framlengdan en hann var óvinsæll vegna yfirgangs og Vigfús Erlendsson, sem áður hafði verið hirðstjóri, sóttist einnig eftir embættinu. Þeir sigldu út á sama skipi en Vigfús dó erlendis. Týli fékk þó ekki hirðstjórn, heldur Hannes, og er skipunarbréf hans dagsett 6. október 1521. Týli var í Flensborg næstu árin en vorið 1523 kom hann aftur til Íslands og taldi sig þá hirðstjóra, skipaðan af Kristjáni 2., sem í sama mund var steypt af stóli í Danmörku og rekinn í útlegð. Fór Týli með flokk manna, innlendra og erlendra, að Bessastöðum, þar sem Hannes hafði aðsetur, rændi og ruplaði, braut upp kirkju og kistur og flutti svo Hannes sjálfan nauðugan inn í Hólm (til Reykjavíkur) og hafði hann í haldi þar um tíma en sleppti honum síðan. Ögmundur biskup og Erlendur Þorvarðarson lögmaður skipuðu tylftardóm sem úrskurðaði 28. maí í Viðey að skipunarbréf Hannesar væri gilt og Týli skyldi skila fénu. Fáum dögum síðar, þann 1. júní, dæmdi tylftardómur nefndur af Erlendi lögmanni Týla óbótamann. Hannes fékk bæði Íslendinga og þýska kaupmenn í lið með sér og náðu þeir Týla og afhöfðuðu. Hannes gengdi embættinu til 1524, þegar hann flutti til Hamborgar og lét hirðstjóravöld í hendur Jóhanni Péturssyni. Hann flutti þó aftur til Íslands eftir fáein ár en var þá embættislaus. Hann bjó á Núpi í Dýrafirði og var vellauðugur; virðist hafa verið ágætlega liðinn af Íslendingum. Hann dó að sögn á náðhúsi á Bessastöðum. Kona hans var Guðrún Björnsdóttir eldri (1489-1563), dóttir Björns Guðnasonar sýslumanns í Ögri og konu hans Ragnhildar Bjarnadóttur. Hún bjó áfram stórbúi á Núpi eftir lát manns síns. Guðrún hafði áður verið gift Bjarna lögréttumanni (d. 1508) á Brjánslæk, syni Andrésar Guðmundssonar í Bæ (Saurbæ) á Rauðasandi. Á meðal barna Hannesar og Guðrúnar voru Eggert Hannesson lögmaður í Bæ, Björn sýslumaður í Bæ og Katrín biskupsfrú, kona Gissurar biskups Einarssonar. Kollafjörður (Barðaströnd). Kollafjörður er fjörður í Austur-Barðastrandarsýslu. Þar er nú (2011) einn bær í byggð, Skálanes, en voru forðum sjö. Á flestum jörðunum er húsum þó viðhaldið og þar er dvalið yfir sumartímann. ĸ. ĸ er bókstafur sem notaður var í grænlensku þar til að grænlenska stafrófinu var breytt 1973. Form stafsins er nauðalíkt hástafagerð latneska bókstafsins K og gríska bókstafnum κ, kappa. Bókstafurinn ĸ var notaður í því stafrófi sem Samuel Kleinschmidt skapaði um miðja 19. öld og táknaði það hljóð sem nefnt er óraddað úfmælt lokhljóð. Í stafsetningarreglunum sem gilda frá 1973 er bókstafurinn Q notaður í stað ĸ. Þegar raðað er í stafrófsröð er ĸ talið með Q og ekki K. ĸ er kóðað í Unicode sem U+0138. Breiðabólstaður í Vesturhópi. Breiðabólstaður er bær og kirkjustaður í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Bærinn var stórbýli, höfðingjasetur og menningarsetur fyrr á öldum. Á Breiðabólstað bjó Már Húnröðarson á 11. öld og síðan sonur hans, Hafliði Másson, sem þekktur var fyrir deilur sínar við Þorgils Oddason á Staðarhóli í Saurbæ. Lauk þeim þannig að Þorgils hjó fingur af Hafliða á alþingi og heimtaði Hafliði af honum afar háar bætur. Þaðan er komið máltækið "Dýr mundi Hafliði allur". Þegar Hafliði bjó á Breiðabólstað voru íslensk lög fyrst skráð þar veturinn 1117-1118 og endurskoðuð og endurbætt um leið, einkum kaflinn Vígslóði. Kallaðist handritið Hafliðaskrá. Minnisvarði um þessa lagaritun var reistur á Breiðabólstað 1974 á vegum Lögmannafélags Íslands. Frá dögum Hafliða þótti Breiðabólstaður mikið menningar- og menntasetur. Þar átti að reisa fyrstu steinkirkju á Íslandi um miðja 12. öld og bóndasonur þaðan fór til Noregs að sækja steinlím í kirkjuna, en skipið fórst á heimleið og kirkjan reis aldrei. Breiðabólstaður var eitt besta brauð norðanlands og var í kaþólskri tíð veitt af erkibiskupinum í Niðarósi. Þar sátu margir merkisprestar. Hafliði Steinsson, sem hafði verið hirðprestur Eiríks prestahatara, varð prestur á Breiðabólstað 1309. Sonur hans, sagnaritarinn Einar Hafliðason, fékk Breiðabólstað 1343 og var prestur þar í 50 ár og jafnframt prófastur í Húnaþingi. Norðmaðurinn Ólafur Rögnvaldsson varð prestur á Breiðabólstað árið 1460. Hann varð síðar biskup á Hólum. Fljótlega eftir að Jón Arason keypti prentsmiðju til landsins um 1530 og fékk prentara, Jón Matthíasson eða Mattheusson sem kallaður var hinn sænski til að sjá um prentverkið, fékk prentarinn prestsembætti á Breiðabólstað og flutti þangað með prentáhöldin. Ekki er mikið vitað um þær bækur sem prentaðar voru á Breiðabólstað, en tvær óheilar bækur hafa varðveist. Jón sænski giftist íslenskri konu og var Jón sonur þeirra prentari, fyrst á Breiðabólstað og svo á Hólum. Við prestsembættinu tók Guðbrandur Þorláksson 1567 en fjórum árum síðar varð hann biskup á Hólum og flutti þá bæði prentverkið og Jón yngra prentara þangað. Núverandi kirkja á Breiðabólstað var reist árið 1893 og er friðuð. Pepsideild karla í knattspyrnu 2010. Árið 2010 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 99. skipti. Selfoss tók þátt í fyrsta skipti í sögu félagsins á meðan að Haukar tóku þátt í annað skipti sitt, og í fyrsta sinn í 31 ár. Breiðablik vann fyrsta titil sinn í meistaraflokki. Leiðarhólmssamþykkt. Leiðarhólmssamþykkt var samþykkt sem gerð var vorið 1513, á þriggja hreppa þingi á Leiðarhólmi í Dölum, og var hún liður í baráttu íslenskra höfðingja við kirkjuvaldið og beindist gegn biskupunum, Gottskálk Nikulássyni Hólabiskupi og Stefáni Jónssyni Skálholtsbiskupi. Þeir sem stóðu fyrir samþykktinni voru höfðingjarnir Björn Guðnason í Ögri og Jón Sigmundsson lögmaður, sem báðir höfðu átt í miklum deilum við biskupana, Jón við Gottskálk og Björn við Stefán, og var það Björn sem samdi skjalið. Þar skuldbundu menn sig til að þola biskupum ekki ójöfnuð en þó skyldi farið að kirkjulögum. Biskupar höfðu áratugina á undan gerst stöðugt ásælnari í eignir höfðingja og meðal annars dæmt suma til eignamissis fyrir frændsemishjónabönd og önnur siðferðisbrot. Tókst Gottskálk á endanum að hafa mestallar eignir Jóns lögmanns af honum en Birni gekk betur að halda hlut sínum. Henrik Hielmstierne. Henrik Hielmstierne (1. janúar 1715 – 18. júlí 1780) var íslensk-danskur embættismaður, aðalsmaður, sagnfræðingur og bókasafnari. Hann hét Henrik Henrichsen, en var aðlaður 1747 og tók sér þá nafnið Hielmstierne. Hann fæddist í Kaupmannahöfn 1715. Faðir hans, Niels Henrichsen (d. 1745), var auðugur kaupmaður með íslenskar rætur. Móðir hans hét Agnete Birgitte Henrichsen, fædd Finkenhagen (d. 1763). Æviágrip. Faðir Henriks, Níels eða Nikulás Henriksson, var „erfiðismaður á Reyðarfirði“, fór svo til Kaupmannahafnar, kom þar vel undir sig fótunum og varð Íslandskaupmaður, líklega á Austfjörðum. Hann auðgaðist mjög á verslun sinni og komst til metorða í Kaupmannahöfn, varð þar borgarráðsmaður og síðar jústitsráð og varaborgarstjóri. Hann dó 9. október 1745. Óvíst er hverrar ættar hann var. Æskuár. Foreldrarnir lögðu sig fram um að veita börnum sínum gott uppeldi og bestu menntun sem völ var á. Henrik fékk heimakennslu undir leiðsögn tveggja prófessora í guðfræði, og var hann 18 ára gamall tekinn í Kaupmannahafnarháskóla. Tveir heimilisvinir, Hans Gram og Andreas Hojer, voru ráðgjafar um val á kennurum. Sá síðarnefndi bjó í húsinu og hafði mikil áhrif á Henrik. Þó að Henrik hafi hugsaði sér að fara í utanríkisþjónustuna, nam hann guðfræði og brautskráðist 1736. Dagleg samskipti við Andreas Hojer og annan bókavin og safnara, kaftein Schulenburg, sem einnig bjó í húsinu, vöktu áhuga Henriks á sögu og sagnfræðirannsóknum, og brátt fór hann sjálfur að safna bókum, listmunum og norrænni mynt. Árið 1738 varð hann ritari í danska Kansellíinu. Þar fór hann að aðstoða nefnd sem hafði umsjón með „Konunglega myntsafninu“, og sýndi í því starfi góða þekkingu og hæfni. Um svipað leyti tók hann saman yfirlit um elstu prentuðu bækur Dana, og æviágrip höfundanna. Einnig fór hann að rannsaka sögu Dankonunga af Oldenborgarætt, mest eftir óprentuðum heimildum. Utanlandsför. Í ársbyrjun 1740 fór hann í langa utanlandsför til Þýskalands, Frakklands og Englands og dvaldist í Strassborg, París og London. Allstaðar þar sem hann kom stofnaði hann til kynna við þekkta menntamenn og stjórnmálamenn og hélt tengslum við marga þeirra með bréfaskriftum eftir að hann kom heim. Sérstaklega ber að nefna sagnfræðinginn Johann Daniel Schöpflin í Strassborg og hinn kunna sænska stjórnmálamann og listunnanda Carl Gustaf Tessin greifa, sem þá var sendiherra í París, því að áhugamál þeirra og viðfangsefni höfðu mikil áhrif á Henrik og lífsstefnu hans. Henrik kom heim haustið 1742 með mikinn feng í bókum og listmunum, en einnig gegnsýrður af frönskum siðum og frönskum lífsháttum. „Monsieur Anrison!“ (frönsk útgáfa af Henrichsen) vakti mikla athygli í Kaupmannahöfn, og þá ef til vill ekki í jákvæðu ljósi. Hann hélt dýrlegar veislur og bauð til sín æðstu og lærðustu mönnum borgarinnar. Í húsi hans var heill salur fyrir bókasafnið, annar fyrir málverkin og á annarri hæð í húsinu var íbúð hans. Virðist lífsmáti hans hafa borið nokkurn keim af umsvifum nýríkra, en áhugamálin voru þó menningarleg og í anda upplýsingarstefnunnar. Vísindafélög. Henrik Hielmstierne bauðst að fara sem ritari með sendinefnd til Madrídar, 1742, en þegar Konunglega danska vísindafélagið (Det Kongelige danske Videnskabernes Selskab) var stofnaði í nóvember sama ár, var hann strax á fyrsta fundi kosinn ritari félagsins. Hafnaði hann þá sendifulltrúastöðunni. Frumkvöðlar að stofnun félagsins voru Johan Ludvig Holstein greifi sem varð formaður þess, Hans Gram og Erik Pontoppidan yngri en Henrik Henrichsen telst einnig meðal þeirra. Átti hann eftir það náið samstarf við þessa menn. Vísindafélagið átti frumkvæði að rannsóknarferðum þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og ritun ferðabókar þeirra. Eggert skilaði fullbúnu handriti að Ferðabókinni árið 1766, en það lá síðan í nokkur ár hjá Vísindafélaginu. Hielmstierne hafði þá frumkvæði að því að drifið var í útgáfunni og þeir Gerhard Schøning og Jón Eiríksson fengnir til að búa það til prentunar. Bókin kom út 1772. Henrik varð félagi í Royal Society í London árið 1743. Árið 1745 stofnaði Jacob Langebek Det kongelige danske Selskab for Fædrelandets Historie (kallað „Litla félagið“ (Det lille Selskab) til aðgreiningar frá Vísindafélaginu sem var það stóra). Henrik lét strax í ljós áhuga á að ganga í félagið, og var þeirri ósk hans vel tekið; hann var þar virkur félagi til æviloka. Starfsferill, ævilok og eftirmæli. Árið 1744 fékk Henrik stöðu við hæstarétt. Hann hélt stöðu sinni í Kansellíinu (frá 1750 sem aðstoðarmaður), þar til hann sagði henni lausri 1771 þegar Johann Friedrich Struensee komst til valda. Árið 1745 veiktist faðir hans og gat ekki lengur séð um rekstur eigna sinna, einkum herragarðsins Vesterbygaard við Kalundborg á Sjálandi. Tók Henrik yfir reksturinn vorið 1745 og fékk þessar eignir í arf þegar faðirinn dó sama ár. Hann mun hafa selt Vesterbygaard 1750. Þann 3. febrúar 1747 var Henrik aðlaður og tók upp ættarnafnið Hielmstierne, og 4. ágúst sama ár giftist hann Andreu Kirstine Kjærulf af aðalsætt (fædd 19. janúar 1730, dáin í Kaupmannahöfn 19. október 1806), dóttir Søren Kjærulf (d. 1730) og Johanne Marie Kjærulf, fædd Bentzon. Með konu sinni fékk Hielmstierne herragarðana Mølgaard í Álaborgar-amti og Holmgaard í Viborgar-amti, en seldi þá árið eftir. Á Hielmstierne hlóðst nú margvíslegur sómi. Árið 1747 veitti Friðrik 5. honum nafnbótina jústitsráð, 1760 etatsráð, 1766 konferensráð, 1774 Riddari af Dannebrog og tók sér þá kjörorðið: „Gloria in obseqvio“ („Heiður í að þjóna“). Árið 1776 varð hann forseti Hæstaréttar og gegndi því embætti til æviloka, 1777 geheimeráð. Hann varð forseti Vísindafélagsins 1776 og árið eftir heiðursfélagi í Dönsku listakademíunni. Hann dó í Kaupmannahöfn 18. júlí 1780. Í störfum sínum naut Hielmstierne almennrar virðingar fyrir réttsýni, dugnað og óþreytandi iðni. Bolle Willum Luxdorph kallaði hann: „óbifanlegan málsvara sannleikans, fyrirmynd að mannkostum og mann, sem alltaf tók föðurlandið fram yfir sjálfan sig“. Peter Friderich Suhm vakti athygli á dugnaði hans, áreiðanleika og tryggð. Christian Frederik Jacobi hélt minningarræðu um hann í Vísindafélaginu og kom þar fram að hann mat þennan „velgjörðamann sinn og vin“ mjög mikils. Hielmstierne var ekki afkastamikill rithöfundur. Af prentuðum ritum er helst að nefna nokkrar tækifærisræður. Ófullgerð minningarræða um Hans Gram, lesin upp í Vísindafélaginu eftir dauða hans, var síðar prentuð í útgáfu P. F. Suhms: "Nye Samlinger" IV:165 og áfram. Með Luxdorph og Langebek átti hann frumkvæðið að útgáfu á latneskum bréfaskiptum Ole Worms (1751). Rithönd hans og stafsetning var fremur fljótfærnisleg; en fræðileg bréfaskipti hans voru mjög umfangsmikil, bæði fyrr og síðar. Bókasafnið. Agnete Marie Hielmstierne, dóttir Henriks Hielmstierne, gift Marcus Gerhard Rosencrone. Allt frá æskuárum var Hielmstierne ástríðufullur bókasafnari. Hann takmarkaði sig mest við bækur um danska menningu og skyld efni, og þar sem hann var vel efnaður varð safn hans með tímanum einstætt fyrir hvað það var heildstætt og glæsilegt. Hann lagði sig fram um að komast yfir bestu eintök sem völ var á, og ef bækur voru ófáanlegar vegna fágætis lét hann gera eftirprentun. Dönskum vísinda- og fræðimönnum veitti hann aðgang að safni sínu. Elsta dóttir Hielmstiernes, og sú eina sem komst upp, var Agnete Marie Hielmstierne (f. 21. júlí 1752, d. 3. september 1838). Hún giftist 1773 Marcus Gerhard Rosencrone (1738–1811), síðar greifa, syni Everts eða Edvards Londemann (1680–1749), sem ólst upp á Eyrarbakka. Ákvað Hielmstierne þá að söfn hans af bókum, handritum, landakortum og myndum, skyldu framvegis varðveitt sem eins konar sjóður eða legat innan fjölskyldunnar; og eftir hans dag skyldi prenta ítarlega skrá um safnið og auka við það. Bókaskráin kom út í þremur bindum (1782–1786), með formálum eftir P. F. Suhm. Safnið stóð síðan lengi ónotað, því að Rosencrone greifi kunni ekki við að ganga gegn óskum tengdaföður síns. Að lokum afhenti hann konunginum safnið, og var með tilskipun 6. mars 1807 ákveðið að það skyldi afhent Konunglega bókasafninu og varðveitt þar sem sérstök deild undir nafninu "Hielmstierne-Rosenkrónska bókasafnið" (Den Hielmstierne-Rosencronske Bogsamling). Marmarastytta af stofnandanum, eftir Bertel Thorvaldsen, stendur vörð um safnið. Samantha Ferris. Samantha Ferris (fædd 2. nóvember 1968) er kanadísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Supernatural og The 4400. Einkalíf. Samantha Ferris fæddist í Norður-Vancouver en ólst upp í Whistler og er af breskum uppruna. Foreldrar hennar byggðu fyrsta hótelið þar og ráku skíðaskóla þar, ásamt því þá stofnaði faðir hennar sumar skíðabúðir, þær fyrstu sinnar tegundar í N-Ameríku. Ferris á hund að nafni Kramer og hefur átt hann í 15 ár. Hún stundaði nám við háskólann í Victoria í Bresku Kólumbíu í tvö ár en komst að því að nám hentaði henni ekki. Ferris vann sem útvarpskona í Vancouver, allt frá þuli til þess að lýsa umferð úr þyrlu. Hún vinnur enn við útvarp af og til. Styður hún dýra góðgerðarsamtök og er stuðningsaðili fyrir tvö börn gegnum World Vision góðgerðasamtökin, lítinn strák frá Bangladesh og litla stúlku frá Kambódíu. Ferill. Ferris varð ekki leikkona fyrr en um þrítugs aldurinn og var það ferill hennar í útvarpi sem gaf henni tækifæri í sjónvarpi. Vann hún sem veðurþulur í hádegisfréttunum hjá bæjarsjónvarpsstöðinni. Hún hóf störf í tónlistariðnaðinum og vann hjá Sony Music Canada og vann hún með útvarpsstöðvum og sá um tónlistarmennina þegar þeir komu í heimsókn. Hitti hún meðal annars Joe Cocker, Oasis, Alic Cooper, Sandra Bernhardt og fleiri. Fyrsta hlutverk hennar er frá árinu 1996 í sjónvarpsþættinum Saber Marionette J. Síðan hefur hún komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Meðal þeirra eru: The Sentinel, Stargate SG-1, Along Came a Spider, og Supernatural. Ferris er þekktust fyrir að hlutverk sín sem: Nina Jarvis í The 4400 og sem Ellen Harvelle í Supernatural. Tenglar. Ferris, Samantha Kirkjustjórnarráð. Kirkjustjórnarráð eða Kirkjustjórnarráðið (danska: "Kirkeinspektionskollegium") var stjórnardeild undir danska Kansellíinu, sem sá um kirkjumál. Kirkjustjórnarráðið starfaði á árunum 1737–1791, en áður sá Kansellíið sjálft um þennan málaflokk. Fyrsti yfirmaður Kirkjustjórnarráðsins var Johan Ludvig Holstein greifi. Árið 1928 afhenti Ríkisskjalasafn Danmerkur Þjóðskjalasafni Íslands meginhluta þeirra skjala Kirkjustjórnarráðsins, sem snerta íslensk málefni. Eru þau varðveitt þar sem sérstök deild: "Skjalasafn Kirkjustjórnarráðs". Borgarhólsskóli. Borgarhólsskóli (áður Barnaskóli Húsavíkur og Gagnfræðaskóli Húsavíkur) er grunnskólinn á Húsavík. Farsótt. Farsótt er smitandi sjúkdómur sem breiðist ört út og leggst á tiltölulega marga. Farsótt er skilgreind sem: „skráningarskyldur smitsjúkdómur sem ógnað getur almannaheill. Auk hinna almennu sóttvarnaráðstafana, sem ætíð skal grípa til, heimilar frumvarpið einnig svokallaðar opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna yfirvofandi farsótta“. Alona Tal. Alona Tal (fædd 20. október 1983) er ísraelsk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Supernatural, Veronica Mars og HaPijamot. Einkalíf. Tal er fædd og uppalin í Herzliya,Ísrael. Tal var meðlimur í ísraelska varnarliðinu áður en hún gerðist leikkona. Tal byrjaði ferill sinn í barna tónlistamyndum þar sem hún lék vonda norn. Eftir það, þá kom hún fram í auglýsingu fyrir þvottaefni. Tal hefur verið gift leikaranum Marcos Ferraez síðan 2007. Ferill. Fyrsta kvikmyndahlutverk Tal var í ísraelsku myndinni Lihiyot Kochav ("To Be A Star"). Á meðan upptökur stóðu yfir á myndinni, þá var henni boðið að leika í tveimur sjónvarpsþáttum, sem hún tók. Sá fyrri var sápuóperan Tzimerim, um líf fjölskyldu sem rak hótel; sá seinni var HaPijamot ("The Pyjamas"), grínþáttur um hljómsveit sem átti erfitt að komast áfram í tónlistariðnaðinum. Þátturinn rann í fimm ár og gaf Tal tækifæri á að sýna tónlistarhæfileika sinn. Þó að hún lék aðalhlutverkið í þrjú ár, þá kom hún fram í fjórðu seríunni í nokkrum þáttum. Eftir það þá tók hún upp nokkur lög með ísraelska rapparanum Subliminal. Eftir annasama vinnu, þá flutti, Tal til New York City til þess að lifa með systur sinni. Þar kynntist hún Wyclef Jean og tók upp lag með honum, þar sem hún syngur viðlagið á herbresku. Fyrsta stóra sjónvarpshlutverk hennar var í Veronica Mars sem Meg Manning sem hún lék frá 2004-2005. Persóna Tal var ein af vinkonum Veronicu Mars. Tal sóttist upprunalega eftir að leika Veronicu Mars, og var valkostur númer tvö fyrir hlutverkið. Rob Thomas, höfundur þáttarins líkaði svo við Tal að hann bjó til aukahlutverk sérstaklega fyrir hana. Hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við, Commander in Chief, Ghost Whisperer, Knight Rider, Lie to Me og The Killing. Árið 2006 var Tal boðið gestahlutverk í Supernatural sem Jo Harvelle sem hún lék með hléum til ársins 2011. Tal leikur núna eitt af aðalhlutverkunum í sjónvarpsþættinum Cult sem Kelly Collins en fyrsti þátturinn var frumsýndur í febrúar 2013. Tal hefur komið fram í kvikmyndum á borð við College, Kalamity og Broken City. Tenglar. Tal, Alona Fjársjóður af Staffordshire. Nokkrir hlutir sem voru fundnir. Fjársjóður af Staffordshire er stærsti fjársjóður engilsaxnesks gulls sem hefur verið fundinn. Fjársjóðurinn var uppgötvaður á akrinum í sýslunni Staffordshire í Englandi þann 5. júlí 2009. Fundnir voru yfir 1.500 hluti og talið er að þessir hlutir séu frá 7. eða 8. öld e.Kr., þess vegna urðu þeir til í konungsríkinu Mersía. Núna eru sérfræðingar að tala um hvort hann væri settur niður af heiðingjum eða kristnum mönnum og til hvers er fjársjóðurinn. Áhugamaður með málmleitartæki fann fjársjóðinn. Hann skýrði sveitarstjórn frá fjársjóðnum og þá komst hann í eigu Krúnunnar. Fjársjóðurinn er um það bil 1 milljón breskra punda; finnanda fjársjóðsins og landeigandans þar sem hann var fundinn verður gefið þetta sem fundarlaun. Eftir uppgötvunina hófst uppgröftur á svæðinu þar sem fjársjóðurinn var fundinn. Staðsetning uppgötvunarinnar er leynileg vegna gildis hennar. Fjársjóðurinn var á minjasafni í Birmingham þangað til 13. október 2009. Arthur (þáttur). Arthur (íslenska: Artúr) er amerísk-kanadískur teiknimyndaþáttur fyrir krakka. Arthur snýst um mauraætuna Artúr og fjölskyldu hans og vini. Arthur er byggt á bókunum Arthur eftir Marc Brown. Skarðverjar. Skarðverjar er ætt á Vesturlandi, kennd við bæinn Skarð á Skarðsströnd, og hefur fólk af ættinni búið á Skarði að minnsta kosti frá tólftu öld og hugsanlega allt frá landnámsöld og til dagsins í dag. Skarðverjar voru alltaf ein helsta ætt landsins en eru þó ekki ein af höfuðættum Sturlungaaldar, enda virðast þeir ekki hafa seilst mikið til valda á þeim tíma. Þeir bjuggu hins vegar á einni mestu hlunnindajörð landsins og söfnuðu auði; Skarðs-Snorri var talinn auðugasti maður vestanlands og lengi fram eftir öldum héldust geysimiklar eignir í ættinni og margir einstaklingar af henni voru í hópi ríkustu manna landsins. Sá fyrsti af ættinni sem víst er að hafi búið á Skarði var Húnbogi Þorgilsson sem bjó þar á fyrri hluta 12. aldar. Síðan bjó þar sonur hans, Snorri Húnbogason lögsögumaður, þá bræðurnir Þorgils og Narfi Snorrasynir og síðan sonur Narfa, Snorri Narfason sem kallaður var Skarðs-Snorri, sem kemur töluvert við sögu í Sturlungu. Narfi sonur hans bjó á Kolbeinsstöðum en tveir synir Narfa, þeir Þórður og Snorri, bjuggu á Skarði og síðan sonur Snorra, Ormur Snorrason lögmaður. Eftir hann eignaðist sonarsonur hans, Loftur Guttormsson, jörðina og hafði bú þar. Frægust allra Skarðverja á miðöldum er dóttir hans, Ólöf ríka, sem bjó lengi á Skarði ásamt manni sínum, Birni Þorleifssyni hirðstjóra, og síðan afkomendur þeirra, svo sem Þorleifur Pálsson lögmaður (d. 1558), Eggert ríki Björnsson, sýslumaður á Skarði (1612-1681) og Arnfríður dóttir hans. Skarðverjar voru líka lengi ein helsta embættismannaætt landsins, voru lögsögumenn, hirðstjórar, lögmenn og sýslumenn mann fram af manni. Margir þeirra voru miklir bókamenn - Þórður Narfason er talinn hafa tekið Sturlungu saman í þeirri mynd sem hún er nú - og tvær af helstu gersemum íslenskra handrita eru kenndar við Skarð, Skarðsbók Jónsbókar og Skarðsbók postulasagna. Katie Cassidy. Katherine Evelyn Anita „Katie“ Cassidy-Benedon (fædd 25. nóvember 1986) er bandarísk leikkona og söngvari, best þekkt fyrir hlutverk sín í Supernatural, "Harper's Island", Melrose Place, "Black Christmas" og "Taken". Einkalíf. Katie fæddist í Los Angeles í Kaliforníu, er dóttir söngvarans David Cassidy og fyrrverandi módelsins Sherry Benedon. Amma og afi hennar föður megin eru leikararnir Jack Cassidy og Evelyn Ward. Aldist hún upp í Calabasas, Kaliforníu með móður sinni og stjúpföður. Á tvær eldri og einn yngri bróður. Sem barn þá stundaði Katie fimleika og varð á endanum klappstýra fyrir California Flyers. Katie var handtekin fyrir ölvunaraskur í ágúst, 2007 í Tucson þegar bill sem hún var farþegi í var stoppaður vegna umferðarbrot. Laug hún að lögreglunni þegar hún var spurð. Alkóhól magn hennar var.16 — tvisvar sinnum meira en löglegt er í Arizona. Cassidy sagði lögreglunni að hún héti Taylor Cole og að hún væri 21 árs. Cole er leikkona og vinkona frá Kanada. Katie hefur fjögur húðflúr; eitt á mjöðminni, eitt á fótnum, eitt á öklanum og eitt á mjóhryggnum. Fyrsta húðflúrið sem hún fékk var „1922“, sem er árið sem móðuramma hennar fæddist. Húðflúrið á fætinum eru þrjár stjörnu sem eru fyrir hana og systur sínar tvær, en þær hafa sama tattó líka. Móðir þeirra Sherry hefur tattoo með þrjár stjörnur (dæturnar þrjár) sem koma fram miðstjörnu (móðirin). Hver þeirra hefur tattóið á mismunandi stað. Katie hefur einnig húðflúr af nafn-hringi sem á öklinum, sem má lesa sem „Love Thyself, Know Thyself, Be Thyself“. Húðflúrið á mjóhryggnum er latneska orðtælið: Alis volat propriis, sem á ensku merkir „She Flies with Her Own Wings“. Katie valdi þetta orðatak þar sem það var við hæfi og endurspeglar sjálfstæði hennar og þrátt fyrir fjöldskylduböndin. Ferill. Þegar hún var í grunnskóla þá fékk Cassidy áhuga á skemmtanaiðnaðinum og tók þátt í samfélags leikhúsum og seinna meir lærði hún að verða leiklistar kennari. Tók nokkur auglýsingastörf fyrir Abercrombie og Fitch árið 2004. Móðir hennar leyfði henni ekki að taka módelstörf þangað til hún lyki menntaskólanámi. Eftir menntaskóla, Cassidy flutti til Los Angeles og kom fram í nokkrum sjónvarpsþáttum, þar á meðal 7th Heaven. Kom hún fram sem gestaleikari í "Sex, Love & Secrets". Einnig kom hún fram í tónlistamyndbandinu "Just Lose It" með Eminem, 2004. Árið 2002 þá gaf hún út lagið „I Think I Love You“. Kom fram í "When a Stranger Calls" og "Click" með Adam Sandler, ásamt "Black Christmas" árið 2006. Árið 2007 þá tók hún upp myndina Revenge of the Nerds, en framleiðslan staðnæmdist og sem á endanum var hætt við. Kom hún fram í "Taken" árið 2008, með Liam Neeson og Maggie Grace. Cassidy gerði eins árs samning við sjónvarpsstöðina The CW, til þess að koma fram í sjónvarpsþættinum Supernatural. Cassidy lék verðandi brúður, Trish Wellington í CBS seríunni "Harper's Island". Lék Ellu Simms í endurútgáfunni af Melrose Place en aðeins 18 þættir voru sýndir áður en framleiðslu var hætt. Cassidy var með gestahlutverk í unglingaþættinum Gossip Girl sem Juliet Sharp. Tenglar. Cassidy, Katie Lauren Cohan. Lauren Cohan (fædd 7. janúar 1982) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Supernatural, The Walking Dead, Chuck (sjónvarpsþáttur) og The Vampire Diaries Ævisaga. Lauren fæddist í Philadelphiu í Pennsylvaníu og bjó í Cherry Hill Township í New Jersey í æsku áður en hún fluttist í Bretlands. Móðir Laurens snérist yfir í gyðingadóm eftir að hafa gifts stjúpföður hennar. Var hún alin upp í trúnni en hún telur sjálfan sig ekki trúaða í dag. Lauren útskrifaðist frá "University of Winchester" (King Alfred's College) þar sem hún lærði leiklist og enskar bókmenntir áður en hún ferðaðist með leikhúsi sem hún stofnaði með öðrum í háskólanum. Lauren skiptir tíma sínum og vinnu milli London og Los Angeles, ásamt því að vinna við nokkrar kvikmyndir ásamt verkefnum tengdum auglýsingum. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Cohan var árið 2007 í sápuóperunni The Bold and the Beautiful. Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við, Modern Family og. Cohan lék stór gestahlutverk í Supernatural sem Bela Talbot frá 2007-2008, sem Vivian Volkoff í Chuck (sjónvarpsþáttur) árið 2011 og sem Rose í The Vampire Diaries frá 2010-2012. Cohan hefur síðan 2011 leikið Maggie Greene í uppvakningsþættinum The Walking Dead. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Cohan var árið 2005 í The Quiet Assassin. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við, Float, Casanovaog Young Alexander the Great. Tenglar. Cohan, Lauren Genevieve Cortese. Genevieve Cortese (fædd Genevieve Nicole Cortese, 8. janúar 1981) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Wildfire og Supernatural. Einkalíf. Genevieve ólst upp rétt fyrir utan San Francisco þangað til hún var 13 ára. Þá ákváðu foreldrar hennar að flytja til skíðabæjarins Whitefish í Montana. Eftir eitt ár fór fjölskylda hennar í ferðalag til þess að skoða mismunandi skíðabæi og enduðu þau í Sun Valley í Idaho, en Genevieve lítur á þann bæ sem heimabæ sinn. Genevieve er með BFA gráðu í Drama og BA gráðu í ensku frá "Tisch School of the Arts", við New York-háskóla, þar sem hún sótti Stella Adler Acting Studio og Atlantic Theater Co. Þann 27.febrúar 2010 þá giftist Genevieve Jared Padalecki en þau kynntust við tökur á Supernatural. Genevieve og Jared eignuðust sitt fyrsta barn í mars 2012.. Leikhús. Genevieve hefur komið fram í leikritum á borð við "A Midsummer Night's Dream", "One Flew Over the Cuckoo's Nest", "Crimes of the Heart" og "Joseph and the Amazing Technicolor Dreamcoat". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshutverk Cortese var árið 2005 í "The Dead Zone". Sama ár þá var henni boðið hlutverk í Wildfire sem Kris Furillo, sem hún lék til ársins 2008. Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Supernatural og FlashForward. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Cortese var árið 2004 í "Mojave". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Bickford Shmeckler´s Cool Ideas" og "Salted Nuts". Tenglar. Cortese, Genevieve Julie McNiven. Julie McNiven (fædd 11. október 1980) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Supernatural og Mad Men. Einkalíf. McNiven fæddist í Amherst, Masachusetts og stundaði nám við Salem State College. McNiven stundaði loftfimleika sem unglingur við French Woods Festival of the Performing Arts og sótti sumarnámskeið við Circle in the Square. Ferill. Fyrsta kvikmyndahluverk McNiven var árið 1997 í "Old Man Dogs" og hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Doses of Roger", "Machine Child", "The Cave Movie" og "Sodales". Ferill McNiven í sjónvarpi byrjaði árið 2006 í "Waterfront" og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Brotherhood", "New Amsterdam", Desperate Housewives, House og "Nikita". Árið 2007 þá var McNiven boðið hlutverk í Mad Men sem Hildy sem hún lék til ársins 2009. McNiven lék engilinn Anna Milton í Supernatural sem hún lék frá 2008-2010. Tenglar. McNiven, Julie Þríglýseríð. Þríglýseríð (eða þríglyseríð) er glýeseríð sem hefur þann eiginleika að glyserólið í því hefur verið estrað með þremur fitusýrum, m.ö.o. það er samsett úr einni glyserólsameind og þremur fitusýrum. Fitufrumur eru að mestu fylltar af þríglýseríð. Þríglýseríð er alltaf úr glýseról og þremur fítusýrum. Glýseról hlutinn er alltaf eins, en fítusýruhlutinn getur verið mismunandi á tvo vegu, hvað varðar lengd kolefniskeðjunnar og fjölda svokallaðra tvítengja. Mettuð fita er þríglýseríð sem inniheldur eingöngu mettaðar fítusýrur. Það eru fitusýrur með engum tvítengjum. Hvert kolefnisatóm er tengt fjórum öðrum atómum og bindistaðir þess mattaðir. Mettuð fita er eins og áður sagði aðallega í afurðum landdýra. Ómettuð fita er þríglyseríð sem inniheldur fitusýrur sem hafa eitt eða fleiri tvítengi. Hvert kolefnisatóm er tengt færri en fjórum öðrum atómum og bindistaðir þess eru því ómettaðir, atómið myndar tvítengi úr ómettuðum bindistöðum. Ómettuð fita er aðallega í jurtaolíu og sjávarafurðum. Seiður. Það voru einkum konur, sem stunduðu seið með norrænum mönnum, enda voru seiðkarlar kenndir við ergi, hugtak sem talið er að þýði „mannleysa“ eða lýsi einhverskonar „ókarlmannlegu eðli“ oft notað yfir samkynhneigð, en seiðiðkun þótti engu að síður máttug og ógnvekjandi aðferð til að skyggnast inn í framtíðina eða framvindu örlagana, hljóta yfirnáttúrulega vernd eða valda öðrum ómældum skaða. Mark Pellegrino. Mark Pellegrino (fæddur 9. apríl 1965) er bandarískur leikari sem er þekkastur fyrir hlutverk sín í Dexter, Lost og Supernatural. Einkalíf. Pellegrino er fæddur og uppalinn í Los Angeles, Kaliforníu. Mark er kennari við Playhouse West, sem var stofnaður af Robert Carnegie og Sanford Meisner. Jeff Goldblum er einnig kennari við stofnunina. Pellegrino er fyrrverandi hermaður í bandaríska hernum. Í frímatíma sínum þá stundar hann íþróttir á borð við sjálfsvarnarlist, sparkbox, thaibox, júdó, karate og ju-jitsu. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Pellegrino var árið 1987 í "L.A. Law". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Northern Exposure", ER, "The X-Files", NYPD Blue, Criminal Minds, The Unit og "Knight Rider". Árið 2006 þá var Pellegrino boðið gestahlutverk í Dexter sem Paul Bennett, fyrrverandi eiginmann Ritu. Í mars 2009 var Pellegrino ráðinn til þess að koma fram í ABC þættinum Lost í seinasta þætti fimmtu seríunnar, til þess að leika hinn dularfulla Jacob. Þó að fréttayfirlýsing varðandi þáttinn kallar hann aðeins sem „Man No. 1“ þá kemur fram að Pellegrino leikur Jacob, dularfulla persónu mikilvæga í lokasögu þáttarins. Þann 26. júní 2009 kemur fram að Pellegrino var ráðinn í endurtekið hlutverk sem Lúsifer í fimmtu seríu CW þáttarins Supernatural. Hefur hann leikið Lúsifer með hléum síðan þá. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Pellegrino var árið 1987 í "Fatal Beauty". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Night Life", Lethal Weapon 3 á móti Mel Gibson og Danny Glover, "Trouble Bound", "Macon County Jail", The Big Lebowski á móti Jeff Bridges og John Goodman, Mulholland Dr., National Treasure og Capote þar sem hann lék morðingjann Dick Hickock. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. Pellegrino, Mark Bergþór Hrafnsson. Bergþór Hrafnsson var íslenskur lögsögumaður á 12. öld. Í lögsögumannstíð hans voru íslensk lög skráð niður í fyrsta sinn. Bergþór var sonarsonur lögsögumannsins Gunnars Þorgrímssonar spaka og bróðursonur Úlfhéðins Gunnarssonar lögsögumanns. Hann tók við lögsögumannsembættinu af Úlfhéðni 1117 og gegndi því til 1122 en hefur líklega látist það ár. Eftir því sem segir í Kristni sögu var hann á Breiðabólstað hjá Hafliða Mássyni veturinn 1117-1118 og unnu þeir þar ásamt fleirum að ritun og endurbótum íslenskra laga. Þau voru svo lesin upp í lögréttu á Alþingi 1118 og samþykkt. Gunnar hinn spaki Þorgrímsson. Gunnar Þorgrímsson hinn spaki (d. 1075) var íslenskur lögsögumaður á 11. öld, fyrst 1063-1065 og svo aftur 1075 eitt þing. Sonur Gunnars, Úlfhéðinn, var lögsögumaður á 12. öld og einnig þrír sonarsynir hans, þeir Bergþór Hrafnsson, Gunnar Úlfhéðinsson og Hrafn Úlfhéðinsson. Ekki er vitað hvar þeir langfeðgar bjuggu en líkur hafa verið leiddar að því að þeir hafi verið norðlenskir, hugsanlega frá Víðimýri í Skagafirði. Afkomendur Gunnars bjuggu í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. Danger Girl. Danger Girl er tölvuleikur gefinn út á Playstation árið 2000. Hann snýst um þrjár stelpur sem berjast gegn glæpamönnum. Leikurinn var gerður eftir teiknimyndasögum með sama nafni. Úlfhéðinn Gunnarsson. Úlfhéðinn Gunnarsson (d. 1116) var íslenskur lögsögumaður sem var uppi á 11. og 12. öld. Hann var einn af heimildarmönnum Ara fróða þegar hann skrifaði Íslendingabók. Úlfhéðinn var sonur Gunnars hins spaka Þorgrímssonar, sem var lögsögumaður tvisvar á 11. öld. Úlfhéðinn var kjörinn lögsögumaður 1108 og gegndi embættinu þar til hann lést 1116. Kona hans hét Ragnhildur Hallsdóttir og var komin í beinan karllegg af landnámsmanninum Höfða-Þórði Bjarnarsyni. Tveir synir þeirra, Hrafn og Gunnar, urðu lögsögumenn, svo og bróðursonur Úlfhéðins, Bergþór Hrafnsson. Úlfhéðinn hefur verið einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem vitnar tvívegis til hans í Íslendingabók. Hrafn Úlfhéðinsson. Hrafn Úlfhéðinsson (d. 1138) (eða Rafn Úlfhéðinsson) var íslenskur lögsögumaður á 12. öld og gegndi embættinu 1135-1138. Hann var sonur Úlfhéðins Gunnarssonar lögsögumanns og Ragnhildar Hallsdóttur konu hans og bróðir Gunnars Úlfhéðinssonar lögsögumanns. Sonur hans var Hallur Hrafnsson ábóti á Munkaþverá en dóttir hans var Hallbera Hrafnsdóttir, kona Hreins Styrmissonar er síðar varð ábóti á Þingeyrum. Gunnar Úlfhéðinsson. Gunnar Úlfhéðinsson var íslenskur lögsögumaður á 12. öld. Hann var kjörinn lögsögumaður 1146 og gegndi því embætti til 1155. Gunnar var sonur Úlfhéðins Gunnarssonar lögsögumanns og Ragnhildar Hallsdóttur konu hans og bróðir Hrafns Úlfhéðinssonar lögsögumanns. Ekki er getið um konu hans eða hvar hann bjó. Markús Skeggjason. Markús Skeggjason (d. 15. október 1107) var íslenskur lögsögumaður og skáld á 11. og 12. öld. Ari fróði segir í Kristni sögu að hann hafi verið vitrastur lögmanna á Íslandi, annar en Skafti (Þóroddsson). Markús var sonur Skeggja Bjarnasonar og Hallberu Grímsdóttur og var kominn í beinan karllegg af Ingólfi Arnarsyni. Hann var fyrst kosinn lögsögumaður 1084, endurkjörinn hvað eftir annað og gegndi embættinu allt til dauðadags 1107. Hann hefur verið mjög fróður og líklega lærður, var einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem segir að hann hafi sagt sér ævi allra lögsögumanna sem greint er frá í Íslendingabók, „en honum sagði Þórarinn, bróðir hans, ok Skeggi faðir þeira, ok fleiri spakir menn til þeira ævi, er fyr hans minni váru, at því er Bjarni inn spaki hafði sagt, föðurfaðir þeira, er munði Þórarin lögsögumann ok sex aðra síðan.“ Ari segir líka frá því að Markús var líka með í ráðum ásamt Sæmundi fróða og fleiri höfðingjum þegar Gissur Ísleifsson fékk tíundina samþykkta á Alþingi. Markús var skáld og orti meðal annars drápu um Eirík góða Danakonung. Drápuna orti hann skömmu eftir lát konungs árið 1103, og er hún lofgjörð um Eirík konung og aðalheimildin um sögu hans. Kona Markúsar var Járngerður Ljótsdóttir. Dóttir þeirra, Valgerður, giftist Þórði Skúlasyni presti í Görðum á Akranesi, og var sonur þeirra Böðvar Þórðarson í Görðum, móðurafi Snorra Sturlusonar og bræðra hans. McG. Joseph McGinty Nichol (fæddur 9. ágúst 1970), betur þekktur sem McG, er bandarískur leikstjóri og framleiðandi kvikmynda og sjónvarpsþátta, ásamt því að vera fyrrverandi upptökustjóri. McG á sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Wonderland Sound and Vision, stofnað 2001, sem hefur séð um framleiðslu á þeim kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem hann hefur unnið við síðan hann gerði. Einkalíf. Joseph McGinty Nichol fæddist í Kalamazoo í Michigan og ólst upp í Newport Beach í Kaliforníu. Þar sem bæði frændi hans og afi hans voru báðir kallaðir Joe, þá var hann nefndur McG af móður sinni til þess að losna undan misskilningi, en gælunafnið festist við hann síðan hann fæddist. Hann á einn bróður og faðir hans á fyrirtæki sem prófar lyf fyrir lyfjafyrirtæki. McG stundaði nám við Corona del Mar High School, þar sem hann kynntist Mark McGrath. Í fyrstu vildi hann verða aðalsöngvari í hljómsveit sem hann stofnaði með honum. En hann náði aldrei að vera aðalsöngvarinn og bað McGrath um að taka við, vann hann bakvið tjöldin sem framleiðandi og sölumaður í staðinn. Þegar hann var 22 ára sótti hann Kaliforníuháskóla í Irvine og tók BA-gráðu í sálfæði. Á sama tíma vann McG sem ljósmyndari með því að taka myndir af hljómsveitum og tónlistarmönnum. Þetta leiddi hann til þess að stofna G Recordings árið 1993. Í desember 2008 var hann verðlaunaður sem Kodak-kvikmyndagerðarmaður ársins af CineAsia. Tónlist. Árið 1995, McG framleiddi fyrsta albúm Sugar Ray og er samhöfundur að nokkrum lögum, þar á meðal „Fly“. Tónlistarferill hans innihélt yfir fimmtíu tónlistmyndbönd, eins og „All Star“ með Smash Mouth og „Pretty Fly (For a White Guy)“ með The Offspring. Tónlistarmyndbönd. McG leikstýrði auk þess heimildarmyndum um Korn og Sugar Ray. Árið 1997 fékk hann Billboard-tónlistarverðlaunin fyrir besta popvideo ársins fyrir "Walking on the Sun" með Smash Mouth og "Music Video Production Association" verðlaunin fyrir besta popvideo ársins fyrir "Fly" með Sugar Ray. Sjónvarpsauglýsingar. McG leikstýrði auglýsingum fyrir Major League Baseball og Coca-Cola. Ein auglýsing hans fyrir Gap var verðlaunuð árið 1999 við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í London. Kvikmyndir. Árið 2000 þá var McG boðið af Drew Barrymore að leikstýra Charlie's Angels þar sem hún var svo hrifin af tónlistarmyndböndum hans. Sem hann samþykkti, þar sem honum langaði í stærri verkefni og seldi myndina til stúdíó yfirmannanna, sem voru í fyrstu tregir en létu svo undan á endanum. Myndin var frumsýnd árið 2000 og tók hún inn yfir 250 milljónir dollara alþjóðlega, við misjafna hrifningu gagnrýnanda og áhorfenda. Samt sem áður þá vann hann Hollywood Breakthrough verðlaunin á Hollywood Kvikmyndahátíðinni árið 2002. Í febrúar 2002, þá vann hann með Jon Peters og Lorenzo di Bonaventura við fimmtu myndina í Superman seríunni sem var þá á þróunarstiginu. McG og Peters réðu J.J. Abrams til þess að skrifa handritið að myndinni sem kallaðist "Superman: Flyby", sem var gefið út í júlí 2002. Eftir að hafa losað sig undan verkefninu til þess að gera í september 2002, þá var McG skipt út fyrir Brett Ratner. Warner Bros. voru enn ánægðir með hann og enduréðu hann til þess að leikstýra "Superman: Flyby" í apríl 2003 eftir að Ratner datt út. Á meðan hann var enn við verkefnið þá skipulögðu McG og stjórnendurnir söguborð, hugmyndir og staðsetningar ásamt breytingum að handritinu. En ekkert gerðist og McG yfirgaf verkefnið, vegna flughræðslu til Sydney, Ástralíu. Þetta gerði það að verkum að Bryan Singer endaði með að leikstýra Superman Returns. Árið 2006 þá leyfði Warner Bros., McG sem "virtist vera að lagast sem sögumaður og langaði að vinna að betri verkefnum" til þess að leikstýra íþrótta-drama myndinni "We Are Marshall". Þó að myndin fékk misjafna dóma, en McG var hyllt fyrir að hafa komið sögunni vel frá sér. Jessica Reaves frá Chicago Tribune sagði að "McG sýnir nýja hlið á sér. Senur eins og flugslyið og afleiðingar þess voru vel gerðar. McG ákvað ásamt Adam Brody, að gera endurgerð af Revenge of the Nerds, sem átti að vera frumsýnd árið 2007 með fjármang upp á 5 milljónir dollara og upptökur áttu að byrja við Emory University. Samt sem áður, eftir að hafa fengið handritið, háskólayfirvöld bökkuðu út tveim vikum áður en upptökur hófust, þar sem handritið var illa skrifað. Þetta leiddi til þess að myndin var tekin upp við Agnes Scott College í tvær vikur, en eftir á, Fox Atomic og framleiðendur settu það upp í hillu vegna skorts af víðskotum, opna rýmið við Emorys háskólann hefði gefið þeim það, og þar sem vetur var að nálgast hratt, sem myndi gera það erfitt fyrir að ná þeim senum sem þeir þurftu. Ásamt því að yfirmaður stúdíósins Peter Rice var ósáttur með þær upptökur sem voru til staðar. Þann 2. ágúst 2007, þá skrifaði McG undir þriggja ára- framleiðslu samning fyrir hönd Wonderland Sound and Vision við Warner Bros., með áætlun um að "framleiða þrjár myndir á ári" og leikstýra "einni af þeim hvert ár". Fyrstu þrjár myndirnar áttu að vera "Nightcrawlers", "Yucatan", og "Maintenance". Samt sem áður leit engin af þessum myndum dagsins ljós. Næsta kvikmynda verkefni McGs var Terminator Salvation (2009), fjórða myndin í Terminator seríunni. Eftir að Halcyon Company keypti réttinn, réðu þeir McG fyrir verkefnið sem hann fékk 6 million dollara fyrir. Þó að hann hafi lofað aðdáendum að færa aftur trúverðugleika seríunnar, með því að ráða Christian Bale og eftir einlægt samtal við James Cameron. Myndin var frumsýnd 21. maí, 2009 í Bandaríkjunum og Kanada, fékk neikvæða gagnrýni af öllum myndunum í seríunni. Heildartekjur myndarinnar alþjóðlega voru 370 milljónir dollara. Næsta verkefni hans var að leikstýra endurgerðinni af '20,000 Leagues Under the Sea fyrir Disney, þar sem hann vildi ráða Sam Worthington sem Captain Nemo. En eftir að hafa eytt 10 milljónum dollara í frumvinnslu, þá ákvað Rich Ross yfirmaður Disney að setja stoppa verkefnið vegna ágreinings um mismunandi áherslur á myndina, og McG er ekki lengur tengdur verkefninu. Í staðinn þá fór McG í samningaviðræður við 20 Century Fox um að leikstýra grín-spennumyndinni This Means War, sem skartar Reese Witherspoon, Chris Pine og Tom Hardy og verður frumsýnd í febrúar 2012. McG hefur verið í samningaviðræðum að sjá um framleiðslu og þróun nýrrar "Terminator" myndar, eftir að hafa gert 10 milljóna dollara samning við Halcyon Company, en þar sem kvikmyndarétturinn er nú í eigu "Pacificor" þá hafa líkur hans minnkað til muna. McG hefur verið aktívur í þróun rokk söngleiksins "Spring Awakening". Hann er að plana framleiða og taka upp myndina á sex vikum fyrir 25 milljónir dollara. McG er einnig tengdur við kvikmynd byggða á Jon Stocks "Dead Spy Running" bókinni, og framleiða "I Am A Genius of Unspeakable Evil and I Want to be Your Class President", kvikmynd byggð á bókinni eftir Josh Lieb, og "Medieval", kvikmynd sem hann ætlaði að leikstýra en hefur verið gefið til Rob Cohen. McG hefur einnig verið tengdur við "Elysium", nútímasaga um Grísku goðsagnirnar, skrifuð af Matt Cirulnick;;"Medallion", spennumynd með Nicolas Cage um meistaraþjóf sem leitar að rændri dóttur sinni; kvikmynd byggð á "The DUFF" (Designated Ugly Fat Friend); "Tink", rómantísk-grínmynd byggð á Tinkerbell; og CBS Films "Face It". Önnur verkefni sem McG hefur áhuga á eru meðal annars, Seinni heimstyrjaldar mynd byggð á"Do Androids Dream of Electric Sheep?", sem var einu sinni gerð af Ridley Scott sem hin 1982 "Blade Runner" er gerð eftir. Sjónvarp. Árið 2002 þá þróaði McG þáttinn "Fastlane" með John McNamara, sem var hætt við vegna há kostnaðar á fyrsta þættinu, en má finna á heimavideo. Josh Schwartz leitaði til hans og meðframleiðanda hans, Stephanie Savage, varðandi annan sjónvarpsþátt sem var The O.C.. McG framleiddi sjónvarpseríuna "The Mountain", sem var síðan hætt við eftir aðeins eina seríu. Næsta sjónvarpsverkefni hans var Supernatural(2005), þar sem hann er meðframleiðandi. Þátturinn fjallar um tvo bræður sem elta uppi djöfla og er enn við sýningar til dags. Árið 2007, McG vann aðallega við sjónvarpið, framleiddi hann, (2007) og Chuck (2007). Sem hann framleiddi með Josh Schwartz, félagi hans við "The O.C.", leikstýrði hann síðarnefnda þættinum og heldur áfram að vera meðframleiðandi þáttarins. Fox hafði gefið handritaleyfi fyrir "Invisible", McG-sjónvarpsþáttur skrifaður af Ari Eisner um glæpamann sem getur orðið ósýnilegur. Frá 2009, þá hafa engar upplýsingar komið fram varðandi þáttinn. Auk þess samþykkti Fox þann 30. október 2007 kynningaþátt fyrir endurgerð á breska þættinum Spaced, þar sem McG er framleiðslustjóri. Simon Pegg og aðdáendur urðu reiðir þar sem aðild upphaflegu höfunda var ekki notuð. Samt sem áður var kynningarþátturinn skrifaður af Adam Barr, en var rakkaður svo niður, sem endaði með því að Fox hætti við seríuna. McG sem þá var framleiðandi að (2008). serían sem var svo hætt við. Hann var framleiðslustjóri fyrir WB Television Network's internet seríuna, "Sorority Forever" (2008) og "Exposed"(2008) líka. Fyrirtæki hans, seldi þrjá nýja þætti fyrir 2009-2010 tímabilið, "Thunder Road" raunveruleikaþáttur til CBS,"Limelight" sem var byggt á lífi Pharrell Williams til ABC, og "Human Target" sem var byggt á teiknimyndasögu til Fox. Aðeins Human Target var gerður af seríu og voru tvær þáttaraðir gerðar. Árið 2010 þá seldi hann The CW þáttinn "Nikita", sem er endurgerð af "La Femme Nikita" og hafa tvær þáttaraðir verið gerðar til þessa. Nýjustu sjónvarpsþættirnir sem hann er með í bígerð eru "Zombies vs. Vampires", sem fjallar um tvo lögreglumenn, þar sem annar þeirra gerist vampíra og þarf að vinna við "glæpi tengda uppvakningum", einkaspæjara þáttinn "I, Pi" sem hann meðþróaði með Paul Scheuring,; og netserían "Aim High" sem var frumsýnd 1. Ágúst 2011 á Facebook. Kim Manners. Kim Manners (13. janúar 1951 – 25. janúar 2009) var bandarískur sjónvarspframleiðandi, leikstjóri og barnaleikari best þekktur fyrir vinnu sína við "The X-Files" og "Supernatural". Fjölskylda. Kim Manners var fæddur 13. janúar 1951. Manners ólst upp í skemmtanaiðnaðinum. Faðir hans, Sam Manners, vann við "The Wild Wild West" og "Route 66". Manners var barnaleikari. Fyrsta hlutverk hans var þegar hann var þriggja ára í Chevrolet-auglýsingu. Hann fylgdist oft með og hjálpaði oft föður sínum og einnig William Beaudine, Sr., leikstjóra "Rin Tin Tin", sem Manners kallaði „Gramps.“ En það var hann sem hvatti Manners til þess að verða leikstjóri. Manners á bróður, Kelly A. Manners, sem hefur starfað við meðal annars "Angel", "Buffy the Vampire Slayer" og "Dollhouse" og systur, Tana, sem er sjónvarps leikstjóri. Ferill. Manners byrjaði leikstjóraferil sinn árið 1978 þegar hann leikstýrði þætti af "Charlie's Angels". Áður þá vann hann sem framleiðslustjóri (unit production manager) við þáttinn og sem aðstoðarleikstjóri, ásamt öðrum verkefnum. Önnur leikstjóraverkefni sem hann hefur gert eru meðal annars "21 Jump Street", ', ', "Baywatch", "The Adventures of Brisco County, Jr." og "The Commish". Manners varð einn af framleiðendum og leikstjórum "The X-Files" í annarri þáttaröð eftir ráðleggingu frá Rob Bowman, sem hafði unnið við fyrstu þáttaröð þáttarins og James Wong og Glen Morgan, sem voru handritshöfundar við þáttinn og unnið með Manners við "21 Jump Street". Hann ásamt meðframleiðendum við "The X-Files", var tilnefndur fyrir fjögur Emmy verðlaun fyrir bestu dramaþætti 1995, 1996, 1997 og 1998. Manners kom fyrir í X-Files þættinum „Jose Chung's From Outer Space“ þar sem lögreglufulltrúi var nefndur eftir honum. Eftir að "The X-Files" lauk árið 2002 leikstýrði Manners nokkrum smáverkefnum áður en hann byrjaði að vinna við "Supernatural" árið 2005. Hann var mikilvægur liður í þættinum næstu fjórar þáttaraðir. Eftir að hafa leikstýrt fyrsta þætti fjórðu þáttaraðar komst hann að því að hann hafði lungnakrabbamein. Hann lést í Los Angeles í Kaliforníu þann 25. janúar 2009. Þann 12. mars 2009 var 15. þáttur í fjórðu þáttaröð af Supernatural, „Death Takes a Holiday“ sýndur í Bandaríkjunum. Í lok þáttarins voru sýndar tvær myndir af Manners, undir þeim stóð að öll þessi þáttaröð væri tileinkuð honum, þátturinn endaði með „Við söknum þín, Kim.“ Þáttur númer 205 af Breaking Bad (sem var sýndur 5. apríl 2009) var einnig tileinkaður Manners. Tenglar. Manners, Kim Vefsafn.is. Vefsafn.is er safn vefsíðna á íslensku sem Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn safnar í samræmi við lög um skylduskil frá árinu 2003, en þar var kveðið á um að útgáfa á Veraldarvefnum teldist opinber útgáfa og félli því undir skilaskyldu til safnsins. Vefsafnið byggir á reglulegum söfnunum vefsíðna sem framkvæmdar eru að jafnaði þrisvar sinnum á ári og við sérstök tilefni, eins og í kringum kosningar. Vefjum sem breytast ört, eins og fréttavefjum, er safnað oftar. Fyrsta söfnunin var framkvæmd snemma árs 2004. Safnið var formlega opnað almenningi 29. september 2009. Safnið byggir á sömu tækni og Internet Archive sem hefur safnað vefsíðum af öllum lénum frá árinu 1996. Söfnun Landsbókasafns er þó bæði dýpri og nákvæmari en söfnun Internet Archive fyrir íslenskar vefsíður. Landsbókasafnið er aðili að samtökunum International Internet Preservation Consortium sem hefur unnið að þróun tækni til söfnunar og aðgangs að vefsöfnum. Formgerðarstefnan. Formgerðarstefna eða strúkturalismi er rannsóknaraðferð til að útskýra kerfi tungumála með athugun á formum og reglum. Málvísindamaðurinn Ferdinands de Saussure er talinn faðir þessarar aðferða en hann setti fram þrjár ályktanir: 1) kerfiseðli tungumálsins er þannig að einingar í máli fá merkingu þegar þær tengjast í aðrar einingar; 2) einingar innan kerfisins öðlast ekki merkingu nema vegna vensla við aðrar einingar, tengslin búa til merkinguna, en ef tengslin haldast þau sömu er alltaf um sömu söguna að ræða; 3) tákn fyrir fyrirbæri er tilfallandi, ekki er eðlislægt samband milli orðs og þess fyrirbæris sem orðið vísar til. Hægt er að endurmynda ótal mörg kerfi úr sömu einingum. Þessi myndun kerfis sem gefur einingum merkingu felur í sér sífellda afbyggingu á sama kerfi og þar með tilurð annars konar merkingar. Andstæðuhugsun og tvenndarkerfi eru höfuðeinkenni strúktúralisma. Póststrúktúralismi gagnrýnir það. Formgerðarstefna er til í ýmsum afbrigðum eftir fræðigreinum svo sem í málvísindum, sálfræði, félagsfræði og heimspeki. Formgerðarstefna í sálfræði: er ein af fyrstu sálfræðistefnunum en samkvæmt henni átti viðfagnsefni sálfræðinnar að vera meðvituð hugarstarfsemi og skyldi hún rannsökuð með sjálfsskoðun. Þeir sem beinlínist aðhyllast formgerðarstefnu í bókmenntafræði nota einatt tungumálið og formgerð þess, málkerfið Hallormsstaðaskógur. Hallormsstaðaskógur er stærsti skógur á Íslandi. Hann er austan við Lagarfljót á Fljótsdalshéraði, um 25 km sunnan við Egilsstaði. Upp af skóginum er Hallormsstaðaháls sem skilur á milli Fljótsdals og Skriðdals. Þó að bærinn heiti Hallormsstaður er málvenja að nota „Hallormsstaða-“ (ekki „Hallormsstaðar-“) í samsettum orðum. Það helgast líklega af því að upphaflega hét bærinn Hallormsstaðir, en nafnið breyttist þegar hann varð „staður“ (staðamál), eins og flestir kirkjustaðir hér á landi. Upprunalega nafnmyndin lifir hins vegar enn í samsettu nöfnunum, samanber: Hallormsstaðaskógur. Árið 1903 stofnaði Skógrækt ríkisins skógræktarstöð við Hallormsstað. Í Hallormsstaðaskógi er tjaldstæðið og samkomustaðurinn Atlavík. Valþjófsstaður. Valþjófsstaður er gamalt höfðingjasetur og kirkjustaður í Fljótsdal. Upp af bænum rís Valþjófsstaðafjall, rúmlega 600 m hátt, með láréttum klettabeltum og Tröllkonustíg, sem er berggangur á ská upp hlíðina. Valþjófsstaður hefur frá öndverðu verið landmikil jörð með afréttir inn til jökla. Við kristnitöku bjuggu Sörli Brodd-Helgason og Þórdís Guðmundsdóttir á Valþjófsstað og snemma reis þar kirkja. Valþjófsstaður varð síðar eitt af höfuðbólum Svínfellinga, og þar bjuggu um tíma bræðurnir Oddur Þórarinsson (d. 1255) og Þorvarður Þórarinsson (d. 1296), sem voru fyrirferðarmkilir í átökum Sturlungaaldar. Jörðin varð „staður“ árið 1306 og í kaþólskum sið voru þar tveir prestar og tveir djáknar og útkirkjur á Bessastöðum og Víðivöllum ytri, auk bænhúsa. Núverandi kirkja á Valþjófsstað var vígð 1966 og geymir góða gripi. Fyrir innri dyrum er eftirmynd af Valþjófsstaðahurðinni, sem Halldór Sigurðsson á Miðhúsum skar út. Gunnar Gunnarsson rithöfundur fæddist á Valþjófsstað árið 1889. Árið 1939 fluttist hann aftur á heimaslóðir og festi kaup á Skriðuklaustri, þar sem hann bjó til 1948. Vesturhópshólar. Vesturhópshólar eða Hólar er bújörð og kirkjustaður í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu og er nyrsti bærinn í sveitinni. Nafnið er komið af sérkennilegum hólaklasa sem liggur niður frá Vatnsnesfjalli og er sennilega skriðuframhlaup úr því. Bærinn stendur sunnan undir hólunum. Kirkja hefur verið í Vesturhópshólum frá fornu fari en núverandi Vesturhópshólakirkja var reist árið 1879 og í henni er meðal annars predikunarstóll sem talinn er smíðaður af listamanninum Guðmundi Guðmundssyni í Bjarnastaðahlíð. Vesturhópshólar voru lengst af prestssetur en prestakallið var sameinað Tjarnarprestakalli 1854. Á meðal presta í Vesturhópshólum var Ólafur Hjaltason, fyrsti lútherski biskupinn á Hólum. Vesturhópshólar voru taldir ein besta jörð sveitarinnar. Þekktustu búendur þar eftir að prestssetrið var lagt af voru hjónin Þorlákur Þorláksson hreppstjóri og Margrét Jónsdóttir, sem þar bjuggu á síðasta fjórðungi 19. aldar og fram á þá tuttugustu, en á meðal barna þeirra voru Jón Þorláksson forsætisráðherra og Björg Karítas Þorláksdóttir, sem var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi. Eilífsdalur. Eilífsdalur gengur suður að hátindi Esju úr Kjósinni. Samnefnt býli er í mynni Eilífsdals. Nafnið er þannig til komið að Kjalnesingurinn Helgi Bjóla fékk skipverja sínum Eilífi, bústað í bænum. Sagan segir auk þess að Eilífur hafi verið heygður á Eilífstindi, en erfitt er að komast á tindinn. Grímur Svertingsson. Grímur Svertingsson var íslenskur lögsögumaður sem uppi var á 10. og 11. öld. Hann bjó á Mosfelli í Mosfellssveit og var lögsögumaður á árunum 1002-1003. Grímur var auðugur og ættstór, að því er segir í Egils sögu. Hann var sonur Svertings Hrolleifssonar, sem kominn var í beinan karllegg af Ölvi barnakarli. Móðir Gríms var Arnbjörg Ráðormsdóttir og hafði hún áður verið gift Gnúpi Molda-Gnúpssyni. Um árið 959 giftist hann Þórdísi Þórólfsdóttur (f. um 936), bróður- og stjúpdóttur Egils Skallagrímssonar. Egill unni henni engu minna en sínum eigin börnum og flutti að Mosfelli til þeirra Gríms um 974. Hann dó þar um 990 og var þá orðinn hrumur en skömmu fyrir dauða sinn vildi hann ríða til Alþingis með Grími stjúptengdasyni sínum og dreifa silfri sínu yfir þingheim. Grímur tók það ekki í mál og skildi hann eftir. Grímur var skírður þegar kristni var lögtekin á Alþingi og lét fljótlega reisa kirkju á Mosfelli. Þangað lét Þórdís flytja bein Egils og grafa. Grímur tók við lögsögumannsembættinu af Þorgeiri ljósvetningagoða árið 1002 og hefur þá líklega verið orðinn roskinn. Eftir tvö ár í embætti fékk hann leyfi til þess að afsala sér embættinu til Skafta Þóroddssonar, sem var sonur Rannveigar Gnúpsdóttur hálfsystur hans „af því at hann var hásmæltr sjálfr“. Lögsögumaður þurfti á fullum raddstyrk að halda því að honum bar að fara með þriðjung allra laga í heyranda hljóði fyrir þingheim á hverju Alþingi. Ridley Scott. Sir Ridley Scott (fæddur 30. nóvember 1937) er breskur kvikmyndaleikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Þekktustu myndir hans eru "Alien", "Blade Runner", "Thelma & Louise" og "Gladiator". Einkalíf. Ridley fæddist í South Shields, Tyne and Wear, og ólst upp í herfjölskyldu. Faðir hans var liðsforingi í Corps of Royal Engineers og eldri bróðir hans Frank, gekk í British Merchant Navy þegar Ridley var enn ungur og höfðu þeir mjög lítið samband sín á milli. Á þessum tíma þá fluttist fjölskylda hans mikið og var aðsetur þeirra meðal annars í Cumbria, Wales og Þýskalandi. Eftir Seinni heimstyrjöldina flutti fjölskyldan aftur á heimaslóðir sínar í norð-austur Englandi og settumst að lokum í Teesside (þar sem atvinnu landslagið var seinna notast við í senum í "Blade Runner"). Honum finnst gaman að horfa á kvikmyndir, og uppáhaldsmyndir hans eru "Lawrence of Arabia", "Citizen Kane" og "Seven Samurai". Fjölskylda. Fimm meðlimir Scott fjölskyldunnar eru leikstjórar, og allir vinna þeir fyrir Ridley Scott Associates (RSA). Bróðir hans Tony er vinsæll kvikmyndaleikstjórii; synirnir, Jake og Luke eru auglýsingaleikstjórar sem og dóttir hans, Jordan. Jake og Jordan vinna bæði í Los Angeles og Luke er staðsettur í London. Núverandi sambýliskona hans er leikkonan Giannina Facio sem hefur leikið í öllum myndum hans síðan hann gerði "White Squall" að undanskilinni "American Gangster". Ridley býr ýmist í London, Frakklandi og Los Angeles. Hann var sleginn til bresks riddara árið 2003. Nám. Scott stundaði nám frá 1954 til 1958, við Grangefield Grammar School, Stockton og seinna meir við West Hartlepool College of Art, þar sem hann útskrifaðist með Diploma í hönnun. Hann lauk M.A.-gráðu í grafískri hönnun við Royal College of Art. þar sem hann nam frá 1960 til 1962. Við RCA þá vann hann við skólablaðið, 'ARK' og hjálpaði við að mynda kvikmyndadeildina. Fyrir seinasta verkefni sitt þá bjó hann til svarthvíta stuttmynd, 'Boy and Bicycle', þar sem, Tony Scott, og faðir hans léku í. Sjónræni hluti myndarinnar varð mikilvægur hluti af vinnu Scotts í framtíðinni, myndin var gefin út sem „Extra“ hluti á The Duellists DVD disknum. BBC. Scott fékk vinnu sem leikmyndahönnuðar lærlingur hjá BBC eftir útskriftina árið 1963, sem leiddi til vinnu við hinn vinsælan sjónvarpsþátt Z-Cars og vísindasögu seríuna Out of the Unknown. Eftir að hafa komist inn sem læringur hjá BBC, þá endurgerði Scott Paths of Glory sem stuttmynd. Ridley vann sem hönnuður við aðra seríu af "Doctor Who" og "The Daleks", sem hafði í för með sér uppgvötun á því fræga alien skrímsli. Hjá BBC, þá bauðst Scott að sitja leikstjóra prógram og áður en hann yfirgaf fyrirtækið þá leikstýrði hann þætti af "Z-Cars", "Softly, Softly", og ævintýraseríunni "Adam Adamant Lives!". Scott yfirgaf BBC árið 1968 og stofnaði framleiðslufyrirtækið, Ridley Scott Associates (RSA), þar sem hann vann með Alan Parker, Hugh Hudson, Hugh Johnson og réði líka Tony. Eftir að hafa gert sjónvarpsauglýsingar í Bretlandi á áttunda áratugnum, þar á meðal 1974 Hovis auglýsinguna, "Bike Round" (Symphony No. 9), sem var tekin upp í Shaftesbury, Dorset. "The Duellists". "The Duellists" frá árinu 1977 var fyrsta heildarmynd Ridley Scotts. Var hún framleidd í Evrópu og vann hún Bestu frumraun medalíuna á Cannes kvikmyndahátíðinni. Myndin gerist í Napóleonsstríðunum, þar sem tveir franskir Hussar liðsforingjar, D'Hubert og Feraud (leiknir af Keith Carradine og Harvey Keitel) rífast yfir litlu slysi sem magnast með árunum, sem samvefst stærri baráttu sem gefur bakgrunninn í myndinni. Myndinni er hrósað fyrir sögulega lýsingu af Napóleon búningum og hegðun hersins, sem og nákvæmni varðandi nítjándu aldar sverðtækni þróuð af brelluhöfundinum William Hobbs. "Alien". Scott hafði upprunalega planað að kvikmynda óperuna, "Tristan und Isolde", en eftir að hafa séð ', þá var hann ákveðinn í því að búa til mynd miklu stærri og með velgerðum tæknibrellum. Þess vegna samþykkti hann að leikstýra "Alien", hinni byltingarkenndu hryllings/vísindasögu mynd frá 1979 sem gerði hann heimsfrægan. Myndin var að mestu tekin upp árið 1978 en framleiðsluhönnun hans og hið sjónræna andrúmsloft, og áhersla myndarinnar á raunveruleika í staðinn fyrir kvikmyndahetju hefur gefið Alien ódauðlegt aðdráttarafl. Þó að Scott leikstýrði ekki framhaldsmyndunum af "Alien", þá var Scott hluti af endurútgáfunni frá 2003 með viðtölum og kynningum. Á þessum tíma þá hafði Scott gefið til kynna að hann hafði hafið samræður um að gera fimmtu og seinustu "Alien" myndina í seríunni. Í viðtali árið 2006 sagðist hann hins vegar ósáttur með "Alien: The Director's Cut", þar sem honum fannst upprunalega útgáfan gallalaus og aukasenurnar voru aðeins til þess að auka söluna á myndinni. "Blade Runner". Eftir að hafa eitt um ári í að búa til "Dune" byggða á bókinni, og eftir snöggt andlát Franks bróður hans. Þá samdi Scott um að leikstýra kvikmyndaútgáfu af bók Philip K. Dick's "Do Androids Dream of Electric Sheep?", (sem hefur verið endurnefnd "Blade Runner" eftir velgegni myndarinnar). Myndin hefur að geyma Harrison Ford og tónlist eftir Vangelis, "Blade Runner" náði ekki góðum árangri í bíóhúsum árið 1982. Athugasemdir Scotts voru notaðar af Warner Brothers til þess að gera leikstjóraútgáfu árið 1991 þar sem talsetning var tekin út og endirinn lagaður. Scott sá persónulega um stafrænu endurgerðina af "Blade Runner" og samþykki lokaútgáfuna. Þessi útgáfa var gefin út í kvikmyndahúsum í Los Angeles, New York og Toronto þann 5.október 2007. DVD útgáfan var gefin út 18. sesember 2007. Í dag þá er "Blade Runner" oft háttsett á meðal gagnrýnanda og sem ein af mikilvægustu vísindamyndum 20.aldar. Skrifað er um hana í bókinni "Neuromancer" eftir William Gibson's sem fjallar um fyrstu stafrænu tegundina. Scott segir að "Blade Runner" er sú mynd sem er "hin fullkomnasta og persónulegasta mynd sem hann hefur gert". "1984" Apple Macintosh auglýsingin. "1984" er bandarísk auglýsing frá 1984 sem var leikstýrt af Scott, skrifuð af Steve Hayden og Lee Clow, framleidd af TBWA\Chiat\Day. Sýndi auglýsingin Anya Major sem hina ónefndu kvennhetju og David Graham sem "Stóra Bróðirinn". Var hún gefin út í Bandaríkjunum þann 22. janúar, 1984 á meðan þriðji hluti Super Bowl XVIII var í gangi. Auglýsingin kynnti Macintosh í fyrsta sinn og er oft talað um sem „tímamóta atburð“. "1984" notaði hina ónefndu kvennhetju til þess að kynna Macintosh (gefið til kynna með hvítum toppi með Pablo Picasso mynd af Apple tölvunni (Apple Macintosh) sem er þýðing fyrir að bjarga mannkyninu frá „hlýðni“ (Stóri Bróðirinn). Þessar myndir voru óbein tilvísun í bók George Orwell's, "Nineteen Eighty-Four", sem lýsir framtíð stýrðri af „Big Brother“. "Legend". Árið 1985 þá leykstýrði Scott "Legend", fantasíu mynd framleidd af Arnon Milchan. Þar sem hann hafði aldrei áður gert svona mynd ákvað hann að búa til „einu sinnu endur fyrir löngu“ kvikmyndasett með heim fullan af álfkonum, prinsessum og púkum. Scott réði Tom Cruise sem hetjuna, Jack, Mia Sara sem Prinsessuna Lily, og Tim Curry sem Satan-Herra myrkursins. En röð vandræða urðu við megintökur: skógurinn varð eldi að bráð og eftirvinnslan (mikil klipping og breyting á tónlistinni eftir Jerry Goldsmith með aukatónlist frá Tangerine Dream) hindraði útgáfu myndarinnar með þeim afleiðingum að myndin fékk lélega dóma gagnrýnenda. Síðan þá hefur myndin verið dýrkuð sem má þakka endurútgáfu hennar á DVD sem sýnir upprunalegu sýn Scotts miðað við upprunalegu útgáfu. 1987 – 1992. Þar sem honum langði að gera fleiri stórmyndir ásamt því að fá þá viðurkenningu sem hann vildi, þar sem enn var litið á hann sem auglýsingaleikstjóra þá ákvað hann að fresta öllum áformum að búa til frekari vísindamyndir og fara frekar út í dramamyndir, spennumyndir og jarðbundnarmyndir. Meðal þess sem hann gerði var "Someone to Watch over Me", rómantísk lögregludrama með Tom Berenger, Lorraine Bracco og Mimi Rogers frá 1987, og "Black Rain", 1989 lögregludrama með Michael Douglas og Andy Garcia, sem var tekin upp í Tókýó og Osaka, Japan. Þrátt fyrir lélega miðasölu þá var Scott enn og aftur lofaður fyrir sjónræna sýn sína en var enn gagnrýndur fyrir að gera kvikmyndir sem voru aðeins lengri útgáfa af sjónvarpsauglýsingum hans. "Thelma & Louise" (1991) með Geena Davis sem Thelma, og Susan Sarandon sem Louise, fékk mjög góða dóma og góða velgengi í miðasölu. Ásamt því að Scott var lofaður sem kvikmyndagerðarmaður. Samt sem áður, næsta verkefni hans gekk ekki alveg eins vel. Hann hafði umsjón með framleiðslu sjálfstæðrar myndar '. Myndin er sjónrænilega góð mynd um sögu Christopher Columbus og er talin vera hægasta-mynd hans til þessa. Scott gaf ekki frá sér aðra mynd í fjögur ár. Scott Free framleiðslufyrirtækið. Árið 1995, ásamt Tony bróður sínum, stofnaði Scott kvikmynda og sjónvarps framleiðslufyrirtækið Scott Free í Los Angeles. Allar myndir og þættir sem hann og Tony hafa gert hafa verið framleitt af Scott Free. Einnig keyptu bræðurnir Shepperton Studios, sem var síðan sameinað Pinewood Studios. 2000-2005. „Það fer eftir því hver situr í ökusætinu. Ef þú hefur brjálæðing sem gerir vinnu mína, þá þarftu að hafa kynningarsýningu. En góður leikstjóri ætti að hafa þá reynslu sem þarf til þess að ákveða hvað honum finnst vera rétta útgáfa af myndinni áður en hún fer í kvikmyndahús.“ 2006 – 2008. Scott tók höndum saman með leikaranum Russell Crowe, með því að leikstýra "A Good Year", sem byggð er á samnefndri bók. Myndin var frumsýnd 10. nóvember, 2006, með tónlist eftir Marc Streitenfeld. Rupert Murdoch, yfirmaður "News Corp" og dótturfyrirtækis "20th Century Fox" (sem studdi myndina) vísaði því á bug að "A Good Year" væri "misheppnuð" á hluthafa fundi nokkrum dögum eftir að myndin var gefin út. Næsta leikstjóra verkefni Scotts var "American Gangster", saga um raunverulegt líf dópkóngsins "Frank Lucas". Hann var þriðji leikstjórinn sem reyndi við verkefnið eftir Antoine Fuqua og Terry George. Denzel Washington og Benicio del Toro höfðu verið ráðnir upphaflega í tengingu við Steven Zaillian-handritið að nafni "Tru Blu". Eftir að George hætti tók Scott við í byrjun ársins 2006. Scott sótti Zaillian aftur til þess að endurskrifa handritið til þess að einbeita meira sögunni að sambandinu á milli Frank Lucas og Richie Roberts. Washington skrifaði aftur undir sem Lucas og Crowe skrifaði undir sem Roberts. Myndin var frumsýnd í nóvember 2007 og fékk jákvæða dóma og gott gengi í miðasölunni. Frá 2008. Scott vann enn á ný með Crowe, og Leonardo DiCaprio við gerð myndarinnar "Body of Lies" árið 2008. Árið 2010 vann Scott aftur með Crowe og núna réðust þeir að Robin Hood sem fjallar um uppruna og þjóðsögninan á bakvið hetjuna. Lék Crowe Robin Hood á meðan Cate Blanchett lék ástarefni hans. Ridley og bróðir hans Tony framleiddu kvikmyndina "The A-Team" með Liam Neeson, Bradley Cooper og Jessicu Biel í aðahlutverkum. Þann 31. júlí 2009 komu fram fréttir um að gera átti tvær myndir sem áttu að gerast á undan myndinn "Alien" og átt Scott að leikstýra þeim. Verkefnið breyttist í aðeins eina mynd "Prometheus", sem Scott leikstýrði og var myndin meðal annars tekin upp á Íslandi. Myndin var gefin út í júní 2012. Þann 6. júlí 2010 tilkynnti YouTube að þeir myndu sýna "Life in a Day", heimildarmynd sem framleidd var af Scott. Myndin var sýnd á "Sundance kvikmyndahátíðinni" þann 27. janúar 2011. Myndin nýtir sér efni sem tekið var upp 24. júlí 2010 af notendum YouTube alls staðar af úr heiminum. Árið 2012 framleiddi Scott auglýsingu fyrir nýtt ilmvatn Lady Gaga. Í febrúar 2012 var Scott í viðræðum varðandi verkefnið "The Counselor" sem byggt er á handriti Cormac McCarthy. Kvikmyndatökur hófust í júlí 2012 í London og eru leikaranir Michael Fassbender og Brad Pitt í aðalhlutverkunm. Í nóvermber 2012 var tilkynnt að Scott myndi framleiða heimildarmyndina "Springsteen & I" sem er leikstýrð af Baillie Walsh. Nálgun og stíll. Til að byrja með þá var Scott varla þekktur sem leikara leikstjóri en varð meira opinn fyrir tillögun frá leikurum sínum þar sem ferill hans var að þróast. Dæmi um þetta er vísbending Susan Sarandon að persóna hennar Louise pakkaði skónum sínum í plastpoka í einni senunni í "Thelma & Louise", og hin vísbendingin var að persóna hennar skiptir skartgripum út fyrir hat og aðra hluti, sem og samvinna Tim Robbins með Scott og Susan Sarandon til að endurvinna lokasenuna til þess að gera betri endi. Russell Crowe hefur sagt, „Mér líkar að vera á setti Ridleys þar sem leikarar geta starfað [...] og fókusinn er á leikarana.“ Paul M. Sammon, í bók sinni "Future Noir: The Making of Blade Runner", segir í viðtali við Brmovie.com að samband Scotts við leikara sína hefur batnað yfir árin. Samt sem áður, þá getur hann verið mjög kröfuharður og erfiður leikstjóri til að vinna með. Hann fékk gælunafnið „Guvnor“ við tökur á "Blade Runner". Nokkrir starfsmenn klæddust stuttermabolum með slagorðunum „Yes Guvnor, my ass“ og Will Rogers sem aldrei hefur hitt Ridley Scott, í sambandi við tilvitnun frá Will Rogers, „Ég hef aldrei hitt mann sem ég hef aldrei líkað við“. Var þetta í tengslum við viðbrögð við því hvernig Scott leikstýrði fyrsta bandaríska starfsliðinu, sem margir telja að hafi verið dálítið harkalegt. Sjónræna sýn hans, ásamt nákvæmni í hönnum og lýsingu hefur verið mikill implástur fyrir yngri kvikmyndagerðarmenn – sem margir hafa byrjað að notast við. Scott hægir ofast nær senurnar stuttu áður en aðalbardaga senurnar byrja, sem einkennast af tíðum fljótum klippingum. Dæmi um þetta má sjá í "Alien" og "Blade Runner"; "LA Times" gagnrýnandinn Sheila Benson, kallar til að mynda Blade Runner "Blade Crawler" „vegna þess hversu hæg hún er. Önnur tækni sem hann notar er að nota hljóð og tónlist til þess að byggja upp spennu, sem má sjá í "Alien" með hissandi gufu, pípandi tölvum og hávaða frá vélabúnaði. DVD framsetning og leikstjóraútgáfa. Eftir alla þá vinnu sem við förum í gegnum, myndin fer í gegnum kvikmyndahús og síðan hverfa alveg er algjör synd. Til þess að gefa myndinni aukið líf sem er flott fyrir þá sem misstu af henni eða þeir sem elskuðu hana. Sérstakar útgáfur af myndum Scotts eru þekktar fyrir hágæðamynd og hljóð, sem og velgerðar heimildarmyndir og lýsingar, framleitt af félaga hans, DVD framleiðandanum Charles de Lauzirika. Meðfram áhuga sínum á DVD, Scott er oft talinn vera „faðir“ leikstjóraútgáfunnar. Hin jákvæðu viðbrögð á leikstjóraútgáfunni af "Blade Runner" Director's Cut hvatti Scott til þess að endurklippa nokkrar myndir sem höfðu fengið vonbrigði á sínum tíma ("Legend" and "Kingdom of Heaven"). Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Film-verðlaunin Italian National Syndicate of Film Journalists-verðlaunin Tenglar. Scott, Ridley Skafti Þóroddsson. Skafti Þóroddsson (d. 1030) var íslenskur lögsögumaður á 11. öld. Hann bjó á Hjalla í Ölfusi og þótti einn vitrasti og lögfróðasti maður síns tíma. Faðir Skafta var Þóroddur spaki Eyvindarson, goði á Hjalla, en móðir hans var Rannveig Gnúpsdóttir Molda-Gnúpssonar. Skafti tók við embætti af Grími Svertingssyni móðurbróður sínum árið 1004 og var lögsögumaður til dauðadags 1030, eða í tuttugu og sjö sumur. Hann var mjög röggsamur í embætti og eitt hans fyrsta verk var að koma á fimmtardómi „ok þat, at engi vegandi skyldi lýsa víg á hendr öðrum manni en sér, en áðr váru hér slík lög of þat sem í Norvegi,“ segir Ari fróði í Íslendingabók og bætir svo við „Á hans dögum urðu margir höfðingjar ok ríkismenn sekir eða landflótta of víg eða barsmíðir af ríkis sökum hans ok landstjórn.“ Það er því ljóst að Skafti hefur tekið til hendinni og beitt hörðum aðgerðum til að friða landið og binda enda á ættarstríð og erjur sögualdar, en lok hennar eru yfirleitt miðuð við dánarár hans. Íslendingasögur gerast þó flestar fyrir daga hans að mestu og ekkert er nú vitað um hverja hann gerði landræka fyrir víg og barsmíðar. Ekki er þó vitað um neinn goðorðsmann sem varð sekur skóggangsmaður eða landflótta á 11. öld og kunna munmælasögur um þá að hafa gleymst. „Þó er höfundi Njálu af einhverjum ástæðum blóðilla við Skafta,“ segir Björn Sigfússon. Hvað sem því líður hafði honum tekist fyrir dauða sinn að koma á friði og efla réttargæslu svo að dugði að mestu fram undir Sturlungaöld. Í Kristni sögu segir að Skafti hafi verið vitrastur allra lögsögumanna. Hann virðist hafa verið mjög fróðleiksfús og lagt sig eftir að afla sér þekkingar um hvernig málum var háttað í öðrum löndum: „Skafti Þóroddsson hafði þá lögsögu á landinu. Víða af löndum spurði hann að siðum manna, þá menn er glöggst vissu, og leiddi mest að spurningum um kristinn dóm, hvernug haldinn væri bæði í Orkneyjum og á Hjaltlandi og úr Færeyjum og spurðist honum svo til sem víða mundi mikið á skorta að vel væri. Slíkar ræður hafði hann oft í munni eða um lög að tala eða um landsrétt.“ Kona Skafta var Þóra Steinsdóttir. Synir þeirra voru Þorsteinn holmunnur og Steinn Skaftason, sem var lengi í Noregi og er af honum sérstakur söguþáttur, "Steins þáttur Skaftasonar", en dóttir þeirra var Þorkatla, sem giftist Katli, bróður Ísleifs biskups. Gellir Bölverksson. Gellir Bölverksson var íslenskur lögsögumaður á 11. öld. Hann var tvívegis lögsögumaður, fyrst 1054-1062 og aftur 1072-1074. Þá hefur hann líklega verið orðinn háaldraður, því að bróðir hans, Eyjólfur Bölverksson, sem sagður var „virðingamaður mikill og allra manna lögkænastur svo að hann var hinn þriðji maður mestur lögmaður á Íslandi“ var drepinn af Kára Sölmundarsyni á Alþingi um 1012 í eftirmálum Njálsbrennu. Faðir þeirra bræðra var Bölverkur Eyjólfsson og voru þeir komnir í beinan karllegg af Þorsteini rauð, syni Auðar djúpúðgu. Á fyrra lögsögumannstímabili Gellis varð Ísleifur Gissurarson fyrsti biskup Íslendinga. Í Hungurvöku segir um þá erfiðleika sem mættu Ísleifi í biskupsembættinu: „má þat af því merkja nokkut, í hverjum nauðum hann hefir verit, fyrir sakir ótrú og óhlýðni, ok ósiðu sinna undirmanna: at lögmaðrinn átti mæðgur tvær“ - en ekkert er vitað um heimilisaðstæður Gellis eða hverjar mæðgurnar hafa verið. Sighvatur Surtsson. Sighvatur Surtsson var íslenskur lögsögumaður á 11. öld og gegndi embættinu 1076-1083. Hann var sonur Surts Þorsteinssonar, sem kominn var í beinan karllegg af Katli fíflska, landnámsmanni í Kirkjubæ á Síðu, og hafa þeir langfeðgar líklega búið þar. Móðir hans var dóttir Brennu-Flosa Þórðarsonar. Steinn Þorgestsson. Steinn Þorgestsson var íslenskur lögsögumaður á 11. öld. Hann er talinn hafa búið á Breiðabólstað á Skógarströnd, þar sem afi hans, Steinn mjögsiglandi Vígbjóðsson, var landnámsmaður. Steinn var lögsögumaður 1031-1033. Þorkell Tjörvason. Þorkell Tjörvason (d. 1053) var íslenskur lögsögumaður á 11. öld. Hann var líklega frá Ljósavatni, sonarsonur Þorgeirs Ljósvetningagoða Þorkelssonar, sem var lögsögumaður 985-1001. Þorkell var lögsögumaður í tuttugu sumur, 1034-1053, en fátt er vitað um lögsögumannstíð hans. DV. "Dagblaðið-Vísir" (oftast "DV") er íslenskt dagblað sem kemur út þrjá daga vikunnar. "DV" varð til þegar "Dagblaðið" og "Vísir" sameinuðust árið 1981. "DV" er gefið út af DV ehf. og kemur út á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Eignarhald. "DV" er í eigu DV ehf.. Stærstu eigendur DV ehf. eru Lilja Skaftadóttir Hjartar sem á 34,34%, Reynir Traustason sem á 25,89% og Gegnsæi ehf. (Halldór Jörgen Jörgensen, Bogi Örn Emilsson, Rögnvaldur Rafnsson og Einar Einarsson) sem á 13, 56%. Tony Scott. Anthony „Tony“ D. L. Scott (fæddur 21. júní 1944, dáinn 19. ágúst 2012) var breskur kvikmyndaleikstjóri og yngri bróðir kvikmyndaleikstjórans Ridley Scott. Helstu myndir hans eru "Top Gun", "Days of Thunder", "The Last Boy Scout", "True Romance", "Crimson Tide", "Enemy of the State", "Man on Fire" og "Spy Game". Einkalíf. Tony fæddist í Stockton-on-Tees í norðaustur-Englandi. Hann hóf feril sinn fyrir framan myndavélina þegar hann var sextán ára og lék í stuttmyndinni "Boy and Bicycle", sem bróðir hans leikstýrði. Hann fylgdi í fótspor bróður síns, stundaði nám við Grangefield School, West Hartlepool College of Art og University of Sunderland þaðan sem hann fékk gráðu í fagurlistum. Hann útskrifaðist frá Royal College of Art til þess að verða málari. En það var eftir velgegni Ridleys í sjónvarpsauglýsingaframleiðslu, Ridley Scott Associates (RSA), sem hann snéri athygli sinni að kvikmyndum. „Tony langaði að gera heimildarmyndir til að byrja með. Ég sagði honum, ‚Ekki fara til BBC, komdu til mín fyrst.‘ Ég vissi að hann hafði mikinn áhuga á bílum, þannig að ég sagði honum 'Komdu að vinna með mér og innan árs þá munt þú eiga Ferrari'. Sem hann gerði“ (Ummæli Ridley Scott um leikstjórana). Næstu tvo áratugi leikstýrði Scott yfir þúsund sjónvarpsauglýsingum fyrir RSA, ásamt því að sjá um rekstur fyrirtækisins á meðan bróðir hans var að þróa kvikmyndaferil sinn. Tony tók einnig tíma út árið 1975 til þess að leikstýra sögu Henry James "The Author of Beltraffio" fyrir franskt sjónvarp, verkefni sem hann fékk eftir að hafa unnið peningakast á móti bróður sínum. Eftir að hafa séð bresku leikstjóra félaga sína Hugh Hudson, Alan Parker, Adrian Lyne og eldri bróður sinn á seinni hluta 8. áratugarins og fyrri hluta 9. áratugarins, byrjaði Scott að fá samninga frá Hollywood, fyrst árið 1980 en sama ár dó eldri bróðir hans úr krabbameini. Andlát. Þann 19. ágúst 2012, var tilkynnt af lögreglunni í Los Angeles að Tony Scott hafði framið sjálfsmorð með því að stökkva ofan af Vincent Thomas-brúnni í San Pedro hverfinu. Rannsóknarmenn frá lögreglunni fundu upplýsingar í bíl hans sem var lagður við brúnna, og bréf fannst á skrifstofu hans til fjölskyldunnar. 9. áratugurinn. Scott hóf leikstjórnarferil sinn með því að leikstýra kvikmynd byggð á bók Anne Rice, "Interview with the Vampire", sem var þá í þróun. MGM höfðu aðra vampírusögu í huga sem þeir vildu fá Tony til að leikstýra og eftir að hafa reynt að sannfæra fyrirtækið um að hætta við verkefnið og takast á við "Interview" í staðinn, ákvað Scott að taka tilboði MGM. Árið 1982 hóf Scott framleiðslu á "The Hunger" með David Bowie og Catherine Deneuve í aðalhlutverkum. Scott reyndi í örvæntingu sinni að stöðva hina ótímabæru öldrun Bowies. Í þessari mynd kom Willem Dafoe fram í fyrsta sinn, þó bara í litlu hlutverki. "The Hunger" hafði ítarlega ljósmyndun og íburðarmikla framleiðsluhönnun, ólíkt öðrum myndum sem komu út á sama tíma. Myndin féll ekki í kramið hjá áhorfendum og fékk harkalega dóma gagnrýnenda og miðasalan gekk ekki vel (þó að hún yrði vinsæl seinna meir). Eftir myndina var Scott án Hollyowood-verkefna næsta þriðja hálfa árið og snéri því sér aftur að gerð auglýsinga og tónlistarmyndbanda. Top Gun og Beverly Hills Cop. Árið 1985 fengu framleiðendurnir Don Simpson og Jerry Bruckheimer Scott til að leikstýra "Top Gun". Þeir voru báðir aðdáendur að "The Hunger" og ákváðu því að fá Scott til liðs við sig – sérstaklega þegar þeir höfðu séð auglýsinguna sem Scott hafði gert fyrir Saab. Í henni tókust Saab-bíll og Saab 37 Viggen-orrustuflugvél á. Scott var í fyrstu tregur til að taka við verkefninu. "Top Gun" var ein af tekjuhæstu myndum ársins 1986 og skaut Tom Cruise upp á stjörnuhimininn. Eftir velgegni "Top Gun" var Scott kominn í aðalleikstjóraklíkuna í Hollywood. Hann endurtók samstarf sitt við Simpson og Bruckheimer árið 1987 til þess að leikstýra Eddie Murphy og Brigitte Nielsen í framhalsdmyndinni "Beverly Hills Cop II". Þó svo myndin væri ekki upp á marga fiska varð hún ein af tekjuhæstu myndum ársins. Á meðan tökum stóðu yfir á "Beverly Hills Cop II" þá var hann kenndur við Brigitte Nielsen. Bæði voru þau gift á þeim tíma, Nielsen við Sylvester Stallone. Scott viðurkenndi sambandið sem endaði með skilnaði við aðra eiginkonu hans. Næsta mynd hans var, "Revenge", spennumynd um framhjáld og hefnd sem átti sér stað í Mexíkó, sem markaði tímamót hjá leikstjóranum. Aðalhlutverkin léku Kevin Costner, Madeleine Stowe og Anthony Quinn en myndin fékk slæma dóma og lítið seldist af miðum á hana. Scott var neitað um lokaklippingu í eftirvinnslunni en í staðinn vann Ray Stark það verk. 10. áratugurinn. Scott ákvað að vinna aftur með Simpson-Bruckheimer og saman gerðu þeir myndina "Days of Thunder". Enn og aftur lék Tom Cruise í aðahlutverki. Myndin kom út sumarið 1990 og náði ekki hylli áhorfenda. Næsta mynd hans var spennumyndin "The Last Boy Scout". Árið 1992, eftir fund með fyrrverandi starfsmanni, kynntist Scott Quentin Tarantino, sem var mikill aðdáendi Scotts. Tarantino bauð honum sýnishorn af vinnu sinni til þess að lesa, á meðal þess var handrit að "Reservoir Dogs" og "True Romance". Scott sagði Tarantino að hann væri til í að gera þær báðar. Tarantino svaraði honum að Scott fengi ekki réttinn að "Dogs", þar sem Tarantino ætlaði að leikstýra henni sjálfur. En Scott mátti fá réttinn að "True Romance". "True Romance" kostaði einungis þrettán milljónir dollarar árið 1993. Í myndinni léku Christian Slater, Patricia Arquette, Dennis Hopper, Christopher Walken, Gary Oldman, Brad Pitt, Tom Sizemore, Chris Penn, Val Kilmer, James Gandolfini og Samuel L. Jackson. "True Romance" var sú mynd sem gerði Scott að alvöru leikstjóra. Þó að viðbröðgin við myndinni væru misjöfn þá varð hún mjög dýrkuð seinna meir. Tarantino sjálfur var mjög ánægður með lokamyndina, samþykkti hann meðal annars að tala inn á endurútgáfuna. Áfram hélt hann samstarfi við Simpson-Bruckheimer með því að framleiða "Crimson Tide", kafbátamynd með Gene Hackman og Denzel Washington. Hún var stórmynd ársins 1995. Næsta mynd hans var "The Fan" með Robert De Niro, Wesley Snipes, Ellen Barkin og Benicio del Toro), sem var lægsti punktur í ferli Scott: mynd sem fékk ekki góðar viðtökur hjá gagnrýnendum og áhorfendum. Scott kom aftur fram á sjónvarsviðið með "Enemy of the State", spennumynd með Will Smith og Gene Hackman. 21. öldin. "Spy Game" var gefin út á Þakkargjörðardaginn árið 2001. Fékk hún ágæta dóma meðal gagnrýnenda og hafði tekjur upp á 60 milljón dollara í Bandaríkjunum. "Man on Fire" var gefin út í apríl 2004 og var mjög vinsæl meðal áhorfenda. Myndin skartaði Denzel Washington og hafði tekjur upp á 75 milljónir í Bandaríkjunum. Samt sem áður fékk hún lélega dóma frá gagnrýnendum þar á meðal Roger Ebert og Leonard Maltin. Þeim líkaði ekki við hina hröðu klippingu sem Scott notaðist við, né ofbeldið sem var að finna í myndinni. Næsta mynd var "Domino" með Keira Knightley, sem fékk misjafna dóma bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum. Næst kom myndin "Deja Vu" með Denzel Washington en það er spennumynd sem gerist í framtíðinni. Þær bræður, Tony og Ridley Scott, framleiddu sjónvarpsþáttinn "Numb3rs" en Tony leikstýrði fyrsta þætti fjórðu seríunnar. Hafa bræðurnir síðan 2009 framleidd lögfræðidramað The Good Wife. Tony er leikstjórinn á bakvið "Dodge Ram Never Back Down From a Challenge"-kynninguna á Dodge Ram-pallbílnum sem kom út árið 2009. Enn og aftur vann Scott með Denzel Washington með því að gera "The Taking of Pelham 1 2 3", sem einnig skartaði John Travolta og var gefin út 12. júní 2009. Myndin var endurgerð af "The Taking of Pelham One Two Three" frá 1974, með Walter Matthau og Robert Shaw. Árið 2010 leikstýrði Scott "Unstoppable", sem fjallar um ómannaða flóttalest sem inniheldur hættulegan vökva og eitruð gös sem eiga að tortíma borg. Í aðalhlutverkum voru Denzel Washington og Chris Pine. Myndin var sú seinasta sem Tony leikstýrði áður en hann lést. Carlsberg. Carlsberg A/S (borið fram) er danskt brugghús stofnað árið 1847 af J. C. Jacobsen. Fyrirtækið dregur nafn sitt af syni hans, Carl Jacobsen. Það er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn í Danmörku. Aðal framleiðsluvara fyrirtækisins er bjórinn Carlsberg, en það framleiðir líka Tuborg og nokkra aðra staðbundna bjóra. Brugghús norsks fyrirtækis, Orkla, og Carlsberg sameinuðust í janúar 2001, þá varð Carslberg fimmta stærsta brugghús í heimi. Frá og með árinu 2009 er Carlsberg fjórða stærsta brugghús í heimi og um það bil 45.000 manns starfar þar. Carlsberg er styrktaraðili knattspyrnufélaganna Liverpool F.C. og F.C. København. Stærsti hluthafinn í Carlsberg A/S er Carlsbergsjóður, með rúmlega 30% hlut. The Marbles. The Marbles var enskur rokkdúett sem starfaði á árunum 1968 til 1969. Frændurnir Graham Bonnet (fæddur 23. desember 1947) og Trevor Gordon (fæddur Trevor Gordon Grunnill 5. maí 1948) stofnuðu sveitina "The Blue Sect" árið 1967 en tóku upp nafnið "The Marbles" strax árið eftir. Bonnet ólst upp á Englandi en Gordon í Ástralíu þar sem hann meðal annars tók upp fjögur lög með The Bee Gees. Eftir stofnun The Marbles komst sveitin á samning við ástralska upptökustjórann Robert Stigwood. Þá urðu þeir góðvinir Barry og Maurice Gibb, úr The Bee Gees, sem sömdu 6 lög fyrir The Marbles og sungu þess að auki bakraddir. The Marbles skutust upp á stjörnuhimininn með laginu „Only One Woman“ sem komst í 5. sæti breska smáskífulistans í nóvember 1968. Næsta smáskífa sveitarinnar var „The Walls Fell Down“ sem komst einungis í 28. sæti sama lista en komst 3. sæti hollenska vinsældalistans í apríl 1969. Árið 1969 hætti hljómsveitin og Gordon hætti afskiptum af tónlistarbransanum. Bonnet hóf hins vegar sólóferil og á árabilinu 1978 til 1980 var hann aðalsöngvari hljómsveitarinnar Rainbow. Stóri-Botn. Stóri-Botn, einnig kallaður Botn í Hvalfirði, er bær í Botnsdal, innst í Hvalfirði. Bæirnir voru upphaflega tveir en "Litli-Botn" er nú í eyði. Þessir bæir hétu áður "Neðri-Botn" og "Efri-Botn". Botnsá rennur um dalinn og kemur hún úr Hvalvatni. Um hana voru sýslu- og fjórðungamörk allt frá fyrstu tíð. Í ánni er fossinn Glymur, sem 198 m hár og hæsti foss landsins. Hann fellur niður í Botnsárgjúfur sem er mjög djúpt og hrikalegt. Í Landnámabók segir að Ávangur landámsmaður, sem var írskur að kyni, hafi byggt fyrst í Botni og þá hafi verið þar svo stór skógur að hann hafi smíðað sér hafskip. FI615. FI615 er flugnúmer Icelandair til New York í Bandaríkjunum, nánar tiltekið til Kennedy-flugvallar (John F. Kennedy International Airport Flug 615 er flogið fjórum sinnum í viku til New York og er brottför frá Keflavík kl. 17:00 og er lent í New York kl. 19:00 að staðartíma Flugtími er um 5 klst og 30 min og notar Icelandair Boeing 757 þotur Rob Morrow. Robert Alan Morrow (fæddur 21. september 1962) er bandarískur leikari best þekktur sem FBI alríkisfulltrúinn Don Eppes í Numb3rs og sem Dr. Joel Fleischman í Northern Exposure. Einkalíf. Morrow er fæddur í New Rochelle í New York og er af gyðingaættum. Morrow giftist leikkonunni Debbon Ayer árið 1998 og saman eiga þau eina dóttur. Rob situr í nefnd Project ALS, sem styður rannsóknir á taugavöðva sjúkdómnum ALS (oft nefndur Lou Gehrig's sjúkdómurinn), til þess að finna lækningu á honum. Leikhús. Rob, sem er upprunalega frá New York, byrjaði leikhús feril sinn með því að vinna fyrir Tom O'Horgan og Norman Mailer. Síðan þá hefur hann skuldbundið sig sem meðlimur að Naked Angels, ásamt Marisa Tomei, Fisher Stevens, Ron Rifkin og Nancy Travis, á meðal annarra. Hefur hann komið fram í „Third Street“, við Circle Repertory Theatre og London's West End framleiðsluna af „Birdy“. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Morrow var árið 1985 í "Fame". Kom hann síðan fram í þættum á borð við "Everything´s Relative", "Monstes" og Saturday Night Live. Árið 1990 þá var Morrov boðið hlutverk Joel Fleischman í vinnings sjónvarpsþættinum "Northern Exposure" sem hann lék til ársins 1995. Árið 2002, þá lék hann Kevin Hunter í sjónvarpsseríunni "Street Time". Árið 2005 þá var Morrow boðið aðalhlutverkið í Numb3rs, þar sem hann lék FBI alríkisfulltrúann Don Eppes til ársins 2010. Þann 8. mars 2010, þá var tilkynnt að Morrow myndi leika aðalhlutverkið í nýrri lögfræðiseríu "The Whole Truth" sem er framleidd af Jerry Bruckheimer, en framleiðslu var hætt eftir aðeins tíu þætti. Morrow hefur leikstýrt þáttum á borð við, "Oz" (1997), "Street Time" (2002), "Joan of Arcadia" (2003) og Numb3rs (2005). Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Morrow var árið 1985 í "Private Resort". Eftir það þá lék hann í "Quiz Show", sem Richard N. Goodwin, rannsóknarmann þingsins til þess að koma upp um spillinguna á bakvið 1950s spurningakeppnis skandalinn og lék síðan bróðir íþróttaumboðsmannsins leikinn af Albert Brooks í Mother. Á einum tímapunkti þá átti hann að leika í "The Island of Dr. Moreau" frá 1996, en datt út á endanum og var skipt út fyrir David Thewlis. Árið 2000, þá leikstýrði hann og lék í myndinni "Maze", um listamann með Tourette sjúkdóminn. Fyrsta myndin sem Rob leikstýrði var The Silent Alarm (1993) sem var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni í Seattle árið 1993 og var sýnd í Hamptons, Boston, Edinborg, og Sundance Kvikmyndahátíðinni, ásamt því að koma fram á sjónvarpsstöðinni Bravo. Tenglar. Morrow, Rob David Krumholtz. David Krumholtz (fæddur 15. maí 1978) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir að leika Charlie Epps í sjónvarpsþættinum "Numb3rs". Einkalíf. Krumholtz fæddist í Queens í New York og ólst upp í gyðinga „verkamannafjölskyldu“. Móðir hans flutti frá Ungverjalandi til Bandaríkjanna árið 1956. Krumholtz stundaði nám við New York háskólann. Krumholtz giftist leikkonunni Vanessa Britting í maí, 2010. Seth Rogen og Jay Baruchel voru svaramenn hans. Meðal gesta í brúðkaupinu voru samleikarar hans úr Numb3rs, Rob Morrow, Judd Hirsch og Peter MacNicol. Leikhús. Krumholtz byrjaði feril sinn þegar hann var þrettán ára þegar hann fylgdi vinum sínum í opið áheyrnarpróf við Broadway-leikritið "Conversations with My Father" (1992). Þó að hann hélt að hann fengi ekki hlutverkið fékk hann hlutverk hins unga Charlie á móti Judd Hirsch, Tony Shalhoub og Jason Biggs. Sjónvarp. Árið 1994, þá 16 ára, lék Krumholtz í fyrstu sjónvarpsmynd sinni "Monty", með Henry Winkler. Aðeins nokkrir þættir voru sýndir. Krumholtz kom fram í nokkrum sjónvarpsseríum sem lifðu stutt. Meðfram því þá fékk hann tækifæri að leika með Jason Bateman (Chicago Sons), Tom Selleck (The Closer), Jon Cryer (The Trouble with Normal) og Rob Lowe (The Lyon's Den). Krumholtz hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við ER, Law & Order, "Undeclared", "Lucky" og "Freaks and Geeks". Í Numb3rs þá lék hann Charlie Eppes, stærðfræðisnilling sem hjálpar bróður sínum Don (Rob Morrow), sem er FBI alríkisfulltrúi, með því að nota stærðfræði til þess að leysa hina ýmsu glæpi. Samkvæmt sjónvarps gagnrýnandanum Matt Roush (TV Guide) þá var vinna Krumholtz's við Numb3rs „hugsanlega besta sjónvarpshlutverk hans til dags“. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Krumholtz var í "Life With Mikey" (1993) á móti Michael J. Fox og Addams Family Values (1993) á móti Christina Ricci. Þó að hann hafi fengið jákvæða gagnrýni fyrir leik sinni í þessum myndum er David þekktastur hjá börnum fyrir að leika álfinn Bernard í "The Santa Clause" (1994) og í framhaldsmyndinni "The Santa Clause 2: The Mrs Clause" en vegna samninga þá gat hann ekki verið í þriðju myndinni. Krumholts tókst að brjótast út úr barnamyndunum með "The Ice Storm" frá 1997, leikstýrt af Ang Lee og "Slums of Beverly Hills" frá 1998, með Alan Arkin og Natasha Lyonne. Árið 1999, þá lék David í unglingamyndinni "10 Things I Hate about You" með Joseph Gordon-Levitt, Julia Stiles, og Heath Ledger. Sama ár lék hann allt aðra persónu — Yussel, ungan gyðing með erfiðleika í "Liberty Heights". Hefur Kromholtz komið síðan fram í kvikmyndum á borð við "The Mexican", "Harold and Kumar Go To White Castle", "Bobby" og "Superbad". Tenglar. Krumholtz, David The Botany of Iceland. The Botany of Iceland – (íslenska: Grasafræði Íslands) – er sígilt vísindarit um flóru og gróður Íslands. Það kom út í fimm bindum á árunum 1912–1949, og stóð Carlsbergsjóðurinn að miklu leyti undir kostnaðinum. Meðal þess sem fjallað er um eru sveppir, fléttur og skófir, þörungar, mosar og háplöntur. Frumkvæðið að verkinu áttu tveir danskir grasafræðingar: Eugen Warming og Lauritz Kolderup Rosenvinge, sem ritstýrðu fyrstu þremur bindunum, en eftir að þeir féllu frá (1924 og 1939) leiddu aðrir verkið til lykta. Árið 1908 lauk útgáfu á þriggja binda verki, The Botany of the Faeroes, og hugðust þeir Warming og Rosenvinge gera Íslandi sömu skil og brúa þannig bil í landaröðinni: Grænland – Ísland – Færeyjar – Skotland – Danmörk, og skapa samanburðargrundvöll á flóru og gróðri þessara landa. Sóttu þeir um fjárframlög til Carlsbergsjóðsins og réðu síðan menn til verksins. Útgáfan gekk greiðlega fram til 1920, en fór þá að hægja á. Verkinu taldist lokið með útgáfu 5. bindis 1949, en ljóst er þó af titilblaði að útgefendurnir hafa hugsað sér framhald á því. Tímarnir voru þó breyttir, Ísland sjálfstætt ríki og hafði tekið náttúrurannsóknir í sínar hendur. Steindór Steindórsson frá Hlöðum segir um verkið: „þótt aldrei kæmi lokabindi af Botany of Iceland er ritsafnið jafnmerkilegt fyrir því og stendur sem óhagganlegur grundvöllur þeirrar þekkingar sem þá var á íslenskri grasafræði og að því leyti ómetanlegt öllum sem fást við grasafræði Íslands. Vitanlega eru ritgerðirnar misjafnar. Að mínu mati skara þrjár þeirra fram úr, þ.e. rit dr. Helga Jónssonar, dr. H. Mølholm Hansens og mag. scient. Johs. Grøntveds sem eru sígild verk um íslenska grasafræði.“ Steindór Steindórsson (2002:136) Vindheimamelar. Vindheimamelar eru á norðurenda Reykjatungu í Tungusveit í Skagafirði. Þeir eru í landi jarðarinnar Vindheima. Skammt norðan við enda melanna rís Skiphóll upp úr sléttlendi Vallhólmsins og hefur nafnið meðal annars verið skýrt þannig að lögun hans minni á skip á hvolfi. Vestan við melana rennur Svartá, sem breytir svo um nafn við enda Reykjatungu og kallast eftir það Húseyjarkvísl. Hestamannafélögin Stígandi og Léttfeti gerðu skeiðvöll á melunum árið 1969 en áður höfðu hestamannamót verið haldin á Vallabökkum í Vallhólmi. Síðan hefur verið byggð upp góð aðstaða til mótahalds og þar eru haldin fjórðungsmót og landsmót hestamanna, auk héraðsmóta. Húseyjarkvísl. Húseyjarkvísl er bergvatnsá í Skagafirði, kemur upp á Eyvindarstaðaheiði og heitir þar Svartá, fellur um Svartárdal og meðfram Reykjatungu niður í Vallhólm en þar breytir hún um nafn og heitir eftir það Húseyjarkvísl. Hún fellur svo milli Vallhólms og Neðribyggðar, fyrir neðan Varmahlíð og síðan út með Langholti og fellur svo í Héraðsvötn. Húseyjarkvísl er ágæt silungsveiðiá og einnig er í henni lax. Hún er kennd við bæinn Húsey í Vallhólmi. Landið sem hún rennur um er ákaflega slétt og áin fellur víðast hvar í lygnum bugðum. Hæstiréttur Bretlands. Hæstiréttur Bretlands (enska: "Supreme Court of the United Kingdom") er hæstiréttur varðandi öll mál undir enskum lögum og norður-írskum lögum. Hann hefur líka takmarkaða stjórn varðandi mál undir skoskum lögum. Hæsiréttur Bretlands er æðsta dómstig Bretlands, en undirréttur og æðri dómstóll í Skotlandi er hæstiréttur brotamála þar. Hæstirétturinn hefur lögsögu um þau mál varðandi afhendingu, það er að segja í þeim málum þar sem lög aðskilnu ríkisstjórna þriggja koma til mála. Hann er staðsettur í Middlesex Guildhall í Westminsterborg. Hæstirétturinn var stofnaður með þriðja grein umbóta stjórnarskrá Bretlands 2005, og byrjaði að vinna þann 1. október 2009. Hann tók við nokkuð völd Lávarðadeildarinnar, sem „Löglávarðarnir“ héldu fyrir. Þessi tólf lárvarðar voru atvinnudómarar sem unnu hjá Lávarðardeildinni og framkvæmdu lagalegt starf þar. Hæstiréttur Bretlands er ólíkur honum í Bandaríkjunum að því leyti að hann er ekki vald ríkistjórnarinnar. Reykir í Tungusveit. Reykir í Tungusveit er bær og kirkjustaður í Reykjatungu í vestanverðum Skagafirði og stendur á bakka upp frá Svartá. Bærinn er fornt höfuðból. Í landi Reykja og nágrannajarðarinnar Steinsstaða og raunar víðar í Reykjatungu er jarðhiti mjög víða og það svo að oft hefur verið vandamál að finna kalt neysluvatn. Margar laugar eru umhverfis bæinn á Reykjum og jafnvel jarðhiti í kirkjugarðinum, sem sagður er eini upphitaði grafreiturinn í heiminum. Minnst er á laugarnar í ýmsum gömlum heimildum. Í Sturlungu segir frá því að Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi lágu með her sinn við Skíðastaða- og Reykjalaug fyrir bardagann á Örlygsstöðum. Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem fæddur var á Steinsstöðum 1762, lýsir laugunum við Reyki svona árið 1792: „Rétt fyrir austan kirkjuna á Reykjum er köld uppspretta, sem hefur verið löguð fyrir baðtjörn. Er hægt að hita vatnið í henni að vilja hvers og eins með því að hleypa í hana vatni úr heitum lauga­læk, sem rennur fram hjá henni.“ Á Reykjum er timburkirkja sem var byggð 1896 og endurbyggð 1976. Hún er friðuð. Sinfónísk ljóð. Sinfónískt ljóð eða tónaljóð er hljómsveitarverk, oftast í einum þætti, sem ætlað er að skila til áheyrandans hughrifum ljóðs, sögu, málverks eða annars konar listaverks. Sinfónísk ljóð voru einkum vinsæl á rómantíska tímanum og framan af 20. öld. Meðal þekktra tónskálda sem þekkt eru af sinfónískri ljóðasmíð má nefna Franz Liszt, Claude Debussy, Jean Sibelius, Bedřich Smetana, Modest Mussorgsky og Richard Strauss. Hvanndalabjarg. Hvanndalabjarg eða Hvanndalabjörg er norðan við Ólafsfjörð. Það er hæsta standberg frá sjó á landinu, 630 metrar í sjó niður, víða skorið djúpum og hrikalegum gjám og heitir sú stærsta Skötugjá. Ofan til í bjarginu er grónar syllur þar sem sauðfé hefur oft lent í sjálfheldu. Þrætusker er fyrir miðju bjarginu og upp af því er Karlsurð. Um Þrætusker eru landamerki milli Ytri-Ár í Ólafsfirði og Hvanndala, en sá bær var í dalskoru norðan bjargsins og var einn afskekktasti bær á Íslandi meðan þar var byggð; þangað var oft ekki fært mánuðum saman, hvorki á landi né af sjó. Þaðan voru hinir nafnkunnu Hvanndalabræður. „Nú halda þeir áfram fyrir framan Siglufjörð og Siglunes og svo fyrir framan Héðinsfjörð, uns þeir koma að Hvanndalabjargi vestan við Ólafsfjörð. Þar nemur prestur loks staðar framan undir bjarginu. Er þar að sjá einsog stór hurð í bjarginu; lýkst hún upp og koma þar út tvær tröllkonur, mjög stórar og allar helbláar; leiða þær milli sín þriðju tröllkonuna, sem er nokkru minni, en öll líka helblá, nema hvítur kross í enni. „Þarna sérðu konuna þína, Jón,“ segir prestur.“ Og ekki fékk Jón konu sína aftur, hún var komin í bland við tröllin. Sumarólympíuleikarnir 2016. Sumarólympíuleikarnir 2016 er alþjóðleg íþróttahátíð sem áætlað er að halda dagana 5. til 21. ágúst 2016. Leikarnir verða haldnir í Rio de Janeiro í Brasilíu. Kosning borgarinnar. Fjögur lönd voru valin sem þóttu hvað fýsilegust úr hópi umsækjenda. Löndin voru Brasilía, Spánn, Japan og Bandaríkin. Úrslitin voru gerð kunn í Kaupmannahöfn í Danmörku þann 2. október 2009. Niðurstaðan var sú að leikarnir skildu haldnir í Brasilíu. Í töflunni hér að neðan má sjá úrslit kosninganna. Sumarólympíuleikarnir 2004. Sumarólympíuleikarnir 2004 voru haldnir í Aþenu í Grikklandi frá 13. ágúst til 29. ágúst. Keppnisgreinar. Keppt var í 301 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Vetrarólympíuleikarnir 2010. Svíar unnu gullverðlaun í krullu kvenna á þessum leikum. Vetrarólympíuleikarnir 2010 voru haldnir í Vancouver í Kanada dagana 12. febrúar til 28. febrúar 2010. Sumarólympíuleikarnir 2000. Sumarólympíuleikarnir 2000 voru haldnir í Sydney í Ástralíu frá 15. september til 1. október 2000. Keppnisgreinar. Keppt var í 300 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar sendu átján íþróttamenn til Sidney, jafn marga af hvoru kyni. Sundmennirnir voru níu talsins. Bestum árangri náði Örn Arnarson, sem varð fjórði í 200 metra baksundi og tíundi í 200 metra skriðsundi. Ísland tefldi fram einum keppanda í siglingum, fimleikum og skotfimi. Í frjálsum íþróttum voru keppendur Íslands sex talsins en tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon og Maraþonhlauparinn Martha Ernstsdóttir gátu hvorugt lokið keppni vegna meiðsla. Guðrún Arnardóttir komst í úrslit í 400 metra grindahlaupi og hafnaði í sjöunda sæti. Sá árangur féll þó í skuggann af árangri Völu Flosadóttur sem stökk 4,50 metra í stangarstökki og vann til bronsverðlauna. Sumarólympíuleikarnir 1956. Krikketvöllurinn í Melbourne var aðalleikvangur Ólympíuleikanna 1956. Sumarólympíuleikarnir 1956 voru haldnir í Melbourne í Ástralíu frá 22. nóvember til 8. desember 1956. Þetta voru fyrstu Ólympíuleikarnir á Suðurhveli jarðar og fóru því fram á öðrum árstíma en venja var. Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun í þrístökki karla á þessum Ólympíuleikum. Það voru fyrstu verðlaun Íslendings á Ólympíuleikum. Aðdragandi og skipulag. Ákvörðunin um að halda leikana í Melbourne var tekin á árinu 1949. Buenos Aires, Mexíkóborg og sex bandarískar borgir (Los Angeles, Detroit, Chicago, Minneapolis, Fíladelfía og San Francisco) sóttust einnig eftir gestgjafahlutverkinu. Melbourne hlaut að lokum einu atkvæði meira en Buenos Aires. Mótshaldið varð að pólitísku bitbeini ástralskra stjórnmálamanna og um skeið var óttast að ekkert yrði úr því. Kom til alvarlegrar umræðu að Rómarborg sem halda átti leikana 1960 myndi hlaupa í skarðið. Allt gekk þó upp að lokum og voru Ólympíuleikarnir settir á aðalleikvangi keppninnar, Krikketvellinum í Melbourne, á tilsettum tíma. Vegna reglna um innflutning dýra, gat hestaíþróttakeppnin ekki farið fram í Ástralíu. Þess í stað var hún haldin í Svíþjóð nokkrum mánuðum fyrr. Alþjóðastjórnmálin settu strik í reikninginn. Vegna Súesdeilunnar sátu Egyptar, Líbanir og Írakar heima. Sovétmenn brutu niður uppreisnina í Ungverjalandi fáeinum vikum fyrir leikanna og ákváðu þá Spánverjar, Hollendingar og Svisslendingar að sniðganga Ólympíuleikana til að mótmæla því að Sovétmönnum væri ekki vísað úr keppni. Á síðustu stundu hættu svo Kínverjar við að mæta, vegna deilna um þátttöku Formósu. Keppnisgreinar. Keppt var í 145 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Betty Cuthbert hlaut þrenn gullverðlaun í spretthlaupi á leikunum. Styttur af henni og nokkrum öðrum gullverðlaunahöfum Ástrala standa fyrir utan Krikketvöllinn í Melbourne. Sovétríkin tóku þátt í sínum öðrum Ólympíuleikum og skutu Bandaríkjamönnum aftur fyrir sig í keppninni um flest gullverðlaunin. Hetja Sovétmanna á leikunum var Vladimir Petrovich Kuts sem sigraði í 5.000 og 10.000 metra hlaupi. Rafvirkinn Egil Danielsen frá Noregi var eini gullverðlaunahafi Norðurlandanna í frjálsum íþróttum. Hann sigraði í spjótkasti á nýju heimsmeti, 85,71 metri. Bandaríkjamaðurinn Charlie Jenkins sigraði í 400 metra hlaupi og var í sigursveitinni í 400 metra boðhlaupi. Sonur hans, Chip Jenkins, var í bandarísku sveitinni sem sigraði í sama hlaupi á Ólypmpíuleikunum í Barcelona. Eru þetta einu feðgarnir sem unnið hafa gull í sömu keppnisgrein á Ólympíuleikum. Adhemar Ferreira da Silva frá Brasilíu varði gullverðlaun sín frá leikunum í Helsinki fjórum árum fyrr með því að sigra í þrístökkskeppninni. Vilhjálmur Einarsson varð í öðru sæti. Hans Günther Winkler hlaut tvenn gullverðlaun í hestaíþróttakeppninni, sem halda þurfti í Stokkhólmi hálfu ári fyrir sjálfa Ólympíuleikana. Bandaríkjamaðurinn Harold Connolly sigraði í sleggjukasti og Olga Fikotová frá Tékkóslóvakíu í kringlukasti. Þau urðu ástfangin á leikunum og gengu í hjónaband skömmu síðar. Gerðu fjölmiðlar sér mikinn mat úr því hvernig ástin hefði sigrað járntjaldið. Fikotová átti að baki landsleiki í bæði handknattleik og körfubolta áður en hún sneri sér að kringlunni. Innrásin í Ungverjaland setti svip sinn á leikana. Ungversku íþróttamennirnir voru komnir til Ástralíu áður en Sovétmenn réðust inn. Sumir þeirra sneru aftur heim eftir leikana en aðrir fengu pólitískt hæli. Stundum varð heitt í kolunum þegar ungverskir og sovéskir íþróttamenn mættust á leikunum. Þannig varð viðureign þjóðanna í sundknattleik alræmd. Leikurinn snerist upp í blóðug slagsmál og var flautaður af áður en upp úr sauð á áhorfendapöllunum. Ungverjar urðu enn eina ferðina Ólympíumeistarar í greininni. Indverjar unnu hokkíkeppnina, sjötta skiptið í röð, að þessu sinni með markatöluna 38:0. Austur- og Vestur-Þjóðverjar kepptu sameiginlega undir heiti og fána Þýskalands. Löndin tefldu þó ekki fram blönduðum liðum í hópíþróttum, þannig voru bara Vestur-Þjóðverjar í þýska knattspyrnuliðinu. Fótboltakeppnin varð raunar hálfgerður farsi, þar sem fimm af sextán þátttökuliðum drógu sig úr keppni. Sovétríkin, Júgóslavíaog Búlgaría höfnuðu vandræðalaust í þremur efstu sætunum. Kommúnistaríkin í Austur-Evrópu skilgreindu bestu leikmenn sína sem áhugamenn og því löglega á Ólympíuleikunum, meðan lönd Suður-Ameríku og Vestur-Evrópu sendu algjör varalið skipuð unglingum og áhugamönnum. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar voru í samfloti með öðrum keppendum frá Norðurlöndunum til Melbourne. Fékk Ísland þrjú sæti í flugvélinni og var ákveðið að senda Vilhjálm Einarsson þrístökkvara og Hilmar Þorbjörnsson spretthlaupara, auk fararstjóra. Skiptar skoðanir voru um hvort skilja ætti fararstjórann eftir, en senda Valbjörn Þorláksson stangarstökkvara sem þriðja mann. Valbjörn hafði náð Ólympíulágmarki einu sinni, en reglur íslensku Ólympíunefndarinnar sögðu að því þyrfti að ná að minnsta kosti tvisvar. Hilmar átti að keppa í 100 og 200 metra hlaupi, en var fjarri sínu besta í 100 metrunum þar sem hann meiddist og gat því ekki tekið þátt í seinni greininni. Vilhjálmur Einarsson setti Ólympíumet í þrístökkskeppninni og var í efsta sæti þar til keppinautur hans, Da Silva frá Brasilíu, náði forystunni með lokastökki sínu. Þar með hlutu Íslendingar sín fyrstu verðlaun á Ólympíuleikum og þau einu fram að leikunum 1984. Knattspyrnusamband Íslands ráðgerði þátttöku á leikunum og hafði umsókn þess verið samþykkt af Alþjóðaknattspyrnusambandinu. Deilur um styrki til þátttöku urðu til þess að KSÍ dró lið sitt úr keppni. Þar sem fimm lið hættu við þátttöku á síðustu stundu, hefðu Íslendingar væntanlega öðlast rétt til þátttöku sem varalið ef umsókninni hefði verið haldið til streitu. Chicago Bulls. Chicago Bulls er körfuboltalið frá Chicago í Illinois sem spilar í NBA deildinni. Liðið var stofnað árið 1966. Homoousios. Níkeuþingið ályktaði að kenningar Aríusar væru rangar og játaði um Jesú að hann væri samur Guði föður að eðli til (homoousios á forngrísku). Gríska orðið "ousia" (á latínu "substantia" eða "essentia") merkir innsta eðli hlutar. Einar Sigurbjörnsson skýrði þessa kennisetningu svo út: „Faðir og sonur eru jafnir að veru til. Á sama hátt og faðirinn er Guð, er og sonurinn Guð. En guðir eru þó ekki tveir, þar eð vera Guðs er ódeilanleg. Þannig hefur þetta verið frá eilífð. Það hefur aldrei neitt verið án þess að sonurinn væri." Samráð olíufélaganna. Samráð olíufélaganna var ólöglegt verðsamráð olíufélaga á Íslandi. Þrjú olíufélög: Ker hf., Olís og Skeljungur stunduðu verðsamráð sem hófst ekki seinna en í mars 1993 og fram að lokum þess tímabils sem rannsókn Samkeppnisstofnunar náði til, í desember 2001. Samkeppnisstofnun (nú Samkeppniseftirlitið) úrskurðaði fyrirtækin fjögur til hárrar sektar þann 28. október 2004. Öll áfrýjuðu þau sektinni. Fjölmargir lögaðilar hafa höfðað mál gegn olíufélögunum í þeim tilgangi að fá skaðabætur. Í febrúar 2008 voru olíufélögin dæmd til þess að greiða Reykjavíkurborg 73 milljónir í skaðabætur, í maí 2010 til þess að greiða Vestmannaeyjabæ 14 milljónir og í júní 2011 var greint frá því að olíufélögin hefðu greitt Stoðum 110 milljónir í skaðabætur og bandaríska fyrirtækinu Alcoa sem rekur álverið í Straumsvík nokkuð lægri bætur. Hins vegar hefur Ker hf. stefnt íslenska ríkinu (og samkeppnisyfirvöldum) þar sem því þykir ekki sannað að það hafi haft nokkurn fjárhagslegan ávinning af samráðinu. Í janúar 2012 stefndi íslenska ríkið olíufélögunum og fór fram á skaðabætur að upphæð 25 milljónir. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, lét hafa eftir sér í september 2010 að hátt álag á bensíni væri til marks um að enn væri lítil samkeppni á olíumarkaðnum. Greiningardeild Arion banka komst að þeirri niðurstöðu að á tímabilinu 2008-2010 hafi álagning olíufélaganna á hvern bensínlítra lækkað úr 60 kr. í um 45 kr. lítrann. Hins vegar hafi álagning ríkisins stóraukist. Leiddar hafa verið líkur að því, vegna opinberra ummæla Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1s, að samkeppni hafi verið óvirk eða lítil af hálfu N1s strax eftir hrun, því félaginu hafi borið „skylda til að virða ákveðið ástand sem var á markaðnum, þ.e. að félögin voru misvel sett.". Málsaðilar. Samkeppnisstofnun var opinber stofnun íslenska ríkisins, stofnuð árið 1993, sem gæta átti að samkeppni fyrirtækja samkvæmt lögum. (Til að koma í veg fyrir misskilning skal tekið fram að Samkeppniseftirlitið starfar í dag samkvæmt lögum sem sett voru 2005 og leysa þau Samkeppnisstofnun af.) Í 10. gr. samkeppnislaga segir: "Allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar." Samkeppnisstofnun hafði vald til að beita sektarákvæðum við brotum á þessari grein. Verð á olíu á stærsta olíumarkaðnum, Bandaríkjamarkaði fjórfjaldaðist á tímabilinu 1974-2004 Samkeppni á markaði er almennt talin skila lægra verði til neytenda og auka nýtni. Ef framleiðendur á markaði ákveða hins vegar að eiga með sér samráð um verð geta þeir stjórnað hagnaði sínum að því gefnu að verðteygni sé lítil eins og tilfellið er með olíu. Á vef Samkeppniseftirlitsins kemur fram að samkvæmt rannsóknum Efnahags- og framfarastofnunarinnar sé meðaltalsávinningur fyrirtækja af samráði 10% af viðskiptum með þá vöru eða þjónustu en skaði samfélagsins er tvöfalt meiri. Olíumarkaðurinn á Íslandi. Í alþjóðlegu samhengi er íslenski olíumarkaðurinn agnarsmár en þar eru þrjú fyrirtæki með um þriðjungshlut hvert: Ker hf. (áður Olíufélagið hf.) með 35-40%, Olíuverzlun Íslands hf. (Olís), Skeljungur hf. bæði með um 25-30% og Atlantsolía með 5-10% markaðshlutdeild. Þrjár línur sjálfsafgreiðslustöðva eru reknar; Bensínorkan í hlutaeign Skeljungs, Egó í eigu Ker hf. og Ódýrt bensín (ÓB) í eigu Olís. Bæði á Íslandi og víðar hafa olíufélög orðið uppvís að því að bregðast skjótt og snöggt við hækkunum á olíuverði en draga seyminn þegar heimsmarkaðsverð lækkar. Það er til marks um veika samkeppni að fyrirtæki komist upp með slíkt. Allt fram að falli Sovétríkjanna voru þau helsti útflutningsaðili á olíu til Íslands. Þau viðskipti fóru fram með vöruskiptum. Með lagasetningu þann 1. apríl 1992 var innflutningur og verðlagning á olíu og eldsneyti á Íslandi gerður frjáls. Þeim lögum var breytt ári seinna til þess að samræma þau ákvæðum vegna inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið. Í orði kveðnu áttu olíufélögin því í samkeppni frá árinu 1993 þegar lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. voru sett. Rannsókn Samkeppnisstofnunnar. Í áraraðir höfðu verið uppi ásakanir um verðsamráð milli olíufélaganna á Íslandi, en vitað er að á olíumarkaði almennt er fákeppni. Neytendasamtökin kærðu olíufélögin til Samkeppnisstofnunar árið 1997 en einhverra hluta vegna dróst rannsóknin í fjögur ár. „"Í minni tíð sem viðskiptaráðherra var þessi skipting ekki hafin nema hvað að á stöku stað voru olíufélögin öll þrjú með eina stöð. Nú virðist þetta breytt og aðeins eitt félag annast bensínsöluna á hverjum stað. Og ekki bara það heldur eru allar verðbreytingar hjá olíufélögunum ávallt upp á krónu þær sömu og líka timasetning þeirra." sagði Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, „"Þetta geta ekki verið tilviljanir með verðlagninguna. Líkurnar fyrir því að um tilviljanir sé að ræða eru stjarnfræðilegar." Þann 18. desember 2001 framkvæmdi Samkeppnisstofnun húsleit hjá skrifstofum olíufélaganna og fjarlægði ýmis gögn til rannsóknar. Grunur lék á að olíufélögin hefðu brotið gegn 10. grein samkeppnislaganna nr. 7/1993 um ólögmætt samráð. Til leitarinnar þurfti heimild dómara. Í kjölfarið kröfðust olíufélögin þess að öllum tölvugögnum sem lagt var hald á yrði eytt þar sem leitin hafi verið ólögleg. Þá barst Samkeppnisstofnun bréf frá stjórn Ker hf. þar sem sagði að komnar væru fram „"vísbendingar um að ákveðnir þættir í starfsemi Olíufélagsins hf. [Ker hf.] hafi á undanförnum árum að einhverju leyti stangast á við ákvæði samkeppnislaga"“ en að starfsemi fyrirtækisins væri nú samkvæmt lögum eftir bestu vitund stjórnarinnar og lýsti hún yfir vilja til fulls samstarfs við Samkeppnisstofnun. Í kjölfarið vildi Olís einnig starfa með Samkeppnisstofnuninni að rannsókn málsins í þeirri von að endanleg sekt yrði lækkuð. Eftir að Samkeppnisstofnun sendi olíufélögunum fyrstu frumathugun eða drög að skýrslu um samráðið leituðu olíufélögin eftir því að leysa málið í sátt. Þessum viðræðum lauk í byrjun mars 2003 því að ekki var hægt að komast að á samkomulagi um viðurlögin. Í ágúst sama ár fór Skeljungur fram á að forstjóri Samkeppnisstofnunar segði af sér vegna ummæla hans um málið í fjölmiðlum. Viðbrögð Samkeppnisstofnunar var að biðja um álitsgerð hjá Páli Hreinssyni lagaprófessor. Niðurstaða hans var að forstjóri Samkeppnisstofnunar hefði ekki gert sig vanhæfan og lét Skeljungur þar við sitja. Rannsókninni lauk í október 2004 með tæplega þúsund blaðsíðna skýrslu þar sem fram kom „"að olíufélögin hafi frá gildistöku samkeppnislaga haft með sér yfirgripsmikið og óslitið samráð um verð, markaðsskiptingu og gerð tilboða."“ Ker hf. sýndi sérstakan samstarfsvilja, og dró til baka kröfu sína um að upptækum tölvugögnum yrði eytt. Þar með nýtti félagið sér ákvæði samkeppnislaga um að góður samstarfsvilji verði til lækkunar á sekt, komi til hennar. Samkvæmt niðurstöðum Samkeppnisstofnunar varaði samráðið að minnsta kosti frá mars 1993 til desember 2001 - allan þann tíma sem olíufélögin höfðu starfað á frjálsum markaði. Hagnaður olíufélaganna á samráðinu nam í það minnsta 6,5 milljörðum að mati Samkeppnisstofnunar, en það mat er sagt mjög hóflegt. Enn erfiðara er að áætla heildartap samfélagsins vegna samráðsins en hann hlýtur að hlaupa á tugum milljarða. Olíufélögin áfrýjuðu niðurstöðu Samkeppnisstofnunar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem úrskurðaði 29. janúar 2005 að niðurstaðan stæði í öllum meginatriðum en lækkaði sektir og felldi brott sekt Bensínorkunnar (Skeljungs) vegna formgalla. Þormóðsstaðir (Sölvadal). Þormóðsstaðir er sveitabær í Sölvadal. Um 1990 var hann einn af þrem síðustu bæjunum í byggð í Sölvadal en núna (2010) er hann síðasti bærinn í byggð í Sölvadal. Innar í dalnum var sel frá Þormóðsstöðum, Þormóðsstaðasel sem lagt var af árið 1907. 29. júní 1995 féll ógurleg skriða rétt sunnan Þormóðsstaða sem er innsti bær að vestan. Skriðan átti upptök sín við eða í gamla vegarsstæðinu upp á Hólafjalli og steyptist niður rétt sunnan bæjarins og fór yfir Núpána og stíflaði hana um tíma. What I Like About You. What I Like About er bandarískur gamanþáttur sem gerist aðallega í New York borg og fylgist með lífi tveggja systra, Valerie Tyler (Jennie Garth og Holly Tyler (Amanda Bynes). Þættirnir voru sýndir á "The WB" sjónvarpsstöðinni frá 20. september 2002 - 24. mars 2006 og voru alls 86 þættir framleiddir. Söguþráður. "What I Like About You" segir sögu systranna Valerie „Val“ Tyler og yngri systur hennar, Holly Tyler. Val Tyler (Jenni Garth) er stíf og vinnur við að skipuleggja veislur, er mjög skipulögð og oft taugaveikluð. Holly (Amanda Bynes) er opin og hress unglingur sem vill ekki flytja til Japan með föður sínum sem er kominn með nýtt starf og ákveður í staðinn að flytja inn til eldri systur sinnar, Val, í íbúðina hennar í New York-borg. Þær eru tvær sterkar systur sem að þykir mjög vænt um hvor aðra. Þær eiga báðar góða vini (til dæmis Lauren vinkonu Val og Gray vin Holly og seinna einnig Tinu). Sumir af fyrstu þáttunum innihalda líkamlegt grín frá Amöndu Bynes. Leikstíll hennar var oft borinn saman við Lucielle Ball. Líkamlega leiktjáningin var dempuð seinna í þáttunum. Húmorinn í þáttunum poppar upp tilveruna og notast við heimsku persónanna í þættinum á hinum ýmsu sviðum. Þættirnir notuðu oft tilvitnanir í þættina sem voru búnir og byrjaði til að mynda önnur þáttaröðin á því að rifja upp hvað gerðist í fyrstu þáttaröðinni. Stundum var notast við einstaka söguþræði og stundum leiddi söguþráðurinn út í eitthvað meira en einn þátt, ekki ólíkt því sem var gert í Vinum. Stórar breytingar. Á milli fyrstu og annarrar þáttaraðarinnar voru gerðar miklar breytingar. Þátturinn var eiginlega alræmdur fyrir breytingar sínar á leikaraliðinu. Simon Rex (sem lék fyrrverandi kærasta Val, Jeff Campell) var skrifaður út úr þáttunum eftir lok fyrstu þáttaraðarinnar. Hann er skrifaður út þar sem Val segir að þau ættu ekki að hittast aftur „þangað til þau geti gert það án þess að „gera það““ (á við kynferðisleg samskipti sem þau höfðu átt þrátt fyrir að hafa hætt saman nokkrum mánuðum fyrr, sem Holly komst að). 2003-04. Fyrir aðra þáttaröðina voru fimm leikarar í þáttunum, meðal annars tveir aukaleikarar úr fyrstu þáttaröðinni. Þrjár nýjar persónur voru kynntar til sögunnar í annarri þáttaröðinni. Vince (leikinn af Nick Zano) varð hrifinn af Holly og seinna kærastinn hennar, Tina Haven (leikin af Allison Munn), varð nýja besta vinkona Holly, sem átti í erfiðleikum í samböndum, næstum því alveg jafn mikið og Val og Peter (leikinn af Stephen Dunham). Peter var nýr yfirmaður Val þangað til hún og Lauren hættu hjá Harper & Diggs til þess að stofna sitt eigið fyrirtæki. Hann var líka hrifinn af Val. Til viðbótar voru tvær aukapersónur úr fyrstu þáttaröðinni, Leslie Grossman (sem lék Lauren, samstarfskonu Val og gerði margar margar tilraunir til þess að fá Val til þess að skemmta sér meira) og Michael McMillian (sem lék Henry Gibson, kærasta Holly) urðu aðalpersónur. Þessar viðbætur við leikaraliðið gerðu kjarnar stærri, úr fjögurra manna, yfir í átta manna. Dunham var fljótlega skrifaður úr þáttunum eftir að hafa birst í sex af átta fyrstu þáttunum. Aðrar breytingar voru gerðar á seríunni. Opnunarmyndinni var breytt og Holly og vinir hennar skipta um stað þar sem þau hanga á og hætta þau að vera á veitingastað Jeffs B-91 eins og í fyrstu seríunni og fara að vera á Liberty Diner í annarri, sem breytist síðan í bakarí Val, Sugar Babies, í 3. seríunni. Holly og Tina verða bestu vinkonur. Val og Holly flytja síðan út úr íbúðinni og flytja á loft (stærra en íbúðin sem þær bjuggu í í 1. þáttaröðinni) svo að Val geti fengið stærra pláss fyrir skrifstofu fyrir fyrirtækið sitt, sem Lauren eyðileggur seinna. 2004-05. Í þessari þáttaröð hætti Michael McMillan en skrifaði þátt seinna í þriðju seríu. Þriðja þáttaröðin bætti við David de Lautour sem aðalpersónu (þrátt fyrir að hann hafi aldrei bæst við opnunarmyndina) sem Ben Sheffield, tónlistarmaður frá Bretlandi sem er nýr kærasti Holly, sem hún hittir þegar hún fer til Evrópu. 2005-06. Í síðustu þáttaröðinni bættist einn leikari í hópinn, Dan Cortese, sneri aftur í þættina sem aðalpersóna (þrátt fyrir að aldrei hafa verið bætt í opnunaratriðið) sem Vic Meladeo, fyrrum yfirmaður Val sem verður slökkviliðsmaður, litaði á sér hárið, og giftist Val í Atlantic City þegar þau verða full. Val mótmælir hjónabandinu, og segir að þau hafi gert allt afturábak. Val vildi að Vic skrifaði undir ógildingarpappírana. Vic sagðist vilja bíða í hálft ár, og ef að Val elskaði hann ekki þá (hann sagði að það væri mjög ólíklegt) þá myndi hann skrifa undir skilnaðarpappíra. Við lok mánaðanna sex ákveður Val að hún elski Vic og vilji áfram vera gift honum. Þau komast fljótlega að því að þau voru ekki löglega gift. Eftir það ákveða þau að giftast aftur. Brúðkaupið þeirra er í síðasta þættinum. Kvíslhyrningar. Kvíslhyrningar er ætt jórturdýra með kvíslótt (klofin) horn. Til kvíslhyrninga telst hjartarættin (Cervidæ), t.d. hin alkunnu hjartardýr Mið-Evrópu, krónhjörturinn, dádýrið, rádýrið, risahjörturinn, vapiti hjörturinn. Kristján Einar Kristjánsson. Kristján Einar Kristjánsson (fæddur 8. janúar 1989) er íslenskur kappakstursmaður sem keppir í Formúlu 3 mótaröðinni. Kristján hóf að stunda go-kart kappakstur fjórtán ára gamall. Hann er fyrsti Íslendingurinn til að keppa í formúlu-kappakstri. Sumarólympíuleikarnir 1980. Sumarólympíuleikarnir 1980 voru haldnir í Moskvu í Sovétríkjunum dagana 19. júlí til 3. ágúst 1980. Bandaríkin ákváðu að hunsa Ólympíuleikana vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan sem hófst árið áður. Mörg önnur stór ríki eins og Japan, Vestur-Þýskaland, Kína, Filippseyjar og Kanada ákváðu í kjölfarið að hunsa leikana í mótmælaskyni. Sum ríki sem hunsuðu leikana eins og Bretland leyfðu íþróttamönnum sínum að taka þátt á eigin vegum. Íþróttamenn sextán landa gengu inn á leikvanginn undir ólympíufána í stað þjóðfána. Keppnisgreinar. Keppt var í 203 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Skiptar skoðanir voru á því hvort Íslendingar ættu að taka þátt á Ólympíuleikunum í Moskvu eða fara að fordæmi Bandaríkjamanna og fleiri þjóða með því að sitja heima. Morgunblaðið og Vísir gagnrýndu þátttökuna harðlega, en íslenska Ólympíunefndin hélt sínu striki. Skoðanakannanir leiddu í ljós að mikill meirihluti landsmanna var sammála þeirri ákvörðun. Níu íslenskir íþróttamenn kepptu í Moskvu, allt karlmenn. Þetta voru fjórir frjálsíþróttamenn, þrír keppendur í Ólympískum Lyftingum og tveir keppendur í júdó. Í fyrsta sinn frá leikunum í Melbourne 1956 sátu íslenskir sundmenn heima. Íslenskir lyftingamenn stóðu framarlega á þessum árum og þóttu líklegir til afreka enda var það lyftingamaðurinn Birgir Þór Borgþórsson sem var fánaberi Íslenska hópsins. Keppendur í Ólympískum Lyftingum voru auk Birgis þeir Guðmundur Helgi Helgason og Þorsteinn Leifsson. Árangur frjálsíþróttamannanna var mjög góður. Jón Diðriksson og Oddur Sigurðsson náðu til að mynda báðir 19. sæti, Oddur í 800 metra hlaupi og Jón í 1.500 metrum. Hreinn Halldórsson og Óskar Jakobsson komust báðir í úrslit kúluvarpskeppninnar og höfnuðu í 10. og 11. sæti. Bjarni Friðriksson náði góðum árangri í júdókeppninni. Hann tapaði naumlega í fjórðungsúrslitum á dómaraúrskurði og endaði að lokum í 7. sæti. Íslenska handknattleikslandsliðinu bauðst að keppa á leikunum, sem ein af varaþjóðum mótsins. Tilboðið var afþakkað í virðingarskyni við þær þjóðir sem kusu að sniðganga leikana og vegna mikils kostnaðar. Manntalið 1703. Fólks registur yfir alla Snæfellsness sýslu Anno 1703. Fyrst yfir Skógarstrandar sveit, samantekið í Martio. Manntalið 1703 var fyrsta heildarmanntal sem gert var á Íslandi. Manntalið var jafnframt fyrsta manntal sem náði til allra íbúa í heilu landi þar sem getið var nafns, aldurs og stöðu íbúanna í þjóðfélaginu. Ákvörðun um gerð manntalsins var tekin vegna bágrar efnahagsstöðu þjóðarinnar á 17. öld. Árni Magnússon og Páll Vídalín (sem þá var varalögmaður) voru valdir til þess að rannsaka hag landsins og leggja til úrbótatillögur, og var manntalið ein forsenda þeirra. Sýslumenn vísuðu málinu til hreppstjóra sem svo tóku manntalið. Hrepparnir voru þá 163 talsins og um 3–5 hreppstjórar voru í hverjum hreppi. Þetta stangaðist þó á við tilmæli konungs, en hann skipaði svo fyrir að prestar skyldu sjá um gerð manntalsins. Þeir Árni og Páll hafa líklega talið vænlegra til árangurs að nota hina veraldlegu stjórnsýslu og fela sýslumönnum málið á Alþingi, og sýslumenn síðan ákveðið að deila verkefninu niður á hreppanna, næsta stig stjórnsýslunnar. Manntalið þótti einsdæmi á sínum tíma, og almenningur í landinu kallaði veturinn 1702–1703 manntalsvetur. Manntalið hefur varðveist úr öllum hreppum, en þó hefur frumritið glatast í sumum tilfellum. Eftir að manntalinu var skilað á Alþingi í júní 1703 sendu Árni og Páll það til Kaupmannahafnar. Þar lá það að mestu óhreyft í 75 ár, en þá tók Skúli Magnússon landfógeti árið 1777 það til þess að vinna úr því jarðabók. Manntalið var lánað til Íslands árið 1921, til að undirbúa útgáfu þess, og samkvæmt samningi milli Íslands og Danmerkur árið 1927 varð það eign Íslands. Það er varðveitt í skjalsafni Rentukammers í Þjóðskjalasafni. Búfjártalið er einnig varðveitt, en það var aðeins tekið í um 60% af hreppum landsins. Það hefur ekki verið gefið út. Árið 2003 efndu Hagstofa Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands til ráðstefnu í tilefni af 300 ára afmæli Manntalsins 1703. Í framhaldi af ráðstefnunni var gefið út ráðstefnurit með erindum sem flutt voru þar. Mannfjöldi 1703. Í sambandi við útgáfu manntalsins, vann Hagstofa Íslands tölfræðilegar upplýsingar um mannfjölda á Íslandi. Síðari rannsóknir hafa sýnt að eitthvað sé vantalið, t.d. vantar Viðey á Sundum, en víst er að þar voru nokkrir búsettir. Einnig leikur grunur á að smábörnum hafi stundum verið sleppt. Þó er hugsanlegt að fá börn á aldrinum 0–7 ára stafi af harðindaárunum áður en manntalið var tekið. Mikill munur á fjölda karla og kvenna vekur athygli. Hann er talinn stafa af því að karlmenn dóu frekar af slysförum. Einnig kemur fram í heimildum að karlmenn þoldu verr hungursneyð, m.a. af því að þeir unnu frekar erfiðisvinnu. Tannleysingjar. Tannleysingjar (vísindaleg flokkun: "Xenathra") er yfirættbálkur spendýra sem telur beltisdýr, mauraætur og letidýr. Þessi ættbálkur er útdauður alls staðar nema í Ameríku. Tannleysingar eru upprunnir á tertíertímabilinu fyrir um 60 milljón árum. Bessastaðir í Fljótsdal. Bessastaðir í Fljótsdal eru landnámsjörð, kennd við Spak-Bersa Össurarson, sem víða er getið í fornsögum. Þar var snemma kirkja, en vægi hennar minnkaði þegar klaustur var reist á Skriðu, og lagðist kirkjan af um 1600. Frá 1913 hafa Bessastaðir verið bændaeign og ættaróðal. Sunnan við Bessastaði kemur Bessastaðaá fram úr Bessastaðaárgili, sem er mikil náttúrusmíð, um 200 m djúpt. Þar eru þykk setlög frá síðtertíer og margir fossar, sá hæsti er Jónsfoss nálægt miðju gili. Bessastaðaá kemur úr Gilsárvötnum á Fljótsdalsheiði og bendir nafnið á vötnunum til að áin hafi heitið Gilsá í fornöld. Á Bessastöðum var lengi þingstaður, þar sem háð voru héraðsþing fyrir Fljótsdal og nágrenni. Í túninu var Þingvöllur og forn tóft, sem er friðlýst. Neðst í gili Bessastaðaár er Drekkingarhylur, stundum kallaður Sunnefuhylur, og Gálgaklettur þar skammt frá. Frá Bessastöðum lá alfaravegur (hestagata) yfir Fljótsdalsheiði norður til Jökuldals og Hrafnkelsdals. Síðar var ruddur þar jeppavegur og loks vegur með bundnu slitlagi, í sambandi við Kárahnjúkavirkjun. Bessastaðaá. Bessastaðaá er bergvatnsá í Fljótsdal. Hún kemur úr Gilsárvötnum á Fljótsdalsheiði, sem eru í um 625 m hæð, og fellur um mikið gil ofan í dalinn og rennur í Jökulsá í Fljótsdal nálægt botni Lagarfljóts. Áin dregur nafn af Bessastöðum í Fljótsdal, sem eru utan við ána. Líklegt er að Bessastaðaá hafi heitið Gilsá í fornöld, en nafninu verið breytt af því að önnur Gilsá er í næsta nágrenni. Á árunum 1975–1979 voru uppi áætlanir um að virkja Bessastaðaá, með miðlunarlóni í Gilsárvötnum og inntakslóni við Garðavatn (Hólmalón). Einnig átti að veita vatni til virkjunarinnar úr Hölkná og Þórisstaðakvísl. Gert var ráð fyrir jarðgöngum til stöðvarhúss skammt innan við Valþjófsstað, á svipuðum stað og Fljótsdalsstöð er nú. Síðar var hætt við að reisa Bessastaðaárvirkjun, en stefnt í staðinn að því að virkja rennsli jökulánna í Kárahnjúkavirkjun. Sú virkjun nýtir hins vegar ekki vatnið úr Bessastaðaá. Afl Bessastaðaárvirkjunar var áætlað á bilinu 32–64 MW. Fljótsdalsstöð. Fljótsdalsstöð er nafnið á mannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar innan við Valþjófsstað í Fljótsdal. Nafnið Kárahnjúkavirkjun á hins vegar við mannvirkin í heild, allt frá Kárahnjúkum og Hraunum að Fljótsdalsstöð. Í Fljótsdalsstöð fer sjálf orkuframleiðslan fram, og þar er rekstri virkjunarinnar stjórnað. Flugustaðadalur. Flugustaðadalur er dalur í Álftafirði. Í honum eru fjórir bæir í byggð. Hítardalsklaustur. Hítardalsklaustur var munkaklaustur af Benediktsreglu, talið hafa verið stofnað árið 1166 í Hítardal á Mýrum, en mjög litlar heimildir eru þó til um klaustrið og jafnvel hefur verið dregið í efa að þar hafi nokkurn tíma komist á eiginlegur klausturlifnaður en ef svo var hefur klaustrið lagst af eftir fáeina áratugi. Talið er að klaustrið hafi verið stofnað að einhverju leyti til minningar um brunann mikla í Hítardal 30. september 1148, þegar Magnús biskup Einarsson brann inni ásamt yfir áttatíu öðrum, og er það mannskæðasti eldsvoði á Íslandi. Bóndinn í Hítardal, Þorleifur beiskaldi Þorláksson, bjargaðist úr brunanum og átti langt líf fyrir höndum (d. 1200). Hann var stórauðugur og fékk Klængur biskup hann til að gefa jörðina til klausturstofnunar. Um klaustrið er nær ekkert vitað en víst er að Þorleifur beiskaldi bjó áfram í Hítardal þrátt fyrir klausturstofnunina og sonur hans eftir hann. Síðar bjó Loftur biskupssonur þar, en Þorleifur var langafi hans, og þá Ketill sonur hans, en hann deildi við Staða-Árna um forræði yfir jörðinni um 1270 - þá er sagt um Hítardal „þar hafði klaustur áður verið“ og bendir það til þess að það sé þá löngu aflagt - og missti það að lokum í hendur kirkjunnar. Enginn ábóti virðist hafa haft forræði jarðarinnar. Tveir Hítardalsábótar eru þó nefndir í annálum, Hreinn Styrmisson, sem sagður er hafa verið vígður ábóti 1166 og dáið 1171 en er að vísu einnig sagður hafa verið ábóti í Þingeyraklaustri á sama tíma; og Hafliði nokkur, sem dó 1201 en er líka talinn hafa verið ábóti í Flatey, sem varla fær þó staðist. Reynistaðarklaustur. Reynistaðarklaustur var nunnuklaustur af Benediktsreglu, stofnað árið 1295 á Reynistað í Skagafirði. Það var annað tveggja nunnuklaustra á landinu og starfaði til siðaskipta. Gissur Þorvaldsson jarl hafði fyrir dauða sinn 1268 gefið bújörð sína, Stað í Reynisnesi (Reynistað) til klausturstofnunar en þó liðu nærri 30 ár þar til af henni varð. Þá var það Jörundur Hólabiskup sem tók af skarið og fékk í lið með sér auðuga konu, Hallberu að nafni, er síðar varð abbadís, og fleiri mektarkonur til að gefa fé til klausturstofnunar og sjálfur lagði hann klaustrinu til 23 jarðir Hólastóls sem skyldu vera ævarandi eign þess. Hólabiskup átti að vera verndari eða eins konar ábóti klaustursins. Var þar jafnan umboðsmaður biskups eða ráðsmaður í forsvari. Sennilega hefur klaustrinu hnignað eftir Svartadauða 1402, fáar nunnur lifað eftir og svo mikið er víst að engin abbadís var þar í allmörg ár en Þórunn Ormsdóttir var þar príorinna frá 1408 og tók jafnframt við klausturforráðum úr hendi ráðsmannsins ásamt Þuríði Halldórsdóttur. Þrátt fyrir þetta auðgaðist klaustrið smátt og smátt og samkvæmt máldaga 1446 átti það yfir 40 jarðir auk eyðijarða. Líklega hafa oftast verið í kringum tíu nunnur í klaustrinu. Klaustrið var lagt niður við skiðaskiptin en Solveig abbadís bjó þó áfram í klaustrinu ásamt nunnunum og sá konungur þeim fyrir lífsuppeldi eins og öðru klausturfólki. Winchester. Winchester er höfuðborg sýslunnar Hampshire á Suðaustur-Englandi. Frá og með manntali ársins 2001 voru íbúar 41.420. Suður-England. Suður-England er hluti af Englandi, það er að segja sunnanavert England. Silt. Silt er set úr jökulvatni, og er kornastærð efnisins millistig á milli sands og leirs, 0,002–0,063 mm. Sé silti núið milli fingurgóma, finnst fyrir kornum. Silt er ekki burðarhæft efni fyrir mannvirkjagerð. Orðið "silt" er hvorugkynsorð og beygist eins og "vatn". Einnig er stundum notað nýyrðið "sylti", en það hefur ekki náð fótfestu. Leir. Leir er fínkornótt set, úr smæstu kornum sem myndast við veðrun bergs, kornastærð minni en 0,002 mm. Hér á Íslandi er leir yfirleitt set úr jökulvatni. Leiragnir sökkva treglega eða ekki í vatni og gefa jökulvatni lit. Sé leir núinn milli fingurgóma finnst ekki fyrir kornum. Leir er ekki burðarhæft efni við mannvirkjagerð. Ef leir drekkur í sig vatn bólgnar hann út, og um leið umraðast rafeindir á yfirborði agnanna, svo að hver ögn fær neikvæða heildar rafhleðslu. Leir er lokastig í veðrun fastra efna, og við frekari veðrun leysast efnin upp í sameindir. Öxará. Öxará er bergvatnsá sem rennur um Öxarárdal og Þingvelli og í Þingvallavatn. Áin kemur mjög við sögu Þingvalla. Hún er yfirleitt ekki sérlega vatnsmikil en getur bólgnað mjög upp í flóðum. Sagt er að áin hafi fengið nafn af því að þegar Ketilbjörn gamli landnámsmaður á Mosfelli fór ásamt mönnum sínum í landkönnunarferð hafi þeir gert skála við Skálabrekku. Þar skammt frá komu þeir að ísilagðri á en hjuggu vök á ísinn, misstu öxi í ána og nefndu hana Öxará. Áin kemur upp í Myrkavatni og fellur milli Búrfells og Leggjabrjóts og um Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í vatnið rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fossi, Öxarárfossi. Um gjána fellur áin nokkurn spöl en síðan úr henni aftur undir brúna við Drekkingarhyl, sem áður var mun dýpri en grynntist þegar núverandi brú var gerð fyrir Alþingishátíðina 1930. Þá var skarðið í gjárbarminn sem áin rennur um sprengt og lækkað til muna. Talið er að brú hafi verið gerð yfir ána þegar á 10. öld. Í Drekkingarhyl var konum áður drekkt fyrir ýmsar sakir og var þeim þá stungið í poka sem þyngdir voru með grjóti og varpað í hylinn. Nokkrir hólmar eru í Öxará og kallast einn þeirra Einvígishólmi eða Öxarárhólmi. Þar voru hólmgöngur háðar áður fyrr. Umferðarstofa. Umferðarstofa er opinber stofnun, sem fer með stjórnsýslu á sviði umferðarmála, s.s. umferðarreglur, ökutæki, ökutækjaskráningar, ökupróf og ökunám, umferðarfræðslu, slysaskráningar og fleira. Stofnunin var stofnuð þann 1. október 2002 við sameiningu "Skráningarstofunnar ehf." og "Umferðarráðs", en einnig voru flutt til stofnunarinnar ýmis verkefni frá dómsmálaráðuneytinu. Þegar bifreið er „úr umferð“ er talað um að hún sé „tekin af númerum.“ Númeraplöturnar eru þá sendar til næsta skoðunarstaðar. Ef gömlu númeraplöturnar eru lagðar inn og ekki endurheimtar innan árs eru þær eyðilagðar. Greiða verður fyrir að leggja þeim og sömuleiðis fyrir að taka þær út aftur. Þegar bíll er afskráður er búið að taka hann af númerunum og þau verða ekki sett á hann aftur, eða bíllinn verður ekki settur á númer aftur. Ingólfshöfði. Ingólfshöfði er klettahöfði við ströndina suður af Öræfajökli í Austur-Skaftafellssýslu. Hann er 76 metrar á hæð þar sem hann er hæstur og er hömrum girtur en að norðvestan er að honum sandalda, Kóngsalda, og þar er hægt að komast upp á hann. Höfðinn var eitt sinn eyja en er nú tengdur við land með sandi sem Skeiðará hefur borið fram. Hann er um 1200 m á lengd og 750 m á breidd. Hluti hans er vel gróinn. Mikið fuglalíf er í höfðanum, einkum langvía, lundi, fýll og álka og var áður mikil eggja- og fuglatekja í höfðanum og tilheyrði veiðirétturinn Sandfelli í Öræfum. Útræði var frá höfðanum fram á 18. öld og má sjá þar rústir af verbúðum, en hlaup í Skeiðará eru sögð hafa spillt skipalæginu. Í höfðanum er skipsbrotsmannaskýli, viti og radíóviti. Höfðinn er friðlýstur en bændur í Öræfum mega nytja hann á hefðbundinn hátt. Höfðinn er nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, sem sagt er að hafi haft þar vetursetu fyrsta veturinn sem hann var hér, en Hjörleifur fóstbróðir hans á að hafa farið lengra og haft vetursetu við Hjörleifshöfða. Minnisvarði um dvöl Ingólfs og Hallveigar konu hans er í höfðanum. Hjörleifshöfði. Hjörleifshöfði er móbergshöfði á Mýrdalssandi, 221 m hár. Hann hefur eitt sinn verið eyja, á landnámsöld var hann orðinn landfastur og fjörður, Kerlingarfjörður, var inn með honum en nú er hann umlukinn sandi og er rúma 2 km frá sjó. Þegar Katla gýs bera Kötluhlaup með sér geysilegt magn af sandi og það eru þau sem hafa valdið hinum miklu landbreytingum. Talið er að fjörðurinn hafi fyllst af sandi á 14. öld og síðan hefur landið gengið lengra fra. Sandurinn sunnan við höfðann heitir Kötlutangi og varð syðsti oddi Íslands eftir Kötluhlaupið 1918 en áður var Dyrhólaey syðst; nú hefur sjórinn brotið svo mikið af sandi af Kötlutanga að Dyrhólaey er aftur orðinn syðsti oddinn. Hjörleifshöfði er sagður kenndur við Hjörleif Hróðmarsson, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, sem kom með honum til Íslands á öðru skipi. Þeir urðu viðskila og hafði Ingólfur vetursetu í Ingólfshöfða en Hjörleifur við Hjörleifshöfða. Um vorið drápu írskir þrælar Hjörleifs hann og menn hans, tóku konurnar með sér og flúðu til Vestmannaeyja en Ingólfur elti þá uppi og drap þá. Uppi á höfðanum er Hjörleifshaugur og er Hjörleifur sagður grafinn þar. Búið var í Hjörleifshöfða til 1936 en bærinn var fluttur af sandinum upp á höfðann eftir að hann eyddist í Kötluhlaupinu 1721. Hjörleifshöfði þótti góð bújörð og þar voru hlunnindi af reka, fuglaveiðum og eggjatekju. The Chicago Manual of Style. "The Chicago Manual of Style" (skammstöfuð sem CMS eða CMOS) er stílhandbók fyrir bandaríska ensku og gefin hefur verið út síðan 1906 af University of Chicago Press. Gissur hvíti Teitsson. Gissur Teitsson hvíti var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 10. og 11. öld og var einn helsti foringi kristinna manna við kristnitökuna á Alþingi. Hann var einnig ættfaðir fyrstu íslensku biskupanna. Gissur var af ætt Mosfellinga, sonarsonur Ketilbjarnar gamla Ketilssonar landnámsmanns á Mosfelli í Grímsnesi, en afkomendur hans voru síðar nefndir Haukdælir. Teitur faðir Gissurar bjó í Skálholti og þar bjó Gissur einnig en síðar á Höfða. Hann var mikill höfðingi og kemur víða við sögu í fornritum. Hann átti í deilum við Gunnar á Hlíðarenda og var foringi þeirra sem fóru að Gunnari og drápu um 990. Gissur var einn þeirra sem Þangbrandur biskup skírði þegar Ólafur Tryggvason sendi hann hingað í trúboðsferð. Hjalti Skeggjason, tengdasonur Gissurar, tók einnig trú og urðu þeir ásamt Síðu-Halli Þorsteinssyni helstu foringjar kristinna manna. Gissur og Hjalti fóru til Noregs og voru hjá Ólafi konungi einn vetur en hann sendi þá svo til Íslands til að kristna Íslendinga. Í Kristni sögu segir að þeir hafi haft heim með sér kirkjuvið og hafi átt að boði konungs að byggja kirkju þar sem þeir kæmu fyrst að landi, en það var í Vestmannaeyjum og reis kirkjan þar. Árið 2000 var reist þar lítil stafkirkja til að minnast þessa. Á Alþingi árið 1000 (eða 999) munaði litlu að kristnir menn og heiðnir berðust en þó varð úr að ákveðið var að Íslendingar skyldu taka kristna trú. Í framhaldi af því lét Gissur reisa fyrstu kirkjuna í Skálholti. Gissur var þrígiftur. Fyrsta kona hans var Halldóra Hrólfsdóttir og var dóttir þeirra Vilborg, kona Hjalta Skeggjasonar. Þriðja kona hans var Þórdís, dóttir Þóroddar spaka Eyvindarsonar goða í Ölfusi og systir Skafta Þóroddssonar lögsögumanns og voru synir þeirra þeir Ketill og Ísleifur, fyrsti biskup Íslands. Einnig átti Gissur dótturina Þórkötlu, konu Marðar Valgarðssonar, sem mjög kemur við sögu í Njálu, en móðir hennar er óþekkt. Vefmyndavél. Vefmyndavél (slangrið vebbi er einnig notað frá enska heitinu "webcam" sem er stytting á "webcamera") er myndbandsvél eða upptökuvél sem tengist við tölvu og eru þær oftast notaðar fyrir tölvusímtækni- þ.e. að nota tölvu eins og myndsíma. Kjölur (fjallvegur). Kjalvegur merktur inn á Íslandskort Hrútfell á Kili. Langjökull í baksýn. Kjölur er landsvæði og fjallvegur (Kjalvegur) á hálendi Íslands, austan Langjökuls en vestan við Hofsjökul. Norðurmörk Kjalar eru yfirleitt talin vera við Svörtukvísl og Seyðisá en að sunnan afmarkar Hvítá Kjöl. Kjölur er nú afréttarland Biskupstungna en tilheyrði áður bænum Auðkúlu í Húnaþingi. Kjölur er í 600-700 metra hæð yfir sjávarmáli og að miklu leyti berar melöldur, sandar og hraun á milli lágreistra fella. Hærri fjöll eru þar einnig svo sem Hrútfell (1410 m) og Kjalfell (1000 m). Þar eru líka gróin svæði, einkum í Hvítárnesi og í Þjófadölum. Áður var Kjölur mun meira gróinn. Norðan til á Kili er jarðhitasvæðið Hveravellir, sem er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Kerlingarfjöll eru við Kjalveg og er þar að finna veitinga- og gistiaðstöðu ásamt því að Hveradalir eru eitt stærsta háhitasvæði Íslands Nyrst á Kili er Dúfunefsfell, 730 m hátt, og sunnan við það eru sléttir melhjallar sem talið er að geti verið Dúfunefsskeið, sem nefnt er í landnámu, í frásögninni af Þóri dúfunef landnámsmanni á Flugumýri og hryssunni Flugu. Kjalvegur hefur verið þekktur frá upphafi Íslandsbyggðar og eru frásagnir í Landnámu af landkönnun skagfirskra landnámsmanna en það var Rönguður, þræll Eiríks í Goðdölum, sem fann Kjalveg. Vegurinn var fjölfarinn fyrr á tíð og raunar helsta samgönguleiðin milli Norður- og Suðurlands. Í Sturlungu eru til dæmis margar frásagnir af ferðum yfir Kjöl, oft með heila herflokka. Seint á 18. öld létu Reynistaðarbræður og förunautar þeirra lífið við Beinahól á Kili og er sagt að enn sé reimt þar í kring. Eftir það fækkaði ferðum um Kjöl en þær lögðust þó aldrei alveg af. Kjalvegur er um 165 km frá Eiðsstöðum í Blöndudal suður að Gullfossi og er fólksbílafær á sumrin. Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um að leggja heilsársveg um Kjöl. Gamli Kjalvegurinn liggur nokkuð vestan við bílveginn og er enn notaður sem göngu- og reiðvegur. Nike. Nike frá Samóþrake er ein frægasta styttan af sigurgyðjunni. Styttan, sem er geymd á Louvre-safninu í París í Frakklandi, fannst í Samóþrake árið 1863 og er frá 2. öld f.Kr. Nike (á forngrísku Νίκη) var í grískri goðafræði sigurgyðjan. Rómversk hliðstæða hennar var gyðjan Victoria. Borgargerði. Borgargerði er eyðibýli í Norðurárdal. Það var fjórði bærinn sem fór í eyði í Norðurárdal, Það fór í eyði árið 1974. Eina uppistandandi húsið er sjálft íbúðarhúsið og stendur það hinum megin við ánna. Það liggur vegur hálfa leiðina að bænum og restina þarf að ganga. Borgargerðisfjall gnæfir yfir bænum. Keldur á Rangárvöllum. Keldnakirkja. Stafnþil gamla bæjarins til vinstri. Keldur eru bær og kirkjustaður á Rangárvöllum. Þar var jafnan stórbýli fyrr á öldum. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Fyrsti bóndi sem getið er um á Keldum var Ingjaldur Höskuldsson og kemur hann við sögu í Njálu. Ýmsir bardagar sem segir frá í Njálu voru háðir í landi Keldna. Seinna var jörðin eitt af höfuðbólum Oddaverja. Jón Loftsson eyddi elliárunum þar og er talinn grafinn á Keldum. Hann ætlaði að stofna þar klaustur en það komst aldrei á laggirnar. Á 13. öld bjó Hálfdan Sæmundsson, sonarsonur Jóns, á Keldum ásamt Steinvöru Sighvatsdóttur konu sinni, sem var mikill skörungur. Gamli bærinn á Keldum er talinn vera frá elleftu öld að stofni til og er því elsta hús sem enn stendur á Íslandi. Þar er nú minjasafn. Frá bænum liggja gömul jarðgöng að bæjarlæknum. Þau eru talin frá söguöld og voru týnd í margar aldir en fundust fyrir tilviljun á 20. öld. Fyrir norðan Keldur var áður gróið land og þar voru áður nokkrar jarðir en nú eru þar hraun orpin sandi. Þetta svæði var gróið fram yfir miðja 19. öld en þá stórjókst sandfokið, sem talið er að hafi byrjað eftir Heklugosið 1511, þegar þykkt vikurlag lagðist yfir landið suður og suðvestur af Heklu; þá fóru Rangárvellir að blása upp og sú þróun hefur haldið áfram til þessa dags þótt baráttan við sandinn hafi skilað góðum árangri á síðustu árum. Á því landi sem nú er gróðurlaust voru áður margar jarðir og hafa allt að 18 bæjarrústir verið taldar í hinu mikla landflæmi sem tilheyrir nú Keldum. Á Keldum hefur verið kirkja frá fornu fari og er henni nú þjónað frá Odda. Núverandi kirkja er lítil, byggð 1875 og er úr járnvörðu timbri. Breiðabólstaður í Fljótshlíð. Breiðabólstaður (eða Breiðabólsstaður) er bær og kirkjustaður í Fljótshlíð. Þar hefur lengi verið prestssetur og hafa ýmsir merkisprestar þjónað þar; raunar er sagt að enginn prestur hafi sótt burt frá Breiðabólstað nema til þess að verða biskup. Ormur Jónsson Breiðbælingur, sonur Jóns Loftssonar, bjó á Breiðabólstað og eftir lát hans fluttist dóttir hans, Hallveig, þangað ásamt manni sínum Birni Þorvaldssyni, sem var af ætt Haukdæla, hálfbróðir Gissurar Þorvaldssonar. Hann lenti í erjum við Oddaverja, sem fóru að honum og felldu hann í bardaga þar 17. júní 1221. Jón Ögmundsson, sem varð fyrsti biskup á Hólum, var prestssonur frá Breiðabólstað og var sjálfur prestur þar áður en hann tók við biskupsdæminu. Ögmundur Pálsson var líka prestur þar áður en hann varð biskup. Af öðrum prestum má nefna Presta-Högna Sigurðsson (1693-1770), sem eignaðist með konu sinni, Guðríði Pálsdóttur, átta syni sem allir urðu prestar, svo og níu dætur. Sagan segir að á Jónsmessu 1760 hafi synirnir allir mætt á Breiðabólstað í fullum prestaskrúða, en séra Högni sjálfur sá níundi, og eins hafi þeir allir níu mætt á Alþingi sama ár. Á 19. öld var Tómas Sæmundsson, einn Fjölnismanna, prestur á Breiðabólstað og er minnisvarði um hann í kirkjugarðinum þar sem Fjölnismenn létu setja yfir hann. Á síðari hluta aldarinnar var þjóðsagnasafnarinn Skúli Gíslason prestur á Breiðabólstað. Núverandi prestur er séra Önundur S. Björnsson. Kirkja hefur verið á Breiðabólstað síðan á 11. öld og þar hefur jafnan verið prestssetur. Núverandi kirkja var vígð 1912 og er krosskirkja teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt. Í henni eru margir merkir gripir. Sun Microsystems. Loftmynd af höfuðstöðvum Sun Microsystems Sun Microsystems er stórt alþjóðlegt fyrirtæki sem framleiðir og selur tölvur, tölvuíhluti, hugbúnað og þjónustu á sviði upplýsingatækni. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Santa Clara í Silicon Valley í Kaliforníu. Fyrirtækið var stofnað árið 1982 af nemendum frá Stanford-háskóla í kringum framleiðslu og sölu á Sun-1-einmenningstölvum sem notuðust við Motorola 68000-örgjörvann og voru hugsaðar fyrir CAD-vinnslu. Nafnið á fyrirtækinu var upphaflega skammstöfun fyrir Stanford University Network sem var þá Internet Stanford-háskóla. Sun-tölvurnar notuðust við Sun OS-stýrikerfið sem var Unix-útgáfa. Árið 1992 setti fyrirtækið svo stýrikerfið Solaris á markað. Um svipað leyti var Java-forritunarumhverfið þróað af Sun. Meðal þekktustu vörulína fyrirtækisins eru SPARC-örgjörvinn, stýrikerfið Solaris, forritunarumhverfið Java, skrifstofuvöndullinn OpenOffice.org (keyptur 1999) og gagnaþjónninn MySQL (keyptur 2008). Skrifstofuhugbúnaður. Fréttastofa Reuters í Bonn árið 1988. Tölvur urðu hluti af staðalbúnaði á skrifstofum í byrjun 9. áratugarins og fyrstu skrifstofuvöndlarnir komu á markað skömmu síðar. Skrifstofuhugbúnaður eða skrifstofuvöndull er safn notendaforrita sem ætluð eru til notkunar í almenna skrifstofuvinnu. Algengast er að skrifstofuhugbúnaður innihaldi að minnsta kosti ritvinnsluforrit og töflureikni. Venjulega er skrifstofuhugbúnaður hannaður þannig að notendaviðmót er sambærilegt milli forrita og oft eru skáarsniðin þannig samhæfð að hægt sé að afrita og líma hluta úr skjölum milli ólíkra forrita innan safnsins. Skrifstofuhugbúnaður er oft hannaður út frá safni staðlaðra hluta sem eru samnýttir af forritum safnsins. Algengur skrifstofuhugbúnaður er t.d. Microsoft Office, iWork, OpenOffice.org, KOffice, GNOME Office, Lotus Symphony og Google docs. Reynt hefur verið að koma á stöðluðum skjalasniðum eins og Open Document Format til að tryggja samhæfingu milli ólíkra skrifstofuvöndla. Tool. Tool er bandarísk rokkhljómsveit. Aðalsöngvari hljómsveitarinnar er Maynard James Keenan. Judd Hirsch. Judd Hirsch (fæddur 15. mars 1935) er bandarískur leikari, þekktastur fyrir að leika Alex Reiger í grínsjónvarpsþættinum "Taxi" og sem Alan Eppes í CBS seríunni "Numb3rs". Einkalíf. Judd Seymore Hirsch fæddist í Bronx í New York. Hirsch var alinn upp í gyðingatrú og faðir hans var innflytjandi frá Rússlandi. Hirsch stundaði nám við De Witt Clinton High School og seinna tók háskólagráðu við City College of New York í eðlisfræði. Hirsch hefur verið giftur tvisvar sinnum og á tvö börn með seinni eiginkonu sinni. Leikhús. Fyrsta leikhúshlutverk Hirsch var árið 1967 í "Scuba Duba". Hefur hann síðan komið fram í leikritum á borð við "Knock Knock", "Conversation With My Father", "Seagull", "Talley's Folley" og "I'm Not Rappaport,". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Hirsch var árið 1974 í sjónvarpsmyndinni "The Law". Árið 1976 þá var honum boðið hlutverk í "Delvecchio", þar sem hann lék rannsóknarfulltrúa til ársins 1977. Síðan árið 1978 þá var honum boðið hlutverk Alex Reiger í Taxi sem hann lék til ársins 1983. Hirsch lék svo aðalhlutverkið í "Dear John". Seinna tók hann sama með Bob Newhart í grínþættinum "George and Leo". Lék í sjónvarpsþættinum "Numb3rs" frá 2005-201 sem Alan Eppes, faðir FBI alríkisfulltrúans Don Eppes (Rob Morrow) og Prófessorsins Charlie Eppes (David Krumholtz). Hirsch hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Law & Order: Special Victims Unit", Damages, "Warehouse 13" og American Dad. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Hirsch var árið 1971 í "Jump". Hirsch var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í "Ordinary People". Aðrar myndir sem hann hefur leikið í "Without a Trace", "Teachers" og "The Goodbye People" og "Running on Empty" leikstýrt af Sidney Lumet. Árið 1996 lék Hirsch föður persónu Jeff Goldblum's í "Independence Day" og árið 2001 lék hann í "A Beautiful Mind". Árið 1999 endurtók hann hlutverk sitt í "Taxi" stuttlega í "Man on the Moon", mynd sem fjallar um samleikara hans í "Taxi", Andy Kaufman (leikinn af Jim Carrey). Fleiri leikarar úr þættinum komu einnig fram í myndinni. Tenglar. Hirsch, Judd Félagsmiðstöðin kúlan. Kúlan er félagsmiðstöð í Kópavogi. Félagsmiðstöðin er rekin af ÍTK (Íþrótta og tómstundaráð Kópavogs). Meðal annars er hægt að fara í Harry Potter í PS2. Kúlan er opin frá 8-10 mánudaga og miðvikudaga og svo opið í hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum. K.F.R.. Knattspyrnufélag Rangæinga er knattspyrnufélag frá Rangárþingi. Félagið leikur nú í annari deild á Íslandi. Saga. Knattspyrnufélag Rangæinga er ungt félag á landsvísu, stofnað 1997 af hópi manna sem taldi brýna þörf á að samræma knattspyrnuiðkun í Rangárþingi. Knattspyrna hefur verið stunduð um áratugaskeið í Rangárþingi eins og víða annarsstaðar. Ungmennafélögin kepptu sín á milli og tóku þátt í héraðsmótum, en árið 1976 var brotið blað í knattspyrnusögu Rangæinga en það ár tók Rangæskt lið í fyrsta sinn þátt í Íslandsmóti í knattspyrnu. Það var Umf. Hekla en þeir tóku sæti í 3. deild S.V.-riðli sem þá var neðsta deild. Hekla lék í 3. deild til ársins 1980 en árið eftir tók liðið ekki þátt í nýstofnaðri 4. deild. Þetta reyndist síðasta árið sem Hekla tók þátt en Eyfellingar léku árin 1983,1984 og 1986. Árið 1989 skráði Umf. Baldur á Hvolsvelli sig til leiks en sú tilraun stóð aðeins yfir það eina ár. Árin 1993 og 1996 tók þátt sameiginlegt lið Heklu og Baldurs í 4. deild. Segja má að H.B. hafi verið eins konar forveri K.F.R. þar sem þrettán leikmenn þess gengu til liðs við K.F.R. er það tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsmóti 1997. Árið 2007 var Meistaraflokkur endurvakin og skráður í 3. deildina. Fyrstu tvö árin gengu illa og náðust aðeins þrjú stig bæði árið 2007 og 2008. Sumarið 2009 náði K.F.R. 10 stigum. Því má frá greina að meðalaldur leikmanna liðsins var 21 ár. Navi Rawat. Navi Rawat (fædd Navlata Rawat; 5. júní 1977) er bandarísk leikkona sem er þekktust hlutverk sitt í Numb3rs. Einkalíf. Rawat fæddist í Malibu Kaliforníu og er af indverskum og þýskum uppruna. Hún útskrifaðist frá Tisch School of the Arts við New York University. Ferill. Í sjónvarpi er hún þekktust fyrir hlutverk sín sem Theresa Diaz í "The O.C." og sem Amita Ramanujan í "Numb3rs". Var hún gestaleikari sem Melanie í fyrstu þáttaröðinni af "24". Kvikmyndir sem hún hefur komið fram í eru meðal annarra "Thoughtcrimes" (2003), "Project Greenlight", "Feast" (2005) og "Loveless in Los Angeles" (2006). Peter MacNicol. Peter C. MacNicol (fæddur 10. apríl 1954) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Ally Mcbeal,24, Chicago Hope og Numb3rs. Einkalíf. MacNicol er fæddur og uppalinn í Dallas í Texas og er yngstur af fimm systkinum. MacNicol byrjaði ferill sinn við Háskólann í Dallas og hélt áfram við Háskólann í Minnesota. Á meðan hann var í Minnesota lék hann tvö tímabil við Guthrie Theater. Þar kom umboðsmaður frá New York auga á hann og ráðlagði honum að flytja til Manhattan. MacNicol býr í Los Angeles með konu sinni, sem rekur The Corie Williams Scholarship Fund, sjálfseignarstofnun sem veitir börnum í Los Angeles námstyrki. MacNicol stóð með rithöfundunum þegar Writers Guild of America verkfallið stóð yfir. Leikhús. Árið 1980 var MacNicol ráðinn í leikritið "Crimes of the Heart". Framleiðslan fluttist í Broadway-leikhús og fékk MacNicol Theatre World verðlaunin. Árið 1987 lék hann í hinni upprunalegu útgáfu af „All the King's Men“, sem var fyrst sýnd í Dallas Theater Center. Þessi útgáfa var gerð og þróuð í samfloti með höfundinum sjálfum. Meðal leikrita sem hann hefur komið fram í: "Black Comedy/White Lies", "Richard III", "Romeo and Juliet", "Twelfth Night", "Rum and Coke" og "Found a Peanut". Sjónvarp. MacNicol er þekktastur fyrir að hafa leikið hinn sérvitra lögfræðing John Cage í "Ally McBeal" og fékk fyrir það Emmy-verðlaun fyrir Besta aukahlutverk leikara í grínseríu árið 2001. Hann lék eðlisfræðinginn Dr. Larry Fleinhardt í "Numb3rs" og var í vinsælu hlutverki sem Tom Lennox í sjöttu þáttaröð af "24". MacNicol endurtók hlutverk sitt sem Lennox í kvikmyndinni "24: Redemption". Hann mun leika Doctor Octopus í fyrstu seríunni af "The Spectacular Spider-Man". Þar að auki hefur hann skrifað handrit sem kallast Salvation on Sand Mountain og er hann titlaður sem framleiðslustjóri og leikstjóri við verkefnið. MacNicol lék barnalækninn Dr. Stark í "Grey´s Anatomy". Kvikmyndir. Í kvikmyndum þá hefur MacNicol leikið hinn einfalda rithöfund sem varð ástfanginn af Meryl Streep í "Sophie's Choice"; hinn skrítna safnavörð í "Ghostbusters II" og sumarbúða leikstjórann Gary Granger í "Addams Family Values". Meðal annarra mynda eru "HouseSitter" og "American Blue Note". Tenglar. MacNicol, Peter Diane Farr. Diane Farr (fædd 7. september 1969) í New York er bandarísk leikkona. Er þekktust fyrir að leika FBI-alríkisfulltrúann Megan Reeves í "Numb3rs". Einkalíf. Farr fæddist í Manhattan, New York og er af írskum og ítölskum uppruna. Diane stundaði nám í drama við "New York Stony Brook-háskólann" og "Loughborough háskólann" á Englandi og útskrifaðist hún þaðan með sameiginlega B.A. gráðu. Þegar hún var nýnemi við Stony Brook þá var hún krýnd ungfrú New York. Var hún aðeins 19 ára á þessum tíma og sú yngsta sem hefur haldið titlinum. Farr kenndi einu sinni leiklist í öryggisfangelsi. Farr er rithöfundur en fyrsta bók hennar, "The Girl Code: The Secret Language of Single Women" ("Um stefnumót, kynlíf, verslun og virðingu meðal vinkvenna"), var gefin út á Valentínusardaginn árið 2001. Hefur hún einnig skrifað fyrir tímaritin "Jane", "Esquire", "Glamour" og "Self" og er reglulegur höfundur hjá "Cosmopolitan", "Soma" og "Gear". Eftir að hafa hætt með kærasta sínum, þá stofnuðu Diane og vinkona hennar Laura Bailey heillaóskakortafyrirtæki að nafni Other Announcements. Farr framleiddi heimildarmyndina Children of God: Lost and Found (2007), sem fjallar um Children of God-trúarregluna (einnig þekkt sem Family of Love and The Family). Í myndinni þá er fylgst með nokkrum börnum sem komust undan úr trúarreglunni og þurfa að standa á eigin fótum í nýju samfélagi án peninga, menntunar eða stuðnings fjölskyldu. Hún er náinn vinur Pauley Perrette úr NCIS. Farr var skipuð sem sendiherra Mineseeker Foundation and the Sole of Africa, herferð sem vinnur að því að fjarlægja jarðsprengjur í Afríku. Meðal verndara herferðarinnar eru Nelson Mandela, Sir Richard Branson, Queen Noor og Brad Pitt. Þann 26. júní 2006 giftist hún Seung Yong Chung og saman eiga þau 3 börn. Sjónvarps. Fyrsta sjónvarpshlutverk Farr var árið 1992 í "Silk Stalkings" og kom síðan fram í þáttum á borð við "In the House", "The Drew Carey Show" og "Secret Agent Man". Farr var síðan með gestahlutverk í "Roswell", "The Job", "Like Family" og "Rescue Me". Árið 2005 þá var henni boðið hlutverk í Numb3rs sem Megan Reeves, sem hún lék til ársins 2008. Þann 24. mars 2008 sagði Michael Ausiello frá því á TVGuide.com-bloggi sínu að Farr hafði ekki endurnýjað samning sinn við "Numb3rs" eftir að fjórðu þáttaröðina. Farr kom fram í "Californication" í 10 þáttum haustið 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Farr var árið 1998 í "Divorced White Male" og hefur síðan komið fram í kvikmyndum á borð við "Bingo", "Flooding" og "Hourly Rates". Tenglar. Farr, Diane Sjálfstætt fólk (sjónvarpsþáttur). Sjálfstætt fólk er íslenskur sjónvarpsþáttur á Stöð 2 í umsjón Jóns Ársæls. Þátturinn hefur verið í framleiðslu frá árinu 2001. Herta Müller. Herta Müller (f. 17. ágúst 1953) er þýskumælandi rithöfundur frá Rúmeníu. Herta er þekkt fyrir skáldsögur sínar, ljóð og esseyjur. Verk hennar snúast aðallega um hið harðneskjulega líf í Rúmeníu á þeim árum þegar Nicolae Ceauşescu var þar við völd. Árið 2009 hlaut hún Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Herta tilheyrði þýskumælandi minnihluta í Rúmeníu og skrifar þess vegna á þýsku. Rúmensku lærði hún ekki fyrr en hún varð táningur í skóla. Tungumálin tvö hafa þó litað ritstíl hennar, enda er þýska hennar sögð mjög lituð af sýn rúmenskunar á tilveruna, en hún hefur sagt að hvert tungumál hafi sín eigin augu. Skáldsögur hennar þóttu of ágengar og spyrjandi í Rúmeníu þannig að árið 1987 varð hún að flýja Rúmeníu og settist þá að í Þýskalandi. Hún býr núna í Berlín. Skáldsaga Hertu: ' kom út í íslenskri þýðingu Franz Gíslasonar árið 1995. Bókin fjallar um síðustu daga einræðisins í Rúmeníu. Tenglar. Müller, Herta Alimi Ballard. Alimi Ballard (fæddur 17. október 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Numb3rs og Dark Angel. Einkalíf. Ballard fæddist í Bronx, New York. Giftist leikkonunni Dior Raye og saman eiga þau tvö börn. Ferill. Frá 1993 til 1996 lék hann í sápuóperunni "Loving" og í framhaldsseríunni "The City", þar sem hann lék Frankie Hubbard. Lék hann Quizmaster Albert í sjónvarpsþættinum "Sabrina, the Teenage Witch" og Herbal í "Dark Angel". Tenglar. Ballard,Alimi Dylan Bruno. Dylan Bruno (fæddur 6. september 1972) er bandarískur leikari og fyrrverandi módel. Þekktastur fyrir að leika FBI alríkisfulltrúann Colby Granger í "Numb3rs". Einkalíf. Bruno fæddist í Milford í Connecticut. Árið 1994 þá útskrifaðist Bruno með BSc. gráðu í umhverfisverkfræði frá MIT. Á meðan hann stundaði nám þá spilaði hann bandarískan fótbolta fyrir skólaliðið. Í gagnfræðiskóla var hann háttskifaður á landsvísu sem glímumaður og keppti hann á AAU Junior Olympic Games nokkrum sinnum. Árið 1995 þá tók Bruno þátt í "American Gladiators" og komst hann alla leið í undanúrslit þar sem hann tapaði fyrir Cpt. Richard McCormicko. Faðir Dylans er leikarinn Scott Bruno og bróðir hans Chris Bruno er einnig leikari. Bruno giftist Emmeli Hultquist þann 24. júní 2006 og saman eiga þau einn son. Ferill. Bruno kom fram í sjónvarpi árið 1995 í "High Sierra Search and Rescue". Fyrsta kvikmynd hans var "Naked Ambition" árið 1997. Árið 1998 var hann með lítið hlutverk í "Saving Private Ryan" og "When Trumpets Fade". Var hann einnig í "The Rage: Carrie 2" og "Where the Heart Is". Lék hann L.A. lögreglu í "The One" og tónlistarmann í "The Simian Line" frá 2001, og sem Harry "Blaine" Mayhugh, Jr., í "The Pennsylvania Miners' Story" frá 2002. Bruno hefur ljáð rödd sína fyrir í auglýsingum fyrir Bacardi, Coors Light, Virtual Boy, og Sony Handycam. Lék FBI-alríkisfulltrúann Colby Granger í Numb3rs. Tenglar. Bruna, Dylan Aya Sumika. Aya Sumika (Aya Sumika Koenig), (fædd 22. ágúst 1980) er bandaríski leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem FBI-alríkisfulltrúinn Liz Warner í "Numb3rs". Einkalíf. Sumika ólst upp í Seattle, Washington og er af japönskum og evróskum evrópskum uppruna. Sumika lærði ballett við Julliard skólann í New York. Ferill. Fyrsta sjónvarpshlutverk Sumika var árið 2004 í þættinum "Hawaii". Árið 2006 þá var henni boðið hlutverk í Numb3rs sem Liz Warner, sem hún lék til ársins 2010. Tenglar. Sumika, Aya Undirfell. Undirfell er eyðibýli, kirkjustaður og áður prestssetur í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og stendur undir samnefndu felli. Eldri mynd nafnsins er "Undornfell" en undorn var eyktarmark til forna og þýddi klukkan þrjú síðdegis, eða sama og nón. Síðasti prestur á Undirfelli var séra Hjörleifur Einarsson, sem gegndi embættinu í 30 ár en sagði af sér árið 1906. Hann var frumkvöðull í æskulýðsstarfi og hafði mikinn áhuga á skólamálum. Árið 1879 var að hans frumkvæði komið á fót kvennaskóla á Undirfelli, einum hinna fyrstu í landinu, og var hann starfræktur þar í nokkur ár. Sonur Hjörleifs var Einar Hjörleifsson Kvaran rithöfundur. Listmálarinn Þórarinn B. Þorláksson var fæddur á Undirfelli, sonur séra Þorláks Stefánssonar. Núverandi kirkja á Undirfelli er steinsteypt, reist árið 1915 í stað timburkirkju sem brann á annan dag jóla 1913. Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði kirkjuna, sem er óvenjuleg að því leyti að turninn er á öðru framhorni hennar. Í landi Undirfells er Undirfellsrétt, sem er með stærri fjárréttum landsins og er skilarétt Vatnsdæla og Þingbúa. Þegar jörðin Undirfell var auglýst til sölu í blöðum 1984 var tekið fram í auglýsingunni að öllum tilboðum frá sjálfstæðismönnum yrði hafnað, svo og framsóknarmönnum sem kosið hefðu þann flokk eftir 1978. Sophina Brown. Sophina Brown (fædd 18. september 1976) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Numb3rs og Shark. Einkalíf. Brown fæddist í Saginaw, Michigan og er með BFA í Leikhús gjörningi (Theatre Performance) frá Michigan-háskólanum. Stuttu eftir að hafa klárað háskólann, þá fékk Sophina fyrsta atvinnustarf sitt í söngleiknum "Fame" þar sem hún ferðaðist um landið til þess að sýna. Síðan fékk hún tækifæri til að koma fram í Broadway sýningunni "The Lion King". Ferill. Fyrsta sjónvarpshlutverk Brown var árið 2000 í "Strangers with Candy", síðan kom hún fram í þáttum á borð við "The Education of Max Bickford", "Hack" og "Committed". Árið 2006 þá var Brown boðið hlutverk í Shark sem Raina Troy sem hún lék til ársins 2008. Frá 2008-2010 þá lék hún Nikki Betancourt í Numb3rs. Tenglar. Brown,Sophina Kyra Sedgwick. Kyra Minturn Sedgwick (fædd 19. ágúst 1965) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Brenda Leigh Johnson í "The Closer". Einkalíf. Sedgwick fæddist í New York borg og er af breskum uppruna. Ættfeður hennar í föðurætt eru meðal annarra dómarinn Theodore Sedgwick, Endicott Peabody (stofnandi Groton School), William Ellery (skrifaði undir Sjálfstæðisyfirlýsinguna), presturinn John Lathrop, og fylkisstjórinn Thomas Dudley. Sedgwick er einnig systkinabarn leikkonunnar Edie Sedgwick, frænka rithöfundarins John Sedgwick, systir leikarans Robert Sedgwick og hálf-systir jass gítarleikarans Mike Stern. Sedgwick útskrifaðist frá "Friends Seminary" og stundaði nám við "Sarah Lawrence College". Flutti hún um set frá Sarah Lawrence til S-Kaliforníu Háskólans, þaðan sem hún útskrifaðist með leiklistargráðu. Sedgwick giftist leikaranum Kevin Bacon, 4. september 1988 og saman eiga þau tvö börn. Einnig er hún móðursystir R&B/pop söngvarans, George Nozuka og yngri bróður hans söngvarans/lagahöfunds, Justin Nozuka. Sedgwick segir fjölskyldu sína og hana sjálfa vera gyðingar. Sedgwick og Bacon eru fórnarlömb Bernard Madoff skandalsins. Leikhús. Fyrsta leikhúsverk Sedgwick var árið 1988 í "Ah, Wilderness". Hefur hún síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Not Waving", "Stranger" og "Maids of Honor". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Sedgwick var árið 1982 í sápuóperunni "Another World" þegar hún var aðeins sextán ára. Kom hún síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Miami Vice, "Talk to Me", Ally McBeal og Sesame Street. Frá 2005-2012, lék Sedgwick aðalhlutverkið í dramaþættinum "The Closer" sem lögreglufulltrúinn Brenda Leig Johnson. Sedgwick hefur bæði fengið Golden Globe og Emmy verðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í The Closer. Einnig hefur hún verið tilnefnd til aðra verðlauna fyrir hlutverk sitt. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Sedgwick var árið 1985 í War and Love. Árið 1989 lék hún kærustu persónu Tom Cruise í Born on the Fourth of July. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Heart and Souls, Phenomenon, Just a Kiss, The Woodsman og Man on a Ledge. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. Sedgwick, Kyra J. K. Simmons. Jonathan Kimble „J. K.“ Simmons (fæddur 9. janúar 1955) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Law & Order seríunum, "Oz", Spider-Man myndunum og The Closer. Einkalíf. Simmons fæddist í Detroit í Michigan. Hann á bróður, David sem er söngvari-lagahöfundur, og systur, Elizabeth. Stundaði hann nám við Montana Háskólann og var meðlimur Seattle Repertory Theatre. Hefur hann verið aðdáandi Chicago Bears síðan úr æsku og er sterkur stuðningsaðili Detroit Tigers. Söngleikir. Áður en ferill hans byrjaði í sjónvarpi og kvikmyndum, þá hafði Simmons unnið sem Broadway leikari og söngvari. Lék hann í "Guys and Dolls" sem Benny Southstreet. Einnig lék hann persónuna Jigger í "Carousel" við Houston Grand Opera. Sjónvarp. Simmons er þekktur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Emil Skoda, réttargeðlæknir, sem kom fram í þremur útgáfum af "Law & Order" og í "New York Undercover" og sem sadistinn Vernon Schillinger í fangelsis dramanu "Oz". Kom hann einnig fram í litlu hlutverki sem hershöfðingji í "Arrested Development". Þá lék hann rakarann í Nickelodeon-barnaþættinum The Adventures of Pete & Pete frá 1995. Frá 2005-2012 lék Simmons aðstoðarlögreglustjórann Will Pope í The Closer. Kvikmyndir. Hefur hann einnig leikið Ralph Earnhardt,lék B.R. í "Thank You For Smoking" og var hann lofaður fyrir hlutverk sitt í "Juno" sem „Mac“ McGuff, föður aðalpersónunnar. Lék J. Jonah Jameson í öllum þremur Spider-Man myndunum og tölvuleikjunum einnig. Simmons ljáði rödd sína ritstjóranu í tveimur þættum af "The Simpsons". Simmons er farinn að verða þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum sem eru framleiddar og leikstýrðar af vini hans Jason Reitman, þar á meðal "Thank You for Smoking", "Juno" og "Jennifer's Body". Auglýsingar. Simmons hefur einnig talað inn á fyrir gula M&M's í auglýsingunum og einnig fyrir Norelco rakvélarnar. Tölvuleikir. Simmons talaði fyrir persónuna Cave Johnson í tölvuleiknum Portal 2 sem kom út árið 2011. Tenglar. Simmons J. K. Víðidalstunga. Séð heim að Víðidalstungu af hringveginum. Víðidalstunga er bær og kirkjustaður í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu, fornt höfuðból þar sem margir höfðingjar hafa búið. Jörðin dregur nafn af tungunni milli Víðidalsár og Fitjár og stendur bærinn norðarlega í tungunni. Víðidalstunga var landmikil hlunnindajörð og tilheyrði allur framanverður Víðidalur jörðinni ásamt afrétti inn undir Langjökul. Jörðin átti líka slægjur utar í dalnum, reka á Vatnsnesi og lax- og silungsveiði í Víðidalsá. Víðidalstunga var í eigu sömu ættar í margar aldir. Gissur galli Björnsson bjó í Víðdalstungu á fyrri hluta 14. aldar. Hann var sonur Ingibjargar Gunnarsdóttur, sem var fylgikona Gissurar jarls eftir Flugumýrarbrennu, og Bjarnar, sonar Svarthöfða Dufgussonar, og var hann fæddur 1269, ári eftir lát Gissurar jarls. Sonarsonur hans, Jón Hákonarson (f. 1350), bjó í Víðidalstungu og á Grund í Eyjafirði. Hann var mikill bókamaður og lét rita Flateyjarbók, sem er skrifuð í Víðidalstungu skömmu fyrir 1400, einnig Vatnshyrnu. Þess hefur verið getið til að Þorleifur Árnason sýslumaður í Auðbrekku, sem átti Víðidalstungu skömmu síðar, hafi verið systursonur Jóns en það er óvíst. Afkomendur Þorleifs áttu hins vegar jörðina í hátt í 500 ár. Solveig Þorleifsdóttir eignaðist jörðina eftir Þorleif og bjó þar með manni sínum, Ormi Loftssyni hirðstjóra, en þau slitu samvistir. Seinna bjó þar Jón Sigmundsson lögmaður, sonur Solveigar, og hélt hann jörðinni þótt hann missti ýmsar aðrar eigur sínar í hendur kirkjunni. Bróðir Jóns, Ásgrímur, lét lífið í bardaga í kirkjugarðinum í Víðidalstungu 1483 og snerist Morðbréfamálið að hluta um lát hans. Dóttursonur Jóns, Þorlákur Hallgrímsson, faðir Guðbrandar biskups, var prestur í Víðidalstungu um 1571 og síðar bjuggu afkomendur Guðbrandar þar. Þekktastur Víðidalstungubænda er án efa Páll Vídalín lögmaður, sem fæddist þar 1667 og bjó þar til dauðadags 1727. Hann var einn helsti valdsmaður landsins á sinni tíð og samdi með Árna Magnússyni "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns". Afkomendur hans nefnast Vídalínsætt. Hélst jörðin í eigu ættarinnar þar til skömmu fyrir aldamótin 1900. Tengt efni. Víðidalstungukirkja er timburkirkja, byggð 1889. Þar er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson listmálara. Sydneyhafnarbrúin. Sydneyhafnarbrúin er bogabrú úr stáli sem brúar höfnina í Sydney. Hún ber lestir, bifreiðar og gangandi vegfarendur. Brúin, sem var opnuð fyrir umferð árið 1932, er ásamt Óperuhúsinu í Sydney eitt helsta kennileiti Sydney og Ástralíu. Flatkaka. Flatkaka (eða flatbrauð) er þunnt, kringlótt íslenskt brauð, áður alltaf bakað án lyftiefna og eingöngu úr rúgmjöli (þó stundum líka byggi) og vatni. Nú eru flatkökur yfirleitt bakaðar úr blöndu af rúgmjöli og heilhveiti eða heilhveiti eingöngu og stundum er einnig notast við haframjöl og lyftiduft. Sumir notast jafnvel við sykur í deigið. Flatkökurnar eru oftast um 15 cm í þvermál og 2-3 mm á þykkt, brúnleitar með svörtum flekkjum. Upphaflega voru þær bakaðar á hlóðum, annaðhvort settar beint á glóðina eða bakaðar á járnplötu sem sett var ofan á glóðina. Seinna, þegar eldavélar komu til sögunnar, voru kökurnar bakaðar á eldavélarhellu og nú eru þær oft bakaðar á steypujárnspönnu og staflað upp heitum eða jafnvel snöggbleyttar í vatni svo að þær harðni ekki. Flatkökur eru oftast skornar í tvo, fjóra eða sex hluta og borðaðar með smjöri og hangikjöti, kæfu, reyktum laxi, osti, saltsíld eða öðru áleggi. Fram um miðja 20. öld voru þær þó yfirleitt aðeins smurðar með einhverju viðbiti og hafðar með mat. Hallgerður Gísladóttir segir frá því í bókinni "Íslensk matarhefð" að fram yfir aldamótin 1900 hafi á Vestfjörðum verið bakaðar fyrir jólin flatkökur sem voru 25-30 sentímetrar í þvermál og meira en einn sentímetri að þykkt og var jólamaturinn skammtaður á þær og þær notaðar sem diskur, eins og algengt var í Evrópu á miðöldum. Corey Reynolds. Corey Reynolds (fæddur 3. júlí 1974) er bandarískur leikari sem hefur komið fram í söngleikjum, sjónvarpi og kvikmyndum. Einkalíf. Reynolds fæddist í Richmond í Virginiu og byjaði leiklistarferilinn sinn aðeins 16 ára gamall í heimabæ sínum. Árið 1996 fluttist hann til Kaliforníu. Þar var hann ráðinn í uppfærsluna á "Smokey Joe's Cafe", sem og "Saturday Night Fever". Báðar þessar sýningar voru farandsýningar. Eftir að þetta þá flutti hann til New York og fór í mismunandi áheyrnarprufur. Var hann í upprunalega leikaraliðinu í "Hairspray" þar sem hann lék Seaweed. Fyrir hlutverk sitt var hann tilnefndur til Tony-verðlauna og Drama Desk Award, sem besti leikari í söngleik. Ferill. Spielberg réði Reynolds til þess að leika í The Terminal eftir að hafa séð hann í "Hairspray". Síðan þá, hefur hann verið gestaleikari í "Without a Trace" og komið fram í "The Guardian" áður en hann fékk hlutverkið sem Sgt. David Gabriel í "The Closer". Tenglar. Reynolds, Corey Royal Mail. Royal Mail (velska: Post Brenhinol, gelíska: Oifis a' Phuist) er opinber póstþjónusta Bretlands. Hún er hlutafélag í eigu breska þingsins. Royal Mail er það fyrirtæki sem sér um söfnun og sendingu pósts á Bretlandi. Setja má bréf í póstkassa (sem eru allir rauðir og gerðir úr steypujárni) eða fara á pósthús til að senda bréf. Royal Mail ber út bréf og pakka á hverjum degi nema á sunnudögum og á almennum frídögum. Royal Mail var stofnað árið 1660. Það varð til í núverandi formið árið 1969 við upplausn fyrirtækisins General Post Office. Árið 2006 voru 84 milljónir hluta bornir út með Royal Mail og 14.376 pósthús voru í eigu fyrirtækisins. Royal Mail hafði einokun í póstþjónusta þar til ársins 2006. Fyrirtækið hefur verið í hnignun allar götur síðan. Elizabeth Blackburn. Elizabeth Helen Blackburn (fædd 26. nóvember 1948) er lífvísindamaður af áströlskum uppruna en búsett í Bandaríkjunum. Rannsóknir hennar snúast að mestu um "telómer", kirnaraðir á endum litninga sem vernda erfðaupplýsingar litningsins gegn skemmdum sem annars yrðu vegna þess að litningurinn styttist í hvert sinn sem hann er afritaður. Hún uppgötvaði telómerasa, ensímið sem endurgerir telómerann við afritun í kynfrumuskiptingu, ásamt Carol W. Greider og hlutu þær fyrir nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2009 ásamt Jack W. Szostak. Blackburn er einnig þekkt fyrir starf sitt á sviði siðfræði heilbrigðisvísinda og vakti það mikla athygli þegar hún var rekin úr Ráðgjafaráði Bandaríkjaforseta um siðfræði lífvísinda fyrir stuðning sinn við stofnfrumurannsóknir Carol W. Greider. Carol Greider (fædd 15. apríl 1961) er bandarískur sameindalíffræðingur og prófessor við Johns Hopkins háskóla. Hún er einkum þekkt fyrir að hafa uppgötvað telómerasa ásamt Elizabeth Blackburn og hlutu þær fyrir nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2009 ásamt Jack W. Szostak. Jack W. Szostak. Jack William Szostak (fæddur 9. nóvember 1952) er sameindalíffræðingur og prófessor í erfðafræði við Harvard háskóla. Hann er einkum þekktur fyrir rannsóknir sínar á hlutverki telómera og hlaut fyrir þær nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2009 ásamt Elizabeth Blackburn og Carol W. Greider. Robert Gossett. Robert Gossett (fæddur 3. mars 1954) er bandarískur leikari sem er þekktatur fyrir hlutverk sitt í The Closer. Einkalíf. Gossett fæddist í Bronx, New York. Gossett er frændi leikarans Louis Gossett, Jr. Hann er giftur leikhúsleikstjóranum Michele Gossett. Leikhús. Eftir að Gossett útskrifaðist úr menntaskóla fékk hann hlutverk í leikritinu "One Flew Over the Cuckoo's Nest". Síðan fór hann að leika í Broadway-sýningunum "Fences", "A Raisin in the Sun" og "The Last Minstrel Show". Kom einnig fram í Negro Ensemble Company's-sýningunum "Manhattan Made Me", "Sons & Fathers of Sons", "A Soldier's Play" og "Colored People's Time". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Gossett var árið 1987 í "The Cosby Show". Kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Amen", "L.A. Law" og Cheers. Árið 1992 þá var honum boðið gestahlutverk í "Silk Stalkings" sem hann lék til ársins 1993. Hefur Gossett komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Melrose Place, "Pacific Palisades", Charmed, Judging Amy, "Passions", "Dark Angel", NYPD Blue og Bones. Frá 2005-2012 lék Gossett Commander/Kaptein Taylor í The Closer, hélt hann síðan áfram hlutverki sínu í systraþættinum Major Crimes. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Gossett var árið 1992 í Batman Returns. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "White Man´s Burden", "Arlington Road", "The Living Witness" og "Flying By". Tenglar. Gossett, Robert Kaj Leo Holm Johannesen. Kaj Leo Holm Johannesen (f. 28. ágúst 1964 í Þórshöfn í Færeyjum) er lögmaður Færeyja. Hann tók við embætti af Jóannes Eidesgaard þann 26. september 2008 og er meðlimur í Sambandsflokknum. Kaj spilaði áður knattspyrnu með færeyska liðinu HB Tórshavn og með færeyska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Lögmaður Færeyja. Lögmaður Færeyja er æðsti handhafi framkvæmdavalds í Landsstjórn Færeyja. Hann er kosinn á fjögurra ára fresti af Færeyska lögþinginu, og leiðir landsstjórnina, sem er heimastjórn færeyja. Lögmaður Færeyja þarf að undirrita öll lög sem lögþingið setur. Núverandi lögmaður er Kaj Leo Johannesen. Starf lögmanns eða lögsögumanns varð til fyrir árið 1000 en var lagt niður árið 1816 og tekið upp aftur í breyttri mynd 1948. Saga. Í Þingfararbálki Gulaþingslaganna norsku, en gera má ráð fyrir að færeysk lög hafi í upphafi verið sniðin að þeim eins og íslensku lögin, er kveðið á um að þing skuli velja sér lögsögumann. Í norsku lögunum sem samþykkt voru 1271 segir að þingið velji sér lögmann. Árið 1604 var þetta fyrirkomulag afnumið og eftir það var lögmaður skipaður af Danakonungi. Embætti lögmannsins hélst þó í grundvallaratriðum lítt breytt í margar aldir en heimildir frá fyrri öldum byggðar í Færeyjum eru mjög fátæklegar og lítið er vitað um embættið eða hverjir gegndu því allt fram á 16. öld. Færeyjar höfðu eins og Ísland verið skattland Noregskonungs en eftir friðasamningana í Kiel, þar sem Danir misstu yfirráð yfir Noregi, héldu þeir eftir Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Þetta þýddi að staða Færeyja breyttist, þær urðu að amti í Danmörku og Danir aflögðu Lögþingið og lögmannsembættið 1816. Amtmaður tók við löggæslu, dómsmálum og kirkjumálum. Lögþingið var svo endureist 1852 og frá 1923 var lögþingsformaður valinn af þingmönnum. Með heimastjórnarlögunum 1948 var staða lögmanns endurvakin í núverandi mynd. Tengt efni. Listi yfir lögmenn Færeyja Landsstjórn Færeyja. Landsstjórn Færeyja (færeyska. "Landsstýrið") er handhafi framkvæmdavalds í Færeyjum. Höfuð stjórnarinnar kallast lögmaður og ráðherrar hennar kallast landsstýrismenn. Landsstjórnin samanstendur af lögmanni og eftirtöldum ráðherrum. Arnkötludalur. Arnkötludalur eða Þröskuldar er nafn á heilsárs veg sem opnaður var fyrir umferð í október 2009 og liggur á milli Steingrímsfjarðar á Ströndum og Króksfjarðar í Reykhólahreppi. Hann er hluti af Djúpveg nr. 61 og er 24,5 km langur. Vegurinn leysir af hólmi veg um Tröllatunguheiði sem er lítið eitt sunnar. G. W. Bailey. George William Bailey (fæddur 27. ágúst 1944) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem hinn „skapstirði“ Lautinant — og seinna Kapteinn — Thaddeus Harris í "Police Academy" (1984–1994) kvikmyndunum. Einkalíf. Bailey fæddist í í Port Arthur í Texas. Bailey stundaði nám við Thomas Jefferson High School í Port Arthur með Janis Joplin og Jimmy Johnson (Amerískur fótbolta þjálfari). Byrjaði hann háskólanám við Lama Háskólann nálægt Beaumont og færði sig svo til Texas Tech Háskólann. Yfirgaf hann háskóla og eyddi miðjum fimmta áratugnum (1960s) við að vinna í bæjarleikhúsunum áður en hann flutti til Kaliforníu um miðjan sjötta árautgsins (1970s).Hann sneri í háskólanám árið 1993, við Texas State Háskólann í San Marcos í Texas. Útskrifaðist hann með BFA gráðu í leiklist. Frá 1999–2000, þá var hann listamaður-á-staðnum. Síðan 2001, þá hefur Bailey setið sem framkvæmdastjóri Sunshine Kids Foundation, sem býður upp á ferðir og starfsemi fyrir mörg hundruð börn sem hafa greinst með krabbamein. Hefur hann verið sjálboðaliði í kringum fimmtán ár eftir að hann kynntist starfseminni gegnum guðdóttur sína sem hafði verið greind með hvítblæði. Sjónvarp. Fyrstu sjónvarpshlutverk Bailey var í "Starsky and Hutch" og "Charlie's Angels". Kom hann síðan fram í þáttum á borð við "Soap", "Happy Days", "Benson" og "Flo". Árið 1979 þá var Bailey boðið hlutverk í MASH sem starfsliðsmaðurinn Luther Rizzo sem hann lék til ársins 1983. Bailey var síðan með stór gestahlutverk í "St. Elsewhere" sem Dr. Hugh Beale. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í "Simon & Simon", "Under Cover", "Murder, She Wrote" og Tuck. Bailey hefur síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í The Closer til 2012 og síðan meir í Major Crimes sem rannsóknarfulltrúinn Lt. Provenza. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmynd hans var "A Force of One" (1979), sem var ein af myndum Chuck Norris. Síðan árið 1984 þá var Bailey boðið hlutverk Lt. Thaddeus Harris í kvikmyndinni Police Academy. Bailey hefur síðan þá leikið Thaddeus Harris í öllum Police Academy framhaldsmyndunum. Hefur Bailey einnig komið fram í kvikmyndum á borð við "Warning Sign", "Mannequin", "Write to Kill", "Home on the Range" og "The Newest Pledge". Tenglar. Bailey, G. W. Ólífrænt efnasamband. Ólífrænt efnasamband er efni sem inniheldur ekkert kolefni. Það eru þó nokkrar undantekningar á þessu. Til dæmis eru koltvíoxíð og kolsýra talin ólífræn. Meðal ólífrænna efna má nefna vatn, matarsalt, ammóníak og ryð. Anthony Denison. Anthony John Sarrero (fæddur 20. september 1949) í New York, einnig þekktur undir leikaranafni sínu Anthony Denison, er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Closer og Prison Break. Einkalíf. Hann er uppalinn í Harlem og er elstur af þrem systkinum, foreldrar hans eru af Sikileyskum uppruna. Denison nafnið kemur frá guðmóður hans sem einnig studdi hann til þess að verða leikari. Áður en hann fór út í leiklistina þá vann hann sem tryggingasölumaður og í frítíma sínum þá lék hann í ýmsum leikritum í New Paltz í New York. Hefur hann unnið sem byggingarmaður, kynnir við skákmót, kynnir við kotrumót, trygginasölumaður, bílstjóri og dagblaðs ritstjóri. Notaði hann hagnað sinn úr byggingafyrirtæki sínu til þess að borga fyrir háskólanámið. Hann stundaði nám við Ríkisháskólann í New York. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Denison var árið 1986 í sjónvarpsmyndinni Crime Story. Lék hann síðan mafíuforingjann Ray Luca í sjónvarpsþættinum "Crime Story" sem var sýndur frá 1986 til 1988. Þegar Ken Wahl, stjarna "Wiseguy" (1987), varð fyrir slysi, þá var Denison valinn til þess að fylla upp með því að leika annan fulltrúa, í sögunni sem þegar var verið að nota í þættinum á þeim tíma. Lék hann John Henry Raglin, lögreglufulltrúa sem fór í dulgervi. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Love and Marriage", Melrose Place, NYPD Blue, ER, Criminal Minds, Boston Legal og "Playmakers". Kom fram í "Charmed" sem faðir systranna í fyrstu þáttaröðinni en var síðan skipt út fyrir James Read. Denison hefur frá 2005 leikið í The Closer til 2012 og síðan meir Major Crimes sem rannsóknarliðsforingjinn Andy Flynn. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Denison var árið 1981 í "Waitress". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Criminal Passion, Opposite Corners, Skeleton Woman, Island Prey, Signal Lost og Answers to Nothing. Tenglar. Denison, Anthony John Teitur Þorleifsson. Teitur Þorleifsson ríki (d. 1537) var skagfirskur höfðingi á 16. öld, sýslumaður í Húnaþingi, lögmaður norðan og vestan og bjó í Glaumbæ í Skagafirði og síðar í Hvammi í Dölum. Teitur var sonur Þorleifs Árnasonar bónda í Glaumbæ, sem var dóttursonur Lofts ríka Guttormssonar og bróðursonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Kona Þorleifs og móðir Teits var Kristín, dóttir Teits ríka Gunnlaugssonar í Bjarnanesi. Teitur Þorleifsson var stórríkur og valdamikill en lenti í deilum við Jón biskup Arason og voru þær eiginlega framhald af deilum Jóns Sigmundssonar, frænda Teits, við Gottskálk biskup Nikulásson, en þeir voru þá báðir látnir. Þegar Jón Arason var kjörinn biskup tók hann við ýmsum óloknum málum Gottskálks, meðal annars deilu um eignir Jóns Sigmundssonar, og reyndi að ná eignum af Einari syni hans en hann leitaði liðsinnis hjá Teiti í Glaumbæ. Þinga átti um málið á Sveinsstöðum í Húnaþingi og kom þar til átaka á milli manna þeirra biskups og Teits, sem lauk með því að Árni Bessason, sem var einn biskupsmanna, féll en Grímur Jónsson lögmaður á Stóru-Ökrum, sem var í för með biskupi, skaut ör í handlegg Teits lögmanns og hélt Teitur því fram að Jón Arason hefði haldið sér föstum. Fleiri særðust á Sveinsstaðafundi úr báðum liðum. Á næsta alþingi sýknaði lögrétta Teit af allri sök í Sveinsstaðareið og hann var þá kjörinn lögmaður norðan lands og vestan. En þrem árum síðar kom Jón Arason heim með biskupsvígslu og nokkru síðar fékk hann Hrafn Brandsson kjörinn lögmann í stað Teits og gifti honum barnunga dóttur sína, Þórunni. Var svo kveðinn upp dómur á Seylu í Skagafirði, þar sem föður Árna Bessasonar voru dæmdar háar bætur fyrir soninn en Teitur var sviptur öllum eigum sínum og skyldi helmingur þeirra ganga til konungs en hitt til erfingja Teits. Hrafn tók svo allar eignirnar undir sig, líka þær sem erfingjar Teits höfðu átt að fá. Hann hélt þó eftir Bjarnaneseignum, sem hann hafði fengið eftir afa sinn, og seldi Ögmundi Skálholtsbiskupi. Teitur hraktist við svo búið frá Glaumbæ, settist að í Hvammi í Dölum og bjó þar síðan en gaf guði og kirkjunni Hvamm 1531. Kona Teits var Inga Jónsdóttir (d. 1537) frá Múla á Skálmarnesi. Þau voru barnlaus. Boreas Capital. Boreas Capital ehf (eða Boreas Capital Fund) er íslenskur vogunarsjóður sem einbeitir sér að fjárfestingum erlendis og var stofnaður 2007. Stjórnarformaður Boreas Capital er Frank Pitt, en stofnendur fyrirtækisins voru þeir Ragnar Þórisson, Tómas Gestsson og Gunnar Helgason. Ragnar og Tómas unnu áður hjá Burðarási. Ragnar og Frank Pitt eru auk þess vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thor Björgólfssonar. Boreas er þekkt fyrir nokkrar velheppnaðar fjárfestingar meðal annars í félaginu Tanganyika oil. Boreas Capital var skráð sem óskráðar eignir Straums-Burðarás um mitt árið 2008, enda fyrirtæki á lista yfir stærstu fjárfestingar Straums sama ár.. Fyrirtækið er skráð til húsa að Hellusundi 6 í Reykjavík. Magni Ásgeirsson. Guðmundur Magni Ásgeirsson (fæddur 1. desember 1978) er íslenskur söngvari og meðlimur hljómsveitarinnar Á móti sól. Möðruvallaklaustur. Möðruvallaklaustur var munkaklaustur af Ágústínusarreglu sem stofnað var á Möðruvöllum í Hörgárdal, líklega 1295 en hugsanlega þó 1296, og var þar til siðaskipta. Jörundur Þorsteinsson Hólabiskup kom klaustrinu á fót eins og Reynistaðarklaustri um svipað leyti og skyldi Hólabiskup vera ábóti þess en príor stjórna klausturlifnaði og ráðsmaður annast fjármál. Biskup lagði klaustrinu til mikið fé og lét byggja þar kirkju um 1302. Hún brann árið 1316 og klaustrið einnig, allur kirkjuskrúði og kirkjuklukkur. Ekki var klaustrið byggt upp að sinni, heldur lét Auðunn rauði Hólabiskup munkana verða presta í ýmsum sóknum eða tók þá heim til Hóla, en allar tekjur af klaustrinu gengu til Hólastaðar. Einn munkanna, Ingimundur Skútuson, fór til Noregs og gekk í klaustrið á Helgisetri. Þegar Lárentíus Kálfsson var í Noregi 1323 að taka biskupsvígslu kom Ingimundur munkur fram og kærði það fyrir erkibiskupi að klaustrið hefði ekki verið byggt upp eftir brunann og munkunum verið tvístrað en biskup hirti tekjurnar. Lárentíus svaraði því til að Auðunn biskup hefði ekki talið sé skylt að byggja upp klaustrið að nýju þar sem það hefði brunnið þegar munkar komu drukknir heim úr kaupstað á Gásum og fóru óvarlega með ljós. Erkibiskup úrskurðaði að klaustrið skyldi byggjast upp að nýju en þeir munkar sem yrðu sannir að því að hafa valdið brennunni skyldu reknir í „harðasta klaustur“. Erkibiskup sendi svo Ingimund Skútuson til Íslands með bréf um Möðruvallamál og voru þeir Jón Halldórsson Skálholtsbiskup og Þorlákur Loftsson ábóti í Þykkvabæ skipaðir dómsmenn í málinu. Bauð þá biskup að láta gera klaustrið upp eins fljótt og vel og hægt væri og yrði hann sjálfur ábóti en príor yrði yfir staðnums eins og fyrr og varð það úr. Þessi sátt rofnaði þó veturinn eftir og fór bróðir Ingimundur suður í Skálholt og kærði Lárentíus biskup fyrir Jóni biskupi. Urðu harðar deilur með þeim biskupum. Jón biskup fékk því framgengt að príor skyldi hafa öll fjárráð klaustursins. Lárentíus biskup sætti sig þó ekki við það og sendu báðir biskuparnir fulltrúa sína á fund erkibiskups. Möðruvallabræður þóttu ekki sýna mikla forsjálni í fjárgeymslu klaustursins en söfnuðu að sér liði bænda og þegar Lárentíus biskup kom í eftirlitsferð um vorið var þar fyrir vopnað lið. Tveimur dögum seinna kom biskup þó aftur, tók lykla af munkunum og skipaði ráðsmann yfir klaustrið. Hann hafði Þorgeir príor á brott með sér en skipaði Steindór Sokkason príor. Um vorið kom sendimaður hans með úrskurð erkibiskups, þar sem kom fram að biskup skyldi hafa æðstu forráð klaustursins, og var allt með kyrrum kjörum meðan Lárentíus lifði. Áfram voru Möðruvallabræður þó ódælir og árið 1343 lét Ormur Ásláksson biskup setja þrjá munka í járn fyrir einhverjar sakir. Hann vildi líka færa klaustrið til Hóla en fékk því ekki framgengt. Eftir að Jón Finnbogason príor dó 1546 var enginn príor á Möðruvöllum en Jón Arason setti séra Björn Gíslason til að stýra klaustrinu. Stóð það til siðaskipta en eftir það, þegar klausturjarðirnar 67 komust í eigu konungs, tók Björn þær á leigu. Þótt ekkert sé vitað um ritun bóka í Möðruvallaklaustri átti klaustrið bókasafn og í bókaskrá frá 1461 eru taldar 86 bækur, margrar helgra manna sögur á íslensku, fornsögur og margar konungasögur. Sama ár átti klaustrið heima á staðnum og á útibúinu Öxnhóli 70 kúgildi, 40 uxa þrevetra og eldri, 10 naut veturgömul og tvævetur, hálfan áttunda tug af veturgömlu fé en sauðfé var alls 195 og hestar 41. Vatnsleysuströnd. Vatnsleysuströnd er strandlengja á norðanverðum Reykjanesskaga, frá Vogum að Hvassahrauni (Kúagerði). Ströndin er um 15 km að lengd. Á ströndinni voru margir bæir sem yfirleitt voru nokkrir saman í byggðahverfum nálægt bestu lendingunum. Öflug árabátaútgerð var frá mörgum býlum öldum saman, enda stutt á miðin. Á vetrarvertíð voru vermenn úr öðrum byggðarlögum þar til viðbótar við heimamenn. Auk útræðis áttu bændur kýr og kindur og höfðu féð á sumrin í seljum upp í Strandarheiði. Á 19. öld fjölgaði fólki á ströndinni en þegar afli minnkaði á grunnslóð, einkum vegna veiða breskra togara, fækkaði fólki að nýju. Það breyttist þó aftur þegar vélbátaútgerð hófst og hægt var að sækja fiskinn lengra. Gamli almenningsvegurinn út á Suðurnes lá um Vatnsleysuströnd og síðar lá gamli Keflavíkurvegurinn þar en eftir að Reykjanesbrautin kom til er Vatnsleysuströnd ekki lengur í þjóðleið og gamli vegurinn er nú innansveitarvegur þar. Vatnsleysuströnd er hluti af Sveitarfélaginu Vogum og búa um 100 manns á ströndinni en um 1200 í sveitarfélaginu öllu. Þekktasti bærinn á Vatnsleysuströnd er Kálfatjörn. Þar er kirkja sveitarinnar, byggð 1893, og er hún friðuð. Á ströndinni er einnig golfvöllur og minjasvæði. Vatnsból skortir ekki á ströndinni eins og ætla mætti af nafninu, í hrauninu meðfram ströndinni kemur víða upp ferskvatn en inn til landsins finnst það ekki. Upp af ströndinni sunnanverðri liggur Strandarheiði. Þar var áður beitiland, grasi og kjarri vaxið, en heiðin er nú mikið til gróðurlaus. Víða á Vatnsleysuströnd er að finna fornar minjar, ekki síst rústir verbúða og annarra mannvirkja sem tengjast útgerð og í Strandarheiði eru seltóftir og forna fjárborgin Staðarborg, 2-3 km frá Kálfatjörn. Hún er friðlýst. Kjalarnesþing. Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn. Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“ Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan. Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis. Michael Paul Chan. Michael Paul Chan (fæddur 26. júní 1950) er bandarískur leikari. Einkalíf. Chan, er af þriðju kynslóð kínversk-amerískrar fjölskyldu og fæddist í San Francisco. Hann er einn af upphafsmönnum Asian American Theater Company. Chan er giftur og á eitt barn. Chan lærði við American Conservatory Theater í San Francisco. Ferill. Chan hefur komið fram í sjónvarpsþáttum á borð við "Arrested Development" sem dómarinn Lionel Ping, "Robbery Homicide Division", "Las Vegas" og leikur Rannsóknarliðsforingjan Michael Tao í "The Closer". Tenglar. Chan, Michael Paul Konunglega norska vísindafélagið. Nýjasti hluti Gunnerusbókasafnsins í Þrándheimi. Konunglega norska vísindafélagið – (norska: "Det Kongelige Norske Videnskabers Selskab", DKNVS) – er vísindafélag í Þrándheimi, og jafnframt elsta vísindafélag í Noregi. Saga félagsins. "Konunglega norska vísindafélagið" (DKNVS) var stofnað 1760 af Johan Ernst Gunnerus, biskupi í Niðarósi, Gerhard Schøning þá skólastjóra dómkirkjuskólans í Þrándheimi, og Peter Friderich Suhm kanslara. Upphaflegt nafn var "Þrándheimsfélagið" (Det Trondhiemske Selskab). Það var þá nyrsta vísindafélag í heimi, og var stofnað þegar Norðmenn áttu enga háskóla eða æðri menntastofnanir. Strax árið 1761 fór félagið að gefa út ritröð sem kallaðist: "Trondhiems Selskabs Skrifter", með greinum um vísindaleg efni. Félagið fékk konunglega staðfestingu á lögum sínum 17. júlí 1767, og núverandi nafn sitt við athöfn á afmælisdegi Kristjáns 7. Danakonungs 29. janúar 1788. Árið 1771 kallaði Johann Friedrich Struensee, sem tekið hafði völdin í dansk-norska ríkinu, Gunnerus biskup til Kaupmannahafnar til að undirbúa stofnun háskóla í Noregi. Ekkert varð úr þeim áformum við fall Struensees árið eftir. Árið 1768 stofnaði félagið "Gunnerusbókasafnið", sem var fyrsta vísindalega bókasafn í Noregi. Það er nú kjarninn í Háskólabókasafninu í Þrándheimi. Félagið var með höfuðstöðvar í Dómkirkjuskólanum í Þrándheimi til 1866, þegar það eignaðist eigið húsnæði. Lengi var eitt af verkefnum félagsins að reka "Vísindasafnið" (Vitenskapsmuseet), en árið 1968 tók Tækniháskólinn í Þrándheimi að sér rekstur þess (nú Tækni- og vísindaháskólinn í Þrándheimi). Árið 1984 voru Vísindasafnið og Gunnerusbókasafnið formlega afhent norska ríkinu. Árið 1926 var hafin útgáfa á nýrri ritröð: "Det Kongelige Norske Videnskabers Selskabs Forhandlinger". Í tilefni af 200 ára afmæli félagsins árið 1960, var gefin út saga félagsins í tveimur bindum, rituð af Hans Midbøe. Árið 2010 fagnar félagið 250 ára afmæli sínu. Skipulag. Í stjórn félagsins eru sjö menn, og er dagleg stjórn í höndum skrifstofu. Frá 1924 hefur félagið skipst í Akademíu, sem er hið eiginlega vísindafélag, og sérstaka stofnun (stiftelse), sem sér um að reka sjóði og aðrar eignir félagsins. Akademían skiptist í tvær deildir, hugvísindadeild og náttúruvísindadeild. Stjórnin veitir viðurkenningu fyrir afburða vísindaframlag, Gunnerus-heiðurspeninginn, sem fyrst var veittur árið 1927. Fyrir 1815 var Danakonungur að nafninu til forseti félagsins, en æðsti stjórnarmaður var titlaður varaforseti. Frá 1815 hefur sitjandi konungur borið titilinn verndari. Núverandi verndari er Haraldur 5. Noregskonungur. Árið 2008 voru 609 félagsmenn í Konunglega norska vísindafélaginu, þar af voru 466 búsettir í Noregi. Norskir félagsmenn, yngri en 70 ára, mega vera 400 talsins. Frá árinu 1857 hefur annað vísindafélag verið starfrækt í höfuðborginni Osló, Norska vísindaakademían. Norska vísindaakademían. Hús Norsku Vísindaakademíunnar á Drammensveien 78. Norska vísindaakademían – (norska: "Det Norske Videnskaps-Akademi", skammstafað DNVA), – er sjálfstætt, þverfaglegt vísindafélag í Osló, sem hefur að markmiði að efla norsk vísindi og rannsóknir með fundum, fjárstyrkjum og útgáfu fræðirita. Söguágrip. Norska vísindaakademían (DNVA) var stofnuð 3. maí 1857 og hét þá "Vísindafélagið í Kristjaníu" (norska: "Videnskabsselskabet i Christiania"), en skipti um nafn 1924 þegar nafni Kristjaníu hafði verið breytt í Osló. Vísindaakademían fagnaði 150 ára afmæli sínu 2007. Annað vísindafélag, Konunglega norska vísindafélagið, er Þrándheimi, og er það nær öld eldra en Norska vísindaakademían, stofnað 1760. Eftir að Kristjanía (Ósló) varð miðstöð æðri menntunar í Noregi, hafa vísindamenn þar talið þörf á sérstöku vísindafélagi í höfuðborginni. Skipulag. Í Norsku vísindaakademíunni eru 487 norskir og 408 erlendir félagsmenn, sem skiptast í tvær megindeildir: stærðfræði- og náttúruvísindadeild og sögu og heimspekideild. Innan hvorrar deildar starfa 8 faghópar sem hver um sig hefur sína stjórn. Norskir og erlendir félagsmenn eru tilnefndir eftir mat á heildarframlagi þeirra til viðkomandi vísindagreinar. Ákvörðun um nýja félagsmenn er tekin einu sinni á ári og takmarkast við að sæti losni við fráfall eða að félagsmaður fari á eftirlaun, 67 ára. Fjöldi norskra félagsmanna á starfsaldri takmarkast við 219, og erlendra við 183. Vísindaakademían er undir stjórn forseta, varaforseta og aðalritara (skrifstofustjóra), auk formanns, varaformanns og ritara í hvorri deild. Skrifstofa Akademíunnar er í Osló, á Drammensveien 78, og sér skrifstofustjórinn um daglega rekstur hennar. Markmið og starfsemi. Norska vísindaakademían kemur fram fyrir hönd norskra vísinda gagnvart erlendum vísindafélögum og alþjóðasamtökum og er jafnframt gestgjafi í alþjóðlegum vísindalegum ráðstefnum og vinnufundum. Akademían efnir einnig til fyrirlestra, svo sem Fridtjof Nansen Minneforelesning. Vísindaakademían gefur út árbók ("Årbok"), og ritraðirnar "Minnetaler" og "Fridtjof Nansen Minneforelesning". Akademían gefur einnig út "Zoologica Scripta" í samvinnu við Konunglegu sænsku vísindaakademíuna, og "Physica Scripta" með Konunglega danska vísindafélaginu. Vísindaakademían veitir viðurkenningar og verðlaun, svo sem Abelverðlaunin (alþjóðleg stærðfræðiverðlaun), Holmboeverðlaunin fyrir stærðfræðikennslu og Kavliverðlaunin fyrir rannsóknir. Akademían styrkir einnig verkefni sem miða að því að efla þekkingu og áhuga skólabarna á vísindalegum efnum. Norska vísindaakademían hefur frá 1985 unnið með Statoil að því að efla rannsóknir sem tengjast olíu-, jarðgasi og samfélagsþróun. Raymond Cruz. Raymond Cruz (fæddur 9. júlí 1961) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Closer, Under Siege og The Substitute. Einkalíf. Cruz fæddist í Los Angeles,Kaliforníu og er af mexíkóskum-amerískum uppruna. Ferill. Cruz er aðallega þekktastur fyrir að leika hermanna hlutverk, hefur hann meðal annars verið í "Clear and Present Danger" sem Ding Chavez, "The Substitute" sem Joey Six, "The Rock", "From Dusk Till Dawn 2: Texas Blood Money" sem Jesus, "Alien Resurrection" sem USCM Marine Distephano, og "Under Siege" sem Ramirez. Einnig kom hann fram í klíkumyndinni "Blood In Blood Out", þar sem hann lék Chuey, klíkumeðlim frá Vatos Locos. Var hann gestaleikari í "Star Trek: Deep Space Nine" þættinum "The Siege of AR-558", í "The X-Files" og í annarri þáttaröðinni af "24". Hann leikur rannsóknarfulltrúann Julio Sanchez í "The Closer". Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasty & Horror Films Tenglar. Cruz, Raymond Konunglega sænska vísindaakademían. Konunglega sænska vísindaakademían – (sænska: "Kungliga Vetenskapsakademien" (KVA'")) – er ein af mörgum konunglegum akademíum í Svíþjóð. Akademían er sjálfstætt vísindafélag, sem hefur að markmiði að efla vísindin, einkum náttúruvísindi og stærðfræði, og auka áhrif þeirra í samfélaginu. Hún hefur aðsetur í Stokkhólmi. Söguágrip og markmið. Vísindaakademían var stofnuð 2. júní 1739 af Carl Linnaeus grasafræðingi, Jonas Alströmer athafnamanni, Mårten Triewald verkfræðingi, embættismönnunum Sten Carl Bielke og Carl Wilhelm Cederhielm, og stjórnmálamanninum Anders Johan von Höpken. Akademían var afsprengi upplýsingarstefnunnar, og höfðu menn sem fyrimynd Royal Society í London og Academie Royale des Sciences í París. Í Konunglegu sænsku vísindaakademíunni (KVA) er fjöldi sænskra félagsmanna undir 65 ára aldri takmarkaður við 175, og erlendra við 175. Alls eru um 400 Svíar í akademíunni, með eftirlaunaþegum. Sem hliðstæða á sviði hugvísinda var árið 1753 stofnuð Kungliga Vitterhets Historie och Antikvitets Akademien ("Konunglega bókmennta, sögu og fornfræðiakademían"). Aðrar akademíur og vísindafélög í Svíþjóð. Í Svíþjóð er fjöldi af akademíum og vísindafélögum, sem margar hverjar takmarka sig við ákveðið áhugasvið, og þar sem aðild er háð vali eða mati á viðkomandi einstaklingi. Nokkrar akademíur vinna að því að efla menningarlíf í ákveðnum landshlutum. Finnska vísindafélagið. Finnska vísindafélagið er elsta vísindafélag í Finnlandi. Það er þekkt undir latneska nafninu "Societas Scientiarum Fennica", á sænsku "Finska Vetenskaps-Societeten", og á finnsku "Suomen Tiedeseura". Félagið var stofnað 1838 og er með höfuðstöðvar í Helsinki. Í félaginu eru 120 fullgildir finnskir félagsmenn (undir 67 ára aldri), og 124 erlendir félagsmenn. Félagið skiptist í fjórar deildir: 1: stærðfræði og eðlisfræði-, 2: lífvísinda-, 3: hugvísinda-, og 4: félagsvísindadeild. Finnska vísindafélagið gefur út árbók, tímaritið "Sphinx", og ritraðir á ýmsum fræðasviðum, frá 1918 í samvinnu við Finnsku vísindaakademíuna. Finnska vísindafélagið veitir einnig verðlaun og viðurkenningar, og styrki til vísinda og fræðistarfa. Af sögulegum ástæðum var Finnska vísindafélagið lengst af sænskumælandi, þó að á síðari árum hafi finnska fengið viðurkenningu innan félagsins. Því var það að árið 1908 var stofnað sérstakt vísindafélag fyrir finnskumælandi vísindamenn, Finnska vísindaakademían. Einnig eru starfandi tvær finnskar akademíur um tæknileg efni, auk þess sem þessir fjórir aðilar hafa með sér samstarfsvettvang. Finnska vísindaakademían. Finnska vísindaakademían – (finnska: "Suomalainen Tiedeakatemia"; latína: "Academia Scientiarum Fennica") – er finnskt vísindafélag, stofnað 1908 sem finnskumælandi mótvægi við Finnska vísindafélagið, sem var sænskumælandi og hafði starfað frá 1838. Starfsemi og útgáfa. Í Finnsku vísindaakademíunni er rúm fyrir 328 finnska félagsmenn. Þegar félagsmaður nær 65 ára aldri, losnar sæti hans fyrir nýja félaga, en hann heldur félagsaðild til dauðadags. Akademían skiptist í tvær deildir: Raunvísindadeild (189 sæti) og hugvísindadeild (139 sæti). Síðastnefnda ritröðin nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, enda hafa Finnar staðið framarlega á sviði þjóðsagnarannsókna. Rit Einars Ól. Sveinssonar: "Verzeichnis isländischer Märchenvarianten, mit einer einleitenden Untersuchung", Helsinki 1929, kom út sem 83. bindi í FFC. Jon Tenney. Jonathan F. W. Tenney (fæddur 16. desember 1961) er bandarískur leikari. Einkalíf. Tenney fæddist í Princeton í New Jersey. Fékk hann B.A. gráðu frá Vassar College, þar sem hann stundaði nám í drama og heimspeki. Síðan stundaði hann nám við hinn þekkta Juilliard skóla, þar sem hann kom fram í fyrsta sinn í framleiðslunni af leikritinu "The Real Thing" sem var leikstýrt af Mike Nichols. Var hann giftur leikonunni Teri Hatcher frá 1994 til 2003. Eiga þau saman eina dóttur. Ferill. Tenney hefur komið fram á Broadway og í öðrum leikhúsum. Meðal leikrita sem hann hefur komið fram í eru "Biloxi Blues", "The Substance of Fire" og "The Heiress". Meðal sjónvarpsþátta sem hann hefur komið fram í eru "Brooklyn South", "Kristin" og gestahlutverk "Will & Grace", "Murphy Brown", "Spenser: for Hire", og "Get Real". Núna leikur hann Howard Fritz eiginmann persónu Kyru Sedgwick í "The Closer". Lék hann besta vin Matthews Perry í "Fools Rush In". Tenney var með lítið hluverk í "Tombstone", "Nixon", og "Music from Another Room". Einnig lék hann mikilvægt aukahlutverk í kvikmyndinni "Watch It" frá tíunda áratugnum. Tenglar. Tenney, Jon Listi yfir The Closer-þætti. Þetta er listi yfir The Closer þáttaraðirnar en framleiddar voru sjö þáttaraðir og var fyrsti þátturinn frumsýndur 13. júní 2005. Fyrsta þáttaröð. Þema fyrstu þáttaraðarinnar er einsömul kona í karlaheimi og í nýrri borg. Áhorfendur fá að fylgjast með hvernig Brendu tekst á við þessar nýju breytingar í lífi sínu. Önnur þáttaröð. Þema þáttaraðarinnar er félagsskapur, sést það vel í byrjun seríunnar bæði innan LAPD lögreglunnar og í einkalífi Brendu. Ólíklegur félagsskapur myndast á milli Brendu og Taylor. Samband Brendu og Fritz verður alvarlegra þegar þau ákveða að flytja inn saman. Þriðja þáttaröð. Þemað þriðju þáttaraðar er fjölskylda. PHD deildin er nú heildstæð og sögur þeirra fjalla um hvernig hún vinnur sem fjölskylda og þarf að ráða við fjármagnsleysið. Þættirnir í seríunni kanna fjölskyldumál, byrjar það með tvíkvæni og endar þegar tvær fjölskyldur lenda í óvæntum aðstæðum saman. Einnig má sjá hvernig serían skoðar fjölskyldulífið í Bandaríkjunum, fjölskyldu leyndarmál sem margar þeirra þurfa að horfast í augu við. Í lífi Brendu kynnast áhorfendur föður hennar í fyrsta sinn. Brenda horfist í augu við persónuleg heilsuvandamál á meðan samband hennar við Fritz tekur stórt skref fram á við. Fjórða þáttaröð. Þema fjórðu þáttaraðarinnar er kraftur. Brenda og forgangs manndráps deild eigast við kraft fjölmiðla í þessari þáttaröð þegar fréttaritari Los Angeles Times fylgir þeim eftir en með sitt eigið efni í huga. Kraftur réttarkerfisins og þeirra sem nota það og misnota það er skoðað gegnum þáttaröðina, ásamt þeim krafti sem byssuofbeldi hefur áhrif á líf fólks. Í einkalífinu þá þarf Brenda að kljást við þann kraft sem þarf til þess að skipuleggja brúðkaup sitt, með smá hjálp frá Clay og Willie Rae Johnson. Gagnstætt fyrri þáttaröðum sýndi fjórða þáttaröðin 10 sumarþætti, sem luku 15. september 2008, og komu svo aftur í janúar 2009 með fimm auka þætti. Fimmta þáttaröð. Þema fimmtu þáttaraðarinnar eru breytingar. Söguefni sem er að þróast vegna þráhyggju Brendu á lögfræðingnum sem komst undan í þættinum „Power of Attorney“ úr fyrri þáttaröð. Sjötta þáttaröð. Þema sjöttu þáttaraðarinnar er aðdráttarafl. Deildin hefur flutt í nýtt húsnæði sem hentar engan veginn morðrannsóknum né viðtölum. Brenda tekur mikilvæga ákvörðun sem hefur bæði áhrif á vinnuumhverfið og hjónabandið. Sjöunda þáttaröð. Þema sjöunda þáttaraðarinnar er ást og missir. Brenda þarf að takast á við málaferli gagnvart henni í tengslum við dauða Turrell Baylor í lok þáttarins "War Zone" í seríu 6. Síðu-Hallur. Síðu-Hallur Þorsteinsson var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 10. öld og einn helsti leiðtogi kristinna manna á Alþingi við kristnitökuna. Hann bjó á Hofi í Álftafirði og síðar á Þvottá. Faðir Halls var Þorsteinn Böðvarsson, sonur Böðvars hvíta Þorleifssonar, landnámsmanns á Hofi í Álftafirði. Í móðurætt var hann kominn af Hrollaugi Rögnvaldssyni landnámsmanni, syni Rögnvaldar Mærajarls. Hallur bjó fyrst á föðurleifð sinni, Hofi, en flutti þaðan eftir að Þiðrandi, elsti sonur hans, var drepinn þar af dökkum dísum og segir frá því í "Þiðranda þætti og Þórhalls". Ólafur Tryggvason Noregskonungur sendi Þangbrand til Íslands til að kristna landsmenn og kom hann skipi sínu í Berufjörð. Bræður sem bjuggu á Berunesi bönnuðu mönnum að eiga samskipti við hann en þegar Síðu-Hallur frétti af því bauð hann Þangbrandi og mönnum hans til sin að Þvottá. Hallur tók kristna trú og var skírður ásamt öllu sínu fólki. Hann lagði síðan Þangbrandi lið við trúboð hans og tóku margir trú. Á Alþingi árið 1000 (eða 999) voru fjölmennir flokkar kristinna manna og heiðinna og var Þorgeir Ljósvetningagoði helsti leiðtogi hinna heiðnu en Síðu-Hallur fór fyrir þeim kristnu ásamt Gissuri hvíta og Hjalta Skeggjasyni. Þangbrandur var þá farinn aftur úr landi. Urðu harðar deilur og kristnir menn og heiðnir sögðu sig úr lögum hvorir við aðra. Þá sömdu þeir Síðu-Hallur og Þorgeir um að Þorgeir skyldi segja upp lög fyrir báða og lagðist Þorgeir undir feld og lá þar lengi, en þegar hann kom undan feldinum gekk hann til Lögbergs og kvað upp úr með að allir menn skyldu skírast og taka kristna trú. Kona Halls var Jóreiður Þiðrandadóttir úr Njarðvík eystra. Á meðal barna þeirra voru Þiðrandi, sem fyrr er nefndur; Þorsteinn, sem frá segir í "Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar" og var langafi Magnúsar Einarssonar biskups og Ara fróða; Ljótur, sem féll í bardaga á Alþingi 1011 vegna eftirmála Njálsbrennu og var langafi Þorgils Oddasonar; Egill, afi Jóns helga Ögmundssonar Hólabiskups; Yngvildur amma Sæmundar fróða; og Þorvarður langafi Halls Teitssonar í Haukadal. Þannig voru margir helstu höfðingjar 12. aldar afkomendur Síðu-Halls. Laundóttir Halls, Steinvör, var kona Brennu-Flosa Þórðarsonar. Fjörbaugsgarður. Fjörbaugsgarður var ein þriggja tegunda refsinga sem beitt var á þjóðveldisöld samkvæmt lögum Grágásar. Þeir sem fengu þennan dóm kölluðust "fjörbaugsmenn" og var þeim skylt að fara af landi brott innan þriggja sumra frá því að þeir voru dæmdir og skyldu þeir dveljast erlendis í þrjú ár. Fjörbaugsgarður er séríslensk refsing sem tekin var upp skömmu fyrir kristnitöku. Skóggangur. Skóggangur var ein þriggja tegunda refsinga sem beitt var á þjóðveldisöld samkvæmt lögum Grágásar og var þyngst þeirra. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn nutu ekki lengur réttarverndar, voru griðlausir og útskúfaðir úr samfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist. Skóggangur var refsing sem beitt var í Noregi og þar lögðust menn út í skógum en hér í óbyggðum. Af þekktum íslenskum skóggangsmönnum má nefna Gísla Súrsson og Gretti Ásmundarson. Útlegð. Útlegð var ein þriggja tegunda refsinga sem beitt var á þjóðveldisöld samkvæmt lögum Grágásar. Útlegð táknaði þá ekki að menn væru dæmdir útlægir úr samfélaginu, heldur misháar fébætur (útlegð = að leggja út fé) sem sekur maður átti að greiða þeim sem hann hafði brotið gegn og var þetta því vægasta tegund refsinga. Á seinni tímum hefur orðið útlegð verið notað um hinar tvær tegundir refsinga þjóðveldisaldar, fjörbaugsgarð (þegar menn voru skyldaðir til að fara úr landi í þrjú ár) og skóggang (þegar menn voru dæmdir friðlausir og réttdræpir og urðu að vera í felum í óbyggðum til að eiga von um að komast af). Kirkjubæjarklaustur (klaustur). Kirkjubæjarklaustur var nunnuklaustur af Benediktsreglu í Kirkjubæ á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu, stofnað árið 1186 af Þorláki biskupi Þórhallssyni. Skyldu abbadísir þar hafa fullt vald í öllum málum, öfugt við það sem var í Reynistaðarklaustri seinna, en þar heyrði klaustrið undir Hólabiskup. Fyrsta abbadísin var Halldóra Eyjólfsdóttir en eftir að hún dó 1210 er ekkert vitað um klausturlifnaðinn allt til ársins 1293, en hluta þess tíma voru feðgarnir Digur-Helgi Þorsteinsson og Ögmundur Helgason staðarhaldarar í Kirkjubæ. Um miðja 14. öld, í tíð Jórunnar abbadísar, sannaðist það á eina nunnuna, Katrínu (eða Kristínu) að hún hefði gefið sig fjandanum með bréfi, farið óvirðulega með vígt brauð og lagst með mörgum mönnum og var hún brennd á báli. Aðrir segja að nunnurnar hafi verið tvær og hin hafi talað óvirðulega um páfann. Leiði þeirra er sagt vera á Systrastapa, skammt frá Kirkjubæjarklaustri, og samkvæmt þjóðsögum er annað leiðið jafnan grænt en hitt grænkar aldrei. Halldóra abbadís í Kirkjubæ dó í Svartadauða 1402 ásamt helmingi systranna sem þar voru. Sagt er að Kirkjubæ hafi þrisvar eytt af mannfólki í pestinni og var á endanum svo komið að nunnurnar þurftu sjálfar að mjólka ærnar og kýrnar og kunnu flestar lítt til þeirra verka, enda flestar hefðarmeyjar eða dætur betri bænda. Klaustrið var lagt af við siðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi. Konungur hugðist stofna lestrarskóla í Kirkjubæ og gaf út bréf um það 1542 en það var síðar tekið aftur og klaustrið selt á leigu ásamt jörðunum 42 sem það átti, en konungur sá nunnunum fyrir uppeldi meðan þær lifðu. Árið 1544 voru 6 nunnur í klaustrinu auk Halldóru abbadísar: Guðríður, Oddný (systir Gissurar biskups), Arnleif, Ástríður, Margrét og Valgerður. Núðla. Núðlur eru matur gerður úr gerlausu deigi og eru yfirleitt soðnar í vökva en stundum steiktar eða djúpsteiktar. Til eru ýmsar tegundir af núðlum. Sumar eru matreiddar um leið og þær hafa verið búnar til en aðrar eru geymdar til síðari tíma og eru þá þurrkaðar eða kældar. Orðið núðla er komið úr þýsku, "Nudel", og gæti verið tengt latneska orðinu "nodus" (sem þýðir „hnútur“). Núðlur eru til í ýmsum formum þótt mjóar lengjur, ýmist sívalar eða flatar, séu algengastar. Pasta er í rauninni núðlur en á íslensku og ýmsum öðrum málum er gerður greinarmunur á því og öðrum núðlum og yfirleitt einungis átt við austurlenskar núðlur þegar talað er um núðlur. Núðlur eru borðaðar víða, til dæmis í Kína, Japan, Kóreu, Indónesíu og ýmsum Evrópulöndum, svo sem Þýskalandi. Á Vesturlöndum eru núðlur yfirleitt búnar til úr hveiti og oft einnig eggjum. Hveitinúðlur eru einnig algengar í Asíu en þar eru núðlur þó ekki síður úr hrísgrjónum. Einnig eru núðlur gerðar úr bókhveiti og fleiri korntegundum, kartöflum eða baunum. Núðlur eiga sér langa sögu. Í Kína fundu fornleifafræðingar árið 2002 leirskál með núðlum sem taldar voru um 4000 ára gamlar og voru ágætlega varðveittar. Þær voru gerðar úr tveimur tegundum af hirsi. Núðlur eru fyrst nefndar í skriflegri kínverskri heimild sem er að minnsta kosti 1800 ára gömul og er talið að þær hafi verið orðnar algengur matur í Kína um það leyti. Á 5. öld voru Arabar farnir að hafa með sér núðlur sem nesti á langferðum og er það elsta heimildin sem þekkt er um þurrkaðar núðlur eða pasta. Þeir fluttu að líkindum pasta eða núðlur úr durumhveiti með sér þegar þeir lögðu Sikiley undir sig seint á 7. öld og til eru skriflegar lýsingar á "itriyya", löngum og mjóum hveitinúðlum, frá 9. öld. Pasta hefur því borist með Aröbum til Ítalíu en ekki með Marco Polo, eins og stundum er haldið fram. Þýskar eggjanúðlur, "spätzle", eru fyrst nefndar í heimildum 1725 en eru taldar mun eldri. Kvikuhólf. Kvikuhólf er rými neðanjarðar fyllt albráðinni kviku. Kvikuhólf verður til þegar kvika úr kvikuþró rennur um innskot og nær að einangra sig frá kvikuþrónni. Hólf þessi geta verið um 20 til 200 km3 að stærð og eru á eins til þriggja kílómetra dýpi. Kvikuþró. Kvikuþró er stórt rými neðanjarðar fyllt hlutbráðinni kviku. Kvikuþrær verða til þegar kvika frá möttli mætir fyrirstöðu í þéttari jarðlögum. Með tímanum bætist meiri kvika við og þykkari jarðlögin blása út. Þrýstingur á kvikuþróm veldur því að kvikan sprengir rifur í jarðskorpuna og leitast undan þrýstingnum. Eldgos á sér stað ef kvikan kemst að yfirborði. Þær kvikuþrær sem vitað er um eru að jafnaði á eins til tíu kílómetra dýpi. Hlutbráðnun. Hlutbráðnun nefnist það ferli þegar aðeins hluti þéttefnis bráðnar. Oftast er hugtakið notað í bergfræði og á við hlutbráðnun bergs. Þær kristalgerðir sem hafa lágt bræðslumark bráðna en aðrar haldast í föstu formi. Talið er að hlutbráðnun sé þess valdandi að súrari hluti kviku í kvikuþróm safnist fyrir efst í þrónni. Flúorbæting drykkjarvatns. Flúorbæting drykkjarvatns kallast sú aðferð að bæta flúoríði í drykkjarvatn til þess að draga úr tannskemmdum. Flúorbætt vatn inniheldur flúoríð í magni sem getur hindrað tannskemmdir, en flúoríð finnst einnig náttúrulega í vatni. Alþjóða heilbrigðisstofnunin mælir með magni flúoríðs á bilinu 0,5 til 1,0 mg á hvern lítra vatns. Flúoríð finnst einnig í salti og mjólk og því er gjarnan bætt í tannkrem. MG42. MG 42 (stytting á Maschinengewehr 42) var þýsk vélbyssa og eitt af þekktari vopnum síðari heimsstyrjaldarinnar. Framleiðsla var hafin 1942 og á meðan á stríðinu stóð voru framleidd um 750 þúsund stykki. Andstæðinga þjóðverja óttuðust vopnið mikið enda var það vel heppnað. MG42 var hægt að nota á þrífæti eða tvífót, sérstökum fót fyrir loftvarnir og var oft sett á ökutæki þeim til varnar. Hún skaut á sérlega hárri tíðni (um 1200 skot á mínútu, eða 20 á sekúndu) en það gerði það af verkum að hljóðið var auðþekkjanlegt. Hún skaut 7,92 mm Mauser riffilskotum, vó um 11,5 kg og það var sérlega fljótlegt að skipta um hlaup á henni. Upphaflega var hún hönnuð sem endurbætt, ódýrari og léttari byssa í stað MG34 sem var of dýr og timafrek í framleiðslu. Það gekk allt eftir þó að möguleikum MG34 á að nota hana hálfsjáfvirka og nokkru af nákvæmni MG34 hafi verið fórnað. MG 42 ásamt fyrirrennara sínum MG34 hafði mikil áhrif á ótal nýrri gerðir vopna og MG3 sem er enn í notkun þýska hersins er raunar mjög lítið breytt útgáfa af MG42. Skjór. Skjór (fræðiheiti: "Pica pica") er fugl af hröfnungaætt. Skjórinn er þekktur fyrir að vera glysgjarn, enda safnar hann eða stelur smáhlutum sem glitra og kemur fyrir í hreiðri sínu. Anthony E. Zuiker. Anthony E. Zuiker (fæddur 17. ágúst 1968) er höfundur og framleiðslustjóri að bandaríska sjónvarpsþættinum '. Hann framleiðir einnig allar þrjár útgáfurnar af CSI: ', ' og '. Aðstoðaði hann við að skrifa handritið að "Terminator Salvation". Einkalíf. Zuiker fæddist í Blue Island í Illinois en fjölskylda hans flutti síðan til Las Vegas í Nevada. Zuiker stundaði nám við ríkisháskólann í Arizona, í Tempe í Arizona í þrjú ár og færði sig síðan yfir í Nevadaháskóla í Las Vegas, þaðan sem hann útskrifaðist. Öll fjögur árin þá var hann viðriðinn keppnis réttarrannsóknir og náði svo í undanúrslit á landsvísu í ræðukeppni. Á fyrirlestri á International Mystery Writers Festival í júní 2008 sagði Zuiker að hann hafði verið að vinna sem sporvagnsstjóri þegar hann fékk hugmyndina að þáttunum. Eitt kvöldið þá átti hann að spila körfubolta með vinum sínum þegar kona hans bað hann að vera heima og horfa á The New Detectives á Discovery Channel. „Ég ákvað að vera heima, og það breytti öllu saman“. Hann hefur viðkennt að hafa vitað ekkert um hvernig eigi að skrifa sjónvarpshandrit og því hafi fyrsti þátturinn „brotið allar reglur“, og hafi með því þróað nýjan stíl hvernig sjónrænu myndunum og sögunum er gefið skyn á. Nýtt skólaleikhús er nefnt eftir honum: "Anthony E. Zuiker Theater" við Chaparral High School í Nevada. En Zuiker úskrifaðist frá þessum skóla árið 1986. Verðlaun og tilnefningar. Þann 25. október 2007 fékk hann Big Brother Award Austria 2007 í flokki samskipta og markaðssetningu. Dómstóllinn sagði meðal annars „CSI sjónvarpsþættirnir sýna tölvueftirlit, DNA-greiningu og ósigur á borgararéttindum á ógagnrýnanhátt, ómerkilegan og hættulega á hlutdrægan átt“. Ásamt því að réttindi fólks og grunaða eru sýnd sem fyrirstaða fyrir rannsókninni sjálfri. Bækur. Þann 8. september 2009 gaf Zuicker út "Level 26: Dark Origins", bók sem er tengd vef-kvikmynd og gagnvirkum öflum sem hann lýsir sem „digi-novel“. Zuicker hefur framleitt í kringum 20 kvikmynda net-brýr, sem lesendur geta skoðað á netinu með því að nota sérstaka kóða sem hefur verið komið fyrir í bókunum. The Level26.com vefsíðan og netsamfélagið var búið til með hjálp Miles Beckett, sem er höfundur að Lonelygirl 15. „Mig langaði að segja sögu sem væri ‚of heitt‘ fyrir sjónvarp á sama tíma að gefa glæpalesendum eitthvað áhugavert og öðruvísi reynslu“. Von er á 26 nýjum bókum sem verða gefnar út 2010 og 2011. Verðlaun og tilnefningar. Las Vegas Film Critics Society verðlaunin Tenglar. Zuiker, Anthony E. Strætisvagnar Kópavogs. Strætisvagnar Kópavogs (SVK) voru stofnaðir 1. mars 1957 og höfðu það að markmiði að sjá um almenningssamgöngur í Kópavogi með rekstri strætisvagnakerfis. Kópavogsbær hafði fram að því haldið upp samgöngum með leigu á almenningsvögnum eða í gegnum Landleiðir. Byggðasamlagið Almenningsvagnar tók við rekstri strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og hófst akstur á þess vegum 15. ágúst 1992 og markaði það endalok SVK. Jerry Bruckheimer. Jerome Leon „Jerry“ Bruckheimer (fæddur 21. september 1945) er bandarískur kvikmyndaframleiðandi og sjónvarpsframleiðandi. Þekktustu sjónvarpsseríur hans eru ', ' og '. Frægustu kvikmyndir hans eru "Beverly Hills Cop" myndirnar, "Top Gun", "The Rock", "Con Air", "Crimson Tide", "Armageddon", "Pirates of the Caribbean" myndirnar og "National Treasure" myndirnar. Einkalíf. Bruckheimer fæddist í Detroit í Michigan og er sonur þýskra innflytjanda sem eru gyðingatrúar. Bruckheimer var aktívur meðlimur í frímerkjaklúbbi og sundhandknattleik. Útskrifaðist með B.A. gráðu í sálfræði frá Arizonaháskóla með algebru sem aukafag og var meðlimur í Zeta Beta Tau bræðralaginu. Bruckheimer hefur verið áhugasamur um kvikmyndir frá unga aldri ásamt áhuga á ljósmyndun og tók oft tækifærismyndir þegar hann hafði tíma. Eftir nám þá fluttist Bruckheimer til Chicago þar sem hann vann í póstdeild hjá auglýsingafyrirtæki. Á endanum, þá dróst Bruckheimer inn í auglýsingaframleiðslu þegar hann fékk tækifæri til þess að framleiða kvikmynd. Því næst þá flutti hann til Los Angeles. Bruckheimer hefur verið giftur tvisvar sinnum: Bonnie Bruckheimer og saman eiga þau einn son. Býr hann í Burbank með seinni eiginkonu sinni, skáldsagnahöfundinum Linda Bruckheimer. Á hann eina stjúpdóttur, Alexöndru. Eiga þau búgarð í Bloomfield í Kentucky, suðaustur af Louisville í Kentucky, heimabæ Lindu Bruckheimers, sem og annan í Ojai, suður af Santa Barbara. Kvikmyndafyrirtæki hans, Jerry Bruckheimer Films, er staðsett við 1631 10th Street í Santa Monica í Kaliforníu. Trú. Þegar hann er spurður um andlega viðleitni hefur Bruckheimer sagt að Guð sé honum mikilvægur og er sá „sem sér um þau gæði sem við þurfum öll á og horfum upp til“. Einnig hefur hann sagt að eiginkona hans Linda haldi honum jarðbundnum. Hjálparstarfssemi. Bruckheimer styður bardagann gegn MS-sjúkdómnu gegnum The Nancy Davis Foundation fyrir MS-sjúklinga. Þar að auki þá hefur hann ákveðið að skuldbinda sig til þess að hjálpa mismunandi málstöðum gegnum Jerry Bruckheimer Foundation. Seinast sem Jerry Bruckheimer Foundation gaf framlag var árið 1995, þegar gefið var $9.350 handa Van Nuys prep school. Bruckheimer hefur hjálpað til við að lagfæra hið sögulega skip "Cutty Sark", sem er í líkingu við skipin sem sjást í Pirates of the Caribbean myndunum. Safn af ljósmyndum eftir Bruckheimer var sýnt í nóvember 2007 í London til þess að afla peninga fyrir Cutty Sark verkefnið. Sýningin innihélt yir 30 myndir sem voru teknar við upptökur á '. Stjórnmál. Bruckheimer er einn af fáum Hollywood fólki sem studdi George W. Bush forseta opinberlega. Gaf hann peninga í kosningabaráttu Johns McCain. Árið 2007 var greint frá því að hann hafði gefið allt að 29% af hans $20.700 í framlag til frambjóðenda repúblikana. Bruckheimer hefur gefið allt að $50.000 til baráttu Repúblikanaflokksins og nefnda. Íþróttaeignir. Bruckheimer hefur verið nefndur sem einn af fjárfestum í hinum nýja leikvangi í Las Vegas og er talinn vera í lykilhlutverki hjá National Hockey League í því að eiga íshokkílið sem myndi spila á leikvanginum. Tónlist. Á meðan Jerry var við nám í UA, þá byrjaði hann tónlistarferil Manny Freiser, með upptökum af "Let's Talk About Girls" og "Cry A Little Longer" sem voru talin vera fyrirrennarar pönks og nýbylgjunnar á níunda áratugnum. Kvikmyndaframleiðsla. Árið 2010 hafði Bruckheimer framleitt yfir 40 kvikmyndir og er talinn vera einn sá farsælasti kvikmyndaframleiðandi allra tíma í bransanum. Sjöundi áratugurinn. Bruckheimer byrjaði að framleiða kvikmyndir á sjöunda áratugnum, eftir að hafa yfirgefið auglýsingavinnu sína með leikstjóranum Dick Richards. Framleiddu þeir kvikmyndir á borð við "The Culpepper Cattle Company", "Farewell, My Lovely" og +"March or Die". Bruckheimer vann síðan með Paul Schrader að tveimur myndum, "American Gigolo" og "Cat People", sem kom honum á kortið í Hollywood. Níundi-Tíundi áratugurinn. Milli níunda og tíunda áratugarins var Jerry meðframleiðandi með Don Simpson að nokkrum að vinsælustu myndum Hollywoods fyrir "Paramount Pictures". Kynntist hann Don við sýningu á myndinni "The Harder They Come" frá 1973. Gerðu þeir saman "Flashdance" fyrstu vinsælustu kvikmynd Bruckheimers frá 1983.. Eftir hana þá fylgdu myndir á borð við "Beverly Hills Cop" myndirnar, "Top Gun" og "Days of Thunder". Á meðan hann vann með Simpson þá varð Bruckheimer þekktur sem „Mr. Outside“ vegna reynslu hans í kvikmyndagerð en Simpson var þekktur sem „Mr. Inside“ vegna tengsla sinna í kvikmyndaiðnaðinum. "The Rock" var seinasta mynd þeirra sem þeir framleiddu saman vegna dauða Simpsons. Bruckheimer tilheyrði "The Rock" minningu Simpson (sem sjá má í enda myndarinnar). Þrátt fyrir lát Simpsons árið 1996, hélt Bruckheimer áfram að framleiða stórar spennumyndir, oft með leikstjóranum Michael Bay meðal þeirra eru "Armageddon". Aðrar vinsælar myndir sem hann gerði eru "Remember the Titans", "Black Hawk Down" og "Pirates of the Caribbean" myndirnar. Eitt helsta aðalvörumerki hans í kvikmyndum er þegar „bíl er snúið við í spennusenu“. Hefur hann fengið rétt til þess að framleiða kvikmynd byggða á hinum vinsæla leik eftir Palladium Books, "Rifts". Sjónvarpsframleiðsla. Snemma á ferli sínum þá framleiddi Bruckheimer sjónvarpsauglýingar, þar á meðal eina fyrir Pepsi. Frá árinu 1997 þá hefur hann fært út kvíarnar í sjónvarpi, með því að framleiða lögregludrama á borð við ' sem er vinsælasti þáttur hans til þessa. Hefur hann einnig framleitt raunveruleikaþáttinn "The Amazing Race". Í maí 2008 tilkynnti CBS að þeir höfðu tekið upp nýjustu seríu Bruckheimers, Eleventh Hour', fyrir tímabilið 2008–2009. Er þetta vísindasögu drama sem fylgir eftir ríkisfulltrúa og prófessor sem rannsaka vísindaleg og lækna starfssemi. Aðein ein þáttaröð var gerð áður en hætt var við framleiðslu. Á einum tímapunkti þá var Bruckheimer með sex sjónvarpsseríur í framleiðslu: ', ', ', "Cold Case", "The Amazing Race", "Dark Blue" og The Forgotten. Einnig voru þrír sjónvarpsþættir sem hann framleiddi á top 10 lista yfir mesta áhorf – sem er mjög einstakt í sjónvarpi. Þann 10. september 2009 tilkynnti NBC að þeir hefðu tekið upp spennuþátt frá Jerry Bruckheimer að nafni Chase. Aðeins ein þáttaröð var framleidd af þættinum. Fjárhagsleg velgengni. Einn af farsælustu framleiðundum allra tíma, Bruckheimer er oft nefndur „Mr. Blockbuster“, vegna þess hversu góða velgengni myndir hans hafa verið markaðslega séð. Þegar á heildina er litið þá hafa myndir hans tekið inn í kringum $13 milljarða til Hollywood, og hefur komið mörgum leikurunm og leikstjórum á kortið í Hollywood. Árið 2007 þá var hann skráður í 39. sæti á lista Forbes yfir Forbes Celebrity 100 og færðist upp frá 42. sæti síðan 2006. Með ársinnkomu í kringum $120 milljónir, Tekjuhæstu kvikmyndir. Í júlí 2003 þá var Bruckheimer heiðraður af tímaritinu "Variety" sem fyrsti framleiðandinn í sögu Hollywood til þess að hafa tvær tekjuhæstu myndir sömu helgina, lögreglu-grínmyndina "Bad Boys II" og Disney-sjóræningja myndina, '. Pirates of the Caribbean myndirnar, framleiddar gegnum Walt Disney Pictures voru mjög tekjuháar og sýnir það hæfileika Bruckheimers í að finna góð verkefni. ', var fyrsta myndin og varð mjög vinsæl meðal áhorfenda og fékk góða umfjöllun gagnrýnenda sem og almennings. Eftir velgegni fyrstu myndarinnar, þá tilkynnti Walt Disney Pictures að framhaldsmynd væri í framleiðslu. ' var frumsýnd 7. júlí 2006. Framhaldsmyndin varð jafn vinsæl og braut met á alþjóðavísu þegar hún var frumsýnd. Í lokin þá halaði hún inn $1.066.179.725 á alþjóðavísu og varð þriðja og fljótasta myndin til þess að ná þessari upphæð. Seinasta myndin í trílogíunni,' var frumsýnd 25. maí 2007. Samanlagt þá hafa myndirnar halað inn um $2,79 milljarða á alþjóðavísu. Í 19 ár þá hafði myndin "Beverly Hills Cop" (talin hafa tekið inn $234 milljónir) frá 1984 verið tekjuhæsta mynd Bruckheimers þangað til 12. ágúst 2003 en þá var henni ýtt niður í annað sæti af "Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl", síðan í þriðja sæti af "Pirates of the Caribbean: Dead Man's Chest" og að lokum í fjórða sæti af "Pirates of the Caribbean: At World's End". Viðurkenningar og verðlaun. Ritsjórar "Entertainment Weekly" settu Bruckheimer í fyrsta sæti sem áhrifamestu persónu í Hollywood árið 2003. Var hann í tíunda sæti hjá tímaritinu "Premiere" árið 2006 yfir „Power 50“-lista þeirra og var í tíunda sæti árið 2005. Var hann í nítjánda sæti hjá "Premiere" árið 2003 í hinum árlega Hollywood Power List og var í 22. sæti árið 2002. Kvikmyndir hans hafa verið verðlaunaðar með 35 Óskartilnefningum (fimm verðlaun), átta Grammy-tilnefningar (fimm verðlaun), 23 Golden Globe-tilnefningar (fjögur verðlaun), 30 Emmy Awards-tilnefningar (sex verðlaun), átta People's Choice Awards-tilnefningar (fjögur verðlaun) og nokkur MTV Movie Awards-verðlaun, þar á meðal besta mynd áratugsins. Bruckheimer fékk ShoWest Producer of the Year Award árið 1998 og árið 2000 Producers Guild of America heiðruðu hann með David O. Selznick Award for Lifetime Achievement. Í maí 2006 fékk heiðursdoktorsgráðu í listum (DFA) við University of Arizona's College of Fine Arts. Skoðanir á kvikmyndum. Þegar hann er spurður hverjar eru uppáhaldsmyndir hans eru, þá nefnir hann "The Godfather" frá 1972, "The French Connection" frá 1971, "Good Will Hunting" frá 1997 og "The 400 Blows". William Petersen. William Louis Petersen (fæddur 21. febrúar 1953) er bandarískur leikari og framleiðandi sem er þekktastur fyrir að leika Gil Grissom í sjónvarpsseríunni '. Einkalíf. Petersen er fæddur og uppalinn í Evanston í Illinois. Faðir hans er dansk-amerískur að uppruna og móðir hans er þýsk-amerísk að uppruna. Útskrifaðist hann frá Bishop Kelly High School árið 1972. Komst hann inn í Ríkisháskólann í Idaho á fótboltastyrk. Á meðan hann var við nám við Ríkisháskólann í Idaho tók Petersen leiklistarnámskeið sem breytti alveg leið hans í lífinu. Yfirgaf hann skólann ásamt eiginkonu sinni Joanne árið1974 og elti drama prófessor til Baskalands þar sem hann lærði sem Shakespeare leikari. Petersen hafði áhuga á baskneskri menningu og lærði hann baskneska tungumálið. Petersen flutti aftur til Idaho til þess að verða leikari. Þar sem hann vildi ekki vinna í leikaralausri vinnu í, þá fór hann til Chicago og bjó hjá ættingjum sínum. Petersen giftist langtíma kærustu sinni Gina Cirone í júní 2003. Á hann eina dóttur, Maite, frá fyrra hjónabandi. Petersen er mikill Chicago Cubs aðdáendi, og mætir oft á Wrigley Field að minnsta kosti einu sinni að ári til þess að syngja „Take Me Out to the Ballgame“. Árið 2004 lýsti Petersen í viðtali við "Playboy Magazine" nær-dauða lífsreynslu sem hann varð fyrir í kringum 1980s, sem gaf honum fullvissu að það væri til framhaldslíf eftir dauða. Þann 23. febrúar 2009 var Petersen heiðraður með stjörnu á Hollywood Walk of Fame. Næstum allt leikaraliði og starfsmenn voru viðstaddir. Stjarna Petersens er staðsett við 6667 Hollywood Blvd, beint fyrir framan hinn fræga veitingastað Musso and Frank's Grill. Leikhús. Petersen var mjög aktívur í leikhúsum og vann sér inn Actors Equity card. Sýndi hann við Steppenwolf Theatre Company, sem hann hefur verið meðlimur að síðan 2008, og er meðstofnandi að Remains Theater Ensemble sem einnig hefur að geyma Chicago leikarana Gary Cole og Ted Levine. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Petersen var árið 1986 í "The Twilight Zone". Síðan 2000 hefur frami Petersen aukist eftir að hann lék Dr. Gil Grissom í CBS réttar-rannsóknardramanu '. Petersen tók sér hlé frá CSI í fimm vikur til þess að koma fram í Trinity Repertory Company uppsetningu á "Dublin Carol" í Providence, Rhode Island. Þann 30. maí 2007 var Petersen á Wrigley Field í samvinnu með WGN íþróttaútvarpsmönnum til þess að lýsa leika Chicago Cubs – Florida Marlins leiknum og nefndi hann að hann hefði séð CSI: The Experience á Museum of Science and Industry í Chicago. Var hann þá í níu-vikna hléi frá upptökum og sagði hann, að hann og samleikarar væru heppnir að vera hluti af svona vinsælli seríu á meðan þættir sem vinir hans koma fram í hætta eftir aðeins nokkra þætti. Samkvæmt Michael Ausiello hjá TV Guide, þá hafði Petersen endurnýjað samning sinn hjá CBS til þess að koma fram í CSI fyrir 2008-2009 tímabilið, með um $600.000 dollara fyrir hvern þátt. Þann 15. júlí 2008 greindi Associated Press frá því að Petersen myndi hætta sem aðalleikari í 9. þáttaröð (þætti 10) til þess að fylgja eftir leikhúsferli sínum, en myndi koma aftur sem gestaleikari þegar á þurfti. Munn hann samt halda áfram að vera framleiðslustjóri við þáttinn. Kvikmyndir. Petersen lék í fyrstu Hannibal Lecter myndinni, þar sem hann lék FBI alríkisfulltrúann Will Graham. Þar sem hlutverk hans í "Manhunter" eftir Michael Mann var svo krefjandi tilfinningalega séð gerði hann allt sem hann gat til þess að losna við persónuna eftir að tökum lauk. Hann rakaði af sér allt skeggið, klippti hárið og litaði það ljóst. Einnig þá segist hann hafa gert þetta, vegna þess að þegar hann var að æfa fyrir leikrit í Chicago, kom tal hans alltaf út sem Graham; litaði hann á sér hárið þannig að hann gæti horft á sjálfan sig í spegli og séð aðra persónu. Petersen afþakkaði hlutverk í Oliver Stone myndinni "Platoon", þar sem hún myndi halda honum í Filippseyjum, frá fjölskyldu sinni. Í staðinn lék hann í sjónvarpsmyndinni "Long Gone" frá 1987 sem neðri deildar hafnarboltaleikmaður og umboðsmaður. Lék hann lögreglumanninn William Friedkin's í spennumyndinni "To Live and Die in L.A.", Petersen kemur fram alveg nakinn, stuttlega. Var honum boðið hlutverk Henry Hill í "Goodfellas" en afþakkaði það. Árið 1990 lék Petersen í þriggja-hluta míniseríu, "The Kennedys of Massachusetts". Lék Petersen JFK, sendiherrann Joseph P. Kennedy. Hlaut myndin Emmy og Golden Globe-tilnefningar. Árið 1993 kom Petersen fram í annarri míniseríu, "Return to Lonesome Dove" og síðan í "Fear" árið 1996. Lék hann í myndinni "Mulholland Falls" sem persónu er finnur sjálfan sig fá ofbeldisviðbrögð frá Los Angeles lögreglunni. Ennig lék hann í "Kiss the Sky" og í myndinni "12 Angry Men" ásamt Courtney B. Vance, George C. Scott, Jack Lemmon og Mykelti Williamson. Framleiðandi. ', "Keep the Change" og "Hard Promises". Tenglar. Petersen, William Almenningsvagnar. Almenningsvagnar byggðasamlag er byggðasamlag sveitarfélaganna Bessastaðahrepps, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kjalarneshrepps, Kópavogs og Mosfellsbæjar. Það var stofnað til að hafa á einni hendi almenningssamgöngur þessara sveitarfélaga. Það tók til starfa 15. ágúst 1992, fyrirtækin Hagvagnar hf. og Meiriháttar hf. sáu um akstur. Þann 1. júlí 2001 tók Strætó byggðasamlag við verkefnum Almenningsvagna. Byggðasamlag. Byggðasamlag (skammstafað bs.) er stjórnsýslueining þar sem tvö eða fleiri sveitarfélög standa saman að rekstri varanlegra verkefna. Dæmi um slík byggðasamlög eru Strætó bs. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs. Laurence Fishburne. Laurence John Fishburne III (fæddur 30. júlí 1961) er bandarískur leikari, leikritahöfundur, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Matrix-myndunum, "What's Love Got to Do with It" og. Einkalíf. Fishburne fæddist í Augusta í Georgíu.Foreldrar hans skildu þegar hann var ungur og flutti hann með móður sinni til Brooklyn í New York þar sem hann ólst upp. Sá hann föður sinn einu sinni í mánuði. Útskrifaðist hann frá Lincoln Square Academy í New York, sem lokaði á níunda áratugnum. Fishburne giftist leikkonunni Hajnu Moss árið 1985 í Eþíópíu. Saman eiga þau tvö börn: Langston og Montana. Fishburne og Moss skildu um miðjan tíunda áratuginn. Fishburne er núna giftur Gina Torres, sem hann giftist árið 2002. Eiga þau saman eitt barn, Delilah, fædda 2007, og búa í New Rochelle í New York. Einnig á hann heimili í New York-borg í Castle Village hlutanum af Washington Heights á Manhattan. Þann 24. febrúar 2007 var Fishburne heiðraður með Harvard Foundation's Artist of the Year-verðlaununum við hina árlegu sýningu Cultural Rhythms. Fékk hann þessa virðingu sem leikari og skemmtikraftur en einnig fyrir vinnu sína til hjálparmála. Fishburne er UNICEF sendiherra. Bæjarstórinn í borginni Cambridge í Massachusetts gaf honum lykilinni að borginni og lýsti 24. febrúar sem „Laurence Fishburne-degi“ í borginni. Í maí 2009 kom Fishburne fram á sviði við National Memorial Day-tónleikana við Mall in Washington, D.C. Leikhús. Á níunda áratugnum kom hann fram í leikritum á borð við "Short Eyes" (1984) og "Loose Ends" (1987). Bæði voru þau sýnd við Second Stage Theatre í New York-borg. Árið 1991 vann hann Tony-verðlaunin fyrir framkomu sína í leikriti Augusts Wilson "Two Trains Running" Árið 2006 lék hann á móti Angelu Bassett í Pasadena Playhouse uppfærslunni á leikriti August Wilson "Fences". Í apríl 2008 sneri Fishburne aftur á leiksvið við Broadway-sýningunar "Thurgood", sem er nýtt leikrit eftir George Stevens, Jr. og leikstýrt af Leonard Foglia. "Thurgood" var frumsýnt við Booth Theatre þann 30. apríl 2008. Vann hann Drama Desk Award fyrir bestu einleiksýningu. Sjónvarp. Fishburne byrjaði að leika tólf ára þegar hann fékk fyrsta starfið árið 1973 sem Joshua Hall í sápuóperunni, "One Life to Live". Fishburne var með aukahlutverk sem Cowboy Curtis með persónu Paul Reubens, Pee Wee Herman, í barnaseríunni "Pee-wee's Playhouse". Einnig kom hann fram í "MASH"-þættinum „The Tooth Shall Set You Free“ sem Corporal Dorsey. Þann 18. ágúst 2008 var greint frá því að Fishburne myndi ganga til liðs við ' eftir að William Petersen myndi yfirgefa þáttinn. Fishburne gekk til liðs við þáttinn í níunda þætti 9. þáttaraðar sem háskólaprófessor og fyrrverandi meinafræðingur. Persónan var kynnt til sögunnar sem ráðgjafi í „19 Down“, sem síðan gengur til liðs við CSI liðið í „One to Go“. Samkvæmt viðtölum við framleiðundur þegar tilkynningin var gefin út, persóna hans hefur það einkenni að geta séð sjálfan sig í raðmorðingjum, staðreynd sem persónan mun ekki láta vita af en það er eitthvað sem ýtir hann áfram til þess að skilja af hverju ákveðnir glæpamenn verða svona ofbeldisfullir. Fishburne var einnig spurður og sagði hann vera í sæluvímu yfir því að ganga til liðs við þáttinn og ánægður með að fá að leika svona flókna persónu. Varð hann einn af aðalleikurum þáttaraðarinnar í þættinum sem var frumsýndur 22. janúar 2009. Yfirgaf hann þáttinn í lok elleftu þáttaraðarinnar árið 2011. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Fishburne var árið 1975 í "Cornbread, Earl and Me". Árið 1976 þá fékk hann aukahlutverk í kvikmynd Francis Ford Coppola, "Apocalypse Now", þar sem hann lék hinn sautján ára sjómann nefndur ‚Mr. Clean‘. Framleiðsla myndarinnar hófst í mars 1976 þegar hann var aðeins fjórtán ára en hann hafði logið til um aldur til þess að fá hlutverkið. Þar sem upptökur tóku svo langan tíma að var hann orðinn sautján ára þegar þeim lauk. Á fyrrihluta níunda áratugarins var Fishburne með lítið hlutverk í mynd Stevens Spielberg "The Color Purple". Árið 1987 þá lék hann í þriðju "Nightmare On Elm Street"-myndinni sem einn af sjúkraliðunum á spítalanum. Þar að auki lék Fishburne persónuna Dap í mynd Spikes Lee "School Daze" (1988). Framkoma hans í myndinni var vel tekið en persónan var lýsing af afrískum-amerískum stúdent við HBCU. Árið 1990 lék hann Jimmy Jump í "King of New York" og árið 1991 lék Fishburne í "Boyz N The Hood". Árið 1993 fékk hann sína fyrst tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt sem Ike Turner í "What's Love Got to Do with It". Árið 1997 lék Fishburne í vísindahrollvekjunni "Event Horizon" ásamt Sam Neill. Nú er Fishburne þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Morpheus í vísindasögumyndinni "The Matrix". Fishburne endurtók hlutverk sitt sem Morpheus í tveimur framhaldsmyndum af Matrix, "The Matrix Reloaded" og "The Matrix Revolutions". Hann lék á móti Tom Cruise í '. Tónlistarmyndbönd. Kom fram stuttlega sem sjúkrabörumaður í tónlistamyndbandi fyrir hljómsveitina The Spooks, í laginu „Things I've Seen“ (2000). Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. Fishburne, Laurence Seldælir. Seldælir var íslensk höfðingjaætt á Sturlungaöld. Ríki þeirra var á sunnan- og vestanverðum Vestfjörðum en Vatnsfirðingar réðu norður- og austurhluta Vestfjarðakjálkans. Ættin er kennd við bæinn Selárdal í Arnarfirði. Karllegg ættarinnar má rekja til Geirþjófs Valþjófssonar landnámsmanns í Arnarfirði en ættin er þó oftast talin frá Bárði svarta Atlasyni, bónda í Selárdal. Sonur Bárðar var Sveinbjörn goðorðsmaður og læknir á Eyri og sonur hans Hrafn Sveinbjarnarson læknir á Eyri. Hann átti í deilum við Þorvald Snorrason, leiðtoga Vatnsfirðinga, sem náði Hrafni á sitt vald og lét höggva hann 4. mars 1213. Tveir elstu synir Hrafns, Sveinbjörn og Krákur, voru höggnir eftir Örlygsstaðabardaga 1238 og aðrir tveir höfðu drukknað við Grímsey 1231, svo að ríki Seldæla gekk til Hrafns Oddssonar, dóttursonar Hrafns læknis. Homo unius libri. "Homo unius libri" (latína „manneskja einnar bókar“) er orðasamband sem er oftast eignað Tómasi af Aquino. Það er sagt að Tómas hafi orðað þetta sem „"hominem unius libri timeo"“ sem merkir „ég óttast manneskju einnar bókar“. Setningin hefur verið túlkuð á marga vegu, til dæmis sem gagnrýni á þá sem hafa aðeins lesið eina bók og ábending hvað þeir sem hafa lesið eina bók spjaldanna á milli búa yfir hættulegri þekkingu. Big Nose Band. Big Nose Band, stundum kallað Stockfield Big Nose Band eða Big Nós Band, var íslensk rokkhljómsveit. Í frumútgáfunni voru auk Pjeturs Stefánssonar, Halldór Bragason á bassa og Sigurður Hannesson á trommur, Björgvin Gíslason og Tryggvi Hübner á gítar. Þannig var Tryggvi Hübner til dæmis í sveitinni á Melarokki í ágúst 1982. Hljómsveitin gaf út eina breiðskífu 1983 "Tvöfalt siðgæði" eftir miklar mannabreytingar og tilraunir í lagasmíðum. 46. Árið 46 (XLVI) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á sunnudegi. Morgron. Morgron eða Mælsku- og rökræðukeppni grunnskóla Reykjavíkur og nágrennis er ein helsta keppni grunnskóla Höfuðborgarsvæðisins og svipar að miklu leyti til Morfís framhaldsskólanna. Keppnin, í núverandi mynd, hefur verið haldin tvisvar sinnum, skólaárið 2008-2009 og skólaárið 2009-2010. Stefnt er að því að keppnin verði haldin í þriðja sinn, skólaárið 2010-2011. Keppt er í rökræðu í fjögurra manna liðum en þrír meðlimir eru ræðumenn og einn er liðsstjóri. Liðsmenn eru kallaðir: frummælandi, meðmælandi, stuðningsmaður og liðsstjóri. Í hverri keppni eru tvö lið og þrír dómarar og þar af einn oddadómari. Dómgæsla. Dómarar í Morgron þurfa að hafa dómararéttindi frá Morfís. Í hverri keppni eru þrír dómarar og þar af einn oddadómari. Hlutverk oddadómarans er að gefa refsistig og tilkynna úrslit keppninnar. Oddadómarinn situr á milli hinna tveggja dómaranna. Formaður Morgron úthlutar dómara en sé þess óskað mega liðin sem mætast semja sjálf um dómara. Þegar oddadómari tilkynnir úrslitin heldur hann svokallaða "oddadómararæðu" þar sem kemur fram hvort liðið sigraði, hver ræðumaður kvöldsins er (ræðumaður kvöldsins er stigahæsti ræðumaðurinn) og heildarmunur liða. Ræðumaður kvöldsins í úrslitakeppninni er titlaður „ræðumaður Reykjavíkur“. Engin tímamörk eru á oddadómararæðunni og því dregst hún oftar en ekki á langinn til þess að halda áhorfendum spenntum. Dómblað. Notast er við dómblað Morfís. Þar eru gefnar einkunnir (1-10 stig) í fjórum liðum fyrir hverja ræðu. Í lok keppni eru liðirnir svo margfaldaðir með ákveðnum stuðli. Liðsstjóraræður gilda ekki til stiga. Málflutningur. Í þessum lið eru öryggi og flutningur ræðumannsins metin. Í flutningi felst hversu vel dómörum finnst ræðumaðurinn ná til sín, hversu sannfærandi hann er, skýrmæltur eða áhrifaríkur. Stig sem gefin eru fyrir málflutning eru margfölduð með þremur. Ræða. Í þessum lið eru gæði ræðunnar sjálfrar metin. Þar spila rök, málfar, áhrifamáttur orða, skemmtanagildi og flæði stærst hlutverk. Hefð hefur skapast fyrir því að ræðumenn byrji fyrri ræðu sína á orðunum "Fundarstjóri, dómarar andmælendur og góðir gestir" og seinni ræðu sína á "Fundarstjóri". Stig sem eru gefin fyrir ræðu eru margfölduð með fjórum. Svör. Í ræðukeppnum þurfa ræðumenn að koma með mótrök og svör við ræðum andstæðingsins. Í þessum lið skipta gæði svara, rök, hnitmiðun, málfar, skemmtanagildi, öryggi flutnings, viðbrögð við ófyrirsjáanlegum rökum og þýðing þeirra fyrir rökræðuna í held mestu máli. Einkunn sem gefin er fyrir ræðu er margfölduð með fjórum. Geðþóttastuðull. Þessi liður er einnig þekktur undir nafninu hughrif. Í þessum lið er dómaranum algjörlega frjálst að setja hvaða einkunn sem er á skalanum 1-10. Margir dómarar gefa þó ræðumönnunum samsvarandi einkunn í geðþóttastuðlinum. Stig sem eru gefin fyrir geðþóttastuðul eru ekki margfölduð. Refsistig. Til þess að mæla tímann skipar hvort liðið um sig einn tímavörð og sá tími sem gildir er meðaltal tímanna tveggja. Þegar þrjátíu sekúndur eru eftir af ræðu skal sá tímavörður sem situr nær pontunni leggja hvítt spjald á pontuna til viðvörunnar um að tíminn sé að renna út. Athugið að aðeins oddadómari gefur refsistig. Meðalstig framsöguræðu. Vegna þess að frummælandi svarar ekki í fyrri ræðunni sinni var þessum lið bætt inn á dómblaðið til þess að vega upp á móti þeim stigum. Til þess að finna meðalstig framsöguræðu skal deila stigum hennar í tvennt og bæta því við heildarstig ræðumannsins. Ef hálfur kemur upp skal námundað upp. Athugið að leggja meðalstig framsöguræðu við heildarstig ræðumanns en ekki keppninnar því, ólíkt því sem margir halda, getur það haft áhrif á úrslit keppninnar. Marg Helgenberger. Mary Marg Helgenberger (fædd 16. nóvember 1958) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í og "China Beach". Einkalíf. Marg (borið fram sem hart „G,“ ólíkt nafninu Marge) Helgenberger er fædd í Fremont í Nebraska og er af írskum og þýskum uppruna. Fyrsta vinna hennar sem unglingur var sem kjötskeri („boner“) í kjötvinnslunni þar sem faðir hennar vann. Marg stundaði nám við Kearney State College (núna University of Nebraska at Kearney) í Kearney í Nebraska og síðan við Northwestern Universitys School of Speech í Evanston, Illinois (núna School of Communication) og útskrifaðist með BS. gráðu í máli og sjónleik. Vann sem veðurfréttakona á KHGI-TV sjónvarpsstöðinn í Kearney, Nebraska með námi. Helgenberger hefur í gegnum árin verið á lista yfir fallegustu konur Hollywoods. Árið 2002 þá var hún á lista People tímaritið yfir "50 Most Beautiful People", einnig var hún á lista Esquire Magazine’s “5 More Women We Love” frá 2002, var númer 15 af 25 mest aðlaðandi konum í ameríku árið 2004. Einnig árið 2004 þá var var hún númer 35, 30, 29, 20, 17, 12 og 9 yfir lista The Glamour Girls Hot 100 vegna myndarinnar In Good Company og forsíðu TV Guide. Var hún á listanum í um 10 vikur og var eina viku í top tíu listanum. Hún er fjóðra elsta konan til þess að vera á top tíu listanum. Persónan hennar í, Catherine Willows, ásamt persónunni Gil Grissom, voru nr. 82 yfir "Bravo's 100 Greatest TV Characters". Í mars 2006, Catherine Willows var nefnd númer 6 yfir The Star's Top Ten Hottests TV Characters. Árið 2007, var Marg nefnd ein af vingjarnlegustu stjörnum samkvæmt E! online's Answer B!tch Q&A page. Í mars 2007 Helgenberger var nefnd ein af kynþokkafyllstu sjónvarpsstjörnum ársins 2007 af TV Guide Magazine. Entertainment Weekly hafði hana inni á lista þeirra yfir "The EW 100 Stars We Love Right Now" frá 2007. Í apríl 2008, gekk hún til liðs við hóp af stjörnum sem mátti sjá vera með mjólkurskegg til þess að auglýsa (Got Milk?).. Árið 1984, þá kynntist Marg, Alan Rosenberg, sem var gestaleikari í "Ryan's Hope". Urðu þau vinir og byrjuðu að vera saman árið 1986. Giftust þau árið 1989 og eiga saman einn son, Hugh Howard Rosenberg, nefndur eftir föður Helgenbergers, Hugh Helgenberger. Þann 1. desember, 2008, var tilkynnt að þau væru skilin, og 25. mars, 2009, óskaði hún eftir skilnaði. Vegna baráttu móður hennar gegn brjóstakrabbameini, þá urðu Helgenberger og Rosenberg viðriðin baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Hafa þau haldið góðgerðarsamkomu sem kallast "Marg and Alan's Celebrity Weekend" hvert ár í Omaha, Nebraska síðan 1997. Leikhús. Áhugi Helgenberger á leiklist kviknaði eftir að hún lék Blanche Dubois í leikritinu "A Streetcar Named Desire" í háskóla. Helgenberger var spottuð af útsendara frá sjónvarpsóperunni Ryan´s Hope sumarið 1981 þegar hún var að leika í Shakespeare leikritinu "Taming of the Shrew". Sjónvarp. Stuttu eftir að hafa lokið námi, þá fékk Marg hlutverk í sápuóperunni sem hin taugastrekkta lögreglukona Siobhan Ryan Novak sem hún lék til ársins 1986. Árið 1988 þá var Marg ráðin til þess að leika í sjónvarpsþættinum China Beach sem Karen Charlene 'K.C.' Koloski. Frammistaða hennar í China Beach gaf henni Emmy verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki í drama seríu árið 1990. Marg lék í China Beach allt til ársins 1991. Helgenberger fékk stóra tækifærið þegar henni var boðið hlutverk Catherine Willows í CBS sjónvarpsþættinum. Áður en upptökur hófust þá heimsótti Helgenberger líkhús Clark sýslunnar í Nevada til þess að sjá hvernig krufningar færu fram og hverning vinnan færi fram í líkhúsum. Frammistaða hennar sem Willows hefur gefið henni tvennar Emmy og Golden Globe tilnefningar. Marg yfirgaf þáttinn í janúar 2012 eftir að hafa verið hluti af honum síðan 2000. Kvikmyndir. Árið 1989 kom Marg fram í sinni fyrstu kvikmynd sem var hryllingsmyndin After Midnight, síðan lék hún í kvikmyndinni Always eftir Steven Spielberg með Richard Dreyfuss, Holly Hunter og John Goodman. Um miðjan níunda áratuginn, kom Marg fram í Crooked Hearts (1991) með Peter Berg, Vincent D´Onofrio, Jennifer Jason Leigh, Noah Wyle og Peter Coyote. Einnig lék hún í The Cowboy Way (1994) á móti Woddy Harrelson. Árið 1995, þá lék hún í kvikmyndinni Species sem Dr. Laura Baker og endurtók hlutverkið í framhaldsmyndinni Species II (1998). Hefur hún einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: Fire Down Below, In Good Company, Always, Bad Boys og Peacemaker. Tenglar. Helgenberger, Marg Clark Kent. Clark Kent er maður sem betur er þekktur sem Superman. Hann vinnur á Daily Planet sem blaðamaður og ljósmyndari. Clark er mjög hrifinn af konu sem heitir Lois Lane. Hún vinnur hjá saman dagblaði. Hann er aðra stundina hann sjálfur en aðra er hann superman. Lois Lane. Lois Lane er náinn samstarfsmaður Clark Kent, öðru nafni Superman. Þau vinna bæði sem blaðamenn hjá Daily Planet. Hún er þekkt í þáttunum frá 1952, Adventures of Superman og nýlegri myndum um Superman og hans ævintýri. Jalal Dabagh. Jalal Dabagh (fæddur 12. maí 1939 í bænum Silêmanî í Suður-Kúrdistan) er kúrdískur stjórnmálamaður, rithöfundur og blaðamaður. Jalal Dabagh hefur skrifað og þýtt margar bækur, meðal annars þýtt á kúrdísku "Kommúnistaávarpið". Serres. Serres (gríska: Σέρρες) er borg í Makedóníuhéraði í Grikklandi. Borgin stendur á sléttu, um 24 km. norðaustur af Strymon fljóti og um 69 km. norðaustur af höfuðstað Makedóníuhéraðs, Þessalóniku. Ródópe-fjöll liggja einnig í norðaustur af borginni. Íbúafjöldi árið 2001 var 56.145. Milo Pressman. Milo Pressman er einn af persónunum í bandarísku sjónvarpsþáttunum 24 og er leikinn af Eric Balfour. Morgron 2009. Morgron 2009 var í fyrsta skiptið sem ræðukeppnin Morgron var haldin eins og hún er nú. Sigurliðið var lið Seljaskóla. Úrslit. Úrslit Morgron 2009 fóru fram í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Seljaskóli hafði betur gegn Hagaskóla. Umræðuefnið var "Ef við finnum geimverur, eigum við að boða þeim kristna trú?", Hagaskóli með, Seljaskóli á móti. Ræðumaður kvöldsins var Álfur Birkir Bjarnason úr Seljaskóla. George Eads. George Coleman Eads III (fæddur 1. mars 1967) er bandarískur leikari þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Nick Stokes í '. Einkalíf. Eads fæddist í Fort Worth,Texas og ólst upp í Belton, Texas. Á hann eldri systur, Angela Eads Tekel. George útskrifaðist frá Belton High School árið 1985 og frá Texas Tech Háskólanum árið 1989 með gráðu í markaðsfræði. Í háskóla þá var hann meðlimur bræðralagsins Phi Delta Theta. Á hlut í Hollywood-matsölustaðnum CineSpace sem er „matur og bíó“-staður. Þegar hann byrjaði í CSI þá gaf líksviðsmyndin honum endurteknar martraðir. Í einni af þeim, samkvæmt George, þá eru blóðslettur — engin öskur og stórir stafir með orðinu DOA. Ferill. Til þess að fylgja eftir leikaraferli sínum, þá flutti hann til Los Angeles, Kaliforníu, í pallbíl sem hann fékk lánaðan frá stjúpföður sínum. Þegar hann kom svo til Los Angeles, þá gat hann aðeins keyrt á daginn þar sem höfuðljósin voru brotin. Eads fékk fyrsta tækifæri sitt í sápuóperunni "Savannah". Þó að persóna hans dó í fyrsta þættinum, Eads varð svo vinsæll að framleiðendurnir héldu áfram að nota hann í endurhvörf og var á endanum settur aftur inn sem eineggja tvíburabróðir persónunnar. Eads var gestaleikari í "ER", og vann við nokkrar sjónvarpsmyndir á borð við "Crowned and Dangerous" með Yasmine Bleeth frá 1997. Árið 2000 Eads varð einn af aðalleikurum CBS sjónvarpseríunnar ', þar sem hann leikur Las Vegas réttarrannsóknarmanninn Nick Stokes. Auk þess að leika í ' hefur Eads unnið við fleiri sjónvarpsmyndir, "Monte Walsh" með Isabellu Rossellini og "Evel Knievel", þar sem hann lék Evel Knievel. Ágreiningur. Árið 2004, Eads og "CSI" samleikkonan Jorja Fox fengu mikla fjölmiðlaumfjöllun þegar það fréttist að þau hefðu verið rekin úr CSI, vegna að talið var vegna ágreinings vegna samnings. Sagt var frá því að Eads hefði mætt seinnt til vinnu fyrsta dag fimmtu seríunnar, hann segist hafa sofið yfir sig, og að Fox hafi ekki sent bréf til CBS að hún myndi mæta til vinnu. Þessi ágreiningur var leystur fljótlega og þau voru bæði endurráðin en hvorug þeirra fékk launahækkun eins og samstarfsleikarar þeirra. Árið 2006 varð Eads fyrir neikvæðri fréttumfjöllun í Ástralíu þar sem hann átti að koma fram á Logie Award (sama og Emmy verðlaunin). Talið er að fjölmiðlafulltrú hans hafi hringt í skipuleggjendurnar tveimur tímum áður en atburðurinn átti að byrja og hafi sagt að Eads „líkaði ekki rauða dregilinn.“ Einnig á hann að hafa átt í nokkrum ástarsamböndum við ástralskar sápuóperustjörnur. Tenglar. Eads, George Sakis Rouvas. Anastasios „Sakis“ Rouvas (gríska: Αναστάσιος „Σάκης“ Ρουβάς, fæddur 5. janúar 1972) er grískur söngvari. Karl hamar. Karl hamar (latína: "Carolus Martellus"; um 688 – 22. október 741) var frankverskur leiðtogi sem var hallarbryti og þar með valdamesti maðurinn í hinu gríðarstóra Frankaveldi Mervíkinga eftir nokkur átök við aðra aðalsmenn. Hann er þekktastur fyrir sigur sinn á márum frá Spáni í orrustunni við Tours árið 732 sem stöðvaði útþenslu íslam í Vestur-Evrópu og fékk honum viðurnefnið „hamar“. Sonur hans Pípinn stutti varð fyrsti konungur franka af ætt Karlunga. Jean Rollin. Jean Michel Rollin Le Gentil (fæddur 3. nóvember 1938 í París, Frakklandi, dáinn 15. desember 2010) var franskur kvikmyndagerðamaður. Hann er þekktastur fyrir erótískar vampírumyndir. Byggvín. Litur byggvíns getur verið frá rauðgullnum að svörtum. Byggvín er mjög áfengt öl upprunnið í Bretlandi á 19. öld. Venjulega er byggvín 8-12% að styrkleika sem skýrir nafnið þótt það sé í raun bjór þar sem það er bruggað úr korni fremur en ávöxtum. Bjórstíll. Bjórstíll er hugtak sem er notað til að aðgreina og flokka bjór eftir ýmsum einkennum á borð við bruggunaraðferð, bragð, lit, styrkleika og uppruna. Hugtakið er tiltölulega nýlegt og á rætur að rekja til tilrauna höfunda bóka um bjór til að flokka ólíkar gerðir. Helstu ættir bjórs eru öl (yfirgerjaður bjór), lager (undirgerjaður bjór), villibjór (gerjaður með villigerjun) og bjór gerður með blandaðri aðferð. Lageröl. Lageröl, lagerbjór eða bara lager (úr þýsku: "lager" „geymsla“) er fremur ljós bjór sem gerjaður er með lagergeri í kulda („undirgerjaður bjór“). Lageröl er langvinsælsti bjórstíllinn, og er hann drukkinn í meira magni en aðrir stílar hvarvetna. Vinsældir sínar á lageröl meðal annars að þakka aðferð við samfellda gerjun sem nýsjálendingurinn Morton W. Coutts fann upp árið 1953, og sem gerði framleiðslutíma lageröls sambærilegan við framleiðslutíma hefðbundins öls. Helstu afbrigði lageröls eru pilsner, Dortmunder Export og marsbjór ("Märzen"). Samkeppni. Samkeppni er keppni milli einstaklinga, hópa, dýra, þjóða eða annarra um svæði eða auðlindir af einhverju tagi svo sem mat eða vatn. Samkeppni er sjálfsprottið fyrirbæri sem á sér stað í hvert skipti sem tveir eða fleiri keppa um eitthvað sem ekki er hægt að deila þeirra á milli með góðu móti. Hugtakið samkeppni er sérstaklega notað í hagfræðilegu tilliti og er þá (oftast) átt við samkeppni fyrirtækja á markaði. Þegar samkeppni er takmörkuð er gjarnan talað um fákeppni. Samkeppni getur þó átt við allt milli himins og jarðar. Til að mynda er sagt að samkeppni milli íþróttamanna hvetji þá til afreka. Rúgbjór. Rúgbjór eða rúgöl er bjór sem gerður er úr meltum rúgi að hluta en meltu byggi eða öðru korni að hluta. Þessi bjór er upprunninn í Bæjaralandi þar sem hann var gerjaður með sama geri og hveitibjór. Rúgbjór er venjulega um 5% að styrkleika og dökkbrúnn á lit en getur verið miklu léttari og ljósari (t.d. kvass og sahti). Dæmi um rúgbjór eru roggenbier og rauchroggen (Þýskaland), sahti (Finnland), kvass (Mið- og Austur-Evrópa). Selárdalur (Vopnafirði). Selárdalur er dalur í Vopnafirði. Í honum voru 15 bæir og dalurinn allbyggður en nú eru aðeins Hróaldsstaðir í byggð. Tún kól var í dalnum á árunum 1965-70, þannig að bændur töldu endurræktun ómögulega. Þeir seldu veiðifélagi í Reykjavík jarðirnar. Björn Guðnason. Björn Guðnason (f. um 1470, d. 1518) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 15. og 16. öld. Hann bjó í Ögri við Ísafjarðardjúp, var valdamesti maður á Vestfjörðum um sína daga og átti í miklum deilum við Skálholtsbiskup. Foreldrar Björns voru Guðni Jónsson (um 1430-1507), sýslumaður og lögréttumaður á Hvammi í Hvammssveit og Kirkjubóli í Langadal, bróðir þeirra Páls Jónssonar lögmanns á Skarði og Orms Jónssonar í Klofa og síðar á Skarði, og kona hans Þóra Björnsdóttir, laundóttir Björns Þorleifssonar ríka. Á meðal systkina Björns var Helga, kona Torfa Jónssonar í Klofa á Landi, bandamanns Bjarnar í deilum við Skálholtsbiskup. Bjðrn var sagður héraðsríkur stórbokki, óvæginn og harður í horn að taka (Jón Espólín kallar hann illmenni) og deildi hart um vald yfir kirkjujörðum við Stefán Jónsson biskup í Skálholti. Vorið 1513 beittu þeir Jón Sigmundsson lögmaður, sem hafði átt í hörðum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup, sér fyrir Leiðarhólmssamþykkt, þar sem höfðingjar skuldbundu sig til að þola ekki biskupum ójöfnuð en hlíta þó kirkjulögum. Björn mun hafa samið það skjal. Sagt er að Stefán hafi sumarið 1517 komið í Ögur með 300 manna lið en Björn hafi haft að minnsta kosti jafnmarga menn hjá sér. Þó kom ekki til átaka og þeir sættust að sinni en dóu báðir á næsta ári. Kona hans var Ragnhildur Bjarnadóttir frá Ketilsstöðum á Völlum, dóttir Hákarla-Bjarna Marteinssonar og konu hans Ragnhildar, dóttur Þorvarðar Loftssonar ríka. Á meðal barna þeirra var Guðrún eldri, sem fyrst giftist Bjarna Andréssyni bónda á Brjánslæk og síðar Hannesi Eggertssyni hirðstjóra. ÍNN. ÍNN er einkarekin, íslensk sjónvarpsstöð, sem hóf útsendingar 2. október 2007. Stöðin er í eigu Ingva Hrafns Jónssonar, stjórnmálafræðings og fyrrverandi fréttastjóra RÚV og Stöðvar 2. ÍNN sendir aðallega út viðtalsþætti um stjórnmál, félagsstarf og daglegt líf. Meðal þátta á stöðinni má nefna Hrafnaþing, Óli á Hrauni, Í nærveru sálar,Punkturinn,Borgarlíf og í kallfæri Puyehue (eldfjall). Puyehue (spænska: Volcán Puyehue) er virk eldkeila í Andesfjöllum í Suður-Síle. Síðast gaus Puyehue (Cordón Caulle) árið 2011. Mapudungun. Mapudungun er tungumál Mapuche-manna í Chile og Argentínu og eru þar um 440.000 menn sem tala málið. Callaqui. Callaqui (spænska: Volcán Callaqui) er virk eldkeila í Andesfjöllum í Mið-Síle. Jarðfræði Callaqui-eldfjallsins er svipuð og Heklu. Plágan síðari. Plágan síðari var mjög mannskæð farsótt sem gekk á Íslandi á árunum 1494-1495. Yfirleitt er talið að þetta hafi verið lungnapest, sú sama og Svartidauði, sem gekk um landið í upphafi aldarinnar, en þó er ekki fullvíst um hvers konar sjúkdóm var að ræða, en hann var bráðsmitandi og bráðdrepandi. Plágan er sögð hafa borist til landsins með ensku skipi sem kom til Hafnarfjarðar og segir svo í Árbókum Espólíns: „Um sumarid komu enskir kaupmenn út í Hafnarfyrdi; þar þótti mönnum sem fugl kæmi úr klædi bláu, at því er Jón prestr Egilson segir, og þá var talat; giördi þvínæst sótt mikla, og mannskiæda í landi hér.... tókst mannfallid um alþíng, oc stód yfir, fyrir sunnann land, fram yfir Krossmessu um haustid, en rénadi nockud þá loft kólnadi.“ Pestin gekk þetta sumar um Suður- og Vesturland en árið eftir um Norður- og Austurland. Vestfirðingum tókst að verjast smiti og barst hún aldrei til Vestfjarða. Í sögnum er sagt að konur hafi fundist dauðar með skjólur sínar undir kúm á stöðlum eða við keröld í búrum og ungbörn hafi sogið mæður sínar dauðar. Þeir sem fylgdu líki til grafar hrundu niður á leiðinni og fóru stundum sjálfir í þær grafir sem þeir grófu öðrum. Hvað sem þessum sögum líður er líklegt að mannfall hafi verið heldur minna en í Svartadauða, a.m.k. virðast áhrifin á þjóðfélagið og atvinnulífið ekki hafa verið alveg jafnmikil. Þó fjölgaði eyðibýlum verulega og sagt er að fátækt fólk hafi komið frá Vestfjörðum eftir pestina og getað fengið góðar jarðir til búsetu. Kirkjan eignaðist líka margar jarðir, sem fólk gaf sér til sáluhjálpar. Eric Szmanda. Eric Kyle Szmanda (fæddur 24. júlí 1975) er bandarískur leikari sem erþekktastur fyrir hlutverk sitt sem Greg Sanders í '. Einkalíf. Szmanda er fæddur og uppalinn í Milwaukee í Wisconsin og er af pólskum ættum. Útskrifaðist hann frá "American Academy of Dramatic Arts" í Pasadena. Szmanda er mikill aðdáendi Marilyn Manson. Árið 2003 kom hann fram í tónlistarmyndbandi Mansons við lagið „Saint“ ásamt Asia Argento, sem leikstýrði einnig. Myndbandið hefur aldrei verið frumsýnt í Bandaríkjunum. Í fyrstu myndinn sem hann vann við, framleiðandinn bað um að hann skipti um nafn. Szmanda er aðdáandi hljómsveitarinnar Sigurrósar. Nafnið hans er borið fram sem „Amanda“ með „z“. Eric Szmanda styrkir bandarísku herferðina fyrir Búrma og hefur hann ferðast til Taílands til þess að sjá aðstæður flóttamanna sem hafa flúið Búrma. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Szmanda var árið 1999 í sjónvarpsmyndinni "Dodge´s City". Frá 1998-1999 lék hann Jacob Resh í "The Net". Hefur hann síðan 2000 leikið eitt af aðalhlutverkunum í sem Greg Sanders. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Szmanda var árið 2000 í "Big Time". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Rules of Attraction", "Little Athens" og "Shadow of Fear". Tenglar. Szmanda, Eric Szmanda, Eric Szmanda, Eric Szmanda, Eric Benediktsregla. Benediktsregla er stærsta og fjölmennasta klausturreglan í kaþólskum sið og er kennd við Benedikt frá Núrsíu, sem stofnaði hana á sjöttu öld e.Kr. á Ítalíu. Elst og þekktast þessara klaustra er Monte Cassino, sem Benedikt stofnaði árið 529. Benediktsklaustur, bæði munka- og nunnuklaustur, voru síðan stofnuð um alla Evrópu á næstu öldum og seinna um allan heim. Benediktsklaustur á Íslandi í kaþólskum sið voru Þingeyraklaustur (1133), Munkaþverárklaustur (1155) og Hítardalsklaustur (1155), en það síðastnefnda var skammlíft. Nunnuklaustrin á Kirkjubæ (1186) og Reynistað (1295) voru bæði Benediktsklaustur. Robert David Hall. Robert David Hall (fæddur 9. nóvember 1947) er bandarískur leikari þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Albert Robbins í '. Einkalíf. Robert fæddist í East Orange í New Jersey. Hall stundaði nám við Tustin (CA) High School og fór í UCLA þaðan sem hann útskrifaðist árið 1971 með gráðu í enskum bókmenntum. Hall er leikinn gítarleikari og fyrrverandi atvinnutónlistamaður. Í nokkur ár þá var hann þekktur útvarps DJ í Los Angeles. Hann hefur einnig ljáð rödd sína í mörgum sjónvarpsauglýsingum og teiknimyndaþáttum. Árið 1978 þurfti að taka af honum báðar lappirnar vegna áreksturs sem hann lendi í við flutningabíl sem kramdi bílinn hans. Slysið gerði það að verkum að bensíngeymirinn sprakk, með þeim afleiðingum að 65% af líkama hans brann. Notar hann gervilimi til þess að geta hreyft sig. Nokkrar perónur hans, þar á meðal CSI persóna hans hafa talað opinskátt um fötlunina. Er hann áberandi talsmaður fyrir fatlaða Bandaríkjamenn. Ferill. Ásamt því að hafa verið í "CSI: Crime Scene Investigation" hefur Hall komið fram í myndum á borð við "Starship Troopers" og "The Negotiator" og hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við "The West Wing" og "L.A. Law". Tenglar. Hall, Robert David Hall, Robert David Hall, Robert David Wallace Langham. Wallace Langham (fæddur 11. mars 1965) í Fort Worth í Texas er bandarískur leikari sem hefur komið fram í mörgum sjónvarpsþáttum sem gestaleikari. Þekktasta hlutverk hans er sem David Hodges í '. Einkalíf. Fæddur í Fort Worth í Texas, fluttist síðan til Los Angeles ásamt móður sinni þegar hann var níu ára. Á tvö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni en er núna giftur Karey Richards. Hann er hluti af risaeðlusýningunni í Disney's Animal Kingdom í Orlando í Flórída. Segir hann að ástæðan fyrir því að hann sé hlut af sýningunni, er að geta farið aftur í tímann og að rödd hans heyrist gegnum alla sýninguna. Í mars 2000 játaði Langham að hafa barið samkynhneigðan fréttaritara slúðublaðs (sem er talinn hafa gert ásakanir gagnvart kærustu Langhams varðandi húðflúr hennar). Fréttaritarinn segir að Langham hafi kallað niðrandi orðum gagnvart samkynhneigðum á meðan hann var að berja hann. Var hann skipaður í þriggja ára skilorðsbundinn dóm og þurfti að skila af sér 450 tímum af samfélagsþjónustu fyrir samkynhneigð samtök. Ferill. Langham fékk fyrsta tækifæri sitt í mynd John Hughes "Weird Science" og "The Invisible Kid" og "ABC Afterschool Special" þættinum „Just a Regular Kid: An AIDS Story“ en síðan skipti yfir í hlutverk hins unga ofsækismann í "Soul Man" og sem klíkuleiðtogi í "The Chocolate War". Kom hann einnig fram í "Daddy Day Care" og "Little Miss Sunshine". Lék hann í "WIOU", en aðaltækifæri hans kom þegar hann var valinn til þess að leika Phil, hinn kaldhæðnis starfsritara fyrir sjónvarpskynninn Garry Shandling í "The Larry Sanders Show". Langham lék síðan í "Veronica's Closet" og "What About Joan?". Hefur hann verið gestaleikari í "Murphy Brown", "NewsRadio", "ER", "Murder, She Wrote", "Sex and the City", "21 Jump Street", "Medium", "The Twilight Zone", "The Outer Limits", "Star Trek: Voyager", "Curb Your Enthusiasm" og "Grace Under Fire". Talaði fyrir Andy French í teiknimyndasögunni "Mission Hill" og sem Care-Bots í "Buzz Lightyear of Star Command", Clayface í "The Batman" og sjávarmeistarann í "Batman: The Brave and the Bold". Hann leikur David Hodges í '. Í áttundu þáttaröð var hann gerður einn af aðalleikurunum. Tenglar. Langham, Wallace Torfi Jónsson í Klofa. Torfi Jónsson í Klofa (um 1460 – 1504) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 15. öld, stórbokki sem átti í hörðum deilum við Stefán Jónsson Skálholtsbiskup og lét drepa Lénharð fógeta árið 1502. Foreldrar Torfa voru Jón Ólafsson, bóndi og sýslumaður í Klofa á Landi, sonur Ólafs Loftssonar ríka Guttormssonar, og kona hans Ingibjörg Eiríksdóttir. Jón dó einhverntíma eftir 1471 og Ingibjörg giftist aftur 1481 Ormi Jónssyni bónda í Klofa og síðar sýslumanni á Skarði á Skarðsströnd. Hann var í fjórmenningsfrændsemi við fyrri mann hennar og þurfti því páfaleyfi til giftingarinnar. Þau Ormur og Ingibjörg áttu í deilum við Stefán Jónsson biskup, meðal annars af því að þau höfðu hjá sér sakamenn sem biskup vildi fá á sitt vald. Torfi, sem bjó í Hvammi í Dölum og Hjörsey á Mýrum áður en hann settist að í Klofa, átti einnig í miklum deilum við biskup, bæði vegna þess að Torfi hélt verndarhendi yfir fólki sem biskup taldi eiga í sökum við kirkjuna en einnig þótti biskupi hann ekki standa vel í skilum með tíundir og önnur gjöld til kirkjunnar. Varð mikill óvinskapur á milli þeirra sem ýmsum sögum fer af og meðal annars er sagt að Torfi hafi að minnsta kosti tvisvar reynt að fara að biskupi í Skálholti en ekki haft erindi sem erfiði. Hann virðist hafa verið hinn mesti ribbaldi og einskis svifist. Þó er sagt að heldur hafi lagast samkomulagið á milli þeirra biskups þegar Torfi veiktist illa á Alþingi, rak upp mikil hljóð og varð svo sterkur, að átta menn þurfti til að halda honum en síðan tókst að binda hann. Kom biskup þar að með öllum þeim prestum sem voru á þingi og báðu þeir allir fyrir Torfa með lestrum og söngvum. Sefaðist Torfi þá nokkuð og þótti stilltari eftir það. Árið 1502 lét Torfi drepa Lénharð „fógeta“, sem fátt er vitað um, erlendan ribbalda sem hafði sest að í Arnarbæli með ránum og yfirgangi, átt í deilum við Torfa og hótað að drepa hann. Fór Torfi að honum með flokk manna og lét aflífa hann á Hrauni í Ölfusi. Torfi skriftaði fyrir Stefáni biskupi eftir dráp Lénharðs en biskup gerði honum ekki miklar sektir, sagði hann hafa unnið það verk manna heppnastan. Á Alþingi 1504 var Torfi enn með yfirgang, vildi hrekja Arnór Finnsson sýslumann úr dómi sem hann hafði verið skipaður í og gekk að dómnum með lið vopnað bogum, byssum, sverðum, spjótum og arngeirum og þrengdi að Arnóri. Ekki löngu seinna dó Torfi og fer tvennum sögum af andláti hans, hann er ýmist sagður hafa dáið úr sótt á Skíðbakka í Landeyjum eða úr drykkjuskap á Fíflholtsþingi. Eftir dauða hans gerði ekkja hans sátt við Stefán biskup og borgaði honum þrjár jarðir og góðan silfurkross til að Torfi gæti fengið legstað í Skálholti eins og hann hafði kosið sér. Kona Torfa var Helga Guðnadóttir (d. 1544), sem var dóttir Guðna Jónssonar sýslumanns á Kirkjubóli, bróður Orms stjúpföður Torfa og Páls Jónssonar sýslumanns á Skarði, og konu hans Þóru, dóttur Björns Þorleifssonar hirðstjóra á Skarði. Bróðir hennr var Björn Guðnason sýslumaður í Ögri og voru þeir mágarnir samherjar í deilum við Stefán biskup og hans helstu mótstöðumenn. Þau Helga og Torfi áttu fjölda barna sem flest voru á barnsaldri þegar faðir þeirra lést. Helga bjó ekkja í Klofa til 1525. Puyehuevatn. Puyehuevatn (spænska: Lago Puyehue) er stöðuvatn á mörkum fylkjanna Los Ríos og Los Lagos í Suður-Chile. Entre Lagos er stærsta borg við vatnið, fór að byggjast 1938. Puyehuevatn er 156 ferkílómetrar að stærð og dýpst 135 m. Þar er góð lax- og silungsveiði. Úr vatninu rennur Río Pilmaiquén. Guð blessi Ísland. „Guð blessi Ísland“ er setning sem Geir Haarde lauk með sjónvarpsávarpi sínu til þjóðarinnar á, skömmu eftir bankahrunið á Íslandi þann 6. október 2008. Orðin urðu fleyg sem tákn fyrir kreppuna á Íslandi. Að sögn Geirs áttu orðin að vera „vinaleg kveðja“ en ekki trúarleg bón. Samnefnt útvarpsleikrit eftir Símon Birgisson og Malte Scholz var frumflutt hjá Útvarpsleikhúsinu í september 2009 og heimildarmynd með sama heiti eftir Helga Felixson var frumsýnd 6. október árið eftir (sjá "Guð blessi Ísland (kvikmynd)"). Guð blessi Ísland (kvikmynd). "Guð blessi Ísland" er íslensk heimildakvikmynd eftir Helga Felixson, kvikmyndagerðarmann. Heiti myndarinnar vísar til fleygra "lokaorða" Geirs Haardes í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar 6. október 2008 við upphafi Bankahrunsins. Katy Perry. Katheryn Elizabeth Hudson (fædd 25. október 1984, betur þekkt undir listamannsnafninu Katy Perry, er bandarísk söngkona og lagahöfundur. Perry fæddist í Santa Barbara í Kaliforníu og voru foreldrar hennar prestar. Hún ólst upp við að hlusta á gospeltónlist og söng í kirkju sem barn. Eftir að hafa klárað GED-próf fyrsta árið í menntaskóla (e. "highschool") byrjaði hún að vinna að tónlistarferlinum. Hún gaf út sjálftitlaða gospel-plötu árið 2001 undir nafninu Katy Hudson en platan náði engum vinsældum. Hún tók upp plötu og kláraði meirihlutann af sólóplötu á árunum 2004-2005 en hvorug platan kom út. Eftur að hafa skrifað undir samning við Capitol Music Group árið 2007, fjórða fyrirtækið á sjö árum, fékk hún sér sviðsnafnið Katy Perry og gaf út fyrstu Internet-smáskífuna sína, "Ur So Gay", í nóvember sama ár og fékk lagið mikla athygli en lenti ekki á neinum listum. Hún varð fræg þegar hún gaf út aðra smáskífuna sína, "I Kissed a Girl" árið 2008 sem toppaði alla bandaríska lista. Fyrsta hefðbundna sólóplata Perry, "One of the Boys", kom út sama ár og var í 33. sæti yfir best seldu plötur heims árið 2008. Platan fór í platínumsölu; "I Kissed a Girl" og önnur smáskífan, "Hot N Cold", fóru báðar í margfalda platínumsölu. Hún varð þekkt fyrir að klæðast óhefðbundnum kjólum, blandi af litum og eldri tísku. Næsta plata hennar, "Teenage Dream", kemur út í ágúst 2010. Perry átti í löngu ástarsambandi við Travis McCoy og var gift leikaranum Russell Brand í 1 ár. Þau skildu árið 2011. Æska. Katy Perry fæddist sem Katheryn Elizabeth Hudson í Santa Barbara, Kaliforníu. Hún er annað barn foreldra sinna en þau eru bæði prestar. Katy á eldri systur og yngri bróður. Móðir hennar hetir Mary Hudson (áður Perry) og ólst hún upp í S-Kaliforníu. Frænka og frændi Katy í móðurættina voru handrithöfundurinn Eleanor Perry og leikstjórinn Frank Perry. Perry er af portúgölskum og þýskum ættum. Perry var mikið inni í prestdómi foreldra sinna; hún söng í kirkjunni þeirra þegar hún var 9-17 ára. Hún ólst upp við að hlusta á gospeltónlist og var ekki leyft að hlusta á það sem móðir hennar kallaði „veraldlega tónlist“. Perry gekk í kristna skóla og fór í kristnar sumarbúðir. Sem barn lærði Perry að dansa í afþreyingarbúðum á Santa Barbara. Kennararnir voru vel menntaðir og byrjaði hún á að læra swing, Lindí hopp, og jitterburg. Hún tók GED-próf eftir fyrsta árið í menntaskóla og ákvað að hætta í skóla til að láta reyna á feril í tónlist. Perry byrjaði upphaflega að syngja „vegna þess að ég var á þeim tímapunkti í æskunni þar sem ég var að herma eftir systur minni og gerði allt sem hún gerði.“ Systir hennar æfði sig með kasettum og Perry tók þessar kasettur þegar sjálf þegar systir hennar var ekki heima. Hún æfði lög og flutti þau fyrir foreldra sína sem lögðu til að hún myndi fara í söngtíma. Hún greip tækifærið og byrjaði í tímum 9 ára og hætti 16 ára. Hún skráði sig í tónlistarakademíuna á Santa Barbara og lærði ítalskan óperusöng í stuttan tíma. Perry, Katy Villarrica (eldfjall). Villarrica (spænska: "Volcán Villarrica") er virk eldkeila í Andesfjöllum í Suður-Chile. Síðast gaus Villarrica árið 2008. Villarrica er hæsta fjall í Los Ríos-fylki Valdivia. Valdivia er borg í Chile um 750 km sunnan Santíagó. Borgin er höfuðborg Los Ríos-fylkis, íbúar eru 127.750 (2002). Austral-háskóli liggur i Vadivia. Borgin var stofnsett af Pedro de Valdivia 9. febrúar 1552 og varð fljótt aðferðpunktur spænska heimsveldisins. Hollenskir sjóræningjar hurfu frá rústum bæjarins Valdivia í Chile árið 1643. Árið 1575 og 1960 var mikill jarðskjálfti í borginni. Peter Foote. Peter Foote – ("Peter G. Foote", fullu nafni "Peter Godfrey Foote") – (26. maí 1924 – 29. september 2009) var enskur textafræðingur og prófessor í norrænum fræðum við University College London. Hann var um langt skeið fremsti fræðimaður Englendinga á sviði norrænna fræða. Æviágrip. Peter Foote fæddist og ólst upp í Swanage í Dorset, næst yngstur fimm bræðra. Faðir hans var slátrari og tókst að koma yngstu sonum sínum til mennta. Peter hóf háskólanám 1942 við University College of the South-West í Exeter, en var kallaður í herinn 1943 og gegndi herþjónustu í Austurlöndum fjær til 1947. Hann tók þá aftur til við námið og lauk BA prófi í ensku og norrænum fræðum við University College London 1948. Fékk þá norskan styrk og var í Háskólanum í Osló 1948–1949 undir handarjaðri Anne Holtsmark. Tók síðan aftur upp þráðinn í University College London. Árið 1950 varð hann aðstoðarkennari í forníslensku við skandinavísku deildina, sem þá var innan enskudeildarinnar. Frami hans var skjótur, hann var fyrst lektor, síðan dósent og varð loks prófessor í norrænum fræðum 1963, uns hann lét af störfum 1983. Hann varð forseti nýstofnaðrar norrænudeildar skólans 1963 og byggði hana upp af miklum dugnaði og framsýni, svo að hún varð fremst í sinni röð á Bretlandseyjum. Peter Foote var einn af fremstu fræðimönnum á sínu sviði og liggja eftir hann fjölmargar bækur og greinar um íslenskar fornbókmenntir. Úrval þeirra birtist í tveimur afmælisritum, sjá hér neðar. Hann sá um tvær útgáfur Jóns sögu helga, 2003, fyrir Hið íslenska fornritafélag og Árnasafn í Kaupmannahöfn. Hann annaðist þýðingu Grágásar á ensku, í félagi við Andrew Dennis og Richard Perkins. Hann vann mikið með öðrum fræðimönnum, með því að semja inngangsritgerðir, þýða texta eða semja skrár. Þekktasta verk hans mun þó vera bókin "The Viking Achievement" (1970), sem hann samdi með fornleifafræðingnum David M. Wilson. Hann hafði afburðaþekkingu á evrópskum miðaldafræðum, og taldi slíkt nauðsynlegan bakgrunn við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum. Hann var læs á margar tungur, bæði nútímamál og hin klassísku fornmál. Hann lagði áherslu á skýra framsetningu og var sjálfur mjög ritfær maður. Peter Foote starfaði mikið innan Víkingafélagsins í London (Viking Society for Northern Research) frá 1952, var ritari og tvisvar forseti félagsins 1974–1976 og 1990–1992, og ritstjóri tímaritsins, Saga-Book, 1952–1976. Hann var heiðursfélagi Hins íslenska Bókmenntafélags og var þrisvar sæmdur Fálkaorðunni. Hann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands og Uppsalaháskóla, og félagsmaður í mörgum vísindafélögum. Peter Foote átti nána samleið með Stofnun Árna Magnússonar og systurstofnun hennar í Kaupmannahöfn. Hann hafði frábær tök á íslensku, átti hér marga vini og var hér stundum kallaður Pétur Fótur. Kona Peters Foote var Eleanor McCaig (d. 2006), hjúkrunarkona sem hann kynntist í herþjónustunni. Þau giftust 1951 og eignuðust þrjú börn, Alison, Judith og Davis. Þýðingar. Meðal fornritaþýðinga sem Peter Foote endurskoðaði og gaf út fyrir "Everyman's Library", eru Heimskringla (1961), Laxdæla saga (1964) og Grettis saga (1965). Einnig þýddi hann hið þekkta kynningarrit: "Facts about Iceland" á ensku, fyrst 1951. Tenglar. Foote, Peter Foote, Peter Los Ríos-fylki. Los Ríos-fylki í Chile (spænska: "Región de Los Ríos", eða "XIV. Región") er fylki í Suður-Chile, um miðbik landsins. Höfuðborg Los Ríos-fylkis er Valdivia, 15 km frá Kyrrahafi. Los Ríos-fylki liggur að Araucanía-fylki í norðri, Argentína í austri, Los Lagos-fylki í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Los Ríos-fylki er eitt af 15 fylkjum eða stjórnsýslusvæðum í Chile. Fólksfjöldi (2002): 356.396 manns. Early Icelandic Manuscripts in Facsimile. Early Icelandic Manuscripts in Facsimile – (skammstafað EIM, íslenska: "Forn íslensk handrit í eftirgerð") – er ritröð, sem forlagið Rosenkilde og Bagger í Kaupmannahöfn, gaf út. Frumkvæðið að útgáfunni átti Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn, ásamt þeim sem sátu með honum í fyrstu ritstjórninni, en það voru prófessorarnir: Sigurður Nordal, Reykjavík, Dag Strömbäck, Uppsölum og Magnus Olsen, Osló. Jón Helgason var ritstjóri fyrstu 15 bindanna, kona hans Agnete Loth var ritstjóri 16.–19. bindis og Peter Springborg 19. og 20. bindis (tók við því 19. úr höndum Agnete Loth). Mjög var til útgáfunnar vandað, handritin voru ljósmynduð með bestu tækni síns tíma, og fremstu fræðimenn fengnir til að semja ítarlegar ritgerðir um handritin og sögu þeirra. Bækurnar voru bundnar í vandað rautt band. Gefin voru út 20 bindi og taldist ritröðinni þá lokið. Upphaflega var ætlunin að birta í þessari ritröð handrit í stóru broti (arkarbroti / fólíó), og voru í kynningarbæklingi tilgreind 14 handrit sem átti að ljósprenta, en af þeim birtust átta. Þegar á leið var farið að taka með handrit í minna broti (fjórblöðungsbroti / kvartó = 4to), sem ætlunin hafði verið að birta í "Manuscripta Islandica", en sú ritröð var þá hætt að koma út. 1. bindi EIM kom út 1958, Króksfjarðarbók Sturlungu (AM 122 a fol.), með inngangsritgerð eftir dr. Jakob Benediktsson. 20. bindið kom út 1993, Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta (AM 62 fol.), í útgáfu Ólafs Halldórssonar. Nú er hafin útgáfa á nýrri ritröð á geisladiskum, með prentaðri ritgerð um viðkomandi handrit: "Early Nordic Manuscripts in digital Facsimile", og eru komin út þrjú bindi (2012). Sama forlag gaf út sambærilega ritröð um fornensk handrit, "Early English Manuscripts in Facsimile", og eru komin út 29 bindi (2002). Með hraðri þróun stafrænnar tækni og gagnamiðlunar á veraldarvefnum, hefur opnast möguleiki á að byggja upp stafrænt handritasafn á netinu. Er líklegt að það komi að nokkru leyti í staðinn fyrir ljósprentun handrita, a.m.k. til fræðilegra nota. Hins vegar þarf þá að finna vettvang fyrir rannsóknarritgerðirnar sem fylgdu slíkum útgáfum. Áfram verður þó trúlega markaður fyrir viðhafnarútgáfur af handritum. Entre Lagos. Entre Lagos er bær á Puyehue sveitarfélag í Suður-Chile. Entre Lagos liggur við Puyehuevatn Panguipulli. Panguipulli er borg og sveitarfélag á Suður-Chile. Panguipulliborg liggur við Panguipullivatn. Guðmundur dýri Þorvaldsson. Guðmundur Þorvaldsson dýri (d. 1212) var eyfirskur goðorðsmaður og höfðingi á 12. og 13. öld og er þekktastur fyrir deilur sem hann átti í við Önund Þorkelsson, sem lauk með Önundarbrennu. Guðmundur var sonur Þorvaldar auðga Guðmundssonar (d. 1161) og síðari konu hans, Þuríðar dóttur Guðmundar Þorgeirssonar lögsögumanns. Hann bjó á Bakka í Öxnadal og var auðugur. Á Laugalandi í Eyjafirði bjó Önundur Þorkelsson. Hann átti son sem hét Þorfinnur en Guðmundur átti óskilgetna dóttur sem hét Ingibjörg. Þorfinnur vildi giftast henni en þau voru of skyld til að mega giftast. Guðmundur hafnaði því bónorðinu en þeir feðgar komu þá með hóp manna að Bakka og neyddu Guðmund til að samþykkja ráðahaginn. Biskup lýsti því yfir að börn þeirra skyldu ekki teljast skilgetin. Önundur lét svo nýgiftu hjónin hafa bújörð sína en fór sjálfur að Lönguhlíð í Hörgárdal, rak burtu bóndann sem þar bjó og tók bú hans undir sig þótt hann ætti engan rétt á því. „Lítil er forystan. Hér er nú komin ær ein kollótt, gengin úr dal ofan og þó af ullin harla mjög, og er ei forystusauðurinn fengilegri en svo, en þó ætlar hún nú að annaðhvort skal verða, að hún skal láta af sér allt reyfið eða ganga með fullu reyfi heim." Síðan lét hann kveikja í bænum og þegar logaði leyfði hann konum að ganga út og öðrum sem hann vildi gefa grið. Þorfinnur tengdasonur hans sagði að það væri illa að Ingibjörg væri ekki þarna en Guðmundur svaraði að það væri vel að hún væri þar ekki en þó mundi það fyrir engu standa. Þorfinnur hljóp svo út úr eldinum ásamt fleiri mönnum og voru þeir allir felldir en Önundur brann inni. Önundarbrenna þótti níðingsverk en á Alþingi um sumarið kom Jón Loftsson á sættum og dæmdi brennumenn í þungar fésektir sem þó voru ekki greiddar, enda var Jón þá orðinn aldraður og hrumur og dó skömmu síðar. Guðmundur var síðustu æviárin munkur í Þingeyraklaustri og dó þar 1212. Kona hans var Arndís Pálsdóttir, dóttir Páls Sölvasonar prests í Reykholti og Þorbjargar konu hans og var sonur þeirra Þorvaldur, goðorðsmaður og bóndi á Silfrastöðum. En „sá skapsannmarki lagðist á fyrir Guðmundi, að hann elskaði konur fleiri en þá er hann átti“, eins og segir í Guðmundar sögu dýra, og með öðrum konum átti hann dæturnar Signýju og Ingibjörgu, sem áður er nefnd. Seinni maður Ingibjargar var Hallur Kleppjárnsson, goðorðsmaður á Hrafnagili. Önundur Þorkelsson. Önundur Þorkelsson (d. 7. maí 1197) var eyfirskur höfðingi á 12. öld. Hann átti í deilum við Guðmund dýra Þorvaldsson á Bakka í Öxnadal og lauk þeim deilum með Önundarbrennu, þar sem Önundur og Þorfinnur sonur hans létu lífið ásamt fleiri mönnum. Önundur bjó framan af á Laugalandi í Eyjafirði. Þorfinnur sonur hans vildi kvænast Ingibjörgu laundóttur Guðmundar dýra en þau voru of skyld til að mega giftast og Guðmundur hafnaði bónorðinu en þeir feðgar þvinguðu hann til að samþykkja ráðahaginn. Önundur lét svo nýgiftu hjónin hafa bújörð sína en fór sjálfur að Lönguhlíð í Hörgárdal, rak burtu bóndann sem þar bjó og tók bú hans undir sig þótt hann ætti engan rétt á því. Margt fleira bar þeim Guðmundi á milli og menn Önundar hæddust mjög að Guðmundi. Svo fór að hann stóðst ekki frýjuorðin, fór að Önundi í Lönguhlíð ásamt Kolbeini Tumasyni 7. maí 1197 og lagði eld að bænum. Önundur brann þar inni en Þorfinnur sonur hans var felldur, komst í kirkju en dó eftir þrjá daga. Önundarbrenna. Önundarbrenna eða Lönguhlíðarbrenna var 7. maí 1197, þegar Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn Tumason fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson, sem þar bjó, Þorfinn son hans og fjóra aðra en flestum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu lengi átt í deilum. Brennan var talin níðingsverk en Jóni Loftssyni tókst að koma á sættum á Alþingi um sumarið. Sáttagjörðin var þó ekki haldin, enda dó Jón skömmu síðar. Paul Guilfoyle. Paul Guilfoyle (fæddur 28. apríl 1949) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Kapteinn Jim Brass í '. Einkalíf. Guilfoyle fæddist í Canton í Massachusetts. Stundaði hann nám við Boston College High School og hélt hann ræðu fyrir 2005 útskriftarárganginn. Guilfoyle fór í Lehigh-háskóla árið 1968 og útskrifaðist frá Yale árið 1977 með hagfræði sem aðalfag. Lærði hann við Actor's Studio áður en hann byggði upp talsverðan leiklistarferil á Broadway, þar á meðal tólf ár með Theatre Company of Boston, kom hann fram í The Basic Training af Pavlo Hummel eftir David Rabe með Al Pacino og í Glengarry Glen Ross eftir David Mamet. Honum er oft ruglað saman við son leikarans Paul Guilfoyle (fæddur 1902) en þeir eru ekkert skildir. Guilfoyle býr í New York ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Ferill. Fyrsta mynd Guilfoyles var víst ekki mjög vinsæl "Howard the Duck". Síðan kom hann fram í fyrstu þáttunum af "Crime Story", þar sem hann lék glæpamann sem tekur gísla fasta sem síðar endar í skotárás við lögregluna. Hefur hann síðan verið einn af leiðandi leikurum sem sérhæfir sig í því að leika persónur beggja vegna lögreglunnar. Hefur hann komið fram í sjónvarpsþáttum á borð við "Miami Vice", "Law & Order", "New York Undercover" og "Ally McBeal". Hefur hann komið fram í kvikmyndum í þrjá áratugi. Á meðal kvikmynda sem hann hefur komið fram í: "Three Men and a Baby", "Wall Street", "Celtic Pride", "Beverly Hills Cop II", "Quiz Show", "Hoffa", "Mrs. Doubtfire", "Air Force One", "Striptease", "Amistad", "The Negotiator", "Extreme Measures", "Primary Colors" og "L.A. Confidential". Guilfoyle hefur einnig verið í tónlistamyndbandi Alter Bridge fyrir lagið „Broken Wings“ og í HBO kvikmyndinni "Live from Baghdad". Í dag er hann best þekktur sem Jim Brass í. Tenglar. Guilfoyle, Paul Guilfoyle, Paul Guilfoyle, Paul World Wrestling Entertainment. World Wrestling Entertainment er fjölbragðaglíma sem skiptist í þrjá þætti RAW Smackdown og ecw en vince macmahon átti RAW en hann seldi hana Hveitibjór. Hveitibjór er yfirleitt ljós bjór sem er bruggaður með talsverðu magni af hveiti ásamt meltu byggi. Hveitibjór er yfirleitt yfirgerjað öl. Til eru margar mjög ólíkar tegundir af hveitibjór í heiminum. Þekktustu hveitibjórarnir eru frá Þýskalandi og Belgíu: "Weißbier", "Berliner weiße" og "Witbier". "Berliner weiße" er gerjaður bæði með hefðbundnu ölgeri og mjólkursýrugerlum sem gefa honum eilítið súrt bragð. Anna af Foix. Anna af Foix (1484 – Búda, Ungverjaland, 26. júlí 1506) var drottning Ungverjalands og Bæheims. Ævi. Hún var dóttir Gastons II af Foix-Candale og Katarínu af Foix sem var dóttir Gastons II, greifa af Foix og Eleonora I, drottning Konungsríks Navarra. Eiginmaður drottningar Anna var Vladislás II, konungur Ungverjalands. Börn hunnar vara Anna Ungverjalandsdrottning og Lúðvíg II, konungur Ungverjalands. Anna dó 26. júlí 1506 í Búda. Gran Canaria. Gran Canaria er spænsk eyja. Hún liggur á hnitunum 28°'N og 15°35'V. Mannfjöldi eyjunnar er 829.597. Hún er næstfjölmennasta eyjan af Kanaríeyjum á eftir Tenerife. Kindle. Kindle er heiti á lestölvu frá bandaríska fyrirtækinu Amazon.com. Lestölvan (stundum nefnd "lesbretti") styðst við svokallað rafblek og svokallaðan rafpappír og líkir eftir bók um leið og orkunotkun er í lágmarki. Skjárinn er án baklýsingar og því þarf ljós, rétt eins og við hefðbundinn bóklestur, þegar lesin er rafbók af Kindle. Etchells. Etchells-bátur á siglingu við Ástralíu. Etchells er 32'6" (9,2m) langur kjölbátur hannaður af bandaríska skútuhönnuðinum Skip Etchells árið 1966. Fyrsti báturinn var hannaður samkvæmt forskrift Alþjóða kappsiglingasambandsins fyrir nýjan Ólympíubát en þrátt fyrir að báturinn kæmi mjög vel út í keppnunum varð Soling ofaná en Etchells náði engu að síður fljótt miklum vinsældum sem kappsiglingaskúta í Bandaríkjunum. Flying Fifteen. Flying Fifteen er 20 feta (um 6m) langur kjölbátur hannaður af breska skútuhönnuðinum Uffa Fox árið 1947. Báturinn er einkum vinsæll í Bretlandi og fyrrum breskum nýlendum. Fyrsta heimsmeistarakeppnin í Flying Fifteen var haldin í Ástralíu árið 1979. Frægasti Flying Fifteen báturinn er líklega "Coweslip" sem Filippus hertogi og Elísabet krónprinsessa fengu í brúðkaupsgjöf 1947. Kirni. Kirni eru samsett úr fosfati, sykrungi og basa Kirni eða núkleótíð eru sameindir sem mynda grunneiningar kjarnsýranna RNA og DNA. Sum þeirra hafa einnig hlutverkum að gegna í orkuefnaskiptum (kirnin adenósínþrífosfat og gúanósínþrífosfat), innanfrumu boðefnaflutningi (hring-adenósín einfosfat og hring-gúanósín einfosfat), eða sem hlutar hjálparhvata (hjálparhvati A, falvín adenín tvíkirni, nikótínamíð adenín tvíkirni). Bygging kirna. Kirni eru sett saman úr þremur megin einingum: Basa, fimm-kolefna einsykru (sem er ýmist ríbósi eða deoxýríbósi) og einum, tveimur eða þremur fosfathópum. Basinn getur verið af ýmist púrín (adenín eða gúanín) eða pýrimidín (cýtósín, þýmín eða úrasíl) gerð. Basinn og sykran mynda saman einingu sem nefnd er "núkleósíð", en þegar fosfathópurinn bætist við kallast kirnið "núkleótíð". Fosfathópurinn getur sest á kolefni 2, 3, eða 5 á sykrunni, en algengast er hann sitji á kolefni 5. Hringkirni, á borð við hring-adenósín einfosfat, myndast þegar fosfathópurinn binst við tvo hýdroxýlhópa sykrunnar. Kjarnsýrur eru línulegar fjölliður kirna. Í DNA eru kirnissykran deoxýríbósi og basarnir eru adenín, gúanín, cýtósín og þýmín. Í RNA er sykran ríbósi og í stað þýmíns er úrasíl. Emil von Behring. Emil Adolf von Behring (15. mars 1854 – 31. mars 1917) var þýskur læknir og örverufræðingur. Hann er þekktastur fyrir uppgötvun sína á bóluefni gegn barnaveiki, en fyrir hana hlaut hann Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði fyrstur manna árið 1901. Ævi og störf. Adolf Emil Behring, sem síðar breytti nafni sínu í Emil Adolf von Behring fæddist í Hansdorf í Prússlandi (nú Ławice í Póllandi), þar sem faðir hans var grunnskólakennari. Hann var námsfúst barn og hlaut ríkisstyrk til menntaskólagöngu. Fjölskylduvinur kostaði hann til læknanáms við "Kaiser Wilhelm herlæknaakademíuna" í Berlín. Að loknu læknanámi starfaði hann um hríð sem herlæknir, en þáði síðan stöðu sem rannsóknamaður hjá Robert Koch í Berlín. Þar starfaði hann ásamt Kitasato Shibasaburo að rannsóknum á orsakavöldum barnaveiki og stífkrampa. Í árslok 1890 birtu þeir niðurstöður sínar, þess efnis að unnt væri að gera dýr ónæm fyrir eiturefnum barnaveiki- og stífkrampasýklanna með blóðvatnsmeðferð, í "Deutsche medizinische Wochenschrift" og vöktu þær þegar mikla athygli. Barnaveiki var enda mikill vágestur á þessum árum og lét nærri að annað hvert fætt barn í Evrópu létist af völdum hennar. Árið 1895 flutti Behring sig um set til Marburg og þáði prófessorsstöðu við háskólann þar og gegndi henni til æviloka. Ram Narayan. Ram Narayan (Hindí: राम नारायण; fæddur 25. desember 1927 í Udaipur, Indland) er indverskur tónlistarmaður. Hann spilar á sarangi og hefur unnið Padma Vibhushan verðlaunin. Jenny Downham. Jenny Downham (fædd 1964) er breskur rithöfundur sem hefur gefið út eina bók, "Áður en ég dey". Bókin fjallar um 16 ára stelpu, Tessu, sem er með ólæknadi sjúkdóm og á skammt lifað. En Tessa gerir lista yfir allt sem húnu vill gera áður en hún deyr og vinkona hennar Zoey ætlar að hjálpa henni að láta það rætast.Það fyrsta á listanum hennar var að sofa hjá,semsagt fór hún á ball eitt kvöldið og kynntist strák sem var vinur kærasta Zoey bestu vinkonu sinnar. Dwonham, Jenny Olís. Olís er vinsæl skammstöfun fyrir Olíuverzlun Íslands hf. samkvæmt vefsíðu Olís er það eitt af 20 stærstu fyrirtækjum Íslands með samanlagðan starfsmannafjölda upp á 480 manns. Olís rekur einnig sjálfsafgreiðslubensínstöðvar undir merkinu ÓB - ódýrt bensín. Árið 1999 keypti Olís allt hlutafé í Ellingsen og var það sameinað móðurfyrirtækinu árið 2001. Meðal annarra dótturfyrirtækja má nefna Hátækni og Ísmar. Erlendur birgir olíu fyrir Olís er BP. Samkeppniseftirlitið metur markaðshlutdeild Olís á bilinu 25-30%. Allt hlutafé Olís er í eigu eignarhaldsfélagsins FAD 1830 sem er skráð á lögheimili Gísla Baldurs Garðarssonar lögmanns og stjórnarformanns Olís. Olís var dæmt til að greiða 880 milljónir í sekt vegna ólöglegs verðsamráðs við önnur olíufélög en sektin var lækkuð í 560 milljónir eftir áfrýjun. Sumarið 2011 bárust fréttir af því að til greina kæmi af hálfu Landsbankans helsta skuldadrottins Olíss að taka fyrirtækið yfir sökum slæmrar skuldastöðu. Þá hefði Olís síðast skilað ársreikningi fyrir árið 2008. Saga. Olíuverzlun Íslands var upprunalega stofnuð þann 3. október árið 1927. Stofnendur voru Héðinn Valdimarsson, Magnús Kristjánsson, Aðalsteinn Kristinsson, Hjalti Jónsson, Guðmundur Kr. Guðmundsson, Richard Torfason og Sigurður Jónsson. Héðinn Valdimarsson var forstjóri fram að dauða sínum árið 1948. Skeljungur. Skeljungur er íslenskt olíufélag sem er rekið undir merki hins alþjóðlega olíufélags Royal Dutch Shell á Íslandi. Samkvæmt vef Skeljungs er fyrirtækið með starfsemi á um 100 staði á Íslandi og eru starfsmenn um 300 talsins. Samkeppniseftirlitið metur markaðshlutdeild Skeljungs á bilinu 30-35%. Skeljungur var dæmt til að greiða 1,1 milljarð í sekt vegna ólöglegs verðsamráðs við önnur olíufélög en sektin var lækkuð í 450 milljónir eftir áfrýjun. Þríbrotar. Þríbrotar (fræðiheiti: "Trilobita" (áður "Trilovitae") eru aldauða hópur sjávarliðdýra, sem finnast sem steingervingar í sjávarseti frá fornlífsöld. Þríbrotar eru einkennisdýr kambríumtímabilsins. Dominique Strauss-Kahn. Dominique Strauss-Kahn (fæddur 25. apríl 1949) er franskur hagfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann var handtekinn í BNA 2011 vegna ákæru fyrir kynferðisofbeldi. Strauss-Kahn, Dominique Filippía Kristjánsdóttir. Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir betur þekkt undir nafninu Hugrún skáldkona (fædd 3. október 1905 í Skriðu í Svarfaðardal, dáin 8. júní 1996 í Reykjavík) var íslenskur rithöfundur. Eftir Hugrúnu liggja a.m.k. 29 ritverk, mest ljóða- og barnabækur, en einnig nokkrar skáldsögur og minningarbrot úr bernsku. Stór hluti af skáldsögum, frásögnum og ljóðum Hugrúnar eiga rætur sínar í Svarfaðardal og eitt af ljóðum hennar um dalinn, kvæðið Svarfaðardalur, hafa Svarfdælingar gert að héraðssöng sínum. Hugrún var á sínum tíma þekkt útvarpsrödd og las sjálf margar af sögum sínum, frásögnum og ljóðum í Ríkisútvarpið. Foreldrar Filippíu voru Kristján Tryggvi Sigurjónsson bóndi að Skriðu og Brautarhóli í Svarfaðardal og kona hans Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir. Filippía giftist Valdimar Jónssyni, f. 4. mars 1900, árið 1932. Filippía og Valdimar eignuðust 3 börn, Ingveldi Guðrúnu, hjúkrunarfræðing, f. 28. sept. 1933. Kristján Eyfjörð, f. 27. febr. 1935, d. 1963. Yngsta barn Filippíu, Helgi Þröstur, læknir og prófessor, f. 16. sept. 1936, er nú ábúandi í Gröf í Svarfaðardal, sem er næsti bær við æskuheimili Filippíu á Brautarhóli. Fæðingarstaður Filippíu, Skriða, er í dag hluti af landi Grafar. Seljurót. Seljurót (eða sellerí) (fræðiheiti: "Apium graveolens") er tvíær matjurt af sveipjurtaætt. Einkum er átt við tvö afbrigði eftir því hvort sóst er eftir mat í stönglum (blaðselja) eða hnúð neðan moldar (hnúðselja). Einnig eru blöð og fræ plöntunnar nýtt sem krydd. Í hlýjum löndum vex seljurót villt, einkum i hálfrökum moldarjarðvegi. Seljurót hefur verið ræktuð frá því í fornöld. Fyrst var seljurót eflaust hagnýtt villijurt og síðar smábætt með úrvali og kynbótum. Franskt skáld á níundu öld hælir seljurótinni sem lækningajurt. Mið-Evrópubúar voru farnir að rækta þessar jurtir á 16. og 17. öld. Seljurót er þurrefnisrik og nærandi, en óstöðug olía gefur hina sérkennilegu lykt sem og bragð. Sumir eta seljurót hráa i ýmis salöt o.fl. rétti eða rifna með osti. Stefán Einarsson. Stefán Einarsson (9. júní 1897 – 9. apríl 1972) var íslenskur málfræðingur, sem var lengi prófessor við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum. Æviágrip. Dr. Stefán Einarsson fæddist og ólst upp á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Foreldrar hans voru Einar Gunnlaugsson (1851–1942), bóndi og póstafgreiðslumaður, og kona hans Margrét Jónsdóttir (1863–1923). Stefán fór fyrst í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917. Fór síðan í Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum 1923. Stefán lagði stund á hljóðfræði, fyrst í Helsinki 1924–25 og um tíma í Cambridge í Englandi, en doktorsprófi lauk hann í Ósló 1927. Doktorsritgerðin var um hljóðfræði íslenskrar tungu: "Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache", Oslo 1927. Sama ár, 1927, fékk Stefán prófessorstöðu við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore og starfaði þar uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1962. Vettvangur hans var aðallega við enskudeild skólans, sem kennari í norrænni og fornenskri málfræði, og frá 1945 í Norðurlandabókmenntum. Þegar Stefán lét af störfum fluttist hann til Íslands og bjó í Reykjavík til dauðadags, 9. apríl 1972. Stefán var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Margarete Schwarzenburg (26. maí 1892 – 7. janúar 1953) frá Eistlandi, sagnfræðingur af þýskum ættum. Þeim varð ekki barna auðið. Síðari kona Stefáns (1954) var Ingibjörg Jónheiður Árnadóttir (1896–1980) frá Njarðvíkum. Hún átti fjögur börn af fyrra hjónabandi. Stefán var um árabil ræðismaður Íslands í Baltimore (frá 1942). Hann naut mikillar virðingar meðal fræðimanna og var heiðursfélagi í mörgum bókmennta- og vísindafélögum, var t.d. kjörinn í eitt virðulegasta vísindafélag Bandaríkjanna, The American Philosophical Society. Hann var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar 1939. Í Breiðdalssetri í gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík, er verið að koma upp minningarstofu um Stefán Einarsson – Stefánsstofu. Margrét Valdimarsdóttir mikla. Margrét Valdimarsdóttir mikla (1353 – 28. október 1412) var drottning Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar og stofnandi Kalmarsambandsins, sem sameinaði Norðurlöndin. Í Danmörku er hún oft kölluð Margrét 1. til aðgreiningar frá núverandi drottningu en hún taldist aldrei eiginlegur þjóðhöfðingi þótt hún stýrði ríkjunum í raun um langt skeið og væri valdamesta kona Evrópu. Margrét var dóttir Valdimars 4. Danakonungs. Tíu ára að aldri var hún gift Hákoni 6. Noregskonungi, sem var rúmum 10 árum eldri. Árið 1370 eignuðust þau soninn Ólaf og þegar Valdimar konungur dó 1375 tókst Margréti að fá hann útnefndan konung þótt Valdimar hefði verið búinn að útnefna annan dótturson sinn, Albrekt 3. af Mecklenburg, sem hafði orðið konungur Svíþjóðar nokkrum árum áður, sem erfingja sinn. Hún stýrði sjálf ríkinu í nafni Ólafs og þegar Hákon lést 1380 og Ólafur varð konungur Noregs stýrði hún því ríki einnig. Ólafur dó 1387 og Margrét var þá kjörin ríkisstjóri Danmerkur og Noregs og 1388 einnig í Svíþjóð, þegar Svíar losuðu sig við hinn óvinsæla Albrekt, sem var tekinn höndum og hafður í haldi í sex ár. Margrét valdi Bogislaw af Pommern, dótturson systur sinnar (systurson Albrekts) sem ríkiserfingja og tók hann í fóstur. Kallaðist hann Eiríkur eftir það. Næstu árin styrkti Margrét stöðu sína og tókst að draga úr völdum ríkisráða og aðalsmanna í ríkjunum þremur. Árið 1397 var efnt til sambandsfundar í Kalmar í Svíþjóð og þann 17. júní var Eiríkur kjörinn konungur Danmerkur, Svíþjóðar (ásamt Finnlandi) og Noregs (og þar með Íslands, Grænlands, Færeyja, Hjaltlands og Orkneyja). Margrét lét völdin formlega í hendur Eiríks árið 1401, þegar hann var 18 ára, en var þó enn virk á bak við tjöldin. Margrét veiktist snögglega og dó 28. október 1412 um borð í skipi sínu í Flensborgarhöfn og er kista hennar í Hróarskeldudómkirkju. Tay Sachs-veiki. Sjónhimna í auga sjúklings með Tay Sachs heilkenni Tay Sachs veiki er víkjandi erfðagalli sem veldur skorti á ensíminu hexósaminídasa A sem aftur leiðir til uppsöfnunar á ganglíósíð fitusýruafleiðum í taugavef, einkum heila. Sjúkdómseinkennin byrja gjarnan að koma fram við um sex mánaða aldur og dregur veikin sjúklinginn oftast til dauða á innan við fjórum árum. Taugafrumur tútna út og fyllast af GM2 ganglíósíðum. Þá kemur fram vægðarlaus hrörnun andlegs og líkamlegs atgervis. Barnið verður blint, heyrnarlaust og hættir að geta kyngt, vöðvar byrja að rýrna og lömun byrjar að gera vart við sig. Sjúklingar með Tay-Sachs sjúkdóminn eru með kirsuberjarauðan blett aftast í auga þeirra. Það er einnig til miklu sjaldgæfari afbrigði af Tay Sachs, þar sem einkennin koma fram hjá sjúklingum á milli tuttugu og þrjátíu og fimm ára. Það þekkist af reikandi göngulagi og taugahrörnun. Sjúkdómurinn er tekur nafn af breska augnlækninum Warren Tay sem fyrstur lýsti rauða blettinum á sjónhimnu augans sem einmitt einkennir þennan sjúkdóm, árið 1881, og ameríska taugafræðingnum Bernard Sachs sem lýsti frumubreytingunum í Tay-Sachs sjúklingum og tók eftir aukinni tíðni sýkinga í Austur-evrópskum gyðingum árið 1887. Rannsóknir á þessum flokki sýndi fram á að Tay-Sachs framkallar þol gegn berklum. Lífefnafræðileg orsök sjúkdómsins er skert starfsemi ensímsins hexósaminídasa A, en það hvatar niðurbrot GM2 ganglíósíða og er nauðsynlegt eðlilegri þroskun heilans. Það má því greina sjúkdóminn með einfaldri blóðprufu sem mælir virkni hexósaminídasa A. Erfðagallinn er víkjandi, þannig að báðir foreldrar þurfa að bera gallann til þess að afkvæmi geti fengið sjúkdóminn. Engin lækning er þekkt á Tay Sachs heilkenni enn sem komið er, en hægt er að hægja á framrás sjúkdómsins með lyfjagjöf. Börn sem haldin eru sjúkdómnum lifa þó ekki til nema fimm ára aldurs eða þar um bil. Meðal meðferðarúrræða sem reynd hafa verið má nefna ensímagjöf þar sem virkum hexósaminídasa A var sprautað í sjúklinga. Ensímið reyndist of stórt til að komast í gegnum blóðsíu heilans. Rannsóknarmenn reyndu líka að gefa sjúklingnum hexósaminídasa A í mænuvökvann sem flýtur um heilann en heilafrumurnar náðu ekki að taka upp svona stór ensími í nægum mæli. Rannsóknir hafa farið fram á mögulegri genalækningu, en þær hafa enn sem komið er ekki leitt til lækningar. Forsenda. Forsenda er óbein ályktun sem er talin vera sönn í samræðum. Dæmi um forsendu væri t.d. „eiginmaður minn er grannur“ þar sem það er ályktað viðkomandi eigi eiginmann. Lendarkoppar. Lendarkoppar (Venusarkoppar eða Sjafnarkoppar) eru spékoppar á mjóhrygg mannsins sem eru öllu algengari meðal kvenna en karla. Lendarkopparnir eru örlaga samhliða dældir upp yfir þjóskorunnni. Þeir eru frekar sjaldgæfir. Lýðheilsufræði. Lýðheilsufræði eru fræði sem fjalla um áhrifaþætti lýðheilsu, þ.e. þeirra vísinda, fræða og aðgerða sem miða að því að fyrirbyggja sjúkdóma, lengja líf og auka lífsgæði fólks. Lýðheilsufræðum er oft skipt í faraldsfræði, lífmælingar og heilbrigðisþjónustu. Rannsóknir á áhrifum umhverfis, samfélags, áhrifaþáttum heilsutengdrar hegðunar og atvinnuumhverfis eru mikilvægir undirþættir lýðheilsufræða. Háskólinn í Reykjavík var fyrstur íslenskra háskóla til að taka upp nám í Lýðheilsufræði. Í dag eru lýðheilsufræði kennd við þrjá íslenska háskóla. Novotsjeboksarsk. Novotsjeboksarsk (rússneska: Новочебоксарск) er borg í Rússlandi þar sem búa 125.000 manns. Hún er í Tjúvasíafylki. Skógarmaður. Skógarmaður eða skóggangsmaður var sakamaður sem hafði verið dæmdur til skóggangs samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins. Skógarmenn voru griðlausir og í raun réttdræpir hvar sem til þeirra náðist og áttu oftast ekki annars úrkosti en að leggjast út - í Noregi í skógum en hérlendis frekar í óbyggðum. Sumir fundu sér hellisskúta eða annað afdrep nærri byggð og þá oft í nágrenni við einhverja sem voru þeim vinveittir og gátu liðsinnt þeim. Á meðal skógarmanna sem þekktir eru úr Íslendingasögum má nefna Gretti sterka, Gísla Súrsson, Hörð Grímkelsson og Þorgeir Hávarsson. Ögvaldsnes. Ögvaldsnes (norska: "Avaldsnes") er lítið byggðarlag á eynni Körmt (Karmøy) í Rogalandsfylki í Suðvestur-Noregi. Á Ögvaldsnesi var áður konungsgarður og hafði Haraldur hárfagri þar bú á 9. öld og er sagður hafa dvalið þar löngum þegar hann tók að eldast. Ögvaldsnes kemur oft við sögur Noregskonunga. Ólafur Tryggvason lét reisa þar timburkirkju, en núverandi steinkirkju lét Hákon gamli byggja þar um 1250 og er hún ein stærsta norska steinkirkjan frá miðöldum. Á Ögvaldsnesi var gerð sætt í staðamálum síðari milli íslenskra höfðingja og Árna Þorlákssonar Skálholtsbiskups árið 1297 og lauk þar með langvinnum deilum. Staðamál fyrri. Staðamál fyrri eru fyrri kaflinn af tveimur í staðamálum, deilumálum kirkjunnar og íslenskra höfðingja um yfirráð yfir stöðum, það er að segja jörðum þar sem höfðingjar bjuggu og höfðu reist kirkju og gáfu svo kirkjunni jörðina að hluta eða öllu leyti en bjuggu þar áfram, höfðu forræði yfir kirkjunni og fengu sinn hluta af tíundinni. Þegar Þorlákur helgi Þórhallsson varð biskup í Skálholti 1178 hóf hann þegar árið eftir að krefjast forræðis yfir kirkjustöðum. Honum varð í upphafi nokkuð ágengt og sumir höfðingjar létu undan honum en Jón Loftsson í Odda stóð fastur á móti og tókst Þorláki aðeins að ná fáeinum stöðum undir forræði kirkjunnar. Eftir að hann lést varð hlé á staðamálum þar til Árni Þorláksson („Staða-Árni“) upphóf þau aftur seint á 13. öld. Grundvöll fyrir kröfum Þorláks biskups er meðal annars að finna í samþykktum "Annars Lateranþingsins", sem var haldið árið 1139. Þar segir í 10. grein: "Vér bönnum með postullegu valdi, að leikmenn leggi undir sig kirkjutíundir, sem kirkjulegar heimildir sýna, að nota eigi í trúarlegum tilgangi. Hvort sem þeir hafa þegið þær frá biskupum, konungum eða hverjum öðrum, skulu þeir vita, að þeir fremja glæpsamleg helgispjöll og eiga á hættu eilífa útskúfun, nema þeir skili þeim aftur til kirkjunnar. Vér skipum einnig svo fyrir, að hafi leikmenn eignarhald á kirkjum, skuli þeir annað hvort skila þeim í hendur biskupa eða eiga yfir höfði sér bannfæringu..." Kaþólska kirkjan telur þetta vera hið tíunda almenna kirkjuþing, en samþykktir þeirra eru álitnar ófrávíkjanlegar. Eysteinn Erlendsson erkibiskup hafði komið fram í Noregi þeirri breytingu, að kirkjubændur gætu ekki talið sig eiga kirkjur á jörðum sínum eða ráða fyrir tekjum þeirra, en þeir fengu hins vegar umboð frá biskupi til að gera vanalegar ráðstafanir, eins og húsabætur, og tillögu máttu þeir gera til biskups um nýja presta. Þetta er ekki talið hafa breytt eins miklu í Noregi og íslenskir höfðingjar álitu það mundu breyta fyrir sig. En Eysteinn var á árunum 1180-1183 í útlegð, svo að Þorlákur gat lítinn stuðning fengið frá honum. Lögréttumaður. Lögréttumaður var virðingarstaða í íslenska bændasamfélaginu frá lokum þjóðveldisaldar 1262 allt þar til Alþingi var lagt niður árið 1800. Lögrétta hafði verið til allt frá stofnun Alþingis og áttu goðar og ráðgjafar þeirra sæti í henni en þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd breyttist hlutverk lögréttunnar, hún hafði áfram takmarkað löggjafarvald en var þó fyrst og fremst dómstóll. Í stað goðanna komu lögréttumenn. Í lögréttu sátu hverju sinni 36 menn, þrír úr hverju þingi, og voru þeir valdir úr hópi 84 nefndarmanna, bænda sem sýslumenn tilnefndu til þingreiðar. Lögréttumenn voru jafnan úr röðum betri bænda í hverju héraði. Sigurður Ingi Jóhannsson. Sigurður Ingi Jóhannsson (f. 20. apríl 1962) er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og einnig umhverfis- og auðlindarráðherra. Hann er leiðtogi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og er 1. þingmaður. Sigurður Ingi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum Laugarvatni árið 1982 og tók embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann fékk almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 1989 og á Íslandi 1990. Sigurður Ingi sat í þingmannanefnd sem fjallaði um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010. Vigdís Hauksdóttir. Vigdís Hauksdóttir (f. 20. mars 1965) er 2. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður fyrir Framsóknarflokkinn og er ritari þingflokks framsóknarmanna. Áður en Vigdís bauð sig fram til þings var hún aðstoðarkennari í skattarétti við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst og starfaði sem lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands frá 2008 þar til hún bauð sig fram til Alþingis árið 2009. Vigdís var fyrsti fagdeildarstjóri og kennari við blómaskreytingabraut Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi 1988–1991. Þann 13. mars 2012 setti Vigdís skilaboð á Facebook-vef sínum af lokuðum vinnufundi Alþingis og taldi forseti þingsins að hún hefði þar með brotið þingsköp. Vigdís mótmælti þessum úrskurði forseta þingsins þar sem hún taldi sig ekki hafa vitnað beint í gest nefndarinnar né nefndarmann. Hljóðgervill. Hljóðgervill (stundum svuntuþeysari í hálfkæringi) er rafhljóðfæri sem getur líkt eftir hljóðum hefðbundinna hljóðfæra, oftast með áslætti hljómborðs sem það er tengt við. Nýlegir hljóðgervlar geta oft og tíðum tengst tölvum og eru þeir mikilvægur hluti af hljóðgervlapoppi. Sítrónsýruhringur. Sítrónsýruhringur eða Krebs-hringur er lífefnafræðileg hvarfarás sem myndar ásamt sykurrofi og öndunarkeðju þungamiðju orkuefnaskipta í þeim lífverum sem nota súrefni til öndunar. Hringurinn er hluti af niðurbrotsferli næringarefna á borð við prótein, fitu og sykrur sem sundrað er skref fyrir skref þar til eftir standa koltvíoxíð og vatn og orkan sem bundin var í efnatengjum þeirra losuð og nýtt til að mynda efnasambandið ATP. Í heilkjarna frumum fer hringurinn fram í hvatberum. Hringurinn samanstendur af tíu efnahvörfum sem leidd voru út af þeim Albert Szent-Györgyi og Hans Krebs. Páll Sölvason. Páll Sölvason (d. 1185) varprestur og goðorðsmaður í Reykholti í Borgarfirði á 12. öld og er þekktastur fyrir Deildartungumál, harðar deilur sem hann átti í við Hvamm-Sturlu. Páll var óskilgetinn sonur Sölva Magnússonar, goðorðsmanns í Reykholti (d. 1129) og var auðugur og virtur. Deildartungumál stóðu um erfðir á eignum hjónanna Þórlaugar dóttur Páls og manns hennar, Þóris auðga Þorsteinssonar prests í Deildartungu. Þau höfðu eignast nokkur börn saman sem dóu öll og hét Þórlaug þá suðurgöngu. Þórir var tregur til en lét þó til leiðast en þau dóu bæði í ferðinni og einnig barn sem þau eignuðust í Noregi og skildu eftir þar. Páll taldi sig eiga allan arf eftir þau þar sem Þórir hefði andast fyrstur, sonur hans erft hann og síðan hefði hann dáið á undan Þórlaugu þannig að hún hefði átt allar eignirnar þegar hún dó. Sturla var á öðru máli og gætti þar hagsmuna Böðvars Þórissonar tengdaföður síns, sem einnig kallaði til arfs því að hann var skyldur Þóri. Í þessari deilu gerðist það að Þorbjörg kona Páls, sem Sturlunga segir að hafi verið „grimmúðug í skapi“, óð að Sturlu með hníf og reyndi að stinga úr honum annað augað og kvaðst ætla að gera hann líkan þeim sem hann vildi líkastur vera, en það var Óðinn (sem var eineygður). Lagið geigaði og kom í kinnina. Páll prestur vildi þegar sættast og bæta fyrir frumhlaup konu sinnar en Sturla gerði lítið úr áverkanum og féllst Páll á að gefa eftir í erfðamálinu og láta Böðvar fá þriðjung eignanna en gefa Sturlu sjálfdæmi í hnífsstungumálinu. Þegar það var fengið kom annað hljóð í strokkinn hjá Sturlu og hann krafðist þess að fá tvö hundruð hundraða, sem var mikið fé. Undir þetta vildi Páll ekki gangast og leitaði til Jóns Loftssonar um liðsinni. Á Alþingi varð úr að Jón var fenginn til að gera sætt á milli þeirra og úrskurðaði hann að Páll skyldi aðeins gjalda Sturlu þrjátíu hundruð en til að Sturlu yrði ekki minnkun af því að þurfa að láta í minni pokann bauð Jón honum að fóstra Snorra son hans og urðu því Deildartungumál til þess að Snorri Sturluson ólst upp í Odda. Þorbjörg (d. 1181) kona Páls var Bjarnardóttir. Ætt hennar er óþekkt en hún var systir Auð-Helgu, konu Brands Sæmundssonar biskups. Börn þeirra auk Þórlaugar voru Arndís kona Guðmundar dýra, Brandur Pálsson prestur og Magnús Pálsson prestur og goðorðsmaður á Helgafelli og í Reykholti 1185-1206. Páll Sölvason var einn af þremur mönnum, sem komu til álita í biskupskjöri árið 1174. Valið féll á Þorlák Þórhallsson ábóta. Fjórðungsdómur. Fjórðungsdómur var dómstóll á Alþingi frá 965 til loka þjóðveldisaldar og störfuðu fjórir slíkir, einn fyrir hvern landsfjórðung, og var hver þeirra æðsti dómstóll í málum fjórðungsins. Þangað komu mál sem dæmd höfðu verið á vorþingum, sem voru lægsta dómsstigið. Rétt eftir árið 1000 var svo stofnaður fimmtardómur, sem var yfirréttur sem náði til landsins alls og mátti áfrýja þangað málum sem dæmd höfðu verið í fjórðungsdómi. Líklegt er talið að hver goði hafi tilnefnt einn mann í hvern fjórðungsdóm þannig að þar hafi setið 36 menn og urðu allir að vera sammála um niðurstöðu. Í fimmtardómi réð aftur á móti einfaldur meirihluti. Kíkújú. Níger-kongó mál eru tungumál töluð af einni til fjórum milljónum manna í uppsveitum Kenýa. Vasilia. Vasilia er serbneskt kvenmannsnafn. Upprunið af gríska karlmannsnafninu Vasily og Basil og þýðir konungborinn eða konunglegur. Listasafnið á Akureyri. Listasafnið á Akureyri er stærsta safn sinnar tegundar á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins. Það opnaði 29.ágúst árið 1993 og þar hafa verk fjölda þekktra listamanna verið sýnd. Meðal þeirra eru Rembrandt, Louisa Matthíasdóttir, Erró og Henri Cartier-Bresson. Safnið er til húsa við Kaupvangsstræti 12 í Listagilinu á Akureyri. Hugmyndin að stofnun listasafns á Akureyri kom upphaflega fram í grein Jónasar Jónssonar frá Hriflu í dagblaðinu Degi á Akureyri 15.maí 1960. Þrír áratugir liðu uns hugmyndin um Listasafnið á Akureyri komst aftur í umræðuna og varð hún loksins að veruleika á afmælisdegi Akureyrarbæjar þann 29.ágúst 1993. Listasafnið á Akureyri er til húsa þar sem áður var Mjólkursamlag KEA. Þórir Baldvinsson arkitekt hjá Sambandinu hannaði bygginguna sem er undir sterkum áhrifum frá Bauhaus-skólanum og hinni alþjóðlegu funkis hreyfingu. Byrjað var að reisa húsið árið 1937 og tveimur árum síðar hófst starfsemi mjólkurvinnslunnar þar, en því hlutverki gengdi húsið fram til 1980. Í lok síðari heimsstyrjaldar var bætt við geymslu fyrir osta og er það húsnæði nú vestursalur listasafnsins. Fyrsti forstöðumaður Listasafnsins var Haraldur Ingi Haraldsson og gengdi hann starfinu til 1.júní 1999, en Hannes Sigurðsson listfræðingur hefur verið forstöðumaður safnsins síðan þá. Erika Lind Isaksen er safnfulltrúi, en ásamt henni koma margir aðrir að starfseminni, uppsetningarmenn, yfirsetufólk, textasmiðir, hönnuðir og fjöldi annarra aðila. Listasafnið á Akureyri hefur staðið að útgáfu bóka í tengslum við margar af sýningum safnsins. Þríhnúkagígur. Þríhnúkagígur er gígur sem liggur í norðaustasta Þríhnúknum, rúma 4 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Niður frá gígopinu gengur gríðarmikill gíghellir, Þríhnúkahellir. Er hann talin eitt stærsta og merkasta náttúrufyrirbæri sinnar tegundar á jörðinni. Gígopið er þverhnípt og um 4 sinnum 4 metra stórt. Fyrst var sigið niður í gíghellinn 1974 og 1991 var hann svo kannaðar ítarlega og kortlagður. Þríhnúkahellir er flöskulaga ketill sem er um 150 þúsund rúmmetrar að stærð. Botninn er á stærð við fótboltavöll og er 120 metra undir yfirborði jarðar og þaðan liggja svo gígrásir niður á um 200 metra dýpi. Í ljósi þess hvað hann þykir sérstakur hafa verið settar fram hugmyndir um hvernig megi bæta aðgengi að honum, sem fæli m.a. í sér að bora göng inn í hann miðjan og byggja útsýnispall inni í honum. Jón Sveinsson (1889-1957). Jón Sveinsson (fæddur að Árnastöðum í Loðmundafirði 25. nóvember 1889, dáinn í Reykjavík 18. júlí 1957) var lögfræðingur og fyrsti bæjarstjóri Akureyrar (1919-1934). Hann hafði numið skatta- og sveitarstjórnarlöggjöf í Danmörku og var skipaður rannsóknardómari í skattamálum 1942, en því embætti gegndi hann þar til það var lagt niður. Kristján 3.. Kristján 3. (12. ágúst 1503 – 1. janúar 1559) var konungur Danmerkur, Noregs og Íslands frá 1534 til dauðadags. Í konungstíð hans urðu siðaskipti í ríkjunum. Kristján var elsti sonur Friðriks 1. og konu hans, Önnu af Brandenborg, og ólst upp sem hertogasonur í Gottorp. Hann var á ferðalagi í Þýskalandi 1521, var viðstaddur þingið í Worms og hreifst þar mjög af Marteini Lúther og kenningum hans. Stuttu síðar var Kristján 2. frændi hans settur af sem konungur Danmerkur og Friðrik 1. tók við. Þegar Friðrik dó vorið 1533 vildi ríkisráðið fyrst í stað ekki velja Kristján son hans sem konung vegna trúarskoðana hans og var Danmörk án konungs í heilt ár. Margir vildu fá Kristján 2. sem bjó í útlegð í Hollandi aftur á konungsstól. Eftir að Lýbikumenn réðust á Danmörku 1534 valdi aðallinn Kristján 3. sem konung en þó var aðeins Jótland á valdi hans; Sjáland og Skánn, Kaupmannahöfn og Málmey studdu Kristján 2. Hófst þá Greifastríðið svokallaða, sem um síðir lauk með sigri Kristjáns 3. og stuðningsmanna hans árið 1536. Kristján lét verða eitt sitt fyrsta verk að handtaka biskupa og gera kirkjugóss upptækt, enda þurfti hann á eignum kirkjunnar að halda til að greiða málaliðum sínum laun. Opinber dagsetning siðaskiptanna er 30. október 1536 en Lútherstrú var þá þegar orðin mjög útbreidd í Danmörku og siðbreytingin gekk friðsamlega fyrir sig. Munkar og nunnur fengu yfirleitt að sitja áfram í klaustrunum til æviloka. Sömu sögu var að segja um Noreg. Konungur sendi þó herflokk til Íslands skömmu eftir að Gissur Einarsson var kjörinn fyrsti lútherski biskupinn í Skálholtsbiskupsdæmi en gerði árum saman ekkert til að koma á siðaskiptum í Hólabiskupsdæmi og átti raunar í ýmsum samskiptum við Jón Arason, sem þá var eini kaþólski biskupinn sem eftir var á Norðurlöndum. Þó fór svo að konungur sendi skip og hermenn til landsins 1551 en þá hafði Jón biskup þegar verið tekinn af lífi. Kristján 3. lést á nýársdag 1559 og er legstaður hans í Hróarskeldudómkirkju. Kona hans var Dóróthea af Saxlandi-Láinborg og elsti sonur þeirra var Friðrik 2. Sól í Norðurmýri. Sól í Norðurmýri er bók eftir Magnús Þór Jónsson (betur þekktur undir nafninu Megas) og er skrifuð ásamt Þórunni Valdimarsdóttur, sagnfræðingi. Sól í Norðurmýri var gefin út árið 1993 og fjallar hún um bernsku Megasar í Norðurmýri fram að unglingsárum. DANICE. DANICE er sæstrengur sem liggur frá Íslandi til Danmerkur og er hann lagður með það í huga styðja við rekstur netþjónabúa á Íslandi. Strengurinn er 2250 km á lengd og með flutningsgetu upp að 5.1 Tbit/sek. Strengurinn fer í gegn um eftirtalda staði. Reitafylki. Reitafylki er hugtak í fylkjafræði sem á við fylki sem hefur verið skilgreind með minni fylkjum; sem kallast reitir. Dæmi. niður í fjóra reiti sem er hver um sig 2×2 að stærð Þetta reitafylki má tákna á eftirfarandi vegu Hornalínu-reitafylki. Hornalínu-reitafylki kallast þau reitafylki sem eru ferningslaga hornalínufylki þar sem stökin í aðalhornalínunni/meginhornalínunni eru ferningsfylki af hvaða stærð sem er (jafnvel 1x1 fylki), og þau stök sem eru ekki á aðalhornalínunni eru 0. Hornalínu-reitafylkið formula_4 er ritað á forminu þar sem formula_6 er ferningsfylki. Hafliði Másson. Hafliði Másson (d. 1130) var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 11. og 12. öld. Hann er einkum þekktur fyrir deilur sínar við Þorgils Oddason, svo og fyrir að hafa ásamt öðrum staðið að ritun fyrstu íslensku lögbókarinnar og var hún sett saman á heimili hans. Hafliði var sonur Más Húnröðarsonar goðorðsmanns á Breiðabólstað í Vesturhópi; voru þeir komnir í beinan karllegg af Ævari gamla Ketilssyni landnámsmanni og var goðorðið (Æverlingagoðorð) kennt við hann og ættin kölluð Æverlingar. Már faðir Hafliða var víðförull og er sagður hafa verið í Miklagarði um tíma og verið þar foringi Væringjasveitar. Hafliði bjó á Breiðabólstað og var einn auðugasti og virtasti höfðingi landsins. Hann kemur lítið við sögur fyrr en nokkuð er komið fram á 12. öld, eða eftir að Bergþór Hrafnsson var kosinn lögsögumaður á Alþingi 1117: „Ok it fyrsta sumar, er hann sagði lög upp, var nýmæli þat gert, at um vetrinn eftir skyldi rita lögin at Hafliða Mássonar at umráði Bergþórs ok annarra vitra manna, ok skyldu þeir gera nýmæli þau öll, er þeim þætti þau betri en in fornu lög, ok skyldi þau segja upp it næsta sumar eftir ok þau öll haldast, er meiri hlutr manna mælti eigi í móti. Þá var ritaðr Vígslóði ok margt annat í lögum ok lesit upp um sumarit eftir í lögréttu, ok líkaði þat öllum vel.“ Lögbókin sem þarna var rituð er oftast kennd við Hafliða og kölluð Hafliðaskrá og má telja víst að fyrst ákveðið var að skrá lögin á heimili hans hafi hann sjálfur þótt mjög lögfróður. Honum er lýst þannig í "Þorgils sögu og Hafliða" að hann hafi verið „bæði forvitri og góðgjarn og hinn mesti höfðingi“. Ekki löngu síðar urðu deilur milli Hafliða og Þorgils Oddasonar á Staðarhóli í Saurbæ, sem þá hafði nýlega komist yfir goðorð. Deilurnar stigmögnuðust og urðu tilefni áverka og víga. Bæði Þorgils og Hafliði komu með fjölmennt lið til þings þegar dæma átti í málinu og þegar gengið var til dóma tók Hafliði öxi sína með sér. Mikil mannþröng var við dóminn og sá Þorgils hvar öxi Hafliða kom upp úr þrönginni. Hann hjó þá til Hafliða. Lagið kom á öxarskaftið og sneið af einn fingur Hafliða. Þorgils var dæmdur sekur en hélt uppteknum hætti og kom aftur til næsta þings með 800 menn, en Hafliði hafði 1200 menn með sér og leit út fyrir bardaga. Biskup vildi sætta þá og hótaði Hafliða bannfæringu ef hann vildi ekki sættast. Hafliði samþykkti þá sátt ef hann fengi sjálfdæmi, sem hann notfærði sér svo óspart og dæmdi sjálfum sér afar mikið fé í bætur. Þá var það sem Þorgils sagði: „Dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur,“ og hefur það verið haft sem máltæki (oft aðeins „Dýr mundi Hafliði allur“). Fyrri kona Hafliða var Þuríður Þórðardóttir, sem var dótturdóttir Snorra goða, og áttu þau tvo syni. Seinni kona hans var Rannveig Teitsdóttir margláta Ísleifssonar í Haukadal, systir Halls Teitssonar biskupsefnis. Þau áttu þrjár dætur. White Hart Lane. White Hart Lane er knattspyrnuvöllur í Tottenham í Norður-London. Hann hefur verið heimavöllur knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur frá 1899. Ólafur Björn Loftsson. Ólafur Björn Loftsson (f. 5. ágúst 1987) er íslenskur kylfingur sem leikur fyrir Nesklúbbinn. Ólafur vann Íslandsmeistaratitilinn í golfi árið 2009 eftir keppni við Stefán Má Stefánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Ólafur og faðir hans, Loftur Ólafsson, eru einu feðgarnir sem hafa orðið Íslandsmeistarar í golfi. Juice. Juice er kvikmynd um fjóra stráka sem leiðast út í glæpi. Ein af fyrstu myndum sem Tupac Shakur lék í. Íþróttafélagið Grótta. Íþróttafélagið Grótta er íþróttafélag á Seltjarnarnesi stofnað 24. apríl 1967. Innan félagsins eru þrjár deildir: fimleikadeild, knattspyrnudeild og handknattleiksdeild. Grótta Grótta Grótta Landeyjahöfn. Landeyjahöfn er höfn vestan ósa Markarfljóts í Landeyjum. Áætlunarsiglingar ferjunnar Herjólfs á milli Vestmannaeyja og Landeyja hófust 21. júlí 2010. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2010. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2010 fóru fram þann 29. maí 2010. Kosningarnar einkenndust af slakri kjörsókn, föllum meirihluta víðsvegar um land og velgengni óháðra og staðbundinna framboða. Meirihlutar féllu í öllum stærstu þéttbýlissvæðum landsins; Reykjavík, Kópavogi, Hafnafirði og Akureyri. Sérstaka athygli vakti framboð Besta flokksins í Reykjavík sem fékk sex fulltrúa kjörna og Lista fólksins á Akureyri sem fékk sex fulltrúa kjörna og hreinan meirihluta. Vesturland. Eyja- og Miklaholtshreppur Lanín. Lanín (spænska: Volcán Lanín) er virk eldkeila í Andesfjöllum í Suður-Chile. Lanín er hæsta fjall í Araucanía-fylki, 3.776 metrar á hæð. Austral-háskóli. Austral-háskóli (spænska: "Universidad Austral de Chile", "UACh") er síleskur háskóli í bænum Valdivia á Chile. Austral-háskóli er elsti og stærsti háskóli í Los Ríos-fylki. Skólinn var stofnaður árið 1954. Stórabóla. Stórabóla var afar mannskæð bólusótt sem gekk um Ísland á árunum 1707-1709 og er talið að fjórðungur til þriðjungur landsmanna hafi látist úr veikinni. Gangur faraldursins. Bólusóttin barst til landsins í júní 1707. Í "Árbókum Espólíns" segir að hún hafi borist til landsins með fatnaði af Gísla Bjarnasyni, sem dáið hafði úr bólu í Kaupmannahöfn; systir hans hafi tekið upp úr fatakistu sem send var heim skyrtu og annan fatnað og veikst skömmu síðar. Svipaðar sögur hafa raunar verið sagðar um upphaf annarra faraldra. Bólusóttin geisaði næsta ár í flestum þéttbýlustu sveitum landsins en síðan barst hún til Austurlands og um ýmsar afskekktari sveitir og varð vart til vors 1709. Manndauðinn var þó langmestur fyrra árið, einkum síðari hluta ársins 1707. Raunar virðist einhvers konar inflúensupest hafa verið samfara bólusóttinni og í Fitjaannál er talað um landfarsótt með þungu kvefi. Víða lögðust allir íbúar bæja og jafnvel heilla sveita svo að enginn stóð uppi til að hjúkra þeim sjúku en um það segir Páll Vídalín: „Þá var svo margur maður bólusjúkur í Snæfellsnessýslu, að þeir heilbrigðu unnust ekki til að þjóna þeim sjúku, og ætla ég víst, að fyrir þjónustuleysi muni margur dáið hafa, sem ella hefði kunnað að lifa“ Mannfall. Þótt kirkjubækur væru ekki komnar til sögunnar þegar Stórabóla gekk eru til allmiklar tölulegar upplýsingar, einkum í annálum, sem hægt er að bera saman við manntalið 1703. Til dæmis kemur fram í Setbergsannál að í Álftaneshreppi létust 195 úr bólu og með samanburði við manntalið má finna aldur langflestra. Í Mosfellssóknum létust frá 23. júlí til 26 nóvember 116 úr bólu. Þegar talin eru saman öll byggðarlög þar sem manndauði úr bólu er tilgreindur kemur í ljós að dauðsföllin eru 7847 en á þessum sömu svæðum bjuggu 29.722 íbúar árið 1703 samkvæmt manntalinu og þýðir það að mannfallið hefur verið 33%. Um þetta segir Jón Espólín: „Valdi veikin helzt úr yngisfólk roskið, alt það, sem var röskvast og mannvænlegast og meir karla en konur, en sízt ungbörn... Mistu þá margir öll börn sín og öll systkin ok voru hryggvir eftir... en það eitt gerði bóla sú hagligt, að hún tók á brott alla þá menn, er líkþrársýki var í en þeir voru mjög margir.“ Það er þó ofsagt að bólusóttin hafi útrýmt öllum holdsveikisjúklingum á landinu en þeir kunna að hafa verið enn næmari fyrir sjúkdómnum en aðrir. Þjóðfélagsáhrif. Stórabóla hafði vitaskuld mjög mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag. Sem fyrr segir varð mannfallið einna mest hjá ungu og fullfrísku fólki og því varð mikill skortur á vinnuafli, auk þess sem fólki á barneignaraldri fækkaði mikið og fjölgunin varð því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust víða í eyði og skortur varð á vinnufólki. Á árunum fyrir bóluna höfðu sprottið upp hjáleigur og þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína að miklu leyti á sjósókn en mikill afturkippur kom í þessa þróun við bóluna. Jafnframt urðu breytingar á landbúnaði, nautgripum fækkaði þar sem kúabúskapur var vinnuaflsfrekari en sauðfjárbúskapur og mikilvægi sauðfjárafurða í útflutningi jókst. Pedro de Valdivia. Pedro de Valdivia á olíumálverki Francisco Mandiola Campos (1854) Pedro de Valdivia (17. apríl 1497 – 25. desember 1553) var spænskur landvinningamaður sem lagði undir sig Chile og stofnandi borgarinnar Santíagó, Concepción og Valdivia í Chile. Hann var handsamaður og tekinn af lífi árið 1553 í stríði gegn Mapuche-mönnum. Panguipullivatn. Panguipullivatn (spænska: "Lago Panguipulli") er stöðuvatn í Los Ríos-fylki í Suður-Chile og er eitt af Vötnunum sjö sem svo eru nefnd. Vatnið er 116 ferkílómetrar að stærð og yfirborð þess er í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli. Úr vatninu rennur áin Río Enco suður til Riñihue-vatns. Stærsti bærinn, Panguipulli, er við vestanvert vatnið. Concepción. Concepción er næst stærsta borg Chile og miðpunktur efnahags í landinu. Borgin er höfuðborg Biobío-fylkis. Íbúar borgarsvæðisins voru 889.725 árið 2002, en innan borgarmarkanna eru íbúarnir 212.003. Borgin var stofnsett af Pedro de Valdivia 5. október 1550. Corral. Corral er bær og sveitarfélag á Suður-Chile. Corral liggur við Corralvík í Kyrrahaf. Corral er frægur í spænska heimsveldisins kastali sin. Corral er Valdivia hafnarborg. Lorentzkraftur. Lorentzkraftur eða segulkraftur er kraftur, sem verkar á hlaðna ögn, sem hreyfist í rafsegulsviði. Krafturinn er kenndur við Hendrik Antoon Lorentz. Skilgreining. Stundum er Lorentszkraftur aðeins talinn vera seinni liðurinn í jöfnunni hér að ofan, þ.e. "q" "v" × B, en fyrri liðurinn, "q" E, er þá s.k. rafsviðskraftur. Hlaðin ögn, sem ferðast með jöfnum hraða í föstu segulsviði, fer eftir hringferli og gefur frá sér s.k. "hringhraðlageislun". Rafsviðskraftur. Rafsviðskraftur er kraftur sá, sem verkar á kyrrstæða, rafhlaðna ögn í rafsviði. Skilgreining. Nota má rafsviðskraft til að skilgreina rafsvið, þ.a. E = F/q. Kúlombskraftur lýsir rafsviðskrafti milli tveggja punkthleðsla, en Lorentzkraftur lýsir krafti sem verkar á hlaðna ögn á hreyfingu í segulsviði. Kölnarbjór. Kölnarbjór (þýska: "Kölsch") er ljóst öl sem er framleitt í Köln í Þýskalandi. Kölnarbjór er ljósgullinn á lit með afgerandi humlabragði. Hann er yfirgerjaður hratt við um 20 °C hita en síðan látinn þroskast í kaldri geymslu við 14-16 °C. Hann er að jafnaði um 4,8% að styrkleika. Venjan er að drekka Kölnarbjór úr háum mjóum og beinum glösum sem eru kölluð „stangir“ (þýska: "Stangen"). Ellingsen. Ellingsen er verslun með sportveiði-, útivistar-, ferða- og sumarhúsavörur, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi. Verslunin var stofnuð árið 1916 af Othar Ellingsen sem verslun með útgerðarvörur. Verslunin var lengi á Grandagarði. 1999 keypti Olís Ellingsen og 2001 var rekstur félaganna sameinaður þannig að þjónusta við útgerðina fluttist inn á sölusvið Olís. 2006 flutti verslunin í nýtt húsnæði á Fiskislóð á Granda. Sæstrengur. Sæstrengur er fjarskiptastrengur sem lagður er neðansjávar fyrir símasamskipti og gagnaflutninga milli landa. Leiðarþing. Leiðarþing eða leiðir voru héraðsþing sem haldin voru á miðöldum að loknu alþingi, oftast á sama stað og vorþingið hafði verið haldið, og var tilgangurinn sá að gefa íbúum hvers héraðs nokkurs konar skýrslu um það sem fram hafði farið á Öxarárþingi. Á þjóðveldisöld voru það goðar sem héldu leiðarþingin en síðar féll það í hlut sýslumanna og sögðu þeir þar frá dómum, lagabreytingum og öðrum nýmælum. Leiðarþingin hafa líklega lagst af að mestu á 15. öld. Tvinnslétta. Tvinnsléttan er hnitakerfi tvinntalna, og má hugsa sem Kartesíska hnitakerfið þar sem "lóðásinn" ("y-ás") er notaður til að tákna þverhlutann. Kjörnir alþingismenn 1979. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1979. Gogogic. Gogogic er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki og tölvuleikjaframleiðandi sem framleiðir m.a. leiki fyrir facebook og IPhone. Dexoris. Dexoris er íslenskur tölvuleikjaframleiðandi sem framleiðir leiki fyrir iPhone. Fyrirtækið hefur framleitt tvo leiki, "Peter und Vlad" og "Audio Puzzle" fyrir iPhone. "Audio Puzzle" var tilnefndur sem besti tónlistarleikur ársins 2009 fyrir iPhone af vefsíðunni 148Apps. Tilkynnt var um sigurvegara á Macworld sýningunni 11. febrúar 2010 og lenti leikurinn í öðru sæti. Í apríl 2010 setti á laggirnar tónlistarsíðuna þar sem hægt er að finna upplýsingar um hljómsveitir og tónlistarmenn. Þar má meðal annars finna æviágrip, útgáfusögu, vinsælustu lög, spila lög frá YouTube, búa til spilunarlista (e. playlist), fylgjast með nýjasta tvíti frá twitter og fundið áþekka tónlistarmenn og tónlist. Einnig er boðið upp á að deila upplýsingunum á helstu félagsnetum (e. social networks), svo sem eins og Facebook, Twitter, MySpace og Digg. On the Rocks Productions. On the Rocks Productions er íslenskur tölvuleikjaframleiðandi sem framleiðir leiki fyrir IPhone. Ymir Mobile. Ymir Mobile er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir farsíma. Skúli Jón Friðgeirsson. Skúli Jón Friðgeirsson (fæddur 1988) er knattspyrnumaður sem leikur með Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Skúli leikur stöðu hægri bakvarðar, en er upprunalega miðjumaður. Skúli á fjöldan allan af landsleikjum fyrir yngri landsliðin. Hann spilar nú með sænska liðinu Elfsborg og varð hann sænskur meistari með liðinu haustið 2012. Þorvarður Loftsson. Þorvarður Loftsson ríki (um 1410 - 1446) var íslenskur höfðingi á 15. öld og er þekktastur fyrir að hafa verið einn leiðtogi þeirra sem fóru að Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi og drekktu honum 1433. Þorvarður var sonur Lofts ríka Guttormssonar og Ingibjargar Pálsdóttur konu hans og var albróðir Ólafar ríku. Hann erfði mikinn auð eftir föður sinn. Hann bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði en átti bú víðar á landinu. Litlar og ótryggar heimildir eru um aðdraganda atburðanna en sagnir herma að biskup hafi látið handtaka Þorvarð og annan höfðingja, Teit ríka Gunnlaugsson í Bjarnanesi í Hornafirði sumarið 1432 og flytja þá í Skálholt. Þar voru þeir að sögn hafðir í myrkrastofu og látnir berja fisk og vinna ýmis verk sem þeim þótti lítil virðing að. Sagan segir að Þorvarður hafi sloppið úr varðhaldinu haustið 1432 en Teitur ekki fyrr en um vorið. Þeir söfnuðu svo liði ásamt Árna Einarssyni Dalskeggi, höfðingja úr Eyjafirði, fóru í Skálholt 20. júlí 1433, drógu biskup út úr kirkjunni, drápu sveina hans sem í náðist, settu Jón í poka og drekktu honum í Brúará. Þess hefur verið getið til að þessir atburðir hafi í rauninni verið þáttur í baráttu enskra og þýskra kaupmanna um Íslandsverslunina og jafnvel orðið að undirlagi Jóns Vilhjálmssonar Craxton Hólabiskups, en hann og Loftur faðir Þorvarðar, sem þá var látinn, höfðu verið miklir bandamenn. Sagan segir einnig að Margrét Vigfúsdóttir, sem varð kona Þorvarðar, hafi sloppið naumlega þegar sveinar Jóns Gerrekssonar drápu Ívar bróður hennar á Kirkjubóli á Miðnesi, flúið norður í land og heitið því að giftast þeim sem hefndi bróður hennar. Sú saga er að vísu nokkuð þjóðsagnakend og þau Margrét og Þorvarður giftust ekki fyrr en þremur árum síðar, 14. október 1436. Margrét (f. um 1406, d. 1486) var dóttir Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra og Guðríðar Ingimundardóttur (um 1374 - d. eftir 1436) sem var af auðugum norskum höfðingjaættum. Þorvarður varð ekki gamall og Margrét bjó lengi ekkja á Möðruvöllum. Þau áttu þrjár dætur: Ingibjörgu konu Páls Brandssonar sýslumanns á Möðruvöllum, en þau og synir þeirra dóu öll í plágunni síðari 1494; Guðríði, konu Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og móður Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra; og Ragnhildi, sem giftist Hákarla-Bjarna Marteinssyni á Ketilsstöðum á Völlum og síðar á Eiðum. Stout. Stout eða stát (enska: „sterkur“) er dökkt öl gert með ristuðu byggi eða malti, auk hefðbundins malts og humla. Áður var nafnið notað í Englandi um allan sterkan bjór. Þekktasti státinn er án efa Guinness. Upphaflega var hugtakið "stout" notað yfir sterkasta bjórinn sem það og það brugghús framleiddi, þ.e. bjór sem var 7-8% að styrkleika. Porter er fremur dökkt öl upprunnið á Englandi á 18. öld en á 19. öld var farið að nota orðið "stout" yfir sterkan porter. Nú er algengara að skilgreina porter sem fremur dökkan bjór gerðan án þess að nota ristað bygg. Vinsældir stout dalaði nokkuð í Bretlandi á síðari hluta 20. aldar en með auknum áhuga á yfirgerjuðu öli eftir 1970 hefur hann aftur orðið vinsæll. Þekktasti státinn er eflaust Guinness sem er dæmi um írskan stout, en til eru ýmis afbrigði eins og t.d. imperial stout, sterkur stout kenndur við Rússland, mjólkurstout með laktósa og hafrastout sem er bruggaður með hafraflögum. Einnig eru til súkkulaðistout, gerður með súkkulaðimalti, kaffistout, gerður með dökkristuðu byggi, og jafnvel ostrustout, gerður með ostrum. Ágústínusarregla. Ágústínusarregla er klausturregla, kennd við heilagan Ágústínus frá Hippó (354 – 430), sem var einn kirkjufeðranna. Bréfið sem reglan sækir fyrirmynd sína í er mjög almennt og gefur færi á miklum sveigjanleika í túlkun svo að í rauninni er um margar tengdar munka- og nunnureglur að ræða. Á Íslandi voru nokkur Ágústínusarklaustur fyrr á öldum. Þau voru af þeirri grein reglunnar, sem kallast "Canonici Regulares Ordinis Sancti Augustini Congregationis". Bræðurnir kölluðust "kanokar" eða "kanúkar". Elst þeirra var Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri, stofnað 1168. Fjórum árum síðar, 1172, var stofnað Ágústínusarklaustur í Flatey á Breiðafirði en það var flutt til Helgafells 1184. Viðeyjarklaustur var stofnað 1226, Möðruvallaklaustur í Eyjafirði 1296 og Skriðuklaustur á Héraði 1493. Hin íslensku munkaklaustrin og bæði nunnuklaustrin voru af Benediktsreglu. Húnaþing. Húnaþing er eldra heiti yfir Húnavatnssýslu(r) og hefur haldið sér og alltaf verið notað jafnhliða, öfugt við til dæmis Hegranesþing (Skagafjarðarsýslu), þar sem þing-nafnið hefur alveg vikið fyrir sýsluheitinu. Húnaþing hefur alltaf verið notað yfir bæði Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu og staður sem sagður er „í Húnaþingi“ getur verið í hvorri sýslunni sem er. Þetta gæti þó breyst því að þegar Vestur-Húnavatnssýsla varð eitt sveitarfélag 1998 fékk það nafnið Húnaþing vestra en Austur-Húnavatnssýsla hefur ekki farið sömu leið. Hið forna þing Húnvetninga var á Þingeyrum en þess er ekki getið eftir að klaustur var stofnað þar 1133. Annáll. Annáll er heimild þar sem tíðindi eru rakin frá ári til árs (eða degi til dags, eða viðburðir eru raktir í tímaröð á annan hátt). Annálar eiga rætur að rekja til rómverskrar sagnaritunar. Íslendingar byrjuðu að rita annála mjög snemma, líklega um leið og ritöld hófst. Íslenskum annálum má skipta í tvo flokka, annars vegar eru fornannálarnir, sem rekja atburði frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á 15. öld, eða þar til ritun Nýja annáls lýkur 1430. Við það er oft bætt Gottskálksannál, sem nær til 1578, en fyrri hluti hans er byggður á eldri annálum sem eru glataðir en síðari hlutinn er samtímaheimild. Þeir annálar sem varðveittir eru munu raunar margir vera byggðir á eldri annálum sem ekki eru lengur til. Fremst í elstu íslensku annálunum er oft langur bálkur um erlenda atburði frá því fyrir landnámsöld, sem er útdráttur úr erlendum annálum. Einnig er oft getið um erlend tíðindi á síðari tímum. Hlé varð á annálaritun að mestu þar til Björn Jónsson á Skarðsá hóf að skrifa Skarðsárannál, sem ætlað var að brúa bilið frá því um 1430 fram á daga höfundarins. Fyrri hluta annálsins byggði Björn á munnlegum og skriflegum heimildum, en annállinn er samtímaheimild um atburði frá því um 1600 til 1640. Annálaritun fór mjög í vöxt á 17. og 18. öld og er til fjöldi annála frá þeim tíma, sem flestir eru kenndir við ritunarstað sinn en aðrir við höfunda. Sumir ná aðeins yfir fáein ár, aðrir spanna marga áratugi. Annálarnir eru mismunandi traustir en eru oft helsta eða eina heimildin um ýmsa atburði, einkum á fyrri annálatímanum. Siðrof. Siðrof er hugtak sem vísar til upplausnar samfélags þar sem samheldni og hefðbundið skipulag, sérstaklega það sem tengist viðmiðum og gildum hefur veikst og við tekur lögleysa. Émile Durkheim, sem er upphafsmaður kenninga um siðrof, taldi að siðrof væri venjulega fylgifiskur snöggra félagslegra breytinga, svo sem efnahagsþrenginga eða góðæra í samfélaginu. Hefðbundin viðmið veikjast án þess að ný myndist og það leiðir til þess að einstaklingar vita ekki almennilega hvernig þeir eiga að umgangast og hegða sér í samskiptum hverjir við aðra. Hittitíska. Hittitíska er indóevrópkst fornmál. Hún var töluð í Tyrklandi og Norður-Sýrlandi á öðru árþúsundinu f.Kr. Hernaðarveldi Hittíta stóð sem hæst á 14. öld f.Kr. Araucanía-fylki. Araucanía-fylki í Chile (spænska: "Región de la Araucanía", eða "IX. Región") er fylki í Suður-Chile, um miðbik landsins. Höfuðborg Araucanía-fylkis er Temuco, 70 km frá Kyrrahafi og 70 km frá eldkeilú Llaima. Araucanía-fylki liggur að Biobío-fylki í norðri, Argentína í austri, Los Ríos-fylki í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Los Ríos-fylki er eitt af 15 fylkjum eða stjórnsýslusvæðum í Chile. Fólksfjöldi (2002): 937.259 manns. Los Lagos-fylki. Los Lagos-fylki í Chile (spænska: "Región de Los Lagos", eða "X. Región") er fylki í Suður-Chile, um miðbik landsins. Höfuðborg Los Lagos-fylkis er Puerto Montt, við Kyrrahafi. Los Lagos-fylki liggur að Los Ríos-fylki í norðri, Argentína í austri, Aisén-fylki í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Los Lagos-fylki er eitt af 15 fylkjum eða stjórnsýslusvæðum í Chile. Fólksfjöldi (2002): 716.739 manns. Temuco. Temuco er borg í Chile um 620 km sunnan við Santíagó. Borgin er höfuðborg Araucanía-fylkis, íbúar eru 260.878 (2002). Borgin var stofnsett af sílenskum her 1883. Temuco er 70 km frá Kyrrahafi og 70 km frá eldkeilunni Llaima. Casiokids. Casiokids er norsk indie/popp-hljómsveit sem var stofnuð árið 2004. Þau hafa hlotið nokkra alþjóðlega umfjöllun þrátt fyrir að syngja á norsku. Sveitin var meðal annars á hljómleikaferðalagi um Bandaríkin og England 2009. Einnig spilaði hún á Iceland Airwaves um haustið. Meðlimir sveitarinnar eru Einar Olsson, Fredrik Øgreid Vogsborg, Ketil Kinden Endresen, Kjetil Bjøreid Aabø og Matias Monsen. Þekkt lög eru meðal annarra „Fot i hose“ og „Finn bikkjen“. Flæmskt rauðöl. Duchesse de Bourgogne er vinsæl tegund af flæmsku rauðöli. Flæmskt rauðöl er fremur súrt öl frá Belgíu. Það er fremur létt, 5-6% rautt til brúnt að lit og með einkennandi súrum ávaxtakeim sem verður til við gerjun með öðru geri en ölgeri, oftast mjólkursýrugerlum, og með löngum geymslutíma (ár eða meira) á eikartunnum. Rauði liturinn kemur úr sérstöku malti. Fullþroskað öl er oft blandað með yngra öli til að jafna bragðið. Kjörnir alþingismenn 1978. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1978. Pýþeas. Pýþeas frá Massalíu var landkönnuður sem uppi var á 4. öld f.Kr. Hann var af grískum ættum, frá grísku nýlendunni Massalíu (Marseille í Frakklandi). Á árunum 330-320 f.Kr., að því er talið er, ferðaðist hann til Norður-Evrópu og fór meðal annars víða um Bretlandseyjar. Rit Pýþeasar sjálfs hafa ekki varðveist en kaflar úr þeim voru teknir upp í önnur rit. Þar segir að frá Bretlandseyjum hafi hann siglt í sex daga í norður og komið að landi sem hann kallaði "Thule". Sumir telja að þarna hafi hann fundið Ísland og svo mikið er víst að hann hefur farið nokkuð norðarlega því hann var fyrstur til að lýsa í riti fyrirbærum eins og miðnætursól og hafís. Aðrir telja að Thule sé vesturströnd Norður-Noregs. Grænland og fleiri lönd hafa einnig verið nefnd. Pilot (How I Met Your Mother). "Pilot" er fyrsti þátturinn í 1. þáttaröðinni af sjónvarpsþættinum How I Met Your Mother. Hann var frumsýndur 19. september 2005. Næsti þáttur er "Purple Giraffe". Söguþráður. Þátturinn (og þáttaröðin) byrjar þegar eldri Ted byrjar að útskýra fyrir börnunum sínum söguna af því hvernig hann hitti móður þeirra. Sagan byrjar árið 2005, með því að Marshall biður Lily um að giftast sér, sem hvetur Ted til þess að byrja að leita að sálufélaga sínum. Á MacLaren's, ásamt Barney, hittir Ted sjónvarpsfréttakonuna Robin, og verður hann strax hrifinn af henni. Eftir að hafa talað við hana og eftir gott stefnumót með henni, sem inniheldur m.a. það að Robin er kölluð út fyrir sérstakan fréttatíma, ákveður Ted að kýla á það. Hann stelur bláu frönsku horni af veitingastaðnum sem þau höfðu farið á stefnumótið á, og heldur í áttina að íbúð Robin. Allt gengur að óskum þangað til hann segir Robin að hann elski hana, sem eyðileggur allan þann séns sem hann hafði. Eftir að hafa kvatt hana og eftir að hafa hugsað um það hvort hann hafi misskilið "merkið" (missir af því í annað skipti að geta kysst hana), og þegar við snúum aftur til eldri Ted segir hann börnunum sínum að þetta sé hvernig hann hitti... Robin frænku þeirra. Á meðan eru Marshall og Lily hamingjusamlega trúlofuð, þrátt fyrir að trúlofunin byrji illa þegar Marshall skýtur óvart korktappanum úr kampavínsflöskunni í augað á henni. Þórsnesþing. Þórsnesþing á Snæfellsnesi var héraðsþing sem stofnað var á landnámsöld og var annað tveggja þinga sem sögur herma að hafi starfað fyrir stofnun Alþingis. Heimildir um stofnun Þórsnesþings er að finna í Eyrbyggju og Landnámabók. Þar er sagt að landnámsmaðurinn Þórólfur Mostrarskegg hafi sett þingið þar sem Þórslíkneski hans rak á land. Í Eyrbyggju segir frá því að barist hafi verið á Þórsnesþingi, líklega á árunum 932–934, og eftir það hafi þingstaðurinn verið færður innar á nesið. Ástæðan fyrir bardaganum var deilur um hvar þingmenn skyldu ganga örna sinna, en samkvæmt reglum þingsins áttu þeir að fara út í svokallað Dritsker til þess að saurga ekki þingstaðinn. Eftir að fjórðungaþingum var komið á var fjórðungsþing Vestfirðinga á Þórsnesi. Fjórðungsþingin hafa líklega lagst af á 12. öld en héraðsþing (vorþing) var áfram haldið á Þórsnesi. Villarrica (borg). Villarrica er borg og sveitarfélag í Araucanía-fylki í Suður-Chile. Villarrica liggur við Villarricavatn. Borgina stofnsetti Jerónimo de Alderete árið 1552. Allsherjargoði. Allsherjargoði var virðingarheiti sem borið var á þjóðveldisöld af þeim sem hverju sinni fór með goðorð afkomenda Ingólfs Arnarsonar og var hlutverk allsherjargoðans fyrst og fremst að helga alþingi þegar það var sett. Þorsteinn Ingólfsson Arnarsonar var goði þegar Alþingi var stofnað 930 og varð hann fyrsti allsherjargoðinn. Sonur hans, Þorkell máni Þorsteinsson, tók við um 945 og var jafnframt lögsögumaður. Þormóður Þorkelsson tók við af honum 984 og var til 1020. Hamall sonur hans var svo allsherjargoði til 1055. Ekki er víst hver þriggja sona hans tók við eða hverjir voru allsherjargoðar næstu 100 árin en á síðari hluta 12. aldar varð Guðmundur gríss Ámundason allsherjargoði og hefur hann vafalaust verið afkomandi Hamals. Hann hafði allsherjargoðorðið til dauðadags 1210 og síðan Magnús góði sonur hans til 1234. Magnús var barnlaus og sumir telja að Árni óreiða Magnússon, bróðursonur Guðmundar gríss og tengdasonur Snorra Sturlusonar, hafi erft goðorðið og verið síðasti allsherjargoðinn (hann dó 1250) en það er þó alveg óvíst. Ásatrúarfélagið hefur endurvakið titilinn og kallast æðsti leiðtogi þess allsherjargoði. Núverandi allsherjargoði er Hilmar Örn Hilmarsson. Llaima. Llaima er virk eldkeila í Andesfjöllum í Suður-Chile. Síðast gaus Llaima Apríl árið 2009. Llaima er 70 km frá borgin Temuco og 140 km frá Kyrrahafi. Grytviken. Grytviken (íslenska: "Grýtuvík") er höfuðborg Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyja. Quetrupillán. Quetrupillán (spænska: "Volcán Quetrupillán") er virk eldkeila í Andesfjöllum í Suður-Chile. Quetrupillán er í norð-vestur lína frá Andesfjöllum með eldkeilu Villarrica og Lanín. Síðast gaus Villarrica árið 1872. Haúsa. Haúsa er afró-asískt mál talað af 25 miljónum í Nígeríu, Kamerún, Tsjad og Ghana. Segulmagn. Segulmagn eða seglun er sá eiginleiki sumra efna að mynda segulsvið. Hlutir úr slíku efni kallast seglar. Stærðfræðileg skilgreinig. þar sem "N" táknar fjölda segultvískauta í rúmmálseiningunni "V". Síseglar hafa fast segulmagn, en sumir hlutir mynda segulmagn þegar á þá verkar ytra segulsvið. Tengsl eru milli vigra segulsviðsstyrks B og H og segulmagns þannig að þar sem μ0 er segulsvörunarstuðull lofttæmis. þar sem χ er einingarlaus stærð, s.n. "segulviðtak" og lýsir hvernig hlutur bregst við ytra segulsviði. Segulviðtak getur ýmist verið jákvætt ("samseglun"), eða neikvætt("mótseglun"). þar sem formula_5 er segulsvörunarstuðull. Hringhraðlageislun. Hringhraðlageislun er rafsegulgeislun, sem myndast þegar hlaðnar agnir fara um segulsvið. Lorentzkraftur, sem er hornréttur á hraðavigur agnar og segulsvið, verkar á ögnina og sveigir braut hennar þannig að að hún tekur að hreyfast eftir hringferli í sléttu þvert á segulsviðslínurnar. Hlaðin eind, með massa "m" og hleðslu "q", sem fer með jöfnum hraða "v" um segulsvið af styrk "B", fer eftir hringferli með brautargeislann Sambandið hér að ofan fæst með því að gera ráð fyrir að hraðinn sé fjarri ljóshraða og að Lorentzkraftur sé jafn miðsókarkrafti hringhreyfingarinnar. Þannig má einangra geislann "r" út úr jöfnunni. Ef ögnin er rafeind fæst og ef um róteind er að ræða gildir þar sem segulsviðsstyrkurinn er gefinn í einigunni tesla. Ef hraði eindanna nálgast ljóshraða þarf að reikna með jöfnum afstæðiskenningarinnar og er þá talað um "samhraðlageislun". Dietrich Bonhoeffer. Dietrich Bonhoeffer (4. febrúar 1906 í Breslau – 9. apríl 1945, útrýmingabúðunum í Flossenbürg) var einhver þekktasti þýski guðfræðingur 20. aldar. Hann barðist ötullega gegn nasistum bæði í orði og verki og var einhver fyrsti þýski guðfræðingurinn til að gera sér grein fyrir hvílík hætta stafaði af hinni nýju stjórn Hitlers í Þýskalandi árið 1933. Bonhoeffer var frá upphafi liðsmaður Játningarkirkjunnar þýsku sem sá að stuðningur við Hitler og nasismann fékk engan veginn samrýmst kristinni trú. Vígslóði. Vígslóði er sá hluti hinna fornu þjóðveldislaga Íslendinga sem fjallar um manndráp og áverka. Hann var með því allra fyrsta sem fært var í letur á Íslandi, á Breiðabólstað í Vesturhópi veturinn 1117-1118 sem hluti af Hafliðaskrá. Síðar varð hann hluti af lögbókinni Grágás. Yfirskrift Vígslóða er: „Hér hefr upp víg slóða“ og textinn hefst á orðunum: „Þat er mælt þar er menn finnast á förnum vegi ok hleypr maðr til manns lögmætu frumhlaupi ok varðar þat fjörbaugsgarð“. Lögmaður (íslenskt embætti). Lögmaður var embætti í íslensku stjórnsýslunni frá lokum þjóðveldis 1262 og voru lögmenn æðstu menn dómskerfisins innanlands. Þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd var embætti lögsögumanns lagt niður og í staðinn kom embætti lögmanns. Fyrst var lögmaðurinn aðeins einn yfir allt landið en innan fárra ára var ákveðið að þeir skyldu vera tveir, annar norðanlands og vestan en hinn var lögmaður sunnan og austan. Lögmenn settu Alþingi og slitu því. Þeir sátu í lögréttu, stýrðu fundum hennar og nefndu lögréttumenn í dóma. Þeir völdu líka lögréttumenn ásamt sýslumönnum. Lögmenn voru nær alltaf íslenskir, öfugt við hirðstjóra og fógeta, sem oftar en ekki voru erlendir þegar kom fram yfir miðja 15. öld. Lögmenn voru kosnir af lögréttu en konungur staðfesti kjör þeirra. Silfurhesturinn. Silfurhesturinn (stundum uppnefndur Sokki) voru bókmenntaverðlaun dagblaðanna í Reykjavík og voru veitt af bókmenntagagnrýnendum. Verðlaunin voru ekki bundin við skáldverk eingöngu heldur líka rit sem voru talin hafa bókmenntalegt gildi. Silfurhesturinn var veittur fyrst árið 1967 og á hverju ári til ársins 1974. Jóhannes Jóhannesson smíðaði gripinn. Um tíma var Silfurhesturinn kallaður „Sokki“. Það var vegna rifrildis sem hófst um Silfurhestinn árið 1968 þegar Guðbergur Bergsson, þá enn umdeildur höfundur, hlaut verðlaunin. Ragnar í Smára lét þá svo um mælt við afhendingu verðlaunanna að þetta væri djarfasta verðlaunaveiting sem sögur færu af. Jónshús. Jónshús (eða Hús Jóns Sigurðssonar) (danska: "Islands Kulturhus") er hús Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju og konu hans Ingibjargar Einarsdóttur á Øster Voldgade 12 (áður númer 8) í Kaupmannahöfn. Götuna nefna Íslendingar oft "Austurvegg". Jón og Ingibjörg bjuggu á þriðju hæð í húsinu frá 1852 til dauðadags 1879. Húsið myndar hornið á Øster Voldgade og Stokhusgade. Carl Sæmundsen kaupmaður afhenti Alþingi húsið til eignar 17. júní 1966. Í Jónshúsi er starfsemi sem tekur bæði til menningar og félagsstarfs. Á fyrstu hæð í Jónshúsi er samkomusalur þar sem oft eru samkomur og sýningar íslenskra listamanna. Á annarri hæð er fræðimannsíbúð. Á þriðju hæð hússins er sýning um líf og starf Jóns forseta, auk bókasafns. Á fjórðu hæð var íbúð sendiráðsprestsins. Í húsinu er aðstaða fyrir félagsstarfsemi Íslendinga sem búsettir eru á Kaupmannahafnarsvæðinu Cesc Fabregas. Francesc „Cesc“ Fabregas i Soler (fæddur 4. maí 1987) er spænskur fótboltamaður sem spilar fyrir FC Barcelona og spænska landsliðið Leikferill. Hann fæddist í Vilassar de Mar, Barselóna, Katalóníu. Hann byrjaði fótboltaferill sinn með CE Mataró, áður en hann var keyptur af FC Barcelona í uppeldistarf félagsins, 10 ára að aldri árið 1997.. Hann gerði samning við Arsenal þann 11. september 2003. Hann átti erfitt uppdráttar en vinskapur hans við Philippe Senderos hjálpaði honum að koma sér fyrir Hann fór ekki beint inn í aðaliðið en leit upp til leikmanna eins og Patrik Vieira og Gilberto Silva. Fyrsti leikur hans fyrir Arsenal var þann 23. október 2003, gegn Rotherham United. Heimildir. Fabregas, Cesc Record Records. 'Óháða hljómplötuútgáfan Record Records er afkvæmi hins unga og atorkusama tónlistarunnanda Haralds Leví Gunnarssonar. Starfsemi útgáfunnar hófst síðla árs 2007 og var í byrjun mjög smá í sniðum enda var Haraldur eini starfsmaður útgáfunnar og útgáfan upprunalega hugsuð sem tómstundargaman. Hann starfaði á þeim tíma sem starfsmaður í hljómplötuverslun og lamdi húðir í rokksveitinni Lada Sport. Í frístundum sínum lagði hann svo drög að því hvernig væri hentugast að halda úti óháðri hljómplötuútgáfu í litlu landi með nánast engri yfirbyggingu. Til að byrja með dreifði hann fyrir upprennandi tónlistarmenn og var lagerinn í bílskúr foreldra hans í Hafnarfirði. Enginn asi var á að drífa í fyrstu útgáfunni heldur að fara rólega í sakirnar og bíða frekar eftir réttu hljómsveitinni. Rétt tæpu ári eftir stofnun leit fyrsta útgáfan dagsins ljós sem var önnur breiðskífa hljómsveitarinnar Mammút, Karkari. Á starfsferli sínum hefur útgáfan náð að vaxa hægt og þétt og af mikilli alúð. Heildarútgáfa Record Records nálgast þriðja tug breið-, smá og þröngskífur með hljómsveitum á borð við Of Monsters and Men, Retro Stefson, Moses Hightower, Ojba Rasta, Tilbury, Agent Fresco, Sykur, Orphic Oxtra og Ensími. Frá stofnun útgáfunnar hefur Haraldur haft að örfá markmið að leiðarljósi og þau eru að vinna vel og náið með tónlistarmönnum, sýna heiðarleika og heiðarleika í samskiptum og starfi og aldrei að gefa út tónlist nema hún sé á einhvern máta áhugaverð og framúrskarandi. Þrátt fyrir farsælt gengi Record Records er yfirbyggingin enn þann dag í dag jafnt sem engin og auk Haralds starfar einn starfsmaður í dreifingu á geisladiskum og vínilplötum fyrir íslenskan markað. Record Records gefur eingöngu út og dreifir plötum á Íslandi. Haraldur Leví Gunnarsson. Haraldur Leví Gunnarsson (fæddur 18. ágúst 1987) er trommuleikari og hljómplötuútgefandi. Hann er eigandi hljómplötuútgáfunnar Record Records og hefur spilað á trommur með hljómsveitum á borð við Lada Sport og Lifun. Einnig hefur hann verið einn af stjórnendum 90's þáttarins Sonic frá fyrsta þætti. Björgunarsveitin Húnar. Björgunarsveitin Húnar er íslensk björgunarsveit á Hvammstanga. Hún var stofnuð 27. febrúar 2007 með sameiningu Flugbjörgunarsveitar Vestur-Húnavatnssýslu og Björgunarsveitarinnar Káraborgar á Hvammstanga. Starfssemi björgunarsveitarinnar miðast við að geta leyst þau verkefni við leit og björgun sem til hennar er leitað með jafnt á sjó sem landi. Björgunarsveitin starfar innan Slysavarnafélagssins Landsbjargar. Starfssvæði sveitarinnar nær yfir Húnaþing vestra, Bæjarhrepp og Strandabyggð inn í Bitrubotn. Á Hvammstanga eru höfuðstöðavar björgunarsveitarinnar í björgunarstöðinni Húnabúð, einnig á björgunarsveitin aðra björgunarstöð að Reykjaborg á Laugarbakka í Miðfirði. Á Borðeyri við Hrútafjörð er líka staðsett ein af björgunarbifreiðum sveitarinnar. Öll starfsemi björgunarsveitarinnar er unnin í sjálboðavinnu hvort við á um leit, björgun, æfingar eða fjáröflun til starfseminnar. Einnig er mikið samstarf við Slysavarnadeildina Káraborg og Rauðakrossdeildina á Hvammstanga. Unglingadeildin Skjöldur. Unglingadeildin Skjöldur. Mynd tekin í Húnabúð Innan björgunarsveitarinnar starfar líka líka Unglingadeildin Skjöldur og er starfsemin miðuð við að börn í 9. bekk og eldri, það er að segja þar til þau geta gengið til liðs við björgunarsveitina á átjánda ári. Deildin var stofnuð 2008 en starfsemi hennar byggist á að gera félagana undirbúna fyrir störf í björgunarsveit er þau ná átján ára aldri. Starfsemin er mjög samofin starfssemi björgunarsveitinni og vinna unglingarnir saman með björgunarsveitinni að hinum ýmsu málum m.a. fjáröflun, æfingum o.fl. Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi. "Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi" (latína: "Safn íslenskra skinnbóka frá miðöldum", skammstafað CCI) er ritröð sem forlagið Levin og Munksgaard í Kaupmannahöfn gaf út á árunum 1930–1956. Frumkvæðið að útgáfunni átti hinn stórhuga útgefandi Ejnar Munksgaard í Kaupmannahöfn. Engin opinber stofnun hafði treyst sér í slíkt verkefni, en Munksgaard sá möguleika í stöðunni vegna þess hve víðtæka skírskotun íslensku fornritin höfðu. Hann réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, heldur byrjaði á stærsta og veglegasta handritinu, Flateyjarbók. Útgáfan gekk hratt fyrir sig í byrjun, en nokkuð hægðist á eftir síðari heimsstyrjöld. Síðustu þrjú bindin komu út eftir að Ejnar Munksgaard dó (1948), og með 20. bindi (1956) taldist ritröðinni lokið. Þá var hafin útgáfa á annarri ritröð með ljósprentuðum íslenskum handritum á vegum Munksgaards-forlagsins, Manuscripta Islandica. Einar Munksgaard var sjálfur ritstjóri úgtáfunnar á meðan hans naut við, en eftir að hann dó, 1948, tók Jón Helgason við ritstjórn og sá um 18., 19. og 20. bindi. Íslenskir fræðimenn unnu mikið að útgáfu CCI, sem mikið var lagt í. Bækurnar voru stórar, bundnar í hvítt pergament og skjaldarmerki Íslands á fremra spjaldi, fyrst skjaldarmerki konungsríkisins, síðan lýðveldisins. Útgáfan á CCI var gríðarleg auglýsing fyrir íslenskar fornbókmenntir, enda var höfðinglega að henni staðið. Reyndar hefur verið fundið að því að bækurnar hafi verið óþarflega stórar og þungar, því að þær voru prentaðar á mjög þykkan pappír. Einnig voru sumir formálarnir nokkuð almenns eðlis og fjölluðu fremur lauslega um viðkomandi handrit, en athygli alveg eins beint að efni þeirra rita sem handritið hafði að geyma. Engu að síður var útgáfunni tekið fagnandi af áhugamönnum um norræn fræði og voru bækurnar seldar til safna og einstaklinga út um allan heim. William A. Craigie. Sir William A. Craigie á efri árum. Sir William A. Craigie – (fullu nafni "William Alexander Craigie") – (13. ágúst 1867 – 2. september 1957) var skoskur málfræðingur og höfundur orðabóka. Hann var frumkvöðull í útgáfu á íslenskum rímum. Æviágrip. William A. Craigie fæddist í Dundee, Skotlandi, 1867. Foreldrar hans töluðu lágskoska mállýsku, en afi hans í móðurætt talaði gelísku. Einstök tungumálagáfa Williams og uppeldisaðstæður ollu því að hann náði í æsku góðum tökum á skoskum mállýskum. Hann hóf háskólanám í St. Andrews-háskóla 1883, brautskráðist 1888, fór síðan í Balliol College í Oxford, en flutti sig eftir eitt misseri yfir í Oriel College. Þekking hans á tungumálum varð með tímanum frábær og sérhæfði hann sig einkum í gelísku, fyrri alda skosku og Norðurlandamálum, einkum íslensku. Hann hafði mikinn áhuga á frísnesku, sem er það mál sem stendur einna næst ensku, og beitti sér í þágu móðurmálshreyfingar Frísa. (Átti m.a. þátt í stofnun Frísnesku akademíunnar 1938, og varð þá heiðursfélagi hennar). Sagt var að þegar hann var upp á sitt besta hafi hann verið læs á 50 tungumál. Hann var kennari í latínu við St. Andrews háskóla 1893–1897, fluttist svo til Oxford og hóf störf við Oxford English Dictionary 1897 og varð þriðji ritstjóri orðabókarinnar, frá 1901 og þar til útgáfunni var lokið 1928. Hann var aðstoðarritstjóri við vinnslu viðaukans 1933 (með C. T. Onions). Samhliða vinnu við orðabókina var hann kennari í Norðurlandamálum við Taylorian Institute í Oxford, frá 1905. Frá 1916 til 1925 var hann prófessor í fornesku í Háskólanum í Oxford. Árið 1925 tók hann að sér að hafa umsjón með "Dictionary of American English", sögulegri orðabók, sem kom út í fjórum bindum 1936–1944. Fluttist hann þá vestur um haf og varð prófessor í ensku við Chicago-háskóla. Flutti hann þar fyrirlestra um orðabókargerð, og nutu margir þekktir bandarískir orðabókahöfundar leiðsagnar hans í tengslum við þetta fyrirlestrahald. Meðal rita hans þar var: "The study of American English" (1927). Árið 1936 fluttist William Craigie aftur til Englands til að geta einbeitt sér að "Dictionary of the Older Scottish Tongue", sem var verkefni sem hann var upphafsmaður að. Vann hann að orðabókinni til 88 ára aldurs (1955) og hafði lokið bókstafnum I, þegar annar ritstjóri, Adam Jack Aitken, tók við. William A. Craigie hefur verið sagður einn afkastamesti orðabókahöfundur sinnar tíðar. Hann vann að jafnaði 7½ klst. á dag að orðabókagerð, hvorki lengur né skemur. Samhliða orðabókarstörfunum vann William Craigie að mörgum öðrum fræðilegum verkefnum, auk vinnu í þágu ýmissa fræðafélaga. Hann var t.d. forseti "The English Place-Name Society" 1936–1945, "Scottish Text Society" ("Skoska fornritafélagsins") 1937–1957, og "Anglo-Norman Text Society" 1938–1957. Á vegum "Skoska fornritafélagsins" gaf hann út sjö bindi. William Craigie giftist (1897) Jessie K. Hutchen – Lady Craigie – rithöfundi (d. 10. febrúar 1947). Þau voru barnlaus. William Craigie og Ísland. William Craigie dvaldist í Kaupmannahöfn veturinn 1892–1893 til að læra betur Norðurlandamálin. Kynntist hann þar nokkrum Íslendingum, svo sem Valtý Guðmundssyni og Þorsteini Erlingssyni og lærði íslensku til hlítar. Í grúski á söfnum þar rakst hann á handrit að "Skotlandsrímum" eftir síra Einar Guðmundsson á Stað á Reykjanesi, frá fyrri hluta 17. aldar. Rímurnar fjalla um samsæri gegn Jakob 6. Skotakonungi árið 1600. Tók Craigie afrit og gaf rímurnar út í vandaðri útgáfu í Oxford 1908. Fékk hann þá áhuga á rímum, sem entist meðan hann lifði. Þó að íslensk viðfangsefni hafi aðeins verið hjáverk í störfum Williams A. Craigies, þá er sá þáttur nokkuð drjúgur, sbr. ritaskrá. Mest beitti hann sér í þágu íslenskra rímna, sem hann taldi merkilegar ekki aðeins sem bókmenntagrein, heldur einnig sem málfarslegar og menningarsögulegar heimildir. Hann hvatti til þess að stofnað yrði félag til útgáfu á rímum og varð það að veruleika haustið 1947, þegar Rímnafélagið var stofnað. William Craigie kom a.m.k. fjórum sinnum til Íslands, fyrst snögga ferð 1905. Árið 1910 dvöldust þau hjón hér í 10 vikur, ferðuðust um Vesturland og komu m.a. að Stað á Reykjanesi, þar sem Skotlandsrímur voru ortar. Sir William A. Craigie var sýndur margvíslegur sómi fyrir störf sín, hann var sleginn til riddara 1928, þegar lokið var fyrstu útgáfu "Oxford English Dictionary". Hann fékk riddarakross Fálkaorðunnar 1925, og stórriddarakross 1930. Hann varð heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags 1916 og Rímnafélagsins frá stofnun, 1947, og heiðursdoktor frá Háskóla Íslands 1946. Hann var félagi í mörgum vísindafélögum. Snæbjörn Jónsson bóksali var mikill vinur Craigies og var óþreytandi að vekja athygli á störfum hans í þágu Íslendinga. Kóran. Kóran (arabíska: القرآن‎ al-qur’ān) þýðir „upplestur“ eða „framsögn“ og er helgasta rit í Múhameðstrú. Almenn trú múslima er að Kóraninn sé hið óbrenglaða orð Allah opinberað Múhameð í gegnum erkiengilinn Gabríel. Sem slíkur á Kóraninn að vera hin síðasta opinberun Allah til manna og skal duga til dómdags, borin fram orðrétt eins og Allah mælti. Múslimar trúa því að Kóraninn sé mikilvægast allra rita og ofar lögum manna. Almenn trú múslima er sú að sá Kóran, sem til er í dag, sé óbreytt útgáfa frá því sem Múhameð mælti fram á sínum tíma, orð fyrir orð, punkt fyrir punkt, en Múhameð var sjálfur ólæs og óskrifandi og á að hafa borið fram Kóraninn einungis munnlega. Kóranskóli (Madrasha) í Egyptalandi. Mikil áhersla er lögð á utanbókalærdóm úr Kóraninum. Kóraninn er skrifaður á því sem nú kallast trúarleg arabíska sem er töluvert frábrugðin nútíma arabísku, auk þess sem sýnt hefur verið fram á að finna má fjölda tökuorða úr öðrum tungumálum í texta hans. Sá sem talar og les nútíma arabísku getur þó ekki skilið trúarlega arabísku Kóranins án þess að fara í gegnum sérstaks nám fyrst. Múslimum er gjarnan kennt að söngla eða kyrja vers Kóranins utanbókar frá barnsaldri, oft án þess að skilja innihaldið sjálft. Kóraninn hefur þó verið þýddur á fjölda tungumála. Kóraninn er ekki auðlesinn og gefur einn og sér ekki heildarmynd af boðskap eða innihaldi íslams, né heldur gefur hann heildarmynd af því hvernig íslam þróaðist frá fyrsta boðskap Múhameð til síðustu daga hans. Kóraninn samanstendur af sjálfstæðum versum eða súrum, sem er ekki raðað í tímaröð heldur eftir lengd, frá þeirri lengstu til þeirrar stystu, hver súra er að auki merkt eftir því hvort hún á að hafa komið fram í Mekka eða í Medína. Að auki er frásagnarstíllinn frjálslegur og ruglingslegur þar sem til dæmis er skipt á fyrstu, annarri og þriðju persónu sögumannsins, nútíð og þátíð, eintölu og fleirtölu sögumannsins innan stakra versa og nánast í stökum setningum hér og hvar í öllu ritinu. Allt þetta gerir Kóraninn erfiðan aflestrar og raunar ruglingslegan og illskiljanlegan. Að auki hefur verið bent á að samhengi Kóranins sér víða misvísandi, til dæmis segir í nokkrum versum að hann sé aðeins ætlaður aröbum, en í öðrum versum segir að hann sé ætlaður öllum mönnum Sagnfræðilegir atburðir og persónur sem lýst er á nokkrum stöðum í Kóraninum eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, svo sem þar sem María móðir Jesús er sögð vera systir Arons og dóttir Ímrans (eða Amrans) og er henni þar ruglað saman við hina réttu Miriam sem var uppi um 1500 árum áður og fram kemur í Gamla testamentinu (Exodus 2:1-10). Varðandi misvísandi boðskap í Kóraninum er gjarnan bent á súru tvö annars vegar, sem boðar að ekki sé hægt að boða trú með nauðung eða þvingun, og súru níu hins vegar, sem boðar að múslimar skuli ráðast á og drepa þá sem ekki tilbiðja Allah. Hafiz er sá nefndur sem hefur lært allan Kóraninn utanbókar. Margir múslimar sem annars kunna ekki arabísku læra hann utanbókar að miklu eða öllu leyti. Allir múslimar verða að læra brot úr Kóraninum til að geta farið með bænir Uppruni. Kóran frá 12. öld. Handrit frá Andalúsíu. Margt hefur verið ritað um uppruna og trúverðugleika Kóranins síðustu áratugina. Vitað er nú að Kóraninn var ekki færður í rit fyrr en um 150-200 árum eftir dauða Múhameðs. Flestir fræðimenn múslima trúa því hins vegar að Uthman, tengdasonur Múhameðs og þriðji kalífinn, hafi látið færa Kóraninn í letur stuttu eftir dauða Múhameðs, en aðrir múslimar trúa að það hafi verið Abu Bakr, fyrsti kalífinn, þar sem ein hadíðsaga greinir þannig frá: „Zaid bin Thabit, ansari sagði, 'Abu Bakr kallaði mig til sín eftir hið mikla fall stríðsmanna í orustunni við Yamama' (þar sem stór hluti af samtímamönnum Múhameðs voru drepnir). Umar var þar með Bakr. 'Margir hafa fallið við Yamama, og ég hef áhyggjur af því að fleiri muni deyja á öðrum vígvöllum af þeim sem kunna að kveða Kóraninn. Stór hluti Kóranins mun tínast nema þú safnir honum saman.' Ég svaraði Umari, 'Hvernig get ég gert það sem sendiboði Allah hefur ekki gert? En Umar hélt áfram að reyna að fá mig til að taka tilboði sínu'. Zaid bin Thabit bætti við, 'Umar sat þar með Abu Bakr og sagði við mig'. 'Þú ert vís ungur maður og við munum ekki gruna þig um að fara með lygar eða um gleymsku. Þú varst vanur að semja hinn guðlega innblástur fyrir sendiboða Allah. Því skalt þú leita Kóranins og safna honum.' 'Við nafn Allah, ef Abu Bakr hefði skipað mér að færa til eitt fjallanna hefði það verið mér auðveldara en að safna saman Kóraninum. Ég sagði við þá báða, “Hvernig vogið þið ykkur að gera hlut sem Spámaðurinn hefur ekki gert?“. Sagan segir enn fremur að eitthvað af súrum Kóranins hafi þá þegar verið ritaðar á hluti svo sem dýrabein, skinn, steina og tré. Margt bendir til þess að Zaid bin Thabit hafi ennfremur verið vel kunnur trúartextum gyðinga, sbr. hadíð: „Það árið, skipaði Spámaðurinn Zaid bin Thabit að kynna sér vel bók gyðinga, og sagði 'ég hef áhyggjur af því að þeir muni breyta Bók minni'“. Ein hadíðsaga sem segir frá því að Uthman hafi fyrirskipað ritun Kóranins segir svo frá: „Uthman kallaði til sín Zaid, Abdallah, Said og Abd-Rahman. Þeir skrifuðu handritin að Kóraninum í formi bókar í nokkrum eintökum. Uthman sagði við þá þrjá sem voru Quraish, ‚Ef ykkur greinir á við Zaid bin Thabit um einhvern hluta Kóranins, skrifið þá á tungumáli Quraish, þar sem Kóraninn var opinberaður á þeirra tungumáli.‘ Þeir gerðu sem hann bað.“ Ofangreindar tilvísanir í hadiðtexta leiða í ljós að ritararnir sjálfir hafi í raun ekki haft aðgang að nákvæmum texta Kóranins eins og Múhameð á að hafa mælt hann eða kveðið, auk þess sem tungumálið, eða málýskan, sem notuð var við upphaflega ritun hans er nokkuð á reiki. Fræðimennirnir Wansbrough, Schacht, Rippin, Crone, og Humphreys hafa sagt um uppruna Kóranins: „Nánast samróma álit fræðimanna, sem hafa greint Kóraninn og hefðirnar (Hadíð), hefur verið það að ritning íslams var ekki opinberuð einum manni, heldur hafi verið safn síðari tíma sagna og mismunandi útgáfur af þeim, og virðast hafa verið færðar í rit af hópi manna um nokkur hundruð ára skeið. Sá Kóran sem við lesum í dag er ekki sá sem hugsanlega fyrirfannst um miðja sjöundu öldina, heldur var hann ritaður á áttundu og níundu öldinni. Hann var ekki settur saman í Mekka eða í Medína, heldur í Bagdad. Það var þar og þá sem íslam tók á sig formlega mynd og varð að trúarbrögðum. Með hliðsjón af þessu er myndunartími íslams ekki á tíma Múhameðs, heldur nær hann yfir 300 ár.“ Að sama skapi má gera ráð fyrir að Kóraninn hafi verið settur saman í nokkru flýti og án lagfærsla eða mikillar vandvirkni, svo sem hvað varðar rangfærslur um sagnfræðilega atburði og efni sem tekið var úr ritum gyðinga og kristinna. Einnig hafa verið leiddar að því líkur að Kóraninn eða forveri hans hafi fyrst komið fram í Bagdad í tíð landstjórans Al-Hajjaj, undir kalífanum Umayyad, einhvern tíman eftir árið 705. Hvers vegna ekkert hefur fundist af fyrstu handritum og útgáfum Kóranins, sem getið er um í hadíðsögnunum sem nefndar hafa verið hér að framan, hefur þótt nokkuð athyglisvert. Sér í lagi í samanburði við önnur eldri rit sem hafa varðveist yfir lengri tíma. Um þetta segja Ling og Safadi: „Við höfum engar vísbendingar um upphaflegu útgáfu Kóranins, né finnast hlutar úr eintökunum fjórum sem eiga að hafa verið send til Mekka, Medína, Basra og Damaskus“. Jafnvel þó þessi eintök hafi eyðst með tíma og notkun, mætti ætla að einhverjir hlutar þeirra hefðu fundist. Við enda sjöundu aldar höfðu innrásarherir múslima lagt undir sig landsvæði frá Indlandi og allt vestur til Spánar. Kóraninn, samkvæmd hefðum múslima, var hornsteinninn í trú þeirra. Á öllu þessu svæði, ættu að finnast einhver skjöl eða handrit með vísan í Kóraninn og efni hans. En það er ekki einn einasta bókstaf að finna frá þessum tíma. Það er bókstaflega ekkert sem finnst frá fyrstu þremur kynslóðum íslams (eftir dauða Múhameðs) sem gæti sýnt að Kóraninn hafi verið til. Til samanburðar við rit kristinna manna má nefna að varðveist hafa meira en 5.500 grísk handrit að Nýja testamentinu, 10.000 á latínu og að minnsta kosti 9.500 aðrar útgáfur, samtals meira en 25.000 eintök og hlutar úr Nýja testamentinu sem til eru enn þann daginn í dag og flest skrifuð 25 til 350 árum eftir dauða Jesús”. Aldursgreining á elstu eintökum Kóranins hefur hingað til verið viðkvæmnismál í heimi múslima og nákvæm aldursgreining með aðferðum efnagreiningar hefur ekki verið leyfð. Flestar aldursgreiningar hafa því verið framkvæmdar með greiningum á leturgerð og ritháttum. Þær greiningar hafa leitt í ljós að elstu rit Kóranins, sem varðveist hafa, komu fram 150 til 200 árum eftir dauða Múhameðs. Eitt af elstu eintökum Kóranins er hins vegar geymt í The British Library í London og á því hefur verið framkvæmd nákvæm aldursgreining undir stjórn forvarðarins og fræðimannsins Martin Lings (1909-2005), sem sjálfur var múslimi. Sú aldursgreining leiddi í ljós upprunaaldur við lok áttundu aldar, eða um 800 eftir Krist, og staðfestir þar með kenningar fræðimanna um uppruna Kóranins. Merkur fundur átti sér stað árið 1972 í Sana'a í Jemen þar sem mikið magn Kóransíða eða rulla fannst fyrir tilviljun í gamalli mosku sem átti að gera upp. Síðurnar virðast vera frá ártalinu 705 og bera texta sem er töluvert frábrugðin þeim Kóran sem við þekkjum í dag. Rannsókn á þessum eintökum stendur enn yfir og þykir mikið viðkvæmismál fyrir trúarheim Múslima. Þessi fundur þykir ennfremur renna stoðum undir þá kenningu að núverandi Kóran hafi ekki komið fram fyrr en á seinni hluta áttundu aldar, löngu eftir dauða Múhameðs. Tímaröð súra. Fræðimenn hafa greint kóraninn og íslömsku hefðirnar (hadíð) til að sjá rétta tímaröðun súra kóranins eins og Múhameð á að hafa mælt þær fram. Þýski sagnfræðingurinn Theodor Nöldeke (1836-1930) er talin hafa sett fram áreiðanlegustu kenninguna um þetta efni, sem hann birti í bók sinni “Geschichte des Korans” árið 1860. Samkvæmt kenningum Nöldeke er líklegust tímaröð súra kóranins sem hér segir: Súrur frá Mekkatímabili Múhameðs er deilt í þrjú tímabil. Fyrsta tímabilið (frá fyrsta til fimmta ári trúboðs Múhameðs í Mekku) inniheldur súrur 96, 74, 111,106, 108, 104, 107, 102, 105, 92, 90, 94, 93, 97, 86, 91, 80, 68, 87, 95, 103, 85, '73, 101, 99, 82, 81, 53, 84,100, 79, 77, 78, 88, 89, 75, 83, 69, 51, 52, 56, 55, 112, 109, ll3, 114, og 1. Annað tímabilið (fimmta og sjötta ár trúboðs Múhameðs) inniheldur súrur 54, 37, 71, 76, 44, 50, 20, 26, 15, 19, 38, 36, 43, 72, 67, 23, 21, 25, 17, 27, og 18. Þriðja tímabilið (frá sjöunda ári að flutningi Múhameðs til Medína (Yatrib)) inniheldur súrur 32, 41 45, 16, 30, 11, 14,12, 40, 28, 39, 29, 31, 42, 10, 34, 35, 7, 46, 6, og 13. Súrur sem eignaðar eru Medínatímabili Múhameðs eru svo súrur 2, 98, 64, 62, 8, 47, 3, 61, 57, 4, 65, 59, 33, 63, 24, 58, 22, 48, 66, 60,110, 9, og 5. Tímaröð súra Kóranins er mikilvæg hvað varðar túlkun hans fyrir klerka múslima og sér í lagi er ákvæð Kóranins um afturköllun eða niðurfellingu (Kóran 2:106) mikilvægt, þar sem nýrri vers (arabíska: nasikh) eða tilskipanir fella samsvarandi en eldri vers (arabíska: mansukh) úr gildi. Afturköllunarvers Kóranins sem útskýrir í raun að Allah skiptir um skoðun hér og hvar í Kóraninum og hljómar þannig: “Hvaða teikn sem Vér afmáum eða látum í gleymsku falla, setjum Vér annað betra eða jafn-gott í þess stað. Er þér ókunnugt, að Allah hefur vald yfir öllum hlutum?”. Þannig má til að mynda sýna fram á að hinar herskáru og ofbeldisfullu súrur frá Medínatímabili spámannsins, svo sem níunda súran, eru atkvæðameiri en eldri og friðsamari súrur frá Mekkatímabilinu. Af öllum 114 súrum Kóranins eru einungis 43 sem ekki innihalda afturkölluð vers. Hin grimma og ofbeldisfulla níunda súra fellir ein og sér fjölda annara súra og versa úr gildi. Sem dæmi er því tilskipun Kóranins um trúboð múslima með hervaldi rétthærri en trúboð án þvingunar. Þekking á úrfellingum versa er talin ákaflega mikilvægur þáttur í trúfræðiþjálfun klerka múslima. Klerkar múslima hafa verið staðnir að því að vitna í eldri og friðsamari súrur Kóranins þegar verja þarf íslam fyrir vesturlandabúum vitandi að þær hafa verið felldar niður af nýrri og ofbeldisfyllri súrum. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa útbúið sérstaka útgáfu af Kóraninum í enskri þýðingu til dreifingar í moskum á vesturlöndum þar sem sérstaklega er merkt við vers sem fallin eru úr gildi og bætt er við útskýringum úr hadíðtextum, sem oft sýna ofbeldisfulla merkingu ýmissa versa. Til vitnis um miklar andstæður og ruglingslegan boðskap í Kóraninum má benda á bók indverska umbótasinnans Rafiq Zakaria (1920-2005), sem hann gaf út til varnar íslam í kjölfar útgáfu bókar Salman Rushdie, Söngvar Satans. Þar vitnar hann í flest mildari vers kóranins til að reyna að undirstrika friðsamlegan boðskap en minnist ekki á úrfellingarákvæðið sem fellir mörg þessara versa úr gildi. Túlkun Kóransins. Ó, Spámaður, hví bannar þú sjálfum þér það sem Allah hefur leyft þér? Ertu þar að þóknast eiginkonum þínum? Allah fyrirgefur og er miskunnsamur. Allah hefur leyst yður frá slíkum eiðum. Allah er verndari yðar. Hann er alvitur og þekkir allt. Þegar Spámaðurinn trúði einni af eiginkonum sínum fyrir leyndarmáli, og hún ljóstraði því upp, og Allah skýrði honum frá því, þá greindi hann henni frá hluta þess en þagði um það að öðru leiti. Og þegar hann hafði gert henni það kunnugt, mælti hún: “Hver hefur sagt þér frá þessu?” Hann svaraði: “Hinn Alvitri, sá sem allt veit, sagði mér.” Ef þið tvær hverfið til Allah með iðrun, svo sem þið hneigist til, mun ykkur fyrirgefið; en ef þið styðjið hvor aðra gegn honum, þá vitið, að Allah er verndari hans, og Gabríel og hinir réttlátu meðal trúaðra. Einnig englarnir leggja honum lið. Ef hann skilst við ykkur, má vera, að Drottinn hans gefi honum aðrar eiginkonum betri en ykkur, aðrar sem ganga Allah á hönd, trúaðar, hlýðnar Allah, iðrandi, bænræknar, fastandi – bæði ekkjur og hreinar meyjar. Við lestur þessara versa vakna margar spurningar, svo sem: Hvað hefur Múhameð bannað sjálfum sér að gera? Hvaða loforð hefur Múhameð svikið en Allah leysti hann frá eiðnum? Hvaða leyndarmál er það sem ein af eiginkonum Múhameðs hefur ljóstrað upp og hver var hún? Er Múhameð að hóta að skilja við konur sínar og taka sér yngri konur? Til að fá svör við þessum spurningum, og þar með skilning á versunum, þarf að lesa nokkrar hadíðsagnir. Þar kemur fram að konurnar sem um ræðir eru þær Aisha og Hafsa. Hafsa kom að Múhameð með einni af ambátt hans, Maríu, á degi sem hann átti að eyða með Höfsu. Múhameð biður Höfsu að halda þessu leyndu en Hafsa segir Aishu samt frá atvikinu. Í kjölfarið sameinast eiginkonur Múhameðs um andóf gegn honum en hann fær vitranir frá Allah og hótar þeim með því að skilja við þær. Þegar öllu er á botninn hvolft er Múhameð í rétti því Allah hefur lofað honum að vera með þeirri konu sem hann sjálfur kýs og Allah mun fyrirgefa Múhameð svik hans. Múhameð er því ekki bundinn af samkomulagi sem hann gerði við eiginkonur sínar um að deila nóttum með þeim jafnt. Vers sem þessi hafa verið notuð til að sýna fram á að vitranir Múhameðs eru oftar en ekki hrein hentisemi. Annað dæmi um hvernig hadíðsagnir skýra vers Kóranins og þykja leiða í ljós hentisemi vitrana Múhameðs má sjá í sögunni af því hvernig 95. vers í fjórðu súru kemur fram, þar sem Múhameð eggjar menn áfram í hernað í nafni Allah: “Sendiboði Allah mælti fram hið guðlega vers: 'Trúaðir menn sem heima sitja jafnast ekki við þá sem berjast á vegum Allah með eigu sína og líf að veði.' Zaid sagði " ”Maktum kom til Spámannsins á meðan hann mælti fram versið. “Ó sendiboði Allah, ef ég hefði mátt, tæki ég einnig þátt í jihad.” Hann var blindur maður. Allah sendi niður opinberun til spámanns síns á meðan læri hans hvíldi á mínu. Hann varð svo þungur að ég óttaðist að fótleggur minn myndi brotna áður en Allah opinberaði: “nema þeir sem eru særðir eða blindir eða lamaðir”'”. Vers sem þessi sýna að Kóraninn einn og sér er vandskilinnn nema með stuðningi íslömsku hefðanna (hadíð) en með aðstoð íslömsku hefðana má oft fá nokkuð skýran skilning á innihaldi boðskapsins. gagnrýni. Múhameð á bókarkápu frá 1699. Múhameð heldur á sverði og treður á krossi og boðorðunum 10 Kóraninn lýsir sjálfum sér sem kraftaverki og hinni fullkomnustu bók allra bóka og múslimar segja gjarnan að Kóraninn sé eitt mesta bókmenntaverk sem til er hvað varðar stíl og fagurfræði. Trúboðinn Karl Pfander (1803-1865), sem var kristinn trúboði meðal múslima á 19. öldinni, hélt því hins vegar fram að ekki væru allir múslimar á þessari skoðun. Hann segir um Kóraninn „Það er engan vegin útbreidd skoðun meðal arabískra fræðimanna að bókmenntastíll Kóranins sé hafin yfir aðrar bækur á arabískri tungu. Margir hafa haldið fram efa um að mælska og ljóðrænn stíll Kóranins sé meiri en til dæmis Mudallanq at eftir Imraul Quais eða Maqamat eftir Hariri, þótt fáir þori að halda slíkri skoðun á lofti í löndum múslima.“ Franski fornleifafræðingurinn Salomon Reinach (1858-1932), sem skrifaði bók um sögu trúarbragða, hafði mjög svo skýra skoðun á Kóraninum og lýsti honum þannig: „Frá bókmenntalegu sjónarhorni séð hefur Kóraninn litla merkingu. Óviðbúinn lesandinn rekst á hverri síðu á endurtekningar, órökréttar og misvísandi fullyrðingar, reiðilestur og kjánaskap. Það er niðurlægjandi fyrir mannsandann að hugsa til þess að þetta miðlungs bókmenntaverk hefur verið rannsakað fram og til baka og að milljónir manna eru enn að eyða tíma sínum í að lesa það.“ Íslamsfræðingurinn og trúboðinn Jay Smith hefur gagnrýnt Múhameðstrú og Kóraninn. Hann segir um trúverðugleika Kóranins, „Flestir vesturlandabúar hafa hingað til viðurkennt kenningar íslams um Kóraninn án gagnrýni. Þeir hafa ekki haft þekkingu til að deila um trúverðugleika hans, þar sem allar röksemdir múslima hafa verið byggðar á Kóraninum sjálfum og því ekki hægt að sanna þær eða afsanna. Mikillar varkárni hefur einnig gætt þegar kemur að því að gagnrýna Kóraninn og spámanninn, þar sem viðbrögð múslima hafa ávallt verið harkaleg í garð þeirra sem það gera. Vesturlandabúar hafa því í raun einungis gert ráð fyrir að múslimar hafi einhverjar sannanir fyrir fullyrðingum sínum.“ Rannsóknir á uppruna og trúverðugleika Kóransins hafa gjarnan þótt viðkvæmar og alltaf mætt mikilli andúð múslima. Þeir sem gagnrýna Kóraninn hafa gjarnan fengið morðhótanir frá klerkum Múslima, samanber morðtilraun sem egyptski nóbelsverðlaunahafinn Naguib Mahfouz varð fyrir, mál rithöfundarins Salman Rushdie, morðið á hollenska kvikmyndaleikstjóranum Theo Van Gogh of fleiri. Sir William Muir (1819–1905), sem var einn mesti fræðimaður Evrópu um sögu íslams á 19. öldinni sagði þessi beinskeyttu orð um Kóraninn: “Kóraninn er einhver ófyrirleitnasti óvinur siðmenningar, frelsis og sannleika sem heimsbyggðin hefur kynnst”. Íslensk útgáfa. Kóraninn kom út í íslenskri þýðingu Helga Hálfdanarsonar árið 1993 og var endurskoðuð þýðing gefin út tíu árum síðar. Tatarstan. Tatarstan (á rússnesku: Республика Татарстан; á tatarísku: Татарстан Республикасы, er sjálfstætt lýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins. Landið sem er í miðaustur Evrópuhluta Rússlands er um 68.000 km² og hefur 3.800.000 íbúa Landið liggur í miðju Volga svæðisins þar sem árnar Volga og Kama mætast. Höfuðborg þess er Kazan. Landlýsing. Kortið sýnir legu Lýðveldisins Tatarstan innan hins víðfeðma Rússneska sambandsríkis Áin Volga rennur norður- suður yfir vesturhluta lýðveldisins Tartastan, en áin Kama, sem er stærsta áin sem rennur í Volgu, myndar austur-vestur ás í gegnum stóran hluta landsins. Árnar Vyatka og Belaya eru helstu þverár Kama. Mestmegnið af landinu eru láglendar sléttur. Svæðið vestan við Volgu rís 235 metra, sem myndar hálendissléttur Volga. Í austri rís landið að rótum Úralfjalla. Stærstur hluti lýðveldisins eru sléttur þar sem einn sjötti er skógur. Eftir ám eru víðtæk vatnakerfi en hluti þeirra við Volgu og neðanverða Kama hafi horfið með gerð uppistöðulóna Nizhnekamsk og Samara, en saman ná þau yfir 2.850 ferkílómetra. Veðurfar. Í Tatarstan er meginlandsloftslag, með löngum, köldum vetrum og heitum sumrum. Árlegt regn er 420-510 mm sem nær hámarki að sumri. Til forna. Fyrstu byggð á landsvæði Tatarstan má rekja til síðari hluta steinaldar. Í landinu eru fornleifar frá steinöld og bronsöld. Á járnöld (8 – 3 öld f.Kr.) er þar landbúnaðarmenning eða svokölluð Ananino menning sem líklega má rekja til fólks af Finnsk-úgrísk þjóðerni. Það er einkum á svæðum við efri Volgu og í árdölum Kama. Á fimmtu öld f.Kr. verður Gorodets menning ríkjaandi í vesturhluta Tatarstan. Á fjórðu öld f.Kr. hertóku ættkvíslir af İmänkiskä menningutórann hluta Volga-Kama svæðisins. Og í upphaf fyrstu aldar e.Kr. kemur fram við neðri hluta Kama árinnar, svonefnd Pyanobor menning. Volga Búlgaría. Ívan Grimmi lét byggja í Moskvu St. Basil's Cathedral kirkjuna sem minnismerki um Rússnesku sigrana í Kazan árið 1552. Elstu þekkta skipulagða ríki innan landamæri Tatarstan var Volga Búlgaría sem ríkti frá árunum 700 til 1238. Var þar stofnað til viðskiptasambanda meðal annars við víkinga, innri Evrasíu, Miðausturlönd og Eystrasaltsríki. Volgu-Búlgarar urðu múslimar upp úr 900 þegar íslam var boðað með trúboði frá Bagdad. Tryggðu þeir þannig samband sitt við Kalífatið. Um 1230 féll ríki Volgu Búlgaríu fyrir herjum mongólska prinsins Batu Khan af Gullnu Hjörðinni. Gullna Hjörðin klofnaði svo upp á 15. öld. Þá var borgin Kazan byggð upp sem höfuðborg sjálfstæðs Khanats. Varð borgin að mikilvægri viðskiptamiðstöð, þar sem árlegar kaupstefnur voru haldnar á eyju í Volgu. Khanatið átti lengi í átökum við Moskvu en árið 1469 náði Ívan III. borginni á sitt vald en leppstjóri hans (kani) skipulagði fjöldamorð Rússa árið 1504. Á 15. og á þeirri 16. voru Rússnesku-Kazan stríðin háð en það voru röð stríða á milli Khanatsins í Kazan og Moskuveldisins í Rússlandi. Innan Rússlands. Árið 1552 tók Ívan grimmi (Ívan IV) borgina eftir langt umsátur og innlimaði Kanatið inn í Rússland. Hið gamla virki tataranna var endurbyggt sem rússneskur kastali (kreml). Margir Tatarar voru neyddir til kristni og dómkirkjur voru byggðar í Kazan. Árið 1593 var öllum moskum á svæðinu eytt. Rússneska ríkisstjórnin bannaði byggingu allra moska. Því banni var ekki aflétt fyrr en á 18. öld eftir af Katrínu II. Þegar Síbería opnaðist meir, óx mikilvægi Kazan sem viðskiptamiðstöð og iðnaður tók að þróast á 18. öld. Í kringum aldamótin 1900 var hún ein stærstu iðnaðarborga Rússlands. Á 19. öld varð Tatarstan að miðju svokallaðs jadidisma, en það er trúarsöfnuður innan íslamska er boðar umburðarlyndi fyrir öðrum trúarbrögðum. Átti þetta nokkurn þátt í vinsamlegum samskiptum tatara við aðrar þjóðir innan Rússlands. Rússneska borgarastyrjöldin. Árið 1919 er lýstu bolsévikar yfir stofnun Sovéska sjálfstjórnarlýðveldinu Tatar-Bashkir, en svæðið var á þeim tíma að miklu leyti að stóru leyti undir yfirráðum Hvítliða. Sigur kommúnista leiddi til stórfellds fólksflótta, einkum meðal þeirra efnameiri. Rússneska borgarastyrjöldin í Tatarstan tók enda með bælingu andkommúnískrar bændabyltingar árið 1920. Sovétlýðveldinu var loks komið á fót árið 1920. Í hönd fór svokallaður „stríðskommúnismi“ á árunum 1921-1922. Olli það mikilli hungursneyð í Tatarstan sem felldi um hálfa milljón manna. Seinni heimstyrjöldin. Á tímum Stalín var kúgun landsmanna mikil, þjóðareinkenni tatara voru bönnuð, tatarísk tunga bönnuð og rússneska lögleidd í skólum. Trúarbrögð, þó sérstaklega íslam var bannað. Meira en 560.000 hermenn frá Tatarstan tóku þátt í seinni heimsstyrjöldinni og voru ríflega 300.000 þeirra drepnir. Margir sovéskar verksmiðjur og starfsmenn þeirra, sem og Vísindaakademía Sovétríkjanna, voru flutt til Tatarstan í seinni heimstyrjöldinni. Í stríðinu fundust þar mjög stórar olíulindir. Við þróun og nýtingu þeirra iðnvæddist Tatarstan hraðar en mörg önnur ríki innan Sovétríkjanna. Eftir seinna stríð. Á árunum 1960 til 1970 var olíuiðnaður í Tatarstan þróaður enn frekar. Bílaverksmiðja KamAZ gerði borgina Naberezhnye Chelny að annarri stærstu borg lýðveldisins. Við uppskipti Sovétríkjanna 1991 varð Tatarstan að sjálfstjórnarlýðveldi innan Rússneska ríkjasambandsins. Í dag er Tatarstan eitt þróaðasta ríkið innan Rússneska sambandslýðveldisins. Efnahagur. Efnahagslíf lýðveldisins byggir einkum á olíuframleiðslu, efnaiðnaði og öðrum iðnaði. Í landinu er fjölbreyttur landbúnaður. Tatarstan er olíuríki. Miklar olíulindir fundust í Tartastan árið 1943. Síðan þá hefur þróun þess iðnaðar verið hröð. Olíuleiðslur liggja austur og vestur af olíulindum Almetyevsk. Jarðgas er framleitt í í Nizhnaya Maktama. Efnaiðnaðurinn hefur þróast aðallega í borgunum Kazan, Mendeleyevsk og Nizhnekamsk. Í landinu eru stórar gifsnámur. Verksmiðjur eru að mestu í í borgum meðfram Volgu og Kama, einkum í Kazan, Zelyonodolsk og Chistopol. Í borginni Naberezhnye Chelny er stór vörubílaverksmiðja. Pappír og pappírsdeig er unnið í Mamadysh og í nálægum borgum. Framleiðslu á sápu og fituvörum er umfangsmikil í Kazan. Helstu landbúnaðarvörur eru hveiti, korn (maís), hirsi, grænmeti, kartöflur, sykurrófur, hampur, tóbak, epli, mjólkurafurðir og búfé. Íbúar. Samkvæmt manntali 2002 eru íbúar Tatarstan 3.779.265. Þrír fjórðu þeirra (74%) búa í þéttbýli og um fjórðungur (26%) í dreifbýli. Í höfuðborginni Kazan búa um 1 milljón manna. Tatarstan er fjölþjóðlegt lýðveldið. Áætlað er að í landinu séu um 115 þjóðarbrot og ættflokkar. Af þeim þjóðarbrotum sem telja fleiri en 10 þúsund eru Tatarar ríflega tvær milljónir (52.9% íbúa), Rússar eru um 1,5 milljón manna (39.5%), Sjúvas eru 126.500 (3.4%), Mordvinar, Udmurtar, Mari og Basjkírar. Um helmingur íbúa Tatarstan (tatarar og baskírar) eru súnní múslimar. Flestir rússar aðhyllast hins vegar Rússnesku Réttrúnaðarkirkjuna (Orthodox). Opinber stefna lýðveldisins er að styðja við það jafnvægi sem er á milli íslam og Rússnesku Réttrúnaðarkirkjunnar. Í lögum er kveðið á um jafnrétti allra trúarbragða og umburðarlyndi á grundvelli virðingar fyrir mannréttindum og trúarlegum fjölbreytileika. Um 1.400 ólík trúarsamtök eða söfnuðir voru árið 2008 skráð opinberleg í Tatarstan. Opinbert tungumál er tataríska og rússneska. Rússneska er engu að síður megintunga viðskipta. Samkvæmt rússneskum lögum frá 2002 er kýrilíska stafrófið hið opinbera ritmál. Því hefur verið mótmælt af Tartastan. Latneska stafrófið var opinberlega tekið upp í Tatarstan 1927 í stað þess arabíska. Kýrilíska stafrófið var síðan tekið upp árið 1939 í tíð Jósefs Stalín, sem leitaðist við að gera hvern krók og kima Sovétríkjanna rússneskan, alveg án tillits til uppruna íbúanna. Levin og Munksgaard. Levin og Munksgaard – (eða Levin & Munksgaard) – var bókaforlag sem var stofnað árið 1917 af Einari Munksgaard og Otto Levin, og var það fyrst til húsa á Åboulevarden í Kaupmannahöfn. Ejnar Munksgaard var driffjöðrin í starfseminni, og eftir að Otto Levin dó (1933) varð Munksgaard einn eigandi forlagsins, sem þó hélt nafninu „Levin & Munksgaard“ til um 1940, að nafnið breyttist í „Ejnar Munksgaard“. Forlagið fluttist á Nørregade í Kaupmannahöfn árið 1925, og haslaði sér þar völl sem vísindalegt forlag og bókaverslun fast við Háskólann og dómkirkjuna. Seinna fluttist útgáfustarfsemin að Nørre Søgade 35. Ejnar Munksgaard gerði forlagið með tímanum að stórfyrirtæki, sem gaf út fjölda alþjóðlegra tímarita, einkum á sviði læknisfræði og tannlækninga. Árið 1964 var Munksgaards-forlagið selt enska útgáfurisanum Blackwell Science í Oxford. Eftir 1970 var forlagið með umtalsverða starfsemi í Danmörku, var t.d. kunnur útgefandi námsbóka, og eftir 1980 beindist starfsemin einnig að fræðiritum og fagurbókmenntum. Árið 1999 var sá hluti starfseminnar seldur. Munksgaard er í dag eingöngu vísindalegt útgáfufyrirtæki, sem gefur út alþjóðleg vísindaleg tímarit, og er hluti af Wiley-útgáfusamsteypunni. Dimitris Christofias. Dimitris Kristófías (gríska: Δημήτρης Χριστόφιας, enska: Dimitris Christofias) er fyrrverandi og sjötti forseti Kýpur. Kristófías var formaður kommúnistaflokksins AKEL og er fyrsti og hingað til eini þjóðarleiðtogi innan Evrópusambandsins sem er kommúnisti. Yngri ár. Kristófías fæddist í Dikomo í Kýreníuhéraði í tyrkneska hluta Kýpur. Hann byrjaði snemma í pólitík og gegndi nokkrum embættum í ungliðahreyfingu AKEL (Framsóknarflokkur verkamanna á Kýpur). Faðir hans, sem dó árið 1987, var meðlimur í PEO (Sameinaða Kýpverska alþýðubandalagið). Hann lauk efri-skóla menntun árið 1964. Þegar hann var 14 ára gerðist hann meðlimur í Framsæknu samtökum efri-skólanemenda og þegar hann var 18 ára gekk hann í EDON (ungliðahreyfing AKEL), PEO og AKEL. Kristófías stundaði nám við Félagsvísindastofnunina og Félagsvísindaakademíuna í Moskvu þar sem hann lauk námi og útskrifaðist með doktorspróf í heimspeki í sögu. Geirfuglsmálið. "Geirfuglsmálið" var landssöfnun sem fór fram snemma árs 1971 til að safna fyrir kaupum á uppstoppuðum geirfugli, sem boðinn yrði upp hjá Southeby's uppboðsfyrirtækinu í London. Valdimar Jóhannesson, þá blaðamaður og síðar lögmaður, var forgöngumaður söfnunarinnar. Um tvær milljónir króna söfnuðust. Fuglinn var boðinn upp rétt fyrir kl. 13, fimmtudaginn 4. mars 1971, og féll hann Íslendingum í skaut fyrir 9.000 sterlingspund eftir snarpa sennu við fulltrúa DuPont ættarinnar. Þetta var gríðarlegt verð fyrir slíkan grip, líklega heimsmet á þeim tíma. Fyrri eigandi fuglsins var "Raben-Levetzau" barón. Náttúrugripasafn Íslands fékk geirfuglinn til varðveislu og er hann þar til sýnis, sá eini á landinu. Konstantinopolsky byrjun. Konstantinopolsky byrjun er mjög sjaldséð skákbyrjun sem kemur upp eftir leikina 1.e4 e5 2.Rf3 Rc6 3.g3. Byrjunin var fyrst tefld í skákinni Konstantinopolsky – Ragozin, Moskvu 1956 og þaðan dregur hún naf sitt. Samkvæmt ChessBase þann 1. nóvember 2009 hefur byrjunin verið tefld 346 sinnum og meðal annars af skákmeisturum eins og: Rozentalis, Kovchan og Nevostrujev. Gustav Holst. Gustav Theodore Holst (21. september 1874 – 25. maí 1934) var breskt tónskáld, þekktastur fyrir hljómsveitarverkið "Pláneturnar". Holst, Gustav Theodore Skákbyrjun. Skákbyrjun kallast nokkrir fyrstu leikir í skák. Skákmeistarar tefla oftast þekktar skábyrjanir og teflist þá skákin gjarnan samkvæmt ákveðinni leikjaröð í 10 til 20 leiki. Skákbyrjanair hafa marga undirflokka. Algengustu skákbyrjanir. Byrjanir kallast "varnir", þegar svartur leikur þeim. Jórvíkurhöfði. Jórvíkurhöfði er höfði á norðvesturströnd Grænlands í norðanverðum Baffinsflóa. Kjörnir alþingismenn 1974. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1974. LIBOR. Millibankavextirnir LIBOR draga nafn sitt af London sem er ein stærsta fjármálamiðstöð heims. LIBOR eða „"London Interbank Offered Rate"“ eru millibankavextir í London en það er sú vaxtaprósenta sem stærstu alþjóðlegu bankarnir í London nota þegar þeir veita lán sín á milli. Þeir vextir sem almennt gilda á markaði fyrir lánsfé á milli bankastofnana kallast millibankavextir. Millibankavextir eru breytilegir og fara eftir kjörum á markaði hverju sinni. Á millibankamarkaði miðla fjármálastofnanir inn- og útlánum sín á milli til ákveðins tíma, yfirleitt frá einum degi til eins árs. Ef stöðugt er hægt að ganga að því vísu að fyrir hendi séu tilboð í skammtímalán til mismunandi tíma í nægilega stórum fjárhæðum á ákveðnum kjörum er talað um formlegan millibankamarkað. Með slíkum markaði verða til sýnilegir vextir og markaðskjör eru uppfærð jafnt og þétt í takt við breyttar markaðsaðstæður. Sé fjárþörf mikil á markaðinum hækka vextir, en lækka við mikið framboð. LIBOR-vextir eru þau kjör sem bjóðast á lánum í tilteknum gjaldmiðli á millibankamarkaði í London á þeim tíma sem vextirnir eru ákvarðaðir. Þessi vextirnir eru skráðir einu sinni á dag af Samtökum breskra banka (e. The British Bankers’ Association) með því að haft er samband við 8, 12 eða 16 fyrirfram ákveðnar alþjóðlegar fjármálastofnanir sem starfa í London og tekið meðaltal vaxtatilboða þeirra eftir að ákveðinn fjöldi lægstu og hæstu tilboða hefur verið tekin út. LIBOR- vextir eru til fyrir 10 gjaldmiðla. LIBOR-vextir eru síðan notaðir sem viðmiðunarvextir í fjármálaviðskiptum um allan heim, hvort sem um er að ræða hefðbundin lán, gjaldmiðlasamninga eða afleiðuviðskipti. Millibankavextir eru til á öllum millibankamörkuðum og bera gjarnan svipaðar skammstafanir. Þannig heita vextir á millibankamarkaði í Evruríkjunum EURIBOR en í Reykjavík REIBOR. Þýska öldin. Þýska öldin er það tímabil í Íslandssögunni þar sem þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga og stunduðu einnig veiðar við Íslandsstrendur og útgerð frá íslenskum verstöðvum. Elsta heimild um siglingu þýskra kaupmanna til Íslands er frá 1432 en frá því um 1470 voru komur þeirra árvissar og er þýska öldin talin hefjast um það leyti. Hún stóð svo alla 16. öldina, eða þar til einokunarverslun var komið á í upphafi 17. aldar. Þýsku kaupmennirnir tilheyrðu miklu verslunarsambandi sem kallaðist Hansasambandið og réði nær allri verslun í Norður-Evrópu og við Eystrasalt. Þeir Hansakaupmenn sem hingað sigldu voru flestir frá Lübeck (Lýbiku), Hamborg og Bremen (Brimum). Voru tengsl Íslendinga við Þýskaland töluvert mikil á þessum tíma og ýmsir ungir Íslendingar fóru t.d. til Þýskalands til náms. Englendingar höfðu verið allsráðandi í Íslandsverslun frá því um 1415 og kallast það tímabil enska öldin. Þegar þýsku kaupmennirnir komu á vettvang urðu víða átök á milli þeirra og Englendinga um verslunarhafnir og verstöðvar og kom stundum til bardaga. Þjóðverjar náðu smátt og smátt undirtökum í versluninni en Englendingar voru þó áfram við landið í einhverjum mæli, versluðu við Íslendinga og veiddu fisk. Höfðuðstöðvar Hansakaupmanna voru í Hafnarfirði og má segja að þar hafi helsta höfn og útflutningsmiðstöð landsins verið á þeim tíma. Þar var fyrsta lútherska kirkjan á Íslandi reist, líklega 1533, og stóð hún þar til þýsku öldinni lauk. Þjóðverjar létu sér ekki nægja að versla hér, heldur hófu þeir útgerð, settust að á útvegsjörðum og réðu Íslendinga til að róa til fiskjar fyrir sig, og varð sumstaðar til svolítill vísir að sjávarþorpum. Þetta féll íslenskum bændum og höfðingjum illa því þeir áttu þá erfiðara með að fá vinnufólk. Píningsdómur. Árið 1490 gerðu þeir Hans Danakonungur og Hinrik 7. Englandskonungur samning um að Englendingum væri heimilt að versla og fiska við Ísland. Þessum samningi var lýst á Alþingi og um leið að þýskir kaupmenn, þeir sem konungsbréf hefðu, mættu einnig versla hér. En lögmenn og lögréttumenn samþykktu á móti að engir útlendir menn mættu hafa hér vetursetu að nauðsynjalausu, hafa Íslendinga í vinnu eða gera út skip, og engir búðsetumenn mættu vera í landinu sem ekki ættu fénað sér til framfæris, heldu skyldu eignalitlir menn vera vinnumenn hjá bændum. Þessi dómur kallast Píningsdómur, kenndur við Diðrik Píning hirðstjóra, og má leiða að því líkur að þar með hafi verið komið í veg fyrir þéttbýlismyndun á Íslandi í margar aldir. Þýsku öldinni lauk sem fyrr segir þegar einokunarverslun var komið á 1602 og Danir einir máttu versla á Íslandi en fyrst í stað voru sumir dönsku kaupmannanna raunar leppar fyrir Hansakaupmenn. REIBOR. Vextir á millibankamarkaði í Reykjavík, þar sem bankar lána fé sín á milli eru nefndir REIBOR, sem er skammstöfun fyrir "Reykjavík Interbank Offered Rate". Þinglýsing. Þinglýsing er opinber skráning skjala sem gegnir því hlutverki að afla réttindum þeim sem skjölin taka til, verndar gagnvart þriðja manni. Hið opinbera þinglýsir margs konar samningum og gjörningum en slíkt er í höndum sýslumanna sem eru þinglýsingarstjórar, hver í sínu umdæmi. Þinglýsing merkir að opinber skráning réttinda hafi átt sér stað og á oftast við eignarrétt eða veðrétt. Þannig er fasteignalánum þinglýst og veðbókarvottorði sömuleiðis. Þannig er það staðfest af hinu opinbera hver hefur veð í viðkomandi eign og í hvaða röð. Á ensku er þinglýsing "Register". Þinglýsingavottorð (veðbókarvottorð). Þinglýsingavottorð, eru gjarnan nefnd veðbókarvottorð, er vottorð eða staðfesting á því hvað hefur verið skráð í þinglýsingabók um tiltekna eign. Hvað varðar fasteignir kemur þar fram hverjir eru þinglýstir eigendur hennar, hvaða veðbönd og kvaðir hvíla á henni og hvort eignaskiptayfirlýsingu hefur verið þinglýst ef um fjöleignahús er að ræða. Þinglýsingarbækur. Í þinglýsingarlögum er gert ráð fyrir að meginatriði úr skjali sem komið er með til þinglýsingar sé fært í þinglýsingabók. Jafnframt er gert ráð fyrir að færa megi þinglýsingarbækur í tölvutæku formi. Í langflestum umdæmum er efni yfirgnæfandi meirihluta þinglýstra skjala fært í tölvu, sem tengist gagnabanka Fasteignamats ríkisins, jafnframt því sem skjölin er skönnuð inn (myndlesin) þegar þeim er þinglýst. Sameiginlegur gagnabanki þinglýsingaskráningar sýslumanna, Fasteignamats ríkisins og sveitarfélaga hefur verið nefndur “Landskrá fasteigna”. Hæg er að nálgast upplýsingar úr þinglýsingabókum hjá þinglýsingarstjórum. Þar má fá þinglýsingarvottorð fyrir einstakar eignir og einnig hægt að fá ljósrit einstakra þinglýstra skjala, svo sem eignaskiptayfirlýsingum. Nálgast má þinglýsingarvottorð um sérhverja fasteign sem færð hefur verið í Landskrá fasteigna hjá hvað embætti sýslumanns sem er. Sama á við um ökutæki, nálgast má þinglýsingarvottorð fyrir öll skráð ökutæki hjá hvaða sýslumannsembætti sem er. Hægt er að kaupa aðgang að veðbandayfirlitum hjá Fasteignamati ríkisins og hjá Lánstrausti hf. Sá aðgangur takmarkast við þær eignir sem skráðar eru í gagnagrunni Landskrár fasteigna. Þinglýsingarumdæmi. Skjölum sem varða fasteignir ber að þinglýsa í því umdæmi sem fasteignin er. Skjöl sem varða skip ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skip er skráð. Skjöl sem varða skráð ökutæki ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skráður eigandi á lögheimili og sama á við um lausafé sem ekki er skráð í ökutækja- eða skipaskrá. Skjöl sem varða lausafé ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skráður eigandi lausafjárins er með lögheimil. Skjöl sem varða loftför ber að þinglýsa hjá sýslumanninum í Reykjavík. Aflýsing. Aflýsing er þáttur í opinberri skráningu skjala á Íslandi (þinglýsingu) sem gegnir því hlutverki að afla réttindum þeim sem skjölin taka til, verndar gagnvart þriðja manni. Aflýsing er framkvæmd hjá sýslumönnum. Þegar réttarsambandi því, sem stofnað var til með skjali er lokið, skal aflýsa skjalinu úr þinglýsingabókum. Aflýsingin er færð í þinglýsingabók og koma þær upplýsingar sem færðar voru inn við þinglýsingu ekki lengur fram á þinglýsingavottorði. Það er skilyrði fyrir aflýsingu að þinglýsingarstjóri fái í hendur frumrit skjals sem aflýsa á áritað af rétthafa. Ef frumrit skjals er glatað þarf að gera sérstakar ráðstafnir svo unnt sé að aflýsa skjali. Led Zeppelin (breiðskífa). "Led Zeppelin" er fyrsta breiðskífa með bresku rokk-hljómsveitinni Led Zeppelin. Hljómplatan kom út 12. janúar 1969 í Bandaríkin og 31. mars sama ár í Bretlandi. Upptökur á plötunni hófust í október 1968. Atlantic records gaf út plötuna. Umslag plötunnar sýnir mynd af Hindenburg loftskipinu nokkrum sekúndum eftir að kviknað hafði verið í því. Q-hlutfall. Q-hlutfall er hugtak í fjármálum og hagfræði sem notað er til að bera saman markaðsverð á fyrirtæki og bókhaldslegu verðmæti þess. Þetta er einnig nefnt „V/I hlutfall“ eða „Q-Tobins“. Q-hlutfallið fæst með því að deila innra virði fyrirtækis samkvæmt ársreikningi þess í markaðsverð þess. Við deilum innra virði fyrirtækis samkvæmt ársreikningi þess í markaðsverð þess. Þá er fáum við Q-hlutfallið. Hugtakið Q-hlutfall var sett fram árið 1968 af þeim William Brainard og James Tobin, sem báðir störfuðu við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Ári síðar skrifaði Tobin aðra grein um efnið og er hlutfallið kennt við hann. Á ensku er talað um "Tobin's Q". James Tobin (1918-2002) var einn fremsti hagfræðingur 20. aldar og fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1981. Vætukarsi. Vætukarsi (fræðiheiti: "Nasturtium microphyllum") er votlendisjurt af krossblómaætt. Vætukarsi er einnig haft um aðrar tegundir af sömu ættkvísl. Gaupan. Gaupan (latína: "Lynx", íslenska orðið „gaupa“ að viðskeyttum greini) er stjörnumerki á norðurhimni sem er sjáanlegt frá Íslandi. Gaupan var uppgötvuð af Jóhannesi Hevelíus á 17. öld og er nefnd eftir dýrinu gaupu. TrueCrypt. TrueCrypt er ókeypis notendahugbúnaður sem leyfir notendum að dulrita gögn í rauntíma. TrueCrypt getur meðal annars búið til dulritaðan sýndardisk sem er geymdur innan tölvuskráar, deildar eða geymslu. TrueCrypt virkar á Microsoft Windows, Linux og Mac OS X og styður dulritunaralgrímin AES, Serpent og Twofish. Heimssýn. Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, er þverpólitísk hreyfing þeirra sem eru andvígir því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hreyfingin var stofnuð 27. júní 2002. Ragnar Arnalds, rithöfundur, var kjörinn fyrsti formaður hennar og gegndi hann þeirri stöðu þar til 15. nóvember 2009 þegar Ásmundur Einar Daðason var kosinn formaður. Núverandi varaformaður Heimssýnar er Heiðrún Lind Marteinsdóttir. Í stjórn Heimssýnar sitja samtals 41 einstaklingar. „Íslendingar hafa á tæpri öld fest sig í sessi sem sjálfstæð þjóð með öflugt atvinnu- og menningarlíf þar sem velferð þegnanna er tryggð. Einstakur árangur fámennrar þjóðar væri óhugsandi nema fyrir það afl sem felst í sjálfstæðinu. Við undirrituð leggjum áherslu á vinsamleg samskipti og víðtæka samvinnu við aðrar þjóðir í Evrópu og heiminum öllum en teljum það ekki samrýmast hagsmunum Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Við hvetjum til opinnar umræðu um Evrópu- og alþjóðasamstarf á þessum grunni og höfum stofnað samtök sem bera heitið Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum.“ Krossfesting. Krossfesting er gömul og kvalafull refsingaraðferð sem felst oftast í því að maður er deyddur með því að negla hann eða hengja á kross. Krossfesting þótti háðuglegust allra afaka í hinum rómverska heimi. Jesús Kristur var krossfestur og krossfesting hans er tákn kristindómsins. Krossfesting er einnig pyntingaraðferð eða lítillækkun á líki afbrotamanns. Í Saudi-Arabíu þýðir krossfesting til dæmis að hinn dæmdi er fyrst hálshöggvinn opinberlega, lík hans er síðan bundið á kross og haft til sýnis opinberlega. Bath. Bath (borið fram) er borg í Suðvestur-Englandi, Bretlandi, með u.þ.b. 90.000 íbúa. Borgin er 159 km fyrir vestan London og 21 km fyrir suðvestan Bristol. Bath fékk opinbera stöðu sem borg frá Elísabetu 1. árið 1590 og sjálfstjórn frá sýslunni Somerset árið 1889. Bath varð hluti sýslunnar Avon þegar hún var mynduð árið 1974. Þegar sýslan var lögð niður árið 1996 varð Bath höfuðstaður svæðisins Bath og Norðaustur-Somerset. Bath reis í dölum árinnar Avon við náttúrulega hveri, þar sem Rómverjar byggðu almenningsbaðhús og musteri sem gáfu borginni þáverandi nafn hennar "Aquae Sulis". Hverir þessir eru þeir einustu á Bretlandi. Játgeir Englandskonungur var krýndur í dómkirkjunni í Bath árið 973. Vegna heilsulindanna varð Bath vinsæll orlofsstaður á georgíska tímabílinu sem leiddi til mikils vaxtar borgarinnar. Þá voru byggð mörg hús í georgískum stíl. Bath var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987. Í borginni eru mörg leikhús, minjasöfn og aðrir menningarstaðir sem hafa hjálpað til að gera hana að ferðamannastað með yfir milljón gistinótta ferðamanna, auk þess heimsækja 3,8 milljónir gesta borgina í dagsferðum á hverju ári. Þar eru tveir háskólar, auk margra grunnskóla og framhaldsskóla. Stór hluti íbúa borgarinnar starfar í þjónustugeiranum. Keltar og Rómverjar. Fornleifauppgröftur á svæðinu hefur leitt í ljós að Keltar töldu aðalvatnsból rómverska baðhúsins vera helgidóm og staðurinn var tileinkaður gyðjunni Sulis. Rómverjar kölluðu hana Mínervu en nafnið Sulis var notað áfram eftir hernám Rómverja. Af því var dregið rómverska nafns staðarins, "Aquae Sulis", sem þýðir „vötn Sulisar“. Skilaboð til gyðjunnar, sem rispuð voru á málmplötur, svokallaðar „formælingatöflur“ (e. "curse tablets"), hafa verið endurheimt úr Lindinni helgu. Þessi skilaboð voru skrifuð á latínu og formæltu þeim sem gerðu eitthvað á hlut skrifarans. Ef fötum einhvers var til dæmis stolið í baðhúsi gat hann skrifað nöfn grunaðra manna á töflu sem gyðjan Sulis Mínerva las síðan. Musterið var reist á árunum 60–70 e.Kr. og baðhúsin voru byggð upp smátt og smátt á næstu þremur öldum. Á meðan hernám Rómverja á Stóra-Bretlandi stóð yfir voru eikarstólpar reknir niður í jörðina sem undirstöður, hugsanlega að boði Claudíusar keisara, og gerðu þeir musterið stöðugt. Umhverfis lindina var reist óreglulega lagað steinhús sem var klætt með blýi. Á 1. öld var reist yfir lindina braggalaga timburbygging og þar inni voru bæði köld og heit böð. Virkisveggir voru umhverfis borgina, mögulega hlaðnir á 2. öld. Eftir brotthvarf Rómverja á fyrsta áratug 4. aldar hnignaði böðunum og loks fylltust þau af sandi og hurfu. Annáll Engilsaxa segir að böðin hafi horfið á 5. öld. Engilsaxar. Rúnasteinn til minningar um víking sem dó í Bath. Bath getur verið staðurinn þar sem orrustan við Mons Badonicus var háð (um 500 e.Kr.), þar sem Arthur konungur er talinn hafa sigrað Saxana, en þetta er umdeilt. Annáll Engilsaxa segir að Bath kom að tilheyra Engilsöxunum árið 577 eftir orrustuna við Deorham. Engilsaxarnir kölluðu staðinn "Baðum", "Baðan" eða "Baðon", hvert þýðir „við baðið“ og þaðan er núverandi nafn borgarinnar. Árið 675 byggði Osric konungur af Hwicce klaustur í Bath og hugsanlega notaði virkisveggina sem verndun. Offa af Mersíu tók stjórn á þessu klaustri árið 781 og endurbyggði kirkjuna sem var tileinkuð Petrus. Fyrir 8. öld var götumynstur Rómverja horfið og Bath kom í eigu konungs aftur þegar Alfreð mikli breyti borginni og gerði suðausturhluta hennar að klaustri. Normannar, miðaldir og Tudorætt. Vilhjálmur 2. gaf borgina konunglegum lækni Jóni af Tours sem varð síðar biskup af Wells og ábóti af Bath árið 1088. Seinna voru ný böð byggð umhverfis lindirnar þrjár. Í 15. öld féll klaustrið í Bath í niðurníðslu og þurfti að laga kirkjuna. Oliver King biskupinn af Bath og Wells ákvað árið 1500 að endurbyggja kirkjuna en á minna stærð. Nýja kirkjan var kláruð aðeins nokkur ár áður en Hinrik 8. bindi enda á príorklaustrið. Klaustrið fór í eyði fyrr en að það var endurreist sem sóknarkirkjan á Elísabetartímabílinu. Bath fékk opinbera stöðu sem borg árið 1590 frá Elísabetu 1. Snemma á nútíma. Á tíma ensku borgarstyrjöldarinnar var orrustan við Landsdowne háð við norðurhluta staðarins 5. júlí 1643. Thomas Guidott var efna- og læknisfræðingur sem flutti til Bath þegar hann útskrifaði frá Oxford-háskólanum, þar sem hann opnaði læknastofu árið 1668. Hann kom að hafa áhuga á læknandi eiginleika vatnsins og árið 1676 skrifaði hann "A discourse of Bathe, and the hot waters there. Also, Some Enquiries into the Nature of the water". Þetta gerði læknandi eiginleika vatsnsins velþekkta víða um landið og bráðum byrjaði aðallinn að koma þangað til að baða sig. Nokkrir hlutar borgarinnar voru þróaðir á Stuarttímabílinu. Útþensla borgarinnar fór áfram á georgíska tímabílinu, sem stafaði af því að fleira og fleira fólk var að heimsækja heilsulindirnar og það þurfti gistingu. Arkitektarnir John Wood eldri og John Wood yngri sonur hans gáfu borginni nýjar götur og samar framhliðar sem lét í það skína að þær væru hallarlegar og í klassískum stíl. Mikið af Bath-steininum sem var notað í byggingu í gegnum borgina var grafið úr kalksteinsnámu í Combe Down og Bathampton Down. Námurnar voru í eigu Ralph Allen (1694–1764). Til þess að auglýsa gæði kalksteins gerðu Allen og John Wood samning um að byggja hús úr kalksteini upp í sveit á milli borgarinnar og námunnar. Hann bætti og stækkaði póstþjónustuna á Vestur-Englandi sem hann hafði samning um í 40 ár. Allen var kosinn borgarstjóri árið 1742. Fjörgyn. Merking vísunnar er eitthvað á þessa leið: Þá kemur hinn ágæti sonur Jarðar (þ.e. Þór), gengur sonur Óðins (þ.e. Þór) fram að berjast við orminn, sem drepur verndara Miðgarðs (þ.e. Þór) með eiturblæstri (krafti), allir menn tortíma hinum byggða heimi, sonur Jarðar (Þór) gengur, að þrotum kominn, níu fet í burtu frá orminum, áhyggjulaus yfir illu umtali (yfirleitt skýrt þannig að Þór hafi nú engar áhyggjur af því að vera brigslað um hugleysi því hann er búinn að drepa orminn). Hamarsrétt. Hamarsrétt er fjárrétt á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Réttin er í fjörunni rétt sunnan við ós Hamarsár á vestanverðu Vatnsnesi. Réttarstæði Hamarsréttar er talið eitt hið sérstæðasta á Íslandi. Norðan við ós Hamarsár er lítið félagsheimili sem heitir Hamarsbúð. Auðfræði. Auðfræði (1880) er hagfræðirit eftir Arnljót Ólafsson. Arnljótur fékk 400 króna styrk af landsfé árið 1877 frá Alþingi til þess að semja rit um þau efni, sem nefnd voru ökonomia á erlendum málum. Auðfræðin komu út þremur árum seinna. Arnljótur byggði ritið langmest á kenningum Frédéric Bastiat sem fram komu í "Harmonies Economiques". Bastiat hafði tileinkað sér kenningar Adams Smith og er rit Arnljóts, fyrsta íslenska fræðiritið um hagfræði, því skrifað á grundvelli kenninga Adams Smith og í anda hans. Kimbrar. Kimbrar voru keltneskur þjóðflokkur (sem sumir telja germanskan) sem herjaði suður á Rómaríki á 2. öld. Grikkir nefndu Jótlandsskaga Kimbríanskaga en þaðan voru þeir upprunnir. Þjóðflutningatímabilið. Hér er átt við þá hreyfingu sem komst á germanska þjóðflokka við innrás Húna, en þá yfirgáfu Englar og Saxar þýskaland og Jótar Danmörku og héldu til Englands, Vandalar fóru vestur gegnum Frakkland og Spán og til Norður-Afríku þar sem mál þeirra viðgekkst þar til austrómverka ríkið fór gegn þeim og margir aðrir germanskir þjóðflokkur fóru suður Appenínaskaga og brutu endanlega gamla Rómarríki. Á þessum tíma talaði um 1 milljón manna germönsk mál og öll Vestur-Evrópa hefur einungis haldið fáeinar milljónir. Skarfakál. Skarfakál (kálgresi, síonsjurt eða skyrbjúgsjurt) (fræðiheiti: "Cochlearia officinalis") er planta af krossblómaætt. Skarfakál er með nær kringlóttum blöðum og hvítum blómum í klösum. Skarfakál er gömul lækningajurt og mjög C-vítamínrík og þótti áður fyrr hin besta lækning við skyrbjúgi eins og eitt af nöfnum hennar gefur til kynna. Skarfakál vex einkum við sjó. Guðmundur St. Steingrímsson. Guðmundur St. Steingrímsson nefndur „Papa Jazz“ (fæddur 19. október 1929 í Hafnarfirði) er íslenskur jazztrommuleikari. Hann hefur starfað sem trommuleikari samfellt frá árinu 1945 og lærði trommuleik hjá Robert Grauso og fleirum á árunum 1954-9. Í október 2009 gaf Bókaútgáfan Hólar út bókin Papa Jazz eftir Árna Matthíasson blaðamann um ævi og tónlistarferil Guðmundar. (ISBN 978-9979-797-74-6) Mocho-Choshuenco. Mocho-Choshuenco (spænska: "Volcán Mocho-Choshuenco") er tvöföld eldkeila í Andesfjöllum í Suður-Chile. Síðast gaus Mocho árið 1864. Rancovatn. Rancovatn (spænska: Lago Ranco) er stöðuvatn í Los Ríos-fylki í Suður-Chile. Futrono er stærsta borgin nálægt vatninu. Rancovatn er 442 ferkílómetrar að stærð og dýpst 199 m. Úr vatninu rennur áin Río Bueno. Nálarauga. Nálarauga er smátt gat í saumnál sem þræða á snæri í gegnum. Calafquénvatn. Calafquénvatn (spænska: Lago Calafquén) er stöðuvatn á mörkum Araucanía-fylkis og Los Ríos-fylkis í Suður-Chile. Lican Ray er stærsta borgin við vatnið. Calafquénvatn er 120,6 ferkílómetrar að stærð og dýpst 207 m. Úr vatninu rennur Río Pullinque. Félag Anti-Rasista. Félag Anti-Rasista eru íslensk félagasamtök sem stofnuð voru í september 2006 til þess að berjast gegn kynþáttafordómum og útlendingafælni á Íslandi. Lýðskrum. Lýðskrum kallast það að ná valdi með því að höfða til tilfinninga fólks (til dæmis fordóma eða ótta) oft í gegnum áróður eða mælskufræði. Sá sem beitir lýðskrum nefnist lýðskrumari og notast oft við þjóðernishyggju eða trúarbrögð. Skjóldalur. Skjóldalur er dalur sem gengur vestur úr Eyjafjarðardal og er mynni dalsins milli fjallana Möðrufells (901 m.y.s) og Hests (1227 m.y.s). Dalurinn er um 8 km langur. Eftir dalnum rennur samnefnd á Skjóldalsá sem sameinast Eyjafjarðará við bæinn Torfur. Innst á dalnum er Kambsskarð, en um það liggur leið inn á Þverárdal og Hóladal sem ganga í suðaustur úr Öxnadal. Bæirnir Gilsbakki, Árbakki og Yzta-Gerði eru við mynni dalsins. Vajrayāna. Vajrajana (einnig skrifað vajrayana, vajrayāna, einnig nefnt tantrískur búddismi, mantrayana, tantrayana, demantafarið og demantavegurinn) er grein innan búddismans sem notar sérstakar andlega aðferðir, (tantra), til að öðlast uppljómun á skömmum tíma. Vajrajana-áhangendur álíta sig byggja á heimspekilegum kenningum bæði frá theravada og mahajana og sé þriðja megingrein búddismans. Vajrajana er annars af flestum, bæði búddistum og öðrum fræðimönnum, talin hluti af mahajana-greininni. Innan vajrayana eru fleiri undirgreinar. Þekktasta greinin af vajrayana er sennilega tíbetski búddisminn sem hefur marga áhangendur í Tíbet, Bhutan, Mongólíu og Nepal; Búrjatíu, Kalmýkíu og Tuva í Rússland; og Sikkim á Indlandi. Í Japan er vajrayana þekkt undir nafninu "Shingon". Katakana. Katakana er annað tveggja atkvæðatáknrófa í japönsku, en hitt er hiragana. Í nútíma japönsku eru katakana oftast notuð til að skrifa orð úr erlendum tungumálum (kallað "gairaigo"). Til dæmis er „sjónvarp“ skrifað テレビ ("terebi"). Á sama hátt er katakana venjulega notað um nöfn landa, útlenskra staða og nafna. Til dæmis er Ísland skrifað sem アイスランド ("Aisurando") og Ameríka skrifað アメリカ ("Amerika"), orðið "Amerika" hefur einnig eigin Kanji (ateji) Amerika (亜米利加) eða í stuttu máli Beikoku (米国), sem bókstaflega þýðir „hrísgrjónalandið“). Ragna Sigurðardóttir. Ragna (Ragnheiður) Sigurðardóttir (f. 10. ágúst 1962) er íslensk myndlistarkona, rithöfundur og skáld. Hún er gift Hilmari Erni Hilmarssyni, alsherjargoða og tónlistarmanni, og eiga þau tvö börn. Vilborg Davíðsdóttir. Vilborg Davíðsdóttir (f. 3. september 1965) er íslenskur rithöfundur. Hún er einkum þekkt fyrir sögulegar skáldsögur sem gerast á Víkingaöld. Oddný Eir Ævarsdóttir. Oddný Eir Ævarsdóttir (f. 28. desember 1972) er íslenskur rithöfundur og heimspekingur sem hefur skrifað fjölda greina um myndlist. Eftir hana hafa komið út þrjár skáldsögur, "Opnun kryppunnar: brúðuleikhús" 2004, "Heim til míns hjarta: ilmskýrsla" 2009 og "Jarðnæði" 2011, allar hjá Bjarti. Oddný hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir "Jarðnæði". Kjörnir alþingismenn 1971. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1971. Uppfinning. Uppfinning er nýtt tæki eða aðferð sem leysir tæknilegt vandamál. Stundum eru uppfinningar byggðar á öðrum uppfinningum sem eru þegar til og stundum eru þær fullkomlega ný nýsköpun. Uppfinningar geta aukið þekkingu mannkyns og lífreynslu. Hægt er að verja mjög nýstárlegar uppfinningar með einkaleyfi til þess að vernda hugmyndir uppfinningamanns. Uppfinning er ólík uppgötvun, þar sem maður finnur eitthvað sem er þegar til. Sköpunargáfa. a> var mjög þekktur fyrir að vera skapandi. Sköpunargáfa er andleg og félagsleg aðferð þar sem nýjar hugmyndir og hugtök eru búin til. Sköpunargáfa getur líka verið bara sköpun á einhverju nýju. Hún er oft tengt við list og bókmenntir en er líka mjög mikilvæg í uppfinningu og nýsköpun. Það er ekki til ein endanleg og opinber skilgreining á sköpunargáfu. Maður sem skapar er talinn vera „skapari“. Sköpunargáfa er mjög mikilvæg í störfum tengdum viðskiptum, hagfræði, byggingarlist, iðnhönnun, grafískri hönnun, auglýsingum, stærðfræði, tónlist, vísindum, verkfræði og kennslu. Hún er tengd við starfsemi í hægra heilahvelinu. Patagónía. Kort sem sýnir staðsetningu Patagoníu Patagonía (spænska: Patagonia) er landsvæði í suðurhluta Suður-Ameríku. Patagonía skiptist milli Chile og Argentínu síðan 1881. Patagonía nær yfir nær alla Suður-Ameríku frá Kyrrahafi í vestri að Atlantshafi í austri og frá Reloncavíárós, Río Colorado og Río Barrancas í norðri að Hornhöfða og Drakesundi í suðri. Músabær. Músabær er heimabær Mikka Músar Puerto Montt. Puerto Montt er borg í Chile og er höfuðborg Los Lagos-fylkis. Íbúar eru 127.750 (2002). Borgin var stofnsett árið 1853. Andabær. Andabær er sögusvið í mörgum myndasögum frá Disney sem birtast í "Syrpum", Andrés blöðum og "DuckTales"-teiknimyndaþáttunum. Hann er heimabær Andrésar Andar, Jóakims Aðalandar, Ripps, Rapps og Rupps, Andrésínu Andar og annarra sögupersóna sem tengjast þeim. Fyrst var talað um Andabæ í "Walt Disney's Comics And Stories" #49 árið 1944 í sögu eftir Carl Barks. Hugmynd. Hugmynd er það sem er í hug þegar maður hugsar. Oft eru hugmyndir skýrðar sem hlutlægar myndir, það er að segja mynd yfir nokkurn hlut. Hugmyndir geta líka verið hugtök en sértæk hugtök koma ekki endilega fyrir sem myndir. Getan til að skapa hugmyndir og skilja merkingu þeirra er meðfæddur eiginleiki mannvera. Oft fær fólk hugmyndir fyrirvaralaust án sjálfsathugunar. Bartolomeo Cristofori. Ljósmynd af málverki af Cristofori frá 1726. Málverkið glataðist í Síðari heimsstyrjöld. Bartolomeo Cristofori (4. maí 1655 – 27. janúar 1731) var ítalskur hljóðfærasmiður. Hann er almennt talinn vera sá sem fann upp píanóið. Hann fæddist í Padúu sem þá var hluti af Lýðveldinu Feneyjum en var ráðinn árið 1688 sem hljóðfærasmiður af Ferdinando de' Medici ríkisarfa í Toskana. Hann flutti því til Flórens þar sem hann þróaði fyrsta píanóið um eða fyrir aldamótin 1700. Hann vann síðan áfram að þróun þess til dauðadags. Hafdís Huld Þrastardóttir. Auk þess hefur Hafdís Huld samið og sungið með ýmsum erlendum listamönnum. Már Guðmundsson. Már Guðmundsson (fæddur 21. júní 1954) er íslenskur hagfræðingur og seðlabankastjóri Seðlabanka Íslands. Hann var áður aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Nám og störf. Már brautskráðist með BA-gráðu í hagfræði frá Essex-háskóla í Essex á Englandi, en hafði auk þess stundað nám í hagfræði og stærðfræði við Gautarborgarháskóla í Gautaborg í Svíþjóð. Hann lauk M.Phil.-prófi í hagfræði frá Cambridge-háskóla í Cambridge á Englandi og stundaði þar einnig doktorsnám. Már starfaði við hagfræðideild Seðlabanka Íslands á árunum 1980 til 1987, var forstöðumaður hagfræðisviðs bankans á árunum 1991 til 1994 og aðalhagfræðingur bankans frá 1994 til 2004. Hann var efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra 1988 til 1989. Már var einn af framámönnum í vinstrisamtökunum Fylking byltingarsinnaðra kommúnista frá miðjum áttunda áratugnum fram til 1984 og einnig ritstjóri Neista tímarits samtakanna. Caro-Kann vörn. Caro-Kann vörn er skákbyrjun, sem hefst með leikjunum 1.e4 c6 og hefur oftast framhaldið 2.d4 d5. Drottningarbragð. Drottningarbragð er skákbyrjun, eða "gambítur", sem hefst með leikjunum 1.d4 d5, 2.c4. Svartur getur ýmist þegið peðið á c4 og leikið 2..dxc4 ("móttekið drottningarbragð") eða hafnað því með 2..e6 ("hafnað drottningarbragð"). Algengt svar er 2..c6, sem kallast Slavnesk vörn. Enskur leikur. Enskur leikur er skákbyrjun, sem hefst með leiknum 1.c4. Arnór Sighvatsson. Arnór Sighvatsson (fæddur 2. febrúar 1956) er íslenskur hagfræðingur. Hann er aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabanka Íslands. Nám og störf. Arnór brautskráðist með BA-gráðu í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann hefur MA-próf í hagfræði frá Northern Illinois-háskóla í DeKalb í Illinois í Bandaríkjunum og lauk doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 1990. Arnór vann á Hagstofu Íslands 1988 til 1989. Hann starfaði við Seðlabanka Íslands sem hagfræðingur, deildarstjóri og staðgengill aðalhagfræðings bankans á árunum 1995 til 2004. Hann var aðalhagfræðingur Seðlabankans og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs á árunum 2004 til 2005. Hann var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Norðurlandaskrifstofu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á árunum 1993 til 1995. Franskur leikur. Franskur leikur, stundum kölluð Frönsk byrjun en oftar Frönsk vörn, er skákbyrjun, sem hefst á leiknum 1.e4 e6 og hefur algengasta framahald 2.d4 d5. Norræn vörn. Norræn vörn er skákbyrjun, sem hefst á leiknum 1.e4 d5. Algengt framhald er 2.exd5 Dxd5, 3.Rc3. Pirc-vörn. Pirc vörn er skákbyrjun, sem hefst á leiknum 1.e4 d6. Algengt framhald er: 2.d4 Rf6. Réti byrjun. Réti byrjun er skákbyrjun, sem hefst á leiknum 1.Rf3. Algengt framhald er: 1..d5, 2.c4.. Rússnesk vörn. Rússnesk vörn eða Petrovsvörn er skákbyrjun, sem hefst á leikjunum 1.e4 e5, 2.Rf3 Rf6. Sikileyjarvörn. Sikileyjarvörn er skákbyrjun, sem hefst á leiknum 1.e4 c5. Sikileyjarvörn er algengasta svar svarts við 1. e4 og um það bil fjórðungur allra skáka hefjast með sikileyjarvörn. Elstu heimildir um sikileyjarvörn eru frá sextándu öld frá skákmönnunum Giulio Polerio og Gioachino Greco. Algengast er að hvítur leiki hinni svokölluðu opnu sikileyjarvörn sem hefur framhaldið 2.Rf3 og 3.d4. Einnig er nokkuð vinsælt að leika lokaðri sikileyjarvörn (2.Rc3), Alapin afbrigði (2.c3), Grand-Prix árás (2.f4 eða 2.Rc3 og 3.f4) eða Smith-Morra bragði (2.d4 cxd4 3.c3). Opin sikileyjarvörn kallast staðan sem kemur upp eftir að hvítur leikur 1. e4 2. Rf3 3. d4. Um það bil 75% af skákum þar sem tefld er sikileyjarvörn er tefld opin sikileyjarvörn. Opin sikileyjarvörn er flókin og einkennist af því að c-peði svarts er skipt upp fyrir d-peð hvíts. Opin Sikileyjarvörn. Yfir 75% af skákum þar sem tefld er sikileyjarvörn er leikið 2.Rf3 þar sem svartur hefur þrjá aðalmöguleika í sínum öðrum leik. Þeir eru: 2...d6, 2...Rc6 og 2...e6. Afbrigði þar sem hvítur leikur svo d4 eru þekkt undir samheitinu opnar sikileyjarvarnir. Eftir 4. Rxd4 er yfirleitt leikið 4...Rf6 og 5. Rc3 en þó er þetta ekki algilt. Stöður sem koma upp í opinni sikileyjarvörn eru oftar en ekki flóknar enda er markmiðið með sikileyjarvörn að skapa ójafnvægi á borðinu. Einkennandi við stöður í opinni sikileyjarvörn er að hvítur hefur mikið pláss kóngsmegin á borðinu. Í staðinn hefur svartur meirihluta miðborðspeða og hálf opna c-línu sem er uppspretta svarts að gagnáras drottningarmegin. Skoski leikurinn. Skoski leikurinn er skákbyrjun, sem hefst á leikjunum 1.e4 e5, 2.Rf3 Rc6, 3.d4. Spænskur leikur. Spænskur leikur er skákbyrjun, oft kennd við "Ruy Lopez", sem hefst á leikjunum 1.e4 e5, 2.Rf3 Rc6, 3.Bb5. Kóngsbragð. Kóngsbragð er skákbyrjun, eða "gambítur", sem hefst á leikjunum 1.e4 e5, 2.f4. Ítalskur leikur. Ítalskur leikur er skákbyrjun, sem hefst á leikjunum 1.e4 e5, 2.Rf3 Rc6, 3.Bc4. Algengt framhald er 3..Bc5 eða 3..Rf6, sem kallast tveggja riddara tafl. Vandamál. Vandamál er hindrun sem gerir erfitt að ná takmarki eða markmiði. Það á við ástand sem er óleyst. Vandamál verður til þegar manni verður kunnugt um stóran mun á milli þess sem er og þess sem þarf. Hægt er að leysa vandamál með svari eða lausn, þetta heitir verkefnalausn. Það eru til mörg vandamál þar sem lausnir vantar, þau heita opin eða óleyst vandamál. Spurning. Spurning er beiðni um upplýsingar um eitthvað, þessar upplýsingar eru gefnar með svari. Yfirleitt eru spurningar spurðar með spurnarsetningum. Er líka hægt að leggja spurningar með boðháttssetningu, til dæmis „Sagðu mér hvað er 2 plús 2“. Stundum eru spurnarsetningar notaðar til að biðja um aðgerð og ekki upplýsingar, til dæmis „Gætirðu réttað mér saltið?“. Spurningar eru notaðar í rannsóknum til að komast að nýjum upplýsingum. Osorno. Osorno er borg í Chile um 820 km sunnan Santíagó. Borgin er höfuðborg Osorno-Provins, íbúar eru 132.245 (2002). Los Lagos-háskóli liggur i Osorno. Borgin var stofnsett af Francisco de Villagra 1553. Chiloé. Chiloé (spænska: Archipiélago de Chiloé) er eyjaklasi í Suður-Chile. Stóra Chiloéey (Isla Grande de Chiloé) er stærst eyjanna og hefur flesta íbúa. Stóra Chiloéey er um 50 km austan og 2 km suður við meginlandið. Höfuðstaður eyjarinnar er Castro. Árið 1567 lögðu spænskur landvinningamaður eyjuna undir sig. Óskar Magnússon. Óskar Magnússon (f. 13. apríl 1954) er lögmaður og eigandi Þórsmerkur ehf, sem er aðaleigandi Árvakurs, sem er útgáfufélag Morgunblaðsins. Óskar var einn aðalforsprakki þess að ráða Davíð Oddsson sem ritstjóra Morgunblaðsins í september 2009. Óskar lauk lögfræðinámi við Háskóla Íslands og mastersnámi í alþjóðlegum viðskiptarétti frá George Washington University. Hann hefur m.a. verið fréttastjóri DV, hæstaréttarlögmaður, forstjóri Hagkaups og stjórnarformaður Baugs. Þá hefur hann hefur setið í stjórnum fjölmargra atvinnufyrirtækja. Þann 11. mars árið 2005 varð Óskar forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, en þá lét Gunnar Felixson af störfum sem forstjóri félagsins. Óskar hætti hjá Tryggingamiðstöðinni árið 2007. Í nóvember 2009 kom í ljós að Tryggingarmiðstöðin, undir forystu Óskars, hafði brotið lög þegar félagið lánaði Samherja einn milljarð króna til að kaupa hlut í sjálfu sér árið 2006. Punta Arenas. Punta Arenas er borg í Suður-Chile og er höfuðborg Magellanfylkis. Punta Arenas er fjölmennasta borgin við Magellansund 130.132 íbúar árið 2002. Borgin var stofnsett árið 1848. Dagdraumar. Dagdraumar eru íslensk samtök óvirkra bindindismanna og hafa verið starfrækt frá árinu 2003. Markmið samtakanna er dægrastytting félagsmanna með tómstundum, greinaskrifum, íþróttum og kvöldvökum. Á vefsíðu samtakanna má lesa greinar eftir félagsmenn, smásögur og fleira. Íþróttaiðkun. Dagdraumar hafa staðið fyrir tveimur opnum mótum í jaðar-krokket (e. Extreme Croquet); árið 2007 við Álfaskeið og árið 2009 á Snæfellsjökli. Bæði var keppt í einstaklings og liðakeppni í þremur mismunandi brautum. Það lið og sá einstaklingur sem vann flesta leiki bar sigur úr bítum og fimm hliða einvígi skar úr milli jafn margra sigra. Ásakanir um ólöglega drykkjukeppni. Á baksíðu Morgunblaðsins þann 23. mars 2007 voru Dagdraumar bendlaðir við drykkukeppnina „So you think you can drink?“ sem haldin var á skemmtistaðnum Pravda. Samtökin neituðu alfarið að tengjast keppninni á nokkurn hátt. Þrátt fyrir að einn meðlimur þeirra hefði gefið sig fram sem skipuleggjandi keppninnar birti Morgunblaðið leiðréttingu þar sem nafn samtakanna var hreinsað af umræddum ásökunum. Þrepaskattur. Þrepaskattur er haft um skattaálagningarkerfi þar sem skattaprósentan er mismikil eftir tekjum, og þannig álögð að mismikið er tekið af ákveðnum tekjueiningum, allt eftir því sem ríkið ákveður. Þrepaskattur hefur það markmið að stuðla að tekjujöfnun. "Fjölþrepaskattur" er skattur sem hefur ótiltekin fjölda skattþrepa. sem hefði það í för með sér að skattgreiðandi með 350.000 krónur í laun þyrfti að greiða samtals 131.350 krónur í skatt, en það skiptist þannig niður að 36,1% fara í skatt af fyrstu 250.000 krónunum (90.250 krónur) og 41,1% af eftirstandandi 100.000 krónunum (41.100 krónur) sem hann aflaði sér. Persónuafsláttur dregst síðan frá upphæðinni (131.350 mínus 42.205), þannig að heildarskattur viðkomandi væri samtals 89.145. Persónuafsláttur. Persónuafsláttur er ákveðin fjárhæð sem dregin er frá útreiknuðum tekjuskatti. Ef persónuafsláttur er hærri en útreiknaður skattur kallast það "ónýttur persónuafsláttur" og er hann notaður til að greiða önnur álögð gjöld (eignarskatt, sjúkratryggingagjald, útsvar). Allir sem náð hafa 16 ára aldri á árinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti og sama gildir um þá sem dvelja hér á landi tímabundið vegna starfa. Persónuafsláttur á Íslandi árið 2013 er 48.485 kr. á mánuði. Aleksandr Prokhorov. Alexander Mikhaylovich Prokhorov (rússneska: Алекса́ндр Миха́йлович Про́хоров; fæddur 11. júlí 1916, dáinn 8. janúar 2002) var sovéskur eðlisfræðingur. Hann fæddist í Atherton í Queensland í Ástralíu þann 11. júlí 1916 en fluttist til Rússlands 1923. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1964. Prokhorov, Alexander Þorlákur Loftsson. Þorlákur Loftsson helgi (d. 1354) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri frá 1314 til dauðadags, eða í 40 ár. Þorlákur var sonur Lofts Helgasonar, ráðsmanns í Skálholti, bónda í Skál og síðast kanúka í Þykkvabæjarklaustri og konu hans Borghildar, dóttur Eyjólfs ofsa Þorsteinssonar og Þuríðar Sturludóttur Sighvatssonar. Bróðir Lofts var Árni Helgason biskup. Þorlákur hafði forstöðu klaustursins á seinustu árum Loðmundar ábóta og tók formlega við eftir lát hans, sem var um jólin 1313. Hann átti í erjum við munkana í klaustrinu, sem voru honum mjög óhlýðnir. Tveir eða þrír þeirra börðu ábóta og hröktu hann á flótta úr klaustrinu 1342 og er sagt að Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup hafi komið ári síðar og látið setja þá í járn. Einn þeirra var Eysteinn Ásgrímsson, höfundur Lilju. Hvaða álit sem munkarnir í klaustrinu höfðu á ábótanum, þá virðist hann hafa notið virðingar og hylli almennings og það svo mjög að hann var talinn helgur maður og bein hans voru tekin upp 1360, sex árum eftir lát hans, og höfð í klausturkirkjunni í Þykkvabæ. Eftirmaður hans var Eyjólfur Pálsson. Flatur skattur. Flatur skattur er hugtak sem táknar að skattprósenta er alltaf sú sama í tilteknu skattkerfi sem þýðir fyrst og fremst að ekki eru skilgreind þrep í skattkerfinu. Í þrepaskattkerfi borgar skattgreiðandi tiltekið hlutfall skatts af ákveðnum tekjueiningum. Í flatskattskerfi borga hvorirtveggja sama hlutfall sem er reiknað af allri upphæðinni. Biskupstungur. Biskupstungur er heiti á landsvæði og byggðarlagi í uppsveitum Árnessýslu. Biskupstungur ná yfir landsvæðið eða tunguna á milli Brúarár og Hvítár. Tungufljót skiptir þessari tungu í tvennt og er vestari tungan kölluð Ytri-Tunga og hin eystri Eystri-Tunga. Vatnaskil á Kili ráða svo mörkum að norðan en Biskupstungur liggja að Svínavatnshreppi hinum forna á þeim slóðum. Biskupstungurnar draga nafn sitt af biskupsstólnum i Skálholti sem er í ytri tungunni. Flestir markverðir staðir í Biskupstungum eru í ytri tungunni; í eystri tungunni er helst að nefna kirkjustaðinn Bræðratungu. Biskupstungnahreppur náði áður yfir landsvæði þetta og sameinaðist hann inn í Bláskógabyggð árið 2002. Karl 11.. Karl 11. (24. nóvember 1655 – 5. apríl 1697) var Svíakonungur frá 1660 til dauðadags. Hann varð konungur aðeins fimm ára gamall eftir að faðir hans Karl 10. Gústaf lést úr veikindum. Móðir hans Heiðveig Eleonóra af Holstein-Gottorp fór með völdin fyrir hans hönd en hún hafði lítinn áhuga á stjórnmálum og því var stjórn ríkisins í raun í höndum voldugra ráðgjafa í sænska ríkisráðinu á borð við Johan Göransson Gyllenstierna. Framganga hans í Skánarstríðinu gegn Danmörku 1675-1679 aflaði honum aukinna vinsælda og eftir lát Gyllenstierna 1680 tók hann sjálfur meiri þátt í stjórn ríkisins. Eftir stríðið einbeitti hann sér að umbótum í ríkisfjármálunum, í málefnum stjórnkerfisins og hersins. Hann giftist 1680 systur Danakonungs, Úlriku Eleonóru sem ól honum sjö börn, þar á meðal Karl 12. sem tók við völdum eftir lát föður síns. Doggerbanki. Gervihnattarmynd þar sem Doggerbanki er merktur inn á. Doggerbanki (úr hollensku: "dogge", „dugga“) er stór sandfláki í Norðursjó. Á síðustu ísöld var bankinn jökulurð við ísjaðarinn og oft þurrt land, ýmist eyja eða tengt meginlandinu. Talið er að Doggerbanki hafi eitt sinn verið land, Doggerland, sem tengdi England við meginland Evrópu. Mikið af menjum frá lokum síðustu ísaldar og jafnvel steinaldarverkfæri hafa komið þar upp í netum fiskimanna. Doggerbanki er mikilvæg fiskimið, sérstaklega fyrir veiði á þorski og síld. Saga Bretlands. Saga Bretlands byrjaði þegar konungsríkin England (sem innihélt Wales) og Skotland sameinuðust þann 1. maí 1707 undir Treaty of Union-milliríkjasamningurinn, sem var skrifaður niður þann 22. júlí 1706 og var staðfestur af enska þinginu og skoska þinginu með Sambandslögunum. Þessi sameining myndaði konungsríkið Stóra-Bretland sem höfðu sama einvald og ríkisstjórn í Westminster. Áður voru England og Skotland aðskilin ríki en höfðu verið í konungssambandi síðan 1603. Konungsríkið Írland varð hluti sambandsins árið 1800 með öðrum Sambandslögum sem mynduðu konungsríkið Stóra-Bretland og Írland. Árið 1763 var Bretland sigursælt í Sjö ára stríðinu sem greiddi götu yfirráða Breska heimsveldsins, sem varð öflugasta veldi í heimi í eina öld og var stærsta heimsveldi í sögunni. Frá og með 1921 voru um það bil 458 milljónir manna undir stjórn breska heimsveldsins sem var á þeim tíma um það bil fjórðungur af heimsmannfjöldanum. Vegna þess er bresk menning mjög útbreidd um allan heim. Árið 1922 varð Írland sjálfstætt ríki með enska-írska milliríkjasamningnum og var þá Írska frjálsríkið, sjálfsstjórnarsvæði undan Bretlandi. Næsta dag gekk Norður-Írland úr samningnum og varð hluti Bretlands aftur. Fyrir vikið breytti konungsríkið nafni sínu í "United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland" („Konungsríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland“) sem er oft skammstafað sem "United Kingdom", "UK" eða "Britain" á ensku. Eftir seinni heimsstyrjöldina urðu flest ríki í Breska heimsveldinu sjálfstæð lönd. Mörg þessara landa urðu meðlimir í Breska samveldinu sem er samtök sjálfstæðra ríkja. Sum þessara landa eru þegar með breska einvaldinn sem þjóðhöfðingja. Í dag er Bretland þegar stórveldi og er mikilvægur meðlimur í SÞ, ESB og NATÓ. Sambandslögin 1707. Sambandslögin 1707 (enska: "Acts of Union 1707") voru lög samþykkt af enska þinginu og skoska þinginu árið 1707 til að sameina konungsríkin England og Skotland. Sambandslögin settu í lög það sem hafði verið samþykkt í Treaty of Union-milliríkjasamningnum þann 22. júlí 1706. Áður voru England og Skotland aðskilin lönd í konungssambandi. Með þessum lögum var konungsríkið Stóra-Bretland myndað. Löndin tvö voru með sama einvaldinn síðan "Union of the Crowns" árið 1603, þegar Jakob 6. Skotakonungur erfði ensku krúnuna eftir frænku sína Elísabet 1. Reynt hafði verið að sameina ríkin tvö árin 1606, 1667 og 1689 en það var ekki þar til byrjunar 18. aldarinnar að bæði þing voru sammála sambandi. Lögin gengi í gildi þann 1. maí 1707. Á þessa dagsetningu sameinuðust skoska þingið og enska þingið til að mynda breska þingið, staðsett í Westminsterhöllinni í London. Hún var áður höfuðstöðvar enska þingsins. Þannig eru lögin þekkt sem Þingasambandið (e. "Union of the Parliaments"). Kjörnir alþingismenn 1967. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1967. Lárus Gottrup. Lárus Gottrup (1649 – 1. mars 1721) eða Lauritz Christensen Gottrup var Dani sem flutti til Íslands á 17. öld, settist þar að, komst til metorða og varð síðast lögmaður. Gottrup kom fyrst til landsins með dönskum kaupmönnum og starfaði við verslun. Síðar varð hann fulltrúi fógeta, hafði Þingeyraklaustursumboð frá 1685 og varð að lokum lögmaður norðan og vestan árið 1695 að tillögu Müllers amtmanns. Var það í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem Íslendingar réðu alls engu um val á lögmanni. Upp frá því skipaði konungur lögmenn, svo og varalögmenn, en það embætti hafði ekki verið til áður. Gottrup gegndi lögmannsembættinu til 1714. Árið 1701 fór hann utan með bænaskrár Íslendinga til konungs og tillögur um ýmis málefni og skipaði konungur tvær nefndir til að skoða það sem þar var fjallað um. Árangurinn af því mun meðal annars hafa verið að þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín voru sendir til Íslands til að rannsaka ástand og hagi landsins í hvívetna, gera tillögur um úrbætur og semja jarðabók. Ein af tillögum Gottrups var líka að Íslendingar skyldu hafa að staðaldri erindreka sinn í Kaupmannahöfn til að framfylgja nauðsynjamálum landsins. Minna varð þó úr umbótum en til stóð, meðal annars vegna flokkadrátta og misklíðar milli íslenskra höfðingja. Lárus Gottrup bjó lengi stórbúi á Þingeyrum í Húnaþingi, byggði þar upp og reisti meðal annars stórt timburhús, upphitað að hluta og lét leggja vatn að húsinu. Einnig reisti hann stóra timburkirkju á Þingeyrum og gaf henni meðal annars hollenskan prédikunarstól í barokkstíl, skírnarfont og fleiri góða gripi. Hann reisti nýbýlið Gottorp í landi Þingeyra og kenndi það við sjálfan sig. Kona Lárusar hét Catharina Christiansdatter Peeters (1666-1731) en var hérlendis kölluð Katarína Kristjánsdóttir. Þau áttu þrjár dætur og soninn Jóhann Gottrup, sýslumann og klausturhaldara á Þingeyrum. Jóhann Gottrup. Jóhann Gottrup (1691 - 1755) eða Johan Christoffer Gottrup Lauritzson var íslensk-danskur sýslumaður og klausturhaldari á 18. öld. Jóhann var sonur Lárusar Gottrups lögmanns á Þingeyrum og Katarínu konu hans en var fæddur og uppalinn á Íslandi. Hann lauk stúdentsprófi og stundaði guðfræðinám í Kaupmannahöfn um tíma. Hann varð lögsagnari föður síns í Húnavatnssýslu 1714 og tók alfarið við sýslunni eftir lát hans 1721. Sama ár setti Niels Fuhrmann amtmaður hann jafnframt sýslumann Snæfellinga og umboðsmaður Stapajarða í stað Odds Sigurðssonar lögmanns, sem hafði haldið lénin án þess að hafa til þess umboð frá konungi. Auk þess annaðist Jóhann Þingeyraklaustursumboð fyrir hönd móður sinnar og var því með valdamestu mönnum landsins. Þetta markaði upphaf langærra og afar harðra deilna milli þeirra Jóhanns og Odds en þeir voru raunar engir vinir fyrir, báðir ofstopa- og yfirgangsmenn. Oddur fór til Kaupmannahafnar til að reyna að rétta hlut sinn en Jóhann lét greipar sópa um eignir hans á meðan, tók sumt undir sig en eyðilagði annað. Þegar Oddur sneri aftur gekk á með stöðugum erjum og átökum á milli þeirra og manna þeirra því báðir höfðu um sig ribbaldaflokka og má segja að skálmöld hafi ríkt á Snæfellsnesi. Fuhrmann amtmaður vék Oddi úr embætti 1724 og hann var vanvirtur á ýmsan hátt, bæði af Jóhanni og öðrum. Hann sigldi nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar og reyndi að rétta hlut sinn og á endanum fékk hann uppreisn æru með konungsbréfi 1730 og var Jóhanni gert að skila honum aftur jörðum og fjórtán fiskibátum. Jóhann hafði erft mikið fé eftir foreldra sína og haft miklar tekjur en jafnan borist mikið á og eytt fé sínu. Um svipað leyti lenti hann í langvinnum og flóknum málaferlum við Bjarna Halldórsson sýslumann sem urðu honum á endanum ofviða. Fékk Bjarni Húnavatnssýslu 1728 og Þingeyraklaustursumboð 1738 og varð Jóhann þá að fara frá Þingeyrum. Málaferlum þeirra Bjarna var þó engan veginn lokið. Jóhann var ógiftur og barnlaus en fylgikona hans og svallfélagi var Sigríður Salómonsdóttir og er sagt að hann hafi endað ævina örsnauður sem fiskibarsmíðakarl hjá henni í Grunnasundsnesi. Otte Stigsen Hvide. Otte Stigsen Hvide (d. eftir 1567) eða Otti Stígsson var danskur sjóliðsforingi sem var hirðstjóri á Íslandi 1542-1547 og aftur árið 1551. Otte Stigsen var af Hvide-ættinni sem var gömul dönsk aðalsætt. Hans er fyrst getið 1509 og er hann þá yfirmaður í leiðangri til Finnlands. Hann leiddi bændauppreisn á Skáni til stuðnings Kristjáni 2. árið 1525 og var einnig stuðningsmaður hans í Greifastríðinu en síðar sættist hann við Kristján 3. og varð helsti sjóliðsforingi hans og barðist meðal annars gegn sjóræningjum á Norðursjó. Árið 1542 varð hann hirðstjóri á Íslandi og var falið af konungi að framfylgja banni við vetursetu útlendinga hér, sem var þó í rauninni aðeins ítrekun á Píningsdómi, sem hafði verið slælega framfylgt á árunum á undan svo að Hamborgarkaupmenn og aðrir þýskir höndlarar voru farnir að setjast að á landinu, einkum í Hafnarfirði, og höfðu reist þar kirkju. Otti gerði upptæka alla báta og aðrar eignir Þjóðverja á Suðurnesjum og gengu um það dómar á alþingi 1544 og 1545. Hann lét af hirðstjóraembætti 1447 og hélt til Danmerkur en Laurentius Mule tók við. Hann var þó ekki sami skörungur og Otti og flúði undan Jóni Arasyni þegar hann kom í Viðey sumarið 1550. Vorið 1551 sendi Kristján 3. Otta með tvö herskip til Íslands til að berja niður uppreisn Jóns, sem frést hafði af til Kaupmannahafnar haustið áður, en þá var búið að höggva Jón og syni hans og Dönunum var ekki veitt nein mótspyrna. Otti hafði hér hirðstjóravald það ár en hvarf síðan aftur til Danmerkur. Svíar tóku hann til fanga í sjóorrustu við Borgundarhólm 1563. Hann var þá líklega hátt á áttræðisaldri og er talið að hann hafi dáið í sænsku fangelsi en hann var þó enn á lífi 1567. Hann var ókvæntur. Heimildir. Hirðstjórar á Íslandi Enid Blyton. Enid Mary Blyton (11. ágúst 1897 – 28. nóvember 1968) var breskur barnabókarithöfundur sem er bæði þekkt sem Enid Blyton og Mary Pollock. Hún var einn vinsælasti barnbókarithöfundur 20. aldar. Enid Blyton skrifaði fjölmarga bókaflokka um sömu persónurnar. Bækur hennar eru þekktar um allan heim og hafa selst í yfir 600 milljónum eintaka. Enid er fimmti mest þýddi rithöfundur í heimi og eru yfir 3544 þýðinga bóka hennar fáanlegar samkvæmt Index Translationum UNESCO (2007). Ein þekktasta persóna hennar er Doddi (e. Noddy), en bækurnar um hann voru samdar fyrir börn sem eru að læra að lesa. Upprunalegu "Dodda-bækurnar" voru 24 en þær hafa síðan verið gefnar út í ýmsu formi og einstakir kaflar oft sem smábækur. Þekktustu verk hennar eru skáldsögur fyrir börn, þar sem börnin sjálf lenda í ævintýrum og takast á við ráðgátur og sakamál og leysa án aðstoðar fullorðna. Slíkar voru til dæmis "Ævintýrabækurnar" (e. "Adventure series"), en af þeim komu út 8 bækur á árunum 1944-1950 og fjalla um fjögur börn og páfagaukinn Kíkí; þær skera sig úr að því leyti að helmingur þeirra gerist utan Englands, "Fimm-bækurnar" (e. "Famous Five"), sem er alls 21 bók, 1942–1963, og fjalla um fjögur börn og hundinn þeirra, Dularfullu bækurnar (e. "Five Find-Outers and Dog"), 15 bækur, 1943–1961, en í þeim skjóta fimm börn þorpslögreglumanninum Gunnari stöðugt ref fyrir rass), "Leynifélagið Sjö saman" (e. "Secret Seven"), 15 bækur, 1949–1963, félag sjö barna sem leysa sakamál), og "Ráðgátu-bækurnar" (e. "The Barney Mysteries"), 6 bækur, 1949-1959, sögur um þrjú börn og vin þeirra á unglingsaldri sem leysa ráðgátur. Af öðrum bókum hennar sem komið hafa út á íslensku má nefna "Baldintátubækurnar" (e. "The Naughtiest Girl") og svo Doddabækurnar. Bækurnar eftir Enid Blyton voru og eru enn geysilega vinsælar á Bretlandi og í fjöldamörgum öðrum löndum og hafa verk hennar verið þýdd á yfir 90 tungumál. Fyrsta bók hennar sem þýdd var á íslensku kom út árið 1945 nefndis "Sveitin heillar" og var úr flokknum um Leynifélagið sjö saman. Það var þó ekki fyrr en útgáfa Ævintýrabókanna hófst 1950 sem Enid Blyton varð alþekkt meðal íslenskra barna og náðu bækurnar miklum vinsældum. Á síðari árum hafa ýmsir gagnrýnt bækur Enid Blyton fyrir viðhorf sem koma fram í þeim, bæði hvað varðar kynþætti, stéttaskiptingu og kynjahlutverk. Þetta kemur fram í orðalagi, staðalímyndum og mörgu öðru. Brotamennirnir eru oft dökkir yfirlitum og útlendingslegir. Helstu ovinir Dodda voru upprunalega svertingjadúkkur en í nýlegum sjónvarpsþáttum koma önnur leikföng í stað þeirra. Hlutverkaskipting er líka skýr, stelpurnar elda og þvo upp, strákarnir leggja sig í hættu - þótt á því séu undantekningar eins og Georg(ína) í Fimm-bókunum, sem klæðir sig og hagar sér eins og strákur og lætur kalla sig strákanafni. Flestar stelpurnar eru þó fullkomlega sáttar: „Anna horfði aðdáunaraugum á Jonna. En sá munur að vera strákur!“ Stéttaskiptingin miðast líka við breskt samfélag á fyrri hluta 20. aldar. Söguhetjur Enid Blyton eru allar af miðstétt, fólk af lægri stéttum er yfirleitt óheflað og fáfrótt. Á seinni árum hafa útgefendur bóka Enid Blyton stundum gert breytingar á textanum til að draga úr þessum viðhorfum. Árið 2009 gerði BBC sjónvarpsmyndina "Enid" sem er um ævi rithöfundarins og lék Helena Bonham Carter höfundinn. Myndin var frumsýnd 16. nóvember 2009. Heimildir. Blyton, Enid Kjörnir alþingismenn 1963. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1963. Enska þingið. Enska þingið fyrir konungnum um árið 1300. Enska þingið var þing konungsríkisins England. Enska þingið á uppruna í engilsaxnesku samtökum Witenagemot. Árið 1066 kom Vilhjálmur sigurvegari með lénsskipulagið og hann leitaði ráða hjá lénsmönnum og klerkum áður en hann setti lög. Árið 1215 var Magna Carta sett í lög af Jóhanni landlausa sem kvað á um að konungurinn mætti ekki setja á skatt án leyfis konunglegs ráðs síns. Þetta konunglega ráð varð hægt og bítandi að þingi. Smám saman byrjaði enska þingið að draga úr völdum enska einvaldsins og þetta olli að öllum líkindum ensku borgarastyrjöldinni og aftöku Karls 1. árið 1649. Við endurreisn einvaldsins undir Karli 2. var þinginu gefin stjórn og þá komst á þingbundin konungsstjórn á Englandi og seinna Bretlandi. Sambandslögin 1707 sameinuðu enska og skoska þingið í Þing Stóra-Bretlands. Þegar írska þingið var afnumið árið 1801 sameinuðust meðlimir þess þings breska þinginu. Þess vegna er breska þingið eitt elsta löggjafarvald í heimi. Vegna breska heimsveldsins er breska þingið orðið fyrirmynd fyrir mörg þing um allan heim. Þessi fyrirmynd er þekkt sem Westminster-kerfið úr því að breska þingið er staðsett í Westminsterborg í London. Skoska stéttaþingið. Skoska stéttaþingið (enska: "Estates of Parliament") var þing konungsríkisins Skotlands. Fyrsta skjalfesta skoska þingið var stofnað á 13. öldinni og fyrsti skjalfesti fundur stéttaþingsins (talinn vera "colloquium" í latneskum heimildum, eins og enska þingið) var haldinn í Kirkliston (lítlum bæ sem liggur við Edinborg) árið 1235, undir stjórn Alexanders 2. af Skotlandi. Þingið var líka þekkt sem Estates of Scotland, Three Estates (gelíska: "Thrie Estaitis") eða auld Scots Parliament ("gamla skoska þingið") og fundaði þar til Sambandslögin sameinaði skoska stéttaþingið við enska þingið, sem myndaði Þing Stóra-Bretland árið 1707. Hans Adolf Krebs. Sir Hans Adolf Krebs (fæddur 25. ágúst 1900, dáinn 22. nóvember 1981) var breskur lífefnafræðingur, fæddur og menntaður í Þýskalandi. Hann er þekktastur fyrir að hafa sýnt fram á tilvist tveggja mikilvægra lífefnafræðilegra hvarfarása, þvagefnishrings og sítrónsýruhrings. Fyrir þann síðarnefnda, sem raunar er oft nefndur "Krebs-hringur" til heiðurs honum, hlaut hann nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði árið 1953. Æviágrip. Hans Krebs fæddist í borginni Hildesheim í Neðra-Saxlandi. Faðir hans, Georg Krebs, var háls- nef- og eyrnalæknir og fylgdi Hans fordæmi hans og hóf læknanám í Göttingen árið 1918. Líkt og alsiða var í Þýskalandi á þessum tíma, þá stundaði hann námið við nokkra háskóla og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Hamborg árið 1925. Að því loknu þáði hann rannsóknastöðu hjá Otto Warburg í Kaiser Wilhelm stofnuninni í Berlín, en hann hafði þá þróað aðferðir til að rannsaka efnaskiptahvörf með mælingum á myndun ýmissa gasa í vefjasýnum. Krebs betrumbætti aðferðir Warburgs og sýndi árið 1932 fram á myndun þvagefnis úr amínósýrum í lifur, en það ferli kallast í dag "þvagefnishringurinn". Ári síðar flúði hann Þýskaland nasismans og fluttist til Englands og starfaði þar til æviloka, fyrst skamma hríð hjá Sir Frederick Gowland Hopkins í Cambridge, en lengst af í Sheffield þar sem hann var ráðinn lektor árið 1935 og skipaður prófessor árið 1945, og frá 1954 í Oxford. Í Sheffield vann hann að því að leiða út sítrónsýruhringinn, eina af meginstoðum orkuefnaskipta í flestum gerðum frumna. Fyrir var vitað að orkuefni á borð við prótín, fitu og sykrur eru ummynduð og brotin niður í glúkósa sem svo er frekar brotinn niður í pýrúvat í sykurrofsferlinu, en þessi ferli gefa tiltölulega litla orku. Rannsóknir Krebs voru mikilvægt skref í þá átt að sýna hvernig pýrúvatið er brotið enn frekar niður þar til eftir stendur koldíoxíð og vatn, og orkan sem fólgin var í efnatengjum næringarefnanna er yfirfærð til orkugjaldmiðils frumunnar, ATP. Lily Allen. Lily Rose Beatrice Allen (fædd 2. maí 1985), þekktust sem Lily Allen, er bresk söng- og leikkona, spjallþáttastjórnandi og lagahöfundur. Tenglar. Allen, Lily Allen, Lily Skoska þingið. Skoska þingið (gelíska: "Pàrlamaid na h-Alba"; skoska: "Scottish Pairlament") er þing Skotlands sem hefur verið afhent stjórn af Englandi. Það er staðsett í Holyrood í höfuðborginni Edinborg. Þingið er þekkt í daglegu tali sem Holyrood (sbr. Westminster) og er lýðræðisleg stofnun sem samanstendur af 129 meðlimum. Þessir meðlimir eru þekktir sem skoskir þingmenn (e. "Member of the Scottish Parliament", "MSP"). Þingmenn eru kosnir á fjögurra á fresti. Síðustu almennu kosningar voru haldnar þann 3. maí 2007. Upprunulegt þing Skotlands var skoska stéttaþingið sem var löggjafarþing konungsríkisins Skotland. Þetta þing var til frá 13. öldinni þar til konungsríkið Skotland sameinaðist konungsríkinu Englandi með Sambandslögunum 1707 og myndaði konungsríkið Stóra-Bretland. Þannig var skoska stéttaþingið sameinað enska þinginu og myndaði Þing Stóra-Bretlands, staðsett í Westminsterborg í London. Við þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1997, þar sem Skotar gáfu leyfi fyrir myndun skoska þingsins, var stofnað núverandi þing með Skotlandslögunum 1998. Þessi lög útlista þau mál sem heyra undir stjórn Skotlands og þau mál sem eru þegar undir stjórn breska þingsins. Það er að segja, öll mál sem eru ekki tilgreind heyra undir stjórn Skotlands. Breska þingið er þegar með réttindi til að breyta málum sem eru undir stjórn Skotlands, ef það vill. Fyrsti fundur skoska þingsins var haldinn þann 12. maí 1999. Tengt efni. Skoska þingið Breska þingið. Þing hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands (e. "Parliament of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland"), í daglegu tali breska þingið er löggjafarþing Bretlands og Bresku yfirráðasvæða. Það samanstendur af þremur einingum: tvær þingdeildum: efri deildinni, lávarðadeildinni (e. "House of Lords"), neðri deildinni (e. "House of Commons") og drottningunni Elísabet 2., sem er þinghöfðingi. Í daglegu ensku tali er breska þingið líka þekkt einfaldlega sem Westminster eftir Westminsterhöll þar sem þingið hittist sem er þekkt kennileiti í London. Breska þingið var stofnað árið 1707 með Sambandslögunum sem sameinuðu enska þingið og skoska stéttaþingið. Reyndar var þetta þing áframhald enska þingsins með skoskum þing- og aðalsmönnum. Þingið stækkaði við myndun Þings Stóra-Bretlands og útrýmingu írska þingsins með Sambandslögunum 1800. Þá urðu þeir 100 þingmenn írska þingsins og þeir 32 herrar þess meðlimir í Þingi Stóra-Bretlands og Írlands. Breska þingið hefur verið notað sem fyrirmynd fyrir mörg önnur þing um allan heim, fyrst og fremst ríkjum sem tilheyra eða tilheyrðu Breska samveldinu. Þing sem eru byggð á þessari fyrirmynd eru talin nota Westminster-kerfið. Fyrri þing. Breska þingið Sýnineysla. Sýnineysla eða flíkunarneysla kallast það þegar fólk eyðir miklum peningum í vörur eða þjónustu til þess að sýna fram á auð sinn og stöðu í samfélaginu. Norsk-bandaríski félags- og hagfræðingurinn Thorstein Veblen var fyrstur til þess að nota hugtakið í bók sinni "Theory of the Leisure Class". Bariloche. San Carlos de Barilche er borg í Argentínu í Andesfjöllum. Borgin er mikilvæg fyrir skíðaíþróttir og ferðaþjónustu í Argentínu. Bariloche er stærsta borg við Nahuel Huapivatn, fór að byggjast 1902. Fjögurra riddara tafl. Fjögurra riddara tafl er skákbyrjun, sem á við stöðu sem upp kemur eftir þrjá leiki, þegar öllum fjórum riddurum hefur verið leikið að miðborði, t.d. eftir 1.e4 e5, 2.Rf3 Rc6 3.Rc3 Rf6. Tveggja riddara tafl. Tveggja riddara tafl kallast skákbyrjun eða vörn, sem er svar við ítalska leiknum, og hefst á leikjunum: 1.e4 e5, 2.Rf3 Rc6, 3.Bc4 Rf6. Philidor-vörn. Philidor-vörn er skákbyrjun, sem kemur upp eftir: 1.e4 e5, 2.Rf3 d6. Kjörnir alþingismenn 1959 (seinni). Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1959. Framvindustika. Framvindustika er stika í myndræna viðmótinu sem gefur til kynna framvindu einhvers verkefnis; t.d. að sækja skrá af netinu eða að flytja gögn á milli staða. Fabius Quintilianus (ræðukeppni). Fabius Quintilianus er rökræðukeppni sem haldin er árlega innan nemenda Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Keppnin var fyrst haldin af Málfundafélaginu Rökréttu árið 1986 og hefur vakið mikla lukku allar tíðir síðan. Keppnin fer fram í hinum margþekkta Morfís-stíl þar sem ræðumenn eru sex í tveimur liðum og flytja tvær ræður hver. Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi, en þrír dómarar dæma úrslit keppna. Sigri er náð með góðum rökum, flutningi, svörum við rökfærslu andstæðinganna og hughrifum dómaranna þriggja. Sá ræðumaður sem hlýtur flest stig fyrir ræður sínar í úrslitaviðureign keppninnar hlotnast titillinn Quintilianus Rökréttu. Margir af framsæknustu áhrifamenn landsins byrjuðu ferilinn í Fabius Quintilianus. Þar má nefna Sverri Baldur Torfasson tónlistarmann, Þorkel Einarsson knapa og Víglund Jarl Þórsson landsliðsmann i handbolta. Ræðukeppnin er nefnd eftir Marcusi Fabiusi Quintilianus sem var rómverskur mælskufræðingur. Nahuel Huapivatn. Nahuel Huapivatn (spænska: Lago Nahuel Huapi) er stöðuvatn á mörkum Neuquén-skattlands og Río Negro-skattlands í Suðurvest-Argentínu. Bariloche er stærsta borgin við vatnið, fór að byggjast 1902. Nahuel Hupaivatn er 530 ferkílómetrar að stærð og dýpst 438 m. Úr vatninu rennur Río Limay. Ferskvatn. Ferskvatn er vatn sem kemur til á náttúrulegan hátt, hefur lítinn saltstyrk og er yfirleitt nýtanlegt til töku og vinnslu sem neysluvatn. Á sjöunda áratug 20. aldar var talað um það að reyna vinna ferskvatn úr hafinu með kjarnorku. Aljekínsvörn. Aljekínsvörn er skákbyrjun, sem hefst á leiknum 1.e4 Rf6. Algengt framhald er 2.e5 Rd5, 3.d4 d6 4.c4 Rb6. Lögmál Biot-Savarts. Lögmál Biot-Savarts er lögmál í eðlisfræði, sem lýsir segulsviði, sem myndast vegna rafstraums. Er kennt við eðlisfræðigana "Jean-Babtiste Biot" (1772-1862) og "Félix Savart" (1791-1841), sem einnig starfaði sem læknir. Skilgreining. Lögmál Amperes lýsir rafstraumi í rafleiðara, sem ferilheildi segulsviðs umhverfis leiðarann. Staðarskáli. Staðarskáli er veitingaskáli fyrir botni Hrútafjarðar. Skálinn er rétt vestan við Hrútafjarðarár og var tekin í notkun árið 2008, en þessi skáli tók við hlutverki eldri skála sem bar sama nafn og stendur við bæinn Stað rétt austan Hrútafjarðarár. Gilsbakki (Eyjafirði). Gilsbakki er jörð í Eyjafirði og er bærinn fyrir minni Skjóldals. Úr landi Gilsbakka var nýbýlið Árbakki byggt. Bæirnir Gilsbakki og Árbakki eru byggðir undir melum sem heita Háumelar. Sunnan bæjana rennur Skjóldalsá fram úr gljúfri eftir farvegi sínum austur í Eyjafjarðará. Árbakki (Eyjafirði). Árbakki er jörð í Eyjafjarðarsveit. Árbakki er fyrir mynni Skjóldals, jörðin byggðist sem nýbýli úr landi Gilsbakka. Stemma. Stemma (eða kvæðalag) er lagstúfur notaður til að flytja hefðbundinn íslenskan kveðskap, oftast rímur eða lausavísur. Þegar stemma er flutt er það kallað að kveða, það er tegund af söng, sem leyfir vissan breytileika og dregur oft seiminn. Þekktar stemmur skipta hundruðum. Þær eru flestar í fornum lýdískum eða dórískum tóntegundum og hver stemma sniðin að einhverjum ákveðnum bragarhætti, til dæmis ferskeytlu, braghendu, stuðlafalli, gagaravillu og svo framvegis, eftir hrynjandi hverrar og einnar. Á nítjándu og tuttugustu öld söfnuðu áhugamenn um íslenskan tónlistararf stemmum, meðal annarrar tónlistar, bæði á nótum (til dæmis Bjarni Þorsteinsson: "Íslensk þjóðlög") og síðar á upptökum (til dæmis "Silfurplötur Iðunnar" og umfangsmikið upptökusafn á Stofnun Árna Magnússonar). Samhliða því að rímnakveðskapur komst úr tísku á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, fór mörgum að þykja stemmur sveitó og hallærislegar. Þær hurfu þó aldrei að fulu úr huga landsmanna; bæði lagði Kvæðamannafélagið Iðunn rækt við kveðskaparhefð frá stofnun árið 1929, nokkur tuttugustu aldar skáld, til dæmis Einar Benediktsson viðhéldu rímnakveðskap, og tónskáld, til dæmis Jón Leifs og Jórunn Viðar, unnu með gamlar stemmur. Sveinbjörn Beinteinsson og síðar Steindór Andersen fóru líka að flytja stemmur í samhengi við nútímatónlist: Pönk, rapp, Sigur Rós og fleira. Dirichlet-röð. Dirichlet-röð er röð, kennd við þýska stærðfræðinginn Dirichlet. Skilgreining. þar sem, "s" og "a'n", með "n" = 1, 2, 3..., eru tvinntölur kallast "Dirichlet-röð". Zetufall Riemanns er þekkasta Dirichlet-röðin, en þá gildir að "a'n" = 1, fyrir |"s"| > 1. ASEAN-yfirlýsingin. ASEAN-yfirlýsingin eða Bangkokyfirlýsingin er stofnskjal Sambands Suðaustur-Asíuríkja. Hún var undirrituð af fulltrúum Indónesíu, Singapúr, Filippseyja, Malasíu og Taílands 8. ágúst 1967 og var ætlað að sýna andstöðu þessara ríkja við útbreiðslu kommúnisma í Víetnam og innan eigin landamæra. Yfirlýsingin fjallaði einnig um friðsamlega sambúð og samvinnu aðildarríkjanna. Etufall Dirichlets. Etufall Dirichlets er fall, skilgreint með Dirichlet-röð. Skilgreining. þar sem "s" er tvinntala, kallast "Etufall Dirichlets". Lambdafall Dirichlets. Lamdafall Dirichlets er fall, skilgreint með Dirichlet-röð. Skilgreining. þar sem "s" er tvinntala, kallast "Lambdafall Dirichlets". en er óskilgreint þegar |"s"| = 1. Spútnikáfallið. Spútnik 1 markaði upphaf geimkapphlaups risaveldanna á tímum Kalda stríðsins. Spútnikáfallið eða Spútnikkreppan er heiti á þeim áhrifum sem vel heppnuð aðgerð Sovétmanna til að koma Spútnik 1-gervihnettinum á braut um jörðu 4. október 1957 hafði á bandarískt samfélag. Fram að þessum tíma voru flestir Bandaríkjamenn öruggir um að Bandaríkin væru í fararbroddi í þróun nýrrar eldflaugartækni og rannsóknum á geimnum. Atvikið hafði víðtæk áhrif á bandarískt stjórnkerfi og menntakerfi og markar upphafið að geimkapphlaupinu milli risaveldanna á tímum Kalda stríðsins. Næstu þrjú árin var fjármagn til rannsókna og tækniþróunar stóraukið í Bandaríkjunum og nýjar stofnanir eins og Defense Advanced Research Projects Agency (DARPA) og National Aeronautics and Space Administration (NASA) voru settar á stofn. Miðgildisbanaskammtur. LD50 (skammstöfun á enska "Lethal Dose, 50%" eða „banaskammtur 50%“) eða miðgildisbanaskammtur kallast í eiturefnafræði sá skammtur sem þarf til að drepa helming tilraunadýranna, en LD50 er oft notað til að gefa til kynna hvort ákveðið efni búi yfir bráðum eiturhrifum (en). Valdimar Briem. Valdimar Briem (1. febrúar 1848 – 1930) var vígslubiskup á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi. Valdimar fæddist á Grund í Eyjafirði. Faðir hans var Ólafur Briem bóndi og smiður á Grund og móðir hans var Dómhildur Þorsteinsdóttir. Hann ólst upp í Hruna hjá Jóhanni Kristjáni Briem föðurbróður sínum sem jafnframt var prófastur í Hruna. Valdimari var veitt Hrepphólasókn árið 1873 en hún var sameinuð Stóra-Núpssókn sjö árum síðar. Þá settist Valdimar að þar. Hann var prófastur í Árnesprófastsdæmi 1896-1918. Þá var hann vígslubiskup frá 1909-1930. Valdimar var mikið sálmaskáld og þýðandi og eru um 80 sálmar eftir hann í sálmabók Þjóðkirkjunnar. Einnig eru tíu sálmar eftir hann í færeysku sálmabókinni. Ejnar Munksgaard. Ejnar Munksgaard – (28. febrúar 1890 – 6. janúar 1948) – var danskur athafnamaður, bóksali og útgefandi. Hann var brautryðjandi í útgáfustarfsemi, ekki síst ljósprentun handrita. Æviágrip. Foreldrar hans voru Ole Nielsen Munkgaard (1858–1935) og Ane Kristine Lucie Magdalene, fædd Lauritzen (1859–1918). Ejnar Munksgaard fæddist og ólst upp í Vébjörgum (Viborg) á Jótlandi. Hugur hans beindist snemma að verslun með bækur, og til þess að undirbúa sig fór hann um tvítugt til Þýskalands, Frakklands og Sviss og vann þar í sjö ár í þekktum bókabúðum. Árið 1917 kom hann til Kaupmannahafnar, tók upp samstarf við fornbókasalann Otto Levin (1878–1933) og gerðist meðeigandi í verslun hans, sem hlaut nafnið Levin og Munksgaard. Þeir færðu fljótt út kvíarnar og fluttu verslunina árið 1925 á Nørregade, í grennd við háskólann. Þar var stór bókaverslun fyrir háskólasamfélagið, fornbókasala í kjallaranum og vísindalegt bókaforlag. Otto Levin dó árið 1933, og keypti Munksgaard þá hlut hans í fyrirtækinu. Með tímanum varð það stórfyrirtæki á sviði bókaverslunar og fræðilegrar útgáfustarfsemi. Meðal Íslendinga varð Munksgaard þekktastur fyrir tvö metnaðarfull verkefni: Ljósprentun íslenskra skinnhandrita í ritröðinni Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi og ljósprentun gamalla prentaðra bóka, Monumenta Typographica Islandica. Þetta var þó aðeins lítill hluti af útgáfustarfsemi hans, því að hann gaf einnig út ritraðir með fornum sænskum (Corpus Codicum Svecicorum Medii Aevi) persneskum og býsönskum handritum, auk fjölda visindalegra tímarita, svo sem "Acta philologica", "Acta archæologica", "Acta ethnologica" og "Acta linguistica". Fornbókaverlsun Munksgaards var einnig umsvifamikil og seldi marga íslenska dýrgripi, t.d. Jónsbók, Hólum 1578, eintak prentað á pergament, sem Landsbókasafn keypti. Í gegnum útgáfustarf sitt kynntist Ejnar Munksgaard mörgum íslenskum menntamönnum og var rausnarlegur í garð þeirra og íslenskra stofnana, eins og árituð eintök af mörgum útgáfuverkum hans bera vitni um. Hann átti einnig frumkvæði að ýmsu sem til heilla horfði hér á landi, t.d. því að Kristian Kirk verkfræðingur keypti Haukadal í Biskupstungum handa Skógrækt ríkisins, 1938. Ejnar Munksgaard var kjörinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands á 25 ára afmæli háskólans, 1936. Á sama ári var hann skipaður í stjórnarnefnd Árnasafns í Kaupmannahöfn. Hann varð riddari af Dannebrog 1931 og dannebrogsmaður 1936. Kona Ejnars Munksgaards (1917) var Yelva Munksgaard, fædd Christensen (4. nóvember 1885 í Næstved – 21. september 1947), listmálari. Þau eignuðust tvær dætur. Helstu rit. Þó að Ejnar Munksgaard væri fyrst og fremst útgefandi, samdi hann sjálfur, þýddi eða gaf út nokkur rit. Arnarvatn stóra. Arnarvatn stóra er stöðuvatn á Arnarvatnsheiði. Arnarvatn er 540 m.y.s og er um 4,3 km² að flatarmáli. Nokkrar víkur eru á vatninu m.a. Sesseljuvík þar sem Austurá rennur úr vatninu, sunnan við vatnið er Hólmavík þar sem Skammá rennur í vatnið en hún á upptök sín í Réttarvatni sem liggur suður af Arnarvatni. Hægt er að aka að Arnarvatni eftir vegi F578, bæði úr Miðfirði og frá Húsafelli. Barnaþrælkun. Barnaþrælkun er ólögleg starfsemi eða þrælahald barna undir lögaldri. Barnaþrælkun hefur lengi vel verið talin mjög ömurleg og ógeðsleg iðja Hvammstangakirkja. Hvammstangakirkja er sóknarkirkja Hvammstangasóknar og er í Breiðabólstaðarprestakalli. Kirkjan var vígð 21. júlí 1957, en hún var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni.Kirkjusmiður var Snorri Jóhannesson smiður á Hvammstanga. Kirkjan stendur ofarlega í þorpinu við Kirkjuveg, sunnan kirkjunar liðast Syrði-Hvammsá í gegnum þorpið. Byggt var safnaðheimili við kirkjuna og var það vígt árið 2007 á 50 ára afmæli kirkjunar, en safnaðarheimilið er hannað af Haraldi V Haraldssyni arkitekti. Prestar. Prestar sem hafa þjónað við Hvammstangakirkju Organistar. Organistar sem hafa þjónað við Hvammstangakirkju Stewie Griffin. Stewie Gilligan Griffin er teiknimyndapersóna úr bandarísku sjónvarpsþáttunum Family Guy. Stewie er sonur Peter Griffin og Lois Griffin Stewie hatar Lois, vill drepa hana og ná heimsyfirráðum. Besti vinur hans er hundurinn Brian. Þó þeir slást um margt. Blóðvatnslækning. Barnaveiki var áður læknuð með því að hestar voru smitaðir af veikinni. Þeir sýkjast ekki en mynda mótefni gegn bakteríunum. Svo var dýrunum tekið blóð og úr því unnið blóðvatn eða sermi (blóðvökvi, sem storknunarefni höfðu verið fjarlægð úr) með mótefni, sem svo var dælt í æð sjúklinga. Nú hefur þessi blóðvatnslækning, sem raunar var beitt gegn fleiri sjúkdómum, þokað fyrir bólusetningu og sýklalyfjum. Gröftur. Gröftur eru leifar dauðra baktería, hvítkorna og annarra frumna ásamt vessa og ónýtum vefjum. Heimildir. Örnólfur Thorlacius (2002). "Lífeðlisfræði, Kennslubók fyrir framhaldsskóla" Fituleysin vítamín. Fituleysin vítamín eru vítamín sem leysast greiðlega í fitu og fituleysiefnum. Fituleysin vítamín, sem raunar teljast lípíð, leysast ekki í vatni. Dæmi um fituleysin vítamín eru A,D,E og K vítamín. Fituleysin vítamín eru meðal annars í móðurmjólk og lýsi. Ef fituleysanleg vítamín er neytt í of stórum skömmtum, safnast þau fyrir í líkamanum. Náttúruleg fituleysanleg vítamín hafa þó ekki eiturefnaráhrif. Mannslíkaminn getur framleitt bæði K og D-vítamín í einhverju magni. Bakteríur í þörmunum geta framleitt töluvert magn af K-vítamíni, en húðin er fær um að framleiða nægt magn af D-vítamíni ef hún verður fyrir sterkri sól. Heimildir. Örnólfur Thorlacius (2002). "Lífeðlisfræði, kennslubók handa framhaldsskólum" Áhrifsbreyting. Hann tilfærir síðan dæmi: Orðið fræ sem er af va-stofni er nú farið að beygjast sem ja-stofn. Viðurkennd áhrifsbreyting er t.d. þegar nefnifallið mær er látið þoka fyrir mey úr þolfalli og þágufalli. Það er jafnvel talið rétt mál að segja "María mey" og "hrein mey", þar sem svipmeira er og sögulega rétt að segja "María mær" og "hrein mær". Kjörnir alþingismenn 1959 (fyrri). Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1959 (fyrri). Lofthæna. Lofthæna er kvenmannsnafn sem hefur verið notað einu sinni á Íslandi svo vitað sé. Lofthæna Guðmundsdóttir (1842 - 1912) átti heima í Skaftafellssýslu. Nafnið kemur tvisvar fyrir í Landnámabók. Lofthæna Erpsdóttir var kona Braga skálds. Dóttir þeirra var Ástríður slækidrengur, kona Arinbjarnar hersis úr Fjörðum, og hét dóttir þeirra einnig Lofthæna. Sonur hennar var Hrosskell Þorsteinsson landnámsmaður í Hvítársíðu. Uppruni nafnsins er óviss en talið er líklegt að það sé afbökun úr einhverju erlendu nafni. UMFS Dalvík. UMFS Dalvík (Ungmennafélag Svarfdæla, Dalvík) er íþróttafélag sem er starfrækt á Dalvík. Félagið var stofnað 1909. UMFS Dalvík tók áður þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu undir eigin merkjum bæði í karla- og kvennaflokki en er nú hluti af Reynir í samstarfi við Reyni Árskógsströnd Dalvík/Reynir. Dalvík/Reynir er knattspyrnufélag sem stofnað var árið 2006 með samvinnu Reynis, Árskógsströnd og UMFS Dalvík. Liðið leikur í 2. deild í Íslandsmeistaramótinu í knattspyrnu. Saga. Árið 2005 féll Dalvík niður í 3. deild og í kjölfarið slitu Dalvík og Leiftur samstarfi sínu sem myndaði Leiftur/Dalvík. Dalvík og Reynir Árskógsströnd ákváðu í kjölfarið að sameinast í annað sinn. Fyrri sameining var í raun ekki bein sameining þar sem Reynir dró sig út úr deildarkeppninni og leikmenn liðsins færðu sig flestir yfir í Dalvíkurliðið. Í þetta sinn var hins vegar stofnað nýtt félag, Dalvík/Reynir, bæði móðurfélögin drógu sig út úr deildarkeppninni en Dalvík/Reynir hóf þátttöku í 3. deild. Þorsteinn frá Hamri. Þorsteinn frá Hamri (fæddur 15. mars 1938) (skírður Þorsteinn Jónsson) er íslenskt ljóðskáld og rithöfundur. Hann hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Eftir að hafa tekið landspróf í Reykholtsskóla fluttist hann til Reykjavíkur og hóf nám í Kennaraskólanum, en hætti eftir tvo vetur. Þorsteinn vann síðan sem aðstoðarbókavörður á Bókasafni Kopavogs. Kjörnir alþingismenn 1956. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1956. Ummyndanir. a> á Ummyndunum Óvidíusar ("Ovid's Metamorphosis Englished", 1632) Ummyndanir (stundum líka nefnd Hamskiptin eða Myndbreytingarnar) (latína: "Metamorphoses") er frásagnarljóð (eða söguljóð) eftir rómverska skáldið Óvidíus, samið undir sexliðahætti í fimmtán bókum. Óvidíus lauk líklega við ljóðafléttuna milli 2 og 8 f.Kr. Verkið er samansafn goðsagna þar sem menn eða guðir skipta líkjum, það er að segja ummyndast í annað form, dýr eða plöntur eða annað, og er verkið fléttað saman af mikilli hind þannig að um það bil 250 sögur renna saman eins og þær væru geirnegldar í eina heild. Einkennist verkið allt af léttleika og stílsnilld, enda var það mikið lesið í fornöld og á miðöldum, og er reyndar mikið lesið enn í dag. "Ummyndanir" höfðu mikil áhrif á myndlist endurreisnartímabilsins og bókmenntir allt frá því verkið birtist fyrst. Það kom fyrst út í íslenskri þýðingu Kristjáns Árnasonar árið 2009. Kristján kaus að þýða verkið í óbundnu máli að hætti Sveinbjarnar Egilssonar þegar hann þýddi Hómerskviður. Til að gefa hugmynd um verkið í ljóðformi, þýddi Kristján niðurlag verksins undir sexliðahætti og birti það í inngangi. Jón Espólín þýddi verkið með fornyrðislagi á sínum tíma en sú þýðing hefur ekki komið út enn þá. Hubble-geimsjónaukinn. Hubble-geimsjónaukinn er geimsjónauki, sem NASA og ESA komu á sporbaug 1990 með geimskutlu. Geimsjónaukinn er nefndur eftir stjarnfræðingnum Edwin Hubble. Úr honum er m.a. hægt að sjá stjörnur og stjörnuþokur í margra ljósára fjarlægð. Stefnt er að því að James Webb-geimsjónaukinn leysi Hubble af hólmi 2013. Óveður. Óveður er tíðarfar sem getur einkennst af vindi, þrumu og eldingu (þrumuveður) eða mikilli úrkomu (til dæmis regni eða snjó), eða flutningi efna gegnum lofts af vindinum (til dæmis sandstrokkur). Óveður myndast þegar lægð verður til umkringd af hæð. Kraftur úr þessum þrýstingsmuni myndir vind og ský, sérstaklega skúraský. Hægt er að lítil svæði lægða geta verið mynduð af heitu lofti sem rís upp af jörðinni. Þaðan eru rykþyrlar og hvirfilvindar. Þruma. Þruma er það hljóð sem heyrist þegar eldingar slá niður. Nákvæma hljóðið sem kemur fram réðst af fjarlægð þrumuveðurs til hlustandans og tegund af þrumum. Það getur verið stuttur, háttur smellur eða lágur, langur drunur. Þrumur verða til þegar loft þenjast út óðfluga vegna þrýstings- og hitastigsaukninga orsakaðra af eldingum. Corbin Bleu. Corbin Bleu Reivers (f. 21. febrúar 1989) er bandarískur leikari og söngvari. Hann byrjaði að leikferil sinn árið 1996 og varð þekktur meðal yngri áhorfenda eftir að hafa leikið í Disney Channel bíómyndinni "High School Musical". Elding. Elding er útrás af rafmagni úr skýi og henni fylgir oft þruma. Eldingar koma helst fyrir í þrumuveðri en stundum við eldgos, sandbylji og skógarelda. Hraði eldinga getur verið allt að 60.000 m/s og hitastigið allt að 30.000 °C. Á þessu hitastigi er nógu heitt að bræða kísl saman í sandi og við þetta getur gler myndast. Það eru um það bil 16 milljónir þrumuveðra á hverju ári um allan heim. Eldingar valda jónun í loftinu í kringum þær og svo myndast köfnunarefnisoxíð sem breytist þá í saltpéturssýru sem plöntur geta neytt. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig eldingar myndast. Það eru til margar mismunandi kenningar um myndun þeirra, til dæmis skoðaðar hafa verið breytingar í loftinu (í vindhraða, rakastigi, núningi og loftþrýstingi) og áhrif sólvinds. Framkoma íss í skýjum er talin koma einhverju við myndun eldinga og stungið hefur verið upp á að hann geti breytt rafhleðslu skýs og þá valdið eldingum. Kristján Árnason. Kristján Árnason er íslenskt skáld, þýðandi og dósent í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Kristján er einna þekktastur fyrir þýðingar sínar, og hefur t.d. þýtt "Ummyndanir" eftir Óvidíus, "Ilminn" eftir Patrick Süskind, "Raunir Werthers unga" eftir Goethe, "Hinsta heim" eftir Christoph Ransmayr og "Felix Krull; játningar glæframanns" eftir Thomas Mann Sólskinsflokkurinn. Sólskinsflokkurinn var grínflokkur sem var í framboði til Alþingis árið 1979 undir listabókstafnum Q. Framboðið vildi draga Ísland sunnar á bóginn og lofaði betra veðri. Meðal frambjóðenda voru Stefán Karl Guðjónsson og Valgarður Guðjónsson úr hljómsveitinni Fræbbblunum. Flokkurinn bauð aðeins fram í Reykjaneskjördæmi. Hann fékk 92 atkvæði í kosningunum og engan mann kjörinn. Einkeypi. Einkeypi kallast það þegar það eru margir seljendur en aðeins einn kaupandi á markaði. Einkeypi er ófullkomin samkeppni svipuð og einokun því fyrirtæki sem hefur einkeypi á markaði getur ráðið verðlagi á vörum sem það kaupir af birgjum á svipaðan hátt og fyrirtæki sem hefur einokun á markaði getur ráðið verðlagi á vörum sem það selur til neytenda. Færð hafa verið rök fyrir því að Bandaríska fyrirtækið Wal-Mart hafi einkeypi á vissum hlutum markaðarins í Bandaríkjunum. Vilhjálmur Egilsson. Vilhjálmur Egilsson (fæddur 18. desember 1952) er núverandi framkvæmdarstjóri Samtaka Atvinnulífsins. Vilhjálmur var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1991-2003. Menntun. Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1972. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1977 og MA-prófi í hagfræði frá Suður-Kaliforníuháskóla (USC) í Los Angeles 1980 og doktorsprófi (PhD) í hagfræði árið 1982 frá sama háskóla. Hann stundaði nám við Suður-Kaliforníuháskóla á Fulbright styrk. Þróunarfélag Austurlands. Þróunarfélag Austurlands (e. "The Development Centre of East Iceland") var stofnað árið 1983 og starfar að framþróun í atvinnulífi og jákvæðri samfélagsþróun á Austurlandi. Hlutverk Þróunarfélags Austurlands. Meðal helstu hlutverka Þróunarfélags Austurlands er að efla atvinnulíf og samfélag á Austurlandi, veita ráðgjöf við nýsköpun- og þróunarverkefni auk þess að veita ráðgjöf um bættan rekstur. Félagið hefur tekið þátt í fjölda verkefna á landsvísu sem og alþjóðlegum verkefnum sem ætlað er að styðja og styrkja við atvinnulífið á Austurlandi. Saga Þróunarfélags Austurlands. Iðnaðarnefnd SSA, sem var ein af starfsnefndum Sambands Sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, (nú Austurlandi), fjallaði um það fyrst árið 1979 að stofna Iðnþróunarfélag á austurlandi og samfara því Iðnþróunarsjóð. Árið 1980 voru lög sett á Alþingi sem gerðu ráð fyrir að styrkt væri við iðnþróun á landsbyggðinnni að því gefnu að landshlutasamtök sveitarfélaga myndu ráða iðnfulltrúa til starfa og stofna iðnþróunarfélög og iðnþróunarsjóði til eflingu á iðnaði í landshlutunum. Árið 1980 var Halldór Árnason ráðinn fyrsti iðnaðarráðgjafi á Austurlandi af iðnaðarnefnd SSA. Hann ásamt Iðnaðarnefnd SSA gengdi því hlutverki að veita ráðgjöf og leita leiða til að efla atvinnulíf á Austurlandi. SSA lagði til skrifstofuhúsnæði og tók þátt í rekstri bifreiðar meðan Iðnaðarráðuneytið greiddi laun Halldórs. Stofnfundur Iðnþróunarfélags Austurlands og Iðnþróunarsjóðs Austurlands var haldinn þann 20.maí 1983 á Seyðisfirði í Félagsheimilinu Herðubreið. Stofnfélagar vorum um 70 og var félagið var fjármagnað að sveitarfélögunum, fyrirtækjum, verkalýðsfélögum, einstaklingum, SSA og ríkinu. Fyrsti formaður Iðnþróunarfélagsins var Theodór Blöndal frá Seyðisfirði og fyrsti formaður Iðnþróunarsjóðs var Sveinn Þórarinsson frá Egilstöðum. Seyðisfjarðarkaupstaður lagði lengi til húsnæði fyrir starfsemi félagsins eða allt þanngað til Byggðastofnun keypti húsnæði á Egilstöðum og flutti þá félagið starfsemina yfir Fjarðarheiði í eigið húsnæði þar sem starfsemin er enn til húsa. Félagið hefur farið í gegnum nokkrar nafnabreytingar frá stofnun þess en árið 1988 var nafni þess breytt í Atvinnuþróunarfélag Austurlands, árið 1997 varð svo til Þróunarfélag Austurlands en fór starfsemi þess fram undir nafni Þróunarstofu Austurlands. Árið 2004 fékk félagið sitt núverandi nafn, Þróunarfélag Austurlands. Coyhaique. Coyhaique er borg í Suður-Chile á Patagóníu. Borgin er höfuðborg Aysén-fylkis, íbúar eru 50.041 (2002). Borgin var stofnsett 12. október 1929 og hét þá "Baquedano" eftir stríðhetja frá Kyrrahafsstríðið. Kyrrahafsstríðið. Kyrrahafs stríðið (spænska: "Guerra del Pacífico") var stríð milli Chiles annars vegar og Perús og Bólivíus hins vegar. Stríðið stóð frá 1879 til 1883. Kyrrahafs stríðiðu lauk 20. október 1883 með Límaningurinn ("Tratado de Lima"). Mappa (tölvufræði). Mappa er tölvuhugtak notað yfir geymslu innan skráakerfis þar sem hægt er að geyma skrár og aðrar möppur, en mappa sem er geymd innan annarar möppu kallast undirmappa. Möppur eru notaðar til að halda utan um skrár, oft með því að flokka líkar skrár í sömu möppuna, en möppur mynda ákveðið stigveldi eins og tré- en orðið „mappa“ er skýrskotun í bréfamöppur sem voru notaðar til að geyma blöð. Í nýlegum UNIX-legum stýrikerfum er möppum raðað samkvæmt FHS-staðlinum. Kjörnir alþingismenn 1953. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1953. Betufall Dirichlets. Betufall Dirichlets er fall skilgreint með Dirichletröð. Skilgreining. þar sem "s" er tvinntala. Antofagasta. Antofagasta er borg í Chile um 1000 km norðan Santíagó. Borgin er höfuðborg Antofagasta-fylkis, íbúar eru 285.155 (2002). Borgin var stofnsett af ríkisstjórn Bólivíu 1868. Árið 1879, þegar stríðinu á milli Chile og Bólivíu begynna, varð Antofagasta ásamt Antofagasta-fylki hluti af Chile. Árið 2007 og 1995 var mikill jarðskjálfti í borginni. Cristina Fernandez de Kirchner. Breyti Cristina Fernandez de Kirchner. Cristina Fernandez de Kirchner (fædd 19. febrúar 1953) er forseti Argentínu, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetafrú. Hún vann forsetakosningarnar 2007 með rúmum 45,29% atkvæða, sem rétt dugði til að sleppa við aðra umferð. Fyrirrennari Christinu í embætti var eiginmaður hennar, Néstor Kirchner. Kirchner, Cristina Elisabet Fernández de Eduardo da Silva. Eduardo da Silva (fæddur 25. febrúar 1983) er knattspyrnuleikmaður sem leikur með úkraínska úrvalsdeildarliðinu Shaktar Donetsk. Hann fótbrotnaði illa í febrúar 2008. Jay Simpson. Jay simpson (fæddur 1. desember 1988 á Englandi) er leikmaður Newcastle F.C.. Hann sló í gegn á móti Wigan í Carling cup og skoraði tvö mörk. Arnarvatnsheiði. Arnarvatnsheiði er heiði á norðvesturhluta hálendi Íslands. Á heiðinni er fjöldi vatna með góðri veiði í mörgum þeirra, einnig eiga nokkrar ár upptök sín á heiðinni. Sagt er að vötnin á heiðinni séu óteljandi. Meðal akstursleiða inn á heiðina er F578 sem hægt er að fylgja inn á heiðina bæði úr Víðidal, Vatnsdal, Miðfirði eða Borgarfirði. Kaupmáttur. Kaupmáttur er magn af vörum sem er hægt að kaupa með einni gjaldeyriseiningu. Til dæmis á sjötta áratugnum var hægt að kaupa fleiri vörur með einni krónu en í dag, svo hægt er að segja að kaupmáttur hafi verið meiri þá. Gjaldeyrir getur verið söluvara eins og gull eða silfur eða peningur eins og bandaríkjadalur. UMF Reynir Árskógsströnd. UMF Reynir, Árskógsströnd er íþróttafélag sem starfrækt er á Árskógsströnd í Dalvíkurbyggð. Liðið tók áður þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu en með stofnun Reynis dró liðið sig út úr keppni. Skíðasvæðið Böggvisstaðafjalli. Skíðasvæðið Böggvisstaðafjalli er ofan Dalvíkur. Þar eru ágætar skíðalyftur og snjóframleiðsla lengir skíðatímabilið. Svæðið er rekið af Skíðafélagi Dalvíkur. Skíðafélag Dalvíkur. Skíðafélag Dalvíkur var stofnað 1972 og er eitt virkasta skíðafélagið á Íslandi. Í stuttri sögu félagsins hafa nokkrir Íslandsmeistarar og landsliðsmenn í alpagreinum hafa komið frá félaginu, þeir þekktustu eru Daníel Hilmarsson og Björgvin Björgvinsson. Félagið rekur skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli í samvinnu við Dalvíkurbyggð. Skíðafélag Dalvíkur er aðili að Ungmennasambandi Eyjafjarðar og Skíðasambandi Íslands. Prentari (tölvufræði). Prentari er jaðartæki sem er notað til að skapa útprentanir af skjölum, sem eru vistuð í tölvu, á pappír eða pappa til dæmis. Flestir prentarar eru tengdir tölvu með USB-kapli, sem flytur prentara gögn til að prenta út. Það eru líka til netprentarar, það er að segja prentarar sem eru tengdir staðarneti með Ethernet-kapli. Þessir prentarar geta verið notaðir af mörgum tölvum tengdum staðarnetinu. Oft geta prentarar tengst bæði staðartölvum eða tölvum í staðarneti. Auk þess geta margir nútímaprentarar prentað út beint úr minnisbúnaði eins og minniskorti eða vasaminni, matað tölvunni gögn með skanna, sent þessi gögn í símabréfi eða ljósritað skjöl. Þessi tegund af prentara heitir fjölnotatæki. Hallertau. Humlaakur í Hallertau í júní. Hallertau, Hollerdau eða Holledau er sveit í Bæjaralandi milli borganna Ingolstadt, Kelheim, Landshut, Moosburg, Freising og Schrobenhausen. Sveitin er á milli héraðanna Oberbayern og Niederbayern. Svæðið er þekkt sem stærsta humlaræktunarsvæði heims. Sigurður Á. Friðþjófsson. Sigurður Á. Friðþjófsson (fæddur 21. ágúst 1951) er íslenskur rithöfundur og skáld. Sigurður fæddist í Reykjavík en ólst upp í Hafnarfirði. Hann lauk stúdentsprófi 1974 frá Kennaraskóla Íslands. Eitt ár nam hann kvikmyndafræði í Stokkhólmi. Þar bjó hann í sjö ár og vann ýmis störf samhliða ritstörfum. Heim kom hann 1982 og hefur hann sinnt kennslu og blaðamennsku. Fyrsta Bók Sigurðar var ljóðabókin "Fúaveggir" (1975). Síðan komu skáldsögurnar "Þjóðleg reisn" (1978) og "Heimar" (1982). Smásagnasafnið "Sjö fréttir" birtist árið 1983. Sama ár þýddi Sigurður "Sextán daga í september" eftir Bibi og Franz Berlinger og 1985 birtist "Mál, verkfæri, eldur" sem geymir þýðingar á ljóðum Göran Sonnevi. Smásagan Mannætur eftir hann kom út í bókinni "Kóngaliljur, smásögur 1960-1985" árið 1987. Vekringur. Vekringur er hestur sem hefur gott yfirferðarskeið. Þá er talað um að hesturnn sé vakur eða hafi mikla vekurð. Magnús Ketilsson. Magnús Ketilsson (29. janúar 1732 – 18. júlí 1803) var sýslumaður Dalamanna á síðari hluta 18. aldar, mikill jarðræktarfrömuður og stundaði tilraunir í garð- og trjárækt. Hann var einnig einn helsti forsvarsmaður Hrappseyjarprentsmiðju og gaf út fyrsta tímarit landsins. Magnús var sonur Ketils Jónssonar (1698 – 24. mars 1778) prests á Húsavík og konu hans Guðrúnar Magnúsdóttur, systur Skúla landfógeta. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en varð sýslumaður í Dalasýslu 1754, 22 ára að aldri, og gegndi því embætti til dauðadags, eða í 49 ár. Hann bjó í Búðardal á Skarðsströnd og rak þar stórbú, eitt það stærsta á Vesturlandi. Magnús þótti röggsamur og duglegur embættismaður en nokkuð ráðríkur og harður í horn að taka, stjórnsamur og tók sérlega hart á betli og flakki, en rækti embætti sitt vel þótt hann væri nokkuð drykkfelldur á efri árum. Hann var vel lærður, mjög vel að sér í latínu og grísku og las líka ensku, frönsku og þýsku auk dönskunnar. Hann skrifaði meðal annars um guðfræði, lögfræði, sagnfræði og ættfræði og voru mörg verka hans prentuð í Hrappseyjarprentsmiðju, sem hann átti stóran þátt í að móta. Hann gaf út fyrsta tímarit sem prentað var á Íslandi, "Islandske Maanedstidende", sem var á dönsku og flutti fréttir frá Íslandi. Magnús var mikill áhugamaður um hvers kyns fróðleik og framfarir og þó sérstaklega um bætta búnaðarhætti, og samdi ýmis rit um búfræði og búnaðarhætti til leiðbeiningar fyrir bændur. Sjálfur stundaði hann miklar tilraunir í jarðyrkju og garðrækt og slíku og ræktaði ýmiss konar grænmeti í garði sínum í Búðardal. Á meðal þess sem hann ræktaði eða reyndi að rækta voru kartöflur, rófur, næpur, nípur, gulrætur, hreðkur, rauðrófur, piparrót, laukur, hvítkál, blöðrukál, grænkál, salat, spínat, karsi, steinselja og salvía og árið 1778 ræktaði hann spergil (aspargus). Hann ræktaði líka bygg og hafra og gerði tilraunir til að rækta rúg og hveiti en það tókst þó ekki. Einnig reyndi hann að rækta lín og hamp og jafnvel tóbak. Ýmsar trjátegundir reyndi hann líka að gróðursetja með misjöfnum árangri. Hann lét reisa vatnsmyllu í gili fyrir ofan bæinn og mun hafa verið einna fyrstur til þess á Íslandi. Magnús var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ragnhildur Eggertsdóttir (1740 - 6. nóvember 1793), dóttir Eggerts ríka Bjarnasonar á Skarði, en hin síðari var Elín Brynjólfsdóttir (1741 – 15. júní 1827) frá Fagradal og voru þær Ragnhildur bræðradætur og báðar af ætt Skarðverja. Þegar Magnús lést eftir byltu af hestbaki 1803 tók Skúli sonur hans við sýslumannsembættinu og bjó á Skarði. Eftir hann tók sonur hans Kristján Skúlason við og þegar hann lét af embætti 1859 höfðu þeir langfeðgarnir verið sýslumenn Dalamanna í 105 ár samfleytt. Shastriya syndicate. Shastriya syndicate er indversk hljómsveit leidd af sítarleikaranum Purbayan Chatterjee. Þau spila indverska þjóðlagatónlist með Nánar um hljómsveitina. Shashtriya syndicate er einstök hlómsveit, sú fyrsta sinnar tegundar, sem skartar hefðbundnum indverskum hljóðfærum á borð við sítar, veena, sarangi, indverska flautu og fleirum. Hljómsveit þessi er hugarfóstur sítarleikarans Purbayan Chatterjee. Þeirra markmið er að kynna fyrir heiminum (sér í lagi yngri kynslóðinni) klassískar listir Indlands, til dæmis yoga, ayurveda og tónlist. Hljómsveitin samanstendur af topphljóðfæraleikurum þessarar kynslóðar sem er öll einlægir fulltrúar sinnar tónlistar. Þeirra draumur er að vekja athygli á indverskri þjóðlagatónlist og að koma af stað hreyfingu hjá yngri kynslóðinni. Þau hafa einnig gengið til liðs við Umhverfisverkefni Sameinuðu Þjóðanna í að efla þekkingu og vitund á gróðurhúsaáhrifum. Plötur. Árið 2008 gáfu þau út sína fyrstu breiðskífu, Syndicated Íslenski þjóðbúningurinn. Íslenski þjóðbúningurinn er hugtak sem er haft um þá þjóðbúninga, sem Íslendingar hafa notað í um 100 ár til að auðkenna sig með og er skapaður eftir klæðnaði forfeðranna. Hvortveggja kven- sem og karlbúningurinn eru svo nefndir. Árið 2001 var Þjóðbúningaráði komið á fót með lögum frá Alþingi en því er ætlað að varðveita þá þekkingu sem þarf til að búa til slíkan fatnað og vera til leiðbeiningar. Saga íslenska þjóðbúningsins. Orðið „þjóðbúningur“ kom fyrst fram á 19. öld og á hvortveggja við þann forna klæðnað sem Íslendingar klæddust þá og svo þeim þjóðlega fatnaði sem var endursköpun á hefðbundnum klæðnaði fyrri alda. Búningar kvenna. Til eru fimm klæðagerðir er taldar eru til þjóðbúninga kvenna. Eru þeir upphlutur, faldbúningur og peysuföt, er eru forn dagleg klæði kvenna ásamt kyrtli og skautbúningi er hannaðir voru sem frá upphafi sem þjóðlegur stássfatnaður. Faldbúningur. Kona í Faldbúningi með spaðafald. Faldbúningurinn er forn búningur kvenna og þekkist hann allavega frá 17. öld og var hann notaður langt fram eftir 19. öldinni. Nafn búningsins er dregið af höfuðfati hans, sem hefur langt og bogið blað er skeigar til himins. Til eru tvær helstar útgáfur af þessum höfuðbúnaði, krókfaldurinn og spaðafaldurinn. Í forneskju var til siðs að setja önnur höfuðföt ofan á faldinn, svo sem brúðkaupsberettur sem og barðastóra hatta, en voldugur kragi búningsins er ætlaður til stuðnings við slík auka höfuðföt. Undir lok 18. aldar fóru konur að klæðast skotthúfum í stað faldsins við þennan búning. Peysuföt. Kona í peysufötum kennir dreng að lesa. Peysufötin eiga upphaf sitt á 18. öld meðal vinnandi kvenna sem tóku að klæðast peysum karla og húfum, enda þóttu þau mun þægilegri en faldbúningurinn við slark og erfiðisvinnu. Urðu þau að dæmigerðum fatnaði almúgakvenna á 19. öld. Upphlutur. Upphluturinn er uppruninn úr undirfötum faldbúningsins, er varð að lokum sjálfstæður fatnaður. Kyrtill. Kyrtillinn var hannaður af Sigurði Málara Guðmundssyni um miðja 19. öld. Var búningurinn hannaður með hliðsjón af því er menn töldu landnámskonur hafa klæðst. Höfuðbúnaður kyrtilsins er ekki ósvipaður þeim sem er á faldbúningnum. Skautbúningur. Skautbúningurinn var einnig hannaður af Sigurði. Var hann hugsaður sem nútímalegri útgáfa af faldbúningnum sem hafði fallið mjög í vinsældum eftir miðja 19. öld. Þjóðbúningur karla. Hinn almennt viðurkenndi þjóðbúningur karla stendur saman af ullarlokbuxum knésíðum eða síðbuxum, tvíhnepptu vesti og treyju eður mussu tvíhnepptri, (Einnig þekkist einhneppt peysa í stað treyjunnar) og skotthúfu. Hátíðarbúningur. Hátíðarbúningurinn er afrakstur samkeppni um þjóðlegan fatnað handa körlum fyrir lýðveldishátíðina 1994. Hann nýtur ekki jafnmikillar virðingar, enda er hann talinn skyldari færeyskum þjóðklæðum en íslenskum, en nýtur þó mikillar hylli. Fornmannaklæði eða litklæði. Fornmannaklæðin er Sigurður Guðmundsson hannaði eru lítið notuð á 21. öldinni. Voru þau hönnuð, líkt og kyrtill kvenna, sem útgáfa af klæðum landnámsmanna. Urðu þau nokkuð vinsæl og klæddust menn þeim t.d. við konungskomuna 1907 og á alþingishátíðinni 1930, en hurfu svo nánast með öllu. Fyrir alþingishátíðina átti Tryggvi Magnússon frumkvæði að því að ungmennafélagar létu sauma sér litklæði til að bera á hátíðinni og urðu nokkrir við því. Búningurinn var samt umdeildur frá upphafi og létu nokkrir gárungar í Reykjavík gera fornmannabúning handa Oddi sterka af Skaganum litklæðunum til höfuðs. Sumir sögðu þó að reiðtúrar Odds í búningnum hefðu orðið til þess að auka áhugann fremur en hitt. Ljósritunarvél. Ljósritunarvél er tæki sem gerir afrit á pappír af skjölum og myndum fjótlega og ódýrt. Flestar nútímaljósritunarvélar nota ljósritun (e. "xerography") til þess að framleiða afrit, þurr aðferð sem notar hita. Sumar ljósritunarvélar nota blekspraututækni en ljósritun er notuð oftast í viðskiptaumhverfi. Ljósritun var fundin upp af Xerox á sjöunda áratugnum og varð vinsælasta tækni til afritunar af skjölum. Vegna útbreiðslu ljósritunavélar var þroún pappírslausrar viðskipta hindruð fljótlega á stafrænu byltinginni. Ljósritun er notuð víða í viðskipta, menntun og hjá ríkisstjórn. Sagt hefur verið fyrir um að ljósritunavélar yrðu úreltar í framtíð á meðan þau sem starfa með upplýsingum nota pappírskjöl minna og minna. Kjörnir alþingismenn 1949. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1949. Ritvél. Ritvél er vélrænt tæki með tökkum, notað til að skrifa texta. Þegar takki er sleginn er járnpinni drifinn fram og bókstafur stimplaður á blað. Frá uppfinningu hennar um árið 1870 fram á miðja 20. öld hafa ritvélar verið mikilvæg verkfæri fyrir rithöfunda og skrifstofumenn. Frá og með lokum níunda áratugarins var ritvinnsluforrit á einkatölvum komið í noktun í stað ritvéla. Ritvélar eru enn vinsælar í þróunarlöndum og nokkrum sérmörkuðum til skrifstofunotkunar. Ritvélin var ekki fundin upp af einum manni. Eins og bíll, sími og ritsími gáfu nokkrir einstaklingar hugmyndir og innsýnir sem leiddu til framleiðslu af farsælu tæki. Sem sagt halda sagnfræðingar að ritvélin hafi verið fundin upp um það bil 52 sinnum áður en farsæl hönnun var uppgötvuð. Skipan takkanna heitir QWERTY, og var upprunalega þróuð á ritvélum og er enn í notkun í dag á tölvulyklaborðum. QWERTY. QWERTY (borið fram er vinsælasta hnappaskipanin í notkun á tölvulyklaborðum í dag. Nafnið er dregið af fyrstu bókstöfunum sex sem eru staðsettir efst til vinstri á lyklaborði. QWERTY-hnappskipanin er byggð á skipan sem Christopher Latham Sholes hannaði árið 1874. Remington var fyrsta fyrirtækið sem notaði skipanina, á ritvélum. Hún var hönnuð til að draga úr vélrænum villum með ritvélum, af því að vélritarar voru að vélrita of fljótt. 500px 500px Hamarsbúð. Hamarsbúð er félagsheimili á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Húsið er í fjörunni rétt norðan við ós Hamarsár á vestanverðu Vatnsnesi og er um 15 kílómetra norðan við Hvammstanga. Sunnan við ósin er Hamarsrétt. Goðheimar. Goðheimar er dönsk teiknimyndasögusería. Upphaflega var hún gefin út af Interpresse forlaginu en síðan 1997 hefur Carlsen Comics séð um útgáfuna. __TOC__ Saga Goðheima. Seint á áttunda áratugnum fékk ungur teiknari að nafni Peter Madsen það tækifæri að búa til teiknimyndasögur um veröld víkinganna. Hann fékk Hans Rancke-Madsen til að hjálpa sér við skriftir og þeir ákváðu að byggja sögurnar á norrænni goðafræði. Þeir voru undir áhrifum frönsk/belgísku hreyfingarinnar sem hafði getið af sér Tinna, Ástrík og fleira sem nú er talið sígilt. Þeir notuðu Eddurnar sem heimildir við gerð bókanna og helstu sögupersónurnar voru þekkt goð eins og Þór og Óðinn auk manna og þursa. Fyrstu teiknimyndasögurnar sáust í danska dagblaðinu Politiken árið 1978 og fyrsta bókin kom út ári seinna við góðar undirtektir. Þó að Eddurnar séu undirstaðan í teiknimyndasögunum er skáldaleyfið mikið notað og margt gengur greinilega í berhögg við þær. Kímnin er ekki langt undan og bækurnar geta tæpast talist barnabækur sökum mikils ofbeldis og nektar. Mikil vinna var lögð í hverja bók og stundum liðu mörg ár á milli þeirra. Árið 2007 komu Goðheimar fyrst á internetið þegar Jótlandspósturinn birti fjórtándu bókina í heild sinni, eina blaðsíðu í hverri viku. Árið 2009 kom út síðasta bókin í seríunni, Vølvens syner, sem gjallar um fimbulvetur og ragnarök. Bækurnar hafa verið þýddar á mörgum tungumálum, t.d. Norðurlandatungumálunum, hollensku og indónesísku. Fyrstu fimm bækurnar voru þýddar á íslensku og gefnar út af Iðunni. Sögupersónur. Sögupersónur Goðheima eru þær persónur sem koma fyrir í fornritunum auk nokkurra skáldaðra. Aðalfókusinn er á systkinin Þjálfa og Röskvu og dvöl þeirra í Ásgarði. Þeir Æsir sem koma mest við sögu eru Þór, Óðinn og Loki. Einnig má nefna Baldur, Heimdall, Frigg, Sif auk margra annarra. Vanir koma einnig mikið við sögu, þá sérstaklega systkinin Freyr og Freyja. Æsirnir og Vanirnir eru hetjur Goðheima, hafa mikla hæfileika og krafta en eru jafnframt breyskir eins og mennirnir. Jötnarnir eru yfirleitt hinir vondu í bókunum, forljótir og yfirleitt heimskir. Þeir geta þó búið yfir miklum kröftum og verið stórvarasamir. Á meðan Æsirnir og Vanirnir verða góðkunningjar lesenda bókanna er sjaldgæfara er að sömu jötnar komi fram í fleiri en einni bók. Meðal helstu jötna ber að nefna Hými, Þrym og Útgarða-Loka. Ein þekktasta persóna Goðheima er jötnastrákurinn Karkur en hann kemur hvergi fram í fornritunum. Einnig ber að nefna að fjölmörg dýr og kynjaskepnur koma fram í bókunum, svo sem Fenrisúlfur, Miðgarðsormur og Sleipnir. Fáni Þýskalands. Ríkisfáni Þýskalnds og einnig herfáni landsins Þýski fáninn er þjóðfáni Þýskalands. Litir fánans komu fyrst fram 1152 við krýningu Friedrich I (kallaður Barbarossa) til keisara í Frankfurt am Main. Fáni þessi var notaður til 1806, er þýska keisararíkið var lagt niður á valdatíma Napoleons. Á þjóðþinginu í Frankfurt am Main 1848 var fáninn aftur tekinn í notkun með orðunum: „Aus Nacht, durch Blut, zum Licht.“ (Úr nóttinni, með blóði, til ljóssins). Seinna var líka sagt: „Svört er nóttin, rautt er stríðið (blóðið), gullin er framtíðin.“ Bismarck lagði þennan fána niður og notaði annan á tímum Prússlands. Þrílita fáninn var hins vegar aftur tekinn í notkun í Weimar-lýðveldinu 1919-1933, en þá tók Hitler sig til og umbreytti fánum og merkjum ríkisins. Loks varð þrílita fáninn að þjóðfána Þýskalands við stofnun sambandslýðveldins 1949. Það má geta þess að Austur-Þýskaland notaði sama fána við stofnun þess lands 1949, en árið 1959 var skjaldarmerki ríkisins bætt í miðju hans, hringlaga merki með hamri og sirkli umkringdu rúgöxum. Við sameiningu landanna beggja 1990 var austur-þýski fáninn lagður niður og núverandi þrílita fáni látinn gilda fyrir sameinað Þýskaland. Búrfellsdalur (Snæfellsnesi). Búrfellsdalur er dalur austan Búrfells í Neshreppi utan Ennis (nú Snæfellsbæ) á Snæfellsnesi. Þar var mótekja stunduð. Skjaldarmerki Þýskalands. Skjaldarmerki Þýskalands er svartur örn sem horfir til vinstri. Örninn er tákn sem Karlamagnús notaði árið 800, er hann ríkti yfir allri Vestur Evrópu. Örninn tók hann frá Rómverjum, enda var hugmynd hans sú að endurreisa gamla keisararíkið. Guli (eða gullni) liturinn merkir konungdæmi. Þegar ríki Karlamagnúsar var skipt í Verdun-samningunum árið 843, tók austasta ríkið, núverandi Þýskaland, upp þetta merki. Listi yfir skákbyrjanir. Þetta er listi yfir skákbyrjanir og þeim er skipað eftir Alfræðiorðabók skákbyrjana (ECO kóðar). A40-A44. 1.d4 án 1...d5 eða 1...Rf6: Óvenjuleg svör við 1.d4 (A40-A44) A45-A49. 1.d4 Rf6 án 2.c4: Óvenjuleg svör við 1...Rf6 (A45-A49) A50-A79. 1.d4 Rf6 2.c4 án 2...e6 eða 2...g6: Óvenjulegar indverskar varnir (A50-A79) B00-B19. 1.e4 án 1...c5, 1...e6 eða 1...e5 (B00-B19) C20-C99. 1.e4 e5: opið tafl (C20-C99) D70-D99. 1.d4 Rf6 2.c4 g6 með 3...d5: Grünfeld vörn (D70-D99) E00-E59. 1.d4 Rf6 2.c4 e6: indverskar varnir með...e6 (E00-E59) E60-E99. 1.d4 Rf6 2.c4 g6 án 3...d5: indverskar varnir með...g6 (fyrir utan Grünfeld vörn) (E60-E99) Svartiskógur. Svartiskógur (eða Myrkviður) (þýska: "Schwarzwald") er stærsti fjallgarður Þýskalands utan Alpanna, bæði hvað varðar umfang og hæð, og tekur alls yfir um 12.000 ferkílómetra svæði. Hæsti tindur fjallanna er Feldberg, sem nær í 1.493 m.y.s. Hann er hæsti tindur Þýskalands utan Alpanna. Landafræði. Svartiskógur er í suðvesturhorni Þýskalands og nær frá svissnesku landamærunum í suðri að heita má alla leið til Karlsruhe í norðri, eða um 200 km, en breiddin er um 60 km. Fyrir vestan er Rínardalurinn en fyrir austan tekur fjallgarðurinn Svafnesku alparnir við. Svartiskógur er alþakin skógi, sem löngum hefur verið notaður til smíða. Áður voru helstu trjátegundirnar beyki og greni og þær eru enn algengastar í dölum og lægðum en uppi í hlíðunum og á fjallstindum er rauðgreni algengast. Einnig er mikið um furu. Vegna skógarhöggs og breyttrar landnýtingar þekur skógur nú miklu minna landsvæði en áður var. Helsta borgin í Svartaskógi er Freiburg. Á svæðinu eru upptök margra fljóta, meðal annars Dónár (í Donaueschingen) og Neckar. Í Svartaskógi eru vatnaskil milli vesturs og austurs og renna því ár þaðan bæði til Atlantshafs og Svartahafs. Bergið er auðugt að ýmsum málmum og á miðöldum var Svartiskógur eitt helsta námavinnslusvæði Evrópu. Þar voru meðal annars silfur-, blý-, kopar- og járnnámur. Svartiskógur er nú mikilvægt ferðamannasvæði sem meðal annars er þekkt fyrir tréskurðarlist og gauksklukkur. Svæðið er líka vel þekkt fyrir matargerð. Nafnafræði. Svartiskógur hét "Marciana Silva" á timum Rómverja, en það merkir "Landamæraskógur". Vegna þess hve þéttur skógurinn var náði sólin hvergi nærri að skína á skógarbotninn og þar varð því mjög skuggsælt, sem varð til þess að Germanir nefndu svæðið "Svartaskóg". Fáni Austur-Þýskalands. Fáni Þýska alþýðulýðveldisins (Austur-Þýskaland) var svart, rauð og gulröndóttur og með skjaldarmerki ríkisins í miðju. Fáninn var tekinn í notkun 1. október 1959 og var opinber fáni ríkisins þar til Austur- og Vestur-Þýskaland voru sameinuð 3. október 1990. Hlutföll fánans voru 3:5. Þegar Þýska alþýðulýðveldið var stofnað 7. október 1949 tók það upp sama svart, rauð og gulröndótta fána og notaður hafði verið í Weimar-lýðveldinu. Fánar þýsku ríkjanna tveggja, Austur- og Vestur-Þýskaland, voru því nákvæmlega eins í nokkur ár. Árið 1955 tók Austur-Þýskaland upp nýtt skjaldarmerki og árið 1959 var fánanum breytt á þann veg að skjaldarmerkið var sett í miðju fánans. Í skjaldarmerkinu veru myndir af hamari, sirkli og kornaxi, tákn verkamanna, menntamanna og bænda. Notkun austur-þýska fánans var bönnuð í Vestur-Þýskalandi. Skjaldarmerki Austur-Þýskalands. thumb Skjaldarmerki Þýska alþýðulýðveldisins var hringlaga, innri rauður flötur og á honum gulur hamar og sirkill og þar í kring vöndur af rúgaxi. Hamarinn táknaði verkamannastéttina, sirkillinn menntamenn og rúgurinn bændurna. Í fyrsta skjaldarmerkinu voru einungis hamarinn og rúgurinn sem tákn Þýska alþýðulýðveldisins sem „ríki verkamanna og bænda“ ("Arbeiter- und Bauernstaat"). Skjaldarmerkið var lögleitt 26. september 1955 og gert að hluta af Austur-þýska fánanum 1. október 1959. Morgron 2010. Morgron 2010 er annað skiptið sem ræðukeppni grunnskólanna, Morgron, er haldin eins og hún er nú. Þátttökuskólar voru níu talsins en tveir þeirra drógu þátttöku sína til baka. Ingunnarskóli, Laugalækjarskóli og Réttarholtsskóli kepptu allir í fyrsta sinn í Morgron í keppninni 2010. Fyrsta umferð. Árbæjarskóli skráði sig úr keppni og gaf þar með viðureignina. Réttarholtsskóli heldur því áfram í aðra umferð. Valhúsaskóli - Ingunnarskóli. Fyrsta keppni Morgron 2010, keppni Valhúsaskóla og Ingunnarskóla, fór fram í Valhúsaskóla þann 29. janúar. Umræðuefnið var: Að því gefnu að til sé tæki sem spáð getur fyrir um glæpi í framtíðinni, eigum við að nota það til þess að handtaka glæpamennina áður en glæpurinn er framinn? og Ingunnarskóli mælti með en Valhúsaskóli á móti. Dómarar voru Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, Egill Ásbjarnarson og oddadómarinn Ingvar Örn Ákason. Allir dómarar voru sammála um sigurliðið og ræðumann kvöldsins en keppninni lauk með 165 stiga mun af 2889 heildarstigum. Seljaskóli - Réttarholtsskóli. Önnur keppni Morgron 2010, keppni Seljaskóla og Ingunnarskóla, fór fram í Seljaskóla þann 16. febrúar. Seljaskóli höfðu titilinn að verja því þeir eru núverandi meistarar. Umræðuefnið var: Bandaríkin og Seljaskóli mælti með en Réttarholtsskóli á móti. Dómarar voru þeir sömu og í viðureign Valhúsaskóla og Inngunnarskóla eða Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, Egill Ásbjarnarson og oddadómari þá Ingvar Örn Ákason. Allir dómarar voru sammála um sigurliðið og ræðumann kvöldsins en keppninni lauk með 333 stiga mun af 2833 heildarstigum. Hagaskóli - Laugalækjarskóli. Þriðja keppni Morgron 2010, keppni Hagaskóla og Laugalækjarskóla, fór fram í Laugalækjarskóla þann 4. mars. Keppnin var jafnframt fyrsta Morgronkeppni Laugalækjarskóla. Umræðuefnið var: „Hver er sinnar gæfu smiður“ og Laugalækjarskóli mælti með en Hagaskóli á móti. Dómarar voru Thelma Lind Steingrímsdóttir, Árni Grétar Finnsson og oddadómari var Brynjar Guðnason. Allir dómarar voru sammála um sigurliðið og frekar sammála um ræðumann kvöldsins en keppninni lauk með 425 stiga mun af 2523 heildarstigum. Lindaskóli - Varmárskóli. Varmárskóli sagði sig úr keppni og gaf þar með viðureignina fyrirfram. Lindaskóli keppir því ekki fyrr en í undanúrslitum. Hagaskóli - Valhúsaskóli. Fjórða keppni Morgron 2010 og jafnframt fyrri undanúrslitakeppnin, keppni Hagaskóla og Valhúsaskóla, fór fram í Hagaskóla þann 23. mars. Hagaskóli vann sér leið í úrslitin með sigri sínum á Laugalækjarskóla á útivelli en Valhýsingar höfðu betur gegn Inngunnarskóla í sinni 8-liða úrslita viðureign. Þetta var í annað skiptið sem Hagaskóli og Valhúsaskóli mætast í ræðukeppni árið 2010 en hið fyrra var á svokölluðum Hagó-Való degi þar sem Valhúsaskóli bar sigur úr bítum. Umræðuefnið var: „Heimur versnandi fer“ og Valhúsaskóli mælti með en Hagaskóli á móti. Dómarar keppninnar voru Kristján Lindberg, oddadómari, Jakob Ómarsson og Nanna B. Tryggvadóttir. Ekki allir dómararnir voru sammála um sigurliðið en tveir dómarar dæmdu Hagaskóla sigur auk þess sem Hagaskóli hlaut fleiri stig. Dómararnir voru frekar sammála um ræðumann kvöldsins og lauk leikum með stiga 132 stiga sigri Hagaskóla af 2626 heildarstigum. Freyjubrá. Freyjubrá (eða prestafífill) (fræðiheiti: "Leucanthemum vulgare" eða "Chrysanthemum leucanthemum") er garðplöntutegund af körfublómaætt. Hún er allhávaxin með hvítum blómkörfum, gul í miðju. Vepjulilja. Vepjulilja (fræðiheiti: "Fritillaria meleagris") er garðplöntutegund af liljuætt. Vepjuliljan er lágvaxin laukplanta með stökum, hangandi og klukkulaga blómum. Vepjuliljan er grannvaxin, stinn og spengileg með mjó blöð og allstór lútandi blóm, purpuradoppótt eða hvít eftir afbrigðum. Rímnafélagið. Rímnafélagið er félag sem gaf út íslenskar rímur í fræðilegum útgáfum. Það var stofnað í Reykjavík haustið 1947 og starfaði að minnsta kosti til ársins 1976. Um félagið. Meðal síðari forseta félagsins voru alþingismennirnir Pétur Ottesen (a.m.k. 1951 og 1956), Karl Kristjánsson (1960 og 1961), Gísli Guðmundsson (1961–1965), Páll Þorsteinsson (1965–1969) og Ingvar Gíslason (1969–1978 eða lengur). Starfsemi Rímnafélagsins var nokkuð öflug í byrjun, en eftir að William A. Craigie féll frá, 1957, fór nokkuð að hægja á. Árið 1965 var lokið við að gefa út 10 bindi rímna og árið eftir kom út "Rímnatal" 1–2, eftir Finn Sigmundsson landsbókavörð. Er þar greinargerð um allar íslenskar rímur sem varðveist hafa (um 1.050 talsins, þar af eru um 240 prentaðar) og æviágrip höfundanna (um 480, þar af 16 konur). Ekki eru teknar með rímur frá 20. öld nema að litlu leyti. Rímnatalið er stórvirki og liggja miklar frumrannsóknir að baki því. Eftir þetta virðist sem starfsemi félagsins hafi legið að mestu niðri fram til 1973, að gefið var út lítið Aukarit. Árið 1976 kom svo síðasta rit félagsins, "Blómsturvallarímur" eftir Jón Eggertsson, sem varðveittar eru í einu handriti í Svíþjóð. Upp úr því virðist félagið hafa lognast út af en nánari upplýsingar skortir. Dictionary of the Older Scottish Tongue. Dictionary of the Older Scottish Tongue – (skammstafað: DOST) – er orðabók í 12 bindum sem gerir grein fyrir og lýsir skosku sem sérstöku tungumáli, frá fyrstu ritheimild á 12. öld fram til ársins 1700. Vinna við orðabókina tók u.þ.b. 80 ár, frá 1921–2002. Ágrip af sögu orðabókarinnar. Þó að fyrstu ritheimildir um skosku séu frá 12. öld, eru heimildir mjög takmarkaðar framan af. Samfelldar heimildir um málið eru til frá 1375. Fræðimenn telja að ákveðin skil hafi orðið í sögu málsins um 1700, þegar áhrif frá ensku höfðu leitt til verulegrar samræmingar í málnotkun milli Skotlands og Englands. Sir William A. Craigie átti frumkvæði að orðabókinni, og kynnti fyrstu hugmyndir um hana í bréfi 1916 og í fyrirlestri 1919. Árið 1921 fór hann svo að vinna skipulega að orðabókinni í frístundum sínum. Hópur sjálfboðaliða var fenginn til að orðtaka valin rit, og munaði þar mest um mágkonu Craigies, Isabellu B. Hutchen, sem hafði umsjón með starfi sjálfboðaliðanna. Sir William Craigie dvaldist í Chicago 1925–1936 og samdi þá við Chicago háskóla (Chicago University Press) um útgáfu á verkinu. I. bindi kom út á árunum 1931–1937 og II. bindi 1938–1951. Þá lá við að verkið stöðvaðist vegna fjárhagserfiðleika bandaríska útgefandans, sem sagði sig frá verkinu. Tókst William Craigie þá að fá nokkra skoska háskóla til að taka við verkefninu, sem tryggði framhald þess. William Craigie vann að orðabókinni til 88 ára aldurs, 1955, og hafði þá lokið bókstafnum I. Um 1981 lá við að orðabókin strandaði enn vegna fjárhagserfiðleika, en Alexander Fenton yfirmaður Skoska þjóðminjasafnsins í Edinborg gekkst þá fyrir því að stofnuð voru samtök hollvina orðabókarinnar, sem tryggðu að henni yrði lokið. Það tókst í desember 2000, þegar því síðasta var skilað í prentsmiðju, og kom 12. bindið út 2002. Í útgáfustarfinu var yfirleitt sleppt orðum sem eru sem næst eins í ensku og skosku. Hins vegar innleiddi Margaret G. Dareau það sjónarmið í orðabókarvinnuna að einnig þurfi að taka tillit til þess hvort orðin voru notuð á annan hátt í skosku málsamfélagi. Verklokum við orðabókina var fagnað með því að gefa út ritgerðasafn: Christian J. Kay (ritstj.): "Perspectives on the Older Scottish Tongue", Edinburgh 2005, 240 s. Árið 2004 tók hópur fólks á vegum Háskólans í Dundee að sér að tölvuskrá texta allra 12 bindanna og er hann nú aðgengilegur á netinu undir nafninu Dictionary of the Scots Language. Eignarfallsflótti. Eignarfallsflótti nefnist sú tilhneiging að beygja ekki orð í eignarfalli, oft eftir forsetningum eða í nöfnum fyrirtækja. Arion banki. Arion banki (áður Nýja Kaupþing) er íslenskur banki sem var stofnaður á grunni Kaupþings banka eftir gjaldþrot þess síðarnefnda í Bankahruninu árið 2008. Bankastjóri Arion banka er Höskuldur H. Ólafsson. Þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis varð gjaldþrota árið 2009 voru almenn bankaviðskipti þess banka færð til Nýja Kaupþings. Sikileyjarvörn, Najdorf afbrigði. Saga. Þrátt fyrir að afbrigðið sé nefnt eftir Miguel Najdorf þá var hann ekki fyrstur til þess að setja það fram. Það var tékkneski alþjóðlegi meistarinn Karel Opočenský sem var fyrstur til þess að beita hinni byltingarkenndu hugmynd 5...a6 þar sem...e5 er væntanlegur leikur. Rannsóknir Najdorfs á byrjuninni urðu til þess að það var nefnt eftir honum. Á þessum tíma var Argentína stórveldi í skák og meðlimir argentínsku sveitarinnar rannsökuðu og beittu Najdorf afbrigðinu óspart sem varð til þess að afbrigðið varð einskonar tískubylgja í skákheiminum. Það var þó fyrsta skák Najdorfs með afbrigðinu sem kveikti almennan áhuga á því enda var Najdorf með bestu skákmönnum heims og skákirnar hans fóru ekki framhjá mörgum. A. Rico - M. Najdorf "Argentínu, 1948". 1.e4 c5 2.Rf3 d6 3.d4 cxd4 4.Rxd4 Rf6 5.Rc3 a6 6.Be2 8...Rbd7 9.f4 Dc7 10.f5 Bc4 11.Bd3?! 11...b5 12.Be3 Be7 13.De2 Hc8 14.Hac1 0-0 15.Rd2 d5! 16.Bxc4 dxc4 17.a3 b4 18.axb4 Bxb4 19.g4? Bxc3 20.bxc3 Dc6 21.Dg2 Rc5 22.Bxc5 Dxc5+ 23.Kh1 Hfd8 24.De2 h6 25.Ha1 Dd6 26.Hfd1 Dc6 27.Kg2 Hd6 28.h3 Hcd8 29.Kf3 Dd7 30.Ke3 Re8!31.Ha5 Rc7 32.Hxe5 Rb5 33.Hd5 Hxd5 34.exd5 Rxc3 35.Df3 Rxd1+ 0-1 Afbrigði. Hvítur hefur fjöldamarga valmöguleika á sjötta leiknum sínum en þeir helstu eru Klassíska afbrigðið 6.Be2, gamla aðalafbrigðið, 6.Bg5, Fischer árás, 6.Bc4 og ensk árás, 6.Be3/6.f3. Afbrigðin sem nefnd eru hér eru í vinsældarröð samkvæmt ChessBase þann 22.nóvember 2009. Klassíska afbrigðið, 6.Be2. Þetta er einnig oft nefnt Opočenský-afbrigðið eftir tékkneska stórmeistaranum Karel Opočenský. 6.Be2 gefur færi á mjög rólegri stöðu þar sem hugmynd hvíts er að hrókera kóngsmegin. Margir af færustu skákmönnum sögunnar hafa beitt þessu afbrigði og mætti einna helst nefna Anatoly Karpov sem beitti afbrigðinu nánast undantekningalaust en nú til dags er það ekki jafn algengt. Margir af bestu skákmönnum heims beita afbrigðinu af og til og mætti helst nefna Garrí Kasparov, Alexei Shirov, Vladimir Kramnik, Viswanathan Anand og Peter Leko. Til þess að tefla Opočenský-afbrigðið er mikilvægt að hafa góðan skilning á stöðunni frekar en að leggja á minni sjálfstæðar línur, eins og raunin reynist í gamla aðalafbrigðinu. Í rúmlega 22% af skákum sem hefjast með Najdorf er Opocensky afbrigðið teflt. Elsta skráða skák þar sem afbrigðið er tefld er skákin Lewis Isaacs - Abraham Kupchik frá árinu 1928 og varð framhaldið 6...b5 en nú til dags eru tvö helstu afbrigði; 6...e6 sem breytist í Scheveningen afbrigði sikileyjarvarnar og 6...e5 sem er algengara. Eftir 6...e5 er eini góði kosturinn að leika 7.Rb3 og eftir 7...Be7 hefur hvítur fjöldamarga kosti og þar má nefna sem dæmi 8.0-0, 8.Be3, 8.Bg5, 8.a4 eða jafnvel 8.g4!?. Gamla aðalafbrigðið, 6.Bg5. Gamla aðalafbrigðið (enska: "old main line") gerir hvítum kleift að setja upp mjög árásargjarna stöðu enda hafa flestir leitað í þessu afbrigði við hinu fullkomna svari við Najdorf afbrigðinu og nánast engin lína hefur verið rannsökuð jafn mikið og þetta. Samt sem áður tóku vinsældir afbrigðisins að dvína á 9. áratug 20 aldar og þá tók klassíska afbrigðið við sem helsta svarið við Najdorf afbrigðinu, en seinna enska árásin. Í rúmlega 22% skáka þar sem teflt er Najdorf afbrigðið er haldið áfram eftir gamla aðalafbrigðinu. Eftir 6...e6 7.f4 er helst leikið 7...Be7. Af stórmeisturum er hins vegar helsta valið 7...Db6!? sem gengur undir nafninu „eitraða peðs afbrigði" (enska: "poisoned pawn variation"). Þá býðst hvítum sá möguleiki að bjóða svörtum eitraða peðið með því að leika 8.Dd2 eða hafna því með 8.Rb3 Mikilvæg afbrigði eru einnig 7...Dc7, 7...Rbd7, hið flugbeitta Polugaevsky afbrigði 7..b5?! og hið sögufræga Gautaborgar afbrigði sem kemur upp eftir 7...Be7 8.Df3 h6 9.Bh4 g5!? Þrátt fyrir nafn afbrigðisins var það ekki teflt fyrr en árið 1939 í keppni landsliða á ólympíukeppninni í skák sem fram fór í Buenos Aires. Í viðureigninni Christian Poulsen (Danmörku) - Miguel Najdorf (Argentínu) var svo afbrigðið fyrst teflt þar sem sjálfur Najdorf, sem Najdorf afbrigði heitir eftir, var með svart. Ensk árás, 6.Be3/6.f3. Nafnið kemur frá ensku stórmeisturum John Nunn, Nigel Short og Murray Chandler sem voru fyrstir til að rannsaka og beita ensku árásinni en hún hafði verið notuð gegn öðrum sikileyjarvörnum og þá sérstaklega drekaafbrigðinu. Þrátt fyrir að árásin hafi ekki komið fram á sjónarsviðið fyrr en á 9. áratugnum líta stórmeistarar nútímans á ensku árásina sem besta svarið við Najdorf afbrigðinu. Í rúmlega 23% allra skáka þar sem teflt er Najdorf afbrigði er tefld ensk árás en síðustu ár hefur sú tala snarhækkað. Hugmynd hvíts er að skipa mönnunum sínum á eftirfarandi hátt: Be3, f3, Dd2, 0-0-0, g4 og svo heldur árásin áfram með sókn peðanna á kóngsvæng. Svartur hefur tvo helstu möguleika á vali sjötta leiksins; 6...e6 sem breytist í stöðu sem kemur upp í Scheveningen afbrigði og svo 6...e5 þar sem bæði 7.Rf3 og 7.Rb3 eru viðeigandi en 7.Rb3 er þó mun algengara á öllum styrkleikastigum. Dæmigert framhald af 7.Rb3 væri 7...Be6 8.f3 Be7 9.Dd2 0-0 10.0-0-0 Rbd7 11.g4 b5. Hér sést vel hvernig hvítur sækir fram á kóngsvæng og svartur gerir gagnárás á drottningarvængnum, og er það nokkuð algilt yfir sikileyjarvörn. Enska árásin var fyrst tefld árið 1955 á slóvakíska meistaramótinu í skákinni Ivanco - Zobel. Þar er árásin tefld samkvæmt óhefðbundinni leikjaröð og skákin sjálf mætti flokkast sem afurð viðvaninga. Skák með ensku árásinni má nú finna á nánast hverju einast skákmóti og allir af bestu stórmeisturum heims nota hana reglulega og í þeim hópi eru t.d. Viswanathan Anand, Garry Kasparov, Vaselin Topalov, Vladimir Kramnik, Alexander Morozevich og Peter Svidler og hér mætti lengi áfram telja. Fischer árás, 6.Bc4. Þetta er, eins og gamla aðalafbrigðið, ein af árásarlínum hvíts gegn Najdorf. Afbrigðið er nefnt eftir Bobby Fischer en það er einnig oft talað um Fischer-Sozin árás sem finnst í mörgum afbrigðum sikileyjarvarnar. Af skákum þar sem leikið er Najdorf afbrigði er tefld Fischer-Sozin árás í um 14% þeirra. Afbrigðið var fyrst notað ítrekað af Veniamin Sozin Afbrigðið átti vafalaust blómaskeið sitt þegar hann og samtímamenn hans tefldu afbrigðið. Þegar afbrigðið var teflt sem mest þróuðust svo öflug varnarkerfi gegn því að á næstu áratugum sást það sjaldan af stórmeisturum en hélt þó vinsældum sínum á lægri styrkleikastigum. Árið 1993 endurheimti línan þó vinsældir sínar að einhverju leyti og má þakka skákinni Short - Kasparov þar sem Kasparov lenti í miklum vandræðum með línuna. Eftir 6.Bc4 leikur svartur 6...e6 og þá er hinn sveigjanlegi 7.Bb3 lang vinsælasti kostur hvíts. 6.f4. Þetta er vinsælast af afbrigðunum í þessum flokki og er það teflt í rúmlega 7% skáka þar sem teflt er Najdorf afbrigði. Afbrigðið er tíður gestur í skákum stórmeistara og hefur verið notað af t.d. Garrí Kasparov, Alexander Morozevich og Vassily Ivanchuk. Hugmyndin á bak við 6.f4 er að vinna pláss kóngsmegin á borðinu og að geta leikið riddaranum aftur á f3 án þess að fara í veg fyrir f-peðið. Dæmigert framhald væri því 6...e5 7.Rf3 Rbd7. Svartur leikur b5 og Bb7 til þess að vinna svæði drottningarmeginn og setja pressu á e-peð hvíts þar sem ekkert peð er tiltækt til þess að valda það sem gerir það að auðveldu skotmarki svarta biskupsins á b7. 6.a4. Þetta afbrigði er teflt í um 3,7% þeirra skáka þar sem teflt er Najdorf afbrigði. Afbrigðið reyndist árangursríkt í höndum ensku stórmeistaranna Nunn, Chandler og Short á 9. áratug tuttugustu aldar en vinsældir þess tóku svo að dvína eftir svarið 6...Rc6 fylgt eftir með 7...e5 eða 7...g6. Zagreb afbrigðið, 6.g3. Bestu skákmenn heims hafa margir lent í erfiðleikum þegar þeir mæta 6.g3 afbrigðinu sem einnig hefur verið kallað Zagreb afbrigði eða fianchetto afbrigði. Zagreb afbrigðið er virkilega flókið og þörf er á miklum taktískum sem og strategískum skilningi til þess að ná árangri með afbrigðinu. Margir sögufrægir skákmenn hafa beitt afbrigðinu og ber helst að nefna Kasparov, Leko, Adams og Karpov. eftir 6...e5 er talið best að leika 7.Rde2 en þó er mögulegt að leika 7.Rb3!?. 6.Bd3. Þetta afbrigði sést nánast aldrei leikið af stórmeisturum en kemur þó upp af og til af skákmönnum í sterkari kantinum. Þeirra á meðal eru Adams, Ponomariov, Carlsen og Judit Polgar. Þessu er ekki leikið nema í 1,6% allra skáka þar sem telft er Najdorf afbrigði. 6...Rc6! Í stuttu máli þá er þetta ástæðan fyrir því að 6.Bd3 er sjaldséð. Hins vegar ber að minnast á að eftir hið eðlilega framhald 6...e5 7.Rde2 Rbd7 8.0-0 b5?! 9.Bg5 Be7 virðist allt vera í lagi fyrir svartan en hinn óvenjulegi leikur 10.b4! á vel við hér. Eftir 6...Rc6 kemur þá annað hvort 7.Rxc6 bxc6 8.0-0 g6! eða 7.Rb3 þar sem svartur getur valið um að tefla í Scheveningen stíl með 7...e6 eða dreka stíl með 7...g6 þar sem biskupinn er klunnalega staðsettur í báðum tilfellum. 6.h3. Þetta afbrigði varð þekkt eftir að Fischer sigraði Najdorf og Reshevsky með afbrigðinu. Afbrigðið hefur verið notað meðal annars af Carlsen, Karjakin, Mammadyarov og Svidler. Það er þó sjaldgæft og aðeins teflt í 1,4% tilvika sem Najdorf afbrigði kemur upp. Hugmynd hvíts er að leika g4 og Bg2 en það virkar sérstaklega vel eftir 6...e5?! 7.Rde2 Rbd7 8.g4 þar sem hvítur hefur sparað sér einn leik miðað við 6.g3 afbrigðið hér að ofan. Besta svar svarts við 6.h3 er 6...e6 og eftir 7.g4 koma annað hvort 7...b5! eða 7...d5!. 6.Hg1. Þetta er bæði sjaldgæfasta og furðulegasta afbrigði hinna og sjaldgæfu/furðulegu afbrigða Najdorf afbrigðis. Þótt þetta afbrigði hafi aflað sér meiri vinsælda á síðustu árum en það hafði áður er því ekki leikið nema í 0,036% tilvika þar sem Najdorf afbrigði kemur upp. Þrátt fyrir að afbrigðið sé svona sjaldséð er það virt lína og hefur það verið notað af Ivanchuk, Adams, Leko og Judit Polgar. Hugmyndin á bak við 6.Hg1 er að hrekaja svarta riddarann á f6 frá miðjunni með því að leika g4-g5 og fylgja því svo eftir með kóngsárás. Afbrigðið svipar mjög til Keres árásar gegn Scheveningen afbrigði sikileyjarvarnar en hún er einmitt talin hið rétta svar við Scheveningen afbrigðinu. Eftir 6.Hg1 hefur svartur þrjá helstu möguleika en þeir eru: 6...e5, 6...e6 og 6...b5. Dæmigerð lína væri 6...e5 7.Rb3 Be6 8.g4 d5!. Svartur svarar kóngssókninni með gagnárás á miðborðið. Það er frekar algengt í skák að ef andstæðingur gerir vængárás þá skuli henni svarað með miðborðssókn. Lu Xun. Kínverski rithöfundurinn Lu Xun er talinn meðal merkari rithöfundum Kínverja á 20. öld. Lu Xun (25. september 1881 – 19. október 1936) var kínverskur höfundur smásagna, ritstjóri, þýðandi, gagnrýnandi og skáld. Hann er talinn meðal merkari kínverskra rithöfunda á 20. öld. Lu Xun (í hefðbundinni kínversku: 鲁迅;) eða Lu Hsün var rithöfundarnafn Zhou Shuren (周树 人). Hann fæddist 25. september 1881 í Shaoxing, Zhejiang héraði í Kína. Árið 1902 ferðaðist hann til Japans á að opinberum námsstyrk, til að nema við læknaskólann í Sendai. Áhugi á bókmenntum varð yfirsterkari og hann sneri aftur til Kína, þar sem hann gaf út þýðingar á nokkum ritverkum Vesturlanda. Hann starfaði um tíma í menntamálaráðuneytinu í Beijing. Á árunum 1918-26 samdi hann 25 sögur á kínversku. Meðal verka hans eru "Dagbók brjálæðings" (1918), um mann sem trúir því að hann sé fangi mannæta, "Hin sanna saga Ah Q" (1921-22), sem segir af bónda sem sér árangur í eigin vanhæfni, jafnvel allt til aftöku hans, sagan er gagnrýni á þáverandi þjóðernishyggju og sterka tilhneigingu afneita þeim kalda veruleika sem við kínverjum blasti, og "Nýársfórnin" (1924), sem lýsir kúgun kvenna. Frá 1926 skrifaði Lu háðsádeiluritgerðir og starfaði sem yfirmaður (og einn stofnenda) samtaka vinstri sinnaðra rithöfunda í Shanghai. Lu Xun er talinn af mörgum vera frumkvöðull kínverskra nútímabókmennta. Honum hefur gjarnan verið skipað á bekk með þeim rithöfundum sem þóknanlegir voru stjórn kommúnista eftir 1949. Mao Zedong var aðdánandi verka Lu Xun. En þó að Lu Xun hafi haft samúð með hugsjónum á vinstri væng stjórnmálanna gekk hann aldrei til liðs við Kínverska kommúnistaflokknum. Lu Xun lést úr berklum 19. október 1936. Tenglar. Xun, Lu Xun, Lu Xun, Lu Peder Schumacher Griffenfeld. Peder Schumacher Griffenfeld (24. ágúst 1635 – 12. mars 1699) var danskur stjórnmálamaður og ríkiskanslari Danmerkur frá 1673 til 1676. Hann hóf störf sem bókavörður og skjalavörður Friðriks 3. 1663 og varð brátt eins konar ríkisritari. Sem slíkur átti hann þátt í að semja Konungslögin um einveldið 1665. 1666 varð hann ritari við Kansellíið og 1668 skipaður kansellíráð. 1669 varð hann dómari við hæstarétt. Eftir krýningu Kristjáns 5. varð hann stöðugt valdameiri. 1671 var hann aðlaður og 1673 fékk hann titilinn greifi af Griffenfeld um leið og hann var skipaður ríkiskanslari. Ýmis atvik urðu til þess að hann féll í ónáð þegar Skánarstríðið stóð sem hæst og hann var fangelsaður og dæmdur fyrir landráð 1676. Dauðadómi var breytt í lífstíðarfangelsi. 1698 fékk hann leyfi konungs til að setjast að í Þrándheimi þar sem hann lést ári síðar. COMECON. Samtök um gagnkvæma efnahagsaðstoð oftast neft COMECON á íslensku (úr ensku: "Council for Mutual Economic Assistance"; rússneska: Совет экономической взаимопомощи, "Sovjet ekonomítsjeskoj vsaímopomossji") var efnahagsbandalag kommúnistaríkja á tímum Kalda stríðsins. Bandalagið var stofnað 1949 sem svar Austurblokkarinnar við Efnahags- og framfarastofnuninni sem var stofnuð árið áður. Aðild var lengst af bundin við Sovétríkin og kommúnistaríkin í Austur- og Mið-Evrópu en 1972 fékk Kúba inngöngu og 1978 Víetnam. Önnur kommúnistaríki áttu sum áheyrnarfulltrúa á þingum samtakanna. Eftir byltingarárið 1989 var COMECON varla til nema að nafninu og á síðasta fundi samtakanna 28. júní 1991 var samþykkt að leggja þau niður. Zugspitze. Zugspitze er hæsta fjall Þýskalands og nær 2.962 m.y.s. Landafræði. Zugspitze er í þeim hluta Alpanna sem Þjóðverjar kalla "Wettersteingebirge". Þau marka landamæri Bæjaralands í Þýskalandi og Tírols í Austurríki, rétt suðvestan við skíðabæinn Garmisch Partenkirchen. Við tindinn eru tveir jöklar, Schneeferner og Höllentalferner. Báðir eru hopandi. Saga. Wettersteingebirge og Zugspitze voru nær óþekkt allt fram á 19. öld. Ástæðan er sú að meðan Þýskaland og Austurríki tilheyrðu þýska ríkinu, var Grossglockner í Austurríki hæsta fjall ríkisins. Fyrstur til að klífa Zugspitze var Josef Naus árið 1820 en hann var stjórnandi austurrísks leiðangurs. 1899-1900 var reist veðurathugunarstöð á tindinum sem hefur verið mönnuð allar götur síðan, nema á árum heimstyrjaldarinnar síðari. Árið 1923 var fyrsta kapallyftan tekin í notkun, Austurríkismegin. Seinna var annarri bætt við og gengur hún á fjallið Þýskalandsmegin. Í dag er stjörnuathugunarstöð á tindinum, auk veitingasala, sýningarsala, verslana og aðstaða fyrir ferðamenn. Encarta. Microsoft Encarta er rafrænt alfræðirit sem Microsoft gaf út frá 1993 til 2009. Árið 2008 innihélt enska útgáfan meira en 62.000 greinar, og auk þess mikinn fjölda mynda, kvikmynda, hljóðs, korta, skýringarmynda, verkefna o.s.frv.. Encarta varð til þegar Microsoft keypti útgáfurétt að alfræðiorðabók forlagsins Funk & Wagnalls eftir að útgefendur Encyclopedia Britannica höfðu áður hafnað tilboði fyrirtækisins. Síðar keypti Microsoft alfræðiritin "Collier's Encyclopedia" og "New Merit Scholar's Encyclopedia" frá Macmillan og felldi þau inn í Encarta. Alfræðiritið var gefið út á geisladiski en vefútgáfa kom síðar. Microsoft ákvað 2009 að hætta útgáfu alfræðiritsins sem hafði dalað mikið í vinsældum. Horblaðka. Horblaðka eða reiðingsgras (fræðiheiti: "Menyanthes trifoliata") er eina jurtin í ættkvíslinni "Menyanthes". Hún er lág með jarðlægum ljósgrænum þrískiptum blöðum. Blöðin eru egglaga. Jurtin breiðir úr sér með rótarskotum neðanjarðar. Jurtin er útbreidd um allt norðurhvel jarðar, aðallega í votlendi. Mjaðarlyng. Mjaðarlyng (fræðiheiti: "Myrica gale") er jurt af porsætt sem er algeng í Norður- og Vestur-Evrópu en vex ekki villt á Íslandi. Hún er skammær ilmandi runni með aflöng grágræn blöð. Hún vex aðallega í mýrum. Kvenreklar þessarar jurtar voru notaðir sem bætiefni í mungát fyrr á öldum áður en humlar urðu allsráðandi. Slík mungát var kölluð porsmungát, porsöl eða pors. Réttarvatn. Réttarvatn er stöðuvatn á Arnarvatnsheiði. Réttarvatn er 2,1 km² og dýpst um 2 m. Vatnið er í 549 m hæð yfir sjó. Úr Réttarvatni rennur Skammá í Arnarvatn stóra. Vatnið er talið eitt af bestu veiðivötnunum á Arnarvatnsheiði. Kveðskapur. Um vatnið orti Jónas Hallgrímsson Skammá. Skammá er á sem rennur úr Réttarvatni í Arnarvatn stóra á Arnarvatnsheiði. Í ánni er foss sem rétt við þar sem áin rennur í Arnarvatn. Eins og nafnið ber með sér er áin afar stutt. Neðarlega í Skammá eru góður og vinsæll veiðistaður. Þörungar. Nærmynd af rauðþörungnum "Laurencia sp." Þörungar er samheiti yfir gróður sjávar. Þörungum má skipta í tvo hópa, annars vegar plöntusvif og hins vegar botnþörunga. Plöntusvif er örsmár svifgróður sem berst með straumum í yfirborðslögum sjávar, en botnþörungar vaxa á botninum eins og nafnið gefur til kynna. Þörungar nýta ljósorku sólarinnar til að byggja upp lífræn efni úr ólífrænum og byggir allt líf í sjónum tilveru sína beint eða óbeint á þessari framleiðslu þeirra. Megnið af framleiðslunni kemur frá plöntusvifinu í efstu lögum sjávar, en botnþörungarnir taka einnig þátt í nýmyndun lífrænna efna. Þörungarnir nýta birtuna við yfirborðið, þeir nýta áburðarefni eða næringarsölt sem berast upp í yfirborðslögin og eru auk þess háðir straumum og uppblöndun eða stöðugleika sjávar. Þeir eru því mjög háðir umhverfisaðstæðum í hafinu. Hafsbotn. Hafsbotn (eða sjávarbotn) er botn hafsins, sem byrjar þar sem land fer undir sjó. Haffræði í rýmstu merkingu nær til allra rannsókna á hafinu sjálfu, lífverum þess og hafsbotninum. Í setlögunum, sem hlaðist hafa upp í hafinu, er t.d. skráð saga hafsins milljónir ára aftur í tímann. Ýmis sjávardýr lifa við hafsbotninn og hinar ýmsar jurtir vaxa upp af honum. Athuga ber að orðið hafsbotn er á íslensku einnig haft um innsta hluta víkur eða fjarðar. Kringum öll lönd er svo kallaður grunnsævispallur, er nefnist landgrunn, sem er grunnsævi út frá landi, frá fjöru að 200 m dýptarlínu. Landgrunnið við Ísland hefur skarpa, bogadregna brún á 200 m dýpi. Frá henni liggur brekka (forbrekkan), sem víða hefur um 4° halla. Öldutúnsskóli. Öldutúnsskóli er einn af átta grunnskólum í Hafnarfirði. Usedom. Usedom (pólska: "Uznam") er næststærsta eyja Þýskalands. Hún liggur við pólsku landamærin í Eystrasalti. Orðsifjar. Usedom er nefnd eftir samnefndum bæ á eyjunni. Hann hét upphaflega "Uznoimia civitas" á latínu. Talið er að Uznoimia sé dregið af slavneska orðinu "straumur", enda umlykja armar fljótsins Odru eyjuna á báða vegu. Eftir þýska landnámið tóku Þjóðverjar upp orðið en breyttu því hljóðfræðilega í "Usedom". Saga. Vindar bjuggu á eyjunni til forna. Þýskt landnám hófst þar á 12. öld. En 1630 gekk Gústaf Adolf II Svíakonungur á land við Peenemünde og hertók eyjuna áður en hann hélt lengra suður til að taka þátt í 30 ára stríðinu. Konungur lét lífið í stríðinu en eyjan hélst engu að síður sænsk allt til 1713, er Prússar fengu hana við lok Norðurlandaófriðarins mikla. Á Potsdam-ráðstefnunni 1945 var ákveðið að leggja landamæri Póllands og Þýskalands um eyna. Þýska borgin Swinemünde varð því pólsk og var heitinu breytt í Świnoujście. Landafræði. Usedom er skipt eyja. Vesturhlutinn tilheyrir Þýskalandi, en austurhlutinn er pólskur. Alls er eyjan 445 km² að stærð, en þýski hlutinn er 373 km². Eyjan myndar mikið lón sem heitir Stettiner Haff, en fljótið Odra rennur í gegnum það og sitthvoru megin við Usedom. Fjölmargir bæir eru á eyjunni. Þeirra helstir eru Peenemünde Þýskalandsmegin og Świnoujście (Swinemünde) Póllandsmegin. Norðanmegin eru góðar baðstrendur sem mikið eru sóttar af ferðamönnum. Baðbærinn Ahlbeck er meðal vinsælustu baðstaða Þýskalands við Eystrasalt. Fehmarn. Fehmarn er þriðja stærsta þýska eyjan með 185 km² og var stærsta eyja fyrrverandi Vestur-Þýskalands. Hún liggur í Eystrasalti við vesturströnd Slésvík-Holtsetalands. Orðsifjar. Eyjan hét upphaflega "fe mer", en það er slavneska og merkir "liggjandi í sjónum". Danir héldu þessu heiti en rituðu það "Femern". Þjóðverjar tóku þetta heiti upp, en breyttu því í núverandi heiti. Þó er sundið milli eyjarinnar og meginlandsins enn í dag kallað "Femernsund", bæði á dönsku og þýsku. Landafræði. Fehmarn er í Eystrasalti og er tilheyrir sambandsríkinu Slésvíkur-Holtsetalandi. Hún er rétt sunnan við dönsku eyjuna Láland (danska: Lolland), en fyrir norðan þýsku borgina Lübeck. Brú tengir eyjuna við borgina Heiligenhafen á meginlandinu. Fjölmargir bæir eru á Fehmarn. Þeirra helstir eru Burg og Puttgarden. Frá síðarnefnda bænum ganga ferjur yfir til Rødby á Lálandi. Samanlagt búa 14 þúsund manns á eyjunni. Náttúruverndarsvæðið "Wallnau" vestast á Fehmarn er meðal mikilvægustu fuglagriðstaði í Norður-Þýskalandi. Saga. a> við bæinn Flügge á Fehmarn Fyrstu heimildir um Fehmarn eru frá 960, en þá bjuggu slavar þar. Árið 1022 var eyjan sett undir biskupinn í Óðinsvéum og var eyjan dönsk allar götur til 19. aldar. 1864 gengu prússneskar hersveitir á land og hertóku eyjuna meðan dönsku hermennirnir voru í fastasvefni. Var þetta liður í stríði þjóðanna um yfirráðin í Slésvík-Holtsetalandi. Síðan þá hefur eyjan verið þýsk. 1963 var brú lögð frá meginlandinu til Fehmarn. 1970 hélt Jimi Hendrix tónleika á Fehmarn, þeir síðustu fyrir andlát hans. Hann lést aðeins 12 dögum síðar. Alþingiskosningar 1959 (október). Seinni alþingiskosningar 1959 voru haldnar eftir að þingið hafði samþykkt kjördæmabreytingu. Í fyrsta skiptið var kosið eftir landshlutum en ekki sýslum og bæjum. Reykjavík var þó áfram eigið kjördæmi. Þingmönnum var einnig fjölgað úr 52 í 60. Kosningarnar voru haldnar 25.-26. október 1959 og kosningaþáttaka var 90,4%. Að loknum kosningum mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hina langlífu Viðreisnarstjórn, með tæpum þingmeirihluta þó. Þetta voru seinustu kosningarnar sem Þjóðvarnarflokkurinn bauð fram undir eign merkjum. Eyjólfur Jónsson Johnsonius. Eyjólfur Jónsson Johnsonius (1735 – 21. júlí 1775) var íslenskur vísindamaður á 18. öld og var gerður að konunglegum stjörnuskoðara á Íslandi árið 1773. Eyjólfur var frá Háafelli í Hvítársíðu. Hann var stúdent frá Skálholtsskóla og lærði síðan guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla en hóf síðan störf sem stjörnuathugunarmaður í stjörnuturninum í Kaupmannahöfn og var þar nokkur ár við stjörnuathuganir. Hann var skrifari landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 en fékk síðan fyrirheit um prestsembætti á Staðarstað á Snæfellsnesi þegar það losnaði og var jafnframt útnefndur konunglegur stjörnuskoðari. Þá stóð til að reisa stjörnurannsóknarstöð á Staðarstað. Af þessu varð þó ekki, einkum vegna bágrar heilsu Eyjólfs. Þegar hann dó sumarið 1775 hafði verið ákveðið að reisa stjörnuathugunarstöð í Lambhúsum á Álftanesi og var það gert; þar stundaði Norðmaðurinn Rasmus Lievog veður- og stjörnuathuganir í allmörg ár. Alþingiskosningar 1959 (júní). Fyrri alþingiskosningar 1959 voru þær seinustu sem haldnar voru með þáverandi kjördæmaskiptingu. Aðeins var setið eitt þing og svo boðað aftur til kosninga um haustið. Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, sem kölluð var Emilía í höfuðið á formanni flokksins Emil Jónssyni, sat allan tímann í skjóli Sjálfstæðisflokksins. Alþingiskosningar 1956. Alþingiskosningar 1956 voru haldnar 24. júní. Fyrir kosningarnar höfðu Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn myndað eins konar kosningabandalag sem fékk síðar viðurnefnið Hræðslubandalagið. Þetta fólst í sér að Framsóknarmenn í Reykjavík og stærri bæjum voru hvattir til að kjósa Alþýðuflokkinn og Alþýðuflokksmenn í sveitum og smærri bæjarfélögum voru hvattir til að kjósa Framsóknarflokkinn. Flokksleiðtogarnir vonuðust til að kjördæmaskipanin myndi vera þeim í hag og þeir gætu náð meirihluta á þinginu. Þetta tókst ekki og því þurftu þeir að kippa hinu nýstofnaða Alþýðubandalagi Hannibals Valdimarssonar og Sósíalistanna með í ríkisstjórn. Eftir kosningarnar tók þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar við sem ríkisstjórn Íslands. Weser. Þýskt kort af vatnasviði Vísarár a> liggur á brú yfir Vísará Weser (oftast nefnd Vísará á íslensku) er þriðja lengsta fljót innanlands í Þýskalandi og er 744 km að lengd. Orðsifjar. Heitið "Weser" er myndað af orðinu "uis" eða "vis", sem merkir að "renna" eða "flæða" á fornri germönsku. Áin Werra hét einnig "Weser" upphaflega, en heitið breyttist í "Werraha" á 11. öld og svo í "Werra". Því er oft litið svo á að áin Fulda sé þverá Weser, en ekki upptakakvísl. Þegar lengd Weser er mæld, er stundum viðað við samflæði Werra og Fulda. Þá væri lengd Weser aðeins 440 km. Ef miðað er við að Werra sé sama fljótið, þá er lengdin hins vegar 744 km. Landafræði. Weser myndast við sameiningu ánna Werra og Fulda nálægt borginni Münden syðst í Neðra-Saxlandi. Weser rennur að mestu leyti til norðurs og norðvesturs, uns hún mundar í Norðursjó hjá hafnarborginni Bremerhaven. Á leið sinni til sjávar sker hún sig í gegnum fjalllendið "Weser Bergland". Mýmargar borgir standa við fljótið. Þeirra helstar eru Münden, Hameln, Bremen og Bremerhaven. Weser er ákaflega mikilvæg vatnaleið. Hægt er að sigla frá Bremerhaven alla leið til Münden. Til þess þarf að fara um 8 skipastiga, sem sumir hverjir gegna hlutverki vatnsorkuvera. Kvittun. Kvittun er skrifleg staðfesting að peningar hafi verið teknir sem greiðsla fyrir vörur eða þjónustu. Kvittun er afsalsbréf sem staðfestir færsluna. Kvittanir eru ólíkar reikningum af því að vörur eða þjónusta á reikningi hafa ekki verið borgaðar fyrir. Almennar upplýsingar sem finnast á kvittunum eru listi yfir það sem viðskiptamaðurinn hefur keypt, samtals greiðsluupphæð með sköttum, afsláttum og svo framvegis, upphæð sem var greidd, og greiðsluaðferð. Nú á dögum finnast oft skilaboð frá smásalanum, upplýsingar um ábyrgð eða tryggingu, sértilboð og afsláttarmiðar á kvittunum. Oft eru líka strikamerki á kvittunum sem smásalinn getur notað til að leita að færslunni seinna. Notkun strikamerkja hjálpar til við að staðfesta að kvittun sé ófölsuð. Oftast eru kvittanir prentaðar með hitaprentara sökum hraðvirkni þeirra. Greiðsla. Greiðsla er tilfærsla peninga frá einum aðila (oftast lögaðila) til annars. Greiðslur eru oftast inntar af hendi fyrir vörur, þjónustu eða hvort tveggja. Einfaldasta og elsta greiðsluformið eru vöruskipti þar sem maður skiptir á einni vöru fyrir aðra. Nú til dags eru ýmsar greiðsluaðferðir í notkun; maður getur til dæmis borgað með peningum, ávísun, debetkorti, kreditkorti eða millifærslu. Í nútímaverslunum er reikningur kvittun gefin út til staðfestingar á greiðslu. Á milli fyrirtækja getur greiðsla verið í formi verðbréfa. Ákveðið tilvik greiðslu heitir færsla. Sá sem framkvæmdir greiðslu er kallaður greiðandi, en sá sem þiggur greiðslu greiðsluþegi. Þjónusta. Þjónusta er óáþreifanleg vara sem er ekki hægt að eiga en kemur viðskiptavini engu að síður til góða. Nokkur dæmi um þjónustu er barnagæsla, bílaviðgerð og farsímasamningur. Vörutegund getur verið bæði áþreifanleg vara og þjónusta á sama tíma. Flestar vörutegundir eru milli áþreifanlegra vara og þjónustu. Í veitingahúsum er til dæmis boðið upp á bæði vörur (matinn) og þjónustu. Hagkerfi margra vestrænnna landa byggist nú á þjónustu. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veittu Bandaríkin mesta þjónustu árið 2005. Næstmesta veittu Japan og Þýskaland. Þá myndaði þjónusta 78,5% hagkerfis Bandaríkjanna. Bismarck. Bismarck var 50.000 lesta þýskt orrustuskip í seinni heimstyrjöldinni, kennt við "járnkanslarann" Otto von Bismarck. Kjölurinn var lagður hjá Blohm & Voss skipasmíðastöðinni í Hamborg 1936, en skipið hljóp af stokkunum 1939. Það var tekið í notkun hjá þýska flotanum 24. ágúst 1940. Það sökkti stolti breska flotans, orrustubeitiskipinu HMS Hood, í snarpri sjóorustu vestur af Íslandi 24. maí 1941. Þremur dögum síðar var Bismarck sökkt af Bretum eftir mikin eltingarleik á Atlantshafi. Fylgdarskip Bismarcks, beitiskipið Prinz Eugen slapp til hafnar í Frakklandi án þess að hafa orðið fyrir skoti. Systurskip Bismarcks, Tirpitz, er stærsta orrustuskip sem smíðað hefur verið í Evrópu, en það tók aldrei þátt í sjóorrustu. Þjóðfundur 2009. Þjóðfundur var haldinn í Laugardalshöll í Reykjavík 14. nóvember 2009 og kom til vegna allrar þeirra almennu umræðu sem fór af stað í kjölfar Bankahrunsins 2008. Verkefni fundarins var að taka afstöðu til þess hvernig samfélag Íslendingar vilja byggja í framtíðinni. Hrappseyjarprentsmiðja. Atli, eftir Björn Halldórsson, var meðal þeirra rita sem prentuð voru í Hrappseyrarprentsmiðju og gefin þar út árið 1780 Hrappseyjarprentsmiðja var prentsmiðja og bókaútgáfa sem starfrækt var í Hrappsey á Breiðafirði 1773-1794 og var fyrsta íslenska prentsmiðjan sem prentaði eingöngu veraldleg rit en ekki guðsorðabækur. Upphaf prentsmiðjunnar. Ólafur Ólafsson Olavius fékk konungsleyfi til að stofna prentsmiðju í Skálholtsbiskupsdæmi með því skilyrði að þar yrði ekki prentað guðsorð, á því átti Hólaprentsmiðja einkarétt. Ólafur hafði áður látið prenta ýmis rit í Kaupmannahöfn, meðal annars fyrstu útgáfu Njálu. Ólafur fékk lán til tækjakaupa hjá Boga Benediktssyni í Hrappsey, sem jafnframt átti hlut í verksmiðjunni og var hún reist í eynni. Ári síðar keypti Bogi hlut Ólafs og átti prentsmiðjuna lengst af einn en Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalamanna, stýrði hins vegar útgáfunni að mestu. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt að Bogi hafi keypt prentsmiðjuhúsið á góðu verði eftir að maður hafði hengt sig í því og sumum þótti reimt þar. Dætur Boga áttu að hafa reynt eitt sinn að sofa þar, þegar gestanauð var mikil á Stafafelli en varð ekki svefnsamt. Útgáfan. Frá Hrappseyjarprentsmiðju komu bækur af ýmsu tagi, svo sem Alþingisbækur Íslands, fræðslurit ýmiss konar, sum skrifuð af Magnúsi, sem var einn helsti frumkvöðull upplýsingarstefnunnar á Íslandi, Atli eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, "Búnaðarbálkur" Eggerts Ólafssonar, kvæðabækur og fleira. Jón Þorláksson, síðar prestur á Bægisá, vann um tíma við prentsmiðjuna og gaf út bækur sínar þar. Fyrsta íslenska tímaritið, "Islandske Maanedstidender", var líka gefið út í Hrappsey á árunum 1773-1776. Var það á dönsku og gefið út sem umbun til þeirra dönsku styrktarmannanna sem hjálpuðu til við stofnun og rekstur prentsmiðjunnar. Endalokin. Hrappseyjarprentsmiðja var seld Landsuppfræðingarfélaginu árið 1794 og flutt suður í Leirárgarða í Borgarfirði. Þriggja alda kerfið. Tímabilið sem hver öld nær yfir er misjafnt eftir heimshlutum. Sumir höfundar hafa viljað skipta öldunum frekar upp. Þekktust er skipting steinaldar í fornsteinöld og nýsteinöld samkvæmt uppástungu John Lubbock frá 1865. Jan Peter Balkenende. Jan Peter Balkenende (f. 7. maí 1956) er fyrrum forsætisráðherra Hollands fyrir kristilega demókrata. Hann er doktor í lögfræði og með gráðu í sagnfræði. Campobasso. Klukkuturn kirkju heilags Bartólómeusar í gömlu borginni í Campobasso Campobasso er borg á Suður-Ítalíu og höfuðstaður héraðsins Mólíse. Borgin er einkum þekkt fyrir hnífasmíði. Íbúar eru rúm 50 þúsund. Langbarðar. Langbarðar voru germanskur þjóðflokkur frá Norður-Evrópu sem settist að við Dóná á Þjóðflutningatímabilinu eftir langa ferð frá ósum Saxelfar sem hófst á 2. öld e.Kr. Þaðan réðust þeir með öðrum þjóðflokkum inn í Ítalíu árið 568 undir stjórn Álfvini Langbarðakonungs. Þeir stofnuðu þar ríki sem náði yfir alla Ítalíu nema Páfaríkið sem náði yfir Róm og nærsveitir og Sikiley og strandhéruð Suður-Ítalíu sem heyrðu undir Býsantíum. Konungsríki Langbarða stóð til ársins 774 þegar Frankar lögðu það undir sig. Helsta heimildin um sögu Langbarða er "Historia gentis Langobardorum" eftir Pál djákna sem var rituð á árunum frá 787 til 796. Langbarðabandalagið. Langbarðabandalagið (ítalska: "Lega Lombarda") var bandalag borga á Norður-Ítalíu sem var stofnað árið 1167 gegn ofríkistilburðum Friðriks Barbarossa keisara hins Heilaga rómverska ríkis. Friðrik hafði krafist viðurkenningar á rétti sínum sem einvaldur á Ítalíu á þinginu í Roncaglia 1158. Þegar bandalagið var sem stærst voru nær allar borgir Norður-Ítalíu aðilar að því, eða borgirnar Mílanó, Piacenza, Cremóna, Mantúa, Crema, Bergamó, Brescia, Bologna, Padúa, Trevísó, Vicenza, Feneyjar, Veróna, Lodi, Reggio Emilia og Parma. Bandalagið vann sigur á keisaranum í orrustunni við Legnano árið 1176 og eftir sex ára vopnahlé gerðu bandalagið og keisarinn með sér friðarsamningana í Konstanz þar sem borgirnar hétu keisaranum trúnaði en héldu lögsögu yfir héruðum sínum. Langbarðabandalagið var endurvakið nokkrum sinnum síðar gegn Friðriki 2. keisara á 13. öld. Bandalagið var leyst upp þegar Friðrik dó 1250. Þang. Þang er íslenskt heiti yfir stóra brúnþörunga sem vaxa í fjörum og tilheyra þangættinni ("fucaceae"). Þangtegundir eiga það sameiginlegt að þær eru festar við botninn með skífulaga festu, upp af henni er kvíslgreind planta, sem ýmist er blaðlaga með miðstreng eða þykk og sporöskjulaga í þverskurði. Þang setur jafnan mestan svip á fjörur á stöðum þar sem brim er ekki mikið. Lítið fer fyrir því á mjög brimsömum stöðum, sandfjörum eða leirum vegna þess að stórþörungar þurfa fast undirlag, svo sem grjót eða klappir og eitthvert skjól fyrir stórbrimi. Margar tegundir þangs hafa verið nýttar sem áburður, fóður, eldsneyti og í iðnaði. Þang var notað til framleiðslu sóda í byrjun 17. aldar, sem var notaður bæði í sápugerð og til glergerðar. Síðar var það notað til joðframleiðslu, þar til mikil eftirspurn hófst eftir gúmmíefnum úr þörungum sem farið var að nota í matvælaiðnaði. Eins og úr þara og öðrum brúnþörungum, er gúmmíefnið algín unnið úr þangi. Botnþörungar. Kafari við í þaraskóg í Kaliforníu. Botnþörungar eru þörungar sem vaxa í fjörum og á landgrunni, þar njörva þeir sig við botn, grjót, klappir, kletta eða aðra þörunga. Festingar eru þrennskonar; þykkildisleg flaga, sprotar eins og þöngulhaus þaranna er, eða með rætlingum. Þörungar eru yfirleitt mjúkir og sveigjanlegir, fyrir utan kalkþörunga. Sumir þörungar eru lítið annað en næfurþunn himna en aðrir bera uppi þykkar blöðrur. Enn aðrir eru örfínir þræðir, skorpur á steinum og dýrum eða að þeir mynda kúlur. Botnþörungar eru jafnan flokkaðir í þrjá meginhópa; grænþörunga, brúnþörunga og rauðþörunga. Grænþörungar skera sig frá hinum að því leyti að þeir hafa dreifst meira í ferskvatni og á landi en hinir hópar þörunga, en brún- og rauðþörungar eru svo til eingöngu sæbúar. Lýsing og flokkun. Litadýrð botnþörunga er mikil og mest er hún við stórstraumsfjörumörk. Áður voru þörungar flokkaðir nær eingöngu eftir litarefnum í græna, brúna og rauða, bláa og gula þörunga m.a. Liturinn hefur vissulega enn gildi við greiningu og flokkun stórþörunga en mið er tekið af fleiru. Lögun stórþörunga er margvísleg og er yfirleitt mjög frábrugðin landplöntum. Grænþörungar. Grænþörungar (fylking: "Chlorophyta") eru að stórum hluta í ferskvatni. Einungis um 10% þeirra eru sæþörungar og stór hluti þeirra einfrumungar. Önnur algeng form þeirra eru skorpur, himnur og ýmsir þræðir sem mynda strá eða skúfa. Grænþörungar eru langfjölskrúðugasti þörungahópurinn í heiminum og telur um 8000 tegundir. Brúnþörungar. Brúnþörungar (fylking: "Heterokontophyta", flokkur: "Phaeophyta") telur um 1500 tegundir sem lifa nánast allar í sjó. Brúnþörungar eru oft ríkjandi frumframleiðendur við grýttar fjörur á tempruðum- og kuldabeltum. Þessir þörungar eru margvíslegir og lögun þeirra fjölþætt. Mikið ber oft á þeim vegna þess hve stórvaxnar tegundir eru og einstaklingarnir margir. Blaðka þeirra er brjósk- eða leðurkennd og verða þarategundir stærstar, og mynda stundum stóra þaraskóga. Þari og þang eru íslensk heiti yfir nokkrar tegundir brúnþörunga. Þykkir brúnþörungar með greinótta blöðku sem festa sig með flögu kallast einu nafni þang. Ef blaðkan, sem stundum er rifin í ræmur, situr á enda stilks og festan er þöngulhaus þá kallast þörungurinn þari. Rauðþörungar. Rauðþörungar (fylking: "Rhodophyta"), líkt og brúnþörungar, finnast nær eingöngu í sjó og telur fylkingin um 5000-5500 tegundir. Fáir þeirra vaxa ofarlega í fjörum, en þegar neðar dregur ber meira á þeim. Þeir eru algengir á grunnsævi og ná lengst niður í djúpin af stórþörungunum. Rauðþörungar hafa löngum verið eftirsótt fæða um allan heim og þekkja Íslendingar þar af best sölina ("Palmaria palmata"), sem hefur á seinni tímum verið eini þörungurinn sem hafður eru til matar hér á landi. Vöxtur og æxlun. Sæþörungar mynda lífræn efni úr sjónum með orku frá sólarljósi. Vöxtur er misjafn eftir tegundum og fer fram á ýmsum stöðum. Þá er þekkt að sumir vaxa út frá endum greina, aðrir á jaðri blöðku eða á mörkum stilks og blöðku. Aldur þörunga er mismunandi, ýmsir stórþörungar verða gamlir og margir metrar á lengd. Lífskeið sumra grænþörunga er hins vegar aðeins brot úr sumri, á meðan vitað er að sumir brúnþörungar, eins og klóþang, geta orðið meira en 30 ára gamlir. Fjölgun þörunga er mismunandi eftir þeim ógrynni af tegundum og ættkvíslum er fyrirfinnast. Einföldust er æxlun þangtegunda þar sem einn ættliður myndar einstakling, ekki ólíkt okfrumu eins og hjá manninum. Hjá mörgum tegundum eru hins vegar tveir eða þrír ættliðir með í æxlunarferlinu, það síðarnefnda flóknasta fjölgunaraðferðin. Kynbeð eru „blóm“ eða æxlunarfæri sumra brúnþörunga, sem myndast á ákveðnum tímum árs, bólgna og springa út. Nytjar. Skipta má nýtingu þörunga í heiminum í tvo töluvert ólíka póla. Annars vegar er Asíu-markaðurinn, þar sem um er að ræða hlutfallslega verðmikið hráefni sem kemur aðallega frá ræktun eða eldi. Það er nýtt með tiltölulega einfaldri en mannfrekri verkun sem fæða til manneldis. Hinn pólinn er svo vestræn iðnríki, þar sem tæknilega flóknar aðferðir eru notaðar við framleiðslu á verðmætum lífefnum úr ódýru hráefni. Þessi efni eru svo notuð á margvíslegan hátt í iðnaði. Á seinni árum hefur þessi skipting þó orðið óljósari milli hins vestræna og þess austræna.Nori, ristaður þari til að nota í sushi rétti. Þörungar til manneldis. Elstu heimildir um nytjar matþörunga koma frá Kína og eru yfir 2000 ára gamlar. Elstu skráðu heimildir í Evrópu eru hins vegar frá Íslandi. Neysla þeirra er þó aðallega bundin við Asíu þó hefð sé fyrir neyslu þörunga hjá þjóðum eins og Frökkum, Írum, Englendingum og Íslendingum. Þaraát hefur verið að aukast í vestrænum heimi t.d. vegna sívaxandi vinsælda austurlenskra rétta eins og sushi. Kvoðuefni úr þörungum. Kvoðuefni (e. "phycocolloids"), sem einnig eru kölluð seigju- eða bindiefni, finnast í miklum mæli í þörungum. Til kvoðuefna teljast fjölsykrur algíns, agars og karragínans. Þessi efni geta bundið vatn, myndað hlaup og jafnað saman ólíka vökvafasa. Notkun er margvísleg og má þar nefna í matvælaiðnaði, læknisfræði og líftækni. Þörungamjöl. Mjöl er unnið úr þangi, sem er hópur innan brúnþörunga. Mesta framleiðslan er í Noregi, Íslandi og Frakklandi og er aðallega notast við klóþang. Mjölið er m.a. nýtt sem skepnufóður, áburður og í algínvinnslu. Áburður. Þörungaáburður er talinn auka uppskeru, frostþol, upptöku næringar úr jarðvegi, sjúkdómaþol o.fl., og þykir mjög góður fyrir grænmetis- og garðrækt. Hann er að mestu unninn úr þara og þangi, mest í Noregi, Frakklandi, Englandi og Bandaríkjunum. Lífvirk efni. Rannsóknir á þörungum hafa þegar leitt til nýrra lyfja sem draga úr vexti krabbameinsfrumna, örvera, sveppa og fjölgun veira, ásamt lyfja sem draga úr bólgum. Þá er talið að sumir þörungar búi yfir miklu af ýmsum sérhæfðum lífvirkum efnum, svo sem efnum með lyfjavirkni. Einnig má vinna úr þeim ýmis næringarefni líkt og fæðubótarefni og litarefni. Aðrar nytjar. Ýmsar aðrar nytjar er hægt að hafa af botnþörungum, svo sem í snyrtivöruiðnaði og sem mengunarvörn. Tilraunir hafa verið gerðar með brennslu eða gerjun þörunga til framleiðslu á metangasi, lífrænum efnum og fleiru. Möguleikar með hráefnið eru vissulega margir og margt ókannað, t.d. á sviði sjávarlíftækni. Milliríkjadeilur Íslendinga vegna skuldbindinga íslenskra einkabanka erlendis. Milliríkjadeilur Íslendinga vegna skuldbindinga íslenskra einkabanka erlendis hafa staðið, aðallega við Breta og Hollendinga, síðan að bankahrunið á Íslandi varð, haustið 2008, í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi 2008–9. Deilurnar hafa snúist um meintar skuldbindingar ríkissjóðs Íslands vegna inneigna borgara umræddra landa í dótturfélögum einkarekinna, íslenskra viðskiptabanka í umræddum löndum. Nánar tiltekið Icesave á vegum Landsbanka Íslands og Kaupthing Edge á vegum Kaupþings. Samkvæmt tilskipun ESB eiga íslensk stjórnvöld að tryggja innistæður að hámarki 20.877 evrum. Íslenskt stjórnvöld hafa verið treg í taumi varðandi þessar skuldbindingar og hafa Bretar sett hryðjuverkalög gagnvart þeim sem olli þeirri keðjuverkun að einkarekin íslensk bankastarfsemi lagðist á hliðina. Sú skoðun hefur verið sett fram, meðal annars af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að yfirvöld Bretlands og Hollands beiti áhrifum sínum til þess að tefja eða koma í veg fyrir afgreiðslu lána til Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hálfdan Einarsson. Hálfdan Einarsson (1732 – 1. febrúar 1785) var skólameistari í Hólaskóla í 30 ár, lengur en nokkur annar. Hann var sæmdur meistaranafnbót af Kaupmannahafnarháskóla 1765 og var eftir það yfirleitt kallaður Meistari Hálfdan. Hálfdan var sonur séra Einars Hálfdanarsonar á Prestbakka á Síðu og konu hans, Guðrúnar Sigurðardóttur. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1749 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 1755, en hafði einnig lagt stund á nám í stærðfræði og eðlisfræði, auk fleiri greina. Hann varð skólameistari á Hólum árið 1755, 23 ára að aldri, og gegndi því starfi til dauðadags 1785. Hálfdan var vel lærður og þótti góður kennari en nokkuð drykkfelldur. Hann stundaði ritstörf og þýðingar meðfram kennslunni og þýddi meðal annars "Konungsskuggsjá" á dönsku og latínu, en hún var gefin út að tilstuðlan Ósýnilega félagsins árið 1768. Höfuðverk hans er þó bókmenntasaga Íslands, "Sciagraphia Historiae Liteariae Islandicae", sem rituð var á latínu og kom út í Kaupmannahöfn 1777. Fyrir það var hann sæmdur þremur heiðursgullpeningum. Kona Hálfdanar var Kristín, dóttir Gísla Magnússonar biskups á Hólum. Ósýnilega félagið. Ósýnilega félagið (latína: "Societas invisibilis") var fyrsta bókmennta- og vísindafélag á Íslandi, stofnað um 1760, einkum til að stuðla að útgáfu á fornritum og vísindaritum. Félagið stóð undir nafni að því leyti að fátt er vitað um starfsemi þess. Þó er ljóst að stofnendur voru þeir Gísli Magnússon biskup á Hólum, sem var formaður félagsins, Hálfdan Einarsson skólameistari, sem mun hafa átt frumkvæðið að félagsstofnuninni og verið helsti drifkraftur félagsins, Bjarni Halldórsson á Þingeyrum og Sveinn Sölvason lögmaður á Munkaþverá. Stuðningsmenn félagsins í Danmörku voru þeir Jón Eiríksson konferensráð, Hannes Finnsson, síðar biskup, og Gerhard Schönning prófessor í Sórey. Félagið starfaði í nokkur ár en gaf aðeins út eina bók, "Konungsskuggsjá", sem Hálfdan hafði þýtt á dönsku og latínu. Var hún prentuð í Sórey árið 1768 og kostuð af Sören Pens, kaupmanni á Hofsósi. Þar sem félagið virðist aldrei hafa verið lagt formlega niður var það endurreist á Hólum haustið 1992 og eru reglulega haldnir fyrirlestrar og erindi við Háskólann á Hólum í nafni þess. Skrei. Skrei er árleg koma Atlantshafsþorsks að hrygningarstöðvum, þekkt í Noregi sérstaklega við Lófót. Þorskurinn gengur frá Barentshafi suður með Noregsströnd, á tímabilinu febrúar til apríl. Fiskur þessi þykir hið besta góðgæti, þar sem hann á að vera hvítari og fíngerðari en þorskur almennt. LaTeX. LaTeX merkið, skrifað með LaTeX letursetningu. LaTeX er umbrotsmál og ritvinnsluforrit fyrir TeX letursetningarforritið. LaTeX er mikið notað innan háskólastofnana þar sem það er þekkt fyrir fallega letursetningu. Nafnið LaTeX er sett upp sem \LaTeX innan forritsins. Sértækir serótónín endurupptökuhemlar. Sértækir serótónín endurupptökuhemlar eða SSRI (enska "selective serotonine reuptake inhibitors") er flokkur þunglyndislyfja sem hefur áhrif á virkni serótóníns í heilanum. Sem dæmi um lyf í þessum flokki má nefna (virka efnið í sviga): Cipralex (escitalopram), Cipramil (citalopram), Seról (fluoxetine), Zoloft eða Sertral (sertraline) og Seroxat (paroxetine). Litla-Hraun. Litla-Hraun er stærsta fangelsi Íslands. Það er staðsett rétt fyrir utan Eyrarbakka og samanstendur af níu byggingum sem eru allar innan öryggisgirðingar. Þar er einnig að finna íþróttaaðstöðu utanhúss. Kleomenes I. Kleomenes I var konungur Spartverja um 520 f.Kr. til um 489 f.Kr., við upphaf Persastríðanna. Hann lést í fangelsi af ókunnum orsökum en sagt var að hann hefði framið sjálfsmorð vegna sturlunar. Kleomenes var hálfbróðir Leonídasar I og faðir Gorgóar, konu hans. Ílát. a>, ílát notað á heimilum til að geyma mat. Stofnfruma. Stofnfrumur eru ósérhæfðar frumur sem hafa þá hæfileika að þroskast yfir í sérhæfðari frumur og geta endurnýjað sig með frumuskiptingu ef rétt skilyrði eru fyrir hendi. Þetta gera þær án þess að sýna öldrunareinkenni. Dótturfrumurnar geta þá þroskast yfir í sérhæfðari frumur ef þörf er á eins og t.d. vöðvafrumu eða taugafrumu eða verið áfram sem ósérhæfð fruma. Þannig geta þær viðhaldið fjölda sínum og þjónað sem einskonar viðgerðarkerfi fyrir hina ýmsu vefi líkamans. Í sumum líffærum eins og í maganum og beinmerg skipta stofnfrumur sér til að viðhalda og endurnýja útslitinn eða skemmdan vef. En hinsvegar í sumum líffærum eins og í brisinu og hjartanu skipta stofnfrumur sér aðeins við sérstækar aðstæður. Til eru tvær gerðir af stofnfrumum eftir uppruna, úr fóstursvísi og fullorðnum einstaklingum. Stofnfrumur í fósturvísi. Í fósturvísum finnast stofnfrumur sem hafa þann eiginleika að geta myndað sérhæfðar frumur af hvaða gerð sem er. Innan kímblöðru fósturvísisins er klasi af ósérhæfðra frumna sem síðar mynda fósturlögin þrjú. Þegar fósturvísirinn skiptir sér í fyrsta skipti eru frumurnar ósérhæfðar en smám saman verða til sérhæfðari frumur sem síðan verða að útlimum og líffærum. Til að byrja með eru frumur fósturvísisins því alhæfar (e. "totipotent"). Þroskunarferlið var talið stefna í eina átt frá ósérhæfðum frumum til sérhæfðari en nýlegar rannsóknir benda þó til þess að sérhæfðar frumur geti snúið aftur að ósérhæfðu ástandi og síðan sérhæfst aftur eftir það. Það er hægt að einangra stofnfrumur úr fósturvísi á fyrstu stigum þess, og í ræktun geta stofnfrumurnar fjölgað sér ótakmarkað. Við sérstakar ræktunaraðstæður er hægt að fá þær til að mynda mismunandi tegundir af sérhæfðum frumun jafnvel egg og sæðisfrumur. Eins lengi og stofnfrumurnar eru látnar fjölga sér í ræktinni undir viðeigandi aðstæðum haldast þær enn ósérhæfðar. En ef þær eru látnar klumpa sig saman og mynda fósturvísa, byrja þær að sérhæfast af sjálfdáðum. Þær geta þá myndað vöðvafrumur, taugafrumur og margar tegundir af frumum. Þetta er góður vísir fyrir því að ræktin af stofnfrumunum er heilbrigð en ferlið er stjórnlaust og er því óhagkvæm aðferð til að framleiða rækt með sérstökum tegundum af sérhæfðum frumum. Til þess að rækta með sértökum tegundum af sérhæfðum frumum er reynt að hafa stjórn á sérhæfingu stofnfrumanna. Reynt er að breyta efnasamsetningu ræktunarmiðlinum, breyta yfirborði ræktunar skálarinnar eða breyta frumunni með því að skeyta inn sérstöku geni. Eftir margra ára tilraunir hafa vísindamenn fundið einskonar uppskrift fyrir stjórnun á sérhæfingu stofnfruma úr fósturvísum í ákveðnar tegundir af frumum. Stofnfrumur í fullvaxta dýrum. Í fullvaxta dýrum og mönnum eru líka stofnfrumur sem þjóna þeim tilgangi að leysa af hólmi sérhæfðar frumur sem geta ekki endurnýjað sjálfar sig eins og þörf er á. Stofnfrumur fullorðinna geta ekki eins og fósturvísis stofnfrumur myndað allar gerðir af frumun í lífverunni, þó svo að þær geti myndað margar gerðir. Það hefur lengi legið fyrir að líkaminn hefur ákveðna hæfni til viðgerða og endurmyndunar á fullmynduðum sérhæfðum vefjum ýmissa líffæra. Til dæmis getur sérstök gerð af stofnfrumum í beinmerg myndað allar gerðir af blóðkornum og önnur gerð getur myndað bein, brjósk, fitu, vöðva og innri vegg í æðum. Það finnast jafnvel í heilanum stofnfrumur sem endurnýja ákveðnar tegundir af taugafrumum. Nýlega hafa vísindamenn fundið stofnfrumur í húð, hári, augum og tannkviku, þó svo að fullorðin dýr og menn hafi aðeins lítið magn af stofnfrumum hafa vísindamenn fundið leiðir til að þekkja og einangra þessar frumur úr ýmsum vefjum og í sumum tilfellum ræktað þær. Með réttum ræktunaraðstæðum hefur verið hægt að láta þær mynda margar tegundir af sérhæfðum frumum. Það er þó mjög lítið magn af stofnfrumum í hverjum vef og þegar búið er að einangra þær er hæfni þeirra til að skipta sér takmarkaður, sem veldur því að það reynist erfitt að framleiða mikið magn af stofnfrumum. Verið er að reyna að finna betri leiðir til að framleiða mikið magn af fullorðnum stofnfrumum í ræktunum og stjórna þeim þannig til að mynda sérhæfðar frumur sem geta verið notaðar í meðferðum gegn sjúkdómum og meiðslum. Með því að nota stofnfrumur úr fullorðnum mönnum er hægt að sneiða hjá mörgum þeirra siðfræðilegu ágreiningsefna sem uppi hafa verið um stofnfrumurannsóknir. Rannsóknir. Tilgangur með stofnfrumurannsóknum er ekki að einrækta lífverur þó það hafi verið gert. Rannsóknir á stofnfrumum hvort sem er um að ræða úr fósturvísi eða fullvaxta dýrum eða mönnum er uppspretta af verðmætum upplýsingum um sérhæfingu fruma og hefur gífurlega möguleika hvað varðar læknavísindin. Hæfileiki þeirra til að endurnýja sig felur í sér mikla möguleika á nýjum meðferðarúrræðum gegn ýmsum sjúkdómum og sködduðum líffærum eins og sykursýki, hjartasjúkdómum, Parkisons og svo framvegis. Fullorðnar stofnfrumur úr beinmerg hafa lengi verið notaðar sem uppspretta fyrir ónæmisvarnarfrumur fyrir sjúklinga sem eru með ónæmissjúkdóm eða hafa gengið í gegnum geislameðferð sökum krabbameins. Vísindamenn halda að vefir sem komnir er af fósturvísis og fullorðnum stofnfrumun munu sýna mismunandi viðbrögð gegn höfnun við ígræðslu. Það er haldið að fullorðnar stofnfrumur og vefir sem ræktaðir eru úr þeim muni hafa minni tilhneygingu til að vera hafnað eftir ígræðslu. Þetta er vegna þess að stofnfrumur frá sjúklingnum sjálfum gætu verið ræktaðar og látnar sérhæfast í sérstaka tegund af frumum og svo verið ígrædd í sjúklinginn. Notkun á fullorðins stofnfrumum og vefjum ræktaðir úr stofnfumum sjúklingsins sjálfs þýðir að það eru mun minni lýkur á að ónæmiskerfi líkamanns hafni því. Þetta hefur mikla kosti þar sem höfnun á ígræddum vefjum er stórt vandamál, því að í flestum tilfellum verður að nota ónæmisbælandi lyf sem hafa oft miklar aukaverkanir, þar með verður hægt að komast hjá því að nota þessi lyf og einnig leyst vandann um siðferðisleg sjónarmið við notkun á stofnfrumum úr fósturvísum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að það er hægt að rækta fósturvísis stofnfrumur með því að nota sérhæfðar frumur úr fullvaxta einstaklingum. Það er gert með því að snúa ferlinu við þannig að þær afsérhæfast og geta síðan sérhæfst aftur eftir það jafnvel í aðrar frumur en þær voru upprunalega. Þetta var fyrst tilkynnt árið 2007, með húðfrumum músa en síðan þá hefur þetta verið gert með húðfrumum úr mönnum. Í öllum tilfellum umbreyttu vísindamenn húðfrumum í fósturvísis stofnfrumur með því að nota retroveiru. Þannig var hægt að skeyta inn auka klónuðum afritun af fjórum „stofnfrumu“ frumgerðum af stjórnunar genum. Hingað til hafa allar rannsóknir sýnt að umbreyttu frumurnar sem eru kallaðar "induced pluripotent stem cell" (iPS) geta gert allt það sem fósturvísis stofnfrumurnar geta. Fínstilla þarf þessa tækni og hefur orðið mikil framför í þeim efnum. Þessar frumur gætu verið svo sérsniðnar fyrir hvern sjúkling þannig að hætta á höfnun yrði hverfandi. En margt er enn óvitað og eftir er að gera margar rannsóknir til að skilja hvernig hægt er að nota stofnfrumu meðferð til að lækna sjúkdóma, sem oft er nefnt endurnýjandi eða uppbyggjandi læknisfræði (e. "regenerative" eða "reparative medicine"). Rannsóknarvinnan miðast við að reyna að skilja eiginleika frumanna og hvað veldur því að þær mynda sérhæfðar frumur. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós vitneskju um hvernig lífverur þroskast frá einni frumu í fullþroskaða lífveru og hvernig heilbrigðar frumur koma í staðinn fyrir skemmdar frumur í fullorðnum lífverum. Siðferði rannsókna á fósturvísum. Rannsóknir á fósturvísum eru umdeildar og í mörgum löndum eru ræktun á fósturvísum manna til rannsókna bönnuð. Í sumum löndum eru rannsóknir leyfðar á fósturvísum sem ekki eru nýttir til barneigna eftir tæknifrjóvgunarmeðferð en þá verður samþykki foreldra að liggja fyrir. Á Íslandi gilda svipaðar reglur. Rannsóknir á fósturvísum eru bannaðar nema með samþykki kynfrumugjafa þess. Framleiðsla á fósturvísum eingöngu í þeim tilgangi að gera rannsóknir er líka bönnuð. Ástæður fyrir svona miklum umræðum um þessar rannsóknir eru meðal annars vegna trúarlegar ástæður og hugsanleg brot á mannréttindarlögum. Umdeilt er hvenær fósturvísir verður einstaklingur sem hefur grundvallarréttindi. Rannsóknir á fullorðinsstofnfrumum hafa ekki lent inn í þessari umræðu þar sem stofnfrumur eru teknar úr fullorðnum einstaklingi. Rannsóknir eru því mun lengra á veg komnar og má þar nefna blóðmyndandi stofnfrumur sem dæmi. Viðhorf manna á rannsóknum á fósturvísum manna má skipta gróflega í þrennt: persónuviðhorf, lífverndunarviðhorf og sérstöðuviðhorf. Samkvæmt persónuviðhorfi segir að fósturvísar uppfylli ekki þau skilyrði til að njóta siðferðislegra réttinda. Til þess þyrfti lífveran að öðlast einhvers konar sjálfsvitund þ.e.a.s vera persóna og þau skilyrði uppfylli fósturvísar ekki og því megi rækta þá eingöngu til rannsókna. Fósturvísa megi nota til þess að bæta lífskilyrði persónu. Persónusinnar líta svo á að fyrstu dagana eftir getnað hafi fósturvísirinn lítil auðkenni manns og njóti ekki siðferðisréttar umfram frumuklasa annarra dýra. Lífverndunarsinnar segja að fósturvísir sé í raun smæsta form manneskju og sé í raun sama persóna allt frá getnaði. Fósturvísar njóta því fullra réttinda þar með talið rétt til lífs. Öll afskipti sem ekki eru í þágu fósturvísisins sjálfs séu því með öllu óréttanleg. Lífverndunarsinnar eru algjörlega mótfallnir framleiðslu á fósturvísum til þess að ná úr þeim stofnfrumum. Þeir eru í raun andstaðan á við persónuviðhorfið. Sérstöðuviðhorf byggir á því að það skuli meta rannsóknir á fósturvísum í stað þess að setja blátt bann á slíkar rannóknir. Bera skuli samt vissa virðingu fyrir fósturvísum þótt þeir séu ekki persónur því þeir hafi alla burði til að þroskast yfir í persónu. Fósturvísarnir hafa því viss réttindi en samt ekki á við réttindi persónu. Það þyrfti að vega og meta hvert tilvik fyrir sig vegna þess að siðferðisstaðan vegur stundum þyngra en persónu og stundum ekki. Með of miklu frjálsræði á rannsóknum á fósturvísum gæti helgi mannlífsins verið skoðuð með meiri léttúð en áður og virðing við mannlífi stefnt í voða. Rannsóknir á stofnfrumum eru skammt á veg komnar og ljóst er að mikil vinna er framundan áður en hægt verður að fullnýta stofnfrumur við hinum ýmsu sjúkdómum og jafnvel fæðingargöllum. Á komandi árum eiga menn eftir að skilja betur sérhæfingu stofnfrumna og hvernig þær vinna í líkamanum. Með aukinni vitneskju á stofnfrumum verður hægt að bæta lífsskilyrði sjúklinga til muna. Opið tafl. Hvítur færir kóngapeð sitt fram um tvo reiti og svartur svarar á sama hátt. Opið tafl er næst vinsælasti valkostur svarts eftir 1. e4 en sá vinsælast er sikileyjarvörn. Légal gildra. Légal gildra er gildra í philidor vörn þar sem hvítur fórnar drottningu þar sem mát fylgir ef svartur þiggur fórnina. Gildran heitir eftir Legall de Kermeur (betur þekktur sem Sire de Légal). Svali (drykkur). Svali er ávaxtadrykkur sem hefur hlotið miklar vinsældir á Íslandi. Svali fæst með appelsínu–, epla–, jarðarberja–, plómu–, og sítrónubragði og nú líka með perubragði. Boeing 777. Boeing 777 er farþegaþota framleidd af Boeing. Flugvélin var fyrst smíðuð árið 1994 og flaug fyrst sama ár. Airbus A340. Airbus A340 er farþegaþota framleidd af Airbus með rúm og sjónvörp. McDonnell Douglas MD-82. McDonnell Douglas MD-82 er farþegaþota sem er aðallega notuð í Evrópu. Iceland Express hefur notað MD-82 en nú Jetx sem er með þessa flugvélar. Virgin Atlantic. Virgin Atlantic Airways Limited (starfar sem Virgin Atlantic) er breskt flugfélag sem var stofnað 1984 af Richard Branson. Flugfélagið fékk Vickers vélar, Airbus A320 og Boeing 737. Virgin Atlantic fékk Boeing 747 og Airbus A340 í stað Vickers vélana, Airbus A320 og Boeing 737. Flugfélagið kaupir Boeing 787 og Airbus A380. Flugfélagið er í eigu Virgin Group (51%) og Singapore Airlines (49%). Höfuðstöðvar Virgin Atlantic eru í Crawley, Vestur-Sussex, Englandi sem liggur við London Gatwick-flugvöll. Virgin Atlantic flýgur milli Bretlands og Bandaríkjanna, Karíbahafsins, Afríku, Austurlanda nær, Asíu og Ástralíu. Flest flug eru frá London Gatwick eða London Heathrow-flugvelli. Árið 2009 flutti Virgin Atlantic yfir 5,77 milljónir farþega og hagnaðist um 68,4 milljónir breskra punda. Böðull. Böðull (eða prófoss) er maður sem framkvæmir líkamlega refsingu á dæmdum sakamönnum, t.d. aftöku, hýðingu eða annað. Efla. EFLA hf er íslensk verkfræðistofa og ráðgjafarfyrirtæki. Efla (sem hét þá Línuhönnun) keypti jarðsjá 1991 og var fyrsta fyrirtækið til að nota hana við jarðkönnun. Í mars 2010 sameinaði fyrirtækið fjórar starfstöðvar í eina með leigu á Höfðabakka 9. 2012 sinnti Efla í Noregi sex verkefnum við olíuborpalla í samvinnu við norska fyrirtækið Advanced Control. Þau verkefni skiluðu Eflu í Noregi 17% af heildartekjum félagsins. Caithness. Kort af Caithness um árið 1980. Caithness (gelíska: "Gallaibh", í íslenskum fornsögum: Katanes) er svæði í norðvesturhluta Skotlands, í Hálöndunum. Frá og með 2001 bjuggu 23.866 manns þar. Nyrsta þorpið í Bretlandi, John o’ Groats, er í Caithness. Boeing. The Boeing Company er bandarískur flugvélaframleiðandi stofnaður af William E. Boeing í Seattle, Washington. Boeing hefur stækkað með tímanum og sameinaðist keppinaut sínum, McDonnell Douglas, árið 1997. Alþjóðlegu höfuðstöðvar fyrirtækisins hafa verið í Chicago, Illinois síðan 2001. Boeing er stærsti flugvélaframleiðandi í heimi eftir tekjum, pöntunum og sendingum. Fyrirtækið er líka stærsti útflytjandi Bandaríkjanna eftir verði. Boeing er skráð í Dow Jones-vísitölunni. Flugvélar framleiddar af Boeing eru nokkrar þekktustu í heimi, til dæmis Boeing 737 og Boeing 747, þekktasta farþegaflugvél heims. Guðrún Gottskálksdóttir. Guðrún Gottskálksdóttir (f. um 1510) var íslensk kona á 16. öld, dóttir Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups og fylgikonu hans, Guðrúnar Eiríksdóttur, og systir Odds Gottskálkssonar. Guðrún var í Skálholti með Oddi bróður sínum. Gissur Einarsson biskup og félagi Odds bað hennar og var festaröl þeirra drukkið í Skálholti sumarið 1542, áður en Gissur sigldi til Danmerkur að taka biskupsvígslu. Skyldi Guðrún bíða hans í Skálholti á meðan hjá móður hans og bræðrum, sem þá voru flutt þangað. En þegar Gissur kom aftur sumarið eftir var Guðrún farin, enda var hún þá þunguð eftir kirkjuprestinn, séra Eystein Þórðarson. Raunar var sagt að presturinn hefði einnig gerst fjölþreifinn við Gunnhildi biskupsmóður. Daginn eftir heimkomu biskups réðust bræður hans, séra Jón, Þorlákur og Halldór að séra Eysteini og særðu hann þrettán sárum þótt hann verðist hetjulega. Hann lifði þó af, var fluttur í Laugarás og græddur þar, og varð seinna prestur í Arnarfirði. Guðrún fæddi þríbura í Bræðratungu síðar um sumarið en þeir dóu allir. Gissur vildi fyrirgefa Guðrúnu og ganga að eiga hana (hann á að hafa sagt „Það var hlaup og það var hofmannshlaup; ég skal taka Gunnu mína í sætt aftur“) en hún vildi þá ekkert með hann hafa. „Fór hún þá hingað og þangað, því hún vildi ekki heldur aðhyllast hann bróður sinn; var hún þversinnuð kona,“ segir í "Biskupasögum". Hún dó þó hjá Oddi bróður sínum, ógift, og erfði sonur Odds eignir hennar. HSBC. HSBC Holdings plc er almenningshlutafélag gert að hlutafélagi í Englandi og Wales árið 1990. Höfuðstöðvar fyrirtækisins hefur verið í London síðan 1993. Frá og með 2009 er HSBC stærsti banki í heimi og sjötta stærsta fyrirtækið í heimi, samkvæmt tímaritinu "Forbes". Höfuðstöðvar þeirra voru staðsettar í Hong Kong þar til ársins 1992 þegar HSBC tók yfir Midland Bank, yfirtakan gerði að verkum að nauðsynlegt var að flytja höfuðstöðvarnar til London. Hong Kong er enn mikilvæg tekjuöflunarleið fyrir bankann. Í seinni tíð hafa HSBC yfirtekið nokkra banka í Kína og þannig kemur bankinn aftur í uppruna sína. HSBC hefur stóran markað í Asíu í útláni, fjárfestingu og vátryggingu. HSBC er skrifað hjá kauphöllum í London, New York, Hong Kong, París og Bermúda og er líka skrifað í FTSE 100- og Hang Seng-vísitölunum. Súgandafjörður. Súgandafjörður er fjörður á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum, nyrsti fjörðurinn í Vestur-Ísafjarðarsýslu og gengur inn milli Sauðaness að sunnan og Galtar að norðan. Hann er um þrettán kílómetra langur. Þegar kemur inn að fjallinu Spilli, sem gnæfir yfir Suðureyri, sveigir hann til suðausturs, þrengist og grynnkar. Brött og allhá fjöll liggja að firðinum og er undirlendi lítið. Þau eru þó nokkuð gróin og sumstaðar er kjarr; Selárskógur er eitt mesta samfellda kjarrlendi á Vestfjörðum. Inn af botni fjarðarins er Botnsdalur. Þar er eitt af þremur mynnum Vestfjarðaganga, sem opnuð voru 1996, en áður lá vegur um Botnsheiði til Ísafjarðar og var hann yfirleitt ófær á veturna. Þaðan liggur svo malbikaður vegur með suðurströnd fjarðarins til Suðureyrar en handan fjarðarins er aðeins vegarslóði út undir miðjan fjörð, enda er þar engin byggð lengur, aðeins sumarbústaðir. Víða í firðinum er mikil snjóflóðahætta. Surtarbrandslög er víða að finna og úr surtarbrandslögum í Botnsdal hafa verið unnin kol, síðast á árunum 1940-1942. Jarðhiti er í firðinum og var hann um tíma notaður til að hita upp hús á Suðureyri. Samkvæmt því sem segir í Landnámu var það Hallvarður súgandi sem nam fjörðinn. Hann hafði barist við Harald konung hárfagra í Hafursfjarðarorrustu en hélt síðan til Íslands og nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga. Hugvekja til Íslendinga. Hugvekja til Íslendinga er 24 blaðsíðna grein eftir Jón Sigurðsson sem var gefin út í Nýjum félagsritum árið 1848. Greinin var skrifuð í tilefni af því að Friðrik 7. Danakonungur lét af einveldi. Í henni færði Jón rök fyrir því að Ísland ætti að vera sjálfstætt land. Greinin er talin marka upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Alþingi var endurreist árið 1843, eftir að það hafði verið lagt niður 1800. Ásætur. Ásætur eru hvers konar óæskileg efni (lífræn eða ólífræn) eða lífverur (örverur, plöntur, þörungar og dýr) sem setjast á yfirborð manngerðra hluta sem eru í stöðugri eða lotubundinni snertingu við vatn og mynda þar óæskilega himnu sem stundum er þakin stórgerðari gróðri. Ásætur setjast á hvaða manngert yfirborð sem þær komast í snertingu við. Hér er dæmi um ásætur á könnu í sjávarfiskabúri staðsettu í Háskólanum á Akureyri. Áhrif. Ásætur myndast í umhverfi sem annaðhvort er á kafi í vatni eða í mikilli snertingu við vatn, ásætur valda á ári hverju miklu efnahagslegu tjóni, þá sérstaklega í skipaflutningum, sjávarútvegi, olíuiðnaði, vatnshreinsistöðvum og kælikerfum orkuvera. Ásætur á skrokkum skipa eru þess valdandi að olíunotkun eykst til muna. Dæling á sjó í gegnum pípur vegna kælingar í orkuframleiðslu verður kostnaðarsamari. Sjávarútvegur. Ásætur valda á ári hverju milljóna tjóni á veiðarfærum í heiminum. Ásætur gera sig heimakomnar á belgjum, baujum og öðrum flotbúnaði. Krabba- og Humarveiðar verða fyrir töluverðu tjóni af völdum ásætna, því ýmiskonar sjávarlífverur gera sig heimakomnar á gildrum veiðimanna. Fiskeldi. Í fiskeldi valda ásætur milljarða tjóni á heimsvísu. Ásætur á eldiskvíum og netum í þeim eru mjög kostnaðarsamar og erfitt er að fjarlægja ásæturnar nema með mikilli fyrirhöfn. Ásætur geta stuðlað að sýkingum í eldisfiski og þar af leiðandi minni framleiðni. Skipaflutningar. Í skipaflutningum eru ásætur afar dýrt vandamál. Aðeins örlítil mótstaða á stóru flutningaskipi getur valdið mikilli aukningu í olíueyðslu og kostað tafir. Sem dæmi má nefna að ef um er að ræða 35.000 tonna skip getur 0,25 % aukning á viðnámi valdið 1,5 mílna hraðatapi. Sama viðnámsaukning veldur því að olíunotkun eykst um 40% ef jöfnum 20 mílna hraða er haldið. Olíuiðnaðurinn. Líkt og með aðra manngerða fleti sem eru á kafi í sjó eða vatni, þá eru olíuborpallar, og ýmis búnaður þeim tengdur, kjörnir staðir fyrir ásætur. Á hafsbotni er í tengslum við olíuiðnaðinn oft afar dýr búnaður sem reglulega þarf að taka upp til hreinsunar þetta er afar dýr framkvæmd og mikil þörf fyrir góða lausn sem hindrar ásætur á slíkum búnaði. Rannsóknaskip á vegum olíuleitarfyrirtækja eru útbúinn mjög öflugum bergmálsmælum sem greina bergmál djúpt úr berglögum sjávarbotnsins. Einungis þarf smáræði af ásætum til að rugla merkið sem sónarinn nemur og geta þá mjög verðmæt gögn farið forgörðum. Orkuframleiðsla. Þar sem orkuver eru knúinn jarðefnaeldsneyti er þörf á kælingu. Oft eru þessi orkuver staðsett nálægt vatni eða sjó. Miklu magni af sjó eða vatni er dælt inn í slík ver til kælingar. Þrátt fyrir mikinn straumþunga í inntaki og í pípunum virðast ásætulífverur eiga mjög auðvelt með að mynda þekju á innra yfirborði pípanna. Oft verður þekjan það þétt og mikil að hún stíflar pípur og síur. Skilgreiningar og tegundir. Ásætur geta verið bæði lífverur og einnig af efnafræðilegum toga. Stórgerðar ásætur. Stórgerðar ásætur („macroásætur“) er grófgerður massi lífvera sem er fastur á yfirborði og veldur tregðu á flæði vökva. Slíkar ásætur eru mikið vandmál í kælikerfum orkuvera, einkum ef notaður er sjór til kælingar. Dæmi eru um að kræklingar hafi náð að festast á innra byrði röra með þeim afleiðingu að þegar þeir stækkuðu lokuðu þeir nánast pípunum. Örásætur. Til örásætna teljast lífrænar efnahimnur og bakteríuhimnur á manngerðu yfirborði. Í raunini kallar það fyrra á það seinna. Aðeins augnablikum eftir að mannert yfirborð lendi í sjó eða vatni byrjar að safnast upp á því ýmis lífræn efni, svo sem sykrur og peptíð sem mynda himnu bakteríur geta fest sig við. Hverskyns útfellingar og kristallamyndun á yfirborði er flokkuð til örásætna. Myndun ásætuþekju. Manngerð yfirborð sem eru í snertinu við vatn verða fyrir barðinu á ásætum. Uppbygging slíkra ásætna hefst með því að lífræn efni setjast á yfirborðið (1. stigs ásætur). Þetta er efnafræðilegt ferli og gerist því fremur hratt. Í kjölfarið fylgja svo bakteríur sem nýta sér þessi lífrænu efni sem fæðu. Bakteríurnar mynda þekju á yfirborðinu (2. stigs ásætur). Hið stöðuga flæði nýrra næringarefna skapar góðar aðstæður fyrir bakteríurnar sem vaxa og breiða úr sér. Fyrstu einkenni eru þunnt, slímkennt lag baktería sem þekur yfirborðið. Bakteríur eru og fæða annarra lífvera og fljótlega setjast í þekjuna heilkjarna örverur (3. stigs ásætur). Ef ekkert er að gert á þessum fyrstu stigun er slagurinn tapaður. Stærri og stærri lífverur setjast að á yfirborðinu og fyrr en varir er það þakið og iðandi af lífi. Þari, kræklingur, hrúðukarlar og fleiri stórgerðar lífverur mynda 4. og síðasta stig ásætuferlisins. Hrúðukarlar geta verið sérlega skæðir og valdi verulegu tjóni á málmi nái þeir festu. Vegna þess hvernig þeir vaxa þá skera þeir sig í gegnum málningarlög á málmyfirborði og veita því oxandi efnum góðan aðgang að málminum sem þá tærist. Ásætuvarnir. Ásætur hafa verið vandamál á skipum allt frá því menn fóru að sigla um höfin. Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að fyrirbyggja ásætni á skipum. Fram að 18. öld.. Ásætuvarnir hafa verið af ýmsum toga, en fram að 18. öld samanstóðu þær af þremur megin aðferðum og voru notaðar í það blöndur af mismunandi efnum. Hvít blanda (e. "white stuff") var blanda af hvalalýsi, trjákvoðu og brennisteini. Svört blanda (e. "black stuff") var blanda af tjöru og trjákvoðu. Brún blanda (e. "brown stuff") var blanda af svartri blöndu og brennisteini. Fram á miðja 20. öld.. Um 1708 var fyrst lagt til að kopar yrði notaður sem ásætuvörn. Það var þó ekki fyrr en um 1750 sem fyrst var farið að nota kopar í þessum tilgangi. Koparþynnur vernduðu kili skipa fyrir ásókn ýmiskonar trjáorma, þær fyrirbyggðu líka ásætni þörunga og annars lífræns massa á botni skipa. Ástæða þess að koparinn virkaði svona vel var að þegar koparinn kemst í snertingu við sjó myndast eitruð húð sem kemur í veg fyrir að ásætur nái fótfestu. Frá 1770 hóf Breski sjóherinn að koparklæða botna á skipum sínum, þetta viðgekkst þar til viðarskipum var lagt. Blýhúðun var notuð í sama tilgangi og koparhúðun á skipsbotna um langan tíma. "(ekki þarf að velkjast í neinum vafa um að bæði koparinn og blýið hafa valdið töluverðri mengun í höfunum á þessum tíma.)" Frá og með miðri 20. öld.. Um miðja 20. öldina var þörfin fyrir annarskonar aðferðir við ásætuvarnir orðin krefjandi. Stöðug þróun í byggingu skipa og stækkun þeirra gerði kröfu um ásætuvörn sem auðvelt var að meðhöndla og virkaði lengi. Fram á sjónarsviðið kom málning sem innihélt tríbútýltin, en það minnkar ásætumyndun verulega en á móti kemur að þetta efni er mjög eitrað. Mikil notkun þess á 20. öldinni varð til þess að við margar af stærri höfnum heimsins var kuðungum, ostrum og ýmsum lífverum nánast útrýmt. Í dag er TBT bannað nema á allra stærstu skipinn. Fjöldin allur að aðferðum við ásætuvarnir er í notkun í dag, sífellt er verið að vinna að þróun nýrra aðferða til að hindra ásætur. Unnið er með ótal efni og aðferðir í þessum tilgangi. Til dæmis má nefna „sleip yfirborð“ það er yfirborðshúð ekki ósvipuð því sem notast er við á potta og pönnur sem ekkert festist við. Yfirborð sem er þessum eiginleikum búið hefur í för með sér tvöfaldan ávinning. Því ekki verður aðeins erfiðara fyrir ásætur að myndast á slíku yfirborði, heldur mun slíkt yfirborð auðvelda öll þrif á yfirborðinu við reglulega upptöku og viðhald á skipum eða mannvirkjum sem húðuð yrðu með slíkum efnum. Framtíðarþróun. Það er nokkuð ljóst að í framtíðinni með aukinni ásókn manna í auðlindir sem finnast munu á hafsbotni verður þörfin fyrir ásætuvarnir sem hafa mikla endingu meiri. Stöðug þróun er í gangi við að finna slíkar lausnir og er veitt til þess milljónum dollara á hverju ári. Ekki mun ganga lengur að notast verði við málnigar sem innihalda tin, kopar eða önnur eiturefni. Í sínum sem safnað hefur verið víðsvegar um heimin kemur það glögglega í ljós að slík efni safnast saman í bæði fiskum og svo öðrum lægri lífsformum. Sem alls ekki eru skotmörk ásætu varna. Tvíliða. Tvíliða er tegund af margliðu sem hefur tvo liði (þ.e. sem er summa tveggja einliða) en tvíliður eru oft umluktar svigum þegar þær eru notaðar í útreikningum. Dæmi um tvíliðu er til dæmis formula_1 sem þátta má í tvær aðrar tvíliður: formula_2 Eldland. Eldland (spænska: Tierra del Fuego) er eyjaklasi í Suður-Suður-Ameríku. Stóra Eldlandsey (Isla Grande de Tierra del Fuego) er stærst eyjanna og hefur flesta íbúa. Stóra Chiloéey er 47,992 km2. Eldland hefur skipst til helminga milli Chile og Argentínu síðan 1881. Suður Patagóniu-jökull. Suður Patagóniu-jökull (spænska: "Campo de Hielo Patagónico Sur") er þíðjökull staðsettur á suður-Andesfjöllum á mörkum Chile og Argentínu. Hann er stærsti jökull landsins bæði að flatarmáli og rúmmáli og stærsti jökull Suður-Ameríku. Undir Suður Patagóniu-jökull eru tvær þekkktar eldstöðvar: Lautaro og Viedma. Seisakþeia. Seisakþeia (gríska: σεισάχθεια, af orðunum: "seiein", að hrista, og "akkþos", byrði, það er hrista af sér byrðarnar, byrðaléttir) voru lög sem aþenski löggjafinn Sólon grundvallaði til að rétta bændaánauð og þrældóm, sem hafði farið úr böndunum á 6. öld f.Kr., með skuldaafléttingu. Skattöld. Skattöld (latína: "indictio") er tímatalseining sem notaðst var við í tímatalsreikningi í Evrópu og haft um 15 ára tímaskeið og taldist frá upphafsárinu 3. f.Kr. Talað var um fyrstu skattöld, aðra skattöld og þriðju skattöld o.s.frv. Norður Patagóniu-jökull. Gervihnöttur mynd af Norður Patagóniu-jökull Norður Patagóniu-jökull (spænska: "Campo de Hielo Patagónico Norte") er þíðjökull staðsettur á suður-Andesfjöllum í Aysén-fylki á Patagóníu Chiles. Sorg. Sorg (harmur eða tregi) er tilfinning sem lýsir sér með söknuði til einhvers sem er horfin(n) með einum eða öðrum hætti. Oftast tengist sorgin látnum manni eða dauðri skepnu. Þeir sem eru uppfullir af sorg, syrgjendur, syrgja eða harma (sbr. "harma einhvern", "syrgja einhvern"). Í fornöld voru sorgarsiðir við lát ættingja með vissum hætti. Austurlandabúar skáru hár sitt og eins gerðu Grikkir en Rómverjar létu hár og skegg vaxa meðan á sorginni stóð. Þessi mismunur á tískunni sýnir það að þjóðirnar létu í ljós sorg sína með því að vera gagnstætt því sem þeir voru vanir að vera. Grikkir höfðu sem sé mikið hár og skegg en Rómverjar stutt ef þeir voru þá ekki skegglausir með öllu. Ísraelsmenn sem áttu að sjá á bak ættingja slitu öll hár af höfði sér, lömdu sig alla í framan, tættu sundur föt sín frá hvirfli til ilja og gengu í ruddafötum, stráðum ösku (sbr. "að klæðast í sekk og ösku"). Þeir gengu berfættir, kveiktu aldrei eld, létu skegg og neglur vaxa og þvoðu sér aldrei. Sorgin stóð í tíu mánuði hjá Rómverjum. Ef ekkja giftist áður en þessi tími var liðinn, var hún talinn ærulaus. Menn máttu ekki syrgja börn, er voru yngri en þriggja ára, en væru þau frá þriggja ára og upp í tíu ára, áttu menn að syrgja þau jafnmarga mánuði og börnin höfðu árin. Sorgartíminn var þá oft styttur með tilskipun frá öldungaráðinu. Eftir ósigurinn við Cannæ máttu menn til dæmis ekki syrgja lengur en 30 daga. Menn vildu afmá sem fyrst minninguna um ófarir lýðveldisins. Petronas-turnarnir. Petronas-turnarnir voru hæstu byggingar heims frá 1998 til 2004. Petronas-turnarnir (malasíska: "Menara Berkembar Petronas") (einnig kallaðir Petronas-tvíburaturnarnir) í Kúala Lúmpúr í Malasíu eru tvíburaturnar og voru hæstu byggingar heims þar til Taípei 101-skýjakljúfurinn var reistur. Turnarnir voru í byggingu frá 1992 til 1998. Gunnbjörn Úlfsson. Gunnbjörn Úlfsson var norskur maður, sonur Úlfs kráku, sem sigldi til Íslands um 900. Skip hans bar af leið og sá hann þá eyjar vestan við Ísland sem hann kallaði Gunnbjarnarsker og menn telja að hafi verið Grænland. Hann er því talinn vera fyrsti norræni maðurinn sem hafi séð til Norður-Ameríku. Synir hans voru Gunnsteinn og Halldór, sem námu Skötufjörð, Laugardal, Ögurvík og Mjóafjörð. Gustave Doré. Paul Gustave Doré (6. janúar 1832 – 23. janúar 1883) var franskur myndlistarmaður, myndskeri, bókaskreytingamaður og myndhöggvari. Hann fékkst aðallega við gerð viðarskurðarmynda og stálskurðarmynda. Meðal þekktustu verka hans eru myndskreytingar við "Biblíuna", "Don Kíkóta" og "Hinn guðdómlega gleðileik". Montferrat. Montferrat (fjallalenska: Monferà; ítalska: Monferrato) er hérað í norðvesturhluta Ítalíu sem nú er hluti af héraðinu Fjallalandi og nær hér um bil yfir sýslurnar Alessandriu og Asti. Upphaflega var Montferrat greifadæmi en árið 961 var það gert að markgreifadæmi í hinu Heilaga rómverska ríki þegar Ottó mikli náði þar völdum. Montferrat-ættin var við völd þar til Spánverjar lögðu héraðið undir sig 1533 en 1536 lét Karl 5. Gonzaga-ættinni frá Mílanó markgreifadæmið eftir. 1574 var héraðið gert að hertogadæmi. 1631 náði Savojaættin helmingi Montferrat undir sig og árið 1708 fékk hún afganginn í Spænska erfðastríðinu. 1720 varð héraðið hluti af Konungsríkinu Sardiníu. Alexander 8.. Alexander 8. (22. apríl 1610 – 1. febrúar 1691) sem hét upphaflega Pietro Vito Ottoboni, var páfi frá 1689 til dauðadags. Hann var af feneyskri aðalsfjölskyldu og tók próf í kirkjurétti við Háskólann í Padúu. Hann hóf störf í Páfagarði í valdatíð Úrbanusar 8. Hann var kjörinn eftirmaður Innósentíusar 11. fyrir milligöngu sendiherra Loðvíks 14. Frakkakonungs, en þá var hann orðinn nær áttræður og lifði aðeins sextán mánuði eftir páfakjör sitt. Á þeim tíma gerði hann lítið markvert nema styðja Loðvík og stunda frændhygli í stórum stíl, sem fyrirrennari hans hafði reynt að draga úr vegna mjög slæmrar fjárhagsstöðu Páfagarðs. Brandenborgarhliðið. Brandenborgarhliðið er ein þekktasta bygging Berlínar og eitt þekktasta mannvirki Þýskalands og Evrópu. Það varð jafnframt að tákngervingi friðar og sameiningar þegar Berlínarmúrinn féll. Lýsing. Brandenborgarhliðið er 26 metra hátt og 65 metra breitt, en með breiddinni teljast varðhúsin sitthvoru megin við hliðið. Fyrirmyndin var Propylaea, inngangahofið mikla að Akrópólishæðinni í Aþenu. Hliðið stendur á 12 dórískum súlum. Efst trónir hestaeykið "Quadriga", en þar keyrir rómverska sigurgyðjan Viktoría á vagni sem dreginn er af fjórum hestum. Saga hliðsins. Fjóreykið á hliðinu. Upplýst að næturlagi. Hliðið var reist 1788-1791 af Friðriki Vilhjálmi II Prússakonungi til minningar um fyrirrennara sinn og frænda, Friðrik II (kallaður hinn mikli). Hliðið sneri til vesturs og var útgönguleið úr Berlín í átt til Brandenborgar, þaðan er heitið fengið. 1793 var hestaeykið sett upp. Það er gríðarmikil koparstytta af sigurgyðjunni Viktoríu á fjóreyki en hún var til minningar um sigurvinninga Friðriks mikla. 1806, aðeins 13 árum síðar, hertók Napoleon Berlín. Hann gerði sér lítið fyrir og lét taka fjóreykið niður af hliðinu og senda til Parísar. Þar ætlaði hann að setja það upp á nýjan leik. En 1814 tapaði Napoleon í orrustu fyrir Blücher herforingja, sem við það náði að hertaka París. Blücher pakkaði fjóreykinu saman og sendi það til baka til Berlínar, þar sem það var aftur sett á Brandenborgarhliðið. Á 7. áratug 19. aldar voru nær allir borgarmúrar í Berlín rifnir og hurfu þá flestöll borgarhlið Berlínar. Brandenborgarhliðið fékk þó að standa. Í janúar 1933 héldu nasistar uppá það að Hitler varð kanslari Þýskalands með ljósagöngu í gegnum Brandenborgarhliðið. Þegar heimstyrjöldin síðari hófst var gerð gifsafsteypa af fjóreykinu. Hliðið sjálft skemmdist lítið í stríðinu, en varðhliðin sitthvoru megin skemmdust töluvert. Hins vegar nær gjöreyðilagðist fjóreykið efst. Skemmdirnar voru ekki lagfærðar fyrr en 1956-1957. Þá var einnig nýtt fjóreyki smíðað af afsteypunni, en hægt er að skoða höfuðið á gömlu sigurgyðjunni í safninu Märkisches Museum í miðborg Berlínar. Þegar Berlínarmúrinn var reistur, var hann lagður fyrir aftan Brandenborgarhliðið, þannig að hliðið var austanmegin. Það myndaði nokkurs konar botnlanga í miðborg Austur-Berlínar. Almenningur mátti ekki ganga upp að því, enda stóð hliðið á bannsvæði múrsins. Aðeins austurþýskir varðmenn máttu vera þar, en stöku sinnum fengu erlendir þjóðhöfðingjar að ganga upp að hliðinu austanmegin. Brandenborgarhliðið var töluvert hærra í loftinu en Berlínarmúrinn og gnæfði því hátt yfir hann. Hliðið sást því vel að vestan og varð að tákngervingi kalda stríðsins. Tveir Bandaríkjaforsetar héldu ræður á ræðupalli vestanmegin við hliðið á tíma kalda stríðsins. 1963 var John F. Kennedy í Berlín og sagði þá hin frægu orð: „"Ich bin ein Berliner"“ ("Ég er Berlínarbúi"). 1987 var Ronald Reagan á sama stað og sagði þá meðal annars: „"Mr. Gorbachev, open this gate! Mr. Gorbachev, tear down this wall!"“ ("Herra Gorbachev, opnaðu þetta hlið! Herra Gorbachev, rífðu niður þennan múr!"). 1989 komst hliðið aftur í heimspressuna þegar tugþúsundir mótmælenda úr Austur-Berlín söfnuðust saman á torginu fyrir framan hliðið, á bannsvæðinu. Mótmæli þessi voru angi af mótmælum víða um Austur-Þýskaland. Einnig tóku íbúar Vestur-Berlínar þátt í mótmælunum, vestan megin við hliðið. Mótmæli þessi fóru að mestu friðsamlega fram. Brandenborgarhliðið varð á þessum tíma tákngervingur friðar og sameiningar. Mótmælunum linnti ekki fyrr en stjórnin ákvað að létta á ferðabanni íbúa Austur-Þýskalands. Múrinn var opnaður á nokkrum stöðum og samstundis flykktust tugþúsundir manna frá Austur-Berlín til vesturhluta borgarinnar. Þetta leiddi að lokum til falls múrsins og (ásamt öðrum atburðum) til falls kommúnismans í Austur-Þýskalandi. Loftur Þorsteinsson. Loftur Þorsteinsson (1702 - ?) var íslenskur menntamaður á 18. öld sem miklar þjóðsögur hafa farið af og er þekktastur undir nafninu Galdra-Loftur. Loftur var sonur Þorsteinn Jónssonar fálkafangara á Vörðufelli í Skógarstrandarhreppi og fyrri konu hans, Ástu Loftsdóttur. Hann ólst að einhverju eða öllu leyti upp hjá Þormóði Eiríkssyni í Gvendareyjum, sem talinn var kraftaskáld og fjölkunnugur. Hann var settur í Hólaskóla árið 1716. Samkvæmt þjóðsögunum stundaði hann galdrakukl í skóla og í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, "Galdra-Lofti", verður það banabiti hans á meðan hann er enn á Hólum en Loftur lauk raunar stúdentsprófi árið 1722 og er ekkert vitað um hann með vissu eftir það. Í þjóðsögunum af Galdra-Lofti segir að hann hafi sturlast eftir að honum mistókst að ná galdrabókinni "Rauðskinnu" og hafi þá verið komið fyrir hjá öldruðum presti á Staðarstað en hann slapp úr gæslu hans, reri einn út á litlum bát og var sagt að grá hönd og loðin hefði sést koma upp og draga bátinn í djúpið. Hvað sem sögunum líður er víst að Loftur hefur dáið ungur en óvíst er hvenær það var eða hvernig dauða hans bar að höndum. Savojaættin. Savojaættin (ítalska: "Casa Savoia") er aðalsætt kennd við héraðið Savoja í norðvesturhluta Ítalíu og suðausturhluta Frakklands. Upphaf ættarinnar er rakið til greifans Húmberts 1. (1003 – 1047/8). Greifarnir af Savoja náðu yfirráðum yfir mikilvægum fjallvegum yfir Alpafjöll. Sonur Húmberts, Ottó af Savoja, giftist Adelaide af Tórínó og eignaðist þannig bæina Tórínó, Susa, Ivrea, Pinerolo og Caraglio í Fjallalandi. 1416 var Savoja gert að hertogadæmi. Frakkar lögðu Fjallaland undir sig 1494 og landlaus ættin settist þá að í Tórínó. 1553 hóf Emmanúel Filibert hertogi að ná löndum ættarinnar aftur á sitt vald. Efnahagslegur uppgangur varð í löndum ættarinnar á 17. öld með þróun iðnaðar í Tórínó og verslunar í Nice. Í kjölfar Spænska erfðastríðsins fékk ættin Konungsríkið Sardiníu og varð við það konungsætt. Við sameiningu Ítalíu 1861 lét ættin eftir lönd sín í Frakklandi en varð þess í stað konungar Ítalíu. Í kjölfar Síðari heimsstyrjaldar var ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu að gera Ítalíu að lýðveldi. Í stjórnarskrá Ítalíu var auk þess lagt bann við því að afkomendur síðasta konungsins, Húmberts 2. í beinan karllegg stigju fæti á ítalska jörð. Banninu var aflétt 2002 en um leið hafnaði Viktor Emmanúel, prins af Napólí öllu tilkalli til krúnunnar samkvæmt samkomulagi við ítalska ríkið. Textahöfundur. Textahöfundur er maður sem semur söngtexta við sönglög sem samin eru af lagahöfundi eða tónskáldi, öfugt við söngvaskáld sem semur bæði lag og texta. Sönglag. Sönglag er lag með texta sem er ætlað til söngs. Vísa. Vísa er ein tegund af sönglagi með alþýðilegum texta í bundnu máli. Á Norðurlöndunum er lifandi vísnahefð sem nær aftur til farandskálda miðalda. Estri. Estri er efnasamband sem verður til þegar oxósýra hvarfast við hýdroxýl á borð við alkóhól eða fenól. Estrar tilheyra sýruafleiðum og eru oftast myndaðir úr karboxýlsýru og alkóhóli. Estrar eru algeng efni: Margar náttúrulegar olíur eru estrar myndaðir úr fitusýru og glýseróli. Estrar með lágan mólmassa koma fyrir í ilmkjarnaolíum og ferómónum. Fosfórtvíestertengi eru uppistaðan í DNA-erfðaefni lífvera. Nítratestrar eins og nítróglýserín eru þekktir fyrir sprengfimi og pólýestrar eru mikilvæg plastefni. Maltósi. Maltósi eða maltsykur er tvísykra mynduð úr tveimur glúkósasameindum tengd saman með glýkósíðtengi. Maltósi brotnar auðveldlega niður í glúkósa með vatnsrofi og efnahvatanum maltasa í lífverum. Maltósi er framleiddur úr meltu byggi eða öðru spírandi korni með því að láta efnahvata vinna hann úr sterkjunni. Þetta ferli er kallað mesking og er mikilvægur þáttur í bruggun öls. Maltósanum er síðan breytt í etanól og koltvísýring með gerjun. Alfaamýlasi. Alfaamýlasi er ensím (amýlasi) sem rýfur alfatengi í stórum fjölsykrum eins og sterkju og glýkógenum og brýtur þær niður í maltósa og dextrín. Alfaamýlasi er algengasti amýlasinn í mönnum og dýrum. Hann finnst í fræjum með orkuforða í formi sterkju og myndast líka í nokkrum tegundum sveppa. Lífefnaleit. Lífefnaleit er hugtak innan líftækni og lyfjafræði og nær til skimunar lífheimsins eftir lífvirkum efnum, þó svo raunar hafi þetta hugtak ekki verið skilgreint með formlegum hætti. Margar nokkuð líkar skilgreiningar eru þó til, og hljóðar ein þeirra svo: „Stuttlega skilgreint er lífefnaleit kerfisbundin leit að genum, náttúrulegum efnasamböndum, sniðum og heilum lífverum í náttúrunni sem nýta má til þróunar á hinum ýmsu afurðum“. Á öðrum stað segir að lífefnaleit sé samansöfnun og skimun á líffræðilegum efnivið í viðskiptalegum tilgangi. Hvað er lífefnaleit. Lífefnaleit er ferli sem hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda en dýr og plöntur hafa lengi vel verið notuð til lækninga. Bæði hafa þessar lífverur verið notaðar í heilu lagi eða að hluta til, með eða án einhverskonar meðhöndlunar. Þessi náttúrlegu efni voru og eru því það sem kallast lyfjavirk, eða lífvirk. Það er ekki langt síðan skilningur manna á efnafræði og öðrum raungreinum (til dæmis sameindalíffræði) fór að gera þeim kleift að sjá fyrir virkni efna og smíða jafnvel flókin efni. Um miðja tuttugustu öld var þessi nýja tækni orðin það fullkomin að hin tilbúnu efni voru orðin jafn góð og þau náttúrlegu og fram í lok aldarinnar voru menn sannfærðir um að þetta væri það sem koma skyldi. Vonast var til að nú væri hægt að greina sjúkdóma með tækni sameindalíffræðinnar og að hægt yrði að hanna sértæk lyf fyrir hvert og eitt sjúkdómstilfelli. Raunin hefur hins vegar orðið önnur og nú binda menn aftur vonir við að finna ýmis gagnleg efni beint úr náttúrunni. Árið 2003 var birt grein þar sem farið var yfir uppgötvanir á náttúrulegum efnum til lyfjaþróunar. Þar var bent á að höfundar höfðu ekki getað fundið neitt lyf sem hafði verið nýsmíðað ("de novo") á tímabilinu 1981-2002. Þrátt fyrir þetta höfðu mörg þau náttúrlegu efni sem þróuð höfðu verið lyf úr, verið breytt með tækni og aðferðum nútímanns. Lífefnaleit úr sjó. Lífefnaleit úr lífverum á landi hefur verið stunduð lengi, en lífefnaleit úr sjó er tiltölulega nýtt, en ört vaxandi rannsóknasvið. Lífefnaleit úr sjó sameinar greinar eins og sjávarlíffræði, efnafræði og lyfjafræði og mörg efni sem finnast í lífverum sjávar eru möguleg framtíðarlyf eða hafa aðra gagnlega virkni. Ástæðan fyrir því að menn eru farnir að líta til sjávarlífvera eftir nýjum lífvirkum efnum er sú, að lífríki sjávar er fjölbreytt og margar sjávarlífverur framleiða sérstök annarsstigs lífefni sem um margt eru frábrugðin sambærilegum efnum landlífvera. Svampar, kórallar og önnur botnlæg dýr framleiða oft lífvirk efni til varnar gegn rándýrum. Þessi efni hafa oft eiginleika sem geta komið að góðum notum. Það eru því bundnar vonir við að nýstárleg efni finnist úr sjó, sem nýta megi við framleiðslu á lyfjum, snyrtivörum og fleiru. Talið er að sjórinn búi yfir um það bil 80% af öllum plöntu- og dýrategunum í heimi. Þessar tegundir sem þar hugsanlega finnast eru þó flestar óþekktar og menn vonast til að geta kannað þær betur og vonandi fundið fjölda uppspretta gagnlegra lífvirkra efna. Lífefnafræði hafsins er töluvert frábrugðin því sem þekkist í hefðbundinni lífefnafræði þar sem efnin úr sjó hafa oft framandi virka hópa og sérstæðar kolefnisbeinagrindur. Með nýjum aðferðum við að kanna lífríki sjávar má því vonandi finna mörg nytsamleg annarsstigs lífefni. Nú þegar eru mörg efni úr sjó sem verið er að prófa sem krabbameinslyf. Einnig eru til veirulyf sem unnin voru úr ákveðnu rauðu þangi, sýklalyf og bólgueyðandi lyf úr svömpum og kóröllum og vonast er til að límkennt efni framleitt af bergsæknum bakteríum megi nota í framtíðinni til að loka sárum. Spurningar eru þó uppi um það hvort framtíðar lífefnaleit úr sjó eigi eftir að hafa eyðileggjandi áhrif á kóralrif og sjávarlíf. Lífefnaleit úr örverum. Því er almennt trúað að bakteríur og sveppir verði í framtíðinni helsta uppspretta nýrra lífvirkra efna, sökum langrar og mikillar þróunar þeirra ásamt sérstökum efnaskiptum þar sem hin ýmsu efni eru framleidd til aðlögunar að umhverfi. Fjöldi nýuppgötvaðra lífefna úr örverum á landi hefur farið lækkandi og því eru menn farnir að leita til sjávar að bakteríustofnum sem framleiða gagnleg efni. Grunur er á að mörg þeirra lífefna sem einangruð hafa verið úr sjó séu í raun framleidd af örverum sem búa í einhverskonar sambandi við þær sjávarlífverur sem efnin fengust úr. Sumir hafa gengið svo langt að segja að þetta sé raunin með langt flest lífvirk efni úr sjó. Þrátt fyrir að tækninni hafi farið mjög fram og fjöldi genamengja baktería og sveppa hafi verið raðgreind, er það áætlað að 99,9% þessara tegunda séu ekki ræktanlegar með hefðbundnum aðferðum. DNA þeirra má þó einangra úr umhverfissýnum og tjá í öðrum hýsli. Með samblöndu af tækni vísinda í dag er því unnt að skoða eiginleika þeirra örvera sem ekki eru ræktanlegar og leita að lífefnum framleiddum af þeim út frá genamengjum þeirra. Talið er að þessi leið sé vænleg í framtíðinni. Lífefnaleitar ferlið. Þegar leitað er að lífefnum úr sjó eru sýni tekin af lífverum og þau greind. Hráar lausnir af sýnunum eru prófaðar gegn ýmsum sýklum, sveppum og veirum og geta þeirra til að hemja vöxt eða drepa þessa sýkla er könnuð. Einnig má prófa lausnirnar á krabbameinsfrumum. Ef ákveðin lausn lofar góðu er efnasamsetning hennar greind og efni sem hafa óskaða eiginleika eru prófuð frekar af lyfjafyrirtækjum eða öðrum aðilum. Þegar tekin eru sýni við lífefnaleit er nauðsýnlegt að beita aðferðum sem leyfa að stærri sýni séu tekin í einu (að minnsta kosti ef erfitt og kostnaðarsamt er að komast að sýnatökusvæðinu) eða að það sé hægt að fara á sama svæði í aðra sýnatökuferð. Huga þarf að því að nóg þarf að vera til af sýni fyrir seinni stigs tilraunir og prófanir. Í þessum tilgangi er það gagnlegt að nýta sér GPS punkta til að staðsetja sýnatökusvæði nákvæmlega. Einnig er vert að hafa sérfræðinga með í för sem geta flokkað sýnin nákvæmlega svo öruggt verði að sama lífvera eða sama sýni sé tekið ef farið er aftur í sýnatökuferð. Athuga þarf þó að ekki má ganga á auðlindir náttúrunnar svo heiftarlega að of mikið sé tekið af sýni. Þess vegna er mikilvægt að nýta sér aðferðir til geymslu, ræktunar á nýjum sýnum eða aðrar til að notkun hins tiltekna efnis geti orðið varanleg. Oft er þetta stór hindrun við lífefnaleit, en til að efni komist á markað þarf oft að vera unnt að framleiða það í stórum stíl. Það er sjaldan hægt að taka það mikið magn af sýnum að hægt sé að framleiða efnið beint úr þeirri lífveru sem það fannst í. Stundum eru auðlindir hreinlega ekki nægar og ekki er vænlegt að ganga svo fast á þær að þær klárist. Í öðrum tilfellum er sýnataka erfið, lífverurnar eflaust smáar og ekki auðfinnanlegar. Ef framleiða á efnið á rannsóknarstofu frá grunni getur það einnig oft reynst mjög flókið, dýrt og langt ferli. Ef það tekst hinsvegar að framleiða og hreinsa efnið taka áralangar prófanir á því við (styttri ef efninu er ekki ætlað að verða að lyfi). Lífefnaleit er því alls ekki einfalt ferli. Lífefnaleit eða lífrán? Fjölbreytni lífríkis jarðar fer minnkandi með hverju ári. Líftækni- og lyfjafyrirtæki reyna því að skima og skoða það lífríki sem til er, áður en það verður of seint. Af þessari ástæðu er farið að gera svokallaða BDA (Biodiversity developement agreements) samninga milli handhafa líffræðilegs fjölbreytileika, sem oftast eru ákveðin ríki, og þeirra sem nýta sér þennan fjölbreytileika, svo sem fyrirtæki. Samningarnir kveða á um að eigendur og notendur deila með sér auðlindum og hagnaði af þeim við nýsköpun á afurðum. Þannig er reynt að stjórna því að auðugari ríki geti ekki sölsað undir sig auðlindum fátækari ríkja. BDA samningar miða því bæði að því að ýta undir uppgötvun á nýjum lífefnum en einnig að því að veita eigendaþjóðum auðlindanna fjármang til að viðhalda hinu fjölbreytta lífríki sem hjá þeim finnst. Samningarnir kveða einnig á um það þjóðirnar hljóti þjálfun og tækni til að viðhalda lífríkinu og fái greitt fyrirfram fyrir utanaðkomandi nýtingu á auðlindum þeirra. Allt stuðlar þetta að viðhaldi lífríkis og fleytir fátækari þjóðum áfram í þeim efnum. Galli við samningana er þó sá að það eru stjórnir eigendaríkja sem fá aðföngin og fjármagnið. Framfarir ríkjanna og íbúa þeirra á sviði viðhalds auðlinda eru því háðar dreifingu stjórnar þeirra á þeim úrræðum sem þau fá gegnum samninga sína. Dæmi um lyf sem hafa fundist við lífefnaleit. Mynd af þeim efnasamböndum sem hafa fundist í plöntum og orðið að samþykktum lyfjum Í grein frá 2006 er lýst yfir 20 nýjum lyfjum sem komu á markað á árunum 2000-2005. Þessi lyf áttu ýmsan uppruna, til dæmis plöntur, örverur og dýr af þurrlendi auk lífvera úr sjó. Mynd af nokkrum efnasamböndum sem hafa fundist í bakteríum af landi og orðið að samþykktum lyfjum Kynjalyf. Kynjalyf (eða skottulyf) er haft um meðöl sem hafa ótilgreinda eiginleika, eru af dularfullum uppruna og hafa óræð áhrif, ef þá nokkur. Í lok 19. aldar komu á markað á Íslandi Kínalífselixír og Bramalífselixír sem teljast til kynjalyfja. Ríkisþinghúsið í Berlín. Ríkisþinghúsið í Berlín (') er eitt af þekktustu byggingum Þýskalands. Það var þinghús Þýskalands frá 1894 til 1933, og svo aftur frá 1999. Forsaga. Þegar Prússland varð að keisaraveldi, kom í ljós að þáverandi þinghús var allt of lítið fyrir hlutverk sitt. Var þá hafist handa við að skipuleggja byggingu nýs húss. Valinn var staður örstutt frá Brandenborgarhliðinu, en skipulagsmál drógust hins vegar á langinn. 1882 var loks haldin samkeppni arkítekta um fyrir nýtt hús þingsins. Sigurvegarinn varð Paul Wallot frá Frankfurt. Fyrsta skóflustungan var tekin 1884 og var það keisarinn sjálfur, Vilhjálmur I, sem hana tók. Smíðin. Húsið var tíu ár í smíðum. 1894 var hornsteinninn lagður, en vinnan var langt frá því búin og dróst frameftir aldamótin. Sérstaklega skapaði hvolfþakið erfiðleika. Í upphafi átti það að vera fyrir miðju hússins, beint yfir þingsalnum, til að veita honum náttúrulega birtu. Þegar smíði hússins var vel á veg komin, var ákveðið að færa hvolfþakið. Paul Wallot var hins vegar óánægður með þá ráðstöfun og barðist fyrir því að fá að hafa þakið yfir þingsalinn, eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Þegar hann loks fékk það í gegn, kom í ljós að burðarveggir salarins voru of veikir fyrir hið mikla hvolfþak. Þurfti þá að minnka það um heila tíu metra og nota léttara efni. Þinghúsið varð því 75 metra hátt, í stað 85 metra, eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Yfir vesturgafli hússins var settur steinborði með stálstöfum. Þar stendur „"DEM DEUTSCHEN VOLKE"“ ("Þýsku þjóðinni"). Steinborðinn var þó ekki settur á húsið fyrr en 1916. Stálbókstafirnir voru teknir úr tveimur fallbyssum sem Prússar hernámu úr Napoleonsstríðunum. Húsið kostaði alls 24 milljónir marka á virði þess tíma. Peningurinn kom frá Frakklandi en Frakkar þurftu að greiða Prússlandi stríðsskaðabætur eftir stríð landanna 1870-1871. Þinghús til 1913. Ríkisþinghúsið hýsti þing keisaraveldisins allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri árið 1918. Þegar séð var að stríðið var tapað, fór nóvemberbyltingin í gang. Þingmenn réðu ráðum sínum. 9. nóvember tilkynnti ríkiskanslarinn Max von Baden að keisarinn, Vilhjálmur II, hafi sagt af sér, um leið og hann sagði sjálfur af sér og veitti Friedrich Ebert ríkisvöldin. Stundu seinna var tilkynnt til fólksins, sem safnast hafði saman utan við Ríkisþinghúsið, um stofnun Weimar-lýðveldisins. Þótt Ríkisþinghúsið hafi verið notað sem þinghús lýðveldisins, hélt það engu að síður fyrra nafni. Bruninn og stríðið. 1933 var kveikt í Ríkisþinghúsinu og brann það 27. – 28. janúar. Ekki er nákvæmlega vitað hver eða hverjir voru þar að verki, en nokkrir voru handteknir í kjölfarið og eitt tekinn af lífi. Víst er þó að Hitler notaði tilefnið til að taka lögin úr gildi og þar með var endir bundinn á Weimar-lýðveldið. Bruninn sjálfur skemmdi húsið töluvert, bæði að innan og utan. Hvolfþakið hrundi og nýtt einfalt þak var sett á í staðin til að stöðva frekari skemmdir af völdum veðurs. Þingið var flutt í önnur hús en þar sátu þó aðeins meðlimir þjóðarflokks Hitlers. Ríkisþinghúsið var þó enn notað. Í þeim sölum sem ekki brunnu voru haldnar sýningar og áróðursfundir á vegum nasista. Þegar heimstyrjöldin síðari hófst var múrað fyrir alla glugga. 30. apríl 1945 komust Sovétmenn inn í húsið og flögguðu sovéska fánanum. Þó var enn barist á efri hæðum og í kjallara hússins allan næsta dag. Eftirstríðsárin. Nýja hvolfþakið er einkar glæsilegt Ríkisþinghúsið var stórskemmt þegar stríðinu lauk. Þegar borginni var skipt, lenti húsið vestanmegin við miðborgina. Berlínarmúrinn reis meðfram austurhlið hússins, en sjálft stóð það í vestri. Á 7. áratugnum var byrjað að gera húsið upp. Skreytingum var víða sleppt, hornturnarnir voru lækkaðir og ekkert hvolfþak var sett á að nýju. Hins vegar var þingsalurinn stækkaður talsvert. Þó voru engin þing haldin í húsinu fyrir sameiningu ríkjanna. 1991, ári eftir sameiningu ríkjanna, ákvað Bundestag (þýska þingið) í Bonn að færa höfuðborg Þýskalands aftur til Berlínar. Einnig var ákveðið að Ríkisþinghúsið yrði vettvangur þýska þingsins á ný. Jafnframt var ákveðið að húsið fengi nýtt hvolfþak. Áður en verkframkvæmdir hófust fékk búlgarski listamaðurinn Christo að hylja gjörvallt húsið með áldúk í listrænum gjörningi. Húsið var hulið 24. júní – 7. júlí 1995. Á þessum tveimur vikum sóttu 5 milljónir ferðamenn húsið heim. Seinna á árinu hófust framkvæmdir við húsið, sem stóðu í nokkur ár. Nýja hvolfþakið er 24 metra hátt og er gert úr gleri og stáli. Það er opið fyrir almenningi og er gríðarlega vinsælt. Ríkisþinghúsið í Berlín er eftir þessar breytingar næstsóttasti ferðamannastaður Þýskalands. 1999 fundaði þýska þingið í húsinu, í fyrsta sinn síðan 1933. Google Earth. Google Earth er sýndarheimsforrit gefið út af Google sem gerir notendum kleift að sjá loftmyndir og kort af Jörðinni í þrívídd. Upprunalega var forritið framleitt af Keyhole, Inc en Google keypti fyrirtækið árið 2004. Með því að nota Google Earth er hægt að skoða upphleypt kort af Jörðinni, en myndirnar eru teknar með gervihnöttum. Sumar stórar borgir eru líka með þrívíddarlíkön af byggingum sem hægt er að skoða með forritinu. Google Earth leyfir notendum að stilla sjónarhorn, til dæmis er hægt að skoða kortið frá jörðu niðri eða úr lofti. Fyrsta útgáfa Google Earth kom út árið 2005. Til eru útgáfur fyrir Microsoft Windows, Mac OS X, Linux og FreeBSD. Google Earth er líka til sem tengiforrit fyrir ýmsa vafra. Árið 2008 varð Google Earth fáanlegt í App Store fyrir notendur iPhone símans. Til eru útgáfur af Google Earth á 37 tungumálum. Gæði loftmyndanna eru mjög mismunandi, en flestir fjölfarnir og áhugaverðir staðir eru sýndir í háum gæðum. Flest lönd heims eru birt með upplausn sem nemur 15 m sundurgreiningu. Nokkrir staðir eins og Melbourne í Ástralíu, Las Vegas í Bandaríkjunum og Cambridge í Englandi eru sjáanlegir á 15 cm sundurgreiningu. Meginhluti heimsins er aðeins sýnilegur í tvívídd, en það er eins og að skoða stóra ljósmynd frekar en að skoða þrívíddarkort af heiminum. Í nokkrum löndum er hægt að skoða ljósmyndir af götum, þetta heitir Google Street View. Notendum er gert kleift að leita að sérstökum heimilisföngum í flestum löndum eða skrá inn hnit til að skoða kortið. Nýlega var notendum gert kleift að skoða kort af Mars, Tunglinu og stjörnum (Google Sky). Einnig er nú hægt að skoða kort af hafsbotninum með upplýsingum frá vísindamönnum og haffræðingum. Loftmyndun. Loftmyndun er þegar teknar eru ljósmyndir úr lofti, það er að segja myndavélin sem tekur myndirnar er ekki staðsett á jörðu. Ljósmyndari getur tekið myndirnar eða þær eru teknar á sjálfvirkan hátt. Hægt er að halda á myndavélinni í hendi eða festa við eitthvert yfirborð. Loftmyndun gerist oft um borð í flugvélum, þyrlum, loftbelgjum, loftskipum, eldflaugum, flugdrekum eða fallhlífum. Loftmyndun er ekki það sama og gervihnattamyndun en báðar geta verið notaðar í sama tilgangi. Fyrsta loftmyndin var tekin árið 1858 af Frakkanum Gaspard-Félix Tournachon úr loftbelg sem var að fljúga yfir París. Nú á dögum hefur almenningur aðgang að loftmyndum með hugbúnaði eins og Google Earth. Checkpoint Charlie. Checkpoint Charlie í nóvember 1989. Þá var múrinn nýfallinn. Checkpoint Charlie var ein þekktasta landamærastöð í Berlín á þeim árum er Berlín var skipt borg. Hún var staðsett í Friedrichstrasse, milli bandaríska og sovéska hernámsvæðanna. Varðstöð þessi var aðeins ein af þremur bandarískum landamærastöðum í og við borgina en þar sem hún var staðsett í miðborginni, var hún þekktust þeirra. Saga varðstöðvarinnar. Friedrichstrasse í miðborg Berlínar náði frá sovéska hernámshlutanum í miðborginni og inn í bandaríska hlutann þar fyrir sunnan. Þegar Berlínarmúrinn var reistur 1961, var götunni lokað til að byrja með. Fljótt var þó ákveðið að setja upp landamærastöð, þar sem margir diplómatar og yfirmenn herjanna þurfti að komast á milli. Landamærastöðin fékk heitið Checkpoint Charlie, en Charlie stendur fyrir bókstafinn C í alþjóða stafrófinu. Tvær aðrar bandarískar landamærastöðvar voru þegar komnar upp og Checkpoint Charlie var sú þriðja. Landamærastöðin var í stöðugri notkun frá 1961 til 1990. Almenningi var bannað að nota hana, hún var eingöngu fyrir diplómata og erindreka. Þrátt fyrir það reyndu nokkrir að flýja til vesturs gegnum stöðina. Að minnsta kosti tveir voru skotnir í slíkum tilraunum. 22. júní 1990 var stöðin lögð niður. Þetta var sjö mánuðum eftir fall Berlínarmúrsins og rúmum þremur mánuðum fyrir opinbera sameiningu landanna. Varðskálinn stóð eftir tómur, en var svo fluttur í Mauermuseum ("Múrsafnið") aðeins steinsnar frá. Árið 2000 var eftirmynd skálans sett niður á staðinn við Friedrichstrasse þar sem upphaflegi skálinn stóð. Beda prestur. Málverk af Beda presti að þýða Jóhannesarguðspjall eftir J. D. Penrose. Beda prestur (fæddur um 672, dáinn 26. maí 735), einnig þekktur sem heilagur Beda eða Beda hinn æruverðugi var engilsaxneskur klerkur og fræðimaður við klaustrið að Jarrow í Norðymbralandi. Hann var víðfrægur fræðimaður á sinni tíð og raunar langt fram eftir miðöldum. Hann er stundum nefndur "faðir enskrar sagnfræði". Meðal þekktra rita hans eru Kirkjusaga Englendinga ("Historia ecclesiastica gentis Anglorum") og aldarfarsbók hans ("Chronica maiora"). Í Landnámabók er frásögn af eylandinu "Týli" höfð eftir aldarfarsbók Beda og tekin til vitnis um að Ísland hafi verið þekkt fyrir landnám, en Ari fróði virðist hafa haldið Beda í miklum metum. Hákon Aðalsteinsfóstri. Hákon Aðalsteinsfóstri með bændum við blót á Mæri. Málverk eftir Peter Nicolai Arbo. Hákon Aðalsteinsfóstri (d. um 961) eða Hákon góði var konungur Noregs um miðja 10. öld. Hann var yngsti sonur Haraldar hárfagra og hafði alist upp frá tíu ára aldri við hirð Aðalsteins (Aethelstans) Englandskonungs. Hákon sneri aftur heim frá Englandi þegar hann var um tvítugt. Eiríkur konungur bróðir hans var þá orðinn mjög óvinsæll. Hann flúði land þegar Hákon kom og var hann þá þegar tekinn til konungs. Hann hafði verið skírður í Englandi og hafði með sér presta til Noregs en þurfti að kasta kristninni þegar hann tók við ríkinu, að minnsta kosti í orði. Gunnhildur kóngamóðir, kona Eiríks blóðaxar, hafði sest að í Danmörku ásamt fjórum sonum þeirra og þaðan herjuðu þeir á ríki Hákonar með tilstyrk Haraldar blátannar Danakonungs, sem líklega var bróðir Gunnhildar. Þeir fóru í þrjár herferðir til Noregs og í þeirri seinustu, 960 eða 961, tókst þeim að særa Hákon konung til ólífis. Hann átti engan son og elsti sonur Eiríks og Gunnhildar, Haraldur gráfeldur, tók við ríkinu. Haraldur gráfeldur. Haraldur gráfeldur (d. um 970) var konungur Noregs frá því um 961 til dauðadags. Foreldrar hans voru Eiríkur blóðöx, sonur Haraldar hárfagra, konungur Noregs um 933 og síðar konungur á Norðymbralandi, og Gunnhildur kóngamóðir, líklega systir Haraldar blátannar Danakonungs. Foreldrar hans hröktust frá Noregi þegar hann var barn að aldri og hann og bræður hans ólust upp í Danmörku og Englandi. Haraldur blátönn veitti Eiríkssonum þrívegis liðsinni í herför gegn Hákoni Aðalsteinsfóstra Noregskonungi. Þeir biðu lægri hlut í öll skiptin en í seinustu herförinni særðist Hákon til ólífis. Hann átti engan son og stóðu Eiríkssynir næstir til erfða. Haraldur var elstur þeirra og tók við konungstigninni. Hann varð þó skattkonungur Haralds blátannar. Skömmu síðar réðu Eiríkssynir niðurlögum Sigurðar Hlaðajarls, en Hákon sonur hans flúði land. Eftir það réði Haraldur gráfeldur öllum Noregi norður til Hálogalands. Valdabaráttan i Noregi hélt þó áfram og Haraldur gráfeldur lét meðal annars drepa tvo frændur sína og lénsmenn, Guðröð Björnsson og Tryggva Ólafsson (Eiríkur faðir hans hafði komið feðrum þeirra, bræðrum sínum, fyrir kattarnef). Um 970 ginnti Haraldur blátönn Harald gráfeld til Danmerkur til að fara með sér í herför gegn Frönkum en gerði honum í staðinn fyrirsát í Limafirði og felldi hann. Bræður hans, þeir sem eftir lifðu, flýðu land en Haraldur blátönn veitti Hákoni Sigurðarsyni Hlaðajarli æðstu völd í Noregi þótt hann fengi ekki konungstign. Hákon Sigurðarson Hlaðajarl. Hákon Hlaðajarl. Mynd eftir Christian Krohg. Hákon Sigurðarson Hlaðajarl (d. í febrúar 995) réði ríkjum í Noregi frá því um 970 til dauðadags. Hann bar þó aldrei konungsnafnbót. Fyrstu árin var hann skattkonungur Haraldar blátannar Danakonungs. Haraldur gráfeldur og bræður hans, Eiríkssynir, drápu Sigurð Hlaðajarl, föður Hákonar, eftir að Haraldur tók við ríkjum í Noregi og Hákon flúði þá land. Hann sneri þó aftur og barðist gegn veldi Eiríkssona næstu árin. Eftir að Haraldur blátönn felldi Harald gráfeld í Limafirði um 970 fékk hann Hákoni völdin. Þeir voru bandamenn í stríði við Ottó Þýskalandskeisara um 973-974 en töpuðu og neyddist Haraldur blátönn meðal annars til að heita því að kristna Noreg. Hann þvingaði Hákon jarl til að taka skírn en þegar jarlinn kom heim til Noregs kastaði hann kristninni, sagði sig undan yfirráðum Danakonungs og greiddi honum engan skatt eftir það. Haraldur reyndi að herja á Noreg næstu árin en eftir að lið hans og Jómsvíkinga tapaði orrustunni í Hjörungavogi, eins og segir frá í "Jómsvíkinga sögu", hætti hann þeim tilraunum. Þótt Hákon væri úr Þrændalögum og nyti framan af mikils stuðnings þar fór svo að Þrændahöfðingjar snerust gegn honum og þegar Ólafur Tryggvason kom með her í Þrændalög 995 flykktust þeir til hans. Hákon jarl lagði á flótta ásamt Karki þræl sínum og földu þeir sig í svínabæli. Þar skar þrællinn Hákon jarl á háls og fór síðan með höfuð hans til Ólafs Tryggvasonar í von um að fá góð laun fyrir verkið en Ólafur lét hálshöggva hann. Voru höfuð beggja sett á staura og grýtt. Ronald Ross. Sir Ronald Ross (13. maí 1857 – 16. september 1932) var skoskur læknir sem þekktastur er fyrir að hafa uppgötvað hvernig malaría berst með moskítóflugum af "Anopheles" ættkvísl og fyrir að hafa fundið malaríusýkilinn og leitt út lífsferli hans í flugum og mönnum. Fyrir rannsóknir sínar á malaríu hlaut hann nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði árið 1902. Warhammer 40,000. "Warhammer 40,000" er tindátaspil frá breska leikjaframleiðandanum Games Workshop. Það gerist í vísindafantasíuheimi eftir 38.000 ár. Rick Priestley bjó leikinn til árið 1987 sem framtíðarútgáfu fantasíuleiksins Warhammer Fantasy Battle og með sömu reglum. Síðan þá hafa komið fjórar nýjar útgáfur. Leikurinn er fyrir tvo eða fleiri leikmenn. Hann er leikinn á borði sem hægt er að setja upp hvernig sem er, með litlum fígúrum úr plasti eða tinblöndu. Hluti af skemmtuninni við leikinn er módelsmíði, það er að setja fígúrurnar saman og mála þær og setja upp umhverfi á borðinu þar sem leikurinn fer fram. Games Workshop. Games Workshop-verslun í Belfast á Norður-Írlandi Games Workshop er breskt leikjafyrirtæki sem var stofnað í London árið 1975 af John Peake, Ian Livingstone og Steve Jackson. Upphaflega framleiddi fyrirtækið spilaborð fyrir borðspil eins og skák, go, myllu og kotru. Fljótlega færði það sig þó yfir í sölu „óhefðbundinna“ spila, þar á meðal tölvuspila sem varð til þess að Peake hætti 1976. Fyrirtækið fékk einkarétt á dreifingu á spilum frá bandaríska leikjafyrirtækinu TSR í Bretlandi. Sala þessara spila, eins og t.d. Dungeons & Dragons-hlutverkaspilanna, gekk vel og varð til þess að fyrirtækið óx hratt. 1979 fjármögnuðu þeir stofnun tindátaframleiðandans Citadel Miniatures í Newark-on-Trent en það var síðar innlimað í Games Workshop. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og er nú skráð á kauphöllinni í London. Uppistaðan í framleiðslunni eru tindátar og herkænskuspil þeim tengd í fantasíuumhverfi á borð við Warhammer og Lord of the Rings. Stöðugleikasáttmálinn. Stöðugleikasáttmálinn er óformlegur samstarfssamningur og viljayfirlýsing á milli hins opinbera á Íslandi og helstu aðila atvinnulífsins og stéttarfélaga. Samningurinn var gerður eftir bankahrunið á Íslandi og er markmið hans að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Stöðugleikasáttmálinn var undirritaður í Þjóðmenningarhúsinu 25. júní 2009. Efnahagsleg markmið sáttmálans eru þau að í lok árs 2010 verði verðbólga ekki yfir 2,5%, halli hins opinbera ekki meiri en 10,5% af VLF, dregið hafi úr gengissveiflum, gengið styrkist og nálgist jafnvægisgengi. Þá er við það miðað að vaxtamunur við evrusvæðið verði innan við 4%. Nánar tiltekið eru aðilar sáttmálans Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag háskólamanna (BHM), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Kennarasamband Íslands (KÍ), Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), Samtök atvinnulífsins (SA), ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga. Samtök atvinnulífsins sögðu sig einhliða frá stöðugleikasáttmálanum. Meðal ástæða sögðu SA að skattar hefðu verið hækkaðir umfram það sem gert var ráð fyrir og að aðgerðir til að stuðla að minna atvinnuleysi hefði ekki gengið eftir. Í viðtali við RÚV sagði Vilhjálmur Egilsson, formaður SA, að afleiðingar af þessu yrði minni samstarfsvilji þegar kæmi að næstu kjarasamningum. Sama dag lýsti önnur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur yfir vonbrigðum sínum með afstöðu SA og gerði í yfirlýsingu sinni skötuselsfrumvarpið, frumvarp um veiðar á skötusel sem SA höfðu sagt síðasta kornið sem fyllti mælinn, að aðalefni. Málþóf. Málþóf kallast það þegar þingmaður eða þingmenn í löggjafarþingi reyna að hindra kosningu um frumvarp. Ein leið til þess er að draga umræður um frumvarpið á langinn með ræðuhöldum þangað til að flytjendur þess gefast upp á umræðunum og draga frumvarpið til baka. Bandaríkin. Þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings beittu málþófi í fyrsta sinn árið 1854 til þess að koma í veg fyrir að Kansas-Nebraska lögin yrðu samþykkt. Ísland. Málþófi hefur oft verið beitt á Alþingi Íslendinga. Þar sem Ísland er þingræðisríki og meirihlutastjórnir tíðkast er málþóf eitt af fáum tækjum stjórnarandstöðunnar til þess að láta í ljós óánægju sína. Kolefnisflokkur. Kolefnisflokkur er flokkur númer 14 í lotukerfinu og inniheldur frumefnin kolefni (C), kísil (Si), german (Ge), tin (Sn), blý (Pb) og ununquadín (Uuq). Hvert þessara efna hefur fjórar gildisrafeindir á ysta rafeindahveli. Í flestum tilvikum hneigjast þau því til að deila rafeindunum en tilhneiging til að missa gildisrafeindirnar eykst með hækkandi sætistölu. Einungis kolefni myndar neikvæðar karbíðjónir C-4. Kísill og german eru bæði málmungar og geta myndað jákvætt hlaðnar jónir Si+4 og Ge+4. Tin og blý eru málmar sem geta báðir myndað +2-jónir en ununquadín er tilbúið skammlíft geislavirkt efni. Fyrir utan german koma öll þessi efni fyrir bæði í hreinu formi og í efnasamböndum. Kolefni myndar mikinn fjölda ólíkra efnasambanda í lífríkinu og kísill er annað algengasta efnið í jarðskorpunni á eftir súrefni. Kjörnir alþingismenn 1946. Þetta er listi yfir kjörna Alþingismenn eftir Alþingiskosningarnar 1946. Ununquadín. Ununquadín er tímabundið nafn yfir skammlíft geislavirkt frumefni með sætistöluna 114. Niðurbrot ununquadínatóma hefur sést um áttatíu sinnum, í fyrsta skipti í Sameinuðu kjarnorkurannsóknastofnuninni í Rússlandi árið 1998. Tilvist efnisins hefur verið staðfest með seinni tilraunum. Langlífasta samsæta þess sem vitað er um er 289114 með helmingunartímann ~2,6 sekúndur. Skynmat. Skynmat er vísindaleg aðferð þar sem notað er kerfisbundið mat á lykt, bragði, útliti og áferð til að meta gæði matvæla. Í skynmati eru skynfæri mannsins, það er sjón-, lyktar-, bragð-, heyrnar- og snertiskyn notuð. Notaðar eru skipulegar aðferðir við undirbúning skynmats, sýnatöku og framkvæmd þess. Unnið er tölfræðilega úr niðurstöðum skynmats. Skynmat er eina aðferðin sem gefur beina mælingu á gæðaþáttum eins og neytandi vörunnar skynjar þá. Skynmat hefur aðallega verið notað í tenglsum við matvæli. Skynmat í íslenskum matvælaiðnaði hefur verið stundað á skipulagðan hátt; einkum sem þáttur í gæðaeftirliti. Fiskiðnaður, kjötvinnsla og mjólkuriðnaður hafa mest nýtt þessar aðferðir. Skynmat er einnig nýtt fyrir annars konar neytendavörur, svo sem sjónvörp (sjónrænt mat af til dæmis mynd, lit og upplausn), bíla (aksturseiginleikar á mismunandi undirlagi, lykt og þægindi við stýri), farsímar (útlit, hljóð, hversu notendavænt) osfrv. Skynmat er mikið notað í vöruþróun og við gæðaeftirlit. Skynmatsaðferðir eru margvíslegar og er það háð tilgangi skynmatsins hverju sinni hvaða aðferðir eru notaðar. Með því að nota skynmat má fá hlutlægt eða huglægt mat. Hlutlægt mat er framkvæmt af skynmatshóp, sem yfirleitt samanstendur af 8-15 einstaklingum (dómurum) sem eru sérstaklega þjálfaðir fyrir skynmat. Þessir dómarar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, svo sem að geta þekkt og raðað styrkleika grunnbragðefna (sætt, salt, beiskt, súrt). Umami, stundum nefnt sem fimmta bragðefnið, er yfirleitt ekki tekið með í þessu samhengi, þar sem ekki margir þekkja það. Líta má á mat skynmatshóps sem hlutlæga mælingu: Þeir greina eða meta hversu mikið eða hvort ákveðnir skynrænir eiginleikar eru til staðar en aldrei hvort eða hversu vel þeim líkar varan. Niðurstöður skynmats hjálpa hinsvegar til við að skilja viðbrögð neytenda. Skynmat getur gefið til kynna hvernig skynrænir þættir spila saman og sýnt heildar áhrif allra skynrænna þátta til dæmis hvernig sætt og súrt spila saman og svo framvegis Upplýsingar um hversu vel fólki líkar vörur fást með neytendakönnunum. Flestir sem vinna með skynmat í dag nýta sér rafræna skráningu niðurstaðna. Dómarar framkvæma matið fyrir framan tölvuskjá og niðurstöðurnar fara í gagnaskrá til frekari úrvinnslu. Pergamonsafnið. Pergamonsafnið (Pergamonmuseum) er bæði stærst og yngst safnanna miklu á Museumsinsel (safnaeyjunni) í miðborg Berlínar. Það var gagngert reist til að hýsa tröllaukna fornmuni sem þýskir fornleifafræðingar sendu heim eftir ýmsa uppgrefti í vesturhluta Asíu. Pergamonsafnið er á heimsminjaskrá UNESCO. Heitið. Pergamon er heiti á fornri hafnarborg í Litlu-Asíu. Meðal þekktustu fornminja sem safnið átti að hýsa var hið tröllaukna Pergamonaltari. Við opnun safnsins árið 1930 skiptist það í þrjár álmur. Sú álma þar sem altarið var sett upp kallaðist Pergamonsafnið. En 1958 var byrjað að nota þetta heiti fyrir safnið í heild. Saga safnsins. Um aldamótin 1900 og á árunum þar á eftir barst til Berlínar mikið af fornmunum sem þýskir fornleifafræðingar fundu og grófu upp í Austurlöndum. Þessa fornmuni var erfitt að setja upp sökum stærðar. Árið 1905 lagði því þýski lista- og safnafræðingurinn Wilhelm von Bode til að reist yrði safn fyrir þessa fornmuni á safnaeyjunni í Berlín. Safnið var óvenjulega lengi í byggingu, eða frá 1910-1930. Tafir urðu sökum nóvemberbyltingarinnar 1918 og verðbólgunnar miklu í Weimar-lýðveldinu. Árið 1930 var safnið loks tekið í notkun, þótt það hafi ekki verið alveg tilbúið. Þegar loftárásir hófust í heimstyrjöldinni síðari voru margir safngripir fluttir á öruggari staði. Pergamonsafnið skemmdist talsvert í stríðinu. Auk þess tóku sovéskir hermenn talsvert af munum úr safninu og fluttu þá til Moskvu og Leningrad (Sankti Pétursborg í dag). Árið 1958 var safnið gert upp og skiluðu Sovétmenn þá mörgum af þeim safngripum sem þeir höfðu tekið. Þó eru enn margir munanna í Rússlandi eða eru týndir. 1999 var safnaeyjan með söfnunum sett á heimsminjaskrá UNESCO. Pergamonaltarið. Pergamonaltarið er þekktasti safngripur Pergamonsafnsins og er nafngefandi fyrir safnið. Það er jafnframt einn allra stærsti safngripur Þýskalands. Altarið eru rúmir 35 metrar á breidd og 33 metra hátt. Það var þýski verkfræðingurinn Carl Humann sem fann altarið í rústum hinnu fornu borgar Pergamon seint á 19. öld. Það var flutt til Berlínar og sett saman úr þúsundum lítilla stykkja. Ekkert safn rúmaði hins vegar þennan tröllaukna grip og var þetta ein ástæðanna fyrir því að Pergamonsafnið var yfirhöfuð reist. Reyndar er hér ekki um eiginlegt altari að ræða, heldur um "Pantheon", það er opið hof með guðastyttum frá 2. öld f.Kr. Markaðshliðið í Míletos. Míletos var forn grísk borg í Litlu-Asíu. Þýskir fornleifafræðingar fundu hliðið mikla í uppgreftri árið 1903 og fluttu það til Berlínar. Þar var það sett upp í Pergamonsafninu. Hliðið sjálft var reist á 2. öld f.Kr. Það er á tveimur hæðum og liggja þrjár leiðir í gegnum það. Það er 17 metra hátt og 29 metra breitt. Hins vegar skemmdist hliðið talsvert í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Sovétmenn sýndu því engan áhuga og því var það ekki flutt á brott. Árið 1954 var hliðið sett saman aftur eftir bestu getu en skemmdirnar eru augljósar. Hliðið er þó eftir sem áður hið glæsilegasta. Istarhliðið. Hluti af hinu uppsetta Istarhliði Istarhliðið var eitt af tveimur meginhliðum gömlu borgarmúra Babýlons til forna og var reist snemma á 6. öld f.Kr. af Nebúkadnesar konungi. Istar var himnagyðja Babýloníumanna. Hliðið var grafið upp af Þjóðverjanum Robert Koldeway árið 1899. Hliðið er 28 metrar breitt og 11 metra hátt. Það var skreytt með þúsundum af lituðum steinflísum. Þessar flísar voru fluttar til Berlínar, þar sem þær voru settar saman næstu árin. Þegar Pergamonsafnið var reist var jafnframt reist eftirmynd af Istarhliðinu þar og upprunalegu flísarnar festar á. Hliðið er stórglæsilegt á að líta. Borgarmúrar Babýlons ásamt hliðum þess voru eitt af sjö undrum veraldar (samkvæmt eldri listum). Ragnar í Smára. Ragnar Jónsson (1904-1984) betur þekktur sem Ragnar í Smára var íslenskur atvinnurekandi og menningarfrömuður. Ragnar rak Smjörlíkisgerðina Smára og var ásamt því áhrifamikill maður í menningarlífi Íslendinga á 20. öld. Hann stofnaði bókaútgáfuna Helgafell árið 1942 sem gaf m.a. út verk Halldórs Laxness. Árið 1961 gaf Ragnar Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt og lagði þannig grunninn að Listasafni ASÍ. Gjöfin innihélt 120 myndir eftir þekktustu listamenn þjóðarinnar. Í safninu voru m.a. verk eftir Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes Kjarval og Nínu Tryggvadóttur. Harry Frankfurt. Harry Gordon Frankfurt (fæddur 29. maí 1929) er prófessor emeritus í heimspeki við Princeton-háskóla. Hann kenndi áður við Yale-háskóla og Rockefeller-háskóla. Frankfurt lauk B.A.-gráðu árið 1949 og Ph.D.-gráðu árið 1954 frá Johns Hopkins-háskóla. Hann fæst einkum við siðfræði, hugspeki og athafnafræði auk rökhyggju 17. aldar. Ritgerð hans „Um kjaftæði“ (e. „On Bullshit“) frá 1986 kom út í bókarformi árið 2005 og varð metsölubók. Þar tekur greinir hann hugtakið kjaftæði (e. bullshit) heimspekilega. Árið 2006 gaf hann út bókina "Um sannleika" (e. "On Truth") sem fjallar um áhugaleysi samfélagsins á sannleikanum. Meðal heimspekinga var Frankfurt lengi þekktastur fyrir túlkun sína á rökhyggju Renés Descartes; fyrir kenningu sína um frelsi viljans, sem byggir á hugmynd hans um annars stigs langanir, það er að segja langanir manns til þess að hafa einhverjar tilteknar langanir (svo sem ef mann langar ekki til þess að mennta sig en langar til þess að langa það); og fyrir að þróa það sem kallast Frankfurt-gagndæmi (það er hugsunartilraunir sem eiga að sýna fram á möguleikann á aðstæðum þar sem maður hefði ekki getað breytt öðruvísi en hann gerði þrátt fyrir að innsæi okkar segi okkur eftir sem áður að hann hafi breytt af frjálsum vilja). Á síðari árum hefur Frankfurt þó hlotið athugli fyrir pælingar sínar um ást og umhyggju. Tengt efni. Frankfurt, Harry Frankfurt, Harry Frankfurt, Harry Dómkirkjan í Berlín. Dómkirkjan í Berlín eins og hún lítur út í dag Dómkirkjan í Berlín stendur á Museumsinsel (safnaeyjunni) í miðborg Berlínar, rétt sunnan við söfnin frægu. Hún telst vera með merkustu evangelískra kirkjubygginga í Þýskalandi. Í kirkjunni er grafhýsi fyrir tæplega hundrað meðlimi Hohenzollern-ættarinnar (þó ekki keisarana sjálfra). Forsaga. Nýi krossinn sem settur var upp 2008 Á reitnum hefur staðið kirkja síðan 15. öld. Páll II páfi hóf hana til dómkirkju 1465. Síðan þá hefur kirkjan tvisvar verið gerð upp. Á 19. öld urðu raddir æ hærri um að dómkirkjan væri ekki nógu stór og aðlaðandi fyrir hið rísandi Prússland. Var þá gamla dómkirkjan rifin og byrjað að reisa nýja. En sökum pólitísks óróa og skorts á fjármunum var verkinu hætt 1848. Byggingarsaga. Það var ekki fyrr en Prússland var orðið að keisaraveldi að nýjar áætlanir um dómkirkju voru teknar fyrir aftur. Var þá byrjað á því að rífa niður þá kirkju sem enn var í framkvæmdum. Fyrstu skóflustungu að nýju kirkjunni var tekin 17. júní 1894 og hún vígð 1905. Kirkjan er ferningslaga með fjóra hornturna, en fyrir miðju gnæfir stórt hvolfþak. Á öllum turnum voru fagrar spírur og á hvolfþakinu 15 metra hár kross. Kostnaðurinn nam 11,5 milljónir marka á virði þess tíma. Eyðilegging. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari stórskemmdist dómkirkjan. 24. maí 1944 varð hvolfþakið fyrir sprengjuregni og hrundi við það brennandi inn í kirkjuskipið. Sökum þunga þess braut það aðalgólfið og hafnaði í grafhvelfingunni fyrir neðan. Einnig brunnu allir hliðarturnarnir. Strax eftir stríð var aðalþakinu lokað til að varna frekari skemmda vegna veðurs. Þannig stóð kirkjan sem rústir einar allt til 1975. Viðgerðir. 1975 var hafist handa við að lagfæra dómkirkjuna. Hvolfþakið var þó haft talsvert einfaldara en það var áður. Krossinn mikli var settur á aftur. Þök hliðarturnanna voru lækkaðir um 16 metra hver. 1983 var lokið við ytri viðgerðirnar. Var þá hægt að einbeita sér að inniviði kirkjunnar. Fall Berlínarmúrsins og sameining landanna hafði engin áhrif á starfið. Því lauk 1993 og var dómkirkjan þá tekin í notkun á ný. 2006 var krossinn mikli tekinn niður vegna ryðs. Nýr kross var ekki settur á fyrr en 2008. Orgelið slapp við allar meiriháttar skemmdir. Pípurnar voru hreinsaðar og settar á aftur. Þær eru 7.269 alls. Grafhvelfingin. Síðan kirkja var fyrst reist á reitnum á 16. öld var farið að jarða meðlimi Hohenzollern-ættarinnar þarna. Líkin hvíla í kistum úr mismunandi efni. Samtals hvíla þar tæplega hundrað manns úr ættinni, svo sem kjörfurstar og konungar sem ríkt hafa í Berlín í hartnær 500 ár, ásamt drottningum, prinsum og prinsessum. Þó hvíla þar engir keisarar. Nýting í dag. Í dómkirkjunni eru haldnir reglubundnar guðsþjónustur. Safnaðarmeðlimir eru 1.100. Meðan á viðgerðunum stóð fóru guðsþjónusturnar fram í grafarkapellunni og skírnarkapellunni. 1993 fóru þær á ný fram í aðalskipinu. Á seinni árum hafa einnig verið haldnar minningarguðsþjónustur í dómkirkjunni. Þannig var haldin slík minningarathöfn fyrir þýska forsetann Johannes Rau árið 2006, en hann lést á því ári. Í kirkjunni fara einnig fram tónleikar. Urðarmáni. Urðarmáni (eldhnöttur, hnattelding eða kúluelding) er umdeilt fyrirbrigði sem minnir á lýsandi eldhnoðra. Urðarmáninn getur svifið um í loftinu eða jafnvel oltið á jörðunni og sundrast oft með miklum gný. Lítið er vitað um hvað urðarmáninn er og hvað veldur honum. Varast ber að rugla urðarmána saman við vígahnött. Urðarmáni fer stundum með miklum hraða um loftið, en annars staðar svífur hann ofurhægt og stundum sést hann hátt á lofti, en í annan tíma er hann alveg niður við jörðu. Urðarmáninn líkist eldhnetti og er mismunandi að stærð. Hefur honum stundum verið líkt við tungl í fyllingu, og nafnið þannig til komið, og hefur líklega verið kenndur við urð þar sem hann hefur sést fara um út í náttúrunni. Til eru lýsingar á því þegar urðarmáni hefur svífið fyrirvaralaust inn um glugga eða dyr, hafi runnið meðfram veggjum niður við gólf og sundrast svo með blossa og hvelli og horfið. Fyrirboði. Fyrirboði (teikn, forboði, undanboði eða fyrirfurða) er fyrirbæri eða atburður sem boðar óorðinn hlut, þ.e. veit á eitthvað annað sem á eftir að gerast, oftast í náinni framtíð. Fyrirboði er því einhverskonar spá eða viðvörun um eitthvað sem á eftir að gerast. Þó orðið jarteikn sé notað í sumum norðurlandamálum um fyrirboða, er ekki svo í íslensku. Fyrirboðar geta verið góðir og slæmir. Talað er um illan fyrirboða um eitthvað sem boðar illt en slíkur fyrirboði er einnig nefndur, "illsviti", "argspæingur" eða "váboði". Sigursúlan í Berlín. Sigursúlan á torginu Grosser Stern Sigursúlan er frægt minnismerki sem stendur við "Grosser Stern" torgið í Berlín. Efst á súluni trónir Viktoría, sigurgyðja Rómverja, enda var súlan reist til minningar um nokkur sigursæl stríð Prússa á 19. öld. Saga sigursúlunnar. Barack Obama við sigursúluna 24. júlí 2008 Forsaga. Síðla á 19. öld háðu Prússar nokkur árangursrík stríð. 1864 sigruðu þeir Dani í orrustunni við Dybbøl og innlimuðu Slésvík endanlega. 1866 sigruðu þeir Austurríki og urðu leiðandi þjóð í þýska sambandinu. 1870-1871 sigruðu þeir Frakka. Í kjölfarið varð Prússland að keisaraveldi. Til að minnast þessara þriggja sigra á vígvellinum var ákveðið að reisa sigursúluna. Byggingarsaga. Súlan var reist á torginu "Königsplatz", sem í dag er á sömu lóð og ríkisþinghúsið. Súlan stendur á ferningslaga stalli. Ofan á stallinum eru hringlaga súlnagöng og er súlan sjálf þar upp yfir. Efst trónir Viktoría, sigurgyðja Rómverja. Hún er úr bronsi og er 8,5 metra há. Alls var súlan upphaflega 50 metra há. Súlan er innangeng og er hægt að fara upp í þar til gerðan útsýnispall við stall sigurgyðjunnar. Tilfæringar og stríð. Þegar Hitler komst til valda hafði hann eigin hugmyndir um framtíðarútlit Berlínar. Þar sem súlan stóð ætlaði hann að reisa aðra byggingu (sem svo ekkert varð úr). Því lét hann taka súluna í sundur og flytja hana á núverandi stað. Við samsetninguna var einum súlnahring bætt við. Súlan hækkaði því um 7,5 metra, þannig að hún er tæpir 67 metrar í dag. Í stríðinu sem fylgdi slapp súlan við allar skemmdir. Þegar Berlín var hernumin, lögðu Frakkar til við hin hernámsveldin að sprengja súluna, þar sem hún minnti þá óþyrmilega á ósigur þeirra gegn Prússum. Bretar og Bandaríkjamenn voru þó á móti því en Rússar sátu hjá. Því létu Frakkar sér nægja að fjarlægja minnisplattana sem héngu á súlunni og flytja þá til Parísar. Þeim var ekki skilað fyrr en 1987 þegar Berlín hélt upp á 750 ára afmæli sitt. Nútíminn. Sigursúlan hefur verið friðuð. Hún stendur á umferðartorginu "Grosser Stern" vestur af miðborginni. Sökum þrengsla innan í súlunni reyndist ekki unnt að setja upp lyftu og verður því að ganga upp 285 þrep til að komast upp á útsýnispallinn. Torgið og umferðargatan ("Strasse des 17. juni") voru notuð fyrir hina geysivinsælu gleðigöngu Love Parede á árunum 1989-2006. Þegar mest lét, mættu 1,5 milljón manns í gleðigönguna. Árið 2008 kom Barack Obama til Berlínar og hélt kosningaræðu við sigursúluna. Hann var kosin Bandaríkjaforseti seinna á því ári. Aþos. Aþos (gríska: Όρος Άθως, "Oros Athos" ("fjallið helga") er fjall og skagi í Norður-Grikklandi en einnig nafn á lýðveldi basilsmunka og er þar frægasta klaustur þeirra. Aþos er sjálfstjórnarsvæði, frá því að munkum var opinberlega gefinn eignaréttur af skaganum frá Miklagarði, árið 875. Áttatíu og átta árum síðar, eða 963 var fyrsta klaustrið á Aþos byggt. Munkar á Aþos aðhyllast grískan rétttrúnaðarsið, og heyra aðeins undir patríkaninn í Konstantínópel, í andlegum efnum. Árið 1963 var haldin hátíð á Aþos vegna 1.000 ára afmæli munkdóms á svæðinu. Klaustrið hefur verið á heimsminjaskrá Unesco frá árinu 1988. Sjónvarpsturninn í Berlín. Sjónvarpsturninn í Berlín er á Alexanderplatz í miðborg Berlínar. Hann er hæsta bygging Þýskalands og gnæfir í 368 metra hæð. Forsaga. Strax á 6. áratugnum voru uppi áætlanir um að reisa sjónvarpsturn í Austur-Berlín. Í fyrstu var skógarsvæði í suðaustri borgarinnar valinn. En þegar grunninum var lokið, var hætt við verkefnið. Nálægðin við flugvöllinn í Schönefeld var of áhættusöm. Annar staður var valinn í hverfinu Friedrichshain, skammt austur af miðborginni. En hann þótti einnig of óheppilegur. 1964 ákvað Walter Ulbricht, þjóðarleiðtogi Austur-Þýskalands, að reisa ætti sjónvarpsturninn í miðborginni sjálfri og varð þá Alexanderplatz fyrir valinu. Turninn átti að vera ‚kóróna borgarinnar og sigurtákn sósíalismans‘. Kalda stríðið var þá í algleymingi. Byggingarsaga. Nokkrar byggingar urðu að víkja fyrir turninum. Byggingarsvæðið var mitt á milli Maríukirkjunnar og Rauða ráðhússins. Framkvæmdir hófust í ágúst 1965. Turninn sjálfur er úr steinsteypu, en kúlan efst úr stáli og gleri. Efst var sett útvarpsmastur en það eitt er 118 metra hátt. Framkvæmdum lauk í október 1969 og reis turninn þá 365 metra í loftið (með mastrinu). Kostnaðurinn er áætlaður 200 milljónir austurþýskra marka. Reikningurinn var þó aldrei gerður opinber, þar sem kostnaðurinn hafði allt að sexfaldast miðað við upphaflegu áætlanirnar. Eftir sameiningu landanna var efsti hluti mastursins endurnýjaður og hækkaður um þrjá metra. Turninn í dag. Turnkúlan eins og fótbolti meðan HM í knattspyrnu var í gangi í Þýskalandi Turnkúlunni er skipt í þrennt. Neðst eru útsýnispallar. Þó er ekki hægt að fara úr kúlunni, en horft er í gegnum stór gler. Fyrir miðju er veitingastaður sem snýst. Upphaflega snerist hann í einn hring á klukkutíma, en eftir endurbætur snýst hann í tvo hringi á klukkutíma. Árlega gerir um ein milljón manns sér ferð upp í turninn. Efst eru svo tæknirými fyrir útvarpsstöðvar. Þær eru ekki aðgengilegar fyrir almenning. Samtals útvarpa 17 stöðvar úr turninum. Meðan á HM í knattspyrnu var í gangi í Þýskalandi 2006 var turnkúlan skreytt þannig að hún leit út eins og fótbolti. Úrslitaleikurinn fór fram í Berlín. ‚Hefnd páfans‘. Ljóskrossinn á kúlunni gerði stjórnvöldum gramt í geði Þegar sólin skín á turnkúluna, myndar endurvarpið hvítan kross. Mikið var rætt um ljóskrossinn eftir víglsu turnsins og þótt mönnum að þeta væri hefnd páfans fyrir það tjón sem stjórn landsins hafði valdið kirkjustofnunum og kirkjubyggingum eftir stofnun Alþýðulýðveldisins 1949. Kross þessi gerði stjórnvöldum gramt í geði lengi á eftir. Maríukirkjan í Berlín. Maríukirkjan í Berlín er úr rauðum tígulsteini Maríukirkjan stendur við Alexanderplatz í miðborg Berlínar, við hliðina á sjónvarpsturninum. Hún er ein elsta kirkja borgarinnar. Saga Maríukirkjunnar. Maríukirkjan kemur fyrst við skjöl 1292. Grunnurinn var gerður úr ótilhöggnu grjóti sem safnað var af víðavangi. Skipið er gert úr rauðum tígulsteinum í gotneskum stíl. Turninn brann á 17. öld og var endurgerður 1663-1666 og aftur 1789-1790. Orgelið er frá miðri 18. öld. Allan þennan tíma var Maríukirkjan önnur helsta kirkja borgarinnar. En 1938 var messuhöldum hætt í hinni nálægu Nikolaikirkju og hún gerð að tónlistarkirkju. Við það varð Maríukirkjan að helstu kirkju messukirkju borgarinnar og jafnframt þeirri elstu sem enn var í notkun. Í heimstyrjöldinni síðari varð hverfið sem kirkjan stóð í, "Maríuhverfið", fyrir miklum loftárásum. Nær öll húsin í kring eyðilögðust en Maríukirkjan skemmdist aðeins lítillega. Hún var eina stærri kirkjan í Berlín sem hægt var að nota strax í stríðslok. Hins vegar þurrkaðist hverfið nær allt út. Fyrir stríð var þétt byggð í kringum kirkjuna en í dag stendur hún stök við norðvesturenda Alexanderplatz. Dauðadansinn. Eitt helsta listaverk miðalda í Berlín er veggmyndin "Dauðadansinn" ("Totentanz") sem er í Maríukirkjunni. Veggmyndin er aðeins 2 metra há en 22,6 metra löng. Myndin sýnir fólk, bæði leikmenn og kennimenn, í dansi við dauðafígúrur. Fyrir neðan eru rímur, þær elstu í Berlín. Ekkert er vitað um tilurð myndarinnar, en giskað hefur verið á að pestin sem geysaði 1484 gæti hafa verið innblásturinn að verkinu. Veggmynd þessi var hulin með kalki þegar siðaskiptin urðu í borginni snemma á 16. öld. Hún var ekki uppgötvuð aftur fyrr en 1861, rúmum 300 árum síðar, af byggingameistaranum Friedrich August Stüler. Listaverkið er heldur illa farið og er varið af glerrúðu í dag. Bodesafnið. Hið ægifagra Bodesafn nyrst á safnaeyjunni Bodesafnið er nyrst safnanna á safnaeyjunni (Museumsinsel) í miðborg Berlínar og stendur við hliðina á Pergamonsafninu. Í safninu eru til sýnis höggmyndir, málverk, rómversk listaverk og myntsafn. Bodesafnið er á heimsminjaskrá UNESCO. Byggingarsaga. Það var krónprinsinn Friðrik III, sonur Vilhjálms I keisara, sem átti veg og vanda að byggingu listasafnsins. Hann var listhneigður og réði listfræðinginn Wilhelm von Bode til að annast byggingu þess, en höfuðarkítekt var Ernst von Ihne. Framkvæmdir hófust 1897 og stóðu aðeins í 7 ár. Á meðan var Friðrik III orðinn keisari en dó eftir aðeins 99 daga. Bodesafnið var vígt á fæðingardegi Friðriks, 18. október 1904, og fékk heitið "Kaiser-Friedrich-Museum". Byggingin er nyrst á safnaeyjunni í miðborg Berlínar. Nyrsti hluti hússins myndar fagran boga og gengur beint í ána Spree. Þar fyrir ofan er hvolfþak en suðurendir hússins gengur til suðurs og liggur þétt við Pergamonsafnið. Wilhelm von Bode innréttaði listaverkin sjálfur og var fyrsti forstöðumaður hússins. Eftir stríð. Í heimstyrjöldinni síðari skemmdist safnið mjög mikið, aðallega þó byggingin sjálf. Viðgerðir eftir stríð gengu hægt og drógust fram á 7. áratuginn. En 1956 var fyrsta álman opnuð á ný. Heiti safnins var breytt og hét eftir þetta Bodesafnið (Bodemuseum). Fyrir utan núverandi listmuni voru egypskir listmunir einnig geymdir þar (til dæmis papírussafnið) þar til Egypska safnið í Berlín var tekið í notkun 1967. Skömmu fyrir aldamótin 2000 voru skemmdir innanhúss orðnar svo miklar að óhjákvæmilegt var að gera bygginguna upp. Það var gert 2000-2005 en safnið var þó ekki opnað fyrir almenningi fyrr en 2006. Alls eru sýningar á 25 þús m² svæði í 66 sýningarsölum. Höggmyndasafnið. Elstu höggmyndir safnsins eru frá miðöldum, en þær yngstu frá 18. öld. Verkin eru aðallega frá Þýskalandi en einnig frá Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og Spáni. Helstu verkin eru myndir eftir Ítalana Luca della Robbia og Donatello. Helsti þýski fulltrúi höggmynda í safninu er Tilman Riemenschneider. Rómverska safnið. Í rómverska safninu eru listmunir frá rómverska ríkinu allt frá 3. öld e.Kr. og til falls Austrómverska ríkisins á 15. öld. Munirnir eru frá öllu Miðjarðarhafssvæðinu, en einnig frá Miðausturlöndum og Rússlandi. Helstu munirnir eru steinlíkkistur frá Róm, fílabeinslistaverk og mósaík-helgimyndir frá Býsans og helgimunir frá Egyptalandi. Myntsafnið. Myntsafnið í Bodesafninu er eitt hið stærsta sinnar tegundar í heimi. Munirnir eru allt frá tímum fyrstu myntpeninga til líðandi stundar. Rúmlega hálf milljón myntir eru í safninu en aðeins er hægt að sýna lítið brot af þeim, eða 1.500 stykki. Almenningi gefst þó kostur á að fá að sjá önnur stykki þegar sótt er um það fyrirfram. 1868 var myntsafnið eigið safn, en var sett í neðri hæðir Bodesafnsins 1904. Actinobacteria. Actinobacteria er fylking og samnefndur flokkur Gram-jákvæðra gerla sem einkennast meðal annars af því að hafa hlutfallslega mikið af gúaníni og cýtósíni í erfðaefni sínu (eru með „hátt G+C hlutfall“). Íslenska heitið "geislagerlar", sem réttilega á aðeins við um ættbálkinn "Actinomycetales", er stundum notað sem samheiti yfir alla fylkinguna. Tegundir fylkingarinnar eru algengar í jarðvegi, vatns- og sjávarumhverfi þar sem þeir eiga ríkan þátt í niðurbroti lífrænna efna, svo sem sellulósa og kítíni. Þeir mynda því mikilvægan þátt í kolefnishringrás náttúrunnar. Innan fylkingarinnar er einnig að finna bakteríur sem eiga búsvæði sín í dýrum og plöntum. Þar á meðal eru nokkrir sýklar, svo sem "Mycobacterium tuberculosis", "Mycobacterium leprae" og "Corynebacterium diptheriae". Fylkingin er ekki síst þekkt af framleiðslu annarsstigs lífefna með örveruhemjandi virkni sem sum hver eru nýtt sem sýklalyf. Oberbaumbrücke. Oberbaumbrücke spannar ána Spree og er ein fegursta brúin í Berlín Oberbaumbrücke er án efa fegursta brúin í Berlín. Hún spannar ána Spree og tengir þar með borgarhverfin Kreuzberg og Friedrichshain. Á tímum kalda stríðsins var brúin hluti af járntjaldinu. Heitið. Fyrstu tvær brýrnar yfir Spree á þessum stað voru úr viði. Þeim var lokað með slá á nóttinni, þar sem brúin var tollabrú. Þessi slá kallaðist "Baum" ("tré") og af því er nafnið dregið. Neðar í ánni var því "Unterbaumbrücke" en fyrirrennari núverandi brúar hét "Oberbaumbrücke". Þegar brýrnar voru fjarlægðar og núverandi brú smíðuð, fékk hún gamla heitið Oberbaumbrücke. Saga Oberbaumbrücke. Lituð ljósmynd af Oberbaumbrücke skömmu eftir að hún var tekin í notkun 1902 Byggingarsaga. Fyrirrennari brúarinnar var úr viði og var smíðuð 1723. Hún var með viðarloku sem hægt var að opna, þannig að bátar komust í gegn. 1893 voru uppi áætlanir um að smíða nýja brú, sem bæri allt í senn hestvagna, gangandi umferð og lestir. Framkvæmdir hófust 1894. Brúin varð 150 metra löng og var haldið uppi af sjö steinbogum. Sá víðasti er 22 metrar. Við hliðina á akbrautinni eru súlnagöng fyrir fótgangandi vegfarendur, en þar fyrir ofan eru svo lestarteinarnir. Fyrir miðju eru tveir 34 metra háir turnar. Brúin öll er gerð úr rauðum tígulsteini, sem gefur henni afar sérstakt útlit. Smíðinni lauk 1902 en þá keyrði fyrsta neðanjarðarlestin yfir brúna, en það var jafnframt fyrsta neðanjarðarlest Berlínar. Á þessum hluta leiðarinnar keyrir hún reyndar ofanjarðar. Stríðið og eftirstríðsárin. Brúin skemmdist töluvert í loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari. En 23. apríl 1945, aðeins viku fyrir dauða sinn, ákvað Hitler að sprengja brúna til að hindra framrás sovéska hersins í borginni. Því var miðjuhlutinn sprengdur, en við það brunnu turnarnir og þök þeirra hrundu. Strax eftir stríð var brúin lagfærð til bráðabirgða, enda mikið notuð. Áin Spree markaði skilin á milli sovéska og bandaríska hernámssvæðanna. Fyrir norðan brúna var Friedrichshain í sovéska hlutanum en fyrir sunnan var Kreuzberg í bandaríska hlutanum. Þegar Berlínarmúrinn var reistur 1961 var búnni lokað. Öll umferð um hana var stöðvuð. Hún var orðin hluti af járntjaldinu milli austurs og vesturs. Árið 1972 var sett upp landamærastöð við brúna í Friedrichshain og brúin opnuð fyrir gangandi vegfarendur, það er þeirra sem á annað borð höfðu leyfi til að fara yfir landmærin. Endurreisn. Strax við fall múrsins var landamærastöðin fjarlægð og brúin opnuð fyrir alla gangandi vegfarendur. Hvorki bílar né lestir komust yfir vegna. Árið 1992 var brúin lagfærð og gerð upp. Haldin var samkeppni um hönnun á miðhlutanum sem Hitler hafði látið sprengja. Sigurtillagan gerði ráð fyrir að brúa bilið með stálgrind, bæði fyrir bíla og lestir. Bílaumferð var hleypt á aftur í nóvember 1994 en lestir ekki fyrr en í apríl 1995. Brúin var tekin upp í skjaldarmerki Friedrichshain 1991, skömmu eftir sameiningu landanna. Árið 2001 voru borgarhlutarnir Friedrichshain og Kreuzberg sameinaðir. Brúin er þó enn í sameiginlegu skjaldarmerki. Markvert. Hinn árlegi grænmetisslagur á Oberbaumbrücke Á brúnni fer fram árlegur grænmetisslagur ("Gemüseschlacht") milli íbúa Friedrichshain og Kreuzberg um yfirráðin í þessum borgarhluta. Slagurinn er haldinn í léttum dúr, þrátt fyrir að notað sé fúlt, myglað og skemmt grænmeti og egg. Siður þessi hefur verið haldinn síðan 1998 og hafa íbúar Friedrichshain ávallt borið sigur úr býtum fram að þessu. Pigazzano. Pigazzano er borg í héraðsins Emilía-Rómanja. Jóhanna Vala Jónsdóttir. Jóhanna Vala Jónsdóttir (fædd 25. september 1986) er íslensk fegurðardrottning. Jóhanna vann titilinn Ungfrú Ísland 2007 og var fulltrúi Íslands í keppninni Ungfrú heimur 2007 í Sanya í Kína. Móðir Jóhönnu er Jóhanna Magnúsdóttir. Lundey (Bristolflóa). Lundey (enska: "Lundy") er stærsta eyjan í Bristolflóa við Bretland. Lundey er í mynni flóans, 12 enskar mílur norðvestur af Hartland Point. Telst hún til Devonskíris. Lundey er nefnd Lundy á ensku, en nafníð er norrænt og þýðir mjög líklega Lundey í höfuðið á lundanum. Lundey er lítil eyja, ekki nema um 5 km á lengd og breiddin víðast tæpur kílómeteri, nema syðst þar sem hún er um 1,5 km á breidd. Bristolflói. Bristolflói er stór flói sem gengur frá vestri til austurs inn í Suður-Bretland og aðskilur Suður-Wales frá Devonskíri. Moksha. Moksha er í trúarbrögðum af indverskum uppruna talin eins konar frelsun úr viðjum lífs og dauða til fullkomins veruleika. Hinn fullkomni, óbreytanlegi veruleiki var kallaður brahman. Atman. ATman er í hindúisma sál einstaklingsins eða sjálf hans. Atman var brahman í smækkaðri mynd. Dharma. Dharma (á sanskrít: धर्म) eða Dhamma (á palí: धम्म) er trúarlegt og heimspekilegt hugtak í flestum trúarbrögðum af indverskum uppruna svo sem hindúisma, búddisma og jaínisma. Hugtakið hefur þó mismunandi þýðingu í hinum ýmsu trúarhefðum. Orðið er upprunnið úr indóevrópsku rótinni "dher-" sem þýddi að halda fast í eða styðja. Það er meðal annars sama rót í gríska orðinu "þronos" sem varð "throne" (hásæti) á ensku. Þríhyrningstala. Þríhyrningstala eða þríhyrnd tala er heil jákvæð tala sem táknar fjölda punkta sem raða má í þríhyrning. "n"-ta þríhyrningstalan er fjöldi punkta sem eru í þríhyrningi með "n" punkta langri hlið. Pýramídatala. Pýramídatala er heil jákvæð tala, sem táknar þann fjölda kúlna (eða punkta) sem raða má upp í pýramída með tiltekinn fjölda hliða í grunnfleti. Oftast er miðað við að grunnflöturinn sé ferningur, en hann gæti verið þríhyrningur, fimmhyrningur, sexhyrningur og svo framvegis. Hér verður miðað við ferningsgrunnflöt. Slíkir pýramídar sjást stundum í gluggum verslana þar sem appelsínum eða eplum eða einhverju slíku hefur verið raðað upp til skrauts og auglýsingar. Til þess að raða saman 10 hæða appelsínupýramída með ferningslaga grunnflöt þarf því 385 appelsínur. Tíbetskur búddismi. Guru Rinpoche, stofnandi Nyingma-greinar tíbetska búddismans Tíbetskur búddismi er grein innan mahajana-búddisma sem hefur marga fylgjendur i Tíbet og víða um Mið-Asíu. Þessi grein búddisma einkennist af miklum og fjölbreyttum helgisiðum sem eiga rætur í bæði mahajana og vajrajana-hefðum og einnig fjölda klausturreglna. Veigamikill þáttur í tíbetskum búddisma eru tantrískar íhugunaraðferðir, jóga og aðrar andlegar þjálfunaraðferðir. Þessi grein búddisma er á stundum nefnd lamasiður, lamahefð eða lamaismi á vesturlandamálum en það er nafngift sem tíbetskir búddistar sætta sig ekki við. Orðið lama á tíbetsku er samsvarandi sanskrítarorðinu gúru og þýðir "kennari í dharma" en er eingöngu notað sem heiðurstitill. Tíbetskur búddismi á rætur í textum og trúarhefðum mahajana og vajrajanagreina búddismans og bárust þær í tveimur aðskildum bylgjum til Tíbet. Sú fyrri á áttundu og fram á níundu öld og sú seini á seinnihluta tíundu aldra. Samkvæmt söguhefð Tíbeta var það Indverski trúarspekingurinn sem í indverskum heimildum er nefndur Padmasambhava og í tíbetskum Guru Rinpoche sem árið 747 e.Kr. hóf að boða kenningar búddismans í Tíbet. Í tíbetskum búddisma má finna arfleifð frá hinum fornu tíbetsku trúarbrögðum sem nefnd eru bön. Hin sterka tantríska hefð tíbetsk búddisma tengir hann einnig beint við tantrískar hefðir hindúisma. Þó kjarnasvæði tíbetska búddismans hafi ævinlega verið Tíbet hefur þessi hefð enn sterk ítök víða um Asíu, má þar nefna Bhutan, Mongólíu og Nepal. Einnig í Rússnesku héruðunum Burjatia, Kalmykia og Tuva og norðaustur Kína (Mandsjuria, Heilongjiang, Jilin). Þessi hefð er líka sterk í héruðunum Ladakh og Sikkim á Indlandi. Tíbetskur búddismi skiptist í fjórar megingreinar og fjölda minni greina. Tíbetskur búddismi var ríkistrú í aldaraðir og klausturreglur fóru bæði með andleg og veraldleg völd. Höfuðstöðvar trúarinnar voru í borginni Lhasa og þar voru einnig aðalstöðvar æðsta yfrirmanns trúarinnar, Dalai Lama. Næstur honum að tign var Panchen Lama. Í samband við hernám Kínverja af Tíbet 1950 var hið veraldlega veldi trúarinnar brotið á bak aftur, Panchen Lama var settur í fangelsi og Dalai Lama flúði til Indlands 1959 og hefur hann búið þar síðan. Sérkenni tíbetska búddismans. Í tíbetskum búddisma er einnig mjög sterk trú á ýmsa boddhisattva og verndara dharma. Botthisattva eru upplýstur maður sem velur að dveljast í samsara öðrum til aðstoðar. Dharma-verndarar eru einskonar húsguðir sem vernda hús og þorp. Þeir sem ekki helga sig trúnni sem munkar eða nunnur bera fram fórnir til ýmissa boddhisatva, færa munkum mat, kveikja á smjörlömpum í musterunum, fara í pílagrímaferðir eða syngja bænir. Klaustur og klausturmenntun var afar mikilvægur þáttur í tíbetskum búddisma. Þegar kínverski herinn réðist inn í Tíbet 1950 er álitið að um 25 prósent af íbúum landsins hafi búið í klaustrum. Fyrir menningarbyltinguna á sjöunda áratug 20. aldar er talið að það hafi verið milli 2000 og 3000 klaustur í Tíbet. Kínversk yfirvöld hafa nú yfirsjón með kennslu og kenningum í klaustrunum í Tíbet og reyna með harðri hendi að stjórna þeim í pólitískum tilgangi. Saga og munkareglur. Búddismi barst til Tíbet um 750 þegar indverski vajrajana-munkurinn Padmasambhava kom til landsins og stofnaði fjölda klaustra, hann varð þar með fyrsti laman. Búddisminn blandaðist mjög bön, hinum fornu tíbetsku trúarbrögðum. Sú hefð sem Padmasabhava stofnaði er nefnd Nyingma. Trúarhefð og trúarkenningar þessarar hefðar byggir á þýðingum á heilögum textum búddisma sem gerðar voru eftir kínverskum textum. Þessir textar höfðu verið þýddir yfir á kínversku úr sanskrít og samkvæmt öðrum búddistum hafði allmikið skolast til á þessu þýðingarferli. Hinar meginhefðir tíbetsk búddisma, kayu, sakya og geluk, byggja á seinni þýðingum beint úr frumritunum á sanskrít. Áberandi munur á hinum mismunandi hefðum er að geluk-munkarnir bera gulan höfuðbúnað og hinir rauða. Dalai Lama tilheyrir geluk-reglunni og er einnig allmennt talinn yfirmaður tíbetsk búddisma. Hann var einnig yfirmaður tíbetsku ríkisstjórnarinnar frá byrjun 17. aldar. Núverandi Dalai Lama, Tenzin Gyatso, er sá fjórtándi í röðinni og eru þeir allir taldir vera endurholdganir indverska bodhisattvasans Avalokiteshvara. Ólympíuleikvangurinn í Berlín. Ólympíuleikvangurinn í Berlín. Austurhlið og aðalinngangur. Ólympíuleikvangurinn í Berlín var reistur í tilefni Ólympíuleikana þar í borg 1936. Hann er enn í fullri notkun í dag, bæði fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Leikvangurinn er jafnframt heimavöllur Hertha Berlin. Byggingasaga. Strax árið 1933 var ákveðið að reisa myndarlegan Ólympíuleikvang, þar sem Berlín var gestgjafi leikanna 1936. Í fyrstu töldu menn að hægt væri að nota eldri leikvang frá 1916, sem reistur var fyrir Ólympíuleikana þá. Þeir féllu hins vegar niður sökum heimstyrjaldarinnar fyrri. En Hitler vildi fá nýjan leikvang nær miðborginni. Framkvæmdir hófust 1934. Leikvangurinn er að hluta grafinn í jörðu, þannig að sjáanlegi hlutinn að utan sýnist frekar lítill. Hann var formlega opnaður samfara opnunarhátíð Ólympíuleikana 1936. Leikarnir. Hitler mættur á Ólympíuleikana 1936 49 ríki sendu íþróttamenn á leikana. Þetta var metfjöldi þá, þrátt fyrir efasemdir manna í ýmsum löndum um að leikarnir gætu farið fram með sanngjörnum hætti í höfuðborg Hitlers. Ísland var einnig þátttakandi og sendi tólf íþróttamenn. Einn fremsti íþróttamaður leikanna var Bandaríkjamaðurinn Jesse Owens en hann vann fjögur gullverðlaun á leikunum í Berlín, sá fyrsti í sögunni sem afrekaði það. Þjóðverjar unnu þó flest gullverðlaun eða 33 alls. Eftirstríðsárin. Ólympíuleikvangurinn skemmdist lítið í stríðinu. 1963 byrjaði knattspyrnufélagið Hertha Berlin að leika heimaleiki sína þar og hefur gert það síðan, með nokkrum hléum þó meðan félagið lék í neðri deildum. Fyrir HM í knattspyrnu 1974 var leikvanginum breytt lítilsháttar. Meðal annars voru stór skyggni sett á báðar langhliðar. Þó fóru aðeins þrír leikir fram á vellinum. 2000-2004 fóru fram viðamiklar breytingar á leikvanginum. Meðal annars fékk hann nýtt þak allan hringinn í kring. Aðeins miðjan stendur opin. Þá var spilað á vellinum í HM í knattspyrnu 2006. Úrslitaleikurinn fór fram þar. Nýting. Ólympíuleikvangurinn er einn glæsilegasti leikvangur í Þýskalandi. Horfti til vesturs í átt að Glockenturm. Samvinnustofnun Sjanghæ. Samvinnustofnun Sjanghæ eru alþjóðasamtök sem stofnuð voru í Sjanghæ þann 15. júní árið 2001. Aðildarríki samtakana eru 6: Alþýðulýðveldið Kína, Kasakstan, Kirgistan, Rússland, Tadsjikistan og Úsbekistan. Markmið samtakana er að efla almennt samstarf aðildarríkjanna m.a. á sviði stjórn- efnahags- og öryggismála. Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche. Nýja kirkjan, kirkjuturninn og rústir gömlu kirkjunnar mynduðu helsta kennileiti Vestur-Berlínar síðustu áratugi Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche eru kirkjurústir við upp Kurfürstendamm í miðborg Vestur-Berlínar. Hún var hæsta bygging borgarinnar þegar hún eyðilagðist í loftárásum seinni heimstyrjaldarinnar. Í dag er hún minnisvarði um hörmungar stríðsins og var síðustu áratugina eitt helsta kennileiti Vestur-Berlínar, ásamt nýju kirkjunni og kirkjuturni hennar. Saga kirkjunnar. Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche í kringum árið 1900 Mósaíkmynd af keisarafjölskyldunni í minningasalnum Byggingasaga. Kaiser-Wilhelm kirkjan var reist til minningar um keisarann Vilhjálm, en hann var nýlátin þegar framkvæmdir hófust. Fyrsta skóflustungan var tekin 22. mars 1891, á afmælisdegi Vilhjálms keisara. Kirkjan var svo vígð 1895. Hún þótti mikilfenglegt mannvirki í nýrómönskum stíl. Kirkjan var með 5 turna, þar af var vesturturninn langhæstur. Hann var 113 metra hár en þar með var kirkjan hæsta bygging Berlínar á þessum tíma. Í kirkjunni voru þó nokkrar mósaíkmyndir. Í anddyrinu til dæmis voru tvennar mósaíkseríur gegnt hvor annarri. Ein þeirra sýndi atriði úr ævi Vilhjálms keisara, en hin semur úr þýsk-franska stríðinu 1870-1871. Klukkurnar í turninum voru þær næststærstu í Þýskalandi. Aðeins klukkurnar í dómkirkjunni í Köln voru stærri. Þær sköpuðu svo mikinn hávaða að úlfarnir í dýragarðinum Zoologischer Garten í nágrenninu fóru að væla í hvert sinn sem þær hringdu. Þegar leið á heimstyrjöldina síðari, varð skortur á málmi fyrir stríðsiðnaðinn. Því voru klukkurnar teknar niður og bræddar í þágu stríðsins. Eyðilegging. 23. nóvember 1943 varð kirkjan fyrir sprengjuregni í loftárásum. Þak kirkjuskipsins hrundi og kirkjan öll brann til kaldra kola. Þak stóra turnsins brotnaði og hrundi niður. Stjórnvöld í Berlín lofuðu að kirkjan yrði endurreist í fyrri dýrð. En ekkert varð úr því. Þjóðverjar töpuðu stríðinu og hernámsveldin höfðu ekki áhuga á að endurreisa kirkjuna. Hún stóð óhreyfð sem rústir í rúman áratug. 1956 voru rústir kirkjuskipsins rifnar niður, ásamt minni turnunum, þar sem mikil hætta var á hruni. Aðeins rústir aðalturnsins fengu að standa eftir. Turninn var þá aðeins 68 metra hár stubbur. Minningarkirkjan. 1959 var turnklukkan í rústunum lagfærð og gangsett. Vísarnir eru lýstir upp með neonljósum. 1987, á 750 ára afmæli Berlínar, var salnum undir turninum breytt í minningasal um stríðið. Einn af sýningagripunum er kross sem gerður er úr þremur málmnöglum. Þeir eru upprunnir úr dómkirkjunni í Coventry en Þjóðverjar nær gjöreyðilögðu þá borg í stríðinu. Krossinn á að vera til tákns um sættir milli Þýskalands og Englands. Minningasalurinn er opinn almenningi. Nýja kirkjan. 1959 var byrjað á því að reisa nýja kirkju við hliðina á gamla turninum. Kirkjan er lág ferningslaga bygging, en við hliðina var hár klukkuturn reistur í sama stíl. Einkenni nýju kirkjunnar og klukkuturnsins eru hinar dökkbláu glerrúður, en þær eru alls um 20 þúsund talsins. Byggingarnar þrjár, nýja kirkjan, klukkuturninn og rústir Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche standa saman í hnapp og eru friðaðar. Saman mynduðu þær helsta kennileiti Vestur-Berlínar síðustu áratugi. In Flames. In Flames er sænsk melodic death metal hljómsveit stofnuð árið 1990. Hún hefur gefið út plöturnar Lunar Strain, The Jester Race, Whoracle, Colony, Clayman, Reroute to Remain, Soundtrack to your Escape, Come Clarity og Sense of Purpose. Pýrít. Pýrít (brennisteinskís) tilheyrir flokki málmsteina steind, Lýsing. Myndar tengingslaga, gulleita og oftast nær smá kristala. Ferskir kristalfletir þess glóa sem gull en við veðrun slær á þá gulum og rauðgulum litbrigðum. Pýriti hefur oft verið ruglað saman við gull en pýrít er mun harðara og teningslaga kornin skera auðveldlega úr um það að ekki er um gull að ræða. Útbreiðsla. "Pýrít" er algeng á Íslandi og finnst í hitasoðnu bergi í fornum megineldstöðvum. Finnst einnig í berggöngum og er algeng við hveri á háhitasvæðum. Listi yfir formenn og varaformenn Sjálfstæðisflokksins. Eftirfarandi er tæmandi listi yfir formenn og varaformenn Sjálfstæðisflokksins. Kjörfylgi. Kjörfylgi er það fylgi, þ.e. atkvæðamagn sem frambjóðandi eða stjórnmálaflokkur hlýtur í kosningu. Kjörfylgi er mælt í fjölda atkvæða eða í hlutfalli atkvæða. Charlottenburg-kastali. Charlottenburg-kastali er stærsti kastalinn sem enn stendur í Berlín. Hann er safn í dag. Upphaf. Það var Sophie Charlotte, eiginkona kjörfustans Friðriks III (seinna Friðrik I Prússakonungur), sem lét reisa kastalann. Hún hafði fengið gefins þorpið Lietze, sem var nokkra km fyrir vestan Berlín (en er í núverandi borgarhluta Charlottenburg). Kastalinn var í byggingu 1696-1699 og vígður 11. júní það ár. Hann fékk heitið "Lietzenburgkastali" ("Schloss Lietzenburg") eftir þorpinu. Sophie Charlotte dvaldi þó ekki lengi í honum, því hún lést 1705, þá aðeins 37 ára gömul. Kastalinn var þá í stækkun. Við dauða Sophie Charlotte var heiti kastalans breytt í Charlottenburg, henni til heiðurs. Aðsetur konunga og keisara. 1740 varð Friðrik II konungur Prússlands. Hann tók mikið dálæti á Charlottenburg-kastala og gerði hann að aðsetri sínu. Áhugi hans dvínaði samt mjög er Sanssouci-kastalinn í Potsdam var vígður. Þá flutti hann þangað. Eftir það var kastalinn lítil notaður af kóngafólkinu. Þó flutti Friðrik III í kastalann þegar hann varð keisari. Hann lifði þó eftir þetta aðeins í 99 daga. Hann var eini keisarinn sem bjó í kastalanum. Kastalinn í dag. Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri var hluti kastalans notaður sem hersjúkrahús. En í heimstyrjöldinni síðari skemmdist hann talsvert í loftárásum. Fljótlega var þó hafist handa við að gera kastalann upp. Árið 1960 var hann gerður að safni. Þar er til sýnis heimili Friðriks II, krúnudjásn Friðriks I og eiginkonu hans Sophie Charlotte, postulínssafn og málverkasafn. Auk þess stendur til að setja Hohenzollernsafið í kastalann. 2004-2006 bjó forseti Þýskalands í kastalanum meðan aðsetur hans, Bellevue-kastalinn, var gerður upp. Bernsteinsalurinn. Eftirmynd af hinum ægifagra Bernsteinsal Hinn undurfagri Bernsteinsalur var upphaflega smíðaður fyrir Charlottenburg-kastala. Hér er um raf að ræða, það er steingerða trjákvoðu sem Þjóðverjar kalla "Bernstein". En sökum þess að Sophie Charlotte lést áður en vinnunni lauk, var Bernsteinsalurinn þess í stað settur upp í "Miðborgarkastalanum" ("Berliner Stadtschloss"). Fegurðin var slík að salurinn var kallaður 8. heimsundrið. Friðrik Vilhjálmur I gaf Pétri mikla salinn 1716, sem flutti hann til Rússlands. Kastalagarðurinn. Grafhýsi Sophie Charlotte í kastalagarðinum Kastalagarðurinn var lagður 1697 samfara byggingu kastalans. Hann er gríðarlega stór og voru reistar í honum nokkur hús, svo sem veiðihús, teehús og fleira. Norðurendi garðsins afmarkaðist af ánni Spree en þaðan var hægt að sigla til Berlínar. Friðrik II konungur lét breyta garðinum í fagran garð í rókókóstíl. Í garðinum er einnig grafhýsi fyrir Luisu drottningu, eiginkonu Friðriks Vilhjálms. Kastalagarðurinn er almenningsgarður í dag. Wikileaks. Wikileaks eru formlaus, alþjóðleg samtök af sænsku bergi brotin. Samtökin birta greinar sem eru sendar inn nafnlaust og leka á internetið viðkvæmum upplýsingum frá ríkisstjórnum, fyrirtækjum og öðrum samtökum. Wikileaks slær skjaldborg um nafnleysi heimildamanna sinna og gæta þess að þeir séu órekjanlegir í hvívetna. Samtökin hafa ljóstrað upp að þau hafi verið stofnuð af óánægðum Kínverjum, ásamt fjölmiðlamönnum, stærðfræðingum og tæknimönnum sprotafyrirtækja frá BNA, Taívan, Evrópu, Ástralíu, og Suður Afríku. Vefsíða samtakanna var sett á laggirnar árið 2006 og er rekin af The Sunshine Press. Greinar í dagblöðum og tímaritinu The New Yorker (7. júní 2010) nefna ástralska fjölmiðlamanninn Julian Assange stjórnanda þess. Innan við ári frá stofnun síðunnar var greint frá því að gagnagrunnur hennar hefði stækkað upp í 1,2 milljón skjala. Meðal birtinga Wikileaks er "The collateral murder" einna mest áberandi. Þeir hafa unnið slatta af fréttamiðla verðlaunum fyrir fréttaskýringar sínar. Saga. Julian Assange, æðsti ritsjóri, 2006" Wikileaks varð opinbert í janúar 2007, þegar það birtist fyrst á vefnum. Síðan sjálf greinir frá því að hún hafi verið „stofnuð af kínverskum andófsmönnum, fréttamönnum, stærðfræðingum og tæknimönnum sprotafyrirtækja, frá Bandaríkjunum, Taívan, Evrópu, Ástralíu og Suður Afríku". Höfundar Wikileaks voru ónafngreindir í janúar 2007, þó að síðar hafi þeir verið uppljóstraðir af ónafnlausum aðilum eins og Julian Assange sem lýsti sér sem meðlim ráðgjafarstjórnar Wikileaks. Hann var síðar nefndur sem stofnandi Wikileaks. Þetta breyttist í júní 2009 þegar að síðan sagði ráðgjafa stjórn sína samanstanda af "Assange", "Phillip Adams", "Wang Dan", "CJ Hinke", "Ben Laurie", "Tashi Namgyal Khamsitsang", "Xiao Qiang", "Chico Whitaker", og "Wang Youcai". Á sama tíma var síðan komin með yfir 1.200 skráða sjálfboðaliða. Samkvæmt Mother Jones tímaritinu árið 2010, sagði Khamsitsang að hann hafi aldrei samþykkt að vera ráðgjafi. Wikileaks segja að þeirra „aðaláhugasvið er að opinbera bælandi stjórnarfar í Asíu, fyrrum Sovétríkjunum, sunnanverðri Afríku og í Miðausturlöndunum, en við viljum líka komast til móts við fólk annars staðar frá sem vilja greina frá siðlausu hátterni ríkisstjórna þeirra og fyrirtækja." Í janúar 2007, greindi vefsíðan frá því að hún innihéldi yfir 1,2 milljón skjölum sem höfðu lekið og var að undirbúa birtingu þeirra. Skjölin voru fengin með því að keyra Tor útgöngupunkt og njósna um notendaumferð, aðallega kínverskra hakkara. Hópurinn hefur síðan þá birt fleiri marktæk skjöl sem hafa orðið forsíðuefni fréttamiðla, alveg frá útgjöldum búnaðar og það sem hefur verið gert upptækt í stríðinu í Afganistan til spillingar í Kenýa. Þeirra opinbera markmið er að tryggja það að uppljóstrarar og fréttamenn verði ekki settir í fangelsi fyrir að senda netpóst sem inniheldur viðkvæm eða trúnaðarupplýsingar, eins og gerðist fyrir kínverska fréttamanninn "Shi Tao", sem var dæmdur í 10 ára fangelsi árið 2005 eftir að hafa gert opinber email frá kínverskum stjórnvöldum um afmælið á Tiananmen Square slátruninni. Verkefnið hefur fengið á sig líkingar við leka "Daniel Ellsberg" um ákvarðanatöku Pentagon í Víetnamstríðinu, árið 1971. Í Bandaríkjunum má vernda suma skjalaleka með lögum. Hæstiréttur Bandaríkjana segir að Bandaríska stjórnarskráin tryggi nafnleysi, a.m.k. í pólitískri umræðu. Rithöfundurinn og blaðamaðurinn "Whitley Strieber" hefur talað um hvaða hag sé hægt að hafa af Wikileaks verkefninu, með tilliti til þess að „að leka ríkisskjölum getur sett mann í fangelsi, en fangelsisdómar fyrir þannig mál geta verið nokkuð stuttir. Sums staðar hinsvegar getur fólk endað lengi í fangelsi eða jafnvel verið leitt til dauða, t.d. í Kína, á ákveðnum stöðum í Afríku og Miðausturlöndunum." Síðan hefur unnið fjölda verðlauna, þar má nefna New Media verðlaunin frá tímaritinu Economist árið 2008 og í júní 2009, unnu Wikileaks og Julian Assange bresk verðlaun Amnesty International fyrir birtingu greinarinnar "Kenya: The Cry of Blood - Extra Judicial Killings and Disappearances" á árinu 2008, skýrsla eftir alþjóðanefnd Kenýa um mannréttindi um morð sem lögreglan framdi í "Kenýa". Í maí 2010 var hún kosin í 1. sæti af „síðum sem myndu algjörlega breyta fréttum“. Óvirkt, fjáraflanir. 24. desember 2009 tilkynnti Wikileaks að það skorti styrki og frysti allan aðgang að heimasíðu þess fyrir utan ákveðið eyðublað til að senda inn nýtt efni. Efni sem hafði áður verið birt var ekki lengur opið. þó að sumir hefðu enn aðgang með óopinberum speglum. Wikileaks sagði á vefsíðu sinni að það myndi halda áfram fullri starfsemi um leið og kostnaðurinn fyrir því hefði verið afgreiddur. Wikileaks tók þessu sem eins konar árás "til að tryggja að allir sem tengjast síðunni hætti venjulegu starfi og þurfi að eyða tíma í að safna tekjum". Í byrjun var vonast til þess að nóg af fé myndi safnast fyrir 6. janúar 2010, en það var ekki fyrr en 3. febrúar 2010 sem WikiLeaks tilkynnti að það hafði safnað lágmarksfjáröflunarupphæð sinni. 22. janúar 2010, frestaði PayPal framlögum til Wikileaks og frysti eignir þess. Wikileaks sagði að þetta hefði gerst áður, og hafði verið gert að "engri augljósri ástæðu". Reikningurinn var enduropnaður 25. janúar 2010. 18. maí 2010 gaf WikiLeaks það út að heimasíða þess og skjalasöfn væru komin aftur í gagnið. Hins vegar hefur það ekki haldið áfram að birta lekin skjöl síðan í júní 2010. Frá og með júní 2010 var Wikileaks eftir í úrslitum með að fá hálfs milljón dala styrk frá John S. and James L. Knight Foundation, en náðu ekki í hann á endanum. Wikileaks gerði athugasemd um málið, "Wikileaks var með hæstu einkunn í Knight áskoruninni, nefndin mældi sterklega með þeim en fengu enga styrki. Maður hefði mátt vita”. Wikileaks sagðis að Knight stofnunin hefði deilt út verðlaununum til "12 verðlaunahafa sem munu hafa áhrif á framtíð fréttanna - en ekki Wikileaks" og efaðist um að Knight stofnunin væri "í raun að leita að áhrifum". Talsmaður Knight stofnunarinnar hundsaði parta af yfirlýsingu Wikileaks og sagði að "Wikileaks hefði ekki fengið meðmæli frá nefndarmönnun Knights stofnunarinnar." En hins vegar neitaði hann að segja hvort að Wikileaks hefði verið verkefnið með hæstu einkunn ráðgjafahers Knight stofnunarinnar, sem samanstendur af fólki sem vinnur ekki þar, þar á meðal fréttamaðurinn "Jennifer 8. Lee", sem hafði unnið að almannatengslum fyrir Wikileaks við fjölmiðla og á félagssamskiptasíðum. Bakgrunnur. Samkvæmt viðtali sem var tekið í janúar 2010 samanstóð Wikileaks "liðið" af 5 manneskjum í fullu starfi og u.þ.b. 800 manns í hlutastarfi og engum þeirra var bætt. Wikileaks er ekki með neinar opinberar höfuðstöðvar. Árskostnaður er um €200,000, aðallega fyrir gagnaþjónustu og skriffinnsku, en kostnaðurinn færi upp í €600,000 ef núverandi sjálboðavinna væri launuð. Wikileaks borgar ekki fyrir lögfræðinga, þar sem hundruð þúsundir dala fara í lagalegan stuðning sem hafa komið frá fréttamiðlum svo sem Associated Press, The Los Angeles Times, og National Newspaper Publishers Association. Einu tekjustraumar þess eru fjárframlög, en Wikileaks er að skipuleggja að bæta við uppboðsmódeli til að selja snemmbúinn aðgang að skjölum. Tækni. Á heimasíðu Wikileaks stóð upprunalega: "Fyrir notandanum mun Wikileaks líta út mjög líkt og Wikipedia. Hver sem er getur sent inn efni, hver sem er getur breytt því. Engrar tæknikunnáttu er þarfnast. uppljóstrarar geta sett inn skjöl nafnlaust og órekjanlega. Notendur geta rætt um skjölin opinberlega og greint áreiðanleika þeirra og trúverðugleika. Notendur geta rætt þýðingar og efni og sameiginlega myndað söfn birtra skjala. Þeir geta lesið og skrifað skýringagreinar á lekum ásamt bakgrunnsefni og samhengi. Pólitísk gildi skjala og sannleiksgildi þeirra verða gerð þúsundum ljós." Hins vegar stofnaði WikiLeaks til ritsjórastefnu sem samþykkti aðeins skjöl sem voru af "pólitískum, diplómatískum, sögulegum eða siðferðilegum toga". Þetta passaði við fyrri gagnrýni um það að hafa enga ritstefnu myndi hrinda frá sér góðu efni með amapósti og and stuðla að "sjálfvirkum eða ófyrirsjáanlegum birtingum á trúnaðarupplýsingum." Það er ekki lengur hægt fyrir hvern sem er að senda inn eða breyta innhaldi síðunnar, eins og upprunalega "algengar spurningar" síðan sagði til um. Þess í stað er farið yfir innsendingar af innra eftirliti og sumar þeirra eru birtar, á meðan skjöl sem passa ekki ritstefnunni er neitað af nafnlausum Wikileaks gagnrýnendum. Árið 2008 sagði yfirfarna "algengar spurningar" síðan að "allir gætu sett inn athugasmedir. [...] Notendur geta rætt málefnin opinberlega og greint trúverðuleika þeirra og sannleiksgildi." Eftir að vefurinn var settur upp að nýju, 2010, var ekki lengur mögulegt að tjá sig um einstaka leka síðunnar. Wikileaks er byggt á nokkrum hugbúnaðarpökkum, þar með talin MediaWiki, Freenet, Tor, og Pretty Good Privacy. Wikileaks mælir sterklega með að efni sé sent inn með Tor vegna næðisins sem notendur þess þarfnast. Geymsla, aðgangur og öryggi. Wikileaks lýsir sjálfri sér sem “óritskoðanlegu kerfi fyrir órekjanlega stórleka á skjölum”. Wikileaks er hýst hjá PRQ, fyrirtæki í Svíþjóð sem veitir "mjög örugga, engra spurninga hýsiþjónustu." PRQ er sagt hafa “nær engar upplýsingar um viðskiptavini sína og viðheldur fáum, ef einhverjum, af eigin gagnaþjónustu.” PRQ er í eigu Gottfrid Svartholm og Fredrik Neij sem, í gegnum þátttöku sína við síðuna The Pirate Bay, hafa töluverða þekkingu í hvernig á að fást við lögsóknir frá yfirvöldum. Þar sem Wikileaks er hýst hjá PRQ reynist það erfitt að ná því niður. Og það sem meira er "Wikileaks heldur uppi sínum eigin gagnaþjónum á ótilgreindum staðsetningum, heldur engar dagbækur og notar dulritun á hernaðarstigi til að vernda uppruna upplýsinga sinna og annarra trúnaðarupplýsinga". Þess háttar fyrirkomulög hafa verið kölluð "skotheld hýsing". Lögregla réðst inn á heimili eiganda þýska Wikileaks lénsins. Gerð var húsleit á heimili Theodore Reppe eiganda þýska Wikileaks lénsins Wikileaks.de 24. mars 2009 eftir að WikiLeaks birti svartan lista Austurrísku fjölmiðlastofunnar. Engin áhrif urðu á vefsíðuna vegna þessa. Kínversk ritskoðun. Um þessar mundir reyna kínversk stjórnvöld að ritskoða allar síður með orðinu "wikileaks" í veffanginu, þar með talinn aðal .org síðan og svæðisbundnar útgáfur .cn og .uk. Hins vegar er enn aðgengi að síðunni aftan frá kínverskum eldveggjum í gegnum önnur nöfn verkefnisins eins og t.d. "secure.sunshinepress.org". Varasíðurnar breytast reglulega, og Wikileaks hvetur notendur til að leita að "dulnefnum wikileaks" fyrir utan meginland Kína til að finna nýjustu varanöfnin. Meginlandsleitarvélar á borð við Baidu og Yahoo, ritskoða einnig tilvísanir í "wikileaks". Áreitni og eftirlit. Samvkæmt The Times, hafa Wikileaks og meðlimir þess verið fórnarlömb stanslausrar áreitni og löggæslueftirlits og upplýsingastofnanir ásamt lengdu gæsluvarðhaldi, tölvur gerðar upptækar, dulbúnar hótanir, "leynileg eftirför og ljósmyndun." Eftir að loftárásin í Bagdad var birt og þeir undirbjuggu að birta kvikmyndina af Granai loftárásinni, sagði Julian Assange að sjálboðaliðahópur hans höfðu verið undir mjög ströngu eftirliti. Í viðtali og í Twitter uppfærslu sagði hann að á veitingastað í Reykjavík þar sem sjálfboðaliðahópur hans hittust hefðu verið undir eftirliti í mars; þeim var veitt „leynileg eftirför og leyndar myndatökur“ sem lögreglan tók og erlendar leynilögreglusþjónustur; að breskur leynilögreglufulltrúi hafi veit veiklulegar tilraunir til hótana í bílagarði í Lúxemborg; og að einn af sjálfboðaliðunum hafi setið gæsluvarðhald í 21 klukkustund. Annars sjálfboðaliði greindi frá því að tölvur hefðu verið gerðar upptækar, með skilaboðunum „af eitthvað gerist fyrir okkur, þá veistu af hverju... og þú veist hver er ábyrgur.“ Wikileaks hefur sagt að Facebook hafi eytt aðdáendasíðu sinni þar, sem innihélt 30.000 aðdáendur. Staðfestingar á innsendingum. WikiLeaks lýsir því yfir að það hafi aldrei látið frá sér villandi eða misvísandi skjal. Öll skjöl eru metin fyrir birtingu. Til að fyrirbyggja falsaða eða villandi leka segir Wikileaks að lekar sem eiga sér ekki grunn "séu þegar á hinum almenna fréttamarkaði. Wikileaks hjálpar engum þar." Samkvæmt "almennum spurningum" er: "Einfaldasta og árangursríkasta mótvægið er hnattrænt samfélag með upplýstum notendum og ritstjórum sem geta sett út á og rætt lekin skjöl." Samkvæmt yfirlýsingum frá Assange árið 2010, eru innsend skjöl eru yfirfarin af 5 aðilum sem eru sérfræðingar á mismunandi sviðum eins og tungumálum eða forritun, þeir rannsaka einnig bakgrunn sendandans séu persónuupplýsingar hans þekktar. Í þeim hópi hefur Assange oddaatkvæði um mat skjals. Sómalskar morðskipanir. Fyrsti leki Wikileaks varð í desember 2006, sem greindi frá ákvörðun um að myrða embættismenn í Sómalíu. Ákvörðunin var gerð af Hassan Dahir Aweys, sem er leiðtogi andspyrnusamtakana Islamic Courts Union, í Sómalíu. Julius Baer bankinn lögsækir Wikileaks. Wikileaks var lagt niður vegna málsóknar Julius Baer bankans í Sviss. Bankinn gangrýndi leka Wikileaks á gögnum bankans sem sýndu fram á ólögleg athæfi bankans á Caymaneyjum. Wikileaks notaði á þessum tíma netþjónustu Dynadot í Bandaríkjunum og lögsóknin náði bæði yfir netþjónustuna og Wikileaks. Tilskipunin var ógild í kjölfarið og bankanum Julius Baer var meinað að banna birtingar Wikileaks. Skýrsla bandarísku leyniþjónustunnar um Wikileaks. 15. mars 2010 setti Wikileaks skýrslu um sjálft sig á vef sinn. Uppruni skýrslunnar er frá bandarísku leyniþjónustunni og hún skýrir frá hvernig Bandaríkin geti losnað við Wikileaks. Skoðaður var möguleikinn að segja uppljóstrunum upp og kæra fyrir glæpsamleg athæfi. Ástæða gerð skýrslunar að hálfu Bandarísku leyniþjónustunnar eru lekar Wikileaks um eyðslu bandaríska hersins, mannréttindarbrot í Guantanamo flóa og bardaginn í íranska bænum Fallujah. Leikhúsið að Möðruvöllum. Leikhúsið að Möðruvöllum í Hörgárdal er félags- og safnaðarheimili í eigu Amtmannsetursins á Möðruvöllum. Leikhúsið er á jarðamörkum Möðruvalla I (í eigu Prestsetrasjóðs) og Möðruvalla II (í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands). Samkvæmt landskrá Fasteignamats ríkisins er byggingaár Leikhússins 1880, en líklega er það byggt aðeins seinna. Húsið er um 120 fermetrar á tveimur hæðum. Saga. Árið 1880 var stofnaður gagnfræðaskóli á Möðruvöllum, sem var undanfari Menntaskólans á Akureyri. Á tímum skólans bjuggu á Möðruvöllum margir merkismenn sem unnu mikilvægt brautryðjendastarf í skólamálum og á sviði náttúruvísinda. Möðruvallaskóli var þó einungis starfræktur í 22 ár því þegar skólahúsið brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Einu sýnilegu minjar skólans sem eftir eru á Möðruvöllum er s.k. Leikhús sem var byggt sem leikfimihús og pakkhús. Endurgerð hússins. Framkvæmdir við að bjarga húsinu frá eyðileggingu hófust 1992 en lágu síðan nánast niðri þar til vorið 2002, þegar ákveðið var að hefja aftur endurbyggingu. Því verki lauk að mestu sumarið 2007. Framkvæmdin hefur verið á höndum Amtmannssetursins á Möðruvöllum en það er sjálfseignarstofnun sem sett á fót 1. mars 2006 í þeim tilgangi að endurreisa merkar byggingar á Möðruvöllum í Hörgárdal. Jafnframt er Amtmannsetrinu ætlað að koma á framfæri sögu staðarins á lifandi hátt með því að skapa aðlaðandi og frjótt umhverfi fyrir skóla, námsfólk og ferðamenn sem áhuga hafa á stjórnmála-, menningar- og kirkjusögu, náttúruvísindum og landbúnaði. Það eru Arnarneshreppur, Landbúnaðarháskóli Íslands, Húsafriðunarsjóður, Sóknarnefnd Möðruvallaklausturskirkju, Menningarsjóður KEA og Menntaskólinn á Akureyri sem hafa fram að þessu kostað endurgerð og uppbyggingu Leikhússins. Notkun í dag. Leikhúsið er í dag félags- og safnaðarheimili sem rekið er af Amtmannsetrinu á Möðruvöllum. Í framtíðinni er því ætlað að vera gestamóttaka fyrir ferðamenn og minjasafn um Möðruvallaskóla. Fyrirhugað er að koma þar fyrir munum sem tengjast Möðruvallaskóla (gamlar ljósmyndir, ýmis rit og handverk). Á efri hæð hússins er góð fundaraðstaða fyrir smærri fundi sem ýmsir í byggðarlaginu nýta sér. Seinna mun hluti starfseminnar verða fluttur í sérstakt þjónustuhús sem stendur nálægt Leikhúsinu. Útvegsspilið. Útvegsspilið er íslenskt borðspil sem gengur út á að kaupa fiskiskip og gera þau út á Íslandsmiðum, safna peningum og bæta síðan smám saman við skipaflotann. Spilið hefur engan eiginlegan endi en leikmenn gera upp eignir sínar og fjármuni þegar þeir vilja hætta að spila. Haukur Halldórsson, myndlistarmaður, hannaði spilið sem kom út árið 1977 og naut töluverðra vinsælda. Spandau. Spandau er fjórði stærsti borgarhluti Berlínar með tæpa 92 km² og er jafnframt sá vestasti. Þar búa 228 þúsund manns (2011) og er hann því þriðji fámennasti borgarhluti Berlínar. Spandau var eigin borg allt til 1920, er hún var innlimuð Berlín. Lega. Spandau er vestasti borgarhluti Berlínar. Hann afmarkast af þremur öðrum borgarhlutum. Fyrir norðaustan er Reinickendorf, fyrir austan er Charlottendorf-Wilmersdorf og fyrir suðaustan er Steglitz-Zehlendorf. Auk þess er sambandsríkið Brandenborg meðfram allri vesturhlið Spandau. Meðfram landamerkjum Spandau og Brandenborgar lá Berlínarmúrinn fyrrum. Lýsing. Spandau er nokkuð ílangur borgarhluti og liggur í norður-suður stefnu. Áin Havel rennur frá norðri til suðurs í gegnum gjörvallt Spandau. Norðarlega er samflæði Spree og Havel, en þar var borgin Spandau upphaflega stofnuð. Fjölmörg stöðuvötn eru í borgarhlutanum og nær helmingur svæðisins er þakið skógi. Alls eru níu hverfi í Spandau: Hakenfelde, Falkenhagener Feld, Spandau (miðborg), Haselhorst, Siemensstadt, Staaken, Wilhelmstadt, Gatow og Kladow. Orðsifjar. Spandau myndaðist í kringum borgarvirki sem kallaðist "Spandow". Nafnið er slavneskt að uppruna. 1878 var rithættinum breytt úr "Spandow" í "Spandau". Saga Spandau. Frímerki af Spandau. Borgin er til vinstri, til hægri er virkið Zitadelle. Borgin Spandau. Albrecht der Bär (Albrecht björn) úr Askanier-ættinni hóf landnám á svæði slava og stofnaði markgreifadæmið Brandenborg 1157. Í framhaldi af því reisti hann virki, sem seinna kallaðist Spandow. Í kringum virkið myndaðist þýskur bær. Af skjölum má ráða að Spandow hafi fengið borgarréttindi í kringum 1232. Árið 1539 tók kjörfurstinn Jóakim II siðaskiptum í Sankti Nikulásarkirkju í miðborg Spandow. Við það urðu siðaskipti í furstadæminu öllu. Með iðnbyltingunni óx Spandow verulega. 1846 fékk borgin járnbrautartengingu á línunni Hamborg - Berlín. 1878 var ritháttur borgarinnar breytt úr Spandow í Spandau. 1897 fluttu Siemens-verksmiðjurnar starfsemi sína til Spandau. Þær framleiddu til að byrja með fjarskiptatæki og alls konar raftæki. Í kjölfarið myndaðist hverfið "Siemensstadt" sem vinnubúðir fyrir starfsfólk, en verksmiðjurnar voru langfjölmennasti vinnustaður Spandau. Árið 2008 störfuðu 430 þúsund manns í fyrirtækinu í 190 löndum. Í heimstyrjöldinni fyrri risu stórar vopnaverksmiðjur í Spandau. Spandau sem hluti Berlínar. Árið 1920 var gerð viðamikil breyting á skipulagi sveitarfélaga í kringum Berlín. Mýmargir bæir og nokkrar borgir voru innlimaðar í stórborgina. Spandau var ein borganna sem var innlimuð og varð nú að borgarhluta Berlínar. Í heimstyrjöldinni síðari skemmdist Spandau minna í loftárásum en mörg önnur borgarhverfi, þar sem það var í útjaðri borgarinnar. Því eru nokkur hverfi þar enn eins og þau voru fyrr á öldum, svo sem Kolk. Við uppgjöf Þjóðverja í stríðinu varð Spandau hluti af breska hernámssvæðinu. Bretar starfræktu stríðsglæpafangelsi við "Wilhelmstrasse", þar sem sjö stríðsglæpamenn úr Nürnberg-réttarhöldunum voru vistaðir. 1966 var Rudolf Hess eini fanginn eftir í fangelsinu. Hann lést 1987 og var fangelsið þá rifið. 1990 var Berlínarmúrinn rifinn sem aðskildi Spandau frá Brandenborg. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Spandau sýnir tvo rauða virkisturna, sem tákna borgina Spandau. Vatnið á milli þeirra er áin Havel. Skjöldurinn með erninum fyrir miðju er merki furstadæmisins Brandenborgar, sem Spandau tilheyrði áður fyrr. Fyrir ofan er hjálmur frá Brandenborg. Efri hlutinn (turnarnir og bjarnarmerkið) tákna Berlín en Spandau var innlimað í Berlín 1920. Neðri hluti merkisins birtist fyrst 1289 en núverandi skjaldarmerki var samþykkt 1957. Áhugaverðir staðir. Virkið Zitadelle er þekktasta bygging Spandau Þekktasta byggingin í Spandau er virkið Zitadelle. Það er eitt best varðveitta virki Evrópu úr endurreisnartímanum. Það er frá 16. öld. Virkið stóðst áhlaup Svía á 17. öld, en mátti sín lítils gegn Frökkum á 19. öld. Napoleon hertók virkið 1806. Það er safn í dag. Gamla hverfið Kolk skammt frá miðborg Spandau er með íbúðarhúsum frá 18. öld. Sankti Nikulásarkirkjan í göngugötunni er frá 14. öld. Markvert. Enska popphljómsveitin Spandau Ballet valdi sér þetta heiti eftir heimsókn til Spandau. Lama. Mynd af núverandi Dalai lama sem ungum dreng Lama (tíbeska: བླ་མ་) er trúarlegur titill sem er gefinn kennimeisturum og andlegum fyrirmyndum í tíbetskum búddisma jafnt munkum sem nunnum. Þessi titill samsvarar sanskrítartitlinum "gúru". Trúarhefð tíbetskra búddista kennir meðal annars að lamar séu endurfæddir boddhisattvar og hafi þeir snúið aftur til jarðlífs til að auðvelda öðrum að ná nirvana. Þannig hafa fjölmargar lama-ættir skapast í Tíbet þar sem laman endurfæðist í fjölmargar kynslóðir. Þannig er til dæmis með Dalai Lama, æðsta leiðtoga tíbetskra búddista og Panchen Lama, sem er sá næst æðsti. Núverandi Dalai Lama er sá fjórtándi í röðinni í sinni ætt og Panchen Lama sá ellefti í sinni. Austurfarar. Austurfarar eru Íslendingar sem héldu til Noregs og annarra Norðurlanda í efnahagskreppunni á Íslandi 2008–2009. Á árinu 2009 fluttu um það bil 1300 Íslendingar til Danmerkur og svipaður fjöldi til Noregs. En alls fluttu tæplega 9000 manns frá Íslandi árið 2009, þar af helmingur Íslendingar. Skammtímaminni. Skammtímaminni er geta til að muna fáa hluti í mjög stuttan tíma. Það er hluti af vinnsluminniskerfinu. Oft er talað um spönn skammtímaminnis eða talnaspönn sjö atriða. Spönnun minnis byggir á að muna hver áreitin voru og í hvaða röð þau komu. Iðulega er talað um keðjun í þessu samhengi þar sem atriði tengjast hvor öðru í minni líkt og hlekkir í keðju þá man maður oft ekki lengra en keðjan nær. Kippun áreita sýnir að minni virðist geyma atriði en ekki tölur eða bókstafi. Þannig eru orð einkonar kippi þar sem við hugsum um borð sem einn hlut en ekki útkomuna af b+o+r+ð. Einna mest notað í daglegu lífi þegar við þurfum að muna símanúmer. Skammtímaminni skerðist verulega þegar athygli dreifist. Við upprifjun atriða má iðulega sjá feril þar sem flest atriði sem voru nefnd fyrst og síðast eru rifjuð upp með góðum árangri. Þetta kallast frum- og nándarhrif. Frumhrif eru talin stafa af möguleika á æfingu í byrjun og nándar hrif af því að ný atriði riðja hinum ekki úr minninu. Athuga þarf að í slíkum verkefnum er verið að nota umskráningu í langtímaminni sem mælikvarða á skammtímaminni. Kröfuréttur. Kröfuréttur er svið lögfræðinnar sem telst til fjármunaréttar. Kröfuréttur er samheiti yfir þau lögvörðu réttindi sem felast í kröfu eða kunna að stofnast við kröfu. Þær réttarreglur sem fjalla um réttarstöðu tveggja eða fleiri aðila í innbyrðis samskiptum þeirra í fjármunaréttarlegu skuldarsambandi teljast til sviðs kröfuréttar. Krafa er varðar eignarréttindi. Skuldarinn skal láta kröfuhafa hafa einhver eignarréttindi sín. Til að mynda lætur seljandi bifreiðar kaupandanum í té bifreiðina en kaupandinn lætur á móti kaupverðið. Krafa er varðar vinnuframlag. Skuldari skal láta kröfuhafa hafa vinnuframlag sitt. Til að mynda lætur smiður verktaka í té vinnu sína en á móti greiðir verktakinn smiðinum laun. Krafa um að láta eitthvað ógert. Skuldari skal láta eitthvað ógert sem honum ella myndi vera leyfilegt að gera. Dæmi um þetta er ákvæði vinnusamninga þess efnis að starfsmaður skuldbindi sig til að starfa ekki hjá samkeppnisaðila í tiltekinn tíma að ráðningasambandi loknu. Krafa er bindur aflahæfi. Skuldari skal láta aflahæfi sitt í tiltekinn tíma renna í hendur kröfuhafa. Skilyrði réttarverndar kröfu. Til þess að krafa sé lögvarin í þeim skilningi að hún njóti vernd réttarins, það er að kröfuhafi eigi lögvarinn rétt á að krafan verði efnd, verður hún að uppfylla eftirtalin þrjú skilyrði. Ef skilyrðum um lögvernd er ekki fullnægt er ekki hægt að knýja skuldara til að efna kröfuna með úrræðum réttarskipunarinnar. Suzuki. Suzuki Motor Corporation (スズキ株式会社 "Suzuki Kabushiki-Kaisha") er japanskt fjölþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Hamamatsu í Japan. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á bílum, mótorhjólum, hreyflum, hjólastólum og öðrum lítlum sprengihreyflum. Suzuki er níunda stærsta farartækjafyrirtæki í heiminum sé miðað við fjölda framleiddra eininga, hjá fyrirtækinu vinna um og yfir 45.000 manns. Framleiðslufyrirtækin eru hýst í 23 löndum og dreifingaraðilar eru 133 í 192 löndum. Suzuki var stofnað árið 1909 af Michio Suzuki. Fyrirtækið átti vefstóla sem ófu silki, sem er stór atvinnugrein í Japan. Árið 1929 fann Suzuki upp nýja tegund vefstóls sem hann seldi útlanda. Suzuki fékk yfir 120 einkaleyfi á vefstólum. Fyrstu ár þrjátíu fyrirtækisins einbeittu sér að þróun og framleiðslu þessara flókinna vefstóla. Verstöðin Ísland. "Verstöðin Ísland" er íslensk heimildarmynd eftir Erlend Sveinsson frá 1991. Hún var framleidd af fyrirtækinu Lifandi myndir fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna í tilefni af 50 ára afmæli félagsins 1989. Myndin er í fjórum hlutum og rekur sögu íslensks sjávarútvegs frá miðöldum til nútímans. Fyrir gerð upphafshluta myndarinnar var reist eftirmynd af verstöð í Ósvör við Bolungarvík á Vestfjörðum árið 1990. Síðan þá hefur leikmyndinni verið haldið við og er þar vinsæll ferðamannastaður. Þessi hluti var síðan þróaður áfram í myndinni "Íslands þúsund ár" sem fjallar um einn róður á áraskipi frá verstöð. Fylgisetning. Fylgisetning eða fylgiregla er rökyrðing sem hægt er að sanna með því að nota aðra rökyrðingu sem hefur þegar verið sönnuð, en það er ekki óalgengt að þær fylgi setningum í stærðfræði. Magnúsarkirkja (Orkneyjum). Magnúsarkirkja er dómkirkja í Kirkjuvogi á Orkneyjum. Að stofni til var byrjað að reisa hana árið 1137 og á næstu þrjúhundruð árum var hún í byggingu. Magnúsarkirkja er nyrsta dómkirkja Bretlands. Rolandstyttan. Rolandstyttan á aðaltorginu í Bremen Rolandstyttan er á aðaltorgi borgarinnar Bremen. Rolandstyttur eru víða í þýskum borgum og eru táknrænar fyrir borgarfrelsi áður fyrr í þýska ríkinu. Saman með ráðhúsinu er Rolandstyttan í Bremen helsta kennileiti borgarinnar og er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga. Borgin Bremen átti sér snemma í sögunni sinn fyrsta Roland. Hann var gerður úr viði og var reistur til marks um það að Bremen væri fríborg í þýska ríkinu, þ.e. lyti ekki lengur valdi biskupanna þar í borg. Nóttina 28.-29. maí 1366 stóð erkibiskupinn Albert II í deilum við borgarbúa og safnaði að sér herflokki. Hermennirnir tók sig til og brenndu Rolandstyttuna, þar sem hann var til tákns um frelsi borgarbúa frá yfirráðum biskupsstólnum þar. 1404 var núverandi Rolandstytta sett upp og var hún gerð úr kalksteini. Hún hélt á skildi með tvíhöfða erni. Örninn táknar þýska ríkið, en sé hann tvíhöfða þá er hér um aðra yfirstjórn að ræða, þ.e. fríborgin í þessu tilfelli. Styttan sjálf er 5,47 m á hæð. Hún stendur á 60 cm háum stalli og yfir henni er lítið þak. Alls er styttan því 10,21 metri á hæð. Upphaflega var styttan lituð. Á 18. öld var hún hins vegar máluð grá, en á síðustu öld þótti viðeigandi að leyfa náttúrulega steininum að njóta sín án litar. Þegar Napoleon hertók Bremen 1811 ákvað hann að flytja styttuna til Parísar. En Brimarbúum tókst að fá hann til að hætta við þær áætlanir og var hún því kyrr. 1939 fékk Rolandstyttan nýtt höfuð. Það gamla er til sýnis í Focke-safninu í Bremen. Sama ár var gerð sprengjuvirki í kringum styttuna til að verja hana gegn sprengjuregni heimstyrjaldarinnar síðari. Þjóðsaga. Þjóðsagan segir að svo lengi sem Roland stendur uppi og vakir yfir borginni muni hún vera frjáls. Af þessum sökum er til varastytta í ráðhúskjallaranum sem hægt er að setja upp í flýti ef núverandi stytta skyldi detta um koll eða skemmast af einhverjum völdum. Roland er látin horfa til dómkirkjunnar til tákns um frelsið frá biskupsdæminu er borgarbúum hlotnaðist af Friðriki I keisara. Valhenda. Valhenda er ein af undirtegundum braghendu. Í henni eru önnur og þriðja lína baksneiddar, þ.e.a.s. síðasti bragliður (rímið) er eitt atkvæði en ekki tvö. Stuðlafall. Stuðlafall er ein af undirtegundum braghendu. Í henni eru tveir stuðlar í fyrstu línu, en enginn höfuðstafur. Vikhenda. Vikhenda er ein af undirtegundum braghendu. Í henni er ekki höfuðstafur í fyrstu línu og fyrsta lína rímar saman við þriðju línu, og þriðja lína er braglið styttri en önnur lína. Stúfhenda. Stúfhenda er ein af undirtegundum afhendingar (sumir segja báðar undirtegundir braghendu). Í henni er síðasti bragliður beggja lína baksneiddur. Iðnfræði. Fagmennska á fræðilegum grunni. Diplóma nám á Háskólastigi. Sambærilegt við HND gráðu í ensku mælandi löndum. Starfssvið: Starfa oft við hlið verk- og tæknifræðinga við hönnun, ráðgjöf, kennslu ofl. Rafiðnfræðingur. Starfssvið: Hönnun, prófanir, forritun, ráðgjöf, kennsla, stjórnun ofl. Danmörk; videregående tekniker uddannelse, IT- og elektronik teknilog. England; HND. Electrical technician, electronic technician FÍLD. Félag íslenskra læknanema í Danmörku (FÍLD) var stofnað haustið 2003. Í Danmörku er læknisfræði kennd á þremur stöðum, þ.e. í Árósum, Kaupmannahöfn og í Óðinsvéum. Meðlimir félagsins eru, eins og nafnið gefur til kynna, nær allir þeir Íslendingar sem nema læknisfræði í Danmörku. Hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna, efla félagsleg tengsl, miðla upplýsingum nemenda á milli, taka á móti nýnemum og kynna félagið. Ráðhúsið í Bremen. Ráðhúsið í Bremen er með fegurstu gotnesku byggingum í Evrópu Ráðhúsið í Bremen er með merkustu gotnesku byggingum endurreisnartímans í Evrópu. Það er bæði aðsetur borgarstjórnar sem og þings sambandsríkisins Bremen. Húsið er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga. Núverandi ráðhús var reist 1405-1410 í gotneskum stíl. Það kom í staðinn fyrir eldra ráðhús sem samtímis var rifið. Árið 1600 var húsinu breytt. 1909-1913 voru tvö bakhús reist við ráðhúsið í sama stíl, þar sem orðið var of þröngt í gamla húsinu sökum aukinna umsvifa borgarinnar. Í heimstyrjöldinni síðari slapp húsið að öllu leyti við sprengjuregn loftárásanna, þrátt fyrir að mörg hús í kring eyðilögðust. 2004 var húsið sett á heimsminjaskrá UNESCO. Lýsing. Aðalhúsið er 41 metrar að lengd og stendur við aðaltorg borgarinnar. Neðst á framhliðinni eru súlnagöng, en þar fyrir ofan eru fagrar skreytingar með gluggum og styttum. Stytturnar eru átta og eiga að tákna keisarann og kjörfurstana sjö í þýska ríkinu. Á vesturgaflinum eru fjórar styttur. Þær eru af fornmönnunum Platoni, Aristótelesi, Demosþenesi og Cicero. Á austurgaflinum eru enn fjórar styttur af persónum Biblíunnar: Pétur postuli, ógreindur læknir, Móses og Salómon. Ýmsir fagrir salir eru í húsinu sem eru skreyttir með ýmsu móti. Neðri aðalsalur ("Untere Rathaushalle") er talinn meðal fegurstu gotnesku sala heims og hefur haldist nær óbreyttur frá miðöldum. Efri aðalsalur er stærsti salur hússins og er 41 metra langur. Hann er skreyttur freskum og loftmyndum. Í loftinu eru 33 keisaramyndir í hringlaga formi. Þær spanna keisara þýska ríkisins frá Karlamagnúsi til Sigismund. Niður úr loftinu hanga fjögur módel af gömlum skipum sem smíðuð voru 1545, 1650, 1770 og 1779. Stærsta freskan sýnir stofnun biskupsstólsins í Bremen af Karlamagnúsi. Ennfremur eru þar myndir af Móse, Davíð konungi, Jósafat konungi Júda, Cato, Caesari og Cicero. Enn má nefna gullna salinn ("Güldenkammer") sem var innréttaður 1595 í rauðum og gullnum litum. Ýmsir fleiri salir eru í húsinu, svo sem hátíðarsalurinn ("Festsaal"), þingsalurinn ("Senatssaal"), arinsalurinn ("Kaminsaal") og Hansasalurinn ("Hansazimmer"). Í kjallara hússins er öldurhús eins og títt er í þýskum ráðhúsum. Kal. Kal eru frostskemmdir eða sár af völdum ofkælingar. Frostskemmdir á túnum eða engjum kallast einnig "kal". Hálfapar. Hálfapar (fræðiheiti: "Strepsirrhini") er undirættbálkur prímata. Þeir eru með þykkan feld og eru mjög litlir með stór skott. André Segatti. André Segatti (fæddur 15. maí 1972 í São Paulo) er brasilískur leikari og fyrirsæta. Segatti, André Péturskirkjan í Bremen. Péturskirkjan í Bremen ("St. Petri Dom") er dómkirkjan í Bremen og jafnframt elsta nústandandi kirkja borgarinnar. Hún var í byggingu í heilar tvær aldir og vígð á 13. öld. Kirkjan stendur á aðaltorginu í miðborg Bremen, við hliðina á ráðhúsinu. Upphaf. Dómkirjan á sér tvo fyrirrennara. Sú fyrri var smíðuð úr timbri og vígð árið 789 af enska kristniboðanum Willehad. Kirkjan var brennd niður af söxum aðeins þremur árum síðar. Seinni kirkjan var gerð úr grjóti snemma á 10. öld. Þar sat meðal annarra Ansgar, einnig kallaður postuli Norðurlanda. Árið 1035 var hafist handa við að rífa þá kirkju og reisa nýja dómkirkju. En 1041 eyddi stórbruni fjölda bygginga í Bremen, þar á meðal nýsmíðinni. Núverandi dómkirkja var reist strax í framhaldið. Hún var í byggingu í hartnær tvær aldir með hléum. Fyrirmyndir hennar voru dómkirkjan í Köln og dómkirkjan í Beneventum á Ítalíu. Turnarnir tveir voru nokkru lægri en þeir eru í dag. Þeir voru ekki hækkaðir fyrr en á 19. öld. Siðaskipti. Dómkirkjan 1695. Suðurturninn er hruninn. Árið 1522 hófust siðaskiptin í borginni hægt og örugglega. Næstu árin varð hver kirkjan á fætur annarri lútersk. Hins vegar þótti borgarbúum siðaskiptin ganga hægt í dómkirkjunni. Því var mynduð borgarahreyfing sem ruddist inn í kirkjuna árið 1547 og lokaði henni. Var hún ekki í notkun í heil 15 ár þar til viðeigandi lúterskur kennimaður var ráðinn til að messa. En hann lenti í deilum við upphafsmenn siðaskiptanna og var rekinn. Aftur var dómkirkjunni lokað í fleiri ár. Trúarórói þessi varð til þess að Bremen var rekið úr Hansasambandinu 1563, í þriðja sinn í sögu borgarinnar. Árið 1638 hrundi suðurturninn og eyðilagði tvö íbúðarhús fyrir neðan. Átta manns biðu bana í þessu slysi. Árið 1656 sló eldingu niður í kirkjuna og brann hún að innan, ásamt norðurturninum. Hann fékk flatt bráðabirgðaþak, sem reyndar entist í rúm 250 ár. Nýrri tímar. Dómkirkjan var einturna allt til loka 19. aldar. Það var ekki fyrr en 1888 að byrjað var að gera kirkjuna upp, bæði að innan og að utan. Suðurturninn var endurreistur og báðir turnarnir fengu há þök. Þeir urðu 99 metra háir og þar með er dómkirkjan hæsta kirkjubyggingin í Bremen. Útsýnispallar eru í báðum turnum og eru þeir í 68 metra hæð. Til að komast þangað upp verður að ganga upp 265 þrep. Framkvæmdum lauk loks 1901. Í heimstyrjöldinni síðari varð dómkirkjan fyrir skemmdum í loftárásum bandamanna. Í fyrstu sprungu allir gluggarnir en stuttu fyrir stríðslok sprakk ein sprengjan við hliðina á byggingunni. Þak kirkjuskipsins hrundi og stórskemmdi kirkjuna alla. Ári eftir stríðslok var hafist handa við að lagfæra skemmdirnar, þar sem enn var mikil hætta á frekara hruni. Árið 1950 var nýtt þak komið á en ýmis brot úr því gamla eru til sýnis í kirkjunni til minningar um eyðileggingu stríðsins. Blýkjallarinn. Ein af múmíunum í blýkjallaranum Undir kirkjunni er hinn svokallaði "blýkjallari". Þar fundust af tilviljun nokkrar múmíur í viðarkistum 1698. Múmíurnar voru orðnar þurrar og mjög gráar. Menn héldu að blý hefði sest að í þeim og því fékk grafreiturinn heitið blýkjallarinn. Fundurinn þótti stórmerkilegur í þeim tíma. Múmíurnar eru til sýnis í hliðarhúsi kirkjunnar. Summar þeirra var hægt að nafngreina, en aðrar ekki. Talið er að ein þeirra hafi verið yfirmaður einhvers hers í 30 ára stríðinu. Lantan. Lantan eða lantanum (úr grísku: λανθανω, „að vera falið“) er frumefni með efnatáknið La og er númer 57 í lotukerfinu. Lantan er silfurhvítt lantaníð sem kemur fyrir í nokkrum sjaldgæfum steindum oftast í sambandi við serín og önnur sjaldgæf frumefni. Lantan er mjúkur málmur sem oxast hratt í snertingu við loft. Lantan er unnið úr steindum á borð við mónasít og bastnäsít með flókinni þrepaskiptri aðferð. Lantansambönd eru notuð mjög víða, meðal annars sem hvatar, íblöndunarefni í gler, í lampa, kveikjara og blys, glóskaut, sem sindurefni og fleira. Einkenni. Lantan er silfurhvítur, mjúkur málmur með sexstrenda kristalbyggingu við stofuhita. Lantan oxast auðveldlega og er því aðeins notað hreint í rannsóknum. Leysibólur. Leysibólur er frumulíffæri í dýrafrumum¹. Leysisbólurnar innihalda ensím sem sjá meðal annars um niðurbrot matareininga og ónýtra frumulíffæra Rígsþula. Rígur hjá Áa og Eddu. Myndskreyting frá 1908. Rígsþula eða Rígsmál er eitt af Eddukvæðum. Hún er aðeins varðveitt í einu handriti Snorra-Eddu, Ormsbók, og er þar óheil, meðal annars vantar aftan á hana. Í kvæðinu er stéttaskiptingu samfélagsins lýst og sagt frá ólíkum lífsháttum og verkaskiptingu stétta. Í Rígsþulu segir frá ásinum Heimdalli þegar hann ferðast um undir nafninu Rígur og verður forfaðir þriggja meginstétta. Fyrst kemur hann að húsi þar sem hjónin Ái og Edda búa. Þau bjóða honum gistingu og þann mat sem þau eiga bestan, þungt, þykkt og gróft brauð, soð í bolla og soðið kálfakjöt. Níu mánuðum síðar elur Edda soninn Þræl og verður hann forfaðir þræla og ambátta. Síðan kemur Rígur að öðru og veglegra húsi hjónanna Afa og Ömmu og fer þar á sömu leið; Amma elur soninn Karl og verður hann forfaðir karla (smábænda og vinnufólks). Að lokum liggur leið Rígs heim til Föður og Móður og fær þar þunnt, hvítt brauð, flesk og fugla steikta og vín í könnu - og níu mánuðum síðar fæðist sonurinn Jarl, sem verður forfaðir stórbænda og höfðingja. Yngsti sonur Jarls nefnist Konur ungur = Konungur. Schnoor. Ein af mörgum þröngum götum í hverfinu Schnoor Schnoor er gamalt íbúðahverfi í miðborg Bremen sem einkennist af litlum, gömlum húsum og þröngum götum. Orðsifjar. Schnoor er dregið af orðinu "Schnur", sem merkir "reipi" (sbr. snúra á íslensku). Margir íbúar húsanna unnu áður fyrr við kaðalgerð fyrir skipaútgerðina. Saga hverfisins. Hverfið Schnoor kemur fyrst fram skriflega á 13. öld. Í þessu hverfi starfaði fólk aðallega við að þjónusta skipin sem Bremen gerði út, bæði meðan borgin var meðlimur Hansasambandsins og utan þess. Þar sem óvenjumargir störfuðu við kaðalgerð, var hverfið með tímanum nefnt eftir því handverki. Mörg húsanna eru frá 17. og 18. öld og eru í tiltölulega góðu ásigkomulagi. Það er búið í húsunum, en í mörgum þeirra eru litlir veitingastaðir, verslanir og öldurhús. Í upphafi 20. aldar þróaðist Schnoor í það að vera hverfi fyrir fátæka Brimarbúa, enda margar íbúðanna nokkuð litlar. Hinar þröngu götur leyfðu heldur enga bílaumferð. Í heimstyrjöldinni síðari slapp hverfið nær algerlega við eyðileggingu. Árið 1959 voru fyrstu reglur um friðun settar en hverfið er alfriðað í dag. Þar eru veitingastaðir, kaffihús, verslanir með handiðju, gallerí, forngripabúðir og fleira. Mikið af ferðafólki gerir sér ferð inn í hverfið til að upplifa einstaka stemningu. Höfnunar- og fastheldnismistök. Höfnunarmistök eða alfamistök (e. "type I error", "α error", "false alarm rate" (FAR) eða "false positive" og kallast slík niðurstaða falsjákvæð niðurstaða) og fastheldnismistök eða betamistök (e. "type II error", "β error" eða "false negative" og slík niðurstaða kallast falsneikvæð niðurstaða) eru hugtök í tölfræði sem eiga við mistök í tölfræðilegri marktækni. Það er aldrei hægt að vera fullviss hvort verið sé að gera höfnunar- eða eða fastheldnismistök. Grænlendinga þáttur. Grænlendinga þáttur er stutt saga sem segir frá vígi Einars Sokkasonar frá Bröttuhlíð á Össuri nokkrum en líka viðleitni þeirra Grænlendinga að hafa ekki land sitt biskupslaust. ‚Sokki‘ faðir Einars, leitast eftir sáttum á þingi en Símon frændi Össurar telur bæturnar fálegar og fer svo að Einar og Símon myrða hvor annan þar á þinginu. Vopnfirðinga saga. Vopnfirðinga saga (Vápnfirðinga saga í forníslensku) er Íslendingasaga. Þar segir frá miklum deilum mága og frænda í Vopnafirði á söguöld. Í upphafi sögunnar er Brodd-Helgi Þorgilsson kynntur til sögunnar og sagt frá því að Þorsteinn afi hans, sem frá segir í Þorsteins sögu hvíta, ól hann upp eftir að Þorgils faðir hans var veginn. Móðir Helga var Áslaug (Ólöf) Þórisdóttir Graut-Atlasonar. Þorsteinn keypti land í Vopnafirði af Steinbirni Refssyni landnámsmanni og bjó á Hofi. Samkvæmt sögunni hlaut Helgi viðurnefni sitt af því að þegar hann var ungur að árum kom hann þar að sem naut heimilisins stangaðist á við aðkomunaut og veitti verr. Tók Helgi þá mannbrodd og batt á enni heimanautsins, sem veitti betur eftir það, en af þessum broddi fékk hann nafnið. Vinur Helga var Geitir Lýtingsson frá Krossavík ytri. Bróðir hans hét Blængur og systir þeirra var Halla, sem varð kona Helga. Greinir sagan svo frá deilum sem upp komu milli þeirra Helga og Geitis og stigmögnuðust uns báðir lágu í valnum, en í sögulok sættast synir þeirra, Þorkell Geitisson og Víga-Bjarni Brodd-Helgason. Annar sonur Helga, Sörli, kemur við Ljósvetninga sögu og varð tengdasonur Guðmundar ríka á Möðruvöllum í Eyjafirði. Víga-Glúms saga. Víga-Glúms saga er Íslendingasaga sem gerist á söguöld, að mestu í Eyjafirði. Aðalpersónan er Glúmur Eyjólfsson, vígamaður mikill sem kallaður var Víga-Glúmur. Már og Vigfús hétu synir Glúms. Eyjólfur var sonur Ingjalds Helgasonar magra. Joachim Neander. Joachim Neander (1650 í Bremen – 31. maí 1680 í Bremen) var þýskur prestur í lúterskum sið, sálmaskáld og tónsmiður. Neanderdalurinn, sem fornmaðurinn eru kenndur við, er nefndur eftir honum. Æviágrip. Joachim Neander var sonur Johanns Joachims Neander, sem einnig var prestur. Faðirinn var fæddur Neumann, en breytti eftirnafni sínu í Neander. Joachim nam guðfræði í Bremen, en starfaði á ungum árum í Heidelberg og Frankfurt am Main. 1674 varð Neander skólastjóri Latínuskólans í Düsseldorf, ásamt því að vera aðstoðarprestur þar. Það var á þeim árum sem hann hóf að semja texta við ýmsa kirkjusálma. Sálmana sótti hann oftar en ekki úr kaþólskum bókum, en hann sjálfur var lúterskur, eins og skólinn og kirkjan þar sem hann starfaði. Árið 1679 sneri hann aftur til heimaborgar sinnar, Bremen, þar sem hann fékk starf sem aðstoðarprestur í Martinikirkjunni. Þar hélt hann áfram að semja texta við sálma. Neander dó þar á heimili sínu innan við ár eftir að hann sneri aftur heim, þá aðeins 29 eða 30 ára gamall. Ekki er vitað úr hverju hann lést. Ekki er heldur vitað hvar hann liggur grafinn, en sumir vilja meina að hann hvíli undir Martinikirkjunni í Bremen. Sálmar. Kirkjugluggi í Martinikirkjunni í Bremen með myndefni um Joachim Neander Neander er einn mesti sálma- og textahöfundur í lúterskum sið. Hann gaf út ýmsar sálmabækur meðan hann starfaði í Düsseldorf. Sú þekktasta birtist 1680. Hún markaði tímamót í lúterskum lofsöngvum og sálmasöng. Enn í dag eru margir sálmar í þýskum sálmabókum eftir hann, þó sérstaklega textar. Einn þekktasti sálmurinn eftir Neander er "Vakið og biðjið" ("Lobet den Herren"), sem einnig er að finna í íslensku sálmabók þjóðkirkjunnar. Neanderdalur. Meðan Neander starfaði í Düsseldorf átti hann það til að fara út í náttúruna þar sem hann samdi gjarnan texta og tónlist. Eftirlætisstaður hans var dalverpi nokkurt nálægt borginni. Þar sat hann gjarnan við kletta við ána Düssel. Í dalnum hélt hann einnig útisamkomur og guðsþjónustur. Á 19. öld var dalurinn nefndur Neanderdalur, honum til heiðurs. Árið 1856 fundust mannabein í helli nokkrum í dalnum. Þegar farið var að skoða þau nánar, kom í ljós að hér var um áður óþekkt bein úr fornmanni að ræða. Fornmaður þessi fékk um síðir heitið Neanderdalsmaðurinn. Tenglar. Neander, Joachim J. M. G. Le Clézio. J. M. G. Le Clézio Jean-Marie Gustave Le Clézio (f. 13. apríl 1940) er franskur rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi. Fyrsta skáldsaga hans, "Le Procès-Verbal" („Yfirheyrslan“) kom út árið 1963. Hann hefur ferðast mikið og kennt við háskóla víða um heim og bera sögur hans þess vitni. Nóbelverðlaunin hlaut hann meðal annars vegna þess rýmis sem umhverfismál fá í bókum hans. Hávarðar saga Ísfirðings. Hávarðar saga Ísfirðings er Íslendingasaga og er ein af Vestfirðingasögum. Þar segir frá deilum Hávarðar og Þorbjörns Þjóðrekssonar nábýlismanns hans. Þuríður móðir Þjóðreks var dóttir Steinólfs hins lága. Hávarður bjó á Blámýri og hét kona hans Bjargey Valbrandsdóttir (sonar Eyvindar knés, landnámsmanns í Álftafirði) en sonur þeirra Ólafur. Hann lenti í deilum við Þorbjörn, sem bjó á Laugabóli, og kynti Vakur systursonur Þorbjarnar undir, en honum er svo lýst í sögunni að hann var „maður lítill og smáskitlegur, vígmáligur og títtmáligur, fýsti Þorbjörn frænda sinn jafnan þess er þá var verr en áður“. Fór svo að Þorbjörn og menn hans fóru að Ólafi og felldu hann en hann var þá átján ára. Foreldrum hans varð mikið um og lagðist Hávarður í rekkju en Bjargey eggjaði hann til að fara og krefjast bóta fyrir víg sonarins. Hann fór þá til Þorbjarnar, sem bauð honum afgamlan klár í sonarbætur. Hávarður fór þá heim og lá tólf mánuði í rekkju. En næsta sumar segir Bjargey Hávarði að ríða til þings og krefjast bóta. Hávarður fékk liðsinni Gest spaka Oddleifssonar og Steinþórs á Eyri og gerðu þeir sætt en Þorbjörn ónýtti hana. Þá leitaði Bjargey til bræðra sinna er hétu Valbrandur, Ásbrandur og Þorbrandur, og fékk syni þeirra til liðs við Hávarð. Fóru þeir saman að Þorbirni og drápu hann og menn hans. Gestur Oddleifsson gerði sætt um vígin og voru systursynir Bjargeyjar gerðir útlægir í nokkur ár en Hávarði var gert að flytja af Vestfjörðum og flutti hann sig þá í Svarfaðardal og settist þar að. Kosningar. Kosningar er formleg ákvarðanataka þar sem hópur manna kýs aðila í ákveðið embætti. Kosningar hafa verið notaðar til vals á slíkum fulltrúa í fulltrúalýðræði frá því á 18. öld. Kosningar til embættis geta verið á stigi þjóðþinga, framkvæmdavaldsins eða dómsvaldsins, til fylkis- eða sveitarstjórna. Utan stjórnmála eru kosningar notaðar hjá frjálsum félagasamtökum, hlutafélögum og öðrum fyrirtækjum. Eigindlegar rannsóknir. Eigindlegar rannsóknir eru rannsóknir sem ganga út á að reyna að fá dýpri skilning á ástæðum tiltekinnar hegðunar en hægt er með megindlegum aðferðum með því að horfa á einstaklinga eða litla hópa fremur en lýsandi úrtak. Eigindlegar rannsóknir eru aðallega notaðar í félagsvísindum. Gagnasöfnun fyrir eigindlegar rannsóknir gengur gjarnan út á opin viðtöl, rýnihópa, þátttökuathuganir og etnógrafíur. Þéttipunktur. Þéttipunktur er hugtak í grannfræði og mengjafræði og á við punkt "p" mengis "S", sem er þannig að sérhver grennd "G" punktsins "p", inniheldur óendalegan fjölda punkta umhverfis "p". Þéttipunktur getur einnig átt við runu ("R"n), sem er þ.a. punktar rununnar nálgast þéttipunktinn eins nærri og vera vill þegar talan "n" vex. Grennd. Lítil opin skífa, sem inniheldur punktinn "p" og er jafnframt hlutmengi mengisins "V", kallast grennd punktsins "p". Grennd er grunnhugtak í grannfræði. Talað er um grennd "G" punkts "p", þar sem "p" er stak í menginu "V", ef til er opið hlutmengi mengisins "V", sem inniheldur "G". Af þessu leiðir að "G" er hlutmengi í iðri "V". Götuð grennd er skilgreind á samsvarandi hátt og hér að ofan, nema að punkturinn "p" er ekki stak í götuðu grenndinni "G" við "p". Götuð grennd er því í raun ekki "grennd" en er þó notuð til að skilgreina samfelldni falls. Dæmi: Fall "f"("x") er samfellt í punktinum "p", ef til er götuð grennd "G" við "p" þar sem finna má stak "x" þ.a. |"f"("x")-"f"("p")| geti orðið eins lítið og vera vill. Sigurdís Harpa Arnarsdóttir. Sigurdís Harpa Arnarsdóttir (fædd 3. maí 1964 í Vestmannaeyjum) er íslenskur myndlistarmaður. Hún útskrifaðist úr Myndlistaskóla Akureyrar árið 1994. Sigurdís hefur haldið fjölda einka- og samsýninga á Íslandi og einnig sýnt verk sín í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi. Kola- og stálbandalag Evrópu. Kola- og stálbandalag Evrópu var yfirþjóðleg samtök stofnuð árið 1952 sem voru undanfari Evrópusambandsins. Samtökin voru stofnuð af sex Vestur-Evrópuríkjum eftir seinni heimsstyrjöldina. Stofnríkin voru Belgía, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Ítalía og Vestur-Þýskaland. Aðalhvatamaður stofnunar samtakanna var utanríkisráðherra Frakklands, Robert Schuman, sem kom að Schuman-yfirlýsingunni þann 9. maí 1950. Schuman batt vonir sínar við varanlegan frið í Evrópu og sameinuð ríki. Lykillinn að hans mati var að sjá til þess að hagsmunir Frakklands og Þýskalands yrðu sameiginlegir, þar með myndu þjóðirnar ekki fara í stríð á ný. Viðskiptavaki. Viðskiptavaki (e. "market maker" eða "liquidity provider") er fyrirtæki eða einstaklingur á fjármálamarkaði sem er „jafnan reiðubúinn að kaupa og selja þá flokka verðbréfa sem hann hefur tekið að sér að sjá um á auglýstu verði. Viðskiptavaki kaupir bréf þau sem hann hefur tekið að sér jafnvel þó að engir aðrir kaupendur finnist á markaðinum. Hann selur jafnframt af eigin bréfum þegar enginn annar seljandi finnst. Með þessu jafnar viðskiptavaki sveiflur sem gætu orðið á endursölumarkaðinum. Viðskiptavakar hafa tekjur sínar af því að kaupa sjálfir verðbréf á ákveðnu verði og selja þau síðan aftur á nokkru hærra verði.” Yfirþjóðlegt vald. Yfirþjóðlegt vald nefnist það vald í alþjóðasamtökum sem er yfir fullveldi ríkja hafið. Þá er fullveldi ríkjanna framselt til yfirstjórnar viðkomandi samtaka. Dæmi um slík samtök er Evrópusambandið. Músikbúðin. Tónika - Vörumerki - Grænt Tónika - Vörumerki - Rautt Músikbúðin var hljómplötuverslun sem þeir Svavar Gests og Kristján Kristjánsson (K.K.) stofnuðu árið 1953. Búðin var til húsa í Hafnarstræti 8 í miðborg Reykjavíkur. Kristján Davíðsson listmálari teiknaði innréttingar og valdi liti í verslunina sem þótti flott og smekkleg. Fyrst í stað seldi búðin mest hljóðfæri, nótur og innfluttar hljómplötur en árið 1954 byrjaði Músikbúðin að gefa út hljómplötur undir merkinu Tónika. Gefnar voru út tvær raðir: „grænn miði“ fyrir dægurlög og „rauður miði“ fyrir þjóðlög og kórasöng. Músikbúðin var lögð niður árið 1956 og hljómplötulagerinn og útgáfuréttur seldur til Fálkans. Jónadab. Jónadab er karlmannsnafn, komið úr Biblíunni. Nafnið er notað á Íslandi en telst ekki til viðurkenndra íslenskra mannanafna. Vottar Jehóva nota nafnið Jónadab um þá sem munu lifa af heimsendi og lifa á jörðu til eilífðarnóns. Kirkwall. Kirkwall (af sumum kölluð Kirkjuvogur) er höfuðborg Orkneyja og stærsta borgin á eyjunum. Gísli Jónsson, íslenskufræðingur nefndi borgina Kirkjuvöll Öskubuskur. Öskubuskur voru kvennahljómsveit (söngsveit) sem var stofnuð af fimm nemendum í Gagnfræðaskólanum í Reykjavík árið 1945. Fáum árum síðar voru aðeins Margrét Björnsdóttir og Sigrún Jónsdóttir eftir. Þær gáfu út fjórar 78-snúninga plötur hjá útgáfunni Tónika árið 1954. Þekktustu lög þeirra af þessum plötum eru „Seztu hérna hjá mér ástin mín“ (Lydia K. Liliuokalani/Jón frá Ljárskógum) og „Bimbó“ (Rodney Morris/Guðmundur Sigurðsson). Mangoldtsfallið. Mangoldtsfallið eða fall von Mangoldts er heiltölufall, sem kemur við sögu í talnafræði. Skilgreining. þar sem summan er yfir alla þætti "d" heiltölunnar "n". Tengsl við Dirichletraðir. Mangoldtsfallið er nátengt föllum, sem skilgreind eru með Dirichletröðum, t.d. þar sem ζ er Zetufall Riemanns og Re("s") > 1. Afleiða lograns af zetufallinu verður þá Ólafs saga Tryggvasonar. Ólafs saga Tryggvasonar er ævisaga Ólafs Tryggvasonar Noregkonungs skrifuð af Snorra Sturlusyni. Oddur Snorrason, munkur á Þingeyrum, ritaði á latínu sína eigin sögu um Ólaf á síðari hluta 12. aldar og heitir hún til aðgreiningar Ólafs saga Odds. Ólafs saga Odds er ekki varðveitt á latínu en íslenskar þýðingar af henni eru á hinn bóginn varðveittar. Hergilsey. Hergilsey er eyja fremur norðarlega í Breiðafirði. Að sögn Landnámu heitir hún eftir Hergils hnapprass sem þar bjó. Faðir hans var Þrándur mjóbeinn, sem kom til Íslands með Geirmundi heljarskinni, nam hluta Breiðafjarðareyja og bjó í Flatey. Kona hans var dóttir Gils skeiðarnefs, landnámsmanns í Gilsfirði. Sonur Hergils var Ingjaldur, sem kemur við Gísla sögu Súrssonar. Kona Hergils var Þórarna dóttir Ketils ilbreiðs Þorbjarnar tálkna. Heimildir benda til þess að eyjan hafi ýmist verið byggð eða í eyði fram eftir öldum en árið 1783 flutti maður að nafni Eggert Ólafsson þangað og tókst að byggja Hergilsey svo upp að átján árum síðar bjuggu þar 60 manns. Eyjan er ekki stór en henni fylgja mikil hlunnindi, eggjatekja, fuglatekja, selveiði og fleira og þaðan er stutt á góð fiskimið. Seinna bjó þar Snæbjörn Kristjánsson (1854 - 1938), landskunnur sjósóknari og héraðshöfðingi og gaf hann út ævisögu sína, "Sögu Snæbjarnar í Hergilsey", sem þykir einkar góð heimild um mannlíf og búskaparhætti í Breiðafjarðareyjum. Hergilsey fór í eyði 1946. Eynni tilheyra um þrjátíu úteyjar og hólmar, þar á meðal Oddbjarnarsker. Þaðan réru oft tugir báta. Severo Ochoa. Severo Ochoa de Albornoz (fæddur 24. september 1905 í Luarca í Astúríashéraði á Spáni, dáinn 1. nóvember 1993 í Madríd á Spáni) var spænskur og bandarískur lífefnafræðingur. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 1959 fyrir rannsóknir sínar á lífsmíð kjarnsýra. Æviágrip. Severo Ochoa fæddist í hafnarbænum Luarca við Biskajaflóann og ólst þar upp fyrstu æviárin, en fluttist sjö ára gamall með móður sinni til Málaga í Andalúsíu eftir að faðir hans dó. Í Málaga gekk hann í skóla og fékk fljótlega mikinn áhuga á líffræði, ekki síst eftir kynni sín af verkum hins fræga spænska taugalíffræðings og nóbelsverðlaunahafa, Santiago Ramón y Cajal. Hann hélt því til náms við læknaskóla Madrídarháskóla árið 1923, en missti raunar af Ramón y Cajal sem þá var nýhættur. Hann lauk námi árið 1929. Tveimur árum síðar kvæntist hann Carmen Garcia Cobian. Að námi loknu hélt Ochoa til Otto Meyerhof í Heidelberg í Þýskalandi þar sem hann vann að lífefna- og lífeðlisfræðilegum rannsóknum á vöðvum. Hjá Meyerhof hlaut hann mikilvæga reynslu í rannsóknatækni og –nálgunum sem átti eftir að gagnast honum mjög síðar meir. Næstu árin átti hann eftir að gegna mörgum rannsóknastöðum hjá ýmsum þekktum fræðimönnum í Englandi og á Spáni þar til 1945 að hann fluttist til Bandaríkjanna og gerðist prófessor við við læknaskóla New York-háskóla, en þeirri stöðu gegndi hann allt til 1985, þegar hann flutti aftur til Spánar. Hann lést í Madríd haustið 1993, á 89. aldursári. Fræðastörf. Ochoa starfaði lengstan hluta starfsferils síns að rannsóknum á starfsemi ensíma í lífrænum oxunarferlum, svo sem í orkunámsferlum frumunnar. Hann lagði mikið af mörkum til þekkingar á efnaskiptum sykrunga og fitusýra, svo og á lífsmíðaferlum kjarnsýra. Meðal merkra uppgötvana sem rannsóknir hans áttu beinan þátt í má til dæmis nefna líffræðilegt hlutverk B1 vítamíns, smíð ATP um oxandi fosfórun, ljósefnafræðilega afoxun pýridínkirna í ljóstillífun og ýmislegt fleira tengt grunnefnaskiptum lifandi frumna. Árið 1959 deildi hann nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði með Arthur Kornberg fyrir þátt sinn í að útskýra hvernig kjarnsýrurnar, RNA og DNA, eru smíðaðar í lifandi frumum. Höskuldsey. Höskuldsey er eyja sunnarlega á Breiðafirði, norður af Akureyjum. Þar var um langt skeið helsta verstöð á sunnanverðum Breiðafirði og reru þaðan stundum tugir báta. Eyjan er nú í eyði en húsin standa enn og þar er viti. Eyjan er láglend og ekki mjög stór og bar ekki mikinn búskap en virðist hafa verið orðin þekkt verstöð mjög snemma því að Eyrbyggju segir frá því að Þorsteinn þorskabítur hafi drukknað í róðri frá Höskuldsey árið 938 og horfið inn í Helgafell ásamt förunautum sínum. Helgafellsklaustur átti eyna frá því um 1280 og þaðan var mikið útræði allt fram til 1920. Þó var lendingin aldrei góð. Auk heimabæjarins, sem var á miðri eyni, voru þar allmargar búðir og voru sumar einungis notaðar á vertíð en í öðrum var búið allt árið. Timburhús var reist í Höskuldsey um 1920 og nokkru síðar steinhús en hún fór í eyði 1960. Viti var reistur á austanverðri eynni 1926. Þjóðsögur sögðu að Höskuldsey mundi sökkva ef þar væru samtímis stödd 20 hjón. Ekki er vitað til að það hafi nokkru sinni gerst. Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið hófust formlega 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi Íslendinga þingsályktunartillögu um umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Ísland aðili að EFTA og hefur verið hluti af Evrópska efnahagssvæðinu (EES) síðan 1993. Allir flokkar utan Samfylkingarinnar sem sitja á þingi eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð, annar af þeim tveim flokkum sem mynda aðra ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem nú er við völd, hefur samþykkt sækja um aðild með þeim fyrirvara að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um inngönguna. Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi 2010 að „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Nú sem fyrr standa auðlindir þjóðarinnar undir velferð hennar og fullt og óskorað forræði á þeim er forsenda farsældar til framtíðar. Framsóknarflokkurinn telur að þjóðin skuli ætíð eiga beina aðkomu með þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðunum um stórmál eins og aðild að Evrópusambandinu og mun flokkurinn berjast fyrir þeim rétti“. Á landsfundi sínum sumarið 2010 samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn stjórnmálaályktun þar sem inngöngu í ESB var hafnað „enda er mikilvægara nú að stjórnsýslan setji alla sína krafta í að leysa aðkallandi hagsmunamál heimila og fyrirtækja.” Í kjölfar alþingiskosninganna 2013 var mynduð stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en í stjórnarsáttmála hennar er kveðið á um að hlé verði gert á aðildarviðræðum og að ekki verði haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Umsókn um aðild að ESB. Kort sem sýnir útlínur Íslands og Evrópusambandsins. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands afhenti Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, umsóknina með formlegum hætti þann 23. júlí 2009. Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð, hafði þó afhent umsóknina í Stokkhólmi 17. júlí. Ísland hefur hins vegar verið aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) síðan 1970, en þeim var ætlað að stuðla að frjálsri verslun. Með Evrópska efnahagssvæðiðnu, sem Ísland gerðist aðili að 1994 fengu íslensk fyrirtæki aukinn aðgang að evrópskum markaði. Mikil umræða hefur verið um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB, nú eða þá upptöku evrunnar, eða annars gjaldmiðils á síðustu árum. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í apríl 2008 eru ríflega ⅔ Íslendinga fylgjandi því að undirbúa umsókn að ESB. Í könnun frá því febrúar þegar spurt var um hvort sækja ætti um aðild (ath: ekki undirbúa umsókn um aðild) frá því í febrúar sama ár svaraði 55,1% játandi. Síðan þá hafa margar kannanir verið gerðar um fylgi umsóknar, samningaviðræðna og fleiri atriða sem viðkoma Evrópusambandinu en meirihluti landsmanna er þó andvígur inngöngu (apríl 2012). 54% eru andvígir inngöngu, 28% fylgjandi og 18% hlutlausir, þá eru þeir sem eru andvígir inngöngu ólíklegri til þess að breyta afstöðu sinni.. Það var ekki stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem mynduð var eftir Alþingiskosningar 2007, að sækja um inngöngu í ESB. Samfylkingin hefur lýst því yfir að það sé á þeirra stefnu að sækja um aðild, en Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því. Landssamband íslenskra útvegsmanna, hagsmunasamtök atvinnurekenda í íslenskum sjávarútvegi, eru mótfallin aðild að ESB fyrst og fremst á grundvelli þess að þá muni Ísland missa stjórn yfir sjávarútvegsmiðum sínum en fleira komi til. Þetta hefur Eiríkur Bergmann, dósent við Háskólann á Bifröst, dregið í efa og segir hann að „"[s]é það rétt að sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB sé raunverulega meginhindrunin ættu andstæðingar aðildar ekki að mótmæla því að látið væri reyna á viðunandi aðildarsamning, en á því hafa þeir ekki viljað ljá máls og raunar barist harkalega gegn. Sú staðreynd... bendir til þess að það sé eitthvað annað en sjávarútvegurinn sem raunverulega hindri ESB-aðild Íslands."“ Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2009. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2009, þegar gengi krónunnar féll um meira en helming á innan við ári og rekstur allra þriggja íslensku viðskiptabankanna var yfirtekinn af hinu opinbera, blés nýju lífi í umræðu um inngöngu í ESB. Í skoðanakönnun Capacent sem birt var 18. október kom fram að 70% íslensku þjóðarinnar vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu í ESB. Innan Sjálfstæðisflokksins hefur varaformaður hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagt að Íslendingar þurfi að taka afstöðu til ESB „með hagsmuni Íslands til lengri tíma litið og þora að gera það“. Alþýðusamband Íslands ályktaði 27. október 2008 að aðildarviðræður við ESB um hugsanlega inngöngu ættu að hefjast, sem hluti af aðgerðum til að endurheimta fjármálastöðugleika og auka trúverðugleika eftir bankahrunið. Þann 15. desember 2008 birti Viðskiptaráð Íslands ályktun þar sem stjórn þess samþykkti að sækja ætti um aðild að ESB vegna þess „"að raunverulegir efnahagslegir kostir fylgja aðild að myntbandalagi Evrópu og Evrópusambandinu"“. Skilyrði Íslands fyrir inngöngu. Stöðugleikasáttmálinn var gerður milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins sumarið 2009 meðal annars með það fyrir augum að Ísland uppfylli ofangreind skilyrði. Í október 2009 var Daniel Gros, framkvæmdastjóri hugveitunnar Centre for European Policy Studies, kosinn af Alþingi í bankaráð Seðlabanka Íslands. Heiltölufall. Heiltölufall er raun- eða tvinngilt fall með náttúrlegar tölur sem formengi. Fallið "f" skilgreint formula_1 er dæmi um einfalt heiltölufall. Weierstrassfall. Weierstrassfallið er samfellt fall, kennt við Karl Weierstraß, sem er hvergi deildanlegt. Skilgreining. þar sem formula_2, formula_3 er jávæð náttúrleg, oddatala og Fallið er samfellt á öllum rauntalnaásnum, en hvergi deildanlegt. Weierstrass kynnti fallið 18. júlí 1872. Samhangandi mengi. Samhangandi mengi er mengi, sem ekki er mögulegt að skrifa, sem sammengi tveggja opinna, sundurlægra mengja. Eginleikar samhangandi grannrúms. Hlutmengi "D" í grannrúmi "X" er samhangandi þþaa ekki eru til tvö hutmengi, "A" och "B", sem hvorugt er tómt, þ.a. formula_1 og formula_2. Karl Weierstrass. Karl Weierstrass (ritað Weierstraß á þýsku) (31. október 1815 – 19. febrúar 1897) var þýskur stærðfræðingur. Hann hannaði og kynnti Weierstrassfallið, sem síðar var nefnt eftir honum. Bolzano-Weierstrass setningin er einnig kennd við hann. Georg Cantor var einn nemenda hans. Skilgreining Weierstrass á samfelldni. formula_1 er samfellt í formula_2 ef fyrir sérhvert formula_3 þ.a. Weierstrass, Karl Fastafall. Fastafall er fremur óháhugavert fall, sem er alls staðar fasti, þ.e. fallið "f"("x") = "c", þar sem "c" er fasti, kallast "fastafall" og tekur gildið "c" í öllum punktum "x". Afleiða fastafalls er eðlilega alls staðar núll. Ef fastafallið tekur gildið núll, kallast það "núllfall". Skólavörðuholt. Skólavörðuholt (stundum nefnt Holtið af íbúum þess) er hæð austan við Tjörnina í Reykjavík og er hæsti punktur í miðbæ Reykjavíkur. Efst á Skólavörðuholti er Hallgrímskirkja, helsta kennileiti borgarinnar, og fyrir framan hana er stytta af Leifi Eiríkssyni sem Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum í tilefni af Alþingishátíðinni 1930. Skólavörðustígur liggur til austurs upp á holtið frá mótum Bankastrætis og Laugarvegar. Skólavörðuholt hét upphaflega Arnarhólsholt þar sem það er fyrir ofan Arnarhól og var stórgrýttur melur með jökulurð og gott berjaland áður en þar var byggt. Vesturhlíð hæðarinnar er kölluð Þingholt eftir bæ sem þar stóð áður fyrr. Núverandi nafn sitt fékk holtið eftir að Skólavarðan var reist þar árið 1793 en hana reistu skólapiltar úr Hólavallarskóla. Nikolaikirkjan í Kíl. Nikolaikirkjan í Kíl ("Nikolaikirche") stendur við aðalmarkaðstorgið í miðborginni og er elsta nústandandi bygging borgarinnar. Saga Nikolaikirkjunnar. Kirkjan var reist á 13. öld, en henni var umbreytt á 14. öld að fyrirmynd Péturskirkjunnar í Lübeck. Á 19. öld var framhlið kirkjunnar endurnýjað í gotneskum stíl. Kirkjan skemmdist talsvert í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Meðan kirkjan brann tókst aðeins að bjarga örfáum hlutum. Nokkrir aðrir gamlir hlutir prýða kirkjuna að innan. Má þar nefna altari frá 1460, skírnarfont frá 1344 og sigurkross frá 1490. Andariddarinn. Stór og mikil bronsstytta var sett upp fyrir utan kirkjuna 1928. Hún var af engli með sverði og stóð á úlfi. Styttan átti að sýna á táknrænan hátt sigur hins góða yfir hinu vonda. Þaðan er heitið "Andariddari" komið ("Geistritter"). Nasistum mislíkaði stórum þessi stytta og mátu hana sem úrkynjaða list. Þeir fjarlægðu styttuna 1937, en það tókst að bjarga henni frá bræðsluofnunum. Þegar kirkjan var endurreist og vígð 1954, var styttan aftur sett þar sem hún var áður. Þjóðsaga. Til er þjóðsaga sem átti að hafa gerst fyrir nokkru síðan. Í kirkjunni voru ungir kórpiltar að spila með spilastokk meðan presturinn var að predika. Einum piltinum gekk ekki sem best og byrjaði að bölva. Þá hafi kölski komið inn og snúið honum úr hálsliði, þannig að blóð piltsins slettist á einn vegginn. Aðrir segja að kölski hafi slegið hann svo fast utanundir að blóðið slettist á vegginn. Síðan hafi kölski tekið dauða piltinn með sér út um gluggann. Blóðflekkurinn en enn sjáanlegur og næst ekki með nokkru móti af. Gluggann er heldur ekki hægt að laga svo vel sé, því alltaf er eitthvað að honum. Sjóminjasafnið í Laboe. Sjóminjasafnið í Laboe er safn við austurmörk Kílar í Þýskalandi. Þar má sjá stóran minnisvarða um þýska flotann, kafbát sem hægt er að príla inn í og ýmislegt annað. Minnisvarði. Minnisvarðinn í Laboe er 72 metra hár innangengur turn. Turninn var reistur 1936 og vígður af Adolf Hitler og aðmírálnum Adolf von Trotha. Minnisvarðinn er til minningar um fallna hermenn heimstyrjaldarinanr fyrri. Seinna meir var ákveðið að minnisvarðinn skuli einnig vera til minningar um fallna sjóliða í heimstyrjöldinni síðari. 1954 var enn ákveðið að minnisvarðinn skuli einnig vera til minningar um alla sjómenn sem drukknað hafa alls staðar í heiminum. Á jarðhæð inni í minnisvarðanum er salur með minnisbók um fallna sjóliða þýska sjóhersins, en þeir eru samtals 63.686. Þar er einnig fánasafn með þýskum stríðsfánum. Hægt er að komast upp í útsýnispall, annað hvort með lyftu eða með að ganga upp 341 þrep. Minnisvarðinn er mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Síðan byrjað var að telja gesti 1954 hafa 14 milljón manns gengir þar inn. Minnisvarðinn sést eins og sjómerki frá Kílarflóa og virðist ásýndum sem stefni á víkingaskipi. Skip sem sigla framhjá heiðra enn í dag minnisvarðann. Fyrir framan minnisvarðann er lítil bygging sem hýsir sögu þýska sjóhersins. U 995. U 995 á þurru landi Við hliðina á minnisvarðanum er kafbátur á þurru landi. Hér er um U 995 úr heimstyrjöldinni síðari að ræða, sem orðinn er að safni. Kafbáturinn var smíðaður 1943 í Hamborg. Ári seinna fór hann í fyrstu árásarferð sína en hann fór alls í 9 ferðir meðan stríðið stóð yfir, oftast frá Noregi. Í stríðslok lá kafbáturinn í slipp í Noregi. Norðmenn yfirtóku þá bátinn, sem notuðu hann sem skólabát. Árið 1965 skiluðu Norðmenn kafbátnum til Þýskalands. Reyndar borguðu Þjóðverjar eina mörk fyrir, sem táknrænt verð. 1972 var kafbáturinn settur á þurrt land í Laboe og er opinn almenningi. U 995 er einn af 5 þýskum kafbátum sem enn eru til. Allir aðrir sukku eða voru teknir í sundur. Skipsskrúfa. Við hliðina á minnisvarðanum er stór og mikil skipsskrúfa til sýnis. Hún er úr þýska herskipinu Prinz Eugen, sem var eina stóra þýska herskipið sem ekki sökk í stríðinu. Í stríðslok notuðu Bandaríkjamenn skipið fyrir kjarnorkutilraunir á Bikini-eyjum í Kyrrahafi, þar sem það valt að lokum og sökk í einu kóralrifinu. Þrjár skipsskrúfur stóðu hins vegar upp úr. 1978 fengu Þjóðverjar eina skipsskrúfuna afhenta og var hún flutt á sjóminjasafnið í Laboe. Forsæti Ráðs Evrópusambandsins. Forsæti Ráðs Evrópusambandsins færist á milli aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) á sex mánaða fresti. Í því felst ábyrgð á fundarstjórn og skipulagi fyrir Ráð Evrópusambandsins. Svíþjóð fer með forsætið um þessar mundir. Fjórfrelsi. Fjórfrelsi er hugtak sem vísar til frelsis til flutninga 1) fólks, 2) varnings, 3) þjónustu og 4) fjármagns innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), innri markaðar Evrópusambandsins (ESB) og Íslands, Liechtenstein og Noregs fyrir ríkisborgara Evrópu eða þessara ríkja. Með fjórfrelsinu geta framleiðsluþættir ferðast um tiltölulega hindrunarlaust innan þessa svæðis og samkvæmt kenningunni um hlutfallslega yfirburði myndi slík opin samkeppni leiða til aukinnar stærðarhagkvæmni, sérhæfingar og hagnýtingar. Leptín. Leptín er hormón sem stýrir matarlyst. Það myndast í fituvef og er seytt þaðan í blóðrás og berst til frumna annars staðar í líkamanum og hefur áhrif á þær. Leptín berst m.a. til undirstúku heilans og setur af stað efnaferli sem dregur úr matarlyst og veldur þar með minni neyslu en hraða einnig bruna og þar með orkunotkun. Á meðan megrun veldur bæði minni fitu- og vöðvamassa þá eru áhrif leptín eingöngu á fituvef þannig að fitusundrun örvast en hefur ekki sjáanleg áhrif á vöðvavef. Gerð. Leptín er sem sagt vatnsleysanlegt próteinhormón með það hlutverk að stýra orkuinntöku. Leptín er framleitt af fituvef líkamanns en vísindamenn eru aðeins nýlega farnir að telja fituvef til innkirtlakerfis. Fituvefur líkamanns og seytifrumur meltingarkerfis (e. gastric chief cells og P/D1) framleiða leptín og seyta því út í blóðið. Þaðan berst það svo til undirstúku þar sem markfrumur þess eru. Hlutverk leptíns er að stýra orkuinntöku með því að vinna gegn hungurtilfinningu. Virkni. Leptín vinnur gegn matarlyst á þrjá vegu. Í fyrsta lagi vinnur leptín gegn áhrifum taugapeptíðs Y (e. neuropeptide Y) með því að bindast taugapeptíðs Y taugum og þar af leiðandi kemur það í veg fyrir að taugaboðefnin bindast taugunum og vinnur þannig gegn svengd. Í öðru lagi vinnur leptín gegn áhrifum anandamíðis sem er taugaboðefni sem, eins og taugapeptíð Y, eykur matarlyst. Virkni anandamíð hefur ekki verið fullkomnlega rannsökuð en vitað er m.a. að það tengist sömu viðtökum og THC. Anandamíð getur einnig skert skammtímaminni. Í þriðja lagi þá ýtir leptín undir myndun alpha-melanósortíns (e. α-MSH) sem er prótín hormón. Alpha-melanósortín stýrir fyrst og fremst myndun melaníns og þar með lit húðar, hárs og nagla. Þrátt fyrir nafnið þá bælir það einnig niður svengd með virkjun 4. melanósortínmóttaka (MC-4).[8] MC4R genið, sem segir til um gerð MC-4 móttaka, getur gallað stýrt offitu. Í músum, og hugsanlega einnig í mönnum, bregst 3. melanósortínmóttaki (MC-3) enn fremur við alpha-melanósortíni með aukinni brennslu og hitun. Offita. Offeitt fólk skortir almennt ekki leptín. Heldur er það orðið illnæmt fyrir því miklu magni leptíns sem er í blóði þeirra. Þessu veldur mataræði, og líklega langvarandi ofmagn leptíns. Inntaka leptíns er því skammvinn hjálp. Líkaminn venst einfaldlega hærra leptínstigi; hann verður þeim mun illnæmari. Eitt mataræði sem deyfir næmi fyrir leptíni er stórfenglegt ofát á eplum. Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins. Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er kerfi niðurgreiðslna til landbúnaðargeira aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB). Sem hlutfall af útgjöldum ESB nam sameiginlega landbúnaðarstefnan 48% eða €49,8 milljarðar árið 2006 (aukning um €1,3 milljarð frá 2005). Markmið sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar er að sjá til þess að bændur og aðrir þeir sem vinna í landbúnaði hljóti mannsæmandi laun. Sameiginlega landbúnaðarstefnan er eitt elsta verkefni ESB en það var fyrst stofnað til þess að frumkvæði Frakka á sjötta áratug 20. aldar. Stefnan hefur víða verið gagnrýnd fyrir að stuðla að offramleiðslu og slæmri nýtingu. Stærð og umfang kerfisins verður til þess að eftirlit er erfitt og spilling og misnotkun eru algeng. Óðinstorg. Óðinstorg er lítið torg á gatnamótum Þórsgötu, Týsgötu, Óðinsgötu og Spítalastígs í miðborg Reykjavíkur. Þar er nú bílastæði. Við Óðinstorg standa meðal annars Hótel Óðinsvé og veitingastaðurinn Brauðbær, og Norræna félagið. Bílum hefur stundum verið úthýst af torginu við sérstök tækifæri. Torgið var upphaflega byggingalóð sem bæjarstjórn Reykjavíkur keypti af eigandanum árið 1906 til að gera þar torg, en lóðin þótti þá mjög óhrjáleg. Eftir breytinguna voru nokkrar verslanir stofnaðar við torgið, meðal annars mjólkurbúð og skóbúð, og þar var settur upp auglýsingaturn. Fisksalar voru með söluvagna á Óðinstorgi um tíma, en þá þótti hentugt að selja fisk í nágrenni við mjólkurbúðir þar sem húsmæður versluðu reglulega. Fljótlega eftir að bifreiðar tóku að sjást á götum borgarinnar var farið að nota torgið sem óskipulegt bílastæði og 1949 var það skipulagt sem slíkt. Árið 2002 kom fram sú tillaga frá Evu Maríu Jónsdóttur, dagskrárgerðarkonu, að endurheimta eða gera þrjú smátorg á Skólavörðuholti; Óðinstorg, „Freyjutorg“ (á mótum Freyjugötu, Óðinsgötu og Bjargarstígs) og „Baldurstorg“ (á mótum Baldursgötu, Óðinsgötu og Nönnugötu) en bílum er oft lagt óskipulega á þessum tveimur síðarnefndu gatnamótum. Árið 2010 var síðastnefndu gatnamótunum breytt í lítið torg og vistgötu með blómakerjum og bekkjum. Frumefni í flokki 11. Frumefni í flokki 11 í lotukerfinu eru fjórir hliðarmálmar, en þrjá þeirra er algengt að nota í myntir. Þessir málmar eru því stundum kallaðir myntmálmar. Þetta eru kopar, silfur, gull og röntgenín sem er óstöðugt geislavirkt tilbúið efni. Fyrir utan röntgenín koma allir þessir málmar fyrir hreinir í náttúrunni og hafa þekkst frá forsögulegum tíma. Þessir málmar eru tiltölulega stöðugir og ónæmir fyrir tæringu og leiða vel rafmagn. Röntgenín. Röntgenín (eftir Wilhelm Conrad Röntgen) er tilbúið geislavirkt frumefni með efnatáknið Rg og sætistöluna 111. Þetta efni var fyrst búið til á GSI Helmholtz-þungjónarannsóknarstofnuninni í Darmstadt, Þýskalandi árið 1994. Síðari tilraunir sama rannsóknarhóps hafa staðfest tilvist efnisins. Stöðugasta samsæta þess er 280Rg með helmingunartímann ~4 sekúndur. Meinhaddur. Meinhaddur (fræðiheiti "Brevoortia tyrannus") er fiskur af síldaætt. Hann er mikið notaður í bræðslu. Meinhaddur lifir á plöntusvifi og getur fullvaxinn fiskur síað allt að fjögur gallon af vatni á mínútu. Meinhaddur hreinsar sjó með að sía hann og stórar torfur af meinhaddi halda þörungablóma í skefjum. Fiskurinn er mikilvægur í vistkerfi sjávar því margir fiskar lifa á honum og hann heldur þörungamengun í skefjum. Meinhaddur hefur verið í miklu magni í Norður-Atlantshafi og heldur fiskurinn sig í stórum torfum sem geta verið 40 km langar. Meinhaddur er vinsæll til beitu. Einkenni meinhadds er að fiskurinn rotnar hratt eftir að hann hefur verið veiddur og er hann því aðallega nýttur til bræðslu þ.e. í fiskimjöl, lýsi og áburðar. Fiskurinn framleiðir Omega 3 fitusýrur sem eru nýttar af þeim fiskum sem á honum lifa. Möguleikar eru á að nota meinhadd til efnaiðnaðar því við vinnslu fisksins þá má einangra úr vinnsluvatninu yfirborðsvirkt prótein sem er öflugt bindiefni og bleytiefni og því gott til notkunar í lágum styrk. Þetta prótein er er virkt á svæðum milli olíu og vatns og er umhverfisvænt (niðurbrjótanlegt). Menhaden "B. tyrannus" frá Chesapeake flóa Rauðisandur. Rauðisandur eða Rauðasandur er byggðarlag í Vestur-Barðastrandarsýslu og liggur frá Skorarhlíðum út að Látrabjargi. Undirlendið er fremur mjótt og upp frá því rísa fjöll með bröttum hlíðum og háum hömrum. Allmikið sjávarlón, Bæjarvaðall, sker sveitina í sundur og út frá því liggur langt og mjótt lón til vesturs, en framan við það er rif úr rauðgulum skeljasandi og er nokkuð víst að sveitin dregur nafn af sandinum, þótt í Landnámabók segi að Ármóður rauði Þorbjarnarson hafi numið land á Rauðasandi. Sveitin er grösug og veðursæl og var áður þéttbýl en nú hefur bæjum í byggð fækkað mjög. Helsta höfuðbólið er Saurbær eða Bær. Þar bjuggu ýmsir höfðingjar fyrr á öldum og á 16. og 17. öld var Saurbær sýslumannssetur. Annar þekktur bær á Rauðasandi er eyðibýlið Sjöundá, þar sem hryllileg morð voru framin í byrjun 19. aldar. Umhverfisstofnun stefnir að því að friðlýsa í áföngum Rauðasand, ásamt Látrabjargi. Flóðhestur. Flóðhestur (vatnahestur eða nílhestur) (fræðiheiti: "Hippopotamus amphibius") er klunnalegt klaufdýr og jurtaæta sem lifir í Afríku. Augnsíld. Augnsíld (fræðiheiti "Alosa fallax") er fiskur af síldaætt. Maísíld. Maísíld (fræðiheiti "Alosa alosa") er fiskur af síldaætt. Frumlífsöld. Frumlífsöld er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 2500 milljónum ára og lauk fyrir 542,0±1,0 milljónum ára. Það nær yfir tímann áður en lífverum tók að fjölga mikið á jörðinni. Þetta er elsta tímabil jarðsögunnar að undanskildri upphafsöld en saman nefnast þessar tvær aldir forkambríumtímabilið. Tímabilið skiptist í fornfrumlífsöld, miðfrumlífsöld og nýfrumlífsöld. Einn mikilvægasti atburðurinn sem átti sér stað á frumlífsöld var súrefnisbyltingin þegar óbundið súrefni safnaðist fyrir lofthjúpi jarðar á miðfrumlífsöld. Þetta súrefni varð síðan grundvöllurinn fyrir mikla útþenslu lífríkis jarðar. Nasreddin. Nasreddin er þjóðsagnakennd persóna, sufi-prestur eða kennari sem var uppi á 13. öld (miðaldir) í Akşehir og síðar Konya undir Seljúkaveldinu. Margar þjóðir Miðausturlanda hafa eignað sér Nasreddin (til dæmis Afganir og Íranir. Nafn hans er stafsett á ólíkan hátt og hann ber ýmsa titla, svo sem „Hodja“, „Mullah“ eða „Effendi“ en þeir samsvara titlinum „séra“ á íslensku. Nasreddin var alþýðlegur heimspekingur og vitringur og hans er minnst fyrir kímnisögur hans og hnyttin tilsvör. Margt af því sem Nasreddin gerði er hægt að segja að hafi verið órökrétt en býr samt yfir innri rökum. Skynsemi og samt óskynsamlegt, skrýtinn samt eðlilegur, heimskulegur samt gáfaður, einfaldur og samt margslunginn. Kennsluaðferðir hans eru áhrifamiklar í einfaldleika sínum. Árið 1996–1997 lýsti Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem ári Nasreddins. Uppruni Nasreddins og arfleifð. Nasreddin fæddist um það bil 1209 í þorpinu Horta í Anatólíu á 13. öldinni e.Kr. og ólst þar upp. Hann starfaði í Akşehir og seinna í Konya þar sem hann til bjó til dauðadags (1275/6 eða 1285/6 e. Kr.). Sögur Nasreddins lifðu áfram næstu kynslóðir og dreifðust til fleiri landsvæða og landa. Minnin í sögunum urðu hluti menningararfs margra þjóða, allt frá Svartahafi til Kína og Albaníu til Afríku. Þótt flestar gerist í þorpsamfélagi fjalla þær um sígild stef þess að vera manneskja, dálítið eins og dæmisögur Esóps. Þær tala af alþýðlegum vísdómi sem sigrast á öllum raunum og leysir hverja gátu. Elsta handrit sagna Nasreddíns fannst á árinu 1571. Sögur Nasreddins eru sagðar víðsvegar um heim enn þann dag í dag. Þær eru víða stór hluti menningarinnar og vísað er til þeirra í ræðu og riti beint og óbeint í daglegum samskiptum fólks. Sögurnar skipta þúsundum og því er hægt að finna sögu sem hæfir nánast hvaða aðstæðum sem mannskepnan lendir í. Nasreddin er oft duttlungafull persóna í lengri eða styttri glefsum eða sögubútum. Alþjóðleg hátíð, „"International Nasrudin Hodja Festival"“ er haldin honum til heiðurs í Akşehir 5. – 10 júlí ár hvert. Íslensk skólabörn hafa kost á að lesa nokkrar af sögum Nasreddins á miðstigi, en í Blákápu er að finna úrval þeirra. Sögur Nasreddins. Sögur Nasreddins eru sagðar um öll miðausturlönd en eru orðnar hluti menningar alls heimsins. Þær eru oft sagðar sem brandarar eða gamansamar hugrenningar, við varðelda, á heimilum og í útvarpi víðsvegar um Asíu. Hins vegar hafa þær dýpt, sem kemur oft ekki í ljós fyrr en á síðar stigum. Gamanmálið hefur siðferðisboðskap og eitthvað meira, eitthvað sem hjálpar dýpra þenkjandi hugsuði örlítið lengra áfram á leiðinni að verða dulspekingur. Prédikunin. „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn svaraði einum hálsi neitandi. „Þá ætla ég ekki heldur að upplýsa ykkur“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum. „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn, minnugur þess hvernig Nasreddin hafði brugðist við síðast, svaraði einum hálsi „Já“. „Þá þarf ég ekki að prédika til ykkar í dag“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum. „Vitið þið hvað ég ætla að prédika í dag?“ Söfnuðurinn hafði rætt saman um það hvernig menn ættu að bregðast við og nú svaraði helmingur viðstaddra: „Já“ og helmingur viðstaddra: „Nei“. „Þá bið ég þá sem vita, að upplýsa þá sem vita ekki“, sagði Nasreddin og sté niður úr stólnum. Afstaða hlutanna. Nasreddin sat hugsi við árbakka. Maður kom að ánni og kallaði yfir til hans: „Hvernig kemst ég yfir um?“ „Já, en þú ert nú þegar handan við“, kallaði Nasreddin á móti. Leitin að týndu peningunum. Dag einn kom nágranni að Nasreddin þar sem hann gekk um götur þorpsins, greinilega leitandi að einhverju. „Hvað ertu að gera?“, spurði hann. „Ég er að leita að peningunum mínum“, svaraði Nasreddin. „Viltu að ég hjálpi þér að finna þá?“, spurði nágranninn. „Já takk“, svaraði Nasreddin að bragði og saman leituðu þeir og leituðu. Brátt komu að tveir menn og brátt fjórir til viðbótar og áður en varði var allt þorpið farið að leita að peningum Nasreddins. Allt kom fyrir ekki og peningarnir fundust ekki. Kvölda tók og birtu for að þverra. Nágranni Nasreddins, sem fyrstur hafði komið að leitinni með honum spurði: „Nú erum við búnir að leita um allt þorpið og finnum ekki peningana sem þú týndir. Ertu viss um að þú hafir týnt þá hér?“ Nasreddin neitaði. Þá spurði nágranninn aftur og nú gætti ofurlítillar óþolinmæði í röddinni: „Af hverju erum við þá að leita hér í þorpinu, fyrst þú týndir þeim ekki hér?“ „Það er af því að hér er svo gott að leita“, svaraði Nasreddin að bragði. Almenn einkenni hugrenninganna. Sögurnar sem eignaðar eru Nasreddin gefa mynd af kaldhæðinni persónu sem átti ekki í vanræðum með að koma fyrir sér orði, jafnvel þótt viðmælandinn var hinn versti harðstjóri síns tíma. Enda er veitti hann íbúum miðausturlanda útrás fyrir háð og gagnrýni, hvort heldur sem hún beinist gegn veraldlegu eða andlegu yfirvaldi þess tíma. Í sumum dulspekihefðum eru grín, sögur og ljóðmæli notuð til að koma orðum að hugsunum með því að tengja framhjá venjulegri rýni og tortryggni. Dulspekin leitast á þann hátt við að virkja innsæið andstætt rökhugsuninni sem lokar og hlutgerir hugmyndirnar. Sögurnar endurtaka ákveðin stef og hafa viðmót sem læðir inn og styrkir ákveðnum hugmyndum í huga manns sem einbeitir sér að yfirborðinu. Þversögnin, hið óvænta og valkostir við hið venjubundna er síðan lætt í huga þess sem les eða heyrir. Margar bækur hafa verið teknar saman með sögum um Nasreddin. Flestir heyra þó sögurnar eða mæta þeim í daglegu lífi sínu, sem hluti af samskiptum þar sem annar aðilinn gerir mistök, sem Nasreddin gerði að skotpæni sínu. Sumar sögur Nasreddins eru notaðar sem kennisögur af súfískum kennurum. Þannig má búast við mörgum lögum af merkingum í sögunum. Nafnið. Nasrudin er ritað á marga vegu svo sem: persneska ملا نصرالدین, aseríska „Molla Nəsrəddin“, tyrkneska „Nasrettin Hoca“, kúrdíska „Mella Nasredîn“, arabíska: جحا (juḥā), نصرالدين (naṣr ad-dīn) merkir "Sigur trúarinnar", "þýð.": Malai Mash-hoor, albanska „Nastradin Hoxha“ eða einfaldlega „Nastradini“, bosníska "„Nasruddin Hodža“", kínverska "阿凡提", úsbekíska „Nasriddin Afandi“ og „Afandi“, „Khozhanasir“, uyghuríska „Näsirdin Äfänti“, gríska Ναστραντίν Χότζας eða Νασρεντίν Χότζας. Ýmsar myndir eru til á nafni Nasreddins svo sem "Nasrudeen", "Nasrudin", "Nasr ud-Din", "Nasredin", "Naseeruddin", "Nasruddin", "Nasr Eddin", "Nastradhin", "Nasreddine", "Nastratin", "Nusrettin", "Nasrettin", "Nostradin" og "Nastradin". Sums staðar er titillinn Hoja: „Hoxha“, „Khwaje“, „Hodja“, „Hojja“, „Hodscha“, „Hodža“, „Hoca“, „Hogea“, „Hodza“. Á arabísku er hann þekktur sem „Juha“, „Djoha“, „Djuha“, „Dschuha“, „Giufà“, „Chotzas“, „Goha“ (جحا (juḥā)), „Mullah“, „Mulla“, „Molla“, „Maulana“, „Efendi“, „Afandi“, „Ependi“ (أفندي (afandī), „Hajji“. Titillinn kemur sums staðar í stað nafns hans. Í menningu swahili eru margar sögur af Nasreddin sagðar en þar heitir hann „Abunuwasi“. Nasreddin er þekktur í Kína undir nöfnunum 阿凡提 (Āfántí) og 阿方提 (Āfāngtí). Þar í landi var framleidd þrettán þátta teiknimyndaröð undir nafninu ‚The Story of Afanti‘/阿凡提 (电影) 1979 sem varð ein af áhrifamestu teiknimyndum í sögu kínverskrar kvikmyndaframleiðslu. Í Mið-Asíu er hann þekktur sem „Afandi“. Eósentímabilið. Mynd sem á að sýna dýralíf í Norður-Ameríku á Eósentímabilinu Eósentímabilið er jarðsögulegt tímabil sem nær frá því fyrir 55,8 ± 0,2 milljón árum þar til fyrir 33,9 ± 0,1 milljón árum síðan. Það er annar hluti paleógentímabilsins sem aftur er hluti af nýlífsöld. Sjávarstaða var lág. Spendýrin blómstruðu og ýmsir smávaxnir forverar margra nútímategunda komu fram svo sem kattardýr, hestar og fílar. Upphaf tímabilsins er miðað við þessi nútímaspendýr en lok þess miðast við umskiptin miklu þegar miklar breytingar urðu á dýralífi í Evrópu, hugsanlega vegna nokkurra loftsteina sem lentu í Síberíu og þar sem nú er Chesapeake-flói í Norður-Ameríku. Plíósen. Plíósen er tímabil í jarðsögunni fyrir 2,588-5,322 miljónum árum og var það síðasta af fimm tímabilum Tertíertímabilsins. Á Plíósen hélt Alpafelling áfram að þróast. Jarðlög einkum storkubergs- og ferkvatnsmyndanir sem er til marks um lækkandi sjávarstöðu. Landbrú myndast milli Suður- og Norður-Ameríka. Spendýr þróast og eru ríkjandi; apar sem líkjast mönnum koma fram. Jarðlög frá plíósen finnast allvíða á Íslandi. Tjörneslögin eru þekktust þeirra. Loftslag fór kólnandi á síðari hluta plíósen enda var þá ísöldin ("pleistósen") á næsta leiti. Búrfell upp af Hafnarfirði. Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, 180 m hátt yfir sjó, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Hraunstraumarnir sem runnu frá gígnum nefnast einu nafni Búrfellshraun en hafa fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli og allar náð til sjávar. Stærsta tungan rann niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á þessum hluta hraunsins. Önnur hrauntunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum. Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir í dag. Ystu totur hraunsins eru því sokknar í sæ og teygja sig nokkuð út fyrir núverandi strönd. Berggerðin hraunsins er ólivínbasalt (ólivínþóleiít) með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Sprungur og misgengi. Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni og að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krísuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins. Stærð hraunsins. Að stærð er Búrfellshraun miðlungshraun á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að sjá hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraun hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Líklega er allt að þriðjungur hraunsins sé hulinn yngri hraunum og það sé því alls um 24 km2 að flatarmáli. Rúmmál hraunsins er talið vera um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu eða rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr. Hrauntraðir. Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Stærstu hrauntraðirnar nefnast Lambagjá, Kringlóttagjá, Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum. Gönguleiðir. Vinsæl gönguleið á Búrfell liggur um Búrfellsgjá. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar, þar er Hrafnagjá, við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Veggir traðanna eru oft 5-10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti. Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk. Oddur Gíslason. Oddur Gíslason (1740 – 2. október 1786) var prestur á Miklabæ í Blönduhlíð og er þekktur fyrir þjóðsögur sem urðu til eftir að hann hvarf með dularfullum hætti. Oddur var sonur Gísla Magnússonar biskups á Hólum og konu hans, Ingibjargar Sigurðardóttur. Hann var stúdent frá Hólaskóla og lauk síðan guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð prestur á Miklabæ 1768. Þá var hann ókvæntur en tók sér ráðskonu sem Solveig hét og var ættuð úr Fljótum, en föðurnafn hennar er óþekkt. Séra Oddur bjó í mörg ár með ráðskonunni og hún mun hafa orðið ástfangin af honum, enda var hann að sögn fríður sýnum, hraustur og karlmannlegur, vel stæður og vel ættaður. Hvort sem eitthvað var á milli þeirra eða ekki kvæntist séra Oddur ekki Solveigu, heldur fór hann vorið 1777 og bað Guðrúnar, dóttur séra Jóns Sveinssonar í Goðdölum. Giftust þau stuttu síðar og Guðrún flutti að Miklabæ. Við það varð Solveig sinnisveik og reyndi hvað eftir annað að fyrirfara sér. Það tókst henni að lokum 11. apríl 1778, er hún skar sig á háls. Hún var jarðsett utan kirkjugarðs eins og þá var gert við þá sem förguðu sér sjálfir. Virðast fljótt hafa farið á kreik sögur um að Solveig lægi ekki kyrr í gröfinni. Það var svo átta árum seinna, 1. október 1786, að séra Oddur fór og messaði í Silfrastaðakirkju en skilaði sér aldrei aftur úr þeirri ferð. Hann kom við á Víðivöllum hjá Vigfúsi Scheving sýslumanni, en þaðan er aðeins rúmur kílómetri að Miklabæ, og reið þaðan einn í myrkri seint um kvöld og mun hafa verið nokkuð ölvaður. Sögur segja að heimilisfólki á Miklabæ hafi heyrst einhver koma á glugga og að Gísli, barnungur sonur prests, hafi verið sendur fram að opna fyrir föður sínum en hann annaðhvort engan séð eða ekki þorað að opna. En þegar komið var út um morguninn stóð hestur prestsins skammt frá bænum en hann sást hvergi. Tugir manna leituðu prests dögum saman en hann fannst ekki. Miklar þjóðsögur urðu til um hvarf séra Odds og var sagt að Solveig hefði dregið hann (og í sumum útgáfum sögunnar jafnvel hestinn einnig) ofan í gröf sína. Einnig komst á kreik orðrómur um að prestinum hefði verið ráðinn bani af mönnum en ekki draug og var sjálfur sýslumaðurinn nefndur til. En í bréfi sem skrifað er 1789 kemur fram að lík séra Odds hafði fundist þá um vorið í læknum Gegni fyrir neðan bæinn. Sú frétt, ef rétt er, virðist þó hafa farið fremur leynt, ef til vill til vegna þess að allt benti þá til að prestur hefði fyrirfarið sér, sem þýddi að hann átti ekki rétt á legstað í kirkjugarði og eignir hans skyldu falla til konungs. Svo mikið er víst að nokkrum áratugum síðar voru flestir Skagfirðingar sannfærðir um að líkið hefði aldrei fundist og hlyti að liggja í gröfinni hjá Solveigu. En þegar bein sem talin voru úr Solveigu voru grafin upp 1914, flutt að Glaumbæ og jarðsett þar (1937), þá var þar ekkert óeðlilegt að finna. Einar Benediktsson skáld orti kvæðið "Hvarf séra Odds á Miklabæ" út frá þjóðsögunni um Odd og Miklabæjar-Solveigu. Húsfriðunarnefnd ríkisins. Húsfriðunarnefnd ríkisins er íslensk nefnd sem vinnur að friðun húsa með menningarsögulegt eða listrænt gildi. Menntamálaráðherra ákveður friðun eða brottfall friðunar að fengnum tillögum húsafriðunarnefndar ríkisins. Í húsafriðunarnefnd eiga sæti fimm men. Menntamálaráðherra skipar fjóra menn til fimm ára í senn, tvo samkvæmt tilnefningu þjóðminjaráðs, einn samkvæmt tilnefninugu Arkitektafélags Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, en auk þeirra á þjóðminjavörður sæti í nefndinni. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Hlutverk húsfriðunarnefndar ríkisins er að stuðla að varðveislu byggingararfs þjóðarinnar í umboði þjóðminjaráðs, að meta hvaða hús sé ráðlegt að friða hverju sinni og gera um það tillögur til ráðherra. Nefndin skal hafa samráð við minjavörð þegar fjallað er um hús eða mannvirki a því svæði sem hann hefur umsjón með. Einnig úthlutar húsfriðunarnefnd ríkisins styrkjum úr húsfriðunarsjóði. Holstentor. Holstentor er eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Til vinstri er Maríukirkjan, til hægri eru salthúsin. Holstentor er borgarhlið í Lübeck og eitt þekktasta mannvirkið í Þýskalandi. Holstentor er helsta kennileiti borgarinnar og eitt af tveimur miðalda borgarhliðum sem enn standa í borginni (hitt er Burgtor). Hliðið er á heimsminjaskrá UNESCO ásamt stórum hluta miðborgarinnar. Lega og lýsing. Holstentor stendur við ána Trave í miðborg Lübeck og var vesturhlið gömlu borgarmúranna. Hliðið sneri í átt að Holtsetalandi (á þýsku: "Holstein") og þaðan er nafnið til komið. Byggingin var miklu stærri áður fyrr. Eiginlega var um fjögur hlið að ræða sem fara þurfti í gegn til að komast inn í borgina, en núvernadi hlið er það eina sem eftir stendur. Holstentor er með tvo háa turna og nokkra minni turna þar á milli. Það er ekki bara venjulegt borgarhlið, heldur eiginlegt varnarvirki. Á vesturhlið (úthlið) eru skotraufar fyrir fallbyssur. Suðurendinn hefur sigið talsvert, þannig að hliðið er rammskakkt og stafaði af því hætta á hruni á tímabili. Á austurhliðinni er platti með áletruninni: S.P.Q.L., ásamt ártölunum 1477 og 1871. Skammstöfunin er eftirhermun á skammstöfun Rómaveldis (S.P.Q.R.) og stendur fyrir Senatus populusque Lubesensis ("þingið og fólkið í Lübeck"). Fyrra ártalið stendur fyrir vígsluárið og það seinna fyrir árið sem hliðið var gert upp. Á vesturhliðinni er annar platti með áletruninni: Concordia domi foris pax ("eining að innan, friður að utan"). Saga Holstentor. Teikning af hliðunum fjórum. Núverandi hlið er nr. 2 frá vinstri. Hliðin fjögur. Holstentor var upphaflega byggt innan við Trave, en hliðin voru fjögur þegar mest lét. Þá var eitt fyrir innan Trave og þrjú fyrir utan. Talið er að elsta hliðið hafi verið reist 1376 ásamt því að ný brú var lögð yfir Trave. Með tilkomu betri skotvopna á 15. öld var ákveðið að reisa annað og betra hlið. Það var vígt 1478 að talið er (ekki 1477 eins og stendur á plattanum). Þetta hlið er núverandi Holstentor eins og það er í dag. Á 16. öld var nýr virkisveggur lagður fyrir utan hliðið nr. 2 og því reis enn eitt hlið, þriðja hliðið. Það var fullgert 1585. 1621 var svo fjórða hliðið reist. Það var að sama skapi fyrsta hliðið sem hvarf aftur, árið 1808, aðeins tveimur árum eftir að Frakkar réðust á borgina. Árás Frakka. 1806 voru Frakkar á þýskri grundu. Napoleon hafði sigrað í orrustunum við Jena og Auerstedt. Blücher herforingi fór fyrir prússneska hernum. Hann náði að safna liði og bjarga 34 fallbyssum og flýja til Lübeck. Frakkar fylgdu í humátt á eftir og réðust á borgina tveimur dögum eftir að Blücher komst þangað. Þar sem Holstentor var of sterkt vígi fyrir Frakka, einbeittu þeir sér að Burgtor, sem var miklu veikara. Eftir harða bardaga komust Frakkar inn í borgina og náðu henni smám saman á sitt vald. Blücher ákvað því að hörfa og notaði til þess Holstentor meðan Frakkar fóru rænandi um borgina. Þetta voru einu bardagar sem fram hafa farið við Holstentor. Síðustu aldir. Í upphafi iðnbyltingarinnar í borginni var þörf fyrir meira athafnasvæði. Því þurftu borgarmúrar og borgarhlið að víkja. 1808 rifu Frakkar fjórða hliðið. 1828 var fyrsta hliðið rifið og 1853 þurfti þriðja hliðið að víkja fyrir lagningu járnbrautarlínu. Til stóð að rífa annað hliðið einnig, en vegna vilja borgarbúa var ákveðið (með eins atkvæða mun) að leyfa því að standa. Hliðið var þá í lélegu ásigkomulagi. Bæði vegna lélegs viðhalds og einnig sökum þess að hliðið seig niður í jarðveginn, um nokkra cm á ári. Þegar hliðið var gert upp seint á 7. áratug 19. aldar voru neðstu skotraufirnar sunnanmegin komnar 50 cm niður í jarðveginn. Hallnn var þá orðinn ískyggilegur. Hliðið var þó gert upp og lauk þeirri vinnu 1871. Síðan þá hefur það verið einkennistákn borgarinnar og er enn. Þó hélt hliðið áfram að síga. 1933-1934 var framkvæmd mikil jarðvinna til að stöðva sigið og mun það hafa tekist að mestu. 1950 var safn innréttað inni í hliðinu. Þar eru munir úr sögu borgarinnar, skipsmódel, stórt módel af borginni eins og hún var áður fyrr, og pyntingarkjallari (sem var fjarlægður 2006). Óeirðir. Óeirðir eru borgaralegar óspektir, oft í tengslum við mótmæli fólks gegn aðgerðum yfirvalda, stofnana eða stórfyrirtækis þar sem mótmælin fara úr böndunum. Oft þarf lögregla þá að loka götum, reyna að sundra hópum fólks, notast við kylfur, rafbyssur, óeirðarskyldi eða skjóta gúmmíkúlum, jafnvel föstum skotum eða nota öflugar vatnsbyssur af þaki tankbíla til að sprauta út yfir mannsfjöldann og/eða reyna að dreifa honum með táragasi. Á Íslandi geta óeirðir varðað refsingu bæði samkvæmt lögreglusamþykktum og hegningarlögum. Í lögreglusamþykktum er kveðið svo á að uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi sem raskar allsherjarreglum megi ekki eiga sér stað á almannafæri og menn megi ekki þyrpast þar saman ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum öðrum óþægindum. Slík háttsemi varðar sektum, nema ef um alvarleg brot sé að ræða, þá er hægt að dæma fólk til fangelsisvistar. Meðgöngusykursýki. Meðgöngusykursýki er ástand sem skapast getur á meðgöngu hjá konum sem hafa ekki sögu um sykursýki og felur í sér háa þéttni glúkósa í blóði á meðan að á meðgöngu stendur. Fjöldi þeirra sem greinast með meðgöngutengda sykursýki fer stöðugt fjölgandi og er vaxandi vandamál í þjóðfélaginu. Á bilinu 3-10% allra meðganga ganga erfiðlega vegna ófullnægjandi blóðsykursstjórnunar móður, en í allt að 80% tilfella er um að ræða meðgöngusykursýki. Meinalífeðlisfræði. Móðir sem þjáist af meðgöngusykursýki hefur allt of háa þéttni glúkósa í blóði og þar sem glúkósi á greiða leið um fylgjuna til fóstursins, en ekki insúlín, veldur það of hárri þéttni glúkósa í blóði fósturs. Þar sem insúlín framleiðsla hefst ekki hjá fóstrinu fyrr en eftir 20. viku meðgöngu getur vangeta þess til viðbragðs við aukinni þéttni glúkósa í eigin sermi valdið ýmsum þroskafrávikum, sérstaklega á fyrstu tveim mánuðum meðgöngu. Eftir 20.viku meðgöngu hefur bris fóstursins tekið til starfa og stöðugt há þéttni glúkósa í blóði þess veldur ofvexti á brisfrumum og þar með offramleiðslu á insúlíni. Aukin insúlinframleiðsla fóstursins ýtir undir vöxt þess, bæði hvað varðar frumufjölda og stærð. Ófullnægjandi blóðsykursstjórnun móður getur þannig haft áhrif á vöxt fóstursins, blóðsykurs- og járn efnaskipti, súrefnismettun og gerir það að verkum að barnið verður síður tilbúið til að takast á við líf utan móðurkviðs. Á meðgöngu. Eins og áður sagði byrjar fóstrið ekki að mynda eigið insúlín fyrr en eftir 20. viku meðgöngu. Of há þéttni glúkósa án mótvægis insúlíns veldur því að fóstrið þroskast ekki með eðlilegum hætti og hægir á vexti þess, en rannsóknir gefa til kynna að á fyrstu stigum meðgöngu sé verulega aukin hætta á vansköpunum ef blóðsykurstjórnun móður sé ófullnægjandi. Eftir 20. viku meðgöngu er fóstrið farið að mynda eigið insúlín í miklum mæli sem svar við stöðugri hárri þéttni glúkósa í blóði. Þar sem insúlín er vefaukandi hormón og glúkósi drifkraftur insúlínframleiðslu veldur það mikilli aukningu á fitu- og próteinbirgðum fóstursins. Örust er stækkunin þó á síðustu 8 vikum meðgöngu, sérstaklega hvað varðar ofvöxt lifrar, milta og hjarta. Ofvöxtur á skilveggi hjartaslegla, sem valdið getur vinstri hjartabilun síðar meir, og aðrir sjúkdómar í hjartavöðva ("cardiomyopathy") eiga sér stað hjá um 30% nýbura sykursjúkra mæðra. Bein tengsl eru á milli alvarleika blóðsykurs- og insúlinbrenglana hjá móður og þróun hjartasjúkdóma hjá fóstri, en umræddar efnaskiptabrenglanir gera það að verkum að glúkagon hleðst upp í skilvegg hjartaslegla. Ofvöxtur skilveggsins er svo talið leiða til annara sjúkdóma í hjartavöðva. Ofvöxtur. Þessi gríðarlega vaxtarörvun gerir það að verkum að um 25% barna kvenna sem þjást af meðgöngusykursýki eru þyngri en 4 kg. við fæðingu ("macrosomia" eða "LGA") samanborið við 8% heilbrigðra mæðra, en ósamræmi í stærð barns og mjaðmagrindar móður ("cephalopelvic disproportion") stefnir bæði móður og barni í hættu. Nýburar sem hafa fæðingarþyngd umfram 4000 gr. eru þar af leiðandi í aukinn hættu á að verða fyrir taugaskaða ("brachial plexus injury") við fæðingu vegna stærðar sinnar og er orsökin tengd því hvernig teygist á hálsinum við fæðingu. Öndunarbilun. Fram að 38. viku meðgöngu eru börn sykursjúkra mæðra í aukinni hættu á að upplifa öndunarbilun í kjölfar fæðingar en of há þéttni insúlíns á fósturskeiði er talin seinka þroska ýmissa líffæra, þ.á.m. þroska lungnanna. Talið er að insúlín dragi úr virkni kortisóls, sem undir venjulegum kringumstæðum stuðlar að eðlilegum þroska lungnanna, og geti þar með valdið öndunarbilun meðal nýbura. Of stór börn sykursjúkra mæðra eru jafnframt í meiri hættu á að upplifa súrefnisþurrð í fæðingu en heilbrigð börn vegna erfiðrar fæðingar. Einkenni geta verið slekja ("hypotonia") eða slappleiki, skjálfti og aukin hætta á krampa, en líkurnar á krampa eru hvað mestar 24 klukkustundum eftir fæðingu. Blóðsykursfall. Nýfætt barn móður sem ekki hefur náð stjórn á eigin sykursýki á meðgöngu á í hættu að verða fyrir blóðsykursfalli. Í kjölfar fæðingar verður skyndileg truflun á blóðsykursjafnvægi í blóði fósturs þar sem þéttni insúlíns helst hátt á sama tíma og framboð glúkósa frá móður hefur stöðvast. Börn sem eru vanþroskuð eða of stór vegna ófullnægjandi blóðsykurstjórnunar móður eru í meiri hættu á blóðsykursfalli en börn sem eru stór miðað við meðgöngulengd. Algengi blóðsykursfalls hjá nýburum sykursjúkra mæðra er allt að 50%, en áhrifa er að gæta hjá um 5-30% þeirra. Lækkun á blóðsykri nýburans byrjar að lækka strax eftir fæðingu en lágmarki er náð 1-3 klukkustundum eftir fæðingu og því mikilvægt að fylgst sé vel með. Einkenni of lágs blóðsykurs hjá nýburum eru m.a. skjálfti, sviti, hröð öndun eða andköf, krampar, pirringur og öndunarbilun. Meðhöndlun. Um leið og fjöldi þeirra sem eiga í hættu að þróa með sér meðgöngusykursýki eykst með hverju árinu hafa um leið átt sér stað miklar framfarir í greiningu og meðhöndlun sjúkdómsins. Vegna þess hversu miklar heilsufarslegar afleiðingar sykursýki á meðgöngu getur haft á fóstur og nýbura er mikilvægt að huga að eftirfarandi þáttum varðandi meðferð og fyrirbyggingu á meðgöngu og eftir fæðingu. Á meðgöngu. Til að halda efnaskiptum fóstursins stöðugum þarf að stjórna glúkósu í blóði móður og þar með halda flutningi glúkósu yfir fylgju innan eðlilegra marka.. Fyrirbyggjandi þættir er koma í veg fyrir að blóðsykursjafnvægi fari úr skorðum á meðgöngunni og skapi þ.a.l. vandamál fyrir móður og fóstur/barn geta m.a. falið í sér að skima allar konur í áhættuhópum fyrir meðgöngusykursýki, helst í fyrstu mæðraskoðun, að veita ítarlega fræðslu um meðgöngusykursýki með áherslu á meðferðarheldni og blóðsykursstjórnun strax við greiningu, og að halda blóðsykri innan hæfilegra marka á meðan meðgöngu stendur. Mikilvægt er að leggja áherslu á rétt mataræði konunnar til að halda blóðsykri í jafnvægi, að hvetja konunna til hreyfingar þar sem hreyfing lækkar blóðsykur og að fylgjast reglulega með blóðsykri hennar. Sé þörf á insúlínmeðferð, eins og er í um 20% tilvika hjá konum með meðgöngusykursýki, þarf að kenna konunni að beita þeirri meðferð á sjálfa sig. Jafnframt gæti ómskoðun fósturs á ca. 18.-19.viku, með áherslu á hjartaómskoðun þess, gefið vísbendingar um óeðlilegan þroska hjartavöðvans. Eftir fæðingu. Meðhöndlun barna sykursjúkra mæðra byggist helst á fyrirbyggingu fylgikvilla, að meðhöndla algeng vandamál og að koma snemma auga á vandamál sem geta verið til staðar. Hvort sem um er að ræða markverðan vanþroska, öndunarbilun, meðfædda galla, endurtekin tímabil lágs blóðsykurs eða einkennalaust barn sykursjúkrar móður þarf að leggja nýburann inn á deild sem hæf er til að sinna vandamálum þess. Hjá mæðrum með sykursýki og meðgöngusykursýki þarf að hvetja sérstaklega til brjóstagjafar til að halda uppi blóðsykri barnsins þar sem insúlínframleiðsla þess er meiri en ella. Þeir meðfæddu gallar sem mestu máli skipta eru greindir með sónar á meðgöngu eða við fyrstu líkamsskoðun. Þegar barn sykursjúkrar móður er skoðað í fyrsta skipti skal sá sem skoðar barnið vera vel vakandi fyrir þeim vandamálum sem þekkt eru hjá börnum sykursjúkra mæðra, en ítarlegt líkamsmat nýbura mæðra með sykursýki er mikilvægt. Blóðsykursfall. Mikilvægt er að hefja gjöf næringar, sérstaklega brjóstagjafar, eins fljótt og auðið er en þannig má oft má í veg fyrir blóðsykursfall hjá nýburum. Hægt er að meðhöndla um helming tilfella með sondumötun einni og sér en enn betri árangur sést ef þeim er gefin brjóstamjólk eða stoðmjólk með. Ef illa gengur að koma næringu í barnið um munn getur reynst nauðsynlegt að gefa því næringu í æð. Næringargjöf í æð er hins vegar ekki ætluð þeim börnum sem sýna engin einkenni, mælast með eðlilegan blóðsykur, teljast í stöðugu ástandi og hæf til að þola næringargjöf um munn. Axlarklemma. Hvað varðar axlarklemmu eða annan skaða á útlimum sem getur átt sér stað í kjölfar fæðingar hjá of stórum börnum ("macrosomia") þá skyldi skoða útliminn sem varð fyrir skaða með tilliti til aktívra og passívra hreyfiferla sem notaðir eru til viðmiðunar fyrir frekari líkamsskoðanir í framtíðinni. Jafnframt skal meta bæði skynvirkni útlimsins í líkamsskoðuninni, bæði hvað varðar skynjun léttrar og beittrar ("pinprick") snertingar. Sá möguleiki er fyrir hendi að nýburinn hunsi annan líkamshelminginn og ef slíkt er til staðar getur það bent til þess að hann skorti tilfinningu í handleggnum sem er á þeim helmingi. Tap á drifkerfisvöðvaspennu ("sympathetic tone") getur einkennst af kaldri og þurri húð. Til að ná sem bestum árangri hjá nýburum með axlarklemmu þarf að koma snemma auga á vandamálið og að koma nýburanum í samband við sérhæft teymi sem vinnur með vandamálið. Þess má geta að um 95% þeirra sem fæðast með skaða á "brachial plexus" ná bata með sjúkraþjálfun einni og sér. Aðeins örlítið hlutfall nýbura með vandamálið gætu þurft á frekari aðstoð að halda til að ná betri bata, en þau 5% sem eftir eru fá langvarandi einkenni og eiga þau það á hættu að þróa með sér markverða fötlun ef meðferð er ekki hafin nógu snemma. Þó má nefna að um 90% nýbura innan þessara 5 % geta náð miklum bata sé meðferð ekki tafin um of, en sé meðferðin hafin of seint ná einungis um 50-70% þeirra markverðum bata Eftirfylgni. Eftirfylgni eftir meðgöngusykursýki er mikilvæg fyrir þær konur sem með hana greinast þar sem hætta er á að þær þrói með sér sykursýki týpu II. Hún gæti ekki aðeins haft neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar fyrir móðurina heldur einnig á þau börn sem hún mun mögulega ganga með í framtíðinni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að of algengt sé að konur haldi að meðgöngusykursýkin hverfi alveg eftir fæðingu og hafi engar frekari afleiðingar. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að of fáar konur, sem greinst hafa með meðgöngusykursýki, fái þá fræðslu og/eða meðferð sem þær þurfa í kjölfar greiningar. Því ber hjúkrunarfræðingum að fylgja þessum konum eftir og sjá til þess að þær séu meðvitaðar um afleiðingar og áhættur meðgöngusykursýkinnar Ár byssunnar. Ár byssunnar (enska: "Year of the Gun") er bandarísk spennumynd eftir John Frankenheimer frá 1991 með Andrew McCarthy, Sharon Stone og Valeria Golino í aðalhlutverkum. Myndin er gerð eftir samnefndri skáldsögu Michael Mewshaw frá 1983. Myndin gerist árið 1978 og fjallar öðrum þræði um ránið á Aldo Moro og blýárin á Ítalíu. Joseph Schumpeter. Joseph Alois Schumpeter (8. febrúar 1883 – 8. janúar 1950) var einn merkasti hagfræðingur 20. aldarinnar. Schumpeter fæddist í Móravíu, þá Austurríki-Ungverjalandi, nú Tékklandi. Þekktastur er hann fyrir hagfræðiskrif um hagsveiflur, þróun hagkerfa og ekki síst hina „skapandi eyðileggingu athafnaskálda kapítalismans“ sem hann taldi forsendu nýsköpunar og framfara. Hann kenndi lengi við Harvard-háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum. Ævi. Joseph Schumpeter fæddist í smábænum Triesch, í Móravíu, Austurríska ungverska Keisaradæminu. Hann flutti ásamt einstæðri móður sinni til Graz og síðar til Vínarborgar. Schumpeter var snemma talinn afburðarnemandi og hlaut lof kennara sinna. Hann hóf nám í lögfræði við Háskólann í Vín undir leiðsögn hins þekkta Eugen von Böhm-Bawerk. Doktorsprófi lauk hann árið 1906. Árið 1909 varð hann prófessor í hagfræði við Háskólann í Czernowitz. Á árunum 1919-1920 starfaði hann sem fjármálaráðherra Austurríkis, með nokkrum árangri. Árið 1920 varð hann stjórnarformaður Biedermann einkabankans sem féll síðan árið 1924 og dró Schumpeter með sér í gjaldþrot. Á árunum 1925-1932 var hann prófessor við Háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann kenndi einnig við Harvard-háskóla 1927-1928 og einnig 1930. Hann flýði uppgang þjóðernishreyfingar Þýskalands til Bandaríkjanna þar sem hann kenndi frá 1932 allt til dauðadags 8. janúar 1950. Þrátt fyrir að Schumpeter hafi ekki þótt sérstakur kennari í Harvard eignaðst hann tryggan áhangendahóp. Hann þótti einnig umdeildur, skoðanir hans þóttu gamaldags og í takt við kenningar Keynes sem naut þá mikillar hylli. Kenningar. Hann er þekktastur fyrir hagfræðiskrif um hagsveiflur, þróun hagkerfa og ekki síst hina „skapandi eyðileggingu athafnaskálda kapítalismans“ sem hann taldi forsendu nýsköpunar og framfara. Í einni þekktustu bók sinni, "Kapítalismi, jafnaðarstefna og lýðræði", sem kom út árið 1942 sagðist Schumpeter vera efins á framtíð kapítalismans. Ólíkt Karl Marx sem taldi kapítalisma verða bylt af óvinum sínum, taldi Schumpeter að kapítalisminn myndi líða undir lok vegna eigin árangurs. Menntamenn myndu hafa starfa af því að ráðast á undirstöður kapítalsimans, kerfi einkaeignar og frelsis. Schumpeter er einnig þekktur fyrir kenningu sína um fulltrúalýðræði þess efnis að það snúist um heiðarlegar og reglulegar kosningar þar sem stjórnmálamenn keppast um hylli kjósenda en eftir að umboðið sé veitt geti þeir starfað eftir eigin sannfæringu frekar en almannavilja. Ráðhúsið í Lübeck. Ráðhúsið í Lübeck er ægifögur byggingarsamstæða í miðborginni. Vinkillinn myndar aðal markaðstorgið í borginni. Ráðhúsið í Lübeck (eða Ráðhúsið í Lýbiku) er meðal stærstu og merkustu gotneskra ráðhúsbygginga í Þýskalandi. Það stendur í miðborginni nálægt Maríukirkjunni. Vinkill byggingarinnar myndar aðalmarkaðstorgið. Húsið er á heimsminjaskrá UNESCO, ásamt stórum hluta miðborgarinnar. Saga ráðhússins. Þegar Lübeck varð að fríborg í þýska ríkinu 1226, var ákveðið að reisa nýtt ráðhús, sæmandi fyrir borgina. Elsti hlutinn var í byggingu út öldina og var vígður 1308. Það er suðurálman, sem er gerð úr brenndum svörtum tígulsteinum. Við uppgang borgarinnar á tímum Hansasambandsins var næstu álmu bætt við. Það var byggingin með tígulsteinaveggnum, götunum og turnunum og var vígt 1435. Síðla á 16. öld var svo hvíta húsinu með súlnagöngunum bætt við. Ráðhúsið var þá þegar orðið eitt það stærsta í Evrópu. Feneysku tröppurnar á austurhlið ráðhússins voru smíðaðar 1594. Þær eyðilögðust að mestu í loftárásum 1942 og eru ekki lengur í notkun í dag. Ráðhús þetta er enn í notkun sem ráðhús Lübeck. Sörla þáttur. Sörla þáttur er einn af Íslendingaþáttum og er stuttur innskotskafli í Ljósvetninga sögu. Þar segir frá kvonbænum Sörla sem var sonur Brodd-Helga Þorgilssonar, en hann er ein af aðalsögupersónunum í Vopnfirðinga sögu. Varast ber að rugla Sörla þætti við "Sörla þátt eða Héðins sögu og Högna", en sá þáttur tilheyrir Fornaldarsögum Norðurlanda. Sörli fylgdi Guðmundi ríka Eyjólfssyni á Möðruvöllum í Eyjafirði heim af þingi eitt árið en Guðmundur var vanur að taka til sín göfugra manna syni um tíma. Sörli vann fyrir hann og dvaldist á Möðruvöllum eitt ár. Þar kynntist hann Þórdísi dóttur Guðmundar og fór vel á með þeim. Guðmundi líkaði það ekki og kom Þuríði fyrir hjá Einari Þveræingi bróður sínum en Sörli hélt áfram að heimsækja hana þangað. Á þingi um sumarið kom Sörli að máli við Einar Þveræing og bað hann að biðja Guðmund um hönd Þórdísar fyrir sig. Einar gerði það en Guðmundur neitaði og bar fyrir sig orðróm sem hafði gengið um kynni þeirra Sörla og Þórdísar. Einar ráðlagði Sörla þá að fá Þórarin Nefjólfsson, góðvin Guðmundar, sem milligöngumann og tókst Þórarni að tala Guðmund til svo að hann samþykkti ráðahaginn. Sörli og Þórdís bjuggu á Valþjófsstöðum í Fljótsdal. Þau eignuðust synina Einar og Brodda. Þótt það sé óskylt sjálfum þættinum má nefna að Sörli kemur við Njáls sögu þegar Flosi leitar sér liðsinnis eftir brennu til þings. Hann ríður austur og norður og hittir Sörla en hann svarar svo að hann vilji áður vita hug Guðmundar ríka en þá svarar Flosi „Finn ek þat á svörum þínum at þú hefir kvánríki“ og fékk hann þar engan stuðning en þó hafði áður Hallbjörn er átti Oddnýju systur Sörla lofað honum fullum stuðningi. Svo fór enda að á þingi studdi Guðmundur Kára og Mörð Valgarðsson og þá félaga. Maríukirkjan í Lübeck. Maríukirkjan í Lübeck. Stuðningssúlurnar sjást greinilega við aðalveggina. Svarti turninn aftarlega á skipinu er frá 1980. Maríukirkjan í Lübeck (eða Maríukirkjan í Lýbiku) er þekktasta kirkjan í Lübeck og er jafnframt hæsta mannvirki miðborgarinnar (124 m). Hún er einnig þriðja stærsta kirkja Þýskalands. Kirkjan er auk þess með stærsta kirkjuskip heims sem gert er úr tígulsteinum. Maríukirkjan er fyrirmynd að um 70 annarra gotneskra kirkna víða við Eystrasalt. Byggingasaga. Maríukirkjan átti sér tvo fyrirrennara. Fyrst var þar viðarkirkja í landnámi Þjóðverja, en síðar var reist þar steinkirkja þegar Lübeck var stofnuð. Núverandi kirkja var reist 1250-1350, en nokkrar viðbætur voru gerðar seinna. Kirkjan var fyrir auðstéttina, t.d. verslunarmenn, og því var ákveðið að hafa hana stærri en dómkirkjan sem stóð ekki langt frá. Kirkjan fékk 40 metra hátt skip, en það er stærsta kirkjuskip heims sem gert er úr tígulsteinum. Til að haldast uppi þurfti að reisa stuðningssúlur sitthvoru megin við kirkjuveggina að utan. Vegna þyngsla hefði þakið (sökum hæðarinnar) að öðrum kosti ýtt útveggjunum frá og við það hefði allt hrunið. Súlurnar gefa kirkjunni sérkennilegt útlit að utan. Turnarnir urðu tveir og eru 124 metra háir. Kirkjan var svo vígð 1350 og helguð Maríu mey. Bruni og endurreisn. Kirkjuklukkurnar hrundu í brunanum 1942 og liggja til sýnis á gólfinu Á pálmasunnudegi 1942 varð Lübeck fyrir gríðarmiklum loftárásum Breta. Þótt Maríukirkjan sjálf hafi ekki orðið fyrir sprengingu, brann hún samt ásamt öðrum húsum í kringu. Allt kirkjuskipið brann til kaldra kola og hrundi þá þakið. Turnarnir tveir brunnu einnig. Báðar stóru kirkjuklukkurnar hrundu niður, en sú stærri var rúmlega 7,1 tonn að þyngd. Klukkurnar eru enn á staðnum þar sem þær hrundu og eru í dag minnismerki um stríðið. Þegar Bretar gáfu borginni grið, fékk Maríukirkjan bráðabrigðaþak meðan stríðið geysaði allt um kring. Hin eiginlega endurreisn hófst hins vegar 1947. 1951 voru framkvæmdir komnar svo langt áleiðis að hægt var að halda upp á 700 ára afmæli kirkjunnar. Við það tækifæri gaf Konrad Adenauer kanslari kirkjunni nýja stóra kirkjuklukku. Framkvæmdum lauk að mestu 1959 og var kirkjan þá endurvígð. 1980 var svörtum kirkjuturni aftarlega á skipinu bætt við. Listaverk. Antwerpen altaristaflan er glæsilegt listaverk Antwerpen altaristaflan. Antwerpen altaristaflan var smíðuð 1518, en 1522 var hún flutt til Lübeck og sett upp í hliðarkapellu í Maríukirkjunni. Altaristaflan er gerð úr málverkum og litlum höggmyndum og sýnir senur úr ævi Maríu mey á einkar glæsilegan hátt. 1869 voru nokkrir hlutir skornir af og seldir. Þeir eru á söfnum á nokkrum stöðum í Evrópu. Þegar kirkjan brann 1942 var altaristaflan enn stödd í hliðarkapellunni (ekki í meginskipinu) og slapp því við eyðileggingu. 1945 var nokkrum smástyttum stolið úr töflunni. Því er mikið holrými ofarlega fyrir miðju töflunnar. Taflan er þó enn hin glæsilegasta og er enn í kirkjunni í dag. Dauðadansinn. Nokkrar freskur prýddu Maríukirkjuna í gegnum aldirnar. Ein merkasta freskan var "Dauðadansinn" svokallaði. Það eru myndir af dauðafígúrum sem eru í dansi við presta, biskupa, höfðingja og leikmenn. Dauðadansinn í kirkjunni var þekktasta og áhrifamesta dauðadans-myndin í Þýskalandi. Hún var búin til 1463, sennilega af áhrifum svarta dauða. Í brunanum 1942 eyðilagðist myndin algjörlega og er ekki til lengur í dag. Þó eru til ljósmyndir af verkinu. En sökum hitans í brunanum losnaði pússið innan á kirkjunni. Þá komu í ljós aðrar gamlar freskur sem huldar hafa verið áður fyrr og voru löngu gleymdar. Þegar kirkjan fékk nýja glugga eftir stríð, var myndefnið í nokkrum þeirra úr dauðadansinum. Stjörnuúrið. Í kirkjunni stóð stjörnuúr sem smíðað var 1561-1566. Hún stóð í kórnum og gjöreyðilagðist í brunanum 1942. Aðeins ein af skífunum fannst heil og er hún til sýnis í St. Annen-safninu í borginni. Nýja stjörnuúrið var smíðað af úrsmiðinum Paul Behrens 1960-1967. Framhliðin líkist frumúrinu, en er þó einfaldari. Hún sýnir dagana, mánuðina, sólargang, tunglgang, stjörnumerki, páskadagsetningar og gang plánetanna. Klukkan 12 á hádegi fer klukkuspil í gang og ganga þá fígúrur úr Biblíunni út úr klukkunni og inn í hana aftur. Orgel. Stóra orgelið var á sínum tíma stærsta orgel heims Maríukirkjan hefur átt nokkur stór og þekkt orgel. Elsta þekkta orgelið var "Dauðadansorgelið". Það var smíðað 1477 og sett upp í nyrðra þverskipinu (þar sem stjörnuúrið stendur í dag). Þetta var dauðadanskepellan þá, þar sem sálumessur voru haldnar. 1937 var orgelið gert upp og var þá orðið víðfrægt. Annað orgel var "Stóra orgelið" (Grosse Orgel), upphaflega smíðað 1516-1518 með miklum tilkostnaði. Hún var stækkuð nokkru sinnum og fékk fallega skreytta framhlið í gotneskum stíl. Talið er að Johann Sebastian Bach hafi spilað á þetta orgel þegar hann sótti Lübeck heim 1705 til að kynnast organistanum Dietrich Buxtehude. Bach var boðið að verða eftirmaður hans, en hann neitaði. 1851 var orgelið endurnýjað frá grunni. Bæði "Stóra orgelið" og "Dauðadansorgelið" brunnu 1942 og gjöreyðilögðust. Nýja orgelið eftir stríð var sett upp 1968. Það var þá stærsta orgel heims sem ekki var knúið rafmagni. Það samanstendur af 8.512 pípum, þær stærstu 11 metra háar. 1955 var Dauðadansorgelið endursmíðað og sett upp á öðrum stað í kirkjunni. Hún er með 5.000 pípur. Vogaskóli. Vogaskóli er grunnskóli í Reykjavík. Hann telst vera í Laugardalshverfinu. Í skólanum eru um 350 nemendur, þar af eru um 140 á unglingastigi. Skólastjóri Vogaskóla er Jónína Emilsdóttir. Orrustan við Somme. Orrustuvöllurinn við Beumont-Hamel eftir lok bardaga 1916. Orrustan við Somme (franska: "Bataille de la Somme") var orrusta í fyrri heimsstyrjöldinni sem hófst 1. júlí 1916 og stóð fram til 18. nóvember sama ár í Somme-sýslu, Frakklandi, við bakka Somme-fljótsins. Orrustan fólst í árásarstríði Breta og Frakka á hendur Þjóðverjum, en þeir höfðu hernumið stóra hluta af Frakklandi eftir að þeir réðust inn í landið í ágúst 1914. Orrustan við Somme var einn blóðugasti bardagi fyrri heimsstyrjaldarinnar, en þegar styrjöldin hafði fjarað út að hausti 1916 lágu fleiri en 1,5 miljón manna í valnum. Orrustan við Somme er meðal blóðugustu bardaga mannkynssögunnar. Burgtor. Burgtor eins og það lítur út núna. Portin er orðin fjögur. Burgtor er annað af tveimur miðalda borgarhliðum sem enn standa í Lübeck. Hitt er Holstentor. Harðir bardagar áttu sér stað við Burgtorhliðið árið 1806 er her Napoleons hertók borgina. Burgtor er nyrsta byggingin í miðborg Lübeck sem er hluti af heimsminjaskrá UNESCO. Upphaf. Hliðið sjálft var reist 1444 og var þá innra hliðið af tveimur á þessum stað. Hitt var eldra, eða frá 14. öld. 1622 var svo þriðja hliðinu bætt við og var það yst. Sitthvoru megin við Burgtor gengu borgarmúrarnir í báðar áttir. Hliðið stóð við hliðina á virki einu sem nú er horfið og þaðan er heitið Burgtor komið (Burg = virki, tor = hlið). Bardaginn um Lübeck. 1806 voru Frakkar á þýskri grundu. Napoleon hafði sigrað í orrustunum við Jena og Auerstedt. Blücher herforingi var fyrir prússneska hernum. Hann náði að safna liðinu saman og bjarga 34 fallbyssum að auki og flýja til Lübeck. Frakkar fylgdu í humátt á eftir og réðust á borgina tveimur dögum eftir að Blücher komst þangað. Þar sem Burgtor var veikasta af borgarhliðunum þremur í Lübeck, afréðu Frakkar að ráðast á borgina þar. Prússar vörðust þar af miklu harðfylgi, en voru langtum færri en Frakkar. Blücker skipaði fyrir að hindra inngöngu Frakka með öllum ráðum. Það tókst þó ekki. Eftir fjögurra tíma bardaga við Burgtor kom skipun um að hörfa. Fyrstu Frakkarnir voru þá að komast inn fyrir og opnuðu hliðið fyrir samherja sína fyrir utan. Þá upphófust miklir götubardagar, en í þeim tókst Prússum að hrinda árás Frakka nokkrum sinnum. En að lokum höfðu Frakkar betur og fóru rænandi og ruplandi um borgina. Mörgum Prússum tókst að flýja með Blücher herforingja í gegnum hið vel varða Holstentor. Lübeck var á valdi Frakka. Síðustu aldir. Burgtor var upphaflega aðeins með eitt gat. Nokkrum árum eftir að Frakkar yfirgáfu borgina á ný, var farið að velta fyrir sér þeirri hugmynd að rífa hliðið til að skapa byggingasvæði. Hliðið var einnig hindrun fyrir síaukna umferð. Slíkum hugmyndum var hins vegar hafnað á þeirri forsendu að verið væri að rífa niður sögulega byggingu. Af sömu ástæðu fékk Holstentor, aðalhlið borgarinnar, einnig að standa. Mylluhliðið í suðri var hins vegar rifið og er horfið. 1850 var ákveðið að rífa borgarmúrana sitthvoru megin við Burgtor og búa til annað gat fyrir umferðina, þannig að hægt var að fara í gegnum hliðið í báðar áttir samtímis. 1875 var enn einu gati bætt við fyrir gangandi umferð. 1920 var svo fjórða gatinu bætt við. Burgtor er því með fjögur port núna. 1912 var innréttuð lítil íbúð í hliðinu. Þar fékk rithöfundurinn Ida Boy-Ed að búa til æviloka. Í dag er aðstaða fyrir myndlistarmenn i hliðinu. Dómkirkjan í Lübeck. Dómkirkjan í Lübeck er fyrsta tígulsteinakirkjan við Eystrasalt. Hún er 130 metra löng og þar með ein af allra lengstu tígulsteinakirkjum heims. Byggingasaga. Árið 1173 lagði Hinrik ljón ("Heinrich der Löwe") grunnstein að dómkirkjunni, en hann hafði áður stofnað borgina Lübeck og byggt hana upp. Kirkjan var vígð 1230 og helguð Jóhannesi skírara og heilögum Nikulási. Kirkjan var byggð úr tígulsteinum, sú fyrsta yfirhöfuð við Eystrasalt. Aðeins 36 árum seinna var kirkjunni breytt og fékk hún þá sinn núverandi gotneskan stíl. Því verki lauk 1335. Seinna á sömu öld var kirkjan lengd, þannig að hún varð tvöfalt lengri en áður. Hún varð þá 130 metra löng og var þá (og er enn) meðal lengstu kirkna heims. Fram að siðaskiptum var dómkirkjunni stjórnað af biskupi en þegar kirkjan varð lútersk tók borgarráð við. Bruni og endurreisn. Dómkirkjan brann á pálmasunnudegi 1942 Á pálmasunnudegi 1942 varð Lübeck fyrir miklum loftárásum Breta. Kirkjan sjálf varð ekki fyrir sprengjum, en höggþungi einnar sprengju í götunni við hliðina olli því að allur austurhluti þaksins hrundi. Eldur úr brennandi nágrannahúsum læsti sig í kirkjuna. Meðan það átti sér stað, var hlaupið til og bjargað því sem bjarga mátti af listaverkum kirkjunnar. Kirkjan sjálf brann til kaldra kola og við það hrundu bæði turnþökin. Árið 1946 hrundi svo einn aðalveggur kirkjunnar inn í rústirnar. Eftir stríð var ákveðið að bíða með að endurreisa dómkirkjuna sökum fjárskorts, þar til búið væri að gera við Maríukirkjuna. Á meðan lá dómkirkjan í rústum. Framkvæmdir við hana hófust þó áður en Maríukirkjan var endurvígð, en þeim lauk ekki fyrr en 1982. Turnarnir í dag eru 105 metra háir. Sigurkrossinn. Sigurkrossinn er 17 metra hátt listaverk sem sýnir Jesú hangandi á krossi, en styttur af öðrum persónum eru staðsettar á þverbita krossins. Listaverkið var smíðað af Bernt Notke 1477 í þágu biskupsins, sem þá var Albert II Krummendiek. Listaverkinu var bjargað í brunanum 1942 og var aftur sett upp í kirkjunni við endurreisn hennar. Sigurkrossinn þykir eitt fegursta miðalda listaverk sem smíðað hefur verið í Lübeck. Prestaþilið. Prestaþilið skildi að kirkjuskipið og verustað prestanna. Þilið var smíðað 1477 af Bernd Notke og þykir einnig afburða fagurt. Á þilinu eru fjórar styttur sem eina að tákna hina fjóra verndardýrlinga kirkjunnar: Heilagur Nikulás, María mey, Jóhannes skírari og heilagur Blasíus. 1628 var stór klukka sett inn í þilið, en klukkur á þeim tíma voru fátíð frumkvölðaverk. Prestaþilið bjarðaðist í brunanum 1942. Eftir endurreisn dómkirkjunnar var þilið hækkað, það er að segja það var sett á stultur og þjónar ekki lengur sem þil, heldur eingöngu sem listaverk. Um stofnun kirkjunnar. Sagan segir að eitt sinn hafi Karlamagnús farið á veiðar í Saxlandi (sem þá náði alla leið að dönsku landamærunum). Þar elti hann hjört, en gat hvorki drepið hann né fangað. Því hafi keisarinn tekið af sér gullna hálskeðju og sett hana í hornin á hirtinum. Um 400 árum seinna hafi svo Hinrik ljón, stofnandi Lübeck, farið á veiðar á sömu slóðum. Hann settist niður eitt sinn til að íhuga hvernig hann gæti fjármagnað kirkju í nýstofnaðri borg sinni. Allt í einu hafi hjörtur gengið í flasið á honum, en hann hafði gullna hálskeðju í hornunum. Hinrik skaut dýrið og náði keðjunni. Hann þóttist vita að um himnasendingu væri að ræða, því keðjan var það dýrmæt að hún myndi fjármagna kirkjuna. Hjörturinn stóð hins vegar upp aftur og hvarf út í buskann. Hinrik lagði því grunnstein kirkjunnar þar á staðnum. Rós Rabundusar. Áður fyrr var kirkjunni stjórnað af kirkjuráði, sem aftur laut biskupi. Sagan segir að þegar kæmi að dánarstund eins meðlims kirkjuráðsins, hafi hvít rós birst í stól hans. Eitt sinn fann ráðsmaður að nafni Rabundus hvíta rós í sætinu sínu. Hann hrökk við, en þóttist ekki vera reiðubúinn að deyja enn. Hann ætti margt eftir ógert. Því tók hann rósina og lagði hana í stól sessunautar síns. Þegar sá kom að stólnum sínum og sá rósina, varð honum svo hverft við að hann lagðist veikur og dó þremur dögum seinna. Rabundus sá hins vegar eftir gjörðum sínum og sagði skriftarföður sínum frá. Hann sór einnig að aðferðin til að segja fyrir um dauða ráðsmeðlimanna skyldi breytast eftir sinn dag. Þegar Rabundus var allur, hættu rósirnar að birtast. Þess í stað heyrðust þrjú þung högg í kirkjunni sem glumdu um alla bygginguna. Högg þessi heyrðust lengi vel eftir þetta. Boeing 747-400. Boeing 747-400 er breiðþota frá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing. Hún er knúin fjórum þotuhreyflum. Þotan var hönnuð á grunni Boeing 747-300 með 1,8 metra endavængla, stafrænum stjórnklefa, stærri eldsneytistank og sparneytnum þotuhreyflum með auknum þrýstikraft. Fyrsta flugvélin var afhent í janúar 1988 og flug í fyrsta skipti 29. apríl sama árs. United Airlines. United Airlines er bandarískt flugfélag. Flugvélar United eru Airbus a320 og, a319,Boeing 737 Boeing 747, Boeing 757, Boeing 767 og Boeing 777. Áður notaði félagið Boeing 727 og Douglas DC-8, DC-10, DC-4 og DC-6. United Airlines ákvað að kaupa Airbus a350 og Boeing 787 í stað Boeing 747 og Boeing 767.united sameinaðist við continental airlines.allar continental vélar verða í flota united.continental orðið verður united og united litur verður að continental litum Cathay Pacific. Fyrsta farrými um borð í Cathay Pacific-þotu. Cathay Pacific (kínverska: 國泰航空有限公司) er flugfélag sem hefur höfuðstöðvar sínar í Hong Kong og sinnir einkum flugi þaðan og frá Bangkok og Taipei til áfangastaða í 36 löndum. Flugfélagið var stofnað í Shanghai 24. september 1946 af Bandaríkjamanninum Roy C. Farrell og Ástralanum Sydney H. de Kantzow, sem báðir voru fyrrverandi herflugmenn. Nafnið Cathay Pacific er þannig til komið að Cathay er fornt heiti á Kína og draumur stofnendanna var vélar félagsins ættu eftir að fljúga yfir Kyrrahaf. Óhætt er að segja að sá draumur hafi ræst en það varð þó ekki fyrr en um 1980. Fram að því var eingöngu flogið innan Asíu. Árið 1998 flaug ein flugvéla félagsins fyrsta beina farþegaflugið yfir Norðurpólinn, milli New York og Hong Kong. Hún varð um leið fyrsta vélin til að lenda á nýja alþjóðaflugvellinum í Hong Kong. Í þotum Cathay Pacific er farþegum á fyrsta farrými boðið upp á sæti sem hægt er að breyta í rúm í fullri stærð og má heita að hver farþegi hafi sinn einkaklefa. Brittany Murphy. Brittany Murphy (10. nóvember 1977 – 20. desember 2009) var bandarísk leik- og söngkona. Hún lék meðal annars í Clueless, Girl, Interrupted, 8 Mile, Uptown Girls,Sin City, Happy Feet og Riding in Cars with Boys. Hún talaði einnig fyrir Luanne Platter í teiknimyndaseríunni King of the Hill. Æska. Brittany Murphy fæddist í Atlanta í Georgíu þann 10. nóvember 1977. Foreldrar hennar, Sharon Murphy og Angelo Bertolotti, skildu þegar hún var tveggja ára gömul og ólst Brittany upp hjá móður sinni í Edison í New Jersey og seinna í Los Angeles en þær fluttu þangað svo að Brittany gæti byrjað leikferil. Brittany sagði að móðir hennar hefði aldrei reynt að stoppa hugmyndaflug hennar og hún hugsaði um móður sína sem mikilvægan þátt í velgengni sinni: „Þegar ég bað mömmu mína um að flytja til Kaliforníu, seldi hún allt og flutti hingað fyrir mig... Hún trúði alltaf á mig“. Móðir Brittany er af írskum og Austur-evrópskum ættum og faðir hennar er ítalsk-amerískur. Hún var alin upp sem baptisti en varð seinna kristin án tengsla við tiltekna kirkjudeild. Leiklistin. Brittany fékk fyrsta hlutverkið sitt í Hollywood þegar hún var fjótán ára sem Brenda Drexell í þáttaröðinni "Drexell's Class". Síðan lék hún Molly Morgan í skammlífu þáttaröðinni "Almost Home". Hún lék síðan gestahlutverk í nokkrum sjónvarpsþáttum, meðal annars "Parker Lewis Can't Lose", "Blossom" og "Fraiser". Hún lék síðan aukahlutverk í þáttunum "Sister, sister; Party of Five" og "Boy Meets World". Árið 1997 byrjaði hún að tala fyrir karakterinn Luanne Platter (einnig yngri útgáfuna af Joseph Gribble) í langlífu teiknimyndaþáttaröðinni "King of the Hill". Brittany lék í nokkrum kvikmyndum, meðal annars Clueless (1995); Girl, Interrupted (1999); Drop Dead Gorgeous (1999); Don't Say a Word (2001); sjónvarps-útgáfunni af The Devilðs Arithmetic (2001); 8 Mile (2002) og Uptown Girls (2003) ásamt mörgum öðrum minna þekktum myndum, svo sem Spun (2003). Árið 2004 lék hún í rómantísku gamanmyndinni "Little Black Book" og hinni gagnrýndu "Sin City" (2005). Hún lék í tveimur Edward Burns myndum: Sidewalks of New York (2001) og The Groomsmen (2006). Árið 2009 var hún ráðin í sjónvarpskvikmyndina "Tribute" sem aðalpersónan, Cilla. Hún átti að leika í Sylvester Stallone kvikmynd, "The Expendables" sem kemur út 2010. Brittany var líka radd-leikari. Hún talaði fyrir persónuna Luanne Platter í King of the Hill í öllum þáttunum. Hún talaði einnig fyrir mörgæsina Gloriu í "Happy Feet". Hún var tilnefnd til Annie-verðlauna fyrir leik sinn í King of the Hill. Tónlist og fyrirsætustörf. Hún var í hljómsveit sem hét "Blessed Soul" með leikaranum Eric Balfour snemma á 10. áratugnum. 6. júní 2006 gáfu Brittany og Paul Oakenfold út smáskífu sem hét "Faster Kill Pussycat" og varð lagið vinsælt. Hún fiktaði aftur við tónlistina í kvikmyndinni Happy Feet, þar sem hún söng Queen-lagið "Somebody to Love" og Earth, Wind & Fire-lagið "Boogie Wonderland". Árið 2005 skrifaði Brittany undir samning við Jordache gallabuxnafyrirtækið. Einkalíf. Seinnipart ársins 2002 byrjaði Brittany með leikaranum Ashton Kutcher en þau léku saman í Just Married. Eftir að hafa verið trúlofuð umboðsmanninum Jeff Kwatinetz, trúlofaðist hún Joe Macaluso í desember 2005, framleiðanda sem hún hitti þegar hún var að leika í "Little Black Book". Í ágúst 2006 slitu þau trúlofuninni. Í maí 2007 giftist Brittany handritshöfundinum Simon Monjack í lítilli gyðinga-athöfn. Dauði. Klukkan átta að morgni, þann 20. desember 2009 var hringt í slökkviliðið í Los Angeles vegna læknisaðstoðar sem var þarfnast á heimili Brittany og Simons. Hún hafði hnigið niður á baðherberginu. Slökkviliðsmenn reyndu að endurlífga hana á staðnum en hún var fljótlega flutt á Cedar-Sinai spítalann, þar sem hún var sögð látin við komuna klukkan fjórar mínútur yfir tíu. Orsök dauða hennar var ofneysla lyfja (drug overdose) Murphy, Brittany Rauðúlfs þáttur. "Rauðúlfs þáttur" er stutt táknsaga varðveitt í nokkrum íslenskum miðaldahandritum. Höfundur er óþekktur en virðist hafa verið kirkjunnar maður, uppi á 12. eða 13. öld. Sagan segir frá heimsókn Ólafs helga til Rauðúlfs (einnig nefndur Rauður og Úlfur) bónda í Eystridölum í Noregi, skemmtun þeirra um kvöldið og næturdvöl Ólafs í kringlóttri svefnskemmu sem var fagurlega skreytt og snerist að auki. Einnig segir þátturinn frá sérkennilegum draumi konungs og ráðningu Rauðúlfs á honum. Í sumum handritum er þátturinn felldur inn í Ólafs sögu helga hina meiri. Heimsóknin. Þátturinn segir frá ferð Ólafs helga ásamt fylgdarliði, þ.á m. drottningu og biskupi í Eystridali (nú Österdalen) sem um þær mundir var frekar afskekktur staður í Noregi, nærri landamærum Svíþjóðar. Hann kemur til Rauðúlfs og fjölskyldu hans sem höfðu verið sökuð um nautgripaþjófnað. Rauðúlfur og synir hans tveir, Dagur and Sigurður, reynast spakir að viti og vel að sér í stjörnufræði, tímatali, fýsíógnómíu og fleiru. Í veislu um kvöldið skemmta menn sér við að lýsa hæfileikum sínum og metast um þá. Að því loknu er konungi og fylgdarliði hans vísað til nýbyggðrar svefnskemmu þar sem þeim er ætlað að sofa um nóttina. Svefnskemman. Rými og skreytingum svefnskemmunnar er lýst ítarlega. Skemman var kringlótt með fjórum útdyrum og var jafnlangt milli þeirra allra. Hvolfþak var á skemmunni og var því haldið uppi af tuttugu stoðum í hring. Húsinu var skipt í fjórðunga (líklega ber að skilja það svo að gangar hafi legið inn að miðju frá útdyrunum fjórum). Húsinu var einnig skipt í þrennt: Í miðjunni var kringlóttur pallur með þrepum, en rýminu umhverfis hann var skipt í tvennt af girðingu sem lá milli stoðanna tuttugu. Á miðpallinum var stór rekkja sem Ólafi var ætlað að sofa í. Rúmstólparnir voru skreyttir gylltum koparkúlum og út úr stólpunum voru járnslár með þrískiptum kertum. Fylgdarliði konungs var skipað niður svo: Drottning og þjónustumeyjar hennar voru í rýminu á vinstri hönd konungi, biskup og klerkar voru konungi á hægri hönd, þrír lendir menn, nafngreindir, voru við höfðalag konungs og aðrir þrír við fótagafl hans. Tuttugu menn eru sagðir vera samanlagt í hverju hólfi innri hringsins (80 alls) en fjörtíu í ytri hringnum. Þar sem Ólafur konungur lá í rekkju sinni sá hann að hvolfþakið var skreytt myndum sem sýndu allt sköpunarverkið, með guð í miðju, í veldishring, en út frá honum englasveitirnar, himintungl, ský og vindar, þvínæst gróður og dýr og yst og neðst sjór og sævarbúar. Ytra þakið (utan við súlurnar) var skreytt myndum af afrekum fornkappa. Einnig virtist konungi húsið snúast. Draumsýn Ólafs helga. Konungur sofnaði í rekkjunni en í draumi bar fyrir hann sýn sem Rauðúlfur réð fyrir hann morguninn eftir (áður en Ólafur lýsti henni fyrir honum). Konungur hafði séð róðu mikla (kross með mannslíkneski hangandi á). Krossinn var grænn sem gras en mannslíkneskið gert úr ýmsum málmum og fleiri efnum með minnkandi verðgildi eftir því sem neðar dró á líkneskinu. Höfuðið var úr rauðu gulli sem glóði sem lýsigull og bar mikið og gullið hár. Hálsinn var úr kopar og lék skoteldur um hann. Bringa og armar voru úr silfri og skreytt með brautum himintunglanna. Efri hluti kviðarins var úr fægðu járni skreyttu með myndum af dáðum fornmanna á borð við Sigurð Fáfnisbana, Harald hilditönn og Harald hárfagra. Miðhluti kviðarins var gerður úr óhreinu (bleiku) gulli og var skreyttur með trjám, jurtum og dýrum. Neðsti hluti kviðarins var gerður af óskreyttu og óhreinu silfri. Lærin höfðu hörundslit og leggirnir neðan við hnén voru úr tré. Rauðúlfur túlkaði drauminn sem sögu Noregs þar sem hver hluti líkneskisins táknaði tiltekinn konung sem lesandi átti greinilega að geta áttað sig á af lýsingu Rauðúlfs. Ólafur helgi var sjálft gullhöfuðið, en höfuðið táknaði einnig að hyggju Rauðúlfs „himinríkis dýrð“. Röð konunga er rakin af Rauðúlfi til um það bil ársins 1155 þegar ríkinu hafði verið skipt í tvennt (fæturnir tveir). Rauðúlfur tengir Noregskonungana og ríki þeirra við líkneskið með ýmsum snjöllum orðaleikjum og táknmyndum. Hann útskýrir fyrir Ólafi að snúningur hússins fylgi sólargangi. Þættinum lýkur með því að Rauðúlfur er sýknaður af þjófnaðarákærunni og synir hans ganga í lið með Ólafi konungi. Rannsóknir á Rauðúlfs þætti. Snemma var bent á að Rauðúlfs þáttur byggði að nokkru leyti á draumi Nebúkadnezars í Gamla Testamentinu. Hann dreymdi stórt líkneski gert úr ýmsum efnum svo sem gulli, kopar, járni og svo framvegis. Daníel spámaður túlkaði drauminn sem ris og fall heimsvelda. Ýmislegt er líkt með atburðum í veislu Rauðúlfs og mjög ýkjukenndri veislu Karlamagnúsar í Miklagarði í franska söguljóðinu Jórsalaferð Karlamagnúsar "Voyage de Charlemagne à Jérusalem et à Constantinople". Franska söguljóðið segir einnig frá kringlóttu húsi sem snýst. Það hús hefur aftur á móti verið borið saman við "bústað Sólar" í grískum miðaldarómönsum. Síðari rannsóknir benda til þess að Rauðúlfs þáttur sé allegórískur og saminn til þess að festa heilagleika Ólafs í sessi. Þessi áhrif nást með kosmólógískum táknum sem úir og grúir af í skemmunni, en allegóríur sem byggjast á slíkum táknmyndum þekkjast vel frá miðöldum. Líta megi á hina hringlaga svefnskemmu sem forboða kirkjunnar og jafnframt sem líkan af alheiminum. Róðan er, samkvæmt þessum rannsóknum, spegilmynd hússins, á sama hátt og á miðöldum var litið á manninn sem örmynd eða spegilmynd alheims (mikrokosmos). Miðpallur hússins samsvarar mannshöfði og skreytingar innan á hvolfþakinu samsvara neðri hlutum líkamans. Höfundur þáttarins lætur Ólaf liggja í húsinu miðju, í rekkju sem var umkringd táknum sem tengja hana við hina Nýju Jerúsalem (4x3 kerti), sem var táknrænn staður Krists í Opinberunarbókinni. Áhrif þessara táknmynda á klerklærðan lesanda eru þau að upphefja Ólaf og staðfesta heilagleika hans. Húsið í heild er táknmynd alheimsins (sköpunarverksins) en það er jafnframt táknmynd mannsins, sem hafði jarðneskan og fjórskiptan líkama (gerðan af fjórum höfuðskepnum, vatni, eldi, lofti og jörð) og himneska, miðlæga og óskipta sál (miðpallurinn). Með þetta í huga gætu miðaldaklerkar hafa haft gagn að sögunni til andlegrar iðkunar. Táknmál Rauðúlfs þáttar líkist því sem Hildegard frá Bingen beitti í guðfræðilegum ritum sínum (sem einnig byggðust á kosmólógískum sýnum) og kemur einnig víða fram í Íslensku hómilíubókinni og samsvarandi riti norsku, en þessi verk öll endurspegla táknmál sem útbreitt var innan miðaldakirkjunnar og kemur fram á ýmsum öðrum vettvangi, s.s. byggingarlist, helli ástarinnar í Tristan og Ísold eftir Gottfried von Strassburg, og í Enchiridion, riti eftir Bretann Byrhtferth svo dæmi séu nefnd. Paul Signac. Paul Signac (11. nóvember 1863 – 15. ágúst 1935) var franskar listmálari sem telst til ný-impressjónistana. Hann starfaði mikið á sömu línu og George Seurat, og unnu þeir báðir við að þróa punktastefnuna (fr. "Pointillisme"). Tenglar. Signac, Paul Liz Vassey. Liz Vassey (fædd 9. ágúst 1972 í Raleigh í Norður-Karólínu) er bandarísk leikkona, best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Kapteinn Liberty í sjónvarpsseríunni "The Tick" frá árinu 2001 og sem Wendy Simms í. Ferill. Byrjaði að leika níu ára gömul sem Óliver (í samnefndu leikriti) og hefur síðan þá unnið mikið á sviði. Hefur hún komið fram í meira en 50 leikritum bæði á landsvísum og í leikhúsum kringum Tampa Bay-svæðið, þaðan sem hún er fædd og uppalin. Vassey var boðið að taka leiklistarnámskeið við Suður-Flórídaháskóla, þá aðeins þrettán ára gömul. Hélt hún áfram námi sínu og vann hún með leiklistarkennara frá HB Studios í tvö ár og tók námskeið við skóla á borð við Manhattan Class Company, Suður-Kaliforníuháskóla og Howard Fine Studios. Vassey lék Emily Ann Sago í sápuóperunni "All My Children" frá 1988-1991. Var hún tilnefnd til Daytime Emmy-verðlauna fyrir leik sinn. Frá 2004 til 2005, þá var hún með aukahlutverk í "Tru Calling" sem Dr. Carrie Allen. Frá árinu 2005, þá hefur Vassey verið með aukahlutverk sem Wendy Simms í ' og frá seríu 10 þá var hún hækkuð upp í aðalleikara á meðal leikaraliðsins, en yfirgaf þáttinn árið 2010. Einkalíf. Vassey er fædd í Norður-Karólínu og uppalin í Tampa í Flórída. Hefur verið gift frá árinu 2004 og býr í Los Angeles ásamt eigimanni sínu og gæludýrum þeirra. Hún rekur fyrirtæki að nafni Neurosis to a T(ee), ásamt leikonunni Kristin Bauer, fatahönnunar fyrirtæki sem hannar og selur slagorða boli fyrir konur. Slagorðin gera grín að áhyggjum kvenna og hugsýki (neurosis), sem oft er tengt samböndum.. Tenglar. Vassey, Liz Vassey, Liz Travemünde. Hluti af baðströndinni í Travemünde. Fremst sér í bakka árinnar Trave en til vinstri sér í Maritim-hótelið. Travemünde er lítill strandbær sem tilheyrir Lübeck. Hann liggur fyrir norðan aðalborgina, við ósa Trave í Eystrasalt. Travemünde er einn vinsælasti og kunnasti heilsu- og baðstrandabær Þýskalands. Saga. Travemünde var stofnuð sem borg 1187 á tímum Hinriks ljóns ("Heinrich der Löwe"). 1226 veitt keisarinn Hinrik II borginni Lübeck ýmis réttindi gagnvart Travemünde, en 1329 eignaðist Lübeck bæinn alveg. Bærinn var víggirtur í gegnum miðaldirnar. 1802 hófst þjónusta við baðgesti í bænum, sem fljótlega varð að einum vinsælasta baðstað í þýska ríkinu. Napoleon hertók Lübeck og Travemünde 1806 og lét hann brjóta niður allar víggirðingar og múra. 1882 fékk bærinn járnbrautartengingu við Lübeck. Ári seinna var spilavítið vígt, en það er með elstu spilavítum Þýskalands. Í dag búa tæp 14 þús manns í bænum, en hundruðir þúsunda gestir sækja hann árlega heim. Árlega fer fram siglingavika í bænum, en hún er talsvert minni í sniðum en Kílarvikan. Skjaldarmerki. Þótt Travemünde tilheyri Lübeck á bærinn sér þó sitt eigið skjaldarmerki. Það sýnir rauða borgarmúra og turn á hvítum grunni. Múrarnir tákna Travemünde. Litli skjöldurinn til vinstri er skjöldur Lübeck og skjöldurinn til hægri eru litir Slésvíkur-Holtsetalands. Vitinn. Vitinn í Travemünde er einn sá elsti í Þýskalandi. Hann var reistur 1539 á stað þar sem áður hafði staðið viti (sem Danir eyðilögðu). Vitinn er gerður úr tígulsteinum og er 31 metra hár. Hann brann 1827 þegar eldingu laust í hann og eyðilagðist þá ljósagangurinn. 1903 var vélinni umbreytt í rafmagnsvél. Vitinn var í notkun allt til 1972, en þá var nýr viti settur upp á hið nýreista hótel Maritim í 115 metra hæð. Nýi vitinn er því hæsti viti Evrópu. Gamli vitinn er friðaður og er safn í dag. Passat. Passat er gamalt seglskip sem var smíðað 1911 í Hamborg. Það var í stöðugum verslunarsiglingum til Suður-Ameríku, en 1925 varð það að skólaskipi. Það mun hafa siglt 39 sinnum fyrir Hornhöfða og tvisvar í kringum hnöttinn. 1959 keypti Lübeck skipið og setti það upp sem safn í Travemünde. Skipið er opið almenningi. Þar eru þrír veislusalir og 98 kojur. Vinsælt er að gifta sig um borð í skipinu. Möstrin eru 56 metra há. Sand World. Baðströndin í Travemünde (á ströndinni í Priwall) hefur síðustu ár verið notuð fyrir Sand World, þ.e. sýningu á tröllauknum sandfígúrum. Ýmsir sandlistamenn komu saman og mynduðu heila sandveröld, bæði fígúrur, byggingar og annað, og voru sumar myndirnar allt að 10 metra háar. Sand World hófst 2002 og hefur verið haldið árlega til 2007. Hvert ár var annað þema í gangi. Verkefnið lognaðist hins vegar út af 2007 vegna mikilla rigninga þetta sumar. David Berman. David Berman er bandarískur leikari, þekktastur fyrir að leika aðstoðar réttarlækninn David Philipps í sjónvarpsseríunni. Ferill. Berman hefur verið gestaleikari í þáttum á borð við Heroes, "Profiler" og "Vanished". Ásamt því að koma fram í þættinum þá er Berman einnig meðlimur framleiðsluhliðarinnar, en hann er yfirmaður heimildardeildarinnar fyrir CSI: Crime Scene Investigation, þar sem hann heldur utan um gagnagrunn sem inniheldur yfir 300 nöfn fólks sem vinna í eða við lögreglustörf. Tenglar. Berman, David Berman, David Lauren Lee Smith. Lauren Lee Smith (fædd 19. júní 1980) er kanadísk leikkona. Einkalíf. Smith er fædd í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada. Lauren ferðaðist mikið um heiminn með fjölskyldu sinni. Þegar hún var 14 ára, þá flutti fjölskyldan til Los Angeles í Kaliforníu. Þar byrjaði hún fyrirsætu feril sinn. Smith giftist ljósmyndaranum Erik Steingroever þann 4. apríl, 2009. Ferill. Þegar hún var 19 ára, þá var hún ráðin í endurgerðina af myndinni "Get Carter". Smith kom einnig fram í myndum á borð við "Christy: Return to Cutter Gap", "Christy: A Change of Seasons" og "Christy: A New Beginning" og lék í þættinum "Mutant X", þar sem hún lék Emma deLauro. Einnig hefur hún verið gestaleikari í nokkrum þættum af "The Dead Zone", "The Twilight Zone", og "Blade: The Series". Smith hafði einnig aukahlutverk í sjónvarpsseríunni "The L Word". Árið 2005, þá vann Smith að myndinni "Lie with Me". Árið 2006 þá var hún með aukahlutverk í kanadíska drama seríunni "Intelligence". Í byrjun 2007, þá lék hún í míni-seríunni "Dragon Boys". Árið 2008, þá lék Lauren í kvikmyndinni "Pathology", og átti endurtekið aukahlutverk í '. Lék hún Riley Adams, „gáfuð,daðurgjörn og hnyttin mótmælandi sem fór í lögregluna sem uppreisn geng dómharða föður sínum sem var geðlæknir“ en var látin hætta í lok níundu þáttaraðar. Tenglar. Smith, Lauren Lee Bílastæði. Bílastæði með trjáum og plöntum fyrir einstefnu. Bílastæði er staður þar sem maður má leggja bílum. Yfirleitt vísar orðið til nokkurs svæðis með varanlegt yfirborð. Í flestum löndum þar sem bílar eru víðnotaðir til flutninga eru bílastæði stödd í hverri borg og þéttbýla. Oft finnast bílastæði við til dæmis verslunarmiðstöðvar, leikvangi, skriftstofur og stórar kirkjur. Þar má finna bílastæði sem eru mjög stór að flatarmáli. Hönnun. Oftast eru bílastæði í borgum lögð malbiki eða steinsteypu, og mörg eru lögð möl. Nú á dögum má líka finna bílastæði lögð gegndræpum efnum hönnuð til að hjálpa með því að minnka affallsvatn. Bílastæði mega verið lítil með nokkrum bílaplássum, eða mjög stór með nokkrum þúsundum bílaplássum. Lítil bílastæði eru oftast stödd við fyrirtækja- eða íbúðabyggingar. Stór bílastæði mega verið notuð af viðskiptavinum stærri fyrirtækja eða stofnana, eins og skóla, kirkja, skrifstofa, sjúkrahúsa, safna, ferðamannastaða, eða af þeim sem búa í stórum íbúðabyggingum. Sum slíka fyrirtækja geta notað nokkur bílastæði ef þörf krefur. Þessi bílastæði eru áætluð til notkunar þeirra sem vinna eða búa í byggingu og eru ekki oft aðgengileg af almenningnum. Þess vegna er aðgangur að flestum þessara bílastæða ókeypis. Í bílastæðum tengdum við sérstakar byggingar eru nokkur bílapláss frátekin mikilvægum einstaklingum sem vinna í byggingunni. Í þéttbýlum þarf maður yfirleitt að borga til þess að fá aðgang að bílastæðum af því þar eru ekki ekki mörg bílapláss. Í þeim bílastæðum sem eru ekki aðgengileg ókeypis eru til bílastæðahlið til að staðfesta greiðslu. Á sumum stöðum eru bílastæði sem starfa sem sjálfstæð fyrirtæki, það er að segja að þau græða peninga með því að rukka einstaklingi fyrir leyfi til að ligga bílum þeirra. Þessi bílastæði eru oft sjálfstandandi byggingar og ekki tengd öðrum byggingum. Oft geta þau bílastæði í þéttbýlum verið margra hæða. Í margra hæða bílastæði eru skábrautir sem gera bílstjórum kleift að keyra bíl þeirra milli hæðanna. Maður þarf að borga til þess að fá aðgang að flestum margra hæða bílastæðum. Á gólfum bílastæða eru línur sem útskýra bílapláss og benda á áttinni sem maður þarf að keyra í svo að það sé ekki umferðaröngþveiti. Bílaplássin eru oft fjölskyldubílastór og eru ekki áætluð fyrir vörubíla eða bíla með tengivögnum. Stundum eru líka sérstök pláss fyrir reið- og mótorhjól. Til öryggis er það líka oft mjög lágt hraðatakmark til að varða fótgangandi menn. Vatnsmengun. Bílastæði eru gjarnan uppruni vatnsmengunar vegna stórra vatnsheldra yfirborða þeirra. Svo að segja næstum allt vatnið sem rennur af bílastæðum er affallsvatn. Til þess að hindra flóð og hættulegar akstursaðstæður eru bílastæði byggð til að leiðbeina og safna affallsvatn. Bílastæði eru meðal annars höfuðuppspretta affallsvatns í þéttbýlum. Ökutæki eru stórar uppsprettur mengunarvalda, þeir helstu eru bensín, hreyfilolía og þungamálmar. Steinsteypa. Steinsteypa er byggingarefni sem samanstendur af sementi, grjóti (oft möl, kalksteini eða graníti), sandi, vatni og öðrum fylliefnum. Steinsteypa harðnar eftir blöndun við vatn. Vatn hefur áhrif á sement þannig að önnur efni límast saman. Þá myndast efni sem svipar til bergs. Steinsteypa er notuð í gangstéttir, húsgrunna, vegi og hraðbrautir, brýr, bílastæði, veggi og undirstöður fyrir grindverk, hlið og stangir. Steinsteypa er mest notaða byggingarefni í heimi. Frá og með 2006 eru um 7,5 rúmkílómetrar steinsteypu gerðir árlega, það er yfir einn rúmmetra á hvern jarðarbúa. Í Bandaríkjunum á steinsteypumarkaður 35 milljarða bandaríkjadala á hverju ári. Samtals eru meira en 89.000 km af steinsteyptri hraðbraut í Bandaríkjunum. Járnbent steinsteypa og forspennt steinsteypa eru helstu steinsteyputegundir í notkun. Saga. a>s, enn þá stærsta hvolfþak í heimi úr steinsteypu. Rómverjar fundu upp rómverska steinsteypu ("Opus caementicium" á latnesku) og gerðu hana úr kalki, ösku og vikri. Hún var víðnotuð í rómverskum byggingum en upphaf hennar markaði tímamót í sögu byggingarlistar og eyddi þeim takmörkunum sem notkun steina og múrsteina setti. Notkun steinsteypu opnaði dyr fyrir nýjar og byltingarkenndar hannanir og gerði kleift að byggja í áður óþekktum lögunum og stærri stærðum. Nýlegar rannsóknir hafa komst að því að "Opus caementicium" er eins sterk og nútímaleg steinsteypa í þrýstiþoli, en nútímaleg járnbent steinsteypa er sterkari hvað togþol varðar. Rómverjar notuðu ekki steinsteypu eins og hún er notuð í dag, til dæmis var hún lögð í lög með höndunum og ekki helt út í mót. Vegna notkunar steinsteypu í Rómaveldinu eru margar rómverskar byggingar enn standandi í dag. Caracalla-almenningsbaðhúsið í Róm er gott dæmi um langlífi steinsteypu, sem gerði Rómverjum kleift að reisa þessa byggingu og aðrar af svipuðu tagi um allt Rómaveldi. Margar rómverskar vatnsveitubrýr og umferðarbrýr voru gerðar úr steinsteypu og þá klæddar með múrsteinum. Rómverjarnir notuðu þessa aðferð til að reisa mannvirki eins og Panþeon, sem er með hvolfþak úr steinsteypu. Steinsteypuleyndarmálið var týnt í 13 aldir þar til 1756, þegar breski verkfræðingurinn John Smeaton notaði vökvakalk (e. "hydraulic lime") í steinsteypu, með smásteinum og múrsteinum í duftformi sem fylliefnin. Portland-sement var notað í steinsteypu í fyrsta sinn um 1840. Hins vegar hafa fundist merki um notkun steinsteypu í byggingu Canal du Midi í Frakklandi, sem er síki byggt árið 1670. Í seinni tíð hefur notkun endurunninna efna í steinsteypu notið síaukinna vinsælda vegna lagasetninga um umhverfið sem eru að verða æ strangari. Helst þessara efna er svifaska (e. "fly ash") sem er aukaafurð kolaknúinna virkjana. Notkun svifösku hefur stór áhrif á umhverfið með því að minnka landfyllingar. Þar að auki þarf ekki að framleiða eins mikið sement þar sem svifaska getur verið notuð sem staðgengill þess. Bætiefni hafa verið notuð í steinsteypu frá tímum Rómverja og Egypta þegar uppgötvaðist að hægt væri að nota ösku úr eldfjöllum til að fastsetja sement neðansjávar. Á svipaðan hátt vissu Rómverjar að það að bæta hrosshárum við steinsteypu gerir hana ómóttækilega fyrir sprungum, og að bæta blóði við gerir hana frostþolna. Nú á dögum hafa verið gerðar tilraunir til að bæta steinsteypu með því að bæta öðrum efnum við, til dæmis til þess að auka styrk hennar eða gefa henni leiðandi eiginleika. Samsetning. Blanda af sementi og sandi. Til eru margar tegundir steinsteypu sem eru búnar til með því að breyta hlutföllum innihalda. Sement. Portland-sement er algengasta tegund af sementi í notkun. Það er notað í steinsteypu, múrblöndu og pússningu. John Aspdin, enskur verkfræðingur, fékk einkaleyfi á Portland-sementi árið 1824; það heitir svo vegna þess hve það líkist Portland-steini á litinn. Steinn þessi er grafinn upp úr grjótnámu á Portlandey við England, og er víðnotuð í byggingum í London. Hann samanstendur af blöndu af kalsín-, kísil- og áloxíði. Portland-sement og önnur lík efni eru búin til með því að hita kalkstein (uppsprettu kalsíns) og leir, mala þessa blöndu (sem heitir harður múrsteinn) og loks að blanda henni með súlfati, oftast gifsi. Framleiðsla Portland-sements stendur fyrir um það bil 5% þess koltvísýrings sem mannkyn gefur frá sér. Vatn. Þegar sementi og vatni er blandað saman myndast klístur. Þetta klístur límir saman grjót í blöndunni, fyllir bil á milli þeirra og gerir sementinu kleift að flæða á auðveldan hátt. Sé lítið vatn í blöndunni verður steinsteypan sterkari og endingarbetri. Hærra hlutfall vatns gerir steinsteypuna meira fljótandi. Ef vatnið sem notað er í blönduna er óhreint, getur steinsteypan átt erfitt með að harðna og orðið veikbyggð. Fylliefni. Helstu fylliefni í steinsteypu eru grjót af mismunandi kornastærðum. Mest notuðu fylliefnin eru sandur og malaður steinn. Nú á dögum má nota endurunnin fylliefni (úr uppbyggingu eða eyðileggingu) í bland við hefðbundin fylliefni. Einnig eru til framleidd fylliefni eins og sori og botnaska úr málmbræðsluofnum. Ef ætlast er til þess að steinsteypan verði til sýnis er stundum bætt við hana skrautefnum eins og kvarsíti, lítlum steinum eða möluðu gleri. Styrking. Steinsteypa hefur hátt þrýstiþol af því að fylliefnin geta borið þrýstinginn. Hins vegar er togþol steinsteypu veilt, af því að sementið sem skorðar fylliefnin getur brostið með þrýstingi. Járnbent steinsteypa er sterkari en venjuleg steinsteypa vegna járnabindingar sem ber teygjanlegar þyngdir. Willy Brandt. Willy Brandt var fjórði kanslari Vestur-Þýskalands Willy Brandt (18. desember 1913 í Lübeck – 8. október 1992 í Unkel) var þýskur stjórnmálamaður og jafnaðarmaður. Hann var borgarstjóri í Berlín 1957-1966, utanríkisráðherra 1966-1969 og kanslari Vestur-Þýskalands 1969-1974. Fyrir sáttatilraunir sínar milli þýsku ríkjanna hlaut hann friðarverðlaun Nóbels 1971. Ungur stjórnmálamaður. Willy Brandt fæddist í Lübeck 1913 og hét þá Herbert Ernst Karl Frahm. Móðir hans var einstæð og kynntist Brandt föður sínum aldrei. Hann hóf strax á unga aldri afskipti af stjórnmálum og var virkur í unglingastarfi sósíalista. 1930 gekk hann í SPD, flokk sósíaldemókrata. Ári seinna gekk hann þó úr honum aftur til að ganga til liðs við sósíalistíska vinnuflokkinn. Nasistar bönnuðu þann flokk hins vegar 1933 og því ákvað flokkurinn að hefja andspyrnu gegn nasistum. Sama ár fékk Brand það hlutverk að koma formanninum Paul Fröhlich til Oslóar. Fröhlich var hins vegar handtekinn, þannig að Brandt fór sjálfur til Ósloar til að stofnsetja flokkinn þar. Á næstu árum tók hann sér nafnið Gunnar Gaasland og sneri til Berlínar sem fréttamaður. Nasistar ráku hann þó úr landi og því sótti hann um norkst ríkisfang. En Þjóðverjar hertóku Noreg 1940 og var Brandt þá handtekinn af þýskum hermönnum. Þar sem Brandt var í norskum hermannabúningi og talaði norsku, var hann settur í varðhald ásamt fleiri Norðmönnum. Sem Þjóðverji hefði hann verið tekinn af lífi. Sama ár komst hann þó til Svíþjóðar og bjó í Stokkhólmi þar til stríðinu lauk. 1945 sneri Brandt aftur til Þýskalands sem blaðamaður og var viðstaddur Nürnberg-réttarhöldin. Brandt bauðst þá að snúa til heimaborgar sinnar Lübeck og gerast þar borgarstjóri. Honum bauðst einnig að vera í Berlín sem blaðamaður fyrir sænsku blaði og fylgjast með kalda stríðinu. Hann kaus hið síðarnefnda. 1948 fékk Brandt þýskt ríkisfang á ný. Ári seinna lét hann breyta fæðingarheiti sínu í Willy Brandt, en fram að þessum tíma hafði hann heitið Herbert Frahm. Borgarstjóri Berlínar. Willy Brandt og John F. Kennedy á fundi í Hvíta húsinu 1961 Brandt var fulltrúi SPD í Berlín á fyrsta þingi Sambandsríkis Þýskalands 1949. Hann var þingmaður frá 1949-1957 og frá 1969-1992. 1955 varð Brandt forseti borgarstjórnar Berlínar og 1957 varð hann kosinn borgarstjóri. Hann naut mikilla vinsælda í Berlínardeilunni (sem endaði með því að Berlínarmúrinn var reistur 1961). Einnig tók hann á móti John F. Kennedy 1963 þegar hann sótti Vestur-Berlín heim. 1962 varð hann formaður sósíaldemókrata í Þýskalandi (SPD) og hélt þeirri stöðu til 1987. Utanríkisráðherra. 1966 varð Kurt Georg Kiesinger kanslari Vestur-Þýskalands. Hann myndaði stjórn með sósíaldemókrötum. Brandt varð þá utanríkisráðherra í þeirri stjórn. Hann var einnig varakanslari í fjarveru Kiesingers. Brandt var á þessum tima orðinn einn umdeildasti stjórnmálamaður Þýskalands. Kanslari. Willy Brandt á leiðtogafundi með Willi Stoph í Erfurt 1970 1961 bauð Brandt sig fyrst fram sem kanslaraefni, en tapaði í kosningum fyrir Konrad Adenauer, sem þá var sitjandi kanslari. 1965 bauð hann sig fram á ný, en tapaði þá fyrir Ludwig Erhard. Eftir kosningar 1969 tókst Brandt að mynda ríkisstjórn með frjálsum demókrötum (FDP) og varð sjálfur kanslari í þeirri ríkisstjórn. Innanríkisráðherra varð Hans-Dietrich Genscher (FDP). Brandt reyndi að nálgast löndin handan járntjaldsins, sérstaklega þó Austur-Þýskaland. Hann fundaði með Willi Stoph, leiðtoga Austur-Þýskalands árið 1970 í Erfurt og Kassel, en þetta var fyrsti leiðtogafundur ríkjanna eftir stofnun landanna 1949. Fyrir viðleitni sína til að stuðla að friði í kalda stríðinu hlaut hann friðarverðlaun Nóbels 1971. Hann er fjórði Þjóðverjinn (og að sama skapi síðasti Þjóðverjinn) til að hljóta þennan heiður. Í kosningum 1972 hélt stjórnin meirihluta. Brandt var áfram kanslari, Genscher var áfram innanríkisráðherra, en nýr fjármálaráðherra varð Helmut Schmidt (SPD). Ári síðar heimsótti Brandt Ísrael og var hann fyrstur þýskra kanslara til að sækja landið heim, en stjórnmálasambandi var komið á milli þessara landa 1965. Fall Brandts. 1974 gaf Willy Brandt út yfirlýsingu þess efnis að hann segði af sér sem kanslari Vestur-Þýskalands. Afsögnin kom mönnum í opna skjöldu, þó að ýmis teikn væru uppi um ákveðna örðugleika. Helsta ástæða afsagnarinnar var mál Günters Guillaume. Hann var einn nánasti samstarfsmaður Brandts, en var sakaður um njósnir árið á undan. Þrátt fyrir það aðhafðist Brandt ekkert og störfuðu þeir tveir áfram saman. 1974 var hann loks handtekinn fyrir njósnir og var það mikið pólitískt áfall fyrir Brandt. En auk þess sótti Brandt fast vínið og einnig var hann þekktur fyrir framhjáhöld. Ólíuskortur 8. áratugarins olli nokkurri stöðnun í þýsku efnahagslífi, en allt þetta var Brandt gagnrýdur fyrir. Eftirmaður Brandts á kanslarastólnum var samflokksmaður hans Helmut Schmidt, þáverandi fjármálaráðherra. Eftir afsögn sína var Brandt enn virkur í stjórnmálum. Hann var formaður SPD til 1987, sat á þingi til 1992 og var meðlimur Evrópuráðsins til 1983. Eftir fall Berlínarmúrsins 1989 var Brandt einn helsti stuðningsmaður þess að flytja þingið og höfuðborgina frá Bonn til Berlínar. Willy Brandt lést úr krabbameini 17. október 1992. Hann hvílir í kirkjugarðinum Waldfriedhof í Zehlendorf í Berlín. Kvikmynd. 2003 var gerð kvikmynd um Willy Brandt sem ber heitið: "Im Schatten der Nacht" ("Í skugga nætur"). Myndin er í tveimur hlutum og fjallar um síðustu 14 daga Brandts sem kanslara. Heimildir. Brandt, Willy Veggur. Ytri veggur byggingar úr steini. Veggur er oftast sterkbyggt mannvirki sem afmarkar og verndar ákveðið svæði. Veggir bera formgerð byggingar, aðskilja bygginguna í einstök herbergi eða afmarka eða verndar víðáttu á bersvæði. Oft eru gluggar á veggjum sem standa við úthlið byggingar og dyr á þeim veggjum sem standa innandyra svo hægt sé að fara úr einu herbergi í annað. Dyr eru líka á ytri veggjum svo að maður geti farið inn í og út úr byggingu. Nú á dögum eru veggir oftast byggðir í lögum til einangrunar. Bilin milli laga eru uppstoppuð með nokkru efni til að halda hita inni. Ytri veggir bera þyngd þaks og lofts byggingar. Inni í innri veggum eru gjarnan huldir kaplar og pípur og á yfirborði má finna innstungur og slökkvara. Oft eru innri veggir málaðir eða þaktir með veggfóðri. 90's þátturinn sonic. 90's þátturinn Sonic var íslenskur útvarpsþáttur á X-inu 977 sem spilaði eingöngu tónlist frá 10. áratugnum, þ.e. frá 1990, til og með 1999. Þátturinn hóf göngu sína 12. júní 2009 og sendi út sinn síðasta þátt þann 22. mars 2011. Stjórnendur 90's þáttarins Sonic voru Haraldur Leví Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson. Annise Parker. Annise Danette Parker (f. 17. maí 1956) er bandarískur stjórnmálamaður og fyrsti samkynhneigði borgarstjóri í Houston í Texasfylki. Parker hlaut 53 prósent atkvæða. Houston er því orðin stærsta borg Bandaríkjanna sem hefur kosið samkynhneigðan einstakling í stól borgarstjóra. Sement. Sement er bindiefni sem harðnar og þornar á sjálfstæðan hátt og límir önnur efni saman. Orðið „sement“ er dregið af latneska hugtakinu "Opus caementicium", sem var notað til að lýsa byggingarefni eins og steinsteypu, gert úr möluðu grjóti og með brenndan kalkstein sem bindiefni. Til eru tegundir af sementi sem geta harðnað neðansjávar. Orðið „sement“ á bara við um þurra duftið sem er notað til að binda efni. Þegar því er blandað við vatn kallast það steinsteypa, sérstaklega ef öðrum fylliefnum er líka bætt við. Formgerð. Formgerð er það sem eitthvað samanstendur af. Hún er stundum óáþreifanlegt hugtak og getur átt við það sem kerfi eða efnislegur hlutur samanstendur af. Formgerð er samsetning eða safn af tengdum hlutum. Hún getur verið stigveldi eða ekki. Formgerð er mjög mikilvægt hugtak í vísinda, heimspeki og list og er undirstöður þessara fræðigreina. Nokkur dæmi um formgerð er samsetning snjóflygsum eða greining um segulsvið. Þak. Þak er sá hluti byggingar sem lokar henni að ofan. Í flestum löndum eru þök hönnuð til að vernda íbúa eða innbú byggingar gegn úrkomu en líka gegn kulda og vindum og sums staðar einnig gegn hita. Aðrar þakategundir eins og þær sem þekja gróðurhús geta verndað gegn rigningu, vindum og kulda en hleypa inn ljósi. Þök eru reist úr ólíkum efnum eftir þörfum tiltekinna byggingar og þeirra sem nota hana. Þau geta til dæmis verið úr gleri, málmi, steinsteypu eða klædd með brenndum leirhellum. Þök geta þó líka verið úr forgengilegri efnum eins og til dæmis laufblöðum og stráum. Útlit þaksins veltur á þörfum og smekk; þök eru annaðtveggja með halla eða flöt en geta líka verið reist á mörgum pöllum, hvelfd eða eins og upptyppingar. Halli þaks er oftast hugsaður til að veita úrkomu frá húsinu og koma í veg fyrir leka en þök geta einnig verið teiknuð þannig vegna stíls. Nokkrar þaktegundir eins og stráþök þarfnast hallans til þess að geta hrint frá sér vatni, því annars myndu þau leka. Mikilvægt er að þök séu varanleg, af því það getur verið erfitt að laga og endurnýja þau. Gary Dourdan. Gary Dourdan (fæddur Gary Robert Durdin; 11. desember 1966) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Warrick Brown í sjónvarpsseríunni '. Einkalíf. Dourdan fæddist í Fílafelfía, Pennsylvania og hefur Afrískt-Amerískt, Frumbyggja, Skoskt-Írskt, Franskt og Gyðinga ætterni í sér. Dourdan er næst yngstur af fimm börnum, þegar hann var 6 ára þá var eldri bróðir hans Darryl myrtur á ferðalagi í Haiti; málið er enn ólokið. Flutti hann með fjölskyldu sinni til Willingboro í New Jersey þegar hann var ungur. Á þeim tíma þá byrjaði áhugi hans á leiklist, tónlist og sjálfvarnarlist. Seinna þá flutti Dourdan til New York og vann sem dyramaður við æfingastúdíó þar sem hann kynntist mörgum af efnilegum ungum listamönnum á Manhattan. Dourdan giftist módelinu Roshumba Williams árið 1992; skildu þau síðan tveimur árum síðar. Hann á tvö börn: soninn Lyric og dótturina Nyla. Móðir Lyric's er Cynthia Hadden og móðir Nyla's er Jennifer Sutton, sem Dourdan átti í sambandi með frá 1995 til 2000. "TV Guide" valdi hann sem kynþokkafyllsti "CSI" leikarinn í sjónvarpi árið 2008. Í kasti við lögin. Árið 2005 hélt Dourdan fram sakleysi sínu af minniháttar barsmíði gagnvart fyrrverandi kærustu sinni Anne Greene sem sakaði hann um nauðgun og barsmíðar. Honum var skilt að halda sig frá Greene og fara í ofbeldisráðgjöf. Árið 2006, Dourdan fór í mál við Greene og óskaði eftir $4 million bandaríkjadala, fyrir rógburð og tilfinningalega þjáningu Ekkert varð úr málinu þar sem því var vísað frá dómi. Þann 28. apríl 2008 var Dourdan handtekinn í Palm Springs í Kaliforníu fyrir að hafa undir höndunum heróí, kókaín, alsælu og lyfseðilsskyld lyf.. Samkvæmt lögreglustjóranum Sgt. Mitch Spike hjá Palm Spring lögreglunni, að klukkan 5:12 a.m. á mánudaginn, þá sá lögreglumaður að bíll Dourdan's var lagður vitlausum megin á götunni, með innri ljós á og einhvern sofandi í bílnum. Dourdan var fluttur í Palm Springs fangelsið og var leystur út fyrir $5000 tryggingu. Í netpósti á "Access Hollywood", þá segir hann að lyfi séu fólks sem hann hafði tekið með sér á Coachella Music Festiva VIP eftir-partýið. Samt sem áður sögðust bæði vinir og samleikarar hans ekki vera hissa á handtöku hans. Hann játaði glæp sinn og þurfti hann að fara í eiturlyfja prógram í staðinn fyrir fangelsisdóm sem hann hefði geta fengið. Ferill. Dourdan spilaði með nokkrum tónlistarböndum í New York City í byrjun níunda áratugarins og lék í svæðisleikhúsunum í kringum þriggja-ríkja svæðið. Fyrsta stóraverkefni hans var þegar Debbie Allen réði hann sem Shazza Zulu í "A Different World", fékk hann það eftir að hún hafði séð hann á spólu leika í framúrstefnulegu leikriti. Dourdan lék persónuna Christie í "Alien Resurrection" frá 1997. Kemur einnig fram í kvikmyndunum "Playing God" og "Thursday". Lék hann í Dick Wolf framleiðslunni á "Swift Justice" og hafði endurtekið aukahlutverk í sjónvarpsseríunni "Soul Food" þangað til að hann fékk hlutverkið sem Warrick Brown í '. Árið 2007, þá lék hann kærasta Rowena Price (leikin af Halle Berry), í kvikmyndinni "Perfect Stranger". "CSI: Crime Scene Investigation". Þekktasta hlutverk Dourdan's er sem CSI-rannsóknarmaðurinn Warrick Brown í "CSI" sjónvarpsseríunni Árið 2008 þá komu fram fjölmiðlaumfjallanir um samning Dourdan's við "CSI". Hvorugir aðilar komust að niðurstöðu sem endaði með því að samningur hans var ekki endurnýjaður fyrir nýtt ár. Þann 14. apríl 2008 þá var tilkynnt að Dourdan væri að yfirgefa þáttinn. Í lokaþætti í áttundu þáttaröð var persóna Dourdans skotin og látinn liggja í blóði sínu í enda þáttarins. Í fyrsta þætti í níundur þáttaröð er sýnt þar sem persóna Dourdans deyr í örmum samstarfsmanns og vinar síns, Grissoms. Tónlist og tónlistamyndbönd. Dourdan lék kærasta Janetar Jackson í tónlistarmyndbandinu "Again" frá 1993. Einnig kom hann fram í tónlistamyndbandinu „Move the Crowd“ eftir Eric B. and Rakim. Dourgan tók þátt með hip hop listamanninum Darryl McDaniels (DMC) á sviði á Live 8 tónleikunum í Barrie, Ontario, Kanada. Einnig söng hann með Macy Gray á 2005 Emmy-verðlaununum. Tenglar. Dourdan, Gary Dourdan, Gary Shah Jahan. Shah Jahan sem konungur heimsins á málverki frá miðri 17. öld. Shahab-ud-din Muhammad Shah Jahan 1. (fullur titill: "Al-Sultan al-'Azam wal Khaqan al-Mukarram, Abu'l-Muzaffar Shihab ud-din Muhammad, Sahib-i-Qiran-i-Sani, Shah Jahan I Padshah Ghazi Zillu'llah [Firdaus-Ashiyani]"; úrdú: شاه ‌جہاں, persneska: شاه جهان; f. 5. janúar 1592, d. 22. janúar 1666) var keisari Mógúlveldisins á Indlandsskaga frá 1628 til 1658. Nafnið "Shah Jahan" merkir „konungur heimsins“ á persnesku. Hann reyndi að stækka veldi sitt og háði stríð gegn soldánsdæmunum á Dekkanhásléttunni og þegar hann lést náði Mógúlveldið yfir 9/10 hluta Indlandsskagans, en 1653 náðu Persar Kandahar á sitt vald. 1658 veiktist hann og sonur hans Aurangzeb hélt honum föngnum í kastala í Agra þar til hann lést. Valdatíð hans var gullöld byggingarlistar Mógúlveldisins. Meðal bygginga sem hann lét reisa eru Taj Mahal og Perlumoskan í Agra. Páfuglshásætið er frá valdatíð hans og hann stofnaði einnig borgina Shahjahanabad sem nú er kölluð Gamla Delí. Fjörudoppa. Fjörudoppa (fræðiheiti: "Littorina littorea") er sæsnigill af Fjörudoppuætt. Útbreiðsla. Fjörudoppa er algeng við strendur Norður-Atlantshafs og útbreidd í Evrópu, frá Hvítahafi í norðri til suðurstrandar Portúgals. Hennar hefur jafnvel verið getið á Svalbarða, en þó hefur ekki fengist staðfest að hún lifi svo norðarlega nú á dögum. Hún er algeng við flestar breskar og danskar strendur og nær inn í Eystrasalt að Borgundarhólmi. Sunnar er hún algeng við Bretagneskaga og suður til Oléron-eyju en syðstu mörk hennar virðast vera við Algarve í Portúgal. Í Vestur-Atlantshafi er fjörudoppan dreifð allt frá Belle-eyju við Nýfundnaland til Virginíufylks í suðri. Strönd Connecticut virðist vera syðsta hentuga búsvæði hennar, en þó kemur fyrir að straumar flytji lirfur lengra til suðurs, allt að New Jersey og Delmarvaskaga þar sem dýrið hefur stundum sest að. Syðst hefur tegundin náð í Norður-Ameríku til Wachapreague í Virginíuríki. Fjörudoppan lifir einkum á föstum og stöðugum botni í flestum fjörugerðum nema helst mjög opinni klettaströnd. Venjulega heldur fjörudoppan sig á steinum eða klettum milli há- og lágflæðimarka innan um þörunga. Einnig lifir hún á leirbotni og í einstaka tilvikum á sandbotni þar sem er traust festa. Fjörudoppan lifir allt niður á 60 metra dýpi við norðurströnd Bretlands og í Skagerrak. Skelin (kuðungurinn). Fjörudoppan verður fullorðin yfirleitt á milli 16 til 38 mm á hæð og 10 til 12 mm á breidd, allt eftir lífsskilyrðum á hverjum stað. Hafa þó fundist 52 mm á hæð. Kuðungurinn er traustur, ýmist grár eða grábrúnn og oft með dökkum þverröndum. Munninn skástæður, nær hann því sléttskaraður upp á næsta vinding, hvítur á lit en útröndin oft með brúnum flekkjum. Vindingar 6-7, grunnvindingurinn sínu stærstur, miðlungs kúptir, saumurinn grunnur. Með lágri keilulaga hyrnu og yddum hvirfli. Almennt. Fjörudoppan þolir allháan hita, en þó meiri í lofti en sjó. Fjörudoppan fellur í dá við 32 °C lofthita og 31 °C sjávarhita. Hitadauði varð við 42 °C lofthita og 40 °C sjávarhita hjá eintökum úr Firth of Forth í Skotlandi. Ef hitastig fellur niður fyrir 8 °C leggjast flest dýrin í dvala og eyða hluta af vetrinum án þess að nærast. Fjörudoppa finnst oft við ármynni og stundum halda dýrin inn í firði og upp í árósa þar sem seltan er aðeins um 9-10%. Hún lifir mest á kísilþörungum, þörungagróum og gróðurleifum, en einstaka sinnum á dýraleifum. Kvendýrið gýtur um það bil 500 sviflægum eggjum er klekjast út á 5-6 dögum. Lirfan er einnig sviflæg og er sviftíminn oftast 4-5 vikur. Dýrið virðist geta náð allt að 20 ára aldri. Fjörudoppa er sumstaðar talið mikið góðgæti, rétt eins og beitukóngur eða ígulker. Rafeindapappír. Stafrænn bókalesari sem notar rafeindapappír. Rafeindapappír (líka rafpappír eða rafrænn pappír) er ákveðin gerð af tölvuskjá sem birtir mynd eða texta með því að líkja eftir bleki á venjulegum pappír. Ólíkt flatskjám sem eru upplýstir og nota bakljós til að lýsa upp díla, endurkastar rafeindapappír ljósi eins og venjulegur pappír og getur haldið texta og myndum stöðugt á skjánum án þess að eyða rafmagni. Rafmagn þarf til að skipta um mynd á skjánum. Til eru nokkrar ólíkar gerðir af rafeindapappír, sumar eru úr plasti og eru því sveigjanlegar. Talið er þægilegra að lesa af rafeindapappír en af venjulegum skjá, vegna þess að myndin er stöðug, en á tölvuskjá endurnýjast myndin með ákveðinni tíðni. Einnig er hægt að skoða rafeindapappír frá fleiri sjónarhornum en er hægt á venjulegum skjá, af því að notað er umhverfisljós í staðinn fyrir bakljós. Einnig er hægt að lesa af rafeindapappír í beinu sólarljósi án þess að myndin dofni. Rafeindapappír er léttur og meðfærilegur og getur sýnt myndir í litum. Frá og með 2008 er skerpa rafeindapappírs svipuð því sem er í prentuðum bókum og dagblöðum, en ný tækni er betri. Nú keppast framleiðendur við að finna upp rafeindapappír sem getur sýnt myndir í öllum litum. Rafeindapappír má nota í margvíslegum tilgangi, til dæmis í verðmiða og skilti í verslunum, tímaáætlanir á biðstöðvum, auglýsingaskilti, farsíma og lestölvu. Rafeindapappír er ólíkur stafrænum pappír, sem er „skjár“ sem hægt er að skrifa á með stafrænum penna og búa til stafræn skjöl. Bandidas. Bandidas er gaman-vestri frá árinu 2006 með Penélope Cruz og Sölmu Hayek í aðalhlutverkum. Hún segir sögu tveggja mjög ólíkra kvenna um aldarmótin 1900 í Mexíkó sem gerast bankaræningjar til þess að berjast við miskunnarlausan bankamann sem er að eyðileggja litla bæinn þeirra. Þetta er fyrsta myndin sem Penélope og Salma léku saman í. Myndin var tekin upp í Frakklandi, Bandaríkjunum og Mexíkó. Þrátt fyrir dræmar viðtökur fékk hún athygli út á aðalleikkonurnar. Söguþráður. Myndin segir sögu Maríu Álvarez og Söru Sandoval. María er fátæk sveitastelpa og er ástríkur faðir hennar neyddur af landinu sínu af vonda bandaríska baróninum, Tyler Jackson. Sara er auðug dóttir hrokafulls eignaeiganda (á meðal annars bankann) og hefur nýlega snúið aftur frá Evrópu þar sem hún gekk í skóla. Í einu vetfangi, hafa feður Maríu og Söru orðið fyrir árás barónsins (faðir Söru er myrtur, faðir Maríu er skotinn en lifir af) sem gefur honum mikið vald á svæðinu. Til þess að hefna sín, gerast María og Sara bankaræningjar, stela og skila aftur til fátæku Mexíkananna sem hafa misst landskikana sína. Í fyrstu tala þær mikið og fara auðveldlega að rífast yfir litlum hlutum, en undir leiðsögn fræga banaræningjans Bill Buck, læra þær að treysta hvor annarri. María reynist vera frábær skytta á meðan Sara getur varla haldið á byssu, sýnir hún frábæra kunnáttu í að kasta hnífum! Reiður eftir að "Stigakonurnar" (e. Bandidas) hafa rænt nokkra af bönkunum ræður Jackson glæpasérfræðinginn Quentin Cooke, frá New York. Það líður ekki á löngu þar til Sara og María frétta af honum og þær ræna Cook fljótlega og sannfæra hann um að hjálpa þeim. Hann hefur komist að því að faðir Söru var myrtur og gerir sér grein fyrir því að vinnuveitandinn hans er glæpamaðurinn. Núna eru þrír ræningjar, og spilar hver hlutverk sitt stærra og áhrifameira en áður. Þegar fram líða stundir fara stúlkurnar að keppa um hylli Quentins en þá segir hann þeim að hann sé trúlofaður. Jackson ætlar sér að gera þá peninga sem þær hafa stolið verðlausa, með því að færa gullið sem táknar peningana með lest að bandarískum landamærum. Á miðri leið ákveður hann að stela gullinu og svíkja mexíkósku ríkisstjórnina. "Stigakonunum" tekst að finna hann en þegar þær fá tækifærið til að drepa hann, geta þær það ekki, þeim finnst að það geri þær ekkert betri en hann. Jackson tekst að draga upp byssuna og nær næstum því að skjóta Maríu en Sara skýtur fyrst. Í lokin endar Quentin með unnustunni sinni og María og Sara halda inn í sólsetrið, með augastað á Evrópu og hvernig bankarnir þar eru, samkvæmt Söru, stærri Söluskattur. Söluskattur er tegund neysluskatts sem er bætt við vörur og þjónustur og rukkaður á sölustað. Söluskattur á Íslandi. Söluskattur var innheimtur á Íslandi frá árinu 1945 til 1990 (fyrir utan árin 1946 og 1947), en árið 1990 var byrjað að innheimta virðisaukaskatt í stað söluskatts. Bréfamálið. Bréfamálið var mál sem kom upp í Latínuskólanum í Reykjavík árið 1883. Það kom til vegna þess að Benedikt Gröndal skáldi var vikið úr kennarastöðu vegna óreglu. Það vatt síðar upp á sig þegar rektor, sem þá var Jón Þorkelsson, gaf í skyn að hann ætti heilan bunka af skammarbréfum eftir nemendur. Jólakveðjur Ríkisútvarpsins. Jólakveðjur Ríkisútvarpsins eru kveðjur, oftast frá ættingjum og vinum, sem lesnar eru í Ríkisútvarpinu (Rás 1) á Þorláksmessu. Kveðjurnar eru flokkaðar áður en þær eru lesnar. Hér áður fyrr voru almennar kveðjur lesnar fyrst, síðan kveðjur í sýslur, þá í kaupstaði í sýslunum og endað var á Reykjavík. Nú eru fyrst lesnar almennar kveðjur og óstaðbundnar, en síðan eftir klukkan sex kveðjur í sýslur landsins og almennar kveðjur og óstaðbundnar. Meiri hluti af Þorláksmessu á Rás 1 fer í lestur jólakveðja og í hugum margra eru jólakveðjurnar ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum. Jonas Brothers. Jonas Brothers er bandarísk hljómsveit sem samanstendur af þremur bræðrum; þeir heita Joe Jonas, Kevin Jonas og Nick Jonas. Og leika þeir allir í myndinni " Camp Rock " Charlie's Angels (kvikmynd). Charlie's Angels er bandarísk gaman-hasarmynd sem var leikstýrt af McG. Kvikmyndin er byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum frá 8. áratugnum. Cameron Diaz, Drew Barrymore og Lucy Liu leika þrjár konur sem vinna á einkaspæjarastofu. Kvikmyndin er lauslega byggð á sjónvarpsþáttunum. John Forsythe úr upphaflegu seríunum sneri aftur sem rödd Charlies. Framhald myndarinnar kom út árið 2003 og heitir '. Herjólfsfjörður. Herjólfsjörður er fjörður í Vestribyggð á Grænlandi. Hann heitir eftir sonarsyni Herjólfs, sem kom til Íslands með Ingólfi Arnarsyni en Herjólfur (eldri) var frændi Ingólfs. Byggingarefni. Byggingarefni eru þau efni sem eru notuð til að byggja mannvirki. Má nota mörg nátturuleg efni sem byggingarefni, til dæmis leir, sandur, tré og berg. Notaðar hafa verið trjágreinar og laufblöð sem byggingarefni. Að auki eru gerviefni notuð sem byggingarefni, nokkur þessara eru meir tilbúin en önnur. Framleiðsla byggingarefna er vel sett atvinnugrein í mörgum löndum og notkun þessara efna skiptist í nokkrar iðngreinar, eins og trésmíði, pípulögn, þakbygging og uppsetning einangrunar. Nátturuleg efni. Byggingarefni skiptast í tvo flokka: nátturuleg og tilbúin. Nátturuleg efni eru þau sem hafa ekki verið unnin í iðnaði, eða þau sem hafa verið dálítið unnin, eins og timbur eða gler. Tilbúin efni eru framleidd með iðnvæddum aðferðum og hafa verið ákaflega unnin af mönnum eða vélum, eins og plast eða málning byggð á jarðolíu. Gagnleg eru bæði nátturuleg og tilbúin efni. Leðja, steinn og plöntur eru þau einföldustu efni. Um allan heim hefur fólk notað öll þessara efna til að byggja húsin sín, eftir tíðarfari þar sem þau búa. Yfirleitt er steinn notaður sem formgerðarefni í þessum byggingum, og leðja er notuð til að fylla bilin. Leðjan er í raun steinsteypt efni. Dúkur. Hirðingjar um allan heim hafa, samkvæmt venju, búið í tjöldum. Tvær velþekktar gerðar af tjöldum eru indíánatjald og yurt. Nýlega hefur notkun dúks verið endurlífguð sem byggingarefni. Mega nútímabyggingar nota dúk sem er haldinn upp af stálköplum eða loftþrýstingi, til dæmis. Leðja og leir. Ólíkir byggingarstílar fara eftir magni sérstaks efnis sem er notað. Þessir fara oft eftir gæði jarðvegs notuð, til dæmis byggingar úr jarðvegi með meiri leir eru ólíkar þeim sem eru byggðar úr jarðvegi með meiri sandi. Leðja og leir geta bæði haldið hita eða kulda inn vel vegna góðrar varmarýmdar sinnar. Hús sem nota jarðveg sem byggingarefni eru náttúrulega köld í sumar og heit í vetri. Leir heldur hita eða kulda og geta gefið hann frá sér í langan tíma, eins og steinn. Veggir úr jarðvegi breytast í hita hægt og hægt, þannig gerast hitastigsbreytingar í lengri tíma en í öðrum byggingum, en þær vara einnig í lengri tíma. Byggingar úr leðju og leir finnast í Vestur- og Norður-Evrópu og hafa verið byggðar þar í margar aldir. Sumar þessara bygginga eru enn íbúðarhæfar í dag. Berg. Mannvirki úr bergi hafa verið byggð í mjög langan tíma. Berg er varanlegasta byggingarefni sem má fást, og er yfirleitt mjög fáanlegt. Til eru margar bergtegundir og allar hafa ólíka eiginleika sem gera þær betri eða verri til sérstakra notkana. Berg er mjög þétt efni sem býður upp á mikla vernd. Helstu ókostir bergs er þyngd og klaufaskapur þess. Orkuþéttleiki bergs er líka ókostur, talið erfitt er að halda það heitt án þess að nota mikla orku. Í fyrstu voru bergveggir byggðir með því að setja bara einn stein á annan, án sements. Með tímanum varð sement algengari og er næstum alltaf notað í dag til að byggja veggi. Má sjá byggingar úr steini í flestum stórum borgum í dag. Nokkrar siðmenningar notuðu aðeins stein, til dæmis Fornegyptar, Astekar og Inkar. Strá. Strá er eitt elsta byggingarefni til, gras er gott einangrunarefni og fáanlegt auðveldlega. Margar ættir í Afríku hafa búið í heimilum úr strái í allar árstíðir. Í Evrópu var strá notað oftar sem þakefni, og var einu sinni mjög vinsælt en er nú orðið úrelt vegna uppfinningar nýja nútímalegri þakefna. Nú á dögum er strá í smánotkun aftur, til dæmis í Hollandi eru mörg ný hús byggð með þökum úr bæði strái og leirhellum. Ís. Ís hafa verið notað sem byggingarefni af Inuítum til að byggja snjóhús. Einnig hafa ís verið notað til að byggja hótel og aðra ferðamannastaði í Vesturlöndum. Timbur. Timbur er byggingarefni úr trjám sem er oft sagað eða þjappað saman. Það er oft notað í formi borða eða planka. Timbur er almennt byggingarefni víðnotað til að byggja allskonar byggingar í mörgum loftslögum. Timbur getur verið mjög sveigjanlegt undir þyngdum og haldið styrk sinn. Það er mjög sterkt þegar þjappað lóðrétt. Ólíkar trjátegundir hafa ólíka eiginleiki, en sú sama trjátegund getur gefið af sér ólíkar tegundir timburs. Þess vegna er betri að nota nokkrar trjátegundir sem byggingarefni en aðrar. Umhverfið sem tré vex í getur líka haft áhrif á hentugleiki timburs. Upprunulega var tré notað sem byggingarefni í formi trjábola. Trén voru bara skerin að nauðsynlegu lengd og sett á stað. Stundum var trjábörkurinn tekinn af. Fyrir löngu áttu margar fjölskyldar sérstalkt stæði þar sem voru ræktuð tré. Þessi tré voru notuð í húsabyggingu. Við uppfinningu vélrænna saga varð framleiðsla timburs stór atvinnugrein. Kyle Martino. Kyle Martino (fæddur 19. febrúar 1981 í Atlanta í Bandaríkjunum) er bandarískur ganaískur knattspyrnumaður sem lék með Los Angeles Galaxy og Columbus Crew. Hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna í kjölfar meiðsla árið 2ö008. Steinunn gamla. Steinunn gamla var landnámskona á Suðurnesjum, frændkona Ingólfs Arnarsonar. Hún fór til Íslands og var fyrsta veturinn hjá Ingólfi frænda sínum en síðan gaf hann henni allt Rosmhvalanes utan við Hvassahraun. Virðist því sem heitið Rosmhvalanes hafi fyrrum náð yfir Vatnsleysuströnd einnig. Steinunn vildi þó fremur kalla þetta kaup og gaf Ingólfi í staðinn flekkótta heklu (ermalausa kápu), fannst það tryggara. Hún gaf svo Eyvindi frænda sínum og fóstra hluta af landnámi sínu, frá Vogastapa að Hvassahrauni. Steinunn hafði verið gift Herlaugi Kveldúlfssyni, sem sagður er hafa verið bróðir Skallagríms, en hefur líklega verið orðin ekkja þegar hún fór til Íslands. Synir hennar hétu Njáll og Arnór. Monzón. Monzón er höfuðborg Aragónu á Spáni. Íbúar borgarinnar sjálfar voru áætlaðir árið 2010 að vera 17.115 að tölu. RFID. a> og gult merki fyrir nautgripahjörðina. RFID (stendur fyrir "radio-frequency identification" á ensku) merki eru auðkennimerki sem senda frá sér útvarpsbylgjur. Merkin samanstanda af rafrás sem geymir og vinnur úr upplýsingum og loftneti til að senda og taka á móti upplýsingum. RFID merki eru mikið notuð í smásölu og við birgðahald og hefur verslunarkeðjan Wal-Mart m.a. nýtt sér þessa tækni. Unnið er að því að þróa og innleiða RFID merkingar í fiskvinnslu á Íslandi svo hægt sé að rekja feril fisks frá veiðum til kaupanda. Örmerki. Örmerki er örflaga sem notuð er til að merkja búfé, húsdýr eða villt dýr til aðgreiningar frá öðrum dýrum af sömu tegund. Þau eru með stöðluðu númeri; oftast samansett af tölustöfum eingöngu eða tölustöfum og bókstöfum. Örmerki eru sett undir húð dýra og eru lesanleg með sérstökum örmerkjalesurum. Örmerki byggja oft á RFID þ.e. merki sem senda út útvarpsbylgjur.. Konferensráð. Konferensráð var dönsk tignarnafnbót sem notuð var frá lokum 17. aldar fram undir 1900. Upprunalega var þetta titill sem sérstakir ráðgjafar konungs í tilteknum málum báru en seinna var þetta almenn heiðursnafnbót af 2. flokki slíkra nafnbóta. Segja má að nafnbótin hafi verið ígildi lágrar aðalstignar en hún gekk þó ekki í arf. Jón Eiríksson fékk konferensráðsnafnbót 1781 vegna starfa sinna í Rentukammerinu og hafði áður verið etatsráð. Eins var um Magnús Stephensen, hann var fyrst etatsráð en síðan konferensráð. IV (breiðskífa). IV er fjórða breiðskífa Hjálma. Hún var tekin upp að hluta á Jamaíka. Kansellíráð. Kansellíráð var dönsk tignarnafnbót sem notuð var á einveldistímanum og fram á 19. öld. Upphaflega var þetta titill sem þeir hlutu sem sátu í Kansellíinu en seinna varð þetta almenn heiðursnafnbót embættisaðals og taldist af 6. eða 7. flokki, þ.e. fremur neðarlega í tignarstiganum. Ýmsir íslenskir embættismenn báru kansellíráðsnafnbót á 18. og 19. öld. Magnús Stephensen (f. 1797). Magnús Stephensen (13. janúar 1797 – 15. apríl 1866) var íslenskur sýslumaður á 19. öld. Hann var sonur Stefáns Stephensens amtmanns á Hvítárvöllum og konu hans Ragnheiðar Magnúsdóttur. Magnús var fyrst sýslumaður Skaftfellinga og bjó á Höfðabrekku í Mýrdal en árið 1844 fékk hann Rangárþing og bjó eftir það í Vatnsdal í Fljótshlíð. Kona hans var Margrét Þórðardóttir (7. september 1799 - 18. janúar 1866). Þau áttu tvo syni og fimm dætur sem komust upp. Sonur þeirra var Magnús Stephensen landshöfðingi. Plötumerki. Kálfur með gul plötumerki með einstaklingsnúmeri, landi og búsnúmeri Plötumerki eða eyrnamerki er plast- eða álmerki sem er sett í eyru búfjár til að aðgreina það frá öðrum og svo hægt sé að sanna eignarrétt. Á eyrnamerkjum koma fram upplýsingar á borð við einstaklingsnúmer, búsnúmer, land og stundum fleiri upplýsingar. Sum plötumerki hafa innbyggða örflögu sem auðveldar aflestur með örmerkjalesara. Brókarjökull. Brókarjökull er falljökull sem fellur úr Vatnajökli, niður í Kálfafellsdal í suðursveit. Hann er suðsuðaustur af Vatnajökli. Emstrur. Skálar Ferðafélags Íslands á Emstrum. Emstrur er afréttarland í Rangárvallasýslu, norðvestan við Mýrdalsjökul. Gönguleiðin Laugavegur (gönguleið), milli Landmannalauga og Þórsmerkur, liggur um Emstrur og kallast vegurnn þaðan og niður í Þórsmörk Emstruleið. Fremri-Emstruá (Syðri-Emstruá), sem kemur úr Entujökli, skilur á milli Emstra og Almenninga. Nokkru norðar er Innri-Emstruá (Nyrðri-Emstruá) og hafa báðar oft verið miklir farartálmar en á þeim eru nú göngubrýr. Svæðið milli þeirra kallast Fremri-Emstrur en innan við Innri-Emstruá eru Innri-Emstrur og ná þær að Bláfjallakvísl en hún er óbrúuð. Þar fyrir norðan taka Laufaleitir við. Suðaustan við Emstrur er Mýrdalsjökull og norðvestan við þær fellur Markarfljót. Nokkur stök fjöll eru á Emstrum og má helst nefna Hattfell og Stóru-Súlu. Gistiskálar Ferðafélags Íslands eru í Fremri-Botnum, norðan við Fremri-Emstruá. Áður fyrr var fé sem gekk á afréttinum á sumrum ferjað yfir Markarfljót með bát og síðan í kláfferju en árið 1978 var fljótið brúað. Afréttin er fremur gróðurlítil og hrjóstrug en þó var meiri gróður þar áður, fyrir Kötlugosið 1918, sem spillti gróðri á Emstrum. Hrafntinnusker. Hrafntinnusker er 1.128 metra hátt fjall á gönguleiðinni Laugavegi. Staðurinn nefnist eftir hrafntinnu, sem finna má á víð og dreif um svæðið og var meðal annars notuð utan á Þjóðleikhúsið. Þar rekur Ferðafélag Íslands gistiskála sem nefnist Höskuldsskáli í 1050 m.y.s. Ofan við skálann er smájökull og í honum frægur íshellir. Í hellinum varð dauðaslys þann 16. ágúst 2006 þegar ís hrundi úr lofti hellisins á erlendan ferðamann. Hvanngil. Hvanngil er á gönguleiðinni sem kallast Laugavegurinn og er rétt suðaustan við Álftavatn. Þar rekur Ferðafélag Íslands gistiskála. Ketill flatnefur. Ketill flatnefur Bjarnarson var hersir í Noregi á 9. öld. Faðir hans var Björn buna Grímsson, sonur Veðrar-Gríms hersis úr Sogni og er sagt í Landnámabók að frá Birni sé komið nær allt stórmenni á Íslandi. Kona Björns hét Vélaug og áttu þau tvo syni auk Ketils: Hrapp og Helga. Kona Ketils var Yngvildur Ketilsdóttir og áttu þau synina Björn austræna og Helga bjólu og dæturnar Auði djúpúðgu og Þórunni hyrnu en einnig átti Ketill dótturina Jórunni manvitsbrekku. Haraldur hárfagri sendi að sögn Ketil til Suðureyja til að vinna þær aftur af Skotum og Írum, sem höfðu náð völdum í eyjunum á ný eftir að Haraldur hvarf heim til Noregs eftir frækilega herför. Ketill setti Björn son sinn yfir ríki sitt í Noregi og fór síðan og lagði undir sig allar Suðureyjar. Hann gerðist sjálfur höfðingi yfir eyjunum en galt Haraldi konungi enga skatta. Því reiddist konungur, tók undir sig eignir Ketils í Noregi og rak Björn son hans á brott. Björn hélt þá til Suðureyja og síðan til Íslands, nam land á Snæfellsnesi og bjó í Bjarnarhöfn. Hann var eina barn Ketils sem ekki tók kristni. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi og bjó á Hofi. Þórunn hyrna giftist Helga magra Eyvindarsyni landnámsmanni í Eyjafirði og Auður hélt til Íslands eftir að Þorsteinn sonur hennar féll og faðir hennar andaðist og nam land í Dölum. Sonur Jórunnar, Ketill fíflski, hélt einnig til Íslands, nam land á Síðu og bjó í Kirkjubæ. Hlöðuvík. Hlöðuvík er á norðanverðum Hornströndum og liggur á milli Fljótavíkur og Hælavíkur. Tvö hús eru við gamla bæjarstæðið að Búðum og eru þau í eigu afkomenda Hlöðuvíkurbænda. Einnig er þar náðhús fyrir ferðamenn. Fyrir miðjum firðinum er reisulegt fjall sem nefnist Álfsfell. Fjallið skilur að Hlöðuvík og Kjaransvík. Auðunn skökull Bjarnarson. Auðunn skökull Bjarnarson var landnámsmaður í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu og bjó á Auðunarstöðum. Fyrri kona hans er óþekkt en með henni átti hann dótturina Þóru mosháls, móður Úlfhildar, móður Ástu, móður Ólafs konungs helga. Síðar kvæntist Auðunn Þórdísi Þorgrímsdóttur, ekkju Önundar tréfóts, og áttu þau soninn Ásgeir, sem bjó á Ásgeirsá í Víðidal og var giftur Jórunni dóttur Ingimundar gamla. Sonardóttir þeirra var Dalla Þorvaldsdóttir, fyrsta biskupsfrúin í Skálholti. Björn faðir Auðuns var sonur Hunda-Steinars jarls á Englandi og Álofar dóttur Ragnars loðbrókar. Ísgerður og Eiríkur hétu og börn þeirra. Ólöf Loftsdóttir. Ólöf ríka Loftsdóttir (um 1410 – 1479) var íslensk hefðarkona og stórbokki á 15. öld. Hún var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd. Foreldrar Ólafar voru Loftur ríki Guttormsson og Ingibjörg Pálsdóttir kona hans. Hún ólst upp með foreldrum sínum í miklu eftirlæti. í sumum heimildum segir að hún hafi átt tvö börn í föðurgarði og hafi annað þeirra verið Sigvaldi Gunnarsson langalíf en enginn fótur virðist vera fyrir því. Hún giftist Birni Þorleifssyni, syni Þorleifs Árnasonar sýslumanns í Vatnsfirði og konu hans Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur. Þau bjuggu á Skarði og voru auðugustu hjón á Íslandi, áttu fjöldamargar jarðir og mikið af lausafé. Meðal annars áttu þau mikinn fjölda af eirkötlum (pottum) og öðrum búsgögnum sem þau leigðu út og höfðu af góðar tekjur. Um 1455 héldu þau í utanför en lentu í hrakningum og við Orkneyjar réðust skoskir sjóræningjar á skipið, rændu hjónunum og fluttu þau til Skotlands en Kristján 1. Danakonungur greiddi lausnargjald fyrir þau og fóru þau síðan til Danmerkur og fengu góðar viðtökur. Björn var þá gerður að hirðstjóra yfir öllu Íslandi og falið það hlutverk að hefta verslun Englendinga á Íslandi. Þegar þau hjón komu heim hófu þau þegar að sinna þessu hlutverki, fóru um landið með sveina sína og ráku Englendinga burtu og gerðu fé þeirra upptækt. Árið 1467 sló í bardaga milli Björns og manna hans annars vegar og Englendinga hins vegar á Rifi á Snæfellsnesi, þar sem Englendingar höfðu verslun, og lauk honum þannig að Björn var drepinn ásamt nokkrum mönnum sínum en Þorleifur sonur þeirra hjóna tekinn til fanga. Sagt er að Ólöf hafi þá sagt: „Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði.“ Ólöf keypti Þorleif lausan og fór síðan með hjálp sona sinna að herja á Englendinga hvar sem hún náði til þeirra. Sagt er að hún hafi tekið fjölda Englendinga til fanga og flutt þá í böndum heim að Skarði, þar sem hún hafi látið þá vinna ýmsa þrælavinnu, einkum við grjótburð og garðhleðslu. Ólöf ríka dó 1479. Sagt er að hún hafi áður beðið guð um að láta eitthvað eftirminnilegt gerast við dauða sinn og þegar hún lést hafi brostið á mikið fárviðri sem nefnt var "Ólafarbylur". Börn þeirra Björns voru Þorleifur Björnsson hirðstjóri á Reykhólum, Árni, sem sagður er hafa fallið í orrustu með Kristjáni konungu 1., Einar jungkæri á Skarði, sem einnig dó erlendis, og Solveig Björnsdóttir á Skarði, sem átti fyrst mörg börn með Jóni Þorlákssyni en giftist síðan Páli Jónssyni lögmanni á Skarði. Úlfljótur (lögsögumaður). Úlfljótur var landnámsmaður á Austurlandi og fyrsti lögsögumaður Íslendinga. Við hann eru kennd Úlfljótslög, fyrstu lög íslenska þjóðveldisins. Faðir hans er óþekktur en móðir hans var Þóra mostrastöng Hörða-Káradóttir. Úlfljótur nam land austur í Lóni og bjó í Bæ. Hann hefur vafalaust notið virðingar þótt hann væri ekki í hópi helstu höfðingja því að þegar ákveðið hafði verið að stofna allsherjarþing var hann sendur til Noregs til að kynna sér lög og reglur, því menn sáu þörf þess að ein lög giltu á öllu landinu. Hann var þar í þrjá vetur og samdi í samráði við móðurbróður sinn, Þorleif hinn spaka Hörða-Kárason, sem talinn var manna vitrastur og mestur lögspekingur í Noregi, lög sem svipaði mjög til Gulaþingslaganna norsku. Annars eru heimildir um þetta mjög óljósar en Sigurður Nordal taldi að Úlfljótur hefði komið heim með lögin um árið 921. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör eða geitskór, er sagður hafa farið um allt land að afla lögunum og hinni nýju stjórnskipan fylgis. Áður var talið að hann hefði verið að leita að heppilegum þingstað og fundið hann á Þingvöllum en nú eru orð Ara fróða yfirleitt túlkuð á annan hátt, enda hafa Kjalarnesþingmenn líklega verið búnir að ákveða hinn nýja þingstað. Úlfljótur er talinn fyrsti lögsögumaðurinn en þegar Alþingi var formlega stofnað á Þingvöllum var Hrafn Hængsson kjörinn lögsögumaður, hvort sem Úlfljótur hefur þá verið látinn eða ekki viljað taka við embættinu. Sonur hans er sagður hafa verið Gunnar Úlfljótsson bóndi í Djúpadal í Eyjafirði, sem átti Þóru dóttur Helga magra. Resident Evil. Resident Evil er tölvuleikja-, kvikmynda- og bókaröð sem skapað var af Shinji Mikami og kom út fyrst árið 1996 sem tölvuleikur á Playstation. Leikirnir eru nú með vinsælustu leikjum heims og hafa selst í nálægt 40 milljónum um allan heim. Síðan þá hafa tugir Resident Evil leikja verið gefnir út og sagan flutt yfir á hvíta tjaldið. Blink-182. Blink-182 er popp/pönk hljómsveit frá San Diego stofnuð árið 1992 af Thomas Matthew DeLonge, Mark Allan Hoppus og Scott Raynor. Hljómsveitin, sem hét upphaflega „Blink“, var nokkur ár einungis að spila á pöbbum og skemmtistöðum í San Diego áður en frægðin tók við. Upphaf Blink og fyrstu upptökur. Blink tók fljótt upp spóluna "Flyswatter" árið 1993 sem þeir gáfu nánustu ættingjum og vinum. "Buddha" var næsta spóla Blink sem var gefin út í um 1000 eintökum en hún var endurútgefin 1998. 1994 skrifaði Blink undir samning hjá Cargo-Records og komust á kortið í Bandaríkjunum. Þeir tóku upp plötuna "Chesire Cat" sem að sló í gegn í heimalandi þeirra með lögum eins og „Carousel“ og „M+M's“. Dude Ranch. Árið 1997 gáfu Blink-182 út plötuna "Dude Ranch" sem sló rækilega í gegn og seldist í um 1,5 milljónum eintaka um heim allan. Eftir útgáfu Dude Ranch — í miðju tónleikaferðalagi um Bandaríkin — yfirgaf Scott Raynor sveitina og Travis Barker tók hans stað. Enema of the State og heimsfrægð. Þriðja breiðskífa hljómsveitarinnar, "Enema of the State", kom út 1999 og var vel tekið. Lög eins og „All the Small Things“ og „What's My Age Again“ hlutu gífurlegan spilunartíma á MTV og í útvarpi. "Enema of the State" seldist í yfir 15 milljónum eintaka um heim allan og varð því söluhæsta plata hljómsveitarinnar. Take Off Your Pants and Jacket. Hljómsveitin hélt sigurför sinni um heiminn áfram árið 2001 er þeir gáfu út plötuna "Take off your pants and jacket". Lög eins og „The Rock Show“, „Stay Together for the Kids“ og „First Date“ fengu umtalsverðan tíma í útvarpi og á MTV. Blink-182 og upplausn hljómsveitarinnar. Hljómsveitin gaf út fimmtu plötuna sína sem hét einfaldlega "Blink-182". Platan seldist geysilega vel og skartaði lögum á borð við „Feeling This“ og næst vinsælasta lagi Blink-182, „I Miss You“. Eitt lag plötunnar, „All of This“, söng formaður hljómsveitarinnar The Cure, Robert Smith. Árið 2005 kom upp ágreiningur milli hljómsveitarmeðlima í miðri tónleikaferð um Evrópu. Eftir síðustu tónleika Blink-182 í Dublin á Írlandi sagði söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar, Tom DeLonge, sig úr Blink-182 eftir mikin ágreining milli meðlima hljómsveitarinnar. Eftir slit Blink-182 stofnaði Tom DeLonge hljómsveitina Angels and Airwaves sem er enn starfandi í dag og gaf út þriðju stúdíó plötu sína LOVE á valentínusardag 2010. Mark Hoppus og Travis Barker stofnuðu hljómsveitina +44 saman sem gaf aðeins út eina plötu og hefur verið lögð niður frá og með endurkomu Blink-182. Flugslys og endurkoma Blink-182. Þann 21. september árið 2008 lenti fyrrum trommari Blink-182, Travis Barker, í flugslysi sem aðeins tveir sluppu lifandi úr, hann og vinur hans, Adam Goldstein sem lést svo rúmu ári seinna þann 28. ágúst 2009 af lyfjanotkun. Travis brenndist illa og þurfti að undirgangast margar aðgerðir vegna brunasára, taugaskaða og fleiri meiðsla. Þessi atburður færði fyrrum meðlimi Blink-182 aftur saman eftir nærrum fjögur ár af reiði og ágreiningi í gegnum fjölmiðla. Á Grammy hátíðinni þann 8. febrúar 2009 tilkynnntu Blink-182 að þeir ætluðu að taka upp þráðinn nákvæmlega þar sem þeir skildu við hann. Blink-182 fóru á tónleikaferðalag um Norður-Ameríku sumarið 2009 og Evrópu sumarið 2010. Þeir eru nú í hljóðveri sínu að vinna að sjöttu stúdíó plötu sinni en hennar er von um fyrri part 2011. Auðunar þáttur vestfirska. Auðunar þáttur vestfirska segir frá ferðum Auðunar vestfirska til Grænlands þar sem hann keypti bjarndýr. Þetta dýr flutti hann alla leið til Danmerkur og gaf konungi. Síðan er sagt frá för hans til Rómar þar sem hann tók taugaveiki og missti allt hár. Að lokum hélt hann til baka til Íslands og frá honum er kominn Þorsteinn Gyðuson sem kemur við Sturlunga sögu en drukknaði við Flatey. Hrafn Hængsson. Hrafn Hængsson var lögsögumaður á Alþingi frá stofnun þess um 930 til 949. Hann er oft talinn fyrsti lögsögumaðurinn en stundum er Úlfljótur talinn fyrstur þótt hann hafi ekki verið lögsögumaður á sjálfu Alþingi, heldur líklega á Kjalarnesþingi. Hrafn var sonur Ketils hængs Þorkelssonar landnámsmanns á Stóra-Hofi á Rangárvöllum og Ingunnar konu hans. Í Landnámu segir að Ketill hafi verið á Hrafntóftum fyrsta vetur sinn á Íslandi og þar hafi Hrafn fæðst. Hann bjó á Hofi eftir föður sinn og var kjörinn lögsögumaður á Alþingi í fyrsta sinn sem það var haldið á Þingvöllum. Um konu hans er ekki vitað en dóttir hans var Þorlaug, móðir Valgarðar gráa, föður Marðar Valgarðssonar. Sonur Hrafns var Sæbjörn goðorðsmaður. Þórarinn Ragabróðir Óleifsson. Þórarinn Ragabróðir Óleifsson (eða Ólafsson) var íslenskur lögsögumaður á 10. öld, ýmist talinn annar eða þriðji í röð lögsögumanna. Þórarinn var sonur Óleifs hjalta, landnámsmanns á Varmalæk í Borgarfirði, og bjó þar eftir föður sinn. Bræður hans voru þeir Glúmur, sem var annar í röðinni af eiginmönnum Hallgerðar langbrókar, og Ragi, sem bjó í Laugardal og hefur sjálfsagt verið elstur þeirra bræðra fyrst Þórarinn var kenndur við hann og ætíð nefndur Ragabróðir. Kona Raga er sögð hafa verið systir Þorsteins Ingólfssonar (og dóttir Ingólfs Arnarsonar) og kann það að hafa átt sinn þátt í því að Þórarinn var kjörinn til að taka við lögsögumannsembættinu af Hrafni Hængssyni. Gegndi hann því árin 950 – 969. Kona Þórarins var Þórdís (eða Þuríður), dóttir Ólafs feilan Þorsteinssonar, Auðarsonar djúpúðgu. Styrkár Oddason. Styrkár Oddason (f. 1110 - d. um 1180) var íslenskur lögsögumaður á 12. öld., gegndi starfinu 1171-1180. Gissur Hallsson var kjörinn lögsögumaður á Alþingi 1181 og var Styrkár þá látinn. Ekkert er vitað með vissu um ætt hans en getgátur hafa verið settar fram um að hann hafi verið sonur Odda Helgasonar (Stjörnu-Odda), sem var í Múla í Aðaldal og hefur verið bent á að Sigurður sonur Styrkárs bjó þar einmitt síðar. Dóttir Styrkárs var Ingiríður, kona Kleppjárns Klængssonar goðorðsmanns á Hrafnagili í Eyjafirði. Sonur þeirra var Hallur Kleppjárnsson á Hrafnagili, sem barðist í Víðinesbardaga með Kolbeini Tumasyni. Kálfur Guttormsson lét drepa hann árið 1212. Oddi Helgason. Oddi Helgason, kallaður "Stjörnu-Oddi", var íslenskur stjörnufræðingur sem talinn er hafa verið uppi á fyrri hluta 12. aldar. Frá Odda segir í Íslendingaþættinum "Stjörnu-Odda draumur". Oddi átti heima í Múla í Aðaldal og var á vist með Þórði bónda þar en ekki er ljóst hvort hann var vinnumaður eða e.t.v. ættingi Þórðar. Hugsanlegt er að Styrkár Oddason lögsögumaður hafi verið sonur hans en sonur Styrkárs bjó einmitt í Múla á síðari hluta 12. aldar. Honum er einnig lýst sem vitrum og fróðum manni, fátækum og litlum verkmanni. Þátturinn snýst þó afar lítið um Odda, meginefnið er draumur hans sem er saga af konungum og skáldum á Gautlandi og vísur sem fylgja sögunni. Oddi var mikill stjörnufræðingur, sagður „rímkænn maður svo að engi maður var hans maki honum samtíða á öllu Íslandi“ og mikill spekingur á mörgum sviðum en tekið er fram að hann hafi ekki verið skáld. Hann er sagður hafa verið afar ráðvandur og tryggur og laug aldrei ef hann vissi satt að segja. Ekki þótti hann mikill verkmaður, enda fékkst hann jafnan við stjörnuathuganir og reikningslist og gekk út um nætur og skoðaði stjörnur, gerði merkar athuganir á sólarhæð og dögun og dagsetri. Hann dvaldi einnig í Flatey á Skjálfanda og er talinn hafa stundað stjörnuathuganir þar. "Odda tala", sem álitin er verk Odda og kennd við hann, er talin eitt merkasta framlag Íslendinga til raunvísinda á miðöldum. Hún er varðveitt í "Rímbeglu" og fleiri handritum. Efni hennar skiptist í þrennt, fyrsti hlutinn fjallar um hvenær sólstöður verða á sumri og vetri, annar hlutinn um sólargang og sá þriðji um hvernig stefna til dögunar og dagseturs breytist yfir árið. Útreikningar og niðurstöður eru með þeim hætti að víst er að um frumathuganir á Íslandi er að ræða en ekki uppskriftir úr erlendum ritum og margt í þeim þykir býsna frumlegt og bera vitni um sjálfstæð vinnubrögð og hugsun. Oddagata í Reykjavík dregur nafn sitt af Stjörnu-Odda. Þorvarðar þáttur krákunefs. Þorvarðar þáttur krákunefs er einn Íslendingaþátta. Þar segir frá Vestfirðingnum Þorvarði krákunefi, sem hélt til Noregs og kom þar að máli við Harald konung harðráða og kvaðst vilja gefa honum segl. Konungur var drukkinn og tók því illa, kvaðst áður þegið hafa segl af Íslendingi sem hefði verið óvandað og brostið sundur á siglingu. Vildi hann því ekki þiggja seglið. Í staðinn gaf Þorvarður seglið Eysteini orra, sem var mágur konungs. Launaði Eysteinn honum með heimboði og gaf honum þar skreyttan skarlatskyrtil og skikkju úr algráu skinni, klædda skarlati. Taldi hann sig þá hafa launað seglið svo sem konungur hefði gert. En fyrir þá sök að hann sjálfur var ekki jafn tiginn konungi gaf hann Þorvarði gullhring. Þegar Eysteinn og konungur sigldu saman um sumarið skreið skip Eysteins hraðar og spurði konungur þá hvar hann hefði fengið hið góða segl sitt. Sagði Eysteinn honum að þetta væri seglið sem hann hafði afþakkað. Þorvarður sneri heim til Íslands með gripi sína og varð mikill maður fyrir sér. Í Landnámu er minnst á Krákneflinga og þeir sagðir afkomendur Þórðar krákunefs; hefur Þorvarður líklega verið einn þeirra. Þórður krákunef er sagður sonur Vénýjar Þorsteinsdóttur, Oddleifssonar, Geirleifssonar, Eiríkssonar. Geirleifur sá var landnámsmaður á Barðaströnd, milli Vatnsfjarðar og Berghlíða. Hann er sagður hafa verið bróðursonur Úlfs skjálga. Margeir Pétursson. Margeir Pétursson (15. febrúar 1960) er stofnandi og núverandi stjórnarformaður MP Banka og héraðsdómslögmaður. Hann er einnig stórmeistari í skák og hefur verið frá árinu 1986. Ritstörf. "King's Indian Defence: Averbakh Variation" (Kóngsindversk vörn, Averbakh afbrigði). Bókin var gefin út árið 1996 af Cadogan chess books sem nú kallast Everyman chess. Bókin var ein sú fyrsta sem skrifuð var um Averbakh afbrigðið. Snæhéri. Snæhéri (fræðiheiti: "Lepus timidus") er spendýr af ættbálki héradýra. Hann lifir í köldum löndum og skiptir lit eftir árstíðum. Snæhérinn er stærsta nagdýr Norðurlanda, en hann er álíka stór og köttur. Hann er fremur grannvaxinn og samsvarar sér vel. Á Íslandi eru engir snæhérar en þá er hvortveggja að finna í Færeyjum og á Grænlandi. Snæhérar voru fluttir frá Noregi til Færeyja árið 1855. Sex árum seinna, eða árið 1861, voru fluttir snæhérar frá Færeyjum til Íslands og þeim komið fyrir úti í Viðey. Virtust þeir dafna vel en þóttu harðleiknir við æðarvarpið og var lógað. Síðan þá hafa ekki verið snæhérar á Íslandi, en þrátt fyrir það er bannað samkvæmt íslenskum lögum að skjóta snæhéra. Kilja. Kilja eða pappírskilja er bók með kápu úr mjúkum, þunnum pappa eða stinnum pappír. Venjulega eru slíkar bækur límdar í kjölinn en ekki saumaðar eins og innbundnar bækur. Ódýrar kiljur eru gerðar úr ódýrum pappírsblöðum sem gulna fljótt en vandaðari kiljur geta innihaldið samanbrotnar arkir af vönduðum pappír þannig að kaupandinn getur látið binda þær inn ef hann vill. Vasabrotsbækur eru oft gefnar út í kilju og orðin eru þannig stundum notuð eins og um samheiti væri að ræða. House. House, einnig þekkt sem House M.D., er bandarísk læknadrama þáttaröð sköpuð af David Shore og Paul Attanasio. Þættirnir fjalla um hóp lækna sem taka að sér erfið mál sem öðrum læknum hefur ekki tekist að leysa. Aðalpersóna þáttanna er Dr. Gregory House sem er leikinn af Hugh Laurie. House á margt sameiginlegt með hinni frægu skáldsagnapersónu Sir Arthur Conan Doyle, Sherlock Holmes. Depeche Mode. Depeche Mode á tónleikum í Barselóna 2006. Depeche Mode er ensk rafpopphljómsveit sem var stofnuð árið 1980 í Basildon í Essex. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru Dave Gahan (söngur), Martin Gore (hljóðgevlar, gítar, söngur), Andrew Fletcher (hljóðgervlar) og Vince Clarke (hljóðgervlar). Clarke hætti eftir útgáfu fyrstu hljómplötu sveitarinnar 1981 og Alan Wilder tók þá við á hljóðgervla og trommur. Wilder hætti árið 1995 en hinir þrír hafa haldið áfram. „Just can't get enough“ var fyrsta lag sveitarinnar sem náði á topp 10 listann í Bretlandi árið 1981. Síðan þá hafa þeir átt fjöldann allan af smellum á borð við „People are people“ (1984), „Personal Jesus“ (1989) og „Walking in my shoes“ (1993). Haraldur harðráði. Minnismerki um Harald harðráða í Ósló. Haraldur harðráði (1015 – 25. september 1066) var konungur Noregs frá 1046 þar til hann féll í orrustunni við Stafnfurðubryggju (Stamford Bridge) á Englandi. Fyrsta árið ríkti Magnús góði bróðursonur hans með honum. Haraldur var hálfbróðir Ólafs helga og var móðir beggja Ásta Guðbrandsdóttir. Fyrri maður hennar, Haraldur grenski, brann inni þegar Ólafur var í móðurkviði og hún giftist aftur Sigurði sýr, stórbónda í Hringaríki. Haraldur var yngsti sonur þeirra. Þegar Ólafur flúði til Rússlands 1028 undan Knúti ríka fór Haraldur hálfbróðir hans með, þá enn á barnsaldri, kom aftur með honum tveimur árum síðar og var einn fárra manna Ólaf sem komust undan úr Stiklastaðaorrustu. Hann flúði til Svíþjóðar og síðan um Rússlands til Miklagarðs, þar sem hann gekk í sveit Væringja. Þar átti hann glæstan feril og var innan fárra ára orðinn foringi Væringja. Í sögu Haraldar er greint frá fjölda bardaga sem hann tók þátt í víða við Miðjarðarhaf. Sagt er að Haraldur hafi haldið heim á leið þegar honum bárust fregnir af því að bróðursonur hans, Magnús góði Ólafsson, væri orðinn konungur í Noregi. Hann taldi sjálfan sig ekki síður réttborinn til konungs. Hann kom til Noregs hlaðinn gulli og gersemum eftir dvölina í Miklagarði og tókst innan tíðar að kaupa sér stuðning höfðingja, svo að 1046 neyddist Magnús til að samþykkja hann sem meðkonung og þegar Magnús dó eftir fall af hestbaki árið eftir varð Haraldur einn konungur. Næstu árin styrkti hann mjög yfirráð sín í Austur-Noregi, þar sem meira og minna sjálfstæðir smákóngar og héraðshöfðingjar höfðu ríkt og verið hallir undir Danakonung. Haraldur hrifsaði völdin til sín og um leið yfirráð yfir versluninni við inn- og austurhéröð Noregs og sveifst einskis við það. Kann að mega rekja viðurnefni hans til þeirra átaka. Hann átti einnig í stríði við Svein Ástríðarson Danakonung. Sumarið 1066 hugði Haraldur á landvinninga í Englandi. Hann gerði bandalag við Tósta jarl, útlægan bróður Haraldar Guðinasonar Englandskonungs, sigldi frá Noregi með 300 skip og tók land á Norður-Englandi. Haraldur Englandskonungur fór á móti honum og háðu þeir mikla orrustu við Stafnfurðubryggju, ekki langt frá Jórvík, þann 25. september, sem lauk með því að Haraldur harðráði féll ásamt stórum hluta manna sinna. Haraldur kvæntist fyrst Ellisif, dóttir Jarisleifs fursta í Kænugarði (Elisaveta Jaroslavna af Kiev) og átti með henni dæturnar Maríu og Ingigerði, en fyrri maður hennar var Ólafur hungur Danakonungur og sá seinni Filippus Svíakonungur. Eftir að Haraldur kom til Noregs með Ellisif kvæntist hann einnig Þóru Þorbergsdóttur frá Giska og átti því tvær konur samtímis. Með Þóru átti hann synina Magnús og Ólaf kyrra, sem báðir urðu Noregskonungar. Eftir fall Haraldar giftist Þóra Sveini Ástríðarsyni Danakonungi. Magnús Haraldsson (konungur). Magnús Haraldsson eða Magnús 2. (1048 – 1069) var konungur Noregs frá 1066. Fyrstu mánuðina var hann einn konungur en frá vori 1067 var bróðir hans, Ólafur kyrri, konungur með honum. Magnús var eldri sonur Haraldar harðráða og konu hans Þóru Þorbergsdóttur. Þegar faðir hans fór í herförina til Englands 1066 var hann krýndur konungur og eftir að Haraldur féll í orrustunni við Stafnfurðubryggju tók hann einn við ríkinu en þegar Ólafur bróðir hans, sem hafði fylgt Haraldi til Englands, sneri aftur um vorið deildu þeir konungsvaldinu með sér. Í raun virðist Magnús hafa ráðið yfir Vestur-Noregi, Þrændalögum, Upplöndum og Norður-Noregi en Ólafur yfir Víkinni. Þetta stóð þó ekki lengi því Magnús veiktist skyndilega og dó og var þá um tvítugt. Hann átti einn son, Hákon Magnússon Þórisfóstra, sem ólst upp hjá höfðingjanum Steigar-Þóri. Um móður hans er ekkert vitað. Cushing heilkenni. Cushing heilkenni er sjúkdómur sem orsakast vegna röskunar á magni hormóna í blóðrásinni, nánar til tekið of mikið af hormóninu Cortisol vegna hormóna framleiðandi æxlis eða vegna inntöku glucocorticoid lyfja. Cushings veiki er annað afbrigði en það orsakast einungis vegna góðkynja æxlis í heiladingli sem framleiðir mikið magn af ACTH sem þar af leiðandi hækkar magn Cortisols í blóðinu. Meðferð. Flest tilfelli Cushings er komin til vegna misnotkunar á sterum og því er meðferð við Cushings að hægt og rólega vinna niður notkun steranna. Ef góðkynja æxli hefur myndast þarf að fjarlæga það með skurðaðgerð, fyrir þá sjúklinga sem skurðaðgerð hentar ekki þá eru til lyf í stað aðgerðar. Ólafur kyrri. Ólafur kyrri eða Ólafur 3. Haraldsson (um 1050 – 1093) var konungur Noregs frá 1067 til dauðadags, fyrst ásamt Magnúsi bróður sínum en eftir lát hans 1069 var hann einn konungur. Ólafur var yngri sonur Haraldar konungs harðráða og Þóru Þorbergsdóttur konu hans. Þegar faðir hans hélt í herförina til Englands 1066 fór Ólafur með en tók ekki þátt í orrustunni við Stafnfurðubryggju þar sem Haraldur féll. Hann sneri aftur til Noregs árið eftir og tók við konungdómi ásamt bróður sínum; þeir virðast hafa ríkt í sátt og samlyndi en aðeins tveimur árum síðar dó Magnús og Ólafur ríkti einn eftir það. Viðurnefni hans bendir til þess að hann hafi strax í upphafi þótt friðsamur og ekki líklegur til stórátaka og það gekk eftir, stjórnarár hans voru svo friðsöm að fátt er til af heimildum um þau. Hins vegar styrktist konungsvaldið og ríkið, konungshirðin stækkaði og evrópskir hirðsiðir voru innleiddir. Samskipti við páfagarð bötnuðu og biskupsstólum fjölgaði í Noregi. Ólafur kyrri var fyrsti konungur Noregs sem lærði að lesa. Kona hans var Ingiríður, dóttir Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Launsonur hans með Þóru Jónsdóttur var Magnús berfættur Noregskonungur. Hákon Magnússon Þórisfóstri. Hákon Magnússon Þórisfóstri (f. fyrir 1070, d. 1094) var hylltur sem konungur Þrændalaga og Upplanda í Noregi árið 1093 en konungsnafbót hans er umdeild og hann er yfirleitt ekki hafður með í norsku kóngaröðinni. Hákon var sagður vera sonur Magnúsar Haraldssonar konungs, sem dó 1069, en móðir hans er óþekkt. Hann ólst upp hjá Upplandahöfðingjanum Þóri bónda á Steig og þegar Ólafur kyrri konungur dó 1093 fékk Þórir fóstursoninn tekinn til konungs í Upplöndum og Þrændalögum með því að lofa Þrændum alls kyns réttarbótum. Magnús berfættur, sem tekið hafði við ríki af föður sínum, viðurkenndi aldrei Hákon sem konung og hefði vafalaust komið til átaka milli þeirra en áður en svo fór veiktist Hákon þar sem hann var við rjúpnaveiðar og dó. Þá réðist Magnús til atlögu við Steigar-Þóri, elti hann uppi og lét hengja hann. Málsvari andskotans. Málsvari andskotans (Málsvari myrkrahöfðingjans eða málaflutningsmaður hins vonda) er notað yfir þann aðila sem tekur afstöðu í rökræðum sem er andstæð tiltekinni skoðun, með það fyrir augunum að láta reyna á alla fleti málsins sem rætt er um og finna þar með veika bletti á málflutningi, rökum og sönnunargögnum. Varast ber að nefna málsvara andskotans "lögfræðing andskotans", því lögfræðingur er annað en málsvari eða málafærslumaður (málaflutningsmaður). Heitið, málsvari andskotans, á uppruna sinn að rekja til kaþólsku kirkjunnar þar sem rökrætt var um hvort dýrlingsefni ætti skilið að verða dýrlingur, en þar fóru fremstir málsvari andskotans ("advocatus diaboli") sem mælti gegn dýrlingnum og svo Málsvari guðs ("advocatus dei") sem mælti með dýrlingnum. Andmælandinn var stundum einnig nefndur "Promotor fidei", það er: Frumkveði trúarinnar. Ólafur Magnússon (konungur). Ólafur Magnússon (f. 1099, d. 22. desember 1115) var konungur Noregs frá 1103 ásamt eldri bræðrum sínum, Eysteini og Sigurði Jórsalafara. Þeir voru allir synir Magnúsar berfætts en móðir Ólafs var frilla konungs, Sigríður Saxadóttir. Ólafur dó í Niðarósi 16 ára að aldri og er fátt vitað um hann. Hann er oft ekki talinn með í norsku kóngaröðinni og er til dæmis ekki nefndur Ólafur 4.; þá tölu ber Ólafur Hákonarson (1380-1387). BP. BP plc (áður British Petroleum plc) er breskt orkufyrirtæki sem er líka þriðja stærsta orkufyrirtæki í heimi og fjórða stærsta fyrirtæki í heimi. BP er fjölþjóðlegt fyrirtæki, stærsta fyrirtæki Bretlands og ein systranna sjö í olíuiðnaði. BP er með höfuðstöðvar í Westminsterborg í London og er skráð hjá kauphöllinni í London og FTSE 100. Fyrirtækið var stofnað árið 1909. Dario Argento. Dario Argento (f. 7. september 1940) er ítalskur kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur, aðallega þekktur fyrir hryllingsmyndir og spennutrylla. Hann hóf feril sinn í kvikmyndum sem gagnrýnandi en skrifaði síðar handrit með Sergio Leone að myndinni Once Upon a Time in the West. 1970 leikstýrði hann sinni fyrstu kvikmynd, "Hver er morðinginn?" ("L'uccello dalle piume di cristallo"). Hann sló fyrst í gegn á heimsvísu með myndinni "Dökkrauður" ("Profondo rosso") 1975. Dóttir hans er leikkonan Asia Argento sem hefur farið með aðalhlutverk í nokkrum mynda hans. Eysteinn Magnússon (konungur). Eysteinn Magnússon eða Eysteinn 1. (1088 – 29. ágúst 1123) var konungur Noregs frá 1103 ásamt hálfbræðrum sínum, Ólafi og Sigurði Jórsalafara, þar til Ólafur dó 1115 en eftir það ríktu Eysteinn og Sigurður saman þar til Eysteinn lést. Þeir bræður voru allir frillusynir Magnúsar berfætts en móðir Eysteins var af lágum stigum og er nafn hennar óþekkt. Þeir voru kornungir þegar þeir tóku við ríkjum eftir fall föður síns 1103, Eysteinn var þá 15 ára, Sigurður 13 ára og Ólafur aðeins 3-4 ára. Eldri bræðurnir stýrðu því ríkinu með aðstoð ráðgjafa, enda var Ólafur heilsuveill og dó ungur, og á meðan Sigurður var í krossferð sinni til Jórsala á árunum 1108-1111 stýrði Eysteinn ríkinu einn. Eftir heimkomu Sigurðar deildu þeir bræðurnir með sér völdum og skiptust á að dvelja í suður- og norðurhluta ríkis síns. Eysteinn virðist hafa verið röggsamur konungur, lét reisa kirkjur og klaustur, gera hafnir og stóð í öðrum framkvæmdum. Snorri lýsir honum svo í Heimskringlu að hann hafi verið greindur og vel að sér, glaðlyndur og vinsæll. Kona hans var Ingibjörg Guttormsdóttir frá Steig í Guðbrandsdal. Þau áttu eina dóttur, Maríu, og var hún móðir uppreisnarforingjans Ólafs ógæfu Guðbrandssonar, sem tók sér konungsnafn árið 1167 en varð svo að flýja til Danmerkur og dó þar 1169. Sigurður Jórsalafari. Sigurður Jórsalafari eða Sigurður 1. Magnússon (f. 1090, d. 26. mars 1130) var konungur Noregs frá 1103, fyrst ásamt hálfbræðrum sínum Ólafi og Eysteini, en Ólafur dó 1115 og Eysteinn 1123. Eftir það ríkti Sigurður einn. Þeir bræður voru allir frillusynir Magnúsar berfætts og hét móðir Sigurðar Þóra. Sigurður hafði þegar á barnsaldri fylgt föður sínum í víkinga- og herferðum hans og var með í herförinni til Bretlandseyja en var skilinn eftir á Orkneyjum og var því ekki með þegar Magnús féll á Írlandi 1103. Þá var Sigurður 12-13 ára. Átján ára að aldri hélt Sigurður af stað til Jórsala (Jerúsalem) í pílagríms- og herför sem stóð í þrjú ár. Undirbúningurinn tók langan tíma því siglt var af stað á 60 langskipum og voru 100 menn á hverju. Fyrst var siglt til Englands þar sem liðið hafði vetursetu og síðan var siglt áfram suður með Frakklandsströnd og Spáni og komið við í Santiago de Compostela. Þegar sunnar dró með strönd Portúgals og síðan Spánar var komið í ríki Mára og þar gerðu Norðmennirnir víða strandhögg, réðust meðal annars á Lissabon og fleiri bæi og hertóku þá. Vorið 1110 komst liðið um Gíbraltarsund inn á Miðjarðarhaf þar sem barist var við Mára og sjóræningja og í leiðinni voru eyjarnar Ibiza, Menorka og Formentera herteknar (→ 8217; eða Nasser ad-Dála -al-Nāṣir ad-Dawlah, نصر الدولة-). Um sumarið var komið við á Sikiley og snemma um haustið komust Sigurður og menn hans til Landsins helga. Þar heimsóttu þeir Jerúsalem og aðra helga staði, böðuðu sig í ánni Jórdan og fengu flís úr krossi Krists. Jerúsalem var á þessum tíma undir yfirráðum kristinna manna en Norðmennirnir aðstoðuðu Baldvin Jórsalakonung við að ráðast á borgina Sídon í Líbanon og hertaka hana. Í ársbyrjun 1111 lagði liðið af stað heim og kom við í Miklagarði hjá Alexiosi keisara. Síðan var haldið heim landleiðina yfir Rússland. Sagt er að aðeins 100 menn af þeim 6000 sem lögðu af stað í leiðangurinn hafi snúið aftur með Sigurði; hinir höfðu flestir fallið í orrustum eða dáið á leiðinni en allmargir urðu eftir í Miklagarði og gengu í sveit Væringja. Sigurður gat sér frægð með Jórsalaförinni en þó stóð hann í skugga Eysteins bróður síns meðan hann lifði; þeir voru ólíkir, Eysteinn klókur og vel máli farinn, glæsimenni og vinsæll, Sigurður hraustmenni en ekki fríður, fámáll og þurr á manninn, tryggur vinum sínum en fáskiptinn. Því var ákveðin togstreita á milli þeirra en þeir komust hjá átökum með því að skiptast á að dvelja í suður- og norðurhluta ríkisins. Eysteinn veiktist og dó sumarið 1123 og eftir það var Sigurður einn konungur. Litlum sögum fer af ríkisstjórnarárum hans og mun það hafa verið friðsemdartími í Noregi. Það breyttist skyndilega þegar hann dó af veikindum í Ósló 26. mars 1130. Kona Sigurðar var Málmfríður, dóttir Mstislavs stórhertoga af Kænugarði (hún giftist síðar Eiríki eimuna Danakonungi), og áttu þau dótturina Kristínu, sem síðar giftist Erlingi skakka. Sigurður átti líka soninn Magnús með frillu sinni Borghildi Ólafsdóttur og tók hann við konungdæminu en brátt komu fram aðrir sem töldu sig eiga kröfu til ríkisins og næstu öldina logaði Noregur í innanlandserjum og átökum milli konunga og konungsefna. Royal Dutch Shell. Royal Dutch Shell plc, þekkt almennt sem Shell, er fjölþjóðlegt olíufyrirtæki með uppruna bæði í Bretlandi og Hollandi. Samkvæmt tímaritinu "Fortune" er Shell stærsta fyrirtæki í heimi, og samkvæmt "Forbes" er annað stærsta fyrirtæki í heimi. Það er líka ein systranna sjö í olíuiðnaði. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Haag í Hollandi. Shell á líka skrifstofur í Shell Centre í London, Bretlandi. Helstu framkvæmdasvæði fyrirtækisins eru framleiðsla, vinnsla, flutningur og markaðssetning kolvatnsefna (beggja jarðolíu og jarðgass). Shell starfar líka í framleiðslu jarðolíuefna og er nýkomið í endurnýjanlega orku, og er að þróa vind-, vetnis- og sólarorkutækni. Shell er skráð hjá kauphöllinni í London og Euronext í Amsterdam. Shell starfar í um það bil 140 löndum. Dótturfyrirtækið Shell Oil Company starfar í Bandaríkjunum, og er eitt stærsta fyrirtæki þeirra. Höfuðstöðvar dótturfyrirtækisins eru staddar í Houston, Texas. Fyrirtækið var stofnað árið 1907 við sameiningu hollensks fyrirtækis "Koninklijke Nederlandsche Petroleum Maatschappij" og bresks fyrirtækis "Shell Transport and Trading Company Ltd". Fyrirtækin tvö sameinuðust til að keppa við bandaríska fyrirtækið Standard Oil. 60% fyrirtækisins var í eigu Hollands og 40% í eigu Bretlands. Shell starfar á Íslandi sem Skeljungur hf. GlaxoSmithKline. GlaxoSmithKline plc (skammstafað sem GSK;,) er breskt lyfjafyrirtæki. GSK er annað stærsta lyfjafyrirtæki heimsins og er rannsóknabundið fyrirtæki sem framleiðir mörg lyf fyrir miðtauga-, öndunar-, meltingarkerfin; efnaskipta og gegn krabbameini. GSK framleiðir líka tannhirðuvörur, heilsudrykki og lyf fáanleg án lyfseðils. Fyrirtækið er skráð hjá kauphöllinni í London og FTSE 100. GSK myndaðist árið 2000 við sameiningu fyrirtækjanna GlaxoWellcome og SmithKline Beecham. Höfuðstöðvar fyritækisins eru í London í Englandi. Halloumi. Halloumi (gríska: χαλούμι, tyrkneska: "hellim", arabíska: حلوم "ḥallūm") er hefðbundinn ostur frá Kýpur sem er líka vinsæll í Austurlöndum nær og Grikklandi. Nú á dögum er hann framleiddur um allan heim. Halloumi er gerður úr blöndu geitar- og sauðamjólkur, en halloumi blandaður kúamjólk er einnig til. Hann hefur hátt bræðslumark og hentar því bæði til steikingar og grillunar. Halloumi er gerður með ostahleypi og er ólíkur öðrum ostum af því engir sýrumyndandi gerlar eru notaðir við framleiðsluna. Halloumi er hvítur og mjúkur ostur, með saltbragði, eins og mozzarella. Halloumi er geymdur í eigin mysu blandaðri saltvatni og getur geymst í eitt ár ef hann er frystur við –18°C. Hann er oft skreyttur með myntu til að bæta bragðið. Upprunalega voru myntulaufblöð notuð sem rotvarnarefni, en rotvarnareiginleikar þeirra voru uppgötvaðir af tilviljun. Þess vegna finnast oft lítil myntulaufblöð á halloumi í pökkunum. Halloumi er notaður í eldamennnsku af því bræðslumark hans er hærra en annarra osta. Hann má steikja eða grilla (til dæmis í saganaki), nota í salötum, eða steikja og borða með grænmeti. Á sumrin borða Kýpurbúar halloumi með vatnsmelónu. Saltvatn. Saltvatn er almennt orð sem á við vatn sem inniheldur uppleyst salt (NaCl). Styrkur salts er yfirleitt tjáður í milljónarhlutum. Samkvæmt USGS er saltvatn flokkað í þremur flokkum. Smásalt vatn inniheldur um 1.000–3.000 milljónarhlutar, miðsalt vatn inniheldur 3.000–10.000 milljónarhlutar, og mjög salt vatn inniheldur 10.000–35.000 milljónarhlutar. Sjórinn hefur seltumagn um 35.000 milljónarhluta, sem jafngildir 35g/L. Vegna skorts ferskvatns um allan heim, er saltvatn afsaltað á sumum stöðum. Til dæmis í Colorado í Bandaríkjunum er vatn með seltumagni um 2.500 milljónarhluta notað til að vökva uppskerur. Salt vatn, þekkt sem saltlausn, er notað í lyffræði sem dauðhreinsuð lasun gefin í æð. Saltlausn gefin í æð er yfirleitt um 9.000 milljónarhluta. Yfirleitt nýtast mönnum ekki óunnið saltvatn. Til dæmis geta menn ekki drukkið mjög salt vatn eða nota það til að vökva uppskerur. Saltvatn er gagnlegt í iðnaði, til dæmis í námugrefti eða orkuframleiðslu. Sara Nuru. Sara Nuru (fædd 19. ágúst 1989 í Erding í Þýskalandi) er þýsk fyrirsæta. Nuru, Sara Listi yfir osta. Þetta er listi yfir osta eftir löndum. Ostur til sölu í verslun Péturskrónur. Péturskrónur varu gjaldmiðill sem Pétur J. Thorsteinsson notaði í viðskiptum sínum við heimamenn á Bíldudal í kringum 1890-1910. Þegar samgöngur til Patreksfjarðar bötnuðu og Bíldælingar gátu verslað þar fyrir íslenskar krónur hvarf gildi Péturskrónunnar. Upplausn. Í efnafræði er upplausn ósamgena blanda sem samstendur af tveimur eða fleiri efnum. Í upplausn er leyst efni upplaust í öðru efni, leysiefnið. Yfirleitt er það efni sem það er meira af kallað leysiefnið. Það getur verið þéttefni, vökvi eða gas. Upplausnin sem myndist er í sama efnisham og leysiefnið. Gas. Ef leysiefnið er gas, þá getur aðeins annað gas leyst upp í því. Dæmi um gasupplausn er loft (súrefni og önnur gös uppleyst í nitri). Það eru ekki mikil samskipti milli sameinda í upplausninni, þess vegna eru gasupplausnir svolítið smávægilegar. Stundum á maður við þær sem blöndur heldur upplausnir. Bensín. Bensín er eldfimur vökvi unnin úr hráolíu, sem notaður er sem eldsneyti í sprengihreyflum, en einnig sem leysiefni, til dæmis leysir bensín málningu. Bensín samastendur aðallega af alifatískum kolvetnum og er gerð með þrepaeimingu hráolíu. Tólúeni og bensóli er oft bætt við bensín til þess að auka oktangildi þess. Oft eru bætiefni, t.d. etanóli, blandað í bensín til að auka vinnslu sprengihreyfila eða minnka mengun. Bensín er framleitt á olíuhreinsistöðvum. Bensín samanstendur af efnum úr hráolíu og öðrum kolvetnum. Flest þessara kolvetna eru talin spilliefni, og dæmigert blýlaust bensín inniheldur fimmtán spillefni. Þau eru bensól (5%), tólúen (35%), naftalín (allt að 1%), trímetýlbensól (allt að 7%) og MTBE (allt að 18%), ásamt tíu annarra. Saga bensíns. Fyrir notkun sem eldsneyti var bensín fáanlegt í litlum flöskum og notað sem meðferð gegn lúsum og eggjunum þeirra. Í dag er bensín ekki lengur notað gegn lúsum vegna eldfimi og áhættu á skinnþroti. Í Bandaríkjunum var það líka notað sem hreinsiefni til að fjarlægja feiti af fötum. Bensín var lík öðrum hráolíuefnum sem fengust á þeim tíma, til dæmis vaselíni. Upprunalega var bensín keypt í dósum fyrir stofnun bensínstöðva. Nú á dögum er bensíni dælt í gegnum bensíndælur á bensínstöðvum. Uppruni. Hvaða steinrunna eldsneyti sem fundist hefur er notað með þvílíkum hraða að það mun endast tæplega næstu aldirnar meðan það tekur hundrað milljón ár að myndast nýjar steinrunnar eldsneytis auðlindir. Mikið af olíu heimsins mótaðist fyrir um 500 milljón árum. Kol myndast við jarðfræðileg ferli sem fela í sér að gróður grefst undir loftfirrtum aðstæðum í mýrum. Þar verður hann að mór og grefst þar undir bergi, við það eykst hitinn og þrýstingur í hlut-oxaða lífrænaefnalaginu. Hráolía myndast svo úr dreifðara lífrænu efni eins og lífrænum setlögum á landgrunni sem grefst í jarðhræringum, einsog með kolin verður fyrir miklum þrýsting, hita og bakast djúpt neðanjarðar. Eftir milljón ár myndast úr þessu kol eða jarðolía. Olían getur stundum runnið um sprungur og gloppur í bergi og myndað stórar neðanjaðar laugar. Öll ógösuð jarðeldsneyti eru byggð upp af flóknum sameindum með grunn af mörgum kolefnis atómum. Yfir 500 mismunandi efni hafa fundist í hráolíum. Olían hefur oftast komið aðallega úr sjáfarseti koefna eða um 86% með minni skammta úr óseyrum 11% og vötnum 3%. Þessir fyrirrennarar olíu komu ekki úr djúpinu heldur úr fornum grunnum vötnum. Náttúrulegt gas eða metan CH4 myndast sambandi við kol og olíu á svipaðan hátt nema hraðar. Munurinn er sá að gasið smýgur í gegnum gljúpt berg og gegndræp kol og á það til að safnast fyrir ofan við olíu laugar eða lekur í burtu. Gasfundur í jörðu getur því oft verið vísbending um olíu eða kol. Einungis 0,81% af upprunalegu seti kolefna verða að kolum, 0,094% verða að olíu og 0,085% verða að gasi. Megnið af setinu fer í andrúmsloftið í gegnum rotnun. Þetta þýðir að einn líter af bensíni táknar endapunkt 23 tonna af fornu gröfnu lífrænu seti. Hreinsun. Hráolía og náttúrulegt gas eru blöndur af kolvetnum og litlum ögnum af öðrum efnum. Samsetning þessara hráefna getur verið mismunandi eftir staðsetningu. Eldsneytishreinsunnarstöðvar eru flóknar verksmiðjur þar sem samsetning og lotur ferlis eru oftast mjög sérhæfðar að eiginleikum hráefnis og lokaafurða sem framleiddar eru. Í hreinsunnar stöðinni er hráolían tekin og skilin að í mismunandi hluta, svo er þessum hlutum breytt í nothæf efni sem eru svo blönduð til að búa til endanlega vöru. Þessar vörur eru eldsneyti og smurningar sem notast dagsdaglega. Oktantölur bensíns. Bensín er ekki hreint efnasamband heldur efnablanda af mörgum efnasamböndum einsog vetniskolum, hexani(C6H14), heptani(C7H16) og oktani(C8H18), auk annarra eldsneytistegunda og íbótarefna sem oft lækka frostmark blöndunnar. 91 Oktan bensín var aðallega notað í hernaði í blossakveikjuvélum hjá NATO svæðum Evrópu utan Danmerkur og Englands. Kallað 91 Oktan eða herbensín, sala á þessu bensíni er takmörkuð og hefur 98 Oktana bensín tekið þar við. 95 Oktan bensín er blýlaust bensín með blöndunarhlutfallið 95%oktan á móti 5% heptani.(vísindavefur) 95 oktana bensín er ætlað fyrir vélar með þjapphlutfallið í kringum 6:1. 98 Oktan bensín er bensín með lítið blýmagn en er þó kallað blýlaust. Blýmagn er um 90% minna en gamla blýbensínið, til að fá oktan töluna upp í 98 þarf að bæta blýi í bensínið. 98 oktana bensín er ætlað fyrir vélar með þjapphlufallið 10:1 eða hærra. V-power er bensíns sem hefur oktan töluna 99 sem er hæsta gefin oktan tala sem í boði er á blýlausu bensíni á íslenskum markaði. Bensínið kemur frá olíu framleiðandanum Shell og er þróað eftir uppskrift FMT „Friction Modification Technology“, en það er sama og Ferrari liðið notaði í Formúlu 1 á keppnistímabilinu 2007. V-power er þróað til að draga úr núningi viðkæmra vélarhluta með yfirborðsþekjandi efni, ásamt því að hafa aukna hreinsunargetu til að halda sogkerfi hreinu og viðhalda vélum betur. Stöðugleiki og hvarfgirni. Bensín er stöðugt við tilætlaða notkun og réttar geymsluaðstæður, sé loftræstingu ábótavant geta gufur af efninu myndað sprengifima blöndu í lofti, varast skal skal snertingu við hitagjafa og beint sólarljós. Einnig skal varast að efnið komist í samband við sterka oxunarmiðla til dæmis bleikiefni. Við bruna myndast kolmónoxíð (CO), koldíoxíð (CO2), reykur og sót. Meðhöndlun og geymsla. Tryggja góða loftræstingu í geymslu, fylgja notkunnarleiðbeiningum séu þær til staðar. Forðast skal innöndun og alla snertingu efnisins við augu og húð. Fjarlægja skal fatnað sem kemst í snertingu við efnið. Viðhafa skal góðar venjur og hreinlæti við meðhöndlun efnisins. Halda skal bensíni frá íkveikjuvöldum einsog reikingum. Stöðurafmagn getur myndast og valdið íkveikju, gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir myndun og jarðtengja öll rafmagnstæki sem eru í eða við geymslur. Hellist ekki niður í niðurföll, sjó eða vötn. Ganga skal úr skugga um að umbúðir séu vel lokaðar, á þurrum, svölum og vel loftræstum stað helst í eldheldu rými. Vistfærðilegar upplýsingar. Bensín er flokkað sem hættulegt umhverfinu og getur eitrað fyrir vatnalífverum og haft skaðleg langtímaáhrif á lífríki í vatni. Efnið leysist að hluta í vatni, gufar hratt upp úr vatni og jarðvegsyfirborði. Efnið brotnar að mestu hratt niður og ólíklegt er talið að það safnist upp í lífverum. Jarðolíuefni eyðileggja einangrunareiginleika í feldi og fiðri dýra. Sjávarfuglar og spendýr geta frosið í hel berist efnið í unmhverfi þeirra. Bensín myndar filmu á vatnsyfirborði sem getur skaðað vatnalífverur og hindrað súrefnisflutning á milli loft/vatnsfasa. Við bruna efnisins losna gróðurhúsalofttegundir. Eiturefnafræðilegar upplýsingar. Innöndun: Bensín telst varasamt fólki, tíð og langvarandi innöndun getur valdið varanlegum skaða. Gufur geta valdið sljóleika og svima. Innöndun svifúða/gufu í miklum styrk getur valdið ertingu í lungum og öndunarvegi. Einkenni eru höfuðverkur, ógleði, þreyta og svimi. Snerting: Komist efnið í snertingu við augu getur valdið ertingu og sviða. Hætta er á alvarlegum heilsuskaða ef efnið er í langvarandi snertingu við húð. Við tíða eða endurtekna snertingu getur efnið valdið þurri og/eða sprunginni húð. Efnið affitar húð og getur sogast upp í gegnum húð. Inntaka: Hætta er á alvarlegum heilsuskaða ef efnið er tekið inn, það getur borist um öndunnarveg í lungu og valdið skaða. Efnið getur valdið uppköstum og magaverk auk annarra einkenna sem fram koma við innöndun. Hætta er á kemískri lungnabólgu við inntöku eða uppköst á efninu. Langtímaáhrif: Bensín getur hugsanlega valdið krabbameini og stökkbreytingum. Tíð og langvarandi snerting getur valdið varanlegum skemmdum á lifur, nýrum(þrálát leysiefnaeitrun), lungum, taugum, erfðaefni og heila. Einnig getur það haft neikvæð áhrif á frjósemi. Eitrun. Innöndun tryggja ferskt loft, halda hita á viðkomandi og láta hann hvílast. Verði frekar óþæginda eða meðvitundarleysis vart skal leita læknis, leggja viðkomandi í læsta hliðarlegu en ekki reyna að koma nokkru ofan í viðkomandi sé hann meðvitundarlaus. Snertingu í augu skal fjarlægja linsur eigi það við, skola strax með miklu af vatni eða augnskoli í að minnsta kosti 15 mínútur og halda auganu vel opnu á meðan. Hafa skal samband við læknir ef erting er viðvarandi. Snertingu við húð skal þvo efnið vel af með milku vatni, fjarlægja strax fatnað sem komist hefur í snertingu við efnið. Þvo skal svo með sápu og miklu af vatni. Rakakrem notist á þurra húð. Verði ertingar vart t.d. roða í húð skal leita til læknis. Inntöku gefa viðkomandi 1-2 glös af vatni að drekka sé hann með fullri meðvitund. Ekki framkalla uppköst og hafa skal samband strax við lækni. Notkun og verðlag. Á níunda áratug síðustu aldar jókst bensínnotkun verulega samhliða fjölgun bifreiða en sú þróun hefur haldið hægar áfram eftir aldamótin. Frá aldamótum og fram til 2008 hafði bensínnotkun aukist að meðaltali um 1,5% á ári og bensínbifreiðum fjölgað um 3,3% að meðaltali á ári á Íslandi. Notkun bensíns á hvern bíl hefur aldrei verið jafn lítil og árið 2007 á íslandi en þá var hún 879 kg/bíl en hún fór hæst í 1.160 kg/bíl árið 1994. Bensín er um einn fjórði af olíunotkun innanlands og var um 90 þúsund tonn árið 1983 en var orðin um 160 þúsund tonn árið 2007. Verð á bensíni er síbreytilegt eftir mörkuðum erlendis en hægt er að fylgjast með bensínverði á Íslandi hverju sinni hjá tíu ódýrustu stöðvunum á http://www.gsmbensín.is. Bensínkreppa. Bensín kreppan í BNA um aldamótin 2000 birtist skyndilega þegar bensín verð hækkaði um og yfir 65% á sumum stöðum. Almenningur hélt því fram að hækkunin væri einungis græðgi olíu fyrirtækjanna. Niðurstöður úr eftirfarandi rannsóknum á því voru ófullnægjandi til að styðja það. Skorturinn þróaðist úf frá nokkrum samtvinnandi ástæðum. Fjöldi hreinsunnarstöðva hafði farið minnkandi vegna þess að hagnaður af framleiðslunni var fór minnkandi uppúr 1990. Árið 1981 var fjöldi hreinsunnarstöðva 324, en höfðu fækkað niður í 158 um aldamótin 2000. Færri hreinsunnarstöðvar þýðir svo meiri samdráttur, og einsog í mörgum iðnaði, og fleiri samrunar leiða svo til stærri samsteypana og ennfremur áframhaldandi lokanna hreinsistöðva. Framleiðsla hreinsistöðvanna er fjölbreytt og framleiða alla flokka af vörum, ss ef það er mikil eftirspurn eftir hitunnar olíu, er framleiðslan á henni aukin og fremleiðsla á bensíni minnkuð á móti. Veturnir 2000 og 2001 voru tiltölulega kaldari en áratuginn á undan. Það og fækkun hreinsistöðva leiddi svo til þess að hreinsistöðvarnar voru í gangi stanslaust og viðhaldi var frestað eins mikið og mögulegt var. Þegar upp komu bilanir þurfti að stoppa vinnsluna lengi til að sinna viðhaldinu. Auk þess komu þar inn mengunnartakmarkannir, sem urðu til þess að mismunandi gerðir af bensíni þurftu að fara á sérmarkaði. Fleiri gerðir af bensíni framleiddar, heimta flóknari hreinsun og dreifingu. Allt þetta varð til þess að minni birgðir af bensíni voru til en, framleiðslan og dreifing var dýrari en eftirspurn eftir olíu til húshitunnar og bensíni jókst. Þessir þættir hrærast svo saman og enda með hækkandi bensínverði. Gouda (ostur). Gouda (borið fram, af hollenska heitinu "Goudse kaas", „ostur frá Gouda“) er gulur ostur gerður úr kúamjólk. Osturinn er kenndur við hollenska bæinn Gouda og samnefnt hérað, þar sem hann var upprunalega framleiddur, en nafnið er ekki lögverndað. Gouda-ostur er nú framleiddur og seldur víða um heim. Framleiðsla. Gouda-ostur er úr sýrðri mjólk sem er hituð þangað til ystingurinn skilst frá mysunni. Hluti mysunnar er þá síaður frá en vatni bætt við í staðinn og síað aftur. Þetta er gert til að skola hluta af mjólkursýrunni úr ystingnum og gera ostinn sætari. Þegar búið er að sía vökvann frá er ystingurinn sem eftir situr um tíu prósent af mjólkurmagninu. Hann er svo settur í mót og pressaður og látinn standa í nokkrar klukkustundir. Mótin eru sívöl og gefa ostinum hið hefðbundna form sem einkennir hann. Osturinn er svo lagður í saltvatn, sem gefur honum og skorpunni sérstakt bragð. Síðan er osturinn látinn þorna í nokkra daga og svo húðaður með vaxi til að koma í veg fyrir að hann þorni of mikið. Hann er svo látinn þroskast. Tíminn fer eftir því hve þorskaður osturinn á að verða og getur verið allt frá nokkrum vikum upp í sjö ár. Við þroskunina fær osturinn karamellukenndan keim og gamlir ostar geta stundum orðið eilítið stökkir vegna kalsínkristalla sem geta myndast við þroskunina. Uppruni. Orðið „Gouda“ er almennt heiti á þessari osttegund og er ekki bundið við ost sem framleiddur er í Hollandi. Heitið „Noord-Hollandse Gouda“ er þó verndað af Evrópusambandinu. Osturinn sjálfur var upprunalega framleiddur í Gouda-héraðinu í suðurhluta Hollands og því kann að virðast mótsagnakennt að heiti norður-hollenska ostsins njóti verndar. Hins vegar er besta beitilandið talið vera í Norður-Hollandi, en það er gamall hafsbotn sem þurrkaður var upp með byggingu stíflugarða. Tegundir. Til eru nokkrar Gouda-tegundir í Hollandi, flokkaðar eftir þroskunartíma. Flokkunin, frá yngsta ostinum til þess elsta, er „Graskaas“, „Jong“, „Jong belegen“, „Belegen“, „Extra belegen“, „Oud“ og „Extra oud“. Því eldri sem osturinn er, þeim mun harðari og saltari er hann. Því yngri sem hann er, þeim mun mýkri er hann. Gouda-ostur er nú framleiddur víða um heim. Á Íslandi hefur hann verið gerður frá 1961 en það ár hófst framleiðsla á skorpulausum Gouda-osti í Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi. Hann er nú framleiddur í nokkrum tegundum, ýmist með 11%, 17% eða 26% fituinnihaldi, auk þess sem hægt er að fá bæði sterkari og mildari osti en þann sem algengastur er, svo sem svartan Gouda og Skólaost. Gouda-ostur er einn algengasti osturinn á Íslandi. Frankenstein. Teikning eftir Theodor von Holst sem birtist í annarri útgáfu bókarinnar árið 1831. Boris Karloff í hlutverki skrímslisins í sígildri kvikmyndaútfærslu frá 1931. "Frankenstein; or, The Modern Prometheus", oftast þekkt sem "Frankenstein", er skáldsaga eftir Mary Shelley. Shelley var 18 ára þegar hún byrjaði að skrifa söguna og 21 árs þegar hún kom fyrst út. Fyrsta útgáfan var prentuð undir nafnleynd í London árið 1818. Nafn bókarinnar vísar til vísindamannsins Victors Frankenstein sem lærir að skapa líf og býr til veru í mannslíki sem er þó stærri og kraftmeiri en meðalmaður. Algengur misskilningur er að skrímslið heiti „Frankenstein“, en því var ekki gefið nafn í sögunni. "Frankenstein" ber keim af gotneskum skáldskap og áhrifum rómantíkarinnar. E/S Goðafoss. E/S Goðafoss var 1542 lesta eimskip Eimskipafélags Íslands, sem hleypt var af stokkunum 1921 hjá S í Frederikshavn í Danmörku. Skipið var á leið heim til Íslands í skipalestinni UR-142, en var sökkt skammt undan Garðskaga 10. nóvember 1944 af þýska kafbátnum U-300 undir stjórn Fritz Heins. Með Goðafossi fórust 24, en 19 var bjargað og var það mesta manntjón Íslandinga á einum degi í seinni heimsstyrjöld. Magnús blindi. Menn Haraldar gilla limlesta Magnús blinda. Magnús blindi eða Magnús 4. Sigurðsson (um 1115 – 12. nóvember 1139) var konungur Noregs 1130-1135 með Haraldi gilla og aftur að nafninu til 1137-1139. Magnús var sonur Sigurðar Jórsalafara og frillu hans Borghildar Ólafsdóttur. Þegar faðir hans dó 1130 var hann um 15 ára að aldri en hafði að sögn þegar tekist að gera sig óvinsælan hjá hirðinni með hroka sínum og yfirgangi. Sigurður ætlaðist til að hann tæki einn við konungdæminu og hafði tekið loforð af Haraldi gilla, (meintum) hálfbróður sínum um að hann mundi ekki krefjast konungsnafnbótar meðan þeir feðgar lifðu en um leið og Sigurður dó rauf Haraldur heit sitt og lét taka sig til konungs á Haugaþingi, en Magnús hafði áður verið kjörinn konungur í Víkinni. Seinna sama ár voru þeir kjörnir samkonungar á Eyraþingi í Þrændalögum. Samkomulag þeirra konunganna var ekki gott og veturinn ll33-1134 var nærri komið til átaka. Sumarið eftir reyndi Magnús að hrekja Harald úr landi og kom til bardaga þar sem Magnús hafði betur en Haraldur naut stuðning Eiríks eimuna Danakonungs, sneri aftur og tókst að ná Magnúsi á sitt vald í Björgvin snemma árs 1135. Hann var geltur, fóthöggvinn og augun stungin úr honum og síðan var honum komið fyrir í Munkahólmaklaustri við Björgvin. Tveimur árum síðar var Magnús blindi aftur dreginn inn í innanlandsátökin. Þá hafði Sigurður slembidjákn drepið Harald gilla og barðist um völdin við lið barnakonunganna Sigurðar munns og Inga krypplings. Þá sótti hann Magnús í klaustrið og hafði hann með sér. Þeir féllu báðir í bardaga síðla árs 1139. Magnús hafði árið 1133 gengið að eiga Kristínu Knútsdóttur, bróðurdóttur Eiríks eimuna, en rak hana fljótlega frá sér vegna deilna við ættingja hennar. Hann átti engin börn. Haraldur gilli. Haraldur gilli gengur yfir glóandi járn til að sanna faðerni sitt. Haraldur gilli eða Haraldur 4. Magnússon (1103 – 14. desember 1136) var konungur Noregs frá 1130-1136, þar af fyrstu fimm árin með Magnúsi blinda, bróðursyni sínum. Haraldur ólst upp á Írlandi og varð aldrei vel talandi á norræna tungu. Hann kom til Noregs frá Suðureyjum einhverntíma á 3. áratug 12. aldar. Þegar þangað kom gekk hann á fund Sigurðar konungs Jórsalafara og tjáði honum að hann væri hálfbróðir hans, sonur Magnúsar berfætts, og þá getinn í síðustu herför Magnúsar til Bretlandseyja. Sigurður lét hann sanna orð sín með járnburði og var Haraldur leiddur af tveimur biskupum yfir glóandi heit plógjárn; þremur dögum síðar voru fætur hans skoðaðir og reyndust heilir og viðurkenndi Sigurður hann þá sem bróður sinn en fékk hann til að heita því að krefjast ekki krúnunnar meðan Sigurður og Magnús sonur hans lifðu. Haraldi tókst að afla sér vinsælda við hirðina en Magnús bróðursonur hans var aftur á móti óvinsæll og þegar Sigurður Jórsalafari dó 1130 brást Haraldur skjótt við og tókst að fá sig kjörinn konung ásamt Magnúsi. Þeir ríktu saman nokkur ár en árið 1134 kom til átaka; Magnúsi tókst að reka Harald úr landi en hann sneri svo aftur, náði Magnúsi á sitt vald, lét blinda hann, gelda og lemstra og kom honum fyrir í klaustri. Skömmu síðar gaf sig fram maður sem nefndur var Sigurður slembidjákn og kvaðst einnig vera launsonur Magnúsar berfætts. Haraldur neitaði að viðurkenna hann. Nokkru síðar gerði Sigurður aðför að Haraldi konungi þar sem hann gisti hjá frillu sinni, Þóru Guttormsdóttur, og drap hann. Sigurður lýsti svo morðinu á hendur sér og vildi láta taka sig til konungs en var dæmdur útlægur og varð að flýja frá Björgvin. Þess í stað voru barnungir synir Haraldar, Sigurður munnur og Ingi, kjörnir konungar og börðust menn þeirra við menn Sigurðar slembidjákns og Magnúsar blinda 1139. Þar var Magnús drepinn og Sigurður handtekinn og síðan píndur til bana. Haraldur kvæntist Ingiríði, dóttur Rögnvaldar stutthöfða Svíakonungs, og áttu þau soninn Inga sem síðar var kallaður krypplingur. Hann átti einnig fjölda frillubarna; Sigurður munnur og Eysteinn urðu konungar og Magnús sonur Haraldar fékk einnig konungsnafnbót 1142, þá sjö ára að aldri, en dó þremur árum síðar og er ekki talinn með í norsku konungaröðinni. Bash. Bash er frjáls Unix-skel sem var upprunalega skrifuð fyrir GNU-verkefnið. Orðið „Bash“ er skammstafanaorð sem stendur fyrir "Bourne-again shell", en "Bourne-again" er orðaleikur þar sem nafni Bourne-skeljarinnar (sh) sem er eldri skel skrifuð af Stephen Bourne er blandað saman við enska lýsingarorðið "born-again" sem merkir ‚endurborinn‘. echo ma{,ður # Þenst í skipunina `echo maur maður maðkur` rm mynd.jpg # Þenst í skipunina `rm mynd1.jpg mynd2.jpg mynd3.jpg` sem fjarlægir cp skrá # Þenst í skipunina `cp skrá skrá.afrit` sem býr rm mynd*.g # Þenst í skipunina `rm mynd*.jpg mynd*.jpeg mynd*.png` for skra in /bin/*calc # Þenst í skipunina `for skra in /bin/*calc /usr/bin/*calc` sem do #+ fer í gegnum skrár sem enda á ‚calc‘ í möppunum /bin og /usr/bin. if [-x "$skra"] # Athugar hvort hver skrá sé keyranleg skrá echo $skra #...skrifar slóð skráarinnar á skjáinn ef hún er keyranleg. Awesome. right awesome er gluggastjóri sem notast við tiglun og stafla fyrir X-gluggakerfið. Gluggastjórinn awesome byrjaði sem kvísl af dwm-gluggastjóranum. Debian. Debian er frjálst stýrikerfi sem fellur undir GNU-leyfið. Debian hefur verið notað sem grunnur undir önnur stýrikerfi, einkum Ubuntu. Advanced Packaging Tool. APT (skammstöfun á "Advanced Packaging Tool") er frjáls hugbúnaður sem notar hugbúnaðarsöfn til að sjá um það að setja upp og fjarlægja hugbúnað á Debian og öðrum Linux-útgáfum sem byggja á því. Sigurður slembidjákn. Sigurður slembidjákn (f. um 1100, d. 1139) var Norðmaður á 12. öld sem gerði tilkall til konungstignar og kvaðst vera sonur Magnúsar berfætts og því hálfbróðir konunganna Sigurðar Jórsalafara, Haraldar gilla og Ólafs Magnússonar. Sigurður ólst upp hjá Aðalbrikt, presti einhvers staðar í Suður-Noregi, í þeirri trú að hann væri sonur hans, en móðir hans var Þóra Saxadóttir. Þegar hann fullorðnaðist sagði hún honum að hann væri í raun sonur Magnúsar konungs. Hann fór svo vestur um haf, til Skotlands og Orkneyja, kvæntist þar konu af auðugri ætt og gekk í þjónustu Skotakonungs. Einnig er sagt að hann hafi farið í pílagrímsferð til Rómar og Jerúsalem og fór svo í kaupferðir til ýmissa landa, þar á meðal Íslands. Haustið 1136 kom Sigurður til Björgvinjar, gaf sig fram við Harald gilla og kvaðst vera bróðir hans. Haraldur svaraði með því að kæra Sigurð fyrir að hafa átt þátt í drápi vinar síns, Þorkels fóstra, og komst Sigurður undan við illan leik. Aðfaranótt 14. desember gerði hann svo Haraldi konungi aðför þar sem hann gisti hjá Þóru Guttormsdóttur frillu sinni og drap hann. Sigurður slembidjákn gerði svo tilkall til konungstignar en hann og menn hans voru þá dæmdir útlægir og hraktir frá Björgvin. Honum tókst þó að fá sig kjörinn til konungs á nokkrum fylkisþingum en annars staðar voru tveir barnungir synir Haraldar, Sigurður munnur og Ingi krypplingur, kjörnir konungar. Sigurður sótti þá Magnús blinda, sem verið hafði konungur 1130-1135 með Haraldi gilla, í klaustrið sem hann dvaldist í og er alls óvíst að það hafi verið að vilja Magnúsar. Sigurður krafðist nú konungstignar í nafni Magnúsar og stundaði um tíma skæruhernað og strandhögg við strendur Noregs. Árið 1139 kom til orrustu við Hólminn grá. Þar féll Magnús konungur en Sigurður slembidjákn var píndur til bana eftir orrustuna. Sigurður munnur. Sigurður munnur eða Sigurður 2. Haraldsson (1133 – 1155) var konungur Noregs frá 1136, allan tímann ásamt Inga hálfbróður sínum og frá 1142 einnig ásamt Eysteini hálfbróður þeirra. Þeir bræður voru synir Haraldar gilla og móðir Sigurðar var Þóra Guttormsdóttir, frilla Haraldar. Barnungur var hann settur í fóstur hjá höfðingjanum Sáða-Gyrði Bárðarsyni í Þrændalögum. Þegar Sigurður var þriggja ár drap Sigurður slembidjákn föður hans og voru þá bræðurnir Sigurður og Ingi, sem var á öðru ári, kjörnir konungar. Næstu árin voru skærur milli Sigurðar slembidjákns og konunganna ungu - eða höfðingjanna sem stýrðu landinu í nafni þeirra. Lauk þeim með orrustu við Hólminn grá árið 1139, þar sem Sigurður var drepinn. Næstu árin ríkti friður í landinu en 1142 kom Eysteinn Haraldsson, elsti sonur Haraldar gilla, sem alist hafði upp á Bretlandseyjum, til landsins og krafðist konungsnafnbótar. Varð úr að hann var tekinn til konungs með bræðrum sínum og raunar einnig yngsti hálfbróðirinn, Magnús, sem var þá sjö ára og dó þremur árum síðar. Eftir að höfðinginn Gregoríus Dagsson varð helsti ráðgjafi Inga konungs sló fljótt í brýnu með Inga og bræðrum hans. Þeir ætluðu að hittast á sáttafundi í Björgvin 1155 en þegar Sigurður kom þangað réðust menn Inga að honum og drápu hann. Tveimur árum seinna var svo Eysteinn drepinn af mönnum Inga. Snorri Sturluson lýsir Sigurði svo í Heimskringlu að hann hafi verið „maður mikill og sterkur, vasklegur maður sýnum, jarpur á hár, munnljótur og vel að öðrum andlitssköpum. Allra manna var hann snjallastur og gervastur í máli.“ Hann virðist hafa haft kvenhylli því þrátt fyrir ungan aldur lét hann eftir sig allmörg börn og var raunar ekki nema 14 ára þegar Hákon herðabreiður sonur hans fæddist. Ingi krypplingur. Ingi krypplingur eða Ingi 1. Haraldsson (um 1135 – 1161) var konungur Noregs frá 1136, fyrst með Sigurði munni hálfbróður sínum til 1155 og með Eysteini hálfbróður sínum frá 1142 til 1157. Frá 1159 var Hákon herðabreiður einnig konungur í hluta ríkisins. Ingi var sonur Haraldar gilla Noregskonungs og Ingiríðar Rögnvaldsdóttur drottingar hans og var eini skilgetni sonur konungs en það skipti reyndar ekki máli á þeim tíma hvað varðaði ríkiserfðir. Hann var ásamt Sigurði bróður sínum tekinn til konungs eftir að Sigurður slembidjákn drap föður þeirra í árslok 1136 og næstu árin áttu menn konunganna ungu í átökum við Sigurð slembidjákn og Magnús blinda, fyrrverandi konung, sem hann hafði sótt í klaustur. Í orrustu árið 1137 hafði einn manna Inga hann með sér og hlaut hann þar sár sem talið er að valdið hafi fötlun hans, en hann átti meðal annars erfitt með að ganga óstuddur og hafði kryppu á baki og brjósti. Frá þessum tíma er til bréf sem skrifað er í nafni Inga konungs til Sigurðar munns og segir þar meðal annars: „Öllum mönnum eru kunnug vandræði þau er við höfum og svo æska, að þú heitir fimm vetra gamall en eg þrevetur.“ Þessir barnungu konungar - eða menn þeirra - unnu loks sigur á Sigurði slembidjákn og Magnúsi blinda 1139 og voru þeir báðir drepnir. Árið 1142 kom eldri hálfbróðir þeirra, Eysteinn, til Noregs frá Bretlandseyjum þar sem hann hafði alist upp og var hann einnig tekinn til konungs með þeim. Bræðurnir ríktu saman í tiltölulegri sátt og samlyndi framan af og bar það helst til tíðinda á valdatíma þeirra þriggja að sendimaður páfa kom til Noregs og stofnaði erkibiskupsstól í Niðarósi. Þegar Gregoríus Dagsson varð helsti ráðgjafi Inga konungs versnaði samkomulag bræðranna og stóðu þeir Sigurður og Eysteinn þá saman gegn Inga og vildu setja hann af sem konung, töldu hann ekki hæfan vegna fötlunar. Komið var á sáttafundi þeirra þriggja í Björgvin 1155 en þegar Sigurður kom þangað drápu menn Inga hann. Eftir það varð fullur fjandskapur milli Inga og Eysteins og féll Eysteinn fyrir mönnum Inga tveimur árum síðar. Stuðningsmenn Sigurðar og Eysteins flykktu sér þá um Hákon herðabreiðan, ungan son Sigurðar. Ingi féll fyrir þeim í bardaga sem háður var á ís við Ósló 1161 en skömmu áður hafði Gregoríus ráðgjafi hans verið drepinn. Annar helsti ráðgjafi Inga var Erlingur skakki og tók hann við stjórn fylgismanna hans. Ekki er vitað til þess að Ingi hafi kvænst en Jón kuflungur, sem gerði tilkall til krúnunnar um 1185, kvaðst vera sonur hans. Derry. Skemmdarverk á umferðarmerki við Derry. Derry eða Londonderry (írska: "Doire" eða "Doire Cholmchille") er borg í Norður-Írlandi. Hún er önnur stærsta borg Norður-Írlands, og fjórða stærsta borg á eyjunni Írland. Gamla borg Londonderry lá vestan við ána Foyle, og gamla borg Derry lá fyrir austan við ána. Nú á dögum nær borgin yfir báðum megin árinnar. Þar í borginni eru tvær brýr sem spanna ána. Árið 2001 bjuggu 83.652 manns í Derry, og 90.663 manns samtals með úthverfum. Londonderry-höfn og City of Derry-flugvöllur liggja við borgina. Derry og nærliggjandi bærinn Letterkenny mynda stóra fjármálamiðstöð í Norður-Írlandi. Derry liggur nærri við landmæri við Donegal-sýslu í Írska lýðveldinu. Borgin hefur verið tengd við Donegal-sýslu í margar aldir. Prinsinn St. Columba frá Tír Chonaill (gamla heiti á Donegal-sýslu) er talinn hafa stofnað borgina. Það hefur verið mikið missætti um heiti borgarinnar. Opinbera heitið "Londonderry" stendur í Royal Charter sem borginni var gefið árið 1662. Þetta heiti var samþykkt aftur árið 2007 þegar ákvörðun var tekin í hæstiréttinum. Þrátt fyrir opinbera heitið er borgin þekkt sem "Derry" í daglegu tali, sem er enskt orð á fornírska heitinu "Daire", stafað sem "Doire" á nútímaírsku, og þýðir „eikarlundur“. Heitið "Derry" er oftar notað af þjóðernissinnum, og er í notkun víða hjá kaþólskum mönnum þar. "Londonderry" er oftar notað af sameiningarsinnum, en "Derry" er í daglegri notkun hjá mótmælandum. Nýja höllin í Stuttgart. Nýja höllin í Stuttgart var reistur síðla á 18. öld og var aðsetur hertoganna og konunganna í Württemberg. Höllin og hallartorgið er miðpunktur borgarinnar Stuttgart. Saga. 1737 varð Karl Eugen nýr hertogi af Württemberg. Hann krafðist þess að ný kastali og aðsetur yrði reist í Stuttgart, en síðustu ár hafði aðsetur hertoganna verið í Ludwigsburg. Framkvæmdir hófust þó ekki fyrr en 1746 og var ítalski byggingameistarinn Leopoldo Retti ráðinn til að stjórna verkinu. Hann lést hins vegar 1751 og var þá Frakkinn Philippe de La Guêpière kallaður til. Á hans tíma voru tvær álmur reistar, miðjuálman (aðalálman) og garðálman. 1762 brann hins vegar garðálman til kaldra kola og var þá einbeitt sér að því að ljúka aðalálmunni. Karl Eugen hertogi krafðist þess að garðálman yrði reist á ný. Auk þess breytti hann innréttingunum í sífellu, þannig að þær urðu stórbrotnari. Því var hann sakaður um að sólunda fé landsins. Philippe de La Guêpière hætti og fór til Parísar. Framkvæmdir voru stöðvaðar og Karl Eugen neyddist til að flytja til Ludwigsburg á ný. 1775 ákvað Karl Eugen að taka á móti Páli I Rússlandskeisara og eiginkonu hans Sophie Dorothee, en hún var frænka Karls Eugens. Móttakan fór fram í Nýja kastalanum í Stuttgart og var það fyrsta athöfnin sem fram fór í kastalanum. Karl Eugen lést 1793. Ýmis herbergi og salir voru þá fullkláraðir, en kastalinn sjálfur ekki. Framkvæmdir fóru fram í nokkrum áföngum næstu árin. 1807 mátti heita að kastalinn væri loks fullkláraður. Í dag. Nýja höllin í miðborginni. Til hægri sér í Gömlu höllina Þegar Prússland varð að keisararíki 1871 varð kastalinn eign keisara. Þegar keisarinn sagði af sér 1918 við tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri, komst höllin í eigu Weimar-lýðveldisins. Var henni þá breytt í safn. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari stórskemmdist kastalinn. Miklar umræður spunnust um hvort hann yrði rifinn eða endurbyggður. Ákveðið var á endanum að endurbyggja hann og stóðu framkvæmdir frá 1958-1964. Aðeins hluti af innréttingum kastalans var þó gert upp. Eftir það var hann notaður af landstjórn Baden-Württemberg sem fjármála- og menningarmálaráðuneyti. Hluti kastalans er opinn almenningi. Saarbrücken. Saarbrücken er langstærsta borgin í þýska sambandslandinu Saarland með 180 þús íbúa og er jafnframt höfuðborg þess. Lega. Miðborg Saarbrücken að kvöldlagi. Fremst er ráðhús borgarinnar. Saarbrücken liggur við ána Saar syðst í sambandslandinu, aðeins steinsnar frá landamærum Frakklands. Næstu borgir eru Kaiserslautern til norðausturs (60 km), Lúxemborg til norðvesturs (60 km), Metz í Frakklandi til vesturs (50 km) og Strassborg í Frakklandi til suðausturs (80 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er þríþætt og eru þeir frá þeim þremur bæjum og borgum sem sameinuðust 1909 til að mynda stórborgina Saarbrücken. Neðst er hvítt ljón á bláum grunni og er það frá hinni gömlu Saarbrücken. Efst til vinstri er rauð rós á hvítum grunni og er það frá St. Johann. Efst til hægri eru tveir svartir hamrar ásamt svartri töng og er það frá Malstatt-Burbach. Merkið þetta var tekið upp við samrunann 1909. Orðsifjar. Upphaflegt heiti borgarinnar er Sarabrucca. Sara er áin Saar. Briga merkir hér annað hvort "klettur" eða "mýrlendi" ("Bruch" á þýsku). Heitið hefur ekkert með brú ("Brücke") að gera. Gamli kastalinn í Stuttgart. Gamli kastalinn stendur við Schillerplatz í miðborginni Gamli kastalinn í Stuttgart er frá 10. öld og er eitt elsta nústandandi mannvirki borgarinnar Stuttgart. Elsti hluti kastalans er frá 950 og var reistur til verndar stóðgarða keisaranna þýska ríkisins. Á þeim tíma var stórt og mikið síki í kringum kastalann. Á 14. öld varð kastalinn aðsetur greifanna í Württemberg. Honum var svo breytt í glæsihöll í endurreisnarstíl 1553-1578 og þótt þá fegursti endurreisnarkastali ríkisins. Í kastalanum var kapella. Síkin í kringum kastalann voru fjarlægð á 18. öld. 1931 brann hluti kastalans, þar á meðal hringturnarnir. Áður en viðgerðum var lokið skall heimstyrjöldin síðari á og stórskemmdist kastalinn á ný í loftárásum. Kastalinn var gerður upp eftir stríð, en framkvæmdum var ekki lokið fyrr en 1971. Kastalinn er safn í dag. Undir kapellunni er grafhvelfing. Þar hvíla m.a. Karl I konungur Württembergs og eiginkona hans, Olga. Plymouth. Plymouth (borið fram á ensku) er borg sem stendur við strönd Devon í Englandi. Hún er um það bil 310 km suðvestan við London. Plymouth liggur á milli ósa ánna Plym í austri og Tamar í vestri, þar sem þær renna út í Plymouth-sund. Saga borgarinnar hófst í bronsöld byggð hófst á Mount Batten, skaga sem liggur hjá núverandi borg. Þessi byggð stækkaði mikið undir stjórn Rómaverja og varð mikilvæg verslunarstöð. Þá var núverandi borg stofnuð þar sem þorpið Sutton stóð. Árið 1620 fóru Pílagrímarnir frá Plymouth til Nýa heimsins og stofnuðu nýlendu þar sem nú eru Bandaríkin. Þetta var önnur nýlenda Breta þar. Í ensku borgarastyrjöldinni var Plymouth hernumin og henni var stjórnað af þinghernum frá 1642 til 1646. Í iðnbyltingunni stækkaði Plymouth mikið og varð mikilvæg flutningahöfn. Innflutingur frá Ameríku fór þar í gegn og þar voru byggð skip fyrir konunglega breska sjóherinn. Vegna mikilvægi borgarinnar var Plymouth skotmark í Seinni heimsstyrjöldinni. Hún var eyðilögð að hluta í styrjöldinni og síðan endurbyggð. Í dag búa um það bil 250.000 manns í Plymouth sem er 15. stærsta borg Bretlands. Skipasmíðar eru enn stór atvinnugrein en hagkerfi borgarinnar byggist nú fremur á þjónustustarfsemi. Í Plymouth er 11. stærsti háskóli Bretlands, Plymouth-háskóli. Þar er líka stærsta flotastöð í Evrópu, HMNB Devonport. Hægt er að fara til bæði Frakklands og Spánar með ferju frá Plymouth. Exeter. Exeter (borið fram á ensku) er borg í Devon, Englandi. Hún er höfuðborg Devon og þar eru höfuðstöðvar Sýsluráðs Devon. Exeter liggur við ána Exe og er um það bil 60 km fyrir norðaustan við Plymouth og 110 km fyrir suðaustan við Bristol. Árið 2001 var íbúatala 111.076 manns. Exeter var suðvestasta rómversk borg í Bretlandi og hefur verið til síðan ómunatíð. Dómkirkjan í Exeter var stofnuð árið 1050 og er biskupakirkja. Samgöngukerfið í Exeter er þaulskipulagt, borgin er með flugvöll og nokkrar lestarstöðvar. Listi yfir háskóla á Bretlandi. Þetta er listi yfir háskóla á Bretlandi. Sóknarkirkjan í Stuttgart. Sóknarkirkjan í Stuttgart er með tvo mismunandi turna Sóknarkirkjan í Stuttgart ("Stiftskirche") er aðalkirkjan í borginni Stuttgart. Hún er með tvo mismunandi turna og er þannig eitt aðalkennileiti borgarinnar. Saga sóknarkirkjunnar. Elstu hlutar kirkjunnar eru frá 10. eða 11. öld og er hér um grunn kórsins að ræða. Um miðja 13. öld var kirkjan öll stækkuð í rómönskum stíl og var þá reistur einn turn. Ráðgert hafði verið að hafa turnana tvo, en úr því varð ekki að sinni. Á 14. öld var kórinn stækkaður, turni bætt við (norðurturninn) og suðurturninn hækkaður. Turnarnir voru hins vegar ólíkir, sem gaf kirkjunni á miðöldum sérkennilegt útlit. Á 16. öld var kirkjan enn stækkuð, en að þessu sinni í gotneskum stíl. Nokkur hliðarkapellur voru þá innréttaðar. Þegar siðaskiptin gengu í garð var framkvæmdum hætt. Suðurturninn (hærri turninn) var þá orðinn 61 metra hár. Þegar heimstyrjöldin síðari skall á var ákveðið að taka niður öll listaverk kirkjunnar og flytja annað af ótta við eyðileggingu í loftárásum. 1944 stórskemmdist kirkjan í loftárásum og stóð í rústum í nokkur ár. Á 6. áratugnum var hafist handa við að endurgera kirkjuna í einfaldri mynd. Við það verður kirkjuskipið aðeins eitt, en þau voru þrjú áður. Grahhvelfing. Sóknarkirkjan er einnig grafarkirkja greifanna og hertoganna í Württemberg. Ulrich I greifi og eiginkona hans Agnes eru þau fyrstu sem lögð voru til hvíldar í kirkjunni snemma á 14. öld. Síðan þá hafa rúmlega 100 einstaklingar tengdir furstaættunum verið lagðir til hvíldar í grafhelfingu kirkjunnar. Kristniboðsdyrnar. Eitt mest áberandi listaverk kirkjunnar eru Kristniboðsdyrnar. Þær voru áður hluti af "Postulahliðinu" sem nú er horfið. Dyrnar voru teknar niður í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari og geymdar á öruggari stað. Þegar kirkjan varð fyrir loftárásum, eyðilagðist Postulahliðið að öllu leyti. Eftir endurreisn kirkjunnar voru Kristniboðsdyrnar settar á aftur, en á öðrum stað. Dyrnar eru gerðar úr tveimur stórum málmhurðum með myndefni úr Postulasögunni. Eysteinn Haraldsson (konungur). Eysteinn Haraldsson eða Eysteinn 2. (d. 1157) var konungur Noregs á árunum 1142-1157 ásamt yngri hálfbræðrum sínum Sigurði munni og Inga krypplingi og frá 1155 aðeins með Inga. Eysteinn var elsti sonur Haraldar gilla. Hann var fæddur á Bretlandseyjum, líklega nálægt 1125, og hét móðir hans Bjaðök. Hann ólst upp fyrir vestan haf og kom til Noregs ásamt móður sinni árið 1142, en þá sátu barnungir bræður hans þar á konungsstóli því að Haraldur gilli var drepinn árið 1136. Þar sem hann hafði gengist við Eysteini var kröfu hans til ríkis ekki mótmælt og var hann gerður að konungi með þeim Sigurði og Inga, ásamt fjórða bróðurnum, Magnúsi, sem einnig var barn að aldri. Magnús var heilsuveill og dó þremur árum síðar en hinir bræðurnir þrír ríktu saman í þrettán ár. Eysteinn hafði sína eigin hirð en yngri bræðurnir höfðu sameiginlega hirð þar til þeir uxu úr grasi. Eysteinn fór í víkingaferð til Bretlandseyja laust eftir 1150, herjaði á Orkneyjar, Skotland og England. Annars var merkasti atburðurinn á þessum árum stofnun erkibiskupsstólsins í Niðarósi, sem bræðurnir þrír stóðu allir að. Smám saman versnaði sambandið milli bræðranna Eysteins og Sigurðar annars vegar og Inga og ráðgjafa hans (Gregoríusar Dagssonar og Erlings skakka) hins vegar. Árið 1155 drápu menn Inga Sigurð konung í Björgvin og næstu tvö ár einkenndust af skærum og átökum milli Inga og Eysteins. Lauk þeim með því að Eysteinn féll fyrir mönnum Inga nálægt Ósló árið 1157. Snorri lýsir Eysteini svo að hann hafi verið vitur maður og skynsamur en fégirni hans og níska hafi spillt fyrir honum. Hann átti einn son, Eystein meylu Eysteinsson, sem birkibeinar völdu konung sinn á Eyraþingi 1176 en hann féll fyrir mönnum Magnúsar konungs Erlingssonar ári síðar og er ekki talinn með í norsku konungaröðinni. Sjónvarpsturninn í Stuttgart. Sjónvarpsturninn í Stuttgart var sá fyrsti sinnar tegundar í heimi Sjónvarpsturninn í Stuttgart er elsti sjónvarpsturn heims. Hann var reistur 1954-56 og er 216 metra hár. Lega og lýsing. Sjónvarpsturninn stendur á 483 metra hárri hæð í skógarrjóðri í suðurhluta Stuttgart. Turninn gnæfir því vel yfir umhverfi sitt, en hann er að sama skapi nokkuð langt frá miðborginni. Turninn er gerður úr járnbentri steinsteypu. Í 160 metra hæð er hringlótt turnhús með veitingasal, útsýnispöllum og útvarpsstöðvum. Efst er svo útvarpsmastur. Saga sjónvarpsturnsins. 1949 hóf ný stjónvarpsstöð (SDR, heitir SWR í dag) útsendingar. Til að útsendingar næðu sem lengst, var 100 metra hár stálturn reistur, en fljótt sýndi sig að hann dugði hvergi nærri til. Því var ákveðið að reisa tvöfalt hærri turn úr stáli. En snemma á 6. áratugnum komu fram hugmyndir um að reisa steinsteyputurn sem einnig væri hægt að nýta fyrir ferðamenn. Framkvæmdir hófust 1954 á hinni 483 metra háa "Hoher Bopser" fjalli í suðurhluta Stuttgart. Í október 1955 var útvarpsstöðin tekin í notkun, en vígsla turnsins fór fram í febrúar 1956. Turninn var sá fyrsti sinnar tegundar í heimi og varð samstundis heimsfrægur og meiriháttar aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Allir aðrir sjónvarpsturnar eru reistir af sömu grunnverkfræðinni. Í upphafi var útvarpað bæði fyrir sjónvarp og útvarp, en árið 2006 var hætt að útvarpa fyrir sjónvarp. Hákon herðabreiður. Hákon herðabreiður eða Hákon 2. Sigurðsson (1147 – 1162) var konungur Noregs — eða gerði kröfu til konungstignar — frá 1159 til dauðadags. Hákon ólst upp hjá Símoni þessum en eftir að Sigurður faðir hans og Eysteinn föðurbróðir hans höfðu báðir fallið fyrir mönnum Inga konungs sóttu stuðningsmenn þeirra drenginn og létu taka hann til konungs á Eyraþingi 1159. Þessir stuðningsmenn nefndust birkibeinar og voru flestir alþýðumenn. Styrkur þeirra var mestur í Þrændalögum, Upplöndum og austan við Víkina. Ingi konungur naut aftur á móti stuðnings í Víkinni og í Vestur-Noregi. Flokkur hans hefði átt að eiga auðvelt með að ráða niðurlögum birkibeina en innbyrðis átök milli helstu ráðgjafa hans, Gregoríusar Dagssonar og Erlings skakka, urðu til þess að birkibeinum tókst að fella Gregoríus og skömmu síðar Inga konung. Hákon, sem þá var 14 ára, var hylltur sem konungur og virtist ekki hafa neina keppinauta, einu konungssynirnir sem þá voru á lífi voru yngri hálfbræður hans sjálfs sem voru í hans liði. En Erlingur skakki var ekki tilbúinn að leggja árar í bát. Hann var kvæntur Kristínu dóttur Sigurðar konungs Jórsalafara og þau áttu soninn Magnús. Erlingur gerði nú kröfu til krúnunnar fyrir hönd hans og naut stuðnings kirkjunnar, þar sem Magnús var fæddur í hjónabandi og móðir hans konungsdóttir fædd í hjónabandi, en Hákon og bræður hans voru allir frillubornir. Sumarið 1162 kom til sjórrustu við eyna Sekk. Í hita bardagans lenti Hákon konungur á einu óvinaskipanna og þótt honum væru gefin grið fékk hann samt banasár. Hann var þá 15 ára. Emily Robison. Emily Robison (fædd Emily Burns Erwin16. ágúst 1972) er bandarískur tónlistarmaður. Hún er meðlimur og einnig einn stofnenda hljómsveitarinnar Dixie Chicks. Hún semur lög, syngur og leikur á fjöldann allan af hljóðfærum: t.d. banjó, dóbró, gítar, bassa, mandólín, munnhörpu og sítar. Ólympíuleikar ungs fólks 2010. Ólympíuleikar ungs fólks 2010 er alþjóðleg íþróttahátíð sem áætlað er að halda dagana 14. til 26. ágúst 2010. Leikarnir verða haldnir í Singapore. Dale Evans. Roy Rogers og Dale Evans árið 1989 Dale Evans var listamannsnafn Lucille Wood Smith (fædd 31. október 1912, dáin 7. febrúar 2001) en hún var bandarískur rithöfundur, kvikmyndastjarna og kántrítónlistarmaður. Hún var þriðja eiginkona Roy Rogers. Long Time Gone. „Long Time Gone“ er kántrílag eftir Darrell Scott sem kom fyrst út á plötunni "Real Time" árið 2000. Sú plata var gerð í samvinnu við Tim O'Brien. Lagið varð fyrsta lag stúlknanna sem komst í eitt af efstu 10 sætin á bandaríska popp-vinsældalistanum og komst hæst í annað sætið og varð mjög vinsælt. „Now they sound tired but they don't sound haggard / They got money but they don't have cash / They got junior but they don't have Hank...“ Útgáfa Dixie Chicks. Lagið kom út í flutningi Dixie Chicks á breiðskífunni "Home" árið 2002. Martie Maguire. Martie Maguire (fædd Martha Elenor Erwin 12. október 1969) er bandarískur tónlistarmaður. Hún er meðlimur og einn stofnenda hljómsveitarinnar Dixie Chicks. Hún hefur unnið landskeppnir í fiðluleik ung að aldri. Hún er systir Emily Robison. Árið 1987 lenti Maguire í öðru sæti og tveimur árum síðar í þriðja sæti í landskeppninni í fiðluleik sem haldin var á Walnut Valley Festival í Winfield í Kansas. Natalie Maines. Natalie Maines (fædd 14. október 1974) er bandarísk söngkona. Hún er þekktust sem aðalsöngkona Dixie Chicks. Laura Lynch. Laura Lynch (fædd 18. nóvember 1958 er bandarískur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hún er þekktust fyrir að vera einn af stofnendum hljómsveitarinnar Dixie Chicks. Ævisaga. Laura Lynch er sjálfskipuð "kúrekastelpa". Hún spilar á kontrabassa og er einstæð móðir. Lynch tók þátt í tónleikaferðalagi um Japan í hljómsveit sem kallaði sig Texas Rangers. Heima í Texas tók hún þátt í því að stofna hljómsveitina Dixie Chicks þegar hún var 33 ára. Hún spilaði á bassa, tók þátt í aðalröddum og samdi einstaka lag. Robin Lynn Macy, söngkona og gítarleikari, og systurnar Emily Erwin og Martie Erwin voru einnig í hljómsveitinni. Robin Lynn Macy. Robin Lynn Macy (fædd 1958) er bandarískur tónlistarmaður, kennari og garðyrkjumaður. Hún er þekktust fyrir að hafa tekið þátt í því að stofna hljómsveitina Dixie Chicks. Macy var virk í bluegrassheiminum í Dallas upp úr 1980 ásamt því að hún vann sem stærðfræðikennari við St. Mark's School of Texas. Hún var í hljómsveitinni Danger in the Air sem gaf út tvær plötur. Þegar hún var 33 ára tók hún þátt í því að stofna hljómsveitina Dixie Chicks en hélt áfram að starfa með Danger in the Air. Í Dixie Chicks lék hún á gítar, söng að hluta aðalrödd og samdi einstaka lag. Macy hætti í Dixie Chicks á seinni hluta 1992 eftir deilur við Erwin-systur um hvernig tónlist hljómsveitin ætti að leika. Macy stóð í þeirri meiningu að þær ættu að leita í átt að „hreinni“ bluegrasstónlist. Þá breyttust Dixie Chicks í tríó. Wide Open Spaces (lag). „Wide Open Spaces“ er kántrílag með Dixie Chicks, samið af Susan Gibson. Lagið kom út á plötunni "Wide Open Spaces" árið 1998 og sem breiðskífa í ágúst sama ár. Lagið komst í efsta sæti bandaríska kántrívinsældalistans og sat þar í fjórar vikur í nóvember 1998. Það komst einnig í 41. sæti bandaríska smáskífulistans. Árið 2001 setti RIAA lagið í 259. sæti á listaum „365 bestu lög aldarinnar“. Bluegrass. Bluegrass er tónlistarstefna og undirtegund kántrítónlistar sem er mest áberandi í Bandaríkjunum. Hún á rætur sínar að rekja til þjóðlagatónlistar í Skotlandi og Englandi. Margt hefur sett svip sinn á tónlistarstefnuna, til dæmis svartir þrælar í Bandaríkjunum, sem komu þangað með banjóið og átti það eftir að vera eitt mikilvægasta hljóðfærið í bluegrass-tónlist ásamt öðrum órafmögnuðum strengjahljóðfærum eins og mandólíni, fiðlu og gítar. Innflytjendur frá Skotlandi og Englandi komu með fiðlu í farteskinu þegar þau komu til Appalachia sem er svæði austarlega í Bandaríkjunum. Mörg af frægustu lögum stefnunnar má rekja beint til Bretlandseyja. Einkenni. Hljóðfærin sem setja svip sinn á tónlistarstefnunni eru af mörgum toga en helst má nefna banjó, mandólín, gítar, kontrabassi og munnharpa einstaka sinnum. Banjóið er hljóðfæri með fjórum eða fimm strengjum og á rætur sínar að rekja til nokkurra hljóðfæra frá Afríku. Svartir þrælar í Bandaríkjunum sameinuðu hugmyndina af banjóinu úr hljóðfærum síns heimalands. Banjóið er ekki einungis spilað á í bluegrass-tónlist, en einnig í kántrítónlist og þjóðlagatónlist, sérstaklega írskri. Mandólín er hluti af lútufjölskyldunni sem á uppruna sinn að rekja til Ítalíu. Hljóðfærið er strengjahljóðfæri sem er annað hvort plokkað eða slegið á. Strengirnir koma oftast í fjórum pörum á nútíma mandólíni. Mörg afbrigði eru til af mandólíni og má þar t.d. nefna banjó-mandólín. Fiðla er fjögurra strengja hljóðfæri sem má rekja alla leið aftur til níundu aldar. Fiðlan er með háa rödd og er þekktust í klassískri tónlist ásamt því að setja svip sinn á margar aðrar tónlistar stefnur eins og bluegrass. Kontrabassi er í sömu fjölskyldu og fiðlan en er með dýpri rödd. Kontrabassinn er þekktastur í klassískri tónlist en hefur einnig verið áberandi í stefnum eins og djass, rokkabillí og bluegrass. Munnharpa er lítið hljóðfæri sem hefur sett sinn svip á blús og kántrítónlist og einnig verið áberandi í rokki og djassi. Hljóðfærið lýsir sér þannig að blásið er í gegnum holur og blásturinn hreyfir við kopar eða brons fjöðrum sem titra og gefa frá sér einkennandi harmoníuhljóm munnhörpunnar. Einkennandi söngur bluegrass-stefnunnar er oftast harmónía tveggja, þriggja eða fjögurra raddna. Saga. Frá árunum 1930-1940 voru tónlistarmenn byrjaðir að mynda bluegrass-stefnuna. Bill Monroe er oft nefndur „faðir bluegrass-tónlistar“ en hann stofnaði hljómsveitina Blue Grass Boys þar sem hann söng og spilaði á mandólín og Earl Scruggs spilaði á banjó. Earl Scruggs var frumkvöðull í banjóleik og algengasta aðferð banjóspilara í bluegrass-tónlist kennd við Earl Scruggs. Aðferðin er þriggja fingra plokkun sem er hraðari en það sem áður þekktist og gaf þessi aðferð tónlistinni meiri hraða og kraft. Tæknin sem hann notar er kölluð Scruggs-hljómurinn. Aðrar þekktar hljómsveitir af þessari fyrstu kynslóð voru Foggy Mountain Boys, The Timberliners og Lonesome Pine Fiddlers. Upp úr 1960 var annar hljómur að myndast í bluegrass-tónlist. Hljómurinn þróaðist og varð hlustendavænni og byrjaði að smitast yfir í aðrar tónlistarstefnur eins og djass og rokk. Framsækið bluegrass leit dagsins ljós með hjálp hljómsveita eins og The Kentucky Colonels og The Dillards. Meðlimur hljómsveitarinnar Grateful Dead, Jerry Garcia sem spilaði á banjó í hljómsveitinni Old and In the Way hjálpaði bluegrass-áhrifum að koma sér inn í rokktónlist þar sem Grateful Dead áttu eftir að vera stór hluti af rokksögu Bandaríkjanna. Um 1980 var mikil gróska í upptökutækni og voru gæði upptakna farin bætast. Meira varð að plötugerð í bluegrass-heiminum en áður var meira gert úr lifandi tónlist. Rafmagnshljóðfæri ruddu sér veginn inn í stefnuna en aðallega þá rafmagnsbassi í staðinn fyrir hinn hefðbundna kontrabassa. Þótt tækninni hefði farið mikið fram þá var vinsælasta hljómsveit þessa áratugs hin hefðbunda bluegrass-hljómsveit The Johnsons Mountain Boys vinsælust og hún tileinkaði sér ekki nýju hefðinnar. Bluegrass-tónlist nær í dag til stærri hóps hlustenda en áður fyrr og má því þakka að kántrítónlist er ein vinsælasta stefna Bandaríkjanna og hafa vinælar kántrístjörnur tekið upp sínar bluegreass-plötur, má þar nefna Dolly Parton, Patty Loveless og Allison Krauss. Árið 2000 kom út mynd Coen-bræðra "O Brother, Where Art Thou?" og innihélt hún kántrí- og bluegrass-lög. Kvikmyndin og platan með tónlistinni úr myndinni vöktu mikla lukku og hirti platan Grammy-verðlaun fyrir vikið. Hefðbundið bluegrass. Einfaldasta mynd nútímabluegrass. Hljóðfæraskipan er í hefðbundnu lagi og er eingöngu notast við órafmögnuð hljóðfæri. Þótt hljóðfæraskipan sé hefðbundin þá mega hljóðfæraleikarar nýta nútímatækni og aðferðir. Lögin eru oftast eins einföld og hægt er og eru textanir ekki undantekning. Framsækið bluegrass. Í þessari stefnu er notast við rafmögnuð hljóðfæri og tækni. Framsækið bluegrass lög eru mjög skyld rokki og jazzi. Þótt framsækna bluegrassið sé öðruvísi og á næstum engan máta hefðbundið þá er hægt að rekja það til fyrstu bluegrass hljómsveitanna. Þegar Earl Scruggs spilaði á banjó í Foggy Mountain Boys þá voru miklar gripa og taktbeytingar sem framsæknu bluegrass hljóðfæraleikarar tileinkuðu sér seinna meir. Gospel-bluegrass. Gospel-bluegrass hefur oft verið nefnd þriðja bluegrass-undirtegundin því margir tónlistamenn tileinkuðu sér hana helst þá Bill Monroe („faðir bluegrass“). Textanir voru trúarlegir og lögin róleg, mikil innlifun var í söngnum. Aðrar stefnur. New grass eins og það er kallað er bluegrass blandað við pönk tónlist. Nútímabragur er í stefnunni og heyrist það á söngnum og hljóðfæraskipan því oftast er gítar í forgang í staðinn fyrir fiðluna eða banjóið og mikill og hraður trommur heyrist í bakgrunn. Nýhefðbundið bluegrass stefnan er nýlega byrjuð að myndast og er einkennandi fyrir stefnuna að hafa bara einn söngvara. Hljómsveitir sem má nefna innan stefnunnar eru The Grascals og Cherryholmes. Kántrítónlist. Kántrítónlist e. sveitahljómur (tekið úr enska heitinu Country music) er tónlistastefna sem á uppruna að rekja til suðurríkja Bandaríkjanna. Tónlistarstefnan brýst fram á sjónarsviðið á 2. Áratug 20. Aldarinnar og talin vera skyld þjóðlaga-, gospel-, og keltneskritónlist ásamt áhrifum frá ýmsum öðrum stefnum. Kántrítónlist samanstendur mest af ballöðum og danslögum en einnig er að finna öðruvísi lög, við flutning laga eru mest notuð strengjahljóðfæri s.s. banjó, ýmsir gítarar og fiðlur ásamt harmonikkum og jafnvel trommum. Kántrítónlistin e. sveitahljómurinn er eins og nafnið gefur til kynna uppruninn í sveitum suðurríkja Bandaríkjanna og var nokkurskonar svar alþýðunnar við mikilli breytinga sem lágu í loftinu á þessum tíma s.s. innan og utanríkisdeilur og efnahagsbreytingar svo það má segja að kántrítónlist hafi verið nokkurnskonar svar alþýðunnar, fólksins á landsbyggðinni við þeim mikla asa í stórborgum landsins. Hugtakið kántrítónlist kemur upp á 5. Áratug 20. Aldar eða töluvert á eftir tónlistastefnunni sjálfri, fyrir þann tíma hafð stefan verið kölluð sveitadurgahljómur (e. hillybilly music). Uppúr 1940 fór mönnum að finnast sveitadurguhljómur niðrandi og ekki lýsa þessari tónlistastefnu nægilega vel. Kántrítónlist, sem byrjaði rólega á meðal alþýðunnar á landsbyggðinni í suðurríkjum Bandaríkjanna, er núna orðið ein af vinsælustu tónlistastefnum í Bandaríkjunum og þegar peningamál eru rædd eru þau rædd í miljörðum dollara. Kántrítónlist e. sveitahljómur er saman sett úr mörgum ólíkum þáttum, þá ber fyrst að nefna hljóðfærin en þau koma frá innflytjendum annarra landa og þannig inní Bandaríkin. Fiðlan er talin koma með Írunum, madólínið frá Ítölunum, gítarinn með Spánverjunum og banjóið með Vesur-Afríkubúunum en þó hljóðfærin séu mikilvæg í kántrítónlist þá eru þau ekki allt. Við samblöndun þessara hljóðfæra og ólíkra tónlistastefna var skref tekið sem hefði þó líklega ekki gengið nema út af þessum kjöraðstæðum sem voru til staðar fyrir alþýðutónlist sem þessa. En um þetta leyti fá konur kosningarétt í Bandaríkjunum, borgarastríð í Kína, kreppa í Bandaríkjunum og glæpagengi ganga laus, þetta voru auðsýnilega erfiðir tímar sem leiddu af sér kjöraðstæður fyrir þroska nýrrar stefnu. Tónlistastefnu fyrir fólkið. Í kántrítónlist e. sveitahljóm er oftast notast við gítar, bassa og bassagítar en eins og glöggir kántrí aðdáendur vita koma oft fleiri hljóðfæri að tónlistarsköpuninni. Þá ber helst að nefna rafmagnsgítar, mandólin, banjó, fiðlu, píanó, trommur og harmonikku. Kántríhljómurinn er sérstakur að mörgu leyti en hann getur verið nokkuð æstur eða nokkurnskonar danstónlist en hann getur einnig verið rólegur, það fer allt eftir því efni sem kántrítónlistamaðurinn reynir að túlka hverju sinni. Í seinni tíð hefur kántrítónlist verið skipt upp í marga undirflokka og má þar nefna Bakersfield sound(e. Bakaratúns hljómur), honkítonk, Nashville sound, Texas country og Outlaw country og þó flestir þessara undirflokka líti svipað út fyrir meðalmanninn er ákveðinn munur á þeim. Kántrítónlist hefur stækkað hratt og sérstaklega eftir 5. og 6. áratug 20. aldarinnar og í raun svo hratt að menn tóku upp á því að skipta kántrístefnunni sjálfri niður og þess vegna má heyra nöfn eins og alternative country, country rock, rockabilly, country pop og jafnvel country soul. Dixie Chicks. Dixie Chicks er bandarísk kántrí-sveit sem samanstendur af Martie Maguire, Emily Robison og aðalsöngkonunni Natalie Maines. Sveitin hefur selt 30,5 milljónir breiðskífa í Bandaríkjunum fram að ágúst 2009 sem gerir hana að mest seldu kvennasveit í landinu. Hljómsveitin var stofnuð í Dallas árið 1989 og samanstóð upphaflega af fjórum konum sem spiluðu bluegrass og kántrítónlist og unnu fyrir sér með því að spila á götum úti. Fyrstu 6 árin ferðuðust þær stöllur um og spiluðu á sveitasönghátíðum og á litlum tónlistarstöðum án þess að ná athygli stóru útgáfufyrirtækjanna. Eftir meðlimaskipti og örlitla breytingu á efnisskránni hlaut hljómsveitin athygli bæði á kántrí- og popptónlistarsviðinu með lögum á borð við „Wide Open Spaces“, „Cowboy Take Me Away“ og „Long Time Gone“. Konurnar urðu þekktar fyrir sjálfstæðan anda og umdeild ummæli um stjórnmál og stríðsrekstur. Á tónleikum í London 10 dögum fyrir innrásina í Írak árið 2003 lét aðalsöngkonan Maines þau orð falla að þær „vildu ekkert með þetta stríð hafa, þetta ofbeldi, og við skömmumst okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna sé frá Texas“ (sem er heimafylki Dixie Chicks). Ummælin þóttu dónaleg og óþjóðrækin. Almenningur var það óánægður, að hljómsveitinn missti helming af tónleikagestum í Bandaríkjunum, fengu send hótunarbréf og breiðskífur þeirra voru eyðilagðar í mótmælaskyni. Dixie Chicks hafa unnið 13 Grammy-verðlaun, þar af 5 árið 2007 - meðal annars breiðskífa ársins fyrir "Taking The Long Way". Stofnun Dixie Chicks. Hljómsveitin Dixie Chicks var stofnuð 1989 af Laura Lynch á kontrabassa, gítarleikaranum Robin Lynn Macy og systrunum Martie. Nafn sveitarinnar var fengið úr laginu „Dixie Chicken“ samið eftir Lowell George, meðlim hljómsveitarinnar Little Feat. Upphaflega spilaði sveitin sveitatónlist. Aðalsöngvarar voru Lynch og Macy. Maguire spilaði fyrst og fremst á fiðlu, mandólín og víólu á meðan sérsvið Robison voru fimmstrengja banjó og dóbró. Árið 1990 borguðu Dixie Chicks fyrir framleiðsluna á fyrstu breiðskífu sinni, en hún hlaut heitið "Thank Heavens for Dale Evans" eftir frumkvöðla kvenna söngkonunni Dale Evans. Í lok árs kom jólaskífan "Home on the Radar Range" út með „Christmas Swing“ á A-hliðinni og „The Flip Side“ á bakhliðinni. Á þessum tíma klæddu hljómsveitarmeðlimir sig upp sem kúrekastelpur og þrátt fyrir að hafa komið fram á stærstu beinni útsendingu í Bandarísku útvarpi Grand Ole Opry og útvarpsþætti Garrison Keillor, "Riders In the Sky" hlaut hljómsveitin ekki mikla spilun í bandarísku útvarpi. Breyttur tónlistarstíll. Dixie Chicks söfnuðu jafnt og þétt aðdáendahópi og voru valdar sem besta hljómsveit á tónlistarhátíðinni Telluride Bluegrass Festival. Þá komu þær fram sem upphitunarhljómsveit fyrir þekktari kántrístjörnur á borð við Garth Brooks, Reba McEntire og George Strait. Árið 1992 kom önnur sjálfstæða breiðskífa hljómsveitarinnar út en hún hlaut nafnið "Little Ol' Cowgirl". Með henni fikraði sveitin sig nær nútímalegum kántríhljómi. Einnig réði sveitin til sín auka hljóðfæraleikara til að þróa hljómmeiri tónlist sem hentaði betur með stærri og nútímalegri útsetningum. Lynch, sem hafði verið neydd í hlutverk aðalsöngkonu á þriðju breiðskífu sveitarinnar, "Shouldn't a Told You That" sem kom út árið 1993, náði ekki að stækka áhangendaskara sveitarinnar út fyrir Texas og Nashville. Tveir meðlimir Dixie Chicks yfirgáfu sveitina, Lynn og Lynch. Lynn leist ekki á þá þróun sem var að verða í tónlist sveitarinnar. Lynch vildi hins vegar eyða meiri tíma heima með dóttur sinni. Á þessum tíma kynnti stálstrengjagítarleikarinn Lloyd Maines hljómsveitina fyrir dóttur sinni, Natalie, sem var einnig upprennandi tónlistarmaður. Natalie kom síðar í stað Lynch sem aðalsöngkona. Nýr umboðsmaður sveitarinnar, Simon Renshaw, náði tali af Scott Simon útgefanda og skrifaði undir þróunarsamning við Nashville-deild Sony Music Entertainment. Samningurinn var fullgiltur sumarið 1995. Nú breyttist ímynd sveitarinnar með mannabreytingum; þær skildu við kúrekaímyndina og sveitin tók upp hefðbundnara tónlistarútlit og höfðaði þannig til stærri hlustendahóps. Renshaw sendi Blake Chancey til Austin til að vinna að upptökum með hljómsveitinni. Velgengni með nýju söngkonunni. Eftir að Natalie Maines gekk í raðir sveitarinnar breyttist hljóðfæraskipan lítið, nema hvað Natalie lék ekki á kontrabassa. Þess í stað lék hún á kassa- og rafmagnsgítar en einnig á rafbassa eða lítinn gítar á tónleikum. Maguire, fiðluleikari Dixie Chicks sagði: „Hljómurinn er mjög upprunalegur en svo kom Natalie inn með rokk- og blúsáhrif. Það gaf okkur Emily tækifæri á að breyta til því við elskum þessar tónlistarstefnur en okkur fannst hljóðfærin okkar einskorða okkur.“ Næsta árið kom Sony til Austin til að hlusta á hinar endurbættu Dixie Chicks og voru staðráðnir í að skrifa undir langtímasamning við hljómsveitina. Dixie Chicks voru valdar sem fyrsta nýja hljómsveitin hjá hinu nýstofnaða Monument Records. Smáskífan „I Can Love You Better“ var gefin út í október 1997 og komst í topp 10 á bandaríska kántrí-vinsældalistanum. Smáskífunni var fylgt eftir með breiðskífunni "Wide Open Spaces" og hún kom út 23. janúar 1998. Breiðskífan "Wide open spaces" varð til þess að áheyrendafjöldi hljómsveitarinnar stækkaði; fyrst og fremst samanstóð hann af ungum konum sem gátu séð sjálfar sig í bæði hljómsveitarmeðlimum og textum þeirra. Árið 1998 seldu Dixie Chicks fleiri geisladiska en allir aðrir kántrílistamenn samanlagt. Árið 1999 hlaut sveitin verðlaun frá Country Music Association, Academy of Country Music og síðast en ekki síst sín fyrstu Grammy-verðlaun. Áframhaldandi velgengni og tónleikaferðlög. Dixie Chicks gáfu út næstu breiðskífu sína, "Fly", 31. ágúst 1999. Sú skífa fór beint inn í efsta sæti Billboard 200-vinsældalistans og seldist í meira en 10 milljón eintökum. Þannig urðu Dixie Chicks eina kántrí-hljómsveitin og eina kvennasveitin, í öllum geirum tónlistar, sem kom tveimur hljómplötum í röð í platínuverðlaun fyrir mikla sölu. Vegna þessa góða gengis hafa hljómplötur sveitarinnar ítrekað komist inn á lista yfir 50 mest seldu plötur í sögu Bandaríkjanna, jafnvel hálfum áratug eftir að þær komu út. "Fly" hlaut aftur Grammy-verðlaun og viðurkenningar frá Country Music Association og Academy of Country Music. Hljómsveitin var aðalatriðið í fyrstu tónleikaferð sinni, Fly Tour. Ástæðurnar að velgengni Dixie Chicks voru margar: þær sömdu eða tóku þátt í að semja helming allra laganna á "Wide Open Spaces" og "Fly"; þær blönduðu saman bluegrass, meginstefnu kántrítónlistar, blús og poppi sem höfðaði til breiðari hóps en einnig höfðu þær breytt um framkomu: áður voru þær klæddar sem kúrekastelpur ("cowgirls") með Lynch í farabroddi en voru nú klæddar nútímalegri fötum. Meðal laga plötunnar Fly, varð „Cowboy Take Me Away“ eitt af þekktustu lögum sveitarinnar. Hins vegar áttu tvö lög af plötunni þátt í því að útskúfa Dixie Chicks af listum útvarpsstöðva. Þetta voru „Sin Wagon“ þar sem orðið „dýnudans“ (e. "mattress dancing") fór fyrir brjóstið á mörgum, og hins vegar „Goodbye Earl“. Goodbye Earl segir frá morði tveggja vinkvenna á ofbeldisfullum eiginmanni annarrar þeirra. Eitthvað var um ósætti um slík lög en tríóið vildi þó ekkert eftir gefa. Deilur við útgáfufyrirtækið. Eftir að hafa gefið út tvær feikilega vinsælar plötur flæktust Dixie Chicks inn í deilur við útgáfufyrirtækið þeirra, Sony. Deilurnar snérust um bókhaldssvik og að Sony hefði í að minnsta kosti 30 tilvikum undirborgað þeim um alls 4 milljónir Bandaríkjadala vegna höfundarlauna af plötunum þeirra frá síðustu þremur árum. Sony stóð á sínu og Dixie Chicks gengu út úr samningnum. Þá kærði Sony hljómsveitina fyrir ólöglegt brot á samningi. Dixie Chicks svöruðu með því að eyða 4,1 milljón Bandaríkjadala í eigin málaferli gegn Sony Music Entertainment 27. ágúst. Við bættust svo kröfur frá söngvurunum Courtney Love, Aimee Mann og LeAnn Rimes gegn tónlistariðnaðinum. Eftir margra mánaða samningaviðræður sættust Dixie Chicks á að höfða einkamál og fengu að launum eigin útgáfufyrirtæki, Open Wide Records, sem gaf þeim meiri stjórn, betri samning og auknar tekjur, en Sony var áfram ábyrgur fyrir markaðssetningu og dreifingu breiðskífanna. Áframhaldandi velgengni með öðru hljóði í skrokknum. Á meðan Dixie Chicks útkljáðu mál sín við Sony komu þær stöllur fram í sjónvarpssendingunni ' eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Þar fluttu þær lagið „I Believe In Love“ sem síðar átti eftir að koma út á næstu plötu sveitarinnar, "Home". Sú plata var gefin út undir útgáfufyrirtæki þeirra, Open Wide Records og dreift af Sony. Hljómsveitin var án pressu frá Sony við gerð plötunnar og meðlimir sveitarinnar sömdu lög sem stóðu þeim nærri. Lögin sem þær sömdu ekki sjálfar voru fengin frá höfundum sem lögðu ekki eins mikið upp úr eigin frægð og frama. Útkoman var sem áður segir "Home", sjálfstætt unnin af Lloyd Maines og stúlkunum. Platan kom út 27. ágúst 2002. Þessi plata samanstendur af hraðari bluegrass-skotnum ballöðum en er að finna á fyrri plötum sveitarinnar. Platan vann tvö Grammy-verðlaun, en náði ekki demantssölu eins og hinar tvör plöturnar. Natalie Maines sagði seinna: „Mig langar að skoða heimsmetabækurnar og sjá hversu mörg feðgin hafa unnið Grammy-verðlaun saman.“ Í sjónvarpinu 2002. Árið 2002 voru tvær stórar umfjallanir um Dixie Chicks í sjónvarpi. Annars vegar "An Evening with the Dixie Chicks" sem voru órafmagnaðir tónleikar sem að mestu leyti samanstóðu af efni af "Home". Hins vegar var það umfjöllun Country Music Television, "40 Greatest Women of Country Music", sem taldi upp 40 áhrifríkustu konur innan kántrítónlistar. Dixie Chicks voru í 13. sæti af 30 og voru „valdar af hundruðum tónlistarmanna, tónlistarsagnfræðinga, tónlistarblaðamanna og atvinnumanna í tónlistariðnaði - litið var á alla þá þætti sem gera frábærann tónlistarmann að því sem hann er.“ Top of the World. Natalie Maines og Emily Robison á tónleikum í Royal Albert Hall í London í september 2003 Hljómsveitin fór í tónleikaferðalag, sem þær kölluðu "Top of the World" eftir samnefndu lagi eftir Patty Griffin, til að kynna plötuna. Þetta var hápunktur í tónlistarferli Dixie Chicks og að lokum var tónleikaferðalagið tekið upp og gefið út í tvennu lagi: annars vegar sem breiðskífa (') og hins vegar sem DVD-diskur en hvort tveggja kom út árið 2003. Hljómsveitin lék einnig í útvarpsþættinum "Grand Ole Opry". Þar á meðal var lagið „Landslide“ eftir Fleetwood Mac sem Dixie Chicks tóku síðar upp sem tónlistarmyndband og höfundur lagsins, Stevie Nicks, söng það með þeim á VH1-tónleikunum "Divas Live" í Las Vegas. Í byrjun árs 2003 spiluðu þær einnig „Star Spangled Banner“ á Super Bowl XXXVII. Ummæli um George Bush og stríðið í Írak. Á miðjum tónleikum í Lundúnum sagði Natalie Maines meðal annars: „Bara svo þið vitið það, þá skömmumst við okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna skuli vera frá Texas“. Ummælin þóttu fyrir utan alla ramma sem að kántrítónlist setur sér. Slík gagnrýni þekktist ekki í kántrítónlist, en var aftur á móti þekkt í popptónlist og víðar. Aukinheldur keypti almenningur ekki lengur plötur hljómsveitarinnar. Í kjölfarið sagði Mains þann 12. mars að henni fyndist forsetinn hunsa skoðanir Bandaríkjamanna, en dró tveimur dögum síðar þessi ummæli tilbaka með afsökunarbeiðni. „Sem áhyggjufullur Bandaríkjamaður vil ég biðja Bush forseta afsökunar því ummæli mín voru dónaleg [...] Við erum núna í Evrópu og upplifum mikla andstöðu gegn stríði Bandaríkjamanna.“ Þó svo að sumir hafi verið vonsviknir yfir því að Maines skyldi biðjast afsökunar, héldu aðrir áfram baráttu sinni gegn hljómsveitinni. Þá var helst verið að láta reiðina bitna á fyrri plötum sveitarinnar. Bruce Springsteen og Madonna fundu bæði fyrir þörf hjá sér að styðja hljómsveitina og tjáningarfrelsi hennar. Barist á móti. a> en þeir voru hluti af "Top of the World"-tónleikaferðalaginu 24. apríl 2003 ýttu Dixie Chicks kynningarherferð úr vör til að kynna stöðu sína. Í viðtali við sjónvarpskonuna Diane Sawyer sagðist Maines vera stolt af upphaflegum ummælum sínum. Hljómsveitarmeðlimir sátu einnig naktar fyrir á forsíðu "Entertainment Weekly" sem kom út 2. maí en á líkama þeirra höfðu verið skrifuð ýmis orð sem höfðu með fjaðrafokið að gera, s.s. „Dixie-hórur“, „stoltir Bandaríkjamenn“, „friður“, „þegiði!“ og fleiri. Bush forseti svaraði ummælum hljómsveitarinnar í viðtali við Tom Brokaw 24. apríl með orðunum: „Dixie Chicks er frjálst að tjá hug sinn. [...] Mér er í raun sama hvað Dixie Chicks sögðu.“ Ummæli Bush breyttu ekki skoðun Bandaríkjamanna, því í undirbúningi tónleikaferðalags hljómsveitarinnar um Bandaríkin fengu þær hótunarbréf sem leiddi til þess að málmleitarhlið voru sett upp á tónleikarstöðum. Engin atvik komu þó upp á fyrstu tónleikunum, en það breyttist fyrir tónleikana í Dallas. Fyrir tónleikana fékk hljómsveitin hótunarbréf, og fékk lögreglufylgd til og frá tónleikastaðnum. 6. maí var tveimur útvarpsmönnum vikið úr starfi sínu í útvarpsstöð í Kólóradó fyrir að spila lög með Dixie Chicks. Hljómsveitin hélt áfram að berjast gegn óréttlæti í sinn garð, með því að koma fram og ánöfnuðu fé til atburða sem skipulagðir voru til að berjast gegn ríkisstjórn George Bush. Þær gáfu alls 10 þúsund dollara til að hanna hluta af Rock the Vote-vefsíðunni í því skyni að auka hlutfall ungra kvenna sem skrá sig til að kjósa í kosningum í Bandaríkjunum. Hljómsveitin tók jafnframt þátt, haustið 2003, í sjónvarpsauglýsingu fyrir styrktaraðila sinn Lipton. Auglýsingin var ádeila á það að fyrirtækið lenti í álitsnekkjum vegna deilna þeirra. Í viðtali við þýska tímaritið "Der Spiegel" í september 2003 sagði Martie Maguire meðal annars: „Okkur finnst við ekki vera hluti af kántrívettvanginum lengur, það getur ekki verið heimavettvangur okkar lengur.“ Hún nefndi meðal ástæðna lélegan stuðning frá kántrístjörnum og það að þeim hefði verið illa tekið á ACM-verðlaunahátíðinni 2003. Fyrir deiluna neitaði hljómsveitin að taka þátt í National Celebrity Cabinet of the Red Cross, sem er hefðbundna leiðin fyrir fólk í skemmtanabransanum til að styðja Rauða krossinn. Árið 2003 neitaði Bandaríkjadeild Rauða krossins að setja nafn sitt við tónleikaferð sveitarinnar, gegn milljón dollara framlagi frá hljómsveitinnni. Slík tengsl myndu brjóta tvær mikilvægustu reglur þeirra, óhlutdrægni og hlutleysi. Stelpurnar sungu lagið „I Hope“ árið 2005 í -sjónvarpssendingunni í september 2005. Ágóði af sölunni rann til Habitat For Humanity og í sjóð American Federation of Musicians sem ætlaður var til að styrkja hamfarasvæðin við Mexíkóflóa; í stað þess að styrkja Rauða krossinn. Í október 2004 tóku Dixie Chicks þátt í Vote for Change-ferðalaginu og komu fram á tónleikum sem vefsíðan MoveOn.org skipulagði í barátturíkjunum ("swing states"). Á tónleikum sem hljómsveitin lék með James Taylor gekk allt eins og í sögu en á öðrum tónleikum kom í ljós óöryggi hjá Natalie Maines um framtíð Dixie Chicks. Árið 2005 slóust Maguire, Robison og Maines í hóp 31 annarra listamanna, meðal annars Dolly Parton, Christina Aguilera, Yoko Ono og Mandy Moore, og studdu ástarsambönd af öllum gerðum; hvort sem litið var til kynhneigðar eða kynsemdar (e. "gender identity"). Saman gáfu listamennirnir út tveggjadiska breiðskífu, "Love Rocks", en á þeirri plötu var lagið „I Belive In Love“ (af "Home"). Endurkoma. Mikið var fjallað um það hvernig nýju breiðskífunni yrði tekið af kaupendum. "Taking the Long Way" kom í búðir og netverslanir 22. maí 2006. Breiðskífan náði gullsölu strax í fyrstu vikunni þrátt fyrir litla útvarpsspilun á þeim svæðum sem höfðu eitt sinn fyrirlitið þær. Dixie Chicks urður fyrsta kvennahljómsveitin sem komu þremur breiðskífum beint í fyrsta sæti vinsældalistans. Hljómsveitin ákvað við tökur plötunnar að vilja minni og ákveðnari aðdáendahóp. Mörg af lögunum á breiðskífunni fjalla óbeint um deilurnar í kringum Dixie Chicks. Maguire dró jafnframt síðar tilbaka afsökunarbeiðni sína til Bush forseta. „Ég baðst afsökunar á því að vanvirða forsetaembættið en ég ber ei lengur þær tilfinningar. Mér finnst hann ekki eiga skilið neina virðingu.“ Lögin „Not Ready to Make Nice“ og „Everybody Knows“ voru að mestu hundsuð af bandarískum kántríútvarpsstöðvum og komust ekki í efstu 35 sætin á Hot Country Songs-vinsældalistanum. Emily Robinsson tjáði sig um lítinn stuðning frá öðrum kántrílistamönnum og skildi ekki alla þessa föðurlandsást sem er svo sterk í Bandaríkjunum. Í Evrópu urðu lögin tvö hins vegar mjög vinsæl á kántríútvarpsstöðvum og komust hæst í 13. og 11. sæti. Hvort lagið um sig var meira en 20 vikur á evrópska kántrívinsældalistanum. Tónlistarferðalag breiðskífunar kallaðist "Accidents & Accusations Tour". Mikið seldist af miðum í Kanada og sumsstaðar í norðausturhluta Bandaríkjanna. Salan var hins vegar léleg á öðrum stöðum. Í ágúst var nýtt tónleikaskipulag kynnt og var þá meiri áhersla lögð á tónleika í Kanada úr því að platan var komin í fimmfalda platínusölu þar í landi. Þegar hljómsveitin hélt tónleika í Shepherds Bush Empire, sama stað og „deilurnar“ hófust, gantaðist Maines með að hún vildi segja eitthvað sem áheyrendur hefðu ekki heyrt áður. Þess í stað sagði hún: „Bara svo þið vitið það; þá skömmumst við okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna skuli vera frá Texas“. Áheyrendur svöruðu með hlátri og lófataki. Hljómsveitin var svo tilnefnd sem „Besta söngsveitin“ á verðlaunahátíð Country Music Association en tapaði fyrir Rascal Flatts. Shut Up and Sing. Heimildamyndin ' var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto 2006. Heiti myndarinnar var tekið úr texta „Not Ready to Make Nice“. Í myndinni er fylgst með Dixie Chicks um þriggja ára skeið frá því á tónleikunum í London þegar uppþotin í kringum þær byrjuðu. Í henni er fjallað um tónlistarlíf sem og einkalíf kvennana en einnig deilurnar sem spunnust í kringum þær. Auglýsingu um kvikmyndina var hafnað af NBC 27. október 2006 og var vísað í að reglur um að ekki ætti að auglýsa „almennar deilur“. Auglýsingunni var einnig hafnað af CW. Minni samstarfsfélög allra fimm stóru fjölmiðlanna í Bandaríkjunum, NBC og CW þar á meðal, ráku kynningarherferðir fyrir myndina í New York og Los Angeles, en myndin var frumsýnd í þeim borgum þennan dag. Dreifingaraðili myndarinnar, Harvey Weinstein, sagði: „Það er sorglegt að segja það að hræðslustigið í samfélaginu okkar er orðið svo hátt að mynd um hóp hugrakkra tónlistarmanna, sem voru settar á svartan lista fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt, sé nú sett á svartan lista í Bandaríkjunum.“ Í kjölfarið. Í september 2007 kom Maines fram í heimildamyndinni ' sem PBS-sjónvarpsstöðin sendi. Hún sagði að Peter Seeger væri „lifandi testamenti fyrstu bandarísku stjórnarskrárbreytingarinnar“ [þar sem fjallað er um tjáningarfrelsi]. Á útifundi í Little Rock í Arkansas í desember 2007 sagðist Maines styðja svokallað West Memphis-þríeyki sem samanstóð af þremur mönnum sem voru sakfelldir árið 1993 fyrir þrefalt morð. Margir telja mennina þrjá saklausa. Maines vitnaði í nýlegt mál þar sem bent var á Terry Hobbs, stjúpföður eins fórnarlambsins, sem mögulegan morðingja. Í nóvember 2008 kærði Hobbs Maines og Dixie Chicks fyrir meiðyrði í sinn garð. 2. desember 2009 felldi hæstaréttardómari málið gegn Dixie Chicks niður. Í apríl 2008 stóð til að Dixie Chicks og Toby Keith myndu koma saman og auglýsa herferðina „We“ sem Al Gore stóð fyrir. Við það var svo hætt þegar ekki fannst laus tími hjá báðum aðilum. Cowboy Take Me Away. „Cowboy Take Me Away“ er lag með Dixie Chicks. Lagið kom út á breiðskífunni "Fly" árið 1999 og sem smáskífa í nóvember sama ár. Lagið er samið af Maguire til að fagna sambandi systur sinnar við kántrísöngvarann Charlie Robison, sem Emily giftist að lokum. Keta. Keta er gamalt höfuðból og kirkjustaður á austanverðum Skaga og er í Sveitarfélaginu Skagafirði. Kirkjan í Ketu var útkirkja frá Hvammi í Laxárdal en er nú þjónað frá Sauðárkróki, eftir að Hvammsprestakall var lagt niður 1975. Ketusókn teygir sig yfir í Húnavatnssýslu því að nyrstu bæir á Skaga, Húnavatnssýslumegin, tilheyra sókninni. Frá Ketu var útræði fyrr á tíð og jörðinni fylgja reka- og silungsveiðihlunnindi. Í landi Ketu eru Ketubjörg, tilkomumikil sjávarbjörg sem eru leifar af eldstöð frá ísöld. Þar er stuðlaberg, gatklettar og drangar og úti fyrir rís úr sjó stakur drangur sem heitir Kerling. Mirante do Vale. Mirante do Vale er skýjakljúfur í São Paulo í Brasilíu. Byggingu turnsins lauk árið 1960. Turninn er 170 m hár og hæðir hans eru 51 talsins. Byggingin er sú hæsta í Brasilíu. Richard von Weizsäcker. Richard von Weizsäcker árið 1987 Richard Weizsäcker (fæddur 15. apríl 1920 í Stuttgart) var þýskur stjórnmálamaður úr röðum kristilegra demókrata (CDU), borgarstjóri Berlínar 1981-1984 og forseti Vestur-Þýskalands (og sameinaðs Þýskalands) 1984-1994. Herþjónusta. Richard von Weizsäcker fæddist 15. apríl 1920 Nýju höllinni í Stuttgart. Fullt nafn hans er Richard Karl Freiherr von Weizsäcker'". Þar sem faðir hans var diplómati, bjó fjölskyldan í Basel 1920-1924, í Kaupmannahöfn 1924-1926, í Osló 1931-1933 og í Bern 1933-1936. Richard Weiszäcker gekk í skóla í Berlín og varð stúdent þar, aðeins 17 ára gamall. Ári síðar var hann kallaður í herinn og látinn þramma inn í Pólland ásamt Heinrich Victor bróður sínum í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari. Heinrich Victor lést í bardaga við Pólverja en Richard lifði af. Hann var sendur í landamæravörslu til Lúxemborgar og sem hermaður tók hann þátt í innrásinni í Rússlandi. Við borgardyr Moskvu særðist hann og var sendur á hersjúkrahús. Herflokkur hans var hins vegar stráfelldur skömmu síðar. 1943 tók hann þátt í umsátrinu um Leningrad (Sankti Pétursborgar). Árið 1945 særðist hann á ný í varnarorrustu við Rússa. Hann var sendur á hersjúkrahús í Potsdam en þegar sýnt þótti að Þýskaland myndi falla, fór hann til Bodenvatns og var þar til stríðsloka. Lögfræðingur. Strax eftir stríð fór von Weizsächer í lögfræðinám í Göttingen og lauk því 1953. Eftir það starfaði hann sem lögfræðingur. Meðan Nürnberg-réttarhöldin fóru fram var hann aðstoðarlögmaður föður síns sem var ákærður fyrir stríðsglæpi. Faðirinn, Ernst von Weizsäcker, fékk sjö ára dóm en hann var mildaður seinna í fimm ár. Von Weizsäcker starfaði eftir það sem lögfræðingur hjá mismunandi stórfyrirtækjum. Stjórnmálaferill. Richard von Weizsäcker borgarstjóri Berlínar, Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Helmut Schmidt kanslari. Myndin er tekið við Checkpoint Charlie 1982. 1954 hóf von Weizsäcker afskipti af stjórnmálum. Hann gekk til liðs við kristilega demókrata (CDU) og komst fljótt til metorða þar. 1968 bauð hann sig í fyrsta sinn fram sem forsetaefni Þýskalands fyrir CDU, en beið þar lægri hlut í innanflokkskosningum fyrir Gerhard Schröder, sem aftur beið lægri hlut fyrir Kurt Georg Kiesinger (SPD). 1969 var von Weizsäcker kosinn á þing ("Bundestag") og sat þar til 1981. Von Weizsäcker var aftur forsetaefni Þýskalands fyrir CDU árið 1974, en beið lægri hlut í kosningum fyrir Walter Scheel (FDP). 1979-1981 varð von Weizsäcker varaforseti þýska þingsins. 1981 var hann kosinn borgarstjóri Berlínar og tók við af Hans-Jochen Vogel, sem aðeins hafði setið í hálft ár. 1983 varð hann enn forsetaefni Þýskalands og sigraði loks í kosningum í maí 1984. Hann varð þar með sjötti forseti Vestur-Þýskalands og tók við af Karl Carstens. Sem forseti ferðaðist von Weizsäcker mikið, meira en áður hafði þekkst hjá forseta Þýskalands. Þar á meðal heimsótti hann Ísland í júlí 1992. Frá 1984-2005 hafa 20 háskólar gert hann að heiðurdoktor. Heimildir. Weizsäcker, Richard von Skjöldólfur Vémundarson. Skjöldólfur Vémundarson var landnámsmaður á Íslandi. Hann nam Jökuldal fyrir austan Jökulsá, upp frá Hnefilsdalsá, og bjó á Skjöldólfsstöðum. Landnáma segir hann bróður Berðlu-Kára sem nefndur er í Landnámu og Egils sögu og þar sagður faðir Salbjargar, konu Kveldúlfs og móður Skalla-Gríms. Börn Skjöldólfs eru sögð hafa verið þau Þorsteinn, er átti Fastnýju Brynjólfsdóttur, og Sigríður, móðir Bersa Össurarsonar. Ávangur (landnámsmaður). Ávangur var landnámsmaður í Hvalfirði. Hann var írskur að ætt. Hann gerði bæ sinn í Botni og eftir því sem segir í Landnámu var þá svo mikill skógur þar að hann gerði sér hafskip þar af og hlóð skipið þar sem nú heitir Hlaðhamar. „Hans sonr var Þorleifr, faðir Þuríðar, er átti Þormóðr Þjóstarson á Álptanesi ok Iðunnar Molda-Gnúps dóttur. Sonr Þormóðar var Börkr faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti,“ segir í Landnámu. Ketill hængur Þorkelsson. Ketill hængur var íslenskur landnámsmaður. Hann var úr Naumdælafylki í Noregi, sonur Þorkels Naumdælajarls og Hrafnhildar dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Hann var frændi Þórólfs Kveldúlfssonar, það er að segja hann og Kveldúlfur voru systkinabörn. Þegar Haraldur hárfagri hafði látið taka Þórólf af lífi fór Ketill hængur með lið sitt að Hildiríðarsonum, sem höfðu rægt Þórólf við konung, og brenndi þá inni. Síðan bjóst hann til Íslandsferðar með fjölskyldu sína. Hann lenti skipi sínu í Rangárósi og var fyrsta veturinn á Hrafntóftum. Þar fæddi Ingunn kona hans son sem nefndur var Hrafn og varð síðar fyrsti lögsögumaður Alþingis. Ketill nam svo öll lönd milli Þjórsár og Markarfljóts en aðrir menn fengu síðar huta af landnámi hans. „Ketill eignaði sér einkum land milli Rangár og Hróarslækjar, allt fyrir neðan Reyðarvatn, og bjó að Hofi,“ segir í Landnámu. Ketill hængur átti marga syni og voru ýmsir ættgöfgustu Íslendingar þjóðveldisaldar afkomendur hans. Stórólfur sonur hans var faðir Hrafnhildar, móður Hámundar, föður Gunnars á Hlíðarenda. Hróar Tungugoði. Hróar Tungugoði var íslenskur kappi á söguöld og á Hróarstunga að draga nafn af honum. Talið er að til hafi verið Íslendingasaga um hann sem kölluð hefur verið "Hróars saga Tungugoða" en ekkert hefur varðveist af henni og fátt er vitað um efni hennar. Hróar er nefndur í Landnámu, Njáls sögu og Fljótsdælu, en þeim ber ekki alltaf saman. Hróar er sagður hafa verið sonur Þórunnar dóttur Leiðólfs kappa og Una Garðarssonar Svavarssonar og segir frá því í Landnámu að Uni hafi barnað Þórunni þegar hann var gestur föður hennar eftir að hann hafði verið hrakinn úr landnámi sínu. Hann hafi ekki viljað kvænast henni og tvisvar reynt að strjúka en þegar hann strauk í seinna skiptið hafi Leiðólfur orðið svo reiður að hann drap hann og förunauta hans. Hróar tók allan arf eftir Leiðólf. Kona hans var Arngunnur Hámundardóttir, systir Gunnars á Hlíðarenda, og voru börn þeirra Ormhildur og Hámundur halti, sem bjó á Hámundarstöðum í Vopnafirði og er sagður hafa verið hinn mesti vígamaður; synir hans, Hróar og Vébrandur, eru nefndir í Njálu. Í Landnámu segir aftur á móti að Vébrandur hafi heitið sonur Hróars og ambáttar. Einnig segir þar að hann hafi tekið Þórunni brún Þorgilsdóttur úr Hvammi í Mýrdal frillutaki og hafi sonur þeirra heitið Þorfinnur. Hér af gerðust víg þeirra Hróars og systursona hans.“ Leiðólfur kappi. Leiðólfur kappi var landnámsmaður sem nam land fyrir austan Skaftá að Drífandi. Í Landnámu segir að landámsjörð hans hafi verið Á á Síðu en hann hafi einnig átt bú á Leiðólfsstöðum undir Leiðólfsfelli. Uni Garðarsson á Unaósi var hrakinn úr landnámi sínu eystra og fór þá fyrst suður í Álftafjörð en náði ekki staðfestu þar og hélt þá áfram suður fyrir land, kom til Leiðólfs og var þar um hríð. Hann barnaði Þórunni dóttur Leiðólfs en vildi ekki kvænast henn og reyndi að hlaupast á brott með menn sína en Leiðólfur elti hann uppi og þvingaði hann til að snúa aftur. Uni var þó enn ekki á því að gerast tengdasonur Leiðólfs og strauk öðru sinni en Leiðólfur elti hann uppi og var þá svo reiður að hann drap Una og förunauta hans alla. Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði. Sara Margrét Nordahl Michaelsdóttir. Sara Margrét Nordahl Michaelsdóttir er íslenskur leikari og leiklistarnemi. Hún er þekkt fyrir hlutverk sitt sem "Ylfa Dís Jónsdóttir" í Nætur-, Dag- og Fangavaktinni, og kvikmyndinni Bjarnfreðarson. Ingimundur gamli Þorsteinsson. Ingimundur gamli Þorsteinsson var landnámsmaður í Vatnsdal í Húnaþingi og bjó á Hofi. Frá honum og afkomendum hans segir í Vatnsdæla sögu. Í Landnámu segir frá því að Þorsteinn faðir Ingimundar, sonur Ketils raums hersis í Raumsdal í Noregi og Mjallar dóttur Áns bogsveigis hafi að áeggjan föður sín vegið Jökul son Ingimundar jarls af Gautlandi en áður en Jökull dó gaf hann Þorsteini líf og gekk hann síðan að eiga Þórdísi systur Jökuls. Ingimundur sonur þeirra ólst upp hjá Þóri í Hefni. Voru synir hans, Grímur og Hrómundur, fóstbræður Ingimundar og er sagt að Heiður völva hafi spáð fyrir þeim að þeir ættu allir eftir að búa í ófundnu landi vestur í hafi. Seinna varð Ingimundur mikill víkingur og herjaði jafnan á Bretlandseyjum ásamt Sæmundi suðureyska vini sínum. Einhverju sinni þegar þeir sneru heim til Noregs var Haraldur hárfagri í þann veginn að leggja til orrustu við óvini sína í Hafursfirði og gekk Ingimundur í lið með konungi en Sæmundur ekki. Eftir sigurinn í Hafursfjarðarorrustu gifti konungur Ingimundi Vigdísi dóttur Þóris jarls þegjanda. Nokkru síðar fór Ingimundur til Íslands með ráði konungs því hann festi hvergi yndi og nam þá Vatnsdal allan „upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan“ og bjó á Hofi. Hann er sagður hafa fundið birnu með tvo húna á Húnavatni og fært dýrin Haraldi konungi og hafi það verið í fyrsta sinn sem menn í Noregi sáu hvítabirni. Að launum hafi hann fengið skip með viðarfarmi og siglt á heimleiðinni fyrstur manna fyrir Skaga. Sæmundur suðureyski fór einnig til Íslands og nam land í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hrolleifur Arnaldsson eða Arnhallsson, bróðursonur Sæmundar, kom til hans ásamt Ljót móður sinni kom til Sæmundar sem vísaði honum til landa í Hrolleifsdal og þar nam Hrolleifur land. Hann lenti í deilum við Una í Unadal, vó son hans og var gerður héraðssekur. Sæmundur sendi þau mæðgin þá til Ingimundar gamla, sem tók við honum og fékk honum búsetu í Oddsás gegnt Hofi. Hann lenti þó fljótt í deilum við syni Ingimundar og kom til bardaga. Ingimundur, sem þá var orðinn gamall og blindur, lét fara með sig til þeirra til að stilla til friðar en Hrolleifur skaut spjóti í gegnum hann. Ingimundur leyndi sárinu og lét smalasvein teyma hestinn undir sér heim og sat dauður í öndvegi þegar synir hans komu heim. Ingimundarsynir eltu Hrolleif uppi, náðu honum og drápu. Þorsteinn sonur Ingimundar bjó á Hofi eftir föður sinn, Jökull bjó á Jökulstöðum, Þórir fékk goðorðið og bjó á Undirfelli, Högni fékk skipið Stíganda, Smiður bjó á Smiðsstöðum. Hrómundur Þórisson. Hrómundur Þórisson var landnámsmaður í Borgarfirði, nam Þverárdal og Þverárhlíð ofan til Hallarmúla fram til Þverár og bjó á Hrómundarstöðum (nú Karlsbrekku) í Þverárhlíð. Hrómundur var sonur Þóris Gunnlaugssonar í Hefni. Bróðir hans var Grímur háleyski og Ingimundur gamli Þorsteinsson ólst upp með þeim og var fóstbróðir þeirra. Hrómundur sigldi til Íslands og lenti í mynni Hvítár. Sonur hans var Gunnlaugur ormstunga Hrómundarson, langafi Gunnlaugs ormstungu Illugasonar. Grímur háleyski Þórisson. Grímur háleyski Þórisson var landnámsmaður í Borgarfirði. Skalla-Grímur gaf honum land fyrir sunnan fjörð á milli Andakílsár og Grímsár og bjó hann á Hvanneyri. Grímur var sonur Þóris í Hefni að því er segir í Landnámabók. Bróðir hans var Hrómundur landnámsmaður í Þverárhlíð og Ingimundur gamli Þorsteinsson ólst upp með þeim og var fóstbróðir þeirra. Seinna var Grímur með Kveld-Úlfi og var stýrimaður á skipi hans þegar haldið var til Íslands. Kona hans var Svanlaug, dóttir Þormóðar Bresasonar landnámsmanns á Akranesi, og var sonur þeirra Úlfur, sem nam land milli Grímsár og jökla og bjó á Geitlandi. Sumarólympíuleikarnir 1984. Fánar dregnir að húni fyrir verðlaunaafhendingu í skotfimi. Sumarólympíuleikarnir 1984 voru haldnir í Los Angeles, Kaliforníu í Bandaríkjunum 28. júlí til 12. ágúst 1984. Lukkudýr leikanna var Ólympíuörninn Sámur. Forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, setti leikana. Vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjamanna að hunsa Ólympíuleikana í Moskvu 1980 ákváðu fjórtán lönd í Austurblokkinni og bandamenn þeirra að hunsa þessa ólympíuleika. Þar á meðal voru Sovétríkin, Austur-Þýskaland og Kúba. Íran og Líbýa hunsuðu einnig leikana, en af öðrum ástæðum. Þessi lönd skipulögðu Vináttuleikana í níu löndum Ólympíuleikunum til höfuðs. Keppnisgreinar. Keppt var í 221 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Handknattleikskeppni ÓL 1984. Vegna sniðgöngu nokkurra Austur-Evrópuríkja bauðst íslenska handknattleiksliðinu að taka þátt á leikunum. Keppt var í tveimur sex liða riðlum. Íslenska liðið hóf keppni gegn Júgóslövum og missti góða forystu niður í jafntefli á lokasprettinum. Því næst kom stórtap gegn Rúmenum. Í kjölfarið komu góðir sigrar gegn Japönum, Alsír og Sviss. Loks tapaði íslenska liðið fyrir Svíum í leik um fimmta sætið. Júgóslavar urðu Ólympíumeistarar eftir sigur á Vestur-Þjóðverjum í úrslitum og Rúmenar höfnuðu í þriðja sæti. Með árangri sínum tryggðu Íslendingar sér sæti á heimsmeistaramótinu í Sviss 1986. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar fjóra sundmenn, sjö frjálsíþróttamenn, tvo júdókappa og tvo kappsiglingarmenn á leikana. Bjarni Friðriksson varð hetja Íslendinga á leikunum þegar hann hlaut bronsverðlaun í -95 kílógramma flokki í júdó. Voru það fyrstu verðlaun Íslands frá því í Melbourne 1956. Einar Vilhjálmsson náði langbestum árangri frjálsíþróttafólksins. Hann varð sjötti í spjótkastskeppninni. Kringlukastarinn Vésteinn Hafsteinsson féll á lyfjaprófi og var árangur hans strikaður út. Fjögur Íslandsmet litu dagsins ljós í sundkeppninni, þar sem Guðrún Fema Ágústsdóttir og Tryggvi Helgason slógu tvö met hvort. Siglingamennirnir Gunnlaugur Jónasson og Jón Pétursson kepptu í siglingu á 470-tvímenningskænu og höfnuðu í 23. sæti af 28. Sumarólympíuleikarnir 1940. Sumarólympíuleikarnir 1940 átti upphaflega að halda í Tókýó í Japan 21. september til 6. október 1940 voru felldir niður vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Japan missti raunar réttinn til að halda leikana eftir upphaf annars stríðs Kína og Japans 1937 og Alþjóða ólympíunefndin lét Finna fá réttinn í staðinn. Leikana átti að halda í Helsinki 20. júlí til 4. ágúst 1940 en þeim var frestað um óákveðinn tíma vegna heimsstyrjaldarinnar. Sumarólympíuleikarnir 1952 voru haldnir í Helsinki og sumarólympíuleikarnir 1964 í Tókýó. Sumarólympíuleikarnir 1944. Sumarólympíuleikarnir 1944 áttu að vera í London, Bretlandi, sem hafði unnið réttinn á fundi Alþjóða ólympíunefndarinnar 1939. Átta borgir föluðust eftir leikunum. Þær voru auk Lundúna: Róm, Detroit, Lausanne, Aþena, Búdapest, Helsinki og Montreal. Leikarnir voru felldir niður vegna Síðari heimsstyrjaldarinnar. Leikarnir voru næst haldnir í London 1948. Sumarólympíuleikarnir 1916. Sumarólympíuleikarnir 1916 áttu að vera í Berlín í Þýskalandi. Þeim var aflýst vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar sem braust út árið 1914. Þótt leikarnir hafi aldrei farið fram, teljast þeir hinir sjöttu í sögu Ólympíuleikja nútímans. Aðdragandi og skipulag. Íþróttasýning á Deutches Stadion árið 1923. Sex borgir föluðust eftir að halda leikana. Auk Berlínar voru það: Búdapest, Amsterdam, Brussel, Cleveland og Alexandría í Egyptalandi. Pierre de Coubertin, guðfaðir Ólympíuleikanna, studdi eindregið að Berlín yrði fyrir valinu, þar sem hann vonaðist til þess að það mætti verða til að afstýra styrjöld í Evrópu. Vinna við ólympíuleikvanginn, Deutsches Stadion, hófst árið 1912. Völlurinn var vígður 8. júní 1913 við hátíðlega athöfn. Í tengslum við leikanna stóð til að halda sérstaka vetraríþróttaviku í Svartaskógi með skíða- og skautakeppni. Líta má á þær hugmyndir sem forvera fyrstu Vetrarólympíuleikanna sem haldnir voru árið 1924. Belsíbúbb. Belsíbúbb eða Balsebúbb (Orðrétt: Flugnahöfðinginn) er nafn á púka sem stundum er talinn vera Satan. Uppruni hans mun vera semíski guðinn Baal. Sumarólympíuleikarnir 1896. Sumarólympíuleikarnir 1896 voru haldnir í Aþenu, Grikklandi 6. til 15. apríl 1896. Þetta voru fyrstu Ólympíuleikar sem haldnir höfðu verið síðan Ólympíuleikarnir fornu voru lagðir niður á 4. eða 5. öld. Leikarnir voru haldnir í endurbyggðum fornum leikvangi Panaþenaíkóleikvanginum þar sem Ólympíuleikar Zappas höfðu verið haldnir þrisvar áður að undirlagi gríska athafnamannsins Evangelis Zappas. Þrátt fyrir ýmis vandræði töldust leikarnir hafa heppnast vel og voru stærsta alþjóðlega fjölgreinakeppnin sem haldin hafði verið fram að þeim tíma. Íþróttamenn frá fjórtán löndum tóku þátt að talið er. Flestir þeirra voru tilfallandi í Aþenu á þeim tíma en voru ekki sendir þangað af samtökum í heimalöndum sínum. Hugmyndin um landslið varð ekki mikilvæg fyrr en síðar og blönduð lið tóku þátt í liðakeppnum á leikunum. Sigurvegarar í hverri grein fengu verðlaunapening úr silfri og ólífugrein. Konum var meinuð þátttaka á leikunum. Keppnisgreinar. Keppt var í 43 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Alþýðumaðurinn Spyridon Louis varð þjóðhetja eftir sigurinn í Maraþonhlaupinu. Þjóðverjinn Alfred Flatow vann til verðlauna í fimleikum. Hann lét síðar lífið í útrýmingarbúðum nasista. Bandaríkjamaðurinn James Connolly var fyrsti gullverðlaunahafi leikanna þegar hann sigraði í þrístökki. Hann varð síðar afkastamikill rithöfundur. Robert Garrett, nemandi við Princeton-háskóla sigraði í kúluvarpi og kringlukasti. Sigur hans í síðarnefndu greininni olli miklu uppnámi í Grikklandi þar sem kringlukast var í miklum metum. Ástæðan var ekki hvað síst sú að Garrett hafði enga reynslu í greininni og skráði sig til gamans. Hann grýtti kringlunni á þann hátt sem honum þótti þægilegast, en grískur kringlukastarar reyndu að nota sömu stellingar og sjá mátti á fornum málverkum og myndastyttum. Spyridon Louis varð þjóðhetja í Grikklandi þegar hann sigraði í Maraþonhlaupi, en aldrei áður hafði verið keppt í þeirri grein. Um tíma leit út fyrir að Grikkir hefðu unnið þrefalt í hlaupinu, en síðar kom í ljós að keppandinn í þriðja sæti hafði setið í hestvagni hluta leiðarinnar. Þjóðverjinn Carl Schuhmann vann til fernra gullverðlauna. Þrennra í fimleikakeppninni og þeirra fjórðu í fangbrögðum. Hann tók einnig þátt í Ólympískum Lyftingum og frjálsum íþróttum á leikunum. Bretinn Launceston Elliot og Daninn Viggo Jensen börðust um verðlaunin í ólympískum lyftingum. Elliot sigraði í lyftingum með annarri hendi, en Jensen var úrskurðaður sigurvegari í keppni með báðum höndum. Reyndar lyftu þeir sömu þyngd í þeirri grein, en áhorfendur mátu það svo að Daninn hefði ekki þurft að reyna jafn mikið á sig. Ungverjinn Alfréd Hajós hlaut tvenn gullverðlaun í sundi. Sundkeppnin fór fram í köldu Miðjarðarhafinu við erfiðar aðstæður. Hann var yngstur sigurvegara á leikunum í Aþenu, átján ára að aldri. Austurríkismaðurinn Adolf Schmal varð hlutskarpastur í óvenjulegri keppnisgrein í hjólreiðum, þar sem keppendur reyndu að komast sem lengst á tólf klukkustundum. Schmal lagði um 315 kílómetra að baki á þessum tíma. Holger Nielsen frá Danmörku vann til brons og silfurverðlauna í skotfimi og skylmingum, auk þess að keppa í kringlukasti á leikunum. Hann er kunnastur fyrir að vera faðir handknattleiksíþróttarinnar. Kvikmynd.is. Vídeóvefsíðan kvikmynd.is var stofnuð árið 2001 af þeim Sindra Bergmann og Þóroddi Bjarnasyni. Upphaflega hugmyndin var að búa til síðu á netinu sem sýndi auglýsingavídeó og myndlistarvídeó. Fljótlega urðu þó flokkarnir mun fleiri. Fyrstu árin var efni eingöngu sett inn af stjórnendum síðunnar en frá og með árinu 2006 gátu notendur sent inn myndbönd, rétt eins og á youtube.com. Kvikmynd.is hefur sérstöðu sem fyrsta íslenska vídeósíðan og nýtur enn í dag þeirrar sérstöðu að vera eina meiriháttar íslenska myndbandasíðan á netinu. Sumarólympíuleikarnir 1900. Veggspjald fyrir ólympíuleikana í París 1900. Sumarólympíuleikarnir 1900 voru haldnir í tengslum við heimssýninguna í París 14. maí til 28. október 1900. Engar opnunar- og lokaathafnir voru haldnar og leikarnir féllu mikið til í skuggann af heimssýningunni. Nefndin sem sá um leikana hélt fjöldann allan af alþjóðlegum íþróttamótum sem voru í fæstum tilvikum tengd við Ólympíuleikana. Mikið af atvinnumönnum keppti í leikunum og verðlaunagripir, bikarar eða jafnvel peningar voru veittir í verðlaun fremur en verðlaunapeningar. Konur tóku í fyrsta sinn þátt í þessum leikum. Eftir leikana sagði stofnandi Alþjóða ólympíunefndarinnar Pierre de Coubertin að það væri kraftaverk að ólympíuhugsjónin hefði lifað þessa leika af. Keppnisgreinar. Keppt var í 20 flokkum íþrótta. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Alvin Kraenzlein vann til fjögurra gullverðlauna á leikunum. Hann var mesti grindahlaupari sinnar tíðar og innleiddi stökkstíl þann sem hefur verið ríkjandi í greininni upp frá því. Bandaríkjamaðurinn Alvin Kraenzlein vann fern gullverðlaun í frjálsíþróttakeppninni: í 60 metra hlaupi, 110 og 200 metra grindahlaupi og langstökki. Í síðastnefndu greininni stökk Kraenzlein einum sentimetra lengra en keppinautur hans Meyer Prinstein, sem náð hafði þeim árangri í forkeppninni. Prinstein brást ókvæða við þessum fregnum, enda höfðu þeir félagarnir gert með sér samkomulag um að sniðganga úrslitakeppnina þar sem hún fór fram á sunnudegi. Michel Théato kom fyrstur í mark eftir skrautlega keppni í Maraonhlaupi. Keppnisbrautin átti að mestu að fylgja hinum fornu borgarmúrum Parísar, en var illa merkt svo sumir keppendur villtust eða lentu í vandræðum vegna umferðar bíla og gangandi fólks. Bandarísku keppendurnir staðhæfðu að fljótustu hlaupararnir hefðu stytt sér leið, en þeim ásökunum var hafnað. Frakkar fögnuðu vel sigri Théatos. Síðar hefur komið í ljós að hann var fæddur í Lúxemborg. Vilja Lúxemborgarar telja hann fyrsta Ólympíumeistara sinn, en Alþjóðaólympíunefndin hefur ekki fallist á það. Tenniskonan Charlotte Cooper, fyrsta konan til að vinna gullverðlaun í sögu Ólympíuleikanna. Tenniskonan Charlotte Cooper frá Englandi varð fyrst kvenna til að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikum. Hún sigraði bæði í kvennaflokknum og í tvenndarleik. Keppt var í krikket í fyrsta og eina sinn í sögu Ólympíuleikanna. Tvö lið tóku þátt í keppninni, breskt og franskt félagslið og unnu Bretarnir auðveldan sigur. Liðsmenn beggja liða gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir væru að keppa á Ólympíuleikunum. Fjöldi íþróttasýninga og –kappleikja fór fram samhliða heimssýningunni og kom það í hlut Alþjóðaólympíunefndarinnar að ákveða árið 1912 hverjar þeirra skyldu teljast til Ólympíuleikanna. Sömu sögu er að segja um knattspyrnukeppnina. Þar léku þrjú lið tvo leiki. Fyrst unnu fulltrúar Bretlands, áhugamannaliðið Upton Park F.C. lið frá Frakklandi 4:0 að viðstöddum 500 áhorfendum. Síðan unnu Frakkarnir lið stúdenta frá Brüssel-háskóla. Á grunni þessara úrslita úthlutaði Ólympíunefndin löngu síðar gull-, silfur- og bronsverðlaunum í knattspyrnu. Ítalskur knapi Giovanni Giorgio Trissino var nærri því að komast í sögubækurnar og hljóta tvenn verðlaun í sömu grein. Hann keppti á sitthvorum hestinum í stökkkeppninni og hafnaði í fyrsta og fjórða sæti. Keppendur á Ólympíuleikunum í París stinga sér til sunds í Signu. Frakkinn Gustave Sandras hlaut gullverðlaunin í fimleikum. 135 íþróttamenn tóku þátt í fimleikakeppninni, þar sem aðeins var keppt um ein gullverðlaun. Keppendur tókust á við ellefu mismunandi þrautir og söfnuðu stigum. Flestar þrautirnar falla undir hefðbundna skilgreiningu á fimleikum, en þar var líka að finna greinar á borð við langstökk og kraftlyftingar. Yngsti gullverðlaunahafi Ólympíusögunnar var krýndur í róðrarkeppni leikanna. Róðrarlið frá Hollandi nýtti sér glufu í keppnisreglunum og ráku stýrimanninn sinn, sem var talinn of þungur, en fengu sjö ára franskan pilt í hans stað. Nafn hans er hins vegar óþekkt. Sundkeppni leikanna fór fram í ánni Signu. Þar var boðið upp á óvenjulega keppnisgrein: hindrunarsund. Hún fól meðal annars í sér að sundmenn áttu ýmist að kafa undir báta eða klifra yfir þá á leið sinni í mark. Sumarólympíuleikarnir 1908. Sumarólympíuleikarnir 1908 voru haldnir í London 27. apríl til 31. október 1908. Þetta teljast fjórðu formlegu Ólympíuleikar nútímans, en leikarnir 1906 teljast í dag ekki fullgildir Ólympíuleikar. Íslendingar tóku í fyrsta sinn þátt í þessum leikum, sendu sýningarhóp glímumanna á vettvang auk þess sem Íslendingur var í danska keppnisliðinu í fangbrögðum. Aðdragandi og skipulag. Upphaflega stóð til að halda leikana í Róm en eldgos í Vesúvíusi sem olli miklu tjóni í Napólí varð til þess að staðnum var breytt. Sérstakur leikvangur, White City Stadium sem tók 68.000 manns í sæti, var reistur fyrir leikana. Skráning þátttakenda var einungis leyfð í gegnum ólympíunefndir þátttökulandanna eins og verið hafði á leikunum 1906. 22 ólympíunefndir tóku þátt og liðin gengu flest inn á leikvanginn með þjóðfána. Finnar hefðu átt að ganga undir fána Rússlands þar sem Finnland var þá hluti af Rússneska keisaradæminu en þeir neituðu heldur að taka þátt í opnunarathöfninni. Hið sama gerðu Svíar þar sem gleymst hafði að setja sænska fánann upp við leikvanginn. Keppnisgreinar. Keppt var um 110 gullverðlaun í 24 íþróttaflokkum. (Fjöldi gullverðlauna gefinn upp í sviga.) Einstakir afreksmenn. Guðfræðineminn Smithson í hlaupabúningi með Biblíu í hönd á Ólympíuleikunum 1908. Suður-Afríkumaðurinn Reggie Walker varð yngstur allra sigurvegara Ólympíusögunni í 100 metra hlaupi, 19 ára og 128 daga gamall. Bandaríski guðfræðineminn Forrest Smithson sigraði í 110 metra grindahlaupiá nýju heimsmeti, 15,0 sekúndum. Afrekið var þeim mun meira í ljósi þess að hlaupið var á grasi en ekki hefðbundinni hlaupabraut. Fræg uppstillt ljósmynd af Smithson á leikunum sýnir hann með Biblíu í hönd. Vegna hennar varð til sú flökkusögn, sem ratað hefur inn í fjölda bóka um sögu Ólympíuleikanna, að Smithson hafi verið ósáttur við að þurfa að hlaupa úrslitahlaupið á sunnudegi, en gert þá málamiðlun við sjálfan sig að hlaupa með hina helgu bók. Í raun fór hlaupið fram á laugardegi. Hjónin Madge og Edgar Myers sigruðu í parakeppni í listdansi á skautum. Keppnin í Maraþonhlaupi varð hádramatísk. Ítalinn Dorando Pietri kom fyrstur inn á leikvanginn, aðframkominn af þreytu og vatnsskorti. Hann byrjaði á að hlaupa í ranga átt og féll síðan nokkrum sinnum til jarðar, en starfsmenn mótsins hjálpuðu honum á fætur og studdu yfir marklínuna. Fyrir vikið var Pietri dæmdur úr leik og kom gullið í hlut Bandaríkjamannsins Johnny Hayes. Pietro varð þó hetja keppninnar. Honum var veittur sérstakur silfurbikar og tónskáldið Irving Berlin samdi tónverk honum til heiðurs. Keppt var í kappgöngu í fyrsta sinn á þessum leikum. Bretinn George Lamer fór með sigur af hólmi í báðum keppnisvegalengdunum: 3.500 metrum og 10 mílum. Leikarnir í Lundúnum voru þeir fyrstu sem innihéldu vetraríþróttir. Keppt var í skautadansi nokkrum mánuðum eftir að aðalhluta leikanna lauk. Tvö lið voru skráð til keppni í ruðningi. Ástralska landsliðið keppti undir merkjum Ástralasíu (sameiginlegs liðs Ástralíu og Nýja Sjálands) og lið frá Cornwall, sem var fulltrúi Bretlands. Ástralarnir sigruðu vandræðalítið, 32:3. Bretar fóru með sigur af hólmi í knattspyrnukeppninni, lögðu Dani í úrslitaleiknum. Í undanúrslitum höfðu Danir unnið Frakka 17:0 þar sem Sophus "Krølben" Nielsen skoraði tíu mörk. Það var um áratuga skeið heimsmet í landsleik í knattspyrnu. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Sú hugmynd að Ísland tæki þátt í Ólympíuleikunum í Lundúnum mun hafa komið fram á félagsfundi Ungmennafélags Akureyrar snemma árs 1907. Formaður félagsins, Jóhannes Jósefsson, var um þær mundir einn kunnast glímukappi Íslands og tók hugmyndinni opnum örmum. Auk þess að vera glímukóngur Íslands, hafði Jóhannes kynnt sér erlendar tegundir fangbragða og hélt út til æfinga í grísk-rómverskri glímu sumarið 1907, með það að markmiði að keppa á Ólympíuleikum. Þátttaka Íslands var vandkvæðum háð, enda landið ekki sjálfstætt og hafði því ekki eigin Ólympíunefnd. Fyrir milligöngu Einars Benediktssonar skálds og athafnamanns fékkst hins vegar grænt ljós frá skipuleggjendum leikanna þess efnis að Ísland sendi hóp manna til að sýna íslenska glímu. Sjálfur bjóst Jóhannes við að keppa í grísk-rómverskri glímu. Úr varð að Íslendingarnir fengu að ganga inn á völlinn undir eigin merkjum, en Jóhannes þurfti að keppa fyrir hönd danska liðsins. Aðrir í íslenska glímuhópnum voru: Hallgrímur Benediktsson, Guðmundur Sigurjónsson, Sigurjón Pétursson, Páll Guttormsson, Jón Pálsson og Pétur Sigfússon. Var góður rómur gerður að glímusýningunni, en einnig sýndi hópurinn íslenska glímu í leikhúsi í Lundúnum í nokkur skipti að leikunum loknum. Jóhannes Jósefsson keppti í millivigtarflokki í grísk-rómversku glímunni og hóf keppni í 16-manna úrslitum. Hann vann góða sigra í tveimur fyrstu viðureignunum, en viðbeinsbrotnaði í undanúrslitaviðureign gegn Svíanum Mauritz Andersson og hafnaði því í fjórða sæti, sem var besti árangur Íslendings á Ólympíuleikum til ársins 1956. Verðlaunaskipting eftir löndum. Verðlaunaskjal sem afhent var öllum verðlaunahöfum Ólympíuleikanna 1908. Svetozar Gligorić. Svetozar Gligorić (serbneska: Светозар Глигорић, f. 2. febrúar 1923 – 14. ágúst 2012) var serbneskur og júgóslavneskur stórmeistari í skák. Hann vann júgóslavneska meistaramótið í skák tólf sinnum og er talinn vera besti skákmaður sem Serbía hefur nokkru sinni alið. Á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar var hann á meðal tíu bestu skákmanna heims. Gligorić, Svetozar Hollensk vörn. Hollensk vörn er skákbyrjun, sem hefst með leikjunum 1.d4 f5. Ef svartur er reiðbúinn að tefla franska vörn er hollenskri vörn oft leikið eftir leikjaröðinni 1.d4 e6 2.c4 (2.e4 er frönsk vörn) 2...f5. Með þessu forðast svartur nokkur afbrigði hollensku varnarinnar. Kóngsindversk vörn. Svartur fylgir eftir með...Bg7 og...0-0. Grünfeldsvörn kemur upp eftir 3...d5. Í þriðja leik leikur hvítur yfirleitt 3.Rc3 en einnig er algengt að leika 3.g3 eða 3.Rf3. Krýsuvíkurkirkja. Krýsuvíkurkirkja eins og hún leit út sumarið 2007. Mynd tekin inni í kirkjunni. Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju tvisvar á ári. Kirkjan var í Hafnarfjarðarprestakalli. Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010. Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964. Krýsuvíkurkirkja var úr timbri og af eldri gerð turnlausra kirkna, reist 1857 af Beinteini Stefánssyni smið. Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð. Fleiri þúsund gestir komu í kirkjuna árlega og skrifuðu nafn sitt í gestabók sem þar var. Ýmsir - Fjórtán lög frá þjóðhátíð Vestmannaeyja. Fjórtán lög frá þjóðhátíð Vestmannaeyja er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1984. Á henni flytur Sextett Ólafs Gauks, Svanhildur Jakobsdóttir og Rúnar Gunnarsson fjórtán lög frá þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson. Hljóðritun hljómplötunnar fór fram í upptökusal sjónvarpsins og sá Jón Þór Hannesson um hljóðritun. Myndina frá Vestmannaeyjum á framhlið plötunnar tók Oddgeir Kristjánsson. Myndina af sextett Ólafs Gauks tók Óli Páll. Setningu á bakhlið annaðist Prentsmiðja Jóns Helgasonar en um myndamót og prentun sá Kassagerð Reykjavíkur. Kastalinn í Mannheim. Kastalinn í Mannheim var reistur sem aðsetur kjörfurstanna á 18. öld. Hann er næststærsti barokkkastali Evrópu, á eftir Versölum í Frakklandi. Byggingasaga. Í apríl 1720 ákvað kjörfurstinn Karl Philipp að setjast að í Mannheim og láta reisa þar nýjan kastala í barokkstíl. Fyrstu álmurnar voru 11 ár í byggingu og voru vígðar 1731. Þá flutti kjörfurstinn inn, en fram að þessu hafði hann haft aðsetur sitt í Heidelberg. Í kastalanum var kapella og þar var eiginkona Karls Philipps lögð til grafar 1734. Árið 1737 var hafist handa við að reisa fleiri álmur. Þær framkvæmdir stóðu til 1742. Álmurnar voru teknar í notkun með vígslu óperusalarins, en sama dag var þar haldin giftingarveisla fyrir kjörfurstann Karl Theodor. Seinna það ár dó hann hins vegar og var einnig lagður til hvildar í hallarkapellunni. Árið 1751 var aftur hafist handa við að reisa fleiri álmur og stóðu framkvæmdir að þessu sinni í níu ár. Í nýju álmunum var innréttað lista- og náttúfræðisafn, fjárhirslur, bókasafn og skjalasafn. Nýju álmurnar voru vígðar 1760 og var þá kastalasamstæðan öll orðin meðal stærstu í Evrópu. Ef tekinn er barokkstíllinn eingöngu, var kastalinn sá næststærsti í Evrópu, á eftir kastalasamstæðunni í Versölum. Við byggingu þriðju álmusamstæðunnar var þess því sérstaklega gætt að hafa fleiri glugga en í Versölum. Gluggarnir í kastalanum í Mannheim eru einum fleiri en í Versölum. Kjörfurstarnir stóðu fyrir margbreytilegri menningu í kastalanum. Þar voru listamenn eins og Goethe og Mozart vel séðir gestir. Napoleontíminn. Árið 1778 ákvað kjörfurstinn Karl Theodor að flytja aðsetur sitt til München þegar hann hlaut Bæjaraland að erfðum. Kastalinn var því ekki lengur í notkun, að öðru leyti en því að þjónar héldu honum við. Árið 1795 ruddist franskur byltingarher inn í landið. Þeir tóku kastalann og notuðu hann sem herstöð. Þegar austurrískur her náði að hrekja þá þaðan sama ár, urðu nokkrar skemmdir á kastalanum, þar á meðal brann óperusalurinn. Honum var þá breytt í fangelsi. Árið 1802 lést Karl Theodor og eignaðist þá landið Baden kastalann. Heimstyrjöld og nýting í dag. Fyrirlestrarsalur sem háskólinn í borginni notar Loftárásir heimstyrjaldarinnar síðari nær gjöreyðilögðu kastalann. Fjarlægja átti rústirnar en 1947 var ákveðið að endurreisa að minnsta kosti eina álmu. Eftir það var næsta álma einnig endurreist, þar til kastalinn hafði allur verið endurbyggður. Því verki var þó ekki lokið fyrr en árið 2007. Hann er opinn almenningi. Stór hluti kastalans er notaður af háskólanum í borginni. Jesúítakirkjan í Mannheim. Jesúítakirkjan í Mannheim séð að framan Jesúítakirkjan í Mannheim er kaþólsk kirkja í miðborg Mannheim. Hún er talin mesta barokkkirkja suðvesturhluta Þýskalands. Saga kirkjunnar. Það var kjörfurstinn Karl Philipp sem lét reisa kirkjuna 1733. Hún var 26 ár í byggingu. Á meðan lést Karl Philipp og Carl Theodor var þá tekinn við. Kirkjan var vígð 1756 og helguð heilögum Ignatius Loyola (upphafsmanni jesúítareglunnar) og heilögum Fransiskus Javier. Kirkjan er með stórt hvolfþak sem nær 75 metra hæð. Framhliðin er prýdd tveimur turnum úr rauðum sandsteini. Freskurnar í skipinu voru málaðar af Egid Asam frá München. Hvolfþakið sýnir þætti úr ævi Ignatius Loyola. Veggina skreytti hann með 400 m² stórri fresku. Asam lést við málningarstörf sín í kirkjunni 1750. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari stórskemmdist kirkjan, sérstaklega skipið og kórinn. Þá var búið að bjarga helstu listaverkum hennar. Eftir stríð var ákveðið að endurreisa kirkjuna í upprunalegum stíl. Kirkjan er sóknarkirkja kaþólikka í borginni en einnig kirkja spænska safnaðarins. Listaverk. Mörg altari og altaristöflur prýða kirkjuna að innan. Þeirra helst er háaltarið í kórnum, sem er geysimikið listaverk. Það var tekið niður og flutt annað meðan stríðið stóð yfir og sett upp aftur eftir stríð. Mestur hluti freskunnar eftir Asam eyðilagðist í stríðinu og var ekki endurgert. Orgel. Orgelhúsið var smiðað af myndhöggvaranum Paul Egell. Það slapp að mestu við eyðileggingu stríðsins vegna þess að það hafði verið klætt stálteppi til varnar. Það var lagfært 1952 en 1965 fékk orgelhúsið nýtt orgel. Magnús Erlingsson (konungur). Magnús konungur hylltur. Myndskreyting við Magnúsar sögu Erlingssonar, útg. 1899. Magnús Erlingsson eða Magnús 5. (1156 – 1184) var konungur Noregs á árunum 1161-1184 en fyrsta árið var Hákon herðabreiður einnig konungur. Frá 1177 gerði Sverrir Sigurðsson tilkall til valda og eru þeir báðir taldir konungar á þeim tíma. Magnús var sonur höfðingjans Erlings skakka Ormssonar og konu hans, Kristínar dóttur Sigurðar Jórsalafara, sem var konungur 1103-1130. Þar sem hann var ekki konungssonur drógu ýmsir tilkall hans til krúnunnar í efa en hann naut hins vegar stuðnings kirkjunnar þar sem hann var fæddur í hjónabandi og móðir hans var konungsdóttir fædd í hjónabandi, en margir Noregskonunga á 11. og 12. öld voru frillubornir. Ingi krypplingur hafði komið báðum bræðrum sínum og meðkonungum fyrir kattarnef en féll árið 1161 fyrir mönnum Hákonar herðabreiðs, frilluborins bróðursonar síns. Erlingur skakki hafði verið annar helsti ráðgjafi Inga konungs og fékk nú stuðningsmenn Inga til kjósa fimm ára gamlan son sinn til konungs. Hann fékk til þess stuðning Eysteins erkibiskups í Niðarósi, sem krýndi hinn unga konung, en féllst í staðinn á að setja fram ný erfðalög þar sem kirkjan hefði meiri áhrif á val nýs konungs. Hákon herðabreiður féll fyrir mönnum Erlings skakka og Magnúsar þegar árið 1162 og eftir það ríkti Magnús einn. Birkibeinakonungurinn Eysteinn meyla, sonur Eysteins konungs Haraldssonar, gerði tilkall til krúnunnar en féll í bardaga 1177. Sama ár kom Sverrir Sigurðsson frá Færeyjum, lýsti því yfir að hann væri sonur Sigurðar munns og tók við leiðtogahlutverkinu hjá birkibeinum. Hann naut stuðnings Þrænda og Erlingur skakki féll í bardaga á Kálfsskinni við Niðarós 1179. Magnús varð að flýja til Danmerkur en sneri þó aftur og næstu árin gekk á með skærum og bardögum. Að lokum féll Magnús í bardaga árið 1184 ásamt tvö þúsund manna liði sínu. Hann var ókvæntur og barnlaus. Steffi Graf. Steffi Graf er sigursælasta tenniskona Þýskalands Steffi Graf ("Stephanie Maria Graf", f. 14. júní 1969 í Mannheim) er þekktasta og árangursríkasta kventennisstjarna Þýskalands. Hún hefur sigrað á 107 mótum, þar af 22 stórmótum. Hún hefur lengst allra kventennisleikara verið í efsta sæti heimslista tennisleikara, eða í 377 vikur alls. Undrabarnið. Steffi Graf fæddist í Mannheim en ólst upp í Brühl við norðurmörk Mannheim. Hún var aðeins þriggja ára þegar faðir hennar, Peter Graf, gaf henni tennisspaða. Hann hafði sjálfur verið tennisleikari og sá strax hvað í dóttur hans bjó. Hún tók þátt í barnamótum og sigraði sitt fyrsta mót í München aðeins sjö ára gömul. Ellefu ára hóf hún þátttöku í tennismótum fyrir fullorðna. Á fyrsta móti sínu stóð hún lengi vel í hárinu á Evu Pfaff (nr. 80 á heimslistanum þá), sem tókst með naumindum að knýja fram sigur. Það var þá sem talað var um undrabarnið Steffi Graf. Aðeins 13 ára gömul gerðist Graf atvinnumaður í tennis. Viku seinna var hún sett á heimslistann sem nr. 214, yngsta manneskjan sem sett hefur verið á þennan lista. 1984 tók Graf þátt í sínum fyrstu stórmótum, Opna ástralska mótið og Wimbledon. Í báðum mótum komst hún í fjórðungsúrslit. Í lok ársins var hún kominn í 22. sæti heimslistans. Árið 1986 sigraði Graf í 8 mótum. Hún sigraði meðal annarra Chris Evert, sem var nr. 2 á heimslistanum. Seinna á árinu sigraði hún Opan mótið í Berlín með því að leggja Martinu Navratilovu að velli, sem þá var besta tennisleikkona heims. Í lok ársins var Steffi Graf komin í 3. sæti heimslistans, á eftir Evert og Navratilovu. Graf var þá aðeins 16 ára. Heimsstjarna. 1987 brustu allar flóðgáttir. Steffi Graf tók þátt í 75 leikjum og tapaði eingöngu tveimur þeirra. Hún sigraði á 11 mótum, þar á meðal í fyrsta sinn á stórmóti, Opna bandaríska mótinu. Við það komst hún á efsta sæti heimslistans. 1988 náði Graf þeim merka áfanga að sigra á öllum fjórum stórmótum á einu og sama árinu. Þau eru Opna ástralska mótið, Opna franska mótið, Wimbledon og Opna bandaríska mótið. Slíkt kallast "Grand Slam". Graf gerði þó betur, því hún varð einnig Ólympíumeistari það árið. Slíkt hefur engin tennisleikari afrekað fyrr né síðar. Næsta ár var hún nærri því búin að endurtaka leikinn og vinna "Grand Slam". En á Opna franska mótinu beið hún lægri hlut í úrslitaleiknum fyrir Arantxa Sánchez Vicario með minnsta mögulega mun. Næstu árin hélt Graf áfram að sigra á flestum stórmótum en náði ekki að afreka það aftur að sigra þau öll á sama ári. Hún sigraði i 66 leikjum í röð, sem er næstlengsta sigurganga í tennisheiminum fyrr og síðar. Hún vermdi efsta sæti heimslistans frá ágúst 1987 til mars 1991, er næsta stórstjanrnan í tennis tók við, Monica Seles. Graf náði aftur efsta sætinu 1993 og hélt því til 1996, þar til Martina Hingis tók við. Alls var Graf 377 vikur í efsta sætinu, lengst allra tennisleikara fyrr og síðar. Erfiðleikar og endalok ferils. Árin 1996-1998 voru Steffi Graf og faðir hennar, Peter Graf, ákærð fyrir skattalagabrot. Á þessum tíma tók Graf þátt í færri mótum en áður. Árið 1997 tók hún til dæmis ekki þátt nema í fimm mótum (16 leikjum). Þannig missti hún af efsta sætinu á heimslistanum til Martinu Hingis. Peter Graf fékk þriggja ára og níu mánaða dóm en Steffi Graf slapp, þar sem fjármál hennar voru alfarið í höndum föður síns og hún hjálpaði til við rannsókn málsins. Í júní 1998 meiddist Graf á hné og þurfti að fara í uppskurð. Næstu tólf mánuði lék hún ekki tennis og var tekin af heimslistanum. Árið 1999 reyndi Graf endurkomu í tennisheiminum. Hún sigraði það ár sitt síðasta stórmót, Opna franska mótið, og náði að vinna sig upp í þriðja sæti heimslistans. Í ágúst 1999 þurfti hún að hætta leik vegna meiðsla í hné. Sama mánuð gaf hún út þá tilkynningu að hún myndi hætta allri keppni og leggja skóna á hilluna. Sverrir Sigurðsson (konungur). Nokkrar helstu orrustur Sverris konungs. Sverrir Sigurðsson (eða Sverrir Sigurðarson), oftast kallaður Sverrir konungur (um 1151 – 9. mars 1202), var konungur Noregs á árunum 1177 – 1202. Fram til 1184 var Magnús Erlingsson einnig konunngur og áttu þeir í stöðugu stríði. Uppruni Sverris. Sverrir fæddist líklega í Björgvin en þegar hann var fimm ára fluttu foreldrar hans, Gunnhildur og Unás kambari, til Færeyja en þaðan var Unás. Bróðir hans var Hrói biskup í Kirkjubæ og ólst Sverrir upp hjá honum, lærði til prests og hlaut vígslu. Það var ekki fyrr en þá sem Gunnhildur móðir hans sagði honum – eftir því sem segir í sögu Sverris – að hann væri ekki sonur Unáss, heldur væri faðir hans Sigurður munnur, sem var konungur Noregs 1136–1155. Nútíma sagnfræðingar telja þetta þó útilokað. Í Færeyjum er enn haldið á lofti þeirri sögn, að Sverrir sé fæddur í helli ofan við Kirkjubæ. Leiðtogi Birkibeina. Hvort sem Sverrir trúði því sjálfur að hann væri konungssonur eða ekki, hélt hann til Noregs 1177 en þar voru feðgarnir Magnús konungur og faðir hans, Erlingur skakki, alráðir. Sverrir fór fyrst til Austur-Gautlands í Svíþjóð og hitti Birgi brosa, jarl þar, en Birgitta kona hans var systir Sigurðar munns. Birgir vildi fyrst í stað ekki styðja Sverri því hann hafði heitið stuðningi við uppreisnarflokk birkibeina, manna Eysteins meylu, sem kvaðst vera sonur Eysteins konungs Haraldssonar. Eysteinn meyla hafði fallið í bardaga við menn Magnúsar konungs og Erlings skakka fyrr sama ár og flokkurinn var án leiðtoga. Sverrir hélt þá til Vermlands, þar sem leifar birkibeinaflokksins voru, og eftir nokkrar viðræður ákvað hann að gerast foringi þeirra. Sverrir reyndist fær leiðtogi og herforingi og ekki leið á löngu þar til honum hafði tekist að fá sig hylltan sem konung á Eyraþingi. Næstu árin háðu birkibeinar skæruhernað gegn mönnum Magnúsar og Erlings skakka og var stöðugt á faraldsfæti. Erlingur skakki féll í bardaga 1179 og þar með hafði Sverrir tryggt yfirráð sín yfir Þrændalögum. Magnús flúði til Danmerkur, en sneri þó aftur og skæruhernaðurinn hélt áfram. Reynt var að koma á friðarsamningum en Magnús gat ekki hugsað sér að gera Sverri að meðkonungi sínum og Sverrir gat ekki hugsað sér að vera undirkonungur Magnúsar. Sverrir konungur. Næstu árin ríkti stöðug styrjöld milli konunganna. Magnús flúði aftur til Danmerkur haustið 1183 en kom aftur snemma vors 1184. Þann 15. júní kom til sjóorrustu milli konunganna við Fimreiti í Sogni og þar féll Magnús ásamt um 2000 mönnum sínum. Þá gat Sverrir talið sig tryggan í sessi því Magnús átti engan erfingja. Eftir þetta má segja að gömlu norsku höfðingjaættirnar hafi verið mikið til úr sögunni, útdauðar eða áhrifalausar. Sverrir átti aftur á móti í miklum útistöðum við kirkjuna, sem leit á hann sem valdaræningja og konungsmorðingja. Þó tókst honum árið 1190 að þvinga Nikulás Árnason biskup, sem var hálfbróðir Inga konungs krypplings, og aðra biskupa til að krýna sig konung. Ekki bætti það þó samskipti hans við kirkjuna og árið 1194 bannfærði Eiríkur Ívarsson erkibiskup, sem Sverrir hafði hrakið úr landi, konunginn með samþykki Selestínusar III páfa. Árið 1197 gat Sverrir þó sýnt bréf frá páfa þar sem bannfæringunni var aflétt en flestir sagnfræðingar eru nú sammála um að það muni hafa verið falsbréf. Stríð við bagla. Í október 1198 lýsti Innósentíus III Noreg allan í bann og ásakaði Sverri um skjalafals. Páfi kom líka boðum til konunga í grannríkjunum um að þeir skyldu setja Sverri af. Því boði var þó ekki hlýtt og Jóhann landlausi sendi Sverri meira að segja hermenn til að sýna honum stuðning í baráttu hans við flokk bagla, sem stýrt var af Nikulási Árnasyni biskupi með stuðningi Eiríks erkibiskups. Konungsefni þeirra var Ingi, sem sagður var launsonur Magnúsar Erlingssonar. Á ýmsu gekk í borgarastyrjöldinni en 18. júní 1199 vann Sverrir stórsigur á her Bagla í Strindafirði og leifarnar af baglahernum flúðu til Danmerkur. Það voru þó ekki endalok átakanna, þau stóðu þar til Sverrir dó á sóttarsæng í Björgvin 9. mars 1202. Ingi baglakonungur gat þó ekki nýtt sér það færi sem skapaðist við dauða Sverris því hann dó sama ár. Fjölskylda. Kona Sverris var Margrét, dóttir Eiríks helga Svíakonungs og áttu þau eina dóttur, Kristínu. Sverrir átti einnig tvo frilluborna syni, Sigurð lávarð, sem dó skömmu á undan föður sínum og lét eftir sig ungan son, Guttorm, og Hákon Sverrisson, sem tók við ríki af föður sínum en varð ekki langlífur. Sverris saga. Karl Jónsson ábóti á Þingeyrum ritaði sögu Sverris konungs (Sverris sögu), sem talin er tímamótaverk í bókmenntasögunni. Brjóstakrabbamein. Brjóstakrabbamein er krabbamein sem myndast í brjóstum. Krabbamein myndast vegna ógrynna af umhverfis- og erfðatengdum þáttum. Margt þarf að fara úrskeiðis á sama tíma; til dæmis DNA skemmdir, mistök við ónæmiseftirlit líkamans, óvanalegir vaxtarþættir og/eða erfðagallar. Um 15-20% þeirra sem fá brjóstakrabbamein hafa ættarsögu um sjúkdóminn — þekktastar eru stökkbreytingar í BRCA1 og BRCA2 genunum en þau eru bæði æxlisbæligen. Hættulegustu krabbameinin eru þau sem eru án hormónaviðtaka, þau sem hafa dreift sér til eitla í holhönd eða þau sem sýna erfðabreytileika því erfiðara eru að meðhöndla þau. Sikileyjarvörn, Najdorf, Gautaborgar afbrigðið. Hér er algengast að hvítur leiki fxg5 og að svartur fylgi eftir með Rfd7 með hugmyndina að koma riddaranum fyrir á e5 þar sem hann stendur vel. Þegar riddarinn er kominn frá biskupnum er g-peð hvíts leppur og undir svo mikilli pressu að svartur kemst upp með að bíða með að endurheimta peðið. Saga. Samkvæmt ChessBase var afbrigðið fyrst teflt árið 1955 af Helga Ólafssyni með hvítt og Herman Pilnik með svart í Reykjavík. Þar lék Pilnik gambítnum 10.fxg5 hxg5?! 11.Bxg5. Helgi sigraði þá skák og hefur gambíturinn sjaldan verið endurtekinn síðan. Á heimsmeistaramóti landsliða í sveitakeppni sem fór fram í Gautaborg árið 1955 kepptu sveitir Sovétríkjanna og Argentínu í fjórtándu umferð. Sveit Argentínu samanstóð af áðurnefndum Herman Pilnik, Miguel Najdorf sem Najdorf afbrigðið er kennt við og Oscar Panno en þeir höfðu svart. Sveit Sovétmanna var skipuð af Efim Geller, Paul Keres og Boris Spassky. Þannig fór að á öllum borðum var Gautaborgarafbrigðið teflt og Sovétmennirnir fundu allir leikina 10.fxg5 Rd7 11.Rxe6 fxe6 12.Dh5+ Kf8 13.Bb5! og endaði þannig að Sovétríkin unnu öruggan 3-0 sigur. Seinna stakk Fischer upp á 13...Hh7! sem enginn argentínumannanna fann og er það nú til dags talið fullgilt svar við mannsfórninni 11.Rxe6. Þrátt fyrir uppgötvun Fischers er afbrigðið sjaldséð og ekki teflt í kappskák nema nokkrum sinnum á ári. Nokkrir mjög góðir skákmenn hafa þó beitt afbrigðinu með góðum árangri og má þar nefna Agdestein,Kupreichik,Cheparinov,Shabalov og Al Modiahki. Hákon Sverrisson. Hákon 3. Sverrisson eða Hákon harmdauði (1182 – 1. janúar 1204) var konungur Noregs frá því að faðir hans lést 1202 til dauðadags, eða í tæp tvö ár. Hákon var launsonur Sverris konungs en móðir hans var Ástríður Hróadóttir. Hákon var valinn konungur af hirðinni í Niðarósi vorið 1202 og hylltur á Eyraþingi nokkru síðar. Líklegt er að honum hefði tekist að sameina Norðmenn og binda enda á borgarastyrjöldina sem geisað hafði í landinu með hléum frá því um miðja 12. öld ef honum hefði enst aldur til því að hann hafði kallað heim biskupana sem faðir hans hafði átt í hatrömmum deilum við og náð sáttum við þá og baglana. Hann lést þó skyndilega á nýársdag 1204 og töldu margir að eitrað hefði verið fyrir hann og grunuðu Margréti ekkjudrottningu, stjúpu hans, um græsku en hún lagði hatur á konung af því að hann hafði látið taka Kristínu dóttur hennar, hálfsystur sína, frá henni og flytja til sín. Hákon var vinsæll konungur og var því kallaður harmdauði eftir að hann lést. Hákon kvæntist ekki en nokkrum mánuðum eftir lát hans fæddi Inga frá Varteigi son sem hún sagði Hákon föður að og bar seinna járn til að sanna orð sín. Þunguninni og fæðingu Hákonar Hákonarsonar var þó lengi haldið leyndri til að hlífa honum við háska í uppvextinum og því tók Ingi Bárðarson við konungdæminu eftir að barnakonungurinn Guttormur Sigurðsson, bróðursonur Hákonar harmdauða, lést fáeinum mánuðum á eftir honum. Viswanathan Anand. Viswanathan Anand, (Tamílska: விசுவநாதன் ஆனந்த்) (fæddur 11. desember 1969) er indverskur stórmeistari og núverandi heimsmeistari í skák. Anand, Viswanathan Skák Ólympíad. Skák ólympíad er keppni landsliða í skák sem fer fram á tveggja ára fresti. Keppnin er skipulögð af FIDE sem velur gestgjafaþjóðina. 1. Skák Ólympíad. Fyrsta Skák Ólympíad sem skipulagt var af FIDE fór fram í London, Bretlandi 18. - 30. júlí 1927. Einstaklingsverðlaun. Ekki var skipað á borð heldur fengu sex stigashæstu keppendurnir verðlaun. Magnús Eiríksson smek. Magnús Eiríksson smek eða Magnús 7. (1316 – 1. desember 1374) var konungur Noregs frá 1319 – 1355, konungur Svíþjóðar 1319 – 1364 og konungur Skánar 1332 – 1360. Magnús var sonur Eiríks Magnússonar hertoga af Södermanland, sem var sonur Magnúsar hlöðuláss Svíakonungs og bróðir Birgis Magnússonar konungs. Móðir Magnúsar var Ingibjörg dóttir Hákonar háleggs Noregskonungs. Hákon dó árið 1319 og þar sem hann átti enga syni erfði Magnús ríkið. Um svipað leyti var Birgir konungur hrakinn úr landi í Svíþjóð eftir að hafa orðið valdur að dauða bræðra sinna, Eiríks og Valdimars (ekki er ljóst hvort hann lét taka þá af lífi eða svelta þá í hel) og stóð Magnús þá næstur til ríkiserfða og varð einnig konungur Svíþjóðar, þriggja ára að aldri. Móðir hans réði miklu fyrstu árin en fljótlega tóku þó aðalsmenn í báðum ríkjunum völdin og í Noregi varð Erlingur Viðkunnsson valdamestur en í Svíþjóð var það Knútur Jónsson dróttseti. Árið 1332 báðu íbúar Skánar Magnús um stuðning gegn holsteinskum kaupmönnum sem höfðu tekið héraðið í pant. Magnús keypti Skán lausan og útnefndi sjálfan sig konung þar. Þetta vildi Valdimar atterdag Danakonungur ekki fallast á og leiddi þetta til styrjaldar milli þeirra, sem lauk árið 1333 með því að Valdimar afsalaði sér Skáni og Hallandi til Magnúsar. Magnús átti þó í miklum erfiðleikum með að greiða kaupverðið fyrir Skán og jafnframt heimanmund Eufemiu systur sinnar, þegar hún giftist Albrekt 2. hertoga af Mecklenburg, og þurfti að veðsetja hluta ríkis síns og leggja á þunga skatta. Þrátt fyrir það þótti ekkert skorta á íburð og munað við hirðina og vakti þetta gremju þegnanna. Kona Magnúsar var Blanka af Namur (Namur liggur í núverandi Belgíu) og gengu þau í hjónaband haustið 1335. Hefðarfrúin Birgitta af Vadstena (seinna heilög Birgitta) var fengin til að kenna drottningunni ungu en reyndist konunginum óþægur ljár í þúfu og ásakaði hann seinna um samkynhneigð. Þær ásakanir, ásamt dálæti sem konungur hafði á einum hirðmanna sinna, munu hafa verið kveikjan að auknefni hans (smek = gælur). Birgitta átti raunar sonarson sem hún vildi koma í hásætið í Svíþjóð og hefur það sjálfsagt verið meginástæðan fyrir fjandskap hennar. Blanka og Magnús áttu tvo syni, Eirík og Hákon, og árið 1343 var Hákon hylltur sem konungur í Noregi og tók svo formlega við 1355 en faðir hans afsalaði sér um leið konungdómi þar. Eldri bróðirinn, Eiríkur, var útnefndur ríkisarfi í Svíþjóð 1343. Óánægja með stjórn Magnúsar óx stöðugt og sænskum aðalsmönnum tókst að fá Eirík til liðs við sig og gerðu þeir uppreisn gegn konungi 1356. Magnús þurfti að afsala sér stórum hluta ríkisins til Eiríks. Hann sneri sér þá til Valdimars Danakonungs og samdi við hann um stuðning. Árið 1359 dó Eiríkur skyndilega og Magnús varð aftur einráður í Svíþjóð og þurfti ekki á stuðningi Valdimars að halda. Valdimar fannst hann þá hafa verið hlunnfarinn og réðist inn í Skán 1360. Magnús lenti líka í átökum við Hákon, sem hneppti föður sinn í varðhald 1361. Skömmu síðar var Hákon gerður að konungi Svíþjóðar einnig en hann gerði þó samkomulag við föður sinn um að þeir skyldu stýra ríkinu saman. Í apríl 1363 kvæntist Hákon svo Margréti dóttur Valdimars. Það sættu sænsku aðalsmennirnir sig ekki við. Þeir sneru sér þá til Albrekts 3. hertoga af Mecklenburg, systursonar Magnúsar, sem kom með her til Stokkhólms, var hylltur þar og kjörinn konungur í febrúar 1364. Feðgarnir Magnús og Hákon réðu þá aðeins litlum hluta landsins og eftir orrustu í Gautaskógi vorið 1365 var Magnús tekinn til fanga, sat í varðhaldi til 1371 og fór þá til Hákonar sonar síns í Noregi. Hann drukknaði 1. desember 1374. Afríkukeppni landsliða í knattspyrnu. Afríkukeppnin í knattspyrnu ("Africa Nations Cup") fer fram á tveggja ára fresti og þar leika afrísk knattspyrnulandslið um bikar og heiðurinn sem besta landslið álfunnar. Keppnin fór fyrst fram 1957 og síðan 1968 hefur hún farið fram annað hvert ár. Keppnin er haldin í ársbyrjun þar sem það er utan regntímans og hitastig mildara en um mitt árið. Egyptar unnu fyrstu keppnina árið 1957 og hafa alls unnið hana sex sinnum og eru sigursælastir sem og núverandi meistarar síðan 2008. Keppnin fyrir árið 2010 fer fram í Angóla. Afríkukeppnin 2010. Afríkukeppnin 2010 í knattspyrnu fer fram í Angóla 10.-31. janúar 2010. Lið unnu sér þátttökurétt með góðri frammistöðu í undankeppni HM 2010 sem var samnýtt. Keppnislið. Eftirfarandi landslið taka þátt í keppninni, Angóla sem gestgjafar voru öruggir með sæti en tóku samt þátt í undankeppni HM 2010 til þess að freista þess að komast á það mót sem mistókst. Suður-Afríkumenn voru sjálfir öruggir sem gestgjafar fyrir HM 2010 en tóku samt þátt í undankeppninni til að freista þess að komast í Afríkukeppnina sem mistókst einnig. Lið Tógó dró sig úr keppni eftir skotárás í Angóla þar sem nokkrir úr landsliðshópnum létust. Riðlakeppni. Tvö efstu lið hvers riðils komast áfram í átta-liða úrslit. A riðill. Alsír komst áfram þrátt fyrir óhagstæðara markahlutfall þar sem innbyrðis viðureign þeirra og Malí lauk með sigri Alsír. B riðill. Lið Tógó varð fyrir skotárás á leið sinni á mótstað, nokkrir létust og liðið dró sig úr keppni áður en hún hófst. D riðill. Gabon, Sambía og Kamerún voru öll með einn sigur og eitt tap í innbyrðis leikjum. Sambía var með markatöluna 4-4 í innbyrðis leikjum og varð því í efsta sæti, Kamerún var með 3-3 í innbyrðis leikjum og Gabon var með 2-2 í innbyrðis leikjum og komst því ekki áfram vegna ónógs fjölda marka. Úrslitaleikurinn. 2010 Christian Wörns. Christian Wörns (fæddur 10. maí 1972) er fyrrverandi knattspyrnumaður frá Þýskalandi og lék alls 66 landsleiki með landsliðinu. Hann varð þýskur meistari með Borussia Dortmund og bikarmeistari með Bayer Leverkusen. Æviágrip. Christian Werner Wörns fæddist 10. maí 1972 í Mannheim. Hann byrjaði að spila knattspyrnu átta ára gamall með Phönix Mannheim en fór yfir i Waldhof Mannheim 1985, þar sem hann spilaði með unglingaliðinu. Wörns var varnarmaður á unga aldri og hélt þeirri stöðu með öllum þeim félögum sem hann átti eftir að spila með. Tveimur árum seinna, 1987, komst hann í aðalliðið og var þá aðeins 17 ára og 4 mánaða gamall. Hann er því fjórði yngsti leikmaður Bundesligunnar í sögunni. Árið 1991 var Wörns seldur til Bayer 04 Leverkusen og spilaði þar í sjö ár. Árið 1992 var hann kallaður í þýska landsliðið og lék sinn fyrsta leik gegn Tékkum í Prag. Alls lék Wörns 66 landsleiki á ferli sínum og var fyrirliði í sjö skipti. Ári síðar, 1993, varð hann bikarmeistari með félaginu. 1998 ákvað hann að reyna fyrir sér í útlöndum og fór til Paris St. Germain í Frakklandi. Þar líkaði honum ekki vel og lék með félaginu aðeins í 1 ár. 1999 gerði hann samning við Borussia Dortmund. Með því félagi varð hann þýskur meistari 2002. Árið 2008 komst hann með félaginu aftur í úrslitaleik bikarkeppninnar en tapaði fyrir Bayern München. Árið 2009 var samningur hans við Dortmund ekki framlengdur og ákvað Wörns þá að leggja skóna á hilluna. Um haustið það ár hóf hann feril sinn sem þjálfari hjá unglingaliðinu Hombrucher SV. Heimildir. Wörns, Christian Berghleifur. Berghleifur (fræðiheiti: "batholith") er bergkvika sem storknað hefur djúpt undir yfirborði jarðar, það er að segja stórt flikki (innskot) úr djúpbergi. Berghleifurinn er venjulega úr graníti eða gabbrói, og stendur svo djúpt að hvergi sér í undirlagið. Graníthleifar eru einkennandi fyrir rætur fellingafjalla og eru taldir hafa myndast við uppbræðslu setbergs. Gabbróhleifar, til dæmis Eystrahorn í Lóni, eru storknaðar kvikuþrær. Scratch. Scratch er forritunarmál hannað fyrir ung börn frá leikskólaaldri og upp úr. Það er hannað og viðhaldið af MIT og er ókeypis hugbúnaður og opinn með nokkrum takmörkunum. Verkefnið er að finna á scratch.mit.edu og þar er hægt er að sækja forritunarmálið með því að fylla út einfalt form. Þar er einnig hægt að skoða forrit sem notendur hafa búið til með hjálp Scratch og hlaða inn eigin verkefni. Verkefni sem þar eru geymd eru ívefanleg í heimasíður með hjálp smáforrita. Scratch byggist á Logo, Smalltalk, HyperCard, StarLogo, AgentSheets, Etoys. Hægt er að nota það í Mac OS X og Windows stýrikerfum. Linux (Debian/Ubuntu) útgáfu má finna hjá Nathan Neff. Handhafi forsetavalds. Handhafi forsetavalds er sá sem fer með embættisskyldur forseta í fjarveru hans. Karst. Inngangurinn í Škocjan hellana í Slóveníu, sem eru karst hellar sem hafa verið á skrá UNESCO síðan 1986 sem einir mikilvægustu hellar jarðarinnar. Karst (eða Karst-landslag) er landslag sem myndast við efnaveðrun á kalksvæðum með lokuðum dölum, niðurföllum (þ.e. jarðföllum) og hellum og verður til þegar jarðvatn leysir kalkið upp og það berst burt. Sepp Herberger. Sepp Herberger á frímerki frá Paragvæ Sepp Herberger (28. mars 1897 – 28. apríl 1977) var fyrrverandi þýskur knattspyrnumaður og þjálfari þýska landsliðsins. Hann varð heimsmeistari sem þjálfari á HM í Sviss 1954. Æviágrip. Sepp Herberger (til hægri) á tali við Oswald Pfau, landsliðsþjálfara Austur-Þýskalands. Sepp Herberger ("Joseph Herberger") fæddist 28. mars 1897 í Mannheim. Hann var 14 ára gamall þegar hann byrjaði að æfa með Waldhof Mannheim og var þar framherji. 1914 komst hann í aðalliðið, en ekki var leikið meðan heimstyrjöldin fyrri geisaði. 1921 fór hann í VfR Mannheim og spilaði þar í 5 ár. Hann var ásamt því starfsmaður Deutsche Bank. Á árunum 1921, 1924 og 1925 spilaði hann alls þrjá landsleiki með Þýskalandi. Hann skoraði tvö mörk, bæði í fyrsta leik sínum. 1926 flutti hann til Berlínar og spilaði með Tennis Borussia Berlin í 4 ár. 1930 lagði skóna á hilluna. Hann var þá jafnframt starfsmaður í banka í Berlín. Sama ár útskrifaðist hann úr íþróttaskóla með réttindi til þjálfunar. Hann hóf að þjálfa Tennis Borussia Berlin í tvö ár, en var svo kallaður sem landsliðsþjálfari 1936. Herberger gekk í nasistaflokkinn 1933, en var rekinn þaðan eftir slæmt gengi þýska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Eftir stríð varð Herberger þjálfari Eintracht Frankfurt í eitt keppnistímabil, en varð landliðsþjálfari á ný 1949 þegar þýska landsliðið hóf keppni aftur eftir stríð. Helsti árangur hans var sigur á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Sviss 1954. Þýskaland var þá rétt að rétta úr kútnum eftir stríð og voru ekki hátt skrifaðir í knattspyrnuheiminum á þeim tíma. Liðið sigraði Tyrki, en tapaði fyrir Ungverjum 2:7 í riðlakeppninni. Í fjórðungsúrslitum sigraði Þýskaland Júgóslavíu 2:0 og Austurríki 6:1 í undanúrslitum. Úrslitaleikurinn var svo gegn Ungverjum, sem þóttu langtum sigurstranglegri og höfðu unnið Þjóðverja í riðlakeppninni. En Þjóðverjar unnu 3:2 í Bern. Eftir þetta voru leikmenn og þjálfari kallaðir "Hetjurnar frá Bern". Talað var um sigurinn sem "Undrið í Bern" ("Das Wunder von Bern"). Herberger starfaði sem landsliðsþjálfari til 1964, er hann settist í helgan stein. Það ár var haldinn kveðjuleikur fyrir hann gegn Skotlandi, sem endaði með 2:2 jafntefli. Herberger bað því um annan kveðjuleik og í honum sigruðu Þjóðverjar Finna 4:1 í Helsinki. Sepp Herberger lést 28. apríl 1977 í Weinheim-Hohensachsen. Annað markvert. Sepp Herberger var mikill frímerkjasafnari og hefur mynd af honum birst á nokkrum frímerkjum. Heimildir. Herberger, Sepp Karlsruhe. Karlsruhe er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Baden-Württemberg með 290 þúsund íbúa. Hún er upphafsborg þýska græningjaflokksins ("Die Grünen") og er aðsetur þýska hæstaréttsins ("Bundesgerichtshof") sem og aðsetur þýska stjórnarskrárréttarins ("Bundesverfassungsgericht"). Lega. Karlsruhe liggur um 3 km fyrir austan Rínarfljót norðvestarlega í sambandslandinu Baden-Württemberg og steinsnar frá frönsku landamærunum. Vestasti hluti Karlsruhe er Rínarhöfnin mikla, þ.e. bæði gámahöfn og olíuhöfn. Handan Rínarfljóts er sambandslandið Rínarland-Pfalz. Næstu borgir eru Pforzheim og Stuttgart fyrir suðaustan og Mannheim fyrir norðan. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er gulur borði skáhallt niður á rauðum grunni en á borðanum segir FIDELITAS, sem merkir "dyggð". Það var Karl Wilhelm markgreifi sjálfur sem stakk upp á þessu merki en það var ekki formlega tekið upp fyrr en 1887. Orðsifjar. Karlsruhe heitir eftir Karli Vilhjálmi markgreifa af Baden-Durlach sem stofnaði borgina á 18. öld. "Ruhe" merkir "friður" eða "kyrrð", enda var hugmynd Karls Vilhjálms að þar gæti fólk búið í friði. Saga Karlsruhe. Kastalinn í Karlsruhe er miðja borgarinnar, en mikið af götum og stígum liggja út frá honum Upphaf. Sagan segir að Karl Vilhjálmur markgreifi af Baden-Durlach hafi eitt sinn verið að veiðum, lagst niður og sofnað. Hann dreymdi um glæsihöll sem lægi eins og sól fyrir miðju á borg og lægju götur og stígar frá höllinni í allar áttir. Þegar hann vaknaði hóf hann þegar að gera skizzur af draumi sínum. Borgina stofnaði hann formlega 1715 þegar hann sjálfur lagði grunnstein að nýrri höll sinni, kastalanum í Karlsruhe. Enn má sjá móta fyrir götunum frá kastalanum, en þær eru alls 32. Sunnan við höllina var borgin sjálf reist. Þar með er Karlsruhe meðal síðustu og yngstu evrópskra borga sem teiknaðar hafa verið á pappír og skipulagðar áður en þær urðu til. Karlsruhe var aðsetur markgreifanna í Baden-Durlach, en 1771 sameinaðist það Baden-Baden og myndaði markgreifadæmið Baden. Frjálshyggja. 1806 var Baden breytt í sjálfstætt stórhertogadæmi innan þýska ríkisins. Karlsruhe varð þar með að höfuðborg. 1818 veitti stórhertoginn Karl íbúum Karlsruhe stjórnarskrá, enda var bæði hann og borgarbúar mjög frjálslegir miðað við önnur héruð Þýskalands. 1825 stofnaði stórhertoginn Lúðvík I háskólann í borginni. Eftir byltingarárið mikla 1848 jókst frjálshyggjan enn. 1862 var gyðingum í fyrsta sinn í Þýskalandi veitt almenn borgarréttindi til jafns á við aðra borgarbúa. 1863/64 var nokkurs konar hæstiréttur stofnaður, þar sem hægt var að klaga misrétt ríkisins gagnvart einstaklingum. Réttur þessi var sá fyrsti sinnar tegundar í Þýskalandi. 1877 var fyrsti sporvagn Þýskalands sem dregin var af hestum hleypt inn í umferðina í Karlsruhe. 1893 var fyrsti stúlknamenntaskóli (Gymnasium) Þýskalands stofnaður í borginni. Aðsetur Hæstarétts Sambandsríkisins Þýskalands í Karlsruhe 20. öldin. Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri varð Karlsruhe áfram höfuðborg lýðveldisins Baden innan Weimar-lýðveldisins. Þetta breyttist ekki fyrr en 1945 er bandaríkjamenn hertóku borgina. 1952 varð borgin síðan hluti af nýstofnuðu sambandslandiaden-Württemberg, en höfuðborg þess varð Stuttgart. Hins vegar var ákveðið að stofna hæstarétt landsins ("Bundesgerichtshof") í borginni 1950 og árið eftir stjórnarskrárréttinn ("Bundesverfassungsgericht"). Frjálshyggjunni var leyft að njóta sín í borginni á ný. 1980 var nýr stjórnmálaflokkur stofnaður í borginni, græningjaflokkurinn ("Die Grünen"). Flokkurinn var í ríkisstjórn Þýskalands 1998-2005 í kanslaratíð Gerhards Schröder og Angelu Merkel. Íþróttir. Knattspyrna. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Karlsruher SC sem leikur heimaleiki sína í Wildparkstadion. Félagið varð þýskur meistari 1909 og bikarmeistari árin 1955 og 1956. Félagið komst auk þess í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa 1994 (var þá slegið út af Austria Salzburg). Hjólreiðar. Milli 1987-2005 var Karlsruhe áfangi í hinni þekktu hjólreiðakeppni Tour de France, enda liggur borgin aðeins steinsnar frá frönsku landamærunum. 2004 og 2006 var Karlsruhe gestgjafi í þýsku hjólreiðakeppninni Deutschland Tour. Íþróttamót fatlaðra'". 2008 fór fram íþróttamót fatlaðra í Þýskalandi í Karlsruhe ("Special Olympics"). Hákon 6. Magnússon. Hákon 6. á hné móður sinnar, Blönku af Namur. Málverk frá 1877. Hákon 6. Magnússon (1340 – 1380) var konungur Noregs 1355 – 1380 og konungur Svíþjóðar 1362 – 1364. Hann telst vera síðasti konungurinn af gömlu norsku konungsættinni. Hákon var yngri sonur Magnúsar smeks, konungs Noregs og Svíþjóðar, og konu hans, Blönku drottningar. Hann ólst að mestu leyti upp í Noregi og var hylltur sem konungur landsins 1343 – 1344. Árið 1355, þegar hann var fimmtán ára, tók hann formlega við konungsvöldum en Magnús faðir hans stýrði þó enn um sinn nokkrum héröðum. Eiríkur, eldri bróðir Hákonar, var ríkisarfi Svíþjóðar. Hann gerði uppreisn gegn Magnúsi 1356 og frá 1357 stýrðu þeir feðgar Svíþjóð saman en Eiríkur lést skyndilega 1359. Árið 1362 var Hákon tekinn til konungs í Svíþjóð og stýrðu þeir feðgarnir landinu saman næstu tvö árin en árið 1364 voru báðir settir af og systursonur Magnúsar, Albrekt af Mecklenburg, gerður að konungi. Magnús var skömmu síðar tekinn til fanga og hafður í haldi í Stokkhólmi. Þeir feðgar nutu þó áfram töluverðs stuðnings í Svíþjóð og héldu kröfunni um yfirráð þar til streitu. Því var sambandið við Svíþjóð mjög ótraust og einkenndist af skærum og stríði. Árið 1371 tókst Hákoni að fá föður sinn leystan úr haldi eftir sex ára varðhald og fór með hann heim til Noregs, þar sem Magnús drukknaði nokkru síðar. Þegar Hákon var rúmlega tvítugur gekk hann að eiga Margréti dóttur Valdimars atterdags Danakonungs, sem þá var aðeins tíu ára gömul. Þau áttu einn son, Ólaf, sem fæddur var 1370. Þegar Valdimar afi hans dó 1376 var hann valinn arftaki hans og þegar Hákon 6. dó 1380 varð Ólafur einnig konungur Noregs. Hófst þá ríkjasamband Danmerkur og Noregs, sem entist í 434 ár, og jafnframt ríkjasamband Danmerkur og Íslands, sem stóð í 564 ár. Ófeigs þáttur. Ófeigs þáttur segir frá Ófeigi Járngerðarsyni. Faðir Ófeigs var Önundur Hrólfsson. Hrólfur var sonur Helga magra. Geirmundur heljarskinn Hjörsson. Geirmundur heljarskinn var íslenskur landnámsmaður sem nam land við innanverðan Breiðafjörð og bjó á Skarðsströnd en þótti landnám sitt þar of lítið svo að hann nam einnig land á Hornströndum og hafði þar fjögur bú. Geirmundur er í Landnámabók sagður ættgöfgastur allra landnámsmanna, sonur Hjörs Hörðakonungs. Hjör hafði herjað á Bjarmaland og tekið að herfangi Ljúfvinu dóttur Bjarmakonungs. Á meðan konungur var í herför ól hún honum tvo syni sem fengu nöfnin Geirmundur og Hámundur. Þegar þeir fæddust voru þeir dökkir yfirlitum og húðin öll hrukkótt, og voru þeir því kallaðir heljarskinn. Geirmundur átti ríki á Rogalandi en herjaði í vesturvíking. Þegar hann kom heim eftir langa fjarveru hafði Haraldur hárfagri unnið sigur á mótstöðumönnum sínum í Hafursfjarðarorrustu og lagt undir sig allt Rogaland. Sá þá Geirmundur, sem þá var orðinn roskinn, þann kost vænstan að fara á brott og leitaði til Íslands. Með honum fóru þeir Úlfur skjálgi Högnason frændi hans og Steinólfur lági Hrólfsson. Þeir voru hver á sínu skipi en höfðu samflot, sigldu inn á Breiðafjörð og lögðu skipum sínum við Elliðaey. Þar fréttu þeir að land væri numið fyrir sunnan fjörð en nóg land væri inni í firðinum og á norðurströndinni. Geirmundur hélt þá inn að Skarðsströnd og nam land þar, Steinólfur nam Saurbæ allan, en Úlfur Reykjanes. Geirmundur var fyrsta veturinn í Búðardal og byggði svo bæ á Geirmundarstöðum undir Skarði, en hann eða afkomendur hans fluttu sig síðan að Skarði á Skarðsströnd, skammt frá Geirmundarstöðum. Hann rak stórbú og hafði að sögn Landnámu áttatíu frjálsborna menn með sér. Honum þótti þröngt um sig svo að hann fór vestur á Hornstrandir og nam þar land frá Rit að vestan til Horns og þaðan austur til Straumness. Þar átti hann fjögur bú. Eitt þeirra var í Barðsvík. Því stýrði Atli þræll hans og hafði undir sér fjórtán þræla. Vébjörn Végeirsson Sygnakappi braut skip sitt þar í grennd og björguðust skipbrotsmenn nauðulega. Atli tók við þeim til veturvistar og vildi enga greiðslu taka fyrir því Geirmund vantaði ekki mat. Þegar þeir Geirmundur hittust næst spurði Geirmundur Atla hvers vegna hann væri svo djarfur en Atli sagði að það yrði uppi meðan Ísland væri byggt hve mikils háttar sá maður væri þegar einn þræll þyrði að gera slíkt án hans leyfis. Geirmundi þótti mikið til um svarið og gaf Atla frelsi og einnig búið sem hann hafði varðveitt. Geirmundur var kvæntur Herríði Gautsdóttur Gautrekssonar. Dóttir þeirra Ýr var gift Katli gufu Örlygssyni. Lítt deildi Geirmundur við aðra menn hérlanda. Eitt sinn deildi hann þó við Kjallak á Kjallaksstöðum um eignarhald á landi við Fábeinsá sem báðir vildu. Úlfur skjálgi Högnason. Úlfur skjálgi Högnason var íslenskur landnámsmaður sem nam Reykjanes milli Þorskafjarðar og Hafrafells. Hann er í Landnámu sagður einn af ættgöfgustu landnámsmönnum í Vestfirðingafjórðungi; hann var af ætt Hörðakonunga, frændi Geirmundar heljarskinns og kom í samfloti með honum til Íslands. Þeir komu í Breiðafjörð og lögðu skipum sínum við Elliðaey. Þar fréttu þeir að sunnan fjarðar væri allt land numið. Geirmundur hélt þá inn að Skarðsströnd og nam þar land en Úlfur skjálgi til norðurs og nam Reykjanes. Úlfur átti Björgu dóttur Eyvindar austmanns systur Helga magra. Einn sona Úlfs var Jörundur, faðir Þjóðhildar, konu Eiríks rauða og móður Leifs heppna. Kona Jörundar var dóttir Gils er nam Gilsfjörð. Annar var Atli rauði er átti Þorbjörqu dóttur Steinólfs lága. Sonur þeirra var Már á hólum er átti Þórkötlu dóttur Hergils hnappras. Sonur þeirra Ari er sigldi til Hvítramannalands sem var sunnan Vínlands. Faðir Högna var Óblauður Ótryggsson. Faðir Ótryggs var Hjörleifur Hörðakonungur. Kona Hjörleifs var Æsa hin ljósa. Hálfbróðir Ótryggs samfeðra var Hálfur faðir Hjörrs faðir Geirmundar og Hámundar. Móðir Hálfs var Hildur hin mjóa dóttir Högna í Njarðey. Höfuðskepna. Höfuðskepna er ein af hinni fornu fjórskiptingu á efnum jarðar. Oftast er talað um Höfuðskepnurnar fjórar eða frumefnin fjögur sem voru talin vera jörð, vatn, loft og eldur. Empedókles var fyrstur til að halda því fram að eldur, loft, vatn og jörð væru þær fjórar höfuðskepnur sem allt annað sé gert úr en hann nefndi þær rætur. Þessa kenningu tóku Platón og Aristóteles upp eftir honum og miðaldakirkjan eftir þeim. Samkvæmt heimsmynd Aristótelesar var til "fimmta höfuðskepnan" en það var eisa ("eter"). Í erlendum málum er oftast notað orðið „element“, sem merkir "frumefni" eða "grunnefni". Orðið „höfuðskepna“ vísar til þess að veröldin sé "sköpuð" úr þessum fjórum "höfuð"-efnum (aðalefnum). Skinna-Björn Skeggjason. Skinna-Björn Skeggjason var íslenskur landnámsmaður sem nam Miðfjörð og Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu. Björn var kaupmaður í Noregi, verslaði með skinn og fór kaupferðir til Hólmgarðs (Novgorod). En þegar honum fór að leiðast kaupmennskan fór hann til Íslands og nam þar land, að því er segir í Landnámu. Sonur hans var Miðfjarðar-Skeggi, garpur mikill sem mefndur er til sögu í ýmsum Íslendingasögum, meðal annars Njálu. Oliver Kahn. Oliver Kahn (15. júní 1969 í Karlsruhe) er þýskur knattspyrnumaður og markmaður sem spilaði lengst af á ferli sínum með Bayern München. Þrisvar var hann kjörinn besti markmaður heims, fjórum sinnum besti markmaður Evrópu og tvisvar knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. Leikferill. Oliver Kahn á kveðjuleik sínum í september 2008 á Allianz-leikvanginum í München Aðeins sex ára gekk Kahn til liðs við Karlsruher FC og var þá útileikmaður. En brátt gerðist hann markmaður og hefur staðið milli stanganna allar götur síðan. Árið 1987 fékk Kahn í fyrsta sinn að spreyta sig með aðalliðinu í Bundesligunni. Það var þó ekki fyrr en 1990 að hann var orðinn fastamaður í byrjunarliðinu. Árið 1993 var Kahn í fyrsta sinn valinn í þýska landsliðið en sat þó á bekknum. Árið 1994 var Kahn keyptur til Bayern München fyrir 4,6 milljónir þýskra marka en þar var metupphæð í Þýskalandi fyrir markvörð. Ári síðar, 1995, fékk Kahn í fyrsta sinn að spreyta sig í markinu hjá landsliðinu, eftir að hafa setið á varamannabekknum þar í tvö ár. Landsliðið sigraði þá Sviss 2:1. Hins vegar var Andreas Köpke enn aðalmarkmaður landsliðins, þar til hann lagði skóna á hilluna 1998. Þá fyrst tók Kahn við sem aðalmarkmaður. Árið 1996 vann Kahn sinn fyrsta titil er Bayern München sigraði í Evrópukeppni bikarhafa. Ári síðar varð Kahn í fyrsta sinn þýskur meistari en alls náði hann þeim áfanga átta sinnum. Árið 2002 varð hann fyrirliði þýska landsliðsins en hann tók við þeirri stöðu af Oliver Bierhoff og skilaði henni tveimur árum síðar til Michael Ballack. Fyrsta stórmót Kahns var Evrópumótið í Englandi 1996, en þá sat hann allan tímann á bekknum. Fyrsta stórmótið þar sem hann spilaði með var Evrópumótið í Þýskalandi 2000. Þar náðu Þjóðverjar hins vegar ekki að komast upp úr riðlakeppninni. Kahn hefur leikið 557 leiki í Bundesligunni, sem er met hjá markmanni. Hann á einnig metið í að halda marki sínu hreinu samfleytt eða í 19 leiki í röð. 17. maí 2008 lék hann sinn síðasta leik í Bundesligunni (gegn Hertha Berlin). Þann 27. maí sama ár lék hann svo síðasta leik sinn í atvinnuknattspyrnu er Bayern München sigraði Mohun Bagan AC á Indlandi 3:0. Kveðjuleikur fyrir Kahn fór fram 2. september 2008 milli Bayern München og þýska landsliðsins. Leikurinn endaði 1:1. Annað markvert. Þann 18. september 1999 skall Oliver Kahn svo harkalega saman við félaga sinn Samuel Kuffour að hann rotaðist og var meðvitundarlaus í nokkrar mínútur. Þegar hann rankaði við sér reyndi hann að halda leik áfram en varð að fara út af á 55. mínútu vegna vanlíðunar. Heimildir. Kahn, Oliver Skólphreinsun. Skólphreinsun er það ferli að hreinsa sýkla, spilliefni og aðra mengun úr skólpi. Skólpi hefur í hundruð ára verið veitt óhreinsuðu út í sjó eða ár víða um heim. Það var ekki fyrr en upp úr aldamótunum 1900 að farið var að hreinsa skólp vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem það hefur á vistkerfi þess umhverfis sem því var veitt í. Óhreinsað skólp hefur mjög óhagstæð vistfræðileg áhrif á það vatn sem það rennur í og í öðru lagi stofnar óhreinsað skólp heilsu manna í hættu þar sem það inniheldur verulegt magn af örverum sem geta verið sýkjandi. Vistfræðileg áhrif. Óhreinsað skólp sem rennur í á inniheldur mikið magn af bakteríum og lífrænum efnum. Ýmis lífræn spilliefni geta þjónað sem næringarefni fyrir ófrumbjarga bakteríur, sem síðan geta með loftháðri öndun fjarlægt uppleyst súrefni úr vatninu. Ef mikið magn er af lífrænu efnunum í skólpinu getur farið svo að bakteríuvöxturinn verður það mikill að allt súrefni er fjarlægt úr vatninu og verða þá til loftfirrðar aðstæður. Þessar loftfirrðu aðstæður eru banvænar fyrir fiska, gróður og aðrar lífverur sem eru háðar súrefni til að lifa. Alvarleiki mengunarinnar er háður mörgum þáttum, til að mynda magni skólps sem rennur út í ána, magni og hitastigi vatnsins, straumhraða þess og fleiri þáttum. Ár hafa náttúrlega hæfileika til að endurnýja sig og geta endurnýjað súrefnið í vatninu á tvennan hátt: Annars vegar framleiða plöntur, þörungar og ljóstillífandi bakteríur súrefni með efnaskiptum sínum og skila því út í vatnið. Hins vegar tekur vatnið súrefni upp úr andrúmsloftinu, einkum þar sem iðustreymis gætir. Þegar bakteríurnar hafa gengið á lífrænu efnin sem koma frá skólpinu, minnkar magn þeirra í vatninu og með því fækkar bakteríunum en þetta gerist að jafnaði ekki fyrr en mörgum kílómetrum frá losunarstaðnum og getur þess vegna tekið einhverja daga. Áhrif á heilsu manna. Mengað vatn má ekki nota sem drykkjarvatn fyrir menn. Skólpmengað vatn má heldur ekki vera við strendur eða önnur tómstundar- og útivistarsvæði vegna hættu á bakteríum sem valda smitsjúkdómum sem berast með vatninu. Þessar sýkjandi bakteríur geta einnig lifað í skelfiski og öðru sem menn borða án þess þó að hafa áhrif á fiskinn sjálfan. Skólphreinsun með örverum. Þar sem úrangur dýra brotnar niður í náttúrunni með hjálp örvera fóru menn að nota överur við hreinsun á skólpi. Skólpinu er safnað saman með skólpleiðslum sem liggja að skólphreinsistöðvum sem eru staðsettar nærri sjó eða ám. Þar er skólpið hreinsað með þrem stigum hreinsunar, fyrsta, annars og þriðja stigs hreinsun. Fyrsta stigs hreinsun. Eins og nafnið gefur til kynna hefst fyrsta stigs hreinsun skólpsins hér með því að efni í sviflausn (e. "suspension") setjast til og skiljast frá uppleystum efnum. Þegar skólpið kemur inn í hreinsistöðina er það síað til að fjarlægja spýtur, plastpoka og aðra stóra hluti sem gætu haft áhrif á hreinsunina. Skólpvatnið flæðir svo í svokallaðan fyrsta stigs tank sem virkar eins og setskál þar sem þyngri agnarefni setjast til botns. Olía sem flýtur á yfirborðinu er fjarlægð. Þessi fyrsta stigs hreinsun er fyrst og fremst aflfræðilegt ferli þar sem vökva hluti skólpvatnsins er aðskilið frá sökkvandi þurrefnum eða leðju ásamt fljótandi ögnum. Annars stigs hreinsun. Í tveggja þrepa skólphreinsun er síðara stigið ferli sem notast við örverur til hreinsunarinnar. Vökvinn frá fyrsta stigs tankinum er nú fluttur yfir í annan tank (annars stigs tank) og er þar loftaður. Tvær mismunandi aðferðir hafa verið notaðar við loftunina. Eldri aðferðin er nefnd seytlandi síun (e. "trickling filtration") og byggir á því að vökvanum er úðað yfir malarhrúgur vaxnar þekjumyndandi bakteríum. Skólpvatnið er loftað þegar það fer frá úðaranum og síast í gegnum mölina. Örverur mynda þekju (e. "biofilm") á yfirborði malargrjótsins og brjóta niður lífrænu efnin sem eru í skólpvatninu. Þessar örverur sem þrífast í mölinni eru meðal annars frumdýr, þörungar, bakteríur og jafnvel veirur. Þær eru loftháðar, en undir mölinni er að finna loftfirrtar, gerjandi bakteríur. Hlutar af bakteríuþekjunni skiljast stöðugt frá grjótinu og eru fluttir í svokallaðan seinni hreinsunarbúnað með fljótandi skólpvatninu. Hin aðferðin sem er notuð er kölluð „virkjuð leðja“ (e. "activated sludge"). Við þessa aðferð er frárennslið frá fyrsta stigs tankinum loftað með loftbólum sem er hleypt á þegar frárennslið rennur í annar stigs tankinn. Í seinni tanknum er svo leðja sem inniheldur mikið magn loftháðra örvera, aðallega baktería sem vaxa í þyrpingum eða hópum. Þessar bakteríur brjóta niður lífrænu efnin í skólpvatninu. Á meðal bakteríana sem eru notaðar við þetta ferli er tegundin "Zoogloea" sem er mjög mikilvæg því hún framleiðir hleypiefni sem kekkjast við lífræn efni og aðrar lífverur við vöxt. Eins og við seytlandi síun fer svo vatnið úr annars stigs tanknum í seinni hreinsunarbúnað. Áður en skólpvatninu er hleypt út í umhverfið er vatnið í báðum tilfellum klórað til sótthreinusnar. Leðjan úr annars stigs tankinum er að hluta endurnýtt í nýjan loftunartank til að endurtaka ferlið. Það sem eftir er af leðjunni er svo meðhöndlað og hreinsað ásamt leðjunni sem myndast við fyrsta stigs hreinsun. Þetta er gert í loftfirrtum leðjutanki. Þetta er stór tankur þar sem loftfirrtar örverur framkvæma lokastig á loftfirrtu niðurbroti lífrænna efna. Bakteríurnar sem eru í þessum tönkum eru gerjandi bakteríur sem framleiða lífrænar sýrur, koltvísýring og vetni. Metanmyndandi fyrnur vaxa svo af þessum efnum og framleiða metangas. Metangasið sem myndast er svo hægt að nota sem orku til að hita upp skólphreinsistöðina. Þetta ferli tekur langan tíma og ekki er hægt að breyta öllum úrgangnum í gas, því þarf að flytja hann í burtu og urða annars staðar. Stundum er þessi úrgangur notaður sem áburður á plöntur sem ekki eru notaðar til manneldis því hugsanlega gætu verið veirur og aðrar örverur í úrganginum sem lifðu af hreinsunina og geta valdið sjúkdómum. Árangur annars stigs skólphreinsunar. Sérstakt próf, „lífefnafræðileg súrefniseftirspurn“ (e. "biochemical oxygen demand", BOD), er notað til að meta árangur skólphreinsunarinnar. BOD próf er notað til að mæla súrefnisþörfina við niðurbrot á lífrænum efnum á fimm dögum við 20°C í skólpvatnssýni. Óhreinsað skólp hefur mjög háan BOD stuðul en ef hreinsun hefur verið árangursrík hefur þessi stuðull lækkað verulega. Sem dæmi ef seytlandi síun virkar fullkomnlega minnkar BOD hlutfallið um 75%, með leðjuaðferðinni minnkar það um 85%. Þriðja stigs hreinsun. Þriðja stigs hreinsun gengur út á það að fjarlægja ólífrænar aukaafurðir sem verða til við örveruferlið í annars stigs hreinsun. Efni eins og ammóníak og fosfat myndast þegar lífræn efni eru oxuð. Lífræn efni + O2 -> CO2 +NH3 + SO42- + PO43- + snefilefni Ólífræn efni sem myndast við niðurbrot á lífrænum efnum eru hentug næringarefni fyrir þörunga. Losun þessara efna í ár eða sjó getur valdið þörungablómstrun. Óhóflegur þörungavöxtur getur leitt til vatnadauða eins og getur gerst þegar óhreinsuðu skólpi er hleypt í ár og sjó. Aðal næringarefninin eru fosfat og ammóníak, með þriðja stigs hreinsun er hægt að fjarlæga þessi efni. Þetta er hægt að gera með bæði efnafræðilegum aðferðum og með örverum. Efnafræðilega aðferðin er mjög dýr og því yfirleitt ekki notuð. Þegar ammóníak er fjarlægt, gerist það líffræðilega í gegnum tveggja þrepa ferli. Fyrsta þrepið er nítratmyndun, með loftháðri oxun er ammoniakinu breytt í nítrat með örverum. Næst þarf að eyða nítratinu með loftfirrtri breytingu á N2O og N2 í lofttegundir. Með þessu fara loftegundirnar út í andrúmsloftið og eyðast þar í stað þess að fara út í vatnið sem ólífræn efni. Fosfat er fjarlægt með örverum sem upptaka fosfatið í frumurnar sínar. Eðlismassi þessara övera verður því meiri og þær setjast til botns í tankinum og þar með hægt að fjarlæga þær ásamt fosfatinu sem þær innihalda. Þriggja stiga hreinsun er ekki mikið notuð enn, þó er líklegt að breyting verði á því þegar gerðar verða meiri kröfur á verndun vatnsins sem skólpið rennur út í. Skólphreinsun á Íslandi. Smellið á myndina til að stækka. Smellið á myndina til að stækka. Smellið á myndina til að stækka. Í skýrslu fráveitunefndar frá 1993 kom í ljós að víða væri úrbóta þörf í fráveitumálum. Á flestum stöðum fer fráveituvatn óhreinsað í sjó og oft um margar útrásir sem opnuðust í fjöruborðinu. Mikilvægt er að taka á uppsöfnuðum vanda í fráveitumálum sveitarfélaga, svo sem að sameina lagnir, koma á viðeigandi hreinsun skólps og leiða fráveitulagnir út í viðtaka með sem hagstæðustum hætti fyrir umhverfið. Tryggja þarf að þessar lausnir hefðu umhverfisbætandi áhrif. þrjár gerðir skólphreinsunar eru fyrir þéttbýli; tveggja þrepa hreinsun, eins þreps hreinsun og viðunandi hreinsun. Í tveggja þrepa hreinsun felst: Fyrsta þrep, sem er forhreinsun með botnfellingu eða síun, og annað þrep, sem er frekari hreinsun skólps og felur oftast í sér líffræðilegar aðferðir, þ.e. örverur eru notaðar til þess að eyða lífrænum efnum í skólpinu. Oftast er einnig eftirhreinsun með botnfellingu. Viðunandi hreinsun er hreinsun skólps með viðurkenndum hreinsibúnaði svo ásættanlegt sé fyrir viðtakann. Tveggja þrepa hreinsun er meginreglan, samkvæmt reglugerð, nota skal tveggja þrepa hreinsun við losun skólps frá þéttbýli þar sem gerðar eru meiri kröfur en til viðunandi eða eins þrepa hreinsunar. Frekari hreinsun en tveggja þrepa getur falið í sér frekari lækkun næringarsalta eða annarra efna eða eyðingu saurgerla. Öll þéttbýlissvæði eiga að vera komin með skólphreinsun í lok árs 2005. Í dreifbýli og þar sem ekki er sameiginleg fráveita er gert ráð fyrir rotþró og siturlögn eða öðrum sambærilegum hreinsibúnaði. Enginn frestur er á þessum framkvæmdum, enda er þessi tilhögun í samræmi við eldri reglur á Íslandi. Í lok árs 2000 voru tæplega 40% íbúa tengd fráveitum með skólphreinsun. Í lok árs 2002 voru rétt liðlega 60% íbúa tengd skólphreinsun og þessi tala verður væntanlega komin í um 70% í lok árs 2004. Þessar framfarir byggjast þó að mestu á aðgerðum fárra sveitarfélaga. Í dreifbýli er aðallega um að ræða fráveitur einstaklinga og minni þéttbýlissvæða. Á þessum stöðum er nánast eingöngu gert ráð fyrir að nota rotþróarkerfi með innrennsli í jarðveg um siturlögn. Miðað við að sveitabýli í landinu séu um 4000 og sumarhús um 10.000 til 12.000 má áætla að rotþrær í dreifbýli séu á bilinu 15.000 til 20.000. Helsta markmið með siturlögnum hér á landi er að eyða örverum af sauruppruna. Rotþró ein og sér er því ekki fullnægjandi ef tryggja á heilnæmi umhverfisins. Frá rotþró án eftirhreinsunar stafar óviðunandi saurmengun og brýnt er að gera úrbætur þar sem málum er þannig háttað. Oliver Bierhoff. Oliver Bierhoff (1. maí 1968 í Karlsruhe) er þýskur knattspyrnumaður og markaskorari. Hann spilaði 70 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði alls 37 mörk. Hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem skoraði „gullna markið“ í framlengingu á stórmóti. Leikferill. Oliver Bierhoff fæddist í Karlsruhe en fluttist á unga aldri til Essen. Fimm ára byrjaði hann að æfa með Essener SG 99/06 en 1978 skipti svo yfir í unglingalið Schwarz-Weiss Essen. Þar spilaði hann saman með Jens Lehmann, sem seinna varð landsliðsmarkvörður. Árið 1985 flutti Bierhoff til Krefeld og spilaði með unglingaliði Bayer Uerdingen. Ári síðar komst hann í aðalliðið, en náði sér ekki sem skildi sem sóknarmaður. Hann spilaði næstu árin með ýmsum félögum, svo sem HSV, Borussia Mönchengladbach og Austria Salzburg en það var ekki fyrr en á Ítalíu sem hann sló í gegn. Árið 1991 spilaði hann með Ascoli og skoraði 48 mörk á fjórum leiktíðum. 1995 skipti hann yfir í Udinese Calcio. Á þremur árum skoraði hann 57 mörk og varð eftirsótt stjarna. Ári síðar var hann svo valin í þýska landsliðið og spilaði sinn fyrsta leik gegn Portúgal í febrúar 1996 (sem Þjóðverjar unnu 2:1). Það ár tók hann þátt í sínu fyrsta stórmóti, EM 1996 í Englandi. Í úrslitaleiknum gegn Tékklandi afrekaði hann það að skora fyrsta „gullmarkið“ (Golden Goal) og varð þar með Evrópumeistari. Það var eini meistaratitillinn sem Bierhoff hlaut á ferli sínum. 1998 var hann keyptur til AC Milan og spilaði þar í þrjú ár. Eftir fyrsta árið sitt þar var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. Á EM í Hollandi og Belgíu árið 2000 var hann fyrirliði þýska landsliðsins. Eftir það reyndi hann fyrir sér í Frakklandi og lék eitt tímabil með AS Monaco, en sneri aftur til Ítalíu 2002, þar sem hann lék sína síðustu leiktíð fyrir Chievo Verona. Eftir að hafa lagt skóna á hilluna var Bierhoff til skamms tíma knattspyrnuþulur í sjónvarpi. 2004 var hann ráðinn sem framkvæmdastjóri þýska landsliðsins og starfaði sem slíkur í þjálfaratíð Jürgen Klinsmann og Joachim Löw (Jogi Löw). Heimildir. Bierhoff, Oliver Rotþró. Rotþró er tankur eða röð tanka sem hægja á flæði skólps og minnka magn fastra efna í skólpinu þar sem gegnumstreymi er ekki beint í gegnum tankinn. Óuppleyst efni skiljast frá vatninu á þann hátt að þyngri efnin setjast á botninn en fita og önnur léttari efni fljóta upp. Þannig myndast flotlag og botnlag. Hlutverk rotþróar er að fella út föst efni, fleyta upp fitu, að stuðla að loftfirrtu niðurbroti á lífrænum efnum og að geyma botnfall (seyru). Skólpvatn rennur út úr þrónni og út í siturlögnina. Lífræn efni, verða eftir í rotþrónni og byrja að rotna vegna örvera sem eru til staðar og brjóta efnin niður við loftfirrðar aðstæður á botni rotþróarinnar. Um fullkomna eyðingu er þó aldrei að ræða og með tímanum safnast fyrir í þrónni föst efni, svokölluð seyra, sem rotnar ekki. Í köldu loftslagi, eins og er á Íslandi, er hætt við að þessi lífrænu efni rotni hægar og uppsöfnun á seyru verði meiri. Ýmis þvotta- og hreinsiefni, einkum sótthreinsiefni, sem berast í rotþrær með frárennsli, geta dregið úr gerjun og rotnun, sérstaklega ef um óæskilegt magn af efnum er að ræða. Neðst í rotþróm er botnlag eða seyra sem inniheldur þau efni sem falla til botns og þar fer mesta rotnunin fram. Efsta lagið er fljótandi yfirborðsskán eða froða sem í eru ýmis léttari efni, til dæmis fita og einnig smáagnir. Í flestum tilvikum harðnar yfirborðsskánin og því er nauðsynlegt að skólpinntakið sé fyrir neðan skánina. Á milli yfirborðsskánarinnar og botnlags er skólpvatnið sem berst milli hólfa í rotþrónni og síðan út úr þrónni og í siturlögnina. Þriggja hólfa rotþrær gera mun meira gagn en þrær sem eru með færri hólfum. Þriggja hólfa rotþrær eru því nauðsynlegar á Íslandi en fleiri en þrjú hólf eru óþörf. Í þriggja hólfa rotþróm lengist tíminn sem skólpið er í rotþrónni og við það fæst betri botnfelling á föstum efnum. Einnig veldur innstreymi í þróna minna umróti og truflun í seinni hólfunum þar sem fínni og léttari agnir skiljast frá. Þyngstu agnirnar falla til botns í fyrsta hólfi, það er meðal annars ástæðan fyrir því að fyrsta hólf er haft helmingi stærra að rúmmáli en hin tvö hólfin. Siturlögn. Siturlögn er fráveiturör með götum á botninum, þetta rör er hannað til að taka við skólpvatni frá rotþró. Siturlögn er götuð þannig að næst rotþrónni eru götin færri, en fleiri eftir því sem lengra dregur. Götin eru á botni rörsins og allt upp að miðju. Siturlögn er lögð með um 2‰ halla á hvern lengdarmetra, til að fá sem jafnast rennsli í lögninni og jafna dreifingu út í lokaða enda hennar. Loftræsta þarf siturlögnina og koma henni þannig fyrir að hvorki hún né malarbeðið undir frjósi á meðan á notkun stendur. Siturlögn er lögð efst í malarbeð með kornastærð 16–25 mm, sem er að minnsta kosti 30 cm þykkt, en það á að nægja til þess að gera skaðlegar örverur úr skólpvatninu óvirkar. Lengd siturlagnar getur verið mjög breytileg eftir gerð jarðvegs og vatnsnotkun á hverjum stað. Sé jarðvegur þéttur í sér ætti siturlögn fyrir íbúðarhús að vera 30–40 m en 15–20 m fyrir sumarbústað. Ekki er þó mælt með því að hvert rör í lögninni sé lengra en 20 metrar, þá skal frekar leggja rörin samsíða. Búðardalur (Skarðsströnd). Búðardalur er bær og áður kirkjustaður á Skarðsströnd í Dalasýslu og er oft ruglað saman við kauptúnið Búðardal við Hvammsfjörð, sem einnig er í Dalasýslu. Búðardals er getið í Landnámu og sagt að þar hafi Geirmundur heljarskinn dvalið fyrsta vetur sinn á Íslandi, áður en hann byggði bæ sinn á Geirmundarstöðum. Kirkja var í Búðardal frá fornu fari en var lögð niður 1849. Búðardalur er landmikil jörð og var raunar enn landmeiri áður því þá tilheyrðu Akureyjar jörðinni. Þar bjuggu margir stórbændur og er þeirra þekktastur Magnús Ketilsson sýslumaður, sem þar bjó á 18. öld og stundaði þar mikla tilraunastarfsemi í ræktun og jarðyrkju. Hann lét meðal annars byggja mikið salerni á bænum, en þau voru þá mjög fátíð á Íslandi, fyrst og fremst til þess að drýgja áburðinn á túnin. Hann skrifaði líka og gaf út fjölda bóka og annarra rita sem prentuð voru í Hrappsey. Dóttursonur Magnúsar var séra Friðrik Eggerz, oftast kenndur við Akureyjar þar sem hann bjó lengst, en hann bjó þó um tíma í Búðardal og var jarðaður þar. Waluigi. Waluigi er tölvuleikjapersóna sem var sköpuð af Shigeru Miyamoto fyrir Nintendo tölvuleikjafyrirtækið. Bret Michaels. Bret Michaels (fæddur Bret Michael Sylchak 15. mars 1963) er bandarískur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann var helst þekktur sem stofnandi og meðlimur Poison. Brett Michaels kom fram í Bachelor Pad þáttaröðinni og söng þar lagið Every rose has it's thorn. Michaels, Bret Hrafn Brandsson (eldri). Hrafn Brandsson (eða Rafn Brandsson) eldri (um 1420 – 1483) var íslenskur höfðingi á 15. öld, lögmaður norðan og vestan frá 1479 til dauðadags. Hann bjó á Skriðu (Rauðuskriðu) í Reykjadal. Hrafn var sonur Brands ríka Halldórssonar bónda á Barði í Fljótum og konu hans Rögnu, dóttur Hrafns Guðmundssonar lögmanns í Rauðuskriðu. Hrafn átti í illvígum deilum við Ólaf Rögnvaldsson biskup um margs konar mál. Hann dróst inn í svonefnd Hvassafellsmál, þegar Bjarni Ólason bóndi á Hvassafelli var sakaður um sifjaspell með Randíði, barnungri dóttur sinni. Randíður flúði á náðir Hrafns og Ólafur biskup bannfærði hann fyrir að skýla henni. Hrafn var enn í banni þegar hann dó. Það þóttu ægileg örlög að deyja í banni, svo að ættingjar gáfu yfirleitt kirkjunni stórfé til sáluhjálpar hinum látna. Kona Hrafns var Margrét, dóttir Eyjólfs Arnfinnssonar (um 1395 — 1475) riddara á Urðum í Svarfaðardal og víðar, og konu hans Snælaugar Guðnadóttur frá Hóli í Bolungarvík. Dóttir þeirra var Solveig Hrafnsdóttir abbadís á Reynistað en sonur þeirra var Brandur Hrafnsson, lengi prestur á Hofi í Vopnafirði en síðast príor í Skriðuklaustri. Synir hans voru Snjólfur, Árni bóndi á Bustarfelli í Vopnafirði og ættfaðir Bustarfellsættar, og Hrafn Brandsson yngri, lögmaður. Hrafn Brandsson (yngri). Hrafn Brandsson (Rafn Brandsson) yngri (um 1500 – 1528) var íslenskur höfðingi á 16. öld, sýslumaður og síðan lögmaður. Hann var tengdasonur Jóns Arasonar biskups. Hrafn var sonur Brands Rafnssonar (um 1470 – um 1557), sem lengi var prestur á Hofi í Vopnafirði en síðast príor á Skriðuklaustri. Hann var vellauðugur og varð ungur að árum sýslumaður Skagfirðinga. Hann var náinn samstarfsmaður Jóns Arasonar og gekk að eiga Þórunni dóttur hans árið 1526; hún var þá aðeins 14-15 ára að aldri. Hrafn bjó fyrst á Hofi á Höfðaströnd. Árið 1527 náði hann með aðstoð tengdaföður síns lögmannsembættinu af Teiti Þorleifssyni ríka í Glaumbæ og tókst að hrekja hann burt úr Skagafirði. Honum tókst einnig að fá fé Teits dæmt undir konung en náði meirihlutanum af því sjálfur og settist að í Glaumbæ. Hann naut þessa þó ekki lengi því að árið eftir varð hann ósáttur við Filippus svein sinn í drykkjuveislu í Glaumbæ, manaði hann til einvígis við sig á bæjarhlaðinu og hlaut þar svöðusár sem dró hann til dauða fáeinum dögum síðar. Vildu margir kenna bölbænum Teits um dauða hans. Jón Arason náði svo undir sig mestöllum þeim eignum sem Teitur hafði átt. Þórunn og Hrafn áttu einn son sem dó barnungur. Þórunn giftist síðar Ísleifi Sigurðssyni sýslumanni á Grund í Eyjafirði og seinast Þorsteini Guðmundssyni á Grund. Ingimar Oddsson. Ingimar Oddsson (f. 8. október 1968) er íslenskur tónlistarmaður, rithöfundur, leikari, myndlistarmaður og meðferðar- og uppeldisfulltrúi. Ferill. Ingimar ólst upp í sex systkina hópi. Sem barn bjó hann í Reykjavík en árið 1977 flutti hann til Bíldudals við Arnarfjörð og síðan til Skagastrandar tæpu ári síðar. Sextán ára flutti hann til Akureyrar og hóf nám við M.A. Tvítugur flutti hann svo aftur til Reykjavíkur. Hann gekk í Alþýðubandalagið sextán ára og var þar virkur ungliði um skeið. Ingimar er menntaður í margmiðlun og samskiptum (Multimedia and intercultural communication) frá Tækniháskólanum í Árósum og lagði einnig stund á söngnám við Söngskólann í Reykjavík. Hann hefur unnið margskonar störf um ævina en lengst af hefur hann starfað við sértæka þjónustu við fatlaða og sem persónulegur ráðgjafi barna og unglinga á vegum félagsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu auk þess að sinna alls kyns verkefnum fyrir skóla og einstaklinga tengdum velferð barna og unglinga. Listir og menning. Ingimar hefur sungið í söngleikjum, meðal annars með Íslensku óperunni. Hann samdi leikverkið Lindindin rokkópera og setti það upp í Íslensku óperunni árið 1995. Árin 1995-1998 var hann formaður leikfélagsins Theater. Ingimar hefur sungið með hljómsveitunum Reykjavíkur quintet, Lærisveinar Fagins og Jó-jó frá Skagaströnd, sem sigraði í Músiktilraunum árið 1988. Árið 2009 gaf Ingimar út diskinn "Out of the mist" sem inniheldur frumsamda raftónlist og einnig hafa komið út átta lög á safnplötum sem hann hefur samið eða sungið. Hann hefur líka unnið að tónlist fyrir tölvuleiki. Ingimar hefur sett upp tvær myndlistarsýningar og gefið út þrjár bækur: "Sautján salernissögur og ljóð" (1996), "Leiðtoginn" (2003, ljóðabók) og "Salernissögur fyrir lengra komna" (2007). Sæta. Sæta er eitt bragðskynanna fimm og er oft talin vera ánægjuleg upplifun. Matvörur sem innihalda mikið kolvetni eða sykur eru þær helstu tengdar sætu, en það eru líka til náttúruleg og tilbúin efnasambönd sem geta verið notuð í litlu magni til að gefa matvöru sætt bragð, það er að segja sætuefni. Til eru líka önnur efnasambönd sem breyta skynjun sætunnar. Guðni Jónsson. Guðni Jónsson (22. júlí 1901 – 4. mars 1974) var íslenskur sagnfræðingur, doktor í sagnfræði og prófessor við Háskóla Íslands. Guðni fæddist á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, sonur fátækra hjóna sem áttu 17 börn alls. Hann ólst upp í Leirubakka á Landi til tólf ára aldurs, fór þá að vinna og reri seinna tvær vertíðir en tókst svo að brjótast til mennta, gekk í kvöldskóla í Reykjavík, lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg 1921 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1924. Hann gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1923. Hann stundaði síðan háskólanám, fyrst í guðfræði en hóf síðan nám við norrænudeild Háskólans og kenndi með námi. Hann varð magister í íslenskum fræðum 1930 og fjallaði meistaraprófsritgerð hans um Landnámu, samanburð Landnámuhandrita innbyrðis og við aðrar heimildir. Guðni kenndi við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 en varð þá skólastjóri sama skóla. Hann var mikilvirkur fræðimaður, einkum á sviði ættfræði og sagnfræði, og skrifaði fjölda rita, þar á meðal doktorsritgerð sína, "Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi", sem út kom 1952 og hann varði svo ári síðar. Einnig samdi hann ritin "Bergsætt", "Sögu Hraunshverfis á Eyrarbakka", "Stokkseyringa sögu" og fleiri rit. Hann annaðist einnig útgáfur fjölda fornrita, meðal annars "Íslendingasagna I-XII", sem út komu 1946-1947, "Fornaldarsagna Norðurlanda" og margra annarra rita. Einnig annaðist hann útgáfu á ritum Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi og fleiri alþýðufræðimanna og gaf út "Íslenska sagnaþætti og þjóðsögur I-XII". Guðni varð prófessor í sagnfræði 1957 og gegndi þeirri stöðu til 1967 en þá fékk hann heilablóðfall. Hann dó 4. mars 1974. Fyrri kona hans var Jónína Margrét Pálsdóttir. Hún dó 1936 og tveimur árum síðar kvæntist hann Sigríði Hjördísi Einarsdóttur. Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Tákn Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauða hálfmánans er sjálfstæð stofnun með aðsetur í Genf í Sviss. Allt frá stofnun þess árið 1863 hefur meginhlutverk þess verið að hafa frumkvæði að hjálparstarfi á vígvelli. Alþjóðaráðið lætur þá einkum til sín taka sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum. Samkvæmt Genfarsamningunum fjórum frá árinu 1949 er ráðinu falið að fylgjast með að samningarnir séu virtir af þeim ríkisstjórnum sem hafa undirritað þá og eiga þátt í átökum. Það eru því einkum særðir og sjúkir hermenn, stríðsfangar og almennir borgarar sem njóta verndar þess. Starfsmenn Alþjóðaráðsins heimsækja stríðsfanga og fangelsi þar sem grunur leikur á að mannréttindabrot séu framin. Þessar heimsóknir eru stundum eina líftrygging fanganna því starfsmenn ráðsins skrá upplýsingar um þá og koma boðum á milli þeirra og fjölskyldna þeirra ef mögulegt er. Erfiðara reynist því en áður að láta fanga „hverfa“ í fangelsinu. Alþjóðaráðið starfrækir einnig leitarþjónustu sem hefur það að markmiði að sameina aftur fjölskyldur og ættingja sem hafa orðið viðskila vegna átakanna. Nöfn fjölskyldumeðlima eru skráð í gagnabanka Alþjóðaráðsins sem vinnur svo að því að leita uppi aðra meðlimi fjölskyldunnar. Á síðasta ári fundu um 25 þúsund einstaklingar ættingja sína aftur með þessum hætti. Samstarf við landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans er mikilvægur þáttur í starfsemi ráðsins og oft leggja þau ráðinu til mannskap til ákveðinna verkefna. Þannig hefur fjöldi íslenskra sendifulltrúa farið utan og starfað á vettvangi undir merkjum þess og Rauða kross Íslands. Nash-jafnvægi. Nash-jafnvægi (e. "Nash equilibrium") er í leikjafræði lausnarregla — búin til af og nefnd í höfuðið á John Forbes Nash — sem vísar til þess jafnvægis sem skapast þar sem tveir eða fleiri leikmenn eru til staðar, þegar hver leikmaður velur leikáætlun sem kemur honum best þegar hann veit hvaða áætlanir allir hinir leikmennirnir hafa valið. Nash-jafnvægi er þá til staðar þegar allir leikmenn vita hvað hinir ætla að gera, og enginn hagnast af því að breyta sinni áætlun. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Merki Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans er samstarfsfélag landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans með aðsetur í Genf í Sviss. Það var stofnað árið 1919. Alþjóðasambandið er ekki sjálfstæð stofnun heldur samstarfsfélag landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans með aðsetur í Genf. Það var stofnað árið 1919 og hefur það að markmiði að stunda hjálparstarf sem ekki er nauðsynlega bundið átakasvæðum. Helstu verkefni þess hafa verið aðstoð á náttúruhamfarasvæðum auk fyrirbyggjandi fræðslu meðal annars um heilsuvernd víða um heim. Þróunar- og uppbyggingarstarf er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi Alþjóðasambandsins. Komi til náttúruhamfara eða annarra stórra áfalla getur þurft að koma viðkomandi landi til aðstoðar í kjölfar þess. Slík aðstoð getur varað í langan tíma, mörg ár jafnvel, og miðar að því að gera íbúunum kleift að takast á við lífið á nýjan leik. Starfsmenn Alþjóðasambandsins sinna þessu verkefni í samvinnu við heimamenn og viðkomandi landsfélag. Alþjóðasambandið er í nánum tengslum við landsfélög hreyfingarinnar og lýtur stjórn þeirra en landsfélögin tilnefna fulltrúa á allsherjarfund sem haldinn er árlega. Alþjóðasambandið lætur til sín taka í uppbyggingu nýrra landsfélaga og styður við starfsemi þeirra sem fyrir eru. Íslenskir sendifulltrúar hafa tekið þátt í starfi Alþjóðasambandins til margra ára og starfað á þess vegum á erlendum vettvangi. Sergio-Esteban Velez P.. In the Spanish Wikipedia the article has been. Please see Sergio Esteban Vélez ("cross-wiki spam") and deletion log. Sergio-Esteban Velez P. (fæddur 1983) er kólumbískur rithöfundur. Tenglar. Vélez, Sergio Esteban Freiburg (Þýskaland). Freiburg (þýska: Freiburg im Breisgau) er fjórða stærsta borgin í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi með 219 þúsund íbúa. Hún er syðsta stórborgin í Þýskalandi og er þekkt fyrir ýmsar gamlar byggingar í miðborginni. Freiburg hefur oftar en flestar þýskar stórborgir verið hertekin í stríði. Lega. Freiburg liggur við Svartaskóg ("Schwarzwald") í suðvesturhorni Þýskalands, rétt austan við Rínarfljót og landamærin að Frakklandi, svo og rétt norðan við svissnesku landamærin. Næsta stórborgin er Basel í Sviss um 35 km til suðurs. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er Georgskrossinn, kross heilags Georgs, en hann er elsti verndardýrlingur borgarinnar. Þetta er rauður kross á hvítum grunni. Enski fáninn er nákvæmlega eins, nema hvað fáninn er öðruvísi í laginu. Þetta merki kom fyrst fram í Freiburg 1327. Orðsifjar. Freiburg merkir "fríborg". Hér er þó ekki um það að ræða að borgin hafi verið fríborg í þýska ríkinu, eins og títt var um ýmsar aðrar borgir. Opinbert heiti borgarinnar er Freiburg im Breisgau, til aðgreiningar á öðrum borgum með sama heiti. Saga Freiburg. Konrad greifi af Zähringer ætt veitir Freiburg borgarréttindi 1120 Upphaf. Upphaf Freiburg má rekja til ársins 1091 en þá reisti sér Bertold II hertogi Zähringer-ættarinnar sér kastalavirkið "Castrum de Friburch" á hæð einni við jaðar Svartaskógs. Þjónustufólk hans og iðnaðarmenn bjuggu fyrir utan kastalann og mynduðu bæ sem seinna varð að borginni Freiburg. Synir Bertolds veittu Freiburg borgarréttindi 1120 við samþykki Hinriks V keisara þýska ríkisins. Borgin óx og dafnaði vel er silfur fannst í vesturhlíðum Svartaskógs. Á þeim tíma var gamla Frúarkirkjan reist en margir líta á hana sem fegurstu kirkju heims. Árið 1218 dó Zähringer-ættin út. Við það erfðu greifarnir frá Urach borgina, sem þaðan í frá kenndu þeir sig við Freiburg. Greifarnir urðu afar óvinsælir meðal borgarbúa. Á næstu 124 árum áttu þeir í stöðugum erjum við þá. Árið 1299 neituðu borgarbúar að greiða greifanum skatt, sem við svo búið sat um borgina og skaut á hana með slöngvutækjum. Árið 1368 tóku borgarbúar sig saman og keyptu sig fría frá greifadæminu fyrir 20 þús silfurmörk og gengu sjálfviljugir undir verndarvæng Habsborgar. Þannig stóðu málefni borgarinnar allt þar til Napoleon innlimaði borgina í Baden 1805. Habsborg. Elsta ráðhús Freiburg. Þar var ríkisþingið haldið 1498. Habsborgarar kröfðust þess að borgarbúar greiddu í herkostnað, enda stóð Habsborg í erjum víða. Ekki síst í Sviss, en þar höfðu landsmenn svarið eið og sagt sig úr tengslum við Habsborg. Árið 1386 var safnað liði og barist við bæinn Sempach í Sviss. Allir heldri borgarar Freiburg börðust þar með Habsborgurum, sem biðu þar mikinn ósigur. Leopold III hertogi Habsborgara féll í bardaganum, en einnig nær allir þátttakendur frá Freiburg, sem við það missti nær gjörvalla yfirstétt sína. Við svo búið tók handverksstéttin völdin í borginni. 1415 hélt Sigismund keisari kirkjuþingið mikla í Konstanz við Bodenvatn til að jafna klofning kaþólsku kirkjunnar. Þrír páfar ríktu samtímis og voru þeir allir settir af. Jóhannes páfi XXIII neitaði að láta setja sig af og flúði til Freiburg. Því lét keisari bannfæra borgina í heild sinni, ásamt öllum íbúunum. Jóhannes var handtekinn og settur í varðhald í Mannheim. Einn merkasti atburðurinn í sögu Freiburg er ríkisþingið sem Maximilian I keisari hélt þar í borg 1498. Á þinginu var reynt að finna lausn á ‘svissneska vandamálinu.’ Hinir eiðsvörnu neituðu hins vegar alfarið að semja við ríkið og kusu að halda sjálfstæði sínu. Árið 1513 kom til bændauppreisnar í nærsveitum. Það tókst að stöðva fárið áður en uppreisnin breiddist út. En 1524 gerðu bændur aðra og meiri uppreisn í siðaskiptafárinu, er 18 þúsund bændur gripu til vopna á svæðinu. Þeir náðu að hertaka Freiburg og komu siðaskiptum á með valdi. Þegar lokst tókst að brjóta bændauppreisnina miklu á bak aftur lágu um 100 þúsund bændur í valnum víða í Þýskalandi. Freiburg snerist aftur til kaþólskrar trúar en aðrar borgir í nágrenninu, svo sem Basel og Strassborg, héldust lúterskar. Þegar siðaskiptafárið náði hámarki í Basel flúði húmanistinn Erasmus frá Rotterdam þaðan og settist að í Freiburg. 30 ára stríðið. Í 30 ára stríðinu slapp héraðið og borgin við þátttöku lengi vel. En þegar Gustav Adolf Svíakonungur sigraði keisaraherinn 1631, stóð honum allt Suður-Þýskaland opið. Á jólum 1632 birtist sænskur her undir stjórn Horn hershöfðingja við borgardyrnar. Viku seinna ákváðu borgarbúar að berjast ekki og opnuðu hliðin. Svíar hernámu borgina og héldu henni með stuttu hléi til 1634, er þeir töpuðu í orrustu við sameinaðan her keisarans og Spánverja. Á páskum 1638 var aftur ráðist á borgina. Að þessu sinni sat Bernhard frá Sachsen-Weimar um borgina, en hann var á mála Frakka (Richelieu kardinála). Eftir 11 daga umsátur gáfust borgarbúar aftur upp og hertók Bernhard borgina. Hann dó hins vegar óvænt ári síðar og við það fóru allir landvinningar hans til Frakklands. 1644 kom keisaraherinn til Freiburg og stóð andspænis Frökkum. Þá dró til stórorrustu á völlunum fyrir framan borgina. Orrustan stóð yfir í þrjá daga við gríðarlegt mannfall beggja aðila. Hvorugur gat lýst yfir sigri. Frakkar hörfuðu, en staðan var óbreytt. Fjórum árum seinna voru Frakkar enn í borginni til að reyna að bæta samningsstöðu sína í friðarsamningunum í Vestfalíu. Þeir hurfu ekki þaðan fyrr en samningarnir voru undirritaðir. 30 ára stríðið reyndist Freiburg þungur baggi. Íbúum hafði fækkað úr 14 þúsund niður í 2.000 í stríðslok. Undir franskri stjórn. Aðeins 40 árum síðar hófst næsti hildarleikur. Fransk/hollenska stríðið skall á, þar sem Loðvík XIV konungs Frakklands reyndi að auka við ríki sitt. Stríðið hafði ekki áhrif á Freiburg. Áður voru Frakkar búnir að hernema allt Elsass hérað (Alsace á frönsku). En í nóvember 1678 fóru Frakkar óvænt yfir Rínarfljót og sátu um Freiburg. Eftir fyrstu fallbyssuárásina gafst borgin upp og var hernumin. Í friðarsamningunum í Nijmegen í Hollandi setti Loðvík XIV keisaranum Leopold I kosti. Ef keisarinn myndi viðurkenna eign Frakka á Elsass, skyldu Frakkar skila annað hvort Freiburg eða Philippsburg. Leopold kaus Philippsburg og þar við sat. Frakkar innlimuðu þá Freiburg í Elsass og varð hún frönsk borg. Árið 1681 sótti Loðvík sjálfur borgina heim. Loðvík hélt hins vegar áfram að herja á nágrannalöndin, sérstaklega á þýska ríkið (oft kallað 9 ára stríðið). Þá var myndað mikið bandalag gegn honum sem tókst að halda Frökkum í skefjum. Í friðarsamningunum í Rijswjik í Hollandi 1697 máttu Frakkar halda Elsass en urðu að skila Freiburg. Það með varð borgin aftur þýsk. 1701-1713 geysaði spænska erfðastríðið. Enn seildist Loðvík XIV til áhrifa í nágrannaland. Aftur var myndað bandalag gegn Frakklandi og barist var á ýmsum stöðum. Á síðasta stríðsárinu 1713 fór 150 þúsund manna franskur her yfir Rínarfljót og sat um Freiburg. Í borginni var 10 þúsund manna varnarher, sem mátti sín lítils gegn ofureflinu. Þó náði hann að halda Frökkum í skefjum í þrjár vikur áður en borgin féll. Friðarsamningar stríðsins fóru fram í Rastatt (rétt sunnan við Karlsruhe) 1714. Í þeim þurfti Loðvík XIV að skila Freiburg. Enn herjuðu Frakkar á Freiburg 1744 í austurríska erfðastríðinu. Að þessu var það Loðvík XV sem herjaði á borgina og fór hann sjálfur fyrir liði sínu. Varnarliðinu tókst að verjast Frökkum í sex heilar vikur undir stöðugri fallbyssuskothríð. Að endingu gafst borgin upp og Frakkar hertóku hana enn einu sinni. Í friðarsamningunum í Füssen í Bæjaralandi neyddist Loðvík til að skila borgina aftur. Hún var þá orðin svo sundurskotin að þar bjuggu þá aðeins tæplega 4.000 manns. Ekki fékk borgin að hvíla lengi. 1793 ruddist franskur byltingarher yfir Rínarfljót og sat um Freiburg enn á ný. Hún féll ekki fyrr en eftir gríðarlega bardaga, þar sem varnarlið varðist hetjulega. Austurrískur her náði þó að frelsa hana sama ár. En Austurríki mátti sín lítils gegn Napoleon nokkrum árum seinna. Napoleon sigraði þá í stórorrustunni við Austerlitz. Meðan hann sat í Vínarborg innlimaði hann borgina Freiburg í Baden. Það með var endir bundinn á yfirráðum Habsborgarmanna á borginni. Eftir tap Napoleons i Rússlandi, hittust þrír þjóðhöfðingjar í Freiburg. Alexander I Rússakeisari, Friðrik Vilhjálmur Prússakonungur og Frans I keisari Austurríkis. Borgarbúar veittu þeim glæsilegar móttökur. Á Vínarfundinum 1815 var ákveðið að Freiburg skuli áfram vera hluti af Baden í stað eign Habsborgar. Nýrri tímar. Miðborgin í Freiburg. Maríukirkjan er mest áberandi. Neðst má sjá Marteinshliðið. Heimstyrjöldin fyrri reyndist borginni erfið. Hún varð 25 sinnum fyrir loftárásum bandamanna, oftar en nokkur önnur þýsk borg. Mikið var um flóttafólk í borginni, en vöruflutningar mjög erfiðir. Þetta olli miklu hungri hjá borgarbúum. Árið 1923 var haldin alþjóðleg friðarráðstefna í borginni með þátttöku 7.000 manna frá 23 þjóðum. Einn af þýsku þátttakendunum var Ludwig Quidde, sem seinna hlaut friðarverðlaun Nóbels. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin tvisvar fyrir loftárásum. Í fyrra sinnið, 1940, voru þýskar flugvélar að verki, en þær tóku Freiburg í misgripum fyrir franska borg. Eyðileggingin var þó til að gera lítil. Í desember 1944 gerðu Bretar loftárás á borgina og vörpuðu 150 þúsund sprengjum á hana. Nær öll miðborgin eyðilagðist og týndu 3.000 manns lífi. Í apríl 1945 hertóku Frakkar borgina. Charles de Gaulle kom þangað í október og stóð fyrir sigurgöngu um götur borgarinnar. Freiburg var á hernámssvæði Frakka. Þeir gerðu hana að höfuðborg Baden (sem náði nokkurn vegin yfir hernámssvæði þeirra) og var Freiburg því höfuðborg allt til 1952. Þá var sambandslandið Baden-Württemberg stofnað með Stuttgart sem höfuðborg. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er SC Freiburg, sem leikur ýmist í 1. eða 2. Bundeligunni. Besti árangur félagsins er 3. sætið árið 1995. Fjórum sinnum var Freiburg viðkomustaður hjólreiðakeppninnar Tour de France, síðast árið 2000. Árið 2005 var haldið heimsmeistaramótið í hjólreiðum innanhús. Þetta er eina HM í íþróttum sem haldið hefur verið í borginni. Vinabæir. Auk þess eru ákveðin vinatengsl við borgina Wiwilí í Níkaragva. Laufás við Laufásveg. Laufás er gamalt, bárujárnsklætt timburhús sem stendur við Laufásveg (nr. 48) í Reykjavík, og dregur gatan nafn sitt af húsinu. Það var byggt í lok 19. aldar af Þórhalli Bjarnarsyni biskupi (1855 – 1916), og nefndi hann það eftir Laufási við Eyjafjörð, þar sem hann var fæddur. Vatnsgufa. Vatnsgufa, oftast kölluð gufa, en áður fyrr eimur, er lyktarlaus og litlaus lofttegund, þekktust á fljótandi formi sem vatn. Vatnsgufa er gríðarlega mikilvæg fyrir jörðina (sjá: Hringrás vatns og veður) og er einnig öflug gróðurhúsalofttegund. Vatnsgufa er mikið notuð í iðnaði, áður fyrr einkum í gufuvélum, en nú oftast í gufuhverflum raforkuvera, til sótthreinsunar, gufubaða og fleira. Þórunn Jónsdóttir á Grund. Þórunn Jónsdóttir (um 1511 – 13. desember 1593) var íslensk kona á 16. öld, mikill kvenskörungur og stórauðug. Hún bjó lengst af á Grund í Eyjafirði og er oftast kennd við þann bæ. Þórunn var dóttir Jóns Arasonar Hólabiskups og fylgikonu hans, Helgu Sigurðardóttir. Árið 1522 ættleiddi Jón Arason fjögur af sex börnum þeirra, Ara, Björn, Magnús og Þórunni, og skyldi hún hafa jafnan arfahlut og bræður hennar, en venjulega var arfur kvenna helmingur af hlut bræðra þeirra. Tvö systkinanna, Helgu og Sigurð, ættleiddi Jón hins vegar ekki. Þórunn giftist fyrst árið 1526 og hefur þá líklega verið 14-15 ára að aldri (raunar ber heimildum um aldur hennar ekki alveg saman en hún var fædd á árunum 1509-1512). Maður hennar var Hrafn Brandsson yngri og fékk hún í heimanmund 360 hundruð í jörðum og 60 hundruð í lausafé en Hrafn lagði til helmingi meira og voru þau því stórauðug. Hrafn var handgenginn Jóni tengdaföður sínum, sem tókst að fá hann gerðan að lögmanni. Síðan hröktu þeir Teit ríka Þorleifsson frá Glaumbæ og settust þau Hrafn og Þórunn þar að en ári síðar beið Hrafn bana er hann háði drukkinn einvígi við svein sinn. Þau áttu saman eitt barn sem dó ungt. Árið 1533 giftist Þórunn öðru sinni Ísleifi Sigurðssyni sýslumanni og bjuggu þau stórbúi á Grund í Eyjafirði. Ísleifur dó 1548 eða 1549 og áttu þau engin börn. Þórunn var því ekkja þegar faðir hennar og bræður voru teknir af lífi í Skálholti haustið 1550. Sagt er að þegar norðlenskir vermenn héldu á Suðurnes í janúar 1551 og drápu þar Kristján skrifara og fleiri, þá hafi Þórunn á Grund búið þá út og sagt þeim að drepa alla Dani sem þeir fengju færi á. Hún var mjög handgengin föður sínum og þótti lík honum og er sagt að þegar Jón biskup var leiddur á höggstokkinn hafi hann beðið fyrir kveðju til Þórunnar sonar síns og séra Sigurðar dóttur sinnar. Þórunn giftist í þriðja sinn 1551 Þorsteini Guðmundssyni frá Felli í Kollafirði og var hann sonur Guðmundar Andréssonar Guðmundssonar ríka Arasonar á Reykhólum. Hann var kvennagull mikið og þegar Þórunn var ekkja eftir Hrafn lögmann vildi hún giftast Þorsteini, sem þá var biskupssvein á Hólum, en fékk það ekki og var hann hrakinn þaðan. Þau giftust svo um leið og faðir Þórunnar og bræður voru horfnir af sjónarsviðinu. Þau voru einnig barnlaus en Þorsteinn hafði átt börn með nokkrum konum. Hann dó um 1570 og er sagt að nokkru síðar hafi Þórunn viljað giftast í fjórða sinn, ungum presti, en Sigurði bróður hennar hafi tekist að koma í veg fyrir það. Á efri árum gaf Þórunn mikið af eignum sínum, bæði til skyldra og óskyldra, meira en hún mátti lögum samkvæmt. Meðal annars gaf hún börnum Þorsteins töluvert fé. Á Alþingi 1591 kröfðust bróðursynir hennar, Jón og Magnús Björnssynir, þess að hún væri svipt fjárforræði, þar sem hún væri komin yfir áttrætt, sjónlítil og veik, og var það gert en henni þó tryggt öruggt framfæri og góð þjónusta. Þessu undi hún illa og þótti mjög skapstygg og erfið viðfangs síðustu tvö árin, en hún dó 1593 hjá Magnúsi bróðursyni sínum. Frúarkirkjan í Freiburg. Frúarkirkjan er í miðborg Freiburg. Á myndinni er kirkjan með stillansa. Frúarkirkjan í Freiburg ("Freiburger Münster" eða "Münster Unserer Lieben Frau") er helsta kennileiti borgarinnar Freiburg í Þýskalandi. Hún var 313 ár í byggingu og er af mörgum talin ein fegursta kirkja heims. Saga Frúarkirkjunnar. Fyrirrennari Frúarkirkjunnar frá 12. öld var jafnframt fyrsta kirkja borgarinnar og reist af Konrad I og bróður hans Bertold III af Zähringer-ætt. Af þeirri kirkju eru bara til nokkrir hlutar af grunninum undir gólfi núverandi kirkju. Berthold vildi búa til veglegan greftrunarstað fyrir sig og jafnframt að gefa íbúum hinnar nýju borgar betri og veglegri kirkju. Því var hafist handa við að reisa nýja kirkju í kringum 1200 í síðrómönskum stíl og þjónaði kirkjan í Basel sem fyrirmynd. Í fyrsta áfanga var þverskipið reist og neðstu hlutar turnsins. 1230 hófst annar áfangi. Þá var aðalskipið reist og turninn hækkaður í gotneskum stíl. Turninn var í smíðum allt til 1330 og er eini kirkjuturn Þýskalands sem lokið var við að reisa á miðöldum í gotneskum stíl. Hann er 116 metra hár og var kirkjan þá hæsta bygging Þýskalands í 20 ár, eða þar til Maríukirkjan í Lübeck var fullgerð. Frúarkirkjan í Freiburg er enn með hæstu kirkjum heims. Alveg frá upphafi þótti kirkjan ákaflega fögur og hafa ýmsir lýst henni sem fegurstu kirkju heims. Annað einkenni kirkjunnar eru hinar mörgu ufsagrýlur ("gargoyles"), sem eru sjaldgæfar á gotneskum kirkjum. Eftir þetta var kórinn smíðaður í síðgotneskum stíl. Þá var hlé í u.þ.b. öld. 1510 var kirkjuþakið yfir kórnum smíðaður. Gamli kórinn var rifinn og nýr reistur og sameinaður við aðalskipið. 1513 fór vígsla kórsins fram og markar það enda á byggingarframkvæmdum. Smíðin hafði því tekið 313 ár alls, með hléum. Seinna á 16. öld fékk kirkjan svo fagran forsal í endurreisnarstíl. 1851 var klukka sett í turninn. Klukkunni hefur ekki verið viðhaldið eins og skyldi. Hún gengur að vísu, en einn vísirinn er ekki lengur í lagi og hún er hætt að slá á heilu tímana. Í heimstyrjöldinni síðari varð Freiburg tvisvar fyrir loftárásum. Í fyrra sinnið voru skemmdir í borginni frekar litlar, enda um mistök þýskra flugvéla að ræða. Í síðara skiptið, 27. nóvember 1944, voru loftárásirnar mjög harðar. Áður en þær áttu sér stað var búið að fjarlægja gluggarúðurnar og setja aðrar ómerkari í þeirra stað. Einnig var búið að setja blýakkeri eða varnir á vissa hluta kirkjuþaksins og turnsins, til varnar sprengjum og sérstaklega höggbylgna og sprengjubrota. Það var reyndar algert kraftaverk að kirkjan sjálf varð ekki fyrir neinum sprengjum, eins og flest hús allt í kring. En höggbylgjur dundu á henni og brotnuðu þá allar rúður. Aðrar skemmdir voru í algeru lágmarki sökum forsjálni heimamanna. Eftir stríð voru blývarnirnar teknar niður og upphaflegu rúðurnar aftur settar í. Þannig varðveittist kirkjan í miðaldaformi sínu, ein af fáum miðaldakirkjum Þýskalands í stórborg. Um heitið. Í þýsku tungumáli kallaðist Münster upphaflega klausturkirkja (komið af "monasteria" = klaustur). En síðla á miðöldum var einnig farið að kalla nokkrar stórar og merkar kirkjur þessu heiti, þrátt fyrir að þær hafi aldrei tilheyrt klaustri. Þetta á ekki bara við um kirkjur í þýskumælandi löndum, heldur einnig kirkjur í öðrum löndum, s.s. Englandi (Minster). Frúarkirkjan í Freiburg er í þessum hópi, þ.e. hún hefur aldrei verið í tengslum við klaustur. Listaverk. Líndúkurinn er stærsti altarisdúkur Evrópu Einn af gluggunum í Frúarkirkjunni Háaltarið. Eitt stærsta listaverk kirkjunnar er háaltarið. Það var gert 1512-1516 og málað af Hans Holbein yngri. Myndin sýnir fjögur atriði úr ævi Maríu og Jesú. Í kring eru postularnir tólf (Páll í stað Júdasar). Einkennandi fyrir háaltarið er að það er einnig málað á bakhlið. Það sýnir Jesú á krossinum. Bakhliðina er eingöngu hægt að sjá í opinberri leiðsögn um kirkjuna. Líndúkur. Kirkjan á líndúk sem notaður er til að hylja háaltarið á föstutimanum fyrir páska. Dúkurinn var gerður 1612 og er stærsti altarisdúkur Evrópu sem enn er til. Hann er 1014x1225 cm stór (þ.e. rúmlega 10x12 m) og vegur rúmlega 1 tonn. Honum er lyft með nokkrum stálvírum og er hann látinn hanga fyrir framan háaltarið til að hylja það meðan fastað er. Dúkurinn sýnir krossfestingu Jesú. Gluggarnir. Gluggar kirkjunnar eru frá öllum þeim tímum sem kirkjan var í byggingu. Þeir elstu er frá 1220. Í hákórnum er gluggar sem Maximilian keisari gaf kirkjunni í kringum aldamótin 1500. Á seinni öldum voru nokkrar gamlar rúður fjarlægðar þar sem þær þóttu of dimmar, þ.e. þær hleyptu ekki nógu miklu ljósi inn. Af þeim sökum eru mörg listaverk glötuð. Í heimstyrjöldinni síðari voru allar rúðurnar fjarlægðar og geymdar á öruggari stað, en aðrar ómerkari settar í staðinn. Í loftárásum eyðilögðu höggbylgjur frá sprengingum alla glugga í kirkjunni. Eftir stríð var því hægt að setja upphaflegu rúðurnar inn á ný. Gluggarnir í kirkjunni hafa því mikið sögulegt gildi. Eftir stríð var nokkrum gluggum bætt við. Ari Jónsson lögmaður. Útskorinn stóll, kenndur við Ara Jónsson lögmann. Varðveittur í Þjóðminjasafni. Ari Jónsson (um 1508 – 7. nóvember 1550) var lögmaður á 16. öld og bjó á Möðrufelli í Eyjafirði. Hann var sonur Jóns Arasonar biskups og Helgu Sigurðardóttur fylgikonu hans og var hálshöggvinn ásamt föður sínum og bróður. Sagt er að Ari hafi verið fyrir bræðrum sínum að skörungsskap, greindur og vel lærður, örlátur og vinsæll en harður í horn að taka, stórlyndur og skapmikill. Faðir hans hafði mætur á honum og sagt er að öllum óvildarmönnum hans hafi líkað vel við hann en illa við Björn bróður hans. Ari er fyrst nefndur við dómarastörf 1528 og hefur þá líklega verið orðinn tvítugur en samkvæmt ákvæðum Jónsbókar þurftu menn að hafa náð þeim aldri til að mega sitja í dómi. Ári síðar var hann kjörinn lögmaður að undirlagi föður síns en þó ekki mótstöðulaust, vegna þess hve ungur hann var, og skrifuðu Ögmundur biskup, Diðrik hirðstjóri, Erlendur lögmaður og fleiri konungi og báðu hann að samþykkja Þorleif Pálsson í embættið, því Ari væri of ungur. Ekkert mark var tekið á þeim bréfum og Ari gegndi lögmannsstörfum næstu tvo áratugi og studdi föður sinn með ráðum og dáð. Þó er sagt að hann hafi latt föður sinn til stórræða en Björn hafi aftur á móti hvatt hann. Vorið 1541, þegar Ari og Jón voru á leið á Alþingi, fréttu þeir af komu Kristófers Hvítfelds og handtöku Ögmundar biskups. Sneru þeir þá við og komu ekki til þings og Ari skrifaði þinginu opið bréf og sagði af sér embættinu, en Þorleifur Pálsson tók við. Nokkrum árum síðar reyndu þeir feðgar að ná lögmannsembættinu aftur fyrir Ara en tókst það ekki. Haustið 1549, eftir að Gissur Einarsson biskup var látinn og Marteinn Einarsson tekinn við, ákvað Jón biskup að láta til skarar skríða gegn andstæðingum sínum og sendi þá Ara og Björn suður. Handtóku þeir Martein og annan mann til og færðu þá norður. Ari hafði Martein biskup hjá sér á Möðrufelli í góðu yfirlæti. Vorið eftir riðu biskup og synir hans til Alþingis með fjölmennt lið og létu dólgslega við Dani sem þar voru, meðal annars sló Ari hirðstjórann, Lauritz Mule, í andlitið með fullum poka af silfurpeningum. Þeir fóru svo í Skálholt og einnig í Viðeyjar- og Helgafellsklaustur og endurreistu þau. Um haustið riðu þeir svo vestur í Dali og ætluðu að ráða niðurlögum Daða í Snóksdal. Þeir komu að Sauðafelli þar sem Daði átti bú og biðu þar um tíma en á meðan safnaði Daði liði og tókst að króa feðgana af í kirkjugarðinum á Sauðafelli og handtaka þá. Þeir voru svo fluttir í Skálholt og höggnir þar 7. nóvember. Kona Ara var Halldóra Þorleifsdóttir, sem var dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði og konu hans Sigríðar Sturludóttur. Dætur þeirra voru Helga, kona Staðarhóls-Páls Jónssonar, sýslumanns á Staðarhóli og Reykhólum, og Þóra, kona Sigurðar Þorbergssonar lögréttumanns á Möðruvöllum. Fylgikona Ara um tíma var Þórunn ríka Jónsdóttir og áttu þau eina dóttur sem dó ung. Ari var sagður listfengur og þess hefur verið getið til að hann hafi jafnvel sjálfur smíðað Grundarstólinn sem kenndur er við hann. Fribourg (Sviss). Freiburg, á frönsku Fribourg, er höfuðstaður í kantónunni Fribourg/Freiburg í Sviss. Borgin var stofnuð árið 1157 af Berchtold IV von Zähringen. Titus Oates. Titus Oates (15. september 1649 – 12./13. júlí 1705) var enskur meinsærismaður sem bjó til söguna um páfasamsærið, meint samsæri gegn Karli 2. konungi árið 1678. Til að byrja með var sögunni trúað og Oates fékk það verkefni að handtaka jesúíta sem hann sakaði um þátttöku í samsærinu, en eftir þrjú ár og fimmtán aftökur snerist almenningsálitið gegn honum. Hann hélt þó áfram að ásaka menn, jafnvel konunginn sjálfan, og var á endanum fangelsaður fyrir að efna til múgæsingar. Þegar Jakob 2. komst til valda lét hann setja Oates í gapastokk, hýða hann og stinga í fangelsi þar sem hann var geymdur næstu þrjú árin. Þegar Vilhjálmur 3. komst til valda var Oates náðaður og fékk lífeyri frá krúnunni. Hlöðskviða. Hlöðskviða er stundum talin eitt af Eddukvæðum en hún er varðveitt í bútum í "Hervarar sögu og Heiðreks" og mun þar vera um að ræða brot af lengra kvæði. Hlöðskviða segir frá styrjöld Gota og Húna. Fyrsta erindið telur upp konunga þjóðflokkanna og er Húnakonungur þar nefndur Humli. Heiðrekur Gotakonungur átti tvo syni, Angantý, sem var skilgetinn og erfði ríkið og Hlöð, sem hann hafði átt með dóttur Humla Húnakonungs og hafði alist upp í ríki Húna. Hlöður krafðist þess að fá hálft ríkið í arf eftir föður þeirra en Angantýr neitaði en bauð honum þriðjung. Hlöður móðgaðist og varð það tilefni styrjaldarinnar. Rauða kauphúsið í Freiburg. Rauða kauphúsið er eldrautt og stórglæsilegt Rauða kauphúsið í Freiburg ("Historisches Kaufhaus") stendur gegnt Maríukirkjunni í miðborg Freiburg og þykir eitt allra fallegasta hús borgarinnar. Húsið er eldrautt og mjög áberandi á markaðstorginu. Söguágrip. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær húsið var reist en það mun hafa verið á 14. öld. Húsið kemur fyrst við skjöl 1378 og var þá verslunarhús og tollhús. 1520 var húsið stækkað í átt að Maríukirkjunni og fékk þá hina fögru framhlið. Framkvæmdir stóðu til 1532. Árið 1550 fékk húsið svalirnar sem eru undir styttunum stóru. Stytturnar eru af Maximilian I keisara, Filippus konung hinn fagra, Karl V keisara og Ferdinand I keisara. Að innan er keisarasalurinn stærsti salur hússins, en hann er nefndur eftir Vilhjálmi I keisara Prússlands. Bæði að utan og innan er húsið hið glæsilegasta. Eftir fallbyssuárás Frakka 1744 stórskemmdist húsið og varð að gera það upp. 1946-51 var húsið notað sem þinghús, enda var Freiburg þá höfuðborg Baden, þ.e. franska hernámssvæðisins. Árið 1951 var Baden-Württemberg stofnað sem sambandsland Þýskalands og höfuðborgin færð til Stuttgart. Síðustu breytingar á húsinu voru gerðar 1988. Húsið er í dag notað fyrir sérstaka viðburði. Marteinshliðið. Marteinshliðið séð í átt að miðborginni Marteinshliðið (þýska: "Martinstor") er gamalt borgarhlið frá miðöldum í Freiburg í Þýskalandi, eitt af tveimur sem enn standa í borginni. Saga Marteinshliðsins. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær Marteinshliðið var reist, en aldursgreiningar hafa gefið upp ártalið 1202. Árið 1238 kemur hliðið fyrst við skjöl og hét þá "Porta Sancti Martini" ("Hlið heilags Marteins"). Hliðið var suðurútgangur úr borginni. Þar lá þjóðvegurinn til Basel. Á miðöldum var hliðið einnig notað sem fangelsi. Á 17. öld fékk norðurhlið hliðsins stóra veggmynd af heilögum Marteini og hefur það nokkrum sinnum verið lagfært, enda opið fyrir veðri og vindum. Stærstu breytingar á hliðinu voru gerðar 1901. Sökum þess að verslanahús beggja vegna hliðsins voru orðin svo há, var ákveðið að stækka hliðið. Það var þá hækkað í 60 metra og núverandi þak sett á. Auk þess var annað gat gert á hliðið til að rýmka fyrir vaxandi umferð. Það er opið fyrir bílaumferð. Þar keyra einnig sporvagnar í gegn. Hliðið slapp að mestu við skemmdir í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari og þurfti ekki mikilla viðgerða við. Myndin af heilögum Marteini var fjarlægð 1968/69 og voru það síðustu breytingar sem gerðar hafa verið á hliðinu. Marteinshliðið þykir eitt fegursta borgarhlið Þýskalands. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (eða TIF) er sjálfseignastofnun sem skv. lögum nr. 98/1999 veitir innistæðueigendum „í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laganna.“ Starfandi framkvæmdastjóri sjóðsins frá 1. ágúst 2009 er Sigrún Helgadóttir. Tryggingarsjóður er undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Markmið með lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er að veita viðskiptavinum lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Samkvæmt lögum um sjóðinn skal heildareign innstæðudeildar nema að minnsta kosti 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum og heildareign verðbréfadeildar nema að minnsta kosti 100 m.kr. Lagarfljótsormurinn. Lagarfljótsormurinn er vatnaskrímsli sem talið er, samkvæmt þjóðsögum, að lifi í Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði. Ormsins er fyrst getið í annálum árið 1345 og má lesa um hann í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Í vatni eins og Lagarfljóti geta plöntuleifar sem hafa safnast saman og rotnað á vatnsbotninum myndað mýrargas og gosið upp í dökkum, bogamynduðum strók. Það er svipað fyrirbrigði og hrævareldar yfir mýrum. Það, ásamt því að í vatninu eru klapparhryggir sem vatn brýtur á kann að útskýra sögur um Lagarfljótsorminn. Martin Waldseemüller. Martin Waldseemüller að störfum. Málverk eftir Gaston Save síðla á 19. öld, löngu eftir dauða Waldseemüllers. Martin Waldseemüller (1470/71 í Freiburg – 1522 í Saint Dié í Frakklandi) var þýskur kortagerðarmaður og sá sem stakk fyrstur upp á heitinu "Ameríka" ásamt Matthias Ringmann. Æviágrip. Martin Waldseemüller fæddist í kringum 1470 til 72 í Freiburg í Þýskalandi. Þar nam hann stærðfræði og landafræði í háskólanum. Eftir nám sitt þar fór hann til klaustursins í Saint Dié í Alsace í Frakklandi þar sem hann fékk stöðu prófessors í heimsfræðum ("Kosmólógíu"). Samfara því starfaði hann sem kortagerðarmaður og gaf út nokkur þekkt kort og hnattlíkan. Ein afdrifaríkasta ákvörðun hans var að setja inn orðið "America" í einu af kortunum sínum. Heiti þetta festist í fyrstu við Suður-Ameríku, en fljótlega var svo farið að nota þetta heiti yfir heimsálfuna alla. Waldseemüller starfaði allan sinn aldur í Saint Dié og lést þar 1522. Verk. Heimskort Waldseemüllers. Til vinstri er hin nýfundna Ameríka. Eina afrit hnattlíkansins sem enn er til er til sýnis í Library of Congress í Washington Evrópukort Waldseemüllers vísar til suðurs. Efst má sjá Ítalíuskagann. Efst til hægri er Spánn. Hylacomylus. Meðan Waldseemüller var enn í námi í Freiburg sigldi Kólumbus í fyrsta sinn til Vesturheims. Í kjölfarið fóru ýmsir sæfarar þangað í hina ýmsu könnunarleiðangra. Einn þeirra var ítalski sæfarinn Americo Vespucci. Fyrsta ritið sem Waldseemüller samdi hét Hylacomylus og fjallaði einmitt um ferð Vespuccis til Vesturheims. Á þeim tíma töldu menn enn að hér væri um Asíu (Indland, Kína, Japan) að ræða, en ekki nýtt meginland. Ferð þessi var farin árið 1497, aðeins fimm árum eftir fyrstu ferð Kólumbusar. Heimskort. Eitt þekktasta verk Waldseemüllers var heimskortið frá 1507. Þetta heimskort sýnir austurströnd Ameríku (bæði norður og suður) nokkurn vegin rétt. Hins vegar var ekkert kunnugt um landið inn frá ströndinni nema á örfáum stöðum. Mikið af upplýsingunum fékk hann frá Vespucci, sem þá hafði alls farið í þrjár ferðir vestur. Hann hafði skrifað bréf heim þar sem fram koma sterkar efasemdir um að þetta væri virkilega sú Asía (Indland) sem Kólumbus hafði sagst fundið. Kólumbus dó 1506, á árinu á undan, í þeirri góðu trú að hafa fundið siglingaleið til Indlands. Vespucci hins vegar vekur upp þá spurningu hvort hér sé ekki um annað land að ræða. Ferðalýsing Vespuccis heitir "Mundus Novus" ("Nýr heimur"). Waldseemüller gerir sér fyrstur manna grein fyrir mikilvægi þessara orða. Hann er sannfærður um það að hér sé um nýtt meginland að ræða, ekki Asíu. Á kortið sitt ritar hann orðið "America" nokkurn veginn þar sem Suður-Ameríka er í dag, enda kannaði Vespucci aðallega strandlengju Suður-Ameríku. Ekki er ljóst hvort Waldseemüller gerði þetta með eða án vitundar Vespuccis. En Waldseemüller ritaði "America" sem kvenkynsorð, enda vissi hann að hinar heimsálfurnar (Asía, Evrópa og Afríka) eru allar kvenkyns. Með þessu orsakaði Waldseemüller ekki aðeins að menn áttuðu sig á að hér væri um nýja heimsálfu að ræða, heldur gerði hann nafn Amerigo Vespuccis ódauðlegt. Heimsálfan Ameríka er stærsta landsvæði heims sem nefnt er eftir manni. Heimskortið sjálft er búið til úr 12 bútum, sem hver um sig er 46x62 cm að stærð. Samtals er kortið 1,38 x 2,48 m að stærð. Kort þetta dreifðist mikið um alla Evrópu. Það var afritað í hundruðum eintaka. Talið er að næstu árin hafi 1000 afrit verið gerð. Í dag er aðeins eitt einasta enn til. Það var lengi vel í einkaeigu í Þýskalandi en var selt 2007 til Library of Congress í Washington fyrir 10 milljónir dollara. Þetta er langhæsta verð sem greitt hefur verið fyrir landakort. Kortið er almenningi til sýnis í Washington. Það er á heimsminjaskrá UNESCO. Hnattlíkan. Waldseemüller bjó til hnattlíkan í formi kúlu 1507, á sama ári og hann gerði heimskortið. Líkanið sýnir einnig Ameríku sem nýja heimsálfu. Hnattlíkanið er ónýtt í dag. Til eru hins vegar fjögur afrit af korti þess. Eitt uppgötvaðist 1993 í söguskjalasafni í Offenburg í Þýskalandi. Eitt er í eigu Landsbókasafnsins í München. Eitt er í eigu James Ford Bell Library í háskólanum í Minnesota í Minneapolis. Það síðasta var selt á uppboði hjá Christie’s árið 2005. Kaupandi og geymslustaður kortsins eru óþekkt. Evrópukort. Waldseemüller bjó til kort af Evrópu 1520, aðeins tveimur árum fyrir andlát sitt. Kortið vísar til suðurs, en merkingar eru þó stundum á hvolfi og stundum ekki. Á spássíunum eru skjaldarmerki allra ríkja Evrópu og landsvæða innan þýska ríkisins. Keisari var þá Karl V og var kortið gert honum til heiðurs. Heimildir. Waldseemüller, Martin Boris Spasskí. Boris Vasiljevitsj Spasskí (rússneska: Бори́с Васи́льевич Спа́сский) (fæddur 30. janúar 1937) er sovésk-franskur stórmeistari í skák. Hann var tíundi heimsmeistarinn í skák og hélt titlinum frá 1969 til 1972. Hann fluttist frá Sovétríkjunum til Frakklands 1976 og varð franskur ríkisborgari 1978. Tenglar. Spassky, Boris Spassky, Boris Björn Jónsson á Melstað. Björn Jónsson (um 1506? – 7. nóvember 1550) prestur á Melstað í Miðfirði var sonur Jóns Arasonar biskups og Helgu Sigurðardóttur fylgikonu hans. Björn og Ari lögmaður bróðir hans fylgdu föður sínum eftir í flestum málum en sagt var að Björn hefði jafnan hvatt hann til stórræða en Ari fremur latt hann. Ari var líka sagður mun vinsælli en Björn, bæði meðal fylgismanna og fjandmanna þeirra feðga. Björn varð prestur á Melstað 1534 og hafði einnig Staðarbakka frá 1547. Þegar Helgi Hallvarðsson, síðasti ábótinn í Þingeyraklaustri, var skikkaður til að fara í suðurgöngu til Rómar vegna barneignar árið 1539 var Björn settur til að gegna ábótastarfinu á meðan og eftir að Helgi lét af störfum 1549 vegna elli og sjúkleika tók Björn við stjórn klaustursins þótt hann yrði ekki ábóti. Haustið 1549 ákvað Jón biskup að láta til skarar skríða gegn andstæðingum sínum og sendi þá Ara og Björn suður til að handtaka Martein Einarsson biskup og færðu þeir hann norður í land og höfðu í haldi um veturinn. Vorið eftir riðu biskup og synir hans til Alþingis með fjölmennt lið. Eftir þinglok fóru þeir svo í Skálholt og einnig í Viðeyjar- og Helgafellsklaustur og endurreistu þau. Um haustið riðu þeir svo vestur í Dali og ætluðu að ráða niðurlögum Daða í Snóksdal. Þeir komu að Sauðafelli þar sem Daði átti bú og biðu þar um tíma en á meðan safnaði Daði liði og tókst að króa feðgana af í kirkjugarðinum á Sauðafelli og handtaka þá. Þeir voru svo fluttir í Skálholt og höggnir þar 7. nóvember. Sagt er að Björn hafi borið sig illa, þegar hann var leiddur til höggs, öfugt við Ara, og sagt: „Æ og æ, börnin mín, bæði ung og mörg.“ Og víst er það að hann var barnmargur. Fylgikona hans var Steinunn Jónsdóttir (um 1515 – eftir 1593), dóttir Jóns ríka Magnússonar á Svalbarði á Svalbarðsströnd og konu hans, Ragnheiðar á rauðum sokkum, dóttur Péturs Loftssonar sýslumanns í Djúpadal í Eyjafirði. Á meðal systkina Steinunnar voru þeir Magnús prúði og Staðarhóls-Páll. Steinunn og Björn áttu sjö börn sem upp komust: Jón sýslumann á Holtastöðum (1538 – 1613), Bjarna bónda á Brjánslæk (um 1540 – eftir 1616), Árna bónda á Sauðafelli (um 1540 - um 1590), Magnús bóndi á Hofi á Höfðaströnd o.v. (1541 – eftir 1625), Ragnheiður (f. um 1545), kona Sigurðar Bjarnasonar lögréttumanns á Stokkseyri og formóðir Stokkseyrarættar, Halldóra (f. um 1545), kona Bjarna Pálssonar á Skriðu í Hörgárdal, og Teitur (um 1549 – 1619), lögréttumaður á Hofi í Vatnsdal og Holtastöðum í Langadal. Eftir lát Björns giftist Steinunn Ólafi Jónssyni bónda í Snóksdal, dóttursyni Gottskálks biskups Nikulássonar, og síðast Eggert Hannessyni lögmanni. Tassos Papadopoulos. Tassos Nikolaou Papadopoulos (gríska: Τάσσος Νικολάου Παπαδόπουλος) var kýpverskur stjórnmálamaður. Hann var fimmti forseti Kýpur. Mælskufræði handa Alexander. "Mælskufræði handa Alexander" (eða "Rhetorica ad Alexandrum") er handbók um mælskufræði sem er eignuð Aristótelesi, að því er talið er ranglega en gjarnan er talið að Anaximenes frá Lampsakos hafi samið verkið um miðja 4. öld f.Kr. Filippos II. Filippos II. Styttan er á Carlsberg-safninu í Kaupmannahöfn. Filippos II frá Makedóníu (á forngrísku Φίλιππος Β' ο Μακεδών) (stundum nefndur Filippus Makedoníukonungur á íslensku) (382 – 336 f.Kr.) var forngrískur konungur í Makedóníu hinni fornu frá 359 f.Kr. til 336 f.Kr. er hann var ráðinn af dögum. Hann var faðir Alexanders mikla og Filipposar III Makedóníukonungs. Filippos gerði Makedóníu að öflugasta ríkinu í hinum gríska heimi og breiddi út áhrif þess. Mestu munaði um sigur hans á Aþeningum í orrustunni við Kæróneiu árið 338 f.Kr. en þar með voru yfirráð hans í Grikklandi tryggð. Filippos var að undirbúa innráð í Persaveldi þegar hann var ráðinn af dögum. Sonur hans, Alexander mikli, tók við völdum eftir föður sinn og hrinti í framkvæmd innrásaráætlun föður síns. Pálmalilja. Pálmalilja eða jukka (fræðiheiti: "Yucca") er ættkvísl um 50 tegunda sígrænna jurta af þyrnililjuætt. Þær eru þekktar fyrir harðger lensulaga blöð og langa punta með hvítleitum blómum. Jukkur eru upprunnar í Ameríku en eru algengar um allan heim sem skrautjurtir í görðum og innandyra. Ljósvetninga saga. Ljósvetninga saga er Íslendingasaga sem varðveitt er í tveimur megingerðum, A-gerð og C-gerð og inniheldur C-gerðin nokkra Íslendingaþætti sem koma söguþræðinum ekki beint við og virðast vera innskot. Þetta eru Sörla þáttur, Ófeigs þáttur, Vöðu-Brands þáttur og Þórarins þáttur ofsa. Sagan hefst á frásögn af Þorgeiri Ljósvetningagoða Þorkelssyni á Ljósavatni og sonum hans og kemur Guðmundur Eyjólfsson ríki á Möðruvöllum þar nokkuð við sögu. Þá taka við þrír fyrstnefndu Íslendingaþættirnir en eftir það fjallar sagan aðallega um Guðmund ríka og deilur hans við menn af ætt Ljósvetninga. Eftir dauða Guðmundar snýst sagan svo aðallega um Eyjólf halta son hans og deilur hans við Fnjóskdæli og Ljósvetninga. Sögunni lýkur svo með Þórarins þætti ofsa en þar koma Ljósvetningar ekkert við sögu. Endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd er nefnd sem annast stjórn sem lýtur að innra eftirliti. Í því felst greining og mat á áhættuþáttum og athugun á fyrirkomulagi og virkni eftirlitsaðgerða sem eru hluti þess innra eftirlits sem stjórn ber að koma á fót og viðhalda. Guðmundur Eyjólfsson ríki. Guðmundur Eyjólfsson ríki (d. 1025) var norðlenskur höfðingi og goðorðsmaður á 10. og 11. öld og bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði. Hann er aðalpersónan í Ljósvetninga sögu og kemur við sögu í ýmsum öðrum Íslendingasögum. Faðir hans var að því er segir í Landnámu Eyjólfur Valgerðarson, sonur Einars sonar Auðuns rotins Þórólfssonar landnámsmanns í Saurbæ í Eyjafirði. Kona Einars var Helga dóttir Helga magra. Valgerður móðir Eyjólfs var Runólfsdóttir Gissurarsonar. Bróðir hans var Einar Þveræingur Eyjólfsson, sem bjó á Þverá (seinna Munkaþverá). Guðmundur var höfðingi mikill og segir í Ljósvetninga sögu að hann hafi haft hundrað hjóna (vinnuhjúa) og hundrað kúa. „Það var og siður hans að láta löngum vera með sér göfugra manna sonu og setti þá svo ágætlega að þeir skyldu engan hlut eiga að iðja annan en vera ávallt í samsæti með honum.“ Hann var goði og átti þingmenn bæði í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og reið um með þrjátíu menn og heimsótti þingmenn sína. Kona Guðmundar var Þórlaug dóttir Atla ramma, sonar Sæmundar suðureyska landnámsmanns í Skagafirði. Þau áttu nokkur börn. Í Ljósvetninga sögu segir að synir Guðmundar, Eyjólfur halti og Koðrán, hafi tekið arf eftir hann. Raunar segir Landnáma að móðir Koðráns hafi verið Þjóðgerður dóttir Flóka Vilgerðarsonar en það stenst illa tímans vegna. Eyjólfur kvæntst Yngvildi dóttur Síðu-Halls og var Þórey dóttir þeirra móðir Sæmundar fróða en Þorsteinn sonur þeirra faðir Ketils biskups. Þórarins þáttur ofsa. Þórarins þáttur ofsa er stuttur Íslendingaþáttur. Hann er þó ekki heill, endirinn hefur glatast, en frá atburðum í þættinum er einnig sagt í Fóstbræðra sögu. Í þættinum segir frá Þórarni ofsa Þórðarsyni á Stokkahlöðum í Eyjafirði, sem var „ofláti mikill og afbragðsmaður“. Hann lenti eitt sinn skipi sínu í Hraunhöfn með húsavið en hitti þá fyrir Þorgeir Hávarsson, sem þá hafði vegið frænda Þórarins. Börðust þeir og féll Þorgeir þótt hann væri mikill kappi og verðist frækilega, enda hafði Þórarinn miklu fleiri menn. Hann hjó höfuðið af Þorgeiri og lagði í salt en hafði það svo með sér til Alþingis sumarið eftir. Þorgeir hafði verið hirðmaður Ólafs konungs digra og þegar hann frétti af atburðum sendi hann fé til Eyjólfs Guðmundssonar á Möðruvöllum, sonar Guðmundar ríka, með þeirri orðsendingu að hann vildi að Þórarinn yrði drepinn. Þættinum lýkur þar sem þeir Þórarinn og Eyjólfur ríða báðir til leiðarþings en samkvæmt því sem segir í Fóstbræðra sögu var Þórarinn veginn þar. Pantsen Lama. Pantsen Lama, einnig skrifað Panchen Lama (tíbetska: པན་ཆེན་བླ་མ) sem einnig er nefndur Panchen Rimpoche eða Tashi Lama er næst æðsti leiðtogi í Gelug-grein tíbetsks búddisma. Pantsen Lama er álitinn vera búddann Amitabha endurholdgaður. Titillinn þýðir nánast „fræðimaðurinn mikli“ og er settur saman úr sanskrítarorðinu "paṇḍita" (fræðimaður) og tíbetska orðinu "chenpo" (hinn mikli). Það var hinn fimmti Dalai Lama sem uppgötvaði fyrsta Pantsen Lama á 17. öld. Eftir andlát Dalai Lama er Pantsen Lama ábyrgur fyrir því að finna endurholdgun hans og öfugt. Árið 1924 lentu hinn þrettándi Dalai Lama og hinn níundi Pantsen Lama í harðsvíruðum deilum sem enduðu með því að sá síðarnefndi flúði frá aðalstöðvum sínum í klaustrinu í Shigatse. Kínversk yfirvöld reyndu að notfæra sér þessar deilur og buðu Pantsen Lama að setjast að í Kína. Þegar níundi Pantsen Laman dó 1937 reyndu kínversk yfirvöld að stjórna því hver yrði fyrri valinu sem næsta endurholdgun. Fyrir valinu varð Chökyi Gyaltsen, en yfirvöldin í Lhasa samþykktu það ekki. Það var ekki fyrr en eftir innrás Kínverja í Tíbet 1951 sem hinn fjórtándi Dalai Laman neyddist til að samþykkja valið á hinum nýja Pantsen Lama. Hinn tíundi Pantsen Lama lést 1989 og hófst þá leit að endurholdgun hans. Hinn fjórtándi Dalai Lama viðurkenndi Gedhun Chökyi Nyima þann 14. maí 1995 sem hinn ellefta í endurholdgunarröð Pantsen Lama. Kínverska ríkisstjórnin valdi hins vegar annað barn, Gyancain Norbu, í staðin. Gedhun Chökyi Nyima var settur í stofufangelsi sex ára gamall. Það er með öllu óvíst hvar hann er eða hvort hann er en á lífi. Hálogaland. Hálogaland um árið 1000 e.Kr. Hálogaland eða Hålogaland er gamalt nafn á landsvæði norðarlega í Noregi. Á 9. og 10. öld var það nafn á sjálfstæðu smákonungdæmi sem náði yfir hluta af Tromsfylki, Nordland og suður í Norður-Þrændalög, það er að segja þann hluta Norður-Noregs sem byggður var norrænum mönnum. Norðan við Hálogaland var Finnmörk, þar sem Samar bjuggu. Það virðist líka hafa náð langt til austurs, inn í Norður-Svíþjóð og Finnland. Hálogaland er oft nefnt í Íslendinga- og Noregskonungasögum. Nú á dögum er heitið Hálogaland oft notað yfir fylkin Nordland, Troms og Finnmörk, til dæmis eru biskupsdæmi og dómstólar í Norður-Noregi kennd við Hálogaland. Þorgeir Ásgrímsson. Þorgeir Ásgrímsson var íslenskur landnámsmaður á Rangárvöllum og bjó í Odda. Ásgrímur faðir hans bjó á Fíflavöllum á Þelamörk. Í Landnámu segir að Ásgrímur hafi neitað að gjalda Haraldi hárfagra skatt og hafi konungur þá látið Þórorm frænda sinn drepa hann. Þorgeir var þá aðeins tíu ára en Þorsteinn, eldri bróðir hans, var í víkingaferð. Þegar hann kom heim fór hann og brenndi Þórorm inni og rændi bú hans. Síðan hélt hann til Íslands ásamt Þorgeiri bróður sínum og Þórunni móðursystur þeirra. Þau urðu öll landnámsmenn; Þorsteinn nam land fyrir ofan Víkingslæk og bjó í Skarði en Þórunn nam Þórunnarhálsa. Vöðu-Brands þáttur. Vöðu-Brands þáttur er Íslendingaþáttur sem er felldur inn í Ljósvetninga sögu. Þar segir frá Vöðu-Brandi Þorkelssyni frá Mýri í Bárðardal, sem var hinn mesti vandræðamaður, ódæll og illur viðureignar. Hann sigldi út með Norðmönnum sem hann hafði kynnst og kom aftur seint um haust á skipi sem lenti í Reyðarfirði. Þá var færð þung vegna snjóa og komst Brandur ekki heim til sín, heldur fékk vetursetu hjá Þorkatli Geitissyni í Vopnafirði. Þar hélt hann uppi miklu fjöri og höfðu konur á búi Þorkels engan frið fyrir honum og félögum hans. Varð því úr að hann fór til föður síns, en skömmu eftir að þangað kom veitti hann manni mikinn áverka og sendi faðir hans hann aftur til Þorkels Geitissonar. Guðmundur ríki Eyjólfsson tók að sér málið fyrir manninn og stefndi Brandi til Vaðlaþings en Þorkell sótti ráð til Þorsteins Síðu-Hallssonar vinar síns, sem reið með honum á vorþingið. Ekki náðust þó sættir og stefndu Guðmundur og Þorkell hvor öðrum til Alþingis og riðu þangað báðir með liðsafnað. Illa þótti horfa um sættir en þá brá Þorsteinn á það ráð að biðja Jórunnar, dóttur Einars Þveræings bróður Guðmundar, fyrir konu handa Þorkatli. Einar samþykkti það og gat Guðmundur þá ekki annað en sæst við Þorkel, þegar þeir voru orðnir mægðir. Vöðu-Brandur varð bóndi á föðurleifð sinni og þótti stillast mjög með aldrinum. Heidelberg. Heidelberg er fimmta stærsta borgin í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi með 145 þúsund íbúa. Miðborgin í Heidelberg. Kastalarústirnar og Kirkja heilags anda eru mjög áberandi. Í forgrunni er áin Neckar. Lega. Heidelberg liggur ána Neckar norðvestast í Baden-Württemberg, rétt austan við Rínarfljót. Næstu borgir eru Mannheim í norðvestur (20 km), Heilbronn í suðaustur (40 km) og Stuttgart í suður (um 70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er gyllt ljón á svörtum grunni. Ljónið er skjaldardýr greifanna í Pfalz. Merki þetta var fyrst tekið upp 1898 en breytt lítilsháttar 1969. Orðsifjar. Borgin hefur heitið Heidelberg alveg frá fyrstu tíð en "Heidel" er dregið af orðinu "Heidelbeere", sem merkir bláber. Heitið kemur fyrst við skjöl 1196. Upphaf. Áður en borgin sjálf myndaðist, bjuggu Rómverjar á staðnum og seinna alemannar. Á 9. öld voru nokkur klaustur stofnuð í grennd. Þá voru einnig nokkur smáþorp þar í kring, sem í dag eru hluti af borginni. En árið 1196 kemur heitið Heidelberg fyrst við skjöl í riti frá klaustrinu Schönau. Þá þegar var komið lítið kastalavirki sem bar þetta heiti og er talið að heitið Heidelberg hafi síðar verið notað fyrir bæinn sjálfan. Þó er óvíst hvernær bærinn var stofnaður. Það mun þó hafa gerst milli 1170-1220. Höfuðborg þýska ríkisins. Á 13. öld verður Heidelberg hluti af héraðinu Pfalz. Furstarnir í Pfalz settust að í kastalann mikla sem gnæfir yfir borgina. Enn vænkaðist hagur borgarinnar er furstarnir í Pfalz (þ.e. í Heidelberg) fengu stöðu kjörfusta. Árið 1386 stofnaði kjörfurstinn Ruprecht III háskóla í borginni en hann er þriðji elsti háskóli þýska ríkisins (á eftir Prag og Vín). Háskóli þessi er hins vegar elsti háskóli núverandi Þýskalands. Háskólinn varð til þess að íbúum fjölgaði og voru þá reist ný hverfi. Árið 1400 varð Ruprecht kjörinn konungur þýska ríkisins, sá eini frá héraðinu Pfalz sem náði þeim heiðri. Þar með varð Heidelberg höfuðborg þýska ríkisins til skamms tíma. Ruprecht dó tíu árum seinna og náði aldrei að verða krýndur keisari. En hann lét reisa margar byggingar í heimaborg sinni. Trúarumrót. 1518 var Marteini Lúther boðið til Heidelberg til að taka þátt í trúarumræðum. Siðaskiptin höfðu þá enn ekki hafist af alvöru, en Lúter var orðinn landsþekktur „uppreisnarmaður“. Umræðurnar fóru fram í háskólanum og var tilgangur þeirra að þagga niður í manninum. Lúter stóð hins vegar fastur fyrir og predikaði nýju hugmyndir sínar. Þær fengu engan hljómgrunn meðal munka og kennara, en meðal áhorfenda voru margir stúdentar sem seinna áttu eftir að verða mikilsmetnir siðaskiptamenn. Það var þó ekki fyrr en 1544 sem kjörfurstinn Friðrik II tók siðaskiptum. 1556 var allt héraðið Pfalz að heita mátti lúterskt. Það var þó aðeins byrjunin. Fram á 18. öld skipti héraðið samtals sjö sinnum um trú. Kjörfurstinn Friðrik III snerist til dæmis til kalvínisma. Eftirmaður hans innleiddi aftur lúterskan sið, meðan eftirmaður hans innleiddi kalvínismann á nýjan leik. Í hvert sinn varð að „hreinsa út“ alla kennara háskólans, þar sem mjög mikilvægt var að hafa kennarana í réttri trú. 30 ára stríðið. Kjörfurstinn Friðrik V kvæntist ensku prinsessunni Elisabeth Stuart, dóttur Jakobs I og barnabarn Maríu Stúart. Friðrik var mikill trúaráhugamaður og var kosinn leiðtogi siðaskiptabandalagsins. En með honum hlaut kjörfustadæmið skjótan enda. Þegar mótmælendur í Prag höfnuðu keisaranum Ferdinand II og hentu fulltrúum hans út um glugga á kastalanum í Prag, leystu þeir úr læðingi 30 ára stríðið. Þeir kusu svo Friðrik kjörfursta sem nýjan konung sinn, þar sem hann var vel lúterskur og þótti skörungur mikill. Friðrik hikaði hins vegar, því hann taldi að hann gæti ekki staðið í hárinu á Habsborg og keisara þeirra. En hann gekkst við embættinu 1819 og fór til Prag til að láta krýna sig. Fyrsta stórorrusta 30 ára stríðsins fór fram við Hvítafjall (Bila Hora) nálægt Prag. Þar beið Friðrik mikinn ósigur gegn kaþólska hernum undir stjórn Tillys og fór í útlegð til Niðurlanda. Friðrik var því aðeins konungur í 13 mánuði og gekk inn í söguna sem „"Vetrarkonungurinn"“. Eftir orrustuna var kjörfurstaembættið tekið af Pfalz og léð Bæjaralandi. Næsta ár, 1622, fór Tilly með mikinn her til Pfalz og sat um Heidelberg. Borgin þráaðist við og þraukaði í 3 mánuði, uns hún gafst upp. Tilly hernam borgina og neyddi kaþólska trú upp á alla borgarbúa. Háskólinn var leystur upp. Háskólabókasafnið var sent til Rómar og gefið Gregoríus páfa XV. Heidelberg var í rústum. 1633 komu Svíar til Heidelberg og náðu að hertaka hana til skamms tíma. Íbúar urðu lúterskir aftur. En það stóð stutt yfir. Keisaraherinn hrakti Svía burt skömmu seinna og allt féll í sama far aftur. Þegar 30 ára stríðinu lauk 1648 fékk Karl Lúðvík, sonur Friðriks, að snúa aftur til Heidelberg. Hann fékk að halda héraðinu Pfalz, sem hafði verið minnkað talsvert, og hann fékk meira að segja kjörembættið til baka. Það mikilvægasta sem hann gerði var að innleiða jafnrétti trúfélaga og að endurreisa háskólann. Erfðastríðið í Pfalz. Karl Lúðvík gerði hörmuleg mistök 1671 er hann gifti dóttur sína, Elisabetu Charlottu, hertoganum Filippus I af Orleans, bróður sólkonungsins Loðvíks XIV. Sonur Karls Lúðvíks dó 1685 barnlaus og Karl Lúðvík lést 1680. Nýr kjörfursti varð Filippus Vilhjálmur, frændi þeirra. En sólkonungurinn í Frakklandi sá ástæðu til að krefjast krúnunnar fyrir hönd bróður síns og réðist með her inn í Pfalz. Þetta var upphafið á erfðastríðinu í Pfalz (oft kallað "9 ára stríðið") sem stóð frá 1688-97 og varð að stórstríði. Heidelberg kom mjög illa út úr stríðinu. Tvisvar hertóku Frakkar borgina. Fyrst 1688 og síðan 1693. Í seinna skiptið nær gjöreyddu þeir borginni og drápu íbúana. Nær öll hús voru jöfnuð við jörðu. Kastalann mikla sprengdu þeir og hefur hann staðið í rústum allar götur síðan. Borgin var endurreist, en kjörfurstinn flutti til Mannheim. Þar með varð Heidelberg að venjulegri borg. Napoleonstíminn og 19. öldin. 1798 hertóku Frakkar allt héraðið Pfalz og þar með Heidelberg. Kjörfurstadæmið var endanlega lagt niður 1803 þegar Pfalz var innlimað stórhertogadæminu Baden. Stórhertoginn Karl Friðrik endurreisti háskólann og bar hann síðan nafn hans, ásamt nafn stofnandans, Ruprechts ("Ruprecht-Karls-Universität"). Margir þekktir prófessorar kenndu við háskólann, s.s. heimspekingurinn Hegel og efnafræðingurinn Bunsen. 1840 fékk borgin járnbrautartengingu, en iðnbyltingin lét þó á sér standa. Heidelberg var landbúnaðarbær og háskólaborg. Ferðamennskan hélt hins vegar innreið sína í borgina. Það var ekki síst kastalanum fyrir að þakka, þrátt fyrir að rústir hans minntu á mikla niðurlægingu í gömlum stríðum. Borgin óx þó ekki fyrr en í lok 19. aldar, er íbúafjöldinn nær fjórfaldaðist á skömmum tíma. Nýrri tímar. Nasistar búnir að sprengja gömlu brúna Heimstyrjöldin fyrri hafði lítil áhrif á Heidelberg. Við stríðslok varð Friedrich Ebert, eitt þekktasta barn borgarinnar, fyrsti forseti Weimar-lýðveldisins. Þegar hann féll frá 1925, var hann lagður til hinstu hvílu í borginni að viðstöddu miklu fjölmenni. Í heimstyrjöldinni síðari varð Heidelberg aðeins fyrir örfáum „léttum“ loftárásum og urðu skemmdir óverulegar. Þetta má rekja til þess að iðnaður var lítill í borginni og hún hafði ekkert hernaðarlegt vægi. Stærstu skemmdirnar voru orsakaðar af nasistum sjálfum, en þeir sprengdu brýrnar yfir ána Neckar til að tefja fyrir herjum bandamanna undir stríðslok (í mars 1945). Aðeins degi síðar hertóku Bandaríkjamenn borgina, án teljandi mótspyrnu. Heidelberg varð hluti af bandaríska hernámssvæðinu. Sökum þess að engar skemmdir voru unnar í henni meðan stríðið geysaði, fluttu þangað margir flóttamenn. Bandaríkjamenn starfræktu stóra herstöð í Heidelberg næstu áratugi sem sett hefur mikinn svip á borgina. Árið 2004 sótti borgin um að kastalarústirnar og miðborgin væru sett á heimsminjaskrá UNESCO en umsókninni var hafnað. Íþróttir. HeidelbergMan er þríþraut sem haldin er í Heidelberg að sumri til. Keppnin hefur verið haldin síðan 1990. Syntir eru 1,7 km, hjólað eru 36 km og síðan er hlaupið 10 km. Árið 2010 var straumurinn í Neckar of mikill fyrir sund. Því var brugðið á það ráð að hlaupa 5 km, hjóla 32 km og hlaupa aftur 10 km. Keppnin er afar vinsæl meðal borgarbúa. Í apríl er hlaupið hálfmaraþon í borginni. Þátttakendur hafa verið í kringum 3.500. Heidelberg er þekkt fyrir ruðning. Í borginni einni saman eru fimm ruðningsfélög, þar af eru fjögur þeirra í efstu deild (tíu liða deild). Byggingar og kennileiti. Kastalinn í Heidelberg eru stærstu kastalarústir Þýskalands Émile Friant. Émile Friant (16. apríl 1863 – 6. júní 1932) var franskur myndlistarmaður sem málaði í raunsæi stíl. Hann haldið sýninga á Le Salon de Paris í París. Friant var einnig prófessor í list við École des Beaux-Arts'. Hann hlaut Légion d'honneur árið 1931 og var meðlimur í Institut de France. Hann lést skyndilega árið 1932 í París. Friant, Émile Skvibbi. Skvibbi er úr Harry Potter-bókunum og er fólk fætt af galdrafólki en hefur engan galdramátt. Eini skvibbin sem er í Hogwartskóla heitir Argus Filch. Kastalinn í Heidelberg. Kastalinn í Heidelberg gnæfir yfir borgina Kastalinn í Heidelberg er stærsta og ein merkasta kastalarúst Þýskalands. Hann er jafnframt helsta kennileiti borgarinnar Heidelberg. Kastalinn var eyðilagður af Frökkum í erfðastríðinu í Pfalz 1693 og hefur verið rústir síðan. Upphaf og höfuðborg ríkisins. Ekki er vitað hvenær nákvæmlega kastalinn var reistur. Árið 1196 kemur borgin Heidelberg fyrst við skjöl og er talið að þá þegar hafi kastalavirki verið til staðar. Kastalinn sjálfur kemur ekki við skjöl fyrr en 1225. Líklegt er að lítið sé eftir af honum, því kastalinn hefur verið endurgerður og margstækkaður. Árið 1294 er í síðasta sinn minnst á kastalann í eintölu. Eftir það var hann stækkaður talsvert og var eins og heil borg innan múra. Árið 1400 var kjörfurstinn Ruprecht kosinn til konungs í þýska ríkinu. Hans aðsetur var þá þegar í kastalanum. Sem konungur lét hann stækka kastalann enn, því hann bjó þá þegar í þrengslum. Heidelberg var orðin að höfuðborg þýska ríkisins og nauðsynlegt að hýsa diplómata. Ruprecht lést 1410 og var Heidelberg, og kastalinn, því höfuðborg þýska ríkisins í tíu ár. Marteinn Lúter. 1518 var Marteinn Lúter í Heidelberg til að taka þátt í trúarkappræðum. Meðan á dvöl hans í Heidelberg stóð, sótti hann kastalann heim. Greifinn Wolfgang, bróðir kjörfurstans, sýndi honum allt og var leiðsögumaður hans. Í bréfi sem Lúter skrifaði eftirá sagðist hann vera mjög hrifinn af fegurð kastalans og hernaðarmætti hans. 30 ára stríðið. 'Vetrarkonungurinn' Friðrik V leysti úr læðingi 30 ára stríðið Í 30 ára stríðinu var í fyrsta hleypt af skoti á kastalann. Kjörfurstinn og kastalaherrann Friðrik V var gerður að konungi Bæheims í Prag 1619. Hann tapaði í orrustu við keisaraherinn og fór í útlegð til Niðurlanda. En keisaraherinn lét ekki þar við sitja. Árið 1622 fór Tilly hershöfðingi til Heidelberg og sat um borgina í þrjá mánuði, uns hún gafst upp. Tilly hertók borgina og nokkrum dögum síðar kastalann og sat þar um hríð. Ellefu árum seinna náði sænskur her að komast til borgarinnar. Þeir hertóku borgina og hófu skothríð á kastalann þar til hinn fámenni varðher keisarans gafst upp. Keisaraherinn mætti hins vegar aftur á staðinn ári seinna og hóf aftur skothríð á kastalann, þar til Svíar hrökluðust burt. Þegar 30 ára stríðinu lauk 1648 fékk sonur Friðriks að koma til Heidelberg og ríkja í kastalanum sem kjörfursti á ný. Eyðilegging. Kastalinn í Heidelberg er stærsta kastalarúst Þýskalands Erfðastríðið í Pfalz varð banabiti kastalans. Loðvík XIV konungur Frakklands gerði tilkall til héraðsins Pfalz og réðist því 1688 með her til Heidelberg, þar sem hún var höfuðborg héraðsins. Frakkar stórskemmdu kastalann og varnarmúra borgarinnar og fóru við svo búið til næstu borgar. Árið 1693 voru þeir aftur mættir til Heidelberg en þá sáu þeir að búið var að gera við varnarmúrana. Þeir náðu þó að hertaka hana í annað sinn. Þar sem þeir komust ekki inn í kastalann, eyðilögðu þeir borgina til að einangra kastalann og varðliðið þar. En strax daginn eftir gafst varðliðið upp. Frakkar tók þá einnig kastalann og voru ekkert að tvínóna við hlutina. Þeir eyðilögðu hann einnig og báru að lokum eld í allt. Þegar þeir yfirgáfu borgina var hún aðeins sót og aska. Þetta voru endalok kastalans. Heidelberg var byggð upp á ný en ekki kastalinn. Kjörfurstinn ákvað að flytja aðsetur sitt, þar sem borgarbúar vildu ekki endurreisa kastalann að hans hugmyndum. Hann stofnaði því borgina Mannheim og lét reisa sér glæsilegan kastala þar. Síðan þá hefur kastalinn í Heidelberg legið í rúsum. Nýrri tímar. Friedrichsbau er eini hluti kastalans sem hefur að hluta verið gerður upp Á næstu öldum fóru borgarbúar stundum upp eftir til að ná í grjót og annað. Árið 1878 kom bandaríski rithöfundurinn Mark Twain til Heidelberg og skrifaði um kastalann í ferðabók. Síðla á 19. öld kom til tals að endurreisa kastalann og var skipuð nefnd til að hanna verkáætlun. En nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ógerlegt. Aðeins miðjuhúsið, "Friedrichsbau", var að hluta gerður upp. Það hafði aldrei verið rústir en það hafði brunnið út og stórskemmst. Framkvæmdum lauk árið 1900. Eftir það er kastalinn einn vinsælasta kastalarúst Þýskalands. Aldamótaárið 2000 komu til dæmis ein milljón ferðamenn til Heidelberg. Árið 2004 sótti borgin um að kastalinn yrði settur á heimsminjaskrá UNESCO en umsókninni var hafnað. Hann er opinn almenningi til skoðunar. Kantónur í Sviss. Kantónurnar í Sviss eru 26, sem mynda sambandslýðveldið Sviss. Kantónur í Sviss eru í raun fylki. Haraldur Örn Ólafsson. Haraldur Örn Ólafsson (f. 8. nóvember 1971) er íslenskur lögfræðingur og fjallamaður. Meðal afreka hans er að komast á alla hæstu tinda heimsálfanna sjö og báða pólana. Notting Hill. Notting Hill er hverfi í Vestur-London í Englandi. Það er nálægt norðvesturhorni Kensington Gardens í borgarhlutanum Kensington og Chelsea. Notting Hill er fjölþjóðlegt hverfi, þekkt fyrir Notting Hill-karnivalið, hátíð sem haldin er þar árlega. Þar er líka Portobello Road-markaðurinn. Kvikmyndin "Notting Hill" með Juliu Roberts og Hugh Grant gerist í hverfinu. Í Notting Hill eru mörg viktoríönsk raðhús og þar þykir eftirsóknarvert að búa. Það eru líka margar eðalverslanir og veitingarhús, sérstaklega við Westbourne Grove. Notting Hill (kvikmynd). "Notting Hill" er rómantísk gamanmynd sem kom út árið 1999 og á sér stað í Notting Hill í London. Handrit var skrifað af Richard Curtis, sem skrifaði líka "Four Weddings and a Funeral". Framleiðandi var Duncan Kenworthy og leikstjóri var Roger Michell. Aðalleikarar í myndinni eru Hugh Grant, Julia Roberts, Rhys Ifans, Emma Chambers, Tim McInnerny, Gina McKee og Hugh Bonneville. "Notting Hill" var mjög vel heppnuð og fékk BAFTA verðlaun og var útnefnd í tveimur öðrum flokkum. Myndin vann nokkur önnur verðlaun, meðal annars British Comedy Award og Brit Award fyrir hljóðrásina. Amýlasi. Amýlasi eða mjölvakljúfur er ensím sem brýtur sterkju niður í smærri sykrunga, svokölluð dextrín. Það er, fásykrur, tvísykruna maltósa og einsykruna glúkósa. Næringarefni. Næringarefni er hvers kyns efnasamband sem lífvera þarf að nema úr umhverfi sínu sér til vaxtar og viðhalds. Næringarefni geta til dæmis þjónað sem byggingarefni fyrir vefi lífverunnar, sem orkugjafi, sem kóensím, eða tekið á annan hátt þátt í þeim efnahvörfum sem eiga sér stað í frumum líkamans. Snjófyrningasvæði. Snjófyrningasvæði er sá hluti jökuls þar sem vetrarsnjórinn nær ekki að bráðna á sumrin. Snjórinn kaffærist undir yngri snjó og breytist smám saman í jökulís. Þórarinn krókur. Þórarinn krókur var landnámsmaður í Króksfirði og nam land frá Króksfjarðarnesi til Hafrafells. Landnáma segir hann hafa þrætt við Steinólf hinn lága um Steinólfsdal, sem var í Króksfirði en Steinólfur vildi eigna sér. Þórarinn gerði atlögu að honum við tíunda mann þegar hann reri úr seli við sjöunda mann. Börðust þeir á eyrinni við Fagradalsárós en að Steinólfi dreif stuðningur og féll Þórarinn þar ásamt fleirum. Gils skeiðarnef. Gils skeiðarnef var landnámsmaður í Gilsfirði. Hann nam land frá Ólafsdal til Króksfjarðarmúla og bjó á Kleifum. Í Landnámu segir frá því að Guðlaugur bróðir Gils braut skip sitt við Guðlaugshöfða við Bitrufjörð á Ströndum og komst í land með konu sinni og dóttur en aðrir skipverjar fórust. Þá kom Þorbjörn bitra, landnámsmaður í Bitrufirði, þar að og drap hjónin en tók dóttur þeirra og ól upp. En þegar Gils komst á snoðir um þetta fór hann og hefndi bróður síns með því að drepa Þorbjörn. Samkvæmt Landnámu hétu synir Gils Herfiður, sem bjó í Króksfirði, og Héðinn, afi Þorvaldar Halldórssonar í Garpsdal, sem var fyrsti eiginmaður Guðrúnar Ósvífursdóttur. Dóttir Gils hét Þorbjörg knarrarbringa en önnur dóttir hans, ónefnd var móðir Þórörnu, konu Hrólfs sonar Helga magra. Kjálkafjörður. Kjálkafjörður er fjörður í Barðastrandarsýslu á milli Litlaness og Hjarðarness. Fjörðurinn er um 6 km langur og í botni hans við Skiptá eru mörk Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslna. Landnáma segir að Geirsteinn kjálki hafi numið Kjálkafjörð og Hjarðarnes. Geirþjófur Valþjófsson. Geirþjófur Valþjófsson var íslenskur landnámsmaður og nam land um Suðurfirði Arnarfjarðar, Fossfjörð, Reykjarfjörð, Trostansfjörð og Geirþjófsfjörð og bjó í Geirþjófsfirði. Í Landnámu segir að kona hans hafi verið Valgerður, dóttir Úlfs hins skjálga. Sonur þeirra var Högni kvæntur Auði dóttur Ólafs og Þóru Gunnsteinsdóttur. Atli var sonur þeirra kvæntur Þuríði Þorleifsdóttur, Eyvindarsonar knés (landnámsmanns í Álftafirði í Djúpi). Ketill fíflski. Ketill fíflski var landnámsmaður á Síðu og bjó í Kirkjubæ. Hann var sonur Jórunnar, dóttur Ketils flatnefs, og því systursonur Auðar djúpúðgu. Hann kom úr Suðureyjum til Íslands og nam land á milli Geirlandsár og Fjaðrár. Ólíkt flestum landnámsmönnum var Ketill kristinn. Í Landnámu segir að á Kirkjubæ hafi papar búið fyrir landnám og þar hafi heiðnir menn ekki mátt búa. Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar er viðurkenning sem Reykjavíkurborg veitir í minningu Tómasar Guðmundssonar skálds. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1994. Framan af voru þau veitt annað hvert ár fyrir skáldverk en árið 2005 var reglunum breytt og eru þau nú veitt árlega fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Nupedia. Nupedia var frjálst netalfræðirit á ensku, sem innihélt greinar sem skrifaðar voru af sérfræðingum. Það var stofnað af Jimmy Wales og var stutt af fyrirtækinu Bomis. Aðalritstjóri þess var Larry Sanger. Nupedia var til frá mars 2000 þar til í september 2003 og er þekktast sem forveri Wikipedia. Ólíkt Wikipediu var Nupedia ekki wiki, greinarnar voru ritrýndar af sérfræðingum. Einnig var ætlast til að fræðimenn skrifuðu innihald alfræðiritsins án endurgjalds. Áður en verkefninu var lokað endanlega voru greinarnar orðnar 24, og 74 aðrar greinar voru í vinnslu á þeim tíma. Frumherji. Frumherji hf. er fyrirtæki sem var stofnað þann 4. febrúar 1997 þegar ákveðið var að skipta upp starfsemi Bifreiðaskoðunar Íslands hf. Frumherji hf. er stærsta félag sinnar tegundar á Íslandi og hjá því starfa rúmlega 100 manns á um 30 stöðum á landinu öllu. Árið 2001 keypti Frumherji tvær mælaprófunarstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur og hins vegar þjónustusamning fyrirtækjanna þar sem Frumherji tekur að sér þjónustu við Orkuveituna á þessu sviði. Kaupverðið var 1,2 miljarðar. Árið 2007 keypti eignarhaldsfélag í eigu Finns Ingólfssonar og fleiri fjárfesta allt hlutafé í Frumherja hf. og Frumorku ehf. Í mars árið 2010 kom í ljós að Finnur hafði veðsett eignir Frumherja þannig að skuldir fyrirtækisins nema nú samtals 2,6 milljörðum króna. Hin ólíku svið Frumherja. Dótturfélag Frumherja er Hreinsibílar ehf. sem starfar að hreinsunum og fóðrun skólplagna. Gleraugnabjörn. Gleraugnabjörn (fræðiheiti: "Tremarctos ornatus") er björn sem er finnst í regnskógum í fjalllendi í Andesfjöllum allt uppi 2300 m. hæð. Þeir eru næturdýr sem vaka á næturnar og sofa á daginn. Líkt og önnur bjarndýr hefur gleraugnabjörnum fækkað mjög á undanförnum áratugum og eru nú aðeins um 20.000 villt dýr eftir. Tegundin telst því vera í útrýmingarhættu vegna þess að maðurinn veiðir hann og leggur undir sig búsvæði hans. Gleraugnabjörninn er sterkur, með stuttan og vöðvastæltan háls, stutta en sterka fætur, með fimm tær á hvorum með bognum klóm sem eru allt að tvær tommur á lengd. Þeir eru litlir af björnum að vera, loðnir og svartir með mynstur sem er eins og gleraugu kringum augun en af því dregur tegundin nafn sitt. Gleraugnabirnirnir eru alætur en ávextir og jurtir eru samt stærsti hluti fæðu þeirra og þeir borða bara 4% kjöt. Svörtuloft (Snæfellsnesi). Svörtuloft eru sjávarhamrar vestast á Snæfellsnesi. Þar hefur hraun runnið í sjó og brimið síðan brotið framan af þeim svo að hamrarnir standa þverhníptir eftir og eru mjög dökkir og hrikalegir ásýndum. Örnefnið er víðar til og oftast haft um sjávarhamra eða klettabelti. Mörg skip og bátar hafa farist undir Svörtuloftum og yfirleitt með allri áhöfn því að þar er hvergi skjól og nær engar aðstæður til að bjarga mönnum. Nafnið er aðeins notað af sjó en á landi heita björgin Nesbjarg, næst Öndverðarnesi, og síðan Saxhólsbjarg. Örnefnið hefur oft verið notað í líkingum og þá venjulega til að tákna eitthvað drungalegt eða neikvætt: „Grútargræðgin hefir leitt þá svo langt að nú eru þeir fallnir fyrir Svörtuloft stjómmálanna og þar munu þeir beinin bera í urð illverka sinna við íslenzkt þjóðarsjálfstæði.“ (Mjölnir, 1914). Hús Seðlabanka Íslands er einnig oft nefnt Svörtuloft. Spennusaga Arnaldar Indriðasonar frá 2009 heitir "Svörtuloft". Davíð Stefánsson orti kvæði sem nefnist "Undir Svörtuloftum" og Bragi Sigurjónsson gaf út ljóðabók með sama nafni. Möðruvellir (Eyjafjarðarsveit). Möðruvellir í Eyjafirði er kirkjustaður og fornt höfuðból í Eyjafjarðarsveit og er jörðin framarlega í Eyjafirði austanverðum, rúma 25 km frá Akureyri. Þar hafa oft búið höfðingjar og ríkismenn. Möðruvöllum er oft ruglað saman við Möðruvelli í Hörgárdal. Fyrsti bóndinn á Möðruvöllum sem sögur fara af var Eyjólfur Valgerðarson, goðorðsmaður og skáld, sem kemur við nokkrar Íslendingasögur. Synir hans voru þeir Einar Þveræingur og Guðmundur Eyjólfsson ríki, sem bjó á Möðruvöllum og barst mikið á, enda var hann einn helsti höfðingi Norðlendinga á söguöld. Seinna átti Loftur ríki Guttormsson bú á Möðruvöllum og dvaldi þar löngum. Þorvarður sonur hans bjó á Möðruvöllum og síðar Margrét Vigfúsdóttir ekkja hans. Möðruvellir eru kirkjustaður frá fornu fari og ekki ólíklegt að Guðmundur ríki hafi látið byggja fyrstu kirkjuna þar. Kirkjan er enn í bændaeign. Núverandi kirkja var byggð 1847-1848 og er timburkirkja í hefðbundnum stíl. Hún er turnlaus en klukknaport við kirkjuna er frá 1781 og er eitt elsta mannvirki úr timbri sem enn stendur á Íslandi. Helsti kjörgripur kirkjunnar er altarisbrík úr alabastri, sem Margrét Vigfúsdóttir gaf til hennar seint á 15. öld. Inglourious Basterds. "Inglourious Basterds" er stríðskvikmynd sem kom út árið 2009. Hún var skrifuð og leikstýrð af Quentin Tarantino. Hrútur Herjólfsson. Hrútur Herjólfsson kemur bæði við Laxdælu og Njáls sögu og er einnig getið í Landnámabók. Móðir hans var Þorgerður dóttir Þorsteins rauðs Ólafssonar, sonar Auðar djúpúðgu. Hún giftist fyrst Dala-Kolli og átti með honum soninn Höskuld en þegar Dala-Kollur dó var hún enn ung. Hún fór þá til Noregs og giftist þar manni sem Herjólfur hét og átti Hrút með honum. Hann ólst upp í Noregi. Eftir að Þorgerður varð ekkja öðru sinni sneri hún aftur til Íslands og dó hjá Höskuldi syni sínum, sem tók undir sig allt fé hennar. Hrútur kom svo til landsins og settist að á Kambsnesi. Þeir bræðurnir deildu um móðurarfinn og barðist Hrútur við húskarla bróður síns og felldi nokkra þeirra en að lokum sættust þeir. Hrútur flutti þá að Hrútsstöðum í Laxárdal og bjó þar síðan. Honum er svo lýst í Njálu að hann var „vænn maður, mikill og sterkur, vígur vel og hógvær í skapi, manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála.“ Þeir bræður riðu til Alþingis og báðu þar Unnar, dóttur Marðar gígju, en áður en af brúðkaupi þeirra yrði fór Hrútur til Noregs að sækja arf eftir hálfbróður sinn. Hann var um veturinn í Konungahellu við hirð Haraldar gráfeldar og Gunnhildar móður hans og átti þá vingott við Gunnhildi. Var sagt að hún hefði lagt þau álög á hann að skilnaði að hann mætti ekki gagnast þeirri konu sem hann væri heitinn á Íslandi. Hann fór svo heim og gekk að eiga Unni en samband þeirra var ekki gott og var álögum Gunnhildar kennt um. Svo fór að Unnur sagði skilið við Hrút eftir ráðum föður síns, fór heim til hans og kom aldei aftur í Dali. Á þingi sumarið eftir heimtaði Mörður aftur heimanfylgju dóttur sinnar, sem Hrútur hafði fengið, en Hrútur skoraði hann þá á hólm. Mörður var gamall og vildi ekki berjast. En löngu seinna fékk Unnur frænda sinn, Gunnar á Hlíðarenda, til að ná fé sinu og tókst honum það með ráðum Njáls vinar síns á Bergþórshvoli. Hrútur kvæntist síðar Hallveigu dóttur Þórgríms úr Þykkvaskógi og átti með henni mörg börn en þau voru samkvæmt Landnámu: Þórhallur, Grímur, Már, Eindriði, Steinn, Þorljótur, Jörundur, Þorkell, Steingrímur, Þorbergur, Atli, Arnór, Ívar, Kárr og Kúgaldi, en dætur Bergþóra, Steinunn, Rjúpa, Finna og Ástríður. Hörgárdalur. Hörgárdalur er langur dalur sem liggur frá Eyjafirði til suðvesturs og nær út að sjó innarlega í firðinum. Í dalsmynninu og inn að mótum Hörgárdals og Öxnadals er dalurinn víður og búsældarlegur en innar verður hann þröngur, enda umlukinn háum fjöllum, og undirlendi minna. Hörgá rennur um dalinn. Norðurmörk dalsins eru um holtarana sem gengur frá Hörgárósum upp að Möðruvallafjalli og liggja síðan eftir fjallstindum. Fjöllin vestan dalsins eru mörg mjög há, þau hæstu á fimmtánda hundrað metra, en á milli þeirra skerast inn djúpir dalir og hamraskálar. Í dalbotninum eru breiðar eyrar, grónar að hluta. Vestan árinnar er gróið undirlendi og grösugar hlíðar og standa bæir þar nokkuð þétt. Byggðarlagið austan Hörgár frá ósum og fram að mynni Öxnadals kallast Þelamörk Fyrir innan dalamótin þrengist Hörgárdalur. Vesturhlíðin er þar grafin af þverdölum og skörðum og um sum þeirra liggja gamlir fjallvegir. Jöklar eru víða í dalbotnum. Helstu þverdalirnir eru Barkárdalur og Myrkárdalur. Fremsti bær í Hörgárdal er Flögusel og þar fyrir framan sveigir dalurinn meira til vesturs. Úr dalbotninum er farið upp á Hjaltadalsheiði, sem áður var nokkuð fjölfarin leið til Hóla í Hjaltadal. Möðruvellir eru helsta höfuðbólið í Hörgárdal og sögustaður að fornu og nýju. Hörgárdalur er nú hluti af Hörgársveit. Myrkárdalur. Myrkárdalur er dalur sem skerst nær beint til vesturs út úr Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu. Þar er nokkurt undirlendi, töluvert mýrlent, en há fjöll umlykja dalinn. Jökull er í botni hans og kallast Myrkárjökull. Úr honum rennur áin Myrká um dalinn í Hörgá. Suðurhlið dalsins kallast Flögudalur og þar upp af er Kerlingarfjall og tindurinn Flögukerling. Í dalnum sjálfum voru tveir bæir, Myrkárdalur og Stóragerði, sem nú eru komnir í eyði. Við mynni dalsins, í Hörgárdal, eru bæirnir Myrkárbakki og Myrká, sem var áður kirkjustaður og prestssetur. Þar gerðist þjóðsagan um djáknann á Myrká. Fyrir neðan Myrkárdal rennur Myrká í mjög djúpu gili og er sagt að áður hafi verið svo mikill skógur í gilbörmunum báðum megin að dimmt hafi verið ofan í gilinu og dragi áin nafn af því. Myrká (Hörgárdal). Myrká er bær og áður kirkjustaður og prestssetur í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu. Bærinn stendur við mynni Myrkárdals, ekki langt frá ánni Myrká. Hans er getið í Landnámabók og árinnar einnig; um hana voru mörk landnáma Geirleifs Hrappssonar og Þórðar slítanda. Þar segir einnig að Þórður hafi gefið Skólm frænda sínum af landnámi sínu en sonur Skólms, Þórálfur hinn sterki, hafi búið á Myrká. Á Myrká var prestssetur fram yfir miðja 19. öld og kirkja stóð þar fram á 20. öld, en kirkjugarðurinn er enn notaður og sáluhliðið með klukkunum stendur enn. Þarna á þjóðsagan um djáknann á Myrká að hafa gerst. Þekktastur presta á Myrká er líklega Páll Jónsson sálmaskáld, sem var þar aðstoðarprestur og síðar prestur 1846-1858, síðan á Völlum í Svarfaðardal og seinast í Viðvík. Hann orti meðal annars "Ó Jesú, bróðir besti". Viðaraska. Viðaraska er púður sem eftir verður þegar brenndur hefur verið viður. Alls konar öskutegundur finnast við tjaldsvæði. Innihald. Um það bil 6–10% af viði verður aska við bruna. Tegund viðarins hefur áhrif á innihaldi öskunnar. Aðstæðurnar, sem viðurinn brann við, hafa líka áhrif á innihald og magn öskunnar. Minni aska myndast við hærra hitastig Viðaraska inniheldur kalsíumkarbónat, stundum allt að 25 til 45% af því. Minna en 10% viðurösku er pottaska, og minna en 1% hennar er fosfat. Hún inniheldur líka snefilefni: járn, mangan, sink, kopar og suma þunga málma. Þessi hlutföll geta verið mjög breytileg af því að brunahitastig getur haft mikil áhrif á samsetningu viðarösku. Notkun. Viðaraska er oft sett í landfyllingu en nú á dögum eru til aðrar umhverfisvænni kostir til öskulosunar. Í mjög langan tíma hefur viðaraska verið notuð í landbúnaði til þess að gefa jarðvegi næturefni aftur. Hægt er að nota viðarösku sem gróðuráburð, en hún inniheldur ekkert nitur. Vegna kalsíumkarbónats gefur viðaraska frá sér kalk sem afsýrir jarðveginn og lækkar sýrustig hans. Hægt er að búa til kalíumhýdroxíð úr viðarösku, sem getur þá verið notað til að framleiða sápu. Alþjóðlegt ár líffræðilegs fjölbreytileika. Alþjóðlegt ár líffræðilegs fjölbreytileika er árið 2010 samkvæmt ákvörðun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 2006. Árið er helgað líffræðilegum fjölbreytileika og mikilvægi hans fyrir líf á jörðu. Líffræðilegur fjölbreytileiki. Líffræðilegur fjölbreytileiki eða líffjölbreytni er breytileiki lífvera í tilteknu vistkerfi, lífbelti eða á jörðunni allri. Líffræðilegur fjölbreytileiki er stundum notaður sem mælikvarði á heilsu vistkerfa. Í dag lifa milljónir ólíkra tegunda lífvera á jörðunni. Þær eru niðurstaða 3,5 milljarða ára þróunar. Árið 2010 er alþjóðlegt ár líffræðilegs fjölbreytileika. Hugtakið varð fyrst almennt meðal náttúruverndarsinna og innan verndunarlíffræði á 9. áratug 20. aldar. Búsvæði. Búsvæði, kjörlendi eða heimkynni er það náttúrulega vistkerfi eða umhverfi sem tiltekinn stofn lífvera nýtir sér til að lifa. Líflandafræði. Líflandafræði fæst við rannsóknir á dreifingu líffræðilegs fjölbreytileika í tíma og rúmi. Hún þróaðist út frá þróunarlíffræði á 7. áratugnum. Dreifingu lífvera er oft hægt að skýra með sögulegum þáttum eins og tegundamyndun, útdauða, landreki, ísmyndun og breytingum á sjávarstöðu og árfarvegum auk tiltækrar orku. Líflandafræði notar gjarnan landfræðileg upplýsingakerfi og stærðfræðilíkön til að skilja og spá fyrir um dreifingu lífvera. Hvítárvellir. Hvítárvellir er gamalt stórbýli og höfðingjasetur í Borgarfirði við ósa Hvítár. Jörðin þótti ein mesta kostajörð landsins og var meðal annars ein mesta laxveiðijörð í Borgarfirði. Þar var neðsta lögferja á Hvítá og síðar var gerð þar brú. Þarna lá því þjóðvegurinn um allt þar til Borgarfjarðarbrúin var byggð, auk þess sem Hvítá var notuð til flutninga, og var því löngum gestkvæmt á Hvítárvöllum. Þar voru kaupstefnur á sumrin til forna og reistu norskir kaupmenn sér þar búðir. Þaðan var Böðvar sonur Egils Skallagrímssonar að koma þegar bátur hans fórst og hann drukknaði ásamt fleirum. Á völlunum kom líka fjölmenni saman til knattleika á söguöld að því er segir í Egils sögu og það var á Hvítárvöllum sem Egill varð fyrst mannsbani, sjö ára að aldri, þegar hann vó Grím Heggsson frá Heggstöðum eftir að hafa farið halloka fyrir honum í knattleik. Á fyrri hluta 18. aldar bjó Sigurður Jónsson (1679-1761) sýslumaður á Hvítárvöllum ásamt konu sinni, Ólöfu Jónsdóttur. Fyrri maður hennar dó í Stórubólu 1707, nokkrum dögum eftir brúðkaupið. Hún þótti góður kvenkostur og vildu margir giftast henni en Sigurður var hlutskarpastur. Var sagt að einhver vonsvikinn vonbiðill hefði þá sent þeim draug sem nefndur var Stormhöttur. Hann var þó fljótt settur niður en vonbiðillinn sendi þá annan draug í staðinn og var það Hvítárvalla-Skotta, sem löngum var kennt um ýmiss konar óhöpp og óskunda á Hvítárvöllum. Margir kenndu henni um stórbruna sem varð á Hvítárvöllum 1751, þegar sjö manns brunnu inni, þar á meðal Páll sonur Sigurðar og Ólafar, sem fórst þegar hann reyndi að bjarga börnum úr eldinum. Stefán Stephensen amtmaður bjó á Hvítárvöllum á fyrri hluta 19. aldar. Þegar leið á öldina urðu breskir laxveiðimenn tíðir gestir á Hvítárvöllum og þar var meðal annars stunduð niðursuða á laxi. Árið 1898 keypti Gauldréc de Boilleu barón jörðina og settist þar að og hafði mikil umsvif. Hann varð þó fjárvana um síðir og fyrirfór sér í Englandi 1901. Þórarinn Eldjárn skrifaði skáldsögu um hann sem nefnist "Baróninn" og kom út 2004. Verndunarlíffræði. Verndunarlíffræði fæst við rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika jarðar með það fyrir augum að vernda tegundir og búsvæði þeirra gegn síaukinni eyðingu af mannavöldum. Greinin kom fram á sjónarsviðið um sama leyti og hugtakið „líffræðilegur fjölbreytileiki“ í upphafi 9. áratugar 20. aldar út af vaxandi áhyggjum vísindamanna af aukinni tíðni útdauða og búsvæðaeyðingar af mannavöldum. Verndunarlíffræði er þverfaglegt fag sem tengir saman líffræði, hagfræði og auðlindastjórnun. Búsvæðaeyðing. Búsvæðaeyðing er eyðing búsvæða lífvera. Búsvæðaeyðing dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika á því svæði og eykur hættu á útdauða tegunda. Meginorsök búsvæðaeyðingar af mannavöldum er skógeyðing vegna landbúnaðar í þróunarlöndum, en búsvæðaeyðing stafar líka af þéttbýlismyndun og nýtingu náttúruauðlinda (t.d. námagröftur, vatnsaflsvirkjanir og botnvörpuveiðar). Aðrar orsakir búsvæðaeyðingar geta verið loftslagsbreytingar, ágengar aðskotategundir, jarðhræringar, búsvæðaskipting og breytingar á næringarsamsetningu vistkerfa. Lífbelti. Lífbelti er tiltekin samsetning loftslags og gróðurfars. Lífbelti eru ekki skilgreind út frá tilteknum tegundum lífvera eins og vistkerfi. Lífbelti eru flokkuð eftir því hvort þau eru á þurru landi, í ferskvatni eða sjó og eftir breiddargráðu, raka og hæð. Lífsvæði. Mýri í Norður-Þýskalandi þar sem sjást plönturnar "Stratiotes aloides", "Schoenoplectus lacustris" og "Alisma plantago-aquatica". Lífsvæði er einsleitt náttúrulegt umhverfi sem hýsir tiltekna samsetningu dýra og jurta. Ólíkt búsvæði sem vísar til umhverfis tiltekins stofns lífvera af einni tegund, lýsir lífsvæði umhverfi heils líffélags, það er allra þeirra lífvera sem lifa á sama svæði. Dæmi um lífsvæði er mýri, hálendi eða tjörn. Líffélag. Líffélag er hópur lífvera sem lifa saman á tilteknu lífsvæði. Hver stofn er bæði afleiðing af samskiptum eintaklinga af sömu tegund og einstaklinga af ólíkum tegundum á tilteknum tíma og tilteknum stað. Samsetning líffélagsins byggir þannig á jafnvægi milli stofna af ólíkum tegundum sem hver skipar sinn sess. Samband milli ólíkra tegunda getur tekið á sig mynd samlífis, samkeppni eða afráns. Líffélag og lífsvæði mynda saman eitt vistkerfi. Vistsvæði. Vistsvæði er vistfræðilega skilgreint svæði sem er minna en líflandfræðilegur heimshluti en stærra en vistkerfi. Vistsvæði ná yfir tiltölulega stór svæði þar sem eru einkennandi samsetningar náttúrulegra líffélaga; flóru, fánu og vistkerfa. Líffræðilegur fjölbreytileiki innan vistsvæðis greinir það frá öðrum vistsvæðum. Hann ræðst af þeim loftslags- og landslagsþáttum sem einkenna svæðið. Búsvæðavernd. Búsvæðavernd er aðferð í landstjórnun sem miðar að því að vernda og endurheimta búsvæði villtra jurta og dýra, sérstaklega tegunda sem eru háð verndun, til að minnka hættu á útdauða, skiptingu búsvæða eða minnkun útbreiðslu. Búsvæðavernd miðar þannig að því að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika svæðis. Krossneslaug. Krossneslaug er steinsteypt íslensk útisundlaug við fjöruborðið, fáeina kílómetra frá Norðurfirði í Strandasýslu. Laugin var tekin í notkun 5. júlí árið 1954. Hún er 12 1/2 x 6 metrar að flatarmáli. Umhverfis hana er steyptur stígur og við hana standa steyptir búningsklefar. Laugin og önnur mannvirki í sambandi við hana munu hafa kostað um 140 þúsund krónur. Það var ungmennafélagið „Leifur heppni" og hreppsnefndin á staðnum, sem stóðu að byggingu laugarinnar. Vatn í laugina fæst úr Krossneslaugum, sem er skammt frá, en svo hagar til, að skammt frá sjó er fagur hvammur, en í hann streymir sjóðheitt vatn frá fyrrnefndum Krossneslaugum, svo og kaldur bunulækur. Eru skilyrði þarna því hin ákjósanlegustu frá náttúrunnar hendi. Landfylling. Landfylling eða urðun er það er að grafa sorp inn í jörðina, og er elsta tegund sorpeyðingar. Staður þar sem sorp er grafið heitir urðunarstaður. Í gegnum tíma hefur landfylling verið sá helsta sorpstjórnunaraðferð, og er enn í notkun í dag í mörgum löndum. Þegar sorpbílar eru komnir á stað eru þeir vegnir með bílavog og innihald sitt er skoðað til að vera viss um að sé ekkert sorp sem má ekki vera grafið á þessum þarna urðunarstað. Á eftir keyra sorpbílar til staðar þar sem sorpið er sett í jörðina og þá er innihald þeirra losað við sig. Þá keyra þjöppunarbílar yfir sorpið til að þjappa því saman. Á undan því að fara af stað eru dekk sorpbílanna hreinsuð og mega verið vegnir aftur án innihalds. Með því að vega sorpbíla er hægt að reikna út rúmtak sorps sem er unnið á hverjum degi. Á mörgum urðunarstöðum eru til aðstaða til endurvinnslu sem er aðgengileg að almenningi. Drekkingarhylur. Drekkingarhylur er forn aftökustaður í Öxará á Þingvöllum. Drekkingarhylur er rétt við brúnna, þar sem Öxará fellur austur úr Almannagjá. Í Drekkingarhyl var konum drekkt fyrir skírlífsbrot, en alls létu 18 konur líf sitt þar. Síðustu konunni var drekkt í hylnum árið 1749. Körlum var ekki drekkt fyrir brot sín, þeir voru brenndir, hengdir eða hoggnir. Jón Halldórsson í Hítardal. Jón Halldórsson (6. nóvember 1665 – 27. október 1736) prófastur og sagnaritari í Hítardal í Hraunhreppi í Mýrasýslu var mikilvirkur rithöfundur og fræðimaður. Séra Jón var sonur Halldórs Jónssonar, sem var prestur í Reykholti frá 1657 – 1704, og konu hans Hólmfríðar Hannesdóttur. Jón fór í Skálholtsskóla fjórtán ára að aldri og útskrifaðist þaðan eftir fjögurra ára nám. Hann sigldi og hóf nám í Kaupmannahafnarháskóla 1686 og var þar í tvö ár. Eftir heimkomuna 1688 var hann heyrari í Skálholtsskóla í fjögur ár en varð prestur í Hítardal árið 1692 og gegndi því embætti til dauðadags. Eftir því sem Finnur sonur hans segir í "Kirkjusögu" sinni fór Jón ekki að gefa sig að sagnaritun fyrr en um fimmtugt, það er að segja um 1715, en þá tók hann við sér svo um munaði og er almennt talinn merkasti sagnaritari Íslendinga á fyrri hluta 18. aldar. Jón skrifaði meðal annars sögur biskupa á Hólum og í Skálholti og sögur skólameistara, presta og alþingisskrifara. Hann skráði einnig "Hítardalsannál", "Hirðstjóraannál" og fleiri sagnarit. Árið 1708 átti Jón biskup Vídalín í mestu vandræðum með að fá hæfan skólameistara í Skálholtsskóla af því að lærðum mönnum hafði fækkað svo mjög í Stórubólu. Fékk hann þá séra Jón til að koma og gegna skólameistarastarfinu um tveggja ára skeið. Árið 1710 varð svo Þorleifur Arason skólameistari en séra Jón fór aftur í Hítardal. Hann hafði oft ungmenni hjá sér og kenndi þeim og stundum voru stúdentar í framhaldsnámi hjá honum eftir að hafa útskrifast úr Skálholts- eða Hólaskóla. Eftir lát Jóns biskups Vídalín gegndi Jón biskupsstörfum í tvö ár. Hann var kosinn biskup að sér fjarstöddum við útför Jóns Vídalin og aftur á Alþingi sumarið eftir af prestum úr Skálholtsbiskupsdæmi og ætlaði hann að taka því og fara utan með Eyrarbakkaskipi til að sækja vígslu en þá fréttist að séra Jón Árnason, prófastur í Strandasýslu, ætlaði að sigla til að sækjast eftir biskupsembættinu og hætti hann þá við utanferð þótt margir hvettu hann til að fara. Hann dó 27. október 1736 eftir að hafa legið rúmfastur frá jólum árið áður. Kona Jóns var Sigríður Björnsdóttir (1667 – 1756) frá Snæfoksstöðum. Synir þeirra voru þeir Finnur Jónsson biskup og Vigfús Jónsson, prestur og fræðimaður í Hítardal. Sorp. Sorp (einnig þekkt sem rusl, úrgangur, skran eða eyðsla) er óæskilegt eða ónytsamlegt efni. Í lífverum er "úrgangur" ónytsamleg efni eða eiturefni sem þær gefa frá sér. "Sorp" er það efni frameleitt af mönnum sem er unnið með sorpstjórnun. Sorp er tengt þróun mannsins á tæknilegan og félagslegan hátt. Samsetning sorps hefur breyst með tímanum. Iðnþróun er tengd beint sorpi. Nokkur dæmi um þetta tengsl eru uppfinningar plasts og kjarnorku. Sumt sorp hefur hagfræðilegt gildi og má vera endurunnið. Sorp getur verið huglægt hugtak, það er að segja það sem er talið sorp af sumu fólki er ekki talið sorp af öðru fólki. Talið er víða að sorp sé nýtsamleg auðlind, en rætt er um hvernig sé besta að nota hana. Oft er sorp grafið í jörðina á urðunarstað. Lífræn meindýraeyðing. Lífræn meindýraeyðing er meindýraeyðing í landbúnaði sem byggir á notkun nytjadýra til að eyða eða hafa hemil á skaðvöldum í ræktun á borð við lýs, maura, illgresi og ýmsa plöntusjúkdóma. Nytjadýrið nærist þá yfirleitt á skaðvaldinum eða notar hann sem hýsil. Lífræn meindýraeyðing er hluti af samþættum vörnum í garðyrkju. Helgi bjóla Ketilsson. Helgi bjóla Ketilsson var landnámsmaður sem nam land á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár og bjó á Hofi. Helgi var sonur Ketils flatnefs og bróðir Auðar djúpúðgu, Björns austræna og Þórunnar hyrnu. Hann fór til Íslands úr Suðureyjum mjög snemma á landnámsöld og var hinn fyrsta vetur undir þaki Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík. Svo nam hann land á Kjalarnesi með ráði Ingólfs og bjó þar síðan. Hann hafði verið skírður en hefur vísast verið blendinn í trúnni; í Kjalnesinga sögu er honum svo lýst að hann hafi verið „nýtmenni mikit í fornum sið, blótmaðr lítill, spakr ok hægr við alla“. Kona Helga er ekki tilgreind í Landnámu en í Kjalnesinga sögu, sem þykir fremur ótraust heimild, er hún sögð hafa verið Þórný dóttir Ingólfs Arnarsonar. Synir hans voru Víga-Hrappur og Kollsveinn. Jón Ögmundsson biskup var niðji Kollsveins. Sorpstjórnun. Sorpstjórnun er það að safna, flytja, meðhöndla og endurvinna eða eyða sorpi. Sorpstjórnun tekur á stjórnun sorps sem hefur verið framleitt af mönnum og er framkvæmd til að draga úr áhrifum þess á heilsu fólks og umhverfinu. Sorpstjórnun má líka framkvæmast til þess að endurheimta auðlindir úr sorpi. Sorpstjórnun má varða vinnslu fastra, fljótandi, gaskendra og geislavirkra efna. Sorpstjórnun er öðruvísi í þróundarlöndum og þróuðum löndum, í þéttbýlum og dreifbýlum, og í heimilum og iðnaði. Yfirleitt sér borgarstjórn um stjórnun heimilissorps í þéttbýlum, en stjórnun verslunar- og iðnaðarsorps er séð um af framleiðendunum. Landfylling. Sorpeyðing með landfyllingu varðar það að grafa sorpið inn í jörðina á urðunarstað. Þessi er helsta sorpeyðingaraðferðin í notkun í flestum löndum. Oft eru urðunarstaðir staddir í gömlum grjótnámum eða samfelldum námum áður undir jörðinni. Vel hannaðir urðunarstaðir eru þrif og ódýr háttur til að eyða sorpi. Eldri eða illa hannaðir urðunarstaðir geta haft neikvæð áhrif á umhverfinu, eins og vindblásið rusl, framkomu meindýra og vökvi sem berst í jarðveginn. Almenn aukaafurð landfyllingar er gas, sem samanstendur af metani og koltvísýringi, og brotnar niður á loftfælinn hátt. Úr þessu gasi getur komið óþægilegt lykt, og það getur drepið jurtir. Það er líka gróðurhúsalofttegund. Brennsla. Sorpeyðing með sorpbrennslu er það að brenna sorp í brennsluofni. Brennsluofnar gera sorp að hita, gasi, gufu og ösku. Bæði einstaklingar og fyrirtæki nota brennslu til sorpeyðingar. Hún má nýtast í eyðingu fastra, fljótandi og gaskendra efna. Brennsla er talin nýtast í eyðingu nokkurra spilliefnanna. Hún er líka þrætugjörnu sorpeyðingaraðferð vegna losunar mengunar. Brennsla er almenn aðferð til sorpeyðingar í löndum eins og Japan, þar sem það er ekki nógt plass til landfyllingar. Hægt er að framleiða rafmagn með því að brenna sorp, en sorpbrennsla er ekki fullkomin eyðingaraðferð vegna hættulegra mengunarvalda sem brennslofnar gefa frá sér. Endurvinnsla. Flokkun af efnum til endurvinnslu. Hægt er að endurvinna mörg efni, til dæmis pappír, pappa, gler, flestar plasttegundir, ál og aðra málma, og svo framvegis. Þarf að hreinsa og stundum taka hluti í sundur fyrir að endurvinna þá. Einnig getur verið alveg dýrt að endurvinna nokkur efni, og það er erfitt að fá hrein efni úr endurunnum efnum. Oftast eru endurunnin efni notuð í framleiðslu ólíkra efna, til dæmis má endurunninn pappír vera notaður til að framleiða pappa. Einnig er hægt að endurvinna rafeindavörur en þetta getur verið erfitt og þarf að maður teki vöruna í sundur og þá komi með henni á sérstaka endurvinnslustöð. Meðhöndlun og flutningur. Verklög til meðhöndlunar og flutnings sorps eru ólík um allan heim. Yfirleitt sér borgarstjórnin um sorpsöfnun á sérstöku svæði. Í sumum nágrennum, sérstaklega í þróunarlöndum, er ekki til kerfi til sorpsöfnunar. Í flestum þróuðum löndum keyra sorpbílar um þéttbýli og taka sorppoka frá gangstéttinni. Í sumum löndum gefur borgarstjórn íbúum nokkrar sorptunnur sem standa við hús svo að maður geti flokkað sorp heima. Þá eru þær tæmdar vikulega og sorpbílarnir koma á urðunarstað og/eða endurvinnslustöð með innihald þeirra. Í háum íbúðabyggingum eru til sorprennur sem maður setur sorppoka í. Þessar sorprennur tæmast í gáma sem er þá tæmdur af borgarstjórninni. Karl-Theodor-brúin. Karl-Theodor-brúin yfir Neckar. Við endann fjær sést gamla brúarhliðið. Styttan af Minervu er til vinstri. Fyrir ofan eru kastalarústirnar. Karl-Theodor-brúin er brú yfir ána Neckar í borginni Heidelberg í Þýskalandi. Hana prýðir 28 metra hátt gamalt borgarhlið ("Altes Brückentor") og nokkrar styttur. Saga brúarinnar. Brúin árið 1620. Apaturninn er enn á brúnni. Mynd eftir Matthäus Merian. Níu sinnum hefur brú verið smíðuð yfir Neckar á þessum stað eftir að hafa eyðilagst átta sinnum af mannavöldum eða af náttúrunnar hendi. Núverandi brú er sú níunda á þessum stað. Fyrsta brúin var reist með stofnun borgarinnar sitthvoru megin við aldamótin 1200. Hún tengdi ekki tvo borgarhluta, heldur var hluti af þjóðvegi út úr borginni. Hinn bakkinn tilheyrði ekki lengur Pfalz, heldur kjörfustadæminu Mainz. Áin myndaði náttúruleg landamæri milli kjörfurstadæmanna. Af þessum sökum var ákveðið að reisa mikið borgarhlið við þann brúarsporð sem stóð borgarmegin. Brúin varð ekki langlíf. Á ísaárinu 1288 eyðilagði lagnaðarís brúna. Næstu fimm brýr voru allar skammlífar. Allar eyðilögðust þær í lagnaðarís, sú sjötta árið 1565. Sjöunda brúin var smíðuð í framhaldið af því. Hún var yfirbyggð alla leið í gegn. Nálægt bakkanum fjær var turn, svokallaður apaturn, sem notaður var sem tollahlið. Á bakkanum nær var nýtt hlið reist sem í dag heitir "Altes Brückentor" ("Gamla brúarhliðið"). Brú þessi skemmdist ekki í 30 ára stríðinu þegar Tilly hertók borgina og heldur ekki þegar Svíar tóku borgina til skamms tíma í sama stríði. En 1689 herjuðu Frakkar á borgina í erfðastríðinu í Pfalz og sprengdu brúna. Næstu 20 árin var notast við ferjur. Á árunum 1706-08 var svo áttunda brúin smíðuð. Notast var við sömu brúarsporðana og áður. Apaturninn var hins vegar ekki endurreistur og heldur ekkert hlið við bakkann fjær. Gamla brúarhliðið stóð enn en því var breytt í barokkstíl. Ýmsar styttur voru gerðar og settar upp á hina og þessa staði á brúnni og voru mikil prýði. Þegar kjörfurstinn flutti til Mannheim á svipuðum tíma vegna ósættis við borgarráðið, hótaði hann að rífa brúna og skilja borgina eftir í sárum. En hann lét það ógert. Hún stóð þó aðeins til 1784, er hún hrundi í flóði með íshröngli. Veturinn hafði verið óvenju kaldur og snjóþungur. Þegar hlánaði varð borgin fyrir versta flóð í sögu sinni. Gríðarlegar skemmdir urðu víða í borginni. Fyrir utan brúna eyðilögðust 39 hús. Þessu fylgdi mikil reikistefna um nýsmíði brúarinnar. Sumir vildu færa hana á betri stað, aðrir vildu smíða hana úr grjóti. Kjörfurstinn Karl Theodor ákvað að brúin yrði smíðuð á sama stað, en gerð úr grjóti til að standast flóð og ís. Brúarsporðarnir voru auk þess hækkaðir, þannig að næstu hugsanleg flóð næðu síður upp í brúna. Brúin var tvö ár í smíðum og varð að næstdýrasta mannvirki í Pfalz, á eftir kastalanum í Heidelberg. Til að fjármagna smíðina voru tekin lán og lagður sérskattur á borgarbúa. Brúin fékk heiti kjörfurstans. Eftir það var tvisvar barist á brúnni. Í fyrra skiptið reyndi 1000 manna franskur byltingarher að hertaka Heidelberg með því að komast yfir brúna. 300 Austurríkismenn voru til varnar og náðu að hrinda sjö árásum. Það dugði þó ekki. Næsta dag voru Frakkar komnir inn í borgina. Í seinna skiptið var barist á brúnni 1849 í framhaldi af byltingunni 1848. Byltingarmenn sátu í borginni og vissu að prússneskur her nálgaðist. Þeir settu því sprengjur á brúna og var ætlunin að sprengja hana ef Prússar reyndu að komast yfir. Borgarbúar reyndu hins vegar að fá byltingarmenn til að hlífa brúnni. Það virkaði. Byltingarmenn sáu að þeir áttu við ofurefli að etja og létu sig hverfa úr borginni við svo búið. Prússar fjarlægðu allar sprengjur og þrömmuðu inn í borgina. Brúin varð langlíf. Hún skemmdist ekki í heimstyrjöldinni síðari, þar sem Heidelberg varð ekki nema fyrir óverulegum loftárásum. En 29. mars 1945 ákváðu nasistar að sprengja allar brýr yfir Neckar í námunda við Heidelberg til að tefja fyrir Bandaríkin|bandarískum herjum sem nálguðust úr vestri. Karl-Theodor-brúin slapp þó við algera eyðileggingu. Nasistar sprengdu aðeins brúargólfið milli þriggja brúarstöpla og féll það í Neckar. Þar sem Heidelberg var auralaust eftir stríð, var hafist handa við að safna aurum hjá almenningi og fyrirtækjum til að hægt væri að gera við brúna. Viðgerðir hófust í mars 1946 og þeim lauk í júlí 1947. Síðustu breytingar á brúnni fóru fram 1969-70. Tafla yfir brýrnar. Brúarapinn er með holt höfuð Brúarhliðið. "Brückentor" er heiti á gamla borgarhliðinu við enda brúarinnar sem næst borginni stendur. Elstu hlutar þess eru frá 15. öld en því var breytt í barokkstíl 1709-1711. Við það tækifæri fékk hliðið bogaþökin yfir turnunum. Í hliðinu var skattur greiddur af vöru en auðvitað var hliðinu rammlega lokað á ófriðartímum. Í vesturturninum eru nokkrar dýflissur. Í austurturninum er íbúð hliðvarðarins. Í þessa íbúð flutti arkítektinn Rudolf Steinbach sem sá um endurbyggingu brúarinnar sem nasistar sprengdu örfáum dögum fyrir komu bandarískra hersveita í stríðslok 1945. Styttur. Mýmargar styttur voru á brúnni áður fyrr. Í dag eru þær aðeins tvær. Við suðurendann, nær miðborginni, er stytta af kjörfurstanum Karl Theodor. Hún er nokkuð stærri en kjörfurstinn og vísar í átt að kastalarústinni. Þegar Karl Theodor gekk í fyrsta yfir brúna, þótti honum sem styttann af sér skekkti mynd brúarinnar. Hann bað því um að önnur stytta yrði reist á brúnni við norðurendann. Því var gerð stytta af rómversku gyðjunni Mínervu, sem var verndari handiðnaðarmanna og kaupmanna. Karli Theodor þótti mikið til um Minervu komið og átti hof henni til heiðurs í einum garði sínum. Báðar stytturnar eru eftirmyndir. Originölin eru í safni í borginni. Brúarapinn. Áður fyrr var turn á brúnni, ekki fjarri bakkanum fjær. Hann var kallaður apaturninn, þar sem myndarleg stytta af apa stóð þar. Styttuapinn snerti afturendann á sér með annarri hendi, en í hinni hélt hann á spegli. Þetta var háð sem ferðamenn áttu að verða fyrir, en fyrir neðan styttuna var háðvísa. Bæði turninn og apinn eyðilögðust þegar Frakkar sprengdu brúna 1689. Árið 1977 var haldin samkeppni um að hanna nýjan apa. Apinn er í mannshæð og er með holt höfuð. Ferðamenn geta sett eigið höfuð inn í apahöfuðið og í því felst háðið í dag. Hinar 95 greinar. Hinar 95 greinar (latína: "Disputatio pro declaratione virtutis indulgentiarum") voru ádeilandi greinar, sem Marteinn Lúther negldi á hallarkirkjuhurðina í Wittenberg þann 31. október 1517 og var það upphaf siðbyltingar. Greinarnar sneru aðallega gegn páfa og aflátsbréfssölu kaþólsku kirkjunnar. Hvítsveppir. Hvítsveppir (fræðiheiti: "Candida") eru ættkvísl gersveppa sem lifa samlífi með dýrum, þar á meðal mönnum. Oftast lifa þeir gistilífi en geta við vissar aðstæður orðið að meinvaldi. Þrusksveppur ("Candida albicans") er sá hvítsveppur sem oftast veldur sýkingum (þruski). Hann er hluti af þarmaflóru spendýra ásamt fleiri tegundum hvítsveppa. Þessar tegundir geta valdið sjúkdómum hjá fólki með veiklað ónæmiskerfi. Snædalur. Snædalur er lítið dalverpi sem gengur upp af Hamarsdal sunnanverðum í Hamarsfirði. Liggur mynni hanns í um 120 metra hæð yfir sjávarmáli. Eins og nafnið bendir til leysir snjó þar seint á vorin. Úr dalnum rennur Snædalsá og fellur hún í Snædalsfossi niður í Hamarsdal. Óbeygjanlegt orð. Í málvísindi er orð talið vera óbeygjanlegt ef viðskeyti sitt breytist ekki, það er ekkert hljóðskipti, o.s.frv. Á íslensku eru samtengingar, nokkur atviksorð og lýsingarorð óbeygjanleg. Gersveppir. Gersveppir (fræðiheiti: "Saccharomycotina") eru undirfylking asksveppa sem mynda ekki gróhirslu eða ask, heldur fjölga sér með knappskotum. Undirfylkingin inniheldur aðeins einn flokk "Saccharomycetes" sem inniheldur aðeins einn ættbálk "Saccharomycetales". Ölger. Ölger (fræðiheiti: "Saccharomyces cerevisiae") er tegund gers sem er algengast að nota í bakstri, víngerð og bruggun öls þar sem það stendur á bak við algengustu tegund gerjunar. Talið er að það hafi upphaflega verið einangrað af hýði vínberja. Það er líka mest notaða rannsóknartegund heilkjörnunga. Ölgersfrumur eru kúlulaga eða egglaga 5-10 míkrómetrar í þvermál. Það fjölgar sér með knappskotum. Lónsheiði. Lónsheiði (398 metrar) liggur á milli Lónssveitar í Austur-Skaftafellssýslu og Álftafjarðar í Suður-Múlasýslu. Yfir hana lá hringvegurinn fram til ársins 1981 þegar vegur var lagður um Hvalnes- og Þvottárskriður. Bjór á Íslandi. Bjór á Íslandi er framleiddur af fimm íslenskum brugghúsum. Langstærstu framleiðendurnir eru Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Vífilfell. Mest af þeim bjór sem framleiddur er á Íslandi er ljós lagerbjór með 4,5-5,5% áfengismagn. Sala á áfengu öli var bönnuð á Íslandi frá upphafi bannáranna 1915 til 1. mars 1989 sem var kallaður „bjórdagurinn“ eða „B-dagurinn“ og þykir sumum við hæfi að gera sér dagamun þennan dag æ síðan. Íslenska ríkið hefur einkarétt á smásölu áfengis og er salan í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR). Áfengisgjald sem er lagt á bjór á Íslandi er það langhæsta í Evrópu ef Noregur er undanskilinn. Öl, mungát og bjór. Upphaflega var innlent öl gert með mjaðarlyngi fremur en humlum. Öl var helsti áfengi drykkurinn á Íslandi fram eftir öldum og ölhitun hefur þekkst á landinu frá landnámi. Öl var ýmist kallað öl eða mungát. Hluti innihaldsins fyrir ölgerðina, s.s. malt og mjaðarlyng (pors), var gjarnan innfluttur en hugsanlega hafa innlendar jurtir á borð við vallhumal, mjaðjurt og augnfró verið notaðar til að krydda ölið í stað mjaðarlyngs. Þetta óhumlaða öl gat skemmst vegna skjaðaks. Ölgögn til heimabruggunar öls voru til víða og jafnvel sérstök hituhús þar sem bruggunin fór fram. Heimildir eru til um bruggun öls á biskupsstólunum og í klaustrunum. Malt virðist hafa verið álitin nauðsynjavara. Á miðöldum var farið að nota orðið bjór yfir innflutt öl kryddað með humlum fremur en mjaðarlyngi eða öðrum jurtum. Þetta innflutta öl hafði mun meira geymsluþol en hið innlenda. Innflutta ölið var kallað Prýssing, Hamborgaraöl, Rostokkaröl og Lýbikuöl eftir uppruna þess en hefðbundna mjaðarlyngsölið porsöl eða porsmungát til aðgreiningar. Íslendingar keyptu öl bæði af verslunarskipum og duggurum (sem drukku það nær eingöngu þar sem það skemmdist síður en vatn í tunnum). Sumar heimildir geta þess að Íslendingar hafi verið svo sólgnir í innflutt öl að þegar kaupstefnur voru hafi þeir sest að hjá skipum kaupmanna og drukkið þar til birgðirnar voru uppurnar. Eftir að hert var á verslunareinokuninni undir lok 17. aldar varð brennivín algengari drykkur þar sem hagkvæmara var fyrir kaupmanninn að flytja það inn. 19. öldin. Á 19. öld jukust vinsældir bjórs aftur, einkum innflutts bjórs frá Þýskalandi og Danmörku en einnig enskra tegunda. Mikið hefur líklega verið framleitt af bjór í heimahúsum ef miðað er við magn innflutts maltextrakts á þessum tíma. Bakarar brugguðu öl til að viðhalda geri sem þeir notuðu til brauðgerðar og gátu þá selt aukaafurðina, ölið, sérstaklega á stöðum utan Reykjavíkur þar sem innfluttur bjór var sjaldséðari. Einhverjar tilraunir voru til ölgerðar í atvinnuskyni í Reykjavík, meðal annars í húsi Ísafoldarprentsmiðju af Guðmundi Lambertsen kaupmanni sem rak þar litla verslun eftir miðja öldina. Fram að áfengisbanninu var bjór seldur í almennum verslunum. 1891 var fyrsti ölskatturinn settur á í Danaveldi og miðaðist við allt öl með meira en 2,25% vínandamagn. Léttöl var þá auglýst sem „"skattefri"“. 1917 var nýtt skattþrep tekið upp fyrir lager léttöl en undanþegið var þá aðeins yfirgerjað öl, hvítöl og svokallað skipsöl. Ölgerðir sem auglýstar voru í íslenskum dagblöðum um og eftir aldamótin 1900 voru lageröl eða „bajerskt öl“, porter, maltextrakt (maltöl), Vínaröl, hvítöl, pilsner og export (sterkt öl) frá dönsku brugghúsunum Carlsberg, Tuborg, Marstrands bryggerier og De forenede bryggerier. Bjórbannið. Þórsbjór var íslenskt léttöl framleitt 1930-1931 1915 gekk algjört áfengisbann í gildi á Íslandi en 1922 var leyft að selja léttvín vegna viðskiptasamninga við Spán. 1. febrúar 1935 var bannið afnumið alveg fyrir flestar tegundir áfengis í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu "nema áfengt öl". Ástæður þess eru flóknar: Í upphaflegum drögum að fremur ströngum áfengislögum árið 1934 var gert ráð fyrir því að hægt yrði að heimila framleiðslu á áfengu öli í landinu, en annars var í lögunum bann við framleiðslu alls áfengis. Pétur Ottesen sem mælti fyrir hagsmunum bindindismanna setti sig mjög upp á móti þessu ákvæði. Hermann Jónasson sagðist þá vera mótfallinn innflutningi á áfengu öli þar sem það myndi kosta landið gjaldeyri sem að mestu rynni til Danmerkur. Ákvæðinu var þá breytt í bann við innflutningi á áfengu öli. Rökin sem ýmsir ræðumenn færðu fyrir þessu voru þau að bjórdrykkja leiddi til áfengisfíknar meðal unglinga, að ölið sem er ódýrara en sterka vínið yki áfengisdrykkju meðal verkafólks, og að auðvelt myndi reynast að stemma stigu við smygli á öli, en meginröksemd stuðningsmanna laganna var sú að þau myndu uppræta heimabrugg og smygl á áfengi. Eftir stóð að þegar lögin voru samþykkt var í þeim lagt bann við innflutningi og sölu á áfengu öli. Ljóst léttöl (oft kallað „pilsner“), óáfengur mjöður, maltöl og dökkt öl sem er kallað ýmist hvítöl eða jólaöl, var framleitt á bannárunum og framleiðslan hélt áfram eftir 1935. Mörkin voru dregin við 2,25% vínandamagn. Ölgerðin Egill Skallagrímsson var stofnuð 1913 þegar fyrir lá að af áfengisbanninu yrði þannig að hún framleiddi til að byrja með aðeins óáfengt öl. Ölgerðin Þór var stofnuð í Reykjavík 1930 og keppti við Egil um sölu á léttum bjór og lageröli þangað til Egill eignaðist Þór árið 1932. 1966 hóf Sana hf á Akureyri framleiðslu á léttöli. 1978 sameinaðist það reykvíska dreifingarfyrirtækinu Sanitas. Á stríðsárunum fékk Ölgerðin undanþágu til þess að framleiða áfengan bjór, Polar Ale, fyrir breska setuliðið og þegar Varnarliðið tók við Keflavíkurstöðinni var íslenskur bjór framleiddur til sölu þar með sérstakri undanþágu. Þessi bjór var 4,5% að styrkleika og nefndist einfaldlega Export Beer en landsmenn nefndu hann Egil sterka til 1960 þegar hann var nefndur Polar Beer. 1966 hóf Sana hf. á Akureyri einnig framleiðslu áfengs öls til útflutnings sem nefndist Thule Export. 1984 kom síðan Viking Beer á markað. Þessi bjór var mest fluttur út auk þess sem erlend sendiráð höfðu undanþágu frá bjórbanninu og hægt var að kaupa hann í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli til neyslu á staðnum. Fríhöfnin í gömlu flugstöðinni hafði takmarkaða aðstöðu til að geyma bjór. 1965 var áhöfnum flugvéla og flutningaskipa leyft að taka með sér takmarkað magn bjórs inn í landið. 15. desember 1979 keypti Davíð Scheving Thorsteinsson kassa af bjór í fríhöfninni á leið sinni til landsins og bar fyrir sig jafnræðisreglu þegar hann var stöðvaður í tollinum. Eftir það var öllum ferðamönnum til landsins leyft að taka með sér ákveðið magn bjórs en það ár (1980) fengust þar einungis þrjár tegundir af innfluttum bjór: Löwenbräu, Beck's og Carlsberg. Íslenskur bjór hafði ekki fengist þar um nokkurt skeið. Oft var deilt um bjórbannið og lagafrumvörpum var stefnt gegn því nokkrum sinnum en fengust aldrei samþykkt. Eftir 1970 voru stofnuð fyrirtæki um innflutning og sölu vín- og ölgerðarefna sérstaklega ætluðum fyrir heimabruggun. Þó nokkuð var deilt um þennan innflutning og rætt um að banna hann. Árið 1978 kom germálið upp þegar fjármálaráðuneytið lagði til að allt ger yrði tekið af svokölluðum „frílista“ yfir vörur sem hver sem er mátti flytja inn. Ríkið hafði raunar haft einkasölu á geri frá breytingu sem gerð var á áfengislögunum 1928 til 1970 eða þar um bil þegar innflutningur á geri var gefinn frjáls. Gereyðingarfrumvarpið svokallaða dagaði raunar uppi á þingi, rétt eins og bjórfrumvörpin. 1983 opnaði Gaukur á Stöng í Reykjavík, en staðurinn var ölkrá að þýskri fyrirmynd. Þar sem ekki var heimil sala bjórs tóku eigendur staðarins upp á því að selja svokallað „bjórlíki“, blandaðan drykk sem minnti á bjór en flestum bar saman um að stæðist ekki samanburð við fyrirmyndina. Bjórlíkið varð þó svo vinsælt að ástæða þótti til að banna sölu þess árið 1985. Eftir bjórbannið. Banni við sölu bjórs var ekki aflétt fyrr en 1. mars 1989. Fyrstu bjórtegundirnar sem fengust í Vínbúðinni voru Egils Gull frá Ölgerðinni, Löwenbräu, Sanitas Pilsner og Sanitas Lageröl frá Sanitas auk innfluttra tegunda á borð við Kaiser Premium, Budweiser, Tuborg og Pripps. Fljótlega eftir það varð bjór aftur vinsælasti áfengi drykkur landsins, einkum lagerbjór, en á síðustu árum hafa vinsældir annarra gerða bjórs aukist talsvert með tilkomu nýrra innlendra tegunda. Á 10. áratugnum var samkeppni milli ölgerðana hörð og allt kapp lagt á að tryggja markaðshlutdeild vörumerkja þeirra (Egils Gull, Viking og Thule) í ljósum lagerbjór. Oft tók samkeppnin á sig skrýtnar myndir þar sem ekki var leyfilegt að auglýsa með hefðbundnum hætti. 1994 breytti Sanitas nafni sínu í Víking hf (eftir vinsælustu bjórtegund fyrirtækisins) og 1997 sameinaðist það Sól hf. 2001 sameinaðist þetta fyrirtæki Vífilfelli. Bruggverksmiðja fyrirtækisins var áfram rekin á Akureyri. 2005 opnaði fyrsta örbrugghús landsins, Bruggsmiðjan, á Árskógssandi við Eyjafjörð. Tvö örbrugghús bættust síðan við árið 2007; Mjöður hf. í Stykkishólmi og Ölvisholt brugghús í Flóahreppi. Árið 2010 var síðan örbrugghúsið Borg brugghús opnað hjá Ölgerðinni. Þessi brugghús hafa mjög litla framleiðslugetu miðað við stóru bruggverksmiðjurnar tvær en geta nýtt sér sveigjanlegri framleiðslulínu til að bregðast hraðar við þróun markaðarins. Þau stunda einnig útflutning í litlum mæli. Einkaréttur á sölu. Sem fyrr segir hefur íslenska ríkið einkarétt á smásölu áfengra drykkja og rekur í þeim tilgangi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR). Samkvæmt áfengislögum sem sett voru 1998 þarf leyfi til innflutnings, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis á Íslandi. Samkvæmt 10. grein þeirra laga hefur ÁTVR einkarétt á smásölu áfengis. Þetta þýðir að einkaaðilar geta einvörðungu starfað á sviði heildsölu áfengis eða áfengisútsölu en það þýðir að áfengisins sé neytt á staðnum. Hins vegar hefur oftar en einu sinni verið sett fram frumvarp til laga um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum en það hefur ekki náð að ganga fram. Neysla. a> á mann eftir löndum árið 2004. Í könnunum sem gerðar voru árið 2002 sagðist 62% svarenda á aldrinum 15-80 ára hafa drukkið bjór einu sinni eða oftar á síðastliðnum þremur mánuðum. Eftir að sala bjórs var lögleidd hafa seldum alkóhóllítrum sterks áfengis fækkað en heildarsala alkóhóllítra aukist. Samkvæmt Lýðheilsustöð er „meiri áfengisneysla síðustu ára […] að stórum hluta vegna aukinnar neyslu á bjór. Íslenskir karlmenn eru að jafnaði að drekka áfengi mun oftar en áður og stærri hluti kvenna drekka nú áfengi en áður.“ Bjórneysla á mann á Íslandi er nú meiri en í Noregi og Svíþjóð en minni en í flestum öðrum Evrópulöndum. Auglýsingar. Vegna banns við áfengisauglýsingum hafa sum brugghús á Íslandi farið þá leið að framleiða léttöl með minna en 2,25% áfengismagn sem heita sama nafni og nota sama merki og sterkari tegundin. Orðið „léttöl“ eða áfengisprósenta koma þá fyrir með smáu letri einhversstaðar á auglýsingunni. Oft er síðan nánast ómögulegt að finna léttölið í búðum vegna þess hve lítið er framleitt af því, ef nokkuð, enda megintilgangurinn aðeins að auglýsa hina eiginlegu bjórtegund. Bjórtegundir. Auk ofangreindra tegunda hefur um nokkurra ára skeið verið hefð fyrir því hjá brugghúsunum að framleiða jólabjóra sem eru ólíkir frá ári til árs. Sum þeirra framleiða líka páskabjóra og jafnvel þorrabjóra. Oft eru þessir árstíðabundnu bjórar sterkari, bragðmeiri og/eða tilraunakenndari en venjulegu bjórarnir. Hvítöl eða jólaöl er sætt, óáfengt öl sem algengt er að drekka á jólum á Íslandi. Í Reykjavík fæst þetta öl frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson, en áður fyrr var því tappað á brúsa sem fólk kom með sjálft. Gullfoss (bjór). Gullfoss er íslenskur bjór framleiddur af Bruggsmiðjunni á Árskógsströnd fyrir Brugghús Reykjavíkur. Gullfoss er ljós og tær lagerbjór, kryddaður með tékkneskum saaz- og þýskum perle-humlum. Hann var hannaður af danska bruggmeistaranum Anders Kissmeyer, stofnanda Nørrebro Bryghus í Kaupmannahöfn, en framleiddur af Bruggsmiðjunni sem hefur einkum fengist við að framleiða pilsnera að tékkneskri fyrirmynd. Bjórlíki. Bjórlíki er blandaður áfengur drykkur sem var vinsæll um stutt skeið á Íslandi á 9. áratug 20. aldar þegar ekki mátti selja þar bjór en kráarmenning var að ryðja sér til rúms að erlendri fyrirmynd. Fyrsta eiginlega ölkráin sem opnaði í Reykjavík var Gaukur á Stöng sem var innréttaður að þýskri fyrirmynd. Barþjónar á staðnum tóku upp á því að blanda kláravíni, vodka og viskýi í léttöl og gera þannig drykk sem var um 5% að styrkleika og minnti á bjór. Þessi drykkur varð talsvert vinsæll og fleiri staðir tóku hann upp og gerðu sína eigin útgáfu af honum. Flestum bar þó saman um að bjórlíkið stæðist engan veginn samanburð við fyrirmyndina og var jafnvel litið á sölu þess sem storkun gagnvart bjórbanninu, en þá voru uppi háværar raddir um afnám þess. Vegna kvartana yfir hinni nýju kráarmenningu, sóðaskap og illri umgengni í kringum krárnar, sem einkum var kennd drykknum, ákvað dómsmálaráðherra að banna sölu hans 1985. Sama ár gerði lögreglan upptæk tæki til blöndunar bjórlíkis sem fengust hjá Ámunni. Eigandi Ámunnar Guttormur P. Einarsson var síðar dæmdur fyrir að hafa blandað bjórlíki og selt undir merkjum Bjórsamlagsins. Kirkja heilags anda í Heidelberg. Kirkja heilags anda í Heidelberg Kirkja heilags anda í Heidelberg er höfuðkirkja borgarinnar Heidelberg í Þýskalandi. Hún er graftarkirkja kjörfurstanna í Pfalz. Saga kirkjunnar. Kirkjan var upphaflega ekki reist sem höfuðkirkja borgarinnar, heldur sem grafarkirkja kjörfurstanna. Höfuðkirkjan þá var Péturskirkjan þar í borg. Kirkja heilags anda var reist á 14. og 15. öld á stað þar sem áður stóð kirkja með sama heiti. Talið er að upprunalega kirkjan hafi eyðilagst í eldi eða í vatnavöxtum árinnar Neckar. Þegar kjörfurstinn Ruprecht III var kjörinn konungur þýska ríkisins árið 1400 tilgreindi hann kirkjuna, sem þá var enn í byggingu, sem grafarkirkju sína. Hann lést 10 árum síðar og var lagður til hvílu í kór kirkjunnar. Þar hafa síðan hinir ýmsu kjörfurstar verið lagðir. Kirkjan var alla tíð í nánum tengslum við háskólann í borginni. Mikið af fé háskólans fór til viðhalds kirkjunnar. Hún hýsti einnig háskólabókasafnið ("Bibliotheca Palatina") og stúdentar sóttu messu þangað. Aðaldyr kirkjunnar var notuð sem nokkurs konar upplýsingabretti fyrir stúdenta þar sem hægt var að festa upp miða með tilkynningum og upplýsingum. Formlega var kirkjan ekki fullreist fyrr en turninn var tilbúinn, en hann var vígður 1515. 1622 hertók Tilly borgina í 30 ára stríðinu. Hann hlífði borginni fyrir skemmdum, en tók háskólabókasafnið úr kirkjunni og sendi það sem gjöf til páfans í Róm, sem þá var Gregoríus XV. 1693 réðust Frakkar á Heidelberg í erfðastríðinu í Pfalz. Þeir eyðilögðu grafir kjörfurstanna í kórnum og rændu dýrgripum. Loks lokuðu þeir fólk inni í kirkjuna og kveiktu í. Í brunanum féllu kirkjubjöllurnar niður, ásamt hluta af burðarvirkinu. Þegar hliðarhurð var opnuð reyndi fólk að streyma út og tróðust þá margir undir. Viðgerðir á kirkjunni fóru fram 1698-1700 og fékk hún þá núverandi þak. 1709 fékk turninn svo núverandi þak. Meðan á viðgerðum stóð var ákveðið að skipta kirkjunni milli mótmælenda og kaþólikka. Settur var skilveggur milli skipsins og kórsins. Skipið var fyrir mótmælenda, en kaþólikkar notuðu kórinn. Skilveggur þessi var í kirkjunni allt fram til 1936, er nasistar fjarlægðu hann og gerðu kirkjuna að lúterskri kirkju. Kirkjan slapp að mestu við skemmdir í heimstyrjöldinni síðari. En þegar nasistar sprengdu gömlu brúna yfir Neckar, brotnuðu allir gluggar í kirkjunni í höggbylgjunni. Allir gluggar eru því nýir. Grafir. Ruprecht III var sá fyrsti sem lagður var til hvílu í kór kirkjunnar, 1410. Hann var þá bæði kjörfursti og konungur þýska ríkisins (sem Ruprecht I). Eftir það voru hinir ýmsu kjörfurstar lagðir þangað til hvílu, ásamt hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum. Alls voru 54 grafir í kirkjunni. Stærsta og fegursta gröfin var fyrir kjörfurstann Ottheinrich. 1693 voru nánast allar grafir eyðilagðar af Frökkum, sem einnig rændu kirkjuna listmunum og verðmætum. Aðeins minningaplattinn fyrir kjörfurstann Ruprecht III (sem einnig var konungur þýska ríkisins) og eiginkonu hans slapp, enda úr málmi. Platti þessi er enn í kirkjunni í dag, en hefur verið færður til nokkrum sinnum. Kleisþenes. Kleisþenes (á forngrísku: Κλεισθένης) var aþenskur yfirstéttarmaður sem umbreytti stjórnskipan Aþenu árið 508 eða 507 f.Kr. og lagði grunn að aþenska lýðræðinu. Af þessum sökum er hann stundum nefndur „faðir aþenska lýðræðisins“. Kleisþenes var dóttursonur harðstjórans Kleisþenesar frá Sikyon. Graftarkirkja. Graftarkirkja (graftrarkirkja eða grafarkirkja) var áður fyrr haft um kirkju sem heimilt var að greftra fólk við. Graftarkirkja er því oftast nálægt afmörkuðum grafreit. Oft voru fyrirmenn og fyrirfrúr einnig grafnir inn í sjálfri kirkjunni, til dæmis undir gólfinu. Legsteinar eru því oft hluti af gólfi kirkjunnar og flúgta við það. Graftarkirkja nútildags er venjulega haft um kirkju með kirkjugarði. Reykbjór. Reykbjór (þýska: "Rauchbier") er bjórstíll sem er bruggaður með reyktu malti, þ.e. meltu byggi sem hefur verið þurrkað yfir opnum eldi. Reykbjór á sér rúmlega þrjú hundruð ára sögu. Af honum er afar sterkt reykbragð. Björn austræni Ketilsson. Björn austræni Ketilsson var landnámsmaður á Snæfellsnesi, nam land á milli Hraunsfjarðar og Stafár og bjó rausnarbui í Bjarnarhöfn. Björn var sonur Ketils flatnefs en móðir hans var Yngvildur, dóttir Ketils veðurs hersis af Hringaríki. Þegar Ketill fór til Suðureyja í erindum Haraldar hárfagra sá Björn um eignir hans í Noregi. Ketill skilaði ekki skatti til konungs og þá rak Haraldur Björn burt og tók eignir þeirra feðga undir sig. Björn fór þá vestur um haf til föður síns en vildi ekki setjast þar að, heldur hélt til Íslands og nam þar land. Hann var sá eini af börnum Ketils sem ekki tók skírn og er hann sagður heygður við Borgarlæk. Kona Bjarnar var Gjaflaug Kjallaksdóttir. Synir þeirra voru Kjallakur gamli sem bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn og var föðurafi Víga-Styrs og ættfaðir Kjallekinga, Vilgeir og Óttar. Helgi sonur Óttars herjaði á Skotland og tók að herfangi Niðbjörgu, dóttur Bjólans konungs og Kaðlínar, dóttur Göngu-Hrólfs. Sonur þeirra var Ósvífur spaki Helgason, faðir Guðrúnar Ósvífursdóttur. Þórólfur Mostrarskegg. Þórólfur Mostrarskegg Örnólfsson (d. 918) var landnámsmaður á norðanverðu Snæfellsnesi og nam land á Þórsnesi. Frá honum og ættmönnum hans segir í Eyrbyggja sögu. Þórólfur var sonur Örnólfs fiskreka og bjó á eynni Mostur í Noregi. Í Eyrbyggju segir að hann hafi upphaflega heitið Hrólfur en þar sem hann var mikill blótmaður og trúði á Þór og hafði auk þess mikið skegg hafi hann verið kallaður Þórólfur Mostrarskegg. Þegar Haraldur hárfagri gerði Björn austræna útlægan leyndist Björn um tíma hjá Þórólfi og í framhaldi af því hraktist Þórólfur úr landi og fór til Íslands. Það var snemma á landnámsöld, tíu árum eftir komu Ingólfs Arnarsonar að því er segir í Eyrbyggju, og Þórólfur kom að nær ónumdu landi. Hann sigldi inn á Breiðafjörð og gaf honum nafn, skaut út öndvegissúlum sínum sem Þórsmynd var skorin á hét á Þór að vísa sér til landa. Súlurnar fundust reknar á nesi einu sem Þórólfur kallaði Þórsnes. Nam hann svo land á milli Stafár og Þórsár, reisti hof og nefndi bæ sinn Hofstaði. Þórólfur er sagður hafa haft mikinn átrúnað á Helgafelli, sem er á nesinu, að hann sagði að þangað mætti enginn óþveginn líta. Hann setti héraðsþing á nesinu með ráði sveitunga sinna og var þar helgistaður mikill. Enginn mátti ganga örna sinna þar nálægt og þurftu menn að fara út í Dritsker, sem svo var nefnt, þeirra erinda. Seinna, eftir lát Þórólfs, urðu deilur og mannvíg út af þessu. Þórólfur var tvíkvæntur. Önnur kona hans hét Unnur og var sonur þeirra Þorsteinn þorskabítur, faðir þeirra Þorgríms, mágs Gísla Súrssonar og föður Snorra goða og Barkar digra. Hin var Ósk Þorsteinsdóttir rauðs, sonardóttir Auðar djúpúðgu. Sonur Þórólfs var líka Hallsteinn goði, faðir Þorsteins surts. Jarðskjálftinn á Haítí 2010. Upptök skjálftans merkt inn á kort af Haítí. Miklar skemmdir urðu á forsetahöll landsins. Jarðskjálftinn á Haítí 2010 var sterkur jarðskjálfti sem mældist 7,0 á Richter með skjálftamiðju 25 kílómetrum frá Port-au-Prince á Haítí klukkan 16:53:09 á staðartíma (21:53:09 UTC), þriðjudaginn 12. janúar 2010. Jarðskjálftinn varð á 13 kílómetra dýpi. Hrina eftirskjálfta mældist og voru fjórtán þeirra af styrktargráðu frá 5,0 til 5,9. Flest helstu kennileiti Port-au-Prince urðu fyrir miklum skemmdum eða gjöreyðilögðust, þar á meðal forsetahöllin, þinghúsið og dómkirkjan. Haítí er fátæk þjóð sem er í sæti 149 á lista yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða (af 182 löndum). Ulm. Dómkirkjan í Ulm er hæsta kirkja heims - 161 metri á hæð Ulm er sjöunda stærsta borgin í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi með 122 þúsund íbúa. Ulm er háskólaborg sem stendur við ána Dóná og skartar hæsta kirkjuturni í heimi (161 m). Ulm er fæðingarborg Alberts Einsteins. Lega. Ulm liggur við Dóná austast í Baden-Württemberg, gegnt Neu-Ulm í Bæjaralandi. Næstu borgir eru Stuttgart í norðvestri (60 km), Reutlingen í vestri (50 km) og Ágsborg (Augsburg) í austri (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er tvílita skjöldur, svart fyrir ofan og hvítt fyrir neðan. Merkingin er óljós. Merki þetta kom fyrst fram 1351 en þá með erni. Örninn féll brott árið 1803. Orðsifjar. Upprunalega heiti borgarinnar er "Hulma" en merkingin er óljós. Þó er víst að það hafi ekkert með álmtré að gera ("Ulme"), heldur með rennandi vatn. Ekki er ólíklegt að einhver gamall lækur hafi heitið þessu heiti. Upphaf. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær Ulm var stofnuð, en í kringum árið 850 varð Ulm konungssetur, er Lúðvík hinn þýski ("Ludwig der Deutsche") settist þar að. Hann var barnabarn Karlamagnúsar og tók þátt í skiptingu hins mikla Frankaríkis í Verdun-samningnum 843. Konungar og keisarar þýska ríkisins eftir daga Lúðvíks sátu einnig meira eða minna í Ulm, en bjuggu samtímis á öðrum stöðum. Þegar aðalsættin Salier dó út á 12. öld, spratt af því ófriður við Staufen-ættina. Í þeim ófriði var Ulm brennd til kaldra kola 1134. Furstar Staufen-ættarinnar byggðu Ulm upp aftur 1140 og varð hún við það stærri en áður. Þrátt fyrir að vera mikilvæg konungs- og keisaraborg, eru engar upplýsingar til um það hvenær Ulm fékk borgarréttindi. Síðmiðaldir. Ulm 1597. Dómkirkjan er enn ekki orðinn hæsta kirkja heims. Á 16. öld fór velmegun borgarinnar ört dvínandi. Kom þar til mikil samkeppni við aðrar borgir, en einnig breytt verslunarmynstur eftir fund Ameríku og siglingaleiðarinnar til Indlands. Trúarumrót og styrjaldir. 1529 urðu siðaskiptin í borginni. Það ár var ríkisþing haldið í Worms og voru fulltrúar Ulm allir mótmælendur. Árið 1531 voru haldnar kosningar í borginni um trúmálin og var niðurstaðan sú að borgarbúar skyldu allir verða lúterskir. Í kjölfarið á því ruddist hópur manna inn í kirkjur kaþólikka og eyðilagði helgimyndir og önnur listaverk. Margar kirkjur í nágrenninu voru rifnar eða vanhelgaðar. Trúarumrótið leiddi til mikilla erja. Skærur voru tíðar og missti Ulm í þeim 35 af þorpum sínum, sem voru brennd til kaldra kola. Loks þurfti borgin að auðmýkja sig vegna þrýstings frá Karl V keisara, sem neyddi kaþólska trú aftur upp á borgarbúa árið 1546. 30 ára stríðið og spænska erfðastríðið í upphafi 18. aldar léku borgina grátt. Margoft var setið um hana, hún hertekin, rænd og rupluð. Þar að auki geisuðu hinar ýmsu pestir og borgin þurfti að greiða stríðsskaðabætur. Loks árið 1770 lýsti Ulm sig gjaldþrota. Hún missti við það nær allar nærsveitir sínar, en náði þó að viðhalda fríborgastöðu sinni. Velmegunarárin voru þó á enda. Napoleontíminn. Austurríkismenn gefast upp fyrir Napóleon við borgarhliðið í Ulm. Málverk eftir Charles Thévenin. Árið 1802 missti Ulm fríborgastöðu sína og var innlimuð í Bæjaraland. Árið 1805 áttu sér stað tvær orrustur í og við Ulm. 14. október var barist við Elchingen nálægt Ulm. Þar sigraði Michel Ney, einn hershöfðingja Napoleons, Austurríkismenn. Hermennirnir flúðu til Ulm. Næsta dag kom Napóleon sjálfur á vettvang. Hann sat um Ulm, sem gafst upp eftir tvo daga. 20 þús hermenn Austurríkismanna náðu að flýja, 10 þús létu lífið og afgangurinn var tekinn til fanga. Við uppgjöfina rétti Mack, hershöfðingi Austurríkismanna, Napóleon sverð sitt og sagðist vera hinn ‚ólánsami Mack‘. Napoleon rétti honum sverðið aftur og sagði: „Ég veiti hinum ólánsama Mack sverð sitt og frelsi á ný, og færi auk þess keisaranum kveðju mína.“ Mack sneri heim til keisarans, Franz II, sem leiddi hann fyrir herrétt og kastaði honum í fangelsi. Napoleon hertók Ulm og fór þaðan til Austerlitz, þar sem hann sigraði í ‚þriggja-keisara-orrustunni‘. 1810 skiptust Bæjaraland og stórhertogadæmið Württemberg á landsvæðum. Við þessar tilfærslur varð Ulm hluti af Württemberg, en hafði verið bærísk í átta ár. Dóná afmarkaði landamærin. Þetta þýddi að Ulm missti nær allt bakland sitt sem hélst í Bæjaralandi. Við bakka Dónár, gegnt Ulm, reis ný borg, Neu-Ulm í Bæjaralandi. Nýrri tímar. Lituð mynd af Ulm 1890, sama ár og dómkirkjan var fullgerð Þrátt fyrir að Ulm væri aðeins lítil borg á 19. öld (12 þúsund íbúar 1850) var hafist handa við að stækka dómkirkjuna. Það verk tók 56 ár. Kirkjan var endurvígð 1890 og var þá orðin hæsta kirkja í heimi og meðal hæstu mannvirkja heims. Hún er enn í dag hæsta kirkja veraldar. Heimstyrjöldin fyrri hafði sjálf ekki mikil áhrif á borgina, en það gerði hins vegar kreppan milli stríða. Árið 1944 varð Ulm fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna. 81% miðborgarinnar var eyðilögð, en dómkirkjan slapp þó að mestu. Það tók nokkra áratugi að endurreisa miðborgina. Háskólinn í Ulm var stofnaður 1967. Íþróttir. Einstein-Marathon er Maraþonhlaup í borginni og er haldið í september. Samfara því er hlaupið hálfmaraþon, 10 km og 5 km. Ulmer Donaucup er árleg róðrarkeppni á Dóná. Keppt er í 37 mismunandi bátategundum. Einnig er keppt í drekabátum. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er SSV Ulm 1846 sem komst í fyrsta sinn í sögu félagsins í 1. Bundeslíguna árið 2000 og spilar þar enn. Í blaki náði kvennaliðið SSV Ulm 1846 þeim áfanga að verða þýskur meistari og bikarmeistari árið 2003. Frægustu börn borgarinnar. Albert Einstein er fæddur í Ulm Örlygur gamli Hrappsson. Örlygur gamli Hrappsson var landnámsmaður á Kjalarnesi og bjó á Esjubergi. Örlygur var sonur Hrapps, sonar Bjarnar bunu Grímssonar, og því bróðursonur Ketils flatnefs. Hann ólst upp í Suðureyjum og var í fóstri hjá Patreki biskupi þar. Þegar hann langaði að fara til Íslands lét biskup hann hafa, að því er segir í Landnámabók, kirkjuvið og járnklukku og fleira, og átti hann að helga kirkjuna hinum heilaga Kolumba. Sagði biskup honum eftir hverju hann skyldi fara þegar hann veldi sér bústað. Samkvæmt frásögn Landnámu lentu Örlygur og félagar hans í hrakningum og hafvillum á leiðinni og hét Örlygur þá á Patrek biskup. Skömmu síðar sáu þeir land og lentu þar sem síðan heitir Örlygshöfn, en Örlygur kallaði fjörðinn Patreksfjörð eftir fóstra sínum. Þeir voru þar um veturinn en þetta var ekki sá staður sem Patrekur hafði vísað Örlygi á svo að um vorið sigldi hann suður með landinu en félagar hans sumir urðu eftir og námu land þar vestra. Voru það þeir Þórólfur spör og bræðurnir Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúmi. Þegar Örlygur kom að Kjalarnesi þóttist hann þekkja þann stað sem fóstri hans hafði vísað honum á. Frændi hans, Helgi bjóla, hafði þá numið land á nesinu og lét hann Örlyg fá land frá Mógilsá til Ósvífurslækjar. Hann reisti sér bú á Esjubergi og byggði þar kirkju sína. Hann og afkomendur hans trúðu á Kolumba. Rofnar samfarir. Rofnar samfarir (latína: "coitus interruptus", þar sem "coitus" merkir „samfarir“ eða „mök“ og "interruptus" („truflaður“ eða „rofinn“), lh. þt. af sögninni "interrumpo" eða „ég trufla“, „ég rýf“) er talin vera ein elsta tegund getnaðarvarna þar sem karlmaðurinn dregur liminn úr leggöngum konunnar og losar sæðið utan legganga og ytri kynfæra konunnar. Rofnar samfarir eru ekki taldar örugg getanaðarvörn en hrífa meira en tvöfalt betur gegn óléttu en að aðhafast ekkert, rofnar samfarir veita enga vörn gegn kynsjúkdómum. Albert Hofmann. Albert Hofmann (11. janúar 1906 – 29. apríl 2008) var svissneskur efnafræðingur, sem er einna þekktastur fyrir að vera sá sem uppgötvaði ofskynjunarlyfið LSD og lýsti ofskynjunaráhrifum þess. Æviágrip. Albert Hofmann fæddist í Baden í Sviss. Hann var elstur fjögurra systkina. Foreldrar þeirra voru vélsmiðurinn Adolf Hofmann og konu hans Elisabeth. Albert hóf nám í efnafræði við háskólann í Zürich tvítugur að aldri og lauk grunnnámi þremur árum síðar, árið 1929. Doktorsgráðu hlaut hann þegar ári síðar fyrir rannsóknir sínar á kítíni. Hofmann fór að vinna hjá lyfjadeild Sandoz-rannsóknarstofunnar (nú Novartis) með stofnanda deildarinnar, prófessor Arthur Stoll, einkum við rannsóknir á lækningajurtinni "Scilla glycosides" og sveppnum korndrjóla og leit að aðferðum til að framleiða virku efnin í þeim á efnafræðilegan hátt. Það var í tengslum við þessar rannsóknir sem hann bjó fyrst til LSD 16. nóvember 1938. Það var þó ekki fyrr en fimm árum síðar, 19. apríl 1943, sem hann ákvað að gera tilraun með verkun efnisins á sjálfum sér og taka inn 250 míkrógrömm að efninu, sem hann taldi það magn sem þyrfti til að framkalla áhrif (það sem raunverulega þarf til er 20 míkrógrömm). Innan við klukkustund síðar varð hann fyrir miklum breytingum á skynjun, barðist við kvíðatilfinningu og taldi nágranna sinn göldróttan. Sjálfur taldi hann að hann væri að verða geðveikur og hefði orðið fyrir eitrun en þegar læknir var sóttur til hans fannst ekkert að og áhrifin hurfu. Hofmann stýrði síðar náttúruefnadeild Sandoz og hélt áfram að rannsaka ofskynjunarefni í mexíkóskum sveppum og jurtum sem frumbyggjar notuðu til að komast í vímu og fann þar meðal annars efni náskyld LSD. Hofmann kallaði LSD læknislyf fyrir sálina og þótti miður að það skyldi vera bannað um allan heim. Hann sagði að vissulega væri það sterkt efni sem gæti verið hættulegt ef það væri misnotað eins og gert hefði verið á 7. áratugnum en það hefði verið notað með góðum árangri í sálgreiningarmeðferð í áratug fyrir þann tíma og gæti nýst vel ef það væri notað á réttan hátt. Hann fagnaði þegar fregnir bárust af því í desember 2007 að til stæði að hefja að nýju í Sviss tilraunir með efnið við meðferð sjúklinga sem þjást af krabbameini á lokastigi og öðrum banvænum sjúkdómum. Hann átti að flytja ávarp á þinginu World Psychedelic Forum í mars 2008 en varð að afboða það vegna veikinda. Hann lést mánuði síðar í þorpinu Burg im Leimental, 102 ára að aldri. Lónafjörður. Lónafjörður liggur milli Veiðileysufjarðar og Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum. Lónanúpur gengur fram í sjó sunnan við fjörðinn en andspænis honum er Múli. Lónafjörður er þröngur og snjóþungur, óaðgengilegur og erfiður yfirferðar; til dæmis er ekki hægt að ganga fyrir fjarðarbotninn nema á fjöru og þá eftir rifjum sem liggja góðan spöl frá landi, því að fyrir innan þau eru lón sem sögð eru botnlaus og ná að fjallinu Einbúa sem gengur fram í sjó í fjarðarbotninum. Í lónunum er mikið um sel. Í Lónafirði hefur ekki verið byggð á sögulegum tíma þótt sagnir séu um búsetu þar, en utan við fjarðarmynnið að vestan var bærinn Kvíar, sem fór í eyði 1948. Gottfried Heinrich greifi af Pappenheim. Gottfried Heinrich greifi af Pappenheim (29. maí 1594 – 17. nóvember 1632) var hermarskálkur í her keisara hins Heilaga rómverska ríkis í Þrjátíu ára stríðinu. Hann þótti gríðarlega hæfur herforingi og var settur yfir sveit brynjuriddara 1622. Eftir það tók hann þátt í bardögum gegn Kristjáni 4. undir stjórn Tillys og eyðingu Magdeborgar 1631. Þegar Svíar réðust inn á meginlandið gerði hann þeim marga skráveifu í herför þeirra suður til Bæjaralands og mætti þeim síðan í orrustunni við Lützen þar sem hann hlaut banasár. Skjaldarmerki Úkraínu. Skjaldarmerki Úkraínu (úkraínska: Державний Герб України) er opinbera skjaldarmerki Úkraínu. Það er þekkt í daglegu úkraínsku tali sem Tryzub (úkraínska: Тризуб, „þríforkur“). Á skjaldarmerkinu eru þeir sömu litir sem finnast á úkraínska fánanum, blár skjöldur með gulum þríforki. Skjaldarmerkið er á gunnfána forsetis Úkraínu. Skjaldarmerkið var tekið í notkun þann 19. febrúar 1992. Dómkirkjan í Ulm. Dómkirkjan í Ulm er hæsta kirkja heims Dómkirkjan í Ulm er kirkja sem borgarbúar í Ulm reistu að eigin frumkvæði. Hún er ekki eiginleg dómkirkja þó hún gangi undir því nafni, enda aldrei verið biskupsstóll. Turn kirkjunnar er 161 metra á hæð sem gerir Dómkirkjuna í Ulm að hæstu kirkju í heimi. Hún er helsta kennileiti borgarinnar. Forsaga. Fram á 14. öld stóð kirkja borgarinnar utan borgarmúranna, u.þ.b. 1. km frá borginni. Kirkjusókn var því erfið og oft var kirkjan óaðgengileg, ekki síst á stríðstímum. Kirkja sú var jafnframt tákngervingur fyrir það vald sem kaþólska kirkjan hafði á borgarbúum. Því kom fram sú ósk að fá að reisa nýja kirkju innan borgarmúranna. Borgarbúar ákváðu að fjármagna byggingu hennar sjálfir, en íbúar Ulm voru tæplega 10 þús á þessum tíma. Engu að síður tók borgarstjórn þátt í viðleitni borgarbúa og áætlanir voru gerðar um að smíða ‚mjög háa‘ kirkju. Fyrra byggingaskeið. Borgarstjórinn sjálfur lagði grunnstein kirkjunnar 30. júní 1377. Framkvæmdir hófust strax á eftir. Nokkrum sinnum var skipt um byggingameistara, þar sem þeim entist ekki aldur til ljúka verkinu. Árið 1405 var fyrsta skipið fokhellt og fór þá fyrsta vígslan fram. Þakið var þá bara einfalt bráðabirgðaþak. Eftir það voru messur haldar í kirkjunni en á virkum dögum var framkvæmdum haldið áfram. Árið 1492 komu fyrstu skemmdir fram. Þakið var of þungt fyrir hið háa skip. Því þurfti að rífa niður hliðarskipin og lækka þau. Þrátt fyrir það er hallinn á einum veggnum enn 27 cm í dag. Árið 1531 fóru siðaskiptin formlega fram í Ulm. Þá æddi múgur manna inn í kirkjuna, sem og aðrar kirkjur, og eyðilagði helgimyndir og önnur listaverk. Í dómkirkjunni sjálfri voru ein 60 öltöru eyðilögð, ásamt viðeigandi altaristöflum. Aðeins örfáum var hægt að bjarga. Árið 1543 stöðvuðust allar framkvæmdir. Þar kom til innri órói, ófriður út á við og auðvitað fjárskortur. Kirkjuturninn var þá 100 metra hár og var þá þegar meðal hæstu kirkjuturna heims. Ekkert var gert í 300 ár en á þeim tíma geysuðu nokkrar þungbærar styrjaldir. Seinna byggingaskeið. Höggmyndaverk fyrir ofan innganginn að kirkjuskipinu Með iðnbyltingunni jókst velmegun borgarinnar á ný. Árið 1844 var ákveðið að framkvæmdum við kirkjuna skyldi haldið áfram. Byrjað var að gera úttekt á múrum og burðarvirki. Þegar það reyndist í lagi var smíðinni framhaldið. Kórturnarnir voru hækkaðir í 86 metra hæð, en aðalturninn var hækkaður í 161 metra. Hann fór þar með fjóra metra fram yfir dómkirkjuna í Köln, sem var og er 157 metra há (og í dag þriðja hæsta kirkja heims). Framkvæmdum var lokið 1890 og fóru 29. júní fram mikil hátíðarhöld þar sem 320 manna kór söng. Loftárásir. Þann 17. desember 1944 varð Ulm fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna. Áður höfðu miðaldagluggarnir í kórnum verið teknir úr kirkjunni og varðveittir annars staðar. Aðeins þeir sem settir voru upp í framkvæmdum á 19. öld voru skildir eftir. Það var kraftaverki líkast að kirkjan skuli hafa sloppið við sprengjuregnið, því nær allar byggingar í kring voru eyðilagðar. Reyndar sprakk ein sprengja á kórnum. Hún olli þó litlum skaða en enn í dag koma fram litlar sprungur í veggjum kórsins. Hins vegar eyðilögðust allir gluggar vegna höggbylgna sprenginganna fyrir utan. Eftir stríð voru miðaldagluggarnir aftur settir í. Listaverk. Mörg listaverk eru í kirkjunni, þrátt fyrir að múgurinn hafi eyðilagt mörg listaverk frá miðöldum í upphafi siðaskiptanna. Gluggar. Smáhluti af einum kirkjuglugga kórsins Elstu gluggar kirkjunnar eru í kórnum. Þeir eru 15 metrar háir og eru allir með litað gler og haldið saman með blýstrimlum. Gluggarnir voru smíðaðir á hinum og þessum verkstæðum. Elsti glugginn er frá 1385 og er gerður úr mýmörgum smærri myndum. Þær sýna atriði úr ævi Maríu mey, Jósefs og Önnu (móður Jóhannesar skírara). Glugginn er ómetanlegt listaverk og samanstendur úr nokkur hundruð litlum rúðum. Aðrir gluggar kórsins eru í svipuðum stíl og eru svipaðir gamlir. Þó er einn glugginn nokkuð eldri. Hann er frá 1480 en svo virðist sem hann hafi komið í stað eldri glugga. Allir þessir gluggar voru teknir niður og varðveittir á öruggum stað meðan heimstyrjöldin síðari geysaði. Enda fór svo að allir bráðabirgðagluggar kirkjunnar eyðilögðust í loftárásum 1944. Miðaldagluggarnir voru settir upp á ný eftir stríð og prýða kirkjuna enn í dag. Kórbekkir. Kórbekkurinn í kirkjunni er langur bekkur, eða röð af bekkjum, í kórnum. Kórbekkur þessi í gotneskum stíl er sá þekktasti og einn fegursti í Þýskalandi. Hann var smíðaður 1469-1474 og er 18 metra langur. Bekkirnirnir eru tveir, gegnt hver öðrum við veggi kórsins. Milli sæta á öðrum bekknum eru styttur af þekktum einstaklingum í sögunni og má þar nefna Pýþagóras, Cíceró, Ptólemajos, Virgil og marga fleiri. Á hinum bekknum eru þekktar konur úr sögunni, þar af að minnsta kosti sjö með heitið Sibylla. Altaristafla. Altaristaflan er verk þriggja listamanna frá mismunandi tímumGamla altaristaflan frá miðöldum eyðilagðist af múgnum í siðaskiptunum 1531. Ekki var búin til ný altaristafla sérstaklega, heldur var minni altaristafla sótt annars staðar frá og sett upp í kirkjunni. Hér er um útstæða höggmyndaseríu að ræða, sem gefur myndinni allri mikla dýpt. Hún var hins vegar stækkuð með tveimur hreyfanlegum vængmyndum frá 1521, þannið að hægt væri að loka töflunni. Fyrir neðan var svo mynd af síðustu kvöldmáltíðinni bætt við, en sú mynd er frá svipuðum tíma. Því er stíll myndanna ekki sá sami, þar sem myndirnar eru eftir þrjá mismunandi listamenn. Engu að síður er altaristaflan hin fegursta. Annað markvert. Í turninum eru 13 bjöllur. Þær voru ekki rafvæddar fyrr en 1953 og þangað til varð kirkjuþjónn, oftar en ekki unglingur, að knýja þær með handafli. Sú stærsta þeirra er 4,9 tonn. Sú elsta er frá síðari hluta 14. aldar og er 900 kg. Kaktusar. Kaktusar eru safaplöntur af kaktusætt ("Cactaceae") og eru af hjartagrasbálknum. Kaktusar eru venjulega með þykkum, safaríkum og þyrnóttum stönglum. Sumar tegundir eru með skærlitum blómum, en allir eru þeir án laufblaða. Heimkynni þeirra eru í Ameríku, en ein undantekning á þeirri reglu er "Rhipsalis baccifera" sem á ættir sínar að rekja til Gamla heimsins. Kaktusar eru oftast notaðir til skrauts, en aðrar tegundir koma t.d. að notum sem nytjaplöntur. Kaktusar eru óvenjulegar og auðkennandi plöntur sem finnast aðallega í hitabeltinu. Kaktusar halda vel vatni og stilkarnir á þeim eru safamiklir og ljóstillífandi. Kaktusar eru þekktir fyrir brodda sína, en þeir eru í raun laufblöð. Kaktusar eru til í ólíkum stærðum og gerðum. Hæsta kaktustegundin er "Pachycereus pringlei" en hún getur náð allt að 19,2 m, en sú minnsta er "Blossfeldia liliputana" sem er fullvaxin um 1 cm að hæð. Blómin á kaktusum eru stór og flestar kakustegundir blómstra að næturlagi. Næturskordýr og lítil spendýr eins og mölflugur og leðurblökur fræva þessi blóm. Ráðhúsið í Ulm. Ráðhúsið í Ulm var reist 1370 sem verslunarhús. 1419 var húsinu hins vegar breytt í ráðhús. Ári seinna voru gluggaskreytingarnar settar upp, ásamt styttunum. Þær eiga að sýna kjörfustana, Sigismund keisara og Karlamagnús. Stjörnuúrið var sett upp 1520. 1539 fékk framhliðin nýja ásýnd í endurreisnarstíl og málaðar voru freskur. 1898-1905 var reist ný álma við húsið og skreytt að innan í gömlum þýskum stíl. 1944 stórskemmdist húsið í loftárásum bandamanna. Eftir stríð var húsið gert upp. Það er enn notað sem ráðhús. Wiblingen klaustrið. Wiblingen klaustrið. Á bakvið glittir í klausturkirkjuna. Wiblingen klaustrið er fyrrverandi klaustur í borginni Ulm í Þýskalandi. Það er notað sem heilbrigðisdeild háskólans í borginni. Bókasalurinn þar er einn fegursti salur Þýskalands. Saga klaustursins. Klaustrið sjálft var stofnað 1093 af greifunum Hartmann og Otto von Kirchberg. Þeir gáfu munkum í Benediktínusarreglunni lítið landsvæði þar sem þeir gátu reist sér klaustur. Klaustrið var vígð 1099. Sama ár gáfu greifarnir klaustrinu viðarflís úr krossi Jesú sem krossfarar komu með til baka úr fyrstu krossferðinni til Jerúsalem (1096-1099). Klaustrið var miðstöð lærdóms í nokkur hundruð ár. Í 30 ára stríðinu voru unnar skemmdir á klaustrinu. Þegar Svíar nálguðust borgina földu munkarnir flísina úr krossi Jesú með því að múra hana í vegg. Þegar stríðinu lauk dóu þeir sem földu flísina úr sótt. Hún týndist því og komu ekki í leitirnar aftur fyrr en mörgum árum síðar. 1701 var klaustrið slitið frá greifunum og sameinað austurrísku kirkjunni. 1714 var hafist handa við að umbreyta klaustrinu í barokkbyggingu. Nokkrar nýjar álmur risu og bókasalurinn frægi var innréttaður. Framkvæmdir stóðu fram eftir öldinni og lauk aldrei formlega. En framkvæmdum var hætt 1744. Þegar Napoleon hertók Ulm 1805 var klaustrið lagt niður. Aðalhúsið varð þá aðsetur Hinriks hertoga af Bæjaralandi næstu árin. Á miðri 19. öld var klaustrinu breytt í herstöð og var þá síðustu húsasmíðum lokið. Húsin voru notuð sem herstöð allt til loka heimstyrjaldarinnar síðari 1945. Þá voru þau notuð sem gististaður fyrir flóttamenn. Í dag er klausturkirkjan aftur í notkun sem kaþólsk kirkja. Klausturhúsin er hins vegar notuð af heilbrigðisdeild háskólans í Ulm. Suðurálman er elliheimili. Klausturkirkjan og bókasalurinn eru opin fyrir almenning. Ólympsguðir. a> frá síðari hluta 18du aldar. Ólympsguðir eða guðirnir tólf (á forngrísku: Δωδεκάθεον grískri goðafræði (og síðar einnig í rómverskri goðafræði). Þeir voru taldir búa á Ólympsfjalli í Grikklandi. Elsta ritaða heimildin um helgiathafnir þeim til heiðurs er í hómeríska sálminum til Hermesar. Oftast voru Ólymðsguðirnir taldir vera: Seifur, Hera, Póseidon, Demetra, Ares, Aþena, Apollon, Artemis, Hefæstos, Afródíta, Hermes og Díonýsos. Samsvarandi guðir Rómverja voru: Júpíter, Júnó, Neptúnus, Ceres, Mars, Mínerva, Apollon, Díana, Vulcanus, Venus, Merkúríus og Bakkus. Hades (hjá Rómverjum: Plútó) var venjulega ekki talinn til Ólympsguða vegna þess að hann dvaldist í undirheimum en ekki á Ólympsfjalli. Stundum var Hestía (hjá Rómverjum: Vesta) talin til Ólympsguða. Þegar Díonýsosi var boðið í hópinn urðu Ólympsguðir þrettán en úr því að þrettán var talin óheillatala yfirgaf Hestía hópinn til þess að forðast illdeilur. Þegar í fornöld var þó á reiki hverjir tilheyrðu hópnum. Um 430 f.Kr. taldi sagnaritarinn Heródótos Ólympsguði vera eftirfarandi: Seifur, Hera, Póseidon, Hermes, Aþena, Apollon, Alfeifur, Krónos, Rhea og þokkagyðjurnar þrjár. Fornfræðingurinn þýski Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff taldi að útgáfa Heródótosar væri rétt. Ólympsguðir komust til valda eftir að Seifur hafði leitt þá til sigurs í baráttunni gegn frændum sínum Títönunum. Seifur, Hera, Póseidon, Demetra, Hestía og Hades voru systkin. Ares, Hermes, Hefæstos, Afródíta, Aþena, Apollon, Artemis, þokkagyðjurnar þrjár, Herakles, Díonýsos, Heba og Persefóna voru öll börn Seifs. Í sumum útgáfum goðsagnanna var Hefæstos þó eingetinn af Heru og Afródíta var samkvæmt Hesíódosi dóttir Úranosar og því föðursystir Seifs. Uli Hoeneß. Uli Hoeness (5. janúar 1952 í Ulm) er þýskur fyrrverandi knattspyrnumaður, framkvæmdarstjóri Bayern München til margra ára og forseti félagsins síðan 2009. Æviágrip. Uli Hoeness er á frímerki en er ómerktur. Uli Hoeness (Ulrich Hoeneß) fæddist 1952 í þýsku borginni Ulm og hóf að æfa knattspyrnu á unga aldri í borginni, ásamt yngri bróður sínum, Dieter Hoeness. Þegar hann var 15 ára var hann orðinn fyrirliði unglingaliðs landsinsins. Árið 1970 hófu Hoeness bræður atvinnuferil sinn er þeir voru báðir keyptir til Bayern München. Ári seinna var Uli valinn í U-23 landsliðið. Með Bayern München lék hann í átta ár og var ýmist miðherji eða framherji. Fyrstu árin lék Gerd Müller með félaginu en þeir tveir voru eitt árangursríkasta markadúett í Þýskalandi á sínum tíma. Saman skoruðu þeir 53 mörk á leiktímabilinu 1971/72 og aftur 1972/73. Þetta met var ekki slegið fyrr en 2008/09 er leikmannadúett hjá Wolfsburg skoraði einu marki meira. Árið 1972 var Hoenss valinn í þýska landsliðið. Sama ár varð hann Evrópumeistari og síðan heimsmeistari tveimur árum síðar. Hoeness varð þýskur meistari með Bayern München 1972-74. Árið 1978 fór hann til Nürnberg en lék þar aðeins eitt tímabil. Hann endaði feril sinn þar, þá aðeins 27 ára gamall vegna krónískra meiðsla í hné. Strax eftir að hann lagði skóna á hilluna var hann ráðinn sem framkvæmdarstjóri hjá Bayern München. Hann er yngsti framkvæmdarstjóri knattspyrnufélags í Þýskalandi fyrr og síðar. Sem slíkur starfaði hann í 30 ár og átti virkan þátt í velgengni félagsins, ekki síst fjárhagslega. Í nóvember 2009 var hann svo kosinn forseti Bayern München. Heimildir. Hoeness, Uli Gull-Þóris saga. Gull-Þóris saga (oft líka nefnd Þorskfirðinga saga) er ein af Íslendingasögum og segir hún frá Gull-Þóri Oddssyni, höfingja í Þorskafirði, og deilum hans við Hall nágranna sinn. Í upphafi sögunnar segir frá því þegar Þórir kemur til Íslands með föður sínum, Oddi skrauta. Þeir settust að í Þorskafirði. Þórir fór síðar utan í hernað ásamt Hyrningi syni Halls á Hofstöðum og eignaðist mikið gull á Finnmörk, þegar hann vann á drekum sem þar voru í helli norður við Dumbshaf, en hann var hið mesta afarmenni. Þegar þeir komu aftur til Íslands vildi Hallur fá hlut af gullinu fyrir hönd sonar síns en Hyrningur var sáttur við sinn hlut. Af þessu urðu deilur miklar milli Halls og Þóris og vígaferli. Fór svo að Þórir felldi bæði Hall og Rauð, eldri son hans, en sættist við Hyrning, sem aldrei hafði tekið þátt í deilunum. Kona Þóris var Ingibjörg dóttur Gils þess er nam Gilsfjörð og var sonur þeirra Guðmundur. Ljótur óþveginn. Ljótur óþveginn var landnámsmaður í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Texti Landnámu er nokkuð óljós hvað varðar landnám í Kelduhverfi og mörk þeirra og gæti það bent til ókunnugleika höfundar. Sagt er að bæði Ljótur og Önundur Blængsson hafi numið land „[upp] frá Keldunesi“ en ekkert sagt frekar um mörk þeirra eða bústað Ljóts en Önundur er sagður hafa búið í Ási. Ekkert er heldur sagt um ættir Ljóts en sonur hans er sagður hafa verið Gríss faðir Galta í Ási. Önundur Blængsson. Önundur Blængsson var landnámsmaður í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Í Landnámu er sagt um bæði hann og Ljót óþveginn að þeir hafi numið land „[upp] frá Keldunesi“ en ekkert sagt frekar um mörk þeirra. Önundur er sagður hafa búið í Ási. Bróðir hans var Bálki Blængsson, landnámsmaður í Hrútafirði og voru þeir synir Blængs Sótasonar. Bálki Blængsson. Bálki Blængsson var landnámsmaður í Hrútafirði. Í Landnámabók er hann sagður hafa verið sonur Blængs Sótasonar af Sótanesi og bróðir Önundar Blængssonar landnámsmanns í Kelduhverfi. Bálki var einn af andstæðingum Haraldar hárfagra í Hafursfjarðarorrustu og eftir það fór hann til Íslands og nam allan Hrútafjörð. Sagt er að hann hafi búið bæði á Ytri-Bálkastöðum, sem eru utarlega á Heggstaðanesi, og Syðri-Bálkastöðum, sem eru innst í firðinum, en seinast í Bæ. Ýmsir virðast svo hafa fengið land hjá honum en margt er óljóst um landnám í Hrútafirði og mörk þeirra. Sonur Bálka er sagður hafa verið Bersi goðlauss, sem nam Langavatnsdal. Hann var afi Bjarnar Hítdælakappa. Dóttir Bálka hét Geirlaug. Hún var amma Hólmgöngu-Bersa. Svarfdæla saga. Hof, hér stóð bær Ljótólfs goða, fyrsta landnámsmanns í Svarfaðardal. Svarfdæla saga (eða Svarfdæla) er fornsaga sem telst til Íslendingasagna. Hún segir frá landnámi í Svarfaðardal og deilum og vígaferlum í dalnum á landnámsöld. Þar áttust við Ljótólfur goði á Hofi og Þorsteinn svörfuður á Grund og þeirra menn. Frásögnin er allstórbrotin þar sem berserkurinn og skáldið Klaufi Hafþórsson kemur mikið við sögu bæði lífs og liðinn og hin skapmikla Yngveldur fagurkinn. Þótt margt sé heldur ótrúlegt í frásögninni hafa fornminjar þótt benda til þess að í henni sé sannsögulegur kjarni. Skáldsögur, leikrit og söngvar hafa verið samin upp úr Svarfdælu til dæmis sagan "Hér liggur skáld" eftir Þórarinn Eldjárn. Svarfdæla saga slapp ekki ósködduð gegn um aldirnar. Jónas Kristjánsson rannsakaði söguna og skrifaði formala að henni í Íslenskum fornritum og gaf síðar út sérstaklega með efnismiklum formála á vegum Handritastofnunar 1966. Aðeins eitt blað úr skinni er til af sögunni, sem talið er vera úr skinnbók frá 15. öld. Þau pappírshandrit sem til eru af sögunni eru öll talin runnin frá einu pappírshandriti frá 17. öld sem gert hefur verið eftir illa förnu skinnhandriti. Nokkrir kaflar hafa glatast úr sögunni ("eyðan mikla í Svarfdælu") og auk þess eru nokkrar minni eyður. Minnstu hefur munað að sagan glataðist með öllu. Mánudagsblaðið. Mánudagsblaðið var íslenskt vikublað gefið út í Reykjavík frá 1948 til 1982. Ritstjóri blaðsins alla tíð var Agnar Bogason. Meðal fastra liða voru leiðarar ritaðir undir dulnefninu „Kakali“ og leikhúsgagnrýni sem oft var mjög umtöluð. Blaðið var hægrisinnað en ótengt stjórnmálaflokkum. Eftir 1975 fór tölublöðunum fækkandi og síðustu þrjú árin komu innan við tíu blöð út árlega. Pforzheim. Pforzheim er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar eru tæplega 120 þúsund. Borgin er þekkt fyrir skartgripa- og úrsmíði. Lega. Pforzheim stendur við norðurjaðar Svartaskógs við ána Enz. Næstu borgir eru Karlsruhe fyrir norðvestan (20 km) og Stuttgart fyrir suðaustan (30 km). Orðsifjar. Heitið er dregið af latneska orðinu "portus", sem merkir "höfn" en Rómverjar stofnuðu bæinn í upphafi. Líklegt er að heitið hafi verið lengra á tímum Rómverja. Saga Pforzheim. Pforzheim 1643. Mynd eftir Matthäus Merian. Miðaldir. Rómverjar settust hér að á 1. öld e.Kr. og stunduðu siglingar á ánum Enz, Nagold og Würm. Í upphafi mun bærinn hafa verið lítill en á 3. öld var hann í örum vexti. Ókláraðar byggingar leiða líkum að því að alemannar hafi ráðist á bæinn um miðja 3. öld og hrakið Rómverja burt. Heitið "Pforzheim" kemur fyrst við skjöl 1067 en þá sótti keisarinn Hinrik IV bæinn heim. 1220 verður bærinn aðsetur markgreifans Ernst af Baden. Eftirmaður hans hélt veglega giftingarveislu í bænum, þegar hann gekk að eiga Katrínu frá Austurríki, systur Friðrik III keisara. Síðla á 15. öld var stofnaður latínuskóli í borginni en þaðan brautskráðust siðaskiptamenn eins Philipp Melanchton og Johannes Reuchlin. Stríðstímar. 30 ára stríðið hafði að mestu lítil áhrif á Pforzheim, en árið 1645, aðeins þremur árum áður en því lauk, kom keisaraher frá Bæjaralandi og sat um borgina. Borgin mátti sín lítils og því hertóku bæjarar hana, rændu hana og brenndu. Við uppbygginguna var öllum víggirðinum sleppt. Borgin hafðí lítið gildi næstu aldirnra. Í erfðastríðinu í Pfalz komu franskar hersveitir þrisvar til Pforzheim og brenndu hana til kaldra kola. Fyrst 1688, síðan tvisvar ári síðar. Í öll skiptin var Mélac hershöfðingi á ferðinni. 1691 og 92 rændu Frakkar borgina á nýjan leik. Síðustu aldir. Benzinn sem fór í fyrstu langferð sögunnar Árið 1767 hófst skartgripa- og úrsmíði og varð borginni mikil lyftistöng. Um 1800 var Pforzheim fyrsta iðnaðarborgin í Baden, en þá voru þar starfrækt 900 smáfyrirtæki. Í borginni var þá ein fremsta skartgripaframleiðsla heims. Árið 1836 fékk borgin járnbrautartengingu. Það þýddi endalok kænusiglinga þar en þær höfðu staðið yfir í mörg hundruð ár. Árið 1888 smíðaði Carl Benz bifreið í borginni Mannheim. Seinna á árinu tók eiginkona hans, Bertha, bifreiðina traustataki og keyrði henni alla leið til Pforzheim ásamt sonum sínum. Þetta reyndist vera fyrsta langferð bifreiðar í sögunni. Til minningar um þennan atburð var síðar reistur minnisvarði í Pforzheim. Í heimstyrjöldinni síðari voru settar upp stórar hergagnaverksmiðjur í borginni. Að minnsta kosti 10 þúsund borgarbúar störfuðu þar og þótti samt ekki nóg. Því varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna í febrúar 1945. Nær öll borgin var gjöreydd og biðu tæplega 18 þús manns bana. Talið er að um 98% miðborgarinnar eyddust í þessari einu árás. Þetta var þriðji mesti mannsskaði stríðsins í loftárásum á Þýskaland (á eftir Hamborg og Dresden). Frakkar hertóku borgina í stríðslok en skiluðu henni til Bandaríkjamanna, þar sem hún var á þeirra hernámssvæði. Árið 1974 fór íbúatala borgarinnar yfir 100 þúsund. Byggingar og kennileiti. Litlar sem engar eldri byggingar eru til í Pforzheim sökum mikilla loftárása 1945. Helst er að nefna Mikjálskirkjuna ("St. Michael") sem reist var 1219-1270 og stækkkuð tvisvar síðar. Í kirkjunni er grafhvelfing þar sem markgreifarnir frá Baden-Durlach liggja fram til 1860. Kirkjan stórskemmdist í loftárásunum 1945 og var lagfærð og tekin í notkun aftur 1957. Algín. Algín eða algínsýra er anjónísk fjölsykra sem er í frumuveggjum brúnþörunga þar sem það myndar náttúrulegt gúmmí með því að binda vatn. Það getur bundið 200-300 sinnum þyngd sína af vatni. Mest algín á markaði er unnið úr þarategundum eins og risaþara, klóþangi og beltisþara. Algín er mikið notað sem þykkingarefni og ýruefni í lyfja- og matvælaiðnaðinum. Þykkingarefni. Þykkingarefni er efni sem eykur seigju vökva án þess að breyta öðrum eiginleikum hans, eins og bragði. Þykkingarefni eru notuð til að auka fyllingu og auka stöðugleika sviflausna. Þau eru mikið notuð sem aukaefni í matvælaiðnaði, í lyfjaiðnaði og snyrtivöruiðnaði. Konstanz. Konstanz er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún er háskóla- og hafnarborg við Bodenvatn og er með rúmlega 80 þúsund íbúa. Lega. Konstanz liggur við Bodenvatn syðst í Þýskalandi, einmitt á þeim stað þar sem vatnið er mjóst. Borgin skiptir Bodenvatn í tvo aðskilda hluta og rennur Rínarfljót milli hlutanna í gegnum borgina. Suðurmörk borgarinnar eru samtímis landamærin að Sviss. Orðsifjar. Borgin var stofnuð af Rómverjum og hét þá "Civitas Constantia" ("Borg Konstantíns"), til heiðurs keisaranum Konstantíns Chlorus. Þetta heiti var notað af germönum eftir þetta og fyrst breytt í "Constantia", síðan "Konstanz". Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svartur kross á hvítum grunni. Efst er feit rauð rönd. Rauði liturinn er blóðröndin sem merkir blóðréttinn (líkamlegar refsingar) í þessari fyrrum fríborg. Krossinn er fenginn að léni frá rauða biskupakrossinum en biskupar réðu yfir borginni áður. Saga Konstanz. Kirkjuþingshúsið í Konstanz. Í þessu húsi fór eina páfakjör sögunnar fram norðan Alpa. Konstanz 1633. Mynd eftir Matthäus Merian. Miðaldir. Það voru Rómverjar sem stofnuðu borgina um 300 e.Kr. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þeir hurfu þaðan en árið 525 kemur heitið Constania fyrst fyrir í gotneskri ferðabók. Árið 585 varð Konstanz biskupaborg en þá standa þjóðflutningarnir miklu yfir. Að minnsta kosti tveir biskupanna hafa verið teknir í tölu dýrlinga, þar á meðal Konrad frá Konstanz (um 900-975). Í upphafi 13. aldar náðu borgarbúar að losa sig undan biskupunum að hluta og varð Konstanz þá að halfgerðri fríborg í ríkinu. Konstanz var mikilvægur viðkomustaður ferðamanna og verslunarmanna á leið yfir Alpana. Hún tryggði einnig örugga leið yfir Bodenvatn. Á 14. öld tók Basel við sem viðkomustaður verslunar og því tók Konstanz að hnigna. Kirkjuþing og siðaskipti. 1414 kallaði Sigismundur keisari til kirkjuþingsins mikla í Konstanz. Þingið þurfti að glíma við erfið vandamál. Þau helstu voru að binda enda á klofninginn innan kaþólsku kirkjunnar og finna lausn á óróa Hússítana í Bæheimi. Þingið stóð yfir í fjögur ár með hléum. Bæði vandamál tókst að leysa. Á þessum tíma hafði kaþólska kirkjan klofnað undir þremur páfum sem ríktu samtímis. Þetta þýddi einnig spennu í kaþólska heiminum, þar sem furstar og konungar fylgdu ekki alltaf sama páfa. Sigismund kallaði páfana til Konstanz en aðeins Jóhannes XXIII mætti. Hinir sendu fulltrúa. Lausnin fólst í því að setja alla þrjá páfa af og kalla nýjan. Nýr páfi varð Martin V. Þetta reyndist eina páfakjörið norðan Alpa í sögunni. Einn páfanna sætti sig við orðinn hlut, tveir ekki og fóru þeir í útlegð. Síðara vandamálið var ekki síður alvarlegt. Fylgismenn Jan Hus í Bæheimi höfðu kastað kaþólskri trú og þar með einnig hafnað keisaranum óbeint. Þetta leiddi til Hússítastríðana. Sigismund keisari kallaði Hus á þingið í Konstanz og veitti honum friðhelgi meðan fundað væri. En fundurinn varð honum óhagstæður. Keisari afturkallaði friðhelgina og var Hus brenndur á báli í miðborg Konstanz. Ösku hans var dreift í Rínarfljót. Seinna á 15. öld sótti Konstanz um inngöngu í svissneska bandalagið en beiðninni var hafnað á grundvelli þess að hinir eiðsvörnu óttuðust offjölgun borga. Konstanz hefði að öllum líkindum orðið höfuðborg kantónunnar Thurgau. Í kjölfarið af höfnuninni gekk borgin í sváfabandalagið. 1527 urðu siðaskiptin í borginni. Biskuparnir fluttu þá til Meersburg við Bodenvatn. 1548 barðist borgin í trúarstríðinu milli mótmælenda og kaþólikka ("Schmalkaldischer Krieg"). Mótmælendur biðu lægri hlut og borgin var því neydd til kaþólskrar trúar á ný. Borgin missti auk þess fríborgastatus sinn. Biskuparnir sneru hins vegar ekki aftur. Nýrri tímar. Í 30 ára stríðinu sátu Svíar um borgina 1633 en fengu ekki unnið hana. Eftir stríð hnignaði borgin nokkuð og kemur lítið við sögu eftir það. Árið 1806 var Konstanz innlimað í stórhertogadæminu Baden. Árið 1809 sátu Austurríkismenn um borgina í Napoleonstríðunum, en fengu heldur ekki unnið hana. Árið 1863 fékk borgin járnbrautartengingu og við það dafnaði atvinnulífið á nýjan leik. Það ár voru borgarmúrarnir rifnir niður til að skapa meira byggingasvæði. Borgin kom ekkert við sögu í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Frakkar hertóku borgina 26. apríl 1945 bardagalaust og var hún á hernámssvæði þeirra. Franskur her dvaldi í Konstanz allt til 1979. Heiðarskóli í Hvalfjarðarsveit. Heiðarskóli í Hvalfjarðarsveit er grunnskóli sem hefur verið starfandi síðan 1965. Hét áður Leirárskóli. Göppingen. Göppingen á 17. öld. Mynd eftir Matthäus Merian. Maientag-hátíðin er ein elsta hátíð í suðurhluta Þýskalands sem enn er haldin Göppingen er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Borgin er aðallega þekkt fyrir hinn fornfræga gamla kastala Hohenstaufen og fyrir handbolta. Íbúar eru tæplega 60 þúsund. Lega. Göppingen liggur sunnarlega í Þýskalandi og austarlega í sambandslandinu Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Stuttgart fyrir vestan (um 40 km) og Ulm fyrir suðaustan (um 50 km). Orðsifjar. Bærinn hét upphaflega "Geppingen" og er nefndur eftir mannanafninu "Geppo". Merkingin er því "Bærinn hans Geppo". Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svart rádýrshorn á hvítum fleti. Fyrir ofan er rauð rönd. Rádýrshornið kemur fyrst fram á innsigli 1338. Á 15. öld var skildinum bætt við, 1855 voru litirnir fastsettir. Þeir höfðu áður verið nokkuð á reiki. Saga Göppingen. Árið 1070 reisti Friðrik I frá Sváfalandi kastalavirkið Hohenstaufen. Kastali þessi var efst á hæð einni á núverandi borgarstæði Göppingen. Þar sátu konungar og keisarar Staufen-ættarinnar allt þar til sú ætt dó út á 13. öld. Árið 1154 kemur heitið Göppingen fyrst við skjöl, í skjali keisarans Friðriks Barbarossa. Borgin mun hafa myndast við hlíðar kastalans fornfræga og hafa fengið borgarréttindi síðla á 12. öld. 1425 eyðir stórbruni nær allri borginni. Aðeins eitt hús er sagt hafa staðið upp þegar eldar rénuðu. Árið 1635 létust 1.600 borgarbúar úr pest og rupli erlendra herja í 30 ára stríðinu. Þess er minnst með hinum árlega Maientag síðan 1650. Maientag er ein elsta hátíð í suðurhluta Þýskalands sem enn er viðhaldið. Árið 1782 brann borgin aftur nær til kaldra kola í stórbruna. Árið 1847 fékk Göppingen járnbrautartengingu og þar með hófst iðnbyltingin í borginni. Í mars 1945 varð borgin fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. 300 manns létu lífið í þeim. Íþróttir. Helsta íþróttagrein borgarinnar er handbolti. Félagið "TPSG Frisch Auf! Göppingen" er margfaldur þýskur meistari (níu sinnum), síðast 1972. Félagi hefur þar að auki tvisvar orðið Evrópumeistari (1960 og 1962). Frægustu börn borgarinnar. (1964) Jürgen Klinsmann knattspyrnumaður og heimsmeistari 1990 Byggingar og kennileiti. Hohenstaufen kastalinn er einn fornfrægasti kastali Þýskalands. Hann var eyðilagður í bændauppreisninni 1525. Grjótið var nýtt til að reisa annan kastala. Hæðin þar sem kastalinn stóð áður er friðlýst. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2010. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2010 Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2010 oft stytt sem EM 2010 eða EM í Austurríki var haldið í Austurríki dagana 19. – 31. janúar í borgunum Graz, Innsbruck, Linz, Vín og Wiener Neustadt. Mótið var það 9. í röðinni en það fyrsta var haldið í Portúgal árið 1994. Leikvangar. !Wiener Neustadt Röðun í riðla. Dregið var í riðla þann 24. júní 2009 á Liechtenstein safninu í Vínarborg. Úrslit. Hér að neðan má sjá lokaniðurstöðu keppninnar. Pilsner. Pilsner er ljóst lageröl sem dregur nafn sitt af borginni Plzeň í Bæheimi þar sem þessi tegund bjórs var þróuð um miðja 19. öld. Helsti munurinn á pilsner og öðrum ljósum lager er meira humlabragð einkum af saaz-humlum frá Tékklandi. 1839 stofnaði borgarstjórn bæjarins brugghúsið Bürger Brauerei og fékk bæverskan bruggmeistara, Josef Groll, til að brugga þar bjór í bæverskum stíl. Þá voru Bæjarar nýbyrjaðir að gerja bjór á löngum tíma í köldum geymslum við minna en 10 °C hita. Þessi aðferð skilar tærari og stöðugri bjór með hreinna bragð og meira geymsluþol en hefðbundið öl. Groll nýtti sér líka nýja tegund af mjög ljósu malti og tékkneska saaz-humla frá Žatec (Saaz á þýsku). Niðurstaðan var ljósgullinn bjór sem sló í gegn. Með bættum lestarsamgöngum var bjórinn fluttur út um alla Mið-Evrópu og brátt tóku önnur brugghús að gera eftirlíkingar. 1898 var vörumerkið Pilsner Urquell búið til fyrir hina upprunalegu tegund frá Bürger Brauerei. Dansi, dansi, dúkkan mín. Dansi, dansi dúkkan mín (danska: "Dukkedans") er barnagæla eftir danska tónskáldið Finni Henriques. Gunnar Egilsson, sem einnig samdi íslenska textann við lagið Tíu litlir negrastrákar, þýddi textann úr dönsku. Oft sungin með danssporum sem endurspegla textann. Jürgen Klinsmann. Klinsmann að sleppa í gegn í leik gegn Dynamo Dresden 1989 Jürgen Klinsmann (30. júlí 1964 í Göppingen) er þýskur knattspyrnumaður og þjálfari. Klinsmann lék með fjölmörgum liðum í ýmsum löndum og var ávallt framherji og mikill markaskorari. Eftir að hann hætti knattspyrnuiðkun sneri hann sér að þjálfun. Hann þjálfaði þýska landsliðið í tvö ár og Bayern München í eitt ár. Leikferill. Jürgen Klinsmann fæddist í Göppingen í Suður-Þýskalandi 1964 og byrjaði að æfa með bæjarfélaginu níu ára gamall. Þegar hann var 16 ára flutti fjölskylda hans til Stuttgart, þar sem faðir hans opnaði bakarí. Klinsmann sjálfur lærði bakaraiðn á þessum árum. Árið 1979 bauð félagið Stuttgarter Kickers honum samning, en það var ekki fyrr en tveimur árum seinna sem hann gerðist atvinnumaður hjá því. Þá var hann 18 ára og spilaði með landsliði U-16. 1984 skipti hann yfir í VfB Stuttgart. Með því félagi náði hann miklum árangri sem markaskorari. Í 156 leikjum með félaginu skoraði hann 79 mörk, eða hér um bil eitt mark í öðrum hverjum leik að jafnaði. Samhliða því spilaði hann með landsliði U-21 og Ólympíuliði Þýskalands, og var svo valinn í aðallandslið Þýskalands 1987. Með því lék hann 108 leiki og skoraði alls 47 mörk. Hann er þar með þriðji markahæsti markaskorari landsliðsins, ásamt Rudi Völler. Klinsmann varð heimsmeistari 1990 í HM á Ítalíu. Frá München fór Klinsmann til Ítalíu og spilaði með Inter Milan. Hann spilaði næstu árin með ýmsum þekktum félögum víða um Evrópu, svo sem AS Monaco, Tottenham, Bayern München og Sampdoria Genua. Árið 2003 flutti Klinsmann til Kaliforníu og spilaði eitt keppnistímabil með Orange County Blue Star, reyndar aðeins átta leiki. 2004 lagði hann skóna á hilluna, en tók þá við þjálfarastöðu þýska landsliðsins. 2008 tók Klinsmann við Bayern München, en var rekinn í apríl 2009. Annað markvert. Klinsmann hefur tvisvar verið kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi (1988 og 1994) og einu sinni í Englandi (1995). Hann var einnig valinn markahrókur heims 1995. Jürgen Klinsmann á sitt eigið fyrirtæki, Business Development, sem hann rekur í Bandaríkjunum. Auk þess er gamla fjölskyldubakaríið enn starfrækt í Stuttgart. Klinsmann er kvæntur og á tvö börn. Heimildir. Klinsmann, Jürgen Óðinsgata. Óðinsgata er gata í Þingholtunum í Reykjavík. Hún tilheyrir Ásgarði og nær frá Skólavörðustíg að Nönnugötu. Þórbergur Þórðarson endurfæddist til ritstarfa á Óðinsgötu. Gatan heitir eftir ásnum Óðni. Við Óðinsgötu eru nokkur fyrirtæki. Gatan er að hluta einstefnugata og ekki er hægt að keyra inn götuna af enda hennar, hvorki endanum við Skólavörðustíg né Nönnugötu. Endursögn. Endursögn er þegar inntak hugsunar, ritaðrar eða mæltrar, er tjáð á ný með öðrum orðum en upphaflegri í framsetningu. Bragagata. Bragagata er gata í Þingholtunum í Reykjavík. Hún tilheyrir Ásgarði og nær frá leikvellinum á Freyjugötu að Sóleyjargötu. Gatan heitir eftir ásnum Braga. Við Bragagötu standa aðallega íb­úðarhús. Dómkirkjan í Konstanz. Dómkirkjan í Konstanz var notuð fyrir kirkjuþingið mikla 1414-1418. Dómkirkjan í Konstanz (einnig kölluð "Frúarkirkjan") er elsta bygging borgarinnar Konstanz í Þýskalandi sem enn er í notkun. Elstu hlutar hennar eru frá árinu 1000. Kirkjan var notuð sem aðalsalur kirkjuþingsins mikla 1414-1418. Forsaga. Fyrirrennari dómkirkjunnar var sennilega reist 585-590. Sú kirkja var einnig dómkirkja og var mikilvæg miðstöð fyrir kristniboð meðal germana. Á fyrri hluta 9. aldar var sú kirkja rifin og var þá reist ný kirkja. Um 1000 var sú kirkja stækkuð og var þá meðal merkustu rómanskra kirkna í suðurhluta Þýskalands. En kirkja þessi hrundi 1052 af ókunnum ástæðum. Talað er um jarðskjálfta og galla í byggingu. Byggingasaga. Strax var hafist handa við að reisa nýja kirkju. Notaðir voru nokkrir gömlu múranna, en að öðru leyti var kirkjan nýbygging. Framkvæmdir gengu hægt fyrir sig, þar sem biskuparnir á þeim tíma voru uppteknir við staðarmálin í héraðinu. Kirkjan var vígð 1089 og helguð Maríu mey, heilögum Pelagíusi og heilögum Konrad frá Konstanz. Dómkirkjan var salarkirkja á þeim tíma og samanstóð af einu langskipi og tveimur þverskipum. Engir turnar voru á henni. Dómkirkjan var miðstöð lærdóms á miðöldum. Þangað streymdu munkar frá hinum ýmsu reglum til að stunda nám. Við hlið kirkjunnar var aðsetur biskupanna. Árið 1100 var hafist handa við að reisa turna. Þeir áttu að vera tveir, enda var það siður hjá dómkirkjum. Turnarnir voru því sem næst samvaxnir og ekki með þakkrónu. 1128 hrundi norðurturninn niður og varð því að reisa hann frá grunni. Enn gengu framkvæmdir hægt og voru turnarnir ekki fullgerðir fyrr en 1378. Báðir fengu þeir flöt blýþök. Kirkjuþingið mikla. 1414 kallaði Sigismund keisari saman kirkjuþing kaþólsku kirkjunnar. Höfuðmálin voru tvenn. Í fyrsta lagi að jafna klofning kirkjunnar, en á þessum tíma voru þrír starfandi páfar samtímis. Í öðru máli að leysa úr Hússítastríðinu í Bæheimi. Til þessa þing mættu keisarinn sjálfur, Jóhannes XXIII páfi (hinir tveir neituðu að mæta), kardinálar, erkibiskupar og biskupar, ásamt trúfræðingum, verkafólki og þjónustuliði. Þetta voru þúsundir manna. Dómkirkjan var aðalfundarstaður, en í henni voru haldnir 45 aðskildir fundir eða ráðstefnur næstu fjögur árin. Í þeim voru haldnar um 200 trúarræður. Á einum fundinum var trúarleiðtoginn Jan Hus dæmdur til dauða sem trúníðingur. Hann var síðan brenndur á báli á torginu fyrir utan. Páfadeilan var leyst á fundi í kirkjunni með því að ríkjandi páfar voru settir af og ákveðið að velja nýjan páfa. Páfakjörið fór þó ekki fram í kirkjunni sjálfri, heldur í húsi einu nálægt höfninni og hefur síðan hlotið heitið Kirkjuþingshúsið ("Konzilgebäude"). Nýr páfi varð Oddo di Colonna frá Ítalíu, sem valdi sér heitið Martin V. Hann var síðan boðaður í dómkirkjuna, þar sem hann hlaut fyrst prestvígslu og síðan biskupavígslu. Páfavígslan fór síðan fram á torginu fyrir utan. Þetta er eina páfakjörið sem fram hefur farið norðan Alpa. Dómkirkjan 1819. Miðturninn er ekki kominn. Siðaskiptin. 1526 var biskupinn rekinn úr borginni vegna áhrifa af siðaskiptunum. Það voru endalok kirkjunnar sem dómkirkja. Siðaskiptin voru formlega framkvæmd ári síðar og var kirkjunni breytt í lúterska sóknarkirkju. Öll verðmæti hennar og listaverk voru tekin. Sum voru brædd, önnur seld og enn öðrum fleygt í Rínarfljót. Þannig glötuðust t.d. 60 ölturu úr kirkjunni fyrir fullt og allt. 1548 neytt Karl V keisari borgarbúa til að taka upp kaþólska trú á nýjan leik. Kirkjan var þá endurvígð sem kaþólsk kirkja og er hún það enn í dag. Nýrri tímar. 1850 fékk kirkjan nýjan turn. Hann var settur á milli gömlu turnanna, sem báðir fengu lítið hvolfþak. Þannig hækkaði kirkjan talsvert og er nú 78 metra há. Mauritiuskapellan. Mauritiuskapellan ("Mauritiusrotunde") er lítil kapella sem upphaflega stóð fyrir aftan dómkirkjuna, en er samföst henni í dag. Það var biskupinn Konrad frá Konstanz sem lét reisa hana eftir seinni för sína til Jerúsalem árið 940. Kapellan öll er 11 metra í þvermál, en í miðju hennar er eftirmynd af gröf Jesú. Gröfin er einnig hringlótt. Hún er 2,43 metra í þvermál og 4,65 metra há. Hún var smíðuð um 1260 og var sennilega upphaflega úr gulli eða gullhúðuð. Mýmargar styttur eru á hringnum, m.a. af postulunum. Grafhvelfing. Grafhvelfing dómkirkjunnar er elsti hluti byggingarinnar. Hún tilheyrði fyrirrennara dómkirkjunnar, sem hrundi 1052. Í hvelfingu hvílir þó aðeins heilagur Pelagíus, sem varð píslarvottur á 6. öld. Líkamsleifar hans voru sett í kirkjuna á 10. öld, jafnvel fyrr. Þær eru geymdar í steinkistu. Ef til voru leifar annarra í hvelfingunni fyrir siðaskiptin, áður en verðmæti og listaverk voru fjarlægð. Í grafhvlfingunni eru fjórir gullslegnir diskar frá miðöldum. Sá stærsti þeirra er 194 cm í þvermál og sýnir Jesú skegglausan. Hinir þrír diskarnir eru yngri og minni. Þeir eru frá 12. eða 13. öld og eru 90-94 cm í þvermál. Þeir eru til heiðurs dýrlingunum Konrad frá Konstanz og Pelagius, sem báðir voru biskupar í dómkirkjunni áður fyrr. Fjórði diskurinn er með örn, en hann er tákn Jóhannesar guðspjallamanns. Diskarnir voru allir fjarlægðir 1973 og settir á safn. Í grafhvelfingunni eru eingungis eftirmyndir. Predikunarstóll. Gamli predikunarstóllinn var eyðilagður í siðaskiptunum. Núverandi stóll er frá 1680 og er úr hnetuviði. Stór og klunnaleg stytta af Abraham heldur stólnum uppi. Á 18. öld héldu menn að þetta væri Jan Hus sem brenndur var á báli 1414 á kirkjuþinginu mikla. Sannleikurinn kom ekki í ljós fyrr en á fyrrihluta 19. aldar. Á fjórða áratug 19. aldar var styttan notuð fyrir auglýsingu um kirkjuþingið mikla. Eftir notkunina var hún, ásamt öðru dóti, urðuð. Hún fannst ekki fyrr en löngu seinna og var sett á sinn stað aftur undir predikunarstólinn 1986. Kirkjuklukkur. Samtals eru 19 bjöllur í turnum dómkirkjunnar. Þær vega samanlagt 35 tonn. Þar með eru þær næstþyngsta klukknaverkið í Þýskalandi, á eftir dómkirkjunni í Köln. Þórsgata. Þórsgata er þröng gata í Þingholtunum í Reykjavík. Hún tilheyrir Ásgarði og nær frá Njarðargötu að Spítalastíg. Gatan heitir eftir ásnum Þór. Templarasund. Templarasund er gata í miðbæ Reykjavíkur á milli Alþingishússins og Dómkirkjunnar í Reykjavík. Templarasund teygir sig frá Kirkjustræti til Vonarstrætis. Templaragata er kennd við Góðtemplarahúsið ("Gúttó"). Húsið stóð við Vonarstræti á bak við Alþingishúsið og var rifið árið 1968. Baden-Baden. Baden-Baden 1643. Mynd eftir Matthäus Merian. Barack Obama og Angela Merkel á leiðtogafundi NATO í Baden-Baden 2009. Baden-Baden er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í suðvesturhluta Þýskalands. Borgin er heimsþekktur heilsubær. Þar búa 54 þúsund manns. Lega. Baden-Baden liggur nær vestast í Baden-Württemberg, milli Rínarfljóts og Svartaskógs. Næstu borgir eru Karlsruhe fyrir norðan (30 km), Stuttgart fyrir austan (50 km) og Strassborg í Frakklandi fyrir suðvestan (40 km). Orðsifjar. Rómverjar nefndu bæinn "Aurelia Aquensis", sem merkir "Vötn Árelíusar". Aurelius var auknefni keisarans Caracalla. Germanir þýddu heitið einfaldlega og nefndu bæinn Baden, sem merkir "böð" (í fleirtölu). Um aldir hét borgin einungis Baden, oft kallað "Baden in Baden" til aðgreiningar annarra borga sem heita Baden. En 1931 var ákveðið að breyta heiti borgarinnar í Baden-Baden til betri aðgreiningar. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er rauð skáhallt rönd á gulum grunni. Efst er gullkóróna í formi borgarveggja. Merkið kom fyrst fram 1421 og tilheyrði þá hertogunum í Zähringen. Kórónunni var ekki bætt við fyrr en á 19. öld. Saga Baden-Baden. Það voru Rómverjar sem stofnuðu borgina í kringum heitar laugar um 80 e.Kr. Þar voru reist mikil baðhús. Um 260 hertóku alemannar héraðið og við það hurfu Rómverjar þaðan. Í upphafi 12. aldar keypti Hermann II, greifi úr Zähringer-ætt, svæðið og kallaði sig markgreifa af Baden. Þetta var upphafið af Baden-nafninu, sem lifir enn í heitinu Baden-Württemberg. Árið 1250 fékk Baden borgarréttindi. En snemma á 14. öld var farið að nota heitu laugarnar á ný fyrir böð. Það var upphafið að heilsubænum Baden. Árið 1689 brenndu Frakkar borgina til kaldra kola í erfðastríðinu í Pfalz. Við það eyðilögðust böðin og þau lögðust af. Þeim var komið á aftur fyrr en í lok 18. aldar. Margt heldra fólk sótti borgina heim, sem hlaut viðurnefnið "Sumarhöfuðborg Evrópu" (París var vetrarhöfuðborgin). Reist voru lúxushótel og spilavíti (1810-11). 1931 fór fram nafnabreyting á borginni, þannig að nú hét hún formlega Baden-Baden. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari varð Baden höfuðborg franska hernámssvæðisins og aðalsetur franska hersins í Þýskalandi. Síðustu frönsku hermennirnir fóru ekki þaðan fyrr en 1999. Árið 2009 var borgin vettvangur leiðtogafundar NATO. Gikkverkun. Gikkverkun er hugtak í jarðfræði og haft um það þegar einn þáttur hefur áhrif á annan og veldur þannig jarðskjálfta óbeint, eins og til dæmis þegar smávægilegar þrýstingsbreytingar í jarðskorpunni gætu stjórnað því hvenær skjálftahrinurnar verða þó þær valdi þeim ekki. Talað er um fylgni milli skjálftavirkninnar við aðra þætti, til dæmis eins og þegar hækkandi vatnsþrýstingur minnkar núning á sprunguflötum og losar þannig um spennu sem fyrir er í jarðskorpunni. Lónið veldur þannig ekki skjálftunum, það gerir spennan. Freyja (bjór). Fósturlandsins Freyja er íslenskur tær hveitibjór frá Ölvisholti sem var settur á markað 2009 og auglýstur sem „fyrsti íslenski hveitibjórinn“. Bjórinn er léttur og bragðmildur, kryddaður með appelsínuberki og kóríander að belgískri fyrirmynd (Witbier) með þýskum hallertau-humlum. Hann er 4,5% að styrkleika. Á miðanum er mynd af ljóshærðri konu í upphlut án skyrtu sem mundar íslenska fánann. Austurgermönsk mál. Austurgermönsk mál er einn flokkur germanskra mála. Til hans telst meðal annarra gotneska, sem er eina austurgermanska málið sem varðveitt er í rituðum heimildum. Gotneska er nú hvergi töluð. Um samsæri Catilinu. "Um samsæri Catilinu" (á latínu: "Bellum Catilinae" eða "De Catilinae coniuratione") var fyrsta útgefna ritverk rómverska sagnaritarans Sallustiusar og segir frá atburðum ársins 63 og 62 f.Kr. Fornfræðingurinn Theodor Mommsen hélt því fram að fyrir Sallustiusi hefði vakað að hreinsa velgjörðarmann sinn Júlíus Caesar af aðild að samsærinu. Sallustius gerir ráð fyrir að í Rómaveldi hafi átt sér stað siðferðishnignun sem hann virðist telja að ógni pólitískum stöðugleika og friði. Oddur Sigurðsson lögmaður. Oddur Sigurðsson (í lifandi lífi oft nefndur Oddur hinn hávi) (1681 – 5. ágúst 1741) var íslenskur lögmaður á 18. öld og valdamesti maður landsins á árunum 1708 – 1718. Hann var mjög yfirgangssamur skapofsamaður og lá einatt í illdeilum og málaferlum og bar oft hærra skjöld. Árið 1724 var hann dæmdur frá æru, embætti og eignum, en fékk þó uppreisn með konungsbréfi árið 1730. Björn Th. Björnsson segir í bók sinni: "Í plógfari Gefjunar" að aðrir eins „þverbrestir skapsmuna eru naumast höggnir dýpra í ásýnd nokkurs manns í sögu okkar.“ Uppruni. Hann var sonur Sigurðar Sigurðssonar (1636 – 17. nóvember 1690) prófasts á Staðarstað, sonarsonar Odds biskups Einarssonar, og konu hans Sigríðar Hákonardóttur (1658 – 1733), dóttur Hákonar Gíslasonar sýslumanns í Bræðratungu, sonar Gísla Hákonarsonar lögmanns. Hún bjó lengi ekkja á Rauðamel syðri. Oddur fæddist á Staðarstað, fór ungur í Skálholtsskóla og lærði síðan við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kom heim 1704 en fór út aftur 1706 og fékk þá varalögmannsembætti. Þegar hann kom aftur 1707 ætlaði hann að ganga að eiga unnustu sína, Guðrúnu, sem var dóttir Guðmundar ríka Þorleifssonar í Brokey og konu hans, Helgu dóttur Eggerts ríka á Skarði, en hún dó þá í Stórubólu og öll systkini hennar. Oddur og Guðmundur í Brokey voru í miklu vinfengi og gaf Guðmundur honum meðal annars jörðina Narfeyri þar sem Oddur bjó næstu árin og mikið fé. Lofaði Oddur að ganga honum í sonarstað og átti von á að verða erfingi hans. Umboðsmaður stiftamtmanns. Árið 1708 fékk Oddur umboð Gyldenløve stiftamtmanns og má segja að næsta áratuginn hafi hann hagað sér eins og hann væri allt að því einvaldur á Íslandi. Það áttu aðrir ráðamenn erfitt með að sætta sig við og Oddur lenti fljótt í deilum við Jón biskup Vídalín og Pál Vídalín út af brauðaveitingum, dómum og fleiru og deildi um sýsluvöld yfir Dalasýslu við Pál Vídalín. Fékk hann Pál dæmdan frá lögmannsembætti 1713 en þremur árum síðar fékk hann embættið aftur. Á þessum árum gerðist það að Oddur var handtekinn af enskum hvalveiðimönnum sem hann hafði sakað um launverslun og höfðu þeir hann í skipi hjá sér um tíma. Þær sögur gengu eftir á að hann hefði verið geltur og orti Páll Vídalín vísu um það sem Oddur reiddist mjög. Óvíst er hvort nokkuð er til í geldingarsögunni en Oddur var ókvæntur alla ævi. Hann var gáfumaður, vel menntaður og margt vel gefið, en hann var ofsafenginn í skapi og sást ekki fyrir, yfirgangssamur ribbaldi, drykkfelldur og slarksamur. Árið 1713 kom Jón biskup Vídalín við á Narfeyri í vísitasíuferð og settist að drykkju með Oddi, sem lauk með því að Oddur flaug á biskupinn og ætlaði að berja hann. Urðu af því langar málaþrætur. Drottnunartíma Odds lauk þegar Niels Fuhrmann amtmaður kom til landsins 1718. Gyldenlöve hafði fengið honum stiftamtmannsumboðið en svipt Odd því. Oddur og Guðmundur ríki í Brokey voru þá orðnir ósáttir og vildi Guðmundur endurheimta það sem hann hafði gefið Oddi. Fuhrmann lagði Guðmundi lið og fór svo að honum voru dæmdar aftur mestallar eignirnar sem hann hafði gefið Oddi en þau Brokeyjarhjón arfleiddu Fuhrmann að stórum hluta eigna sinna. Deilur við Jóhann Gottrup. Upp úr 1720 hófust miklar deilur milli Odds og Jóhanns Gottrup um Snæfellsnessýslu og Stapaumboð, sem Oddur hafði lengi haldið án þess að hafa fengið konungsveitingu fyrir því. Þurfti hann að sleppa því en Gottrup tók við. Oddur fór til Kaupmannahafnar til að reyna að rétta hlut sinn en Jóhann lét greipar sópa um eignir hans á meðan, tók sumt undir sig en eyðilagði annað. Þegar Oddur sneri aftur gekk á með stöðugum erjum og átökum á milli þeirra og manna þeirra því báðir höfðu um sig ribbaldaflokka og má segja að skálmöld hafi ríkt á Snæfellsnesi. Fuhrmann amtmaður vék Oddi úr embætti 1724 og hann var vanvirtur á ýmsan hátt, bæði af Jóhanni og öðrum. Eftir það var hann lengst af hjá móður sinni á Rauðamel og er sagt að hún hafi jafnan æst hann til ófriðar fremur en sátta. Hann sigldi nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar og reyndi að rétta hlut sinn og á endanum fékk hann uppreisn æru með konungsbréfi 1730 og var Jóhanni gert að skila honum aftur jörðum og fjórtán fiskibátum. Fljótlega upp úr þessu hægðist um hjá Oddi, enda voru mótstöðumenn hans farnir að týna tölunni og hann orðinn embættislaus og eignalítill. Úr því rættist þó heldur þegar móðir hans dó 1734 og hann erfði hana. Flutti hann þá suður að Leirá í Borgarfirði og bjó þar til æviloka. Waiblingen. Waiblingen er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún liggur rétt norðaustan við Stuttgart og eru borgirnar nær samvaxnar. Íbúar eru 52 þúsund. Waiblingen er helst þekkt fyrir að vera fæðingarstaður Konráðs II og Friðriks Barbarossa en báðir voru þeir konungar og keisarar þýska ríkisins á 11. og 12. öld. Tübingen. Tübingen er háskólaborg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún liggur fyrir sunnan Stuttgart. Íbúar eru 85 þúsund, þar af eru 24 þúsund stúdentar. Háskólinn í Tübingen var stofnaður 1477. Eggert Björnsson. Eggert Björnson ríki (1612 – 14. júní 1681) var íslenskur sýslumaður og stórbóndi á 17. öld og var talinn auðugasti maður landsins um sína daga. Hann var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd. Eggert var sonur Björns Magnússonar sýslumanns í Bæ á Rauðasandi, sonar Magnúsar prúða, og fyrri konu hans Sigríðar Daðadóttur frá Skarði. Móðir hans dó þegar hann var barn að aldri og hann ólst að einhverju leyti upp í Bræðratungu hjá Gísla Hákonarsyni lögmanni. Yngri hálfsystkini hans voru þau Páll Björnsson prestur í Selárdal og Sigríður prestsfrú í Odda, móðir Björns Þorleifssonar biskups á Hólum. Eggert var sýslumaður í Barðastrandarsýslu og dyggur liðsmaður Páls bróður síns í galdraofsóknum þar. Hann erfði mikið fé eftir móður sína og foreldra hennar, Daða Bjarnason og Arnfríði Benediktsdóttur á Skarði, og gekk vel að auka við þann auð. Honum tókst að eignast allar jarðir á Skarðsströnd nema eina og var það Arnarbæli. Sagt er að honum hafi gramist það mjög og mælt: „Oft vekur þú mig, Arnarbæli.“ Þegar "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns" var gerð í upphafi 18. aldar áttu dætur Eggerts og tvær dótturdætur um 3,5% allra jarðeigna á Íslandi. Kona Eggerts var Valgerður Gísladóttir (um 1612 – 1702), dóttir Gísla Hákonarsonar í Bræðratungu og Margrétar Jónsdóttur konu hans. Er sagt að hann hafi áður beðið Kristínar systur hennar og hafi hún verið heitin honum en þegar Þorlákur Skúlason, þá nýorðinn Hólabiskup, bað Kristínar þótti Gísla illt að neita og samdi við Eggert og föður hans um að Eggert fengi yngri systurinnar í staðinn. Gengu þau í hjónaband 1633 og bjuggu alla tíð á Skarði. Báðir synir þeirra dóu um tvítugt og tvær dætur einnig en fimm lifðu: Guðrún (eldri), sem lengi bjó ekkja í Bæ á Rauðasandi og hafði verið gift Birni Gíslasyni sýslumanni þar; Arnfríður húsfreyja á Skarði, gift Þorsteini Þórðarsyni; Helga eldri, bjó ógift á Dagverðarnesi; Helga yngri, kona Guðmundar Þorleifssonar ríka í Brokey; og Guðrún yngri, kona Guðmundar Sigurðssonar bónda í Álftanesi á Mýrum. Dæturnar giftust allar seint því fáir þóttu þeim samboðnir. Happy Feet. "Happy Feet" er bandarísk teiknimynd um mörgæsir framleidd af Animal Logic Films. Myndin var frumsýnd þann 7. nóvember 2006. Ludwigsburg. Ludwigsburg er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún stendur við ána Neckar, rétt norðan við Stuttgart. Íbúar eru 87 þúsund. Ludwigsburg er helst þekkt fyrir að vera aðsetur konunga á 18. og 19. öld. Þeir reistu þar kastala, sem í dag er einn stærsti barokkkastali Þýskalands. Esslingen. Esslingen er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar eru 91 þúsund. Borgin er helst þekkt fyrir margar gamlar byggingar í miðborginni. Lega. Esslingen liggur við ána Neckar, rétt suðaustan við Stuttgart. Borgirnar eru því sem næst samvaxnar. Orðsifjar. Borgin hét áður "Ezelingin" og "Ezelingas". Það er dregið af mannanafninu Azzilo. Fullt heiti borgarinnar í dag er Esslingen am Neckar. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svartur örn á gulum grunni. Örninn er merki ríkisins. Innan í honum er lítill tvílita skjöldur, grænn og rauður, með bókstöfunum C og E, en þeir standa fyrir Civitas Esslingensis, heiti borgarinnar á latnesku. Skjaldarmerki þetta kom fram 1219, en elsta mynd af því er frá 1232, reyndar bara af erninum. Litla skildinum var bætt við seinna. Bókstöfunum var bætt við á 17. öld. Zilda Arns. Zilda Arns Neumann (25. ágúst 1934 í Forquilhinha í Brasilíu – 12. janúar 2010 í Port-au-Prince í Haítí) var brasilísk barnalæknir og heilsustarfsmaður. Hún stofnaði „Pastoral da Criança“ árið 1982. Hún lést í jarðskjálfta á Haítí árið 2010. Arns, Zilda Reutlingen. Reutlingen er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar eru 112 þúsund. Borgin er um 30 km fyrir sunnan Stuttgart. Reutlingen kom fyrst við skjöl 1089/90. Árið 1519 urðu siðaskiptin í borginni. Hún varð að sterkri miðstöð mótmælenda. Kaþólskur söfnuður var ekki stofnaður aftur þar fyrr en 1823. Á fyrri hluta 16. aldar tilnefndi Maximilian I. keisari borgina sem griðastað fyrir manndrápara. Reutlingen er í dag nokkurs konar hlið að hálendinu Svafnesku ölpunum. Magnús Jónsson prúði. Magnús prúði og Ragnheiður Eggertsdóttir ásamt börnum þeirra. Óþekktur listamaður, 16. öld. Magnús Jónsson prúði (um 1525 – 1591) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 16. öld. Hann bjó í Rauðuskriðu í Þingeyjarsýslu, Ögri við Ísafjarðardjúp og Saurbæ (Bæ) á Rauðasandi. Magnús var af Svalbarðsætt, sonur Jóns Magnússonar sýslumanns á Svalbarði og konu hans, Ragnheiðar Pétursdóttur á rauðum sokkum. Bræður hans voru Sigurður sýslumaður á Reynistað, Staðarhóls-Páll og Jón lögmaður á Vindheimum en elsta systir hans var Steinunn, fylgikona Björns Jónssonar prests á Melstað, síðar gift Eggert Hannessyni lögmanni. Magnús fór ungur til útlanda til náms og dvaldi allmörg ár í Þýskalandi. Þegar hann kom heim varð hann fyrst sýslumaður í Þingeyjarsýslu og bjó í Rauðuskriðu, en árið 1564 fluttist hann í Ísafjarðarsýslu og settist að í Ögri. Sú jörð var í eigu Eggerts Hannessonar, sem þá var mágur Magnúsar og varð skömmu síðar tengdafaðir hans. Þegar Eggert fluttist til Hamborgar um 1580 flutti Magnús sig að Bæ, þar sem Eggert hafði búið, og varð sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Magnús þótti mikilhæfur maður en harður í horn að taka eins og bræður hans og lítið gefinn fyrir að láta hlut sinn. Hann þótti þó rækja embætti sitt vel og án þess að sýna öðrum uppivöðslusemi, eins og viðurnefni hans ber vitni um. Hann var skörungur í héraðsstjórn og góður lagamaður. Fara sögur af því að hann hafi þótt glæsilegasti höfðingi á Íslandi um sína daga og hafði hann stóran flokk vopnaðra manna með sér þegar hann reið til þings. Honum voru varnir landsins hugleiknar og er hans ekki síst minnst fyrir svokallaðan Vopnadóm, sem hann fékk samþykktan á héraðsþingi í Tungu í Örlygshöfn 12. október 1581, en þar er kveðið á um að hver fulltíða maður skyldi eiga vopn og bera þau. Hefur það sjálfsagt haft áhrif að tveimur árum áður höfðu erlendir ribbaldar rænt Eggerti tengdaföður hans og krafist hárrar fjárhæðar í lausnargjald. Þessi dómur var þó aldrei leiddur í lög á alþingi og óvíst að vopnaeign manna hafi aukist nema e.t.v. á Vestfjörðum, þar sem hún var meiri en annars staðar á öndverðri 17. öld eins og kom í ljós í Spánverjavígunum 1615, þar sem Ari sonur Magnúsar var í forystuhlutverki. Magnús var vel lærður og fékkst við fræðistörf og ritun en þekktastur er hann þó sem rímnaskáld og eru til tveir rímnaflokkar eftir hann, "Amíkus rímur og Amilíus" og "Pontus rímur" (þó aðeins þrettán fyrstu rímurnar), sem nutu mikilla vinsælda. Fjölskylda. Fyrri kona Magnúsar var Elín Jónsdóttir, sem var dóttir Guðnýjar Grímsdóttur, stjúpmóður Magnúsar, og fyrri manns hennar. Elín dó 1564 og voru þau barnlaus. 22. september 1565 kvæntist hann Ragnheiði (1550 - 6. ágúst 1642), dóttur Eggerts Hannessonar, og var hún þá fimmtán ára en hann líklega um fertugt. Þau eignuðust fjölda barna og urðu flestir synir og tengdasynir Magnúsar sýslumenn. Börnin voru: Jón (eldri), sýslumaður í Haga á Barðaströnd; Ragnheiður, kona Einars sýslumanns Hákonarsonar í Ási í Holtum; Elín, kona Sæmunar Árnasonar sýslumanns á Hóli í Bolungarvík; Sesselja, kona Ísleifs Eyjólfssonar umboðsmanns í Saurbæ á Kjalarnesi; Ari, sýslumaður í Ögri; Jón danur, bóndi á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp; Björn, sýslumaður í Saurbæ á Rauðasandi; Þorleifur, sýslumaður á Hlíðarenda; Guðrún, kona Hinriks Gíslasonar sýslumanns á Innra-Hólmi; Katrín, kona Bjarna Hákonarsonar klausturhaldara í Mörk og á Keldum; Kristín og Pétur, sem dóu ógift. Aftur til framtíðar. "Aftur til framtíðar" (enska: "Back to the Future") er bandarísk gaman-SciFi- kvikmynd frá árinu 1985 og var leikstýrt af Robert Zemeckis og skrifuð af Bob Gale og framleidd af Steven Spielberg. Michael J. Fox leikur Martyin McFly og ásamt honum leika líka Christopher LLoyd, Crispin Glover, Lea Thompson og Thomas F. Wilson í myndinni. Aftur til framtíðar segir söguna af Marty McFly, unglingi sem fer óvart til fortíðarinnar frá árinu 1985 til ársins 1955. Hann hittir foreldra sína í menntaskóla og verður móðir hans hrifin af honum. Marty neyðist til að laga skemmdirnar í fortíðinni til þess að foreldrar hans verði ástfangnir en líka finna leiðina aftur til 1985. Zemeckis og Gale skrifuðu handritið eftir að Gale hafði hugsað um hvað það hefði verið gaman að vera vinur föður síns ef þeir hefðu gengið saman í menntaskóla. Nokkur kvikmyndaver höfnuðu hugmyndinni þangað til hagnaður myndar Zemeckis, "Romancing the Stone" og tók Universal Pictures við myndinni og var Steven Spielberg aðalframleiðandi. Eric Stoltz átti upphaflega að leika Marty McFly þegar Michael J. Fox hafnaði hlutverkinu þar sem hann var að leika í sjónvarpsþáttaröðinni "Family Ties" en þegar tökur höfðu hafist ákváðu framleiðendur myndarinnar að það höfðu verið mistök að ráða Stoltz og buðu Fox hlutverkið aftur og þeim tókst að gera tímatöflu svo að hann hefði nógan tíma til þess að vera í báðum verkefnum: nýr aðalleikari þýddi að kvikmyndatökuliðið þurfti að taka allt upp aftur og gera það hratt svo að myndin gæti komið út þann 3. júlí 1985. Þegar hún kom út varð hún vinsælasta mynd ársins og fékk meira en 380 milljónir dollara í hagnað og fékk góðar viðtökur gagnrýnenda. Myndin vann Hugo verðlaun fyrir bestu dramatísku frammistöðuna og Saturn-verðlaunin sem besta vísindaskáldsögumyndin en líka Óskars-, BAFTA- og Golden Globe-tilnefningar. Myndin var upphafið að þríleik en Aftur til framtíðar II og Aftur til framtíðar III komu út 1989 og 1990. Heilbronn. Heilbronn er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún er þekkt fyrir iðnað og vínframleiðslu. Íbúar eru 122 þúsund. Lega. Heilbronn liggur við ána Neckar nokkuð norðarlega í Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Stuttgart fyrir sunnan (40 km) og Heidelberg fyrir norðvestan (50 km). Orðsifjar. Upphaflegt heiti borgarinnar er "Heiligbrunno", sem merkir "helgur brunnur". Hér er átt við heilsulindir. Heilbronn er einnig þekkt undir gælunafninu "Käthchenstadt", eftir að rithöfundurinn Heinrich von Kleist samdi leikritið "Das Käthchen von Heilbronn" 1807/08. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svartur örn á gulum grunni. Örninn er ríkistáknið og er kominn fram á innsigli borgarinnar 1265. Árið 1556 kom litli skjöldurinn innan í erninum fram. Ekki hefur tekist að skýra út tilurð hans. Söguágrip. Miðborg Heilbronn í rústum eftir stríð 1945 Bærinn kom fyrst við skjöl 741 og kallaðist þar Villa Heilibrunna. 1281 veitti konungurinn Rúdolf I af Habsborg Heilbronn borgarréttindi. Veitingaskjalið með innsigli konungs er enn til. Árið 1371 verður Heilbronn ríkisborg að tilskipan Karls IV keisara. Í 30 ára stríðinu börðust Svíar, Frakkar og keisaraher um borgina í um eitt ár (1633-34). Í erfðastríðinu í Pfalz hertaka Frakkar borgina 1688 en þeir brenna hana ekki niður eins og þeir gerðu við margar aðrar borgir. 1819-21 er Wilhelm-skipaskurðurinn lagður. Þar með hefst iðnbylting borgarinnar. Á næstu árum er borgin með flestar verksmiðjur allra borga í Württemberg og kallast sváfíska Liverpool ("schwäbisches Liverpool"). Flutningar fara fram um höfnina í Neckar. Járnbrautartengingu fær Heilbronn ekki fyrr en byltingarárið 1848. Árið 1892 tekur orkuverið Lauffen til starfa og er Heilbronn fyrsta borg heims með fjarrafmagnstengingu. Borgin varð fyrir gífurlegum loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari. Nær öll miðborgin eyðilagðist. Heilbronn var á bandaríska hernámssvæðinu en síðustu bandarísku hermennirnir yfirgáfu borgina ekki fyrr en 1992. Byggingar og kennileiti. Kiljanskirkjan í Reutlingen er frá 11. öld. Turn hennar er elsta mannvirki endurreisnar norðan Alpa. Á 15. öld var hún stækkuð og fékk þá hærra þak öðru megin og tvo miðturna. Kirkjan er eftir það ákaflega undarleg ásýndum að utan. S.H. Draumur. S.H. Draumur er íslensk pönkrokkhljómsveit stofnuð 1982 í Kópavogi. Meðlimir hljómsteitarinnar: Gunnar Hjálmarsson eða Dr. Gunni (Söngur og bassagítar), Steingrímur Birgisson (Gítar), Haukur Valdimarsson (Trommur 1982-1983, 1984-1986), Ágúst Jakobsson (Trommur 1983-1984), Birgir Baldursson (Trommur 1986-1988). Solveig Björnsdóttir. Solveig Björnsdóttir (um 1450 – 1495) var íslensk hefðarkona á 15. öld. Hún var af ætt Skarðverja, dóttir Ólafar ríku Loftsdóttur og Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Solveig ólst upp hjá foreldrum sínum á Skarði á Skarðsströnd en bjó í mörg ár á Hóli í Bolungarvík með Jóni Þorlákssyni og var hann kallaður ráðsmaður hennar. Þau máttu ekki giftast en áttu ein sex börn saman. Jón var mikilvirkur skrifari, talinn hinn besti á Vesturlandi, og er sögð sú saga að þegar hann dó stirðnuðu ekki þrír fingur á hægri hendi, þeir sem hann hafði notað til að halda um pennann. Var þá pennastöng látin milli fingranna og skrifuðu fingurnir þá: „Gratia plena, Dominus tecum.“ Eftir lát Jóns giftist Solveig Páli Jónssyni lögmanni og var hún síðari kona hans. Þau bjuggu á Skarði og eignuðust tvo syni en annar dó ungur. Þau voru fjórmenningar og þurftu því páfaleyfi til að mega giftast. Magnús Eyjólfsson Skálholtsbiskup vildi þó ekki viðurkenna að hjónaband þeirra væri gilt og eftir að Solveig dó 1495 og Páll var drepinn ári síðar upphófust miklar deilur um hvort synir þeirra skyldu teljast skilgetnir og arfgengir. Áður höfðu orðið deilur um erfðarétt barna Þorleifs bróður Solveigar því að Þorleifur og kona hans voru einnig fjórmenningar en höfðu fengið páfaleyfi til giftingar. Á endanum fór þó svo að Þorleifur Pálsson, sonur Solveigar og Páls, erfði Skarðseignir. Páll Jónsson (sýslumaður á Skarði). Páll Jónsson (um 1445 – 12. október 1496) var íslenskur höfðingi og sýslumaður á 15. öld. Hann bjó á Skarði á Skarðsströnd og var giftur inn í ætt Skarðverja. Páll var sonur Jóns Ásgeirssonar, sýslumanns í Hvammi í Hvammssveit og síðar í Ögri við Ísafjarðardjúp, og konu hans Kristínar Guðnadóttur frá Hóli í Bolungarvík. Á meðal systkina hans voru Ormur bóndi í Klofa og síðar á Skarði og Guðni sýslumaður, faðir Björns Guðnasonar í Ögri. Kona Guðna var Þóra, laundóttir Björns ríka Þorleifssonar. Páll giftist Solveigu Björnsdóttur frá Skarði, dóttur Ólafar ríku og Björns Þorleifssonar. Þau voru fjórmenningar, bæði komin af Ormi Snorrasyni lögmanni, og fengu páfaleyfi til að mega eigast. Magnús Eyjólfsson biskup vildi þó ekki viðurkenna hjónaband þeirra. Þorleifur bróðir Solveigar hafði áður gengið að eiga konu sem var í fjórmenningsfrændsemi við hann en fékk ekki páfaleyfi til þess fyrr en þau höfðu verið saman allmörg ár og átt börn saman. Samkvæmt leyfinu skyldu þau börn sem þau eignuðust eftir útgáfu þess teljast skilgetin en hin óskilgetin. Þau eignuðust ekki fleiri börn og þegar Þorleifur dó um 1486 tók Einar jungkæri bróðir hans arf eftir hann. Einar dó barnlaus 1494 og gerði þá Solveig tilkall til alls arfs eftir hann, einnig þess sem Þorleifur bróðir þeirra hafði átt. Björn sonur Þorleifs andmælti þessu og taldi sig skilgetinn. Um þetta urðu harðar deilur. Solveig lést 1495. Ári síðar var Páll staddur á Öndverðareyri og þar fóru þeir Björn og Eiríkur sonur Halldórs Ormssonar ábóta í Helgafellsklaustri, sem sagður var eiga sökótt við Pál vegna kvennamála, að honum. Féll hann þar eftir frækilega vörn og var það Eiríkur sem vann á honum en Björn hélt sér til hlés. Var Eiríkur dæmdur útlægur fyrir vígið og er sagt að hann hafi dáið í Róm þar sem hann ætlaði að reyna að útvega sér páfaleyfi til landvistar. Þeir Björn Þorleifsson og Björn Guðnason, sem báðir voru systursynir Solveigar, gerðu kröfu í Skarðseignirnar og var hart deilt um þær næstu árin. Þorleifur Pálsson, sonur Solveigar og Páls, var tveggja ára þgar faðir hans dó og flutti þá Ormur föðurbróðir hans í Skarð ásamt konu sinni, ól hann upp og sá um mál hans en sagt er að margt hafi farið í niðurníðslu á Skarði á þeim árum. Gullbringa. Gullbringa í Svarfaðardal, Arngrímsstofa til vinstri. Gullbringa í Svarfaðardal stendur uppi undir fjallshlíðinni ofan við kirkjustaðinn á Tjörn. Jörðin var fyrst byggð um miðja 17. öld og hefur þá verið hjáleiga frá Tjörn. Byggð var stopul í Gullbringu til að byrja með en á tímabilinu 1820-1947 var þar sambelldur búskapur. Þar bjó Arngrímur Gíslason málari um hríð og um 1885 reisti hann sér vinnustofu sunnan við húsið. Arngrímsstofa nýtur húsfriðunar og er í umsjá Þjóðminjasafnsins. Þar eru myndir eftir Arngrím og fróðleikur um listamanninn. Gullbringa var sumarbústaður Kristjáns Eldjárns og er nú í eigu afkomenda hans. Austurríska karlalandsliðið í handknattleik. Austurríska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Austurríkis í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Austurríkis. Danska karlalandsliðið í handknattleik. Danska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Danmerkur í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Danmerkur. Franska karlalandsliðið í handknattleik. Franska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Frakklands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Frakklands. Króatíska karlalandsliðið í handknattleik. Króatíska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Króatíu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Króatíu. Norska karlalandsliðið í handknattleik. Norska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Noregs í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Noregs. Tenglar. handknattleikur Pólska karlalandsliðið í handknattleik. Pólska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Póllands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Póllands. Rússneska karlalandsliðið í handknattleik. Rússneska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Rússlands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Rússlands. Serbneska karlalandsliðið í handknattleik. Serbneska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Serbíu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Serbíu. Evrópumeistaramót. Á árunum 1994 – 2006 keppti liðið á Evrópumeistaramótum fyrir hönd Serbíu og Svartfjallalands. Slóvenska karlalandsliðið í handknattleik. Slóvenska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Slóveníu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Slóveníu. Spænska karlalandsliðið í handknattleik. Spænska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Spánar í handknattleik og er undir stjórn Konunglega spænska handknattleikssambandsins. Sænska karlalandsliðið í handknattleik. Sænska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Svíþjóðar í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Svíþjóðar. HM-hópurinn 2011. 18 manna landsliðshópur Svía á HM í Svíþjóð, 2011, hann minnkar niður í 16 manna hóp fyrir mótið. Tékkneska karlalandsliðið í handknattleik. Tékkneska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Tékklands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Tékklands. Ungverska karlalandsliðið í handknattleik. Ungverska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Ungverjalands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Ungverjalands. Þeirra lang þekktasti leikmaður er László Nagy en hann er leikmaður Barcelona. Úkraínska karlalandsliðið í handknattleik. Úkraínska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Úkraínu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Úkraínu. Þýska karlalandsliðið í handknattleik. Þýska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Þýskalands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Þýskalands. Eyrbyggja saga. Eyrbyggja saga er ein af Íslendingasögunum. Í lok sögunnar sjálfrar nefnist hún fullu nafni "Saga Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga". Eyrbyggja nær yfir tímabilið frá því snemma á landnámsöld og til dauða Snorra goða eða hér um bil frá 880 til 1031. Sagan er hvorttveggja í senn ætta- og héraðssaga. Hún er talin rituð á fyrra hluta 13. aldar, en varðveitt best í eftirritum eftir Vatnshyrnu og auk þess í ýmsum handritabrotum. Hjaltastaðahvammur. Hjaltastaðahvammur er bær í hjarta Skagafjarðar, nánar tiltekið austan Héraðsvatna í Blönduhlíð í Akrahreppi. Hjaltstaðahvammur á land að Frostastöðum að norðan, fjallsbrún að austan, Grænumýri að sunnan og Hjaltastöðum að vestan. Landstærð er 149 hektarar, þar af 10,5 hektarar tún. Frá Hjaltastaðahvammi eru 11 km til Varmahlíðar, 32 km til Hóla og Sauðárkróks, 95 km til Akureyrar og 300 km til Reykjavíkur. Landnámsjörð og kirkjustaður til forna. Í Landnámabók segir „Gunnólfur hét maður, er nam land mili Þverár og Glóðafeykisár, og bjó í Hvammi“. Þverá ber enn sitt forna nafn og fellur niður milli Þverár og Frostastaða en Glóðafeykisá heitir nú Hvammsá og er á milli Flugumýrarhvamms og Flugumýrar. Tvær jarðir í landnámi Gunnólfs bera hvammsnöfn, þ.e. Hjaltastaðahvammur og Flugumýrarhvammur (Litli-Hvammur 1388). Hjaltastaðahvammur er nefndur Miðhvammur í elstu heimild fornbréfasafns. Land og bæir Hjaltastaðatorfunnar eru í miðju landi Gunnólfs og mega kallast í víðum hvammi. Hjaltastaðahvammur stendur efstur af bæjum torfunnar á skjólgóðum stað. Sterk rök hníga að því að Hjaltastaðahvammur hafi verið aðsetur landnámsmannsins og höfuðból landnámsins fyrstu tvær aldir Íslandsbyggðar. Vorið 1956 var hafist handa við byggingu steinsteypts íbúðarhúss rétt við gamla bæinn sem þá var að falli kominn. Þegar verið var að handgrafa fyrir kjallara undir norðurenda hússins kom í ljós veggjarhleðsla úr grjóti sem lá norðan frá inn í grunninn. Þar komu í ljós tvær grafir með stuttu millibili og er beinagrindurnar nú varðveittar á Þjóðminjasafninu. Ljóst var að þetta voru kristnar grafir. Beinin reyndust af karli og konu en yfir beinunum hafi verið þykkt lag af skriðumöl. Einnig fundust ummerki frá húsi sem talið er að sé kirkja. Allt bendir því til að kirkjugarður og kirkjustæði frá 11. eða 12. öld liggi norður frá þar sem bærinn stendur í dag og hafa menn af þessu dregið eftirfarandi ályktanir. Hjaltastaðahvammur hefur í öndverðu verið landnámsjörð og heitið Hvammur. Bærinn hefur eyðst af skriðuföllum og orðið óbyggilegur um sinn og hafi verið fluttur um set þangað sem nú eru Hjaltastaðir. Hjaltastaðir hétu áður Syðstihvammur og Grænumýri sem liggur sunnan við Hjaltastaðahvamm bar áður nöfnin Hjaltastaðakot og enn áður Kothvammur. Bær og umhverfi. Svo virðist sem bæjarstæðið hafi jafnan verið á sama stað og þrátt fyrir ógn af skriðuföllum hefur það ekki verið fært enda er bæjarstæðið fallegt og sérlega veðursælt. Auk þess er mikið og gott útsýni yfir sveitina þar sem bærinn stendur í uppi í hlíðum Hjaltastaðafjalls. Í dag er skógrækt farin að setja svip sinn á á umhverfi bæjarins. Bæjarlækur fellur norðan við bæinn en hann á upptök sín í Rauðagili. Sunnan við bæinn sprettur upp lind sem aldrei frýs en úr henni fæst afbragðs vatn. Í henni er jafnt rennsli árið um kring, þrátt fyrir frosthörkur og þurrka. Líklegt verður að teljast að lindin og gott aðgengi að vatni hafi haft áhrif á það að bæjarstæðið hafi ekki verið flutt. Bæjarklöpp rís skammt norður og upp frá bænum sem er í daglegu tali kölluð Klöppin. Af henni er mikið og gott útsýni. Minjar gamalla fjárhúsa auk annara tófta eru upp frá íbúðarhúsinu. Auk þess sem minjar eru um fjárhús og hesthúskofa á svokölluðu Gerði sem er nokkuð norður frá bænum. Stóri-Einbúi er há klettaborg sem stendur stök norður og vestan út frá túnum Hjaltastaðahvamms. Á Stóra-Einbúa sem í daglegu tali er nefndur Einbúi mætast landamerki Hjaltastaðahvamms, Grænumýrar og Frostastaða. Litli-Einbúi er lítill klapparhóll sunnan við Stóra-Einbúa. Á Einbúanum eru einkennilegir garðar eða merki um mannvirki sem í landamerkjabréfi frá 1883 eru taldir hlaðnir af fornmönnum. Trú er á að huldufólk haldi til í Einbúanum og nokkrar sögur þar um. Einu sinni var maður á ferð framan Þormóðsholtið og ætlaði út í Þverá. Hann var á ferð að vetri til í logndrífu og var frekar seinn á ferðinni. Hann viltist á leið sinni og vissi ekki hvar hann var staddur. Þegar hann hafði gengið lengi kemur hann auga á ljós í glugga og varð við það glaður og hugði sig vera að koma heim að bæ. Skundar hann í átt að ljósinu en um leið og hann kemur að glugganum hnýtur hann niður og missir sjónar af ljósi og glugga. Þegar hann stóð upp sá hann hvorki ljós né glugga heldur áttaði sig á því að hann var staddur undir Einbúanum og komst svo heim til bæja. Margir hafa talið sig sjá ljós koma frá Einbúanum og þessi saga er ekki eina sagan þar sem menn í villu í þoku eða hríð hafa runnið á ljós frá honum dottið niður og svo áttað sig á hvar þeir voru. Einbúinn er þannig staðsettur að þeir sem eru á leið um sveitina eða eru leið á milli bæja lögðu oft leið sína fram hjá honum. Einbúinn stendur í dag nokkru austan við núverandi þjóðveg. Sjónarhóll er há og áberandi klettaborg sem stendur ofan við Gerðið og norðar og austur upp af Klöppinni og bænum. Þaðan er sérlega gott útsýni yfir nágrenni Hjaltastaðahvamms. Á Sjónarhólnum stendur varða ein og hefur staðið þar lengi. Varðan sérst ágætlega frá bænum og hefur líklega verið hlaðin til gamans. Norður frá Sjónarhólnum er svokölluð Klauf en um hana rennur lækur úr Stóraskriðugili og er á merkjum Hjaltastaðahvamms og Frostastaða. Í skjólsælum hvammi sunnan við Klaufina og Stóruskriðulækinn má sjá marka fyrir tóftum en ekki er nákvæmlega vitað hvers konar hús voru þar. Víglundar saga. Víglundar saga er ein af Íslendingasögunum. Víglundar saga er skáldsaga, ein hin fyrsta í sinni grein hér á landi. Hún fjallar um ástir og raunir Víglundar og Ketilríðar. Hún gerist á 10. öld, en er að líkindum rituð á síðara hluta 14. aldar. Sagan er varðveitt í tveimur skinnhandritum frá 15. öld. Sóti (landnámsmaður). Sóti var landnámsmaður í Vestur-Húnavatnssýslu. Í Landnámabók segir einungis að hann hafi numið land í Vesturhópi og búið undir Sótafelli, sem er hnjúkurinn fyrir ofan Breiðabólstað. Ekkert er sagt fleira um Sóta. Á hjalla fyrir ofan bæinn á Breiðabólstað eru gamlar og óglöggar rústir sem hafa verið kallaðar Sótastaðir. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2010. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2010 ("Eurovision Song Contest 2010" á ensku og "concours Eurovision de la chanson 2010" á frönsku) er 55. árlega söngvakeppnin. Hún var haldin í Telenor Arena í Bærum, Noregi dagana 25. - 29. maí 2010 þar sem Alexander Rybak vann keppnina árið 2009 með laginu "Fairytale" (enska „Ævintýri“). Þetta var í þriðja skiptið sem Norðmenn halda keppninasíðan síðan árin 1986 og 1996. Undankeppnirnar voru haldnar 25. og 27. maí 2010 en úrslitin laugardaginn 29. maí 2010. Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) tilkynntu að atkvæðagreiðslukerfi, sem notast hafði verið við í undankeppnum síðustu tvö ár til að jafna skoðun dómnefndar við símakosninguna, yrði notað. Þrjátíu og níu lönd tóku þátt að þessu sinni en Georgía sneri aftur til keppni á meðan Andorra, Tékkland, Ungverjaland og Svartfjallaland hættu keppni. Litháen hafði upphaflega tilkynnt um að landið myndi ekki taka þátt þetta árið en var seinna á meðal þeirra 39 landa sem staðfestu þátttöku sína hjá EBU. Úrslit. a Spánn fékk að flytja lag sitt aftur sökum truflunar á atriðinu. Úrslit. 2010 Skítamórall. Skítamórall er íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1989 af þeim Gunnari Ólasyni söngvara og gítarleikari, Herberti Viðarsyni bassaleikara, Jóhanni Bachmanni Ólafssyni trommara og Arngrími Fannari Haraldssyni gítarleikara. Þeir eru allir fæddir árið 1976 og koma frá Selfossi. Það var hálfbróðir Arngríms, Einar Bárðarson sem lagði til að nafnið "Skítamórall" yrði notað. Hljómsveitin gaf út sinn fyrsta geisladisk, "Súper" árið 1996, "Tjútt" fylgdi svo í kjölfarið árið 1997, "Nákvæmlega" árið 1998 og "Skítamórall" árið 1999. Sveitin náði strax nokkrum vinsældum með fyrstu tveimur diskunum sínum en geisladiskurinn "Nákvæmlega" náði að festa sveitina í sessi sem eina af vinsælustu sveitaballahljómsveitum landsins. Einar Ágúst Víðisson bættist í hópinn árið 1997 þegar hljómsvetin spilaði á Þjóðhátíð í Eyjum sem söngvari, ásláttursleikari og gítarleikari. Geisladiskurinn "Nákvæmlega", sem innihélt m.a. lagið „Farin“ sem náði miklum vinsældum og var á toppi íslenska listans í þrjár vikur árið 1998, hlaut gullplötu. Árið 2000 var hinsvegar toppur ferilsins hjá strákunum í Skítamóral en sveitin hætti í kjölfar mikillar vinnu árið 2001. Skítamórall kom saman aftur á Hlustendaverðlaunum FM957 árið 2002 og gáfu út tveggja diska safndisk árið 2004. Eftir þetta hafa þeir spilað aftur við sérstök tækifæri og héldu til dæmis uppá 20 ára afmæli sveitarinnar sumarið 2009. Eysteinn meinfretur Álfsson. Eysteinn Álfsson meinfretur var landnámsmaður sem nam fyrst land í Hrútafirði en fluttist síðan yfir í Dali. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók var Eysteinn sonur Álfs úr Ostu. Hann nam Hrútafjarðarströnd hina eystri. Bálki Blængsson hafði áður numið Hrútafjörð allan og hefur Eysteinn því fengið hluta af landnámi hans en óvíst er hve mikið og hann var þar ekki nema nokkra vetur. Þá gifti Auður djúpúðga honum Þórhildi sonardóttur sína og settust þau að í Dölum en ekki er vitað hvar þau bjuggu. Synir þeirra voru Álfur í Dölum, Þórður, Þórólfur refur og Hrappur. Þóroddur (landnámsmaður). Þóroddur var landnámsmaður sem nam land á austurströnd Hrútafjarðar og bjó á Þóroddsstöðum. Áður hafði Bálki Blængsson numið allan Hrútafjörð að því er segir í Landnámu og hefur Þóroddur því fengið land hjá honum. Sonarsonur hans var Þorbjörn öxnamegin Arnórsson, sem drap Atla bróður Grettis sterka og var síðan veginn af Gretti. Sóley Tómasdóttir. Sóley Tómasdóttir (fædd 12. maí 1974) er íslensk stjórnmálakona. Hún er oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur og varaformaður Vinstri grænna. Hún var varaborgarfulltrúi frá kosningum vorið 2006 en tók sæti borgarfulltrúa þegar Svandís Svavarsdóttir var kjörin á þing vorið 2009. Sóley var kjörin aftur í borgarstjórn vorið 2010, sem eini fulltrúi Vinstri grænna. Sóley hefur lengi verið virk í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og hefur verið ritari flokksins frá árinu 2007. Sóley hefur setið í flestum fagráðum borgarinnar en situr nú í borgarráði, umhverfis- og skipulagsráði og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Sóley ólst upp að mestu leyti í Kópavogi en fluttist til Reykjavíkur á unglingsárum. Hún er stúdent frá MH og er með BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum. Sóley hefur unnið hjá Félagsvísindastofnun HÍ, á auglýsingastofunni Hvíta húsinu, Auglýsingastofu skaparans og hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar. Sóley er gift Aart Schalk og á tvö börn. Haraldur hringur. Haraldur hringur var landnámsmaður í Vestur-Húnavatnssýslu og nam land á Vatnsnesi. Landnáma segir að Haraldur hafi verið ættstór maður en þó er föðurnafn hans ekki tilgreint eða hann ættfærður á nokkurn hátt. Hann er sagður hafa komið skipi sínu í Vesturhóp, þar sem nú heitir Sigríðarstaðaós, og dvalið hinn fyrsta vetur á Hringsstöðum, við enda Sigríðarstaðavatns, en síðan nam hann austanvert Vatnsnes „allt utan til Ambáttarár fyrir vestan, en fyrir austan inn til Þverár og þar yfir um þvert til Bjargaóss og allt þeim megin bjarga út til sjóvar“. Hann bjó á Hólum (Vesturhópshólum). Ormur (landnámsmaður). Ormur var landnámsmaður í Vestur-Húnavatnssýslu. Í Landnámabók segir að hann hafi numið Ormsdal og búið þar. Ormsdalur er dalur norðan við Sótafell. Þar eru bæjarrústir sem kallast Ormsstaðir og eru nú friðaðar. Það er eina byggðin sem vitað er um að verið hafi í Ormsdal. Hefur landnám Orms þá verið mjög lítið og hann byggt í landnámi Sóta. Jörundur háls. Jörundur háls Þórisson var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu og nam land í mynni Vatnsdals, fyrir utan Urðarvatn og til Mógilslækjar og bjó á Grund út frá (eða undir) Jörundarfelli, að því er Landnáma og Vatnsdæla saga segja. Jörundur var frilluborinn sonur Þóris jarls þegjanda og því bróðir Vigdísar konu Ingimundar gamla. Hann kom með Ingimundi til Íslands og nam land að ráði hans. Vatnsdæla segir að hann hafi verið mikill maður fyrir sér, sem ætterni hans var til. Sonur hans var Már á Másstöðum. Hvati (landnámsmaður). Hvati var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var vinur Ingimundar gamla, kom með honum til Íslands og fékk hluta af landnámi hans. Hann nam land norðan við landnám Jörundar háls, frá Mógilslæk til Giljár og bjó á Hvatastöðum, en það bæjarnafn þekkist nú ekki. Reiknirit Sesars. Reiknirit Sesars er með fyrstu og einföldustu dulritunaraðferðunum. Reikniritið er tegund af umskiptidulritun:en þar sem hverjum staf er skipt út fyrir staf sem hefur verið hliðrað um nokkrar stöður í stafrófinu. Reikniritið er nefnt í höfuðið á Júlíusi Caesar sem notaði það til að koma hernaðarlegum skilaboðum til herforingja sinna. Auðvelt er að ráða málið og því hentaði það illa þegar mikilvægar, leynilegar upplýsingar voru annars vegar. Harðfiskur. Harðfiskur er þurrkaður og barinn fiskur, oftast unninn úr ýsu, steinbít eða þorski, en einnig þekkist harðfiskvinnsla úr ufsa, kolmunna og lúðu. Harðfiskur var áður fyrr einn helsti matur Íslendinga, og var hann gjarnan borðaður með smjöri eða sölvum. Er harðfiskur sérlega próteinrík næring, en 100g af harðfiski (ýsu) innihalda 80-85% próteini. Á Íslandi er ársframleiðsla á harðfiski nú milli 200 og 250 tonn sem framleitt er úr 2.800 - 3.000 tonnum af slægðum fiski með haus. Vinnsla. Hráefnið sem fer í harðfisk er ævinlega ferskt og er nær eingöngu um að ræða fisk sem veiddur er á línu, sem beitt er með síli, síld, gervibeitu eða Kyrrahafsmakríl. Slík veiðiaðferð er talin uppfylla kröfur um vistvænar veiðar einna best. Þegar fiskurinn er kominn í land er hann þurrkaður, en þrjár aðferðir eru helst notaðar við þurrkunina; Einungis um 10% af upphaflega hráefninu skilar sér í seljanlegri vöru eftir þurrkun. Endurspeglar hátt söluverð á harðfiski þessa staðreynd. Gísli Þór Ólafsson. Gísli Þór Ólafsson (Gillon) (fæddur 1979) er íslenskur tónlistarmaður og ljóðskáld sem hefur gefið út fimm ljóðabækur og eina plötu. Ljóðabækur. Fyrstu þrjár bækurnar voru gefnar út af Lafleur en hinar af höfundi. Hér má sjá dóm um "Sæunnarkveðju - sjóljóð": http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read-27486/6711_view-5064/6709_page-6/ Plötur. "Næturgárun" inniheldur 9 lög eftir höfund og texta, nema ljóðin "Gyðjan brosir" eftir Geirlaug Magnússon og "Um mann og konu" eftir Jón Óskar. Platan var gefin út af höfundi undir flytjandanafninu Gillon. Hér má heyra lagið "Blindaður af ást": https://soundcloud.com/gillon/blindadur-af-ast "Bláar raddir" inniheldur 10 lög höfundar við ljóð Geirlaugs Magnússonar úr bók hans "Þrítengt" sem kom út árið 1996. Þorbjörn bitra. Þorbjörn bitra var landnámsmaður í Bitrufirði á Ströndum og segir Landnáma að hann hafi verið víkingur og illmenni. Hann „fór til Íslands með skuldalið sitt; hann nam fjörð þann, er nú heitir Bitra, og bjó þar“. Nokkru eftir að Þorbjörn nam Bitrufjörð kom Guðlaugur, bróðir landnámsmannsins Gils skeiðarnefs í Gilsfirði, til Íslands á skipi sínu og strandaði við höfða þann sem síðan heitir Guðlaugshöfði. Hann komst sjálfur á land ásamt konu sinni og dóttur en aðrir menn fórust. Þorbjörn bitra kom þar að og drap hjónin en tók stúlkuna og ól upp. En þegar Gils bróðir Guðlaugs komst á snoðir um þetta fór hann og hefndi bróður síns með því að drepa Þorbjörn og fleiri menn. Friðmundur (landnámsmaður). Friðmundur var landnámsmaður í Vestur-Húnavatnssýslu að því er segir í Landnámabók; hann fékk land hjá Ingimundi gamla og hafði komið með honum til landsins en Landnámu og Vatnsdæla sögu ber ekki saman um hvort hann hafi verið þræll eða frjáls maður. Hafi hann verið þræll hefur Ingimundur gefið honum frelsi áður en hann nam land. „Friðmundur nam Forsæludal“, segir í Landnámu og ekkert meir um landnám Friðmundar, en Vatnsdæla segir aftur á móti að sá sem nam Forsæludal, sem er suður af Vatnsdal, hafi heitið Þórólfur heljarskinn og verið mikill ójafnaðarmaður og óvinsæll. Sagt er að hann hafi gert virki suður við Friðmundará og gert margan óskunda. Hann var grunaður um mannblót. Nokkrir illvirkjar, „hans jafningjar eða verri“, söfnuðust þar að honum en á endanum fóru synir Ingimundar gamla að þeim og drápu. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 1/2010. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 1/2010 oft nefnd Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave er þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram 6. mars 2010 um það hvort að lög nr. 1/2010 ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Niðurstaðan var að 93% greiddra atkvæða voru á þann veg að lögin ættu að falla úr gildi. Lög nr. 1/2010 eða "Lög um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf" voru samþykkt af Alþingi 30. desember 2009 en synjað af Ólafi Ragnari Grímssyni Forseta Íslands þann 5. janúar 2010 og var því kosið um lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kveður á um í 26. grein Stjórnarskrár Íslands. Þjóðaratkvæðagreiðslan var sú fyrsta sem fram fór á Íslandi eftir stofnun lýðveldisins 1944 og jafnframt sú fyrsta þar sem lög samþykkt af Alþingi voru felld úr gildi eftir að hafa verið borin undir þjóðaratkvæði í samræmi við ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar. Icesave málið. Landsbanki Íslands hóf á árinu 2006 að bjóða upp á innlánsreikninga í Bretlandi sem reknir voru undir vörumerkinu "Icesave". Árið 2008 var einnig farið að bjóða upp á reikningana í Hollandi. Í báðum löndum voru reikningarnir reknir af útibúum Landsbankans, en ekki sjálfstæðum dótturfélögum, og voru því á vegum móðurfélagsins á Íslandi. Vegna þessa, voru innistæðurnar tryggðar af hinum íslenska Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta upp að því marki sem greindi frá í íslenskum lögum (20.887 evrur á hvern reikning). Landsbankinn, ásamt öðrum stórum íslenskum bönkum, féll í október 2008. Þá kom í ljós að íslenski tryggingasjóðurinn var fjarri því að geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum Icesave innistæðanna. Stjórnvöld Í Bretlandi og Hollandi ákváðu fljótlega að bæta sjálf Icesave innistæðueigendunum það tjón sem íslenski tryggingasjóðurinn gat ekki staðið undir og krefja svo sjóðinn og íslensk stjórnvöld um endurgreiðslu þeirra bóta. Upp hófust þá miklar deilur, bæði innanlands á Íslandi og á milli stjórnvalda á Íslandi annarsvegar og í Bretlandi og Hollandi hinsvegar, um það hvort að til staðar væri lagaleg ábyrgð íslenska ríkisins á skuldbindingum tryggingasjóðsins og það hvernig haga ætti greiðslum til Bretlands og Hollands ef fallist væri á greiðsluskylduna. Samningar náðust á milli íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda um að íslenska ríkið myndi ábyrgjast endurgreiðslu á lánum sem bresk og hollensk stjórnvöld myndu veita íslenska tryggingasjóðnum. Frumvarp til staðfestingar því samkomulagi var lagt fyrir Alþingi í júní 2009. Í meðförum þingsins var hinsvegar bætt við ýmsum fyrirvörum um ábyrgð íslenska ríkisins og endurgreiðslur lánanna. Frumvarpið ásamt með fyrirvörunum var samþykkt af Alþingi þann 28. ágúst 2009 og varð að "lögum nr. 96/2009 um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf." Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, skrifaði undir lögin þann 2. september 2009 en gaf þá jafnframt út yfirlýsingu þar sem fram kom að fyrirvarar Alþingis við ríkisábyrgðina væru forsenda staðfestingarinnar. Bresk og hollensk stjórnvöld féllust ekki á alla umrædda fyrirvara. Í kjölfarið var lagt fram nýtt frumvarp fyrir Alþingi um breytingu á lögum nr. 96/2009 þar sem flestir fyrirvarar Alþingis við fyrra frumvarpið voru felldir út (en að einhverju leyti teknir upp í lánasamningunum í staðinn). Eftir harðar deilur var frumvarpið naumlega samþykkt 30. desember 2009 sem lög nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009. Á vegum InDefence hópsins fór þá af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað var á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar og vísa þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar. Söfnuðust alls 56 þúsund undirskriftir sem lagðar voru fyrir forseta. Þann 5. janúar 2010 tilkynnti forsetinn um þá ákvörðun sína að hann myndi ekki staðfesta lögin með undirskrift sinni. Framkvæmd og niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. Ekki eru til almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi en eftir að forseti Íslands synjaði lögum nr. 1/2010 staðfestingar voru sett sérstök lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga nr. 1/2010. Lögin tóku gildi 11. janúar 2010 og eru nr. Samkvæmt lögunum fór framkvæmd atkvæðagreiðslunnar að mestu eftir því sem gildir um alþingiskosningar, t.d. varðandi kosningarétt, kjörskrár, kjörstjórnir og kjördæmi. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða skyldi ráða niðurstöðunni og engin krafa var gerð um lágmarks kjörsókn. Norbert Elias. Norbert Elias (22. júní 1897 – 1. ágúst 1990) var þýskur félagsfræðingur af gyðingaættum sem síðar á ævinni varð breskur ríkisborgari. Þekktasta verk hans er "Über den Prozess der Zivilisation" („Um siðmenningarferlið“) þar sem hann setur fram kenningu um þróun siðmenningar sem breytingu á "habitus" Evrópubúa með hækkandi þröskuldum skammar og viðbjóðs. Hann flúði undan nasistum fyrst til Parísar 1933 og síðan til Bretlands þar sem hann settist að og kenndi meðal annars við Háskólann í Leicester. Verk hans voru lítt þekkt þar til á 7. áratugnum. Ásmundur (landnámsmaður). Ásmundur var landnámsmaður í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann kom með Ingimundi gamla til Landsins en Landnámabók og Vatnsdælu ber ekki saman um hvort hann var vinur hans eða þræll; hafi hann verið þræll hefur Ingimundur gefið honum frelsi áður en hann nam land. Landnám Ásmundar var fyrir vestan Vatnsdalsá „út frá Helgavatni um Þingeyrasveit og bjó undir Gnúpi“ og hefur það líklega náð norður að Húnafirði en verið á milli Gljúfurár og Hópsins að vestan og Vatnsdalsár og Húnavatns að austan. Eyvindur sörkvir. Eyvindur sörkvir var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu og nam Blöndudal. Hann var vinur Ingimundar gamla og kom með honum til landsins. Í Vatnsdæla sögu er sagt frá því að þegar Eyvindur frétti að Hrolleifur hinn mikli hefði banað Ingimundi hafi hann fyrirfarið sér með því að láta fallast á sax sitt. Synir Eyvindar voru þeir Hermundur og Hrómundur halti, sem örkumlaðist þegar Jökull Ingimundarson hjó á fót honum. Mrkonjić Grad-atvikið. O'Grady á blaðamannafundi skömmu eftir björgunina. Mrkonjić Grad-atvikið var atvik í Bosníustríðinu þegar her Bosníuserba skaut bandaríska F-16 orrustuþotu með SA-6 flugskeyti nálægt Mrkonjić Grad í Bosníu 2. júní 1995. Flugmaðurinn, Scott O'Grady, náði ómeiddur til jarðar með fallhlíf og lifði eftir það í felum í skógi í sex daga þar til honum var bjargað af bandarískum landgönguliðum. Kvikmyndin "Handan víglínunnar" frá 2001 byggir lauslega á sögu hans. Eyvindur auðkúla. Eyvindur auðkúla var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu og nam hann Svínadal allan. Hann bjó á Auðkúlustöðum (nú Auðkúlu) í Svínadal. Meira er ekki sagt um hann í Landnámabók en aftur á móti er þar sagt frá því að í landnámi hans, á bænum Svínavatni sem er rétt austan við suðurendann á samnefndu vatni, bjó Þorgils gjallandi, sem komið hafði til landsins með Auðuni skökli, og segir frá honum í Vatnsdæla sögu. Þorbjörn kolka. Þorbjörn kolka (eða Þorbjörn kólka) var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu. Í Landnámabók segir að hann hafi numið Kolkumýrar og búið þar meðan hann lifði. Örnefnið Kolkumýrar er nú óþekkt en Þorbjörn hefur að öllum líkindum numið land á Ásum fyrir vestan Blöndu, sunnan frá norðurenda Svínavatns til sjávar og vestur að Giljá og Húnavatni. Nýja ráðhúsið í München. Nýja ráðhúsið í München ("Neues Rathaus") er geysifögur bygging í miðborg München í Þýskalandi. Það er aðsetur borgarráðs og borgarstjóra. Byggingasaga. Þegar mönnum fannst gamla ráðhúið í München orðið of lítið til að anna skrifstofuplássi á 19. öld var ákveðið að ráðast í að reisa nýtt ráðhús. Efnt var til samkeppni um nýbyggingu og var sigurtillagan bygging í nýgotneskum stíl. Framkvæmdir hófust 1867 við Maríutorgið ("Marienplatz") í hjarta borgarinnar, aðeins örfáa metra frá gamla ráðhúsinu. Þegar húsið var fullreist 1874 reyndist það ekki geta rúmað allar nauðsynlegar skrifstofur. Því var ákveðið að stækka húsið verulega og var því lokið 1893. 1899-1903 fengu húsin hina skrautlegu framhlið. Efniviður byggingarinnar er tígulsteinn og kalksteinn með skeljum. Kalkið gefur byggingunni nokkuð ljóst yfirbragð. Í ráðhúsinu eru um 400 skrifstofur og eru þær notaðar af borgarstjóra og borgarstjórn München. Í kjallaranum er stórt veitingahús, eins og títt er í þýskum ráðhúsum. Þótt húsið skemmdist ekki að ráði í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari, voru þó gerðar endurbætur á því eftir stríð, t.d. bætt við einni hæð. Í ráðhúsinu fara yfirleitt fram heiðranir íþróttamanna og liða frá München. Turninn. Turn ráðhússins er 85 metra hár. Í honum er klukknaspil með 43 bjöllum. Það er fimmta stærsta klukknaspil Evrópu og var tekið í notkun 1908. Spilið er í útskoti úr blýi og er á tveimur stórum hjólum. Efra hjólið sýnir riddaraleik sem fram fór 1568 í brúðkaupi hertogans Vilhjálms V og Renötu frá Lorraine (Lothringen). Á neðra hjólinu eru fígúrur sem sýna dans (Schäfflertanz) sem uppruninn er í München. Á sumrin fer klukknaspilið þrisvar fram, á veturna tvisvar daglega. Á kvöldin fer auk þess lítið klukknaspil fram með næturverði sem spásserar með lensuna sína. Ævar gamli Ketilsson. Ævar Ketilsson hinn gamli var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var sonur Ketils helluflaga og Þuríðar dóttur Haraldar gullskeggs, konungs úr Sogni. Ævar fór í víking og síðan til Íslands og voru með honum synir hans laungetnir, Karli, Þorbjörn strjúgur og Þórður mikill, en Véfröður, sem var skilgetinn sonur Ævars, hélt víkingaferðum áfram og hugðist koma seinna. Ævar lenti skipi sínu í Blönduósi en þá var búið að nema allt land fyrir vestan Blöndu. Hann fór því upp með ánni og þegar hann kom þar sem heita Móbergsbrekkur stakk hann niður hárri stöng og helgaði Véfröði syni sínum þar land. Síðan nam hann Langadal allan frá Móbergi, hluta af Laxárdal og bjó í Ævarsskarði, sem margir telja að sé mynni Svartárdals. Þegar Véfröður kom seinna til landsins lenti hann skipi sínu í Gönguskarðsárósi og gekk þaðan suður þar til hans hitti föður sinn, sem þekkti hann ekki, og glímdu þeir „svo að upp gengu stokkar allir í húsinu, áður Véfröður sagði til sín“. Hann bjó svo á Móbergi og er oftast talinn til landnámsmanna þótt faðir hans hafi numið landið fyrir hann. Aðrir synir Ævars fengu einnig bústaði í landnámi hans, Þorbjörn strjúgur á Strjúgsstöðum, Karli á Karlastöðum og Þórður á Mikilsstöðum. Þeir eru þó ekki taldir landnámsmenn. Véfröður giftist Gunnhildi, dóttur Eiríks landnámsmanns í Goðdölum. Einn sona þeirra var Húnröður, faðir Más, föður Hafliða á Breiðabólstað. Þeir langfeðgar voru goðorðsmenn og kallaðist goðorð þeirra Æverlingagoðorð, kennt við Ævar gamla, og ættin Æverlingar. Holti (landnámsmaður). Holti var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu og nam Langadal austan við Blöndu ofan frá Móbergi og líklega út að sjó en óvíst er hve langt landnám hans náði, því að í Landnámabók er ekkert sagt um hver nam svæðið þar fyrir norðan, Laxárdal utanverðan og svo alla Skagaströndina, allt út að Fossá, sem er skammt sunnan við Kálfshamarsvík. Þar tók við landnám Hólmgöngu-Mána. Holti bjó á Holtastöðum í Langadal. Barn náttúrunnar. Barn náttúrunnar er skáldsaga sem kom út árið 1919 og var fyrsta bók Halldórs Laxness. Bókina skrifaði hann aðeins 16 ára gamall en hún kom út þegar hann var 17 ára. Söguþráður. Barn náttúrunnar segir frá unglingsstúlkunni Huldu og Randveri sem kemur til Íslands og þráir að vinna þar sem bóndi. Hulda og Randver kynnast og verða ástfangin. Það sem Hulda elskar einna helst við Randver er að hann er ríkur og getur ferðast með hana um heiminn, en Randver langar að vera á Íslandi, vinna og þurfa að hafa fyrir því að græða peninga. Þegar Hulda kemst að því fer hún frá honum. Á endanum hefur ástin þó yfirhöndina og Hulda ákveður eftir allt saman að vera á Íslandi með Randveri. Boðskapur sögunnar er sá að fólk þarf að hafa fyrir því að hafa það gott. Mikil vinna og erfiði gefur af sér ávexti og gleðina við að hafa afrekað eitthvað. 1 (ár). Árið 1 (I) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á laugardegi eða sunnudegi. Sikileyjarvörn, klassískt afbrigði. Klassíska afbrigði sikileyjarvarnar er með vinsælustu afbrigðum sikileyjarvarnar. Afbrigðið er mjög vinsælt meðal stórmeistara og meðal þeirra sem hafa notað það oft eru: Kasparov, Anand, Kramnik, Karpov og lengi mætti áfram telja. Hugmyndin á bak við afbrigðið er að svartur kemur riddaranum sínum strax á sinn náttúrulega stað og bíður með að koma svartreita biskupnum sínum í spil. Hér hefur hvítur nokkra möguleika og þá helst 6.Bg5 (Richter-Rauzer árás), 6.Bc4 (Velimirovic/Sozin árás) eða 6.Be2 (Boleslavsky afbrigði). Richter-Rauzer árás (6.Bg5). Richter-Rauzer árásin er algengasta afbrigðið af klassískri sikileyjarvörn. Árásin einkennist af sjötta leik hvíts, 6.Bg5. Leikurinn 6.Bg5 er eignaður Kurt Richter. Samkvæmt ChessBase kom afbrigðið þó fyrst fram árið 1905 í skákinni Mueller - Gregory sem tefld var í Barmen. Skákin er þó viðvaningsleg og ómarktæk. Tuttuguogsjö ár liðu þar til Richter beitti afbrigðini sjálfur en það var árið 1932 gegn Ludwig Roedl í Świnoujście og lauk þeirri skák með jafntefli. Richter lék afbrigðinu fimm sinnum á hvítt með árangrinum 40% (2 jafntefli, 2 töp og 1 sigur). Vsevolod Rauzer kynnti til sögunnar áætlun sem enn er stuðst við í dag. Áætlunin gengur út á að koma drottningunni fyrir á d2 og hrókera langt. Þetta er sú hugmynd sem liggur að baki afbrigðinu enn þann dag í dag þó svo að hugmynd Rauzers sé frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Hugmyndin á bak við 6.Bg5 er að takmarka spil svarts á miðborðinu en einnig kemur leikurinn í veg fyrir að svartur skipti úr klassíska afbrigðinu í drekaafbrigði (...g6) vegna þess að eftir 6.Bg5 g6?! 7.Bxf6 dxf6. Hér er peðastaða svarts í rúst og hafa ber í huga að peðastaðan getur verið mikill áhrifsvaldur í endataflinu. Eins og flestar opnar sikileyjarvarnir einkennist Richter-Rauzer árásin af pressu hvíts eftir d-línunni og svartur spilar eftir hálfopnu c-línunni. Eftir 6.Bg5 er lang algengast að leika 6...e6 7.Dd2 til þess að undirbúa langhrókeringu og þar með byggja upp þrýsting eftir d-línunni. Hér hefur svartur tvo helstu möguleika: 7...a6 þar sem hugmyndin er að leika...Bd7 og þar með undirbúa...b5. Hinn möguleikinn er að leika 7...0-0 þar sem oft myndast einskonar "kapphlaup" þar sem markmiðið er að láta peðastorm skella á kóngsstöðu andstæðingsins. Velimirović/Sozin árás (6.Bc4). Eftir 6.Bc4 leikur hvítur yfirleitt 6...e6 og eftir 7.Be3 Be7 hefur hvítur það val að hrókera kóngsmegin en það afbrigði kallast Sozin árás eftir rússneska meistaranum Veniamin Sozin. Hins vegar getur hvítur hrókerað drottningarmegin þar sem yfirleitt er leikið De2 og svo 0-0-0. Þessi aðferð kallast Velimirović árás eftir hinum serbneska Dragoljub Velimirović. Velimirović árásin er flugbeitt byrjun og svartur reynir oft að komast hjá henni með því að leika 6...Db6 í stað 6...e6. Boleslavsky afbrigðið (6.Be2). Boleslavsky afbrigðið heitir eftir Isaac Boleslavsky og er að nokkru leyti ólíkt 6.Bg5 og 6.Bc4 afbrigðunum. Þar sem leikurinn 6.Be2 gerir ekki neinskonar tilkall til d5-reitsins er svörtum frjálst að leika 6...e5! Þá er leikið 7.Rb3 eða 7.Rf3 en svartur þarf ekki að óttast 7.Rdb5 þar sem nú þegar er búið að leika d6. Helsta áætlanir hvíts er að leika f4 og/eða Bf3 og reyna þannig að spila á kóngsvængnum. Svartur getur aftur á móti nýtt sér það að 6.Be2 gerir ekkert sérstakt við d5-reitinn og stefnt að miðborðssprengingunni...d5. Benóný Ægisson. Benóný Ægisson (fæddur 1952) er íslenskur rithöfundur. Fyrsta bók hans, "Tekið í", kom út árið 1974. Fyrsta leikrit hans var söngleikurinn Skeifa Ingibjargar sem var frumsýndur árið 1979. Birt leikverk hans eru um það bil þrjátíu, þar á meðal Vatn lífsins í Þjóðleikhúsi, Hið ljúfa líf og Töfrasprotinn í Borgarleikhúsi og Engin miskunn og Frekari innheimta í Sjónvarpinu. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leikritaskrif. Benóný hefur starfað í leikhúsi, á Íslandi og erlendis, sem leikari, tónlistarmaður og leikstjóri. Hann hefur unnið sem handverks- og myndlistarmaðuri, leikið í hljómsveitum og samið fjölda sönglaga. Sardiníska. Sardiníska er rómanskt mál sem er talað á eynni Sardiníu sem er hluti af Ítalíu. Hún er með fornlegasta hljóðkerfi rómönsku málanna og er þekkt fyrir orð sem eru frá því áður en farið var að tala latínu á eynni. Jules Verne-verðlaunin. Jules Verne-verðlaunin eru frönsk siglingaverðlaun sem veitt eru fyrir hröðustu hnattsiglingu í bát sem knúinn er áfram með vindafli. Skilyrði er að viðkomandi hafi tilkynnt áætlun sína og greitt keppnisgjald og sigli yfir ráslínu sem er skilgreind sem línan milli vitanna Phare du Creach í Frakklandi og Lizard Lighthouse í Bretlandi. Þau voru sett á fót árið 1990 og heita eftir rithöfundinum Jules Verne sem ritaði skáldsöguna "Umhverfis jörðina á 80 dögum". Fyrstu verðlaunin áttu að renna til þeirrar skútu sem næði að sigla umhverfis jörðina á innan við 80 dögum. Verðlaunin voru fyrst veitt skútunni "Explorer" sem Bruno Peyron sigldi umhverfis jörðina á 79 dögum og sex tímum árið 1994. Núverandi handhafi verðlaunanna er Loïck Peyron (bróðir Bruno Peyron) sem sigldi hringinn á 45 dögum og 13 tímum árið 2012 á þríbytnunni "Banque Populaire V" og bætti þar fyrra met Franck Cammas frá 2010 um meira en tvo daga. Samskiptakenningar. Samskiptakenningar eru þriðja meginkenningin eða sjónarhornið innan félagsfræðinnar og þær skoða og lýsa samskiptum milli einstaklinga og hópa. Samskiptakenningar eru á „míkróplani“, þær fjalla um samskipti við ákveðnar aðstæður og því er sjónarhornið þröngt. Það er mikilvægt að átta sig á muninum á „míkró-“ og „makrófélagsfræði“. Samskiptakenningar fjalla því fyrst og fremst um hegðun í daglegu lífi en ekki um stærri þætti eins og menntakerfi, trúarbrögð eða séttaskiptingu. Stóru þættirnir eru til umfjöllunar í samvirkni- og átakakenningum. Eins og aðrar meginkenningar félagsfræðinnar greinast samskiptakenningar í nokkrar undirkenningar eða sjónarhorn en þau algengustu eru kenningar um "félagslegar athafnir" eða "túlkunarsjónarhorn" sem hafna vanalega þeirri skoðun að samfélagið hafi skýra félagsgerð sem stýri heðgunarferli einstaklinga eftir ákveðnum brautum. Einfaldasta skilgreiningin á félagsgerð eru tvö félagsleg öfl eða þættir og tengslin milli þeirra. Í félagsfræði er hins vegar hugtakið víðara og vísar til stórra félagslegra kerfa, fylkingaskipana eða mynstra. Samvirkni- og átakakenningar eru kenningar um félagsgerð. Reyndar viðurkenna sumir kenningasmiðir samskiptakenninga að félagsgerð sé til en þeir álíta að þessi uppbygging stýrist og mótist af aðgerðum einstaklinga. Max Weber var einn þeirra en hann brúaði bilið að hluta á milli kenninga um félagsgerð (samvirkni- og átakakenninga) og félagslegra athafna. Weber viðurkenndi tilvist stétta og hópa en hafnaði kenningum Emiles Durkheim um að samfélög eigi sér sjálfstætt líf óháð einstaklingunum sem hafa skapað það. Þeir kenningasmiðir sem beita sjónarhorni "táknrænna samskipta" viðurkenna tilvist félagslegra hlutverka en hafna því að þessi hlutverk séu föst og ósveigjanleg eða þá ákvörðuð út frá hugsanlegum „þörfum“ samfélagsins. Í fyrirbæra- og félagsháttafræði koma fram mun róttækari skoðanir gegn sjónarhorni samvirkni- og átakakenninga því þær hafna öllum hugmyndum um félagsgerðir. Samskiptakenningar eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á að félagsfræðingar einbeiti sér að skilningi og túlkun mannlegrar hegðunar. Í þessu felst að í félagsfræðinni fást menn við að uppgötva og öðlast skilning á hvaða merking búi að baki hegðun. Frúarkirkjan í München. Frúarkirkjan er helsta kennileiti borgarinnar München Frúarkirkjan í München er helsta kennileiti borgarinnar München í Þýskalandi og ein þekktasta kirkja landsins. Turnarnir eru með sérkennileg hvolfþök og eru 99 metra háir. Frúarkirkjan er dómkirkja. Forsaga. Til eru tvær þjóðsögur um tilurð Frúarkirkjunnar. Fyrri sagan segir að hertoginn Sigismund hafi verið að veiðum fyrir utan München og litið á borgina frá nokkurri fjarlægð. Hann hafi þá sagt að í München ætti að vera há kirkja sem sæist langt að. Hin sagan segir að í gömlu kirkjunni, sem hafi verið nokkuð lítil, hafi lítil stúlka hnigið niður og dáið, þar sem mannþröngin hafi verið svo mikil í kirkjunni að ekki hafi verið hægt að koma henni út undir læknishendur í tæka tíð. Hertoginn hafði því svarið eið um að reisa stóra kirkju til þess að svona atburðir myndu ekki endurtaka sig. Byggingasaga. 1468 lögðu Sigismund hertogi og Tulbeck biskup hornstein að kirkjunni. Framkvæmdir gengu óvenjulega rösklega fyrir sig, þannig að kirkjan var komin í nothæft ástand 20 árum síðar. Hins vegar þvarr fjármagnið, þannig að Sixtus IV páfi veitt öllum þeim fullkomið aflát synda sinna fyrir það eitt að koma til München, ganga til skrifta og fórna vikulaunum fyrir kirkjubygginguna. Kirkjan var svo formlega vígð 14. apríl 1494 og helguð Maríu mey. Við vígsluna var kirkjan orðin 109 metra löng og 40 metra breið. Þannig rúmaði hún 20 þús manns í stæði, en borgarbúar voru aðeins 13 þús á þessum tíma. Turnarnir voru þó ekki fullgerðir. Múrvinnan var búin, en litlu hvolfþökin voru ekki sett á fyrr en 1525. Fram að þeim tíma voru fallbyssur settar á múrverk turnanna til varnar borginni. Þegar þökin voru komin á var kirkjan 99 metra há. Í fári siðaskiptanna voru unnar skemmdir í flestum kaþólskum kirkjum. Í nokkrum kirkjum tókst að bjarga hinum og þessum listaverkum og muni. Þannig tókst að bjarga líkamsleifar heilags Benno frá Meissen úr einni kirkjunni. Leifarnar voru síðan settar í Frúarkirkjuna 1580 til varðveislu eftir að tekist hafði að hrekja mótmælendur alfarið úr borginni. Í kjölfarið var byrjað á því að dýrka heilagan Benno. Í Frúarkirkjunni var smíðað altari og önnur listaverk honum til heiðurs. Auk þess fór mikil Maríudýrkun fram í kirkjunni. Um miðja 19. öld var kirkjan gerð upp að innan. Í loftárásum 1944 stórskemmdist kirkjan. Stór hluti þaksins hrundi og innviðið skemmdist. Viðgerðir eftir stríð fóru fram í nokkrum áföngum. Þeim síðasta lauk ekki fyrr en 1994. Fótspor kölska. Mitt í kirkjunni er fótspor sem búið er að ramma inn og varðveita. Fórspor þetta varð til á 17. eða 18. öld á eina staðnum í kirkjuskipinu þar sem ekki sást í neina glugga. Þjóðsagan segir að eitt sinn hafi kölski komið í kirkjuna og staðið á þessum punkti. Þegar hann varð þess áskynja að ekki sást í neina glugga, hafði hann haldið að kirkjan væri gluggalaus. Hann hafi því fengið hláturskast og stappað niður einum fæti. Við það hafi þetta spor myndast. En þegar hann gekk einu skrefi áfram sá hann hina mörgu glugga kirkjunnar og varð þá að játa að honum hafi skjátlast. 1846 voru gluggar settir í kórinn, þannig að frá og með þeim tíma er enginn punktur í kirkjuskipinu til lengur þar sem ekki sér í glugga. Maríualtari. Höfuðaltari kirkjunnar eyðilagðist í loftárásum. Elsta altari kirkjunnar er hliðaraltari í kapellu Tulbecks biskups. Það er Maríualtari og var smíðað í kringum 1475. Altarið er aðallega grænt og gulllitað og skeytt með styttum af Maríu mey. Tulbeck biskup sést krjúpandi fyrir framan hana og tilbiður hana og Jesúbarnið. Barnið heldur á ríkiseplinu, en það stendur fyrir jarðarkringluna. Stytturnar til beggja handa eru af heilagri Elísabetu og Agnesi. Fyrir neðan er málverk af líkama Jesú þegar hann er tekinn niður af krossinum. Grafhvelfing. Frúarkirkjan hefur lengi þjónað sem grafarkirkja hertoganna í München, sem voru af Wittelsbach-ættinni. 46 manneskjur í hvelfingunni eru hertogar og greifar, en einnig eiginkonur þeirra og aðrir fjölskyldumeðlimir. Fyrsti hertoginn sem lagður var til grafar í kirkjunni var Lúðvík frá Bayern, en hann var kjörinn keisari þýska ríkisins 1328. Lúðvík er einn af tveimur keisurum sem hvíla í München. (Hinn er Karl VII sem hvílir í Theatiner-kirkjunni). 1622 var búin til gríðarmikil steinkista fyrir Lúðvík keisara, en þó var hann aldrei settur í hana. Steinkistan er ákaflega skreytt og er til sýnis í kirkjunni. Í Frúarkirkjunni hvílir einnig Lúðvík III, síðasti konungur Bæjaralands. Auk höfðingja hvíla einnig vel flestir erkibiskupar München í kirkjunni, allt til 1917, sem og nokkrir ríkir einstaklingar og velgjörðarmenn. Kirkjuklukkur. 10 klukkur er í turnum kirkjunnar, sú þyngsta 8 tonn. Hún heitir Súsanna (oft kölluð "Salve-bjallan") og er næstþyngsta kirkjuklukka Bæjaralands (á eftir Salvatorbjöllunni í dómkirkjunni í Würzburg). Súsanna þykir vera ein allra tónfegursta miðaldabjalla Evrópu. Michael Phelps. Michael Phelps á Ólympíuleikunum í Beijing árið 2008. Michael Phelps (fæddur 30. júní 1985) er bandarískur sundíþróttamaður. Hann vann átta gull á Ólympíuleikunum og er af sumum talinn einn besti sundmaður allra tíma. Í æsku var hann með mikinn athyglisbrest og mamma hans lét hann mikið í íþróttir. Phelps æfir á hverjum degir og sleppir aldrei æfingu, ekki einu sinni á jólunum. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 1994. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 1994 var haldið í Portúgal. Svíþjóð fór með sigur af hólmi á meðan Rússland lenti í öðru sæti og Króatía hafnaði í því þriðja. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 1996. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 1996 var haldið á Spáni. Rússland fór með sigur af hólmi á meðan Spánn lenti í öðru sæti og Júgóslavía hafnaði í því þriðja. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 1998. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 1998 var haldið á Ítalíu. Svíþjóð fór með sigur af hólmi á meðan Spánn lenti í öðru sæti og Þýskaland hafnaði í því þriðja. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2000. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2000 var haldið í Króatíu. Svíþjóð fór með sigur af hólmi á meðan Rússland lenti í öðru sæti og Spánn hafnaði í því þriðja. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2002. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2002 var haldið í Svíþjóð. Svíþjóð fór með sigur af hólmi á meðan Þýskaland lenti í öðru sæti og Danmörk hafnaði í því þriðja. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2004. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2004 var haldið í Slóvenía. Þýskaland fór með sigur af hólmi á meðan Slóvenía lenti í öðru sæti og Danmörk hafnaði í því þriðja. Péturskirkjan í München. Péturskirkjan í miðborg München. Í fjarska má sjá í þýsku Alpana. Péturskirkjan í München ("St. Peter" eða bara "Alter Peter") er elsta kirkja borgarinnar München í Þýskalandi. Hún stendur steinsnar frá Maríutorginu í hjarta borgarinnar. Saga Péturskirkjunnar. Á 11. öld var búið að reisa litla kirkju á reitnum, en það er nokkuð fyrir stofnun borgarinnar. Kirkjan var stækkuð til muna og vígð 1190. En seint á 13. öld var hún rifin og núverandi kirkja reist. Hún var vígð 1294 og helguð Pétri postula. 1327 varð stórbruni í miðborg München og brann þá kirkjan að hluta. Kórinn eyðilagðist og turnarnir brunnu út. En það tókst að bjarga skipinu. Nýr kór var vígður 1368 en ekki var gert við turnana fyrr en 1386. Þeir voru þá sameinaðir í einn turn, sem gaf kirkjunni sérkennilegt útlit. Á miðjum turninum var opnaður útsýnispallur. 1607 sló eldingu niður í turninn og skemmdist hann við það. Hann fékk þá sitt núverandi þak. Skömmu seinna var kórinn rifinn til að stækka kirkjuna enn frekar. Á 18. öld var kirkjan gerð upp að innan og fékk þá sinn núverandi rókókóstíl. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar siðari stórskemmdist kirkjan og brann út. Stóðu þá aðeins turnarnir uppi og ytri múrveggir kirkjuskipsins. Til stóð að rífa kirkjuna, en á síðustu stundu var ákveðið að endurreisa hana. Ytri umgjörðin var tilbúin 1954, en ekki var lokið við innviði fyrr en árið 2000. Í kirkjunni eru líkamsleifar heilagrar Múndítíu geymdar til sýnis. Í múrveggnum í kórnum situr austurrísk fallbyssukúla, en Austurríkismenn skutu á München meðan Frakkar voru þar á Napoleonstímanum. Turninn. Turn Péturskirkjunnar er 91 metra hár og er með hæstu kirkjum München. Í 56 metra hæð er útsýnispallur, þaðan sem gott útsýni er yfir borgina, allt til Alpafjalla. Þar sem engin lyfta er í kirkjunni, verður að ganga upp 306 þrep og fara upp fyrir klukknahúsið. Útsýnispallurinn er opin almenningi. TF-SIF. TF-SIF er eftirlits- og björgunarflugvél í eigu Landhelgisgæslu Íslands af gerðinni Dash-8-Q300. Vélin kom til Íslands 1. júlí 2009 á 83 ára afmæli Landhelgisgæslunnar. Vélin tekur 12-14 farþega í venjulegri útfærslu en hægt er að breyta henni svo hún rúmi 22 farþega án mikillar fyrirhafnar. Eldsneyti flugvélarinnar endist í 4.100 km eða í 10 klukkustundir. Torfi Arason. Torfi Arason (um 1405 – 1459) var íslenskur höfðingi á 15. öld, hirðstjóri norðan og vestan og riddari. Hann bjó á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði. Torfi er í "Sýslumannaæfum" sagður sonur Ara stóra og sagt að ekkert sé um hann vitað. Hann er þó talinn hafa verið sonur Ara dalaskalla Ásbjarnasonar, sýslumanns í Snóksdal, og Guðríðar Ásbjarnardóttur konu hans, og bróðir Daða Arasonar í Snóksdal, afa Daða Guðmundssonar, sem fangaði Jón Arason og syni hans. Laust eftir 1440 giftist hann Akra-Kristínu Þorsteinsdóttir á Stóru-Ökrum, sem þá var ekkja eftir Helga Guðnason lögmann, og bjuggu þau á Ökrum. Torfi fékk riddarabréf hjá Kristjáni 1. Danakonungi 30. nóvember 1450 og var skjaldarmerki hans hvítabjörn á bláum feldi og hálfur hvítabjörn á ofanverðum skildinum. Hann fékk jafnframt hirðstjórn norðan lands og vestan. Hann fékk líka Vestmannaeyjar að léni hjá konungi og skyldi gjalda eftir þær sjö skreiðarlestir á ári. Hann kom með svonefnda Lönguréttarbót Kristjáns 1. með sér til landsins. Torfi hélt hirðstjóraembættinu þar til hann dó í Björgvin síðsumars 1459. Kristín bjó lengi ekkja á Ökrum eftir lát hans. Dætur þeirra voru Málmfríður, kona Finnboga Maríulausa Jónssonar lögmanns í Ási í Kelduhverfi, og Guðrún fylgikona Einars Benediktssonar prests á Skinnastað og síðast ábóta á Munkaþverá og móðir Finnboga Einarssonar ábóta þar. Helgi Guðnason. Helgi Guðnason (d. 1440) var íslenskur höfðingi og lögmaður á 15. öld og bjó á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði. Um föður Helga er ekki vitað en móðir hans ónefnd var systir Árna Ólafssonar biskups hins milda og í bréfi sem dagsett er eftir jól 1419 kemur fram að Árni gefur Helga jörðina Hvalsnes á Rosmhvalanesi. Afasystir Helga var Sólveig, kona Björns Einarssonar Jórsalafara, og voru þeir Helgi og Björn Þorleifsson hirðstjóri á Skarði því þremenningar að ætt. Helgi var lögmaður norðan og vestan 1438 til 1439. Kona Helga var Akra-Kristín, dóttir Þorsteins Ólafssonar lögmanns á Stóru-Ökrum, og bjuggu þau þar. Helgi dó 1440 og eftir lát hans giftist Kristín Torfa Arasyni hirðstjóra. Börn Helga og Kristínar voru þau Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum, og Þorsteinn, bóndi á Reyni í Mýrdal. Þuríðarbúð. Þuríðarbúð er sjóminjasafn á Stokkseyri sem stendur þar sem sjóbúð Þuríðar formanns er talin hafa staðið og er til minningar um hana. Búðin var vígð 26. júní 1949. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2006. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2006 var haldið í Sviss. Frakkland fór með sigur af hólmi á meðan Spánn lenti í öðru sæti og Danmörk hafnaði í því þriðja. Evrópumeistaramót karla í handknattleik 2008. Evrópumeistaramót karla í handknattleik var haldið í Noregi. Danmörk fór með sigur af hólmi á meðan Króatía lenti í öðru sæti og Frakkland hafnaði í því þriðja. Amager. Amager (oft kölluð Amakur eða Ámakur á íslensku) er eyja á Eyrarsundi. Hún er 96,29 km² og er rétt hjá austurströnd Sjálands. Íbúar á Amager eru 160.064 og þar af eru 107.207 í Kaupmannahöfn. Sólveig Þorvaldsdóttir. Sólveig Þorvaldsdóttir (fædd 1. júní 1961) er byggingaverkfræðingur, jarðskjálftaverkfræðingur og ráðgjafaverkfræðingur og þjálfar meðal annars björgunarsveitir í rústabjörgun. Hún var forstjóri Almannavarna ríkisins frá 1996 til 2003 þegar skrifstofa almannavarna felld undir embætti ríkislögreglustjóra með lagabreytingu sem gildi tók 3. apríl 2003. Hún stofnaði þá eigið fyrirtæki, Rainrace, sem sérhæfir sig í ráðgjöf vegna almannavarna og einkavarna. Sólveig var félagi í tveimur alþjóðabjörgunarsveitum Bandaríkjanna, VA-TF1 í Virginíu 1989-1991, og annarri svipaðari sveit í Kaliforníu 1994-1996 og tók til að mynda þátt í aðgerðum við stjórnsýslubygginguna í Oklahóma sem sprengd var af hryðjuverkamönnum árið 1995. 1994 var hún hvatamaður að stofnun rústaflokks hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Hún hefur farið til starfa á hamfarasvæðum, til dæmis til Pakistan. Richard Strauss. Richard Strauss (11. júní 1864 í München – 8. september 1949 í Garmisch-Partenkirchen) var þýskt tónskáld. Hann var þekktur fyrir óperur sínar en einnig fyrir önnur tónverk og kórverk. Strauss gat sér einnig gott nafn sem hljómsveitarstjóri. Richard Strauss var hvorki skyldur né tengdur Strauss fjölskyldunni í Vínarborg, sem einnig var mikið tónlistarfólk. Æviágrip. Richard Strauss fæddist 1864 í München. Faðir hans var einnig tónlistarmaður og lék á horn í hljómsveit konungshirðarinnar, auk þess að vera tónlistarkennari. Aðeins sex ára byrjaði Strauss að semja sín fyrstu tónverk og leika á píanó. Árið 1882 hóf Strauss nám í heimspeki og listasögu í háskólanum í München. En sama ár fór hann með föður sínum til borgarinnar Bayreuth, þar sem faðirinn tók þátt í tónlistarhátíð. Strauss yngri var svo hrifinn af tilstandinu og tónleikunum, að hann ákvað að hætta námi og verða tónskáld. Strax á næsta ári voru verk eftir hann frumflutt. Hann sneri sér einnig að hljómsveitarstjórnun. Árið 1884 varð Strauss hljómsveitarstjóri í Meiningen. Þar kynntist hann tónskáldinu Johannes Brahms og frænku Richards Wagner. Við það breyttist stíll Strauss í þungan Wagners-stíl. Næstu árin starfaði Strauss sem hljómsveitarstjóri í München og í Weimar. Á síðarnefnda staðnum uppfærði hann verk eftir Wagnar, svo sem "Tannhäuser", "Lohengrin" og "Tristan og Ísoldi". Árið 1894 kvæntist hann söngkonunni Pauline, sem sungið hafði í verkum undir hans stjórn. Eftir það starfaði Strauss sem hljómsveitarstjóri í Berlin og Vín, en uppfærði einnig ýmis verk annars staðar. Allan þann tíma samdi hann óperur og ýmis önnur tónverk. Árið 1933 féll Strauss í ónáð hjá nasistum og var neyddur til að hætta tónlistarstörfum. En það breyttist skjótt. Hitler fannst mikið til Strauss koma og fól honum að semja tónverk fyrir upphafshátíð Ólympíuleikanna í Berlín 1936. Hitler lét setja Strauss á lista yfir mestu listamenn þriðja ríkisins og taldi hann vera meðal þriggja helstu tónlistarmanna ríkisins. Sem slíkur þurfti Strauss ekki að þjóna í hernum. Richard Strauss lést 1949 heima hjá sér í Garmisch-Partenkirchen og var lagður til hvíldar í þeim bæ. Tónlist. Strauss samdi alls 15 óperur. Þeirra helstu voru "Salóme" (1905) og "Elektra" (1909), sem nutu mikilla vinsælda. Fyrir þær öðlaðist hann heimsfrægð. Af öðrum óperum Strauss má nefna "Aríadne á Naxos", "Helenu hina egypsku", "Arabellu", "Daphne" og "Capriccio". Strauss samdi níu kórverk en í mörgum þeirra var textinn eftir þekkt skáld. Auk þess samdi Strauss 16 symfóníur, tónverk við leikrit (s.s. "Don Kíkóti", "Macbeth" og "Don Juan") og ýmsa aðra tónlist. Heimildir. Richard Strauss Sigurður Guðmundsson (vígslubiskup). Sigurður Guðmundsson (16. apríl 1920 – 9. janúar 2010) var lengi sóknarprestur á Grenjaðarstað í Aðaldal, og vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal frá 1981 til 1991. Æviferill. Sigurður fæddist á Naustum við Akureyri. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson (1888–1975) bóndi á Naustum og fyrri kona hans Steinunn Sigríður Sigurðardóttir (1883–1924). Stjúpmóðir Sigurðar var Herdís Samúelína Finnbogadóttir (1901–1944). Sigurður varð stúdent frá MA 1940, og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1944. Hann vígðist 18. júní sama ár sóknarprestur að Grenjaðarstað í Aðaldal, og gegndi því embætti til 1986. Var einnig prófastur Suður-Þingeyinga 1957–1958 og 1962–1986, þar af í sameinuðu Þingeyjarprófastsdæmi frá 1971. Hann var vígslubiskup á Hólum 1981–1991, fluttist að Hólum 1986 og var fyrstur biskupa til að sitja staðinn síðan 1798. Eftir að hann fór á eftirlaun var hann vígslubiskup á Hólum í forföllum 1999 og frá ársbyrjun 2002 fram á mitt ár 2003, og í Skálholti sumarið 1993. Hann gegndi embætti biskups Íslands í forföllum 1987–1988 og vígði þá 13 presta. Hann sat því öll biskupsembætti íslensku þjóðkirkjunnar á ferli sínum. Sigurður rak bú á Grenjaðarstað 1944–1986, og unglingaskóla á sama stað flest árin 1944–1969. Hann var skólastjóri Héraðsskólans á Laugum í Reykjadal 1962–1963 og lengi stundakennari þar og við Húsmæðraskólann á Laugum. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Sumarbúða ÆSK við Vestmannsvatn í Aðaldal og formaður stjórnar frá upphafi. Hann var bókavörður við Bókasafn Aðaldæla 1978–1986. Sigurður var ættfróður maður og áhugasamur bókasafnari. Ljóðabókasafn þeirra hjóna var með þeim stærstu hér á landi. Það var gefið Menntaskólanum á Akureyri 1996, og er varðveitt þar í sérstakri vinnustofu, "Ljóðhúsi MA". Árið 1991 fluttist Sigurður með konu sinni til Akureyrar og bjó þar til dauðadags. Kona Sigurðar (1944) var Aðalbjörg Halldórsdóttir (21. maí 1918 – 27. september 2005) frá Öngulsstöðum í Eyjafirði. Þau eignuðust 5 börn. Geirlaugur Magnússon. Geirlaugur Magnússon (25. ágúst 1944 – 16. september 2005) var íslenskt ljóðskáld. Hann var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og stundaði síðan nám í Varsjá í Póllandi og Aix-en-Provence í Frakklandi, þar sem hann lærði meðal annars bókmennta- og kvikmyndafræði. Hann var lengi kennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, auk þess sem hann fékkst við leiðsögustörf og bókaútgáfu. Týli Pétursson. Týli Pétursson (d. 1523) var hirðstjóri á Íslandi 1517-1520. Hann var frá Flensborg, var hálfgerður ævintýramaður eða jafnvel sjóræningi og virðist hafa verið mjög yfirgangssamur. Urðu róstur á Alþingi öll hirðstjóraár hans. Týli hafði verið kaupmaður í Flensborg og síðan fógeti í Bramstad en kom svo til Íslands með hirðstjóratign norðan og austan. Þegar á fyrsta alþingi sem hann sótti, 1517, eltu menn hans einn lögréttumanna, skutu hann til bana og lögðu hald á fé hans. Árið eftir var lögréttumaður einn barinn og settur í járn af mönnum Týla. Og 1519 varð ágreiningur milli Týla og Ögmundar Pálssonar biskupsefnis og voru þeir ósammála um mannbætur, því Ögmundur sagði að sér þætti að ekki ætti að gjalda jafnmikið fyrir víg erlendra ribbalda sem unnið hefðu sér til óhelgi og fyrir Íslendinga sem útlendingar hefðu drepið saklausa. Týla þótti mjög sneitt að sér og brást hann svo reiður við að hann skipaði mönnum sínum að taka til vopna og bjóst til að slá og stinga biskupsefnið. En Vigfús Erlendsson lögmaður gekk á milli. Týli þótti draga mjög taum Englendinga í deilum þeirra við landsmenn og hefur þess verið getið til að hann hafi átt að undirbúa að Englendingar tækju við landinu en um þessar mundir var Kristján 2. Danakonungur að reyna að selja eða veðsetja Hinrik 8. Ísland. Sumir telja að Týli hafi jafnvel leikið tveim skjöldum og verið á mála hjá Englendingum. Hirðstjóratíma Týla lauk 1520 og hafði hann hug á að fá hann framlengdan en hann var óvinsæll vegna yfirgangs og Vigfús Erlendsson, sem áður hafði verið hirðstjóri, sóttist einnig eftir embættinu. Þeir sigldu út á sama skipi en Vigfús dó erlendis og virðist þá hafa verið búinn að fá hirðstjóraembættið ef marka má klögunarbréf sem Týli skrifaði Kristjáni 2. 27. mars 1521. Þar segir hann meðal annars að Vigfús sé gamall og veikur („Fuzse Ellandtson er en gammell swghe mandt“) og má það til sanns vegar færa því Vigfús mun hafa dáið um það leyti. Týli fékk þó ekki hirðstjórn, heldur Hannes Eggertsson. Týli var á heimaslóðum í Flensborg næstu árin og fékkst við kaupskap. Kristján 2. flúði land 1523 og Friðrik 1. föðurbróðir hans varð konungur, en Kristján hafði áður sett Týla yfir Ísland og Færeyjar og sendi hann til Íslands. Fór Týli vorið 1523 með flokk manna, innlendra og erlendra, að Bessastöðum, þar sem Hannes hafði aðsetur, rændi og ruplaði, braut upp kirkju og kistur og flutti svo Hannes sjálfan nauðugan inn í Hólm (til Reykjavíkur) og hafði hann í haldi þar um tíma en sleppti honum síðan. Ögmundur biskup og Erlendur Þorvarðarson lögmaður skipuðu tylftardóm sem úrskurðaði 28. maí í Viðey að skipunarbréf Hannesar væri gilt og Týli skyldi skila fénu. Fáum dögum síðar, þann 1. júní, dæmdi tylftardómur nefndur af Erlendi lögmanni Týla óbótamann. Hannes fékk bæði Íslendinga og þýska kaupmenn í lið með sér og tóku þeir Týla og afhöfðuðu. Søren Andersen Norby. Søren Andersen Norby (d. 1530) var hirðstjóri á Íslandi á öðrum áratug 16. aldar og háttsettur flotaforingi sem fór í marga herleiðangra fyrir Kristján 2. Danakonung. Søren Norby var Norðmaður af háum stigum sem þjónaði í danska flotanum. Hann tók þátt í refsileiðöngrum gegn Vindum 1509 og 1511 og orrustu milli danskra og lýbskra herskipa við Borgundarhólm 1511. Hann fékk lén í Danmörku að launum fyrir frammistöðu sína og árið 1514 var hann gerður hirðstjóri á Íslandi; þó kann að vera að hann hafi orðið hirðstjóri fyrr og haft þá umboðsmenn fyrir sig. Hannes Eggertsson var líklega umboðsmaður hans, að minnsta kosti tengdist koma hans til landsins Norby. Hlutverk Norbys var að berja á Englendingum og átti hann að reisa virki til að verjast þeim, bæði í Vestmannaeyjum og á Bessastöðum. Hirðstjóraembættið hafði hann til 1517 en þá var hann gerður að yfirforingja danska flotans og um leið fékk hann Gotland að léni. Hann hélt Stokkhólmi í hafnbanni 1520, reyndi að bæla niður uppreisn Gústafs Vasa og rak Svía frá Álandseyjum og Finnlandi. Kristján 2. lét hann fá Finnland og Norrbotten að léni. Þegar saminn var friður við Svía 1524 eftir að Kristján 2. var rekinn úr landi og Friðrik 1. var orðinn Danakonungur áttu Danir að afhenda Svíum Gotland en Søren Norby vildi ekki fara þaðan og setti Friðrik konungur eyjuna þá í hafnbann. Norby sigldi þá til Blekinge, tók land og hélt til Skánar, þar sem bændur flykktust að honum og hann lét hylla sig sem fulltrúa Kristjáns 2. á þingi í Lundi. Hann beið þó lægri hlut í bardögum við her Friðriks 1. og varð að semja frið 28. júní 1525 og sleppa Gotlandi. Hann hélt þó einhverjum ítökum en tapaði loks sjóorrustu við danskar, sænskar og lýbskar flotadeildir við strönd Blekinge 24. ágúst 1526. Sjálfur slapp hann þó og hélt til Hollands til fundar við Kristján 2., sem þar var landflótta. Hann gekk síðar í þjónustu keisarans og féll í umsátri um Flórens árið 1530. Kúgun kvenna. a> sem var í ástarsambandi við John Stuart og átti vafalítið einhvern þátt í samningu bókarinnar "Kúgun kvenna". Kúgun kvenna er bók eftir breska heimspekinginn John Stuart Mill þar sem hann rökstuddi aukin réttindi kvenna út frá nytjastefnu. Bókin, sem er hugsanlega einnig skrifuð af Harriet Taylor Mill, kom út á frummálinu árið 1869. Strax ári seinna þýddi Georg Brandes bókina og kom hún út þá í Danmörku undir titlinum "Kvindernes Underkuelse". Bókin var þýdd á íslensku af Sigurði Jónassyni og gefin út af Hinu íslenska kvenfélagi árið 1900 og hafði mikil áhrif í kvenfrelsisbaráttu. Árið 1997 kom "Kúgun kvenna" út í flokki Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags og árið 2003 kom bókin út í 2. útgáfu. Kenýaskildingur. Kenýaskildingur er gjaldmiðillinn í Kenýu. Poul Huitfeldt. Poul Huitfeldt (um 1520 – 1592) eða Páll Hvítfeldur var danskur aðalsmaður sem var höfuðsmaður á Íslandi og síðar ríkisstjóri í Noregi. Hann var yngri bróðir Christoffers Huitfeldt, sem var hirðstjóri á Íslandi 1541 – 1542 og handtók Ögmund biskup. Poul var í þjónustu bróður síns í Noregi og var sendur til Íslands sem 1552 til að ganga frá ýmsum málum tengdum siðaskiptunum. Meðal annars var honum falið að koma á skólum á Hólum og í Skálholti, sem hann og gerði og gaf út reglugerð um starfsemi skólanna sama ár. Hann kom svo aftur til Íslands tvö næstu ár og var hér að minnsta kosti einn vetur. Heimkominn til Danmerkur fékk hann góð lén að launum fyrir vel unnin störf. Í Sjö ára stríðinu stýrði hann vörnum Halmstad og lenti þar í erfiðu umsátri Svía um bæinn. Eiríkur 14. Svíakonungur bauð honum 2200 dúkata fyrir að gefast upp en Huitfeldt sagðist ekki selja eiða og æru en gæti látið hann fá púður og blý. Bæjarbúar vörðust af hörku og Svíana þraut örendið, þeir hættu umsátrinu skömmu áður en Friðrik 2. Danakonungur kom á vettvang með her sinn. Huitfeldt varð frægur fyrir vörnina og naut mikillar hylli og 1572 var hann gerður að ríkisstjóra í Noregi. Þar lét hann mjög til sín taka, bætti stjórnarhætti mjög og lét meðal annars gera jarðabók. Hann sagði af sér embætti 1577 vegna heilsubrests. Snara (stærðfræði). Snara er hugtak í netafræði sem á við legg sem tengir hnút í sjálfan sig. Snörur fyrirfinnast ekki i einföldum netum. Snara. a>" í netafræði, þar sem hnútur 1 hefur snöru. Þjóðbúningur. Þjóðbúningur er fatnaður sem er einkennandi fyrir ákveðna þjóð, þjóðarbrot eða menningu. Á Vesturlöndum eru þjóðbúningar yfirleitt hefðbundinn fatnaður sem fólk klæddist áður fyrr, á hátíðisdögum eða hversdags, en er nú fyrst og fremst notaður á þjóðhátíðum og við ýmis önnur hátíðleg tækifæri, einkum þau sem tengjast sögu og þjóðlegri menningu á einhvern hátt. Í flestum Evrópulöndum er þjóðbúningurinn gamall sparifatnaður bændafólks og tengist upptaka hans rómantískri þjóðernisstefnu. Sumstaðar er um eiginlegan þjóðbúning að ræða, en í ýmsum löndum hefur hvert hérað eða landsvæði sinn sérstaka búning. Einnig eru dæmi um að hefðbundinn hversdagsfatnaður verði ígildi þjóðbúnings, svo sem þýskar "lederhosen" og baskahúfur. Í mörgum löndum utan Vesturlanda er þjóðbúningurinn hverdagsfatnaður, þau föt sem fólk klæðist á hverjum degi, og til eru lönd þar sem það er bundið í lög að fólk klæðist þjóðbúningi, til dæmis í Bútan. Hvítlaukur. Hvítlaukur (knapplaukur eða geirlaukur) (fræðiheiti: "Allium sativum") er lauktegund. Hann er skyldur lauk, skalottlauk, blaðlauk og graslauk. Hvítlaukur er mikið notaður í eldamennsku og lyfjaframleiðslu. Hvítlaukur hefur einkennandi sterkt bragð og lykt en bragðið verður mildara og sætara þegar hann er eldaður. Hvítlaukur skiptist oftast í nokkra geira (eða rif), sem hver um sig er umlukinn hýði og svo er hvítt eða rauðleitt, þunnt, pappírskennt hýði utan um alla geirana, sem saman mynda hnýði. Geirarnir eru mismargir eftir afbrigðum og einnig er til hvítlauksafbrigði, upprunnið í héraðinu Júnnan í Kína,sem ekki skiptist í geira. Bæði ytra hýðið og hýðið utan um hvern geira er fjarlægt áður en laukurinn er borðaður. Hvítlaukur fjölgar sér yfirleitt með kynlausri æxlun og vex þá nýr hvítlaukur af hverjum geira um sig. Hvítlaukur er hafður til neyslu, hrár eða eldaður, og einnig notaður í lyfjagerð. Blöðin eru löng og minna á blaðlauk. Þau má til dæmis nota í salöt og einnig blómin og stilkana en best er þó að taka þau áður en jurtin er fullvaxin, þegar þau eru enn mjúk. Einfalt er að rækta hvítlauk og hann vex allt árið um kring í mildu loftslagi. Í köldu loftslagi þarf að gróðursetja geirann sex vikum áður en jarðvegurinn frýs til að fá uppskeru næsta sumar. Laukurinn hefur verið ræktaður utanhúss á Íslandi en til þess er þó best að hafa sérstaklega harðgerð kvæmi. Fáir skaðvaldar ráðast á hvítlauka, en til eru nokkrir sjúkdómar sem geta haft áhrif á þá. Saga. Uppruni ræktaða hvítlauksins er ekki ljós, en líklega er hann kominn af villta lauknum "Allium longicuspis" sem vex í Mið- og Suðvestur-Asíu. Í þeim heimshlutum þar sem hvítlaukur er orðinn ílendur vex hann víða villtur. Ýmsar tegundir sem kallaðar eru villtur hvítlaukur eru þó ekki eiginlegur hvítlaukur, heldur náskyldar tegundir. Saga nýtingar. Hvítlaukur hefur verið notaður bæði til matargerðar og sem læknislyf í mörgum menningarsamfélögum árþúsundum saman. Hann var notaður í Egyptalandi þegar pýramídarnir í Gísa voru í byggingu. Talað er um hvítlauk í Biblíunni og í fornum ritum Grikkja, Babylóníumanna, Rómverja og Egypta. Hvítlaukur var notaður til lækninga af Hippókratesi og Aristótelesi. Ræktun. Hvítlaukur er ræktaður um allan heim en Kína er langstærsti framleiðandi hvítlauks í heiminum. Hvítlauksræktun í Bandaríkjunum er einna mest í kringum bæinn Gilroy í Kaliforníu sem segist vera „hvítlaukshöfuðborg heimsins“. Eldamennska. Hvítlaukur er notaður víða um heim og er þekktur fyrir sterkt og stingandi bragð sitt. Hann er notaður sem krydd og til að bragðbæta margs konar rétti, kjöt, fisk, grænmeti, baunir, sósur, salöt og margt annað. Hvítlaukur er grundvallarhráefni í mörgum eða flestum réttum frá sumum heimshlutum, til dæmis í Austur-Asíu, Suður-Asíu, Suðaustur-Asíu, Austurlöndum nær, Norður-Afríku, Suður-Evrópu og hlutum af Suður- og Mið-Ameríku. Bragðið og ilmurinn geta verið breytileg eftir eldunaraðferðum. Hann er oft notaður með lauk, tómötum eða engiferi. Efsti hluti hvítlauksins er stundum skorinn af og ólífuolía sett á geirana sem eru síðan bakaðir í ofni. Við það mýkist hvítlaukurinn og hægt er að pressa hann úr innra hýðinu. Í Kóreu er hvítlaukur látinn gerjast við hátt hitastig. Þessi hvítlaukstegund nefnist svartur hvítlaukur og fæst í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu. Svartur hvítlaukur er sætur og klístraður. Hvítlauk er oft smurt eða stráð á brauð til þess að búa til rétti eins og hvítlauksbrauð, bruschetta, crostini og snittur. Olía er oft bragðbætt með hvítlauk og síðan notuð út á grænmeti, kjöt, brauð og pasta. Geymsla. Á heimilum er best að geyma hvítlaukur við stofuhita (yfir 18° C) á þurrum stað svo hann spíri ekki. Hann er oft hengdur upp í knippum sem heita "grappe" á frönsku eða hafður í leirkrukku með götum. Einnig má flysja hvítlauksgeirana og geyma þá í olíu og þá er hægt að nota olíuna til bragðbætis. Þó þarf að hafa aðgát því að banvæna bakterían "Clostridium botulinum" getur vaxið í olíunni ef hvítlaukurinn hefur ekki verið þrifinn nægilega svo að jarðvegur hefur fylgt með. Það að setja olíuna í ísskáp kemur ekki í veg fyrir vöxt þessara baktería. Afhýddir hvítlauksgeirar geymast líka í ísskáp í víni eða ediki. Lyfjaframleiðsla. Rannsóknir sýna að hvítlaukur er bakteríudrepandi, veirudrepandi og sveppadrepandi. Hins vegar er á huldu hvort þessi áhrif koma fram í mannslíkamanum. Því hefur verið haldið fram að hann geti komið í veg fyrir hjartasjúkdóma (með því að lækka blóðþrýsting og þynna blóðið) og krabbamein. Rannsóknir á dýrum og mönnum benda til gagnlegra áhrifa hvítlauks á blóðrásarkerfið. Aukaverkanir. Neysla á hvítlauk getur orsakað andremmu og framkallað hvítlaukslykt af svita vegna efnisins allylmetýlsúlfíð (AMS). AMS er lofttegund sem uppsogast í blóðið á meðan efnaskiptaferlill hvítlauks stendur yfir og fer úr blóðinu til lungnanna (og frá þeim til munnsins sem orsakar andremmu) og húðarinnar sem losar sig við hana út um svitaholurnar. Losna má við lyktina með sápuþvotti. Margir drekka mjólk með hvítlauknum til að draga úr andremmu og virðist það bera sæmilegan árangur. Einnig er sagt að steinselja og fleiri kryddjurtir dragi úr andremmu. Hebe Camargo. Hebe Maria Camargo (8. mars 1929 í Taubaté í Brasilíu - 29. september 2012) var brasilísk söng- og leikkona. Camargo, Hebe Jón Guttormsson skráveifa. Jón Guttormsson skráveifa (d. 8. júlí 1362) var íslenskur lögmaður og hirðstjóri á 14. öld, þekktur óróa- og ofstopamaður og hefur fengið á sig mjög slæmt orð í Íslandssögunni. Ekkert er vitað um ætt og uppruna Jóns en hann var bróðir Unu, konu Ketils Þorlákssonar hirðstjóra og riddara á Kolbeinsstöðum. Árið 1348 var hann dæmdur á náð konungs fyrir einhvern gjörning og sigldi á konungsfund það ár. Ekki er vitað hvenær hann kom aftur. Haustið 1357 sigldi hann út ásamt fleiri höfðingjum en komst ekki lengra en til Hjaltlands og var þar um veturinn. Þar gerði hann eitthvað af sér svo að hann var aftur dæmdur á konungsnáð. Hann kom þó til Íslands sumarið 1358 og höfðu þeir Þorsteinn Eyjólfsson, Andrés Gíslason og Árni Þórðarson þá fengið saman hirðstjórn á landinu til þriggja ára. Er til þess tekið í annálum hve landið var þá skattpínt. Jón mun hafa fengið Norðurland í sinn hlut og sumarið 1360 höfðu Norðlendingar fengið nóg af honum, riðu á móti honum 300, mættu honum við Þverá í Vesturhópi og stökktu honum úr fjórðungnum. Jón varð þó lögmaður 1361 er hirðstjóratíð hans lauk og mun þar hafa notið stuðnings Smiðs Andréssonar, sem varð hirðstjóri það ár. Sumarið 1362 riðu þeir Smiður saman norður í Eyjafjörð ásamt Ormi Snorrasyni. Þann 8. júlí voru þeir á Grund í Eyjafirði og þar var gerð aðför að þeim; er sagt að húsfreyjan, Grundar-Helga, hafi átt stóran þátt í því. Í Grundarbardaga féllu Smiður og Jón og er sagt að Jón hafi verið laminn til bana með járnreknum kylfum en í vísum sem ortar voru um bardagann segir að hann hafi fundist fastur í kamarauga sem hann hafði verið að reyna að flýja út um og verið dreginn þaðan og höggvinn. Veggjatítla. Veggjatítla (eða veggjatrítla) (fræðiheiti: "Anobium punctatum") er bjalla af títlubjallnaætt. Veggjatítlan étur trjávið og er mikill skaðvaldur í húsgögnum og innviði timburhúsa. Ekki má rugla veggjatítlunni við veggjalús. Lirfa veggjatítlunnar nagar sig inn í viðinn og lifir þar og eyðileggur hann smámsaman. Úr holum veggjatítlurmar kemur örfínt sag sem getur verið heilsuspillandi. Lirfan púpar sig inn í viðnum og þegar þær koma úr púpunni skríða þær úr viðnum og fljúga út til að para sig. Hjaltalín (hljómsveit). Hjaltalín er íslensk hljómsveit sem hefur gefið út tvær breiðskífur, "Sleepdrunk Seasons" árið 2007, "Terminal" árið 2009 og "Enter 4" árið 2012. Platan Terminal var valin poppplata ársins 2009 á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hljómsveitin var stofnuð í Menntaskólanum í Hamrahlíð, haustið 2004, í tengslum við lagakeppni MH, "Óðrík algaula". Tveimur árum síðar var hljómsveitin í dægurmálaþættinum Kastljósi, sem rokk-kvartett með fjórum klassískum hljóðfærum. Næsti stóri viðburður sveitarinnar var Icelandic Airwaves 2006 og hafði þá söngkonan "Sigríður Thorlasius" gengið til liðs við hljómsveitina. Háseti. Orðsifjar. Hér kemur forliðurinn "há-" af nafnorðinu "hár" (‚róðrarþollur‘, ‚keipur‘) og nafnorðið ‚seti‘ er dregið af sögninni "að sitja" — orðið vísar því til þess er „situr við keipinn“ eða einfaldlega þess sem rær. Dvergastigi. Dvergastigi (fræðiheiti: "polemonium reptans") er dulfrævingur sem á rætur sínar að rekja til austurhluta Norður-Ameríku. Fulltengt net. Fulltengt net kallast einfalt net í netafræði þar sem allir hnútar eru tengdir saman með legg. Fulltengt net með formula_1 hnútum er táknað með formula_2 og hefur formula_1 hnúta og leggi (þar sem formula_5 er tvíliðustuðullinn). Ingibjörg Jónsdóttir (myndlistarmaður). Ingibjörg Jónsdóttir (fædd í Reykjavík 18. apríl 1959) er íslenskur myndlistamaður. Ingibjörg útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn og Mexíkó og lærði þar vefnað og skúlptúr. Hún hefur haldið einkasýningar og átt verk á sýningum hér heima, í Evrópu og Bandaríkjunum. Verk og innsetningar Ingibjargar vísa til hugmynda manna og upplifunar af tíma og rými, en sækja efni og aðferðir í heim vefnaðar. Ingibjörg hefur skýrt starf sitt sem tilraunir, rannsóknir og könnunarleiðangra í fellingar tímans og að einn aðaltilgangurinn sé sá að fá vefinn til að hljóma í samtímanum. Dæmi um innsetningar hennar er verkið „Samsíða heimar“, tilbrigði við kenningar eðlisfræðinnar um strengjafræði. Innsetningin er byggð upp af 27.000 vefnaðarspólum, sumum þökktum þráðum sem draga í sig ljós og gefa frá sér í myrkri og öðrum sem endurvarpa ljósi við beina geislun. Verkið er síbreytilegt eftir birtunni sem umlykur það hverju sinni og hefur því margar birtingarmyndir. Gioachino Greco. Gioachino Greco var ítalskur skákmaður og rithöfundur. Nokkrar af fyrstu skráðu skákunum eru tefldar af Greco en þær eru alls 77 talsins. Skákirnar hans voru allar á móti ótilgreindum einstaklingum (NN) og mögulegt er að þær séu dæmi Grecos um byrjanaafglöp. Mikhail Botvinnik leit á Greco sem fyrsta atvinnumanninn í skák. Greco vörn er skákbyrjun sem nefnd er eftir Greco. Saga. Greco var mikill skáksnillingur sem var uppi á milli Ruy López de Segura og François Philidor. Hann skrifaði einskonar „handbók“ sem innihélt margskonar gildur og mátmynstur. Þar sem Greco var uppi á tímum „ítalsk- rómantíska stílsins“, tefldi hann og rannsakaði giuoco piano (1 e4 e5 2 Rf3 Rc6 3 Bc4) og gaf út rannsóknir sínar í formi stuttra skáka í kringum árið 1625. Árið 1665, nokkru eftir dauða hans, voru handritin gefin út í London. Litið er á þessar skákir Grecos sem sígildar skákbókmenntir og eru þær enn þann dag í dag kenndar mörgum byrjendum. Segja mætti að Greco hafi opnað dyr fyrir nokkra af árásagjörnustu skákmönnum rómantíska tímabilsins og meðal þeirra eru: Adolf Anderssen, Paul Morphy og áðurnefndur François Philidor. Tilvísanir. Greco, Gioacchino Bótólfur Andrésson. Bótólfur Andrésson var hirðstjóri á Íslandi 1341-1343. Hann er talinn hafa verið norskur en þó er það ekki fullvíst. Hann var að öllum líkindum bróðir Smiðs Andréssonar hirðstjóra. Bótólfur kom til Íslands 1341 og hafði þá fengið hirðstjórn yfir allt landið. Ári síðar giftist hann Steinunni, dóttur Hrafns (Rafns) Jónssonar í Glaumbæ (Glaumbæjar-Hrafns), sonarsonar Hrafns Oddssonar. Sonur þeirra var Hrafn Bótólfsson lögmaður. Ekkert er vitað meira um Bótólf eftir að hann lét af embætti 1343. Ívar Vigfússon hólmur. Ívar Vigfússon hólmur eða Ívar Vigfúson Hólm (d. 1371) var hirðstjóri á Íslandi á 14. öld og bjó á Bessastöðum. Ekkert er öruggt um ætt Ívars hólms þótt ýmsar tilgátur hafi komið fram en hann mun þó hafa verið íslenskur. Hann kom til landsins 1354 og hafði þá verið skipaður hirðstjóri yfir öllu landinu til þriggja ára. Hann sigldi út 1359 á skipi sem hann hafði sjálfur látið smíða og kom aftur 1361. 17. júní 1361 var honum falið að safna öllum páfatekjum af Íslandi og öðrum skattlöndum Noregs og er sagt frá því í annálum að 1365 hafi hann komið í Skálholt með páfabréf sem þar voru lesin upp. Kona Ívars var norsk, Margrét Özurardóttir, og sonur þeirra var Vigfús Ívarsson, sem lengi var hirðstjóri. Franz Beckenbauer. Franz Beckenbauer (11. september 1945 í München) er þýskur knattspyrnumaður, forseti Bayern München til margra ára og einn af forsetum þýska knattspyrnusambandsins. Sem leikmaður var hann kallaður Keisarinn ("Der Kaiser") og var meðal virtustu knattspurnumanna heims. Beckenbauer er einn fárra manna í heiminum sem hefur orðið heimsmeistari bæði sem leikmaður (1974) og sem þjálfari (1990). Leikmaður. Beckenbauer á HM í Þýskalandi 1974 Franz Anton Beckenbauer byrjaði snemma að æfa og leika með félaginu SC 1906 München. Þegar hann var 13 ára ráðgerði hann að skipta yfir í 1860 München, sem þá var aðalknattspyrnufélagið í borginni. En þegar hann lék eitt sinn á móti félaginu, lenti hann saman við einn leikmanna 1860 München, sem gaf honum einn utanundir. Beckenbauer sármóðgaðist við það og gekk þess í stað í raðir Bayern München. Með því félagi lék hann unglingsárin sín og fékk í fyrsta sinn að leika með aðalliðinu 1964 (sem þá lék í 2. deild) gegn FC St. Pauli frá Hamborg. Leikurinn endaði 4-0 fyrir bæjara og skoraði Beckenbauer eitt markanna. Sama ár lék hann sinn fyrsta unglingalandsleik. Beckenbauer lék með Bayern München allar götur til 1977 og var yfirleitt miðjumaður. Á þeim tíma varð hann fjórum sinnum þýskur meistari, en það var jafnframt í fyrsta sinn sem Bayern München varð meistari síðan 1932. 1965 lék Beckenbauer sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi (1-1), er hann kom inná sem varamaður fyrir Günter Netzer. Með landsliðinu tók hann þátt í nokkrum stórmótum. Hápunkturinn á ferlinum var án efa 1974, en þá varð hann heimsmeistari í HM í Þýskalandi. Úrslitaleikurinn gegn Hollandi vannst 2-1. Beckenbauer lék þá ekki lengur sem miðjumaður, heldur hreyfanlegur varnarmaður ("Libero"). Alls lék Beckenbauer 103 landsleiki og skoraði í þeim 14 mörk. 1977 flutti Beckenbauer til Bandaríkjanna og lék með New York Cosmos. Þetta batt enda á leikferil hans með landsliðinu, en á þeim tíma var hann leikjahæsti knattspyrnumaður Þýskalands í landsliðinu. Með endurkomu í þýska fótboltann lék Beckenbauer með HSV í Hamborg (1980-82). Með því liði varð hann þýskur meistari í fimmta sinn. Leikferilinn endaði hann svo með New York Cosmos 1983 og lagði svo skóna á hilluna. Þjálfari. Ári eftir að Beckenbauer lagði skóna á hilluna tók hann að sér að þjálfa þýska landsliðið. Fyrsti leikurinn (gegn Argentínu) tapaðist 1:3 og var það í fyrsta sinn sem nýr þjálfari landsliðsins tapar sínum fyrsta leik. Eftir sem áður náði Beckenbauer góðum árangri með liðið. Á HM 1986 í Mexíkó komst liðið í úrslit, en töpuðu þar fyrir Argentínu 2-3. Á HM 1990 komst liðið aftur í úrslit og náði að þessu sinni að sigra Holland 2-1. Þar með varð Beckenbauer annar knattspyrnumaður heims að verða heimsmeistari bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Áður hafði Mario Zagallo náð þessu afreki með landsliði Brasilíu. Hafa ber í huga að Beckenbauer hefur aldrei tekið þjálfarapróf og var strangt til tekið ekki með starfsheitið ‘"þjálfari"’. En eftir að liðið varð heimsmeistari léði þýska knattspyrnusambandið honum heiðursþjálfaratitil. Eftir keppnina hætti Beckenbauer með þýska landsliðið og fór til Frakklands. Þar þjálfaði hann Olympique Marseille í eitt keppnistímabil. Með því liði náði hann að komast í úrslitaleik Evrópukeppninnar, en tapaði fyrir Rauðu stjörnunni frá Belgrad í vítaspyrnukeppni. Knattspyrnufrömuður. 1991 varð Beckenbauer varaforseti Bayern München og aðalforseti 1994. Þetta embætti hélt hann til 2009, er hann settist í helgan stein. Tvisvar á þessum árum tók hann við þjálfarastöðu Bayern München eftir að þjálfari liðsins hafði verið rekinn. Í fyrra sinnið tók hann við af Erich Ribbeck 1994 og náði þá að verða þýskur meistari í fyrsta og eina sinn sem þjálfari. Í seinna sinn tók hann við af Otto Rehhagel 1996. Samfara starfi sínu fyrir Bayern München hefur Beckenbauer einnig verið varaforseti þýska knattspyrnusambandsins. Árið 2006 var Beckenbauer formaður knattspyrnunefndarinnar sem sótti um HM í Þýskalandi 2006. Þegar Þýskaland varð fyrir valinu, varð Beckenbauer auk þess formaður skipulagsnefndarinnar. Árið 2007 tilkynnti Beckenbauer að hann myndi bjóða sig fram sem forseti UEFA, en hætti við á síðustu stundu, þar sem hann vildi ekki bjóða sig fram gegn Svíanum Lennart Johannsson. Johannsson tapaði svo í formannsslagnum gegn Frakkanum Michel Platini. Franz Beckenbauer settist í helgan stein árið 2009 er Uli Hoeness tók við af honum sem forseti Bayern München. Heimildir. Beckenbauer, Franz Guðbjörg Matthíasdóttir. Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir (f. 14. mars 1952) er útgerðarkona í Vestmannaeyjum og athafnakona. Guðbjörg var gift Sigurði Einarssyni, útgerðar- og athafnamanni í Vestmannaeyjum, en hann lést langt um aldur fram 4. október árið 2000. Guðbjörg er einn helsti eigendi Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins. Guðbjörg var skattadrottning Íslands árið 2010. Guðbjörg er kennari að mennt og starfaði lengi við kennslu. Þegar Sigurður eiginmaður hennar lést skildi hann eftir sig Ísfélag Vestmannaeyja. Hann hafði einnig keypt hlutabréf í Tryggingamiðstöðinni árið 1996. Guðbjörg er núna einn helsti eigandi Ísfélagsins hf. Hún situr í stjórn Fram ehf ásamt syni sínum Sigurði, en það félag er stofnandi Kristins ehf., félags sem komst í fréttirnar þegar Guðbjörg seldi bréf sín í Glitni á síðastu dögum fyrir bankahrunið 2008. Greinarmerking (skák). Þegar skrifað er um skákir nota skákskýrendur greinamerkingar og þá helst spurningarmerki eða upphrópunarmerki til þess að gefa til kynna hvort leikur sé góður eða slæmur. Einnig eru mörg önnur merki sem gefa segja til um einhverja ákveðna eiginleika leiks. ?: Slæmur leikur. Gefur til kynna að leikurinn sem merkt er við sé slakur og hafi ekki átt að vera leikið. ??: Afleikur. Mjög slæmur leikur fær merkinguna ??. Dæmi um slíkan leik væri að missa af því að andstæðingurinn sé hótandi máti. !: Góður leikur. Á sama hátt og spurningarmerki gefur til kynna slæman leik, gefur upphrópunarmerkið til kynna góðan leik og þá sérstaklega þá sem erfitt er að finna eða koma á óvart. Upphrópunarmerki er oft notað ef aðeins einn ásættanlegur leikur er í stöðunni og honum er leikið. !!: Frábær leikur. Þessi greinarmerking er notuð sparlega og aðeins um þá leiki sem sýna fram á virkilega gott mat leikmannsinns á stöðunni. Dæmi um slíkt gæti verið hróks- eða drottningarfórn. !?: Athyglisverður leikur. Ekki er til nein ákveðin skilgreining fyrir þetta merki. Það er oft notað yfir athyglisverða leiki og undir þann hóp flokkast leikir sem koma skákskýrandanum spánskt fyrir sjónir, sjaldgæfa byrjunarleiki eða mjög árásargjarna leiki. Þetta merki er þó oft notað fyrir slæma leiki sem erfitt er að sigrast á. ?!: Vafasamur leikur. Þetta er gjarnan notað yfir leiki sem eru lítið rannsakaðir. Þetta þarf samt ekki að þýða að leikurinn sé alslæmur en þýðir þó yfirleitt að hann sé á „gráu svæði.“ Slakur leikur sem setur upp gildru gæti því fengið ?!. ∞: Óljós staða. Þetta merki gefur til kynna að óljóst er hvor aðilinn hefur beta tafl. /∞: Með „bætur“. Oft þegar taflmönnum er „fórnað“ er tekið fram hvort sá sem er undir í mannafla hafi fengið nóg spil fyrir fórnina. Merkið =/∞ á eftir peðsfórn þýðir að nóg spil er til þess að bæta upp fyrir peðið. : Jöfn staða. Þetta merki gefur til kynna að staðan sé jöfn eða mjög nálægt því. +/= (=/+): Örlítið betra tafl. Þetta merki gefur til kynna að hvítur (svartur) hefur örlítið betra tafl. +/− (−/+): Yfirburðir. Þetta merki gefur til kynna að hvítur (svartur) hefur betra tafl. +− (−+): Unnin staða. Þetta merki gefur til kynna að hvítur (svartur) hefur unnið tafl. ○: Pláss. Þetta merki segir til um hvort hvítur eða svartur hafi stjórn á fleiri reitum á borðinu. ↑: Frumkvæði. Þetta merki gefur til kynna að frumkvæði eða árás fylgi leiknum. ↑↑: Liðsskipan. Einnig skrifað "↻". Merkið gefur til kynna hvor hefur forskotið hvað liðsskipan varðar. ⇄: Gagnárás. Merkið segir til um að gagnárás sé í gangi/vændum. ∇: Varnarleið. Þetta merki segir til um hugsunina á bakvið leikinn þ.e.a.s. hverju leikurinn var að verjast. Δ: Hugmyndir. Þetta merki segir til um hvaða framtíðarleikjum merkti leikurinn standi fyrir. □: Eini leikurinn. Merkið segir til um að þetta sé eini leikurinn í stöðunni. Didius Julianus. Marcus Didius Severus Julianus (30. janúar 133 – 1. júní 193) var keisari Rómaveldis, 28. mars – 1. júní, á ári keisaranna fimm, 193. Pertinax, fyrirrennari Julianusar á keisarastóli, var myrtur í mars 193 af meðlimum úr lífvarðasveit sinni. Sagan segir að lífverðirnir hafi þá boðið upp keisaratitilinn og að Didius Julianus hafi boðið hæst. Lífverðirnir hylltu þá Julianus sem keisara en hann var þó ekki vinsæll á meðal almennings né á meðal öldungaráðsins. Þann 9. apríl 193 var Septimius Severus hylltur sem keisari af herdeildum í Pannoniu. Severus hélt þá strax til Rómar til að mæta Julianusi. Lífvarðasveit Julianusar var illa undir það búin að verja borgina, en auk þess höfðu lífverðirnir áttað sig á því að Julianus gat ekki staðið við loforð um launahækkanir til þeirra. Eftir því sem Severus og her hans nálgaðist borgina, fór Julianus því smám saman að missa stuðning lífvarðasveitarinnar. Severus átti einnig bandamenn inni í borginni og þeim tókst að fá öldungaráðið til þess að lýsa Severus keisara og Julianus sem óvin ríkisins. Julianus var dæmdur til dauða og tekinn af lífi eftir aðeins 66 daga valdatíð. Árni Þórðarson hirðstjóri. Árni Þórðarson (1315 – 18. júní 1361) var íslenskur hirðstjóri á 14. öld og var líflátinn vegna þess að hann hafði sjálfur látið taka heila fjölskyldu af lífi. Ætt Árna er mjög óviss en faðir hans hefur stundum verið talinn Þórður Kolbeinsson bóndi í Haukadal (d. 4. apríl 1331), sem aftur hefur ýmist verið talinn sonur Kolbeins sonar Þórðar kakala eða sonur Kolbeins Bjarnasonar Auðkýlings, riddara á Auðkúlu. Kona hans er ekki þekkt heldur en dóttir hans var Ingileif, kona Jóns Hákonarsonar bónda í Víðidalstungu. Árni sigldi til Noregs 1356 ásamt Jóni skráveifu og Þorsteini Eyjólfssyni og fengu þeir, ásamt Andrési Gíslasyni, sem siglt hafði út árinu áður, sameiginlega hirðstjórn yfir landinu til þriggja ára. Þeir sigldu heimleiðis sumarið 1357 en skipin sem þeir voru á hröktust til Hjaltlands og þurftu þeir að hafa þar vetursetu. Þeir komu því ekki heim fyrr en sumarið 1358 og tóku þá við hirðstjórn. Árni og Andrés höfðu Sunnlendinga- og Austfirðingafjórðung saman. Árið 1360 gerðist það að maður að nafni Markús barkaður fór að manni sem Ormur hét og bjó á Krossi í Austur-Landeyjum og veitti honum mikla áverka. Var kona Markúsar og tveir synir með í för. Þessi atburður kallast Krossreið hin fyrri. Voru þau öll dæmd til dauða og lét Árni hirðstjóri höggva þau í Lambey sama ár. Árni lenti líka í deilum við Jón skráveifu og börðust menn þeirra á Alþingi þetta sumar. Þegar Smiður Andrésson tók við hirðstjórn fór í fyrstu vel á með þeim Árna en það breyttist fljótt og hefur þess verið getið til að Jón skráveifa hafi þar átt hlut að máli. Í júnímánuði 1361 tók Smiður Árna höndum og lét aflífa hann í Lambey fyrir aftöku Markúsar og fjölskyldu hans. Theatiner-kirkjan í München. Theatiner-kirkjan er reist í barokkstíl Theatiner-kirkjan í München var reist á 17. öld og er fyrsta kirkjan norðan Alpa sem reist var í ítölskum barokk-stíl. Heitið. Formlega heitir kirkjan "Stiftskirche St. Kajetan", en hún er þó ávallt kölluð Theatiner-kirkjan ("Theatinerkirche"). Theatiner var heiti á kaþólskri munkareglu á þessum tíma. Auk þess stendur kirkjan við Theatinerstrasse. Háaltarið er umvafið miklum skreytingum Saga kirkjunnar. Árið 1659 gerði Henrietta Aðalheiður frá Savoy, eiginkona kjörfurstans Ferdinands, heit um að reisa hina fegurstu og dýrustu kirkju ef hún eignaðist heilbrigðan erfingja í karllegg. Kirkjan yrði þá gefin munkum af Theatiner-reglunni. Þremur árum síðar eignaðist hún prinsinn Maximilian Emanúel og voru þá gerðar áætlanir um smíði kirkjunnar. Byggingameistarinn var sóttur til Ítalíu, enda átti kirkjan að vera reist í ítölskum barokkstíl. Hornsteinninn var lagður 1663 og var kirkjan Sant’ Andrea della Valle í Róm fyrirmyndin. Kirkjan var vígð 1675, en var þó ekki fullkláruð. Miklar deilur spunnust um framhliðina og var frágangi hennar því skotið á frest. Henrietta sá því kirkjuna aldrei fullkláraða, því hún lést 1676. Turnarnir voru reistir 1684-92. Framhliðin þurfti að bíða í hartnær öld. Hún var ekki gerð fyrr en 1765 í rókókóstíl. Samfara kirkjunni var stórt klaustur reist fyrir Theatiner-regluna. Það myndaði ásamt kirkjunni stóran ferning. Hins vegar var klaustrið lagt niður 1801 af Maximilian I. konungi Bæjaralands. Kirkjan varð þá að hirðkirkju konungs og klaustrinu var breytt í ráðuneyti (fjármála, dómsmála og kirkjumála). Í loftárásum seinni heimstyrjaldar skemmdist kirkjan nokkuð og ráðuneytin talsvert. Kirkjan var lagfærð frá 1946-55. Viðgerðum á klaustrinu lauk ekki fyrr en 1973. Kirkjan er enn sem áður skreytt á margvíslegan hátt, bæði með vegg- og súlnaskrauti, sem og málverkum og öðrum listaverkum. Grafhvelfing. Theatiner-kirkjan er, ásamt Frúarkirkjunni, grafarkirkja hertoganna, kjörfurstanna og konunganna í München. Um 50 manneskjur hvíla í kirkjunni, þar á meðal Karl VII keisari þýska ríkisins. Andrés Gíslason. Andrés Gíslason úr Mörk (d. 1375) var íslenskur hirðstjóri á 14. öld. Hann var kenndur við bæinn Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og hefur líklega búið þar en ætt hans er með öllu ókunn. Andrés sigldi til Noregs 1355 og sigldi svo af stað til Íslands 1357 ásamt Jóni skráveifu, Þorsteini Eyjólfssyni og Árna Þórðarsyni en þeir höfðu fengið sameiginlega hirðstjórn yfir landinu til þriggja ára. Skipin sem þeir voru á hröktust til Hjaltlands og þurftu þeir að hafa þar vetursetu. Þeir komu því ekki heim fyrr en sumarið 1358 og tóku þá við hirðstjórn. Andrés og Árni fengu Sunnlendinga- og Austfirðingafjórðung saman. Andrés fékk aftur hirðstjórn 1366 ásamt Ormi Snorrasyni. Hann sigldi utan næsta ár og er ekki getið aftur fyrr en 1375; þá er sagt frá því að skip sem hann var á fórst í hafi með allri áhöfn. Kona Andrésar er óþekkt en synir hans munu hafa verið þeir Bjarni Andrésson ábóti í Viðeyjarklaustri, Þórarinn Andrésson prestur og officialis á Breiðabólstað í Fljótshlíð og Þorsteinn Andrésson prestur á Hallormsstað. Stundum hefur Gísli ríki Andrésson í Mörk verið talinn sonur Andrésar. Þorsteinn Eyjólfsson. Þorsteinn Eyjólfsson (d. 1402) var íslenskur höfðingi á 14. öld, lögmaður og hirðstjóri hvað eftir annað og einhver valdamesti maður landsins um langa hríð. Hann bjó á Víðimýri í Skagafirði og síðan á Urðum í Svarfaðardal. Þorsteinn er talinn sonur Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum og konu hans, Ólafar Björnsdóttur. Hans er fyrst getið árið 1356, þegar hann sigldi til Noregs ásamt Jóni skráveifu og Árna Þórðarsyni og fengu þeir, ásamt Andrési Gíslasyni, sem siglt hafði út árinu áður, sameiginlega hirðstjórn yfir landinu til þriggja ára. Þeir sigldu heimleiðis sumarið 1357 en skipin sem þeir voru á hröktust til Hjaltlands og þurftu þeir að hafa þar vetursetu. Þeir komu því ekki heim fyrr en sumarið 1358 og tóku þá við hirðstjórn. Þorsteinn og Jón skráveifa fengu Norðlendinga- og Vestfirðingafjórðung og mun Vestfirðingafjórðungur hafa komið í hlut Þorsteins. Árið 1362 sigldi Þorsteinn til Noregs ásamt Þorsteini Hallssyni presti á Hrafnagili, sem hafði verið helsti andstæðingur Jóns skalla Hólabiskups í deilum norðlenskra presta við biskup. Voru þeir handteknir þar og hnepptir í varðhald. Ekki er víst hvers vegna það var en kann að hafa tengst Grundarbardaga og drápi Smiðs Andréssonar hirðstjóra þar, eða deilum milli konunganna, Magnúsar Eiríkssonar smek og Hákonar sonar hans, en vinátta er sögð hafa verið með Þorsteini og Magnúsi og Magnús lét leysa Þorstein úr haldi 1363. Árið 1364 kom Þorsteinn aftur til landsins ásamt Ólafi Péturssyni; Þorsteinn var þá lögmaður og þeir virðast hafa gegnt hirðstjóraembættinu einnig þar til Andrés Gíslason og Ormur Snorrason komu til landsins 1366. Árið 1367 sigldi Þorsteinn aftur og fór þá að finna Magnús konung, sem sat í varðhaldi í Svíþjóð. Á heimleiðinni var hann hertekinn, 2. maí 1368, af lýbskum kaupmönnum og fluttur til Lübeck, þar sem hann sat í fangelsi til 29. júlí; „hann hét þá á Guð og helga menn sér til lausnar, og sagði ekki sitt rétta nafn“. Honum var svo sleppt en aftur var hann handtekinn þegar hann kom til Skánar, hafður í varðhaldi um tíma og að lokum fluttur til Noregs. Heim kom hann 1369 og hafði þá lögsögn yfir öllu landinu og aftur 1372-1380. Hann virðist hafa tekið við hirðstjórn af Andrési Sveinssyni þegar hann sigldi 1387 og haft hana þar til Eiríkur Guðmundsson kom út með hirðstjórn sama ár. Þegar Eiríkur var drepinn 1388 tók Þorsteinn enn við embættinu og gegndi því þar til Vigfús Ívarsson kom til landsins 1390. Hann varð þá aftur lögmaður og gegndi því embætti líklega til dauðadags en hann er talinn hafa dáið 1402. Erfðaskrá hans er til, gerð á þriðja í hvítasunnu 1386 á Hólum í Hjaltadal og kemur þar fram að hann var stórauðugur. Kona hans var Arnþrúður, dóttir Magnúsar Brandssonar á Svalbarði. Börn Þorsteins voru Ingibjörg kona Hrafns Bótólfssonar lögmanns, Eyjólfur stuttur bóndi á Urðum, Sumarliði og Arnfinnur riddari og hirðstjóri á Urðum. Nimzóindversk vörn. Nimzóinversk vörn er skákbyrjun, afbrigði indverskrar varnar, og hefst á leikjunum 1.d4 Rf6, 2.c4 e6, 3.Rc3 Bb4. Rubenstein afbrigðið, 4.e3. Algengasta leið hvíts til þess að takast á við Nimzóindverska vörn er Rubenstein afbrigðið sem nefnt er eftir Akiba Rubinstein. Svetozar Gligoric og Lajos Portisch áttu mikinn hlut að því að koma afbrigðinu inn á hæstu getustig skákarinnar. Hugmynd hvíts með afbrigðinu er sú að halda áfram með liðsskipan á sem sveigjanlegastan hátt svo hann þurfi ekki að halda sig við eina ákveðna áætlun. Svartur hefur þrjá helstu fjórðu leiki; 4...0-0, 4...c5 og 4...b6. Auk þess leikur svartur stundum 4...d5 eða 4...Rc6. 4...d5 línurnar verða oft að 4...0-0 línum en þó ekki alltaf því hvítur hefur þann möguleika að leika 5.a3 (gjarnan þekkt sem Botvinnik afbrigðið) þar sem svartur þarf annað hvort að koma biskupnum sínum í skjól með 5...Be7 eða skipta honum upp (5...Bxc3+) þar sem afbrigði Sämisch afbrigðis kemur upp og er löngu álitið gott fyrir hvítan þar sem hann nær alltaf að eyða veika peðinu sínu með cxd5. 4...Rc6 kallast Taimanov afbrigðið og er nefnt eftir Mark Taimanov. Svartur undirbýr þar...e5 sem gæti verið fylgt eftir með...d5 og...dxc4 eða...d6. Afbrigðið var nokkrum sinnum notað af Bobby Fischer á hans yngri árum auk þess sem stórmeistarinn Nukhim Rashkovsky hefur löngum haft Taimanov afbrigðið í vopnabúrinu sínu. Klassíska afbrigðið, 4.Dc2. Klassíska afbrigðið eða Capablanca afbrigðið var mjög vinsælt á upphafsskeiði Nimzóindversku varnarinnar en hlaut aftur vinsældir undir lok síðustu aldar og er nú um það bil jafn vinsælt og Rubenstein afbrigðið. Markmið hvíts er að ná biskupaparinu án þess að hætta peðastöðunni sinni. Helstu gallarnir við afbrigðið eru þó að hvíta drottningin þarf að hreyfast að minnsta kosti tvisvar í byrjuninni auk þess sem liðskipan hvíts kóngsmegin situr á hakanum. Svartur hefur þrjá helstu möguleika til þess að svara Capablanca afbrigðinu; 4...0-0, 4...c5 og 4...d5 auk nokkurra minni afbrigða. Kasparov afbrigðið, 4.Rf3. 4.Rf3 afbrigðið hefur verið þekkt sem Kasparov afbrigðið síðan Garry Kasparov beitti því með frábærum árangri gegn Anatoly Karpov í heimsmeistaraeinvígi þeirra árið 1985. Kasparov notaði afbrigðið sex sinnum í einvíginu og náði þremur vinningum og þremur jafnteflum. Nú er afbrigðið helsta val stórmeistarans Alexei Barsov auk fyrrverandi heimsmeistara kvenna Nona Gaprindashvili. Hvítur kemur riddaranum sínum fyrir á sínum náttúrulega reit, f3, og bíður til þess að sjá hverju svartur svarar. 4...d5 verður að Ragozin vörn í höfnuðu drottningarbragði og 4...b6 5.Bg5 Bb7 verður að Drottningarindverskri vörn með Nimzóindversku ívafi svo 4...c5 er helsta framhaldið sem telst sem Nimzóindversk vörn. Nú verður 5.e3 að Rubenstein afbrigðinu en helsti leikurinn er 5.g3 sem verður að stöðu sem kemur einnig upp í fianchetto afbrigðinu. Óhætt er að líta á 5.g3 cxd4 6.Rxd4 0-0 7.Bg2 d5 8.cxd5 Rxd5 sem aðallínu Kasparov afbrigðisins. Svörtum hefur nú tekist að leysa up miðborð hvíts en biskupinn á g2 setur pressu á drottningarvæng svarts og sú pressa getur verið aukin með Db3. Kasparov afbrigðið kemur gjarnan upp í Bógó-indverskri vörn eftir 1.d4 Rf6 2.c4 e6 3.Rf3 Bb4+ 4.Rc3. Leningrad afbrigðið, 4.Bg5. Leníngrad afbrigðið hlaut nafn sitt vegna þess að afbrigðið var aðallega þróað af skákmönnum frá Leníngrad svo sem Boris Spassky. Aðallínan er eftirfarandi: 4...h6 5.Bh4 c5 6.d5 d6 7.e3 Bxc3+ 8.bxc3 e5, þar sem svartur hefur náð upp miðborðshindrun ekki ólíkri þeirri sem kemur upp í Hübner afbrigðinu (1.d4 Rf6 2.c4 e6 3.Rc3 Bb4 4.e3 c5 5.Bd3 Rc6 6.Rf3 Bxc3 7.bxc3 d6) en munurinn er sá að svartreita biskup hvíts er utan við peðakeðjuna. Leppurinn á f6 kemur svörtum oft mjög illa og leikur hann oft hinum háværa...g7-g5 til þess að losa leppinn og koma einnig í veg fyrir útþenslu hvítu peðakeðjunnar á f4. Þessi leikur veikir svörtu kóngsstöðuna til muna svo hann á það til að hrókera ekki heldur labba með kónginn til d8 og þaðan á c7 reitinn. Athyglisverður sjötti leikur svarts er einnig 6...b5 sem naut nokkurra vinsælda skömmu eftir að Mikhail Tal gjörsigraði Spassky með leiknum í Tallinn, 1973. Kmoch afbrigðið, 4.f3. Þetta afbrigði hefur ekkert ákveðið nafn en er yfirleitt kallað 4.f3 afbrigðið. Það hefur einnig hlotið nöfnin Gheorghiu afbrigðið, nefnt af Gligoric sem tefldi það oft snemma á ferlinum og sigraði meira að segja Fischer með því, Shirov afbrigðið, eftir Alexei Shirov sem beitti því með ágætum árangri undir lok 20. aldar áður en hann tapaði þremur skákum í röð með afbrigðinu og notaði það ekki framar. Hugmyndin er sú að ná völdum á e4-reitnum strax í byrjun en því fylgir seinkun á liðsskipan. Helsta svar svarts er 4...d5 5.a3 Bxc3+ 6.bxc3 c5 7.cxd5 Rxd5, þegar upp kemur staða sem einnig fæst úr Sämisch afbrigðinu. Pressa svarts á c3 og d4 neyðir hvítan til að leika 8.dxc5 til þess að opna upp stöðuna fyrir biskupaparið. Hvítur mun fylgja eftir með e4 og svartur með...e5 til þess að varnast því að e- og f-peð hvíts nái völdum yfir of stórum hluta miðborðsins. Önnur leið fyrir svartan er að leika 4...c5 þar sem hvítur leikur 5.d5 til þess að halda miðborðspeðunum sínum saman og ná upp einskonar benoni stöðu. Þar eru helstu framhöldin 5...b5, 5...O-O, 5...Bxc3+ og 5...Rh5. 5.a3 Bxc3+ 6.bxc3 sem breytist í Sämisch afbrigðið hér að neðan. Sämisch afbrigðið, 4.a3. Sämisch afbrigðið er nefnt eftir Friedrich Sämisch sem notaði það að minnsta kosti tíu sinnum. Radjabov, Jobava, Ivan Sokolov og Kasparov hafa notað afbrigðið auk þess sem Viktor Moskalenko, Botvinnik, Edward Porper og Alexander Ipatov hafa notað það reglulega. Eftir 4.a3 drepur svartur nánast undantekningarlaust á c3 (4...Bxc3+) og hvítur tekur til baka með peðinu (5.bxc3). Þá hefur svartur nokkra möguleika en algengast er að leika 5...c5 eða 5...b6. Einnig er hægt að leika 5...0-0 þar sem 6.f3 er svarað með 6...d5 og kallast það "opinn sämisch" en 6.e3 c5 er "lokaður sämisch". Gerður Kristný. Gerður Kristný Guðjónsdóttir, oftast aðeins Gerður Kristný, (fædd í Reykjavík 10. júní 1970) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Gerður lauk B.A.-prófi í frönsku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1992 og stundaði einnig nám í hagnýtri fjölmiðlun 1992-1993. Hún var ritstjóri Mannlífs 1998 til 2004 en hefur síðan haft ritstörf að aðalatvinnu. Gerður Kristný hefur sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, barnabækur og fleira og hafa bækur hennar hlotið ýmsar viðurkenningar, þar á meðal Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna "Bátur með segli og allt", Bókaverðlaun barnanna 2003 fyrir söguna "Marta smarta", Blaðamannaverðlaun Íslands 2005 fyrir bókina "Myndin af pabba - Saga Thelmu", vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir barnabókina "Garðurinn" og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2010 fyrir ljóðabókina "Blóðhófnir". Í febrúar 2011 var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu barnaleikritið "Ballið á Bessastöðum", sem byggt er á bókum Gerðar Kristnýjar um prinsessuna og forsetann á Bessastöðum. Gerður Kristný er gift Kristjáni B. Jónassyni bókaútgefanda og rithöfundi. Ólafur Pétursson hirðstjóri. Ólafur Pétursson (d. 1410) var íslenskur hirðstjóri á 14. öld og bjó á Núpufelli í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Pétur Halldórsson lögmaður á Víðimýri í Skagafirði og kona hans Ingibjörg Svarthöfðadóttir. Ólafur fór með Þorsteini Eyjólfssyni til Noregs 1362 og var handtekinn með honum þar. Þeir komu saman heim 1364 og höfðu fengið hirðstjórn. Ólafur hefur þó varla verið hirðstjóri nema eitt ár því 1365 sigldi hann aftur. Annars er nær ekkert um hann vitað. Sonur hans var líklega Þorkell Ólafsson prestur og officialis í Reykholti. Þorgautur Jónsson. Þorgautur Jónsson (d. 1375) var hirðstjóri á Íslandi á 14. öld. Ekkert er vitað um ætt hans, fjölskyldu eða bústað. Árið 1370 kom Þorgautur til landsins með hirðstjórn og hafði hana til 1372 þegar Andrés Sveinsson tók við. Hann sigldi til Noregs 1373 en hefur verið kominn aftur árið eftir, því það ár „tók hann Einar dynt úr Þingeyrakirkju til fanga. Einar prófaðist síðan morðingi og var kviksettur.“ Þorgautur dó ári síðar. Sikileyjarvörn, Scheveningen afbrigði. Athugið að hægt er að leika 2...e6 og 5...d6 því þá kemur upp sama staða og sýnd er að ofan. Algengt er að fresta því að leika 5...e6 og leika 5...a6 í staðinn til þess að koma í veg fyrir Keres árás, sem nú er talin helsta vopnið gegn Scheveningen afbrigðinu. Saga. Scheveningen afbrigðið er eitt elsta afbrigði sikileyjarvarnar og var því fyrst leikið í Berlín 1881 í skákinni Chigorin - Paulsen. Þar er afbrigðinu leikið óvenjulega á þann hátt að...d6 er ekki leikið fyrr en í ellefta leik. Árið 1943 varð bylting í sögu Scheveningen afbrigðisins. Í skákinni Keres - Bogoljubov í Salzburg setti Keres fram nýtt afbrigði 6.g4. Árásin fékk nafnið Keres árás en hún naut ekki almennra vinsælda fyrr en 10 árum síðar. Nú til dags er litið á Keres árásina sem mótsvar Scheveningen afbrigðisins. Oft er sú leið valin að tefla Najdorf afbrigði en leika e6 í stað e5 og fá þannig Scheveningen stöðu. Hugmyndafræði. Það skiptir yfirleitt miklu meira máli að þekkja hugmyndirnar á bak við byrjanirnar í staðinn fyrir að kunna afbrigðin utanbókar. Eins og í flestum öðrum sikileyjarvörnum þá sækist svartur aðallega eftir gagnárás á drottningarhelming borðsins og þá sérstaklega c-línunni. Riddari hvíts á c3 er því yfirleitt byrjunarskotmark svarts því hann er fyrir c-peði hvíts og þess vegna er skiptamunsfórnin...Hxc3 algeng. Í rólegri afbrigðunum stefnir svartur að því að klára liðsskipan sína fljótt með leikjum eins og:...Be7...0-0, Dc7 og einhverskonar samsetningu af...a6...Bd7 og...Rc6. Peðastaða svarts. Þess ber hins vegar að geta að d6-peð svarts verður oft hentugt skotmark hvítu mannanna sem sækja upp eftir d-línunni. Keres árás (6.g4). Hvítur hefur nokkrar leiðir til árásar gegn Scheveningen afbrigðinu en helst þeirra er Keres árásin sem heitir eftir eistneska stórmeistaranum Paul Keres. Margir sem leika Scheveningen afbrigði breyta um leikjaröð til þess eins að forðast Keres árásina enda hefur hún framúrskarandi vinningshlutfall. Upphaflega hugmyndin með afbrigðinu var að spara tíma en áður hafði verið leikið g3, f4, og svo g4. Þá var afbrigðið oft meðhöndlað á sama hátt og ef 6.g3 hefði verið leikið. Nú er markmið hvíts að leika g5 og hrekja þannig f6-riddarann burt til þess að losa um tök svarts á miðborðinu. vítur reynir að langhrókera sem fyrst og beitir hann svo h-, g- og f-peðum sínum gegn svarta kónginum eða fórnar þeim til þess að opna línur fyrir hrókana. Ef svartur leikur Scheveningen afbrigðinu eftir hefðbundinni leikjaröð er Keres árásin fyrsta val nánast allra sem þekkja til hennar og önnur afbrigði helst notuð til þess að koma andstæðingnum í opna skjöldu. Eftir 6.g4 er aðalafbrigðið 6...h6 en svartur hefur þó nokkra hliðarlínur til þess að velja úr. Þær eru: 6...a6, 6...Rc6, 6...Be7 þar sem næsti leikur hvíts er g5 til þess að hóta riddaranum. Afbrigðin 6...e5 og 6...d5?! hafa skotið upp kollinum öðru hverju en þau eru álitin vafasöm. Ensk árás (6.Be3/6.f3). Enska árásin hefur á síðustu áratugum orðið gríðarlega vinsælt vopn gegn sikileyjarvörn en hún finnst aðallega í Scheveningen afbrigðinu, Najdorf afbrigði þar sem hún kallast einnig ensk árás og í drekaafbrigðinu þar sem hún kallast Júgóslavísk árás. Enska árásin hefur nafn sitt frá ensku stórmeisturun John Nunn, Nigel Short og Murray Chandler sem voru fyrstir til að rannsaka og beita ensku árásinni gegn öðrum afbrigðum en drekanum. Nú til dags er enska árásin algengasta vopnið gegn drekaafbrigðinu, Najdorf afbrigðinu og mjög ofarlega á lista gegn Scheveningen. Hugmynd hvíts er að skipa mönnunum sínum á eftirfarandi hátt: Be3, f3, Dd2, 0-0-0, g4 og svo heldur árásin áfram með sókn peðanna á kóngsvæng. Þannig er algengasta framhaldið 6...a6 7.f3 en einnig er hægt að leika 7.Be2 og fá þannig upp Klassíska afbrigðið eða leika 7.g4 þar sem staðan verður mjög flókin eftir 7...e5 8.Rf5 g6 8.g5 gxf6 9.exf5 en níundi leikur hvíts kom ekki fram á sjónarsviði fyrr en árið 1978 í skákinni Perenyi - Mokry og hlaut níundi leikur hvíts þar með nafnið Perenyi gambítur Svartur hefur engan tíma til þess að verjast í rólegheitum og sækist því eftir gagnárás sem beinist að kóngi hvíts. Gagnárásin hefst yfirleitt á leikjunum...a6 og...b5 og í kjölfarið koma leikir eins og:...Bb7...Dc7...Hc8 og framrás a- og b-peðanna. Algengt er að leikmenn fórni peðum eða jafnvel mönnum eða skiptamun til þess að opna línur fyrir árásina. Sozin árás (6.Bc4). Þetta er álitin ein af árásarlínum hvíts gegn Scheveningen afbrigðinu. Eftir 6.Bc4 hefur svartur þann möguleika að leika 6...a6 og fá þannig sömu stöðu og kemur upp í Fischer-Sozin árás geng Najdorf afbrigðinu eða Velimirović árás gegn klassíska afbrigðinu. Matanovic árás (6.f4). Matanovic árás er einnig þekkt undir nafninu Tal afbrigðið sem kennt er við Mikhail Tal þrátt fyrir að hið raunverulega Tal afbrigði komi ekki upp fyrr en í áttunda leik Matanovic árásarinnar (6.f4 Rc6 7.Be3 Be7 8.Df3). Matanovic árásin heitir eftir serbneska stórmeistaranum Aleksandar Matanović. Matanović tefldi afbrigðið átta sinnum og afrekaði það að tapa aldrei með því en hins vegar gerði hann þrjú jafntefli. Afbrigðið er það fimmta vinsælasta gegn Scheveningen afbrigðinu og hefur það orðið fyrir vali merkra skákmanna eins og Ivanchuk, Alekseev, Kamsky og auðvitað Mikhail Tal sem Tal afbrigðið er kennt við. Þar sem hvítur hefur leikið f4 er erfitt fyrir hann að koma kóngnum í skjól kóngsmegin svo algengast er að hvítur hrókeri langt og stefni að peðasókn á kóngsvæng á meðan hrókurinn á d1 sér hvítum fyrir stöðugri pressu á miðborðinu. Svartur leikur yfirleitt 6...a6, 6...Be7 eða 6...Rc6. Afbrigðið getur orðið frekar tvíeggjað eins og sés í skákinni Mikhalchishin - Kasparov, Tbilisi, 1978 6.Bg5. Það er rökrétt að koma biskupnum fyrir á g5 þar sem hann leppar f6-riddarann og léttir þar með pressunni af miðborðinu. Nokkrir stórmeistarar hafa leikið afbrigðinu en meðal þeirra er Shirov. Gallinn við afbrigðið er að af báðir aðilar hrókera kóngsmegin þá er g5-biskupinn að einhverju leyti fyrir árás hvíts auk þess sem erfiðara reynist fyrir hvítan að leika f4 verður hann að fara mjög varlega þegar kemur að því. Svartur hefur það val að leika 6...a6 sem verður að gamla aðalafbrigði Najdorf afbrigðis, 6...Rc6 sem verður að Richter-Rauzer árásinni eða 6...Be7 sem er algengasta val svarts í stöðunni. Eftir 6...Be7 er algengasta framhaldið 7.Dd2 a6 8.0-0-0 þar sem svartur leikur...b5...Bb7...Dc7 og...0-0. Vitolins afbrigði (6.Bb5+). Þetta afbrigði kallast Vitolins afbrigði og er nefnt eftir lettneska stórmeistaranum Alvis Vitolinš. Vitolinš beitti afbrigðinu alls ellefu sinnum með árangrinum 50% (4 töp, 3 jafntefli og 4 sigrar). Velimirovic notaði afbrigðið einnig gegn Hulak í Sarajevo, 1984 og bar sigur úr bítum. Stórmeistarar hafa verið að velja annaðhvort 6...Bd7 og skipta þannig upp á hvítreita biskupunum eða 6...Rbd7 þar sem svartur hefur biskupaparið ef hvítur ákveður að skipta upp á d7. Listi yfir stórmeistara í skák. Listi yfir stórmeistara í skák er ritröð yfir alla stórmeistara í íþróttinni skák frá árinu 1950 til ársins í dag. Í heild sinni innheldur listinn 1321 stórmeistara, og hann var síðast uppfærður 22. júlí, 2009. Hér á eftir eru nýjustu stórmeistararnir, allt aftur til síðasta áratugs. 2001 - 2010. Skák Dictionary of the Scots Language. Samanlagt hafa þessi 22 bindi að geyma fyllstu upplýsingar sem til eru um sögu skoskrar tungu. Auk orðasafnsins hafa bókaskrár, eða skrár um orðtekin rit, verið gerðar aðgengilegar á netinu. Árið 2005 var bætt við gagnagrunninn nýjum viðauka, sem var unninn á vegum Scottish Language Dictionaries Ltd. Undirbúningur netútgáfunnar var verkefni á vegum Háskólans í Dundee, frá febrúar 2001 fram í janúar 2004, með fjárstuðningi "Scottish Executive", "Arts and Humanities Research Board", "Scottish Language Dictionaries Ltd", "Russell Trust" og "Carnegie Trust for the Universities of Scotland". Verkefnisstjóri var Victor Skretkowicz og ritstjóri Susan Rennie. Hið íslenska fornritafélag. Hið íslenska fornritafélag – eða Fornritafélagið – er félag sem var stofnað í Reykjavík árið 1928 til þess að gefa út íslensk fornrit í vönduðum útgáfum. Félagið er enn starfandi og hefur gefið út 29 bindi íslenskra fornrita. Fornritafélagið nýtur mikillar virðingar fyrir útgáfur sínar, sem eru að jafnaði lagðar til grundvallar við útgáfu á einstökum ritum, svo sem Íslendingasögum, konungasögum og biskupasögum, og þýðingu þeirra á önnur mál. Fyrir útgáfunum eru ítarlegir formálar, orða- og vísnaskýringar eru neðanmáls og aftast nafnaskrár. Bækurnar eru myndskreyttar og þeim fylgja ættaskrár, kort o.fl. Félagið var stofnað 14. júní 1928. Jón Ásbjörnsson hæstaréttarlögmaður átti frumkvæði að stofnun þess og var forseti til dauðadags (1966). Aðrir í fyrstu stjórn voru Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, ritari, Pétur Halldórsson bóksali, gjaldkeri, og Ólafur Lárusson og Tryggvi Þórhallsson meðstjórnendur. Meðal fyrirmynda að útgáfunni var þýska ritröðin "Altnordische Saga-Bibliothek", sem kom út á árunum 1892–1929, en einnig var höfð hliðsjón af öðrum vönduðum útgáfum. Segja má að stofnun félagsins hafi verið yfirlýsing um að Íslendingar ætluðu sér að taka forystu í útgáfu á hinum forna menningararfi þjóðarinnar, en áður hafði miðstöð þeirrar starfsemi verið í Kaupmannahöfn. Sigurður Nordal prófessor var ráðinn útgáfustjóri, en Einar Ólafur Sveinsson var einna mikilvirkastur við útgáfustörfin fyrstu árin. Fyrsta útgáfurit félagsins, Egils saga, kom út árið 1933 í útgáfu Sigurðar Nordal, sem 2. bindi í ritröðinni "Íslenzk fornrit". Með þeirri bók var allt fyrirkomulag útgáfunnar ákveðið í megindráttum. Í seinni tíð hefur það verið aðlagað nútímakröfum, t.d. með ítarlegum ritaskrám o.fl. Núverandi forseti félagsins er dr. Jóhannes Nordal. Útgáfurit félagsins. Hið íslenska bókmenntafélag sér um dreifingu á ritum Fornritafélagsins. Þjóðargjöf til Norðmanna. Í tilefni af því að árið 2005 voru liðin 100 ár frá því að Norðmenn hlutu sjálfstæði og konungsveldi þar var endurreist, ákvað ríkisstjórn Íslands að standa að sérstakri útgáfu fjögurra Noregskonunga sagna í 500 eintökum. Þessar sögur eru: Sverris saga, Morkinskinna, Böglunga saga og Hákonar saga Hákonarsonar. Ríkisstjórnin samdi um útgáfuna við stjórn Hins íslenska fornritafélags. Vorið 2005 afhenti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs gjafabréf frá íslensku þjóðinni, en fyrsta bókin, "Sverris saga", kom út vorið 2007. Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti Guttorm Vik sendiherra, fyrsta eintakið við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu 17. maí 2007, á þjóðhátíðardegi Norðmanna. Hinn 15. september 2011 afhenti Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Anniken Huitfeldt menningarmálaráðherra Noregs annan hluta gjafarinnar, fyrsta eintakið af hátíðarútgáfu "Morkinskinnu" I–II. Athöfnin fór fram í Osló. Hátíðarútgáfan er eins og útgáfa Fornritafélagsins af sögunum, nema einnig fylgir norsk þýðing formála og bækurnar eru bundnar í brúnt skrautband. Bókunum verður dreift til fræðimanna og bókasafna í Noregi, og þær verða einnig til sölu. Skánn. Skánn er hérað í Suður-Svíþjóð með landamæri í norðri að Hallandi, Smálöndum og Blekinge. Héraðið var hluti af Danmörku til ársins 1658. Íbúafjöldi er um 1,2 milljónir. Höfuðstaður Skánar er borgin Málmey við Eyrarsund. Aðrar stórar borgir eru Lundur og Helsingjaborg. Hittítar. Hittítar, hettítar eða hetítar voru fornþjóð sem bjó í Anatólíu og talaði hittitísku, anatólískt mál sem þeir rituðu með fleygrúnum. Þeir stofnuðu konungsríki í kringum borgina Hattúsa í miðri Litlu-Asíu á 18. öld f.Kr. Veldi Hittíta náði hátindi sínum á 14. öld f.Kr. þegar það náði yfir nær alla Anatólíu og norðurhluta Sýrlands og austur til Mesópótamíu. 1274 f.Kr. háðu Hittítar orrustuna við Kadesh við Egypta. Árásir sæþjóðanna í Miðjarðarhafi veiktu veldi Hittíta svo að það klofnaði í mörg minni borgríki á 12. öld f.Kr. Sum þessara ríkja héldu velli fram á 8. öld f.Kr. Núbía. Núbía er stórt landsvæði sem nær yfir syðsta hluta Egyptalands og Norður-Súdan. Til forna var Núbía nokkrum sinnum sjálfstætt konungsríki. Síðasta sjálfstæða konungsríki Núbíumanna leið undir lok árið 1504. Íbúar Núbíu töluðu áður núbísk mál sem eru grein af nílar-saharamálaættinni. Nú talar um hálf milljón Núbíumanna tungumálið nobii en nánast allir tala einnig egypsku eða súdönsku. Sváfaland. Sváfaland (Sváfa eða Svabía) (þýska: "Schwaben") er hérað og sérstakt málsvæði í suðvesturhluta Bæjaralands í Þýskalandi. Sváfaland er fyrrum hertogadæmi. Andrés Sveinsson. Andrés Sveinsson var hirðstjóri á Íslandi seint á 14. öld. Hann virðist hafa haft hirðstjórn í um 15 ár, 1372-1387, en þó er lítið um hann vitað; ætt hans er óþekkt, ekkert er vitað um afkomendur hans og bústaður hans er ekki þekktur. Hann kom út 1372 með hirðstjórn yfir allt land. Árið 1375 sigldi hann en kom aftur árið eftir og 1377 lét hann sverja Hákoni konungi land og þegna. Aftur sigldi hann 1379, kom aftur 1382 og lét þá sverja Ólafi konungi land og þegna, en Hákon hafði dáið 1380 og Andrés hafði fengið nýtt hirðstjórnarumboð hjá honum, eða öllu heldur forráðamönnum hans. Árið 1387 er sagt að Þorsteinn Eyjólfsson hafi tekið hirðstjóraembættið af Andrési og er ekki ljóst hvort átt er við að að Andrés hafi verið sviptur embættinu af einhverjum ástæðum eða hvort Þorsteinn hafi tekið við embættinu til bráðabirgða. Andrés sigldi til Noregs 1388 með Birni Jórsalafara og er ekki vitað hvað um hann varð. Eiríkur Guðmundsson (hirðstjóri). Eiríkur Guðmundsson (d. 23. febrúar 1388) var íslenskur hirðstjóri seint á 14. öld. Hirðstjóraferill hans varð skammur, hann var veginn á fyrsta ári sínu í embætti. Talið er líklegt að Eiríkur hafi verið sonur Guðmundar Snorrasonar frá Skarði, bróður Orms Snorrasonar. Hann virðist að minnsta kosti hafa verið nátengdur Skarðverjum. Á jólanóttina 1385 fór Eiríkur ásamt Guðmundi, syni Orms, að Þórði Jónssyni góðamanni. Tóku þeir hann höndum og eftir að Ormur hafði dæmt hann til dauða var hann höggvinn. Vígið þótti níðingsverk og var þeim Guðmundi og Eiríki ekki vært á landinu. Þeir fóru út um sumarið. Guðmundur hvarf í Færeyjum 1388 en Eiríkur kom heim 1387 og hafði þá verið skipaður hirðstjóri af Ögmundi Finnssyni dróttseta í Noregi, sem einnig hafði skipað Narfa Sveinsson lögmann „og þótti nýlunda“. Í sumum annálum segir reyndar að Eiríkur hafi kallað sig hirðstjóra og bendir það til þess að landsmenn hafi ekki verið tilbúnir að viðurkenna hann sem slíkan. Ekki er vitað um tildrög þess að hann var veginn eða hverjir banamenn hans voru. Dag Strömbäck. Dag Strömbäck – fullu nafni Dag Alvar Strömbäck – (13. ágúst1900 – 1. desember 1978), var sænskur þjóðfræðingur og textafræðingur. Hann var prófessor við Uppsalaháskóla 1948–1967. Æviágrip. Dag Strömbäck fæddist í Järbo í Gästriklandi í Mið-Svíþjóð. Hann ólst upp í Alfta í Hälsinglandi, litlu norðar, þar sem faðir hans var prestur, og kynntist náið alþýðumenningu svæðisins. Átti það þátt í því hvert áhugamál hans beindust og var góður grunnur í námi og starfi. Hann varð stúdent í Stokkhólmi 1919, fór síðan í Uppsalaháskóla og lauk fil. lic. prófi í norrænum málum 1926, og í trúarbragðasögu 1929. Veturinn 1926–1927 var hann við nám í Háskóla Íslands og flutti þar einnig fyrirlestra um sænskar bókmenntir. Hann náði fljótt góðum tökum á íslensku og sótti m.a. fyrirlestra hjá Sigurði Nordal prófessor; tókust þar með þeim góð kynni og vinátta sem entist meðan báðir lifðu. Hann kynntist hér fleiri fræðimönnum, svo sem Jóni Helgasyni og Einari Ól. Sveinssyni. Almennt má segja að dvölin hér hafi haft drjúg og varanleg áhrif á ævistarf hans og rannsóknir. Doktorsritgerð varði Dag við Uppsalaháskóla 1935, um seið í fornum heimildum. Hann varð dósent í íslenskum fræðum í Lundi 1935, prófessor við Chicago-háskóla 1937–1939, aðstoðarprófessor í norrænum málum við Uppsalaháskóla 1941–1948, og prófessor við sama skóla í norrænni og samanburðar-þjóðfræði 1948–1967. Hann var og forstöðumaður við Landsmåls- och folkminnesarkivet í Uppsölum 1940–1967. Árið 1929 fór hann að vinna við orðabók Sænsku Akademíunnar í Lundi, og var einn af ritstjórum hennar 1931–1940. Dag Strömäck átti sæti í mörgum vísindafélögum og var heiðursdoktor við háskólana í Aberdeen, Dyflinni, og Háskóla Íslands 1961. Hann var forseti Kungliga Gustav Adolfs Akademien för svensk folkkultur í Uppsölum 1957–1965 (ritari 1966–1974), og Kungliga Vitterhets Historie och Antikvitets Akademien 1965–1974. Hann tók þátt í að stofna Isländska sällskapet í Uppsölum, 1949, og var í stjórn þess til 1976. Hann var ritstjóri tímaritanna Svenska landsmål 1943–1967, Saga och Sed 1966–1974 og Arv 1952–1978, og birti þar fjölda greina. Dag Strömbäck var einn af forvígismönnum þjóðfræði á Norðurlöndum. Hann er einna þekktastur fyrir að tvinna saman textafræði og þjóðfræði við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum og trúarbragðasögu. Meðal nemenda hans var Jón Hnefill Aðalsteinsson þjóðfræðingur. Kona Dags Strömbäcks (1927) var "Rosalie Ester Ebba Ulrika Olivecrona". Robert Blake. Robert Blake (1599 – 17. ágúst 1657) var enskur flotaforingi í þjónustu Enska samveldisins. Hann gekk í þingherinn þegar Enska borgarastyrjöldin braust út 1641 og gat sér þar gott orð. Hann var skipaður flotaforingi 1649 og er oft nefndur faðir konunglega breska sjóhersins. Hann stöðvaði skip Róberts Rínarfursta fyrst í Kinsale og síðan í Portúgal þar sem sigur hans tryggði yfirráð þinghersins á hafi úti og leiddi til þess að mörg ríki viðurkenndu Enska samveldið. Það gerði það einnig mun erfiðara fyrir konungssinna að ráðast inn í England frá Skotlandi eða Írlandi. Eftir ósigra í fyrstu átökum fyrsta stríðs Englands og Hollands endurskipulagði hann sjóherinn og vann að lokum sigra sem bundu endi á stríðið. Í stríði Englands og Spánar 1654 hélt hann Cádiz í herkví heilan vetur. 1657 vann hann sigra gegn Spánverjum í sjóorrustum í Vestur-Indíum en lést af sárum sínum á heimleiðinni. Blake, Robert Blake, Robert Vigfús Ívarsson. Vigfús Ívarsson (d. 1420) var íslenskur hirðstjóri á 14. og 15. öld og bjó á Bessastöðum á Álftanesi. Vigfús var sonur Ívars hólm Vigfússonar hirðstjóra og konu hans, Margrétar Özurardóttur. Hann virðist ekki hafa borið viðurnefnið hólmur þótt því sé stundum tyllt á hann í ættartölum. Hann kom út 1390 með hirðstjórn, sagður hafa komið frá Færeyjum og hefur líklega fengið hirðstjórnina 1389 en orðið að hafa vetursetu í Færeyjum. Hann hélt hirðstjóraembættinu allt til 1413, eða í 24 ár. Í "Nýja annál" segir að Vigfús hirðstjóri hafi staðið fyrir mikilli og fjölmennri brúðkaupsveislu í Viðey árið 1405, þegar þau Vatnsfjarðar-Kristín og Þorleifur Árnason gengu í hjónaband. Hann stóð líka fyrir mikilli biskupsveislu í Skálholti þegar Jón biskup kom þangað að taka við embætti. Árni biskup mildi fékk hirðstjórn 1413 um leið og hann varð Skálholtsbiskup. Hann kom reyndar ekki til landsins fyrr en 1415 en gerði Björn Jórsalafara að umboðsmanni sínum og lét Vigfús því af hirðstjórn. Árið 1415 sigldi hann til Englands frá Hafnarfirði og hafði með sér 60 lestir skreiðar og mikla fjármuni aðra. Hann heimsótti gröf hins helga Tómasar Becket í Kantaraborg og gaf þar mikla peninga til bænahalds fyrir sér, konu sinni og börnum. Kona Vigfúsar var Guðríður Ingimundardóttir. Hún var af norskum höfðingjaættum, afkomandi Hákonar gamla. Hún bjó í Brautarholti á Kjalarnesi eftir lát manns síns, að minnsta kosti til 1436. Þau áttu nokkur börn en tvö þeirra eru þekktust, Ívar Vigfússon hólmur, sem bjó á Kirkjubóli á Miðnesi og var drepinn þar af sveinum Jóns Gerrekssonar biskups, og Margrét, sem slapp með naumindum lífs frá Kirkjubóli og giftist síðar Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum. Fornegypska. Eberspapýrusinn frá því um 1550 f.Kr. Fornegypska er afróasískt tungumál sem var talað í Egyptalandi að minnsta kosti frá fyrstu rituðu heimildum um 3400 f.Kr. fram á 17. öld þegar það dó út og egypsk arabíska varð eina málið sem talað var í landinu. Síðasta útgáfa tungumálsins, koptíska, er enn notað sem kirkjumál koptísku kirkjunnar. Egypska var skrifuð með helgirúnum þar til koptíska kirkjan tók að nota koptískt letur sem er í grunninn grískt letur með nokkrum aukastöfum. Hámundur heljarskinn Hjörsson. Hámundur heljarskinn Hjörsson var landnámsmaður í Eyjafirði, tvíburabróðir Geirmundar heljarskinns. Hann kom til landsins með Helga magra, sem var tengdafaðir hans. Samkvæmt því sem segir í Landnámu nam hann fyrst Árskógsströnd frá Svarfaðardal og suður að Hörgá og bjó á Hámundarstöðum. Þegar Örn frændi hans, sem hafði numið land í Arnarfirði, frétti af honum ákvað hann að flytja sig um set til að vera nær honum. Hámundur lét hann fá land þar á ströndinni og bjó hann í Arnarnesi. Sjálfur fékk Hámundur land hjá Helga tengdaföður sinum, frá Merkigili (sem líklega var nærri Hrafnagili) til Skjálgdaldsár og bjó á Espihóli. Hámundur var fyrst giftur Ingunni dóttur Helga magra, og var sonur þeirra Þórir bóndi á Espihóli. Þegar Ingunn dó kvæntist Hámundur annari dóttur Helga, Helgu,(sem áður hafði átt Auðun rotinn Þórólfsson landnámsmann). Dóttir þeirra var Yngvildur allrasystir, kona Örnólfs sonar Þórðar slítanda landnámsmann í Hörgárdal. Björn Einarsson Jórsalafari. Björn Einarsson Jórsalafari (d. 1415) var íslenskur höfðingi á 14. og 15. öld, einn auðugasti maður landsins, sýslumaður og umboðsmaður hirðstjóra um tíma. Hann bjó í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Björn var einn víðförlasti Íslendingur um sína daga. Faðir Björns var Einar Eiríksson (d. 29. mars 1382) bóndi í Vatnsfirði, sonur Eiríks Sveinbjarnarsonar riddara og hirðstjóra. Móðir hans var Grundar-Helga Pétursdóttir en þau Einar voru ekki gift. Björn var því ekki arfgengur eftir föður sinn en honum græddist snemma fé og tók að safna jörðum. Hann fór ungur í siglingar og er fyrst getið um utanför hans 1379. Árið 1385 sigldi hann ásamt fleirum en þeir hröktust til Grænlands og voru tepptir þar í tvö ár en komust þá til Íslands. Björn var þá kærður fyrir verslun við Grænlendinga, sigldi til Noregs 1388 til að standa fyrir máli sínu og hafði meðferðis vitnisburði um tildrög þess að hann lenti á Grænlandi og viðskipti sín við innfædda. Hann var dæmur sýkn saka í Björgvin 20. maí 1389. Um Grænlandsförina var löngu síðar skrifuð ferðabók sem nú er glötuð. Björn kom ekki til Íslands aftur fyrr en 1391. Mun hann í þessari ferð hafa farið í suðurgöngu til Rómar. Sumarið 1405 sigldu Björn og Solveig kona hans úr Hvalfirði eftir að hafa haldið brúðkaup Kristínar dóttur sinnar og Þorleifs Árnasonar og gerði Björn erfðaskrá áður en haldið var af stað. Vilchin Skálholtsbiskup var með í för en hann dó í Björgvin og hélt Björn honum veglega útför. Árið 1406 héldu þau hjónin svo í suðurgöngu. Þau fóru fyrst til Rómar og þaðan til Feneyja, þar sem þau stigu á skip og „sigldu til Jórsalalands og heimsóttu Vors Herra gröf“. Frá Jerúsalem héldu þau aftur til Feneyja en þar skildi leiðir; Solveig hélt norður til Noregs en Björn til Santiago de Compostela á Spáni, því að hann hafði heitið að heimsækja gröf heilags Jakobs. Síðan fór hann um Frakkland og England, kom við í Kantaraborg við gröf Tómasar Becket og hélt loks til Noregs. Annálar segja frá komu hans til landsins 1411 og hafði hann þá verið í Hjaltlandi um veturinn, hvort sem hann var þá fyrst að koma úr pílagrímsferðalaginu eða ekki. Árið 1413 var Árni Ólafsson mildi skipaður hirðstjóri um leið og hann varð Skálholtsbiskup og gerði hann Björn þá að umboðsmanni sínum því að hann kom ekki til landsins fyrr en 1415. Það sama ár dó Björn í Hvalfirði og var lík hans fært til Skálholts og jarðsett þar. Kona Björns var Solveig Þorsteinsdóttir. Ætt hennar er óþekkt. Hún var skörungur mikill, var oftast í ferðum með manni sínum, til dæmis bæði á Grænlandi og í Jórsalaferðinni, og greint er frá því að árið 1401 hafi hún siglt ein til Noregs á skipi sem maður hennar átti til helmings við Skálholtskirkju en hann sat eftir heima í Vatnsfirði. Þau áttu tvö börn sem upp komust. Þorleifur sonur þeirra drukknaði við Melgraseyri ásamt fleiri mönnum. Kristín, sem jafnan var kennd við Vatnsfjörð, giftist fyrst Jóni, bróður Lofts Guttormssonar, en hann dó í Svartadauða. Þá gekk hún að eiga Þorleif Árnason, sýslumann á Auðbrekku, í Glaumbæ og í Vatnsfirði. Á meðal barna þeirra voru hirðstjórarnir Einar og Björn Þorleifssynir. Nimzóindversk vörn, Rubenstein, Ólafssonar afbrigði. Afbrigðið er nefnt eftir Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara íslendinga í skák. Ólafssonar afbrigðið var fyrst teflt árið 1957 í skákinni Donner - Ólafsson sem fram fór í Wageningen í Hollandi og endaði hún með jafntefli eftir leikina: 11.Bd2 cxd4 12.Rxd4 Rc6 13.Rf3 Db8 14.a3 Be7. Grundarbardagi. Grundarbardagi var orrusta sem háð var á Grund í Eyjafirði að morgni 8. júlí 1362. Þar féllu þeir Smiður Andrésson hirðstjóri, Jón Guttormsson skráveifa og fleiri fyrir flokki Eyfirðinga. Smiður hirðstjóri reið norður í land eftir Alþingi með rúmlega þrjátíu manna flokk, þar á meðal báða lögmennina, Jón skráveifu og Orm Snorrason, og hugðist lækka rostann í Norðlendingum, sem höfðu átt í deilum við Jón skalla Eiríksson Hólabiskup og neitað að viðurkenna hann sem yfirboðara sinn. Smiður hafði áður aflað sér óvinsælda með harðri skattheimtu og Jón skráveifa var svo óvinsæll að þegar hann var hirðstjóri í Norðlendingafjórðungi höfðu Norðlendingar riðið á móti honum og hrakið hann úr fjórðungnum. Flokkurinn kom á Grund og settist þar upp. Sagt er að húsfreyjan, Grundar-Helga, hafi búið þeim veislu og veitt vel svo að gestirnir hafi orðið mjög ölvaðir. Hún á líka að hafa sagt stúlkum þeim sem þjónuðu mönnunum til sængur að snúa við annarri skálminni á brókum þeirra svo þeim yrði tafsamt að klæða sig. En á meðan veislan stóð hafði hún látið sendimenn sína fara um sveitina og safna saman vopnfærum mönnum. Samtímaheimildir (annálar) segja þó að Eyfirðingar hafi safnast saman þegar þeir fréttu af ferðum Smiðs og förunauta hans og hitt þá fyrir á Grund. Bardaginn var harður og er sagður hafa staðið frá miðjum morgni (kl. 6) þar til eftir dagmál (kl. 9) og féllu alls þrettán eða fjórtán menn, sjö eða átta úr liði aðkomumanna en sex Eyfirðingar, og margir særðust. Smiður var vel vígur og er sagður hafa varist fimlega þótt drukkinn væri, stökk upp á skálabitana og hljóp á milli þeirra. Á endanum gat þó einhver komið lagi á háls hans og er sagt að höfuðið hafi lent í mjólkurtrogi húsfreyjunnar. Jón skráveifa er ýmist sagður hafa verið laminn til bana með járnreknum kylfum eða fundist fastur í kamarauganu, sem hann hafði reynt að skríða út um til að bjarga lífi sínu, og verið höggvinn. Ormur Snorrason komst í kirkju með nokkrum öðrum og þótti framganga hans ekki hetjuleg. Actinomycetales. "Actinomycetales" eða geislagerlar er fremur stór og fjölskrúðugur ættbálkur baktería. Þær teljast Gram-jákvæðar þrátt fyrir að margar tegundir ættbálksins sé erfitt að lita með hefðbundinni gramlitun, en bygging frumuveggja þeirra er þó ótvírætt í samræmi við aðrar Gram-jákvæðar bakteríur. Helstu búsvæði geislagerla eru í jarðvegi, en innan ættbálksins er einnig að finna nokkuð af sýklum, þar á meðal barnaveikisýkilinn og berklasýkilinn, auk baktería af ættkvísl "Actinomyces" sem valdið geta svokallaðri geislagerlabólgu. Innan ættbálksins eru all margar tegundir sem framleiða annarsstigs lífefna með örveruhemjandi virkni og eru þau sum hver eru nýtt sem sýklalyf. Benedict Anderson. Benedict Anderson (f. 26. ágúst 1936) er prófessor emerítus í alþjóðafræðum við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er þekktastur fyrir skrif sín um þjóðir og þjóðernishyggju í bókinni "Imagined Communities" frá 1983. Hann rekur upphaf þjóðríkjastefnunnar til nýlenda Evrópubúa í Ameríku en ýmsir fyrri höfundar höfðu ýmist rakið hana til iðnbyltingarinnar eða upplýsingarinnar og Napóleonsstyrjaldanna. Greining hans er í anda sögulegrar efnishyggju og hefst með gagnrýni á vanmátt marxismans gagnvart þjóðernishyggjunni á 19. og 20. öld. Hann leggur áherslu á mikilvægi prentiðnaðarins og kapítalisma og endalok hugmyndarinnar um guðlegan uppruna konungsvaldsins fyrir þróun þjóðernishyggju. Vínsteinn. thumbnail Vínsteinn er vínsúrt kalín sem finnst í safa ýmissa jurta og var áður fyrr meðal annars notaður sem litunarefni.. Hann hefur efnasambandið KC4H5O6. Þegar talað er um vínstein í matargerð og bakstri er átt við hvítt duft sem er unnið úr gerjuðum vínberjasafa. Vínsteinn er oft annað aðalefnið í lyftidufti á móti matarsóda ("natróni") og kallast slíkt lyftiduft vínsteinslyftiduft. Hann er þó ekki lyftiefni í sjálfu sér og ekki hægt að nota hann einan sér sem slíkt, heldur valda áhrif frá sýrunni í honum ásamt raka úr deiginu því að efnahvörf verða í matarsódanum og koltvísýringsbólur myndast og stækka, sem aftur verður til þess að deigið lyftir sér. Þar sem þetta ferli hefst um leið og vökva er blandað saman við þurrefnin má deigið ekki bíða neitt, heldur þarf að setja fljótt í ofninn svo að loftið sígi ekki úr því aftur. Vínstein er stundum settur saman við eggjahvítur þegar þær eru þeyttar til að gera marensinn stöðugri og endingarbetri og hann er einnig stundum látinn út í sykurlög þegar síróp er soðið til að koma í veg fyrir kristallamyndun. Hann er líka notaður töluvert í matvælaframleiðslu. Ef ögn af ediki eða sítrónusafa er hrært saman við vínstein verður til þykkt krem sem má nota til að fægja málma, svo sem kopar og messing. Goshver. Goshver er hver sem gýs sjóðheitu vatni og gufu, oft tugi metra í loft upp. Af íslenskum goshverunum hefur Geysir í Haukadal frá öndverðu dregið að sér mesta athygli, en síðar hefur Strokkur bæst við. Goshverir eru allra íslenskra hvera þekktastir. Á ensku er goshver nefndur „geyser“ og er dregið af "Geysir". Nymphenburg-kastalinn í München. Aðalálma Nymphenburg-kastala. Stóru hliðarálmurnar sjást ekki á þessari mynd. Nymphenburg-kastalinn í München var reistur af kjörfurstanum Ferdinand fyrsta fyrir eiginkonu sína Henríettu Aðalheiði. Kastalinn er rétt fyrir vestan miðborgina. Hallargarðurinn er einn sá stærsti í heimi. Saga Nympenburg-kastalans. Þegar Henríetta Aðalheiður fæddi erfingjann, Maximilian Emanúel, varð kjörfurstinn Ferdinand svo glaður og hrifinn að hann ákvað að reisa eiginkonu sinni kastala. Hún sjálf lét reisa Theatiner-kirkjuna í München í þakkarskyni. Framkvæmdir við kastalann hófust 1664 og var hann stækkaður nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Kastalinn var aðallega notaður sem sumardvalarstaður Wittelsbach-ættarinnar í gegnum tíðina. Nokkrir merkir atburðir gerðust í kastalanum. 1741 mættu fulltrúar frá Frakklandi, Spáni, Saxlandi og Prússlandi, auk Karls kjörfursta, á fundi í kastalanum og gerðu bandalag gegn Austurríki. Þá var María Teresa nýorðin keisaraynja í Austurríki og stríðið um erfðir þar á bæ nýhafið. Bandalag þetta varð til þess að Karl kjörfursti var seinna kjörinn konungur og síðar krýndur keisari þýska ríkisins. Bæjaraland var gert að konungsríki 1806. Maximilian konungur dó í kastalanum 1825 og barnabarn hans Lúðvík II fæddist þar. 1863 heimsótti Otto von Bismarck Lúðvík konung og hittust þeir í kastalanum. Í loftárásum seinna stríðsins slapp kastalinn við skemmdir, nema hvað ein sprengja lenti í kastalakapellunni og eyðilagði hana. Kastalagarðurinn. Nymphenburg-kastali er með tvo stóra garða. Fyrir framan er sléttur grasagarður með nokkrum tjörnum. Fyrir aftan er víðáttumikill skógargarður, en hann var áður fyrr við borgarmörk München. Í dag er byggð allt í kring. Garður þessi er einstaklega fagur og einn stærsti kastalagarður heims. Á grasbalanum fyrir framan var haldið hestamót Ólympíuleikanna 1972. Innviði. Nokkra fagra sali er að finna í kastalanum. Þeirra helsti er Steinsalurinn ("Steinerner Saal") sem skreyttur er með veggmálverkum og freskum. Annar þekktur salur er Fagrisalur ("Schönheitsgalerie") þar sem Lúðvík konungur lét hengja upp málverk af 36 fallegum konum frá München. Alls eru þrjú söfn í kastalanum. Söfnin og kastalinn sjálfur eru mjög vinsæl. Um 300 þús manns sækja kastalann heim árlega. Auk þess eru haldnir tónleikar í kastalanum árlega síðan 2004. Laukur. Laukur er heiti sem nær yfir nokkrar lauktegundir en þegar það er notað eitt sér án útskýringar er oftst átt við hnattlauk ("Allium cepa"). Blómlaukur hnattlauks vex neðanjarðar og hefur að geyma næringarefni handa jurtinni. Þess vegna er hann stundum talinn rótarhnýði, sem hann er þó ekki. Hnattlaukur er aðeins ræktaður og vex ekki villtur. Til eru nokkrar náskyldar villtar tegundir tengdar honum sem vaxa í Mið-Asíu. Saga notkunar. Ýmsar tegundir af laukætt hafa verið hafðar til manneldis í nokkur árþúsund. Leifar af lauk hafa fundist í bronsaldarbyggðum, blandaðar steinum úr fíkjum og döðlum frá 5000 f.Kr. Ekki er þó vitað hvort þessir laukar voru ræktaðir eða ekki. Í nær fjögur þúsund ára gömlum mataruppskriftum sem varðveist hafa á súmerskum leirtöflum er notað mjög mikið af lauk af ýmsu tagi. Vísbendingar í ýmsum fornum ritum, til dæmis í 4. Mósebók 11:5, benda til laukræktunar fyrir 3000 árum í Egyptalandi hinu forna og á sama tíma var ræktaður blaðlaukur og hvítlaukur. Talið er að verkamennirnir sem byggðu pýramidana hafi borðað hreðkur og lauka. Fornegyptar tignuðu laukinn af því þeir töldu form hans og hringi tákna endalaust líf. Laukar voru notaðir við útfararathafnir og fundist hafa leifar af lauk í augntóftum Ramsess 4. Í Grikklandi hinu forna borðuðu íþróttamenn mikið af lauk af því þeir töldu hann þynna blóðið. Rómverskir skylmingaþrælar voru nuddaðir með lauk til þess að stæla vöðva þeirra. Á miðöldum var laukur svo mikilvægur að fólk greiddi landskuld með lauk og notaði hann til gjafa. Læknar fyrirskipuðu laukát til að minnka hægðatregðu, auðvelda holdris, draga úr höfuðverk og hósta, lækna slöngubit og vinna gegn hárlosi. Kristófer Kólumbus flutti lauka til Ameríku árið 1492 í leiðangri sínum til Hispaníólu. Laukar voru líka notaðir á 16. öld til að vinna gegn ófrjósemi hjá konum og einnig hjá hundum, kúum og öðrum húsdýrum. Nútímarannsóknir hafa sýnt fram á möguleg eituráhrif hjá hundum, köttum og öðrum dýrum ef þeim er gefinn laukur. Notkun. Laukur er notaður í alls konar rétti í flestum menningarheimum. Hann fæst ferskur, frosinn, niðursoðinn, steiktur, pæklaður, í duftformi, saxaður og þurrkaður. Í matargerð er laukur oftast notaður saxaður eða sneiddur en þó stundum heill. Hann er bæði eldaður með í ýmsum réttum og notaður hrár í salöt og fleira en þó oftast í fremur litlum mæli því hrár laukur er bragðsterkur en bragðið mildast mjög fljótt við eldun. Einnig er bragðið misjafnt eftir laukafbrigðum. Laukur er sjaldan borðaður einn og sér en er stundum hafður sem meðlæti með mat, einkum steiktur eða súrsaður, eða er aðalhráefni í réttum eins og lauksúpu eða laukböku. Sumstaðar er laukur aðallega notaður til að krydda og bragðbæta mat en annarsstaðar, t.d. í indverskri og pakistanskri matargerð, er hann grunnhráefni í karríréttum, sósum og öðru slíku. Laukduft er krydd sem notað er til bragðbætis í matseld. Það er gert úr þurrkuðum, fínmuldum lauk. Oftast eru notuð bragðsterk afbrigði af lauk í laukduft og af því er þessvegna sterk lykt og bragð. Augnaerting. Þegar laukur er skorinn losna úr honum rokgjarnar olíur og það eru þær sem koma út tárunum á fólki sem sker eða meðhöndlar laukinn. Ýmis ráð eru til að draga úr þessu, svo sem að skera laukinn undir rennandi vatni eða dýfa honum vel í vatn áður en hann er skorinn, kæla hann eða frysta eða setja upp sundgleraugu, en einfaldasta ráðið er ef til vill að nota vel beittan hníf því að skurður með sljóum hníf kremur frumurnar í lauknum í sundur í stað þess að skera þær og losar um mun meira af rokgjörnu olíunum en ef beittur hnífur er notaður. Vefir úr lauk eru oft notaðir í kennslu til þess að þjálfa nemendur í notkun smásjár, af því frumur þeirra eru stórar og sjást án mikillar stækkunar. Ræktun. Einfalt er að rækta, flytja og geyma lauk. Hann má rækta upp af fræi eða af smálaukum frá fyrra ári. Erlendur Ólafsson sterki. Erlendur Ólafsson sterki (d. 1312) var íslenskur lögmaður á 13. öld. Hann bjó á Ferjubakka í Borgarfirði. Faðir Erlendar var Ólafur tottur en ætt hans er óþekkt. Móðir Erlendar var Valgerður Flosadóttir frá Baugsstöðum og er ætt hennar víða rakin í Hauksbók Landnámabókar, sem Haukur sonur Erlendar lét skrifa, en ekkert minnst á föðurættina og föðurnafn Erlendar raunar aldrei nefnt þar, heldur er hann ýmist kallaður Erlendur sterki eða Erlendur lögmaður (Árni biskup kallar hann Erlend digra.) Sumir hafa talið þetta benda til þess að Ólafur hafi verið norskur en einnig má vera að Haukur hafi einfaldlega ekki getað rakið ættir hans til landnámsmanna. Erlendar er fyrst getið þegar hann skrifar undir bréf til konungs ásamt öðrum höfðingjum 1375. Hann var mikið í ferðalögum og virðist hafa farið átta sinnum til Noregs á árunum 1282-1305 en á þeim árum tók utanlandsferð aldrei minna en árið og oft tvö eða þrjú. Hann kom til landsins 1283 með lögsögn norðan lands og vestan og tók við af Sturlu Þórðarsyni. Hann var einn af andstæðingum Árna biskups í staðamálum og var fyrir leikmönnum eftir að Hrafn Oddsson dó en var ekki jafnklókur og Hrafn svo að biskup hafði á endanum betur. Hann virðist hafa verið ákafamaður og átti oft í deilum. Árið 1389 lét hann af lögmannsembættinu en hafði eftir það sýsluvöld og gegndi ýmsum erindum fyrir konung. Fyrri kona hans hét Jórunn og voru synir þeirra Jón bóndi á Ferjubakka og Haukur Erlendsson lögmaður. Seinni kona hans var Járngerður Þórðardóttir, sonardóttir Böðvars Þórðarsonar í Bæ. Kylie Minogue. Kylie Ann Minogue, OBE (fædd 28. maí 1968) er áströlsk popp-söngkona, lagasmiður og leikkona. Hún hóf feril sinn sem leikkona í áströlsku sjónvarpi aðeins barn að aldri í sápuóperunni "Neighbours". Hún byrjaði að syngja árið 1987. Fyrsta smáskífa hennar, „The Loco-Motion“, lenti í fyrsta sæti á áströlska topplistanum og hélt því í sjö vikur. Vegna velgengni smáskífunnar fékk hún samning sem lagasmiður. Fyrsta breiðskífa hennar, "Kylie" kom út árið 1988. Smáskífan „I Should Be So Lucky“ af "Kylie" lenti í fyrsta sæti á topplistanum í Bretlandi. Á næstu tveimur árum lentu þrettán smáskífur Kylie Minogue í fyrstu tíu sætum topplistans þar í landi. Fyrsta kvikmyndin sem hún lék í var "The Delinquents". Hún gekk vel í Ástralíu en var gagnrýnd á Bretlandseyjum. Minogue gert fallegt endurkoma árið 2000 með einn „Spinning Around“ og breiðskífa hennar "Light Years". Hún flutt lagið hennar „On a Night Like This“ í Sumarólympíuleikarnir 2000 í Sydney. Smáskífan hennar „Can't Get You Out of My Head“ náð fyrsta sæti í meira en fjörutíu löndum, og breiðskífa "Fever" (2001) var vel í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkin. Kylie fæddist í Melbourne í Ástralíu. Hún er fyrsta barn. Faðir hennar, Ronald Charles Minogue, er endurskoðandi af írskum uppruna og móðir hennar, Carol Ann Jones, fyrrverandi dansari frá Wales. Systir hennar, Dannii Minogue, er einnig söngkona og leikkona. Bróðir hennar, Brendan, vinnur sem myndatökumanni í Ástralíu. Kylie Minogue hefur selt yfir 68 milljón plötur og 55 milljón smáskífur um allan heim. Tenglar. Minogue, Kylie Minogue, Kylie Tjarnarkirkja (Svarfaðardal). Tjarnarkirkja er kirkjan á Tjörn í Svarfaðardal, sjá nánar þar. Samorka. Samorka eru hagsmunasamtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1995 þegar Samband íslenskra hitaveitna og Samband íslenskra rafveitna voru sameinuð. Samorka á aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök ferðaþjónustunnar. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin voru stofnuð 11. nóvember 1998. Samtökin voru byggð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa og lögðu önnur hagsmunasamtök sem störfuðu innan ferðaþjónustunnar niður starfsemi sína á sama tíma. Meginhlutverk SAF er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna, vinna að því að fyrirtækin búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði og vinna að vexti og viðgangi greinarinnar með öllum tiltækum ráðum. Nánari upplýsingar um tilgang samtakanna er að finna í lögum SAF sem auðvelt er að finna á heimasíðu þessari. Í dag er fjöldi fyrirtækja í SAF. Það eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki svo og önnur fyrirtæki sem telja sig til ferðaþjónustufyrirtækja. SAF starfa með öðrum hagsmunasamtökum og eru þau ein af 8 aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins sem stofnuð voru 15. september 1999 með samruna Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins. Með stofnun SAF talar ferðaþjónustan einni röddu gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum svo og öðrum sem ferðaþjónustufyrirtæki skipta við og er stefna SAF í hinum ýmsum málum unnin á vegum stjórnar og nefnda, en innan samtakanna starfa 7 fagnefndir. Þar að auki starfa þverfaglegar nefndir s.s. umhverfisnefnd, nethópur svo og fleiri nefndir sem sinna sérstökum verkefnum. Aðalfundur SAF hefur æðsta vald í málefnum samtakanna en 7 manna stjórn stýrir málum milli aðalfunda. SAF er umsagnaraðili um lagafrumvörp og reglugerðartillögur og eiga samtökin fulltrúa í fjölmörgum nefndum, stjórnum og ráðum bæði á vegum opinberra aðila og annarra. Á þann hátt hafa samtökin áhrif á starfsumhverfi fyrirtækjanna.. SAF á aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði. Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa í rafiðnaði á Íslandi. SART á aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök fiskvinnslustöðva. Samtök fiskvinnslustöðva (SF) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa í fiskvinnslu á Íslandi. Samtökin voru stofnuð 22. nóvember 1974. SF á aðild að Samtökum atvinnulífsins Samtök fjármálafyrirtækja. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa í fjármálageiranum á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 2006 þegar Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og Samband íslenskra tryggingafélaga voru sameinuð. SFF á aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök iðnaðarins. Samtök iðnaðarins (SI) eru hagsmunasamtök fyrirtækja í iðnaði á Íslandi. Samtök iðnaðarins eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök verslunar og þjónustu. Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa í verslun og þjónustu á Íslandi. SVÞ á aðild að Samtökum atvinnulífsins. Fimbulvetur. Fimbulvetur er hinn kaldi og veðrasami vetur er Ragnarök fylgja eftir í ásatrú. Í Snorra Eddu, Ragnarök er þessum vetri lýst svona:,Hár segir:,Mikil tíðindi eru þaðan að segja mörg. Þau hin fyrstu að vetur sá kemur er kallaður Fimbulbvetur. Þá drífur snær úr öllum áttum. Frost eru þá mikil og vindar hvassir. Ekki nýtur sólar. Þeir fara þrír saman og ekki sumar á milli. En áður ganga svo aðrir þrír vetur að þá er um alla veröld orustur miklar. " Borgarhliðin í München. Borgarhliðin í München eru þrjú borgarhlið í þýsku borgini München. Borgarhliðin þrjú sem enn standa uppi eru: "Karlstor", "Isartor" og "Sendlinger Tor". Þau eru til mikillar prýði í miðborg München. Isartor. Isartor afmarkar miðborgina í vestri. Það er yngst hliðanna þriggja og var ekki reist fyrr en 1337 þegar borgarmúrarnir voru víkkaðir. Hliðið er með tvo hliðarturna og háan turn fyrir miðju. Alls eru fimm göt í hliðinu. 1833 var klukka sett í stóra turninn. Hún átti að verða sett upp í Karlstor, en það stórskemmdist óvart í púðursprengingu og því var klukkan sett upp í Isartor. Hliðið stórskemmdist í loftárásum seinna stríðsins. Viðgerðum lauk ekki fyrr en 1957, en þær voru aðeins til bráðabirgða. 1971-72 fóru frekari viðgerðir fram og fékk hliðið þá sína núverandi mynd. Í dag er safn í hliðinu, tileinkað spaugfuglinum Karl Valentin. Auk þess er kaffitería í hliðinu. Karlstor. Karlstor afmarkar miðborgina í austri. Það var reist um aldamótin 1300 og kom fyrst við skjöl 1302. Það hét þá Neuhauser Tor. Hliðið er með tvo ferningslaga turna, alsettum varnargrjóti. Götin eru þrjú. Hliðið hefur nokkrum sinnum verið lagfært og stækkað. 1791 var turnunum breytt talsvert og þá var farið að kalla hliðið Karlstor. 1857 varð sprenging í vopnageymslu í hliðarhúsi sem stórskemmdi hliðið. Það var því gert upp og var þá núverandi tenging sett á milli turnanna. Í loftárásum seinna stríðsins stórskemmdist hliðið á nýjan leik og var byggt upp á ný í einföldu formi. Þegar verslunarhús við hliðina var umbreytt, komu í ljós leynigöng sem lágu frá hliðinu í austurátt. Göng þessi mátti nota til að komast aftur fyrir víglínu óvina eða nota það sem flóttleið. Sendlinger Tor. Sendlinger Tor er þriðja gamla borgarhliðið sem enn stendur í München og afmarkar miðborgina til suðurs. Hliðið var reist þegar borgarhliðin voru útvíkkuð í kringum aldamótin 1300 og kom fyrst við skjöl 1319. Hliðið er ákaflega einfalt. Tveir múrsteinsturnar sem eru tengdir með steinboga. Hliðið var þó stærra áður fyrr, en hlutar þess voru fjarlægðir 1808. 1906 var miðhlutinn tekinn burt og núverandi bogi settur á í staðinn, til að rýmka til fyrir umferð. Hliðið slapp við meiriháttar skemmdir í loftárásum seinna stríðsins og var síðast lagfært á níunda áratugnum. Sigurður Guðmundsson (lögmaður). Sigurður Guðmundsson (d. eftir 1294) var íslenskur lögmaður á 13. öld og bjó í Hlíð (seinna Lögmannshlíð) í Eyjafirði. Ætt Sigurðar er óþekkt og fátt um hann vitað. Hann var aðeins lögmaður í eitt ár, 1292. Á árunum 1293-1294 átti hann í deilum við Jörund Hólabiskup út af Möðruvöllum, sem hann þóttist eiga erfðatilkall til, og var bannsunginn af því tilefni en sættist síðar við biskup. Ekki er ólíklegt að Guðmundur Sigurðsson lögmaður hafi verið sonur Sigurðar. Bárður Högnason. Bárður Högnason (d. 1311) var lögmaður á Íslandi árið 1301. Hann var norskur og hafði riddaratign. Hann hafði komið hingað áður 1295 sem sendimaður Eiríks konungs og hefur því verið eitthvað kunnugur landinu. Vorið 1301 kom Bárður aftur með Loðni af Bakka og Álfi úr Króki, sendimanni Noregskonungs. Hafði Hákon konungur háleggur sent þá til landsins og útnefnt Bárð og Loðin lögmenn. Var það í fyrsta skipti sem konungur tók sér vald til að skipa íslenska embættismenn og tók hann ekkert tillit til þess að fyrir voru lögmenn sem Íslendingar höfðu sjálfir kosið ári áður. Áttu þeir meðal annars að sjá til þess að konungur yrði hylltur af Íslendingum. Ekkert varð þó af því, Íslendingar tóku sendingunni illa og varð ekkert af hyllingunni. Þremenningarnir fóru úr landi um haustið. Bárður kom hingað aftur 1303, 1307 og 1310 sem sendimaður Noregskonungs. Þorbjörn öngull. Þorbjörn öngull Þórðarson er persóna í Grettis sögu. Hann er þekktastur fyrir að vera banamaður Grettis sterka. Þorbjörn er sagður hafa verið sonarsonur Hjalta Þórðarsonar landnámsmanns í Hjaltadal. Hann bjó í Viðvík og var óeirðamaður mikill. Skagfirðingar keyptu hann til að vinna á Gretti þegar hann var sestur að í Drangey en honum tókst ekki að sækja að Gretti fyrr en Þuríður fóstra Þorbjarnar, sem var fjölkunnug, lagði bölvun á rótarhnyðju sem hún lét svo reka út í Drangey. Þegar Grettir ætlaði að höggva hnyðjuna í eldinn hljóp öxin í fót hans og kom sýking í sárið, svo að hann var nær dauða en lífi þegar Þorbjörn kom í eyna og vann á honum. Þorbjörn öngull hjó höfuðið af Gretti og fór með það til Ásdísar móður hans á Bjargi í Miðfirði og sýndi henni. Hann var gerður brottrækur af landinu fyrir vígið og fór til Noregs og síðan til Miklagarðs og gekk í lið Væringja. En Þorsteinn drómundur, hálfbróðir Grettis, elti hann þar uppi og drap hann. Þorsteinn var settur í dýflissu en hefðarkonan Spes keypti hann lausan. Alte Pinakothek (München). Alte Pinakothek er aðalmálverkasafn borgarinnar München. Þar má finna gömul verk eftir þekkta listamenn frá Þýskalandi, Ítalíu, Niðurlöndum, Frakklandi og Spáni. Saga safnsins. Upphaf safnsins má rekja til gamalla mynda í eigu kjörfurstans Vilhjálms IV á 16. öld. Seinni kjörfurstar bættu við ýmsum málverkum. Málverkin voru sett upp í hinum og þessum kastölum og voru ekki aðgengileg fyrir almúgann. Í 30 ára stríðinu tóku Svíar 21 málverk og fluttu til Svíþjóðar. Aðeins fimm þeirra var skilað aftur í tímans rás. Áfram héldu kjörfurstarnir að safna og keyptu þeir einnig fjölmörg málverk af erlendum málurum. Enn var stolið mikið af myndum þegar Napoleon var í München, en hann var einnig mikill listaverkasafnari. Aðeins 27 málverkum var skilað þegar Napoleon féll. Þegar Lúðvik I varð konungur Bæjaralands, ákvað hann að búa til safnaðstöðu þar sem hægt væri að bjóða fólki upp á að skoða útvalin málverk. Safnhúsið Alte Pinakothek var því reist 1826 að hans fyrirskipan og var það vígt 1836. Fullgert var safnið stærsta safnhús heims. Jafnframt hélt Lúðvík áfram að kaupa málverk, sérstaklega eftir þýska og ítalska meistara. Eftirmenn hans söfnuðu hins vegar litlu sem engu. Með fráfalli Lúðvíks var söfnuninni miklu lokið. Á stríðstímum 20. aldar voru myndirnar teknar niður og geymdar á öruggari staði. Safnið opnaði ekki fyrr en vel eftir heimstyrjöldina síðari (1957). Þá tókst að safna fé til enn frekari málverkakaupa fyrir tilstilli banka og stórfyrirtækja. Málverk. Safnið á í dag fleiri þúsund málverk, en aðeins um 700 eru til sýnis í 19 stórum sölum og 47 hliðarsölum. Að neðan eru aðeins helstu málarar taldir upp. Rubens og Isabella. Mynd eftir Peter Paul Rubens. Madonnumynd eftir Leonardo da Vinci Isabella Clara Eugenia. Mynd eftir De La Cruz Guðmundur Magnússon (leikari). Guðmundur Magnússon (f. 6. júlí 1947) er íslenskur leikari. Hann var um tíma varaþingmaður Vinstri grænna, en er þó kunnastur fyrir störf sín á vettvangi Öryrkjabandalagsins, en hann hefur gegnt formennsku þar frá 2008. Sonur Guðmundar er leikarinn Þorsteinn Guðmundsson. Drottningarindversk vörn. Drottingarindversk vörn er skákbyrjun, afbrigði indverskrar varnar, og hefst á leikjunum: 1.d4 Rf6, 2.c4 e6, 3.Rf3 b6. Grünfeldsvörn. Kóngsindversk vörn nefnist byrjun þegar svartur leikur 3..Bg7 í stað 3..d5. Teitur Gunnlaugsson. Teitur Gunnlaugsson ríki (d. eftir 1467) var íslenskur höfðingi og lögmaður á 15. öld. Hann bjó í Bjarnanesi í Nesjum við Hornafjörð, og var stórauðugur. Ætt hans er óþekkt. Teitur var annar helsti andstæðingur Jóns Gerrekssonar biskups og var handtekinn og hafður í haldi í Skálholti ásamt Þorvarði Loftssyni. Þorvarður slapp þó um haustið en Teitur sat í varðhaldi veturinn 1432–1433, fram til páska. Sagan segir að hann hafi komist undan þegar veisla var haldin í Skálholti og þeir sem áttu að gæta Teits urðu drukknir og týndu lyklunum en þjónustustúlka á staðnum fann þá og opnaði fyrir Teiti, svo að hann komst undan. Í Árbókum Espólíns segir að hann hafi tekið stúlkuna með sér austur í Hornafjörð, gefið henni tuttugu hundraða jörð og gift hana ríkum manni. Um sumarið 1433 fóru þeir Teitur, Þorvarður og Árni Einarsson Dalskeggur að biskupi, drekktu honum í Brúará en drápu sveina hans. Er sagt að Teitur og menn hans hafi sundriðið Hvítá við Þengilseyri og hafi það aldrei verið gert fyrr. Sama sumar var Teitur kosinn lögmaður á Alþingi og kann það að hafa átt sinn þátt í því að engin eftirmál urðu vegna biskupsdrápsins. Teitur var tvívegis lögmaður norðan og vestan, 1433–1437 og 1444–1453 og lögmaður sunnan og austan 1441–1450, og því um allt land 1444–1450. Teitur er einn þeirra sem nefndir eru í hyllingarbréfi Eiríks konungs af Pommern 1431 og taldi hann Eirík eina löglega konunginn þaðan í frá, því þótt Eiríkur væri settur af 1440 vildi Teitur aldrei hylla annan konung að Eiríki lifandi, hvorki Kristófer af Bæjaralandi né Kristján 1., fyrr en 1459, þegar hann var leystur frá eið sínum með alþingisdómi, en þá var Eiríkur látinn. Hann virðist hafa verið mjög valdamikill og í miklum metum, þar sem hann komst upp með að neita að hylla konungana þótt hirðstjórar reyndu ítrekað að fá hann til þess. Kona Teits er óþekkt. Eina barn þeirra sem vitað er til að hafi átt erfingja var Kristín, kona Þorleifs Árnasonar bónda í Glaumbæ í Skagafirði, sem var sonarsonur Vatnsfjarðar-Kristínar og dóttursonur Lofts Guttormssonar ríka. Þeirra sonur var Teitur Þorleifsson lögmaður, sem erfði Bjarnaneseignir eftir afa sinn og spunnust um þær miklar deilur á 16. öld. Óskilgetinn sonur Teits Gunnlaugssonar var Gunnlaugur Teitsson lögréttumaður. Gilaeðla. Gilaeðla (eða gila) (fræðiheiti: "Heloderma suspectum") er eðlutegund sem lifir í norður Mexíkó og á vesturströnd Bandaríkjanna og í Arizona-fylki. Dregur hún annaðhvort nafn sitt af ánni Gila, sem sprettur upp í Arizona, eða þá að áin dregur nafn af henni. Moskeyjarröst. Moskeyjarröst (norska: "Moskenstraumen") er malstraumur ("hringiða") við Lófóteyjaklasann í norður Noregi. Moskeyjarröst er einn sterkasti malstraumur í heimi. Aron Pálmarsson. 250px Aron Pálmarsson (19. júlí 1990) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með Kiel í Þýskalandi. Aron lék með íslenska landsliðinu í handknattleik þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010.Aron Pálmarsson er uppalinn í FH. Ólafur Guðmundsson (f. 1990). Ólafur Andrés Guðmundsson (13. maí 1990) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með FH. Hrafn Bótólfsson. Hrafn Bótólfsson (d. 17. nóvember 1390) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann bjó í Lönguhlíð ytri í Hörgárdal og lést er skriða féll á bæinn. Langahlíð ytri heitir nú Skriða. Hrafn var sonur Bótólfs Andréssonar hirðstjóra, sem var norskur að kyni, og Steinunnar Hrafnsdóttur konu hans, en hún var dóttir Glaumbæjar-Hrafns Jónssonar, sonarsonar Hrafns Oddssonar. Hann kom til landsins 1381 og hafði verið veitt lögsögumannsembættið norðan og vestan af Ólafi konungi, eða dróttseta hans, því konungurinn var barn að aldri. Samkvæmt því sem segir í annálum var róstusamt í landinu um þær mundir og "Flateyjarannáll" segir „efldust flokkar og friðleysi“. Hrafn bjó í Lönguhlíð í Hörgárdal (þar sem Önundur Þorkelsson bjó á söguöld og var brenndur inni af Guðmundi dýra). Kona Hrafns var Ingibjörg, dóttir Þorsteins Eyjólfssonar hirðstjóra og lögmanns á Urðum. Seint um haustið 1390 (sumar heimildir segja þó 1389) voru geysilegar rigningar og skriðuföll norðanlands. Fimmtudagskvöldið 17. nóvember gerðist það í Lönguhlíð að jörðin sprakk í sundur, vatn kom upp í stofunni og bærinn og kirkjan grófust í aur. Hjónin fórust bæði í skriðunni ásamt tveimur börnum sínum. Lík húsfreyjunnar fannst daginn eftir en lík Hrafns ekki fyrr en ári seinna og var það þá flutt að Hólum í Hjaltadal og þar var Hrafn grafinn hjá Smið Andréssyni frænda sínum. Steinunn dóttir þeirra hjónanna var gift og farin að heiman þegar skriðan féll. Árið 1406 var Steinunn stödd í Noregi ásamt seinni manni sínum, Þorgrími Sölvasyni. Þau tóku sér far til Íslands með skipi ásamt fleiri Íslendingum. Skipið hraktist til Grænlands og þar voru þau föst í fjögur ár. Þar tókst Kolgrími nokkrum að komast yfir Steinunni með göldrum og var hann brenndur á báli en Steinunn náði sér ekki aftur eftir þessa lífsreynslu og dó á Grænlandi. Hústónlist. Hústónlist (eða house-tónlist, stundum nefnd einfaldlega house) er raftónlistarstefna þar sem takturinn er mikill og stundum sungið/talað inni á milli. Tónlistarstefnan á sér upphaf í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum snemma á 9. áratugnum. Hún varð til upp úr diskó-tónlist og er kennd við skemmtistaðinn The Warehouse sem Frankie Knuckles var með. Það var líka annar skemmtistaður sem hét The Music Box sem var skemmtistaður sem Ron Hardy spilaði á. Hardy spilaði fjölbreyttari lög en Knuckles. Enda þótt uppruna hústónlistar megi rekja til diskó-tónlistar má einnig merkja ýmis önnur áhrif, meðal annars frá teknótónlist (einkum Detroit techno), fönk- og djasstónlist og ýmsum suður-amerískum töktum. Martini (kokkteill). Martíní er kokteill sem er búinn til úr gini og vermút. Drykkurinn er venjulega skreyttur með ólífu sem er gegnumstunginn tannstöngli. Ekki má rugla kokkteilnum Martini við tegundarheitinu á frægum vermút, þ.e. hinum ítalska Martini. Kokkteillinn hefur þó líklega fengið nafn sitt af honum. "Martini" og "Dry Martini" („þurr Martini“) eru með frægustu kokteilum í heimi. Kokteill. Kokteill (kokkteill eða hanastél) er vínblanda, þ.e. blandaður drykkur þar sem uppistaðan er sterkt áfengi af hinum ýmsu gerðum. Kokteilar eru oft skreyttir og skrautið oft viðbit með drykknum, s.s. ólífur eða límónusneið. Orðið kokteill er stundum einnig haft um kokteilboð í óformlegu máli. Íslenskun á orðinu kokteill. Það hefur lengi verið reynt að finna orð til að hafa um það sem á ensku er nefnt cocktail. Menn hafa jafnvel reynt að stinga upp á hljóðlíkingu: "kokdillir". Það er þó meira notað í hálfkæringi en alvöru. "Milska" var nýyrði sem menn fundu upp á um 1960. Milska er gamalt orð og haft um drykkjablöndu (mjöð og öl), og var því "cocktail shaker" nefndur milskuhristir um þær mundir, t.d. í bókinni: "Könnun geimsins". Íslenska orðið hanastél, sem er bein þýðing á yfirborði enska orðsins, hefur mest verið notuð, en einnig kokteill og kokkteill. Hrafn Guðmundsson. Hrafn Guðmundsson (d. 1432) eða Rafn Guðmundsson var íslenskur lögmaður á 15. öld og bjó á Skriðu (Rauðuskriðu) í Reykjadal. Ætt hans er óþekkt en hann var bróðir Ara á Reykhólum, föður Guðmundar Arasonar ríka. Hrafn hefur líklega orðið lögmaður norðan og vestan 1405 og gegndi því embætti allt til dauðadags 1432. Hann var staðarhaldari á Grenjaðarstað frá 1406 og bjó þar í nokkur ár en síðan flutti hann að Rauðuskriðu og bjó þar síðan. Ekki fer miklum sögum af lögmannsferli hans þótt langur væri en hann er sagður hafa verið alvörugefinn maður og réttdæmur. Árið 1431 átti hann í harðri deilu við Jón biskup Vilhjálmsson út af reka norður á Sléttu og hótaði biskup Hrafni bannfæringu. Þann 6. ágúst 1432 hélt Hrafn lögmaður þing á Hálsi í Fnjóskadal en hefur dáið stuttu síðar því að 28. nóvember sama ár var Margrét ekkja hans tekin í klaustrið á Reynistað og gaf þá kirkjunni jörð til að láta syngja sálumessur fyrir Hrafni, þar sem hann hafði dáið í banni en þó fengið kirkjuleg. Margrét kona Hrafns var Bjarnadóttir, óþekktrar ættar. Þau áttu tvær dætur. Guðrún giftist Ólafi (d. 1458) launsyni Lofts ríka og bjuggu þau á Helgastöðum í Reykjadal og Reykjahlíð í Mývatnssveit. Börn þeirra voru Jón faðir Torfa í Klofa og Margrét, kona Bjarna Ólasonar á Hvassafelli. Ragna Hrafnsdóttir var kona Brands ríka Halldórssonar á Barði í Fljótum. Á meðal barna þeirra var Hrafn Brandsson (eldri) lögmaður. Frægðarhöllin í München. Frægðarhöllin og Bavaria-styttan á Theresienwiese Frægðarhöllin í München og Bavaria-styttan standa í Theresienwiese í München, garðinum þar sem hið vinsæla Oktoberfest fer árlega fram. Hin tröllaukna stytta af Bavaria er 27 metra há. Nokkrir Bæjarar heiðraðir í frægðarhöllinni Frægðarhöllin. Þegar Lúðvík I varð konungur Bæjaralands 1825, var Napoleon fallin fyrir 10 árum síðan og friður hafði komist á í Evrópu og Bæjaralandi. Lúðvík hafði mikinn áhuga á Grikklandi og vildi gjarnan breyta München í nýja Aþenu. Hann lét reisa ýmsar byggingar í grískum stíl, en hafði fengið hugmynd að því að reisa frægðarhöll nokkru áður en hann varð konungur. Áður hafði faðir hans reist frægðarhöll í borginni Regensburg (Walhalla). Lúðvík lét búa til lista yfir helstu listamenn og aðra menn frá Bæjaralandi sem skarað hafa framúr. 1833 skipulagði hann samkeppni um hönnum frægðarhallar sem standa átti á Theresienwiese í München og átti Leo von Klenze vinningstillöguna. Frægðarhöllin var þó ekki reist fyrr en 1843-53. Húsið var opinn súlnagangur í U-formi og lágu miklar tröppur upp í höllina. Gerðar voru afsteypur af 74 einstaklingum frá Bæjaralandi og þær hengdar upp í súlnagöngunum. 1868 var 10 persónum bætt við og 1888 var afsteypa af Lúðvík konungi bætt við í tilefni af 100 ára fæðingardegi hans. Í loftárásum seinna stríðsins varð frægðarhöllin fyrir sprengjum og stórskemmdist. Höllin var látin standa sem rústir í rúma tvo áratugi. Viðgerðir fóru ekki fram fyrr en 1966 og var jafnframt ákveðið að bæta við persónum frá Bæjaralandi sem skarað hafa framúr. Höllin var endurvígð 1972, skömmu eftir að Ólympíuleikarnir þar í borg voru á enda. Árið 2000 og 2009 var persónum frá 20. öldinni bætt í frægðarhöllinni. Þannig eru persónur eins og Bertolt Brecht, Werner Heisenberg, Carl Orff og fleiri Bæjarar heiðraðir í frægðarhöllinni. Bavaria-styttan. Bavaria er latneska heitið yfir Bæjaraland og er að auki tilbúin kvenpersóna sem er tákngervingur og verndarpersóna fyrir Bæjaraland. Þegar Lúðvík konungur ráðgerði að reisa frægðarhöll, var hugmyndin sú að reisa tröllaukna styttu af Bavaria þar fyrir framan. Hún var reist 1843-50 og er gerð úr bronsi. Hún var þar með fyrsta stóra bronsstyttan sem reist var síðan á fornöld. Styttan var vígð á Oktoberfest 1850, þremur árum áður en frægðarhöllin var vígð. Á þessum tíma var Maximilian II orðinn konungur Bæjaralands, en í vígslunni var Lúðvík konungur heiðraður. Styttan sjálf er 18 metra hæð og vegur rúmlega 87 tonn. En hún stendur auk þess á háum palli, þannig að styttan er alls 27 metra há. Að innan er hún hol. Þar eru 66 þrep sem hægt er að príla upp og komast á lítinn útsýnispall í höfðinu. Nasistar voru lítt hrifnir af styttunni á 4. áratugnum og ráðgerðu að fella hana og rífa frægðarhöllina með. En allar áætlanir strönduðu þegar stríðið skall á. Bavaria varð ekki fyrir sprengjum í loftárásum. Styttan var gerð upp á árunum 2001-2002. Erlendur Hauksson. Erlendur Hauksson (í sumum heimildum Erlingur) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Í annálum segir að hann hafi verið lögmaður árið 1319 en hann virðist aðeins hafa gegnt embættinu í eitt ár. Hann er talinn hafa búið á Upsum í Svarfaðardal en ætt hans er óviss. Áður var hann talinn hafa verið sonur Hauks Erlendssonar lögmanns en svo mun ekki hafa verið. Guðmundur Sigurðsson (lögmaður). Guðmundur Sigurðsson (d. eftir 1340) var íslenskur lögmaður og riddari á 14. öld, fyrst norðan og vestan 1302-1318 og svo sunnan og austan 1321-1340, eða samtals í nærri fjóra áratugi. Guðmundur er yfirleitt talinn hafa verið sonur Sigurðar Guðmundssonar lögmanns og hafa búið í Lögmannshlíð eins og hann en sú ættfærsla er þó alls ekki örugg. Hann var í Noregi árið 1316 og var þá gerður að riddara ásamt Eiríki Sveinbjarnarsyni. Hann hafði hrút í innsigli sínu. Kona hans er talin hafa verið Gróa, dóttir Odds Þórarinssonar riddara, og var sonur þeirra (eða Guðmundar að minnsta kosti) Sigurður Guðmundsson lögmaður á Svalbarði. Hildiríðarsynir. Hildiríðarsynir voru Hárekur og Hrærekur, synir Hildiríðar Högnadóttur. Frá þeim segir í "Egils sögu". Faðir þeirra var Björgólfur, ríkur maður á Torgum á Hálogalandi, og hafði hann tekið Hildiríði nauðuga úr föðurgarði. Hildiríðarsonum er lýst sem lágvöxnum en fríðum sýnum. Hálfbróðir þeirra samfeðra, miklu eldri, var Brynjólfur sem átti Helgu, dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Þegar Björgólfur dó rak Brynjólfur Hildiríði og syni hennar á brott og fór hún til föður síns, en synir hennar fengu engan arfshlut eftir föður sínn. Þeir fengu heldur ekkert þegar Brynjólfur dó. Bárður hvíti hét sonur Brynjólfs og Helgu. Hann var vinur og frændi Þórólfs Kveldúlfssonar, en Hallbera móðir Kveldúlfs var afasystir Helgu. Þeir voru í Hafursfjarðarrorustu í liði Haralds konungs og særðist Bárður þar til ólífis, en áður en hann dó gaf hann Þórólfi arf eftir sig gegn því að hann tæki að sér Sigríði konu sína og ungan son. Þórólfur féllst á þetta og giftust þau Sigríður. Hildiríðarsynir komu þá enn og heimtuðu föðurarf sinn en Þórólfur sinnti því engu. Hildiríðarsynir voru í vinskap við Harald konung og rægðu þeir Þórólf við hann. Fór svo að konungur gerði Þórólfi aðför og felldi hann. Ketill hængur Þorkelsson, dóttursonur Ketils hængs úr Hrafnistu, safnaði þá liði og felldi Hildiríðarsyni, en hélt síðan til Íslands og nam land mili Þjórsár og Markarfljóts. Fjórðungssamband Vestfirðinga. Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Vestfjörðum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Suðurnesjum Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Austurlandi. Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum (EYÞING) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Suðurlandi. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Samband íslenskra sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á Íslandi. Justin Bieber. Justin Drew Bieber (fæddur 1. mars 1994) er kanadískur popp/R&B-söngvari. Bieber var uppgötvaður af Scooter Braun árið 2008. Braun rakst á myndband með Bieber á YouTube og varð síðar umboðsmaður hans. Braun kom honum einnig í samband við Usher Raymond sem kom Bieber á samnig hjá Raymond Braun Media Group og seinna átti hann eftir að komast á samning hjá Island Records í boði L.A. Reid. Í nóvember 2009 gaf Justin út plötuna My World. Hann varð fyrsti tónlistarmaðurinn til að ná sjö lögum á Billboard Hot 100 á sama tíma. Heimildarmynd var gerð um hann árið 2011 og fékk hún nafnið. Í nóvember 2011 gaf hann svo út sína aðra stúdíóplötu sem hét Under The Mistletoe og ári seinna, 2012, gaf hann út þriðju stúdíóplötuna, Believe. Justin hefur unnið til fjölda verðlauna, m.a. listamaður ársins á 2010 American Music Awards og 2012 American Music Awards og var tilnefndur sem Best New Artist og Best Pop Vocal Album á 53 Grammy Awards. Hann á aðdáendur um allan heim og er hann með 33 milljónir "followers" á samskiptasíðunni Twitter. Aðdáendurnir kalla sjálfa sig "Beliebers". Samkvæmt Forbes tímaritinu árið 2012 var Justin þriðja valdamesta stjarnan á jarðríki. Í maí 2012 hafði Bieber selt um 15 milljónir platna. Æviágrip. Justin Drew Bieber fæddist þann 1.mars 1994 í London, Ontario á St Joseph's Hospital en var alin upp í Stratford, Ontario. Foreldrar hans eru þau Jeremy Jack Bieber og Patricia "Pattie" Mallette. Þegar Justin fæddist var móðir hans aðeins 17 ára gömul. Foreldrar hans giftu sig aldrei en voru þó góðir vinir og reyndu að ala soninn upp í góðu þó þau væru ekki saman. Faðir Justins gifti sig hins vegar og eignaðist tvö önnur börn. Justin var mikið í íþróttum sem barn s.s. íshokký, fótbolta og skák. Hann kenndi sjálfum sér að spila á hin ýmsu hljóðfæri eins og trommur og gítar. Árið 2007 þegar hann var aðeins 12 ára gamall setti móðir hans myndband af honum á Youtube að syngja lagið So Sick með Ne-Yo til að vinir og ættingjar gætu séð. Hún setti fleiri myndbönd inn sem gerðu Justin frægan. Detroit-teknó. Roland TR-909 (efri) og Roland TR-808 (neðri) trommuheilar. a> er einn af þekktari framleiðendum Detroit-teknós. a> er einn af þekktari framleiðendum Detroit technos. Detroit-teknó er raftónlistarstefna sem varð til í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum um miðjan 9. áratug 20. aldar. Meðal einkenna Detroit-teknós eru notkun hliðrænna hljóðgervla og eldri gerða trommuheila, svo sem Roland TR-808 og Roland TR-909. Meðal þekktra Detroit-teknótónlistarmanna má nefna Juan Atkins, Derrick May, Eddie Fowlkes, Kevin Saunderson, Mike Banks, Robert Hood, Jeff Mills, Carl Craig, Kenny Larkin og Stacey Pullen. Detroit-teknó var frá upphafi undir þó nokkrum áhrifum frá þýsku hljómsveitinni Kraftwerk og frá hústónlist frá Chicago en hefur einnig haft töluverð áhrif á þróun hústónlistar bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Skyldar tónlistarstefnur eru meðal annars hústónlist, sýruteknó, minimal techno og annað teknó frá Bandaríkjunum (einkum New York-borg) og Evrópu og trance. Grímur Þorsteinsson. Grímur Þorsteinsson (d. um 1350) var lögmaður, hirðstjóri og riddari á 14. öld. Grímur var sonur Þorsteins Hafurbjarnarsonar lögmanns og konu hans Guðfinnu Magnúsdóttur. Hans er fyrst getið í heimildum þegar hann kom heim frá Noregi árið 1316 og hafði þá fengið riddaratign. Hann var fyrst lögmaður sunnan og austan 1319-1320. Þegar Snorri Narfason var settur úr embætti 1330 varð Grímur aftur lögmaður, en þá að norðan og vestan. Hann tók við lögsögninni í Stafholti í Borgarfirði, en ekki er þar með sagt að hann hafi átt heima þar. Ekki er fullvíst hvað hann var lengi lögmaður að þessu sinni og hvenær Pétur Halldórsson tók við en það hefur líklega verið 1335. Grímur sigldi utan 1341 eða 1342 og kom aftur 1343 og hafði þá fengið hirðstjórn. Hann sigldi aftur 1345, kom aftur ári síðar, 1346, og varð þá lögmaður norðan og vestan. Því embætti hélt hann til dauðadags. Annálum ber ekki saman um dánarár hans, 1350–1352. Á síðustu árum sínum virðist herra Grímur hafa átt jörðina Hraun við Grindavík, og haft tengsl við Herdísarvík og Strandarkirkju í Selvogi (sbr. "Íslenskt fornbréfasafn" 2 og 4). Um fjölskyldu hans er það eitt vitað að í annálum segir árið 1347 að Ólafur kláði, sonur herra Gríms, hafi verið höggvinn. Í handritinu Möðruvallabók er hripað neðanmáls: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að [Herra] Grímur eigi hana.“ Þetta er eina örugga heimildin um þessa glötuðu Íslendingasögu. Pétur Halldórsson (lögmaður). Pétur Halldórsson var íslenskur lögmaður á 14. öld og bjó á Víðimýri í Skagafirði. Ætt hans er óþekkt. Ekki er alveg víst hvenær Pétur varð fyrst lögmaður en það hefur líklega verið 1335. Hann var lögmaður norðan og vestan í 10 ár, til 1345, en þá tók Grímur Þorsteinsson við. Pétur varð svo aftur lögmaður eftir lát Gríms 1351 og gegndi embættinu til 1360. Kona hans var Ingibjörg Svarthöfðadóttir og sonur þeirra Ólafur Pétursson hirðstjóri. Teknótónlist. Teknótónlist (oftast aðeins talað um teknó) er raftónlistarstefna sem fyrst varð til í Detroit í Michigan um miðjan 9. áratug 20. aldar, meðal annars undir áhrifum frá þýsku hljómsveitinni Kraftwerk og hústónlist frá Chicago, en síðan hafa orðið til mörg afbrigði teknótónlistar. Saga. Juan Atkins, Derrick May og Kevin Saunderson voru þeir fyrst til að búa til teknótónlist, þegar þeir voru ungir gengu þeir í sama skólan og fóru saman á dansleiki þar sem tónlist á borð við Kraftwerk var spiluð. Þeir heilluðust af tónlistinni og byrjuðu að gera tónlist sjálfir. Þeir blönduðu stílunum úr diskó, fönk og synthpop við stílinn frá Kraftwerk, Tangerine Dream, Yellow Magic Orchestra og fleirum og byrjuðu að gefa út tónlist undir nafninu Cybotron, teknótónlist er fædd. Á sama tíma voru hipp hopp-tónlistarmenn á borð við Afrika Bambaataa og Grandmaster Flash að herma eftir stílnum hjá Kraftwerk og úr því varð elektró. Til dæmis tóku Afrika Bambaataa búta úr lögunum Trans-Europe Express og Numbers eftir Kraftwerk til að semja Planet Rock sem er líklega þeirra vinsælasta lag. Teknó- og elektrótónlist varð einnig til vegna þess að trommuheilar eins og Roland TR-808 og Hljóðgervlar á borð við Roland TB-303 voru aðgengilegir og ódýrir en teknótónlistarmenn nota allra helst hljóðgervla og trommuheila þegar þeir semja lögin sín. Teknó var til að byrja með takmarkað við litla staði og átti sér tiltörulega lítin áhangendahóp, margir teknótónlistarmenn tóku upp á því að setja upp hljóðkerfi í mörgum af yfirgefnum vöruhúsum og verksmiðjum sem Detroit hefur upp á að bjóða og halda svoköllum reif þar. Það var að vissulega ólöglegt en mörg hundruð manns flykktust á þessi reif sem oftar en ekki voru leyst upp af lögreglunni. Eftir að nýjar reglur voru gefnar út um að banna rave voru vinsældir tónlistarstefnunar orðnar svo gífurlegar að stórir dansklúbbar í Detroit líkt og Motor sáu gróða tækifæri í þessu og fóru að halda teknókvöld á klúbbunum sínum. Þar með var klúbbasenan fædd. Menn á borð við Carl Craig og Derrick May hafa verið kallaðir frumkvöðlar techno tónlistar. Undir áhrifum frá Kraftwerk byrjuðu þeir að gera einfalda og bassamikla tónlist sem átti að spilast í stórum hljóðkerfum og láta fólk dansa. Eftir að teknótónlist hafði fest rætur sínar í tónlistarsenu Detroit var ekki langt þangað til að Carl Craig og Derrick May fóru að hugsa lengra. Þeir ákváðu í sameiningu að halda teknóhátíð. Eftir mikla vinnu og togstreitu við borgina tókst það á endanum og hátíðin sló í gegn. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2000 og ber nafnið Detroit Electronic Music Festival (DEMF). Enn þann dag í dag er haldið upp á hátíðina. Teknó í Evrópu. í kringum 1990 Varð teknó gífurlega vinsælt í Evrópu og þá sérstaklega í Bretlandi. Risastór ólögleg reif voru stöðugt haldin og til að komast í veg fyrir að lögreglan vissi af þeim var staðsetningin ekki gefin upp fyrr en sama kvöld og reifið var haldið í gegnum síma eða á ýmsum leynilegum stöðum. Teknólög eins og Firestarter með Prodigy komst í fyrsta sæti á breska topp listanum árið 1996. Útgáfurisinn Warp Records safnaði að sér raftónlistarmönnum sem voru óhræddir við að fara ótroðnar slóðir eins og Aphex Twin og Squarepusher. Árið 1989 var Love Parade haldin í fyrsta sinn í Þýskalandi, skrúðganga sem átti eftir að vera haldin ár eftir ár. Teknóplötusnúðar spiluðu fyrir fólkið í skrúðgöngunni. Hátt upp í milljón manns sóttu skrúðgönguna á árunum 1997 – 2000. Árið 2010 urðu óeirðir í skrúðgöngunni til þess að 21 dóu og yfir 500 slösuðust, eftir það var endanlega hætt við hátíðina. Love Parade hafði verið stór partur af teknósenunni í mörg ár og þótti mörgum teknónnendum mjög leitt að Þessi hátíð hafi endað á eins hræðilegan hátt og hún gerði. Richie Hawtin. Richie Hawtin flutti frá Englandi til Ontario í Kanada þegar hann var aðeins níu ára. Faðir hans hafði mikla ást á raftónlist og öllu sem tengdist tækni. Hann kynnti son sinn Richie fyrir hljómsveitum eins og Tangerine Dream og Kraftwerk. Þegar Richie var orðinn sautján ára heillaðist hann af plötusnúði sem hann hlustaði á í útvarpinu sem spilaði teknó. Richie byrjaði skömmu eftir það að þeyta skífum á hinum og þessum börum í Detroit þar sem að aðeins klukkutíma ferðalag með lest var á milli Detroit og La Salle þar sem Richie bjó. Hann kynntist síðan kanadískum plötusnúði sem gekk undir nafninu DJ John Aquaviva. Þeir sameinuðu krafta sína og stofnuðu plötufyrirtækið Plus 8. Hawtin gaf út á því plötufyrirtæki undir nafninu F.U.S.E. Í sameiningu skipulögðu hann og DJ John Aquaviva fjölmörg reif og partí í Detroit og urðu fljótt mjög vinsælir. Hawtin gaf út fjöldan allan af plötum og lögum undir alls konar nöfnum, það sem vakti mesta athyglina var þegar hann gaf út undir nafninu Plastikman. Plastikman varð meira heldur en bara tónlist, Plastikman varð sameiningartákn teknóunnenda í Detroit, fólk bjó til alskonar varning sem bar Plastikman merkið og dreifði því um borgina. Þegar vinsældir Plastikman stóðu sem hæst tók Detroitborg þá ákvörðun að þessi reif væru farin úr böndunum og bönnuðu Richie að stíga fæti inn í Detroitborg að eilífu. Þetta var mikið áfall fyrir Richie en hann lét ekki deigan síga og hélt áfram að gefa út teknótónlist og halda minni reif í heimabæ sínum La Salle. Á endanum tók hann þá ákvörðun að flytja til Berlínar með vinum sínum til að taka þátt í teknósenunni sem fór ört stækkandi. Carl Craig. Carl Craig er fæddur 22. maí árið 1969. Hann er talinn af mörgum vera hjarta teknósenunar í Detroit. Hann var vissulega einn af frumkvöðlum teknótónlistarinnar. Þegar talað er um frumkvöðla teknótónlistar heyrir maður ávallt nöfnin Kevin Saunderson, Derrick May, Juan Atkins og Carl Craig. Allir fjórir eru fæddir og uppaldir í Detroit og allir áttu þeir sinn þátt í að móta teknósenuna. Carl Craig er hins vegar sá sem talað er um að hafi átt mestan þátt í að koma Techno á framfæri. Hans hugsjón fyrir teknó var miklu stærri heldur en hjá öllum öðrum. Hann vildi sjá senuna stækka og breiða úr sér út fyrir Detroit og jafnvel út fyrir landsteinana. En ef það væri ekki fyrir lærimeistara hans Derrick May þá hefði hann líklega ekki komist svona langt. Gus Gus. Gus Gus er ein af vinsælustu raftónlistar hljómsveitum sem komið hefur frá Íslandi. Hljómsveitin var stofnuð árið 1995 og er enn þá starfandi í dag. Hljómsveitin hefur gefið út plötur hjá stórum útgáfufyrirtækjum eins og Kompakt og 4AD. Hljómsveitin hefur unnið fjöldan allan af verðlaunum fyrir tónlist sína bæði á Íslandi og erlendis. Hljómsveitina skipa þau Stephan Stephensen, Birgir Þórarinsson, Daníel Ágúst Haraldsson, Urður Hákonardóttir og Högni Egilsson en hljómsveitin hefur unnið með mörgum öðrum í gegnum tíðina. Hljómsveitin hefur gefið út átta breiðskífur. Hljómsveitin hefur gefið út alls konar tónlist sem flokkast undir margar tónlistarstefnur en megin tónlistarstefna hljómsveitarinnar er hústónlist. Þorsteinn Ólafsson (lögmaður). Þorsteinn Ólafsson (d. 1435) var íslenskur lögmaður og umboðsmaður hirðstjóra á 15. öld. Hann bjó á Stóru-Ökrum í Skagafirði og var sonur Ólafs helmings Þorsteinssonar í Fellsmúla og konu hans Ragnheiðar Hallsdóttur. Hann er stundum kallaður Helmingsson í heimildum. Sumarið 1406 var Þorsteinn staddur í Noregi og tók sér far með skipi heim til Íslands ásamt fleira fólki. Skipið hraktist til Grænlands og brotnaði þar en fólk bjargaðist. Hins vegar liðu fjögur ár þar til skip kom næst til Grænlands og þegar strandaglóparnir komust loks til Noregs 1410 var björninn ekki unninn; siglingar voru mjög strjálar um þetta leyti og sum árin engar og svo virðist sem enginn hafi komist heim fyrr en 1413. Þann 16. september 1408 giftust þau Þorsteinn og Sigríður Björnsdóttir í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi. Sigríður var dóttir Björns ríka Brynjólfssonar á Ökrum í Skagafirði og konu hans Málmfríðar, sem var dóttir Eiríks auðga Magnússonar á Svalbarði og móðursystir Lofts Guttormssonar. Með henni í utanlandsferðinni hafði verið Sæmundur Oddsson frændi hennar og veitti hann samþykki til ráðahagsins. Skjöl tengd hjúskap þeirra eru síðustu rituðu heimildirnar um búsetu norrænna manna á Grænlandi. Þau Þorsteinn og Sigríður settust að á Ökrum þegar þau komust loksins heim. Þorsteinn varð lögmaður sunnan og austan 1421 og gegndi embættinu til 1435. Á árunum 1420-1423 og 1427-1430 var hann einnig hirðstjóri eða umboðsmaður hirðstjóra norðan lands og vestan. Dóttir Þorsteins og Sigríðar var Kristín, sem bjó á Stóru-Ökrum með báðum mönnum sínum, Helga Guðnasyni lögmanni og Torfa Arasyni lögmanni, og síðan lengi ekkja. Hún var jafnan kennd við ábýlisjörð sína og kölluð Akra-Kristín. IPad. iPad er spjaldtölva hönnuð, þróuð og seld af Apple. Tækið er notað til að skoða stafrænar bækur (frá iBookstore), myndir og myndbönd, horfa á tónlist, vafra um á Internetinu og spila leiki. Stærð og þyngd tækisins á milli þeirra snjallsíma og fartölva. Stýrikerfið á iPad er sama og það sem keyrt er á iPod touch og iPhone. Hægt er að nota forrit sem skrifað var fyrir iPhone á iPad. Án breytinga getur iPad aðeins verið notað með forriti sem hleðið er niður frá App Store forritversluninni frá Apple. Forritið iWork fæst líka á iPad, en fylgir ekki með henni. Eins og iPod Touch og iPhone er iPad með fjölsnertiskjá, ólík öðrum töflutölvum sem settar hafa verið á markað. Þessum tölvum var stýrt með stílum og flestar voru með innbyggðum lyklaborðum. Lyklaborðið á iPad er á snertiskjánum og er aðeins sýnt þegar það er notað. iPad er með Wi-Fi-sambandi til að hlaða gögn niður frá Internetinu en sumar tegundir eru líka með 3G-sambandi sem tengt getur við HSPA og EV-DO þjónustur. Gögn eru flutt yfir á iPad með iTunes-forriti á tölvu í gegnum USB-kapal. iPad er með örgjörva sem þróaður hefur verið og framleiddur af Apple, Apple A4. Apple kynnti fyrstu iPad janúar 2010 og yfir 3 milljónir tæki seldust í fyrstu 80 daga. Árið 2010 seldust 14,8 milljónir iPad-stykki um heiminn, sem var um 75% af öllum töflutölvum sem seldar var það ár. Fyrir iPad 2 var kynnt mars 2011 hafa yfir 15 milljónir stykki selst. Búast má við að markaðshlutdeild iPad í Bandaríkjunum verður um 83% árið 2011. Forsaga. Fyrsta töflutölvan sem Apple kynnti var lófutölvan Newton MessagePad 100, sem kynnt var árið 1993. Tilkynningu MessagePad 100 fylgdi þróun örgjörvans ARM6 í sambandi við breska fyrirtækið Acorn Computers. Apple þróaði líka töflutölvafrumgerð sem byggð var á PowerBook Duo og hét PenLite en ákveðið var að ekki selja hana svo að sölutekjur af MessagePad væru ekki skemmdar. Apple kynnti nokkrar aðrar Newton-lófutölvur en síðasta tölvun í þessari línu, MessagePad 2100, var tekin af markaðnum árið 1998. Apple for aftur inn í fartækjamarkaðinn árið 2007 með tilkynningu iPhone. Hann er snjallsími sem er smærri en iPad en með myndavél og farsímatæki. iPhone var fyrsta tækið frá Apple með fjölsnertiskjá og stýrikerfinu iOS (nefnt iPhone OS á þeim tíma). Borið hafði verið út orðróm um tilkynningu iPad í nokkur ár fyrir árið 2009. Talið var að nafnið á þessari töflutölvu gæti verið "iTablet" eða "iSlate". Nafnið "iPad" er að því er talið er tilvísun til tækis í Star Trek sem heitir PADD og lítur mjög svipað út. Steve Jobs kynnti iPad 27. janúar 2010 á blaðamannafund í Yerba Buena Center for the Arts í San Francisco. Síðar sagði Jobs að þróun á iPad hefði byrjað áður en þróun á iPhone en ákveðið væri að setja hana í hillu þegar hann fattaði að hugmyndir hans væru eins góðar í farsíma. Fyrsta kynslóð. Forpantanir á iPad hófust í Bandaríkjunum þann 12. mars 2010. Eini munurinn á iPad sem var kynnt og þá sem var seld var sú að tilgangi rofans vinstri megin á tækinu hafði verið breytt: hann slökkvaði ekki lengur á hljóði heldur á snúningi skjásins. Sölur á iPad með Wi-Fi hófust í Bandaríkjunum þann 3. apríl 2010. Útgáfan með Wi-Fi og 3G kóm út 30. apríl sama ár. Farsímafyrirtækið AT&T býður upp á 3G-þjónustu í Bandaríkjunum og í fyrstu voru tveir áskriftarvalkostir: einn með ótakmarkaðri gagnanotkun og einn með takmörkum af 250MB á mánuði. Hægt er að gerast áskrifandi að þessum áskriftum beint á iPad. Í fyrstu var iPad seld aðeins í Apple Store-verslunum og í netverslun fyrirtækisins. Síðan hún var kynnt hefur iPad fengist í mörgum verslunum meðal annars Amazon, Walmart, Best Buy, Verizon og AT&T. iPad var sett á markað í Ástralíu, Frakklandi, Japan, Kanada, Sviss, Þýskalandi, og á Bretlandi, Ítalíu og Spáni þann 28. maí 2010. Forpantanir hófust á þessum löndum þann 10. maí. iPad var kynnt í Austurríki, Belgíu, Hollandi, Hong Kong, Lúxemborg, Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Singapúr, og á Írlandi þann 23. júlí. Innflutningur tækisins inn í Ísrael var bannaður í stuttan tíma vegna áhyggja á að Wi-Fi-kubburinn í iPad gæti trufla önnur tæki. iPad var kynnt opinberlega í Kína þann 17. september 2010. Tækið var mjög vinsælt en 300.000 stykki seldust fyrsta daginn. Áður en 3. maí 2010 hafa milljón iPad selst, í um helming tíma sem milljón iPhone selst. Á símafund 18. október 2010 tilkynnti Steve Jobs að Apple hefði selt fleiri iPad-stykki en Mac-stykki í þann ársfjórðung. Samtals seldust um 15 milljónir iPad áður en tilkynning iPad 2. iPad 2. Steve Jobs tilkynnti iPad 2, annað kynslóð af iPad, 2. mars 2011 á blaðamannafund þó að hann væri í veikindaleyfi á þeim tíma. iPad 2 er 33% þynnri en fyrsta iPad, og í henni er hraðari tvíkjarna örgjörvi: Apple A5. Samkvæmt Apple er þessi örgjörvi tvívegis hraðari en sá í fyrstu iPad. Í nýrra útgáfunni eru innbyggðar myndarvélar bæði að aftan og framan sem má vera notaðar til að halda FaceTime-vídeósamtöl, og innbyggður snúðvísir. Rafhlaðan í henni endist í 10 klukkustundir, eins og fyrsta útgáfan. Verðin eru líka svipuð. iPad 2 hefur verið á markað í Bandaríkjunum síðan 11. mars 2011 og fæst í Apple Store-verslunum og netverslun Apple. iPad 2 var tilkynnt í öðrum löndum 25. mars, meðal annars í Ástralíu, Frakklandi, Kanada, Mexíkó, Þýskalandi og á Bretlandi og Íslandi. Kynningu iPad í Japan var frestað vegna hamfaranna en tækið er nú til sölu þar. Spjaldtölva. Spjaldtölva er tölva með helstu einkenni heimilistölvu en er stjórnað með snertiskjá eða snertipenna að mestu leyti í stað lyklaborðs og tölvumúsar. Auðvelt er að halda á spjaldtölvum og nota þær við aðstæður þar sem óhentugt er að nota fartölvur. Spjaldtölvur eru til í ýmsum útgáfum, til dæmis með utanáliggjandi lyklaborði sem hægt er að festa á eða með innbyggðri mús. Aðrar eru með snertiskjá og hægt er að skrifa með skjályklaborði, snertipenna eða tengja lyklaborð til að slá texta inn. Flestar spjaldtölvuskjáir eru um 21–36 cm að stærð svo hægt er að bera tölvuna í höndunum og skrifa á hana eins og skrifblokk. Hugtakið spjaldtölvur má einnig nota yfir fartölvur með snertiskjá sem bjóða upp á að sleppa lyklaborðsnoktun til dæmis með því að snúa við skjá og leggja ofan á lyklaborðið. Microsoft gaf þessari tölvutegund nafnið Tablet PC árið 2000. Spjaldtölvur keyra sömu stýrikerfi og venjulegar tölvur en stundum í breyttri útgáfu. Þar má helst nefna Windows XP, Windows XP Tablet Edition, Windows 7 eða Linux. Í þeim er hægt að keyra sama hugbúnað og nota sömu jaðartæki og notuð eru fyrir tölvur. Í því liggur einn helsti munurinn á spjaldtölvum og snjalltöflum. Þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (stundum nefnd Sannleiksnefnd Alþingis) var níu manna þingnefnd alþingismanna sem brást við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Nefndin starfaði í um fimm mánuði við að fara ofan í kjölinn á skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem var gerð opinber 12. apríl 2010 og ákveða viðbrögð við henni. Niðurstöður nefndarinnar voru gerðar opinberar 11. september 2010 í formi skýrslu. Meðal helstu niðurstaðna voru þær að koma þyrfti á skýrari skiptingu ríkisvaldsins, sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þyrfti að efla, og getu þingsins til þess að sinna þingeftirliti sömuleiðis. Loks ættu þingmenn að setja sér siðareglur. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að þrír ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi með vítaverðu gáleysi: Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra (2005-2009), Geir Haarde, forsætisráðherra (2006-2009) og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra (2007-2009). Þingmannanefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hvort samþykkja bæri þingsályktunartillögu um kæru á hendur ráðherra vegna brota í starfi. Þingmenn Samfylkingarinnar vildu að ofangreindir þrír ráðherrar yrðu ákærðir fyrir landsdóm. Þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar vildu því til viðbótar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra (2007-2009), yrði ákærð. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins töldu að ekki bæri að ákæra neinn ráðherra. Með atkvæðagreiðslu á Alþingi um tillögur nefndarinnar þann 28. september 2010 var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 30 að höfðað skyldi mál fyrir Landsdómi á hendur Geir H. Haarde en tillögur um málshöfðun á hendur Ingubjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni voru felldar. Skipaður var sérstakur saksóknari Alþingis sem birti Geir formlega ákæru og málið Alþingi gegn Geir H. Haarde var rekið fyrir Landsdómi en því lauk með sakfellingu vegna eins ákæruliðar en sýknu eða frávísun annarra liða. Geir var ekki gerð sérstök refsing í málinu. Samsetning. Formaður nefndarinnar var Atli Gíslason og vakti athygli að flestir þingmannanna voru nýir á þingi. Nefndin endurspeglaði styrk stjórnmálaflokka á þingi. Þá var þar líka Birgitta Jónsdóttir úr flokki Hreyfingarinnar en hún gerði kröfu um varaformannssæti í nefndinni. Þingmennirnir voru kosnir án atkvæðagreiðslu á þingfundi þann 30. desember 2009. Ásbjörn Óttarsson var í lok janúar 2010 hvattur til að segja sig úr nefndinni eftir að hafa viðurkennt að hafa brotið lög þegar hann greiddi sér og konu sinni tuttugu milljónir króna í arð árið 2007. Hann sagði sig úr nefndinni í febrúar og í stað hans kom Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Neuschwanstein. Kastalinn Neuschwanstein liggur hátt uppi klettahrygg Neuschwanstein er kastali mikill í þýsku Ölpunum í sambandsríkinu Bæjaraland. Hann er einn fegursti og vinsælasti kastali Þýskalands. Hann er oft kallaður Ævintýrahöllin ("Märchenschloss"). Saga Neuschwanstein. Neuschwanstein liggur við rætur þýsku Alpanna Á staðnum þar sem Neuschwanstein stendur nú, voru áður rústir lítils virkis. Hinn ungi prins Lúðvík var að hluta alinn upp í nágrenninu, í kastalanum Hohenschwangau, sem einnig kallaðist Schwanstein ("Svanasteinn"). Þegar Lúðvík varð konungur Bæjaralands 1864 og varð Lúðvík II, tók hann sér fyrir hendur að rífa rústir virkisins til að reisa nýjan og veglegan kastala fyrir sig. Framkvæmdir hófust 1869 og þjónaði kastalavirkið Wartburg í Þýringalandi sem fyrirmynd. Konungur hafði mikil áhrif á teikningarnar og má segja að útlit kastalans, bæði utan sem innan, hafi meira eða minna verið hans verk. Því töfðust framkvæmdir, þar sem konungur lét oft gera breytingar á teikningunum. 1886 gat Lúðvík loks flutt inn, þrátt fyrir að kastalinn væri langt frá því að vera tilbúinn. En honum lá á, því hann var veikur og lést hann á sama ári. Þá hafði Lúðvík aðeins verið í kastalanum í fáeina mánuði. Það hefur því aldrei verið búið í kastalanum nema í nokkra mánuði. Hálfu ári seinna var kastalinn í fyrsta sinn opnaður fyrir almenning. Aðgangseyrir gestanna var notaður til að greiða byggingarskuldir sem orðnar voru mjög háar og til að klára framkvæmdir við kastalann. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari fluttu nasistar mikið af gulli í kastalann, til að komast hjá því að bandamenn kæmust í það. Gullið var svo flutt í burtu og ráðgerðu nasistar að sprengja kastalann. En yfirmaður verksins framfylgdi ekki skipunina þegar til kom og því stendur hann enn í dag. Kastalinn er opinn almenningi og er einn vinsælasti ferðamannastaður Þýskalands. Neuschwanstein lenti í 8. sæti yfir val á nútíma heimsundrin 7. Sótt hefur verið um að setja hann á heimsminjaskrá UNESCO. Höllin. Neuschwanstein stendur á háum klettahrygg við rætur Alpafjalla. Stærsti hluti hans er höllin, en einnig er þar að finna virki, varðturnar, inngangshlið og varnarmúrar. Alls er samstæðan 150 metra löng. Upphaflega var ráðgert að í höllinni yrðu 200 herbergi og salir. En sökum fjárskorts og dauða Lúðvíks konungs urðu þeir miklu færri. Í höllinni eru þrjár aðalhæðir. Neðst eru vistarverur fyrir þjónustuliðið, eldhús og geymslur. Á miðhæðinni eru móttökusalir og veislusalir. Efst eru vistarverur konungs, en þar fyrir ofan (hálfgerð fjórða hæð) er krúnusalurinn ("Thronsaal"). Stærsti salurinn er hins vegar söngvasalurinn ("Sängersaal"), sem er hátíðarsalur. Hann er skreyttur með myndefni úr óperunni Lohengrin og Parsival-sögunni eftir Richard Wagner, en Lúðvík konungur dáðist að tónlist hans. Ekki fóru þó neinir tónleikar fram í salnum meðan konungur lifði. Fyrstu tónleikar þar fóru ekki fram fyrr en 1933, á 50. dánarári Richards Wagners. Vistarverur konungs eru einnig gríðarlega skreyttar, oftar en ekki með myndefni úr tónlist Wagners. Finnbogi Jónsson (lögmaður). Finnbogi Jónsson Maríulausi (um 1440 – eftir 1513) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 15. og 16. öld. Hann bjó í Ási í Kelduhverfi. Finnbogi var sonur Jóns Pálssonar Maríuskálds, prests á Grenjaðarstað, og fylgikonu hans Þórunnar Finbogadóttur gamla Jónssonr í Ási. Líklega hefur Finnbogi fengið viðurnefnið af því að hann hefur ekki þótt jafnguðrækinn og hliðhollur Maríu mey og faðir hans. Hann varð lögmaður norðan og vestan eftir lát Hrafns Brandssonar og gegndi embættinu frá 1484 til 1508. Hann er þó kallaður lögmaður í dómi frá 1581 en þar var Hrafn lögmaður sjálfur annar málsaðilinn og hefur Finnbogi þá verið fenginn til að hlaupa í skarðið. Hann þótti lögfróður og skarpvitur en hafði misjafnt orð á sér fyrir lagakróka og ásælni. Jón Sigmundsson fór utan árið 1508 og fékk veitingu fyrir lögmannsembættinu hjá Kristjáni 2. Hann kom þó ekki til landsins fyrr en eftir Alþingi 1509 en líklega hefur Finnbogi verið búinn að fá fregnir af því að hann hefði misst embættið því hann kom ekki til þings það sumar. Hann kom þó næsta ár og vann þá mál sem snerist um eignarhald á Grund í Eyjafirði og fleiri jörðum, sem hann taldi sig hafa erft eftir dóttur sína. Finnbogi er nefndur í Leiðarhólmssamþykkt 1513 og hefur þá verið á lífi en árið eftir er Þorsteinn sonur hans orðinn sýslumaður í Þingeyjarsýslu og ekki ólíklegt að Finnbogi sé þá látinn. Kona Finnboga var Málmfríður Torfadóttir (f. um 1545), dóttir Torfa Arasonar hirðstjóra og Akra-Kristínar Þorsteinsdóttur, og giftust þau haustið 1467. Á meðal barna þeirra voru Jón prestur í Múla og á Grenjaðarstað og príor í Möðruvallaklaustri 1524-1546, Jón prestur í Laufási, Þorsteinn sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu, Guðlaug móðir Orms Sturlusonar lögmanns og Sigurður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, faðir Ísleifs sýslumanns á Grund, sem giftur var Þórunni dóttur Jóns Arasonar. Snertiskjár. Snertiskjár er tölvuskjár og inntakstæki sem getur greint nálægð og staðsetningu snertingar. Yfirleitt er notaður fingur eða stíll til að hafa samskipti við skjáinn. Snertiskjáir gera notendum kleift að hafa beint samskipti við það sem er sýnt á skjánum, í staðinn fyrir að nota tölvumús eða snertiflötu. Snertiskjáir finnast oftast í farsímum, lófatölvum, töflutölvum, GPS-tækjum og farleikjatölvum. Til eru nokkrar tegundir snertiskjáa sem nota ólík tæki til að greina snertingar. Nú á dögum eru fjölsnertiskjáir (e. "multi-touch") framleiddir sem geta greint margar snertingar í einu. Rothenburg ob der Tauber. Húsið Plönlein milli tveggja borgarhliða Hægt er að ganga á borgarmúrunum hringínn í kringum bæinn Rothenburg ob der Tauber er frægasti og þekktasti miðaldarbær Þýskalands. Sökum hins gamla miðbæjarkjarna og borgarmúra, sem enn ganga umhverfis bæinn allan, er bærinn einn mest sótti ferðamannastaður Þýskalands. Íbúar eru aðeins rúm 11 þúsund. Lega. Rothenburg liggur við ána Tauber nær norðvestast í Bæjaralandi, við fylkismörkin að Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Nürnberg fyrir austan (50 km), Würzburg fyrir norðvestan (40 km) og Ulm fyrir sunnan (70 km). Saga Rothenburg. Í upphafi var reist greifavirki á staðnum á 10. öld. Þegar greifalínan dó út 1108, erfðu greifarnir af Comburg-Rothenburg virkið og nefndu þeir það Rothenburg ob der Tauber, enda stóð virkið fyrir ofan ána Tauber. Virkið sjálft eyðilagðist í jarðskjálfta 1356. Þá eignaðist keisari virkið, sem léði það frænda sínum Konráði III. Hann varð konungur þýska ríkisins 1137 og bjó til skamms tíma í Rothenburg. Árið 1274 gerði konungurinn Rúdolf af Habsborg Rothenburg að fríborg í ríkinu og hélt borgin þann status allt til 1803. Árið 1631 hertók Tilly borgina í 30 ára stríðinu. Til er þjóðsaga um ástæðu þess að Tilly þyrmdi borginni. Þegar hann dæmdi borgarráðið til dauða og fyrirskipaði að ræna skyldi borgina og brenna hana, var honum gefið vín í stóru, lituðu glasi (3¼ lítra). Þetta mildaði herstjórann svo að hann tilkynnti að ef einhver treysti sér til að drekka glasið í botn í einum teig, skyldi borginni (og borgarráðinu) þyrmt. Gamli borgarstjórinn, Georg Nusch, steig þá fram og bauðst til þess að reyna. Öllum til mikillar undrunar drakk hann glasið í botn í einum teig og bjargaði hann þar með borginni og lífi sínu. Síðan þá hefur árlega farið fram hátíð í bænum til að minnast þess (kölluð "Meistertrunk"). Árið 1803 missti Rothenburg fríborgarstatus sinn og var innlimað í konungsríkið Bæjaraland. Um aldamótin 1900 lá ferðamannastraumur til bæjarins og hefur gert síðan. Þótt Rothenburg hafði enga hernaðarlega þýðingu í seinna stríðinu, var bærinn samt sem áður fyrir loftárásum Bandaríkjamanna 31. mars 1945. Skotspónn þeirra var reyndar annar bær, en sökum þoku var ekki hægt að gera loftárásir þar. Því var Rothenburg valið sem varaskotmark. 40% bæjarins eyðilagðist, þó aðallega nýrri hlutar hans. Miðbærinn slapp að mestu. Löngu eftir stríð sögðu flugmennirnir að þeir hefðu ekki haft hugmynd um hvaða menningarleg verðmæti þeir gerðu árás á. Bandaríkin studdu viðgerðir og enduruppreisn bæjarins með örlátum fjárstyrkjum. Byggingar og kennileiti. Í Rothenburg eru tugir gamalla bygginga frá liðnum öldum, bæði íbúðarhús og önnur mannvirki. Sökum þess að Rothenburg er mikill ferðamannastaður, hefur mörgum húsum verið breytt í veitingastaði og verslanir. Eitt þekktasta íbúðarhúsið kallast Plönlein en tvenn borgarhlið eru hvort sínu megin. Jakobskirkjan. Stærsta staka byggingin í miðbænum er Jakobskirkjan (á þýsku:"St. Jakob"). Hún var reist 1311 – 1484 og vígð 1485. Í upphafi var kirkjan kaþólsk en við siðaskiptin varð hún lútersk og svo er enn. Í kirkjunni eru mýmörg listaverk. Þeirra helst er altaristaflan Heilaga blóðið ("Heiligblut") í kórnum. Hún var smíðuð af þýska myndhöggvaranum Tilman Riemenschneider 1500 – 1505 og sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Í krossi altaristöflunnar er helgigripur, stakur blóðdropi, sem sagður er vera úr víninu sem Jesús gaf postulum sínum og breyttist í blóð hans (skv. kaþólskri trú). Óvenjulegt við útskurðinn af kvöldmáltíðinni er að þar er Júdas í forgrunni, ekki Jesús. Hægt er að taka Júdas út og þá kemur Jóhannes í ljós, sem og helgiskrínið þar sem blóðdropinn er geymdur. Borgarmúrar. Hinir gömlu miðaldaborgarmúrar standa enn í kringum allan miðbæinn. Þeir hafa hvorki verið rifnir né færðir til að skapa byggingapláss. Á vissum stöðum skaga varðturnar hátt í loftið og mýmörg borgarhlið eru hringinn í kringum miðbæinn. Þrátt fyrir það komast bílar í miðbæinn en aðeins flutningabílar eru leyfðir (ásamt lögreglu, sjúkra- og slökkvibíla). Hægt er að ganga uppi á borgarmúrunum hringinn í kringum miðbæinn. Hringurinn er tæpur 8 km langur. Ráðhúsið. Ráðhúsið í Rothenburg eru tvær sambyggðar byggingar. Eldri hlutinn er hvít bygging í gotneskum stíl frá 1250. Hún skartar 60 metra háum turni. Fyrir framan er nýrri bygging frá 16. öld í endurreisnarstíl. Á framhliðinni er súlnagangur og svalir í barokkstíl. Kvikmyndir. Miðaldarbærinn Rothenburg er gjarnan notaður í kvikmyndir, bæði þýskar og erlendar. Ein sú þekktasta er ævintýra- og söngvamyndin Kittý Kittý Bang Bang (með Dick van Dyke). Athafnakenning. Athafnakenning eða starfsemiskenning er kenning sem byggir á félags- og menningarbundinni sýn á nám. Starfsemiskenningin sprettur upp úr kenningnum Vygotskys og höfundar hennar eru rússneskir samstarfsmenn hans Alexei N. Leont'ev (1903 – 1979) og Sergei Rubinshtein (1889 – 1960) sem reyndu að skilja mannlega breytni sem flókið félagslegt fyrirbæri en einskorða sig ekki við kenningaskóla sem byggja á sálgreiningu og atferlisstefnu. Fjallafélagið. Fjallafélagið (enska "The Icelandic Mountain Company") er ferðaþjónustufyrirtæki Haraldar Arnar Ólafssonar fjallgöngumanns og pólfara. Félagið sérhæfir sig í ferðum á hærri fjöll landsins eins og Hvannadalshnjúk og Hrútfjallstinda og einnig er stefnan tekin á að bjóða upp á fjallaferðir erlendis. Þorvaldur Thoroddsen. Þorvaldur Thoroddsen (6. júní 1855 – 28. september 1921) var íslenskur jarðfræðingur og landfræðingur, einhver þekktasti vísindamaður Íslendinga á sinni tíð. Hann er hvað þekktastur fyrir "Lýsingu Íslands". Æviágrip. Þorvaldur var sonur Jóns Thoroddsens (1819–1868) sýslumanns og skálds, og konu hans, Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen (1833–1879). Bræður hans voru Þórður Thoroddsen héraðslæknir, Skúli Thoroddsen sýslumaður, ritstjóri og alþingismaður og Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur. Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði, en fluttist ungur að Haga á Barðaströnd og ólst þar upp til 7 ára aldurs, fór svo að Hvítárvöllum og að Leirá í Leirársveit. Þegar hann var 11 ára fór hann til Reykjavíkur til náms, og bjó hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara og konu hans, Katrínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, móðursystur sinni, en þau voru barnlaus. Gengu þau Þorvaldi í foreldrastað þegar hann missti föður sinn, 13 ára gamall. Þorvaldur varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík árið 1875 og fór þá í háskólann í Kaupmannahöfn. Þar lagði hann stund á náttúrufræði og dýrafræði, en hafði einnig mikinn áhuga á jarðfræði, sem jókst mjög 1876, þegar hann var fylgdarmaður danska jarðfræðingsins Johannes Frederik Johnstrup í rannsóknarferð að eldstöðvunum í Öskju og á Mývatnsöræfum, þar sem gaus árið áður (1875). Af öðrum kennurum hans þar má nefna Japetus Steenstrup, sem kenndi dýrafræði. Áður en Þorvaldur lauk námi, bauðst honum kennarastaða við gagnfræðaskólann á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem hann ákvað að þiggja. Þar starfaði hann 1880–1884, en var erlendis í leyfi veturinn 1884–1885 við gagnasöfnun. Hann var síðan kennari í náttúrufræði í Lærða skólanum í Reykjavík 1885–1895. Hann dvaldist erlendis veturinn 1892–1893 til að undirbúa það að hann gæti helgað sig rannsóknum og skriftum. Árið 1895 fluttist hann til Kaupmannahafnar og bjó þar upp frá því, hélt þó stöðunni við Lærða skólann til 1899, en fékk annan mann til að sinna henni fyrir sig. Hann kom hingað á sumrum til 1898, til að ljúka rannsóknarferðum sínum um landið, en ferðirnar hóf hann 1882, og raunar í minna mæli 1881. (Árin 1885, 1891 og 1892 féllu rannsóknarferðirnar niður). Flest árin naut Þorvaldur styrks frá alþingi til ferðanna, og síðar einnig frá fleiri aðilum. Skýrslur um ferðirnar birtust í tímaritinu "Andvara", og urðu þær síðar uppistaðan í mörgum af ritum hans. Í Kaupmannahöfn hafði Þorvaldur gott næði til ritstarfa, og í söfnum þar var mikið af heimildum sem hann notaði við fræðistörf sín. Liggur eftir hann fjöldi bóka og greina um jarðfræði og landfræði Íslands. Þorvaldur var sæmilega efnaður eftir því sem þá gerðist og kostaði hluta af rannsóknum sínum og útgáfu rita sjálfur. Einnig naut hann styrkja frá ýmsum aðilum, svo sem alþingi, Carlsbergsjóðnum og danska ríkinu. Þorvaldur var félagsmaður í fjölmörgum vísinda- og fræðafélögum, svo sem Þýska jarðfræðifélaginu í Berlín, 1895, Konunglega danska vísindafélaginu 1909 og Vísindafélagi Íslendinga 1918 (stofnfélagi). Hann var einn af stofnendum Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn (1912) og skrifaði mikið í Ásrit þess. Hann hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir vísindastörf sín. Hann varð heiðursdoktor við Kaupmannahafnarháskóla 1894 og prófessor að nafnbót 1902, riddari af Dannebrog 1899. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1921. Konunglega sænska vísindaakademían veitti honum Linné-gullmedalíuna 1886, og mörg fleiri félög veittu honum sams konar viðurkenningu. Árið 1906 veitti Ameríska landfræðifélagið í New York ("American Geographical Society") honum Daly-heiðurspeninginn fyrir rannsóknir sínar, og varð hann fyrstur Norðurlandabúa til að hljóta hann. Þorvaldur fékk heilablæðingu á fundi í Vísindafélaginu danska, 3. desember 1920, og lá síðan rúmfastur til dauðadags, 28. september 1921. Kona Þorvalds (1887) var Þóra Pétursdóttir (1848–1917), dóttir Péturs Péturssonar biskups. Þau eignuðust eina dóttur, Sigríði (1888–1903). Áður átti hann dótturina Maríu Kristínu Stephensen (1883–1907), sem var ættleidd á Akureyri. Þóra Pétursdóttir var ein af fyrstu íslensku konunum sem fengust við málaralist, sjá bók Hrafnhildar Schram: "Huldukonur í íslenskri myndlist", Rvík 2005. Einnig hefur komið út ævisaga Þóru: Sigrún Pálsdóttir: "Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar", Rvík 2010. Rannsóknir og ritstörf. Í rannsóknarferðinni með Johnstrup, 1876, varð Þorvaldur gagntekinn af náttúru íslensku öræfanna. Hann einsetti sér að rannsaka náttúru landsins, einkum jarðfræðina, sem fram að því hafði verið lítið sinnt. Flest sumur frá 1881 til 1898 fór hann rannsóknarferðir um landið til að safna efni til Íslandslýsingar. Allt frá skólaárum sínum hafði Þorvaldur unnið mjög skipulega að því að safna efni úr rituðum heimildum, til undirbúnings ritum sínum, og hafði hann ekki tæmt þann sjóð þegar hann lést. Á ferðum sínum varð Þorvaldi ljóst að Íslandskort Björns Gunnlaugssonar, frá 1848, þurfti mikilla leiðréttinga við. Björn hafði einbeitt sér að því að mæla upp byggðir landsins, en á miðhálendinu voru stór svæði sem aldrei höfðu verið kortlögð með mælingum. Árið 1901 birti Þorvaldur jarðfræðikort af Íslandi, þar sem einnig var komið á framfæri leiðréttingum við kort Björns Gunnlaugssonar. Tenglar. Þorvaldur Thoroddsen Þorvaldur Thoroddsen Hæfimenn. Hæfimenn ("homo habilis") var tegund manna sem var uppi um 2,4 – 1,5 milljónum ára. Hæfimenn eru fyrsta tegundin sem kallaðir eru menn. Þeir voru fyrstir til að búa sér til verkfæri. Verkfærin voru einföld en fram að þessu höfðu sunnaparnir og einnig önnur dýr einungis notað verkfæri sem þau fundu. Hæfimenn lifðu í Austur-Afríku og lifði á mun fjölbreyttari fæðu en forverar þeirra. Brandur Jónsson (lögmaður). Brandur Jónsson (d. 1494) var íslenskur lögmaður á 15. öld og bjó á Hofi á Höfðaströnd og seinast á Mýrum í Dýrafirði. Ætt Brands er óviss. Björn á Skarðsá segir að Finnbogi Jónsson lögmaður hafi verið bróðir hans og Brandur þá sonur Jóns Maríuskálds. Sé það rétt hefur Jón átt Brand ungur að árum og um 30 ára aldursmunur verið á þeim bræðrum. Brandur kemur fyrst við skjöl 1433 og hefur þá verið að minnsta kosti tvítugur. Fleiri tilgátur um faðerni hans hafa verið settar fram. Brandur varð lögmaður norðan og vestan 1454 og hélt því embætti til 1478. Þá sagði hann af sér en Hrafn Brandsson (eldri) var kjörinn í hans stað. Kona Brands er óþekkt en á meðal barna þeirra var Páll Brandsson, sýslumaður í Eyjafirði, sem bjó á Möðruvöllum og var giftur Ingibjörgu, dóttur Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur á Möðruvöllum. Þau hjónin og synir þeirra tveir dóu öll í plágunni síðari 1494 og synir Gríms Pálssonar sýslumanns, launsonar Páls, erfðu allan auð þeirra samkvæmt Jónsbókarlögum, en Þorvarður Erlendsson lögmaður, sonur Guðríðar systur Ingibjargar, gerði tilkall til erfða og var það í samræmi við réttarbót Hákonar háleggs frá 1313. Var deilt hart um þetta í meira en tvo áratugi og dæmt á ýmsa vegu en málinu lauk með sættum á Alþingi 1515. Vigfús Erlendsson. Vigfús Erlendsson (d. 1521) var íslenskur lögmaður og hirðstjóri á 16. öld og bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Vigfús var sonur Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og Guðríðar Þorvarðsdóttur konu hans, en hún var dóttir Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur á Möðruvöllum. Bróðir hans var Þorvarður Erlendsson lögmaður. Hans er fyrst getið árið 1502, þegar hann fær kvittun hjá Benedikt Hersten hirðstjóra vegna höggs sem hann hafði veitt manni nokkrum við kirkjuna á Krossi í Landeyjum. Vigfús er sagður hafa verið bráðlyndur og nokkru síðar hjó hann hönd af öðrum manni. Vegna þess atviks fékk hann friðarbréf útgefið af Hans konungi 21. janúar 1505. Hann varð svo sjálfur hirðstjóri, líklega 1507, og hafði embættið til 1509. Þorvarður lögmaður, bróðir Vigfúsar, fór utan sumarið 1512 og dó um veturinn og tók Vigfús þá við sem lögmaður sunnan og austan. Þegar Jón Sigmundsson lögmaður norðan og vestan var bannfærður var Vigfús kosinn í hans stað og var því lögmaður um allt land 1516-1518. Á þessum árum var Týli Pétursson hirðstjóri og var ekki vinsæll, enda var hann óeirðamaður mikill og var róstusamt á Alþingi. Vigfús mun hafa haft mikinn hug á að verða hirðstjóri á ný og sóttist eftir vitnisburðum um frammistöðu sína í hirðstjóra- og lögmannstörfum og var það auðsótt, enda var hann vinsæll þrátt fyrir bráðlyndi sitt. Meðal annars naut hann stuðnings Ögmundar Pálssonar biskupsefnis. Sumarið 1520 sigldu þeir allir á sama skipi, Vigfús, Týli og Ögmundur, sem var að sækja sér biskupsvígslu. Um miðjan ágúst voru þeir í Harvík á Englandi, þar sem Ögmundur lánaði Vigfúsi peninga samkvæmt bréfum sem enn eru til. Síðan héldu þeir til Noregs og þar dó Vigfús, en Týli hélt þó ekki hirðstjórninni og var drepinn á Íslandi fáeinum árum síðar. Vigfús var sagður mikilhæfur maður og var meðal annars góður læknir og græddi sár sem talin voru banvæn. Kona hans var Guðrún, laundóttir Páls Jónssonar á Skarði. Á meðal barna þeirra voru Kristín, fylgikona séra Magnúsar á Grenjaðarstað, sonar Jóns Arasonar, Páll lögmaður og Anna á Stóru-Borg, sem þekkt er af samnefndri skáldsögu Jóns Trausta. Síðari kona Vigfúsar var Salgerður (eða Valgerður) Snjólfsdóttir. Hún var sonardóttir Hrafns Brandssonar eldri. Með þeim Vigfúsi var fjórmenningsfrændsemi og dæmdi Ögmundur biskup hjónabandið ógilt eftir lát Vigfúsar. Þorvarður Erlendsson. Þorvarður Erlendsson (um 1466 – 1513) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 16. öld. Hann bjó á Strönd í Selvogi og Möðruvöllum í Eyjafirði. Þorvarður var sonur Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og Guðríðar Þorvarðsdóttur konu hans, dóttur Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur á Möðruvöllum. Vigfús Erlendsson lögmaður og hirðstjóri var bróðir Þorvarðar. Árið 1486, þegar hann var um tvítugt, gaf Margrét amma hans honum nokkrar jarðir, þar á meðal Engey og Laugarnes. Hann var orðinn sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu um 1490. Árið 1499 varð hann lögmaður sunnan og austan og gegndi því embætti til dauðadags. Þorvarður deildi í nærri tuttugu ár við Grím Pálsson sýslumann um Möðruvallaeignir, það er að segja arf eftir hjónin Pál Brandsson sýslumann á Möðruvöllum og Ingibjörgu, móðursystur Þorvarðar. Þau hjón og synir þeirra dóu öll í plágunni síðari 1494, fyrst Ingibjörg svo synirnir og loks Páll. Grímur var óskilgetinn sonur Páls og átti ekki erfðarétt en hann átti aftur á móti skilgetna syni og samkvæmt erfðatali Jónsbókar voru þeir næstir til arfs eftir afa sinn. Þorvarður vísaði aftur á móti í réttarbót Hákonar háleggs frá 1313 en samkvæmt henni átti móðir hans að taka arf eftir systur sína. Finnbogi Jónsson lögmaður dæmdi 1495 að farið skyldi eftir íslenskum lögum, þar sem réttarbótin gilti einungis í Noregi og var sá dómur staðfestur af Alþingi og aftur af Finnboga 1499, en þá var Þorvarður sjálfur orðinn lögmaður og nefndi dóm í sínu umdæmi sem úrskurðaði að réttarbótin skyldi gilda. Gekk nú á dómum og stefnum á víxl í nokkur ár, en 24. nóvember 1507 staðfesti konungur að allar réttarbætur Hákonar háleggs skuli gilda á Íslandi. Var sú staðfesting kölluð Möðruvallaréttarbót, en af mörgum réttarspillir. Grímur neyddist því til að sleppa Möðruvöllum, þar sem hann hafði búið, en þó ekki fyrr en 1511. Þorvarður fluttist þá þangað. Þó voru enn óuppgerð ýmis mál og fóru þeir Þorvarður og Benedikt sonur Gríms til Noregs haustið 1512 að láta skera úr þeim. En Þorvarður dó þar um veturinn og úrskurðurinn var Grími í hag. Hann hóf þá tilkall sitt til Möðruvalla að nýju og settist þar að. Á Alþingi 1515 sættist hann svo við Vigfús og Hólmfríði, systkini Þorvarðar, og fékk Möðruvelli og miklar eignir aðrar. Lauk þar með Möðruvallamálum. Fyrri kona Þorvarðar var Margrét, dóttir Jóns Egilssonar bryta í Skálholti og systir Stefáns biskups, og voru börn þeirra Erlendur Þorvarðarson lögmaður og Ragnheiður, kona Orms Einarssonar bónda í Saurbæ á Kjalarnesi, sem veginn var í Viðey 1518 af Erlendi mági sínum. Þorvarður giftist síðan árið 1508 Kristínu (d. 14. apríl 1578), dóttur Gottskálks Nikulássonar biskups, og áttu þau eina dóttur. Kristín giftist aftur 28. janúar 1515 Jóni Einarssyni sýslumanni á Geitaskarði. Titill. Titill er tignarheiti (eða nafnbót) sem menn skreyta sig sjálfir með (eða aðrir) og er annaðhvort settur fyrir framan eða aftan nafn viðkomandi. Það getur verið vegna menntunar (sbr. "Jón Steffensen prófessor", "séra Bolli Gústavsson" eða "Hinrik Jóhannesson B.Sc"), ástands ("jómfrú Anna", "Jóhannes ekkill") eða vegna þess að menn eru fæddir inn í einhvers konar virðingarstiga ("Hinrik greifi"). Einnig er til í dæminu að menn skreyti sig í hálfkæringi með titli (sbr. dr. Gunni). Á íslensku eru sumir titlar vegna venju settir á undan nafni, eins og "séra Hinrik" eða "herra Ólafur Ragnar". En ef viðkomandi er fæddur inn í konunglegan virðingarstiga er málvenja á íslensku að setja nafnið fyrst og síðan titilinn og segja "Zeppelin greifi", "Hinrik prins" eða "Margrét Danadrottning". Einnig á þetta við um æðstu menn kirkjunnar: "Jóhannes Páll páfi" eða "Karl biskup". Þetta á samt ekki við um suma virðingartitla eins og til dæmis: "móðir Teresa", "meistari Þórbergur" eða "heilög (sankti) Anna". Kastalinn í Nürnberg. Kastalavirkið er elsta mannvirkið í Nürnberg Kastalinn í Nürnberg er elsta mannvirki borgarinnar Nürnberg í Þýskalandi. Hann var reistur á 11. öld og myndaðist borgin í kringum hann. Kastalinn er einkennisbygging borgarinnar. Saga kastalans. Engar öruggar heimildir eru til um það hvenær kastalinn var reistur. Hann kom fyrst við skjöl 1050 og 1105 og hefur trúlega verið reistur um miðja 11. öld. Fyrir neðan hann myndaðist bær og kirkja. Kastalalinn sjálfur fékk heitið Nürnberg og var bærinn nefndur sama heiti. Nokkrum sinnum hefur kastalinn verið stækkaður. Um 1200 var kirkja reist við kastalann sem konungarnir notuðu. Þar við hliðina er 53 metra djúpur brunnur, þaðan sem vatn var að fá. Í kastalanum sátu allir konungar og keisarar þýska ríkisins, sumir meira, aðrir minna, allt til 1571. Aldrei hefur tekist að hertaka kastalann eða borgina í gegnum tíðina. Setið var um Nürnberg í þrjú ár meðan 30 ára stríðið geysaði, en ekki náðist að vinna hana. Eftir það stríð missti kastalinn hernaðarlegt gildi sitt. Í heimstyrjöldinni síðari varð kastalinn fyrir talsverðum skemmdum, bæði í loftárásum og götubardögum við Bandaríkjamenn. Aðeins kirkjan og eitt turnanna sluppu við skemmdir. Bandaríkjamenn eru því þeir einu sem náð hafa að hertaka kastalann. Annað markvert. Kastalinn stendur á sandhrygg fyrir ofan miðborgina. Hann er opinn almenningi. Hægt er að skoða hann bæði að utan og innan. Kastalakirkjan sjálf er einnig opin. Hluti kastalans er notaður sem farfuglaheimili. Þar er einnig elsta stjörnustöð Nürnbergs sem stærðfræðingurinn Georg Christoph Eimmart setti upp á 17. öld. Giotto di Bondone. Harmatölur eftir dauða Krists, hluti af fresku Giottos í Scrovegni-kapellunni. Giotto di Bondone (um 1267 – 8. janúar 1337) var ítalskur listmálari og arkitekt frá Flórens. Hann er oft nefndur fyrsti endurreisnarmálarinn. Hann var þekktur og dáður af samtíðarmönnum sínum og Giorgio Vasari sem ritaði ævisögur ítalskra listamanna á 16. öld sagði hann hafa verið þann fyrsta sem sneri sér endanlega frá býsönskum stíl að tilfinningaríkari persónum og raunsærri myndbyggingu en áður hafði tíðkast. Hann lærði hjá Cimabue sem þá var einn frægasti listamaður Toskana. Þekktustu verk Giottos eru stórar freskur með myndröðum sem sýna líf Maríu meyjar og Krists (Scrovegni-kapellan í Padúu), líf heilags Frans (Bardi-kapellan í Flórens). Hann gerði einnig stórar helgimyndir á tré eins og krossinn í Rímíní og Maríumynd fyrir Kirkju allra heilagra (Ognissanti) í Flórens. Frúarkirkjan í Nürnberg. Framgafl Frúarkirkjunnar er einkar glæsilegur Frúarkirkjan í Nürnberg ("Unserer Lieben Frau") er skrautlegasta kirkjan í borginni Nürnberg í Þýskalandi. Hún var reist að tilstuðlan keisarans Karls IV á 14. öld. Saga Frúarkirkjunnar. Kirkjan var reist 1352-1362 að tilstuðlan Karls IV keisara sem gjarnan sat í borginni. Áður hafði þar staðið bænahús gyðinga en gyðingar voru reknir úr borginni 1349 og bænahús þeirra rifið. Byggingartíminn er óvenjulega stuttur, aðeins 10 ár, enda sá keisari til þess að verkið vannst hratt. Kirkjan varð að sóknarkirkju keisarans. Hin skrautlega framhlið var gerð í upphafi 16. aldar. Kirkjan var ekki skemmd í siðaskiptunum, heldur hélst hún kaþólsk og svo er enn. Hins vegar stórskemmdist hún í loftárásum seinna stríðsins og brann út. Aðeins veggirnir stóðu eftir uppi. Kirkjan var endurgerð í einfaldri mynd 1946-53. Klukknaverkið. Yfir aðalinngang kirkjunnar er klukknaverk með fígúrum sem ekið er í hring á hjóli. Það var keisarinn Karl IV sem gaf kirkjunni klukknaverkið 1563 í tilefni af útkomu regluverks um arftöku konungdómsins í þýska ríkinu ("Goldene Bulle"). Klukknaverkið sýnir keisarann og kjörfurstana. Fyrst gengur fígúra út sem tilkynnir komu keisara. Þá koma út lúðrablásarar, flautuleikari og trommuleikari. Síðan koma kjörfurstarnir sjö og loks keisari. Á meðan eru klukkur spilaðar. Klukknaverk þetta var tekið niður í heimstyrjöldinni síðari og geymt annars staðar til varnar skemmdum. Eftir enduruppbyggingu kirkjunnar var klukknaverkið sett á aftur. Kristni saga. Kristni saga er sögurit um kristniboð á Íslandi, kristnitökuna og hina fyrstu biskupa til dauða Gissurar Ísleifssonar 1118. Að stofni til er Kristni saga frá 12. öld, en hún er samin í núverandi mynd á 13. öld. Kristni saga er varðveitt í Hauksbók. Grænlendinga saga. Grænlendinga saga er eitt af söguritum íslendingasagnanna og segir frá sama efni og Eiríks saga rauða en að ýmsu leyti á annan veg. Grænlendinga saga er líklega rituð fyrir miðja 13. öld. Hún er varðveitt í Flateyjarbók. Félag framhaldsskólakennara. Félag framhaldsskólakennara (FF) er stéttarfélag framhaldsskólakennara á Íslandi. Félagið á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félag grunnskólakennara. Félag grunnskólakennara (FG) er stéttarfélag grunnskólakennara á Íslandi. FG á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félag kennara á eftirlaunum. Félag kennara á eftirlaunum (FKE) er stéttarfélag íslenskra kennara sem komnir eru á eftirlaun. FKE á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félag leikskólakennara. Félag leikskólakennara (FL) er stéttarfélag leikskólakennara á Íslandi. FL á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félag stjórnenda í framhaldsskólum. Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS) er stéttarfélag stjórnenda í framhaldsskólum á Íslandi. FS á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félag tónlistarskólakennara. Félag tónlistarskólakennara (FT) er stéttarfélag tónlistarskólakennara á Íslandi. FT á aðild að Kennarasambandi Íslands. Skólastjórafélag Íslands. Skólastjórafélag Íslands (SÍ) er stéttarfélag skólastjóra á Íslandi. SÍ á aðild að Kennarasambandi Íslands. Kennarasamband Íslands. Kennarasamband Íslands er stéttarfélag kennara á Íslandi. Lárentíusarkirkjan í Nürnberg. Lárentíusarkirkjan í Nürnberg er hæsta kirkja borgarinnar Nürnberg í Þýskalandi og var reist á 13. öld. Saga Lárentíusarkirkjunnar. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær kirkjan var reist. Talið er að framkvæmdir hafi verið komnar í gang um 1250. Á reitnum var eldri kirkja og voru múrverk hennar að hluta notaðar í nýju kirkjuna. Hún var vígð 1390 og helguð heilögum Lárentíusi, sem var píslarvottur á tíma Rómaveldis. Lengd kirkjunnar er 91 metri, en hæðin er 81 metri. Hins vegar stóð kirkjan ávallt í skugganum af nágrannakirkjunni, Sebaldskirkjunni, sem skartaði jarðneskar leifar af heilögum Sebaldi. Lárentíusarkirkjan var meðal allra fyrstu kirkna í Þýskalandi til að breytast í lúterska kirkju, 1525. Henni var því hlíft við skemmdir er múgur ruddist inn í flestar kaþólskar kirkjur á siðaskiptatímanum til að eyðileggja myndir og brjóta listaverk. Kirkjan skemmdist hins vegar talsvert í loftárásum seinna stríðsins og einnig í götubardögum í stríðslok. Hún var gerð upp 1949. Listaverk. Lárentíusarkirkjan var upphaflega skreytt með mörgum listaverkum. Sum þeirra voru hins vegar fengin að láni úr öðrum kirkjum. Eitt mesta listaverk kirkjunnar er höggmyndin Engilskveðjan ("Englischer Gruss"), sem hangir niður úr kirkjuþakinu. Hér er um hring að ræða með tveimur fígúrum úr viði. Það er eru María mey og erkiengillinn Gabríel. Efst trónir himnafaðirinn. Á hringnum eru svo sjö lítil, hringlaga málverk af atvikum úr ævi Maríu. Verkið var gert af þýska myndhöggvaranum Veit Stoss 1517-18. Árið 1817 slitnaði strengurinn sem hélt verkinu uppi og skall það í gólfið. Það margbrotnaði og tók það langan tíma að gera við skemmdirnar. Nokkuð er af freskum í kirkjunni en einnig ýmsir gamlir munir. Klukkurnar eru samtals 16 og eru því næststærsta klukknaverkið í lúterskri kirkju í Þýskalandi. Orgel kirkjunnar eru þrjú, með samtals 12 þús pípum. Sjónvarpsturninn í Nürnberg. Sjónvarpsturninn í Nürnberg er 292 metra hár og þar með hæsta bygging borgarinnar Nürnberg í Þýskalandi. Hann er einnig hæsta mannvirki Bæjaralands og þriðji hæsti sjónvarpsturn Þýskalands, á eftir turnunum í Berlín og í Frankfurt am Main. Sökum sérkennilegrar lögunar á kúlunni hefur hann fengið viðurnefnið "Eggið í Nürnberg" ("Nürnberger Ei"). Kúlan í turninum er egglaga. Þvi kalla gárungar turninn "Eggið í Nürnberg" Saga sjónvarpsturnsins. 1972 var ráðgert að endurnýja litla sendistöð í miðborg Nürnberg. Ætlunin var að reisa sjónvarpsturn og koma sendinn fyrir í honum. Turninn var þó ekki reistur fyrr en 1977 og var vígður 1980. Samfara sendistöðinni var útsýnispallur og veitingastaður opnaður í turninum. En aðsóknin var svo dræm að veitingasalnum var lokað 1991 og er turninn nú lokaður almenningi. Snemmgrískar bókmenntir. Snemmgrískar bókmenntir eru bókmenntir snemmgrísks tíma, þ.e. frá 8. öld f.Kr. fram að klassískum tíma um 480 f.Kr. Elstu varðveittu bókmenntir Grikkja eru kviður Hómers, "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða". Talið er að kviður Hómers hafi verið samdar undir lok 8. aldar f.Kr. en þær byggðu á munnlegum kveðskap sem hafði tíðkast lengi. Ekki er vitað hvenær þær voru fyrst ritaðar. Kviður Hómers eru söguljóð (eða epískur kveðskapur) en þær urðu bókmenntalegur bakgrunnur allra grískra bókmennta. Annað meginskáld þessa tímabils var Hesíódos. Enda þótt kvæði hans, "Goðakyn" og "Verk og dagar", hafi sama bragform og skáldamál og kviður Hómers er viðfangsefni þeirra þó annað; þau eru gjarnan talin eins konar uppfræðuslukvæði. Kvæði Hesíódosar eru talin hafa verið samin undir lok 8. aldar f.Kr. Í fornöld var gjarnan litið svo á að Hómer og Hesíódos hafi verið samtímamenn. Á snemmgrískum tíma voru einnig samin lýrísk kvæði undir ýmsum bragarháttum. Þetta voru kvæði sem voru gjarnan sungin við undirleik lýru eða annarra hljóðfæra. Lýrískur kveðskapur gegndi margvíslegu félagslegu hlutverki: hann gat til dæmis verið afþreying á samdrykkjum eða vettvangur fjölmiðlunar á opinberum hátíðum, þar sem pólitískri hugmyndafræði var komið á framfæri. Meðal helstu höfunda snemmgrísks lýrísks kveðskapar voru Arkílokkos, Alkajos, Saffó, Alkman, Hippónax, Fókýlídes, Mímnermos, Íbykos, Semonídes frá Amorgos, Símonídes frá Keos, Stesikkoros, Týrtajos og Sólon. Grísk leikritun varð einnig til á snemmgrískum tíma en hún átti eftir að blómstra á klassískum tíma. Forngrískar bókmenntir. Grískar bókmenntir eiga sér langa sögu. Fyrstu grísku bókmenntirnar voru kviður Hómers, "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða", samdar á síðari hluta 8. aldar f.Kr. en ritaðar niður í Aþenu á 6. öld f.Kr. Síðan á 8. öld f.Kr. eiga grískar bókmenntir sér langa samfellda sögu, jafnt í bundnu máli sem óbundnu. Sennilega er tímabilið fram að hellenískum tíma árið 323 f.Kr. þó frjóasta skeið grískra bókmennta en þá höfðu Grikkir fundið upp flest þau bókmenntaform sem þeir unnu með. Grikkir hófu leikritun og rituðu bæði harmleiki og gamanleiki, þeir rituðu um fortíð sína jafnt sem samtíð og heimspeki og hvers kyns fræði jafnt og skáldaðar sögur. Einungis lítill hluti er varðveittur af því sem Grikkir skrifuðu í fornöld. Helstu tímabil forngrískra bókmennta. Forngrískar bókmenntir eru bókmenntir Forngrikkja frá upphafi til loka fornaldar. Oftast er átt við klassískar bókmenntir en kristnar bókmenntir eru undanskildar. Snemmgrískar bókmenntir. Snemmgrískar bókmenntir eru bókmenntir snemmgrísks tíma, þ.e. frá 8. öld f.Kr. fram að klassískum tíma um 480 f.Kr. Elstu varðveittu bókmenntir Grikkja eru kviður Hómers, "Ilíonskviða" og "Ódysseifskviða". Talið er að kviður Hómers hafi verið samdar undir lok 8. aldar f.Kr. en þær byggðu á munnlegum kveðskap sem hafði tíðkast lengi. Ekki er vitað hvenær þær voru fyrst ritaðar. Kviður Hómers eru söguljóð (eða epískur kveðskapur) en þær urðu bókmenntalegur bakgrunnur allra grískra bókmennta. Annað meginskáld þessa tímabils var Hesíódos. Enda þótt kvæði hans, "Goðakyn" og "Verk og dagar", hafi sama bragform og skáldamál og kviður Hómers er viðfangsefni þeirra þó annað; þau eru gjarnan talin eins konar uppfræðuslukvæði. Kvæði Hesíódosar eru talin hafa verið samin undir lok 8. aldar f.Kr. Í fornöld var gjarnan litið svo á að Hómer og Hesíódos hafi verið samtímamenn. Á snemmgrískum tíma voru einnig samin lýrísk kvæði undir ýmsum bragarháttum. Þetta voru kvæði sem voru gjarnan sungin við undirleik lýru eða annarra hljóðfæra. Lýrískur kveðskapur gegndi margvíslegu félagslegu hlutverki: hann gat til dæmis verið afþreying á samdrykkjum eða vettvangur fjölmiðlunar á opinberum hátíðum, þar sem pólitískri hugmyndafræði var komið á framfæri. Meðal helstu höfunda snemmgrísks lýrísks kveðskapar voru Arkílokkos, Alkajos, Saffó, Alkman, Hippónax, Fókylídes, Mímnermos, Íbykos, Semonídes frá Amorgos, Símonídes frá Keos, Stesikkoros, Týrtajos og Sólon. Grísk leikritun varð einnig til á snemmgrískum tíma en hún átti eftir að blómstra á klassískum tíma. Klassískar grískar bókmenntir. Á klassískum tíma blómstruðu ýmis bókmenntaform, svo sem lýrískur og elegískur kveðskapur, leikritun, bæði harmleikir og skopleikir, hjarðkveðskapur, sagnaritun, mælskulist og heimspeki. Eftir því sem á leið mynduðust ákveðnar venjur, til að mynda er vörðuðu mállýskur í ákveðnum bókmenntagreinum. Þannig myndaðist sú hefð að kórljóð í aþenskum harmleikjum væru á dórísku en ekki attísku. Mikilvægustu lýrísku skáldin á þessum tíma voru Pindaros og Bakkýlídes en mikilvægustu harmleikjaskáldin voru Æskýlos, Sófókles og Evripídes en mörg önnur skáld sömdu harmleiki, sem voru afar vinsælir í Aþenu, svo sem Agaþon. Varðveittir eru 25 harmleikir í heilu lagi en auk þess eru varðveitt fjölmörg brot úr öðrum harmleikjum. Venjan er að skipta sögu skopleikja í þrjú tímabil en þau eru gamli skopleikurinn (5. öld f.Kr.), miðskopleikurinn (400 – 323 f.Kr.) og nýi skopleikurinn (323 – 263 f.Kr.) Aristófanes er eina varðveitta skopleikjaskáldið sem samdi skopleiki á tímum gamla skopleiksins svonefnda. Alls eru varðveittir ellefu skopleikir eftir Aristófanes en auk þess eru varðveitt fjölmörg brot úr skopleikjum eftir aðra höfunda, þar á meðal Menandros, sem var talinn bestur þeirra sem sömdu á tíma nýja skopleiksins. Á þessum tíma rituðu einnig merkustu sagnaritarar Fonrgrikkja. Heródótos frá Halikarnassos er gjarnan nefndur faðir forngrískrar sagnaritunar. Hann ritaði um sögu "Persastríðanna" á jónísku en er fram liðu stundir áttu flestar bókmenntir í lausu máli eftir að vera ritaðar á attísku, mállýsku Aþeninga. Sagnaritarinn Þúkýdídes frá Aþenu skrifaði samtímasögu um "Pelópsskagastríðið". Hann þrengdi nokkuð viðfangsefni sagnaritunar svo að hún varð nánast eingöngu stjórnmál- og styrjaldarsaga. Auk Heródótosar og Þúkýdídesar má nefna Xenofon en hann ritaði um lok Pelópsskagastríðsins í "Grikklandssögu" sinni. Tók hann upp þráðinn þar sem frásögn Þúkýdídesar lýkur (um 411 f.Kr.) en Þúkýdídesi entist ekki aldur til að ljúka sögu sinni. Xenofon ritaði ekki eingöngu um Grikklandssögu heldur samdi hann einnig ýmis rit um heimspeki, svo sem "Minningar um Sókrates". Heimspekin varð ein af höfuðgreinum grískra bókmennta í óbundnu máli. Þó höfðu heimspekingar á borð við Parmenídes og Empedókles áður sett fram heimspeki sína í bundnu máli. Merkasti ritsnillingur grískrar heimspeki var Platon en hann var einnig merkasti heimspekingur fornaldar ásamt nemanda sínum Aristótelesi. Grísk mælskulist blómstraði á klassíska tímanum. Varðveittar eru fjölmargar ræður, bæði ræður sem fluttar voru á pólitískum vettvangi og ræður sem fluttar voru fyrir dómstólum auk sýningaræðna en þær voru einkum ætlaðar til skemmtunar. Helstu varðveittu ræðuhöfundarnir eru Antífon, Andókídes, Lýsías, Ísókrates, Ísajos, Æskínes, Lýkúrgos, Demosþenes, Hýpereides, Deinarkos og Demades. Hellenískar bókmenntir. Helstu forngrísku skáldin á hellenískum tíma voru Þeókrítos, Kallímakkos og Apolloníos frá Ródos. Þeókrítos var uppi um 310 til 250 f.Kr. Hann var upphafsmaður svonefnds hjarðkveðskapar, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á aðrar bókmenntagreinar. Á þessum tíma var Gamla testamentið þýtt á grísku en þýðingin er oftast nefn sjötíumanna þýðingin. Merkasti sagnaritari þessa tímabils var Pólýbíos. Rómverska tímabilið. Á þessum tíma blómstruðu ýmiss konar fræði, svo sem landafræði, heimspeki, sagnaritun. Merkustu sagnaritararnir voru Tímajos, Díodóros frá Sikiley, Díonýsíos of Halikarnassos, Appíanos og Arríanos. Einnig blómstraði ævisagnaritun; þar má nefna Plútarkos, sem ritaði ævisögur ýmissa stjórnmálamanna og herforingja, og Díogenes Laertíos sem ritaði ævisögur heimspekinga. Meðal heimspekinga sem rituðu á þessum tíma má nefna Plútarkos, læknana Galenos og Sextos Empeirikos og nýplatonistann Plótínos. Þá má nefna Lúkíanos sem var mesti stílsnillingur þessa tíma. Segja má að rit hans "Sannar sögur" hafi verið eins konar undanfari vísindaskáldsagna síðar meir. Á þessum tíma var Nýja testamentið samið á forngrísku. Hómilíubók. Hómilíubók (eða Íslensk hómilíubók) er safn af fornum stólræðum og er elsta bók íslensk sem varðveist hefur. Hún hefur auk ræðna að geyma fræðslugreinar og bænir. Hómilíubók er talin rituð um aldamótin 1200 og margir telja hana þjóðargersemi íslenskrar tungu. Enginn veit hver skráði Hómilíubókina eða hvar hún var niðurkomin á landinu í fimm aldir. Ritaðar heimildir segja þó frá því að hún hafi komst í hendur Svía á ofanverðri 17. öld þegar hún var seld úr landi fyrir 2 ríkisdali og 3 mörk. Og þar er hún nú, geymd í Konunglegu Bókhlöðunni í Stokkhólmi. Hún hefur enda stundum verið kölluð "Stokkhólms-Hómilíubók". Hómilíubók var fyrst gefin út í Lundi 1872 og þá var henni valið það heiti sem hefur fylgt henni síðar. Jón Helgason prófessor komst þannig að orði í "Handritaspjalli" um Hómilíubók. Santa Cruz de Tenerife. Santa Cruz de Tenerife, einnig nefnd Santa Cruz, er borg á spænsku eyjunni Tenerife sem er ein af Kanaríeyjum. Hún er höfuðborg Kanaríeyja. Íbúar borgarinnar eru um 377 þúsund. Borgin Santa Cruz er nálægt San Cristóbal de La Laguna. Geta. Publius Septimius Geta (7. mars 189 – 26. desember 211) var keisari Rómaveldis á árunum 209 – 211. Geta var sonur Septimiusar Severusar og Juliu Domnu og bróðir Caracalla, sem var einu ári eldri en hann. Geta fékk titilinn "augustus" árið 209 sem þýddi að í orði kveðnu var hann þá orðinn fullgildur keisari. Severus, faðir hans, var þó sá sem hafði völdin og gaf honum aðeins þennan titil til þess að staðfesta að hann ætti að taka við af sér. Geta var þó í skugganum af bróður sínum því hann hafði verið útnefndur "augustus" árið 198. Severus tók báða bræðurna með sér í herferð til Bretlands árið 208. Ætlunin var að leggja Caledoniu (Skotland) undir Rómaveldi. Hlutverk Geta var að stjórna skattlöndum Rómverja á svæðinu á meðan Severus og Caracalla einbeittu sér að hernaðinum. Severus lést árið 211, áður en markmiðinu hafði verið náð og bræðurnir gáfu herferðina upp á bátinn. Þeir héldu til Rómar og tóku til við að stjórna heimsveldinu saman. Samstarf þeirra var þó vonlaust frá upphafi því þeir höfðu um langa hríð eldað saman grátt silfur. Næstu mánuðir einkenndust af vaxandi tortryggni og hatri á milli bræðranna. Ástandið fór síversnandi þar til í desember 211 þegar Caracalla kallaði Geta og Juliu Domnu, móður þeirra, á sinn fund. Þar lét hann lífverði sína drepa Geta, sem að sögn lést í fangi móður sinnar. Caracalla lét öldungaráðið í kjölfarið samþykkja "damnatio memoriae" fyrir Geta, en það var tilskipun sem kvað á um að öll ummerki um Geta, svo sem styttur og áletranir, skyldu vera þurrkuð út. Sigmundur Eyjólfsson. Sigmundur Eyjólfsson (d. 1537) var íslenskur prestur á 16. öld. Hann var vígður Skálholtsbiskup í Niðarósi árið 1537 og átti að taka við af Ögmundi Pálssyni en lést skömmu síðar. Sigmundur var sonur Eyjólfs Jónssonar og Ásdísar Pálsdóttur á Hjalla í Ölfusi og systursonur Ögmundar biskups. Hann var prestur í Vallanesi 1530-1531 og í Hítardal í Mýrasýslu 1531-1536 en þá var hann valinn til að taka við biskupsdæminu af Ögmundi, sem orðinn var heilsulaus og sjóndapur. Hann sigldi til Noregs um haustið og hlaut vígslu hjá Ólafi Engilbertssyni erkibiskupi í Niðarósi um veturinn en hafði fengið fótarmein, veiktist um leið og vígslunni lauk og lést eftir nítján daga, svo að hann náði aldrei að setjast á biskupsstól. Hann var raunar ekki eini Skálholtsbiskupinn sem þannig fór fyrir. Grímur Skútuson dó meðan hann beið eftir siglingu til Íslands 1321 og Marcellus lét einfaldlega aldrei sjá sig á landinu þótt hann væri Skálholtsbiskup í tólf ár. Fylgikona Sigmundar var Þuríður stóra Einarsdóttir, sem áður hafði fylgt Þórði Einarssyni presti í Hítardal en eftir lát Sigmundar tók hún saman við Odd Gottskálksson. Dóttir Sigmundar og hennar var Katrín, kona Egils Einarssonar lögréttumanns á Snorrastöðum í Laugardal. Dóttir Þuríðar með Þórði var Jórunn, kona Þórðar Guðmundssonar lögmanns og móðir Gísla Þórðarsonar lögmanns. Valerius Maximus. Valerius Maximus var rómverskur rithöfundur og sagnaritari. Hann var að störfum í valdatíð Tiberiusar keisara. Lítið sem ekkert er vitað um ævi Valeriusar Maximusar annað en að fjölskylda hans var fátæk og að hann átti allt sitt að þakka Sextusi Pompeiusi (ræðismaður árið 14), skattlandsstjóra í Asiu, en Valerius fylgdi honum þangað árið 27. Stílbrögð Valeriusar bera mikinn keim af mælskulist en Valerius segir reyndar sjálfur í formála bókar sinnar að henni sé ætlað að þjóna sem sagnfræðigrunnur í menntun mælsumanna, svo að nemendur læri að skreyta ræður sínar með skírskotunum til sögunnar. Helstu heimildir Valeriusar eru rit Ciceros, Liviusar, Sallustiusar og Pompeiusar Trogusar en einkum þeir tveir fyrstnefndu. Valerius þykir ekki gagnrýninn á heimildir sínar og virðist stundum misskilja þær eða jafnvel vera í mótsögn við sjálfan sig. Salvador Luria. Salvador Edward Luria (13. ágúst 1912 – 6. febrúar 1991) var ítalskur og bandarískur örverufræðingur og nóbelsverðlaunahafi. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á erfðum baktería og fyrir að sýna fram á notagildi gerilæta sem rannsóknatækja í sameindalíffræði. Ævi og störf. Luria lauk námi í læknisfræði frá Háskólanum í Tórínó árið 1935. Að því loknu gegndi hann herskyldu í eitt ár og hóf svo framhaldsnám í geislalækningum við Háskólann í Róm, en þar kynntist hann nýjum kenningum Max Delbrück um eðli gensins og tók til við að hanna tilraunir með gerilætum sem staðfest gætu kenningar Delbrücks. Árið 1938 hlaut hann styrk til náms í Bandaríkjunum, og hugðist nýta hann til að starfa með Delbrück. Fasistastjórn Mussolinis varð þó til að torvelda þau áform, því Luria var af gyðingaættum og skömmu eftir að Luria var lofaður styrkurinn voru sett lög sem bönnuðu að gyðingar hlytu rannsóknastyrki. Snuðaður um fjármögnun hélt Luria til Parísar, en flúði á reiðhjóli undan innrásarher nasista til Marseille og þaðan til Bandaríkjanna árið 1940. Luria tók land í New York þann 12. september 1940 og breytti skömmu síðar skírnarnafni sínu úr "Salvatore" í "Salvador Edward". Hann leitaði til Enrico Fermi, en honum hafði hann kynnst í Róm, sem aðstoðaði hann við að fá styrk frá Rockefeller sjóðnum við Columbia háskóla. Skömmu síðar hitti hann loks Delbrück, ásamt Alfred Hershey, og hófu þeir hið farsæla samstarf sitt við Cold Spring Harbor Laboratory og á rannsóknastofu Delbrücks við Vanderbildt háskóla. Árið 1943 greindu þeir frá rannsóknum sínum á erfðum baktería. Þar sýndu þeir fram á erfðir í bakteríum fylgja þróunarkenningu Darwins, fremur en kenningu Lamarcks. Einnig sýndu þeir að stökkbreytingar í bakteríum eru slembiháðar og erfast hvort sem viðeigandi áreiti er til staðar eða ekki. Þeir hlutu nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sínar árið 1969. Árið 1950, þá við Illinois háskóla í Urbana-Champaign, uppgötvaði Luria að sumar bakteríur framleiða ensím sem klippa DNA við ákveðnar kirnaraðir og vernda þannig bakteríuna gegn framandi erfðaefni. Slík ensím voru síðar nefnd skerðiensím og eru mikið notuð sem rannsóknatól í erfðatækni. Cold Spring Harbor Laboratory. The Cold Spring Harbor Laboratory (CSHL) er einkarekin rannsóknarstofnun í sameindalíffræðum sem staðsett er í smábænum Cold Spring Harbor í New York fylki í Bandaríkjunum. Helstu áherslur rannsókna við CSHL eru sviði erfðafræða krabbameins, taugalíffræði, erfðafræði plantna, erfðamengjafræða og lífgagnatækni. Stofnunin nýtur mikillar virðingar fyrir þær rannsóknir sem þar hafa verið stundaðar, en níu nóbelsverðlaunahafar hafa starfað þar. Stofnunin gegnir einnig menntunarhlutverki og rekur "Watson School of Biological Sciences". Borgarmúrarnir í Nürnberg. Borgarmúrarnir í Nürnberg eru þeir heillegustu í stórborg í Þýskalandi. Þeir samanstanda af leifum múra og turna víða í borginni. Saga múranna. Talið er að fyrstu múrarnir hafi risið þegar á 11. öld, þegar aðeins kastalavirkið var til staðar. Á 13. öld hafði byggðin dreifst beggja megin við ána Pegnitz og voru þá báðir borgarhlutanir víggirtir sér. Það var ekki fyrr en snemma á 14. öld að borgin öll var innan sömu múra. 130 varðturnar höfðu þá verið reistir hringinn í kring. Borgarhliðin voru 7 samanlagt, þaðan sem hægt var að komst í allar áttir. Á 16. og 17. öld var turnum bætt við og múrarnir endurbættir. Þá voru einnig í fyrsta sinn settar fallbyssur á vissa staði. Allur þessi varnarbúnaður sannaði sig í gegnum tíðina, sérstaklega í 30 ára stríðinu. Engum her tókst að komast inn fyrir múrana og slapp Nürnberg því við eyðileggingu allra stríða. Frakkar gengu reyndar bardagalaust í borgina 1796, en þá var búið að semja um komu þeirra. Eina undantekningin var bandaríski herinn, sem þurfti að heyja harða skotbardaga í lok heimstyrjaldarinnar síðari til að ná borginni úr höndum nasista. Í dag er öll miðborgin nánast umvafinn múrum. Hér og þar eru komin göt. Það stærsta er 310 metra breitt. 71 varðturn standa enn og nokkur borgarhlið. Þetta er stærsta samhangandi borgarmúr, ásamt turnum og hliðum í stórborg í Þýskalandi og reyndar í Miðevrópu allri. Landssamtök lífeyrissjóða. Landssamtök lífeyrissjóða eru hagsmunasamtök lífeyrissjóða á Íslandi. Innan samtakana starfa 33 lífeyrissjóðir og voru eignir þeirra um 1.591 milljarður króna í árslok 2008. Louise Lombard. Louise Lombard (fædd 13. september 1970) er bresk leikkona og er þekktust fyrir að leika "Sofia Curtis" í bandarísku sjónvarpsseríunni '. Einkalíf. Lombard fæddist sem Louise Maria Perkins í London á Englandi og er fimmta í röðinni af sjö systkinum og er af írskum ættum. Lombard byrjaði að taka leiklistar tíma þegar hún var átta ára. Stundaði hún nám við Trinity Catholic High School í Woodford Green, Essex — sem er kaþólskur skóli. Síðan stundaði hún prentlist og ljósmyndyn við Central Saint Martins College of Art and Design í London. Frá 1998 til 2000 tók Lombard hlé frá leiklistinni til þess að læra enskar bókmenntir við St Edmund's College við Cambridge-háskólann. Lombard á eitt barn með sambýlismanni sínu, son að nafni Alejandro og býr hún í Los Angeles. Ferill. Louise byrjaði snemma feril sinn í listum, er þjálfaður dansari og leikkona frá ungum aldri. Lombard byrjaði feril sinn í sjónvarpsauglýsinum þegar hún var 14 ára. Hefur hún leikið í þáttum á borð við: "Casualty", "Bergerac" og "Capital City". Stóra tækifæri hennar var árið 1991 þegar hún kom fram í aðalhlutverkinu sem Evangeline Eliott í "House of Eliott" seríunni á BBC. Á árunum 2000–2001 kom hún fram í þýsku myndinni "Claim" (2000) og í "My Kingdom" (2001). Fyrsta hlutverk hennar í Hollywood var þegar hún lék á móti Viggo Mortensen í "Hidalgo" (2004) og síðan á móti Alec Baldwin í "Second Nature" (2003). Árið 2004 fékk Louise hlutverk sem Sophia Curtis í ' og var hún hluti af því til ársins 2008. Síðan þá hefur hún meðal annars komið fram í "NCIS" og "Stargate Universal". Tenglar. Lombard, Louise Lombard, Louise Lombard, Louise Ágsborg. Ágsborg (á þýsku: "Augsburg") er þriðja stærsta borgin í sambandslandinu Bæjaraland í Þýskalandi með 263 þúsund íbúa. Borgin er helst þekkt fyrir að vera heimaborg Fugger-ættarinnar, sem starfrækti banka- og viðskipti víða um Evrópu. Borgin var stofnuð af Rómverjum og er meðal elstu borga Þýskalands. Lega. Augsburg liggur við ána Lech sunnarlega í Bæjaralandi og um 70 km fyrir norðan austurrísku landamærin. Næstu borgir eru München fyrir suðaustan (50 km), Ulm fyrir vestan (60 km) og Ingolstadt fyrir norðaustan (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Ágsborgar er grænn köngull efst á grænni súlu. Þetta merki kemur fyrst fram 1260, en Rómverjar höfðu notað svipað merki fyrir borgina. Borgarlitirnir eru rauður, hvítur og grænn. Þeir koma fyrst fyrir 1372. Orðsifjar. Augsburg var stofnuð af Rómverjunum Drusus og Tíberíus, tveimur tökusonum Ágústusar keisara. Því var borgin kölluð "Augustus Vindelicorum" honum til heiðurs. Vindelicorum er dregið af keltneska ættbálknum vindelika sem bjó milli ána Wertach ("Vinda") og Lech ("Licus"). Við brotthvarf Rómverja var eingöngu notað heitið Augustus, sem með tímanum breyttist í Augsburg. Merkingin er því "Keisaraborg". Rómverjar. Ágsborg var stofnuð af Rómverjum árið 15 f.Kr. sem rómverskar herbúðir. Það voru Drusus og Tíberíus (sem seinna varð keisari) sem þar voru að verki en báðir voru þeir tökusynir Ágústusar keisara. Ágsborg er þar með næstelsta borg Þýskalands, á eftir Trier. Árið 95 e.Kr. varð borgin höfuðborg skattlandsins Raetíu, sem náði suður fyrir Alpana. Eftir fall Rómaveldis á 5. öld varð borgin nær mannlaus, þannig að hún varð bara þorp. Miðaldir. Gústaf Adolf fyrir framan Ágsborg Árið 955 átti sér stað stórbardagi á Lechvöllum við Augsburg, er Otto I, keisari þýska ríkisins, vann lokasigur á Ungverjum og stöðvaði þar með útbreiðslu þeirra til vesturs. Árið 1156 voru íbúar aftur orðnir það margir að Friðrik Barbarossa keisari veitti Ágsborg borgaréttindi á ný, sem upp úr þessu verður mikil verslunarborg og fríborg í ríkinu. Keisararnir notuðu Ágsborg gjarnan sem þingstað, en þar voru 27 ríkisþing haldin á árunum 952-1582. Þar var aðalsetur Fugger-ættarinnar, helsta verslunar- og bankafólk Suður-Þýskalands á 15. og 16. öld. Nýrri tímar. Á ríkisþinginu í Speyer 1529 ákvað borgin að gerast lútersk, sem er óvenjulegt fyrir borg svona langt suður í Þýskalandi. Hún var aðalsetur Philipps Melanchton, eftirmanns Lúters. Kaþólikkar fengu þó að vera áfram í borginni, en kirkjum þeirra var fækkað. Á ríkisþinginu í Ágsborg 1555 var saminn friður milli stóru kirknanna sem gilda áttu fyrir allt ríkið ("Augsburger Religionsfrieden"). 1632 hertók sænskur her (Gústaf Adolf II) Ágsborg í 30 ára stríðinu. 1806 verður Augsburg hertekin af bærískum her (vinveittum Napoleon) og verður hluti Bayerns upp frá þessu. Napoleon sjálfur hafðist við í borginni þetta ár. Borgin skemmdist verulega í loftárásum seinna stríðsins og varð loks hertekin bardagalaust af Bandaríkjamönnum, sem yfirgáfu hana ekki fyrr en 1998. Það tók langan tíma að endurreisa ýmsar byggingar. T.d. var gullni salurinn í ráðhúsinu ekki opnaður fyrr en 1985, á 2000 ára afmæli borgarinnar. Viðburðir. Augsburger Plärrer er þriðja stærsta alþýðuhátíð Bæjaralands, en hér er um skemmti- eða leiktækjagarð að ræða. Hátíðin stendur yfir í tvær vikur að vori og svo aftur að hausti. Um 1,2 milljón manns sækja hátíðina heim. Augsburger Dult er árlegur útimarkaður í borginni, en þá mynda sölubásar nær eins kílómetra langa röð í miðborginni. Útimarkaður þessi á sér langa sögu, en hann hófst þegar á 13. öld. Íþróttir. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er FC Augsburg, en félagið komst í fyrsta sinn í 1. Bundeslíguna vorið 2011. Af þekktum leikmönnum félagsins má nefna Helmut Haller, Bernd Schuster og Karl-Heinz Riedle. Íshokkíliðið Augsburger Panther leikur í efstu deild. Besti árangur félagsins er 2. sætið árið 2010. Augsburger Stadtlauf er árlegt víðavangshlaup innanbæjar. Þátttakendur eru um 5.000 og er hlaupið því mesti íþróttaviðburður borgarinnar. RT.1 Skate Night Augsburg er árleg línuskautakeppni í borginni. Skautað er í miðborginni og eru allar götur lokaðar á meðan. Þátttakendur eru 4.000. Heimskeppnin í róðraríþróttum er árlega haldin í Ágsborg. Hún fer fram í manngerðri vatnabraut, sem er ein hin besta í heimi. Þar í borg eru einnig aðalskrifstofur róðraríþrótta Þýskalands. Snjóbrettakeppni fer fram árlega í desember í miðborginni, en brautin er manngerð. Ein skrýtnasta íþróttagrein í borginni er afturábakhlaup, en það hefur verið haldið þar síðan árið 2000. Frægustu börn borgarinnar. Jakob Fugger banka- og viðskiptajöfur Hangul. Hangul ((한글) notað í Suður-Kóreu) eða Chosongul ((조선글) notað í Norður-Kóreu) er stafróf sem var unnið upp úr Hanja, táknakerfi Kína. Hangul var hannað á árunum 1443 og 1444 en kynnt fyrir kóresku þjóðinni árið 1446. Það var fyrir tilstilli þáverandi konung landsins, Sejong, að skriftin var hönnuð. Áður en Hangul kom til sögunnar töluðu Kóreumenn kóresku en skrifuðu á kínversku. Þetta var augljóslega mjög flókið og hentaði ekki vel þar sem talandinn var mjög frábrugðinn á milli þessara landa. Stór hluti Kóreumanna var ólæs og þess vegna mikil bylting þegar konungurinn Sejong tók upp á því að búa til sér skrift fyrir þegna sína og fullkomnaði þannig tungumálið. Hangul er einföld skrift og mun auðveldara að hana læra heldur en kínversku táknin. Sejong konungur er fyrir þessar sakir frægasti konungurinn í sögu Kóreu og prýðir 10.000 won seðilinn. Hangul var þó notað saman við kínversk tákn (kölluð Hanji á kóresku) fram til ársins 1970 þar sem kínversku táknin voru notuð á eftir kóreskum orðum til útskýringar og virka sem hálfgerð orðabók. Nú er Hangul notað nær eingöngu bæði í Suður-Kóreu og Norður-Kóreu en þó kemur örsjaldan fyrir að Hanji er sett í sviga til að útskýra flóknustu orðin til dæmis í fréttablöðum og ritgerðum. Kóresk börn þurfa enn að læra mikla kínversku í grunnskólum en flest kóresk orð eru þýdd úr kínversku. Þess má einnig geta að fyrir utan Kóreumenn er indónesískur ættbálkur sem notar Hangul. Hvert tákn í Hangul er kallað Jamo. Til eru 29 tákn sem skiptast upp í Þessum táknum er svo raðað saman þannig að mest eru þrjú jamo í einni samstæðu. Samstæðan myndar alltaf eitt atkvæði. Táknunum er raðað þannig upp að fyrst kemur samhljóði svo sérhljóði og síðast er skrifað endatákn sem er oftast líka samhljóði eða tvöfalt tákn. Skrifað er frá hægri til vinstri og frá toppi og niður innan samstæðunnar og sama á við um línur. Hangul í Unicode. Það eru fjórar mismunandi leiðir til að skilgreina Hangul í Unicode. Maður getur valið hvort maður vill fá hvert tákn fyrir sig eða heila samstæðu og hvernig maður vill að hún birtist. Loðinn af Bakka. Loðinn af Bakka var norskur maður sem var lögmaður á Íslandi árið 1301. Honum má ekki rugla saman við Loðinn lepp, sem kom til Íslands með Jónsbók árið 1280. Loðinn var úr Þrændalögum og hefur verið af höfðingjaættum. Í annálum segir að hann hafi fallið í ónáð ásamt fleiri herramönnum í Þrándheimi 1293 og verið gerður útlægur til Íslands; „var sendur út Bakka-Loðinn til Íslands, vorðinn útlagi Noregs konúngs“, segir í Skálholtsannál. Ekkert er vitað um veru hans hér þá en hann hefur komist aftur í náðina þegar Hákon háleggur tók við konungdæmi 1299 og vorið 1301 birtist hann hér ásamt Bárði Högnasyni og Álfi úr Króki, sérlegum sendimanni konungs. Hafði Hákon útnefnt þá Loðin og Bárð lögmenn og kann að vera að þeir hafi verið valdir í það hlutverk vegna þess að báðir voru kunnugir á Íslandi. Var það í fyrsta skipti sem konungur tók sér vald til að skipa íslenska embættismenn og tók hann ekkert tillit til þess að fyrir voru lögmenn sem Íslendingar höfðu sjálfir kosið ári áður. Áttu lögmennirnir og sendimaðurinn meðal annars að sjá til þess að konungur yrði hylltur af Íslendingum. Ekkert varð þó af því, Íslendingar tóku sendingunni illa. Þremenningarnir fóru úr landi um haustið og Loðinn skilaði lögsagnarumboði sínu til konungs svo að hann var ekki lögmaður nema þetta eina ár. Snorri Markússon tók við af Loðni. Velleius Paterculus. Gaius Velleius Paterculus (um 19 f.Kr. – um 31 e.Kr.) var rómverskur sagnaritari. Velleius samdi ágrip af sögu Rómaveldis í tveimur bókum og tileinkaði Marcusi Viniciusi. Ritið fer yfir sögu (og forsögu) Rómverja frá falli Tróju til dauða Liviu árið 29 e.Kr. Í fyrstu bók er fjallað um tímann fram að falli Karþagó árið 146 f.Kr. en hluta vantar úr fyrstu bók, þar á meðal upphaf hennar. Í seinni bókinni, einkum þar sem segir frá dauða Caesars árið 44 f.Kr. og fram að dauða Augustusar árið 14 e.Kr., er umfjöllun Velleiusar miklu ýtarlegri. Velleius fjallar í stuttu máli á grískar og latneskar bókmenntir en minnist þó hvergi á Plautus, Horatius eða Propertius. Hann þykir almennt áreiðanlegur en virðist þó ekki hafa haft djúpa sagnfræðilega skarpskyggni. Helstu heimildir hans voru Cato eldri, Quintus Hortensius, Pompeius Trogus, Cornelius Nepos og Livius. Stíll Velleiusar ber keim af mælskulist. Sigurður Guðmundsson (lögmaður á Svalbarði). Sigurður Guðmundsson (d. 1378?) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann bjó á Svalbarði á Svalbarðsströnd. Sigurður var sonur Guðmundar Sigurðssonar lögmanns og líklega konu hans, Gróu Oddsdóttur. Hann var tvívegis lögmaður sunnan og austan, fyrst árið 1358 og síðan aftur 1376-1377. Árið 1377 fóru lögmennirnir, Sigurður og Þorsteinn Eyjólfsson, um landið og létu hylla Magnús konung og síðan var honum svarið land á Alþingi. Sigurður lagði niður lögsögn eftir þingið og hefur líklega dáið skömmu síðar. Kona Sigurðar var Solveig Magnúsdóttir (d. 10. nóvember 1376), dóttir Magnúsar Brandssonar á Svalbarði og systir Eiríks auðga og Arnþrúðar konu Þorsteins Eyjólfssonar á Urðum. American Typewriter. American Typewriter er stafagerð frá árinu 1974 eftir Joel Kaden og Tony Stan. Letrið er byggt á hönnun ákveðins ritvélastíls. Fólk notar American Typewriter oft til þess að fá gamaldags og persónulega tilfinningu í verk sín. Þórður Egilsson (lögmaður). Þórður Egilsson var íslenskur lögmaður á 14. öld. Þórður var launsonur Egils Sölmundarsonar í Reykholti, systursonar Snorra Sturlusonar, en móðir hans hét Þórunn Valgarðsdóttir. Hann varð lögmaður sunnan og austan 1341 en sagði af sér 1346. Hann varð svo aftur lögmaður 1352 og gegndi því embætti til 1357. Fátt er vitað um þórð og ekkert um kvonfang hans eða börn. Hann hefur líklega verið sá Þórður lögmaður sem annálar segja hafa farið til Grænlands 1343. Jón Þorsteinsson (lögmaður). Jón Þorsteinsson var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann var lögmaður sunnan og austan 1346-1351. Um hann er nánast ekkert vitað en Jón Sigurðsson getur þess til í Lögsögumannatali og lögmanna að hann kunni að hafa verið bróðir Gríms Þorsteinssonar, riddara, lögmanns og hirðstjóra í Stafholti og þá sonur Þorsteinn Hafurbjarnarsonar lögmanns, en það er þó einungis tilgáta. Þorsteinn Hafurbjarnarson. Þorsteinn Hafurbjarnarson (d. 1325) var íslenskur höfðingi og líklega lögmaður á 13. og 14. öld. Hann var launsonur Hafur-Bjarnar Styrkárssonar, sem bjó á Seltjarnarnesi. Í annálum segir aðeins að árið 1300 hafi Þórður (Narfason á Skarði) og Þorsteinn verið lögmenn. Jón Sigurðsson telur í "Lögsögumannatali og lögmanna", að þetta hafi verið Þorsteinn Hafurbjarnarson en það er þó ekki fullvíst. Hver sem þetta var, þá var hann ekki lögmaður nema árið því að vorið 1301 sendi Hákon háleggur Noregskonungur hingað tvo lögmenn, þá Loðin af Bakka og Bárð Högnason. Sennilega hefur konungur ætlað að reyna að þvinga Íslendinga til að fallast á að hann veitti lögmansembættin í stað þess að lögmenn væru kosnir á Alþingi. Það vildu Íslendingar hins vegar ekki sætta sig við og voru norsku lögmennirnir ekki á landinu nema til haustsins. Þórður Narfason varð lögmaður norðan og vestan að nýju en Mela-Snorri tók við lögmennsku sunnan og austan. Sonur Þorsteins var Grímur Þorsteinsson, lögmaður, hirðstjóri og riddari. Hugsanlegt er að Jón Þorsteinsson lögmaður hafi einnig verið sonur hans. Macrinus. Marcus Opellius Macrinus (um 165 – júní 218) var keisari Rómaveldis á árunum 217 – 218. Hann var frá Mauretaniu í Norður-Afríku og var fyrsti keisarinn sem ekki kom úr röðum aðalsmanna eða öldungaráðsmanna. Macrinus var yfirmaður lífvarðasveitar Caracalla, þegar sá síðarnefndi var myrtur, og var því í góðri stöðu til þess að ná völdum. Caracalla var hins vegar vinsæll á meðal hermanna og Macrinus beið í þrjá daga áður en hann leitaði eftir stuðningi þeirra. Hann fékk þó nægan stuðning og var lýstur keisari af hernum og öldungaráðinu í Róm. Rómverjar voru í stríði við Parþa á þessum tíma og Macrinus þurfti fljótlega að verjast innrás þeirra. Herir ríkjanna mættust í hörðum bardaga þar sem útkoman var tvíræð en Macrinus samþykkti að borga Pörþunum háar fjárhæðir fyrir vopnahlé. Þessi niðurstaða var hermönnunum ekki að skapi og því var staða hans ótrygg. Orðrómur fór af stað árið 218 að Elagabalus, frændi Caracalla og Geta, væri í raun sonur Caracalla og því hinn rétti erfingi keisaratitilsins. Elagabalus fékk fljótlega talsverðan stuðning á meðal hermanna og var hylltur sem keisari þann 15. maí 218, nálægt borginni Emesu í Syriu (Sýrlandi). Macrinus reyndi að styrkja stöðu sína með því að gera níu ára son sinn, Diadumenianus, að með-keisara ("augustus") og lofaði af því tilefni að borga hermönnunum háar fjárhæðir. Engu að síður yfirgáfu hann sífellt fleiri hermenn og gengu til liðs við Elagabalus. Að lokum var hann sigraður í bardaga, af uppreisnarmönnum, nálægt borginni Antiokkíu. Macrinus flúði en náðist stuttu síðar og var tekinn af lífi. Diadumenianus var einnig tekinn af lífi. Tvígild áhrifssögn. Tvígild áhrifssögn eða tveggja andlaga sögn er hugtak í málfræði sem á við áhrifssögn sem tekur með sér frumlag og tvö andlög, beint andlag og óbeint andlag. Beint andlag er ætíð í þolfalli en óbeint andlag í þágufalli. Andrew Fire. Andrew Zachary Fire (fæddur 27. apríl 1959) er bandarískur líffræðingur og prófessor í meinafræði og erfðafræði við Stanford háskóla. Hann er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað RNA-inngrip við genatjáningu ásamt Craig C. Mello, en fyrir þær rannsóknir deildu þeir nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði árið 2006. Snorri Markússon. Snorri Markússon (d. 1313) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann bjó á Melum í Melasveit og er í sumum heimildum kallaður Mela-Snorri. Snorri var sonur Markúsar Böðvarssonar á Melum, Þórðarsonar í Bæ, og voru Markús og Snorri Sturluson systkinasynir og þeir Þorleifur í Görðum og Böðvar í Bæ voru bræður hans. Kona Markúsar var Hallbera Snorradóttir frá Melum. Snorri og Guðmundur Sigurðsson urðu lögmenn 1302, eftir að Hákon háleggur hafði gefist upp á tilraun sinni til að skipa Íslendingum erlenda lögmenn, og var konungi svarið land og þegnar á Alþingi það ár. Snorri var lögmaður sunnan og austan til 1306. Kona Snorra var Helga, óskilgetin dóttir Ketils Þorlákssonar lögsögumanns. Sonur þeirra var Þorsteinn Snorrason ábóti á Helgafelli (d. 1351). Guttormur Bjarnason. Guttormur Bjarnason var íslenskur lögmaður á 14. öld. Ekkert er vitað með vissu um ætt hans, búsetu eða fjölskyldu þótt ýmsar tilgátur hafi komið fram. Guttormur tók við lögmennsku á Alþingi 1307 af Snorra Markússyni og gegndi embættinu til 1318. Þá (eða líklega öllu heldur á þinginu 1319) sögðu þeir Guðmundur Sigurðsson lögmaður norðan og vestan báðir af sér. Þá hafði Magnús konungur, eða þeir sem stýrðu ríkinu í umboði hans, því konungur var barn að aldri (f. 1316), stefnt lögmönnum og öðrum helstu forsvarsmönnum Íslendinga utan, bæði vegna ágreiningsmála við Auðun rauða Hólabiskup og eins til að vinna þá til að fá landsmenn til að hylla Magnús sem konung. Það höfðu Íslendingar tregðast við að gera nema þeir fengju ákveðna úrlausn sinna mála. Corpus Codicum Norvegicorum Medii Aevi. "Corpus Codicum Norvegicorum Medii Aevi" (latína: "Úrval norskra skinnbóka frá miðöldum") er ritröð sem gefin er út af Selskapet til utgivelse av gamle norske håndskrifter í Osló. Útgáfan hófst árið 1950 og er enn í gangi. Didrik Arup Seip var upphafsmaður útgáfunnar og ritstjóri á meðan hans naut við. Formálarnir eru yfirleitt á norsku, með ágripi á ensku. Í ritröðinni eru birt norsk handrit, og athygli þar beint að hlut Norðmanna í hinum fornu norsk-íslensku bókmenntum. Vel er til útgáfunnar vandað og bækurnar handhægar. Þess má geta um 7. bindið í seinni röðinni, lögbókina "Codex Hardenbergensis", að Stefán Karlsson handritafræðingur hefur sýnt fram á að hún er rituð af Íslendingi, þó að um norska lögbók sé að ræða. Hún er með fallegustu handritum sinnar tíðar. Max Keiser. Max Keiser (f. 23. janúar 1960) er kvikmyndagerðarmaður, útvarpsmaður og fyrrum verðbréfasali. Hann stjórnar sjónvarpsþættinum "On the Edge" á fréttastöðinni Press TV og fjármálafréttaþættinum Keiser Report á Russia Today. Einnig skrifar hann í Huffington Post. Fredrik Barth. Thomas Fredrik Weybye Barth (f. 22. desember 1928) er norskur félagsmannfræðingur sem er þekktur fyrir formalískar greiningar í etnógrafíum sem byggja á vettvangsrannsóknum hans í Pakistan, Nýju Gíneu, Balí, Darfúr meðal annars. Hann ritstýrði verkinu "Ethnic Groups and Boundaries" 1969 þar sem hann lagði áherslu á að þjóðerni væri ekki gefið fyrirfram heldur væri það stöðugt verkefni sem gengi út á samsömun og útilokun í samskiptum milli fólks. Félagsleg mótunarhyggja. Félagsleg mótunarhyggja er stefna í félagsvísindum sem leggur áherslu á smíði og viðhald félagslegra fyrirbæra fremur en líta á þau sem þversöguleg og óháð gjörðum einstaklinga. Rannsóknir í anda félagslegrar mótunarhyggju fjalla gjarnan um það hvernig félagslegur veruleiki; venjur, hefðir og stofnanir, er búinn til og hvernig atferli, viðhorf og túlkanir fólks halda honum við. Félagslegri mótunarhyggju er gjarnan stillt upp sem andstæðu við eðlishyggju. Hún á sér rætur í fyrirbærafræði Alfred Schütz í gegnum áhrifamikið verk Peters L. Bergers og Thomas Luckmann "The Social Construction of Reality" frá 1966 en þeir voru báðir nemendur Schütz í The New School í New York-borg. Hetjukvæði. Hetjukvæði eru þau kvæði Eddu sem fjalla um mannlegar hetjur en ekki um goðin (a.m.k. ekki á beinan hátt). Flest þeirra fjalla um gullið sem Sigurður Fáfnisbani fann á Gnitaheiði og bölvunina sem fylgdi því. Hetjukvæðin eru 18 talsins, þau "Helgakviða Hundingsbana I" og "II", "Helgakviða Hjörvarðssonar", "Grípisspá", "Reginsmál", "Fáfnismál", "Sigurdrífumál", "Brot af Sigurðarkviðu", "Guðrúnarkviða I", "II" og "III", "Sigurðarkviða in skamma", "Helreið Brynhildar", "Oddrúnargrátur", "Atlakviða", "Atlamál in grænlensku", "Guðrúnarhvöt" og "Hamdismál". Á mörkum hetjukvæða og goðakvæða liggja síðan "Völundarkviða" og "Alvíssmál" þar sem að efni þeirra og heimur er mitt á milli goðheima og mannheima. Einar Gilsson. Einar Gilsson (d. 1369) var íslenskur lögmaður og skáld á 14. öld. Ætt hans er ekki þekkt en hann bjó á Reykjum í Tungusveit í Skagafirði og seinna í Húnaþingi. Einar mun hafa orðið lögmaður norðan og vestan 1367, þegar Þorsteinn Eyjólfsson fór utan, og haft embættið til 1368, þegar hann kom aftur. Hann var skáld og af kveðskap hans hafa varðveist "Selkolluvísur", kvæði um Guðmund Arason biskup og "Ólafs ríma Haraldssonar", sem talin hefur verið elst íslenskra rímna, ort um eða upp úr miðri 14. öld. Hún er varðveitt í Flateyjarbók. Kona Einars var Arnfríður Helgadóttir, bróðurdóttir Þórðar Egilssonar lögmanns. Sonur þeirra var Dálkur Einarsson bóndi í Bólstaðarhlíð. Magnús Jónsson (lögmaður). Magnús Jónsson (d. 1371) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Ekkert er vitað um ætt hans en hann hefur líklega verið norðlenskur. Sagt er frá því í annálum að Magnús fór utan 1365 og kom aftur ári síðar með einhver konungsbréf og bréf frá erkibiskupi, þar sem þeim var hótað sektum sem ekki samþykktu Jón skalla Eiríksson sem réttan Hólabiskup, en það bréf höfðu Íslendingar að engu. Magnús kom svo til landsins árið 1371 og hafði fengið lögsögu norðan lands og vestan en dó litlu síðar og er ekki ljóst hvort hann var á Alþingi 1371 eða ekki. American Association for the Advancement of Science. The American Association for the Advancement of Science eru alþjóðleg samtök vísindamanna og vísindastofnana sem vilja efla vísindalegt samstarf, standa vörð um vísindalegt frelsi, hvetja til vísindalegrar ábyrgðar og auka vísindamenntun og útbreiðslu vísinda um allan heim. Samtökin voru stofnuð 1848. Þau eru stærsta vísindafélag heims með yfir 120.000 félaga. Samtökin gefa út vísindatímaritið "Science". Grímur Jónsson (lögmaður). Grímur Jónsson (um 1480 – fyrir 1554) var íslenskur lögmaður á 16. öld. Ætt hans er óþekkt en hann bjó á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði og fékk þá jörð með konu sinni. Grímur er nefndur í Leiðarhólmssamþykkt 1513 og var þá lögréttumaður í Hegranesþingi. Á Alþingi 1519 skrifaði hann ásamt fleirum undir kosningarbréf Ögmundar Pálssonar biskupsefnis og var þá orðinn lögmaður. Hann var á Sveinsstaðafundi með Jóni Arasyni biskupi. Þar skaut hann ör í handlegg Teits Þorleifssonar og hélt Teitur því fram að biskup hefði haldið sér föstum. Grímur hélt því á móti fram að Teitur hefði ráðist á biskup og menn hans „með hótan og herskap, hjó, stakk og særði, með stórum orðum og steinshöggum“. Grímur lét af lögmennsku skömmu síðar en lifði þó lengi enn og bjó á Ökrum. Kona hans var Guðný Þorleifsdóttir, kölluð Akra-Guðný, dóttir Þorleifs Björnssonar hirðstjóra og Ingveldar Helgadóttur Guðnasonar lögmanns. Alan Dundes. Alan Dundes (8. september 1934 – 30. mars 2005) var bandarískur þjóðfræðingur sem kenndi lengst af við Berkeley-háskóla í Kaliforníu. Hann fjallaði mikið um hefðbundið þjóðfræðiefni á borð við brandara, þjóðlög, þjóðsögur og goðsagnir í nútímasamfélögum. Hann var vinsæll kennari og fyrirlesari og hafði mikil áhrif á þróun greinarinnar í Bandaríkjunum. Verk hans voru undir áhrifum frá formgerðarhyggju og sálgreiningu. Listi yfir Numb3rs-þætti (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröð Numb3rs var frumsýnd 25. september og sýndir voru 16 þættir. Frúarkirkjan í Ágsborg. Vesturkór og turnar Frúarkirkjunnar. Austurkórinn sést ekki (til vinstri út úr myndinni). Frúarkirkjan í Ágsborg er dómkirkja í lúterskum sið í borginni Ágsborg í Þýskalandi. Hún er óvenjuleg í laginu, enda er kór hennar stærri en skipið. Bronsdyrnar eru orðnar nærri 1000 ára gamlar Saga Frúarkirkjunnar. Fyrirrennari kirkjunnar er frá 4. öld, er kristni varð að ríkistrú í Rómaveldi. Önnur kirkja reis á staðnum á 8. öld og var hún þá dómkirkja. Kirkja sú skemmdist hins vegar talsvert í árás Ungverja og hrundi hún 994. Núverandi kirkja var hins vegar reist á 11. öld og vígð 1065. Hér var um miðhlutann að ræða, kirkjuskipið. Á 14. öld var austurkórinn bættur við og strax á eftir hinn stóri vesturkór, sem var vígður 1431. Við það fékk kirkjan ákaflega einkennilegt útlit, með kirkjuskip fyrir miðju og kór á sitthvorn endann. Vesturkórinn er ívið hærri í loftinu en skipið, sem er ákaflega óvenjulegt. Tveir turnar eru fyrir miðju skipinu og eru þeir 62 metra háir. Kirkjan öll er hins vegar 113 metra löng. Í siðaskiptunum ruddist múgur manna inn í kirkjuna og eyðilagði listaverk og myndir. Í kjölfarið var hún lútersk og svo er enn. Eftir það var hún skreytt með nokkrum listaverkum á ný. Frúarkirkjan slapp nánast við allar eyðileggar í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Hún var gerð upp á síðustu árum 20. aldar og fékk þá nýjar bronsdyr þar sem gengið er inn í kórinn. Listaverk. Mörg listaverk eru í Frúarkirkjunni, t.d. stór freska af heilögum Kristófórusi. Flest listaverk og myndir voru eyðilögð í siðaskiptunum, þannig að þau sem í kirkjunni eru í dag eru mörg hver ný af nálinni. Bronsdyrnar. Aðaldyr kirkjunnar eru úr bronsi og eru meðal merkustu bronsdyra í rómönskum stíl í Evrópu. Hurðarvængirnir eru tveir og eru þeir misstórir. Þeir voru búnir til 1065 og eru næstelstu bronshurðir Þýskalands. Hvor um sig eru þær bræddar saman úr rúmlega 30 minni plötum með kristilegu myndefni. Dyrnar voru teknar af árið 2002 og hreinsaðar, enda orðnar sótugar eftir tæp 1000 ár. Þær voru settar á aftur 2004. Maríukapellan. Maríukapellan í Frúarkirkjunni var ekki smíðuð fyrr en 1720-21, sem er óvenjulegt, þar sem lúterska kirkjan er varla með nokkura Maríudýrkun. Altarið er frá 11. öld, frá því er kirkjan sjálf var byggð. Hjarta kapellunnar er hin mikla altaristafla sem stendur á súlum. Hún skartar styttu af Maríu mey og ýmsu öðru skrauti. Styttan af Maríu er úr sandsteini. Maríukapellan er eini hluti kirkjunnar sem varð fyrir skemmdum í loftárásum 1944. Lokað var fyrir rýmið í nokkra áratugi, en 1987-88 var Maríukapellan loks gerð upp. Veggmyndirnar eru því eftirlíkingar. Þorkell hái. Þorkell hái eða Þorkell hinn hávi var landnámsmaður í Þingeyjarsýslu. Í Landnámabók segir að hann hafi komið ungur til Íslands og gert sér bú að Grænavatni, sem er rétt við Mývatn. Börn Þorkels segir Landnáma að hafi verið Sigmundur, Arndís (Hallfríður í Víga-Glúms sögu), kona Vigfúsar bróður Víga-Glúms, og Dagur, sem Þorkell gat í elli sinni. Samkvæmt Víga-Glúms sögu fluttu feðgarnir Þorkell og Sigmundur síðar að Þverá í Eyjafirði, sem Arndís/Hallfríður hafði þá erft hálfa eftir mann sinn en Glúmur bjó á hinum helmingnum. Fjandskapur varð með þeim Glúmi og Sigmundi sem lauk með því að Glúmur vó Sigmund á akrinum Vitaðsgjafa. Kona Sigmundar var Vigdís, dóttir Þóris á Espihóli, Hámundarsonar heljarskinns, og var hún móðursystir Brennu-Flosa. Reistur Ketilsson. Reistur Ketilsson var íslenskur landnámsmaður. Hann nam land í Norður-Þingeyjarsýslu og segir í Landnámabók að landnám hans hafi verið á milli Reistargnúps og Rauðanúps og hann hafi búið í Leirhöfn á Melrakkasléttu. Hann er sagður hafa verið sonur Bjarneyja-Ketils og Hildar, systur Ketils þistils, sem nam Þistilfjörð. Sonur hans var Arnsteinn goði, sem bjó á Ærlæk í Öxarfirði og kemur við Ljósvetninga sögu. Oddný G. Harðardóttir. Oddný Guðbjörg Harðardóttir (f. 9. apríl 1957) er alþingismaður og fyrrum fjármálaráðherra. Oddný var formaður menntamálanefndar 2009 - 2010 og formaður fjárveitinganefndar Alþingis 2010 - 2011. Hún er þingmaður Samfylkingarinnar. Oddný starfaði sem stærðfræðikennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og einn vetur við Menntaskólann á Akureyri. Hún varð aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1994 og gegndi stöðu skólameistara árið 2005. Hún var verkefnisstjóri á vegum menntamálaráðuneytisins 2001 - 2003 og bæjarstjóri í Garði 2006 - 2009 áður en hún bauð sig fram til þings fyrir kosningarnar 2009. Unnur Brá Konráðsdóttir. Unnur Brá Konráðsdóttir (fædd 6. apríl 1974) er alþingismaður og 6. varaforseti Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún var áður sveitarstjóri Rangárþings eystra frá 2006 þar til hún fór á þing 2009. Björn Þorbjarnarson. Björn Þorbjarnarson var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann bjó í Klofa í Landsveit í Rangárvallasýslu og er nefndur Klofa-Björn í ýmsum heimildum. Raunar er ekki fullvíst að Björn hafi verið Þorbjarnarson en þó er vitað að Þorbjörn nokkur, kallaður Klofa-Þorbjörn, bjó í Klofa um og eftir 1332 og dó 1373 og er ekki ólíklegt að Björn hafi verið sonur hans. Hann var lögmaður sunnan og austan 1378-1386. Kona hans kann að vera Katla sú sem var búandi í Klofa 1387 og hefur Björn þá verið látinn. Sonur hans var Jón, kallaður Klofa-Jón, sem dó 1393. Narfi Sveinsson. Narfi Sveinsson var íslenskur lögmaður á 14. og 15. öld. Ætt hans er óþekkt en ekki ólíklegt að hann hafi verið skyldur Skarðverjum og Kolbeinsstaðamönnum. Í annálum segir að árið 1387 hafi komið út þeir Eiríkur Guðmundsson með hirðstjórn og Narfi Sveinsson með lögsögn yfir hálft land, skipaðir af Ögmundi Finnssyni dróttseta „og þótti það nýlunda“. Er hugsanlegt að þar sé átt við að Ögmundur, sem þá stýrði Noregi fyrir hönd hins barnunga Ólafs konungs, hafi undirritað bréfin fyrir sína eigin hönd en ekki fyrir hönd konungs. Landsmenn snerust öfugir við Eiríki hirðstjóra og var hann drepinn árið eftir en öðru máli virðist hafa gegnt með Narfa, sem gegndi lögmannsembætti sunnan og austan allt til 1405. Narfi var í Dölum og á Snæfellsnesi fyrst eftir embættistökuna, bjó síðar á Melum í Melasveit og seinast í Saurbæ á Kjalarnesi. Sama ár og hann lét af lögsögn sigldi hann utan með Vilchin Skálholtsbiskupi og Birni Jórsalafara og fór síðan í suðurgöngu. Kona hans er óþekkt en synir hans voru Jón umboðsmaður, faðir Narfa Jónssonar, fyrsta príors á Skriðuklaustri og Guðmundur prestur á Gilsbakka og Hrepphólum. Oddur Þórðarson leppur. Oddur leppur Þórðarson (d. 1443) var íslenskur lögmaður á 15. öld. Hann bjó á Ósi í Bolungarvík, að minnsta kosti síðari hluta ævinnar. Faðir Odds var Flosi Þórðarson sýslumaður í Snæfellsnessýslu. Skúli bróðir Odds var með Magnúsi konungi Eiríkssyni og fékk hjá honum sýslu og jarðir; hann drukknaði á leið til landsins 1375 og erfði Oddur eignir hans. Oddur hefur vafalaust einnig siglt og telur Jón Sigurðsson að hann hafi haft viðurnefni sitt af Leppinum í Björgvin en einnig er sagt að hann hafi verið kallaður svo af því að hann hafði hvítan lokk í hári. Odds er fyrst getið á Íslandi 1394. Hann hefur orðið lögmaður sunnan og austan 1406 og gegndi þvi embætti til 1420. Hann þótti harður í lögsögn sinni og er sagt að hann hafi látið taka 28 manns af lífi á lögmannsferli sínum. Árið 1415 gaf Oddur Árna biskupi milda í próventu með sér allar þær jarðir sem hann hafði erft eftir Skúla bróður sinn og hefur líklega hugsað sér að eyða ellinni á biskupsstólnum en þegar Árni fór úr landi 1419 hefur próventugjöfin líklega gengið til baka. Oddur varð háaldraður. Kona Odds var Þórdís, dóttir Sigurðar Þórðarsonar bónda í Ögri, sem kominn var í beinan karllegg af Sturlu Þórðarsyni sagnaritara. Á meðal barna þeirra voru Guðni bóndi á Hóli í Bolungarvík og Kristín, frilla Lofts Guttormssonar ríka. Disturbed. Disturbed er bandarísk þungarokkshljómsveit frá Chicago í Illinois, stofnuð árið 1996 þegar tónlistarmenn Dan Donegan, Steve „Fuzz“ Kmak, Mike Wengren og David Draiman. Frá myndun hljómsveitarinnar, þeir hafa selt yfir 11 milljónir plötur um allan heim, að þá einn af stærstu þunga rokk hljómsveitum á undanförnum árum. Hljómsveitin hefur gefið út þrjár samliggjandi stúdíó breiðskífur sem frumraun á númer-eitt á Billboard 200. Fyrstu árin sem "Brawl" (1994-1996). Áður en söngvari David Draiman gekk til liðs við hljómsveitina sig var hljósveitin kölluð „Brawl“, hljómsveitin samanstóð af söngvari Erich Awalt, gítarleikara Dan Donegan, trommarann Mike Wengren, og bassaleikaranum Steve „Fuzz“ Kmak. Erich Awalt hætti í hljómsveitinni skömmu eftir upptöku af kynningar plötu en hinir þrír aðilarnir fóru að auglýsa eftir söngvara. Þeir auglýstu á opinberri tónlistarstöð í Chicago, Illinois, kölluð "Illinois Entertainer". Draiman hafði svarað auglýsingunni eftir að fara í tuttugu aðrar prufur í sama mánuði. Eins og gítarleikari Dan Donegan sagði um Draiman, „Þú veist, af öllum þeim söngvurum sem við höfðum talað við var hann Draiman eini söngvarinn sem var tilbúinn til að fara með frumrit. Og hann náði aðdáun minni bara með því að reyna það“. Með hamingju óskum til Draiman með að vera nýi söngvarinn í hljómsveitinni, Donegan sagði, „Eftir eina mínútu eða tvær, var hann byrjður að lemja út lögum sem voru rosaleg... ég spilaði á gítarinn minn og ég er hlusta frá eyra til eyra, ég reyndi að gefa ekki till kynna að mér líkaði þessi strákur, þú veist, því ég vil ekki að, þú veist... [segja] „Já, við munum þér að hringja í þig. Við munum, þú veist, ræða það.“ En ég var svo spenntur. Það kom hrollur upp hrygginn minn. Ég er svona, „Það er eitthvað varið í hann.“ Eins trommarinn Mike Wengren sagði, „Við smullum vel saman.“ Draiman gekk síðan til liðs við hljómsveitina árið 1996 og hljómsveitin var aftur nefnd „Disturbed“. Þegar spurt er í viðtali hvers vegna hann lagði til að nafnið á hljómsveitinni „Disturbed“, Draiman sagði, „Það var nafn sem ég hafði verið að hugsa um fyrir hljómsveit í mörg ár. Það virtist bara að sýna fram á allt sem við vorum tilfinningalega á þeim tíma. Það bara var vit í því.“ „The Sickness“ (Veikindin): 1998–2000. Eftir að endurnefna hljómsveitina, Disturbed byrjað að taka upp nokkur demó og spilaði á tónleikum. Hljómsveitin að lokum undirritaði samning með Giant Records. Árið 2000 var frumrauns plata hljómsveitarinnar komin út, sem bar yfirskriftina "The Sickness" („Veikindin“), sem gerði hljómsveitina í fræga. Platan náði hámarki sínu sem númer tuttuguogníu á Billboard 200 listanum og hún hefur selst í yfir fjórum milljónum eintaka í Bandaríkjunum frá útgáfu hennar. Áður en hljómsveitin gekk til liðs við Evróputúr Marilyn Manson árið 2001, meiddist bassaleikarinn Steve Kmak gat ekki spilað með í hljómsveitinni vegna britins ökkla, vegna falls af eldvarnarstigan fyrir utan æfingar sal Disturbed í Chicago. Hann notaði stigann til að fara út en lyftan var notuð til að færa búnað hljómsveitarinnar niður á jarðhæð. Eftir að árangursríka aðgerð, mældu læknar eindregið með því að Kmak sleppti ferðinni til að forðast alvarlegri skemmdir á fætinum. En hann tók þátt í tónleikum hljómsveitarinnar 11. og 12. janúar, 2001 í Chicago. Á túrnum um Evrópu, Marty O'Brien fór í stað Kmak þangað til hann gat spilað aftur. „Believe“ (Trúðu): 2001–2003. Í febrúar 2001 var tilkynnt að hljómsveitin hafði endurgert lagið "Midlife Crisis" til heiðurs Faith No More, hins vegar var endurgerðin ekki notuð á plötuna. Þann 4. júní 2002 gaf Dsturbed út heimildarmynd um hljómsveitina, hún hét M.O.L., myndin sýndi persónulegar stundir í hljómsveitinni í hljóðveri og í ferðum, myndin sýndi líka tónlistar myndbönd og tónleika. Þann 17. september 2002 gaf Disturbed út aðra stúdíóplötu þeirra, heitir "Believe" („Trúðu“), sem frumraun á fyrsta sæti á Billboard 200 listanum. Tónlistarmyndbandið á fyrstu einstæðu plötu þeirra, hét "Prayer" („̨Bæn“), var tekið af flestum sjónvarpsstöðvum, vegna líkinda með 11. september 2001 árásirnar. David Draiman tók upp raddirnar fyrir lagið "Forsaken" („Yfirgefinn“), lag skrifað og framleitt af Jonathan Davis í hljómsveitinni Korn, út á "Queen of the Damned" plötuna. Árið 2003, þegar hljómsveitin tók aftur þátt í Ozzfest-ferðinni og hóf sitt eigið tónleikaferðalag þeirra, sem heitir "Music As A Weapon II" („Tónlist sem Vopn II“). Hljómsveitirnar Chevelle, Taproot og Unloco fóru í tónleikaferðalag með þeim. Á meðan á ferðinni stóð, frumreyndi Disturbed óútgefið lag, sem bar titilinn "Dehumanized" (̨„Afmannkennt“). Eftir Disturbed lauk "Music As A Weapon II"-ferðinni, var Steve Kmak rekinn úr hljómsveitinni vegna „persónuleika mismuna“. Honum var skipt út fyrir John Moyer, sem er nú núverandi bassaleikari hljómsveitarinnar. Kvöldið sem Moyer varð nýji bassaleikari hljómsveitarinnar, Disturbed spilaði á tónleikum í House of Blues og flutti tvö ný lög, "Hell" („Helvíti“) og "Monster" („Skrímsli“), sem bæði eru lög á B-hlið þriðju breiðskífu hljómsveitarinnar, "Ten Thousand Fists" („Tíu Þúsund Hnefar“). „Ten Thousand Fists“ (Tíu Þúsund Hnefar): 2004–2006. Þriðja stúdíóplata Disturbed, "Ten Thousand Fists", var gefin út 20. september 2005. Platan var frumraun til að ná fyrsta sæti á Billboard 200 listanum, platan seldist í 238.000 eintökum viku eftir útgáfu hennar. Platan varð að platínu plötu, seldist 1.000.000 eintök, í Bandaríkjunum þann 5. janúar 2006. Hljómsveitin fór í tónleikaferðir með "10 Years" („10 Ára“) og "Ill Niño" („Veikt barn“) í stuðningi við plötuna. Disturbed var í fyrirrými á Ozzfest 2006 ásamt Ozzy Osbourne, System of a Down, Lacuna Coil, DragonForce, Avenged Sevenfold, og Hatebreed. Í viðtali við Launch Radio Networks, sagði söngvari Disturbed David Draiman fram að tuttugu lög voru skráð á plötuna, en einungis fjórtán lög voru sett á endanlegan lagalista. Á eftir lög með "Hell" sem var innifalinn í einu tveimur "Stricken"-plötum; "Monster", sem var innifalinn sem iTunes-forpantanarbónus fyrir "Ten Thousand Fists", svo seinna finna á "Ten Thousand Fists Tour Edition", "Two Worlds", sem var einnig á túrútgáfu "Ten Thousand Fists", og "Sickened", var sem innifalin í "Land of Confusion" plötunni. Árið 2006, var Evrópuferð áætluð en hafði verið frestað tvisvar vegna þess að David Draiman þurfti leysa alvarleg bakflæði, sem hafði áhrif á rödd hans. Draiman sagði, „Ég hafði verið að taka prevacid í um fjögur ár og líkami minn byggði upp mótefni gegn því, þegar það var ekki að gera neitt lengur... ég fór á fyllerí í London og síðan dag og nótt í Dublin, því hvað er annað að gera á Írland en drekka? Ég eyðilagði nánast rödd mína.“ Seinna það ár, Draiman fór í skurðaðgerð vegna vanda sem hafði áhrif á rödd hans. Það gekk vel, og síðan þá hefur David Draiman takmarkað drykkju sína. [26] Halldór Helgason. Halldór Helgason er íslenskur snjóbrettamaður. 16 ára fór til svíþjóðar í snjóbrettamenntaskóla og fékk þar samning við DC Shoes. Fór hann síðan að taka upp myndir fyrir Factor Films. Halldór vann gullverðlaun í Big Air á Vetrar X leikunum árið 2010 og er hann fyrsti Íslendingurinn sem vinnur til verðlauna á þessum leikum. Eftir þann sigur fékk hann samning hjá Nike Snowboard. Nú býr Halldór Helgason í Mónakó. Grettir Ásmundarson. Grettir Ásmudarson. Mynd úr 17. aldar handritinu AM426. Grettir sterki Ásmundarson, eða Grettir sterki, er aðalpersóna Grettis sögu. Hann var mikill óeirðarmaður og skapstór. Í sögunni er honum svo lýst að hann hafi verið „ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum... fríður maður sýnum, breiðleitur og skammleitur, rauðhærður og næsta freknóttur, ekki bráðger meðan hann var á barnsaldri“. Uppvöxtur Grettis. Foreldrar Grettis, Ásmundur Þorgrímsson hærulangur og Ásdís Bárðardóttir, bjuggu á Bjargi í Miðfirði og ólst hann þar upp. Milli hans og Ásdísar móður hans var mikið ástríki en samkomulag þeirra feðganna var ekki gott, enda var Grettir mjög ódæll og reif meðal annars bak föður síns með ullarkömbum þegar hann átti að nudda hann og drap og misþyrmdi dýrum sem hann var settur til að gæta. Eldri bróðir Grettis hét Atli og þóttu þeir mjög ólíkir þótt vel færi á með þeim, Atli var hægur og hógvær og öllum féll vel við hann. Systur Grettis hétu Þórdís og Rannveig en Illugi var langyngstur. Grettir var 14 ára þegar hann drap fyrst mann. Nokkru síðar fór hann til Noregs og var meðal annars hjá Þorsteini drómundi, eldri hálfbróður sínum. Þar lenti hann í deilum og drap nokkra menn. Síðan kom hann heim, var á Bjargi og lenti fljótt í illdeilum við ýmsa sveitunga sína en var þó rómaður fyrir hreysti og fræknleika. Hann glímdi svo við drauginn Glám á Þórhallsstöðum í Forsæludal og hafði betur en Glámur lagði á hann bölvun og sagði að þaðan í frá mundi flest snúast honum til ógæfu og hann yrði útlagi. Útlaginn Grettir. Skömmu síðar fór Grettir aftur til Noregs og varð þess þar valdandi fyrir slysni að kviknaði í húsi og margir menn brunnu inni. Þeir voru íslenskir og var Grettir dæmdur sekur skógarmaður þegar hann kom heim. Atli bróðir hans hafði skömmu áður verið drepinn og var banamaður hans Þorbjörn öxnamegin. Grettir drap Þorbjörn og son hans og lagðist síðan út. Næstu tuttugu var hann útlagi víða um land og lifði ýmist á ránum, veiðum eða aðstoð frænda og vina. Oft reyndu menn að fara að honum og drepa hann en það tókst aldrei. Víða má finna örnefni tengd Gretti eða sagnir um að hann hafi dvalið í hellisskútum og á öðrum stöðum sem kenndir eru við hann. Grettir í Drangey. Grettir var mjög myrkfælinn eftir glímuna við Glám og átti erfitt með að vera einn. Hann fékk því Illuga yngsta bróður sinn, sem þá var fimmtán ára, til að vera með sér. Fóru þeir saman, ásamt þrælnum Glaumi, út í Drangey á Skagafirði og settust þar að. Skagfirðingum þótti illt að hafa þá í eynni og fengu Þorbjörn öngul til að vinna á Gretti en honum varð ekkert ágengt því mjög torvelt er að komast upp í eyna. Þeir voru þar nokkur ár og lifðu á bjargfugli og eggjum og sauðfé sem Skagfirðingar áttu í eynni. Sagan segir að eitt sinn hafi eldurinn slokknað hjá þeim. Þeir voru bátlausir og synti Grettir þá í land og sótti eld að Reykjum. Að lokum fékk Þorbjörn öngull móður sína til að leggja álög á rótarhnyðju sem látin var reka að eynni en þegar Grettir ætlaði að höggva tréð í eldinn fór öxin í fót hans og var það mikið sár og kom sýking í það. Illugi vakti yfir honum en Þorbjörn og menn hans komust að þeim og voru þeir bræður felldir eftir frækilega vörn. Þorbjörn tók höfuð Grettis með sér, fór með það að Bjargi og sýndi Ásdísi móður hans. Hann ætlaði svo að hafa það með sér til Alþingis en hætti við, enda mæltist víg þeirra bræðra illa fyrir og þótti níðingsverk, þar sem Grettir var dauðsjúkur og fjölkynngi hafði verið beitt til að vinna á honum. Var Þorbjörn því dæmdur til að fara úr landi og koma ekki aftur og fékk ekki fé það sem lagt hafði verið til höfuðs Gretti. Grettis hefnt. Þorbjörn fór til Noregs en taldi sér ekki vært þar þar sem hann vissi af Þorsteini drómundi, bróður Grettis, og fór því suður til Miklagarðs og gekk í lið Væringja. Þorsteinn elti hann þangað, gerðist einnig Væringi og banaði Þorbirni eftir að hafa heyrt hann hælast af vígi Grettis. Perlachturninn. Perlachturninn og Péturskirkjan. Tvær byggingar, ein heild. Perlachturninn er 70 metra hár turn í miðborg Ágsborgar í Þýskalandi og er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Hann var reistur sem varðturn en er hluti af Péturskirkjunni í dag. Saga Perlachturnsins. Perlachturninn var reistur árið 989 sem varðturn. Hann var ekki hluti af borgarmúrunum, heldur var hugmyndin að hann væri hvortveggja varð- og brunavarnaturn. Turninn var upphaflega ekki jafn hár og hann er núna. Á 13. öld var Péturskirkjan í Ágsborg reist á reitnum. Í stað þess að reisa háan kirkjuturn, var kirkjan sameinuð Perlachturninum. Neðst í turninum var auk þess sett upp hliðarkapella kirkjunnar. Árið 1348 var þung brunabjalla sett upp í turninn sem vó 3,5 tonn og var hún notuð sem viðvörunarklukka. Eingöngu lögreglustjórinn mátti hringja bjöllunni á hættutímum. Þessi regla hélst allt til 1805. Árið 1526 var turninn hækkaður upp í 63 metra. Þá fékk hann klukku með stórum vísum, ásamt lítilli bjöllu sem sló á korters fresti. Snemma á 17. öld var turninn enn hækkaður og náði þá núverandi hæð, 70 metrum. Hann fékk þá einnig litla hvolfþakið. Í heimstyrjöldinni síðari voru flugvélafallbyssur settar efst á turninn. Í febrúar 1945 varð turninn fyrir sprengju í loftárás og brann efri hluti hann út. Viðgerðum lauk 1950. Í Perlachturninum er útsýnispallur fyrir ofan klukknahúsið. Til að komast þangað þarf að príla 258 þrep. Þegar Alparnir sjást vel, er flaggað gulum fána á turninum til merkis að útsýnið er sérlega gott. Árið 2000 var klukknaspil sett efst í turninn sem leikur á hverjum degi þjóðlög og tónlist eftir Mozart en faðir Mozarts fæddist í borginni. Turamichele. 29. september ár hvert er opnað fyrir lítið klukknaspil neðarlega í turninum. Klukknaspilið heitir Turamichele, sem er afbökun á heitinu "Turm Michel" ("Turn Míkjáll"). Þetta er stytta af heilögum Mikjál sem rekur kölska á hol með spjóti. Klukknaspilið fer í gang á heila tímanum, en einungis á þessum eina degi, sem er Mikjálsdagurinn. Spilið er gífurlega vinsælt meðal skólakrakka, sem fá að fara á þessum degi til að sjá og heyra spilið. Turnhlaupið. Árlega fer fram turnhlaup ("Perlachturn-Lauf"). Keppendur eru látnir hlaupa upp stigana upp í 70 metra hæð. Metið eru 47,28 sekúndur í karlaflokki, en 1:08,05 í kvennaflokki. Péturskirkjan. Perlachturninn er samfastur Péturskirkjunni ("St. Peter am Perlach"). Hún var reist síðla á 12.öld beint fyrir aftan Perlachturninn og eru byggingarnar samfastar. Perlachturninn var þá meðal annars notaður sem klukkuturn fyrir Péturskirkjuna. Í siðaskiptunum fékk kirkjan að vera nokkurn veginn í friði fyrir múgnum. Þar af leiðandi eru í henni nokkur gömul listaverk. Þegar Ágsborg var innlimað Bæjaralandi 1806, vildu Bæjarar rífa kirkjuna. En íbúar stofnuðu samtök henni til verndar og náðu að bjarga henni. Það var þó ekki fyrr en 1913 að stjórn Bæjaralands gaf út formlegan samning þess efnis að kirkjan fengi að standa. Péturskirkjan stórskemmdist í loftárásum 1944. Viðgerðir fóru þegar fram og lauk þeim 1954. Kirkjan er pílagrímskirkja í kaþólskum sið og er starfrækt af Jesúítum. Mesta listaverk kirkjunnar er málverkið María hnútaleysir ("Maria Knotenlöserin"), sem var málað af Hieronymus Langenmantel árið 1700. Finnur Hallsson. Finnur Hallsson (d. 1145) var íslenskur lögsögumaður og prestur á 12. öld og gegndi embættinu frá 1139 til dauðadags. Finnur var sonur Halls Órækjusonar, sem var einn heimildarmanna Ara fróða, og bjó í Hofteigi á Jökuldal. Kona hans var Halldís Bergþórsdóttir, bróðurdóttir Hafliða Mássonar á Breiðabólstað í Vesturhópi. Viðtækjaverslun ríkisins. Viðtækjaverslun ríkisins var heildsala í Reykjavík sem hafði einkasölu á útvörpum á Íslandi. Viðtækjaverslunin var stofnsett árið 1930, samhliða tilkomu Ríkisútvarpsins. Viðtækjaverslunin var aðeins með útibú í Reykjavík, en samdi við menn eða félög út á landi um að hafa á hendi smásölu á tækjunum. Verslunin hafði fyrst tvær tegundir útvarpa á boðstólnum: Philips og Telefunken. Hún var lögð niður árið 1967. Árið 1925 stofnuðu þrír menn félagið "Hjalti Björnsson & Co" í Reykjavík. Það voru þeir Hjalti Björnsson kaupmaður og konsúll, Sighvatur Blondahl heildsali og Gísli Finsen kaupmaður. Þessir menn fluttu fyrstir inn útvarpstæki á Íslandi árið 1924 og nokkru síðar útvarpsgrammafóna. Þetta voru Telefunkentæki, sem náðu erlendum stöðvum. Næsti innflytjandi útvarpstækja var "Snorri B.P. Arnar", hann flutti inn Philipstæki. En þegar Viðtækjaverslun ríkisins komst á laggirnar misstu tækjasalarnir umboð sitt. Gísli Finsen hafði kynnt sér viðgerðir á Telefunkentækjum í Þýskalandi svo hann var skipaður fulltrúi og sölumaður hjá Viðtækjaversluninni og starfaði þar þangað til að einkasalan var lögð niður og hafði hún þá starfað í 37 ár. Aðrir, sem störfuðu þarna allan tímann, voru Filippus Gunnlaugsson verslunarmaður, Jóhann Ólafsson bókari og Kristján Kristjánsson söngvari. Viðtækjaverslunin hafði einnig með að gera bifreiða-og hjólbarðaeinkasölu. Innflutningur á bifreiðum hjá bifreiðaeinkasölunni var ekki mikill. Eitthvað var flutt inn af Fiat bílum frá Ítalíu, smávegis af notuðum eða nýjum bílum frá Bretlandi og frá Bandaríkjunum. Þeir sem bílana fengu voru læknar, atvinnubílstjórar, sérstakir gæðingar, eða pólitíkusar. Ráðunautur einkasölunnar var Gunnlaugur Briem verkfræðingur. Framkvæmdastjóri hennar var Sveinn Ingvarsson, lögfræðingur, sonur Ingvars Pálmasonar alþingismanns. Viðtækjaverslun ríkisins var til húsa að Lækjargötu 10B. Guðmundur Þorgeirsson. Guðmundur Þorgeirsson var íslenskur lögsögumaður á 12. öld og gegndi embættinu á árunum 1123 - 1134. Lögsögumannatal Ara fróða í Íslendingabók endar á Guðmundi. Ætt Guðmundar er óþekkt en Jón Sigurðsson segir í "Lögsögumannatali og lögmanna" að hann hafi að öllum líkindum verið norðlenskur. Hans er víða getið í Grágás og talað um ýmis nýmæli sem tekin voru upp í lögsögumannstíð hans. Á fyrsta embættisári hans var Kristniréttur hinn forni lögtekinn en ekki er víst að Guðmundur hafi komið að því. Börn Guðmundar voru Þuríður, móðir Guðmundar dýra Þorvaldssonar, og Þorgeir, sem var prestur norðanlands. Rögnvaldur Eysteinsson. Rögnvaldur Eysteinsson Mærajarl var norskur höfðingi á 9. öld, sonur Eysteins glumru Ívarssonar Upplendingajarls og Ástríðar Rögnvaldsdóttur. Hann var mikill vinur og bandamaður Haraldar hárfagra og konungur virti hann mikils. Kona Rögnvaldar var Ragnhildur Hrólfsdóttir nefju og voru synir þeirra Ívar, sem féll í Suðureyjum í herferð Haraldar konungs þangað, Göngu-Hrólfur, sem sagður er hafa verið fyrsti hertogi í Normandí og forfaðir Englandskonunga, og Þórir, sem kallaður var þegjandi. Með Gróu frillu sinni átti Rögnvaldur synina Torf-Einar, jarl í Orkneyjum, Hallað jarl í Orkneyjum og Hrollaug, landnámsmann á Íslandi og afa Síðu-Halls, og voru þeir mun eldri en skilgetnu synirnir. Þegar Ívar sonur Rögnvaldar féll gaf Haraldur konungur Rögnvaldi jarlsnafn í Orkneyjum í sonarbætur, en Rögnvaldur vildi ekki setjast að í eyjunum, gaf Sigurði bróður sínum jarlsdæmið sama dag og var áfram á Mæri. Rögnvaldur telst þó fyrsti Orkneyjajarlinn þótt hann væri aðeins jarl einn dag. Afkomendur þeirra bræðra urðu síðan Orkneyjajarlar. Haraldur konungur átti marga syni og þegar þeir uxu upp voru þeir ósáttir við að faðir þeirra setti þá ekki til metorða en hafði jarl í hverju fylki. Tveir synir konungs, Hálfdan háleggur og Guðröður ljómi, fóru því eitt vorið með mikla sveit manna, gerðu Rögnvaldi Mærajarli aðför og brenndu hann inni ásamt sextíu öðrum. Þórir þegjandi tók þá við jarldæmi föður síns og gifti Haraldur konungur honum Ólöfu árbót dóttur sína. Oddur Ásmundsson. Oddur Ásmundsson (d. 1477) var íslenskur lögmaður á 15. öld. Hann bjó fyrst á Víðivöllum í Skagafirði en síðar á Stóruvöllum í Rangárþingi og var drepinn þar. Ætt Odds er ekki þekkt en hann var orðinn sveinn Lofts ríka Guttormssonar árið 1427. Jón Sigurðsson telur hann hafa verið lögmann frá 1451 en hann var að minnsta kosti örugglega orðin lögmaður 1556 því það ár lætur hann Torfa Arason hirðstjóra fá tuttugu hundruð í Þorleifsstöðum í Blönduhlíð, sem líklega höfðu verið eign konu hans, vegna kostnaðar og armæðu sem hann hafði haft af að sækja og leysa út lögmamnnsbréf fyrir Odd. Hann var lögmaður sunnan og austan í um tvo áratugi en virðist hafa látið af störfum um 1475. Samkvæmt því sem Jón Egilsson segir í Biskupaannálum gerðist það (líklega árið 1477) að erlendir menn sem höfðu haft vetursetu á Stokkseyri drápu Skálholtsráðsmann og „riðu síðan austur að Stóruvöllum og og hjuggu þar höfuðið af lögmanninum við dyraþverskjöldinn, og riðu Þjórsá fyrir ofan Krók. Með það sigldu þeir í burtu“. Sé þetta rétt gerðist þetta þegar Oddur var orðinn aldraður og hættur lögmannsstörfum. Kona Helga var Guðlaug, dóttir Finnboga gamla Jónssonar í Ási í Kelduhverfi. Á meðal barna þeirra var Helgi Oddsson lögmaður. Þorleifur Pálsson (lögmaður). Þorleifur Pálsson (d. 1558) var íslenskur lögmaður á 16. öld. Hann var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd. Þorleifur var sonur Páls Jónssonar á Skarði og konu hans Solveigar, dóttur Ólafar Loftsdóttur ríku og Björns Þorleifssonar hirðstjóra. Páll faðir Björns var veginn 1496 og móðir hans hafði dáið ári fyrr. Þorleifur var þá barn að aldri og flutti þá föðurbróðir hans, Ormur Jónsson í Klofa, að Skarði ásamt Ingibjörgu Eiríksdóttur konu sinni og ólu þau Þorleif upp. Þorleifur erfði stórfé eftir foreldra sína og var í hópi helstu höfðingja. Hann þótti maður friðsemdar og sátta. Þegar Hrafn Brandsson lést sviplega vildu margir fá hann fyrir lögmann norðan og vestan en Jón Arason biskup vildi Ara son sinn og fékk Norðlendinga til að kjósa hann. Vestfirðingar kusu Þorleif og hann naut líka stuðnings Sunnlendinga. Voru útbúin tvö kjörbréf og send konungi en hann fékk kjörbréf Þorleifs ekki eða of seint, svo að Ari varð lögmaður. Þorleifur var kosinn lögmaður þegar Ari sagði af sér 1541, gegndi lögmannsstörfum á Alþingi það sumar og fékk konungsbréf um það árið eftir. Vorið 1547 kom svo Ormur Sturluson til landsins með konungsbréf um að hann skyldi vera lögmaður og fór Þorleifur þá frá ef hann hefur ekki verið búinn að segja af sér áður. Kona Þorleifs var Steinunn Eiríksdóttir, dóttir Eiríks Helgasonar á Keldum á Rangárvöllum, sem var sonarsonur Helga Guðnasonar lögmanns. Dætur þeirra voru Guðrún kona Egils Jónssonar bónda á Geitaskarði og Sigríður húsfreyja á Skarði, kona Bjarna Oddsonar bónda þar. Þorleifur átti líka allmörg launbörn. Ivano Balić. Ivano Balić í leik gegn Póllandi á Evrópumeistaramótinu 2010. Ivano Balić (fæddur 1. apríl 1979 í Split) er króatískur handknattleiksmaður sem nú spilar fyrir félagsliðið Króatía-Zagreb, þar sem hann spilar meðal annars með ungverska landsliðsmanninum, línumanninum Gyula Gál og króatíska landsliðsmanninum, skyttunni Tonci Valcic. Ivano Balić er króatískur landsliðsmaður til margra ára. Hann byrjaði að spila handbolta þegar hann var sex ára í klúbb sem kallast RK Skipta. Þar voru Balić og fleiri ungmenni að spila, hann var ekki einu sinni í b-liðinu í klúbbnum og ekki heldur c-liðinu. Það voru ekki margir sem trúðu á Balić þá en nú er hann einn af bestu handknattleiksmönnum heims. Seinna fór hann til R.K. Metkovic. Í R.K. Metkovic sáu margir hæfileika hans. Það líka í liðinu Portland San Antonio á Spáni, þar sem hann lék áður en hann skiptir yfir í Króatíu-Zagreb. Balić hefur verið nefndur sem verðmætasti leikmaður bæði Evrópumeistaramótsins og Heimsmeistaramótsins. Hann var sex sinnum í röð kjörinn verðmætasti leikmaður Evrópumeistaramótsins og Heimsmeistaramótsins. Á Evrópumeistaramótinu 2008 var hann stoðsendingakóngurinn. Árið 2003 og 2006 var Ivano Balić kjörinn besti handboltaleikmaður heims. Árið 2010 lenti Króatía í 2. sæti á EM í Austuríki og átti hann stóran þátt í því. Ivano Balic var kosinn besti handknattleiksmaður heims árið 2003 og 2006. Hann var kjörinn mikilvægasti maðurinn á stórmóti sex sinnum í röð. Félag ferðaþjónustubænda. Félag ferðaþjónustubænda eru hagsmunasamtök ferðaþjónustubænda á Íslandi. Félagið á aðild að Bændasamtökum Íslands. Félag hrossabænda. Félag hrossabænda eru hagsmunasamtök hrossabænda á Íslandi. Félagið á aðild að Bændasamtökum Íslands. Landssamtök skógareigenda. Landssamtök skógareigenda eru hagsmunasamtök skógarbænda á Íslandi. Samtökin eiga aðild að Bændasamtökum Íslands Landssamband kúabænda. Landssamband kúabænda eru hagsmunasamtök kúabænda á Íslandi. Sambandið á aðild að Bændasamtökum Íslands Landssamtök sauðfjárbænda. Landssamtök sauðfjárbænda eru hagsmunasamtök sauðfjárbænda á Íslandi. Samtökin eiga aðild að Bændasamtökum Íslands. Samband garðyrkjubænda. Samband garðyrkjubænda eru hagsmunasamtök garðyrkubænda á Íslandi. Sambandið á aðild að Bændasamtökum Íslands. Bændasamtök Íslands. Bændasamtök Íslands eru hagsmunasamtök bænda á Íslandi. Francesco Totti. Francesco Totti (fæddur 27. september 1976) er ítalskur knattsyrnumaður sem spilar með AS Roma. Niklas Luhmann. Samskipti eru kjarni í kenningum Luhmanns þar sem félagskerfum er lýst sem samskiptum og kerfi er skilgreint sem mörkin milli kerfisins og umheimsins, mörk sem liggja utan um óendanlega flókinn og óskipulagðan ytri heim þar sem það einkennir innri hluti kerfisins að þar er flókið kerfi einfaldað, samskipti innan kerfis virka með því að velja takmarkað magn af upplýsingum til að nota utan kerfisins. Luhmann notar hugtakið kerfi yfir nánast allt, kerfi með starfsemi eins og markaðskerfi, heilbrigðiskerfi, stjórnmálakerfi. Hann vinnur með þrjár tegundir kerfa en það eru lífræn kerfi, sálræn kerfi og félagskerfi þar sem sálræn kerfi byggja á meðvitund en félagskerfi á samskiptum. Helstu verk. Luhmann, Niklas Talcott Parsons. Talcott Parsons (13. desember 1902 – 8. maí 1979) var bandarískur félagsfræðingur sem starfaði við Harvard-háskóla frá 1927 til 1973. Parsons, Talcott Virknihyggja. Virknihyggja, verkhyggja, hlutverkastefna, fúnksjónalismi eða nýtistefna er víðtæk kenning á mörgum sviðum. Virkni hluta eða kerfa er þannig lykill í virknihyggju. Oft er talað um strúktúralisma sem mótvægi virknihyggju. En struktúralisti myndi heldur vilja skoða uppbyggingu frekar en virkni. Greining virknihyggjumanna í félagsvísindum lýsa virkni samfélagsins og segja að kerfi stofnana sé notað til þess að varðveita og viðhalda samfélaginu sem það er hluti af. Virknihyggja er einnig til í arkitektúr og kallast funkismi komið af fúnksjónalismi. Þar er stefnan að notagildi húsa sé sem mest og taki mið af því sem þar á að gera. Virknihyggja í hugarheimspeki segir að ástand huga sé eingöngu það hlutverk sem það sinnir. Á sama hátt má skilgreina öll hugtök út frá virkni og segja t.d. að tæki sem veiðir mýs sé músagildra. Virkni skilgreinir hugtakið. Jón Jónsson (lögmaður). Jón Jónsson (um 1536 – 24. júní 1606) var íslenskur lögmaður, sýslumaður og klausturhaldari á 16. öld. Hann bjó um tíma á Vindheimum í Skagafirði og var oft kallaður Vindheima-Jón. Síðar bjó hann á Reynistað og Þingeyrum. Jón var af Svalbarðsætt, sonur Jóns ríka Magnússonar á Svalbarði og konu hans, Ragnheiðar Pétursdóttur á rauðum sokkum. Bræður hans voru þeir Staðarhóls-Páll, Magnús prúði og Sigurður á Reynistað en systur hans Steinunn fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, síðar gift Eggerti Hannessyni lögmanni, og Þórdís húsfreyja í Lögmannshlíð. Voru þeir Svalbarðsbræður mjög áberandi og valdamiklir á síðari hluta 16. aldar. Jón sigldi utan með Páli bróður sínum og fleiri höfðingjum 1568 og hafa þeir þá verið um tvítugt. Vorið eftir fékk hann verndarbréf Friðriks konungs 2. ásamt fyrirmælum til Valkendorfs höfuðsmanns um að veita Jóni Reynistaðarklaustursumboð. Hann var kosinn lögmaður þegar Ormur Sturluson var settur úr embætti 1573. Hann þótti kappsamur lögmaður, stóð fast móti biskupum og klerkavaldi og naut til þess stuðnings ýmissa annarra embættismanna, svo sem Þórðar Guðmundssonar lögmanns sunnan og austan. Töldu þeir að kirkjan væri að reyna að svæla undir sig vald og eignir. Biskupar héldu því aftur á móti fram að lögmennirnir væru of uppivöðslusamir og vildu sveigja allt undir sig og ekki lúta valdi Alþingis. Hvorugur vildi láta hlut sinn og fór því oft svo að höfuðsmaður réði því sem hann vildi og skaraði eld að sinni köku eða konungsvaldsins. Guðbrandur biskup var helsti andstæðingur Jóns og inn í þetta blönduðust einnig hatrammar deilur um Morðbréfamálið svonefnda. Um deilur Jóns og biskups segir Jón Sigurðsson í "Lögsögumannatali og lögréttumanna": „Ekki skulum vér rannsaka hér hver réttara muni hafa haft í hverju máli, því hafi nokkurtíma sannazt máltækið: „sjaldan veldr einn þá tveir deila,“ þá hefir það sannazt á þeim.“ Jón þótti fjáraflamaður og fékk Þingeyraklaustursumboð og sýsluvöld í Húnavatnssýslu og ýmsar fleiri sposlur nyrðra og seinna líka Stapaumboð og sýsluvöld í Snæfellsnessýslu. Hann hélt lögmannsembættinu til dauðadags en hlutverk lögmanna breyttist með konungsbréfi 6. desember 1693, þar sem gefin var út tilskipan um yfirrétt; þar með var lögsagnarhutverki lögmannanna lokið. Síðustu árin hafði Jón hægara um sig og sættist við Guðbrand biskup, að minnsta kosti að nafninu til. Vorið 1606 kom nýr höfuðsmaður til landsins, Herluf Daa, og fór Jón suður að Bessastöðum að finna hann. Nýi höfuðsmaðurinn veitti vel og Jón var ölvaður þegar hann gekk til hvílu í tjaldi sínu. Er sagt að hann hafði þá þóst kominn í gott vinfengi við höfuðsmanninn, ætlað að takast aftur á við Guðbrand biskup og sagt kampakátur „nú skal Gutti setja ofan“. En um morguninn var hann látinn. Kona Jóns var Guðrún (d. 1597), dóttir Gísla Hákonarsonar bónda á Hafgrímsstöðum í Tungusveit og systir Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda. Þau voru barnlaus. Ári eftir lát hennar giftist Jón Guðrúnu Einarsdóttur (d. 1638) frá Staðarstað, sonardóttur Marteins biskups. Börn þeirra dóu ung. Eftir lát Jóns giftist Guðrún Steindóri Gíslasyni sýslumanni á Knerri, syni Gísla Þórðarsonar lögmanns, þekktum svallara sem sóaði öllum eignum þeirra beggja svo að þau dóu örsnauð. Páskadagur. Páskadagur ("Dominica Resurrectionis Domini") er sunnudagur í páskum, en páskar eru haldnir fyrsta sunnudag eftir að tungl verður fullt næst eftir vorjafndægur. Samkvæmt trúarhefð kristinna manna var það á sunnudeginum á páskum gyðinga sem María Magdalena og María móðir Jakobs (Markúsarguðspjallið 16. kafla) sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda þess vegna páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar. Mánudagurinn daginn eftir er á Íslandi einnig helgidagur, þ.e. "annar í páskum". Varast ber að rugla páskadeginum saman við pálmasunnudag ("dominica de palmis") sem er næsti sunnudagur fyrir páska og er helgidagur í minningu innreiðar Jesús í Jerúsalem. Áður fyrr var páskadagur nefndur "fyrsti páskadagur", og annar í páskum "annar páskadagur". Páskadagur er stundum kallaður "páskasunnudagur" af misgáningi, en á íslensku er löng hefð fyrir því að tala eingöngu um páskadag. Uppstigningardagur. Uppstigning krists eftir Il Garofalo frá árinu 1520 Uppstigningardagur (upprisudagur eða uppstigudagur) er fimmtudagur 40 dögum eftir páska. Hann er helgidagur til minningar um himnaför Jesú. Á ári aldraðra 1982 var uppstigningardagurinn valin kirkjudagur aldraðra í landinu í samráði við Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar. Fuggerei. Fuggerei er lítið íbúðahverfi í borginni Ágsborg í Þýskalandi sem bankamaðurinn Jakob Fugger stofnaði til 1516 fyrir fátæklinga. Húsin eru elstu félagsíbúðir heims sem enn standa. Saga Fuggerei. Það var bankamaðurinn Jakob Fugger sem lét reisa fátækrahverfið fyrir verkafólk, launamenn og fátæklinga sem í borginni bjuggu. Milli 1516-1521 voru 52 lágreistar íbúðir reistar. Íbúðirnar eru í tveggja hæða raðhúsum og eru litlar á nútíma mælikvarða, en á 16. öld var þetta rausnarleg gjöf frá Fugger. Krafist var leigu, en hún var lág. Eitt gyllini á ári. Hugmyndin var að fátækir verkamenn og launamenn sem voru í erfiðleikum, t.d. sökum veikinda, gátu búið áhyggjulaust í borginni og sinnt starfi sínu vandkvæðalaust. 1581-82 var lítil kirkja reist í hverfinu sem hét Markúsarkirkja ("St. Markus"). Svíar voru í borginni í 30 ára stríðinu. 1642 eyðilögðu þeir húsin í hverfinu. Eftir brotthvarf þeirra voru þau endurreist og fengu fátækir athvarf þar á ný. Síðla á 17. öld bjó þar Franz Mozart, langafi Wolfgangs Amadeusar, en Mozart-ættin er frá Ágsborg. Í loftárásum bandamanna 1944 eyðilögðust tveir þriðju hlutar hverfisins. Afkomendur Fugger-ættarinnar ákváðu að endurreisa húsin. 1947 gátu fyrstu íbúar snúið þangað aftur. Viðgerðum lauk á sjötta áratugnum. Fuggerei í dag. Leigan er enn eitt gyllini á ári, þ.e. samsvarandi einu gyllini eins og það var á 16. öld. Það reiknast 88 cent í dag. Rafmagn og vatn greiða leigutakar. Átta lítil stræti ganga í gegnum hverfið, sem enn afmarkast af stórum veggjum. Þrjú hlið liggja þangað inn. Ferðamönnum er heimilt að ganga um hverfið, en það er lokað milli 22 að kvöldi og 5 að morgni. Fuggerei er enn stjórnað af afkomendur Fugger-ættarinnar. Til viðhalds hverfinu kemur fjármagn frá ýmsum fasteignum og frá skóglendi í grennd. Hin mikla ferðamennska skilur einnig eftir dágóða fjármuni í formi aðgangseyris. Enn í dag er Fuggerei elsta félagshverfi heims sem enn stendur. Thierry Omeyer. Thierry Omeyer (fæddur 2. nóvember 1976 í Mulhouse) er franskur handknattleiksmaður sem leikur í stöðu markmanns. Hann spilar fyrir THW Kiel. Hann er markmaður franska karlalandsliðsins í handknattleik. Omeyer hóf að leika handknattleik níu ára í Cernay (Alsace). Árið 1994 hóf hann feril sinn sem atvinnumaður með liðinu Selestat. Hann var mjög góður þar og vakti mikla athygli enda var hann með 50% markvörslu nánast í hverjum leik. Hann vakti líka mikla athygli í liðinu Montpellier. Og hann var fljótur að vinna sér sæti í liðinu, vann hann fimm meistaratitla (frá 2002 til 2006) og fimm með Montpellier (2001, 2002, 2003, 2005 og 2006). Árið 2003 varð hann deildarmeistari í Meistaradeildinni (EHF Champions League) en það var í fyrsta sinn sem franskt lið vann þennan titil. Árið 2006 ákvað hann að ganga til liðs við þýska liðið THW Kiel, þar sem hann hefur unnið fjóra titla — þrjá innanlands 2007, 2008 og 2009 auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu árið 2007. Omeyer lék fyrsta leik sinn með franska landsliðinu 19. september 1999 í leik gegn Rúmeníu. Árið 2001 varð hann heimsmeistari með franska alandsliðinu eftir leik gegn Svíþjóð sem lauk 28-25 (eftir tvær framlenganir). Árið 2008 varð hann Ólympíumeistari og var kosinn besti markvörður mótsins með 41% hlutfall af vörðum skotum. Hann varði 19 skot af 39 og tryggði Frakklandi 28-23 sigur í úrslitaleik gegn Íslandi. Nikola Karabatić. Nikola Karabatić (f. 11. apríl 1984 í Nis í Serbíu) er franskur handknattleiksmaður af króatískum og serbneskum uppruna. Hann leikur í dag í frönsku deildinni í Montpellier HB Eftir fimm ár í Montpellier HB fór hann í þýsku deildina árið 2005 í strórliðið THW Kiel. Sumarið 2009 sneri hann aftur til heimalands síns og spilar þar með Montpellier HB. Karabatić var hluti af franska landsliðinu, sem árið 2006 varð Evrópumeistari eftir sigur á Spáni. Á Evrópumeistaramótinu 2008 sem hann vann brons var hann efstur í markaskorun á mótinu ásamt hinum danska leikmanni Lars Christiansen og eftir keppnina var hann nefndur mikilvægasti leikmaður keppninar aðeins 24 ára gamall. Hann var einnig í gullliði meistara Frakka á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og heimsmeistari í Króatíu á Heimstaramótinu 2009. Árið 2010 vann hann til annarra gullverðlauna eftir EM í Austurríki. Hann komst einnig í stjörnu liðið sem besti leikstjórnandi mótsins. Frakkar eru nú eina landslið fyrr og síðar til vinna Heimsmeistaramótið, Ólympíuleikana og Evrópumeistaramótið allt saman í röð Karabatić, Nikola Michel de Certeau. Michel de Certeau (17. maí 1925 – 9. janúar 1986) var franskur sagnfræðingur og jesúíti. Verk hans fjölluðu gjarnan um samtímatrúarbragðasögu undir áhrifum frá sálgreiningunni. Hann var einn af stofnfélögum hópsins "École Freudienne de Paris" ásamt Jacques Lacan. Þekktasta verk hans er "L'invention du quotidien. Vol. 1, Arts de faire" eða „Uppfinning hversdagslífsins“ sem kom út 1980. Kirkja heilags Ulrich og Afra. Kirkja heilags Ulrich og Afra Kirkja heilags Ulrich og Afra er kaþólsk kirkja í borginni Ágsborg í Þýskalandi. Hún er pílagrímskirkja í kaþólskum sið og þar hvíla heilagur Ulrich, heilög Afra og heilagur Simpertus. Saga kirkjunnar. Orgel kirkjunnar ásamt málverkunum á vænghurðunum Fyrirrennari kirkjunnar var lítil pílagrímskirkja frá 8. öld, en í henni var heilög Afra grafin og heiðruð. Kirkjan var á þeim tíma fyrir utan Ágsborg og var eyðilögð af Ungverjum. Næsta kirkja var rifin 1466 til að skapa pláss fyrir núverandi kirkju. Framkvæmdir hófust 1467, en hún hrundi í stormi 1474 meðan hún var enn í byggingu. Hún var þá endurreist 1474 og vígð 1500, er Maximilian I keisari setti hyrningarsteininn í. Það átti reyndar að gera kirkjuna veglegri og skreyta hana, en sökum trúaróróa á siðaskiptatímabilinu var öllum slíkum áformum ýtt til hliðar. Í loftárásum 1944 brann turnþakið og gluggarnir eyðilögðust. Viðgerðum lauk 1950. Tveir páfar hafa sótt kirkjuna heim. 1782 sótti Píus VI messu í kirkjunni og 1987 leit Jóhannes Páll II við í kirkjunni. Altaristaflan. Háaltarið er eitt mesta listaverk kirkjunnar. Það var smíðað af Hans Krumpers í kringum aldamótin 1500. Hér er um 5 hæða háa altaristöflu að ræða, gerð úr viði og sýnir fæðingu Jesú. Þar fyrir ofan er krýning Maríu mey. Til sitthvorrar handar eru postularnir Pétur og Páll, en efst er himnafaðirinn. Allar fígúrur eru lausar sem listamaðurinn setti inn í rammann. Altaristaflan er einn merkasti gripur í endurreisnarstíl í kirkju í Suður-Þýskalandi. Nokkur stór hliðaraltari eru í kirkjunni sem helguð eru heilagri Afra og heilögum Ulrich. Grafhvelfing. Kirkjan er hvíldarstaður helgra manna, heilagrar Afra, heilags Simpertus og heilags Ulrich. Heilög Afra var upphaflega heiðin og starfaði sem portkona í Ágsborg. En þegar Narzissus biskup leitaði ásjár hjá henni í ofsóknum kristinna manna, tók hún kristna trú. Fyrir það var hún ákærð og brennd á báli. Heilög Afra er verndardýrlingur Ágsborgar. Heilagur Simpertus var biskup í Ágsborg í kringum aldamótin 800. Lítið er vitað um hann, en ákaflega líklegt er að Karlamagnús hafi ráðið úrslitum um það að Simpertus fékk biskupsstólinn. Simpertus er sömuleiðis verndardýrlingur Ágsborgar. Heilagur Ulrich var biskup í Ágsborg á 10. öld. Þegar Ungverjar réðust á Ágsborg árið 955 stjórnaði hann öllum varnaraðgerðum gegn þeim. Ungverjar náðu ekki að vinna borgina, en eyðilögðu nærsveitir, þ.á.m. kirkju heilagrar Afra. Ulrich biskup lét reisa hana á ný. Hann þótti guðhræddur og mildur, og var sjálfur lagður til grafar í nýju kirkjunni, sem eftir það hlaut nafn hans, ásamt nafn Afra. Orgel. Orgel kirkjunnar var smíðað 1608 og sett upp á svalir fyrir ofan innganginn. Pípuhúsinu er hægt að loka með tveim viðarhurðum, en innanverðu á hurðunum eru málverk af himnaför Jesú (vinstra megin) og af Maríu mey (hægra megin). Jón Sigurðsson (lögmaður). Jón Sigurðsson (um 1565 – 26. maí 1635) var íslenskur lögmaður á 16. og 17. öld. Hann bjó á Reynistað í Skagafirði. Jón var af Svalbarðsætt, sonur Sigurðar Jónssonar sýslumanns og klausturhaldara á Reynistað og konu hans Guðnýjar Jónsdóttur frá Stóru-Ökrum, sem var sonardóttir Gríms Jónssonar lögmanns. Hann var fyrst sýslumaður í Þingeyjarsýslu og eftir að faðir hans dó 1602 fékk hann Skagafjarðarsýslu. Vorið 1606 dó fððurbróðir hans, Jón lögmaður Jónsson, og var lögmannskosning á Alþingi um sumarið, raunar fyrir bæði lögmannsumdæmin því Þórður Guðmundsson var orðinn gamall og sagði af sér. Var Jón kosinn lögmaður norðan og sunnan en auk hans voru í kjöri þeir Ari í Ögri, Jón Magnússon eldri í Haga og Björn Benediktsson á Munkaþverá og var varpað hlutkesti milli þeirra, sem Jón vann. Árið 1607 kom út konungsbréf þar sem lagt var fyrir lögmenn að flýta málum og láta Alþingi standa svo lengi að hægt væri að afgreiða mál, en ekki aðeins 1-2 daga eins og virðist hafa tíðkast á seinni hluta lögmannstíðar þeirra Þórðar og Jóns. Tveimur árum seinna kom annað konungsbréf þar sem landsmönnum var bannað að ausa skömmum yfir lögmenn þegar þeir væru að fara um og gegna skyldustörfum sínum. Jón var settur af árið 1618 vegna misferlis í starfi og tengdist það kvennamálum hans. Um leið missti hann sýsluvöld. Árið 1622 fékk hann þó uppreisn hjá konungi og fékk jafnframt Húnavatnssýslu. Hann var sagður gáfumaður og vel að sér í lögum en enginn sérstakur fjáraflamaður. Hann þótti mjög kvensamur, „oft við konur kenndur“, segir Jón Sigurðsson. Hann er sagður hafa eignast að minnsta kosti fjögur börn framhjá konu sinni, sem var Þorbjörg Magnúsdóttir frá Eiðum, Vigfússonar sýslumanns. Þau áttu fimm börn saman og er mikil ætt frá þeim komin. Ráðhúsið í Ágsborg. Ráðhúsið í Ágsborg er meðal merkustu ráðhúsa í endurreisnarstíl norðan Alpa. Saga ráðhússins. Ráðhúsið í borginni Ágsborg í Þýskalandi var reist 1615-1624 í endurreisnarstíl. Í upphafi átti að gera upp gamla ráðhúsið, sem reist var 1385. Það var orðið of lítið fyrir ríkisþingin sem konungarnir og keisararnir héldu iðulega í borginni. En eftir langar vangaveltur byggingameistara var ákveðið að rífa húsið og reisa nýtt ráðhús í staðinn. Við vígslu hússins 1624 var byggingin eina húsið í heimi með fleiri en sex hæðir. Í því voru þrír stórir salir. Á jarðhæð var "Unterer Fletz", á 2. hæð var "Oberer Fletz", og þar fyrir ofan var "Gullni salurinn" (Der Goldene Saal) sem var svo hár að hann náði yfir nokkrar hæðir. Auk þess voru á ýmsum hæðum svokölluð furstaherbergi, sem voru litlir fundarsalir fyrir heldri gesti. Í 30 ára stríðinu hnignaði Ágsborg hratt. Ráðhúsið var ekki síst reist fyrir ríkisþingin sem oft höfðu verið haldin í borginni. En ekki slíkt þing var haldið í Ágsborg eftir að ráðhúsið var fullklárað. Þau voru flutt til Regensburg í Bæjaralandi. Árið 1828 var mikil kauphöll ("Börse") reist beint fyrir framan ráðhúsið. Við það missti það mikið af glæsileika sínum, þar sem nýja húsið skyggði svo mjög á það. Í loftárásum 1944 nær gjöreyðilagðist ráðhúsið. Húsið brann út og stóð í stríðslok aðeins múrverkið eftir. Kauphöllin sjálf gjöreyðilagðist. Viðgerðir hófust ekki fyrr en á 6. áratugnum. Þá var kauphöllin rifin og þannig myndaðist torgið fyrir framan ráðhúsið. Árið 1955 fluttu borgarskrifstofur aftur í ráðhúsið. Gullni salurinn var hins vegar ekki tilbúinn fyrr en 1985. Í ráðhúsinu er safn með sögu borgarinnar. Þar er einnig aðstaða fyrir farandsýningar. Gullni salurinn. Hluti af hinum glæsilega Gullna sal Gullni salurinn í ráðhúsinu þykir vera einn merkasti salur endurreisnartímabilsins í Þýskalandi. Hann er á þriðju hæð ráðhússins og nær yfir nokkrar hæðir. Gólfið er 552 m² að stærð. Veggir og loft voru skreytt með veggmyndum, gullskrauti, fögrum hurðum og ýmsu öðru. Loftið var gert úr hnetuviði. Salurinn var hin mesta gersemi og voru Ágsborgarar ákaflega hreyknir af honum í rúm 300 ár. Þar fóru fram ýmsir merkir atburðir. Árið 1653 fór fram keisarakjör salnum í salnum, er Ferdinand IV var kjörinn keisari þýska ríkisins. Árið 1690 hélt Jósef I mikla veislu í salnum eftir keisarakjör sitt. Frans II keisari heimsótti Ágsborg 1792 og skoðaði þá salinn. Árið 1891 var Otto von Bismarck gestur í salnum er hann var gerður að heiðursborgara í Ágsborg. Árið 1914 var haldin vegleg veisla til heiðurs Lúðvíks III, konungs Bæjaralands. En 1944 var ráðhúsið nær gjöreyðilagt og brann salurinn út. Eingöngu litlir hlutar með veggmyndum björguðust. Það var þó ekki fyrr en eftir 1980 að ákveðið var að endurgera Gullna salinn. Hann var vígður 1985 í tengslum við 2000 ára afmæli borgarinnar. Erlendur Þorvarðarson. Erlendur Þorvarðarson (d. 1575) var íslenskur lögmaður á 16. öld og bjó á Kolbeinsstöðum og Strönd í Selvogi. Erlendur var sonur Þorvarðar Erlendssonar lögmanns og Margrétar Jónsdóttur, systur Stefáns biskups. Hann var í þjónustu Stefáns móðurbróður síns á yngri árum og á þeim tíma (árið 1518) vó hann mág sinn, Orm Einarsson bónda í Saurbæ á Kjalarnesi, í Viðey. Ekki kom það í veg fyri að hann var kjörinn lögmaður sunnan og austan á Alþingi 1521. Ekki virðist hann hafa fengið staðfestingu konungs fyrr en 1538 en gegndi þó lögmannsembætti allan tímann. Erlendur studdi siðaskiptin þegar þau urðu í Skálholtsbiskupsdæmi en virðist þó hafa verið eitthvað blendinn í trúnni og þótti Gissuri biskupi illt að treysta á hann. Honum er lýst svo að hann hafi verið yfirgangs- og ofstopamaður, hættulegur vinur og skæður mótstöðumaður. Hann þótti harður í horn að taka og duglegur að berja á útlendingum sem hér voru við veiðar og verslun í óþökk Danakonungs. Árið 1553 missti hann lögsögnina og aleigu sína fyrir ýmsar misgjörðir og sumar alvarlegar, meðal annars manndráp. Hann fór þá til Kaupmannahafnar og tókst árið 1558 að fá útgefið konungsbréf þar sem honum voru gefnar upp sakir og fékk hann hluta eigna sinna aftur. Hann lifði lengi eftir þetta en við litla virðingu. Erlendur var þríkvæntur og átti líka launbörn. Fyrsta kona hans var Þórunn Sturludóttir frá Staðarfelli, systir Orms lögmanns Sturlusonar. Hún dó þegar þau bjuggu á Kolbeinsstöðum og fóru á kreik sögur um dauða hennar. Skurðarhnífur. Skurðarhnífur (skurðhnífur, læknishnífur eða bíldur) er flugbeittur hnífur sem er notaður við uppskurði, krufningar og í hinu ýmsu handverki. Skurðarhnífar eru ýmist einnota (einjárnungur) eða endurnýtanlegir. Endurnýtanlegir skurðarhnífar eru stundum með föstu blaði sem unnt er að skerpa, en yfirleitt þó með lausu blaði sem má skipta um. Einnota skurðurhnífar eru yfirleitt með skefti úr plasti og stækkanlegu blaði. Þeir eru notaðir einu sinni og síðan hent. Flestir eru eineggjaðir en tvíeggjaðir skurðarhnífar eru einnig til. Skurðarhnífur sem notaður við krufningar, og líta eins út, eru stundum nefndir "líkskurðarhnífar". Skurðarhnífsblöð eru yfirleitt úr hertu og styrktu ryðfríu stáli. Blöð sem á að nota við skurðaðgerðir eru gerð úr ryðfríu stáli sem hitað hefur verið að 440°C. Blöð hnífa sem notaðir eru við handverk eru oft gerð úr kolefnisstáli. Einnig má fá hnífa með blöðum úr títani, brenndum leir, demanti eða hrafntinnu. Þegar skorið er upp með aðstoð segulsneiðmyndatækis er ekki hægt að nota hnífa með blöðum úr stáli því það gæti haft áhrif á segla í vélinni og valdið truflun í myndinni. Þess vegna eru notaðir rafbrennslukutar eða leysigeislar í staðinn fyrir skurðarhnífa. Ubuntu Netbook Edition. Íslensk útgáfa af "Ubuntu Netbook Remix" útgáfu 9.10. Ubuntu Netbook Edition eða UNE (Ubuntu Netbook Remix fyrir útgáfu 10.04) er útgáfa af Ubuntu-stýrikerfinu sem er hönnuð til að keyra á fistölvum ("netbooks"). Ubuntu Netbook Remix hefur verið fáanlegt síðan Ubuntu útgáfu 8.04 ("Hardy Heron"). Oscar De La Hoya. Oscar De La Hoya, febrúar 2011 Oscar De La Hoya, stundum nefndur „the Golden Boy“ (fæddur 4. febrúar 1973), er bandarískur boxari af mexíkóskum uppruna. Hann vann gull í Barselónu á Ólympíuleikunum. De La Hoya kemur frá hnefaleikafjölskyldu. Afi hans Vicente, faðir hans Joel eldri og bróðir Joel yngri voru allir boxarar. De La Hoya var „boxari ársins“ hjá "Ring Magazine" árið 1995 og líka besti „pund fyrir pund boxari í heiminum“ hjá "Ring Magazine" árið 1997. De La Hoya tilkynnti opinberlega starfslok hans úr íþróttinni á blaðamannafundi í Los Angeles þann 14. apríl 2009, hann batt enda á allar vangaveltur um að jafningi hans í létt millivigt, Julio Cesar Chavez yngri, myndi berjast við hann. De La Hoya hefur tapað 17 tilraunum sínum um heimsmeistaratitil og hefur unnið 10 titla í sex mismunandi þyngdarflokkum. Hann hefur einnig skilað meiri hagnaði en nokkur annar boxari í sögu hnefaleikanna, áætlað 696 milljónum bandaríkjadala í tekjur. Á áhugamannaferli De La Hoya sigraði hann 223 sinnum, 163 sinnum með rothöggum, og tapaði aðeins sex sinnum. Hann barðist í Bandaríkjunum um Gull Sumarólympíuleikunum 1992, hann tileinkaði sigurinn nýlátinni móður sinni. De La Hoya stofnaði Golden Boy Promotions til að berjast gegn spillingu í sportinu. Hann er fyrsti bandarísku boxarinn af rómanskum uppruna til að eiga á innlent hnefaleika-kynningarfyrirtæki og einn af fáum boxurum til að taka á kynningarábyrgð á meðan hann var enn þá boxandi. Eminem. Eminem (fæddur þann 17. október 1972 sem Marshall Bruce Mathers III, í Kansas City, Missouri, Bandaríkjunum) er bandarískur rappari sem er einn vinsælasti og umdeildasti rapparinn á sínum tíma. Æviágrip. Hann ólst upp í Detroit og hóf rapp fjórtán ára. Eftir nokkur ár tók hann þátt í rappkepni í landi sínu, þar sem hann gerði góða hluti, og varð hann fljótur að skapa sér nafn. Árið 1995 var hann neyddur til að skpita um tónlistanafn, "M&M", vegna ágreinings um höfundarrétts Mars, Inc., sem framleiðir súkkulaði hnappa M&M's. Þess í stað fann hann upp nafnið Eminem, MM (á ensku, M og M), sem eru upphafsstafir hans. Eminem kynntist Kimberly árið 1989 þegar hann var fimmtán ára og hún þrettán ára í partíi hjá sameiginlegum vin. Eminem og Kimberly giftust 1999 – 2001. Nú býr hann með dóttur sinni í Los Angeles sem heitir Hailie Jade Matthers, hún hefur tekið þátt í nokkrum lögum hans. Ferill. Feril hans í tónlistinni hófst þegar hann fékk samning við Aftermath Records árið 1997. Það var rapparinn og framleiðandinn Dr. Dre, sem sá hann eftir að hann hafnaði í öðru sæti í rappkeppni. Hljómplatan "The Slim Shady LP" var gefin út árið 1999 hann fékk heiminum til að vakna upp við þessa hljómplötu. Platan var þrefaldur sigurvegari í vali rappheimsins, og hann gerði lagið "Guilty Conscience" sem varð mjög frægt. Seinna fann Eminem nöfn eins og 50 Cent og Obie Trice, sem áttu rappferil þökk sé Eminem þeir hefðu aldrei orðið rapparar hefðu þeir ekki kynnst Eminem. Eminem hefur hjálpað fjölmörgum að gera plötur og lög. Eminem hefur unnið til fjölda verðlauna, meðal annars Óskarsverðlauna. Uppskurður. Uppskurður eða skurðaðgerð er aðgerð sem framkvæmd er á sjúklingi í lækningarskyni eða, í einstaka tilvikum, til athugunar á sjúkdómsástandi hans. Einnig geta uppskurðir verið framkvæmdir til að lækna áverka eða fjarlægja lýti. Sérhæfð tól, á borð við skurðlæknishnífa og -tangir eru notuð við uppskurðinn. Sjúklingurinn getur verið maður eða dýr. Skurðlæknir er maður sem framkvæmir uppskurði á fólki. Uppskurðir fara að jafnaði fram á skurðstofum. Uppskurður getur stoðið yfir í nokkrar mínútur eða nokkrar klukkustundir. Aðgerð. Á sjúkrahúsum er uppskurður framkvæmdur á skurðstofu með skurðarverkfærum og öðrum útbúnöðum. Sjúklingurinn liggur á skurðarborði. Umhverfið á skurðstofunni er smitsæft og á að dauðhreinsa öll verkfæri sem notuð verða svo að sýklar geti ekki komið inn í líkamann. Nauðsynlegt er að skipta um verkfærin ef þau verða óhrein. Þeir sem vinna á skurðstofu verða að vera í sérstökum fötum (e. "scrubs") og verða að skrúbba hendurnar áður en að framkvæma uppskurðinn. Áður en sjúklingurinn er skorinn er læknisrannsókn framkvæmd. Ef læknisrannsóknin er í lagi þá þarf sjúklingurinn að skrifa undir samþykkiseyðublað. Yfirleitt er sjúklingnum boðið að borða ekki fyrir uppskurðinn. Þegar sjúklingurinn er kominn á skurðstofuna er húðin dauðhreinsuð með joði til að minnka smitunarhættu. Ef til er hár á staðinum þar sem skorinn verður, þá þarf að fjarlægja það áður en að skera. Dula er sett á líkamann nema á höfuðið og staðinn þar sem skorinn verður. Sjúklingnum er gefið deyfingarlyf svo að sé enginn sársauki vegna skurðsins. Tegund deyfingarlyfsins sem er gefin ræðst af framkvæmdinni, má gefa annaðhvort svæfingarlyf eða staðdeyfingarlyf. Stundum er mænudeyfingarlyf gefið þegar aðgerðin verður framkvæmd á stóru, djúpu eða staðbundnu svæði en er ekki viðeigandi að nota svæfingarlyf. Sjúklingurinn er barkaþræddur og notað er öndunartæki. Öndunartækið má vera notað til að gefa sjúklingnum meira deyfingarlyf. Þá er skorið á skurðarstaðnum. Æðar geta verið þvingaðar saman til að hindra blæðingu og sárahakar getur verið notaðir til að halda skurðarstaðnum opnum. Stundum er nauðsynlegt að skera nokkur lög af vef áður en að komast í skurðarstaðinn. Stundum þarf að saga bein til að komast í skurðarstaðinn, til dæmis þegar skorið er á heilanum þarf að saga hauskúpuna. Einnig til að framkvæma uppskurð í bringunni þarf að saga bringubeinið til þess að opna brjóstakassann. Á eftir uppskurðinn er sjúklingurinn vakinn og vaktaður. Þegar sjúklingurinn er búinn að batna þá er hann útskráður og má fara heim. Ritvinnsluforrit. Ritvinnsluforrit er notendaforrit til að útbúa og vinna með skjöl sem ætluð eru til prentunar. Ritvinnsluforrit eru hönnuð til þess að auðvelda notendum að semja texta og ritstýra skjölum meðan umbrotsforrit eru notuð til að hanna prentgripi sem ætlaðir eru til dreifingar í stórum upplögum. Upphaflega var ritvinnsla unnin með sérstökum ritvinnsluvélum sem gerðu notendum kleyft að vinna með texta áður en hann var prentaður með rafmagnsritvél. Með tilkomu einkatölva og heimilistölva með tengdum prentara varð notkun ritvinnsluforrita almennari og forritin sjálf urðu þróaðri. Leiðréttingarforrit sem fara yfir stafsetningu komu fram á sjónarsviðið og hægt var að vista skjöl á disklinga og segulbandsspólur. Ritvinnsluforrit og töflureiknar voru algengustu notendaforritin sem notuð voru á einkatölvum í fyrirtækjum og á 9. áratugnum var farið að búa til skrifstofuvöndla með því að þróa og markaðssetja þessar tvær tegundir forrita samhliða. Upphaflega voru ritvinnsluforrit með svipað notendaviðmót og textaritlar með einfalt ívafsmál til að sníða textann til; jafna, feitletra og skáletra, setja inn neðanmálsgreinar o.s.frv. Ritvinnsluforrit með WYSIWYG-virkni, þar sem notandinn sér útkomuna á skjánum nokkurn veginn eins og hún verður við prentun, komu fram með WIMP-notendaskilum. Í flestum nútímaritvinnsluforritum er hægt að setja saman texta og myndir, töflur og gröf í einu og sama skjalinu. Fyrstu ritvinnsluforritin sem náðu mikilli útbreiðslu voru WordStar og WordPerfect á 9. áratug 20. aldar. Síðustu ár hefur Microsoft Word haft yfirburðastöðu á markaði fyrir ritvinnsluforrit. Önnur vinsæl ritvinnsluforrit í dag eru frjálsu forritin OpenOffice.org Writer, KWord og AbiWord. Nýlega hafa vefforrit á borð við Google Docs tekið að keppa við hefðbundin ritvinnsluforrit um vinsældir. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt árlega frá 1995 af Norðurlandaráði á Norðurlandaráðsþingi. Norðurlandaráð veitir fern önnur verðlaun árlega. Markmið verðlaunanna er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndunum. Náttúru- og umhverfisverðlaunin eru veitt norrænni stofnun, fyrirtæki eða einstaklingi, sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir náttúru og umhverfi í starfi sínu eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt að sértækum aðgerðum náttúru og umhverfi til góða. Verðlaunafé er 350.000 danskar krónur. Sjúkrahús. Sjúkrahús eða spítali er stofnun þar sem sjúklingum er veitt meðferð við sjúkdómum og slysum. Þar starfa meðal annars læknar og hjúkrunarfræðingar. Orðið „spítali“ er dregið af latnesku orði, "hospes" („gestgjafi“). Af sama stofni er orðið "hótel". Fyrr á tímum var rekstur sjúkrahúsa oft kostaður af trúarsamtökum eða auðugum einstaklingum og þá voru þau oft jafnframt ölmusustofnanir fyrir fátæklinga og gistiheimili fyrir pílagríma. Nú á dögum eru flest sjúkrahús fjármögnuð með opinberum fjárveitingum, af einkafyrirtækjum, sjúkratryggingafélögum eða hjálparstofnunum. Sum sjúkrahús eru aðeins ein bygging, önnur eru í mörgum húsum sem ýmist eru öll á sömu lóð eða dreifð víðar. Hérlendis er Landspítalinn til dæmis í mörgum húsum á Landspítalalóðinni við Hringbraut og einnig í Fossvogi, auk þess sem ýmsar deildir hans eru dreifðar um Reykjavík og jafnvel víðar. Starfsemi sjúkrahúsa. Sumir sjúklingar eru lagðir inn á legudeildir sjúkrahúsa og dvelja þar í lengri eða skemmri tíma til að gangast undir rannsóknir, aðgerðir, lyfjameðferð eða aðra meðhöndlun. Aðrir eru göngudeildarsjúklingar og eru ekki lagðir inn, heldur gangast undir rannsóknir eða aðgerðir eða fá aðra meðferð og eru síðan sendir heim. Flest sjúkrahús eru almenn sjúkrahús, geta meðhöndlað margs konar ólíka sjúkdóma og áverka. Þau eru oft mjög stór og skipt í margar deildir. Þar er yfirleitt slysadeild og/eða bráðamóttaka og þangað leitar fólk sem orðið hefur fyrir slysi eða þarf á bráðri læknishjálp að halda. Sumir eru fluttir þangað í sjúkrabíl en aðrir koma á eigin vegum. Á gjörgæsludeildum liggja sjúklingar sem þurfa á sérstaklega miku eftirliti að halda vegna veikinda eða slysa eða eftir aðgerð. Oft eru svo sérstakar deildir fyrir hverja tegund sjúkdóma, til dæmis hjartasjúkdómadeild, taugalækningadeild, lungnadeild, æðasjúkdómadeild, geðdeild, augndeild og svo framvegis, eða fyrir tiltekna hópa sjúklinga, svo sem barnadeild, fæðingardeild og öldrunarlækningadeild. Sérhæfð sjúkrahús sinna eingöngu tilteknum sjúkdómstegundum og má nefna geðsjúkrahús sem dæmi. Sum sjúkrahús eru tengd háskólum og þar eru stundaðar rannsóknir á sviði læknisfræði og kennsla læknanema. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru ein fimm verðlauna sem veitt eru árlega af Norðurlandaráði. Þau voru fyrst veitt 2002 í tengslum við 50 ára afmæli Norðurlandaráðs en hafa síðan 2005 verið veitt á hverju ári. Íslensk kvikmynd hefur aldrei orðið fyrir valinu. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur og skiptist milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs eru ein fimm verðlauna sem veitt eru árlega af Norðurlandaráði. Annað hvort ár eru verðlaunin veitt fyrir tónverk eftir núlifandi tónskáld og hitt árið hópum tónlistarmanna sem sýna mikla listræna og faglega færni. Verðlaunin voru fyrst veitt 1965 og átti veita þau þriðja hvert ár. Því var hins vegar breytt 1968 í annað hvert ár frá og frá 1991 hafa verðlaunin verið veitt árlega. Norræna ráðherranefndin skipar norræna dómnefnd sem tekur ákvörðun um verðlaunin. Dómnefndin er skipuð einum fulltrúa frá hverju landi Norðurlanda. Ef tilnefning kemur frá einhverju sjálfstjórnarsvæðanna skal fulltrúi þess taka þátt í starfi dómnefndarinnar. Íslenskir tónlistarmenn/tónskáld hafa fimm sinnum hlotið Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs: Atli Heimir Sveinsson 1976, Hafliði Hallgrímsson 1986, Björk Guðmundsdóttir 1997, Haukur Tómasson 2004 og Anna Þorvaldsdóttir 2012. Verðlaunahafar. Björk Guðmundsdóttir hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 1997 Würzburg. Würzburg er fjórða stærsta borg Bæjaralands í Þýskalandi með 133 þús íbúa. Borgin er helst þekkt fyrir hinn mikla kastala biskupanna, en biskuparnir í borginni voru furstar. Biskupahöllin þar er á heimsminjaskrá UNESCO. Würzburg er einnig þekkt vínræktarsvæði. Þar í borg uppgötvaði Conrad Röntgen geislana sem eftir hann eru nefndir. Lega. Würzburg liggur við ána Main norðvestarlega í Bæjaralandi, í héraðinu Unterfranken og örstutt frá norðausturhorni Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til norðvesturs (120 km), Nürnberg til suðausturs (115 km) og Stuttgart til suðvesturs (140 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Würzburg er gult og rautt flagg á svörtum skildi. Flaggið kemur fyrst fyrir síðla á 16. öld og er líkt flaggi hertogadæmisins Franken, nema hvað litirnir eru öðruvísi. Til samans mynda litirnir sömu liti og fáni Þýskalands í dag (svart, rautt, gult). Orðsifjar. Kiljanskirkjan í Würzburg var dómkirkja furstabiskupanna Ekki er einhlíta ljóst hvaðan heitið er dregið. Þó er álitið að heitið Würzburg sé dregið af "würz", sem merkir "krydd". Þar sem kastalavirkið fyrir ofan borgina er elsta mannvirki borgarinnar, er talið að þar hafi áður fyrr verið nóg til af kryddi. Heitið er ef til vill uppnefni eða gæluheiti í upphafi, sem hafi svo haldist við. Upphaf. Mjög litlar upplýsingar eru til um tilurð Würzburg. Þar var kastalavirki á 7. öld, þar sem hertogar í Frankaríkinu sátu. Virkið er staðsett nálægt vaði yfir ána Main. Seint á þeirri öld voru írsku kristniboðarnir Kiljan, Kolonat og Totnan á svæðinu. Würzburg sem bær kemur hins vegar fyrst við skjöl árið 704. Bærinn mun hafa dafnað vel, því 741 eða 742 var biskupsstóll stofnaður í borginni. Furstabiskupar. Würzburg 1650. Mynd eftir Matthäus Merian. Würzburg var oft sótt heim af keisurum þýska ríkisins. 1127 fóru fyrstu burtreiðar ríksisins fram í borginni. 1156 hélt keisarinn Friðrik Barbarossa upp á brúðkaup sitt með Beatrix frá Búrgúnd í borginni, en hún var dóttir Rainalds III og höfuðerfingi Búrgúnds (Franch-Comté í Frakklandi í dag). 1168 hélt Friðrik keisari ríkisþing í borginni. Þá veitti hann biskupnum Herold furstaembættið og veitt honum Würzburg að léni. Síðan þá hefur borgin meira eða minna verið undir stjórn furstabiskupa. 1402 stofnaði biskupinn Jóhann frá Egloffstein háskóla í borginni, en háskólinn í Würzburg er sá fimmti elsti í þýska ríkinu. Þegar bændauppreisnin mikla náði hámarki snemma á 16. öld, réðist bændaher á kastalavirkið við Würzburg (1525). Þeir náðu hins vegar ekki að komast inn fyrir varnarmúrana. Biskupinn hótaði að tortíma borginni. Einn þekktasti myndhöggvari Þýskalands, Tilman Riemenschneider, sem var borgarstjóri í Würzburg til fjögurra ára, gekk til liðs við bændurna. En allt kom fyrir ekki. Furstaherinn kom aðvífandi og það dró til orrustu, en í henni voru bændur gjörsigraðir. 8000 bændur týndu lífi á þessum degi. Riemenschneider var fangelsaður og pyntaður. 30 ára stríðið geysaði [1618]-1648. Lengi vel fór stríðið framhjá borginni. En biskuparnir kenndu nornum um hildarleikinn mikla og hófust þá grimmilegustu nornaveiðar þýska ríkisins. Á árunum 1626-1630 voru 200 meintar nornir brenndar á báli í borginni einni saman, en 900 í biskupadæminu öllu. Slíkar tölur finnast varla úr öðrum þýskum borgum. Brennurnar fóru fram á torginu fyrir framan Maríukirkjuna. Á 8. áratug 20. aldar fundust merki um miklar brennur á torginu þegar verið var að grafa fyrir bílakjallara. Ummerkin voru þá orðin 300 ára gömul. 1631 hættu allar brennur snögglega. Þá stóð sænskur her við borgardyrnar. Gústaf Adolf II Svíakonungur hertók borgina í október það ár. Í hartnær þrjú ár sátu Svíar þar og létu borgarbúa og nærsveitamenn skaffa sér vistir. Svíar yfirgáfu héraðið 1634. Síðasta nornabrennan í borginni fór fram 1749. Nýrri tímar. Á Napoleonstímanum var furstabiskupadæmið lagt niður. Würzburg var innlimuð í Bæjaralandi 1803. Þar var München höfuðborg, en konungarnir notuðu Würzburg sem dvalarstað og sátu gjarnan í biskupahöllinni. Iðnbyltingin kom seint til borgarinnar. Þar var lítill iðnaður. Seint á 19. öld bjó eðlisfræðingurinn Conrad Röntgen í borginni, en 1895 uppgötvaði hann samnefnda geisla í húsi sínu í miðborginni. Fyrir þá uppgötvun verður hann fyrsti maðurinn til að hljóta Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1901. Borgin varð að stórborg 1933 þegar íbúafjöldinn fór yfir 100 þús. Á tímum nasista voru útrýmingarbúðirnar Flossenbürg starfræktaðar við borgarmörkin. Würzburg varð fyrir loftárásum aðeins einu sinni, 16. mars 1945. Þá gerðu breskar flugvélar skæðar árásir á borgina í aðeins 17 mínútur. Samt sem áður urðu skemmdirnar gífurlegar. Um 90% miðborgarinnar þurrkaðist út. Eftir stríð var borgin hreinsuð. Ónýt hús voru rifin og götur lagfærðar. Allir múrsteinar og annað sem hrunið hafði á göturna var sett í pramma og því siglt í burtu. Öllum sem misst höfðu íbúðir sínar var meinað að koma aftur til borgarinnar. Þannig fór íbúatalan í upphafi stríðs 1939 úr 107 þús niður í 53 þús í stríðslok 1945. Würzburg var á bandaríska hernámssvæðinu. Þar var einnig bandarísk herstöð. Síðustu hermennirnir fóru ekki þaðan fyrr en 2006. Íþróttir. Dirk Nowitzki í NBA-deildinni er frá Würzburg Í Würzburg er stærsta starfandi sundfélag Evrópu, SV Würzburg 05, sem fimm sinnum hefur orðið þýskur meistari í sundbolta. Körfuboltafélag borgarinnar var árum saman í toppbaráttu í fyrstu deild í Þýskalandi. Þar ólst þýski landsliðsmaðurinn Dirk Nowitzki upp, en síðan 1998 spilar hann í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. 2005 varð félagið hins vegar gjaldþrota. Knattspyrnufélögin Würzburger FV og Würzburger Kickers leika í neðri deildum Bundesligunnar. Byggingar og kennileiti. Residenz var aðsetur biskupanna í Würzburg Kastalavirkið Marienberg. Kastalavirkið Marienberg. Í forgrunni er gamla brúin yfir ána Main. Kastalavirkið Marienberg er elsta mannvirki borgarinnar Würzburg í Þýskalandi og stendur á hæð við ána Main. Það var aðsetur greifa áður en síðar sátu þar furstabiskuparnir. Saga Marienbergs. Marienberg stendur á 100 metra hæð við ána Main. Þar mun áður hafa staðið virki á tímum kelta. Núverandi virki var reist um eða eftir aldamótin 700. Elstu hlutar þess eru frá 704, þar á meðal Litla Maríukirkjan. Í henni voru biskuparnir lagðir til hvíldar. Virkið var stækkað nokkrum sinnum. 1253 ákvað furstabiskupinn að flytja aðsetur sitt í virkið. Þar sátu því biskuparnir sem stjórnuðu Würzburg í gegnum tíðina allt til 1719, en þá fluttu þeir inn í biskupahöllina Residenz sem verið var að reisa í miðborginni. Virkið kom nokkru sinni við sögu í stríði. Fyrst í bændauppreisninni miklu snemma á 16. öld. 1525 hafði mörg þúsund manna bændaher safnast saman í og við Würzburg. Herinn réðist á virkið, en þar vörðust fylgismenn biskups, alls um 240 vopnfærir manna. Biskup sjálfur hafði flúið og safnað liði. Það dró til bardaga við borgina. Lið biskups var skipað atvinnuhermönnum og gjörsigruðu þeir illa vopnaða bændur. Borgarstjórinn og myndhöggvarinn Tilman Riemenschneider hafði gengið í lið með bændur. Hann var nú handtekinn og settur í dýflissu virkisins, þar sem hann var pyntaður. Eftir stórbruna í virkinu 1572 var því talsvert breytt. Svíakonungur Gústaf II Adolf hertók Würzburg 1631 í 30 ára stríðinu. Hann tók virkið, en ekki eru til upplýsingar um það hversu mikið var barist um það. Gústaf sat í virkinu í hartnær 3 ár og lét gera ýmsar breytingar á því. Þegar Svíar voru hraktir frá Würzburg, settust biskuparnir aftur að í virkinu. Í þriðja sinn var barist um virkið er Prússar réðust á það 1866 í þeirri viðleitni að sameina þýsku ríkin. Prússar skutu á virkið, sem við það brann, en varnarliðið náði samt að verja það og halda því. Enn lenti virkið í hernaðarátök 1945, en að þessu sinni úr lofti. Í loftárásum Breta á Würzburg stórskemmdist virkið. Það var lagfært í einfaldri mynd og er safn í dag. Minnisvarði um bændauppreisnina miklu 1525 Atli Heimir Sveinsson. Atli Heimir Sveinsson (f. 21. september 1938) er íslenskt tónskáld. Hann fékk Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976 fyrir „Konsert fyrir flautu og hljómsveit" sem hann samdi fyrir kanadiska flautuleikarann Robert Aitken. Atli er í hópi kunnustu tónskálda Íslands, og er þekktastur fyrir tónlist sem hann hefur semið fyrir leikrit. Atli Heimir Sveinsson fæddist í Reykjavík, sonur hjónanna "Kristínar Guðmundsdóttur" og "Sveins Þórðarsonar" sem var aðalgjaldkeri Búnaðarbankans. Atli Heimir fór snemma að fást við tónlist og stundaði tónlistarnám á Íslandi, ásamt námi i menntaskóla, og að afloknu stúdentsprófi hóf hann tónlistarnám erlendis. Atli var á sínum tíma eina tónskáldið íslenska sem numið hafði raftónlist við háskóla sérstakleg. Síðan Atli Heimir lauk tónlistarnámi sinu hefur hann starfað sem tónskáld og tónlistarmaður í Reykjavik. Atli var á sínum tíma tónlistarkennari Menntaskólans í Reykjavík og hafði fyrr á árum umsjón með tónlistarþáttum í Rikisútvarpinu. Tengt efni. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs Þorleifur Kortsson. Þorleifur Kortsson (d. í júlí 1698) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld og hefur orðið þekktastur fyrir galdraofsóknir og galdrabrennur, einkum í Strandasýslu á meðan hann var þar sýslumaður. Þorleifur var sonur Korts Þormóðssonar klausturhaldara í Kirkjubæjarklaustri og konu hans Þórunnar Hákonardóttur frá Nesi við Seltjörn. Hann var ekki skólamenntaður en hafði lært skraddaraiðn erlendis. Hann var „lítill vexti og einsýnn, aðsópslítill og orðfár á þingum, óáleitinn við menn en þó fégjarn og fésæll.“ Árið 1651 varð hann sýslumaður í Strandasýslu. Þar fékk hann fljótt á sig orð fyrir harða framgöngu gegn meintum galdramönum, mun harðari en aðrir ráðamenn höfðu áður sýnt. Árið 1654 lét hann til dæmis brenna þrjá menn á báli í Trékyllisvík fyrir galdur. Hann fékk síðar einnig Ísafjarðarsýslu og þar varð sama sagan. Þorleifur var kosinn lögmaður norðan og vestan 1662 eftir að Magnús Björnsson sagði af sér. Hann fluttist þá að Þingeyrum og bjó þar síðan lengi en var síðast í Bæ í Hrútafirði og dó þar. Hann sagði af sér embætti 1679. Kona Þorleifs var Ingibjörg (1615-1703), dóttir Jóns eldri Magnússonar sýslumanns í Haga á Barðaströnd og sonardóttir Magnúsar prúða, og var hann þriðji maður hennar. Hún bjó ekkja í Bæ þegar manntalið 1703 var tekið og var þá tæplega níræð en dó sama ár. Börn þeirra voru Hannes Þorleifsson fornfræðingur, Jón klausturhaldari á Þingeyrum, Þórunn kona Lárusar Hanssonar Scheving sýslumanns og Guðmundur ríki í Brokey. Magnús Björnsson (lögmaður). Magnús Björnsson (1595 – 6. desember 1662) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld. Hann var jafnframt einn auðugasti maður landsins um sína daga. Magnús var sonur Björns Benediktssonar (1561-1617) sýslumanns á Munkaþverá og Elínar (1571-1637) konu hans, dóttur Staðarhóls-Páls og Helgu Aradóttur. Systur hans voru Sigríður kona Páls Guðbrandssonar sýslumanns á Þingeyrum og Guðrún kona Gísla Oddssonar biskups. Magnús bjó á Munkaþverá eins og faðir hans og afi, tók við sýsluvöldum í Eyjafjarðarsýslu eftir að faðir hans dó og hélt þeim til 1639, þegar hann varð lögmaður norðan og vestan. Hann var í rauninni ekki kosinn til þess embættis, heldur heimtaði Pros Mund höfuðsmaður að hann fengi það og tóku þingmenn því. Magnús gegndi embættinu í rúma tvo áratugi en árið 1661 var hann veikur og treysti sér ekki að ríða til þings og bað Árna Oddsson að annast lögmannastörfin einn. Árið eftir sagði hann svo af sér og fór ekki til þings, enda dó hann í árslok það ár. Kona Magnúsar var Guðrún (1558-1671), dóttir Gísla Þórðarsonar lögmanns. Á meðal barna þeirra voru Gísli Magnússon (Vísi-Gísli) á Hlíðarenda, sýslumaður í Rangárþingi, Helga kona Hákonar Gíslasonar sýslumanns í Bræðratungu og Jórunn kona Jóns Magnússonar sýslumanns á Reykhólum og móðir Magnúsar Jónssonar lögmanns. Suðurlandsskjálftinn 1734. Suðurlandsskjálftinn 1734 var jarðskjálfti sem reið yfir Suðurland þann 21. mars (á góuþræl). Þá kom ógurlegur jarðskjálfti i Árnessýslu. Hrundu þá að mestu 30 bæir, en 60—70 löskuðust. Jarðskjálfti þessi varð mestur í Flóa, Grímsnesi og ofarlega í Ölfusi, og hrundu kirkjur á þessum slóðum. Sjö eða átta menn, gamalmenni og börn urðu undir húsum og biðu bana. Einnig varð margt nautgripa undir húsarústum, en matvæli og búshlutir fóru forgörðum. Ólafsvaka. Ólafsvaka er þjóðhátíð Færeyja. Ólafsvaka er haldin hátíðleg 28. og 29. júlí ár hvert en 29. júlí er dánardagur Ólafs Haraldssonar og er þjóðhátíðardagurinn kenndur við hann. Ólafur féll í orrustunni við Stiklastað í Noregi árið 1030. Ári seinna var Ólafur Haraldsson tekinn í dýrlingatölu og fékk nafnið Ólafur helgi. Dánardags hans hefur verið minnst í tæp þúsund ár. Þennan dag er Færeyska lögþingið jafnan sett á ári hverju. Kvöldið fyrir Ólafsvöku eru haldnir tónleikar. Hátíðin hefst svo 28. júlí með skrúðgöngu knattspyrnumanna, bæjarstjórnarinnar og hestamönnum undir lúðraþyt og trumbuslætti. Skrúðgangan endar á torginu Tinghúsvelli fyrir framan hús Færeyska lögþingsins. Um kvöldið er haldin róðrakeppni sem er kynja- og aldurskipt. 29. júní hefst fyrsti fundur lögþingsins. Lögmaður Færeyja heldur ávarp. Fyrir fyrsta fund lögþingsins eru þingmenn kallaðir til guðþjónustu í Hafnarkirkju. Eftir guðþjónustuna ganga þingmenn í beinni röð til þinghúsins. Þeir raða sér upp fyrir utan þinghúsið og snúa að torginu Tinghúsvøllur þar sem fjöldi fólks stendur. Þar fer fram tónlistarflutningur Ólafsvökukvartettsins og að honum loknum hefst þingfundur lögþingsins. Residenz (Würzburg). Hluti af Residenz-höllinni í Würzburg Residenz er heiti á höll biskupana í borginni Würzburg í Þýskalandi sem þeir reistu sér sem aðsetur síðla á 18. öld. Höllin er á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrsta tímabil 1719-1729. Allt frá því er keisarinn Friðrik Barbarossa gerði biskupana í Würzburg að furstum árið 1168, bjuggu biskuparnir í kastalavirkinu Marienberg fyrir ofan borgina. En á 18. öld þótti virkið ekki lengur nógu fínt fyrir fursta og því ákvað biskupinn Jóhann Filippus að reisa glæsihöll í borginni sjálfri. Framkvæmdir hófust 1719, en Jóhann dó 1724. Eftirmaður hans, von Hutten, lét því aðeins reisa litla álmu og flutti inn í litla íbúð þar. Annað tímabil 1729-1744. Eftirmaður hans, Friðrik Karl, lét reisa næstu álmur 1729-1744 og flutti í nýja glæsiíbúð í suðurálmunni þegar hún varð tilbúin. Hann lét einnig innrétta kirkju í höllinni ("Hofkirche"). Á hans tíð voru móttökusalir og veislusalir smíðaðir. Höllin var fullkláruð að utan á gamlársdegi 1744. Ekki var frekar unnið að innréttingum meðan hann lifði, né meðan eftirmaður hans lifði. Þriðja tímabil 1749-1779. Eitt af málverkunum í Keisarasalnum eftir Tiepolo Í biskupatíð Karls Filippusar voru allar innréttingar fullkláraðar. Salirnir voru skreyttir, veggir og loft málaðir með freskum. Ítalski listmálarinn Giovanni Battista Tiepolo var fenginn til að mála loftmynd í tröppugangi hallarinnar, sem enn í dag er stærsta samhangandi loftmynd heims. Ýmsir aðrir listamenn komu við sögu, aðallega frá Ítalíu og Þýskalandi. Á meðan fóru fram biskupaskipti. Nýi biskupinn hét Adam Friðrik. Hann lét fullklára allar skreytingar. Síðustu framkvæmdum lauk 1779. Höllin var þá ein stærsta og merkasta barokkhöll Suður-Þýskalands. Nýrri tímar. Eftir að höllin var fullkláruð var hún aðsetur biskupanna í aðeins 22 ár í viðbót. 1803 var furstabiskupadæmið lagt niður. Þeim var gert að flytja út. Höllin skipti nokkru sinni um eigendur næstu árin. Í fyrstu bjó þar Ferdinand III af Habsborg. Napoleon átti tvisvar leið um Würzburg á þessum tímum. Honum fannst lítið til hallarinnar koma og uppnefndi hana ‘fegurstu prestahöll Evrópu’ ("schönster Pfarrhof Europas"). Würzburg var innlimuð Bæjaralandi og notuðu bærísku konungarnir höllina gjarnan sem dvalarstað. Í loftárásum 16. mars 1945 stórskemmdist höllin. Hliðarálmurnar brunnu nær alveg út, en miðhúsið slapp betur. Tröppugangurinn frægi með loftmyndinni slapp einnig, sem og nokkrir af stóru sölunum. Þegar Bandaríkjamenn hertóku borgina, var meðal þeirra herforingi sem bar mikið skynbragð á menningarverðmæti. Hann lét þétta veggi og þök til að vernda bygginguna fyrir veðri og vindum. Viðgerðir og endurreisn hófust þó seint og miðaði hægt áfram. Þeim lauk í fyrstu árið 1987, en var þó ekki að fullu lokið fyrr en 2006, rúmlega 60 árum eftir loftárásina. 1981 var höllin í heild sinni sett á heimsminjaskrá UNESCO. Það er safn í dag, þar sem bæði fastar sýningar eru og farandsýningar. Árlega fer fram Mozart-hátíð í höllinni. Tröppuhúsið. Tröppuhúsið. Fyrir ofan sér í stærsta loftmálverk heims. Þar sem höllin er á nokkrum hæðum var reistur víðáttumikill tröppugangur upp á efri hæðir. Loftið í tröppuganginum var málað með fresku af ítalska listamanninum Tiepolo frá Feneyjum. Freskan varð stærsta loftmynd heims og svo er enn. Hún er 670 m² að stærð og það tók Tiepolo tæp tvö ár að mála hana. Myndin sýnir í hnotskurn þáverandi biskup, Karl Filippus, fljúga yfir heiminn, meðan íbúar heimsálfanna hylla hann. Meðal íbúa Evrópu koma Tiepolo sjálfur fyrir, ásamt fyrsta byggingameistara hallarinnar, Balthasar Neumann. Skizzan sem Tiepolo notaði fyrir verk sitt er enn til. Hún er geymd til sýnis í Metropolitan Museum í New York. Laun Tiepolo fyrir verk sitt námu 15 þús gyllini, sem samsvaraði 13földum árlaunum byggingameistarans Neumann. Þjóðsagan segir að kollegar Neumanns hafi hlegið yfir stærð tröppuhússins og veðjað á að þak þess myndi hrynja strax og stuðningssúlurnar væru fjarlægðar. Neumann veðjaði til baka að þeir gætu skotið úr fallbyssum við hlið hallarinnar. Þakið mundi jafnvel standast höggbylgjurnar. Veðmál þetta endaði með jafntefli. Þakið hélst uppi, en ekki fékkst leyfi fyrir að skjóta úr fallbyssum á lóð hallarinnar. Þegar höggbylgjur frá loftárásinni 1945 lenti á höllinni, ásamt braki, hélst þakið engu að síður uppi. Segja má að þar með hafi Neumann unnið veðmál sitt. Hallarkirkjan. Biskupinn Jóhann Filippus ákvað að láta reisa kirkju innan í höllinni. Hún var ekki í frumteikningunum og því erfitt að koma henni við. Byggingameistarinn Balthasar Neumann varð einnig að viðhalda eðlilegu og samstæðu útliti að utan. Hann ákvað því að kirkjan fengi sömu tegundir glugga og höllin sjálf. Veggjamegin hengdi hann upp víðáttumikla spegla til að endurvarpa sólarljósinu. Kirkjan sjálf varð öll hin glæsilegasta. Mýmargar skrautsúlur eru til beggja hliða. Salurinn er um 20 metra hár og er allur skreyttur styttum og tveimur stórum hringlaga málverkum á sitthvora hlið. Málverkin sjálf voru máluð af Tiepolo. Eitt þeirra sýnir himnaför Maríu mey, hitt sýnir fall Lúsífers (kölska). Salir. Gömul ljósmynd af Speglasalnum (fyrir stríð) Nokkrir stórir salur eru í höllinni. Þeirra helstir eru Hvíti salurinn, Keisarasalurinn og Speglasalurinn. Tveir fyrrnefndu salirnir skemmdust til þess að gera lítið í loftárásinni 1945 og eru þeir jafnfagrir í dag eftir nokkrar endurbætur. Speglasalurinn var dýrasti salur hallarinnar. Salurinn brann hins vegar að hluta 1945 og bráðnuðu þá umgjarðir speglanna, sem féllu niður og brotnuðu. Salurinn var ekki endurgerður fyrr en 1979. Þá voru 600 speglar sett upp á ný og þeir skreyttir. Deyfing. Tilfinningaleysi, minnisleysi og lömun koma fyrir mann þegar hann er í deyfingu. Sjúklingur. Sjúklingur er einhver sem hlýtur læknishjálp, umsjón eða meðhöndlun. Oftast er sjúklingur veikur eða slasaður og þarf meðhöndlun frá lækni. Magnús Jónsson (f. 1642). Magnús Jónsson (1642 – 25. apríl 1694) var íslenskur lögmaður á 17. öld. Magnús var sonur Jóns Magnússonar sýslumanns á Reykhólum, sonarsonar Ara í Ögri, og konu hans Jórunnar Magnúsdóttur lögmanns Björnssonar. Hann varð sýslumaður í Strandasýslu 1662 og þegar Þorleifur Kortsson sagði af sér lögmennsku á Alþingi 1679 var Magnús kjörinn í hans stað. Var það í seinasta skipti sem lögmaður var kjörinn á Alþingi. Hann var lögmaður til dauðadags. Magnús var stórauðugur og átti margar jarðir. Í lögmannstíð Magnúsar var síðasti líflátsdómurinn fyrir galdra kveðinn upp á Íslandi, yfir Klemusi Bjarnasyni úr Strandasýslu, en dómnum var skotið til konungs, sem felldi niður dauðadóminn en dæmdi Klemus útlægan og dó hann í Kaupmannahöfn. Magnús bjó í Mávahlíð á Snæfellsnesi og víðar en seinast átti hann heima á Ingjaldshóli. Kona hans var Guðrún Þorgilsdóttir (1650-1705) frá Brimilsvöllum. Margrét dóttir þeirra var kona Gísla Jónssonar bónda á Reykhólum og í Mávahlíð. Magnús átti líka laundóttur, Ingibjörgu, sem var gift Árna Jónssyni presti í Hvítadal. Á Alþingi sumarið 1694, eftir að Magnús dó, gegndi Einar Eyjólfsson (um 1641 – 15. júlí 1695) í Traðarholti, sýslumaður í Rangárþingi og síðar Árnesþingi lögmannsstörfum. Hann var þó aldrei kjörinn eða skipaður lögmaður og er ekki talinn til þeirra. Stóra-Seyla. Stóra-Seyla eða Seyla er bær og gamalt höfuðból á Langholti í Skagafirði. Þar var áður þingstaður Seyluhrepps, sem var kenndur við bæinn. Bærinn hét upphaflega aðeins Seyla en eftir að hjáleigan Litla-Seyla byggðist úr landi jarðarinnar, líklega á 17. öld, var hann kallaður Stóra-Seyla. Nafni Litlu-Seylu var breytt í Brautarholt 1915 og eftir það er bærinn yfirleitt aðeins nefndur Seyla þótt formlegt heiti sé Stóra-Seyla. Nafnið Seyla er talið merkja kelda. Bærinn á víðáttumikið land á Langholti, milli Húseyjarkvíslar að austan og Sæmundarár að vestan. Seyla var hluti af heimanmundi þeim sem Gottskálk biskup Nikulásson galt með Kristínu dóttur sinni þegar hún giftist Þorvarði Erlendssyni lögmanni 1508. Þorbergur Hrólfsson (1573 - 8. september 1656) eignaðist líklega jörðina snemma á 17. öld og bjuggu ættmenn hans þar lengi síðan, þó ekki óslitið. Launsonur hans var Halldór Þorbergsson annálaritari (1623-1711), sem skrifaði "Seyluannál". Árið 1713 bjó Marteinn Arnoddsson prentari við Hólaprentsmiðju á Seylu. Kirkja var á Seylu á miðöldum eins og kemur fram í Sturlungu, þar sem segir frá því að árið 1255, eftir að Oddur Þórarinsson var veginn í Geldingaholti, var lík hans fært að Seylu, þar sem annars var ekki grafreitur, og grafið þar inn undir kirkjugarðsvegg. Þetta var gert vegna þess að Oddur dó í banni og mátti í raun ekki fá leg í vígðri mold. Reykir (Reykjaströnd). Reykir eru eyðibýli á Reykjaströnd í Skagafirði, ysti bærinn á ströndinni. Mjótt nes teygist til norðurs frá bænum og kallast það Reykjadiskur. Í landi Reykja er Glerhallavík undir Tindastóli. Þar var áður mikið af glerhöllum, hvítum kvartssteinum sem slípast höfðu í fjörunni en nú eru þeir að mestu horfnir þvi fólk hefur hirt þá þrátt fyrir bann. Í Sandfellsöxl í landi Reykja var eitt sinn silfurbergsnáma. Á Reykjum er nokkur jarðhiti eins og nafnið bendir til og þar fór Grettir Ásmundsson að sögn í laug rétt ofan við fjöruborðið og hlýjaði sér eftir Drangeyjarsund sitt. Laug var þar sem kölluð var Grettislaug en árið 1934 eyðilagðist hún í hafróti og hvarf, en mjög hvasst og brimasamt getur orðið á Reykjum. Árið 1992 var hún svo endurgerð og hlaðinn skjólveggur við hana og hefur síðan verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Þar rétt hjá er lítil höfn og þaðan er farið í Drangeyjarsiglingar. Í Grettis sögu segir að kirkja sé á Reykjum en engar aðrar heimildir eru til um hana. Sýklakenningin. Sýklakenningin eða örverukenningin er sú kenning að smitsjúkdómar berist milli manna með sjúkdómsvaldandi örverum, sem kallast sýklar. Kenningin var fyrst sett fram á 16. öld og var mikið gagnrýnd til að byrja með en hefur síðan undir lok 19. aldar verið almennt viðtekin innan læknavísinda og örverufræði. Hún tók við af míasmakenningunni sem helsta skýring manna á smitburði. Saga. Ignaz Semmelweis var meðal þeirra sem lögðu hornsteina að sýklakenningunni. Finna má þess merki í fornum ritum hindúa að kenningar sem minna á sýklakenninguna hafi verið við lýði meðal Indverja þegar í forneskju. Telja má nánast fullvíst að hugsuðir frongrikkja hafi haft einhverjar spurnir af slíkum kenningum, en þeir virðast þó ekki hafa tekið þær upp á arma sína og sér þeirra hvergi stað í "Corpus Hippocraticum" eða „textasafn Hippókratesar“, handritasafni því sem kennt er við Hippókrates og fylgismenn hans. Hins vegar er ekki annað að sjá en rómverski fræðimaðurinn Varró hafi vitað af slíkum hugmyndum og tekið þeim sem sjálfgefnum sannleik þegar hann ræður tilvonandi óðalsbónda frá því að reisa hús sitt í mýrlendi vegna þess að „þar þrífast örsmáar verur sem ekki sjást með berum augum, en komast inn um munn og nasir og valda sjúkdómum“ Sýklakenningin er þó venjulega sögð eiga upphaf sitt hjá Girolamo Fracastoro, en hann hélt því fram árið 1546 að orsaka farsótta væri að leita meðal örsmárra „fræja“ sem gætu borist manna á milli og ollið sjúkdómum. Örverur voru þó ekki þekktar á þeim tíma, en Antonie van Leeuwenhoek lýsti þeim fyrstur manna seint á 17. öld. Það var svo Agostino Bassi sem fyrstur setti sýklakennnguna fram með vísan í örverur og má því segja að kenningin eins og hún er í dag hafi fyrst litið dagsins ljós hjá honum. Kennigin mætti mikilli mótstöðu innan læknastéttarinnar, en tilraunir ýmissa vísindamanna á síðari helmingi 19. aldar leiddu smám saman í ljós að kenningin skýrði bæði smitburð farsótta og sýkingar almennt með hætti sem var að miklum mun meira sannfærandi en fyrri kenningar. Meðal helstu tilrauna í þessa veru ber að nefna rannsóknir Ignaz Semmelweis á smitburði sængursóttar á sjúkrahúsi Vínarborgar á árunum upp úr 1840 og hinar ítarlegu rannsóknir Roberts Koch á sýkingum og smitburði miltisbrands, berkla, kóleru og fleiri sýkinga um og eftir 1870. Hrafn heimski Valgarðsson. Hrafn heimski Valgarðsson var landnámsmaður í Rangárvallasýslu. Hann kom úr Þrándheimi til Íslands og nam land undir Eyjafjöllum, milli Kaldaklofsár og Lambafellsár. Hann bjó á Rauðafelli. Í Landnámu er sagt að Hrafn hafi verið sonur Valgarðs Vémundssonar orðlokars, Þórólfssonar vogarnefs, Hrærekssonar slöngvandbauga, Haraldssonar hilditannar Danakonungs. Hann er sagður hafa verið hið mesta göfugmenni. Börn hans voru Jörundur goði, sem einnig var landnámsmaður og afi Marðar Valgarðssonar og Runólfs í Dal og forfaðir Sæmundar fróða, Helgi bláfauskur og Freygerður. Ásgerður Asksdóttir. Ásgerður Asksdóttir var landnámsmaður í Rangárvallasýslu og nam land undir Eyjafjöllum. Í Landnámabók segir að hún hafi verið dóttir Asks hins ómálga og verið gift Ófeigi, ágætum manni í Raumsdælafylki. Ófeigur varð ósáttur við Harald hárfagra. Þau hjónin bjuggust til Íslandsferðar en áður en þeim tókst að komast af stað komu menn Haraldar og tóku Ófeig af lífi. Ásgerður fór samt til Íslands með börn þeirra ásamt Þórólfi hálfbróður sínum, og nam land milli Seljalandsmúla og Markarfljóts, og Langanes allt (Merkurnes), en Þórólfur nam land fyrir vestan Markarfljót. Ásgerður giftist aftur á Íslandi, Þorgeiri hörska Bárðarsyni sem keypt hafði land af Ásgeiri kneif og bjó í Holti. Synir þeirra voru Þorgrímur og Holta-Þórir, en börn Ásgerðar og Ófeigs voru Þorgerður, sem gift var Þorfinni (Þorfiði eða Fiði) Otkelssyni (Áskelssyni) landnámsmanni í Bárðardal, Þorgeir gollnir, sem var faðir Njáls á Bergþórshvoli, Þorsteinn flöskuskegg, Þorbjörn kyrri og Álof, sem gift var Þorbergi kornamúla, syni landnámsmannsins Þorkels kornamúla. Í Njálu segir að Ásgerður hafi verið móðir Njáls Þorgeirssonar en hún var föðuramma hans samkvæmt Landnámu. Herjólfsdalur. Herjólfsdalur er dalur norðvestarlega á Heimaey í Vestmannaeyjum. Þar er þjóðhátíð Vestmannaeyja haldin ár hvert, fyrstu helgi í ágúst (verslunarmannahelgi). Dalurinn er sagður kenndur við Herjólf, son Bárðar Bárekssonar og er hann talinn landnámsmaður Vestmannaeyja í Melabók og Hauksbók Landnámabókar og sonur hans hafi heitið Ormur auðgi. Þar segir að Herjólfur hafi búið í Herjólfsdal „fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið“. Sturlubók segir aftur á móti að Ormur ánauðgi hafi verið landnámsmaðurinn og verið sonur Bárðar Bárekssonar, en áður en hann nam eyjarnar hafi þar verið veiðistöð og engra manna veturseta. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefur frá upphafi 1874 verið haldin í Herjólfsdal, nema árin 1973 og 1974, þegar dalurinn var svo illa farinn eftir Vestmannaeyjagosið að hún var haldin á Breiðabakka. Fornleifarannsóknir. Árið 1924 gróf Matthías Þórðarson, fyrsti þjóðminjavörður Íslands, í tóftir sunnan megin við tjörnina í Herjólfsdal. Að hans mati voru þar þrjár rústir, eitt aðalhús eða langhús og svo tvö minni hús. Langhúsið var vallgróið og virtist vera eldra en hinar tvær tóftirnar. Hann var sannfærður um að þetta hafi verið bær sem Herjólfur Bárðarson byggði sjálfur. Á árunum 1971-1983 var gerður umfangsmikill uppgröftur í Herjólfsdal undir stjórn Margrétar Hermanns- Auðardóttur á sama stað og Matthías hafði grafið áður. Hún vann við uppgröftinn í 5 sumur en rannsóknin tafðist vegna elgoss í Heimaey árið 1973. Uppgraftarsvæði Margrétar var um 1300 m². Hún fann ummerki um 4-5 byggingarskeið sem innihéldu átta hús og garðhleðslur. Leifar dýrabeina úr húsdýrum, fuglum og fiskum fundust og varpa ljósi á efnhag hinna fyrstu Vestmannaeyinga. Margrét studdist ekki einungis við uppgröft á mannvistarleifum heldur einnig frjókornagreiningar sem sýna fram á verulegar breytingar á gróðurfari vegna ágangs manna. Á grundvelli rannsókna sinna setti Margrét fram þá kenningu að elstu leifarnar í Herjólfsdal væru frá 8. eða jafnvel 7. öld, og taldi hún að Ísland hefði almennt verið numið um það leyti en ekki í lok 9. aldar eins og flestir aðrir hafa talið. Mikið hefur verið deilt um kenningu Margrétar enda myndi hún gerbreyta upphafi Íslandssögunnar. Deilan snýst einkum um túlkun hennar á aldursgreiningum á geislakoli en hún taldi að þær sýndu að landnámsgjóskan sem lá undir mannvistarleifunum væri mun eldri en frá því um 900 eins og álitið var meðan rannsóknin var gerð. Seinna var sýnt fram á landnámsgjóskan féll um árið 871, og hljóta því mannvistarleifarnar í Herjólfsdal að vera yngri en það, en ennþá er deilt um hvort mark eigi að taka á kolefnisaldursgreiningunum Í dag eru rústirnar í Herjólfsdal hluti af golfvelli heimamanna. Í október 2005 með frumkvæði Lista- og menningarfélagi Herjólfsdalsbæjar var hafist handa við að byggja nýja eftirlíkingu af Herjólfsbæ í anda upprunalega bæjarins og var takmarkið að hann yrði líkastur þeim bæ sem getið er í heimildum. Þeir sem stóðu að framkvæmdum bæjarins voru Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson. Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson. Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson (eða Skallagrímur Kveldúlfsson eða Grímur Úlfsson) var landnámsmaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslum. Frá honum segir í Landnámabók og Egils sögu. Hann var orðinn sköllóttur um 25 ára aldur og var því jafnan kallaður Skalla-Grímur. Grímur var sonur Úlfs (Kveld-Úlfs), sonar Brunda-Bjálfa og konu hans Salbjargar Berðlu-Káradóttur. Þeir feðgar, Kveld-Úlfur og Skalla-Grímur, fóru til Íslands eftir að Haraldur hárfagri lét drepa Þórólf Kveld-Úlfsson vegna rógburðar Hildiríðarsona og vildi ekki bæta vígið. Þeir voru vinir Ingólfs Arnarsonar og höfðu haft spurnir af landnámi hans á Íslandi. Þeir sigldu hvor á sínu skipi. Kveld-Úlfur dó í hafi og varpaði stýrimaður hans, Grímur háleyski Þórisson, kistu hans fyrir borð samkvæmt fyrirmælum hans en sigldi síðan inn í Borgarfjörð og lenti skipinu þar. Skalla-Grímur lenti skipi sínu við Knarrarnes á Mýrum. Hann kannaði svo landið „og var þar mýrlendi mikið og skógar víðir, langt á milli fjalls og fjöru. En er þeir fóru inn með firðinum, komu þeir á nes það, er þeir fundu álftir; það kölluðu þeir Álftanes.“ Grímur nam svo Mýrasýslu alla og Borgarfjörð suður til Andakílsár. Kista Kveld-Úlfs fannst rekin í Borgarfirði og reisti Skalla-Grímur bæ sinn skammt þar frá og kallaði Borg og fjörðinn Borgarfjörð. Menn þeirra feðga og frændur fengu svo land í landnámi hans. Kona Skalla-Gríms var Bera Yngvarsdóttir og börn þeirra voru Þórólfur, Egill, Sæunn amma Björns Hítdælakappa og Þórunn kona Geirs auðga, sonar Ketils blunds landnámsmanns í Þrándarholti. Álfur egðski. Álfur egðski var landnámsmaður í Ölfusi og bjó á Núpum. Hann var frá Ögðum í Noregi eins og viðurnefni hans gefur til kynna og hraktist þaðan undan Haraldi hárfagra. Álfur kom til Íslands og lenti skipi sínu í Álfsósi. Það nafn er nú týnt en kann að hafa verið mynni Ölfusár og raunar hefur sú kenning komið fram að sveitarheitið Ölfus sé afbökun úr Álfsós. Álfur nam Ölfus allt vestanvert fyrir utan Varmá og bjó á Gnúpum (Núpum). Bróðursonur Álfs, Þorgrímur Grímólfsson, kom til landsins með honum. Landnáma segir að móðir hans hafi verið Kormlöð dóttir Kjarvals Írakonungs. Álfur var barnlaus og tók Þorgrímur arf eftir hann. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds spaka, goða í Ölfusi, föður Skafta lögsögumanns. Eitur. Eitur eða eiturefni eru lífræn- eða ólífræn efnasambönd, sem í nægjanlega stórum skömmtun valda eitrun eða jafn vel dauða. Sumt eitur er notað til að eyða meindýrum, t.d. skordýraeitur og rottueitur, en mörg eru mikilvæg efni við vinnslu ýmiss konar eða iðnað, en önnur eru aukaafurðir. Eiríkur Hákonarson. Eiríkur jarl gefur nokkrum Jómsvíkingum grið eftir orrustuna í Hjörungavogi. Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl (957 — 1023/24) réði ríkjum í Noregi ásamt Sveini hálfbróður sínum frá því um 1000 til 1015, í umboði Sveins tjúguskeggs Danakonungs. Þeir báru þó ekki konungsnafnbót. Eiríkur var óskilgetinn sonur Hákonar Sigurðssonar Hlaðajarls, sem hann eignaðist ungur með konu af lágum stigum. Hann var fóstraður af Þorleifi spaka í Meðaldal, vini Hákonar. Eftir því sem Snorri segir í Heimskringlu var Eiríkur „brátt mannvænn, hinn fríðasti sýnum, mikill og sterkur snemma“, en faðir hans sinnti honum lítið framan af. Það breyttist þó seinna, þegar Eiríkur fullorðnaðist og varð mikill höfðingi. Þeir feðgar stýrðu her Norðmanna í orrustunni við Jómsvíkinga í Hjörungavogi. Þar gaf Eiríkur Vagni Ákasyni og fleiri Jómsvíkingum grið en Hákoni jarli líkaði það stórilla. Eiríkur og Sveinn flúðu til Svíþjóðar þegar faðir þeirra var drepinn árið 995 og kom þangað til þeirra fjöldi manna sem flúið höfðu ofríki Ólafs Tryggvasonar. Eiríkur herjaði í Austurvegi um fimm ára skeið en var oftast í Danmörku á vetrum því hann var þá kvæntur Gyðu, dóttur Sveins tjúguskeggs. Árið 1000 gengu þeir Eiríkur, Sveinn og Svíinn Ólafur skotkonungur í bandalag, gerðu Ólafi Tryggvasyni fyrirsát við eyna Svoldur og felldu hann þar. Eftir fall Ólafs stýrðu bræðurnir Eiríkur og Sveinn Noregi og skiptu landinu á milli sín. Samkvæmt Heimskringlu hafði Eiríkur fjögur fylki í Þrándheimi, Hálogaland og Naumudal, Fjörðu og Fjalir, Sogn og Hörðaland og Rogaland og norðan Agðir allt til Líðandisness. Árið 1014 hélt Eiríkur jarl til Englands í herför með Knúti syni Sveins tjúguskeggs (síðar Knúti ríka) og lét Hákoni syni sínum eftir að sjá um ríki sitt. En haustið 1015 kom Ólafur helgi til Noregs, tók Hákon til fanga en gaf honum grið gegn því að hann færi úr landi. Eiríkur hélt sig áfram í Englandi og Knútur ríki gerði hann að jarli af Norðymbralandi. Þeirri tign hélt hann til dauðadags og sneri ekki aftur til Noregs. Gerendanetskenningin. Gerendanetskenningin (e. "ANT" eða "Actor Network Theory") er aðferðafræðileg nálgun í félagsvísindum þar sem litið er á að hlutir og fyrirbæri séu gerendur og hafi áhrif til jafns við hinn mennska geranda. Gerendanetskenningin byggir á efnislegri tengslahyggju og leggur áherslu á að rekja hvernig tengsl skapa gerendur og móta einkenni þeirra og áhrif. Bruno Latour. Bruno Latour (f. 22. júní 1947) er franskur félagsfræðingur og mannfræðingur. Hann er þekktur fyrir rannsóknir sínar á vísindum og tækni. Hann er þekktastur fyrir ritverkið "We Have Never Been Modern" sem kom út á frönsku 1991 og í enskri þýðingu 1993 og "Laboratory Life" sem hann ritaði með Steve Woolgar og kom út 1979 og bókina "Science in Action" frá árinu 1987. Latour er einn af frumkvöðlum í að þróun kenningarinnar um gerendanet (ANT) og var árið 2007 á lista "The Times Higher Education Guide"yfir þá 10 fræðimenn á sviði hugvísinda og félagsfræða sem oftast var vitnað í. Tenglar. Latour, Bruno Úlfur víkingur. Úlfur víkingur var landnámsmaður sem nam land í Úlfsdölum, yst á Tröllaskaga, næst sýslumörkum Eyjafjarðarmegin, milli Fljóta og Siglufjarðar. Þetta er lítið landnám á útskaga og ekki sérlega búsældarlegt og er því líklegt að Úlfur hafi komið seint til landsins, þegar fáir staðir voru ónumdir. Í Landnámabók er sagt að hann hafi orðið sammála Ólafi bekk, landnámsmanni í Ólafsfirði, til landsins. Landnám þeirra eru þó ekki hlið við hlið, Siglufjörður er á milli. Þar nam Þormóður rammi land og má vera að hann hafi komið fyrstur þeirra en hinir numið land sinn hvorum megin við hann. Engar ættir eru raktar til Úlfs og ekkert meira sagt frá honum. Magnús Björnsson á Syðra-Hóli. Magnús Björnsson á Syðra-Hóli (30. júlí 1889 – 20. júlí 1963) var íslenskur alþýðufræðimaður, rithöfundur og bóndi á Syðra-Hóli á Skagaströnd. Magnús, sem var sjálfmenntaður að mestu, ritaði mest þætti og frásagnir og voru margar þeirra birtar í tímaritum. Voru þrjár bækur gefnar út með þáttum Magnúsar; "Mannaferðir og fornar slóðir" (1957), "Hrakhólar og höfuðból" (1959) og "Feðraspor og fjörusprek" (1965). Alls 64 þættir. Ellefu þættir til viðbótar voru gefnir út í húnvetnska ritsafninu en 20 prentaðir þættir til viðbótar hafa komið út í ýmsum ritum. Minnisvarði um Magnús var afhjúpaður á Syðra-Hóli á aldarafmæli hans 30. júlí 1989. Þormóður rammi Haraldsson. Þormóður rammi Haraldsson var landnámsmaður sem nam land í Siglufirði og Héðinsfirði. Kona hans er sögð hafa verið Arngerður, systir Skíða í Skíðadal. Í Landnámabók er sagt að Þormóður hafi orðið landflótta úr Noregi fyrir að vega Gyrð, afa Skjálgs á Jaðri, og farið til Íslands. Þegar hann kom til Siglufjarðar sigldi hann inn að Þormóðseyri og lenti þar skipi sínu. Hann nam Siglufjörð og Héðinsfjörð, milli Úlfsdala og Hvanndala og bjó á Siglunesi. Sagt er að hann hafi deilt um Hvanndali við Ólaf bekk, landnámsmann í Ólafsfirði, og orðið sextán manna bani í þeim deilum. Að lokum sættust þeir Ólafur þó á að þeir skyldu hafa Hvanndali sitt sumarið hvor. Skáleyjar. Skáleyjar eru innsti hluti svonefndra Inneyja sem er hluti af Vestureyjum Breiðafjarðar og Flateyjarhrepps. Nú í dag eru eyjarnar hluti af Reykhólahreppi. Auk Skáleyja teljast til Inneyja, Hvallátur, Sviðnum og Svefneyjar. Af þessum eyjum eru Skáleyjar innstar og næst landi. Skáleyjum tilheyra um 160 eyjur og þegar sem flest var fólkið í eyjunni voru þar fimm ábúendur. Upphaflega voru ábúðarpartarnir fjórir og báru nöfnin Norðurbær, Ytribær, Efribær og Innribær en voru svo sameinaðir í tvo jafn stóra jarðarparta. Auk þessarar skiptingar á jörðinni sjálfri voru heimili gamals fólk sem lifði af eignum sínum og svokallaðar þurrabúðir þar sem heimilismenn stunduðu sjósókn og höfðu lifibrauð af því meðan fiskimiðin gáfu af sér. Skáleyjar hafa að öllum líkindum verið byggðar frá fyrstu tíð en ekki er minnst á þær í neinum fornritum nema Sturlungu. Þar kemur þó ekki fram að Skáleyjar séu í byggð heldur eru þær bara nefndar sem eign stórhöfðingja og í raun ekki vitað hvenær þær byggðust fyrst þó menn telji að það hafi verið fljótlega eftir landnám. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 kemur fram að verðgildi jarðarinnar hafi þá verið 40 hundruð, en verðgildi eða dýrleiki eins og það var nefnt var mælt í hundruðum. Meðalbújörð á Íslandi var 20 hundruð en óðalsjörð 60 hundruð eða meira. Jörðin Skáleyjar var leigujörð, eigendur hennar voru börn Þorsteins Þórðarsonar frá Skarði. Ábúendur í Skáleyjum á þessum tíma voru fjórir. Leigukúgildi voru í heild átta og var leigan borguð í æðardún. Heildarleigan átti að vera 30 fjórðungar af æðardún sem samsvarar 150 kg en hver fjórðungur er um 5 kg.. Ólafur bekkur Karlsson. Ólafur bekkur Karlsson var landnámsmaður og nam land í Ólafsfirði. Í Landnámabók segir að hann hafi orðið samskipa Úlfi víkingi, landnámsmanni í Úlfsdölum, til Íslands. Ólafur var sonur Karls úr Bjarkey á Hálogalandi. Hann varð útlægur úr Noregi fyrir að vega Þóri hinn svarta og fór þá til Íslands. Í Landnámu segir að hann hafi numið alla dali fyrir vestan, og Ólafsfjörð sunnan til móts við Þormóð ramma. Er þá væntanlega átt við að hann hafi numið allan vestanverðan Ólafsfjarðardalinn, svo og smádali sem ganga vestur úr honum, en Gunnólfur nam fjörðinn utanverðan, báðum megin. Ólafur bekkur bjó á Kvíabekk. Hreyfiorka. a> vegna þyngdaraflsins. Summa hreyfiorku og stöðuorku í kerfinu helst óbreytt ef áhrif núnings eru hverfandi. Hreyfiorka er orka sem hlutur býr yfir sökum hreyfingar sinnar. Hún er skilgreind sem "sú vinna sem þarf til að koma kyrrstæðum hlut af ákveðnum massa á tiltekna hreyfingu." Til að hluturinn geti staðnæmist aftur þarf að beita hann sömu vinnu í neikvæða stefnu. formula_1 Joe Sacco. Joe Sacco er maltneskur blaðamaður og myndasöguhöfundur. Sacco fæddist á Möltu árið 1960 en flutti síðan til Ástralíu og seinna til Bandaríkjanna þar sem hann útskrifaðist með B.A. gráðu í blaðamennsku frá Oregon Háskóla árið 1981. Sacco er þekktastur fyrir bækur sínar "Palestine" og "Safe Area Goražde" sem báðar fjalla um fólk sem býr á átakasvæðum. "Palestine" fjallar um líf fólks sem býr á Heimastjórnarsvæðum Palestínumanna og átökin á milli Ísraela og Palestínumanna. Sacco dvaldi mánuðum saman bæði á Gasaströndinni og á Vesturbakkanum í upphafi tíunda áratugarins til að viða að sér efni fyrir bókina "Safe Area Goražde" fjallar um fólk sem býr í bosníska bænum Goražde á tímum Bosníustríðsins. Sacco ferðaðist til Bosníu árið 1996 þegar stríðinu var lokið og dvaldi í Goražde í fimm mánuði til þess að taka viðtöl við íbúa bæjarins og skrásetja sögur þeirra. Meðal áhrifavalda Saccos má telja Robert Crumb, Pieter Brueghel eldri, George Orwell, Michael Herr og Hunter S. Thompson. American Gothic. "American Gothic" eftir Grant Wood. American Gothic er málverk eftir Bandaríkjamanninn Grant Wood málað árið 1930. Málverkið er eitt þekktasta bandaríska málverk 20. aldarinnar. Málverkið er gott dæmi um Regionalisma eða átthagaást en það var hreyfing sem setti sig á móti abstrakt í listum og vildi frekar leggja áherslu á sérkenni, siði og venjur tiltekinna landshluta. Málverkið er af bónda og dóttur hans sem eru ógift. Fyrirsæturnar á myndinni eru tannlæknir listamannsins og systir hans. Konan er klædd í svuntu með mynstri sem táknar nýlendutíma Bandaríkjana og þau eru í venjubundnum hlutverkum karls og konu. Gafall mansins táknar erfiðisvinnu og blómin fyrir aftan konuna benda til heimilislífs. Húsið er til í raun og veru í smábænum Eldon í Iowa. Húsið er byggt í ný gotneskum stíl Gothic Revival. Efri glugginn á húsinu er í gotneskum stíl en uppstilling fyrirsætanna er í norður evrópskum endurreisnarstíl (Northern Renaissance). Þegar málverkið var frumsýnt árið 1930 í Listasafni Chicago varð það strax umtalað og vann til þriðju verðlauna og 300 dollara. Grant Wood fékk mikla umfjöllun viðsvegar í landi sínu. Parodía. Málverkið er hluti af poppmenningu Bandaríkjana og hefur verkið verið notað sem parodía lengi. Einnig hefur verkið verið notað hér af þeim Tvíhöfðabræðrum, Sigurjóni Kjartanssýni og Jóni Gnarr. Kosningakerfi. Kosningakerfi samanstendur af reglum sem skilgreina hvernig kjósendur geta kosið á milli tveggja eða fleiri valkosta. Kosningar eru notaðar víða til að velja þingmenn á löggjafarþing en þær eru einnig notaðar með mun hversdaglegri hætti, óformlega milli fólks. Kosningar eru taldar lýðræðislegar samanborið við stigveldisskipulag, valdboðsstefnu eða samróma ákvörðunartöku. Kosningakerfi ákvarða þannig hvernig kjósa eigi og hvernig telja eigi atkvæðin. Fjölmörg kosningakerfi hafa verið hönnuð, sem dæmi um þekkt kosningakerfi má nefna hreinan meirihluta, hlutfallskosningu og einfaldan meirihluta sem gæti falist í raðaðri kosningu. Bersi goðlaus Bálkason. Bersi Bálkason goðlaus var landnámsmaður sem byggði fyrstur Langavatndal í Mýrasýslu. Í Landnámabók segir að hann hafi fyrst búið á Bersastöðum (Bessastöðum) í Hrútafirði, en hann var sonur Bálka Blængssonar, sem nam Hrútafjörð allan. Síðan flutti hann sig um set og nam Langavatnsdal. Í Hauksbók Landnámu segir að landnámsjöðr hans hafi heitið Torfhvalastaðir. Sagnir eru um byggð og jafnvel kirkjustað í dalnum fyrr á öldum en hann hefur þó yfirleitt legið í eyði. Kona Bersa er sögð hafa verið dóttir Þórhadds landnámsmanns Hítardal en sonur þeirra var Arngeirr faðir Bjarnar Hítdælakappa sem saga er um. Sorturák. Sorturák (latína "līnea nigra" eða „svarta línan“) kallast dökk eða brúnleit rák sem sést á maga margra óléttra kvenna. Rákin liggur lóðrétt frá klyftabeininu ("os pubis", einnig lífbein) upp kvið þeirra og að flagbrjóskinu. Rákinni veldur oflitunen sem orsakast af aukinni framleiðslu á litkorninu melanín (sem nefnist einnig sortuefni). Talið er að estrógen orsaki þessa auknu framleiðslu sortuefnis, en sú aukna framleiðsla veldur einnig dökknun vörtubauganna. Tenzin Gyatso. Jetsun Jamphel Ngawang Lobsang Yeshe Tenzin Gyatso, upphaflega nefndur "Lhamo Dhondrub" (fæddur 6. júlí 1935 í þorpinu Taktser, Amdo-héraði í þáverandi norðaustur Tíbet (nú hluti af héraðinu Qinghai í Kína)), betur þekktur sem fjórtándi og núverandi Dalai Lama, er aðalleiðtogi tíbetskra búddista og forsvarsmaður tíbetsku útlagastjórnarinnar í Dharamsala. Hann hlaut Friðarverðlaun Nóbels 1989. Æskuár og afhjúpun sem Dalai Lama. Tenzin Gyatso var nefndur "Lhamo Dhondrub" af foreldrum sínum í þorpinu Taktser í tíbetska héraðinu Amdo. Hann var fimmta barnið af 16 hjá fátækri bóndafjölskyldu. Samkvæmt spádómi átti þrettándi Dalai Lama endurfæðast í austurhluta Tíbet, tíbetska ríkisstjórnin sendi þess vegna hóp munka og ríkisstarfsmanna dulbúna sem kaupmenn til Amdo-héraðsins til að leita uppi hin endurholdgaða Dalai Lama.Þar var gerður listi yfir mögulega einstaklinga og seinnipart vetrar 1937 komu sendimenn í það hús í þorpinu Taktser, þar sem fjölskylda Lhamo Dhondrub bjó, hann var þá tveggja ára. Þegar einn af hinum dulbúnu munkum spurði drenginn hvort hann gæti giskað á hvað hann héti svaraði drengurinn ekki einungis hárrétt heldur bætti við hvaða klaustri munkurinn tilheyrði. Lhamo Dhondrub var þá settur í margfaldar rannsóknir og var þá helst að hann var látinn velja hluti sem höfðu tilheyrt hinum þrettánda Dalai Lama meðal fjölmargra svipaðra hluti. Án þess að hika valdi Lhamo Dhonrub alla réttu hlutina. Drengurinn var einnig skoðaður í bak og fyrir og þótti hafa ýmis sömu líkamseinkenni og forverinn, þótti þar með sannað að hér væri Dalai Lama endurborinn. Tveggja ára sem úrskurðaður endurborinn Thubten Gyatso, hinn þrettándi Dalai Laman, var drengnum gefin nöfnin "Jetsun Jamphel Ngawang Lobsang Yeshe Tenzin Gyatso" ("Heilagur herra, mildi heiður, miskunnsami, verndari trúarinna, haf visku"). Tíbetanar nefna hann iðulega "Kundun" (སྐུ་མདུན་) - Nærverandi. Nokkur systkini hans voru seinna fundin vera endurfæddir lamar, meðal annarra eldri bróðir hans Thubten Jigme Norbu. Á þessum tíma var Amdo-héraðið undir stjórn herforingjans Ma Bufang, munkarnir þurftu þess vegna að fá leyfi hjá honum til að taka Lhamo Dhondrub með sér til Lhasa. Þeir neyddust til að borga hundruð þúsunda silfurdollara í lausnargjald og héldu síðan með drenginn til Lhasa 1939 þar sem hann hóf nám í búddískum fræðum. Megnið af fjölskyldu Lhamo Dhondrubs fluttu síðar til borgarinnar. Leiðtogi Tíbet. Fimmtán ára gamall, 17. nóvember 1950, var hann formlega gerður að þjóðhöfðingja Tíbets. Hersveitir úr kínverska Frelsisher alþýðunnar voru þá þegar búnar að hertaka hluta af Tíbet og ríkisstjórn Dalai Lama neyddist, 1951, til að skrifa undir samning sem viðurkenndi yfirráðarétt Kína yfir Tíbet en þar sem kínverska ríkisstjórnin lofaði samtímis að stjórn Dalai Lama sæti áfram að völdum í landinu. Dalai Lama ásamt Chökyi Gyaltsen þáverandi Pantsen Lama var boðið til Peking 1954 af kínversku ríkisstjórninni til að taka þátt í fyrsta Alþýðuþingi Kína. Þar hitti hann ýmsa helstu leiðtoga kínverskra kommúnista, meðal annars Mao Zedong, Zhou Enlai og Chen Yi. Meðan á heimsókninni stóð sótti Tenzin Gyatso um að fá að ganga í Kommúnistaflokk Kína en var hafnað. Árið 1956 bauð búddistasöfnuður á Indlandi þeim Dalai Lama og Panchen Lama í ferð til Indlands til að halda upp á "Buddha Jayanti", 2500 ára fæðingarhátíð Gátama Búdda. Kínversk yfirvöld gáfu Dalai Lama eftir miklar vangaveltur leyfi til að fara í þessa ferð. Í þessari ferð fór hann á ýmsa helga staði á Indlandi og kynntist meðan annar hugmyndum Mahatma Gandhi um friðsamlega baráttu. Óánægja Tíbeta með aðgerðir kínverskra yfirvalda fór vaxandi og leiddi víða til skæruhernaðar og fjöldi flóttamanna leituðu til Lhasa. Dalai Lama gerði ítrekaðar tilraunir á næstu árum til málamiðlana en þegar almenn uppreisn braust út í Tíbet í mars 1959 neyddist hann til að flýja til Indlands. Kínverska ríkisstjórnin lítur á Tíbet sem óaðskiljanlegan hluta Kína en flestir Tíbetar líta enn á Dalai Lama sem leiðtoga sinn. Í útlegð. Tenzin Gyatso á ítalíu (2007) Indverska ríkisstjórnin tók á móti Dalai Lama og gaf honum leyfi að setja upp útlagastjórn í Dharamsala. Þaðan hefur hann haldið áfram friðsamlegri baráttu fyrir sjálfstæði Tíbet. Hann hefur meðal annars farið í fjölda ferða til annarra landa, einnig til Íslands, til að fá stuðning. Dalai Lama hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til friðar, samanlagt um 80 viðurkenningar. Dalai Lama fékk Friðarverðlaun Nóbels 1989 fyrir friðsamlega baráttu fyrri sjálfstæði Tíbet. Skuldbindingar. Dalai Lama hefur þrjár skuldbindingar í lífinu. Dalai Lama býr í einföldum híbýlum í þorpinu McLeod Ganj sem er staðsett í tæplega 2000 metra hæð í Himalajafjöllunum í norðvesturhluta Indlands. Dalai Lama á Íslandi. Dalai Lama kom til Íslands 2009 og dvaldi þar í þrjá daga og hélt fyrirlestur í Laugardalshöll. Hann kom þann 31. maí 2009 og fór af landi 3. júní 2009. Hann tók þátt í samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju þar sem fulltrúar allra stærstu trúfélaga landsins voru saman komnir. Hann fór einnig í heimsókn í Háskóla Íslands og tók þátt í pallborðsumræðum ásamt prófessorum af hugvísindasviði. Hann heimsótti líka Alþingi og sat á fund með utanríkismálanefnd Alþingis og ræddu um málefni Tíbets, umhverfis- og mannréttindamál. Þann 2. júlí 2009 hélt hann fyrirlestur um lífsgildi, viðhorf og lífshamingju og svaraði spurningum áhorfenda í Laugardalshöll. Dalai Lama var mjög snortinn eftir heimsóknina til Íslands og þakkaði fyrir góðar móttökur. Cree. Cree er heiti yfir fjölda nátengdra algonkískra mállýskna sem talaðar eru í Kanada af um það bil 117,000 manns allt frá norð-vestur hluta landsins að Labrador í austri en Cree er þar með mest talað allra frumbyggjatungumála í Kanada. Þrátt fyrir fjölda talenda á stóru og dreyfðu svæði er Cree aðeins opinbert tungumál í norð-vestur hlutanum ásamt átta örðum frumtungumálum. Cree mállýskur fyrir utan þær sem talaðar eru í austur hluta Quebec og Labrador eru eftir hefð skrifaðar með Cree atkvæðastafrófinu sem er frábrugðið Kanadíska frumbyggjaatkvæðastafrófinu en það er einnig hægt að rita þær með latneska stafrófinu. Eystri mállýskurnar eru ritaðar eingöngu með latneska stafrófinu. Cree hefur 5 mismunandi mállýskur. Tungumálið á sér langa sögu og ritmál þess á uppruna sinn til ársins 1840. Samhljóðar í tungumálinu voru þróaðir af James Evans og eru níu talsins. Mongólskt ritmál. Hefðbundna mongólska ritmálið var það fyrsta af mörgum sem hönnuð voru fyrir mongólska tungu. Það var vinsælasta ritmálið þar til kýrillíska stafrófið kom til sögunnar. Með minniháttar breytingum, er hið hefðbundna lóðrétta ritmál notað enn í dag í Innri-Mongólíu til þess að skrifa bæði mongólsku og Evenki mál sem talað er í Kína. Saga. Mongólska ritmálið þróaðist þegar svokallað Uyghur ritmál var aðlagað að mongólskri tungu. Það var maður að nafni Tatar-Tonga, Uyghur ritari, sem kynnti ritmálið en hann var fangi í haldi Mongóla í kjölfar stríðs í kringum árið 1204. Í upphafi voru afar litlar breytingar gerðar frá Uyghur stafrófinu yfir í það mongólska en það olli vandamálum, sem dæmi var eitt rittákn notað fyrir tvö ólík hljóð í málinu og erfitt að skilja á milli, einnig vantaði tákn fyrir sum hljóð. Gallarnir voru síðar lagfærðir með smávægilegum breytingum á 17., 18., og 19. öld. Frá 13. öld og fram á þá 15. var mongólska einnig skrifuð með kínverskum táknum, arabíska stafrófinu og letri sem kallast Phags-pa en það var tekið úr tíbetsku. Vegna mikils þrýstings frá Sovétríkjunum var latneska stafrófið tekið til notkunar í Mongólíu árið 1931 og árið 1937 var svo skipt yfir í lkýrillíska. Mongólska ríkisstjórnin gekk svo langt að setja lög um upprætingu hins hefðbundna ritmáls árið 1941 en síðan 1994 hefur hún reynt að endurvekja það. Hefðbundna ritmálið er skrifað lóðrétt. Uyghur og afkomendur þess; mongólska, Oirat Clear, Manchu og Buryat, eru einu lóðréttu ritmálin sem skrifuð eru frá vinstri til hægri. Bókstafir. Bókstafir hafa þrennskonar mismunandi lögun eftir því hvar þeir standa í orði, sem upphafsstafur, inní orði eða síðasti stafur. Í sumum tilfellum eru til fleiri útgáfur af stöfum sem eru notaðar til þess að skapa betri sjónrænan samhljóm með næsta bókstaf á eftir. Mongólska í Unicode. Staðsetning mongólsku í Unicode kerfinu er U+1800 - U+18AF. Þar eru bókstafir, tölustafir og ýmis greinamerki mongólsku, Todo ritmáls, Xibe og Manchu. Vandamál. Þó svo mongólskt ritmál hafi verið til í Unicode kerfinu síðan 1999 studdi enginn af helstu hugbúnaðar/stýrikerfaframleiðendum ritmálið þar til árið 2007, þegar Windows Vista kom út og hefur það því ekki hlotið mikla útbreiðslu. Eftir að mögulegt varð velja mongólskt letur og lyklaborðsskipan í Windows Vista hafa vinsældir letursins farið vaxandi en flókin framsetning Unicode mongólsku er enn steinn í vegi útbreiðslu hennar. Benedikt Þorsteinsson (lögmaður). Benedikt Þorsteinsson (12. júlí 1688 – 1733) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 18. öld. Hann bjó í Rauðuskriðu í Reykjadal. Foreldrar Benedikts voru Þorsteinn Benediktsson sýslumaður í Bólstaðarhlíð í Húnaþingi og kona hans Halldóra Erlendsdóttir. Benedikt var við nám í Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1707-1708 en þá kom hann heim og varð sýslumaður í Þingeyjarsýslu tvítugur að aldri. Því embætti gegndi hann allt til dauðadags. Þegar Oddur Sigurðsson lögmaður kom ekki til þings 1716 var Benedikt skipaður til að sitja í lögmannssæti og árið eftir varð hann varalögmaður norðan og vestan. Oddur var settur af embætti 1726 og varð Benedikt þá lögmaður en hafði þó ekki nema hálf laun fyrr en búið var að dæma í máli Odds í hæstarétti. Benedikt var veikur vorið 1733, treysti sér ekki til að ríða til þings og bað Magnús Gíslason lögmann að gegna störfum fyrir sig á þinginu. Hann dó svo sama ár. Árið 1726 fékk Benedikt leyfi hjá konungi til að mega reisa kirkju í Rauðuskriðu á eigin kostnað, en þar hafði áður verið kirkja en var löngu aflögð. Honum entist þó ekki aldur til og lauk Jón sonur hans verkinu. Kona Benedikts var Þórunn Björnsdóttir (1690 – 28. janúar 1748), dóttir Björns Péturssonar sýslumanns á Bustarfelli í Vopnafirði og Guðrúnar Marteinsdóttur konu hans. Alexander Christian Smith. Alexander Christian Smith var lögmaður norðan og vestan á Íslandi á 18. öld. Hann sat á Bessastöðum. Hann hafði verið átta ár í þjónustu hjá sendiherrum Dana í París og kynntist þar Lafrentz amtmanni. Þegar hann sótti um lögmannsembætti á Íslandi 1734 lagði hann fram vitnisburð frá Lafrentz um að hann þekkti lög og rétt, kynni tungu landsmanna og hefði ætíð verið guðhræddur og skikkanlegur maður. Smith var veitt embættið 26. mars 1734 og kom hann til landsins um vorið og var á Alþingi það ár og næsta. Hann fór svo utan og sagði af sér embætti í apríl 1736. Það ár gegndi Magnús Gíslason lögmannsembættinu um allt land. Um embættisferil Smiths segir Jón Sigurðsson: „Smith lögmaðr sýndi enga framkvæmd í lögmennsku sinni; hann dæmdi einsamall einn dóm á Íslandi, sem um er getið; ekki tók hann heldr neinn þátt í lögbókarstörfum. Þegar hann kom til Danmerkr varð hann umsjónarmaðr á Hlöðugarðinum hjá Kaupmannahöfn.“ Ítalíuskrift. Ítalíuskrift er skriftarstíll sem var fundinn upp af Niccolò Niccoli (1364 – 1437) á 15. öld. Saga. Niccolò Niccoli var fræðimaður við Medicihirðina í Flórens, hann var mjög góður skrifari og afritaði og las forn handrit, fór yfir texta og leiðrétti þá, kaflaskipti þeim og gerði efnisyfirlit. Ítalíuskrift er næstum eins og mercantesa, fljótaskrift (gotneskri skjalahönd) frá lok miðalda og hefur líklegast rætur sínar að rekja þaðan, hástafir hennar er sóttir frá Rómaveldi til forna og nokkrir stafir eru sóttir í karlungaletur. Ítalíuskrift er handskrift, einkenni hennar eru meðal annars að hún er tengiskrift, hún hallast oft um nokkrar gráður (7-8), hún er hærri en hún er breiðari (í hlutföllum 3:4) og hún er stundum með skrautdráttum. Kennsla ítalíuskriftar á Íslandi. Árið 1985 stofnuðu hópur af kennurum leiddur af Hildu Torfadóttir samtök til að kenna Ítalska handskrift í íslenskum barnaskólum, hópurinn var óánægur með skriftina sem var þá kennd í skólum. Hópurinn bað Gunnlaug Briem að setja saman kennslubók. Bókin var sett saman af Gunnlaugi sem vann verkefnið launalaust. Fyrstu hefti bókarinar voru keypt af kennurunum sjálfum en Menntamálaráðuneytið studdi verkefnið að lokum. Ítalíuskrift var kennd með verkefnabókum, kennarar fengu leiðbeiningarbók. Það voru líka gerð tölvukennsluforrit, glærur og hljóðupptökur til að kenna ítalíuskrift. Kennslan var skipulögð þannig að nemendur lærðu smátt og smátt að beita pennanum til að getað náð vald á stöfunum. Meðal verkefna voru endurtekningar á pennastrokum, teikningar á skrípókörlum og að lokum mótun á stöfunum. Leturflokkar. Letri er hægt að skipta í sex höfuðflokka. Hagræðið við slíka flokkun felst meðal annars í því að það er auðveldara að þekkja letrin og reglur um leturblöndun verða einfaldari. Regensburg. Regensburg er fimmta stærsta borgin í Bæjaralandi í Þýskalandi með 135 þúsund íbúa og er vaxandi. Regensburg er helst þekkt fyrir iðnað (bílaverksmiðjur, rafeindatækni), en einnig fyrir Walhalla, þekktustu frægðarhöll Þýskalands. Miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO. Orðsifjar. Miðborg Regensburg. Péturskirkjan er mjög áberandi. Í forgrunni er Dóná og gamla steinbrúin. Regensburg hét áður "Reginesburg" og er dregið af latneska heitinu Castra Regina, sem merkir "Herstöð drottingar" hjá Rómverjum. Þaðan fær einnig áin Regen nafn sitt. Um stutta stund var rómverska borgin einnig kölluð Ymbripolis, sem merkir "Regnborgin" (ymbria = regn, polis = borg). Í beinni þýðingu er það Regensburg á þýsku. Lega. Regensburg liggur við Dóná í héraðinu Oberpfalz, sem er nokkuð miðsvæðis í Bæjaralandi. Næstu borgir eru Ingolstadt fyrir suðvestan (50 km), Nürnberg fyrir norðvestan (70 km) og München fyrir sunnan (80 km). Borgin stendur við samflæði Dónár, Naab og Regen, einmitt á þeim punkti sem Dóná nær allra nyrst í rennsli sínu í Evrópu. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Regensburg er tveir hvítir lyklar í kross á rauðum skildi. Lyklarnir vísa til lykla Péturs postula, en hann er verndardýrlingur Regensburg. Lyklarnir koma fyrst fyrir 1395. Rauður og hvítur eru litir borgarinnar. Söguágrip. Gamall rómverskur varðturn innbyggður í nútímahús Borgin á uppruna sinn í rómversku hervirki sem reist var 79 e.Kr. að tilstuðlan Markúsar Árelíusar keisara. Reyndar mun keltneskt þorp hafa verið þar í grennd sem hét Ratisbona. Virkið var við norðurlandamæri Rómaríkis og átti að vakta samflæði ánna í Dóná. Rómverjar yfirgáfu staðinn ca. árið 400 og fluttu þá bæjarar þangað. Á 13. öld var Regensburg með stærri og ríkari borgum þýska ríkisins vegna verslunar. Frá þessum tíma (og næstu aldir) voru miklar byggingar reistar í borginni. 1542 ákvað borgarráðið að taka siðaskiptum og hafna kaþólskri trú. Það hindraði þó ekki keisarana til að halda ríkisþing í borginni frá og með 1594. Í 30 ára stríðinu var borgin hertekin af Svíum, en jafnharðan frelsuð af keisaraher. 1803 fór síðasta ríkisþingið fram í borginni. Í því var þýska ríkið lagt niður. Í stríðinu gegn Napoleon 1809 settist austurrískur her að í Regensburg, en Napoleon sjálfur lét skjóta á borgina í þrjá daga samfleytt og hertók hana síðan. Í því ferli særðist hann og var það eina sárið sem Napoleon hlaut á öllum sínum herstjórnarferli. Í kjölfarið var Regensburg sameinuð Bæjaralandi. Í heimstyrjöldinni síðari var stór hluti borgarinnar eyðilagður í loftárásum, aðallega Messerschmidt flugvélaverksmiðjurnar. Miðborgin slapp hins vegar nær alveg. Í stríðslok var borgin hertekin af bandarískum her. Eftir stríð óx borgin á ný, enda blómlegur iðnaður þar vegna hafnarinnar í ánni Dóná. 2006 var miðborgin sett á heimsminjaskrá UNESCO. Íþróttir. Maraþonhlaup (og hálfmaraþon) er þreytt sunnudag eftir uppstigningardag. Í ágúst fer fram þríþraut og einnig hin nátengda aflraunakeppni járnmaðurinn (Ironman Regensburg). Arberradmarathon er heiti á hjólreiðakeppni sem fram fer í júlí. Þátttakendur eru 6.000 og eru hjólaðir 250 km til fjallanna Bayerischer Wald. Þar heitir hæsti tindurinn Arber og þaðan er nafnið dregið. Byggingar og kennileiti. Ostentor er gamalt borgarhlið frá miðöldum Hrosskell Þorsteinsson. Hrosskell Þorsteinsson var landnámsmaður í Hvítársíðu í Borgarfirði og bjó á Hallkelsstöðum. Samkvæmt Landnámabók var Hrosskell sonur Þorsteinsson Þrándarsonar nefju en móðir hans var Lofthæna dóttir Arinbjarnar hersis úr Fjörðum og Ástríðar slækidrengs, dóttur Braga skálds og Lofthænu Erpsdóttur konu hans. Hrosskell fór til Íslands, lenti skipi sínu í Grunnafirði og bjó fyrst á Akranesi en Ketill og Þormóður gamli Bresasynir hröktu hann burt þaðan. Þá fór hann upp í Hvítársíðu og nam þar land milli Kjarrár og Fljóta. Hann gaf land Þorgauti skipverja sínum og Þorvarði. Kona hans var Jóreiður, dóttir Ölvis sonar Möttuls Finnakonungs. Sonur þeirra hét Hallkell og bjó hann eftir föður sinn á Hallkelsstöðum. Manuel Castells. Manuel Castells (f. 1942) er spænskur félagsfræðingur. Hann hefur sérstaklega rannsakað upplýsingasamfélagið og samskipti. Castells er alinn upp í Barcelona en þar tók hann þátt í stjórnmálastarfi og varð vegna þess að flýja til Frakklands. Hann tók fyrsta háskólapróf tvítugur að aldri en lauk síðan doktorsprófi í félagsfræði frá Parísarháskóla og varð kennari við þann skóla 1967 - 1979. Árið 1979 varð hann prófessor í félagsfræði og borgarskipulagi við Berkeley háskólann í Kaliforníu. Árið 2001 var hann rannsóknarprófessor við UOC í Barcelona. Árið 2003 fór hann til University of Southern California (USC) Annenberg School for Communication. Castell þróaði áfram það afbrigði af marxískri borgarfélagsfræði sem leggur áherslu á þátt félagshreyfinga í að breyta borgum. Hann var þar undir áhrifum frá Alain Touraine. Castell gaf út mikið verk í þremur bindum og var fyrsta bindið "The Rise of the Network Society" (1996) en síðar komu út ritin "The Power of Identity" (1997) og "End of Millennium" (1998). Castells, Manuel Mo-Do. Er ítalskur söngvari sem ber nafnið Fabio Frittelli, en hann er allra helst þekktur fyrir slagarann Eins, Zwei, Polizei sem gerði allt vitlaust í þýskumælandi löndum í kringum 1990 en einnig hefur hann gert lög eins og Super Gut og Gema Tanzen, þótt að hann sé ítalskur er öll lögin hans á þýsku. David Seaman. David Andrew Seaman MBE, stundum nefndur „Safe Hands“, (fæddur 19. september 1963 í Rotherham, South Yorkshire) er enskur fyrrverandi knattspyrnumarkvörður sem spilaði fyrir nokkur lið, ekki síst Arsenal og nú síðast með Manchester City. Hann lagði hanskana á hilluna 13. janúar 2004 eftir farsælan feril. Hann var þekktur fyrir síða taglið og afar þykkt yfirvaraskegg. Seaman, David Andrew USC Annenberg School for Communication. Annenberg bygging á horni við Founder's Park Inngangur að Annenberg School for Communication USC Annenberg School for Communication & Journalism er háskólastofnun við University of Southern California sem sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum í samskiptum og fjölmiðlun. USC Annenberg var sett á stofn árið 1971. Félagsfræðingurinn Manuel Castells hefur starfað við skólann frá árinu 2003. í október 2009 breyttist nafn skólans úr "Annenberg School for Communication" í "Annenberg School for Communication & Journalism." Alain Touraine. Alain Touraine (f. 3. ágúst 1925) er franskur félagsfræðingur. Hann er þekktur fyrir félagsfræði athafna eða "sociology of action". Touraine skiptir fræðaferli sínum í þrjú tímabil. Í fyrstu fjallaði hann um félagsfræði vinnunnar og skrifaði bók hans um síðiðnaðarsamfélagið (The Post-Industrial Society, 1971). Um og upp úr 1968 þróaði hann aðferð í félagsfræði sem byggir á þátttöku félagsfræðinga í þjóðfélagshræringum og dvaldi í Chile og Póllandi. Touraine hefur skrifað mikil um möguleg áhrif hnattvæðingar. Hann hefur þróað hugtök til að reyna að skilja samfélagsbreytingar og þróun lýðræðis. Eitt meginhugtak hans er "sjálfsveran" (the subject) sem verður til þegar einstaklingurinn skilgreinir sjálfan sig í samfélagsbaráttunni. Kenningar Touraine njóta vinsælda í Suður-Ameríku og á meginlandi Evrópu en hann er minna þekktur í hinum enskumælandi heimi. Walhalla. Walhalla er þekktasta frægðarhöll Þýskalands Walhalla er þekktasta frægðarhöll Þýskalands og stendur við borgina Regensburg í Bæjaralandi. Þar eru fjölmargir Þjóðverjar heiðraðir með brjóstmyndum og minnistöflum. Saga Walhalla. Það var Lúðvík, krónprins Bæjaralands, sem fékk hugmyndina að því að reisa frægðarhöll fyrir Þjóðverja (fólk þýskrar tungu) árið 1807. Bæjaraland var þá nýorðið að konungsríki. Lúðvík þótti miður að þýska ríkið hafði verið lagt niður og að Napoleon skuli hafa svo mikil áhrif á þýsku löndin. Lúðvík gerði lista yfir 50 nafntogaða einstaklinga sem skarað hafa framúr og lét gera brjóstmyndir af þeim. En bygging frægðarhallarinnar dróst í áratugi. 1823 var Lúðvík krýndur konungur og komst þá hreyfing á málið. Saman með byggingameistaranum Leo von Klenze varð hæð ein við Regensburg fyrir valinu. Framkvæmdir hófust 1830 og var frægðarhöllin vígð af Lúðvík sjálfum 1842. Frægðarhöllin er í formi grísks musteris. Það er 20 metra hátt og 66 metra langt. Stallurinn er 125 metra langur. Það var von Klenze sem stakk upp á heitinu Walhalla, en það er komið úr norrænni goðafræði (Valhöll), bústaður Óðins. Þekktir einstaklingar. Frægir Þjóðverjar heiðraðir. Fremst er Sophie Scholl andspyrnukona Við opnun frægðarhallarinnar voru 96 brjóstmyndir komnar upp, en skömmu síðar voru þær orðnar 160. Í dag eru 192 Þjóðverjar heiðraðir, annað hvort með brjóstmynd eða með minnistöflu. Meðal þekkra einstaklinga í stafrófsröð eru: Konrad Adenauer, Johann Sebastian Bach, Ludwig van Beethoven, Otto von Bismarck, Albrecht Dürer, Albert Einstein, Friðrik Barbarossa keisari, Jakob Fugger, Johannes Gutenberg, Goethe, Georg Friedrich Händel, Joseph Haydn, Immanuel Kant, Karl V. keisari, Johannes Kepler, Nikolaus Kópernikus, Marteinn Lúther, Wolfgang Amadeus Mozart, Wilhelm Conrad Röntgen, Peter Paul Rubens, Franz Schubert, Richard Wagner, Albrecht von Wallenstein og marga fleiri. Konur. Aðeins 12 persónur sem heiðraðar eru í Walhalla eru konur. Þeirra á meðal eru: Amalía greifaynja af Hessen-Kassel, Edith Stein nunna og heimspekingur, Karolina Gerhardinger nunna, Katrín II keisaraynja í Rússlandi (þýsk að uppruna), María Teresa keisaraynja í Austurríki og Sophie Scholl andspyrnukona gegn nasisma. Norðurlandaráðsþing. Norðurlandaráðsþing er þing sem Norðurlandaráð heldur á hverju hausti. Þingmenn frá Norðurlöndunum koma þar saman og ræða hluti er varða norrænt samstarf á einn eða annan hátt. Fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna eru einnig viðstaddir ásamt ráðherrum frá Eystrasaltslöndunum. Fulltrúar frá Norðvestur-Rússlandi hafa einnig sótt samkomuna. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð skiptast á að halda Norðurlandaráðsþing. Þingstaðurinn er þjóðþing viðkomandi lands, nema á Íslandi þar sem þingsalur Alþingis er ekki nógu stór til að hýsa samkomuna. Á þinginu eru forseti og varaforseti Norðurlandaráðs kosnir til eins árs í senn. Verðlaun Norðurlandaráðs eru afhent á meðan þingið stendur yfir. Hans Becker. Hans Becker (d. 3. mars 1746) var danskur maður sem varð lögmaður á Íslandi en hafði áður verið skrifari og aðstoðarmaður Árna Magnússonar. Becker kom með Árna til Íslands, ferðaðist um landið með honum í fjögur ár þegar Árni var við gerð jarðabókarinnar og lærði íslensku nægilega vel til að þýða íslenskar guðsorðabækur á dönsku. Hann varð seinna timburkaupmaður í Danmörku og þegar hús Árna brann í eldsvoðanum í Kaupmannahöfn 1728 kom Árni þeim hluta bókasafnsins sem bjargaðist í geymslu hjá Becker. Becker hélt vinskap við Árna og fleiri Íslendinga, hafði áhuga á landinu og skrifaði meðal annars bækling árið 1736, sem ekki var þó prentaður fyrr en löngu síðar, þar sem hann lagði fram ýmsar tillögur sem hann taldi að gætu orðið til framfara. Meðal annars vildi hann fækka kaupstöðum í fimm og efla þá síðan og styrkja þar með þéttbýlismyndun. Hann lagði til að Hafnarfjörður yrði höfuðstaður landsins og aðsetur helstu embættismanna. Einnig vildi hann koma á akuryrkju og trjárækt, múrsteinsgerð og kalkbrennslu. Árið 1737 sótti Hans Becker um lögmannsembætti norðan lands og vestan og fékk það. Hann kom til landsins um vorið og var á Alþingi, fór svo út um haustið og sótti fjölskyldu sína og kom aftur næsta vor. Hann stóð fyrir því að láta byggja lögréttuhús úr timbri á Þingvöllum en þar hafði ekkert slíkt hús verið. Þrátt fyrir einlægan Íslandsáhuga varð Becker ekki tilþrifamikill lögmaður, enda farinn að eldast og heilsan ekki góð. Hann fékk aðstoðarmann 1741, Orm Daðason sýslumann, sem var frændi Árna Magnússonar og hafði verið skrifari hjá honum eins og Becker, og gengdi hann lögmannsstarfinu á Alþingi þá um sumarið og einnig næsta sumar þótt þá væri búið að skipa Svein Sölvason varalögmann, en hvorugur þeirra Beckers kom til þings. Árið 1743 gegndu Ormur og Sveinn báðir lögmannsstörfum norðan og vestan á Alþingi en síðan var ákveðið að Sveinn skyldi gegna lögmannsstarfinu í forföllum Beckers. Hann tók líka við þegar Becker dó 1746. Becker bjó síðustu árin í Brokey og dó þar. Verðlaun Norðurlandaráðs. Verðlaun Norðurlandaráðs eru veitt af Norðurlandaráði ár hvert. Verðlaunin eru afhent á Norðurlandaráðsþingi. Verðlaunin eru kennd við ráðið og eru veitt fyrir bókmenntir, tónlist, kvikmyndir, barna- og unglingabókmenntir og náttúru- og umhverfisstarf. Hvert Norðurland sér um tilefningar til verðlaunanna og sérstakar dómnefndir, skipaðar fulltrúum frá Norðurlöndunum, velja svo vinningshafa. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur í hverjum flokki fyrir sig. Menningarkimi. Menningarkimi er hópur fólks innan ákveðins samfélags sem sker sig úr með klæðaburði, háttalagi, tungumáli og/eða öðru. Péturskirkjan í Regensburg. Péturskirkjan er dómkirkjan í Regensburg Péturskirkjan í Regensburg (þýska: "Der Regensburger Dom" eða "Kathedrale St. Peter") er dómkirkja borgarinnar Regensburg í Þýskalandi og helsta kennileiti borgarinnar. Saga Péturskirkjunnar. Fyrirrennari Péturskirkjunnar var reistur um 700 og þar hvíldi heilagur Erhard. Annar fyrirrennari var reistur í kringum aldamótin 800, en hann brann fyrst 1156 og síðan 1172. Framkvæmdir við núverandi kirkju hófust 1237 og var hún í smíðum allar götur til 1520, með hléum. Eftir það voru gerðar breytingar á henni þannig að hún fékk gotneskan stíl, að tilskipan Lúðvíks I konungs Bæjaralands. Á árunum 1859-69 voru turnarnir hækkaðir og eru þeir nú 105 metra háir. Þar með er Péturskirkjan hæsta bygging Regensburg. Árið 1872 var lokið við aðrar framkvæmdir við kirkjuna og var lýst yfir að hún væri í fyrsta sinn fullkláruð eftir 600 ára byggingatíma. Flestir núverandi gluggar eru frá 13. og 14. öld. Í grafhvelfingu hvíla margir biskupar sem þjónað hafa í borginni. 2006 sótti Benedikt XVI páfi kirkjuna heim. Steinbrúin í Regensburg. Steinbrúin í Regensburg var reist á 12. öld og var eina brúin yfir Dóná í borginni Regensburg í Þýskalandi í 800 ár. Saga brúarinnar. Brückturm er brúarhlið sunnan megin við brúna Steinbrúin var aðeins 11 ár í smíðum, frá 1135-1146, og þótti það ganga með eindæmum hratt fyrir sig. Smíðin þótti einnig afar vönduð og var brúin notuð sem fyrirmynd annarra steinbrúa frá 12. og 13. öld, s.s. brúna yfir Saxelfi í Dresden, brúna yfir Moldau í Prag og brúna yfir Rón í Avignon. Lengd brúarinnar eru 336 metrar. Steinbogarnir eru 14 talsins, en á 17. öld hvarf einn boginn í jarðvegsvinnu. Hann er enn til neðanjarðar. Upphaflega voru tvö brúarhlið við sitthvorn enda brúarinnar og eitt fyrir miðju þar sem brúin hvíldi á lítilli eyju, en í dag stendur bara suðurturninn ("Brückturm"). Loðvík VII, konungur Frakklands, fór yfir brúna árið 1146 í krossferð til landsins helga (2. krossferðin), en það var sama ár og brúin var vígð. 1633 stóð sænskur her við borgardyrnar í 30 ára stríðinu. Borgarbúar tóku þá til bragðs að sprengja brúargólfið milli tveggja steinboga til að hindra að Svíar kæmust yfir. Það kom þó ekki að sök, því Svíar hertóku borgina þrátt fyrir það. Eftir stríðið var bráðabirgðabrú úr viði sett yfir gatið og var það í notkun allt til 1790-91 er nýtt steingólf var lagt á aftur. 23. apríl 1945 sprengdu nasistar brúna á nýjan leik á tveimur mismunandi stöðum til að hindra að bandarískur her kæmist yfir. Þær skemmdir voru ekki lagfærðar fyrr en 1967. Ástand í dag. Brúin er komin vel til ára sinna. Hún var opin allri umferð í gegnum aldirnar, þ.á.m. bílaumferð og um tíma gengu sporvagnar yfir brúna. Sprovagnarnir hafa verið fjarlægðir og í upphafi nýs árþúsunds var bílaumferð um hana bönnuð. Aðeins strætisvagnar og leigubílar fengu að fara yfir. 2008 var allri umferð um brúna bönnuð og er hún nú eingöngu opin fyrir gangandi vegfarendur. Þjóðsaga. Þegar brúin var í smíðum á 12. öld ákváðu byggingameistari brúarinnar og byggingameistari Péturskirkjunnar að veðja um það hver þeirra gæti klárað sína byggingu fyrr. Þegar veðmálið var afráðið þótti byggingameistara brúarinnar brúarsmíðin ganga allt of hægt fyrir sig og óttaðist að tapa veðmálinu. Hann kallaði því á kölska og bað hann um aðstoð. Kölski sagðist aðeins mundu hjálpa til ef hann fengi fyrstu þrjár sálir sem yfir brúna gengju þegar hún væri tilbúinn. Þessu játti brúarsmiðurinn og nú gekk verkið miklu hraðar. Það tók aðeins 11 ár að fullsmíða brúna og þótti mönnum það með ólíkindum. Þegar smíðinni lauk krafðist kölski launa sinna. Byggingameistarinn lét þá hana, hænu og hund ganga fyrst yfir. Yfir þessu reiddist kölski svo að hann lamdi í brúna af öllu afli. Því er brúin enn í dag með hnúð eða upphækkun fyrir miðju. Reyndar er þessi þjóðsaga síðari tíma tilbúningur, enda var brúin þegar tilbúin þegar kirkjusmíðin hófst. Sveinn Sölvason. Sveinn Sölvason (6. september 1722 – 6. ágúst 1782) var íslenskur lögmaður, klausturhaldari og skáld á 18. öld. Hann bjó á Munkaþverá í Eyjafirði. Sveinn var sonur Sölva Tómassonar klausturhaldara á Munkaþverá og konu hans Halldóru Jónsdóttur frá Tungu í Fljótum. Hann fór utan til náms og var skráður í Kaupmannahafnarháskóla haustið 1740. Þann 30. mars 1742 fékk hann konungsbréf fyrir varalögmannsdæmi norðan og vestan, tæplega tvítugur að aldri, og loforð um lögmannsembættið þegar Hans Becker léti af því. Hann gegndi lögmannsstörfunum tvö seinustu starfsár Beckers og tók svo við eftir lát hans 1746. Á lögmannstíma Sveins dró enn úr virðingu og áhrifum Alþingis og til að mynda var lögréttumönnum fækkað, fyrst í 10 og síðan í 5, og dómendum í yfirrétti sem lengst af höfðu verið 24 var fækkað í 12 og síðan í 6. Frá 1756 voru skipaðir varalögmenn með Sveini. Fyrstur var Ólafur Stefánsson, síðar stiftamtmaður. 1764 tók Jón Ólafsson frá Eyri í Seyðisfirði við en hann dó 1778 og ári síðar var Stefán Þórarinsson skipaður varalögmaður. Það ár (1779) var síðasta ár Sveins lögmanns á þingi. Björn Markússon gegndi einn lögmannsstörfum á þinginu 1780 en Stefán varalögmaður 1781 og 1782. Sveinn þótti að mörgu leyti merkismaður, greindur og vel að sér í lögum og skrifaði meðal annars bók um íslensk lög, "Tyro juris" eða "Barn í lögum". Einnig skrifaði hann annálinn "Íslands árbók", sem nær yfir árin 1740-1781, og orti töluvert, bæði rímur, eftirmæli og fleira, meðal annars Rímur af Gissuri jarli Þorvaldssyni, sem prentaðar voru í Leirárgörðum árið 1800. Kona Sveins var Málfríður Jónsdóttir, Jónssonar sýslumanns í Grenivík, og voru þau systkinabörn því Jón sýslumaður var móðurbróðir Sveins. Á meðal barna þeirra voru Jón Sveinsson landlæknir og Jón Sveinsson sýslumaður í Suður-Múlasýslu. Jón Jakobsson sýslumaður á Espihóli skrifaði ævisögu Sveins lögmanns, sem út kom 1791, og nefnist hún "Fáord æruminning at grøf virdugligs og ágæts høfdíngia herra Sveins Sølvasonar: sem var konúngligrar hátignar løgmadr nordan og vestan á Islandi, samt klaustrhaldari at Múnkaþverá". Viðhorf Sveins til íslensku. Sveinn Sölvason hafði sprokverskt viðhorf til íslenskunar, taldi að málið ætti samkvæmt stjórnarfarinu (þáverandi) að draga dám af dönsku og vildi meina að fásinna væri að halda við fornyrðum. Sveinn segir til dæmis svo í formálanum að bók sinni "Tyro juris": „Þar næst meðkenne eg, að hier finnast ógjarnan gömul gullaldarorð, sem nú eru komen úr móð, og að eg þarímót hefe stundum hiálpast við þau orð, sem dregenn eður samsett eru af Dönskunni, hvað eg helld eingen spiöll.... og so sem vor Efne í flestum Greinum dependera af þeim Dönsku; því má þá ecke einnen vort Tungumál vera sömu Forlögum undirorpeð.“ Í tímaritinu Skírni 1908 var vitnað til þessara orða, og tekið svo til orða að þjóðin hafi þegar þetta var glatað trú á mátt sinn og megin, þegar menn höfðu ekki meiri virðingu fyrir móðurmálinu en svo, að bæri vott um þjóðarhnignun. Koppur. Koppur (næturgagn eða náttpottur) er ílát sem minnir á pott og er notað í stað salernis, núorðið aðallega af börnum sem eru ekki nógu stór til að notast við venjulegt salerni. Foreldrar/forráðamenn venja börn sín á að nota kopp og eru notaðar til þess hinar ýmsu aðferðir. Hér áður fyrr var næturgagn eða náttpottur undir rúmum fullorðins fólks, og var notað á nóttunni til að kasta af sér vatni, og var þannig brúkaður til að þurfa ekki að fara út á kamarinn eða ef langt var á salernið í óupphituðum híbýlum. Hugsvinnsmál. Hugsvinnsmál eru frjálsleg forníslensk þýðing á hinu latneska spekiriti "Catonis Disticha" frá þriðju öld. Hið latneska spekirit var skólabók hérlendis frá því á 11. öld og langt fram yfir siðaskipti. Hermann Pálsson hefur bent á hin skýru tengsl Hugsvinnsmála við Hávamál. Stefán Þórarinsson. Stefán Þórarinsson (24. ágúst 1754 – 12. mars 1823) var íslenskur lögmaður og síðar amtmaður, konferensráð og riddari af Dannebrog. Hann var ásamt bræðrum sínum ættfaðir Thorarensen-ættar. a> Amtmann Norðaustur Amts 1786 sem dvaldi að Möðruvöllum í Hörgárdal Stefán var sonur Þórarins Jónssonar sýslumanns á Grund í Eyjafirði, sem var sonur Jóns Jónssonar sýslumanns í Grenivík og var Stefán því bróðursonur Málfríðar konu Sveins Sölvasonar lögmanns. Kona Þórarins og móðir Stefáns var Sigríður Stefánsdóttir, systir Ólafs stiftamtmanns. Þórarinn dó 1767, þegar Stefán var 13 ára, og fór hann þá til Ólafs móðurbróður síns en var í skóla í Skálholti hjá Hannesi Finnssyni. Móðir Stefáns giftist aftur Jóni Jakobssyni sýslumanni á Espihóli og var Jón Espólín sýslumaður og sagnaritari hálfbróðir Stefáns. Stefán fór utan 1770 og naut kennslu hjá Hannesi, sem þá var kominn til Kaupmannahafnar, og ári síðar var hann tekinn í Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk embættisprófi í lögfræði 1777 og fór að vinna í rentukammerinu. 3. febrúar 1779 var hann skipaður varalögmaður en fór þó ekki strax til Íslands, heldur ferðaðist um Noreg til að kynna sér bústjórn og jarðyrkju. Hann tók svo við varalögmannsembættinu 1780. Sveinn lögmaður andaðist 1782 og tók Stefán þá við lögmannsembættinu norðan og vestan. Hann var fyrst á Innrahólmi hjá Ólafi móðurbróður sínum en 1783 fékk hann skipun í amtmannsembættið norðan og austan og því fylgdi Möðruvallaklaustursumboð og bústaður á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann fékk lausn frá lögmannsembættinu 1789 en raunar gegndi Vigfús bróðir hans lögmannsstörfum á þinginu 1786 og 1787 og Magnús Stephensen frændi hans 1788. Stefán var amtmaður í norður- og austurumdæminu til dauðadags 1823 og þótti duglegur og framkvæmdasamur. „Hann hefir haft einna mesta gáfu til allra framkvæmda og ráðdeildar í atvinnu og búskapar efnum af öllum þeim, er voru honum samtíða á Íslandi, og hefir Norðurland borið menjar eftir stjórn hans fram til þessa dags,“ segir Jón Sigurðsson í "Lögsögumannatali og lögréttumanna". Kona Stefáns var Ragnheiður, dóttir Vigfúsar Schevings sýslumanns Skagfirðinga, en móðir hennar var Anna Stefánsdóttir, móðursystir Stefán, og þau hjónin því systrabörn. Tamílskt ritmál. forn tamílsk skrift á steini Tamílska ritmálið (tamílska: தமிழ் அரிச்சுவடி, tamílskt „stafróf“) er ritmál notað til að skrifa tamílsku og einnig önnur minna útbreidd tungumál, svo sem; Badaga, Irulas og Paniya. Einnig notað af Tamílum við ritun á sanskrít. Saga. Tamílska er talin (ásamt fleirum) hafa þróast frá Brahmi. Fyrstu álretranir tamílsku eru frá asókönskum tímum (200-300 f.Kr.). Nútíma tamílska er þó ekki í beinu sambandi við Tamil-Brahmi. Skriftin í þessum áletrunum er almennt þekkt sem Brahmi Tamil eða Tamili skrift og er að mörgu leyti ólík hinni venjulegu Asokan Brahmi. Til dæmis hefur eldri Brahmi Tamil kerfi til að greina á milli hreinna samhljóða ('m' í þessu tilviki) og samhljóða bundnum sérhljóða ('ma' í þessu tilviki). Þar að auki notaði hin eldri Brahmi Tamil sem var með örlítið annars konar tákn fyrir sérhljóðin, sérstök tákn fyrir þá stafi sem ekki voru í sanskrít og skildi útundan þá stafi sem táknuðu hljóð sem ekki voru til í Tamil, eins og raddaða samhljóða og hljóðlaus blásturs hljóð (sbr. 'h' í íslensku). Áletranir frá 2. öld nota síðari gerð af Brahmi Tamílskri skrift, sem er svipar áþreifanlega til ritkerfisins sem lýst er í Tolkappiyam, sem er forn tamílsk málfræði. Áberandi er að þau nota "puḷḷi" til að bæla niður raddaðan sérhljóða. Tamílsku bókstafirnir þróuðust þaðan í frá í meira rúnað form og þegar komið er fram á fimmtu eða sjöttu öld e. Kr. eru þeir komnir í það form sem kallast forn vaṭṭeḻuttu. Nútíma tamíl-ritrófið er þó ekki komin frá þeirri skrift. Á 7. öld bjó Pallava ættin til nýtt ritróf fyrir tamílsku. Hið nýja ritróf var mótað með einföldun á Grantha-ritrófi (sem þróaðist frá Suður-Brahmi) auk viðbættum þeim bókstöfum úr vaṭṭeḻuttu sem táknuðu þau hljóð sem ekki voru í Sanskrít. Þegar á 8. öld var komið tók þessi skrift yfir vaṭṭeḻuttu sem fyrir var í konungsríkjunum Chola og Pallavea sem lágu í norðurhluta Tamíl-talandi svæðisins. Vaṭṭeḻuttu var áfram notað í suður hluta Tamíl-talandi svæðisins, í konungsríkjunum Chera og Pandyan allt fram á 11. öld, þegar Chola yfirtók konungsríkið Pandyan. Á næstu öldum þróast Chola-Pallava ritrófið yfir í nútíma Tamil skriftina. Það að einna helst pálmalauf voru notuð til að rita á, breytti skriftinni. Skrifarin þurfti að fara varlega þegar hann skrifaði á laufið til að gera ekki gat á laufið því lauf með gati eða rifu var mikið líklegra til að rifna alveg og eyddist fyrr. Þar af leiðandi varð notkun puḷḷi til að einkenna „hreina“ samhljóða sjaldgæf og þeir þá skrifaðir á sama hátt og ef hljóðlaus sérhljóði væri með. Á svipaðan hátt var sérhljóðatákninu fyrir kuṟṟiyal ukaram, hálf-rúnað u sem kemur fyrir í enda sumra orða og í miðju sumra samsetra orða, skipt út fyrir einfalt u. Puḷḷi kom ekki fram aftur fyrr en með prentlistinni, en kuṟṟiyal ukaram var aldrei aftur tekið í notkun sem tákn þó svo að það gegni veigamiklu hlutverki í tamílskum talanda. Form sumra bókstafanna voru einfölduð á 19. öld til að gera ritrófið auðveldara sem leturgerð. Á 20. öldinni var ritrófið einfaldað enn frekar í nokkrum stigum, þar sem sérhljóðatáknin sem notuð voru með samhljóðunum voru einfölduð með því að útrýma sértökum táknum og þeim formum sem voru hvað óreglulegust. Einkenni. Tamílskt ritmál hefur tólf sérhljóða (உயிரெழுத்து uyireluttu „sálar-stafir“), átján samhljóða (மெய்யெழுத்து meyyeluttu „skrokk-stafir“) og einn karakter, āytam ஃ (ஆய்தம்), sem er hvorki flokkaður sem samhljóði né sérhljóði - (அலியெழுத்து aliyeluttu „hermafródíski stafurinn“), āytam er þó oft flokkaður með sérhljóðum. Ritrófinu er ekki raðað í stafrófsröð, heldur atkvæðaröð. Alls eru þrjátíuogeinn stafur (sérstakir) í ritrófinu og 216 samsettir stafir, alls 247 samsetningar.(உயிர்மெய்யெழுத்து uyirmeyyeluttu). Þessir samsettu stafir eru myndaðir með því að bæta sérhljóðamerki við samhljóða. Sumir sérhljóðar krefjast að lögun samhljóðans sé sniðin að ráðandi sérhljóða. Öðrum er breytt með sérhljóða viðskeytum, enn öðrum með forskeytum. Grunn samhljóðar. Samhljóðarnir eru kallaðir "skrokk" (mei) stafir. Þeim er skipt upp í 3 flokka: vallinam (harðir samhljóðar), mellinam (mjúkir samhljóðar, inniheldur öll nefhljóð) og idayinam (miðlungs sérhljóðar). Ákveðnar reglur eru um myndun orða. Tolkāppiyam lýsir þeim reglum. Dæmi: orð getur ekki endað á ákveðnum sérhljóðum, og getur ekki hafist á sumum samhljóðum, t.a.m. 'r' 'l' og 'll'; það eru tveir samhljóðar fyrir hið tannmælta 'n' - hvort samhljóðið er notað fer eftir því hvort 'n' kemur fyrir fremst í orðinu og með stöfunum sem umkringja það. Sérhljóðar. Sérhljóðarnir eru kallaðir „líf-“ (uyir) eða „sálarstafir“. Saman með sérhljóðunum mynda þeir blöndu, atkvæðastafi sem eru kallaðir „lifandi“ stafir (uyirmei) það er stafir sem hafa bæði líkama/skrokk og sál. Tamílskum sérhljóðum er skipt upp í stutt og löng (fimm af hvoru) og tvo tvíhljóðunga. Samsettir Tamil-stafir. Eftirfarandi tafla sýnir lista af sérhljóðum ("uyir" eða líf) í lárétta ásnum og samhljóðana ("mei" eða líkami) í lóðrétta ásnum. Taflan sýnir þannig allar samsetningarnar — eða hina „lifandi“ bókstafi Tamil,"uyirmei". Tölustafir og tákn. Fyrir utan tölustafina (0-9) hefur tamílska einnig tölustaf fyrir 10, 100 og 1000. Tákn fyrir "dag", "mánuð", "ár", "debit", "kredit", "eins og fyrir ofan", "rupee" og "tölustafur". Tamil í Unicode. Unicode-svæðið fyrir tamílsku er U+0B80–U+0BFF. Gráu svæðin í töflunni sýna óúthlutuð táknsvæði hvað tamílsku varðar. Flest af þessum óúthlutuðu táknsvæðum eru frátekin fyrir tákn úr öðrum asískum ritmálum sem svara til fónema sem ekki eru til í tamílska ritrófinu. Eins og önnur suður asísk skrift í Unicode, var tamílska kóðunin upprunalega frá ISCII standardinum. Bæði ISCII og Unicode kóða tamílskuna sem "abugida". Hvert tákn sem sýnir svipað fónem er kóðaðað í sama táknreit í suður-asísku Unicode-rittáknatöflunum. Þó svo að Unicode sýni Tamil sem abugida, þá geta allir hreinu/ósamsettu sér- og samhljóðarnir í tamílskunni verið sýndir með því að nota fleiri en einn Unicode táknreit. Í Unicode 5.1 var bætt við sérstaklega nefndri röð fyrir alla „hreinu“ sam- og sérhljóðana. Unicode 5.1 hefur einnig sérnefnda röð fyrir tamílska táknbandið SRI ("śrī"), ஶ்ரீ. Táknröðin kallast TAMÍLSKA ATKVÆÐI SHRII og er gert úr Unicode röðinni U+0BB6 U+0BCD U+0BB0 U+0BC0. Ingolstadt. Ingolstadt er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands með 125 þúsund íbúa. Borgin er með elsta háskóla Bæjaralands og er þekkt sem Frankenstein-borgin. Lega. Ingolstadt liggur við ána Dóná, nokkuð miðsvæðis í Bæjaralandi. Næstu borgir eru München til suðurs (50 km), Regensburg til norðausturs (50 km), Ágsborg til suðvesturs (50 km) og Nürnberg til norðurs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Ingolstadt er blátt pardusdýr, spúandi eldi. Fyrstu innsigli borgarinnar sýna heilagan Máritíus, vendardýrling Maríukirkjunnar þar í borg. 1314 er hann saman með pardusdýri á innsiglum og 1340 er pardusdýrið orðið að innsigli án heilags Máritíus. Orðsifjar. Ingolstadt hét upphaflega "Ingoldstadt". Ingold er mannanafn, en ekki er vitað hver það var sem borgin heitir eftir. Söguágrip. Ingolstadt 1644. Mynd eftir Matthäus Merian. Hestur Gústafs Adolfs II. er elsta uppstoppaða spendýrið í Evrópu Upphaf Ingolstadt eru konunglegur kastali frá 8. öld. og kemur fyrst við skjöl árið 806 í skjali Karlamagnúsar. Bær myndaðist í kringum konungskastalann og fékk hann borgaréttindi 1250. Árið 1392 myndast hertogadæmið Bayern-Ingolstadt. Borgin verður aðsetur hertoga, sem reisa sér kastala þar. Hertogadæmið stóð þó aðeins til 1447. Árið 1472 var háskólinn í borginni stofnaður en hann er elsti háskóli Bæjaralands. Háskólinn varð mjög þekktur og var eitt sterkasta vígi kaþólsku kirkjunnar á tímum siðaskiptanna. Siðaskiptin fóru því aldrei fram í borginni. Árið 1546 birtist her mótmælenda við borgardyrnar og stóð andspænis kaþólskum keisaraher. Ekki kom til bardaga, því mótmælendur sáu sitt óvænna og hurfu frá aftur. Árið 1632 réðst Gústaf Adolf II konungur Svía á borgina í 30 ára stríðinu. Eitt sinn, er Gústaf var í leiðangri nálægt borgarmúrunum, var skotið af fallbyssu frá borginni. Kúlan lenti í afturenda hestsins, sem dó samstundis. Konungur féll hins vegar í jörðina og hlaut engan skaða af en ekki mátti tæpara standa. Hesturinn er nú uppstoppaður á safni í Ingolstadt og er elsta spendýrið í Evrópu sem varðveist hefur uppstoppað. Svíar náðu ekki að vinna borgina og hurfu aftur á braut. Hins vegar dó hinn kaþólski Tilly, einn af yfirhershöfðingjum Wallensteins, af sænskum kúlum. Í upphafi 18. aldar var enn setið um borgina í spænska erfðastríðinu og enn stóðst hún öll áhlaup. Árið 1799 náðu Frakkar hins vegar að hertaka borgina. Þeir rifu niður borgarmúrana og lokuðu háskólanum (hann var fluttur til Landshut í Bæjaralandi). Þar með missti Ingolstadt einn mikilvægasta atvinnuveg sinn. Borgarbúum fækkaði um helming er kennarar og stúdentar yfirgáfu borgina, ásamt öllum hermönnum og öðrum sem höfðu þjónustað þá. Á miðri 19. öld var ákveðið að endurreisa að hluta hernaðarmannvirki borgarinnar. Ingolstadt varð því ein stærsta herstöð Bæjaralands, ásamt því að vera vaxandi iðnaðarborg í iðnbyltingunni. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. Árið 1945 var hún hertekin bardagalaust af Bandaríkjamönnum. Frægustu börn borgarinnar. (1834) Hans Werner Asam, myndhöggvari og byggingameistari Frankenstein. Frægasta sögupersóna borgarinnar er Dr. Victor Frankenstein. Mary Shelley birtir skáldsöguna sína um Frankenstein árið 1818. Í sögunni er Dr. Frankenstein uppruninn í Genf, en fer til Ingolstadt árið 1700 til að læra læknisfræði í háskólanum þar, sem þá var víða þekktur í Evrópu. Meðan hann er þar, vaknar hjá honum þrá til að skapa líf. Honum tekst það og til verður skrýmslið hans (uppvakningurinn). Sérstök uppákoma í Ingolstadt er hin svokallaða Dr. Frankensteins Mystery Tour í miðborginni á kvöldin þegar dimmt er orðið. Gengið er um miðborgina með leiðsögumanni sem klæddur er eins og Dr. Frankenstein. Hann segir frá ýmsu í sambandi við Frankenstein-söguna og sýnir fólki sögulegar byggingar og dimm húsaskot. Draugalegar verur og ýmsar uppákomur verða á vegi hópsins, allt hluti af sýningunni. Byggingar og kennileiti. Kreuztor er gamalt borgarhlið frá 1385 Taílenskt letur. Taílenskt letur (tælenska: อักษรไทย, "àksǒn thai"), einnig kallað taílenska stafrófið, er notað til þess að skrifa taílensku og önnur minni tungumál í Taílandi. Tungumálið er ein abúgída sem hefur að geyma 44 samhljóða (พยัญชนะ, phayanchaná), 15 sérhljóða tákn (สระ, sàrà) sem sameina yfir 28 sérhljóða og loks eru fjórar tón-áherslur (วรรณยุกต์ eða วรรณยุต, wannayúk eða wannayút). Saga. Taílenska stafrófið á rætur sínar að rekja til hinnar fornu Khmer-leturgerðar (อักขระเขมร, akchara khamen), og flokkast hún undir suðrænan Brahmic rithátt sem kallast Vatteluttu. Staffræði. Taílenskir stafir mynda ekki há- og lágstafi líkt og í latneska stafrófinu, bil milli orða eru ekki notuð, nema í undartekningartilvikum. Stutt stopp í setningum eru merkt með kommu og löng með punkti, þó eru þau oft gefin til kynna með auðu svæði. Halldór Ólafsson (lögmaður). Halldór Ólafsson (um 1580 – 8. júlí 1638) var íslenskur lögmaður, sýslumaður og klausturhaldari á 17. öld. Hann bjó á Grund í Eyjafirði. Foreldrar Halldórs voru Ólafur Jónsson klausturhaldari á Möðruvöllum, sonur Jóns rebba Sigurðssonar í Búðardal, og kona hans Þórunn eldri, dóttir Benedikts ríka Halldórssonar sýslumanns á Möðruvöllum. Halldór fékk Möðruvallaklaustursumboð eftir föður sinn. Jón Sigurðsson lögmaður norðan og vestan var sviptur embætti 1618 og árið eftir var kosið um lögmann á Alþingi. Þeir voru í kjöri Halldór, Ari í Ögri, bróðir hans Jón eldri Magnússon í Haga og Magnús Björnsson, síðar lögmaður. Var kastað hlutkesti, sem Halldór vann. Enginn höfuðsmaður var á þingi þetta ár því að Friðrik Friis hafði komið til landsins skömmu fyrir þing en dáið þremur dögum seinna. Sór Halldór því ekki embættiseið sinn fyrr en árið eftir, þegar Holgeir Rosenkrantz var kominn til landsins. Um leið fékk Halldór sýsluvöld í Skagafjarðarsýslu, sem Jón Sigurðsson hafði misst, en sýslan var þó tekin af honum aftur 1628 og fengin Jóni og um leið fékk Halldóra kona Halldórs Möðruvallaklaustursumboð. Það var nærri einsdæmi að kona fengi slíkt umboð en þetta mun hafa verið vegna skulda Halldórs, sem var enginn fésýslumaður. Skagafjarðarsýslu fékk hann þó aftur árið eftir en hún var enn tekin af honum 1636 og veitt Benedikt syni hans. Halldór veiktist eftir Alþingi 1637 og náði sér ekki aftur. Hann fór þó til þings 1638 en þaðan var hann fluttur aðframkominn í Skálholt, á sömu kviktrjám og lík Gísla Oddssonar biskups hafði verið flutt tveimur dögum áður, og dó þar daginn eftir (8. júlí). Kona hans var Halldóra Jónsdóttir eldri (um 1585 – 1661), dóttir Jóns sýslumanns á Holtastöðum og Grund, Björnssonar prests á Melstað, Jónssonar Arasonar, og konu hans Guðrúnar Árnadóttur frá Hlíðarenda. Á meðal barna þeirra voru Benedikt sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, Helga kona séra Páls Björnssonar í Selárdal, en þau hjónin koma mjög við sögu íslenskra galdraofsókna, og Margrét kona Brynjólfs Sveinssonar biskups, og dó Halldóra í Skálholti hjá dóttur sinni. Ormur Sturluson. Ormur Sturluson (um 1516 – 1575) var íslenskur lögmaður og klausturhaldari á 16. öld. Hann var tvívegis lögmaður en var vikið úr embætti í bæði skiptin. Ormur var sonur Sturlu Þórðarsonar sýslumanns á Staðarfelli og konu hans Guðlaugar, dóttur Finnboga Maríulausa Jónssonar lögmanns. Hann fór ungur utan og segir sagan að hann hafi þá hitt Friðrik, barnungan son Kristjáns konung 3., sem seinna varð Friðrik 2., fært honum að gjöf silfurbúinn lúður og notið góðs af síðan meðan Friðrik lifði. Hvað sem til er í því virðist Friðrik hafa verið Ormi afar hliðhollur „þó það kæmi ekki fram í öðru en í uppgjöf á sökum, sem betr hefði verið óuppgefnar,“ segir Jón Sigurðsson í "Lögsögumannatali og lögréttumanna". Hann mun hafa verið í Danmörku veturinn 1546-1447, því að um haustið fékk hann konungsbréf upp á Munkaþverárklaustursumboð og Snæfellsnessýslu um haustið og nokkru eftir áramót var hann gerður lögmaður norðan og vestan. Hann kom svo heim um vorið og er sagt að hann hafi látið mikið yfir sér og riðið um með 19 sveina og smádrengi að auki. Hann lenti fljótt á milli steins og sleggju í deilum Jóns Arasonar og sona hans við Daða í Snóksdal en Ormur var þannig gerður að hann gat aldrei sagt nei við nokkurn mann en lofaði öllum öllu fögru. Vorið 1550 hafði hann gert samkomulag við séra Björn á Melstað, son Jóns biskups, um að styðja hann í hvívetna, halda trúnað við hann og hjálpa honum að koma lögum yfir Daða og aðra andstæðinga þeirra feðga en um haustið var hann við þegar þeir feðgar voru teknir á Sauðafelli og dæmdi varðhaldsdóm yfir þeim í Snóksdal. Ormur var líka lítill fésýslumaður, sóaði eignum sínum og seldi sömu jarðirnar oftar en einu sinni og steypti sér í skuldir. Páll Hvítfeldur höfuðsmaður setti hann úr lögmannsembættinu 1553 fyrir ýmsar sakir en Ormur fór þá til Kaupmannahafnar og fékk konungsbréf upp á að hann mætti vera lögmaður áfram þrátt fyrir það sem hann hafði brotið af sér ef hann gerði upp skuldir sínar við konung. Þó tók hann ekki við embættinu aftur og hefur líklega ekki getað gert upp skuldirnar. Ormur lifði næsti árin við örbirgð og fór á milli ættingja sinna. Sagt er að hann hafi verið lestakarl hjá Nikulási Þorsteinssyni sýslumanni á Munkaþverá um tíma en kona hans hafi verið hjá Helgu Aradóttur, systurdóttur sinni, við ösku- og vatnsburð. Þar kom þó að Ormur ákvað að leita á náðir Friðriks konungs og tókst honum að komast utan með skipi þótt reynt væri að hindra hann í því. Einhvern veginn gat hann náð fundi konungs þótt hann væri fátæklega búinn og fór svo að konungur veitti honum að nýju lögmannsembættið norðan og vestan og að auki Barðastrandasýslu, sem tekin var af Eggert Hannessyni, og gaf honum verndarbréf. Með það fór Ormur heim en lenti í hörðum deilum við Eggert á þinginu og stefndi honum utan og fór sjálfur aftur til Kaupmannahafnar. Þaðan kom hann aftur vorið 1569 og hafði með sér mörg konungsbréf. Þar á meðal var dómur þar sem arfi eftir tengdaföður hans var skipt á annan hátt en áður hafði verið gert, svo að Ormur og kona hans fengu nú stórfé. Hann þurfti þó að víkja aftur úr lögmannsembætti 1572 fyrir ýmsar sakir. Nokkru síðar fór hann aftur utan til að reyna að ná fram sínum málum en dó í þeirri ferð og var þá aftur nærri orðinn örsnauður. Hann virðist hafa verið einkennilega samsettur maður, glæsilegur, góðmenni og örlátur en hégómagjarn og ístöðulítill, vildi hafa völd og metorð en réði ekki við þau, síst af öllu á þeim umbrotatímum sem siðaskiptin voru. Kona hans var Þorbjörg Þorleifsdótir (f. um 1516, d. eftir 1568) frá Möðruvöllum, dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns, sem erfði Möðruvallaauð eftir afa sinn. Þau giftust 1535 og voru þá bæði 19 ára að sögn. Þá áttu þau bæði miklar eignir og mikið bættist við seinna þegar Þorbjörgu var dæmdur aukinn arfshluti eftir föður sinn, en allt eyddist það og fengu börn þeirra lítinn arf eftir foreldra sína. Magnús Gíslason (amtmaður). Magnús Gíslason (1. janúar 1704 – 3. nóvember 1766) var íslenskur lögmaður og amtmaður á 18. öld. Hann bjó á Stóra-Núpi, í Bræðratungu, á Leirá og seinast á Bessastöðum. Foreldrar Magnúsar voru Gísli Jónsson bóndi á Reykhólum og í Mávahlíð á Snæfellsnesi, sonur Jóns Vigfússonar biskups, og Margrét dóttir Magnúsar Jónssonar lögmanns. Margrét dó í Stórubólu 1707 en Gísli drukknaði í Mávahlíðarvatni 24. febrúar 1715. Magnús fór þá að Staðarstað til séra Þórðar Jónssonar föðurbróður síns og nokkru síðar að Skálholti til Jóns Vídalín biskups, sem giftur var Sigríði föðursystur hans. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla og hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla haustið 1724. Sumarið 1728 var honum veitt embætti landskrifara en hann fór þó ekki heim fyrr en árið eftir. Gengdi hann því þar til honum var veitt lögmannsembættið sunnan og austan 1732. Árið eftir var amtmannslaust og Benedikt Þorsteinsson lögmaður norðan og vestan treysti sér ekki að ríða til þings og gegndi Magnús því öllum embættunum þremur á þingi 1733. Vorið 1736 sagði Alexander Christian Smith af sér lögmannsembætti norðan og vestan og gegndi Magnús báðum lögmannsembættunum á þingi það ár. Pingel amtmanni var vikið úr embætti 8. maí 1752 vegna skulda og Magnús settur í hans stað. 16. maí 1757 var hann svo skipaður amtmaður yfir Íslandi, fyrstur Íslendinga, og sleppti þá lögmannsembættinu. Vorið 1764 fékk hann Ólaf Stefánsson tengdason sinn, sem þá var varalögmaður norðan og vestan, settan sér til aðstoðar. Hann dó tveimur árum síðar og tók Ólafur þá við amtmannsembættinu. Kona Magnúsar, gift 2. júlí 1732, var Þórunn Guðmundsdóttir (8. júlí 1693 – ágúst 1766) frá Álftanesi á Mýrum, Sigurðssonar lögmanns Jónssonar. Móðir hennar var Guðrún, dóttir Eggerts Björnssonar sýslumanns á Skarði á Skarðsströnd. Einkadóttir þeirra var Sigríður, kona Ólafs Stefánssonar amtmanns. Blisskerfið. Blisstáknkerfið er tjáskiptakerfi sem upprunalega var þróað af Charles K. Bliss (1897-1985) sem alþjóðlegt tjáskiptakerfi. Það var fyrst notað til að hjálpa líkamlega fötluðum börnum til að tjá sig af þverfaglegum rannsóknarhópi í stjórn Shirly McNaughton við Ontario Crippled Children's Centre árið 1971. Í dag samanstendur Blisstáknkerfið af tæplega 4.500 táknum. Hvert tákn eða Blissorð samanstendur af einu eða fleiri Blisstáknum sem hægt er að sameina og tengja á óteljandi vegu til að skapa ný tákn. Blissorðum má raða til að mynda allskonar setningar. Einföld form eru notuð svo að táknin séu auðskilin og fljótleg að teikna auk þess sem táknin geta staðið fyrir óhlutstæð jafnt sem hlutstæð hugtök. Börn og fullorðnir geta notað Blisskerfið og hæfir það einstaklingum með mismikla skilningshæfni. Blisskerfið er auðlært og er hægt að byrja að nota áður en fólk lærir að lesa. Engu að síður er það nógu margbrotið til þess að hægt sé að tjá hugsanir, hugmyndir og tilfinningar. Orðaforðinn eykst eftir því sem hæfni eykst. Sum táknin eru myndræn og líta út eins og hluturinn sem þau tákna en önnur standa fyrir hugmyndir (t.d. að gefa, viska, hugur). Þar að auki má sameina tákn til að skapa ný. Skrælingjaey. Ellesmere-eyja merkt með dökkgrænum lit Skrælingjaey (eða Skrælingjaeyja) er lítil eyja við austurströnd Ellesmere-eyju í Kanada. Þar hafa fundist gripir sem sumir telja að sanni að norrænir menn hafi komið þar fyrstir hvítra manna. Fornleifafræðingar frá Calgary-háskóla í Kanada voru að störfum á Skrælingjaey á áttunda áratug 20. aldar. Þá fundust þar nokkrir járnnaglar og skipsfjöl úr eik. Tegund eikarinnar sýndi að hér var um tré frá Skandinavíu að ræða. Á Skrælingjaey fundust einnig tunnuspaðar, ýmsir smáhlutir úr járni, kopar og eir. Merkasti fundurinn var klæðisbútur sem ofinn var að hætti norrænna manna, en Inúítar klæddust einungis skinnum í þá daga. Auk þessa fannst á eynni útskorin mannsmynd, sem þykir svipa meira til norrænna manna en Inúíta. Norrænir menn bjuggu á Suðvestur-Grænlandi í fimm aldir og fram að þessum fundi hefur nyrsti vitnisburður um ferðir norrænna manna verið svonefndur Kingittorsuaq rúnasteinn sem fannst á 73. breiddargráðu norðaustur af Upernavik. Þótt þessir hlutir hafi fundist á Skrælingjaeyju verður ekki fullsannað að þeir hafi komist þangað með norrænum mönnum, eða hvort Inúítar hafi flutt þá með sér að sunnan. Fornleifafræðingarnir telja að hvort tveggja hafi getað átt sér stað. Fyrir utan árlegar veiðiferðir norður þar sem norrænu Grænlendingarnir nefndu Norðursetu er vitað um tvo leiðangra, sem farnir voru norður með austurströnd Grænlands á miðöldum. Í Grænlandsannál er sagt frá því er nokkrir prestar lögðu af stað í kristniboðsferð með ströndinni en ekki er vitað hvað langt þeir komust. I bókinni "Inventio Fortunatae," sem nú er glötuð, er vitnað í leiðangur, sem enskur munkur, Nikulás frá Lynne, fór árið 1360. Takmark hans var að komast til nyrsta hluta Grænlands. Fornleifafræðingar spyrja sjálfa sig hvort honum hafi tekist það og þá velta menn því fyrir sér hvort menn hans hafi verið klæddir járnbrynjum. Nikulás frá Lynne. Nikulás frá Lynne (enska: "Nicholas of Lynn", latína: "Nicolas de Linna") var enskur stjörnufræðingur á 14. öld. Sumir telja að hann hafi skrifað bókina "Inventio Fortunata" sem er lýsinga á ferðalagi til Grænlands og Norðurpólsins. Aðrir telja hann alls ekki höfund bókarinnar, heldur Hugh nokkurn sem kenndi sig við Írland. Helsingforssamningurinn. Fánar aðildarríkja Helsingforssamningsins.Helsingforssamningurinn er sáttmáli sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð undirrituðu 1962 og kveður á um norrænt samstarf á fjölmörgum sviðum. Samningurinn ákvarðar meðal annars um hlutverk og starf Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Samningurinn hefur verið uppfærður nokkrum sinnum frá því að hann var fyrst staðfestur. Síðustu breytingar gengu í gildi 1996. Í samningnum er kveðið á um réttarsamstarf, samstarf í menningarmálum, félagsmálum, efnahagsmálum, samgöngumálum, á sviði umhverfisverndar auk annars samstarfs. Þá er í honum ákvæði um sérstaka samninga og tilhögun norræns samstarfs Fürth. Fürth er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands með 114 þúsund íbúa. Borgin hefur öldum saman staðið í skugga á nágrannaborg sinni, Nürnberg, enda eru borgirnar nær samvaxnar. Síðan 2007 gengur Fürth undir heitinu "Vísindaborgin Fürth". Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Fürth sýnir einfaldlega grænan þriggja laufa smára á hvítum grunni. Borgarlitirnir eru grænn og hvítur. Smárinn birtist fyrst á innsiglum 1562, en uppruni og merking er óljós. Orðsifjar. Fürth hefur ætíð heitið þessu nafni, þó að staðsetningin hafi verið svolítið ábótavant ("Fürthe", "Furt"). Það merkir einfaldlega "vað", enda myndaðist bærinn við vað yfir ána Rednitz (sbr. Frankfurt = Frankavað). Söguágrip. Sagan segir að Karlamagnús sjálfur hafi stofnað Fürth árið 793. Hvað sem því líður, þá kemur borgin fyrst við skjöl 1007, er Hinrik II. keisari ritaði. Þar kemur fram að í borginni séu kirkjur, myllur, brýr, akrar og engi. Fürth stóð hins vegar ávallt í skugga nágrannaborgarinnar Nürnberg og jafnvel Bamberg, sem liggur aðeins norðar. Fürth nær gjöreyðilagðist í 30 ára stríðinu 1634. Þar börðust Gústaf Adolf II. konungur Svía og hinn kaþólski Wallenstein í einni af stórorrustum stríðsins, með þeim afleiðingum að borgin brann gjörsamlega, utan örfárra húsa. 1685 fluttu margir Frakkar og Hollendingar inn í borgina. Þar með myndaðist mikill iðnaður, sérstaklega fataiðnaður. 1792 verður Fürth prússnesk. Iðnaður jókst enn. Árið 1808 var Fürth innlimað í Bæjaraland, eftir að Prússland beið ósigur fyrir Napoleon. Þar með fær Fürth loks borgarréttindi. 1835 átti sér sá sögulegi atburður stað að fyrsta járnbrautarlest Þýskalands keyrði milli Nürnberg og Fürth. Þar með hófst iðnbyltingin fyrir alvöru í borginni. 1922 höfnuðu íbúarnir sameiningu við Nürnberg. Fürth varð því áfram eigin borg. Í heimstyrjöldinni síðari slapp Fürth að mestu leyti við loftárásir. Aðeins 11% borgarinnar brann. Borgin var svo hertekin af bandarískum her. Síðustu hermennirnir yfirgáfu borgina ekki fyrr en 1992. Árið 1950 fór íbúafjöldinn yfir 100 þúsund. Halló Norðurlönd. 300pxHalló Norðurlönd ("Hallo Norden") er upplýsingaveita á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna félagið á Íslandi sér um rekstur Íslandsdeildar þjónustunnar. Hún veitir upplýsingar varðandi flutning, atvinnu og nám á Norðurlöndunum til einstaklinga og fyrirtækja. Þjónustan var sett á laggirnar 1998 en kom til sögunnar 2002. Upplýsingaþjónustan er á íslensku, dönsku, sænsku, norsku og finnsku. Notendur geta fundið hagnýtar upplýsingar um hvert Norðurlandanna á. Einnig er hægt að senda sérstaka fyrirspurn frá síðunni á hverju undantöldu tungumálanna og jafnframt fá svar á því norræna tungumáli sem óskað er eftir. Halló Norðurlönd taka einnig við fyrirspurnum í síma. Halló Norðurlönd er liður í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar um afnám hindrana sem koma í veg fyrir hreyfanleika á milli Norðurlandanna. Henry Kissinger. Henry Kissinger (f. 27. maí 1923 í Fürth í Þýskalandi) var öryggismálaráðgjafi (e. National Security Advisor) og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Richard Nixons á árunum 1973-1977. Stefna Kissingers hefur verið kennd við realpolitík að hætti Otto von Bismarcks. Hann átti stóran þátt í afvopnunarferli kalda stríðsins, í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna lagði Kissinger áherslu á slökunarstefnuna (fr. "détente"). Kissinger átti þátt í að koma á formlegum samskiptum milli Kína og Bandaríkjanna sem höfðu legið niðri eftir seinni heimsstyrjöldina og hlaut friðarverðlaun Nóbels 1973 fyrir sinn þátt í að binda enda á Víetnamstríðið. Þáttur hans í að fyrirskipa deildum sprengjuflugvéla að sprengja Kambódíu, sem þá var hlutlaust land, á meðan Víetnamstríðinu stóð er mjög umdeildur. Kissinger er virtur og þekktur um allan heim og talinn með fróðari mönnum um alþjóðasamskipti. Í dag rekur hann fyrirtækið Kissinger Associates, sem er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki. Æviágrip. Henry Kissinger fæddist í þýsku borginni Fürth sem Heinz Alfred Kissinger. Faðir hans, Louis Kissinger, var bandarískur kennari við stúlknaskólann þar í borg og móðir hans, Paula Stern, var dóttir verslunarmanns af gyðingaættum. Nafnið Kissinger var tekið upp af langalangafa Henrys og er dregið af þýsku borginni Bad Kissingen. Árið 1938 neyddist Kissinger-fjölskyldan til að flýja land, en mýmargir ættingjar voru handteknir og teknir af lífi af nasistum. Kissinger bjó í New York í Bandaríkjunum. Þar lagði hann stund á nám í endurskoðun jafnhliða því sem hann vann. Kissinger var afburðanemandi en var kvaddur í herinn árið 1943. Á meðan herþjálfun hans stóð var því veitt athygli að hann kunni þýsku og því var hann færður yfir í upplýsingadeild. Í stríðinu var herdeild hans send til Þýskalands, þar sem hann varð undirofursti og barðist í Orrustunni við Ardennafjöll. Þegar Kissinger náði til Þýskalands ásamt herdeild sinni var hann settur yfir borgina Krefeld með það verkefni að hreinsa burt nasista. Honum tókst það ætlunarverk sitt á átta dögum. Þá var hann hækkaður í tign, gerður að liðþjálfa. Því næst var Kissinger gert að elta uppi liðsmenn Gestapo og aðra spellvirkja í Hanover og var hann heiðraður með Bronsstjörnunni fyrir vikið. Undir lok stríðsins var Kissinger settur yfir Bergstraße-svæðið í Hessen. Eftir stríð varð hann eftir í Þýskalandi og þjónaði í upplýsingadeild bandaríska hernámssvæðisins. Deild sú fékk það verkefni að ljóstra upp um stríðsglæpi og að stuðla að því að útrýma nasisma í landinu. Nám og kennsla. Árið 1947 sneri Kissinger aftur til Bandaríkjanna og lagði stund á sagnfræði í Harvard-háskóla. Hann lauk B.A.-gráðu þaðan 1950, M.A-gráðu 1952 og doktorsprófi 1954. Doktorsritgerð hans bar heitið „"Peace, Legitimacy, and the Equilibrium (A Study of the Statesmanship of Castlereagh and Metternich"”. Hann ílentist í skólanum, gerðist þar kennari og starfaði í ýmsum nefndum, þ.á.m. nefnd um þróun vopna. Á árunum 1955 og 1956 var hann yfir sérfræðingahópi um kjarnorkuvopn og utanríkisstefnu hjá Ráði Alþjóðasamskipta. Árið 1957 gaf Kissinger út fyrstu bók sína "Nuclear weapons and foreign policy". Á árunum 1956 til 1958 starfaði hann á Rockefellers Brothers Fund við verkefni sem nefndir "Special Studies Project". Kissinger sinnti ráðgjafastörfum samhliða ofangreindu fyrir margar opinberar stofnanir, til að mynda á vegum utanríkisráðuneytisins og Rand Corporation. Stjórnmál. Ishmail Fahni, Richard Nixon og Henry Kissinger ræða um Miðausturlönd Fyrstu kynni Kissingers af stjórnmálum hófust 1957 er hann varð ráðgjafi Nelsons Rockefeller, sem þá var fylkistjóri í New York. Sem slíkur kynntist hann nokkrum forsetum Bandaríkjanna. Þegar Richard Nixon var kjörinn forseti 1968, varð Kissinger öryggismálaráðgjafi hans. Á þeim árum stóð Víetnamstríðið enn yfir. Sem ráðgjafi Nixons fór Kissinger í tvær leynilegar sendiferðir til Kína til að undirbúa komu Nixons þangað. Síðan þá litu Kínverjar á Kissinger sem ‘"hinn gamla vin kínverska fólksins."’ Í einni ferðinni fór hann til Sovétríkjanna til að undirbúa viðræður um afvopnun. Sem fyrr segir átti Kissinger stóran þátt í að minnka spennu milli stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Kissinger skipulagði SALT-viðræðurnar um afvopnun stórveldanna sem urðu til þess að samningur um takmörkun langdrægra kjarnaflauga (SALT I-samningurinn) og samningur gegn kjarnaskotflaugum um kjarnorkuvopn var undirritaður en óttast var að óbeislað kjarnorkuvopnakapphlaup gæti endað með ósköpum. Kissinger hitti einnig Le Duc Tho frá Víetnam til að undirbúa friðarviðræður og binda enda á Víetnamstríðið. Samkomulag þeirra leiddi til þess að báðir hlutu friðarverðlaun Nóbels 1973 fyrir viðleitni sína um friðsamlega lausn á Víetnamstríðinu. Utanríkisráðherra. Henry Kissinger ræðir við Gerald Ford Í september 1973 varð Kissinger utanríkisráðherra í stjórn Nixons og síðar Geralds Ford. Hann tókst á við ýmis heimsmál á sínum tíma, s.s. viðræður milli þýsku ríkjanna og friðarsamninga milli Ísraels og arabalanda, en hann átti stóran þátt í binda enda á Jom kippúr-stríðið, en í kjölfarið skiluðu Ísraelsmenn Sínaískaga til Egyptalands. Árið 1977 varð Jimmy Carter nýr forseti Bandaríkjanna. Nýr utanríkisráðherra varð Cyrus Vance. Kissinger hætti þá að mestu í stjórnmálum, en tók þó sæti í utanríkismálanefnd. Hann studdi einnig forsetaframboð Ronalds Reagan 1981 og starfaði sem einn ráðgjafa hans, en kom að öðru leyti lítið við sögu í stjórnmálum. Einkalíf. Kissinger er tvíkvæntur. 1949 kvæntist hann Ann Fleischer og átti með henni tvö börn. Hjónabandið endaði með skilnaði. 1974 kvæntist hann Nancy Maginnes. Kissinger var sagður hafa átt vingott með ýmsar frægar bandarískar konur. Hann lifði gjarnan í sviðsljósinu og var mikill samkvæmismaður. Heimildir. Kissinger, Henry Kissinger, Henry Erlangen. Erlangen er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands og er með 105 þúsund íbúa. Hún er hluti af stórborgarsvæði Nürnberg og liggur rétt norðan við Nürnberg og Fürth. Erlangen er helst þekkt sem húgenottaborgin í Bæjaralandi. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Erlangen er þrískipt. Rauður örn með svarthvítan skjöld og snýr til hægri. Svartur örn með bókstafina ES og snýr til vinstri. Loks gullið ljón með tvær rófur. Öll dýrin eru með kórónu á höfði. Ljónið merkir miðborgina í Erlangen. Um er að ræða lúxemborgíska ljónið sem verið hefur í skjaldarmerkinu síðan 1397. Ernirnir eru ernir Brandenborgar og Prússlands, en bæði löndin hafa ráðið Erlangen í styttri tíma. Bókstafirnir ES standa fyrir Elisabeth Sophie, eiginkonu markgreifans Christian Ernst frá Bayreuth, en hann byggði nýjan borgarhluta fyrir innflutta húgenotta. Orðsifjar. Borgin hét áður "Erlangon", sem er dregið af Erl og Wangen. Erl merkir trjátegundina elri. Wangen er vangur, sléttlendi (sbr. víðavangur). Söguágrip. Kastalinn í Erlangen, lýstur upp að næturlagi Bærinn hefur sennilega myndast á 10. öld og kemur fyrst við skjöl 1002 sem Villa Erlangon. Erlangen fékk þó ekki borgarréttindi fyrr en 1398. Á árunum 1402 til 1806 átti Hohenzollern-ættin borgina. Borgin var gjöreyðilögð í 30 ára stríðinu. Eyðileggingin var þvílík að bæði borgin og nærsveitir voru mannlausar í 20 ár á eftir. Þegar Loðvík XIV í Frakklandi afturkallaði Nantes-tilskipunina 1685 um trúfrelsi húgenotta, streymdu þúsundir þeirra í þýska ríkið. Margreifinn Christian Ernst sá sinn hag í því að bjóða húgenottum að setjast að hinni eyðilögðu borg. Fjöldi þeirra var hins vegar þvílíkur, að Christian Ernst ákvað að reisa nýja borg handa þeim við hliðina á Erlangen (Neustadt). Um 7500 fjölskyldur fengu þar nýtt heimili. Einnig var reist verksmiðja og kirkja (La Temple). Árið 1706 brann gamla borgin nær til kaldra kola í eldsvoða. Árið 1792 varð Erlangen prússnesk, 1806 frönsk og 1810 bærísk. Árið 1812 var Erlangen og Neustadt sameinuð í eina borg. 1945 hertók bandarískur her borgina bardagalaust, sem slapp að öllu leyti við loftárásir. En Bandaríkjamenn eyðilögðu þó síðasta forna borgarhliðið, þar sem það var í vegi fyrir þá. Frægustu börn borgarinnar. Húgenottakirkjan er einnig kölluð "musterið" Niels Kier. Niels Jensson Kier (d. 11. október 1730) var Dani sem var sýslumaður, varalögmaður og lögmaður á Íslandi á 18. öld og bjó á Nesi við Seltjörn. Niels Kier var að eigin sögn borgarstjórasonur frá Svendborg á Fjóni. Hann kom hingað með kaupmönnum og var innanbúðarmaður í Hólminum (Reykjavík) fyrst í stað. Síðar giftist hann dóttur Jóns Eyjólfssonar (1642 - 3. ágúst 1716), sútara, sýslumanns á Seltjarnarnesi og varalögmanns frá 1707. Árið 1703 fékk hann konungsbréf um að hann skyldi fá sýsluna eftir tengdaföður sinn. Árið 1706 var hann umboðsmaður Páls Beyer landfógeta og árið 1713 var hann settur til að vera landskrifari á Alþingi. Árið 1717 varð hann svo varalögmaður eftir tengdaföður sinn og fékk jafnframt loforð um að taka við lögmannsembættinu sunnan og austan þegar Páll Vídalín félli frá. Niels Kier fékk Kjósarsýslu 1704 og Gullbringusýslu 1710 og hélt báðum til dauðadags; hann var líka sýslumaður í Árnessýslu um tíma. Páll Vídalín dó á Alþingi 1727 og gegndi Kier lögmannsstörfum á því þingi og tók svo við. Hann dó haustið 1730 og var þá skuldum vafinn. Jens Spendrup, sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, gegndi lögmannsstarfinu á Alþingi sumarið eftir en varð þó ekki lögmaður, heldur tók Magnús Gíslason við embættinu 1732. Páll Vigfússon (lögmaður). Páll Vigfússon (d. 1570) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 16. öld. Hann er ein aðalpersónan í "Önnu á Stóru-Borg", sögulegri skáldsögu Jóns Trausta rithöfundar, en Anna var systir Páls. Páll var sonur Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra og lögmanns og Guðrúnar Pálsdóttur konu hans. Hann var á æskuárum sveinn Ögmundar Pálssonar biskups. Síðan varð hann sýslumaður í Rangárþingi og svo lögmaður sunnan og austan frá 1556, þegar Eggert Hannesson færði sig um set eftir fráfall Odds Gottskálkssonar og varð lögmaður norðan og vestan. Hann bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Upp úr 1560 lagði prestur nokkur fram kæru til Páls Stígssonar höfuðsmanns um að Páll lögmaður hefði, þegar hann vara sveinn Ögmundar biskups, riðið á spjótskaft annars biskupssveins, Eyjólfs Kollgrímssonar, sem hefði hlotið bana af. Höfuðsmaður dæmdi Páli tylftareið og sór hann að hann hefði ekki átt neinn þátt í dauða Eyjólfs. Presturinn sem kærði viðurkenndi þá að það hefði hann gert af hatri við Pál og var hann sjálfur dæmdur á náð konungs fyrir róg og rangar sakargiftir. Þegar kaupmaður í Vestmannaeyjum kærði aftur á móti Pál fyrir að hafa liðkað fyrir verslun Englendinga við landsmenn, var honum stefnt á konungsfund og á endanum dæmdur úr embætti 1569. Hann dó ári síðar. Kona Páls var Guðný Jónsdóttir prests Gíslasonar í Holti undir Eyjafjöllum. Þau voru barnlaus. Skuggastjórn. Skuggastjórn er hver sú stjórn sem stýrir fyrirtæki í skugga þeirra og hafa ekki til þess eiginlegt umboð. Skuggastjórn innan fyrirtækja eru m.ö.o. eigendur sem stýra hlutafélögum í krafti stöðu sinnar án þess að hafa verið kjörnir eða ráðnir til þess, hafa sem sagt boðvald yfir stjórnendum í krafti meirihlutaeignar sinnar. Víðast hvar fylgir slíkri skuggastjórn ábyrgð og geta skuggastjórnendur verið skaðabótaskyldir. Gísli Halldórsson (arkitekt). Gísli Halldórsson (f. 12. ágúst 1914) er íslenskur arkítekt og fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík. Meðal verka Gísla má nefna: Laugardalshöll, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðin í Reykjavík og Tollstöðvarhúsið. Bredduflugur. Bredduflugur (fræðiheiti: "Empididae") er ætt tvívængna. Broddflugur eru oft með langa hvassa munnlimi og lifa á ránum. Til eru nokkrar íslenskar tegundir eins og til dæmis: rýtingsflugur. Ardennasóknin. Ardennasóknin (þýska: "die Ardennenoffensive"; enska: "Battle of the Bulge") var stórsókn Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld um Belgíu, við rætur Ardennafjalla, og stóð frá 16. desember 1944 til 25. janúar 1945 er bandamenn hrundu henni. Sóknin var örvæntingarfull tilraun þýska hersins til að snúa gangi styrjaldarinnar sér í vil með því að reka fleyg milli herja Bandaríkjamanna og Breta á vesturvígstöðvunum og hertaka Antwerpen í þeirri von að knýja mætti fram friðarsamninga. Þýska hernum varð vel ágengt í byrjun, enda komu þeir bandamönnum algjörlega í opna skjöldu, en lágskýjað veður og þoka kom í veg fyrir að bandamenn gætu beitt flugherjum sínum af afli gegn óvininum. Þegar létti loks til urðu loftárásir bandamanna tíðari og nákvæmari og tókst þeim smám saman að stöðva sóknina og hrekja Þjóðverja á flótta. Mannfall var gríðarlegt á báða bóga, en Ardennasóknin varð jafnframt síðasta stórsókn Þjóðverja í stríðinu. Gagnaverið í Reykjanesbæ. Gagnaverið í Reykjanesbæ er risavaxið gagnaver til að geyma tölvugögn sem Verne Holding ætlar sér að reisa á Suðurnesjum. Miklar deilur hafa verið um eignarhald Verne Holding en Björgólfur Thor er einn af eigendum þess og hafa margir sett stórt spurningamerki við eignarhald hans, þar sem litið er á gagnaverið sem uppbyggingu eftir bankahrunið. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur til dæmis sagt að fyrst Björgólfur geti tekið lán fyrir fjárfestingu til að reisa gagnaver á Reykjanesi, þá ætti hann að taka lán og greiða Icesave fyrst. Ormur ánauðgi Bárðarson. Ormur ánauðgi Bárðarson var landnámsmaður í Vestmannaeyjum samkvæmt því sem segir í Sturlubók Landnámu, en í Melabók og Hauksbók segir að Herjólfur hafi fyrstur byggt í eyjunum og búið í Herjólfsdal og Ormur hafi verið sonur hans. Í Sturlubók er Ormur aftur á móti sagður hafa verið sonur Bárðar Bárekssonar og bróðir Hallgríms sviðbálka. Dóttir hans var Halldóra, kona Eilífs Valla-Brandssonar, sem bjó á Völlum á Landi. Samkvæmt Sturlubók voru eyjarnar veiðistöð og engra manna veturseta þar áður en Ormur nam þær. Vera má að menn hafi ekki þorað að byggja eyjarnir fyrir landvættum en vættatrúin er talin frumstæðari sjálfri goðatrúnni. Elías Mar. Leiði Elíasar Marar í Hólavallakirkjugarði. Elías Mar (22. júlí 1924 – 23. maí 2007) var íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Foreldrar hans voru Elísabet Jónína Benediktsdóttir verkakona og Cæsar Hallbjörnsson Mar kaupmaður. Elías var fæddur og uppalinn í Reykjavík, en móðir hans lést úr bráðaberklum þega hann var á öðru ári. Elías ólst því upp hjá ömmu sinni, en hún lést þegar hann var sautján ára. Elías Mar var einn fyrsti íslenski rithöfundurinn til að skrifa samtímasögur úr Reykjavík og skáldsagan Vögguvísa er einatt talin fyrsta unglingasaga sem skrifuð hefur verið á íslensku. Einnig hefur því verið haldið fram að í skáldsögunni Man eg þig löngum komi í fyrsta skipti í íslenskum bókmenntum fram samkynhneigð sögupersóna. Sögur Elíasar hafa verið þýddar á eistnesku, esperanto, færeysku, norsku og þýsku. Elías Mar starfaði lengst af sem prófarkalesari á Þjóðviljanum. Þýðingar. Auk þess þýddi Elías fjölda útvarpsleikrita og framhaldssagna fyrir útvarp Bayreuth. Bayreuth er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands með 73 þúsund íbúa. Hún er stærst þeirra borga í Bæjaralandi sem ekki ná 100 þús íbúum. Bayreuth er heimsþekkt fyrir hina árlegu Richard Wagner tónlistarhátíðina. Lega. Bayreuth er í Oberfranken, mjög norðarlega í Bæjaralandi og um 30 km vestur af tékknesku landamærunum. Næstu borgir eru Nürnberg til suðurs (60 km) og Hof til norðurs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bayreuth er fjórskiptur skjöldur. Efst til hægri og neðst til vinstri eru tveir svartir birnir með rauðar kórónur. Tvær stikur liggja í kross yfir merkið. Stikurnar birtust fyrst 1429 og eru sennilega áhöld bónda, ef til vill fyrir skógarruðninga. Birnirnir tákna greifana í Nürnberg sem réðu yfir borginni áður fyrr. Orðsifjar. Bayreuth hét áður "Beierreut" og "Baierrute". Það er dregið af "Bayern" og "Rute", sem merkir "stika" og vísar til þess að bændur ruddu skóga fyrir búsvæði. Upphaflegir íbúar voru sennilega komnir frá Bæjaralandi en í þá daga náði Bæjaraland ekki svona langt norður. Söguágrip. Bærinn byrjaði að myndast er skógar voru ruddir nálægt klaustri, ártal er óvisst. Bayreuth kemur fyrst við skjöl 1194 og er þá þorp. Engar heimildur eru til um það hvenær Bayreuth fékk borgarréttindi, en 1231 kemur fram í skjali að Bayreuth sé orðin borg ("civitas"). Árið 1260 erfðu Hohenzollern-greifarnir í Nürnberg borgina, sem lengi átti erfitt uppdráttar og kom lítið við sögu. Árið 1430 eyddu hússítar frá Bæheimi borginni nærri alveg. Ráðhúsið og allar kirkjur brunnu. Þetta var einn anginn af hússítastríðunum sem fylgismenn Jan Hus í Bæheimi stóðu fyrir. Árið 1528 urðu siðaskiptin í borginni, þ.e. aðeins tæplega 10 árum eftir að siðaskiptin hófust yfirhöfuð. Á 17. öld brann borgin tvisvar í stórbruna. Fyrst 1605 (137 hús af 251) og síðan 1621. Borgin varð prússnesk 1791 þegar baroninn Karl August frá Hardenberg erfði borgina. Árið 1806 hertóku Frakkar borgina. Napoleon seldi borgina, sem þar með varð hluti af konungsríkinu Bæjaralandi. Árið 1870 heimsótti tónskáldið Richard Wagner borgina í fyrsta sinn. Tveimur árum seinna hófst hann handa við að reisa þar nýtt óperuhús, sem rúmað gæti umfang tónverka hans. Wagnar var á þessum tíma orðinn mjög þekktur. Árið 1876 var húsið vígt og þar með hófst hin árlega Richard Wagner tónlistarhátíð í borginni, sem í dag er heimsþekkt. Árið 1945 varð borgin fyrir miklum loftárásum bandamanna. Stór hluti borgarinnar eyddist. Í apríl hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust. Árið 1971 var háskólinn í borginni stofnaður. Richard Wagner tónlistarhátíðin. Festspielhaus Bayreuth er óperuhúsið sem Wagner lét reisa Richard Wagner tók ástfóstri við borgina Bayreuth og reisti þar tónlistarhús 1872-76, sem nýst gæti fyrir symfóníur, óperur og leikrit. Við opnunarhátíðina 1876 var verk hans, Niflungahringurinn, frumflutt. Meðal gesta voru Franz Liszt, Anton Bruckner, Pjotr Tchaikowsky, Edvard Grieg, Leo Tolstoi, Friedrich Nietzsche, Gottfried Semper, Vilhjálmur I keisari Prússlands og Pétur II keisari Brasilíu. Næsta hátíðin fór fram 1882 en Wagner lést fáum mánuðum síðar. Eiginkona hans, Cosima, hélt hátíðinni gangandi, sem var haldin á fárra ára fresti. Frá og með 1933 var hátíðin haldin árlega, enda voru nasistar mjög hrifnir af tónlist Wagners. Milli 1943-1951 fór hátíðin ekki fram, sökum stríðsins og eftirmála þess, en síðan þá hefur hún verin haldin árlega á ný. Flest verk Wagners hafa verið flutt í tónlistarhúsinu, svo sem Niflungahringurinn, Tristan og Ísodd, Parsival, Meistarasöngvarinn frá Nürnberg, Tannhäuser, Lohengrin og Hollendingurinn fljúgandi. Hátíðin er skipulögð nokkur ár fram í tímann og er hátíðin fyrir 2015 þegar skipulögð. Vinabæir. Burgenland er sambandsland í Austurríki og eru menningartengsl milli þess og Bayreuth. Dala-Kollur Veðrar-Grímsson. Dala-Kollur Veðrar-Grímsson eða Kollur Grímsson var landnámsmaður í Dalasýslu. Hann kom með Auði djúpúðgu til landsins, fékk land hjá henni og giftist sonardóttur hennar. Í Sturlubók Landnámu segir að Kollur hafi verið sonur Veðrar-Gríms og Laxdæla kallar hann hersi. Auður hafði að sögn tuttugu frjálsborna menn á skipi sínu og var Kollur þeirra virðingarmestur og hafði forráð með henni. Sama vorið og Auður reisti bæ í Hvammi gifti hún Kolli Þorgerði Þorsteinsdóttur rauðs, sonardóttur sína, og hélt brúðkaupsveislu þeirra. Lét hún þau fá miðhlutann úr landnámi sínu, allan Laxárdal og allt til Haukadalsár og telst hann því landnám Kolls, sem eftir það nefndist Dala-Kollur. Bær þeirra var fyrir sunnan Laxá og nefndist seinna Höskuldsstaðir. Börn þeirra Dala-Kolls og Þorgerðar voru þau Höskuldur, Gróa kona Véleifs gamla og móðir Hólmgöngu-Bersa, og Þorkatla, kona Þorgeirs Ljósvetningagoða. Kollur dó þegar börn hans voru stálpuð en Þorgerður festi þá ekki lengur yndi á Íslandi, að því er segir í Laxdælu, heldur fluttist til Noregs og gekk þar að eiga Herjólf Eyvindarson. Áttu þau son sem hét Hrútur. Þorgerður flutti aftur til Íslands eftir lát Herjólf og dó hjá Höskuldi syni sínum. Hrútur Herjólfsson flutti seinna til Íslands og bjó á Hrútsstöðum (Rútsstöðum). Helgi Hrólfsson. Helgi Hrólfsson var landnámsmaður í Skutulsfirði. Hann var sonur Hrólfs í Gnúpufelli, sonar Helga magra og var að sögn Landnámu „getinn austur“ (í Noregi) og upplenskur í móðurætt. Hefur Helgi því fæðst áður en faðir hans fór til Íslands og verið óskilgetinn. Hann ólst upp hjá frændum sínum í Noregi og fór til Íslands þegar hann var fullorðinn að leita ættmenna sinna. Hann kom í Eyjafjörð, sem þá var fullnuminn, en faðir hans var þá kvæntur og átti mörg börn. Líklega hefur Helgi ekki fengið þær móttökur sem hann vænti, að minnsta kosti ætlaði hann þegar aftur til Noregs en skip hans varð afturreka, hraktist inn í Súgandafjörð og var hann þar um veturinn hjá Hallvarði súganda. Um vorið fór hann að leita sér bústaðar og fór inn í Ísafjarðardjúp, þar sem enn var ónumið land. Þar er sagt að hann hafi fundið skutul í flæðarmáli í firði einum og hafi numið fjörðinn, þó ekki allan, og gefið honum nafn eftir skutlinum. Landnáma segir að sonur Helga hafi verið Þorsteinn ógæfa, sem fór utan og vó hirðmann Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Það stenst þó engan veginn tímans vegna, ef ættfærsla Helga er rétt. Vestfirðingasögur. Vestfirðingasögur eru hópur Íslendingasagna. Til þeirra teljast Gísla saga Súrssonar, Fóstbræðra saga, Hávarðar saga Ísfirðings og þættir Þormóðar, Auðunar og Þorvarðar krákunefs. Líklega mætti telja Þorskfirðinga sögu hér með en þó er það ekki gert í útgáfum fornritafélagsins. Fjallabræður. Fjallabræður er 40 manna önfirskur karlakór sem flytur lög sín með rokkuðu undirspili fimm manna hljómsveitar. Kórinn var óformlega stofnaður á haustmánuðum árið 2006. Hann kom meðal annars fram í myndinni "Maybe I should have". Fyrst hljómplata Fjallabræðra, samnefnd kórnum, kom út árið 2009. Halldór J. Kristjánsson. Halldór Jón Kristjánsson (f. 13. janúar 1955 í Reykjavík) er fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands. Sólon Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Búnaðarbankans, segir Halldór hafa þrýst á sig að veita Björgólfi Guðmundssyni og syni hans Björgólfi Thor lán fyrir kaupum á Landsbankanum þegar hann var einkavæddur í skrefum á árunum 1999-2003. Ævi. Halldór lauk stúdentsprófi frá Tyrefjord Høyere Skole í Noregi árið 1973. Hann stundaði nám í lífefnafræði (e. Associate Degree) við Loma Linda University í Bandaríkjunum 1974-1975. Lauk lögfræðipróf frá Háskóla Íslands 1979. L.L.M.-próf í þjóðarrétti (e. International Legal Studies) við New York-háskóla, School of Law 1981. Framhaldsnám í samningarétti við Harvard Law School 1986. Örn (landnámsmaður). Örn, landnámsmaður í Arnarfirði og síðar við Eyjafjörð, var frændi bræðranna Geirmundar og Hámundar heljarskinns en föðurnafn hans er óþekkt. Örn fór af Rogalandi í Noregi vegna ofríkis Haraldar konungs hárfagra. Hann kom fyrst til Vestfjarða og nam land í Arnarfirði, „svo vítt sem hann vildi“, því hann kom þar að ónumdu landi. Hann var fyrsta veturinn á Tjaldanesi á norðurströnd fjarðarins, því þar hvarf sólin ekki í skammdeginu. Eftir eitt eða tvö ár frétti hann svo af Hámundi frænda sínum norður í Eyjafirði og ákvað að flytja þangað. Hann seldi þá Áni rauðfeldi landnám sitt og fluttist á brott. Eftir því sem segir í Landnámu hafði Hámundur heljarskinn fengið land á vesturströnd Eyjafjarðar í landnámi Helga magra en nú lét hann Örn fá landnám sitt og fékk aftur land hjá Helga inni í Eyjafirði. Örn bjó í Arnarnesi, en Hámundur hafði búið á Hámundarstöðum. Húsasmiðjan. Húsasmiðjan er íslenskt byggingavörufyrirtæki sem var stofnað árið 1956. Verslanir fyrirtækisins eru 31 talsins að meðtöldum dótturfyrirtækjum. Stofnandi Húsasmiðjunnar var Snorri Halldórsson. Nordjobb. a> með hjálp Nordjobb.Nordjobb er norræn atvinnumiðlun, rekin í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar, Norrænu félaganna, opinberra stofnana á Norðurlöndunum og vinnuveitenda á hverjum stað. Verkefnið hófst 1985 og höfuðstöðvar þess eru í Malmö. Nordjobb miðar starf sitt að 18-28 ára ungmennum á Norðurlöndunum (og ESB-borgurum á sama aldri sem búsettir eru í löndunum) og aðstoðar þau við að finna sumarstarf í öðru Norðurlandi en þeirra búsetulandi. Nordjobb veitir einnig aðstoð við húsnæðisleit og skipuleggur tómstundadagskrá fyrir þátttakendur. Maybe I should have. Maybe I should have er íslensk heimildarmynd eftir Gunnar Sigurðsson sem fjallar um orsakir og afleiðingar bankahrunsins á Íslandi árið 2008. Mörg málefni eru til umfjöllunar í myndinni m.a. fjármálastarfssemi, spilling, vinaráðningar,frændhygli,einkavæðing bankanna,skattaskjól, tengsl á milli stjórnmála og viðskiptalífs,Búsáhaldabyltingin, Borgarahreyfingin og viðbrögð íslenskra stjórnvalda við aðvörunum í aðdraganda hrunsins. Í myndinni er talað við fjölmarga aðila m.a. Egil Helgason, Björgólf Thor Björgólfsson, William K. Black, Robert Wade, starfsfólk Transparency International, Evu Joly og Jón Baldvin Hannibalsson. Kvikmyndagerðamennirnir ferðast einnig víða til þess að leita að svörum við spurningum sínum eins og til Lundúna, Guernsey, Lúxemborgar og til Road Town á Bresku Jómfrúaeyjum. Um tónlist sjá m.a. Fjallabræður, Magnús Þór Sigmundsson, Hjálmar og KK. Myndin hefur almennt hlotið jákvæða gagnrýni á Íslandi. Valentínusardagurinn. Valentínusarkort frá því í kringum 1910 Valentínusardagurinn, einnig nefndur Valentínsdagur'", er dagur helgaður ástinni sem haldinn er hátíðlegur á messudegi heilags Valentínusar 14. febrúar ár hvert. Dagurinn á uppruna sinn í Evrópu á 14. öld. Meðal þess sem er hefðbundið að gera þennan dag er að senda sínum heittelskaða/sinni heittelskuðu gjafir á borð við blóm og konfekt og láta valentínusarkort fylgja með. Þessar hefðir eiga uppruna sinn í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum en í öðrum löndum gilda aðrar hefðir og sums staðar er dagurinn helgaður vináttu í stað ástar. Í löndum þar sem ekki er löng hefð fyrir því að halda Valentínusardaginn hátíðlegan hafa bandarískir siðir gjarnan fylgt þegar venjan er tekin upp. Heilagur Valentínus frá Terni fylgist með byggingu kirkju sinnar í Terni, úr 14. aldar frönsku handriti. (Bibliothèque National, Mss fr. 185) Heilagur Valentínus. Ekki er vitað nákvæmlega hver Heilagur Valentínus var. Þetta er nafn yfir tvo, eða jafnvel þrjá, píslarvotta í sögu kirkjunnar. Annar var kristinn rómverskur prestur og læknir sem varð fyrir ofsóknum Kládíusi II, Rómarkeisara, gegn kristnum mönnum. Hinn var biskupinn af Terní á Ítalíu. Mögulegt er að sögurnar af þessum tveimur mönnum eigi uppruna sinn í einum og sama atburðinum en hafi brenglast í gegnum tíðina. Um þriðja manninn er lítið vitað annað en að hann á að hafa dáið í Afríku. Heimildir eru óljósar og ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvenær Valentínus dó, hvort sem hann var einn maður, tveir eða þrír. En sennilegt tímabil er valdatími fyrrnefnds Kládíusar II, 268 — 270 eftir Krist. Valentínusardagurinn á Íslandi. „"...hér á landi fer minna fyrir deginum. Þó hafa blómaverzlanir í Reykjavík til sölu litla blómvendi, sem hnýttir hafa verið í tilefni dagsins."“ Einn siður tengdur þessum degi hafur því verið komin til landsins um miðja 20. öld en smámsaman hefur hann náð meiri fótfestu þótt ekki sé mikið tilstand á þessum degi hér á landi. Norræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri. 270pxNorræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri var opnuð 1996. Hún er hluti nets norrænna upplýsingaskrifstofa sem starfa á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar víða á Norðurlöndunum, í Eystrasaltslöndunum og í Norðvestur-Rússlandi. Upplýsingaskrifstofurnar á Norðurlöndunum eru gjarnan á stöðum sem ekki liggja nálægt höfuðborgarsvæði hvers lands. Á öðrum Norðurlöndum má nefna upplýsingamiðstöð í Gautaborg, Norður-Noregi, á Suður-Jótlandi og í Vasa í Finnlandi. Hlutverk upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri er fyrst og fremst að miðla upplýsingum um norrænt samstarf og stuðla að samvinnu þeirra sem vinna að norrænum málum. Sérstök áhersla er á ungt fólk og möguleika þess í norrænni samvinnu. Einnig veitir miðstöðin aðstoð og upplýsingar við umsóknir norrænna styrkja. Upplýsingamiðstöðin stendur auk þess fyrir norrænum menningarviðburðum í samstarfi við ýmsa aðila. Axel Olrik. Axel Olrik (3. júlí 1864 – 17. febrúar 1917) var danskur textafræðingur og þjóðfræðingur. Hann var sonur myndlistarmannsins Henriks Olriks. Rannsóknir hans snerust einkum um þjóðkvæði og sagnakvæði þar sem hann beitti samanburðaraðferð til að bera saman mikið magn af efni. Hann stofnaði alþjóðlega félagið Folklore Fellows árið 1907 ásamt Kaarle Krohn og Johannes Bolte. Bamberg. Bamberg er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands með 70 þúsund íbúa. Bamberg er háskólaborg. Miðborgin er á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Bamberg liggur við ána Regnitz norðarlega í Bæjaralandi. Næstu borgir eru Nürnberg til suðurs (50 km), Würzburg til vesturs (70 km) og Bayreuth til austurs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bamberg sýnir riddara með krossi. Við hlið hans er blár skjöldur með hvítum erni. Riddarinn er heilagur Georg, verndardýrlingur borgarinnar. Örninn táknar furstaættina sem stjórnaði borginni áður fyrr. Orðsifjar. Bamberg er líklega nefnd eftir margreifaættinni Babenberg sem ríkti í Bæjaralandi forðum. Söguágrip. Í dómkirkjunni hvíla konungur, keisari og biskupar Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Bamberg myndaðist, en borgin kemur fyrst við skjöl 902 og kallast þá Castrum Babenberch (kastalavirkið Babenberch). Það tilheyrði Babenberg ættinni sem dó út á þeirri öld og varð virkið þá eign konungs og keisara. 1007 stofnað Hinrik II keisari biskupsdæmi í Bamberg og í kjölfarið var dómkirkjan fræga reist. Síðan þá hefur Bamberg verið sjálfstætt furstadæmi í ríkinu, stjórnuð af biskupum. Í janúar 1430 ruddust hússítar frá Bæheimi að borgarhliðunum. Biskup flúði til Austurríkis og allir heldri íbúar flúðu sömuleiðis. Hússítar létu borgina hins vegar í friði, þannig að almúginn sem eftir varð notaði tækifærið og rændi klaustrin og hús hinna ríku. Á 17. öld varð Bamberg nokkurs konar miðstöð fyrir galdraofsóknir. Á tímabilinu 1612-1618 voru hvorki meira né minna en 300 manns brenndir í báli, þar á meðal borgarstjórinn sjálfur. Bamberg kom nokkuð við sögu í öllum helstu stríðum í ríkinu. Borgin skemmdist verulega af Svíum í 30 ára stríðinu, af Prússum í 7 ára stríðinu og af Frökkum í Napoleonstríðunum. 1802 hertók Bæjaraland borgina með aðstoð Frakka. Furstabiskupinn Christoph Franz von Buseck sagði af sér og endaði þar með stjórn biskupanna. Bamberg varð eftir það bærísk borg. Í heimstyrjöldinni síðari slapp Bamberg við allar loftárásir, en var hertekin af bandarískum her 1945. Árið 1993 var miðborg Bamberg sett á heimsminjaskrá UNESCO. Íþróttir. Körfuboltalið borgarinnar (sem nokkrum sinnum hefur skipt um nafn á síðustu árum) varð þýskur meistari 2005 og 2007, auk þess bikarmeistari 1992. Áhangendur liðsins eru þekktir fyrir ofuráhuga og læti. Í körfuboltaheiminum er borgin Bamberg því oft kölluð "‘Freak-City.’" Frægustu börn borgarinnar. Ráðhúsið í Bamberg stendur á lítilli eyju í Regnitz Byggingar og kennileiti. Í Bamberg eru mýmargar kirkjur. Þegar horft er á þær úr lofti, mynda þær nokkurn veginn kross, Bamberg-krossinn. Allt í allt eru 1200 byggingar í miðborg Bamberg friðaðar. 1993 var miðborgin í heild sinni sett á heimsminjaskrá UNESCO. Carl Wilhelm von Sydow. Carl Wilhelm von Sydow (21. desember 1878 – 4. mars 1952) var sænskur þjóðfræðingur. Hann beitti líffræðilegum skýringarlíkönum til að útskýra útbreiðslu menningar. Hann vildi meina að þegar menning skýtur rótum á nýjum stað þróast hún og myndar nýtt afbrigði vegna áhrifa frá hinu nýja umhverfi, en ríkjandi stefna í þjóðfræðirannsóknum á þeim tíma, landfræðilega rannsóknaraðferðin eða „finnski skólinn“, hélt því fram að menning útvatnaðist jafnt og þétt eftir því sem hún fjarlægðist uppsprettu sína. Hann gagnrýndi flokkunarkerfi finnska skólans fyrir að vera ekki nógu vísindalegt og vildi sterkt aðgreinandi flokkunarkerfi fyrir sagnaminni í anda flokkunarkerfis Carls von Linné. Von Sydow var þekktasti þjóðfræðingur Norðurlanda á sinni tíð. Sonur hans er leikarinn Max von Sydow. Norræni fjárfestingarbankinn. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) er alþjóðleg fjármálastofnun sem var stofnuð 1975 af Norðurlöndunum fimm. Eystrasaltslöndin þrjú bættust í hóp eigenda bankans 2005. NIB er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn stundar lánastarfsemi bæði í eigendalöndunum og í nývaxtarlöndum. NIB fjármagnar verkefni sem ætlað er að efla samkeppnishæfni og bæta umhverfisáhrif. Bankinn sinnir lánastarfsemi bæði innan aðildarlanda bankans og á vaxtarsvæðum í Afríku, Austurlöndum nær, Asíu, Evrópu og löndum fyrrum Sovétlýðvelda auk Suður-Ameríku. Norræni fjárfestingarbankinn aflar fjár til lánastarfsemi sinnar með lántökum á alþjóðafjármálamarkaði. Johannes Nicolaus Brønsted. Johannes Nicolaus Brønsted (22. febrúar 1879 – 17. desember 1947) var danskur efnafræðingur, þekktastur fyrir skilgreiningu á sýru-basa hvörfum, sem hann vann ásamt "Martin Lowry" (1874 – 1936) og við hann eða þá báða er kennd. Vann einnig að skilgreiningu sýrustigs. Máni (landnámsmaður). Máni var landnámsmaður í Þingeyjarsýslu. Hann var frá Ömð á Hálogalandi í Noregi, fór þaðan til Íslands og braut skip sitt við Tjörnes. Hann settist að þar og bjó í nokkur ár á Máná en þegar Böðólfur Grímsson kom til landsins rak hann Mána burt af Tjörnesi og nam land þar sjálfur. Máni nam þá land austan við Skjálfandafljót, sunnan frá Kálfborgará og norður fyrir Rauðuskriðu og bjó á Mánafelli, sem löngu er komið í eyði. Sonur hans hét Ketill og kona hans var Valdís, dóttir Þorbrands, sem keypt hafði Rauðuskriðulönd af Mána. Böðólfur Grímsson. Böðólfur Grímsson var landnámsmaður í Þingeyjarsýslu og nam land á Tjörnesi eftir að hafa rekið Mána, sem þar settist fyrstur að, á brott. Böðólfur var sonur Gríms Grímólfssonar af Ögðum. Hann fór til Íslands ásamt konu sinni, Þórunni Þórólfsdóttur hins fróða, og Skeggja syni þeirra. Þau brutu skip sitt við Tjörnes en björguðust í land og voru á Auðólfsstöðum fyrsta veturinn, að því er segir í Landnámabók. Böðólfur rak síðan Mána burt og nam sjálfur allt Tjörnes á milli Tunguár og Óss, en Skeggi nam land í Kelduhverfi. Síðari kona Böðólfs var Þorbjörg hólmasól, yngsta dóttir Helga magra, sem fæddist fyrsta ár Helga á Íslandi. Dóttir þeirra hét Þorgerður og giftist hún Ásmundi Öndóttssyni landnámsmanni í Kræklingahlíð. Eyvindur hani. Eyvindur hani var landnámsmaður í Eyjafirði. Landnáma segir að hann hafi verið af göfugum ættum og hann var frændi Öndóttssona, Ásgríms og Ásmundar, sem námu land í Kræklingahlíð. Eyvindur kom til Íslands seint á landnámsöld og gáfu frændur hans honum land. Í Landnámu segir að hann hafi búið í Hanatúni, sem síðar hafi kallast Marbæli. Hvorugt bæjarnafnið er nú þekkt á þessum slóðum en líklega hefur land Eyvindar verið í ysta hluta Kræklingahlíðar. Hann var kallaður Túnhani. Kona hans var Þórný, dóttir Stórólfs Öxna-Þórissonar, og var sonur þeirra Snorri Hlíðmannagoði. Miguel Najdorf. Miguel Najdorf (15. apríl 1910 – 4. júlí 1997) var pólskur stórmeistari í skák. Hann bjó mestalla ævi sína í Argentínu. Framlög. Najdorf afbrigði sikileyjarvarnar, ein algengast skákbyrjunin, er nefnd eftir Miguel Najdorf. Najdorf átti einnig hlut í mótun varna eins og kóngsindverskrar varnar. Najdorf var einnig virtur rithöfundur og átti dálk í tímaritinu "Buenos Aires Clarín". Najdorf, Miguel Najdorf, Miguel Þorgeir Þórðarson. Þorgeir Þórðarson var landnámsmaður í Eyjafirði, tengdasonur Helga magra og fékk land í landnámi hans. Landnáma segir að Þórður bjálki hafi verið föður Þorgeirs en segir engin nánari deili á honum. Þorgeir giftist Hlíf dóttur Helga, sem gaf þeim land við botn Eyjafjarðar að austan, frá Þverá til Varðgjár. Þau bjuggu á Fiskilæk en það bæjarnafn er ekki til lengur og er óvíst hvar bærinn var. Sonur þeirra hét Þórir og dóttir þeirra var Helga, dóttir Skeggja Böðólfssonar landnámsmanns í Kelduhverfi. Auðunn rotinn Þórólfsson. Auðunn rotinn Þórólfsson var landnámsmaður í Eyjafirði og tengdasonur Helga magra. Landnáma segir að faðir Auðuns hafi verið Þórólfur sá sem kom með Hrafna-Flóka til Íslands og sagði, þegar hann var beðinn að lýsa landinu, að þar drypi smjör af hverju strái; var hann því kallaður Þórólfur smjör. Hann er sagður hafa verið sonur Þorsteins skrofu, sonar Gríms kambans, sem á að hafa byggt Færeyjar fyrstur manna. Hann giftist Helgu dóttur Helga magra, sem gaf þeim land inni í Eyjafirði, upp frá Hálsi til Villingadals, og bjuggu þau í Saurbæ. Börn þeirra voru Einar, faðir Eyjólfs Valgerðarsonar og afi Guðmundar ríka og Einars Þveræings, og Vigdís. Eftir lát Auðuns giftist Helga Hámundi heljarskinni, sem áður hafði verið kvæntur Ingunni systur hennar, og var dóttir þeirra Yngvildur allrasystir, sem giftist Örnólfi syni Þórðar slítanda, landnámsmanns í Hörgárdal. Gunnar Úlfljótsson. Gunnar Úlfljótsson var landnámsmaður í Eyjafirði og tengdasonur Helga magra. Samkvæmt Landnámabók var Gunnar sonur Úlfljóts, þess sem sendur var til Noregs að semja lög og er talinn fyrsti lögsögumaðurinn. Úlfljótur bjó í Bæ í Lóni. Gunnar giftist Þóru dóttur Helga magra og fengu þau hjá honum land fyrir sunnan Skjálgdalsá að Hálsi. Þau bjuggu í Djúpadal. Börn þeirra voru Ketill, Þorsteinn, Steinmóður, Yngvildur og Þorlaug. Hrólfur Helgason. Hrólfur Helgason var landnámsmaður í Eyjafirði. Hann var sonur Helga magra og fékk land hjá föður sínum, sem gaf honum öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará syðst, norður að Arnarhvoli, sem er á móts við mynni Djúpadalsár. Hrólfs bjó í Gnúpufelli (Núpufelli) og er sagður hafa reist þar stórt hof, svo að hann hefur líklega verið fljótur að hverfa frá kristni eftir að til Íslands kom, hafi hann þá verið skírður. Kona hans var Þórarna, dóttir Þrándar mjóbeins landnámsmanns í Flatey á Breiðafirði, og áttu þau fjölda barna. Sonur Hrólfs óskilgetinn, sem ólst upp í Noregi, var Helgi Hrólfsson landnámsmaður í Skutulsfirði. Ingjaldur Helgason. Ingjaldur Helgason var landnámsmaður í Eyjafirði. Hann var sonur Helga magra, sem gaf honum land austan Eyjafjarðarár út frá Arnarhvoli (á móts við mynni Djúpadalsár) út að Þverá hinni ytri. Ingjaldur bjó á Efri-Þverá, seinna Munkaþverá, og segir Landnáma að hann hafi reist þar stórt hof, eins og Hrólfur bróðir hans gerði á landnámsjörð sinni, og hafa þeir bræður því horfið frá trú föður síns. Kona Ingjalds var Salgerður Steinólfsdóttir. Börn þeirra voru Eyja, kona Nesja-Knjúks Þórólfssonar landnámsmanns í Barðastrandarsýslu, Eyjólfur, faðir Víga-Glúms, Steinólfur og Úlfheiður, sem giftist Hríseyjar-Narfa, syni Arnar landnámsmanns í Arnarnesi. Þórður slítandi. Þórður slítandi var landnámsmaður í Eyjafjarðarsýslu. Hann nam Hörgárdal innanverðan, fyrir ofan Myrká að austanverðu og niður að Drangá hinum megin. Ekki er getið um landnámsjörð hans í Landnámabók. Sonur hans hét Örnólfur og var kona hans Yngvildur allrasystir, dóttir Hámundar heljarskinns og Helgu dóttur Helga magra. Landnáma segir að Þórður slítandi hafi gefið Þorbirni skólmi Þorkelssyni frænda sínum af landnáminu en Skólmur er þó ekki talinn til landnámsmanna. Hann bjó á Myrká og var sonur hans Þórálfur sterki Skólmsson. Systir Þorbjarnar skólms var Þórarna, móðir Orms sterka Stórólfssonar og langamma Gunnars Hámundarsonar. Skeggi Böðólfsson. Skeggi Böðólfsson var landnámsmaður í Norður-Þingeyjarsýslu, sonur Böðólfs Grímssonar landnámsmanns á Tjörnesi og fyrri konu hans, Þórunnar Þórólfsdóttur. Skeggi kom með foreldrum sínum til Íslands. Þau brutu skip sitt við Tjörnes og Böðólfur nam þar land eftir að hafa rekið Mána, sem þar var fyrir, á brott. Síðar nam Skeggi land í Kelduhverfi upp til Kelduness. Hann bjó í Miklagarði (Garði) í Kelduhverfi. Kona Skeggja var Helga, dóttir Þorgeirs Þórðarsonar landnámsmanns á Fiskilæk og Hlífar konu hans, dóttur Helga magra. Sonur þeirra var Sigurður farmaður og segir í Landnámabók að hann hafi látið gera knörr í Sogni sem Sigurður biskup hafi vígt. „Af þeim knerri eru brandar veðurspáir fyrir durum í Miklagarði.“ Alvis Vitolinš. Alvis Vitolinš (15. júní 1946 – 16. febrúar 1997) var lettneskur alþjóðlegur meistari í skák. Hann varð Lettlandsmeistari árin 1973 (í liðakeppni), 1976, 1977, 1978, 1982, 1983 og 1985 (í liðkeppni). Árið 1980 varð hann alþjóðlegur meistari. Vitolinš framdi sjálfsmorð með því að stökkva af brú á frosið Gauja fljót. Norræna nýsköpunarmiðstöðin. 270pxNorræna nýsköpunarmiðstöðin (Nordisk InnovationsCenter - NICe) er samstarfsstofnun Norðurlandanna sem starfar undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún rekur upphaf sitt til Norræna iðnaðarsjóðsins og NordTest sem settar voru á fót 1973. Skrifstofa Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar er í Osló. Hlutverk miðstöðvarinnar er að vinna að innri markaði á Norðurlöndunum á sviði nýsköpunar þannig að sem fæstar hindranir séu í vegi flutnings á hæfni, hugmyndum, fjármagni, fólki eða afurðum milli Norðurlandanna. Markmiðið er að stuðla að sameiginlegum þekkingarmarkaði á svæðinu. Miðstöðin vinnur að þessu með því að koma á tengslum milli þeirra sem vinna að nýsköpun á Norðurlöndum. Skilyrt er að minnst þrjú norræn ríki vinni saman að verkefni til að hægt sé að sækja um fjármögnun hjá miðstöðinni. Auk þess skal stuðla að samstarfi við aðila í Eystrasaltslöndunum og Norðvestur-Rússlandi. Božidar Dimitrov. Božidar Dimitrov (búlgarska: Божидар Димитров Стоянов; fæddur 3. desember 1945 í Sozopol í Búlgaríu) er búlgarskur stjórnmálamaður og sagnfræðingur. Dimitrov hefur gegnt embætti ráðherra síðan 2009. Dimitrov, Bozidar Flatlús. Flatlús (fræðiheiti: "Pthirus pubis") er skordýr sem lifir sem sníkjudýr í kynhárum manna. Flatlúsin getur einnig lifað á öðrum líkamshlutum sem eru hári vaxnir, þar á meðal augnhárum. Flatlúsin lifir eingöngu á blóði. Menn og górillur eru einu þekktu hýslar hennar. Barentsráðið. Barentsráðið (enska: "The Barents Euro-Arctic Council" eða "BEAC") var stofnað 1993 með Kirkenes-yfirlýsingunni sem undirrituð var af fulltrúum Norðurlandanna, Rússlands og framkvæmdastjórnar ESB. Auk aðildarríkjanna eru innan ráðsins. Ráðið er dæmi um nánari samvinnu Norrænu ráðherranefndarinnar og annarra norrænna stofnana við Eystrasaltsríkin og svæði í Norðvestur-Rússlandi í kjölfar loka Kalda stríðsins. Barentsráðið er vettvangur aukinnar samvinnu og samstarfs þeirra svæða sem liggja að Barentshafinu, þ.e. norðurhluta Skandinavíu og Norðvestur-Rússlands. Skrifstofa ráðsins opnaði 2008 í Kirkenes í Norður-Noregi. Skapahár. Skapahár eða kynhár eru hárin kringum kynfæri kynþroska fólks. Þau eru öllu grófari en höfuðhár eða annar hárvöxtur líkamans en skipun hárvaxtar á klyftasvæði nefnist skapahárastaða og er hún breytileg á milli kynja. Augnhár. Augnhár (brá eða bráhár) eru hár sem vaxa út frá brún augnloka. Konur nota oft maskara til að gera augnhárin sýnilegri (dekkja þau og lengja) og augnhárabrettara til að gera sveig háranna fallegri. Ekki má rugla augnhárum saman við augabrúnir. Heilagur Georg. Íkóna frá Novgorod í Rússlandi frá 15. öld Heilagur Georg (á latínu: "Sanctus Georgius") var píslarvottur í upphafi 4. aldar þegar Díókletíanus keisari Rómaveldis hóf ofsóknar á hendur kristnum mönnum. Í aldanna rás hefur hann orðið að einum vinsælasta dýrlingi kaþólsku kirkjunnar. Um hann hafa spunnist heilmargar þjóðsögur, þ. á m. þjóðsagan um bardagann við drekann. Æviágrip. Heimildir um heilagan Georg eru af skornum skammti. Hann mun hafa fæðst síðla á 3. öld e.Kr. í Litlu Asíu, e.t.v. í Kappadókíu. Faðir hans var yfirmaður í rómverska hernum í Kappadókíu, en móðir hans var frá Palestínu og voru bæði kristin. Þegar foreldrar hans dóu fór hann til Níkómedíu sem þá var höfuðborg ríkisins og gerðist rómverskur hermaður. Þá var Díókletíanus keisari. Á síðustu valdaárum sínum snerist hann gegn kristni og gaf út tilskipun um að reka alla kristna hermenn úr þjónustunni og neyða þá alla til að tilbiðja hin heiðnu goð og færa þeim fórnir. Þegar Georg neitaði ákvað keisari að hlífa honum í fyrstu og reyna að snúa honum til heiðni, jafnvel með fyrirheiti um landareignir og fjármuni. Þegar Georg neitaði enn staðfastlega og tilkynnti opinberlega að hann væri kristinn, snerist keisara hugur og lét taka hann af lífi. Áður hafði Georg þó gefið fátækum eigur sínar. Georg var í fyrstu pyntaður og síðan hálshöggvinn fyrir utan borgarmúra Nikómedíu. Þetta gerðist þann 23. apríl 303. Lík hans var flutt til Lýddu, þar sem kristnir menn heiðruðu hann sem píslarvott. Drekabaninn. Heilagur Georg hefur verið sýndur á málverkum og höggmyndum sem drekabaninn mikli. Í raun er ekkert í ævi heilags Georgs sem tengir hann við dreka, enda tekur þjóðsagan hér við. Elstu heimildir um Georg sem drekabana eru frá 11. öld. Hún er venjulega þannig að dreki gerði sig heimakært við brunn nokkurn við Sílene (e.t.v. Kýrene í Lýbíu). Til að ná í vatn ákváðu borgarbúar að færa drekanum fórnir. Fyrst var það sauðfé, en þegar það þraut, þá var ákveðið að gefa drekanum meyjar. Meyjarnar voru valdar með hlutkesti. Eitt sinn féll hlutkestið á prinsessuna. Konungurinn bað dóttur sinni griða, en án árangurs. Þegar farið var með prinsessuna til drekans, kom Georg ríðandi á hesti sínum. Hann hafði fána sinn sem verndargrip, rauður kross á hvítum fleti, og gerði atlögu að drekanum. Að lokum náði hann að drepa drekann og bjarga prinsessunni. Í þakklætisskyni tóku borgarbúar upp kristni. Talið er að drekinn sé tákn um heiðni og að sagan öll sé lýsing á sigri kristni á heiðinni trú. Dýrlingur. Georgskrossinn er jafnframt fáni Englands Sagan um Georg var í fyrstu staðbundin í austurhluta Rómaveldis. Á 5. öld hafði hún hins vegar breiðst út og var orðin kunn í vesturhluta ríkisins. 494 var Georg tekinn í heilagra manna tölu af Gelasíusi I páfa. Minningardagur hans varð 23. apríl, sem var dánardagur hans. Hægt og rólega varð Georg verndardýrlingur kirkna, landsvæða, borga og jafnvel heilla landa. Georg er einnig verndari gegn ýmis konar óáran, sem og verndardýrlingur ýmissa stétta. Jarðneskar leifar Georgs eru sagðar hafa komið til þýska ríkisins á 9. öld og eru varðveittar í Georgskirkjunni á eyjunni Reichenau við Bodenvatn. Þaðan breiddist dýrkunin á Georg út um allt ríkið. Í Englandi var fyrst notast við Georgsfánann í krossferðum til landsins helga. Krossfarar frá Englandi (og Frakklandi) tóku upp fána þennan. Árið 1190 tók Lundúnaborg og England upp Georgsfánann og er hann þjóðfáni Englands síðan á 16. öld. Georg varð hins vegar verndardýrlingur landsins miklu fyrr, eða á 13. öld. Heilagur Georg birtist í fjölmörgum málverkum og höggmyndum. Hann er sá dýrlingur sem oftast kemur fyrir í listaverkum hins kristna heims, að undanskilinni Maríu mey og höfuðpostulunum. Hann birtist einnig á mýmörgum skjaldarmerkjum. Verndardýrlingur. Nokkur dæmi um lönd, borgir, stéttir og fyrirbæri sem heilagur Georg er verndari fyrir eða honum gert áheit við. Listinn er ekki tæmandi. Konráður III (HRR). Konráður III konungur hins heilaga rómverska ríkis Konráður III (1093 í Bamberg – 15. febrúar 1152 í Bamberg) var hertogi í Frankalandi, gagnkonungur og síðar konungur þýska ríkisins 1127-1152, konungur Langbarðalands 1128-1135 og konungur í Búrgund 1138-1152. Konráður var hins vegar aldrei krýndur til keisara. Leiðin til konungs. Konráður fæddist í bærísku borginni Bamberg 1093. Foreldrar hans voru Friðrik I hertogi af Sváfalandi og Agnes frá Waiblingen (dóttir Hinriks IV keisara). Konráður var því af Staufer-ættinni og reyndi að útvíkka yfirráðasvæði ættarinnar í Frankalandi og Sváfalandi. Á þeim tíma voru staðamálin þýsku í gangi milli Hinriks V keisara og páfa. Þegar Erlung, biskup í Würzburg og hertogi í Frankalandi, studdi síðarnefna aðilann, afturkallaði Hinrik keisari hertogatitilinn af biskupi og gerði Konráð að hertoga yfir Frankalandi í staðinn. Þegar keisarinn fór til Ítalíu gerði hann Konráð að staðgengli sínum í þýsku löndunum. 1124 eða 1125 fór Konráður í pílagrímsferð til Jerúsalem. Meðan hann var þar dó Hinrik keisari. Nýr konungur þýska ríkisins var kjörinn Lothar III. Bróðir Konráðs, Friðrik, tók því illa og ákvað að berjast móti nýja konunginum. Þegar Konráð kom heim úr ferðalagi sínu, tók hann þegar upp baráttuna með bróður sínum. Íbúar Sváfalands kusu hann til konungs og voru því tveir konungar þýska ríkisins á þeim árum. Ekki er ljóst hvers vegna Friðrik, sem var eldri, var ekki kosinn, en ef til vill skipti það máli að hann var blindur á öðru auga. Konungur þýska ríkisins. Þegar Konráð var með góðan stuðning í suðurhluta Þýskalands, ákvað hann að fara til Ítalíu til að tryggja sig í sessi þar. 1128 var hann kjörinn til konungs í Langbarðalandi (Lombardia) og var því orðinn jafn stöndugur sem gagnkonungur og Lothar. 1137 lést Lothar hins vegar. Konráður flýtti sér þá til Koblenz, þar sem hann var formlega kjörinn (eða endurkjörinn) til konungs þýska ríkisins í mars 1138. Viku seinna hlaut hann konungsvígslu í keisaraborginni Aachen. Hvorki kjörið né vígslan var gerð með vitund kjörfurstanna. Þrátt fyrir það héldu þeir að sér höndum og samþykktu gjörninginn á ríkisþingi í Bamberg skömmu seinna. Konráður reyndi að ganga milli bols og höfuðs á ættingjum Lothars, Welfen-ættinni, sem fannst að þeim bæri konungstitillinn. Þessu fylgdu töluverð innanríkisátök. 1147 hélt Konráður ríkisþing í Frankfurt am Main. Þar voru lögð drög að annarri krossferðinni. Þar tókst konungi einnig að fá samþykkt að sonur sinn, Hinrik, yrði eftirmaður hans á konungsstóli. Sama ár fór Konráður af stað í krossferðina, ásamt Loðvík VII. konungs Frakklands. Ungur bróðursonur Konráðs, Friðrik, slóst með í för (seinna Friðrik Barbarossa). Ferðin var algerlega mislukkuð. Strax í Litlu-Asíu beið krossfararherinn ósigur gegn múslimum. Konráð og aðrir sem lifðu af fundu þá franska herinn. En ekki tók betra við þar, því hjá Frökkum braust út pest sem drap meirihluta liðsins. Konráður veiktist og fór til Konstantínópel. Næsta ár var ákveðið að sitja um borgina Damaskus. En það mistókst herfilega eftir aðeins 10 daga. Krossfarar sáu sitt óvænna og fóru heim til Evrópu. Heima héldu átökin gegn Welfen-ættinni áfram. 1150 lést sonur Konráðs, Hinrik, sem hafði verið kjörinn eftirmaður hans. Tveimur árum seinna lést svo Konráð sjálfur í heimaborg sinni Bamberg. Hann var þá á leið til Rómar til að hljóta keisaravígslu, en henni náði hann því ekki. Konráður hvílir í dómkirkjunni í Bamberg. Næsti konungur varð bróðursonur hans, Friðrik Barbarossa. Vetrarólympíuleikarnir 1994. Vetrarólympíuleikarnir 1994 voru ólympíuleikar haldnir í Lillehammer í Noregi 12. til 27. febrúar 1994. Aðeins tvö ár voru liðin frá síðustu vetrarólympíuleikum þar sem ákveðið var að láta vetrarleikana ekki bera upp á sama ári og sumarleikana eins og verið hafði áður. 67 lönd tóku þátt í leikunum, fleiri en nokkru sinni áður. Rússland vann flest verðlaun, en þetta voru fyrstu Ólympíuleikarnir sem landið tók sjálft þátt í frá upplausn Sovétríkjanna. Keppt var í tólf greinum: Alpagreinum, bobbsleðabruni, freestyle, íshokkíi, listskautahlaupi, norrænum greinum, skautahlaupi, stuttu skautahlaupi, skíðagöngu, skíðaskotfimi, skíðastökki, sleðabruni. Samstarfsráðherra Norðurlanda. Katrín Jakobsdóttir er samstarfsráðherra NorðurlandaSamstarfsráðherra Norðurlanda er sá ráðherra í ríkisstjórnum Norðurlandanna sem fer með ábyrgð á norræna ríkisstjórnarsamstarfinu innan Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir hönd forsætisráðherra hvers lands. Samstarfsráðherrarnir mynda stjórn norræna ríkisstjórnarsamstarfsins og taka stefnumótandi ákvarðanir. Formennska er í höndum samstarfsráðherra þess lands sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni hverju sinni. Samstarfráðherrarnir svara spurningum norrænna þingmanna um Norðurlandasamstarfið í fyrirspurnartímum á árlegu þingi Norðurlandaráðs. Samstarfstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Íslands er Katrín Jakobsdóttir. Bógó-indversk vörn. Bógó-indversk vörn er skákbyrjun, afbrigði indverskrar varnar, og hefst á leikjunum 1.d4 Rf6, 2.c4 e6, 3.Rf3 Bb4+. Förustafir. Förustafir (fræðiheiti: "Phasmatodea") er ættbálkur fremur stórra ílangra skordýra sem sumir líkjast trjágreinum en aðrir laufblöðum. Förustafir eru laufætur og getur verið mjög erfitt að koma auga á þá í náttúrunni. Yfir 3000 tegundir förustafa eru þekktar. Flestar lifa í hitabeltinu en þeir finnast í flestum löndum heims. Dómkirkjan í Bamberg. Dómkirkjan í Bamberg er keisarakirkja Dómkirkjan í Bamberg er keisarakirkja og aðalkirkjan í þýsku borginni Bamberg. Þar hvílir einn konungur, einn keisari, einn páfi og mýmargir furstabiskupar. Saga dómkirkjunnar. Keisaraparið Hinrik II og Kúnígúnd. Á milli þeirra er dómkirkjan Það var Hinrik II keisari sem fyrirskipaði að reisa skyldi dómkirkjuna árið 1004 og var það fyrirrennari núverandi kirkju. Hún var reist á ótrúlega stuttum tíma og vígð 1012. Hún var helguð Maríu mey, Pétri postula og heilögum Georg. Nær allir biskupar þýska ríkisins voru viðstaddir. Turnarnir voru aðeins tveir þá. 1081 brann kirkjan hins vegar og eyðilögðust þá allar innréttingar. Eftir viðgerðir var kirkjan komin í notkun á ný 1087. 1185 brann kirkjan öðru sinni og varð skaðinn öllu meiri en áður. Því var ákveðið að rífa kirkjuna að mestu og reisa nýja frá grunni. Nýja (og núverandi) kirkjan var vígð 1237 og voru verndardýrlingarnir þeir sömu og áður. Hinrik II keisari, sem upphaflega lét reisa dómkirkjuna, var lagður til hvíldar í kirkjunni, sem og eiginkona hans, Kúnígúnd. Bæði höfðu þau verið tekin upp í tölu dýrlinga. Tveimur turnum var bætt við og eru þeir fjórir í dag. Hærri turnarnir eru 74 metra háir. Á 17. öld var kirkjan gerð upp í barokkstíl. Þegar það var búið var kirkjan með 30 ölturu. Margar af breytingunum voru þó teknar til baka á 19. öld. Maríuhurðin. Maríuhurðin er hliðarhurð inn í dómkirkjuna og var eingöngu notuð í viðhafnarskyni, t.d. þegar nýr biskup gengur í fyrsta sinn í kirkjuna. Stór og fallegur gullinn bogi er yfir hurðinni, skreyttur styttum af verndardýrlingum kirkjunnar. Auk þess eru þar myndir af Hinrik II og Kúnígúnd. Hjá þessari hurð voru tvö sérsmíðuð ljónahöfuð sem átti að marka lengd einnar öln, sem í Bamberg var álitin 67 cm. Þessi lengdarmæling eru talin elsta fastmótaða lengdareining miðalda. Einnig var þar merki um hversu stórt fetið var og segir sagan að fetið hafi verið mælt eftir skófar Kúnígúnd. Ljónin eru bæði horfin í dag, en enn örlar á skófari Kúnígúndar. Keisaragröf. Í dómkirkjunni hvílir Hinrik II keisari ásamt eiginkonu sinni Kúnígúnd. Í upphafi munu þau hafa legið í venjulegum kistum í grafhvelfingunni. En 1499-1513 smíðaði myndhöggvarinn Tilman Riemenschneider forláta steinkistur fyrir þau bæði. Á lokinu er mynd af keisaraparinu í líkamsstærð. Á hliðunum eru myndir með atvikum úr ævi þeirra. Steinkistan er of stór fyrir grafhvelfinguna og stendur því í hliðarrými kirkjuskipsins. Grafhvelfing. Grafhvelfingin mun vera leifar af fyrirrennarakirkjunni frá því snemma á 11. öld. Þar hvílir Konráður III, konungur þýska ríkisins, en hann lést í Bamberg 1152. Konráður var á leið til Rómar til að láta krýna sig til keisara, en entist ekki ævin. Bamberg er einnig fæðingarstaður hans. Upphaflega stóð kista Konráðs við hlið keisarakistunnar, en hún var færð niður í grafhvelfinguna að ósk Lúðvíks I. konungs Bæjaralands. Við hlið Koráðs hvílir biskupinn Gunther, sem einnig var frá Bamberg. Í grafhvelfingunni er einnig djúpur brunnur með köldu vatni. Vatn þetta er stundum notað fyrir skírnir. Talið er að brunnurinn sé eldri en kirkjan og að kirkjan hafi einfaldlega verið reist yfir hann. Grafhvelfing kirkjunnar var reist á gömlum kirkjugarði. Þar hvíla því ýmsar persónur, ekki síst biskupar sem þjónað hafa í dómkirkjunni. Flest ummerki eftir þá voru hins vegar fjarlægð á 19. öld. Páfagröf. Í dómkirkjunni hvílir páfinn Klemens II. Hann var þýskur og þjónaði áður sem biskup í þessari kirkju til 1046. Það ár var hann kjörinn páfi, en lést aðeins ári seinna. Lík hans var flutt til Bamberg og sett í kistu í kirkjunni, þar sem hann hvílir enn. Klemens II. er eini páfi sögunnar sem hvílir norðan Alpa. Kistan hans er ekki sýnileg fyrir almenning, enda staðsett bak við biskupastólinn. Naglakapellan. Ein hliðarkapella dómkirkjunnar er hin svokallaða Naglakapella. Í henni er nagli úr krossi Jesú til sýnis. Engar heimildir eru lengur til um það hvernig naglinn komst til Bamberg, en líklegt er að krossfarar hafi komið með hann úr landinu helga, ef til vill Konráður III keisari sem tók þátt í 2. krossferðinni 1147-1149. Naglinn er 11 cm langur og brotinn í báða enda. Hann kemur fyrst við skjöl 1390 og er greiptur inn í statíf ("Monstranz"). Í kirkjunni er til bók um öll þau kraftaverk sem naglinn á að hafa orsakað. Sökum þess hve mikið naglinn var dýrkaður áður fyrr, varð að færa hann úr kirkjuskipinu yfir í hliðarkapellu, þar sem fólk var alltaf að trufla guðsþjónustur. Naglakapellan er enn í stöðugri notkun í dag og því er naglinn ekki til sýnis nema fyrir kirkjugesti. Þórður Guðmundsson (lögmaður). Þórður Guðmundsson (1524 – 8. apríl 1608) var lögmaður og sýslumaður á Íslandi á 17. öld. Hann var Borgfirðingur og bjó lengst á Hvítárvöllum. Foreldrar Þórðar voru Guðmundur Erlendsson, sem var sveinn Gissurar biskups og síðar bóndi í Þingnesi í Bæjarsveit, og kona hans Ástríður, dóttir Halldórs Tyrfingssonar, síðasta ábóta í Helgafellsklaustri. Þórður var sveinn hjá Daða Guðmundssyni í Snóksdal en fór svo að búa í Þingnesi. Síðan bjó hann á Hvítárvöllum en hafði líka bú á Melum og í Reykholti. Hann varð lögumaður sunnan og austan árið 1570 og gegndi því embætti í 36 ár, eða allt til 1605. Hann þótti fara nokkuð vel með vald sitt, fylgdi Jóni Jónssyni lögmanni norðan og vestan gegn biskupum og kirkjuvaldi en var varkárari og ekki eins áberandi og var aldrei í óvináttu við andstæðingana. Hann var lengi sýslumaður í Borgarfirði og raunar líka prófastur til 1573-1574, þegar bannað var að veraldlegir embættismenn væru prófastar jafnframt. Þórður hélt bók yfir dóma sína og er hún enn til. Eins er til bréf sem Þórður skrifaði 1601 eftir harðindaveturinn Lurk. Þeir Jón Jónsson voru embættisbræður í 33 ár en þegar Jón lést vorið 1606 var Þórður kominn um áttrætt og treysti sér ekki til að gegna embættinu lengur, svo að hann sagði af sér en Gísli sonur hans var kjörinn til að taka við og gegndi hann lögmannsembættinu frá og með Alþingi 1606. Kona Þórðar var Jórunn, dóttir Þórðar Einarssonar prests í Hítardal og fylgikonu hans, Þuríðar stóru Einarsdóttur, sem síðar fylgdi Sigmundi Eyjólfssyni biskupi og enn síðar Oddi Gottskálkssyni. Á meðal barna þeirra var Gísli Þórðarson lögmaður. Gísli Þórðarson (lögmaður). Gísli Þórðarson (f. 1545, d. fyrir 28. mars 1619) var íslenskur lögmaður á 16. og 17. öld. Hann bjó á Innra-Hólmi á Akranesi og síðar á Arnarstapa. Foreldrar Gísla voru Þórður Guðmundsson lögmaður og kona hans, Jórunn Þórðardóttir. Þegar faðir hans lét af lögmannsembætti á Alþingi 1606 kom hann því til leiðar að Gísli var kjörinn lögmaður sunnan og austan í hans stað, og var hann þá kominn um sextugt. Gísli var mikill fjáraflamaður og varð stórauðugur, keypti margar jarðir og rak stórbú á Innra-Hólmi, hafði þar tólf vinnumenn. Hann fékk líka Stapaumboð og bjó á Arnarstapa síðustu árin. Gísli lenti í deilum við Herluf Daa höfuðsmann, sem sakaði hann meðal annars um að hafa leyft enskum manni að stunda fálkaveiðar, og var hann dæmdur í sektir. Hann sagði þá af sér lögmannsembættinu og kom ekki til Alþingis 1614, en Gísli Hákonarson varð lögmaður í hans stað. Sagt var að hann hefði haft áhrif á Herluf Daa í þessu máli. Kona Gísla var Ingibjörg, dóttir Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda og konu hans Guðrúnar Sæmundsdóttir. Þau áttu fjölda barna. Á meðal þeirra voru Hinrik sýslumaður á Innra-Hólmi, Steindór sýslumaður á Innra-Hólmi og Knerri, Ástríður kona Jóns eldri Magnússonar í Haga og Guðrún kona Magnúsar Björnssonar lögmanns. Gísli Hákonarson (lögmaður). Gísli Hákonarson (1583 – 10. febrúar 1631) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld. Hann bjó í Laugarnesi, Klofa og loks í Bræðratungu og er yfirleitt kenndur við þann bæ. Gísli var sonur Hákonar Árnasonar sýslumanns á Hóli í Bolungarvík, Dyrhólum í Mýrdal, Klofa á Landi og síðast á Reyni í Mýrdal, sonar Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda, og konu Hákonar Þorbjargar Vigfúsdótur Þorsteinssonar sýslumanns á Skútustöðum og í Ási í Kelduhverfi, Finnbogasonar lögmanns. Gísli fór í Skálholtsskóla og mun hafa numið eitthvað erlendis. Hann var mikilsmetinn höfðingi og þegar Gísli Þórðarson lögmaður sunnan og austan sagði af sér 1613 var Gísli Hákonarson kosinn í embættið. Hann bjó þá í Laugarnesi en flutti skömmu síðar í Klofa á Landi og árið 1617 í Bræðratungu og byggði þar upp. Rígur var á milli hans og nágranna hans, Odds biskups Einarssonar, en þó ekki beinar deilur. Skammt varð á milli þeirra. Oddur dó 28. desember 1630 og við útför hans veiktist Gísli og dó skömmu síðar í Bræðratungu. Gísli var sagður höfðingi mikill og er honum svo lýst að hann hafi verið „með hæstu mönnum að vexti og karlmenni að burðum, allra manna kurteisastur og prúðastur í framgaungu, lítillátur og glaður í viðmóti, trölltryggur og raungóður vinum sínum“. Sérstaklega er tekið fram að hann hafi aldrei verið drukkinn á þingum og mun það hafa verið sjaldgæft á þeim árum þegar embættismenn áttu í hlut. Hann kom sér vel við danska ráðamenn og gegndi stundum hlutverki höfuðsmanns þegar enginn slíkur var á landinu, en vildi þó halda íslensk lög. Lögbók hans er enn til, skrautleg og með miklum gyllingum. Kona Gísla var Margrét Jónsdóttir (um 1573 – september 1658), dóttir Jóns Krákssonar prófasts í Görðum á Álftanesi, hálfbróður Guðbrands biskups Þorlákssonar, og Jarþrúðar Þórólfsdóttur konu hans, dótturdóttur Erlendar Þorvarðarsonar lögmanns. Á meðal barna þeirra voru Vigfús sýslumaður á Hlíðarenda, faðir Bauka-Jóns Hólabiskups, Kristín kona Þorláks Skúlasonar biskups og móðir biskupanna Þórðar og Gísla Þorlákssona, Valgerður kona Eggerts Björnssonar ríka á Skarði og Hákon sýslumaður í Bræðratungu, afi Odds lögmanns Sigurðssonar. Til er mynd af Gísla, gerð af Sigurði Guðmundssyni málara eftir málverki sem var í Hóladómkirkju en er nú glatað. Helgi Oddsson. Helgi Oddsson (d. fyrir 1526) var íslenskur lögmaður á 15. öld. Hann bjó á Stóruvöllum á Landi, sem þá voru kallaðir Lögmannsvellir. Helgi var sonur Odds Ásmundssonar lögmanns á Stóruvöllum. Hann tók við lögmannsdæmi sunnan og austan 1495 af Eyjólfi Einarssyni en gegndi því ekki lengi, lét af embætti 1498, og er fátt vitað um lögmannstíð hans. Ekki er vitað hver kona Helga var en hann átti tvo syni sem hétu Jón og Egill. Eyjólfur Einarsson. Eyjólfur Einarsson (um 1450 – 1495) var íslenskur lögmaður á 15. öld. Hann bjó í Möðrufelli og Stóradal (Djúpadal) í Eyjafirði, á Keldum og síðast í Dal (Stóradal) undir Eyjafjöllum. Faðir Eyjólfs var Einar sýslumaður í Djúpadal, sonur Árna dalskeggs á sama stað. Eyjólfur varð lögmaður sunnan og austan á Alþingi 1480 en svo virðist sem miklar deilur hafi orðið um lögmannskosninguna og voru bæði Þorleifur Björnsson hirðstjóri og Magnús Eyjólfsson Skálholtsbiskup mótfallnir kjöri Eyjólfs. Þorleifur fór utan 1481 og hafði þá með sér bréf sem Ólafur Þrándarson erkibiskup hafði gefið út áður og lýst Eyjólf í bann; það hefur verið fyrir 1474 því Ólafur dó það ár. Sök Eyjólfs var sú að hann hafði gripið séra Jón Snorrason í Gaulverjabæ að næturlagi og sett hann í járn og gapastokk og í annað skipti tekið hann úr kirkju og farið eins með hann. Þetta bréf varð til þess að Jón smjör, sem þá var höfuðsmaður í Björgvin, riddari og einn valdamesti maður Noregs, lýsti því yfir í bréfi að Eyjólfur væri fullur óbótamaður nema hann sættist við Þorleif. Bréf þetta var lesið upp á Alþingi 1483 og vildi þá enginn hlýða dómnefnu Eyjólfs og Magnús biskup neitaði að viðurkenna hann sem lögmann. Biskupinn og Diðrik Píning hirðstjóri hvöttu Eyjólf til að sættast við Þorleif og hefur hann líklega látið undan, að minnsta kosti var hann lögmaður til 1494 og átti meðal annars þátt í Píningsdómum. Kona Eyjólfs var Ragnheiður Eiríksdóttir frá Skarði á Landi, Krákssonar, og var systir hennar Ingibjörg, móðir Torfa Jónssonar í Klofa. Eyjólfur var þriðji maður hennar en hún hafði áður verið gift Þorsteini Helgasyni bónda á Reyni í Mýrdal og síðan Magnúsi Jónssyni bónda á Krossi í Landeyjum, sem veginn var í Krossreið síðari af Þorvarði Eiríkssyni slógnefs Loftssonar og Narfa Teitssyni. Sonur Eyjólfs og Ragnheiðar var Einar Eyjólfsson sýslumaður í Stóradal undir Eyjafjöllum. Ásgeir Pétursson (lögmaður). Ásgeir Pétursson var íslenskur lögmaður á 15. öld. Raunar er hans aðeins getið í einni heimild og ártal sem þar er nefnt stenst ekki svo að ekki er fullvíst að hann hafi verið lögmaður. En í "Lögsögumannatali og lögmanna" setur Jón Sigurðsson hann sem lögmann sunnan og austan 1436-1440. Ekkert er vitað um Ásgeir, ætt hans, fjölskyldu eða búsetu, og ekkert um lögmannsstörf hans. Úlfur Grímsson. Úlfur Grímsson var landnámsmaður í Borgarfirði og nam land efst í Hálsasveit, milli Hvítár og Geitlandsjökuls, og bjó á Geitlandi. Úlfur var sonur Gríms háleyska Þórissonar, sem var stýrimaður á skipi Kveld-Úlfs, nam land milli Andakílsár og Grímsár og bjó á Hvanneyri. Móðir Úlfs var Svanlaug, dóttir Þormóðs Bresasonar landnámsmanns á Akranesi. Sonur Úlfs var Hrólfur auðgi var faðir Halldóru, fyrstu konu Gissurar hvíta, og dóttir þeirra var Vilborg, kona Hjalta Skeggjasonar. Annar sonur Úlfs var Hróaldur, faðir Hrólfs, sem giftist Þuríði dóttur Valþjófs Örlygssonar landnámsmanns í Kjós. Augabrúnir. (augnabrúnir, augabrýr, augnabrýr eða brúnabaugar) eru hærðir hálfbogar fyrir ofan mannsaugu. Bilið milli augabrúna heitir "brúnahaft" og hrukkur í brúnahafti eru kallaðar "skáldahrukkur". Ekki má rugla saman augabrúnum og augnhárum. Menningarlegt gildi. Sumt fólk, aðallega konur, nota oft augnháraplokkara til að skapa lögulegri augabrúnir og eru þær stundum litaðar með varanlegum lit. Íslensk málnotkun. Eintala hugtaksins er vafalaust augabrún eða augnabrún en velkst hefur lengi fyrir Íslendingum hvort nota eigi fleirtölumyndina ‚augabrýr‘ eða ‚augabrúnir‘. Báðar orðmyndirnar eru taldar réttar en munurinn skýrist af því að í fornri íslensku beygðist orðið brún eins og einsatkvæðis sterkt kvenkynsorð þ.e. nefnifall fleirtölu var brýnn. Á 19. öld hóf fólk að setja orðið brún í fleirtölu sem brúnir og þykir mörgum það réttara. After Hours. After Hours ("Eftir miðnætti") er bandarísk kvikmynd frá árinu 1985 í leikstjórn Martin Scorsese. Tungustapi. Tungustapi er kistulaga fell í Sælingsdal í Hvammsfirði. Tungustapi er kenndur við bæinn Tungu sem kallaður hefur verið Sælingsdalstunga um margar aldir. Stapinn er hár með klettabrúnum og grasi grónum stöllum sem ganga má eftir eins og þeir væru svalir. Auðvelt er að ganga upp á stapann og er þaðan víðsýnt í allar áttir, inn í dalbotninn og út á Hvammsfjörð. Tungustapi er talinn vera dómkirkja álfa og biskupssetur. Um Tungustapa má lesa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Hvammsfjörður. Hvammsfjörður. Horft af Fellsströnd í átt að Brokey. Hvammsfjörður er fjörður sem gengur inn úr suðaustanverðum Breiðafirði. Sunnan fjarðarins er Skógarströnd en norðan hans Fellsströnd og síðan Hvammssveit. Lögun fjarðarins minnir mjög á stígvél og er þá Laxárdalur inn af „sólanum“ á stígvélinu en Miðdalir og Hörðudalur þar fyrir sunnan, inn af „hælnum“. Við botn fjarðarins, í mynni Laxárdals, er kauptúnið Búðardalur. Mikill fjöldi eyja, hólma og skerja er í mynni Hvammsfjarðar og voru sumar áður byggðar og jafnvel stórbýli og höfðingasetur. Má þar nefna Hrappsey og Brokey. Miklir straumar myndast í þröngum sundunum milli eyjanna og hefur jafnvel verið rætt um að virkja sjávarföllin þar. Sigurður Jónsson (lögmaður). Sigurður Jónsson (1618 – 4. mars 1677) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld og bjó í Einarsnesi á Mýrum. Hann var sonur Jóns Sigurðssonar (d. 1648) sýslumanns í Einarsnesi og fyrri konu hans, Ragnheiðar Hannesdóttur frá Snóksdal. Albræður hans voru þeir Guðmundur sýslumaður á Hvítárvöllum og Þorleifur skólameistari í Skálholti og síðar prófastur í Odda, faðir Björns Þorleifssonar biskups. Sigurður var sýslumaður í Snæfellssnessýslu um tíma og síðan Mýrasýslu eftir að faðir hans lést. Árið 1644, meðan hann var sýslumaður í Snæfellsnessýslu, sakaði höfuðsmaður hann um að hafa leyft verslun við útlendinga en Sigurður bar af sér sakir en játaði þó að keypt hefði verið færi og messuvín. Hann var kjörinn lögmaður sunnan og austan þegar Árni Oddsson sagði af sér í upphafi Alþingis 1663 og gegndi því embætti til dauðadags. Þeir Þorleifur Kortsson voru lögmenn nokkurn veginn sama tíma og þóttu heldur atkvæðalitlir í störfum sínum, svo að stöðugt dró úr áhrifum Alþingis en að sama skapi óx vald höfuðsmanna og umboðsmanna þeirra. Kona Sigurðar var Kristín, dóttir séra Jóns Guðmundssonar skólameistara í Skálholti og síðar prófasts í Hítardal og Guðríðar dóttur Gísla Þórðarsonar lögmanns. Börn þeirra voru Jón eldri sýslumaður í Húnaþingi og klausturhaldari á Reynistað, Jón yngri sýslumaður í Einarsnesi, Ragnheiður kona Sigurðar Björnssonar lögmanns og Guðmundur bóndi í Álftanesi á Mýrum. Sigurður Björnsson (lögmaður). Sigurður Björnsson (1. febrúar 1643 – 1723) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. og 18. öld. Hann er fyrirmyndin að Eydalín lögmanni í "Íslandsklukkunni". Sigurður var sonur Björns Gíslasonar bónda í Bæ í Bæjarsveit og konu hans, Ingibjargar Ormsdóttur. Hann er sagður hafa verið mikill búmaður og vel að sér í lögfræði og ættvísi og er til brot úr ættartölubók eftir hann. Hann var landskrifari frá 1670 en árið 1677 var hann kosinn lögmaður sunnan og austan eftir lát Sigurðar Jónssonar lögmanns. Sama haust giftist hann dóttur Sigurðar, Ragnheiði. Þau bjuggu í Eyjum í Kjós, Saurbæ á Kjalarnesi og víðar. Árið 1683 varð Sigurður sýslumaður í Kjósarsýslu. Árið 1685 samdi hann ásamt fleirum svonefnda Bessastaðapósta, sem fjalla um húsgangsfólk, lausamenn, vinnufólk og fleira og voru þeir samþykktir á Alþingi og oft byggt á þeim í dómum síðan. Í lögmannstíð Sigurðar urðu miklar breytingar á stjórnarháttum, rentukammerið í Kaupmannahöfn tók smátt og smátt yfir þá stjórn sem höfuðsmenn og fógetar þeirra höfðu haft, höfuðsmanns- eða hirðstjóraembættið var lagt af en í staðinn komu stiftamtmenn og amtmenn. Vald lögmanna minnkaði smám saman og fór oft svo að mál lágu mjög lengi hjá þeim óafgreidd. Árið 1697 var Páll Vídalín skipaður varalögmaður Sigurðar og skyldi fá lögmannsembættið á eftir honum. Þessi ráðstöfun var þó gerð í andstöðu við Sigurð og kastaðist fljótt í kekki með honum og þeim Páli og Árna Magnússyni. Sigurður sagði af sér lögmannsembætti eftir Alþingi 1705 og tók Páll við árið eftir. Árni og Páll dæmdu Sigurð í háar fjársektir og frá embætti (sem hann hafði þó sagt af sér) og virðingu á Alþingi 1708 en Sigurður vann fullan sigur fyrir hæstarétti í Kaupmannahöfn 1713 og fékk sér dæmdar skaðabætur. Ragnheiður kona Sigurðar (1648 – 13. mars 1727) var sem fyrr segir dóttir Sigurðar Jónssonar lögmanns. Á meðal barna þeirra var Sigurður sýslumaður og alþingisskrifari. Rauðlaukur. Rauðlaukur (eða blóðlaukur) (fræðiheiti: "Allium cepa") er matjurt af laukætt. Rauðlaukur er rautt afbrigði af matlauk. Björn Markússon. Björn Markússon (31. ágúst 1716 – 9. mars 1791) var íslenskur lögmaður á 18. öld. Foreldrar Björns voru Markús Bergsson sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og kona hans Elín, dóttir Hjalta Þorsteinssonar prófasts í Vatnsfirði, eins helsta myndlistarmanns 18. aldar. Björn fór til Kaupmannahafnar til náms og var þá vel fullorðinn, var innritaður í Kaupmannahafnarháskóla 1744, 28 ára gamall. Þegar hann var í Kaupmannahöfn var hann meðal annars fenginn til þess með öðrum að skrifa upp "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns" og hann las líka prófarkir að Wajsenhús-biblíunni svokölluðu. Árið 1749 var hann skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýsu þegar Skúli Magnússon varð landfógeti og ári síðar varð hann varalögmaður sunnan og austan með loforði um að taka við af Magnúsi Gíslasyni. Hann sat fyrst í lögmannssæti á Alþingi 1752 en þá hafði Magnús verið settur amtmaður. Magnús hélt þó lögmannsembættinu til 1756 en á Alþingi 1757 tók Björn við og hélt embættinu til dauðadags. Björn var sýslumaður í Skagafirði til 1757 og bjó á Stóru-Ökrum. Stjórn Hólastóls og prentsmiðjunnar var þá að miklu leyti í höndum hans og lét hann þá prenta ýmsar Íslendingasögur, þýddar skáldsögur og ljóðmæli og fleira sem ekki taldist til guðsorðs, en Hálfdan Einarsson skólameistari annaðist þá útgáfu. Björn var áhugamaður um framfarir af ýmsu tagi og fékk meðal annars styrk til kornyrkjutilrauna árið 1750, en þær tilraunir mistókust. Þegar Björn fór úr Skagafirði flutti hann sig fyrst að Hvítárvöllum, svo að Leirá en seinast bjó hann á Innra-Hólmi og dó þar. Björn fékk fljótlega varalögmenn sér til aðstoðar. Fyrstur þeirra, frá 1758, var Jón Ólafsson frá Eyri í Seyðisfirði en árið 1767 færði hann sig og varð varalögmaður Sveins Sölvasonar. Þá tók Eggert Ólafsson við en það entist stutt því hann drukknaði vorið eftir. Bróðir Eggerts, Magnús Ólafsson, var þá settur varalögmaður. Hann gegndi því embætti frá 1769 þar til Björn dó og varð síðan lögmaður. Kæfisvefn. Kæfisvefn er ástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni ásamt syfju þegar fólk er vakandi. Hjá fullorðnum telst það öndunarhlé ef öndunin hættir alfarið í 10 sekúndur eða lengur. Öndunarhlé í kæfisvefni verða oftast vegna þrengsla eða lokunar í efri hluta öndunarvegarins (frá nefi að koki). Þá reynir einstaklingurinn að ná andanum með sífellt kröftugri innöndunartilraunum. Sjaldgæfari eru svokölluð miðlæg öndunarhlé þar sem ekkert loftflæði á sér stað en heldur ekki nein tilraun til öndunar. Eðli slíkra miðlægra öndunarhléa er talsvert annað en þeirra öndunarhléa sem eru vegna þrengsla. Kæfisvefn kallast það þegar öndunarhlé í svefni eru fimm eða fleiri á klukkustund. Rætt er um vægan kæfisvefn þegar fjöldi öndunarhléa er 5–15 á klukkustund, kæfisvefn á meðalháu stigi þegar fjöldinn er 15–30 á klukkustund og kæfisvefn á háu stigi þegar öndunarhléin eru 30 eða fleiri á klukkustund. thumb Einkenni kæfisvefns. Einkennum kæfisvefns má skipta í tvennt; annars vegar þau sem koma fram í svefni og hins vegar þau sem koma fram í vöku. Algengi kæfisvefns. Fyrir 1980 var kæfisvefn talinn fremur fátítt fyrirbæri. Með bættri rannsóknartækni og auknum áhuga á því að greina og meðhöndla kæfisvefn hefur komið í ljós að kæfisvefn telst til algengari langvinnra sjúkdóma. Kæfisvefn getur komið fram hjá báðum kynjum en er mun fátíðari hjá konum, sérstaklega fyrir tíðahvörf. Kvenhormón virðast að einhverju leyti vernda konur gegn kæfisvefni. Meirihluti þeirra sem greinast með kæfisvefn eru yfir kjörþyngd og virðist offita geta gert vægan kæfisvefn verri. Kæfisvefn getur komið fram hjá börnum og lýsir sér þá yfirleitt sem óvær svefn og hrotur að næturlagi en þreyta og óróleiki á daginn. Hjá þeim sem komnir eru yfir sjötugt eru stutt öndunarhlé algeng en hafa þó yfirleitt ekki eins mikla fylgikvilla í för með sér eins og hjá þeim sem yngri eru. Meðferð við kæfisvefni. Algengasta, áhrifamesta og öruggasta meðferðin við kæfisvefni er notkun svefnöndunartækis. Við meðferðina er notað tæki (CPAP-Continuous Positive Airway Pressure) sem tekur inn loft gegnum síu og blæs því lofti undir þrýstingi í gegnum slöngu/barka í öndunargrímu sem sofið er með. Þrýstingur loftsins heldur öndunarveginum opnum og kemur þannig í veg fyrir að hann falli saman og að hlé verði á önduninni með tilheyrandi falli í súrefnismettun og truflun á svefni. Hægt er að líkja áhrifum loftsins við það að spelku hafi verið komið fyrir í kokinu. Við vissar aðstæður hefur reynst vel að meðhöndla kæfisvefn með sérstökum lausum bitgómi, sem festist við efri og neðri tanngarð og heldur hökunni frammi í svefni. Einstaka sinnum eru gerðar skurðaðgerðir á fólki með kæfisvefn og er þá úfurinn og hluti af mjúka gómnum fjarlægður til að minnka þrengsli í koki. Almennar ráðleggingar. Mikilvægt er að huga vel að svefnvenjum, hafa háttatíma og fótaferðartíma reglulegan og heildarsvefntíma um 7–8 klukkustundir. Líkamleg þreyta, svefnlyf, róandi lyf og neysla áfengis fyrir svefn auka kæfisvefn. Mikilvægt er fyrir þá sem eru of þungir að létta sig. Í sumu tilfellum nægir að léttast um 5-10 kg til að verulega dragi úr einkennum kæfisvefns. Fjölbreytt fæði og reglulegir matmálstímar eru þær almennu leiðbeiningar sem reynast vel. Hreyfing hefur áhrif á almenna líðan og getur meðal annars dregið úr stoðkerfisverkjum sem geta truflað svefn. Því er mikilvægt að stunda reglubundna hreyfingu. Kæfisvefn getur verið stöðubundinn og kemur jafnvel eingöngu fram þegar fólk liggur á bakinu. Hægt er að koma í veg fyrir það með því að festa mjúkan bolta við bakið. Sumum þykir hjálpa að sofa með hærra undir höfði. Við verulegum kæfisvefni duga þó engin önnur ráð en meðferð með svefnöndunartæki. Veiðihár. Veiðihár (kampar, granahár, mjálmur eða kjafthár) eru löng og stinn hár á snjáldri ýmissa dýra, t.d. katta, ljóna og refa. Veiðihár eru skynfæri, en þau nema vel hreyfingu í grasi til dæmis, sem kemur sér vel þegar veitt er í myrkri. Potsdam. Potsdam er stærsta borg sambandslandsins Brandenborgar í Þýskalandi með 156 þúsund íbúa og er jafnframt höfuðborg Brandenborgar. Borgin var áður aðsetur konunga og keisara. Kastalarnir, ásamt görðunum og ýmsum öðrum byggingum, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Í borginni er stærsta kvikmyndaver Þýskalands. Lega. Potsdam liggur við ána Havel miðsvæðis í Brandenborg og er nágrannaborg Berlínar. Borgirnar eru nær samvaxnar við suðvesturhorn Berlínar. Þar skilur Glienicke-brúin á milli en hún var gjarnan notuð fyrir fangaskipti á tímum kalda stríðsins. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Potsdam sýnir rauðan örn á gulum grunni. Fyrir ofan er bogadreginn múrveggur. Örninn er tákn markgreifadæmis Brandenborgar og á upphaf sitt á 12. öld. Síðustu breytingar á merkinu voru gerðar 1957. Gulur og rauður eru litir borgarinnar. Orðsifjar. Gamla ráðhúsið. Efst er Atlas og hvílir heimurinn á herðum hans. Elsta heiti borgarinnar er Poztupimi og kemur fram á skjali Ottos III keisara frá 993. Ekki er ljóst hvaðan heitið kemur, en líklegt er að það sé slavneska og merkir "Undir eikunum". Aðrir meina að heitið sé dregið af slavnesku mannanafni, sem þá væri Postapim. Úr Poztupimi verður Postamp og síðar Potsdam. Frá miðöldum til upplýsingar. Það var markgreifinn Albrecht der Bär (Albrecht björn) sem náði að hertaka svæðið af slövum 1150. Á núverandi borgarstæði var slavenskt virki sem Albrecht hertók. Í aðeins 700 metra fjarlægð lét Albrecht reisa þýskt virki. Það var upphafið á borginni Potsdam. Potsdam var þó lítill landamærabær næstu aldir. Hann fékk ekki borgarréttindi fyrr en 1345. Árið 1416 eignast Hohenzollern-ættin borgina og er hún í eigu þeirra (kjörfursta, konunga og keisara) til loka heimstyrjaldarinnar fyrri. 30 ára stríðið tók mikinn toll af borginni. Í stríðslok lá hún nær yfirgefin, en þar voru þá aðeins um 700 manns. Ein mesta lyftistöng borgarinnar var sú ákvörðun kjörfurstans Friðriks Vilhjálms ("Der grosse Kurfürst") 1660 að gera Potsdam að öðru aðsetri sínu, á eftir Berlín. Í kjölfarið var mikill kastali reistur og borgin gerð að herstöð. Kjörfurstinn flutti inn húgenotta frá Frakklandi, sem settust að þar, sem og í Berlín. Árið 1745 reisti konungurinn Friðrik mikli sér Sancoussi-kastalann í Potsdam, sem enn í dag er merkasti rókókókastali Þýskalands. Þangað var Voltaire boðið og var hann meðhöndlaður eins og þjóðhöfðingi. Stríðsátök. 1806 hertók Napoleon bæði Berlín og Potsdam. Napoleon var mjög hrifinn af höllunum í Potsdam og heimsótti grafreit Friðriks mikla i kirkju einni þar í borg. Þar átti hann að hafa sagt: „Ef hann væri enn á lífi, væri ég ekki hér.“ Frakkar yfirgáfu Potsdam ekki fyrr en 1814. Árið 1838 fékk borgin járnbrautartengingu til Berlínar, en hún var meðal fyrstu í Þýskalandi. Árið 1897 var fyrsta loftskeytið í Þýskalandi sent innanbæjar í Potsdam. Árið 1912 var stærsta loftskipahöfn Þýskalands lögð í Potsdam. Stjórnandinn var Graf von Zeppelin. Árið 1914 undirritaði Vilhjálmur II keisari í einum kastala sinna í Potsdam stríðsyfirlýsingu gegn bandamönnum og hóf þar með heimstyrjöldina fyrri. Í stríðslok sagði keisarinn af sér og fór í útlegð til Hollands. Potsdam missti þar með status sinn sem keisaraborg. Heimstyrjöldin síðari og nútíð. Churchill, Truman og Stalin ræða framtíð Þýskalands í Potsdam 1945 21. mars 1933 var Potsdam-dagurinn haldinn af nasistaflokknum. Ríkisþinghúsið í Berlín brann mánuð fyrr og kosningarnar (5. mars) voru nýafstaðnar. Potsdam-dagurinn átti að verða nýtt upphaf fyrir Þýskaland en á þessum degi kom þing saman á ný. Eftir hádegi hitti Hitler Paul von Hindenburg, gamla ríkisforsetann. Við það tækifæri hneigði Hitler sig fyrir honum og þeir tókust í hendur. Seinna þennan dag samþykkti þingið að binda enda á Weimar-lýðveldið. Vegurinn fyrir Hitler var markaður. Potsdam kom lítið við sögu í heimstyrjöldinni síðari. Borgin varð fyrir miklum loftárásum bandamanna 14. apríl 1945, þar sem miðborgin stórskemmdist. Eftir það breyttu nasistar borginni í nokkurs konar virki. Sovétmenn voru að nálgast Berlín og það átti að hindra með öllum ráðum að þeir kæmust um Potsdam. Í því skyni voru til dæmis nokkrar brýr sprengdar, þar á meðal Glienicke-brúin sem tengir Potsdam og Berlín. Gerðir voru götutálmar úr ónýtum sporvögnum. En allt kom fyrir ekki, Sovétmenn hertóku borgina 27. apríl. Nokkrum mánuðum seinna hittust leiðtogar sigurveldanna í Potsdam á hinni svokölluðu Potsdam-ráðstefnu. Það voru Harry S. Truman frá Bandaríkjunum, Jósef Stalín frá Sovétríkjunum og Winston Churchill frá Bretlandi. Ráðstefnan stóð yfir frá 17. júlí til 2. ágúst 1945. Á þessum tíma fóru fram kosningar í Bretlandi og missti Churchill forsætisráðherraembætti sitt. Því tók Clement Attlee við af honum í miðri ráðstefnunni. Frakkar sóttu ráðstefnuna ekki. Leiðtogarnir ræddu um framtíð Þýskalands og nokkurra Austurevrópuríkja, til dæmis Póllands. Þeim mistókst hins vegar að finna sameiginlega lausn á hernámsáætlun fyrir Þýskaland, sem síðan varð til þess að löndin klofnuðu í tvö ríki. Þegar Berlínarmúrinn var reistur 1961, var hann reistur við borgarmörk Potsdam, sem við það var slitið frá nágrannaborg sinni Berlín. Aðeins Glienicke-brúin tengdi borgirnar saman, en hún var lokuð í kalda stríðinu. Hún var hins vegar notuð til að skiptast á föngum milli austurs og vesturs. Brúin var ekki opnuð fyrir umferð á ný fyrr en með falli múrsins 1989. Þegar Þýskaland sameinaðist 1990 var sambandslandið Brandenborg stofnað. Potsdam varð þá höfuðborg þess lands og svo er enn. Á sama ári voru stórir hlutar miðborgarinnar settir á heimsminjaskrá UNESCO. Íþróttir. Kvennaliðið 1. FFC Turbine Potsdam í knattspyrnu er vafalaust eitt besta lið Þýskalands. Það er margfaldur þýskur meistari, bikarmeistari og liðið sigraði í UEFA Women´s Cup keppninni 2005. Karlaliðið SV Babelsberg 03 spilar í 4. deild. Byggingar og kennileiti. Sanssouci er ein fegursta höll Þýskalands Potsdam á sér sitt eigið Brandenborgarhlið Magnús Ólafsson (lögmaður). Magnús Ólafsson (1728 – 14. janúar 1800) var íslenskur lögmaður og varalögmaður á 18. öld og síðasti lögmaðurinn sem dó í embætti. Magnús var sonur Ólafs Gunnlaugssonar (1689 – 16. júlí 1784) bónda í Svefneyjum á Breiðafirði og konu hans Ragnhildar Sigurðardóttur (1695 – 22. apríl 1768) frá Brjánslæk. Magnús var næstelstur systkina sinna en á meðal þeirra má nefna Eggert Ólafsson, Jón Ólafsson lærða (1731-1811) og Rannveigu konu Björns Halldórssonar prests í Sauðlauksdal. Magnús fór til Kaupmannahafnar til náms og var skráður í Kaupmannahafnarháskóla 1754. Á námsárunum vann hann meðal annars að því með Agli Þórhallasyni að þýða Jónsbók á dönsku. Magnús var skipaður varalögmaður sunnan og austan með konungsbréfi 10. mars 1769, eftir að fréttist af drukknun Eggerts bróður hans, sem hafði gegnt því embætti skamma hríð. Hann fór þá til Íslands og hafði fyrstu árin aðsetur í Sauðlauksdal hjá systur sinni og Birni mági sínum. Árið 1776 fór hann að Skálholti og tók árið eftir við forstöðu fyrir búum stólsins. Það reyndist honum þó mjög erfitt því að þetta voru hallæris- og fjárkláðaár en hann hélt starfinu þó til 1785, þegar stólseignirnar voru seldar. Þá flutti hann sig að Meðalfelli í Kjós og bjó þar til dauðadags. Björn Markússon lögmaður dó snemma árs 1791 og tók Magnús þá við lögmannsembættinu sunnan og austan. Benedikt Jónsson Gröndal var skipaður varalögmaður hans seinna sama ár og gegndi stundum lögmannsstörfum fyrir hann en Magnús kom þó til Alþingis hvert ár meðan það var haldið á Þingvöllum. Árið 1799 var þingið haldið í Reykjavík í fyrsta sinn og kom Magnús þá ekki. Hann dó svo um veturinn. Magnús kvæntist árið 1779 Ragnheiði, dóttur Finns Jónssonar biskups, og áttu þau saman 12 börn en aðeins þrjú komust til fullorðinsára. Sonur þeirra var Finnur Magnússon fræðimaður í Kaupmannahöfn. Gunnólfur gamli Þorbjarnarson. Gunnólfur Þorbjarnarson hinn gamli var landnámsmaður við Eyjafjörð. Hann var frá Sogni í Noregi, sonur Þorbjarnar þjóta. Í Landnámabók segir að Gunnólfur hafi farið til Íslands eftir að hafa vegið Végeir, föður Vébjarnar Sygnakappa, og numið Ólafsfjörð austanverðan upp til Reykjaár og út til Vomúla (líklega Ólafsfjarðarmúla) og búið á Gunnólfsá, sem er norðan fjarðarins. Kona hans var Gró Þorvarðsdóttir frá Urðum. Þorsteinn svarfaður Rauðsson. Þorsteinn svarfaður Rauðsson (eða Þorsteinn svörfuður) var landnámsmaður á Íslandi. Hann nam land í Svarfaðardal að ráði Helga magra. Frá honum og ættmennum hans segir í Svarfdæla sögu. Landnáma segir að Þorsteinn hafi verið sonur Rauðs ruggu úr Naumudal í Noregi en móðir hans hafi veirð Hildur dóttir Þráins svartaþurs. Ekki er getið um mörk landnáms hans. Í Svarfdæla sögu segir frá því að Ljótólfur goði hafi numið land í dalnum áður en Þorsteinn kom út og hafi þeir skipt honum þannig að Þorsteinn nam land vestan Svarfaðardalsár og bjó á Grund en Ljótólfur nam eystri hluta dalsins og bjó á Hofi. Í Landnámu er Ljótólfur ekki nefndur sem landnámsmaður í dalnum en hins vegar er hans getið á nokkrum stöðum og ættir raktar til hans. Bendir það til þess að þegar Landnámabók var skráð hafi tvennum sögum farið af landnámi dalsins. Kona Þorsteins er ekki nefnd í Landnámu en Svarfdæla segir að hún hafi heitið Ingibjörg Herröðardóttir. Börn þeira voru Karl rauði á Karlsá og Guðrún, kona Hafþórs víkings og móðir Klaufa, sem er ein aðalpersóna Svarfdæla sögu. Viðurnefni Þorsteins, "svarfaður" eða "svörfuður", er talið merkja ófriðarseggur. Nordplus. 270pxNordplus er norræn menntaáætlun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og veitir styrki á sviði menntamála til aðila á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Alþjóðaskrifstofa Háskólastigsins annast rekstur Landskrifstofu Nordplus á Íslandi. Norræna menningargáttin. 270pxNorræna menningargáttin ("Kulturkontakt Nord") er norræn stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Hún sér um framkvæmd og þróun norræna menningarsamstarfsins. Hún miðlar einnig upplýsingum um norrænt menningarsamstarf innan og utan Norðurlandanna. Hlutverk hennar er auk þess að hafa umsjón með styrkjaáætlunum fyrir listamenn og fólk í menningarstarfi. Norræna menningargáttin tók til starfa 2007 í kjölfar skipulagsbreytinga og skrifstofur hennar eru í Helsinki. Framkvæmdastjóri hennar er Bergljót Jónsdóttir. NordForsk. 270pxNordForsk er norræn stofnun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um menntun og rannsóknir. Hlutverk NordForsk er að hafa umsjón með samstarfi á sviði rannsókna og rannsóknamenntunar á Norðurlöndunum. Starfið snýr að samþættingu, fjármögnun og ráðgjöf í tengslum við verkefnin. Aðsetur stofnunarinnar eru í Osló. Norðurlönd í brennidepli. Norræna húsið sér um starfsemi "Norðurlanda í brennidepli" í Reykjavík Norðurlönd í brennidepli ("Norden i Fokus") er norrænt verkefni sem hefur það hlutverk að miðla upplýsingum um samfélags- og menningarmál á Norðurlöndum. Þetta er gert með sýningum, námskeiðahaldi og öðrum leiðum. Upplýsingaskrifstofur "Norðurlanda í brennidepli" eru starfræktar í Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi og auk þess heldur Norræna húsið utan um starfsemi verkefnisins í Reykjavík og Nordens institut i Finland sér um starfið í Helsinki. Dagskrá á vegum skrifstofanna er samþætt upp að vissu marki. Verkefnið er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Norræna Atlantsnefndin. Kort af aðildarríkjum í Norrænu Atlantsnefndinni Norræna Atlantsnefndin (NORA) er vest-norrænt byggða- og svæðasamstarf á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og hluta Noregs. NORA vinnur einnig náið með öðrum aðliggjandi svæðum, s.s. norðurhluta Bretlandseyja, hluta Svíþjóðar, Noregs og Finnlands og norðaustursvæða Kanada. Þá nær samstarfið einnig til Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins. Markmið NORA eru meðal annars að styðja við bakið á starfsemi í atvinnulífi, rannsóknar- og þróunarstarfsemi þvert á landamæri svæðisins. Skrifstofa NORA er í Þórshöfn í Færeyjum en landskrifstofur starfa í hinum aðildarlöndunum þremur. Íslenska landskrifstofan starfar innan Byggðastofnunar. Höfðaletur. Höfðaletur er eitt hið sérkennilegasta fyrirbrigði í skrautlist Íslendinga á síðari öldum, og má heita fastur liður í íslenskri skurðlist. Það er talið hafa verið unnið eftir gotnesku letri (textura) og er ávallt skorið í yfirborð þannig að það sé upphleypt. Flestir stafirnir eiga sér fleiri en eina mynd og eru þeir auðkenndir á því sem talið er gefa letrinu nafn sitt en leggir stafanna hafa allir höfuð sem er markað frá með skurði, yfirleitt einfallt og skáhallandi en stundum tvöfallt. Annars eru til margar tilgátur um hvaðan stafagerðin hlýtur nafn sitt en engar staðfestar heimildir eru fyrir því. Nútímanotkun. Sumir íslenskir leturhönnuðir hafa gert tilraunir með Höfðaletur og má þar nefna Gunnlaug Briem og Hörð Lárusson Andoxunarefni. Andoxunarefni eru sameindir sem geta hægt á eða komið í veg fyrir oxun annarra sameinda. Oxun er það efnaferli þegar súrefnis rafeindir flytjast frá einu efni til annars. Við oxun geta myndast fríar sameindir er koma af stað keðjuverkandi efnahvörfum sem skemma frumurnar. Andoxunarefni geta komið í vega fyrir þessa keðjuverkun með því að tengjast óbundnu rafeindunum, og koma þannig í veg fyrir áframhaldandi oxun með því að oxast sjálf. Andoxunarefni eru afoxarar eins og þiol, ascorbic sýra eða polyfenól. Þó svo að oxun sé lífinu lífsnauðsynleg, þá getur hún einnig valdið skaða. Plöntur og dýr hafa flókið kerfi margskonar andoxunarefna eins og glútatþíón, C-vítamín og E-vítamín sem og ensíma eins og katalasa, superoxíð dismútasa og mismunandi peroxíðasa. Lág gildi andoxunarefna eða efna er hamla virkni andoxunarensíma, valda oxunar stressi og geta skaða frumur eða valdið frumudauða. Þar sem oxunar stress gæti verið mikilvægu þáttur í mörgum sjúkdómum er hrjá mannfólkið, eru miklar rannsóknir gerðar á andoxunarefnum og notkun þeirra í lyfjaiðnaði. Sérstaklega sem meðferð við hjartaáfalli og sjúkdómum í taugakerfinu. Hins vegar er ekki vitað hvort oxunar stress sé orsök eða afleiðing þessara sjúkdóma. Andoxunarefni eru mikið notuð sem viðbót í matvæli með von um bætta heilsu og til að fyrirbyggja sjúkdóma eins og krabbameina og hjartasjúkdóma. Jafnvel þó að frumrannsóknir hafi gefið til kynna að andoxunarefni geti bætt heilsu, hafa stórar klínískar rannsóknir, sem fram hafa komið á seinni árum ekki bent til neins ávinnings og jafnvel sýnt fram á að ofneysla andoxunarefna geti valdið skaða. Að auki fyrrgreindra nota eins og í lyfjaiðnaði, þá hafa þessi efnasambönd verið mikið notuð í öðrum iðnaði eins og matvæla- og snyrtivöru iðnaði sem þrávarnarefni auk þess sem þau eru notuð til að koma í veg fyrir niðurbrot gúmmís og bensíns. Þorsteinn rauður. Þorsteinn rauður Ólafsson (eða Þorsteinn rauði) var norrænn víkingur og herkonungur á 9. öld, sonur Auðar djúpúðgu Ketilsdóttur og Ólafs hvíta Ingjaldssonar, herkonungs í Dyflinni. Þorsteinn fór með móður sinni til Suðureyja eftir fall föður síns en þar voru flestir ættmenn Auðar. Þar giftist hann Þuríði, dóttur Eyvindar austmanns Bjarnarsonar og systur Helga magra. Þau eignuðust mörg börn. Þorsteinn gerðist herkonungur og í Landnámu segir að hann hafi ráðist til með Sigurði (jarli) hinum ríka Eysteinssyni, bróður Rögnvaldar Mærajarls. Þeir unnu Katanes og Suðurland, Ros og Merrhæfi og meir en hálft Skotland. Gerðist Þorsteinn þar konungur yfir en síðan sviku Skotar hann, og féll hann þar í orustu. Fyrir Sigurði jarli fór líka illa; hann drap skoska jarlinn Melbrigða tönn og festi höfuð sitt við reiðtygi hests síns en rak sig í skögultönnina sem stóð út úr haus Melbrigða og særðist á kálfa. Af því fékk hann blóðeitrun og dó. Auður móðir Þorsteins fór með ekkju hans og börn til Íslands. Sonur hans var Ólafur feilan en dæturnar voru Gró, sem Auður gifti í Orkneyjum, Ólöf, sem hún gifti í Færeyjum, Ósk, kona Hallsteins goða, sonar Þórólfs Mostrarskeggs, Þórhildur, sem giftist Eysteini meinfret Álfssyni, Vigdís, en maður hennar var Kampa-Grímur, landnámsmaður í Köldukinn, og Þorgerður, sem fyrst giftist Dala-Kolli Veðrar-Grímssyni og fór síðan til Noregs og giftist þar Herjólfi Eyvindssyni. Hortittur. Hortittur (eða uppfyllingarorð) er haft í óeiginlegri merkingu um ýmiss konar smekkleysur í máli, einkum kveðskap. Strangt til tekið merkir hortittur þó aðeins eyðufyllingu, merkingarlausa eða merkingarlitla málalengingu í bundnu máli sem er til þess gerð að fylla út braglínu eða vísu. Í gömlum rímum og dönsum úði og grúði af hortittum. En hortittirnir koma einnig fyrir í máli manna. Þeir vaða oft uppi í daglegu tali og eru mjög áberandi í spjalli manna og nefnist þá stundum líka hikorð. Miklar tískusveiflur eru í vali hortitta í óbundnu máli en nefna má til dæmis: "þarna", "sko", "alltsvo", "sem sagt", "ég meina", og er hið síðasta ensk áhrif. Halldór Laxness sagði um hortitti að þeir ætu ævinlega merg málsins innan úr setningu. Guðrún Ósvífursdóttir. a>i, þar sem hún bjó síðari hluta ævinnar. Guðrún Ósvífursdóttir var íslensk kona á söguöld, aðalkvenhetja Laxdælu og ein þekktasta kvenpersóna Íslendingasagna. Hún var fjórgift en var auk þess heitkona Kjartans Ólafssonar, en giftist síðan Bolla fóstbróður hans vegna þess að Kjartan kom ekki heim frá Noregi á umsömdum tíma og Bolli taldi henni trú um að hann væri orðinn henni afhuga. Guðrún var dóttir Ósvífurs Helgasonar, Óttarssonar, Bjarnasonar austræna. Kona Ósvífurs hét Þórdís Þjóðólfsdóttir. Þau bjuggu á Laugum í Sælingsdal og áttu auk Guðrúnar fimm syni sem hétu Óspakur, Helgi, Vandráður, Torráður og Þórólfur. Í Laxdælu segir að Guðrún hafi verið kvenna vænst sem þá uxu upp á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum. Þorvaldur og Þórður. Þegar Guðrún var fimmtán ára bað Þorvaldur Halldórsson bóndi í Garpsdal í Gilsfirði hennar og var hún ekki spurð álits. Hjónaband þeirra var ekki gott og þau skildu fljótlega. Þórður Ingunnarson á Hóli í Saurbæ hafði oft heimsótt þau hjón og lá það orð á að eitthvað væri milli þeirra Guðrúnar. Þórður var kvæntur maður en eftir eggjan Guðrúnar sagði hann skilið við konu sína á þeirri forsendu að hún klæddist setgeirabrókum eins og karlmaður. Nokkru síðar giftust þau Guðrún og var sambúð þeirra góð, en eftir skamman tíma drukknaði Þórður við Skálmarnes og var göldrum kennt um. Guðrún eignaðist skömmu síðar son sem látinn var heita Þórður eftir föður sínum. Hann var í fóstri hjá Snorra goða Þorgrímssyni og var kallaður Þórður köttur. Í Landnámu er einnig nefnd Arnkatla dóttir þeirra. Kjartan og Bolli. Guðrún var enn kornung og fór aftur heim að Laugum til foreldra sinna og bræðra. Kjartan Ólafsson, sonur Ólafs páa Höskuldssonar, og Bolli Þorleiksson fóstbróðir hans komu oft að Sælingsdalslaug og var Guðrún þá jafnan þar fyrir. Kjartani þótti gott að tala við Guðrúnu því hún var bæði vitur og málsnjöll. Feður þeirra voru miklir vinir og með þeim þótti jafnræði. En Kjartan hafði hug á að fara til Noregs og varð úr að hann keypti helming í skipi sem Kálfur Ásgeirsson átti og fóru þeir Bolli fóru utan. Þeir ætluðu að vera í þrjá vetur en Guðrún var ekki sátt við það og skildu þau ósátt. Kjartan og Bolli voru í Niðarósi þrjá vetur en þegar Bolli bjóst til heimfarar vildi Ólafur konungur Tryggvason ekki láta Kjartan lausan og hélt honum og þremur öðrum Íslendingum í gíslingu. Hann bað þó Bolla að skila kveðju til frænda og vina á Íslandi og átti þar við Guðrúnu. Bolli gerði það þó ekki, heldur lét hann í það skína að Kjartan hefði lagt hug á Ingibjörgu konungssystur, sem þótti kvenna fegurst, og óvíst að hann kæmi aftur á næstunni. Síðan bað hann sjálfur Guðrúnar og þau giftust. Guðrún hafði áður sagt að hún mundi engum manni giftast meðan Kjartan væri á lífi en lét þó tilleiðast fyrir fortölur ættingja og settust þau að á Laugum. Kjartan kom heim næsta sumar og sá enginn honum bregða við fréttirnar af giftingu Guðrúnar og Bolla. Hann kvæntist nokkru síðar sjálfur Hrefnu, systur Kálfs vinar síns. Brátt urðu erjur á milli Kjartans annars vegar og Bolla og Guðrúnar hins vegar. Meðal annars fór Kjartan með flokk manna að Laugum, umkringdi bæinn og hleypti engum út í þrjá daga, svo að fólk komst ekki til útikamars en þurfti að gera sín stykki inni og þótti það hin mesta skömm. Dráp Kjartans. Nokkru síðar frétti Guðrún að Kjartan væri á ferð í grenndinni og væri fáliðaður. Hún sagði bræðrum sínum og Bolla að fara að honum. Þeir vildu það ekki en hún ögraði þeim þá, kallaði bræður sína bændadætur og hótaði að skilja við Bolla. Þeir fóru þá. en þegar þeir fundu Kjartan sat Bolli hjá og börðust Ósvífurssynir lengi einir við hann. Þá spurði Kjartan Bolla af hverju hann hefði farið að heiman ef hann ætlaði að sitja hjá og Ósvífurssynir eggjuðu hann. Á endanum stóðst Bolli ekki eggjanirnar, spratt á fætur og vó Kjartan fóstbróður sinn með sverðinu Fótbít. Þegar Bolli kom heim að Laugum og sagði Guðrúnu tíðindin sagði hún: „Misjöfn verða morgunverkin. Eg hefi spunnið tólf alna garn en þú hefir vegið Kjartan.“ Svo bætti hún því við að sér þætti mest um vert að Hrefna mundi ekki ganga hlæjandi til sængur um kvöldið. Þá reiddist Bolli og sagði að sig grunaði að henni hefði brugðið minna við ef hann og bræður hennar hefðu legið eftir á vígvellinum en Kjartan fært henni tíðindin. Dráp Bolla. Ólafur faðir Kjartans gerði sætt við Bolla en þegar hann dó nokkrum árum síðar fóru bræður Kjartans og fleiri að Bolla þar sem hann var í seli ásamt Guðrúnu og felldu hann. Helgi Harðbeinsson hét sá sem drap Bolla og þurrkaði hann blóðið í blæju Guðrúnar, en hún brosti við. Helgi sagði þá að sig grunaði að undir þessu blæjuhorni byggi sinn höfuðbani. Guðrún gekk þá með son sinn, sem látinn var heita Bolli, en áður hafði hún átt soninn Þorleik með Bolla. Í Landnámu eru einnig nefndir synirnir Höskuldur og Surtur og dóttirin Þorgerður. Þegar Þorleikur og Bolli voru komnir á unglingsár eggjaði Guðrún þá til að hefna föður síns og fóru þeir þá að Helga og drápu hann. Fjórða hjónabandið og elliárin. Fjórði maður Guðrúnar var Þorkell Eyjólfsson, stórauðugur maður sem átti tvö skip í förum milli landa. Þau bjuggu á Helgafelli, en Guðrún og faðir hennar höfðu haft landaskipti við Snorra goða skömmu eftir fall Bolla og fluttii hann þá að Laugum. Guðrún og Þorkell eignuðust einn son sem hét Gellir og var afi Ara fróða, og dóttur sem hét Rjúpa. Þorkell drukknaði við Bjarneyjar á Breiðafirði þegar hann var að flytja kirkjuvið sem Ólafur konungur hafði gefið honum. Guðrún bjó á Helgafelli til elli og varð blind á endanum. Bolli sonur hennar kom oft til hennar þar. Einhverju sinni spurði hann hana hvaða mann hún hefði elskað mest. Guðrún svaraði: „Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur en engi var maður gervilegri en Bolli og albetur að sér. Þórður Ingunnarson var maður þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get eg að engu.“ Bolli gekk eftir svari, sagði að hún þyrfti ekki að leyna því lengur hverjum hún hefði unnað mest. Þá sagði Guðrún: „Þeim var eg verst er eg unni mest.“ Eviatar Zerubavel. Eviatar Zerubavel (fæddur 1948) er prófessor í félagsfræði við Rutgers-háskóla í New Jersey í Bandaríkjunum. Hann er virtur og afkastamkill rithöfundur en hann hefur meðal annars skrifað um hugræna félagsfræði og félagsfræði tímans. Zerubavel er fæddur í Ísrael árið 1948, hann lærði við háskólann í Tel Aviv en hann lauk doktorsprófi frá Pennsylvaníu-háskóla árið 1976. Hann kenndi við Columbia-háskóla og State University of New York en meirihluta starfsævinnar hefur Zerubavel kennt við Rutgers-háskóla. Árið 2003 var Zerubavel verðlaunaður Guggenheim Fellowship-verðlaunum. Fyrstu verk Zerubavels sem vöku eftirtekt voru framlög hans til rannsóka á tíma, sérstaklega félagsfræði tímans. Bækur hans á þessu sviði voru "Patterns of Time in Hospital Life" (1979); "Hidden Rhythms" (1981); "The Seven Day Circle" (1985); og "Time Maps" (2003). Seinna meir sneri hans sér einnig að hugrænni félagsfræði, þar bendir hann á hversu mikil áhrif samfélagið hefur á hugsanir okkar miklu fremur en mannlegt eðli. Hann bendir einnig á hversu mikil áhrif það hefur á hugsanir okkar hvaða þjóðfélagsghópi við tilheyrum, hann telur það móta okkur mun meira en mannlegt eðli. Samfélagið mótar hugsanir okkar fremur en mannlegt eðli og því er hugsun okkar er lærð. Seinna snéri hann athygli sinni að því sem hann hefur nefnt vitsmunalega félagsfræði, þar sem bent er á hversu mikið samfélagið fremur en mannleg náttúra skapar sálarlíf okkar og hversu mikið sameiginlegir eiginleikar skipta þjóðfélagshópum upp vegna sameinlegrar hegðunar og hugsunarhátta. Verk hans á þessu sviði eru meðal annarra "The Fine Line" (1991); "Terra Cognita" (1992); "Social Mindscapes" (1997); og "The Elephant in the Room" (2006). Zerubavel var í mörg ár yfirmaður útskriftarmála í Rutgers háskólanum og leiðbeinandi margra útskrifaðra nemenda. Hann varð mjög áhugasamur og akademískar vinnuhefðir og tímastjórnun við ritstörf. Bók hans The clockwork mouse(1999), hafði að geyma hagnýtar ráðleggingar, ætlaðar fyrir ritstörf, sérstaklega til að nota við tímastjórnun fyrir þá sem eru að ljúka við bókarskrif eða fræðiritgerðir. Bók hans er athyglisverð vegna raunverulegra dæma sem hans tekur úr daglega lífinu. Hann er giftur Yael Zerubavel, fræðimanns í sögu Ísraels. Skopstæling. Skopstæling (eða paródía) er haft um það sem Forngrikkir nefndu parodíu (af "para" = við hliðina á og "ode" = söngur) og er gamansöm eftirlíking alvarlegs listaverks eða þegar háleitt efni er klætt í (gamansaman) hversdagsbúning. Skopstæling var upphaflega helst stunduð innan kveðskapar en núna eru til skopstælingar innan allra listgeira, bókmennta svo og mynd- og tónlistar. Aristófanes var meistari skopstælinga með Grikkjum. Ágætt íslenskt dæmi um skopstælingu eru "Þerriblaðavísur" eftir Hannes Hafstein en þar skopstældi hann 16 íslensk skáld frá síðari öldum. Ian Hacking. Ian Hacking (fæddur 18. febrúar 1936 í Kanada) er virtur heimspekingur með sérfræði í vísindaheimspeki. Ævi og störf. Hacking fæddist í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada. Hann stundaði grunnnám við Háskólann í Bresku Kólumbíu (1956) og Cambridge-háskóla (1958). Hacking kláraði doktorsnám sitt við Cambridge árið (1962), undir leiðsögn Casimir Lewy, fyrrum nemanda Ludwigs Wittgenstein. Ian Hacking kenndi við Háskólann í Bresku Kólumbíu í Kanada sem lektor, síðar sem dósent. Hann kenndi einnig við Háskólann í Makerere í Úganda. Hann var fyrirlesari við Cambridge frá árunum 1969 til 1974 en þá færði hann sig yfir til Stanford-háskóla. Eftir að hafa kennt í nokkur ár við Stanford-háskóla, var hann eitt ár í Zentrum für Zeithistorische Forschung í Þýskalandi eða frá 1982–1983. Hann gerðist prófessor í heimspeki við Háskólann í Torontó árið 1983 og háskólaprófessor árið 1991. Hacking er þekktur fyrir sögulega nálgun á vísindaheimspeki og hefur verið lýst sem einum af mikilvægustu mönnum vísindaheimspekinnar innan Stanford-háskóla þar er hann í flokki með John Dupré, Nancy Cartwright og Peter Galison. Í bókinni "Mad Travelers" (1998) skráði Hacking atvik á síðasta áratug 19.aldar þar sem karlmenn í Evrópu þjáðust af skammvinnu minnisleysi og ferðuðust langa leið án allrar vitundar um eigið sjálf. Árið 2002 var Hacking verðlaunaður, fyrstur manna á sviði hugvísinda, Kanadísku Killam verðlaununum en þau eru veitt þeim sem hafa sýnt framúrskarandi árangur á sínu starfsviði. Árið 2004 var hann sæmdur kanadísku orðunni og árið 2009 Holdberg verðlaununum sem eru norsk verðlaun veitt fyrir framlög fræðilegra verkefna á sviði lista, hugvísinda og félagsvísinda. Hacking var sæmdur Holdberg verðlaununum fyrir verk sín varðandi tölfræði og líkindafræði og hvernig þau hafa mótað samfélagið. Ritverk. Verk eftir Ian Hacking hafa verið þýdd yfir á mörg tungumál. Heimildir. Hacking, Ian Hacking, Ian Hacking, Ian Kviksetning. a> af manni sem var kviksettur. Kviksetning kallast það þegar menn eru grafnir lifandi og er þá ýmist um að ræða að það sé óviljaverk, að fólk sem virðist látið en er í raun í dái er jarðsett fyrir mistök, eða að kviksetning er notuð sem sérlega grimmúðleg aftökuaðferð. Sagt er að fátt veki mönnum meiri ótta en tilhugsunin um að vera grafinn lifandi og sögur af fólki sem var kviksett hafa lengi fylgt mannkyninu. Í sumum tilvikum vaknar fólk af dásvefninum áður en í gröfina er komið og tekst að gera vart við sig en einnig eru sögur um grafir sem eru opnaðar og sjást þess þá ýmist merki að fólk hafi reynt að brjótast út, sparka gaflinum úr kistunni eða eitthvað slíkt. En þar sem kisturnar eru þröngar og lítið loft í þeim er líklegt að fólk kafni innan fárra mínútna. Öðru máli gegnir ef loft kemst inn í kistuna á einhvern hátt, þá gæti fólk lifað dögum saman. Ýmis ráð hafa verið fundin til vinna gegn - eða spila á ótta - fólks við kviksetningu, svo sem kistur með innbyggðum bjöllum til að hringja og á síðustu árum jafnvel með kalltæki. Einnig var algengt áður fyrr að fólk bæði um að sér væri opnuð æð eftir dauðann til að kanna hvort blóð rynni enn um líkamann og sumir báðu um að líkið yrði látið standa uppi í nokkra daga til öryggis. Kviksetning sem líflátsaðferð. Kviksetning hefur verið notuð frá örófi alda sem aftökuaðferð. Í Róm voru Vestumeyjar sem höfðu brotið skírlífisheit sitt múraðar inni. Nokkrir kristnir píslarvottar voru líflátnir með kviksetningu og á Ítalíu á miðöldum voru morðingjar sem ekki sýndu neina iðrun kviksettir. Í Rússlandi tíðkaðist á 17. og 18. öld að kviksetja konur sem banað höfðu manni sínum. Enn þekkjast dæmi um að fólk sé kviksett, þó ekki af yfirvöldum; í febrúar 2010 bárust til dæmis fréttir af því að 16 ára tyrknesk stúlka hefði verið grafin lifandi af ættingjum sínum fyrir það að tala við stráka. Á Íslandi eru nokkur dæmi um að kviksetningu hafi verið beitt sem líflátsaðferð á miðöldum. Í annálum segir frá því að árið 1374 tók Þorgautur Jónsson hirðstjóri Einar nokkurn dynt úr Þingeyrakirkju, en hann prófaðist síðan morðingi og var kviksettur. Árið 1389 var Hallsteinn Pálsson kviksettur fyrir fjögur morð. Og árið 1357 játaði maður sem Björn hét á sig samræði með tveimur kúm; hann var kviksettur, en kúnum stökkt fyrir sjávarhamra. Norræna vegabréfasambandið. Norræna vegabréfasambandið byggir á Norræna vegabréfaeftirlitssamningnum milli Norðurlandanna og felur í sér að ríkisborgarar Norðurlandanna geta ferðast óhindrað milli landanna án þess að framvísa vegabréfi. Samningurinn var undirritaður af Danmörku (gilti þó ekki fyrir Færeyjar og Grænland), Svíþjóð, Finnlandi og Noregi (gilti þó ekki fyrir Jan Mayen og Svalbarða) árið 1957 en hann byggði á bókun frá 1954 um að leysa ríkisborgara annarra Norðurlanda undan skyldu til að hafa í höndum vegabréf og dvalarleyfi við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu. Bókunin tók gildi á Íslandi 1955 og samningurinn gilti einnig á Íslandi frá og með 1966. Vegabréfasambandið var einn af fyrstu vísum formlegs samstarfs Norðurlandanna sem síðan hefur einkum átt sér stað innan Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Norræna vegabréfasambandið féll að vissu leyti inn í Schengen-samstarf Evrópusambandsins sem tók gildi með samningi 2001. Ísland og Noregur fengu aðild að Schengen-samstarfinu, þrátt fyrir að vera ekki meðlimir í Evrópusambandinu. Schengen-samstarfið hefði, að öðrum kosti, markað endalok Norræna vegabréfasambandsins ef að ESB-ríkin og Norðurlöndin Svíþjóð, Finnland og Danmörk hefðu ein gerst aðilar að Schengen-samstarfinu og þar með lokað sínum ytri landamærum gagnvart Norðurlöndum utan ESB. Vanangur. Sanssouci er ein fegursta rókókóhöll Þýskalands Vanangur (eða Sanssouci) (franska: "Sanssouci": áhyggjuleysi, sorgleysa) er heiti á sumarhöll Friðriks 2. Prússakonungs í Potsdam, nálægt Berlínarborg. Vanangur þykir fegursta rókókóhöll Þýskalands og er einkennisbygging borgarinnar Potsdam í Þýskalandi. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Sanssouci er talin vera þýsk útgáfa af Versölum. Hallargarðurinn. Óvenjulegt við höllina og hallargarðinn var að garðurinn varð til á undan. Það var Friðrik mikli, konungur Prússlands, sem gaf fyrirskipun um að breyta hæð einni í Potsdam í víngarð árið 1744. Áður voru þar eikur, en þær voru höggnar niður og viðurinn notaður til að þurrka mýrlendi við borgarmörkin. Víngarðurinn var gerður í stöllum með 120 þrepum (132 í dag). Vínviðurinn var fluttur inn frá Portúgal, Ítalíu og Frakklandi. Auk þess voru ýmsar aðrar plöntur og tré gróðursett þarna til að fegra garðinn enn frekar. Rúmlega 3000 ný ávaxtatré voru gróðursett og ýmsar garðbyggingar voru reistar. Brunnar og gosbrunnar voru settir niður hér og þar og til þess var stór vatnsdælustöð reist. Enn frekar voru myndastyttur settar upp í garðinum og voru þær aðallega í formi rómverskra goði og gyðja. Höllin. Grafreitur Friðriks mikla í hallargarðinum 1745, þegar garðurinn fór að taka á sig mynd, fyrirskipaði Friðrik mikli byggingu lítillar hallar. Höll þessi átti ekki að vera skrauthöll til móttöku erlendra þjóðhöfðingja, heldur sumardvalarstaður konungs. Konungur sjálfur tók þátt í skipulagningunni og réði til um gerð hallarinnar. Hún var reist á tveimur árum og vígð 1747, þó að innréttingar væru langt frá því að vera tilbúnar enn. Höllin var aðeins ein hæð og laus við alla íburði. Friðrik bjó í þessari höll öll sumur frá aprílloka til október. Höllin var kvennalaus ("sens femmes"), því konungur bjó einn ásamt þjónustuliði sínu. Eiginkona hans bjó í annarri höll. En tæpri öld seinna lét Friðrik Vilhjálmur IV. konungur reisa stórar viðbyggingar 1840-42 og ekki sparaði hann íburðinn. Hann lést 1861 og var jarðaður í hallargarðinum. Eftir það var höllinni breytt í safn og er eitt elsta hallarsafn Þýskalands. Hvorki höllin né garðurinn skemmdust í heimstyrjöldinni síðari. En Sovétmenn fluttu nokkuð af listaverkum hallarinnar til Sovétríkjanna. Aðeins örfáum munum hefur verið skilað. 1990 var Sanssouci ásamt hallargarðinum og öllu því sem í honum er sett á heimsminjaskrá UNESCO. Gröf Friðriks mikla. Friðrik mikli lést 1786 í Sanssouci. Hann óskaði sér þess að fá að vera jarðsettur í hallargarðinum, en eftirmaður hans og frændi, Friðrik Vilhjálmur II, virti það að vettugi og lét jarðsetja hann í kirkju í borginni. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari fluttu þýskir hermenn kistu hans á öruggari stað til að hún yrði ekki fyrir skemmdum í stríðinu. Bandarískir hermenn fluttu kistuna svo til Marburg í Hessen. Þar var hún allt til 1952, er hún var flutt til Hohenzollern-kastalans í Baden-Württemberg. Það var ekki fyrr en eftir sameiningu Þýskalands 1991 að kista Friðriks mikla var flutt til Potsdam á ný og sett í jörð í hallargarðinum Sanssouci, 205 árum eftir andlát hans. Nýja höllin. Neues Palais heitir hallarinnar við vesturenda Sanssouci-garðanna. Það var Friðrik mikli sem lét reisa hana 1763 í lok 7 ára stríðsins og lauk smíðinni 1769. Höllin er í barokkstíl og átti ekki að þjóna sem aðsetur konungs, heldur sem híbýli fyrir gesti hans. Í höllini eru 200 herbergi, fjórir viðhafnarsalir og heilt leikhús í rókókóstíl. 1859 flutti krónprinsinn Friðrik Vilhjálmur inn í höllina, en hann varð síðar keisari, reyndar aðeins í 99 daga árið 1888. Eftir að síðasti keisarinn afþakkaði 1918 og fór til Hollands, varð höllin að safni. Síðan 1990 er höllin notuð sem háskólabygging. Norðurlandaráð æskunnar. Fánar þátttökulandanna í Norðurlandaráði æskunnar. Norðurlandaráð æskunnar (skandinavíska: "Ungdommens Nordiske Råd" eða "UNR") er vettvangur ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka og annarra pólitískra æskulýðshreyfinga á Norðurlöndunum. Norðurlandaráð æskunnar tengist starfi Norðurlandaráðs að miklu leyti og þing þess fer fram á sama tíma og árlegt Norðurlandaráðsþing. Norðurlandaráð æskunnar rekur upphaf sitt allt aftur til upphafsára Norðurlandaráðs og hélt í upphafi eina námstefnu á ári. Norðurlandaráðsþing æskunnar hafa hins vegar verið haldin á hverju ári frá 1971. UNR hefur verið sjálfstæð stofnun frá 2002. Norðurlandaráð æskunnar endurspeglar jafnbreitt pólitískt litróf og Norðurlandaráð og þar er tekist á um hugmyndir og lausnir í norrænu samstarfi, ekki síst þær sem varða ungt fólk. Fulltrúar af Norðurlandaráðsþingi æskunnar taka þátt í ýmsum störfum Norðurlandaráðsþings. Sable. Sable eyja (Franska: "île de Sable") er lítil kanadísk eyja og er 180 km í suðaustur frá Nova Scotia. Eyjan er skeifulaga sandrif sem eru leifar framskriðs jökla á landgrunni Norður-Ameríku. Eyjan er um 34 km² að flatarmáli. Lengd hennar er um 42 km en breiddin 1.5 km þar sem hún er breiðust. Eyjan er þekkt fyrir hestakyn sem kennt er við eyna. Fyrstu hestarnir voru settir á land á Sable-eyju á 18. öld og hefur fjöldi þeirra í seinni tíð verið á bilinu 200 - 350 talsins. Þeir voru friðaðir árið 1960 fyrir afskiptum manna. Á eynni kæpir landselur og útselur. Ýmsar hákarlategundir finnast við Sable, þar á meðal Hvíti hákarlinn. Nokkrar fuglategundir finnast á eynni og má nefna gresjutittling en undirtegund hans verpir eingöngu á Sable. Flækingar eru algengir. Tegund ferskvatnssvampdýrs ("Heteromeyenia macouni") finnst í tjörnum á eynni. Frá árinu 1583 hafa um 350 skipsskaðar orðið við eyna. Árið 1801 var sett mönnuð björgunarstöð á Sable sem starfrækt var til ársins 1958. Á eynni eru tveir vitar. Hörða-Knútur. Hörða-Knútur eða Knútur 3. Danakonungur (danska: "Hardeknud"; fornenska: "Harthacnut") (1018 – 8. júní 1042) var sonur Knúts ríka Danakonungs og Emmu konu hans. Sjálfur var hann konungur Danmerkur 1035-1042 og Englands 1040-1042. Hörða-Knútur tók við ríki í Danmörku þegar faðir hans lést á Englandi 12. nóvember 1035. Englendingar völdu þegar Harald hérafót, óskilgetinn hálfbróður Hörða-Knúts, sem ríkisstjóra yfir sér. Norðmenn neituðu aftur á móti að hafa Svein Alfífuson, annan óskilgetin son Knúts ríka, sem konung yfir sér lengur og völdu Magnús góða í hans stað. Hörða-Knútur gerði bandalag við Magnús og var ákveðið að sá þeirra sem lifði lengur skyldi erfa bæði Danmörku og Noreg. Þegar fregnir bárust af því að Haraldur hérafótur hefði látið kjósa sig til konungs í Englandi. Hörða-Knútur taldi það svik af hálfu hans en fékk þó lítið að gert fyrst í stað. Árið 1039 taldi hann sig þó svo traustan í sessi að hann ákvað að sigla til Englands og freista þess að ná kórónunni af hálfbróður sínum. Hann sigldi með 63 skip til Brügge, þar sem móðir hans var, en henni hafði verið vísað úr landi á Englandi. Á meðan hann dvaldist þar bárust fregnir af því að Haraldur hérafótur hefði látist 17. mars 1040. Hörða-Knúti var boðin kórónan og sigldi hann til Englands og gerðist konungur þar. Í Englandi er hans helst minnst fyrir að hækka skatta til að geta greitt kostnaðinn við herflota sinn. Haraldur dó óvænt í brúðkaupsveislu árið 1042 og var þá aðeins 23-24 ára. Hann var ókvæntur og barnlaus en ári áður en hann lést hafði hann kallað eldri hálfbróður sinn, Játvarð son Emmu og Aðalráðs ráðlausa, fyrri manns hennar, til Englands og útnefnt hann arftaka sinn. Norrænt samstarf. Fánar Norðurlandanna og fáni opinbers samstarfs Norðurlandanna. Norrænt samstarf er svæðasamstarf sem yfirleitt einskorðast við Norðurlöndin en nær á sumum sviðum einnig til nálægra svæða, svo sem Eystrasaltsríkjanna, Norðvestur-Rússlands og nærliggjandi svæða á Norðurheimskautinu. Það opinbera samstarf sem Norðurlöndin hafa með sér í dag birtist einna helst í starfsemi Norðurlandaráðs, stofnað 1952, og Norrænu ráðherranefndarinnar, stofnuð 1971. Norðurlöndin hafa verið í vegabréfasambandi frá 1957 sem felur það í sér að borgarar ríkja Norðurlandanna geta ferðast óhindrað þvert á landamæri ríkjanna. Í ríkisstjórnum allra Norðurlanda starfa norrænir samstarfsráðherrar og á öllum Norðurlöndunum eru reknar samnorrænar upplýsingaskrifstofur, vinnumiðlanir og þjónustur, til að mynda um norrænar rannsóknir og styrki. Norðurlöndin vinna einnig náið saman í menningarmálum, Norðurlandaráð veitir árlega norræn verðlaun á sviðum lista og stofnanir eru starfræktar á því sviði. Þar gegna Norrænu félögin lykilhlutverki. Einnig rekur Norræna ráðherranefndin Norðurlandahús hér og þar, meðal annars Norræna húsið í Reykjavík. Saga. Kort af Norðurlöndum frá 1539 gert af Olaus Magnus (er nú á James Ford Bell Library, University of Minnesota). Þau svæði sem mynda núverandi ríki Norðurlandanna hafa átt í nánum samskiptum öldum saman, oft herjað hvert á annað en einnig myndað bandalög. Einna þekktast bandalaganna er Kalmarsambandið, norrænt konungssamband sem myndað var 1397 og leystist upp 1521. Danmörk, Noregur, Ísland, Færeyjar og Grænland voru, um nokkurra alda skeið, innan sama ríkis og sama má segja um ríki sem náði um það bil yfir þau svæði þar sem nú eru Svíþjóð, Finnland og Álandseyjar. Þá hafa Noregur og Svíþjóð einnig verið hluti sama ríkis og eins hefur Skánn, syðsti hluti Svíþjóðar, lotið danskri og sænskri stjórn á víxl í aldanna rás. Veldi einstakra Norðurlandaríkja hefur einnig náð víðar á vissum skeiðum, s.s. til svæða sem nú tilheyra Eystrasaltsríkjunum, Norður-Þýskalandi, Póllandi og Rússlandi. Sjálfstjórnarsvæðin Færeyjar og Grænland tilheyra enn formlega Danmörku og Álandseyjar tilheyra Finnlandi. Á nítjándu öld urðu gagngerar breytingar á samstarfi Norðurlanda, þar sem oft tókust á andstæðar hugmyndir: Skandinavisminn, sem vildi sameina öll löndin, og þjóðernishyggja, sem leitaði eftir auknu sjálfstæði Noregs, Íslands og Finnlands (sem þá var hluti af Rússlandi sem Stórfurstadæmið Finnland), svo nokkuð sé nefnt. Sjálfstæði Noregs, Íslands og Finnlands þegar á leið tuttugustu öldina leiddi til nýrrar stöðu í samstarfinu. Kalda stríðið og myndun Kola- og stálbandalagsins (sem síðar varð Evrópusambandið) sköpuðu nýjar forsendur og kröfur um samstarf Norðurlanda. Það leiddi til stofnunar Norðurlandaráðs 1952 og Norrænu ráðherranefndarinnar 1971. Endalok Kalda stríðsins og breytingar á alþjóðasamskiptum í kjölfar þess ásamt auknu samstarfi innan Evrópusambandsins hafa breytt forsendum pólitískrar samvinnu Norðurlanda og er enn óvíst hvert sú þróun mun leiða. Langisandur. Maður á röltinu á Langasandi Langisandur er strönd við Akranes sem liggur frá Sementverksmiðjunni meðfram íþróttavellinum að Jaðarsbökkum og að dvalarheimilinu Höfða. Langisandur hefur löngum verið notaður sem útivistarsvæði fyrir íbúa Akraness. Þar fer fólk í gönguferðir allan ársins hring en á sumrum er þar stundum fjörugt strandlíf. Hann hefur verið leiksvæði þúsunda Skagamanna í gegnum tíðina og var æfingasvæði knattspyrnumanna til margra ára. Á miðjum Langasandi er Merkjaklöpp en þar voru merkin milli hreppanna. Um aldamótin 1900 var bilið milli klappar og bakkanna fyrir ofan Langasand þannig að þrír menn gátu rétt gengið samsíða á milli, en í stríðslok var bilið orðið um 25 metrar. Við klöppina hafa Akurnesingar löngum stundað sjóböð og sólböð í skjóli uppi undir bökkunum, einnig æfði unga fólkið boltaleiki á sandinum rétt eins og knattspyrnumennirnir. Á tímabili var sandurinn notaður sem flugvöllur, einnig sem lendingarstaður fyrir loftpúðaskipið eða svifnökkvann sem ætlað var að leysa Akraborgina af hólmi árið 1967. Við enda sandarins, heitir Langasandskriki. Þar lá vegurinn upp af sandinum áður en lagðir vegir komu. Bakkarnir nefndust einu nafni Langasandsbakkar einnig kallaðir Jaðarsbakkar. Áður náðu þeir frá Leirgróf að Sólmundarhöfða og voru þá um 1300 metrar að lengd. Í dag eru hinir eiginlegu bakkar horfnir, en sjóvarnargarðar komnir í staðinn. Varnargarðarnir við Langasand voru upphaflega byggðir upp af skjólvegg sunnan Faxabrautar 1967 en Faxabrautin liggur niður að höfn, meðfram Sementverksmiðjunni. Töskukrabbi. Töskukrabbi (fræðiheiti: "Cancer pagurus") er æt krabbategund sem lifir í Norðursjó, Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Hann eru rauðbrúnn á lit með hringlaga skjöld og klærnar eru með svarta enda. Krabbinn getur orðið 25sm í þvermál og vegið allt að 3 kíló. Töskukrabbi er eftirsótt matvara um alla Evrópu og hefur það sums staðar leitt til takmarkana á nýtingu hans. Ambrosius Illiquad. Ambrosius Illiquad (Illiqvod, Illequath, Illequad; nafnið er skrifað á ýmsa vegu í fornbréfum) var hirðstjóri á Íslandi á 15. öld, líklega 1491-1493. Árið 1491 hélt hann þingfund í Spjaldhaga í Eyjafirði og sótti þar mál gegn Bjarna Ólasyni í Hvassafelli, sem talinn var sekur um sifjaspell með Randíði dóttur sinni. Björn annálaritari á Skarðsá segir að í það skipti hafi hirðstjóranum ekki tekist að fá Bjarna dæmdan til að greiða sekt vegna Hvassafellsmála af því að hann naut liðsinnis Páls Brandssonar á Möðruvöllum, sem hafði með sér „ellefutíu menn hertygjaða“. Sumarið eftir reið Ambrosius aftur norður og þá var Bjarni dæmdur á þriggja hreppa þingi í Spjaldhaga til að sæta upptöku eigna sinna, sem skyldu skiptast til helminga milli konungs og Ólafs Rögnvaldssonar Hólabiskups. Vitað er að Ambrósíus var enn hirðstjóri vorið 1493 því þá gaf hann út bréf á Bessastöðum þar sem hann titlaði sig höfuðsmann og hirðstjóra yfir öllu Íslandi. Líklega hefur hann farið utan það sumar. Cecilienhof-kastalinn. Cecilienhof-kastalinn er í þýsku borginni Potsdam. Hann er yngsti kastali keisaraættarinnar í Prússlandi og var reistur í enskum sveitastíl. Hann er þekktastur fyrir að hýsa Potsdam-ráðstefnuna. Í húsinu gaf Harry S. Truman fyrirmæli í síma um að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima. Saga Cecilienhof. Verðir gæta aðalinngangsins meðan G8 ráðstefnan var haldin 2007 Það var Vilhjálmur II, síðasti keisari Prússlands, sem lét reisa kastalann 1914-1917 í þeim tilgangi að krónprinsinn gæti átt þar athvarf. Kastalinn var óvenjulegur í laginu, enda reistur að mestu úr eikarviði í enskum sveitastíl (Tudorstíl). Á þakinu eru 55 skorsteinar, allir mismunandi. Heimstyrjöldin fyrri tafði fyrir um framkvæmdir. Kastalinn var þó vígður 1917, aðeins ári áður en heimstyrjöldinni lauk. Þetta reyndist vera síðasti kastali sem Hohenzollern-ættin (konungs og keisaraættin í Prússlandi) lét reisa. Krónprinsinn Vilhjálmur og eiginkona hans, Cecilía, fluttu inn í kastalann, sem nefndur var eftir henni. Parið bjó aðeins í ár í kastalanum. Árið 1918 töpuðu Þjóðverjar stríðinu. Keisarinn sagði af sér og fjölskyldan fór í útlegð til Hollands. Stjórn Weimar-lýðveldisins skilaði hins vegar Vilhjálmi og Cecilíu kastalanum 1926 og bjuggu þau þar allt til 1945. Þá hertóku Sovétmenn Potsdam og ráku þau burt. Í júlí og ágúst 1945 var Potsdam-ráðstefnan haldin í þessum kastala. Sovétmenn tóku húsgögn og annað og fluttu það í annað hús, en fluttu önnur húsgögn inn. Gömlu húsgögnin brunnu hins vegar í húsbruna og eyðilögðust þau öll. Potsdam-ráðstefnan var fundur Winston Churchill, Jósefs Stalíns og Harry S. Trumans og fylgdarlið þeirra, en á henni ræddu þeir um framtíðarskipan Þýskalands og annarra landa, s.s. Póllands. Meðan á ráðstefnunni stóð tapaði flokkur Churchills í kosningum heima fyrir og nýr forsætisráðherra Bretlands, Clement Attlee, tók við sæti Churchills á ráðstefnunni. Það var einnig í þessu húsi sem Truman gaf fyrirmæli í síma um að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima. Eftir að ráðstefnunni lauk var kastalinn og garðurinn opnaður fyrir almenning. Árið 1960 var hótel opnað í vesturálmunni. 1990 var kastalinn settur á heimsminjaskrá UNESCO. Kastalinn hefur nokkrum sinnum verið notaður fyrir sérstaka viðburði eftir það. 2004 kom Elísabet Englandsdrottning í heimsókn til Þýskalands og gisti í þessu húsi. Árið 2007 hittust utanríkisráðherrar G8-ríkjanna í þessu húsi. Pétur Trúels Tómasson. Pétur Trúels Tómasson, kallaður Pétur skytta, var hirðstjóri eða umboðsmaður hirðstjóra á Íslandi í lok 15. aldar. Hann var af dönskum eða þýskum ættum, hugsanlega frá Hamborg, og hafði verið við kaupskap á Íslandi og átti hér bú. Eftir því sem Bogi Benediktsson segir í "Sýslumannaæfum" var hann veginn af þjónum sínum, þegar hann kom úr boði, og höfðu einhverjir Íslendingar sem hötuðust við Pétur keypt þá til verksins. Kona Péturs var Ástríður, systir Jóns Sigmundssonar lögmanns. Synir þeirra, Hannes og Melkjör, fóru til Hamborgar og settust þar að, Jakob var umboðsmaður í Vestmannaeyjum og dæturnar Guðrún og Marín urðu einnig eftir á Íslandi og var Marín formóðir Jóns Indíafara. Pétur Kláusson. Pétur Kláusson var hirðstjóri á Íslandi í lok 15. aldar en ekkert er um hann vitað. Hans er aðeins getið í einu skjali, frá Alþingi 1497, þar sem hann er kallaður hirðstjóri yfir allt Ísland, og sumir hafa getið þess til að þetta sé sami maður og Pétur Trúels Tómasson, sem var hirðstjóri frá 1494, og hafi hann þá e.t.v. gegnt embættinu allt til 1498. Hinrik Kepken. Hinrik Kepken (aðrar heimildir segja Kepkin, Kerkir, Kerken eða Refken) var hirðstjóri á Íslandi á 15. öld. Kristján 1. Danakonungur sendi hann til Íslands með ýmis erindisbréf árið 1470 og hefur þá líklega tekið við hirðstjórn, en Ólöf ríka og Þorleifur sonur hennar virðast hafa annast hirðstjórn eftir að Björn Þorleifsson var veginn í Rifi 1467. Hinrik hafði áður komið til Íslands í erindum konungs á árunum 1463-1467. Hann var hirðmaður konungs, líklega bróðir Daníels Kepken van Nuland (d. 1465) frá Liége, kanslara konungs 1460-1464, sem verið hafði skrifari Marcellusar Skálholtsbiskups og var í tengslum við Björn Þorleifsson. Hinrik er nefndur hirðstjóri í Krossreiðardómi 1471. Á Stafnesi 11. apríl 1473 gefur hann Ólafi Rögnvaldssyni biskupi kvittun fyrir afgjöldum af Skagafjarðarsýslu. Ekki er vitað hversu lengi hann var hirðstjóri en Diðrik Píning er nefndur sem hirðstjóri 1478 og Hinrik Daníel 1480. Hinrik Daníel. Hinrik Daníel var hirðstjóri á Íslandi um 1480 en óvíst er hvenær hirðstjóratíð hófst eða hvenær henni lauk. Hann er aðeins nefndur í einu fornbréfi, bænarskrá Íslendinga vegna kvartana um vetursetur útlendra manna, saminni á Lundi í Lundarreykjadal 6. júlí 1479: „Hér með selja þeir ónytsamlegan pening inn í landið og taka þar fyrir skreið, smjör og slátur og vaðmál allt for dýrt og framar meir en sett er og samþykkt af hirðstjóranum Heyndrek Daniel og lögmönnunum báðum Brandi Jónssyni og Oddi Ásmundssyni...“ Ætla mætti að Hinrik Daníel hefði verið hirðstjóri þetta ár og þá líklega aðeins norðan og vestan þar sem Diðrik Píning var einnig hirðstjóri á sama tíma. En þar sem Brandur Jónsson er nefndur í bréfinu og vitað að hann lét af lögmannsembætti 1478 má vera að verið sé að vísa í eldri samþykkt og kann því að vera að Hinrik Daníel hafi verið hirðstjóri á milli Hinriks Kepken og Diðriks Píning. Samir Okasha. Samir Okasha er prófessor í vísindaheimspeki, menntaður við Háskólann í Oxford. Okasha hefur starfað við háskóla víðs vegar um heim en á árunum 2008 – 2010 gegndi hann starfi forseta Heimspekideildarinnar við Bristol-háskóla á Englandi. Verk Okasha liggja að mestu innan vísindaheimspekinnar. Hann hefur lagt áherslu á þverfaglega nálgun fagsins og tengjast störf hans til að mynda einnig hagfræði og þróunarlíffræði. Helstu rit. Okasha hefur gefið út fjöldann allan af fræðigreinum en að auki tvær bækur. Philosophy of Science: a very short introduction. Árið 2003 gaf hann út inngangsrit um vísindaheimspeki sem ber heitið "Philosophy of Science: A Very Short Introduction". Bókin fjallar um vísindaheimspeki og í leiðinni um viðfangsefni vísindaheimspekinnar, það er að segja vísindin. Farið er um víðan völl í leit að svörum við hinum ýmsu spurningum tengdum greininni. "Hvað eru vísindi? Eru vísindin hlutlæg? Geta vísindin útskýrt allt?" Okasha veitir yfirsýn yfir megin þemu nútíma vísindaheimspeki. Í byrjun kemur fram stutt yfirlit yfir sögu vísindanna. Okasha heldur síðan áfram með því að rannsaka eðli vísindalegra rökræðna, útskýringar og byltingar í greininni, ásamt kenningum um „realisma“ (hluthyggju um vísindi) og „and-realisma“ (hughyggju um vísindi). Þá er einnig rýnt í heimspekileg málefni í einstaka vísindagreinum eins og vandamál við flokkun í líffræði og eðli rúms og tíma í eðlisfræði. Í lokakaflanum snertir Okasha á ágreiningnum milli vísinda og trúarbragða og að lokum hvort að vísindi séu yfirhöfuð góð í eðli sínu. Evolution and Levels of Selection. Árið 2006 gaf hann út bókina "Evolution and Levels of Selection" sem er yfirgripsmikið rit í þróunarlíffræði. Bókin hlaut mikið lof gagnrýnanda og fékk meðal annars hin merku Vísindaheimspekiverðlaun Lakatos. Salerni (hreinlætistæki). Salerni einnig kallað klósett er hreinlætistæki sem menn nota til að gera þarfir sínar. Orðið "salerni" er oft einnig haft um herbergið sem hýsir hreinlætistækið. Orðið Klósett er talið tökuorð úr dönsku, "kloset" og að það hafi þangað komið úr ensku, samanber "water-closet". Talið er að merking þess sé skyld enska orðinu "closed" og gæti því hafa þýtt herbergi eða staður þar sem maður gat lokað að að sér. Tilraunir með umhverfisvæn salerni. Salerni sem ekki þarf vatn, ein hönnun í átaki við að endurhanna salerni fyrir fátæka jarðarbúa Tilraunir hafa verið gerðar með umhverfisvæn salerni, aðalega í þeim tilgangi að spara vatn. Eitt slíkt er "sagklósett". Það líkist venjulegu vatnssalerni fyrir utan það að salernið notar sag í stað vatns en sagið er hægt að losa beint í jarðveg eða nýta til moltugerðar. Aðrar svipaðar tilraunir með umhverfisvæn salerni eru "eldklósett" og "frostklósett", það fyrra notar eld til að eyða úrganginum, hið síðara notar mjög kalda hluti eins og ís og freon til að frysta úrganginn. Bill Gate milljarðarmæringur og eiginkona hans Melinda hafa fjárfest 42 milljónum dollara til þess að vísindamenn geti búið til eftirsóknarvert og ódýrt klósett sem þarf hvorki rafmagns né skólplögn og getur búið til orku fyrir fyrir fátækt fólk sem á bát. Ýmsa möguleika er verið að kanna eins og örbylgjuklósettið sem notar örbylgjutækni til þess að umbreyta með geislun saur notandans í rafgas sem beisla má og nýta sem orkugjafa. Hjá Caltech hefur líka verið stungið uppnám því að búa til sólarklósett sem að myndi nota sólarorku til þess að breyta úrganginum í vetni. Þorleifur Björnsson hirðstjóri. Þorleifur Björnsson (d. 1486) var íslenskur hirðstjóri og sýslumaður á 15. öld. Hann var af ætt Skarðverja, sonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra og Ólafar ríku Loftsdóttur. Hann var líklega fæddur nálægt 1440. Þorleifur hafði snemma sýsluvöld á ýmsum stöðum og var oft með foreldrum sínum í yfirreiðum þeirra um landið en hafði bú á Reykhólum. Árið 1467 var hann með föður sínum í Rifi, þegar þeir lentu í átökum við Englendinga og Björn var drepinn ásamt sjö förunautum þeirra en Þorleifur tekinn höndum og hafður í haldi þar til móðir hans greiddi hátt lausnargjald fyrir hann. Þorleifur og Ólöf beittu sér mjög gegn Englendingum næstu árin. Þorleifur virðist einnig (með fulltingi móður sinnar) hafa gegnt hirðstjórastörfum þar til Hinrik Kepken kom með hirðstjórn 1470. Þorleifur hafði þó áfram sýsluvöld í nokkrum sýslum. Þorleifur varð svo hirðstjóri árið 1481 (ef til vill aðeins að norðan og vestan til 1483 á móti Diðrik Píning) og hefur líklega gegnt því embætti til dauðadags 1486 eða hugsanlega snemma árs 1487. Þorleifur virðist hafa verið ágætlega menntaður og ef til vill fræðimaður. Hann átti Flateyjarbók, kann að hafa erft hana eftir Þorleif afa sinn, og skrifaði sjálfur ýmislegt. Við Þorleif er kennd lækningabók sem fannst í Dyflinni á Írlandi snemma á 20. öld. Þetta er íslenskt skinnhandrit sem fannst meðal keltneskra handrita í The Royal Irish Academy og er safnrit sem hefur að geyma bæði læknisráð af öllu tagi, lyfjafræði, töfraþulur og matreiðslubók. Á undan einum kafla bókarinnar stendur: „Hier hefir lækna boc þorleifs biorns sonar.“ Ekkert er vitað um hvort Þorleifur samdi bókina eða stundaði lækningar sjálfur en hann hefur að minnsta kosti komið að gerð hennar á einhvern hátt. Bókin er ítarlegri en allar aðrar lækningabækur frá miðöldum sem varðveist hafa á Norðurlöndum. Kona Þorleifs var Ingveldur Helgadóttir, sem var dóttir Helga Guðnasonar lögmanns og Akra-Kristínar Þorsteinsdóttur. Þau voru fjórmenningar, bæði komin af Eiríki auðga Magnússyni, og taldist hjónaband þeirra því ógilt. Árið 1471 veitti Sveinn biskup spaki þeim aflausn vegna sjö barneigna. Þau munu síðar hafa sótt um giftingarleyfi til konungs, erkibiskups og páfa að ráði Magnúsar Eyjólfssonar biskups og fengið það, en börn þau sem þau höfðu þegar átt skyldu þó ekki teljast skilgetin. Þau eignuðust hins vegar ekki fleiri börn eftir að leyfið var fengið og voru því öll börn þeirra dæmd óskilgetin og þar með ekki arfgeng. Urðu því miklar deilur um arfinn eftir þau og stóðu þær í mörg ár. Börn Þorleifs og Ingveldar voru Jarþrúður kona Guðmundar Andréssonar á Felli í Kollafirði, sonarsonar Guðmundar ríka Arasonar, Kristín kona Eiríks Halldórssonar í Álftanesi á Mýrum, sem vó Pál Jónsson sýslumann 1496 og var dæmdur útlægur fyrir, Helga kona Eyjólfs Gíslasonar mókolls í Haga, Guðný kona Gríms Jónssonar lögmanns og Björn Þorleifsson bóndi á Reykhólum, sem harðast deildi við ættmenni sín um arfinn eftir foreldra sína. Einar Þorleifsson hirðstjóri. Einar Þorleifsson (d. 1452) var íslenskur hirðstjóri og sýslumaður á 15. öld. Hann bjó í Vatnsfirði og á Hóli í Bolungarvík. Einar var sonur Þorleifs Árnasonar sýslumanns á Auðbrekku og víðar og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur Jórsalafara. Einar var í Danmörku veturinn 1445-1446 og hefur þá verið veitt embaætti hirðstjóra norðan og vestan eftir lát Orms Loftssonar mágs síns. Hann var orðinn hirðstjóri 10. maí 1446 því þá dæmdi hann á Sveinsstaðaþingi Guðmund Arason á Reykhólum, mág sinn, útlægan vegna norðurreiðar hans 19 árum fyrr. Kann að vera að ástæðan fyrir þeim dómi hafi verið sú að Kristófer konungur vildi losna við Guðmund, sem hafði mikil viðskipti við Englendinga og var ríkasti og fyrirferðarmesti höfðingi landsins. Eignir Guðmundar voru gerðar upptækar til konungs en settar í umsjá hirðstjóra og hirti Einar af þeim allar tekjur til dauðadags, en þá tók Björn bróðir hans við og keypti nokkru síðar eignirnar af konungi. Solveig dóttir Guðmundar og systurdóttir þeirra bræðra fékk ekkert og urðu af því deilumál sem entust út öldina. Árið 1450 var Torfi Arason orðinn hirðstjóri norðan og vestan og hefur Einar látið af hirðstjóraembætti það ár. Annars er hirðstjóratími hans eitthvað á reiki og mögulegt að hann hafi verið umboðsmaður hirðstjóra einhverntíma fyrir 1446. Hann var sýslumaður í Húnaþingi 1445-1447 og líklega sýslumaður í Ísafjarðarsýslu seinna. Hann var stórríkur og hafði bú víða. Einar varð úti haustið 1452, þegar hann reið ásamt 12 öðrum yfir Sölvamannagötur á Laxárdalsheiði og lenti í miklu óveðri, komst þó lifandi að Stað í Hrútafirði og dó þar. Þessi atburður er í sumum heimildum sagður hafa orðið 1463 eða 1473 en víst er að Einar var látinn 1453. Hann var ókvæntur en átti að minnsta kosti eina laundóttur, Þuríði, sem varð kona Sigvalda langalífs Gunnarssonar kirkjusmiðs og amma Gissurar Einarssonar biskups. Grafarvogskirkja. Grafarvogskirkja þjónar Grafarvogssókn sem er stærsta sókn landsins og markast af Elliðaám að vestan, Vesturlandsvegi að borgarmörkum við Blikastaði og strandlínunni norðan megin við Grafarvogshverfi. Söfnuðurinn var stofnaður 1989 og var félagsmiðstöðin Fjörgyn í Foldaskóla notuð sem kirkja þar til hægt var að taka fyrsta hluta kirkjubyggingarinnar í notkun. Fyrsta skóflustunga að kirkjubyggingunni var tekin 18. maí 1991 og var fyrri hluti kirkjunnar vígður 12. desember 1993. Lokið var við byggingu kirkjunnar árið 2000 og vígði biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson kirkjuna 18. júní 2000. Kirkjubyggingin hefur vakið mikla athygli en arkitektar hennar Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson, urðu hlutskarpastir í samkeppni um hönnun kirkjunnar. Steinn er áberandi í hönnun hússins enda er það klætt steini bæði að utan og innan og vísa steinarnir í ritningargreinina „Látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús...“ (Fyrra Pétursbréf 2:5). Heildarstærð kirkjunnar er um 2890 m² og aðalrýmið er á tveimur hæðum, 1000 m² hvor hæð Kirkjugluggi Grafarvogskirkju hefur einnig vakið athygli en hann er eftir Leif Breiðfjörð og gaf ríkisstjórn Íslands íslenskri æsku gluggann við vígslu kirkjunnar árið 2000. Glugginn sýnir Krist og kristintökuna á Þingvöllum árið 1000. Grafarvogskirkja tilheyrir Reykjavíkurprófastdæmi eystra. Þjóðdans. Þjóðdans er almennt hugtak um þá dansa sem eiga uppruna sinn í menningarsögu landa. Hefðir eru mjög ríkjandi í þjóðdönsum þó þeir þróist líka. Þjóðdans er í ýmsum löndum dansaður af fólki sem hefur litla eða enga danskunnáttu, það er að segja áhugafólki, ekki atvinnudönsurum. Í upphafi var það þannig að fólk lærði dansinn hvert af öðru á samkomum, fylgdist með og lærði þannig. Þannig lifðu dansarnir kynslóð eftir kynslóð. Þjóðdansar voru dansaðir af alþýðunni og voru ekki hugsaðir sem sýningardansar þó þeir hafi orðið það í seinni tíð. Þjóðdansar eru yfirleitt dansaðir við þjóðlög eða þjóðlega tónlist. Talið er að þeir dansar sem dansaðir voru á Íslandi þar til um 1800 hafi að uppruna verið fornir. Elstu heimildir um dans á Norðurlöndum eru reyndar frá Íslandi og er það íslenskum bókmenntum að þakka að svo snemma er getið um dans. Hins vegar má ekki skilja það svo að Íslendingar hafi lært dans fyrstir allra Norðurlandaþjóða. Fyrsta heimildin um dans á Íslandi er í sögu Jóns biskups helga en hann varð biskup 1106. Dæmi um íslenska þjóðdansa eru Vikivakar sem hafa lifað með Íslendingum síðan snemma á öldum og söfnuðu Íslendingum til gleði allt fram á 18. öld. Einstein-turninn (Potsdam). Einstein-turninn er sérkennilegur í laginu Einstein-turninn er nýtískuleg stjörnuathugunarstöð sem Albert Einstein og Erwin Freundlich hönnuðu sameiginlega í þýsku borginni Potsdam. Turninn. Meðan Albert Einstein vann að útfærslu almennu afstæðiskenningarinnar 1911-1915, skoraði hann á vísindamenn að sannreyna kenningu sína. Það var vísindamaðurinn Erwin Freundlich, góðkunningi Einsteins, sem vildi búa til stjörnustöð og sannreyna kenninguna. Hann og Einstein bjuggu sameiginlega til teikningarnar ásamt Erich Mendelsohn arkítekt, en á þessum tíma var Einstein prófessor við Humboldt-háskólann í Berlín. Húsið var hins vegar ekki reist fyrr en 1919-1922 og vegna hins sérkennilega útlits var það þegar kallað Einsteinturm. Ísetning hinna viðkvæmu tækja tók einnig langan tíma, en 1924 var stöðin fullbúin. Húsið er afar sérkennilegt í laginu, en efst eru rennihurðirnar sem opna og loka fyrir stjörnusjónaukann. Sjónaukinn stendur á eigin sökkli og er ekki áfastur né tengdur húsinu sjálfu. Stjörnustöðin átti í miklum erfiðleikum vegna tíðra skemmda á steypu hússins. Steypubyggingar voru á þessum tíma ekki fullþróaðar, sérstaklega ekki byggingar í óreglulegu formi. Eftur aðeins 5 ár þurfti að gera bygginguna upp með ærnum tilkostnaði. Í loftárásum 1945 sprakk sprengja nálægt húsinu og skemmdist það lítillega. Eftir stríð var sama sagan. Bilanir voru tíðar og sífellt þurfti vinna að viðgerðum. 1990 var jafnvel talið að húsið væri ónýtt, en dýrar endurbætur björguðu því. Það er friðað í dag. Vísindin. Einstein og Freundlich hönnuðu stöðina með það fyrir augum að mæla beygingu á rauðu ljósi nálægt sólinni og þar með staðfesta eitt af þeim fyrirbærum sem afstæðiskenningin spáir fyrir um. En sökum þess hve miklar truflanir gengu út frá sólinni reyndist þeim ekki unnt að fá nákvæmar mælingar á þessum tíma. Það var ekki fyrr en á sjötta áratugnum að réttar niðurstöður fengust á þessari stjörnustöð. Einstein var þá búsettur í Bandaríkjunum og lést 1955. Í dag er stöðin aðallega notuð fyrir rannsóknir á sólinni. Brjóstmynd af Einstein. Í anddyri stjörnustöðvarinnar er brjóstsmynd af Einstein úr bronsi. Hún stóð upphaflega í vinnusalnum. 1933, þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi, flúði Einstein land, enda af gyðingaættum. Nasistar tóku stjörnustöðina og breyttu heiti hennar. Þeir fyrirskipuðu einnig að bræða brjóstmyndina. En eftir stríð fannst brjóstmyndin vel falin í geymslu hússins. Einhver mun hafa óhlýðnast fyrirskipunum og bjargað myndinni á þennan hátt. Örlygur Böðvarsson. Örlygur Böðvarsson var íslenskur landnámsmaður sem settist að á Hornströndum. Örlygur var sonur Böðvars Vígsterkssonar og fór frá Noregi fyrir ofríki Haraldar hárfagra. Kona hans var Signý Óblauðsdóttir Ótryggssonar, systir Högna hins hvíta og því skyld Geirmundi heljarskinni. Þau voru hjá Geirmundi fyrsta veturinn eftir komu sína til landsins en um vorið gaf Geirmundur Örlygi bú í Aðalvík og lönd þar í kring og hann eignaðist síðan alla Jökulfirði. Sonur Örlygs og Signýjar var Ketill gufa og kvæntist hann Ýr dóttur Geirmundar heljarskinns. Brandenborgarhliðið í Potsdam. Brandenborgarhliðið í þýsku borginni Potsdam er ekki gamalt borgarhlið, heldur sigurbogi til minningar um hertöku héraðsins Slésíu í lok 7 ára stríðsins. Ekki má rugla þessu hliðið saman við Brandenborgarhliðið í Berlín. Um hliðið. Það var Friðrik mikli Prússakonungur sem lét reisa hliðið 1770 til minningar um hertöku héraðsins Slésíu (nú í Póllandi) í 7 ára stríðinu. Hlið þetta er því 18 árum eldra en samnefnt hlið í Berlín. Hliðið var reist við enda á götu sem hét og heitir Brandenburger Strasse, sem lá til borgarinnar Brandenburg an der Havel og því fékk hliðið þetta heiti. Fyrir vikið varð lítið borgarhlið að víkja sem áður var hluti af gömlu borgarmúrunum og þjónaði sem nokkurs konar tollhlið. Fyrirmynd Brandenborgarhliðsins var Konstantínboginn í Róm, sem einnig er sigurbogi. Einkennandi fyrir hliðið eru mismunandi hliðar (framhlið og afturhlið). Að framan eru hliðið miklu íburðarmeira. Þar eru átta grískar súlur, mýmargar styttur á þakinu sem snúa í þá áttina og ártalið "MDCCLXX" (1770). Bakhliðin er miklu einfaldari og er súlnalaus. Hliðið var upphaflega aðeins með eitt gat fyrir miðju þar sem umferðin (hestvagnar) fór í gegn. Árið 1843 lét Friðrik Vilhjálmur IV. konungur búa til tvö minni göt fyrir gangandi vegfarendur. Ranabjöllur. Ranabjöllur (fræðiheiti: "Curculionidae") eru af ætt bjallna og eru sumar með höfuð sem er ummyndað í langa trjónu. Ranabjöllur mynda tegundaríkustu ætt dýraríkisins, en til ranabjölluættar eru taldar alls um 40.000 tegundir. Hér á landi hafa þó einungis fundist 24 landlægar tegundir, auk nokkurra slæðinga erlendis frá. Þrjár þessara tegunda þrífast hér eingöngu innanhúss. Hérlendar tegundir eru m.a. silakeppur, letikeppur og húskeppur. Ranabjöllur eru einnig oft nefndar væflur, m.a. grenivæfla, birkivæfla og kornvæfla. Silakeppur er algengastur hér á landi. Hann felur sig á daginn en nagar gras og annan gróður eins og t.d. elftingu á daginn en lirfan nagar þá grasrætur. Fullvaxin dýr eru 7-8 mm að lengd með svartan bol en fálmarar og fætur brúnleitir, þekjuvængir eru með grófu punktamynstri og gráum flekkjum. Skandinavíska. Skandinavíska er almennt heiti notað á Íslandi sem kallast blöndun dönsku, norsku og sænsku. Skandinavíska er ekki tungumál í raun, heldur blöndun skandinavísku málanna sem fólk frá Skandinavíu getur skilið. Skandinavíska er oft notuð svo að þurfi ekki að þýða texta úr íslensku yfir á hvert skandinavískt tungumál. Konudagur. Konudagur er fyrsti dagur Góu, sem er sunnudagurinn í 8. viku vetrar. Rétt eins og fyrsti dagurinn í Þorra er bóndadagurinn. Þann dag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með þvi að fagna góu, sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn. Konudaginn ber ávallt upp á sunnudag. Ingibjörg Schulesen kvaðst hafa kynnst bæði konudegi og bóndadegi þegar hún var sýslumannsfrú á Húsavík 1841-1861, það er áður en þjóðsögur Jóns Árnasonar komu út á prenti. Þau ummæli hennar eru þó ekki bókfest fyrr en 1898. Árni Sigurðsson nefnir konudag og bóndadag einnig í minningum sínum úr Breiðdal frá miðri 19. öld en þær voru ekki skráðar fyrr en árið 1911. Að öðru leyti er tíðni og útbreiðsla orðanna svipuð. Konudagur kemur fyrir í sögum eftir Guðmund Friðjónsson, þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og hjá nokkrum álíka gömlum eða yngri höfundum. Nær hundrað heimildamenn hvaðanæva af landinu fæddir á bilinu 1882-1912 kannast við þetta heiti dagsins. Því er ótrúlegt annað en það hafi verið býsna rótgróið í máli. Opinbera viðurkenningu hlýtur nafnið þó naumast fyrr en eftir að það er tekið upp í Almanak Þjóðvinafélagsins árið 1927 og íslenskir þjóðhœttir Jónasar frá Hrafnagili koma út árið 1934. Nordvision. Nordvision er samstarfsvettvangur fimm norrænna ríkisrekinna sjónvarpsstöðva; Danmarks Radio í Danmörku, Sveriges Television í Svíþjóð, Norsk Rikskringkasting í Noregi, Yleisradio í Finnlandi og Ríkisútvarpsins á Íslandi. Grænlenska stöðin Kalaallit Nunaata Radioa, færeyska stöðin Kringvarp Føroya og sænska stöðin Sveriges Utbildningsradio eru aukaaðilar. Skrifstofur Nordvision eru í DR Byen á Amager í Kaupmannahöfn. Úruxi. Úruxi (fræðiheiti:" Bos primigenius") var risavaxin nautgripategund sem nú er útdauð og er forfaðir nautgripa nútímans. Úruxinn lifði í Evrópu, Asíu og Norður-Afríku, og var til í Evrópu til ársins 1627. Upphaflega voru til tvær frumtegundir uxa í gamla heiminum. Önnur þeirra var úruxinn, en hin var jakuxinn, sem enn er til og lifir í Tibet. Norræni tungumálasáttmálinn. Norræni tungumálasáttmálinn er samningur sem var gerður milli Svíþjóðar, Danmerkur, Íslands, Finnlands og Noregs um rétt ríkisborgara þessara landa til þess að nota sitt eigið tungumál í viðskiptum sínum við hið opinbera á öðrum Norðurlöndum. Sáttmálinn var gerður 17. júní 1981 en tók ekki gildi fyrr en 1. mars 1987. Samkvæmt sáttmálanum ber yfirvöldum að útvega túlk fyrir ríkisborgara þessara ríkja óski þeir þess að eiga samskipti við opinberar stofnanir á sínu móðurmáli. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að vera marklaust plagg þegar á reynir. NordGen. NordGen (sænska: "Nordiskt Genresurscenter") er norræn stofnun um varðveislu og nýtingu jurta, dýra og skóglendis og varðveislu nytjaplantna fyrir landbúnað. Stofnunin er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni. Hún sér um rekstur Alþjóðlegu fræhvelfingarinnar á Svalbarða. NordGen var stofnuð 1. janúar 2008 og tók þá yfir starfsemi Norræna genabankans, Norræna húsdýragenabankans og Fræ- og plönturáðs norrænnar skógræktar. Kai von Ahlefeldt. Kai von Ahlefeldt (d. 6. apríl 1520) var hirðstjóri á Íslandi snemma á 16. öld. Hann var af gamalli holsteinskri aðalsætt (von Ahlefeldt eða Anevelde), sem enn er til í Danmörku. Aðrar útgáfur af nafninu sem finnast í fornbréfum eru til dæmis Onhefeld, Aneffelde, Aleveldhe, Alefeldæ, Anefelld, Ánifell og Heinfull og fornafnið er skrifað Cai, Kay, Key, Keyæ, Kæi, Kiær og jafnvel Kieghe. Kai von Ahlefeldt er fyrst getið í bréfum sumarið 1503 og hefur hann líklega fengið hirðstjórn það ár. Hann er enn á landinu 1504 því 13. júlí það ár skrifar hann upp á skuldaviðurkenningu þess efnis að hann hafi fengið þrjár lestir skreiðar lánaðar hjá Stefáni biskupi, en skreiðin var hluti af tekjum páfastóls af Skálholtsbiskupsdæmi, og lofaði hirðstjórinn að endurgreiða umboðsmanni heilagrar Rómarkirkju skilvíslega. Á fundi í Kaupmannahöfn 17. júlí 1505 dæmdi norska ríkisráðið Kai von Ahlefeldt frá hirðstjórn á Íslandi vegna þess að hann hafði farið frá landinu án vilja konungs, gerst þjónn annarra á meðan hann var fógeti á Íslandi, hafði ekki gegnt stefnu konungs og hafði ekki skilað páfafénu. Kai von Ahlefeldt féll vorið 1520 í orrustu við Uppsali í Svíþjóð. Benedikt Hersten. Benedikt Hersten (einnig skrifað Histen, Hesten, Horsten, Holsten) var hirðstjóri á Íslandi um aldamótin 1500. Björn Jónsson segir í Skarðsárannál að Benedikt Hersten hafi orðið hirðstjóri 1499. Sumarið 1500 útnefndi hann á Alþingi ásamt Finnboga Jónssyni lögmanni 24 manna dóm til að skera úr um erfðadeilu þá sem kölluð hefur verið Möðruvallamál. Á sama þingi fékk hann dæmdan dóm um verslun og fiskveiðar Englendinga á Íslandi. Benedikts Hersten er síðast getið 18. júlí 1502, þegar hann gefur Vigfús Erlendsson kvittan og ákærulausan fyrir „það högg eða blak eða tilræði sem hann veitti Þórði Brynjólfssyni í kirkjudyrunum eða kirkjugarðinum á Krossi í Landeyjum“. Eftir það er hans ekki getið og hefur hann sjálfsagt farið úr landi um haustið því sumarið eftir er Kai von Ahlefeldt tekinn við hirðstjórn. VHS. Video Home System (skammstafað sem VHS) er myndbandsstaðall sem var þróaður á áttunda áratugnum. Hann var settur á markað síðar á áratugnum. Á seinni árum áttunda og níutunda áratuganna var mikið keppni milli myndbandsstaðla, þetta var þekkt sem Betamax-VHS stríðið. VHS varð vinsælasti staðallinn á heimilum. VHS er með lengri spiltíma, er fljótari í því að spóla áfram og til baka og er einfaldari í uppbyggingu en Betamax. VHS var opinn staðall og þess vegna gæti verið framleiddur víða án leyfiskostnaða. VHS varð helsti myndbandsstaðallinn fyrir tíunda áratuginn. Á seinni árum hafa diskar orðið helsti staðallinn, og bjóða upp á betri myndgæði en VHS. Fyrsti diskstaðallinn sem settur var á markað, Laserdisc, var ekki vinsæll en DVD var tekinn upp víða af myndverum, verslunum og þá leigusölum. Frá og með 2006 eru VHS-myndbönd ekki lengur framleidd, kvikmyndir eru nú gefnar út á DVD eða Blu-ray. Er ennþá hægt að fá auð VHS-myndbönd sem geta verið notuð heima til að taka upp sjónvarpsþætti. Norræna myntbandalagið. Norræna myntbandalagið var myntbandalag milli Danmerkur og Svíþjóðar sem komið var á 5. maí 1873 þegar bæði löndin settu sama gullfót á sína mynt. Noregur, sem þá var fullvalda ríki í konungssambandi við Svíþjóð, ákvað að taka þátt tveimur árum síðar. Svíar breyttu við þetta tækifæri heiti gjaldmiðils síns úr ríkisdölum í sænskar krónur, Danir úr ríkisbankadölum í danskar krónur og Noregur úr spesíum í norskar krónur sem allar voru með gullfót. Seðlabankar ríkjanna skiptu þessum krónum á milli sín á jöfnu verði og eftir 1901 voru allar myntirnar því teknar góðar og gildar á sama nafnvirði í öllum ríkjunum. Með sjálfstæði Noregs 1905 voru settar takmarkanir á gjaldeyrisviðskipti. Íslensk króna var fyrst gefin út af Landsbankanum árið 1876 og var þá bundin dönsku krónunni en var ekki innleysanleg í gulli eins og hún. Þegar Fyrri heimsstyrjöldin braust út ákvað Svíþjóð að leggja gullfótinn niður og það markaði fall myntbandalagsins í reynd. Ólík efnahagsþróun ríkjanna eftir styrjöldina og stóraukin seðlaútgáfa leiddi í til aðskilnaðar gjaldmiðlanna og endaloka myntbandalagsins 1924 þótt það hafi fyrst verið formlega lagt niður 1972. Skinka. Skinka er í fyrsta lagi haft um reykt (og soðið) svínslæri en einnig um sneiðar af hinu sama sem notaðar eru sem álegg. Norræna tölvuleikjaáætlunin. Norræna tölvuleikjaáætlunin er áætlun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem veitir þróunarstyrki til tölvuleikjaframleiðanda á Norðurlöndum. Áætlunin var sett á fót 2006 og er ætlað að vara til ársins 2012. Tilgangur áætlunarinnar er að efla norræna tölvuleikjaiðnaðinn með þróunarstyrkjum, styrkjum til tölvuleikjaþýðinga og kynningarstyrkja. Áætlunin hefur stutt við sameiginlega þátttöku norrænna tölvuleikjafyrirtækja á helstu tölvuleikjaráðstefnum heims og þróun Norrænu tölvuleikjaráðstefnunnar í Malmö. Hávella. Hávella (fræðiheiti: "Clangula hyemalis") er norðlæg kafönd sem einnig er algeng varptegund á Íslandi. Hún er með algengustu heimskautaöndum heims. Lýsing. Sennilega er engin íslenskur fugl með fleiri búninga en hávellan, en er hún gjörólík í ásýndum að sumri og að vetri. Sumarbúningur karlfulsins er að mestu leyti dökkbrúnn að ofan, á bringu og á kolli. Andlit og kviður er hvítt. Á veturna er blikinn gjörólíkur. Þá er hann að mestu hvítur með nokkrum dökkbrúnum skellum á vængjum, bringu og hálsi. Aðalskraut karlsins eru tvær langar stélfjaðrir sem hann lætur stundum standa út í loftið á fallegan hátt. Þaðan er enska heiti tegundarinnar dregið, "Long-tailed Duck". Lengd karlfuglsins er um 55 cm, en kvenfuglinn, sem ekki er með langar stélfjaðrir, er um 40 cm. Kvenfuglinn er ekki með eins dramatísk búningaskipti. Hún er oftast dökkbrún á baki og kolli, en ljós annars staðar. Lifnaðarhættir. Hávellan verpur aðallega við vötn og tjarnir. Á Íslandi er hún gjarnan á hálendinu, ekki síst á Mývatni og nálægum tjörnum. Á veturna halda fuglarnir sig oftast á sjónum allt umhverfis landið. Kollan ein sér um ungauppeldið, en stundum getur kolla tekið að sér fleiri unga en sína eigin. Má þá oft sjá eina eða fleiri kollur með fjölda unga. Útbreiðsla. Hávellan er hánorræn tegund og verpir allt í kringum norðurskautið, þ.e. nyrst í Síberíu, heimskautasvæði Kanada og Alaska, og víða með ströndum Grænlands. Í Evrópu verpir hávellan nyrst í Skandinavíu og eitthvað suður með Noregsströndum. Á Íslandi verpir hún um nær allt land. Á veturna fer hluti stofnins eitthvað suður á bóginn. Stórar vetrarstöðvar eru við strendur Eystrasalts og Norðursjávar. Í Ameríku er hávellan alger farfugl. Vetrarstöðvarnar eru bæði við Kyrrahaf (allt suður til Kaliforníu) og við Atlantshaf (suður til Flórída). Á Íslandi heldur hávellan sig að mestu við strendurnar á veturna. Hávellan er ákaflega algeng. Talið er að vetrarfuglarnir í Eystrasalti einu saman séu um 4 milljónir. Orðsifjar. Orðið hávella er eflaust komið af söng eða pípi fuglsins, sem oft heyrast langar leiðir. Fuglarnir eru sérlega raddmiklir og heyrist oft meira í þeim en öðrum öndum. Latneska heiti tegundarinnar er "clangula hyemalis". Clangula er dregið af latneska sagnorðinu "clango", sem merkir að "öskra" eða "hrópa", enda gefa karlfuglarnir frá sér einkennileg blísturhljóð. Hyemalis er dregið af orðinu "hiems", sem merkir "vetur", enda lifir tegundin í hánorðri. Alexandrowka. Dæmigert hús í hverfinu Alexandrowka Alexandrowka er heiti á gömlu rússnesku hverfi í þýsku borginni Potsdam. Það var reist fyrir rússneska kórmeðlimi á tímum Napoleonsstríðanna. Saga Alexandrowka. thumb Árið 1812 sneri Napoleon úr mislukkuðum leiðangri sínum frá Rússlandi. 62 rússneskir fangar sem hann hafði meðferðis skildi hann eftir í varðhaldi í Potsdam. Þeir mynduðu kór sem söng meðal annars fyrir Prússakonung. Þegar Napoleon féll urðu þeir eftir í Potsdam, enda mikið eftirlæti Prússakonungs. 1825 voru aðeins 12 þeirra eftir, en þá lést Alexander I Rússakeisari. Friðrik Vilhjálmur III konungur Prússlands lét þá reisa heilt hverfi fyrir þá í norðurhluta Potsdam og gaf þeim hús og híbýli, allt saman vel innréttað. Hverfið var nefnd Alexandrowka til heiðurs nýlátnum Rússakeisara (Alexanderplatz í Berlín er einnig nefnt eftir honum). Rússarnir máttu þó ekki selja eða leigja húsin. Þeir urðu að búa þar sjálfir og afkomendur þeirra eftir þá. Í hverfinu var einnig reist rússnesk kirkja, Alexander-Newski-minningarkirkjan, en hún var vígð 1829. Með árunum fækkaði Rússunum. 1861 lést síðasti kórmeðlimurinn. 1927 bjuggu aðeins fjórar rússneskar fjölskyldur í hverfinu og í dag er aðeins 1 rússnesk fjölskylda eftir. Húsin. Hverfið samanstendur af tólf íbúðarhúsum, eitt fyrir hvern kórmeðlim. Þau eru öll ein- eða tvílyfta. Þrettánda húsið var fyrir rússneskan þjón. Öll húsin voru gerð úr timbri í sannkölluðum ‘piparkökustíl.’ Húsin voru útbúin svölum. Árið 2005 var hús nr. 2 breytt í safnið Alexandrowka, þar sem gestir fá nasasjón af því hvernig Rússarnir bjuggu. Hverfið í heild sinni er á heimsminjaskrá UNESCO. Cottbus. Cottbus er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Brandenborg með 102 þúsund íbúa. Borgin er stjórnmálalegur og menningarlegur höfuðstaður slavneskra sorba í Þýskalandi. Lega. Cottbus liggur við ána Spree suðaustast í Brandenborg, aðeins steinsnar fyrir vestan pólsku landamærunum. Næstu borgir eru Berlín til norðvesturs (70 km), Frankfurt an der Oder til norðurs (50 km) og Dresden til suðvesturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Cottbus er rautt borgarvirki á hvítum grunni og skjöldur með rauðum krabba. Ekki er ljóst nákvæmlega hvað krabbinn á að sýna en hann var merki ráðamanna í Cottbus áður fyrr. Líklega stendur hann fyrir vernd (brynjan og klærnar). Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Chotibuz og er nefnd eftir slavneska mannanafninu Chotebud. Miklar vangaveltur eru uppi um rithátt heitisins. Margir vilja meina að skrifa ætti Cottbus með K-i en borgin sjálf heldur fast við ritháttinn með C-i. Upphaf. Konur klæddar í þjóðbúningum sorba 1156 kom borgin fyrst við skjöl en þar kemur fram að markgreifinn Konrad von Meissen ætlaði að setjast að í slavavirkinu Chotibuz. 1199 eignuðust frankar borgina, en á næstu öldum skipti borgin oft um eigendur (ættir eins og Askanier, Wettiner Wittelsbach, Luxemburger). 1429 sátu hússítar frá Bæheimi um Cottbus, en borgin stóðst öll áhlaup. 1445 flúðu síðustu herrar borgarinnar til Friðriks II kjörfursta í Brandenborg, sem þar með eignast borgina. Hún verður hluti af kjörfurstadæminu Brandenborg/Prússland. Ekki voru þó allir sáttir við þann ráðahag. 1461 sat Zdenko frá Sternberg um Cottbus til að ná henni á sitt vald. Kjörfurstinn Friðrik II fór því á stúfana með her og sigraði Zdenko í harðri orrustu, þar sem báðir aðilar misstu marga menn. 1468 sló eldingu niður í borginni sem nær gjöreyðilagðist í miklum bruna. 1479 eyddi stórbruni borginni aftur. Eyðilegging 30 ára stríðsins. 1537 urðu siðaskipti í borginni. 1600 eyddi stórbruni nær allri borginni aftur. Bruninn eyðilagði ekki aðeins íbúðarhús, heldur allar kirkjur, ráðhúsið, skólann, kastalann og sjúkrahúsið. Aðeins níu minni hús stóðu heil eftir. Í kjölfarið gaf kjörfurstinn borgarbúum ókeypis byggingarefni og skattfríðindi næstu fimm árin fyrir að endurreisa borgina. Borgin mátti þola miklar hörmungar í 30 ára stríðinu. Wallenstein tók borgina 1626 og lét borgarbúa fæða her sinn. En 1631 hertók kaþólski hershöfðinginn Goetze borgina og rændi hana og ruplaði, og á endanum drap hann nær alla íbúa. Næstu fjögur árin komu ýmsir aðrir herir á svæðið og ollu enn meiri skaða. Í stríðslok voru aðeins um 700 manns eftir í borginni. Aðeins 23 árum seinna eyddi næsti stórbruni nær allri borginni. Nýrri tímar. 1807 varð Cottbus hluti af konungsríkinu Saxlandi. En 1813, eftir mislukkaða herferð Napoleons til Rússlands, hertók Blücher hershöfðingi borgina aftur og innlimaði hana Prússlandi. Vínarfundurinn 1815 staðfesti að Cottbus skyldi áfram vera hluti af Prússlandi. 1866 fékk borgin járnbrautartengingu við Berlín. Í heimstyrjöldinni fyrri voru tvennar fangabúðir settar upp fyrir utan borgina. Í einum þeirra voru 10 þúsund rússneskir fangar. Cottbus varð að herstöð og þar var herflugvöllur lagður. 1932 kom Hitler til borgarinnar og hélt þrumandi ræðu á leikvanginum. 40 þúsund manns hlýddu hugfangnir á. Í heimstyrjöldinni síðari voru verksmiðjur í borginni látnar framleiða vopn. Því varð borgin fyrir miklum loftárásum. 1944 og 1945 voru loftárásir nær daglegt brauð. Um 60% borgarinnar eyðilagðist. Í apríl 1945 hertók rússneski herinn borgina eftir mikla bardaga. Af 55 þúsund íbúum í stríðsbyrjun voru aðeins 3.000 eftir í stríðslok. Cottbus varð hluti af rússneska hernámssvæðinu og tilheyrði því Alþýðulýðveldi Þýskalands við stofnun þess 1949. Árið 1976 náði íbúafjöldinn 100 þúsund og Cottbus varð stórborg. 1991 var tækniháskóli stofnaður í borginni. Íþróttir. Þekktasta íþróttafélag borgarinnar er Energie Cottbus. Knattspyrnulið karla náði þeim áfanga að komast í fyrstu Bundesliguna vorið 1999 og aftur 2003. The Cure. The Cure er ensk rokkhljómsveit sem var stofnuð í Crawley, Vestur-Sussex árið 1976. Meðlimir hljómsveitarinnar hafa breyst nokkrum sinnum, Robert Smith söngvari, gítarspilari og lagasmiður er eini meðlimurinn sem hefur verið í hljómsveitinni síðan hún var stofnuð. The Cure byrjaði að gefa út tónlist seint á áttunda áratugnum, "The Imaginary Boys" (1979) var fyrsta hljómplatan gefin út af þeim. Hljómsveitin tók þátt í síð-pönk- og New Wave-byltingunum sem fylgdu pönkbyltingunni. Á níunda áratugnum tók hljómsveitin þátt í gotnesku pönk-byltingunni. Við útgáfu plötunnar "Pornography" (1982) varð framtíð hljómsveitarinnar óklár. Robert Smith vildi breyta óorðinu sem hljómsveitin fékk. Við útgáfu smáskifunnar „Let's Go to Bed“ sneri Smith stíl hljómsveitarinnar að popptónlist. Þess vegna varð The Cure vinsælli gegnum áratuginn, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem lögin „Just Like Heaven“, „Lovesong“ og „Friday I'm in Love“ komust á Billboard 100 topplistann. Fyrir tíunda áratuginn var The Cure ein vinsælasta öðruvísi rokkhljómsveit í heimi. Talið er að hljómsveitin hafi selt yfir 27 milljónir hljómplatna frá og með 2004. The Cure hefur gefið út þrettán hljómplötur og yfir þrjátíu smáskífur á ferli sínum. The Amazing Race. "Kapphlaupið Mikla" (enska: "The Amazing Race") er raunveruleikaþáttur þar sem tveggja manna lið sem hafa hin ýmsu tengsl, ferðast um heiminn í keppni við önnur lið. Keppendur leitast við að koma fyrstir á „áfangastað“ (pit stop) í lok hvers áfanga til að vinna verðlaun og komast hjá því að verða síðust en þá er möguleiki á því að liðið detti úr keppni eða að næsti áfangi verði erfiðari en ella. Keppendur ferðast um og til margra mismunandi landa með hinum ýmsu ferðamátum, m.a. flugvélum, leigubílum, bílaleigubílum, lestum, strætisvögnum, bátum og fótgangandi. Vísbendingar leiða liðin áfram að næstu vísbendingu eða segja til um ákveðið verkefni, annaðhvort saman eða aðeins annar aðilinn. Þessi verkefni eru tengd menningu landsins með liðin eru í þá stundina. Liðin eru felld úr keppni þar til aðeins þrjú standa eftir; á þeim tímapunkti er það, það lið sem kemur fyrst á áfangastað sem vinnur milljón dali. Þátturinn var búinn til af Elise Doganieri og Bertram van Munster, og fór upphaflega þáttaröðin í loftið í Bandaríkjunum árið 2001 og hefur verið sýndur síðan þá og hefur fengið átta Emmy verðlaun, m.a. sem framúrskarandi raunveruleikaþáttur. Phil Keoghan hefur verið stjórnandi þáttanna frá byrjun. Þátturinn hefur breytt úr sér til hinna ýmsu landa sem hafa framleitt sína eigin útgáfu af þættinum. Lið. Oftast eru ellefu lið í kapphlaupinu. Hvert lið er tveggja manna með ákveðin sambönd, svo sem, í ástarsambandi, gift og fráskilin pör (bæði gagnkynhneigð og samkynhneigð pör), ættingjar svo sem systkini og foreldri og barn, æskuvinir og vinnufélagar. Mikið álag er á þessi sambönd í gegnum keppnina og er einblínt á það í þættinum og er því oft lýst af liðunum í viðtölum sem voru tekin áður, á meðan og eftir keppnina, og í gegnum samræður við stjórnanda þáttarins þegar liðin komast á áfangastað. Í fyrstu var það skilyrði að liðsfélagar hefðu þekkst í meira en þrjú ár, og ekki mátt taka þátt í öðrum kapphlaupum af þessu tagi. En þessum reglum hefur ekki alltaf verið fylgt: Dustin og Kandice í þáttaröðum 10 og 11, þekktu hvor aðra úr fegurðarsamkeppnum, og úr þáttaröðum 9 og 11, Eric og Danielle, sem kynntust fyrst í kapphlaupinu, byrjuðu síðan ástarsamband og voru beðin um að vera í "All-Star" þáttaröðinni. Hver og einn keppandi verður að vera af ákveðnu þjóðerni og standast ákveðnar reglur um aldur; þetta er nauðsynlegt til að liðin geti ferðast um heiminn með hin réttu skjöl án einhverra vandræða. Tegund liðanna hefur breyst í einhverjum þáttaröðum. Fjórar þáttaraðir voru með tólf tveggja manna lið, þegar "Fjölskyldu-kapphlaupið" hafði tíu fjögurra manna lið, m.a. ung börn. Peningar. Í byrjun hvers áfanga kapphlaupsins, fær hvert lið vasapeninga í seðlum ásamt fyrstu vísbendingunni. Í hverjum áfanga, öll útgjöld (matur, ferðamáti, gisting, aðgangseyrir, vistir) eiga að vera borguð með þessum peningum. Valin verkefni krefjast einnig þess að liðin þurfi að nota peningana sína til að klára verkefnið. En liðin fá kreditkort sem þau nota til að kaupa flugmiða (og í fjölskylduútgáfunni til þess að kaupa bensín). Í fyrstu þáttaröðunum máttu liðin nota kreditkortin til að taka frá flug utan flugvallarins eða á ferðaskrifstofu en nú er það ekki leyft. Þessir peningar eru oftast gefnir í þeirri mynt landsins sem keppendurnir eru frá; Bandaríska útgáfan gefur í bandarískum dollurum. Nema einu sinni þá voru peningarnir gefnir í víetnamskri mynt í byrjun þess áfanga. Upphæðin er mismunandi frá einum áfanga til annars og hefur verið frá hundrað dollurum niður í ekki neitt. Liðin mega halda þeim peningum sem það notar ekki í áfanganum til að nota í næstu áföngum. Ef lið notar alla peningana sína eða hefur misst alla peningana sína í áfanga þar sem enginn dettur út, mega þau reyna að fá peninga á hvaða hátt sem er, svo framarlega sem þau brjóta ekki lög. Þau mega m.a. fá lánaða peninga frá öðrum liðum, betla frá heimamönnum eða selja eigur sínar. Frá því í sjöundu þáttaröð hefur verið bannað að betla peninga í bandarískum flugstöðvum. Lið mega ekki nota þeirra eigin eigur til að eiga vöruskipti fyrir þjónustu. Lið hafa sagt frá því að til sé neyðarsjóður sem inniheldur um 200 Bandaríkjadali og er hann í vörslu tökuliðsins og má aðeins nota hann í mjög miklum neyðartilfellum, en ekki til þess að borga fyrir eitthvað sem tengist kapphlaupinu. Þó er nákvæm upphæð ekki þekkt, eða nákvæmar aðstæður sem má nota sjóðinn. Leiðarvísar. Leiðarvísar eru fánar í ákveðnum litum sem merkir þá staði sem liðin eiga að fara á. Flestir leiðarvísar eru festir við kassana sem innihalda umslögin með vísbendingunum, en sumir merkja þann stað sem liðin verða að fara á til að klára verkefni, eða notuð til að merkja þá leið sem liðin eiga að fylgja. Upphaflegu leiðarvísarnir sem voru notaðir í 1. þáttaröðinni voru litaðir gulir og hvítir. Þeim var síðan breytt og eru núna gulir og rauðir. Stundum er notuð önnur litasamsetning en það er fyrir sérstaka áfanga, þáttaraðir eða aðrar útgáfur af kapphlaupinu. Vísbendingar. Þegar lið byrja áfangann, koma að leiðarvísum, eða ljúka ákveðnu verkefni, fá þau venjulega umslag sem þau rífa upp og inniheldur næstu vísbendingu þeirra í lóðréttri möppu. Vísbendingarnar sjálfar eru oftast prentaðar á lóðréttan strimil, þó að stundum eru auka upplýsingar inni í umslaginu. Eftir að hafa fengið vísbendinguna, opna liðin umslagið og lesa upphátt leiðbeiningarnar sem eru gefnar og fylgja þeim upplýsingum. Liðin þurfa að fá hverja einustu vísbendingu í hverjum áfanga og hafa þær upplýsingar með sér þangað til þau komast á næsta áfangastað, og láta þær frá sér þegar þau hafa haldið áfram. Við leiðarvísa eru vísbendingaumslögin í kassa. Í fyrri þáttaröðum innihélt kassinn jafnmargar vísbendingar og liðin voru mörg, sem leyfði liðunum að telja út í hvaða sæti þau væru í áfanganum. Í nýrri þáttaröðum hafa verið sett aukaumslög í kassann til þess að koma í veg fyrir þetta. Leiðar-upplýsingar. Leiðar upplýsingar segja liðunum til um hvert þau eiga að fara næst. Vísbendingin segir oftast aðeins til um nafnið á næsta áfangastað (ekki endastöð áfangans) en það er undir liðinu komið hvernig það kemur sér þangað. Undartekning er gerð í fyrstu áföngum hverrar keppni, þar sem lögð eru til flug sem liðin geta tekið, ásamt flugmiðunum fyrir ofangreind flug. Það er undir hverju liði komið hvort það tekur flugið sem er lagt til eða eitthvað annað. Leiðar-upplýsingar vísbendingar geta gefið nánari upplýsingar um hvernig liðin eiga að ferðast, t.d. gangandi, í lest eða með flugvél. Leiðar-upplýsingarnar geta líka leiðbeint liðum að fara á ákveðna staði, m.a. ákveðinn stað í annarri borg eða landi, annan stað innan sömu borgar, endastöð áfangans eða endastöð kapphlaupsins. Þessar upplýsingar geta einnig gefið snúnar upplýsingar um næsta stað og þá þurfa liðin að komast sjálf að því hvert þau eiga að fara. T.d. er liðunum gefinn fáni ákveðins lands og sagt að fara til þessa lands eða sagt að fara til vestasta punkts á meginlandi Evrópu. Brandenburg an der Havel. Pétur og Pálskirkjan er dómkirkjan í Brandenborg Brandenburg an der Havel er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Brandenborg með 72 þúsund íbúa. Borgin er meðal allra elstu borga sambandslandsins og er nafngefandi fyrir Brandenborg sem sambandsland. Lega. Brandenborg liggur við ána Havel austarlega í samnefndu sambandslandi, rétt vestan við Potsdam og Berlín, og um 60 km fyrir norðvestan Magdeburg. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Brandenborgar sýnir tvenn borgarvirki. Til hægri með bláum turnum og riddara í hliði, til vinstri með grænum turnum og tveimur örnum. Efst hvílir kóróna. Þetta vísar til þess að upphaflega voru bæirnir tveir, Brandenborg og Luckenberg, sem seinna voru sameinaðir í eina borg. Frá 1950 til 1990 var notast við annað skjaldarmerki en þá var borgin í Austur-Þýskalandi. 1990 var gamla merkið tekið upp á ný. Orðsifjar. Brandenburg hét áður Brandanburg og Brendanburg. Ekki er með öllu ljóst hvaðan heitið á uppruna sinn, en líklegt þykir að það sé dregið af sögninni að brenna (á þýsku: "brennen" eða "Brand"). Upphaf Brandenborgar er landnám Þjóðverja á 12. öld og þurftu þeir oftar en ekki að ryðja skóga. Við það ferli var oft notaður eldur. Nýlega var heiti borgarinnar lengt og heitir nú opinberlega "Brandenburg an der Havel" til aðgreiningar frá sambandslandinu Brandenburg. Upphaf. 928/29 hertók Hinrik I keisari slavneskt virki á núverandi borgarstæði. Í slavauppreisninni miklu 983 náðu slavar þó að endurheimta virkið og héldu því í rúm 200 ár. Það var ekki fyrr en 1157 að Albrecht der Bär hertók virkið endanlega og stofnaði markgreifadæmið Brandenburg. Í kringum virkið myndaðist bær, sem þar með er elsti bær markgreifadæmisins. Skömmu síðar var annar bær stofnaður, sem hét Luckenberg. Báðir bæirnir fengu eigin borgarmúra. Á 15. öld tilheyrðu báðir bæirnir Hansasambandinu, allt til 1518. Að öðru leyti komu bæirnir lítið við sögu á miðöldum. Stríðstímar. Gömul mynd af Brandenborg og Maríukirkjunni, en kirkjan er horfin í dag Milli 1536 og 1555 urðu siðaskipti í báðum borgunum. Því var ráðist á þá af keisarahernum í 30 ára stríðinu, sem rændi borgarbúa. Margir voru drepnir. Í Brandenborg einni saman bjuggu 10 þús manns fyrir stríð, en aðeins 3.000 lifðu stríðið af. Eftir hörmungarnar og mannfallið í stríðinu bauð kjörfurstinn húgenottum að setjast að í Brandenborg. Við það varð mikill uppgangur bæði í Brandenborg og í Luckenberg, enda komu húgenottar með iðnað með sér. Borgirnar uxu nánast saman og voru loks sameinaðar 1715. Árið 1806 hertóku Frakkar borgina í Napoleonsstríðunum og héldu henni í tvö ár. Það var ekki fyrr en með iðnbyltingunni að borgin náði sér efnahagslega á ný. 1846 fékk borgin járnbrautartengingu á línunni Berlín – Magdeburg. Nýrri tímar. 1848 var uppreisnarárið mikla. Berlín fór ekki varhluta að uppreisnum. Friðrik Vilhjálmur IV Prússakonungur rak þjóðþingið úr Berlín, þar sem hann taldi að það hafi átt þátt í uppþoti og ynni að endurbótarkröfum. Þjóðþingið var þá flutt til Brandenborgar an der Havel, þar sem fundir þess fóru fram í dómkirkjunni (Pétur og Pálskirkjunni) þetta árið. Konungur leysti þingið að lokum upp í desember 1848. Á tímum nasista voru elstu fangabúðirnar nasista stofnaðar við borgarmörkin, Görden-búðirnar. Miklar loftárásir voru gerðar á borgina í heimstyrjöldinni síðari. 70% af iðnaðarhúsum og 15% af íbúarhúsum eyðilögðust. Cottbus var á rússneska hernámssvæðinu eftir stríð og því einnig hluti af Austur-Þýskalandi, allt þar til Þýskaland sameinaðist 1990. Síðan sameiningin átti sér stað hefur iðnaður í borginni átt erfitt uppdráttar og fer íbúum fækkandi. Þeir voru 90 þús fyrir sameiningu, en eru 72 þús í dag. Fjöður. Fjaðrir eru úr hornefni og vaxa út úr húð fugla. Þær gegna mörgum hlutverkum: Þær gera fuglum kleift að fljúga, halda á þeim hita, verja þá gegn vætu, eru felubúningur og eru notaðar til samskipta. Fjaðrir sem gegna mismunandi hlutverkum eru ólíkar í uppbyggingu. Fuglar eru einu dýrin sem bera fjaðrir og flestir fuglar eru með fjaðraham sem þekur allan líkamann nema fæturna, gogginn og svæðið kringum augun. Fjaðrir vaxa úr litlum holum á yfirhúðinni, húðlaginu sem framleiðir hornefni (beta-keratín). Fjaðrir, klær og goggar myndast úr keratínstrengjum. Til eru tvær megintegundir af fjöðrum: "þekjufjaðrir" og "dúnfjáðrir". Þekjufjaðrir vaxa um allan líkamann. Þær eru yfirleitt stórar og stinnar og einkennast af fjöðurstaf í miðju en út frá honum vaxa fanir. Þær skiptast í fanargeisla sem tengjast saman með fanarkrókum og virðast því heilar. Dúnfjaðrir vaxa undir þekjufjöðrum og eru litlar og mjúkar. Fáeinar tegundir fugla bera líka fjaðrir sem líta út eins og hár og vaxa milli dúnfjaðranna. "Flugfjaðrir" kallast þær fjaðrir sem fuglarnir nota aðallega þegar þeir fljúga. Þær eru á vængjum og stéli. Menn hafa lengi nýtt fjaðrir til ýmissa hluta. Þær hafa til dæmis verið festar á örvar til að fleygja þeim áfram í loftinu og fjaðurpennar voru helstu skriffæri manna allt þar til pennaoddar úr málmi komu til sögunnar. Dúnn heldur líka mjög vel hita og hefur lengi verið notaður í sængur og kodda, svo og til að einangra yfirhafnir og svefnpoka. Æðardúnn veitir bestu einangrunina en gæsadúnn kemur þar á eftir. Dietrich van Bramstedt. Dietrich van Bramstedt eða Diðrik af Bramstad var hirðstjóri á Íslandi á 16. öld, skipaður þann 12. apríl 1529 af Friðrik 1. Danakonungi til fimm ára fyrir margfalda, trúa og þægilega þjónustu. Hann var á Alþingi sumarið 1530 og kallast þar kóngsins fógeti en heitin hirðstjóri, höfuðsmaður og fógeti virðast á þessum tíma oft notuð jöfnum höndum um sama enbættið og er Dietrich kallaður þetta allt í bréfum frá sama ári. Hann var líka á Alþingi 1533 en hefur líklega farið utan þá um haustið, enda rann umboð hans út næsta vor. Hann vildi þó fá skipun sína endurnýjaða en um þessar mundir var enginn konungur í Danmörku, Friðrik 1. lést í apríl 1533 en Kristján 3. sonur hans varð ekki konungur fyrr en í júlí 1534 vegna andstöðu í danska ríkisráðinu og ýmsir vildu fá útlæga konunginn Kristján 2. aftur í hásætið. Dietrich van Bramstedt fékk þó hirðstjórn á Íslandi til þriggja ára hjá Kristjáni 3. eftir að hann var tekinn við. En Norðmenn höfðu ekki viðurkennt hann sem konung, heldur fylgdu Kristjáni 2., og skipaði norska ríkisráðið ásamt Ólafi erkibiskupi í Niðarósi íslensku biskupana tvo, Ögmund Pálsson og Jón Arason, hirðstjóra á Íslandi, og tóku þeir við henni 1534. Einnig hafði Markús nokkur Meyer fengið skipunarbréf sem hirðstjóri á Íslandi hjá Kristófer greifa af Oldenburg-Delmenhorst, frænda og helsta stuðningsmanni Kristjáns 2. (hann var sá sem greifastríðið dró nafn af). Öll þessi þrjú bréf voru lögð fram á Alþingi 1535 og rædd þar og kom öllum saman um að hvorki hertoginn (þ.e. Kristján 3.) né greifinn ætti rétt á að skipa hirðstjóra þar sem hvorugur væri réttur konungur Noregs, en honum hefðu Íslendingar svarið eiða sína. Skyldu því biskuparnir teljast hirðstjórar og engir skattar greiðast af landinu fyrr en Noregur hefði fengið konung. Dietrich van Bramstedt og Markús Meyer sátu því eftir með sárt ennið. Jóhann Pétursson. Jóhann Pétursson var hirðstjóri á Íslandi á 16. öld. Hann var danskrar eða norskrar ættar. Þann 27. apríl 1524 skrifaði Hannes Eggertsson hirðstjóri bréf í Hamborg, þar sem hann segist hafa með góðum vilja „uppgefið og ofurdregið allt mitt fóvitadæmi“ Jóhanni Péturssyni. Hannes var þá líklega fluttur til Hamborgar og lét með bréfinu öll hirðstjóravöld í hendur Jóhanni, sem hann segist hafa haft af hábornasta Kristjáni 1. konungi út í Ísland og hefur Jóhann því líklega verið á Íslandi um tíma áður en þetta var. Jóhann gegndi hirðstjóraembættinu til 1529 en þá tók Diðrik af Bramstad við. Darin Zanyar. Darin, réttu nafni Darin Zanyar, (fæddur 1987 í bænum Stockholm í Svíþjóð) er sænskur tónlistarmaður. Bjúgvatn. Bjúgvatn er sveiglaga stöðuvatn sem liggur eitt og sér og er hluti af gömlum farvegi bugðuár sem rauf sér nýjan, styttri farveg. Bugður eru einkenni „gamalla“ vatnsfalla, sem náð hafa roffleti. Þær færast smám saman, er straumkast rýfur bakka í kröppum bugðum. Í aflögðum bugðum verða þá oft til bjúgvötn. Álfrún Gunnlaugsdóttir. Álfrún Gunnlaugsdóttir (f. 1938) er íslenskur rithöfundur. Hún er þekktust fyrir bækur sínar "Hringsól" og "Yfir Ebrufljótið." Gæludýrin. Gæludýrin (e. "The Pets", þ. "Die Haustiere", d. "Kæledyrene") er skáldsaga eftir íslenska rithöfundinn Braga Ólafsson sem kom út árið 2001. Gæludýrin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2001 og Menningarverðlauna DV 2002. Hún hefur verið gefin út í Danmörku í danskri þýðingu, Þýskalandi í þýskri þýðingu og Bandaríkjunum í enskri þýðingu. Bókin fékk víða góða dóma bæði á Íslandi og erlendis. Bókin er 248 blaðsíður og er önnur skáldsaga Braga. Arnfinnur Þorsteinsson. Arnfinnur Þorsteinsson (d. 1433) var íslenskur hirðstjóri, riddari og sýslumaður á 15. öld. Hann bjó á Urðum í Svarfaðardal. Arnfinnur var sonur Þorsteins Eyjólfssonar hirðstjóra á Urðum en ekki er vitað hver móðir hans var. Hann tók við búi á Urðum þegar faðir hans lést. Arnfinnur var auðugur og einn helsti höfðingi landsins á fyrstu áratugum 15. aldar. Hann mun hafa haft sýsluvöld nyrðra en ekki er víst hvar. Árni Ólafsson biskup, sem verið hafði hirðstjóri um skeið, fór utan 1419 og mun Arnfinnur hafa farið með hirðstjórn í umboði hans það ár. Á Alþingi þetta sumar skrifaði hann fyrstur manna undir hyllingarbréf Eiríks konungs af Pommern og kallaði sig þar „yðar foreldra hirðmann“. Rétt eftir Alþingi, þann 13. júlí 1419, gaf hann út bréf í Hafnarfirði þar sem hann veitti tveimur erlendum (líklega þýskum) kaupmönnum leyfi til verslunar og fiskveiða við Ísland. Þar kallar hann sig hirðstjóra yfir öllu Íslandi. Hann hefur þó ekki haft hirðstjórn nema til næsta árs því á Alþingi 1420 eru Helgi Styrsson og Þorsteinn Ólafsson hirðstjórar. Ekki er vitað hver kona Arnfinns var en á meðal barna hans var Eyjólfur riddari og bóndi á Urðum og víðar, tengdafaðir Hrafns Brandssonar lögmanns. Helgi Styrsson. Helgi Styrsson (d. eftir 1430) var íslenskur sýslumaður og hirðstjóri á 15. öld. Hann bjó á Krossi í Landeyjum. Ætt hans er óþekkt. Helgi var einn af þeim sem skrifuðu undir hyllingarbréf Eiríks konungs af Pommern á Alþingi 1419 og hefur því verið í hópi helstu höfðingja landsins. Í bréfi frá 11. apríl 1420, um óleyfilega vetursetu sex enskra kaupmanna í Vestmannaeyjum, er hann sagður sýslumaður þar. Í bréfi til Eiríks konungs sem skrifað er á Alþingi sama sumar virðist hann vera orðinn hirðstjóri eða umboðsmaður hirðstjóra ásamt Þorsteini Helmingssyni (Ólafssyni). Í öðru bréfi sem skrifað er seinna um sumarið kallar hann sig hirðstjóra sunnan og austan. Sonur Helga var Teitur bóndi í Stóradal undir Eyjafjöllum. Hannes Pálsson. Hannes Pálsson var fógeti eða hirðstjóri á Íslandi á 15. öld og umboðsmaður Danakonungs. Hann var norskur eða danskur að ætt. Hannes kom fyrst til landsins 1419 með Íslandsfari frá Björgvin ásamt Jóni Tófasyni, nývígðum Hólabiskupi, og fleiri erlendum mönnum, og átti að gefa Eiríki konungi af Pommern skýrslu. Hann er kallaður „kóngsins þénari og kapellán“ og titlaður herra. Hannes virðist hafa verið á Hólum með biskupi um veturinn því á gamlársdag er hann nefndur þar í dóm ásamt öðrum mönnum. Hann er svo nefndur ásamt Helga Styrssyni í bréfi frá 11. apríl 1420, um óleyfilega vetursetu sex enskra kaupmanna í Vestmannaeyjum. Á Alþingi um sumarið eru þeir Helgi Styrsson og Þorsteinn Ólafsson kallaðir hirðstjórar og skrifa ásamt öðrum undir bréf þar sem sagt er að Hannes hafi rækt erindi þau sem konungur fól honum og muni hann og Þorleifur Árnason geta frætt konunginn um landsins nauð, nauðþurft og gagn. Hannes fékk líka meðmælabréf hjá Jóni biskupi Tófasyni enda mun hann hafa haft illt orð á sér í Björgvin og talið þess þörf. Hann er sagður hafa ferðast víða um land og kannað ástandið, ekki síst yfirgang Englendinga, og segir hann sjálfur í bréfi síðar að þeir hafi meðal annars drepið þjón hans en tekið hann höndum og haldið í skipi sínu í níu daga. Þorleifur Árnason sigldi utan þetta sumar á konungsfund en við Færeyjar réðust Englendigar á skipið, sem þó náði naumlega landi í eyjunum. Sjálfur mun Hannes hafa farið utan seint um sumarið en kom aftur 1422 ásamt Balthazar van Damme. Fóru þeir í land í Vestmannaeyjum en skipið hélt áfram og ætlaði í Þerneyjarsund en fórst á leiðinni og með því Jón Hallfreðarson ábóti í Þykkvabæjarklaustri. Næstu ár voru Hannes og Balthazar helstu valdsmenn á landinu. Balthazar hefur líklega verið hinn eiginlegi hirðstjóri en Hannes fógeti og umboðsmaður konungs en þeir eru þó oft taldir báðir hirðstjórar. Miklar erjur voru milli Englendinga og fulltrúa Danakonungs þessi ár og rændu Englendingar konungsgarðinn á Bessastöðum að minnsta kosti tvisvar. Þeir Hannes og Balthazar voru hins vegar óvinsælir meðal landsmanna, einkum Hannes, sem þótti yfirgangssamur og illur, einkum eftir að sveinar hans saurguðu Helgafellsklaustur 1425, brutu upp klaustur og kirkju og skutu mann í kirkjugarðinum. Sumarið 1425 fóru þeir Hannes og Balthazar að Englendingum í Vestmannaeyjum og ætluðu að taka þá fasta en Englendingar brutu báta þeirra, handtóku þá, rændu fé þeirra og fluttu þá síðan til Englands og „hörmuðu það fáir“, segir í "Lögmannsannál". Þegar út kom skrifaði Hannes Englandsstjórn langt og ítarlegt kvörtunarbréf og kærði meðferðina á þeim og skaða sem þeir höfðu hlotið. Sennilega hafa þeir þó þurft að borga ríflegt lausnargjald til að sleppa en úr þessu varð milliríkjamál. Hannes kom ekki til landsins aftur en Balthazar kom með ensku skipi sumarið 1426. Skýjaskógur. Skýjaskógur (eða þokuskógur) er sígrænn skógur í hitabelti eða heittempraða beltinu og er aðeins að finna í röku fjalllendi. Fimm skýjaskógar í heiminum eru verndaðir. Í Monteverde á Kosta Ríka er að finna einn slíkan og er hann talinn einn best varðveitti skýjaskógur í heimi og vera aðgengilegastur af þeim öllum. Í einu tölublaði "Nature" skrifaði hópur vísindamanna frá Bandaríkjunum og Japan um tilraunir þeirra til að gera líkan af framtíð skýjaskóga. Þeir spá því að eftir því sem koltvíildismagn í andrúmslofti jarðar haldi áfram að aukast muni skýjahulan yfir Monteverde og öðrum skýjaskógum í hitabeltinu halda áfram að hækka. Þetta töldu þeir að myndi leiða til þess að fleiri tegundir, sem lifa hátt yfir sjávarmáli deyi út. NORDUnet. Þessi net tengjast sín á milli um NORDUnet sem líka tengir þau við GÉANT-netið í Evrópu og einkarekna netþjónustuaðila. NORDUnet varð til upp úr NORDUNET-áætluninni hjá Norrænu ráðherranefndinni 1980-1992. Norræna varnarbandalagið. Norræna varnarbandalagið var hugsanlegt samstarf milli Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála sem rætt var um að stofna eftir Síðari heimsstyrjöld. Kalda stríðið, Samstarfssamningur Finnlands og Sovétríkjanna 1948 og innganga Noregs og Danmerkur í NATO 1949 urðu til þess að bandalagið varð aldrei að veruleika. Norræna orrustufylkið. Norræna orrustufylkið er eitt af átján orrustufylkjum Evrópubandalagsins myndað af hermönnum frá Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Írlandi og Eistlandi. Fylkið var fyrst virkt fyrri helming ársins 2008 og verður það aftur árið 2011. Langflestir af 2200 hermönnum fylkisins koma frá Svíþjóð. Kjarninn í hersveitum fylkisins er vélvætt fótgöngulið. Stórfylkisforingi 2008 var sænski herforinginn Karl Engelbrektson. Danmörk er ekki með þar sem landið kaus að taka ekki þátt í Sameiginlegu utanríkis- og öryggismálastefnunni en Noregur aftur á móti kaus að taka þátt í herfylkinu þrátt fyrir að vera ekki í Evrópubandalaginu. Norræni menningarsjóðurinn. Norræni menningarsjóðurinn er norrænn styrktarsjóður sem styrkir norræn samstarfsverkefni á sviði lista (myndlistar, leiklistar, dans, tónlistar og bókmennta). Í gegnum tíðina hefur sjóðurinn aðallega styrkt listviðburði. Hann var stofnaður af Norðurlandaráði 1. september 1966. Höfuðstöðvar sjóðsins eru í Kaupmannahöfn. Stjórn sjóðsins skipa tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna auk eins fulltrúa frá heimastjórnarsvæðunum Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Skandinavismi. a> 1848-1850 sem sýnir norskan, danskan og sænskan hermann taka höndum saman. Skandinavismi (stundum kallaður Norðurlandahyggja sem ætti ekki að rugla saman við norrænuhyggju sem var vinsæl í Þýskalandi á fyrri hluta 20. aldar) var stjórnmálahreyfing á Norðurlöndunum sem boðaði sameiningu eða stóraukið samstarf landanna byggt á sameiginlegri menningu þeirra og sögu. Hreyfingin kom upp meðal stúdenta á Skáni um 1840 og boðaði sameiningu Norðurlandanna í eitt ríki líkt og þær hreyfingar sem börðust fyrir sameiningu Þýskalands og Ítalíu. Upphaflega var hreyfingin litin hornauga af stjórnvöldum en þegar Óskar 1. varð konungur Svíþjóðar 1844 batnaði samband Svíþjóðar og Danmerkur og hreyfingin fékk aukið svigrúm í dagblöðum. Bandalag Svía og Dana gegn Prússum í fyrra Slésvíkurstríðinu gaf henni svo byr undir báða vængi. Á sama hátt varð hreyfingin fyrir miklu áfalli þegar Svíar neituðu að styðja Dani í seinna Slésvíkurstríðinu 1864. Ragnheiður Pétursdóttir á rauðum sokkum. Ragnheiður Pétursdóttir (um 1494 – fyrir 1540) eða Ragnheiður á rauðum sokkum var húsfreyja á Svalbarði á Svalbarðsströnd á 16. öld og ættmóðir Svalbarðsættar síðari. Ragnheiður gerðist þó ekki fylgikona prests, heldur giftist hún Jóni Magnússyni ríka, lögréttumanni og bónda á Svalbarði, einum helsta höfðingja norðanlands. Þau eignuðust sjö börn sem upp komust og urðu flest nafnkunn en Ragnheiður náði aðeins að sjá þau elstu vaxa úr grasi því hún var dáin fyrir 1540. Börnin voru: Steinunn, sem fyrst var fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, giftist svo Ólafi Jónssyni í Snóksdal og seinast Eggert Hannessyni; Sólveig kona Filippusar Brandssonar á Svínavatni á Ásum, sem vó Hrafn Brandsson lögmann; Þórdís kona Þorgríms Þorleifssonar í Lögmannshlíð; og synirnir, Svalbarðsbræður: Magnús prúði, Staðarhóls-Páll, Jón lögmaður á Vindheimum og Sigurður sýslumaður á Reynistað. Norræna velferðarkerfið. Norræna velferðarkerfið eða norræna módelið er hugtak sem er stundum notað til að vísa til svipaðrar nálgunar Norðurlandanna til skatta, samtryggingar og ríkisafskipta á sviði velferðarmála, menntunar og heilbrigðisþjónustu. Norrænu velferðarkerfin byggja á ríkisborgararétti og löndin eiga samstarf sín á milli hvað varðar flutning réttinda við flutning ríkisborgara eins ríkis til annars (Norðurlandasamningur um almannatryggingar). Í raun er það ekki svo að til sé eitt kerfi eða módel sem gildir á öllum Norðurlöndunum heldur er um að ræða mikla skörun og hliðstæða löggjöf á ákveðnum sviðum. Það sem sögulega hefur verið talið einkenni á norræna velferðarkerfinu er stór skattafleygur, hátt atvinnuhlutfall og mikill jöfnuður (lágur Gini-stuðull). El Greco. "Mynd af gömlum manni" (talin sjálfsmynd af El Greco frá um 1595–1600), olía á striga Útsýni yfir Toledo, olíumálverk eftir El Greco El Greco (1541 – 7. apríl 1614) var listmálari, myndhöggvari og arkitekt í spænsku endurreisninni. „El Greco“ ("Grikkinn") var gælunafn sem vísar til grísks uppruna hans en hann merkti verk sín vanalega með fullu nafni með grísku letri Δομήνικος Θεοτοκόπουλος (Doménikos Theotokópoulos). El Greco fæddist á Krít sem á þeim tíma tilheyrði Feneyjum. Hann fór 26 ára til Feneyja og árið 1570 fór hann til Rómar og opnaði þar vinnustofu. Árið 1577 flutti hann til Toledo á Spáni og bjó þar til dauðadags. Manierismi. Manierismi (síðendurreisn eða tilgerðarstefna) er myndlistarstíll sem kom fram um 1520. Eitt af sérkennum hans eru útskornar eða steyptar myndir sem gjarnan byggðu á hugmyndaflugi og er að mestu sótt í listhefðir Araba, Mára og Forn-Grikkja. Mannamyndir gerðar í þessum stíl einkennast af litlu höfði og löngum útlimum og flóknum stellingum. Meðal þekktra listamanna manierismans eru Pontormo, Parmigianino og El Greco. Manierisminn hélst til um 1580 á Ítalíu og vék þá fyrir barokkstíl en norðar í Evrópu var manierismi ríkjandi listastefna þangað til í byrjun 18. aldar. Í dönskum húsgögnum frá þessum tíma má sjá merki um að fyrirmyndir voru sóttar í norræna sögu. Damien Duff. Damien Anthony Duff (fæddur 2. mars 1979 í Ballyboden),er írskur landsliðsmaður í knattspyrnu. Hann spilar sem vinstri kantmaður hjá enska úrvalsdeildarliðinu Fulham. Verðlaun. Duff, Damien Duff, Damien Duff, Damien NORDEK. NORDEK (úr sænsku: "Nordiskt ekonomiskt gemenskap") eða NORDØK (úr dönsku/norsku: "Nordisk økonomisk samarbeid") var uppástunga að tollabandalagi milli Norðurlandanna sem reynt var að semja um 1968-1970. Danski forsætisráðherrann Hilmar Baunsgaard stakk upp á bandalaginu sem valkosti við Evrópska efnahagssvæðið. Andstaða Sovétríkjanna og tregða innan Íslands, Færeyja og Noregs varð til þess að illa gekk að koma saman samningi. Samkomulagið varð að engu þegar Danir og Norðmenn sóttu um aðild að Evrópusambandinu 1970 (fellt með þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi 1972 en samþykkt í Danmörku) sem varð til þess að Finnar sögðu sig frá viðræðunum. Samkomulagið var nefnt sem dæmi um „veisluskandinavisma“ þ.e. gerð samkomulaga á norrænum ráðstefnum og fundum sem löndin síðan hunsa eftir að heim er komið. Norrænu sendiráðin í Berlín. Norrænu sendiráðin í Berlín eru sendiráð Íslands, Finnlands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar sem eru öll staðsett í "Samnorrænu byggingunni" í suðurenda Tiergarten í Berlín. Húsið var hannað af arkitektunum Alfred Berger og Tiina Parkkinen. Það var vígt 20. október 1999. Húsið skiptist í fimm byggingar og tengibyggingu. Mark Schwarzer. Mark Schwarzer (fæddur 6. október 1972 í Sydney) er ástralskur landsliðsmaður í knattspyrnu. Hann spilar sem markvörður hjá enska úrvalsdeildarliðinu Fulham Afrek. Schwarzer, Mark Schwarzer, Mark Schwarzer, Mark Frankfurt (Oder). Frankfurt an der Oder er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Brandenborg með 63 þúsund íbúa. Hún er meðal austustu borga Þýskalands og liggur við pólsku landamærin. Sem slík er hún mikilvægasta landamærastöð milli Þýskalands og Póllands. Lega. Frankfurt liggur við ána Odru við pólsku landamærin austast í Brandenborg. Næstu borgir eru Berlín til vesturs (40 km), Szczecin (Stettin) í Póllandi til norðurs (80 km) og Poznan í Póllandi til austurs (120 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Frankfurt sýnir gamalt borgarvirki með rauðum hana við hliðið. Efst trónir rauði örninn. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig haninn komst í þetta merki, en það hafði myndast þegar árið 1294. Ein skýringin er sú að frankar, sem stofnuðu borgina, voru kallaðir gallar (fornir íbúar Frakklands en frankar bjuggu þar einnig) en latneska orðið gallus merkir hani. Rauði örninn stendur fyrir markgreifadæmið Brandenborg. Orðsifjar. Frankfurt hét áður "Frankenforde" og "Franckvurde". Þjóðverjar voru áður almennt kallaðir frankar. Furt merkir árvað. Bærinn var reistur af þýskum mönnum (ekki slövum) á hentugum stað þar sem auðveldara var að komast yfir ána Odru. Upphaf. Elsta myndin af Frankfurt er frá 1548 Bærinn myndaðist snemma á 13. öld við stað þar sem tiltölulega auðvelt var að komast yfir ána Odru. Það voru þýskir kaupmenn frá frankalandi sem settust þar að, en eigandi landsins (og þar með borgarinnar) var Hinrik hinn skeggjaði frá Slésíu. 1253 fékk Frankfurt borgarréttindi og 1294 var fyrsta innsigli borgarinnar gert. Það er enn í dag notað sem skjaldarmerki borgarinnar. Upprunalega innsiglið var vandlega geymt í gegnum aldirnar, en týndist í heimstyrjöldinni síðari. 1326 réðist Stefán II biskup í Lebus við Odru á borgina Frankfurt ásamt pólsku og litháískum her. Þeir gerðu svo í nafni páfa (Jóhannes XXIII), þar sem borgarbúar neituðu að greiða tíund. Þeir náðu ekki að vinna borgina, en páfi bannfærði borgina í heild og þar með alla borgarbúa. Stefán tók þá til við að eyða nærsveitum. Aðstæður skánuðu ekki fyrr en Lúðvík IV mætti á staðinn og hrakti Pólverja burt. Bannfæringin var hins vegar ekki tekinn til baka fyrr en 1334, þar sem keisari og páfi voru miklir fjandmenn. Stríðstímar. Frankfurt 1850. Áin Odra í forgrunni. Á 15. öld gekk borgin í Hansasambandið. Óvíst er hvenær nákvæmlega það gerðist, en hún var meðlimur í sambandinu allt til 1518. Það var kjörfurstinn Jóakim I sem sleit samskiptum borgarinnar við Hansasambandið. 1432 réðust hússítar frá Bæheimi inn í héraðið og eyddu nærsveitum Frankfurt. Þeir réðust einnig á borgina sjálfa, en fengu ekki unnið hana. 1506 var háskóli stofnaður í borginni. Strax á fyrsta ári voru nemendur 950 og voru því fleiri en í nokkrum öðrum þýskum háskóla á þessum tíma. Aðeins nokkrum árum seinna hóf Marteinn Lúther að mótmæla gegn kaþólsku kirkjunni. Ýmsir valdamiklir menn, eins og biskupar og aflátspredikarinn Johannes Tetzel, andmæltu hugmyndum Lúthers af þvílíku offorsi í Frankfurt að allar hugmyndir Lúthers voru stranglega bannaðar í háskólanum. Því yfirgáfu rúmlega helmingur allra stúdenta háskólann, sem við það varð að meðalskóla. Siðaskiptin fóru því aldrei fram í borginni á 16. öldinni. Borgin var kaþólsk langt fram eftir 30 ára stríðinu. 1626 ákváðu borgarbúar að mynda eigin her til varnar borginni í 30 ára stríðinu. Þessi atburður er reyndar upphafið að herveldi Brandenborgar og seinna Prússlands. Á tímabili bjó Wallenstein herforingi um sig í borginni á milli stríða. 1631 flúði Tilly einnig inn í borgina er Svíar nálguðust. Tilly flúði með her sinn, en Gústaf Adolf II, Svíakonungur, hertók borgina, rændi hana og ruplaði. Þeir yfirgáfu hana ekki fyrr en skæð pest gaus upp. Í henni létust þúsundir borgarbúa. Þeir voru 12 þúsund í upphafi stríðs en voru aðeins rétt rúmlega 2.000 við lok þess. 1668 fóru fyrstu blóðskipti Þýskalands fram í Frankfurt. Læknirinn Mattheus Purmann reyndi að meðhöndla holdsveikan mann með því að skipta hægt og rólega á blóði hans með blóði sauðkindar. Aðgerðin heppnaðist vel. Sjúklingurinn bæði lifði af og læknaðist af meini sínu. Þetta var um 200 árum áður en læknirinn Karl Landsteiner uppgötvaði ABO blóðflokkakerfið. Nýrri tímar. Maríukirkjan nær gjöreyðilagðist í heimstyrjöldinni síðari 1806 hertóku Frakkar borgina og héldu henni til 1813. Frakkar settu upp herstöð í Frankfurt og notuðu hana sem bækistöð fyrir Rússlandsleiðangur Napoleons. 1811 var háskólanum lokað í borginni. Ástæðan fyrir því var sú að Humboldt-háskólinn í Berlín var stofnaður og fóru nemendur því þangað. Því var háskólinn í Frankfurt færður til Breslau, sem þá var enn hluti af Prússlandi. Breslau er í Póllandi í dag. Eftir ósigur Napoleons í Rússlandi veturinn 1812/13, streymdu franskir hermenn í gegnum Frankfurt frá janúar til mars 1813. Síðustu hermennirnir brenndu brúna yfir ána Odru af ótta við Rússa. Síðustu Frakkar yfirgáfu borgina 17. mars. Borgin sjálf kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. En heimstyrjöldin síðari reyndist borginni hörmungartími. Fyrstu loftárásir hófust 1944. Frá og með janúar 1945 tók borgin við þúsundum flóttamanna úr austurhéruðum Þýskalands, enda voru Rússar að hrekja þýska herinn í vesturátt. Talið er að um 300 þúsund flóttamenn hafi á vormánuðum 1945 haft viðdvöl í Frankfurt. Þegar Rússar nálguðust var borginni breytt í stórt hervígi, enda var þetta helsta leiðin til Berlínar. Borgarbúum var meinað að yfirgefa borgina og næstu vikur fylltust borgarbúar ótta. Sjálfsmorð og gripdeildir voru daglegt brauð. Menn voru skotnir fyrir litlar sakir. Í febrúar kom Joseph Goebbels til Frankfurt til að stappa stálinu í hermenn og almenna borgara. Tveimur mánuðum seinna, 16. apríl, hófst stórsókn Rússa, bæði með stórskotaliðinu og með loftárásum rússneska flughersins. Skemmdir urðu gífurlegar og mannfallið mikið. Mikið æði greip um sig. Nasistar sprengdu brúna yfir Odru en allt kom fyrir ekki. Rússar hertóku borgina en Þjóðverjar flúðu hver sem betur gat. 93% miðborgarinnar hafði þá brunnið til kaldra kola. Frankfurt varð hluti af sovéska hernámssvæðinu. Með tilfærslu Póllands í stríðlok varð áin Odra landamæraá milli Þýskalands og Póllands. Frankfurt varð þá að landamæraborg. 1952 fór fram undirritun þess efnis í Frankfurt að árnar Odra (á þýsku: Oder) og Neisse skyldu framvegis vera landamæri ríkjanna. Oder-Neisse-línan hefur síðar verið staðfest (t.d. með Varsjár-samningnum 1970) og mynda þau landamæri ríkjanna enn í dag. Síðustu rússnesku hermennirnir yfirgáfu ekki Frankfurt fyrr en 1994. Viðburðir. Í Oderturmlauf er hlaupið upp 150 metra háa skrifstofubyggingu Oderturmlauf er svokallað hlaup upp 150 metra háa skrifstofubyggingu í borginni. Þrepin eru 511 og metið á Markus Rebert, en hann hljóp á 2:26 mínútum árið 2009. Hlaupið hefur farið fram síðan 2002. Frankfurter Festtage der Musik er tónlistarhátíð sem helguð er Carl Philipp Emanuel Bach, syni Johanns Sebastians. Kleist-hátíðin er haldin síðan 1992, en hún er helguð rithöfundinum Heinrich von Kleist sem fæddist í borginni. Þá fara fram leiksýningar, upplestrar, gjörningar, tónlist og margt annað. Bunter Hering (litskrúðug síld) er Hansahátíð í borginni, en það er nokkurs konar miðaldahátíð. Frægustu börn borgarinnar. (1777) Heinrich von Kleist skáld Pressan. Pressan (eða Pressan.is) er íslenskt vefrit á íslensku. Á vef Pressunnar kemur fram að það sé frétta- og þjóðmálamiðill. Pressan lýsir sér sem óháðum vefmiðli sem stundi vandaða frétta- og upplýsingaöflun. Ritstjóri Pressunnar er Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Pressan er í eigu Björn Inga, Arnars Ægissonar og Salt Investments sem er fjárfestingarfélag í eigu auðmannsins Róberts Wessmanns. Eigendur Pressunnar. Stærsti eiganndi Pressunnar er Vátryggingafélag Íslands (VÍS) sem er stærsti eigandi Vefpressunar ehf með um 33% eignarhlut, en Vefpressan rekur vefmiðilinn Pressan.is. Aðrir eigendur eru Björn Ingi Hrafnsson (26,37%), Salt Investment (23,08%) og Arnar Ægisson (17,58%). Maximinus Thrax. Gaius Julius Verus Maximinus (um 173 – 238), þekktur sem Maximinus Thrax eða Maximinus 1., var Rómverskur keisari frá 235 til 238. Viðurnefnið "thrax" vísar til þess að hann var frá Thraciu (eða nágrenni). Maximinus var fyrstur af hinum svokölluðu herkeisurum og með valdatöku hans er álitið að krepputímabil 3. aldarinnar hafi hafist í Rómaveldi. Maximinus Thrax var hermaður af lágri stétt, hann var ómenntaður og sumar heimildir segja að hann hafi verið ólæs. Maximinus varð keisari árið 235, eftir að Alexander Severus hafði verið myrtur af hermönnum sínum. Severus hafði orðið óvinsæll eftir að hafa samið um frið við Germani við landamæri ríkisins við Rín. Maximinus gerði það að fyrsta verki sínu sem keisari að ráðast gegn Germönunum handan Rínar. Tvö samsæri um að drepa Maximinus áttu sér stað strax á árinu 235 en upp um þau komst og keisarinn hefndi grimmilega fyrir. Maximinus eyddi öllum sínum kröftum í hernað á valdatíma sínum og heimsótti aldrei Rómaborg. Eftir herferðina við Rín hélt hann til Dónár og eyddi næstu tveimur árum í hernað gegn Daciumönnum og Sarmatium. Þessar hernaðaraðgerðir voru mjög kostnaðarsamar og auðmenn snerust fljótlega gegn honum vegna fjárkúganna sem hann beitti. Árið 238 var gerð uppreisn í Afríku gegn Maximinusi og tveir menn lýstir keisarar, Gordianus 1. og sonur hans, Gordianus 2.. Maximinus hugðist þá fara til Rómar til að styrkja stöðu sína og hélt af stað með herafla. Uppreisnin stóð hins vegar ekki lengi og Gordianus 1. og Gordianus 2. voru fallnir innan nokkurra vikna. Öldungaráðið í Róm tók þá til sinna ráða og skipaði öldungaráðsmennina Pupienus og Balbinus sem keisara. Maximinus hélt áfram áleiðis til höfuðborgarinnar en þegar hann kom til borgarinnar Aquileia, á Norður-Ítalíu, voru hermenn hans þreyttir og hungraðir. Keisarinn hugðist því fara inn í borgina til að ná í vistir en borgarbúar lokuðu hliðum borgarinnar og neituðu að hleypa honum inn. Maximinus hóf þá umsátur um borgina en eftir um það bil mánuð höfðu hermenn hans fengið nóg og drápu Maximinus, í apríl 238. Lady Gaga. Stefani Joanne Angelina Germanotta (f. 28. mars 1986), sem er betur þekkt undir listamannsnafni sínu Lady Gaga, er bandarísk söngkona, lagahöfundur og tónlistarmaður. Frumraun hennar, "The Fame", var gefin út þann 19. ágúst 2008. Auk þess að fá almennt jákvæða dóma náði platan í fyrsta sæti í mörgum löndum. Fyrstu tvær smáskífur hennar, "Just Dance" og "Poker Face", fóru báðar í efsta sæti vinsældalista út um allan heim. Léttöl. Léttöl, óáfengt öl eða óáfengur bjór (oftast kallaður „pilsner“ á Íslandi) er bjór með lítið sem ekkert áfengisinnihald. Oftast er um að ræða lagerbjór. Í mörgum löndum þar sem annars eru takmarkanir á sölu áfengis (t.d. einkaréttur ríkisins á sölunni og bann við sölu til barna og unglinga) er léttöl undanþegið þeim takmörkunum. Misjafnt er við hvaða áfengisprósentu er miðað þegar talað er um léttöl. Sums staðar eru mörkin mjög lág (t.d. 0,5% í Wisconsin) en annars staðar mjög há (t.d. 3,2% í Utah). Á Íslandi eru mörkin dregin við 2,25% sem er sama viðmiðunin og gilti fyrir fyrsta ölskattinn í Danmörku 1891. Í Danmörku voru mörkin hins vegar hækkuð í 2,8% árið 1993. Á Íslandi er löng hefð fyrir framleiðslu á léttöli þar sem framleiðsla og sala á áfengu öli var bönnuð frá 1915 til 1989. Egils Pilsner (ljós lager), Egils maltöl (dökkt öl) og jólaöl (dökkt öl) eru vinsælir drykkir. Vegna banns við áfengisauglýsingum á Íslandi hafa sum brugghús farið á svig við lögin með því að framleiða og auglýsa léttöl sem er í nákvæmlega eins umbúðum og einhver áfeng tegund til þess eins að auglýsa þessa síðarnefndu. Brúnöl. Newcastle Brown Ale er hefðbundið norðurenskt brúnöl Brúnöl (enska: "brown ale") er léttur rauðgullinn eða brúnn bjór sem er upprunninn á Englandi. Heitið er núna notað yfir ólíkar tegundir bjóra sem eiga það sameiginlegt að vera fremur léttir (með litla fyllingu) og hæfilega maltaðir með hnetukeim, en geta annars verið af ýmsum styrkleika, missætir og misbeiskir. Brúnt öl á sér langa sögu en það vék fyrir ljósari tegundum þegar ljóst malt kom fram á sjónarsviðið um 1800. Við lok 19. aldar var stíllinn endurvakinn og farið var að nota heitið "brown ale" í upphafi 20. aldar. Brúnöl skiptist í norðurensk afbrigði á borð við Newcastle Brown Ale sem eru sterkari og ljósari en suðurensk afbrigði á borð við Manns Original Brown Ale. Bandarískt brúnöl er oft bæði sterkara og beiskara en breskt brúnöl. Milt öl er skyldur stíll með minna áfengisinnihald sem oft er kallað "brown ale" þegar það er selt á flöskum. Vífilfell. Vífilfell er íslenskur drykkjaframleiðandi og matvæladreifingaraðili. Fyrirtækið var stofnað af Birni Ólafssyni kaupmanni 1. júní 1942 til að framleiða drykkjarvörur undir sérleyfi frá Coca Cola fyrir íslenskan markað. 2001 sameinaðist fyrirtækið fyrirtækinu Sól-Víking undir merkjum Vífilfells. Síðan hefur framleiðsla ávaxtadrykkja á borð við Svala og ölgerð (Viking og Thule farið fram innan vébanda fyrirtækisins. Ölgerð Vífilfells fer fram í verksmiðju Víking að Furuvöllum á Akureyri. Bruggsmiðjan. Bruggsmiðjan er bruggverksmiðja á Árskógssandi í Eyjafirði sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á pilsner að tékkneskri fyrirmynd. Verksmiðjan var stofnuð árið 2006 að frumkvæði Agnesar Sigurðardóttur og Ólafs Þrastar Ólafssonar. Flaggskip brugghússins eru bjórarnir Kaldi (ljós pilsner) og Kaldi Dökkur (bæverskur dunkel). Bruggsmiðjan framleiddi um skeið einnig bjórinn Gullfoss fyrir fyrirtækið Brugghús Reykjavíkur. Ölgerðin Egill Skallagrímsson. Ölgerðin Egill Skallagrímsson er íslenskur drykkjaframleiðandi, elsta starfandi bruggverksmiðja landsins og heildsala með mat og drykk. Fyrirtækið var stofnað 17. apríl 1913 af Tómasi Tómassyni sem hóf framleiðslu á maltöli í kjallara í húsinu Þórshamri. Hann fór síðar í nám í bruggun og fyrirtækið flutti 1917 í sérsmíðað húsnæði við Njálsgötu þar sem það var staðsett lungann af 20. öldinni. Léttölið Egils Pilsner kom á markað sama ár en áfengisbann gekk í gildi 1915 og eftir það var bannað að framleiða áfengt öl með meira en 2,25% vínandamagn. Fyrirtækið réð gjarnan bruggmeistara frá Þýskalandi og Danmörku til að hafa yfirumsjón með ölframleiðslunni, en fyrirtækið fékkst líka við gosdrykkjagerð (sbr. Egils appelsín). Í fyrstu fór starfsemi Ölgerðarinnar Egils Skallargrímssonar fram í tveimur herbergjum í kjallara Þórshamarshússins við Templarasund í Reykjavík, en þau hafði Tómas tekið á leigu. Í dag er það hús í eigu Alþingis. Ári síðar flutti fyrirtækið í Thomsenshúsið við Tryggvagötu og við það stækkaði athafnasvæðið til muna. Árið 1917 keypti Tómas hús við Njálsgötu og á næstu árum keypti hann einnig nærliggjandi lóðir og hús við Grettisgötu og Frakkastíg, en þar reisti hann fullkomna ölgerð. Á árunum 1924-1928 voru tekin í notkun þar bæði ölsuðuhús og gerkjallari. Eins og nafn fyrirtækisins gefur til kynna, þá var upphaflega stefnt að ölgerð fyrst og fremst. Eins og áður segir þá var fyrsta framleiðsluvara Ölgerðarinnar var Egils Maltextrakt, sem nýtur enn í dag mikilla vinsælda meðal Íslendinga og telja margir að drykkurinn sé ómissandi, ásamt Egils Appelsíni, á jólum og páskum. Framleiðsla á síðarnefnda drykknum hófst á 6. áratugnum. Framleiðsla á Egils Pilsner hófst árið 1917, aðeins fjórum árum eftir stofnum Ölgerðarinnar. Fyrirtækið var það fyrsta sem fékk undanþágu til framleiðslu á áfengu öli á Íslandi á stríðsárunum þegar það framleiddi Polar Ale fyrir breska setuliðið. Frá 1951 framleiddi það Polar Beer fyrir Varnarliðið á Keflavíkurstöðinni og síðan Export Beer sem landsmenn kölluðu almennt Egil sterka. Eftir að bjórbanninu var aflétt 1989 hefur aðalsöluvara bruggverksmiðjunnar verið Egils Gull. Framleiðsla gosdrykkja hófst árið 1930 er Ölgerðin keypti gosdrykkjaverksmiðjurnar Síríus og Kaldá. Ölgerðin var gerð að hlutafélagi tveimur árum síðar, er það var sameinað Ölgerðinni Þór hf., sem þá hafði verið starfrækt í tvö ár. Þór hafði byggt ölgerðarhús við Rauðarárstíg en rekstur þess var lagður niður við sameininguna. Eftir að Tómas féll frá árið 1978 ráku synir hans, Jóhannes og Tómas Agnar, Ölgerðina Egil Skallagrímsson í tæpan aldarfjórðung. Þeir ákváðu hins vegar árið 2000 að selja hlut fjölskyldunnar og var samið í árslok við Íslandsbanka-FBA, eins og Glitnir hét þá, og fjárfestingarfélagið Gildingu. Eigendaskipti urðu í apríl 2002 er Lind ehf., dótturfélag Danól ehf., keypti Ölgerðina. Rekstur Lindar var sameinaður Ölgerðinni í byrjun árs og við þann samruna jókst vöruúrval Ölgerðarinnar til muna. Árið 2007 keyptu síðan Októ Einarsson og Andri Þór Guðmundsson Ölgerðina ásamt Kaupþingi, sem síðar seldi sinn hluta til nokkurra stjórnenda fyrirtækisins. Ölgerðin Þór. Ölgerðin Þór var íslensk bruggverksmiðja sem var stofnuð í upphafi kreppuáranna 1930 í húsi við Rauðarárstíg. Framkvæmdastjóri var Arnþór Þorsteinsson. Þór keppti við Ölgerðina Egil Skallagrímsson í framleiðslu á léttöli og gosdrykkjum til 1932 þegar Egill yfirtók Þór og var um leið breytt í hlutafélag. Húsnæði Þórs var þá breytt í geymsluhúsnæði fyrir Egil. Aðalframleiðsluvörur Þórs voru Þórsbjór og Þórspilsner. Jómsborg. Jómsborg var borg þar sem norrænir víkingar áttu sér vígi. Ekki er vitað hvar borgin var nákvæmlega, en hún á að hafa verið einhvers staðar á suðurströnd Eystrasalts (á Vindlandi miðalda). Íbúar borgarinnar voru nefndir "Jómsvíkingar" og heitir Jómsvíkinga saga eftir þeim. Flestir fræðimenn telja að Jómsborg hafi verið einhvers staðar á eyjunni Wolin, við norðvesturhorn Póllands. Hefur borgin Wolin einkum verið tilgreind í því sambandi, því að þar hafa fundist miklar minjar frá víkingaöld. Bartólómeusarkirkjan í Frankfurt. Bartólómeusarkirkjan í Frankfurt er keisarakirkja Bartólómeusarkirkjan í Frankfurt er keisarakirkjan í borginni. Í henni voru þýsku konungarnir kjörnir og margur keisarinn var krýndur í henni. Í kirkjunni eru geymdir hlutar úr höfuðkúpu postulans Bartólómeusar. Salvatorkirkjan. Fyrirrennari núverandi kirkju var reistur á tímum Karlamagnúsar. Af henni er aðeins grunnurinn eftir. Eftir skiptingu hins mikla frankaríkis 843 (Verdun-samningurinn) lét Lúðvík hinn þýski reisa nýja kirkju sem kallaðist Salvatorkirkjan ("Salvator" = "frelsari"). Kirkjunni var lýst sem glæsilegri kirkju með tveimur hringlaga turnum. Árið 855 var Lóþar II kjörinn til konungs í Lotharingen, ríkinu milli Frakklands og Þýskalands. Þetta var fyrsta konungskjörið í kirkjunni í Frankfurt og varð upphafið að aldalöngum siði. Næsta valdaætt, Liudolfinger-ættin, sat oftar en ekki í Speyer. Það var ekki fyrr en Salier-ættin komst til valda að Frankfurt varð að keisaraborg á ný. Þá var Salvatorkirkjan orðin gömul og turnarnir nærri að hruni komnir. Engu að síður predikaði munkurinn Bernhard frá Clairvaux í kirkjunni 1146 og hvatti menn til að leggja í krossferð. Konráður III konungur tók áskoruninni og lagði upp í ferð til landsins helga. Hér er um aðra krossferðina að ræða. 1238-39 var kirkjan gerð upp og vígð á ný. Að þessu sinni var helgiskrín sett í kirkjuna en hún innihélt hluta af höfuðkúpu postulans Bartólómeusar. Hann varð því verndardýrlingur kirkjunnar, sem eftir það var nefnd eftir honum. Núverandi kirkja. Strax í framhaldi af þessu var ákveðið að reisa nýja kirkju á grunni Salvatorkirkjunnar. Múrveggir gömlu kirkjunnar fengu að standa, sem og turnarnir, en núverandi kirkja varð þó töluvert stærri. Framkvæmdir stóðu fram eftir 13. öldinni og var nýja kirkjan vígð 1269. Hún var í gotneskum stíl, sú fyrsta í þessu héraði. Konungskjörin voru áfram haldin í nýju kirkjunni. Á 14. öld fékk kirkjan nýjan kór. 1352 geysaði pestin í Frankfurt og létust um 2000 manns. Borgarbúar kenndu gyðingum um óárán þessa og hófu að brenna hverfi þeirra (gettó). En sökum þess að hverfi þeirra var strax fyrir aftan nýja kórinn, læstist eldur í kirkjuna og brann allt þakið. Á þessum tíma var ákveðið að rífa stærsta hlutann af gömlu Salvatorkirkjunni sem enn stóð og stækka núverandi kirkju. Þessum framkvæmdum lauk 1370. Engir nýir turnar voru reistir. Þeir tilheyrðu enn gömlu Salvatorkirkjunni, því vegna þrengsla í miðborginni var ekki unnt að reisa háa turna eins og gert hafði verið í öðrum borgum ríkisins. Ráðhúsið var einfaldlega fyrir. En snemma á 15. öld var ákveðið að reisa nýtt ráðhús við Römerberg og rífa það gamla. Í framhaldi af því var loks hafist handa við að reisa háan turn fyrir Bartólómeusarkirkjuna. Framkvæmdir við hann hófust 1415 og stóðu fram á næstu öld. Siðaskiptin. 1514 var framkvæmdum hins vegar hætt. Ástæðan fyrir því var mikill órói íbúa gagnvart kaþólsku kirkjunni, sem á þessum tíma ríkti með harðri hendi yfir fólkið. Aðeins þremur árum seinna hóf Lúther að mótmæla gegn kirkjunni. Í trúaróróanum sem fylgdi reyndist ekki unnt að halda verkinu áfram. 1525-1530 héldu siðaskiptin innreið sína í Frankfurt. Kirkjunni var þá skipt. Kaþólikkar fengu kórinn, þar sem þeir héldu sínar messur, en siðaskiptamenn fengu kirkjuskipið. 1530 voru siðaskiptin staðfest af borgarráðinu. Þá ruddist margmenni inn í kirkjuna og eyðilagði öll kaþólsk listaverk, helgimyndir og ölturu. Bartólómeusarkirkjan varð þá lútersk, enda kaþólskar messur bannaðar í borginni. 1546 mætti keisarinn sjálfur, Ferdinand I, til Frankfurt með mikinn her. En ekki kom til bardaga. Borgarbúar sættust við keisara og gáfu honum Bartólómeusarkirkjuna. Kaþólska kirkjan hélt því innreið í borgina á nýjan leik. 1548 var hún endurvígð að kaþólskum sið. Kirkjan er enn kaþólsk í dag. Krýningarkirkja. Bartólómeusarkirkjan 1859, átta árum fyrir brunann. Eins og sjá má er turninn ekki fullkláraður. Bartólómeusarkirkjan varð áfram vettvangur konungskjörs í þýska ríkinu. Krýning konunganna fór hins vegar fram í keisaraborginni Aachen. 1556 var Maximilian II kjörinn til konungs. En sökum þess að biskupinn í Aachen lést, var ekki hægt að krýna hann þar að sinni. Því var ákveðið að krýna Maximilian í Bartólómeusarkirkjunni. Þessi atburður varð þess valdandi að allir konungar þýska ríkisins voru hér eftir krýndir konungar í þessari kirkju. Maximilian var einnig krýndur keisari í kirkjunni. Keisarakrýningarnar höfðu farið fram í Róm en upp á síðkastið í Trient og Bologna. Eftir krýningu Maximilians voru allir þýsku keisararnir einnig krýndir í Bartólómeusarkirkjunni, 10 alls. 1792 var síðasti keisarinn krýndur í kirkjunni, Frans II, því 1806 var þýska ríkið lagt niður eftir 1000 ára tilveru. Frans varð hins vegar áfram keisari Austurríkis en Frankfurt lauk ferli sínum sem keisaraborg og Bartólómeusarkirkjan varð að venjulegri sóknarkirkju í miðborg Frankfurts. Til marks um það var þjóðþingið mikla í Frankfurt 1848 ekki haldið í Bartólómeusarkirkjunni, heldur í Pálskirkjunni. Seinni tímar. Kirkjan í rústum eftir loftárásir seinna stríðs. Nasistar eru búnir að sprengja brýrnar yfir ána Main. 1867 kom upp eldur í ölkelduhúsi við hliðina á Bartólómeusarkirkjunni. Eldurinn náði að læsa sig í kirkjuna og brann hún öll að innan. Turninn brann einnig til kaldra kola. Fjórir biðu bana. Aðeins ári fyrr hafði Prússland innlimað Frankfurt. Vilhjálmur I, Prússakonungur, lofaði endurreisn kirkjunnar hið snarasta. Framkvæmdir hófust strax og við tækifærið var turninn nú loks fullkláraður. Fyrir brunann var hann 72 metra hár. Eftir hækkunina varð hann 94 metra hár og svo er enn. Í hann voru settar níu kirkjubjöllur. Sú þyngsta (Gloriosa) vó tólf tonn og er næstþyngsta kirkjubjallan í Þýskalandi (á eftir Pétursklukkunni í Dómkirkjunni í Köln). Framkvæmdunum lauk 1877. Í heimstyrjöldinni síðari varð Frankfurt fyrir gífurlegum loftárásum. Þann 22. mars 1944 brann nær öll miðborgin, þar á meðal Bartólómeusarkirkjan. Þakið hrundi og allt innviðið eyðilagðist. Að þessu sinni höfðu listaverk og annað verðmætt verið komið fyrir í geymslu annars staðar. Þannig var ýmsum listaverkum bjargað. Tiltektir hófust ekki fyrr en 1947. Endurreisn kirkjunnar hófst ári síðar og lauk þeim 1953. Árið 1994 var haldið upp á 1200 ára afmæli kirkjunnar. Við það tækifæri var vír strengdur milli turna Bartólómeusarkirkjunnar og Pálskirkjunnar og gekk franski línudansarinn Philippe Petit þar yfir. Heilagur Bartólómeus. Bartólómeus var einn af upprunalegu postulum Jesú og kemur fram í upptalningu á þeim í Nýja testamentinu. Sagan segir að Bartólómeus hafi farið í kristniboðsferðir til Indlands og Armeníu. Þar var hann tekinn af lífi er hann var skinnflettur og hálshöggvinn. Lík hans var flutt til Ítalíu og geymt í Beneventum. Keisarinn Otto III flutti líkamsleifar hans til Rómar þar sem þær voru geymdar í kirkjunni San Bartolomeo all’Isola á eyju einni í Tíber. Talið er að það hafi verið förunautar Friðriks Barbarossa keisara sem fluttu þær til Frankfurt á 12. öld, þ.e. aðeins höfuðkúpuna. Meginhluti líkamsleifar postulans eru enn geymdar í Róm. Helgiskrín postulans bjargaðist í báðum brununum og er enn geymt í Bartólómeusarkirkjunni. Listaverk. Flest eldri listaverk kirkjunnar eyðilögðust í siðaskiptunum 1530. Þau sem ekki voru eyðilögð þá urðu eldinum að bráð 1867 í brunanum mikla. Öll ölturu, málverk og höggmyndir eru því nýjar af nálinni. Helsta listaverk kirkjunnar er Maríualtarið frá 1728 en það var flutt inn í kirkjuna nokkuð eftir brunann 1867. Annað þekkt listaverk er málverkið "Jesús tekinn af krossinum" eftir hollenska málarann Anthony van Dyck. Málverkið er frá 1627 og barst til Vínarborgar og til Frankfurt, þar sem það var sett upp í kirkjunni 1952. DAX. DAX er þýsk hlutabréfavísitala yfir 30 stærstu fyrirtækin í kauphöllinni í Frankfurt. Mælingar á vísitölunni hófust 1. júlí 1988 og var upphafsgildi hennar 1000. Arnarstapi. Arnarstapi eða Stapi er lítið þorp eða þéttbýli á sunnanverðu Snæfellsnesi. Það er undir Stapafelli, á milli Hellna og Breiðuvíkur. Frá árinu 1565 sátu umboðsmenn konungs, sem höfðu á leigu jarðir þær sem Helgafellsklaustur hafði átt, á Arnarstapa og kallaðist umboðið Stapaumboð. Þeir voru oft jafnframt sýslumenn eða lögmenn og á 19. öld sátu amtmenn Vesturamtsins einnig á Stapa. Þar hafa ýmsir þekktir menn verið um lengri eða skemmri tíma. Fatlaða skáldið Guðmundur Bergþórsson átti þar heima á 17. og 18. öld. Bjarni Thorsteinsson amtmaður var þar 1821-1849 og þar ólst sonur hans, þjóðskáldið Steingrímur Thorsteinsson, upp. Gamla Amtmannshúsið á Arnarstapa (Stapahúsið) var reist þar á árunum 1774-1787 og er því eitt af elstu húsum á Íslandi. Árið 1849 var það tekið niður og flutt að Vogi á Mýrum, þar sem það var til 1983. Það var reist aftur á Arnarstapa 1985-1986 og friðað árið 1990. Lendingin á Arnarstapa var talin ein sú besta undir Jökli og var þar fyrrum kaupstaður, á tíma einokunarverslunarinnar og allt til ársins 1821, og mikið útræði frá því snemma á öldum. Þar er smábátahöfn sem var endurbætt 2002. Hún er nú eina höfnin á sunnanverðu Snæfellsnesi og þaðan eru gerðir út allmargir dagróðrabátar á sumrin. Á Arnarstapa er einnig nokkur sumarhúsabyggð og mikið er þar um ferðamenn, einkum á sumrin. Þar er veitingahús og ýmiss konar ferðaþjónusta. Mikil náttúrufegurð er í grennd við Arnarstapa. Ströndin milli Stapa og Hellna var gerð að friðlandi 1979, en hún þykir sérkennileg og fögur á að líta. Vestur með henni er Gatklettur og þrjár gjár, Hundagjá, Miðgjá og Músagjá, sem sjávarföll hafa holað inn í bergið. Op eru í þaki þeirra nokkuð frá bjargbrún, hvar sjór gýs upp og brimsúlur þeytast hátt í loft upp og talið ólendandi í Arnarstapa þegar Músagjá gýs sjó. Vinsæl gönguleið á milli Arnarstapa og Hellna er að hluta gömul reiðgata á milli þessara staða. Á Arnarstapa er steinkarl mikill, sem Ragnar Kjartansson myndhöggvari hlóð, og heitir hann Bárður Snæfellsás. Margir hafa einmitt trú á því að Bárður vaki yfir svæðinu undir Jökli. Ottoman Tyrkneska. Ottoman Tyrkneska (tyrkneska: Osmanlıca or Osmanlı Türkçesi, ottoman tyrkneska: لسان عثمانی‎ lisân-ı Osmânî) er afsprengi hinnar Tyrknesku tungu er var notuð sem leiðandi lestrar og skriftar mál Ottoman Stórveldisins. Það sækir rætur sínar í úr öðrum tungumálum (Arabísku og Persnesku) og var ritað útfrá Arabísku letri. Sem afleiðing þessa ferlis, varð hún því í stórfelldum mæli illskiljanleg fyrir hina ómenntuðu og lægri stéttir samfélagsins, sem héldu áfram að notast við "kaba Türkçe" eða hráa Tyrknesku sem var hreinni á þeim tíma og ber með sér flest af núverandi mynd Tyrknesks tungumáls. Gordianus 3.. Marcus Antonius Gordianus (20. janúar 225 – 11. febrúar 244), þekktur sem Gordianus 3. var keisari Rómaveldis á árunum 238 – 244. Gordianus var dóttursonur Gordianusar 1. og systursonur Gordianusar 2.. Snemma á árinu 238 gerðu íbúar skattlandsins Africu uppreisn gegn Maximinusi Thrax, keisara, og hylltu feðgana Gordianus 1. og Gordianus 2. sem keisara. Öldungaráðið í Róm viðurkenndi feðgana sem keisara en uppreisnin var engu að síður kveðin niður eftir nokkrar vikur. Öldungaráðið bjóst í kjölfarið ekki við neinni miskunn frá Maximinusi Thrax, sem var þá á leiðinni til Rómar, og skipuðu tvo menn úr sínum röðum sem keisara, þá Pupienus og Balbinus, til þess að undirbúa vörn gegn Maximinusi. Almenningur í Róm var ekki ánægður með valið á keisurunum tveimur og krafðist þess að fá keisara úr Gordiönsku ættinni. Keisararnir sendu því eftir Gordianusi 3., sem þá var 13 ára gamall, og útnefndu hann undirkeisara ("caesar"). Maximinus Thrax var myrtur af eigin hermönnum áður en hann komst til Rómar og stuttu síðar voru Pupienus og Balbinus myrtir af lífvarðasveitinni í Róm. Í kjölfarið var Gordianus 3. hylltur sem keisari. Vegna þess hve ungur Gordianus var þegar hann tók við keisaratitlinum var stjórn ríkisins að miklu leyti í höndum Timesitheusar, yfirmanni lífvarðasveitarinnar. Tilraun til valdaráns átti sér stað í Karþagó á árinu 240 þegar maður að nafni Sabinianus, landstjóri í Africu, var lýstur keisari. Fljótlega var þessi uppreisn þó kveðin niður af landstjóranum í Mauretaniu. Árið 241 þurfti Gordianus að grípa til hernaðaraðgerða gegn Gotum sem höfðu ráðist inn í Rómaveldi við Dóná. Gotarnir voru reknir aftur norður yfir Dóná, en þá þurfti keisarinn að bregðast við mun alvarlegri ógn frá Persíu. Sassanídar höfðu þá ráðist inn í Rómaveldi og Gordianus mætti þeim með herafla sinn árið 243. Upphaflega gekk Gordianusi vel að hrekja Sassanídana til baka en þá varð Timesitheus veikur og lést. Gordianus skipaði þá Philippus araba sem yfirmann lífvarðasveitarinnar en án aðstoðar Timesitheusar virðist Gordianus hafa misst stjórn á hernaðaraðgerðunum og Philippus gróf undan trausti hans á meðal hermannanna. Gordianus lést svo árið 244 en ekki er ljóst hverjar kringumstæðurnar voru. Heimildir segja ýmist að hann hafi fallið í bardaga eða að hann hafi verið drepinn af eigin hermönnum. Philippus var svo hylltur sem keisari að Gordianusi látnum. Pálskirkjan í Frankfurt. Pálskirkjan í er lútersk kirkja í þýsku borginni Frankfurt am Main. Hún er þekktust fyrir að vera vettvangur fyrir þjóðfundinn mikla 1848, sem var vísir að lýðræði í Þýskalandi. Kirkjan er þjóðargersemi í dag. Fyrirrennarinn. Fyrirrennari Pálskirkjunnar er hin svokallaða Barfüsserkirche ("Berfótakirkja") sem tengdist samnefndu klaustri. Klaustrið og kirkjan eru frá 13. öld. Í siðaskiptunum 1530 varð kirkjan lútersk og hélst þannig allar götur síðan. Á 18. öld fóru fleiri og fleiri skemmdir að koma í ljós, enda var byggingin þá komin vel til ára sinna. Meðal annars varð vart við stórar sprungur í þakinu. 1782 fór síðasta guðsþjónustan fram í kirkjunni, en í kjölfarið var hún lokuð. 1787 var hún loks rifin. Pálskirkjan. Mikil reikistefna var um nýbygginguna. Sitt sýndist hverjum. Loks fékk Johann Georg Hess það verkefni að reisa nýja kirkju og hófust framkvæmdir 1789. Hér er um hringlaga byggingu að ræða með lágan turn sem vísar til suðurs. Grunnmúrarnir voru komnir upp 1792, en þá stöðvuðust framkvæmdir sökum frönsku byltingarinnar. Franskur her hertók Frankfurt til skamms tíma. 1796 var þakið reist, en þá voru Frakkar aftur í borginni. Allar framkvæmdir á vegum borgarinnar voru stöðvaðar. Þó voru gluggar voru settir í kirkjuna 1803 til varnar skemmdum af völdum veðurs. Eftir fall Napoleons voru fjármunir af skornum skammti og borgarráð hafði brýnni verkefni á sinni könnu. Því var ekki tekið til við að halda smíðinni áfram fyrr en 1830. Þá voru komnar skemmdir í bygginguna. Rúður höfðu brotnað, jarðvegur hafði fokið inn og grös og jafnvel runnar byrjuðu að vaxa innan hennar. Á aðeins þremur árum tókst að ljúka smíðinni og innréttingunum. Turninn var lágreistur og fékk ekki spíruþak. Vígslan fór fram 9. júní 1833 og var kirkjan helguð Páli postula. Þjóðþingið mikla 1848. Málverk af þjóðþinginu mikla 1848 Í mars 1848 var ákveðið að nýta stóra salinn í Pálskirkjunni fyrir þjóðþing sem kallað hafði verið saman í Frankfurt. Salurinn var þá tiltölulega nýr og hentugur og tók 1.200 manns í sæti. Predikunarstóllinn var hulinn, sem og altarið. Fyrir alla glugga voru settir fánar í svörtu-rauðu-gulu, en það var upphafið að þýska þjóðfánanum. 37 gaslampar voru settir upp til lýsingar. Meðan á þinginu stóð var miðstöð sett í kirkjuna, enda höfðu margir þingmanna kvartað undan kulda, sérstaklega þegar vetra tók. Þingið hófst 18. maí 1848 og sat fram á næsta ár. 27. október var sú tillaga samþykkt að sameina allt Þýskaland (þar á meðal Austurríki) í eitt stórt ríki. Samfara því var einnig samþykkt að keisarinn í Austurríki skyldi segja af sér. Tillögur þessar voru samþykktar með miklum meirihluta þingmanna, en þær strönduðu á því að fulltrúarnir frá Austurríki höfnuðu henni. Þeir hótuðu að standa utan við þýska ríkið ef hróflað væri við keisaradómi þar í landi. 3. apríl 1849 var önnur tillaga lögð fram þess eðlis að sameina beri allt Þýskaland, en Austurríki stæði fyrir utan. Þýskaland yrði aftur keisaradæmi og valinn yrði nýr keisari þar sem Austurríki yrði ekki með í dæminu. Ennfremur var lagt til að bjóða Friðrik Vilhjálmi IV, konungi Prússlands, keisaratignina. Þessar tillögur voru einnig samþykktar með miklum meirihluta þingmanna. En aftur varð ekkert úr þessu, því Friðrik Vilhjálmur afþakkaði pent. Hann sagðist ekki vilja vera keisari í þingbundinni stjórn, heldur viðhalda einveldi sínu í Prússlandi. Við svo búið leystist þjóðþingið upp. Margir fundarmenn fóru til Stuttgart og héldu fundum sínum áfram. En allt í allt stóðu menn tómhendir uppi. Það var ekki fyrr en 22 árum seinna að Bismarck tókst að sameina Þýskaland í nýtt keisaraveldi, utan Austurríkis. Nýrri tímar. Minnisplatti um þjóðþingið utan á Pálskirkjunni Eftir þjóðþingið var kirkjan gjarnan notuð fyrir sérstaka viðburði. Þar fóru fram minningarguðsþjónustur fyrir ýmsa merka menn, hátíðir og annað. Á þessum tíma varð Pálskirkjan að þjóðarhelgidómi. Í loftárásum 18. mars 1944 var Frankfurt fyrir gríðarlegum skemmdum. Þá brann Pálskirkjan, þakið hrundi og eftir stóðu aðeins útiveggir. Hún var ein af fyrstu opinberum byggingum í Frankfurt sem var endurreist, sökum þess að kirkjan var þjóðargersemi. Viðgerðir fóru fram 1947-48. Hún var endurvígð 18. maí 1948, á 100 ára opnunardegi þjóðþingsins mikla. Rithöfundurinn Fritz von Unruh hélt opnunarræðuna og hlaut hann Goetheverðlaunin fyrir. Síðan þá eru Goetheverðlaunin veitt í kirkjunni á þriggja ára fresti. Pálskirkjan er ekki lengur notuð fyrir guðsþjónustur, heldur fyrir sérstaka viðburði. 1963 sótti John F. Kennedy kirkjuna heim og sagði þá að engin önnur bygging í Þýskalandi gæti frekar kallast vagga lýðræðisins þar í landi. Í tilefni af 1.200 ára afmæli borgarinnar, fékk franski línudansarinn Philippe Petit að strengja vír milli Pálskirkjunnar og Bartólómeusarkirkjunnar. Vegalengdin var 300 metrar og gekk Petit yfir á vírnum. Höfði (dvalarheimili). Höfði er dvalarheimili aldraðra á Akranesi sem var stofnað árið 1978 og var þá fyrsti áfangi tekinn í gagnið en annar áfangi á árunum 1990-1992. Á heimilinu er nú rúm fyrir 78 íbúa í sólarhringsvistun, ýmist í einstaklingsíbúðum, hjónaíbúðum eða tvískiptum hjúkrunaríbúðum. Höfði er sjálfseignarstofnun í eigu Akraneskaupstaðar og sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar. Kirkja sjöunda dags aðventista. Kirkja sjöunda dags aðventista er kristinn söfnuður sem aðgreinir sig helst frá öðrum kristnum söfnuðum að því leyti að laugardagur er haldinn heilagur sem hvíldardagur. Söfnuður aðventista á rætur sínar að rekja til bæjarins Washington í New Hampshire-fylki Bandaríkjanna, þar sem hann kom fyrst til sögunar 1844. Söfnuður Sjöunda dags aðventista eins og hann þekkist í dag var formlega stofnaður 21. maí 1863. Á þeim tíma þá hafði söfnuðurinn 125 kirkjur og 3.500 meðlimi. Síðan þá hefur söfnuðinn vaxið gífurlega. Samkvæmt tölum frá 31. desember 2008 þá eru kirkjurnar orðnar 65.961 og meðlimirnir orðnir 15.921.408 á heimsvísu. Ágrip um söfnuð aðventista á Íslandi. Sjöunda dags aðventismi kom fyrst fram til sögunar á Íslandi árið 1897, söfnuðurinn var þó formlega stofnaður 1914. Söfnuðurinn hefur vaxið og árið 2009 var söfnuðurinn með sex kirkjur, eina bókaútgáfu sem heitir Frækornið, bókaforlag aðventista og einn grunnskóla sem heitir Suðurhlíðarskóli. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá eru voru 771 meðlimir í Söfnuðinum árið 2009. Þjóðmenningarhúsið. Þjóðmenningarhúsið eða Safnahúsið er hús sem stendur við Hverfisgötu 15. Það var byggt var á árunum 1906-1908 til að hýsa Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands sem voru þar til langs tíma ásamt Náttúrugripasafni Íslands og Forngripasafninu. Húsið sem teiknað var af danska arkitektnum Johannes Magdahl Nielsen átti upprunalega að vera úr grágrýti eins og Alþingishúsið og átti þak hússins að vera úr kopar. Það þótti hins vegar of kostnaðarsamt þannig að húsið var byggt úr steinsteypu og járnþak kom í stað koparþaks. Safnastarfsemi. Landsbókasafn Íslands flutti í húsið árið 1909 en það hafði þá verið til húsa í Alþingishúsinu frá árinu 1881. Landsbókasafnið var í Safnahúsinu í 85 ár þangað til að það sameinaðist Háskólabókasafni árið 1994 til að mynda hið nýja Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn sem var til húsa í Þjóðarbókhlöðunni. Landsskjalasafn sem seinna varð Þjóðskjalasafn Íslands var flutt yfir í Safnahúsið árið 1909 en það hafði þá verið í Alþingishúsinu frá árinu 1900. Þjóðskjalasafnið var í Safnahúsinu allt þangað til ársins 1986 þegar farið var að flytja það yfir á Laugarveg 162. Forngripasafnið sem seinna varð Þjóðminjasafn Íslands flutti í Safnahúsið árið 1908 en það hafði þá verið til húsa á ýmsum stöðum, í Dómkirkjunni í Reykjavík, Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, Alþingishúsinu og Landsbankanum í Austurstræti. Forngripasafnið var í Safnahúsinu til ársins 1950 þangað til að það var flutt í Þjóðminjasafnshúsið við Suðurgötu. Náttúrugripasafn Íslands var flutt í Safnahúsið árið 1908. Safninu var seinna lokað árið 1960 þangað til að því var komið fyrir í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm árið 1967.. Sýningar. Í Þjóðmenningarhúsinu fer fram mikið sýningarstarf. Stofnun Árna Magnússonar hefur verið þar með sýningu á handritum frá 2002, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur verið með sýningu frá árinu 2000 og fjöldi annara sýninga hafa verið settar upp til skemmri tíma. Römerberg. Gömul hús og brunnur á Römerberg. Milli húsa sér í Bartólómeusarkirkjuna Römerberg er ráðhústorgið og aðaltorgið í miðborg Frankfurt am Main. Þar standa gamlar byggingar eins og ráðhúsið (Römer) og Nikulásarkirkjan. Torgið. Ráðhústorgið myndaðist strax í upphafi byggðar í Frankfurt. Þar var haldinn markaður áður fyrr. Torgið skiptst í tvennt: Aðaltorgið og Laugardagstorgið. Gyðingar máttu venjulega ekki ganga á aðaltorginu, aðeins þegar stórsýningar voru í gangi. Þeir urðu að halda sig á Laugardagstorginu. Þar var mönnum refsað og haldnar aftökur, en aðeins á laugardögum. Þaðan kemur heitið. Á torginu er brunnur og stytta af rómversku gyðjunni Mínervu. Í kringum hana var áður fyrr haldin heiðin hátíð, Walpurgisnacht, þann 1. maí ár hvert. Í kringum allt torgið risu fögur verslunarhús. Ráðhúsið Römer var ekki reist fyrr en á 15. öld. Á torginu fóru fram hátíðir og skrúðgöngur í tengslum við konungskjör og krýningar sem fram fóru í hinni nálægu Bartólómeusarkirkju. 1963 hélt John F. Kennedy þar ræðu fyrir framan 150 þús manns. Á seinni tímum fara gjarnan fram heiðranir íþróttamanna á torginu, til dæmis er Þjóðverjar urðu heimsmeistarar og Evrópumeistarar í knattspyrnu, og á það bæði við um karlaliðið og kvennaliðið. Þar er einnig haldinn árlegur jólamarkaður í aðventunni. Öll gömlu húsin gjöreyðilögðust í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Þau hús sem nú standa eru öll endurreist og nýleg. Við endurreisn þeirra var reynt að viðhalda útlitinu eins og þau birtust á gömlum myndum. Römer. Við suðurenda ráðhústorgsins stendur hið mikla ráðhús borgarinnar. Það heitir Römer ("Rómverji") og er ein af einkennisbyggingum borgarinnar. Elstu hlutar hússins voru reistir 1405-1407. Með tilkomu hússins var konungskjörið fært úr Bartólómeusarkirkjunni í ráðhúsið. Mýmargir konungar þýska ríkisins voru kjörnir af kjörfustunum í ráðhúsinu en krýningin fór eftir sem áður fram í borginni Aachen en færðist svo yfir í Bartólómeusarkirkjuna á 17. öld. Á 17. öld voru keisararnir kjörnir beint, án þess að hafa verið kjörnir konungar fyrst. Síðasta keisarakjörið í húsinu fór fram 1792 en eftir það var þýska ríkið lagt niður. Yfirleitt var haldin mikil veisla í ráðhúsinu eftir hvert kjör. Bæði kjörið og veislan fóru fram í Keisarasalnum svokallaða en það er íburðarmikill salur í ráðhúsinu. Í þeim sal héldu keisararnir oft ríkisþing. Í loftárásum 1944 nær gjöreyðilagðist ráðhúsið og brann út. Endurreisn ráðhússins hófst 1947 og stóð til 1955. Það var forseti Þýskalands, Theodor Heuss, sem vígði húsin á ný. Gamla Nikulásarkirkjan. Nikulásarkirkjan stendur við austurenda Römerberg. Hún var reist á 13. öld í mjög óvenjulegu formi. Turninn er 48 metra hár og er átthyrndur. Hún brann út í loftárásum 1944 og var endurreist. Í henni eru því ekki mörg gömul listaverk. Sögusafnið. Strax við hliðina á Nikulásarkirkjunni við austurenda Römerberg er sögusafnið Historisches Museum. Það var stofnað 1878 með það fyrir augum að halda við sögu Frankfurts í aðgengilegu formi. Sökum plássleysis var safnið hins vegar víða um borg. Mörg fögur listaverk voru geymd í stærri söfnum í Þýskalandi. Í loftárásum 1944 eyðilagðist nær allt safnahúsið. Margir munanna í öðrum húsakynnum sluppu hins vegar við skemmdir. Viðgerðir drógust á langinn og lauk þeim ekki fyrr en 1972. Nokkrar fastar sýiningar eru í húsinu og tengjast þær allar sögu borgarinnar, sérstaklega keisarasögu og kirkjusögu. Nokkur borgarmódel eru í safninu og málverk, auk annarra hluta. Við innganginn er stór rauð steinstytta af Karlamagnúsi. Heimfærð stærðfræði. Heimfærð stærðfræði eða nytjastærðfræði er stærðfræðigrein sem nýtir þekkingu stærðfræðinnar við að leysa raunveruleg verkefni. Halldór Halldórsson (stærðfræðingur). Halldór Halldórsson (fæddur 19. nóvember 1948) er stærðfræðingur og dósent við Háskólann í Reykjavík Ævi og störf. Halldór lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968. Sama ár hóf hann nám í hreinni stærðfræði við University of St.Andrews í Skotlandi. Hann útskrifaðist árið 1972 með B.Sc Honours gráðu. Hann starfaði við Menntaskólann við Hamrahlíð árin 1975-1980. Þar kenndi hann stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði. Árið 1977 tók hann við starfi deildarstjóra við stærðfræði. Á þessum árum var hann einnig stundakennari við ýmis stærðfræði- og eðlisfræðinámskeið í Háskóli Íslands. 1982 hefur Halldór masters nám í nytjastærðfræði við Rensselaer Polytechnic Institude í New York. Hann hlaut þaðan M.Sc. gráðu við stærðfræðileg líkön árið 1983. Sama ár hóf hann masters nám við tölvunarfræði við University of Wisconsin. Hann hlýtur M.Sc. gráður í tölvunarfræðum þaðan árið 1984. Hann hóf störf við Háskólann í Reykjavík (þáverandi Tækniskóla Íslands) við tölvunarfræðikennslu þar sem hann vann að þróun á tölvunarfræðideild HR. Halldór hefur síðan starfað við kennslu á tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Halldór sat í stjórn Íslenska Stærðfræðafélagsins árið 2006. Ríkisborgararéttur. Ríkisborgararéttur kallast það að hafa rétt til að búa í sérstöku landi. Borgurum eru gefnir réttir og skyldur, sem bæði ríkisstjórn landsins og borgarar verða að standa við. Ríkisborgararéttur er í raun samningur á milli einstaklings og ríkis. Hugtakið ríkisborgararéttur varð fyrst til í Grikklandi hinu forna þar sem einstaklingar voru borgarar í ýmsum borgríkunum. Yfir síðustu fimm hundruðum árum og við framkömu þjóðríkis hefur skilgreining ríkisborgararétts breyst smám saman í eitthvað sem líkist því að vera meðlimur sérstakrar þjóðar. Ríkisborgararéttur má líka kallast það að vera borgari í alþjóðasamtökum. Alþjóðaríkisborgararéttur og þjóðríkisborgararéttur eru gefnir slíkum borgurum. Til dæmis gefur ESB einstöklingum aðildarríkjanna alþjóðaríkisborgarétt. Maður má hafa nokkra ríkisborgarétti frá ólíkum löndum, samkvæmt lögum téðu landanna. Vegabréf. Vegabréf (eða passi) er skjal sem ríkisstjórn lætur borgurum í té og er þeim kennimark og sönnun á þjóðerni og auðveldar þeim þannig ferðalög milli landa. Upplýsingar þær sem fram koma í vegabréfi eru m.a.: nafn, fæðingardagur, kyn og fæðingarstaður. Vegabréf þarf að sýna við vegabréfaskoðun landamæravarða. Vegabréfið eitt og sér veitir ekki eiganda þess rétt til að fara inn í annað land, þiggja hjálp frá ræðismannsskrifstofu eða annan rétt erlendis. Hins vegar veitir það eiganda þess rétt til að fara aftur inn í landið sem gaf út vegabréfið. Verndunarréttir og aðrir slíkir réttir stafa af alþjóðasamningum á milli sérstrakra landa. Rétturinn til að koma aftur heim stafar af lögum landsins sem gaf út vegabréfið. Til eru vegabréfasambönd á milli nokkra landa sem leyfa borgunum í aðildarríkjum til að ferðast yfir landamærin án vegabréfs, eins og Norræna vegabréfasambandið. Á svipaðan hátt mega borgarar frá löndum á Schengen-svæðinu ferðast án vegabréfs. Þegar maður heimsækir sum lönd er stundum nauðsynlegt að fá vegabréfsáritun til þess að fara inn í landið og dveljast þar. Rafretta. Rafretta (rafeindasígaretta eða rafmagnssígaretta) er rafhlöðuknúið sígarettulíki sem veitir notanda hennar nikótín í gufukenndri upplausn. Vegna nikótínskammtsins veitir rafrettan líkamleg áhrif sem líkjast áhrifum venjulegra tóbaksreykinga, þó að ekkert tóbak, engin tjara, enginn reykur né glóð komi þar við sögu. Rafrettuna er hægt að hlaða með ýmsum bragðtegundum, en einmitt það hefur vakið áhyggjur manna sem telja að verið sé að reyna koma nýrri kynslóð á bragðið. Miklar deilur hafa staðið um rafrettuna og áhrif hennar á heilsu manna eru ekki fullkönnuð. Raf-rettan fæst einnig án nikótíns og er tilgangurinn að fólk minnki reykingar og losni undan tóbaks fíkninni. Vökvi er notaður til að búa til gufu í rafrettum. Innihald vökvans er mismunandi eftir gerðum en þau eiga það sameiginlegt að innihalda vatn og bragðefni í própýlen glýkól eða glýseról basa. Hundruðir bragðefna eru til, frá bragðefnum sem líkja eftir ákveðnum sígarettugerðum yfir í matarbragðefni. Theophilus Carter. Theophilus Carter (fæðingardagur óviss - dó eftir 1894) var breskur uppfinningamaður og húsgagnasali. Hann er frægur fyrir að hafa fundið upp einhverskonar sambreysking vekjaraklukku og rúms, og er talinn fyrirmynd teikninga Johns Tenniel af "Óða hattaranum" sem kemur fyrir í Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll. Uppfinning hans, "Vekjaraklukku-rúmið", virkaði þannig að það hrinti notandanum á settum tíma ofan í kar af köldu vatni. Það var haft til sýnis í Lundúnum árið 1851. Carter var einnig skápasmiður og átti húsgagnabúð í Oxford frá 1875 til 1894. Umberto D.. Umberto D er ítölsk kvikmynd frá árinu 1952 í leikstjórn Vittorio De Sica, gerð í anda nýraunsæisstefnunar ("neorealismans"). Umberto D. er ásamt "Reiðhjólaþjófunum" (Ladri di biciclette), "Kraftaverk í Mílanó" (Miracolo a Milano) og "Skóáburði" (Sciuscià) taldar vera merkilegustu kvikmyndir leikstjórans og ein af þeim sem heldur nafni hans hvað mest á lofti. John McEnroe. John McEnroe jr. (16. febrúar 1959 í Wiesbaden) er bandarískur tennisleikari. Hann var á toppi heimslista tennisleikara í 170 vikur, en aðeins fjórir aðrir tennisleikarar hafa verið á toppnum lengur en hann. McEnroe er þekktur í íþróttaheiminum fyrir hin alræmdu reiðiköst sín. Leikferill. Dæmigerð uppgjöf hjá McEnroe, en þá stendur hann á hlið við netið. Glöggir menn sjá að hann er örvhentur. McEnroe fæddist í þýsku borginni Wiesbaden, en faðir hans var bandarískur hermaður. Strax á unga aldri flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna (New York svæðið). McEnroe hóf að leika tennis aðeins átta ára gamall ásamt bræðrum sínum. Ári seinna tók hann þátt í tenniskeppnum víða í Bandaríkjunum. McEnroe gerðist atvinnumaður 19 ára gamall 1978. Hann sigraði í fyrsta stórmóti sínu árið eftir á Opna bandaríska mótinu, en við það tækifæri varð hann yngsti sigurvegari í því móti. Jafnframt einliðaleik keppti McEnroe einnig í tvíliðaleik. Á Wimbledon-mótinu 1979 sigraði hann í tviliðaleik í fyrsta sinn, en alls sigraði hann átta sinnum á stórmótum í tviliðaleik. 1980 náði hann þeim áfanga að komast í fyrsta sinn í efsta sæti heimslistans. Alls var hann í 170 vikur í efsta sætinu, en það er fimmti besti árangur sögunnar á karlalistanum. McEnroe sigraði alls á sjö stórmótum, en eingöngu á Opna bandaríska mótinu og Wimbledon. Sökum leiktækni sinnar var McEnroe mjög fær á hörðum velli (gras og gerviefni) en stóð höllum fæti á sandi. Þess vegna tókst honum ekki vel upp á Opna ástralska mótinu eða á Opna franska mótinu. Leiktæknin fólst í því að uppgjöfin var ekki sérlega föst, heldur nákvæm. Oftar en ekki stóð hann með netið sér við hlið í uppgjöfinni, en þannig tókst homum að leika hratt og komast upp að neti. McEnroe var auk þess flinkasti tennisleikari síns tíma í að svara uppgjöf. Allt í allt sigraði McEnroe í 77 keppnum í einliðaleik meðan hann var atvinnumaður. Í dag leikur hann enn tennis í skipulögðum mótum fyrir öldunga. Heimildir. McEnroe, John David Caruso. David Stephen Caruso (fæddur 7. janúar 1956) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir að leika Horatio Caine í '. Einkalíf. Caruso fæddist í Forest Hills Gardens, Queens, New York. Hann er af ítölskum og írskum uppruna. og var alinn upp kaþólskri trú. Caruso stundaði nám við Our Lady Queen of Martyrs Catholic School, í Forest Hills. Seinna meir þá stundaði hann nám við Archbishop Molloy High School nálægt Briarwood og útskrifaðist þaðan árið 1974. Caruso er stofnandi DavidCarusoTelevision.tv og LexiconDigital.tv, ásamt því að vera meðstofnandi að Steam, sem er fatarbúð í S-Miami. Hann á dóttur, Greta, með seinni eiginkonu sinni, Rachel Ticotin. Síðan á hann tvö börn með fyrrverandi kærustu sinni Liza Marquez: Marquez Anthony og Paloma Raquel. Í apríl 2009, fór Marquez í mál við Caruso vegna fjársvika, brota á skiptasamningum og tilfinningalegrar þjáningar. Í dag þá býr hann í Los Angeles og Miami ásamt kærustu sinni, Amina Islam. Í mars 2009 var austurrísk kona sett í gæsluvarðhald í Tyrol, Austria vegna kæru um að hafa ofsótt Caruso; hafði hún tvisvar sinnum misst tíma í dómssal áður en hún flúði til Mexíkó. Níundi áratugurinn. Fyrsta hlutverk hans var árið 1980 í kvikmyndinni "Getting Wasted" sem Danny. Caruso eyddi mesta áratugnum í aukahlutverkum í kvikmyndum á borð við, "First Blood", "An Officer and a Gentleman", "Blue City", "Thief of Hearts", og "China Girl". Caruso kom einnig fram í myndunum "Twins" og "Hudson Hawk". Í sjónvarpi þá var hann í aukahlutverki sem Tommy Mann, leiðtogi klíkunnar "The Shamrocks", í "Hill Street Blues" í byrjun 1980s. Þá kom hann fram í tveimur þáttum í seríunni "Crime Story" sem var sýnt frá 1986 til 1988. Tíundi áratugurinn. Caruso kom fram í aukahlutverkum í myndum á borð við "King of New York" og "Mad Dog and Glory". Þegar hann var að taka upp kvikmyndina '[Hudson Hawk" frá 1991, þá notaði Caruso ákveðna aðferð þar sem hann neitaði að tala við fólk þar sem persóna hans, Kit-Kat, var mállaus sem hafði bitið tunguna sína af. Fyrsta stóra hlutverk hans var árið 1993 sem rannsóknarfulltrúinn John Kelly í "NYPD Blue" sem Caruso vann Golden Globe verðlaun fyrir. Ásamt því að "TV Guide" nefndi Caruso sem einn af sex nýju stjörnum 1993-94 tímabilsins. Komst hann í fréttirnar þegar hann ákvað yfirgefa þáttinn til þess að vinna að kvikmyndaferli sínum (þá aðeins fjórum þáttum inn í aðra seríu), en átti erfitt með að sýna sig sem aðalleikara í glæpamyndinni "Kiss of Death", sem fékk góða dóma en gekk ekki vel fjárhagslega. Kom hann einnig fram í myndinni "Jade" (1995), sem gekk mjög illa. Árið 1997 sneri hann aftur í sjónvarpið þegar hann lék í lögfræðiseríunni "Michael Hayes", þar sem hann lék New York lögfræðinginn og var serían aðeins sýnd í eitt tímabil. 21. öldin. Caruso kom aftur fram í aukahlutverki í myndinni "Proof of Life" með Russell Crowe, frá árinu 2000. Árið 2001 lék hann titil hlutverkið í hryllingsmyndinni, "Session 9". Frá 2002-2012, lék hann Lt. Horatio Caine í hinum vinsæla sjónvarpsþætti '. Í "CSI: Miami", var Caruso þekktur fyrir að nota einnar setninga línur sem passa þegar á við í senum og notkun sólgleraugna hans. Sólgleraugu Carusos og einnar setningar línur hans, hafa verið gert mikið grín af grínustum og á netinu. Dúkkuhaus David Caruso. Í byrjun ársins 2007, varð til Horatio Caine dúkkuhausinn, hann er circa 6 tommur á hæð og er fullur af sælgæti, ásamt því að sýna vel útlit Carusos. Síðan dúkkuhausinn var gefinnn út þá hefur hann orðið mjög vinsæll á tökustað þáttarins og á meðal aðdáenda Carusos. Eftir að hafa heimsótt tökustað í október 2009 fékk hópur aðdáenda sem hafði ferðast allaleiðina frá Toronto, Kanada, dúkkuhausinn gefins sem þakkargjöf eftir nær 2200 mílna ferð til Kaliforníu. Núna nefnt „Bobble Head David Caruso“ (þ.e. B-HED), þá hefur hann ferðast um margar borgir í Bandaríkjunum (LA, Las Vegas, Chicago, Buffalo, Miami), Ástralíu (Melbourne), Kúbu (Holguin) og Kanada (Toronto, Windsor, Niagara Falls). B-HED hefur eignast mikinn fjölda aðdáenda í fjölmiðlum og á netinu. Sjá Tenglar. Caruso, David Emily Procter. Emily Mallory Procter (fædd 8. október 1968) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í og The West Wing. Einkalíf. Procter er fædd og uppalin í Raleigh, Norður Karólínu. Útskrifaðist hún frá Ravenscroft School í Raleigh. Á meðan hún var við nám við East Carolina háskólann þá var hún meðlimur Alpha Delta Pi. Eftir að hún fékk gráðu sína í blaðamennsku og dansi, þá fékk hún vinnu sem sjónvarpsveðurfréttamaður á WNCT-TV sjónvarpsstöðinni í Greenville, Norður-Karólínu. Kom hún fram í Live Earth árið 2007, þar sem hún las (ásamt öðrum leikkonum) ritgerð skrifuð af Michelle Gardner-Quin þegar Gardner-Quinn var nemi við Vermont háskólann. Procter hefur haldið einkalífi sínu vel frá fjölmiðlum. Henni finnst gaman að ferðast með systur sinni, sem er atvinnukokkur, þá finnst henni gaman að hlaupa tvo tíma á dag, fimm sinnum í viku og hefur hún tekið þátt í mörgum hlaupum og maraþonum. Hún er mikill pókerspilari og lærði hún að gera það frá unga aldri og hefur hún tekið þátt í pókermótum. Ferill. Eftir að hafa fluttst til Los Angeles, þá útvegaði faðir hennar peninga til þess að stunda leikaranám í tvö ár. Áður en hún útskrifaðist, þá hafðu hún fengið smáhlutverk í myndum á borð við "Jerry Maguire" og "Breast Men", þar sem hún lék á móti David Schwimmer og Chris Cooper. Kom hún einnig fram í þriðju seríu af "Lois & Clark: The New Adventures of Superman", þar sem hún lék Lana Lang, þá fyrsta ljóshærða leikkonan til þessa. Einnig kom hún stuttlega fram í sjónvarpsmyndinni "The Dukes of Hazzard: Reunion!" sem Mavis. Lék hún líka í "Body Shots" sem Whitney. Þá lék aukahlutverk sem aðstoðar Hvíta Húss lögfræðingurinn Ainsley Hayes í "The West Wing". Þá kom hún fram sem ástarhugarefni fyrir Joey í "Friends". Hún er góð vinkona ' leikkonunnar Jorja Fox, sem ýtti henni út í það að taka hlutverkið sem Calleigh Duquesne í ', sem hún lék frá 2002-2012. Tenglar. Procter, Emily Jay-Z. Jay-Z á tónleikum árið 2006. Shawn Corey Carter (fæddur 4. desember 1969), betur þekktur undir sviðsnafninu Jay-Z, er bandarískur rappari og viðskiptamaður. Hann hefur notið mikillar fjárhagslegrar velgengni, selt yfir 30 milljón eintök af plötum sínum í Bandaríkjunum einum og hlotið tíu Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína. Jay-Z kvæntist sönkonunni Beyoncé Knowles 4. apríl 2008. Jonathan Togo. Jonathan Frederick Togo (fæddur 25. ágúst 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Ryan Wolfe í '. Einkalíf. Jonathan Togo er fæddur og uppalinn í Rockland í Massachusetts. Móðir hans er af ítölskum og írskum ættum og faðir hans er gyðingur, þar sem upprunalega fjölskyldunafnið er „Tonkaviev“, en það var stytt af forföður hans sem vantaði eitthvað nýtískulegra fyrir teppafyrirtæki sitt. Stundaði nám við gyðingaskóla þegar hann var yngri og útskrifaðist frá Rockland High School árið 1995, þar sem hann stundaði glímu. Jonathan stundaði nám við „Project Contemporary Competitiveness, Advanced Study Program“ (þ.e. PCC ASP) frá 1991 og 1992, og vann síðan sem fulltrúi árið 1996. Lærði við Vassar háskólann og útskrifaðist þaðan með B.A. gráðu í leiklist og stundaði síðan framhaldsnám við National Theater Institute of the Eugene O’Neill Theater. Meðan hann var í Vassar þá spilaði hann í hljómsveit sem kallaðist The El Conquistadors með Sam Endicott og John Conway, sem báðir eru meðlimir í hljómsveitinni The Bravery. Ferill. Togo hefur leikið og komið fram í mörgum leikritum. Þó að hann sé þekktastur fyrir að leika Ryan Wolfe í ', þá hefur hann komið fram í nokkrum sjónvarpsþættum á borð við "Special Unit 2" og "Judging Amy". Lék hann verslunarstarfsmann í "Mystic River". Árið 2008, skrifaði Togo og leikstýrði í fyrsta skipti netseríu, "My Best Friend Is My Penis" fyrir Atom.com. Tenglar. Togo, Jonathan Kassel. a> er einkennisbygging Kassel. Fossarnir eru manngerðir. Kassel er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Hessen með 195 þúsund íbúa. Kassel var í hartnær 600 ár höfuðborg hertogadæmisins Hessen (og Hessen-Kassel), allt þar til hertogadæmið var innlimað í Prússland 1866. Lega. Kassel liggur við ána Fulda nær nyrst í Hessen, steinsnar fyrir sunnan sambandslandið Neðra-Saxland. Næstu borgir eru Göttingen til norðausturs (40 km), Paderborn til norðvesturs (70 km) og Frankfurt am Main til suðurs (150 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Kassel er með 13 hvíta smára á bláum fleti. Hvít rönd fer skáhallt niður merkið. Röndin merkir ána Fulda. Smárarnir eru upprunnir á 14. öld, en merking þeirra er óviss. Orðsifjar. Kassel hét upphaflega Chassalla eða Chassella. Það er dregið af latneska orðinu "castellum", sem merkir "virki". Upphaf byggðar þar var í kringum kastalavirki konungs. Síðan 1999 er borgin með auknefnið Documenta-Stadt en Documenta er stór listasýning í borginni á fjögurra eða fimm ára fresti. Upphaf. 913 kemur borgin fyrst við skjöl hjá Konráði I konungi þýska ríkisins. Þar kom fram að konungur átti sér kastala sem borgin er seinna kennd við. Um miðja 12. öld var stofnað nunnuklaustur á staðnum og myndaðist nokkur byggð í kringum það. 1189 kemur fram á skjölum að Kassel hafi þegar hlotið borgarréttindi. Reyndar var um þrjár byggðir að ræða: Altstadt, Neustadt og Freiheit. Bæirnir sameinuðust ekki fyrr en 1378. Árið 1277 varð Kassel aðsetur landgreifans Heinrich I. eftir að Hessen var splittað frá Þýringalandi. Þar með verður Kassel að höfuðborg og er hún það í hartnær 600 ár til ársins 1866. Siðaskipti. Kassel um árið 1600. Borgin er beggja megin við ána Fulda. Mannvirkið til vinstri er klaustrið. 1527 tók borgin siðaskipti, enda var landgreifinn Filippus einn mestur forvígismanna þeirra. Þetta varð til þess að klaustrið var lagt niður og kaþólsku kirkjurnar urðu lúterskar. Filippus gekk í herbandalag með siðaskiptamönnum ("Schmalkaldischer Bund") um miðja 16. öld og varð Kassel að einu mesta vígi þeirra manna. Herinn beið hins vegar mikinn ósigur gegn keisarahernum, sem hertók Kassel 1547. Filippusi var varpað í dýflissu þar sem hann þurfti að dúsa í fimm ár. 1567 dó Filippus. Þá var Hessen splittað upp í nokkur greifadæmi. Við það myndaðist landgreifadæmið Hessen-Kassel með Kassel að höfuðborg. Landgreifinn Vilhjálmur IV hafði mikinn áhuga á stjörnufræði. Hann lét reisa sér stjörnuathugunarstöð, en hún er fyrsta stjörnustöð Evrópu eftir siðaskiptin. 1685 tók landgreifinn Karl við 1.700 húgenottum sem flúið höfðu trúarofsóknir í Frakklandi. Napoleonstíminn og iðnbylting. Jérôme Bonaparte ríkti sem konungur í Kassel 1807 réðust Frakkar inn í Hessen og leystu furstadæmið Hessen-Kassel upp. Frakkar stofnuðu konungsríkið Vestfalíu og varð Kassel höfuðborg þess. Napoleon gerði bróður sinn, Jérôme, að konungi í hinu nýstofnaða ríki. Það stóð þó stutt. Eftir ófarir Napoleons í Rússlandi 1813 voru Frakkar hraktir úr héraðinu og furstadæmið var endurreist. Á þessum tíma voru Grimmsbræðurnir í borginni og mynduðu nokkurs konar bókmenntafélag með þekktum skáldum og rithöfundum. Í iðnskólanum störfuðu nokkrir nafntogaðir vísindamenn, þar á meðal efnafræðingurinn Robert Bunsen sem fann upp gasgrímuna. 1848 fékk borgin járnbrautartengingu. 1850 urðu nokkur innanlandsátök í Rínarsambandinu, sem endaði með því að herir frá Bæjaralandi og Austurríki hertóku Kassel til skamms tíma. 1866 átti sér stað þýska stríðið. Prússar og Austurríkismenn áttust við og gekk Hessen-Kassel til liðs við Austurríki. En Prússar sigruðu og ákvað Bismarck kanslari að innlima Hessen-Kassel í Prússland. Þetta var endalok Kassels sem höfuðborg. 1870-71 sigruðu Prússar í stríði við Frakka og varð Prússland í kjölfarið að keisararíki. Þeir handtóku Frakkakeisarann Napoleon III eftir orrustuna við Sedan og fluttu hann til Kassel. Þar þurfti hann að dúsa í stofufangelsi í heilt ár, reyndar í sama kastala og föðurbróðir hans, Jérôme Bonaparte, ríkti sem konungur til skamms tíma. Hann var látin laus eftir keisarakrýningu Vilhjálms I Prússakeisara og fór í útlegð til Bretlands. Nýrri tímar. Nóttina 23. október 1943 varð Kassel fyrir gríðarlegum loftárásum Breta. 80% borgarinnar eyðilagðist og 10 þús manns biðu bana. Nær öll miðborgin brann niður. 4. apríl 1945 gáfust nasistar í borginni upp og hertóku þá bandarískir hermenn borgina, sem eftir stríð varð hluti af hernámssvæði þeirra. 1949 sótti Kassel um þann heiður að verða höfuðborg nýs Þýskalands. Þrjár aðrar borgir sóttu einnig um þann heiður: Frankfurt am Main, Stuttgart og Bonn. Bonn varð fyrir valinu en hún fékk 200 atkvæði þingmanna en Kassel 176. Fyrir vikið var ákveðið að Kassel fengi atvinnudómstólinn og félagsmáladómstólinn. Hið fyrrnefnda var þó flutt til Erfurt árið 1999. 1970 hittust Willy Brandt kanslari og Willi Stoph fulltrúi Austur-Þýskalands í Kassel til að ræða um sjálfstæði landanna. 1971 var háskólinn Universität Kassel stofnaður. Viðburðir. Síldin er einkennismerki hátíðarinnar Zissel Rex Linn. Rex Maynard Linn (fæddur 13. nóvember 1956) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Frank Tripp í Einkalíf. Linn fæddist í Hansford County í Texas, Bandaríkjunum. Árið 1969 fluttist fjölskylda hans til Oklahoma borgar og stundaði hann nám við Heritage Hall og seinna meir við Casady School, sem er einkarekinn skóli tengdur Episcopal kirkjunni. Eftir að hafa séð Jack Nicholson leika í "One Flew Over the Cuckoo's Nest" árið 1975, tilkynnti hann að hann ætlaði sér að verða leikari. Því miður þá minnkaði líkur hans á leikaraferli strax í menntaskóla, þegar við eina færsluna á "Fiddler On The Roof", eyðilagði hann næstum því sviðsmyndina í einu af dansatriðunum, Linn var beðinn um að hætta í leikritinum af leikstjóranum. Honum var sagt að nota orkuna sína einhversstaðar annarsstaðar. Lauk hann námi við Oklahoma-ríkisháskólann árið 1980 með gráðu í Útvarpi/Sjónvarpi/Kvikmyndum. Linn býr í Sherman Oaks, Kaliforníu, með hundunum sínum, Jack and Choctaw, ásamt því að vera harður aðdáandi University of Texas Longhorns og hefur m.a. tekið sér frí frá ' til þess að mæta á 2005 Rose Bowl leikinn þar sem lið hans var að spila gegn University of Southern California. Linn er ákafur stuðningsmaður barnahjálparstarfa og hefur keppt í stjörnu gólfmótum fyrir barnarhjálpir, liðgigtarsamtök og fyrir blindrasamtök. Ferill. Fyrsta hlutverk hans fékk hann í myndinni, "Dark Before Dawn", sem var framleidd af vini hans Edward K. Gaylord II. Það sem mestu skipti máli var að hann varð meðframleiðandi að myndinni. Þetta gaf honum tækifæri á að kynnast hinni hliðinni á kvikmyndum sem átti eftir að hjálpa honum í heimi leikara. Árið 1989, þá var hann ráðinn í fyrsta stóra hlutverkið sem raðmorðinginn Floyd Epps, í "Night Game", ásamt Roy Scheider. Eftir myndina og hlutverk sem fógeti í "Young Riders" ákvað hann að flytjast vestur til Los Angeles. Fyrstu þrjú árin stundaði hann leiklist hjá Silvana Gallardo við Studio City og vann mikið með vini sínum Robert Knott sem einnig var leikari, við ýmsa byggingarvinnu. En smátt og smátt þá byrjaði hann að fá hlutverk þar á meðal í "My Heroes Have Always Been Cowboys" (1991), "Thunderheart" (1992), og "Sniper" (1993), ásamt gestahlutverkum í sjónvarpsþáttum í "Northern Exposure", "Raven", og "The Adventures of Brisco County Jr." Í apríl 1992 þá fékk hann stórahlutverkið sem fulltrúi fjármálaráðuneytisins, Richard Travers, í myndinni "Cliffhanger". Myndin kom Rex á kortið. Síðan "Cliffhanger", þá hefur Rex komið fram í yfir 35 kvikmyndum sem eykst með hverju ári. Frá 2002-2012 lék hann rannsóknarfulltrúanns Sgt. Frank Tripp í '. Tenglar. Linn, Rex Kristin vísindi. Kristin vísindi (e. "Christian Science") var trúarhreyfingin sem fór af stað seinni hluta 19. aldar. Forsprakki hennar Mary Baker Eddy var sannfærð um að máttur bænarinnar gæti læknað allt sem að hrjáð hefur mannkynið. Mary Baker Eddy. Mary Baker Eddy var fædd árið 1821 í Bow, New Hampshire í Bandaríkjunum. Hún þjáðist af ýmis konar heilsukvillum alla sína ævi og var því fastagestur hjá læknum og læknastofnunum. Hún setti af stað hreyfinguna Christian Science með kristna trú sem grunn en með það í forgrunni að máttur bænarinnar væri hafinn yfir öll vísindi. Hún vildi að trú þessi yrði bæði andleg leiðsögn fyrir fólk sem og líkamleg lausn til líkamlegra og andlegra vandamála. Hún gaf út bókina "Science and Health" árið 1875 en sú bók ásamt Biblíunni eru grunn bókmenntir þeirra sem iðka Christian Science trúna. Eddy féll illa sem barn á ís og hélt því fram að hún hefði algerlega náð að jafna sig án læknisaðstoðar. Hún hefði trúað því að andleg líðan skipti öllu máli hvað varðaði líðan hennar líkamlega og hún sagði að um leið og hún áttaði sig á því þá hefði hún náð fullum bata. Iðkendur. Þeir sem iðka Christian Science kjósa að trúa ekki á vísindi. Þeir fara þó í mikla mótsögn við sjálfa sig því þó þeir segjast ekki trúa á vísindi og læknavísindi sér í lagi þá er algengast að iðkendur fari þó til tannlækna og gangi með gleraugu þurfi þau þess. Í lok 20. aldar voru skráðir 2.500 iðkendur í 70 löndum. Þeirri tölu hefur farið hnignandi því hreyfingin hefur átt erfitt með að fá nýja iðkendur og þau börn sem alast upp við trúna yfirgefa hana mörg hver þegar þau komast á aldur. Kirkjan. Fyrsta kirkja krists eða móðurkirkjan (e. "the Mother Church") var sett á fót árið 1894. Hún er staðsett í Boston, Massachusetts í Bandaríkjunum. Kirkjan var reist í rómverskum endurreisnarstíl og þykir hin glæsilegasta. Umdeild trú. Christian Science er mjög umdeild trú. Þeir sem trúa á læknavísindi telja þá sem iðka Christian Science trú leggja sjálfa sig í hættu með því að neita sér um læknishjálp og þau leggja ekki bara sjálf sig í hættu heldur einnig (og kannski sérstaklega) börnin sín. Iðkendur Christian Science trúnnar segja að það séu engin haldbær sönnunargögn sem sína fram á nokkurn hátt að börn þessarar trúar þjáist eitthvað meira heldur en önnur börn. Þeir sem trúa á læknavísindi færa þá jafnvel rök fyrir því að ástæðan fyrir að engin haldbær sönnunargögn séu til sé sú að skráning barna hvað varðar veikindi eða dauðsföll eru yfirleitt ekki tengd trú. Þeir segja að ef þær upplýsingar væru fyrir hendi væru sönnunargögn vafalaust fyrir hendi. Það er samt sem áður staðreynd að iðkendur þessarar trúar hefur verið látast úr veikindum sem að vísindin hafa fundið lækningu á í mörgum tilfellum. Fólk er að deyja úr sykursýki, sprungnum botnlanga, mislingum, barnaveiki, blóðeitrun, krabbameini eða öðrum sjúkdómum sem hægt er að lækna eða að minnsta kosti sinna að einhverju leyti með nútíma læknavísindum. Bóndadagur. Fyrsti dagur Þorra er nefndur bóndadagur en sá síðasti "þorraþræll". Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða. Hefðir á bóndadag í dag. Núna hefur sú hefð komist á að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi. Líkt og að menn gefa konu sinni blóm á konudaginn, fyrsta dag Góu. Þorri. Þorri hefst alltaf á Föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hanns hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf. Alice in Chains. Alice in Chains er bandarísk rokkhljómsveit stofnuð í Seattle í Washington árið 1987 af gítarleikaranum Jerry Cantrell og söngvaranum Layne Staley. Á ferli sínum hefur hljómsveitin gefið út fjórar breiðskífur, þrjár stuttskífur, tvær tónleikaplötur, fjórar safnplötur og tvo mynddiska. Sveitin er þekkt fyrir einstakan söngstíl sem oftar en ekki samanstóð af raddsettum söng þeirra Staley og Cantrell. Alice in Chains öðlaðist heimsfrægð sem hluti af grugghreyfingunni í byrjun tíunda áratugar tuttugustu aldar líkt og hljómsveitir á borð við Nirvana, Pearl Jam og Soundgarden. Hljómsveitin var ein sú vinsælasta á tíunda áratugnum með yfir 17 milljónir seldar plötur um heim allan. Tvær plötur hljómsveitarinnar lentu í fyrsta sæti á "Billboard 200"-listanum ("Jar of Flies" og "Alice in Chains"), 14 lög í topp tíu á Mainstream Rock Tracks-listanum auk þess að hljómsveitin hlaut sjö tilnefningar til Grammy-verðlaunanna. Þrátt fyrir að hafa aldrei lagt upp laupana formlega, var Alice in Chains óvirk um langt skeið vegna fíkniefnanotkunar meðlima sem náði hámarki við dauða Layne Staley árið 2002. Alice in Chains tóku aftur upp þráðinn árið 2005 með nýjan söngvara að nafni William DuVall og gáfu út plötuna "Black Gives Way to Blue", fyrstu breiðskífu þeirra í 14 ár, þann 29. september 2009. Herkúlesstyttan í Kassel. Herkúlesstyttan er alls 70 metra há Herkúles er heiti á styttu og gríðmiklum stalli sem er einkennisbygging þýsku borgarinnar Kassel. Niður af stallinum eru manngerðir fossar, þeir lengstu (250 m) í Þýskalandi. Styttan. Herkúles er bronsstytta og á hæð einni í borginni. Það var landgreifinn Karl sem lét reisa styttuna 1701-1717 með aðstoð ítalska byggingameistarans Giovanni Francesco Guerniero. Báðir létu þeir breyta upphaflega teikningunum af og til og því varð stallurinn að styttunni svolítið einkennilegur. Neðri stallurinn er átthyrndur og er 32 metra hár. Efri stallurinn (oft kallaður pýramídinn) er allt öðruvísi í formi og efni. Hann er 29 metra hár. Efst trónir svo bronsstytta af Heraklesi (Herkúles) hinum gríska en hún ein er 8,25 m há. Alls er mannvirkið því 70 metra hátt. Herakles heldur á epli Hesperíðanna en það var 11. verkefni hans (af 12) áður en hann var tekinn í guðatölu. Hægt er að ganga upp á neðri stallinn og njóta fagurs útsýnis. Fossarnir. Fossarnir eru gríðarlega fallegir. Neðst er Neptúntjörnin. Við neðri stallinn er stjörn sem geymir 350 þús lítra af vatni. Á vissum tímum er vatnið látið renna niður manngerðan farveg, niður tröppur eða stalla. Vatnið rennur í þremur rennum. Aðalrennan er 5,50 metra breið en til sitthvorrar hliðar eru tvær hliðarrennur, 1,75 metra breiðar. Alls eru fossarnir því 9 metra breiðir. Þrjá minni tjarnir eru inn á milli stallanna. Þegar stöllunum sleppir lendir vatnið í Neptúntjörninni og hverfur þaðan sem lækur. Fossarnir eru 250 metra langir en með tjörnunum er rennslið 320 metrar langt (105 metra hæðarmunur). Það tekur vatnið 30 mínútur að komast frá tjörninni við neðri stallinn og niður í Neptúntjörnina. Á kvöldin eru fossarnir lýstir upp með flóðljósi. Bæði fossarnir og útsýnispallurinn við styttuna eru aðgengilegir fyrir almenning. Rof. Eitt helsta vandamál við styttustallinn er sá að hann er gerður úr gosbergi. Svæðið umhverfis Kassel var eldvirkt þar til fyrir 7 milljónum árum. Því er efnið í stallinum ekki eins sterkt og annað betra efni, eins og granít eða marmari, en hafði þó þann kost að auðvelt var að höggva það. Gosbergið er með aragrúa lítilla loftbóla sem sjúga í sig vatn en vatnið frýs á veturna og sprengir ysta lagið af sér. Eftir 300 ár er stallurinn því orðinn mjög viðkvæmur og lélegur. Annað vandamál er þyngdin. Sökum þess að undirlagið er frekar mjúkt, sígur stallurinn hægt og rólega og rennur til. Stallurinn og styttan hafa verið í viðgerð síðan 2007. Peter Eriksson. Lars-Johan Peter Eriksson (fæddur 3. ágúst 1958) er sænskur stjórnmálamaður (Miljöpartiet de Gröna). Hann var fyrst kjörinn á þing árin 1994-1998 og var aftur kjörinn árið 2002. Páll Melsteð (amtmaður). Páll Melsteð (31. mars 1791 – 9. maí 1861) var íslenskur amtmaður, sýslumaður og alþingismaður. Páll var fæddur á Völlum í Svarfaðardal, sonur séra Þórðar Jónssonar prests þar og seinni konu hans Ingibjargar Jónsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1809, var skrifari Stefáns Þórarinssonar amtmanns á Möðruvöllum 1809-1813 en sigldi síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk lögfræðiprófi þaðan 1815. Hann varð þá sýslumaður í Suður-Múlasýslu til 1817 og síðan í Norður-Múlasýslu til 1835 og sat á Ketilsstöðum á Völlum. 1835-1849 var hann sýslumaður í Árnessýslu og bjó þá í Hjálmholti. Árið 1849 var hann skipaður amtmaður í vesturamtinu og gegndi því embætti til æviloka. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1847-1849, þjóðfundarfulltrúi 1851 og var þá forseti þjóðfunarins. Hann var konungsfulltrúi á Alþingi 1849-1859. Páli er svo lýst að hann hafi verið fríður sýnum og manna gjörvilegastur, bráðgáfaður, hygginn og gætinn, manna stilltastur, fámáll og nokkuð dulur í skapi. Fyrri kona hans (2. nóvember 1815) var Anna Sigríður Stefánsdóttir (20. maí 1790 – 8. júní 1844), dóttir Stefáns Þórarinssonar amtmanns og konu hans, Ragnheiðar Vigfúsdóttur Scheving. Á meðal fjölmargra barna þeirra voru Páll Melsteð sagnfræðingur, sem fæddist árið 1812, áður en faðir hans fór til náms í Kaupmannahöfn, og Sigurður Melsteð alþingismaður. Síðari kona Páls (5. september 1846) var Ingileif Jónsdóttir Bachmann (6. maí 1812 – 13. mars 1894). Þau áttu einn son, Hallgrím landsbókavörð. Á yngri árum var Páll í kunningsskap við Skáld-Rósu Guðmundsdóttur og talið er að hinar frægu ástavísur hennar "Augað mitt og augað þitt, og þá fögru steina!... " o.s.frv. séu ortar til hans. Það er þó ekki vitað fyrir víst. Tvívetni. Tvívetni (tákn 2H eða D) einnig kallað þungt vetni eða þungavetni er stöðug samsæta af vetni (H) sem hefur eina rafeind og eina róteind og eina nifteind í kjarnanum og hefur massatöluna 2 þar sem massatala er samanlagður fjöldi róteinda og nifteinda í kjarnanum og er nær tvöfalt þyngra en venjulegt vetni. Tvívetni er næstalgengasta samsæta vetnis en um 0,022% af öllu vetni er tvívetni, algegnasta gerð vetnis er hins vegar einvetni (1H) sem hefur enga nifteind- aðeins eina rafeind og eina róteind. Þriðja algengasta tegund vetnis er svo geislavirka samsætan þrívetni (3H eða T) sem hefur eina rafeind, eina róteind og tvær nifteindir. Eva LaRue. Eva Maria LaRue (fædd Eva Maria LaRuy; 27. desember 1966) er bandarísk leikkona og fyrirsæta. Hún er þekktust fyrir hlutverk sín í "All My Children" og. Einkalíf. LaRue fæddist í Long Beach í Kaliforníu og er af púertó rískum, frönskum, þýskum og skoskum uppruna. Hún er meðlimur Bahá'í trúarinnar. LaRue byrjaði að leika þegar hún var sex ára og var seinna meir táningsfegurðardrottning. Vann hún Danfranc Productions ungfrú Kalifornía Empire 1984 titillinn sem var haldin í Irvine í Kaliforníu. Síðan var hún Frederick's of Hollywood fyrirsæta. Frá 1992-1994 var LaRue gift John O'Hurley. Síðan byrjaði hún samband með meðleikara sínum John Callahan úr "All My Children" en hann lék eiginmann hennar Edmund Grey í þættinum. Saman eiga þau eina dóttur, Kaya McKenna Callahan. Skildu þau árið 2005. Í ágúst 2006 var greint frá því að systir hennar, Nika, var ein af þeim konum sem voru ljósmyndaðar af raðmorðingjanum William Richard Bradford fyrir safnið sitt. Var hún nr. 3 (af 54 konum) á plakati gefið út af Los Angeles lögreglunni til þess að finna lifandi ættingja. Bradford tók ljósmyndir af konum sem hann hitti á börum undir því yfirskyni að hann myndi hjálpa þeim með fyrirsætu feril þeirra. Þetta var notað sem söguþráður í "CSI: Miami" þætti eftir að lýst var frá þessu. Árið 2008 var tilkynnt að Eva væri trúlofuð viðskiptamanninum Joe Cappuccio, eigandi sjávarútflutnings fyrirtækis, sem hún kynntist gegnum vin haustið 2008. LaRue og Cappuccio ætluðu að gifta sig í Mexíkó í júní 2009 en urðu að fresta því vegna skuldingar að hálfu kærasta hennar. LaRue er skyld Jane Fonda. Hún er guðmóðir sonar Kelly Ripa og Mark Consuelos. Sarah Michelle Gellar er guðmóðir dóttur hennar Kaya. Ferill. Frá 1993 til 1997 og aftur frá 2002 til 2005 lék LaRue Dr. Maria Santos Grey í "All My Children". Þar var hún hluti af "All My Children" ofurparinu Edmund og Maria. Fékk hún tilnefningu til Daytime Emmy-verðlauna í flokknum „Besta aukaleikkona í dramaseríu“ fyrir "All My Children". Einnig fékk hún tilnefningu árið 2004 í flokknum „Besta lagið“ fyrir að hafa samið „Dance Again with You“, sem var notað í bakgrunninum í ástarsenu þegar persónurnar Edmund og Maria gifta sig í þriðja skipti. LaRue endurtók hlutverk sitt sem Maria stuttlega þann 5. janúar 2010 vegna 40 ára afmælis "All My Children. LaRue lék persónuna Natalia Boa Vista í ' frá 2005-2012. Tenglar. LaRue, Eva Makríll. Makríll (fræðiheiti: "Scomber scombrus") er hraðsyntur uppsjávarfiskur af makrílætt, sem finnst í Norður-Atlantshafi. Makríll er algengur í svölum sjó og heldur sig í stórum torfum nálægt yfirborði. Makríllinn kemur að ströndum í fæðuleit að sumarlagi þar sem vatnshiti er milli 11° og 14 °C. Á veturna heldur hann sig á meira dýpi og fjær landi. Markríll er svifæta og heldur sig þar sem áta og hitastig er hagstætt. Í ætisleit fer hann í miklar göngur norður um Noregshaf, norður með Noregi og síðustu ár til Íslands. Rauðáta er mikilvæg fæða hans en hann étur einnig svif og fiska. Makríll er sundmagalaus og sekkur því ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu. Magn af makríl í Norðursjó minnkaði mikið upp úr 1960 vegna ofveiði. Hann er langlífur og hefur hámarksaldur makríls greinst 25 ár og þekkt er að fiskar geta orðið meira en 66 sm langir. Fiskurinn verður kynþroska við 2-3 ára aldur. Í lok fyrsta árs er makríll um 27-28 sm og er þyngdin þá 160-179 gr. Við níu ára aldur er meðallengd makríls um 40 sm og þyngdin um og yfir 600 gr. Þrír stofnar makríls eru í NA-Atlantshafi en þeir eru Vesturstofn sem er lang stærstur, Suðurstofn og Norðursjávarstofn. Makrílgöngur hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár og er breytt göngumynstur talið orsakast af hlýnun sjávar. Makríll við Ísland. Makríll fannst svo vitað sé í fyrsta skipti við Ísland árið 1995. Árið 2005 bárust margar tilkynningar til Hafrannsóknarstofu um makríl. Makrílafli var fyrst skráður af Fiskistofu árið 1996 en fram til 2005 var þessi afli oftast veiddur utan íslenskrar lögsögu. Íslendingar ákvörðuðu einhliða í desember 2010 að auka kvótann fyrir makrílveiði. Þessi ákvörðun leiddi til að ESB undirbjó löndunarbann fyrir íslensk makrílskip (staða 21.12.2010). Makrílflak í tómatsósu, vinsæll réttur í Skandinavíu og á Bretlandseyjum.Makríll er vinsæll matfiskur og þykir ljúffengur. Hann er annað hvort eldaður eða notaður sem sashimi. Makríll inniheldur mikið magn af vítamíninu B12 og omega 3 fitusýrum. Í Skandinavíu og á Bretlandseyjum er dósamakríll í tómatsósulegi algeng fylling í brauðsamlokum. Makrílstofninn. Hrygningarstofn Makríls í NA-Atlantshafinu árið 2009 er af Alþjóðahafrannsóknarráðinu metinn 2,6 milljón tonn. Þóra Melsteð. Þóra Melsteð (18. desember 1823 – 21. apríl 1919) var íslensk kona sem var frumkvöðull í menntamálum kvenna og stofnaði ásamt manni sínum, Páli Melsteð, Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874. Þóra var fædd í Skælskör á Sjálandi, dóttir Gríms Jónssonar, sem þá var þar bæjarfógeti, og konu hans Birgitte Cecilie Breum, sem var dönsk. Þegar hún var ársgömul varð Grímur amtmaður norðan og vestan og flutti þá fjölskyldan til Íslands og settist að á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þar átti Þóra heima til 1833, þegar faðir hennar varð bæjarfógeti í Middelfart á Fjóni. Hann varð svo aftur amtmaður norðan og vestan 1842 en fjölskyldan varð eftir í Danmörku. Þóra var í Kaupmannahöfn 1842-1846 og fékk þar góða menntun, bæði bóklega og í hannyrðum og fleiru. Hún kom til Íslands 1846 og var hjá föður sínum á Möðruvöllum þar til hann lést 1849. Þá fór Þóra að Bessastöðum til föðursystur sinnar, Ingibjargar, og manns hennar Þorgríms Tómassonar gullsmiðs, en þau voru foreldrar Gríms Thomsen. Árið 1851 komu Þóra og Ágústa systir hennar upp litlum skóla í Reykjavík, þar sem stúlkum var kennt ýmislegt bæði til munns og handa og var það fyrsti stúlknaskóli á Íslandi. Hann lagðist þó af 1853, þegar Þóra fór til Danmerkur. Hún kom þó aftur tveimur árum síðar og árið 1859 giftist hún Páli Melsteð sagnfræðingi, sýslumanni og alþingismanni, sem þá var ekkjumaður, og bjuggu þau í Reykjavík. Þóru var mjög ofarlega í huga að efla menntun kvenna og barðist fyrir stofnun kvennaskóla árum saman, safnaði fé til skólans á ýmsan hátt og gerði sér ferð til Kaupmannahafnar og Edinborgar árið 1870 til að ræða við ýmsa málsmetandi menn um þetta mál. Þegar heim kom kallaði hún ýmsar konur í Reykjavík á fund og sendu þær frá sér ávarp þar sem skorað var á landsmenn að styðja stofnun kvennaskóla. Ávarpið hlaut misjafnar undirtektir, en með samskotum og ýmiss konar fjáröflun í Danmörku (þaðan komu 90% upphæðarinnar), í Edinborg, þar sem Ágústa systir Þóru var kennslukona, og svo á Íslandi tókst að safna nægu fé til að setja á stofn skóla og var Kvennaskólinn í Reykjavík settur í fyrsta sinn 1. október 1874. Skólinn var þó svo fátækur að Þóra stýrði honum launalaust fyrsta árið og Páll maður hennar kenndi íslensku, sögu og landafræði kauplaust í fjögur ár. Kennslan var ókeypis fyrir nemendur. Fyrstu árin var skólinn haldinn í litlu húsi sem þau hjón áttu við Austurvöll, og var þá aðeins rúm fyrir 10-11 stúlkur í skólanum. en það var síðan rifið og byggt nýtt skólahús á sama stað á kostnað þeirra hjónanna og steyptu þau sér í töluverðar skuldir vegna skólabyggingarinnar. Gengu öll laun Þóru fyrir skólastjórnina upp í afborganir og vexti af lánunum. Þóra var mjög vel menntuð miðað við flestar kynsystur sínar, hafði meðal annars lært þýsku, ensku og frönsku og kenndi þessi tungumál í einkatímum, einkum þó ensku. Hún var skólastjóri Kvennaskólans í 28 ár og tók í raun aldrei laun fyrir störf sín því allt gekk það upp í þann kostnað sem þau hjónin höfðu af rekstri skólans. Bæði urðu þau háöldruð. Þau áttu ekki barn saman en allar eignir sem þau létu eftir sig runnu í sjóð sem ætlað var að styrkja efnilegar, fátækar stúlkur til náms í skólanum. Nagasaki. Nagasaki er japönsk borg í Nagasaki-héraði á eyjunni Kyushu. Borgin á um 406 ferkílómetralandsvæði og í henni búa um 446 þúsund manns. Borgin var upphaflega byggð af portúgölskum sjófarendum á seinnihluta 16. aldar. Borgin var einn fjögurra staða í Japan þar sem heimilt var fyrir útlendinga að stunda viðskipti á Tokugawa-tímabilinu. 9. ágúst 1945 var kjarnorkusprengju varpað á borgina, með gríðarlegri eyðileggingu. Hermt er að 73 þúsund manns hafi látist af völdum sprengjunnar og 74 þúsund manns til viðbótar hafi særst og mikill fjöldi hafi veikst vegna geislunar. Sashimi. Sashimi er japanskur réttur úr fersku sjávarfangi sem sneitt er í þunnar sneiðar og borið fram með ídýfu (sojasósu). Strandsíli. Strandsíli (fræðiheiti: "Ammodytes tobianus") er fiskur sem getur orðið allt að 20 sm langur.. Síli svo sem strandsíli, sandsíli og trönusíli eru afar mikilvæg fæða fyrir margar fiska-og fuglategundir. Sandsíli og strandsíli eru mjög lík en trönusíli eru stærri. Sandsíli. Sandsíli eða marsíli (fræðiheiti: "Ammodytes marinus") er fiskur af sandsílaætt. Hann er afar líkur strandsíli. Sandsíli byrjar að hrygna eins árs gamalt. Sandsíli er mikilvæg fæða margra nytjafiska, sjávarspendýra og sjófugla. Mikilvirkustu afræningjar sandsílis eru makríll og þorskfiskar en veiðar sela og sjófugla skipa minna máli. Framboð af sandsíli hefur áhrif á fuglastofna, sérstaklega eru kría og rita viðkvæmar fyrir skorti á sandsílum. Sandsílastofn við Ísland. Árið 2005 áttu margar fuglategundir við Ísland erfitt með að koma ungum á legg og var orsökin m.a. talin skortur á sandsílum. Rannsóknir við Íslandsstrendur benda til að nýliðun sandsílis 2005 og 2006 hafi brugðist og virðist sandsílastofn við Ísland fara minnkandi. Stofn sandsílis við Vestmannaeyjar virðist hafa orðið fyrir áfalli sem nánast þurrkaði hann út. Tilgátur um hvað valdi hnignun á stofni sandsíla við Ísland og lítilli nýliðun 2005 og 2006 eru m.a. að ákveðin veiðarfæri(dragnót) hafi áhrif, aukið afrán á eggjum, seiði eða fullorðnum sandsílum t.d. af völdum stærri árganga af ýsu og lýsu, skötusel og síld. Einnig er talið mögulegt að aukið afrán á sandsíli stafi af því að helstu afræningja skorti aðra fæðu svo sem loðnu. Talið er að breytingar á sjávarhita og seltu séu aðalorsakavaldar nýliðunarbrests sandsílis 2005 og 2006 en rannsóknir fara nú fram á því. Á veturna liggja hrogn sandsíla í dvala og ræðst þroski þeirra á samspili hita, seltu og birtu og þar með hvenær klak verður. Seiðin sem klekjast út þurfa strax að finna fæðu og ef hlýnun sjávar hefur valdið því að klak verður fyrr án þess að hafa haft eins áhrif á fæðuhóp seiðanna þá er hætta á að seiðin svelti. Straumar og veðurfar geta líka haft áhrif á hvernig seiðin reka um hafið og hvernig þau komast af. Sandsílaætt. Sandsílaætt (fræðiheiti "Ammodytidae") eru ætt mjósleginna fiska eða síla. Latneska nafnið Ammodytes vísar til þess að sílin leita í sand til að forðast sjávarföll. Við Ísland finnast þrjár tegundir fiska af sandsílaætt, það eru sandsíli, strandsíli og trönusíli. Trönusíli. Trönusíli (fræðiheiti: "Hyperoplus lanceolatus") er fiskur af sandsílaætt. Fiskurinn getur orðið allt að 35 sm langur. Darmstadt. Darmstadt er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Hessen með 142 þúsund íbúa. Darmstadt er mikill skólabær og er með auknefnið Wissenschaftsstadt ("Vísindaborgin"). Lega. Darmstadt liggur mjög sunnarlega í Hessen og er hluti af stórborgarsvæði Frankfurt. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til norðurs (20 km), Wiesbaden og Mainz til norðvesturs (20 km), Mannheim til suðurs (40 km) og Würzburg til austurs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Darmstadt er tvískiptur skjöldur. Fyrir ofan er rautt ljón á gulum fleti. Ljónið var tákn greifanna frá Katzenelnbogen, en þeir réðu lengi yfir borginni. Fyrir neðan er hvít lilja á bláum fleti. Merking hennar er óviss en talið er að hún sé tákn fyrir Maríu mey, verndardýrling höfuðkirkjunnar í Darmstadt. Skjaldarmerki þetta kom fyrst fram á 15. öld en var tekið upp í núverandi mynd 1917. Orðsifjar. Byggðin hét upphaflega Darmundestat og er samsett úr "Darmunde" eða "Darimund" (mannanafn) og stat, sem merkir "staður". Ekki er þó vitað hver Darmunde var. Ýmsar útskýringar hafa litið dagsins ljós og jafnvel þjóðsögur um tilurð heitisins, en það er eftir sem áður umdeilt. Upphaf. Talið er að byggðin Darmstadt hafi verið mynduð af frönkum á 8. eða 9. öld. Hún kemur þó ekki fyrir í skjölum fyrr en í lok 11. aldar. Bærinn var eign greifanna af Katzenelnbogen, en hann kom lítið sem ekkert við sögu næstu aldir. Lúðvík IV keisari veitti Darmstadt borgarréttindi árið 1330. Skjalið með innsigli keisara er enn til og er til sýnis á safni í borginni. Í kjölfarið fékk Darmstadt varnarmúra. 1479 dó ætt greifanna af Katzenelnbogen hins vegar út. Þeir höfðu reist kastala þar en hann var þó ekki aðalaðsetur þeirra. Heinrich III frá Oberhessen erfði þá borgina, en engir greifar sátu lengur í Darmstadt. Hún varð eftir þetta aðeins að lítilli útborg í Hessen. Stríð. Darmstadt 1655. Mynd eftir Matthäus Merian. 1518 réðist landgreifinn Filippus hinn kjarkmikli á borgina. Filippus var nýgenginn í lið með mótmælendum og barðist af alefli gegn kaþólsku kirkjunni. Borgarmúrar Darmstadt voru tiltölega nýir, en lélega hannaðir. Filippus náði að brjótast inn og eyddi stórum hluta borgarinnar. 1527 fóru siðaskiptin fram í borginni. Borgarmúrarnir voru endurreistir, en aðeins eins og þeir voru áður. Það voru mikil mistök, því þegar borgin stóð með herjum mótmælenda í trúarstríðinu ("Schmalkaldischer Krieg") mætti keisaraherinn á staðinn og hafði lítið fyrir því að komast inn í borgina. Hún var þá lögð í rúst í annað sinn á skömmum tíma. En þetta var aðeins byrjunin. Næstu 100 árin var borgin rústuð þrisvar í viðbót. Eftir tvær skæðar pestir 1585 og 1633 ruddust Frakkar inn í landið 1635 í 30 ára stríðinu. Þeir brenndu nærsveitir, eyðilögðu akra og rændu borgina. Aðeins fjórum árum síðar gerði bærískur her, hliðhollur keisaranum, nákvæmlega það sama, nema hvað þeir nær gjöreyddu borginni í þokkabót. Nærri stríðslokum 1647 hertók franskur her borgina á nýjan leik og eyðilagði það sem tekist hafði að byggja upp aftur. 1693 var enn ráðist á borgina í erfðastríðinu í Pfalz. Að þessu sinni náðu borgarbúar að verjast. Skemmdir urðu litlar miðað við fyrri stríð. Nýrri tímar. Darmstadt 1900. Öll húsin eyðilögðust í loftárásum seinna stríðs Eftir hörmungar síðustu alda var Darmstadt lútersk. Það var ekki fyrr en 1790 landgreifinn Lúðvík X leyfði kaþólikkum að iðka trú sína í borginni. Nokkrum árum síðar fengu gyðingar leyfi til að kaupa fasteignir og 1796 fengu þeir jafnvel almenn borgararéttindi, eitthvað sem ekki tíðkaðist almennt. 1806 gekk Ludwig landgreifi í Rínarbandalagið og fyrir vikið veitti Napoleon honum því nafnbótina stórhertoga. Hessen-Darmstadt breyttist því úr greifadæmi í stórhertogadæmi. Það var lagt niður 1918 er Þjóðverjar töpuðu heimstyrjöldinni fyrri. Darmstadt varð hluti af lýðveldinu Hessen ("Volksstaat Hessen") innan Weimar-lýðveldisins. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum, samtals 36 sinnum og eyðilagðist 99% miðborgarinnar. Það var jafnframt hlutfallslega næstmesti mannsskaði allra borga Þýskalands í loftárásum (á eftir Pforzheim). Í stríðslok hertóku Bandaríkjamenn borgina og varð hún hluti af hernámssvæði þeirra. Sökum fjölda skóla (háskóla og tækniskóla) í borginni var auknefnið Wissenschaftsstadt ("Vísindaborgin") bætt við borgarheitið. Viðburðir. Hljómsveitin Empty Trash á sviði í Schlossgrabenfest Schlossgrabenfest er heiti á stærsta open-air tónleikum innanborgar í Þýskalandi. Þeir hófu göngu sína 1999 og fara fram árlega síðustu helgina í maí. Sú tónlist sem boðið er upp á er rokk, popp, reggí, hipp-hopp, soul og jazz. Árið 2006 tróðu 60 hljómsveitir upp. Aðgangur er ókeypis. Heinerfest er þjóðhátíðin í borginni og er hún næststærsta þjóðhátíð í suðurhluta Hessen. Hátíðin hóf göngu sína 1951 til að lífga upp á endurreisn borgarinnar eftir skemmdir í seinna stríðinu. Hátíðin stendur í fimm daga í kringum fyrsta sunnudag í júlí. Þá er boðið upp á útiskemmtanir, sem og leikhús, sýningar, tónleika, kvikmyndir og íþróttaviðburði. Við lok hátíðarinnar er flugeldasýning. Heinerfest er dregið af gælunafni íbúa Darmstadt, en þeir eru kallaðir Heiner. Byggingar og kennileiti. Waldspirale er með skrýtnari húsum í Þýskalandi Norrænar orkurannsóknir. 270pxNorrænar orkurannsóknir (Nordisk Energiforskning) er norræn stofnun sem fjármagnar orkurannsóknir á Norðurlöndunum og nálægum svæðum. Stofnunin er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni. Norrænar orkurannsóknir eiga sinn uppruna í verkefnum á sviði orkurannsókna innan Norræna rannsóknarráðsins (nú NordForsk) sem hófust um miðjan níunda áratuginn. Stofnunin sjálf var sett á fót 1999 og aðsetur hennar eru í Osló. Sushi. Hinir ýmsu nigiri-bitar, tilbúnir til átu Sushi er litríkur fiskréttur sem er upprunninn í Japan. Meginuppistaðan í sushi eru smágerð hrísgrjón, soðin og blönduð ediki og sykri, og hrátt sjávarfang (fiskur, rækjur, hrogn o.s.frv.). Sushi er oftar en ekki mikið augnayndi, og samanstendur af allavega litlum bitum, sem eru upprúllaðir eða hlaðnir, og nefnast þeir t.d.: nigri, maki og temaki. Sushi er borðað með sojasósu, wasabi og hráu engiferi, en það er notað til að hreinsa munninn milli bita. Hrár fiskurinn, sem notaður er í sushi, og sem stundum er borðaður sér, nefnist sashimi. Níu ára stríðið. Loðvík 14. Frakklandskonungur var upphafsmaður að Níu ára stríðinu Níu ára stríðið (á þýsku: "Pfälzischer Erbfolgekrieg"; á ensku: "Nine Year’s War"; á frönsku: "Guerre de la Ligue d’Augsbourg") var stórstríð í Evrópu, háð 1688-1697, að mestu leyti á þýskri grundu, er Frakkar réðust inn í þýska ríkið og víðar í þeim tilgangi að ná yfirráðum í þýska héraðinu Pfalz. Þá var einnig barist í Belgíu og Hollandi, Savoju og á Spáni. Forsaga. Á 17. öld lá þýska héraðið Pfalz sitthvoru megin við Rínarfljót, fyrir norðan markgreifadæmið Baden og hertogadæmið Württemberg, en fyrir sunnan Hessen. Pfalz var kjörfurstadæmi, þannig að furstinn í héraðinu var einn þeirra sem völdu nýjan konung í þýska ríkinu og var því valdamikill maður. Á ofanverðri 17. öld var Karl I kjörfursti í Pfalz, en hann var sonur Friðriks V í Prag (sem kallaður var Vetrarkonungurinn). Dóttir Karls I var Elísabeta Karlotta (kölluð Liselotta frá Pfalz) og afréð faðir hennar að gifta hana hertoganum Filippusi frá Orleans í Frakklandi, bróður sólkonungsins Loðvíks XIV. Hjónavígslan fór fram 1671 og bjó parið í Orleans. Karl I lést 1680. Þá tók sonur hans, Karl II við sem kjörfursti í Pfalz. En 1685 lést Karl II barnlaus og vantaði þá erfingja í kjörfurstadæmið í karllegg. Þá gerði Loðvík XIV tilkall til krúnunnar í Pfalz í gegnum bróður sinn og mágkonu. Eftir hártoganir og orðaskak í nokkur ár við aðra ættingja Karls I og Karls II, réðist Loðvík inn í þýska ríkið til að leggja undir sig Pfalz með vopnavaldi. Á þessum tíma var Leópold I keisari þýska ríkisins, en hann sat í Vín og var upptekinn vegna innrásar Tyrkja þar austur frá. Erfðastríðið í Pfalz. Barist var í Pfalz, en einnig í öðrum héruðum þýska ríkisins Fyrstu skotunum var hleypt af við þýska virkið Philippsburg í september 1688. Frakkar höfðu yfir 40 þús manns að ráða, en í virkinu voru aðeins 2000 hermenn. Samt sem áður tók það Frakka rúman mánuð að hertaka virkið. Strax á eftir sátu Frakkar um borgirnar Mannheim og Frankenthal, sem báðar féllu fljótlega. Þeir höfðu hins vegar litið fyrir að hertaka aðrar borgir, s.s. Worms, Kaiserslautern, Heidelberg, Speyer og Mainz. Auk þýskra borga náðu Frakkar að hertaka Elsass ("Alcace") og taka borgir eins og Strassborg, sem einnig voru þýsk þá. Keisarinn sjálfur var að berjast við Tyrki í austri (umsátrið um Vín var 1683). Í stað hans slógu nokkrir kjörfurstar saman herjum og náðu næstu árin að endurheimta flestar borgir sem Frakkar héldu. Frökkum kom á óvart að Þjóðverjar skyldu geta náð að slá saman stórum herjum meðan Tyrkjaógnin stóð sem hæst. Þeir ákváðu að berjast ekki við þá á jafnsléttu, heldur notfæra sér þau virki sem þeir höfðu tekið og brenna nærsveitir. Eyðileggingin varð því gríðarleg á stóru svæði, ekki bara í Pfalz, heldur einnig í Baden og í Württemberg. Frakkar brenndu og eyðilögðu 20 stærri borgir og aragrúa bæja. Að lokum höfðu kjörfurstarnir betur. Þeim tókst að hrekja Frakka að mestu úr landi, sem við það misstu flest þau landsvæði sem þeir höfðu hertekið, nema Strassborg í Elsass (Alsace). Auk þess var í gangi evrópskt bandalag gegn Frökkum (Ágsborg-bandalagið) sem barðist gegn viðleitni þeirra til að ásælast nágrannalönd. England. Á Englandi ríkti Jakob II, sem Frakkar studdu. Jakob var illa liðinn af Englendingum, þar sem hann reyndi að koma kaþólskri trú aftur á þar í landi. Einnig leysti hann þingið upp og olli löndum sinum miklum áhyggjum. Ýmsir aðilar úr aðlinum ákváðu því að senda eftir Vilhjálmi frá Óraníu til Hollands, sem var mægður ensku konungsættinni og gat sem slíkur gert tilkall til krúnunnar í gegnum eiginkonu sína. 1688, þegar Frakkar réðust inn í Pfalz, notaði Vilhjálmur tækifærið og fór með lítinn her manna yfir til Englands og hrifaði til sín krúnuna ("Glorious Revolution"). Jakob II flúði til Frakklands, en Loðvík XIV gat lítið gert. En 1689 réðist Jakob II inn í Írland með aðstoð Frakka og náði að hertaka meginhluta landsins. En til Englands komst hann ekki, því enski flotinn sigraði þann franska í nokkrum sjóorrustum. Vilhjálmur réðist þá sjálfur inn í Írland og flúði Jakob þá aftur til Frakklands. Krúnan á Englandi var örugg í höndum Vilhjálms. Franski flotinn fór í skæruhernað gegn enskum skipum og náði að ræna alls um 4000 skip. Önnur lönd. Setið um borgina Namur í Belgíu Loðvík XIV leit á það sem stríðsyfirlýsingu við Frakkland að Vilhjálmur skuli dirfast að taka enska konungsstólinn. Hann réðist inn í Belgíu og Holland og náði að sigra í nokkrum orrustum þar. Mikilvægasta borgin sem hann náði þar var Namur í Flæmingjalandi ("Flandern"). Enski herinn var að mestu bundin við aðstæður á Niðurlöndum. Einnig réðust Frakkar inn i Savoju-hérað, sem þá var sjálfstætt ríki og hertóku hafnarborgina Nice. Frakkar tóku ennfremur Barcelona og Girona á Spáni. Ameríka. Strax og enskir og franskir landnemar í Ameríku vissu um stríðið í Evrópu, tóku þeir til við að ráðast á hvora aðra. Aðallega voru það franskir landnemar sem réðust á enskar nýlendur við Atlantshaf. Á móti hertóku Englendingar Port Royal á frönsku nýlendunni Akadíu (núverandi Nova Scotia). Englendingar fóru einnig í stóran leiðangur upp St. Lawrence-fljót og réðust á borgina Québec. Sá leiðangur misheppnaðist algjörlega. Frakkar hröktu Englendinga á brott og tóku Port Royal aftur. Friðarsamningar í Rijswijk. Þegar friðarsamningarnir fóru fram í hollensku borginni Rijswijk 1697 stóðu Frakkar höllum fæti. Þar af leiðandi samþykkti Loðvík XIV að draga her sinn út öllum þeim löndum sem hann hafði hertekið (Niðurlönd, Savoja, Pfalz, Norður-Spánn). Loðvík viðurkenndi Vilhjálm af Óraníu sem konung Englands og hann hætti öllu tilkalli til Pfalz eða annarra héraða sem hann ásældist. Eina svæðið sem Frakkar fengu að halda var Strassborg og Elsass (Alsace). Eftirmálar. Tæknilega séð var staðan eftir friðarsamningana eins og hún var fyrir stríð. Allir töpuðu þó á stríðinu, nema fáeinir furstar. Eyðileggingin í þýska ríkinu var gífurleg af völdum frönsku herjanna. Einnig var nokkur eyðilegging í Belgíu og öðrum borgum þar sem Frakkar fóru um. Frakkar fengu þó í sinn hlut Elsass (Alsace) héraðið, sem hefur verið franskt síðan (nema hvað það var prússneskt 1871-1918). En á móti komu gríðarleg fjárhagsleg vandamál í Frakklandi. Stríðið hafði kostað óhemju mikla peninga. Eftirmálinn var sá að þar voru þungbærari skattar settir á almenning, sem kvartaði undan okinu. Aðstæður í Frakklandi voru svo erfiðar næstu áratugi að innan við öld eftir friðarsamningana hófst franska byltingin. Frakkar höfðu ekki ráðrúm til að safna nýju liði og blása til sóknar á ný, þar sem næsta stórstyrjöld í Evrópu, spænska erfðastríðið, skall á árið 1700. Thor Heyerdahl. Thor Heyerdahl (f. 6. október 1914, d. 18. apríl 2002) var norskur ævintýramaður, mannfræðingur og rithöfundur. Hann er sennilega þekktastur fyrir að hafa siglt á flekanum Kon-Tiki yfir Kyrrahafið frá Perú til eyjanna í Suður-Kyrrahafi. Heyerdahl trúði því að fólk hafi getað ferðast mun lengri sjóleiðir til forna en talið er og að vöruskipti á milli landa hafi jafnvel verið möguleg. Með ferð sinni á Kon-Tiki tókst honum að sýna fram á að það hafi verið mögulegt, tæknilega séð, löngu fyrr en viðteknar kenningar vilja ætla. Ævi og störf. Heyerdahl var fæddur í Larvik, litlu sjávarþorpi í Noregi 6. október 1914. Frá ungaaldri hafði hann mikinn áhuga á náttúru og dýrafræði og setti jafnframt upp lítið dýrasafn á æskuheimili sínu. Hann fór síðar í Háskólann í Osló þar sem hann sérhæfði sig í dýrafræði og landafræði. Heyerdahl hafði mikinn áhuga á eyjunum í Suður Kyrrahafi og stundaði sjálfsnám í pólónesískri menningu og sögu á meðan hann var enn í háskóla. Hann hætti síðan í skólanum árið 1936 og fór í sinn fyrsta leiðangur til Pólónesja þar sem hann rannsakaði náttúruna og dýraríkið á eyjum. Heyerdahl eyddi mestu af þessu ári á eyjunni Fatu Hiva þar sem hann bjó meðal heimamanna ásamt konu sinni. Rannsóknir hans á dýra- og náttúruríkinu meðal sögusagna frá heimamönnum þess efnis að fyrstu íbúar eyjanna hefðu komið frá austri, Suður-Ameríku, en ekki vestri, Suðaustur-Asíu og Indlandi, eins og viðteknar kenningar héldu fram kveiktu síðan áhuga hans til frekari rannsókna. Með því að skoða hafstaumar Kyrrahafsins komst Heyerdahl að því að það hefði verið mögulegt að sigla yfir Kyrrahafið mun fyrr en viðteknar kenningar telja og sannfærðist hann um að fyrstu íbúar eyjanna hefðu getað komið frá Suður Ameríku. Hann gældi jafnvel við þá hugmynd að verslun hafi getað verið möguleg löngu fyrr en talið var og að fyrstu íbúar eyjanna hafi getað haft verslun við bæði Suður- og Norður-Ameríku. Kenningar Heyerdahl. Heyerdahl lagði fram kenningar um uppruna fólks á Pólónesísku eyjunum á árunum sem hann dvaldi á eyjunni Fatu Hiva. Heyerdahl hélt því fram að fornmenn í Suður-Ameríku hefðu í raun verið færir um að ferðast mun lengra sjóleiðina en áður hafði verið talið og að uppruni íbúa eyjanna í Suður-Kyrrahafi hafi í raun komið frá Suður-Ameríku en ekki frá meginlandi Asíu eins og af flestum er talið. Við komuna til Pólýnesía voru hinn ungi nemandi Heyerdahl og brúður hans Liv, samþykkt af æðsta ráðamanni Polýnesíu að nafn Teriieroo, árið 1937. Eftir að hafa kynnt sér siði, menningu og lifnaðarhætti í Pólýnesíu, settist Heyerdahl og Liv að í eitt ár, á einangruðu eyjunni Fatu Hiva. Þar lagðu Heyerdahl stund á rannsóknir í dýrafræðum ásamt því að lifa samkvæmt hefðbundnum lifnaðarháttum innbúa. Á þessum tíma tók hann að hugleiða núverandi kenningar um hvernig Suður Kyrrahafsíbúar höfðu náð eyjunum. Við sífellda baráttu við austanstæða vinda og strauma, þegar hann og innfæddir héldu á sjóinn að veiða, missti hann trú á kenningum kennslubóka um að þessar eyjar hafi fundist af frumbyggjum frá meginlandi Asíu og að uppruni þeirra væri því þaðan komin. Í stað þess varð Heyerdahl sannfærður um að landnámsmenn hefðu komið með hafstraumum úr vestri rétt eins og gróður og dýralíf hafði gert. Heyerdahl yfirgaf því rannsóknir sínar á dýralífi eyjanna og hóf mikla rannsókn til að prófa kenningar sínar um upprunanlegan kynstofn og menningu pólinesýsku þjóðarinnar. Hann lagði til að flutningur til Pólýnesía hafði fylgt náttúrulegum, Norður Kyrrahafs straumum, og leita ætti því að uppruna innbúa Pólýnesíu, að ströndum Bresku Kólumbíu og Perú. Á meðan Heyerdahl starfaði við Þjóðminjasafn Bresku Kólómbíu gaf hann fyrst út rit um kenningar sínar. Í því riti leggur Heyerdahl til að forfeður innfæddra íbúa Pólýnesíu hefðu sest þar að í tveimur bylgjum. Sú fyrri hefði náð að Pólýnesíu en sú seinni að Páskaeyjum og að ferðamáti þeirra hafi verið svokallaðir Balsa flekar. Öldum síðar hafi svo annað þjóðerni náð Hawaii í stórum, tvöfaldum-kanúum frá Bresku Kólómbíu. Niðurstöður rannsókna Heyerdahl voru síðar birtar í 800 blaðsíðna bindi hans, "American Indians í Kyrrahafi" Kon-Tiki. Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk hélt Heyerdahl áfram rannsóknum sínum. Hann mætti þó gríðarlegri andstöðu á meðal samtíma fræðimanna sem héldu sig við þær kenningar að fólksflutningar og landnemar hafi komið frá meginlandi Asíu, þó aðallega frá Indlandi og Suðaustur Asíu. Til að rökstyðja kenningar sínar ákvað Heyerdahl að byggja eftirlíkingu af upprunalegum Balsa fleka sem hann nefndi "Kon-Tiki". Kon-Tiki var byggður í Perú og Heyerdahl, ásamt fimm manna áhöfn sinni, náði að sigla honum yfir Kyrrahafið frá Perú til Raroia í Pólónesja. Þeir sigldu á sker við Raroia en þá höfðu þeir þegar ferðast 8000 km á 101 degi og sönnuðu með því að ferð yfir Kyrrahafið hefði verið möguleg á tímum landnema Kyrrahafseyjanna. Þrátt fyrir efasemdir reyndist Kon-Tiki flekinn vel og hafði Heyerdahl því sannað að tæknilega séð hefðu frummenn frá Perú getað ferðast langar veglengdir á þennan máta. Frekari rannsóknir. Eftir að hafa sannað að ferðin yfir Kyrrahafið frá Suður-Ameríku til Kyrrahafseyjanna hafi verið tæknilega mögulega á tímum landnemanna hélt Heyerdahl áfram að reyna að finna sannanir um raunverulegt samband þarna á milli. Hann rannsakaði tungumál, list og menningu bæði í Suður-Ameríku og á eyjunum í Suður-Kyrrahafi í þeirri von að finna einhverjar sannanir. Hann fann aldrei neinar sannanir sem að voru nógu sterkar til að breyta viðteknum skoðunum og kenningar hans voru aldrei samþykktar. Ný sönnunargögn eins og DNA styrktu einnig viðteknu kenninguna að landnemarnir hefðu komið frá vestri, Suðaustur-Asíu og Indlandi. Heyerdahl var tilbúinn að fallast á það að kenningar hans um að landnemar Kyrrahafseyjanna hefðu komið frá Suður-Ameríku væru rangar en hann stóð fast við þá kenningu að langar sjóferðir og verslun milli meginlanda hafi verið möguleg löngu fyrr en viðteknar kenningar telja. Til að sanna mál sitt frekar byggði hann bátinn Ra II sem var svipaður bátur og Egyptar til forna voru taldir hafa notað. Á honum tókst Heyerdahl að sigla frá Afríku til Barbados árið 1970 með því að ferðast með Kanarístraumnum og sannaði þannig að samskipti og verslun hefðu getað verið möguleg milli Afríku og Ameríku á tímum forn Egypta. Hann gerði einnig bátinn Tigris og ætlaði með honum að sanna möguleg samskipti til forna milli Mesópótamíu, Egyptalands og Indus-dalsins en áhöfnin brenndi Tigris í Rauðahafinu í mótmælaskyni við stríðin sem að herjuðu allt í kring um Rauðahafið á þeim tíma. Þrátt fyrir að flest af verkum og kenningum Heyerdahls séu enn ósamþykkt í heimi vísindanna náði hann að auka áhuga almennings á þessu efni með ævintýralegum siglingum sínum. Honum tókst að sýna fram á að samskipti milli meginlanda hafi verið tæknilega möguleg til forna og verslun þeirra á milli því getað verið möguleg mun fyrr en viðteknar kenningar telja. Með þessum ævintýralegu könnunum sínum náði Heyerdahl að opna augu fólks fyrir þeirri staðreynd að það sem það telur vera rétt og það sem það trúir um fortíðina þarf ekki alltaf að vera rétt, vísindalegar kenningar sem byggt er á geta mögulega verið rangar. Heimildir. Heyerdahl, Thor Heyerdahl, Thor Heyerdahl, Thor Þorkell Fjeldsted. Þorkell Fjeldsted (1740 – 19. nóvember 1796) var íslenskur lögfræðingur sem var lögmaður í Færeyjum og Noregi og amtmaður og stiftamtmaður í Noregi. Þorkell var fæddur á Felli í Sléttuhlíð, sonur séra Jóns Sigurðssonar og konu hans Þorbjargar Jónsdóttur, og tók sér ættarnafnið Fjeldsted eftir fæðingarstað sínum. Hann útskrifaðist úr Frúarskóla í Kaupmannahöfn 1758 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1762. Árið eftir varð hann málflutningsmaður í hæstarétti og 1769 lögmaður í Færeyjum. Árið 1772 var hann skipaður amtmaður í Finnmörku og síðan á Borgundarhólmi og frá 1780 í Kristjánssandsumdæmi í Suður-Noregi. Þegar hann var þar hafði Magnús Stephensen vetursetu hjá honum 1783-1784, þegar skip sem hann hafði ætlað með til Íslands hraktist til baka vegna veðurs og mun þá hafa skrifað upp eftir konu hans hluta þeirra uppskrifta sem urðu uppistaðan í fyrstu íslensku matreiðslubókinni. Stiftamtmaður í Þrándheimsstifti og amtmaður í Þrándheimsamti varð Þorkell 1786. Hann var einn nefndarmanna í Landsnefndinni fyrri 1770-1771. Hann lést í Kaupmannahöfn og hafði þá skömmu áður verið skipaður í dönsku aðalpóststjórnina. Kona Þorkels var dönsk. Dóttursynir þeirra voru stiftamtmennirnir Peter Fjeldsted Hoppe (1824-1829) og Torkil Abraham Hoppe (1841-1847). Myndvinnsluforrit. Myndvinnsluforrit er hugbúnaður til að vinna með og breyta myndum með tölvu. Myndir sem unnið er með á tölvu skiptast í rastamyndir, vigurmyndir og þrívíddarmyndir. Forritin eru venjulega sérhæfð fyrir eina tegund mynda. Sum forrit eru sérhæfð fyrir kvikmyndavinnslu og teiknimyndagerð og önnur innihalda aðgerðir til að búa til gagnvirkt margmiðlunarefni. Umbrotsforrit eru sérhæfð til að setja saman myndir og texta. Eins eru til alls konar sértæk myndvinnsluforrit til að búa til póstkort, ættartré, flæðirit o.s.frv. Myndvinnslupakkar á borð við ImageMagick og Ghostscript innihalda alls kyns skipanaviðmótsaðgerðir til að vinna með myndir en eru yfirleitt settir upp sem miðbúnaður, þ.e. hjálparforrit sem önnur forrit nýta sér. Læmingi. Læmingi ("Lemmus") er ættkvísl nagdýra af ætt stúfmúsa. Karl Steingrímsson. Karl Steingrímsson (oftast nefndur Kalli í Pelsinum) er íslenskur athafnamaður og hefur um árabil verið meðal umsvifamestu manna í fasteignabransanum á Íslandi. Hann er þekktastur meðal almennings sem eigandi "Pelsins" í Reykjavík. Hann á líka fasteignafélagið "Kirkjuhvol" og "Sundafasteign." Skuldir og ábyrgðir félaga í eigu Karls og fjölskyldu hans vegna hina ýmsu fasteigna á þeirra snærum nema á bilinu 3 til 4 milljörðum króna samkvæmt nýjustu opinberu gögnum. Í byrjun árs 2010 seldu Karl og Aron sonur hans kínverska sendiráðinu Skúlagötu 51 fyrir 870 milljónir króna. Þetta gerðu þeir á sama tíma og bönkum, sem eiga veð í húseigninni, var kynnt 575 milljóna króna tilboð frá indversku félagi. Húseignin er yfirveðsett Íslandsbanka, Arion banka og þrotabúi Glitnis og íhuga bankarnir málshöfðun gegn feðgunum. Myntkörfulán. Myntkörfulán er bankalán í íslenskum krónum, þar sem höfuðstóll og afborganir eru miðað við gengi ýmissa gjaldmiðla, mismikið eftir því hvernig samið er um við lánasamning. Á árunum fyrir bankahrunið voru myntkörfulán mjög vinsæl á Íslandi, en eftir hrunið létu margir frysta lánin. Í kjölfar hrunsins leituðu menn til dómsstóla. Dómar hafa fallið á báða vegu, þar sem dæmt hefur verið um ólögmæti þess að gengisbinda lánið við myntkörfu þar sem lög um vexti og verðtryggingu mæli fyrir um að einungis sé heimilt að verðtryggja lánsfé með hliðsjón af vísitölu neysluverðs. Myntkörfulán komust fyrst í umræðuna á Íslandi árið 1998, en þau urðu fyrst vinsæl á veltiárunum, eftir sölu bankanna um aldamótin. En ekki voru allir sem mæltu með þeim án þess að nefna fyrirvarana. Í viðtali við Fréttablaðið árið 2004 sagði Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, „að þó svo að myntkörfulán kunni við fyrstu sýn að virðast mun hagstæðari en lán í krónum þá væri vert að hafa í huga að þau feli í sér áhættu. Það sýnir ekki rétta mynd að reikna slíkt lán út frá óbreyttum forsendum miðað við daginn í dag. Gengið hreyfist til og frá og svo geta vextir líka breyst erlendis, rétt eins og hér heima“. Þann 3. desember 2009 féll dómur um lögmæti myntkörfuláns en þann 12. febrúar 2010 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur myntkörfulán í bilalánssamningum ólögmætt og varð til þess að óskað var eftir fundi í viðskiptanefnd Alþingis sem og að málið verði rætt í utandagskrárumræðu á þingi. Gjaldeyrislán eru lán veitt af banka í öðrum gjaldeyri en þeim, sem notaður er í landinu, sem bankinn starfar í. Offenbach am Main. Offenbach am Main er fimmta stærsta borgin í þýska sambandslandinu Hessen með 120 þúsund íbúa. Borgin er iðnaðarborg en hefur ætíð staðið í skugganum á Frankfurt. Mikill rígur er milli þessara nágrannaborga, meðal almennings, fyrirtækja og sérstaklega í íþróttum. Aðalstöðvar þýsku veðurstofunnar eru staðsettar í Offenbach. Lega. Offenbach liggur við ána Main og er hluti af stórborgarsvæði Frankfurts. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til vesturs (samvaxnar), Darmstadt til suðurs (20 km) og Würzburg til suðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Offenbach sýnir hvíta eik með fimm akörnum á bláum fleti. Eikin er tákn um ríkisskóginn Reichsforst Dreieich sem borgin var áður fyrr hluti af. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Ovenbach og er dregið af mannanafninu "Ovo" eða "Offo". Merkingin er því "lækurinn hans Ovo" ("bach" = "lækur"). Söguágrip. 977 kemur Offenbach fyrst við skjöl, en þá var Otto II keisari þar á bæ. Næstu aldir kemur bærinn lítið við sögu og skiptir nokkrum sinnum um eigendur. 1372 leigði Filippus greifi af Falkenstein bæinn til Frankfurt fyrir 1000 gyllini. 1486 skipti bærinn aftur um eigendur, er greifarnir af Isenburg erfðu bæinn og reistu sér kastala þar. 1559 urðu siðaskiptin í bænum. Í 30 ára stríðinu hertók bærískur keisaraher Offenbach. 1631 mætti Gústaf Adolf Svíakonungur á svæðið og náði að hrekja Bæjara burt. Gústaf Adolf lét gera umsátur um Frankfurt meðan hann sat í Offenbach. Þegar Frankfurt gafst upp, tók Svíakonungur við uppgjafabréfi þeirra í kastalanum í Offenbach. 1698 tóku greifarnir við mörgum húgenottum, sem reistu sér ný hverfi í bænum. Það var upphafið að miklum handverksiðnaði, til dæmis leðuriðnaði. Í kjölfarið stækkaði bærinn ört. 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að hrifsa bæinn úr höndum greifanna frá Isenburg sökum stuðnings þeirra við Napoleon. Bærinn varð til skamms tíma eign Austurríkis, en varð brátt hluti af stórhertogadæminu Hessen-Nassau. Á þeim tíma mun Offenbach hafa verið orðin að borg. 1920 hertóku Frakkar borgina í einn mánuð en Frakkar réðu þá Rínarlöndunum. Í heimstyrjöldinni síðari varð Offenbach fyrir þó nokkrum loftárásum. 36% borgarinnar eyðilagðist. 1954 fór íbúatala borgarinnar yfir 100 þús. 1997 hélt borgin upp á 1000 ára afmæli sitt með stórhátíð. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Kickers Offenbach sem leikur oftar en ekki í 2. deild. Liðið varð bikarmeistari 1970. Þekktasti leikmaður félagsins var Rudi Völler, seinna þjálfari þýska landsliðsins. Brugghús. Brugghús (stundum kallað ölgerð sem getur þó einnig átt við gosdrykkjaverksmiðju) er verksmiðja sem bruggar (og markaðssetur) bjór. Árið 1908 kom til tals að íslenska ríkið myndi stofnsetja brugghús, en ekkert varð úr því. Karl 5. keisari. Karl V. Málverk eftir Titian. Karl V (24. febrúar 1500 í Gent – 21. september 1558 í klaustrinu San Gerónimo de Yuste á Spáni) var konungur Spánar (sem Karl I) og keisari þýska ríkisins (sem Karl V) á fyrri hluta 16. aldar. Hann var fyrsti keisari ríkisins sem ekki var krýndur til keisara af páfa. Eftir hans daga fór krýningin fram í Frankfurt og var framkvæmd af biskupi. Forfeður. Karl fæddist í Gent á Niðurlöndum (Belgía í dag) árið 1500. Faðir hans var Filippus I hinn fagri af Habsborg, fyrsti Habsborgarinn sem varð konungur á Spáni, en samtímis var hann hertoginn af Búrgúnd (Niðurlönd). Filippus sjálfur var sonur Maximilians I keisara og Maríu af Búrgúnd. Móðir Karls var Jóhanna hin vitskerta frá Kastilíu, dóttir Ferdinands II af Aragóníu og Ísabellu drottningu í Kastilíu. Hertogi af Búrgúnd. Þegar Karl var aðeins 6 ára lést faðir hans. Karl varð því næsti hertogi af Búrgúnd, sem í þá daga náði yfir Holland, Belgíu og norðaustasta hérað Frakklands í dag. Karl ólst upp í Brussel, en prófasturinn í Utrecht, Adrian, veitti honum kristinfræðikennslu. Adrian varð seinna Hadríanus VI páfi. Konungur Spánar. 1516 lést Ferdinand af Aragóníu, afi hans (og eiginmaður Ísabellu drottningar). Honum var þá boðin spænska krúnan aðeins 16 ára gamall, og þáði hann hana. Reyndar var móðir hans enn á lífi, en hún var álitin vitskert og því ekki í standi til að stjórna heilu ríki. Með Karli sameinuðust konungsdæmin Kastilía og Aragnónía í eitt stórt ríki (Spán). En til Spánar heyrðu einnig héruðin Navarra, Granada, Sikiley og Sardinía, að ógleymdum öllu nýjum nýlendunum sem voru að spretta upp í Ameríku. Því er Karl oft nefndur fyrsti eiginlegi konungur Spánar. Keisari þýska ríkisins. Karl ríkti yfir geysilega víðlent ríki. Málverk eftir Rubens. 1519 lést Maximilian I (afi Karls). Þá söfnuðust kjörfurstarnir saman í Frankfurt og réðu ráðum sínum. Fjórir menn höfðu gefið kost á sér og áttu þeir allir einhvers konar tilkall. Kjörfurstarnir völdu Karl. Krýningin bæði til konungs og keisara fór fram 1520 í dómkirkjunni í Aachen og framkvæmdi erkibiskupinn Hermann af Wied vígsluna. Þetta var í fyrsta sinn í sögu þýska ríkisins sem keisaravígslan var ekki framkvæmd af páfa. Hins vegar samþykkti Leó X páfi gjörninginn og Klemens VII páfi staðfesti keisarakrýninguna 1530 meðan hann sat í Bologna. Þetta var í síðasta sinn sem páfi hafði með keisarakjör í þýska ríkinu að gera. Karl var því höfuðerfingi alls Habsborgarríkisins, sem þá var þýska ríkið (með Austurríki), Búrgúnd (með Niðurlöndum) og Spán (með ítölsku lendunum). Ef nýlendurnar í Ameríku eru taldar með má segja að sjaldan hafi verið til keisari með jafn víðfeðmt svæði. Karl sjálfur var aðeins 19 ára gamall við kjörið og tvítugur við krýninguna. Ítalía. Karl V og Frans I Frakklandskonungur háðu blóðuga bardaga um yfirráð yfir Norður-Ítalíu, sérstaklega borgina Milano. Þetta var langvinnt stríð sem stóð nær sleitulaust frá 1521 til 1544. Ekki var aðeins barist á Ítalíu, heldur einnig á Niðurlöndum. Í orrustunni við Pavía 1525 náði Karl að handsama Frans og setja hann í varðhald. Í Madridarsáttmálanum undirritaði Frans yfirlýsingu þess efnis að hann hætti öllu tilkalli til Ítalíu og Niðurlanda. Við svo búið var hann látinn laus. En Franz rauf skilmálana og ítölsku stríðin héldu áfram. Frans náði að gera bandalag við Feneyja, sem jafnvel páfi lagði blessun sína á. Karl lét því heri sína ræna Róm ("Sacco di Roma") "1527". En bardagarnir skiluðu litlum árangri, hvorki fyrir keisara né fyrir Frans. Alls háðu þessir aðilar fjórar aðskildar styrjaldir og lauk þeim ekki fyrr en 1544 þegar Englendingar og Karl sameiginlega réðust inn í Frakkland. Frans lést 1457 er hann var að undirbúa frekara stríð við þýska ríkið. Þýskaland. Karl á ríkisþinginu í Ágsborg Strax 1521 bauð Karl Marteini Lúther á ríkisþingið til Worms. Lúther fékk þar tækifæri til að gera grein fyrir afstöðu sinni til kaþólsku kirkjunnar. Hann neitaði að taka til baka mótmæli sín gegn kaþólsku kirkjunni og studdi málstað sinn af þvílíkum krafti að enginn fékk að gert. Á hann var lagt ríkisbann, en Lúther flúði af vettvangi að næturlagi til að komast hjá handtöku. Karl gerði sér hins vegar enga grein fyrir þeirri holskeflu sem Lúther átti eftir að leysa úr læðingi með siðaskiptunum. Hann var reyndar svo upptekinn á Ítalíu að hann átti erfitt með að bregðast við þegar siðaskiptin fóru í gang fyrir alvöru. 1524-26 geysaði bændastríðið mikla í ríkinu og 1531 mynduðu siðaskipti bandalag með sér ("Schmalkaldischer Bund") sem keisari þurfti að berja niður. Sökum anna eftirlét hann bróður sinn, Ferdinand, þessi mál. 1530 kallaði Karl ríkisþing saman í Ágsborg. Þar samdi hann fyrstu eiginlegu dómsbók fyrir ríkið og þar gaf hann út tilskipun um rétt þeirra sem aðhylltust siðaskiptin, til að halda friðinn. Þegar kaþólska kirkjan hóf gagnsiðabót sína 1545, starfaði Karl ötullega að því að fá fursta og greifa í liðs við kirkjuna á ný. Auk þess gekk hann endanlega milli bols og höfuðs á heri mótmælenda. Tyrkir. Á 16. öld hófst ógnin af Tyrkjunum fyrir alvöru í Mið- og Vesturevrópu. 1521 féll Belgrad og 1529 stóð Suleyman hinn mikli með 120 þús manna lið fyrir utan Vínarborg. Tyrkjaógnin magnaðist enn meir við það að Frans I Frakklandskonungur gerði bandalag við þá, í þeirri von að binda Karl í stríði við Tyrki, þannig að Frakkar gætu hægar numið lönd á Ítalíu og Niðurlöndum. Ógnin af Tyrkjum hvarf ekki svo lengi sem Karl var keisari. Afsögn. 1556 ákvað Karl að segja af sér sem keisari þýska ríkisins. Hann var þá orðin 56 ára og ekki við besta heilsu til að þjóta fram og til baka um hið stóra ríki og berja á erlendum herjum. Löndin skipti hann í tvennt milli sonar síns og bróður. Sonur hans, Filippus, fékk Spán og Búrgúnd. Bróðir hans, Ferdinand I, varð keisari þýska ríkisins. Hann tilkynnti kjörfurstunum um afsögn sína, en það er einstakt í allri sögu þýska ríkisins að keisari segi af sér. Þegar búið var að sjá um öll málin, dró hann sig í hlé og settist að í klaustrinu San Jerónimo de Yuste í héraðinu Extremadura á Spáni. Tveimur árum seinna var hann allur. Talið er að hann hafi látist úr malaríu. Það fékkst staðfest 2007 er efnagreining var gerð á einum fingra hans. Karl var jarðaður á staðnum. Seinna flutti Filippus sonur hans líkið í kastalaklaustrið El Escorial fyrir norðan Madrid. Tilvitnun. Eitt dæmi um hve víðlent ríki Karls var er lítil setning sem hann sjálfur ritaði. „Ég tala spænsku til Guðs, ítölsku við konur, frönsku við mennina og þýsku við hest minn.“ Magnús Hj. Magnússon. Magnús Jörundur Hjaltason Magnússon, jafnan skrifaður Magnús Hj. Magnússon (6. ágúst 1873 - 30. desember 1916) var skáld og fræðimaður. Magnús var fæddur og uppalinn á Vestfjörðum, og dvaldi þar lengstum. Hann stundaði alla ævi skáldskap og vísnagjörð, siðar fleiri ritstörf, og hélt dagbók í mörg ár sem síðar varð Halldóri Laxness uppspretta að Heimsljósi. Magnús var fæddur að Tröð í Súðavíkurhreppi, en uppalinn í Önundarfirði. Hann var þreklítill og heilsuveill í æsku, en bráðgjör að gáfum, húslestrarfær 6 vetra og byrjaður að búa til vísur. Hann las hverja bók, sem hann náði í og safnaði sér þannig ýmsum fróðleik. Rímum og alþýðukveðskap varð hann snemma handgenginn og tók jafnframt að stunda skáldskap og vísnagjörð, siðar fleiri ritstörf, og hélt dagbók í mörg ár. Magnús unni ritstörfum og lagði kapp á þau, að hætti fræðimanna fyrri tíma. Þau voru honum hvíld frá erfiði, skemmtun í tómstundum, fróun í sjúkdómi og armæðu. Hann ritaði því og las þegar hann komst höndunum undir „sér til hugarhægðar en hvorki sér til lofs né frægðar". Hann hélt sér lítt á lofti; bældi örbyrgð og lasleiki hann niður, enda var honum allt yfirlæti fjarri skapi. Magnús bjó með Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur en gat ekki gifst henni þar sem hann hafði þegið sveitarstyrk og þurfti að greiða hann upp til að mega ganga í hjónaband. Það tókst honum aldrei og voru þau í óvígðri sambúð til æviloka og áttu saman sex börn en aðeins tvö komust á legg. Magnús stundaði barnakennslu öðru hverju. Árið 1910 var hann dæmdur í eins árs fangelsi fyrir nauðgun, en hann hafði misnotað stúlkubarn sem var nemandi hans, og sat hann dóminn af sér í fangelsinu í Reykjavík. Magnús var helsta fyrirmyndin að Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi í "Heimsljósi" eftir Halldór Laxness, sem nýtti sér dagbækur Magnúsar. Árið 1956 gaf Gunnar M. Magnúss út ævisögu Magnúsar og kallaði hana "Skáldið á Þröm". Og árið 1998 komu dagbækur Magnúsar út undir heitinu "Kraftbirtingarhljómur guðdómsins". Omar Benson Miller. Omar Miller (fæddur Omar Benson Miller; 7. október 1978) er bandarískur leikari. Hefur hann leikið í mörgum smáhlutverkum í sjónvarpi og kvikmyndum. Einkalíf. Omar ólst upp í Anaheim Hills í Kaliforníu og útskrifaðist hann frá Canyon High School. Stundaði hann síðan nám við San Jose-ríkisháskólann í San Jose, Kaliforníu. Ferill. Omar kom first fram fyrir sjónir áhorfenda í kvikmyndinni The Bald Witch Project frá árinu 1999. Síðan þá hefur hann komið fram í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum á borð við: "Sex, Love & Secrets", "American Pie Presents: Band Camp", "Get Rich or Die Tryin", "The Express" og "8 Mile". Miller lék myndlistarsérfræðinginn Walter Simmons í frá 2009-2012. Tenglar. Miller, Omar Eddie Cibrian. Edward Bryant „Eddie“ Cibrian (fæddur 16. júní 1973) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "Invasion", "Third Watch" og. Einkalíf. Cibrian er einkabarn og er af kúbönskum-amerískum uppruna. Byrjaði leikferil sinn 12 ára gamall, þegar hann lék í Coca-Cola auglýsingu. Eftir vinsældir auglýsingarinnar, kom Cibrian fram í nokkrum auglýsingum. Þegar hann byrjaði í menntaskóla þá ákvað hann að setja leiklistarferil sinn á hilluna til þess að elta uppi hina ástríðu sína – íþróttir, og meðan hann var við nám við UCLA fótboltaprógrammið, meiðsli á fyrsta ári hans setti hann til hliðar og því ákvað hann að snúa sér að leiklistarferli sínum aftur. Í maí 2001 giftist Cibrian, Brandi Glanville en með henni á hann tvö börn. Skildu þau í júlí-ágúst 2009, eftir að uppkomst að Cibrian hafði átt ástarsamband við hina giftu samleikonu sína úr Northern Lights myndinni, LeAnn Rimes. Í apríl 2011 þá giftist Cibrian, LeAnn Rimes í Kaliforníu. Ferill. Cibrian kom fljótlega fram í nokkrum auglýsingum og stuttu á eftir, kom hann fram í, Kids Killing Kids. Þetta leiddi til þess að hann fékk hlutverk í The Young and the Restless og eftir það í þáttum á borð við: The Bold and the Beautiful, Baywatch Nights, Beverly Hills, 90210, Sabrina the Teenage Witch, Saved by the Bell: The College Years og Sunset Beach. Cibrian lék einnig í sjónvarpsmyndum á borð við: Logan's War: Bound by Honor, Jackie's Back og í sjónvarps míníseríunni In the Beginning. Helstu kvikmyndirnar sem hann hefur leikið í eru: Living Out Loud, Say It Isn't So, But I'm a Cheerleader, The Cave og Not Easily Broken. Árið 2006, þá varð Cibrian hluti af sjónvarpsseríunni "Vanished" um miðja seríuna. Seríunni var hætt við eftir aðeins níu þætti. Næsta ár eftir, var hann ráðinn til þess að leika Jason Austin í ósýndum þætti af "Football Wives", bandaríska útgáfan af breska þættinum. Cibrian hefur átt gestahlutverk í "Samantha Who?", "Dirty Sexy Money" og "Ugly Betty". Lék Jesse Cardoza í ' frá 2009-2010. Tenglar. Cibrian, Eddie Bessastaðakirkja. Bessastaðakirkja er kirkja á Álftanesi og stendur nokkra tugi metra frá forsetasetrinu á Bessastöðum. Bygging núverandi kirkju hófst 1773 en hún var fullbyggð 1823. Þá lauk turnsmíðinni og hafði kirkjan þá verið hálfa öld í byggingu. Hún var þó vígð árið 1796. Kirkjan var reist úr grjóti sem tekið var úr Gálgahrauni. Kirkja hefur staðið á Bessastöðum frá því um árið 1200 svo víst sé, en jafnvel allt frá kristnitöku um árið 1000. Steinkirkjan sem nú stendur var byggð utan um eldri timburkirkju sem síðan var rifin. LoveStar. LoveStar er skáldsaga eftir Andra Snæ Magnason sem kom út árið 2002. Bókin fjallar um þau Sigríði og Indriða sem eru ástfangin hvort af öðru og efast um sannindi LoveStar sem er íslenskt stórfyrirtæki sem hefur á nokkrum árum náð að sölsa undir sig heiminn með því að finna leið til að beisla og nota ratvísi dýra. Hanau. Hanau er borg í þýska sambandslandinu Hessen og er með 88 þúsund íbúa. Borgin er hluti af stórborgasvæði Frankfurts og er heimaborg Grimmsbræðra. Lega. Hanau liggur við ána Main rétt fyrir austan Frankfurt, sunnarlega í Hessen. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til vesturs (10 km), Würzburg til suðausturs (70 km) og Darmstadt til suðvesturs (20 km). Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Hagenowe, sem merkir "hólmagarður". Hagen merkir hér svæði sem er afmarkað og "owe" eða "au" merkir oftast "flæðiengi", "flæðiskógur" en í þessu tilviki sennilega "hólmi" í ánni Main. Upphaf. Philippsruh-kastalinn er safn í dag 1143 kemur heitið Hagenow fyrst við skjöl sem kastalavirki á hólma í ánni Main. Bærinn myndaðist hægt í kringum það. 1303 veitti Albrecht I konungur Hanau borgarréttindi. Í kjölfarið var farið að reisa varnarmúr. Borgin kom að öðru leyti lítið við sögu í þýska ríkinu. 1528 komu fyrstu lútersku predikararnir til Hanau og urðu siðaskiptin hægt upp úr því. Þau gengu friðsamlega fram, ólíkt því sem gerðist víða annars staðar. 1597 tók borgin við fjölda kalvinistum frá Frakklandi og var þá myndaður nýr bær fyrir þá (Hanauer Neustadt). Með þeim hófst mikil handverkskunnátta og handiðnaður. 30 ára stríðið. Hanau 1655. Mynd eftir Matthäus Merian. Í 30 ára stríðinu var Hanau að mestu hlutlaus, þar sem greifinn Philipp Moritz var of fáliðaður og getulaus til að aðhafast nokkuð. Nýborgin með kalvínistunum hélt hins vegar með vetrarkonunginum Friðrik V í Prag. Svíar hertóku borgina 1630 og krafðist Gústaf Adolf II að borgin skaffaði sér hermenn. Greifinn skrapaði saman fólki en þegar á reyndi stakk hann af og flúði til Hollands. Svíar sátu í borginni í átta ár. 1635 mættu Bæjarar með stóran her og sátu um borgina. Skömmu áður en stríðið skall á höfðu varnarmúrar borgarinnar verið gerðir upp og kom nú í ljós að borgin stóðst öll áhlaup Bæjara. Innan borgarinnar var ástandið skelfilegt. Hungrið sveið, enda höfðu þúsundir nærsveitarmenn flúið þangað í þokkabót. Bæjarar hurfu hins vegar næsta sumar, eftir 9 mánaða umsátur, þegar spurðist að her mótmælenda væri á leiðinni. 1638 hurfu Svíar einnig og borgin fór þá að dafna á ný. Frakkar. 1736 dó greifalínan út og erfði þá Hessen-Kassel borgina. Í 7 ára stríðinu gekk greifinn af Hessen-Kassel til liðs við Prússa. 1759 hertóku Frakkar því borgina og héldu henni til 1762. Árið 1806 hertóku Frakkar borgina á ný í Napoleonsstríðunum. Þeir rifu niður alla borgarmúra og innlimuðu borgina í stórhertogadæmið Frankfurt, meðan Napoleon var við völd. 1813 átti sér stað orrustan við Hanau. Þar sigraði Napoleon sameinaðar hersveitir frá Bæjaralandi og Austurríki en hann var á leiðinni heim eftir mislukkaðan Rússlandsleiðangur. Frakkar yfirgáfu hins vegar borgina, sem verður hluti af Hessen. Byltingartímar. 1821 sameinast gamla Hanau og nýja Hanau, sem stofnuð var 1597, ("Altstadt" og Neustadt) í eina borg. Á 19. öld átti sér stað mikil borgaravakning. 1830 mótmæltu íbúar ríkjandi stjórn og kröfðust stjórnarskrá og réttinda. Stjórnarskráin var þeim gefin, en greifarnir tóku hana smátt og smátt úr gildi á ný. En þetta varð þó til þess að mótmælin 1848 voru í lágmarki, þegar mótmæli í flestum öðrum borgum náðu hámarki. Stjórnarskráin var sett í gildi á ný og friður komst á. Sama ár fór fyrsta fimleikakeppni Þýskalands fram í Hanau. Samtímis var fimleikasamband Þýskalands stofnað þar í borg. Og enn sama ár fékk borgin járnbrautartengingu til Frankfurt. Í þýska stríðinu 1866 studdi Frankfurt Austurríkismenn gegn Prússum. Prússar sigruðu í stríðinu og innlimuðu þá bæði Frankfurt og Hanau (og reyndar allt Hessen). 20. öldin. 1920 hertaka Frakkar borgina eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri, en þeir skiluðu henni fljótlega aftur. 1933 taka nasistar völdin. Í borginni var settur upp iðnaður fyrir stríðið, s.s. vopn og skotfæri. Fyrir vikið varð borgin fyrir gífurlegum loftárásum bandamanna. Þær verstu gerðust 19. mars 1945, en þá var borgin nær jöfnuð við jörðu. Öll miðborgin eyðilagðist en aðeins sjö hús stóðu eftir uppi. Aðeins 10 dögum seinna hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust, enda voru þar ekki nema 10 þús manns eftir. Bandaríkjamenn settu þar upp einar stærstu herstöð sína í Evrópu. Þegar mest var voru þar um 30 þúsund hermenn. Þeir síðustu yfirgáfu borgina ekki fyrr en 2008. Uppbygging borgarinnar var afar umdeild. Allar rústir voru fjarlægðar og öll skemmd hús rifin, þrátt fyrir áköf mótmæli íbúa, sem vildu endurreisa gömlu miðborgina eins og hún var. Sömuleiðis voru síðustu leifar borgarmúranna rifnir, gamli kastalinn og aðrar byggingar sem áður höfðu sett svip sinn á borgina. 1991 varð gífurleg sprenging af völdum vetnistanks í einni verksmiðjunni. Alls staðar í borginni brotnuðu rúður og þök skemmdust. Viðburðir. Brüder-Grimm-Märchenfestspiele er heiti á hátíð í Hanau þar sem ævintýri úr safnakistu Grimmsbræðra eru sýnd, annað hvort sem leikrit eða söngleik. Hér er um útihátíð að ræða, enda leiksýningar settar upp utanhúss. Hátíðin hóf göngu sína 1985 og dregur til sín um 80 þúsund áhorfendur þegar best lætur. Sýningartíminn er frá maí til júlí, stundum til ágúst. 2009 voru ævintýrin Öskubuska (söngleikur), Gamli soldáninn, Bláa ljósið og Meistaraþjófurinn sýnd. 2010 er ráðgert að sýna Mjallhvít (söngleikur), Púkinn með lokkana þrjá og Glerskórinn. Lamboyhátíðin er þjóðhátíð borgarinnar. Hún er til minningar um umsátur bæríska hersins 1635-36, en herforingi Bæjara hét Lamboy. Umsátrið mistókst eftir 9 mánuði og síðan þá hafa borgarbúar minnst þessa atburðar á ýmsan hátt. Kalíumpermangant. Vatn litast fjólublátt ef Kalíumpermangant er sett út í vatnið Kalíumpermanangant er salt úr kalín, mangan og súrefni með formúlunni KMnO4. Það hefur verið notað til að sótthreinsa vatn. Rel8. Rel8 er íslenskur gagnagrunnur frá árinu 2009 sem sýnir tengsl manna í stjórnmála- og viðskiptaheiminum. Eigandinn og hönnuður hans er Jón Jósef Bjarnason, en hann hóf gerð hans árið 2006. Vefurinn auðveldar mönnum að sjá tengsl manna við menn í sama flokki eða sömu viðskiptablokk og sömuleiðis fyrirtæki í þeirra eigu og/eða maka og ættingja. Um leið og Jón Jósef opnaði fyrir vefinn lokaði persónuvernd aðgang hans að fyrirtækjaskrá, en það gekk síðar til baka. Rudi Völler. Rudi Völler (13. apríl 1960 í Hanau) er þýskur knattspyrnumaður og þjálfari. Hann var á sínum tíma einn marksæknasti landsliðsmaður í þýska landsliðinu og varð heimsmeistari 1990. Í fjögur ár þjálfaði hann sjálfur þýska landsliðið. Leikferill. Rudolf Völler fæddist í þýsku borginni Hanau og hóf knattspyrnuiðkun sem ungur drengur, enda var faðir hans drengjaþjálfari í Hanau. Hann hóf feril sinn með Kickers Offenbach 16 ára gamall og fékk að leika með aðalliðinu 17 ára (1977). 1980 skrifaði hann undir fyrsta samning sinn við 1860 München og féll með liðinu í 2. deild strax á fyrstu leiktíð. Vegna fjárhagsvandræða 1860 München var félaginu refsað af þýska knattspyrnusambandinu 1982 og látið spila í 3. deild. Þá fór Völler til Werder Bremen og þar sló hann rækilega í gegn sem markaskorari. Á 5 árum spilaði hann 137 leiki og skoraði í þeim 97 mörk. Strax á fyrstu leiktíð náði Bremen 2. sæti í 1. deildinni með sama stigafjölda og meistarar HSV, en með lélegra markahlutfall. Á sama ári var í fyrsta sinn kallaður í þýska landsliðið og kom inná sem varamaður fyrir Lothar Matthäus í 0-1 ósigri gegn Norður-Írlandi. 1987 fór Völler til Ítalíu og spilaði í 5 ár með AS Roma. Þar upplifði hann sín bestu ár sem knattspyrnumaður. Fyrsta árið lenti liðið í 3. sæti í deildinni, 1991 varð hann bikarmeistari og 1990 varð hann heimsmeistari með þýska landsliðinu. Í úrsitaleiknum gegn Argentínu sigruðu Þjóðverjar 1-0 með vítaspyrnu, en það var einmitt Rudi Völler sem var felldur í vítateig andstæðinganna. Úr vítinu skoraði Andreas Brehme. 1992 tók Völler við fyrirliðastöðunni í þýska landsliðinu þegar Lothar Matthäus meiddist á hné. 1992 spilaði Völler með Olympique Marseille og vann Meistaradeild Evrópu með því liði. 1994 lék Völler sinn síðasta landsleik er Búlgarar slógu Þjóðverja út í 8 liða úrslitum á HM. Hann hafði þá leikið 90 landsleiki og skoraði í þeim 47 mörk. Þar með er Völler þriðji markahæsti leikmaður þýska landsliðsins, ásamt Jürgen Klinsmann (á eftir Gerd Müller og Miroslav Klose). 1994 sneri Völler aftur til Þýskalands og lék með Bayer Leverkusen í tvö ár, en að þeim loknum lagði hann skóna á hilluna. Reyndar starfaði hann áfram hjá félaginu sem yfirmaður knattspyrnumála. Þjálfaraferill. Á EM 2000 var þýska landsliðið slegið út í riðlakeppninni og var þjálfarinn, Erich Ribbeck, þá látinn fara. Þá tók Rudi Völler við landsliðinu og var þjálfari þess í 4 ár. Besta árangrinum með liðinu 2002 á HM í Suður-Kóreu og Japan, en þar komst Þýskaland í úrslitaleikinn. Þjóðverjar biðu lægri hlut fyrir Brasilíu 0-2. Rudi Völler var yfirhöfuð rólegur maður og afar kurteis. En eftir mikla gagnrýni fréttamanna á störf sín í undankeppni fyrir EM 2003 missti hann stjórn á skapi sínu þegar Þýskaland gerði 0-0 jafntefli við Ísland á Laugardalsvelli. Í beinni útsendingu að leik loknum skammaðist hann í fréttamenn og lét ýmis óvægin orð falla. Hann baðst seinna afsökunar á orðavali sínu, en hélt þó fast við gagnrýni sína. Í úrslitakeppninni sjálfri náði Þýskaland ekki að komast upp úr riðli sínum. Við svo búið sagði Völler af sér. Við þjálfarastöðunni tók Jürgen Klinsmann. Seinna á árinu gerðist Völler þjálfari AS Roma, en sagði af sér eftir aðeins mánuð þar, vegna lélegs gengis. Eins og er starfar Rudi Völler enn sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Bayer Leverkusen. Markvert. Rudi Völler gerður að heiðursborgara Hanau 2002 Heimildir. Völler, Rudi Jón Hnefill Aðalsteinsson. Jón Hnefill Aðalsteinsson (29. mars 1927 – 3. mars 2010) var prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands og liggja eftir hann mörg rit, greinar og fyrirlestrar um efnið, auk ritsmíða um skáldskap og trúmál. Jón Hnefill var einnig guðfræðingur. Æviágrip. Jón Hnefill fæddist að Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Jónsson (1895–1983) bóndi þar, og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir (1901–1987). Jón Hnefill ólst upp á Vaðbrekku, lauk stúdentsprófi frá MA 1948, og fil. kand-prófi í trúarbragðasögu, trúarlífssálfræði og heimspeki frá Stokkhólmsháskóla 1958. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1960 og var vígður sóknarprestur á Eskifirði sama ár. Hann var prestur þar næstu fjögur árin, en fór þá til Uppsala í Svíþjóð og lauk prófi í þjóðfræði frá Uppsalaháskóla 1966. Í ársbyrjun 1979 lauk hann doktorsprófi frá Uppsalaháskóla með doktorsritgerð sinni um kristnitökuna á Íslandi ("Under the Cloak" = "Undir feldinum"). Upp úr 1980 hóf Jón Hnefill að kenna ýmis námskeið í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og varð síðan dósent í þjóðfræði 1988, fyrstur manna. Hann varð prófessor í þeirri grein 1992, og skipulagði og byggði upp nám í þjóðfræði við skólann. Hann ritaði einnig mikið um þau efni, sbr. ritaskrána hér á eftir. Rannsóknir hans spanna vítt svið. Hann skrifaði m.a. um kristnitökuna, ásatrú, goðsögur, ævintýri, gátur, álfa, tröll, afturgöngur, galdra o.fl. Sérsvið hans var þjóðfræðileg greining á fornsögum og fornkvæðum. Jón Hnefill hefur verið nefndur faðir þjóðfræðinnar sem háskólagreinar hér á landi. Starfsferill Jóns Hnefils var fjölbreyttur. Hann var um skeið blaðamaður á Morgunblaðinu, skólastjóri Iðnskólans á Eskifirði 1963–1964 og kennari við unglingaskólann þar 1961–1964. Hann var kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð 1969–1988, stundakennari við guðfræðideild HÍ 1967–1968 og heimspekideild 1968–1988. Auk þess kenndi hann við Gagnfræðaskólann við Lindargötu og var stundakennari við Tækniskóla Íslands, Leiklistarskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Hann tók þátt í margskonar félagsstarfi, var formaður Þjóðfræðafélagsins, Sagnfræðingafélagsins, Félags menntaskólakennara og Hins íslenska kennarafélags, og sat í stjórn Átthagasamtaka Héraðsmanna og Nordiska Lärarrådet. Veturinn 1983–1984 var hann Honorary Research Fellow við University College London. Hinn 15. desember 1992 var Jón Hnefill gerður að félaga í The Folklore Fellows, alþjóðlegum samtökum þjóðfræðinga sem Finnska vísindaakademían kom á laggirnar. Eiginkona Jóns Hnefils (1955) var Svava Jakobsdóttir (1930–2004) rithöfundur og alþingismaður. Þau eignuðust einn son, en fyrir hjónaband átti Jón Hnefill tvo syni. Ritstörf. Hér verða talin nokkur rit Jóns Hnefils, sem dæmi um ritstörf hans. Hann var í ritstjórn "Íslenskrar þjóðmenningar", en á árunum 1987–1990 komu út komu fjögur bindi af 9 sem voru áætluð. Guido Westerwelle. Guido Westerwelle (fæddur 27. desember 1961 í Bad Honnef, Nordrhein-Westfalen) er þýskur stjórnmálamaður og núverandi utanríkisráðherra Þýskalands. Westerwelle var frá 1994 til 2001 aðalritari Freie Demokratische Partei (FDP), sem þykir frjálshyggjusinnaður stjórnmálaflokkur. Frá 2001 gegnir hann formennsku innan flokksins. Þá var Westerwelle einnig þingflokksformaður FDP flokksins á þýska sambandsþinginu frá 2006 til 2009 og á sama tíma var hann leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Frá 28. október 2009 gegnir hann stöðu utanríkisráðherra í ríkisstjórn Angelu Merkel auk þess sem hann er varakanslari Þýskalands. Westerwelle er lögfræðingur að mennt, en hann lauk doktorsprófi í lögum árið 1991. Hann er einnig þekktur sem fyrsti þýski stjórnmálamaðurinn á landsvettvangi, sem viðurkennir samkynhneigð sína opinberlega. Westerwelle, Guido Marburg. Marburg er borg í þýska sambandslandinu Hessen og er með 80 þúsund íbúa. Borgin var áður víðfræg fyrir háskólann (Philipps-Universität) en þar lærðu og kenndu margir þekktir einstaklingar. Lega. Marburg liggur við ána Lahn nokkuð miðsvæðis í Hessen. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til suðurs (70 km) og Kassel til norðurs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Marburg sýnir riddara á hvítum hesti. Hann heldur á flaggi sem er blátt M á gulum grunni í einni hendi, í hinni er skjöldur með hvítu ljóni á bláum grunni. Riddarinn er landgreifinn af Hessen. Ljónið er tákn Hessen en M-ið í fánanum er upphafstafur Marburg. Skjaldarmerki þetta var tekið upp í lok 19. aldar. Orðsifjar. Marburg hét upphaflega Marbachburg, eftir læknum Marbach. Marbach merkir landamerkjalækur. "Mar" er dregið af orðinu "Marken" ("mörk") og merkir hér "landamerki". Bach er lækur. Upphaf. Elísabetarkirkjan er reist á gröf heilagrar Elísabetar Upphaf Marburg er kastalavirkið mikla sem reist var á 11. öld, jafnvel aðeins fyrr. Bæjarheitið kom fyrst við skjöl 1138 eða 1139. Á skjali frá 1222 kemur fram að Marburg sé þegar komin með borgarréttindi. 1228 kaus landgreifafrúin Elísabet frá Þýringalandi ("Thüringen") Marburg sem aðsetur sitt. Við það byrjaði borgin að vaxa. Elísabet reisti spítala, þjónustaði sjúka og varð að goðsögn í lifanda lífi. Hún lést aðeins 24 ára gömul og var tekin í hóp dýrlinga aðeins 7 árum eftir dauða sinn. Hin mikla Elísabetarkirkja var reist á gröf hennar. Marburg varð þá að pílagrímsborg fyrir kaþólikka í Evrópu. Upplýsing. 1509 varð Filippus hinn kjarkmikli nýr landgreifi í héraðinu, þá aðeins 13 ára gamall. Snemma aðhylltist hann lúterstrú og barðist hann alls staðar af miklum þrótti fyrir siðaskiptunum. Í Marburg fóru siðaskiptin einnig snemma fram. Fyrir vikið stofnaði Filippus háskóla í borginni 1527 og var hann fyrsti háskóli mótmælenda í Þýskalandi yfir höfuð (Philipps-Universität). Hann bauð til mikils þings í háskólanum 1529 þar sem nafntogaðir siðaskiptamenn mættu og ræddu um hina nýju trú. Má þar nefna Martein Lúther, Ulrich Zwingli, Philipp Melanchton, Stephan Agricola og fleiri. Hápunkturinn voru rökræður Lúthers og Zwinglis um sakramentið. 1623 hertók Tilly borgina og hélt henni til skamms tíma í 30 ára stríðinu. Borgin kom hins vegar lítið við sögu næstu aldir. Nýrri tímar. 1866 var Marburg innlimuð í Prússland og var það mikil lyftistöng háskólann. Á þremur áratugum þrefaldaðist íbúafjöldi borgarinnar. Í heimstyrjöldinni síðari slapp Marburg að mestu við loftárásir, nema hvað aðaljárnbrautarstöðin og tvö önnur mannvirki voru sprengd. 29. mars 1945 hertóku bandarískir hermenn undir stjórn Pattons hershöfðingja borgina bardagalaust og varð hún hluti af bandaríska hernámssvæðinu. Í dag er háskólinn enn langstærsti vinnustaðurinn í borginni. Þar nema tæplega 20 þúsund stúdentar. Íþróttir. Helstu íþróttagreinar borgarinnar eru körfubolti og ruðningur. Kvennaliðið BC Marburg í körfubolta varð þýskur meistari 2003 og bikarmeistari sama ár. Karlaliðið Marburg Mercenaries í ruðningi urðu Evrópubikarmeistarar 2005 og lentu í 2. sæti í þýsku deildinni árið eftir. Vinabæir. Skilti með skjaldarmerkjum vinabæja Marborgar Aldeyjarfoss. Aldeyjarfoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Fossinn er umkringdur stuðlabergi sem er hluti af hraunþekjunni Frambruna eða Suðurárhrauni. Hvíti litur jökulfljótsins þykir mynda skemmtilega andstæðu við dökkt bergið. Fallið er um 20 metrar. Í og við björg fossins verpa fálkar, smyrlar, heiðagæsir, grágæsir og gulendur. Alfred Wegener. Alfred Wegener (1. nóvember 1880 í Berlín – nóvember 1930 á Grænlandi) var þýskur jarð-, veður- og heimskautafræðingur. Hann er helst þekktastur fyrir að vera upphafsmaður landrekskenningarinnar, þrátt fyrir að hún væri ekki meðtekin í vísindaheiminum fyrr en nokkuð eftir andlát hans. Nám. Alfred Lothar Wegener fæddist í Berlín og gekk þar í skóla. Hann nam eðlisfræði, veðurfræði og stjörnufræði í háskólum í Berlín, Heidelberg og Innsbruck. 1905 lauk hann doktorsritgerð í stjörnufræði við háskólann í Berlín en sneri sér svo að öðrum vísindagreinum. Að hans áliti var ekki mikið eftir að gera í stjörnufræðigeiranum. Auk þess væru stjörnufræðingar alltof bundnir við stjörnustöð sína. Wegener vildi vera miklu frjálsari. 1906 fór Wegener ásamt einum bræðra sinna í loftbelgjarflug með veðurathugunartækjum og settu þá heimsmet í loftbelgjarflugi er þeir flugu í 52 tíma samfleytt. Fyrsta Grænlandsferðin. 1906 fór Wegener í fyrsta sinn til Grænlands. Hann var þá meðlimur rannsóknarliðs undir stjórn Dana sem átti að kortleggja og kanna norðausturströnd Grænlands en það var eini hluti af strandlengju Grænlands sem enn var ókönnuð. Við Danmarkshavn útbjó Wegener fyrstu veðurathugunarstöð Grænlands. Í einni sleðaferðinni létust danski leiðangursstjórinn og tveir rannsóknarmenn. Frá 1908 til upphafs heimstyrjaldarinnar fyrri kenndi Wegener við háskólann í Marburg. Þar skrifaði hann sína fyrstu bók. Einnig viðraði hann í fyrsta sinn hugmyndir um að heimsálfurnar hafi rekið í sundur í fyrndinni. Landrekskenningin var þó langt í frá fullmótuð. Í Marburg kvæntist hann Else Köppen. Önnur Grænlandsferð. Áður en brúðkaupið fór fram fór Wegener í annað sinn til Grænlands. Aftur var leiðangursstjórinn danskur. Á leiðinni var komið við á Íslandi, þar sem keypt voru nokkrir hestar sem burðardýr. Aftur var farið til norður Grænlands og var ráðgert að fara yfir jökulinn til vesturstrandarinnar. Áður voru þó gerðar veðurathuganir og borað í jökulinn. Það var í fyrsta sinn í sögunni sem borað var í heimskautajökul. Í einni könnunarferðinni féll danski leiðangursstjórinn í sprungu og fótbrotnaði illa. Hann komst því ekki með í ferðina yfir jökulinn. Ferðin sjálf var farin sumarið 1913 og var vegalengdin nærri tvöfalt lengri en Fridtjof Nansen fór 1888. Ferðin gekk áfallalaust, en við vesturströndina kláruðust vistirnar. Það var bara fyrir einskærri tilviljun að danski presturinn í Upernavik fann þá er hann var á leið til fjarlægrar kirkju. Að ferð lokinni hélt Wegener áfram að kenna í Marburg. Hermaður og prófessor. Alfred Wegener og Daninn Rasmus Villumsen á Grænlandi 1930 Í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri var Wegener umsvifalaust kallaður í herinn og var óbreyttur hermaður í Belgíu. Þar var mikið barist og særðist hann tvisvar. Í kjölfarið var hann settur í veðurdeild hersins en í henni ferðaðist hann um allt þýska ríkið og utan þess, svo sem til Balkanslanda og Eystrasaltslanda. Samt sem áður átti hann nægan tíma aflögu til að halda skrifum sínum áfram. Mitt í stríðinu gaf hann út aðalverk sitt, sem fjallaði um landrek sem vísindalega kenningu. En einmitt sökum stríðsins fékk bókin hvergi hljómgrunn. Eftir stríð starfaði Wegener á veðurstofunni í Hamborg, en fékk svo prófessorsstöðu í Graz í Austurríki. Á meðan birtust fleiri rit eftir Wegener sem fjölluðu um landrek, en öll fengu þau harða dóma. Til marks um það var haldið þing um landrek í New York 1926 og þar höfnuðu allir þátttakendur kenningu Wegeners um landrek. Fleiri Grænlandsferðir. 1929 fór Wegener í þriðja sinn til Grænlands, sem þjónaði mestmegnis þeim tilgangi að undirbúa fyrir stóran könnunarleiðangur þangað á næsta ári. Sá leiðangur endaði illa. Ekki aðeins vegna þess að ekki tókst að hrinda þeim áformum í veðurfræði í framkvæmd sem leiðangurinn átti að sjá um, heldur einnig sökum þess að Wegener og einn aðstoðarmanna hans létu lífið. Wegener sjálfur fannst ekki fyrr en um vorið eftir og kom þá í ljós að hjartað hafði gefið sig af of mikilli áreynslu. Aðstoðarmaður hans týndist og hefur ekki fundist síðan. Landrek. Steingervingar plantna og dýra styðja landrekskenninguna Það voru fleiri en Alfred Wegener sem sáu að útlínur vesturstrandar Afríku og austurstrandar Suður-Ameríku væru líkar. En hann var fyrsti vísindamaðurinn sem hóf að kanna málið frekar. Hin almenna skoðun jarðfræðinga á þessum tíma var að höfin væru að dýpka og meginlöndin væru að sökkva vegna þess að jörðin væri að skreppa saman hægt og hægt. Þannig hljóðaði kenningin um myndun meginlandanna. Wegener hafnaði þessum rökum. Hann taldi að meginlöndin væru hálffljótandi eyjar sem bærust hægt úr stað. Jörðin væri ekki að minnka, það sæist til dæmis á Skandinavíu, sem raunar var að lyftast eftir farg ísaldarjökulsins. Í fyrndinni hafi verið til eitt stórt meginland sem þannig hafi klofnað í sundur. Bæði steintegundir og steingervingar á samsvarandi stöðum í Afríku og Suður-Ameríku gáfu sterklega til kynna að meginlöndin hafi rekið í sundur. Fram að þessu höfðu vísindamenn talið að landbrú hafi verið til milli meginlandanna og dýrin þannig komist á milli, en þegar Wegener kannaði botn Atlantshafsins, kom Atlantshafshryggurinn í ljós. Hryggurinn liggur hins vegar ekki milli meginlandanna, heldur eftir endilöngu Atlantshafi. Landbrúin væri því útilokuð. Á Grænlandi fann Wegener kolefni sem bara hefði getað myndast í mjög hlýju loftslagi. Einnig fann hann ummerki eftir jökla á hlýjum svæðum jarðar, svo sem í Sahara. Ennfremur taldi Wegener að fjallgarðar heims hafi myndast er meginlöndin hafi rekist saman í fyrndinni. Stóra vandamál Wegeners í kenningum sínum var að honum tókst ekki að finna neina orsök fyrir landreki og gat því aldrei útskýrt fyrir vísindaheiminum hvaða kraftar væru að verki og hvers vegna. Ein af síðustu hugmyndum hans um orsök landreksins var hitinn í iðrum jarðar, sem í dag er reyndar meginkenningin um orsök landreksins. Eftirmáli. Wegener fann engan hljómgrunn fyrir kenningum sínum. Alls staðar í vísindaheiminum var þeim hafnað, ef til vill vegna þess að Wegener tókst ekki að safna nægum staðreyndum eða sönnunum. Það var ekki fyrr en í upphafi 8. áratugarins að stakir vísindamenn höfðu safnað nægum gögnum að landrekskenningin lifnaði við af alvöru. Í dag er landrekskenningin ein meginstoð jarðfræðinnar og nafn Alfreds Wegeners er órjúfanlegur hluti af henni. Tenglar. Wegener, Alfred Wegener, Alfred Wegener, Alfred Adam Rodríguez. Adam Michael Rodríguez (fæddur 2. apríl 1975) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Eric Delko í '. Einkalíf. Rodríguez fæddist í New York og er af kúbönskum og púertó rískum uppruna. Hann stundaði nám við Clarkstown High School North í New York-borg, ásamt NFL leikmanninum Keith Bulluck, þaðan sem hann útskrifaðist árið 1993. Rodríguez ætlaði sér að verða atvinnumaður í körfubolta en eftir meiðsli í menntaskóla sneri hann sér að leiklistinni og kom fram í barnaleikhúsi í New York. Áður en hann gerðist leikari vann hann sem verðbréfamiðlari. Rodríguez skiptir tímanum sínum á milli NY og LA, ásamt því að eiga hús í Púertó Ríkó. Kom hann fram í tímaritinu "People" „Sexiest Man Alive“ og í spænska "People"-tímaritinu „25 Most Beautiful People“. Tónlistamyndbönd. Rodríguez hefur komið fram í tónlistarmyndbandi Jennifer Lopez frá 1999 "If You Had My Love", Busta Rhymes "Respect My Conglomerate", Lionel Richie "I Call it Love", á móti Nicole Richie, Melanie Fiona "It Kills Me" og 50 Cent "Many Men", með Rory Cochrane. Einnig kom hann fram í Obama-myndbandinu, "Yes We Can". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk hans var árið 1997 í "NYPD Blue". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Brooklyn South", "Law & Order", "Felicity", "Roswell" og Psych.Lék hann Bobby Talercio í Ugly Betty frá 2009-2010. Árið 2002 var honum boðið hlutverk Eric Delko í sem hann lék til ársins 2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Rodríguez var árið 2000 í kvikmyndinni "Details". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Keeper of the Past", "Unknown", "15 minutes of Fame", "Let the Game Begin" og Magic Mike. Tenglar. Rodriguez, Adam Grímur Jónsson (amtmaður). Kirkjan á Möðruvöllum. Grímur amtmaður var jarðsettur í „fátækrareit“ við kirkjuna að eigin ósk. Grímur Jónsson (12. október 1785 – 7. júní 1849) (skrifaði sig sjálfur Grímur Johnsen) var amtmaður í Norður- og Austuramti á Íslandi og bæjarfógeti í Danmörku. Grímur fæddist í Görðum á Akranesi og voru foreldrar hans séra Jón Grímsson, sem þar var prestur, og kona hans Kristín Eiríksdóttir frá Helluvaði á Rangárvöllum. Eina systir hans sem upp komst var Ingibjörg, kona Þorgríms Tómassonar gullsmiðs á Besastöðum og móðir Gríms Thomsen. Grímur útskrifaðist úr Hólavallarskóla 1802 og var síðan skrifari hjá Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni, en móðir hans, sem þá var orðin ekkja, var ráðskona þar. Árið 1805 sigldi Grímur svo til náms við Hafnarháskóla og lauk lögfræðiprófi vorið 1808. Hann gekk síðan í danska herinn, varð lautinant í landhernum og varð svo efstur á herforingjaprófi í janúar 1810. Hann átti góðan feril í hernum og varð „Overkrigskommissær" 1816. Árið 1819 hætti hann þó í hernum og varð bæjarfógeti í Skælskör á Sjálandi. Árið 1824 var hann svo skipaður amtmaður í Norður- og Austuramti, flutti til Íslands með fjölskylduna og settist að á Möðruvöllum í Hörgárdal. Í febrúar 1826 brann bærinn á Möðruvöllum. Fólkið komst allt út en fáu tókst að bjarga og meðal annars glataðist mikið af skjölum amtsins. Skrifari amtmanns, Baldvin Einarsson frá Hraunum í Fljótum, bjargaðist naumlega og þurfti að stökkva út um loftglugga á nærfötunum. Fáeinum árum síðar fórst hann af völdum bruna í Kaupmannahöfn. Sjálfur brenndist Grímur í andliti og bar ör lengi. Nýtt hús var reist á Möðruvöllum sem kallað var "Friðriksgáfa", því að Friðrik konungur veitti fé til byggingarinnar, og var það eitt stærsta og glæsilegasta hús landsins á sinni tíð. Það brann 1874. Á 2. hæð þessa húss í Kaupmannahöfn bjó fjölskylda Gríms á meðan hann var einn á Einbúasetrinu (Möðruvöllum). Kona Gríms, sem var dönsk, sætti sig illa við að búa á Íslandi þrátt fyrir ný húsakynni og fór svo að fjölskyldan fluttist aftur til Danmerkur og Grímur varð bæjarfógeti í Middelfart á Fjóni. Á meðan hann var þar sat hann á stéttaþingum í Hróarskeldu 1840 og 1842 sem konungkjörinn þingmaður fyrir Ísland og Færeyjar. Hann var þó aldrei ánægður í Middelfart, vildi aftur til Íslands, og vorið 1842 var hann aftur skipaður amtmaður í Norður- og Austuramti. Kona hans og börn fóru þó ekki með honum til Íslands, heldur settust þau að í Kaupmannahöfn. Var Grímur því oft einmana á Möðruvöllum og kallaði hús sitt "Einbúasetrið". Tvær dætur Gríms komu þó til hans nokkrum árum síðar og voru hjá honum á Möðruvöllum þar til hann lést. Grímur hefur löngum haft orð á sér fyrir íhaldssemi en hann var þó að mörgu leyti framfarasinnaður og frjálslyndur, beitti sér fyrir samgöngubótum og var mikill áhugamaður um bætta búnaðarhætti og ræktun matjurta. Hann var þó konunghollur embættismaður og þegar frjálsræðisvindar tóku að blása í kjölfar byltinga og lýðræðishreyfinga í Evrópu þótti honum nóg um sjálfræðishneigð alþýðunnar. Skagfirskir bændur voru helstu andstæðingar amtmanns og 22. maí 1849 safnaðist stór hópur Skagfirðinga saman við Vallalaug og reið síðan til Möðruvalla til að lýsa vanþóknun sinni á embættisfærslu amtmanns og krefjast afsagnar hans. Kallast sú ferð Norðurreið Skagfirðinga. Ekki varð þó af því að þeir hittu amtmann þegar til Möðruvalla kom því hann var þá mjög sjúkur og lést skömmu síðar. Kona Gríms var prestsdóttir frá Jótlandi, Birgitte Cecilie Breum. Eina barn þeirra sem staðfestist á Íslandi var Þóra Melsteð, stofnandi og fyrsti skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík. Árið 2008 kom út ævisaga Gríms amtmanns eftir Kristmund Bjarnason og nefnist hún "Amtmaðurinn á Einbúasetrinu". Þorbjörn loki Böðmóðsson. Þorbjörn loki Böðmóðsson var landnámsmaður í Austur-Barðastrandarsýslu og nam Djúpafjörð vestanverðan og Grónes til Gufufjarðar. Samkvæmt Landnámabók var Þorbjörn sonur Böðmóðs úr Skut. Sonur Þorbjarnar var Þorgils, sem bjó á Þorgilsstöðum í Djúpafirði. Kollur sonur Þorgils giftist Þuríði Þórisdóttur Hallaðarsonar jarls í Orkneyjum, Rögnvaldssonar Mærajarls. Sonur þeirra var Þorgils, sem kvæntist Otkötlu Jörundardóttur, Atlasonar rauða, Úlfssonar skjálga, og Jörundur sonur þeirra átti Hallveigu Oddadóttur Ketilssonar gufu. Hvamm-Sturla var afkomandi þeirra. Stjörnugægjar. Stjörnugægjar eru fiskar sem lifa við sjávarbotninn og eru með augun mjög ofarlega á höfðinu og því nefndir svo. Stjörnugægjar eru eitraðir, en eitrið er í broddum sem eru á bakvið tálknlokin og fyrir ofan eyruggana. Þeir geta líka gefið frá sér lamandi rafmagnsstraum. Orðið stjörnugægir beygist eins og gluggagægir. Stjörnugægjar lifa venjulega grunnt á sandbotni sjávar og hafa stóra og sterka eyrugga, en með þeim og kviðuggunum grafa þeir sig niður í botnsandinn í allt að 50 sm djúpar holur. Það er því erfitt að koma auga á þá. Ef stjörnugægir verður var við kvikindi í námunda við sig þá sendir hann frá sér rafstraumshögg. Stjörnugægjar lifa á smáum fiskum, sem þeir lama þannig með raflostinu og við það fatast bráðinni sundið. Hendist hann þá eins og skot upp úr sandholunni og gleypir bráðina. Rafgeymar stjörnugægja eru ofan á hausnum, rétt aftan við augun; eru þar 2 holur niður í höfuðbeinið, og eru holur þessar fullar af gráleitu hlaupi. Þarna er aðal-rafstöðin, og hefur hún ekki minna en 4000 straumvaka. Lirfur fisksins eru órafmagnaðar. Myndun rafgeymanna hefst ekki fyrr en seiðin eru orðin um 1 sm. á lengd. Elísabetarkirkjan í Marburg. Elísabetarkirkjan er í gotneskum stíl Elísabetarkirkjan er þekktasta kirkja þýsku borgarinnar Marburg. Hún var reist á 13. öld og er helguð heilagri Elísabetu frá Thüringen. Kirkjan var pílagrímsstaður á miðöldum. Saga kirkjunnar. Höggmynd af heilagri Elísabetu. Hún heldur á módel af kirkjunni. Elísabet var landgreifafrú og ung ekkja í Marburg. Hún lést aðeins 24 ára gömul og hafði þá reist spítala og þjónustað sjúka. 1235 var hún tekin í tölu dýrlinga og sama ár hófst smíði kirkjunnar ofan á leiði hennar. Kirkjan var vígð 1283 og helguð henni. Kirkjan er byggð í gotneskum stíl og var notuð sem fyrir annarra kirkna. Kórinn er þrískiptur, þ.e. tveir hliðarkórar ganga út frá aðalkórnum og mynda nokkurs konar kross. Turnarnir eru 80 metra háir. Á norðurturninum er stjarna, á suðurturninum er krossriddari. Strax eftir vígsluna tók fólk að streyma til Marburg til tilbeiðslu í kirkjunni, enda var heilögu Elísabet mjög kunn. Einnig þjónaði kirkjan sem hvíldarstaður landgreifanna allt til 16. aldar, er siðaskiptin hófust. Í upphafi var kirkjan eign þýsku riddarareglunnar. Við siðaskiptin varð kirkjan lútersk og er hún það enn. 1539 lét landgreifinn Filippus hinn kjarkmikli, sem kom siðaskiptunum á í héraðinu, flytja líkamsleifar heilagrar Elísabetar burt, til að varna því að kaþólskir pílagrímar kæmu þangað. Líkamsleifum hennar var skipt í þrennt og eru nú geymd í Elísabetarklaustrinu í Vín, í borgarsafninu í Stokkhólmi og í borginni Kosice í Slóvakíu. Kór kirkjunnar var á kaþólska tímanum aðeins aðgengilegur fyrir meðlimi riddarareglunnar, en við siðaskiptin var kirkjan öll opnuð fyrir almenna kirkjugesti. Listaverk voru fjarlægð og eyðilögð. Kaþólska kirkjan náði ekki fótfestu í Marburg fyrr en síðla á 18. öld. Þá var engin bygging sem þeir gátu notað. Því var brugðið á það ráð í upphafi 19. aldar að skipta Elísabetarkirkjunni í tvennt, þannig að annar hlutinn var notaður fyrir kaþólikka, en hinn hlutinn fyrir lúterstrúarmenn. Eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk voru kistur gamla ríkisforsetans, Pauls von Hindenburg og eiginkonu hans Gertrud, fluttar í Elísabetarkirkjuna og þar eru þær enn í hliðarkapellu í norðurturninum. Mesta gersemi kirkjunnar er þó helgiskrín heilagrar Elísabetar. Rýrt úran. Rýrt úran (einnig nefnt skert úran eða sneytt úran) kallast úran sem samanstendur aðallega af samsætunni úran-238 (U-238). Úran sem finnst í náttúrunni inniheldur um 99,27 prósent af úran-238, 0,72% af úran-235 og 0,0055% af úran-234, en úran telst rýrt þegar samsætan úran-235 hefur verið tekið skilið frá úraninu-238 til að búa til auðgað úran. Í kjarnorkuiðnaði er blöndu samsætanna úran-238, úran-235 og úran-234 breytt og búið til auðgað úran sem er auðugra af úran-235 því þannig blanda hentar betur fyrir flesta kjarnorkuofna og kjarnorkuvopn. Sú blanda sem eftir verður er þá rýrt eða skert úran. Rýrt úran sendir minna af geislum frá sér en náttúrulegt úran. Notkun skerts úrans í hernaði. Á síðustu árum hafa vaknað grunsemdir um að geislavirkt efni úr sprengjum og byssukúlum úr skertu úrani hafi valdið dauða, veikindum og fósturskaða á stríðssvæðum. Að minnsta kosti 40 ítalskir hermenn létust og milli 500 - 600 veiktust eftir að komast í snertingu við geislavirkt efni úr úransprengjum í Bosníu og Kosovo en Bandaríkjamenn vörpuðu sprengjum með skertu úrani á Bosníu árið 1995 og Kosovo 1999 og unnu ítölsku hermennirnir við að hreinsa upp eftir þessar sprengjur. Áfengisgjald. Áfengisgjald er sá kostnaður sem ríkið leggur á áfengi og fer eftir magni vínanda í áfenginu. Samkvæmt sundurliðuðum kostnaðartölum frá ÁTVR árið 2004 fór hlutur ríkisins í einstakri vörutegund upp í allt að 85% af verði flöskunnar. Áfengisgjaldið á Íslandi er með því hæsta í heiminum. Fyrir léttvín er ekki greitt áfengisgjald af fyrstu 2,25% vínandans en eftir það leggjast 52,8 kr. á hvert prósent miðað við lítrafjölda. Syndaskattar. Syndaskattar eru skattar sem lagðir eru á vörur sem eru af ýmsum ástæðum álitnar skaðlegar í tilteknum samfélögum, s.s. áfengi, tóbak og fjárhættuspil. Syndaskattar eru tegund af Pigou-skatti, þ.e. þeim er ætlað að bæta ójafnvægi sem stafar af neikvæðum ytri áhrifum. Syndaskattar eru þannig réttlættir með því að tekjurnar af neyslu skaðlegu vörunnar þurfi til að greiða fyrir skaðann sem neysla hennar veldur. Skattur á fjárhættuspil er þannig notaður til að niðurgreiða meðferð við spilafíkn og áfengisgjald notað til að greiða niður áfengismeðferðir. Einkum á þetta við í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er niðurgreidd af ríkinu í miklum mæli. Andstæðingar syndaskatta benda gjarnan á að þeir leggist að jafnaði mun þyngra á láglaunahópa en hálaunahópa og mismuni því þegnunum í reynd, að þeir ýti undir smygl og aðra ólöglega starfsemi og að þeir hafi engin áhrif til að draga úr neyslu skaðlegu vörunnar. Megalyn Echikunwoke. Megalyn Ann Echikunwoke (fædd 28. maí 1983) er bandarísk leikkona og hefur meðal annars komið fram í "24", "The 4400" og í '. Einkalíf. Echikunwoke fæddist í Spokane, Washington en er alin upp í Navajo Nation, á Indíána verndarsvæðunum í Chinle í Arizona. Faðir hennar er nígerískur og móðir hennar er amerísk. Á hún bróður að nafni Miki og systur að nafni Misty. Ferill. Echikunwoke var hluti af sjónvarpsþættinum "The 4400", þar sem hún lék eldri útgáfuna af hinni dularfullu Isabelle Tyler í byrjun þriðju þáttaraðar en yfirgaf þáttinn árið 2007. Echikunwoke hefur einnig komið fram í MTV sápuóperunni "Spyder Games" sem Cherish Pardee og sem Danika í "Like Family". Hefur hún komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "The Steve Harvey Show", "Boston Public", "ER", "What I Like About You", "Buffy the Vampire Slayer", "That '70s Show", "Veronica Mars" og "Supernatural". Lék hún Nicole Palmer í fyrstu þáttaröðinni af "24". Í sjöundu þáttaröð af "CSI: Miami" (2008) þá fékk hún hlutverkið sem Réttarlæknirinn Dr. Tara Price. Var hún skrifuð út í enda þáttarins „Dissolved“ (7-24), þegar Tara var tekin af Ryan Wolfe fyrir að hafa stolið pillum af sjúklingum. Tenglar. Echikunwoke, Megalyn Monsún. Monsún, monsúnvindar einnig misserisvindar, var upphaflega notað um árstíðabundnar breytingar vinda á norðanverðu Indlandshafi, í Suður- og Austur-Asíu og suður með austurströnd Afríku. Hugtakið monsún hefur á síðari áratugum einnig verið notað yfir aðrar árvissar hringrásarbreytingar sem tengjast því að land og sjór hitna og kólna mishratt við árstíðaskipti. Einkum tala fræðimenn um Afríku-, Ástralíu- og Ameríkumonsúna fyrir utan Asíumonsúna. Orðsifjar. Orðið monsún kom inn íslensku gegnum dönsku "monsun" sem er dregið af portúgalska orðinu "monção", en það er upphaflega tekið úr arabísku "mawsim" (موسم „árstíð“). Orðið "mausam" þýðir „veður“ á hindí (मौसम), úrdú (موسم) og fjölda annarra tungumála á Norður-Indlandi. Forsendur monsúnvinda. Monsúnvindarnir myndast á sama hátt og eru í eðli sínu það sama sem nefnt er sólfarsvindar. Það er að segja gangur sólarinnar skapar mishitun á landsyfirborði og sjávaryfirborði og ræður þar með vindátt. Monsúnvindarnir skapast af misjafnri sólarhæð að sumri og vetri sem hefur áhrif á hitun og kólnun lands og sjávar. Yfirborð lands hitnar mun fyrr en yfirborð sjávar af sólargeislun, yfirborð lands tapar hins vegar fljótt varma en yfirborð sjávar mun hægar. Þetta stafar af því að sjór hefur meiri varmarýmd og er því yfirleitt nokkuð jafnheitur allt árið um kring. Það er mjög mikill munur á umfangi meginlandanna á norður- og suðurhveli jarðar. Norðan miðbaugs er landmassinn mun meiri um sig en fyrir sunnan hann. Stærstu úthöfin, það er að segja Atlantshafið og Kyrrahafið spenna bæði yfir stóran hluta hnattarins frá suðri til norðurs, frá Suðurskautslandinu og norður undir heimskautsbaug og gætir því hitamunar ártíða fremur lítið á þessum höfum. Öðru máli gegnir um Indlandshaf sem sem er að langstærstum hluta fyrir sunnan miðbaug, en norðan við hafið tekur við stærsti landmassi á jörðinni, meginland Asíu. Asíumonsúnar. Oft er hugtakið monsún sérlega notað um það tímabil ársins þegar sumarmonsúninn gengur inn suður og suðausturhluta Asíu. Með honum fylgir rigningartíminn sem beðið með eftirvæntingu. Rigningartíminn leysir af heitt þurrkaskeið og mikil seinkun monsúnkomunnar veldur uppskerubresti, of mikil rigning veldur hins vega flóðum. Sumarmonsúninn stendur venjulega frá því í maí-júní og fram í september allt eftir svæðum. Það rignir þó ekki samfelld heldur skiptast á vikur með meiri eða minni úrkomu á víxl. Sofia Milos. Sofia Milos (fædd 27. september 1965) er ítölsk-grísk leikkona. Einkalíf. Milos fæddist í Zürich í Sviss og er af ítölskum og grískum uppruna. Á unglingsárum þá kom hún fram í táningsfegurðarsamkeppnum og vann hún fyrsta sætið í landsbyggðar-, héraðs- og ríkiskeppninni. Milos lærði leiklist við Beverly Hills Playhouse í Bandaríkjunum undir handleiðslu Milton Katselas. Milos er meðlimur Vísindakirkjunnar. Milos er altalandi á ensku, ítölsku, frönsku og þýsku, ásamt því að hafa grunninn í grísku og spænsku. Ferill. Fyrsta hlutverk Milos er í kvikmyndinni "Out of Control" frá 1992. Síðan þá hefur hún komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, þar á meðal: Friends, "Caroline in the City", "ER", "The Sopranos". Þekktust er hún fyrir hlutverk sitt sem rannsóknarfulltrúinn/einkaspæjarinn Yelina Salas í. Tenglar. Milos, Sofia Högnun. Högnun í hagfræði er viðskiptatækifæri þar sem tveir eða fleiri samskonar fjármálagerningar eru ekki verðlagðir rétt með tilliti til hvers annars. Hagnaðurinn felst þá í mismuninum þar á milli. Shinty. Shinty (gelíska: "camanachd" eða "Iomain") er boltaíþrótt sem er aðallega vinsæl í Skosku hálöndunum. Amflora. Amflora er erfðabreytt kartöflutegund. Hún er ekki framleidd til manneldis heldur sem hráefni í kartöflusterkjuiðnaði. Amflora er óskaðleg mönnum en hentar ekki sem matvæli því hún er mjög mjölmikil. Sterkja í venjulegri kartöflu er úr tveimur þáttum - amylopectin og amylose. Báðir þessir þættir eru jafngildir sem næring en í iðnaði er ekki hægt að nota þá saman því þeir hafa mismunandi eiginleika. Í sterkjuiðnaði þarf eingöngu þykkniseiginleika amylopectin og gelmyndun amylose þáttarins er óæskileg og getur truflað ákveðin ferli. Það krefst orku og vatns að skilja þessa þætti í sundur. Rannsakendur við plöntuvísindastöð BASF þróuðu nýja erfðabreytta sterkjukartöflu undir heitinu Amflora en þessi tegund framleiðir sterkju sem er nánast eingöngu úr amylopectin. Amflora hefur verið ræktuð í Þýskalandi frá 2006 en hefur frá mars 2010 verið leyft í ræktun í Evrópusambandinu. Ekki er talin hætta á að þessi tegund geti blandast öðrum þar sem hún fjölgar sér ekki lítið með fræi og ekki er vitað um að hún geti víxlast með öðrum tegundum. Rory Cochrane. Rory Cochrane (fæddur 28. febrúar 1972) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "Dazed and Confused", "Empire Records" og. Einkalíf. Cochrane fæddist í Syracuse, New York en er alinn upp á Englandi. Cochrane flutti aftur til Bandaríkjanna til þess að stunda nám í New York borg og lærði við dramadeildina við Fiorello H. LaGuardia High School of Music & Art and Performing Arts. Ferill. Fyrsta hlutverk hans var í heimildarmynd um eiturlyf í "Saturday Night með Connie Chung" (1989) og í þætti af "H.E.L.P." (1990). "A Kiss Before Dying" er fyrsta kvikmynd hans, þar sem hann kom fram í aðeins 15 sekúndur og eftir það kom hlutverk hans sem sonur Jeff Goldblums í "Fathers and Sons". Cochrane lék stórt hlutverk í kvikmyndinni "Empire Records" og "Dazed and Confused", og kom fram í "Hart's War" með Bruce Willis og Colin Farrell. Árið 2002 fékk hann hlutverk sem Tim Speedle í en hann yfirgaf þáttinn í þriðju þáttaröð. Cochrane endurtók hlutverk sitt sem Tim Speedle í "CSI: Miami" þættinum „Bang, Bang, Your Debt“, sem ímyndun hjá Eric Delko. Lék hann persónuna Greg Seaton í sjöundu þáttaröð af "24" með Jon Voight. Tenglar. Cochrane,Rory Khandi Alexander. Khandi Alexander (fædd 4. september 1957) er bandarískur dansari og leikkona. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Dr. Alexx Woods í '. Einkalíf. Khandi fæddist í New York og stundaði nám við Queensborough Community College. Kom hún fram í Broadway söngleiknum "Chicago", Bob Fosses "Dancin" og "Dreamgirls". Var hún danshöfundur fyrir heimstúr Whitney Houston frá 1988–1992 og kom fram sem dansari í Natalie Coles tónlistarmyndbandinu „Pink Cadillac“ frá 1988. Ferill. Síðan í byrjun tíunda áratugsins hefur Alexander einbeitt sér að kvikmyndum og sjónvarpi, lék hún Catherine Duke í "NewsRadio" og var aukaleikari í "ER". Hún er þekkt fyrir hlutverk sitt sem eiturlyfjandinn Fran í "The Corner". Hefur hún verið gestaleikari í "Law & Order: Special Victims Unit", "NYPD Blue", "Better Off Ted" og "La Femme Nikita". Lék réttarlæknirinn Alexx Woods í '. Khandi lék í kvikmyndinni "CB4" með Chris Rock og Charlie Murphy. Aðrar kvikmyndist sem hún hefur leikið í: "Dark Blue", "Sugar Hill", "Menace II Society", "House Party 3", "There's Something About Mary", "Rain", "Poetic Justice" og í Tinu Turner kvikmyndinni "What's Love Got to Do with It", sem Darlene. Yfirgaf hún "CSI: Miami" stuttu áður en 2007-2008 tímabilinu lauk. Þann 2. febrúar, 2009 kom hún aftur sem Alexx Woods í gestahlutverki í þættinum "Smoke Gets in Your CSI's". Hefur síðan 2010 leikið í þættinum "Treme" sem fjallar um áhrifin sem Katrina hafði á New Orleans. Tenglar. Alexander, Khandi Vébjörn Végeirsson Sygnakappi. Vébjörn Végeirsson Sygnakappi var landnámsmaður við Ísafjarðardjúp. Í Landnámabók segir að hann hafi verið vígamaður mikill og sé saga mikil frá honum en hafi sú saga verið skráð er hún ekki varðveitt. Vébjörn var úr Sogni í Noregi. Faðir hans hét Geir og „var kallaður Végeir, því að hann var blótmaður mikill“. Hann átti mörg börn og var Vébjörn elsti sonurinn en hinir hétu Vésteinn, Véþormur, Vémundur, Végestur, Véleifur og Véþorn, en Védís dóttir. Eftir andlát Végeirs gerðist það að íslenskur maður, Þorsteinn ógæfa, vó hirðmann Hákonar Grjótgarðssonar jarls og leitaði á náðir Vébjarnar. Hann treysti sér ekki til að halda manninn fyrir jarli og varð úr að systkinin fóru öll til Íslands. Hefur það líklega verið fremur seint á landnámsöld. Þau lentu í löngum hrakningum á leiðinni, brutu skip sitt á Hornströndum í illviðri og komust naumlega í land. Atli, þræll Geirmundar heljarskinns, tók við þeim og bauð þeim vetursetu á búi því sem hann annaðist fyrir Geirmund í Fljóti. Geirmundur var fyrst ósáttur við að Atli hafði gert þetta í óleyfi en þegar þrællinn kvaðst hafa gert þetta til að sýna hve mikið göfugmenni Geirmundur væri gaf hann Atla frelsi og bú það, er hann hafði séð um í Fljóti og hét bærinn síðan Atlastaðir. Um vorið nam Vébjörn land „milli Skötufjarðar og Hestfjarðar, svo vítt sem hann gengi um á dag og því meir, sem hann kallaði Folafót“. Vébjörn gifti Védísi systur sína Grímólfi í Unaðsdal, syni Ólafs jafnakolls, en samkvæmt Landnámu urðu þeir ósáttir og Vébjörn drap mág sinn hjá Grímólfsvötnum. Fyrir það var hann veginn á fjórðungsþingi á Þórsnesi (Hauksbók segir Þingeyrarþingi) og þrír menn aðrir. Vésteinn Végeirsson. Vésteinn Végeirsson var landnámsmaður í Dýrafirði; í Landnámabók segir að hann hafi numið land milli Hálsa og búið í Haukadal. Vésteinn var bróðir Vébjarnar Sygnakappa og kom með honum og systkinum þeirra til landsins seint á landnámsöld. Kona hans var Þórhildur (einnig kölluð Gunnhildur og Hildur) dóttir Bjartmars, sonar Ánar rauðfelds. Börn þeirra voru þau Vésteinn og Auður. Vésteinn Vésteinsson bjó síðar í Önundarfirði og var „fardrengur góður“. Þegar Þorbjörn súr kom til landsins var það alnumið. Landnáma segir að Vésteinn hafi gefið honum hálfan Haukadal en Gísla saga Súrssonar að hann hafi keypt land og búið á Sæbóli. Sonur hans, Gísli Súrsson, kvæntist Auði Vésteinsdóttur og bjuggu þau á Sæbóli ásamt Þorkatli bróður Gísla og Ásgerði konu hans. Ásgerður hafði lagt hug á Véstein Vésteinsson og leiddi það til þess að hann var veginn á laun. Var það upphaf þeirra atburða sem leiddu til þess að Gísli Súrsson varð sekur skóggangsmaður. Kim Delaney. Kim Delaney (fædd 29. nóvember 1961) er bandarísk leikkona og er þekktust fyrir hlutverk sitt sem rannsóknarfulltrúinn Diane Russell í "N.Y.P.D. Blue". Einkalíf. Delaney er írsk-amerísk og fæddist í Philadelphiu í Pennsylvaníu. Ólst hún upp í Roxborough, Philadelphia og á fjóra bræður. Á meðan hún stundaði nám við "J. W. Hallahan Catholic Girls High School" og vann sem fyrirsæta hjá Elite Model Management fyrirtækinu. Eftir að hún útskrifaðist flutti hún til New York og vann þar sem fyrirsæta, á sama tíma þá stundaði hún leiklist með William Esper. Delaney hefur verið gift tvisvar sinnum, fyrst leikaranum Charles Grant frá 1984 til 1988 og svo leikaranum Joseph Cortese frá 1989 til 1994. Eignaðist hún soninn John „Jack“ Philip Cortese árið 1990. Árið 2002 var Delaney handtekin vegna gruns um ölvunarakstur, þegar hún neitaði að taka blásturpróf. Hún játaði brotið og fékk tveggja ára skilorðsbundinn dóm og var skipað að taka ökutíma. Ferill. Delaney varð fyrst þekkt fyrir að leika Jenny Gardner Nelson í sápuóperunni "All My Children", hlutverk sem hún lék frá ágúst 1981 til ágúst 1984. Fyrir frammistöðu sína var hún tilnefnd til Daytime Emmy-verðlaunanna. Eftir að hún hætti í þættinum byrjaði hún að koma fram í kvikmyndum á borð við "That Was Then, This is Now" með Emilio Estevez, síðan lék hún nunnu í spennumyndinni "The Delta Force", á móti Chuck Norris. Árið 1987 var Delaney ráðin til þess að leika Amanda Jones í "Some Kind of Wonderful" kvikmyndinni á móti Peter Gallagher en áður en nýr leikstjóri Howard Deutch endurréði í Lea Thompson og Craig Sheffer í hlutverkin. Árið 1994 kom Delaney fram í myndinni "The Force". Árið 1995 var Delaney ráðin til þess að leika Det. Diane Russell í "NYPD Blue". Hlutverkið, sem átti upprunalega að vera stutt, varð reglulegt þegar sambandið á milli Det. Bobby Simone (Jimmy Smits) og persónu hennar varð mjög vinsælt á meðal áhorfenda. Hlutverk hennar, gaf henni fyrstu Emmy-verðlaunin, sem besta leikkona í drama þætti, og var tilnefnd tvisvar sinnum í viðbót. Þegar Smiths yfirgaf "NYPD Blue" ákvað framleiðandinn Steven Bochco að setja Delaney í aðalhlutverkið í nýjum þætti "Philly", þrátt fyrir góðar vinsældir þá var þátturinn aðeins sýndur í eitt tímabil. Eftir að hætt var við þáttinn ákvað CBS að velja Delaney til þess að taka við aðalkvennhlutverkinu í ' en hún var skrifuð út eftir aðeins tíu þætti; "Entertainment Weekly" taldi það vera vegna lítils neista á milli Delaney og David Caruso. Delaney lék í 2004 míni-seríunni "10.5" og í framhaldsseríunni frá 2006 "10.5: Apocalypse". Næsta ár lék hún í "The O.C.". Árið 2006 lék Delaney á móti Steven Weber í þættinum "Nightmares and Dreamscapes: From the Stories of Stephen King" sem kallaðist „You Know They Got a Hell of a Band“. Delaney sást næst tvisvar sinnum í "Law & Order: Special Victims Unit" í byrjun 2007. Í dag leikur Delaney, Claudia Joy Holden í Lifetime TV sjónvarpsþættinum Army Wives. Tenglar. Delaney,Kim Ásgrímur Öndóttsson. Ásgrimur Öndóttsson var ásamt Ásmundi bróður sínum landnámsmaður í Kræklingahlíð í Eyjafirði. Faðir þeirra bræðra var Öndóttur kráka Erlingsson, sem bjó í Hvinisfirði á Ögðum í Noregi, en móðir þeirra hét Signý Sighvatsdóttir. Helga systir Öndótts var seinni kona Björns, föður Eyvindar föður Helga magra og hét sonur þeirra Þrándur. Björn dvaldi hjá Öndótti á vetrum en var í víking á sumrum. Hann andaðist á Ögðum og voru synir hans þá á Bretlandseyjum. Hersir sem Grímur hét reyndi að sölsa undir sig arfinn eftir Björn í nafni konungs, en Öndóttur hélt honum fyrir Þránd systurson sinn. Þrándur frétti lát föður síns til Suðureyja og eftir því sem segir í Landnámu brá hann hart við og sigldi svo hratt til Noregs að eftir það var hann kallaður Þrándur mjögsiglandi. Gat hann náð arfinum og fór síðan til Íslands. Grímur hersir vó þá Öndótt af því að hann hafði haldið arfinum fyrir honum en sömu nótt bar Signý ekkja hans allt lausafé sitt á skip og fór með syni þeirra til föður síns og sendi þá síðan til fóstra síns. Þeir vildu þó ekki vera þar og héldu í heimabyggð sína og leyndust þar um veturinn. Sumarið eftir fóru þeir að Grími hersi, brenndu hann inni og þvinguðu Auðun jarl Haraldar konungs, sem þar var gestkomandi, til að greiða sér bætur fyrir Öndótt. Síðan fóru þeir bræður í Súrnadal og flæktust þar inn í deilumál. Ásgrímur særðist illa og var talinn dauður en komst til skógar og greru sár hans þar. En sama sumar fór Ásmundur til Íslands og vissi ekki að bróðir hans var á lífi. Hann kom í Eyjafjörð til Helga magra frænda síns, sem gaf honum Kræklingahlíð og bjó hann á Glerá hinni syðri. Ásgrímur kom seinna til Íslands og eignaðist Kræklingahlíð með bróður sinum og bjó á Glerá hinni nyrðri. Kona hans var Geirhildur Eiríksdóttir og sonur þeirra Elliða-Grímur, faðir Ásgríms Elliða-Grímssonar. Frumefni í flokki 12. Frumefni í flokki 12 í lotukerfinu innihalda þrjá vel þekkta hliðarmálma; sink, kadmín og kvikasilfur og eitt tilbúið óstöðugt geislavirkt efni; kópernikín (áður "ununbín"). Allir málmarnir þrír hafa lágt bræðslu- og suðumark og hlutfallslega veik málmtengi. Ásmundur Öndóttsson. Ásmundur Öndóttsson var ásamt Ásgrími bróður sínum landnámsmaður í Kræklingahlíð í Eyjafirði. Faðir þeirra bræðra var Öndóttur kráka Erlingsson, sem bjó í Hvinisfirði á Ögðum í Noregi, en móðir þeirra hét Signý Sighvatsdóttir. Grímur hersir vó þá Öndótt vegna deilna um arf eftir Björn, afa Helga magra, en sömu nótt bar Signý ekkja hans allt lausafé sitt á skip og fór með syni þeirra til föður síns og sendi þá síðan til fóstra síns. Þeir vildu þó ekki vera þar og héldu í heimabyggð sína og leyndust þar um veturinn. Sumarið eftir fóru þeir að Grími hersi, brenndu hann inni og þvinguðu Auðun jarl Haraldar konungs, sem þar var gestkomandi, til að greiða sér bætur fyrir Öndótt. Síðan fóru þeir bræður í Súrnadal og flæktust þar inn í deilumál. Ásgrímur særðist illa og var talinn dauður en komst til skógar og greru sár hans þar. En sama sumar fór Ásmundur til Íslands og vissi ekki að bróðir hans var á lífi. Hann kom í Eyjafjörð til Helga magra frænda síns, sem gaf honum Kræklingahlíð, og er sagt að hlíðin hafi fengið nafn af auknefni Öndótts föður bræðranna og hafa þeir þá verið kallaðir Kræklingar. Ásmundur bjó á Glerá hinni syðri og var kona hans Þorgerður, dóttir Böðólfs Grímssonar landnámsmanns á Tjörnesi og konu hans Þorbjargar hólmasólar, dóttur Helga magra. Ásgrímur kom seinna til Íslands og eignaðist Kræklingahlíð með bróður sinum og bjó á Glerá hinni nyrðri. Einnig gáfu þeir bræður síðar Eyvindi hana frænda sínum hluta af landnámi sínu. Christian Clemenson. Christian Clemenson (fæddur 17. mars 1959) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Boston Legal og. Einkalíf. Clemenson eyddi barnæsku sinni í Humboldt í Iowa. Á unglingsárum sínum þá bar hann út Des Moines Register, sem hefur langa hefð fyrir því að verðlauna skólastyrk til bestu skólana á austurströndinni og velja nokkra stráka sem „blaðadrengi“. Clemenson, vann Register skólastyrk til þess að stunda nám við Phillips Academy í Andover, Massachusetts. Árið 1973, á meðan Chris var við nám við Phillips Academy, þá lést faðir hans aðeins 58 ára gamall. Eftir að hafa útskrifast frá Phillips, þá fór hann til Harvard College. Strax frá fyrsta ári þá fékk hann góðar viðtökur á þeim hlutverkum sem hann sýndi í leikhúsi skólans, stundum fékk hann meiri viðurkenningu en sýningin sjálf. Þegar Clemenson lék í Harvard Lampoon-grínsýningu, þá sagði gagnrýnandi sýningarinnar að Clemenson væri „hugely talented actor who can trigger hysteria with any of a dozen subtle expressions or inflections“. Aðrir gangrýnendur lýstu hlutverki hans í Shakespeare-leikriti sem „a tour de force of sheer talent and intelligence“ (in "The Winter's Tale") og sem "a very fine and subtle performance" í "Measure for Measure" leikritinu. Mörg sumur á eftir þá hefur Clemenson snúið aftur til Humboldt til þess að leika eða leikstýra leikritum í Humboldt's Castle Theatre. Eftir að hafa útskrifast frá Harvard College og Leiklistarskóla Yale flutti hann til Los Angeles. Ferill. Mörg af fyrstu hlutverkum Clemenson í sjónvarpi og kvikmyndum sýndu vel persónuleika hans, sem björtum, mjúkmál atvinnumanni. Lék hann lögfræðinema í "The Paper Chase" sjónvarpsmþættinum, ensku kennara Alex Keatons í "Family Ties", réttarþjón í kvikmynd Ivan Reitman "Legal Eagles", flugskurðlækni í "Apollo 13", lögreglumann í "The Big Lebowski" og Dr. Dale Lawrence í "And the Band Played On". Þó að hann hefur verið kunnulegt andlit í meira en áratug, þá er það ekki fyrr en nýlega sem nafn hans er eins þekkt. Nýlega, þá varð Clemenson þekktur fyrir hlutverk sitt sem Jerry Espenson í "Boston Legal". Fyrir hlutverk sitt þá fékk hann Emmy verðlaun sem bestu gestaleikari í drama þætti árið 2006 og var tilnefndir fyrir sömu verðlaun árið 2007. Lék hann í þættinum þangað til hann hætti árið 2008. Clemenson lék Dr. Tom Loman, hinn nýja réttarlækni í frá 2009-2012. Tenglar. Clemenson,Christian Goðorð. Goðorð var frumstæð stjórnsýslueining innan íslenska þjóðveldisins. Segja má að þau hafi verið bandalag smábænda við goða sinn sem var fulltrúi þeirra og gætti hagsmuna þeirra þar sem dómar voru kveðnir upp, fyrst á héraðsþingum og síðar á Alþingi. Goðorðin voru framan af mannaforráð en ekki landfræðileg eining og þau áttu sér ekki eiginleg landfræðileg mörk þótt þau tengdust ákveðnum svæðum. Bændum var skylt að fylgja einhverjum goða en þeir voru frjálsir að því að velja sér goða, að minnsta kosti að nafninu til, en ekki virðist hafa verið algengt að menn skiptu um goða þó slíkt hafi mátt. Fylgismenn goðans voru kallaðir þingmenn hans. Goðar áttu líka rétt á að segja menn úr þingi við sig og ráku þá stundum burt úr héraði. Goðinn gat krafist þess að níundi hver bóndi í goðorðinu fylgdi sér til þings. Hann átti að vernda þingmenn sína og reyna að rétta hlut þeirra ef á þeim var brotið en í staðinn áttu þingmennirnir að styðja goðann þegar hann þurfti á að halda. Goðarnir eða goðorðsmennirnir voru helstu höfðingjar landsins og höfðu í heiðni líklega það hlutverk að stýra blótum en urðu síðar eingöngu veraldlegir höfðingjar. Goðorðin voru persónuleg eign hvers goða, þau gengu í arf og voru stundum gefin eða seld. Þeim mátti líka skipta og sumir áttu aðeins hlut úr goðorði. Með tímanum, einkum er kom fram á 13. öld, söfnuðust goðorðin á hendur fárra manna, sem urðu héraðs- eða landshlutahöfðingjar. Við stofnun Alþingis árið 930 voru þrjú þing í hverjum landsfjórðungi og í hverri þinghá (umdæmi) voru þrjú goðorð, svo að goðorðin voru 36 alls, en fljótlega var bætt við þremur goðorðum í stærsta og fjölmemnnasta fjórðungnum, Norðlendingafjórðungi, svo að þau voru alls 39. Smátt og smátt urðu goðorðin þó í raun landfræðilegar einingar, goðar fóru að heimta skatt af þingmönnum sínum og goðorðin urðu að ýmsu leyti eins og lén í öðrum löndum. Þau lögðust af þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd og má segja að sýslumenn séu arftakar goðanna. Rósa Guðmundsdóttir. Rósa Guðmundsdóttir, Vatnsenda-Rósa eða Skáld-Rósa (23. desember 1795 – 28. september 1855) var íslensk skáldkona og ljósmóðir á 19. öld. Ýmsar lausavísur hennar urðu fljótt þjóðkunnar og eru enn alþekktar. Rósa er þó ekki síður þekkt fyrir ástamál sín og viðburðaríkt líf sitt. Uppruni. Rósa fæddist á Ásgerðarstöðum í Hörgárdal, dóttir Guðmundar Rögnvaldssonar bónda þar, og fluttist sjö ára gömul með fjölskyldu sinni að Fornhaga í sömu sveit. Henni er lýst þannig á unglingsárum að hún hafi verið mjög lagleg, vel gefin, skáldmælt, glaðlynd og hvers manns hugljúfi. Góður bókakostur var til á heimili Rósu og hún virðist hafa fengið gott uppeldi. Móðir hennar dó þegar hún var tólf ára og er sagt að ekki löngu síðar hafi Rósa farið sem vinnukona á amtmannssetrið á Möðruvöllum. Ástir Rósu og Páls Melsteð. Páll Melsteð, síðar amtmaður, var þá skrifari Stefáns Þórarinssonar amtmanns, rétt rúmlega tvítugur að aldri. Miklar sögur hafa gengið um ástarsamband hans og Rósu en heimildum ber illa saman. Hafi það átt sér stað á Möðruvöllum hefur Rósa verið mjög ung, 15-17 ára, því Páll fór til Kaupmannahafnar til náms 1813. Hann hafði átt barn með Önnu Sigríði, dóttur amtmannsins, í nóvember árið áður og var gifting þeirra fyrirhuguð. Páll kom heim aftur sumarið 1815, varð sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bjó á Ketilsstöðum á Völlum. Hann kvæntist Önnu Sigríði 2. nóvember sama ár en sagt er að hann hafi ekki flutt hana austur fyrr en sumarið eftir, hugsanlega vegna þess að hún átti þá aftur von á barni, en á meðan hafi Rósa verið ráðskona hjá honum. Þjóðsagan segir að hún hafi ekkert vitað fyrr en hún færði Páli kaffi í rúmið einn morguninn og sá þá Önnu Sigríði við hlið hans. Hvað sem til er í þessu giftist Rósa skömmu síðar manni sem var í vist á Ketilsstöðum, Ólafi Ásmundasyni, og var Páll svaramaður hennar. Ólafur virðist hafa verið andstæða Rósu að flestu leyti og er margt sem bendir til þess að hún hafi óviljug gifst honum þótt óvíst sé hvað fékk hana til þess. Þau voru í vinnumennsku hjá Páli og Önnu Sigríði í eitt ár en fluttu síðan vestur í Húnavatnssýslu. Þar eignuðust þau dótturina Pálínu 1818, sem sögð er hafa heitið eftir Páli Melsteð, og síðan dæturnar Guðrúnu og Sigríði. Rósa og Natan Ketilsson. Rósa og Ólafur bjuggu um skeið á Lækjarmóti í Víðidal og þar réðist til þeirra maður að nafni Natan Ketilsson, mikill kvennamaður og hafði á sér misjafnt orð, hafði siglt til að læra lækningar þótt lítið yrði úr og stundaði þær nokkuð. Fljótlega eftir að hann kom á heimilið tókust ástir með honum og Rósu. Hún eignaðist sonininn Rósant Berthold, sem var skrifaður Ólafsson en flestir þóttust vita að Natan ætti hann. Árið 1824 fluttu þau hjónin að Vatnsenda í Vesturhópi, sem Rósa var kennd við þaðan í frá, og fór Natan með þeim. Þar fæddist Þóranna Rósa, sem einnig var skráð Ólafsdóttir, en þegar Rósa eignaðist dótturina Súsönnu 1826 var hún skrifuð Natansdóttir og ekkert reynt að fela faðernið. Í réttarhaldi yfir Rósu 1827 játaði hún hjúskaparbrot en Ólafur sagðist hafa fyrirgefið konu sinni. Þau bjuggu saman að nafninu til í nokkur ár í viðbót en fengu lögskilnað 1837. Natan hafði flutt að Illugastöðum á Vatnsnesi 1826. Hann fékk kornunga stúlku, Sigríði Guðmundsdóttur fyrir bústýru og skömmu seinna kom Agnes Magnúsdóttir frá Geitaskarði á heimilið. Um það leyti sendi hann Rósu bréf og sleit sambandi þeirra. Hún tók það mjög nærri sér og svaraði honum með ljóðabréfi þar sem hún lýsir ást sinni þrátt fyrir alla sviksemi hans. Skömmu síðar myrtu Agnes og unglingurinn Friðrik Sigurðsson frá Katadal Natan og annan mann og var dauði Natans mikið áfall fyrir Rósu. Næstu árin var hún á ýmsum stöðum og fékkst aðallega við ljósmóðurstörf en þótt hún væri ómenntuð þótti hún mjög góð ljósmóðir og var eftirsótt víða. Hún var í nokkur ár í slagtogi við mann sem kallaður var Lækjamóts-Jón og var drykkfelldur slarkari. Þau voru meðal annars í vist hjá Ólafi manni Rósu, sem hún var enn löglega gift. Upp úr þessu sambandi slitnaði þó. Seinna hjónaband Rósu. Vorið 1835 hélt Rósa suður til Reykjavíkur að nema ljósmóðurfræði hjá landlækni, líklega í um 6 vikur, gekkst undir próf 29. júní og vann ljósmóðureið sinn 21. júní sumarið eftir, fertug að aldri. Þrátt fyrir baslið og áföllin má ætla að eitthvað hafi verið eftir af fegurð og persónutöfrum hennar því að hun var þá farin að búa í Gottorp með Gísla Gíslasyni, sem var nærri 20 árum yngri en hún, prestssonur frá Vesturhópshólum og dóttursonur Vigfúsar Þórarinssonar amtmanns. Hann var gáfaður efnismaður og hefur vafalaust átt að ganga menntaveginn en kaus fremur sambúð með Rósu. Árið 1838 fluttu þau vestur í Ólafsvík og þar giftust þau í nóvember 1840. Rósa stundaði ljósmóðurstörf áfram en Gísli var í kaupavinnu á sumrin en á sjó á vetrum. Sigurður Breiðfjörð skáld var nágranni þeirra og er sagt að þeir Gísli hafi drukkið mikið saman. Sambúð hans og Rósu var ekki alltaf góð, einkum vegna drykkju Gísla. Þau fluttu svo suður í Hafnarfjörð og bjuggu þar í þurrabúðinni Óseyri. Voru þá dætur Rósu, Sigríður og Pálína, báðar skildar við eiginmenn sína og komnar til þeirra. Sumarið 1855 réðu þau Rósa og Gísli sig bæði í kaupavinnu í Húnavatnssýslu. Rósa hélt fótgangandi af stað heim á leið um haustið en veiktist á Efra-Núpi í Miðfirði, lést um nóttina og er grafin í kirkjugarðinum þar. Rósa var umtöluð í lifanda lífi og er það enn. Fjölmargar greinar, sagnfræðirit, skáldsögur og leikrit hafa verið skrifuð um ævi hennar, skáldskap og ástir. Kveðskapur. Eftir Rósu liggja fyrst og fremst lausavísur og hafa margar þeirra orðið alkunnar. Ekkert er þó til í eiginhandarriti Rósu og ekkert birtist eftir hana á prenti á meðan hún lifði. Flestar þekktustu vísur hennar eru samsafn sem gengur jafnan undir nafninu "Vísur Vatnsenda-Rósu" og eru þær oftast sungnar við íslenskt þjóðlag sem Jón Ásgeirsson útsetti. Vafi leikur þó á um hvort Rósa orti allt sem henni hefur verið eignað og gildir það ekki síst um eina þekktustu vísu hennar, „Þó að kali heitan hver“, sem sögð hefur verið ort til Páls Melsteð en kemur fyrir í ljóðabréfi sem Sigurður Bjarnason í Katadal orti til konu sinnar þegar hún afplánaði refsivist í Spunahúsinu í Kaupmannahöfn. Þau voru foreldrar Friðriks, morðingja Natans Ketilssonar. Óvéfengt er hins vegar að Rósa orti vísuna "„Augað mitt og augað þitt“" (oftast ranglega sungið "Augun mín og augun þín") en engin vissa er fyrir því að hún hafi ort hana til Páls. Samúræi. Samúræi (侍 eða stundum 士) er almenna nafnið á stríðsmönnum fyrir tíð iðnvæðingarinnar í Japan. Hugtakið "bushi" (武士) (bókstaflega „stríðsmaður“) þykir oft eiga betur við og er nafnið sem notað var á Jedótímabilinu. Nafnið samúræi nú á dögum á vanalega við aðalsstétt stríðsmanna sem bjó yfir sérstakri ættgöfgi í Japan til forna. Samúræi sem tilheyrði engri sérstakri ætt eða daimyō var kallaður "rōnin". Rōnin var einnig notað yfir þá samúræja sem tapað höfðu heðiri sínum (líkt og að verða fyrir þeirri smán að tapa í orrustu eða bardaga) og svikist undan þeirri skyldu sinni að framkvæma "seppuku" eða heiðurssjálfsmorð sem felst í að rista upp á sér kviðinn en seppuku frömdu þeir til þess að endurheimta ættgöfgi sína eða heiður fjölskyldunar sem þeir tilheyrðu. Samúræjar á Hantímabilinu voru kallaðir hanshi. Það var ætlast til þess að samúræjar væru sérstaklega siðmenntaðir og víðlesnir upp að vissu marki. Með tímanum misstu samúræjar hernaðarhlutverk sitt. Seinna undir lok tímabilsins voru þeir orðnir lítið annað en aðalsmenn í þjónustu daimyōins og sverð þeirra einungis upp á punt. Þegar Meiji-endurreisnin átti sér stað á 19. öldinni var samúræjastéttin að lokum upprætt og ríkisher að vestrænum hætti komið á laggirnar. Samúræjarnir lifðu undir ströngu siðaregluverki sem kallast bushido og lifir enn í dag. Samúræjar þóttu lifa afar sérstökum lífstíl og í Japan nútímans lifa enn margir þættir sem tilheyrðu lífstíl samúræjanna. Samúræinn og sverð hans katana eru ein vinsælustu menningartákn Japans í hinum vestræna heimi. Þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa átta sinnum farið fram á Íslandi. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kveður á um við hvaða aðstæður þjóðaratkvæðagreiðslur skulu haldnar. Í 11 gr. segir að hún skuli haldin ef Alþingi leysir forseta frá störfum, í 26. gr. segir að hún skuli haldin ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar og í 79. gr. segir að hún skuli haldin ef Alþingi samþykkir breytingar á kirkjuskipan ríkisins. Af þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi hafa tvær verið vegna synjunar forseta á að undirskrifa lög og engar verið haldnar vegna breytinga á kirkjuskipan ríkisins eða vegna þess að alþingi hafi leyst forseta frá störfum. Flestar hafa verið af öðrum ástæðum. Engin ákvæði eru um nánari útfærslur á þjóðaratkvæðagreiðslum, s.s. lágmarksþáttöku eða hversu stóran meirihluta þurfi til að niðurstaðan sé gild. Við 2010 (Icesave) árið 2010 voru sett sérstök lög um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Þjóðarkvæðagreiðslur hafa farið fram á Íslandi um átta mál (en í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944 var kosið um tvö mál í einu). Frá stofnun lýðveldisins 1944 hafa þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur farið fram. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944 var í einu lagi kosið um annarsvegar afnám sambandslaganna og hinsvegar um stjórnarskrána. Forsetinn og þjóðaratkvæðagreiðsla. Þrisvar hefur reynt á gildi 26. greinarinnar. Í fyrsta skiptið árið 2004 þegar forseti synjaði lögum um svokallað fjölmiðlafrumvarp staðfestingar. Í því tilfelli kom ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ríkisstjórnin lagði fram nýtt lagafrumvarp um að nema lögin sem synjað var undirskriftar úr gildi. Annað skiptið var þegar forseti synjaði lögum um skuldbindingar Íslands vegna Icesave staðfestingar árið 2010. Í því tilviki fór atkvæðagreiðslan fram þann 6. mars 2010. Það var í fyrsta skipti sem þjóðin fellir lög sem hafa verið samþykkt af Alþingi. Rúm 98% þeirra sem tóku afstöðu sögðu nei. Þriðja skiptið var 2011 og snérist einnig um Icesave. Þá var nýjum lögum um Icesave hafnað. Meiji-endurreisnin. Meiji-endurreisnin var endurreisn keisarastjórnar í Japan árið 1868. Endurreisnin gat af sér miklar breytingar í japönskum stjórnmálum og samfélagsgerð. Hún hófst seint á Jedótímabilinu (einnig þekktu sem síð-Tokugawa-tímabilinu) og stóð fram yfir upphaf Meiji-tímabilsins. Arnarhvoll. Arnarhvoll eða Arnarhváll er bygging í miðborg Reykjavíkur þar sem fjármálaráðuneyti Íslands er til húsa. Hinu megin við götuna er Seðlabanki Íslands við Arnarhól og skammt frá er Þjóðleikhúsið. Útidyrahurðin við Arnarhvol er útskorin af Ríkarði Jónssyni. Á millistríðsárunum var um það rætt að Stjórnarráðshúsið væri of lítið og þörf væri á frekara skrifstofuhúsnæði. Margar af skrifstofum á vegum ríkisins voru í leiguhúsnæði og því var ákveðið að byggja stóra skrifstofubyggingu á árunum 1929-30. Á fyrstu árunum áttu ýmsar stofnanir aðsetur á Arnarhvoli, til dæmis Búnaðarbankinn, Skipaútgerð ríkisins og lögreglan í Reykjavík. Nokkuð sniðug nýjung þótti felast í húsinu þar eð það hafði „eldtrygg hólf til geymslu fyrir sköl og bækur”. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þrengdist á ný um ríkisstarfsmenn sem fjölgaði óðum og sá Alþingi því ástæðu til þess að veita fé til viðbyggingar við Arnarhvol svo að Hæstiréttur Íslands fengi húsnæði við hæfi. Bygging hófst seint á árinu 1945 og var lokið vorið 1948. Chuck versus the Intersect (Pilot). Chuck versus the Intersect (ísl. Chuck gegn Intersect-tölvunni) er fyrsti þátturinn í bandarísku hasar-grín þáttaröðinni "Chuck". Þátturinn var saminn af Josh Schwartz og Chris Fedak og McG leikstýrði honum. Söguþráður. Þátturinn byrjar með því að Charles „Chuck“ Bartowski (Zachary Levi) reynir flýja frá afmælisveislunni sinni með besta vini sínum Morgan Grimes (Joshua Gomez). Systir hans og læknir Eleanor „Ellie“ Bartowski (Sarah Lancaster) kemur að þeim og rekur Morgan heim og vonast til þess að Chuck byrji með einhverjum vinkonum sínum en Chuck klúðrar því með því að tala of mikið um gömlu kærustuna sína frá Stanford-háskólanum, Jill Roberts, sem yfirgaf hann fyrir herbergisfélaga hans Bryce Larkin (Matthew Bomer). Bryce kenndi Chuck um að hafa svindlað á prófi sem varð til þess að Chuck var rekinn úr Stanford. Við komumst svo að því að Bryce er njósnari fyrir CIA og hefur brotist inn í gagnagrunnshvelfingu NSA og ræsir Intersect-tölvuna sem inniheldur öll gögn og leyndarmál bandarísku leyniþjónustanna í gegnum dulkóðaðar myndir. Bryce halar niður upplýsingunum og eyðleggur Intersect-tölvuna. Bryce tekst næstum því að sleppa en er skotinn af NSA-fulltrúanum John Casey majór (Adam Baldwin). Áður en Bryce deyr sendir hann gögnin til Chuck í tölvupósti. Chuck opnar póstinn og horfir á allar myndirnar frá miðnættis til morguns og rotast svo. NSA ræður Casey til að finna Chuck og komast að því hvernig hann þekkir Bryce (hvort hann sé hryðjuverkamaður). Þegar Chuck vaknar er hann með ótrúlegan höfuðverk en fer samt í vinnuna sína í Nerd Herd-viðgerðadeild Buy More-raftækjabúðarinnar ásamt Morgan, sem er sölumaður þar, og hinu Nerd Herd-genginu Anna Wu (Julia Ling), Lester Patel (Vik Sahay) og Jeffrey „Jeff“ Barnes (Scott Krinsky). Þegar Chuck heyrir um NATO-herforingja í fréttunum veit Chuck allt í einu alla fararskrá hans í Burbank. Seinna kynnist Chuck Sarah Walker (Yvonne Strahovski) sem fær Chuck til að gera við símann sinn og látur hann fá símanúmerið sitt. Þegar Chuck kemur heim til sín (ásamt Morgan) kemur hann að innbrotsþjófi að reyna stela tölvunni sinni og reynir að stöðva hann en þjófurinn er snöggur að fella Chuck niður með kung fu-brögðum en í bardagnum eyðileggst tölvan og þjófurinn flýr. Þegar þjófurinn tekur af sér grímuna kemur í ljós að þetta var Sarah. Næsta morgunn fer Chuck í LargeMart-verslunina til að kaupa nýja lása. Þegar Chuck sér einn viðskiptavininn veit skyndilega að hann er serbískur sprengjusérfræðingur. Chuck verður skelkaður og hleypur í burtu frá honum. Sarah bíður fyrir utan Buy More og það kemur í ljós að hún er CIA-fulltrúi og segir yfirmanni sínum, Langston Graham (Tony Todd), að hún vilji komast að því hvort Chuck sé með aukaeintak af harðdisknum úr tölvunni. Hún fer í Buy More og spyr Chuck hvort hann sé upptekinn og þau ákveða að fara á stefnumót. Ellie og kærastinn hennar Dr. Devon „Captain Awesome“ Woodcomb (Ryan McPartlin) verða ánægð yfir stefnumótinu og hjálpa honum að undirbúa sig. Chuck fer með Söruh út að borða á mexíkönskum veitingastað og fara svo á dansklúbb. Casey og menn hans elta þau þangað og hann segir þeim að drepa Söruh og handsama Chuck. Sarah kemur auga á þá og tekst að rota þá með danshreyfingum án þess Chuck sjái til. Þegar Sarah sér Casey flýr hún með Chuck og keyrir með hann í burtu á Nerd Herd-bílnum. Casey klessir hann og þau reyna að flýja upp á þyrlupall en Casey króar þau af. Sarah segir Chuck að Bryce sé CIA-spæjari sem hefur framið landráð og segir honum að myndirnar í tölvupóstinum voru dulkóðaðar með leyndarmálum. Chuck reynir að flýja en kemur auga á hótel og veit skyndilega að serbíski sprengjusérfræðingurinn ætlar að myrða NATO-herforingjann á hótelinu. Sarah og Casey komast að því að allar upplýsingar Intersect-tölvunnar hafa hlaðist upp í heilann á Chuck og nú getur hann munað öll leyndarmálin. Chuck leiðir Söruh og Casey í gegnum hótelið og hjálpar þeim að aftengja sprengjuna. Sarah og Casey rífast um hvor eigi að handsama hann, CIA eða NSA. Sarah vill helst ekki að Chuck verð sendur til Washington vegna þess að þau vita ekki hvernig Chuck getur munað leyndarmálin (aðallega vill hún það ekki vegna þess að henni líkar við Chuck). Yfirmenn þeirra leyfa Chuck að lifa lífinu sínu áfram en má ekkert segja fjölskyldu sinni eða vinum. Sarah og Casey eiga að vernda hann og taka sér dulargervastörf til að vera nálægt honum: Sarah verður „kærasta“ Chucks og vinnur á skyndibitastaðnum Wienerlicious og Casey tekur starf sem sölumaður hjá Buy More. Hljómplötuskrá Dixie Chicks. Dixie Chicks er bandarísk kántrí-hljómsveit sem er skipuð þeim Natalie Maines, Emily Robison og Martie Maguire. Hljómplötuskrá sveitarinnar samanstendur af sjö breiðskífum, einni hljómleikaupptökuskífu og 25 smáskífum. Sveitin var stofnuð árið 1989 og var upphaflega bluegrass-sveit. Hún naut ekki mikilla vinsælda fyrr en Laura Lynch og Robin Lynn Macy, sem voru meðal stofnenda sveitarinnar, hættu. Við aðalsögnum tók þá Natalie Maines. Stuttu eftir að hún byrjaði í hljómsveitinni komust þær á samning við útgáfufyrirtækið Monument Records og gáfu út breiðskífuna "Wide Open Spaces" árið 1998. Sú plata kom þeim fram á sjónarsviðið. Hljómsveitin hlaut nokkur Grammy-verðlaun fyrir bæði "Wide Open Spaces" og næstu breiðskífu, "Fly", sem kom ári síðar. Dixie Chicks hafa síðan þá gefið út tvær breiðskífur, "Home" (2002) og "Taking the Long Way" (2006) en það var Columbia Records sem gaf þær út. Þessar síðustu fjórar breiðskífur hafa verið verðlaunaðar fyrir platínusölu eða meira af RIAA. Best seldist "Wide Open Spaces" eða í 12-faldri platínusölu með 12 milljón seld eintök í Bandaríkjunum einum. Af 25 breiðskífum Dixie Chicks hafa 6 komist í efsta sæti kántrínsmáskífulistans sem Billboard gefur út. Þetta eru: „There's Your Trouble“, „Wide Open Spaces“, „You Were Mine“, „Cowboy Take Me Away“, „Without You“ og „Travelin' Soldier“. Þá kom sveitin smáskífunni „Landslide“, eftir Fleetwood Mac, í efsta sæti Adult Contemporary-vinsældalistans. Þá hafa fleiri smáskífur komist á blað á Billboard Hot 100-vinsældalistanum. Hæst komst lagið „Not Ready to Make Nice“ sem komst í 4. sæti. Frumskógarbókin. "Frumskógarbókin" (enska: "The Jungle Book") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Rudyard Kipling. Í heimalandi sínu, Bretlandi, var hún fyrst gefin út árið 1894. Hún kom út í heild sinni í íslenskri þýðingu Böðvars Guðmundssonar árið 2010 undir heitinu: "Frumskógabókin - saga Mógla". Árið 1945 hafði komið út einhverskonar úrval úr "The Jungle Book" og "The Second Jungle Book" í þýðingu Gísla Guðmundssonar undir heitinu: "Dýrheimar - sögur úr frumskógum Indlands". Taking the Long Way. "Taking the Long Way" er sjöunda breiðskífa bandarísku kántrísveitarinnar Dixie Chicks. Upptökustjóri breiðskífunnar var Rick Rubin, sem hafði unnið með rokksveitum eins og Red Hot Chili Peppers og System of a Down en einnig sérvitringum á borð við Johnny Cash og Neil Diamond. Hún kom út 23. maí 2006 í Bandaríkjunum og 12. júní í öðrum löndum. "Taking the Long Way" komst í efsta sæti Billboard 200-vinsældalistans og seldist í meira en 2 milljón eintökum í Bandaríkjunum og hlaut því 2-falda platínuplötu frá RIAA. Platan hlaut 5 Grammy-verðlaun, þar á meðal „breiðskífa ársins“, í febrúar 2007. Lagalisti. Öll lögin eru samin af Martie Maguire, Natalie Maines, Emily Robison og Dan Wilson nema annað sé tekið fram. Veiðileysufjörður (Jökulfjörðum). Veiðileysufjörður liggur milli Hesteyrarfjarðar og Lónafjarðar í Jökulfjörðum norðan við Ísafjarðardjúp. Enginn byggð hefur verið í seinni tíð í firðinum en hvalstöð var áður fyrr við Meleyri. Fjörðurinn er átta km langur og stærstur Jökulfjarða og er hann girtur fjöllum á báðar hliðar. Sveiflutími. Sveiflutími eða lota er tími sá sem það tekur fyrir reglulega sveiflu að sveiflast einu sinni oftast táknaður með "T" eða τ. SI-mælieining er sekúnda (s). Er umhverfa tíðni sveiflunnar, þ.e. þar sem formula_2 táknar tíðni mælda í riðum (Hz), ω horntíðni og π pí. Guðmundur Baldvin Guðmundsson. Guðmundur Baldvin Guðmundsson (f. 18. desember 1962 á Akureyri) er íslenskur stjórnmálamaður. Hann var kjörinn oddviti framsóknarmanna á Akureyri í opnu prófkjöri flokksins í janúar 2010. Guðmundur er stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, hefur lokið þriggja anna rekstrar- og viðskiptanámi frá Háskólanum á Akureyri og lauk prófi í verðbréfaviðskiptum 2006. Guðmundur hefur meðal annars starfað hjá Ríkisskattstjóra, KPMG endurskoðun, Samherja og Stapa lífeyrissjóð. Guðmundur er sonur hjónanna Guðmundar Magnússonar og Sigríðar B. Jónsdóttur og býr með Soffíu Gísladóttur forstöðumanni Vinnumálastofnunnar Norðurlands eystra. Jónas Jónasson (frá Hrafnagili). Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (7. ágúst 1856 – 4. ágúst 1918) var prestur og kennari en er þekktastur fyrir bókina "Íslenskir þjóðhættir" sem hann tók saman og út komu að honum látnum árið 1934. Ekki má rugla Jónas frá Hrafnagili við Jónas frá Hriflu sem var formaður Framsóknarflokksins í áratug á 20. öld. Foreldrar Jónasar. Jónas fæddist að Úlfá í Hólasókn í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Jónas bóndi Jónsson og kona hans Guðríður Jónasdóttir Guðmundssonar frá Halldórsstöðum í Eyjafirði. Jónas faðir séra Jónasar var greindur maður, lagtækur og bókhneigður. Hann lagði fyrir sig lækningar og heppnaðist vel og voru lækningar aðalstarf hans seinni hlut ævinnar. Hann drukknaði í Djúpadalsá í Eyjafirði á heimleið úr lækningaferð, einn á ferð í kvöldmyrkri. Faðir Jónasar var fróðleiksmaður og hafði góðan bókakost eftir því sem þá var títt. Jónas hagnýtti sér hann og fór snemma mikið orð af námfýsi hans og gáfum og þótti sýnt að hann mundi betur fallinn til lærdóms en bændavinnu. Námsár. Þegar Jónas var 16 ára fluttu foreldrar hans vorið 1872 vestur að Tunguhálsi í Skagafirði. Séra Hjörleifur Einarsson var þá prestur í Goðdölum. Hann vildi fá lækni í nánd við sig, og fékk því Jónas lækni til að flytja í sveit sína. Mun það ekki síst hafa dregið Jónas lækni til að fyltja, að þannig væri auðveldara að veita Jónasi unga að læra skólalærdóm, enda reyndist það svo. Séra Hjörleifur tók Jónas og bjó hann undir inntökupróf í latínuskólann ásamt Einari syni sínum. Fékk hann þar ágætan undirbúning undir skólanámið, því að síra Hjörleifur var latínumaður hinn besti — og þá var latínan enn þung á metunum í skólanum. Einar og Jónas innrituðust í skólann vorið 1875. Settist Jónas þá í 2. bekk. Skólanámið gekk honum hið besta og las hann þó mestu kynstur auk þess sem heimtað var, og ritaði allmikið. Var hann orðinn óvenjulega fjölfróður þegar hann fór úr skóla, gat hann þó ekki unnið með fullum kröftum því að vanheilsa sú er fylgdi honum jafnan síðan sótti hann þegar í skóla. Prestur og kennari. Veturinn eftir að hann útskrifaðist var hann heimiliskennari hjá Eggert Briem, sýslumanni á Reynistað. Haustið 1881 gekk hann í prestaskólann og útskrifaðist þaðan eftir tvö ár mjög vel að sér í þeim fræðum sem þar voru kennd og með góðum vitnisburði. Sama haustið sem hann útskrifaðist var honum veitt Stóruvallaprestakall í Rangárvallasýslu og flutti þá þangað. Vorið 1884 kvæntist hann ekkju, Þórunni Stefánsdóttur. Um haustið 1884 voru honum veitt Grundarþing í Eyjafirði, og flutti hann þangað vorið eftir. Þjónaði hann því brauði í 25 ár eða frá 1885 til 1910. Prófastur var hann í Eyjafjarðar-prófastsdæmi 1897—1908. Árið 1905 varð hann tímakennari við gagnfræðaskólann á Akureyri og var kennari þar við skólann tólf ár, fjögur fyrstu árin sem tímakennari en 8 síðari árin sem fastur kennari. Vorið 1917 kvaddi hann skólann við skólauppsögn en hann treysti sér þá ekki til að halda lengur kennaraembætti fyrir vanheilsu sakir. Jafnframt kennarastarfinu þjónaði hann Grundarþingum þangað til hann fékk fasta veitingu fyrir kennaraembættinu við gagnfræðaskólann 1910. Haustið 1917 fluttu þau hjón að Útskálum til séra Friðriks sonar síns. Dvöldu þau þar frameftir vetrinum og lá séra Jónas rúmfastur mestan tímann. Síðari hluta vetrar fluttu þau hjónin til Reykjavíkur, ef vera mætti að hann gæti fengið þar lækningu. Virtist um tíma að svo mundi verða en brátt sótti aftur í sama farið og elnaði sóttina því meir sem lengur leið þar til hann andaðist á heimili mágs síns, Guðmundar Stefánssonar, þar sem þau hjónin höfðu dvalið. Zine El Abidine Ben Ali. Zine El Abidine Ben Ali (arabíska: زين العابدين بن علي,‎ umritað: Zayn al-‘Ābidīn bin ‘Alī), f. 3. september 1936, var annar forseti Túnis. Hann flýði land 14. janúar 2011 eftir byltingu gegn honum. Home (Dixie Chicks-breiðskífa). "Home" er sjötta hljóðversplata bandarísku hljómsveitarinnar Dixie Chicks. Hún kom út 27. ágúst 2002. Á henni er að finna meiri skírskotun í bluegrass heldur en á tveimur undangengnum plötum sveitarinnar, "Fly" og "Wide Open Spaces". Lagalisti. Gefin var út sérútgafa af plötunni í Bandaríkjunum sem innihélt aukalag og fjögurra laga DVD-disk. Í Hollandi kom út aukaútgáfa sem hafði þrjú aukalög og DVD. Viðtökur. "Rhapsody" setti plötuna í fyrsta sæti á listanum „Country’s Best Albums of the Decade“ (bestu kántríplötur áratugarins). "CMT" kom plötunni á listann „A Dozen Favorite Country Albums of the Decade“ (12 uppáhálds kántríplötur áratugarins). Bloggið „9513 country music“ setti plötuna í 4. sæti á listanum „Top Country Albums of the Decade“ (bestu kántríplötur áratugarins)."Entertainment Weekly" komu plötunni á listann sem þeir gerðu upp í lok áratugarins og sögðu meðal annars: „Jafnvel George W. Bush-aðdáendur verða að bera virðingu fyrir ósviknu bluegrassi Dixie Chicks í lögunum „Long Time Gone“ og „Landslide“. Okay, kannski ekki. En þeir ættu samt að gera það.“ "Allmusic" sögðu „Þær hafa sent frá sér ekki bara bestu breiðskífu sínu heldur líka einhverja bestu kántríplötu sem gefin hefur verið út hingað til á þessari öld. Það þarf því ekki að nefna það að þetta er nú þegar orðið sígilt.“ Norræna eldfjallasetrið. 270pxNorræna eldfjallasetrið (NORDVULK) er norræn rannsóknarstofnun sem heyrir undir Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, er staðsett í Reykjavík en er aðallega fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni. Setrið hét áður Norræna eldfjallastöðin en við skipulagsbreytingar 2004 var nafninu breytt. Norræna eldfjallasetrið rekur uppruna sinn til ársins 1974 og gefur norrænum jarðvísindamönnum tækifæri til rannsókna á eldfjallafræði, jarðskorpuferli og öðrum fyrirbærum sem eru sérstaklega virk á Íslandssvæðinu. Fimm stöður eru veittar við setrið fyrir unga norræna vísindamenn til eins árs í senn. Norræn verkefnanefnd, skipuð einum fulltrúa fá hverju norrænu landanna, hefur ráðgefandi hlutverk með hinu norræna samstarfi setursins. Norræni sumarskólinn. 270pxNorræni sumarskólinn er norrænt tengslanet um rannsóknir og þverfaglega menntun. Skólinn er að mestu leyti fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni. Samstarfið nær aftur til upphafs sjötta áratugar 20. aldarinnar og er markmið þess að vera vettvangur fyrir fræðifólk og nemendur til að skiptast á þekkingu og þróa nýjar hugmyndir. Hápunktur í starfi sumarskólans ár hvert er málstofa sem fram fer seint í júlí og flyst hún milli einstakra staða á Norðurlöndunum frá ári til árs. Þangað mætir fræðifólk frá Norðurlöndunum og ber saman bækur sínar. Einnig eru haldin málþing á veturna og vorin. Útgáfa fræðibóka er einnig stunduð undir merkjum Norræna sumarskólans. Skrifstofa skólans er í Malmö. Friðrik 1. Danakonungur. Friðrik 1. (7. október 1471 – 10. apríl 1533) var konungur Danmerkur, Noregs og Íslands frá 1523 til dauðadags. Hann tók við konungdæmi eftir að Kristjáni 2. bróðursyni hans var velt úr sessi. Friðrik var yngri sonur Kristjáns 1. og konu hans, Dórótheu af Brandenborg. Faðir hans lést 1481 og tók þá Hans bróðir Friðriks, sem var 16 árum eldri, við konungdæminu. Hann ólst upp í hertogadænum Slésvík og Holstein, en þaðan var föðurætt hans, og stýrði hertogadæmunum frá 1490 við góðan orðstír. Hann bjó í Gottorphöll í Slésvík. Hans dó 1513 og sonur hans, Kristján 2., tók við konungdæminu. Hann varð þó fljótt óvinsæll hjá danska aðlinum og árið 1523 gerðu aðalsmenn - eða hluti þeirra - bandalag við Friðrik hertoga. Þann 8. mars það ár sagði Friðrik Kristjáni bróðursyni sínum stríð á hendur og átján dögum síðar lét hann hylla sig konung í Viborg. Kristján 2. flúði land 2. apríl og Friðrik 1. var hylltur konungur Dana og Norðmanna. Ríkisráð Norðmanna samþykkti 23. ágúst 1524 að taka Friðrik til konungs yfir Noregi (og þar með Íslandi) og sat Jón Arason þann fund eins og íslensku biskuparnir áttu rétt á ef þeir voru staddir í Noregi. Stjórnartíð Friðriks 1. var nokkuð óróasöm, enda vildu margir borgarar og bændur fá Kristján 2. aftur á konungsstól. Søren Andersen Norby, lénsmaður á Gotlandi og áður hirðstjóri á Íslandi, var einn helsti andstæðingur konungs og leiddi bændur á Skáni og Blekinge í uppreisn en beið lægri hlut. Árið 1532 tókst Friðrik að blekkja Kristján 2. til að koma til Danmerkur og hét honum friðhelgi en sveik loforðið, lét handtaka frænda sinn og hélt honum föngnum þar til hann lést 1559. Friðrik hélt sig í Gottorphöll eða hertogadæmunum svo til alla stjórnartíð sína og kom ekki til Danmerkur nema það væri óhjákvæmilegt. Noreg heimsótti hann aldrei. Honum tókst þó að hafa í fullu tré við aðalinn þótt hann hefði orðið að gefa honum ýmis loforð þegar hann tók við völdum. Til dæmis hafði hann heitið því að vernda kaþólsku kirkjuna en leyfði þó lútherstrú í raun og hafði lútherskan hirðprest. Friðrik gekk árið 1502 að eiga Önnu, dóttur kjörfurstans af Brandenborg, sem þá var 15 ára. Hún lést 1514 og varð því aldrei drottning. Þau áttu tvö börn og var annað þeirra Kristján 3. Árið 1518 giftist Friðrik Soffíu af Pommern ((1498 - 13. maí 1568) og eignuðust þau fimm börn. Hans Danakonungur. Hans Danakonungur. Líkneski frá því um 1530 í dómkirkjunni í Óðinsvéum. Hans (2. febrúar 1455 – 20. febrúar 1513) eða "Jóhannes" var konungur Danmerkur frá 1481-1513, konungur Noregs og Íslands 1483-1513 og konungur Svíþjóðar 1497-1501. Hans var eldri sonur Kristjáns 1. Danakonungs og Dórótheu af Brandenborg. Þegar hann var ársgamall var hann valinn arftaki föður sins í Danmörku og árið 1458 einnig í Noregi og Svíþjóð. Hann tók við ríki í Danmörku þegar faðir hans lést 1481 en þá ríkti nokkur óvissa um framtíð Kalmarsambandsins; Norðmenn þreifuðu fyrir sér með ríkjasamband við Svíþjóð en fengu engin svör og tóku því Hans til konungs 1483. Svíarnir voru tregari til en þó var Hans tekinn til konungs í Svíþjóð 1497, eftir að hafa unnið sigur á sænska ríkisstjóranum Sten Sture í orrustunni við Rotebro. Hans átti líka í vanda í hertogadæmunum því að móðir hans, Dóróthea ekkjudrottning, hafði mikið dálæti á yngri syni sínum, Friðrik hertoga, og vildi að hann stýrði hertogadæmunum einn. Að nafninu til réðu þeir þeim þó saman. Friðrik vildi ráðast gegn uppreisnargjörnum bændum í Þéttmerski og fékk bróður sinn með sér í leiðangur gegn þeim. Þeir höfðu 12-15.000 manna lið en vegna rigninga, ófærðar og ókunnugleika lentu þeir í ógöngum, biðu ósigur og sluppu naumlega lifandi. Sten Sture notaði tækifærið til að setja sig aftur í ríkisstjórastöðu í Svíþjóð 1501 og segja upp trúnaðareiðum sem hann hafði unnið Hans konungi. Hans fór að sækja liðsauka í Danmörku en skildi Kristínu drottningu sína eftir að verja Stokkhólmskastala með þúsund manna lið. Eftir níu mánaða umsátur, hungur og pestir gafst drottningin upp og yfirgaf kastalann með þeim 70 mönnum sem eftir lifðu. Aðeins þremur dögum seinna kom Hans siglandi með liðsaukann eftir að hafa tafist í átökum við Lýbikumenn og við að bæla niður uppreisn í Noregi. Sten Sture sveik loforð um að láta drottninguna fara óáreitta til Danmerkur og tók hana og menn hennar til fanga. Það var ekki fyrr en í október 1503 sem hún var látin laus. Sama ár dó Sten Sture en Svante Nilsson Sture tók við. Árið 1509 tókst að þvinga Svía til samninga en það entist ekki lengi. Lýbikumenn sögðu Dönum stríð á hendur árið 1510 og nokkru síðar Svíar einnig. Hans hafði komið sér upp góðum flota og tókst að vinna sigra í sjóorrustum. Svíar voru þvingaðir til að semja frið og viðurkenna Hans sem konung öðru sinni. Hans fékk þó ekki að njóta sigursins lengi því að hann dó í febrúar 1513 eftir að hestur hans féll með hann á vaði yfir Skjern-ána á leið til Álaborgar. Kona hans, gift 6. september 1478, var Kristín af Saxlandi (1461 - 1521), dóttir Ernst kjörfursta af Saxlandi. Þau eignuðust eina dóttur, Elísabetu, sem giftist Jóakim kjörfursta af Brandenborg, og nokkra syni, en sá eini sem lifði föðurinn og tók við ríkjum eftir hann var Kristján 2.. Einnig vilja sumir meina að Fransiskanamunkurinn Jakob danski, sem fór til Mexíkó eftir siðaskipti, gerðist þar trúboði og barðist fyrir réttindum indíána, hafi verið sonur Hans konungs, ef til vill óskilgetinn. Hans hafði ýmis afskipti af málefnum tengdum Íslandi, einkum verslun Englendinga, og sendi Diðrik Píníng flotaforingja sinn sem hirðstjóra til landsins og lét samþykkja Píningsdóm. Títandíoxíð. thumb Títandíoxíð er efnasambandið TiO2. Það er unnið í hvítt duft og er m.a. notað sem litar- eða þekjuefni í hvíta málningu, glerung, gúmmí, plast, pappír. Þegar það er notað sem litarefni er það kallað títaníumhvítt. TiO2 er notað í ýmsum ólíkum vörum allt frá málningu til sólarvarnar og sem litarefni í matvælum og er þá E efnið E171. Það er notað sem litarefni í mat t.d. til að lita undanrennu hvíta. Í snyrtivöruiðnaði og húðvörum er það bæði notað sem litar- og fyllingarefni. Títandíoxíð finnst í náttúrunni sem málmarnir rútíl, anatas og brookít. Framleiðsla. Tvenns konar tækni er notuð til að framleiða títandíoxíð, klóríð ferli og súlfíð ferli. Klóríð ferli fer þannig fram að títandíoxíð hráefnið er hreinsað með því að breyta því í títan tetraklóríð og er hráefnið (sem inniheldur að minnsta kosti 70% TiO2) rýrt (e. reduced) með kolefni, oxað með klór til að búa til títan tetraklóríð (TiCl4). Það títan tetraklóríð er eimað og enduroxað í hreinum súrefnisloga eða plasma við 1500–2000 K til að búa til hreint títandíoxíð. Umhverfisáhrif. Títaníumdíoxíð (TiO2) á nanóformi er talið geta valdið krabbameini hjá fólki sem umgengst efnið í tengslum við vinnu sína. TiO2 er skaðlaust í venjulegu formi en nanóagnir sem búnar eru til úr efninu og eru nú notaðar í auknum mæli í stað hins náttúrulega forms eru taldar geta valdið skaða. Óskháttur. Óskháttur er háttur sagna sem lætur í ljós "von", "ósk" eða "þrá" en hann var aðallega notaður í forngrísku. Það líkist viðtengingarhættinum. Íslenska. En stundum er sérstakur óskháttur fyrir sagnir í íslensku, þá má helst nefna óskháttinn "veri" af sögninni "að vera", en venjulegur viðtengingarháttur sagnarinnar "að vera" er "sé". Finnska. Óskhátturinn er horfinn úr notkun í finnsku og kemur aðallega fram í skáldskap. Hann er notaður eins og boðhátturinn og gefur til kynna kurteisa beiðni með viðskeytunum "-os" og "-ös" Marbach-kastalinn í Marburg. Marbach-kastalinn gnæfir yfir borgina Marburg Marbach-kastalinn er kastalavirki í þýsku borginni Marburg og myndaðist bærinn upphaflega í kringum hann. Hann var reistur í áföngum frá og með 11. öld. Í honum hófust siðaskiptin í Hessen 1526. Í honum var háskólinn stofnaður ári síðar. Og í honum fór trúfundurinn mikli fram 1529. Saga kastalans. Siðaskiptamenn rökræða trúmál í Marbach-kastalanum Ekki er nákvæmlega vitað hvenær Marbach-kastalinn var reistur, en það mun hafa verið snemma á 11. öld. Hann hefur verið stækkaður nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Kastalinn kom fyrst við skjöl 1138 og var aðsetur landgreifanna í Hessen úr hinum og þessum ættum. 1308 flutti landgreifinn til Kassel og missti Marburg þá mikið af vægi sínu. Snemma á 16. öld settist landgreifinn Filippus hinn kjarkmikli hins vegar aftur að í kastalanum. Meðan Filippus bjó þar, gerðust þrír merkir atburðir þar. 1526 snerist Filippus til lúterstrúar og skipulagði hann siðaskiptin í greifadæmi sínu í kastalanum. Aðeins ári síðar stofnaði hann háskólann í Marburg í þessum sama kastala. Fyrstu árin fór kennsla fram í kastalanum meðan verið var að reisa nýtt hús undir þá starfsemi. Það hús stendur enn í miðborg Marburg. Árið 1529 bauð Filippus helstu frömuðum siðaskiptanna til fundar í kastala sínum. Þar mættu menn á borð við Martein Lúther og Ulrich Zwingli. Á þessum fundi kom til ósættis milli Lúthers og Zwinglis og rökræddu þeir ýmis trúaratriði sem þeir voru ósammála um. Ekki tókst að jafna þann ágreining þarna og afleiðingarnar voru þær að Lúther (og eftirmaður hans, Melanchton) urðu upphafsmenn að lúterstrúnni, en Zwingli varð upphafsmaður að reformeruðu kirkju mótmælenda. 1623 hertók Tilly borgina og kastalann fyrir hönd keisarahersins í 30 ára stríðinu. Honum var skilað aftur í stríðslok 1648. Kastalinn var aftur hertekinn í 7 ára stríðinu um miðja 18. öld. Í upphafi 19. aldar, þegar hermenn Napoleons hertóku borgina, sprengdu þeir stóran hluta kastalans og notuðu afganginn sem fangelsi. Eftir að Marburg varð hluti Prússlands 1866, var kastalinn notaður sem skjalasafn allt til 1938. Eftir seinna stríð eignaðist háskólinn kastalann, sem lét endurreisa þá hluta sem ónýttir höfðu verið. 1976 var kastalinn opnaður sem safn. Mecklenborg-Vorpommern. Mecklenborg-Vorpommern (á þýsku: Mecklenburg-Vorpommern) er sjötta stærsta sambandslýðveldi Þýskalands með rúmlega 23 þúsund km². Það er hins vegar annað fámennasta sambandslýðveldið með aðeins 1,7 milljón íbúa. Aðeins Bremen er fámennara. Mecklenborg-Vorpommern er norðaustast í Þýskalandi og liggur að Eystrasalti. Að austan er Pólland. Að sunnan er sambandslýðveldið Brandenborg, að suðvestan Neðra-Saxland og að vestan Slésvík-Holtsetaland. Höfuðborgin er Schwerin, en hún er aðeins önnur stærsta borgin á eftir Rostock. Í Mecklenborg-Vorpommern eru óhemju mörg vötn. "Mecklenburgische Seenplatte" er víðáttumesta vatnasvæði Þýskalands. Eyjan Rügen, sem tilheyrir sambandslandinu, er að sama skapi stærsta eyja Þýskalands. Fáni og Skjaldarmerki. Fáninn samanstendur af fimm láréttum röndum. Hann er eiginlega skeyttur saman af fánum beggja héraðanna (Mecklenborg og Pommern). En blátt merkið hafið, gult kornakra og rautt tígulsteina. Skjaldarmerkinu er skipt í fjóra hluta. Efst til vinstri og neðst til hægri er svart naut með kórónu. Efst til hægri er rauður dreki. Neðst til vinstri er rauður örn. Furstarnir í Mecklenborg voru í upphafi með dreka sem merki, en eftir 1219 með nautshöfuð. Örninn er merki Brandenborgar en Mecklenborg-Vorpommern fékk nokkur héruð af Brandenborg eftir heimstyrjöldina síðari. Orðsifjar. Mecklenborg var upphaflega samnefnt kastalavirki í borginni Wismar. Héraðið hét Mikelenburg á 12. öld og Michelenburg á 10. öld. Heitið er dregið af gamla germanska orðinu "mikil", sem merkir "stór" (mikill á íslensku). Merkir því bókstaflega "Miklaborg". Vorpommern er bara vestasti hluti af Pommern sem nú er að mestu leyti í Póllandi en var þýskt áður. Heitið er dregið af pólska orðinu "pomorze" og merkir "Landið við sjóinn". Söguágrip. Héraðið var upphaflega slavahérað. Þýskir landnemar byrjuðu að flæða þangað á 11. öld og síðan hefur það verið stjórnað af þýskum furstum. Slavneskur minnihlutahópur (sorbar og vindar) býr enn í svæðinu í dag. Í gegnum aldirnar var svæðið hluti af þýska keisararíkinu og síðar prússneska ríkinu. Sambandslýðveldið sem slíkt var stofnað 1949. Landið var skeytt saman af Mecklenburg og vestasta hluta Pommern en Pólland fékk aðalhluta Pommern þegar landamærin voru færð vestur eftir stríð. Héraðið hét formlega bara Mecklenburg. Eftir sameiningu Þýskalands 1990 var lýðveldið endurskipulagt. Það fékk landsvæði frá Brandenborg, en missti önnur til Brandenborg. Nafninu Vorpommern var bætt við og heitir því opinberlega í dag Mecklenburg-Vorpommern á þýsku. Borgir. Kort af Mecklenborg-Vorpommern. Vötnin miklu eru fyrir sunnan. Eyjan Rügen í Eystrasalti er stærsta eyja Þýskalands. Orkar. Orkar eru verur úr Hringadróttinssögu (eftir J.R.R Tolkien) og þrælar myrkradróttins Saurons. Orkar komu fyrst fram á sjónarsvið Hringadróttinssögu þegar valurinn (valarnir voru guðverur) Morgot sveik hina valana og stofnaði sitt eigið ríki fyrir illsku sína. Morgot tók nokkra álfa og afskræmdi þá og pyndaði þar til þeir urðu spgilmynd sjálfrar illskunar. Karl Knútsson Bonde. Karl Knútsson Bonde, konungur Svíþjóðar og Noregs. Karl Knútsson af Bonde-ætt (október 1408 eða 1409 – 15. maí 1470) var ríkisstjóri Svíþjóðar 1438-1440, konungur Svíþjóðar 1448-1457, 1464-1465 og 1467-1470 (þá nefndur þar Karl 2., nú Karl 8.; konungur Noregs (og Íslands) 1449-1450 og nefndur þar Karl 1. Hann var sonur sænska riddarans Knut Tordsson Bonde. Á æskuárum sínum ferðaðist hann víða, lærði ýmis erlend tungumál og kynnti sér hernaðarlist. Hann hóf afskipti af stjórnmálum 1434, þegar Svíar gerðu uppreisn undir forystu Engelbrekts Engelbrektssonar, og varð sama ár meðlimur sænska ríkisráðsins. Hann þótti standa sig mjög vel í trúnaðarstörfum sem honum voru falin næstu árin og var kosinn ríkisstjóri í Stokkhólmi haustið 1438. Árið 1440 féllst hann þó á að samþykkja konungskjör Kristófers af Bæjaralandi, sem tekið hafði við konungdómi í Danmörku eftir að Eiríkur af Pommern var settur af, gegn því að fá mestallt Finnland að léni. Þar var hann svo frá 1441 og naut lítillar hylli Kristófers konungs. Um leið og fregnir bárust af láti Kristófers 1448 hélt Karl Knútsson til Svíþjóðar og var þar kjörinn til konungs 20. júní og krýndur skömmu síðar. Fyrsta verk hans var að freista þess að ná Gotlandi aftur úr höndum Dana en það mistókst. Hann bauð sig einnig fram sem konung Norðmanna. Með tilstyrk Ásláks Bolts erkibiskups var hann kjörinn konungur og krýndur í Þrándheimi 20. nóvember 1449. Höfðingjar í Suður-Noregi hylltu aftur á móti Kristján 1. Danakonung sem konung sinn. Eftir nokkrar vikur féllust báðir hóparnir á að skera úr um málið á þingi í Halmstad, þar sem einnig skyldi gert út um Gotlandsmálið. Þing þetta var haldið í maí 1450 en þvert á fyrirmæli Karls sömdu fulltrúar Svía þar, sem ekki voru allir hliðhollir Karli, um að reyna að fá hann til að falla frá kröfu um konungstign í Noregi. Karl var ekki ánægður en varð að láta undan og varð Kristján 1. konungur alls Noregs. Framhaldsfundur fór út um þúfur og í september 1451 kom til stríðsátaka milli Dana og Svía. Vopnahlé var þó samið 1453 og stóð til 1455. Herjum Karls gekk vel í fyrstu en seinna hallaði á Svía og óánægja með konunginn óx. Helsti fjandmaður Karls, Jöns Bengtsson Oxenstierna erkibiskup, efndi til uppreisnar gegn honum í ársbyrjun 1457 og fór svo að hann flúði til Danzig og var þar til 1464. Þá hafði Kristján konungur sett erkibiskupinn í fangelsi og Karl sneri aftur til Svíþjóðar og tók við konungdæmi en varð að segja af sér í janúar næsta ár, en þá hafði erkibiskupinn snúið aftur. Vinsældir hans jukust þó að nýju og hann sneri aftur enn á ný og hélt innreið sína í Stokkhólm 12. nóvember 1467. Hann lést vorið 1470. Fyrsta kona Karls Knútssonar var Birgitta Turesdotter Bielke, sem dó 1436. Önnur kona hans var Katarina Karlsdotter Gumsehuvud, sem dó 1450, og þegar Karl lá banaleguna gekk hann að eiga frillu sína, Kristina Abrahamsdotter, til að gera son þeirra skilgetinn, en óvíst er að sú hjónavígsla hafi verið gild og sonurinn, sem var eini eftirlifandi sonur Karls Knútssonar, varð hvorki konungur né ríkisstjóri. Sten Sture eldri tók aftur á móti við embætti ríkisstjóra. Rostock. Rostock er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Mecklenborg-Vorpommern með rúmlega 200 þúsund íbúa. Þrátt fyrir það er hún ekki höfuðborg sambandslandsins (sem er Schwerin). Rostock er háskólaborg og var stærsta og mikilvægasta hafnarborg hins gamla Austur-Þýskalands. Lega og lýsing. Rostock er hafnarborg við Eystrasalt nyrst í sambandslandinu. Maginborgin stendur við ána Warnow, nokkuð frá ströndinni. Höfnin sjálf er við flóa um 8 km fyrir norðan borgina. Við ströndina er svo borgarhlutinn Warnemünde, en þar eru baðstrendur við Eystrasalt. Næstu stærri borgir eru Wismar til suðvesturs (60 km) og Stralsund til norðausturs (50 km). Beint fyrir norðan Rostock er danska eyjan Falstur. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Rostock er samansett af þremur láréttum röndum, blárri, hvítri og rauðri. Í bláu röndinni er gullin dreki. Merki þetta kom fyrst fram 1367. Drekinn er tákn furstanna í Rostock. Hvíti og rauði liturinn eru litir Hansakaupmanna en Rostock var Hansaborg í gegnum tíðina. Orðsifjar. Rostock hefur ætíð heitið þessu nafni. Það kemur úr slavnesku og merkir "staðurinn þar sem vatnið greinist í sundur". Meint eru óshólmar árinnar Warnow. Formlega heitir borgin Hansestadt Rostock. Upphaf. 1161 kemur Rostock fyrst við sögu sem slavneskur bær. Danski sagnaritarinn Saxo Grammaticus lýsir því í sögu Danaríkis að Danir og saxar gerðu strandhögg á svæðinu og eyddu bænum sem hann nefndi "urbs roztoc". Þýskir landnemar byggðu bæinn upp aftur sem verslunarbæ. 1189 kemur fram í skjali að bærinn hefði borgarvirki, markað og búið væri að reisa Klementíusarkirkjuna, sem hefði þýskan prest. Í kringum 1200 var orðið of þröngt um þorpið og því var byrjað að reisa nýjan bæ á hinum bakkanum (eystri bakkanum) við ána Warnow. 1218 veitir Heinrich Borwin I, fursti yfir Mecklenborg, Rostock borgarréttindi. Þessi atburður gildir í dag sem stofnár borgarinnar. 1283 gerðu Rostock, Lübeck og fleiri borgir verslunarsamkomulag. Síðan þá er Rostock hansaborg. 1419 var háskóli stofnaður í borginni en hann er einn allra elsti háskóli Norður-Þýskalands. Siðaskipti og stríð. 25. Mynd eftir Wenzel Hollar. 1520 berast kenningar Lúthers til Rostock. Siðaskiptin í borginni taka hins vegar nokkur ár. Það var ekki fyrr en 1531 að borgarráð ákvað að hafna kaþólskunni og að kirkjunum yrði breytt í lúterskar kirkjur. Í 30 ára stríðinu hertók Wallenstein hershöfðingi borgina fyrir hönd keisarans. Wallenstein lét gera sterk varnarvirki, en þurfti þrátt fyrir það að hrökklast frá þegar Svíar tóku þar land 1631. Gústaf Adolf II lagði þunga skatta á borgina og þar sat sænskur her allt til loka stríðsins 1648. Skattinn urðu borgarbúar þó að greiða allt til 1654. Á þeim tíma ríkti mikil fátækt í Rostock. Ekki batnaði ástandið er eldur braust út 1677 og eyddi þriðjungi borgarinnar. Um 700 hús (af 2000) brunnu til kaldra kola. Nýrri tímar. 1806 hertóku Frakkar borgina í Napoleonstríðinu. Þeir lokuðu höfninni fyrir viðskiptum við Bretland og bandalagsþjóðir sem börðust gegn Frakklandi. Fyrir vikið varð hörð kreppa í borginni, enda var höfnin aðalsamgönguæð borgarinnar. Napoleon neyddi borgarbúa auk þess til ákveðinnar þjónustu við sig. Eitt frægasta barn borgarinnar, Blücher herforingi, barðist þó gegn Frökkum og var einn sigurvegaranna í orrustunni við Waterloo 1815 ásamt Wellington lávarði. Rostock náði sér ekki á strik fyrr en með iðnbyltingunni á 19. öld. Höfnin varð eftir sem áður mikilvægasta atvinnusvæðið. Þar risu skipasmiðjur. 1852 var fyrsta skrúfuskip Þjóðverja smíðað í höfninni þar. 1922 eru Heinkel-flugvélaverksmiðjurnar stofnaðar í borginni. Fyrir vikið varð Rostock fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. 23.-27. apríl 1942 varð borgin fyrir stanslausum loftárásum, sem eftir það var rjúkandi rúst. Í stríðslok 1945 hertóku Sovétmenn borgina. Eftir stríð varð Rostock að blómstrandi iðnaðarborg og óx hún hratt. Rétt fyrir sameiningu Þýskalands voru íbúar orðnir rúmlega 250 þús talsins. Við sameininguna 1990 urðu mýmörg fyrirtæki hins vegar gjaldþrota, sérstaklega í iðnaði. Mikil kreppa einkenndu næstu ár og íbúum fækkaði umtalsvert. Þeir eru ekki nema rétt rúmlega 200 þúsund í dag. Íþróttir. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er Hansa Rostock. Liðið spilaði lengi vel í fyrstu deild í Austur-Þýskalandi og svo í fyrstu deild í sameinuðu Þýskalandi frá leiktíð 1990, en rokkar í dag á milli deilda. Karlaliðið HC Empor Rostock í Handbolta er tífaldur austur-þýskur meistari og varð Evrópumeistari 1982 (sigraði þá Dukla Prag). Kvennaliðið PSV Dolphins í handbolta leikur í fyrstu deild. Frægustu börn borgarinnar. Blücher herforingi var einn sigurvegaranna í orrustunni við Waterloo Frumsýning. Frumsýning er fyrsta sýning á verki. Iðulega er hugtakið notað í samhengi við leikrit en á þó engu að síður við fleiri greinar. Downs-heilkenni. Downs-heilkenni eða mongólíðagervi er litningafrávik sem veldur þroskahömlun. Fólk með Downs-heilkenni, áður fyrr nefnt mongólítar, hefur 3 eintök af litningi númer 21 eða alls 47 litninga. Þau einkenni sem teljast til Downs-heilkennis eru meðal annars: lág vöðvaspenna, skásett augu, flöt nefrót og bein lína þvert yfir lófa. Heilkennið er kennt við enska lækninn John Langdon Down sem árið 1866 benti á lík einkenni einstaklinga með þroskahömlun. Árið 1959 sýndi franski prófessorinn Jérôme Lejeune að fólk með Downs-heilkenni hefði aukalitning í frumum sínum. Mary Ainsworth. Mary D. Salter Ainsworth (1913 – 1999) er barnasálfræðingur sem skoðaði eðli tengsla milli barna og fullorðinna. Hún tilgreindi fjórar gerðir tengsla: Trygg tengsl, ótrygg kvíðatengsl, ótrygg fráhrindi tengsl og að lokum óreiðutengsl. Ainsworth fæddist í Glendale í Ohio. Ainsworth, Mary Blücher herforingi. Blücher var þekktasti hershöfðingi Prússlands Blücher herforingi (16. desember 1742 í Rostock – 12. september 1819 í Krieblowitz í Póllandi) var eflaust mesti og færasti herforingi Prússlands. Hann barðist við Napoleon í nokkrun orrustum og náði loks að leggja hann að velli í stórorrustunni við Waterloo 1815, ásamt Wellington lávarði. Skæruliði og bóndi. Gebhard Leberecht von Blücher fæddist 1742 í þýsku borginni Rostock, sem þá tilheyrði Prússlandi. 24 ára gamall ákváðu Blücher og bróðir hans að ganga til liðs við Svía, sem börðu á Prússum skömmu eftir 7 ára stríðið. Fjórum árum síðar var hann tekinn til fanga af Prússum og sendur sem fangi til bæjarins Galenbeck. Þar heimsótti mágur hans hann og fékk hann lausan gegn því að Blücher undirritaði samning þar sem hann lofaði að berjast með Prússum. Blücher hækkaði brátt í tign og varð undirforingi í hernum. En í óróa i Póllandi 1772 lét hann taka prest af lífi, sem grunaður var um að æsa til mótmæla og uppreisnar. Þessi atburður varð til þess að Blücher missti tign sína og sagði hann sig úr hernum í kjölfarið. Hann settist þá að í Slésíu (Pólland í dag) og gerðist stórbóndi. Þar kvæntist hann og eignaðist sjö börn. Einnig gekk hann í frímúrararegluna í Pommern. Það var ekki fyrr en með andláti Friðriks Vilhjálms II Prússakonungs að Blücher var aftur tekinn í herinn. Brátt hækkaði hann í tign og varð aftur að undirforingja. Orrustan við Auerstedt. Blücher herforingi í borginni Bautzen 1806 réðist Napoleon inn í Prússland. Það dró til orrustu við Auerstedt og síðan við Jena, reyndar sama dag. Frakkar sigruðu Prússa við Auerstedt. Ástæðan fyrir því var óþolinmæði Blüchers. Hann var foringi riddaraliðsins. Í upphafi orrustunnar hleypti hann liði sínu beint í óþreytta og betur skipaða Frakka, sem höfðu lítið fyrir því að hrinda árásinni. Seinna sama dag var síðan barist við Jena. Enn var Blücher yfir riddaraliðinu og réði yfir 8.800 riddara. Frakkar höfðu aðeins um 1.300 riddara. Hins vegar voru Frakkar með 230 fallbyssur, gegn aðeins 44 hjá Prússum. Þessar staðreyndir voru herjunum hins vegar óljósar, enda fór orrustan við Jena fram í hálfgerðri þoku. Prússar gerðu ýmis mistök í orrustunni. Friðrik Vilhjálmur III konungur Prússlands hikaði og sendi ekki úrvalsliðið nógu snemma á orrustuvöllinn. Þess fyrir utan særðist hertoginn af Brúnsvík, aðalhershöfðingi Prússa, og var úr leik. Napoleon sá hik konungs og hleypti óþreyttu liði langt inn í óskipaðan prússneska herinn, sem við það byrjaði að flýja af hólmi. Napoleon stóð uppi sem sigurvegari. Prússar misstu 10 þús menn, Frakkar um 7.500. Þegar Prússar flýðu af hólmi var þoka enn yfir svæðinu. Blücher herforingi náði hins vegar að safna saman miklu liði og stöðva flóttann. Í skjóli þokunnar tókst honum að bjarga 34 fallbyssum og flýja til norðurs. Orrustan um Lübeck. Blücher flúði til borgarinnar Lübeck með liði sínu og fallbyssunum. Lübeck var á þessum tíma hlutlaust fríríki og herlaust. Meðan Napoleon sjálfur hertók Berlín, sendi hann maskálkana Bernadotte og Murat á eftir Blücher til Lübeck. Þeir komu þangað aðeins tveimur dögum eftir að Blücher sjálfur komst þangað. Eftir að hafa skannað borgina, ákváðu Frakkar að ráðast á borgina við borgarhliðið Burgtor, sem var að þeirra mati veikasta hliðið í varnarvirkjum Lübeck. Prússar vörðust þar af miklu harðfylgi, en voru langtum færri en Frakkar. Blücher skipaði fyrir að hindra inngöngu Frakka með öllum ráðum. Það tókst þó ekki. Eftir fjögurra tíma bardaga við Burgtor kom skipun um að hörfa. Fyrstu Frakkarnir voru þá að komast inn fyrir og opnuðu hliðið fyrir samherja sína fyrir utan. Þá upphófust miklir götubardagar, en í þeim tókst Prússum að hrinda árás Frakka nokkrum sinnum. En að lokum höfðu Frakkar betur og fóru rænandi og ruplandi um borgina. Mörgum Prússum tókst að flýja með Blücher herforingja í gegnum hið vel varða Holstentor, sem vissi til vesturs. Lübeck var á valdi Frakka. Blücher komst hins vegar ekki langt. Travemünde var skipalaust, þar sem Svíar höfðu notað öll skip á flótta sínum undan Frökkum. Hann lokaði sig með her sínum inni í smábænum Ratekau fyrir norðan Lübeck. Bernadotte umkringdi bæinn og bað Blücher að gefast upp. Blücher fékk að halda korða sínum, meðan almennir prússneskir hermenn lögðu niður vopn. Hann var settur í frjálslegt varðhald fyrir loforðið eitt að flýja ekki burt. Eftir að hafa bjargað fallbyssunum eftir orrustuna við Jena og staðið í hárinu á Frökkunum í Lübeck, varð Blücher á augabragði víðfrægur í Evrópu. Orrustan við Leipzig. 1807 var Blücher látinn laus í skiptum fyrir franska hershöfðingjann Victor. Hann fór þá til Pommern og studdi þar Svía í viðleitni sinni að halda Frökkum í skefjum fyrir austan Berlín. Þegar Napoleon beið ósigur í Rússlandi 1812-13 tóku Prússar aftur upp baráttuna gegn Frökkum. Var Blücher þá kallaður til baka til að leiða prússneska herinn. Í október 1813 var stórorrustan við Leipzig háð. Orrusta þessi gekk einnig í söguna sem "Þriggjakeisaraorrustan", þar sem keisarar Frakklands, Austurríkis og Rússlands leiddu saman hesta sína, ásamt Prússum. Orrustan varaði í þrjá heila daga við gríðarlegt mannfall og hallaði frekar á Napoleon. Á fjórða degi urðu Frakkar að víkja inn í Leipzig, en sameinaðir herir bandamanna náðu að taka borgina. Napoleon flúði með 100 þús manna lið til Frakklands og átti hann ekki afturkvæmt á þýska grund. Blücher var í þessari orrustu yfirmaður riddaraliðsins og hafði á að skipa 20 þús menn. Orrustur í Frakklandi. Blücher var einn þeirra herforingja sem eltu Napoleon til Frakklands, nær alla leið til Parísar. Þar dró til tveggja orrusta. 29. janúar 1814 sigraði Napoleon herlið Blüchers við Brienne, en það var aðeins varnarsigur. 1. febrúar börðust þeir aftur í orrustunni við La Rothière. Að þessu sinni hafði Blücher betur og Frakkar hörfuðu. Í báðum þessum orrustum var Blücher aðalhershöfðingi bandamanna. Ekki var barist aftur fyrr en 9. og 10. mars. Þá var Blücher með lið sitt við borgina Laon í Frakklandi. Napoleon réðist þar á bandamenn, þrátt fyrir að vera talsvert fáliðaðri. Í tveimur atlögum á tveimur dögum voru Frakkar hraktir til baka. Fyrri daginn veiktist Blücher alvarlega og varð að draga sig til baka. Hann gerði Gneisenau herforingja að yfirmanni hersins og það var hann sem náði að hrekja Napoleon burt úr Laon. Leiðin til Parísar var greið. 30. mars var árásin gerð á París. Blücher veiktist aftur einmitt þegar árásin hófst og kom því ekki við sögu. Napoleon gafst upp og var sendur í útlegð til eyjarinnar Elbu. Friðrik Vilhjálmur III, konungur Prússlands, var yfir sig hrifinn af þjónustu Blüchers, að hann gaf honum heilan bæ í Slésíu (Krieblowitz í Póllandi í dag). Orrustan við Waterloo. Minnisvarði um orrustuna frægu í bænum Waterloo í Belgíu Aðeins ári síðar var Napoleon aftur kominn á kreik. Þá sendi Friðrik Vilhjálmur Blücher með 150 þús manna herlið vestur til að berjast við Frakka. Blücher hitti á Napoleon í Ligny (fyrir norðan Charleroi) í Belgíu 16. júní 1815. Aðstæðurnar voru erfiðar fyrir Blücher. Engir Rússar voru með í för, en fáliðaðar herdeildir frá Rínarsambandinu. Englendingar voru í grenndinni, en Napoleon náði að komast milli Englendinga og Prússa. Takmark hans var að sigra báða heri sitt í hvoru lagi. Hann setti Michel Ney hershöfðingja í að halda Englendingum í skefjum og réðist sjálfur á Blücher í Ligny. Í orrustunni höfðu aðilarnir til skiptis betur, en að lokum setti Napoleon gamla riddaraliðið á vettvang og fóru þá Prússar að hrökklast undan. Blücher tók sjálfur þátt í orrustunni. Mitt í orrahríðinni varð hestur hans fyrir skoti og drapst samstundis. Blücher varð hins vegar undir honum og gat ekki losað sig, enda orðin 72 ára gamall. Það var honum til happs að frönsku riddararnir sáu hann ekki undir hestinum þegar þeir geystust framhjá. Þannig slapp Blücher við handtöku eða dauða. Frakkar sigruðu í orrustunni fyrir rest, en aðeins tæknilega. Þeir náðu ekki að fella Prússa eða tvístra þeim, heldur aðeins að hrekja þá til baka. Napoleon hafði ekki tíma til að sinna Prússum frekar. Hann sneri sér að Englendingum og mætti þeim tveimur dögum seinna við bæinn Waterloo, en sú orrusta varð ein frægasta orrusta sögunnar. Napoleon réðist með offorsi á Englendinga og bandamenn þeirra. Þeir voru hraktir til baka nokkrum sinnum, sökum þess hve vel Englendingar höfðu komið sér fyrir. En að lokum virtust Frakkar hafa betur. Aðalhershöfðingi Englendinga var Wellington lávarður (Arthur Wellesley). Þegar Englendingar voru við það að hörfa, átti Wellington að hafa sagt: „Ég vildi að nóttin væri komin eða að Blücher væri kominn.“ Og honum varð að ósk sinni. Blücher hafði safnað liði eftir orrustuna við Ligny og kom nú Englendingum til hjálpar. Þá var klukkan orðin 1 eftir hádegi. Hann réðist á austurvæng Frakka og kom Napoleon í opna skjöldu. Við þessar aðstæður kom ótti í liði Frakka. Í stað þess að hörfa gerðu Englendingar gagnárás og brátt kom flótti í lið Frakka. Kl. 9 að kvöldi náðu Blücher og Wellington saman með herjum sínum og voru þá búnir að sigra þær frönsku herdeildir sem urðu á milli þeirra. Þeir eftirlétu Gneisenau herforingja að elta Frakka og stóðu þær mannaveiðar alla nóttina. Helmingur alla franskra hermanna féllu. Sigur bandamanna var í höfn. Strax eftir sigurinn kom það í hlut Blüchers að þramma inn í Frakkland og hertaka París, þar sem Englendingar voru of þreyttir og sárir eftir bardagann. Endalok og eftirmæli. Seinna sama ár var Blücher sæmdur járnkrossinum, æðsta heiðursmerki Prússlands. Blücher sjálfur dró sig í hlé í bæinn sinn Krieblowitz í Slésíu. Þar lést hann 1819, aðeins fjórum árum eftir orrustuna við Waterloo. Blücher var ákaflega vinsæll meðal hermanna sinna. Hann þótti mjög sanngjarn og aftók allar líkamlegar refsingar í hernum. Hann var dugmikill og hugrekkið hans var annálað. Samt sem áður þótti hann ekki sérlega kænn. Árangur hans á vígvellinum var dugnaði hans og atorku að þakka. Skógar (Þorskafirði). Skógar er eyðibýli í Þorskafirði. Bærinn stóð uppi í hlíðinni undir Vaðalfjöllum og er kallaður Uppsalir í Gull-Þóris sögu (Þorskfirðinga sögu). Þar bjó Oddur skrauti, faðir Gull-Þóris. Í Skógum fæddist skáldið Matthías Jochumsson 11. nóvember 1835 og ólst þar upp þar til hann var ellefu ára. Minnismerki um hann er í landi Skóga. Bróðursonur hans, Jochum M. Eggertsson (1896-1966), sem notaði rithöfundarnafnið Skuggi, eignaðist Skóga 1951 og stundaði þar skógrækt. Hann arfleiddi Bahá'í-samfélagið á Íslandi að jörðinni og er það eigandi hennar. Síðasta kvöldmáltíðin. Síðasta kvöldmáltíðin er í guðspjöllum Nýja testamentisins síðasta máltíðin sem Jesús deildi með lærisveinum sínum. Samkvæmt kirkjudagatalinu átti hún sér stað á skírdag, daginn fyrir föstudaginn langa. Kristnir menn minnast kvöldmáltíðarinnar í altarisgöngunni með því að drekka messuvín og borða oblátu. Altarisgangan er eitt af sjö sakramentum rómversk-kaþólsku kirkjunnar og eitt af tveimur sakramentum mótmælendakirkna. Accademia della Crusca. Accademia della Crusca (ítalska: „hismisakademían“) er sjálfstæð ítölsk menntastofnun sem nýtur þeirrar stöðu að vera yfirvald um ítalska tungu. Í akademíunni starfa textafræðingar og málfræðingar sem fást við rannsóknir á ítölsku máli. Akademían var upphaflega stofnuð af hópi rithöfunda, skálda og lögfræðinga í Flórens árið 1583 beinlínis í andstöðu við hinar alvarlegu klassísku áherslur Accademia di Firenze sem naut verndar erkihertogans. Nafnið vísar til þess að viðfangsefni ademíunnar voru „hismi“, þ.e. ekki alvarleg viðfangsefni. Hún var því hugsuð sem eins konar andakademía. Upphaflega gekk starf félagsins líka helst út á veisluhöld. Eftir formlega stofnun tók hún þó brátt að sér það verkefni sem hún hefur haldið síðan; að varðveita hreinleika og kynna fegurð hinnar toskönsku tungu eins og hún birtist hjá rithöfundum 14. aldar. Fyrsta orðabókin sem akademían gaf út, orðabókin "Vocabolario degli Accademici della Crusca", kom út 1612 og innihélt aðeins þann orðaforða sem kom fyrir í ritum frægra 13. og 14. aldar rithöfunda og einstaka nýrri höfunda eins og Niccoló Machiavellis. Skýring nafnsins breyttist líka í það að markmið hennar væri að skilja hismið frá korninu; þ.e. málhreinsun. Tilgangur akademíunnar varð því að móta ítölskuna á grundvelli klassískra fyrirmynda fremur en alþýðumáls, gagngert í þeim tilgangi að gera hana að vinsælu bókmennta- og stjórnsýslumáli. Samráðsskipan. Samráðsskipan, starfsgreinaskipan eða samráðshyggja er stjórnmálastefna sem lítur á samfélagið sem lífræna heild sem byggir á heildrænni félagslegri samstöðu þar sem hver hópur hefur ákveðið hlutverk líkt og líffæri í líkama. Samráðshyggja tengist virknihyggju í félagsvísindum. Hugmyndir af þessu tagi eru algengar í ýmsum trúarbrögðum og koma fyrir í mörgum stjórnmálastefnum sem leggja áherslu á samstöðu fremur en átök og samkeppni. Hún hefur einkum verið gagnrýnd þar sem hún leiðir til mikilla ríkisafskipta af stórfyrirtækjum og stofnunar ríkisrekinna stéttarfélaga eins og í Ítalíu fasista og Þriðja ríki nasista. Þessi ríki stilltu samráðshyggju upp gegn stéttabaráttu sem var lykilhugtak í sósíalisma. Orðið er líka oft notað sem skammaryrði yfir ástand sem einkennist af miklum ítökum fyrirtækja í stjórnmálum. Happdrættislán. Happdrættislán er lán þar sem greiðslur lántakanda til lánveitanda eru í formi happdrættis. Slík lán eru oftast tekin til að fjármagna stórframkvæmdir á vegum hins opinbera með útgáfu sérstakra happdrættisskuldabréfa. Ítalska endurreisnin. a> var reist á árunum frá 1296 til 1469. Vinstra megin er klukkuturn Giottos og hægra megin er hvolfþak Brunelleschis. Ítalska endurreisnin var fyrsta skeið endurreisnartímans þegar miklar breytingar urðu á menningu íbúa Evrópu. Endurreisnin hófst með nýjungum í bókmenntum, byggingarlist og málaralist í borgríkjunum Flórens og Siena í Toskana á Ítalíu á síðari hluta 14. aldar. Húmanistinn Petrarca er oft nefndur sem fyrsta endurreisnarskáldið, Giotto di Bondone er gjarnan talinn vera fyrsti endurreisnarmálarinn og Filippo Brunelleschi fyrsti endurreisnararkitektinn. Húmanisminn sótti sér innblástur í heimspeki og bókmenntir fornaldar sem rómversk-kaþólska kirkjan hafði ýmist hunsað eða afbakað í þágu kristilegrar heimsmyndar sem byggði á erfðasyndinni og dulrænni ódauðlegri sál. Húmanisminn hélt hins vegar fram einstaklingshyggju og skynsemishyggju sem byggði á því að maðurinn væri góður í eðli sínu. Í myndlist varð ríkjandi myndbygging sem byggði á raunsæjum hlutföllum og fjarvídd, og tilfinningaríkum stellingum og svip persóna. Í byggingarlist var ríkjandi afturhvarf til einfaldleika klassískrar rómverskrar og grískrar byggingarlistar með áherslu á boga, súlnagöng og hvolfþök, og notkun marmara sem byggingarefnis. Endalok ítölsku endurreisnarinnar eru ýmist miðuð við upphaf Ítalíustríðanna 1494, ferð Leonardo da Vinci til Frakklands 1516 eða upphaf gagnsiðbótarinnar 1545. Norræna endurreisnin stóð hins vegar frá miðri 15. öld til loka 16. aldar. Maríukirkjan í Rostock. Maríukirkjan er aðalkirkjan í þýsku borginni Rostock. Hún var reist á 13. og 14. öld á grunni eldri kirkju. Í heimstyrjöldinni síðari var Maríukirkjan eina kirkjan sem slapp við skemmdir og eyðingu. Byggingin er hins vegar orðin mjög gömul og lætur á sjá sökum vanrækslu. Saga Maríukirkjunnar. 1279 reis fyrirrennari Maríukirkjunnar á reitnum. Af þeirri kirkju er aðeins hluti af grunninum og turninum eftir. Hún gekk fljótt úr sér og var rifin þegar núverandi kirkja var reist. Smíðin hófst 1290 og þjónaði Maríukirkjan í Lübeck sem fyrirmynd að henni. Kirkjan er með langskip og stóru þverskipi. Þannig er kirkjan nærri jafn löng og hún er breið, þ.e. 76 metra löng og 73 metra breið yfir þverskipið. Kórinn er einnig óvenjulega stór. Árið 1419 var háskólinn í Rostock formlega stofnaður í hinni ókláruðu en nothæfu kirkju. 1440 var smíði turnsins lokið, en kirkjan sjálf var ekki fullsmíðuð fyrr en 1454 og var hún þá helguð Maríu mey. Við siðaskiptin snemma á 16. öld var kirkjunni breytt í lúterska kirkju og er hún það enn í dag. 40 ölturu voru í kirkjunni upphaflega, en við siðaskiptin voru þau fjarlægð. Aðeins tvö fengu að standa. 1796 fékk kirkjan núverandi spíru. Í viðgerðum 2005 komu í ljós nokkrar freskur frá 14. öld sem kalkað hafði verið yfir. Maríukirkjan var eina stóra kirkjan í borginni sem slapp við skemmdir af völdum loftárása heimstyrjaldarinnar síðari. Nokkrar fosfórsprengjur spungu í og við kirkjuna, en það tókst á síðustu stundu að ráða niðurlögum eldsins áður en hann breiddist út. Þar af leiðandi var Maríukirkjan einnig eina kirkjan sem var í nothæfu ástandi að stríði loknu. Aðrar kirkjur þurftu viðgerðar við og tók það langan tíma. Þar af leiðandi var viðhald Maríukirkjunnar lítil sem ekkert. Hún er því orðinn nokkuð löskuð og lætur vel á sjá á nokkrum stöðum. Auk notkunar sem sóknarkirkju sækja um 200 þús ferðamenn kirkjuna heim árlega. Altaristaflan. Altaristaflan er glæsilegt listaverk á tveimur hæðum. Það var hannað af Christian Stoldt frá Berlín og smíðað á verkstæði þar í borg. Taflan er skreytt þremur málverkum, litlu neðst en stórum ofar. Aðalmálverkið sýnir upprisu Krists. Litla málverkið neðst sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Efsta málverkið sýnir þegar heilagur andi kemur yfir postulana. Allra efst er geislakóróna með hið alsjáanda auga Guðs. Mýmargar styttur eru festar á töfluna. Til sitthvorrar handar eru skriftarstólar. Predikunarstóllinn. Predikunarstóllinn er óvenju langt frá altarinu og stendur nærri því í miðjum sal. Ástæðan fyrir því er hinn lélegi hljómburður kirkjunnar, þannig að nauðsynlegt þótti að hafa predikunarstólinn nálægt söfnuðinum. Stóllinn var smíðaður 1574 og er sagður vera eftir Rudolf Stockmann frá Antwerpen. Hann smíðaði einnig predikunarstóla fyrir aðrar kirkjur í borginni á 16. öld. Til að komast upp í stólinn verður að ganga upp lítinn hringstiga úr viði. Tröppurnar, stóllinn og hjálmurinn er hin mesta völundarsmíði og skreytt með styttum og súlum. Allar stytturnar sýna myndefni úr Biblíunni. Skírnarfontur. Skírnarfontur kirkjunnar er úr bronsi og var gerður 1290 (samkvæmt innskrift). Hann er því eldri en kirkjan sjálf. Fonturinn er gríðarlega stór og er reyndar stærsti bronsfontur frá miðöldum á Eystrasaltsvæðínu. Einkennandi er að fonturinn sjálfur og lokið eru ólík að gerð og er talið að þetta tvennt hafið verið gert af tveimur mismunandi listamönnum. Skrautfígurur fontsins voru steyptar með, en fígúrur á lokinu voru settar á eftirá. Flestar sýna fígúrurnar atriði úr píslasögu Jesú. Allur fonturinn hvílir á litlum mannsfígúrum sem eiga að tákna fjórar höfuðskepnur náttúrunnar. Hann er alls 2,95 metrar á hæð. Stærðin er tilkomin sökum þess að í þessari kirkju tíðkaðist að dýfa skírnþeganum (barninu) að öllu leyti ofan í vatnið. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði var fonturinn grafinn í jörðu í smábænum Belitz. Hann var ekki settur á sinn stað aftur fyrr en 1951. Stjörnuúr. Í kirkjunni er stjörnuúr sem er 11 metra hátt. Það var smíðað 1379, en umbreytt 1472. Þá var sett lítið klukknaspil í það, sem gengur á klukkutíma fresti. Fígúrur á hjóli ganga hins vegar aðeins tvisvar á dag. Úrið var uppgert 1641-43. Úrið sýnir ekki aðeins tímann, heldur einnig tunglgöngu, afstöðu tungls og sólar í dýrahringnum, sólaruppkomu, lengd dags og nætur og hátíðisdaga (páskar og jól). Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði var úrið fært á öruggan stað og sett aftur á sinn stað 1951. 1974-77 var klukknaverkið uppgert, en það samanstendur af 2000 stykkjum. Klukkur. Í kórnum standa tvær kirkjuklukkur á gólfinu og eru báðar með sprungu. Sú stærri vegur tæplega 4 tonn og var gerð um 1300. Sú minni vegur tæplega 3 tonn og var gerð 1409. Á síðari árum var reynt að sjóða brotin saman, en þau sprungu upp aftur við prufuhringingu. Þær eru því með öllu ónothæfar. Hinn íslenski þursaflokkur. Hinn íslenzki þursaflokkur er fyrsta plata hljómsveitarinnar Þursaflokkurinn og var gefin út 1978. Þursaflokkurinn. Þursaflokkurinn er hljómsveit sem starfaði á árunum 1978-1982. Meðlimir hljómsveitarinnar voru í upphafi Egill Ólafsson, Þórður Arnason, Rúnar Vilbergsson, Tómas Magnus Tómasson og Ásgeir Óskarsson. Fyrsta plata hljómsveitarinnar, Hinn íslenski þursaflokkur kom út árið 1978. Karl Sighvatsson bættist svo í hópinn áður en önnur plata hljómsveitarinnar, Þursabit, var gefin út. Grótta. Grótta er örfirisey yst á Seltjarnarnesi. Viti var reistur í Gróttu árið 1897 en núverandi viti er frá árinu 1947. Áður fyrr var bær í Gróttu og er fyrst getið um hann í heimildum 1547. Árið 1703 var hann hjáleiga frá Nesi. Bærinn fór síðar í eyði en byggðist aftur á 19. öld. Nágrenni Gróttu er vinsælt útivistarsvæði. Grótta er friðland vegna fuglalífs (friðlýst 1974) og er umferð fólks bönnuð þar frá 1. maí til 1. júlí ár hvert. Hnit staðarins eru 64° 9,866'N, 22° 1,325'W. Um nafnið Gróttu. Orðið "grótta" merkir jarðfall eða hola, en það gæti einnig hafa þýtt hellir, sbr „grotta“ í sænsku. Grótta (eða "grótti", kk) getur einnig verið kvörn til að mala korn, sbr. kvæðið Gróttasöng, og er nafnið þá dregið af holunni sem er á efri kvarnarsteininum, sem kornið var látið í. Landslagsbreytingar. Miklar breytingar hafa orðið við Gróttu frá því að land byggðist, bæði vegna landsigs og landbrots, og geta því þau einkenni sem voru tilefni nafnsins verið horfin. Af elstu kortum má sjá að Grótta var upphaflega landföst, þ.e. nyrsti hluti Seltjarnarness. Áður var malarkambur úr Gróttu yfir í Suðurnes á Seltjarnarnesi, þar sem golfvöllurinn er nú. Þar fyrir innan var Seltjörn, sem gaf nesinu nafn. Malarkamburinn er nú horfinn og tjörnin orðin sjávarvík, en e.t.v. hefur Bakkatjörn áður verið innsti hluti Seltjarnar. Eiríkur plógpeningur. Eiríkur plógpeningur eða Eiríkur 4. (1216 – 10. ágúst 1250) var konungur Danmerkur á 13. öld. Hann var sonur Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal, konu hans, og var konungur eftir lát föður síns 1241 og til dauðadags. Bræður Eiríks, Abel og Kristófer, vildu báðir vera meðkonungar hans og deildu þeir Eiríkur og Abel árum saman. Árið 1244 sættust þeir þó og fóru saman í krossferð til Eistlands til að kristna Eista en þar blossuðu deilurnar upp á ný. Átökin voru kostnaðarsöm og til að fjármagna þau lagði Eiríkur plógskatt á þegna sína 1249, smápening fyrir hvern plóg, hlaut þess vegna auknefnið plógpeningur. Skatturinn var ekki vinsæll og Eiríkur átti líka í deilum við kirkjuna og hina valdamiklu Hvide-ætt. Ófriðurinn í landinu var svo mikill að í raun ríkti hálfgert stjórnleysi. Árið 1250 tókst Eiríki að leggja undir sig mestan hluta af Slésvík, hertogadæmi Abels, og þeir hittust þar til að gera með sér sátt en við það tækifæri var Eiríkur fangaður, færður á báti út á fjörðinn Slien, hálshöggvinn þar og líki hans sökkt í fjörðinn. Árið 1258 voru jarðneskar leifar hans fluttar til Ringsted og grafnar þar. Kona hans var Jutta af Saxlandi og áttu þau nokkur börn. Á meðal þeirra voru Soffía, sem giftist Valdimari Birgissyni Svíakonungi, og Ingibjörg, kona Magnúsar lagabætis Noregskonungs. Abel Valdimarsson. Abel Valdimarsson (1218 – 29. júní 1252) var konungur Danmerkur frá 1250 til dauðadags. Hann var sonur Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal, seinni konu hans, og bróðir konunganna Eiríks plógpenings og Kristófers 1. Abel varð hertogi af Slésvík árið 1232. Árið 1241 lést Valdimar konungur og varð Eiríkur einn konungur Danmerkur en það sætti Abel sig ekki við og áttu þeir bræður í átökum árum saman. Þeim lauk ekki fyrr en Eiríkur var myrtur þegar hann var hjá Abel í Slésvík 10. ágúst 1250. Flestir töldu Abel ábyrgan en hann fékk 24 riddara til að sverja með sér tvöfaldan tylftareið um sakleysi sitt. Hann var svo krýndur konungur 1. nóvember 1250. Abel vildi efla mjög samsbandið við Hansakaupmenn og gerði viðskiptasamninga við ýmsar Hansaborgir. Hann fékk þó ekki mikið ráðrúm til stjórnarathafna því hann var drepinn 29. júní 1252 í leiðangri sem hann fór gegn Frísum, sennilega til að innheimta hjá þeim skatta. Enginn danskur konungur hefur setið skemmri tíma í hásæti. Sagan segir að afturganga hans hafi haldið sig í dómkirkjunni í Slésvík og því var lík hans tekið úr gröfinni og sökkt í mýri við Gottorphöll og staur rekinn í brjóstkassa hans til öryggis. Abel hafði gengið að eiga Mechthilde, dóttur Adólfs 4. greifa af Holtsetalandi, árið 1237. Þau áttu þrjá syni en enginn þeirra varð þó konungur, heldur var Kristófer bróðir Abels kjörinn konungur. Afkomendur Abels voru hertogar Slésvíkur þar til ættin dó út 1375. Mechthilde giftist aftur 1261 Birgi jarli, ríkisstjóra Svíþjóðar. Menningarborg Evrópu. Menningarborg Evrópu er titill sem Evrópusambandið sæmir eina eða fleiri borgir í Evrópu á hverju ári og gildir í eitt ár. Þegar borg er útnefnd menningarborg fær hún styrk til að kynna menningarlíf borgarinnar. Verkefnið var stofnað að undirlagi Melinu Mercouri, menningarmálaráðherra Grikklands, árið 1983. Fyrsta borgin sem var útnefnd menningarborg var Aþena árið 1985. Borgirnar hafa nýtt tækifærið misjafnlega og oft hafa staðið deilur um hvort nota eigi tækifærið til að hýsa stóra alþjóðlega menningarviðburði eða kynna staðbundna menningu. Árið 2000 voru níu borgir útnefndar menningarborgir, þar á meðal Reykjavík. Eftir það hafa tvær eða fleiri borgir oft deilt titlinum. Næstu ár. Ekki er vitað hverjar verða menningarborgir áranna 2015-2025. Pro loco. "Pro loco" (latína: „fyrir staðinn“) eru ítölsk grasrótarsamtök sjálfboðaliða sem vinna að því að kynna ákveðinn stað, heimabæ eða nærsveit. Í flestum bæjum Ítalíu sjá samtökin um að fjármagna, auglýsa og halda bæjarhátíð sem yfirleitt er uppskeruhátíð eða íþróttakeppni með vísun í menningarsögu staðarins. Þótt þessar hátíðir séu mjög vinsælar meðal ferðamanna snýr starf "Pro loco"-félaganna yfirleitt fremur að heimafólki en opinberar stofnanir á borð við upplýsingamiðstöðvar og staðbundnar ferðaskrifstofur sjá um kynningu fyrir utanaðkomandi. Nafn "Pro loco"-félags getur verið á forminu "Pro" X eða "Pro loco" X þar sem X er heiti staðarins. Fjöldi slíkra samtaka á Ítalíu er um 6000 með 650.000 félaga. Heildarsamtök allra "Pro loco"-félaga nefnast "Unione Nazionale delle Pro Loco d'Italia" (UNPLI). Norræn sönghátíð. Norræn sönghátíð eða "Norrænt stúdentakóramót", NSSS er mót sem haldið er á þriggja ára fresti á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Forsaga. Frá árinu 1987 hafa háskólakórar á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum safnast saman til eins konar kórmóts. Fyrsti fundurinn var haldinn árið 1987 undir nafninu Norrænu stúdentakórfundur á vegum háskólakórsins í Linköping. Þá var tekin upp gömul 19. aldar hefð þegar skandinaviskir kórar ferðuðust um Skandinavíu á járnbrautarlestum og bátum til að hittast. Á fyrsta fundinum, var áhesrla einkum lögð á leiðbeiningar, kennsla og félagsskap. Frá 1996, þegar 1400 söngvarar fluttu Carl Orff's "Carmina Burana" í Kaupmannahöfn og í Tallinn níundu sínfoniu Beethovens, urðu fundirnir meira opinberir viðburðir. Í Lappeenranta (Lappeenranta) í Finnlandi voru frumflutt tvö verk: Leif Segerstams "Symphony nr. 111" og Marcus Fagerudds "Das Lied des Wassers" undir stjórnun Leif Segerstams. Tilgangur. Tilgangur NSSS er að safna kórum á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum, undir merkjum vináttu og félagsskapar og með fyrsta flokks tónlist. NSSS mótið verður haldið á þriggja ára fresti í viðkomandi löndum. Sparisjóður Hafnarfjarðar. Sparisjóður Hafnarfjarðar var stofnaður 22. desember 1902 af tíu Hafnfirðingum. Sparisjóðurinn sameinaðist Sparisjóði vélstjóra og hefur starfað sem Byr sparisjóður frá mars 2007. Sparisjóðurinn starfaði í fyrstu í heimahúsum stofnenda sjóðsins. Árið 1929 fluttist starfsemin í leiguhúsnæði að Austurgötu 37. Þann 3. október 1932 var starfsemin flutt í stærra húsnæði að Strandgötu 4. Loks var starfsemin flutt í Ráðhús Hafnarfjarðarbæjar. Í janúar 1992 opnaði sparisjóðurinn útibú á Garðatorgi í Garðabæ. Anna Bergendahl. Anna Bergendahl (fædd 11. desember 1991) er sænsk söngkona. Vetnissamsætur. a>a er mismikill þar sem einvetni hefur enga nifteind, tvívetni eina og þrívetni tvær. Vetnissamsætur eru samsætur vetnis (H). Náttúrlega finnast aðeins þrjár þeirra, 1H (einvetni), 2H (tvívetni), og 3H (þrívetni), en fáeinar mjög óstöðugar vetnissamsætur, (4H, 5H, 6H og 7H), hafa verið myndaðir í tilraunastofum. Táknið D er stundum notað yfir tvívetni sem kemur af nafninu "deuterium" og táknið T er stundum notað yfir þrívetni sem kemur af nafninu "tritium", en alþjóðasamtök um hreina og hagnýta efnafræði (IUPAC) mæla ekki með þessum rithætti. Vetni-1 (einvetni). 1H er 99.98% af öllu vetni og því langalgengasta vetnissamsæta. Þar sem kjarni þess inniheldur bara eina róteind í kjarnanum. Efnið er einnig nefnt prótín sem kemur af orðinu "protium" en það vísar til enska heitisins á róteind; "proton". Vetni-2 (tvívetni). 2H eða D frá orðinu "deuterium" (einnig þekkt sem þungt vetni eða þungavetni) inniheldur eina róteind og eina nifteind í kjarnanum. Um 0.0026 – 0.0184% af öllu vetni á Jörðinni samanstendur af tvívetni. Tvívetni er ekki geislavirkt. Vatn sem hefur verið auðgað með sameindum sem innihalda tvívetni frekar en einvetni kallast þungt vatn. Vetni-3 (þrívetni). 3H eða T frá orðinu "tritium" (einnig þekkt undir nafninu þrívetni eða ofurþungt vetni) hefur eina róteind og tvær nifteindir í kjarna sínum. Þrívetni er geislavirkt. Vetni-4. 4H er mjög óstöðug samsæta vetnis, en kjarni þess samanstendur af einni róteind og þremur nifteindum. Vetni-4 hefur verið myndað með því að skjóta tvívetniskjörnum í þrívetni. Vetni-5. 5H er mjög óstöðug samsæta vetnis, en kjarni þess samanstendur af einni róteind og fjórum nifteindum. Vetni-5 hefur verið myndað með því að skjóta þrívetniskjörnum í þrívetni. Vetni-6. Kjarni 6H samanstendur af einni róteind og fimm nifteindum. Vetni-7. Kjarni 7H samanstendur af einni róteind og sex nifteindum. Sveinn Ástríðarson. Mynt sem slegin var fyrir Svein Ástríðarson um 1050. Sveinn Ástríðarson eða Sveinn Úlfsson (um 1019 – 28. apríl 1074, sumar heimildir segja þó 1076) var konungur Danmerkur frá 1047 til dauðadags. Hann var sonur Úlfs jarls og Ástríðar, dóttur Sveins tjúguskeggs, og kenndi sig sjálfur við móður sína til að leggja áherslu á að hann var af ætt Danakonunga. Sveinn ólst upp í Englandi en þegar Hörða-Knútur lést 1042, síðastur sona Knúts ríka, gerði hann kröfu til dönsku krúnunnar. Af því varð þó ekki þá; Magnús góði Noregskonungur hafði gert samning við Hörða-Knút um að sá þeirra sem lifði lengur skyldi eignast bæði ríkin og tók hann því við konungdæmi en Sveinn var gerður að jarli yfir Danmörku. Magnús lést 1047 og hafði áður gefið yfirlýsingu um að Sveinn skyldi verða konungur í Danmörku en Haraldur harðráði í Noregi. Sveinn var síðan kjörinn konungur á landsþingum í Danmörku en Haraldur var ekki sáttur og herjaði á Danmörku; það var ekki fyrr en 1064 sem þeir sömdu frið. Sveinn reyndi líka að gera tilkall til ensku krúnunnar en hafði ekki erindi sem erfiði. Sveinn er álitinn sá konungur sem færði Danmörku frá víkingaöld inn í miðaldir. Hann vildi eiga gott samband við kirkjuna og reyndi að koma á erkibiskupsdæmi í Danmörku til að losna undan valdi þýskra erkibiskupa. Áður en það markmið náðist lést hann þó í Søderup á Suður-Jótlandi og var jarðsettur í Hróarskeldudómkirkju. Hann átti þrjár konur, Gyðu, dóttur Önundar Jakobs Svíakonungs, Gunnhildi Sveinsdóttur, ekkju Önundar og þvi móður eða stjúpmóður Gyðu, og Þóru Þorbergsdóttur, sem áður hafði verið gift Haraldi harðráða. Með Gunnhildi átti hann soninn Svein, sem dó ungur, og með Þóru Knút Magnús, sem Sveinn sendi til Rómar til að hljóta smurningu sem ríkisarfi en hann dó í ferðalaginu. Auk þess er hann sagður hafa átt fjórtán frillusyni og nokkrar dætur. Fimm sona hanns urðu Danakonungar, þeir Haraldur hein, Knútur helgi, Ólafur hungur, Eiríkur góði og Níels. Enn einn sonur hans var Sveinn krossfari, sem gat sér mjög gott orð fyrir frammistöðu sína í fyrstu krossferðinni. Haraldur hein. Haraldur hein eða Haraldur 3. (um 1041 – 1080) var konungur Danmerkur frá því að faðir hans, Sveinn Ástríðarson, lést 1074 og til dauðadags. Móðir hans er óþekkt en hann var einn af mörgum frillusonum Sveins. Haraldur tók þátt í síðustu víkingaferðinni til Englands árið 1069, þar sem danskir víkingar reyndu að notfæra sér óánægju Englendinga með Vilhjálm bastarð og menn hans, sem höfðu þá lagt England undir sig, en varð ekki ágengt. Þegar Sveinn Ástríðarson dó gerðu tveir sona hans, Haraldur og Knútur, tilkall til krúnunnar og er sagt að Haraldur hafi verið valinn því hann var talinn friðsamari þeirra tveggja en Knútur vildi reyna að ná Englandi á ný undir Danakonung. Stjórnartíð Haraldar var friðsamleg að frátöldum skærum við bræður hans, Knút og Eirík góða. Haraldur átti góð samskipti við kirkjuna eins og faðir hans og til eru nokkur bréf þar sem páfinn styður málstað Haraldar gegn bræðrum hans. Hann dró líka taum bænda gegn höfðingjum í ýmsum málum og gerði skóga krúnunnar að almenningum. Viðurnefni hans, hein, þýðir brýni og hefur ýmist verið túlkað þannig að hann hafi ekki þótt nógu harður af sér eða á jákvæðan hátt, þar sem brýni er nauðsynlegt verkfæri til að skerpa hnífa og sverð. Haraldur lét engin börn eftir sig en kona hans var Margrét Ásbjörnsdóttir. Hann var grafinn við Dalby-kirkju á Skáni. Knútur helgi. Knútur helgi drepinn. Málverk frá 1843. Knútur helgi eða Knútur 4. (um 1043 – 10. júlí 1086) var konungur Danmerkur frá 1080 til dauðadags. Hann var einn af frillusonum Sveins Ástríðarsonar Danakonungs og tók við kórónunni eftir dauða bróður síns, Haraldar hein. Knútur var mikill stuðningsmaður kirkjunnar eins og faðir hans og Haraldur bróðir hans höfðu verið, styrkti biskupsstólana mjög og reyndi að koma á tíund en það tókst þó ekki. Hann er sagður hafa verið örlátur við fátæka og tekið marga þeirra undir sinn verndarvæng en harður við illvirkja og óeirðamenn og barðist hart gegn sjóræningjum á Eystrasalti. Knútur vildi endurreisa stórveldi Knúts ríka frænda síns en dönsku höfðingjarnir voru lítt hrifnir af mikilmennskudraumum hans og hann var ekki vinsæll. Hann safnaði saman geysistórum flota í Limafirði árið 1085 - sumir segja um eitt þúsund skipum - og ætlaði að halda til Englands en flotinn fór aldrei af stað því að Knútur átti í erjum á suðurlandamærum ríkisins við Hinrik 4. keisara. Hann lagði sektir á þá sem höfðu gefist upp á biðinni og haldið heim áður en konungurinn gaf leyfi til. Sú ráðstöfun varð mjög óvinsæl og var gerð uppreisn gegn konungi. Hann lagði á flótta en 10. júlí 1086 var Knútur myrtur í kirkju heilags Albans í Óðinsvéum ásamt öllum fylgdarmönnum sínum nema Eiríki góða bróður sínum, sem slapp, en Benedikt bróðir þeirra féll í kirkjunni. Eiríkur góði hóf strax tilraunir til að fá bróður sinn tekinn í dýrlingatölu. Uppskerubrestur varð eftir dauða Knúts og var hann túlkaður sem vitnisburður um óánægju máttarvaldanna. Knútur var grafinn í dómkirkjunni í Óðinsvéum og þar urðu fljótt ýmiss konar jarteiknir. Árið 1101 var hann tekinn í helgra manna tölu. Knútur giftist Adelu, dóttur Róberts greifa af Flæmingjalandi. Börn þeirra voru Karl danski, sem einnig var tekinn í helgra manna tölu síðar, Ingrid og Cecilie. Karl var 11 ára þegar faðir hans var myrtur og erfði ekki ríkið, heldur var Ólafur hungur föðurbróðir hans valinn konungur. Adela flúði til Flæmingjalands með börn sín og ólst Karl þar upp og varð síðar greifi af Flæmingjalandi. Adela giftist síðar Roger hertoga af Apúlíu og dó 1115. Ólafur hungur. Ólafur hungur (um 1050 – 18. ágúst 1095) var konungur Danmerkur á 11. öld, þriðji sonur Sveins Ástríðarsonar sem settist á konungsstól. Hann tók við þegar Knútur bróðir hans var drepinn 10. júlí 1086 og var konungur til dauðadags. Sumir hafa þó haldið því fram að Ólafur hafi staðið á bak við morðið á bróður sínum. Þegar Knútur var drepinn var Ólafur fangi eða gísl í Flæmingjalandi hjá Róbert greifa en hann var þó valinn konungur og síðan fékkst skipt á honum og Níels, yngri bróður hans, svo að hann gat snúið heim og tekið við kórónunni. Á þessum árum hófst harðindatímabil í Norður-Evrópu og uppskeran brast ár eftir ár svo að hungursneyð ríkti. Þess vegna fékk Ólafur viðurnefnið hungur. Hallærið var líka tengt við morðið á Knúti og talið lýsa vanþóknun Guðs á verknaðinum. Ólafur dó 1095 og er hann eini danski konungurinn sem ekki er vitað hvar var grafinn. Kona Ólafs var Ingigerður dóttir Haraldar harðráða Noregskonungs. Hún giftist aftur eftir lát hans Filippusi konungi af Vestur-Gautlandi. Þau Ólafur áttu tvo syni en hvorugur varð langlífur og það var bróðir Ólafs, Eiríkur góði, sem tók við kórónunni. Eiríkur góði. Eiríkur góði (um 1056 – 1103) var konungur Danmerkur frá 1095 til dauðadags. Hann var fjórði sonur Sveins Ástríðarsonar sem settist á konungsstól. Hann var frilluborinn og er nafn móður hans óþekkt. Eiríkur var kjörinn konungur eftir lát Ólafs bróður síns sumarið 1095. Hann var hávaxinn og sterkur og sagður hafa verið vinsælastur bræðra sinna. Hann var með Knúti helga bróður sínum þegar hann var myrtur í dómkirkjunni í Óðinsvéum og var sá eini af mönnum hans sem slapp þaðan lifandi. Í upphafi konungsferils síns átti hann í harðri baráttu við Vinda í Norður-Þýskalandi og hafði betur. Hann hélt svo áfram að berjast fyrir því að fá Knút bróður sinn tekinn í helgra manna tölu, en á því hafði hann byrjað þegar eftir dráp Knúts, og tókst það. Einnig hélt hann áfram baráttu sem faðir hans hafði hafið fyrir því að fá sjálfstætt erkibiskupsdæmi í Danmörku og losa dönsku kirkjuna undir valdi erkibiskupsins í Hamborg-Brimum. Þetta tókst árið 1103, þegar erkibiskupsdæmið í Lundi (sem þá og lengi síðan tilheyrði Danmörku) var stofnað. Sama ár ákvað Eiríkur að fara í pílagrímsferð til Jerúsalem. Hann hélt með fjölmennu fylgdarliði suður um Rússland og til Miklagarðs, þar sem hann heimsótti keisarann. Hann komst þó aldrei á áfangasað, heldur dó á Kýpur og er grafinn í Paphos. Bóthildur drottning, sem var með í för, hélt áfram til Landsins helga og dó að sögn á Olíufjallinu. Sonur Eiríks og Bóthildar var Knútur lávarður (1096-1131), faðir Valdimars mikla Knútssonar konungs. Hann var barn að aldri þegar foreldrar hans dóu og Níels föðurbróðir hans var því valinn konungur. Eiríkur átti líka nokkur frillubörn, þar á meðal Harald kesju, sem settur var til að stjórna ríkinu þegar faðir hans fór í pílagrímsferðina, en þótti mjög harður og ófyrirleitinn og átti það stóran þátt í að hann varð ekki konungur eftir lát Eiríks þótt hann gerði kröfu til þess; Eirík eymuna, síðar konung, og Ragnhildi, móður Eiríks lambs, síðar konungs. Níels Danakonungur. Níels eða Nikulás (um 1064 – 25. júní 1134) var konungur Danmerkur frá 1104 til dauðadags. Hann var fimmti frillusonur Sveins Ástríðarsonar sem settist í hásætið og sá þeirra sem ríkti langlengst, eða í þrjátíu ár. Bróðir Níels, Eiríkur góði, dó á Kýpur 1103 í pílagrímsferð til Jerúsalem. Hann hafði sett frilluson sinn, Harald kesju, sem staðgengil sinn en þegar danskir höfðingjar komu saman til að velja konung kusu þeir hann ekki, heldur Níels. Vera má að þeir hafi talið að hann yrði þeim ráðþægari en Haraldur, enda þótti Níels ekki sérlega sterkur konungur. Þó voru stjórnarár hans lengi vel friðsamleg. Honum tókst að koma á tíundargreiðslum til kirkjunnar. Hann kom á vísi að embættismannakerfi þar sem hirðmenn voru settir á ýmsa staði í ríkinu og þeim falið að innheimta sektir og fleira. Um svipað leyti og Níels tók við krúnunni giftist hann Margréti dóttur Inga konungs eldri af Svíþjóð, sem kölluð var friðkolla (Fredkulla) af því að hún hafði áður verið gift Magnúsi berfætta Noregskonungi sem hluti af friðarsamningum sem gerðir voru í Konungahellu 1101. Sonur þeirra Níelsar var Magnús sterki. Hún dó um 1127 og árið 1130 giftist Níels Úlfhildi Hákonardóttur, sem hafði verið gift Inga yngri konungi Svíþjóðar. Hún skildi þó fljótt við Níels og giftist Sörkvi Svíakonungi. Knútur lávarður, sonur Eiríks góða, ólst upp hjá Hvide-ættinni á Sjálandi og einnig í Þýskalandi. Hann var gerður hertogi af Slésvík 1115 og aflaði sér mikilla vinsælda þar. Magnús sterki fór að líta á Knút sem hættulegan keppinaut um ríkiserfðir og í ársbyrjun 1131 bauð hann Knúti á fund í Haraldsted-skógi við Ringsted og myrti hann þar 7. janúar. Morðið var kveikjan að margra ára borgarastríði milli Magnúsar og Eiríks eymuna, hálfbróður Knúts. Varð það til þess að Innósentíus II páfi svipti dönsku kirkjuna sjálfstæði og lagði hana aftur undir erkibiskupsdæmið í Hamborg-Brimum. Það varð aftur til þess að afla Eiríki öflugra fylgismanna. Þann 4. júní 1134 varð bardagi milli fylkinganna nálægt Lundi. Þar féll Magnús. Níels konungur flúði til Slésvíkur en íbúar þar hefndu Knúts lávarðs og drápu hann. Hann var lagður til hvílu í dómkirkjunni í Slésvík. Kalaallit Nunaata Radioa. Kalaallit Nunaata Radioa eða KNR er ríkisrekinn fjölmiðill á Grænlandi sem rekur bæði sjónvarps- og útvarpsstöð. KNR sendir út fréttir bæði á dönsku og grænlensku. Amartya Sen. Amartya Kumar Sen (f. 3. nóvember 1933) er indverskur hagfræðingur sem fékk árið 1998 Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir verk sín varðandi velferðarhagfræði. Hann var prófessor við ýmsar stofnanir meðal annarra við Oxford háskólann, LSE og Harvard. Hann er þekktur sem Móðir Teresa hagfræðinnar og rannsóknasvið hans eru meðal annarra hungursneyðir, þróunarfræði, velferðarhagfræði, orsakir fátæktar og kynjamismunar. Árið 1981 gaf Sen út ritverkið "Poverty and Famines: An Essay on Entitlement and Deprivation" en í því sýndi hann fram á að hungursneyðir stafa ekki aðeins af skorti á mat heldur af ójöfnuði sem innbyggður er inn í hvernig matvælum er dreift. Áhugi Sen á hungursneyðum byggðist á persónulegri reynslu hans en hann var níu ára þegar í Bengal hungursneyðinni 1943 en í þeirri hungursneyð sultu þrjár milljónir manna í hel. Hann sýndi fram á að það hefði verið nógur matur í Bengal á þessum tíma en tilteknir hópar svo sem verkamenn sem ekki áttu ræktarland og fólk sem vann í þjónustu eins og rakarar, hópar sem ekki höfðu fé til að kaupa matvæli þegar matvælaverð hækkaði vegna ýmissa þátt svo sem hernaðar Breta, hamsturs og spákaupmennsku með matvæli, allt þættir sem tengdust stríðinu á svæðinu. Í bókinni "Poverty and Famines" segir Sen frá því að í mörgum hungursneyðum hafi framboð á matvælum ekki minnkað á marktækan hátt. Þannig hafi fæðuframleiðsla í Bengal á þessum tíma verið minni en árið áður en meiri en fyrri ár þar sem ekki varð hungursneyð. Því bendir Sen á að félagslegir og hagfræðilegir þættir eins og minni kaupmáttur, atvinnuleysi og ófullkomin matvæladreifikerfi hafi haft áhrif. Nálgun hans er út frá hæfni og jákvæðu frelsi, það er að segjahæfni einstaklings til að vera eða gera eitthvað. Sen telur að meta eigi ríkisstjórnir eftir hæfni og möguleikum þegnanna. Þannig geta mannréttindi eins og kosningaréttur ekki haft mikið að segja ef þegnarnir hafa ekki hæfni til að kjósa, hæfni sem getur verið almenn eins og menntun og verið sértæk eins og að komast á kjörstað. Hann telur að hvert samfélag þurfi að búa til lista yfir lágmarksfærni í viðkomandi samfélagi. Sen skrifaði umdeilda grein í tímaritið "The New York Review of Books" með titlinum „Það vantar meira ein 100 milljón konur“ þar sem hann greindi hvernig lífslíkur eftir kynjum tengdist mismunandi réttindum kynja, sérstaklega í Asíu. Sen nefnir Peter Bauer sem einn aðaláhrifavald varðandi kenningar sínar. Schwerin. Schwerin er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Mecklenborg-Vorpommern með 95 þúsund íbúa og er jafnframt höfuðborg þess. Hún er þar með minnsta og fámennasta höfuðborg sambandslands í Þýskalandi. Lega. Schwerin liggur nær í norðurhluta hins gamla Austur-Þýskalands, við samnefnt stöðuvatn. Næstu stærri borgir eru Wismar til suðurs (20 km), Rostock til norðausturs (60 km) og Lübeck til norðvesturs (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er gullinn riddari á bláum fleti. Merki þetta kemur fram þegar 1255 á innsigli og var notað allar götur til 1858. Árið 1991 var samþykkt að taka upp þetta merki á ný sem skjaldarmerki borgarinnar með léttum breytingum. Orðsifjar. Elstu þekktu nöfn bæjarins eru Zuarina og Zuerin (Zwerin). Þetta kemur úr slavnesku og merkir "dýragarður" eða "dýraönnun", sennilega í sambandi við stóðgarð. Það gæti hins vegar einnig verið dregið af slavneska goðinu Svarog og merkir þá "staður Svarogs". Söguágrip. Kastalinn í Schwerin er stórglæsileg bygging Snemma á 11. öld er slavneskur bær á staðnum. En 1160 stofnar Hinrik ljón ("Heinrich der Löwe") þýska borg hjá bænum og hefst þar með landnám germana á svæðinu. Aðeins 7 árum síðar verður bærinn að biskupssetri og er í kjölfarið miðstöð kristniboðs meðal slava á svæðinu. Með byggingu dómkirkju varð bærinn að pílagrímsbæ, enda var blóðdropi Jesú geymdur þar og tilbeðinn. 1358 dó greifaættin út og varð Schwerin þá hluti af hertogadæminu Mecklenborg. En sökum legu stóð Schwerin borgum eins og Rostock og Wismar langt að baki. Því slapp Schwerin einnig við þátttöku í 30 ára stríðinu að mestu. Borgin kom lítið við sögu í gegnum aldirnar. Schwerin 1651. Mynd eftir Matthäus Merian. Nýrri saga. Um miðja 19. öld var kastalinn endurgerður og reis þá núverandi glæsikastali. Hann var aðsetur greifanna af Mecklenborg. Eftir heimstyrjöldina fyrri 1918 var fríríkið Mecklenborg-Schwerin myndað innan Weimar-lýðveldisins. Schwerin var höfuðborg þess ríkis. Ríkið var lagt niður 1952 og varð Schwerin þá að venjulegri borg. Borgin varð fyrir óverulegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. 2. maí 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina átakalaust en skiluðu henni til Breta um sumarið. Samkvæmt samkomulagi bandamanna var borginni skilað til Sovétmanna, enda á þeirra hernámssvæði. Við sameiningu Þýskalands 1990 sóttu Schwerin og Rostock um að verða höfuðborg nýstofnaðs sambandslands Mecklenborg-Vorpommern. Valið féll Schwerin í vil, þar sem borgin var áður aðsetur hertoganna af Mecklenborg og þar sem fyrir voru nógu rúmmiklar byggingar fyrir þing og ráðuneyti. 1993 yfirgáfu síðustu rússnesku hermennirnir borgina. Hungursneyðin í Bengal 1943. Bengal hungursneyðin 1943 er hungursneyð í Bengal sem er núverandi Bangladesh og Vestur-Bengal. Talið er að um þrjár milljónir manna hafi látist af hungri, vannæringu og sjúkdómum. Mögulegar orsakir. Herlið Breta hafði tapað fyrir japanska hernum orustu um Singapore árið 1942 og réðust Japanir inn í Búrma þetta sama ár. Búrma var stærsti útflytjandi hrísgrjóna. Árið 1940 kom 15% af hrísgrjónum Indlands frá Búrma og það hlutfall var hærra í Bengal en annars staðar. Þó verið gæti að meira en 20% af neyslu hrísgrjóna í Bengal kæmi frá Búrma þá er það ekki nóg sem eini orsakavaldur hungursneyðarinnar. Bresk stjórnvöld óttuðust að Japanir réðust inn í Indland gegnum Bengal og hófu að safna matarbirgðum fyrir breska hermenn og hefta aðgengi að vistum sem gæti fallið í hendur Japana. Í héraðinu Chittagong sem var næst landamærum Búrma gerði herinn upptæk ýmis tæki svo sem báta, vagna og bíla. Íbúarnir höfðu notað bátana til fiskveiða. Mikið af hrísgrjónum var flutt til miðausturlanda til matar fyrir breska og indverska hermenn. Þann 16. október 1943 skall skýstrókur á austurströnd Bengal og Orissa. Stórt hrísræktarsvæði sem náðu allt að fjörutíu mílur inn í land fór á kaf og haustuppskeran á þessu svæði brást. Það þýddi að sveitafólk þurfti að éta allar sínar matarbirgðir og ganga á útsæðið. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði Amartya Sen heldur því fram að það hafi ekki verið alsherjarskortur á hrísgrjónum í Bengal árið 1943: það hafi verið heldur meira þar af hrísgrjónum en til var árið 1941 en þá hafi samt ekki komið til hungursneyðar. Það hafi einmitt verið það sem olli því að yfirvöld brugðust ekki við í tíma, það hafi ekki verið alvarlegur uppskeruskortur og hungursneyðin komið þeim á óvart. Sen telur að orsakir hungursneyðarinnar liggi í orðróm sem barst um skort og á grundvelli hans fóru margir að hamstra matvælum og það olli verðhækkunum. Landeigendur og hrísgrjónaspákaupmenn högnuðust en kaupmáttur hjá hópum eins og landlausum verkamönnum, sjómönnum og rökurum lækkaði um tvo þriðju frá árinu 1949. Aðstæður voru þá þannig að þó að Bengal hefði nógan hrísgrjónaforða fyrir alla íbúa þá urðu skyndilega milljónir manns of fátækir til að kaupa mat. Viðbrögð stjórnvalda. Stjórn Bengal brást seint og illa við hungursneyðinni og neitaði að stöðva fæðuútflutning frá Bengal. Winston Churchill var forsætisráðherra á þessum tíma og það er á huldu hvernig hann tók á þessu máli og hve vel upplýstur hann var um aðstæður. Þannig mun hann hafa svarað símskeyti þar sem beðið var um matvæli fyrir Indland og spurt úr því að svona mikill matvælaskortur væri,hvers vegna Gandi væri ekki dáinn ("why Gandhi hadn’t died yet.") Í byrjun hungursneyðarinna hafði hann meiri áhyggjur af grískum borgurum á svæðinu en af innfæddum bengalbúum. Að lokum skrifaði Churchill Roosevelt og bað um aðstoð Bandaríkjamanna þar sem hann gæti ekki varið lengur að biðja um hjálp en Bandaríkjamenn synjuðu þeirri hjálparbeiðni. Bengal stjórnin bannaði ekki útflutning á hrísgrjónum og gerði litlar tilraunir til að afla birgða annars staðar í Indlandi eða að kaupa birgðir af spákaupmönnum til að dreifa meðal hinna hungruðu. Sen heldur fram að stjórnvöld hafi ekki skilið að hungursneyðin stafaði ekki af fæðuskorti og að fæðudreifing er ekki eingöngu fólgin í að halda járnbrautarsamgöngukerfi gangandi heldur verði veita ókeypis neyðaraðstoð á stórvirkan hátt. Stjórnvöld voru góð í að meta hversu mikið af matvælum var á svæðinu en stóðu sig afleitlega í að átta sig á af hverju hungursneyðin stafaði. Hungursneyðinni lauk þegar stjórnin í London flutti 1,000,000 tonn af hrísgrjónum til Bengal og lækkaði þannig matarverð. Hungursneyðir og lýðræði. Amartya Sen notar Bengal hungursneyðina og aðrar hungursneyðir til að skýra kenningar sína um að hungursneyðir verði ekki í ríkjum þar sem er virkt lýðræði. Eiríkur eymuni. Eiríkur eymuni eða Eiríkur eimuni (d. 18. júlí 1137) var konungur Danmerkur frá 1134 til dauðadags. Hann var frillusonur Eiríks góða Danakonungs. Fátt er vitað um ævi Eiríks fyrr en um það leyti sem hálfbróðir hans, Knútur lávarður, var myrtur í ársbyrjun 1131 af Magnúsi sterka, syni Níelsar konungs, föðurbróður þeirra. Eiríkur, sem þá var jarl af Lálandi, hóf uppreisn gegn konungi og næstu þrjú árin sló nokkrum sinnum í bardaga sem Eiríkur tapaði þó alltaf en 1134 tókst honum að fá Össur erkibiskup í Lundi og Lothar keisara í lið með sér og í miklum bardaga sem háður var 4. júní 1134 við Fótvík nálægt Lundi beið her feðganna Níelsar konungs og Magnúsar sterka lægri hlut og Magnús féll en Níels lagði á flótta og var drepinn í Slésvík um þremur vikum síðar. Eiríkur eymuni var hylltur sem konungur Danmerkur þegar eftir bardagann. Hann settist að í Lundi og gerði bæinn að höfuðstað ríkisins. Hann vann að því að fá Knút lávarð bróður sinn tekinn í heilagra manna tölu til að styrkja tök ættleggs síns á konungdæminu en lét um leið drepa alla hugsanlega keppinauta sem hann gat náð til, jafnvel Harald kesju bróður sinn, sem hafði verið í liði með Níels konungi, og syni hans. Eiríkur fór í krossferð til Rügen 1136 til að kristna heiðna menn þar og vann bæinn Arkona eftir umsátur. Hann ætlaði í annan leiðangur árið eftir en varð að hætta við vegna vaxandi ólgu í Danmörku. Eiríkur þótti sýna af sér grimmd og ofríki heima fyrir og 18. júlí 1137 var hann drepinn á héraðsþingi í Slésvík; banamaður hans er sagður hafa verið aðalsmaður að nafni Plógur hinn svarti (Sorteplov). Kona Eiríks var Málmfríður, dóttir Mstislavs stórhertoga af Kænugarði, sem áður hafði verið gift Sigurði Jórsalafara Noregskonungi. Þau áttu ekki börn en Eiríkur átti einn frilluson, Svein. Viðurnefnið „eymuni“ (eimuni) þýðir sá sem aldrei gleymist (sá sem menn muna ævinlega), sbr. að sólin er kölluð Eygló = sú sem að eilífu glóir. Eiríkur lamb. Eiríkur lamb eða Eiríkur spaki (um 1120 – 27. ágúst 1146) var konungur Danmerkur frá 1137 til 1146. Hann sagði af sér skömmu fyrir dauða sinn vegna veikinda og dó í klaustri í Óðinsvéum skömmu síðar. Eiríkur var sonur Ragnhildar dóttur Eiríks góða og höfðingjans Hákonar norræna, sem var afkomandi Magnúar góða. Þegar Eiríkur eymuni var drepinn 1137 þóttu ýmsir koma til greina sem arftakar hans, þar á meðal Sveinn frillusonur hans, Knútur sonur Magnúsar sterka Níelssonar konungs og Valdimar sonur Knúts lávarðs, en þeir voru allir á barnsaldri; Eiríkur lamb var sá eini sem taldist fullvaxinn og var það líklega helsta ástæða þess að hann var valinn konungur. Eiríki tókst að ná góðu samstarfi við kirkjuna og veitti henni ýmis hlunnindi. Hann reyndi að efla embættismannakerfið til að styrkja sig í sessi. Hann var friðsamur og þótti sérlega blíður og góðlyndur, ljúfur eins og lamb, og af því fékk hann viðurnefni sitt. Árið 1139 hljóp þó snuðra á þráðinn þegar Ólafur, eini eftirlifandi sonur Haraldar kesju sonar Eiríks góða, fór að láta til sín taka og tókst að fá sig tekinn til konungs á Skáni. Hann herjaði á Sjáland og það var ekki fyrr en 1143 sem Eiríki tókst að ná yfirhöndinni og Ólafur féll í orrustunni við Glúmsþorp á Skáni. Eiríkur veiktist 1146 og sagði af sér skömmu fyrir dauða sinn. Kona hans var Luitgard, systir erikibiskupsins af Hamborg-Bremen. Þau voru barnlaus en Eiríkur átti frillusoninn Magnús. Háskólinn í Færeyjum. Háskólinn í Færeyjum (Færeyska: Fróðskaparsetur Føroya) er háskóli í Þórshöfn, Færeyjum. Hann var stofnaður af Vísindafélagi Færeyja árið 1965 og hét þá "Academia Færoensis". Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1990 sem skólinn var formlega viðurkenndur sem háskóli. Rektor skólans er Jóan Pauli Joensen. Háskólinn á Grænlandi. Háskólinn á Grænlandi (grænlenska: Ilisimatusarfik) er háskóli í Nuuk, Grænlandi. Ginny Weasley. Ginny Weasley er persóna í Harry Potter-bókunum. Hún er systir Ron Weasley og er meðlimur varnarliði Dumbeldores og er hrifin að Harry. Hún var flokkuð í Gryffindor-heimavistina. Hún er yngst í Weasley-fjölskyldunni. Harry Potter var eitt sinn hrifinn af Ginny. Í lokinn á sjöundu-bókinni giftast þau og eignast 3 börn. Bonnie Wright lék Ginny Weasley í kvikmyndunum um Harry Potter. My Life in Ruins. My Life in Ruins er rómantísk gamanmynd frá árinu 2009 og gerist í rústum forn Grikklands og leika Nia Vardalos, Richard Dreyfuss, Alexis Georgoulis, Rachel Dratch, Harland Williams og breski gamanleikarinn Allistair McGowan í henni. Myndin fjallar um leiðsögukonu en lí hennar tekur persónulegan krók, þegar hópurinn hennar lendir í gamansömum aðstæðum í rústunum, ásamt óviðbúnum áningarstöðum á leiðinni. Myndin kom í kvikmyndahús þann 5. júní 2009 í Bandaríkjunum en 7. maí 2009 í Grikklandi Knútur Magnússon. Smámynt frá ríkisstjórnarárum Knúts Magnússonar. Knútur Magnússon eða Knútur 5. (1129 – 9. ágúst 1157) var konungur Danmerkur frá 1146 til dauðadags, ásamt Sveini Eiríkssyni og einnig Valdimar Knútssyni síðustu mánuðina. Knútur var sonur Magnúsar sterka, sem var sonur Níelsar konungs. Móðir Knúts var kona Magnúsar, Ríkissa af Póllandi. Faðir Knúts og afi féllu 1134, þegar hann var aðeins fimm ára, og þegar Eiríkur eymuni var drepinn 1137 var Knútur enn of ungur til að taka þátt í kapphlaupi um kórónuna, og eins var með frændur hans, Svein og Valdimar, svo að Eiríkur lamb varð konungur. Eiríkur sagði af sér 1146 og þá voru þeir Sveinn og Knútur orðnir fullveðja en Valdimar var enn á unglingsaldri. Jótar kusu Knút sem konung sinn en Sjálendingar völdu Svein. Ekki leið á löngu þar til kom til átaka og Knútur hraktist um tíma tilÞýskalands en tókst þar að safna saman her. Friðrik Barbarossa Þýskalandskonungur úrskurðaði að Sveinn ætti að vera einn konungur en Knútur skyldi hafa Sjáland að léni. Fljótlega braust þó út borgarastyrjöld að nýju og nú gekk Valdimar í lið með Knúti en hafði áður stutt Svein. Sveinn var hrakinn úr landi en snemma árs 1157 sneri hann aftur og þá var gert samkomulag um þrískiptingu ríkisins. Valdimar fékk Jótland, Knútur Sjáland og Sveinn fékk Skán. Sveinn bauð meðkonungum sínum til sáttaveislu í Hróarskeldu í ágúst um sumarið en undir borðum lét hann menn sína ráðast á Knút og Valdimar. Knútur var drepinn á staðnum en Valdimar tókst að flýja þótt hann væri særður. Þann 23. október um haustið mættust Valdimar og Sveinn í orrustu á Grathe-heiði. Henni lauk með því að Sveinn lagði á flótta út í mýrlendi, tapaði þar vopnum sínum og verjum, náðist og var höggvinn. Eftir það ríkti Valdimar einn sem konungur. Kona Knúts var Ingigerður af Svíþjóð. Þau áttu ekki börn en Knútur átti tvo frillusyni, Níels sem kallaður var hinn helgi, dó rúmlega tvítugur og virðist hafa verið álitinn heilagur maður meðan hann var enn lífs, og Valdimar biskup í Slésvík og síðar erkibiskup í Brimum. Hann reyndi að gera tilkall til ríkis í Danmörku 1192 en var handtekinn og hafður í haldi til 1206. Tokugawa Iemitsu. Tokugawa Iemitsu (徳川 家光 12. ágúst, 1604 — 8. júní, 1651) var þriðji sjógun Tokugawa-ættarinnar í Japan. Hann var elsti sonur Tokugawa Hidetada og tók við völdum þegar faðir hans sagði af sér 1623. Í valdatíð hans varð Shimabara-uppreisnin þegar kristnir bændur gerðu uppreisn vegna ofsókna hans gegn þeim. Hann barði niður uppreisnina, bannaði kristna trú með öllu og gaf út tilskipun sem lagði dauðarefsingu við því að Japanir ferðuðust frá Japan til annars lands. Hann varð fyrsti herstjórinn sem lést í embætti. Sveinn Eiríksson Grathe. Sveinn Eiríksson (1125 – 23. október 1157), sem eftir dauða sinn hefur verið nefndur Sveinn Grathe, var konungur Danmerkur frá 1146 til dauðadags, lengst af ásamt Knúti Magnússyni og síðustu mánuðina með Valdimar Knútssyni. Sveinn var sonur Eiríks eymuna, sem var konungur 1134-1137. Þegar hann var drepinn var Sveinn of ungur til að keppa um konungdæmið og Eiríkur lamb frændi hans varð konungur. Sveinn var sendur til Þýskalands og ólst þar upp. Þegar Eiríkur sagði af sér 1146 var Sveinn aftur á móti fullvaxinn og Knútur Magnússon frændi hans líka. Sveini tókst að láta kjósa sig konung í Skáni og á Sjálandi en Jótar studdu Knút Magnússon og næstu árin geisaði borgarastyrjöld í Danmörku. Valdimar frændi þeirra, sonur Knúts lávarðs, var lengi framan af í liði Sveins, stýrði herjum hans og þótti standa sig mjög vel. Á endanum leitaði Knútur til Friðriks 1. Þýskalandskonungs, sem stefndi konungunum til fundar í Merseburg 1152. Þar dæmdi Friðrik að Sveinn skyldi verða konungur Danmerkur en um leið lénsmaður sinn og lét hann heita því að Knútur fengi Sjáland að léni. Sveinn stóð þó ekki við það heit og því reiddist Valdimar. Sveinn beindi öllum kröftum sínum í borgarastyrjöldina og sinnti lítt um varnir gegn Vindum, sem stöðugt stunduðu sjórán á Eystrasalti og strandhögg í sunnanverðri Danmörku. Hann þótti allt of hallur undir Þjóðverja og aflaði sér þannig óvinsælda. Valdimar varð honum á endanum fráhverfur og þegar Sveinn áttaði sig á því reyndi hann að ryðja honum úr vegi eða gera hann óskaðlegan en mistókst og Valdimar gekk í bandalag við Knút. Í sameiningu hröktu þeir Svein til Þýskalands, þar sem hann flakkaði um í þrjú ár og reyndi að afla sér stuðnings. Að lokum tókst honum það og hann sneri aftur til Danmerkur. Konungarnir þrír settust að samningaborði og skiptu ríkinu í þrennt, Valdimar fékk Jótland, Knútur Sjáland og Sveinn tók Skán. Sveinn bauð svo meðkonungum sínum til sáttaveislu í Hróarskeldu þann 9. ágúst 1157. Þar drápu menn hans Knút en Valdimar komst undan á flótta þótt særður væri. 23. október um haustið mættust Sveinn og Valdimar í orrustu á Grathe-heiði. Sveinn beið lægri hlut, flúði út í mýrlendi þar sem hann tapaði vopnum sínum og verjum, náðist svo og var höggvinn. Hann var að sögn huslaður á aftökustaðnum og þar var seinna reist kapella. Eftir dauða sinn hefur hann jafnan verið nefndur eftir staðnum þar sem hann féll og kallaður Sveinn Grathe. Kona hans var Adele af Wettin en þau áttu ekki börn sem lifðu. Valdimar mikli Knútsson. Stytta Valdimars mikla í Ringsted. Valdimar mikli eða Valdimar Knútsson (14. janúar 1131 – 12. maí 1182) var konungur Danmerkur frá 1157 til dauðadags, fyrstu mánuðina með frændum sínum Sveini Eiríkssyni og Knúti Magnússyni en eftir það einn. Valdimar var sonur Knúts lávarðs, sonar Eiríks góða, og Ingibjargar af Kænugarði, konu hans. Hann fæddist átta dögum eftir að Magnús sterki lét drepa föður hans. Hann ólst upp hjá sjálenska höfðingjanum Asser Rig af Hvide-ætt, með sonum hans Absalon og Esbern Snare. Í borgarastyrjöldinni milli Sveins Eiríkssonar og Knúts Magnússonar studdi Valdimar framan af Svein, sem gerði hann að hertoga af Slésvík, en síðar varð Valdimar Sveini fráhverfur og árið 1154 gekk hann í bandalag við Knút og trúlofaðist hálfsystur hans, hinni fögru Soffíu af Minsk. Árið 1157 var samið um að skipta ríkinu í þrennt milli þeirra frændanna og fékk Valdimar þá Jótland í sinn hlut. Í veislu í Hróarskeldu í ágústmánuði sveik Sveinn frændur sína og réðist að þeim. Knútur var drepinn og Valdimar særðist en komst undan á flótta. Hann safnaði saman bændaher á Jótlandi og 23. október um haustið vann hann sigur á Sveini í orrustu á Grathe-heiði. Sveinn var höggvinn og eftir það var Valdimar einn konungur. Valdimar styrkti konungsríkið mjög, enda ekki vanþörf á eftir langvarandi innanlandsófrið, og réðist meðal annars gegn Vindum, sem höfðu lengi herjað á Danmörku með ránum. Við það naut hann stuðnings Absalons uppeldisbróður síns, sem hann útnefndi biskup í Hróarskeldu 1158 og varð síðar erkibiskup í Lundi. Uppreisn var gerð gegn Valdimar og Absalon árið 1180 og urðu þeir að flýja land en sneru aftur með her ári síðar og bældu uppreisnina niður. Miklar breytingar urðu á dönsku samfélagi á ríkisstjórnarárum Valdimars. Skattkerfinu var breytt og embættismannakerfið styrkt. Tekjur konungsins voru auknar, meðal annars með því að samþykkt var að allt það land sem enginn ætti skyldi tilheyra krúnunni. Valdimar dó vorið 1182 og er grafinn í Ringsted. Hann átti átta börn með Soffíu konu sinni, synina Knút 6. og Valdimar sigursæla og sex dætur, þar á meðal Ingibjörgu konu Filippusar 2. Ágústs Frakkakonungs og Ríkissu konu Eiríks Knútssonar Svíakonungs. Knútur 6.. Innsigli Knúts 6., frá því um 1190. Knútur 6. Valdimarsson (stundum Knútur 4.) (1163 – 12. nóvember 1202) var konungur Danmerkur frá 1182 til dauðadags. Hann var sonur Valdimars mikla Knútssonar og konu hans Soffíu af Minsk og var krýndur sem meðkonungur föður síns þegar árið 1170. Hann tók svo við þegar faðir hans lést en í raun var það Absalon erkibiskup, vinur og fóstbróðir Valdimars, sem stýrði ríkinu framan af. Knútur neitaði að gerast lénsmaður Friðrik Barbarossa keisara og vegna átaka og óeiningar innan Þýskalands tókst honum að ná ítökum í Pommern og fá Bugislav hertoga þar til að viðurkenna yfirráð Dana. Eftir það kallaði hann sig konung Vinda og þótt Danir misstu öll yfirráð yfir Pommern, Mecklenburg og öðrum löndum sunnan Eystrasalts árið 1225 héldu Danakonungar áfram að kalla sig konunga Vinda fram á 20. öld. Knútur er sagður hafa verið mjög hávaxinn, frómur og lítillátur en ekki mikill leiðtogi. Framan af ríkisstjórnarárum sínum stóð Knútur í skugga Absalons og seinna yngri bróður síns, Valdimars sigursæla, sem var mun meiri fyrir sér. Knútur giftist 1177, fjórtán ára að aldri, Geirþrúði (um 1154 - 1196) dóttur Hinriks ljóns hertoga af Saxlandi og Bæjaralandi. Þau voru barnlaus. Paprika. Paprika er heiti á ýmsum yrkjum jurtarinnar "Capsicum annuum". Ólíkir yrki bera mismunandi aldin en algengustu litirnir eru gulur, rauður og appelsínugulur þótt mörg önnur litbrigði séu til. Óþroskaðar paprikur eru grænar að lit og eru þær oft borðaðar líka en fullþroskaðar paprikur eru þó mun sætari og flestum þykja þær bragðbetri. Flestar eru hnöttóttar eða svolítð aflangar en einnig eru til langar og oddmjóar paprikur. Paprikan er upprunnin í Mexíkó, Mið-Ameríku og norðanverðri Suður-Ameríku. Fræ einhverra Capsicum-yrkja bárust til Spánar þegar árið 1493 með Kólumbusi og þaðan bárust paprika og chillipipar víða um heim mjög fljótt. Paprika er ræktuð mjög víða, utanhúss og á norðurslóðum í gróðurhúsum. Þótt paprikan sé náskyld chillipipar er hún eina jurtin af Capsicum-ættinni sem ekki inniheldur "capsaicin", sem er sterka efnið í chillipipar og öðrum skyldum jurtum. Í rauninni er paprika ávöxtur en hún er þó yfirleitt notuð eins og grænmeti og flestir líta á hana sem grænmeti en ekki ávöxt. Paprikur eru auðugar að C-vítamíni og fleiri hollefnum. Heitið paprika er komið úr ungversku en þýðir upprunalega pipar, eins og raunar nafn jurtarinnar á flestum evrópskum tungumálum. Það á sér rætur í misskilingi sem varð til strax þegar Kólumbus kom með fræ jurtarinnar til Evrópu; hann kallaði hana "pimentón", sem þýðir pipar á spænsku. Hann hafði verið gerður út til að leita að leiðinni til Indlands, ekki síst til að nálgast pipar, en kom aftur með annað sterkt krydd. Slavonic Channel International. SCI (Úkraínska: "Міжнародний Слов'янський Канал", Rússneska: "Международный Славянский Канал", Enska: "Slavonic Channel International") er einkarekin, úkraínsk sjónvarpsstöð, sem hóf útsendingar 12. september 2008. Stöðin er í eigu Ivanenko V. V. Nikulásarkirkjan í Stralsund. Nikulásarkirkjan er aðeins með eina turnspíru Nikulásarkirkjan stendur við gamla markaðstorgið í þýsku borginni Stralsund og er elst af hinum þremur stóru kirkjum borgarinnar og er jafnframt aðalkirkjan. Turnarnir eru tveir, en aðeins einn þeirra er með spíru. Því er ásýnd kirkjunnar svolítið einkennileg. Í kirkjunni eru ýmsir verðmætir munir. Saga Nikulásarkirkjunnar. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Nikulásarkirkjan var reist, en sennilega var hún reist í kjölfarið af því er floti frá Lübeck eyddi Stralsund 1249. Kirkjan kemur fyrst við skjöl 1270 og var þá enn turnlaus. Um 1300 var hafist handa við að reisa turn við kirkjuna, en 1314 var ákveðið að turnarnir skyldu vera tveir. Kirkjan sjálf var ekki fullreist fyrr en um miðja 14. öld og helguð heilögum Nikulási, sem er verndardýrlingur sæfarenda. Efri hlutar turnanna voru gerðir úr viði. Mikið gekk á í siðaskiptunum í snemma á 16. öld. Fyrstu lútersku predikararnir héldu ræður í kirkjunni 1524 og leysti það siðaskiptin úr læðingi í borginni. Kaþólsku prestarnir sem predikuðu í kirkjunni voru oft úthrópaðir og eitt sitt var einn presturinn togaður niður úr predikunarstólnum og barinn. Stuttu seinna réðist múgur inn í kirkjuna og eyðilagði ölturu, en þau voru hvorki meira né minna en 56 á kaþólska tímanum. Eftir þetta varð kirkjan lútersk og er hún það enn. 1662 brunnu báðir turnarnir. Ári síðar var sett spíra á suðurturninn, en aðeins flatt þak á norðurturninn. Þetta fyrir komulag hélst til dagsins í dag og gefur það kirkjunni sérkennilegt útlit. Kirkjan er 103 metra há. Í loftárásum 1944 skemmdist kirkjan nokkuð, en var lagfærð 1947. Ölturu. Altaristaflan við aðalaltarið er 12 metra há og er skreytt með rúmlega 100 styttum. Þær sýna myndefni úr Nýja testamentinu. Til hliðar eru tvær hreyfanlegar aukatöflur. Talið er að altarið sé frá upphafi 14. aldar. Eitt sinn voru 56 ölturu í kirkjunni, en mörg þeirra skemmdust í siðaskiptunum. Þó eru í kirkjunni nokkur gömul ölturu sem hafa varðveist og eru þau öll úr viði. Önnulíkneski. Stjörnuúrið í kirkjunni er það elsta við Eystrasalt Anna selbdritt er heiti á styttu af Önnu, móður Maríu mey. Styttan er 2,24 metra há og er hún elsta myndastyttan í Stralsund. Hún kemur fyrst við skjöl 1307. Anna situr á háu sæti og heldur á barni sínu, Maríu. María sjálf hélt upphaflega á Jesúbarninu, en höfuð barnsins er brotið og týnt. Brjóst Önnu er holt. Þar var áður fyrr geymt helgiskrín, sem var eyðilagt í siðaskiptunum 1525. Stjörnuúr. Bak við altaristöfluna stóru stendur stjörnuúr. Það var smíðað 1394 og er elsta slíka úrið við Eystrasalt. Úrið sjálft er 4 metra hátt og 3,5 metra breitt. Úrið sýnir tímann og dýrahringinn. Það stoppaði 10. apríl 1525, mitt í siðaskiptunum. Borgarráði fannst of dýrt að láta gera við það og þannið hefur úrið staðið allar götur síðan. Í dag er óttast að viðgerð muni eyðileggja gamla hluti í úrverkinu. Í sérhverju horni við úrskífuna eru fígúrur. Þær sýna Ptólemeus, Alfons X konung Kastilíu (Spánar), stjörnufræðinginn Hali og stjörnufræðinginn Albumazar. Á hliðinni er mynd af persónu sem talinn er vera Nicolaus Lillienveld, úrsmiðurinn. Það er þá elsta mynd af úrsmiði í heiminum. Falsvinir. Falsvinir (eða svikatengsl) er haft um orð ólíkra tungumála sem sýnast jafngild, hljóma eða líta eins út eða (virðast) eiga sér sameiginlegan orðstofn. Dæmi um falsvini sem koma stundum fyrir í slæmum þýðingum íslenskum er enska orðið „harmless“ og íslenska orðið „harmlaus“. Íslenska orðið þýðir ekki meinlaus, eins og það enska, heldur sorglaus. Orðin teljast því vera falsvinir. Annað dæmi er enska sögnin „to have“ sem þýðir að hafa og latneska sögnin „habere“ sem einnig þýðir að hafa en algeng mistök eru að telja að skyldleiki sé með orðunum; svo er þó ekki en enska sögnin er á hinn bóginn skyld latnesku sögninni „capio“ sem þýðir að taka. Landlæknisembættið. Landlæknisembættið er íslensk ríkisstofnun sem hefur það markmið að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigði landsmanna. Sá sem stýrir Landlæknisembættinu kallast Landlæknir. Fyrsti landlæknir á Íslandi var Bjarni Pálsson en hann var skipaður í embættti 18. mars 1760. Aðsetur landlæknis var í Nesstofu við Seltjörn á Seltjarnarnesi frá 1763 til 1834. Landlæknisembættið er nú til húsa á Austurströnd 5. Í fyrsta erindisbréfi landlæknis var honum falið að hafa umsjón með heilbrigðismálum landsins, veita sjúkum læknishjálp, kenna lækningar og uppfræða ljósmæður auk þess að vera lyfsali og sjá um sóttvarnir. Á tímabilinu 1760-1799 voru stofnuð fimm læknisembætti á Íslandi auk embættis landslæknis og árið 1828 bættist læknisembætti í Vestmannaeyjum við. Guðmundur Björnsson (landlæknir). Guðmundur Björnsson (tók sér ættarnafnið Björnson 1915) (f. í Gröf í Víðidal 12. október 1864, d. 7. maí 1937.) var landlæknir frá 1906-1931. Hann sat í Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1900 – 1906 og var alþingismaður Reykvíkinga 1905 – 1908, konungskjörinn alþingismaður 1913 – 1915 og landskjörinn 1916 – 1922. Fyrri kona hans var Guðrún Sigurðardóttir (f. 31. des. 1864, d. 29. jan. 1904) og seinni kona hans var (14. ágúst 1908) Margrét Magnúsdóttir Stephensen (f. 5. ágúst 1879, d. 15. ágúst 1946) en hún var dóttir Magnús Stephensen alþingismanns og landshöfðingja. Guðmundur tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1887 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar 1886 – 1887. Hann lauk læknisfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1894. Hann starfaði sem læknir í Reykjavík 1894 – 1895 og kenndi við Læknaskólann 1894 – 1895 þegar Hans J. G. Schierbeck landlæknir var í orlofi. Guðmundur var héraðslæknir í Reykjavík 1895 – 1906 og jafnframt kennari við Læknaskólann. Hann varð landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans árið 1906 og jafnframt ljósmæðrakennari og prófessor við læknadeild Háskólans 1911. Hann fékk orlof frá landlæknisstörfum 30. sept. 1921 um sex mánaða skeið en jafnframt falið að undirbúa framkvæmd laga um varnir gegn berklaveiki. Greifswald. Greifswald er borg í þýska sambandslandinu Mecklenborg-Vorpommern og er með 54 þúsund íbúa. Greifswald er háskólaborg og nema þar um 12 þúsund stúdentar. Lega. Miðborgin í Greifswald. Fyrir miðju er Nikulásarkirkjan. Rauða húsið er ráðhúsið. Greifswald liggur í norðurhluta Vorpommern, nær alveg við Eystrasalt. Hún er suðvestan við hafnaborgina Stralsund. Borgarhlutarnir Wieck og Eldena liggja við Dänische Wieck ("Dönsku víkina"), vík inn úr Eystrasalt. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir rautt griffón, sem er örn að framan en ljón að aftan. Fyrirbæri þetta heitir "Greif" á þýsku og er einkennismerki Pommern. Griffónið stendur á tré, en skógur myndar seinni hluta heitisins Greifswald. Orðsifjar. Borgin heitir eftir ævintýraverunni griffón, sem er "Greif" á þýsku. Eldri ritháttur borgarinnar er Pripheswald og Grypswold ("Gryps" er latneska heitið). Endingin "–wald" merkir "skógur". Upphaf. Greifswald myndaðist í kringum klaustrið Eldena um miðja 13. öld. Bærinn óx svo hratt í fyrstu að hann hlaut almenn borgarréttindi 1250. Skömmu seinna gekk borgin í Hansasambandið. Ekki er vitað hvenær það gerðist en á skjali frá 1278 kemur fram að Greifswald sé meðlimur sambandsins. Borgin var í eigu hertoganna af Pommern, sem oftar en ekki átti í útistöðum og deilum við greifanna í Mecklenborg. Í þakklætisskyni fyrir góðan stuðning, stofnaði hertoginn í Pommern, Wartislaw IX, háskóla í borginni. Greifswald varð þar með einn allra minnsta borgin í þýska ríkinu með háskóla. Siðaskipti og stríð. Greifswald 1652. Mynd eftir Matthäus Merian 1531 verða siðaskiptin í borginni. Farandpresturinn Johannes Knipstro hóf að predika lúterstrú og breiddist hún hratt og nær án andstöðu út í borginni. 1626 lét hertoginn Bogislaw XIV gera sérstök varnarvirki umhverfis borgina, enda geysaði 30 ára stríðið í landinu. Ári seinna veiktist Bogislaw og yfirgaf Pommern. Wallenstein stóð við borgardyrnar 20. nóvember 1627 og hertók Greifswald fyrirhafnarlaust. Þar kom hann á grimmilegri stjórn með nauðung og ofríki. Næstu fimm árin fækkaði borgarbúum um helming. 1631 birtist Gústaf Adolf II við borgardyrnar. Eftir snarpa bardaga við keisaraherinn náðu Svíar að frelsa borgina. Svíar hertóku Pommern og réðu borginni Greifswald næstu 184 árin. Hertoginn í Brandenborg reyndi að hrifsa borgina til sín og 1678 náði hann að hertaka hana. Hann hélt henni þó aðeins í tæpt ár áður en Svíar náðu að taka hana til baka. Enn í dag eru nokkrar fallbyssukúlur frá þessum tíma fastar í borgarveggjunum. Í Norðurlandaófriðinum mikla var borgin neydd til að taka inn hermenn frá Danmörku, Saxlandi og Rússlandi til skiptis. Í 7 ára stríðinu sprakk vopnageymsla í borginni og olli gríðarlegu tjóni. Heilu hverfin eyðilögðust í sprengingunni og eldunum sem af henni hlutust. Nýrri tímar. Frakkar hertóku Greifswald í Napoleonstríðunum og heldu borginni frá 1807-1810. Þeir voru aftur í borginni veturinn 1812-13 meðan Napoleon fór í herferð til Rússlands. En eftir fall Napoleons úrskurðaði Vínarfundurinn að Svíar skyldu missa Pommern. Greifswald varð því prússnesk. Sem slík kom borgin lítið við sögu eftir það. Iðnaður náði ekki að þróast eins mikið og í öðrum borgum og litla höfnin lenti undir í samkeppni við stærri hafnir, svo sem Rostock og Szczecin. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari hertóku Sovétmenn borgina bardagalaust. Það var ekki fyrr en borgin varð hluti af Austur-Þýskalandi að hún náði að dafna. Íbúafjöldinn fór mest í 68 þús árið 1988, en minnkaði talsvert eftir sameiningu Þýskalands 1990. Viðburðir. Nordischer Klang er heiti á stærstu menningarhátíð um Norðurlönd í norðurhluta Evrópu, utan Norðurlanda. Þar fá listamenn Norðurlanda að flytja eigin tónlist, lesa úr ritum sínum, sýna kvikmyndir og sýna aðrar listir. Árið 2008 var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra (menningarmálaráðherra skv. þýskum heimildum), verndari hátíðarinnar. Greifswalder Bachwoche er tónlistarhátíð sem helgar sig tónskáldinu Johann Sebastian Bach. Festspiele Mecklenburg-Vorpommern er önnur tónlistarhátíð sem fram fer í ýmsum borgum í sambandslandinu, þar á meðal í Greifswald. Nesstofa. Nesstofa er safnahús á Seltjarnarnesi. Þar er nú lækningaminjasafn. Nesstofa var byggð á árunum 1761 til 1767 eftir teikningum Jacobs Fortling hirðhúsameistara. Í húsið var notað grágrýti sem fengið úr fálkahúsi konungs á Valhúsahæð. Á jarðhæð var apótek og húsakynni landlæknisembættisins en í risi voru íbúðarherbergi og yfir því var hanabjálkaloft. Bjarni Pálsson sem var fyrsti landlæknirinn settist að í Nesi með fjölskyldu sína árið 1763 og bjó þar til dauðadags. Frá árinu 1772 skiptu landlæknir og apótekari með sér ábúðarréttindum í Nesi. Búið var í vesturhluta Nesstofu til ársins 1997 en í eystri hluta hússins var lækningaminjasafns á níunda áratugnum. Árið 2009 lauk umfangsmiklum endurbótum á húsinu sem fóru fram á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Húsafriðunarnefndar undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar arkitekts. Við endurbæturinar var mikil áhersla lögð á að endurgera húsið í upphaflegri mynd og gera upprunalega bygginarhluta sýnilega á nýjan leik. Nesstofa er á lista yfir friðuð hús á Íslandi. Hún er í umsjá Lækningaminjasafns Íslands og opin almenningi á auglýstum tímum. Eggaldin. Eggaldin (fræðiheiti: "Solanum melongena") er einær jurt er getur náð yfir tveggja metra hæð. Hún er sennilega upprunnin á Indlandi en barst með aröbum til Miðjarðarhafslanda og er aldinið mjög vinsælt þar. Jacob Fortling. a> af Fortling með miklum skreytingum. Nesstofa á Seltjarnarnesi er gerð eftir teikningum Jacos Fortlings. Jacob Fortling (23. desember 1711 – 16. júlí 1761) var dansk-þýskur myndhöggvari og arkitekt. Hann átti þátt í að breiða út rókokóstíl Nicolai Eigtveds. Jacob Fortling kom til Danmerkur frá Þýskalandi í tengslum við byggingarframkvæmdir Kristjáns 6. Danakonungs. Hann komst til metorða og varð hirðhúsameistari. Hann teiknaði Nesstofu á Seltjarnarnesi. Fortling var stórtækur í framleiðslu á byggingarefni. Hann fór tvisvar sinnum til Noregs til að finna byggingarsteina og fékk einkarétt á steinbroti í Akershúsfylki, setti upp marmaravinnslu í Lier og fékk einkarétt á að vinna kléberg þar. Árið 1759 fékk hann einkarétt á að vinna stein í Þrándheimi. Hann setti á stofn kalkbrennslu í Danmörku árið 1749, múrsteinaverksmiðju árið 1752 og steinsmíðaverksmiðju 1755 í Kastrup. Hann fékk einkarétt á steinhöggi á Salthólma. Hann rak líka brennivínsgerð, ölgerð og var með búrekstur í Kastrup. Öll þekkt verk eftir Fortling í Danmörku eru friðuð. Kristófer 1.. Kristófer 1. (1219 – 29. maí 1259) var konungur Danmerkur frá 1252 til dauðadags. Hann var síðastur af þremur sonum Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal til að setjast á konungsstól. Þegar Abel konungur var drepinn 29. júní 1252 var elsti sonur hans, Valdimar, við nám í Frakklandi. Hann hafði verið lýstur ríkiserfingi að föður sínum lifandi og flýtti sér heim til að reyna að tryggja erfðarétt sinn en var hnepptur í varðhald af erkibiskupinum af Köln og haldið föngnum þar til móðurbræður hans, greifarnir af Holtsetalandi, greiddu lausnargjald fyrir hann ári síðar. En þá hafði hann misst af lestinni, Kristófer föðurbróðir hans hafði verið valinn konungur og krýndur í Lundi á jóladag 1252. Þar með hófst togstreita milli tveggja ættleggja sem stóð í marga áratugi. Kristófer reyndi að fá bróður sinn, Eirík plógpening, tekinn í helgra manna tölu en raunverulegur tilgangur hans mun hafa verið að fá Abel fordæmdan sem bróðurmorðingja og ættlegg hans útilokaðan frá ríkiserfðum. Þetta tókst honum þó ekki. Hann átti í erjum við Jakob Erlandsen, erkibiskup í Lundi, sem var af hinni voldugu Hvide-ætt, en hún fylgdi Abel og ættmönnum hans að málum. Kristófer krafðist þess að aðalsmenn og biskupar sameinuðust í baráttu gegn afkomendum Abels en erkibiskupinn hótaði með bannfæringu. Kristófer og Valdimar sættust þó 1254 og Valdimar fékk Slésvík að léni en þegar hann dó 1257 og Kristófer tók Slésvík aftur og neitaði að láta Eiríki bróður hans lénið eftir fór allt í bál og brand á ný. Veturinn 1257-1258 réðust holsteinsku greifarnir á Danmörku en árásinni var hrundið. Nokkru áður hafði komið til átaka milli Dana og Norðmanna og Hákon gamli réðist inn í Halland. Friður var þó saminn 1257. Í febrúar 1259 var Jakob erkibiskup handtekinn, hæddur, bundinn og varpað í dýflissu. Kristófer konungur var þá bannfærður. Jaromar fursti af Rügen, sem var tengdafaðir Eiríks Abelssonar, réðist svo á Sjáland og hertók Kaupmannahöfn. Kristófer náði ekki að bregðast við innrásinni því að hann dó um vorið og var sagt að ábóti nokkur hefði byrlað honum eitur. Hann var grafinn í dómkirkjunni í Ribe þrátt fyrir bannfæringuna. Kona Kristófers var Margrét Sambira, dóttir Sambors og Mechtilde af Mecklenburg. Þau áttu sex börn, þar á meðal Eirík klipping, sem tók við ríki eftir föður sinn. Sebrafiskur. Sebrafiskur (fræðiheiti: "Danio rerio") er fiskur með fimm ugga; á báðum hliðum, undir, ofaná og einn rosalega lítinn undir sporðinum. Hann er fjólublár með gula hringi í kringum augun og líka gular sebra-rendur. Hann er stundum kallaður "ævintírafiskurinn". Þeir lifa yfirleitt í 20-25 ár en til eru eldri tilfelli. Mökun tegundarinnar getur tekið allt fá tvemur dögum upp í viku, það fer eftir færni karlfisksins. Konana hryggnir svo eins nálægt kóralrifi eins og hún getur en passar sig að fara ekki inn í það svo hún villist ekki. Þetta eru mjög áttaviltir fiskar. Eftir 10 vikur líta seiðin fyrst dagsins ljós (þótt það verði ekki mjög bjart þarna niðri) og þeir fara beint upp á yfirborðið til að skoða öldurnar. Eftir nokkra klukkustunda dvöl á yfirborðinu synda þeir aftur niður í leit að æti. Sebrafiskar borða mest agnir í sjónum en ef það er lítið um þær þá geta þeir lifað á sandinum á botninum en aðeins í nokkra daga. Þegar fiskarnir koma úr egginu eru þeir um það bið 3-5 cm að lengd og ekki mjög breiðir. En þegar þeir eru komnir á kynþroskaldurinn (u. þ. b. 8 ára) eru þeir um 80-90 cm að lengd og frekar bústnir. Á loka árunum fara þeir svo aftur að skreppa saman og meðallengd þeirra þegar dauðinn sækir þá er 50-60 cm. Þeir eru straumlínulaga og geta þess vegna synt á 25km/klst. Hann á því auðvelt með að komast undan helsu óvinum sýnum: Hákarlinum og Glóðarfisknum. Hann lifir mest við strendur Ameríku og Afríku en stöku fiskar finnast í Asíu og Antartíku. Forn-Indíánar veiða þá og nota þá sem fyllingu í kalkún, steikja hann á steinhellu upp úr Bernessósu eða geima hann í tunnum í nokkra mánuði og vefja þeim inn í laufblöð og borða hrátt. Þetta kalla þeir 'fiskur í laufi' þótt að margir mundu kalla þetta 'myglað sushi'. Sebrafiskarnir eru ekki í útrýmingarhættu en ef indíánarnir fara ekki að minka kvódann (um 40. þúsund fiskar á mánuði) er ekki víst að það varða margir eftir um 2050. Reyndar er mælt með því að fara að veiða þorsk og ýsu en vegna lélegrar kunnátu á öðrum tungumálum en þeirra skilja þeir ekki hvað þetta er hættulegt. Anthony C. Grayling. Anthony Clifford Grayling (fæddur 3. apríl 1949) er breskur heimspekingur og rithöfundur. Hann er prófessor í heimspeki við Birkbeck Háskóla í London. Hann er með M.A.-gráðu og doktorsgráðu frá Oxford-háskóla. Bernska. Grayling fæddist í bænum Luanshya í Zambíu og ólst upp í breska samfélaginu þar. Fyrstu kynni hans við heimspekileg skrif voru þegar hann var tólf ára gamall þegar hann las enska þýðingu á samræðu Platons um Karmídes. Þetta hafði djúpstæð áhrif á Grayling sem hélt áfram að lesa heimspekileg rit og nam þau fræði þegar hann kom aftur til Englands á unglingsárum. Heimspekileg rit. Grayling hefur einbeitt sér að þeirri grein heimspekinnar sem hann hefur mestan áhuga á, svokallaðri tæknilegri heimspeki sem má lýsa sem samspili þekkingarfræðinnar, frumspeki og rökfræði. Hann blandar þessum greinum saman til þess að kanna hvert samband mannshugans og heimsins er og vill með því meðal annars véfengja heimspekilega efahyggju. Í hans helstu verkum má finna röksemdir hans og eru þau helstu "The Refutation of Scepticism" (1985), "Berkeley: The Central Arguments" (1986), "Wittgenstein" (1988), "Russell" (1996), "Truth Meaning and Realism" (2007) og "Scepticism and the Possibility of Knowledge" (2008). Grayling notar hugmyndina um heimspekilega þekkingu sem mótvægi við röksemdir efahyggjumanna og þar með upplýsa almenn sjónarmið í raunsæisumræðunni sem inniheldur hugtök á borð við sannleika og merkingu. Útgefin verk. Grayling, Anthony Clifford Grayling, Anthony Clifford Grayling, Anthony Clifford Talk. Talk eða talkúm er afar lin (harka 1) hvít eða grænleit steintegund. Efnaformúla þess er H2Mg3(SiO3)4 eða Mg3Si4O10(OH)2. (vatnað magnesíumsílíkat). Á duftformi er talk nefnt talkúm. Berg úr talki kallast steatít, sápusteinn, kléberg eða tálgusteinn bæði vegna áferðar og þess hve auðvelt var að tálga það til. Talkúm er notað í snyrtivörur (púður) og krít og við ýmis konar framleiðslu eins og flísagerð, keramík, málning og pappír. Talk er hita- og sýruþolin steintegund. Kléberg. Kléberg er nytjasteinn úr talki, tálgusteinstegund sem auðvelt er að vinna og þolir vel eld. Kléberg var notað í ýmsa nytjahluti svo sem potta og ílát. Þegar klébergsílát brotnuðu voru minni hlutir gerðir úr þeim. Kléberg er að finna á Hjaltlandi, í Noregi og einnig á Grænlandi. Austurfrísnesku eyjarnar. Austurfrísnesku eyjarnar (þýska: "Ostfriesische Inseln") er þýskur eyjaklasi í Vaðhafinu undan ströndum Neðra-Saxlands, nánar tiltekið við héraðið Austur-Frísland ("Ostfriesen"). Stærstu eyjarnar eru 7 og eru þær allar í byggð. Austasta eyjan er við fjarðarmynni Jade, en sú vestasta við árósa Ems. Auk Austurfrísnesku eyjanna eru einnig til Vesturfrísnesku eyjarnar (sem tilheyra Hollandi) og Norðurfrísnesku eyjarnar (sem tilheyra Þýskalandi og Danmörku). Jarðfræði. Þýskt kort af Austurfrísnesku eyjunum Eyjarnar mynduðust ekki við sjávarbrot hafsins, eins og fyrr var haldið, heldur við setmyndun í Vaðhafinu. Eyjarnar eru því í beinni röð í austur-vestur stefnu. Nokkur smærri sandrif eru að myndast og má gera ráð fyrir því að eyjunum fjölgi með tímanum eða að sandrifin sameinast stærri eyjunum. Norðurendi eyjanna (sem snýr að úthafinu) er gerður úr sandi og sandhólum. Miðhlutinn er vaxinn gróðri og kjarri. Einstaka skógarreitir er að finna þar. Suðurhlutinn (sem snýr að fastalandinu) er aðallega gerður úr söltum jarðvegi og leirum. Á flóði eru eyjarnar umflotnar sjó, en á fjöru koma aðalleirurnar í ljós svo kílómetrum skiptir. Á vissum stöðum er þá hægt að ganga til fastalandsins. Milli eyjanna eru aflmiklar vatnsrásir þar sem sjórinn þrýstist til norðurs þegar fjarar út eða til suðurs þegar flæðir að. Straumar eru aðallega frá vestri til austurs, þannig að með tímanum eyðist af vesturodda eyjanna, en þær vaxa að sama skapi hægt til austurs. Þessar hreyfingar taka langan tíma. Þannig hafa nokkrar eyjar horfið af kortinu, aðrar sameinast og enn eru ný rif að myndast. Eyjarnar. Sjómenn hafa búið til litla setningu á þýsku til að muna betur röðina á þessum eyjum frá austri til vesturs. Upphafsstafir orðanna eru jafnframt upphafstafir eyjanna: Welcher Seemann liegt bei Nelly im B'"ett ("Hvaða sjómaður liggur hjá Nelly í rúminu"). Allar tilheyra eyjarnar héraðinu Ostfriesland, nema Wangerooge, sem tilheyrir héraðinu Aldinborg. Eyjarnar eru allar gríðarlega vinsælar meðal ferðamanna, ekki bara sökum baðstrandanna, heldur einnig vegna einangrunarinnar og fuglalífsins. Vaðhafið er viðkomustaður farfugla. Á fartímanum og á veturna safnast milljónir vaðfugla við eyjarnar. Capacent. Capacent er keðja norræna þekkingarfyrirtækja sem sérhæfa sig í ráðgjöf, rannsóknum og ráðningu. Starfsmenn Capacent á Íslandi eru 100 talsins og 300 manns starfa hjá keðjunni í hinum Norðurlöndunum til samans. Capacent er leiðandi á Íslandi í ráðgjöf, rannsóknum og ráðningum. Saga þess einkennist af sameiningum við bæði innlend ráðgajafarfyrirtæki og erlend. Höfuðstöðvar Capacent á Íslandi eru í Borgatúni og forstjóri þess er Ingvi Þór Elliðasson. Nafni fyrirtækisins var breytt í Capacent árið 2006 en Capacent-nafnið er samsett úr ensku orðunum Capability og Center. Saga Capacent. Grunnurinn að rannsóknarsviði Capacent var lagður árið 1990 þegar rannsóknarfyrirtækið Íslenskar markaðsrannsóknir var stofnað. Fyrirtækið var á sviði stjórnenda og leiðtogaþjálfunnar. Tveimur árum seinna eignaðist fyrirtækið umboðið fyrir Gallup á Íslandi. Fyrirtækið sameinaðist ráðgjafafyrirtækinu Ráðgarði árið 2000 undir nafninu IMG. Ráðgarður var ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfði sig í ýmis konar rekstrarráðgjöf og gæðastjórnun. Sama ár keypti félagið ráðningarskrifstofuna Liðsauka, en voru ekki sameinaðar fyrr en árið 2004. Strax árið eftir varð Corporate Lifecycles International hluti af félaginu en það sérhæfði sig í stefnumótun. Félagið hóf samstarf við SHL sem sérhæfir sig í prófum og matsaðferðum í ráðningum. Árið 2002 sameinaðist fyrirtækið Deloitte ráðgjöf sem var stofnað af Deloitte með áherslu á fjármálaráðgjöf. Árið 2005 sameinaðist félagið öðru ráðgjafarfyrirtæki, KPMG ráðgjöf. Sérhæfing þessa fyrirtækis var á sviði markaðsrannsókna og strax á fyrstu árunum gat það sér gott orð fyrir vandaða og trausta aðferðafræði í sínum könnunum. Capacent Gallup er aðili að Gallup International og vinnur samkvæmt gæðastöðlum sem samtökin hafa þróað síðastliðna áratugi. Capacent Gallup fékk opinbera ISO vottun í júní 2004 og tekur ISO 9001 gæðastaðallinn til allrar starfsemi Capacent Gallup. Rannsóknarsvið Capacent hefur einnig tengingar við fleiri alþjóðleg rannsóknarfyrirtæki, þeirra stærst er AC Nielsen. Sameinað félag Gallup og Ráðgarðs, Mannafl var fyrst íslenskra ráðningarfyrirtækja að bjóða upp á persónuleikapróf sem hafði verið staðlað og staðfært fyrir íslenskan vinnumarkað. Capacent Corporate Finance (áður Capacent Glacier) var stofnað í mars árið 2009. Félagið er sjálfstæður lögaðili með starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki frá Fjármálaeftirlitinu. Capacent Corporate Finance hefur komið að margvíslegum verkefnum á sviði fjárfestingaráðgjafar, verðmatsvinnu og umbreytingu fyrirtækja. Ráðgjafar Capacent eru meðal annars sérhæfðir í mannauðsráðgjöf, markaðsráðgjöf, rekstrarráðgjöf og hagræðingarráðgjöf. Þekktustu vörumerki og lausnir Capacent á Íslandi eru svo dæmi séu nefnd Þjóðarpúlsinn, vinna.is, vinnustaðagreining (Gallup Workplace Audit) og Capacent Planner. Útrás. Capacent hóf að byggja upp starfemi sína utan Íslands haustið 2005 með því að festa kaup á KPMG Ráðgjöf í Danmörku og sameinast danska félaginu LogistikGruppen A/S árið 2006. Ári siðar kaupir Capacent Epinion A/S, eitt af leiðandi fyrirtækjum Danmerkur á sviði markaðsrannsókna. Árið 2008 keypti danska félagið IKU, sem sérhæfir sig í ráðningum, þjónustu vegna uppsagna og ýmissi annarri markaðsráðgjöf. Sama ár keypti Capacent danska ráðgjafafyrirtækið Drescher & Schröder og styrkir þar með sérfræðiþjónustu sína í innkaupamálum og sænska fyrirtækið Capto Financial Consulting. Höfuðstöðvar Capacent voru fluttar til Danmerkur árið 2009. Sameiginlegt eignarhald Capacent-fyrirtækjanna rofnaði árið 2010 og eru þau nú rekin sem sjálfstæðar einingar. Þau eiga áfram með sér samstarf og starfa undir sama nafni. Gjaldþrot. Rekstur Capacent á Íslandi komst í þrot í september 2010 eftir að félagið hafði átt í viðræðum við viðskiptabanka sinn undanfarna átján mánuði um hvernig mætti tryggja að rekstur félagsins stæði undir skuldbindingum til framtíðar. Þær viðræður skiluðu ekki árangri og varð niðurstaðan sú að starfsfólk Capacent stofnaði nýtt félag sem yfirtók reksturinn og hefur haldið starfseminni áfram undir sama nafni. Norderney. Norderney er næststærst af austurfrísnesku eyjunum í Norðursjó. Eyjan er sú fjölmennasta í eyjaklasanum, en þar búa tæplega 6 þúsund manns. Staðhættir. Norderney stærst Austurfrísnesku eyjanna og er 26² að stærð. Hún er þriðja stóra eyjan frá vestri í eyjaklasanum, á milli eyjanna Juist og Baltrum. Allar tilheyra þær Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Norderney er 14 km löng og liggur í austur-vestur stefnu. Hins vegar er hún ekki nema 2,5 km breið þar sem hún er breiðust. Gjörvöll norðurhliðin er úr sandi, sem er vinsæll baðstaður. Suðurhliðin samanstendur af leirum og söltum jarðvegi. Einn samnefndur bær er á eyjunni og liggur hann lengst í vestri. Þar er hafnaraðstaða fyrir ferjur. Á Norderney búa rétt tæplega 6 þúsund manns. Þar með er hún fjölmennust af Austurfrísnesku eyjunum. Söguágrip. Norderney myndaðist myndaðist af hafróti árið 1362. Þá braut stormflóð gömlu eyjuna Buise í tvennt. Hlutarnir voru kallaðir Vesturendinn og Austurendinn. Austurendinn fékk fyrst heitið Osterende en 1550 kallaði Anna greifaynja í Austur-Fríslandi hann "Norder neys Oog", sem merkir "nýja auga Norden" (Norden er borgin á meginlandinu sem átti eyjuna). Vesturendinn sökk svo í sæ 1651. Nafnið hélst og breyttist svo í Norderney. 1797 stofnuðu eyjaskeggjar fyrsta opinbera þýska baðstaðinn við Norðursjó. Árið 1800 voru baðgestir 250 talsins. Í dag skipta þeir hundruðum þúsunda. Meðan Napoleonstríðin geysuðu, lögðust sjóböðin af. 1813-15 réðu Prússar yfir eyjunni en á Vínarfundinum var ákveðið að Norderney skyldi tilheyra konungsríkinu Hannover. Eftir það voru baðstrendurnar opnaðar á ný og urðu víðfrægar í Evrópu. Ekki síst sökum þess að Georg V konungur Hannover bjó þar hvert sumar ásamt eiginkonu sinni. 1872 var ný hafnaraðstaða reist við bæinn. Fyrir þann tíma þurfti að selflytja gesti með hestakerrum frá skipi til lands en þá var farið yfir blautar leirur. Í upphafi 20. aldar hlutu heilsuböðin á eyjunni heimsfrægð. Þá voru gestir á ári orðnir rúmlega 40 þúsund. 1906 sótti Vilhjálmur II prússakeisari eyjuna heim. Á 3. áratugnum var sundlaug reist þar sem framleiddi öldugang og var hún sú fyrsta sinnar tegundar í Evrópu. Eftir heimstyrjöldina síðari voru gerðar áætlanir um að Holland innlimaði Norderney. En Bretar höfðu aðrar hugmyndir. Þeir stofnuðu Neðra-Saxland sem sambandsland 1946 og voru allar Austurfrísnesku eyjarnar hluti af því. Böðin hófust á nýjan leik og urðu vinsæl sem áður. 1959 fór fjöldi baðgesta í fyrsta sinn í 100 þúsund. Á eyjunni er golfvöllur, sá eini á eyjunum, og flugvöllur. 2009 hófst verkefni um að útrýma öllum ljósaperum úr eyjunni. Öllum ljósaperum var skipt út fyrir sparperum og var Norderney fyrsti þýski bærinn þar sem slíkt verkefni var gangsett. Norderney og Borkum eru einu austurfrísnesku eyjarnar þar sem leyfilegt er að aka bíl. Byggingar og kennileiti. Bæjarkirkjan er nær alþakin vafningsviði Kristófer 2.. Kristófer 2. (29. september 1276 – 2. ágúst 1332) var konungur Danmerkur 1320-1326 og aftur 1329-1332. Hann var sonur Eiríks klippings og Agnesar af Brandenborg og tók við ríkjum eftir lát eldri bróður síns, Eiríks menved. Kristófer var hertogi af Lálandi og Falstri 1289-1301, hertogi af Eistlandi 1303-1307 og hertogi af Hallandi og Sámsey 1307-1315. Þá varð hann að flýja land vegna þátttöku í samsæri um að koma Eiríki bróður hans frá völdum. Árið 1318 tók hann þátt í öðru samsæri með landflótta aðalsmönnum og erkibiskupinum Esger Juul og reyndu þeir að ráðast inn í Skán en höfðu ekki erindi sem erfiði. En í nóvember 1319 dó Eiríkur og þá stóð Kristófer næstur til ríkiserfða þar sem ekkert af fjórtán börnum Eiríks hafði komist á legg. Sagt er að Eiríkur hafi í banalegunni varað við því að bróðir hans yrði valinn konungur en danskir aðalsmenn munu hafa talið að þeir hefðu betri tök á Kristófer, sem þótti veiklundaður, en Eiríki 2. hertoga af Slésvík, sem einnig kom til greina. Kristófer undirritaði heitbréf, þar sem hann lofaði meðal annars að létta á skattaáþján, 25. janúar 1320 og var hylltur á landsþingunum en ekki krýndur fyrr en 1324. Eiríkur sonur hans var þá krýndur sem meðkonungur. Konungur hélt heit sín illa, hækkaði meðal annars skatta og þótti hinn mesti harðstjóri. Margir aðalsmannanna gengu þá í bandalag við greifana af Holtsetalandi og gerðu uppreisn. Árið 1326 var Geirharður 3. greifi búinn að ná yfirráðum bæði á Jótlandi og Fjóni og náði svo Eiríki ríkisarfa og hélt honum föngnum. Kristófer flúði til Þýskalands. Þar sló hann lán og leigði sér her til að vinna Danmörku að nýju en þegar hann sneri aftur gengu engir Danir í lið með honum og hann varð að leggja á flótta aftur. Valdimar hertogi af Slésvík, sonur Eiríks hertoga, var þá valinn konungur en hann var aðeins 11 ára og móðurbróðir hans, Geirharður greifi, varð ríkisstjóri. Árið 1329 skiptu greifarnir af Holtsetalandi og fleiri aðalsmenn, sem áttu veð í ríkiskassanum, landinu upp á milli sín. Kristófer sneri aftur og reyndi að kaupa sér völd að nýju, veðsetti Jóhanni milda greifa af Holtsetalandi, sem var hálfbróðir hans sammæðra, Sjáland og Skán og var tekinn til konungs þar að nafninu til. Geirharði veðsetti hann Jótland og Fjón og mátti aðeins innleysa veðið með eingreiðslu, 100.000 mörkum silfurs, og annað eins skuldaði hann Jóhanni. Jóhann var bróður sínum þó heldur hliðhollur og kom til átaka milli aðalsmannanna. Jóhann fór halloka, Kristófer var settur af öðru sinni og þurfti meðal annars að flýja upp um stromp á húsi þar sem átti að svæla hann inni. Hann dó 2. ágúst 1332 á Lálandi og var lagður til hvílu í Sórey. Kristófer 2. var giftur Evfemíu, dóttur Bogislavs 4. hertoga af Pommern. Þau áttu eina dóttur sem upp komst, Margréti konu Lúðvíks hertoga af Bæjaralandi, og þrjá syni, Eirík, sem lést 1331 eftir fall af hestbaki á flótta undan óvinum, Ottó, sem reyndi að komast til valda eftir lát föður síns en varð ekkert ágengt, og Valdimar, sem ólst að mestu upp við keisarahirðina í Bæjaralandi. Eftir lát Kristófers var Danmörk án konungs til 1340. Valdimar 3.. Valdimar 3. (um 1314 – 1364) var konungur Danmerkur 1326-1330 og hertogi af Slésvík (Valdimar 5.) 1325-1326 og frá því að hann lagði niður konungstign 1329 og til dauðadags. Valdimar var sonur Eiríks 2. hertoga af Slésvík og Aðalheiðar konu hans, en hún var systir Geirharðs 3. greifa af Holtsetalandi. Eiríkur hertogi var afkomandi Abels konungs og því kom Valdimar til greina sem ríkiserfingi eftir lát Eiríks menved en Kristófer bróðir hans var þó valinn konungur. Þegar Eiríkur dó 1325 vildu Geirharður og Kristófer báðir fá forræði yfir honum og hertogadæmi hans. Þau átök ásamt mikilli óánægju með harðstjórn og skattpíningu Kristófers urðu til þess að hann var rekinn úr landi og Valdimar gerður að konungi í hans stað. Geirharður móðurbróðir hans, sem líka var stærsti veðhafinn í skuldum Danmerkur, var útnefndur ríkisstjóri. Stjórn hans og hinna aðalsmannanna naut þó ekki vinsælda meðal bænda; bæði voru þeir flestir útlendingar og svo skattpíndu þeir almenning engu minna en Kristófer hafði gert. Bændauppreisnir voru gerðar 1328 og 1329 og þótt þær væru bældar niður gafst Geirharður upp á að halda Valdimar á konungsstóli. Kristófer sneri aftur 23. febrúar 1329 - varð þó raunar ekki konungur nema á Sjálandi og Skáni og aðeins að nafninu til - en Valdimar varð aftur hertogi af Slésvík og ríkti þar í 35 ár. Þegar Valdimar varð fullorðinn þótti honum nóg um veldi móðurbróður síns, sem réði yfir Vestur-Holtsetalandi, Fjóni og Norður-Jótlandi og var farinn að seilast inn í Slésvík. Hann hafði því samband við Valdimar, yngsta son Kristófers 2., sem var við keisarahirðina í Bæjaralandi, og ýmsa jóska aðalsmenn, og urðu þeir sammála um að endurreisa konungdæmið. Geirharður bjóst til að kæfa þessa hreyfingu í fæðingu en var veginn í Randers 1. apríl 1340 af Niels Ebbesen. Eftir nokkur átök um sumarið gengu synir Geirharðs, Járn-Hinrik og Kláus, til friðarsamninga og Valdimar atterdag settist á konungsstól (en réði að vísu fyrst í stað aðeins yfir Norður-Jótlandi) með stuðningi Valdimars hertoga. Kona Valdimars var Richardis af Schwerin-Wittenburg, og þau áttu synina Valdimar og Hinrik, sem erfði hertogadæmið eftir föður sinn. Aðfarargerð. Aðfarargerð, oftast kölluð "aðför", er lögfræðilegt hugtak, sem felst í fullnustu skyldu eða samningis með aðstoð sýslumanns, þegar aðili gerir slíkt ekki sjálfviljugur. Namco. Namco (japanska: 株式会社ナムコ, Kabushiki Kaisha Namuko) er japanskt fyrirtæki sem er þekktast fyrir þróun og útgáfu tölvuleikja. Í september 2005 sameinaðist það leikfangafyrirtækinu Bandai og myndaði Namco Bandai Games. Namco var síðan endurreist utanum rekstur spilasala og skemmtigarða fyrirtækisins. Höfuðstöðvar þess eru í Ōta í Tókýó. Namco er frægast fyrir að hafa þróað nokkra af þekktustu sígildu tölvuleikjum spilasalanna eins og Galaxian (1979), Pac-Man (1980), Galaga (1981) og Dig Dug (1982). Alexandros Papadiamantis. Alexandros Papadiamantis (gríska: Αλέξανδρος Παπαδιαμάντης, [al'eksanðros papaðiam'andis]) (fæddur 4. mars 1851, dáinn 2. febrúar 1911) var grískt skáld og smásagnahöfundur. Papadiamantis, Aexandros Papadiamantis, Aexandros Egill Jónsson. Egill Jónsson (f. 14. desember 1930 í Hoffelli í Nesjahreppi, d. 12. júlí 2008) var Alþingismaður Austurlandskjördæmis frá 1979 til 1999. Hann sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gegndi meðal annars formennsku í landbúnaðarnefnd og samgöngunefnd. Eiríkur klipping. Eiríkur klipping eða Eiríkur 5. (1249 – 22. nóvember 1286) var konungur Danmerkur frá andláti föður síns 1259 til dauðadags. Eiríkur var elsti sonur Kristófers 1. og konu hans Margrétar Sambiria. Hann var hylltur sem konungur þegar hann var barn að aldri en ekki krýndur og þegar faðir hans dó var hann aðeins um tíu ára gamall. Því var ákveðið að móðir hans skyldi stýra landinu í hans nafni þar til hann yrði fullveðja. Margrét mátti hafa sig alla við til að halda hásætinu fyrir son sinn því að þau mæðgin áttu ýmsa andstæðinga, svo sem Eirík hertoga af Slésvík, son Abels konungs (bróður Kristófers), greifana í Holtsetalandi og Jakob Erlandsen erkibiskup. Jaromar fursti af Rügen notaði tækifærið, gerði bandalag við Eirík Abelsson og réðist inn í Sjáland. Margrét kvaddi upp her og snerist til varnar en tapaði í orrustu við Ringsted 1259 og innrásarmenn náðu Kaupmannahöfn og héldu áfram ránsferðum um Sjáland. Jaromar var þó drepinn af konu nokkurri eftir að hafa banað manni hennar og Vindarnir hurfu þá úr landi. Eiríkur hertogi taldi að staða ekkjudrottningarinnar hefði veikst við þetta og hóf uppreisn en lið Margrétar sigraði her hans á Jótlandi. Eiríkur náði þó vopnum sínum að nýju og 28. júlí 1261 töpuðu Margrét og Eiríkur í bardaga, voru tekin til fanga og höfð í haldi í Hamborg. Margréti tókst þó að fá sig lausa en Eiríki var ekki sleppt fyrr en hann varð fullveðja 15 ára, 1364, og þá hugsanlega gegn því að heita Agnesi af Brandenborg eiginorði, en hún var þá sjö ára. Hann fór svo heim og tók við krúnunni að nafninu til en móðir hans stýrði ríkinu þó í raun í mörg ár enn. Eiríkur giftist svo Agnesi 1273. Árið 1272 dó Eiríkur hertogi af Slésvík og lét eftir sig ung börn. Eiríkur konungur fékk forsjá þeirra og um leið yfirráð yfir öllu Jótlandi. Tveimur árum síðar var Jakob erkibiskup drepinn á heimleið frá Róm og þar með voru tveir helstu óvinir konungsins úr sögunni. Eiríkur dróst þess í stað inn í valdaátök og stríð í Svíþjóð. Hernaðurinn þar varð kostnaðarsamur og til að borga fyrir hann greip Eiríkur meðal annars til þess að láta klippa utan af myntinni til að drýgja hana svo að peningarnir urðu kantaðir en ekki kringlóttir (eins konar gengisfelling). Hugsanlegt er að hann hafi fengið viðurnefni sitt af þessu, en ýmsar fleiri skýringar hafa þó verið settar fram. Hann þurfti líka að fá lán hjá kirkjunni. Allt þetta var til þess að afla honum óvinsælda meðal aðalsmanna og árið 1282 þvinguðu þeir hann til að undirrita réttindaskrá þar sem hann hét því meðal annars að ráðfæra sig árlega við aðalsmenn og veita þeim hlutdeild í stjórn landsins. Eftir það áttu bændur engan þátt í að velja konung en hann var þó hylltur áfram á landsþingum. Valdimar, sonur Eiríks hertoga, fékk líka föðurleifð sína í Slésvík aftur. Hann og konungurinn deildu þó um ýmis efni og 1285 lét Eiríkur taka Valdimar til fanga. Hann var þó látinn laus ári síðar og sór konungi trúnað. Þegar konungurinn var á veiðum við Finderup á Jótlandi 22. nóvember 1286 fann hann sér náttstað í hlöðu. Þar var hann veginn um nóttina ásamt fylgdarliði sínu af óþekktum mönnum og voru talin 56 sár á líki hans. Seinni tíma rannsóknir á beinagrind hans hafa líka sýnt að líkið var illa leikið. Mikið hefur verið rætt og ritað um hverjir hafi drepið konunginn og hvers vegna. Níu aðalsmenn voru ákærðir en allir lýstu sig saklausa. Þeir voru dæmdir útlægir og flýðu til Noregs. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram og sumir telja að Valdimar hertogi eða Eiríkur Magnússon prestahatari Noregskonungur hafi í raun staðið að baki morðinu. Eiríkur og Agnes drottning áttu sjö börn: Konungana Eirík menved og Kristófer 2., Valdimar, sem dó 1304, Margréti, sem giftist Birgi Magnússyni konungi Svíþjóðar, Ríkissu, sem giftist Nikulási 2. fursta af Werle í Mecklenburg og tvær aðrar dætur. Afkomandi þeirra, Kristján 1., var valinn konungur þegar enginn erfingi var að Danmörku - og Norðurlöndunum öllum - eftir dauða Kristófers konungs 1448. Agnes giftist aftur 1293 Geirharði 2. af Holtsetalandi og eignaðist með honum soninn Jóhann milda. Eiríkur menved. Innsigli Eiríks menved, framhlið og bakhlið. Eiríkur menved eða Eiríkur 6. (1274 – 13. nóvember 1319) var konungur Danmerkur frá 1286 til dauðadags. Hann var krýndur á jóladag 1287 en þar sem hann var aðeins tólf ára þegar faðir hans, Eiríkur klipping, var myrtur var ríkinu stýrt næstu árin af móður hans, Agnesi af Brandenborg, ásamt fleirum. Aðalsmennirnir sem dæmdir voru útlægir fyrir morð föður hans sneru fljótlega aftur og lifðu sem útlagar í Danmörku, enda höfðu þeir þar töluverðan stuðning og voru tengdir eða skyldir mörgum helstu höfðingjaættunum. Eiríkur konungur lenti meðal annars í deilum við erkibiskupinn Jens Grand, sem var af Hvide-ættinni og studdi þá útlægu. Eiríkur handtók erkibiskupinn en hann slapp og flúði á náðir páfa, sem dæmdi Eirík í háar sektir. Eiríkur neitaði að greiða og Danmörk var þá lýst í bann. Eiríkur neyddist til að láta undan 1301 og greiða þunga sekt. Einn þeirra sem tóku þátt í samsæri gegn konungi var Kristófer bróðir hans, sem neyddist til að flýja land árið 1315. Eiríkur hafði hug á að stækka veldi Dana í Norður-Þýskalandi að dæmi Valdimars sigursæla og árið 1302 fékk hann sig hylltan sem lénsherra í furstadæminu Rostock og ná löndunum norðan við Saxelfi. Þetta gekk þó ekki þrautalaust og árið 1316 tapaði hann orrustu við Stralsund. Friður var saminn ári síðar en stríðsreksturinn var dýr og það þurfti að leggja á nýja skatta. Konungurinn fékk lán hjá greifunum í Holtsetalandi, Jóhanni milda hálfbróður sínum og Geirharði 3. Bændauppreisnir voru gerðar bæði á Sjálandi og Jótlandi. Þær voru bældar niður en þann 13. nóvember dó Eiríkur og skildi eftir sig ríki sem var efnahagslega og pólitískt gjaldþrota. Kona Eiríks var Ingibjörg, dóttir Magnúsar hlöðuláss Svíakonungs. Þau eignuðust fjórtán börn, sem öll fæddust andvana eða dóu í vöggu, svo að Kristófer bróðir Eiríks erfði ríkið. Viðurnefnið "menved" er oftast talið vísa í orðasambandið „så man ved“ (nú „såmænd“ (svo sem, í raun, eiginlega; sannarlega)), sem líklega hefur verið konungi munntamt. Einnig hefur sú skýring komið fram að það þýði meinvættur eða óhræsi og hafa óvinir konungs þá gefið honum það auknefni. Vindland. Vindland er heiti sem haft var á miðöldum um suðurströnd Eystrasalts og héruðin þar suður af, þ.e. í Norður-Þýskalandi (Mecklenburg og Pommern) og Póllandi. Íbúar þessa svæðis voru kallaðir Vindur. Þeir voru vestur-slavneskur þjóðflokkur sem settist að við Eystrasalt á þjóðflutningatímanum og blandaðist seinna Germönum. Vindland var aldrei eiginlegt ríki en þar voru á mismunandi tímum ýmis konungsríki og hertogadæmi og því er oft talað um konunga Vinda í norrænum heimildum. Hugtökin "Vindur" og "Vindland" hafa þó verið notuð á ýmsan hátt í gegnum aldirnar af hinum ýmsu nágrannaþjóðum og stundum jafnvel einnig náð yfir Eystrasaltslöndin og íbúa þeirra. Danskir og sænskir konungar herjuðu löngum á Vindland og lögðu hluta þess stundum undir sig og Vindur herjuðu einnig á dönsku eyjarnar, Skán og Gotland, aðallega með sjóránum og strandhöggi. Konungar bæði Danmerkur og Svíþjóðar notuðu titilinn "konungur Vinda" allt fram á 20. öld. Allsherjarnefnd Alþingis. Allsherjanefnd var ein af fastanefndum alþingis. Hlutverk hennar var meðal annars að fjalla um mál sem vörðuðu ákæruvald, dómsmál, dómstóla, erfðarétt, kirkjumál, lögreglu, ríkisborgararétt, sifjarétt o.fl. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni allsherjarnefndar í dag að mestu leyti undir allsherjar- og menntamálanefnd en að hluta til undir stjórnskipunar og eftirlitsnefnd. Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis. Félags- og tryggingamálanefnd var ein af fastanefndum Alþingis. Hún fjallaði meðal annars um mál sem vörðuðu almannatryggingar, húsnæðis- og atvinnumál, málefni fatlaðra, stjórn sveitarfélaga, Tryggingastofnun ríkisins og vernd barna og ungmenna. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni félags- og tryggingamálanefndar í dag að mestu leyti undir velferðarnefnd. Fjárlaganefnd Alþingis. Fjárlaganefnd er ein af átta fastanefndum Alþingis. Nefndin fjallar m.a. um fjárlög og fjáraukalög. Heilbrigðisnefnd Alþingis. Heilbrigðisnefnd var ein af fastanefndum Alþingis. Nefndin fjallaði meðal annars um mál sem vörðuðu almenn heilbrigðismál, áfengis- og vímuefnavarnir, heilsugæslu, heilsuhæli, heilsuvernd, hjúkrunar- og dvalarheimili, landlækni,lyf og lyfsölu, sjúkrahús, málefni heilbrigðisstarfsmanna og réttindi sjúklinga. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni heilbrigðisnefndar í dag að mestu leyti undir velferðarnefnd. Agnes af Brandenborg. Agnes af Brandenborg (1257 – 29. september 1304) var drottning Danmerkur á 13. öld og síðar hertogaynja af Holtsetalandi. Agnes var dóttir Jóhanns 1. markgreifa af Brandenborg og konu hans, Juttu af Saxlandi. Árið 1264, þegar hún var sjö ára, var hún heitbundin Eiríki klipping, Danakonungi, sem þá var fimmtán ára. Sagan segir að Eiríki hafi verið sleppt úr haldi í Brandenborg gegn því að lofa að giftast Agnesi án þess að hún fengi heimanmund. Þau giftust svo árið 1273. Elsti sonur þeirra, Eiríkur menved, fæddist ári síðar og þau eignuðust svo tvo aðra syni, Kristófer og Valdimar, og nokkrar dætur. Eiríkur konungur var drepinn af dulbúnum tilræðismönnum síðla hausts 1286 og Eiríkur menved, sem var aðeins 12 ára, tók við en forsjármenn hans, þar á meðal móðir hans, stýrðu ríkinu í nafni hans. Árið 1293, þegar Eiríkur var orðinn fullveðja og tekinn við stjórn ríkisins, giftist Agnes Geirharði 2. blinda, greifa af Holtsetalandi. Þau eignuðust einn son, Jóhann milda af Holtsetalandi. Agnes dó haustið 1304. Iðnaðarnefnd Alþingis. Iðnaðarnefnd var ein af fastanefndum alþingis. Nefndin fjallaði meðal annars um mál er vörðuðu ferðamál, iðju, iðnað og iðnþróun, Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, orku, orkuvirkjun, orkuvirki, Orkustofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni iðnaðarnefndar í dag að mestu leyti undir atvinnuveganefnd. Menntamálanefnd Alþingis. Menntamálanefnd var ein af fastanefndum alþingis. Hún fjallaði meðal annars um mál er vörðuðu höfundarrétt, kennslu, listir, manna- og bæjanöfn, Ríkisútvarpið, skóla og almenna fræðslustarfsemi, söfn og æskulýðsstarfsemi. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni menntamálanefndar í dag að mestu leyti undir allsherjar- og menntamálanefnd. Samgöngunefnd Alþingis. Samgöngunefnd var ein af fastanefndum alþingis. Hún fjallaði meðal annars um mál er vörðuðu ferðalög og fjarskipti, flug, hafnir, siglingar, slysarannsóknir og sveitarstjórnarmál, vegagerð og öryggi í samgöngum. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni samgöngunefndar í dag að mestu leiti undir efnahags- og samgöngunefnd. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd var ein af fastanefndum Alþingis. Hún fjallaði meðal annars um mál er vörðuðu fiskveiðar innan og utan fiskveiðilandhelgi, friðun og nýtingu fiskimiða, Hafrannsóknastofnun, meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sjávarútveg og stjórn fiskveiða. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í dag að mestu leyti undir atvinnuveganefnd. Sjálfseignastofnunin Amtmannssetrið á Möðruvöllum. Rafræn endurgerð á innsigli fyrir Amtmann Norðaustur Amts 1786 sem dvaldi að Möðruvöllum í Hörgárdal Amtmannssetrið á Möðruvöllum er sjálfseignastofnunin sem vinnur að endurreisn merkra bygginga á Möðruvöllum í Hörgárdal og kynningu á sögu staðarins. Saga og markmið. Sjálfseignastofnunin Amtmannssetrið á Möðruvöllum var sett á fót 1. mars 2006. Megintilgangur hennar er að endurreisa merkar byggingar á Möðruvöllum í Hörgárdal og að koma á framfæri sögu staðarins á lifandi hátt með því að skapa aðlaðandi og frjótt umhverfi fyrir skóla, námsfólk og ferðamenn sem áhuga hafa á stjórnmála-, menningar- og kirkjusögu, náttúruvísindum og landbúnaði. Stofnendur Amtmannssetursins eru; Landbúnaðarháskóli Íslands, Arnarneshreppur, Möðruvallaklausturskirkjusókn og Prestssetrasjóður. Uppbygging Amtmannssetursins hefur einkum verið fjármögnuð af ríki og sveitarfélögum ásamt félögum og fyrirtækjum sem vilja styrkja atvinnu- og menningarstarfssemi á Eyjafjarðarsvæðinu. Uppbygging. Uppbyggingunni er skipt upp í fjóra vel afmarkaða áfanga sem hver getur staðið sjálfstætt rekstrarlega. Fyrsti áfanginn var uppbygging Leikhússins sem lauk með víglsu hússins 26. maí 2007 og fer þar nú fram margvísleg menningartengd starfssemi. Leikhúsið á Möðruvöllum. Amtmannssetrið á Möðruvöllum á og rekur Leikhúsið að Möðruvöllum sem er 120 fermetra hús byggt árið 1881. Þar er minjasafn um Möðruvallaskóla og sögu staðarins en einnig er þar rekið félags- og safnaðarheimili. Stjórn. Í stjórn Amtmannssetursins (2011) sitja; Davíð Stefánsson ráðgjafi, Reykjavík (formaður). Halla Björk Þorláksdóttir kennari, Baldursheimi. Jón Þór Brynjarsson, Hjalteyri. Framkvæmdastjóri er Þóroddur Sveinsson á Möðruvöllum. Espihóll. Espihóll er bær og gamalt höfuðból í Eyjafjarðarsveit og tilheyrði áður Hrafnagilshreppi. Sunnan við bæinn er stór hóll með sama nafni. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók var fyrsti bóndinn á Espihóli Þórarinn, sonur Þóris Hámundarsonar, dóttursonar Helga magra. Bærinn er nefndur í ýmsum fornritum og kemur mikið við sögu í Víga-Glúms sögu. Espihóls er einnig getið í Sturlungu og þar var Kolbeinn grön Dufgusson drepinn af mönnum Gissurar Þorvaldssonar árið 1254 til hefnda fyrir Flugumýrarbrennu. Á Espihóli var jafnan stórbýli og þar bjuggu ýmsir helstu höfðingjar Eyfirðinga. Bærinn var líka löngum sýslumannssetur. Á 17. öld bjó þar Björn Pálsson sýslumaður, sonarsonur Guðbrandar Þorlákssonar biskups, og Magnús sonur hans eftir hann. Kona Magnúsar var Sigríður eldri, dóttir Jóns Vigfússonar biskups, og urðu þau mjög kynsæl. Á síðari hluta 18. aldar bjó Jón Jakobsson sýslumaður á Espihóli. Hann var einn af frumkvöðlum upplýsingarinnar og gerði meðal annars fyrstu tilraunir sem vitað er um hérlendis til vetrarrúnings á sauðfé. Sonur hans, Jón Espólín, sýslumaður og sagnaritari, fæddist á Espihóli 1769 og kenndi sig við bæinn. Stefán Thorarensen, sonur Stefáns Þórarinssonar amtmanns, bjó á Espihóli og drukknaði í Eyjafjarðará vorið 1844. Eftir það þótti reimt á þeim slóðum, einkum á Stórholtsleiti milli Espihóls og Stokkahlaða. Upp úr miðri 19. öld bjó Eggert Briem sýslumaður á Espihóli um tíma og þar fæddist dóttir hans, Elín Briem, skólastjóri og höfundur "Kvennafræðarans". Svæðanudd. Skýringarmynd af fótunum til svæðanudds. Svæðanudd eða svæðameðferð er aðferð notuð í óhefðbundnum lækningum til þess að örva taugaenda í höndum og fótum með því að þrýsta á þá og á þessi aðferð að lækna hina ýmsu kvilla. Egyptar, Indíánar og Kínverjar hafa notað þessa aðferð í gegnum aldirnar en það var ekki fyrr en á 19. öld sem þessi aðferð fór að njóta vinsælda í hinum vestræna heimi. Ekki eru til vísindalegar sannanir fyrir því að svæðameðferð beri árangur í baráttu við sjúkdóma en læknastéttin viðurkennir þessa aðferð ekki sem vísindalega. Þeir sem lært hafa svæðameðferð og þeir sem hafa notið slíkrar meðferðar eru hins vegar sannfærðir um ágæti hennar. Uppruni. Elstu heimildir um svæðanudd eru frá Kína frá því fimm þúsund ár aftur í tímann eða þrjúþúsund árum fyrir Kristburð en nálastunguaðferð Kínverja er einnig þekkt frá þessum tíma. Það var árið 1913 sem Bandaríkjamaðurinn Dr. William H. Fitzgerald (1872-1942), háls-, nef- og eyrnalæknir, kynnti þessa aðferð fyrir hinum vestræna heimi. Á fjórða áratug 20. aldar var þessi tækni þróuð enn fremur af hjúkrunarfræðingnum og sjúkraþjálfaranum Eunice D. Ingham (1889-1974). Hún sagði hendur og fætur vera afar viðkvæm svæði sem mætti ná miklum árangri með svæðameðferð. Ingham skipti líkamanum í svæði og kortlagði fætur og hendur með tilliti til þessa. Þannig áttu allir hlutar líkamans sinn stað í fótum og höndum og svaraði hægri hluti líkamans til hægri fótar/handar og vinstri hluti líkamans til vinstri fótar/handar. Ingham þróaði einnig sérstaka nuddaðferð og hefur hún verið kölluð Ingham-aðferðin. Útskýring. Svæðanudd og svæðameðferð eru ekki eins og hefðbundið nudd. Aðferðin sem notuð er beinist að því að örva taugaenda í höndum og fótum með því að þrýsta á þá. Þar sem að hugmyndin á bakvið svæðanuddi segir að allir líkamshlutar og líffæri eigi sér samsvörun í höndum og fótum þá er þrýstingi beitt á það svæði sem þarfnast bata með því að ýta á taugaenda á réttum stað í fótum/höndum. Hvert líffæri, innkirtlar og öll starfsemi líkamans í heild hefur taugaenda sem er að finna í höndum eða fótum og með því að beita þá þrýstingi er hægt að hafa áhrif á starfsemi þess svæðis sem átt er við. Samspil orkurása, kenningar um orkubrautir og punkta á orkubrautum eru einnig viðfangsefni svæðameðferðar. Með því að nota svæðameðferð vill fólk meina að hægt sé að lækna hina ýmsu sjúkdóma og kvilla með því að þrýsta á rétta punkta í höndum og fótum. Ef fólk þjáist til dæmis af hægðatregðu þá myndi svæðanuddari þrýsta á þann punkt í fótum sem samsvaraði til þarmanna eða þar sem að taugaendar þarmanna liggja. Við þetta áreiti á taugaendann myndi svæðanuddarinn hafa áhrif á svæðið sem yrði til þess að hægðatregðan myndi hætta. Gagnrýni á svæðanudd/svæðameðferð. Engar vísindalegar sannanir liggja fyrir um ágæti svæðameðferðar en læknar og vísindamenn vilja meina að svæðanudd geri ekki meira gagn en venjulegt nudd, það er að segja, leiði einungis til líkamlegrar vellíðan en lækni ekki sjúkdóma. Svæðanuddarar svara þessari gagnrýni á þann veg að vissulega geri meðferð þeirra gagn en eitt er víst að hún valdi í það minnsta engum skaða líkt og ólíkar lyfjameðferðir geti gert. William Herschel. William Herschel fæddist í Hannover William Herschel (15. nóvember 1738 í Hannover – 25. ágúst 1822 í Slough) var enskur stjörnufræðingur af þýskum uppruna sem öðlaðist heimsfrægð fyrir að uppgötva reikistjörnuna Úranus árið 1781. Hann var einnig virtur tónlistarmaður og tónskáld. Æviferill. Stærsti sjónaukinn sem Herschel smíðaði var 12 metra langur Herschel fæddist í þýsku borginni Hannover meðan hún var höfuðborg konungsríkisins Hannover og var skírður Friedrich Wilhelm. Snemma lærði hann á hljóðfæri og spilaði á óbó. Hann gekk í herinn í 7 ára stríðinu 1757 en þegar Frakkar hertóku Hannover, flúði hann til Englands. Þar gerðist hann tónlistarmaður, tónskáld og organisti. Árið 1766 varð hann tónlistarstjóri í ensku borginni Bath. Eftir að hann kvæntist, fluttist hann til Slough, en þar starfaði hann til dauðadags og gerði sínar frægu uppgötvanir. Hann hóf að nema stærðfræði og öðlaðist við það áhuga á linsum, sjónaukum og stjörnufræði. Herschel smíðaði nokkra stjörnusjónauka um ævina, en sá stærsti var allt að tólf metra langur. Þetta var stærsti stjörnusjónauki heims í rúma öld og stóð á grind utandyra. Sjónaukinn eyðilagðist í stormi nokkru síðar. Áhugasvið Herschels var óvenjulegt hvað það varðar að hann hafði minni áhuga á tunglinu, reikistjörnum og halastjörnum, heldur beindist áhugi hans fyrst og fremst að fastastjörnum. Á þeim tíma vissu menn ekki að hér væri um sólir í órafjarlægð að ræða. Herschel reyndi að reikna út fjarlægðir þeirra frá jörðu og notaði við það stærð stjarnanna. Hann gerði þó þau mistök að ætla að þær væru allar jafn stórar. Því væru stærri stjörnurnar nær jörðu en þær minni fjær. Herschel hafði einnig áhuga á stjörnuþokum og kortlagði þær á stjörnukorti. Árið 1781 sá hann nýjan hnött innan sólkerfisins og taldi í fyrstu að hér væri um nýja halastjörnu að ræða. Fljótlega komst hann þó að þeirri niðurstöðu að þetta væri ný reikistjarna. Fréttin um þetta barst eins og eldur í sinu og varð Herschel víðfrægur fyrir fund sinn. Herschel bjó mestmegnis í ensku borginni Slough. Þar lést hann árið 1822 og var jarðsettur við St. Laurence kapelluna. Úranus. Úranus ásamt hringjum og nokkrum tunglum Frá örófi alda töldu menn aðeins fimm reikistjörnur: Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus. Allar sjást þær með berum augum. Þessar reikistjörnur, ásamt sól og tungli, mynduðu hina 7 alkunnu himinhnetti. Á miðöldum var þetta heilagur sannleikur. Ekki mátti hrófla við þessari tölu. Þar að auki voru þessir himinhnettir sléttir og hreinir. Uppgötvanir Galileós um tungl umhverfis Júpíter var hafnað, eins og uppgötvanir hans um fjöll á tunglinu og hringi í kringum Satúrnus. Menn þekktu hins vegar til halastjarna. Þegar Herschel uppgötvaði nýjan hnött innan sólkerfisins 1781, var því tekið sem mikilsverðri uppgötvun. Herschel sjálfur taldi að hér væri um halastjörnu að ræða og nefndi hana "Georgium Sidus" ("Georgsstjarnan"), eftir Englandskonungi (sem reyndar var einnig frá Hannover). En við frekari útreikninga kom í ljós að braut hnattarins líktist braut hinna reikistjarnanna, en ekki brautir halastjarna. Herschel komst því að þeirri niðurstöðu að hér hlyti að vera um nýuppgötvaða reikistjörnu að ræða, sem væri svo langt frá jörðu að hún sæist ekki nema með bestu stjörnusjónaukum. Fréttin um nýja reikistjörnu barst eins og eldur í sinu um alla Evrópu og varð Herschel heimsfrægur á svipstundu. Allt í einu sá fólk að sólkerfið væri meira og stærra en gert hafði verið ráð fyrir í aldaraðir. Herschel breytti heiti hnattarins í Úranus, sem var heiti á fornguði í grískri goðafræði. Þegar Herschel endurbætti stjörnusjónauka sína, uppgötvaði hann 1787 tvö tungl sem snerust í kringum Úranus. Þau voru kölluð Títanía og Oberon. 1797 uppgötvaði hann hringi í kringum Úranus. Engir aðrir stjörnufræðingar eftir hans daga komu hins vegar auga á hringina og voru þeir því dæmdir sem mistök Herschels. Það var ekki fyrr en 1977, 180 árum síðar, að stjörnufræðingar uppgötvuðu hringi Úranusar á nýjan leik. Aðrar uppgötvanir. Með smíði stærri og betri stjörnusjónauka var Herschel í einstakri aðstöðu til að skoða fyrirbæri í himingeiminum, fyrirbæri sem engir aðrir jarðarbúar höfðu fram að þessu séð. Aðaláhugamál Herschels voru stjörnuþokur. Árin 1780-81 gaf Charles Messier út stjörnukort af 103 stjörnuþokum sem þekktar voru á þessum tíma. Menn voru hins vegar ekki á eitt sáttir um gerð stjörnuþoka, þ.e. hvort hér væri um þétta hópa af stjörnum að ræða, eða leifturský eða jafnvel vökva. Herschel athugaði þessar þokur, enda hafði hann smíðað stærsta stjörnusjónauka heims. Hann uppgötvaði mýmargar nýjar stjörnuþokur og komst að þeirri niðurstöðu að hér væri um þétta stjörnuklasa að ræða. Þegar ekki var hægt að greina stjörnur í þokunu, taldi hann að þær væru svo langt í burtu að stjörnurnar sjálfar sæust ekki. Tæknilega hafði hann rétt fyrir sér í mörgum tilfellum. En síðari tíma stjörnufræði hefur aðgreint stjörnuþokur í þrennt: Þéttar stjörnur, gasþokur og fjarlægar vetrarbrautir. Herschel skráði og kortlagði allar þessar stjörnuþokur. Til viðbótar reyndi hann að teikna upp lögun vetrarbrautarinnar. Auk Úranusar og tveggja stærstu tungla hans, uppgötvaði Herschel einnig tvö tungl í kringum Satúrnus. Þau kallaði hann Mímas og Enceladus. Þar með var Herschel eina persónan á 18. öld til að uppgötva ný tungl og sá fyrsti eftir Galíleó. Enn fremur var hann fyrsti maðurinn til að uppgötva árstíðaskipti á Mars, gufuhvolf á Venus og setti sólbletti í samhengi við veðurfar á jörðinni. Jón Jakobsson. Jón Jakobsson (11. febrúar 1738 – 22. maí 1808) var sýslumaður Eyfirðinga á 18. öld. Hann bjó á Espihóli í Eyjafirði. Jón var sonur Jakobs stóra Eiríkssonar, kaupmanns við Búðir á Snæfellsnesi og konu hans Guðrúnar, dóttur séra Jóns Jónssonar á Staðarstað og víðar. Bróðir hans var Halldór Jakobsson sýslumaður. Jón nam lög við Hafnarháskóla. Hann varð sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu 1768, settist að á Espihóli og var þar í fjóra áratugi. Hann er sagður hafa verið vinsæll meðal almennings og þekktur fyrir örlæti og gjafmildi við fátæka en kona hans, Sigríður Stefánsdóttir, er sögð hafa verið „merkiskona, en orðlögð fyrir nísku, harðbýlni og aðsjálni“ og er sagt að hann hafi stundum falið matvöru í heytóftum til að geta gefið snauðum í laumi. Jón var mjög fróður og átti gott bókasafn, sagður maður rammíslenskur í skapi, enda félagi og vinur Eggerts Ólafssonar og var með honum í bændasonaflokknum í Kaupmannahöfn, en þeir vildu hafa allt sem íslenskast og byggja á íslenskum rótum. Hann var líka upplýsingarmaður og áhugasamur um framfarir af ýmsu tagi, var meðal annars fyrstur til að gera tilraunir með vetrarrúning á sauðfé og stóð fyrir póstferðum. Sigríður kona hans var dóttir Stefáns Ólafssonar prests á Höskuldsstöðum, systir Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns og hálfsystir Sigurðar Stefánssonar Hólabiskups. Hún var ekkja eftir Þórarin Jónsson sýslumann á Grund. Börn þeirra og stjúpbörn Jóns voru Stefán Þórarinsson amtmaður, Gísli prófastur í Odda, Vigfús sýslumaður á Hlíðarenda, Friðrik prestur á Breiðabólstað, Magnús klausturhaldari og Ragnheiður, sem giftist Jóni syni Skúla Magnússonar landfógeta. Elstur barna Jóns og Sigríðar var Jón Espólín (f. 1769), þá Margrét, sem giftist Birni Stephensen, og Jakob, sem dó við nám í Kaupmannahöfn. Jón átti líka launson sem hét Gísli Jónsson (1758–1829). Hann varð prestur í Noregi 1789, og er frá honum komin mikil ætt sem í dag notar ættarnafnið Johnson eða Espolin Johnson. Meðal þekktra manna af þeirri ætt var teiknarinn Kaare Espolin Johnson (1907–1994). Umhverfisnefnd Alþingis. Umhverfisnefnd var ein af fastanefndum Alþingis. Nefndin fjallaði meðal annars um mál er vörðuðu dýravernd og stjórnun veiða á villtum fuglum og spendýrum, mengunarvarnir, náttúruvernd, rannsóknir á sviði umhverfismála, skipulags- og byggingarmál og varnir gegn ofanflóðum. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni umhverfisnefndar í dag að mestu leyti undir umhverfis- og samgöngunefnd. Utanríkismálanefnd Alþingis. Utanríkismálanefnd er ein af átta fastanefndum alþingis. Nefndin fjallar meðal annars um mál er varða aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum og stofnunum, málum sem varða aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samstarfinu, samninga við önnur ríki og gerð þeirra, útflutningsverslun, þróunarsamvinnu og neyðarhjálp og varnar- og öryggismál. Viðskiptanefnd Alþingis. Viðskiptanefnd var ein af fastanefndum Alþingis. Nefndin fjallaði meðal annars um mál er vörðuðu banka, fjármála- og vátryggingastarfsemi, hlutafélög, samkeppni, sparisjóði og aðrar fjármálastofnanir, verslun, viðskipti og neytendavernd. Fastanefndum Alþingis var fækkað úr tólf í átta þann 1. október 2011 og heyra málefni viðskiptanefndar í dag að mestu leyti undir efnahags- og viðskiptanefnd. Galdraþulur í Harry Potter. "you will get one way ticket to Azkaban, Correct! - Pr. Alastor Moody (Auror)" Kennitöluflakk. Kennitöluflakk (eða kennitöluhopp) kallast það þegar fyrirtæki sem sér fram á gjaldþrot flytur eignir sínar yfir á nýja kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á gömlu kennitölunni. Þannig getur eigandi fyrirtækisins haldið áfram að reka það án þess að borga skuldir þess, því kröfuhafarnir geta aðeins gengið að þeim eignum sem skráðar eru á gömlu kennitöluna. Í könnun sem nemendur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík gerðu á stjórnendum 600 íslenskra fyrirtækja kom fram að rúmlega 73% íslenskra fyrirtækja höfðu tapað fjármunum á kennitöluflakki og þriðjungur þeirra hafði tapað fjármunum á kennitöluflakki oftar en 6 sinnum. Mikill meirihluti af þeim stjórnendum sem tóku þátt sögðu að þörf væri á lagasetningu til að stemma stigu við kennitöluflakki. Helgisetur. Séð til Niðarósdómkirkju frá Elgeseter. Helgisetur var Ágústínaklaustur í Þrándheimi í Noregi og tengdist Niðarósdómkirkju. Það stóð handan við ána Nið, andspænis dómkirkjunni. Þaðan lá brú yfir ána og margir munkanna þar voru kórbræður við kirkjuna. Klaustrið var stofnað af Eysteini erkibiskupi árið 1183 eða fyrr en lagt niður við siðaskiptin í Noregi 1537. Síðasti príor klaustursins bjó þar þó áfram til 1546 en þá flutti lútherski biskupinn þangað. Klausturbyggingarnar brunnu árið 1564 og nú sjást engin ummerki um klaustrið. Þar sem það var er nú hverfi sem kallast Elgeseter og brúin sem nú er yfir ána kallast Elgeseter bru. Helgisetursklaustur kemur nokkuð við sögu Noregs. Skúli hertogi var drepinn ásamt Pétri syni sínum framan við Helgisetur vorið 1240. Hann komst undan mönnum Hákonar konungs og leitaði skjóls í klaustrinu en konungsmenn kveiktu þá í því svo að hann varð að fara út og var þá drepinn. Ýmsir íslenskir munkar dvöldu í Helgisetri um lengri eða skemmri tíma. Eystein Ásgrímsson, höfundur Lilju, var þar 1355-1357 og dó í klaustrinu 1361 eftir hrakninga á leið frá Íslandi. Ingimundur Skútuson var tekinn í klaustrið á Helgisetri eftir brunann á Möðruvöllum 1315 og var þar í nokkur ár. Bótólfur, sem varð Hólabiskup 1238, hafði áður verið kanúki á Helgisetri. Heyr heyr ehf. Heyr heyr er íslenskt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í hljóðvörum. Fyrirtækið var stofnað árið 2008 til að framleiða barnaævintýri. Sérstaða fyrirtækisins hefur alla tíð verið sú að hljóðvinnslan líkist helst hljóðvinnslu kvikmynda og eru vörur þeirra því alltaf með mikið af bakgrunnshljóðum og tónlist. Höfuðstöðvar Heyr heyr eru í Sóltúni 24. Bakgrunnur Heyr heyr. Heyr heyr var stofnað í júní 2008 af Andra Franklín Þórarinssyni viðskiptafræðinema, Agli Antonssyni tölvunarfræðinema, Jóni Gunnari Þórðarsyni leikstjóra og Sindra Þórarinssyni hljóðverkfræðingi. Heimasíða Heyr heyr, 'About' heimsótt 2008-10-21. Sérstaða Heyr heyr. Í viðtali við Fréttablaðið sagði Jón Gunnar Þórðarson, leikstjóri Heyr heyr um fyrirtækið: „Það er félag sem einbeitir sér algjörlega að hljóðmynd. Það eru til hljóðbækur sem eru í sjálfu sér góðar en þar er helst beinn upplestur. Svo eru til geisladiskar með tónlist. Við vildum láta þetta haldast í hendur og búa til bíómynd á geisladiskaformi, nánast.“ Vörumerki Heyr heyr. Merki Heyr heyr er mynd af útlínum höfuðs þar sem e-in í Heyr heyr mynda eyru þess. Merkið er yfirleitt í grænum lit með svörtum stöfum en getur einnig verið í öðrum litum. Kaffismiðja Íslands. Kaffismiðja Íslands er kaffihús og kaffibrennsla í miðbæ Reykjavíkur að Kárastíg 1. Kaffismiðjan var opnuð þann 20. desember árið 2008. Fyrirtækið flytur inn kaffibaunir, aðallega frá Suður-Ameríku og einna mest frá Kólumbíu. Brenndar eru baunir á hverjum degi í augsýn kaffihúsagesta. Kaffihúsið er með hráa innréttingu, gestir sitja við gamaldags saumaborð eða gömul eldhúsborð og geta hlustað á vínylplötur að eigin vali. Kaffismiðja Íslands er einnig kaffiskóli á kvöldin. Saur. Saur (hægðir eða saurindi) er úrgangur úr meltingarfærum dýra. Á lokastigi meltingar eða við saurlát fara hægðir út um endaþarm. Saurinn geta skipt miklu máli í heimi dýranna, en sum þeirra nota þær til afmörkunar óðals. Einnig er dýrasaur mikilvægar í lífi sumra plantna þar sem fræ þeirra berast með saurnum eftir að dýrið hefur saurlát og hjálpar þannig plöntunni að dreyfa fræjum sínum. Þegar saurinn kemur undir bert loft losna ýmiss gös, t.d. brennisteinsvetni, sem urðu til vegna gerlavirkni í meltingu og stafar af því óþefur. Salerni og bleyjur. Fullorðnir hægja sér gjarnan klósett, en börn yngri en þriggja ára nota oftast bleyjur til að safna þvagi og saur. Orð um saur dýra. Saur hesta nefnist "hrossaskítur" (eða "hestaskítur"), "hrossagaddur", "hrossatað" eða bara "tað" (sbr. hestar teðja). Frosinn hrossaskítur er stundum nefndur "gaddur" eingöngu. Saur kúa nefnist "kúaskítur", "kúadella" (eða "kúadilla"), "kúaklessa" eða "della" ef um stakan skít er að ræða, en annars "mykja". Saur sauðfénaðar nefnist "spörð" ef nokkrar saurkúlur eru saman en annars "tað". Orðið "tað" er einnig haft um klíning, þ.e. þurrkaðan sauðaskít, sem áður fyrr var mikið notaður sem eldiviður og til reykingar, stundum einnig nefndur skán. Orðið "drit" (eða "fugladrit") er haft um skít fugla. Skítur dýra er einnig í mörgum tilfellum kenndur við dýrið sjálft, sbr. "hundaskítur", "hænsnaskítur", "kattaskítur", "mannaskítur" o.s.frv. Saur húsdýra er víða notaður sem áburður, t.d. "hrossatað" og "kúamykja". Eldgosið á Fimmvörðuhálsi 2010. Eldgosið þann 25. mars 2010. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi var eldgos á Fimmvörðuhálsi, sem hófst skömmu fyrir miðnætti þann 20. mars 2010 og stóð til 13. apríl sama ár. Upphaflega bárust fregnir frá Lögreglunni á Hvolsvelli um eldgos og tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul. Síðar kom í ljós að gosið var hraungos norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði um 200 metra hraunfoss, þann hæsta í heimi, og rann hraunið niður í gil í grennd við gossprunguna. Aðdragandi. Frá byrjun árs 2010 færðist skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli í aukana og fóru stærstu skjálftarnir yfir 3 á Richterkvarðanum. Vísindaráð Almannavarna fundaði 2. febrúar og ákvað að svæðið skyldi vaktað af meiri árvekni. Eftir það sýndu mælingar landris og þenslu á svæðinu, en slíkt bendir venjulega til innskotavirkni. 4. mars ákváðu Almannavarnir að virkja viðbragðsáætlun á fyrsta háskastigi, óvissustigi, sem einkennist af stöðugu mati á hættu sem fólki og/eða byggð er stefnt í. Síðustu tvo dagana fyrir gos hafði jarðskjálftum fækkað miðað við undanfarna daga en óvissustig Almannavarna var enn í gildi þegar gosið hófst. Almannavarnir. Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð, fjöldahjálparstöðvar opnaðar og helstu hættusvæði rýmd. Byrjað var strax í upphafi að rýma bæi í Fljótshlíð og við Markarfljót. Fyrstu nóttina voru íbúar í Fljótshlíðinni og svæðunum vestan Markarfljóts sendir til Hvolsvallar og Hellu en aðrir fóru í Skálakot. Íbúar í Skógum fóru til Víkur í Mýrdal. Neyðarlínan sendi eftirfarandi SMS-skilaboð til íbúa: "„Upplýsingar til íbúa, eldgos er hafið í Eyjafjallajökli norðaustan til, nánari upplýsingar síðar.“" Fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins var lokað 21. mars en þó þurfti að rýma nokkra bæi. Gosið. Samkvæmt vefmyndavél RÚV byrjaði eldgosið í Eyjafjallajökli klukkan 23:28 þann 20. mars 2010. Fyrsta tilkynning barst klukkan 23:58 frá Múlakoti og þá var TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunar, send af stað. Gosið hófst í um 0,5-1 km langri sprungu, norðarlega í Fimmvörðuhálsi en ekki undir sjálfum jökulinum. Hraunið myndaði háan foss er það rann niður í Hrunagil. 22. mars færðist gosið í aukana og mökkurinn varð að líkindum 8 km hár. Óljósar fregnir voru að því að gosspurngan hefði stækkað en svo reyndist ekki. Það var í raun hraun að renna yfir ís og snjó sem olli því að gosmökkurinn stækkaði til muna. Gervihnattarmynd sem sýnir nýmyndaða gossprungu 1. apríl 2010. 31. mars opnaðist ný gossprunga um 200 m norðan við upphaflegu sprunguna. Við það minnkaði virknin í eldri sprungunni til muna og um viku síðar var virknin orðin að engu. Hraunið rennur nú að mestu í Hvannárgil. Þegar sprungan opnaðist var nokkur fjöldi göngufólks ekki langt frá og var það flutt með þyrlum af hættusvæðinu. Þá var gosinu lokið 13. apríl 2010. Strax daginn eftir hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Gígarnir tveir sem mynduðust í gosinu hlutu síðar nöfnin Magni og Móði og hraunið sem rann frá þeim kallast Goðahraun. Þrisvar áður hefur gosið í Eyjafjallajökli síðan land byggðist; árin 920, 1612 og 1821. Öll þessi gos hafa verið frekar lítil en hafa þó valdið jökulhlaupum. Gosið sem hófst árið 1821 stóð til ársins 1823. Flóð. Aðalhættan af völdum gossins felst í vatnsflóði. Talið var upphaflega að flóðið hafði eða myndi falla í Þórsmörk samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum. Ef gosið skyldi færast í aðalgíg Eyjafjallajökuls gæti skapast mikil hætta af jökulhlaupi. Áhrif á samgöngur. Í upphafi goss var fólk beðið um að ferðast ekki til svæðisins að ástæðulausu. Þjóðveginum var lokað við Selfoss fyrstu nóttina en vegurinn var opnaður þegar leið á daginn. Flugi var vísað frá helstu millilandaflugvöllum landsins; Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og Keflavíkurflugvelli var lokað vegna gossins en Egilsstaðaflugvelli var haldið opnum. Flugi yfir Atlantshafið var beint suður fyrir landið, þar með töldu flugi Icelandair frá Bandaríkjunum og var flugi til og frá landinu frestað. Eldgos í Eyjafjallajökli. Þann 14. apríl 2010 hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Eldgosið í Eyjafjallajökli 2010. Eldgosið í Eyjafjallajökli 17. apríl 2010 Eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 var eldgos í Eyjafjallajökli, sem hófst snemma að morgni 14. apríl 2010 og stóð til 23. maí sama ár. Gosið var í toppgíg Eyjafjallajökuls og kvikan bræddi ísinn sem er við gíginn. Stórt flóð rann norður um Gígjökul og út í Markarfljót. Flóð varð einnig í Svaðbælisá undir Eyjafjöllum. Strax um morguninn var gossprungan orðin 2 km að lengd og teygði sig frá norðri til suðurs. Stór sigdæld myndaðist kringum gíginn og fór stækkandi. Þá var gosmökkurinn kominn í 22 þúsund feta hæð um hálf-ellefuleytið. Gosaska dreifðist um alla Evrópu og olli miklum truflunum á flugumferð, en flugsamgöngur stöðvuðust dögum saman í mörgum ríkjum. Öskumistur gerir oft á Suðurlandi vegna fokösku. Limburgíska. Limburgíska er tungumál sem er talað í Limburg; Hollandi, Þýskalandi og Belgíu. Heilsuáhrifasjóðurinn. Heilsuáhrifasjóðurinn (enska: "Health Impact Fund" eða "HIF") er tillaga að nýrri alþjóðastofnun sem hefði það hlutverka að leysa alvarleg vandamál varðandi aðgengi og þróun lyfja. Sjóðum er ætlað að skapa hvata fyrir lyfjafyrirtæki til að beina rannsóknum sinum í átt að lyfjum sem mynd stórlega minnka hnattræna sjúkdómsbyrgði (e. "burden of disease"). Sjóðurinn (HIF) var mótaður af hópi fræðimanna undir forystu heimspekingsins Thomas Pogge og hagfræðingsins Aidan Hollis. Það eru samtökin Incentives for Global Health sem standa að stofnun Heilsuáhrifasjóðsins. Tvíþætt vandamál. 1: Í dag deyja milljónir manna, einkum í fátækustu löndum heims úr læknanlegum sjúkdómum vegna þess vegna það getur ekki efni á að kaupa lífsnauðsynleg lyf hás lyfjaverðs lyfja sem háð eru einkaleyfi. 2: Áherslan í lyfjaþróun í dag er á lyf gegn fátíðum, oft lífsstílstengdum sjúkdómum á Vesturlöndum, ekki þá sjúkdóma sem drepa eða hrjá flesta jarðarbúa, „fátæktarsjúkdóma“. Ástæðan er sú að aðeins fólk á Vesturlöndum getur greitt það háa verði sem fyrirtækin þurfa (að eigin sögn) að fá fyrir ný lyf til að halda rannsóknum gangandi. Alþjóðlegur hugverkaréttur vegna lyfja (TRIPS). Eins og heimspekingurinn Peter Singer, einn þeirra sem komið hefur að þróun sjóðsins bendir á fara um það bil 90% þess fjár sem notað er til rannsókna til að skapa ný lyf beinist að sjúkdómum sem eru einkum vandamál hjá þeim 10% ríkustu íbúa jarðarinnar. Ástæðan fyrir þessu er hnattrænu hugverkaréttarreglurnar TRIPS Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights sem samþykktar voru af Alþjóða viðskiptastofnuninni WTO 1995. Fyrir 1995 var ríkjum í sjálfsvald sett hvort þau innleiddu lög höfundarréttarreglur varðandi lyf sem leiddi til blómlegrar framleiðslu samheitalyfja. Eftir að TRIPS reglurnar tóku gildi þurftu meðlimimaríku WTO að innleiða ströng höfundarréttarlög um lyf og framboð samheitalyfja í þróunarlöndunum dróst harkalega saman. Eins og Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz bendir á að það þurfi að finna leyð til þess að gera lyfjafyrirtækjum kleyft að ná til baka þeim kostnaði og hagnast á þróun lyfja og bóluefna við sjúkdómum á borð við malaríu, sem hrjá milljónir manna í fátækustu löndum heims. Fyrirkomulag sjóðsins. Hugmyndin með sjóðnum er að skapa fjárhagslegan hvata fyrir lyfjafyrirtæki til að beina rannsóknum sínum í að þróa lyf við vanræktum sjúkdómum og að þessi lyf verði í boði á heimsvísu á lágu verði. Heilsuáhrifasjóðnum myndi bjóða upp aðra leið meðfram núverandi kerfi svo að fátækasta fólk veralda verði ekki útunda. Hann gæti ef vel tekst til tekið við hlutverki ríkjandi verndarreglna eða í það minnsta sýnt fram á að hægt sé að tryggja rannsóknir með því að bjóða lyfjafyrirtækjum upp á aðra hvata. Lyfjafyrirtækin fengju greitt út úr sjóðnum í samræmi við heilsuáhrif lyfjanna í tíu ár eftir að þau koma á markað. Upphæðin sem greidd er úr sjóðnum er reiknuð á hverju ári út frá QALY-staðlinum "Quality-Adjusted Life Years", sem hefur verið notaður í Bandaríkjunum um árabil í tryggingakerfinu og víða í heilbrigðiskerfinu til að meta árangur meðferða og lyfja (svipaðir mælikvarðar eru í notkun víða um heim). Þeir sem skrá lyf hjá sjóðnum fá á hverju ári fá greiddan hluta af heildarupphæð ársins í samræmi við hvað þau hafa náð mörgum UALY stigum í samanburði við hina. Að þessum tíma liðnum leyfa þau framleiðslu samheitalyfja án rentu. Með þessu hyggst sjóðurinn ná fram lægra lyfjaverði strax og lyf koma á markað. Með skráningu féllust lyfjafyrirtækin á að selja lyfin á eðlilegu verði, þ.e. framleiðslukostnað og eðlilega álagningu, í stað þess að selja þau undir einkaleyfi. Fjármögnun sjóðsins. Áætlað er að sjóðurinn þurfi að hafa um sex milljarðar dollara úr að spila á hverju ári. Ekki er hægt að treysta á að slíkt fjármagn fáist með frjálsum framlögum og jafnvel þó það tækist í byrjun er engin trygging fyrir því að það haldist þegar fram líða stundir. Vegna umfangs sjóðsins verða ríki heims borgi brúsann. Þau þyrftu að skuldbinda sig til að leggja sjóðnum til 0,03% af þjóðarframleiðslu sinni á ári í tólf ár. Ekki er hægt að neyða ríki til að taka þessa skuldbindingu á sig. Nái sjóðurinn þessu 6 billjóna takmarki telur hann sig geta stuðlað að tveim nýjum lyfjum á ári hverju og haldið utan um 20 lyf á hverjum tíma. Ríkistjórnir þyrftu að skuldbinda sig til 12 ára í senn til að tryggja stöðugleika í fjárstreymi svo rannsóknaraðillar geti treyst á sjóðinn til framtíðar annars er líklegt að þeir þori ekki öðru en að nýta sér einkaleyfið. Gagnrýni. Margir hafa dregið í efa að sjóðurinn geti gengið upp eða sé góð hugmynd. Meðal þess sem nefnt hefur verið er sjóðurinn gangi ekki nógu langt í að skapa samheitalyfja framleiðendum möguleika á að koma fyrr inn á markaðinn. Brook K. Baker ritar á vef HealthGAP að flest lyf njóta í raun ekki nema tíu til tólf ára einkaleyfisverndar þegar þau koma á markað, þar sem ekki er óalgengt að það taki átta til tíu ár að þróa og prófa lyfin. Þó vissulega auðveldi sjóðurinn fátækum að fá lyf er fórnarkostnaðurinn að þegar samheitalyfja fyrirtækin geta loksins hafi framleiðslu á lyfjunum verður frumlyfið búið að koma sér fyrir á markaðnum á lágu verði með tryggan hóp neytanda með lyfseðla uppá það tiltekna lyf. Þannig verði afar erfitt fyrir samheitalyfjafyrirtækin að keppa við risana með frumlyfin og hættan er að þetta leiði á endanum til einokunar eða skertrar samkeppni. Baker segir það óskýrt hvernig eigi að verðleggja lyfin og fylgja eftir verðstýringunni. Annað áhyggjuefni margra er að sjóðurinn sé hreinlega of lítill. Það geti haft tvennt í for með sér, annarsvegar getur greiðslan úr sjóðnum verið lág þegar mörg lyf eru skráð og því varla víst að náist fyrir kostnaði og hinsvegar að fyrirtækin geti ekki reiknað með ákveðnum tekjum frá sjóðnum því þær eru háðar of mörgum óvissuþáttum. Annað sem kann að vera vandamál er að stóru lyfjafyrirtækin munu líklega ekki treysta á sjóðinn af þessum ástæðum og halda áfram með einkaleyfin og Baker nefnir til að mynda það fyrirtæki sem hefur einkaleyfi fyrir lyfið Plavix. Það lyf eitt og sér er selt fyrir meira en sex milljarða dollara á hverju ári. Paul Grootendorst (2009) segir það aðalgalla Heilsuáhrifasjóðsins, hveru afskaplega erfitt er að meta nákvæmlega áhrfi lyfja. Hann bendir sérstaklega á lyf sem hafa langan virknitíma, svo sem bóluefni og geðlyf. Stuðningur. James Orbinski hefur sagt að HIF sé snjöll hugmynd sem „ætti að hrinda í framkvæmd“ Einnig hafa fjöldamargir þekktir gengið til liðs við Áhrif HIF fyrir Ísland. Ef horfið yrði frá TRIPS hugverkareglunum og Heilbrigðisáhrifasjóðurnn eða svipað fyrirkomulag innleitt yrði það risavaxið skref fyrir heilbrigði mannkyns. En hversu stórt skref er að fyrir ríkin? Þar sem Ísland myndi líklega greiða eitthvað nálægt 500 milljónum. Stór hluti þess fjár fengist til baka í lækkun lyfjaverðs í þróuðum löndum eins og Íslandi. Það þarf að rannsaka heildar þjóðhagslegur ávinningur yrði af því að lyfjaverð lækkaði eins og forsprakkar Heilsuáhrifasjóðsins vonast til að komast að því hver eða hvort kostnaður Íslenska ríkissins ykist við að taka þátt í verkefninu. Þó virðist ekki um neinar þær upphæðir að ræða að það réttlæti að taka ekki þátt, hvorki í siðferðilegu eða peningalegu tilliti. James Randi. James Randi (fæddur 7. ágúst 1928) er kanadískur töframaður og efahyggjumaður búsettur í Bandaríkjunum. Randi hóf ferill sinn sem töframaður og undankomusérfræðingur undir sviðsnafninu „The Amazing Randi“ en færði sig seinna meir út í að rannsaka staðhæfingar er snúa að hinu yfirnáttúrulega. Randi er þekktastur fyrir að vera gagnrýninn í garð þeirra einstaklinga sem að halda því fram að þeir búi yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum og bíður Randi eina milljón bandaríkjadollara hverjum þeim sem að getur sannað yfirnáttúrulega hæfileika. Enn hefur Randi ekki þurft að greiða neinum þá summu. Þá hefur Randi einnig skrifað fjölmargar bækur. Ævi. James Randi var fæddur Randall James Hamilton Zwinge í Toronto í Ontario í Kanada, elstur þriggja barna foreldra sinna. Ungur að aldri lenti hann í umfangsmiklu gifsi í 13 vikur eftir að hafa dottið af hjóli. Á meðan Randi var í gifsinu las hann sér til um sjónhverfingar. Einungis 17 ára að aldri hætti Randi í skóla til þess að gerast sjónhverfingamaður í farandtívolíi. Eftir því sem að fram liðu stundir tók Randi eftir því að fjölmargir einstaklingar voru að gera samskonar sjónhverfingar og hann undir því yfirskyni að um yfirnáttúrulega hæfileika væri að ræða. Síðar á ferlinum, árið 1971, steig Randi fram í sviðsljósið þegar að hann gagnrýndi Uri Geller sem var orðinn heimsþekktur fyrir að beygja skeiðar. Geller hélt því fram að hann væri að notast við hugarorku á meðan Randi hélt því fram að Geller væri að notast við þekkta brellu sem að sjónhverfingarmenn höfðu lengi notast við. Randi skrifaði bókina "The Truth About Uri Geller" þar sem að hann fylgdi eftir staðhæfingum sínum og í kjölfarið deildu þeir Randi og Geller í bæði fjölmiðlum og í réttarsalnum en Geller kærði Randi. Geller fór fram á 15 milljónir bandaríkjadollara en málinu var vísað frá. Milljón dollara áskorunin. Randi býður í dag milljón bandaríkjadollara hverjum þeim sem getur vísindalega sannað tilvist yfirnáttúrulegra krafta. Randi hefur lengi talað fyrir því að setja eigi sömu kröfur á miðla, töfralækna og aðra einstaklinga sem að segjast búa yfir yfirnáttúrulegum kröfum eins og alla aðra sem koma með staðhæfingar um hvernig heimurinn virkar. Til þess að geta unnið milljónina þarf þátttakandinn að sýna fram á hæfileika sína í lokuðu umhverfi þar sem að allt er skjalfest í anda hinnar vísindalegu aðferðar. Þetta framtak Randi hófst árið 1964 og var þá vinningsupphæðin $1.000 en síðan hefur upphæðin vaxið í gegnum árin. Enn hefur enginn þeirra sem að gert hefur tilkall til fjárhæðarinnar staðist prófið. Annað. Randi hefur í gegnum tíðina átt hin ýmsu heimsmet. Randi á tvö heimsmet skráð í Heimsmetabók Guinness þessa stundina. Hann var í loftþéttri líkkistu í eina klukkustund og 44 mínútur og bætti þar með gamalt met Harry Houdini sem að hafði verið í slíkri kistu í klukkustund og 31 mínútu. Randi var einnig 55 mínútur í ísklumpi. Í mars 2010 kom Randi út úr skápnum og tilkynnti það að hann væri samkynhneigður, þá 81 árs gamall. The Other Economic Summit. The Other Economic Summit (TOES) voru toppfundir sem að áttu að þjóna því hlutverki að vera gagnrýnir á hina árlegu G7 toppfundi. Fyrsti fundurinn var haldinn 1984 og komu þar saman hagfræðingar, umhverfisverndarsinnar og aðrir sem létu sig mál samfélagsins varða. TOES varð á endanum einnig nafn yfir ýmsa svipaða fundi sem haldnir voru á næstu tveimur áratugum. TOES toppfundirnir. Fyrsti fundurinn var haldinn 1984 og var skipulagður af samtökunum New Economics Foundation og Right Livelyhodd Awards. Stefnan var tekin á að koma fram með aðra valkosti í þróunar og umhverfismálum. Tilgangur fundana var að sýna fram á að hagkerfi heimsins gætu verið skipulögð a betri hátt. Fundirnir voru einnig gagnrýnir á G7 toppfundina fyrir að þeir gerðu sér upp að vera málsvari allra jarðarbúa. TOES krafðist þess að hagstjórn heimsins lyti frekar lýðræðislegri stjórn og stungið var upp á því að G-7 fundunum yrði skipt út fyrir fulltrúaskipað hagfræðiráð innan sameinuðu þjóðana. TOES voru haldnir frá 1985-1987 í Bretlandi þar sem að sendinefnd var skipuð til þess að fara þangað sem að G7 toppfundurinn var haldin. Frá 1988 þegar var haldin TOES hefur hann verið haldin í sömu borg og G7 fundurinn var haldin. Fundirnir voru haldnir í eftirfarandi borgum; Houston (1990), Denver (1997), Birmingham (1998), Warwick (2000), Brunswick (2004). Fjarskoðun. Fræðimenn byrjuðu fyrst að skoða dulræn fyrirbrigði um miðja nítjándu öldina. Frumkvöðlar á þessu sviði voru fræðimenn eins og Michael Faraday, Alfred Russel Wallace, Rufus Osgood Mason og William Crookes. Verk þeirra beindi sjónum sínum aðallega að tilraunum á sérstökum einstaklingum sem voru taldir gefnir dulrænum öflum. Fréttir af hugsanlegum árángursríkum tilraunum voru teknar með miklum efasemdum af vísinda samfélaginu. Fjarskoðun er hæfileiki sem er gagnlegur til þess að safna upplýsingum um hluti sem eru fjarlægir eða hafa ekki verið áður séðir með berum augum. Til þess er notað dulræn aðferð auka-athyglis skynjun eða skynjun með huganum. Venjulega er fjarskoðunaranum ætlað að gefa upplýsingar um huti sem eru faldir líkamlegri skynjun og er skilið að með fjarlægð. Heitið var fyrst sett fram af dulsálfræðingunum Russell Targ and Harold Puthoff árið 1974. Fjarskoðun var vinsæl á tíunda áratugnum, eftir að áður leynd skjöl voru gerð opinber. Þessi skjöl vörðuðu Stjörnuhliðs Áætlunina, 20 milljón dollara rannsóknarverkefni sem Bandarísk stjórnvöld styrktu til að ganga úr skugga um hugsanlega hernaðarlega beitingu á þessu dulræna fyrirbrigði. Bundið var enda á rannsóknarverkefnið árið 1995, þar sem áætlunin hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að efast var um mikilvægi þess til leyniþjónustu vettvangsins. Fyrstu rannsóknum voru lofað þar sem þær voru taldar hafa bætt aðferðarfræðina á fjarsýnina og lyft mælikvarðanum á tilraununum til framtíðar. Aftur á móti var það gagnrýnt að upplýsingar lækju óvart til þátttakanda með vísbendingum. Aðrar seinni tilraunir sýndu neikvæðar niðurstöður þegar þessar vísbendingar voru teknar úr rannsókninni. Fjarskoðun, eins og önnur form af auka-athyglis skynjun, er oftast litið á sem gervivísindi þar sem niðurstöðurnar þykja of líkar og vegna þess hve rannsóknirnar sýna ekki nægjanlega haldbærar niðurstöður. Auka-athyglis skynjun. Auka-athyglisskynjun felur í sér móttöku upplýsinga sem ekki eru öfluð með venjulegri líkamlegri skynjun, heldur er skynjað með huganum. Hugtakið var fyrst notað af þýska dulræna rannsóknarmanninum Rudolf Tischner en tekið upp af sálfræðingnum J. B. Rhine til að gefa til kynna sálræna hæfileika eins og fjarskynjun og skyggnigáfu. Jose Ortega y Gasset. José Ortega y Gasset (9. maí 1883 í Madríd – 18. október 1955 í Madríd) var spænskur heimspekingur og rithöfundur. Þekktastur er hann fyrir verk sitt "La rebelión de las masas" ("Uppreisn fjöldans"), sem byggð er á blaðagreinum sem birtust í dagblaðinu "El sol". Hann stofnaði tímaritin "España" (1915–1924) og "Revista de Occidente" (1923-). Á Franco-tímanum fór hann í útlegð, frá 1936-1945, en sneri aftur, stofnaði háskóla og kenndi við hann til æviloka. Gasset, José Ortega y Gasset, José Ortega y Borkum. Borkum er stærst og vestust austurfrísnesku eyjanna í Vaðhafinu í Norðursjó. Hún er jafnframt vestasta þýska eyjan. Lega og lýsing. Á Borkum er samnefndur bær. Myndin er tekinn af nýja vitanum. Borkum er vestasta eyja Þýskalands. Hún er stærst Austurfrísnesku eyjanna með 31 km². Eyjan liggur í minni árinnar Ems, rétt vestan við eyjuna Juist. Fyrir vestan eru Vesturfrísnesku eyjarnar en þær tilheyra Hollandi. Borkum er langlengst frá meginlandinu allra austurfrísnesku eyjanna, eða 10 km. Ástæðan fyrir því er sú að Ems breiðir svo mjög úr sér í Vaðhafinu. Miklar leirur eru fyrir sunnan eyjuna en þar stóð áður fyrr eyja. Borkum er einnig eina eyjan í eyjaklasanum sem ekki er ílöng, heldur er hún þríhyrningslaga. Miklar sandstrendur eru á norðurströnd Borkum sem gjarnan eru notaðar til baða. Á vesturendanum er bærinn Borkum en þar búa rúmlega 5.000 manns. Annars staðar er mikil náttúra. Á suðvesturhorninu er meira að segja skógur. Syðsti punktur eyjarinnar er ferjuhöfn en þaðan er nokkuð langt til bæjarins (um 4 km). Lítil járnbraut gengur á milli staðanna. Leyfilegt er að taka bíla með til eyjarinnar en Borkum er ein af tveimur austurfrísneskum eyjum þar sem bílaumferð er leyfileg. Meðfram gjörvallri vesturströnd eyjarinnar er varnargarður til varnar ágangi sjávar. Á Borkum er flugvöllur. Fáni og skjaldarmerki. Borkum á sér eigin fána og skjaldarmerki. Fáninn er ljósgrænn með hvítum krossi. Efst til vinstri er fáni Austur-Fríslands. Fyrir miðju er mynd af vita og áletrun sem tekin er úr gömlu kirkjuinnsigli á eyjunni. Græni liturinn stendur fyrir grænu eyjuna eins og Borkum var áður nefnd. Hvíti krossinn stendur fyrir hvítu strendurnar og hreina loftið. Fáni þessi var hannaður 1929 og settur að hún á eyjunni í fyrsta sinn 1930. Skjaldarmerkið sýnir gamla vitann en hann er einkennismerki eyjarinnar. Til vinstri eru tveir blásandi hvalir en hvalveiðar voru að einhverju leyti stundaðar frá eyjunni á 17. og 18. öld. Saga. Á miðaldakortum og textum má sjá að áður fyrr var stór eyja á staðnum sem hét Bant. Í stormflóði 1170 brotnaði þessi eyja í sundur og myndaði nokkrar smærri eyjar, þar á meðal Juist og Borkum. Það sem eftir var af Bant sökk í sæ í næstu stormflóðum. Heitið Borkum kemur fyrst fyrir 1227 (ritað "Borkna") en það merkir "burkni". Merkingin er því Burkney. Upphaflega var Borkum tvær eyjar sem vatnsrás skildi að en hún sameinaðist á 19. öld. Hlutarnir hétu Westland og Ostland (Vesturland og Austurland). Frá miðri 15. öld tilheyrði Borkum greifunum í Austur-Fríslandi. Þegar síðasti greifinn dó barnlaus 1744, skipti eyjan allmörgu sinnum um eigendur. Á fyrri hluta 19. aldar tók fólk að sækja baðstrendur eyjarinnar. Það var þó ekki fyrr en um miðja 19. öld að eyjan varð að þekktum baðstað. Síðan þá hafa atvinnuvegir eyjaskeggja breyst í það að þjónusta ferðamenn. Árið 1900 var fyrsta strandloftskeytastöð heims reist á Borkum, en það var ríkispóststöðin sem starfrækti hana. 1902 ákvað Vilhjálmur II keisari að hervæða eyjuna, þar sem hún var við norðvesturmörk ríkisins. Reist voru varnarbyrgi, hermenn og vopn voru flutt þangað og lestarkerfið lengt. Lengi áður en uppgangstími nasista kom til, var Borkum þekkt fyrir að harkalega afstöðu gegn gyðingum. Í bæklingi einum frá 1897 mátti lesa að eyjan væri með öllu laus við gyðinga. Við inngang hótela voru hengd upp skilti sem á stóðu: „Gyðingum og hundum bannaður aðgangur“. 1934 var eyjan notuð fyrir prófun á raketum sem vísindamaðurinn Werner von Braun hannaði. Raketurnar voru þær fyrstu í heiminum sem náðu tvo km hæð og voru brautryðjandi fyrir þróun þeirra, sem fram fóru annars staðar eftir þetta. Borkum varð ekki fyrir loftárásum eða innrás herja í heimstyrjöldinni síðari. En í stríðslok girntust Hollendingar eyjuna (og reyndar fleiri eyjar) en bandamenn neituðu þeim um hana. Mölnlycke. Mölnlycke er bær í Suðvestur-Svíþjóð og er úthverfi Gautaborgar. Íbúafjöldi í Mölnlycke var 15.289 árið 2008. Bærinn tilheyrir sveitarfélaginu Härryda. Gullfótur. Gullfótur er þegar að baki gjaldmiðils er gullforði þannig að sérhver peningaseðill eða mynt er í reynd ávísun á tiltekið magn af gulli. Taka má dæmi af ríki sem á eitt tonn af gulli og gjaldmiðill þess, skildingar, er á gullfæti. Ef hver skildingur er ávísun á eitt gramm af gulli getur þetta ríki ekki gefið út meira en milljón skildinga, nema það eignist meira gull vegna þess að eitt tonn er jafnt og milljón grömm. Þetta hefur ýmsa kosti, til dæmis er loku fyrir það skotið að ríkið prenti endalaust af skildingum og valdi þannig mikilli verðbólgu, að minnsta kosti svo framarlega sem ríkið tekur gjaldmiðil sinn ekki af gullfætinum. Ef nágrannaríki þess hefur sinn gjaldmiðil einnig á gullfæti er auðvelt að reikna út gengi gjaldmiðlanna tveggja. Ef gert er ráð fyrir að í því ríki séu notaðir dalir og hver dalur sé ávísun á tvö grömm af gulli, þá er augljóst að hver dalur er tvöfalt meira virði en skildingur og gengið hlýtur að endurspegla það. Áður fyrr var mjög algengt að gjaldmiðlar væru á gullfæti. Af ýmsum ástæðum hefur verið horfið frá því. Helsti kosturinn við gullfót er ósveigjanleikinn sem til dæmis kemur í veg fyrir óhóflega seðlaprentun. Þessi ósveigjanleiki er jafnframt einnig helsti gallinn við gullfót. Einnig er það galli að gull er í eðli sínu gagnslítill málmur, einna helst nytsamlegur í skrautmuni og erfitt að sjá hvers vegna verðmæti slíkra muna ætti að vera hornsteinn allrar efnahagsstarfsemi. Þá geta sveiflur í framboði á gulli, til dæmis þegar nýjar námur finnast, valdið óþarfa sveiflum í verðlagi. Meðan gjaldmiðlar voru flestir á gullfæti voru mikilvægustu eignir seðlabanka gullforði. Það er liðin tíð þótt flestir seðlabankar eigi enn eitthvað af gulli. Nú er mikilvægasta eign Seðlabanka Íslands gjaldeyrisforði landsmanna, sem varðveittur er einkum sem erlend verðbréf og innstæður hjá erlendum bönkum og sjóðum. Í lok ársins 2001 átti Seðlabanki Íslands 61.558 únsur (1.915 kg eða tæp tvö tonn) af gulli sem metnar voru á 1.752 milljónir króna. Gullið er að mestu leigt út gegn gjaldi. Þetta er mjög lítill hluti af heildareignum bankans. Á sama tíma voru erlendar eignir hans um 37 milljarðar króna af 116 milljarða króna heildareignum og eigið fé var um 34 milljarðar króna. Silfurfótur er hliðstæður gullfæti og margar aðrar tilraunir hafa verið gerðar með góðmálma og vörur sem undirstöðu gjaldmiðla. Nú tíðkast hins vegar að styðjast við gjaldmiðla sem byggja eingöngu á ákvörðun tiltekins ríkis um að þeir skuli vera gjaldgengir í því ríki. Það fyrirkomulag hefur verið kallað fótalaust fé (e. fiat money, alls óskylt samnefndum ítölskum bílaverksmiðjum). Fótalaust fé byggir eingöngu á trausti manna á þessu tiltekna ríki og stofnunum þess, sérstaklega seðlabanka. Einkum skiptir máli hvaða trú menn hafa á því að útgáfu á gjaldmiðlinum verði stillt í hóf. Síðasti gjaldmiðill sem verulegu máli skiptir fór endanlega af gullfæti 15. ágúst árið 1971 þegar Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að ríkið myndi ekki lengur skipta á gulli og dollurum. Nálastungulækningar. Myndin sýnir nálastungupunkta í hendi Nálastungulækningar er aðferð þar sem dauðhreinsuðum nálum er stungið í ákveðna punkta á húðinni. Aðferðin er aldagömul "kínversk læknisfræði", sem hefur verið notuð þarlendis í 2.500 ár. Nálastungur virkja nokkra hluta heilans, sem skilar sér í minni sársauka, og sú fullyrðing hefur verið staðfest með vestrænum rannsóknum. Stungurnar eru einn af burðarásunum í kínverskri læknisfræði og byggir á "Qi" eða "lífsorku". Hugtakið Qi, eða lífsorka, í tengslum við mannslíkamann er fleira en eitt fyrirbæri. Qi á við brennslu líkamans, heimspekilega hugtakið lífshyggju, blóð, líkamsvessa og tengslin þeirra á milli. Þessi lífsorka flæðir meðfram orkubrautum, sem eru 22 talsins. Lífsorkan getur verið kvenleg "Yin", sem tengist tilfinningum eða karlorku "Yang", sem tengist rökhugsun. Yin tengist lungum, milta, hjarta, nýrum, gollurshúsi og lifur, á meðan Yang tengist ristli, maga, smákitli, blöðru, innkirtlum og gallblöðru. Meðfram rásum Yin og Yang eru punktar, sem eru notaðir í nálastungum. Meðferð nálastungulækninga felur í sér að setja nálar í þessa ákveðnu punkta líkamans til þess að draga úr sársauka eða sem meðferðarúrræði fyrir sál og líkama. Saga. Frumkvöðullinn að nálastungum er kínverjinn "Huang Di", sem er jafnframt þekktur undir nafninu "Guli keisarinn". Hann var uppi 2.000 árum fyrir Krist. Á þeim tíma, voru nálarnar gerðar úr steini og voru 8.3 cm langar. Slíkir steinar fungust í "Rizhao" sveitinni, í fylkinu "Shandong", í Kína. Samhliða framþróun mannsins að gera verkfæri úr öðrum efnum, eins og á Bronsöld voru nálarnar gerðar úr öðrum efnum. Á þriðju öld fyrir krist, var skrifuð bókin "The medical classic of the yellow emperor", sem fannst í grafreit Han ættarinnar í "Manwangdui" í Kína, á árinu 1973. Í bókinni er talað um kenningar um Ying-yang, Qi, blóð, líkamsvessa og alla þá grunnþætti sem er að finna í kínverskri læknisfræði. Bókin er jafnframt kenningargrundvöllur kínverskrar læknisfræði og þar á meðal nálastungna. Nokkrum öldum síðar, á sjöundu öld, urðu til deildir innan hinnar keisaralegu læknisfræðilegu skrifstofu, þar sem ein af þeim var deild nálastungna með 32 starfsmenn og 20 nemendur. Nálastungur fóru svo í útrás til Japans, árið 702, en þá hafði nálastungur þegar farið í útrás til Kóreu árið 541. Þremur öldum síðar, á 10 öld, hjálpaði prentverkið með útbreiðslu nálastungna og settu fram einn staðal að því hvar nálastungu punktarnir á líkamanum væru. Ákveðin vandamál fylgdu, á 13 öld, og margar bókanna urðu endurskrifaðar. Nálastungur féllu síðar í ónáð árin 1644-1840 og grasalækningar voru teknar fyrir. Á þessum árum var Ópíum stríðið í Kína, á móti Bretlandi og Írlandi. Í kjölfarið var mikil þörf á læknishjálp, og með umfangsmikli bókaútgáfu náði nálastungumeðferðir traustinu aftur. "Tang Shicheng" byrjaði byltinguna á notkun rafmagns nálastungu aðferðum, árið 1934. Í kjölfarið var nálastungur kynntar fyrir vesturþjóðum, með stuðningi ríkistjórnar Kína. Kínverska stjórnin hjálpaði Sovíetríkjunum og evrópskum löndum að kenna nálastungulækningar, árið 1950. 25 árum síðar, árið 1975 urðu til alþjóðleg nálastungunámskeið sett upp í Beijing, Shanghai og Nanjing, eftir kröfu þess efnis frá World Health Organization. Sagan í Evrópu. Nálastungur komu fyrst til Evrópu um miðja sautjándu öld. Tveimur öldum síðar voru þær kenndar við háskólasjúkrahús í París. Á sömu öld, árið 1982 urðu nálastungulækningar heimilaðar í Svíþjóð. Mikið hefur þó verið um mistök, á frumárum nálastungna í evrópu og heilbrigðisyfirvöld hafa því mælt með að nálastungur séu eingöngu framkvæmdar af læknum og tannlæknum með sérþekkingu á þessu sviði. Innan evrópu, og jafnframt Bandaríkjanna er þó litið á nálastungur sem óhefðbundnar lækningar. Vísindalegar rannsóknir á nálastungulækningum. Í bandaríkjunum var gerð rannsókn á rottum, þar sem nálastungur voru notaðar rétt neðan við hné þeirra. Rotturnar losuðu um sín líkamlegu verkjalyf, sem kallast Adenosine. Við þessa breytingu þoldu rotturnar meiri sársauka. Hinum megin við atlantshafið, í Þýskalandi, komust vísindamenn að því, að nálastungur í baki, sama hvort þær séu gerðar rétt eða ekki, séu besti kosturinn gegn bakveiki. Til eru þó aðstæður þar sem nálastungur virka ekki. Vestræn lyf gegn ofneyslu vímuefna hafa hamlandi áhrif á nálastungur, og þetta hefur verið staðfest með rannsóknum á lyfinu Naloxone. Rannsóknir hafa verið gerðar hvort nálastungur séu lyfleysa. Í rannsókn þar sem nál var stungið í gegnum gelpúða, en ekki inn í húðina höfðu þátttakendurnir þá skoðun að um alvöru nálastungu væri að ræða. Hinsvegar, er það svo að þegar að notaðir eru heilaskannar kemur annað í ljós. Rannsókn háskólans í Oxford var gerð eins og hin fyrri, nema með heilaskanna í stað eyðublaðs. Rannsóknin sýndi að áhrif nálastungna væru meiri en blekkingin. Þorsteinn Már Baldvinsson. Þorsteinn Már Baldvinsson (f. 7. október 1952 á Akureyri) er forstjóri útgerðarfyrirtækisins Samherja og fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis. Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1973 og fékk skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum 1974. Árið 1980 útskrifaðist hann sem skipaverkfræðingur frá Norges Tekniske Högskole. Hann keypti Samherja ásamt frændum sínum, bræðrunum Þorsteini Vilhelmssyni skipstjóra og Kristjáni Vilhelmssyni vélstjóra, árið 1983 og hefur verið forstjóri félagsins síðan. Kristján er framkvæmdastjóri útgerðarsviðs en Þorsteinn Vilhelmsson klauf sig út úr fyrirtækinu eftir harðar deilur. Samherji varð með tímanum stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og eitt hinna stærstu í Norður-Evrópu. Þorsteinn Már varð stjórnarformaður Glitnis á árinu 2008. Hann var nokkuð áberandi í upphafi bankahrunsins sama haust, þegar Seðlabankinn yfirtók Glitni, en Þorsteinn var mjög ósáttur við þá atburðarás og sagði meðal annars í viðtölum að það hefðu verið stærstu mistök lífs síns að leita til Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Sagt var að Þorsteinn hefði verið því mjög mótfallinn þegar Davíð var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins árið 2009, en Þorsteinn er einn af eigendum blaðsins. Öryggisklemma. Öryggisklemma er hugtak innan alþjóðasamskipta sem fellur undir stjórnmálafræði og leitast við að skýra hegðun ríkja við óvissuástand. Inntak öryggisklemmunnar er sú staðreynd að á milli landa ríkir stjórnleysi, þ.e. að ekkert yfirþjóðlegt yfirvald er til staðar til þess að tryggja frið. Hugtakið er nátengt kenningunni um valdajafnvægi í alþjóðasamskiptum. Öryggisklemman felst í því að jafnvel þegar tiltekið ríki vill auka öryggi sitt með því að bæta varnir sínar. Þá getur það haft þau áhrif á nágrannaríki að þau óttast um eigið öryggi, og þannig leitt af stað vopnakapphlaupi og skapað spennu ríkjanna á milli. Öryggisklemma er því staða sem kemur upp vegna óttans sem vaknar sökum þeirrar óvissu sem ríkir milli landa um ásetning annarra í garð hinna og viðheldur óttanum, svo lengi sem þetta ástand ríkir. Dæmi. Til að lýsa hugtakinu nánar skulum við líta á tvö ríki; ríki A og ríki B. Ríki A ákveður að auka varnarmátt sinn af þeim sökum að það óttast um öryggi sitt gagnvart ríki B. Í slíkum aðstæðum eykur ríki A öryggi sitt með varnarmætti í því skyni að halda ríki B frá með fælingarmætti. Ríki B gæti þó litið svo á að þar sem ríki A sé búið að koma sér upp meiri varnargetu, þá sé það þar með orðin ákveðin ógn við ríki B, sem þar af leiðandi bætir við varnarmátt sinn. Þegar ríki B bætir við varnararmátt sinn, lítur ríki A svo á að það þurfi að bæta enn frekar við varnararmátt sinn og svo koll af kolli þar til komin er upp sú staða að ríkin tvö eiga í vopnakapplaupi, þ.e. öryggisklemma hefur myndast og lokaniðurstaðan verður að öryggi allra er ógnað. Sóknarhyggja. Sóknarhyggja er kenning í alþjóðasamskiptum innan raunhyggju um að ríki séu í eðli sínu árásargjörn, þar sem maðurinn hafi óseðjandi þrá eftir völdum eða drottnun og/eða orðstír eða vegsemd. Samkvæmt hugmyndum um sóknarhyggju ættu öll ríki að nýta hvert það tækifæri sem þau fá til útþenslu og landvinninga til að auka vald sitt og þar með öryggi gagnvart öðum löndum. Þar sem sóknarhyggjan leggur til að ríki þurfi ávallt að gera ráð fyrir illviljuðum ásetningi annarra ríkja, eru öll stríð fyrirbyggjandi stríð. Þar sem öll ríki séu mögulegir andstæðingar, þá sé eina leiðin til þess að ríki geti búið við öryggi, sú að útrýma hugsanlegum samkeppnisaðilum og verða heimsveldi eða í það minnsta ná svæðisbundinni forystu eða yfirburðastöðu. Varnarhyggja. Varnarhyggja er kenning í alþjóðasamskiptum innan raunhyggju um að stríð séu í flestum tilvikum óskynsamleg og hafi nær ávallt óhagstæðar afleiðingar fyrir ríki. Í fyrsta lagi vegna þess að það sem talið er vera undirliggjandi forsenda fyrir stríðinu getur reynst vera röng eða óréttmætt. Í öðru lagi, getur það haft í för með séð diplómatískan kostnað að koma af stað stríði án þess að hafa afdráttarlausar sannanir um að hitt ríkið hafi ætlað að gera árás. Það getur haft í för með sér þær afleiðingar að önnur ríki muni ekki mynda bandalög með því, þar sem litið verði á það sem óáreiðanlegt og ógnandi. Í þriðja lagi gerir varnarhyggjan ráð fyrir að vörn hafi kosti umfram sókn og því sé betra fyrir ríki að verjast fremur en að leggja í sókn, í þágu öryggis. Þrátt fyrir að varnarhyggjukenningar séu ólíkar að upplagi hafna þær allar þeirri hugmynd að ríki séu í eðli sínu árásargjörn. Það er í raun út frá þeirri grunnforsendu sem kenningarnar geta hafnað því að öll ríki hafi ávallt illan ásetning og þurfa þar af leiðandi ekki að vera í stöðugri sókn. Engu að síður þurfa lönd þó að byggja upp varnir sínar gagnvart öðrum löndum og í sumum tilvikum getur það leitt til öryggisklemmu. Hugmegin. Hugmegin eða psychokinesis (úr grísku "ψυχή", „psyche“, þýðir "sál, hjarta eða lífsandi"; og "κίνησις", „kinesis“, þýðir "hreyfing"; bókstaflega „hugarhreyfing“), einnig þekkt sem telekinesis (Gríska ' + ', bókstafleg þýðing er „fjarhreyfing“), er hugtak sem var búið til af útgefandanum Henry Holt um bein áhrif hugarins á efnislega hluti sem er ekki hægt að greina sem miðlun eitthverrar þekktrar líkamlegrar orku. Dæmi um hugmegin eru að aflaga eða færa til hluti og að hafa áhrif á útkomu forrits sem velur tölur af handahófi. Rannsóknir á fyrirbærum sem sögð eru vera hugmegin eru hluti af dulsálfræði. Sumir rannsakendur hugmegina fullyrða að hugmegin sé til og eigi skilið frekari rannsókir, þó svo að fókus rannsókna í gegnum tíðina hafi færst frá stórum fyrirbærum yfir í tilraunir til að hafa áhrif á teninga og svo á talnaforritin sem velja tölur af handahófi. Það eru engin beinhörð vísindaleg sannindi fyrir því að hugmegin sé til. Árið 2006 var greint 380 rannsóknir og fundust „mjög lítil“ áhrif, hægt er að útskýra það með hlutdrægni útgefenda þar sem þeir gefa aðeins út jákvæðu niðurstöðurnar en ekki þær neikvæðu. Rannsóknir á hugmeginum hafa í gegnum tíðina verið gagnrýndar meðal annars fyrir að ekki er hægt að endurtaka þær. Sagan. Franskur svikahrappur í andaljósmyndun Édouard Isidore Buguet (1840-1901) falsar hugmegin á þessari ljósmynd, "Fluidic Effect", frá árinu 1875. Hugtakið „telekinesis“ var búið til árið 1890 af rússneskum rannsakanda á yfirskilvitlegum fyrirbærum, Alexander N. Aksakof. Hugtakið psychokinesis eða hugmegin var búið til árið 1914 af bandaríska höfundinum og útgefandanum Henry Holt, í bókinni hans "On the Cosmic Relations". Vinur hans, bandaríski dulsálfræðingurinn J. B. Rhine, tók hugtakið upp á arma sína í tengslum við tilraunir til að finna út hvort að manneskja gæti haft áhrif á hvernig teningar falla. Báðum hugtökunum hefur verið lýst með öðrum orðum, svo sem „fjaráhrif“, „fjarlægðaráhrif“. „fjargeðáhrif“, "miðaður meðvitaður ásetningur". og „hugurinn ofar efninu“. Upprunalega var telekinesis notað til að vísa til hreyfingu hluta sem fundust ekki skýringar á, haldið var að draugar, englar, djöflar eða önnur yfirnáttúruleg öfl stæðu þar að baki. Síðar fóru vangaveltur af stað um að manneskjur stæðu fyrir þessum atburðum og gætu mögulega hreyft hluti án nokkurra tengsla við spíritisma, líkt og miðilsfundi, og þá var psychokinesis bætt í orðasafnið. Á endanum varð psychokinesis viðurkennda orðið hjá dulsálfræðingum. Sjónvarpsþættir, bækur og kvikmyndir nota hins vegar frekar telekinesis til að lýsa hlutum sem færast yfirnáttúrulega, líklega vegna þess að orðið er líkt öðrum hugtökum í sama geira líkt og telepathy eða hugsanaflutningur og teleportation eða fjarflutningur. Mælingar og athuganir. Dæmi um ósjálfrátt hugmegin birtist á forsíðu franska tímaritsins "La Vie Mysterieuse" árið 1911. Dulsálfræðingar lýsa tveimur gerðum af mælanlegum og athuganlegum áhrifum hugmegina. Mjög lítil áhrif eru kölluð míkró-PK, þau eru til dæmis stjórnun á sameindum, atómum, öreindum o.s.frv. sem er aðeins hægt að athuga með vísindalegum tækjum. Makró-PK eru stór áhrif sem er hægt að sjá með berum augum. Ósjálfráð verkun. Ósjálfráðar hreyfingar á hlutum hafa verið tilkynntir og margir dulsálfræðingar telja að þær séu mögulega dæmi um hugmegin. Dulsáfræðingurinn William G. Roll bjó til hugtakið „endurtekin ósjálfráð hugmegin“ (RSPK) árið 1958. Skyndileg hreyfing hluta án ásetnings í viðurvist vitna er talið af mörgum vera hugmegin í undirmeðvitundinni Ósjálfráðar hreyfingar þar sem fólk skaðast ef til vill eru stundum rannsakaðar sem ærsladraugsmál. Hraunhitaveita. Hraunhitaveita er hitaveita sem nýtir varmaorku úr hrauni sem er að kólna til upphitunar húsa. Hraunhitaveitan í Vestmannaeyjum. Hraunhitaveita var sett upp í Vestmannaeyjum eftir að Heimaeyjargosinu lauk. Í ársbyrjun 1974 setti Sveinbjörn Jónsson upp einfaldan varmaskipti á Eldfellshrauni og lét kalt vatn renna í gegnum hann. Vatnið hitnaði í hrauninu og var leitt inn á hitakerfi húss. Seinni hluta vetrar 1974 var sett upp tilraunahitaveita í Gufugili sem hitaði upp 25 hús auk sjúkrahússins. Árin 1977-78 voru flest hús í Vestmanneyjum tengd hraunhitaveitunni. Eftir því sem hraunið kólnaði varð að virkja ný svæði. Árið 1988 var hætt að nota hraunhitaveituna. Dómkirkjan í Brúnsvík. Dómkirkjan í Brúnsvík og bronsljónið sem Hinrik ljón setti upp á 12.öld Dómkirkjan í Brúnsvík var reist að tilstuðlan Hinriks ljóns á 12. öld og hvílir hann sjálfur í henni. Í kirkjunni er stórfenglegt grafhýsi þar sem fjölmargir hergotar og furstar hvíla. Saga dómkirkjunnar. Framkvæmdir hófust 1173 eftir að Hinrik ljón sneri heim úr pílagrímsferð til landsins helga. Hinrik lést síðan 1195 var lagður til hvíldar í ófullgerðri kirkjunni, ásamt eiginkonu sinni Matthildi frá Englandi (dóttur Hinriks II). Kirkjan var vígð 1226 og helguð heilögum Blasíusi og Jóhannesi skírara. Þessir tveir dýrlingar voru ákveðnir strax í upphafi framkvæmda. En við víglsuna var heilögum Thomas Becket frá Kantaraborg bætt við sem verndardýrlingi kirkjunnar. 1531 varð kirkjan lútersk er siðaskiptin fóru fram í Brúnsvík og er kirkjan það enn í dag. Nasistar reyndu að notfæra sér ímynd Hinriks ljóns sér til framdráttar. Þegar steinkista hans var opnuð 1935 vegna fornleifarannsókna, kom Hitler, ásamt Heinrich Himmler og Hermann Göring, í stutta heimsókn til Brúnsvíkur til að berja Hinrik augum. Hitler breytti áformum uppgraftarins og skipaði svo fyrir að ekkert yrði gert án hans samþykkis. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari skemmdist dómkirkjan aðeins óverulega. Það má heita kraftaverki líkast, því 90% miðborgarinnar eyðilagðist. Skemmdir urðu hins vegar á framhliðinni, þakinu og gluggum. Í dag skoða um 350 þús manns kirkjuna árlega og er hún þar með meðal vinsælustu kirkna Þýskalands. Veggmálverk. Milli 1230 og 1250, eftir að kirkjan var vígð, voru veggir og loft kirkjunnar skreytt með veggmyndum (Secco-málverk). Myndir þessar voru yfirmálaðar og fundust ekki aftur fyrr en 1845 þegar verið var að gera lagfæringar á kirkjunni. Þá kom í ljós að aðeins um 80% myndanna voru heilleg og voru þær lagfærðar. Í sumum tilfellum var jafnvel bætt við þær, en um miðja 19. öld var ekki óvenjulegt að gömul listaverk væru stækkuð og fegruð. Myndirnar sýna æviskeið ýmissa helgra manna, s.s. verndardýrlinga kirkjunnar. Einnig er gjarnan notað myndefni úr Biblíunni og þá aðallega myndir af Jesú, postulunum og öðrum. Imervard-krossinn. Imervard-krossinn er 2,77 m há Imervard-krossinn er ein merkasta rómanska styttan í Þýskalandi. Talið er að hún sé frá árinu 1150 og er því töluvert eldri en kirkjan sjálf. Hæðin er 2,77 m og breiddin 2,66 m. Styttan er af Jesú hangandi á krossinum, en án þyrnikórónu. Hann er ekki sýndur í písl sinni, heldur sem fagnandi og er klæddur konungsklæðum. Hendurnar eru lausar á, enda voru þær tálgaðar sér og síðan settar á búkinn. Upphaflega var styttan vel máluð, en í dag eru litinir orðnir fölir. Höfuð Jesú er holt og hægt er að opna það. Það var helgriskrín. Helgu hlutirnir voru fjarlægðir 1881 og settir í Maríualtarið í sömu kirkju. Á beltinu er lítið innskrift: IMERVARD ME FECIT, sem merkir: "Imervard skapaði mig". Ekki er vitað hver þessi Imervard var. Innskriftin var upphaflega falin á bak við gullslegna málmhúð, sem í dag er horfin. Krossinn var upphaflega í grafhvelfingu kirkjunnar, en var hengd upp í skipinu 1956. Maríualtarið. Maríualtarið er einn merkasti gripur kirkjunnar. Það var vígt 1188 og er eina miðaldaaltarið sem lifði af í 800 ára sögu kirkjunnar. Öll önnur ölturu voru eyðilögð í siðaskiptunum eða eru týnd. Altarið sjálft er 450 kg granítplata sem hvílir á 5 bronssúlum sem allar eru 95 cm á hæð. Granítið er frá Tournai í Belgíu. Miðsúlan er hol og er helgriskrín. 1709 var helgiskrínið opnað og helgigripirnir gefnir klaustrinum Corvey fyrir vestan Brúnsvík (Norðurrín-Vestfalía í dag). Í súlunni eru hins vegar enn geymdir nokkrir helgigripir sem komu úr Ivervard-krossinum í sömu kirkju. Litlar upplýsingar er hins vegar að fá hvers eðlis þessir gripir eru. 7 arma ljósastikan. Ljósastikan er tæplega 5 metra há Annar gripur sem er eldri en kirkjan sjálf er hin 7 arma ljósastika. Hún kemur fyrst fram 1196 og er talið að hún hafi verið smíðuð um 1190. Stikan er gerð úr 77 minni hlutum úr bronsi sem festir eru saman. Þannig er hún tæplega 5 metra há og vegur rúmlega 400 kg. Aðeins er vitað um þrjá aðra slíka gripi frá miðöldum. 1728 var ljósastikan tekin í sundur og geymd í geymslum kirkjunnar. Ástæðan fyrir því er sú að þá fóru viðgerðir fram í kirkjunni og sett var upp nýtt altari. Álitið var að ljósastikan myndi skyggja á nýja altarið og því var hún ekki sett upp aftur. Þegar hermenn Napoleons stálu listaverkum úr kirkjum landsins, létu þeir ljósastikuna í friði, þar sem þeir áttuðu sig ekki á fegurð og umfang hennar í geymslunni. Það var ekki fyrr en 1830 að ljósastikan var sett upp á ný, en á nýjum stað. Nasistar voru lítt hrifnir af þessu listaverki, enda minnir það á eitt helsta tákn Gyðinga. Þeir huldu því ljósastikuna með hakakross-fánanum í fyrstu, en settu hana síðar niður í grafhvelfinguna. Meðan á loftárásum stóð var ljósastikan geymd í annarri og öruggari byggingu. Hún var sett upp aftur strax eftir stríð. Grafhvelfing. Í kirkjunni er nokkuð stór grafhvelfing. Þar hvíla furstar úr Welfen-ættinni frá upphafi og allar götur til upphafs 18. aldar. Auk furstanna hvíla þar eiginkonur og ættingjar furstanna. Líkin eru í kistum sem gerð eru úr ýmsu efni. Af furstum má helst nefna Hinrik ljón og eiginkonu hans, Matthildi frá Englandi. Hinrik er einn merkasti hertogi síns tíma og var frændi Friðriks Barbarossa keisara. Hann er einnig sá sem lét reisa dómkirkjuna. Hinrik og Matthildur hvíla hins vegar ekki í grafhvelfingunni sjálfri, heldur í kirkjuskipinu fyrir framan Maríualtarið. Þar eru þau í tveimur samliggjandi steinkistum. Á lokinu eru Hinrik og Matthildur höggvin úr steini í líkamsstærð. Hinrik heldur á sverði í hægri hendi, en í þeirri vinstri heldur hann á litlu módeli af dómkirkjunni. Þjóðsaga. Einn hliðarinngangur að dómkirkjunni er hin svokalla Ljónshurð ("Löwenportal") og er í dag elsta hurðin í kirkjunni. Þar í grjótinu og málmklæðningunni eru rákir að finna sem þjóðsagan segir að sé kattarklór. Sagan segir að það var bronsljónið sem Hinrik ljón setti upp fyrir framan kirkjuna sem hafði klórað í hurðina. Þegar Hinrik ljón lést 1195 var líkinu komið fyrir í dómkirkjunni. Bronsljónið hafi þá gengið af stalli sínum og klórað í hurðina til að reyna að komst inn og finna eiganda sinn. Í dag er talið að rákirnar séu eftir sverð og lensur hermanna sem reyndu að brýna vopnin sín. Annað markvert. Á austurhlið dómkirkjunnar er fallbyssukúla föst í múrnum. Fyrir neðan hana er meitlað ártalið 1615 í vegginn og því er talið að kúlan hafi komið úr fallbyssu hertogans Friðriks Ulrichs sem sat um Brúnsvík 1615 og skaut með fallbyssum á borgina. Nektardans. Nektardans (strípidans eða ertidans) er það þegar einstaklingur, oftast kona, flettir sig klæðum með kynörvandi tilburðum. Nektardans þykir sumstaðar vera klámfenginn og var bannaður á Íslandi þann 23. mars 2010. Osnabrück. Aðalmarkaðstorgið í Osnabrück. Til vinstri sér í gamla ráðhúsið. Osnabrück er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 164 þúsund íbúa. Borgin var stofnuð af Karlamagnúsi. Í Osnabrück og Münster voru friðarsamningarnir í Vestfalíu gerðir 1648 en þeir mörkuðu endalok 30 ára stríðsins. Lega. Osnabrück er vestarlega í Neðra-Saxlandi, rétt austan við hollensku landamærin. Næstu borgir eru Bielefeld til suðausturs (40 km), Münster til suðvesturs (40 km) og Bremen til norðausturs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Osnabrück sýnir gamalt vagnhjól á hvítum grunni. Merki þetta kom fram á mynt þegar á 13. öld. Þá var það stundum rautt og stundum svart. Fyrrum var mynd af Pétri postula við hliðina á hjólinu en hann var tekinn burt á síðari tímum. Orðsifjar. Heitið Osnabrück var Asnabruggi og Osenbruggi á 12. öld. Talið er að það myndaðist af gömlu orðunum í lágþýsku "Ossen", sem merkir "uxi", og "Brügge", sem merkir "brú". Heiti borgarinnar er því "Uxabrú". Upphaf. Árið 780 stofnaði Karlamagnús biskupssetur á staðnum og upp frá því myndaðist byggðakjarninn sem í dag er Osnabrück. Heimildir geta þess að Karlamagnús hafi einnig stofnað skóla þar 804. Ef rétt er, þá er hann með allra elstu skólum í norðurhluta Evrópu. Á síðari árum hafa fræðimenn þó haft efasemdir um tilurði heimildanna en þær gætu verið falsaðar. Að öðru leyti kom borgin lítið við sögu næstu aldir. Galdrafár og 30 ára stríðið. Samningafundur við lok 30 ára stríðsins. Mynd eftir Gerard Terborch. Siðaskiptin í Osnabrück fóru formlega fram 1543, sem er tiltölulega seint miðað við aðrar borgir. Hins vegar var kaþólska kirkjan ekki rekin úr borginni og sumar kirkjur fengu að vera kaþólskar áfram, sem einnig er mjög óvenjulegt. Svo virðist sem siðaskiptin hafi ekki haft eins mikinn óróa í för með sér og var í öðrum borgum. Borgarráðið var skipað mönnum sem bæði voru lúterstrúar og kaþólskrar trúar. Á hinn bóginn voru galdraofsóknir mjög áberandi í Osnabrück. Þær náðu hámarki 1582 en á því ári voru alls 163 persónur brenndar fyrir galdra, allt konur. 1632 var háskóli stofnaður í borginni en sænskur her leysti hann upp á ný aðeins ári seinna. Þá geysaði 30 ára stríðið. Svíar stöldruðu þó stutt við í Osnabrück og kom borgin ekki meira við sögu í stríðinu sjálfu. En sökum þess hve umburðarlyndi borgarbúa var mikið gagnvart trúmálum var borgin kosin sem vettvangur friðarsamningana sem bundu enda á 30 ára stríðið. Samningar þessir eru kenndir við Vestfalíu (þýska: "Westfälischer Friede"), enda voru þeir ekki bara gerðir í Osnabrück, heldur einnig í borginni Münster. Friðarsamningar þessir bundu meðal annars enda á sjálfstæðisbaráttu Niðurlendinga, ný landamæri og yfirráð voru sköpuð í Evrópu, svissneska sambandið var alþjóðlega viðurkennt og ríkjaskipun Evrópu voru endurskipuð en þau héldust í aðalatriðum allt til Napoleonsstríðanna. Viðræður og samningsgerðin tók langan tíma, eða frá 1643-1848, og voru fulltrúar frá öllum viðkomandi ríkjum og héruðum mættir. Fulltrúar Svía voru Johann Adler Salvius og Johan Oxenstierna (sonur ríkiskanslarans Axels Oxenstierna). Samtímis friðarsamningunum sóttist Osnabrück eftir að verða að fríborg í ríkinu en borgarráð fékk því ekki framgengt. Hins vegar var ákveðið að biskupsstóllinn skyldi vera skipaður lúterskum og kaþólskum biskupi til skiptis en það mun vera einsdæmi í sögu ríkisins. Nýrri tímar. Á Napoleontímanum var Osnabrück nokkrum sinnum skipað í hin og þessi ríki. 1803 hertók franskur her borgina og leysti biskupsstólinn upp. Borgin varð þá hluti af kjörfurstadæminu Hannover (sem seinna varð að konungsríki). 1806 náðu prússar að taka borgina til skamms tíma og innlima hana. 1807 réðu Frakkar aftur í héraðinu og settu borgina í nýstofnað konungsríki Vestfalíu, en 1810 innlimuðu Frakkar borgina, sem þá varð frönsk. Vínarfundurinn úrskurðaði 1815 að borgin skyldi tilheyra konungsríki Hannover. 400 hermenn úr borginni tóku þátt í orrustunni við Waterloo og börðust gegn Napoleon. 1866 hertóku prússar konungsríkið Hannover og varð Osnabrück þá prússnesk á ný. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir 79 loftárásum alls frá árinu 1942. 65% borgarinnar eyðilagðist, þar af nær öll miðborgin. Bretar hertóku borgina í stríðslok, enda var hún á hernámssvæði þeirra. Hugmyndir voru uppi um að Holland innlimaði borgina eftir stríð, en þær hugmyndir náðu ekki fram að ganga. Síðustu Bretarnir yfirgáfu borgina ekki fyrr en 2009. Byggingar og kennileiti. Ráðhúsið í Osnabrück er einkennisbygging borgarinnar TRNA. Víxlverkun tRNA og mRNA við prótínmyndun. Tilfærslu ríbósa kjarnsýra (skammstafað tRKS eða tRNA) er lítil RNA sameind (oftast um 74-95 kirni) sem flytur ákveðna amínósýru að netkorni þar sem því er skeytt við vaxandi fjölpeptíðkeðju við nýmyndun prótína á meðan á þýðingu DNA stendur. Amínósýrurnar festast á 3'-enda sameindarinnar með samgildu tengi, sem hvatað er af amínóasýl tRNA synthetasa. Sameindin inniheldur einnig þriggja kirna svæði sem kallast andtákni, en hann parast við samsvarandi þriggja basa tákna á mRNA. Hver einstök gerð tRNA sameindanna getur aðeins tengst einni gerð amínósýra, en þar sem flestar amínósýrur hafa fleiri en einn tákna í erfðatáknrófinu geta t-RNA sameindir með mismunandi andtákna tengst sömu amínósýrunum. Bygging. Bygging tRNA. "CCA hali" er appelsínugulur, "Viðtakastilkur" er fjólublár, "D stilkur" er rauður, "andtáknastilkur" er blár og inniheldur "andtákna" sem er svartur, "T stilkur" er grænn. tRNA hefur fyrsta stigs byggingu, annars stigs byggingu (“smáralaga” bygging) og þriðja stigs byggingu (allar tRNA sameindir hafa svipaða L-laga þrívíddarbyggingu svo þær passi í P og A set netkornsins. Gormlaga RNA þráðurinn pakkast á þann hátt að “smáralaga” byggingin verður L-laga í þrívídd, en sú lögun er algeng þriðja stigs bygging RNA. Andtákni. Andtákni er röð þriggja kirna sem samsvara hinum þremur bösum mRNA táknanna. Hvert tRNA inniheldur einn ákveðinn andtákna sem getur parast við einn eða fleiri tákna fyrir amínósýru. Til dæmis er tákninn fyrir lýsín AAA og samsvarandi andtákni lýsín tRNA er UUU. Sumir andtáknar geta parast við fleiri en einn tákna vegna þess sem kallað hefur verið reikipörun. Fyrsta kirnið í andtáknanum er oft annað tveggja kirna sem ekki finnast í mRNA; ínósín eða pseudóúridín, sem geta myndað vetnistengi við fleiri en einn basa í samsvarandi tákna. Algengt er að ein amínósýra sé táknuð með öllum fjórum kirnunum í 3. sæti táknans, eða a.m.k. báðum pýrimídín bösunum. Þannig er amínósýran glýsín táknuð með GGU, GGC, GGA og GGG í erfðatáknrófinu. Ef hver tákni sem skráir fyrir amínósýru hefði sína tRNA sameind þyrfti 61 mismunandi tRNA sameind í hverri frumu. Margar frumur innihalda þó færri en 61 gerð tRNA sameinda þar sem reikipörunin gerir hverju þeirra kleift að bindast nokkrum táknum fyrir hverja amínósýru. Að minnsta kosti 31 gerð tRNA sameinda þarf þó til að þýða alla 61 tákna erfðatáknrófsins. Amínóasýlering. Amínóasýlering er það ferli þegar amínóasýl hóp er bætt á efni. Með því er amínósýra fest með samgildu tengi á CCA 3'-enda tRNA sameindarinnar. Hver tRNA sameind er amínóasýlerað (eða "hlaðið") með ákveðinni amínósýru af amínóasýl tRNA synthetasa. Venjulega er einn amínóasýl tRNA synthetasi fyrir hverja gerð amínósýra, þó fyrir hverja amínósýru geti verið fleiri en ein gerð tRNA og fleiri en einn andtákni. Synthetasinn þekkir ekki tRNA sameindina á andtáknanum einum saman og viðtakastilkurinn leikur þar oft stórt hlutverk. Fyrir kemur að ákveðnar lífverur skortir einn eða fleiri amínóasýl tRNA synthetasa. Þetta getur leitt til rangrar hleðslu tRNA með efnafræðilega skyldri amínósýru. Rétta amínósýran er búin til af ensímum sem breyta hlöðnu amínósýrunni í þá réttu. Til dæmis vantar glútaminýl tRNA synthetasa í bakteríuna "Helicobacter pylori". Því er hleður glútamat tRNA synthetasi tRNA-glútamín (tRNA-Gln) með glútamati. amíðótransferasi breytir í kjölfarið hliðarkeðju glútamatsins úr sýru í amíð og myndar þannig rétthlaðinn gln-tRNA-Gln flóka. Binding við netkorn. Netkorn hafa þrjú bindiset fyrir tRNA sameindir: A (amínóasýl), P (peptidýl) og E (exit) svæði. Á meðan á þýðingu stendur binst A-setið við amínóasýl-tRNA í samræmi við þann tákna sem er í setinu. Þessi tákni skráir fyrir næstu amínósýru sem bæta á við peptíðkeðjuna. A-setið getur ekki bundist nýju amínóasýl-tRNA fyrr en fyrsta amínóasýl-tRNA sameindin hefur bundist P-setinu. Tákninn í P setinu er bundinn peptidýl-tRNA, sem er tRNA bundið þeirri peptíðkeðju sem þegar hefur myndast við tengingu amínósýra. P-setið er raunar fyrsta setið sem binst amínóasýl-tRNA. tRNA sameindin í P-setinu er tengd peptíðkeðjunni sem þegar hefur verið mynduð. E-setið inniheldur óhlaðna tRNA sameind sem er við það að losna frá netkorninu. tRNA gen. Fjöldi tRNA gena í erfðamengjum lífvera er mismunandi. Þráðormurinn "C. elegans", sem er mikið notaður við erfðafræðirannsóknir, hefur 29.647 gen í erfðamengi sínu og 620 þeirra skrá fyrir tRNA. Gersveppurinn "Saccharomyces cerevisiae" hefur 275 tRNA gen í erfðamengi sínu. Í erfðamengi mannsins, sem inniheldur 27.161 gen samkvæmt nýjustu upplýsingum eru um 4.421 kóðalaus RNA gen, þar á meðal tRNA gen. Alls eru 22 tRNA gen í hvatberum; 497 gen í kjarnanum sem skrá fyrir tRNA sameindum í umfrymi og 324 möguleg gervigen sem eiga uppruna sinn í tRNA genum. Umfrymis tRNA gen er hægt að flokka í 49 fjölskyldur á grunni andtákna sina. Þessi gen finnast á öllum litningum nema 22 og Y. Mikinn fjölda er að finna á litningi 6p (140 tRNA gen), sem og á litningi 1. tRNA sameindir eru umritaðar (í heilkjarnafrumum) af RNA pólýmerasa III, ólíkt mRNA sem er umritað af RNA pólýmerasa II. Forvera-tRNA inniheldur innraðir; í bakteríum eru þær fjarlægðar með sjálfsplæsingu en í heilkjörnungum og fornbakteríum eru þær fjarlægðar með tRNA splæsikjarnsýruinnkljúf.. Flest tRNA gen eru umrituð sem forveraRNA og eru svo verkuð frekar. 5'-röðin er fjarlægð með RNasa P, en 3'-endinn er fjarlægður af tRNasa Z. Áhugaverð undantekning er fornbakterían "Nanoarchaeum equitans" sem hefur ekki RNasa P ensím og stýrillinn er staðsettur þannig að umritun hefst við 5'-enda tRNA sameindarinnar. Í sumum bakteríum, eins og t.d. "E. coli", er RNasi E notaður til að verka 3'-enda forvera RNAsins sem er svo snyrtur frekar af kjarnsýruútkljúfum. Saga. Francis Crick kom fyrstur fram með kenningar um tilvist tRNA á þeirri forsendu að til þess að hægt væri að þýða stafróf RNA yfir í stafróf prótína, þyrfti að koma til einhvers konar tengisameind. Miklar rannsóknir á byggingu fóru fram snemma á 7. áratug 20. aldar undir stjórn Alex Rich og Don Caspar í Boston, rannsóknarhóps Jacques Fresco við Princeton háskólann og bresks hóps við King's College í London. Fyrsta stigs byggingunni var lýst af Robert W. Holley í grein sem kom út 1965. Árið 1974 var svo annars stigs og þriðja stigs byggingu lýst með röntgenkristallagreiningu í tveimur greinum eftir bandarískan og breskan rannsóknarhóp, sem Alexander Rich og Aaron Klug leiddu. Peterborough. Peterborough (borið fram eða) er borg og þéttbýli í Austur-Englandi. Frá og með júní 2007 eru íbúar um það bil 164.000 manns. Borgin er í sögulegu sýslunni Cambridgeshire. Miðpunktur borgarinnar, ráðhúsið, liggur 121 km fyrir norðan Charing Cross í London. Áin Nene rennur gegnum borgina og þaðan til sjávar í Norðursjóinn um 48 km til norðausturs. Járnbraut tengir Peterborough öðrum stöðum í Austur-Englandi. Peterborough liggur á sléttu landssvæði og nokkrir punktar í borginni eru fyrir neðan sjávarmálið. Svæðið sem heitir „the Fens“ á ensku liggur austurlega. Peterborough liggur að Northamptonshire og Rutland í vestri, Lincolnshire í norðri og Cambridgeshire í suðri og austri. Mannabyggð á svæðinu hófst fyrir löngu, áður en bronsöldin hófst. Það eru sönnunargögn til þess sem má sjást á Flag Fen fornleifasvæðinu sem liggur eystra. Á þessu svæði má líka finna rómverskar rústir og fornminjar. Við komu Engilsaxa var klaustur stofnað, sem hét á þessum tíma Medeshamstede. Það heitir Dómkirkjan í Peterborough nú á dögum. Á 19. öld stækkaði íbúatala mikið við byggingu járnbrauta og Peterborough varð iðnaðarmiðstöð. Á þessum tíma var borgin sérstaklega þekkt fyrir framleiðslu múrsteina. Upp úr seinni heimsstyrjöldinni var stækkun borgarinnar takmarkuð þar til hún varð New Town í sjöunda áratugnum. Íbúum fjölgar aftur og miðborgin er núna í endurreisn. Eins og í öðrum borgum á Bretlandi hefur iðnaðarstörfum fækkað vegna nýrra fjármála- og útdreifingarstarfa. Ormar. Ormar (fræðiheiti: "Vermes") eru ættbálkur Þráðorma í ormaraflokknum sem inniheldur orma og maðkar, þó hægt sé að greina milli flatorma og þráðorma hefur sú aðgreining enga vísindalega stöðu. Generación del 27. Generación del 27 (íslenska: "Kynslóð 27") er kynslóð skálda og rithöfunda kennd við árið 1927 en um það leyti komu fram mörg ung skáld og rithöfundar á Spáni. Í spænskri bókmenntasögu tíðkast það talsvert að kenna skáldakynslóðir við tiltekin ártöl - oft er þá miðað við árið sem flest þeirra koma fram einna fyrst. Kynslóðin næst á undan kynslóðinni frá 1927 er þannig til dæmis kennd við árið 1898. Fræg skáld af 27-kynslóðinni er t.d. Federico García Lorca, Vicente Aleixandre og Pedro Salinas. Durham. Dómkirkjan og kastalinn í Durham. Durham (borið fram, á staðnum) er borg í Norðaustur-Englandi. Hún liggur í Durham-sýslu sem er líka borgarstjórnarsvæðið. Durham er höfuðborg sýslunnar. Hún liggur 21 km sunnan við Sunderland. Áin Wear rennur gegnum Durham og myndar stóra árbugðu sem skiptir borginni. Það er stór viktoríönsk járnbrauturbrú sem sést á leið inn í borgina. Heitið Durham er upprunnið úr fornensku orði "dun", sem þýðir „hóll“ og fornnorrænu orði "holme" sem þýðir „eyja“. Íbúarnir voru um 42.939 manns árið 2001. Borgin liggur á hæðóttu landasvæði er talið er að hún sé byggð á sjö sögulegum hóllum. Dómkirkja stendur á hæsta hólnum og má sjást frá öllum punktum í borginni. Miklir skógar á árbökkunum umkringja borgina. Durham er vel þekkt fyrir dómkirkjuna sína sem byggð var af Normönnum og kastalann sinn sem byggður var á 11. öld. Háskólinn í Durham er í borginni en hann var stofnaður var á 19. öld. Stórt fangelsi liggur að miðborginni. Sönnunargögn benda til þess að svæðið hafi verið byggt á frá árinu 2000 f.Kr. Munkar stofnuðu nútímaborgina um árið 995 e.Kr. Iðnbyltingin hafði ekki mikil áhrif á borgina en hún var samt vel þekkt fyrir teppaframleiðslu og vefnað. Lancaster. Lancaster (borið fram eða) er borg í Norðvestur-Englandi. Hún er höfuðborg sýslunnar Lancashire og liggur við ána Lune. Íbúar eru 49.952 manns í borginni og 133.914 á þéttbýlissvæðinu. Nokkrir bæir liggja á þéttbýlasvæðinu, eins og Morecambe. Heitið Lancashire er upprunnið úr heiti borgarinnar. Borgin hefur löngu verið viðskipta-, menningar- og menntunarmiðstöð. Hún er tengd breska konungsveldinu; Lancaster-ættin var grein enska konungsveldsins. Elísabet 2. á nokkrar landareignir í hertogadæminu Lancaster og hún er sjálf hertogi af Lancaster. Lancaster varð opinber borg árið 1937 vegna „langvarandi tengsla við konungsveldið“. Aðalbygging borgarinnar er kastallinn í Lancaster. Vatnsfjörður (Barðaströnd). Vatnsfjörður er um níu kílómetra langur fjörður og friðland í Barðastrandarsýslu á Vestfjarðakjálkanum sunnanverðum. Hann er vestasti fjörðurinn á suðurströnd Vestfjarða. Þar er hótelið Flókalundur. Hrafna-Flóki tók land við Vatnsfjörð og nefndi landið Ísland. Landnáma segir frá að Flóki og fylgdarmenn hans hafi tekið land við Vatnsfjörð á Barðaströnd og verið þar að veiðum en ekki hugsað um að heyja til vetursins og því hafi kvikfé þeirra dáið. Vorið eftir hafi verið kalt en þá hafi Flóki gengið upp á fjall og séð norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum og því nefnt landið Ísland. Vaxtabætur. Vaxtabætur eru opinber stuðningur við þá sem skulda vegna húsnæðiskaupa. Þeir sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eiga rétt á vaxtabótum og sama á við um þá sem keypt hafa eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð. Vaxtabætur ákvarðast samkvæmt upplýsingum á skattframtali. Þeir sem notið hafa frystingu lána eiga ekki rétt á vaxtabótum. Melkot. Melkot var einn síðasti torfbærinn í Reykjavík og var rifinn árið 1915. Bær þessi stór í útsuðurhorni lóðar ráðherrabúsaðarins við Tjarnargötu, en taldist þó meðan hann stóð til Suðurgötunnar. Melkot er fyrirmynd Halldórs Laxness að Brekkukoti í Brekkukotsannáli. Árið 1915 voru uppi bollaleggingar um það að endurbyggja Melkot. Þar bjuggu þá Magnús Einarsson sjómaður og Guðrún Klængsdóttir kona hans. Guðjón Helgason, bóndi í Laxnesi, faðir Halldórs Laxness, sem var náskyldur Magnúsi í Melkoti, hafði þá í huga að byggja þar upp og setjast þar að. En af því varð þó ekki. Melkot var rifið og síðan hefur ekki verið byggt á lóðinni. Mun Halldór hafa verið vel kunnugt í Melkoti og jafnvel búið þar um skeið hjá Magnúsi frænda sinum. Carlisle. Séð frá kastalanum í Carlisle. Carlisle (borið fram, á staðnum) er borg í Norðvestur-Englandi og höfuðborg sýslunnar Cumbria. Hún er aðalborg þéttbýlissvæðsins Carlisle. Borgin liggur við samrennsli ánna Eden, Caldew og Peterill, 16 km sunnan Skotlands. Hún er stærsta þéttbýlið í Cumbria og er stjórnunarmiðstöð borgarinnar og sýslunnar. Frá og með 2001 voru íbúar 71.773 manns í borginni og 100.734 á þéttbýlissvæðinu. Carlisle var upprunalega höfuðborg sýlsunnar Cumberland og var stofnuð af Rómverjum sem vörn fyrir Hadríanusarmúrinn. Á miðöldum varð borgin mikilvægur varnarstaður vegna nálægðar við konungsríkið Skotland. Árið 1092 byggði William Rufus kastalann í Carlisle sem var einu sinni fangelsi fyrir Maríu Skotadrottning. Nú á dögum hýsir kastalinn minjasafn. Carlisle varð biskupsdæmi árið 1122 og þá var byggð dómkirkjan í Carlisle. Við komu textílframleiðslu á tímum iðnbyltingarinnar breytist Carlisle mikið, hún varð þéttbyggð iðnaðarborg. Staðsetning borgarinnar gerði henni kleift að þróast og stækka. Hún varð mikilvæg járnbrautarborg. Sjö járnbrautarstjórnendur deila lestarstöðinni í borginni. Hún er stundum nefnd Border City á ensku og er helsta menningar-, viðskipta- og iðnaðarmiðstöð sýslunnar. Háskólinn í Cumbria er staddur þar, með nokkrum minjasöfnum að auki. Hadríanusarmúrinn. Hadríanusarmúrinn (enska: "Hadrian’s Wall", latína: "Vallum Aelium") er varnargarður úr grjóti og torfi sem Rómverjar létu reisa þvert yfir Norður-England. Verkið var hafið árið 122 e.Kr. á ríkisárum Hadríanusar keisara. Hann var annar af tveimur fyrstu varnargörðum sem reistur var í Stóra-Bretlandi, hinn er Antonínusarmúrinn sem liggur þvert yfir Skotland. Hadríanusarmúrinn er þekktari af því rústir hans eru heillegri. Talið er að múrinn hafi verið reistur til þess að afmarka landamæri Rómaveldis í Stóra-Bretlandi, þ.e. Brittaníu, og veita vörn gegn árásum þjóðflokka norðan hans. Bygging múrsins bætti efnahag manna í landamærahéruðunum og stuðlaði að friðsamlegra ástandi, enda var hann einhver tryggustu landamæri Evrópu á þeim tíma. Múrinn var um 120 kílómetrar á lengd en þykkt og hæð var misjöfn og fór eftir efnivið og aðstæðum á hverjum stað. Sumstaðar var hann gerður úr tilhöggnu grjóti, annars staðar úr torfi. Hæðin var frá 3,5 metrum upp í fimm til sex metra og múrinn var allt að sex metrar á þykkt en þó víðast hvar mun mjórri. Virkisgrafir voru meðfram honum og á honum eða við hann voru um 80 litlir virkisturnar þar sem rómverskar herdeildir höfðu aðsetur og fylgdust með mannaferðum. Megnið af múrnum stendur enn í dag og er hann heillegastur um miðbikið en allt fram á 20. öld var þó tekið grjót úr honum til að nota í önnur mannvirki. Göngu- og hjólastígur liggur meðfram honum mestöllum. Hann er helsti ferðamannastaður í Norður-Englandi og þar kallar fólk hann Roman Wall eða the Wall. Hadríanusarmúrinn var skráður á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987. Samkvæmt English Heritage, samtökum sem stjórna varðveislu sögustaða í Englandi, er hann „mikilvægasta rómverska minnismerkið í Bretlandi“. Gjálpargosið. Gjálpargosið var eldgos í Gjálp undir Vatnajökli og hófst að kvöldi 30. september 1996. Gjálpargosið var einstætt í sinni röð þar sem jarðvísindamönnum gafst í fyrsta sinn tækifæri á að fylgjast með átökum elds og íss og myndun móbergsfjalls inni í stórum jökli. Gosið stóð í 13 daga og þeim dögum bráðnuðu um 3 rúmkílómetrar íss. Á meðan myndaðist allt að 350 m hár og 6-7 km langur móbergshryggur inni í jöklinum. Volgt bræðsluvatn rann frá gosstöðvunum og safnaðist fyrir í Grímsvötnum þar til þau hlupu 4.-6. nóvember. Aðalsteinn (Englandskonungur). Kista Aðalsteins konungs í Malmesbury-klaustri. Aðalsteinn Englandskonungur betur þekktur sem Aðalsteinn hinn sigursæli (um 895 – 27. október 939) var konungur á Englandi á árunum 925 – 939. Hann var sonur Játvarðar eldri, sem var konungur 899 – 924, og sonarsonur Alfreðs mikla. Hann var ekki krýndur fyrr en 4. september 925, meira en ári eftir að faðir hans dó. Hugsanlega var Elfward hálfbróðir hans konungur á milli þeirra en hann dó fáeinum vikum á eftir föðurnum. Aðalsteinn hafði sigur í miklum bardaga við Ólaf Skotakonung árið 937, sem Egill Skallagrímsson og Þórólfur bróðir hans tóku þátt í. Sá bardagi er talinn einn hinn merkasti í sögu Englands því að það var í raun þá fyrst sem Englendingar börðust sem ein þjóð gegn innrásarliði Kelta og norrænna víkinga. Um orustuna er til kvæði á fornensku: "Orustan við Brunanborg". Aðalsteinn Englandskonungur var sá sem fóstraði Hákon, son Haralds hárfagra. Aðalsteinn leyfði Eiríki blóðöxi að setjast að í Englandi, eftir að hann var hrakinn úr landi í Noregi. Aðalsteinn var ókvæntur og erfði Játmundur bróðir hans kórónuna eftir hans dag. Chester. Chester (borið fram) er borg í sýslunni Cheshire í Norðvestur-Englandi. Borgin stendur við ána Dee og austan landamæra Wales. Íbúar voru 77.040 manns í borginni og 328.100 á þéttbýlissvæðinu frá og með 2001. Hún er stærsta og þéttbyggðasta borgin á þéttbýlissvæði Chester West and Chester. Borgin fékk borgarréttindi árið 1541. Chester var stofnuð sem „castrum“, þ.e. rómverskt virki, undir nafni "Deva Victrix" árið 79 e.Kr. Legio II Adiutrix lagði grunninn að borginni meðan á stjórn Vespasíanusar keisara stóð. Aðalgöturnar fjórar: Eastgate, Northgate, Watergate og Bridge Street, liggja eins og þær sem voru upphaflega lagðar fyrir um það bil 2000 árum síðan. Deva, ein þriggja rómverskra herstöða, varð stór borg í Rómverska skattlandinu Brittanía. Eftir að Rómverjar yfirgáfu skattlandið á 5. öld tryggðu Saxar borgina gegn Dönum og gáfu borginni nafn hennar. Verndarengill Chester, Werburgh, er grafinn í dómkirkjunni í Chester. Chester var ein síðasta borgin í Englandi sem Normannar hertóku á tímum normannskra landvinninga. Vilhjálmur 1. bastarður skipaði að kastali yrði byggður til þess að styrkja borgina. Árið 1071 stofnaði hann stöðu jarlsins af Chester. Í borginni eru nokkar miðaldabyggingar en sumar þeirra voru gerðar upp á Viktoríutímabilinu. Í Chester eru borgarmúrar sem eru enn í mjög góðu ástandi, því ef litið er framhjá einum stað á múrnum þá er hann næstum því óskemmdur. Á tímum Iðnbyltingarinnar voru byggðar járnbrautir, síki og vegir. Á þeim tíma stækkaði borgin mikið. Nokkur dæmi af viktoríönskum arkitektúr, eins og ráðhúsíð í Chester og Grosvenor-minjasafnið, eru í Chester. István Sándorfi. István Sándorfi (franska: "Étienne Sandorfi", 12. júní 1948 í Búdapest – 26. desember 2007 í París) var ungverskur málari. Æviferill. Sándorfi var aðeins átta ára gamall þegar hann byrjaði að teikna og aðeins 12 ára hóf hann að mála með olíulitum. Þar sem faðir hans vann fyrir bandarískt fyrirtæki í Ungverjalandi hlaut hann 5 ára fangelsisdóm og var ekki látinn laus fyrr en nokkrum dögum fyrir þjóðbyltinguna miklu 1956. Fjölskyldan flutti þá til útlanda, fyrst til Þýskalands og Austurríkis, en árið 1958 til Frakklands þar sem Sándorfi bjó til æviloka. Í París nam hann listafræði við "École nationale supérieure des arts décoratifs" sem og við "École nationale supéreure des beaux-arts de Paris". Fyrstu málverkasýninguna hélt hann árið 1966 í París, en eftir það sýndi hann í mýmörgum löndum, allt fram í andlátið. Hann notaði gjarnan sjálfan sig sem módel þar sem han kunni ekki við að aðrir horfðu á sig mála. Oftar en ekki notaði hann óvenjulega hluti í málverkum sínum, en einnig óvenjulegar aðstæður og stellingar. Á 8. og 9. áratugnum notaði hann aðallega bláa og fjólubláa liti en eftir það málaði hann gjarnan meira kvenleg form og dauða hluti. Eftir 1988 málaði hann aðallega kvenfólk. Þrátt fyrir frægð sína á seinni árum hélt Sándorfi ekki sýningu í heimalandi sínu fyrr en árið 2006 í Búdapest og 2007 í Debrecen. Sándorfi lést eftir stutt veikindi þann 26. desember 2007 og var jarðaður í Búdapest, að eigin ósk. Hann á tvær dætur: Ange (f. 1974) og Eve (f. 1979). Tenglar. Sándorfi, István Besti flokkurinn. Besti flokkurinn er íslenskur stjórnmálaflokkur sem bauð fyrst fram í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Formaður flokksins er Jón Gnarr og skipar hann einnig 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík. Besti Flokkurinn er stærsta stjórnmálaaflið í Reykjavík. Stefnumál. Á heimasíðu flokksins er stefna flokksins útlistuð. "„Stefna Besta Flokksins er byggð á því besta úr öllum öðrum stefnum. Við byggjum mest á stefnum sem lagt hafa grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlandanna og Norður Evrópu. Það hljómar mjög vel núna. Á sama tíma og bæði forsjárhyggja ríkisrekins áætlunarbúskapar og afskiptaleysi og markaðstrú nýfrjálshyggjunnar hafa beðið skipbrot á örfáum árum standa samfélög byggð á virku lýðræði sterkust...Í rauninni erum við samt ekki með neina stefnu en við þykjumst vera með hana.“". Framboðslisti. 1. Jón Gnarr 2. Einar Örn Benediktsson 3. Óttar Proppé 8. Margrét Kristín Blöndal 11. Gunnar Lárus Hjálmarsson 14. Þorsteinn Guðmundsson 18. Ágústa Eva Erlendsdóttir 19. Jörundur Ragnarsson 24. Barði Jóhannsson 25. Gunnar Hansson 27. Hugleikur Dagsson Kosningabarátta í Reykjavík 2010. Samkvæmt skoðannakönnun Fréttablaðsins sem gerð var 25. mars 2010 mældist Besti flokkurinn með 12,7% fylgi í Reykjavík og fengi samkvæmt því tvo borgarfulltrúa í Borgarstjórn Reykjavíkur. Í könnun sem Capacent lét gera dagana 12.-29. apríl mældist Besti flokkurinn með 24% fylgi og fengi samkvæmt því 4 borgarfulltrúa í Borgarstjórn Reykjavíkur. Jón Gnarr formaður flokksins sagði þessar niðurstöður vera góða byrjun og að flokkurinn stefndi að hreinum meirihluta í Reykjavík. Þann 15. maí opnaði Besti flokkurinn kosningaskrifstofu sína að Aðalstræti 9. Sama dag sendi flokkurinn frá sér stuðningslag með myndbandi sem hlaut mikla athygli. Þann 17. maí birti MMR skoðannakönnun sem gerð var fyrir Sjálfstæðisflokkinn og mældist Besti flokkurinn með mest fylgi allra framboða, 36%. 21. maí birti Stöð 2 könnun sína og Fréttablaðsins, sem sýndi að Besti flokkurinn naut um 44% fylgis. Úrslit kosninganna urðu að lokum þau að Besti flokkurinn fékk 6 menn kjörna sem leiddi til þess að Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta og Jón Gnarr varð borgarstjóri Reykjavíkur. Salisbury. Salisbury (borið fram eða, á staðum) er borg í Wiltshire í Suður-Englandi. Borgin liggur á suðvesturhluta sýslunnar, við Salisbury Plain, og á samrennsli fimm áa: Nadder, Ebble, Wylye og Bourne, sem eru allar þverár árinnar Avon. Þaðan rennur Avon suður til strandar og út í sjóinn við Christchurch í Dorset. Borgin er stundum nefnd New Sarum sem aðgreining frá Old Sarum, þar sem byggt var upphaflega. Íbúar eru u.þ.b. 50.000 manns. Nútímaborgin var stofnuð árið 1220; hún var kölluð "Sorviodunum" af Rómverjum. Við komu Saxa varð borgin kölluð "Searesbyrig". Frá og með 1086 hafði heitið breyst í "Salesberie". Fyrsta dómkirkjan í Salisbury var byggð á milli 1075 og 1092. Árið 1120 var stærra bygging byggð á þeim sama stað. Síðar var dómkirkjan flutt. Salisbury liggur í dal og berggrunnurinn er aðallega úr kalki. Þegar vetrar eiga árnar til að flæða yfir vegna staðsetningar borgarinnar á láglendi. Göttingen. Göttingen er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxland með 121 þúsund íbúa. Lega. Göttingen liggur við ána Leine allra syðst í Neðra-Saxlandi, steinsnar frá þeim punkti þar sem sambandslöndin Þýringaland, Hessen og Neðra-Saxland skerast. Næstu borgir eru Kassel til suðvesturs (40 km), Hildesheim til norðurs (70 km), Brúnsvík til norðausturs (90 km) og Erfurt til suðausturs (100 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Göttingen sýnir gyllt ljón á rauðum grunni, með kastala í bakgrunni. Ljónið er merki Welfen-ættarinnar en borgin var á áhrifasvæði hennar. Kastalinn merkir borgina sjálfa. Merki þetta kom fyrst fram 1278 en var formlega tekið upp 1961. Orðsifjar. Borgin fékk heiti gamals bæjar í nágrenninu sem hét Gutingi, sem breyttist í Gotinge og Gottingen á 13. öld, og loks í Göttingen. Guntingi merkir annað hvort eitthvað í sambandi við guði (sbr. guð, gud, god) eða eitthvað í sambandi við rennandi vatn en lækurinn Gote rann í gegnum þorpið. Upphaf. Upphaf Göttingen var litla þorpið Gutingi en það heiti kemur fyrst við skjöl 953 hjá Otto I keisara. Seinna var keisaravirki ("Pfalz") reist norðvestur af þorpinu, við ána Leine. Þar myndaðist síðan borgin, sem fékk lánað heiti þorpsins í grennd. Það var líklega Hinrik ljón sem veitti Göttingen borgarréttindi í kringum 1150-1180. Árið 1286 fékk greifinn Albrecht der Feiste yfirráð yfir suðurhluta Neðra-Saxlands og valdi Göttingen sem aðsetur. Borgin vex mikið við það. 1318 fékk greifinn Otto hinn mildi yfirráð yfir Göttingen, sem varð að hluta furstadæmisins Braunschweig-Lüneburg. Um þetta leyti mun Göttingin hafa gengið í Hansasambandið, því hún tók þátt í Hansadögum 1351. Borgin gengur hins vegar sjálfviljug úr sambandinu 1572. Siðaskipti og stríð. 1529 barst lúterstrú fyrsti til borgarinnar en formlega fóru siðaskiptin fram ári síðar. 1625 settist Wallenstein úr kaþólska keisarahernum um borgina í 30 ára stríðinu en létti umsátrinu er hann fékk afhendar 1000 kýr fyrir her sinn. En aðeins ári seinna kom Tilly með kaþólskum her til Göttingen og gerði umsátur um hana í fimm vikur. Hann náði þó ekki að vinna borgina fyrr en her hans hafði breytt farvegi árinnar Leine á ævintýralegan hátt. Tilly gerði sér heimakært í Göttingen og sat þar í sex heil ár. Hann yfirgaf ekki borgina fyrr en hann tapaðí fyrir Svíum í orrustunni við Breitenfeld 1631. En þá komu Svíar sér fyrir í borginni og þurftu borgarbúar að greiða þeim mat og skatt í nokkur ár. 1641 settist Piccolomini úr keisarahernum í síðasta sinn um borgina en hún stóðst áhlaupin. Miklar þrengingar urðu fylgifiskar stríðsins og fækkaði íbúum um helming. Umbreytingar. Carl Friedrich Gauss var prófessor við háskólann í Göttingen 1737 var háskólinn Georg August Universität stofnaður í borginni, (hann er nefndur eftir Georg II Englandskonungi sem ættar var frá Hannover). Margir þekktir einstaklingar námu við skólann, svo sem Otto von Bismarck, Alexander von Humboldt, Max Planck, Werner Heisenberg og fleiri. 1757-62 var franskur her í borginni í 7 ára stríðinu. Þekktasti prófessorinn var án efa Carl Friedrich Gauss. Að því loknu voru borgarmúrarnir rifnir til að skapa byggingarpláss, enda fór íbúum ört fjölgandi. Héraðið allt var hertekið af Frökkum í upphafi 19. aldar. 1807 var Göttingen innlimað í konungsríkið Vestfalíu. Eftir tap Napoleons við Leipzig 1813 hurfu allir Frakkar. Konungsríkið Vestfalía er leyst upp og Göttingen innlimað konungsríkinu Hannover allt til 1866 er prússar hertaka ríkið. Nýrri tímar. 1944 varð Göttingen fyrir loftárásum bandamanna en þær voru til að gera litlar og skemmdir takmarkaðar. Hins vegar skemmdust Hannover, Kassel og Brúnsvík töluvert og fylltist Göttingen af flóttamönnum þaðan. Ári síðar var borgin hertekin af Bandaríkjamönnum bardagalaust og hún eftirlátin Bretum, enda var borgin á hernámssvæði Bretlands. 1957 hittust 18 þýskir kjarneðlisfræðingar í Göttingen og sömdu sameiginlega yfirlýsingu þess eðlis að Þýskaland ætti ekki að hervæðast á ný og þaðan af síður að eignast kjarnorkuvopn, eins og Konrad Adenauer kanslari hafði bryddað upp á. Meðal þekktra eðlisfræðinga sem undirrituðu yfirlýsinguna voru Max Born, Otto Hahn, Werner Heisenberg og Max von Laue, allt Nóbelsverðlaunahafar. Laíka. Laíka (rússneska: Лайка, sem þýðir bókstaflega „sú sem geltir“) var sovéskur hundur (~1954 – 3. nóvember 1957) sem varð fyrsta dýrið til að fara á sporbaug um jörðina. Lítið var vitað um áhrif geimferða á lifandi verur fyrir tíma Laíku. Sumir vísindamenn töldu að flugtakið eða skilyrði í geimnum myndu draga menn til dauða og fannst verkfræðingum því nauðsynlegt að senda fyrst önnur dýr. Laíka, flækingshundur sem hét upprunalega Kudryavka (rússneska: Кудрявка, "Litla krullhærða"), gekkst undir þjálfun með tveimur öðrum hundum og var að lokum valin til að fara með geimfarinu Spútnik 2 sem var skotið á loft 3. nóvember 1957. Spútnik 2 var ekki hannað til að snúa til baka og var Laíku því ætlað að deyja. Laíka dó nokkrum klukkustundum eftir lofttak vegna ofhitnunar. Hin raunverulega ástæða fyrir dauða hennar var ekki gerð opinber fyrr en árið 2002. Fyrir þann tíma var sagt að hún hefði dáið af súrefnisleysi eða (eins og Sovétmenn héldu upphaflega fram) að endir var bundinn á líf hennar áður en súrefnið kláraðist. Tilraunin sýndi hins vegar fram á að lifandi farþegi gæti lifað af slíkt lofttak og þyngdarleysi. Hún ruddi brautina fyrir geimferðum manna og veitti vísindamönnum áður óþekktar upplýsingar um viðbrögð dýra við aðstæðum í geimnum. 11. apríl 2008 afhjúpuðu rússnesk yfirvöld minnismerki um Laíku nálægt herrannsóknarstöð í Moskvu þar sem geimferðin var undirbúin. Minnismerkið sýnir Laíku standandi ofan á geimflaug. Aðalráður ráðlausi. Aðalráður ráðlausi (enska: "Æthelred the Unready", fornenska: "Æthelred unræd", um 968 – 23. apríl 1016) var konungur Englands á árunum 978 til 1013 og aftur frá 1014 til dauðadags. Aðalráður var sonur Játgeirs friðsama og Álfþrúðar konu hans. Hann varð konungur þegar hálfbróðir hans, Játvarður píslarvottur, var myrtur 18. mars 978. Það voru menn móður hans sem myrtu Játvarð en sjálfur var Aðalráður aðeins um 10 ára að aldri og hefur varla átt beinan þátt í verkinu. Morðið varð þó til þess að gera hann óvinsælan þegar í upphafi valdaferils hans, ekki síst þar sem bróðir hans var fljótt talinn helgur maður og varð seinna dýrlingur. Víkingar höfðu að mestu látið England í friði eftir að Játgeir lagði Danalög undir sig um miðja 10. öld en snemma á valdaferli Aðalráðs fóru þeir aftur að láta á sér kræla og Danir gerðu strandhögg á ýmsum stöðum á 9. áratug aldarinnar. Árið 991 fóru Englendingar halloka fyrir dönskum víkingum í bardaga við Maldon í Essex. Árið 994 sigldu víkingar flota upp Thames og stefndu á London. Aðalráður samþykkti að greiða þeim stórfé til að losna við árásir þeirra. Þeir sneru þó aftur 997 og herjuðu víða á Suður-England næstu árin. Aðalráður samþykkti hvað eftir annað að greiða víkingunum geysimikið fé og voru þessar greiðslur kallaðar Danagjöld. Aðalráður greip til þess 13. nóvember 1002 að skipa svo fyrir að allir norrænir menn búsettir á Englandi, karlar, konur og börn, skyldu drepnir, þar sem þeir hefðu lagt innrásarmönnum lið. Ekki er ljóst hve víðtæk slátrunin var en talið er að mannfall hafi verið töluvert. Á meðal hinna drepnu var Gunnhildur systir Sveins tjúguskeggs Danakonungs, maður hennar og barn, og í hefndarskyni réðist Sveinn á England ári síðar og varð vel ágengt. Danir herjuðu mjög á England næstu árin og innheimtu stórfé í Danagjöld. Árið 1013 sneri Sveinn aftur og hugðist nú leggja England undir sig. Hann hafði í árslok brotið mótstöðu Englendinga á bak aftur að mestu og hrakið Aðalráð í útlegð í Normandí. Sveinn lýsti sjálfan sig konung Englands. En í byrjun febrúar 1014 dó hann. Danir tóku Knút son hans þegar til konungs en enskir höfðingjar sendu eftir Aðalráði og tóku hann aftur til konungs gegn því að hann féllist á allar kröfur þeirra. Er það fyrsti skrásetti samningurinn sem gerður var á milli konungs og þegna hans. Aðalráður réðist síðan gegn Knúti, sem var óviðbúinn, hörfaði undan og hvarf frá Englandi að sinni. Knútur sneri þó aftur haustið 1015 og lagði mestallt England undir sig um veturinn. Sonur Aðalráðs, Játmundur járnsíða, hafði gert uppreisn gegn föður sínum en stóð þó með honum gegn innrásarliðinu og höfðu þeir feðgar búist til varnar í London þegar Aðalráður dó 23. apríl 1016. Um haustið kom til bardaga milli Knúts og Játmundar; Knútur hafði betur en samþykkti þó að deila ríkinu með Játmundi. Hann lést hins vegar 30. nóvember og Knútur varð þá einn konungur Englands. Fyrri kona Aðalráð var Ælfgifu, jarlsdóttir frá Norðymbralandi.Þau áttu allmörg börn, þar á meðal Játmund járnsíðu. Árið 1002 giftist Aðalráður svo Emmu af Normandí, systur Ríkharðs 2. hertoga af Normandí. Sonur þeirra var Játvarður hinn góði. Angkor. Loftmynd af Angkor Vat Kort yfir Angkor Angkor eru miklar borgarrústir í norðvesturhluta Kambódíu, rétt norðan við Tonle Sap-vatnið og í nágrenni við borgina Siem Reap. Angkor við höfuðborg og þungamiðja í því stórveldi sem ýmist er nefnt saman nafni eða Khmer-veldið og stóð frá 9. öld og langt fram á 15. öld. Miðsvæði borgarrústanna er Angkor Thom, sem var aðalborgarsvæðið og er umkringt múr og sýkisgröf. Þekktustu byggingarnar eru Angkor Vat-musterið rétt fyrir sunnan Angkor Thom og Bayon sem liggur inni í sjálfu borgarsvæðinu. Allt í kringum Angkor eru stór lón og leyfar af vatnsveitukerfi sem var grundvöllur Angkor-veldisins þar sem það gerði hrísgrjónarækt í stórum stíl mögulega. Það eru um 72 stærri rústir á svæðinu og um þúsund minni. Þær eru innan svæðis sem er um 24 kílómetrar frá austri til vesturs og 8 kílómetrar frá norðiri til suðurs. Það eru einungis steinbyggingarnar sem hafa varðveistts, þær timburbyggingar sem að öllum líkindum hafa verið á svæðinu eru allar horfnar. Angkor var skráð á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1992. Umfangsmikið viðhaldsverkefni er í framkvæmd á Angkor-svæðinu meðal annars til að halda undan frumskóginum, gera við grunna og skapa frárennsli svo byggingarnar skemmist ekki meir en orðið er. Angkor er orðin mikil ferðamannamiðstöð og koma þangað árlega um ein milljón ferðamanna. Saga. Angkor var höfuðborg og trúarleg þungamiðja Khmerveldisins frá miðri 9. öld. Borgin var stofnuð af Jashovarman konungi og skipulögð í samræmi við heimssýn hindúismans með musteri helguðu Shiva í miðju. Eftirmenn Jashovarmans héldu síðan áfram að stækka borgina. Stærsta og þekktasta musterið, Angkor Vat, var reist á árunum frá 1112 til 1150 af Surjavarman II. Hersveitir Cham tóku borgina og lögðu að nokkru í rúst árið 1177, en hún var síðan endurbyggð af Jayavarman VII, sem var búddisti. Hann lét meðal annars reisa það svæði mustera sem nefnt er Angkor Thom norðan við Angkor Vat, með hið fræga musteri Bayon sem miðpunkt. Á þessum tíma var mahajana búddismi ráðandi og voru fjölmörg musteri endurbyggð og breytt frá hindúískum helgidómum í búddíska. Á næstu ártugum og öldum skiptust á konungar sem ýmist aðhylltust hindúisma eða búddisma þar til theravada búddismi varð endanlega ríkistrú á 14. öld. Eftir ósigur Ponhea Jat konungs 1431 í stríði við herlið Síams konungs var Angkor aflögð sem höfuðborg og aðsetur konungs. Þess i stað varð Phnom Penh aðsetur ríkisvaldsins, enda þótti sú borg vara betur staðsett gagnvart árásum Siam. Musterin í Angkor, einkum Angkor Vat, héldu áfram að vera helgistaðir og pílagrímastaðir fyrir Kambódíska búddista allt fram á þennan dag. Angkor féll hins vegar í gleymsku og hvarf að miklu í frumskóginn þangað til að franskir könnuðir og fornleifafræðingar í lok 19. aldar hófu rannsóknir á svæðinu. Eftir áratugi af styrjöldum á seinni hluta 20. aldar var þetta starf tekið upp á nýtt 1993 fjármagnað af og i samstarfi milli Frakklands, Japan og UNESCO. Adriana Lima. Adriana Francesca Lima (f. 12. júní 1981) er brasilísk fyrirsæta sem er best þekkt fyrir að sýna undirföt fyrir Victoria's Secret frá árinu 2000. Adriana er gift serbneska körfuboltamanninum Marko Jaric. Þau eiga eina dóttur, Valentina, sem fæddist 15.nóvember 2009. Lima, Adriana West Ham. West Ham er hverfi í Austur-London sem liggur í borgarhlutanum Newham. West Ham er 9,8 km austan við Charing Cross. Í austri liggur hverfið að staðnum þar sem Sumarólympíuleikarnir 2012 munu eiga sér stað. Í vesturhluta eru aðallega viktoríönsk raðhús og hús sem byggð voru eftir seinni heimsstyrjöldina. Hverfið hefur löngu verið afskipt en er núna í endurnýjun með Plaistow, annað hverfi sem liggur nálægt. Knattspyrnuliðið West Ham United F.C. dregur nafn sitt úr heiti hverfisins. Samkvæmt engilsaxneskri stofnskrá var byggð í hverfinu Ham fyrst skráð sem "Hamme" árið 958. Árið 1086 var byggðin skráð í Dómsdagsbókinnni sem "Hame". Elsta skráð notkun á heitið "Westhamma" sem aðgreining frá East Ham var árið 1186. Orðið er upprunnið úr fornensku orði "hamm", sem þýðir „þurrt landssvæði sem liggur milli tveggja áa eða flæðilanda“. Heitið á við staðsetningu hverfisins milli ánna Lee, Thames og Roding og flæðilöndin þeirra. Að fornu var West Ham 4.500 ekra hreppur í hundraðinu Becontree í sýslunni Essex. Hreppurinn skiptist í þremur hverfum og innihélt þorpið Upton. West Ham-lestarstöð er í hverfinu og þaðan er hægt að fara til Mið-London í neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar og til Southend í háhraðalestum. Einnig verður hægt að fara þaðan í Docklands Light Railway. Gegnum hverfið renna nokkrir vatnsfarvegir sem skipta því frá Bromley-by-Bow. Til norðurs og austurs blandast West Ham saman með Stratford og Plaistow, og með Canning Town til suðurs. Dómsdagsbókin. "Dómsdagsbókin" (enska: "Domesday Book") er ensk jarðabók sem gerð var fyrir Vilhjálm bastarð Englandskonung árið 1086. Jarðabókin var skráð til þess að komast að hver átti hvaða jarðeign, og hverjir skattarnir höfðu verið undir stjórn Játvarðar góða. Dómur skoðunarmanna var endanlegur og varð að lögum. Niðurstöðum þeirra var ekki unnt að áfrýja. Jarðabókin var skrifuð á latínu, en nokkur ensk orð voru notuð þar sem var ekki til latneskt orð. Í textanum eru margar skammstafanir. Enskt heiti bókarinnar, "Domesday", er dregið af fornensku orði "dom" (þaðan er líka komið nútíma enska orðið "doom") sem þýddi „dómur“. Þess vegna má þýða "Domesday" sem "Dómsdagur" yfir á íslensku. Þetta heiti var notað af því að úrskurður bókarinnar var endanlegur og ekki var hægt að breyta honum eftir á. Árið 2006 var öll skráin sett á netið. Dómsdagsbókin. "Dómsdagsbókin" er í raun tvö aðskilin verk. Annað þeirra kallast "Litla dómsdagsbókin" og nær yfir Norfolk, Suffolk og Essex. Hitt heitir "Stóra dómsdagsbókin" og tekur yfir aðra hluta landsins, nema þau svæði sem síðar urðu Westmorland, Cumberland, Norðymbraland og Durham-sýsla. Ekki var gerð skrá yfir eignir í London, Winchester og nokkrum öðrum bæjum, líklega vegna stærðar þeirra. Ekki var heldur gerð jarðabók yfir megnið af Westmorland og Cumberland af því að Norðmanar höfðu ekki náð þar yfirráðum þegar skráningin fór fram. Durham-sýsla er ekki í könnuninni af því biskupinn í Durham hafði einkarétt á að leggja skatt á þar og á nokkum svæðum í Norðvestur-Englandi sem voru skráð í Boldon-bókinni árið 1183 (einnig hafði biskupinn rétt til að leggja skatt á þessi svæði). Ekki er vitað af hverju hinar sýslurnar eru ekki í jarðabókinni. Þrátt fyrir heitið "Litla dómdagsbókin" er hún stærri en hin bókin og inniheldur mun meiri upplýsingar, svo sem um fjölda búfjár. Tilgátur hafa verið settar fram um að "Litla dómsdagsbókin" sé tilraunaverk og niðurstaðan hafi orðið sú að það væri of umfangsmikið að safna svo ítarlegum upplýsingum fyrir allt landið. Skránum í báðum bókunum er ekki raðað eftir landafræðilegri staðsetningu eða stafrófsröð, heldur nöfnum lénsherranna (sem voru eigendur jarðanna). Í hverjum kafla er fjallað um eignir konungsins og síðan kennimanna og kirkjustofnana eftir tignarröð (til dæmis kemur erkibiskupinn af Kantaraborg á undan öðrum biskupum). Í bókinni eru 13.418 skráningar. Þetta eru aðallega jarðeignir í sveitum en einnig var safnað upplýsingum um bæi. Könnunin. Samkvæmt "Annál Engilsaxa" hófst skráningin árið 1085 og vitað er að henni var lokið árið 1086. Ekki er víst hvenær bókin sjálf var sett saman, en svo virðist sem "Stóra dómsdagsbókin" sé skrifuð af einum manni og "Litla dómsdagsbókin" af sex skrifurum. Sjöundi hópurinn var svo skírin sem skráð eru í "Litlu dómsdagsbókinni". August Strindberg. Johan August Strindberg (22. janúar 1849 – 14. maí 1912) var sænskur rithöfundur og leikritahöfundur. Þekktastur er hann utan Svíþjóðar fyrir leikrit sín, s.s. "Fröken Júlía", "Faðirinn", "Draugasónatan" og "Til Damaskus. " Í heimalandi sínu er Strindberg sagður vera „faðir nútíma bókmennta“. Hann er einnig þekktur fyrir málverk sín, sem hafa selst í seinni tíð fyrir háar upphæðir. Tenglar. Strindberg, Johan August Játvarður útlagi. Játvarður útlagi (1016 – febrúar 1057) var enskur konungssonur á 11. öld sem lifði nær alla ævi sína í útlegð og lést skömmu eftir að hann var kallaður heim til Englands til að erfa ríkið. Faðir hans var Játmundur járnsíða, sonur Aðalráðs ráðlausa. Kona hans var Ealdgyth (Edit; nafn hennar er þó óvíst). Játmundur tók við ríki eftir lát föður síns vorið 1016 en lést sjálfur 30. nóvember sama ár. Knútur ríki tók þá við konungdæmi samkvæmt samkomulagi sem þeir Játmundur höfðu gert með sér. Játmundur átti tvo barnunga syni, Játvarð og Játmund. Knútur sendi þá til Ólafs skotkonungs í Svíþjóð og ætlaðist til að þeim væri komið fyrir kattarnef en af því varð ekki. Þeir voru nokkru síðar til Ingigerðar dóttur Ólafs, sem var drottning í Kænugarði, og þaðan til Ungverjalands, þar sem þeir ólust upp. Játmundur lést þar en Játvarður var lengi undir verndarvæng Hinriks 3. keisara. Játvarður góði föðurbróðir hans, sem var barnlaus, kallaði hann til Englands til að gera hann að erfingja sínum en Játvarður lést skyndilega skömmu eftir komu sína til landsins, í febrúar 1057. Líklegt er að hann hafi verið myrtur en óvíst er hver bar ábyrgð á því. Kona Játvarðar hét Agata. Þau áttu soninn Játgeir, sem var útnefndur erfingi afabróður síns en var of ungur til að geta staðið gegn Haraldi Guðinasyni, mági konungs, sem tók völdin eftir lát hans og varð konungur þótt veldistími hans yrði ekki langur. Dóttir Játvarðar og Agötu var heilög Margrét, drottning Skotlands. Vatnsdalsá. Vatnsdalsá er á sem rennur um Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Áin er dragá sem safnar í sig vatni af Haukagilsheiði og Grímstunguheiði og þar sem hún rennur niður í Vatnsdal í miklum gljúfrum eru í henni allmargir fossar. Efstur þeirra er Skínandi og neðar Kerafoss og Rjúkandi. Neðar í ánni eru Dalsfoss og Stekkjarfoss. Við hann er laxastigi. Aðrar ár og lækir renna í Vatnsdalsánna eins og til dæmis Tunguá, Álka og Kornsá. Vatnsdalsá er ein besta laxveiðiá landsins og þar er einnig mjög góð silungsveiði. Mikið er um stórlaxa í ánni en stangveiðar hófust þar 1936; áður var eingöngu stunduð netaveiði í ánni. Besti veiðistaðurinn er Hnausastrengur. Eingöngu er veitt á flugu í Vatnsdalsá. Vatnsdalsá rennur í stöðuvatnið Flóðið, sem myndaðist við skriðuföll í Vatnsdal árið 1720, en áin sem úr því rennur nefnist Hnausakvísl. Tómasarkver. Tómasarkver er kennt við Tómas postula, og er meðal apókrýfra rita Biblíunnar, eða nánar tiltekið Nýja testamentisins. Einn merkasti handritafundur 20. aldar átti sér stað nærri bænum Nag Hammadí í Suður-Egyptalandi árið 1945. Á meðal um 40 áður óþekktra rita sem þar litu dagsins ljós, voru "Tómasarguðspjall", og "Tómasarkver". Tómasarkverið er þar í koptískri þýðingu, en talið er að frumtextinn hafi verið á grísku. Tómarsarkver telst til svokallaðra opinberunarsamræðna á milli hins upprisna Jesú og lærisveina hans. Árið 2007 kom "Tómasarkver" út í íslenskri þýðingu í bókinni: "Frá Sýrlandi til Íslands. Arfur Tómasar postula". Þar er ítarleg umfjöllun um kverið. Bjarni Herjólfsson. Bjarni Herjólfsson var íslenskur maður sem sagt er frá í "Grænlendinga sögu" og stendur þar að hann hafi fundið Vínland (eða Markland), það er að segja hann sá það tilsýndar ásamt hásetum sínum. Minnisvarði um hann mun innan tíðar rísa á Eyrarbakka, upp við bæinn Drepstokk. Bjarni sigldi frá Eyrum (þar sem síðar reis Eyrarbakki) og ætlaði að finna föður sinn á Grænlandi. Á leið sinni þangað koma hann og hásetar hans auga á land "ófjöllótt og skógi vaxið". Vildu hásetar sækja vatn en Bjarni sigla áfram og finna land sem jökull væri á, það er að segja Grænland. Var það og gert. Leifi heppna er í Grænlendinga sögu lýst sem sporgöngumanni hans, en hann fer þó þar á land. Það er ósamkvæmni milli sagna, því samkvæmt Eiríks sögu rauða finnur Leifur Vínland á leið frá Skotlandi til Grænlands. Wisconsin-háskóli í Madison. Bascom Hall er hjarta háskólans. Byggingin var reist árið 1857. Wisconsin-háskóli í Madison er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum. Hann var stofnaður árið 1848 og er flaggskip Wisconsin-háskólanna. Við skólann eru um 29 þúsund grunnemar í námi og um 12 þúsund framhaldsnemar. Tufts-háskóli. Tufts-háskóli er einkarekinn rannsóknarháskóli í Massachusetts í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1852. Við skólann nema rúmlega 5 þúsund grunnnemar og tæplega fimm þúsund framhaldsnemar. Einkunnarorð skólans eru "pax et lux" á latínu (eða „friður og ljós“). Bryn Mawr-háskóli. Bryn Mawr-háskóli, stundum nefndur Bryn Mawr (borið fram: brɪnˈmɑr, "brin-mar") er einkarekinn kvennaháskóli í Bryn Mawr í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, um 16 km vestan Philadelphiu. Nafnið „Bryn Mawr“ merkir á velsku „stór hæð“. Bryn Mawr var stofnaður árið 1885 og er einn af systraskólunum sjö og á í nánu samstarfi við Swarthmore-háskóla og Haverford-háskóla. Við skólann nema um 1400 grunnnemar og rúmlega 400 framhaldsnemar. Meðal þekktra fyrrverandi nemenda skólans má nefna Emily Greene Balch sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1946. Viking Society for Northern Research. a> á Þingvöllum. Hluti málverks eftir W. G. Collingwood. Viking Society for Northern Research – eða Víkingafélagið í London – var stofnað í London 1892 og hét þá Orkney, Shetland and Northern Society eða The Viking Club. Félagið helgar sig rannsóknum og kynningu á bókmenntum og menningu Norðurlanda á miðöldum, og er einnig samfélag fræðimanna og áhugamanna um efnið. Einkum er sjónum beint að menningartengslum Norðurlanda við Bretlandseyjar. Félagið, sem er helsti vettvangur norrænufræðinga á Bretlandseyjum, hefur birt fræðirit, útgáfur og þýðingar á fornritum (einkum íslenskum), og gefið út tímaritið "Saga-Book" frá 1895. Söguágrip. Árið 1902 var nafni félagsins breytt í "The Viking Club" eða "Society for Northern Research" og árið 1912 í "Viking Society for Northern Research". Félagið varð brátt betur þekkt fyrir fræðastarfsemi en veislugleði, sem í upphafi var annar tilgangur þess. Félagslega þættinum var þó haldið við, einkum í árlegum kvöldverði („annual dinner“), sem hefur haldist til þessa dags, með nokkrum hléum. Tímaritið "Saga-Book" kom fyrst út 1895, og fyrsta bindi "Old-Lore Miscellany" 1907–1908. Árið 1902 var hafin útgáfa á þýðingum fornrita, og sáu þeir William G. Collingwood og Jón Stefánsson um fyrsta bindið: "The Life and Death of Kormac the Skald", með fallegum myndskreytingum Collingwoods. Ritröð með textaútgáfum hófst 1935 með "Gunnlaugs sögu ormstungu". Víkingafélagið spratt upp úr hinni rómantísku sýn á víkingaöldina, sem varð áberandi á Viktoríutímabilinu. W. G. Collingwood, prófessor í myndlist, sem þýddi og myndskreytti íslensk fornrit, gaf félaginu olíumálverk sitt, "Alþing hið forna á Þingvöllum", og var það hengt upp í fundarherberginu. Eftir að félagið var stofnað varð það samkomustaður helstu norrænufræðinga sem búsettir voru á Bretlandseyjum. Meðal virkustu félagsmanna á fyrstu árunum voru: William Morris, Eiríkur Magnússon og Frederick York Powell, og meðal þeirra sem héldu svo áfram útgáfustarfsemi, fyrirlestrum og ráðstefnum voru Gabriel Turville-Petre, J.R.R. Tolkien, og Ursula Dronke, svo að einhverjir séu nefndir. Peter Foote var einn af forystumönnum félagsins eftir 1952, m.a. forseti þess 1974–1976 og 1990–1992. Árið 1917 var Víkingafélagið beðið um aðstoð við að koma á fót norrænudeild við Háskólann í London, þar sem félagið hélt fundi sína. Síðan þá hefur yfirmaður norrænudeildarinnar (nú Department of Scandinavian Studies við University College London) verið annar heiðursritari félagsins (Honorary Secretary). Víkingafélagið átti mjög gott bókasafn á sínu fræðasviði, sem var árið 1931 sameinað bókasafni University College London, þegar félagið fékk framtíðar fundaraðstöðu þar. Bókasafnið eyðilagðist nær alveg í eldsvoða 1940, í loftárásum Þjóðverja, en hefur nú verið byggt upp aftur. Árið 1962 gaf B. E. Coke ofursti sjóð til minningar um eiginkonu sína, og var þá stofnað til fyrirlestrahalds við University College: "The Dorothea Coke Memorial Lectures", fyrst 1963, þegar G. N. Garmonsway flutti fyrirlestur um Knút ríka og stórveldi hans – „Canute and His Empire“; þeir eru prentaðir. Félagið hefur einnig aðstoðað við útgáfu á ritum Víkingaþinganna (Proceedings of the Viking Congress) frá því sjötta 1969. Á fimmta Víkingaþinginu í Þórshöfn árið 1965, kom fram sú hugmynd að stofana skoska deild eða hliðstæðu við Víkingafélagið, og varð það að veruleika 1968, þegar "Scottish Society for Northern Studies" var stofnað. Það gefur út tímaritið "Northern Studies" og heldur ráðstefnu einu sinni á ári. Útgáfustarfsemi. Sjá nánar á vefsíðu félagsins, þar sem er listi yfir þau rit sem fáanleg voru 2007. Mörg af ritum félagsins eru ætluð námsmönnum eða enskumælandi áhugamönnum um norræn fræði. Swarthmore-háskóli. Swarthmore-háskóli er einkarekinn háskóli í Swarthmore í Pennsylvaní, um 18 km suðvestur af Philadelphiu. Skólinn var stofnaður árið 1864. Rúmlega fimmtánhundruð nemendur stunda grunnnám við skólann. Haverford-háskóli. Haverford-háskóli er einkarekinn háskóli í Haverford í Pennsylvaníu, úthverfi Philadelphiu. Tæplega tólfhundruð nemendur stunda nám við skólann, allir í grunnnámi. Jón Jónsson lærði. Jón Jónsson lærði (1759 – 1846) var prestur í Grundarþingum í Eyjafirði á árunum 1795-1839. Hann bjó fyrst á Grund en lengst af í Möðrufelli, þar skammt frá, og er jafnan kenndur við þann bæ. Síðustu árin var hann prestur í Möðruvallaklaustursprestakalli og bjó þá í Dunhaga í Hörgárdal. Jón var fæddur á Guðrúnarstöðum í Eyjafirði og var sonur séra Jóns Jónssonar prests í Gnúpufelli og konu hans Sigríðar Bjarnadóttur. Hann þótti mikill kennimaður og vel lærður eins og viðurnefni hans benti til. Hann aðhylltist heittrúarstefnuna og skrifaði fjölda bæklinga og smárit til að koma henni á framfæri. Meðal annars átti hann í ritdeilu við Magnús Stephensen vegna sálmabókarinnar sem Magnús gaf út og kölluð var "Leirgerður". Hann lét sig fleira varða en trúmál og skrifaði um ýmis önnur efni, meðal annars búvísindi og lækningar, og orti líka kvæðabálka til fróðleiks almenningi. Hann hafði skóla á heimili sínu og kenndi þar ungum piltum. Lærðu sumir af helstu mennta- og embættismönnum þjóðarinnar undir skóla hjá Jóni, meðal annars var Jónas Hallgrímsson þar um tíma. Kona hans var Helga Tómasdóttir, dóttir séra Tómasar Skúlasonar prests á Grenjaðarstað. Einkasonur þeirra, Jón, var ekki látinn læra hjá föður sínum, heldur sendur til Danmerkur og í skóla á Helsingjaeyri. Hann kom ekki aftur til Íslands fyrr en um 20 árum síðar og þá með danska konu og börn; eitt þeirra var Þóra Andrea Nikólína, sem síðar skrifaði eina fyrstu íslensku matreiðslubókina. Hann var jafnan nefndur Jón helsingi. Jón lærði og Helga áttu líka fjórar dætur, Sigríði, Margréti, Álfheiði og Guðrúnu. Jón var skapríkur, strangur og siðavandur, fylgdist vel með líferni sóknarbarna sinna og tók þungt á siðferðisbrotum. Þegar elsta dóttir hans, Sigríður (þá komin um þrítugt og trúlofuð Hákoni syni Jóns Espólín sýslumanns, sem var rúmum tíu árum yngri) eignaðist barn með vinnumanni á heimilinu bað hann söfnuðinn fyrirgefningar við messu og veitti dóttur sinni opinbera aflausn. Hann lét hana sitja á krókbekk, sem var virðingarminnsti staðurinn í kirkjunni. En þegar sýslumannsfrúin á Grund, Valgerður Árnadóttir Briem, sá Sigríði sitja þar settist hún hjá henni og sat jafnan á krókbekk þaðan í frá, þau fimmtíu ár sem hún lifði. Sigríður giftist síðar Hákoni og varð prestsfrú í Stærra-Árskógi. Jón lærði flutti sig svo yfir í Möðruvallaklausturprestakall 1839, þá tæplega áttræður, og hélt áfram að prédika, skrifa og senda frá sér alls konar boðskap til dauðadags, enda var hann einstakur eljumaður. Hann þótti mjög formfastur og þéraði til dæmis tengdasyni sína alla tíð, þótt hann væri hálfgerður uppeldisfaðir eins þeirra. Hryðjuverkin 29. mars 2010. Hryðjuverkin 29. mars 2010 voru hryðjuverkaárásir í neðanjarðarlestakerfi Moskvu, framkvæmdar af tveimur hryðjuverkakonum þann 29. mars 2010. Tvær sprengjur sprungu í lestarvögnum, sú fyrri kl. 7.56 á Lubyanka lestarstöðinni og sú síðari kl. 8.38 á Park Kultury lestarstöðinni. Einnig var reynt að sprengja þriðju sprengjuna um 40 mínútum síðar en tilraunin tókst ekki. Talið er að 37 manns séu látnir vegna spregjanna. Enginn þeirra var Íslendingur. Hjarðarholt (Dalasýslu). Hjarðarholt er bær, kirkjustaður og áður prestssetur í Laxárdal í Dalasýslu, gamalt höfuðból sem kemur töluvert við sögu í Íslendingasögum og Sturlungu. Samkvæmt Laxdælu reisti Ólafur pái Höskuldsson sér bæ á svæði sem þótti reimt því það hafði áður verið í eigu illvirkjans Víga-Hrapps og var sagt að hann gengi aftur, svo að landið lagðist í auðn eftir lát hans. Ólafur lét það ekki á sig fá, byggði bæ sinn og kallaði hann Hjarðarholt. Þar ólust þeir Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson upp. Á elleftu öld bjó Halldór sonur Snorra goða Þorgrímssonar í Hjarðarholti en árið 1117 bjó þar Guðmundur Brandsson prestur, náfrændi Þorgils Oddasonar. Árið 1197 settist svo Sighvatur Sturluson að í Hjarðarholti. Hjarðarholt var síðan prestssetur allt fram á 20. öld en þá var prestbústaðurinn fluttur til Búðardals. Á meðal presta í Hjarðarholti má nefna Gleraugna-Pétur Einarsson, bróður Marteins biskups, sem kemur töluvert við sögu siðaskiptanna, og séra Gunnar Pálsson skáld, sem sat staðinn á síðari hluta 18. aldar. Árið 1899 fann Daniel Bruun stuðlabergslegstein sem notaður var sem þröskuldur í dyrum Hjarðarholtskirkju og kom honum á Þjóðminjasafnið. Hann er talinn elstur íslenskra rúnalegsteina sem varðveist hafa, frá fyrri hluta 14. áldar. Á honum stendur: "her: ligr: hallr: arason". Hallur þessi er ekki þekktur úr öðrum heimildum. Núverandi kirkja í Hjarðarholti var vígð árið 1904 og er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt. Alin. Alin er mælieining sem miðast við líkamann frá olnboga fram á fingurgóma Alin er forn mælieining. Alin er mismunandi eftir löndum og tímabilum innan hvers lands. Upphafleg lengdareining á Íslandi var lögalin sem var 19 danskir þumlungar eða um 48 sentimetrar að lengd. Í byrjun sextándu aldar var tekin Hamborgaralin sem var 22 þumlungar eða um 57,8 sentimetrar að lengd, en árið 1776 var dönsk alin löggilt hér á landi með konunglegri tilskipun. Var hún 24 þumlungar eða 62,8 sentimetrar að lengd. Hákon Grjótgarðsson. Hákon Grjótgarðsson Hlaðajarl var jarl í Noregi á 9. öld. Hann var einnig kallaður "Hákon ríki". Faðir hans var Grjótgarður Herlaugsson jarl á Hálogalandi og í Naumudal. Hann seildist eftir yfirráðum til suðurs og hefur líklega ráðið yfir allri strandlengjunni frá Lófót suður til Þrándheimsfjarðar. Þegar Haraldur hárfagri kom til að leggja undir sig Þrændalög hélt Hákon til móts við hann, gerði við hann bandalag og barðist með honum. Ása dóttir hans varð ein af mörgum konum Haraldar konungs. Tveir synir Hákonar, Grjótgarður og Herlaugur, féllu í orrustunni við Sólskel um 875. Að launum fyrir liðveisluna fékk Hákon Þrændalög að léni og einnig Firðafylki og Sogn. Hann settist að á Hlöðum við Þrándheim og voru arftakar hans nefndir Hlaðajarlar. Hákon féll í orrustu við Atla jarl hinn mjóva í Stafanesvogi en Atli lést skömmu síðar af sárum sínum. Arftaki Hákonar var Sigurður sonur hans. Skúli Guðmundsson. Skúli Guðmundsson (25. mars 1924 Reykjavík – 22. janúar 2002 Reykjavík) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem keppti fyrir Knattspyrnufélag Reykjavíkur og Københavns Idræts Forening i Danmörk. Hann setti íslandsmet í Kaupmannahöfn í Hástökki 30. júlí 1950 sem stóð í tíu ár (1,97 metra). Hann keppti fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótsmet 1946 i Ósló og lenti þar í 7. sæti - stökk 1,90 metra. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943 og gegndi embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, ári áður. Skjaðak. Skjaðak er haft um sérstaka skemmd í öl við gerjun, en líklega einnig um sveppagróður á korni. Skjaðak er líklega írskt tökuorð í íslensku. Gamlar jarteiknabækur bera með sér að ölgerðin misheppnaðist stundum á Íslandi, það kom „skjaðak" í ölið, einhver óholl eða eitruð gerð. Var þá heitið á helga menn og urðu þeir jafnan vel við. Ísleifur biskup blessaði mungát það er skjaðak var í og var þaðan í frá vel drekkandi. Eins hjálpaði Þorlákur helgi vel, lífs og liðinn. Hálsbólga. Hálsbólga er sýking í hálskirtlum og umhverfis þá. Bæði veirur og bakteríur valda hálsbólgu. Sofi Oksanen. Sofi Oksanen er finnskur rithöfundur. Fyrsta bók hennar "Stalinin lehmät" (Kýr Stalíns) kom út árið 2003 og önnur bók hennar "Baby Jane" kom út árið 2005. Þriðja skáldsaga hennar "Puhdistus" (Hreinsun) kom út árið 2008 og hlaut Oksanen Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2010 fyrir verkið. Tilvísanir. Oksanen, Sofi Járnseglun. Járnseglun er einn flokkur af seguleiginleikum efna. Járnseglandi efni geta myndað sterka segla. Járnseglandi efnunum má skipta í marga undirflokka en í þekktasta undirflokknum eru ýmsar málmblöndur og svo þrjú frumefni, sem eru segulmögnuð við stofuhita en það eru málmarnir járn, nikkel og kóbalt. Mörg efni geta orðið segulmögnuð við ennþá lægri hita. Nýjasta tækni og vísindi. Nýjasta tækni og vísindi var íslenskur sjónvarpsþáttur sem var á dagskrá RÚV á árunum 1967-2004. Þátturinn var í umsjón Örnólfs Thorlacius á árunum 1967-1974 en þá kom Sigurður H. Richter dýrafræðingur til liðs við þáttinn og sáu þeir um hann í sameiningu á árunum 1974-1980. Sigurður tók síðan alfarið við stjórn þáttarins þegar Örnólfur var skipaður rektor Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1980 og var Sigurður umsjónarmaður þáttarins á árunum 1980-2004. Nýjasta tækni og vísindi var elsti þátturinn á dagskrá Sjónvarpsins að undanskildum fréttum og Stundinni okkar þegar hann lauk göngu sinni árið 2004. Jóhann Gunnar Sigurðsson. Jóhann Gunnar Sigurðsson (2. febrúar 1882 – 20. maí 1906) var íslenskt skáld sem orti í nýrómantískum anda. Hann lést aðeins 24 ára gamall. Hann stundaði nám við Lærða skólann og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags skólans, árið 1903. Raunveruleikasjónvarp. Raunveruleikasjónvarp er dagskrárgerð í sjónvarpi sem felst í því að sýna dramatísk eða gamansöm atriði sem virðast óundirbúin og ekki leikin. Venjulega eru leikarar í raunveruleikasjónvarpi ómenntaðir (en oft sjónvarpsvanir þó) eða óþekktir. Handrit er notað en leikararnir eru kannski óvitandi um það hvert þeirra hlutverk er nákvæmlega og hver útkoman verður. Oft er einhvers konar sjónvarpsleikur, keppni, þraut eða áheyrnarprufa hluti af dagskránni. Tækni eins og fluga á vegg-myndataka, falin myndavél og raunveruleikaáhrif er notuð til að skapa tilfinningu fyrir því að hlutirnir sem sjást séu ekki leiknir. Raunveruleikasjónvarp af einhverju tagi hefur verið til frá upphafi sjónvarpsþáttagerðar. Hugtakið varð fyrst áberandi í umræðu um fjölmiðla seint á 10. áratugnum þegar sprenging varð í framleiðslu sjónvarpsþáttaraða af þessu tagi. Harðar deilur í kringum suma af þessum þáttum, eins og "Big Brother", hafa gert raunveruleikasjónvarp að umtalaðasta sjónvarpsefni síðustu ára. Sjónvarpsveruleiki. Sjónvarpsveruleiki á við um marga ólíka hluti í veruleikanum sem eiga það sameiginlegt að þeir væru ekki til eða væru allt öðruvísi en þeir eru ef ekki væri fyrir sjónvarpið. Hugtakið er notað til að lýsa bæði breytingum sem orðið hafa t.d. á íþróttum til að gera þær sjónvarpsvænni, alls kyns viðburðum (t.d. mótmælum) sem eru skipulagðir sérstaklega með sjónvarpið í huga og því hvernig ólíkar fylkingar eða sjónarmið magna upp andstöðu fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Í hugtakinu felst gagnrýni á þá bjartsýnu hugmynd sem naut fylgis á 8. áratugnum að sjónvarpið gæti endurspeglað veruleikann á hlutlægan hátt með nýrri hreyfanlegri upptökutækni. Hugtakið sjónvarpsveruleiki vísar til þess að um leið og myndavélin er komin á staðinn tekur veruleikinn mið af henni. Í hugtakinu getur líka falist sá dómur að eitthvað sé óekta og ómarktækt af því það er hannað með fjölmiðla í huga. Sjónvarpsveruleiki er dæmi um áhrif fjölmiðla. Viking Club, Leeds. The Viking Club var klúbbur textafræðinga og sagnfræðinga við Háskólann í Leeds, sem sérhæfðu sig í norrænum og germönskum fræðum. Klúbburinn var stofnaður skömmu eftir 1920, af Eric Valentine Gordon og J. R. R. Tolkien þegar þeir voru prófessorar í Leeds (1920–1925). Á „fundum“ hittust stúdentar og kennarar til að lesa Íslendingasögur á frummálinu og drekka bjór á óformlegan hátt. Klúbbfélagar tóku gjarnan lagið og ortu söngtexta á fornensku, gotnesku, forníslensku og öðrum fornum germönskum tungumálum. T.d. var lagið „Twinkle, twinkle little star“ sungið undir fornenskum texta eftir Tolkien. Úrval af þessum kveðskap birtist 1936 í bókinni "Songs for the Philologists", sem er afar fágæt, því að megnið af upplaginu eyðilagðist í eldi (aðeins 14 eintök eru til). Raunveruleikaáhrif. Raunveruleikaáhrif eru í kvikmyndagerð þau áhrif á áhorfandann að honum finnst hann vera að horfa á eitthvað raunverulegt en ekki leikið og skáldað. Raunveruleikaáhrif eru búin til með því að brjóta markvisst ýmsar formreglur kvikmyndagerðar. Dæmi um þetta er t.d. að gera upptökutækin sýnileg með því að láta kvikmyndatökuvélina hristast með hreyfingum leikaranna og gera áhorfendur þannig meðvitaða um kvikmyndatökumanninn, sýna hljóðnema í mynd og láta leikara tala beint í myndavélina, notast við venjulegt fólk og óundirbúið tal í stað menntaðra leikara og handrits. Dæmi um kvikmynd sem notast mikið við raunveruleikaáhrif til að skapa spennu er "The Blair Witch Project". Ýmsar skyldar aðferðir þekkjast úr bókmenntum þar sem sagan er t.d. sett upp sem dagbók eins og í skáldsögunni "Drakúla". Roland Barthes tengdi raunsæi í bókmenntum við notkun ekfrasis eða lýsingu á verki og kallaði það raunveruleikaáhrif. Tindastóll (fjall). Tindastóll er 995 metra hátt fjall innst við vestanverðan Skagafjörð, norðan við Sauðárkrók. Það er eitt þekktasta fjall héraðsins og af því er frábært útsýni í heiðskíru veðri. Nafn fjallsins er oft stytt og það kallað "Stóllinn", en áður mun það hafa heitið "Eilífsfjall" og er sagt hafa verið kennt við landnámsmanninn Eilíf örn. Tindastóll er langt og mikið fjall, um 18 kílómetrar á lengd. Undir fjallinu austanverðu meðfram sjónum er sveitin Reykjaströnd en vestan við fjallið er Laxárdalur. Sunnan og suðvestan við Tindastól eru Gönguskörð en nyrst gengur fjallið í sjó fram og er mjög torfært að komast þá leið milli Reykjastrandar og Laxárdals. Uppi á fjallinu er tjörn og samkvæmt alþekktri þjóðsögu fljóta óskasteinar á tjörninni á hverri Jónsmessunótt. Þangað er oft gengið um Jónsmessu og á öðrum tímum og eru margar vinsælar gönguleiðir á svæðinu. Skíðaland Sauðárkróksbúa er í vestanverðum Stólnum. Molduxi. Molduxi er fjall fyrir ofan Sauðárkrók og Borgarsveit í Skagafirði. Fjallið er 706 m á hæð og er auðvelt uppgöngu. Þaðan er víðsýnt yfir Skagafjörð og liggur vinsæl gönguleið upp á fjallið frá Sauðárkróki. Eyjafjarðará. Eyjafjarðará er dragá í Eyjafirði. Hún á upptök syðst í Eyjafjarðardalnum, þar sem koma saman lækir og ár úr fjöllunum í kring, og rennur norður eftir dalnum og í sjó í botni Eyjafjarðar eða Pollinum, við Akureyrarflugvöll. Hún er 60-70 km langt frá upptökum til ósa. Talið er að botn Eyjafjarðar hafi áður náð allt inn að Melgerðismelum, um 22 kílómetrum innar en núverandi ós árinnar er. Í ánni er mjög góð sjóbleikjuveiði en þar veiðist einnig urriði og eitthvað af laxi. Ósasvæði Eyjafjarðarár nær nokkuð langt upp með ánni, að Melgerðismelum, og þar er auðugur og margbreytilegur gróður og dýralíf. Þar voru áður engjalönd sem mikið voru nýtt til heyskapar og beitar en nú er hluti af landinu friðaður og þar er mikið um víði. 25-30 tegundir fugla verpa á þessu svæði. Markarfljót. Markarfljót er jökulá á Suðurlandi. Aðalupptök árinnar eru í Mýrdalsjökli en einnig falla í hana þverár úr Eyjafjallajökli og víðar að. Á vatnasvæði árinnar, sem er um 1200 ferkílómetrar, eru allnokkrar megineldstöðvar. Sandarnir sem Markarfljót rennur um til sjávar og sérstaklega ósar þess eru nefndir "Markarfljótsaurar" (sbr. aurar). Áin er um 100 kílómetrar á lengd. Efst rennur hún um Laufaleitir milli malar- og leirhjalla en síðan ofan í allhrikalegt og þröngt gljúfur, Fljótsgil. Þar sem það er þrengst heitir Torfahlaup og eru þjóðsögur um að maður hafi stokkið þar yfir. Þar fyrir neðan falla ýmsar þverár í hana, Hvítmaga frá Tindfjallajökli, Kaldaklofskvísl frá Torfajökli og Innri-Emstruá (Nyrðri-Emstruá) frá Mýrdalsjökli. Síðan fellur fljótið bratt ofan í hrikalegt gljúfur, Markarfljótsgljúfur, sem er nærri 200 metra djúpt og er talið hafa orðið til að mestu í gífurlegu hlaupi fyrir um 2000 árum. Neðst fellur Fremri-Emstruá (Syðri-Emstruá) í fljótið í gili en hún kemur úr Mýrdalsjökli. Þegar kemur á móts við Þórsmörk fellur áin út á eyrar og byrjar að dreifa úr sér, enda er hún þar orðin að stórfljóti. Áður fyrr flæmdist hún mjög víða um á láglendinu, raunar um mestallan hluta Rangárþings sunnanverðs, braut land og eyddi. Raunar er mestallt láglendið þarna orðið til úr framburði Markarfljóts, bæði Landeyjarnar og sléttlendið undir vestanverðum Eyjafjöllum. Eftir lok ísaldar var mikill fjörður þar sem nú eru Landeyjar en hann fylltist smám saman af framburði fljótsins og hlaupum úr jöklunum. Talið er að við landnám hafi meginfarvegir fljótsins verið sjö en síðustu aldirnar voru þeir fjórir, núverandi farvegur, Álar, Affall og Þverá. Fyrsti varnargarðurinn var byggður við Seljaland um 1910 en flestir núverandi varnargarða voru gerðir á árabilinu 1930-1950 og hefur með þeim tekist að halda fljótinu í skefjum og verja land og mannvirki fyrir ágangi. Óvíst er þó að garðarnir myndu standast stórt jökulhlaup. Fljótið var mikill farartálmi fyrr á öldum en fyrsta brúin yfir það var byggð árið 1934 nálægt Litla-Dímon, allnokkru ofar en núverandi brú. Einnig er brú á fljótinu á Emstrum. Sigríður Þorgeirsdóttir. Sigríður Þorgeirsdóttir (fædd 1958) er íslenskur heimspekingur og prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hún varð árið 1997 fyrst kvenna til að verða fastráðinn kennari í heimspeki við skólann. Menntun. Sigríður lauk B.A.-prófi frá Boston-háskóla árið 1981. Hún stundaði framhaldsnám við sama skóla og við Freie háskólann í Berlín. Þaðan lauk hún M.A.-prófi árið 1988. Mastersritgerð hennar nefndist „Der Begriff 'décadence' in der Philosophie Nietzsches“. Sigríður lauk doktorsprófi frá Humboldt-háskólanum í Berlín árið 1993. Bók sem byggðist á doktorsritgerð hennar kom út árið 1996 og nefndist "Vis Creativa: Kunst und Wahrheit in der Philosophie Nietzches". Sigríður er formaður akademískrar stjórnar EDDU öndvegisseturs og formaður stjórnar GET (Gender Equality Training) sem er alþjóðlegur jafnréttisskóli við HÍ og samstarfsverkefni HÍ og utanríkissráðuneytisins. William Gershom Collingwood. Titilsíða Eddukvæðaútgáfunnar 1908. Myndskreyting eftir W. G. Collingwood. William Gershom Collingwood – (eða W. G. Collingwood) – (6. ágúst 1854 – 1. október 1932), var enskur rithöfundur, listmálari, fornfræðingur og prófessor í listfræði við Reading-háskóla, vestan við London. Collingwood ferðaðist um Ísland sumarið 1897 og gerði um 300 vatnslitamyndir og teikningar af sögustöðum. Æviágrip. Collingwood fæddist í Liverpool. Foreldrar hans voru William Collingwood, kunnur landslagsmálari, og Marie Imhoff, af svissneskum ættum. Árið 1872 fór Collingwood í Oxford-háskóla og lagði þar stund á heimspeki og fagurfræði og lauk námi með afburða vitnisburði 1876. Framhaldsnám stundaði hann við Listaháskólann í London (Slade School of Art) 1876–1878, og sýndi verk sín fyrst opinberlega 1880 í Royal Academy of Arts. Fyrsta rit hans kom út 1883 og nefndist „The Philosophy of Ornament“ (Heimspeki skreytilistar). Í Oxford kynntist Collingwood fagurfræðingnum og málaranum John Ruskin (1819–1900), sem var rómaður fyrirlesari og áhrifamikill rithöfundur um listræn efni. Hafði hann mikil áhrif á Collingwood. Árið 1875 gerðist Collingwood aðstoðarmaður Ruskins, og var starfsferill hans fram undir 1900 að verulegu leyti helgaður Ruskin. Hann átti þátt í útgáfu á mörgum ritum Ruskins og ritaði ævisögu hans í tveimur bindum (1893). Fluttist hann með fjölskyldu sinni til Vatnahéraðsins (Lakeland eða Lake District) og settist að í Coniston, skammt frá Brantwood, heimili Ruskins. Collingwood hélt málaralistinni við og málaði mikið í Vatnahéraðinu. Kynnti hann sér staðhætti og menningarsögu þess og sannfærðist um að menningin þar ætti norrænar rætur. Beindu þessar rannsóknir áhuga hans að fornnorrænni menningu og Íslendingasögum. Gerðist hann mikilvirkur í Fornfræðafélagi Cumberland- og Westmorelandhéraða (Cumberland & Westmoreland Antiquarian and Archaeological Society) og síðar í Fornleifafélaginu í ensku Miðlöndunum. Var síðari hluti starfsævi hans að mestu helgaður fræðimennsku og útgáfustarfsemi á sviði fornleifafræði. Hann varð forseti félagsins og sá einn um útgáfu á 32 bindum af ársritum þess og 12 aukaritum. Til þess að blása meira lífi í viðfangsefnið samdi hann tvær skáldsögur: "Thorstein of the Mere" ("Þorsteinn frá Tjörn"), 1895, og "The Bondwoman" ("Ambáttin"), 1896, sem gerast í Vatnahéraðinu. Collingwood tók mikinn þátt í starfsemi Víkingafélagsins í London (Viking Society for Northern Research) og var forseti þess um tíma. Þar kynntist hann Jóni Stefánssyni, sem vann með honum að nokkrum verkum, m.a. þýðingu á "Kormáks sögu": "The Life and Death of Kormac the Skald", sem kom út 1902 á vegum félagsins. Einnig kynntist hann Eiríki Magnússyni í Cambridge, sem einnig veitti Collingwood aðstoð. Eftir fráfall Ruskins árið 1900 urðu mikil umskipti á högum Collingwoods. Þegar hann hafði lokið helstu verkum í Brantwood, hóf hann störf í University College, Reading, árið 1905, og var prófessor þar í málaralist og fagurfræði 1907–1911. Hann festi þó ekki yndi þar og fluttist aftur til Vatnalandanna. Í fyrri heimsstyrjöldinni var Collingwood kvaddur til herþjónustu í upplýsingadeild breska flotans, en hann var þá sextugur. Varð þá hlé á fræðistörfum hans. Eftir stríðið átti hann þátt í gerð nokkurra minnismerkja um styrjöldina. Árið 1919 sneri hann aftur til Coniston og hélt áfram fræðistörfum um Vatnahéraðið og lauk sínu síðasta og merkasta verki: "Northumbrian Crosses of the pre-Norman Age", 1927. Árið 1883 giftist Collingwood Edith Mary Isaac (1857–1928), sem var listhneigð kona. Börn þeirra voru: Dorothy Susie Collingwood (1886–1964), eða Dóra, gift Ernest Altounyan, þau bjuggu lengst af í Sýrlandi, Barbara Crystal Collingwood (1887–1961), gift Oscar Gnosspelius, Robin George Collingwood (1889–1943), frægur sagnfræðingur og heimspekingur sem lærði mikið af föður sínum, og Ursula Mavis Collingwood (1891–1962), gift Reginald Bertram Luard-Selby. Collingwood fékk hjartaáfall árið 1927 og var eftir það lítils megnugur. Hann missti konu sína 1928, og dó sjálfur 1932. Íslandsförin 1897. Sumarið 1897 ferðaðist Collingwood um Ísland og gerði um 300 vatnslitamyndir og teikingar af sögustöðum landsins, sem hann notaði í bók sína "Pílagrímsför til sögustaða á Íslandi", sem kom út tveimur árum seinna. Aðstoðarmaður hans í ferðinni og við ritun bókarinnar var dr. Jón Stefánsson. Steindór Steindórsson frá Hlöðum þýddi bókina fyrir Örlyg Hálfdanarson, en hún hefur ekki enn komið út. Hins vegar gaf Örlygur út allmörg sendibréf Collingwoods úr Íslandsferðinni, og um 160 vatnslitamyndir, í bókinni "Fegurð Íslands og fornir sögustaðir". Yfir Íslandsmyndunum er rómantískur þokki og eru þær ómetanleg heimild um sinn tíma. Enski Íslandsvinurinn Mark Watson komst yfir um 163 myndir hjá ættingjum Collingwoods og víðar, og gaf hann Þjóðminjasafni Íslands myndirnar, þær síðustu skv. erfðaskrá 1979. (15 myndir eru frá Færeyjum). Um 1987 gaf Haraldur Hannesson Þjóðminjasafninu 38 af myndum Collingwoods, sem áður höfðu verið í eigu Jóns Sveinssonar (Nonna). Um 2001 komu fram nokkrar myndir, sem höfðu verið í eigu dr. Jóns Stefánssonar. Þær eru flestar úr Grundarfirði, en Jón var ættaður þaðan. Þá eru nokkrar myndir, ásamt hluta af skjalasafni Collingwoods, í Abbot Hall listasafninu, í Kendal í Vatnahéraðinu. Loks voru allmargar myndir (eftirgerðir) og skjöl afhent Collingwood Society í Cardiff í Wales (um 2010). Félagið er helgað minningu sonar listamannsins, heimspekingsins Robins George Collingwoods. Altaristaflan í kirkjunni á Borg á Mýrum er eftir Collingwood, en taflan var pöntuð hjá honum eftir Íslandsförina. Myndefnið er: „Leyfið börnunum að koma til mín“, og hafði Collingwood börn sín sem fyrirmyndir. Collingwood fékkst talsvert við að myndskreyta bækur, m.a. Eddukvæðin í enskri þýðingu, 1908. Þann 19. júlí 2012 fékk Þjóðminjasafn Íslands afhent Íslandskort, sem Collingwood hafði með sér í ferðinni 1897, og merkti inn það á leið sína. Það var sonardóttir listamannsins, Teresa (Collingwood) Smith, sem afhenti kortið í tilefni af pílagrímsför 30 Englendinga um sömu slóðir. Tenglar. Collingwood, W. G. Collingwood, W. G. Salvör Nordal. Salvör Nordal (fædd 1962) er íslenskur heimspekingur. Faðir hennar er Jóhannes Nordal, fv. seðlabankastjóri. Menntun. Salvör lauk B.A.-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1989. Hún lauk M.Phil-prófi í félagslegu réttlæti (e. "Social Justice") og hefur stundað doktorsnám í heimspeki við Calgary-háskólann í Canada. Salvör er stundakennari við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Siðfræðistofnunar. Hákettir. Háf-kettir eða há-kettir eru undirflokkur brjóskfiska sem hefur roð en ekki skráp. Sveinn Hákonarson. Sveinn Hákonarson Hlaðajarl (d. um 1016) réði ríkjum í Noregi ásamt Eiríki hálfbróður sínum frá því um 1000 til 1014 og með Hákoni syni Eiríks 1014-1015, í umboði Sveins tjúguskeggs Danakonungs. Sveinn var sonur Hákonar Sigurðssonar Hlaðajarls og konu hans, Þóru Skagadóttur Skoftasonar. Hann átti alsystkinin Heming og Bergljótu. Hálfbróðirinn Eiríkur var elstur og var frillusonur. Hann þótti þó að mörgu leyti fremri bróður sínum og í orrustunni í Hjörungavogi, þar sem þeir voru báðir, ætlaði Sveinn að flýja undan Vagni Ákasyni en bróðir hans kom þá og hrakti Vagn frá og náði að handsama hann. Þeir bræður flýðu báðir til Svíþjóðar undan Ólafi Tryggvasyni eftir að faðir þeirra var drepinn en Sveinn var ekki með í Svoldarorrustu, þar sem Ólafur féll. Eftir það skiptu þeir Noregi á milli sín - Svíinn Ólafur skotkonungur fékk einnig nokkur héröð - en töldust þó báðir lénsmenn Sveins tjúguskegg og báru ekki konungsnafnbót. Eiríkur jarl hélt til Englands í herför árið 1014 og lét Hákoni syni sínum eftir veldi sitt. Hákon og Sveinn stýrðu ríkinu saman til hausts 1015, en þá kom Ólafur helgi til landsins og gerði kröfu til konungsstólsins. Hann vann sigur á Sveini í orrustu en Sveini tókst að flýja til Svíþjóðar. Þar ætlaði hann að koma sér upp her og vinna Noreg að nýju en dó áður en af því yrði. Kona Sveins var Hólmfríður, sem var annaðhvort systir eða dóttir Ólafs skotkonungs af Svíþjóð. Dóttir þeirra var Sigríður, sem giftist Ásláki syni Erlings Skjálgssonar, og líklega einnig Gunnhildur, sem giftist Sveini Ástríðarsyni Danakonungi. Hákon Eiríksson. Hákon Eiríksson Hlaðajarl (996 – 1029) réði yfir Noregi með Sveini föðurbróður sínum 1014-1015. Þeir höfðu öll völd í landinu en töldust þó ekki konungar. Hákon var sonur Eiríks Hákonarsonar Hlaðajarls og Gyðu konu hans, dóttur Sveins tjúguskeggs. Sveinn taldist yfirkonungur Noregs frá því að Ólafur Tryggvason féll árið 1000 en Hlaðajarlarnir Eiríkur og Sveinn stýrðu landinu í umboði hans. Þegar Eiríkur fór í herför til Englands árið 1014 lét hann Hákoni eftir sinn hluta ríkisins og naut hann stuðnings höfðingjans Einars þambarskelfis. Ekki varð veldi hans þó langætt því haustið 1015 kom Ólafur helgi til Noregs og gerði tilkall til konungsembættisins. Hann vann sigur á Sveini í orrustu og handtók Hákon en gaf honum grið og leyfði honum að fara til föður síns gegn því að hann kæmi ekki aftur. Eftir að Knútur ríki hafði hrakið Ólaf úr landi 1028 gerði hann Hákon að jarli yfir Noregi en ekki entist það heldur lengi því hann drukknaði í Norðursjó ári síðar. Kona hans var Gunnhildur af Póllandi og áttu þau dótturina Bóthildi. Hættir sagna. Sögn hefur svokallaða hætti eftir því hvernig eitthvað er látið í ljós. Hættirnir sýna afstöðu málnotanda til þess sem stendur í setningunni, svo sem vissu og óvissu, möguleika, skipun, ósk. Wolfsburg. Wolfsburg er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 120 þúsund íbúa. Hún er helst þekkt fyrir Volkswagen verksmiðjurnar stóru sem framleiddi VW bjölluna. Borgin var gagngert mynduð fyrir starfsfólk verksmiðjanna um miðja 20. öldina. Lega. Wolfsburg liggur við miðþýska skipaskurðinn ("Mittellandkanal") og er austasta borgin í Neðra-Saxlandi. Hún var áður landamæraborg að Austur-Þýskalandi (Saxland-Anhalt). Næstu borgir eru Brúnsvík til suðvesturs (20 km), Hannover til vesturs (50 km) og Magdeburg til suðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Wolfsburg sýnir appelsínugulan úlf á hvítu borgarvirki. Virkið er hin gamla Wolfsburg. Úlfurinn er ættarmerki ættarinnar sem lét reisa það. Vatnið fyrir framan er skipaskurðurinn mikli sem borgin stendur við. Skjaldarmerki þetta var hannað 1947, en ekki samþykkt fyrr en 1952. Seinustu breytingar á því voru gerðar 1961. Merkið á að vísa til heiti borgarinnar, þ.e. úlfur ("Wolf") og borg ("Burg"). Orðsifjar. Wolfsburg heitir eftir samnefndu kastalavirki sem Bartensleben-ættin sem lét reisa á 14. öld. Úlfurinn var einkennisdýr ættarinnar og skírskotar ekki til þess að úlfar hafi lifað þar á þeim tíma (ekki frekar en ljón í skjaldarmerkjum annarra borga). Söguágrip. Milljónasta VW bjallan er gullslegin Wolfsburg er ein yngsta borgin í Þýskalandi. Upphaflega voru kastalavirkin tvö, Wolfsburg (kom fyrst við skjöl 1302) og Neuhaus (kom fyrst við skjöl 1371). Einhver þorp mynduðust við þessi virki en þau voru ekki sameinuð fyrr en 1938 þegar hinar stóru Volkswagen verksmiðjur voru stofnaðar við Mittellandkanal, skipaskurðinn mikla. Ástæðan fyrir sameininguna var sú að skapa þéttbýli og fá vinnufólk í verksmiðjurnar. Aðeins sjö árum seinna, 1945, urðu verksmiðjurnar fyrir loftárásum bandamanna og skemmdust talsvert. Bretar hertóku þær og það litla þéttbýli sem þegar hafði myndast. Þeir breyttu þá heiti sveitarfélagsins opinberlega í Wolfsburg, eftir gamla kastalavirkinu. Skjótt var bílaframleiðslunni áframhaldið en þar voru hinar geysivinsælu VW bjöllur framleiddar. Til stóð að flytja framleiðslutækin burt en breski hernámsstjórinn kom í veg fyrir það með því að láta verksmiðjurnar framleiða bíla fyrir England. 1951 var Wolfsburg splittað úr sveitarfélaginu Gifhorn og fékk eigin borgarréttindi. Þar með varð Wolfsburg að einni yngstu borg Þýskalands. 1955 kom milljónasta bjallan af færibandinu. 1972 varð breyting á sveitarfélögum, þannig að 20 þorp voru innlimuð í Wolfsburg, sem við það varð að stórborg með yfir 100 þúsund íbúa. 2003 var framleiðslu á bjöllunni hætt en framleiðsla á öðrum Volkswagen tegundum tók við. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er VfL Wolfsburg, sem varð þýskur meistari 2009. Félagið komst í fyrsta sinn í fyrstu Bundesliguna 1997 og hefur, ásamt örfáum öðrum félögum, aldrei fallið úr þeirri deild. Volkswagen. Volkswagen (oft skammstafað sem VW) er þýskur bifreiðaframleiðandi staddur í Wolfsburg, Neðra-Saxlandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1937 af Deutsche Arbeitsfront, verkalýðshreyfingu nasista. Volkswagen er helsta merki Volkswagen Group fyrirtækis, sem á líka Audi, Bentley, Bugatti, Lamborghini, SEAT, Škoda og vörubílaframleiðanda Scania. Árið 2009 sameinaðist fyrirtækið Porsche, sem er undir stjórn Volkswagen. Í november á sama ári tóku Volkswagen og Porsche yfir Toyota, og þá varð heimsins stærsti bifreiðaframleiðandi eftir framleiðslumagn. Volkswagen þýðir „fólksvagn“ á þýsku og er borið fram. Núverandi slagorð Volkswagen er "Das Auto" („bíllinn“). Áður var slagorðið "Aus Liebe zum Automobil", sem þýðir „vegna ástar fyrir bílinn“. Nokkur helstu bifreiða sem framleiddar hafa verið af Volkswagen er Beetle („Bjallan“), Golf og Polo. Hildesheim. Hildesheim er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 103 þúsund íbúa. Hún er minnsta stórborg Neðra-Saxlands (með meira en 100 þúsund íbúa). Í borginni eru tvær kirkjur á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Hildesheim liggur við ána Innerste mjög sunnarlega í Neðra-Saxlandi. Næstu borgir eru Hannover til norðurs (30 km), Brúnsvík til norðausturs (40 km) og Hameln til vesturs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Hildesheim sýnir svartan örn á hvítum skildi. Fyrir neðan eru gulir og rauðir taflreitir. Efst er mær (kölluð "Hildesia") sem heldur á rósakransi. Guli og rauði liturinn eru litir borgarinnar. Örninn er tákn um gamla þýska keisararíkið. Merki þetta var veitt 1528 af Karli V keisara og hefur verið í gildi síðan. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Hildinisheim, sem merkir "bær Hildins", en Hildin er gamalt mannanafn (skylt Hildur á íslensku). Upphaf. Bærinn myndaðist á 9. öld eftir að Karlamagnús náði að vinna landsvæðið af söxum. Dómkirkja var reist þar skömmu seinna. Á 12. og 13. öld mynduðust tveir aðrir bæir, Dammstadt og Neustadt. Dammstadt var þurrkuð út í erjum og Neustadt og Hildesheim voru lengi vel fjendur. Oft áttu bæirnir í stríði, en komust að friðarsamkomulagi 1583 og var múrinn milli bæjanna þá rifinn niður. Siðaskiptin voru innleidd 1542 í Hildesheim er Johannes Bugenhagen predikaði þar, en hann var einn ötulasti siðaskiptafrömuður á tímum Marteins Lúthers. Hins vegar fóru siðaskiptin rólega fram, þannig að kaþólska kirkjan náði að haldast við áfram. Dómkirkjan hélst til dæmis kaþólsk. Nýrri tímar. 1803 komst Hildesheim tímabundið í eigu Prússlands. Þá voru Neustadt og Hildesheim loks sameinaðar í eina borg. 1807 var borgin sameinuð konungsríki Vestfalíu og 1813 konungsríki Hannover. Hún varð svo endanlega prússnesk 1866 er prússar hertóku Hannover. 1868 fannst mikið rómverjasilfur frá 1. öld e.Kr. í borginni, sem talinn er einn stórkostlegasti fornleifafundur Þýskalands. 22. mars 1945 varð borgin fyrir gífurlegum loftárásum þar sem nær öll miðborgin gjöreyðilagðist. Aðeins örfáum dögum seinna hertóku breskar herdeildir borgina. Ekki var byrjað að endurreisa borgina fyrr en 1948. Sú endurreist stendur enn yfir. 1970 voru nokkur jaðarsvæði sameinuð borginni, sem þar með náði í fyrsta sinn yfir 100 þúsund íbúa. Í dag er mikill iðnaður í borginni. Helstu fyrirtæki þar eru Bosch og Blaupunkt. 1989 var háskólinn Universität Hildesheim stofnaður. 1993 yfirgáfu síðustu bresku hermenn borgina. Frægustu börn borgarinnar. Mikjálskirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO Dráparar. Dráparar eru í bókunum um Harry Potter fylgismenn Voldemorts. Auk Voldemorts eru drápararnir sex að tölu: Severus Snape, Luius Malfoy Yaxley, Dolohov og Bellatrix Lestrange. Allir dráparar koma úr Slytherin-vistinni. Írskur úlfhundur. Írskur úlfhundur er gríðar stórt hundarkyn ættað frá Írlandi. Eugene Terre'Blanche. Eugène Ney Terre'Blanche (31. janúar 1941 – 3. apríl 2010) var afríkanskur Búi sem stofnaði samtökin Afrikaner Weerstandsbeweging (AWB) á tímum aðskilnaðar hvítra og svartra í Suður Afríku. Þau börðust hatrammlega gegn afnámi aðskilnaðarstefnunnar og hótuðu borgarastyrjöld í aðdraganda fyrstu frjálsu kosninganna í landinu. Terre'Blanche var um aldamótin dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir morðtilraun og afplánaði þrjú ár af dómnum. Allt til dauðadags var hann leiðtogi AWB og þrýsti á um sérstakt ríki hvítra Búa innan Suður-Afríku. Bakgrunnur. Terre'Blanche fæddist árið 1941 á sveitabýli í Transvaal bænum Ventersdorp í Suður-Afríku. Afi hans barðist fyrir Bóa í öðru Búastríðinu, og faðir hans var ofursti í landher Suður-Afríku. Nafnið Terre'Blanche („Hið hvíta land“ eða „Hin hvíta jörð“ úr frönsku) má rekja til franska húganottans Estienne Terreblanche frá Toulon, sem kom til Höfðaborgar árið 1704. Eugene Ney Terre'Blanche var kunnur talsmaður kynþáttahyggju og nýfasisma í Suður-Afríku sem barðist á níunda áratug síðustu aldar fyrir áframhaldandi aðskilnaði hvítra og svartra Afrikaner Weerstandsbeweging. Terre'Blanche barist á sjöunda áratugnum gegn því sem hann kallaði „frjálslynda stefnu“ í B.J. Vorster, þá forsætisráðherra í Suður-Afríku. Terre'Blanche stofnaði árið 1970 með sex öðrum Búum, samtökin Afrikaner Weerstandsbeweging (AWB). Samtökin náðu á sínum tíma 70.000 félagsmönnum af hægri væng hvítra íbúa Suður Afríku. Megináherslan var á kynþáttahyggju með yfirráðum hvíta kynstofnsins og nýfasisma. Hótanir og hryðjuverk. Terre'Blanche leit á endalok aðskilnaðarstefnunnar sem uppgjöf við kommúnisma og hótaði borgarastyrjöld ef þáverandi forseti Suður-Afríku FW de Klerk afhenti völd til Nelson Mandela og samtaka hans Afríska þjóðarráðsins. Þegar De Klerk hélt fund í Ventersdorp heimabæ Terre'Blanche, árið 1991, stýrði Terre'Blanche mótmælum sem enduðu í átökum AWB við lögreglu og fjöldi fólks lét lífið. Árið 1993 stýrði hann meðal annars innrás í World Trade Centre í Kempton Park í Höfðaborg til að trufla samningaviðræður milli minnihlutastjórnar hvítra og leiðtoga svartra. Átök og fangelsi. Terre'Blanche og samtök hans AWB voru mjög áberandi í suður-afrískum og alþjóðlegum fjölmiðlum á áttunda og níunda áratugnum. Samtökin biðu verulegan hnekki í átökum þegar sjálfsstjórnarríkið Bophuthatswana sameinaðist að fullu Suður Afríku. Tugir manna létu þá lífið. Hótun Terre'Blanche um borgarastríð gekk aldrei eftir. Þann 17. júní 2001 var Terre'Blanche dæmdur í sex ára fangelsi, fyrir mjög alvarlega líkamsárás á starfsmann bensínstöðvar og morðtilraunar á öryggisverði árið 1996. Hann var látinn laus eftir þrjú ár. Náðun. Eftir lok aðskilnaðarstefnu, leituðu Terre'Blanche og stuðningsmenn hans náðunar vegna árásarinnar á World Trade Centre, átakanna í Ventersdorp, og annarra gerða. Náðun var veitt „Sannleiks og sáttanefndinni“ svokölluðu sem sett var á fót þegar aðskilnaðarstefnan var afnumin. Í mars 2008 boðuðu AWB samtökin endurkomu í stjórnmál Suður Afrískra stjórnmála. Ástæður þess voru meðal annars sagðar opinber spilling og hömlulaus glæpastarfsemi. Í júní sama ár var tilkynnt um stofnun æskulýðssamtaka AWB. Terre'Blanche var einn stofnandi þeirra. Eugene Terre'Blanche var barinn til bana á búgarði sínum í norðvesturhluta Suður-Afríku 3. apríl 2010. Tveir voru handteknir fyrir að berja hann til dauða. Skáldið Terre'Blanche. Terre'Blanche var einnig skáld. Verk hans voru á kennsluskrá í skólum í Natal héraði. Hann gaf einnig út á geisladisk safn ljóða sinna og nú síðast á DVD disk. Dómkirkjan í Hildesheim. Dómkirkjan er helguð heilagri Maríu mey Dómkirkjan í Hildesheim er merkasta bygging þýsku borgarinnar Hildesheim. Hún var reist á 9. öld og eru í henni mýmörg miðalda listaverk. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga dómkirkjunnar. Rósarunninn við dómkirkjuna er sá elsti í heimi Kirkjan er orðin mjög gömul. Smíðin hófst 872 undir Altfrid biskup. Frá 11. öld og allt til 14. aldar voru framkvæmdar stækkanir og gerðar viðbyggingar. Í siðaskiptunum varð dómkirkjan lútersk og er hún það enn. Kirkjan stórskemmdist í loftárásum 1945. Viðgerðir fóru fram 1950-60. Dómkirkjan var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1985. Rósarunni. Þekktur er einnig rósarunni nokkur sem vex á lóð kirkjunnar. Þjóðsagan segir hann hafa verið plantaður árið 815 af Lúðvík hinum þýska (barnabarn Karlamagnúsar). Lúðvík var eitt sinn á veiðum og áði á góðum stað þar sem hann lét lesa messu. Á meðan hafði hann hengt upp helgiskrín af Maríu mey á rósarunna. En þegar messu lauk hafi verið ómögulegt að losa skrínið af runnanum. Því hafi hann ákveðið að láta reisa dómkirkjuna á staðnum og helga hana Maríu mey. Runninn er nú að verða 1.200 ára gamall, en ekki er lengur hægt að sanna aldur hans. Í loftárásum 1945 brann runninn og grófst undir braki kirkjunni. Þá þótti mönnum sem endalok runnans væru komin. En ræturnar reyndust lifandi og úr þeim tókst að mynda nýja runna. Þeir blómguðust í fyrsta sinn 1947. Síðan þá er rósin einkennismerki borgarinnar. Rósarunninn er elsta lifandi rós heims. Bernwardshurðin. Á vesturhlið dómkirkjunnar er mikil bronshurð, kölluð Bernwardshurðin. Þær eru reyndar tvær og voru gerðar 1015. Báðar eru þær skreyttar myndum úr Biblíunni. Myndirnar sýna sköpunina, syndafallið og önnur atriði úr 1. Mósebók, en einnig atriði úr ævi Jesú. Hurðirnar sjálfar eru 4,7 m háar, en misbreiðar (114 cm og 125 cm). Myndirnar eru elsta stóra myndasería Þýskalands. Þær sneru upphaflega út, þannig að gangandi vegfarendur og kirkjugestir gátu litið á þær. En í seinni tíð var hurðunum breytt þannig að myndirnar snúa inn. Það var gert í forvarnarskyni, svo þær yrðu síður fyrir skemmdum eða áfalli vegna bílaumferðar. Kristssúlan. Kristssúlan (oft kölluð "Bernwardssúlan") átti upphaflega að standa í Mikjálskirkjunni í Hildesheim, þar sem heilagur Bernward hvílir. Það var Bernward sjálfur sem lét smíða súluna úr bronsi og voru Trajanusarsúlan og Markús-Árelíusar-súlan í Róm fyrirmyndir. Myndefnið var greypt á í spíralformi niður á við. Í stað atriða úr ævi rómversku keisaranna, var myndefnið um Jesú, allt frá skírn hans í ánni Jórdan til innreiðar hans í Jerúsalem á pálmasunnudegi. Súlan stóð upphaflega á miklum palli, einnig úr bronsi, en efst á súlunni var gríðarmikill kross. Bæði pallurinn og krossinn eru horfin. Pallurinn var bræddur og bronsið notað í fallbyssu. Krossinn var stolinn (og sennilega seldur eða bræddur) 1544 í trúaróróa siðaskiptanna. Eftir stóð súlan ein. Hún sjálf er 379 cm á hæð og 58 cm í þvermál. Þegar Frakkar lögðu söfnuðinn niður á Napoleonstímanum 1810, tók sig biskup einn til og keypti súluna með aðstoð efnaðra borgara. Hún var í kjölfarið sett í jörð á torgi einu í borginni. 1870 var nýr pallur smíðaður fyrir súluna, en vegna vaxandi umferðarþunga var hún sett inn í dómkirkjuna 1893. Þar stóð súlan allt til 2009, er framkvæmdir hófust við uppgerð kirkjunnar. Var hún þá færð á upprunalega stað sinn, í Mikjálskirkjuna. Þar stendur hún í dag og verður ekki færð aftur í dómkirkjuna fyrr en að framkvæmdum loknum, árið 2014. Hringljósið. Í kirkjunni hangir hringlaga ljósakróna (á þýsku: "Heziloleuchter"). Hún var smíðuð um miðja 11. öld af Hezilo biskupi og þaðan er þýska heitið komið. Hringljósið er gert úr kopar og húðað gulli. Á hlið þess er innskrift á latínu. Hringurinn er 6 metra í þvermál. Á efri hluta hans hvíla 72 kerti. Um sinn hékk hringljósið fyrir ofan Kristssúluna, þar til súlan var færð úr kirkjunni 1810. Aðeins þrjú önnur hringljós eru til í Þýskalandi: Í Antoníusarkirkjunni í Hildesheim, í dómkirkjunni í Aachen og í klausturkirkjunni í Comburg. Hringljósið sem þessari kirkju er hins vegar það stærsta. Bernwardkrossinn. Bernwardkrossinn er merkasti dýrgripurinn í Hildesheim. Hér er ekki um krossinn, sem stóð uppi á Kristssúlunni að ræða, heldur kross sem Bernward biskup lét smíða í kringum flísar úr krossi Jesú. Sagan segir að Otto III keisari hafi gefið biskupi flísarnar snemma á 11. öld. Hins vegar er talið að sá kross hafi týnst og að núverandi kross sé eftirmynd frá 12. öld. Krossinn sjálfur er 48 cm hár og alsettur gimsteinum. Krossflísarnar eru fyrir neðan stóra bergkristalinn fyrir miðju. Upphaflega stóð krossinn á altarinu í Mikjálskirkjunni. 1810 var hann fluttur í Magdalenukirkjuna, en í dómkirkjuna á 20. öld. Skírnarfontur. Skírnarfonturinn í dómkirkjunni er gerður úr bronsi og var smíðaður snemma á 13. öld. Fonturinn lítur út eins og risa ketill með stóru loki. Hann er alls 170 cm á hæð og 96 cm í þvermál. Fonturinn hvílir á fjórum mannsfígúrum sem eiga að tákna dyggðir. Bæði á fontinum og á lokinu eru myndir af skírnum og nokkrar áletranir. Fonturinn stóð upphaflega í vesturhluta kirkjuskipsins, en stendur í dag í einni hliðarkapellunni (Georgskapellunni). Eftir uppgerð kirkjunnar (verklok 2014) er ráðgert að setja fontinn undir hringljósið. Blekbyttumaría. Blekbyttumaría ("Tintenfassmadonna") er heiti á Madonnumynd sem hangir í dómkirkjunni. Hún var smíðuð 1430 og sýnir Maríu mey í bláu klæði með gullkórónu á höfði. Í vinstri hendi heldur hún á Jesúbarninu, en í hægri hendi heldur hún á blekbyttu. Þaðan er heitið tilkomið. Jesúbarnið sjálft heldur á ritfjöður og er að skrifa á bókrollu sem hvílir á hnjám hans. Slíkt mótíf er afar sjaldgæft í Madonnumyndum. Talið er að Jesús sé þarna að rita nöfn réttlátra manna í Bók lífsins. Hvíldarstaður heilagra. Í dómkirkjunni hvíla tveir heilagir: Heilagur Epifaníus frá Pavía og heilagur Godehard frá Hildesheim. Skrín með líkamsleifum beggja er að finna í kirkjunni, þó sitt á hvorum staðnum. Wilhelmshaven. Wilhelmshaven er hafnarborg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 81 þúsund íbúa. Hún er stærsta borg héraðsins Austur-Fríslands og er næstvestasta hafnarborg Þýskalands (á eftir Emden). Wilhelmshaven er og hefur verið mikilvægasta herskipahöfn Þýskalands við Norðursjó. Lega. Gömul og ný herskip til sýnis í höfninni í Wilhelmshaven Wilhelmshaven liggur við flóann Jadebusen að vestanverðu, sem gengur suður úr Vaðhafinu (Norðursjó), fyrir sunnan austustu eyju Austurfrísnesku eyjanna. Næstu borgir eru Bremerhaven til austurs (25 km í loftlínu), Aldinborg til suðurs (30 km) og Emden til vesturs (75 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Wilhelmshaven sýnir hermann gamla tímans, klæddan í rauðu á gulum grunni. Hermaðurinn er frísi enda er Wilhelmshaven í Austur-Fríslandi. Litir borgarinnar eru gulur og rauður. Merki þetta er upprunnið á miðöldum en var formlega tekið upp í borginni 1949. Orðsifjar. Bærinn myndaðist í kringum nýja höfn sem átti að heita "Zollern am Meer". En 1869 heimsótti Vilhjálmur I prússakonungur höfnina og var hún því nefnd Wilhelmshaven honum til heiðurs. Nafnið er skrifað með norðurþýskum rithætti, þ.e. "–haven" í stað "–hafen" (sbr. Cuxhaven og Bremerhaven). Söguágrip. Fjögur herskip í smíðum. Mynd frá 1928. Upphaflega bjuggu frísar á landsvæðinu. En síðustu aldir átti stórhertogadæmið Aldinborg landið í kring. 1853 keypti Prússland landið allt af Aldinborg í þeim tilgangi að mynda höfn við Norðursjó. Fram að þessum tíma voru prússar ekki með neina hafnaraðstöðu við Norðursjó. Höfnin sjálf var ekki byggð fyrr en 1856 og upp úr því myndaðist bærinn. Höfnin var loks vígð 1869 að viðstöddum Vilhjálmi I konungi Prússlands. Honum til heiðurs fékk byggðin heitið Wilhelmshaven. Aðeins tveimur árum síðar varð Prússland að keisararíki. Vilhjálmur I ákvað þá að nota Wilhelmshaven sem herskipahöfn og hefur hún verið það síðan með hléum. 1873 fékk Wilhelmshaven loks borgarréttindi. Höfnin var einnig mikið notuð til siglinga í þýsku nýlendurnar í Afríku og víðar. Um aldamótin 1900 voru herskip smíðuð í höfninni. Til að smíða betri og stærri herskip var höfnin stækkuð umtalsvert. Við lok heimstyrjaldarinnar fyrri voru 20 þúsund manns í vinnu við skipasmíðarnar, þar á meðal konur. Eftir stríð var reynt að nota Wilhelmshaven sem fiskihöfn, en sú tilraun mistókst sökum lítillar eftirspurnar eftir fiski á þessum árum. Þess í stað var aftur byrjað á því að smíða skip, ekki síst herskip. Nasistar héldu því áfram og stækkuðu höfnina enn frekar. 1939 fór íbúatalan í fyrsta sinn yfir 100 þús und(náði þá 113 þúsund). Síðan þá hefur hún dalað aftur. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir töluverðum loftárásum sökum þess hve mikilvæg herskipahöfn hún var. Borgin varð alls fyrir 100 loftárásum og eyðilagðist 60% hennar. 6. maí 1945 hertóku pólskar herdeildir borgina en þær voru í stríðinu staðsettar í Skotlandi. Stuttu seinna skiluðu þeir Bretum borgina, enda lá hún á hernámssvæði þeirra. Bretar tóku til við að eyða herskipahöfninni og sprengdu skipasmíðastöðvarnar, hafnaraðstöðurnar og önnur hernaðarmannvirki. Aðeins lítill hluti hafnarinnar var eftir skilin sem átti að þjóna héraðinu sem flutninga- og fiskihöfn. 1956 varð borgin herskipahöfn á ný og er sú eina í Þýskalandi í dag við Norðursjó. Viðburðir. Hafnarhátíðin ("Wochenende an der Jade") er þjóðhátíð borgarinnar og hefur verið haldin árlega síðan 1950, yfirleitt fyrstu helgi í júlí. Hátíðin er með breytilegu þema sem gjarnan laðar að fólk úr nágrannalöndunum. Í upphafi var hátíðin eingöngu haldin við höfnina en hefur verið að dreifast um borgina síðustu áratugi. 1999 sóttu 385 þúsund gestir hátíðina en það var þá metaðsókn. Hátíðin er aldrei eins en yfirleitt sigla stór seglskip inn í höfnina, herskipalægið er opið almenningi, farið er í skrúðgöngu, sett eru upp leiktæki og flóamarkaðir, fornbílar mæta á staðinn og í lokin er flugeldasýning. Afrikaner Weerstandsbeweging. The Afrikaner Weerstandsbeweging (AWB) eru samtök sem voru stofnuð af Eugene Terre'Blanche árið 1973 til að berjast fyrir sjálfstæðu lýðveldi afríkanskra Búa ("Volkstaat /Boerestaat") innan Suður-Afríku, byggðum á gildum nýfasisma og yfirráðum hvíta kynstofnsins. Merki AWB, sem berjast fyrir sjálfstæðu lýðveldi afríkanskra Búa innan Suður Afríku, byggðum á gildum nýfasisma og yfirráðum hvíta kynstofnsins. Saga. „Afrikaner Weerstandsbeweging“ (á ensku: Afrikaner Resistance Movement) eða AWB, voru stofnuð 7. júlí 1973 í bílskúr í bænum Heidelberg í Transvaal-héraði (nú Gauteng), suðaustur af Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Leiðtogi samtakanna var Terre'Blanche sem hafði barist á sjöunda áratugnum gegn því sem hann kallaði „frjálslynda stefnu“ í B.J. Vorster, þá forsætisráðherra í Suður-Afríku og auknum áhrifum kommúnisma í Suður-Afríku. Markmið. Markmið samtakanna var að koma á fót sjálfstæðu lýðveldi Búa („Boer State“), innan Suður-Afríku. Með því vildi AWB endurheimta það land sem glataðist í seinna Búastríðinu og endurvekja hið sjálfstæða lýðveldi Búa: Suður-Afríska lýðveldið („Zuid-Afrikaansche Republiek“) og Hið frjálsa lýðveldi Oraníu („Oranje Vrystaat“). Samtökin náðu á sínum tíma 70.000 félagsmönnum af hægri væng hvítra íbúa Suður-Afríku. Megináherslan var á kynþáttahyggju með yfirráðum hvíta kynstofnsins og nýfasisma. Sandra Bullock. Sandra Annette Bullock (fædd 26. júlí 1964) er bandarísk leikkona og framleiðandi sem öðlaðist frægð á 10. áratugnum með vinsælum myndum eins og "Demolition Man", "Speed", "The Net", "A Time To Kill" og "While You Were Sleeping". Síðan þá hefur hún leikið í kvikmyndum eins og "Miss Congeniality", "The Lake House" og "Crash" sem fengu góða dóma gagnrýnenda. Árið 2007 var hún 14. ríkasta kvenkyns stjarnan með eignir metnar á alls 85 milljónir bandaríkjadala. Árið 2009 lék hún í tekjumeiri myndum ferils síns, "The Proposal" og "The Blind Side". Bullock fékk Golden Globe verðlaunin fyrir bestu leikkonu, SAG-verðlaun fyrir framúrskarandi frammistöðu leikkonu í aðalhlutverki og Óskarsverðlaun fyrir bestu leikkonu fyrir hlutverk sitt sem Leigh Anne Tuohy í "The Blind Side". Hún er í Heimsmetabók Guinnes árið 2012 fyrir að vera hæst launaða leikkonan, með 56 milljónir Bandaríkjadala. Æska. Sandra Annatte Bullock fæddist í Arlington í Virginíu sem er úthverfi borgarinnar Washington, D.C.. Faðir hennar, John W. Bullock (f. 1925) var bandarískur hermaður og raddþjálfari í hlutastarfi frá Birmingham, Alabama, og móðir hennar, Helga D. Meyer (1942-2000), var þýsk óperusöngkona og raddkennari. Móðurfaðir Bullock var eldflaugafræðingur frá Nürnberg í Þýskalandi. John Bullock hitti eiginkonu sína í Nürnberg þar sem hann var staðsettur vegna herþjónustu sinnar. Þau giftust í Þýskalandi en fluttu fljótlega til Arlington þar sem John Bullock vann með hernum. Bullock fylgdi móður sinni oft á óperuferðalögum hennar um Evrópu. Hún eyddi tíma í Salzburg og Nürnberg, þar sem hún var með frænku sinni og ömmmu og lærði þýsku. Bullock lærði ballet og raddlist sem barn og tók að sér lítil hlutverk í óperuverkum móður sinnar. Hún söng í óperu fyrir börn í kórnum í Staatstheater Nürnberg Bullock gekk í Washington-Lee menntaskólann þar sem hún var klappstýra og tók þátt í leikritum á vegum skólans. Eftir útskrift árið 1982 skráði hún sig í East Caroline háskólann í Greenville í N-Karólínu. Hún hætti hins vegar á fjórða árinu, vorið 1986, þegar hún átti aðeins eftir að klára þrjár einingar til að útskrifast, til að verða leikkona. Hún flutti til Manhattan og hélt sér uppi með því að vinna sem barþjónn, gengilbeina og fleira. Hún tók síðar þær einingar sem upp á vantaði og útskrifaðist frá East Carolina háskólanum. Ferill. Bullock á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2002. Þegar Bullock var í New York sótti hún leiklistartíma í Neighborhood Playhouse. Hún lék í nokkrum kvikmyndum nemanda og landaði seinna hlutverki í leikritinu "No Time Flat". Leikstjórinn Alan J. Levi varð hrifinn af frammistöðu Bullock og bauð henni hlutverk í sjónvarpsmyndinni "Bionic Showdown: The Six Million Dollar Man and the Bionic Woman" árið 1989. Eftir að hafa leikið í sjónarpsmyndinni var Bullock áfram í Los Angeles og var ráðin í lítil hlutverk í nokkrum óháðum kvikmyndum og einnig aðalhlutverkið í skammlífu NBC-sjónvarpsútgáfunni af kvikmyndinni "Working Girl" (1990). Hún lék seinna í nokkrum kvikmyndum, svo sem "Love Potion No. 9" (1992), "The Thing Called Love" (1993) og "Fire on the Amazon" (þar sem hún samþykkti að koma fram ber að ofan ef myndavélin sýndi ekki það mikið; hún huldi sig með límbandi, sem var mjög sársaukafullt að fjarlægja). Eitt fyrsta eftirtektarverða hlutverk Bullock var í vísindaskáldsögu-/hasarmyndinni "Demolition Man" (1993) með leikurunum Sylvester Stallone og Wesley Snipes. Þetta hlutverk varð til þess að hún fékk stóra hlutverkið í myndinni "Speed" ári seinna. Hún varð fræg kvikmyndastjarna seinni hluta 10. áratugarins og bættust mörg stór hlutverk á ferilskrána, meðal annarra "While You Were Sleeping", þar sem hún hljóp í skarðið fyrir leikkonuna Demi Moore sem átti upphaflega að leika í myndinni, og "Miss Congeniality". Sandra fékk 11 milljónir dala fyrir að leika í "Speed 2: Cruise Control" og 17,5 milljónir fyrir "Miss Congeniality 2: Armed & Fabulous". Bullock var valin á lista tímaritsins "People" yfir fallegasta fólk í heiminum árin 1996 og 1999 og var einnig í 58. sæti á lista tímaritsins "Empire" yfir 100 bestu kvikmyndinastjörnur allra tíma. Hún fékk Raúl Juliá-verðlaunin árið 2002 fyrir framlag sitt sem aðalframleiðandi gamanþáttarins George Lopez og hjálpaði það henni að opna ferilinn meira. Hún lék einnig nokkrum sinnum í þáttunum sem "óheppna Amy", óheppin starfsstúlka í verskmiðjunni sem Geroge Lopez sér um. Árið 2002 lék hún á móti Hugh Grant í vinsælu kvikmyndinni "Two Weeks Notice" og í aðeins óþekktari mynd, "Divine Secrets of the Ya-Ya Sisterhood". Árið 2004 lék Sandra aukahlutverk í kvikmyndinni "Crash". Hún fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína og sögðu sumir gagnrýnendur að þetta væri besta frammistaða ferils hennar. Hún lék seinna í "The Lake House", rómantískri dramamynd með meðleikara sínum úr Speed, Keanu Reeves, og kom myndin út 16. júní 2006. Vegna þess að persónur myndarinnar eru aðskildar í gegnum myndina (því söguþráðurinn snýst um tímaflakk), voru Bullock og Reeves aðeins saman á tökustað í tvær vikur við gerð myndarinnar. Þetta sama ár lék hún í "Infamous" sem rithöfundurinn Harper Lee. Hún lék einnig í "Premonition" með Julian McMahon sem kom út í mars 2007. Árið 2009 var einstaklega gott fyrir Söndru. Tvær myndir hennar slógu aðsóknarmet og urðu þær vinsælustu myndir hennar hingað til. Í nóvember 2009 lék Sandra í "The Blind Side" og halaði hún inn 34,2 milljónum dala fyrstu sýningarhelgina. Myndin er einstök að því leiti að hún bætti við sig 17,6 % í áhorfi næstu sýningarhelgi og hirti hún toppsætið á þriðju sýningarhelginni. Gerð myndarinnar kostaði 29 milljónir dollara. Hún hefur halað inn meira en 250 milljónum dala og er það tekjuhæsta mynd Bullock og fyrsta kvikmynd sögunnar til að komast yfir 200 milljóna markið með aðeins eina fræga leikkonu innanborðs. Hún vann Golden Globe-, Óskars- og SAG-verðlaun fyrir frammistöðu sína í myndinni. Hún hafði áður hafnað hlutverkinu þrisvar sinnum vegna þess að henni leið ekki vel með að leika sanntrúaða kristna konu. Það að hún hafi unnið Óskar gefur góða mótsögn við það að daginn áður hafði hún unnið tvo Razzie-verðlaunagripi, fyrir frammistöðu sína í "All About Steve". Hún er eina fræga manneskjan sem hefur verið nefnd „best“ og „verst“ sama árið. Sambönd. Bullock var eitt sinn trúlofuð leikaranum Tate Donovan sem hún hitti við tökur á "Love Potion No. 9" en samband þeirra entist í fjögur ár. Hún hafði áður átt í ástarsambandi við fótboltaspilarann Troy Aikman, tónlistarmanninn Bob Schneider (í tvö ár) og leikarana Matthew McConaughey og Ryan Gosling. Sandra giftist þann 16. júlí 2005, en eiginmaðurinn varð mótorhjólakappinn og "Monster Garage" kynnirinn Jesse James. Þau hittust fyrst þegar Bullock kom því í kring fyrir tíu ára stjúpson sinn að hún hitti James sem jólagjöf. Í nóvember 2009 fóru Sandra og Jesse í forræðisbaráttu við aðra fyrrverandi eiginkonu James, fyrrum klámstjörnuna Janina Lindemulder, sem James átti barn með. Sandra og Jesse unnu fullt forræði yfir fimm ára dóttur James. Sandra á engin börn sjálf. Í mars 2010 kom fram hneykslismál þegar nokkrar konur sögðust hafa átt í ástarævintýri við James eftir að hann giftist Bullock. Bullock hætti við evrópska kynningu á myndinni sinni "The Blind Side" í kjölfar hneykslisins og sagði það vera af „persónulegum ástæðum“. 18. mars 2010 svaraði James sögusögnum um að hann hefði verið ótrúr Bullock og baðst opinberlega afsökunar. „Það er aðeins einni manneskju að kenna um þetta og það er ég“ sagði James í viðtali og vonaðist eftir því að eiginkona hans og börn myndu einhvern daginn „finna það í hjarta sér að geta fyrirgefið honum“. Talsmaður Jesse tilkynnti þann 30. mars 2010 að James hefði skráð sig í meðferð „til að taka á persónulegum málefnum“ og „bjarga hjónabandi sínu“. Góðgerðamál. Bullock hefur verið opinber stuðningsmaður Rauða krossins og hefur tvisvar sinnum gefið 1 milljón dollara til samtakanna. Fyrst árið 2004 eftir jarðskjálfta og stórar flóðbylgjur í Indlandshafi. Árið 2010 gaf hún aftur 1 milljón dollara til að hjálpa fórnarlömbum jarðskjálftans á Haítí. Tenglar. Bullock, Sandra Sundblak. Sundblak er íþrótt sem fer fram í sundlaugum eða öðrum baðhöllum. Sundblak er mjög svipað blaki sem fer fram í sandi eða á svokölluðum gúmmívöllum. Reglur. Tvö lið etja kappi og í hverju liði eru 1 - 4 leikmenn. Markmiðið er að slá boltann með mundinum yfir svokallað blaknet eða línu. Ef að boltinn lendir á vatninu hinum megin við netið fær liðið stig. Leikmunir. Leikmunir í sundblaki eru tvær stangir, eitt net, einn bolti og tveir til átta leikmenn. Lüneburg. Lüneburg (lágþýska: "Lümborg") er gömul Hansaborg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 72 þúsund íbúa. Salthöfnin og pakkhús í Lüneburg Lega. Lüneburg liggur við ána Ilmenau í norðausturhluta Neðra-Saxlands, rétt við suðausturjaðar Hamborgar. Borgin er einnig við norðurjaðar náttúruperlunnar Lüneburger Heide. Næstu borgir eru Hamborg til norðvesturs (20 km), Bremen til vesturs (50 km) og Lübeck til norðurs (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Lüneburg sýnir hvítt borgarvirki á rauðum grunni. Inni í hliðinu er skjöldur með bláu ljóni. Virkið er Lüneburg sjálft og ljónið vísar til Hinriks ljóns sem var hertogi héraðsins áður fyrr. Orðsifjar. Borgin hét Luneburg 965 og Luniburc 956. Orðið er dregið af germanska orðinu "Hliuni", sem merkir var eða "skjól" (sbr. "hlé" á íslensku). Þar með er sennilega meint hæðin sem borgin stendur við. Síðan 2007 er opinbert heiti borgarinnar Hansestadt Lüneburg'". Hansaborgin. Á svæðinu bjuggu áður fyrr langbarðar. Bærinn sjálfur myndaðist ekki fyrr en á 8. öld og kemur heitið fyrst fyrir 956 í skjali Ottos I konungs þýska ríkisins. Bærinn stóð við mikilvægar saltnámur. Þrátt fyrir það stóð hann lengi vel í skugga nágrannabæjarins Bardowick. En 1189 fór Hinrik ljón í herferð gegn Bardowick og eyddi bænum. Samtímis veitti hann Lüneburg borgarréttindi. Strax á 13. öld gekk Lüneburg í Hansasambandið og verslaði með salt. Saltið var notað til að salta síld frá Noregi og Eystrasalti. Sökum mikilvægi saltsins varð borgin brátt auðug. Saltið var geymt í Saltgeymslunum í Lübeck og kallaðist leiðin þangað Gamla saltleiðin ("Alte Salzstrasse"). 1398 var Strecknitz-skipaskurðurinn opnaður og var saltið þá sett í pramma og því siglt til Lübeck. Síðla á 13. öld varð Lüneburg að eigið furstadæmi. En 1371 gerðu borgararnir uppreisn og vísuðu furstanum úr borginni. Þeir eyddu auk þess virkinu Kalkberg og sömuleiðis nálægu klaustri. Lüneburg varð þar með að fríborg og hélst sá status allt til 1637. Nýrri tímar. Um miðja 16. öld lagði Hansasambandið upp laupana. Á svipuðum tíma varð aflabrestur í Eystrasaltssíldinni. Við það missti Lüneburg saltviðskiptin. Almenn fátækt varð afleiðingin og borgin féll í andvaraleysi næstu aldir. 1810 innlimuðu Frakkar borgina. En eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 gerðu borgarbúar uppreisn gegn erlendu valdstjórninni og hröktu Frakka úr borginni. 1. apríl 1813 hertók franskur her borgina, enda var þar engin her til varnar. En strax daginn eftir náðu sameinaðir prússar og Rússar að sigra Frakka og frelsa borgina. Þetta var fyrsti ósigur Frakka á þýskri grundu eftir hrakfarirnar í Rússlandi. Eftir þetta komst aftur ró á borgina, sem varla kom við sögu í styrjöldum sögunnar. Hún slapp einnig við allar loftárásir heimstyrjaldarinnar síðari. Bretar hertóku borgina átakalaust við stríðslok og fluttu þangað Heinrich Himmler sem fanga. 23. maí 1945 framdi hann þó sjálfsmorð í borginni með því að gleypa blásýruhylki. Í september sama ár fóru Bergen-Belsen-réttarhöldin fram í borginni en þar voru 45 manns ákærðir fyrir stríðsglæpi. Margir þeirra voru dæmdir til dauða, aðrir í fangelsisvist. Þetta voru fyrstu stríðsréttarhöldin eftir stríð í Þýskalandi, enda fóru þau fram áður en hin þekktu Nürnberg-réttarhöldin hófust. 1970 var byrjað að gera upp gömlu húsin í borginni, eftir að tekist hafði að hindra að yfirvöld rifu gamla miðbæinn. Eftir það er Lüneburg vinsæl ferðamannaborg. 1989 var háskólinn Universität Lüneburg stofnaður. Þjóðsaga. Villisvín varð til þess að saltnámurnar við Lüneburg fundust Salt var helsta verslunarvara Lüneburg. Sagan segir að námurnar hafi uppgötvast af veiðimanni nokkrum sem var að veiðum á þessum slóðum fyrir rúmum 1000 árum. Hann náði að leggja hvítt (eða ljóst) villisvín að velli og tók þá eftir því að í feldi þess voru saltkristallar. Hann hafi því grunað að í námunda væri salt að finna. Í kjölfarið var farið að grennslast fyrir um það uns saltæðarnar fundust. Viðburðir. Lunatic Festival er heiti á tónlistarhátíð í Lüneburg sem stúdentar við háskólann hleyptu af stokkunum 2003. Hátíðin er haldin í júní og eru þá haldnir útitónleikar í mismunandi tónlistarstefnum. Samfara þessu hafa stúdentar skipulagt alls konar hliðarstarfsemi í hátíðinni, sem þykir vera öll til fyrirmyndar. 2008 hlaut hátíð þessi fyrstu verðlaun fyrir vel heppnaða framtakssemi og fyrirmyndarskipulagningu. Í dag er skipulagning hátíðarinnar orðin hluti af námi háskólans á ýmsum sviðum (svo sem listum, almannakynningu, tækni, fjármálum og fleira). Mýflug. Mýflug er íslenskt flugfélag, kennt við Mývatn og var stofnað árið 1985. Félagið starfrækir þrjár mismunandi flugvélategundir fyrir mismunandi hlutverk: Beechcraft Super King Air, Piper Chieftain og Cessna 206. Megin áherslur Mýflugs eru á sjúkraflugið sem félagið sinnir samkvæmt samningi við Heilbrigðis- og Tryggingamálaráðuneytið og tekur til alls sjúkraflugs á svonefndu Norðursvæði ásamt sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum. Einnig sinnir félagið leiguflugi innan Íslands sem utan, einkum til Grænlands og norðurlandanna. Á sumrin eru starfrækt útsýnisflug frá Mývatni og Akureyri Sophie Monk. Sophie Charlene Akland Monk (fædd 14. desember 1979) er áströlsk poppsöngkona, leikkona og módel. Sophie fæddist í Englandi, en foreldrar hennar fluttu til Queensland í Ástralíu. Hún var meðlimur í stúlknasveitinni Bardot og hefur síðan gefið út einleiks breiðskífuna "Calendar Girl" (2003). Hún hefur leikið í myndum á borð við "Date Movie" og "Click". Ferill. Tónlistaferill hennar hófst 1999 þegar hún svaraði auglýsingu, sem óskaði eftir stelpum með söng- og dansreynslu. Auglýsingin var fyrir ástralskan sjónvarpsþátt "Popstars" (2000). Popstars er sjónvarpsþáttur sem stendur fyrir áheyrnarprufum á stúlkum fyrir stúlknasveit. Eftir margar söngprufur og danshópa var hún valin sem hluti af sveitinni, Bardot. Eftir að Bardot hætti byrjaði Monk að vinna að einleiks ferli sínum. Hún gaf út sína fyrstu smáskífu "Inside Outside" í október 2002 og fyrstu breiðskífuna "Calendar Girl" í maí 2003. Sophie Monk hefur síðan tekið að sér leikarahlutverk í Hollywood, þó oftast í aukahlutverki. Í febrúar 2006 lék hún í hlutverki tælandi stúlku að nafni Andy í gamanleiks skopstælingunni "Date Movie". Í júní 2006 lék hún í myndinni "Click", sem fjallar um alhliða fjarstýringu. Monk leikur aukahlutverk í myndinni sem ritarinn Stacey. Tenglar. Monk, Sophie Monk, Sophie Alþjóðlegt ár efnafræðinnar. Alþjóðlegt ár efnafræðinnar er árið 2011 samkvæmt ákvörðun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna árið 2008. Markmiðið er að auka vitund fólks um árangur efnafræðinnar og framlag hennar til velferðar mannkyns. Úmbra. Úmbra er náttúrulegt leirlitaduft (pigment) sem inniheldur járn- og manganoxíð. Liturinn verður sterkari þegar hún er hituð og er þá kölluð brennd úmbra. Nafnið er úr latínu, "umbra", sem merkir „skuggi“ og er dregið af nafni ítalska héraðsins Úmbríu þar sem litarefnið var fyrst unnið í stórum stíl. Úmbra finnst víða um heim og hefur verið notuð sem litarefni frá því á forsögulegum tíma. Úmbra kemur fyrir í þremur litatónum: hrá úmbra, úmbra og brennd úmbra. Hrá úmbra er óunninn leir eins og hann kemur fyrir í náttúrunni. Úmbra er hreinsað litarefni. Brennd úmbra er hituð úmbra. Ísafold - Félag ungs fólks gegn ESB aðild. Ísafold, Félag ungs fólks gegn ESB aðild, er þverpólitískt félag ungs fólks sem er andvígt því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Félagið var stofnað 6. febrúar 2010. Fremri-Emstruá. Fremri-Emstruá eða Syðri-Emstruá er jökulá sem kemur úr Entujökli, skriðjökli sem gengur norðvestur úr Mýrdalsjökli, og fellur í Markarfljót. Áin, sem er um 5 km löng, skilur á milli Almenninga og Emstra. Hún er mjög straumhörð og erfið yfirferðar og stundum koma jökulhlaup í hana. Eitt slíkt tók af göngubrú á ánni árið 1988 en hún var síðan endurbyggð á öðrum stað. Áin fellur lengst af í þröngu og hrikalegu gili, sem er sérlega tilkomumikið þar sem það mætir Markarfljótsgljúfri. Göngubrúin er niðri í gljúfrinu. Mjög bratt er niður að henni en hægt að hafa keðju til stuðnings. Dancing Queen. „Dancing Queen“ er popplag eftir sænsku hljómsveitina ABBA, sem gefið var út árið 1976. Það kom út á eftir vinsælu smáskífunni „Fernando“ og varð eitt vinsælasta lag áttunda áratugarins. Dancing Queen var samið af Benny Andersson, Björn Ulvaeus og Stig Anderson og margir telja það einkennislag hljómsveitarinnar, af því að það hefur náð fyrsta sæti á vinsældalista í 13 löndum. Það var tekið upp árið 1975 og gefið út 1976 á breiðskífunni "Arrival". Lagið kom út á smáskífu sama ár ásamt „That's Me“. Agnetha Fältskog og Anni-Frid Lyngstad sungu lagið saman. Upphaf lagsins er eitt það auðþekkjanlegasta í popptónlist. Alþjóðastofnun Moskvuháskóla. Alþjóðastofnun Moskvuháskóla (á rússnesku: Московский государственный институт международных отношений (Университет) МИД России, of stytt í МГИМО eða MGIMO) er diplómataháskóli innan rússneska utanríkisráðuneytisins. Hið opinbera heiti er „Ríkisháskóli fyrir alþjóðasamskipti í Moskvu á vegum Utanríkisráðuneytis Rússneska Sambandsríkisins“. Stofnunin (eða háskólinn) er elsta og þekktasta menntastofnun Rússlands á sviði alþjóðasamskipta. MGIMO er leiðtogaháskóli og hefur sem slíkur það orðspor að vera elítuskóli Rússa. Á tímum Ráðstjórnarríkjanna voru það einkum börn ráðmanna (af svokallaðri „nomenklatura“) sem sóttu nám við MGIMO. Enn í dag eru margir af núverandi nemendum frá fjölskyldum leiðtogum rússneskra stjórn-, menningar og efnahagsmála. Skólinn er einnig þekktur að hafa innan raða sinna einn sterkasta hóp kennara í Evrópu, sem margir hverjir hafa verið sendiherrar eða ráðherrar. MGIMO er talinn einn af bestu leiðtogaskólum í heiminum sem standa fyrir ólík stjórnmálakerfi: Sambærilegir skólar eru John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla og Lagaskóli Yale-háskóla, báðir í Bandaríkjunum, Sciences Po í Frakklandi og Graduate Institute of International and Development Studies í Genf Sviss. Saga. MGIMO var stofnaður þann 14. október 1944, þegar miðstjórn Ráðstjórnaríkjanna endurskipulagði Alþjóðaskóla Ríkisháskóla Moskvuborgar. Meðal „stofnaðila“ MGIMO voru frægir rússneskir vísindamenn á borð við Yevgeny Tarle, Georgy Frantsov og Sergey Krylov (einn höfunda stofnskrár Sameinuðu þjóðanna). Skólinn hóf göngu sína með 200 nemendum. Upphaflega voru þrír skólar innan MGIMO: Skóli alþjóðasamskipta, Viðskiptaskóli og Lagaskóli. Árið 1954 bættist við MGIMO Stofnun um Austurlenskar Rannsóknir sem var ein af elstu stofnunum Rússlands. Stofnunin. MGIMO er leiðtogaskóli og hefur sem slíkur það orðspor að vera elítuskóli Rússa. MGIMO veitir þjálfun á sviði alþjóðlegra samskipta, stjórnmálafræði, hagfræði, laga, stjórnunar, blaðamennsku og almannatengsla. Við skólann eru um 4.500 nemendur í háskólanámi sem og vísindamenn í framhaldsnámi á háskólastigi. Starfsmenn eru um 1.100 þar af meira en 150 prófessorar 300 dósentar. Á þriðja tug kennara eru inna Rússnesku Vísindaakademíunnar sem er æðsta vísindastofnun Rússa. Háskólabókasafn MGIMO telur um 700.000 bækur og tímarit á rússnesku og yfir 30 erlendum tungumálum. Bókasafnið státar sig af sérstakri deild fágætra bóka sem telja um 21.000 bindi. Meðal fyrrum nemenda MGIMO háskóla eru Ilham Aliyev forseti Aserbaídsjan, Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands og Andrei Kozyrev fyrrverandi utanríkisráðherra Rússa, Ján Kubiš utanríkisráðherra Slóvakíu og Irina Bokova aðalframkvæmdastjóri UNESCO. Mjög margir sendiherrar Rússa hafa komið frá MGIMO, sem og leyniþjónustumenn Rússa. Tenglar. Frá MGIMO í Moskvu, sem er þekktasta háskólastofnun Rússa á sviði alþjóðasamskipta. Tan Son Nhat-flugvöllur. Tan Son Nhat-flugvöllur er flugvöllurinn í Ho Chi Minh-borg í Víetnam. Flugfélög og áfangastaðir. Borgir með beint farþegaflug til flugvallarins. Jakob Tryggvason. Jakob Tryggvason (fæddur 31. janúar 1907, dáinn 13. mars 1999) var tónlistarmaður á Akureyri. Hann var sonur Tryggva Jóhannssonar, f. 11. apríl 1882, d. 23. ágúst 1971, bónda á Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal, og Guðrúnar Soffíu Stefánsdóttur, f. 12. júlí 1885, d. 9. janúar 1963 frá Sandá í Svarfaðardal. Kona hans var Unnur Tryggvadóttir og áttu þau 3 börn. Jakob var organisti við Akureyrarkirkju 1941 - ­1986 og starfaði að tónlistarmálum á Akureyri um 45 ára skeið. Um fermingaraldur hóf hann nám í orgelleik hjá Tryggva Kristinssyni, síðar tengdaföður sínum, en fluttist svo til Reykjavíkur þar sem hann stundaði nám við Samvinnuskólann og sótti jafnframt tíma hjá Sigurði Frímannssyni organista. Jakob lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1927 og fluttist þá norður og starfaði á skrifstofu Kaupfélags Eyfirðinga. Árið 1931 fór hann aftur suður til Reykjavíkur og fór í einkatíma til Páls Ísólfssonar organista. Hann var í Tónlistarskólanum í Reykjavík til ársins 1938. Jafnframt starfaði hann á skattstofu Reykjavíkur. Árið 1941 var Jakob ráðinn organleikari við Akureyrarkirkju og sinnti hann því starfi til ársins 1945 að hann fór til framhaldsnáms í London. Þar var Jakob við nám í The Royal Academy of Music til ársins 1948. Frá þeim tíma var hann organleikari við Akureyrarkirkju óslitið til ársins 1986. Jakob var kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Akureyrar frá 1950 - ­1974 og stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar um tuttugu ára skeið. Þá stjórnaði hann Lúðrasveit Barnaskóla Akureyrar um árabil og kenndi tónmennt við Oddeyrarskóla á Akureyri. Jakob þjálfaði Smárakvartettinn á Akureyri og síðar Geysiskvartettinn og lék undir með þeim báðum. Þá stjórnaði hann kvennakórnum Gígjunum á Akureyri. Eftir Jakob liggur fjöldi útsetninga á sönglögum og kirkjutónlist, auk nokkurra frumsaminna verka. Jakob var kjörinn heiðursfélagi Lúðrasveitar Akureyrar árið 1967, Félags íslenskra organleikara árið 1991 og Kórs Glerárkirkju árið 1994. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1980. Hameln. Hameln er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 58 þúsund íbúa. Hún er þekkt fyrir að vera vettvangur í þjóðsögunni um rottufangarann. Lega. Hameln liggur við ána Weser sunnarlega í Neðra-Saxlandi. Næstu borgir eru Hannover til norðausturs (40 km), Bielefeld til vesturs (50 km) og Detmold til suðvesturs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Hameln sýnir klaustur og fyrir neðan myllustein með blárri festingu á rauðum grunni. Klaustrið er St. Bonifatius, sem var reist áður en bærinn var til. Myllan var reist 1209 og var í eigu klaustursins. Orðsifjar. Borgin er nefnd eftir ánni Hamel sem rennur í Weser einmitt þar sem borgin er nú. Hamel mun merkja "hæð" eða "klettahæð". Þjóðsaga. Sagan um rottufangarann í Hameln er meðal þekktustu þjóðsagna Þýskalands Þjóðsagan um rottufangarann í Hameln er meðal þekktustu þjóðsagna í Þýskalandi. Á 13. öld plöguðu rottur í þúsundavís borgina, þrátt fyrir að borgarbúar höfðu reynt allt sem þeir gátu til að útrýma plágunni. Þá kom þar að maður sem sagðist geta losað borgina við rotturnar í einu vettfangi. Hann bað um ákveðin laun sem borgarstjórinn samþykkti. Þá tók rottufangarinn upp flautu og byrjaði að spila og seiða þannig rotturnar. Spilandi leiddi hann þær að ánni Weser og steypti þeim öllum í hana. Þær drukknuðu eða bárust burt með straumnum. Borgarbúar voru himinlifandi. En þegar kom að því að greiða manninum laun, neitaði borgarstjórinn og sagði verkið hafi verið of auðvelt fyrir há laun. Við svo búið fór rottufangarinn burt. En hann kom aftur að kvöldlagi og spilaði á flautuna sína. Að þessu sinni seiddi hann öll börnin í borginni, sem fylgdu honum og hurfu þau á braut með honum. Ekkert þeirra sást aftur. Næsta morgun voru borgarbúar í sorg eftir að hafa uppgötvað að börn þeirra voru horfin. Lítil heyrnarlaus stúlka varð þó vitni að atburðunum og sagði fólkinu frá hvað gerst hafði. Hún sjálf hafði ekki verið seidd, þar sem hún var heyrnarlaus, en hún sá bróður sinn vakna og ganga út á götu og hafði hún þá fylgt honum til að sjá hverju þetta sætti. Þjóðsaga þessi er enn lifandi í borginni, sem sjálf er oft kölluð "Rottufangaraborgin Hameln" (Rattenfängerstadt). Nær öll ferðamennska í borginni snýst um rottur. Myndir af rottum finnast alls staðar í miðborginni, greyptar í gangstéttarhellur, sem brauðform í verslunum og spýturottur eru út um allt í verslunargluggum. Upphaf. Saxagreifinn Bernhard og kona hans Kristín reistu litla kirkju á landareign sinni árið 802 eða 812. Þau dóu bæði barnlaus 826, þannig að kirkjan og landið gekk í eigu klaustursins í Fulda. 851 var ákveðið að reisa nýtt klaustur sem hlaut nafnið Hamela eða Hameloa. Á 11. öld myndaðist þorp í kringum klaustrið og árið 1200 kemur fram í skjölum að Hameln sé með borgarréttindi. Þar með er hún með allra elstu borgum í Neðra-Saxlandi. 1259 selur klaustrið í Fulda bæinn til biskupssetursins í Minden. Borgarbúar voru mjög óhressir með þessa tilhögun og neituðu að greiða nýja lénsherranum, biskupnum í Minden, skatt. Það dró til orrustu ári seinna sem háð var við bæinn Sedemünde. Borgaraherinn í Hameln tapaði þar fyrir biskupsher, sem hertók borgina í kjölfarið. 1284 átti hið þekkta ævintýri um rottufangarann í Hameln að hafa átt sér stað samkvæmt söguminni. Staðreyndin er sú að nokkur hundruð börn hurfu í einu vettfangi á þessum tíma. Uppgangur og stríð. 1426 gengur Hameln í Hansasambandið og er meðlimur þess allt til 1572. 1540 fara siðaskiptin fram í borginni. Þessir tveir atburðir eru mikil lyftistöng fyrir atvinnuvegi í borginni. Frá þessum tíma eru flest gömlu pakkhúsin og aðrar fagrar byggingar. Uppgangurinn hlaut skjótan enda í 30 ára stríðinu. 1625 hernam Kristján IV Danakonungur borgina til að vernda hana fyrir kaþólskum her. En aðeins ári seinna nær Tilly herforingi kaþólska sambandsins að hertaka borgina og hrekja Dani á brott. Herseta kaþólskra stóð allt til 1633 en þá hóf hertoginn Georg frá Braunschweig-Lüneburg umsátur um borgina með aðstoð Svía. Borgin féll í júlí 1633. Hertoginn tók þá til við að víggirða borgina betur og lagfæra alla múra. Vinna þessi stóð langt fram yfir stríðslok. 1690 var húgenottum leyft að setjast að í borginni og komu þeir með alls konar nýja atvinnuvegi þangað. 1734 var fyrsti skipastiginn við borgina vígður. Fram að þessu hafði Hameln verið endastöð skipasiglinga við ána Weser og borgin því mikilvæg umskipunarhöfn. En með skipastiganum var hægt að sigla lengra upp með Weser. Umskipuninni var því hætt, en borgin fékk tolla og þjónustugjöld af skipastiganum í staðin. Á 18. öld var Hameln hluti af furstadæminu Hannover, sem til skamms tíma var í konungssambandi við England. Í 7 ára stríðinu (1756-63) var ákveðið að reisa enn betri varnir fyrir borgina og nokkur rammgerð virki. Hameln var þá álitin óvinnanleg og var kölluð "Gíbraltar norðursins". En eftir sigur Napoleons við Jena 1806 gafst Hameln upp fyrir Frökkum bardagalaust. Frakkar hernámu borgina og rifu allar varnir niður. Þetta skapaði reyndar byggingarpláss og borgin hóf að þenjast út. Frakkar voru í borginni allt til 1814. 1866 hertaka prússar konungsríkið Hannover og verður Hameln þá prússnesk. Með tilkomu járnbrautarinnar 1872 hefst iðnbyltingin í borginni. 20. öldin. Í Hameln snýst allt um rottur 1897 var mikil herstöð reist í Hameln. Hermennirnar þar voru sendir til Frakklands í heimstyrjöldinni fyrri og féllu rúmlega 2.400 af þeim. 1907 voru miklar bílaverksmiðjur reistar í borginni. Bílarnir voru að mestu leyti flutti út víða til Evrópu, en einnig til annarra heimsálfa. Fyrirtækið lifði kreppuna miklu hins vegar ekki af. Naistar endurreistu verksmiðjuna, en þegar til kom fannst þeim framleiðslan of dýr. Hún var því flutt til Wolfsburg, þar sem bílar voru smíðaðir á færibandi. Þetta var upphafið að Volkswagen-verksmiðjunum. Þar með slapp Hameln hins vegar við loftárásir í seinna stríðinu. Aðeins ein loftárás var gerð á borgina, 14. mars 1945. Við það eyðilagðist járnbrautarstöðin og nokkur önnur hús. 5. apríl birtist bandarískur her við borgardyrnar. Nasistar sprengdu þá brúna yfir Weser og vörðust af hörku, þrátt fyrir að hafa einungis yfir 500 manns að ráða. Þannig náðu þeir að tefja framrás Bandaríkjamanna um tvo daga. Þeir náðu borginni ekki fyrr en 7. apríl. Bandaríkjamenn skiluðu borginni til Breta, enda var hún á þeirra hernámssvæði. Nasistar höfðu í stríðinu breytt fangelsinu í Hameln í fangabúðir fyrir pólitíska andstæðinga, gyðinga, samkynhneigða og aðra. Mörg hundruð manns höfðu verið teknir af lífi og aðrir látnir þramma dauðagöngu til annarra staða. Bandaríkjamenn frelsuðu þá sem eftir voru og héldu Bretar stríðsréttarhöld yfir nasistum þar. Rúmlega 200 nasistar voru dæmdir í þeim, sumir til dauða. Réttarhöld þessi stóðu yfir með hléum allt til 1949. Í dag er Hameln mikil ferðamannaborg með fallegum byggingum. Íþróttir. Róðrarfélag borgarinnar heitir Ruderverein Weser, en það á sér einn heimsmeistara og hefur sent ótal meðlimi á Ólympíuleikana. Norrænar myndir. NordicPhotos eða Norrænar myndir ehf er myndabanki sem býður myndefni frá yfir 500 atvinnuljósmyndurum og selur það vítt og breitt um heiminn, auk þess að hafa umboð fyrir fjölda annarra myndasafna á Norðurlöndunum. Söguágrip. NordicPhotos (Norrænar myndir) var stofnað árið 2000 á Íslandi. Stofnendur voru Arnaldur Gauti Johnson, Kjartan Dagbjartsson, Hreinn Ágústsson og Thor Ólafsson. Fyrirtækið hóf að færa út kvíarnar árið 2003 og hefur fest sig í sessi sem einn stærsti myndasöluaðili Norðurlanda. NordicPhotos hefur byggt upp eitt stærsta myndasafn Norðurlanda, eftir að hafa síðan 2003 keypt upp sex myndabanka í Svíþjóð og Noregi og unnið að því að sameina þá undir eitt þak. Í heildina hefur NordicPhotos tíu norræn myndasöfn í sölu. Að auki hefur NordicPhotos sett á laggirnar danska myndasafnið Siluet og Royality Free myndasafnið Simply North sem eru hluti af heildar myndasafni fyrirtækisins. NordicPhotos hefur nú yfir 130.000 stafrænar myndir frá rúmlega 500 ljósmyndurum. Þetta safn er eitt það stærsta og fjölbreyttasta sem finna má á Norðurlöndunum. Myndasöfnin eru inná vefsíðum fyrirtækisins sem og hjá yfir 100 dreifingaraðilum víðs vegar um heiminn. NordicPhotos sér einnig um dreifingu og sölu mynda frá öðrum stórum myndabönkum víðsvegar á Norðurlöndunum, bæði Rights Managed og Royalty free myndefni. Aðalskrifstofur NordicPhotos eru á Íslandi en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í Stokkhólmi, Svíþjóð og Osló, Noregi. Um 15 manns starfa hjá fyrirtækinu. Cuxhaven. Cuxhaven er hafnarborg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 51 þúsund íbúa. Þangað hafa íslensk fiskiskip siglt svo árum skipti. Cuxhaven og Hafnarfjörður eru vinabæir. Lega. Hluti hafnarinnar. Til vinstri er fiskmarkaðurinn. Cuxhaven liggur á nyrsta odda Neðra-Saxlands, við suðurmynni árinnar Saxelfar (Elbe). Næstu borgir eru Bremerhaven til suðurs (35 km) og Hamborg til suðausturs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Cuxhaven er gamla innsiglingarmerkið á gulum grunni. Neðst má sjá í bláan sjóinn. Merkið var tekið upp 1913. Orðsifjar. Svæðið hét upphaflega Koogshaven. Það er dregið af orðunum "Koog" og "Hafen". Koog merkir "leirur" eða "flæðiland" sem verið er að þurrka og gera nýtilegt. Að skrifa "-haven" með v-i er saxneskur (lágþýskur) ritháttur. Söguágrip. 1394 eignaðist Hamborg svæðið. Þar var mynduð lítil höfn og virki gegn sjóræningjum. 1872 var litla höfnin sameinuð landsvæðinu í kring og úr því myndaðist lítill bær. Hann var á þessum tíma enn í eigu Hamborgar. 1883 var lítil herstöð sett upp í bænum, ásamt því að Cuxhaven varð að heimahöfn nokkurra herskipa til að gæta innsiglingarinnar í Saxelfi og innsiglingarinnar í Kílarskurðinn Norðursjávarmegin. 1907 sameinuðust nokkrir litlir bæir í nærsveitum Cuxhaven, sem þar með fékk loks borgarréttindi. Það var þó ekki fyrr en 1937 að Cuxhaven varð að eigið sveitarfélagi, er nasistar slitu tengslin við Hamborg. Í heimstyrjöldinni síðari fóru fram ýmsar tilraunir með eldflaugum í borginni. Hún slapp að öllu leyti við loftárásir stríðsins. Vinabæir. Cuxhaven á sér nokkra vinabæi, þar á meðal Hafnarfjörð á Íslandi. Í Hafnarfirði er gata sem heitir Cuxhavengata og í Cuxhaven er torg sem heitir Hafnarfjordurplatz. Aðrir vinabæir Cuxhavens eru meðal annars Nuuk á Grænlandi. Byggingar og kennileiti. Siglingamerkið Kugelbake er einkennismerki Cuxhavens Snorri Þorfinnsson. Minnismerki um Snorra Þorfinnsson og Guðríði móður hans í Glaumbæ. Snorri Þorfinnsson (f. um 1004) var bóndi í Glaumbæ í Skagafirði á 11. öld. Hann var fæddur á Vínlandi og er talinn fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Ameríku. Foreldrar Snorra voru Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Glaumbæ og kona hans, Guðríður Þorbjarnardóttir. Þau fóru til Vínlands og ætluðu að setjast þar að. Þar voru þau í þrjá vetur og á fyrsta ári þeirra þar fæddist Snorri, líklega 1004. Þau hurfu þó frá landnámi, einkum vegna átaka við innfædda, og settust að í Glaumbæ, þar sem Snorri ólst upp. Þegar Þorfinnur lést bjó Guðríður áfram í Glaumbæ með sonum sínum, Snorra og Þorbirni, en þegar Snorri kvæntist og tók einn við búi hélt Guðríður í suðurgöngu til Rómar. Á meðan hún var í pílagrímsferðinni reisti Snorri kirkju, hina fyrstu í Glaumbæ. Kona Snorra hét Yngvildur en ætt hennar er óþekkt. Dóttir þeirra var Hallfríður, móðir Þorláks Runólfssonar biskups í Skálholti, en sonur þeirra var Þorgeir, faðir Yngvildar, móður Brands Sæmundssonar biskups í Skálholti. Þorbjörn bróðir Snorra var svo afi Björns Gilssonar Hólabiskups. Helgafell (Snæfellsnesi). Helgafell er bær og kirkjustaður og samnefnt fell í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Bærinn stendur á Þórsnesi, sunnan Stykkishólms. Þar var löngum stórbýli og á miðöldum var þar munkaklaustur, Helgafellsklaustur. Helgafell er í landnámi Þórólfs Mostrarskeggs og í Eyrbyggju segir um fellið: „Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.“ Þorstein þorskabítur, sonur Þórólfs Mostrarskeggs, byggði fyrstur bæ á Helgafelli. Synir hans voru þeir Börkur digri og Þorgrímur, mágur Gísla Súrssonar, sem Gísli drap. Sonur hans og Þórdísar Súrsdóttur var Snorri goði Þorgrímsson, sem bjó fyrst á Helgafelli og lét gera þar kirkju, en hafði svo jarðaskipti við Guðrúnu Ósvífursdóttur og Ósvífur föður hennar. Bjó Guðrún lengi á Helgafelli, fyrst með fjórða manni sínum, Þorkatli Eyjólfssyni, og síðan lengi ekkja eftir að hann drukknaði. Munkaklaustur sem stofnað hafði verið í Flatey á Breiðafirði var flutt til Helgafells árið 1184 eða 1185 og var þar mennta- og fræðamiðstöð næstu aldir og voru þar skrifaðar margar bækur. Klaustrið var lagt niður um siðaskipti og var þá auðugast íslenskra klaustra að jarðeignum. Konungur tók jarðirnar undir sig og gerði að léni eða umboði sem leigt var umboðsmönnum. Fyrstu árin var Helgafell aðaljörð umboðsins og það kennt við klaustrið en árið 1565 varð Arnarstapi aðaljörðin og eftir það kallaðist umboðið Stapaumboð. Kirkjan sem nú er á Helgafelli var byggð árið 1903. Hún á ýmsa góða gripi, þar á meðal kirkjuklukku frá 1545. Norðurrín-Vestfalía. Norðurrín-Vestfalía (þýska: "Nordrhein-Westfalen") er fjórða stærsta sambandsland Þýskalands með rúmlega 34 þús km². Það er hins vegar fjölmennasta sambandslandið með 18 milljónir íbúa. Ástæðan fyrir því er Ruhrhéraðið, en það er þéttbýlasta svæði Þýskalands og fjórða þéttbýlasta (eða fjölmennasta) svæði Evrópu. Norðurrín-Vestfalía liggur norðarlega í vesturhluta Þýskalands. Fyrir norðan er Neðra-Saxland, fyrir suðaustan er Hessen og fyrir sunnan er Rínarland-Pfalz. Auk þess er Holland fyrir vestan og Belgía fyrir suðvestan. Norðurrín-Vestfalía nær ekki að sjó. Hins vegar eru nokkrar hafnir þar, því stórfljótið Rín rennur í gegnum landið frá suðri til norðurs. Höfuðborgin er Düsseldorf. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Norðurrín-Vestfalíu samanstendur af þremur láréttum röndum, grænni, hvítri og rauðri. Græni og hvíti liturinn eru frá héraðinu Rínarlandi, en litir Vestfalíu voru áður fyrr hvítur og rauður. Þegar þessi héröð voru sameinuð 1946 voru litirnir einnig sameinaðir í þessu nýja flaggi. Skjaldarmerkið samanstendur sömuleiðis af litunum grænum, hvítum og rauðum. Auk þess er hvíta áin til vinstri tákn Rínarlands og merkir Rínarfljót. Til hægri er hvíti hestur Vestfalíu, sem minnir á hina fornu saxa sem þar bjuggu áður fyrr. Neðst er rauð og gul rós sem er tákn héraðsins Lippe, en það hérað var sameinað Norðurrín-Vestfalíu 1947. Orðsifjar. Nordrhein er einungis norðurhluti Rínarlands sem teygir sig eftir endilangri ánni. Westfalen er hins vegar gamalt héraðsnafn síðan á dögum Hinriks ljóns á 12. öld. Sennilegt þykir að endingin –falen sé dregin af gömlum germönskum þjóðflokki. Söguágrip. Fyrir heimstyrjöldina síðari var hér um þrjú héröð að ræða: Rheinland (með Ruhrhéraðinu), hið gamla konungsríki Westfalen og loks hið sjálfstæða hérað Lippe. Í stríðslok hertóku Bretar öll þessi héruð. Ári síðar klufu Bretar Rínarlandið í tvö lönd og sameinuðu norðurhluta þess Westfalen. Þar með varð til nýtt hérað, Norðurrín-Vestfalen með Düsseldorf að höfuðborg. Suðurhluti Rínarlands var hins vegar sameinaður héraðinu Pfalz í annað hérað. 1947 var héraðið Lippe sameinað Norðurrín-Vestfalíu. 1949 var sambandsríki Þýskalands stofnað og varð Norðurrín-Vestfalía þá að sambandslandi. Minneapolis. Minneapolis er stærsta borgin í bandaríska fylkinu Minnesota og 47. stærsta borg Bandaríkjanna. Borgin er aðsetur héraðsstjórnar Hennepin County. Íbúafjöldi borgarinnar var áætlaður 390.131 árið 2009. Minneapolis liggur beggja megin Mississippifljóts og er aðliggjandi fylkishöfuðborginni Saint Paul. Saman mynda borgirnar tvær 13. stærsta stórborgarsvæði Bandaríkjanna með 3,5 milljónir íbúa og eru þær gjarnan nefndar „Tvíburaborgirnar“. Í borginni eru um 20 stöðuvötn og votlendi. Bikarkeppni HSÍ (konur). Bikarkeppni HSÍ í kvennaflokki var fyrst haldin veturinn 1975-76. Um er að ræða útsláttarkeppni og hefur úrslitaleikurinn í seinni tíð farið fram í Laugardalshöllinni sama dag og úrslitin í bikarkeppni karla. Eysteinn Rauðúlfsson. Eysteinn Rauðúlfsson var landnámsmaður í Eyjafirði. Hann nam land á Þelamörk, frá Bægisá að Kræklingahlíð, og bjó á Skipalóni. Samkvæmt Landnámabók var Eysteinn sonur Rauðúlfs Öxna-Þórissonar. Ekki er getið um konu hans en sonur hans er sagður hafa verið Gunnsteinn á Skipalóni, faðir Halldóru, konu Víga-Glúms. Þórir þursasprengir. Þórir þursasprengir var landnámsmaður í Eyjafirði. Hann nam land í Öxnadal og segir í Landnámabók að hann hafi numið Öxnadal allan en nokkrum línum neðar segir að Auðólfur hafi numið land niður frá Þverá til Bægisár, svo að Þórir hefur líklega numið allan dalinn að norðvestan en aðeins niður til Þverár að suðaustan. Ætt Þóris er ekki þekkt en hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi, lenti í deilum við Hákon Grjótgarðsson jarl og fór þess vegna til Íslands, að því er segir í Landnámu. Þar er sagt að hann hafi búið á Vatnsá. Það bæjarnafn er nú ekki til en gömul munnmæli voru um það Öxnadal að Hraun hefði áður heitið Vatnsá. Sonur Þóris var Steinröður rammi „er mörgum manni vann bót, þeim er aðrar meinvættir gerðu mein“. Í Landnámu er minnst á viðureign hans við galdrakerlinguna Geirlaugu. Geirleifur Hrappsson. Geirleifur Hrappsson var landnámsmaður í Eyjafirði. Hann nam Hörgárdal að norðvestan, allt upp til Myrkár, og bjó í Haganum forna, það er að segja Fornhaga. Landnáma segir að bróðir Geirleifs hafi verið Grenjaður Hrappsson, landnámsmaður á Grenjaðarstað. Sonur Geirleifs var Björn hinn auðgi, forfaðir Auðbrekkumanna. The Proposal. The Proposal (íslenska: "Bónorðið") er bandarísk gamanmynd frá árinu 2009 sem leikstýrt var af Anne Fletcher og leika Sandra Bullock og Ryan Reynolds aðalhlutverkin. Myndin kom út 19. júní 2009 í Bandaríkjunum, 22. júlí 2009 í Bretlandi og 29. júlí 2009 á Íslandi. Söguþráður. Margaret Tate er framkvæmdar-ritstjóri hjá bókaútgáfufyrirtæki, Ruick & Hunt Publishing. Undirmenn hennar hata hana mikið vegna þess hvað hún er stjórnsöm og köld. Eftir að hún kemst að því að það á að vísa henni úr landi, aftur til Kanada, neyðir hún aðstoðarmanninn sinn, Andrew Paxton, til að giftast sér, þar sem framtíð hans er bundin framtíð hennar hjá fyrirtækinu. Andrew samþykkir með skilyrðum að giftast Margaret. Þau verja helginni saman með foreldrum Andrews í Sitka í Alaska til þess að gera lygina trúverðuga, þar sem þau munu vera gestir í 90 ára afmæli ömmu Andrews, Annie. Margaret ber litla virðingu fyrir Alaska og er undrandi þegar hún kemst að því að fjölskylda Andrews á flest fyrirtækin í Sitka. Foreldrar Andrews halda óvænta veislu fyrir þau, þar sem Andrew hittir fyrrverandi kærustuna sína, Gerthy. Eftir að hafa verið niðurlægður af föður sínum, Joe Paxton, tilkynnir Andrew um trúlofun hans og Margaret. Einn morguninn leggur fjölskyldan til að þau myndi gifta sig þessa sömu helgi og þau fallast á þá hugmynd. Andrew er stressaður vegna þess að hjónabandið er lygi og Margaret reynir að hughreysta hann og sannfæra hann, og fer þá að þykja óvenjulega vænt um hann. Til að greiða úr tilfinningum sínum fer hún í hjólreiðatúr í skóginum þar sem hún finnur Annie að „færa þakkir“. Annie býður henni að vera með og þær enda á því að dansa á meðan Andrew horfir á. Einn daginn kemur herra Gilbertson, fulltrúi bandarísku innflytjendastofnunnar sem er að skoða landvistarleyfi Margaret, en Joe hefur sett sig í samband við hann. Hann segir Andrew að hann muni ekki fara í fangelsi ef hann játi að hjónabandið sé lygi en Margaret muni vera flutt til Kanada. Andrew, sem núna þykir mjög vænt um Margaret, neitar staðfastlega að samband þeirra sé lygi. Á meðan athöfninni stendur ákveður Margaret að hún geti ekki gifst Andrew og játar viðskiptasamninginn fyrir framan alla, þar á meðal herra Gilbertson sem segir henni að hún hafi tuttugu og fjóra tíma til að koma sér aftur til Kanada. Þar sem Margaret játaði lygina fer Andrew ekki í fangelsi. Margaret snýr aftur til New York til að pakka saman dótinu sínu. Andrew hleypur inn í herbergið þeirra en kemst að því að hún sé farin en hún skildi handritið hans eftir með miða með miklu hrósi á, á rúminu. Þegar hann hleypur út úr húsinu til að hitta Margaret, lenda Andrew og Joe í miklu rifrildi. Annie fær hjartaáfall þegar hún reynir að stoppa rifrildið og er kallað á sjúkraþyrlu sem mun flytja hana á sjúkrahús og fær hún Joe og Andrew til að samþykkja að hætta að rífast, svona „áður en hún deyr“. Þegar þeir hafa samþykkt það tilkynnir Annie að þetta hafi allt verið í plati, bara svo þeir myndu hætta að rífast og reyna að komast að flugvél Margaret áður en hún færi til New york. Andrew reynir að stoppa flugið hennar en nær því ekki í tæka tíð. Andrew flýtir sér til New York og fer á skrifstofuna þar sem hann játar ást sína á Margaret fyrir framan alla starfsmennina og biður hana að giftast sér aftur þar sem hann vilji „fara á stefnumót með henni“. Þau fara síðan til herra Gilbertson einu sinni enn til að trúlofast og í alvörunni í þetta skiptið. Á meðan kreditlistinn rúllar, talar Gilbertson ekki aðeins við Andrew og Margaret en líka Joe, Grace, Annie, Ramone og Kevin (fjölskylduhundinn). Galmi (landnámsmaður). Galmi eða Galmur var landnámsmaður í Eyjafirði og nam land á Galmaströnd ("Galmarströnd" eða "Galmannsströnd") við vestanverðan fjörðinn, á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár, og er ströndin kennd við hann að því er segir í Landnámabók. Raunar eru til aðrar skýringar á örnefninu og það er til víðar á landinu. Galmi hefur þó ekki numið alla ströndina því að hluta hennar nam Örn, frændi Hámundar heljarskinns. Sonur Galma hét að sögn Landnámu Þorvaldur og bjó fyrst í Þorvaldsdal. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir betur þekkt sem Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er skýrsla sem tekur á forsögu og falli bankakerfis Íslands haustið 2008. Tilgangur skýrslunnar er að gera ábyrgð íslenskra ráðamanna, banka- og viðskiptamanna sem og blaðamanna á hruni bankakerfis Íslands skil. Nefndarmeðlimir Rannsóknarnefndar Alþingis rituðu skýrsluna en nefndina skipuðu þau Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Skýrslan birtist þann 12. apríl árið 2010 eftir að hafa verið frestað fjórum sinnum. Fyrst stóð til að skýrslan myndi liggja fyrir þann 1. nóvember 2009, fyrsta frestunin var till 1. febrúar síðan til byrjun marsmánaðar og loks til 12. apríl. Skuldugir alþingismenn og/eða makar þeirra. Í 2. bindi skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis er fjallað um þá stjórnmálamenn og maka þeirra sem höfðu heildarlánstöðu sem var hærri en 100 milljónir króna. Ýmsir stjórnmálamen fengu óhóflega lánafyrirgreiðslu hjá bönkunum. Arreboe Clausen. Arreboe Clausen (5. nóvember 1892 – 8. desember 1956) var reykvískur verslunarmaður, bílstjóri, íþróttamaður og listamaður. Hann var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Fram og formaður þess um tíma. Ævi og störf. Arreboe fæddist í Stykkishólmi. Foreldrar hans voru Holger Peter Clausen kaupmaður og alþingismaður og Guðrún Þorkelsdóttir. Guðrún var systir dr. Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar sem hafði viðurnefnið Forni. Árið 1925 kvæntist Arreboe Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen. Þau eignuðust tvo syni, tvíburana Hauk og Örn, sem báðir urðu einhverjir mestu afreksmenn Íslands í frjálsum íþróttum. Arreboe starfaði á yngri árum sem verslunarmaður í Reykjavík. Síðari hluta starfsævinnar var hann bílstjóri hjá forsætisráðuneytinu. Íþróttir. Knattspyrnufélagið Fram var stofnað vorið 1908 af nokkrum piltum úr miðbæ Reykjavíkur. Arreboe var í hópi stofnfélaganna og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var til dæmis formaður félagsins um skamma hríð á árinu 1910 og svo aftur 1911-13 og 1917-19. Hann var gerður að heiðursfélaga Fram á fjörutíu ára afmæli félagsins. Arreboe var fastamaður í keppnisliði Fram um árabil. Hann tók til dæmis þátt í fyrsta opinbera leik félagsins, sem var stuttur sýningarleikur við vígslu Melavallarins 17. júní 1911 og keppti á fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu árið eftir. Hann varð margoft Íslands- og Reykjavíkurmeistari með hinu sigursæla Framliði á öðrum áratugnum. Á þessum árum var vinsælasta leikkerfi knattspyrnumanna 2-3-5, þar sem tveir varnarmenn áttu í höggi við fimm sóknarleikmenn andstæðinganna. Arreboe lék alla tíð sem varnarmaður. Einkennismerki hans var að hreinsa knöttinn frá með ógnarföstum spyrnum sem urðu víðfrægar. Reykvískir knattspyrnuáhugamenn töluðu um „Clausen-spörkin“. Var þeim einatt vel fagnað á Melavellinum og því meira sem spyrnurnar voru fastari og lengri. Arreboe var einnig meðal félaga í hinu skammlífa íþróttafélagi Skandinavisk Boldklub, sem var að öllu leyti skipað Norðurlandabúum eða fólki af skandinavískum uppruna sem búsett var í Reykjavík. Listir. Arreboe Clausen var listfengur maður. Hann þótti ágætur málari og gerði til dæmis tillögur að merki Knattspyrnufélagsins Fram sem allar hafa glatast. Jafnframt var hann góður píanóleikari og fékkst við tónsmíðar. Árið 1915 sendi hann frá sér Knattspyrnumars, sem mun vera fyrsta íslenska tónverkið sem helgað er fótboltaíþróttinni. Á 25 ára afmæli Fram árið 1933 samdi Arreboe svo séstakan vals, Framvalsinn, ásamt Sesselju konu sinni. Framvalsinn hefur upp frá því verið leikinn á hátíðlegum stundum í sögu félagsins. Veigamesta framlag Arreboes til íslenskrar hámenningar er þó tvímælalaust útgáfa hans á bókinni Söngvasafn árið 1948. Þar var safnað saman helstu perlum vinar hans, tónskáldsins Inga T. Lárussonar, sem lést þremur árum fyrr. Ingi var hlédrægur maður þegar kom að tónlistarsköpun sinni og sinnti lítið um útgáfu á verkum sínum. Með Söngvasafninu tókst að tryggja að mörg laga hans varðveittust og urðu þjóðkunn. Dómkirkjan í Köln. Dómkirkjan í Köln er þriðja hæsta kirkja heims Dómkirkjan í Köln er ein þekktasta dómkirkja Þýskalands. Hún er jafnframt næsthæsta kirkjan í Þýskalandi með 157 metra (á eftir dómkirkjunni í Ulm) og þriðja hæsta í heimi. 1880-1884 var kirkjan meira að segja hæsta bygging heims. Í kirkjunni eru líkamsleifar vitringanna þriggja. Kirkjan er mest sótti ferðamannastaður Þýskalands. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrirrennari. Fyrirrennari dómkirkjunnar var hin svokallaða Hildebold-kirkjan. Það var erkibiskupinn Hildebold sem lét reisa þá kirkju í kringum aldamótin 800 og var hún vígð 873. Þessi kirkja var fyrirmynd ýmissa annarra kirkna í Evrópu. Mesti dýrgripur hennar var Gerokrossinn, næstelsti stórkross norðan Alpa. Auk þess voru þar líkamsleifar vitringanna þriggja. Sökum þess að kirkjan annaði varla lengur hina miklu ásókn pílagríma, var ráðgert að reisa nýja og stærri kirkju. En gamla kirkjan brann 1248 og var þá sama ár hafist handa við að reisa núverandi dómkirkju. Fyrri byggingartíminn. Dómkirkjan 1824. Þetta var ásýnd kirkjunnar í rúmar þrjár aldir. 15. ágúst 1248 hófust framkvæmdir við nýju kirkjuna. Verkið vannst vel og hratt og var fyrsta áfanga lokið 1277. Hún var þá vígð og notuð fyrir messur, þrátt fyrir að meginhlutar hennar voru enn í byggingu. Milli 1304 og 1311 voru hinir gríðarstóru gluggar settir í. Þeir sýna 48 konunga Ísraels og Júda, ásamt öðru myndefni úr Biblíunni. Samanlagt eru gluggarnir 1.350 m² að stærð og mynda eina stærstu gluggaseríu frá miðöldum. Kórinn var vígður 1322 og voru þá líkamsleifar vitringanna þriggja fluttar í kirkjuna, ásamt steinkistum nokkurra erkibiskupa. 1331 var byrjað að reisa kirkjuskipið. 1388 voru framkvæmdir á því komnar svo vel á vel að hægt var að nota það við vígslu háskólans í Köln. 1418 var suðurturninn orðin svo hár að fyrsta kirkjubjallan var hengd upp. Turninn var þá 59 metra hár. Síðla á 15. öld var hægt á öllum framkvæmdum. Um 1500 var þó grunnurinn lagður að norðurturninum, en allar framkvæmdur hættu að mestu eftir það. Síðast er vitað um byggingarframkvæmdir fyrir árið 1528. Ástæður fyrir því að hætt var við allar framkvæmdir var sú að viðhorf manna til verksins höfðu breyst. Siðaskiptin í héraðinu þýddi að minni peningur var til í kaþólsku kirkjunni, þrátt fyrir að siðaskiptin fóru aldrei fram í borginni sjálfri. Pílagrímum fækkaði umtalsvert og það þýddi minni tekjur fyrir kirkjuna. Á þessum tíma var kirkjan nær fullgerð að innan og í góðu nothæfu ástandi. 1531 fór fram konungskjör í dómkirkjunni. Þar var Ferdinand I, bróðir Karls V keisara, kjörin eftirmaður bróður síns. 1794 skemmdu Frakkar kirkjuna nokkuð. Þeir stöðvuðu allar guðsþjónustur 1796. Dómkirkjan var ekki notuð á ný fyrr en Frakkar yfirgáfu Köln 1814. Seinni byggingartíminn. Í rúmar þrjár aldir var hin ófullgerða dómkirkja látin standa í borginni. Á suðurturninum var stór og mikill byggingarkrani sem ekki var notaður allan þennan tíma. Í upphafi 19. aldar varð orðatiltækið til í Köln, að þegar kirkjan yrði loks fullgerð, þá væri heimsendir í nánd. Framkvæmdir hófust á ný 1823. Þá voru upphaflegu teikningarnar týndar, en höfðu fundist á ný 1814. Helmingur þeirra í Darmstadt og hinn helmingurinn í París. Prússneski konungurinn veitti fjarmagn. 1863 var allri innréttingu kirkjunnar lokið. Síðustu framkvæmdir var við turnana. 1880 var kirkjan öll fullgerð. Turnarnir voru þá orðnir 157 metra háir. Þar með var dómkirkjan í Köln hæsta mannvirki heims og var hún það allt til 1884 er Washington Monument var fullgert. Í dag er dómkirkjan í Ulm hæsta kirkja heims með 161 metra. Til marks um umfang og hæð dómkirkjunnar í Köln má nefna að það tók tvö ár að fjarlægja stillasana. Kirkjuskipið er 144 metra langt og er þar með lengsta kirkjuskip Þýskalands og eitt hið lengsta í heimi. Hæð skipsins er 43,35 m og er fjórða hæsta kirkjuskip heims. Þó tekur kirkjan ekki nema 1.200 manns í sæti. Stríð. Dómkirkjan slapp við meiriháttar skemmdir í seinna stríðinu Þegar dómkirkjan var fullgerð síðla á 19. öld var hún ljósbrún að lit. Með sóti frá umhverfinu og sérstaklega í loftárásum seinna stríðs varð kirkjan sífellt dekkri. Meðan loftárásir fóru fram voru sjálfboðaliðar staðsettir í kirkjunni til að slökkva alla elda sem sprengjur orsökuðu. 70 sprengjur sprungu alls í og við kirkjuna og ollu þær nokkrum skaða, sérstaklega á þakinu. En fólkinu tókst að slökkva eldana, þannig að skemmdir innan í kirkjunni voru í algjöru lágmarki. Viðgerðir fóru fram strax eftir stríð, samfara fornleifauppgreftri undir kirkjugólfinu. 1956 fóru messur fram á ný í kirkjunni. 1997 var haldið upp á að 700 ár voru liðin frá lagningu hornsteins kirkjunnar. 1996 var dómkirkjan í Köln sett á heimsminjaskrá UNESCO. 2006 heimsótti Benedikt XVI páfi kirkjuna. Hún er í dag mest sótti ferðamannastaður Þýskalands með 6 milljón gesti árlega. Gerokrossinn. Gerokrossinn er næstelsti stórkross norðan Alpa sem varðveist hefur. Hann er 2,88 m hár og var smíðaður síðla á 10. öld úr eikarviði. Upphaflega var krossinn án kransins. Honum var ekki bætt við fyrr en 1683. Í upphafi stóð krossinn í fyrirrennarakirkju dómkirkjunnar og hvíldi á steinkisti erkibiskupsins Gero. Þaðan er heitið komið. 1248 brann sú kirkja, en Gerokrossinn slapp við skemmdir. Meðan nýja dómkirkjan var í byggingu stóð krossinn í Stefánskirkjunni, en var fluttur í dómkirkjuna 1351 og hefur staðið þar síðan. Gamall skírnarfontur. Í kirkjunni er gamall skírnarfontur frá 6. öld. Fonturinn var hluti af fyrirrennarakirkjunni og tilheyrði sennilega kirkju sem stóð þar áður. Fonturinn er átthyrndur og var gengið ofan í hann allan með þar til gerðum tröppum. Stóðu þá presturinn og skírnþegi báðir í vatninu. Hafa ber í huga að á þessum tíma var enn verið að kristna germani og því voru skírnþegar oftar en ekki fullorðið fólk. Helgiskrín vitringanna. Ein mesta gersemi dómkirkjunnar er helgiskrín vitringanna þriggja ásamt líkamsleifum þeirra. Skrínið sjálft er 153 cm hátt, 220 cm langt og 110 cm breitt. Það er gert úr silfri og er gullhúðað. Hliðarnar eru settar gimsteinum og eru skreyttar gullhúðuðum styttum. Formið er eins og kirkjuskip í laginu. Það er þó innihaldið sem er öllu verðmætara, en það eru líkamsleifar vitringanna þriggja sem færðu Jesúbarninu gjafir. Líkamsleifar þeirra bárust frá Konstantínópel til Mílanó. 1164 herjaði Friðrik Barbarossa keisari á Milano og hertók hana. Hann gaf erkibiskupinum frá Köln, Reinhard von Dassel, líkamsleifar vitringanna, sem flutti þær til Kölnar. Stuttu seinna var helgiskrínið smíðað og leifar vitringanna settar þar í. Við það varð fyrirrennari dómkirkjunnar að einum mesta pílagrímsstað í Evrópu. Þegar dómkirkjan var í smíðum var skrínið flutt í hana og lá það þar allt til franska tímans. Skrínið var fjarlægt þegar Frakkar hertóku Köln 1794, þar sem Frakkar (og sér í lagi Napoleon) höfðu orð á sér fyrir að flytja listaverk og dýrgripi til Parísar. Í dag er skrínið til sýnis í dómkirkjunni. Skrínið sjálf var síðast opnað 1864. Þar var þá að finna ýmsar líkamsleifar, ekki bara þriggja manna, heldur nokkurra í viðbót. Klörualtaristaflan. Altaristaflan kennd við heilaga Klöru var smíðuð 1350-60 og stóð upphaflega klaustri heilagrar Klöru í Köln. En þegar Frakkar lokuðu klaustrinu var altaristaflan flutt í dómkirkjuna, þar sem hún stendur enn. Altaristaflan er 6 metra breið í þremur stykkjum, sem hægt er að loka. Venjulega er altaristaflan lokuð, en hún er opnuð á degi heilagrar Klöru. Annað. Í dómkirkjunni eru mýmargar styttur, málverk og ölturu. Flest eru þessi listaverk til sýnis í kirkjunni, en nokkur eru geymd í lokuðu hliðarhúsi, kölluð fjársjóðsgeymslan ("Domschatzkammer"). Klukkur. Aðalklukknaverk dómkirkjunnar samanstendur af 8 stórum klukkum, sem þykir eitt mesta klukknaverk í dómkirkju í heimi. Stærsta klukkan heitir Pétursklukkan og vegur hún eins og sér 24 tonn. Hún er þar með langþyngsta kirkjuklukka heims. Hún var smíðuð 1923 og hangir í suðurturninum. Pétursklukkan er eingöngu notuð við sérstaka viðburði, til dæmis við andlát erkibiskups í Köln eða andlát páfa. Við önnur tækifæri hefur hún aðeins hringt þrisvar á 20. öld. 1936 lét Hitler hringja klukkunni sem nokkurs konar friðarósk. 1945 hringdi hún til marks um lok heimstyrjaldarinnar síðari. 1990 hringdi hún enn við sameiningu Þýskalands. Grafhvelfing. Í dómkirkjunni er grafhvelfing, enda var ákvarðað að hún yrði grafarkirkja erkibiskupanna í Köln. Þar hvíla 25 erkibiskupar, þar á meðal Gero og Reinhard von Dassel. Ólafur Kalstað Þorvarðsson. Ólafur Kalstað Þorvarðsson (15. janúar 1911 – 10. desember 1942) var íslenskur knattspyrnumaður, fyrsti forstjóri Sundhallarinnar í Reykjavík og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Ólafur fæddist í Reykjavík og varð snemma virkur í íþróttastarfi. Hann lék knattspyrnu með Fram og var í úrvalsliði íslenskra knattspyrnumanna sem lék í Þýskalandi sumarið 1935. Auk þess að keppa undir merkjum Fram gegndi Ólafur formannsembættinu í sex ár, frá 1929-35. Hann var ráðinn fyrsti forstjóri Sundhallarinnar árið 1936 og undirbjó rekstur hennar með því að kynna sér starfrækslu sundhalla í Danmörku og Þýskalandi. Ólafur missti ungur heilsuna og varð að leggja skóna á hilluna árið 1938. Hann starfaði þó áfram á vettvangi félagsins og sá meðal annars um þjálfun meistaraflokks sumrin 1941 og 1942. Kjartan, bróðir Ólafs, var einnig virkur í félagsmálum Framara. Hann ritaði mikið um íþróttir í Morgunblaðið og má teljast brautryðjandi í íslenskri íþróttafréttamennsku. Faðir þeirra Kjartans og Ólafs var Þorvarður Þorvarðsson, fyrsti formaður Leikfélags Reykjavíkur. Sólarsella. Sólarsella Sólarsella, ljósspennurafhlaða eða sólarrafhlaða er sá hlutur sem breytir sólarorku beint yfir í raforku með svokallaðri ljósspennuaðferð. Algengast er að sólarsellur séu aðallega úr kísil (Si), annað algengasta efni jarðskorpunnar. Aðal notkun sólarsella nú til dags er á afskekktum stöðum þar sem annars konar raforkuframleiðsla myndi vera of dýr. Stór sólar-raforkuver eru hins vegar einnig til staðar í löndum eins og Bandaríkjunum, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Sviss. Sólar-raforkuver eru mjög mismunand af stærð og gerð. Þau hafa uppsett afl frá 10-60 MW en gert er ráð fyrir um 150 MW sólarraforkuveri á næstu árum. Saga sólarsella. Ljósspenna, það er að segja spenna sem fæst úr ljósi var fyrst uppgötvuð árið 1839 af franska eðlisfræðingnum Edmond Becquerel. Í tilraun sinni komst hann að því að batterí með silfurplötu gæfu meiri spennu ef að ljós skini á plöturnar. Árið 1883 bjó Charles Edgar Fritts til fyrstu sólarselluna úr selenium sem er í grunnatriðum eins og kísil — sólarsellur nútímans. Sú sólarsella var samansett úr þunnri selenium flögu þakin þunnu neti af gullvírum og glerplötu. Með þessari sólarsellu fékkst um 1% nýting (hlutfall sólarorku sem breytt er í rafmagn). Á 5. áratug 20. aldar fóru sólarsellurnar að taka stórstigum framförum á nýtingu sólarorkunnar með tilkomu hálfleiðara. Kísilplata sem var dópuð, var fundin upp 1948, gaf mun meiri nýtni heldur en fyrri sólarsellur eða um 6% nýtni. Árið 1958 var síðan fyrsta sólarsellan notuð sem orkulind á gervihnetti. Á síðustu áratugum 20. aldar hafa hins vegar sólarsellur þróast mikið bæði með lækkun framleiðslukostnaðar og nýtni. Fræði. p-n samskeyti þar sem rafeindir flæða inná p-leiðarann og holur flæða inná n-leiðarann. Undirstaða sólarsellu er samskeyti milli tveggja platna úr tveimur mismunandi hálfleiðurum, n-leiðara (negative) og p-leiðara (positive) sem saman mynda pn-skeyti. Þessir hálfleiðiarar eru oftast geriðir úr kísli en einnig eru til hálfleiðarar úr öðrum efnum. N-leiðarinn er dópaður með litlum „óhreinum“ ögnum. Dópefni n-leiðara er í flokki 3A í lotukerfinu t.d. bróm. Dópun bætir eiginleika hálfleiðara þar sem holur myndast í n-hálfleiðaranum. Í p-hálfleiðaranum er hann dópaður með frumefni sem er í 5A flokki, t.d. arsen þannig að þéttleiki frjálsra rafeinda í n-leiðaranum er mun meira en í p-leiðaranum. Þegar skeytt er saman hálfleiðurum með annars vegar n-leiðni og hins vegar p-leiðni eru mynduð svonefnd pn-skeyti. Á sama hátt eru holuþéttleiki mun hærri í p-leiðandi efninu en í n-leiðandi efninu. Þegar efnunum er skeytt saman flæða rafeindir frá n-leiðandi svæðinu inn á p-svæðið og holur frá p-svæðinu inn á n-svæðið. Þessi hleðslutilfærsla leiðir til þess að næst samskeytunum myndast svæði sem snautt er af hleðsluberum. Eftir sitja jónaðar rafgjafaveilur í n-leiðandi efninu og jónaðar rafþegaveilur í p-leiðandi efninu, sem eru ekki jafnaðar með frjálsum hleðsluberum. Vegna þessa myndast við skeytin snertispenna, innra rafsvið, sem vinnur á móti frekara flæði rafeinda frá n-leiðandi efninu og hola frá p-leiðandi efninu. Í jafnvægi eru heildarstraumar rafeinda annars vegar og hola hins vegar núll. Ef ljósi er nú beint að pn-skeyti raskast jafnvægið. Þegar ljóseind sem hefur nægilega orku fer um ljósspennurafhlaðið myndast par rafeindar og holu. Ef parið myndast í bilinu þar sem engir hleðsluberar eru leiðir rafsviðið til aðskilnaðar rafeindar og holu. Þannig myndast frjáls rafeind og hola sem geta tekið þátt í leiðniferlinu; rafstraumur kemur til sögu. Rafeindirnar safnast í n-svæðið og holurnar í p-svæðið. Hleðsluberar sem eru myndaðir utan berasnauða bilsins verða að sveima að samskeytunum. Mest af ljósinu er gleypt nærri yfirborðinu þar sem ljósið kemur inn. Það er þess vegna mikilvægt að samskeytin séu nærri yfirborðinu svo að víkjandi hleðsluberinn (hola í n-efni) nái að samskeytunum áður en hún sameinast rafeind. Til að sem mestu ljósi sé breytt í raforku þarf að hanna ljósspennurafhlaðið með sem stærstum samskeytafleti næst yfirborðinu. Enn fremur þarf dýpt inn að skeytunum frá yfirborðinu að vera minni en sveimlengd víkjandi bera (hola í n-leiðandi efni). Ef leiðari er tengdur við rafhlaðið getur runnið straumur sem getur til dæmis hlaðið rafhlöðu eða kveikt á ljósaperu. Ljóseind sem hefur orku sem er minni en orkugeil efnisins hefur engin áhrif á rafhlaðið. Ljóseind sem hefur orku sem er hærri en sem nemur orkugeil efnisins leggur hins vegar sitt af mörkum til straumsins frá rafhlaðinu. Gerðir kísilsólarsella. Grunnlög sólarsellu Eins og staðan er í dag þá eru kísilsólarsellur langstærstu hluti af framleiddum sólarsellum og þá sérstaklega í kristalformi en einnig í ómótuðum kísli. Einnig eru miklir möguleikar á lækkun á framleiðslukostnaði í framtíðinni. Einkristallaðar kísilsellur. Einkristallaðar kísilsellur (e. "monocrystalline silicon cells") eru samfelldur kísilkristall strúktur með nánast engum göllum eða óhreinindum. Slíkur kísill er oftast búinn til í ferli sem kallast Czochralski ferlið og eru með mjög háa nýtni en framleiðslan tekur mjög langan tíma og er dýr. Einnig er framleiðsluferlið mjög orkukreft. Fjölkristallaðar kísilsellur. Fjölkristallaðar kísilsellur (e. "polycrystaline silicon cells") eru samsettar úr litlum einkristalla kornum. Fjölkristallaðar kísil sólarsellur eru auðveldari og ódýrari í framleiðslu en hafa hins vegar lægri nýtni vegna þess að rafeindir og holur geta sameinast aftur milli einkristallskornanna. Hægt að er laga það að hluta til með því að hafa kornin stærri. Besta nýtnin á fjölkristalla kísil sellum er um 14%. Þunnfilmu PV. Þunnfilmu sólarsellur (e. "thin-film solar cells") eru úr ómótuðum kísli (e. amorphous silicon) en hann hafur ekki kristalgrind. Slíkur kísill var fyrst notað í sólarsellu árið 1976. Slíkar sellur eru ekki með hið hefðbundna P-N samskeyti heldur P-i-N samskeyti þar sem þykkri filma af ómótuðum kísli er á milli þunnra P-lagsins og N-lagsins. Þessi gerð er ódýrari í framkvæmd en kristall-kísil sellurnar og einnig ekki eins orkufrek þar sem lægri hita þarf til að framleiða þessa gerð. En nýtnin er aftur á móti slakar og er oftast á bilinu 4-8%. Þessar gerðir sólarsellu er víða notuð til dæmis í rafhlöðum þar sem verð skiptir meira máli en nýtni. Aðrar gerðir. Myndin sýnir nýtni sólarsella í % og hvernig nýtnin hefur breyst í gegnum árin. Galíumarseníd. Til eru aðrar gerðir af sólarsellum en kísill, til dæmis er hægt að nota galíumarseníd (GaAs) sem hálfleiðara í sellunni. Galíum hefur kristalbyggingu eins og kísil og er mjög ljósgleypið efni og þar af leiðandi þar af leiðandi þarf ekki nema þunnt lag af efninu. Sólarsellur úr GaAs eru semsagt með betri nýtni en einkristallaðar kísil-sólarsellur og virka við hærri hita en aðrar sellur. Aftur á móti er þessi gerð ein sú dýrasta sem til er og er þess vegna ekki notuð nema þar sem mjög mikla nýtni þarf að fást eins og útí geimi. Einnig eru sólarorku kappakstursbílar með slíka gerð. Um og yfir 27% nýtni hefur fengist með Galíumarseníd sólarsellu og er möguleiki á allt að 35% nýtni. Margsamskeyta sólarsellur. Ein leið til að auka nýtni sólarsella er að setja saman mörg lög af ljósspennusamskeytum, eins og í margsamskeyta sólarsellum (e. "multiple-junction solar cells"). Á milli p- og n- lagana er oftast haft ómótaður kísill (e. "amorphous silicon"). Safntækni. Önnur leið til að fá meira út úr sólarsellunum er að nota spegla eða linsur til að safna sólargeislunum saman. Þessi aðferð hefur þá kosti að það þarf færri sólarsellur. Venjulega þarf hins vegar að kæla kerfið til að koma í veg fyrir ofhitnun. Dýrustu og flóknustu gerðirnar nota stýrikerfi sem passa uppá að safntækin fylgi alltaf sólinni svo að sellurnar fái alltaf sem mest af sólargeislum. Notkun sólarsella. Veðurstöðin Vatnsskarð við Þjóðveg 1. Eins og staðan er í dag eru sólarsellur enn of dýrar í framleiðslu til að vera samkeppnishæfar á markaði en en nálgast þó. Í dag eru um 55% af fólksfjölda jarðar ekki tengdur rafmagnskerfi og á þeim svæðum eru sólarsellur oftast besti kosturinn til rafmagnsöflunar. Mikill meirihluti af þessum 55% sem ekki eru tengd rafmagnsneti eru fólk sem býr í þróunaríkjunum. Á slíkum stöðum er sólarorka keppnishæf, sérstaklega í sólarlöndum. Í iðnaðarlöndunum eru sólarsellur notaðar á afskeftum stöðum eins og veðurstöðvum, siglingarbaujum og afskekktum eyjum. Þá hlaða sólarsellurnar rafmagn inná rafhlöður. Á Íslandi eru fellihýsi, húsbílar og hjólhýsi mörg hver komin með sólarsellur, veðurstofan og vegagerðin nota sólarsellur til að knýja ómannaðar veðurstöðvar. Umhverfisáhrif. Framleiðsla á sólarsellum er oft dýr og orkufrek. CO2 útblástur sem myndast við gerð sólarsella eru um 25-32 g/kwst, ef endurnýtanleg raforka er notuð til að framleiða sólarsellur myndi þessa tala hins vegar falla niður. Eftir að sólarsellan hefur verið framleidd þá gefur hún ekki frá sér gróðurhúsaloftegundir og efnin sem eru notuð í sólarsellum eru ekki hættuleg umhverfinu í flestum tilvikum.. Til samanburðar gefa kolaorkuver um 915-994 g/kWst og jarðvarmaorkuver um 20-40 g/kwst. Orkan em notuð er til að framleiða sólarsellur fæst til baka á 1- 4 árum en það fer eftir gerð og staðsetningu. Þar sem sólarsellur endast í 20-30 ár þýðir það að sólarsellur gefa af sér umtalsvert meiri raforku en það sem fer í að búa þær til Stig (netafræði). Stig eða gráða hnúts er hugtak í netafræði sem gefur til kynna fjölda leggja sem eru álægir („liggja við“) hnútinum þar sem snörur teljast tvisvar. Innstig og útstig eru hugtök sem eiga við stefnd net, innstig vísar til fjölda leggja sem liggja að ákveðnum hnút og útstig vísar til fjölda leggja sem liggja frá ákveðnum hnút. Innstig hnútsins formula_1 er táknað með formula_2 og útstig hnútsins formula_1 er táknað formula_4. Tvíhlutanet. Tvíhlutanet á við netið formula_2 í netafræði þar sem skipta má öllum hnútum netsins upp í tvö mengi formula_6 og formula_7 sem hafa engin sameiginleg stök og hafa þann eiginleika að allir leggir tengja saman hnút í mengi formula_6 við hnút í mengi formula_7. Þráinn Sigurðsson. Þráinn Sigurðsson (23. ágúst 1911 – 25. mars 1986) var klæðskeri, knattspyrnuþjálfari og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Þráinn fæddist í Hafnarfirði og ólst þar upp. Að klæðskeranámi loknu fluttist hann til Reykjavíkur og gekk til liðs við Knattspyrnufélagið Fram. Hann lék knattspyrnu með meistaraflokki félagsins í áratug, lengst af sem markvörður. Utan vallar lét hann einnig til sín taka og gegndi formannsembættinu árin 1943-46 og aftur 1947-48. Árin 1943 og 1945 sá Þráinn jafnframt um þjálfun meistaraflokksins, en það verkefni fylgdi oft formennskunni. Formannsár Þráins voru á miklum uppgangtíma hjá Frömurum. Félagið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu árið 1946 og stóð sama sumar að því að bjóða danska landsliðinu til Íslands í samvinnu við Knattspyrnuráð Reykjavíkur. Var það fyrsti landsleikur Íslands sem sjálfstæðs ríkis. Árið 1945 urðu Framarar fyrsta knattspyrnuliðið í Reykjavík til að eignast eigin knattspyrnuvöll þegar ruddur var malarvöllur á nýju félagssvæði Fram fyrir neðan Stýrimannaskólann. (KR og Valur eignuðust bæði félagssvæði á undan Frömurum, en voru ekki búin að koma upp völlum.) Árið eftir reistu Framarar sér félagsheimili í Skipholtinu sem varð heimili félagsins uns Fram flutti á nýtt félagssvæði í Safamýri árið 1972. Þráinn kvæntist Guðnýju Þórðardóttur sumarið 1936. Guðný æfði handknattleik með Ármanni, sem hafði á að skipa langsterkasta kvennahandknattleiksliði landsins. Árið 1945 hafði Þráinn forgöngu um að Framarar kæmu sér upp kvennaliði í handbolta og að konur gætu gerst félagar í Fram. Ýmsir höfðu efasemdir um ágæti hugmyndarinnar, en fljótlega kom í ljós að kvennadeildin varð félaginu mikil lyftistöng. Ekki leið á löngu uns Framstúlkur komust í fremstu röð í handboltanum. Til að koma liðinu yfir fyrsta hjallann tók Guðný fram handboltaskóna á ný og lék með Frömurum fyrstu misserin. Haustið 1950 fluttustu þau hjónin búferlum til Bandaríkjanna og lauk þar að mestu afskiptum Þráins Sigurðssonar af Knattspyrnufélaginu Fram. Trölladyngja (Ódáðahrauni). Trölladyngja er geysimikill hraunskjöldur og ein mesta gosdyngja Íslands, um 10 km í þvermál. Hún er í Ódáðahrauni, norðan við Vatnajökul í framhaldi af Dyngjuhálsi og Dyngjujökli. Trölladyngja er 1460 m há og rís um 600 m upp fyrir auðnina í kring. Gosaskjan er sporöskjulaga, 1200-1500 m löng, um 500 m á breidd og 100 m á dýpt. Hraun hefur runnið úr honum til allra átta en mest þó til norðurs, hugsanlega alla leið niður í Bárðardal. Alls er talið að frá Trölladyngju hafi runnið um 15 rúmkílómetrar af hrauni. Framan af var fjallið nefnt Skjaldbreiður en Þorvaldur Thoroddsen gaf því heitið Trölladyngja. Tryggvi Magnússon (íþróttamaður). Tryggvi Magnússon (19. júní 1896 – 1. nóvember 1943) var verslunarmaður, alhliða íþróttamaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Tryggvi fæddist í neskaupstað, sonur Guðrúnar Jónsdóttur og Magnúsar Ólafssonar ljósmyndara. Hann flutti ungur til Reykjavíkur og bjó þar alla tíð. Tryggvi kvæntist Elínu Einarsdóttur og áttu þau tvær dætur. Pétur J. H. Magnússon, sem einnig varð formaður Fram, var bróðir Tryggva. Knattspyrnufélagið Fram var stofnað á vormánuðum 1908. Tryggvi var þá á tólfta ári og einna yngstur stofnfélaga. Þrettán ára gamall var hann ráðinn sem sendill við verslunina Edinborg, þar sem hann starfaði alla tíð upp frá því. Síðast sem verslunarstjóri. Hann varð fastur kappliðsmaður frá 1913 uns hann hætti knattspyrnuiðkun um 1930 og fyrirliði frá 1922. Hann var valinn í fjölmörg úrvalslið og var í íslenska úrvalsliðinu sem mætti danska félaginu Akademisk boldklub, árið 1919, sem líta má á sem fyrsta íslenska landsliðið. Þá gegndi hann formennsku í Fram samfellt í átta ár, frá 1920-28. Tryggvi var einhver fjölhæfasti íþróttamaður sem Ísland hefur átt. Auk þess að verða margfaldur Íslandsmeistari í knattspyrnu átti hann met í frjálsum íþróttum og varð Íslandsmeistari í fimleikum þrátt fyrir að vera kominn á fertugsaldur þegar fyrst var keppt um þann titil. Hann þótti afbragðsskíðamaður og sat í fyrstu stjórn Skíðafélags Reykjavíkur. Þá vann hann til verðlauna í bæði skautahlaupi og dýfingum. Gunnar Nielsen. Gunnar Nielsen (16. september 1914 – 18. maí 1989) var skrifstofustjóri Hitaveitu Reykjavíkur og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Gunnar fæddist í Kaupmannahöfn og var fjölskylda hans á faraldsfæti milli Danmerkur, Íslands og Bandaríkjanna mest öll æskuár hans. Hann varð snemma gallharður Framari og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Gunnar var í fyrsta meistaraflokksliði Fram í handknattleik, sem keppti á fyrsta Íslandsmótinu árið 1940. Lét hann sig ætíð sérstaklega varða uppbyggingu handknattleiksins innan Fram og kom talsvert að þjálfun. Hann var formaður Fram árin 1949-50 og 1952-53. Á sextíu ára afmæli félagsins, árið 1968, var hann útnefndur heiðursfélagi Fram. Jörundur Þorsteinsson (formaður Fram). Jörundur Þorsteinsson (13. mars 1924 – 15. apríl 2001) var skrifstofumaður, knattspyrnudómari og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Jörundur fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hann lék knattspyrnu með öllum flokkum Fram og tók þátt á fyrsta Íslandsmótinu í handknattleik árið 1940 sem leikmaður í öðrum flokki. Kunnastur varð hann þó af dómarastörfum sínum, en hann sinnti dómgæslu í þrjátíu ár frá 1944-74 og var því næst eftirlitsdómari fram á áttræðisaldurinn. Hann var formaður Knattspyrnudómarasambands Íslands 1978-79. Jörundur sat í stjórn Fram og var formaður 1954-55. Skömmu fyrir andlátið var hann útnefndur heiðursfélagi í Fram. Stefán A. Pálsson. Stefán A. Pálsson (2. febrúar 1901 – 21. desember 1989) var stórkaupmaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Stefán var kaupmannssonur og lagði snemma fyrir sig verslun og viðskipti. Hann rak eigin heildverslun frá 1921-60 en varð síðar skrifstofumaður hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur. Árið 1932 kvæntist hann eiginkonu sinni, Hildi E. Pálsson. Þau eignuðust átta börn, en fimm komust á legg. Stefán var kunnur maður í bæjarlífi Reykjavíkur, ekki hvað síst vegna starfa sinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Um langt árabil var hann aðalkosningastjóri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Fyrir forsetakosningarnar 1952 gerðist Stefán einn af kosningastjórum Ásgeirs Ásgeirssonar, en flestir Sjálfstæðismenn studdu mótframbjóðanda hans, sr. Bjarna Jónsson. Aðalfundur Knattspyrnufélagsins Fram árið 1928 var afdrifaríkur. Félagið var við það að lognast út af og rætt var í fullri alvöru um að sameina það Knattspyrnufélaginu Víkingi, sem einnig átti erfitt uppdráttar. Það varð Fram til lífs að á fundinum var kjörin ný stjórn sem var staðráðin í að rífa upp starfsemina. Stefán A. Pálsson var kjörinn formaður vegna reynslu sinnar af félagsmálum. Hann hafði aldrei leikið knattspyrnu, en tók að sér verkefnið fyrir atbeina vinar sína Guðmundar Halldórssonar. Hann var formaður frá 1928-29, en sat svo lengi í stjórn eftir það. Á 35 ára afmæli Fram, var Stefáni veittur silfurkross félagsins. Árin 1938-46 var Stefán varabæjarfulltrúi í Reykjavík fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Frá 1934-54 veitti hann, Vetrarhjálpinni forstöðu, en sá félagsskapur hafði það markmið að aðstoða fátækt fólk í kringum jólin. Gunnar Halldórsson. Gunnar Halldórsson (24. október 1894 – 2. júní 1962) var skrifstofustjóri og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Gunnar fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í stórum systkinahópi, sonur Halldórs Jónssonar bæjarfulltrúa. Meðal systkina Gunnars var Pétur Halldórsson sem var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1935-40. Sjálfur starfaði Gunnar lengst af hjá Reykjavíkurbæ og sá um bókhald fyrir nýbyggingar bæjarins. Kona hans var Kristín Björnsdóttir. Vorið 1908 var Gunnar í hópi stofnfélaga Knattspyrnufélagsins Fram. Hann var framherji í fyrsta kappliði félagsins gegn KR í vígsluleik Melavallar 1911 og tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1912. Gunnar lék síðast með Fram sumarið 1920. Árið 1910 lá við að Fram gliðnaði í sundur vegna deilna félagsmanna, meðal annars um afnot af bolta félagsins. Til að miðla málum tók Gunnar Halldórsson tímabundið við formennsku í félaginu og gegndi henni í nokkrar vikur. Antoni van Leeuwenhoek. Antoni van Leeuwenhoek (24. október 1632 – 26. ágúst 1723) var hollenskur smásjársmiður og vísindamaður. Hann er þekktastur fyrir að hafa lýst örverum fyrstur manna og er því gjarnan sagður faðir örverufræðanna. Hann var einnig fyrstur til að lýsa sæðisfrumum, byggingu vöðvatrefja, og blóðflæði í háræðum. Æviágrip. Leeuwenhoek, sem skírður var "Thonis Philipszoon" en varð fljótlega kenndur við æskuheimili sitt í Leeuwenpoort-stræti, var sonur körfugerðarmannsins Philip Thonisz og konu hans, Grietje Jacobs van den Berch. Faðir hans lést reyndar árið 1638 og ólst Thonis því upp föðurlaus frá unga aldri. Móðir hans giftist að nýju þremur árum síðar og sendi hann þá til náms, fyrst í menntaskóla nærri Leiden, en síðar til Amsterdam og mæltist til að hann lærði bókhald. Hann komst hins vegar í læri hjá skoskum álnavörukaupmanni og fékkst þar við afgreiðslu og bókhald. Í því starfi komst hann fyrst í snertingu við stækkunargler sem notað var til að að skoða vefnað. Hann heillaðist af stækkunarglerinu og varð sér úti um sitt eigið. Árið 1654 fluttist hann aftur heim til Delft og opnaði þar álnavörubúð. Þann 11. júlí það ár kvæntist hann Barböru de Mey og var nafn hans skráð við það tækifæri sem "Anthoni Leeuwenhouck". Þau Barbara eignuðust fimm börn, en fjögur þeirra dóu ung. Barbara lést árið 1666, en fimm árum síðar kvæntist Leeuwenhoek prestsdótturinni Corneliu Swalmius. Hann átti einnig eftir að lifa hana um all mörg ár, en hún lést 1694. Leeuwenhoek lifði fram á tíræðisaldur, en hann lést, saddur lífdaga, árið 1723. Fræðastörf. Eftirmynd af einni af smásjám Leeuwenhoeks Antoni van Leewenhoek gekk aldrei í háskóla né lærði latínu, en gerði sig þó gildandi í evrópsku fræðasamfélagi með fádæma skarpri athyglisgáfu sinni og nákvæmni. Hann gerðist einnig öðrum mönnum leiknari í linsugerð og setti saman einnar linsu smásjár (í raun stækkunargler) sem stóðust fyllilega samanburð við samsettar smásjár þess tíma hvað upplausn og stækkunargetu varðaði. Hann hélt tækni sinni við linsugerðina vandlega leyndri og þótti furðu sæta hve hratt hann gat smíðað hágæða smásjár, en hann setti þær saman svo hundruðum skipti á starfsævi sinni. Smásjárnar notaði hann til að skoða hvers kyns sýni sem á vegi hans urðu. Árið 1673 kom hinn virti læknir og líffærafræðingur Reinier de Graaf, sem einnig bjó í Delft, honum í samband við Konunglega vísindafélagið (e. "Royal Society") í London og ritaði Leeuwenhoek félaginu reglulega bréf þar sem hann útlistaði athuganir sínar af fádæma nákvæmni. Bréfin voru þýdd á ensku og gefin út í riti félagsins, "Philosophical Transactions", og hélt Leeuwenhoek áfram að skrifa félaginu allt til dauðadags. Meðal þess sem Leeuwenhoek ritaði um má nefna ítarlega lýsingu á kjafti býflugna og ýmsum öðrum hlutum skordýra, byggingu kaffibaunarinnar, byggingu sæðisfrumna og smásæjar lífverur í regnvatni og ýmsum öðrum vökvum. Hann telst fyrstur manna til að lýsa bæði frumdýrum og gerlum. Merki Knattspyrnufélagsins Fram. Merki knattspyrnufélagsins Fram er einkennistákn Knattspyrnufélagsins Fram. Það var hannað af Eríki Jónssyni árið 1930. Merkjasaga Fram. Knattspyrnufélagið Fram nefndist upphaflega Knattspyrnufélagið Kári. Á þeim skamma tíma sem Kára-nafnið var við lýði var ákveðið að merki félagsins skyldi vera blár hringur með hvítum krossi og félagsnafninu rituðu inn í krossinn. Ekki er þó vitað hvort merki þetta var nokkru sinni búið til og því vafasamt að telja það fyrsta félagsmerki Fram. Fram og Fótboltafélag Reykjavíkur (síðar Knattspyrnufélag Reykjavíkur) léku knattspyrnuleik á Landsmóti UMFÍ á Melavellinum þann 17. júní 1911. Á ljósmyndum sést að Framararnir léku í hvítum treyjum með merki á hægra brjósti. Merkið var dökkur skjöldur (væntanlega blár) með hvítum skáborða. Á borðanum var letrað FRAM. Ekkert eintak hefur varðveist af þessu merki og engin formleg samþykkt er til um það. Þegar Fram og Fótboltafélagið mættust á fyrsta Íslandsmótinu sumarið 1912, var merkið á bak og burt. Framarar höfðu þá tekið upp bláu treyjurnar sem fylgt hafa liðinu síðan. Í stað merkis var saumaður stór hvítur borði á mitt skyrtubrjóstið með áletruninni FRAM. Slíka borða má sjá á myndum af leikmönnum Fram næstu árin, en á liðsmynd af Íslandsmeisturunum 1925 er borðinn horfinn og búningurinn algjörlega ómerktur. Árið 1929 fékk stjórn Fram heimild aðalfundar til að láta útbúa félagsmerki. Tveir dyggir og listfengir félagsmenn, Arreboe Clausen og Eríkur Jónsson, unnu fjölmargar tillögur sem hafa því miður glatast. Að lokum varð ein af tillögum Eiríks fyrir valinu og hafa Framarar borið merkið frá árinu 1930. Eiríkur Jónsson var gerður að heiðursfélaga Fram árið 1943. Sigurður E. Jónsson. Sigurður E. Jónsson (24. september 1921 – 17. nóvember 1966) var íslenskur knattspyrnumaður, verkstjóri hjá Reykjavíkurborg forstjóri og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Sigurður var verkstjóri hjá Pípugerð Reykjavíkur þegar hann lést langt fyrir aldur fram, 45 ára að aldri. Hann var þá kunnur fyrir störf sín að íþróttamálum. Sigurður var lék í mörg ár með meistaraflokki Fram í knattspyrnu og varð Íslandsmeistari árið 1939. Hann þótti harðsnúinn varnarmaður, en var einnig vítaskytta í Íslandsmeistaraliðinu. Á þeim tíma var það óþekkt að varnarmenn væru látnir taka vítaspyrnur. Utan vallar stjórnaði Sigurður lengi knattspyrnunefnd Fram og var formaður félagsins á árunum 1961-64. Á þeim tíma reyndi félagið árangurslaust að þrýsta á um að Reykjavíkurborg stæði við loforð sitt um nýtt félagssvæði í Kringlumýri. Innósentíus 12.. Innósentíus 12. (13. mars 1615 – 27. september 1700) sem hét upphaflega Antonio Pignatelli var páfi frá 12. júlí 1691 til dauðadags. Hann var af aðalsfjölskyldu frá Konungsríkinu Napólí. Innósentíus 11. gerði hann að kardinála og erkibiskup yfir Napólí. Við lát Alexanders 8. var hann kjörinn sem málamiðlun milli krafa Frakklands og hins Heilaga rómverska ríkis. Strax eftir kjör sitt hóf hann baráttu gegn spillingu í Páfagarði; frændhygli og símonsku. Pétur J.H. Magnússon. Pétur J. H(offmann) Magnússon (14. nóvember 1894 – 28. maí 1963) var bankagjaldkeri, knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Pétur fæddist á Akranesi, sonur Guðrúnar Jónsdóttur og Magnúsar Ólafssonar ljósmyndara. Hann fluttist ungur til Reykjavíkur og starfaði lengst af sem bankagjaldkeri. Tryggvi Magnússon, sem einnig varð formaður Fram, var bróðir Péturs. Snemma árs 1908 festi Pétur kaup á fótbolta sem hann rakst á í Breiðfjörðsverslun í Aðalstræti. Knötturinn kostaði 95 aura, sem ar talsvert fé fyrir pilt á fermingaraldri. Í kjölfarið fóru Pétur og vinir hans, sem flestir bjuggu í og við Tjarnargötuna að spila fótbolta öllum stundum. Upp út þessum æfingum ákváðu piltarnir að stofna knattspyrnufélag. Miðuðu þeir stofndag félagsins við 1. maí 1908, en það var þó fyrst í mars 1909 sem félagið samþykkti lög, kaus sér stjórn og ákvað nafn. Pétur varð fyrsti formaður félagsins og gegndi embættinu frá 1909-11 (með stuttu hléi) og aftur 1913-14 og 1915-17. Árið 1943 var hann útnefndur heiðursfélagi í Fram. Pétur var í fyrsta keppnisliði Fram og lék með meistaraflokki til ársins 1922. Hann skoraði fyrsta markið í sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu í 1:1 jafnteflisleik gegn Fótboltafélagi Reykjavíkur árið 1912. Auk knattspyrnunnar sinnti Pétur öðrum íþróttagreinum og útivist. Hann sat í fyrstu stjórn Skíðafélags Reykjavíkur og var í hópi fyrstu félaga skátahreyfingarinnar hér á landi. Draugabanar. Byggingin 55 Central Park West verður í myndinni hlið að annarri vídd. "Draugabanar" (enska: "Ghostbusters") er bandarísk gamanmynd frá árinu 1984. Myndin fjallar um þrjá dulsálarfræðinga sem stofna fyrirtæki sem fæst við að eyða draugum í New York-borg. Leikstjóri var Ivan Reitman og handritið skrifuðu Dan Aykroyd og Harold Ramis sem léku aðalhlutverk í myndinni ásamt Bill Murray, Ernie Hudson, Sigourney Weaver, Rick Moranis og Annie Potts. Söguþráður. Dularsálfræðingarnir Peter Venkman (Murray), Ray Stantz (Aykroyd) og Egon Spengler (Ramis), sem starfa hjá Colombiu-háskólanum í New York, tekst að finna gögn um hvernig á að fanga drauga með útbúnaði sem hleypir út róteindastraumi. Þegar þeir eru reknir sannfærir Venkman hina að þeir ættu stofna sitt eigið fyrirtæki Draugabanar sem fæst við að fanga drauga. Þrátt fyrir auglýsingar fá þeir nánast enga viðskiptavini nema Dönu Barrett (Sigourney Weaver) sem segir þeim að einhver vera að nafni Zuul sé að hrella hana. Peter verður ásfanginn af henni og ákveður að hjálpa henni. Seinna ræður virt hótel þjónustu Draugabanana við að ná gráðugu vofunni Slimer og eftir það verða Draugabanar frægir og allir borgarbúar heimta þjónustu þeirra. Til að ráða við vinnumagnið ráða þeir nýjan meðlm Winston Zeddemore (Ernie Hudson). Eftir að hafa rannsakað Zuul segir Peter Dönu að Zuul hafi verið þjónn súmerska guðsins Gozer og heimtar að þau fari á stefnumót sem hún samþykkir. Seinna kemur Walter Peck (William Atherton) frá umhverfiseftirlitinu og heimtar að kanna hvort starf Draugabana mengi umhverfið en Peter gerir gis að honum og sendir hann burt. Egon kemst að því að hugmeginsorka borgarinnar er sífellt að aukast sem veldur því að fleiri draugar komi fram og Ray finnur að það er eitthvað undarlegt við uppbyggigu þaksins á íbúð Dönu. Dana er skyndilega andsetin af Zuul sem kallar sig Hliðvörðinn og nágranni hennar Luis Tully (Rick Moranis) er andsettur af öðrum þjóni Gozers, Vinz Clortho - Lyklameistarinn. Peck snýr aftur til Draugabanana með heimild um að slökkva á geymslukerfi þeirra sem sleppur öllum draugunum sem þeir fönguðu og Draugabönunum er stungið í fangelsi. Í fangelsinu útskýra Ray og Egon að arkitektinn sem hannaði byggingu Dönu var meðlimur af sértrúarsöfnuði sem tilbað Gozer fyrir að koma af stað heimsenda. Þeir segja að hann hafi komið fyrir tæki sem gat tekið til sín hugmeginsorku drauga og mun svo kalla Gozer til þessarar víddar. Borgarstjórinn sleppur Draugabönunum og biður þá að stöðva allan urslan sem sloppnu draugarnir eru að valda. Þeir halda til íbúðar Dönu þar sem Zuul og Vinz Clortho hafa kallað fram Gozer. Hann segir Draugabönunum að velja form Eyðileggjandans og Ray velur óvart formið - Sykurpúðakarlinn. Egon segir þeim að þeir geti umbreytt eindarflæði víddarhliðsins með því að láta róteindastraumana skerast sem gæti kostað þá lífið. Það virkar og Sykurpúðakarlinum er eytt og Dana og Luis losna úr andsetningunni og borgarbúar fagna Draugabönum fyrir að hafa bjargað heiminum. Sandeyri. Sandeyri er eyðibýli á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp. Bærinn varð eitt helsta sögusvið Spánverjavíganna 14. október 1615. Þá réðist Ari Magnússon sýslumaður í Ögri með fimmtíu manna flokk að baskneskum hvalveiðimönnum sem voru við hvalskurð á Sandeyri og myrti þá. Árið 1703 bjuggu 26 manns á Sandeyri en árið voru þar 19 manns á þremur bæjum. Árið 1930 bjuggu þar hjónin Tómas Sigurðsson og Elísabet Kolbeinsdóttir. Þau fluttu þaðan árið 1943 en síðasti ábúandi þar var Jóhann Kristjánsson. Sandeyri fór svo í eyði árið 1953 en steinhús sem byggt var þar 1908 stendur enn og er haldið við. Við húsið stendur neyðarskýli fyrir sjómenn sem er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Friðþjófur Thorsteinsson. Friðþjófur Thorsteinsson (28. ágúst 1895 – 13. apríl 1967) var íslenskur knattspyrnumaður, þjálfari og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Friðþjófur var sonur athafnamannsins Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar Guðmundsdóttur. Hann ólst upp í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Á fyrrnefnda staðnum hóf hann að æfa knattspyrnu og náði þegar töluverðri færni. Meðal systkina Friðþjófs voru Gunnar sem gegndi um tíma formennsku í Fram og Samúel, einn fremsti knattspyrnumaður sem Ísland hefur alið. Þeir voru allir bræður listamannsins Guðmundar „Muggs“ Thorsteinssonar. Í Reykjavík gekk hann til liðs við hið nýstofnaða knattspyrnufélag Fram og lét þegar til sín taka. Hann skoraði bæði mörk Framara í frægum sigri á Fótboltafélagi Reykjavíkur á landsmóti UMFÍ á Melavellinum, 17. júní 1911. Sú viðureign hefur oft verið talin fyrsti opinberi knattspyrnuleikurinn á Íslandi. Friðþjófur hélt til verslunarnáms í Edinborg í Skotlandi árið 1914 og dvaldi ytra í fjögur ár. Á þeim tíma mun hann hafa leikið knattspyrnu með áhugamannaflokki skoska stórliðsins Hibernian FC. Sumarið 1918 sneri Friðþjófur aftur í herbúðir Framara og lék andstæðinga sína grátt. Í leikjunum þremur skoraði hann tólf af fjórtán mörkum Fram, þar af sex á móti KR-ingum, sem er met í efstu deild Íslandsmóts karla. Árið eftir endurtók hann afrekið og skoraði sex mörk í leik gegn Val. Engu að síður var hann gagnrýndur í Vísi fyrir að hafa verið latur í leiknum. Friðþjófur var lykilmaður í íslenska úrvalsliðinu sem atti kappi við danska stórliðið Akademisk boldklub í fyrstu heimsókn erlends knattspyrnuliðs til Íslands sumarið 1919. Hann skoraði tvö af fjórum mörkum Íslendinganna í frægum sigurleik (sem sumir hafa þó viljað skýra að hluta til sem afleiðingar af reiðtúr dönsku leikmannanna). Ekki naut Friðþjófs þó lengi við að þessu sinni. Hann fluttist fljótlega til Kanada og bjó þar um árabil, þar sem hann mun m.a. hafa leikið og þjálfað knattspyrnu. Árið 1934 voru Framarar í þjálfaravandræðum og kviknaði þá sú hugmynd að leita til Friðþjófs og kanna hvort hann væri til í að snúa aftur heim. Þetta varð að ráði og þjálfaði Friðþjófur Framliðið sumrin 1934-37 og aftur 1940. Þá sá hann um þjálfun íslenska úrvalsliðsins sem hélt í keppnisför til Þýskalands sumarið 1935. Framliðið tók miklum framförum undir stjórn Friðþjófs, enda kynnti hann Íslendingum ýmsar nýjungar í knattspyrnunni, s.s. stuttan samleik. Friðþjófur Thorsteinsson gegndi formennsku í Fram 1919-20 og um nokkurt skeið árið 1935. Á þrjátíu ára afmæli félagsins var hann útnefndur heiðursfélagi. Harald Krabbe. Harald Krabbe (1831 – 1917) var danskur læknir og dýrafræðingur. Hann er þekktur fyrir rannsóknir sínar á sníkjudýrum og þá sérstaklega fyrir rannsóknir á sullaveiki. Krabbe lauk læknaprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1855 og doktorsprófi 1857 og fjallaði ritgerð hans um læknisfræðilegt efni. Námsdvöl í Þýskalandi 1856–1858. Hann réðst síðan til starfa við dýralækna- og landbúnaðarháskólann á Frederiksbergi. Árið 1863 sendi danska stjórnin hann til Íslands til að rannsaka útbreiðslu á sullaveiki. Honum tókst að greina hvernig smit berst á milli hunda og annarra spendýra, og lýsa faraldursfræði sjúkdómsins og varð hann heimsþekktur fyrir þessar rannsóknir. Hann varð kennari í líffærafræði 1880 og prófessor í sömu grein 1892 og prófessor í lífeðlisfræði 1893. Fór á eftirlaun 1902. Hann var félagsmaður í Konunglega danska vísindafélaginu. Heimildir. Krabbe, Harald Krabbe, Harald Bíldskeri. Bíldskeri var maður sem tók blóð úr mönnum í lækningaskyni. Blóðtökur voru algengar á Íslandi fram undir 1870. Vidkun Quisling. Vidkun Abraham Lauritz Jonssøn Quisling (18. júlí 1887 – 24. október 1945) var norskur stjórnmálamaður, herforingi og diplómati. Hann starfaði ásamt Fridtjof Nansen á árunum 1921 - 1922 við að skipuleggja hjálpastarf gegn hungursneyð í Sovétríkjunum og var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Bændaflokksins (Bondepartiet) 1931 - 1933. Árið 1933 sagði hann skilið við ríkisstjórnina og tók þátt í stofnun þjóðernissinnaflokksins Nasjonal Samling (Þjóðleg samstaða), en stefna flokksins einkenndist af ákafri þjóðernishyggju og andstöðu við kommúnisma og verkalýðshreyfingu. Flokkurinn fékk sáralítið fylgi í þingkosningum, 2,23 % í kosningunum 1933 og 1.83 % í kosningunum 1936. Í september 1939, þegar seinni heimsstyjöldin hafði skollið á, sótti Quisling Hitler heim, tókst Quisling þá að beina athygli Hitlers að Norðurlöndum. Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg 9. apríl 1940 og sama kvöld lýsti Quisling því yfir að stjórnin væri fallin og hann væri hinn nýi forsætisráðherra. Quisling sat þó einungis skamma stund að völdum í þetta sinn. Þjóðverjar gerðu hins vegar Quisling að forsætisráðherra í leppstjórn sinni 1942 og hélt hann því embæti til stríðsloka 1945. Hann var ákærður og dæmdur til dauða fyrir landráð og ýmsa aðra stríðsglæpi eftir stríð. Hann var tekinn af lífi 24. október 1945. Á fjölmörgum tungumálum hefur nafn Quislings orðið að samheiti fyrir föðurlandssvikara. Á íslensku er orðið iðulega skrifað "kvislingur" sem merkir, samkvæmt Íslenskri orðabók, „landráðamaður, sá sem svíkur land sitt í hendur óvinahers”. Æskuár. Vidkun Quisling fæddist 18. júlí 1887 í Fyresdal í Telemark á bænum Moland. Móðir hans hét Anna Karoline Bang og faðir hans Jon Quisling, en hann var sóknarprestur í Fyresdal. Aðeins einu og hálfu ári eftir að Vidkun fæddist, fæddist bróðir hans Jørgen Quisling en þeir voru alla tíð mjög nánir. Vidkun bjó á Moland fyrstu sex ár ævi sinnar en árið 1893 fluttist fjölskyldan til Drammen. Sumarið 1900 fluttist fjölskyldan aftur til Telemark þar sem faðir hans starfaði sem prestur í Gjerpen og Skien. Vidkun og bróðir hans Jørgen fóru í latínuskóla í Skien og urðu brátt með bestu nemendum skólans enda báðir mjög greindir. Vidkun sýndi sérstakan áhuga á stærðfræði og sögu en heimspekin átti eftir að vekja áhuga hans seinna meir. Að loknu stúdentsprófi 1905 ákvað Vidkun Quisling að velja framtíð innan hersins. Hann lauk námi frá herskóla 1907 og frá Herháskólanum 1911 og þótti eiga fyrir sér mikla framtíð innan hersins. Alþjóðastarf. Í mars 1918 var hann sendur til Petrograd sem hernaðarsendifulltrúi við norska sendiráðið. Veran þar var þó stutt, í desember var sendiráðinu lokað í kjölfar átaka og kúgunar bolsévíka. Ári síðar, í desember 1919, tók hann við stöðu hernaðarsendifulltrúa við sendiráðið í Helsingfors. Þegar Fridtjof Nansen fékk það verkefni frá Alþjóða Rauða krossinum að skipuleggja aðstoð gegn hungursneyð í Sovétríkjunum árið 1921 fékk hann Quisling í lið með sér. Quisling hafði aðalstöðvar í Kharkov í Úkraínu og dvaldi þar fram í september 1922. Samkvæmt öllum heimildum var hann mjög framkvæmdasamur og góður verkstjóri. Tókst þessu verkefnin Rauða krossins að bjarga miljónum manns frá sultardauða og varð Quisling frægur fyrir heima í Noregi. Í Úkraínu kvongaðist Quisling sextán ára stúlku, "Alexandra Voronine", og fylgdi hún með honum til Noregs. Nansen kallaði að nýju á Quisling í febrúar 1923 og héldu þau hjónin þá aftur til Úkraínu. Þar hélt Quisling áfram störfum fyrir Rauða krossinn en kvæntist einnig í annað sinn, í þetta skipti "Maria Paseshnikova". Þegar Quisling snéri til Noregs seint á árinu 1923 fylgdi Maria með honum. Alexandra hélt til Parísar og Quisling tilkynnt að hún mundi héðan eftir vera kjördóttir hans. Hvenær þau skildu er óljóst, þær Maria og Alexandra bjuggu saman, ýmist í Ósló eða París á árunum 1923 til 1926 og bjó Quisling með þeim báðum eftir því sem best er vitað. Á árunum 1925 til 26 vann Quisling fyrir Þjóðabandalagið með flóttamannaaðstoð á Balkanskaganum og í Sovéska lýðveldinu Armenía. Sumarið 1926 hélt Quisling enn í austurveg, hafði hann fengið stöðu við norska sendiráðið í Moskvu og var verkefnið að sjá um samskipti Bretlands og Sovétríkjanna en þau höfðu þá slitið diplómatískum samskiptum. Þótti Quisling standa sig vel í þessu verkefni og var hann 1929 sæmdur bresku orðunni Order of the British Empire sem "honorary commander". Hann var sviptur orðunni 22. maí 1944. Quisling snéri svo endanlega aftur til Noregs 1929 og fylgdi Maria með honum en Alexandra varð eftir í Sovét. Hún hélt síðan til Kína og þaðan til Bandaríkjanna 1947. Stjórnmál. Quisling kom sér á kortið með því að skrifa greinar í blöð. Greinar hans vöktu mikla athygli og fljótlega fór hann að fá heimsóknarboð frá hinum ýmsu embættismönnum og stjórnmálamönnum. Hann var oft beðinn um að halda ræður, sem þóttu með þeim betri. Quisling var síðan valinn í ríkistjórn árið 1931 þrátt fyrir að tilheyra ekki neinum sérstökum flokki og hafa ekki einu sinni verið í framboði. Það var Peder Kolstad sem valdi Quisling sem varnarmálaráðherra. Eftir tvö erfið ár í ríkisstjórn en á þessum árum voru erfiðir tímar í Noregi sökum efnahagskreppu, stofnuðu Quisling og félagar sinn eigin flokk, Nasjonal Samling eða Þjóðarhreyfinguna. Kjarninn í flokknum voru Quisling og félagi hans Fredrik Prytz. Strax vorið 1930 höfðu þessir menn byrjað að safna að sér hópi háskólamenntaðra embættismanna. Hópur þessi hittist reglulega heim hjá Prytz þar sem stjórnmál voru ætíð aðal umræðuefnið. Hópurinn varð síðan uppistaðan í hinum nýja flokki. Flokkurinn fékk 3,5% fylgi í sínum fyrstu kosningum árið 1933, sem voru mikil vonbrigði. En Quisling lét það ekki á sig fá og lagði mikið á sig til að halda flokknum saman. Flokkurinn og Quisling urðu á þessum árum meira og meira fyrir áhrifum af hugmyndum nasista í Þýskalandi og National Samling hefur stundum verið kallaður Hinn norski nasistaflokkur. En þrátt fyrir þessar breytingar á stefnu flokksins og ötulli vinnu innan flokksins gekk enn verr í kosningunum 1936. Eftir lélegt gengi í tveimur kosningum var flokkurinn mjög illa staddur, þeir höfðu ekki stuðning fólksins og meðlimir fóru að efast um að Quisling væri rétt maðurinn til að leiða flokkinn. Þessar vangaveltur enduðu snögglega um leið og seinni heimsstyrjöldin braust út 3. september 1939 en Quisling hafði þá í mörg ár varað við stríði og sagt að Noregur yrði að taka afstöðu með eða á móti Þýskaland. Meðlimir flokksins og fleiri landsmenn sáu þá að Quisling hafði haft rétt fyrir sér og efasemdir um hann hættu snarlega. Seinni heimsstyrjöld. Stríðið setti Noreg í mjög erfiða stöðu, flestir Norðmenn vildu að landið væri hlutlaust eins og í fyrri heimsstyrjöldinni og Noregur, ásamt hinum Norðurlöndunum, lýsti yfir hlutleysi sínu mjög snemma. Fremstu leiðtogar þessara landa hittust á fundi í Kaupmannahöfn 18.-19. september og tóku sameiginlega ákvörðun um að löndin skyldu standa saman í hlutleysi sínu. En þegar leið á stríðið var ljóst að það yrði erfitt. Í fyrsta lagi er Noregur með mjög langa strandlengju sem gæti orðið mjög mikilvægt vopn bæði fyrir Breta og Þjóðverja ef til átaka kæmi á sjó. Í öðru lagi þurfti Noregur að leggja niður nær alla verslun til landa sem voru þátttakendur í stríðinu. Verslun við Breta setti þá upp á móti Þjóðverjum og verslun við Þjóðverja setti þá upp á móti Bretum. Svona erfiðir tímar kalla á erfiðar ákvarðanir. Quisling stóð með Hitler og nasistunum og jafnvel eru til heimildir um að hann hafi sent Hitler afmæliskveðjur. Þann 10. desember 1939 fór Quisling til Berlínar en þýski sendiherrann í Oslo, Curt Bräuer, hafði reynt að fá hann ofan af því. Bräuer varaði meira að segja yfirmenn sína í utanríkisráðneytinu í Þýskalandi við og sagði að Quisling og hans flokkur hefði lítinn stuðning í Noregi og að Quisling hefði ekkert til að bera sem stjórnmálamaður. Yfirmenn hans voru honum sammála en Quisling náði sínu fram og með aðstoð Alfreds Rosenberg og Raeder náði hann að koma á fundi með Hitler. Hann hitti leiðtogann tvisvar, 14. desember og 18. desember. Tilgangur fundanna var að fá Hitler til að aðstoða sig við að ná völdum í Noregi. Quisling sannfærði hann um að hann nyti stuðnings samstarfsmanna sinna í Noregi og að konungur myndi beygja sig fyrir vilja hans myndu Þjóðverjarnir gera innrás. Það kann að virðast skrítið en Quisling taldi að hann væri að gera það eina rétta fyrir Noreg. Þjóðverjar höfðu mikla yfirburði í Evrópu og þóttu mun sterkari en flest önnur lönd. Qusling og stuðningsmenn hans töldu því að það væri betra að vera með þeim í liði en að treysta á Breta og Frakka. Nasistar réðust á Noreg 9. apríl 1940. Um hálfátta leytið að kvöldi 9. apríl lýsti Quisling því yfir í útvarpi landsmanna að núverandi stjórn hefði flúið og ný stjórn hefði tekið við, stjórn sem hann hefði myndað með hann sem forsætisráðherra. Seinna um kvöldið kom hann aftur fram í útvarpi og tilkynnti þá nánar um þessa nýju stjórn og hvatti einnig Norðmenn til að veita Þjóðverjum enga mótspyrnu. Orð Quisling komu flatt upp á bæði Norðmenn og Þjóðverja en það var Hitler sjálfur sem brást fyrstur við og samþykkti nýju stjórnina og skipaði Bräuer að fara á fund konungs og neyða hann til að samþykkja stjórnina. Quisling, Heinrich Himmler,Nikolaus von Falkenhorst og Josef Terboven Quisling hafði þá framið nokkurs konar valdarán í Noregi með hjálp Hitlers, einmitt eins og hann hafði haft í hyggju á fundum sínum með Hitler í desember 1939. Ekki er vitað hvort heimsókn hans til Þýskalands hafi hvatt Þjóðverja til að ráðast inn í Noreg eða hvort afskipti hans hafi ekki haft neitt að segja um þróun mála. En á þessum tímapunkti hafði hann svikið landa sína með því að neyða uppá þá stjórn sem studdi innrás annarra þjóða og með því að reyna að fá aðra þjóð til að ráðast á landið. Eftir stríðið komst það einnig upp að á þessum fundum sínum hafði Quisling lekið leynilegum og mikilvægum upplýsingum um hermál í Noregi. Starfið sem forsætisráðherra var ekki eins frábært og Quisling hafði haldið. Í fyrsta lagi neitaði gamla stjórnin að víkja til hliðar og hún hafði einnig stuðning konungsins á bak við sig. Um miðjan apríl ríktu því tvær stjórnir í Noregi sem skapaði sundrung meðal landsmanna jafnt sem stjórnarmeðlima. Þýski sendiherrann, Bäuer, vann einnig ötullega gegn Quisling en Hitler var ekki ánægður með það og 24. apríl var Bäuer kallaður aftur heim til Þýskalands og maður að nafni Josef Terboven tók til starfa sem æðsti fulltrúi Þýskalands í Noregi. Stuðningur og trú Hitlers á Quisling fór hins vegar að dvína, hann hafði ekki þann stuðning í Noregi sem hann hafði haldið fram og í júni 1940 neyddi Terboven hann til að víkja til hliðar. Stríðið hélt hins vegar áfram og þegar Þjóðverjar náðu Frakklandi varð krafan um nýja stjórn sem hefði hagsmuni Norðmanna að leiðarljósi, en gæti unnið með Þjóðverjum, æ háværari í Noregi. En Þjóðverjar höfðu á þessum tíma lagt undir sig allt landið og réðu nær öllu í Noregi. Af þessu varð hins vegar ekki. Vegna yfirvofandi árásar Þjóðverja á Sovétríkin varð þörfin fyrir algert þýskt vald í Noregi sterkari. Í september 1940 lýsti Terboven því yfir að allir flokkar nema Nasjonal Samling (Þjóðarhreyfingin) væru bannaðir, einnig afnam hann konungsvaldið og þáverandi ríkistjórn. Ný stjórn var mynduð með nær eingöngu meðlimum Nasjonal Samling og Quisling sem leiðtoga og satt sú stjórn það sem eftir var stríðsins. Dómurinn og aftakan. Í maí 1945 varð öllum ljóst að Hitler og nasistarnir höfðu tapað stríðinu. Var þá farið að vinna að því í Noregi að frelsa landið undan valdahendi nasista. Byrjað var að leita uppi stuðningsmenn Hitlers í Noregi. Quisling var handtekinn 9. apríl 1945 en alls voru í kringum 53 000 Norðmenn handteknir fyrir að vinna með eða fyrir þýsku nasistana. Quisling var færður í fangelsi þar sem hann sat fram að réttarhöldunum. Réttarhöldin hófust 20. ágúst 1945 og þann 7. september eftir tæplega þriggja vikna réttarhöld var dómurinn klár. Dómurinn var langur og flókinn en í aðalatriðum var Quisling dæmdur til dauða fyrir stríðsglæpi þá sérstaklega föðurlandssvik, stuðning við óvinaþjóð og fyrir meðvirkni og ábyrgð á morðum sem voru framin eftir ólögmætar stjórnarskrár breytingar 22. janúar 1942. Þann 24. október 1945 var dómnum fylgt eftir og Quisling var skotinn á Akershus Festning klukkan hálf þrjú um nótt, hans síðustu orð voru „Ég er saklaus”. Heimildir. Quisling, Vidkun Lífeldsneyti. Lífeldsneyti er hugtak sem notað er fyrir lífrænt eldsneyti sem unnin eru úr endurnýjanlegum orkulindum. Lífeldsneyti er viðfeðmur flokkur sem skiptast niður í þrjá flokka eftir því hvernig þær eru unnar, þ.e. eldsneyti sem unnin er úr lífmassa, úr vökva og svo nátturuleg gös. Eldsneyti sem unnar eru úr endurnýjanlegum orkuauðlindum hefur á undanfarin árum aukið athygli vísindamanna og almenningi og þá einkum í tengslum við sem framtíðar orkubera, sem væri umhverfisvænna en það jarðefnaeldsneyti sem við notum í dag. Til lengri tíma litið munu olíuauðlindir fara þverrandi og leiða til hækkandi eldsneytisverðs. Samhliða því er hugsanlegt að eldsneytisverð fari einnig hækkandi vegna aukinnar skattheimtu og eftirspurn fyrir nýjum orkugjöfum fari vaxandi í náinni framtíð. Erfitt er að segja til um hversu hröð þróunin verði en ljóst er að hefðbundnir bensínbílar verða með breyttu sniði í náinni framtíð. Bensín með íblöndun á lífrænu eldsneyti eykst með árunum, bæði í almenningssamgöngum og í iðnaðarsamgöngum. Stóru bílaframleiðendurnir hafa verið að færa sig inn á þennan markað á undanförnum árum. Þótt þróunin sé hæg á Íslandi hvað þetta varðar á það einkum við um bíla til einkanota, en þróunin undanfarin ár hefur verið örari varðandi þá bíla sem notaðir eru í atvinnustarfsemi af ýmsu tagi. Etanól. Etanól er lífrænt efnasamband táknað sem C2H5OH. Það er eldfimt, litarlaust og eitrað efni. Bruni þess myndar bláan loga sem oft er ekki sjáanlegur í mikillri birtu. Etanól er framleitt úr jurtum eins og maís og sykureyrr en einnig hægt að framleiða etanól úr öðrum jurtum eins og lúpínu eða grasi sem væri unnt að gera hér á landi. Etanól myndast á náttúrlegan hátt úr kolvetnum (sykrum) við loftfirrðar aðstæður með hjálp gerla sem brjóta niður lífræn efni, það er að segja sellulósa og hemísellulósa. Þetta er það ferli sem kallað er gerjun. Með gerjun og eimingu á lífrænum efnum er hægt að framleiða etanól til ýmissa nota. Hér á Íslandi er verið að skoða möguleika á því að nota háhitakærar bakteríur til framleiðslu á etanóli. Hafa verið gerðar einfaldar gerjunartilraunir úr einföldum sykrum, en einnig á einföldum lífmassa svo sem grasi, hálmi og pappír. Etanól hefur um 85% af brunagildi bensíns en með því að blanda því út í 15% bensín bætir það verulega bruna þess. Etanól sem eldnsneyti er umhverfisvænt, en það er framleitt úr lífrænum efnum sem myndast hafa við það að koltvísýringur var tekinn úr andrúmloftinu. Við bruna etanóls myndast svo vatn og aftur koltvísýringur. Í lok árs 2006 fór Brimborg að kanna möguleika á innflutningi bíla sem gætu notað etanól sem orkugjafa. Fyrirtækið hóf samstarf við Olís um að flytja etanól til landsins. Ári seinna kom fyrsta etanól (E85) dælustöðin til Íslands og var sett upp í Álfheimum í Reykjavík. Undanfarin ár hefur framleiðsla á etanóli farið ört vaxandi í takt við sívaxandi eftirspurn í heiminum. Þróunin hefur fyrst og fremst átt sér stað í Bandaríkjunum og hefur framleiðsla etanóls þar verið samkeppnishæf við bensín sem eldsneyti fyrir bifreiðar. Brasilía er gott dæmi um land þar sem etanól hefur verið notað sem eldsneyti um langt skeið í stað bensíns. Þar eru nær allir bílar fjölorkubílar og ganga fyrir hvaða blöndu af etanóli og bensíni sem er. Í Bandaríkjunum og ríkjum Efnahagsbandalagsins hafa verið gerðar kröfur um íblöndun etanóls í bensín en við þetta gætu myndast góð markaðsskilyrði til framleiðslu á etanóli. Ef horft er til íslenskra aðstæðna við etanólframleiðslu er það einkum ódýr jarðgufa sem gæti verið fýsilegur kostur er kemur að framleiðslu. Framleiðsla á etanóli úr jurtum eins og maís, sykureyrr og öðrum matvælum hefur mætt harðri andstöðu víða um heim. Til að mynda er meira en fjórðungur alls korns sem ræktað er í Bandaríkjunum nú notað til að framleiða lífrænt eldsneyti. Með þessu er talið að etanól framleitt úr korni megi nota í stórum stíl í stað bensíns á bíla og þannig verði Bandaríkin ekki eins háð olíu frá ríkjum þar sem stjórnmálaástand er óstöðugt. Aukin framleiðsla lífeldsneytis á borð við etanól hefur óhjákvæmilega áhrif annars staðar í heiminum og eykur hættuna á matvælaskorti. Þar verða þróunarríkin verst úti. Metan. Hreinsistöð í Álfsnesi, en þar er gasið hreinsað í svokölluðum þvegli Metan er efnasamband kolefnis og vetnis. Efnaformúla metans er CH4. Þetta er litlaus og lyktarlaus gastegund sem er skaðlaus við innöndun. Metangas myndast út í náttúrunni þegar lífrænn úrgangur rotnar við loftfirrðar aðstæður. Í náttúrunni eru mýrar, votlendi, gömul skóglendi og urðunarsvæði ákjósanlegustu aðstæðurnar til myndunar metangass. Við brunann myndast mikill hiti sem gerir metanið að hentugu eldsneyti. Orkan sem myndast við bruna gassins er oftast notuð til hitunar og rafmagnsframleiðslu en einnig er hægt að nota metan sem orkubera (eldsneyti). Metan sem eldsneyti hefur verið notað til að knýja bíla á Íslandi frá árinu 2000. Metangasframleiðsla hér á landi hefur farið fram á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi. Þar er metangasið unnið úr hauggasi sem myndast við rotnun lífræns úrgangs. Nú eru framleidd um 2.200 t á ári af metani, en sú framleiðsla myndi nægja um 4.500 litlum ökutækjum. Hauggasið sem myndast á urðunarstaðnum hefur að geyma um 55% af metani, 42% koltvísýring og aðrar lofttegundir eru um 3%. Hauggasið safnast í safnkistur sem tengdar eru safnrörum. Safnrörin eru götóttar málmpípur sem liggja um haugana og sjá um að safna gasinu úr jörðinni. Gasið er síðan flutt yfir í hreinsistöð þar sem það er hreinsað í svokölluðum þvegli. Aðferðin felst í því að metanið er skilið frá öðrum lofttegundum með vatni. Metanið er síðan þurrkað og því þjappað á gaskúta til flutnings á áfyllingarstöð. Eftir hreinsunina er hlutfall metans í gasinu 95-98%. Tvö bifreiðaumboð á Íslandi hafa boðið til sölu bíla sem ganga fyrir metani, Hekla og Askja. Hekla hefur boðið fjórar tegundir metanfólksbíla og Askja tvær. Mikil framför hefur orðið í þróun og tækni metanbifreiða á síðustu árum og nú er talað um þriðju kynslóð metanbifreiða. Flestir stærri bílaframleiðendur framleiða núorðið metanbifreiðar og hefur þeim fjölgað mikið með vaxandi eftirspurn. Yfir 100 metanbílar hafa verið í notkun hér á landi, annars vegar hreinir metanbílar og hins vegar tvíorkubílar. Einnig hefur verið algengt að bensínbifreiðum væri breytt í metanbifreiðar. Kostir metanbifreiða eru meðal annars að þeir eru hljóðlátari en hefðbundnir bensínbílar og menga talsvert minna. Við brennslu metangass í bílvél myndast koltvísýringur en sá koltvísýringur kemur úr metangasi sem hvort sem er hefði smám saman síast út í andrúmsloftið úr sorphaugunum. Þar sem gróðurhúsaáhrif koltvísýrings eru miklum mun minni en metans er mikill umhverfisávinningur í því að brenna metaninu auk þess sem með því minnkar þörfin á innfluttu eldsneyti. Þegar á heildina er litið stuðlar bíleigandi sem notar metan af sorphaugum á bíl sinn að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Að sjálfsögðu sparast líka sá koltvísýringur sem hefði myndast í venjulegri bifreið. Sparnaðurinn er um 260g á km. Ýmis önnur útblástursefni eru líka talsvert minni frá metanbifreiðum en bansín- eða díselbílum svo nemur um 20%. Framleiðsla á metangasi er góður kostur þegar hugað er að notkun innlendrar orku. Hér á landi hafa nokkur fyrirtæki notað metangas sem orkugjafa. Metan hf og Orkuveita Reykjavíkur hafa efnt til samstarfs um metanknúið orkuver sem áætlað er að geti skilað 840 kW af uppsettu afli og áætlaðri orkuframleiðsl upp á um 4,3 GWh á ári. Lífdísill. a>. Í nokkrum löndum er lífdísill ódýrara en almennilegur dísill. Lífdísill er algengasta lífeldsneyti í Evrópu. Hann er framleiddur úr jurtaolíu, dýrafitu og fiskiúrgangi með umesterun, og er vökvinn sem út kemur ekki ólíkur jarðefnaeldsneyti. Efnafræðileg heiti yfir lífdísilolíu er fitusýru-metýl (eða etýl). Olíu er blandað saman við hídroxíð natríum og metanól (eða etanól). Við þessa samsetningu verður efnahvarf sem myndar lífdísilolíu og glýseról. Einn hluti glýseróls er framleiddur fyrir hverja tíu hluta dísilolíunnar. Lífdísill er oftast framleiddur úr sojabaunaolíu eða repjuolíu. Á Íslandi væri hægt að nota fiskiúrgang, fitu sem til fellur úr sláturhúsum og afgangs steikingarolíu í stað sjoabauna og repju. Slík framleiðsla er raunar hafin í litlum mæli hjá á Akureyri Lífdísil er hægt að nota á flestar gerðir dísilvéla. Lífdísilolía hefur örlitlu minna orkuinnihald en dísilolía sem unnin er úr jarðefnaeldsneyti. Einnig eru efni eins og brennisteinn og arómatísk efnasambönd í minni mæli í lífdíselolíu. Þó svo að hún gefi minni orku á hverja þyngdareiningu er hún umhverfisvænni þar sem hún gefur síður frá sér óæskilegar loftegundir út í andrúmsloftið. Lífdísilolían er einnig hentug að því leyti að hægt er að nota hana á dísilvélar án þess að breyta þurfi vélunum á nokkurn hátt. Rétt eins og etanólframleiðsla hefur framleiðslu á lífdísilolíu fylgt mikil umræða og þá einkum í tengslum við hækkandi matvælaverð. Sojabaunaolía er mikilvæg í fæðuframleiðslu og verður því enn um sinn dýr til framleiðslu dísilolíu, þar sem hún er mjög eftirsótt á matvælamarkaði. Einnig þarf að hafa í huga að mikil notkun jurtaolíu til dísilframleiðslu getur haft áhrif á fæðuframleiðslu og orsakað matarskort í þróunarlöndum. Á Íslandi væri helst að leita hráefnis í þá fitu og þann úrgang sem til fellur í landbúnaði og fiskiðnaði, enda skilyrði til ræktunar á repju og sojabauna er ekki góð á landinu. Þó hafa undanfarið verið gerðar tilraunir til ræktunar á svokallaðri vetrarrepju hér á landi. Þær tilraunir hafa gefið ákveðnar vonir. Hrundið hefur verið af stað tilraunaverkefni í framleiðslu lífdísilolíu úr vetrarrepju. Verkefnið er á vegum rannsóknar- og þróunarsviðs Siglingastofnunar í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og bændur víða um land. Ræktun vetrarepju er þó enn sem komið er ekki annað en aukabúgrein hjá íslenskum bændum. Metanól. Metanól, einnig þekkt sem tréspíri eða viðarspíri, er einfalt alkóhól, eldfimur og eitraður vökvi sem gefur frá sér sams konar lykt og etanól. Metanól er efnasamband með efnaformúlana CH3OH en við stofuhita er efnið í vökvaformi. Metanól er notað sem frostvari og leysir en einnig er hægt að nota það sem eldsneyti. Á Íslandi hafa verið uppi hugmyndir um að framleiða metanól úr vetni og koltvísýringi úr álverum ef ofnum yrði lokað en óvíst er að það sé framkvæmanlegt. ht Metanól má framleiða úr kolsýru með því að láta það hvarfast við vetni við 200-300 °C og 50-100 bara þrýsting samkvæmt eftirfarandi efnajöfnu. Framleiðsla metanóls úr koltvísýringi er nú hafin hérlendis með tilkomu nýrrar metanólsverksmiðju í Svartsengi á Reykjanesi. Þar er koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjun breytt í metanól, fljótandi eldsneyti sem meiningin er að blanda saman við bensín á farartæki. Í Svartsengi losna um 80.000 tonn á ári af kolsýru sem gefur möguleika á framleiðslu 56.000 tonna af metanóli á ári. Með íblöndun metanóls í bensín (5 á móti 95) hækkar oktanagildi eldsneytisins og þar af leiðandi verður hreinni bruni og betri nýting. Enn fremur eykur blandan afl bensínbíla. Syngas. DME (dímetýleter) er gas sem nota má sem eldsneyti. DME er framleitt úr metanóli sem aftur er framleitt úr efnasmíðagasi (syngas). Syngas samanstendur af CO og H2 í misstórum hlutföllum. Hægt er að fá fram syngas með því að rafgreina vetni og safna kolefni frá útblæstri verksmiðja. Raforkan er þar frumorkan í ferlinu. Hægt er að nota DME í breyttum dísilvélum og er því möguleiki á að nýta raforkuna til að knýja farartæki. Eldsneytið gæti því hentað bæði fyrir íslenska bíla- og skipaflotann. Maríukirkjan í Dortmund. Maríukirkjan í Dortmund er elsta kirkja í Dortmund. Hún var reist á 12. öld. Í henni eru ýmis listaverk sem tókst að bjarga í loftárásum seinna stríðsins. Saga Maríukirkjunnar. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Maríukirkjan var reist, en það mun hafa verið á 12. öld að tilstuðlan Friðriks Barbarossa keisara. Hún kemur fyrst við skjöl 1267 og er því elsta kirkjan í Dortmund sem enn stendur. Á 14. öld var kórinn reistur og kirkjan stækkuð. Í siðaskiptunum á 16. öld varð Maríukirkjan lútersk og er hún það enn. 1661 hrundi turn Reinoldikirkjunnar í miðborginni. Þar sem Maríukirkjan stóð við hliðina, skemmdist hún talsvert af braki turnsins. Sökum fjárskorts reyndist ekki unnt að framkvæma neinar viðgerðir, þannig að Maríukirkjan stóð lengi vel tóm og var lokuð almenningi. Því grotnuðu aðrir hlutar hennar niður. 1805 varð að rífa norðurturninn og stóð hún þá aðeins með einn turn eftir. Svo er enn. Norðurturninn hefur aldrei verið endurreistur síðan. Þegar víst þótti að Suðurturninn myndi hrynja 1832, var ráðgert að rífa Maríukirkjuna alfarið. Auglýst var útboð á framkvæmdinni það ár en þá hófu íbúar að mótmæla. Þegar krónprins Prússlands, seinna Friðrik Vilhjálmur IV konungur, sótti Dortmund heim 1833 og skoðaði kirkjuna, ákvað hann að hún skyldi standa, þrátt fyrir að búið væri að gera áætlannir um að nýta byggingarefnið í nýjan skóla. Framkvæmdir við viðgerðir hófust 1834 og stóðu til 1839. Fyrsta messa fór fram í maí það ár, en það var fyrsta messan þar í hartnær tvær aldir. Í desember sama ár hrundi hluti turnsins þegar kirkjubjöllum var hringt og var það til marks um það í hvernig ástandi burðarvirki kirkjunnar var. Hún þykir enn ótraust. Enn kom til tals að rífa kirkjuna og reisa nýja. En það var látið nægja að gera kirkjuna upp aftur 1881. Samfara því voru nokkrir nýir gluggar settir í veggi og kirkjuskipið sett nýjum freskum. Á tímum nasista voru prestar kirkjunnar nokkrum sinnum handteknir, enda predikuðu þeir gjarnan gegn villu nasismans. Maríukirkjan stórskemmdist í loftárásum seinna stríðs, sérstaklega 6. október 1944 þegar sprengjur sprungu á þakinu, sem við það hrundi og eyðilagði innréttingar. Veðrið olli frekari skemmdum, þar sem kirkjan stóð eftir þaklaus. Helstu dýrgripum kirkjunnar hafði hins vegar verið komið í geymslu annars staðar. Viðgerðir stóðu allt til 1957. Berswordt-altarið. Berswordt-altarið er eldra af tveimur altaristöflum frá miðöldum. Það er frá 1395 að talið er. Málarinn er hins vegar ókunnur. Altaristaflan sýnir krossfestingu Jesú á þremur myndum. Til vinsti ber Jesús kross sinn, fyrir miðju er krossfestingin sjálf, til hægri er Jesús tekinn niður af krossinum. Maríualtarið. Maríualtarið er aðeins yngra en Berswordt-altarið, eða frá 1420. Það er eftir listamanninn Conrad von Soest. Altaristaflan samanstendur af þremur myndum, sem eitt sinn voru hluti af stærra verki. 1720 eyðilagðist aðalaltari Maríukirkjunnar og var þá Maríualtarið sett á altarið í staðinn. Það passaði þó ekki alveg og því þurfti að skera af töflunni á nokkrum stöðum. Slíkur gjörningur þætti óhugsandi í dag. Myndirnar sýna atriði úr ævi Maríu mey en merkilegt er að bakgrunnur myndanna minnir á miðaldaaðstæður (svo sem rúmið og sófinn). Undirritun Conrads von Soest var svo vel falin í einni myndinni að hún uppgötvaðist ekki fyrr en 1950. Maríulíkneski. Hin gullna María frá 1230 Í kirkjunni eru tvö merk Maríulíkneski. Hin gullna María er stytta frá 1230 og er hún gerð úr hnetuviði. Litirnir eru hins vegar frá 15. öld. Hægri hönd Maríu er brotin af og týnd. Á ljósmynd frá 1894 er María enn með höndina. Á baki styttunnar er málverk frá 1470 og sýnir foreldra Maríu við Gullna hliðið, klædd í miðaldafötum. Maríustyttan hefur verið notuð í helgigöngum í gegnum tíðina. Hin styttan kallast Sandsteinsmadonna, þar sem hún er gerð úr sandsteini. Hún var gerð um 1420 af listamanni sem hét R. Fritz. Styttan lætur mjög á sjá. Litirnir eru næstum horfnir og höfuðið á Jesú er brotið og týnt. Annað. Frekari listaverk eru kórbekkurinn frá 1523 sem skreyttur er fígúrum af dýrlingum. Lespúlt prestsins er frá 1450 og kallast Arnarpúltið ("Adlerpult"). Það er gert úr erni úr látúni sem stendur á sandsteinssúlu. Í kirkjunni er stór skírnarfontur sem ekki er hægt að dagsetja. Fonturinn er svo stór að talið er að fullorðnir menn hafi tekið skírn í honum. Um tíma stóð fonturinn fyrir utan kirkjuna og var sennilega notaður til að brynna hestum meðan kirkjan var ekki í notkun. Blýsýrurafgeymir. Blýsýrurafgeymir, eða aðeins rafgeymir, er endurhlaðanleg rafhlaða. Raymond Gaston Planté hannaði fyrsta blýsýrurafgeyminn 1860. Blýsýrurafgeymar eru um helmingur allra seldra rafgeyma, einkennandi er fyrir þessar gerðir rafgeyma, að þeir þola harða meðferð við hleðslu og afhleðslu. Blýsýrurafgeymirinn kemur vel út bæði sem varaaflsrafhlaða og startraflaða. Helstu ókostir hans eru að þungmálmurinn blý er notað í rafskautin, en það er hins vegar kostur við hleðslu og afhleðslu en þess vegna verður þyngd rafgeymisins mikil. Spenna og rafhlöður. Orka verður til við oxun og afoxun. Háð er aðstæðum hvort sú orka er nýtt til raforku, hita eða ljósorku. Í rafhlöðunni er orkan nýtt til að framleiða rafstraum, í rafhlöðunni er viðhaldið jafnri spennu milli tveggja rafskauta og spennumyndun verður vegna efnahvarfa í rafhlöðunni. Þegar tengdir eru saman tveir ólíkir málmar sem eru aðskildir með raflausn, þá myndast rafmagn. Rafhlöður byggja yfirleitt á tveimur skautum sem er annars vegar katóðan og grafítskaut og hins vegar anóða sem er sinkskaut. Sinkskautið myndar kápu eða hulstur um frauðkenndan massa sem raflausnin er í og umlykur grafítstöngina. Frauðið er mangadíoxíð (brúnsteinn)ásamt ammóníumklóríði (salmíaki). Þegar ytri rásin er lokuð gefur sinkið frá sér rafeindir. 2NH4+(aq) + 2e- → 2NH3(l) + H2(g) +(aq) + 2e- → Mn2O3(s) + 2NH3(l) + H2O + orka Spenna rafhlöðunnar myndast vegna tilhneigingar efnanna til að gefa frá sér og þiggja rafeindir. Spennan ræðst af þeim efnum sem annast flutning rafeindanna á milli skauta rafhlöðunnar. Í efnahvörfunum eyðast sum efnin. Í dæminu hér að ofan eyðist sinkið, brúnsteinninn og salmíakið en ný efni Pb(s) + SO42-(aq) → PbSO4(s) + 2e- PbO2(s) + 4H+(aq) + SO42-(aq) + 2e- → PbSO4(s) + 2H2O + orka Af þessu má sjá að það er mjög háð því hvaða efni taka þátt í efnahvarfinu hversu mikil orka myndast. Staðalspenna efna er mismikil en sem dæmi um efni sem algengt er að nýta í samhengi við efnaorku má nefna flúor, blý, sink, silfur, nikkel og kadmíum auk vetnis og súrefnis sem notuð eru í efnarafala. Algeng notkun. Kjörhitastig blýsýrurafgeymisins verður að vera 20 °C umhverfishiti til þess að ná hámarkshleðslu. Hleðsla og afhleðsla. Þegar blýsýrurafgeymirinn er hlaðinn með stöðugri spennu, þá tekur endurhleðslan fimm sinnum lengri tíma að endurhlaða en að afhlaða. Rétt stilling spennunnar á sviði frá 2,30 V til 2,45 V til að halda stöðugleika. Rafgeymirinn breytir rafstraum í efnaorku, því þegar rafgeymirinn er hlaðinn þá verður efnabreyting í plötnum, þegar hann afhleðst þá verður aftur efnabreyting. Við afhleðslu breytist virka efnið í blýsúlfat PbSO4 á báðum plötunum. Við það þynnist raflausnin og eðlisþyngdin minnkar, svo þegar blýsýrurafgeymirinn hefur aflaðist þá er virka efnið í báðum plötusettum, grátt blýsúlfat PbSO4. Uppgufun getur myndast við hraðhleðslu á blýsýrurafgeymunum, því ef þeir eru hlaðnir hraðar en þeir geta tekið við orkunni, þá hitna þeir og vökvinn getur farið að sjóða sem veldur því að vökvinn gufar upp og plöturnar þorna. Margar gerðir bílarafgeyma eru innsiglaðar til að fyrirbyggja að hættuleg efni geti lekið frá þeim. Þessar gerðir eru hlaðnar með sérstökum hleðsltækjum sem eru með útsláttarrofa sem kemur í veg fyrir ofhitun geymanna. Ef rafgeymir ofhitnar, þá verður efnabreyting sem veldur uppgufun súrefnis og vetnis sem er hættuleg blanda og getur valdið sprengingu. Þess vegna er mikilvægt að rafgeymar séu í lokuðum sýruheldum hólfum. Líftími og geymsla blýsýrurafgeyma. Ávallt skal geyma blýsýrurafgeyma fullhlaðna á þurrum og svölum stað, þó ber að varast að geymarnir mega ekki frjósa. Endurhlaða skal blýsýrurafgeyma að lágmarki á 6 mánaða fresti. Blýsýrurafgeymar og umhverfið. Meira en 98% af blýsýrurafgeymum er endurunnið, bæði plastið og þungmálmurinn blý, sem gerið það að verkum að blýsýrurafgeymar eru í forystu í endurvinnslu rafgeyma í heiminum. Í þeim blýsýrurafgeymum sem framleiddir eru í dag, þá kemur 60 - 80% af efninu sem notað er til að framleiða þá úr endurunnu plastefni og þungmálminum blý. Hérlendis eru lögð á spilliefnagjöld sem eru háð þyngd rafgeymisins og einnig tollgjöld 10% og vörugjöld 15%. Notuðum blýsýrurafgeymum skal skilað til sorpmóttökustöðva til endurvinnslu. Lónseyri. Lónseyri er eyðibýli á Snæfjallaströnd. Býlið var í byggð fram yfir 1930 en þótti ekki góð jörð. Árið 1930 byggði Jens Guðmundsson steinhús á jörðinni en hann var síðasti ábúandi þar. Húsið stendur enn úti á eyrinni en er í slæmu ástandi. Hlíðarhús á Snæfjallaströnd. Hlíðarhús er eyðibýli sem stendur innarlega á Snæfjallaströnd. Ofan við bæinn fellur Innra-Skarðsá í henni fossinn Möngufoss. Býlið fór í eyði 1932 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt en þá voru bæjarhús orðin léleg. Áfram var þó heyjað í nokkur ár af bændum í Æðey en býlið tilheyrir Æðeyjarjörðinni. Skarð á Snæfjallaströnd. Skarð er eyðibýli innarlega á Snæfjallaströnd. Býlið fór í eyði 1938 þegar Jakob Kolbeinsson, síðasti ábúandi þar, flutti til Ísafjarðar. Bæjarhúsin munu svo hafa horfið í snjóflóði 1944. Áfram var þó heyjað á jörðinni af af innstrandarbændum í nokkur sumur eftir eftir það. Berjadalsá. Berjadalsá er eyðibýli innan við Sandeyri á Snæfjallaströnd. Bærinn fór í eyði 1940 þegar Betúel Vagnsson flutti þaðan til Ísafjarðar. Hin vel þekkta skytta Otúel Vagnsson bjó á jörðinni fram yfir árið 1900. Lítið hús var á jörðinni sem nefndist Bjarnahús og bjuggu þar hjónin Bjarni Jónsson og Þórdís Arnórsdóttir. Alexander Rybak. Alexander Rybak (rússneska: Александр Игоревич Рыбак) (fæddur 13. maí 1986 í Minsk) er norskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann sigraði með lagið "Fairytale" í Eurovision árið 2009. Rybak, Alexander Fljótavík. Fljótavík er djúp vík á Hornströndum. Hún liggur milli Aðalvikur og Kjaransvíkur. Í víkinni er allstórt vatn er nefnist Fljótavatn og er sex kílómetra langt. Undir fjallinu Kögri er neyðarskýli Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Dómkirkjan í Essen. Dómkirkjan í Essen er í raun klausturkirkja Dómkirkjan í Essen er elsta kirkja þýsku borgarinnar Essen og tilheyrði áður klaustrinu sem borgin myndaðist í kringum. Mörg listaverk eru í kirkjunni, svo sem hin Gullna Madonna, sem er elsta Madonnustytta heims. Saga dómkirkjunnar. Kirkjan var hluti af klaustrinu sem abbadísirnar stjórnuðu og var stofnað um miðja 9. öld. Tveir fyrirrennarar hafa verið á staðnum, en þeir brunnu báðir niður. Núverandi kirkja var reist eftir 1275, en það ár brann seinni fyrirrennarinn. Aðeins kórinn og vesturálman stóðu eftir og var nýja kirkjan reist í kringum þessa hluta. Kirkjan var vígð 1316 og helguð Maríu mey, heilögum Cosmas og heilögum Damían. Kirkjan sem slík var aldrei stór né há. Lengd skipsins er aðeins 17 metrar og kórsins 20 metrar. Hæðin er 50 metrar. Þrátt fyrir að kallast dómkirkja, var kirkjan ekki með biskup fyrr en 1958. Hún tilheyrði klaustrinu og var notuð af abbadísunum og meyjunum sem bjuggu í klaustrinu. Meyjarnar voru í mesta lagi 70 talsins á tímum Matthildar abbadísar á 10. öld, en fækkaði með árunum. Siðaskiptin höfðu engin áhrif á kirkjuna, þar sem hún var ekki sóknarkirkja. Klaustrið hélst óbreytt, en yfirráð abbadísanna minnkaði talsvert í borginni. 1803 var klaustrinu lokað. Dómkirkjan varð þá að almennri kaþólskri sóknarkirkju og svo er enn. 1943 varð kirkjan fyrir miklum skemmdum í loftárásum og nær gjöreyðilagðist. Aðeins elstu hlutar hennar, kórinn og vesturálman, sluppu óskemmd. Endurreisnin hófst 1951 og stóð til 1958, en við endurvíglsuna varð kirkjan að kaþólskri biskupakirkju. Þannig varð hún í fyrsta sinn í raun að dómkirkju. Hin gullna Madonna. Hin gullna Madonna er elsta Madonnustytta heims Mesti dýrgripur dómkirkjunnar er hin Gullna Madonna. Hér er um heilsteypta styttu af Maríu mey með Jesúbarninu að ræða, þeirri elstu sem enn er til í heimi. Talið er að hún hafi verið gerð árið 980 í tíð Matthildar abbadísar. Listamaðurinn er ókunnur og deilt er um hvar styttan hafið verið gerð. Flestir fræðimenn telja að Köln sé líklegasti staðurinn. Styttan er 74 cm há og hvílir á litlum palli. Hún er gerð úr viði, en alslegin örþunnum gullplötum. Í stólnum sem María situr á er holrými sem áður fyrr hafði að geyma einhverja litla helgigripi. Ekki er heldur vitað nákvæmlega hvenær styttan var sett í dómkirkjuna, en öruggt er að það hefur gerst fyrir 11. öld, þar sem hún kemur fyrir í heimildum frá þessum tíma. Styttan var færð á öruggan stað meðan heimstyrjöldin síðari geysaði. Eftir stríð var hún flutt á hina og þessa staði, svo sem Marburg, Brussel og Amsterdam, áður en hún var aftur flutt í dómkirkjuna í Essen. Í flutningunum byrjuðu gullplöturnar að flagna af, enda var styttan þá orðin hartnær 1000 ára gömul. Hún hefur verið lagfærð tvisvar eftir stríð. 7 arma ljósastikan. Í dómkirkjunni er tröllaukin 7 arma ljósastika. Hún var gerð í kringum árið 1000 og er elsta slíka listaverkið í heimi. Ljósastikan er gerð úr bronsi og er gerð úr 46 samsettum hlutum. Hún er 226 cm há og 188 cm þar sem hún er breiðust. Talið er að styttan hafi upprunalega verið gullslegin. Styttan stendur á litlum palli. Þar er lítil innskrift sem segir: „Matthildur abbadís lét gera mig og helgaði mig Kristi“. Matthildur var abbadís í klaustrinu 973-1011. Ljósastikan hefur staðið í kirkjunni í um 1000 ár. Það var eingöngu meðan heimstyrjöldin síðari geysaði að hún var tekin í sundur og geymd annars staðar. Í dag stendur hún enn öllum aðgengileg í kirkjunni. Sverð Ottos III. Í dómkirkjunni er verðmætt sverð geymt. Talið er að Otto III keisari hafi gefið klaustrinu sverðið. Heimildir eru hins vegar ekki öruggar um tilurð sverðsins. Sagan segir að þetta sé sverðið sem heilagur Cosmas og heilagur Damían voru höggnir með á 3. öld. Þetta er grundvallað með eftirfarandi innskrift á sverðinu: „Sverðið sem verndardýrlingar okkar voru hálshöggnir með“. Auk þess eru myndir af dýrlingunum báðum á sverðinu. Öruggt er þó að abbadísirnar notuðu sverðið sem hluti af skrúðklæðum sínum, enda voru fögur sverð á miðöldum tákn um yfirráð. Abbadísirnar notuðu sverðið allt til 1803 er klaustrinu var lokað. Sverðið sjálft var þá orðið víðfrægt. Fólk heiðraði það sem helgigrip og á 15. öld var það fyrst notað sem innsigli borgarinnar. Sverðið var tekið upp í skjaldarmerki borgarinnar Essen 1887. Konungskóróna Ottos III. Í kirkjunni er barnakóróna Ottos III geymd. Otto var aðeins þriggja ára gamall þegar hann var krýndur til konungs þýska ríkisins árið 983. Hann var því of lítill fyrir kórónu föður síns (og annarra fyrirrennara), og því var þessi kóróna smíðuð gagngert fyrir hann. Kóróna þessi er elsta liljukóróna Evrópu. Þvermál kórónunnar er 12,5 cm og mun hafa passað vel á þriggja ára barn. Hún er gullslegin og alsett gimsteinum og perlum. Upp úr kórónunni standa þrjú gullslegin liljublöð, en liljan er gamalt konungstákn. Þegar Otto óx upp og varð að keisara, mun hann hafa gefið klaustrinu í Essen barnakórónuna, en á þeim tíma var Matthildur abbadís þar. Otto og Matthildur voru systkinabörn. Önnur listaverk. Af öðrum listaverkum má nefna höggmyndina "Jesús lagður til grafar". Hún var gerð í upphafi 16. aldar, rétt fyrir siðaskiptin, og er gerð úr sandsteini. Nokkrar minnistöflur frá 17. öld hanga á veggjum. Engir miðaldagluggar eru í kirkjunni, þar sem þeir eyðilögðust allir í loftárásum seinna stríðs. Kirkjuklukkurnar eru níu talsins, sú elsta þeirra frá 13. öld. Þrjár af klukkunum eru upprunnar úr nágrannakirkju (Jóhannesarkirkjunni) og er samhljómur þessara klukkna því ekki eins hreinn og gengur og gerist. Otto Rehhagel. Otto Rehhagel er lengst til hægri Otto Rehhagel (9. ágúst 1938 í Essen) er einn árangursríkasti knattspyrnuþjálfari Þýskalands. Hann er margfaldur þýskur meistari og bikarmeistari sem þjálfari, Evrópumeistari bikarhafa og Evrópumeistari landsliða með gríska landsliðinu. Leikmaður. Rehhagel hóf knattspyrnuiðkun hjá áhugamannaliði í heimaborg sinni Essen. Einnig spilaði hann með Rot-Weiss Essen í neðri deildum. Þegar Bundesligan var stofnuð 1966, lék hann með Hertha BSC og 1. FC Kaierslautern til 1972. Rehhagel lék oftast sem varnarmaður og miðherji og skoraði á ferli sínum 23 mörk í Bundesligunni. Eftir að hann lagði skóna á hilluna sneri hann sér að knattspyrnuþjálfun. Þjálfari. Strax og ferli hans hjá Kaiserslautern lauk 1972 hóf Otto Rehhagel að þjálfa knattspyrnulið í neðri deildum. Fyrsta lið hans var 1. FC Saarbrücken í eitt keppnistímabil og Kickers Offenbach í eitt keppnistímabil. Þá varð Rehhagel í fyrsta sinn þjálfari í Bundesligunni, er hann tók við Werder Bremen í nokkra mánuði og síðan Borussia Dortmund. Með seinna liðinu þurfti hann að þola mesta tap liðs í efstu deild í Þýskalandi, er liðið hans (Dortmund) tapaði fyrir Borussia Mönchengladbach 0-12. Í kjölfarið þjálfaði Rehhagel Arminia Bielefeld og Fortuna Düsseldorf, en 1981 tók hann í annað sinn við Werder Bremen. Að þessu sinni tókst honum vel upp með liðið og gerði það að meisturum í tvö skipti á þeim 14 árum sem hann var þjálfari þess (1988 og 1993). Einnig varð hann þrisvar bikarmeistari með liðinu og 1992 gerði hann liðið að Evrópumeisturum bikarhafa (sigraði þá gegn AS Monaco). 1996 skipti Rehhagel yfir til Bayern München og var þar í tvö ár. Síðustu tvö árin sín í Bundesligunni þjálfaði hann Kaiserslautern. Hann tók við liðinu þegar það féll í 2. deild. Á fyrra árinu náði hann að komast í 1. deild á ný og á seinna árinu varð hann meistari með liðinu. Þetta var í fyrsta og eina sinn sem nýliði í 1. deild varð þýskur meistari. Otto Rehhagel er þaulsetnasti þjálfari Bundesligunnar með 820 leiki. Hann er eini maðurinn sem hefur tekið þátt í meira en 1.000 deildarleikjum í Þýskalandi, sem leikmaður og þjálfari. 2001 tók Rehhagel við gríska landsliðinu. Í Evrópumótinu 2004 í Portúgal gerði hann Grikki að Evrópumeisturum og varð hann fyrir vikið þjóðhetja í Grikklandi og heiðursborgari í Aþenu. Rehhagel þjálfar sem stendur enn gríska landsliðið og hefur hafnað ýmsum góðum boðum, m.a. að þjálfa þýska landsliðið. Næsta verkefnið er lokakeppni HM í Suður-Afríku 2010. Titlar sem þjálfari. Auk þess komst Werder Bremen undir stjórn Ottos Rehhagel fjórum sinnum í 2. sæti Bundesligunnar og tvisvar í úrslit bikarkeppninnar (fyrir utan sigrana). Heimildir. Rehhagel, Otto Saurbær á Rauðasandi. Saurbær eða Bær á Rauðasandi er bær og kirkjustaður í Vestur-Barðastrandarsýslu. Saurbær er fornt höfuðból og hlunnindajörð og þar bjuggu löngum ýmsir helstu höfðingjar Vestfirðinga og landsins alls. Bærinn stendur austarlega á Rauðasandi, vestan við sjávarlónið Bæjarvaðal. Á meðal hlunninda jarðarinnar sem talin eru í "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns" má nefna reka, selveiði, silungsveiði, sölvafjöru, grasatekju, hrísrif og útræði. Á fyrri hluta 15. aldar bjó Guðmundur ríki Arason, auðugasti maður landsins, í Saurbæ, en þegar hann missti eigur sínar náði Björn Þorleifsson jörðinni. Í Bæ bjuggu á 16. og 17.öld sýslumenn Vestur-Barðastrandarsýslu og aðrir höfðingjar, þar á meðal Eggert Hannesson hirðstjóri og lögmaður. Tengdasonur hans, Magnús Jónsson prúði, var sýslumaður í Bæ og þótti glæsilegastur höfðingi á Íslandi á sinni tíð. Eftir lát hans bjó ekkja hans, Ragnheiður Eggertsdóttir, lengi í Bæ. Sonur hennar, Björn Magnússon sýslumaður, bjó svo í Bæ og þar fæddist sonur hans, Páll Björnsson, sem þekktastur er fyrir galdraofsóknir. Bróðir hans, Eggert Björnsson sýslumaður, bjó í Bæ og dæmdi þar í ýmsum galdramálum sem Páll hóf. Elsta dóttir hans, Guðrún Eggertsdóttir, tók við búi í Bæ ásamt manni sínum en hann dó skömmu síðar og bjó hún þar ekkja áratugum saman. Hún var þekkt fyrir hörku við leiguliða sína en hún átti flestar jarðirnar í sveitinni. Kirkja hefur verið í Saurbæ mjög lengi. Núverandi kirkja var áður á Reykhólum, smíðuð þar 1856 en tekin niður þegar ný kirkja var reist þar 1963 og flutt í Saurbæ, endurreist og vígð 1982. Eldri kirkja sem var í Saurbæ hafði fokið í ofviðri 1966. Altaristaflan er máluð af séra Hjalta Þorsteinssyni í Vatnsfirði. Hún er gjöf frá Guðrúnu Eggertsdóttur í Bæ og sýnir hana og mann hennar, krjúpandi við kross Krists. Núverandi eigendur Saurbæjar eru þau Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri og Sigríður Snævarr sendiherra. Innherjaviðskipti. Innherjaviðskipti er orð sem haft um viðskipti með verðbréf, einkum hlutabréf, sem skráð eru í kauphöll þegar annaðhvort kaupandi eða seljandi, eða þeir báðir, hafa aðgang að upplýsingum sem ekki hafa verið gerðar opinberar en væru líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð ef svo væri. Hackerspace. Hackerspace (Hakkarými eða Hakksmiðja) er athvarf þar sem fólk með sameiginleg áhugamál — oftast tengdum vísindum, tækni, stafrænni og rafrænni list — getur komið saman og unnið í sameiningu að hinum ýmsu verkefnum. Líta má á hackerspace sem opna samfélagslega vinnustofu, tilraunastofu og eða verkstæði þar sem einstaklingar með mismunandi þekkingu og hæfileika geta samnýtt, búið til og skiptst á hlutum, þekkingu og hugmyndum. Ljótólfur goði. Ljótólfur goði Alreksson var fyrsti landnámsmaður í Svarfaðardal og bjó að Hofi. Heimildir um hann eru fyrst og fremst í Svarfdælu en Landnáma getur hans þó sem goða í Svarfaðardal. Alrekur faðir Ljótólfs var bróðir Hróðgeirs hvíta Hrappssonar sem nam land að Skeggjastöðum á Langanesströnd. Ekki er vitað hver var kona Ljótólfs en börn hans voru Þorgeir inn óði, Æsa og Valla-Ljótur. Yngveldur fagurkinn var ástkona Ljótólfs. Ljótólfur og Þorsteinn svörfuður á Grund voru andstæðingar og valdabarátta þeirra er uppistaðan í Svarfdælu. Sveinn Andri Sveinsson. Sveinn Andri Sveinsson (12. ágúst 1963) er íslenskur lögfræðingur. Hann var borgarfulltrúi á síðasta áratug 20. aldar og er fyrrverandi formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Sveinn Andri er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu samhliða háskólanámi en hefur starfað sem lögfræðingur frá útskrift. Í lögmannsstörfum sínum hefur Sveinn Andri tekið að sér mörg mál, einkum sakamál, sem hlotið hafa mikla fjölmiðlaathygli. Stjórnmál. Sveinn Andri gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta í Háskólanum, Heimdall og Samband ungra sjálfstæðismanna. Hann tók sæti í borgastjórn Reykjavíkur sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins eftir stórsigur flokksins í borgarstjórnarkosningunum 1990. Það kjörtímabil var hann stjórnarformaður Strætisvagna Reykjavíkur og stýrði þar umdeildum breytingum á rekstrarformi. Deilurnar um strætó urðu eitt helsta átakaefnið í borgarstjórnarkosningunum 1994 og varð eitt fyrsta verk Reykjavíkurlistans að taka breytingarnar til baka. Sveinn Andri tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 1994 en fékk ekki brautargengi. Sveinn Andri hefur verið í hópi þeirra forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem hvað helst hafa talað fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Íþróttamál. Sveinn Andri tók sæti í stjórn Knattspyrnufélagsins Fram árið 1991 og var formaður félagsins frá 1994 til 2000. Í formannstíð hans var stofnað hlutafélag um rekstur meistaraflokks karla í knattspyrnu. Hlutafélagið tók til starfa með talsvert eigið fé, en steypti sér í skuldir á mettíma. Sveinn Andri setti til hliðar hugmyndir forvera síns á formannsstóli, Alfreðs Þorsteinssonar um flytja Fram úr Safamýrinni í austari byggðir borgarinnar eða í Laugardalinn. Þess í stað vildi hann byggja upp það svæði sem fyrir væri. Meðal annars setti hann fram metnaðarfullar hugmyndir um að selja hluta svæðisins undir verslunarmiðstöð með knattspyrnuleikvangi á þakinu. Anna af Bretagne. Anna af Bretagne (25. janúar 1477 – 9. janúar 1514) var hertogaynja af Bretagne frá 1488 og drottning Frakklands frá 1492. Hún var gift tveimur Frakklandskonungum í röð, Karli 8. og Loðvík 12. Hún var auðugasta kona Evrópu á sinni tíð. Erfingi Bretagne. Anna var dóttir Frans 2. hertoga af Bretagne og konu hans, Margaret af Foix. Hún var eina barn þeirra sem komst upp og var því alin upp sem erfingi hertogadæmisins og hlaut góða menntun. Faðir hennar vildi umfram allt forðast að Bretagne yrði innlimað í Frakkland og reyndi því að finna henni eiginmann sem væri nægilega öflugur til að geta staðið gegn Frökkum. Hún var heitbundin Játvarði, prinsi af Wales, syni Játvarðar 4., árið 1483 en hann hvarf skömmu eftir að faðir hans lést og föðurbróðir hans, Ríkharður 3., hrifsaði völdin. Árið 1488 neyddist Frans þó til að fallast á að dóttir hans mætti ekki giftast án samþykkis Frakkakonungs. Hann dó svo 9. september sama ár og bretónskir ráðamenn giftu Önnu Maxímilíian 1. af Austurríki, síðar keisara, 19. desember 1490. Brúðguminn var þó ekki á staðnum, heldur var notast við staðgengil. Anna og Karl 8.. Frakkar litu á þetta sem alvarlega ögrun og vorið 1491 kom Karl 8. Frakkakonangur í herleiðangur til Bretagne. Maximilian kom ekki til liðs við hina ungu brúði sína, sem hann hafði aldrei litið augum, Karl sigraði herlið hennar eftir umsátur um Rennes og lýst var yfir trúlofun þeirra. Austurríkismenn mótmæltu þar sem Anna væri þegar gift Maximilian, væri neydd til ráðahagsins og auk þess væri Karl löglega trúlofaður Margréti af Austurríki, dóttur Maximilians. Mótmælunum var ekki sinnt og brúðkaupið var haldið 6. desember 1491. Skömmu síðar lýsti Innósentíus VIII páfi hjónabandið löglegt þar sem hjónaband Önnu og Maximilians hefði aldrei verið fullkomnað. Samkvæmt hjúskaparsamningnum skyldi það hjónanna sem lifði lengur halda Bretagne en jafnframt var tekið fram að ef Karl dæi sonalaus ætti Anna að giftast eftirmanni hans. Anna var krýnd drottning Frakklands 8. febrúar 1492 en hjónabandið var ekki hamingjusamt. Þegar Karl dó 7. apríl 1798 var Anna 21 árs og hafði alið honum sjö börn á sex árum, þrjú voru andvana fyrirburar, þrjú dóu nýfædd og elsti sonurinn dó úr mislingum þriggja ára að aldri og var það foreldrum hans mikill harmur. Anna og Loðvík 12.. Anna af Bretagne tekur við handriti að bók Antoine Dufour um frægar konur. Samkvæmt samkomulaginu átti Anna nú að giftast nýja konunginum, Loðvík 12., fjarskyldum frænda Karls, en gallinn var sá að hann var þegar kvæntur Jóhönnu systur Karls. Hún féllst á að giftast konunginum ef hjónaband hans fengist ógilt og sneri svo heim til Bretagne og tók aftur við stjórnartaumum þar. Hún notaði tækifærið til að ferðast um ríki sitt og láta slá mynt með nafni sínu. Ef til vill hefur hún treyst á að Loðvík tækist ekki að fá hjónaband sitt gert ógilt en Alexander VI páfi brást snarlega við óskum Loðvíks og 8. janúar 1499 giftist Anna í þriðja sinn. Hún gat fengið Loðvík til að samþykkja að hún notaði titilinn hertogaynja af Bretagne, sem Karl hafði ekki viljað fallast á, og barðist alla tíð af hörku fyrir sjálfstæði hertogadæmisins gagnvart Frakklandi. Með Loðvík átti Anna tvær dætur sem komust upp og fimm andvana fædd börn, það síðasta 1512. Þegar hún dó, skömmu fyrir 37 ára afmæli sitt, hafði hún því alið fjórtán börn en átti aðeins tvö á lífi. Eldri dóttir hennar, Claude (f. 1499), gat ekki erft frönsku krúnuna en var hins vegar erfingi að Bretagne. Anna vildi umfram allt að Bretagne héldi sjálfstæði sínu og samdi því þegar árið 1501 um hjúskap milli hennar og Karls af Lúxemborg (síðar Karl 5. keisari). En þegar Loðvík varð ljóst varð að Anna mundi sennilega ekki eiga eftir að ala honum son sleit hann trúlofuninni og ákvað að dóttir hans skyldi giftast Frans af Angouleme, sem stóð næstur til ríkiserfða í Frakklandi. Anna neitaði að samþykkja ráðahaginn og Claude og Frans giftust ekki fyrr en eftir lát hennar. Anna var bráðgreind og góður stjórnandi, stolt og drambsöm og mikill listunnandi. Annar fótur hennar var styttri en hinn og hún var því hölt. Hún er sá einstaklingur úr sögu Bretagne sem íbúar héraðsins þekkja best og um hana hafa verið sagðar og skrifaðar sögur og söngvar og samdar óperur. Loðvík var rúmlega fimmtugur þegar Anna dó og átti engan son svo að honum lá á að reyna að bæta úr því. Hann giftist Maríu Tudor, 18 ára gamalli systur Hinriks 8. Englandskonungs, 9. október sama ár en dó á nýársdag 1515 og var sagt að ofreynsla í hjónasænginni hefði orðið honum að aldurtila. Frans frændi hans og tengdasonur erfði því ríkið. Claude varð drottning Frakklands og þegar hún dó 1524, 24 ára að aldri og hafði alið sjö börn, erfði elsti sonur hennar Bretagne, sem síðan hefur verið hluti af Frakklandi. Renee, yngri dóttir Önnu og Loðvíks, giftist Ercole 2. hertoga af Ferrara, syni Lucreziu Borgia. Gígjökull. Gígjökull (eða Falljökull) er annar tveggja skriðjökla sem renna úr Eyjafjallajökli, en hin er Steinsholtsjökull. Þeir skríða báðir til norðurs í Þórsmörk. Gígjökull er niður undir gömlum gíg sem er í jöklinum. Vatnið sem jökullinn skríður fram í ber heitið Lónið. Alfreð Þorsteinsson. Alfreð Þorsteinsson (15. febrúar 1944) er íslenskur stjórnmálamaður og blaðamaður. Hann hefur gegnt störfum borgarfulltrúa og er fyrrverand formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Alfreð fæddist í Reykjavík og hóf ungur störf á dagblaðinu Tímanum. Þar starfaði hann frá 1962-1977 og skrifaði m.a. mikið um íþróttir. Þá tók hann við stöðu forstjóra hjá Sölu varnarliðseigna og gegndi því starfi uns fyrirtækið var lagt niður um miðjan tíunda áratuginn. Hann hefur setið í stjórnum fjölda opinberra fyrirtækja og stofnanna í tengslum við stjórnmálaþátttöku sína. Stjórnmál. Alfreð hefur alla tíð starfað innan Framsóknarflokksins. Hann varð varaborgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 1970 og tók sæti aðalmanns þegar Einar Ágústsson hætti í borgarstjórn eftir að hafa tekið við ráðherradómi árið eftir. Alfreð var aðalborgarfulltrúi Framsóknarflokksins frá 1971-78 og varafulltrúi frá 1986-94. Árið 1994 tók Framsóknarflokkurinn þátt í kosningabandalaginu Reykjavíkurlistanum og fengu þau Alfreð og Sigrún Magnúsdóttir örugg sæti sem fulltrúar Framsóknarflokks. Alfreð sat í borgarstjórn öll þrjú kjörtímabilin sem Reykjavíkurlistinn var við lýði, en dró sig í hlé fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006. Þegar árið 1994 tók hann við formennsku í stjórn veitustofnanna Reykjavíkur, sem var sameiginleg stjórn Rafmagnsveitunnar, Hitaveitunnar og Vatnsveitunnar. Undir hans stjórn voru Rafmagnsveitan og Hitaveitan sameinuð undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. janúar 1999 og ári síðar rann Vatnsveitan einnig inn í hið sameinaða fyrirtæki. Alfreð var virkur stjórnarformaður Orkuveitunnar á miklu vaxtarskeiði hennar. Ráðist var í stórframkvæmdir í virkjanamálum, s.s. stækkun Nesjavallavirkjunar og gerð virkjunar á Hellisheiði. Mörgum þótti nóg um framkvæmdagleðina. Þannig var bygging höfuðstöðva Orkuveitunnar á Bæjarhálsi harðlega gagnrýndar, sem og tilraunir fyrirtækisins til að blanda sér í slaginn á fjarskiptamarkaði. Íþróttamál. Alfreð varð snemma áberandi í félagsstörfum innan Knattspyrnufélagsins Fram. Þegar á táningsaldri var hann farinn að sjá um þjálfun yngri flokka. Árið 1965 tók hann, aðeins 21 árs að aldri, við formennsku knattspyrnudeildar, en skömmu hafði Framliðið fallið úr efstu deild í fyrsta sinn. Ákveðið var að rífa upp starfið. Framarar sigruðu í annarri deild sumarið 1966, sama gaf knattspyrnudeildin út veglegt Fram-blað, en það hafði þá ekki komið út í átta ár. Síðast en ekki síst tóku Framarar á móti skoska félaginu Dundee United, sem þá var eitt sterkasta knattspyrnulið Evrópu. Árið 1972 var Alfreð kjörinn formaður Knattspyrnufélagsins Fram og gegndi því embætti til 1976. Á þeim tíma flutti félagið loks starfsemi sína frá gamla félagssvæðinu fyrir neðan Stýrimannaskólann í Safamýrina. Gamla félagsheimilið í Skipholtinu var endanlega yfirgefið, enda orðið grátt leikið af innbrotsþjófum og skemmdarvörgum. Þess í stað var ráðist í vallarframkvæmdir og byggingu fyrsta áfanga félagsheimilis á nýja svæðinu. Félagsheimilið hýsir í dag félagsmiðstöðina Tónabæ. Árið 1989 var Alfreð á ný kallaður til formennsku í Fram. Að þessu sinni með það að meginmarkmiði að koma upp íþróttahúsi á félagssvæðinu, ásamt félagsaðstöðu. Húsið var vígt sumarið 1994 og lét Alfreð af formennsku á aðalfundi þá um haustið. Á þessu seinna formannstímabili Alfreðs komst mjög í umræðuna hvort rétt væri að flytja félagið til í borginni. Til tals kom að Framarar fengju aðsetur í Laugardalnum. Varð sú hugmynd endanlega úr sögunni árið 1998 þegar Þróttarar fengu úthlutað þar starfssvæði. Önnur hugmynd var að flytja Fram upp í Grafarvog, til að flýta fyrir íþróttauppbyggingu í hverfinu. Skiptar skoðanir voru um ágæti þessarar hugmyndar meðal Framara og að lokum réð andstaða hins nýstofnaða Ungmennafélagsins Fjölnis því að ekkert varð úr flutningum. Í tengslum við flutningana íhuguðu Framarar að stofna golfdeild og sóttust eftir landi undir golfvöll. Á 90 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Fram var Alfreð Þorsteinsson útnefndur heiðursfélagi. Vogur. Vogur er meðferðarheimili SÁÁ fyrir fíkla og alkóhólista, staðsett í Árbæ í Reykjavík. Yfirlæknir er Þórarinn Tyrfingsson. Trypanosoma cruzi. "Trypanosoma cruzi" er frumdýr sem veldur Chagi-sjúkdómi. Hilmar Guðlaugsson. Hilmar Guðlaugsson (2. desember 1930) er íslenskur stjórnmálamaður. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík og er fyrrverand formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Hilmar er menntaður múrsmiður og starfaði sem slíkur um árabil. Hann var formaður Múrarafélags Reykjavíkur og síðar Múrarasambands Íslands, auk þess að gegna öðrum trúnaðarstörfum á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Stjórnmál. Hilmar gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og tilheyrði verkalýðsarmi hans. Kjörtímabilin 1974-82 var hann varaborgarfulltrúi í Reykjavík og náði kjöri sem aðalmaður árið 1986. Hann sat í borgarstjórn samfleytt í tólf ár, en dró sig í hlé fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998. Íþróttamál. Árið 1978 var Hilmar kjörinn formaður Knattspyrnufélagsins Fram og gegndi því embætti um átta ára skeið, til ársins 1986. Hann er einn örfárra formanna Fram sem ekki á að baki keppnisferil með félaginu, en hann hóf afskipti sín af Fram fyrst á fullorðinsárum í gegnum íþróttaiðkun barna sinna. Sonur Hilmars er Atli Hilmarsson, einn kunnasti handboltamaður Íslands. Stofnbrot. Stofnbrot er ræð tala skrifuð sem almennt brot þar sem teljarinn er einn og nefnarinn er jákvæð heiltala. Stofnbrotið formula_1 (þar sem teljarinn er einn og nefnarinn formula_2) er því margföldunarumhverfa jákvæðu heiltölunnar formula_3. Dæmi um stofnbrot væru til dæmis formula_4, formula_5, formula_6 eða formula_7. Gunnar Thorsteinsson. Gunnar Thorsteinsson (1894 – 4. mars 1921) var íslenskur knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Gunnar var sonur athafnamannsins Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar Guðmundsdóttur. Meðal systkina Gunnars voru Friðþjófur sem gegndi um tíma formennsku í Fram og Samúel, einn fremsti knattspyrnumaður Íslands. Þeir voru allir bræður listamannsins Guðmundar „Muggs“ Thorsteinssonar. Í Danmörku lærði Gunnar verslunarstörf og bjó sig undir að feta í fótspor föður síns. Heilsubrestur kom í veg fyrir þau áform. Gunnar veiktist af spænsku veikinni og náði aldrei aftur fullri heilsu. Þau veikindi drógu hann að lokum til dauða árið 1921. Þegar Gunnar lést var hann trúlofaður myndlistarkonunni Nínu Sæmundsson Íþróttir. Gunnar fluttist til Reykjavíkur árið 1914 og gekk til liðs við Knattspyrnufélagið Fram. Hann var þegar gerður að fyrirliða og gegndi stöðu formanns félagsins 1914-15. Friðþjófur Thorsteinsson, aðalmarkaskorari Framara, var nýfluttur til Skotlands þegar Gunnar gekk í raðir Framara. Gunnar tók við hlutverki bróður síns sem aðalmarkvarðahrellirinn í sigursælu Framliði. Krónos. Krónos var í grískri goðafræði títani og sonur Úranosar og Gaju. Hann var meðal annars faðir guðanna Seifs, Póseidons og Hadesar. Ragnar Lárusson. Ragnar Lárusson (8. maí 1907 – 11. júní 1971) var íslenskur stjórnmálamaður, embættismaður Reykjavíkurborgar og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Ragnar vann hjá Reykjavíkurbæ nær alla sína starfsævi. Fyrst sem framfærslufulltrúi bæjarins og síðar sem forstöðumaður ráðningarskrifstofu borgarinnar til dauðadags. Hann var í forystusveit Sjálfstæðisflokksins um langt skeið, m.a. sem formaður Varðar 1946-52. Ragnar var frambjóðandi Sjálfstæðismanna í Strandasýslu þrennar kosningar í röð: 1953, 1956 og 1959, en tapaði í öll skiptin fyrir Hermanni Jónassyni. Íþróttamál. Ragnar var kjörinn formaður Fram árið 1939 og gegndi því embætti til 1942. Hann varð síðar fulltrúi Framara á vettvangi Knattspyrnusambands Íslands og sat í stjórn þess í tvo áratugi. Upptyppingar. Upptyppingar eru móbergsfjöll í Ódáðahrauni vestan Krepputungu. Þeir mynda fjallaþyrpingu með nokkrum tindum og eru áberandi kennileiti þar á öræfunum. Jökulsá á Fjöllum rennur í sveig niður með þeim að austan. Upptyppingar eru myndaðir við gos undir jökli nálægt lokum síðasta jökulskeiðs. Þeir eru hluti af eldstöðvakerfi Kverkfjalla. Lífmassi. Lífmassi er í grunninn lífrænt efni sem gengur af í líffræðilegum ferlum og gefur möguleika á vinnslu endurnýjanlegrar orku. „Þegar rætt er um lífmassa sem orkulind er yfirleitt átt við afurðir eða aukaafurðir úr skógrækt og landbúnaði, en etanól, metan og lífdísill eru helstu lífmassa-orkumiðlarnir. Því kemur ekki á óvart að þau lönd sem komin eru einna lengst í þróun á lífmassa sem eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis eru Brasilía, þar sem sykurreyr er hráefnið, og Svíþjóð og Finnland, þar sem skóglendi er mikið, þó fleiri lönd standi einnig framarlega í þessum efnum.“ "„Lífmassi er meðal þeirra orkugjafa sem munu koma í stað jarðefnaeldsneytis til að draga úr aukningu gróður- húsaáhrifa. Með því að vinna gas úr sorpi og búfjáráburði er einnig dregið úr losun metans, sem er mjög virk gróðurhúsalofttegund, og afgangar úr grisjun skóga og timburvinnslu eru mikilvægt hráefni. Úrgangur, sem til fellur, dugir þó skammt. Hér á landi kemur til greina að hirða lífmassa af túnum eða rækta tún sérstaklega með tegundum eins og strandreyr, og bygg og alaskalúpína koma til greina. Víði ætti að mega rækta með góðum árangri. Minni líkur eru á að rækta megi olíujurtir til að fá dísileldsneyti.“" Orkan sem fæst úr lífmassa er ekki jafn þétt og sú úr jarðefnaeldsneyti og því þarf aukna tækni til þess að lífmassaorka sé samkeppnisfær. Því er ljóst að landbúnaðurinn og iðnaður þarf meiri gróður og hagkvæmari vinnslu til þess að unnt sé að auka notkun lífmassa. Mögulegar afurðir úr lífmassa er eldsneyti í vökva- og gasformi auk fleiri gagnlegra efnasambanda sem nú eru framleidd úr jarðefnum. Nýting lífmassa á Íslandi. Árið 1997 var Íslenska lífmassafélagið stofnað með það fyrir augum að styðja verkefni um etanól framleiðslu sem og annarra efna með nýtingu jarðgufu. Í grunninn var hugmyndin að nýta háhitasvæðin og lífmassa. Meginhráefnin áttu að vera úrgangspappír, alaskalúpína, bygg, hey og mysa og afurðirnar m.a. etanól. "„Gróft séð virðist vera möguleikar á framleiðslu allt að 50.000 tonnum af etanóli úr innlendum gerjunarmassa og hugsanlega um 700.000 tonn með fáanlegri jarðgufu. Þar með er ekki sagt að þessar leiðir væru þær hagkvæmustu í úrvinnslu lífmassa á Íslandi. Hugsanlegt er að etanólið nýtist með hagkvæmari hætti í ýmiskonar efnaframleiðslu en athuganir á þessum þáttum liggja ekki fyrir. Því er varlegt að áætla um lífmassa sem orkugjafa þangað til frekari rannsóknir og hagkvæmniathuganir liggja fyrir.“" Árið 2009 var opnuð á kurlkyndistöð á Hallormsstað sem Skógarorka ehf. rekur. Þar er viður sem fellur til við grisjun á svæðinu nýttur sem orkugjafi. Kyndistöðin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og kemur til með að þjóna bæði opinberum byggingum og heimilum á svæðinu þegar fram líða stundir. Kurlkyndistöð sem þessi er kolefnishlutlaus enda losar tré sem hefur verið kurlað og brennt einungis kolefnið sem bundið var í því. Fengi tréð að standa, deyja og fúna myndi sama magn kolefnis losna út í andrúmsloftið. Gerhard Mercator. Gerhard Mercator (5. mars 1512 í Rupelmonde – 2. desember 1594 í Duisburg) var fremsti kortagerðamaður síns tíma og var orðin þjóðsögn í lifanda lífi. Hann umbylti kortagerð (Mercator-vörpun) og var auk þess mikilshæfur stærðfræðingur, guðfræðingur og heimspekingur. Æviferill. Gerhard Mercator fæddist í belgíska bænum Rupelmonde og hét þá Gerard De Kremer. Eftir andlát föður síns ólst hann upp í Hertogenbosch á Niðurlöndum. Frá og með 1530 nam hann heimspeki, guðfræði og stærðfræði við háskólann í Leuven og lagði einnig stund á kortagerð. 1537 bjó hann til fyrsta kortið sitt og ári síðar heimskort. Fleiri kort fylgdu í kjölfarið, svo sem kort af Flæmingjalandi ("Flanderen"). Einnig bjó Mercator til hnattlíkön sem seldust víða í stóru upplagi. Á þessum tíma var kaþólska kirkjan enn með sterk ítök í suðurhluta Niðurlanda (Belgíu í dag). Kirkjunni mislíkaði nýja heimsmyndin og var Mercator handtekinn og ákærður fyrir trúvillu. Í dýflissu mátti hann dúsa í fleiri mánuði. Þegar hann var látinn laus hélt hann áfram að búa til kort og hnattlíkön. Einnig bjó hann til stjörnukort. 1551 þáði hann boð um að koma til þýsku borgarinnar Duisburg. Þar kenndi hann við háskólann, sem þá var nýstofnaður. Mercator lifði í Duisburg til æviloka. 1569 hafði hann þróað með sér nýja aðferð til kortagerðar. Með nýju aðferðinni fékkst kort sem var áttarétt að öllu leyti. Aðeins fjarlægðirnar brengluðust. Vörpun þessi heitir í dag Mercator-vörpun og er enn mikið notuð. Með þessari nýju tækni bjó Mercator til heimskort sem veitti honum heimsfrægð. Síðasta verk hans var landakortabók, en honum entist ekki aldur til að ljúka henni. Mercator lést í Duisburg og var lagður til hvíldar í Salvatorkirkjunni þar í borg. Grafreitur hans er týndur, en grafarplatti hans hangir í kirkjunni. Sonur hans Rumold lauk landakortabókinni og gaf hana út. Í bókinni voru mýmörg kort af Frakklandi, Þýskalandi, Niðurlöndum og Evrópu. Í henni var einnig eitt Íslandskort. Heimildir. Mercator, Gerhard Mercator, Gerhard Mercator, Gerhard Mercator, Gerhard Áslákur Ingvarsson. Áslákur Ingvarsson (fæddur 22. nóvember 1990 í Reykjavík) er íslenskur leikari. Hann er sonur leikarahjónanna Ingvars Eggerts Sigurðssonar og Eddu Arnljótsdóttur. Áslákur er þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Kaldaljós þar sem hann lék á móti föður sínum Ingvari og yngri systur sinni Snæfríði. Áslákur hefur einnig tekið þátt í uppsetningum Þjóðleikhússins á sýningum á borð við Oliver Twist. Áslákur útskrifast frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 2010. Hann hefur verið virkur í félagslífi skólans allt frá upphafi skólagöngu sinnar og einnig virkur meðlimur Hamrahlíðarkóranna. Í apríl 2010 söng hann fyrir hönd skólans í söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri og stóð sig með mikilli prýði. Hann flutti lagið "Sofð þú mér hjá". Jón Magnússon (formaður Fram). Jón Magnússon (17. janúar 1911 – 26. desember 1997) var verslunarmaður í Hafnarfirði, knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram og Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Ævi og störf. Jón fæddist á Álftanesi og ólst upp þar og í Hafnarfirði. Sem ungur maður kom hann að stofnun Knattspyrnufélagsins Þjálfa í Hafnarfirði árið 1928 og var formaður þess uns félagið var lagt niður árið 1932. Á sama tíma var Jón meðlimur í Knattspyrnufélaginu Fram, sem var að rífa sig upp úr miklum öldudal. Árið 1928 sendi Fram ekki lið til þátttöku á Íslandsmóti karla í fyrsta og eina sinn í sögunni. Árið eftir keppti Fram að nýju með nánast alveg nýtt lið, þar sem Jón Magnússon var meðal keppenda. Hann lék með meistaraflokki til ársins 1941 og varð Íslandsmeistari með liðinu sumarið 1939. Það mæddi mikið á Jóni Íslandsmeistaraárið, því auk þess að leika með liðinu gegndi hann formennsku í Fram 1938-39. Þetta sama sumar héldu Framarar í keppnisferð til Danmerkur í boði danska knattspyrnusambandsins, sem hélt upp á fimmtíu ára afmæli sitt. Í tilefni af afmælinu efndu Danirnir til óopinbers Norðurlandamóts, þar sem landslið Svía, Norðmanna og Finna kepptu auk heimamanna. Framliðið var kynnt til sögunnar sem nokkurs konar áheyrnarfulltrúi og fastlega gefið í skyn að þar færi íslenska landsliðið. Upp úr 1940 hóf Jón verslunarrekstur í Hafnarfirði og gerðist þá virkur félagi í Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, lék með meistaraflokki og gegndi m.a. formannsembættinu 1943-45. Jón fluttist aftur til Reykjavíkur 1950 og fór upp úr því að einbeita sér að störfum fyrir Knattspyrnusamband Íslands, þar sem hann sat í stjórn í tæpan aldarfjórðung. Árið 1960 tók hann aftur við formennskunni í Fram og gegndi því starfi í eitt ár. Hann var útnefndur heiðursfélagi árið 1978, á 70 ára afmæli félagsins. Toy Story. "Leikfangasaga" (enska: "Toy Story") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1995. Myndin segir frá lífi ungs drengs og leikfanga hans sem lifna við um leið og drengurinn lætur sig hverfa úr herberginu. Toy Story er meðal annars fyrsta kvikmyndin sem var gerð sem er 100% tölvugerð. Söguþráður. Addi er ungur drengur sem hefur gaman af leikföngum. Samtals á hann tugi leikfanga og þykir afar vænt um þau öll. Eins og gengur og gerist hjá ungum krökkum er það alltaf eitt leikfang sem stendur upp úr. Uppáhalds leikfang Adda er kúrekabrúðan Viddi, heiðarlegur fógeti úr villta vestrinu. Hin leikföngin lýta upp til hans og er hann einhverskonar foringi hópsins og hlýða allir því sem hann segir. Nasjonal Samling. a> kom til Noregs 1941. Á myndinni má sjá, talið frá vinstri til hægri Quisling, Himmler, Josef Terboven, sá sem í raun stjórnaði Noregi á hernámsárunum, og herforinginn Nikolaus von Falkenhorst, æðsti yfirmaður þýska hersins í Noregi Nasjonal Samling – NS ("Þjóðleg eining", hefur einnig verið þýtt sem "Þjóðfylkingin") var norskur stjórnmálaflokkur, stofnaður 1933 og lagður niður eftir ósigur þýska hersins í Noregi 1945. Foringi flokksins og helsti hugmyndafræðingur var Vidkun Quisling. Hugmyndafræði NS einkenndist af kenningum fasismans og seinna einnig nazismans, þar sem þjóðernishyggja og dásemd á yfirburðum „norræna kynþáttarins“ var þungamiðja auk andstöðu gegn lýðræði og þingræði. Flokkurinn var byggður í samræmi við skipulag annarra fasistaflokka með „leiðtogaskipulagi“, með Quisling sem öllu ráðandi foringja – fürer. Fyrir utan kvenna og ungliðadeildir hafði flokkurinn að þýskri og ítalskri fyrirmynd einnig vopnaða sveit sem nefnd var Hirden – Hirðin. Nasjonal Samling bauð fram í þingkosningunum 1933 og 1936 en hafði ekki það fylgi sem flokksmenn höfðu vonað, í kosningunum 1933 fékk flokkurinn 27 850 atkvæði eða 2.23 % og 1936 26 577 atkvæði eða 1.83 % og komu engum manni á þing. Þessi úrslit ollu miklum deilum innan flokksins og endaði með klofningi þar sem sá hluti sem var borgarlega hægrisinnaður sagði skilið við Quisling. Á næstu árum var flokkurinn smár í sniðum og einangraður og snérist að mestu í kringum Quisling sjálfan. Hugmyndafræðilega færðist NS á þessum árum allt nær þýska nazistaflokknum og á fundi Quislings með Hitler 14. desember 1939 var NS lofað aðstoð við uppbyggingu flokksins. Eftir innrás þýska hersins í Noreg 9. apríl 1940 greip Quisling tækifærið og lýsti því yfir að norsku ríkisstjórninni hefði verið steypt af stóli og að hann tæki sjálfur við völdum. Viku seinna tóku Þjóðverjar völdin af Quisling og við tók stjórn sem skipuð var af hæstarétti Noregs. Á næstu mánuðum fóru fram viðræður um mögulega samstarfsstjórn en þær viðræður runnu út í sandinn. Josef Terboven, sem var ríkisstjóri Þjóðverja í Noregi, lýsti því yfir 25. september 1940 að stjórn hæstaréttar væri þar með uppleyst og að útlagastjórnin, sem sat í London, og norski konungurinn væru sett af. Í hinni nýju framkvæmdastjórn sem Þjóðverjar settu á laggirnar voru flesti flokksmenn í NS. Samtímis voru allir flokkar aðrir en NS bannaðir. Hinn 1. febrúar 1942 var Quisling síðan gerður að forsætisráðherra sem átti að stjórna Noregi í umboði Þýskalands þar til að stríðinu væri lokið. Fljótlega fór Nasjonal Samling að vaxa, frá því að hafa verið hópur nokkur hundruð manna í apríl 1940 hafði hann vaxið í september sama ár í 22 000 félaga og í nóvember 1943 43 400. Norska útlagastjórnin í London gerði það ólöglegt að vera flokksfélagi í Nasjonal Samling. Flokksfélagar voru þess vegna allir kærðir fyrir landráð og stríðsglæpi. Handtökur hófust þegar hinn 8. maí 1945 þegar þýski herinn gafst upp, samanlagt voru 92 000 handteknir og um 55 000 dæmdir, 45 voru dæmdir til dauða, um 17 000 í fangelsi og hinir misháar sektir. Heimildir. Brevig, Hans Olaf & Ivo de Figueiredo: "Den norske fascismen: Nasjonal samling 1933-1940", 2002, ISBN10: 8253024347 Dahl, Hans Fredrik m.fl.: "Den norske nasjonalsosialismen: Nasjonal Samling 1933-1945 i tekst og bilder", [3. utg.], 1995, ISBN-13: 9788253032467 Salma Hayek. Salma Valgarma Hayek Jiménez, þekkt sem Salma Hayek (fædd 2. september 1966) er mexíkósk leikkona. Hayek, Salma Blakdeild Fram. Blakdeild Fram var íþróttadeild sem stofnuð var innan í Knattspyrnufélagsins Fram árið 1978. Hún starfaði af krafti um nokkurra ára skeið, en tók í síðasta sinn þátt í Íslandsmóti árið 1991. Sagan. Fyrstu hugmyndir um að hefja æfingar í blaki á vettvangi Knattspyrnufélagsins Fram voru kynntar til sögunnar árið 1974. Þá um vorið hampaði Ungmennafélag Biskupstungna Íslandsmeistarartitlinum í blaki. Liðsmenn þess voru allir útskriftarnemar við Íþróttakennaraskólann, sem ákváðu að halda hópinn í höfuðborginni. Í hópnum voru Framararnir Pálmi Pálmason og Ásgeir Elíasson og lá því beint við að knýja að dyrum hjá Fram. Svörin voru hins vegar á þá leið að Fram ætti nóg með að sjá öðrum boltagreinum fyrir æfingatímum. Niðurstaða hópsins varð því sú að stofna deildina innan Þróttar, sem varð í kjölfarið sigursælasta blakfélag landsins. Undirtektirnar urðu aðrar og betri árið 1978 þegar hópur unglinga á menntaskólaaldri bönkuðu upp á og báðu um að fá að stofna blakdeild. Um var að ræða vinahóp úr Menntaskólanum við Hamrahlíð sem verið hafði saman í Álftamýrarskóla. Flestir í hópnum voru virkir félagar í Fram og æfðu aðrar greinar innan félagsins. Meðal stofnfélaga voru fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson og handknattleiksmaðurinn Atli Hilmarsson. Framarar skráðu sig til leiks á Íslandsmóti meistaraflokks haustið 1978. Næstu árin rokkaði liðið á milli þess að berjast við topp annarrar deildar og botn fyrstu deildar. Veturinn 1986-87 var sá besti í sögu blakdeildarinnar. Leikmenn voru á besta aldri og með mikla reynslu. Fram komst í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn gegn Þrótti. Báðar viðureignir einvígisins töpuðust 3:1 eftir harða baráttu og silfurverðlaunin voru Framara. Sama vetur bar það til tíðinda að leikmönnum Fram tókst að vinna hrinu gegn Íþróttafélagi stúdenta 15:0. Þessi góði árangur reyndist hins vegar svanasöngur frekar en fyrirboði frekari afreka. Næstu fjögur árin höfnuðu Framarar í neðsta sæti Íslandsmótsins og náðu sjaldnast að vinna hrinu í keppni við sterkari liðin. Smátt og smátt varð rekstur blakdeildarinnar þyngri. Upphaflegu stofnendurnir sneru sér að öðrum verkefnum, en erfiðlega gekk að fá nýja menn í staðinn. Kvennaflokkur og yngri flokka starf deildarinnar lognaðist sömuleiðis útaf, ekki hvað síst vegna aðstöðuleysis. Fram átti ekki eigið þróttahús og íþróttahús Álftamýrarskóla var ásetið. Fyrir vikið voru æfingar haldnar út um allar trissur og yngri flokkarnir þurftu til að mynda að sækja æfingar vestur í Melaskóla þótt iðkendurnir væru flestir úr Breiðholtinu. Fram tók í síðasta sinn þátt í Íslandsmóti í blaki vorið 1991. Deildin var þó aldrei formlega lögð niður og hafa Framarar keppt undir eigin merkjum á öldungamótum til þessa dags. Ekki er því útilokað að Framarar eigi síðar eftir að láta til sín taka í blakinu á ný. Lúðvík Þorgeirsson. Lúðvík Thorberg Þorgeirsson (2. nóvember 1910 – 27. desember 1996) var íslenskur kaupmaður, knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Lúðvík var þjóðkunnur verslunarmaður, en hann rak nýlenduvöruverslunina Lúllabúð við Hverfisgötu frá árinu 1939 til 1982, þegar sonur hans tók við rekstinum. Árið 1928 var Knattspyrnufélagið Fram komið að fótum fram. Sjóðurinn tómur, félagatalið týnt og gömlu forystumennirnir horfnir á braut. Til greina kom að leggja félagið niður eða sameina það Víkingi. Þá kom að stjórn félagsins vaskur hópur ungra manna, sem segja má að hafi komið því til bjargar. Lúðvík var einn þeirra fimm manna sem skipuðu endurreisnarstjórnina 1928. Næsta áratuginn skipti hópur þessi á milli sín formennskunni í félaginu og kom hún í hlut Lúðvíks árin 1935-37. Lúðvík lagði skóna á hilluna þegar hann stofnaði verslun sína árið 1939 og missti því naumlega af því að verða Íslandsmeistari með Fram. Hann tók hins vegar virkan þátt í starfi félagsins og gegndi Lúllabúð lengi hlutverki óopinbers félagsheimili Fram, þar sem m.a. mátti kaupa miða á kappleiki og skemmtanir, nálgast blöð félagsins og skrá sig í skíðaferðir. Á fimmtíu ára afmæli Fram var Lúðvík útnefndur heiðursfélagi Fram, en við sama tilefni afhenti hann félaginu sjóð sem gamlir félagsmenn höfðu safnað til uppbyggingar á nýju félagssvæði. Sonur Þorgeirs, Birgir var formaður Fram 1986-89. Guðmundur Halldórsson. Guðmundur Halldórsson (9. ágúst 1900 – 13. febrúar 1986) var útsölustjóri hjá ÁTVR, knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Guðmundur ólst upp við Njálsgötuna í Reykjavík, sem þá var helsta vígi og uppeldisstöð knattspyrnufélagsins Fram. Aðalkeppnisvöllur piltanna í hverfinu var á gömlu öskuhaugunum þar sem Heilsuverndarstöðin stendur nú. Árið 1919 gekk Guðmundur til liðs við Fram og varð þá þegar fastamaður í meistaraflokksliði félagsins og margoft Íslandsmeistari. Hann var þá meðal yngstu leikmanna liðsins. Um 1927 stóð Fram höllum fæti. Nær allir lykilmenn og stjórnendur félagsins hættu um svipað leyti og litu mátti muna að félagið lognaðist út af. Guðmundur hafði þá forgöngu um að blása nýju lífi í félagið. Hann safnaði piltum af Njálsgötusvæðinu til æfinga, sem hann stýrði sjálfur og smalaði í nýja stjórn fyrir aðalfundinn 1928, sem reif félagið upp úr öskustónni. Hann gerðist jafnframt fyrsti þjálfari meistaraflokks í nútímaskilningi þess orðs. Þáttur Guðmundar í að bjarga Knattspyrnufélaginu Fram frá bráðum dauða var staðfest árið 1933, á 25 ára afmæli félagsins þegar hann og Kjartan Þorvarðarson, félagi hans úr endurreisnarstjórninni, voru útnefndir annar og þriðji heiðursfélagi Fram, en sá heiður hafði þá ekki enn hlotnast neinum stofnfélaga Fram. Þótt Guðmundur hefði haft frumkvæðið að myndun endurreisnarstjórnarinnar tók hann ekki við formannsembættinu fyrr en árið 1937 og gegndi því til 1939 og svo aftur 1946-47. Á seinna formannstímabili Guðmundar réðst Fram í byggingu félagsheimilis, fyrst íslenskra íþróttafélaga, Guðmundur var bróðir Sigurðar og Ólafs Halldórssona sem einnig voru formenn í Fram. Orrustan við Waterloo. Orrustan við Waterloo var orrusta sem var háð sunnudaginn 18. júní árið 1815 í núverandi Belgíu. Her undir stjórn Napóleons keisara var borinn ofurliði af sameinuðum herjum hins sjöunda sambandshers, bandalagshers Englendinga undir stjórns Wellingtons lávarðs og prússnesks hers undir stjórn Gebhard von Blücher. Ragnhildur Geirsdóttir. Ragnhildur Geirsdóttir er fyrrverandi forstjóri plastvöruframleiðands Promens hf, hún gengdi starfinu frá árinu 2005 til 2011. Þar áður var hún forstjóri FL Group, en þar starfaði hún í rúmt ár, þar til hún hætti skyndilega. Mikhail Tal. Mikhail Tal (rússneska: Михаил Нехемьевич Таль; 9. nóvember 1936 – 28. júní 1992) var lettneskur stórmeistari og áttundi heimsmeistarinn í skák. Tal er einnig þekktur undir nafninu „töframaðurinn frá Riga“ fyrir afar flókinn, taktískan skákstíl og leikfléttur, sem margir líktu við töfrabrögð. Tal var afar vel liðinn í skákheiminum. Til að mynda er minnismót, Tal Memorial, haldið honum til heiðurs á hverju ári í Moskvu, þar sem margir af sterkustu stórmeisturum nútímans taka þátt. Árið 1960 háði Mikhail Tal, einungis 23 ára gamall, einvígi við þáverandi heimsmeistara, Mikhail Botvinnik. Tal vann einvígið 12.5-8.5 og varð heimsmeistari í skák í kjölfarið, sá yngsti frá upphafi (Garry Kasparov sló þetta met árið 1985 þegar hann vann titilinn 22 ára gamall). Hann hélt titlinum til 1961 en þá tapaði hann honum aftur til Botvinnik. Heilsa. Tal var alla tíð við slæma heilsu og átti í langtímastríði við nýrnasjúkdóm, sem að lokum dróg hann til dauða. Almennt er heilsuástand Tals hafa talið spila inn í slæma frammistöðu hans á móti Botvinnik í einvíginu árið 1961. Ekki bætti svo úr skák að Tal bæði reykti og drakk mikið. Tal var einnig bæklaður á hægri hönd, þannig að fingur hans voru "vafnir" og mynduðu tvo stærri fingur (sjá mynd). Tal, Mikhail Ryan Reynolds. Ryan Rodney Renolds (fæddur 23. október 1976) er kanadískur leikari. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í gamanmyndunum en einnig í rómantískum myndum eins og "Van Wilder", "Waiting...", "Just Friends", "Definitely Maybe" og "The Proposal" en einnig í "Deadpool" og '. Reynolds lét líka í ofurhetjumyndinni "Green Lantern" ásamt Blake Lively og Mark Strong. Æska. Reynolds fæddist í Vancouver í Bresku Kólumbíu, Kanada. Hann er sonur James og Tammy Reynolds og er yngstur af fjórum bræðrum. Hann er af írskum ættum og var alinn upp í kaþólskri trú. Ryan útskrifaðist úr Kitsilano menntaskólanum sem staðsettur er í Vancouver árið 1994. Síðan gekk hann í Kwantlen háskólann, einnig í Vancouver en kláraði þó aldrei. Ferill. Ferill Reynolds byrjaði árið 1990 þegar hann lék Billy í kanadísku unglingasápunni "Hillside", sem var einnig sýnd í Bandaríkjunum. Sem fullorðinn maður lék Ryan í National Lampoon kvikmyndinni "Van Wilder" og í bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni, "Two Guys, A Girl and a Pizza Place" og lék læknisfræðinemann Michael "Berg" Bergen. Hann lék einnig lítið hlutverk í "Harold & Kumar Go to White Castle" sem hjúkka, lék í "The In-Laws" með Michael Douglas og Albert Brooks en líka í kandaísku myndinni "Foolproof". Árið 2005 lék hann þjón að nafni Monty í "Waiting...", og sem tónlistarframleiðandinn Cris Brander í rómantísku gamanmyndinni "Just Friends" ásamt Amy Smart og Önnu Faris. Ryan lék söguhetjuna í kvikmyndinni "Definitely, Maybe" árið 2008. Hann lék síðan í seinni hluta lokaþáttar seríu sjónvarpsþáttarins "Nýgræðingar" (e. "Scrubs"), þar sem hann lék Spence, vin J.D. og Turks úr menntaskóla. Árið 2009 lék hann Andrew Paxton, þar sem hann lék á móti Söndru Bullock í vinsælu rómantísku gamanmyndinni "The Proposal". Þrátt fyrir að hafa að mestu leikið í gamanmyndum lék Reynolds dimma karakterinn George Lutz í endurgerðinni af hryllingsmyndinni "The Amityville Horror". Hann fór í brjálaða líkamsrækt fyrir hlutverk sitt sem Hannibal King í kvikmyndinni "Blade: Trinity" en í henni léku líka Wesley Snipes og Jessica Biel. Hann lék líka alríkislögreglufulltrúa (FBI) ásamt Ray Liotta í glæpa-hasarmyndinni "Smokin' Aces". Í vitðali í mars 2005 greindi Reynolds frá áhuga sínum og þátttöku í mögulegri endurgerð kvikmyndarinnar "Deadpool" með handritshöfundinum David S. Goyer. Reynolds lék Deadpool í "X-Men Origins: Wolverine" og mun leika hann aftur í kvikmynd sem ber nafnið "Deadpool". Ryan mun leika ofurhetjuna Hal Jordan/Green Lantern í væntanlegu myndinni "Green Lantern" sem kemur í kvikmyndahús þann 17. júní 2011 í þrívídd, sem setur Reynolds í hóp fárra leikara sem hafa leikið aðalhutverkin í myndum sem eru byggð á Marvel- og DC-teiknimyndablöðum. Reynolds heilsaði aðdáendum og sór Green Lantern eiðinn á Comic-Con 2010. Reynolds lék einnig í spænsk-áströlsku hryllingsmyndinni "Buried" sem var leikstýrt af Rodrigo Cortes. Reynolds var útnefndur kynþokkafyllsti karlmaður á lífi árin 2008,2009 og 2010 af tímaritinu People. Ryan Reynolds var valinn nýtt andlit Hugo Boss ilma í febrúar 2010. Einkalíf. Árið 2002 byrjaði Reynolds ástarsamband við kanadísku söngkonuna Alanis Morissette. Þau tilkynntu um trúlofun sína í júní 2004. Í febrúar árið 2007 tilkynntu talsmenn Morissette og Reynolds að þau hefðu ákveðið að slíta trúlofun sinni. Plata Morissette, "Flavors of Entanglement" var búin til vegna sambandsslitanna. Stuttu eftir að sambandi hans og Morissette lauk byrjaði Reynolds með leikonunni Scarlett Johansson og tilkynnti parið um trúlofun sína 5. maí 2008. Þau giftu sig þann 27. september 2008 í athöfn nálægt Tofino í Bresku Kólumbíu. Þann 14. desember 2010 tilkynntu Reynolds og Johansson að þau væru skilin að borði og sæng og sögðu í sameiginlegri tilkynningu, "Eftir langa og mikla umhugsun að okkar beggja hálfu, höfum við ákveðið að enda hjónaband...við komum inn í sambandið með ást og það er með ást og kærleika sem við skiljum." Reynolds sótti formlega um skilnað 23. desember 2010 í Los Angeles á grunvelli ósættanlegs ágreinings. Í október 2008 skrifaði Reynolds í Huffington blaðið um ætlun sína að hlaupa New York-borgar maraþonið fyrir föður sinn, sem er með Parkinson-sjúkdóminn. Heimildir. Reynolds, Ryan Aurar (landslagsþáttur). Aurar (orðið "aur" í fleirtölu) eru ógróið flatlendi úr hnullungum, möl og sandi sem auravatn hleður undir sig. Gott dæmi um aura eru sandar og ósar Markarfljóts. Liðagigt. Liðagigt (eða iktsýki) er sjálfsofnæmissjúkdómur sem veldur því að ónæmiskerfi líkamans ræðst gegn sjálfu sér og leiðir til þess að liðir líkamans bólgna upp. Bólgan getur svo orðið til að liðbrjóskið eyðist. Raforka. Raforka er orka sú, sem flutt er með rafstraumi, oftast mæld í kílóvattstundum, skammstafað "kWh". Virkjanir breyta orku náttúrufyrirbæra í raforku, sem flutt er með dreifikerfi til notenda, sem greiða ákveðið gjald fyrir hverja kílóvattstund. Hagkvæmast er að flytja raforku yfir landi með riðstraumi, en undir sjór er jafnstraumur hagkvæmari. Norðurreið Skagfirðinga. Norðurreið Skagfirðinga var ferð sem fjölmennur hópur Skagfirðinga fór í maí 1849 að amtmannssetrinu á Möðruvöllum í Hörgárdal til að mótmæla embættisfærslu Gríms Jónssonar amtmanns og krefjast afsagnar hans. Megn óánægja ríkti á meðal bænda um störf Gríms en hann var sagður hrokafullur og skeytingarlaus gagnvart Íslendingum og hugsa fyrst og fremst um hag Dana. Norðurreið Skagfirðinga hefur verið nefnd fyrstu fjöldamótmæli á Íslandi. Aðdragandi. Töluverð ólga ríkti á Íslandi um miðja 19. öld í kjölfar byltinga í Evrópu og afnáms einveldis í Danmörku. Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum þótti konunghollur og afturhaldssamur þótt hann væri raunar frjálslyndur að ýmsu leyti, og hafði safnast upp óánægja með embættisverk hans, ekki síst í Skagafirði. Þann 22. maí 1849 safnaðist stór hópur Skagfirðinga - hátt á annað hundrað manns - saman við Vallalaug í Skagafirði, þar sem samþykkt var ályktun þar sem lýst var vanþóknun á valdstjórninni og áskorun á Grím um að segja af sér. 40-50 manna hópur reið svo norður að Möðruvöllum til að leggja fram kröfur sínar og nokkrir Eyfirðingar slógust í för á leiðinni. Hópurinn hafði viðdvöl í Öxnadal á leiðinni og kom að Möðruvöllum 23. maí. Atburðurinn. Þegar þangað kom hittu þeir þó ekki amtmann, enda var hann veikur og lá í rúminu, en þess í stað gengu Skagfirðingarnir umhverfis húsið, lásu upp samþykkt fundarins við Vallalaug, hrópuðu „"Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!"“ og festu miða með mótmælum á girðingu. Amtmaður lést örskömmu síðar og vildu sumir meina að honum hefði orðið svo mikið um heimsóknina. Nokkur eftirmál urðu af norðurreiðinni og voru flestir sem tóku þátt í henni kallaðir fyrir rétt og yfirheyrðir. Norðurreiðin var í raun fyrsta skipulagða mótstaða gegn yfirvöldum frá því um siðaskipti og er að því leyti merkilegur atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en það var þó ekki eini tilgangurinn, bændurnir voru einnig að krefjast aukins valds hreppstjóra til að leggja hömlur á frelsi fólks og eflingar vistarbandsins. Strax ári seinna gerðu nemar Lærða skólans aðsúg að rektor skólans sem kallað er Pereatið. Endurnýjanleg eldsneyti. Endurnýjanleg endsneyti eru unnin úr endurnýtanlegri orku eða unnið úr úrgangi. Dæmi um þetta eru metan, vetni og rafmagn. Andstæðan við endurnýjanlegt endsneyti er jarðefnaeldsneyti eins og bensín eða hráolía, líka er kjarnorka í þessum flokki. Kostir. Jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind og spár benda til þess að hámarks framleiðslan verði um árið 2020 og því er spáð að um miðja þessa öld eða um 2050 verði mjög gengið að olíubirgðum heimsins. OPEC samtökin segja reyndar að jarðolíumagnið endist í um 80 ár. Allt jarðefnaeldsneyti sem notað er á Íslandi er innflutt og kostar það mikinn gjaldeyri. Árið 2007 var heildar olíunotkun Íslendinga 827þúsund tonn. Með því að skipta yfir í endurnýjanleg eldsneyti sem væri hægt að framleiða hér heima myndu bæði gjaldeyrir sparast og orkulegt sjálfsstæði yrði meira. Hitnun jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa ýtir líka undir það að finna betri lausnir í eldsneytismálum. Með því að auka notkun á endurnýjanlegu eldsneyti væri hægt að minka losun gróðurhúsalofttegunda. Metan. Hreinsistöð í Álfsnesi, en þar er gasið hreinsað í svokölluðum þvegli Sorpa framleiðir metan úr hauggasi og með því að nota það sem eldsneyti minkar losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að eftir bruna losnar bara koldíoxíð og og köfnunarefnisoxíð en vatnsgufur og er metan tuttugu sinnum virkari gróðurhúsaloftegund en koldíoxíð.(n1) metan hefur verið notað sem ökutækjaeldsneyti frá árinu 2000 á Íslandi. Metanframleiðslan á Álfsnesi er sögð duga sem eldsneyti á um 2.500-3.500 fólksbíla ef fullum afköstum yrði náð árið 2012. Einnig mun áfyllingarstöðvum fjölga eftir því sem metanbílarnir verða fleiri á götum höfuðborgarsvæðisins, í dag er ein. Raforka. Rafmagn er tiltölulega ódýrt á Íslandi og mikil þróun hefur verið á síðustu árum í rafbílum. Hægt væri að keyra allan íslenska bílaflotann á rafmagni og þyrfti til þess tæplega eina Kárahnjúkavirkum eða um 400MW. Þetta gæti hugsanlega verið hagkvæmt því dreifikerfið er þegar til staðar en stærsti gallinn eru rafgeymarnir sjálfir. Vetni. Hægt er að framleiða vetni annað hvort með lífmassaniðurbroti eða með rafgreiningu vatns. Við bruna vetnis þá myndast orka og vatn sem aukaafurð. Vetni tekur mikið pláss og er erfitt að geyma vegna þess hversu lítil H2 sameindin er. Körfuknattleiksdeild Fram. Körfuknattleiksdeild Fram var íþróttadeild sem stofnuð var innan í Knattspyrnufélagsins Fram árið 1969. Hún tók í síðasta sinn þátt í Íslandsmóti árið 1987. Árið 2011 snéru Framarar aftur í körfuknattleikinn og leika nú í 2. deild. Barnungir stofnendur. Körfuknattleiksdeild Fram starfaði í tæp tuttugu ár og átti sér dramatíska sögu. Upphafið má rekja til ársins 1968, þegar ungur og ástríðufullur körfuboltaáhugamaður, Eiríkur Björgvinsson, hóf að leiðbeina hópi stráka úr Laugalækjarskóla í íþróttinni. Piltarnir, sem flestir voru tólf ára eða þaðan af yngri, tóku íþróttinni opnum örmum og ákváðu fljótlega að stofna félag, Körfuknattleiksfélagið Kát. Kátur var í alla staði formlegt félag, með stjórn, lög, fjárhag og eigin búning: hvítar buxur og hvíta skyrtu þar sem nafn félagsins var ritað með stórum, rauðum stöfum á brjóstið. Undir þessum merkjum skráðu drengirnir sig til leiks í Reykjavíkurmóti 4. flokks haustið 1969. Svo fór að Kátur sigraði alla andstæðinga sína á mótinu: Ármenninga, KR-inga og ÍR-inga. Í mótslok fengu leikmennirnir hins vegar engin verðlaun, þar sem félagið var ekki aðili að Körfuknattleikssambandinu. Ekki var mikill vilji fyrir því hjá íþróttayfirvöldum að viðurkenna strákalið og ákvað hópurinn því að fá inni hjá starfandi íþróttafélagi og varð Fram fyrir valinu. Körfudeild Fram, en svo nefndist deildin fyrstu árin, var samþykkt inn í félagið á aðalfundi vorið 1970. Að því tilefni færði hópur forráðamanna félagsins deildinni að gjöf bláa keppnisbúninga með Frammerkinu. Ákveðið var að setja aldurshámark á félagsmenn og var í fyrstu enginn tekinn inn sem fæddur var fyrir 1956 (sem síðar var breytt í 1955). Fjöldi Íslands- og Reykjavíkurmeistaratitla í yngri flokkunum unnust á þessum fyrstu árum. Eftir því sem stofnendurnir eltust fór orkan hins vegar að beinast að rekstri meistaraflokks. Síðustu yngri flokka titlarnir voru í öðrum og þriðja flokki árið 1978. Skammlíf kvennadeild (1971-1977). Eiríkur Björgvinsson, guðfaðir deildarinnar, lagði alla tíð ríka áherslu á að halda úti æfingum fyrir bæði kynin. Snemma árs 1971 var stofnuð sérstök kvennadeild innan körfuknattleiksdeildar Fram og var hún einkum skipuð stúlkum úr Laugarneshverfinu. Framarar tefldu fram meistaraflokki kvenna í fyrsta og eina sinn veturinn 1976-77. Liðið hafnaði í neðsta sæti, en var talið nokkuð efnilegt. Ævintýrið varð þó skammlíft. Engir peningar voru til að borga þjálfaralaun og æfingatímarnir sem liðinu buðust voru bæði fáir og á vondum tímum. Haustið 1977 var kvennadeildin slegin af. Sígandi lukka í karlaboltanum (1973-1981). Framarar hófu keppni í þriðju deild Íslandsmótsins haustið 1973. Andstæðingarnir í fyrstu viðureigninni voru Íþróttafélag Kópavogs og voru Framarar aðeins með sjö leikmenn á skýrslu – þá einu sem höfðu aldur til að leika með meistaraflokki. Allir deildarleikirnir unnust á þessu fyrsta keppnistímabili og árið eftir vannst sigur í annarri deild eftir úrslitaleik gegn Skallagrími. Strákaliðið sem stofnað hafði verið á grunnskólalóð fáeinum árum fyrr var komið í efstu deild. Þrjú ár í röð (1976-78) höfnuðu Framarar í sjöunda og næstsíðasta sæti í fyrstu deild. Í síðasta skiptið dugði það ekki til, þar sem ákveðið var að stofna sex liða úrvalsdeild veturinn 1978-79. Það keppnistímabil var ráðist í djarfa tilraun í íslenskum körfubolta, þegar liðum var heimilað að fá til sín erlendan leikmann. Erlendu leikmennirnir (sem flestir voru bandarískir) urðu mjög til að auka áhuga áhorfenda á körfuknattleiknum og lið sem ætluðu sér að ná árangri gátu ekki komist hjá því að fá sér útlending. Kostnaðurinn við þessa leikmenn gat á hinn bóginn reynst liðunum þungbær, auk þess sem þeir voru ærið misjafnir að gæðum. Þar talað um útlendingahappdrætti í því samhengi. Framarar voru í hópi þeirra liða í næstefstu deild 1978-79 sem tefldu fram útlendum leikmanni. Bandaríkjamaðurinn John Johnson var í senn þjálfari og atkvæðamesti leikmaður liðsins, sem vann fyrstu deildina vandræðalítið. Árið eftir féll Framliðið beint aftur niður úr úrvalsdeild, en þann vetur bar það helst til tíðinda að Johnson skoraði 71 stig í leik gegn Íþróttafélagi Stúdenta og er það met í Úrvalsdeild karla. Veturinn 1980-81 léku Framarar á ný í fyrstu deild, en sem fyrr reyndist dvölin þar stutt. Bandaríkjamaðurinn Val Bracey var fenginn til liðsins og reyndist í hópi öflugari útlendinga sem leikið hafa á Íslandi. Eini stóri titillinn (1981-1982). Val Bracey var í stóru hlutverki hjá nýliðum Framara veturinn 1981-82, sem átti eftir að reynast sá besti í sögu körfuknattleiksdeildarinnar. Í herbúðum liðsins voru fjórir leikmenn sem keppt höfðu A-landsleik fyrir Íslands hönd: Símon Ólafsson, Þorvaldur Geirsson, Guðsteinn Ingimarsson og Viðar Þorkelsson. Framarar urðu Reykjavíkurmeistarar um haustið og háðu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn við Njarðvíkinga. Silfurverðlaunin komu í hlut Safamýrarliðsins, en betur gekk í bikarkeppninni, þar sem sigur vannst á KR-ingum í úrslitaleik, 68:66. Peningabasl og dauði (1982-1987). Ekki tókst að byggja á árangri þessa góða keppnistímabils. Árið eftir höfnuðu Framarar í neðsta sæti úrvalsdeildar og 1983-84 og 1984-85 mistókst liðinu naumlega að komast aftur í hóp hinna bestu. Í þriðju tilraun gekk betur. Framarar sigruðu með fáheyrðum yfirburðum, þar sem hin liðin fimm í fyrstu deild enduðu öll með neikvætt stigahlutfall, en Fram hafði 454 stig í plús. Þessi góði árangur varð þó aðeins til að vekja falskar væntingar. Fram tapaði hverjum einasta deildarleik veturinn 1986-87. Fjárhagurinn var afar slæmur og nær vonlaust að fá nýja menn til starfa við deildina. Þegar samþykkt um vorið var að fjölga í úrvalsdeildinni, var Frömurum boðið að halda sæti sínu en það var afþakkað. Er hér var komið sögu, hafði allt yngri flokka starf deildarinnar lognast út af vegna skorts á fé, sjálfboðaliðum og aðstöðuleysis, en fjórar boltaíþróttadeildir Fram slógust um æfingatíma í íþróttahúsi Álftamýrarskóla. Körfuknattleiksdeildin hætti keppni þetta sama vor og þótt nokkrum sinnum hafi verið rætt um að endurvekja hana, hefur slíkt ekki enn komið til framkvæmda. Veturinn 2010-11 mun Fram þó senda inn lið til keppni í 2. deild karla undir merkjum almenningsíþróttadeildar. Bruno Schulz. Bruno Schulz (12. júlí 1892 – 19. nóvember 1942) var pólskur rithöfundur af gyðingaættum. Eftir hann liggja aðeins tvær bækur. Önnur þeirra er "Krókódílastrætið" ("Sklepy cynamonowe"), sem er smásagnasafn og kom út árið 1934 og í íslenskri þýðingu Hannesar Sigfússonar 1994. Hin bókin er "Heilsuhæli undir merki stundarglassins" ("Sanatorium Pod Klepsydrą") sem kom út árið 1937. Bruno Schulz var sonur smákaupmanns í bænum Drohobycz. Hann lagði stund á byggingarlist og myndlist, kenndi meðal annars myndlist í heimabæ sínum um langt skeið, auk þess sem hann myndskreytti bækur. Ritstörf stundaði hann einungis í stopulum frístundum, enda liggja ekki eftir hann nema tvær bækur. Bruno varð ekki langlífur, því þýskir nasistar skutu hann til bana á götu árið 1942. Schulz, Bruno Okkur. Okkur (úr grísku: ὠχρός, "ōkhrós", „ljós“) er náttúrulegt leirlitaduft sem inniheldur járnoxíð og er gulbrúnt á lit. Okkur er með elstu litarefnum sem mannkyn hefur notað. Til eru nokkur litaafbrigði okkurs, meðal annars rautt okkur og brúnt okkur. Gult okkur er hreint vatnsheldið járnoxíð. Rautt okkur er vatnsfirrt járnoxíð sem getur orðið til þegar gult okkur er hitað. Fjólublátt okkur hefur sömu efnasamsetningu og rautt okkur en litamunurinn stafar af ólíkri kornastærð. Brúnt okkur (goethít) er lítt vatnsheldið ryð. Hraungúll. Hraungúll er fjall (eða hóll) sem myndast við troðgos úr svo seigri líparítkviku að hún hefur hrúgast upp yfir gosopinu en breiðst ekki út. Hraungúlar eru oft innskot í eldfjöllum. Hraungúlar myndast jafnan úr súru eða hálfsúru hrauni sem er mjög tregt og rennur því ekki langt frá upptökunum, heldur hrúgast upp í kúpumyndaða hæð eða fjall. Gígur myndast því enginn, en fjallið er hæst upp af sjálfri bergkvikurásinni. Á Íslandi eru allvíða kynlega ljósir fjallhnúkar og tindar sem að öllum likindum eru þess konar myndanir. Til dæmis Baula og Kerlingarfjöll. Efni þeirra er súr storka af þeirri gerð, sem nefnist líparít. Öll eru þessi fjöll eitlhvað aflöguð af útrænum kröftum. Óskaddaður hraungúll mun varla vera til á Íslandi. Frægasta dæmið um hraungúla, sem hafa haldið vel lögun sinni, eru hnúkarnir Les Puys á hálendi Mið-Frakklands. Þeir eru bunguvaxnir með ávalan koll og brattar hlíðar, skriðurunnar aðeins allra neðst. Les Puys eru að vísu eldri en Kerlingarfjöll (frá lokum tertier-tímabilsins), en hafa búið við blíðara loftslag, aldrei verið sorfnir af jöklum og bera því ellina betur. Islensku líparitfjöllin eru aftur á móti mörg hver orðin keilulaga tindar. Stundum ber svo við, að bergkvikan storknar efst í rásinni, og storkinn hrauntappi ýtist í heilu lagi upp úr henni. Það eru kallaðir hraunstöplar. Frægasta dæmið er Mont Pelé á eynni Martinique í Vesturindíum. Árið 1902 ýttist nýstorkinn bergstöpull upp úr gíg þessa eldfjalls. Hann lyftist upp hér um bil 800 m, en varð samt aldrei hærri en rúmlega 300 m, vegna þess hve hrundi úr honum í fæðingunni, ef svo má að orði komast. Vel má vera, að sumir liparittindarnir hér á landi hafi orðið til með þessum hætti, t. d. í Kerlingarfjöllunum. Sigurbergur Elísson. Sigurbergur Elísson (7. ágúst 1899 – 2. október 1969) var bifreiðarstjóri, verkstjóri hjá Reykjavíkurborg og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Sigurbergur hóf ungur störf sem atvinnubílstjóri í Reykjavík. Hann var ráðinn sem slíkur til gatnagerðar Reykjavíkurbæjar og var þar síðar verkstjóri í rúma tvo áratugi. Árið 1929 dróst Sigurbergur inn í hinn harðvítuga heim íslenskra stjórnmálaátaka með sérkennilegum hætti. Höfðu flutningabíll Sigurbergs og embættisbifreið dómsmálaráðherrans Jónasar Jónssonar rekist saman inni við Elliðaár og komst ráðherrann ekki leiðar sinnar fyrir vörubílnum. Fluttu Morgunblaðið og Tíminn hvort um sig fregnir af málinu. Staðhæfði fyrrnefnda blaðið að ráðherrann hefði misst stjórn á skapi sínu og hótað bílstjóranum tukthúsvist, en Tíminn dró taum síns manns og kallaði sandbílstjórann Íhalds-Sigurberg sem margsinnis hefði verið sektaður af lögreglunni fyrir vöntun á góðum siðum. Íþróttamál. Sigurbergur var formaður Knattspyrnufélagsins Fram árið 1951-52 og er einn örfárra formanna í sögu félagsins sem ekki keppti í íþróttum undir merkjum þess. Hann var hins vegar alla tíð viðloðandi Fram og var til að mynda bílstjóri hins sigursæla meistaraflokksliðs á þriðja áratugnum. Árið 1945 urðu Framarar fyrsta knattspyrnuliðið í Reykjavík til að eignast eigin knattspyrnuvöll þegar ruddur var malarvöllur á nýju félagssvæði Fram fyrir neðan Stýrimannaskólann. (KR og Valur eignuðust bæði félagssvæði á undan Frömurum, en voru ekki búin að koma upp völlum.) Vegna reynslu sinnar af jarðvegsframkvæmdum var Sigurbergi falið að ryðja félagssvæðið og stýra vallargerðinni. Hann átti sömuleiðis stærstan þátt í byggingu félagsheimils Fram í Skipholtinu árið eftir. Sigurbergur var gerður að heiðursfélaga í Fram á sextíu ára afmæli félagsins árið 1968. Útrýmingarefnishyggja. Útrýmingarefnishyggja er efnishyggjukenning í hugspeki sem heldur því fram að ýmsar eða flestar almennar hugmyndir fólks um eðli hugans (eða hugtök alþýðusálfræðinnar) séu rangar og að ýmis hugarferli sem flestir trúa á séu í raun ekki til. Sumir útrýmingarefnishyggjumenn halda því fram að engin samsvörun verði nokkurn tíman fundin milli virkni heilans og taugakerfisins annars vegar og hins vegar ýmissa hugtaka eins og skoðunar eða löngunar enda séu hugtökin óskýr og illa skilgreind. Aðrar útgáfur útrýmingarefnishyggjunnar neita tilvist sársauka, ánægju og sjónrænnar upplifunar. Útrýmingarefnishyggja er frábrugðin smættarefnishyggju að því leyti að smættarefnishyggjan gengur út á að smætta viðfangið í eitthvað annað og einfaldara en útrýmingarefnishyggja afneitar tilvist þess. Til dæmis myndi smættarefnishyggja um langanir halda því fram að langanir séu ekkert nema taugaboð í heilanum en útrýmingarefnishyggja um langanir heldur því fram að það sé ekkert hugarferli sem hugtakið „löngun“ samsvarar. Aðferð útrýmingarefnishyggjunnar er þekkt úr sögu vísindanna. Til dæmis hafa vísindin ekki reynt að smætta ljósvakann í eitthvað annað og einfaldara efni þannig að ljósvakinn „sé í raun ekkert nema“ eitthvað annað, heldur var hugtakinu „útrýmt“ þegar ljóst var að það var ekki lengur gagnlegt. En útrýmingarefnishyggja um hugann er tiltölulega nýleg kenning sem kom fram á 7. áratug 20. aldar og heldur því fram að ýmis hugarferli og hugtök alþýðusálfræðinnar séu ekki til. Þekktasta útgáfa útrýmingarefnishyggjunnar er kenning hjónanna Pauls og Patriciu Churchland um að íbyggin viðhorf séu ekki til og kenning Daniels Dennett og Georges Rey og annarra um að finningar séu ekki til. Gaddur. Gaddur er búfjársjúkdómur, sem orsakast af eitrun vegna flúors í eldgosaösku. Hann lýsir sér sem misslit á jöxlum. Slitfletir verða ójafnir sem gerir jórturdýrum erfitt að bíta, tyggja og jórtra. Flúor hefur mismunandi áhrif á tennurnar. Mýkir sumar meðan aðrar haldast harðar, þær mjúku slitna því hraðar og misvægi verður á jaxlaröðinni þar sem mjúku tennurnar verða fljótlega lítið annað en litlir tindar eða gaddar, en af því dregur sjúkdómurinn nafn sitt. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2011. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2011 eða HM 2011 var haldið í Svíþjóð dagana 13. – 30. janúar í Gautaborg, Jönköping, Kristianstad, Linköping, Lundi, Malmö, Norrköping og Skövde. Frakkland fór með sigur af hólmi á mótinu á meðan Danmörk lenti í öðru sæti og Spánn hafnaði í því þriðja. Dómgæsla. Dómarapör frá átján löndum sjá um dómgæslu leikjanna. Tilkynnt var um dómara keppninnar þann 25. október 2010. Röðun í riðla. Dregið var í riðla þann 9. júlí 2010 í Scandinavium leikvanginum í Gautaborg. A-riðill (Kristianstad og Lundur). L = Leikir. U = Unnir leikir. J = Jafntefli. T = Tapleikir. MS = Mörk skoruð. MA = Mörk andstæðinga. MM = Markamismunur. Allar tímasetningar eru að staðartíma (UTC+1) B-riðill (Linköping og Norrköping). L = Leikir. U = Unnir leikir. J = Jafntefli. T = Tapleikir. MS = Mörk skoruð. MA = Mörk andstæðinga. MM = Markamismunur. Allar tímasetningar eru að staðartíma (UTC+1) C-riðill (Malmö og Lundur). L = Leikir. U = Unnir leikir. J = Jafntefli. T = Tapleikir. MS = Mörk skoruð. MA = Mörk andstæðinga. MM = Markamismunur. Allar tímasetningar eru að staðartíma (UTC+1) D-riðill (Gautaborg). L = Leikir. U = Unnir leikir. J = Jafntefli. T = Tapleikir. MS = Mörk skoruð. MA = Mörk andstæðinga. MM = Markamismunur. Allar tímasetningar eru að staðartíma (UTC+1) Milliriðlar. Efstu þrjú liðin í hverjum riðli komust í milliriðil. Milliriðlarnir voru tveir. Hvert lið hélt stigum sínum úr riðlakeppninni gegn liðum sem einnig komust áfram. Í milliriðlunum leikur hvert lið þrjá leiki gegn andstæðingum sem það mætti ekki í riðlakeppninni. Efstu tvö liðin í hvorum milliriðli komust í undanúrslitin en önnur lið kepptu um sæti fyrir neðan fjórða sætið. Milliriðill I (Jönköping). L = Leikir. U = Unnir leikir. J = Jafntefli. T = Tapleikir. MS = Mörk skoruð. MA = Mörk andstæðinga. MM = Markamismunur. Allar tímasetningar eru að staðartíma (UTC+1) Milliriðill II (Malmö/Lundur). L = Leikir. U = Unnir leikir. J = Jafntefli. T = Tapleikir. MS = Mörk skoruð. MA = Mörk andstæðinga. MM = Markamismunur. Allar tímasetningar eru að staðartíma (UTC+1) Flateyjarbók. Flateyjarbók ("GKS 1005") er stórt og mikið íslenskt handrit með fjölda konungasagna, Íslendingasagna og fornaldarsagna á 225 vel skrifuðum síðum með skreyttum upphafsstöfum. Handritið var að stærstum hluta skrifað á árunum 1387 til 1394. Bókin dregur nafn sitt af Flatey á Breiðafirði, en þaðan fékk Brynjólfur Sveinsson biskup hana frá Jóni Finnssyni árið 1647. Biskupinn sendi Friðriki 3. Danakonungi bókina að gjöf 1656 og var hún síðan einn helsti kjörgripur Konungsbókhlöðunnar til 1971, þegar Íslendingar fengu hana afhenta við lok handritamálsins. Flateyjarbók er varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar og hefur safnmarkið GKS 1005. Handrit.is. Handrit.is er samskrá og rafrænt gagnasafn íslenskra handrita sem varðveitt eru á handritadeild Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar og Árnasafni í Kaupmannahöfn. Vefurinn var formlega opnaður af Katrínu Júlíusdóttur 21. apríl 2010. Þá voru þar skráð yfir 4000 handrit, þar af 851 mynduð. Münster. Münster er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalía og er tæp 280 þúsund íbúa. Münster var vettvangur friðarsamninganna í Vestfalíu (ásamt Osnabrück), en þeir mörkuðu endalok 30 ára stríðsins. Lega. Münster liggur norðvestarlega í Þýskalandi, nokkuð fyrir norðaustan Ruhr-héraðið og um 40 km fyrir austan hollensku landamærin. Næstu stærri borgir eru Dortmund til suðurs (40 km), Bielefeld til austurs (40 km), Osnabrück til norðvesturs (40 km) og Enschede í Hollandi til norðvesturs (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Münster samanstendur af þremur láréttum röndum, gulri, rauðri og hvítri. Litirnir eru upprunnir frá fyrri öldum, allt frá 14. eða 13. öld. Orðsifjar. Borgin Münster er nefnd eftir klaustrinu á staðnum, en það hét Monasterium á latínu. Þannig hét bærinn fyrst 1068 en breyttist svo í Monestere, Munstre og loks Münster. Upphaf. 793 stofnaði Liudger frá Fríslandi klaustur á þessum stað eftir áeggjan Karlamagnúsar. Þetta ár er opinbert stofnár borgarinnar Münster. 805 er Liudger gerður að biskupi í bænum og Münster gerð að opinberri borg ("civitas"), þó án raunverulegra borgarréttinda. Liudger varð síðar dýrlingur. Ósætti varð milli keisara og páfa í staðarmálum á 12. öld. Keisarinn var Lóþar III á þeim tíma og réðist hann á litlu borgina Münster 1121 og brenndi hana til kaldra kola. Borgin var byggð upp aftur og hlaut loks almenn borgarréttindi 1170. Árið 1197 brann borgin aftur niður í stórbruna. Um miðja 13. öld gekk Münster í borgabandalag á svæðinu ásamt borgum eins og Dortmund, Minden, Osnabrück og Soest. Bandalag þetta átti að gæta hagsmuna þessara borga á tímabili þegar keisarinn var víðs fjarri eða vanmegna. Sömu borgir gengu seinna í Hansasambandið. Í Münster eru enn til steinar í miðborginni, innan í látúnshringjum, frá öllum þýskum Hansaborgum. Kirkjustríðið í Münster. 1450 lést biskupinn í Münster, Hinrik II. Komu þá fram tveir kandídatar sem óskuðu eftir því við erkibiskupinn í Köln, sem einnig var kjörfursti, að verða vígðir biskup. Erkibiskup valdi bróður sinn, Walram frá Moers. Hinn kandídatinn, Eiríkur frá Hoya, var ósáttur við þessa frændsemi og gerði uppreisn gegn nýja biskupinum. Þessi órói var svo mikill í borginni að farið var með málið til páfa, sem þá var Nikulás V. Hann staðfesti val Walrams. Nú safnaði Eiríkur liði og sagði nýja biskupinum stríð á hendur. Það kom til bardaga og náði Eiríkur að taka borgina Münster. Páfi bannfærði því alla borgina og stóð bannið í nokkur ár, allt þar til Walram lést 1456. Stigu þá enn fram tveir kandídatar sem tilvonandi biskup í Münster. Annar þeirra var Eiríkur. En nú valdi erkibiskupinn í Köln hvorugan, heldur þriðja aðilann. Um þetta náðist sátt og komst þá aftur friður í Münster. Siðaskipti. Búrin utan á Lambertikirkjunni hanga þar enn til sýnis 1529 hóf predikarinn Bernd Rothmann að kenna lúterstrú í borginni. Þrátt fyrir bann hélt hann áfram og ákvað borgarráðið að leyfa honum að predika áfram. Biskupinn lést stuttu síðar og nýi biskupinn var talsvert opnari fyrir nýja siðnum. 1533 lýsti hann yfir trúfrelsi í borginni en þá hafði Rothmann snúið sér til endurskírendakirkjunnar, sem var öllu strangari en lúterstrú. Í janúar fluttu mýmargir meðlimir þessarar kirkju frá Hollandi til Münster og með aðstoð Rothmanns var öll borgin í þeirra höndum. Biskupinn var hrakinn burt. Hann safnaði hins vegar liði og reyndi að setjast um borgina til að þvinga borgarráðið til að framselja yfirmenn endurskírenda. En í kosningum í febrúar 1534 sigruðu endurskírendur og tóku nú öll völd í borginni. Þeir sem ekki tilheyrðu þessari kirkju voru nú þvingaðir til skírnar. Auk þess gengu endurskírendur í allar kaþólskar kirkjur og eyðilögðu listaverk, ölturu og annað. Einnig stóðu þeir fyrir bókabrennu. Leiðtogi þeirra, Hollendingurinn Jan van Leyden, lét krýna sig til konungs og kallaði borgina Münster hina nýju Jerúsalem. Hins vegar hófst hungursneyð, þar sem biskupinn sat enn um borgina og skar á alla matvælaflutninga. Þann 24. júní 1535 féll borgin með svikráðum, er einn borgarbúa opnaði eitt borgarhliðið og hersveitir biskupsins ruddust inn. Þeir eirðu engum en frömdu þar fjöldamorð á endurskírendum. Leiðtogar þeirra voru handteknir og settir í dýflissu. Í janúar á næsta ári voru þeir pyntaðir á aðaltorgi borgarinnar og drepnir. Lík þeirra voru sett í járnbúr og hengd til sýnis á Lambertikirkjuna. Búrin hanga enn á kirkjunni í dag. Biskupinn tók úr gildi öll réttindi sem borgin hafði áunnið sér í gegnum aldirnar og var nú sjálfur einráður þar. Það tók hálfa öld að fylla í skörð þeirra sem létust í trúaróróanum en meðan þeir stóðu yfir fækkaði íbúum úr tólf þúsund niður í fjögur þúsund. Þeir voru flestir lúterstrúar. Münster 1570. Mynd eftir Hermann tom Ring. Friðarsamningarnir í Vestfalíu. Fulltrúar Spánverja og Hollendinga í friðarsamningunum í Münster Tvisvar í 30 ára stríðinu var setið um Münster, 1633 og 1634. Í bæði skiptin var hér um her frá Hessen að ræða, þrátt fyrir að Münster hafði lýst yfir hlutleysi í stríðinu. En sökum þess hve varnarvirkin voru góð, stóðst hún öll áhlaup. Borgin kom ekki meira við sögu í stríðinu sjálfu. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að borgin var valin sem vettvangur fyrir friðarsamningana til að binda enda á stríðið. Það voru Svíar sem stungu upp á Münster og samþykkti keisarinn það. Samningarnir fóru einnig fram í borginni Osnabrück, en þar sátu lúterstrúarmenn, enda var borgin á áhrifasvæði Svía. Eftir að borgarráð og borgarbúar voru spurðir um málið, var einróma samþykkt að opna borgarhliðin og hleypa fulltrúum stríðandi fylkinga inn. Samningarnir hófust 1643 og stóðu með hléum í fimm ár. Í Münster hittust meðal annars fulltrúar Spánar og Hollands. Með samkomulagi þeirra var endir bundinn á tilkalli Spánverja á Niðurlönd og voru Niðurlönd þar formlega viðurkennd sem sjálfstætt ríki (þau klofnuðu ekki í Holland og Belgíu fyrr en á 19. öld). Aðrir friðarsamningar voru undirritaðir í Münster með aðilum þýska ríkisins, Svíum og Frökkum. Samningarnir fóru fram í ráðhúsinu og kallast salurinn Friðarsalur eftir þann tíma. Fleiri stríð. Fyrir það að vera vettvangur friðarsamningana í 30 ára stríðinu fékk Münster fjölda réttinda og fríðinda. Hún varð því að nokkurs konar fríborg í ríkinu, biskupinum til mikils ama, sem sjálfur áskildi sér rétt til að stjórna borginni. 1657 gerði biskupinn von Galen umsátur um Münster til að þvinga hana til hlýðni. Borgin stóðst hins vegar áhlaup hans en skemmdir urðu miklar af völdum fallbyssuskothríðar. Van Galen fékk við það uppnefnið fallbyssubiskupinn. 1660 gerði van Galen annað umsátur um Münster og tókst að þessu sinni að vinna borgina, eftir að hann lét stífla farveg árinnar Aa, sem við það myndaði flóð inni í borginni. Í 7 ára stríðinu stóð borgin með Maríu Teresu frá Austurríki. Fyrir vikið var ráðist á borgina 1759 og féll hún eftir mikla fallbyssuskothríð. Þá voru allir borgarmúrar rifnir. Prússar. 1802 eignuðust prússar borgina Münster. Þann 3. ágúst hertók Blücher herforingi borgina og lagði biskupsdæmið niður. En prússar lentu upp á kant við Napoleon. 1806 hröktu Frakkar prússa burt og hertóku Münster. Hún var innlimuð Frakklandi 1811. Eftir ósigur Napoleons í Rússlandi hurfu Frakkar úr héraðinu og prússar náðu borginni aftur á sitt vald. Vínarfundurinn staðfesti 1815 að borgin yrði prússnesk áfram. Þegar borgin fékk járnbrautartengingu 1848 hófst iðnbyltingin. 1899 var höfnin tekin í notkun í skipaskurðinum Dortmund-Ems-Kanal. Íbúafjöldinn jókst til muna og fór yfir 100 þús 1915. Árið 1902 var háskólinn í borginni stofnaður. Borgin kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri en í lok hennar var Prússland lagt niður. 20. öldin. Miðborg Münster var í rúst við lok heimstyrjaldarinnar síðari Íbúar Münster tóku nasismanum seint og illa. Flokkurinn átti ekki upp á pallborðið hjá almenningi. 1932 var nær öll forusta þjóðarflokks Hitlers stödd í Münster, þar á meðal Hitler sjálfur. Hann hélt ræðu fyrir framan tíu þúsund manns í samkomusal en fyrir ári hafði borgarráð bannað nasistum aðgang að þessum sama sal. Heimsókn þessi gjörbreytti myndinni og voru nasistar með öll yfirráð í borginni stuttu síðar. Borgin varð að nokkurs konar lögregluríki. Lögreglufylki voru notuð til að senda gyðinga burt og einnig voru fylkin send til Austur-Evrópu þar sem nasistar höfðu áhrif. Biskupinn í borginni, Clemens August greifi af Galen predikaði gegn nasismanum. Vegna vasklegrar baráttu hans gegn nasismanum fékk hann viðurnefnið Ljónið frá Münster. Eftir stríð var hann gerður að kardinála. Árið 2005 var hann lýstur helgur. Münster varð fyrir töluverðum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Um 91% miðborgarinnar eyðilagðist. Þann 2. apríl 1945 hertóku bandarískar og breskar herdeildir borgina bardagalaust. Münster var á hernámssvæði Breta en var sett í nýstofnað sambandsland Norðurrín-Vestfalíu 1946. Við endurreisn borgarinnar óskuðu borgarbúar eftir því að byggja miðborgina upp eins hún var áður, án nýtískulegra byggina, og var það gert. 1972 fór í borginni fram fyrsta ganga samkynhneigðra í Þýskalandi. Síðan þá hefur Münster verið mikilvægasti vettvangur samkynhneigðra í Þýskalandi, á eftir Berlín. 1987 sótti Jóhannes Páll II páfi borgina heim, en hann er fyrsti og eini páfinn sem sótt hefur borgina heim. 2002 fór fram fjölmennasti atburður borgarinnar er Münster var áfangastaður í hjólreiðakeppninni Giro d'Italia. 200 þúsund manns sóttu þann atburð. Íþróttir. Kvennaliðið USC Münster í blaki er margfaldur þýskur meistari og er þekkt lið í Evrópu. Í Münster fer fram eitt af stóru maraþonhlaupum Þýskalands með um 3000 þátttakendum. Hlaupið fer fram aðra helgi í september. Síðan 1981 hefur HM í hlaupabrettum farið fram árlega í Münster, en keppnin er kölluð Münster Monster Mastership. Árlega fer fram hestamótið Turnier der Sieger, en það er skipulagt af elsta hestaíþróttafélagi Þýskalands. Í borginni fer gjarnan fram þýska bikarkeppnin í hestaíþróttum, síðast 2010. Viðburðir. Eurocityfest er heiti á útitónleika sem fram fara á nokkrum sviðum í miðborginni. Þar troða tugir hljómsveita upp. Samfara því fara fram Vainstream Rockfest tónleikar, þar sem boðið er upp á metal, pönk og hardcore-pönk. Fróði Baggi. Fróði Baggi er persóna í bók J.R.R. Tolkien Hringadrottinssögu. Hann gegnir hlutverki hringbera sem hefur það í för með sér að gæta hringsins eina, sjálfs máttabaugarins en honum er ætlað að kasta hringinum í dómsdyngju í Mordor. Ráðhúsið í Münster. Ráðhúsið í Münster í Þýskalandi er eitt fegursta hús þeirrar borgar. Húsið varð víðfrægt fyrir friðarsamninga 30 ára stríðsins 1645-48 en skipst var á undirrituðum plöggum í friðarsalnum í kjallara hússins, þar sem einnig fór fram hátíð af því tilefni. Upphaf. Þegar endurskírendur brutust inn í ráðhúsið 1534 meðan siðaskiptin voru í gangi, brutu þeir ýmis listaverk og eyðilögðu alla skjalageymsluna. Þar af leiðandi er ekki nákvæmlega vitað hvenær ráðhúsið var reist. En eftir öðrum leiðum er ljóst að fyrirrennari stóð á reitnum um 1170. Núverandi bygging mun hafa verið reist skömmu eftir aldamótin 1200 og mun hafa verið í notkun á árinu 1250. Um 1395 var súlnagöngum bætt við á framhliðinni og snýr hún að aðalmarkaðstorgi borgarinnar. Samtímis fékk ráðhúsið hina fögru skreytingu þar yfir, á framhliðinni, sem minnir mjög á Hansahús í norðurþýskum borgum. Siðaskiptin. Ráðhúsið var þyrnir í augum biskupsins, sem sjálfur taldi sig eiga að stjórna borginni. Með tilkomu ráðhússins var tekist á um ýmis stjórnunaratriði í gegnum aldirnar. Þegar siðaskiptin hófust kom þriðja aflið til sögunnar, endurskírendur frá Hollandi. Sú grein kristninnar var afar ströng. Til að byrja með var biskupinn hrakinn úr borginni. Í kosningum 1534 voru endurskírendur allsráðir í borgarráðinu. Þeir brutust ekki aðeins inn í kaþólskar kirkjur til að eyðileggja listaverk, heldur gerðu þeir hið sama í ráðhúsinu. Allt sem þeim ekki líkaði ekki við var eyðilagt, þar á meðal gjörvalla skjalageymsluna. Allar upplýsingar um borgina Münster týndist því og er saga borgarinnar fyrir þann tíma byggð á öðrum heimildum. Vera endurskírenda í Münster var stutt. Strax á næsta ári gerði biskup áhlaup á borgina og voru endurskírendur umvörpum drepnir. Borgarráð var aftur skipað almennum borgurum og friður komst á í ráðhúsinu. Friðarsamningar í Vestfalíu. Spánverjar og Hollendingar semja frið í Friðarsalnum Þekktasti atburður í ráðhúsinu voru friðarsamningarnir sem bundu enda á 30 ára stríðið. Samningarnir hófust 1643 og stóðu í fimm ár, með hléum. Einnig var samið í ráðhúsinu í Osnabrück í Neðra-Saxlandi. Fyrsti samningafundurinn í ráðhúsinu hófst á því að fulltrúi keisara lýsti því yfir að borgin sé hlutlaus í stríðinu (sem enn stóð yfir) og fulltrúi biskups gerði slíkt hið sama. Þetta þýddi að borgin væri laus allra mála í stríðinu og væri hvorki með skyldur gagnvart keisara né biskupi. Næstu árin sátu fulltrúar stríðandi fylkinga í aðalsal ráðhússins, mest voru þar 150 manns. 1648 var samningunum lokið. 15. maí undirrituðu fulltrúar Spánar og Niðurlanda friðarsamning, en í honum afsöluðu Spánverjar öllu tilkalli til Niðurlanda. Þetta var jafnframt opinber viðurkenning á sjálfstæði Niðurlanda. Aðrir samningar voru undirritaðir í Osnabrück. Samningar þessir bundu enda á 30 ára stríðið. Eftir þetta var salurinn í ráðhúsinu kallaður Friðarsalur ("Friedenssaal"). Eyðilegging og endurreisn. Þegar loftárásir hófust á þýskar borgir í heimstyrjöldinni síðari, var tekið til við að fjarlægja listmuni og innréttingar úr ráðhúsinu, til að varðveita það annars staðar. 28. október 1944 varð ráðhúsið fyrir sprengjum er bandamenn gerðu loftárás á borgina. Húsið brann út og stóðu útveggir eftir uppi. Þegar hin fagra framhlið hlaut ekki lengur stuðning af þakinu, féll það í heilu lagi fram á markaðstorgið. Á næstu árum var brakið fjarlægt og tapaðist því mikið af upprunalegu byggingarefninu. Það var ekki fyrr en 1948 að ákveðið var að endurreisa Friðarsalinn og hluta hússins, 300 árum eftir að friðarsamningarnir höfðu farið fram þar. En fjármunir voru ekki til. Því var biðlað til borgaranna og hófst söfnun fyrir ráðhúsinu. Árangurinn fór langt fram úr björtustu vonum. Borgarar lögðu til fjármuni, efni og vinnu. Einng streymdu fjármunir frá nærsveitum. 9. júlí 1950 var hafist handa við framkvæmdir og voru um 30 þúsund manns viðstaddir þann atburð, þar á meðal Heinrich Brüning, fyrrverandi ríkiskanslari og frægasta barn borgarinnar, sem hafði yfirumsjón með verkinu. Útveggir voru gerðir úr steypu og þaktir þunnum sandsteinsplötum. Aðeins hin fagra framhlið er gerð úr sandsteini, eins og í upphafi. Verkinu lauk 1958, á 310. ári friðarsamninganna. Í dag er ráðhúsið mestsótta bygging hjá ferðamönnum í borginni. Það er ekki notað lengur sem ráðhús, heldur fyrir sérstaka viðburði og athafnir. Friðarsalurinn. Friðarsalurinn var nefndur svo eftir að friðarsamningarnir í Vestfalíu fóru að hluta fram í honum. Hann er 10m x 15m að stærð og er skreyttur á allar hliðar. Nær allt skrautið, sem er upprunnið á 16. öld, var tekið niður í heimstyrjöldinni síðari og varðveitt annars staðar. Því slapp það við skemmdir stríðsins. Það var sett í á ný við endurreisn hússins. Langhliðin veggjamegin (vesturhliðin) er skreytt viðarþiljum en fyrir ofan þær eru myndir af borgarstjórum fyrri tíma. Þar er einnig hurðin. Hún er skreytt með mynd af Jesú og postulunum. Langhliðin gluggamegin (austurhliðin) er með fjóra stóra glugga. Milli þeirra eru burðarsúlur, skreyttar með viðarþiljum með myndum af Móse og hinum sjö listagyðjum. Á norðurhliðinni er gríðarmikill viðarskápur með 22 skúffum, sem alskreyttur er með myndum og fígúrum. Fyrir miðju er Jesús á krossi. Þar fyrir framan er borgarstjórabekkurinn. Á suðurhliðinni er stór arinn. Upphaflegi arininn var smíðaður 1577 en hann var ekki fjarlægður úr húsinu í heimstyrjöldinni síðari og eyðilagðist því. Núverandi arinn kemur úr nálægu húsi en er svipaður að aldri og stærð. Arininn er í tveimur hlutum en báðir hlutarnir eru margskreyttir. Salur þessi var ekki bara notaður fyrir borgarráðsfundi, heldur einnig sem dómssalur. Á árunum 1643-48 var salurinn notaður í friðarsamningunum í Vestfalen. Auk þess var salurinn notaður sem þingstaður fyrir Vestfalíudeild prússneska þingsins 1826-1862. Safn. Steinn úr Frúarkirkjunni í Dresden Ráðhúsið er nokkurs konar safn í tengslum við sögu hússins og borgarinnar. Strax eftir að leiðtogar endurskírenda voru pyntaðir 1536 og drepnir á torginu fyrir framan ráðhúsið, voru pyntingartólin fest til sýnis á súlurnar í súlnagöngunum. 1848 voru þau sett inn í húsið sjálft en voru 1921 sett á almenningssafn. En í húsinu eru enn nokkur böðulssverð til sýnis, það elsta frá 1550. Stærsta vopn hússins er 2 ½ m langt sverð frá upphafi 17. aldar. Tilgangur sverðsins er óljós í dag. Nokkrir gamlir fánar eru í húsinu. Þar á meðal friðarfáninn frá 1648 sem blakti í friðarsamningum 30 ára stríðsins. Af öðrum hlutum má nefna myntbikarinn frá 17. öld, sem er drykkjarbikar alsettur myntum. Gullni haninn frá 1600 er holur að innan og var fylltur með víni. Hann er enn notaður í dag í opinberum móttökum. Í húsinu er einnig steinn úr upprunalegu Frúarkirkjunni í Dresden. Stúlka (ljóðabók). Stúlka er fyrsta ljóðabók sem út kom eftir íslenska konu og var það árið 1876. Höfundurinn var Júlíana Jónsdóttir (1838-1918). Hans Vöggur. Hans Vöggur er smásaga eftir rithöfundinn Gest Pálsson. Sagan er um vatnskarl, sem er starfsheiti manns sem stundar vatnsburð, og er líklega að einhverju leyti byggð á persónu og ævi Halldórs Absalons (sem hét réttu nafni "Halldór Narfason") en hann var vatnskarl í Reykjavík um miðbik 19. aldar. Sagan er skrifuð í anda raunsæisstefnunnar. Gunnar Hvammdal Sigurðsson veðurfræðingur. Gunnar Hvammdal Sigurðsson veðurfræðingur var fæddur á Hverfisgötu í Reykjavík, 12.febrúar, 1926. Foreldrar hans voru Ingibjörg Guðmundsdóttir f.21.október,1895,og Sigurður Skúlason f. 27.desember,1893. Bróðir samfeðra, Agnar Sigurðsson flugumferðastjóri, f.1920, d. 1993. Gunnar dvaldi meira og minna hjá fósturforeldrum sínum, Finnboga Benónýssyni bónda f. 26.ágúst,1861, og Ástríði Júlíönu Einarsdóttur f. 17.júlí,1860, húsfreyju, (móðursystur Ingibjargar Guðmundsdóttur,og fóstru hennar), að Efsta-Hvammi Dýrafirði. Föðurforeldrar, Skúli Jónsson bóndi á Ytra-Vatni í Efribyggð í Lýtingsstaðahreppi og Hólmfríður Guðrún Benediktsdóttir, Reykjavík. Móðurforeldrar, Guðmundur Hjaltason bakari á Ísafirði, seinna USA. og Þorvaldína Rósa Einarsdóttir. Nám við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði 1941-1943. Undirbúningsnám fyrir menntaskóla hjá séra Eiríki J. Eiríkssyni á Núpi í Dýrafirði 1943-1944. Gagnfræðapróf frá M.A. vorið 1944. Nám við M.R., starðfræðideild 1944-1948, stúdent 1948. Cand.phil. frá Háskóla Íslands 1949. Nám við veðurfræðideild Kaliforníu Háskóla 1949-1953, B.A. próf 1953. Starfaði í vöruafgreiðslu Skipaútgerðar ríkisins í öllum frítímum frá 1941-1948. Starfaði á Veðurstofu Íslands 1948 til hausts 1949. Hóf störf sem veðurfræðingur á Flugveðurstofu Ísalnds, Keflavíkurflugvelli, frá 1. ágúst,1953 til 1.júlí, 1979. Hóf þá störf á spádeild Veðurstofunnar í Reykjavík. Tók þátt í námskeiði á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli 1954, í hálofta athugunum. Í stjórn Dýrfirðingafélagsins um tveggja ára skeið. Maki Ástríður Magnúsdóttir, f. 6. júní,1931. Gift 11. febrúar,1956. For. Magnús Elías Ásmundsson, fisksali Reykjavík, og Þóra Sigurbjörg Þórðardóttir húsmóðir Reykjavík. Slitu samvistir. Dætur: Guðrún Ingibjörg f. 1. september,1955, í Reykjavík, nú búsett í Orlando Florida, USA. Helga f. 5. júní, 1957, í Reykjavík, stúdent MR. 1978. Ásta Kristín f. 17. júlí,1961 í Reykjavík. Verslunarskólapróf 1979, Hjúkrunarfræðingur 1982. Drangaskörð. Drangaskörð eru sjö misháir jarðlagastaflar yst á fjallskaga í Árneshreppi á Ströndum. Drangaskörð ganga fram úr svonefndu Skarðafjalli milli Dranga og Drangavíkur og eru af sumum talin ein sérstæðasta og hrikalegasta náttúrusmíð á Íslandi. Roföflin hafa sorfið bergið þannig að minnir á strýtur. Af bæjarnöfnunum beggja vegna er ljóst að upphaflega hafa Drangaskörð heitið "Drangar" en það nafn er aldrei notað nú. Jón Böðvarsson. Jón Böðvarsson (2. maí 1930 — 4. apríl 2010) var íslenskufræðingur, kennari, skólameistari og ritstjóri. Foreldrar hans voru Ragnhildur Dagbjört Jónsdóttir og Böðvar Stephensen Bjarnason. Jón var giftur Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur. Jón stundaði kennslu við ýmsa skóla og var jafnframt virkur í stjórnmálahreyfingum. Hann var starfsmaður Æskulýðsfylkingarinnar og Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins. Hann var deildarstjóri í íslensku við Menntaskólann við Hamrahlíð frá 1966 til 1976, þegar hann varð fyrsti skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja og gegndi þeirri stöðu til 1984. Hann var heiðursfélagi Skólameistarafélags Íslands. Jón var þekktur fyrir námskeið sín um fornsögurnar, aðallega Njálu, og voru þau mjög fjölsótt í áraraðir. Hann var einnig þekktur sem fararstjóri á Njáluslóðir og víða um land. Marskálkur. Marskálkur er hertitill og er oftst hafður um hershöfðingja af hæstu gráðu, með öðrum orðum yfirhershöfðingja. Orðið er komið úr gamalli háþýsku: "marah" „hestur“ og "schalh" „þjónn“, en skálkur þýðir einmitt þjónn í gamalli íslensku. Marskálkur þýddi sem sagt upphaflega stallhaldari, þ.e. umsjónamaður hesthúsa og var undirmaður stallmeistarans. Jónmundur Guðmarsson. Jónmundur Guðmarsson (f. 8. mars 1968) er framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Jónmundur tók við af Grétu Ingþórsdóttur í júní árið 2009 en Gréta hafði tekið tímabundið við starfinu skömmu fyrir kosningarnar sama ár eftir að Andri Óttarsson lét af störfum. Karlsverðlaunin. Bill Clinton tekur við Karlsverðlaununum árið 2000 Karlsverðlaunin (þýska: "Der Karlspreis") er friðarverðlaun sem veitt eru árlega í þýsku borginni Aachen. Karlsverðlaunin eru friðarverðlaun sem veitt eru fólki sem skarað hefur framúr í þágu friðar í Evrópu. Stofnað var til verðlaunanna í keisaraborginni Aachen í Þýskalandi 1950 og heita þau eftir Karlamagnúsi, en Aachen var keisarasetur hans. Veiting verðlaunanna. Verðlaunin eru veitt á uppstigningardegi ár hvert og er ekki endilega tengd einum einstaklingi, heldur getur hópur manna eða jafnvel dauðir hlutir hlotið verðlaunin. Verðlaunaafhendingin fer fram í krýningarsal ráðhússins og er það borgarstjórinn í Aachen sem þau veitir. Verðlaunin hafa ekki verið veitt hvert ár. Þannig voru þau ekki veitt 1956, 1962, 1965, 1968, 1971, 1974, 1975, 1980, 1983 og 1985. Árin 1988 og 2004 hlutu tveir aðilar verðlaunin. Bermuda (hljómsveit). Bermuda er íslensk hljómsveit, stofnuð 2004. Upprunalegir meðlimir hljómsveitarinnar eru Gunnar Reynir Þorsteinsson trommuleikari og Ingvar Alfreðsson hljómborðsleikari. Upphaf. Hljómsveitin varð til á Menningarnótt, á árinu 2004, þegar að Ernu Hrönn Ólafsdóttur var boðið með í að stofna hljómsveit. „Og þannig varð Bermúda til. Við byrjuðum að spila saman í ágúst 2004". Meðlimir þá voru Erna Hrönn Ólafsdóttir (söngur), Gunnar Reynir Þorsteinsson (trommur), Ingvar Alfreðsson (hljómborð), Kristinn J. Gallagher (bassi) og Ómar Örn Arnarson (gítar). Sumarið 2005 gaf hljómsveitin út sitt fyrsta lag „Sætari en ég“. Síðla árs 2005 yfirgaf Kristinn Gallagher bandið og inn kom Ólafur Kristjánsson bassaleikari tímabundið. Hljómsveitin gaf út tvö lög til viðbótar þetta árið, jólalagið „Lag frá mér til þín“ og „Fegurðargenið er fundið“. Snemma næsta árs, 2006 gekk Pétur Kolbeinsson bassaleikari til liðs við bandið. Árið 2007 gaf hljómsveitin út sína fyrstu breiðskífu "Nýr dagur" á henni voru 11 lög ýmist eftir hljómsveitarmeðlimi eða aðra tónlistarmenn, þó allt ný íslensk lög. Haustið 2008 segir Erna Hrönn skilið við bandið, vegna tímaskorts. Erna hefur starfað sem bakraddarsöngkona utan Bermúda síðan. Meðal annars tók Erna að sér bakraddarhlutverk fyrir Ísland í Eurovision 2009. Í stað Ernu kom Íris Hólm Jónsdóttir söngkona. Ári seinna yfirgefur Ómar Örn hljómsveitina og Steinþór Guðjónsson tekur við gítarleiknum. Hljómsveitin er með twitter síðu, og seint í desember, á árinu 2009 voru fylgjendur á þeirri síðu yfir 2.000. Fight Club. "Fight Club" er skáldsaga eftir Chuck Palahniuk skrifuð og útgefin 1996. Bókin var gerð að samnefndri kvikmynd árið 1999 með Brad Pitt og Edward Norton í aðalhlutverkum. Fight Club fylgir reynslum ónefndar aðalpersónu sem þjáist af svefnleysi, en fer til læknis sem vísar honum á að fara á stuðningshópa fyrir menn með eistnakrabbamein til að sjá „alvöru sársauka“ en verður brátt háður þessu og fer að fara á fleyri stuðnings hópa og látast vera alvarlega veik manneskja til að fá sálarútrás og nær þannig fram svefni. En síðar hittir hann konu sem heitir Marla Singer, sem er að gera það nákvæmlega sama og getur ekki grátið fyrir framan hana og fer þá aftur að þjást af svefnleysi, þangað til íbúðin hanns springur vegna gasleka og hann fer að gista hjá dularfullum manni sem fer undir nafninu Tyler Durden. Saman stofna þeir leynilegan slagsmála klúbb, út frá slagsmálum þeirra í bílastæðum, sem róttæka sálfræðimeðferð. Framboðsflokkurinn. Framboðsflokkurinn (eða O-listinn) var stjórnmálaflokkur (grínflokkur) sem bauð sig fram fyrir Alþingiskosningarnar 1971. Flokkurinn var aðallega skipaður ungu fólki um tvítugt. Mest bar á námsfólki og hljómlistarfólki, hinum „órólega æskulýð nútímans“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu. Þetta var fólk sem vildi eitthvað nýtt og var orðið hundleitt á gömlu flokkunum. Framboðsflokkurinn fékk 3% atkvæða í kosningunum 1971 en engan mann kjörinn. Stefna flokksins. Markmið flokksins var að efla stjórnmálalega einingu með þvi að hnoða saman öllum hugsjónum og stjórnmálastefnum landsmanna innan ramma eins flokks og stuðla að fegurra mannlífi undir einkunnarorðunum: mannhelgi, skinhelgi, landhelgi. Flokkurinn hugðist nálgast markmið sitt með stóraukinni notkun merkingarsnauðrar skrúðmælgi og taka þátt í öllum opinberum kosningum á Íslandi. Flokkurinn ætlaði auk þess að gefa öllum Íslendingum, sem þess æsktu, tækifæri til að skipa sæti á framboðslista því að þannig væri vöxtur og viðgangur lýðræðisins best tryggður. Dómkirkjan í Aachen. Dómkirkjan í Aachen er keisarakirkja Karlamagnúsar í þýsku borginni Aachen. Í kirkjunni hafa rúmlega 30 konungar þýska ríkisins verið krýndir. Karlamagnús og Otto III keisari hvíla í steinkistum í kirkjunni. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga dómkirkjunnar. Það var Karlamagnús sem lét reisa dómkirkjuna, a.m.k. elstu hluta hennar. Sá hluti er oft kallaður átthyrningurinn ("Oktogon") og er fyrir miðju kirkjunnar. Talið er að hann hafi risið 793-794. Hann var svo vígður 805 af Leó III páfa. Kirkja Karlamagnúsar var í rúm 200 ár stærsta og mesta kirkjan norðan Alpa. Samkvæmt nýjustu rannsóknum þykir sýnt að þessi hluti kirkjunnar hafi verið rauður að utan. Allir litir eru hins vegar löngu horfnir. Í átthyrningi Karlamagnúsar er krýningahásætið fræga, þar sem 30 konungar þýska ríkisins voru krýndir. Karlamagnús sjálfur hvílir í þessum hluta kirkjunnar. Hann var settur í kistu árið 814. Þegar hann var lýstur helgur 1165 af kaþólsku kirkunni, voru bein hans færð í nýja kistu. 1215 negldi Friðrik II keisari síðasta naglann í þá kistu þegar hann sjálfur var krýndur til konungs. Í kirkjunni hvílir einnig Otto III keisari. Byrjað var að reisa turninn 1350 og er hann stakur, ólíkt flestum dómkirkjum. Úr turninum er brú yfir í átthyrninginn. Slíkt er einnig mjög óvenjulegt hjá kirkjum. Kór kirkjunnar var reistur 1355-1414. Hann er í reynd víðáttumesti hluti kirkjunnar í heild. Hann er 25 metra langur, 13 metra breiður og 32 metra hár. Nær allar hliðar eru alsettar stórum gluggum, sem í heildina taka 1.000 m². Þessi hluti var reistur fyrir líkamsleifar Karlamagnúsar og ríkisdjásnin. Nær allt í kringum kirkjuna eru hliðarkapellur sem eru yngri. Þær eru fimm að tölu. 1238 var byrjað á helgigöngum um götur Aachen og voru ríkisdjásnin og helgigripir með í för. Helgiganga þessi fór fram á 7 ára fresti. Sú síðasta fór fram árið 2007 og sú næsta verður 2014. Í brunanum mikla 1656 brunnu öll þök kirkjunnar, en innviðið slapp að öllu leyti. Í kjölfarið fékk kirkjan núverandi þök. Átthyrningurinn fékk þá hið óvenjulega hvolfþak. 1794 rændu Frakkar listaverkum úr kirkjunni, þar á meðal ríkisdjásnunum, og fluttu þau til Parísar. Sum listaverk eru þar enn. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari slapp kirkjan ótrúlega vel. Einungis gluggarnir miklu skemmdust verulega, en búið var að fjarlægja marga innanstokksmuni og listaverk til varðveislu. 1978 var kirkjan í heild sinni sett á heimsminjaskrá UNESCO, fyrst þýskra bygginga. Ríkisdjásnin. Ríkisdjásnin, sem flest eru frá tímum Karlamagnúsar, voru lengi vel geymd í dómkirkjunni. Á hinum og þessum tímum notuðu keisararnir þau, ekki bara í Aachen, heldur einnig á ferðalögum víða um ríkið. Um síðir fóru djásnin á flakk og enduðu í Nürnberg og svo í Vínarborg. Í Vín sat síðasti keisari þýska ríkisins og þar voru djásnin fram á 20. öld. Hitler lét sækja djásnin til Nürnberg, en Bandaríkjamenn fluttu þau aftur til Vínarborgar í lok heimstyrjaldarinnar síðari. Þar eru þau enn. Eftirmyndir af helstu ríkisdjásnunum er í ráðhúsinu í Aachen. Krýningahásætið. Krýningahásætið er staðsett í elsta hluta dómkirkjunnar og var smíðað á síðustu árum 8. aldar. Hásætið er á litlum súlnapalli og gert úr marmaraplötum sem settar eru saman með fjórum bronsklemmum. Upp á hásætið liggja 6 þrep sem einnig eru gerðar úr marmaraplötum. Sannað er að marmaraplöturnar séu úr Grafarkirkjunni í Jerúsalem sem teknar voru þaðan seint á 8. öld. Hásætið er haldið uppi með fjórum súlum. Tómarúmið milli þeirra er rétt nógu stórt að fólk gæti skriðið þar í gegn og var slíkt tákn um undirgefni. Þar sem gólfið undir súlunum er vel slípað, má reikna með því að margur maðurinn hafi sýnt undirgefni sína með tilheyrandi hætti. Í þessu hásæti voru 30 konungar þýska ríkisins krýndir. Samt var Karlamagnús sjálfur ekki krýndur í því. Síðasta krýningin fór fram 1531 er Ferdinand I var krýndur konungur. Eftir það hefur hásætið ekki verið notað. Kista Karlamagnúsar. Karlamagnús lést 814. Lík hans var sett í kistu í dómkirkjunni. 1215 lét Friðrik II keisari búa til skrautkistu fyrir forvera sinn. Hann fylgdist svo sjálfur með því hvernig líkamsleifar gamla keisarans voru flutt úr gömlu kistunni yfir í nýju kistuna. Þetta gerðist 27. júlí. Skrautkista Karlamagnúsar hefur síðan staðið í kirkjunni. Kistan er í líki kirkjuskips og er gerð úr eikarviði. Að utan er hún alsett gullslegnu silfri og kopari, en auk þess ýmsa gimsteinum og eðalsteina. Hliðarnar eru skreyttar myndum af keisurum ríkisins, 8 á hvorri hlið. Á öðrum gaflinum er Karlamagnús ásamt Leó III páfa og erkibiskupinum Turpin frá Reims. Á hinum gaflinum er María mey ásamt erkienglunum Míkael og Gabríel. Á lokinu eru myndir af atvikum úr ævi Karlamagnúsar. 1874 var kistan opnuð og líkið rannsakað. Niðurstaðan var sú að persónan mun hafa verið 2,04 m há. Viðbeinið hafði brotnað og var gróið á ný. Talið er öruggt að hér sé um Karlamagnús að ræða. Maríuskrínið með helgigripina. Talið er að helgigripir þessir hafi borist til Aachen á tímum Karlamagnúsar. Þeir eru vel og vandlega pakkaðir inn í líndúka og eru ekki sjáanlegir. Skrínið sjálft er í formi eins og kirkjuskip. Það er gullslegið og allsett rúmlega 1000 gimsteinum. Á hliðunum eru myndir af postulunum 12. Á hinum hliðunum eru myndir af Jesú, Maríu mey, Leó III páfa og Karlamagnúsi. Á lokinu eru myndir af atburðum úr ævi Jesú. Skrínið er læst með forláta lás, sem hulinn er blýi. Lykillinn er sagaður í tvennt. Annar hlutinn geymir kirkjan, hinn er geymdur í ráðhúsinu. Reyndar er lykillinn þar með ónýtur. Síðan 1238 hafa þessir helgigripir verið notaðir í helgigöngur um götur Aachen. Er skrínið þá opnað og gripirnir settir á stöng eða pall, sem síðan er borinn í göngunni. Gangan fer ávallt fram á 7 ára fresti. Skrínið er opnað með því að brjóta lásinn með hamri. Í hvert sinn sem skrínið er lokað á ný er búinn til nýr lás og lykillinn sagaður í sundur á ný. Síðasta gangan fór fram 2007 og sú næsta fer fram 2014. Ljósakrónan. Hin mikla ljósakróna dómkirkjunnar var smíðuð einhvern tímann á árunum milli 1165 og 1170. Það var Friðrik Barbarossa keisari og Beatrix eiginkona hans sem létu gera krónuna fyrir átthyrning (miðhluta) dómkirkjunnar. Hún var helguð Maríu mey, sem jafnframt er verndardýrlingur kirkjunnar. Eftir að hann var hengdur upp kallaðist hann Barbarossakrónan. Ljósakrónan er gerð úr gullslegnum kopari og er 4,20 metra í þvermáli. Hún hangir niður úr hvolfþakinu á 27 metra langri keðju, þannig að hún svífur í um 4 metra hæð yfir gólfinu. Hringurinn er gerður úr 8 samsettum hlutum, sem jafnframt mynda átthyrning. Sá hluti sem upp snýr á að tákna borgarmúra hins himneska Jerúsalem. Hringinn í kring eru 48 kerti sem tendruð eru enn í dag fyrir sérstaka viðburði. Barbarossakrónan er eina af fjórum rómönskum ljósakrónum sem enn eru til í Þýskalandi. Klukkur. Í dómkirkjunni eru 8 kirkjuklukkur. Sú þyngsta heitir María og vegur 6 tonn. Sjö af klukkunum eru frá árinu 1659 og voru smíðaðar í Trier, enda eyðilögðust allar klukkur í brunanum mikla 1656. Aðeins Maríaklukkan er yngri, en hún er frá 1958. Kristinn Pétursson. Kristinn Pétursson (16. febrúar 1889 – 5. maí 1965) var reykvískur blikksmiður iðnrekandi og íþróttamaður. Ævi og störf. Kristinn starfrækti með Bjarna bróður sínum blikksmiðju og umfangsmikla stáltunnugerð í Vesturbæ Reykjavíkur,sem faðir þeirra Pétur Jónsson stofnaði 1883. Þeir bræður voru á meðal stofnenda íþróttafélaganna ÍR og KR, einnig tóku þeir mikinn þátt í félagsmálum með frímúrurum og bindindishreyfingunni. Kristinn var fjölhæfur íþróttamaður á sínum yngri árum sérstaklega í frjálsum íþróttum knattspyrnu og glímu. Hann var bakvörður í fyrsta kappliði KR gegn Fram í vígsluleik Melavallar 1911 og tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1912. Bæjarstjórnarkosningar á Húsavík. Kosningar til bæjarstjórnar á Húsavík voru haldnar samhliða öðrum sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006 varð Húsavík hluti sveitarfélagsins Norðurþings. 1938. Sveitarstjórnarkosningarnar 1938 fóru fram 30. janúar. 1958. Kosningarnar fóru fram 26. janúar.Að þeim loknum mynduðu Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag meirihluta í bæjarstjórn. 1962. Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta í bæjarstjórn að þeim loknum. 1966. Kosningarnar fóru fram 22. maí. Alþýðubandalagið bauð fram klofið, en Ásgeir Kristjánsson bæjarfulltrúi þess var í efsta sæti nýs framboðs óháðra borgara. 1970. Kosningarnar fóru fram 31. maí. Alþýðubandalagið bauð ekki fram undir eigin nafni, en kom að I-lista Sameinaðra kjósenda. Tilvísanir. Húsavík B Mönchengladbach. Mönchengladbach er stórborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 258 þúsund íbúa. Lega. Mönchengladbach liggur fyrir suðvestan Ruhr-héraðið, vestan Rínarfljóts, en rétt austan við hollensku landamærin. Næstu borgir eru Düsseldorf til austurs (20 km), Köln til suðausturs (40 km) og Roermond í Hollandi til vesturs (20 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er þrískiptur skjöldur. Til vinstri er hvítur bagall á bláum grunni, sem vísar til fyrstu munkana. Til hægri er svartur kross á gulum grunni, það vísar til greinafanna frá Bylandt sem ríktu í héraðinu. Efst er hvít takkalína á rauðum grunni en það vísar til greifanna frá Quadt sem einnig ríktu í héraðinu til 1796. Skjaldarmerki þetta var formlega tekið upp 1977. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Monich Gladebach og München Gladbach. München er nefnt eftir munkum sem bjuggu í klaustrinu sem byggðin myndaðist í kringum. Gladbach merkir "glansandi lækur" (glad = "glans", Bach = "lækur"). Forliðurinn München féll þó snemma niður og hét borgin Gladbach í margar aldir. 1888 var heiti borgarinnar aftur breytt í München Gladbach til aðgreiningar frá borginni Bergisch Gladbach sem ekki er langt frá. Árið 1960 var forliðnum München breytt í Mönchen, þar sem mikið var ruglast á þessari borg og München í Bæjaralandi. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Borussia Mönchengladbach sem 5 sinnum hefur orðið þýskur meistari (síðast 1977), þrisvar sinnum bikarmeistari (síðast 1995) og 2 sinnum Evrópumeistari félagsliða (1975 og 1979). Auk þess er hokkíliðið Gladbacher HTC ákaflega vinsælt. Það varð þýskur meistari 2002. Á heimavelli liðsins fór fram HM 2006 í hokkí. Ekra (mælieining). Mynd yfir gamlar flatarmálseiningar fyrir ræktunarland Ekra er flatarmálseining sem oft er notuð sem mælieining fyrir land. Í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar er algengt að stærð bújarða og landareigna sé mæld í ekrum. Alþjóðleg ekra er 4,046.856 422 4 m2. Ein ekra er um það bil það land sem uxi getur plægt á einum degi. Í metrakerfinu er mælieiningin hektari oftast notuð fyrir land. Einn hektari er 2,47105381467 ekrur. 1 alþjóðleg ekra er jöfn og Grátvíðir. Grátvíðir (fræðiheiti "Salix babylonica") er tré af víðisætt, með löngum, slútandi greinum. Hann er upprunninn í Kína en hefur verið ræktaður víða í Asíu og barst til Evrópu með silkiveginum. Grátviður verður 20-25 m hár, vex hratt en er ekki langlífur. Hann er víða ræktaður sem skrauttré en einnig vegna viðar og er notaður til skjóls í Gobieyðimörkinni þar sem hann er ræktaður til að verja ræktunarland fyrir sandfoki frá eyðimörkinni. Ari Trausti Guðmundsson. Ari Trausti Guðmundsson (f. 3. desember 1948) er íslenskur jarðfræðingur, rithöfundur og fjölmiðlamaður. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og prófi í forspjallsvísindum frá Háskóla íslands 1972. Ari Trausti stundaði síðan nám við Óslóarháskóla og tók Cand.mag. í jarðeðlisfræði 1973 og stundaði síðar viðbótarnám í jarðfræði við Háskóla Íslands 1983 til 1984. Ari Trausti hefur skrifað fjölda bóka um náttúru Íslands, jarðfræði, eldfjallafræði, stjörnufræði, umhverfisvernd, ferðaslóðir og fjallmennsku, samtals hafa yfir 20 titlar komið út á íslensku, ensku, ítölsku og frönsku. Hann er einnig þekktur sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi, m.a. fyrir heimildarmyndir og þáttaraðir sem hann hefur staðið að. Auk fræðirita og ferðabóka hefur Ari Trausti gefið út smásagnasöfn, ljóðabækur og skáldsögur. Hann gaf út fyrsta smásagnasafn sitt 2002, sem hét "Vegalínur", fyrir það hlaut hann Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Ari Trausti hefur hlotið nokkrar viðurkenningar, auk fyrrgreindra verðlauna, svo sem viðurkenningu frá Bókasafnssjóði fyrir fræðirit, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna (2001) og verðlaun Rannís fyrir kynningu á vísindum til almennings (2008). Ari Trausti hefur einnig skrifað margar greinar í blöð og tímarit um stjórnmál og var formaður miðstjórnar EIK (m-l) frá 1973 til 1980 þegar þau sameinuðust KFÍ m-l í Kommúnistasamtökunum og formaður þeirra til 1983. Ari Trausti er sonur listamannsins Guðmundar frá Miðdal og leirkerasmiðsins Lydiu Pálsdóttur. (Lydia var þýsk að uppruna og hét Zeitner að eftirnafni áður en hún varð íslenskur ríkisborgari). Ari Trausti er bróðir Errós. Heinz-Harald Frentzen. Heinz-Harald Frentzen (f. 18. maí 1967 í Mönchengladbach) er þýskur ökuþór og tók þátt í Formúlu 1 kappakstri 1994-2003. Hann sigraði í þremur keppnum og náði öðru sæti í stigagjöf ökumanna 1997. Ýmis mót. Heinz-Harald Frentzen fæddist í þýsku borginni Mönchengladbach. Faðir hans var Þjóðverji, en móðir hans Spánverji. Frentzen var aðeins 13 ára þegar hann hóf keppni í Kart-keppni og varð þýskur unglingameistari ári síðar. Þegar hann var 16 ára kynntist hann Michael Schumacher í heimaborg hins síðarnefnda, Kerpen. Þar hafði Schumacher verið einvaldur í Kart-keppni en Frentzen sigraði hann strax í fyrstu keppni. 1986 hóf Frentzen keppni í atvinnukappakstri, Formúlu Ford 2000. Strax á fyrsta ári náði hann öðru sæti í stigagjöf ökumanna. Tveimur árum síðar varð hörð keppni um fyrsta sætið. Hún endaði á því að Austurríkismaðurinn Karl Wendlingar sigraði en Frentzen og Schumacher urðu saman í öðru sæti. Þessir þrír ökuþórar áttu eftir að etja kappi oftar. 1991 skipti Frentzen yfir í Formúlu 3000 en þar voru hann og Wendlingar á tímabili samherjar. Formúla 1. Frentzen að keppa fyrir Jordan-liðið 1994 tók Frentzen í fyrsta sinn þátt í Formúlu 1 og keppti fyrir Sauber-liðið. Fyrsta mótið hans var Brasilíukappaskturinn og ók hann út af. Seinna á þessu ári létust ökuþórarnir Ayrton Senna og Roland Ratzenberger. Auk þess lenti Wendlinger í hörðum árekstri í Mónakó og lá í dái í nokkrar vikur. Þessir atburðir voru mikið áfall fyrir Frentzen, sem ekki náði miklum árangri hjá Sauber næstu þrjú árin. Williams-liðið bauð honum að taka sæti Senna en hann hafnaði því. 1997 tók hann hins vegar boði Williams og tók þar sæti Damons Hill, sem hafði orðið heimsmeistari með liðinu. Strax á fyrsta ári sínu hjá liðinu tókst honum að landa fyrsta sigri sínum, er hann kom fyrstur í mark í Imola á undan Michael Schumacher og Eddie Irvine. Þetta ár var hans besta í Formúlu 1 en hann náði öðru sæti í stigagjöf ökumanna. Heimsmeistari var samherji hans Jacques Villeneuve. Á næsta ári var ýmsum reglum í Formúlu 1 breytt og reyndist Williams liðið ekki vel í stakk búið til að aðlagast nógu vel. Villeneuve og Frentzen stóðu sig báðir frekar illa. 1999 skipti Frentzen yfir í Jordan-liðið og stóð sig mjög vel. Á því ári náði hann að sigra tvisvar (í Magny-Cours í Frakklandi og í Monza á Ítalíu), einu sinni lenti hann í öðru sæti og einu sinni í þriðja sæti. Þegar uppi var staðið náði hann þriðja sæti í stigagjöf ökumanna, á eftir Mika Häkkinen og Eddie Irvine. Fjögur síðustu ár sín í Formúlu 1 voru ekki sérlega gæfurík fyrir Frentzen. Hann náði á þeim tíma aðeins þrisvar sinnum þriðja sæti. 2001 ók hann fyrir Prost, 2002 fyrir Arrows og 2002-2003 fyrir Sauber. Síðast keppti Frentzen í Japanskappakstrinum 2003. Önnur mót. 2004 keppti Frentzen fyrir Opel í DTM ("Deutsche Tourenwagen-Masters"), þar sem aðallega er keppt í Þýskalandi á þýskum bílum. Frentzen keppti fyrst fyrir Opel, síðan fyrir Audi. Síðustu ár hefur hann keppt á hinum og þessum mótum, sérstaklega á Speedcar Series mótum í Asíu. Nathalia Dill. Nathalia Goyannes Dill Orrico (24. mars 1986 í Rio de Janeiro í Brasilíu) er brasilísk leikkona. Dill, Nathalia Günter Netzer. Günter Netzer (f. 14. september 1944 í Mönchengladbach) var þýskur atvinnumaður í knattspyrnu og lék lengst af með Borussia Mönchengladbach og Real Madrid. Með þýska landsliðinu varð hann bæði Evrópumeistari og heimsmeistari. Félagslið. Günter Netzer fæddist í þýsku borginni Mönchengladbach. Strax níu ára gamall hóf hann að æfa með yngri flokkum hjá litlu félagi í borginni. Hann var mestmegnis miðherji og vakti sem slíkur mikla athygli fyrir leikgáfur. Þegar Netzer var 19 ára gamall bauð Borussia Mönchengladbach honum samning sem hann þáði. Félagið var þá í neðri deildum, en vann sig upp í Bundesliguna á tveimur árum. Næstu árin voru þau bestu í sögu félagsins. Liðið varð þýskur meistari 1970 og aftur 1971. Þetta var í fyrsta sinn sem lið í Bundesligunni náði að verja titilinn. 1972 og 1973 var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. 1973 fór Netzer til Real Madrid og lék þar í þrjú ár. 1975 varð hann spænskur meistari með liðinu og ári síðar bæði meistari og bikarmeistari. 1976 fór Netzer til Sviss og lék með Grasshoppers Zürich síðustu tvö árin sín sem atvinnumaður. Landslið. Günter Netzer lék sinn fyrsta landsleik 1965 gegn Kýpur. Hann stóð hins vegar ætíð í skugga Wolfgang Overath, en báðir léku þeir í sömu stöðu. Overath var oftast valinn í landsliðið, meðan Netzer sat á bekknum eða varð eftir heima. Fyrsta stórmótið sem Netzer tók þátt í var EM 1970 í Englandi. Þar sigraði þýska landsliðið Englendinga, en þetta var fyrsti sigur Þjóðverja gegn Englendingum á Wembley. Þjóðverjar komust í úrslit og sigruðu þar Sovétmenn. Þar með varð Günter Netzer Evrópumeistari. Á næsta stórmóti, HM 1972 í Þýskalandi var Overath aftur tekinn fram yfir Netzer. Netzer fékk aðeins að leika einn leik, 0-1 tapleikinn gegn Austur-Þýskalandi, og kom ekki meira við sögu. Þjóðverjar urðu heimsmeistarar, en Netzer sagði sjálfur að sér liði ekki sem heimsmeistari, þar sem hann hafi komið svo lítið við sögu. Alls lék Netzer 37 landsleiki og skoraði í þeim 6 mörk. Síðasti landsleikur hans var gegn Grikkjum 1975, en honum lauk 1:1. Önnur störf. 1977 gerðist Netzer framkvæmdarstjóri hjá HSV í Hamborg. Þar var hann til 1986. Á þessum tíma varð HSV eitt besta félagslið Þýskalands og varð þrisvar þýskur meistari (1979, 1982 og 1983) og Evrópumeistari 1983. Eftir veru sína í Hamborg varð Netzer knattspyrnuráðgjafi í sjónvarpi, en auk þess stofnaði hann auglýsingafyrirtæki í Sviss. Það var einmitt Günter Netzer sem gagnrýndi Rudi Völler þjálfara eftir jafnteflisleik þýska landsliðsins gegn Íslandi á Laugardalsvelli 6. september 2003. Við það tækifæri fékk Völler reiðiskast og skammaði Netzer og aðra í beinni útsendingu eftir leikinn. Sísallilja. Sísallilja (fræðiheiti: "Agave sisalana") er hitabeltisplanta af þyrnililjuætt en úr trefjum blaða hennar er unninn sísalhampur. Sísalhampurinn er meðal annars notaður í mottur og kaðla. Til þess að gera hampinn hæfan til spuna, þarf að láta hann fara margar ferðir gegnum kembivélar, þar sem hann fyrst er grófkembdur og siðan fínkembdur. Hampiðjan framleiddi sísalhamp á árum áður. Harpa Björnsdóttir. Harpa Björnsdóttir (f. 13. júlí 1955) er íslenskur myndlistarmaður, kennari og leiðsögumaður. Hún hefur haldið fjölda myndlistarsýninga, á Íslandi og erlendis, og einnig gefið út tvær ljóðabækur. Rás 1. Rás 1 eða Ríkisútvarpið (stundum kölluð Gufan eða Gamla gufan) er íslensk útvarpsstöð sem hóf útsendingar 20. desember 1930. Undirtónar. Undirtónar var íslenskt tímarit sem gefið var út á árunum 1996 – 2003. Tímaritið fjallaði í upphafi aðallega um tónlist en þegar líða tók á útgáfuna breytti blaðið um áherslur og meira fór að bera á umfjöllun um önnur efni eins og kvikmyndir, tölvuleiki og myndasögur. Stofnendur blaðsins voru Ísar Logi Arnarsson og Snorri Jónsson. Ritstjórar blaðsins voru í tímaröð; Ísar Logi Arnarsson, Snorri Jónsson og Ari S. Arnarsson. Kristadelfianar. Kirkja Kristadelfianar (Christadelphians, "bræður og systur í Kristi") var stofnuð árið 1848~1850 í Bandaríkjunum og Bretlandi. Samanlagt í heiminum eru safnaðarfélagar fleiri en 60.000. Kistufell. Kistufell er 1.450 metra hátt fell skammt frá rótum Dyngjujökuls, norður af Vatnajökli. Kistufell er þekkt jarðskjálftasvæði og þar er björgunarskýli. Engir stórir skjálftar, 4 til 5 á Richter, hafa mælst við Kistufell síðan gaus í Gjálp árið 1996. Þann 26. apríl árið 2010 varð skjálfti þar sem mældist 3,3 stig samkvæmt heimasíðu Veðurstofunnar. Alríkislögregla Rússneska Sambandsríkisins. Alríkislögregla Rússneska Sambandsríkisins (FSB) (á rússnesku: "ФСБ", "Федеральная служба безопасности Российской Федерации"; "Federal'naya sluzhba bezopasnosti Rossiyskoy Federatsii") er mikilvægasta öryggisstofnun Rússneska sambandsríkisins og meginarftaki leyniþjónustustofnana frá tímum Sovétríkjanna kennd við Cheka, NKVD og KGB. FSB er ábyrgt fyrir öryggi Rússneska sambandsríkisins og hefur til þess afar víðtækar heimilidir. FSB er ábyrgt fyrir öryggi Rússneska sambandsríkisins. Stofnunin sinnir gagnnjósnum, innra öryggi og öryggi landamæra, barátta gegn hryðjuverkastarfssemi og skipulagðri glæpastarfssemi, og innra eftirlit, ma. með hernum. Allt lögreglustarf innan ríkjanna heyrir undir FSB ef þörf þykir. Meginstarfssemi FSB er innan Rússneska sambandsríkisins en njósnir á erlendri grund eru á vegum sérstakrar stofnunar, Utanríkisleyniþjónusta Rússneska Sambandsríkisins (SVR). Undantekning á þessu er að FSB sinnir rafrænum njósnum erlendis. Stofndagur FSB markast við 3. apríl 1995 þegar Boris Yeltsin þáverandi forseta Rússlands undirritaði lög þar sem fyrirrennarinn Alríkisstofnun gagnnjósna (skammstöfuð FSK), fékk nýtt heiti, FSB og aukin völd til gagnnjósna innan Rússlands. Fjöldi starfsmanna FSB hefur ekki verið gefinn upp en talið er að allt að 350.000 manns vinni fyrir stofnunina. Höfuðstöðvar FSB eru í fyrrum höfuðstöðvum KGB við Lubyanka Torg í miðborg Moskvu. Saga. Við lok seinni hluta áttunda áratugarins, þegar ríkisstjórn og efnahagur Sovétríkjanna voru að falli komin lifði leyniþjónustan KGB betur en flestir ríkisstofnanir, naut minni niðurskurðar starfsfólks og fjárhags. Stofnunin var engu að síður lögð niður tekin í sundur, eftir að öfl innan KGB tóku þátt í tilraun til valdaráns í ágúst 1991 gegn Mikhail Gorbachev þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Í ársbyrjun 1992 sá þáttur KGB sem bar ábyrgð á innra öryggi settur inn í ráðuneyti öryggismála. Tveimur árum síðar var Alríkisstofnun gagnnjósna (skammstöfuð FSK), sem laut stjórnar forseta. Fyrirrennari FSB, Alríkisstofnun gagnnjósna (skammstöfuð FSK), var breytt með lögum frá báðum deildum Rússneska þingsins og samþykkt af þann 3. apríl 1995 af Boris Yeltsin þáverandi forseta Rússlands. Starfsseminni var gefið heitið FSB og veitt henni frekari völd, ma. að fylgjast með einkaheimilum og að sinna gagnnjósnum innan Rússlands sem og erlendis en þá í samstarfi við þá stofnun Rússneska ríkisins sem bar ábyrgð á njósnastarfssemi erlendis (SVR). Lítið hefur farið fyrir boðuðum umbótum á þeirri stofnana sem sinntu leyniþjónustu innan Rússlands. FSB og aðrar stofnanir sem safna upplýsingum erlendis (SVR) og Alríkisstofnunin fyrir fjarskipti og upplýsingatækni Rússneska ríkisins) hafa að mestu verið óhreyfðar og lýtur friðhelgi gagnvart skoðun löggjafar- og dómsvalds. Nokkrar takmarkanir voru þó settar á innlenda eftirlitsstarfsemi FSB, t.d. var dregið úr njósnum og eftirliti FSB á trúarstofnunum og hjálparstofnunum. Eftir sem áður hefur FSB verið stjórnað af fyrrum starfsmönnum KGB. Lítið var gert til að kanna fyrrum starfsemi KGB eða notkun þeirra á leyniþjónustugögnum. Árið 1998 skipaði Boris Yeltsin þáverandi forseti fyrrum KGB foringja Vladimir Putin sem forstöðumann FSB. Hann tók síðar við forsetaembættinu af Yeltsin. Að auki var FSB beitt gegn starfssemi stéttarfélaga í Síberíu og uppgangi harðlínuafla til hægri í rússneskum stjórnmálum. Sem forseti jók Pútín enn völd FSB með því að efla starfssemi gagnnjósna, til að berjast skipulagðri glæpastarfsemi, og bæla niður aðskilnaðarsinna Téténíu. FSB er stærsta öryggisþjónusta Evrópu og þykir afar skilvirk í gagnnjósnum. FSB hefur verið gagnrýnd fyrir að brjóta á mannréttindum með því að hylja sovéskar rætur sínar í KGB. Að auki hefur FSB verið gagnrýnst fyrir að hafa búið til mál á hendur pólitískum andstæðingum ríkjandi stjórnvalda og að nota ógnanir til að ráða njósnara FSB. Að auki hefur FSB verið gagnrýnt fyrir að hafa sótt að þeim rússnesku fræðimönnum sem hafa verið í rannsóknarsamstarfi við vestræna sérfræðinga á sviði afvopnunar. Ræktin.is. Ræktin.is er íslensk vefsíða sem var stofnuð í október 2008. Vefsíðan er rekin af tveimur íþróttafræðingum og fjallar um líkams- og heilsurækt sem og starf þeirra við þjálfun. Ræktin.is býður upp á heilsuræktarþjónustu og einkaþjálfun í Sporthúsinu í Kópavogi, auk þess að bjóða m.a. upp á fjarþjálfun. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1942. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1942 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið þann 25. janúar 1942 alls staðar nema í Reykjavík þar sem kosningarnar voru haldnar 15. mars. Kosningunum hafði verið frestað með bráðabirgðalagasetningu af öðru ráðuneyti Hermanns Jónassonar vegna þess að verkfall prentara hafði staðið yfir frá áramótum og einungis Alþýðublaðið kom út. Ritstjórum Morgunblaðsins fannst þetta vera „kosningabrella Alþýðuflokksins [sem] mistókst“ þegar blaðið kom út þann 23. janúar eftir þriggja vikna stöðvun. Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta sínum, átta mönnum. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 25. janúar. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 25. janúar. Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði þannig að sérstakt framboð óháðra borgara bauð fram. Efsti maður á lista óháðra náði ekki kjöri vegna útstrikana en annar maður listans, Jón Sveinsson fyrrverandi bæjarstjóri náði kjöri í hans stað. Eskifjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Eskifirði fóru fram 25. janúar. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 25. janúar 1942. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 25. janúar. Neskaupstaður. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Neskaupstað fóru fram 25. janúar. Reykjavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 15. mars. Stokkseyri. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stokkseyri fóru fram 25. janúar. Vestmannaeyjar. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum fóru fram 25. janúar. Krefeld. Krefeld er borg í Ruhr-héraðinu í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 235 þúsund íbúa. Hér var upphaflega um tvær borgir að ræða, Krefeld og Uerdingen, en þær voru sameinaðar 1929. Lega. Krefeld liggur við Rínarfljót og er stærsta borg Ruhr-héraðsins vestan við Rín. Hollensku landamærin eru aðeins 15 km til vesturs. Næstu stærri borgir eru Duisburg til norðausturs (10 km), Düsseldorf til suðausturs (15 km), Mönchengladbach til suðvesturs (15 km) og Venlo í Hollandi til vesturs (20 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Krefeld er tvískiptur skjöldur. Til vinstri er biskup sem heldur á höfði sínu, bakgrunnurinn er gulur. Lítið gult og svart skjaldarmerki vísar til þess að borgin tilheyrði áður greifadæminu Moers. Til hægri eru tveir gullnir lyklar, tveir svartir krossar og blár og rauður litur. Biskupinn er heilagur Díonýsíus sem var hálshöggvinn í París og er verndardýrlingur frankalands. Lyklarnir eru borgarlyklar Krefeld og Uerdingen, en þessar borgir voru sameinaðar 1929. Orðsifjar. Krefeld hét upphaflega Krinvelde, eða Krähenfelde eins og sagt mun vera í dag. Það merkir "krákuvöllur" (Krähe = "kráka", -feld = "völlur"). Uerdingen hét upphaflega Urðingi. Það hljómar íslenskt, en merking er óviss. Helst að það hafi eitthvað með "urð" að gera. Upphaf. Rómverjar reistu hervirki á staðnum og kölluðu Gelduba. Ekki er vitað hve lengi Rómverjar voru þar, en heitið er enn til sem borgarhverfið Gellep. 1105 kemur Krefeld fyrst við skjöl og var þá lítill bær. Karl IV keisari veitti Krefeld borgarréttindi 1373. Hún kemur lítið við sögu næstu aldir. Trúarsaga. Silkihúsin voru í senn íbúðarhús og vinnuhús 1560 urðu siðaskiptin í borginni, en kaþólikkar fá þó að vera í borginni áfram. Í Kölnarstríðinu 1584 sóttu bærískar hersveitir gegn borgum lúterstrúarmanna í Rínarlandi. Í stríðinu var Krefeld lögð í rúst þar sem hún var að mestu lútersk. Borgin lá í rústum í hartnær tvo áratugi. 1598 eignuðust Hollendingar borgina, sem endurreistu hana og lýstu hana hlutlausa. Hlutleysi þetta varaði í gegnum sjálfstæðisstíð Hollendinga, 30 ára stríðið og aldirnar þar á eftir. Sökum hlutleysisins flúðu margir mennonítar og endurskírendur til borgarinnar, enda voru þeir ofsóttir víða annars staðar. 1656 stofnuðu mennonítar vefnaðarverksmiðjuna "von der Leyen", sem varð slíkur efnahagslegur ábati fyrir borgina að hún fékk auknefnið Silkiborgin. Á meðan streymdu fleiri ofsóttir trúarhópar til Krefeld, fleiri en borgin gat tekið á móti. Því tóku 13 fjölskyldur (mennonítar og kvekarar) til bragðs að flytja til Ameríku 1683 og stofnuðu þar bæinn Germantown í Pennsylvaníu. Þetta voru fyrstu Ameríkuferðir frá Þýskalandi. Germantown er í dag borgarhverfi í Philadelphiu. 1702 lést Vilhjálmur III af Óraníu og komst borgin þá í eigu Prússlands. Krefeld var þá orðin ein mesta vefnaðarborg ríkisins. 18. öldin. Í 7 ára stríðinu átti sér stað orrusta við borgarhlið Krefeld 23. júní 1758. Þar voru samankomnir her frá Prússlandi, undir stjórn Ferdinands von Braunschweig, og her frá Frakklandi. Frakkar voru langtum fjölmennari, voru með 47 þús manns. Prússar voru aðeins með 32 þús manns, en þrátt fyrir það sigruðu prússar og hröktu Frakka á brott. Þegar Friðrik II konungur Prússlands sótti Krefeld heim 1763 voru helmingur vinnufærra manna starfandi í vefnaðarfyrirtæki "von der Leyen". Nær allur útflutningur vefnaðarvörunnar fór til Ameríku og Rússlands. Vefstólarnir voru um 700 talsins. Konungur var svo hrifinn af iðninni, að hann fyrirskipaði bann við að kalla íbúa borgarinnar til herþjónustu. 1792 hertók franskur byltingarher borgina, sem var innlimuð Frakklandi tveimur árum síðar. Napoleon sjálfur sótti borgina heim 1804. Eftir fall hans varð Krefeld prússnesk á ný. Nýrri tímar. Iðnbyltingin hófst fyrir alvöru með tilkomu járnbrautarinnar 1849. Vilhjálmur I konungur Prússlands sótti borgina heim 1863. Borgarbúar sýndu honum fádæma ókurteisi með því að hylla hann ekki, heldur sitja heima. Sjö árum síðar átti að reisa minnisvarða um konung. Vilhjálmur hafði þá ekki gleymt ókurteisi borgarbúa og krafðist þess að styttan af sér sneri baki í borgina. Styttan sjálf er ekki til lengur. Hún var brædd fyrir hergagnaiðnaðinn í heimstyrjöldinni síðari. Í heimstyrjöldinni fyrri voru ungir menn kallaðir í herinn. Herþjónustubannið hafði verið tekið úr gildi 1794. Eftir tapið í stríðinu hertóku Belgar borgina og héldu henni í tíu ár. 1929 voru borgirnar Krefeld og Uerdingen sameinaðar í eina stórborg. Í heimstyrjöldinni síðari varð Krefeld fyrir nokkrum loftárásum, en skemmdir urðu tiltölulega minni en í öðrum borgum. Þann 3. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina en hún varð hluti af breska hernámssvæðinu. Í dag er Krefeld enn mikil iðnaðarborg. Þar er meðal annars stórfyrirtækið Bayer með efnaiðnað og stáliðnaðarfyrirtækið Thyssen. 1983 sótti George Bush eldri Krefeld heim, en hann var þá varaforseti Bandaríkjanna. Mikil mótmæli brutust út í borginni og fóru fram götubardagar milli lögreglu og 20 þúsund mótmælenda þar. Viðburðir. Stærsta útitískusýning heims fer árlega fram í Krefeld í september. Við það tækifæri er gjörvallri miðborginni breytt og fara tískusýningar fram á sex stórum sýningarpöllum. Yfir miðborginni er hengdur 10 km langur silkihiminn sem ferðamenn ganga undir og leiðir þá að pöllunum. Á pöllunum sýna rúmlega 100 módel það nýjasta í fatatískunni. Samfara þessu eru verðlaunin Gullna silkislaufan veitt fyrirtæki eða einstaklingi sem skarað hefur framúr í framleiðslu á tískufatnaði, hugmyndaauðgi eða markaðssetningu. Um hálf milljón manna sækir sýninguna heim árlega. Íþróttir. Íshokkí er ein vinsælasta íþróttagrein borgarinnar. Félagið Krefelder Pinguine leikur í 1. deild og varð þýskur meistari 2003. Hokkílið borgarinnar, Crefelder Hockey und Tennis Club, er eitt af toppliðum í þýsku hokkídeildinni. Liðið varð þýskur meistari 2006 og innanhúshokkímeistari 2007. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er KFC Uerdingen (sem hét Bayer Uerdingen fram til 1995). Liðið varð bikarmeistari 1985 (sigraði Bayern München í úrslitaleik) og komst í undanúrslit Evrópukeppni bikarhafa árið eftir (tapaði þá fyrir Atlético Madrid). Liðið leikur í neðri deildum í dag. Tveir Íslendingar hafa leikið með liðinu: Atli Eðvaldsson og Lárus Guðmundsson, báðir 1985-88. Fastgengisstefna. Fastgengisstefna er sú stefna í efnahagsmálum að ákveða gengi gjaldmiðils fyrirfram og beita þeim ráðum sem tiltæk eru í hagstjórninni til að halda gengissveiflum innnan ákveðina marka. Noomi Rapace. Noomi Rapace (fædd Norén 28. desember 1979 í Hudiksvall) er sænsk leikkona, hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem "Lisbeth Salander" í Milennium-þríleiknum. Rapace ólst að hluta til upp á Íslandi hjá sænskri móður sinni og íslenskum stjúpa á Flúðum. Sjö ára gömul lék hún aukahlutverk í kvikmyndinni "Í skugga hrafnsins". Hún er gift sænska leikaranum Ola Rapace. Sigurjón Friðjónsson. Sigurjón Friðjónsson alþingismaður og skáld. Sigurjón Friðjónsson (22. september 1867 – 26. maí 1950) var alþingismaður og skáld, fæddur á Sílalæk í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er talinn í hópi nýrómantískra skálda symbólismans. Æviágrip. Sigurjón tók prófi í búfræði á Eiðum 1887 og sat á alþingi 1918 - 1922. Hann tók meðal annars sæti Hannesar Hafsteins í veikindum hans. Kona Sigurjóns var Kristín Jónsdóttir (1867 - 1928) og af börnum þeirra fetaði eitt í fótspor hann, Bragi Sigurjónsson (1910 - 1995), og var bæði alþingismaður og skáld. Sigurjón var lengst af bóndi á Litlu-Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og bjó þar til dauðadags. Honum var mjög annt um menntamál og meðal annars gaf Framhaldsskólanum á Laugum land undir skólann en því fylgdu meðal annars heitavatnsréttindi svo þetta var mjög rausnarleg gjöf. Seinna meir var síðan einn sona hanns skólastjóri við þann skóla, Dagur Sigurjónsson. Sigurjón skrifaði fjölda ljóða, smásagna og blaðagreina, auk þess að þýða ljóð. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1946. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1946 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1946. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 27. janúar. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 27. janúar. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 27. janúar 1946. Listarnir sem í boði voru tengdust ekki stjórnmálaflokkum. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 27. janúar. Reykjavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 27. janúar. Seltjarnarneshreppur. Þessar hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 7. júlí 1946. Framfarafélagið Kópavogur bauð fram lista með mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum með það að markmiði að ná meirihluta til að þrýsta á frekari framfarir í Kópavogi og höfðu fyrir kosningarnar sent kjósendum bréf þar að lútandi. Sameinaðir Kópavogsbúar unnu kosninguna með 4 atkvæða mun gegn A-lista þar sem fyrrum hreppsnefndarmenn skipuðu efstu sætin. Guðmundur Gestsson var skipaður oddviti en Finnbogi Rútur Valdimarsson gegndi störfum oddvita á meðan Guðmundur dvaldi erlendis. Sigurjón Jónsson vék sæti sínu skömmu eftir kosningar, hugsanlega vegna mikilla útstrikana af A-listanum og tók Kjartan Einarsson við sæti hans. Ákveðið var svo að skipta hreppnum upp og kljúfa Kópavog úr honum enda sé hreppurinn í tveim ólíkum og ótengdum hlutum, og Kópavogur nú nær jafnfjölmennur og Sauðárkrókur sem hafði þá nýverið fengið kaupstaðarréttindi. Skiptingin fór fram um áramótin 1947-48, og héldu Kópavogsbúar eigin hreppsnefndarkosningu. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1950. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1950 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1950. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 29. janúar 1950. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 29. janúar. Þorsteinn M. Jónsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar og Steinn Steinsen bæjarstjóri með stuðningi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Úrslit bæjarstjórakjörs réðust þó ekki fyrr en í þriðju umferð þar sem Framsókn studdi í fyrstu tveimur umferðunum sinn eigin umsækjanda, Guðmund Guðlaugsson, á meðan fulltrúar Alþýðuflokksins studdu aðra umsækjendur og Sósíalistar sátu hjá. Í þriðju umferðinni var aðeins kosið á milli Steins og Guðmunds og hlaut Steinn þá atkvæði fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á meðan vinstri flokkarnir sátu hjá. Djúpivogur. Þessar hreppsnefndarkosningar á Djúpavogi áttu að fara fram 29. janúar. Aðeins kom fram einn listi og var hann því sjálfkjörinn. Hofsós. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hofsósi áttu að fara fram 29. janúar. Aðeins kom fram einn listi og var hann því sjálfkjörinn. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey áttu að fara fram 29. janúar. Aðeins kom fram einn listi og var hann því sjálfkjörinn. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 29. janúar. Kópavogur. Þessar hreppsnefndarkosningar í Kópavogi fóru fram 31. janúar. 29. janúar 1950. Framfarafélagið hélt meirihluta sínum. Patreksfjörður. Þessar hreppsnefndarkosningar á Patreksfirði áttu að fara fram 29. janúar. Aðeins kom fram listi Sjálfstæðisflokksins og var hann sjálfkjörinn. Reykjavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 29. janúar. Seltjarnarnes. Þessar hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 29. janúar 1950. Sjálfstæðismenn náðu meirihluta. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1954. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1954 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1954. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 31. janúar. Í framboði voru annars vegar sameiginlegur listi Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og kommúnista og hins vegar listi Sjálfstæðisflokksins. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 31. janúar. ref> Djúpivogur. Þessar hreppsnefndarkosningar á Djúpavogi áttu að fara fram 31. janúar. Engir listar komu fram og var fyrri hreppsnefnd því sjálfkrafa endurkjörin. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey áttu að fara fram 31. janúar. Aðeins kom fram einn listi og var hann því sjálfkjörinn. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 31. janúar. Kópavogur. Mikil dramatík varð í kringum þessar hreppsnefndarkosningar í Kópavogi sem áttu upphaflega að fara fram 31. janúar 1954. Þeim var frestað til 14. febrúar af yfirkjörstjórn eftir að sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu hafði ógilt undirbúning kosninga sökum deilna Óháðra kjósenda og Sjálfstæðisflokksins um listabókstafinn D. Þegar úrslitin úr kosningunum þann 14. febrúar voru gerð ljós munaði aðeins einu atkvæði á milli A-lista og B-lista. 8. apríl gekk úrskurður sýslunefndar Kjósarsýslu varðandi kæru vegna ógiltra utankjörfundaratkvæða og dæmdi kosningarnar ómerktar. Kjörræðismaður Íslendinga í Minneapolis hafði rifið fylgibréfin frá kjörseðlunum sjálfum og þannig ógilt atkvæðin. Aðeins hafði munað einu atkvæði á milli Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og því ljóst að atkvæðin hefðu getað haft úrslitavægi þar á milli. Úrslitin voru því dæmd ómerk og sömu listar og frambjóðendur því í framboði aftur. Kosið var því aftur 16. maí. Skipting hreppsnefndarfulltrúa breyttist ekki. G-listi Óháðra kjósenda hélt meirihluta sínum. Ári síðar fékk Kópavogur kaupstaðarréttindi og bæjarstjórnarkosningar voru haldnar í október 1955. Ólafsfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Ólafsfirði fóru fram 31. janúar. Patreksfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Patreksfirði fóru fram 31. janúar. Fjórum árum fyrr var hreppsnefndin sjálfkjörin. Raufarhöfn. Þessar hreppsnefndarkosningar á Raufarhöfn áttu að fara fram 31. janúar. Engir listar komu fram og var fyrri hreppsnefnd því endurkjörin ásamt Hólmsteini Helgasyni sem hafði leyst Eiríks Ágústsson af hólmi á kjörtímabilinu. Reykjavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 31. janúar. Seltjarnarnes. Þessar hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 31. janúar 1954. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta. Suðureyri. Þessar hreppsnefndarkosningar á Suðureyri áttu að fara fram 31. janúar. Aðeins kom fram einn listi og var hann því sjálfkjörinn. Michel Houellebecq. Michel Houellebecq () (fæddur 26. febrúar 1958 á Réunion) er franskur rithöfundur. Houllebecq sem er landbúnaðarverkfræðingur er einn vinsælasti og umdeildasti rithöfundur Frakka um heim allan nú um stundir. Þeir sem hallmæla honum þykja bækur hans klámfengnar og fullar af mannfyrirlitningu, en aðdáendur hans telja hann hafa einstaklega skarpa sýn á skuggahliðar og markaðshyggju íbúa Vesturlanda. Houllebecq var dreginn fyrir rétt í Frakklandi fyrir ummæli sín um íslam sem hann kallaði „heimskulegustu trúarbrögðin“. Málaferlin vöktu mikla athygli en Houllebecq var á endanum sýknaður. Tilvísanir. Houellebecq, Michel Utanríkisleyniþjónusta Rússneska Sambandsríkisins. SVR er rússnesk stofnun sem ber ábyrgð á njósnastarfssemi utan Rússneska Sambandsríkisins. Utanríkisleyniþjónusta Rússneska Sambandsríkisins (rússneska: "Служба Внешней Разведки Sluzhba Vneshney Razvedki" eða "SVR") er rússnesk stofnun sem ber ábyrgð á leyniþjónustustarfssemi utan Rússlands. SVR tók við af svokallaða „Fyrsta yfirsviði“ leyniþjónustu KGB (skammstafað FCD) eftir fall Sovétríkjanna í desember 1991. Höfuðstöðvar SVR eru í Yasenevo Moskvuborg. Starfssemi. Ólíkt Alríkislögreglu Rússneska Sambandsríkisins (FSB) sem starfar að mestu innan Rússneska Sambandsríkisins er SVR ábyrg fyrir njósnastarfssemi utan landamæranna. SVR vinnur í nánu samstarfi við leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) sem talið er að hafi allt að sex sinnum fleiri njósnarar í erlendum ríkjum en SVR árið 1997. SVR er þó talið hafa mun meiri áhrif á bak við tjöldin en GRU, einkum við mótun rússneskrar utanríkisstefnu. SVR hefur heimild til samninga við samvinnu gegn hryðjuverkum og samskipta og upplýsingamiðlunar við erlenda njósnastofnanir. SVR aflar og miðla upplýsingum til forseta Rússneska Sambandsríkisins (nú Dímítrí Medvedev). Forstðumaður SVR er skipaður af forsetanum og heyrir beint undir hann. Hann situr vikulega mánudagsfundi með forsetanum og oftar ef þurfa þykir. Hann á einnig sæti í Þjóðaröryggisráði Rússneska Sambandsríkisins. Deildarskipting. SVR er skipt upp í margvíslegar njósna- og greiningardeildir, sem spanna allt frá efnahagsnjósnum, undir- og áróðurssstarfsemi, til skemmdaverkastarfssemi á erlendri grund. Helstu deildir SVR eru: Stjórnmálanjósnir (svokölluð PS Deild) er deild sem skipt er upp eftir löndum, Deild ólöglegra njósna (Deild S) ber ábyrgð á því að koma fyrir „ólöglegum tenglum“ erlendis, undirbúa hryðjuverk, skemmdarverk og samsæri á erlendri grund, jafnframt því að ráða erlenda ríkisborgara til njósna í sína þágu; Deild vísinda- og tækninjósna (Deild X) og Gagnnjósnadeild á erlendri grund (Deild KR). Innan SVR starfar einnig sérsveit sem kennd er við Vymple en það er úrvalsdeild innan hinnar frægu Spetsnaz sérsveita Rússa. Reykjanesviti. Reykjanesviti er elsti viti á Íslandi. Fyrsti Reykjanesvitinn var reistur árið 1878 og kveikt á honum 1. desember sama ár. Átta árum síðar reið jarðskjálfti yfir Reykjanesið og fyrsti vitinn laskaðist og hrundi úr honum. Sá viti sem nú stendur var reistur árið 1907, en kveikt á honum 20. mars árið 1908. Vitinn skemmdist töluvert í jarðskjálftanum árið 1926. Vitinn er 31 metra hár (22 metrar upp á pall), og stendur á útsuðurstá Reykjanestangans á Bæjarfelli, nokkkuð upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð. Óskar Aðalsteinn Guðjónsson. Óskar Aðalsteinn Guðjónsson (1. maí 1919 – 1. júlí 1994) var íslenskur rithöfundur og vitavörður. Óskar er þekktastur fyrir öreigabókmenntir sínar í upphafi ferils síns, eins og t.d. skáldsöguna "Grjót og gróður". Óskar fæddist á Ísafirði. Foreldrar hans voru þau Guðjón Sigurðsson og Guðmundína Salóme Jónsdóttir. Eftir eins vetrar gagnfræðanám á Ísafirði stundaði Óskar Aðalsteinn íslenskunám hjá Haraldi Leóssyni, kennara og bókaverði á ísafirði. Hann var aðstoðarbókavörður við Bókasafn ísafjarðar á árunum 1941-1946. Árið 1947 réðst hann sem vitavörður í Hornbjargsvita þar sem hann vann til 1949. Hann stundaði ritstörf og blaðamennsku á Ísafirði árin 1949-53 en þá fór hann til starfa sem vitavörður á Galtarvita. Gegndi hann starfi þar fram til ársins 1977 þegar hann gerðist vitavörður Reykjanesvita. Þar starfaði hann til ársins 1992. Eftir Óskar Aðalstein liggja margar skáldsögur, barna- og unglingabækur, þáttasafn og fleiri ritverk. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1958. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1958 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1958. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 25. janúar 1958. Í framboði voru annars vegar sameiginlegur listi Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og kommúnista sem nefndi sig Frjálslynda kjósendur og hins vegar listi Sjálfstæðisflokksins. Sameiginlegi listinn fór með sigur af hólmi og hélt meirihluta sínum. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 26. janúar. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 26. janúar. Kosning var óhlutbundin. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 26. janúar.Að þeim loknum mynduðu Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag meirihluta í bæjarstjórn. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 25. janúar 1958. Óháðir kjósendur þurftu að skipta um listabókstaf þar sem G hafði verið úthlutað í Alþingiskosningunum 1956. H-listi Óháðra kjósenda hélt sínum meirihluta. Hulda Jakobsdóttir gegndi áfram embætti bæjarstjóra. Patreksfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Patreksfirði fóru fram 26. janúar. Reykjavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 25. janúar. Seltjarnarnes. Hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi hefðu átt að fara fram 25. janúar 1958 en aðeins einn listi kom fram, skipaður frambjóðendum úr flestum flokkum, og var því sjálfkjörið. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1962. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1962 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1962. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 27. maí 1962. Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta og kusu bæjarverkfræðinginn Björgvin Sæmundsson sem bæjarstjóra. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 27. maí. Magnús E. Guðjónsson var kosinn bæjarstjóri með samhljóða atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Dalvík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Dalvík fóru fram 27. maí. Eskifjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Eskifirði fóru fram 27. maí. Grindavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Grindavík fóru fram 27. maí. Hafnarfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði fóru fram 27. maí. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundinn en 86 kusu af 145 eða 59,3%. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 27. maí. Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta í bæjarstjórn að þeim loknum. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 27. maí 1962. Sökum fólksfjölgunar í bænum var bæjarfulltrúum fjölgað um tvo. H-listi Óháðra kjósenda stofnaði til meirihlutasamstarfs með B-lista Framsóknarflokks. Hjálmar Ólafsson var kjörinn í embætti bæjarstjóra. Svandís Skúladóttir varð fyrsta konan sem tók sæti í bæjarstjórn sem aðalfulltrúi. Neskaupstaður. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Neskaupstað fóru fram 27. maí. Patreksfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Patreksfirði fóru fram 27. maí. Reykjavík. Þessar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 26. maí. Seltjarnarnes. Þessar hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 27. maí 1962. Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta. Stykkishólmur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Stykkishólmi fóru fram 27. maí. Stöðvarfjörður. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stöðvarfirði fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin. Vestmannaeyjar. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum fóru fram 27. maí. Hamm. Hamm er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 182 þúsund íbúa. Lega. Hamm liggur fyrir norðaustan Ruhr-héraðið, norðarlega í sambandslandinu. Næstu borgir eru Dortmund til suðvesturs (25 km), Münster til norðurs (40 km) og Bielefeld til norðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Hamm er nær alveg gult en fyrir miðju þrjár litlar rendur með hvítum og rauður skákreitum. Merki þetta var þegar til á 13. öld, en var tekið upp í núverandi formi 1934. Orðsifjar. Hamm hefur ætíð heitið svona. Orðið merkir beygju í árfarvegi, en borgin stendur við samflæði Lippe og Ahse. Á latnesku heitir borgin Hammona. Klórflúorkolefni. Klórflúorkolefni er stór hópur tilbúinna efna (skammstafað: "CFC", úr ensku: "chlorofluorocarbons"). Þau eru hluti af halógenalkönum, sem tengdir eru klóri eða brómi. Dæmi um klórflúorkolefni er freon, sem notað var í miklu magni áður fyrr í kælitæki eins og til dæmis ísskápa. Talið er að freon sé helsta ástæðan fyrir þynningu ósonlagsins. Þessi efni hafa einnig verið notuð sem drifefni í innúðalyf fyrir astma og í ræstivörur. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1966. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1966 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1966. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram fóru fram 22. maí. Í framboði voru Alþýðuflokkur, Sjálfstæðisflokkur og listi sem nefndi sig Frjálslynda kjósendur en hann skipuðu Framsóknarmenn, Alþýðubandalagsmenn og fleiri. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 22. maí. Jakob Frímannsson (B) var kjörinn forseti bæjarstjórnar með stuðningi Framsóknar og Alþýðflokksins. Magnús E. Guðjónsson var kosinn til að gegna áfram stöðu bæjarstjóra með 9 atkvæðum en fulltrúar Alþýðuflokks sátu hjá. Eskifjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Eskifirði fóru fram 22. maí. Hofsós. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hofsósi fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 22. maí. Alþýðubandalagið bauð fram klofið, en Ásgeir Kristjánsson bæjarfulltrúi þess var í efsta sæti nýs framboðs óháðra borgara. Hvammstangi. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hvammstanga fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin. Ísafjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Ísafirði fóru fram 22. maí. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 22. maí 1966. H-listi og B-listi héldu áfram samstarfi. Hjálmar Ólafsson var endurkjörinn bæjarstjóri. Reykjavík. Þessar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 21. maí. Seyðisfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seyðisfirði fóru fram 22. maí. Seltjarnarnes. Þessar hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 22. maí 1966. Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta gegn sameinuðu framboði Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Stöðvarfjörður. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stöðvarfirði fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1970. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1970 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1970. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 31. maí. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 31. maí. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta og Jón G. Sólnes var kjörinn forseti bæjarstjórnar. Bæjarstjóri var áfram Bjarni Einarsson með einróma samþykki allra bæjarfulltrúa. Djúpivogur. Þessar hreppsnefndarkosningar á Djúpavogi fóru fram 31. maí. Kosning var óhlutbundin. Einar Gíslason hlaut fimmta sætið á hlutkesti. Hafnir. Þessar hreppsnefndarkosningar í Höfnum fóru fram 31. maí. Kosning var óhlutbundin. Hofsós. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hofsósi fóru fram 31. maí. Kosning var óhlutbundin. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 31. maí. Alþýðubandalagið bauð ekki fram undir eigin nafni, en kom að I-lista Sameinaðra kjósenda. Hvammstangi. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hvammstanga fóru fram 31. maí. Kosning var óhlutbundin. Hveragerði. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hveragerði fóru fram 31. maí. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 31. maí 1970. D-listi og H-listi stofnuðu til samstarfs. Auglýst var eftir bæjarstjóra og var Björgvin Sæmundsson ráðinn. Um áramótin 1972-73 lýsti Eggert Steinsen því yfir að hann styddi ekki lengur meirihlutann. Fulltrúi F-listans, Hulda Jakobsdóttir fyrrum bæjarstjóri, gekk þá inn í meirihlutasamstarfið. Reykjavík. Þessar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 31. maí. Seltjarnarnes. Þessar hreppsnefndarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 31. maí 1970. Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta gegn sameiginlegu framboði hinna flokkanna. Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi 29. mars 1974, því voru næstu kosningar bæjarstjórnarkosningar. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1974. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1974 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1974. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 26. maí. Í framboði voru Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og I-listi, en að honum stóðu Alþýðubandalagið, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna og Frjálslyndir kjósendur. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 26. maí. Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og sameiginlegt framboð Alþýðuflokks og Framtaka frjálslyndra og vinstrimanna mynduðu nýjan meirihluta. Valur Arnþórsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar Bjarni Einarsson var endurkjörinn í embætti bæjarstjóra með samhljóða atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 26. maí. Kosning var óhlutbundin og kjörsókn 67,5%. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 26. maí. Hvammstangi. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hvammstanga fóru fram 26. maí. Kosning var óhlutbundin. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 26. maí 1974. Bæjarfulltrúum var aftur fjölgað um tvo vegna fólksfjölgunar. Framsóknarflokkurinn ásamt Frjálslyndum og vinstri mönnum buðu fram sameiginlegan I-lista. H-listinn bauð ekki fram en Alþýðubandalagið bauð fram í fyrsta sinn. Meirihluti var myndaður af D-lista og tveimur fulltrúum I-lista, framsóknarmönnunum. Sigurjón Hilaríusson af I-lista studdi ekki meirihlutann. Björgvin Sæmundsson var endurkjörinn bæjarstjóri. Reykjavík. Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 26. maí. Seltjarnarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 26. maí 1974. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1978. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1978 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1978. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 28. maí. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 28. maí. Meirihlutinn hélt velli og bætti raunar við sig á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Samstarfið hélt áfram en nú með þátttöku fjögurra framboða í stað þriggja þar sem Alþýðuflokkurinn og Samtök frjálslyndra og vinstrimanna buðu fram í sitthvoru lagi í þetta skipti. Samkomulag varð um að forsæti bæjarstjórnar kæmi úr röðum Framsóknarflokksins árin '78 og '81 en Alþýðflokksins á árunum '79 og '80. Nýr bæjarstjóri, Helgi M. Bergs, var kjörinn með samhljóða atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Borgarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Borgarnesi fóru fram 28. maí. Dalvík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Dalvík fóru fram 28. maí. Eskifjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Eskifirði fóru fram 28. maí. Eyrarbakki. Þessar hreppsnefndarkosningar á Eyrarbakka áttu að fara fram 28. maí. Einn listi kom fram og var sjálfkjörinn. Garðabær. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Garðabæ fóru fram 28. maí. Grindavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Grindavík fóru fram 28. maí. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 28. maí. Kosning var óhlutbundin en 102 kusu af 161 eða 63,4%. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 28. maí. Hvammstangi. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hvammstanga fóru fram 28. maí. Kosning var óhlutbundinn en 207 kusu af 306 eða 68,3%. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 28. maí 1978. Klofningur varð í röðum sjálfstæðismanna, boðinn var fram listinn "Almennt borgaraframboð" með listabókstafinn S og óháðir borgarar buðu fram "Borgaralistann" með listabókstafinn K. A-listi, B-listi og G-listi mynduðu meirihluta. Björgvin Sæmundsson var endurráðinn bæjarstjóri, við lát hans 1980 var bæjarritarinn Bjarni Þór Jónsson ráðinn bæjarstjóri. Neskaupstaður. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Neskaupstað fóru fram 28. maí. Ólafsfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Ólafsfirði fóru fram 28. maí. Patreksfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Patreksfirði fóru fram 28. maí. Reykjavík. Þessar Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 27. maí. Stjórn Sjálfstæðisflokksins féll í kosningunum og við tók þriggja flokka stjórn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Seltjarnarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 21. maí 1978. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum. Guðrún Katrín Þorbergsdóttir (síðar forsetafrú) varð fyrst kvenna til að ná kjöri í bæjarstjórn Seltjarnarness. Seyðisfjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seyðisfirði fóru fram 28. maí. Siglufjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Siglufirði fóru fram 28. maí. Stöðvarfjörður. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stöðvarfirði fóru fram 28. maí. Kosning var óhlutbundin. Suðureyri. Þessar hreppsnefndarkosningar á Suðureyri fóru fram 28. maí. Súðavík. Þessar hreppsnefndarkosningar á Súðavík fóru fram 28. maí. Kosning var óhlutbundinn en 115 kusu af 150 eða 76,6%. Vestmannaeyjar. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum fóru fram 28. maí. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1982. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1982 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1982. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 22. maí. Akureyri. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akureyri fóru fram 22. maí. Sérstök kvennaframboð komu fram í Reykjavík og á Akureyri og fengu tvo fulltrúa á hvorum stað. Hlutfallslega naut framboðið á Akureyri þó meira fylgis og myndaði meirihluta með Alþýðubandalagi og Framsókn. Bæjarstjóri var áfram Helgi M. Bergs. Djúpivogur. Þessar hreppsnefndarkosningar á Djúpavogi fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundinn en 156 kusu af 244 eða 64%. Garðabær. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Garðabæ fóru fram 22. maí. Hofsós. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hofsósi fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundinn en 92 kusu af 183 eða 50,3%. Hólmavík. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hólmavík fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundinn en 156 kusu af 235 eða 63%. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundinn en 94 kusu af 159 eða 66%. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 22. maí. Ísafjörður. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Ísafirði fóru fram 22. maí. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 22. maí. A-listi, B-listi og G-listi héldu áfram samstarfi um meirihluta. Kristján H. Guðmundsson var ráðinn bæjarstjóri. Reykjavík. Þessar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 22. maí. Borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 í 21 fyrir þessar kosningar, en strax við næstu kosningar var þeim fækkað aftur niður í fyrri tölu. Seltjarnarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 22. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum. Súðavík. Þessar hreppsnefndarkosningar á Súðavík fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin en 118 kusu af 167 eða 63%. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1986. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1986 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1986. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 31. maí. Samtals voru greidd 7469 atkvæði. Auðir og ógildir seðlar voru 142. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði fóru fram 31. maí. Að þessum kosningum loknum hófu Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið meirihlutasamstarf. Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar þann 16. júní var Guðmundur Árni Stefánsson ráðinn bæjarstjóri. Jóna Ósk Guðjónsdóttir var kosin forseti bæjarstjórnar og varð hún þar með fyrsta konan til að gegna því embætti. Hafnir. Þessar hreppsnefndarkosningar í Höfnum áttu að fara fram 31. maí. Aðeins einn listi kom fram, H-listi óháðra sem valinn var í prófkjöri og var hann sjálfkjörinn. Hofsós. Þessar hreppsnefndarkosningar á Hofsósi fóru fram 31. maí. Kosningin var óhlutbundin. 110 greiddu atkvæði af 193 eða 57%. Auðir og ógildir voru 17. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 31. maí. Kosningin var óhlutbundin. 138 greiddu atkvæði af 190 eða 72,6%. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 31. maí. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 31. maí. A-listi og G-listi héldu áfram samstarfi en nú án B-lista. Kristján H. Guðmundsson var endurkjörinn bæjarstjóri. Hulda Finnbogadóttir, dóttir Huldu Jakobsdóttur og Finnboga Rúts Valdimarssonar, náði kjöri sem bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins. Reykjavík. Þessar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 31. maí. Borgarfulltrúum var fækkað á ný úr 21 í 15. Seltjarnarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 31. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum en Alþýðubandalagið náði að saxa á hann. Stöðvarfjörður. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stöðvarfirði fóru fram 31. maí. Kosningin var óhlutbundin. 176 greiddu atkvæði af 234 eða 75,2%. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1990. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1990 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1990. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 26. maí. Greidd atkvæði voru 8530. Auðir og ógildir seðlar voru 107. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði fóru fram 26. maí. Alþýðuflokkurinn fékk hreinan meirihluta í þessum kosningum, í fyrsta sinn síðan árið 1950. Að kosningum loknum áttu Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið í óformlegum viðræðum um áframhaldandi meirihlutasamstarf, en enginn samstarfsflötur fannst í þessum viðræðum. Alþýðuflokkurinn sat því einn í meirihluta á þessu kjörtímabili. Guðmundur Árni Stefánsson var endurráðinn bæjarstjóri og Jóna Ósk Guðjónsdóttir var kosin forseti bæjarstjórnar. Guðmundur Árni var skipaður heilbrigðis- og tryggingaráðherra 14. júní 1993. Hann lét því af starfi bæjarstjóra en sat áfram sem bæjarfulltrúi til loka kjörtímabilsins. Við embætti bæjarstjóra tók Ingvar Viktorsson og gegndi hann starfinu út kjörtímabilið. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 26. maí. Kosningin var óhlutbundin. 136 greiddu atkvæði af 189 eða 72%. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 26. maí. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 26. maí. B-listi og D-listi mynduðu meirihluta. Sigurður Geirdal bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins var kjörinn bæjarstjóri, í fyrsta sinn síðan 1955 að bæjarfulltrúi varð jafnframt bæjarstjóri. Seltjarnarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 26. maí. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum gegn "Neslista Bæjarmálafélags Seltjarnarness". Stöðvarfjörður. Þessar hreppsnefndarkosningar á Stöðvarfirði fóru fram 26. maí. Kosningin var óhlutbundin. 177 greiddu atkvæði af 233 eða 76%. Vikmörk. Vikmörk er hugtak sem notað er í peningastefnu seðlabanka þar sem miðað er við að sveiflur á gengi fari ekki út fyrir ákveðin mörk. Á Íslandi var vikmörk einn af þáttum í peningastefnu Seðlabanka Íslands. Svanfríður (hljómsveit). Svanfríður var íslensk hljómsveit sem starfaði frá árunum 1972- 1973. Sveitin gaf út plötuna; What's hidden there árið 1972. Meðlimir hljómsveitarinnar voru Pétur W. Kristjánsson (söngur), Sigurður Karlsson (trommur), Birgir Hrafnsson (gítar) og Gunnar Hermannsson (bassi). Hannes Sigfússon. Hannes Sigfússon (2. mars 1922 - 13. ágúst 1997) var íslenskt ljóðskáld og þýðandi. Hann er einna þekktastur fyrir bækur sínar "Dymbilvaka" og "Imbrudagar". Hannes vann mikið að þýðingum síðustu ár sín. Hann var afkastamikil þýðandi, og þýddi höfunda eins og Jorge Amado, Miguel Angel Asturias, Knut Hamsun og Bruno Schulz. Einnig skrifaði hann tvær skáldsögur sem nefndust: "Strandið" og "Ljósin blakta." Hannes var fæddur í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðanámi í Reykjavík og vann síðan við ýmis störf. Hann fluttist til Noregs í byrjun sjötta áratugarins og kynntist norskri konu, Sunnevu, sem hann bjó síðar með. Í Noregi starfaði hann m.a. sem bókavörður í Stafangri og Fredriksdal, en eftir að Sunneva lést árið 1988 fluttist hann aftur til Íslands og fékkst við skriftir og þýðingar. Fljótlega eftir heimkomuna tók Hannes upp samband við vinkonu sína, "Guðnýju Gestsdóttur", sem var honum mikil stoð og stytta. Eftir Hannes liggja átta ljóðabækur og er "Dymbilvaka", sem út kom árið 1949 eflaust þeirra þekktust en síðasta ljóðabókin, "Kyrjálaeiði," sem kom út árið 1995, var lögð fram af Íslands hálfu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1997. Skáldsögur Hannesar eru "Strandið", sem út kom "1955", og "Ljósin blakta", 1993. Hannes ritaði endurminningar sínar, sem út voru gefnar í tveimur bindum: "Flökkulíf," sem út kom árið 1981, og "Framhaldslíf förumanns," 1985. Eftir Hannes liggur einnig mikið af þýðingum, kvæði, skáldsögur og smásögur, meðal annars "Norræn ljóð" 1972, "Í töfrabirtu" eftir William Heinesen, 1959, "Blóðbrullaup" eftir Frederic García Lorca, 1959, "Tvennir tímar" eftir Knut Hamsun, 1958. Leverkusen. Leverkusen er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 161 þúsund íbúa. Borgin er þekkt fyrir iðnaðarrisann Bayer. Lega. Leverkusen er nefnd eftir athafnamanninum og verksmiðjueigendanum Carl Leverkus Leverkusen liggur við Rínarfljót, fyrir sunnan Ruhr-héraðið. Næstu borgir eru Köln til suðurs (10 km) og Düsseldorf til norðvesturs (20 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Leverkusen sýnir rautt ljón með bláa kórónu á dökkgráum grunni. Lárétt þvert yfir skjöldinn er svört takkalína. Ljónið er tákn hertogadæmisins Berg (Bergisch Land) sem Leverkusen lá í áður fyrr. Takkalínan er tekin úr merki Opladen en það var tákn tveggja bræðra sem réðu yfir þeim bæ á 13. öld. Opladen og Leverkusen sameinuðust 1930. Skjaldarmerki þetta var tekið upp og samþykkt 1976. Orðsifjar. Borgin er nefnd eftir athafnamanninum Carl Leverkus, sem setti á fót verksmiðjur síðla á 19. öld. Söguágrip. Hið nýtískulega ráðhús borgarinnar Leverkusen Íþróttir. BayArena er stærsti íþróttaleikvangur Leverkusen Aðalíþróttafélag borgarinnar er Bayer Leverkusen sem er starfrækt í mörgum íþróttagreinum. Knattspyrnudeildin leikur að öllu jöfnu í 1. deild og er besti árangur hennar 2. sætið (fjórum sinnum alls). Félagið varð þó bikarmeistari 1993 og Evrópumeistari bikarhafa 1988 (sigraði þá Espanyol Barcelona frá Spáni) og komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2002 (tapaði þá fyrir Real Madrid). Byggingar og kennileiti. Bayer-krossinn er helsta kennileiti Leverkusen Bayer-krossinn er helsta kennileiti Leverkusen. Það var upphaflega reist 1933 og hékk þá milli tveggja stórra iðnaðarreykháfa. Í seinna stríðinu varð að fjarlægja merkið, en núverandi merki var sett upp 1958. Það hangir á tveimur 118 metra háum möstrum, en sjálft er merkið 51 metri í þvermál. Á kvöldin eru ljósin á merkinu kveikt og sést það þá víða að. 2007 ráðgerði fyrirtækið Bayer að taka merkið niður, en sökum mikilla mótmæla frá íbúum var hætt við þann ráðahag. Hussainia. Hussainia (arabíska: Hussaini, حسينية) er forsalur fyrir shía-vígslu. Shía-múslimar hittast í sorghúsinu og gráta Imam Hussein sem Yazid í Karbala myrti.. Hussainia er mismunandi frá mosku í því það er aðallega fyrir samkomum fyrir Muharram. Neuss. Neuss er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu. Hún er með 151 þúsund íbúa. Lega. Quirínusarkirkjan er helsta einkennisbygging Neuss Neuss liggur við vesturbakka Rínarfljóts, gegnt Düsseldorf og nokkuð fyrir suðvestan Ruhr-héraðið. Næstu borgir (fyrir utan nágrannaborgina Düsseldorf) eru Duisburg til norðurs (25 km), Mönchengladbach til vesturs (20 km) og Leverkusen til suðausturs (25 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Neuss er tvískiptur skjöldur. Til vinstri er gullinn tvíhöfða örn á svörtum grunni. Hann er merki þýska ríkisins. Til hægri er hvítur kross á rauðum grunni (eins og danski fáninn). Hann er sennilega tákn krossferða og var þegar til í borginni 1217. Tvö gullin ljón eru hvort til sinnar handar og efst er gullkóróna. 1550 sameinuðust þessi tvö merki í einn skjöld. Ljónin bættust svo við 1638. Orðsifjar. Neuss hét Castra Novesia á tímum Rómverja, Niusse á 11. öld, Nuissa á 12. öld og síðan Neuss. Merking er óljós. 1968 var ritháttur borgarinnar breyttur úr "Neuß" í "Neuss". Saga Neuss. Neuss er með elstu borgum Þýskalands. Rómverjar reistu hervirki á staðnum 16 f.Kr. og kölluðu Castra Novesia. Hér var þó aldrei um neina borg í þeim skilningi að ræða, heldur voru þar einungis hermenn. Á 1. öld e.Kr. reis mikið steinhlið við inngang virkisins og steinmúrar leystu virki úr trjábolum af hólmi. Rómverjar yfirgáfu svæðið ekki fyrr en í lok 4. aldar. Á 9. öld myndaðist svo þýskt þorp á staðnum sem óx hratt. 1190 fékk Neuss borgarréttindi og tíu árum síðar var hafist handa við að víggirða borgina með gríðarmiklum varnarmúrum. Umsátrið mikla. Umsátrið um Neuss. Mynd eftir Conradius Pfettisheim. 1474 voru borgarbúar óánægðir með biskupinn, sem gengið hafði með hörku gegn hagsmunum borgarinnar. Biskupinn hét Ruprecht og var hann settur af. En hann reiddist og fékk hertogann Karl af Búrgúnd í lið með sér. Karl sá sér leik á borði til að útvíkka áhrifasvæði sitt og gekk með 20 þúsund manna lið til Neuss. Í borginni sjálfri voru aðeins 1.500 vopnfærir leiguliðar. Lið Karls frá Búrgúnd hóf umsátur um borgina 29. júlí 1474. Fyrstu árásum hans náðu borgarbúar að verjast. En í september hófst stórsókn Karls með því að skjóta á borgina og reyna jafnframt að komst inn um borgarhliðin. Þessari árás náðu borgarbúar einnig að verjast, en naumlega þó. Þar kom til að bæði konur og börn hjálpuðu til eins og kostur var. Fleiri slíkar árásir voru gerðar og náðu borgarbúar ætíð að verjast. Inn á milli gerðu leiguliðarnir árángursíkar gagnárásir á veika hlekki í umsátrinu og náðu þannig að koma vistum inn í borgina. Á hinn bóginn þraut skotpúðrið og voru þá tveir menn sendir til Kölnar. Þeir sneru til baka með 500 manns hlaðna púðri. Með vélabrögðum komust þeir inn í borgina. Um veturinn fóru vistir í borginn að þrjóta. Upphaflega áttu borgarbúar hundruð kúa en um veturinn var búið að slátra þeim öllum, nema þremur. Þá var byrjað að slátra hestum, en hrossakjöts var yfirhöfuð ekki neytt á þessum tímum. Karli tókst smám saman að brjóta varnarmúra borgarinnar um veturinn. En á meðan hafði Friðrik III keisari safnað liði og kom til Kölnar í mars 1475. Það var þó ekki fyrr en í 23. maí sem fyrsti hluti keisarahersins kom til Neuss og fór að berjast við Karl frá Búrgúnd. Þar hafði keisari betur og dró Karl sig til baka. Borgin var björguð. Fyrir vasklega framgöngu sína veitti Friðrik keisari borginni nýtt skjaldarmerki, rétt til að slá eigin mynt og leyfi til að ganga í Hansasambandið. Nýrri tímar. 1794 hertóku Frakkar borgina og héldu henni til 1814. Á þeim tíma var skipaskurður grafinn sem tengja átti Rín við Maas en ekki tókst að ljúka verkinu. Eftir fall Napoleons varð borgin prússnesk. Neuss óx mikið í iðnbyltingunni á 19. öld, ekki síst í kringum Rínarhöfnina og með tilkomu járnbrautarinnar. 1944 varð borgin fyrir nokkrum loftárásum Breta en eftir stríð var hún síðan á breska hernámssvæðinu. 1984 hélt borgin upp á 2000 ára afmæli sitt með hátíðarhöldum. Þversögn Condorcets. Þversögn Condorcets er staða sem getur komið upp við kosningar og er kennd við Condorcet markgreifa sem uppgötvaði hana á seinni hluta 18. aldar og gaf út í riti árið 1785. Forsenda þversagnarinnar er að kosið sé um þrjá eða fleiri valmöguleika. Þversögnin felst í því að niðurstaða kosninga getur verið þversagnakennd stangist óskir kjósenda þannig á. Þversögn þessi hefur leitt til mikilla vangavelta fræðimanna um þýðingu almannavilja. Fræðimaðurinn Kenneth Arrow útsetti fræðilegri þversögn, með öðrum forsendum, sem er þekkt sem Þversögn Arrows. Heimspekingurinn Atli Harðarson tekur dæmi í grein sinni: "Hugsum okkur að þrír menn, Gísli, Eiríkur og Helgi, búi í sama húsi, taki sig saman um að mála það að utan og þurfi að ákveða hvernig það skuli vera á litinn. Gerum einnig ráð fyrir að forgangsröð einstaklinganna sé sem hér segir og þeir hafi allir jafneinbeittan vilja til að halda fram sinni forgangsröð:" Gísli: gulur - rauður - grænn Eiríkur: rauður - grænn - gulur Helgi: grænn - gulur - rauður "Af þessu virðist ljóst að hópurinn vill gult fremur en rautt þar sem tveir af þrem (Gísli og Helgi) hafa gula litin framan við þann rauða í forgangsröð sinni. Einnig vill hópurinn rautt fremur en grænt þar sem tveir af þrem (Gísli og Eiríkur) hafa rautt framan við grænt í forgangsröð sinni. Sá sem vill gult fremur en rautt og rautt fremur en grænt hlýtur að vilja gult fremur en grænt. En þessi þriggja manna hópur vill samt grænt fremur en gult því tveir af þrem (Eiríkur og Helgi) hafa græna litinn framan við þann gula í forgangsröð sinni. Þessi rökfærsla sýnir að af forsendunum hér að neðan sem merktar eru F1 og F2 leiðir mótsögn." "F1: Af hverjum tveim kostum vill hópur fremur þann sem meirihlutinn kýs." "F2: Sá sem vill x fremur en y og y fremur en z vill x fremur en z." Sameindarmassi. Sameindarmassi er massi allra atóma í tiltekinni sameind. Fæst með því að leggja saman atómmassa allra frumeinda, sem mynda sameindina, í sömu hlutföllu og efnajafna sameindarinnar segir til um. Gildi lífeyrissjóður. Gildi lífeyrissjóður er lífeyrissjóður sem var stofnaður 1. júní árið 2005 þegar Lífeyrissjóðurinn Framsýn, sem var þriðji stærsti lífeyrissjóður Íslands, og Lífeyrissjóður sjómanna, sá fjórði stærsti, ákváðu að sameinast og taka upp nafnið Gildi. Með sameiningunni átti Gildi yfir 155 milljarða króna og sjóðfélagar urðu 22 þúsund. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómana, varð framkvæmdastjóri Gildis. Sameindamassi. Sameindamassi er massi allra atóma í tiltekinni sameind. Fæst með því að leggja saman atómmassa allra frumeinda, sem mynda sameindina, í sömu hlutföllu og efnajafna sameindarinnar segir til um. The Best Way to Rob a Bank is to Own One. The Best Way to Rob a Bank is to Own One: How Corporate Executives and Politicians Looted the S&L Industry er bók eftir bandaríska lögfræðinginn William K. Black. Bókin fjallar um "Savings & Loans" kreppuna í Bandaríkjunum þar sem fjöldi bandarískra sparisjóða urðu gjaldþrota og hvernig stjórnendur þeirra notfærðu sér stöðu sína til þess að fremja fjársvik. Veiðilína. Veiðilína (pikköpplína og bólbeita) er setning til að „brjóta ísinn“ í samræðum við annan einstakling sem viðkomandi hefur kynferðislegan áhuga á og/eða langar til að kynnast betur. Það helsta sem einkennir veiðilínur er hnyttni og fyndin hugrenningartengsl, sem og dulin klúryrði og ágengni í framsetningu (og eru jafnvel stundum settar fram með öfugsnúnum hætti). Þær geta líka verið mjög klámfengnar og ruddalegur. Veiðilínur verða mjög fljótt að lágkúrulegum klisjum, jafnvel hættulega óviðurkvæmilegar, ofurvæmnar og þá um leið illa þokkaðar. Þær hafa þá öfug áhrif við það sem ætlast var til af þeim í fyrstu. Sigurður Halldórsson. Sigurður Halldórsson (7. maí 1910 – 24. september 1982) var verslunarstjóri hjá ÁTVR, knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Sigurður fæddist í Reykjavík og ólst upp í stórum systkinahópi. Meðal bræðra hans var Guðmundur Halldórsson, sem einnig var formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Þeir bræður störfuðu báðir lengi sem verslunarstjórar hjá ÁTVR, en áður hafði Sigurður rekið eigin verslun á Öldugötu. Þriðji bróðirinn, Ólafur, var sömuleiðis formaður Fram. Árið 1928 hafði Guðmundur Halldórsson forgöngu um að rífa upp starfsemi Fram, sem um þær mundir var að lognast út af. Hann safnaði saman stjórn sem tók félagið yfir og reif það upp. Átti Sigurður sæti í stjórninni, þá nýorðinn átján ára gamall. Sigurður var fastamaður í meistaraflokki Fram í knattspyrnu í meira en áratug og varð Íslandsmeistari árið 1939. Árið eftir keppti hann undir merkjum Fram á fyrsta Íslandsmótinu í handknattleik. Sigurður sat um árabil í stjórn Fram og gegndi formennskunni árið 1953-54. Jón Þórðarson (formaður Fram). Jón Þórðarson (7. janúar 1915 – 23. maí 1973) var knattspyrnuþjálfari og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Jón fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Verzlunarskólanum og stundaði framhaldsnám í verslunarfræðum í Þýskalandi. Hann starfaði alla tíð sem verslunar- og skrifstofumaður og var t.a.m. skrifstofustjóri hjá Hitaveitunni. Þá var hann um árabil forstöðumaður líknarfélagsins Hvítabandsins. Jón lék knattspyrnu með Fram og gegndi síðar margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir félagið, var til að mynda formaður þess 1948-49 og 1964-65. Hann var formaður Knattspyrnuráðs Reykjavíkur 1945-47, en á þeim tíma stóðu Knattspyrnuráðið og Fram fyrir fyrsta knattspyrnulandsleik Íslendinga, þegar danska landsliðinu var boðið hingað sumarið 1946. Árið 1973 var Jón gerður að heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram. Medea (Corneille). Medea er harmleikur í fimm þáttum eftir Pierre Corneille frá 1635. Leikritið byggir á samnefndum harmleik eftir Seneca yngri sem byggir á goðsögunni um Medeu frá Kolkis sem var svikin af Jasoni. Medea er fyrsti harmleikur Corneilles. Í útgáfu Seneca kemur Medea fram sem hálfguðlegur hefndarandi og norn en Moliére, sem annars fylgir Seneca eftir, leggur meiri áherslu á harmræna túlkun persónunnar og túlkar barnamorðið sem hetjulega sjálfsfórn fremur en æði. Skólaölmusa. Skólaölmusa eða ölmusa var námsstyrkur sem veittur var fyrr á öldum efnilegum skólasveinum við skólana í Skálholti og á Hólum og arftaka þeirra, Hólavallarskóla, Bessastaðaskóla og Lærða skólann í Reykjavík. Lengst af var ölmusan ekki í formi peninga, heldur skyldu skólapiltar fá ókeypis fæði, húsnæði, ljós, þjónustu og að einhverju leyti fatnað. Ölmususveinar á Hólum voru 16 hverju sinni en 24 í Skálholtsskóla, eða alls 40. Tilgangur ölmusunnar var að gefa efnalitlum piltum kost á að mennta sig. Þeir sem teknir voru í skólann en fengu ekki ölmusu urðu sjálfir að greiða fyrir uppihald sitt og fátækir piltar sem misstu ölmusuna af því að þeir stóðu sig ekki nægilega vel urðu yfirleitt að hætta námi. Á 18. öld var farið að skipta hluta af ölmusunum þannig að hluti nemenda fékk fulla ölmusu en aðrir hálfa og þurftu því að greiða hluta kostnaðarins sjálfir en á móti kom að sjálfsögðu að fleiri fengu námsstyrk. Margir gátu líka náð endum saman með sumarvinnu. Konráð Gíslason, sem var kominn af fátæku bændafólki sem lítið gat styrkt hann til náms, var til dæmis á hálfri ölmusu á meðan hann var í Bessastaðaskóla en stundaði sjósókn, túnaslátt og önnur störf á Álftanesi á sumrin. Ættjarðarást. Ættjarðarást (föðurlandsást eða þjóðernisást) er hugtak sem hvorttveggja er haft um ást á föðurlandinu og vissri tegund af þjóðrækni. Sumir líta svo á að ættjarðarást eigi sér ólíkar birtingarmyndir: Að hún geti birst sem hryssingsskapur í garð annarra þjóða (útbelgd þjóðarremba), birst sem stækur yfirgangur og jafnvel leitt til skipulagðra þjóðarmorða. Aðrir telja að slíkar kenndir eigi ekkert skylt við ættjarðarást, heldur séu þar um að ræða stæka þjóðernishyggju, kynþáttahyggju og fasisma. Í hugum flestra er föðurlandsástin mjög persónuleg tilfinning og í sinni einföldustu mynd aðeins ást manns á þjóð sinni sem vill henni vel en kann um leið að meta aðrar þjóðir og þjóðflokka. Með uppgangi þjóðernisvitundar í Evrópu á 18. og 19. öld varð til rómantísk sýn á ættjarðarástina. Í tímaritinu Nýja öldin stóð til dæmis árið 1898: „Ættjarðarástin er í einu bæði meðfædd náttúruhvöt og ávöxtur uppeldisins“. Gert var ráð fyrir að hún væri mönnum eiginleg frá náttúrunnar hendi og að menn þyrftu að rækta hana með sér. En önnur sjónarmið voru til. Nokkrum árum áður stóð í tímaritinu Sunnanfara: „Má vel vera að með vaxandi samgögum og friðarsambandi milli þjóðanna hverfi föðurlandsástin, hverfi fyrir heimsástina“. Þarna blasir við bjartsýni og víðsýni, en hið síðarnefnda hefur stundum verið álitin andstæða föðurlandsástar, en ósjaldan hefur verið litið á ættjarðarástina sem hálf heimóttarlega tilfinningu, eitthvað sem væri fyrir neðan virðingu hinna lærðu og skynsömu. Slík viðhorf breytast þó mikið með tíðaranda og hvernig hver og einn ríkisborgari horfir til þjóðar sinnar. Ættjarðarást er enda mjög einkaleg upplifun á velvilja til þjóðarinnar. Sigurður lýsir hér ágætlega viðhorfi sem var algengt um aldamótin 1900, það er að segja að þjóðræktin væri hluti af þjóðernisást og þessi tilfinning væri til að reisa þjóðina við, upp úr fátækt og til menntunar og vísinda. Jón Þorkelsson Thorcillius. Jón Þorkelsson (1697 – 5. maí 1759), sem nefndi sig Thorcillius eða Thorchillius, var skólameistari í Skálholti á 18. öld, helsti menntafrömuður Íslendinga á sínum tíma og líklega fyrsti boðberi upplýsingarstefnunnar á Íslandi. Ævi. Jón var fæddur í Innri-Njarðvík í Vatnsleysustrandarhreppi, einkasonur Þorkels Jónssonar bónda og lögréttumanns þar og konu hans, Ljótunnar Sigurðardóttur. Hann nam við Skálholtsskóla og fór síðan í Kaupmannahafnarháskóla. Jón varð skólameistari í Skálholti 1728. Hann þótti strangur kennari en var vel að sér og mjög áhugasamur um bætta menntun. Hann var líka óánægður með aðbúnað og mataræði skólasveina og átti í útistöðum við Jón Árnason biskup, bæði um það og um kennslutilhögun. Jón Thorcillius lagði meðal annars til að settur yrði á stofn sérstakur prestaskóli og þegar séra Jón Halldórsson í Hítardal lést haustið 1736 vildi Jón fá Hítardal og koma þar á prestaskóla. Ekki fékkst það samþykkt og sagði Jón þá af sér skólameistaraembætti og hélt til Kaupmannahafnar til að reyna að fá stjórnvöld til að gera umbætur í menntamálum Íslendinga. Hann taldi að kirkjustjórn á Íslandi væri betur borgið ef biskuparnir væru danskir eða norskir. Honum varð á endanum ágengt með erindi sitt og varð úr að Jón og danski presturinn Ludvig Harboe voru sendir til Íslands til að kanna fræðslumál og menntunarástand þjóðarinnar og gera tillögur um úrbætur. Jón og Harboe ferðuðust um allt landið og könnuðu meðal annars lestrarkunnáttu og menntun barna í hverri sveit, athuguðu kunnáttu presta, bókaeign og margt fleira. Fyrst í stað virðist samstarf þeirra hafa verið stirt því þeir voru ólíkir menn, Jón var strangur og harður en Harboe þótti mildur og alúðlegur og aflaði sér fljótt vinsælda, en samvinna þeirra varð þó mjög góð er frá leið. Þeir luku störfum sínum sumarið 1745 og héldu þá til Danmerkur og settu fram margar tillögur um úrbætur. Sumar þeirra komust fljótt í framkvæmd, aðrar ekki. Jón settist að í Kaupmannahöfn og bjó þar til æviloka 1759. Hann var vel stæður en var ókvæntur og barnlaus og átti enga nána ættingja á lífi. Skömmu fyrir andlát sitt gerði hann erfðaskrá þar sem kveðið var á um að allar eigur hans skyldu renna til stofnunar skóla þar sem fátækustu börn í Kjalarnesþingi hlytu kristilegt uppeldi með húsnæði, klæðum og fæði uns þau gætu unnið fyrir sér sjálf. Ekki varð af því strax en stofnaður var sjóður, Thorcilli-sjóðurinn (eða "Thorkelli-sjóðurinn"), og árið 1792 var loks reistur barnaskóli á Hausastöðum á Álftanesi á kostnað sjóðsins og var það annar fyrsti barnaskóli á Íslandi. Allt fram á 20. öld fengu börn við barnaskóla Reykjavíkur styrk úr Thorkellisjóðnum til náms. Minnisvarði um Jón, gerður af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara, var reistur í Innri-Njarðvík 1965. John Terry. John Terry (f. 7. desember 1980) er fótboltamaður sem spilar fyrir Chelsea Fc. Hann hefur unnið Englandsmeistara-titilinn þrisvar sinnum með Chelsea, en hann hefur ekki spilað með öðru félagi en Chelsea. Hann var uppalinn hjá West Ham Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Sveitarfélaginu Skagafirði. Sveitarstjórn ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum. 2010. Síðast var kosið til sveitarstjórnar í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí 2010. Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn mynduðu meirihluta þann 4. júní 2010 og var Guðmundur Guðlaugsson ráðinn sveitarstjóri til að byrja með en Ásta Pálmadóttir tók við í september. Bjarni Jónsson var kjörin forseti sveitarstjórnar. 2006. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 27. maí 2006. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn mynduðu meirihluta þann 31. maí 2006 og var Guðmundur Guðlaugsson ráðinn sveitarstjóri en Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir var kjörin forseti sveitarstjórnar. 2002. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 25. maí 2002. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð mynduðu meirihluta. 1998. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 1998. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta. Bæjarstjórn Sauðárkróks. Árið 1947 fékk Sauðárkrókur kaupstaðaréttindi og var fyrst kosið til bæjarstjórnar það sama ár. Áður var kosið til hreppsnefndar. 1994. Síðasta bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 28. maí 1994.. Sjálfstæðismenn, Alþýðuflokkur og Óháðir(K-listinn) héldu meirihlutasamstarfi sínu áfram, þriðja kjörtímabilið í röð. Snorri Björn Sigurðsson var áfram bæjarstjóri. 1990. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí 1990. Sjálfstæðismenn, Alþýðuflokkur og Óháðir(K-listinn) héldu meirihlutasamstarfinu áfram og var Snorri Björn Sigurðsson bæjarstjóri áfram. 1986. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 31. maí 1986. Sjálfstæðismenn, Alþýðuflokkur og Óháðir(K-listinn) mynduðu meirihluta og var Snorri Björn Sigurðsson ráðinn bæjarstjóri. Þorbjörn Árnason oddviti Sjálfstæðismanna var forseti bæjarstjórnar. 1982. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1982. Framsóknarmenn og Alþýðubandalagið mynduðu meirihluta.Magnús Sigurjónsson oddviti Framsóknarmanna var forseti bæjarstjórnar. 1978. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 27. maí 1978. Sjálfstæðismenn, Alþýðuflokkurinn og Samtök frjálslyndra og vinstri manna mynduðu meirihluta og réðu Þorstein Þorsteinsson sem bæjarstjóra. Þorbjörn Árnason oddviti Sjálfstæðismanna var forseti bæjarstjórnar. 1974. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 25. maí 1974. Þórir Hilmarsson var bæjarstjóri. 1970. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 30. maí 1970. Bæjarstjóri var Hákon Torfason 1966. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1966. 1962. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí 1962. 1958. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 26. janúar 1958. 1954. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 31. janúar 1954. 1950. Bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 29. janúar 1950. 1947. Fyrsta bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1947 Heimildir. Sauðárkrókur B Reynishverfi. Reynishverfi er byggðarlag í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Á milli Reynishverfis og Víkur í Mýrdal gengur Reynisfjall (340 m) fram í sjó. Sunnan þess, úti í sjó, eru Reynisdrangar, háir og þverhníptir drangar. Bæirnir í Reynishverfi standa undir Reynisfjalli, sem er bratt og víða mikil hrunhætta úr því. Einnig getur verið snjóflóðahætta undir fjallinu og í mars 1968 fórst fjöldi fjár er snjóflóð féllu á fjárhús á tveimur bæjum. Hverfið dregur nafn af landnámsjörðinni Reyni, en þar bjó landnámsmaðurinn Reyni-Björn. Reynir var áður prestssetur en Reynisþing voru sameinuð Sólheimaþingum og hét prestakallið eftir það Mýrdalsþing og prestssetrið var flutt til Víkur 1932. Útræði var töluvert úr Reynishverfi fyrr á tíð. Sveinn Pálsson, náttúrufræðingur og læknir í Vík, liggur í Reyniskirkjugarði. Syðsti bær á Íslandi er Garðar í Reynishverfi. Þar skammt frá er eyðibýli sem nefnist Hellur. Þar eru nokkrir hellar og í einum þeirra, Baðstofuhelli, bjó séra Jón Steingrímsson fyrsta vetur sinn á Suðurlandi, en hann var bóndi í Mýrdal í fimm ár áður en hann varð prestur þar. Þar var líka þingstaður hreppsins um skeið. Hellirinn er nú friðlýstur og rústir eyðibýlisins einnig. Fagrar stuðlabergsmyndanir eru í Reynisfjalli skammt frá Görðum. Reyni-Björn. Reyni-Björn var landnámsmaður í Mýrdal og nam land milli Kerlingarár og Hafursár. Hann bjó á Reyni í Reynishverfi. Í Landnámabók segir að Björn hafi verið auðugur maður og ofláti mikill. Hann var frá Valdresi í Noregi og er eini landnámsmaðurinn sem er sagður hafa verið þaðan. Landnáma segir að hann hafi átt í erjum við Loðmund hinn gamla, nágranna sinn. Hann er sagður hafa verið forfaðir Þorláks helga en ekki er vitað hvernig sú ætt er rakin. Stefán Baldvin Stefánsson. Stefán Baldvin hreppstjóri og alþingismaður Fagraskógi við Eyjafjörð naut mikils trúnaðar sveitunga og sýslunga. Stefán Baldvin Stefánsson (1863 – 1925) var bóndi og hreppstjóri í Fagraskógi á Galmaströnd við Eyjafjörð og alþingismaður Eyfirðinga í tvo fyrstu áratugi tuttugustu aldar á mótunarárum íslenskra stjórnmála. Stefán Baldvin var fæddur á Kvíabekk í Ólafsfirði 29. júní 1863. Hann var einn vetur við námi við Möðruvallaskóla og búfræðiprófi frá Eiðum lauk hann árið 1885. Hann var bóndi í Fagraskógi á Galmaströnd frá 1890 til æviloka. Hann var oddviti Arnarneshrepps um langt skeið, hreppstjóri frá 1904 til æviloka. Hann var alþingismaður Eyfirðinga 1900—1902 og 1904—1923. Hann var þingmaður á mótunarárum íslenskra stjórnmála. Hann var í Heimastjórnarflokknum, Sambandsflokknum, Bændaflokknum eldri, Heimastjórnarflokknum, í Framsóknarflokknum og síðast utan flokka. Tæpra 62 ára lést hann úr lungnabólgu á Hjalteyri 25. maí 1925. Foreldrar og uppeldi. Stefán Baldvin var fæddur að Kvíabekk í Ólafsfirði þann 29. júní 1863. Foreldrar hans voru þau síra Stefán Árnason (f. 15. júlí 1807, d. 17. júní 1890), er þá var þar prestur, og síðari kona hans Guðrún Jónsdóttir (f. 29. maí 1821, d. 5. mars 1878) húsmóður frá Brúnastöðum í Fljótum, en hún var áður gift Baldvin Magnússyni frá Siglunesi. Árið 1871 fluttist Stefán Baldvin með foreldrum sínum að Hálsi i Fnjóskadal þar faðir hans varð prestur. Hann ólst þar upp, þar til haustið 1882, að hann fór á Möðruvallaskólann; en sökum þess að piltar gerðu samtök um að koma ekki í skólann árið eftir, vegna óánægju við bóndann á Möðruvöllum út af fæðissölunni, var hann þar ekki nema einn vetur. Árið 1883 fór Stefán á búnaðarskólann á Eiðum, og útskrifaðist þaðan vorið 1885. Ragnheiður Davíðsdóttir giftist Stefáni Baldvin þegar jörð tók að grænka á Galmaströnd, þann 5. júní 1890. Lögrétta segir Stefán hafa verið „gerfilegan mann“, fríðan, vel vaxinn og karlmenni að burðum; glaðlyndan og félagslyndan. Ragnheiður Davíðsdóttir. Stefán Baldvin kvæntist 5. júní 1890 Ragnheiði Davíðsdóttur (f. 23. nóv. 1864, d. 29. okt. 1937) húsmóðir. Foreldrar hennar voru séra Davíð Guðmundsson alþingismaður og „dannebrogsmanns“ kona hans Sigríður Ólafsdóttir Briem, dóttir Ólafs Briems þfm. Ungu hjónin voru vondjörf og hraust og settu bú í Fagraskógi er hann hafði þá keypt. Þar er skammt til sjávar og gagn af útræði. Þau bjuggu þar rausnarbúi allt til dauðadags. Skömmu fyrir aldamót var búið orðið með miklum blóma. Forystumaður í Eyjafirði. Stefán Baldvin var framúrskarandi dugnaðar- og atorkumaður og bar býlið Fagriskógur vel þess vitni; hann sléttaði og stækkaði tún og girti, þannig að þau gáfu 3—4 sinnum meiri töðu af sér en í upphafi búskapar þeirra hjóna. Hann hélt þar myndarbú ásamt Ragnheiði og bjuggu þau alltaf við góð efni. Í Fagraskógi var margt sauðfjár á út-eyfirskan mælikvarða. Þar var einnig stunduð sjósókn og átti Stefán Baldvin bæði sexæring og fjórróið far. Árið 1895 galt Stefán mest til almannaþarfa allra bænda í Arnarneshreppi. Börn Stefáns og Ragnheiðar. Þau hjón Stefán Baldvin og Ragnheiður eignuðust sjö börn, alin á mjólk og sauðakjöti, fiski sjódregnum og þar með lifur og lýsi. Fyrst fæddust meyjar þrjár með skömmu millibili og síðar fjórir sveinar. Í tímaritinu Óðni segir 1926 þau séu „öll mjög vel gefin og mannvænleg börn.“ Þau voru: Þóra Stefánsdóttir (1891), Sigríður Stefánsdóttir (1892), Guðrún Stefánsdóttir (1893), Davíð Stefánsson þjóðskáld (1895), Stefán Stefánsson alþingismaður(1896), Valgarður Stefánsson (1898), Valdimar Stefánsson saksóknari (1910). Trúnaðarstöður og þingmennska. Stefán Baldvin naut mikils trúnaðar sveitunga og sýslunga. Á tíunda hjúskaparári þeirra Ragnheiðar var hann kosinn á þing, en þar átti hann um það bil tvítuga setu, þó ekki óslitna. Hann varð alþingismaður Eyfirðinga 1900—1902 og 1904—1923. Hann var þingmaður á mótunarárum íslenskra stjórnmála. Hann var í Heimastjórnarflokknum, Sambandsflokknum, Bændaflokknum eldri, Heimastjórnarflokknum, Framsóknarflokknum og síðast utan flokka. Vísir sagði um þetta í nóvember 1923: "„Kosningin er talin stórgölluð og verður vafalaust kærð til Alþingis“". Það gekk ekki eftir. Stefán Balvin var fulltrúi bænda á þingi, þótti framfarasinnaður um margt. Hann var af gagnrýnendum talinn íhaldssamur og fylgjandi takmörkuðum afskiptum ríkisvaldsins af málefnum atvinuveganna. Hann var gagnrýndur af „jafnaðarmönnum" og síðar af Framsóknarflokknum, enda með skamma viðdvöl í þeim flokki. Hann var áhugamaður um menntamálefni. Stefán Baldvin fylgdi Heimastjórnarflokknum líkt og sveitungi hans Hannes Hafstein. Stefán Baldvin var hreppsnefndaroddviti Arnarneshrepps kosinn frá upphafi síns búskap. Hreppstjóri varð hann 1904. Sýslunefndarmaður varð hann litlu síðar. Hann var hann formaður „Framfarafjelags Arnarneshrepps“ og formaður Sparisjóðs Arnarneshrepps. Reynisdrangar. Reynisdrangar eru nokkrir klettadrangar, allt að 66 metra háir, úti í sjó sunnan við Reynisfjall í Mýrdal og blasa vel við bæði úr Reynishverfi og frá Vík í Mýrdal. Drangarnir eru myndaðir í eldsumbrotum en gömul þjóðsaga segir að þeir hafi orðið til þegar tvö tröll hafi ætlað að draga þrísiglt skip að landi en verkið tók mun lengri tíma en þau höfðu ætlað, svo að þegar dagur rann urðu tröllin að steini og skipið einnig. Næst landi er "Landdrangur", sem á að vera tröllkarlinn, þá er "Langhamar" eða "Langsamur" (skipið), síðan "Skessudrangur", sem einnig kallast "Háidrangur" eða "Mjóidrangur", og hjá honum er svo lítill drangur sem kallast "Steðji". Töluvert fuglavarp er í dröngunum, bæði fýll, lundi og langvía, og fóru íbúar Reynishverfis þangað til eggjatöku um langan aldur en það var þó oft erfitt því bæði var mjög oft brimasamt við drangana og eins eru þeir víða illkleifir eða ókleifir með öllu. Nú er boðið upp á siglingar í kringum drangana til að skoða þá og fjölskrúðugt fuglalífið. Reynisfjall. Reynisfjall er fjall í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu og gengur fram í sjó milli Reynishverfis og Víkur. Fjallið er nokkuð stórt um sig, rúmir 5 km á lengd frá norðri til suðurs og 800 m á breidd milli brúna þar sem það er breiðast. Hæst er það um 340 m en syðst, út við sjóinn, er það 149 m. Fram af fjallinu, út í sjó, eru Reynisdrangar. Hlíðar fjallsins eru víða mjög brattar, klettóttar að ofan en neðan til víðast grónar. Syðst í fjallinu eru fallegar stuðlabergsmyndanir og hellar. Þar er mikið lundavarp. Upp á fjallið liggur bílvegur sem gerður var á stríðsárunum, þegar Bandaríkjamenn reistu lóranstöð uppi á fjallinu, og var hann endurbættur seinna. Hann er sagður brattasti fjallvegur á Íslandi. Hringvegurinn liggur nú yfir Reynisfjall innarlega en rætt hefur verið um að færa veginn nær sjónum og leggja hann um Reynishverfi og gera jarðgöng gegnum Reynisfjall. Haukur Ingi Guðnason. Haukur Ingi Guðnason (fæddur 8. september 1978 í Keflavík) er íslenskur knattspyrnumaður sem leikur með Keflavík. Knattspyrnuferill. Haukur Ingi byrjaði ferill sinn með Keflavík árið 1995 en komast á samning hjá enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool árið 1997. Hann var með Liverpool í þrjú ár, án þess að komast í aðalliðið. Hann sneri aftur heim árið 2000. Hann spilaði um stund með KR áður en hann kom aftur til Keflavíkur. Hann fór til liðs við Fylki árið 2003 og spilaði með þeim í um fimm ár. Hann sneri svo aftur til Keflavíkur árið 2009, þar sem hann spilar í treyju númer 4. Hann spilar sem framherji eða miðjumaður. Landsliðið. Haukur Ingi hefur leikið átta leiki með íslenska landsliðinu. Hann spilaði fyrst með landsliðinu í vináttulandsleik á móti Suður-Afríku 6. júní 1998, sá leikur fór 1-1. Haukur Ingi var í byrjunarliðinu og var í treyju númer 10. Einkalíf. Faðir Hauks Inga er Guðni Kjartansson, sem er fyrrum leikmaður og þjálfari bæði Keflavíkur og íslenska landsliðsins. Haukur Ingi er trúlofaður Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og eignuðust þau dóttur hinn 28. júní 2010. Þorvaldsdalur. Þorvaldsdalur er við vestanverðan Eyjafjörð og skerst inn á milli fjallanna upp af Árskógsströnd. Hann klýfur hálendið vestan Kötlufjalls og allt til Fornhaga í Hörgárdal. Hann er um 20 km langur frá norðri til suðurs. Vatnaskil eru í 484 m hæð sunnarlega í dalnum. Margir smádalir ganga inn frá Þorvaldsdal og há og hrikaleg fjöll rísa þar við himin svo sem Rimar, Sælufjall og Dýjafjallshnjúkur. Dalurinn ber nafn Þorvaldar er fyrstur bjó þar. Hann var sonur Gamla landsnámsmanns í Eyjafirði, þess er nam land á Galmaströnd, sem liggur við vestanverðan Eyjafjörð, á milli Reistarár og Þorvaldsdalsár. Eftir dalnum rennur Þorvaldsdalsá til norðurs og í sjó fram hjá Litla-Árskógssandi. Sunnan vatnaskila rennur Ytri-Tunguá til suðurs um dalinn og fellur til Hörgár. Engin byggð er nú í Þorvaldsdal en þar voru að minnsta kosti níu bæir til forna og sumir byggðir fyrir fáum áratugum. Kirkja mun hafa verið þar til forna, kennd við Þórhall og Hávarð. Nú er kirkja í Stærra-Árskógi. Þorvaldsdalur er nú afréttardalur Þorvaldsdalsá er fiskgeng frá sjó og langt fram í óbyggðan Þorvaldsdal, að undanteknum fossi skammt frá þjóðveginum um Árskógsströnd. Þessi foss var fyrrum bæði hærri en hann er nú og féll þá lóðrétt niður í djúpan fosshyl. Nú hefur vatnið sorfið og brotið bergið niður, svo að þar er nú fremur ströng flúð en foss. Síðasti bær í byggð hét Kleif og var í byggð fram til 1979. Var sá eini í byggð á þeim tíma. Bærinn var gamalt torfhús. Síðasti bóndi í Þorvaldsdal var Einar Pedersen í Kleif, merkur fróðleiksmaður af dönskum ættum. Þorvaldsdalsá. Þorvaldsdalsá rennur eftir Þorvaldsdal sem er lítill dalur við vestanverðan Eyjafjörð sem gengur upp af Árskógsströnd og klýfur hálendið vestan Kötlufjalls og allt til Fornhaga í Hörgárdal. Áin rennur í sjó fram hjá Litla-Árskógssandi. Engin byggð er nú í Þorvaldsdal sem nú er afréttardalur, en þar voru a. m. k. níu bæir til forna og sumir byggðir fyrir fáum áratugum. Kirkja mun hafa verið þar til forna, kennd við Þórhall og Hávarð. Nú er kirkja í Stærra-Árskógi. Þorvaldsdalsá er fiskgeng frá sjó og langt fram í óbyggðan Þorvaldsdal, að undanteknum fossi skammt frá þjóðveginum um Árskógsströnd. Þessi foss var fyrrum bæði hærri en hann er nú og féll þá lóðrétt niður í djúpan fosshyl. Nú hefur vatnið sorfið og brotið bergið niður, svo að þar er nú fremur ströng flúð en foss. Egill Þórhallason. Egill Þórhallason (11. september 1734 - 16. janúar 1789) var íslenskur prestur og síðar prófastur á Grænlandi. Er hann talinn meðal merkustu trúboða Grænlands. Vísitasíubækur Egils frá Grænlandi eru merkilegar heimildir um Grænland og Grænlendinga 18. aldar. Æviágrip. Egill var sonur Þórhalla Magnússonar prests á Borg á Mýrum 1716-1746 og síðari konu hans, Bóthildar Egilsdóttur. Séra Þórhalli þótti góður kennari og kenndi ýmsum undir skóla, meðal annars Eggert Ólafssyni. Hann dó þegar Egill var 12 ára og tóku þá frændur Egils, bræðurnir Finnur Jónsson prestur í Reykholti og síðar biskup og Vigfús Jónsson prestur í Hítardal, uppeldi hans að sér. Egill fór svo í Skálholtsskóla en gerðist síðan djákni í Hítardal hjá Vigfúsi frænda sínum og einnig er talið hugsanlegt að hann hafi aðstoðað Finn við ritun kirkjusögu hans. Hann fór svo til Reykjavíkur og varð skrifari við Innréttingarnar og síðar aðstoðarmaður Ólafs Stefánssonar varalögmanns og Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Vorið 1759 hélt Egill til náms við Hafnarháskóla. Hann lauk kandídatsprófi í guðfræði þaðan 1765. Hann fékk síðan vinnu á Árnasafni og þýddi meðal annars Jónsbók á dönsku. Á Kaupmannahafnarárunum var Egill í Bændasonaflokknum svonefnda, með Eggert Ólafssyni og bræðrum hans, Bjarna Pálssyni og fleiri Íslendingum. Þann 3. júní 1763 var Egill tekinn í grænlenska trúboðsskólann í Kaupmannahöfn og stundaði nám þar næstu tvö árin, en skólastjóri skólans var Poul, sonur Hans Egede Grænlandstrúboða. Á skólaárunum skrifaði Egill séra Jóni Bjarnasyni á Ballará, sem var þekktur Grænlandsáhugamaður og hafði meðal annars lært grænlensku á eigin spýtur, og reyndi að fá hann til að flytja með sér til Grænlands. Séra Jón var mjög áhugasamur en af þessu var þó ekki, meðal annars vegna mótstöðu konu séra Jóns. Þann 11. apríl 1765 var Egill svo vígður sem trúboði af Ludvig Harboe Sjálandsbiskupi. Fáeinum dögum síðar var hann sendur til Godthaab á Grænlandi sem trúboði og átti einnig að athuga hvort mögulegt væri að stunda þar búskap með íslenskum aðferðum en á þessum tíma voru uppi áform um að senda íslenska bændur til Grænlands. Hann skrifaði skýrslur um þetta og gerði einnig ýmsar athuganir á grænlenskri náttúru. Agli varð vel ágengt við trúboðið en átti þó löngum í erjum við herrnhuta, þýska trúboða sem borist höfðu til Grænlands. Hann varð aðstoðarprófastur á Suður-Grænlandi 1773, en hélt heim á leið vegna heilsubrests árið 1775. Varð hann þá prestur og síðar prófastur í Bogense í Danmörku. Hildarhellir í Stórhöfða. Þær mælingar á hellinum sem kortið sýnir gerðu þeir Páll Steingrímsson og Ernst Kettler, en kortið er teiknað á tæknideild Vestmannaeyjabæjar 1968. Hildarhellir í Stórhöfða fannst sumarið 1965, finnandinn Valgeir Einarsson sýndi hellinn almenningi 1968. Nafnið Hildarhellir kemur til af því að fyrsta stúlkan sem kom inn í hellinn var Hildur Pálsdóttir, dóttir Páls Steingrímssonar. Hellirinn er samkvæmt mælingum þeirra Páls Steingrímssonar og Ernst Kettlers um 117 metra langur. Samkvæmt mælingum Hellarannsóknafélagsins frá árinu 1992 reyndist hann vera 213 metrar og er þeirra uppdráttur nokkuð öðruvísi. Þann uppdrátt er að finna í bókinni "Íslenskir hellar" eftir Björn Hróarsson. Hellirinn er þröngur víðast hvar, opið aðeins 50-60 sentimetrar. Á nokkrum stöðum er þó nægilegt rými fyrir nokkra fullorðna og sumstaðar geta meðalstórir menn staðið uppréttir. Þegar hellirinn fannst var örþunn skel neðst í honum sem brotnaði þegar skriðið var inn. Einnig var mikið af dropasteinum í þakinu sem eru að mestu horfnir. Innst inni fannst svo ein beinagrind af frekar litlum fugli. Stórhöfði myndaðist í miklu eldgosi fyrir tæpum 6000 árum. Gosið var mjög svipað og í Surtsey. Meðan sjórinn náði til gosrásarinnar splundraðist kvikan og myndaði gjóskuhrúgald sem síðan varð að móbergi á nokkrum árum vegna hitans. Líkt og í Surtsey fór svo að sjór hætti að ná til gosrásarinnar og þá tók hraun að renna ofan á móberginu. Komdu inn í kofann minn. „Komdu inn í kofann minn“ er kvæði sem þjóðskáld Davíð Stefánsson frá Fagraskógi birti í tímaritinu Lögbergi árið 1929 undir heitinu „Komdu inn“. Það varð síðar vinsælt en í styttri útgáfu, sem sönglag á Íslandi við tónlist ungverska tónskáldsins Emmerich Kálmán. Um kvæðið og notkun þess. Í upprunalega kvæðinu fullyrðir þjóðskáldið að sá iðrist aldrei sem komi og verji nótt með sér. Skáldið segist glaður muni gefa allt það gull sem hann á. Meira að segja „...róðukross úr rauðavið, sem rak á Galmarsströnd.“ Betra verður vart boðið. Galmarsströnd var þjóðskáldinu kær, enda við Fagraskóg uppeldistöðvar hans. Galmarsströnd liggur nær miðjum Eyjafirði að vestanverðu. Þar hefur lengi verið þéttbýlt, enda ströndin grasgefin og gjöfull sjór á aðra hlið en há fjöll á hina með góða af rétt. Hið „íslenzka höfuðból“ sem Davíð nefnir er án efa bærinn hans Fagraskógur. Í nútímasöngútgáfu kvæðisins hefur einnig endingu kvæðisins gjarnan verið breytt: Í stað "„Ég gleymdi einni gjöfinni, og gettu, hver hún er,“ " er komið" „Ég gleymdi einni gjöfinni. Ég gleymdi sjálfum mér.“" Sönglagið. Ungverska tónskáldið Emmerich Kálmán (1882–1953) samdi lagið sem kvæðið „Komdu inn í kofann minn“ er sungið við. Lagið sem kvæðið er sungið við er eftir ungverska tónskáldið og gyðinginn Emmerich Kálmán (24. október 1882 – 30. október 1953). Hann varð þekktur á að semja óperettur. Fæddur sem Imre Koppstein í bænum Siófok á suðurströnd Balaton vatns í Ungverjalandi (þá Austuríska Ungverska Keisraradæmisins.) Lagið er fengið úr óperettunni „Sardasfurstynjunni“ (Die Csárdásfürstin á þýsku eða A Csárdáskirálynő á ungversku hefur verið þýtt á ensku sem „The Riviera Girl“ eða „The Gipsy Princess“). Þaðp er óperetta í þremur hlutum sem frumflutt var í Vínarborg í Johann Strauss leikhúsinu þann 17. nóvember 1915. Óperettan er þekktasta verk Kálmáns. Sögusvið óperettunnar er hnignandi aðalsveldi Búdapest og Vínarborgar skömmu fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Sígaunastúlkan Silva Varescu tónlistarkona er að leggja upp í langferð til Ameríku. Þrír kunningjar af aðalsættum þeir, Edwin, Feri og Boni vilja að hún fari hvergi. Edwin, óvitandi að foreldrar hans hafa nú þegar ákveðið honum hjónaband í Vín, vill giftast Silvu. Síðan taka ástarmálin að flækjast. Síðan kemur í ljós að móðir Edwin er einnig fyrrum kabarettstjarna. Að lokum flýja þau stigvaxandi stríðsátök og fara til Ameríku. Óperettan Sardasfurstynjan, eftir Emmerich Kálmán var flutt í Íslensku óperunni í febrúar 1993, undir leikstjórn Kjartans Ragnarssonar. Hljómsveitarstjóri var Páll P. Pálsson. Vinsældir. Kvæðið við lag Emmerich Kálmán hefur notið mikilla vinsælda. Eftirtaldir hafa sungið kvæðið inn á plötur eða hljómdiska. Kynlitningur. Kynlintingur er litingur sem ákvarðar kyn lífveru. Guðmundur B. Ólafsson. Guðmundur B. Ólafsson (13. nóvember 1962) er íslenskur lögfræðingur og fyrrverand formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Guðmundur er starfandi hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og hefur starfað sem aðjúnkt við Háskóla Íslands. Hann lék knattspyrnu með Fram upp í meistaraflokk og var meðal stofnenda knattspyrnuliðs Víkverja. Árið 1993 tók Guðmundur við formennsku í handknattleiksdeild Fram. Deildin stóð þá að mörgu leyti höllum fæti. Meðan önnur félög á höfuðborgarsvæðinu státuðu af nýjum íþróttahúsum, urðu Framarar að láta sér nægja íþróttahús Álftamýrarskóla. Fjárhagurinn var mjög bágur og meistaraflokkur karla féll úr efstu deild þá um vorið. Sumarið 1994 var nýtt íþróttahús tekið í notkun á félagssvæði Fram í Safamýri. Við það snarbatnaði öll æfingaraðstaða og félagið gat innan skamms flutt heimaleiki sína úr Laugardalshöll. Nýja húsinu fylgdu auknir tekjumöguleikar og unnt var að blása til nýrrar sóknar í meistaraflokki. Guðmundur Þ. Guðmundsson, síðar landsliðsþjálfari, tók við Framliðinu haustið 1995, auk þess sem sterkur rússneskur línumaður Oleg Titov var fenginn til liðsins. Framarar tryggðu sér á ný sæti í efstu deild vorið 1996 og komust fljótt í hóp bestu liða landsins. Guðmundur lét af formennsku handknattleiksdeildar árið 1997 og sneri sér að störfum aðalstjórnar. Hann var formaður félagsins frá 2000-2007. Á þeim tíma var ráðist í byggingu félagsaðstöðu við íþróttahúsið og lagningu gervigrasvallar í Safamýri. Jafnframt var gert samkomulag við Reykjavíkurborg um framtíðarfélagssvæði í Úlfarsárdal. Árið 2009 var Guðmundur kjörinn varaformaður Handknattleikssambands Íslands og formaður þess árið 2013. Paul Watson. Paul Franklin Watson (f. 2. desember 1950) er kanadískur umhverfis- og dýraverndunarsinni sem stofnaði og stýrir Sea Shepherd Conservation Society. Watson hefur verið umhverfis- og dýraverndunarsinni allt frá unga aldri. Hann tók þátt í kjarnorku mótmælum Sierra Club árið 1969 aðeins 19 ára gamall. Hann var einn af fyrstu meðlimum Greenpeace. Watson vildi hefja beinar aðgerðir gegn veiðimönnum en það leiddi til deilna innan Greenpeace. Hann hafð verið í áhöfn Greenpeace til 1977 en þá fór hann frá borði og stofnaði sín eigin samtök; Sea Shepherd Conservation Society. Watson við Íslandsstrendur. Árið 1986 komu Rod Coronado og Dave Howitt verkfræðingum úr Sea Shepherd Conservation Society áhöfninni til Íslands. Rod Coronado og Dave Howitt sökktu hvalveiðiskipunum Hvalur 6 og Hvalur 7 í Reykjavíkurhöfn og skemmdu hvalkjötsvinnsluna í Hvalfirði. Þúsundir stórhvela hafa verið skorin í hvalstöðinni en enn þann dag í dag eru um 150 langreyðar skornar þar ár hvert, en langreyður er á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu í öllum heimshlutum. Árið 1988 flaug Watson til Íslands til að taka á sig fulla ábyrgð á verknaðinum. Ríkisstjórn Íslands neitaði að leggja fram kæru á hendur Watson vegna hættu á milliríkjadeilu en hvalveiðar í atvinnuskini hafa verið bannaðar síðan 1986. Með hvalveiðum í atvinnuskyni hafa íslendingar verið að að brjóta alþjóðalög. Eftir þennan atburð afturkallaði Alþjóðahvalveiðiráðið áheyrnafulltrúa Sea Shepherd úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Svifryk. Svifryksmengun í ParísSvifryk er aragrúi agna í andrúmsloftinu sem er skipt eftir kornastærð í PM10 og PM2,5 agnir. PM er stytting á enska heitinu „particulate matter“, en talan sýnir mestu mögulegu stærð í míkrómetrum (μm). Undanfarið hefur athyglin beinst í auknum mæli að örfínum PM1 og PM0,1 ögnum sem smjúga inn um frumuhimnur og hafa áhrif á æðaveggi og heilavef. Myndun svifryks. Magn koltvísýrings (CO2) í útblæstri dieselhreyfla hefur minnkað verulega, en ekki magn köfnunarefnissýrlinga (NOx) Á Íslandi er svifryk aðallega afurð bæjarumferðar. Litlu agnirnar geta verið ýmis efnasambönd en hinar stærri eru að mestu uppspænt malbik. Dieselknúnar (5 x PM2,5) bifreiðar á nagladekkjum (100 x PM10) framleiða mest svifryk. Dreifing svifryks fer eftir veðri, vindum, umferðarþunga og umferðarhraða. Að öllu jöfnu setjast stærstu agnirnar eftir um klst. en minni agnir svífa mun lengur og berast þar af leiðandi lengri leið. Þær smæstu geta endað nánast hvar sem er á jörðinni. Skaðsemi svifryks. Grófasta svifrykið sest í öndunarveg en fínna svifrykið í lungu og blóðrás. Fínt svifryk getur borist í blóðstraum fólks og annarra lífvera gegnum lungun en stærri agnirnar setjast að í lungunum. Talið er að agnirnar geti valdið heilsubresti og vitað er að þær magna þau veikindi sem fyrir eru. Meðal kvilla sem svifryk hefur áhrif á er astmi, ofnæmi, hjartsláttaróregla og lungnateppa. Börn (sem eru að taka út lungnaþroska) eru sérstaklega næm fyrir svifryksmengun. Lífsgæðaskerðing barna, aldraðra og sjúklinga er veruleg. Ef hlutfall þeirra sem deyja fyrir aldur fram af völdum svifryks á Norðurlöndunum (sbr. neðangreindar heimildir) er yfirfært á Ísland, þá gætu á annað hundrað Íslendingar dáið fyrir aldur fram árlega af völdum svifryks. Brýnt er að rannsaka hvort að svo geti verið. Svifryksmengun. Alþjóða heilbrigðisstofnunin leggur áherslu á að ekki séu nein sérstök mörk þar sem svifryksmengun er „góð“ en fari hún yfir ákveðin mörk þá sé hún enn verri. Umhverfisstofnun annast mælingar svifryks í Reykjavík. Fastar mælistöðvar eru við Grensásveg og í Húsdýragarði. Gert ráð fyrir að magn PM10 agna megi ekki fara yfir hættumörk sín hvern sólarhring og árlega. Dagshámarkið er 50 míkrógrömm (μg) að jafnaði en með árshámark að jafnaði 20 μg. Svigrúm til að fara yfir dagshámark sjö sinnum árlega er þegar fullnýtt fyrir árið 2010, og gott betur. Ársmagn milli maí-mánaða 2009 og 2010 er yfir mörkum. Viðbrögð við svifryksmengun. Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á auglýsingaherferð gegn nagladekkjum, en hefur einnig lagt til að nagladekkjagjald verði tekið upp hér á landi. Það mál er í farvegi, en gæti átt langt í land þó svo að umræðan hafi staðið lengi. Drög að lagabreytingu munu heimila sveitarfélagi að leggja á nagladekkjagjald að höfðu samráði við Vegagerðina. Þá er eftir að fara í viðræður sveitarfélaga um samræmingu gjalda sem gæti orðið tímafrek. Reykjavíkurborg vill einnig þrengja nagladekkjatímabilið. Sekt við að keyra á nagladekkjum eftir 15. apríl er 5.000 kr. á dekk. Ekkert hefur verið gert til að fækka díselknúnum bifreiðum í bæjarumferð Reykjavíkur. Þeim hefur fjölgað umfram bensínknúnar bifreiðar undanfarin ár, sérstaklega frá 2005 vegna stjórnvaldaðgerða sem miða að fjölgun þeirra. Umhverfisráðuneytið, Orkustofnun og fleiri aðilar hafa hvatt til notkunar þeirra vegna lægri eyðslu og minna framlags til gróðurhúsaáhrifa. Í samræmi við það gerir fjölskipuð nefnd Vettvangs um vistvænt eldsneyti ráð fyrir því að gjöld á bifreiðar miðist við CO2 framleiðslu þeirra, án tillits til framleiðslu NO2 eða svifryks. Sérfræðinefnd Umhverfisráðuneytisins 2009 gerir tillögu um kerfisbundna útrýmingu bensínknúinna bifreiða. Lindifura. Lindifura (fræðiheiti "Pinus cembra") er furutegund sem finnst í Ölpunum, Karpatafjöllum, í Tatrafjöllum í Póllandi, Frakklandi, Ítalíu, Austurríki, Þýskalandi, Slóveníu, Slóvakíu, Úkraníu og Rúmeníu. Lindifura vex vanalega í 1500-2200 m hæð. Tréð verður 25-35 m hátt og 1,5 m að ummáli. Nálarnar eru 5 - 9 sm langar og könglarnir eru 4-8 sm langir. Fræin eru 8-12 mm löng. Lindifura hefur þol fyrir ryðsveppasjúkdómum sem herja á aðrar skyldar furutegundir eins og jólafurur. nálar og könglar á lindifuru Lindifurur eru vinsælt skrautré í skrúðgörðum og vaxa jafnt en hægt í köldu loftslagi. Þær þola vel mikinn vetrarkulda og eru vindþolnar. Fræin eru tínd og seld sem furuhnetur. Orðatiltæki. Orðatiltæki er hugtak sem er haft um fast orðasamband (til dæmis „e-ð er ekki heiglum hent“) eða orðtak (til dæmis „vera einn um hituna“), einnig fastar líkingar (til dæmis „fara eins og logi yfir akur“) og kunn orðasambönd (til dæmis „nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“). Ekki má rugla orðatiltækjum saman við málshætti, sem eru föst eining og innihalda vissa lífsspeki (byggða á reynslu kynslóðanna) eða lífsviðhorf og eru (oftast) settir fram í einni setningu (til dæmis „Oft verður góður hestur úr göldum fola“). Hagahlynur. Hagahlynur (fræðiheiti: "Acer campestre") er lauftré af ættkvísl hlyna. Það vex víðast hvar í Evrópu, norður- og suðurhluta Englands, Danmörku, Póllandi og Hvíta-Rússlandi en einnig í suðvestur Asíu frá Tyrklandi til Kákasus og í Norður-Afríku til Atlas fjallanna. Hagahlynur að haustlagi í Frakklandi. Hagahlynur er meðalstórt tré sem verður 15 - 25 m hátt með ummál að 1 m. Hann er ekki landnámsplanta heldur sáir sér þar sem fyrir er gróður og skjól. Hagahlynurinn þolir mikinn skugga í uppvexti en plöntur sem bera fræ þurfa meiri birtu. Hann er oft ræktaður til skrauts í almenningsgörðum og stórum görðum og er vinsæll sem dvergtré. Söngur iðnaðarmanna. Söngur iðnaðarmanna er ljóð sem þjóðskáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi samdi árið 1942 í tilefni 75 ára afmælis Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sem stofnað var 3. febrúar 1867 þá undr nafninu Handiðnaðarfélagið. Kvæðið birtist í Tímariti iðnaðarmanna sem Landsamband iðnaðarmanna í Reykjavík, 1. febrúar 1942. Karl Ottó Runólfsson tónskáld í Reykjavík samdi lag við kvæðið. Kvæðið „Söngur iðnaðarmanna“. „Söngur iðnaðarmanna“ eins og hann birtist Tímariti iðnaðarmanna 1942. Lag Karls O. Runólfssonar. Tónskáldið Karl Ottó Runólfsson (f. 1900) í Reykjavík samdi lag við kvæðið og eru nótur hans birtar í Tímariti iðnaðarmanna 1. febrúar 1942. Bæjarstjórnarkosningar á Eskifirði. Kosningar til bæjarstjórnar á Eskifirði hafa verið haldnar reglulega frá því að bærinn endurheimti kaupstaðarréttindi sín. 1938. Sveitarstjórnarkosningarnar 1938 fóru fram 27. maí. 1942. Sveitarstjórnarkosningarnar 1942 fóru fram 25. janúar. 1962. Sveitarstjórnarkosningarnar 1962 fóru fram 27. maí. 1966. Sveitarstjórnarkosningarnar 1966 fóru fram 22. maí. 1978. Sveitarstjórnarkosningarnar 1978 fóru fram 28. maí. Heimildir. Eskifjörður B Ingólfur Arnarson (stytta). Höggmynd Einars Jónassonar af landnámsmanninum Ingólfi Arnarssyni sem afhjúpuð var 1924 er eitt af þekktari kennileitum Reykjavíkur Stytta af Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni á Arnarhóli í Reykjavík, var hönnuð af Einari Jónssyni myndhöggvara. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavik reisti styttuna og var hún afhjúpuð þann 24. febrúar 1924. Hugmyndir um styttuna, sem er eitt merkasta kennileiti Reykjavíkur, má rekja til miðrar átjándu aldar. Ingólfur Arnarson var landnámsmaður frá Noregi. Talið er að hann hafi sest að í Reykjavík nálægt 870. Hann er oftast talinn fyrsti landsnámsmaður Íslands. Saga. Aðdragandinn að gerð þessa líkneskis af Ingólfi Arnarssyni landnámsmanni var mjög langur. Sveinbjörn Hallgrímsson og Magnús Grímsson vöktu fyrstir máls á því um miðja nítjándu öld að reisa þyrfti fyrsta landnámsmanni á Íslandi einhverskonar minnismerki. Á fyrstu árum sjöunda áratugs nítjándu aldar fór fram talsverð umræða um þjóðararfleifð Íslendinga og hvernig menn skyldu fagna þúsund ára afmæli Íslands byggðar. Í ritinu "Þjóðólfi" var á árunum 1862-4 talsvert rætt um „Fornmenja og þjóðgripasafn.“ Sú umræða bar sterkan keim þjóðernisrómantíkur Íslendinga á þessum tíma. Um 1860 var stofnað í Reykjavík félag, sem nefndist „Leikhús andans“ en var seinna kallað „"Kvöldfélagið".“ Í félaginu voru margir af fremstu andans mönnum bæjarfélagsins og komu þeir saman vikulega til þess að kappræða, eða flytja erindi um merkileg málefni. Á félagsfundi þann 10. janúar 1863, hvatti Jón Árnason þjóðsagnasafnari, og þá varaformaður félagsins, menn til að hugleiða hvernig Ingólfs Arnarsonar skyldi minnst, er 1000 ár væri liðin frá því að hann nam land. Vildi hann að félagið hefði forgöngu í þessu máli. Urðu um þetta miklar umræður og ákveðið var að Sigurður málari Guðmundsson skyldi flytja erindi í félaginu um þetta mál, en þeir Jón Þorkelsson rektor og Jón Árnason skyldu gera athugasemdir við tillögur hans. Halldór Friðriksson skólakennari í Reykjavík hreyfði því í "Þjóðólfi", að í tilefni þúsund ára af mæli Íslands byggðar skyldi með fjársamskotum Íslendinga reisa hús í Reykjavík til geymslu menningargripa og fornmenja. Það væri til minningar um landnám Ingólfs og ætti að ljúka fyrir afmælið 1874. Árið eftir, eða 12. ágúst 1864, birtist í sama blaði grein undir heitinu "„Hugvekjur út af Þúsund ára landnámi Ingólfs og fyrstu byggingu Íslands,“" undirrituð af „Nokkrum Íslendingum“, en talin vera eftir Sigurð málara, þar sem lagt var til, að reisa líkneski af Ingólfi á Austurvelli. Kemur þar fyrst fram hugmyndin um líkneski Ingólfs. Greinarhöfundur vildi... Sigurður „málari“ Guðmundsson vildi „reisa gamla Ingólfi Arnarsyni... heiðarlegan minnsvarða, þannig, að mynd hans í yfirnáttúrlegri stærð væri gjörð og steypt úr málmi og sett upp á háan steinstöpul... slíkr minnisvarði mjög fögr endrminníng þessa viðburðar, og gæti þar að auki í margar aldir staðið landi voru og Reykjavíkrbæ til sóma og prýðis.“ Eftir þetta var oft talað um Ingólfsmyndina, en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en Iðnaðarmannafélagið tók málið að sér. Þann 17. september 1906 flutti Jón Halldórsson málið á fundi. Einar Jónsson, myndhöggvari, var þá kominn á sjónarsviðið sem þekktur listamaður og farinn að gera drög að líkneski Ingólfs. Nefnd var kosin, fé veitt úr félagssjóði og fjáröflun hafin. „En margir voru erfiðleikarnir og þó verst sundurlyndi manna um málið,“ segir í Jólahefti Tímarits iðnaðarmanna árið 1941. Það var fyrst í janúar 1923, að hafist var handa fyrir alvöru að steypa líkneskið og undirbúa staðinn á Arnarhóli. Og ári síðar eða í 24. febrúar 1924, kl. 3 eftir hádegi var líkneski Ingólfs afhjúpað að viðstöddum miklum mannfjölda. Formaður Iðnaðarmannafélagsins afhenti landsstjórninni það sem gjöf frá Iðnaðarmannafélaginu, en forsætisráðherra þakkaði. Um kvöldið hélt Iðnaðarmannafélagið síðan mikla veislu í húsi sínu. Verk Einars Jónssonar. Höggmyndin er verk Einars Jónassonar (1874 -1954) sem talinn er fyrsti íslenski myndhöggvarinn. Hann nam við Konunglega listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1896-1899 hjá Wilhelm Bissen og Theobald Stein. Einar sýndi fyrst opinberlega verkið Útlagar á Vorsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 og lagði þar grunninn að íslenskri höggmyndalist. Þjóðernisrómantík skilaði sér inn í verk Einars. Þjóðsagnararfurinn þjóð- og goðsöguleg minni, varð honum innblástur í mörgum verkum. Hann hafnaði gagnrýndi opinberlega klassíska list. Listamanninum bæri fremur að ryðja eigin brautir, þroska frumleika sinn og hugmyndaflug en feta ekki í fótspor annarra. Hugmyndir hans tengdust þýskri táknhyggju (symbolisma) og þróaði Einar myndmál sem birtist í þýðanlegum táknum, persónugervingum og allegóríum. Enda þótt viðfangsefni Einars væru af hugmyndalegum toga hélt hann sig ævinlega við hlutbundið myndmál sem gerði mönnum auðveldara en ella að nálgast verk hans á eigin forsendum. Fjölmargar afsteypur af höggmyndum Einars prýða Reykjavíkurborg. Auk höggmyndarinnar af Ingólfi Arnarsyni, sem lítur yfir landnámsjörð sína frá Arnarhóli, má þar nefna „Útlaga“ við Hólavallarkirkjugarð (gamla kirkjugarðinn) við Suðurgötu og styttu af sjálfstæðishetju þjóðarinnar, Jóni Sigurðssyni, fyrir framan Alþingishúsið á Austurvelli. Kostnaður. Ingólfsmyndin kostaði á þeim tíma 40 þúsund krónur, sem töldust þá miklir fjármunir. Langmestur hluti þess fjár var greiddur úr sjóði Iðnaðarmannafélagsins. Davíð Hildiberg Aðalsteinsson. Davíð Hildiberg Aðalsteinsson (fæddur 29. ágúst 1990) er íslenskur sundmaður sem æfir með ÍRB í Reykjanesbæ. Örn Arnarson. Örn Arnarson (fæddur 31. ágúst 1981 í Reykjavík) er íslenskur sundmaður. Hann vann sinn fyrsta stóra titil á Evrópska SC Meistaramótinu árið 1998 í Sheffield, Englandi, en þar náði hann gulli í 200 m baksundi. Ári seinna á Evrópska SC Meistaramótinu í Lissabon í Portúgal, vann hann til gullverðlauna í bæði 100 og 200 m baksundi. Hann tók þátt í þremur Ólympíuleikum í röð, fyrir hönd Íslands. Hann hefur þrívegis verið kjörinn íþróttamaður ársins; árið 1998, 1999 og 2001 Í dag (2009) æfir Örn Arnarson með Aalborg Svømmeklub Elitehold í Danmörku Paderborn. Paderborn (stundum nefnd Pöddubrunnur á íslensku) er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 144 þúsund íbúa. Lega. Paderborn er nær austast í norðvestarlega í Þýskalandi, talsvert fyrir austan Ruhr-héraðið. Næstu stærri borgir eru Bielefeld til norðurs (35 km), Hamm til vesturs (70 km) og Kassel til suðausturs (90 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Paderborg er tvískiptur. Fyrir neðan eru gular og rauðar lóðréttar línur til skiptis. Þær koma fyrir þegar á 13. öld. Fyrir ofan er gulur kross á rauðum grunni. Krossinn er tákn um hið gamla furstabiskupadæmi Paderborn. Skjaldarmerki þetta var tekið upp í núverandi mynd 1931. Orðsifjar. Borgin hét Paderborna á 11. öld, Padrabrunno og Padresbrunnon þar áður. Þetta merkir "brunnurinn (eða lindin) við ána Pader" (Born og Brunnen er sama orðið). Á latínu hét staðurinn Patris brunna. 1241 var endanlega samþykkt að hafa ritheitið Paderborn. Upphaf. Síðla á 8. öld var Karlamagnús í héraðinu til að berja á söxum. Hann lét reisa kastalavirki við uppsprettur árinnar Pader og settist þar að til skamms tíma. Í Paderborn hélt hann nokkur ríkisþing, þar til hann flutti aðsetur sitt til Aachen. Lokaorrusta Karlamagnúsar gegn söxum átti sér stað 794 á völlunum fyrir sunnan Paderborn. 799 tók Karlamagnús á móti Leó III páfa í Paderborn en páfi var á flótta undan óvinum sínum. Þeir stofnuðu þar biskupsdæmi til að kristna saxa og þar ákváðu þeir að krýna Karlamagnús til keisara. Krýningin fór fram ári síðar í Róm. Lúðvík hinn frómi, sonur Karlamagnúsar, sat að einhverju leyti í Paderborn. Þegar synir hans skiptu frankaríkinu milli sín í Verdun-samningnum, lenti Paderborn í þýska ríkinu. 836 voru jarðneskar leifar heilags Líboríusar fluttar frá Le Mans í Frakklandi til Paderborn sem tákn um vináttu borganna. Þetta eru elstu vináttubæjartengsl í Evrópu. 924 réðust Ungverjar á borgina, en hún stóðst áhlaup þeirra. Á 11. öld urðu tveir stórir brunar í borginni, árið 1000 og 1058. Í fyrra sinnið brann keisaravirkið og dómkirkjan, en í seinna sinn brann nær gjörvöll borgin. Þrír stórbrunar til viðbótar geysuðu í borginni, 1165, 1289 og 1340. Siðaskiptin. Paderborn 1647. Mynd eftir Matthäus Merian. Eftir enn einn stórbruna 1506 var ákveðið að mynda brunarvarnir í borginni. Í þeim tilgangi voru vatnsleiðslur lagðar frá ánni Pader um alla borg. 1525 urðu siðaskiptin í Paderborn. Borgarráð hélt þó fast við kaþólskuna, þannig að til æsinga og átaka kom. Nýja trúin var ekki formlega viðurkennd fyrr en 1555 en þá hafði legið við borgarastríði. 1580 hófst gagnsókn kaþólsku kirkjunnar í borginni. Fengnir voru jesúítar sem endurheimtu borgarbúa til gömlu trúarinnar. Jesúítar gengu svo langt að þeir handtóku leiðtoga lúterstrúarmanna og tóku þá af lífi. Hinn lúterski borgarstjóri var líflátinn 1604. Eftir það var kaþólska kirkjan einráð í borginni og var stjórnuð af furstabiskupi. 1614 stofnuðu jesúítar háskóla í borginni en hann var elsti háskólinn í Vestfalíu. Hann var lagður niður 1818. Í 30 ára stríðinu var Paderborn 16 sinnum hertekin, síðast 1646 af sameinuðum her frá Svíþjóð og Hessen. Við það tækifæri voru borgarmúrarnir rifnir niður. Íbúum fækkaði niður í 500. Nýrri tímar. 1802/03 var furstabiskupadæmið leyst upp og varð Paderborn þá prússnesk. Nokkrum árum síðar hertóku Frakkar borgina og héldu henni til falls Napoleons. Þá varð borgin prússnesk á ný. 1850 fékk Paderborn járnbrautartengingu á línunni Hamm – Kassel. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna. Þær þyngstu voru gerðar 27. mars 1945, en þá eyðilagðist rúmlega 85% borgarinnar. 1967 varð Le Mans formlega vinabær Paderborn, en vinabæjarsambandið hafði staðið allt frá árinu 836. Af öðrum vinabæjum Paderborns má nefna Bolton í Englandi, Pamplona á Spáni og Debrecen í Ungverjalandi. 1972 er háskóli stofnaður í borginni á ný. 1996 sækir Jóhannes Páll II páfi borgina heim. Íþróttir. Sigursælasta íþróttalið borgarinnar er Paderborner Untouchables sem keppir í hafnabolta og er margfaldur þýskur meistari og tvöfaldur Evrópubikarmeistari. Paderborner Osterlauf er elsta víðavangshlaup Þýskalands, en það hefur verið haldið síðan 1947. Hlaupið er hálfmaraþon, 10 km og 5 km. Auk þess er keppt á línuskautum, handknúin reiðhjól og göngu (Nordic Walker). Knattspyrnuliðið SC Paderborn 07 leikur sem stendur í 2. deild. Nagladekk. Nagladekk eru hjólbarðar bifreiða og reiðhjóla með göddum til að verjast hálku. Nagladekk bifreiða slíta slitlagi vega hundraðfalt á við venjuleg dekk þegar ísing eða snjór er ekki til staðar. Í þurru veðri framleiða þau megnið af því grófa svifryki sem verður til innanbæjar. Sjálfstal. Sjálfstal (private speech) er námskenning sem vísar til þess þegar barn talar upphátt við sjálft sig. Markmiðið með sjálfstali er að veita aðhald við að leysa verkefni, einbeita sér, hvetja sig áfram og hafa yfirsýn. Sjálfstalið er ekki ætlað öðrum en barninu sjálfu. Við athugun börnum á aldrinum tveggja til sjö ára hafa fræðimenn séð jákvæða fylgni á milli notkunar barna á sjálfstali og árangri þeirra við að leysa verkefni af ýmsum toga. Sjálfstal var fyrst rannsakað af Vygotsky (1934-1986) og Piaget (1959) en hefur ekki verið í sviðsljósinu fyrr en síðastliðna þrjá áratugi. Börn nota orðaforða frá einstaklingum sem þau umgangast í sínu nánasta umhverfi, og málið verður eins konar sjálfstjórnartæki. Því er mikilvægt að læra tungumál og hugtök því málið verður hugsun okkar og hefur áhrif á vitsmunaþroska, sbr. hugarskilningskenninguna (e. theory of mind). Sjálfstal barna er talið koma fram vegna þess að þau hafa ekki náð þeim þroski að tala við sjálf sig án hljóða og því mætti túlka sjálfstalið sem nokkurs konar herminám. Sjálfstal minnkar eða hverfur að mestu á aldrinum 7–9 ára. Þess í stað kemur fyrirbæri sem nefnt hefur verið innra tal (e. inner speech). Sumar rannsóknir benda þó til þess að margir haldi sjálfstali áfram að einhverju marki alla ævi, til dæmis þegar þeir þurfa að leysa krefjandi verkefni. Purple Giraffe. "Purple Giraffe" eða Fjólublár gíraffi er annar þátturinn í fyrstu þáttaröð gamanþáttanna How I Met Your Mother. Hann var fyrst sýndur 26. september 2005. „Pilot“ var á undan en næsti þáttur á eftir er „Sweet Taste of Liberty“. Söguþráður. Eftir að hafa sagt Robin að hann elskaði hana breytir Ted aðferðum sínum og ákveður að hafa ekkert samband við Robin til þess að láta alla halda að hann elski hana ekki lengur. En þegar hann kemst að því hjá Marshall að Lily hefur hitt Robin eftir að hafa þekkt hana úr fréttunum og að Robin hafi sagt Lily að hún hefði enn áhuga á Ted ákveður hann að hann sé enn ástfanginn af henni. Þar sem Robin vill ekki alvarlegt samband reynir Ted að sannfæra hana um að hann sé "casual"/"hversdagslegur". Hann fer og hittir hana á tökustað, þar sem hún er að flytja fréttir af því að krakki er fastur inni í vél eftir að hafa reynt að ná fjólubláum gíraffa, og segir henni að hann sé að fara að halda partý. Hann heldur sama partýið þrjú kvöld í röð þegar hún segir að hún komist ekki og kemst aðeins þegar Ted heldur partýið í þriðja skipti. Robin kemst að lokum að því (þegar Mashall spingur yfir því að Ted sé alltaf að bíða eftir henni) að Ted hafi haldið partýin fyrir hana. Ted lýgur því og segist hafa haldið partýin til þess að hún gæti hitt annan gaur. En eftir stutta stund, þegar Robin fer upp á þakið, ákveður Ted að hann verði að tala við hana og játa ást sína og reyna að vinna hrifningu hennar. Á þakinu ákveða þau að þau vilji mismunandi hluti og þar sem Robin er ný í bænum, samþykkir Ted að vera vinur hennar og þau fara á barinn. Robin segir Ted að hún vilji hjálpa honum að finna hina einu réttu. Lily er svo hamingjusöm að vera trúlofuð og er mjög ánægð með hringinn sinn og leiðir það til meiri löngunar í kynlíf og það heldur Marshall mjög uppteknum. Þetta veldur Marshall vandræðum þar sem hann á að skila 25 blaðsíðna ritgerð fyrir tíma í lögfræðinni. Marshall verður mjög reiður þegar einhverjir í partýinu nota lögfræðibókina hans sem glasamottu en drekkur tvo bjóra með öllum á barnum, sem eykur sjálfstraustið hans og hann endar á því að fá mjög góða einkunn fyrir ritgerðina, sérstaklega þar sem hann skrifaði 25 blaðsíðurnar nóttina áður en hann átti að skila. Barney á í sambandsvandræðum. Hann hittir stelpu í partýinu sem þekkir engan þar og leggur til að Ted eyði nóttinni með henni. Ted afþakkar boðið og Barney ákveður að taka tilboðinu í staðinn. Barney til mikilla leiðinda kemur konan í partýið dagana á eftir og vill eiga í ástarsambandi við Barney. Hann ákveður að besta leiðin til að losna við hana sé að segja henni „Ég held að ég elski þig“, alveg eins og Ted gerði við Robin. Hún kemur líka í þriðja partýið á sunnudagskvöldinu þar sem Barney kemst að því að hún er með gaurnum sem Ted ætlaði að láta Robin hitta. Lundey (Kollafirði). Lundey á Kollafirði Lundey og Þerney eru vestan við Gunnunes á Álfsnesi Strandlengjan við Reykjavík, Lundey sést að hluta efst, vinstra megin við Þerney Lundey er eyja á Kollafirði. Þar er mikið fuglalíf. Eyjan er um 400 m löng og 150 m breið. Hún er fyrir vestan Þerney. Lundey er gerð úr grágrýti. Hún er algróin og mjög þýfð. Þar er mikið lundavarp og einnig verpir þar fjöldi annarra tegunda svo sem teista, fýll og kría. Eyjarnar á Kollafirði Lundey, Akurey, Engey og Þerney eru á Náttúruminjaskrá. Bóluefni. Bóluefni er efni sem bætir ónæmiskerfi dýra gagnvart tilteknum smitsjúkdómi. Bóluefni eru unnnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða innihalda efni sem finnast í sýklum. Bóluefnið virkar þá þannig að þegar því er sprautað inn í líkama bregst ónæmiskerfi dýrsins við með því að mynda mótefni gegn bóluefninu. Þannig ber ónæmiskerfið ennsl á efnið næst þegar það kemst í tæri við það og myndar þá öflugri vörn en ella. Markvissar og almennar bólusetningar barna hafa dregið úr tíðni margra barnasjúkdóma, svo sem mislinga, barnaveiki, kikhósta og lömunarveiki. Bernikuhaddur. Bernikuhaddur er stjörnumerki á norðurhveli himins, dauf stjörnuþyrping milli Hjarðmannsins ("Bootes") og Ljónsmerkisns ("Leo"). Bernikuhaddur, sem þýðir „hár Berniku“, er nefnd í höfuðið á Berniku II af Egyptalandi sem fórnaði guðunum hári sínu til að heimta eigimann sinn heilan úr stríðinu. Rínarland-Pfalz. Rínarland-Pfalz (þýska: "Rheinland-Pfalz") er níunda stærsta sambandsland Þýskalands með 19.847 km². Það liggur í suðvestri landsins og á landamæri að Frakklandi í suðri, Lúxemborg í vestri og Belgíu í norðvestri. Auk þess er Norðurrín-Vestfalía fyrir norðan, Hessen fyrir austan, Baden-Württemberg fyrir suðaustan og Saarland fyrir suðvestan. Íbúafjöldinn er rétt rúmlega 4 milljónir og er Rínarland-Pfalz þar með sjötta fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Höfuðborgin er Mainz við Rínarfljót. Meðal landfræðilegra perla sambandslandsins má nefna Móseldalinn, Rínarfljót, fjalllendið Eifel og gamla keisaraborgin Speyer. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerkið er þrískipt. Neðst er gult ljón á svörtum grunni en það er merki Pfalz sem upprunnið er úr Staufen-ættinni. Til hægri er hvítt hjól á rauðum grunni, en það er merki Mainz. Til hægri er kross heilags Georgs en það var merki Trier. Skjaldarmerki þetta var formlega tekið upp 1948, tveimur árum eftir að Rheinland-Pfalz var stofnað sem sambandsland. Fáninn er eins og þýski þjóðfáninn en efst í vinstra horninu er skjaldarmerkið. Orðsifjar. Rheinland er þýska heitið á Rínarlandi sem teygir sig norður inn í Norðurrín-Vestfalíu meðfram Rínarfljóti. Orðið Pfalz er tekið að láni frá samnefndu kjörfurstadæmi sem var við lýði á tímum þýska ríkisins en var lagt niður á Napoleonstímanum. Pfalz merkir keisarasetur. Emera. Emera Incorporated er kanadískt eignarhaldsfélag sem skráð er á verðbréfamarkaðinum í Toronto. Félagið fjárfestir í rafmagnsframleiðslu, flutningi og dreifinga, auk gasframleiðslu dreifingu og sölu. Emera Incorporated (EMA-TSX) er orku-og þjónustufyrirtæki í Halifax, Nova Scotia, Kanada. Raforkuframleiðsla er kjarnastarfsemi Emera. Félagið á að fullu tvö dótturfélög sem heyra undir eftirlitsskylda starfssemi, "Nova Scotia Power Inc" (NSPI) sem rekur eftirlitsskylda starfssemi á sviði raforkuvinnslu, flutnings og dreifingar þjónustu til um 486.000 viðskiptavina í Nova Scotia, og "Bangor Hydro-Electric Company" (Bangor Hydor), sem er raforkuframleiðandi og dreifingarfyrirtæki er þjónar um 117.000 viðskiptavinum í Maine fylki í Bandaríkjunum. Auk fjárfestinga í rafmagnsframleiðslu og -dreifingu á Emera "Brunswick Pipeline Company Ltd." sem á og rekur 145 km gasleiðslukerfi í New Brunswick sem flytur fljótandi gas (LNG) frá Saint John, New Brunswick til Bandaríkjanna. Emera á einnig fyrirtækið "Bayside Power", sem rekur 260 MW gasbrennslu- raforkuver í Saint John, New Brunswick og fyrirtækið "Emera Energy Services", sem sérhæfir sig í jarðgasi, orkusölu og eignastýringu. Þá er á Emera hluta í fallorkufyrirtækinu "Bear Swamp", sem er 600 MW orkuver byggt á uppdælingu vatns í norðanverðru Massachusetts fylki. Emera á 12,9% í fyrirtækinu "Maritimes & Northeast Pipeline". Emera er með höfuðstöðvar í Halifaxborg, Nova Scotia í Kanada. Emera á 19% af "St. Lucia Electricity Services Ltd.", sem þjónar meira en 50.000 viðskiptavinum eyjunni St. Lucia í Karíbahafinu og 25% í "Grand Bahama Power Company" sem þjónar 19.000 viðskiptavinum á eyjunni Grand Bahama í Karíbahafi. Emera hefur lagt aukna áherslu á fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum. Félagið á 8,2% hluta í sjávarfalla-orkufyrirtækinu "Open Hydro", hlut í "Atlantic Hydrogen Inc." sem sérhæfir sig í vetnis- og kolefnavinnslu og að auki hefur Emera fjárfest í vindorkuverkefninu "Digby Wind Power Project". Emera á 5,3 milljarða $ í eignum. Hjá fyrirtækinu starfa um 2350 manns. Saga. Emera var stofnað við einkavæðingu orkufyrirtækisins Provincial Crown Corporation Nova Scotia Power Incorporated (NSPI) árið 1991. Árið 1999 var NSPI endurskipulagt með stofnun Nova Scotia Power Holdings Inc NSPI varð að öllu leyti í eigu dótturfélags NSPHI, sem sett var á markað á í verðbréfahöllinni í Toronto í Kanada sama ár (TSX: EMA). Í viðleitni til að leggja áherslu á vöxt utan Nova Scotia, var NSPHI síðan endurnefnt Emera Incorporated ári síðar. Vöxtur Emera hefur verið mikill. Fyrirtækið hefur stækkað síðari ár fjárfestingum utan Nova Scotia með fjárfestingum í Karíbahafi og víðar. Aukin áhersla er lögð á fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum. Gnúpa-Bárður Heyangurs-Bjarnarson. Bárður Bjarnarson, kallaður Gnúpa-Bárður, var landnámsmaður á Íslandi, bæði í Bárðardal og suður í Fljótshverfi. Við hann á Bárðarbunga að vera kennd. Bárður var að sögn Landnámabókar sonur Heyangurs-Bjarnar Helgasonar, hersis úr Sogni. Tveir bræður hans héldu einnig til Íslands en annar þeirra, Ásbjörn, dó í hafi. Þorgerður kona hans og synir námu land í Öræfum og einnig þriðji bróðirinn, Helgi. Bárður fór aftur á móti norður fyrir land, kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjardalsá og bjó að Lundarbrekku um tíma. „Þá markaði hann að veðrum, að landviðri voru betri en hafviðri, og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um gói; þá fundu þeir góibeytla og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut; hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.“ Hvað sem satt er í þessari frásögn er víst að á miðöldum var oft farið um Vonarskarð eða yfir Vatnajökul milli Norður- og Suðurlands og norðlenskir vermenn fóru yfir jökulinn til sjóróðra í Suðursveit fram á 16. öld. Gnúpur, bústaður Bárðar sunnan fjalla, heitir nú Núpar. Landnáma getur ekki um konu hans en telur upp níu syni, þá Sigmund, Þorstein, Egil, Gísla, Nefstein, Þorbjörn krum, Hjör, Þorgrím og Björn. Þorgerður (landnámskona). „En það er mælt, að kona skyldi eigi víðara nema land en leiða mætti kvígu tvævetra vorlangan dag sólsetra í millum, hálfstalið naut og haft vel. Því leiddi Þorgerður kvígu sína undan Tóftafelli, skammt frá Kvía suður og í Kiðjaklett hjá Jökulfelli fyrir vestan. Þorgerður nam því land um allt Ingólfshöfðahverfi á millum Kvíár og Jökulsár og bjó að Sandfelli.“ Jökulsá er án efa Skeiðará en óvíst er hvar hún rann á landnámsöld. Helgi, bróðir Ásbjarnar og mágur Þorgerðar, nam land vestan við landnám hennar. Í Sturlubók segir að Guðlaugur sonur Þorgerðar og Ásbjarnar hafi búið í Sandfelli eftir móður sína og frá honum séu Sandfellingar komnir. Annar sonur þeirra var Þorgils, forfaðir Hnappfellinga og sá þriðji Össur, faðir Þórðar Freysgoða. Helgi Heyangurs-Bjarnarson. Helgi Heyangurs-Bjarnarson var landnámsmaður í Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu. Hann var bróðir Gnúpa-Bárðar og Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsona. Samkvæmt Hauksbók helgaði Þorgerður ekkja Ásbjarnar sér Ingólfshöfðahverfi en Helgi nam síðan land næst henni að ráði hennar. Bárður flutti að sögn Landnámu suður um fjöll eftir skamma vist norður í Bárðardal og bjó á Núpsstað í Fljótshverfi, handan Skeiðarár. Helgi hefur líklega átt land frá Skeiðará að Sandfelli, þar sem Þorgerður bjó. Hann bjó á Rauðalæk, sem líklega var á milli Svínafells og Sandfells. Þar var kirkjustaður seinna. Bærinn eyddist í Öræfajökulsgosinu 1362 og sjást nú engar menjar um hann. Sandfell í Öræfum. Sandfell er eyðibýli í Öræfasveit, áður kirkjustaður og prestssetur til 1931. Bærinn er landnámsjörð; þar bjó að því er segir í Landnámabók Þorgerður, ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsonar, sem lést í hafi á leið til Íslands. Þorgerður nam þá sjálf land og bjó á Sandfelli ásamt sonum sínum. Helgi, bróðir Ásbjarnar og mágur Þorgerðar, nam land næst henni og byggði bæ á Rauðalæk þar skammt frá. Þar reis seinna kirkja sem var aðalkirkja sveitarinnar þar til Rauðilækur lagðist í auðn við eldgosið í Öræfajökli 1362 en eftir það var Sandfellskirkja höfuðkirkjan. Nú er minnismerki þar sem kirkjan var en hún var rifin árið 1914. Öræfajökull gaus aftur 1727 og stóð þá yfir messa í Sandfellskirkju. Bæði 1362 og 1727 komu mikil hlaup úr Öræfajökli og ollu allmiklum skemmdum og í hlaupinu 1727 fórust þrjár manneskjur og fjöldi fjár. Í því hlaupi myndaðist Háalda, sem er á milli Hofs og Sandfells. Hún er friðlýst. Sandfell fór í eyði 1947 og voru rústir bæjarins jafnaðar við jörðu árið 1974. Jöklamús. Jöklamús er ávalur smásteinn á jökli sem er allur mosavaxinn. Jöklamúsin er talinn velta undan vindum um jökulbreiðuna og þannig verða smám saman mosavaxinn allt um kring. Jöklamúsin fannst fyrst á Hrútárjökli í Öræfum árið 1950, en ekki er vitað um að til séu jöklamýs nema á Íslandi. Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, var fyrstur til að lýsa fyrirbærinu og er höfundur nýyrðisins jöklamús. Heimild. Jón Eyþórsson 1950. '. Náttúrufræðingurinn 20, 182-184. Ólafur Halldórsson (f. 1913). Ólafur Halldórsson (21. október 1913 – 15. mars 1992) var skrifstofumaður í Reykjavík, knattspyrnumaður og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Ólafur (Guðmundur) Halldórsson var yngstur tólf systkina, en þar af komust níu til fullorðinsára. Hann ólst upp á Njálsgötunni, en þaðan kom um árabil harðasti kjarninn í Knattspyrnufélaginu Fram. Ólafur starfaði mestalla tíð sem skrifstofumaður. Lengi á skrifstofu borgarstjóra en síðar hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík. Hann var um árabil leikmaður með meistaraflokki Fram í knattspyrnu og varð Íslandsmeistari árið 1939. Formaður félagsins varð hann 1942-43, en gegndi einnig ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Til að mynda var hann um skeið fulltrúi félagsins í stjórn og varð Knattspyrnuráðs Reykjavíkur. Ólafur var bróðir Sigurðar og Guðmundar Halldórssona, sem báðir voru einnig formenn í Fram. Lúðvík Þorgeirsson, mágur þeirra bræðra, var sömuleiðis mikill forystumaður í félaginu og formaður þess um tíma. Að auki var Ólafur kvæntur systur enn eins formanns Fram, Gunnars Nielsen. Poul Egede. Poul Egede eða Povel Hansen Egede (9. september 1708 — 6. júní 1789) var dansk-norskur guðfræðingur, málvísindamaður og trúboði á Grænlandi. Hann átti stóran þátt í því að skapa grænlenskt ritmál. Poul var sonur Hans Egede Grænlandstrúboða og konu hans, Gertrud Rask. Hann fæddist í Kabelvåg á Lófót í Noregi, þar sem faðir hans var þá prestur, fluttist með foreldrum sínum til Grænlands tólf ára að aldri vorið 1721, ólst þar upp og lærði grænlensku. Árið 1728 hélt hann til Danmerkur til náms og lauk guðfræðiprófi 1734. Hann var trúboði í Christianshåb 1736-1740. Þar vann hann meðal annars að þýðingum úr dönsku á grænlensku í félagi við konu sem Arnarssaq hét. Hann sneri aftur til Danmerkur 1740 og varð prestur í Vartov. Hann gaf út fyrstu grænlensku orðabókina 1750, grænlenska málfræði 1760 og Nýja testamentið á grænlensku 1766. Hann varð forstöðumaður munaðarleysingjahælisins Vajsenhúss 1774 og árið 1779 varð hann biskup yfir Grænlandi. Hann lést í Kaupmannahöfn áttræður að aldri. Hreppsnefndarkosningar í Hrísey. Kosningar til hreppsnefndar í Hrísey voru haldnar samhliða öðrum sveitarstjórnarkosningum á Íslandi frá því að Hríseyjarhreppur var stofnsettur árið 1930 og þar til hann sameinaðist Akureyrarkaupstað árið 2004. 1938. Sveitarstjórnarkosningarnar 1938 fóru fram 30. janúar 1938. 1942. Sveitarstjórnarkosningarnar 1942 fóru fram 25. janúar 1942. 1946. Sveitarstjórnarkosningarnar 1946 fóru fram 27. janúar 1946. Listarnir sem í boði voru í Hrísey tengdust ekki stjórnmálaflokkum. 1950. Sveitarstjórnarkosningarnar 1950 fóru fram 29. janúar. Aðeins kom fram einn listi í Hrísey og var hann því sjálfkjörinn. 1954. Sveitarstjórnarkosningarnar 1954 fóru fram 31. janúar. Aðeins kom fram einn listi í Hrísey og var hann því sjálfkjörinn. 1958. Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 fóru fram 26. janúar. Kosning var óhlutbundin. 1962. Sveitarstjórnarkosningarnar 1962 fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin en 86 kusu af 145 eða 59,3%. 1966. Sveitarstjórnarkosningarnar 1966 fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundin. 1970. Sveitarstjórnarkosningarnar 1970 fóru fram 31. maí. Kosning var óhlutbundin. 1974. Sveitarstjórnarkosningarnar 1974 fóru fram 26. maí. Kosning var óhlutbundin og kjörsókn 67,5%. 1978. Sveitarstjórnarkosningarnar 1978 fóru fram 28. maí. Kosning var óhlutbundinn en 102 kusu af 161 eða 63,4%. 1982. Sveitarstjórnarkosningarnar 1982 fóru fram 22. maí. Kosning var óhlutbundinn en 94 kusu af 159 eða 66%. 1986. Sveitarstjórnarkosningarnar 1986 fóru fram 31. maí. Kosningin var óhlutbundin. 138 greiddu atkvæði af 190 eða 72,6%. 1990. Sveitarstjórnarkosningarnar 1990 fóru fram 26. maí. Kosningin var óhlutbundin. 136 greiddu atkvæði af 189 eða 72%. 1994. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 28. maí. 1998. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 23. maí. 2002. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 25. maí. Magnús Guðmundsson (bankastjóri). Magnús Guðmundsson er fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg. Síðla kvölds þann 6. maí 2010 var hann handtekinn ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni að beiðni sérstaks saksóknara eftir yfirheyrslur. Eftir bankahrunið var Kaupþing í Lúxemborg breytt í Banque Havilland, banka sem sérhæfir sig í eignamiklum viðskiptavinum og var Magnús bankastjóri bankans, en var settur af eftir að hann var handtekinn. Lófóten. Lófóten (eða Lófót á íslensku) er eyjaklasi í norðvesturhluta Noregs. Næræta. Næræta er einhver sem reynir að borða eingöngu mat sem framleiddur er í næsta nágrenni og hefur ekki verið fluttur um langa leið. Þessi lífstíll byggir á aukinni meðvitund um umhverfisáhrif okkar og kröfunni um sjálfbærni. Nærætur skilgreina nágrenni sitt með mismunandi hætti; sumir miða við 100 mílna geisla (160km) meðan aðrir skilgreina svæðið á annan hátt. Matjurtagarðar í þéttbýli og bændamarkaðir eru lykilþættir í þróun þessa lífstíls. Lögmál um minnkandi afrakstur. Ef við höfum tvo (eða fleiri) framleiðsluþætti og aukum einn, en gefum okkur að hinir haldist óbreyttir, þá kemur fyrr eða síðar að því að hagnaðurinn nær hámarki og fer svo að minnka. Þegar jaðartekjur eru jafnar jaðarkostnaði er hagstæðast að hætta að auka við framleiðsluþátt eða hætta eftirspurninni eftir framleiðsluþætti. Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri. Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri (MA) er fimmti hluti hátíðarljóðsins „Gagnfræðaskóli Norðurlands“ sem Davíð Stefánsson frá Fagraskógi samdi í tilefni fimmtíu ára afmælishátíðar Möðruvallarskóla og sem frumflutt var 1. júní 1930. Páll Ísólfsson samdi tónlistina við hátíðarljóðið. Skólasöngur er sunginn við setningu skólans og skólaslit ár hvert. Hátíðarljóðið „Gagnfræðaskóli Norðurlands“ var samið í tilefni skólahátíðar sem haldin var 31. maí og 1. júní 1930 á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Akureyri. Þar var fagnað fimmtíu ára afmælishátíð Möðruvallarskóla, en það var fyrsti gagnfræðaskóli landsins og ætlað í upphafi að kenna verðandi bændum hagnýt fræði. Eftir brunann á Möðruvöllum var skólinn fluttur til Akureyrar og nafni hans var breytt í „Gagnfræðaskólinn á Akureyri“. Með lögum frá Alþingi árið 1930 fékk Gagnfræðaskólinn á Akureyri full réttindi menntaskóla og nefnist Menntaskólinn á Akureyri. Nýjum lögum um menntaskólaréttindi var því einnig fagnað á skólahátíðinni 1930. Sigurður Guðmundsson skólameistari MA sem stýrði undirbúningi skólahátíðarinnar bað Davíð að semja veglegt hátíðarljóð í tilefninu. Ljóðið „Gagnfræðaskóli Norðurlands“ var prentað í dagskrá hátíðarhaldanna en var aldrei birt í ljóðabókum Davíðs. Ljóðið er í fimm hlutum og var sá síðasti strax gerður að skólasöng MA eftir frumflutninginn 1. júní 1930. Að jafnaði eru einungis fyrsta og síðasta erindið sungin en við skólaslit eru öll erindin sungin. Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri. a> er sunginn við ýmis hátíðleg tækifæri. Almennt eru einungis fyrsta og síðasta erindið sungin en við skólaslit eru öll erindin sungin. Skólasöngurinn loks útgefinn. Starfsemi Kórs Menntaskólans á Akureyri hefur verið mismikil í gegnum tíðina. Skólasöngurinn hefur verið fastur liður á dagskrá og allrasíðustu ár hefur hann stundum verið sunginn í fjórum röddum. Árið 2001 var söngurinn gefinn út á diski þar sem kórinn flutti úrval íslenskra sönglaga undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. HTML5. HTML5 er ívafsmál fyrir vefsíður sem er í þróun hjá W3C sem næsta útgáfa HTML. Ætlunin er að HTML5 taki við af HTML4.1, XHTML 1.0 og DOM Level 2 HTML. Hugmyndin er að það minnki þörfina fyrir íforrit sem nú eru notuð til að skila ákveðinni tegund af margmiðlun, eins og Adobe Flash, Microsoft Silverlight og Sun JavaFX. Þannig víkkar staðallinn út notkunarmöguleika skjalalíkansins og skriftumála og bætir við nýjum forritunarviðmótum á borð við skilgreint svæði fyrir tvívíða teikningu (codice_1), afspilun kvikmynda og hljóðs (codice_2) og margt fleira. Ætlunin var að HTML5 yrði að W3C-tilmælum síðla árs 2010 en mikill dráttur hefur orðið á vinnslu þess. Stuðningur vafra við HTML5 hefur lengst af verið takmarkaður en það breyttist þegar aðgerðasafnið WebKit, sem meðal annars er notað í vafranum Safari, útfærði meiri stuðning en áður hafði þekkst árið 2007. Í kjölfarið ákvað Apple Inc. að sleppa stuðningi við Adobe Flash í bæði iPhone og iPad. Þetta hefur skapað aukinn þrýsting á að útfæra margmiðlun á vefsíðum með HTML5 í stað Flash. Viðbót. Viðbót (einnig sjaldnar íforrit eða íbót) er lítið forrit sem keyrir innan stærra forrits og víkkar út notkunarmöguleika þess þrátt fyrir að vera aðgreint frá því ólíkt viðaukum sem falla algerlega saman við aðalforritið. Notkun íforrita er algeng í vöfrum þar sem þau meðhöndla sérstök skráarsnið á borð við kvikmyndasnið og margmiðlun (sbr. Adobe Flash). Þróunarumhverfi eins og Eclipse notast líka við íforrit til að skila tiltekinni virkni til notenda. Í þessum hugbúnaði er gert ráð fyrir notkun íforrita sem þurfa að uppfylla tiltekna staðla til að virka með aðalforritinu. Skipanalínuviðmót. Skipanalínuviðmót er viðmót til að vinna í tölvum með því að nota skrifaðar skipanir á svokallaða skipanalínu til að framkvæma aðgerðir, andstætt myndrænu viðmóti þar sem notandinn framkvæmir aðgerðir með því að smella með músinni á viðföng (hnappa, valmyndir, stikur, glugga og íkon) og textaviðmóti þar sem notandinn velur úr skipunum í valmynd. Notkun skipanaviðmóts fer þannig fram að notandinn slær inn skipun og ýtir á Enter-takkann á lyklaborðinu. Forrit sem nefnist skipanatúlkur tekur þá við skipuninni, greinir hana og framkvæmir. Þegar framkvæmd skipunar er lokið skilar forritið venjulega einhvers konar úttaki í textaformi. Skipanaviðmót komu fyrst fram á sjónarsviðið á 6. áratugnum og gáfu möguleika á því að fá niðurstöður jafnóðum ólíkt lotuvinnslu með gataspjöldum. Elís (borg). Elís var forngrísk borg á Pelópsskaga. Condorcet markgreifi. Marie Jean Antoine Nicolas de Caritat, marquis de Condorcet (17. september 1743 – 28. mars 1794), þekktur sem Nicolas de Condorcet var franskur heimspekingur, stærðfræðingur og einn af brautryðjendum stjórnmálafræðinnar. Hann hannaði Condorcet-aðferðina við kosningar og sýndi fram á þversögn Condorcets (einnig nefnd "þversögn lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu") og kviðdómssetningu Condorcets. Þá er hann talinn til boðbera Upplýsingastefnunnar. Hann krafðist jafnrétti kynjanna og var almennt frjálslyndur í stjórnmálaviðhorfum. Kviðdómssetning Condorcets. Kviðdómssetning Condorcets er kennisetning um líkur þess að tilekin hópur einstaklinga komist að réttri niðurstöðu. Condorcet markgreifa setti hana fram í ritgerð sinni (e. "Essay on the Application of Analysis to the Probability of Majority Decisions") árið 1785. Kennisetning þessi er kennd við kviðdóm vegna þess að þeirra er verkefnið að skera úr um hvort sakborningur er sekur eða saklaus. Í sinni einföldustu mynd sýnir kennisetningin formlega fram á að við beitingu meirihlutakosningu við þær aðstæður að kosið sé um tvo valmöguleika, að því gefnu að annar þeirra sé réttur og hver kjósandi hafi eitt atkvæði, séu meiri líkur á að rétt niðurstaða komi út með hækkandi tölu kjósanda ef líkurnar á því að hver kjósandi hafi rétt fyrir sér sé meiri en ½. Séu hins vegar minni en helmingslíkur á að hver kjósandi hafi rétt fyrir sér er ráðlegast að fjöldi kjósanda sé einn. Heiðmörk. Heiðmörk er vinsæll staður til mannfagnaða en þar eru níu áningastaðir. Heiðmörk er skógræktar- og friðland við Elliðavatn austan Reykjavíkur. Svæðið er stærsta útivistarsvæði í nágrenni borgarinnar, um það bil 32 ferkílómetrar. Tæplega 90% svæðisins er gróið land og þar af um 20% ræktað skóglendi og 20% villtur birkiskógur og kjarr. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur umsjón með svæðinu og hefur sinnt uppgræðslu þar allt frá stofnun félagsins árið 1946 auk lagningu göngustíga og annarra verka. Göngustígar í Heiðmörk eru nú samtals um 40 kílómetrar að lengd. Heiðmörk var gerð að friðlandi 25. júní 1950 og gaf Sigurður Nordal því núverandi nafn eftir samnefndu fylki í Noregi. Í Heiðmörk eru níu reitir ætlaðir sem áningastaðir og er þar hægt að spila boltaleiki, tjalda og grilla. Fólkvangurinn Rauðhólar eru eftirtektarvert kennileiti í Heiðmörk. Auk þeirra eru þar Gvendarbrunnar og önnur vatnstökusvæði Orkuveitu Reykjavíkur og Maríuhellar í Heiðmörk norðanverðri. Sigurdagurinn í Evrópu. „Sigurdagurinn“ er haldinn hátíðlegur í Rússlandi 9. maí ár hvert. Það er ma. gert með hersýningum á Rauða torginu. Árið 2010 tóku herdeildir úr röðum bandamanna þátt ma. Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn. Sigurdagurinn í Evrópu er merksidagur, sem haldinn er hátíðlegur 8. maí ár hvert í mörgum ríkjum Evrópu til að minnast sigurs bandamanna á Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni. Þennan dag, árið 1945, undirritaði Karl Dönitz, forseti Þýskalands, uppgjafarsáttmála fyrir hönd Þjóðverja, sem fól í sér skilyrðislausa uppgjöf herja Þýskalands og mörkuðu þannig endalok Þriðja ríkis og seinni heimsstyrjaldarinnar. Yfirlýsing um hernaðarlega uppgjöf var undirrituð þann 7. maí í Reims, Frakklandi og fullgilt þann 8. maí í Berlín, Þýskalandi. Uppgjöfin gekk í gildi kl. 23:01 að miðevrópskum tíma þann 8 maí. Sigurdagurinn er því haldinn hátíðlegur þann 8. maí hjá ríkjum vestan megin Berlínar en ríki Austur Evrópu halda sigurdaginn 9. maí. a> forsætisráðherra heilsar fagnandi mannfjöldanum á Sigurdaginn. Yfirlýsingin um hernaðarlega uppgjöf sem undirrituð var í Reims þann 7. maí 1945. Hátíðarhöld. Milljónir manna um fögnuðu endalokum stríðsins. Í London, streymdi mannfjöldi frá Trafalgar torgi upp að Buckingham höll, þar sem George VI konungur og Elizabeth drottning, í fylgd með Winston Churchill forsætisráðherra, birtust á hallarsvölunum og heilsuðu fagnandi mannfjöldanum. Harry Truman forseti Bandaríkjanna, sem átti 61 árs afmæli þennan dag, tileinkað sigurdaginn minningu um forvera sinn, Franklin D. Roosevelt, sem lést tæplega mánuði fyrr, þann 12. apríl. Flaggað var því í hálfa stöng vegna 30 daga yfirlýstra sorgardaga, sem lauk 12. maí. Mikil hátíðahöld fóru fram í Chicago, Los Angeles, Miami, og sérstaklega á Times Square torgi í New York borg. Sigurdagur Sovétríkjanna (9. maí). Þegar uppgjafaryfirlýsing herja Þjóðverja tók gildi kl. 23:01 CET var kominn 9. maí í Moskvu. Sigurdagurinn er því haldinn hátíðlegur þann 8 maí hjá ríkjum vestan megin Berlínar en ríki Austur Evrópu halda sigurdaginn 9. maí. Friði fagnað á Íslandi - Róstursamt í Reykjavík. Mikill og einlægur fögnuður var um allt Ísland. Frelsun Norðurlanda var einnig fagnað sérstaklega. Í Reykjavík, Akureyri og fleiri kaupstöðum og kauptúnum var mikið um dýrðir. Þennan dag var Reykjavík var fánum prýdd. Allar verslanir og stofnanir voru lokaðar frá hádegi. Skip í Reykjavíkurhöfn þeyttu flautur í klukkustund. Vinna féll alls staðar niður frá hádegi og litlu síðar fór fólk að streyma saman í miðbænum úr öllum áttum. Gríðarlegur mannfjöldi var samankominn í miðbæ Reykjavíkur til þess að fagna sigri bandamanna í Evrópu.Eftir hádegi hófst hátíðahald við Austurvöll að tilhlutan ríkisstjórnarinnar og borgarstjórans í Reykjavík. Þar fluttu Forseti Íslands og Ólafur Thors forsætisráðherra ávörp og sendiherrar. Þegar líða tók á kvöld varð mjög róstusamt í miðborginni. Víða fóru hópar syngjandi hermanna um. Til átaka kom og varð lögregla að beita táragai í fyrsta skipti í Reykjavík til að dreifa mannfjöldanum og stilla til friðar. Rúður voru brotnar í verslunum og tjón var talsvert. Á Akureyri voru fánar við hún frá því snemma um morguninn í sunnan andvara og sól. Fólk safnaðist saman á Ráðhústorgi til að fagna. Gjallarhorni hafði verið komið fyrir á torginu og heyrðist útvarp frá Reykjavík um torgið og nágrenni. Fjöldi manns hlýddi þar á ávörp Forseta Íslands og forsætisráðherra. Lúðrasveit Akureyrar lék og Karlakór Akureyrar og „Geysir“ sungu þjóðsöngva Norðurlanda. Síðan var samkoma í MA. Mikill fögnuður var í Reykjavík á sigurdaginn 8. maí 1945. Endaði það með rósturum og táragasi. Mistur. Mistur í grennd við verksmiðju í Evrópu. Mistur er veðurfyrirbæri sem er þannig að þurrar og örsmáar rykagnir eru lofti og draga úr skyggni, sveipa hulu um landið og deyfa litbrigði. Þokumóða og þokuloft er ákveðin gerð af mistri, sem stafar af örsmáum vatnsdropum í stað rykagna. Mistur er bláleitt ef horft er á það á móti dökkum bakgrunni (fjallablámi) en gulleitt ef það ber við ljósari bakgrunn eða sól. Þokumóða eða þokuloft er hins vegar alltaf gráleit. Mistur á Íslandi. Mistur á Íslandi getur stafað af moldroki úr söndum. Það er gulleitt eða brúnleitt ef það er mikið. Mistur getur einnig komið hingað frá Evrópu og er það ýmist iðnaðar- eða gróðureldamistur. Hvítleitt saltmistur liggur oft yfir landi í miklum og þurrum vestanstormum. Mistur myndast einnig í eldgosum. Mikið mistur fylgdi Kröflueldum í júlí 1980. Frægasta mistur Íslandssögunnar er móðan í Móðuharðindunum. Hún kom fram í veðurathugunum Rasmusar Lievogs stjörnuskoðara í Lambhúsum við Bessastaði. Mistrið frá Skaftáreldum náði um allt norðurhvel jarðar og er talið að þess hafi einnig gætt á suðurhveli haustið 1784. Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 gerir oft mikið öskumistur á Suðurlandi vegna fokösku. Rasmus Lievog. Rasmus Lievog var norskur stjörnufræðingur sem var sendur til Íslands 1779 sem konunglegur stjörnuskoðari. Hann settist að í Lambhúsum á Álftanesi sem var hjáleiga frá Bessastöðum og bjó þar 1805. Þar lét hann reisa turn til stjörnuathugana, en auk stjörnuskoðunar fékkst hann við ýmiss konar mælingar, hann mældi sjávarföll, rannsakaði misvísun segulnálar, stundaði veðurathuganir og gerði uppdrætti af stöðum á Álftanesi og í Reykjavík. Rasmus Lievog kom á eftir Eyjólfi Johnsoniusi stjarnfræðingi sem var skipaður stjörnuskoðari 1772 og gengdi því embætti til dauðadags árið 1775. Upprunalega átti Eyjólfur að hafa aðsetur á Snæfellsnesi en úr varð að hann var settur niður á Lambhúsum á Álftanesi og í hans tíð var byrjað að byggja stjörnuturninn. George Soros. George Soros (f. 12. ágúst 1930) er ungverskur verðbréfasali og spákaupmaður fæddur í Búdapest í Ungverjalandi. Hann hét þá György Schwartz en Tivadar faðir hans breytti fjölskyldunafninu í Soros árið 1936. Faðir hans var rithöfundur sem skrifaði bækur sínar að mestu á esperanto. Soros lærði esperanto strax í bernsku og er einn þeirra sem hefur það tungumál að móðurmáli. Soros flúði frá Ungverjalandi árið 1946 með því að taka þátt í ungmennaþingi esperanto á Vesturlöndum. Hann flutti til Englands árið 1947 og útskrifaðist frá London School of Economics árið 1952. Til Bandaríkjanna flutti hann svo árið 1952. Soros efnaðist á fjármálaviðskiptum svo sem spákaupmennsku varðandi gjaldmiðla. Fyrstu kynni Sorosar af gjaldeyrisviðskiptum voru á táningsárum en þá verslaði hann með gjaldmiðla í ofsaverðbólgu á árunum 1945-46. Soros er þekktastur fyrir skortsölu á breskum pundum árið 1992 og varð hann þekktur sem „Maðurinn sem felldi pundið“. Í september 1992 hóf Soros „árás“ á pundið og veðjaði hann tíu milljörðum dala á að pundið myndi falla í verði. Raunar er ofmælt að hann hafi fellt pundið, heldur sá hann fyrir að annaðhvort myndi pundið falla eða efnahagur Bretlands hrynja. Hann veðjaði á líklegri kostinn. Pierre Ozanne. Pierre Ozanne (3. desember 1737 – 10. febrúar 1813) var franskur teiknari frá borginni Brest á Bretagne-skaga. Hann var með í frönskum leiðangri sem var farinn til Íslands og víðar árið 1771 og gerður út af Loðvík 15. konungi Frakklands. Leiðangurinn kom við á Patreksfirði og kom þangað 1. júlí árið 1772. Leiðangurinn var undir stjórn Jean René Antoine Marquis de Verdun de la Crenne og var ætlað að gera nákvæmar staðaákvarðanir fyrir ýmsa staði til þess að gera nákvæmari siglingakort. Eftir Pierre Ozanne hafa varðveist nokkrar frumteikningar úr þessari ferð, meðal annars frá Patreksfirði, Tálknafirði, Vestmannaeyjum, auk tveggja portrettmynda. Vitað er að hann gerði margar fleiri myndir frá Íslandi en þær munu glataðar. Pierre Ozanne starfaði hjá franska sjóhernum sem teiknari, málari og skipaverkfræðingur. Hann var yngri bróðir Nicolas Ozanne sem er einn þekktasti skipa- og sjávarmyndamálari Frakka. Myndir Pierre Ozanne frá Íslandi eru frummyndir fullgerðar á staðnum, en ekki unnar eftir skissum þegar heim var komið eins og algengast var á þessum tíma. Ein mynda hans frá Patreksfirði er varðveitt á Louvre safninu. Á hana hefur verið skrifað „Patreksfjörður að morgni, þar sem legið var við festar. Komum þann fyrsta júlí 1772 og fórum þann tuttugasta sama mánaðar“. Myndin er teiknuð með svartsteini(hæð 18,5 cm lengd 42,5 cm) og hefur Ozanne setið í skektu á legunni við Vatneyri á góðviðrismorgni. Á myndinni má sjá freigátuna „La Flore“, dráttarbátinn, danskt kaupskip og marga smábáta. Leiðangursmenn eru að koma í land og mannfjöldi í fjörunni og seglskip að leggja út á haf. Portrettmyndirnar tvær eru meðal örfárra frumteikninga sem til eru af íslenskum konum á 18. öld. Þær eru báðar gerðar á Patreksfirði og eru um 20×25 sm á stærð. Þær fundust á safni sjóhersins i París, en frummyndirnar eru í einkaeign. Ólafur Halldórsson (f. 1855). Ólafur Halldórsson, fullu nafni "Ólafur Þorsteinn Halldórsson" – (15. maí 1855 – 16. apríl 1930) – var íslenskur lögfræðingur sem starfaði í Kaupmannahöfn. Hann var skrifstofustjóri íslensku stjórnardeildarinnar þar, og er þekktastur fyrir útgáfu sína á Jónsbók, 1904. Æviferill. Ólafur fæddist á Hofi í Vopnafirði. Foreldrar hans voru Halldór Jónsson (1810–1881) prófastur þar og alþingismaður, og fyrri kona hans Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir (1824–1856). Ólafur varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1877 og tók próf í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1882. Snemma árs 1883 varð hann aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannhöfn og varð skrifstofustjóri þar 1889. Hann fékk lausn frá störfum 1904, þegar Ísendingar fengu heimastjórn og deildin var lögð niður. Hann tók þá við skrifstofu Stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn og starfaði þar til 1909, þegar hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann dó 1930. Hann var forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags 1885–1904 og heiðursfélagi þar 1895. Varð riddari af dannebrog 1894, dannebrogsmaður 1902 og konferensráð 1904. Útgáfan á Jónsbók 1904. Ólafur er þekktastur fyrir útgáfu sína á "Jónsbók, lögbók Íslendinga", sem kom út í Kaupmannahöfn 1904. Raunar komu fleiri að því verki. Þeir Ólafur og dr. Jón Þorkelsson, síðar þjóðskjalavörður, hófu undirbúning verksins árið 1888. Fyrst höfðu þeir samráð við Vilhjálm Finsen um vinnubrögð og tilhögun útgáfunnar, en hann hafði þá lokið vísindalegri útgáfu á lagasafni þjóðveldisins, Grágás. Jón vann mikið að samanburði og uppskrift handrita þar til hann fluttist til Íslands 1899. Eftir það vann Ólafur einn að verkinu, þó að hann væri oft heilsulítill og hlaðinn öðrum störfum. Á lokasprettinum aðstoðaði Finnur Jónsson við prófarkalestur og lokafrágang. Sem dæmi um umfang verksins má nefna að vísað er til tæplega 200 handrita af "Jónsbók", auk þess sem lögbókin var til í 6 prentuðum útgáfum og í danskri þýðingu í 24 handritum. „Markmið útgáfunnar 1904 var... tvíþætt. Ólafur Halldórsson vildi nálgast upprunalegan texta eftir því sem hægt væri en ætlaði jafnframt að sýna þann texta sem hafði gilt um aldir svo að hægt væri að nota útgáfuna við réttargæslu. Megintexti útgáfunnar gegndi fyrra hlutverkinu og er án innskota úr réttarbótum, en í óviðjafnanlegu og kerfi tvískiptra neðanmálsgreina birtist orðamunur úr elstu handritum og líka úr innskotnu meginhandritunum AM 343 fol. og AM 350 fol., sem og úr prentuðum útgáfum.“ Óhætt er að segja að útgáfan á "Jónsbók" hafi verið fræðilegt stórvirki. Bókin var ljósprentuð árið 1970, með 28 bls. eftirmála eftir Gunnar Thoroddsen (Odense Universitetsforlag). Önnur útgáfustörf. Ólafur gaf einnig út (ásamt Hilmari Stephensen) tvö síðustu bindin af hinu mikla verki "Lovsamling for Island", þ.e. 20. og 21. bindi, Kbh. 1887 og 1889. Ludwigshafen. Ludwigshafen er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz með 163 þúsund íbúa. Borgin er ákaflega ung, fékk ekki borgarréttindi fyrr en á miðri 19. öld. Þar er fyrirtækið BASF með höfuðstöðvar og verksmiðjur en hún er stærsta efnaverksmiðja heims. Lega. Loftmynd af Ludwigshafen. Fremst sér í Rínarhöfnina. Handan Rínarfljóts er Mannheim. Ludwigshafen liggur við Rín suðaustarlega í sambandslandinu, gegnt Mannheim. Næstu borgir (fyrir utan Mannheim) eru Heidelberg til suðausturs (10 km), Worms til norðurs (15 km), Speyer til suðurs (20 km) og Kaiserslautern til vesturs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Ludwigshafen er gult akkeri á rauðum grunni. Akkerið er tákn fyrir siglingar og höfnina í borginni. Það kemur fyrst fram sem tákn 1895 en núverandi skjaldarmerki var tekið upp 1937. Orðsifjar. Borgin heitir til heiðurs Ludwig I. konungs í Bæjaralandi og merkir bókstaflega "Lúðvíkshöfn". Nafnið kom fyrst upp 1843. Opinberlega heitir borgin Ludwigshafen am Rhein. Endingunni "am Rhein" var bætt við 1882. Söguágrip. Ludwigshafen 1834, 9 árum áður en Bæjaraland keypti bæinn 1607 lét kjörfurstinn Friðrik IV frá Pfalz reisa virki á vesturbakka Rínarfljóts, gegnt Mannheim, til að gæta að brúarsporði brúarinnar yfir fljótið. Virkið stóð þar sem Ludwigshafen stendur nú. Virkið stóð það allt til 1799 en þá rifu Frakkar virkið niður eftir innrás þeirra í þýska ríkið. Vínarfundurinn úrskurðaði að landsvæðið fyrir vestan Rín skyldi tilheyra Bæjaralandi, en austursvæðið (með Mannheim) Baden. 1820 var fyrsta húsið reist á staðnum. Í kjölfarið myndaðist lítill bær og lítil höfn við Rín. 1843 keypti Bæjaraland svæðið og var bærinn þá nefndur Ludwigshafen, til heiðurs Lúðvíks I konungs Bæjaralands. Bærinn hlaut svo borgarréttindi 1859 og er því með yngri borgum Þýskalands. Á þessum tíma var iðnbyltingin í gangi allt í kring. Aðeins ári seinna fékk stórfyrirtækið BASF aðstöðu í Ludwigshafen en með tímanum varð það að stærsta efnafyrirtæki heims. Í heimstyrjöldinni síðari varð skortur á vinnuafli. Því var tekið til bragðs að flytja inn útlendinga til vinnu í iðnaði en einnig voru fangar óspart notaðir. Þannig voru 50 þúsund manns neyddir til vinnu í borginni. Borgin varð fyrir miklum loftárásum, ásamt nágrannaborginni Mannheim. Um 80% borgarinnar eyðilögðust. Eftir stríð var Ludwigshafen endurreist í snatri en það var gert á einfaldan hátt. Því eru engar fagrar byggingar þar og miðborgin er látlaus. 1948 átti sér stað stórslys í efnaverksmiðju BASF, er sprenging banaði 200-250 manns. Þúsund aðrir slösuðust. Árið 2008 varð stórbruni í útlendingahæli í borginni. Níu hælisleitandi Tyrkir biðu bana. Í kjölfarið var samband Þjóðverja og Tyrkja stirt í borginni, þar sem talið var að brennuvargar hafi kveikt í. Hiroshima. a> sem hér sést til vinstri. Hiroshima (広島市 "Hiroshima-shi)" er borg í Japan. Hiroshima er fyrsta borgin sem orðið hefur fyrir kjarnorkuárás en Bandaríkjamenn sprengdu kjarnorkusprengju yfir henni undir lok síðari heimsstyrjaldar þann 6. ágúst 1945 og drápu með því allt að 180.000 manns. Hu Jintao. Tengsl, heppni, hæfileikar ― og metnaður, urðu til þess að Hu Jintao, 68 ára gamall hlédrægur straumverkfræðingur, stýrir stærsta ríki heims með um 1,340 milljónir íbúa. Hu Jintao (胡|锦|涛 á kímversku) (fæddur 21. desember 1942) er leiðtogi Kínverska Alþýðulýðveldisins. Hann er Aðalritari kommúnistaflokksins í Kína frá 2002, forseti Kínverska Alþýðulýðveldisins síðan 2003 og formaður Hermálaráðs Kína frá 2004. Hann telst til svokallaðrar „fjórðu kynslóðar“ leiðtoga í Alþýðulýðveldisins Kína. Hu (sem er fjölskyldunafn hans) hefur varið nær allri starfsæfi sinni í kommúnistaflokknum, sem flokksleiðtogi í Sjálfstjórnarhéraðinu Tíbet, seinna sem ritari á skrifstofu Aðalritara Kínverska kommúnistaflokksins og að lokum sem varaforseti hins frjálslynda Jiang Zemin sem beitti sér fyrir nútímavæðingu Kína. Hu hefur verið lýst sem hlédrægum stjórnanda. Frami hans til lýsir umskiptunum á hinum gamla forystukerfi kommúnista til yngri raunsærri embættismanna. Hann studdi mjög nútímavæðingu Kína en hefur í seinni tíð beitt sér fyrir auknum afskiptum af hagkerfinu. Hann hefur að mestu þótt íhaldssamur í pólitískum umbótum. Í utanríkismálum hefur Hu verið talsmaður nálgun sem nefnd hefur verið „friðsamleg þróun Kína“ þar sem sóst er eftir „mjúkum völdum“ í alþjóðasamskiptum. Á valdatíma Hu hafa áhrif Kínverska Alþýðulýðveldisins í Afríku, Rómönsku Ameríku og öðrum þróunarríkjum aukist mjög. Pólitískri hugmyndafræði Hu hefur í stuttu máli verið lýst sem leit að „samfélagi jafnvægis og friðsamlegs vaxtar“ innanlands og friðsamlegum þróun á alþjóðavettvangi. Upphafsár. Hu Jintao fæddist í Jiangyan, Jiangsuhéraði 21. desember 1942. Afi hans flutti fjölskylduna frá Jixi í Anhui-héraði til Jiangyan. Þrátt fyrir að faðir hans hafi átt lítið te-fyrirtæki í Taizhou var fjölskylda Hu fremur fátæk. Móðir hans lést þegar hann var á sjöunda aldursári og var hann þá alinn upp af frænku sinni. Í menningarbyltingunni var faðir hans „fordæmdur“ og hafnað. Sá atburður virðist hafa sett svip sin á Hu sem hefur lagt rækt við að hreinsa nafn föður síns. Hu þótti hæfileikaríkur nemandi í menntaskóla og hlaut þar úrvalseinkun meðal annars í söng og dans. Árið 1964 gekk hann til liðs við Kommúnistaflokk Kína meðan hann var nemandi í Tsinghua-háskóla í Beijing. Hann varð nemendaformaður Tsinghua á þeim tíma. Hann útskrifaðist með BS-gráðu í rafmagnsverkfræði með sérsvið í straumfræði (e. hydraulic engineering) árið 1965. Á námsárunum í Tsinghua-háskóla hitti Hu samstúdent sinn Liu Yongqing sem hann giftist. Þau eiga tvö börn: soninn Hu Haifeng og dótturina Hu Haiqing. Árið 1968 bauðst Hu til að þjóna í Ganzu og vinna við byggingu Liujiaxia vatnsaflsvirkjunarinnar. Að auki vann að flokksmálum fyrir útibú ráðuneytis Vatnsauðlinda og raforku. Á sjöunda áratugnum varð hann sterkur fylgjandi búddatrúar. Frá 1969 – 1974 vann Hu sem verkfræðingur fyrir Sinohydro sem er stórt verkfræði- og verktakafyrirtæki. Lærimeistari Song Ping. Árið 1974 varð Hu flokksritari í Gansu. Næstu ár einkenndust af frama innan flokksins í hækkaði hann í Ganzu. Þegar svokölluð „önnur valdakynslóð“ Alþýðulýðveldisins Kína var að víkja fyrir þeirri „þriðju“ árið 1980, kallaði Deng Xiaoping leiðtogi eftir fleiri byltingarkenndum yngri kommúnistaleiðtogum sem væru menntaðri og sérhæfðari. Til að svara leitarkallinu að yngri mönnum uppgötvaði Song Ping Aðalritari Kommúnistaflokksins (ríkisstjóri) í Gansu héraði Hu Jintao og hækkaði hann í tign. Á sama tíma var jarðfræðingurinn og verkfræðingurinn Wen Jiabao sem einnig var studdur af Song Ping hækkaður í tign. Þeir tveir áttu síðar eftir að leiða Kína. Á skólabekk miðstjórnarinnar. Áfram vann Hu ötult starf með ungliðahreyfingu flokksins. Árið 1982 hækkaði Hu sem var fertugur í tign sem ritari ungliðahreyfingar Kommúnistaflokksins í Gansu héraði. Lærimeistari hans Song Ping fluttist til Peking til að gegn stöðu ráðherra Skipulags Kommúnistaflokks Kínverska Alþýðulýðveldisins. Hann fékk það mikilvæga hlutverk og ábyrgð að sjá um tilnefningar, framboð og kynningu nýliða innan flokkskerfisins. Og ekki leið á löngu uns lærimeistarinn lagði til að Hu var boðið til náms í Skóla Miðstjórnar Kommúnistaflokksins í höfuðborginni Beijing. Miklu skiptir þar að börn tveggja æðstu leiðtoga Kína voru samnemendur Hu: Annars vegar Deng Nan sem er dóttir Deng Xiaoping og Hu Deping sem er sonur Hu Yaobang. Þessi nýju tengsl Hu virðast hafa nýst honum þannig að Deng Xiaoping og Hu Yaobang þáverandi leiðtogar hafi fengið augastað á honum. Með öll þessi tengsl upp á vasann, stuðning Song Ping, Hu Yaobang, Deng Xiaoping var brautin rudd og framtíð Hu björt. a> í Moskvu 9. maí 2010. Í utanríkismálum hefur Hu verið talsmaður nálgunar sem nefnd hefur verið „friðsamleg þróun Kína“ þar sem sóst er eftir „mjúkum völdum“ í alþjóðasamskiptum. Á valdatíma Hu hafa áhrif Kínverska Alþýðulýðveldisins í Afríku, Rómönsku Ameríku og öðrum þróunarríkjum aukist mjög. Og áfram vann Hu ötult í ungliðahreyfingu flokksins. Hann sem nú orðinn forstöðumaður Kínverska Æskulýðsráðsins fylgdi Hu Yaobang aðalritara Kommúnistaflokksins, víða í heimsóknir innan Kína. Urðu með þeim góð kynni. Flokksritari í Guizhou. Árið 1985 þrýsti Hu Yaobang á að ferðafélagi sinn Hu Jintao hækkaði í tign og tæki við yfirstjórn Kommúnistaflokksins í Guizhou. Hann varði því ólíkt mörgum öðrum upprennandi forystumönnum flokksins, mestum ferli sínum í fátækari hluta Kína en ekki í hagsæld strandsvæða Kína. Flokksritari Kommúnistaflokksins í Tíbet. Árið 1988 tók hann við yfirstjórn flokksins í sjálfstjórnarsvæðinu Tíbet og gegndi því til 1992. Árið 1989 þótti hann sýna fádæma hörku gegn aðskilnaðarsinnum í Tíbet sem mótmæltu á 30 ára afmæli tíbetsku uppreisnarinnar 1959. Yngsti meðlimur æðstaráðs flokksins. Þessi framganga Hu í Tíbet varð til þess að hann var kallaður heim til starfa i sjö manna æðstaráði flokksins árið 1992. Deng Xiaoping og svokölluð „önnur forystukynslóð Kína“ var þá að afhenda völd til Jiang Zemin og „þriðja kynslóðarinnar“. Deng vildi að þeir íhuguðu við það tilefni að „fjórðu kynslóðinni“ að framtíðarleiðtogum, helst einhverjum undir fimmtíu. Áðurnefndur Song Ping lærimeistari Hu mælti að sjálfsögðu með honum sem mögulegum framtíðarframbjóðanda. Rétt fyrir 50 ára afmæli varð Hu Jintao yngsti meðlimur sjö manna æðstaráði flokksins. Stuðningsmaður Jiang Zemin. Árið 1993 tók Hu yfirstjórn á skrifstofu Miðstjórnar flokksins sem sá um daglegan rekstur Miðstjórnarinnar sem og Flokksskóla Miðstjórnarinnar. Honum stýrði þar almannatenglum, auk undirbúnings yngri flokksmanna til æðri starfa. Hu átti því auðvelt um vik með að afla stuðningsmanna meðal nemenda. Hu hafði einnig umsjón með mótun hugmyndafræði flokksins. Hann þótti mjög dyggur stuðningsmaður Jiang Zemin sem svo mjög beitti sér fyrir nútímavæðingu, og gætti þess að Jiang væri alltaf í sviðsljósinu. Hu var síðan varaforseti Kína árið 1998 og Jiang Zemin fékk honum virkara hlutverk í utanríkismálum. Hugmyndafræði Hu. Árið 2002 var Hu kjörinn aðalritari Kínverska Kommúnistaflokksins og Wen Jiabao forsætisráðherra. Þeir voru talsmenn pólitískrar hugmyndafræði sem áherslu á að draga úr misrétti innan Kína. Aukin landsframleiðsla mætti ekki verða á kostnað almennrar velferðar. Leita yrði „jafnvægis og friðsamlegs vaxtar“ innan kínversks samfélags. Kastljósinu var því beint að efnaminni héruðum Kína. Að auki yrði að huga mun meir að umhverfismálum og sjálfbærri þróun. Aukið skoðanafresli var þó ekki á dagskrá. Þeir félagar sem nú tilheyrðu „fjórðu kynslóðinni“ sem tók við völdum átti þó eftir að fást við Jiang Zemin sem vildi halda völdum þrátt fyrir háan aldur. Hugmyndir Hu og Wen Jiabao um minni áherslu á hagvöxt mættu andstöðu frá hóp sem stóð að baki Jiang Zemin og kenndur er við Shanghai borg. Kínversk stjórnmál síðari ára hafa einkennst af samkeppni milli Shanghai hópsins og Hu og Wen Jiabao. Allt er þegar þrennt er. Eftir að Jiang lét af störfum í hermálanefndinni árið 2004 varð Hu Jintao að fullu leiðtogi Kínverska Alþýðulýðveldisins. Allt er þegar þrennt er: Hu tók stjórn á þeim þremur stofnunum þar sem völd Alþýðulýðveldisins liggja. Hann varð Aðalritari kommúnistaflokksins í Kína árið 2002, forseti Kínverska Alþýðulýðveldisins árið 2003 og loks formaður Hermálaráðs Kína frá 2004. Hin „fjórða kynslóð“ leiðtoga í Alþýðulýðveldisins Kína var tekin við. Gagnrýni. Frá því snemma 1980, hefur Alþýðulýðveldinu Kína þróast frá því alræði sem einkenndi tíma Maó. Það voru „önnur og þriðja kynslóðin“ sem höfðu forystu að þeirri framþróun undir forystu Deng Xiaoping og Hu Yaobang og síðar Jiang Zemin. Enn eiga Kínverjar þó langt í land. Hu hefur reynst íhaldssamur og varkár á breytingar í frelsisátt. Árið 2009 taldi Hu að núverandi kerfi í Kína væri vænlegt og betri en önnur. Vestrænir kerfishættir, til að mynda aðskilnaður framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, eða fjölflokkakerfi, yrðu aldrei innleiddir í Kína. „Við munum aldrei apa í blindni eftir stjórnmálakerfinu í öðrum löndum,“ sagði Hu. „Sagan sýnir að það er blindgata fyrir Kínverja að taka hugsunarlaust upp vestræna stjórnkerfishætti.“ Frelsi fjölmiðla hefur átt undir högg að sækja í Kína undanfarin ár. Og tilraunir stjórnvalda til að hefta það frelsi sem felast í internetinu eru kunnar. Þekktasta dæmi þar um eru átök milli vestræna fyrirtækisins Google og stjórnvalda. Tengt efni. Jintao, Hu Meyjarflugur. Meyjarflugur (einnig nefndar glermeyjar eða dömlur) (fræðiheiti: "Zygoptera") eru annar af undirættbálkum vogvængja, hinn eru drekaflugur ("Anisoptera"). Meyjarflugur gangast undir ófullkomna myndbreytingu. Elly Vilhjálms. Henný Eldey Vilhjálmsdóttir, þekktust undir listamannsheitinu Elly Vilhjálms, (f. í Merkinesi í Höfnum 28. desember 1935, d. 16. nóvember 1995) var íslensk söngkona, þekktust fyrir flutning dægurlaga. Æviágrip. Eldey (eins og hún var alltaf kölluð) ólst upp í Merkinesi í Höfnum á Reykjanesskaga, næst elst meðal fjögurra bræðra, þeirra Sigurjóns, Þórodds, Marons Guðmanns og Vilhjálms Hólmars. Foreldrar þeirra voru hjónin Vilhjálmur Hinrik Ívarsson og Hólmfríður Oddsdóttir. Þegar Eldey hafði slitið barnsskónum fór hún í Héraðsskólann á Laugarvatni þar sem hún átti góða daga og þar fékk hún gælunafnið „Elly“. Að námi loknu lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hún fékk vinnu sem vélritunarstúlka. Jafnframt vinnunni sótti hún leiklistarnámskeið hjá Ævari Kvaran. Þegar hún sá auglýsingu í blaði „söngkona óskast“, skellti hún sér í prufu og áður en hún vissi af var hún orðin dægurlagasöngkona. Draumurinn rættist og hún sló í gegn sem söngkona með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Bjarni (faðir Ragnars söngvara) var með vikulega útvarpsþætti í Ríkisútvarpinu þar sem hann kynnti þessa einstæðu rödd. Raddbeitingin og túlkunin var á þann veg að þjóðin heillaðist. Ferill hennar var glæstur hjá hljómsveitum á borð við KK-sextettinn og Hljómsveit Svavars Gests. Svavar, sem varð þriðji og síðasti eiginmaður hennar, var líka hljómplötuútgefandi og hjá SG hljómplötum söng hún mörg lög inn á plötur. Fyrsta plata Ellyjar var smáskífa með laginu „Ég vil fara upp í sveit“ sem kom út 1960. Mörg laganna söng hún á móti karlsöngvurum eins og Vilhjálmi, bróður sínum, Ragnari Bjarnasyni og Einari Júlíussyni. Elly söng inn á tvær sólóplötur á ferlinum. Sú fyrri var LP-platan "Lög úr söngleikjum og kvikmyndum" sem kom út hjá SG-hljómplötum 1966. Hin LP-platan var jólaplatan "Jólafrí" sem Skífan gaf út 1988. Segja má að plötuferill Ellyjar hafi verið frekar stuttur, miðað við frægð hennar og vinsældir, allt fram að andlátinu 1995. Sérstæðasta verkið á ferlinum er ef til vill lagið „Sveitin milli sanda“ eftir Magnús Blöndal Jóhannsson, þar sem hún syngur „Aaaaa...“ þar sem enginn texti var ortur við lagið. Fyrsta platan með Elly kom út hjá Íslenskum tónum 1960. "79 af stöðinni" (síðar nefnt "Vegir liggja til allra átta") er titillagið úr samnefndri kvikmynd. "Sumarauki" fjallar um tíma íslensku skemmtiferðaskipanna. Jólin koma með Elly og Ragnari. Valdakynslóðir Alþýðulýðveldisins Kína. Þar sem frami bæði innan Kommúnistaflokks Kína og Kínverska hersins fer eftir starfsaldri, er hægt að greina mismunandi valdakynslóðir leiðtoga Alþýðuveldisins Kína sem hver eiga sitt tímabil og einkenni. Þessir forystuhópar hafa hver um sig kynnt viðbætur við hugmyndafræði fyrri kynslóða, sem í sumum tilvikum hefur breytt ríkjandi stefnu á landsvísu. „Fyrsta kynslóð“. „Fyrsta valdakynslóðin“ réð ríkjum frá 1949-1976. Það var Mao Zedong (áður ritað Mao Tse-tung) meginleiðtogi en með honum voru Zhou Enlai, Zhu De, Liu Shaoqi, Chen Yun, Peng Dehuai. Síðar komu Lin Biao og svokölluð „fjórmenningarklíka“ (hvorki Lin eða Gang talinn formlega vera hluti af þessari kynslóð vegna pólitískra fjandskapar við Menningarbyltinguna sem þau beittu sér mjög fyrir). Í „fyrstu kynslóð“ voru þeir sem stofnuðu Alþýðulýðveldið Kína eftir sigra kommúnista í borgarastríðinu í Kína. Það einkenndi þessa leiðtoga að þeir voru gjarnan bæði pólitískir og hernaðarlegir leiðtogar. Flestir voru menntaðir utan Kína. Annað sameiginlegt með þeim var þátttaka í „Göngunni miklu“, borgarastríðinu í Kína, og í öðru meginlandsstríðinu við Japan. Pólitísk hugmyndafræði „fyrstu kynslóðarinnar “ var byggð á marxisma og kennismíð Mao Zedong. a> var í forystu „annarrar valdakynslóðar“ sem leiddi efnahagslegar umbætur Kína. „Önnur kynslóð“. „Önnur valdakynslóðin“ réði ríkjum frá 1976-1992 undir stjórn Deng Xiaoping (áður ritað Teng Hsiao-Ping). Með honum voru Chen Yun, Hu Yaobang, Zhao Ziyang, Hua Guofeng, Ye Jianying, Song Ping. Allir þessir leiðtogar tóku þátt í byltingu kínverskra kommúnista, en léku að Deng Xiaoping undanskildum, fremur lítil hlutverk í þeim. Líkt og „fyrsta kynslóð“ voru margir menntaðir erlendis, sérstaklega í Frakklandi. Sú reynsla sem mótaði þá var svipuð fyrstu kynslóð. Flestir höfðu sumir einhverjum hlutverkum að gegna í Menningarbyltingunni, þó að jafnaði þeir sem héldu völdum eftir 1980 voru hreinsaðir af aðgerðum byltingarinnar. Þessi kynslóð beindi sjónum frá stéttabaráttu og uppbyggingu pólitískra hreyfinga til efnahagslegrar þróunar. Menningarbyltingunni og róttækum áherslum Mao Zedong var hafnað. Önnur kynslóð varð brautryðjandi efnahagslegra umbóta, opnunar og nútímavæðingar í Kína. Hundruð milljóna risu frá fátækt til bjargálna vegna markaðsvæðingar hagkerfisins. Hin ríkjandi hugmyndafræði var byggð á kennisetningum Deng Xiaoping. „Þriðja kynslóð“. Á árunum 1992 til 2003 réði þriðja valdakynslóðin undir forystu Jiang Zemin. Með honum voru Li Peng, Zhu Rongji, Qiao Shi og Li Ruihuan - Þessir leiðtogar eru fæddir fyrir byltinguna en voru menntaðir eftir hana og fyrir ágreining Kína við Sovétríkin. Flestir af þeim voru því menntaðir í Sovétríkjunum sem verkfræðingar og var ætlað að stjórna verksmiðjum í heimalandinu. Ólíkt forverum sínum voru pólitísk völd ekki á sömu hendi og hin hernaðarlegu. Reynsla þeirra mótast sameiginlega í síðara stríði við Japan og Kóreustríðið. Þessi kynslóð hélt áfram efnahagsframförum og nútímavæðingu í Kína en horfði fram ýmis alvarleg félagsleg málefni. Frelsi jókst í Kína. Ríkjandi pólitíska hugmyndafræði var byggð á kennisetningum Jiang Zemin. „Fjórða kynslóð“ (núverandi). a> leiðir „fjórðu valdakyn-slóðina“ sem nú er við völd. Hún studdi nútímavæðingu en hefur í seinni tíð aukið ríkisafskipti af hagkerfinu og þykir íhaldssöm á pólitískar umbætur. Frá 2003, og líklega allt til 2013 mun Hu Jintao leiða hóp manna sem teljast til „fjórðu valdakynslóðar“. Með honum eru leiðtogar á borð við Wu Bangguo, Wen Jiabao, Jia Qinglin, Zeng Qinghong og Wu Yi. Þessi hópur er einnnig þekktur sem „lýðveldis kynslóðin“ eða „Hu-Wen stjórnin“. Hópurinn komst til valda á 16 flokksþingi Kommúnistaflokksins og gera verður ráð fyrir að þeir stjórni allt fram til 18. þingsins sem haldið verður árið 2012. Þessi kynslóð leiðtoga eru fulltrúar nýrrar stjórnsýslu með áherslu á minna miðstýrðu pólitísku skipulagi. Flestir eru þessir menn verkfræðingar sem urðu fyrir áhrifum af Menningarbyltingunni. Ólíkt forverum sínum hafa þeir varið mjög litlum tíma erlendis. Ríkjandi pólitísk hugmyndafræði þessa tímabils er kennismíð Hu Jintao um „Þróunarhugtak vísindanna“ sem felst í leit að „samfélagi jafnvægis og friðsamlegs vaxtar“ innanlands og friðsamlegum þróun á alþjóðavettvangi. „Fimmta kynslóðin. Xi Jinping núverandi varaforseti Kína er talinn líklegur til að leiða næstu valdakynslóð eða þá „fimmtu“. Hún verður að mestu menntuð í bestu háskólum landsins. „Fimmta kynslóðin“ mun líklega koma til valda á 18. flokksþinginu sem haldið verður árið 2012. Þá verður Hu Jintao að segja af sér sem flokksformaður og sem forseti ári síðar. Líklegast leiðtogi hinnar nýju valdakynslóðar er hinn 57 ára Xi Jinping núverandi varaforseti og varaformaður hinnar valdamiklu Hernaðarnefndar flokksins. Hann er fyrrverandi aðalritari flokksins í Sjanghæ og Zhejiang. Li Keqiang núverandi varaforsætisráðherra er talinn líklegur arftaki Wen Jiabao forsætisráðherra. Önnur nöfn sem nefnd hafa verið eru Li Yuanchao en hann sér um skipulagsmál Kommúnistaflokksins, Bo Xilai sem er flokksformaður í Chongqing, Wang Qishan varaforsætisráðherra, Wang Yang flokksformaður í Guangdong, Zhang Gaoli flokksformaður Tianjin, Liu Yandong ríkisráðskona, Ma Kai ráðherra Endurskipulags og þróunar og Zhang Qingli flokksformaður í Tíbet. Í fimmtu kynslóð, eru væntanlega færri verkfræðingar en fleiri menntaðir í stjórnun og fjármálum, ásamt athafnamönnum. Flestir hafa þeir verið menntaðir í bestu háskólum Kína. Þessi kynslóð á rætur að rekja til Æskulýðshreyfingar Kommúnista sem Hu Jintao núverandi forseti stýrði. „Sjötta kynslóðin“? Að því gefnu að valdaskipti í Kína haldist áfram á næstu áratugum að byggjast á starfsaldursframa innan Kommúnistaflokks Kína og Kínverska hersins, er hægt að gera ráð fyrir að „sjötta valdakynslóðin“ taki við á 20. flokksþinginu sem haldið verður árið 2022. Líklegt verður að telja miðað við fyrri þróun að sá hópur verði fæddur um 1960 og að þessi kynslóð horfi fram á verulegar pólitískar umbætur eftir stöðugan hagvöxt. Augu manna hafa beinst að Hu Chunhua (fæddur 1963) sem er flokksformaður Innri Mongólíu og ríkisstjóri Hebei héraðs frá 2008 og Sun Zhengcai (fæddur 1963) flokksformaður í Jilin. Slíkar getgátur eru þó vart tímabærar á þessu stigi. Bullet for my valentine. Bullet for my Valentine er bresk metalcore hljómsveit. Clicker5. Nemandi á starfsbraut vinnur íslenskuverkefni í Clicker5 margmiðlunarforritinu Clicker5 margmiðlunarforritð er framleitt af hugbúnaðarfyrirtækinu Cricksoft. Clicker er fjölþætt forrit og með því er hægt að vinna kennsluefni fyrir nánast hvaða námsgrein sem er en er mest notað með þeim sem eiga erfitt með lestur og ritun. Clicker er verkfæri fyrir kennara að búa til verkefni og umhverfi fyrir nemendur að leysa þau. Clicker grundvallast á tveimur aðskyldum grunnhlutum ritvinnsluhluta og margmiðlunarhluta. Þessir hlutar geta staðið sjálfstætt hvor í sínu lagi þeir geta einnig unnið saman og myndað eina heild. David Cameron. David William Donald Cameron (f. 9. október 1966) er forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins. Cameron var 43 ára þegar hann tók við embættinu og er því næst yngsti forsætisráðherrann í sögu Bretlands á eftir Robert Jenkinson sem var 42 ára þegar hann tók við embætti. Cameron nam heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði við Oxford-háskóla og útskrifaðist með fyrsta flokks einkun. Að námi loknu vann hann ýmis trúnaðarstörf fyrir Íhaldsflokkinn og stofnanir tengdar honum en starfaði síðan í sjö ár hjá fjölmiðlafyrirtækinu Carlton Communications. Fyrsta framboð Cameron til þingsetu á breska þinginu kom til í þingkosningunum 1997 þegar hann bauð sig fram í kjördæminu Stafford en náði ekki kjöri. Í kosningunum 2001 náði hann þó á þing fyrir kjördæmið Witney í Oxfordshire. Tveimur árum síðar var hann kominn í framlínu flokksins í þinginu og fyrir kosningarnar 2005 stýrði hann stefnumótunarvinnu Íhaldsflokksins. Cameron sigraði í leiðtogakjöri íhaldsmanna árið 2005 en hann var af mörgum talinn vera ungur og hófsamur stjórnmálamaður sem gæti mögulega náð til yngri kjósenda. Undir hans forystu náði íhaldsflokkurinn loks forskoti á Verkamannaflokkinn í skoðannakönnunum, í fyrsta skiptið frá stórsigri Verkamannaflokksins undir forystu Tony Blair árið 1997. Í þingkosningunum 6. maí 2010 fengu íhaldsmenn flest atkvæði og flest þingsæti en náðu þó ekki hreinum meirihluta. Þann 11. maí sagði Gordon Brown af sér sem forsætisráðherra og fékk Cameron þá umboð til að mynda nýja ríkisstjórn í samstarfi með Frjálslyndum demókrötum. Heimild. Cameron, David Cameron, David Reitir fasteignafélag. Reitir fasteignafélag er stærsta þjónustufyrirtækið á sviði útleigu á atvinnuhúsnæði á Íslandi. Reitir hafa yfir að ráða fjölbreyttu fasteignasafni sem samanstendur af um 130 fasteignum sem staðsettar eru víðsvegar um landið. Innan fasteignasafns Reita má finna verslunarhúsnæði í helstu verslunarmiðstöðvum landsins, fjölbreytt skrifstofuhúsnæði og margskonar lager- og iðnaðarhúsnæði. Meðal þekktra fasteigna má nefna Kringluna, Hótel Hilton, Hótel Reykjavik Natura, Kauphallarhúsið, Holtagarða og nokkrar af perlum íslenskrar byggingarsögu sem staðsettar eru í miðbæ Reykjavíkur. Adobe Flash. Adobe Flash (áður Macromedia Flash) er margmiðlunarhugbúnaður frá Adobe Systems sem miðlar gagnvirkni, kvikmyndum og hljóði á vefinn. Með Flash er hægt að setja rastamyndir og vigurmyndir upp á tímalínu til að útfæra hreyfingar og skrifta þær með innbyggða forritunarmálinu ActionScript. Flash-skrár (með endinguna SWF) keyra í Flash-spilara sem getur verið íforrit í vafra eða sjálfstætt notendaforrit. Scribus. Scribus er frjálst umbrotsforrit sem notast við viðfangasafnið Qt. Það býður upp á aðgerðir fyrir umbrot og letursetningu. Það styður líka gerð gagnvirkra PDF-skjala. Forritið styður helstu myndasnið, þar á meðal SVG fyrir vigurmyndir. Það styður einnig CMYK-litakerfið og notkun ICC-litasniða fyrir prentun. Það er með innbyggðan þriðja stigs PostScript-rekil fyrir prentun og skriftutúlk sem skilur Python-skriftur. Scribus notar eigið skjalasnið, SLA, sem byggir á XML. Það getur ekki lesið skjöl beint úr séreignarhugbúnaði eins og QuarkXPress, Microsoft Publisher, Adobe InDesign og Adobe PageMaker. CMYK. Þessi eftirlíking af lituðu gleri sýnir hvernig litirnir þrír blandast. CMYK (oft borið fram „smikk“) er fjögurra lita frádrægt litakerfi sem er algengt í litprentun. Nafnið vísar til enskra heita fjögurra prentlita sem sumar prentvélar nota: "cyan" (blágrænn), "magenta" (vínrauður), "yellow" (gulur) og "key black" (lykilsvartur). Í viðlægum litakerfum eins og RGB mynda allir litirnir hvítan en svartur er litleysa (alger skortur á ljósi) en í frádrægum litakerfum eins og CMYK er þessu öfugt farið þar sem hvítur er flöturinn sem prentað er á (blaðið) og því litleysa en allir þrír litirnir samanlagðir mynda svartan. CMYK-litgreining getur greint mynd í þrjá hluta þannig að svartir fletir myndist við samsetningu litanna þriggja eða í fjóra hluta þar sem svartur er prentaður sérstaklega. Web Content Accessibility Guidelines. Web Content Accessibility Guidelines (lausl. „viðmiðunarreglur fyrir aðgengi að vefsíðum“) eru viðmiðunarreglur W3C fyrir vefaðgengi fólks með fötlun. Reglurnar eru þróaðar af verkefninu Web Accessibility Initiative sem hófst árið 1997. Þær eru settar fram sem leiðbeiningar um það hvernig hægt er að hanna vefsíður þannig að þær nýtist öllum og styðji við margs konar aðgangsbúnað, þar á meðal takmarkaðan búnað eins og farsíma. WCAG skilgreinir þrjú stig aðhæfingar: reglur sem allir verða að fylgja (A), reglur sem allir ættu að fylgja (AA) og reglur sem sumir gætu fylgt til að tryggja fleirum aðgengi (AAA). Fyrsta útgáfa WCAG varð W3C-tilmæli 5. maí 1999. Hún þótti brátt úrelt eftir því sem vefurinn þróaðist. Önnur útgáfa varð að tilmælum 11. desember 2008 eftir langt og strangt umsagnarferli. W3C-tilmæli. W3C-tilmæli er lokastig staðfestingarferlis Alþjóðasamtaka um veraldarvefinn (W3C) fyrir nýjar viðmiðunarreglur eða staðla sem samtökin gefa út. Drög að reglum verða að tilmælum eftir ítarlegt umsagnarferli þar sem tekið er tillit til athugasemda bæði frá aðildarfélögum W3C og almenningi. W3C-tilmæli eru í reynd alþjóðlegir staðlar fyrir Veraldarvefinn. James Chanos. James Chanos (fæddur 1958) er bandarískur kaupsýslumaður og stjórnandi Kynikos Associates, áhættusjóðs sem sérhæfir sig í skortsölu. Chanos er einna þekktastur fyrir það að hafa hagnast á gjaldþroti bandaríska orkufyrirtækisins Enron. Chanos hefur nýlega vakið athygli fyrir svartsýnar spár sínar varðandi Kína en hann telur að verðbóla hafi myndast á kínverskum fasteignamarkaði. Goðn. Goðn (danska: "Gudenå" eða "Gudenåen") er fljót á Jótlandi í Danmörku og er lengst fljóta þar í landi, 158 km. Marjorie Bruce. Steinkista Marjorie Bruce í Paisley-klaustri. Marjorie Bruce (desember 1296 – 1316?) eða Marjorie de Brus var skosk konungsdóttir og móðir Róberts 2. Skotakonungs, fyrsta konungsins af Stúart-ættinni. Marjorie var dóttir Róberts (the) Bruce, jarls af Carrick og síðar Skotakonungs og fyrri konu hans, Ísabellu af Mar, sem lést nítján ára að aldri, skömmu eftir fæðingu Marjorie. Árið 1302 giftist Róbert aftur aðalsjómfrú að nafni Elizabeth de Burgh, sem samkvæmt sumum heimildum var aðeins um 13 ára að aldri, en aðrar heimildir telja hana þó nokkrum árum eldri. Hann var krýndur konungur Skotlands 27. mars 1306 og Marjorie varð þá prinsessa af Skotlandi en naut þeirrar tignar ekki lengi því að á þessum árum voru Skotar að berjast fyrir sjálfstæði sínu frá Englandi og í júní sama ár tapaði faðir hennar orrustu við Játvarð 1. Englandskonung. Hann sendi þá konu sína, dóttur og tvær systur sínar til norðurhluta Skotlands til að tryggja öryggi þeirra en jarlinn af Ross sveik þær í hendur Játvarðs, sem hélt þeim föngnum á mismunandi stöðum í Englandi. Marjorie var send í nunnuklaustrið í Watton í Jórvíkurskíri og var þar í um átta ár, eða þar til Játvarður 2. sleppti henni úr haldi um 1314, hugsanlega í skiptum fyrir enska aðalsmenn sem teknir höfðu verið til fanga í orrustunni við Bannockburn þá um sumarið. Í þeim bardaga hafði Walter Stewart, stallari Skotlands, þótt sýna sérlega góða framgöngu og fékk hönd hinnar ungu konungsdóttur að launum. Snemma árs 1316 (líklega 2. mars) féll Marjorie af hestbaki nálægt Paisley í Renfrew-skíri í Skotlandi. Hún var þá komin að því að fæða barn. Samkvæmt einni útgáfu sögunnar fékk hún fæðingarhríðir við fallið, var flutt í klaustrið í Paisley og dó þar nokkrum klukkustundum síðar eftir að hafa fætt son. Önnur útgáfa segir að hún hafi hálsbrotnað og dáið samstundis en barnið hafi verið tekið með keisaraskurði og bjargað. Marjorie varð nítján ára, rétt eins og móðir hennar. Hún er grafin í klaustrinu. Róbert, sonur hennar, var ríkisarfi frá 1318 til 1324 en þá eignaðist afi hans son, Davíð, með seinni konu sinni. Davíð var konungur 1329-1371 en dó barnlaus og þá tók Róbert við. Hann var fyrsti konungur Skota af Stúart-ætt og Marjorie þar með ættmóðir hennar. Deng Xiaoping. Deng Xiaoping (邓小平) árið 1979. Hann var einn merkilegasti stjórnmálamaður á síðari hluta 20. aldar. Hann er yfirleitt talinn hafa lagt grunn að gríðarlegri efnahagsframþróun Kína síðast liðin þrjátíu ár. Þessi mikli hagsvöxtur hefur breytt lífskjörum hundraða milljóna Kínverja til betri vegar. Deng Xiaoping (22. ágúst 1904 – 19. febrúar 1997) (eða Teng Hsiao-p'ing) var kínverskur leiðtogi og stjórnmálamaður, kenningasmiður og stjórnarerindreki. Sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Alþýðulýðveldinu Kína var Deng siðbótarmaður sem leiddi Kína í átt að markaðshagkerfi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gegnt formlegu embætti sem þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar Kína þá var hann engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína frá 1978 til 1990. Deng fæddist í Guang'an, Sichuan héraði þann 22. ágúst 1904. Hann dvaldi við nám og störf í Frakklandi á árunum 1920 – 1925 og kynntist þar marxisma. Þar kekk hann liðs við Kommúnistaflokk Kína árið 1923. Þegar hann sneri aftur til Kína starfaði hann sem stjórnmálaerindreki á dreifbýlli svæðum Kína. Hann hófst hratt til hárra metorða innan Kommúnistaflokks Kína. Varð aðalritari flokksforystunnar þegar „Gangan mikla“ hófst og því talinn til „byltingahetja göngunnar“. Hann varð einn æðsti yfirmaður hersins í stríðinu við Japani og í borgarastríðinu stýrði hann helmingi alls herafla kommúnista. Hann tók sæti miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína 1945. Eftir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína árið 1949 vann Deng í Tíbet og í Suðvestur-Kína til að treysta yfirráð kommúnista þar. Hann var kallaður til starfa til Beijing sem varaforsætisráðherra (1952) þar sem frami hann reis hratt. Hann gekk til liðs við framkvæmdanefnd Miðstjórnarinnar árið 1956. Hann ásamt Liu Shaoqi gegndi lykilhlutverki í efnahagslegri endurreisn Kína eftir „stóra stökkið“ á sjötta áratugnum. Efnahagsstefna hans var talinn andstæð pólitískri hugmyndafræði Mao Zedong formanns. Vegna þessa lenti hann tvívegis í „hreinsunum“ menningarbyltingarinnar. Í fyrra skiptið (1966) var hann sendur til endurhæfingarstarfa í dráttarvélaverksmiðju. Árið 1973 var hann síðan kallaður aftur til starfa með Zhou Enlai sem varaforsætisráðherra. Í veikindum Zhou tók Deng við að innleiða kennisetningar Zhou um nútímavæðingu. Eftir dauða Zhou Enlai 1976 féll Deng aftur í ónáð og lenti í „flokkshreinsunum“. En enn reis Deng til valda 1977 í sitt fyrra embætti sem varaforsætisráðherra og að auki varaformaður flokksins. Hann heimsótti Bandaríkin árið 1979 til að leita nánari tengsla. Deng styrkti valdastöðu sína 1981 þegar hann skipti andstæðingnum Hua Guofeng flokksformanni út fyrir liðsmann sinn. Þrátt fyrir að hafa aldrei gengt formlegu hæstu embættum sem þjóðhöfðingi, leiðtogi ríkisstjórnar eða aðalritari kommúnistaflokksins í Kína er Deng engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína sem tók við eftir Mao Zedong. Hann tók við Kína í sárum þar sem félagskerfi og stofnanir höfðu verið brotnar niður í menningarbyltingunni og öðrum stjórnmálaátökum Mao tímabilsins. Deng var höfundur nýrra áherslna í kínverskum sósíalisma, þar sem efnahagslegar umbætur í byggðu á kennismíð um „sósíalískan markaðsbúskap“. Hann opnaði Kína fyrir erlendum fjárfestingum, ruddi braut landsins fyrir þátttöku á heimsmarkaði og heimilaði starfsemi einkafyrirtækja á samkeppnismarkaði. Hann er yfirleitt talinn hafa lagt grunn að gríðarlegri efnahagsframþróun Kína síðast liðin þrjátíu ár. Þessi mikli hagsvöxtur hefur breytt lífskjörum hundraða milljóna Kínverja til betri vegar. En þrátt fyrir að hafa losað um ríkishöft og eftirlit krafðist hann þess að flokkurinn hefði tögl og haldir í stjórnsýslu og stjórnmálum landsins. Hann studdi til að mynda notkun hervalds til að stöðva mótmælin á Torgi hins himneska friðar. Deng kvaddi flokkstarfið formlega árið 1989 og tilnefndi Jiang Zemin sem eftirmann sinn. Á síðustu æviárunum þjáður af Parkinsonsveiki, gat hann varla að fylgst með málefnum ríkisins. Hann taldist engu að síður til æðsta leiðtoga Kína fram á síðasta dag 19. febrúar 1997. Deng Xiaoping á námsárum í Frakklandi. Barnæska í Sichuan (1904―1920). Deng Xiaoping (á einfaldaðri kínversku: 邓 先 圣; hefðbundin kínverska: 邓 先 圣), fæddist þann 22. ágúst 1904, í þorpinu Paifang (牌坊村) Xiexin bænum (协 兴镇) í Guang sýslu Sichuan héraðs, sem er um 160 km. frá Chongqing borg. Rætur hans má rekja aftur til Meixian. Upphaflega bar hann nafnið Xixi (希贤). Deng er föðurnafn hans. Faðir hans, bóndinn Deng Wenming, bjó á eignarlandi sem tryggði Deng fjölskyldunni ágæt lífskjör. Að loknu námi í Guang sýslu fór Deng fjórtán ára gamall til frænda síns Deng Shaosheng sem var þremur árum eldri, í skóla í Chongqing borg, sem kenna frönsku og undirbjó nemendur fyrir frekara nám í Frakklandi. Ekki er vitað hvað varð til þess að drengirnir frá svo afskekktu þorpi fóru til náms í alþjóðlegum skóla. Deng (enn sem Xixia) dvaldi ári í skólanum, þar sem hann lærði meðal annars frönsku. Sumarið 1920 bauðst honum að loknum inntökuprófum að fara í námsferð fyrir kínverska nemendur með skipi til Frakklands. Faðir Deng spurði soninn sem var yngstur í ferðinni, hvað hann vonast til að læra í Frakklandi. Hann endurtók þá orð kennara síns: „Að sækja þekkingu og sannleika Vesturlanda til bjargar Kína.“ Deng Xiaoping hafði verið kennt að Kína væri veikt og fátækt ríki og til bjargar landinu yrðu Kínverjar að koma á vestræni menntun nútímans. Deng ferðaðist með frænda sínum Shaosheng, á bát niður Yangtze á til Shanghai borgar, steig hann á skipsfjöl með 80 öðrum kínverskum skólafélögum og sigldi til Frakklands. Þeir komu til hafnar í Marseilles borg í nóvember sama ár. Nám og störf í Frakklandi (1920 ― 1926). a> líkt og margir aðrir byltingarmenn Asíu (Ho Chi Minh, Zhou Enlai, og Pol Pot). Í október 1920 kom skipið í höfn í Marseille. Ferðin var ekki eins og til hennar hafði verið stofnað í fyrstu, enda ferðafé af skornum skammti. Deng Xiaoping nam einungis í skamman tíma í gagnfræðiskóla í Bayeux og Chatillon en síðan varði hann mestum tíma í Frakklandi við vinnu. Fyrst í járn- og stálverksmiðju í Le Creusot í Mið-Frakklandi, síðar var hann vélamaður í Renault verksmiðjum í Billancourt úthverfi Parísar, þá sem slökkviliðsmaður á járnbraut og við eldhúshjálp í veitingahúsum. Hann rétt skrimti við lítil kjör og bágborið vinnuöruggi. Seinna sagði Deng að þar hefði hann fyrst kynnst svartnætti hins kapítalíska samfélags. Í Frakklandi komst Deng í kynni við aðra kínverska innflytjendur. Fyrir hvatningu eldi félaga (meðal annars Zhao Shiyan og Zhou Enlai) nam Deng marxisma og vann að pólitískum áróðri. Októberbyltingin Í Rússlandi var í algleymingi. Árið 1921 gekk hann til liðs við Æskulýðshreyfingu kínverska kommúnista í Evrópu. Á seinni hluta ársins 1924 gekk Deng formlega til liðs við Kínverska kommúnistaflokkinn, sem stofnaður hafði verið nokkrum árum fyrr með stuðningi frá Sovétríkjunum. Deng varð leiðandi innan æskulýðshreyfingarinnar flokksins í Evrópu. Hann skrifaði meðal annars pólitískar greinar í „Rauða ljósið“ en það var tímarit sem gefið af kínverskum kommúnistum í Frakklandi. Þessi fyrstu skrif Deng byggja á róttækri hugmyndafræði þar sem kommúnísk bylting er talin lausn á vandamálum í Kína. Jin Weiying, önnur eiginkona Deng Xiaoping, yfirgaf eiginmanninn þegar hann sætti pólitískum árásum árið 1933. Í Sovétríkjunum (1926 ― 1927). Árið 1926 ferðaðist Deng Xiaoping til Sovétríkjanna og stundaði næstu ellefu mánuði nám aðallega við Moskvu Sun Yat-sen háskólann sem Þriðju alþjóðasamtök kommúnista (Komintern) ráku fyrir kínverska byltingarsinna. Þar lærði hann rússnesku, heimspeki, stjórnmálahagsfræði og Lenínisma. Þar var hann m.a. bekkjarfélagi Chiang Ching-kuo sem var sonur Chiang Kai Shek og síðar forsætisráðherra Taiwan (1972 -1978). Heimkoma til Kína (1927). Feng Yuexiang sem var foringi í her kínverskra þjóðernissinna í Norðvestur Kína, kom til Moskvu og leitaði liðsinnis Sovétríkjanna í gegnum Alþjóðasamtök kommúnista (Komintern) til ráðningar Kínverja í her sinn. Á þeim tíma studdu Sovétríkin bandalag kínverska kommúnista við þjóðernissinna í Kuomintang flokknum sem Sun Yat-sen hafði stofnað. Hann var þó ekki kommúnisti en nýtti skipulag ættað úr kennisetningum Leníns. Deng Xiaoping varð fyrir valinu og fór með Feng Yuexiang. Eftir átta ára dvöl erlendis og strangt ferðalag yfir eyðimerkur Mongólíu kom hann loks til heimalandsins vorið 1927. Deng dvaldi fyrst í höfuðvígi hers Feng Yuxiang í Xi'an frá mars 1927. En þegar Chiang Kai-Shek tók við af Sun Yat-sen sem leiðtogi þjóðernissinna rofnaði bandalag þeirra við kommúnista. Hann stofnaði Lýðveldið Kína með Nanking sem höfuðborg og hóf að ofsækja kommúnista. Feng Yuxiang studdi Chiang Kai-Shek og kommúnistar á borg við Deng sem þjónuðu í her hans neyddust til að flýja. Pólitísk neðanjarðarstarfsemi í Shanghai og Wuhan (1927―1929). Deng Xiaoping flýði undan her Feng Yuxiang í Norðvestur Kína til borgarinnar Wuhan þar sem kommúnistar höfðu höfuðstöðvar á þeim tíma. Þar byrjaði Deng að nota gælunafnið „Xiaoping“ og tók við ýmsum stöðum innan hreyfingarinnar. Hann tók þar þátt í sögulegum fundi í Wuhan 7 ágúst 1927, þar sem Chen Duxiu stofnanda Kommúnistaflokksins var vikið frá, að undirlagi Sovétríkjanna, og Qu Qiubai varð aðalritari flokksins. Þar hitti Deng fyrst Mao Zedong sem þá var lítils metinn af flokksforystunni. Milli 1927 og 1929, bjó Deng (sem hét nú „Xiaoping“) í Shanghai, þar sem hann aðstoðaði við skipulag mótmæla sem kostuðu harkaleg viðbrögð af hálfu yfirvalda þjóðernissinna. Dráp á uppreisnarmönnum meðal kommúnista fækkaði flokksfélögunum í kommúnistaflokknum, sem aftur auðveldaði Deng frama innan flokksins. Árið 1928 giftist Deng (þá 24 ára), fyrstu eiginkonu sinni, Zhang XI-Yuan (Xiyuan) (þá 21 árs) í Shanghai borg. Þau höfðu verið skólafélagar í Moskvu. Hún lést 18 mánuðum síðar af barnsförum. Stúlkubarn þeirra dó einnig. Hernaður í Guangxi héraði (1929 ―1931). Árið 1929 leiddi Deng Xiaoping uppreisn í Guangxi héraði gegn ríkisstjórn þjóðernissinna (Kuomintang). Við mikið ofurefli liðsveita Chiang Kai-Shek var að etja og stefnumörkun leiðtoga kommúnista var kolröng. Uppreisnin mistókst því hrapallega og kommúnistar urðu fyrir gríðarlegu mannfalli. Í mars 1931 yfirgefur Deng bardagasvæðin og þar með Sjöunda her kommúnista og fór til Shanghai borgar til starfa í neðanjarðarhreyfingu kommúnistaflokksins. Óljóst er hvort hann flýði eða hvort hann var sendur til Shanghai. Hvort sem það var liðhlaup eða ekki, var það notað gegn honum síðar í menningarbyltingu Mao. Aftur til Shanghai og til „Kínverska Sovétlýðveldisins“ (1931 ―1934). Fáni „Kínverska Sovétlýðveldisins“ í fjallahéruðum Jiangxi héraðs. Þangað fór Deng árið 1931. Við komuna til Shanghai borgar biðu Deng Xiaoping slæm tíðindi. Hann frétti af dauða konu sinnar og nýfæddar dóttur. Að auki höfðu margir af félögum verið drepnir af þjóðernissinnum Kuomintang. Hann flýði því til yfirráðasvæðis kommúnista í Jiangxi héraði. Herferðir þjóðernissinna gegn kommúnistum í borgunum voru mikið áfall fyrir hreyfinguna. Það var fyrirséð af ráðgjöfum Komintern frá Sovétríkjunum sem litu á liðsöfnun meðal öreiga í dreifbýlinu sem hina einu rétt leið. Mao Zedong hafi sömu framtíðarsýn um bændabyltingu og safnaði því liði í fjallahéruðum Jiangxi héraðs. Þar kom hann á kommúnísku byltingarsamfélagi sem tók upp opinbera heitið „Kínverska Sovétlýðveldið“ en var oft kallað „Jiangxi Sovétið“. Ein mikilvægasta borg „Kínverska Sovétlýðveldisins“ Ruijin. Þangað fór Deng sumarið 1931 og tók þar stöðu ritara flokksnefndar borgarinnar. Ári síðar, veturinn 1932, tók Deng við sambærilegri stöðu í Huichang sem var nærliggjandi hérað. Og árið 1933 varð hann forstöðumaður áróðursdeildar flokksins í Jiangxi. Á þeim tíma giftist hann í annað sinn, ungri konu sem hét Jin Weiying. Þau höfði hist í Shanghai borg. Vaxandi árekstrar voru á milli hugmynda Mao og annarra leiðtoga flokksins um dreifbýlisáherslur hinna Sovésku ráðgjafa þeirra. Mao fylgdi ráðgjöfunum að málum ―og Deng fylgdi þeim einnig. Átökin urðu til þess að Deng misstri stöðu sína í áróðursdeild flokksins. Þrátt fyrir þessi innri átök var „Kínverska Sovétlýðveldið“ fyrsta árangursríka tilraun kommúnista til að stjórna í dreifbýlum héruðum. Gefin voru út frímerki og peningaseðlar prentaðir með nafni Sovétlýðveldisins. Her Chiang Kai-Shek ákvað loks að láta til skara skríða gegn svæðinu. „Gangan mikla“ (1934 ― 1935). Umkringdur lýðveldisher þjóðernissinna sem var mun öflugri en sveitir kommúnista voru kommúnistar neyddir til að flýja frá Jiangxi héraði í október 1934. Þessi flótti yfir hálendi Kína fékk síðar nafnið „Gangan mikla“ og átti eftir að marka tímamót í þróun hreyfingar kínverskra kommúnista. Alls lögðu 80.000 manns af stað í „gönguna“ sem náði yfir hálendi Kína allt til norðurhluta Shaanxi héraðs ári síðar. Einungis 8.000 eða 9.000 menn komust á leiðarenda. Deng Xiaoping var einn þeirra. Við upphaf „Göngunnar miklu“ var Mao Zedong orðinn nýr leiðtogi kínverska kommúnistaflokksins. Hann hafði ýtt til hliðar öllum helstu keppinautum sínum. Maó og Sovésku ráðgjafarnir höfðu betur. Deng fékk aftur fyrri störf í flokki á endanum vann borgarastyrjöldina gegn þjóðernissinnum Kuomintang. En átök kommúnista og þjóðernissinna voru rofin með innrás Japana. Það neyddi fylkingarnar til að mynda í annað skiptið, bandalag til varnar Kína fyrir yfirgangi erlendra herja. Deng Xiaoping með fjölskyldu sinni árið 1945 Innrás Japana (1937―1945). Innrásina japanskra herdeilda í Kína árið 1937 markaði upphaf seinna stríðs Kínverja og Japana. Í stríðinu dvaldi Deng Xiaoping á svæðum sem stjórnað var af kommúnistum í norðri, þar sem hann tók við pólitískri stjórnun þriggja herdeilda kommúnista. Þar var hann að mestu á átakasvæðum er liggja við héruð Shanxi, Henan og Hebei. Hann fór í nokkrar ferðir til Yan'an borgar þar sem Mao hafði komið upp bækistöð. Í einni þeirra ferða til Yan'an árið 1939, fyrir framan hinn fræga hellisbústað Mao í Yan'an, giftist Deng í þriðja sinn, Zhuo Lin, ungri dóttur iðnrekenda í Yunnan héraði, ættaðri frá Kunming, sem hafði af hugsjón ferðast til Yan'an til að berjast með kommúnistum. Áframhald stríðs gegn þjóðernissinnum (1945―1949). Deng Xiaoping í herskrúða 1937. Eftir ósigur í Japana í síðari heimsstyrjöldinni, ferðaðist Deng Xiaoping til Chongqing borgar, þar sem Chiang Kai-Shek hafði bækistöð í stríðinu við Japani, til að taka þátt í friðarviðræðum friður milli þjóðernissinna og kommúnista. Niðurstöður viðræðnanna voru neikvæðar og hernaðarlega árekstra hófust milli fylkinganna á ný. Á meðan Chiang Kai-Shek koma á ný stjórn í Nanjing, höfuðborg „Lýðveldisins Kína“ söfnuðu kommúnistar, með bækistöð í Chiang, liði og landsvæðum. Skæruhernaður þeirra var árangursríkur, yfirráðasvæði þeirra stækkaði mjög og sífellt fleiri liðhlaupar úr her þjóðernissinna gengu til liðs við kommúnista. Í þessum síðasta áfanga stríðsins gegn her þjóðernissinna gegndi Deng auknu hlutverki sem stjórnmálaleiðtogi og áróðursmeistari. Hann var pólitískur embættismaður fyrir her Liu Bocheng hershöfðingja, þar sem hann miðlaði kennismíð Mao Zedong. Pólitískt og hugmyndafræðilegt starf, ásamt því að vera talinn til „byltingahetjanna“ sem tóku þátt í „göngunni miklu“, gerði Deng kleift að komast til æðri valda, eftir sigur kommúnista á þjóðernissinnum og stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Deng Xiaoping árið 1948 í herferðinni í Huaihai. Hann er annar frá vinstri. Aftur í Chongqing héraði (1949―1952). Þann 1. október 1949, fagnaði Deng Xiaoping í Peking ásamt öðrum leiðtogum kommúnista, stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Á þeim tíma stýrðu kommúnistar norðurhluta Kína, en landsvæði í suður Kína voru enn undir stjórn þjóðernissinna. Deng fékk það ábyrgðarstarf að leiða kommúnista til lokasigurs í suðvestur Kína sem aðalritari flokksins í þeim landshluta. Verkefnið var annars vegar að ná stjórn á suðvestur Kína þar sem stór landsvæði voru enn undir stjórn þjóðernissinna Kuomintang og hins vegar að hertaka Tíbet sem hafði í raun verið sjálfstætt til margra ára. Þegar ríkisstjórn þjóðernissinna hafði verið neydd til að yfirgefa Nanking borg völdu þeir Chongqing sem nýja höfuðborg til bráðabirgða, líkt og þeir höfðu gert á tímum innrásar Japana. Þar varðist Chiang Kai-Shek með syni sínum Chiang Ching-kuo, fyrrum bekkjarfélaga Deng í Moskvu. Undir pólitíska stjórn Deng Xiaoping, sigraði her kommúnista Chongqing borg í suðvestur Kína 1. desember 1949 og var Deng strax ráðinn borgarstjóri, auk þess að vera leiðtogi kommúnistaflokksins í suðvestur Kína. Chiang Kai-Shek flýði til höfuðborgar Chengdu héraðs. Þá borg misstu þjóðernissinnar þann 10. desember og Chiang flúði til Taiwan á sama dag. Árið 1950, tóku kommúnistar einnig stjórn á Tíbet. Deng varði þremur árum í Chongqing borg, þar sem hann ungur að árum numið fyrir ferðina til Frakklands. Árið 1952 flutti hann til höfuðborgarinnar Beijing, til að takast á hendur mismunandi störf á vegum hins nýja ríkis. Stjórnmálaframi í Beijing (1952―1968). Í júlí 1952 kom Deng til Beijing til að taka við sem aðstoðarforsætisráðherra og varaformaður fjármálanefndarinnar. Skömmu síðar varð hann fjármálaráðherra og forstöðumaður skrifstofu fjarskiptamála. Árið 1954, lét hann af þessum embættum, nema staðgengilstöðu forsætisráðherra, til að verða framkvæmdastjóri miðstjórnar flokksins, forstöðumaður skipulagsskrifstofu flokksins og varaformaður hermálanefndarinnar. Deng fékk sem stuðningsmaður Mao Zedong nokkrar mikilvægar vegtyllur í nýrri ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins. Árið 1955 tók hann sæti í framkvæmdanefnd miðstjórnarinnar, sem var æðsta stjórn Alþýðulýðveldisins. Eftir að styðja Mao opinberlega í herferð hans gegn „hægri öflunum“, varð Deng varð framkvæmdastjóri skrifstofu flokksins og sá um hefðbundin rekstrarmál landsins í samstarfi við Liu Shaoqi forseta landsins og aðalritara flokksins. Þeirri stöðu hélt Deng næstu tíu ár eða til 1966. Á þeim tíma vann Deng að skipulagningu ríkisins. Þar var hann hægri hönd Liu Shaoqi forsætisráðherra. Bæði Liu og Deng studdu Mao í herferðum hans gegn „borgaralegum öflum“ og kapítalistum, og kröfunni um hollustu við stjórn kommúnista. Deng Xiaoping heimsækir í desember 1958, járn og stálverksmiðjuna í Wuhan. (Annar frá vinstri) Í Sovéskum anda kynnti Mao nýja 5 ára efnahagsáætlun — „Stóra stökkið“ — sem skyldi koma bændasamfélaginu Kína í helstu röð iðnríkja á örfáum árum. Kommúnismann átti að fullkomna: Allur einkarekstur í landbúnaði var bannaður og því fylgt eftir með ofbeldi. Tilraunin um stökkið stóra reyndist gríðarleg hörmung fyrir þjóðina. Niðurstaðan var hrun landbúnaðarkerfisins. Áætlað er að um 20 milljón Kínverja hafi soltið í hel. Það mistókst að þróa fram „hin félagslegu framleiðsluöfl“ í „Stóra stökkinu“ 1958 til 1961, með því að „láta vinda kommúnismans“ blása. Árið 1963, leiddi Deng kínverska sendinefnd til Moskvu að funda með eftirmanni Stalíns, Nikita Khrushchev. Tengsl á milli Alþýðulýðveldisins og Sovétríkjanna höfðu versnað til muna frá dauða Stalíns, og eftir þennan fund var þeim nær alveg slitið. Liu Shaoqi og Deng tóku varkár skref í breyttri hagstjórn, þar sem Mao var meir í táknrænu hugmyndafræðilegu hlutverki. Mao samþykkti að eftirláta Liu Shaoqi forsetaembætti Alþýðulýðveldisins., en hélt flokksformennsku og stjórn hersins. Liu Shaoqi forseti og Deng leyfðu bændum í dreifðari byggðum að eiga æ stærri landskika til framleiðslu sem hægt væri að selja á mörkuðum. Fjárfesting í landbúnaði jókst og bændum var leyft að leigja land af kommúnum þannig að þeir urðu meir sjálfstæðir. Þetta sló á hungursneiðina og ýtti undir framleiðni. En það dró að sama skapi úr áherslu bænda á samyrkjustörfin. Og þau urðu meira á höndum einkaaðila sem aftur þýddi vaxandi ójöfnuð meðal bænda ásamt vaxandi spillingu meðal flokksforystunnar í sveitum landsins. Í borgum Kína var iðnaður endurskipulagður þannig að meira vald var fært í hendur stjórnendum og sérfræðingum. Bónusar og hagnaðarhlutdeild sem víða voru kynntir til að stuðla að meiri hagkvæmni, leiddu til meira efnahagslegs og félagslegs misréttis. Þeir félagar Deng og Liu notuðu vaxandi óánægju með „Stóra stökkið fram á við“ til að sækja meiri áhrif innan Kommúnistaflokksins. Þeir hófu efnahagslegar umbætur sem jók orðstír þeirra meðal embættismanna og flokksstjórnenda. Þeir voru því að færast meir til „hægri“ frá vinstri sinnaðri stefnu Maó. Það var á ráðstefnu í Guangzhou árið 1961 sem Deng lét fræga tilvitnun falla: „Mér er sama hvort kötturinn er hvítur eða svartur. Það er góður köttur svo lengi sem hann veiðir mýs.“ Það skipti sumsé litlu hvort fylgt væri kommúnisma eða kapítalisma. Meginatriðið er að afkastameiri framleiðsla. Þeir félagar Liu og Deng voru taldir æ meir til „hægrisinnaðra tækifærisafla“. Mao greip til aðgerða til að ná aftur stjórn á landsmálum. Hann höfðaði til byltingarhugmynda þeirra og hratt af stað menningarbyltingunni í nóvember 1965. „Menningarbyltingin“ (1965―1973). Veggspjald frá 1967 úr Menningarbyltingu Mao. Hinir „Rauðu varðliðar“ menningarbyltingarinnar réðust á Deng Xiaoping og fjölskyldu hans. Stjórnleysi, tilviljanakenndar aftökur, opinberar pyntingar og samfélagsleg eyðilegging blasti hvarvetna við. „Hin mikla menningarbylting öreiganna“ varð fjöldahreyfing sem Mao Zedong sjálfu stýrði. Með kraftmiklu orðfæri byltingar og blindri trú samstarfsaðila á borð við Lin Biao, var fjöldinn hvattur til byltingaranda kommúnismans. Mao hvatti kínverska æsku til að ráðast á þá sem voru ekki trúir hans forystu. Markmið hans virðist verið að ná fyrri völdum sem höfðu veikst eftir efnahagshrun „Stóra stökksins“. Hann hafði vaxandi áhyggjur af því að „hægri stefna“ þeirra Deng og Liu forseta gæti leitt til þess að endurreisn markaðskerfis og endaloka kommúnistabyltingarinnar. Menningarbyltingu Mao var ætlað að vera allsherjar uppgjör hins róttækra og hins hægfara arms („hægriöflin“) Kommúnistaflokks Kína. Uppræta átti menningu og listir í landinu enda taldar í mótsögn við kommúnismann. Kommúnistaflokkurinn nánast klofnaði og flokksfélagar voru bornir fáránlegum sökum og fangelsaðir. Öfgafull persónudýrkun Mao náði nýjum hæðum undir skipulagi Lin Biao. Mao var gerður guðlegur. Róttæklingar hvöttu til uppreisnar sem leiddi síðan af sér fylkingu „Rauðra varðliða“ sem hugðust gera uppreisn gegn öllum andstæðingum Mao. Deng féll úr flokksnáð. Hann og Zhuo Lin eiginkona hans dvöldu í stofufangelsi í Beijing stóran hluta ársins 1968. Í október sama ár var Deng gert að segja sig frá öllum flokksstörfum. Hann var sendur til verkamannastarfa í Dráttarvélaverksmiðju Xinjian sýslu sem er í Jiangxi héraði. Þar nýtti hann einnig tíma til ritstarfa. Honum var hafnað opinberlega á landsvísu, en þó í minna mæli en Liu Shaoqi fyrrum forseta. Hinir „Rauðu varðliðar“ menningarbyltingarinnar réðust á Deng Xiaoping og fjölskyldu hans. Deng Pufang sonur Dengs var illa pyntaður og var hent út um glugga á fjögurra hæða byggingu Beijing háskóla. Hann bakbrotnaði og varð lamaður fyrir neðan mitti upp frá því. Deng Pufang var strax tekinn á spítala en var neitað um inngöngu vegna stjórnmála föður hans. Seinna átti hann eftir að stofna Samtök fatlaðra í Kína. Fyrir þau störf hlaut hann Mannréttingaverðlaun Sameinuðu þjóðanna árið 2003. Hann leiddi skipulag Ólympíuleikana í Beijing 2008. Í bók Chang og Halliday, er sagt að hann hafi stokkið út um glugga í háskólanum af ótta við pyntingar. Við fallið hafi hann lamast. Líkt og Mao hafði hvatt til var Alþýðulýðveldið í upplausn. Stjórnleysi, tilviljanakenndar aftökur, opinberar pyntingar og samfélagsleg eyðilegging blasti hvarvetna við. Fræðimenn hafa áætlað að í dreifbýlinu einu hafi um 36 miljónir manna verið ofsóttar og á milli 750.000 til 1,5 milljón manna verði drepin. Svipaður fjöldi var varanlega skaddað líkamlega. Sumir telja mun hærri tölu látinna. „Önnur endurhæfing“ Deng ― Dauði Mao (1973―1976). Undir lok menningarbyltingarinnar lá við borgarastríði í Kína og herinn skarst í leikinn. Eftir að Lin Biao (sem tók við af Liu Shaoqi sem forseti og var opinber eftirmaður Mao) hafði látist í „flugslysi“ naut Deng Xiaoping stuðnings leiðtoga hersins. Hann hafði einn fárra stjórnað herfylkingum í borgarastyrjöldinni. Í ágúst 1972 dró Mao í land og baðst afsökunar á gerðum sínum. Þegar Zhou Enlai forseti veiktist úr krabbameini valdi hann Deng sem eftirmann sinn. Zhou tókst að sannfæra Mao að kalla Deng aftur til stjórnmál í febrúar 1973. En menningarbyltingunni var í raun ekki lokið enn. Róttækur hópur sem seinna var kallaður „fjórmenningarklíkan“ undir forystu Jiang Qing eiginkonu Mao, vildi meiri völd innan kommúnistaflokksins (Mao sjálfur gaf hópnum þetta heiti). Þar töldu þau Deng sína stærstu hindrun. Mao grunaði Deng um græsku og óttaðist að hann eyðilagði hið „jákvætt orðspor“ menningarbyltingarinnar. Hann taldi Deng í raun til andstæðinga sinna innan flokksins. Deng komst því aftur til áhrifa. Þann 20. mars 1973, þegar honum var skipað að koma aftur til Beijing sem varaforseti. Völd hans voru þó ekki söm og áður. Hann átti fyrst og fremst að sinna ytri samskiptum en Mao og „fjórmenningarklíkan“ streittust við að stjórna innanlands. Deng fór því varlega í sakirnar og gætti þess ― að minnsta kosti opinberlega ― að fara ekki gegn stefnu Mao. Deng sinnti þó innanríkismálum einnig. Hann reyndi að stöðva menningarbyltinguna og bæta lífkjör fólksins. Hann reyndi að aflétta nær algeru banni á bókum, listum og skemmtunum sem hafði gilt í tíu ár í stjórnartíð Mao. Það tókst hann á við eiginkonu Mao og síðar Mao sjálfan. Árið 1975 fundaði Deng Xiaoping með Gerald Ford forseta Bandaríkjanna og frú. Með andláti Zhou Enlai forseta í janúar 1976 var horfið það pólitíska bakland sem Zhou veitti Deng innan miðstjórnarinnar. Að lokinni jarðaför Zhou hóf „fjórmenningarklíkan“ með stuðningi Mao opinbera herferð gegn Deng. Hann var gagnrýndur og aðgerða krafist gegn Deng og „hægri öflunum“. Hua Guofeng ― en ekki Deng ― varð því fyrir valinu sem eftirmaður Zhou Enlai. Miðstjórnin gaf síðan út fyrirmæli um að Deng yrði fluttur til að vinna að „ytri málefnum“ og í raun þannig tekinn út úr valdakerfi flokksins. Hann var í varðhaldi að fyrirskipan Mao í þrjá mánuði. Deng dvaldi því heima næstu mánuði að bíða örlaga sinna. Efnahagsframfarir Deng hægðu á sér. Enn gaf Mao út tilskipun þar sem lögmæti Menningarbyltingarinnar var áréttað og bent á Deng sem sérstakt vandamál. Í framhaldinu gaf miðstjórnin út tilskipun til allra flokksstofnana þar sem þær voru beðnar að gagnrýna Deng. Í jarðskjálftanum mikla 1976 voru björgunarmenn hvattir af fjölmiðlum að „fordæma Deng af rústunum“. Mao krafist þess að Deng viki úr öllum ábyrgðarstöðum. Hann mátti þó halda flokkskírteininu. Mao Zedong andaðist þann 9. september 1976. Við það átti staða Deng eftir að breytast smám saman til batnaðar. Baráttan við Hua Guofeng (1976―1977). Eftir dauða Mao dvaldi Deng Xiaoping í fyrstu í höfuðborginni Beijing en var utan stjórnmála. Hann átti þó eftir að takast annars vegar á við Hua Guofeng forseta, sem var arftakinn sem Mao hafði tilnefnt og hins vegar við „fjórmenningarklíkuna“ sem skipulagt hafði menningarbyltinguna með Mao. Til að treysta vald sitt lét Hua forseti handtaka „fjórmenningarklíkuna“ og ásakaði hana fyrir óeirðir og eyðileggingu menningarbyltingarinnar. Hann hugðist gera „klíkuna“ að blóraböggli fyrir róttækni síðustu ára Mao. Þannig ætlaði Hua að kynna sjálfan sig sem sannan arftaka arfleifðar Mao formanns. En Hua átti lítinn stuðning innan flokksins. Til að draga úr eyðileggingu menningarbyltingarinnar var hann var talsmaður miðstýrðar efnahagsuppbyggingar í anda Sovétríkjanna, nokkuð sem Den og fylgismenn voru andsnúnir. Margir frammámenn í flokknum höfðu orðið fyrir barðinu á menningarbyltingunni og studdu því fremur Deng Xiaoping. Stuðningurinn við Deng þrýsti á Hua Guofeng og samstarfsmenn hans að samþykkja pólitíska endurkomu Deng. Að lokum var Hua ljóst að hann neyddist til þess. Á flokksþinginu 22. júlí 1977 var Deng aftur gerður að varaforsætisráðherra landsins og varaformaður framkvæmdanefndar miðstjórnarinnar og varaformaður herráðsins. Á sama tíma jukust áhrif stuðningsmanna Deng. Áhrif Zhao Ziyang flokksleiðtoga í Sichuan jukust vegna mikils árangurs af efnahagslegum umbótum. Hin pólitíska endurkoma (1977―1979). Á næstu árum eftir andlát Mao birtist Deng smám saman sem pólitískur leiðtogi Kína. Hann hafnaði menningarbyltingunni og kynnti „Vorið í Beijing“ árið 1977, þar sem leyfð var opin gagnrýni á þær öfgar og þjáningar sem höfðu átt sér stað á tímabilinu. Byggja þurfti aftur upp menntakerfi Alþýðulýðveldisins sem var í algerri rúst eftir menningarbyltingua. Á sama tíma var Deng drifkraftur í að afnema opinbert kerfi Kommúnistaflokksins sem kannaði bakgrunn manna og kom í veg fyrir að Kínverjar sem taldir voru með rætur í landeigendastétt fengju vinnu eða frama. Afnámið þýddi í raun að kínverskum kapítalistum var leyfð innganga í kommúnistaflokknum. Hægt og rólega yfirvann Deng pólitíska andstæðinga sína. Með því að hvetja til opinberrar gagnrýni á Menningarbyltinguna, veikti hann stöðu þeirra sem höfðu átt frama sinn undir henni. Að sama skapi styrktist staða þeirra sem höfðu sætt „pólitískum hreinsunum“ þessa tíma. Deng var vinsæll meðal almennings. Þótt Hua Guofeng hafi formlega farið með æðstu stöður í Alþýðulýðveldinu var staða hans sífellt erfiðari. Í desember 1978 á flokksráðsfundi miðstjórnarinnar var Deng kominn með flesta þræði í sínar hendur. Stuðningsmönnum Deng fjölgaði. Völd Hua Guofeng, sem enn var forseti, forsætisráðherra ríkisráðsins og formaður herráðsins fóru minnkandi. Formleg titlar og raunveruleg völd fóru ekki saman. Og þegar Deng náði nægum yfirráðum yfir flokknum var Hua skipt út fyrir hinn frjálslynda Zhao Ziyang sem forsætisráðherra árið 1980 og með Hu Yaobang sem flokksformanni árið 1981. Loks þegar Zhao Ziyang hraktist frá vegna stúdentaóeirðanna á Torgi hins himneska friðar 1989, kom Deng þriðja liðsmanni sínum Jiang Zemin, til valda. Deng hélt áfram að vera valdamestur meðal flokksmanna, þó að eftir 1987 hafi hann einungis verið formaður ríkisins og fulltrúi í herráði Kommúnistaflokksins. Deng leyfði þó Hua að vera áfram í miðstjórn flokksins og hætta síðan hljóðlega störfum. Þannig markaði Deng fordæmi um valdaskipti án ofbeldis. Upphaflega var forsetaembættið hugsað sem leiðtogastaða fyrir ríkið en raunveruleg völd væru á hendi forsætisráðherra og flokksformanns. Þessi embætti áttu ekki að vera á einni hendi til að koma í veg fyrir persónudýrkun (líkt og raunin varð með Mao). Flokknum var því ætlað að móta stefnuna og ríkisvaldinu að framkvæma hana. Frami Deng til leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína kallaði á að svara þyrfti sögulegum og hugmyndafræðilegum spurningum frá Mao Zedong tímanum. Deng vildi ná raunverulegum breytingum og því var óhugsandi að halda áfram harðlínustefnu Mao um „stéttabaráttuna“ og fjölda opinberra funda. Á miðstjórnarfundi kommúnistaflokksins árið 1982 var gefið út skjal sem ber heitið „Um ýmis söguleg atriði frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína“ Þar hélt Mao stöðu sinni sem „mikill marxisti, byltingarmaður öreiganna, hernaðarsnillingur, og hershöfðingi“ almenna". Óvefengjanlegt væri að hann væri stofnandi og frumkvöðull landsins og „Frelsishersins“. „Afrek hans verður að telja á undan mistökum hans,“ segir skjalið. Deng sjálfur sagði Mao „að sjö hlutum góður en þremur illur“. Skjalið beindi einnig ábyrgð á Menningarbyltingunni frá Mao, þó að fullyrt sé að hann hafi hafið byltinguna fyrir mistök. Byltingin hafi í raun verið á ábyrgð „fjórmenningarklíkunnar“ og Lin Biao. Opnun Kína. Undir leiðsögn Deng voru samskipti við Vesturlönd bætt verulega. Hann ferðaðist til útlanda og átti vinsamlega fundi með vestrænum leiðtogum. Í janúar 1979 varð hann fyrstur kínverskra leiðtoga til að heimsækja Bandaríkin með því að funda Jimmy Carter forseta í Hvíta húsinu. Skömmu fyrir fundinn höfðu Bandaríkin slitið diplómatískum samskiptum við Lýðveldið Kína (í Taiwan) og komið þeim á við Alþýðulýðveldið Kína. Samskipti Kína og Japan tóku verulegum framförum. Deng notaði Japan sem dæmi um ört vaxandi efnahagsveldi sem setti Kína gott fordæmi fyrir komandi ár. Og alþjóðaviðskiptin létu ekki á sér standa. Síðla árs 1978 tilkynnti bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing um sölu á nokkrum farþegaþotum til Alþýðulýðveldisins og gosdrykkjarframleiðandinn Coca-Cola tilkynnti um fyrirhugaða verksmiðju fyrirtækisins í Shanghai-borg. Frægur fundur þeirra Deng Xiaoping og Margrétar Thatcher forsætisráðherra Bretlands um framtíð Hong Kong 24 September 1984, hefur verið endurgerður í vaxi í gestamóttöku Diwang Dasha, í Shenzhen borg í Guangdong héraði. Annað afrek var samningur sem undirritaður af Bretlandi og Kína 1984 þar sem Hong Kong yrði afhent Alþýðulýðveldinu árið 1997. Gegn lokum 99 ára sögu Breta í Hong Kong samþykkti Deng að raska ekki markaðskerfi svæðisins næstu 50 árin. Samsvarandi samningur var undirritaður við Portúgal vegna Macau. Deng kynnti þar hugtakið „eitt land, tvö kerfi“, sem Alþýðulýðveldið hefur bent á sem mögulega leið fyrir sameiningu Taiwan við meginlandið á komandi árum. Deng gerði þó lítið til að bæta samskiptin við Sovétríkin. Hann hélt áfram að fylgja línu Mao um samstarfsleysi við Sovétríkin. Þau voru sem heimsveldi á sama stalli og Bandaríkin, en gátu jafnvel skapað meiri hættu vegna nálægðarinnar við Kína. Á flokksþingi Kommúnistaflokksins í október 1987 var Deng Xiaoping endurkjörinn formaður Hernefndar framkvæmdastjórnarinnar, en hann sagði af sér sem formaður ráðgjafarráðsins og við tók Chen Yun. Hann hélt áfram að þróað umbætur sem meginstef. Hann setti fram þriggja þrepa stefnu fyrir efnahagslega framþróun Kína innan 70 ára: Fyrsta skrefið var að tvöfalda þjóðarframleiðslu 1980 og tryggja að fólk hafi í sig og á — því var náð í lok níunda áratugarins, í öðru lagi skyldi ferfalda þjóðarframleiðsluna 1980, fyrir lok 20. aldar — því var náð árið 1995 á undan áætlun. Í þriðja lagi þyrfti að auka þjóðarframleiðslu á mann sem nemur miðlungs -þróuðum ríkjum fyrir árið 2050 — þá verði Kínverjar nokkuð vel stæðir og nútímavæðing hefur í grundvallaratriðum orðið að veruleika. Þannig getur Kína orðið fyrirmynd annarra vanþróaðri ríkja sem telja til ¾ mannkyns. Deng Xiaoping, ásamt forseta Bandaríkjanna Jimmy Carter, í Washington 31. janúar 1979, í tilefni þess að dóplómatísku sambandi var komið á milli ríkjanna. Efnahagsumbætur. Bætt samskipti við umheiminn var önnur af tveimur mikilvægum áherslubreytingum sem komu fram í umbótaráætlun Deng sem bar heitið „Umbætur og opnun“. Innlend félagsleg, pólitísk og ekki síst, efnahagsleg kerfi breyttust verulega á leiðtogatíma Deng. Markmið nútímavæðingar Deng náðu til landbúnaðar, iðnaðar, vísinda og þróunar, og hersins. Ólíkt Hua Guofeng, taldi Deng að engri stefnu bæri að hafna þó hún samræmdist ekki kennismíð Mao. Ólíkt íhaldssamari leiðtogum á borð við Chen Yun, mótmælti Deng ekki stefnu á þeim forsendum einum að hún líktist stefnu kapítalískra þjóða. Deng Xiaoping (í miðju) og kona hans Zhuo Lin (til vinstri) að heimsækja Johnson Geimferðastöðvarinnar í Houston, Bandaríkjunum 2. febrúar 1979. Stjórnandi stöðvarinnar Christopher C. Kraft, (til hægri) var þeim til leiðsagnar í heimsókninni. En Deng var ekki einn að verki. Þrátt fyrir að Deng hafi lagt „fræðilegan bakgrunn“ og pólitískan stuðning fyrir efnahagslegum umbótum, er almennt álitið að meðal sagnfræðinga, að efnahagsumbætur sem Deng kynnti, væru runnar undan hans rifjum. Zhou Enlai forsætisráðherra var til dæmis, brautryðjandi til nútímavæðingar löngu fyrir Deng. Auk þess voru margar umbætur kynntar af leiðtogum einstakra sveitarfélaga. Gengu þær vel eftir voru þær framkvæmdar á æ stærri svæðum og loks í landinu öllu. Einnig var sótt í reynslu Austur-Asíu tígranna (Hong Kong, Singapore, Suður-Kóreu og Taiwan). Meginþróunin í átt til markaðshagkerfis fólst í að leyfa sveitarfélögum og héraðsstjórnum að fjárfesta í þeim iðnaði sem þeir töldu skila mestum arði. Þessi stefna ýtti undir fjárfestingar í léttum iðnaði. Þannig ýttu umbætur Deng á að Kína færðist til létts framleiðsluiðnaðar og útflutningshvetjandi. Með stuttum aðdraganda, lágmarks fjármagni og mjög hárri gjaldeyrissköpun útflutningstekna, mynduðust tekjur til að endurfjárfesta í þróaðri tækniframleiðslu og síðan í frekari fjármagnsútgjöldum og fjárfestingum. Í Shenzhen borg var byggt upp eitt „fríverslunarsvæða“ Deng. Borgin heiðrar Deng Xiaoping á frægum veggspjöldum. Þessar fjárfestingar voru ekki að boði ríkisstjórnarinnar. Fjármagn fjárfest í stóriðju kom að mestu úr bankakerfinu sem byggði að mestu á innlánum. Eitt af fyrstu atriðum umbóta Deng var að koma í veg fyrir endurúthlutun á hagnaði nema í gegnum skatta eða í gegnum bankakerfið; endurúthlutun til ríkisiðnaðar var þess vegna nokkuð óbein, sem gerði hann óháðari ríkisvaldinu. Í stuttu máli kveiktu umbætur Dengs þannig iðnbyltingu í Kína. Þessar umbætur voru viðsnúningur frá þeirri stefnu Mao að Kína yrði að vera sjálfu sér um nægt í öllu. Nútímavæðingu var flýtt með því að auka erlend viðskipti, einkum með sölu véla til Japan og Vesturlanda. Útflutningsdrifinn hagvöxtur hraðaði efnahagslegri þróun með yfirtöku á erlendum sjóðum, markaði, tækniþróun og stjórnunarreynslu. Afleiðingin var nútímavæðing Kína. Deng ýtti undir þessa þróun með því að setja upp fjögur „sérstök fríverslunarsvæði“ og opnaði fyrir erlend samskipti 14 strandborga. sem dró að erlend fyrirtæki þar sem hvatt var til erlendra fjárfestinga og markaðsfrelsis. Umbætur Deng fólu einnig í sér framleiðniaukningu. Hvatar til notkunar nýrra efna og bónuskerfi til starfsmanna voru kynnt til sögunnar. Bændur á landsbyggðinni voru hvattir til að selja framleiðslu sína á markaði sem jók landbúnaðarframleiðslu og einnig iðnþróun. Þessi virðisauki bænda á opnum markaði ýtti undir meiri neyslugetu og þannig á iðnþróun. Að sama skapi jókst pólitískur stuðningur við enn frekari efnahagsumbætur. Eftir flokksþing Kommúnistaflokksins 22. desember 1978, hófust undir forystu Deng Xiaoping efnahagsumbætur byggðar á stefnu sem er í raun enn ríkjandi í dag. Það markmið að skapa nægan tekjuafgang til að til að fjármagna nútímavæðingu hagkerfis meginlands Kína, gekk eftir. Þrátt fyrir opinberar kennisetningar um kommúnisma er hagkerfi Alþýðulýðveldisins Kína í raun nú hagkerfi einkarekstrar. Um 70% af þjóðarframleiðslu alþýðulýðveldisins kemur í dag frá einkafyrirtækjum. Afgangurinn byggir að mestu á 200 afar stórum ríkisfyrirtækjum í fjarskiptum, veitum og orku. Hagkerfi alþýðulýðveldisins er eitt þeirra hagkerfa sem hafa vaxið hvað hraðast í heiminum á undanförnum 25 árum. Þessi ótrúlegi hagvöxtur hefur leitt til gríðarlegra breytinga á lífskjörum almennings. Samkvæmt mati Alþjóðabankans hafa meira en 600 milljónir Kínverja risið frá fátækt til bjargálna frá 1981 til 2004. Á 20 árum frá árinu 1981, féll hlutfall þeirra kínverja sem lifðu fyrir neðan fátækramörk úr 53% í 8%. Alþjóðabankinn hefur áætlað að fyrir efnahagsumbætur 1978 hafi meira en 60% Kínverja hafi haft viðurværi sitt af minna en einum bandaríkjadal ($ USD) á dag (KMJ) en það eru fátæktarviðmið bankans. Það fátæktarhlutfall var komið niður í 10% árið 2004. En á tímum gríðarlegra efnahagslegra framfara blöstu við margvísleg félagsleg vandamál. Samkvæmt opinberu manntali 1982 fór fjöldi Kínverja yfir einn milljarð. Deng Xiaoping studdi áætlanir sem byggðu á frumkvæði Hua Guofeng um takmörkun fæðinga og kynntar voru 1978. Hin frægu lög sem takmörkuðu pörum að eiga einungis eitt barn, ella sæta sektum. Skiljanlega jókst gagnrýni á stjórnvöld vegna þessa. Á hinn bóginn kallaði vaxandi efnahagslegt frelsi á meira frelsi til skoðanaskipta og gagnrýni á kerfið, yfiráð flokksins og spillingu embættismanna jókst. Meira efnahagslegt frelsi þýddi aukinn ójöfnuð. Lok níunda áratugarins sem mörkuðust af ósætti með alræði kommúnistaflokksins og vaxandi misrétti, urðu Deng Xiaoping þung í skauti. Mótmælin á Torgi hins himneska friðar. Árið 1986 ákvað Deng að óhagkvæm ríkisfyrirtæki gætu farið í gjaldþrot. Milljónir manna misstu vinnuna. Í landi sem hafði byggt á hugmyndum um að sjá um fólk frá vöggu til grafar. Fáheyrt var að menn gætu yfir höfuð orðið atvinnulausir. Á sama tíma og fólk horfði á allan uppgang „fríverslunarsvæðanna“ sem Deng hafði byggt upp. Mörgum fannst þeir vera af missa af tækifærum. Ójöfnuður jókst mjög. Árið 1988 ákvað Deng til að flýta enn frekar fyrir markaðsvæðingunni með því að afnema að mestu opinbert verðeftirlit. Verðbólga tók flug og enn jókst ójöfnuður. Glæpum fjölgaði mjög, Spilling varð mun meir áberandi ekki síst vegna þess erlenda fjármagns sem flæddi inn í landið. Ríkisvaldið skóp ekki það haldreipi sem því var ætlað. Óvissa jókst meðal almennings um framtíðina og að sama skapi ósætti út í stjórnvöld. Það var að sjóða upp úr. Andlát hins frjálslynda Hu Yaobang þann 15. apríl 1989 ýtti undir mótmælaöldu í alþýðulýðveldinu. Mikill mannfjöldi kom saman á Torgi hins himneska friðar í Beijing til minningar um Hu, frjálslyndan siðbótarmann sem hafði verið hrakinn frá völdum tveimur árum áður af harðlínumönnum. Hópurinn samanstóð upphaflega aðallega af háskólanemum og krafðist umbóta í kerfinu, baráttu gegn misrétti og spillingu. Krafan um meira frelsi jókst þegar leið á mótmælin. Draga yrði úr völdum hins íhaldssama forsætisráðherra Li Peng. Mótmælin gegn kommúnisma fjögurra áratuga efldust og víða í Kína voru mótmæli. Þann 20. maí lýstu yfirvöld yfir herlögum kröfðust þess að mótmælendur yfirgæfu torgið. Hér klofnaði miðstjórn kommúnistaflokksins í tvær fylkingar. Annars vegar voru menn á borð við Zhao Ziyang, sem vildu meira frjálsræði og efnahagumbætur og viðræður við mótmælendur. Hins vegar voru var hópur með Li Peng forsætisráðherra sem töluðu fyrir beitingu hervalds gegn mótmælum. Hafa verður í huga að á þessum tíma voru Sovétríkin í upplausn og kommúnisminn þar í landi kominn að endastöð. Það hafði eðlilega áhrif á pólitískar umræður valdhafa í Alþýðulýðveldinu í Kína. Íhaldssamari öfl tóku að vara við of miklu frelsi „borgaralegra afla“. Tryggja yðri stöðugleika kerfisins. Meðal annars birtist hörð ádeila á Deng frá liðsmanni Li Peng, í flokksblaðinu „Dagblaði fólksins“, þar sem Deng var talinn bera meginábyrgð á framgangi hægri aflanna síðasta áratuginn. Þann 17. maí úrskurðaði hann Li Peng í hag og heimilað valdbeitingu hersins. Deng hikaði engu að síður og hvatti Li Peng til lokatilraunar á samningum við stúdenta. Þeim viðræðum var sjónvarpað um allt alþýðulýðveldið. Viðræðurnar skiluðu engu. Daginn eftir var herinn sendur inn 4. júní. Ekki er vitað um nákvæmt mannfall mótmælenda. Opinberar tölur segja að 200 manns hafi verið drepnir en Rauði Krossinn telur að 2.000 manns hafi fallið. Pólitísk afleiðing var að Zhao Ziyang, sem hingað til hafði verið talinn næsti arftaki Deng og var að komast að völdum, dvaldi í stofufangelsi í 15 ár allt til dauðadags árið 2005. Hann hafði talað fyrir aðgreiningu á kommúnistaflokknum og ríkinu, vildi draga úr skrifræði, spillingu og einkavæða ríkisfyrirtæki. Íhaldssamari öfl undir forystu Li Peng styrktu sig mjög. Í staðinn studdi Deng Jiang Zemin þáverandi borgarstjóra í Shanghai til valda í miðstjórn flokksins. Jiang hafði tekist að viðhalda allsherjarreglu í Shanghai borg. Enn hélt þó Deng formennsku í hernefnd flokksins. Maóistarnir voru búnir að ná aftur völdum í alþýðulýðveldinu. Jiang Zemin fylgdi þeim. Nú átti að aftur að herða tök flokksins á öllu efnahagslífi. Mótmælin og óeirðirnar í höfuðborginni voru mjög alvarlegt áfall fyrir Deng. Nú 87 ára varð Deng að koma hlutunum aftur í rétt horf. Hann fór til Shanghai til sinna gömlu liðsmanna og sótti einnig stuðning til hersins. Þar voru gamlir félagar og stuðningsmenn margir. Skilaboðin frá hernum voru mjög skýr: Þeir lýstu yfir stuðningi við Deng. Allir sem færu gegn honum færu gegn hernum. Þessi skilaboð til harðlínumanna flokksins áréttaði Deng þegar hann heimsótti herstöð í desember 1991, án allra flokksheimilda og var vel tekið. Með stuðning hersins tryggan, heimsótti Deng 1992 Shenzhen borg, miðstöð efnahagsumbóta sinna. Í heimsókn sinni til Suður-Kína lýsti hann yfir að:„Án efnahagsumbóta og stefnunnar um opnun dyr Kína, efnahagsframfarir og bætt lífskjör væru allar leiðir lokaðar fyrir land okkar,“. Og á flokksráðstefnunni árið 1994 lét Jiang Zemin flokksformaður af stuðningi við maóistana og lýsti yfir stuðningi við efnahagsumbæturnar, nútímavæðingu landsins og markaðshagkerfi er byggði á opnun landamæranna. Deng haföi unnið. Arfur og sögulegt mat. Deng Xiaoping lést í Peking á 92 ára gamall þann 19. febrúar 1997. Hann hafði síðustu æviárin dregið sig út úr skarkala opinbers líf þar sem hann þjáðist af Parkinsonsveiki og gat vart haft samskipti við ættingja sína. Hann lét eftir sig eiginkonu sína, Zhuo Lin (lést 2009) og fimm börn: þrjár dætur (Deng Lin, Deng Nan og Deng Rong) og tvo syni (Deng Pufang og Deng Zhifang). Þrátt fyrir háan aldur, var Deng allt til dauðadags álitinn æðsti leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína. Jafnvel eftir dauða hans hefur Kommúnistaflokkur Kína fylgt stefnu hans í stórum dráttum. Eftirmaður hans, Jiang Zemin, hefur nú friðsamlega afhent völd til Hu Jintao, núverandi forseta, en Hu er einnig talinn til liðsmanna gamla Deng. Undir forystu Deng Xiaoping, tók Alþýðulýðveldið Kína með meira en milljarð íbúa, efnahagsframförum sem vart eiga sér sögulega hliðstæðu. Frá 1997 hefur verið árlegur hagsvöxtur verið að meðaltali 10%. Það er þrátt fyrir mörg félagsleg vandamál sem eiga meðal annars rætur í efnahagsumbótum Deng. Á móti þessum árangri í efnahags- og félagslegri þróun, hefur Deng Xiaoping sætt gagnrýni fyrir alræðismynd kommúnismans sem hann stóð fyrir og hlutverk hans í valdbeitingu gegn mótmælendum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Fáir deila þó um að stjórnmálastíll hans hafi verið mannúðlegri en forvera hans Mao Zedong. Ólíkt Mao lagði Deng ekki mikið upp úr því að upphefja persónu sína opinberlega og vart verður um það deilt að frjálsræði á valdatíma Deng var mun meira. Eftirmæli leiðtogans Deng Xiaoping munu þó fyrst og síðast vera tengd þeim efnahagsumbótum sem hann barðist fyrir og árangri þeirra. Hundruð milljóna Kínverja frá fátækt til bjargálna á tveimur áratugum er árangur sem vart verður deilt um. Það gerir hann að einum merkilegasta stjórnmálamanni síðari hluta 20. aldar. Tenglar. Xiaoping, Deng Róbert 2. Skotakonungur. Róbert 2. (2. mars? 1316 – 19. apríl 1390) var konungur Skotlands frá 22. febrúar 1371 til dauðadags og var fyrsti konungurinn af Stúart-ættinni. Róbert var sonur Walter Stewart, stallara Skotlands, og konu hans Marjorie Bruce, dóttur Róberts 1. Skotakonungs. Hann er almennt talinn hafa fæðst 2. mars 1316, eftir að móðir hans féll af hestbaki. Hún dó sama dag eða stuttu síðar. Róbert 1. átti engan son á lífi en hafði gert bróður sinn, Játvarð, að erfingja sínum. Játvarður féll þó í bardaga á Írlandi árið 1318 og þá var Róbert útnefndur arftaki afa síns. Hann var ríkiserfingi til 5. mars 1324 en þá eignaðist afi hans soninn Davíð með seinni konu sinni. Staða stallara gekk í erfðir í Skotlandi og þegar faðir Róberts lést 1326 varð hann stallari, 10 ára að aldri, og var í umsjá afa síns. Árið 1329 dó Róbert 1. og Davíð varð konungur en Róbert yngri fór í fóstur til föðurbróður síns, Sir James Stewart. Edward Balliol, sonur Jóhanns Balliol sem verið hafði Skotakonungur 1292-1296 gerði tilkall til krúnunnar og naut stuðnings Játvarðar 3. Englandskonungs. Hann gerði innrás í Skotland og varð vel ágengt. Í orrustunni á Halidon Hill 1333 barðist Róbert með James frænda sínum, sem féll þar og Balliol lagði lendur hans undir sig en Róbert komst undan til Dumbartonkastala þar sem Davíð konungur hafði búist til varnar. Davíð flúði síðar til Frakklands en hinn ungi stallari varð eftir og barðist við Balliol og Englendinga með misjöfnum árangri. Davíð 2. sneri aftur frá Frakklandi 1341 en í bardaganum við Nevilles Cross 17. október 1346 var hann tekinn til fanga en Róbert stallari komst undan. Davíð konungur var fangi Englendinga í 11 ár en Róbert stýrði Skotlandi. Eftir að Davíð sneri aftur var mikil spenna á milli þeirra frændanna því að Skotar höfðu neyðst til að skuldbinda sig til að greiða mjög hátt lausnargjald fyrir konunginn og Davíð, sem var barnlaus, vildi leysa málið með því að gera einhvern af Plantagenet-ætt að arftaka sínum ef hann eignaðist ekki börn. Róbert var löglegur arftaki hans og vildi það að sjálfsögðu ekki. Hann gerði skammvinna uppreisn 1363 en samdi þó við frænda sinn og ríkti friður milli þeirra eftir það. Davíð dó óvænt 1371 og Róbert varð þá konungur, 55 ára gamall. Englendingar héldu þá enn stórum landsvæðum í Skotlandi en Róbert tókst að ná þeim aftur að mestu á næstu árum án þess að beinlínis kæmi til stríðs við Englendinga. Elsti sonur konungs, jarlinn af Carrick (seinna Róbert 3.) var ósammála föður sínum um hvernig staðið skyldi að átökum við Englendinga og var auk þess orðinn leiður á langlífi föðurins svo að hann gerði hallarbyltingu í félagi við aðalsmenn. Völdin voru tekin af gamla manninum þótt hann héldi konungstigninni og fengin Carrick og síðar bróður hans, hertoganum af Albany. Róbert 2. lést vorið 1390 í Dundonaldkastala. Róbert hafði gengið að eiga Elizabeth Muir árið 1336 en kirkjan viðurkenndi ekki hjónaband þeirra svo að hún taldist fylgikona hans. Árið 1349 fengu þau svo páfabréf um að þeim væri leyft að giftast löglega og börn þeirra skyldu verða skilgetin. Elizabeth lést nokkrum árum síðar og varð aldrei drottning. Róbert giftist aftur 1355 Euphemiu de Ross (d. 1386). Róbert og Elizabeth áttu að minnsta kosti fjóra syni og sex dætur sem upp komust. Þar á meðal voru John jarl af Carrick, sem varð Róbert 3. Skotakonungur, Róbert hertogi af Albany, sem varð ríkisstjóri fyrir þrjá Skotakonunga, og Alexander jarl af Buchan, sem þekktur var fyrir harðneskju og grimmd. Með Euphemiu átti Róbert tvo syni og þrjár dætur. Yngri sonur hans, Walter jarl af Atholl, var píndur til bana 1437 fyrir þátt sinn í morðinu á bróðursyni sínum, Jakobi 1. Georg Immanuel Nagel. Georg Immanuel NagelGeorg Immanuel Nagel (fæddur 1986) alias George le Nagelaux tónlistarmaður frá Vín í Austurríki. Hann semur einkum raftónlist (techno). Tenglar. Nagel, Georg Immanuel Sjómannadagurinn. Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní ár hvert, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir. Hann er hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði en frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir þrettánda. Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna. Gagnfræðaskóli Norðurlands (hátíðarljóð). Gagnfræðaskóli Norðurlands er kvæðaflokkur sem Davíð Stefánsson frá Fagraskógi samdi í tilefni fimmtíu ára afmælishátíðar Möðruvallarskóla 1930. Páll Ísólfsson tónskáld samdi tónlistina við hátíðarljóðið við sama tilefni. Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri (MA) er fimmti hluti hátíðarljóðsins og er sunginn við setningu og skólaslit ár hvert. Á skólahátíð sem haldin var á Möðruvöllum í Hörgárdal 31. maí og á Akureyri 1. júní 1930, var fagnað fimmtíu ára afmælishátíð Möðruvallarskóla. Það var fyrsti gagnfræðaskóli landsins og ætlað í upphafi að kenna verðandi bændum hagnýt fræði. Eftir bruna skólans á Möðruvöllum var hann fluttur til Akureyrar og nafni hans var breytt í „Gagnfræðaskólinn á Akureyri“. Með lögum frá Alþingi árið 1930 fékk Gagnfræðaskólinn á Akureyri full réttindi menntaskóla og nefnist Menntaskólinn á Akureyri. Nýjum lögum um menntaskólaréttindi var því einnig fagnað á skólahátíðinni 1930. Sigurður Guðmundsson skólameistari MA sem stýrði undirbúningi skólahátíðarinnar bað Davíð Stefánsson að semja veglegt hátíðarljóð í tilefninu. Ljóðið „Gagnfræðaskóli Norðurlands“ var prentað í dagskrá hátíðarhaldanna en var aldrei birt í ljóðabókum Davíðs. Það er í fimm hlutum og var síðasti hlutinn strax gerður að skólasöng MA eftir frumflutninginn 1. júní 1930. Hann er sunginn við setningu skólans og skólaslit ár hvert. Við setningu eru erindin þrjú sungin en við skólaslit er einungis miðerindið sungið. „Gagnfræðaskóli Norðurlands“. a> á rætur að rekja til Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum í Hörgárdal. Við flutning til Akureyrar var nafni hans breytt í „Gagnfræðaskólinn á Akureyri“. a>. Þar var Möðruvallarskóli á árum áður, fyrsti gagnfræðaskóli landsins og forveri Menntaskólans á Akureyri. Páll Ísólfsson. Páll Ísólfsson (12. október 1893 – 23. nóvember 1974) var íslenskt tónskáld, orgelleikari, píanóleikari, hljómsveitarstjóri og söngstjóri. Páll gegndi fjölda starfa og var einn helsti forystumaðurinn í íslenskum tónlistarmálum á 20. öld. Páll fæddist á Stokkseyri. Til Reykjavíkur kom hann árið 1908 og lærði tónlist hjá Sigfúsi Einarssyni. Hann lærði á orgel hjá Karl Straube í Leipzig (1913-18). Páll fór síðan til Parísar til frekara náms árið 1925 og nam þar hjá Joseph Bonnet. Að því loknu hóf Páll störf við tónlist á Íslandi. Hann varð forystumaður í íslensku tónlistarlífi um áratugi og orgelsnillingur. Páll var stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur frá 1924-1936 og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík 1930 til 1957. Hann var organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík 1926-1939 og síðan við dómkirkjuna í Reykjavík frá 1939-1967. Net (stærðfræði). Net er leið til að tákna mengi hluta (sem nefnast hnútar) í stærðfræði þar sem tveir hnútar geta tengst hvorum öðrum með svo kölluðum leggjum. Róbert 3. Skotakonungur. Róbert 3. Skotakonungur og Anabella drottning. Róbert 3. (14. ágúst 1337 – 4. apríl 1406) var konungur Skotlands frá 1390 til dauðadags. Hann hét réttu nafni John Stewart og hefði því átt að kallast Jóhann 2. en tók sér nafnið Róbert þegar hann varð konungur þar sem bæði Jóhann Balliol Skotakonungur og Jóhann landalausi Englandskonungur höfðu verið óvinsælir og lítil gæfa þótti fylgja nafninu. En eins og Sir Walter Scott sagði, þá var Róbert 3. jafnógæfusamur og ef hann hefði haldið nafni sínu. Róbert - eða Jóhann prins - var elsti sonur Róberts, stallara Skotlands og Skotakonungs frá 1371, og fyrri konu hans Elizabeth Mure. Hann var fæddur utan hjónabands en var gerður skilgetinn þegar foreldrar hans fengu páfaleyfi til að giftast 1349. Hann var gerður jarl af Carrick árið 1368 af Davíð konungi, ömmubróður sínum. Davíð var barnlaus og þegar hann dó 1371 varð Róbert stallari konungur, 55 ára að aldri, og Carrick varð krónpins. Carrick var áhrifamikill í stjórn landsins næstu árin en ekki fór á milli mála að honum þótti nóg um langlífi föður síns og var óþolinmóður að komast sjálfur til valda. Árið 1384 gerði hann því hallarbyltingu í félagi við ýmsa aðalsmenn og voru þá völdin tekin af föður hans en hann hélt konungstigninni að nafninu til. Carrick stýrði ríkinu og brátt hófust að nýju átök við Englendinga, en þeir feðgar höfðu verið ósammála um hvernig tekist skyldi á við þá. Stefnubreytingin bakaði Carrick óvinsældir og hann gat heldur ekki beitt sér sem skyldi þar sem hann hafði slasat illa þegar hestur sparkaði í hann og náði aldrei heilsu eftir það. Í desember missti hann því völdin í hendur bróður síns, Róberts jarls af Fife og síðar hertoga af Albany. Róbert 2. dó 1390 og Carrick tók við krúnunni sem Róbert 3. en fékk þó engin völd, heldur stýrði bróðir hans ríkinu áfram til 1393. Þá fékk hann völdin aftur í heldur í samstarfi við son sinn Davíð, hertoga af Rothesay. Árið 1399 var svo Davíð gerður að ríkisstjóra vegna veikinda Róberts en átti þó að vera undir eftirliti þingnefndar þar sem hertoginn af Albany réði lögum og lofum. Róbert konungur var valdalaus og gat ekkert gert þegar kom til deilna milli sonar hans og bróður sem lauk með því að Albany tók Rothesay til fanga 1401. Hann dó í dýflissunni í mars 1402 og var sagt að föðurbróðir hans hefði svelt hann til bana. Albany var þó sýknaður af öllum ásökunum og aftur gerður að ríkisstjóra. Róbert óttaðist mjög um örlög yngri sonar síns, Jakobs, sem var eina hindrunin í vegi fyrir því að Albany hirti hásætið. Árið 1406 reyndu fylgismenn konungs að komast með Jakob, sem þá var 11 ára, til Frakklands til að koma honum í öruggt skjól en Englendingar tóku skipið sem flutti hann og hann var fangi þeirra næstu 18 árin. Róbert 3. dó skömmu eftir að fréttir bárust af því að sonurinn hefði fallið í hendur Hinriks 4. og er grafinn í Paisley-klaustri. Jakob varð konungur að nafninu til en Albany stýrði ríkinu til dauðadags 1420 og Jakob tók ekki við völdum fyrr en hann sneri aftur 1424. Kona Róberts var Anabella Drummond (um 1350 – 1401). Þau gengu í hjónaband 1367 og eignuðust allmörg börn, þar á meðal Davíð hertoga af Rothesey og Jakob 1. Fíkjutré. Fíkjutré (eða fíkjuviðartré) (fræðiheiti: "Ficus carica") er lauftré af mórberjaætt sem ber aldin sem nefnd eru fíkjur. Fíkjur eru á stærð við dúfuegg, sætar á bragðið og með mörgum smáum fræjum innan í. Þurrkaðar nefnast fíkjur "gráfíkjur" á íslensku og stundum í hálfkæringi "kóngaspörð". Lafði Jane Grey. Lafði Jane Grey (1536 eða 1537 – 12. febrúar 1554 var drottning Englands í nokkra daga í júlímánuði 1553. Margir telja hana þó ekki með í þjóðhöfðingjaröðinni. Lafði Jane var elsta dóttir Henry Grey, hertoga af Suffolk, og konu hans Frances Brandon. Lafði Frances var dóttir Maríu prinsessu, yngri systur Hinriks 8., og Hinrik 7. var því langafi lafði Jane. Hún hlaut mjög strangt uppeldi hjá móður sinni en var mjög bókelsk og fékk góða menntun, var raunar sögð ein lærðasta kona Englands. Tæplega tíu ára gömul var hún send í fóstur til Katrínar Parr, konu Hinriks 8., og kynntist þar frændsystkinum sínum, börnum konungs. Eftir dauða Katrínar 1548 fór hún aftur til foreldra sinna. Þann 21. maí 1553 gekk hún að eiga Guildford Dudley lávarð, þriðja son hertogans af Norðymbralandi, sem þá var valdamesti maður Englands. Samkvæmt ríkiserfðalögum sem Hinrik 8. hafði látið setja 1543 átti Játvarður sonur hans að erfa ríkið, ef hann dæi barnlaus færi krúnan til Maríu Túdor og síðan Elísabetar, systra hans, en ef öll börn Hinriks dæju barnlaus skyldu karlkyns afkomendur Frances Brandon erfa krúnuna. En þegar Játvarður lá á banasænginni 1553 gerði hann erfðaskrá þar sem hann útnefndi erfingja Maríu föðursystur sinnar arftaka sína. Þetta var trúlega vegna þess að hann vildi tryggja að þjóðhöfðingjar Englendinga yrðu mótmælendur. Erfðaskráin var þó tæpast lögleg, þar sem Játvarður var aðeins 15 ára, auk þess sem konungur hafði líklega ekki vald til að ráðstafa ríkiserfðum þvert gegn lögum sem þingið hafði sett. Játvarður 6. dó 6. júlí 1553 og fjórum dögum seinna lét hertoginn af Norðymbralandi þingið lýsa lafði Jane Grey drottningu Englands og hún tók sér aðsetur í Lundúnaturni. En níu dögum síðar hafði María Túdor aflað sér nægilegs stuðnings til að geta haldið innreið sína í London og fengið þingið til að lýsa sig hina réttu drottningu. María hélt Jane og manni hennar föngnum í Lundúnaturni en hertoginn af Norðymbralandi var hálshöggvinn 22. ágúst. Jane og maður hennar voru bæði sökuð um landráð og dæmd til dauða 13. nóvember 1553. Þau voru þó ekki tekin af lífi strax og ýmislegt bendir til þess að María hafi ætlað að þyrma lífi frænku sinnar. En þegar faðir Jane tók þátt í uppreisn mótmælenda í janúar 1554 voru örlög Jane ráðin og hún var hálshöggvin ásamt manni sínum 12. febrúar. Faðir hennar var tekinn af lífi viku síðar. Misjafnt er hvort veldistími Jane er talinn hefjast 6. júlí, þegar Játvarður 6. dó, eða 10. júlí, þegar hún var lýst drottning. Því er hún ýmist kölluð níu daga drottningin eða þrettán daga drottningin. Spænski fjársjóðsflotinn. Spænski fjársjóðsflotinn á mynd frá 17. öld. Spænski fjársjóðsflotinn (spænska: "Flota de Indias") voru skipalestir sem fluttu varning frá Spænsku Vestur-Indíum til Spánar frá 1566 til 1790. Flotinn varð stærstur með fimmtíu skip í lest undir lok 16. aldar. Spænska heimsveldið kom sér upp þessari aðferð til að verjast sjóræningjum sem sóttust mjög eftir að ræna spænsk skip sem fluttu mikið magn góðmálma frá nýlendunum í Nýja heiminum. Á heildina litið tókst þessi aðferð vel, enda var hún notuð í meira en tvær aldir. Fá dæmi eru um að allur flotinn hafi tapast vegna storma eða sjórána, en þegar það gerðist hafði það miklar neikvæðar afleiðingar fyrir efnahag heimsveldisins. Flök af skipum úr spænska fjársjóðsflotanum eru mjög eftirsótt af fjársjóðsveiðurum. Þórshamar. Karatefélagið Þórshamar er íslenskt karatefélag. Þar er shotokan karate iðkað. Þórshamar býður upp á fjölbreytt námskeið fyrir fólk á öllum aldri og sérstök leikjanámskeið fyrir börn á aldrinum 6-12 ára á sumrin. Dáríulerki. Dáríulerki (fræðiheiti "Larix gmelinii") er lerkitegund sem upprunnin er í austurhluta Síberíu og Norðaustur-Mongólíu, Norðaustur-Kína og Norður-Kóreu. Dáríulerki er meðalstór sumargrænt barrtré sem er 10 - 30 m hátt og getur ummál trábols náð 1 me. Skógur í Síberíu með dáríulerki Dáríulerki myndar stóra skóga í austur Síberíu og vex í 50-1,200 m hæð í grunnum jarðvegi fyrir ofan sífreri. Dáríulerki er það tré sem vex nyrst í heiminum og það tré í heiminum sem þolir mestan kulda. Fundist hefur tré í Jakútíusem er 919 ára gamalt. Erfitt hefur reynst að rækta daríulerki á syðri breiddargráðum þar sem það er aðlagað mjög löngum vetrardvala. Í heimkynnum þess er frost alveg þangað til seinast í maí eða júní og ekkert frost svo aftur þangað til sumri lýkur. Móðurmál. Móðurmál er hugtak sem getur hvortveggja þýtt tungumál sem einhver hefur lært sem barn og er alinn upp við en er einnig haft um ríkismál í heimalandi þess sem um er rætt. Móðurmálið er oft sagt hluti af manninum sjálfum og sjálfsvitund hans. Finnski rithöfundurinn, Antti Tuuri, sagði eitt sinn: „Á móðurmáli mínu get ég sagt hvað sem ég vil, en á öðrum málum aðeins það sem ég hef lært“. Erpur Eyvindarson. Þórólfur Erpur Eyvindarson (fæddur 29. ágúst 1977) einnig þekktur sem Johnny National og Blaz Roca, er íslenskur rappari, myndlistamaður og sjónvarpsmaður. Hann er einn liðsmaður hljómsveitarinnar XXX rottweilerhundar. Hann var með þættina "Íslensk kjötsúpa" og "Johnny International" á Skjá einum. Þá kom hann fram í "Loga í beinni" veturinn 2009 auk þess sem hann vann að "Steindanum okkar" vorið 2010 (ásamt Steinþóri Hróari Steinþórssyni). Erpur sér einnig stöku sinnum um útvarpsþáttinn Harmageddon á útvarpsstöðinni X-ið 977. Hann gaf út diskinn Kópacabana 2010 en það er fyrsta einfaraskífan hans sem fór í Gull. Steinþór Hróar Steinþórsson. Steinþór Hróar Steinþórsson (f. 9. desember 1984), betur þekktur sem Steindi Jr eða Steindi Junior, er íslenskur skemmtikraftur og íslenskur sjónvarpsmaður. Hann er fæddur og uppalinn í Mosfellsbæ. Hann var einn af leikurum Monitors í samnefndum þætti á Skjá Einum. Í kjölfarið fór hann til Stöð 2 og er með þáttinn Steindinn okkar. Á sama tímabili bauð hann sig fram fyrir Vinstri Græn í Mosfellsbæ en dró framboð sitt til baka eftir óánægju Stöðvar 2 um að vera dregin í stjórnmál. Óttarr Proppé. Óttarr Proppé er íslenskur tónlistarmaður, leikari, borgarfulltrúi í Reykjavík og alþingismaður síðan 2013. Hann var meðlimur í hljómsveitinni HAM á árunum 1988-1994 auk þess sem hann er söngvari hljómsveitarinnar Dr. Spock. Þá lék hann í kvikmyndinni "Sódóma Reykjavík" árið 1992. Kolbeinsstaðakirkja. Kolbeinsstaðakirkja er kirkja í Staðarstaðarprestakalli í Snæfells- og Dalaprófastsdæmi. Hún var byggð úr steinsteypu 1933 og vígð 1934. Steindinn okkar. "Steindinn okkar" er íslenskur sjónvarpsþáttur sem var sýndur á Stöð 2. Alls voru gerðar þrjár þáttaraðir og var Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., þar í aðalhlutverki. Fyrsti þátturinn var sýndur 30. apríl 2010, og sá síðasti 11. október 2012. Þættirnir voru "sketchaþættir" og endaði hver þáttur á tónlistarmyndbandi. Fyrst um sinn voru Ágúst Bent Sigbertsson, leikstjóri þáttanna, og Steinþór Hróar Steinþórsson aðeins tveir bakvið handritið. Magnús Leifsson bættist síðar í hópinn og skrifaði með þeim aðra og þriðju þáttaröð. Steinþór Hróar Steinþórsson fer alltaf með aðalhlutverk í sketchunum, en mikið af leikurum og þekktum aðilum hafa komið fram í þáttunum. Ber þar helst að nefna Erpur Eyvindarson, Dóri DNA, Berg Ebba Benediktsson, Davíð Guðbrandsson, Þórunn Antonía Magnúsdóttir, Ólafur Ásgeirsson, María Guðmundsdóttir, Guðrún Ester Árnadóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Snorri Engilbertsson. Lög úr þáttunum hafa sum verið mjög vinsæl og fengið mikla útvarpsspilunn. Má meðal annars nefna "Geðveikt fínn gaur", "Djamm í kvöld", "Gull af mönnum", "Dansa það af mér" og "Nóttin er ung". Oftast hafa Redd Lights og StopWaitGo unnið lögin með Steindanum okkar. Einnig hafa Ólafur Arnalds, Danni Deluxe, Berndsen, Gísli Pálmi og Ljósvaki unnið að tónlist fyrir þættina. Árið 2011 kom úr geisladiskurinn, "Án djóks samt djók", með lögum úr þáttaröð númer eitt og tvö. XXX Rottweiler hundar. XXX rottweilerhundar er íslensk rapphljómsveit með foringjanum Erpi Eyvindarsyni. Logi í beinni. "Logi í beinni" er íslenskur sjónvarpsþáttur í umsjón Loga Bergmann Eiðssonar. Hann er sýndur á Stöð 2. Johnny International. "Johnny International" var sjónvarpsþáttur á Skjá einum í umsjón Erps Eyvindarsonar. Hann tók við af "Íslenskri kjötsúpu". Dóri DNA. Halldór Halldórsson (fæddur 16. maí 1985), betur þekktur sem Dóri DNA, er íslenskur rappari og uppistandari. Hann er sonur kvikmyndagerðamannanna Guðnýjar Halldórsdóttur og Halldórs Þorgeirssonar. Guðný er dóttir Halldórs Laxness. Skattaskjól. Skattaskjól er hugtak sem haft um svæði á jörðinni þar sem skattar eru litlir eða engir, og oftar en ekki er þar meiri bankaleynd en annars staðar. Þau lönd sem teljast vera skattaskjól skattleggja fjárfestingar og tekjur af þeim í miklu hófi eða alls ekki. Þetta laðar fjármagn að frá löndum þar sem skattheimta er þyngri. Í apríl árið 2010 var sagt frá því að Delaware í Bandaríkjunum væri orðið helsta skattaskjól heimsins, og næst á eftir kom Lúxemborg, Sviss og Caymaneyjar. Aflandseyjar. Aflandseyjar er nýlegt hugtak á íslensku og er haft um eyjar sem á einhvern hátt tengjast stærri þjóðum og um leið dularfullri fjármálastarfsemi svo sem bankaþjónustu sem er veitt einstaklingum og fyrirtækjum utan hins eiginlega starfsvettvangs banka. Aflandseyjar eru oft heppilegt skattaskjól fyrir hina ríku og efnameiri. Sem dæmi um aflandseyjar mætti nefna: Jersey, Guernsey, Mön, Bermúda, Bahamaeyjar, Bresku Jómfrúreyjar og Caymaneyjar. Mileva Marić. Mileva Marić (19. desember 1875 – 4. ágúst 1948; s. Милева Марић) var serbneskur stærðfræðingur og ein af fyrstu evrópsku konunum sem lögðu stund á rannsóknir á stærðfræði og eðlisfræði. Hún var eiginkona Alberts Einsteins árin 1903 – 1919. Marić, Mileva Logos. Logos er lögmannsstofa starfandi í Reykjavík. Stofan er stærsta lögmannsstofa Íslands með 42 starfsmenn. Sögu lögmannsstofunnar má rekja allt til ársins 1907. Sveinn Björnsson, sem síðar varð fyrsti forseti Íslands, opnaði þá fyrstu lögmannsstofu landsins, Málflutningsskrifstofuna í Austurstræti 7 í Reykjavík. Logos í núverandi mynd varð til með samruna A&P lögmanna og Málflutningsskrifstofunnar. Logos starfaði mikið í þágu íslenskra auðmanna á 1. áratug 21. aldar. Þannig opnaði fyrirtækið skrifstofur í Kaupmannahöfn og London til að geta þjónað betur kúnnahópi sínum. Talsverða athygli vakti þegar sérstakur saksóknari gerði húsleit hjá fyrirtækinu í tengslum við rannsókn sína á meintum afbrotum í aðdraganda bankahrunsins 2008. Sakamálasaga. Sakamálasaga er skáldsaga sem fjallar um sakamál og er fyrst og fremst skrifuð til afþreyingar án tillits til listræns gildis. Sakamálasögur eru oftar en ekki samdar í mjög stöðluðu formi og yfirleitt fjalla þær um glæp og svo einhverskonar rannsakanda glæpsins (leynilögreglumann eða einkaspæjara) og auk þess um þann heim sem viðkomandi og persónur honum tengdar hrærast í dags daglega, hvorttveggja fjölskylda og undirheimalýður. Sakamálasagan hefur einnig verið skrifuð í anda fagurbókmennta, s.s. "Nafn rósarinnar," eftir ítalska rithöfundinn Umberto Eco og hin íslenska "Náttvíg," eftir Thor Vilhjálmsson. Sakamálasögur innan fagurbókmenntana eru þó frekar undantekning en reglan. Sá sakamálahöfundur íslenskur sem er hvað víðþekktastur er Arnaldur Indriðason. Orðin "krimmi" og "reyfari" er oftar en ekki hafðar um harðsoðnari sakamálasögur, sögur sem eru groddaralegri á alla kanta og fjalla um harðari heim en hin venjulega sakamálaskáldsaga. Það er þó allur gangur á því. "Eldhúsreyfarar" var hér áður haft um ódýrar bókmenntir sem ef til vill innihéldu töluverða spennu, en voru meira litaðar af ævintýrum og ástum. Þær hétu svo af því menn trúðu því að aðallega konur læsu slíkar bókmenntir. Kaupfélag Skagfirðinga. Kaupfélag Skagfirðinga eða KS var stofnað þann 23. apríl 1889 þegar tólf menn komu saman á Sauðárkróki til að stofna félag eftir að Ólafur Briem, alþingismaður á Álfgeirsvöllum hafði boðað þá. Félagssvæðið er Skagafjörður en á stofnfundinum voru einnig bændur úr Bólstaðarhlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Fyrsti kaupfélagsstjórinn var Séra Zophónías Halldórsson en núverandi kaupfélagsstjóri er Þórólfur Gíslason. Kaupfélagið heldur úti mikilli atvinnustarfsemi í Skagafirði og á einnig í fyrirtækjum víðs vegar um land. Höfuðstöðvar þess eru á Ártorgi á Sauðárkróki. Joe Rogan. Joe Rogan (fæddur 11. ágúst 1967) er bandarískur uppistandari, leikari og sjónvarpsmaður. Hann er meðal annars þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum "News Radio", sem umsjónarmaður "Fear Factor" og fyrir það að lýsa bardögum í blönduðum bardagaíþróttum. Tenglar. Rogan, Joe Rogan, Joe Mitch Hedberg. Mitch Hedberg (24. febrúar 1968 – 29. mars 2005) var bandarískur uppistandari. Hedberg lést þarnn 29. mars árið 2005 úr of stórum skammti eiturlyfja, aðeins 37 ára að aldri. Tenglar. Hedberg, Mitch Terry Gilliam. Terry Gilliam (fæddur 22. nóvember 1940) er bandarískur kvikmyndaleikstjóri og meðlimur grínhópsins Monty Python. Hann varð fyrst þekktur fyrir stuttar hreyfimyndir sem hann teiknaði fyrir þættina Monty Python's Flying Circus en síðar sem leikstjóri. Myndir Gilliams eins og "Brazil" og "Fear and Loathing in Las Vegas" eru draumórakenndar og gerast á mörkum hins raunverulega og hins ímyndaða. Algeng stef í myndum hans eru átök rökhugsunar og hins andlega, átök draumóra og raunveruleikans og bilið á milli geðheilsu og geðveiki. Manni. Ármann Sveinsson eða Manni (fæddur 1. janúar 1861, dáinn 19. febrúar 1885) úr berklum við nám í Belgíu var bróðir Jóns Sveinssonar (Nonna). Hrappsey. Hrappsey er eyja á innanverðum Breiðafirði í mynni Hvammsfjarðar, um 7 kílómetra norðaustur af Stykkishólmi. Eyjan er 1,7 ferkílómetrar að stærð. Jarðgerð eyjarinnar þykir sérstök fyrir að vera að hluta af bergtegundinni anorþósít, sem er svipað að gerð og tunglið. Hrappsey er kölluð "Hrafnsey" í ýmsum eldri heimildum, til dæmis heitir hún Hrafsey í máldaga frá 1533 en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 heitir hún Hrappsey. Samkvæmt máldaga Skarðskirkju var bænhús í Hrappsey árið 1237 en þess er ekki getið síðan. Árið 1241 flúði Tumi Sighvatsson yngri þangað undan Kolbeini unga og Gissuri Þorvaldssyni eftir víg Snorra Sturlusonar frænda síns. Eftir það er Hrappseyjar oft getið í heimildum, enda bjuggu þar ýmsir merkisbændur. Jörðin var hlunnindajörð og þar var mikil dún- og fuglatekja. Þar var líka góð fjárbeit. Hrappseyjarprentsmiðja. Á síðasta fjórðungi 18. aldar var Hrappsey menningarmiðstöð því þá var þar prentsmiðja, hin eina utan biskupsstólanna, og töluverð útgáfustarfsemi stunduð. Þeir sem helst stóðu fyrir prentsmiðjunni voru Bogi Benediktsson, bóndi í Hrappsey og aðaleigandi prentsmiðjunnar lengst af, og Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal, sem sjálfur var afkastamikill rithöfundur og skrifaði töluvert af því sem prentsmiðjan gaf út, þar á meðal fyrsta tímarit sem út kom á Íslandi, "Islandske Maanedstidender". Prentsmiðjan var í Hrappsey frá 1773 til 1795 en þá var hún seld og flutt suður að Leirárgörðum. Hrappsey hefur verið í eyði frá 1958. Hún var um tíma í eigu Háskóla Íslands, gefin af Guðmundi Magnússyni og konu hans, Katrínu Skúladóttur frá Hrappsey, en er nú í einkaeign. Rangárvellir. Rangárvellir er byggðarlag í Rangárvallasýslu, sveitin milli Ytri-Rangár og Eystri-Rangár. Efri hluti sveitarinnar er hraunbreiða, fremur gróðursnauð og vatnslítil, og sunann við hana er víðáttumikið, sandborið sléttlendi en neðst á Rangárvöllum er mýrlent. Áður en landgræðsluátak hófst á Rangárvöllum var víða mikill uppblástur og landeyðing en sveitin hefur þó löngum þótt gott landbúnaðarhérað og þar eru mörg stórbýli. Sögufrægust þeirra eru Oddi og Keldur. Rangárvellir eru ásamt Ölfusi mesta jarðskjálftasvæði landsins og er vitað fyrir víst að tólf sinnum hafa fallið þar bæir í jarðskjálftum á seinustu átta öldum og þó hugsanlega mun oftar. Í landi Gaddstaða á Rangárvöllum byggðist kauptúnið Hella upp á 20. öld. Þar eru nú um 700 íbúar. Rangárvellir voru áður í Rangárvallahreppi en hann sameinaðist Djúpárhreppi og Holta- og Landsveit 1994 og nefnist hið sameinaða sveitarfélag Rangárþing ytra. Æviskeið. Æviskeið er sá tími sem tiltekin lífvera lifir. Æviskeið er breytilegt eftir einstaklingum hverrar tegundar. Suðurland FM. Suðurland FM 96.3 er útvarpsstöð á Suðurlandi. Hún er rekin af Léttur ehf. Útsendingasvæði Suðurland FM er stór hluti suðurlands. Útvarpað er á tíðninni FM 96,3 og næst stöðin einnig í Vestmannaeyjum. Ánamaðkur. Ánamaðkar (ánumaðkar eða ámumaðkar) eru tvíkynja liðormar af ættbálki ána. Hérlendir ánamaðkar eru allir af ættinni "Lumbricidae". Ánamaðkar hafa blóðrás, opið meltingarkerfi og lifa í mold þar sem þeir nærast á rotnandi plöntuleifum. Þeir hafa æxlunarfæri beggja kynja í ljósleitum kraga, svokölluðu "belti", nærri framenda. Áni getur haldið áfram að skríða þótt hann sé skorinn í sundur. Heiti ánamaðka á íslensku. Talið er að upphaflegt heiti ánamaðksins sé "ámumaðkur", þar sem menn trúðu því að hann gæti læknað ámusótt (heimakoma). Í heimild frá miðri 19. öld sem birtist í tímaritinu Blöndu árið 1918 er því lýst þegar viðkomandi „jagaði hana [þ.e. heimakomuna] úr [s]ér með jötunuxum og ánamöðkum“. Ánamaðkar hafa einnig gengið undir nöfnunum "rigningur", "ofanrigningur" eða bara "maðkur" á íslensku. Ánamaðkur sem er óvenju stór hefur verið kallaður Bumbus í frásögnum veiðiáhugamanna og jafnvel laxamaðkur. Gorillaz. Tónleikar með Gorillaz árið 2010. Gorillaz er hljómsveit skipuð teiknimyndapersónum en ýmsir tónlistarmenn hafa leikið fyrir sveitina. Hljómsveitin er samstarfsverkefni tónlistarmannsins Damon Albarn og myndasöguhöfundarins Jamie Hewlett sem hófst árið 1998. Hljómsveitarmeðlimir eru 2D (söngur, píanó), Murdoc Niccals (rafmagnsbassi), Noodle (gítar) og Russel Hobbs (trommur). Tónlistin er unnin af Damon Albarn í samstarfi við ýmsa aðra tónlistarmenn. Hljómsveitin hefur gefið út þrjár breiðskífur: "Gorillaz" (2001), "Demon Days" (2005) og "Plastic Beach" (2010). Louis Zöllner. Louis Zöllner (f. 18. apríl 1854, d. 20. janúar 1945) var danskur stórkaupmaður sem um tveggja áratuga skeið var umboðsmaður flestra kaupfélaga á Íslandi og athafnasamur í útflutningi og sölu á íslensku sauðfé. Hann var lengi búsettur í Newcastle í Bretlandi. Zöllner útvegaði fjármagn í Vídalínsútgerð sem var rekin af Jóni Vídalín og gerði út sex togara og hefur það verið stórfelldasti atvinnurekstur á Íslandi á meðan það stóð. Uppruni fjármagns Zöllners var „lítill enskur landsbyggðarbanki.” Umsvif á Íslandi. Zöllner gerðist umboðsmaður Kaupfélags Þingeyinga árið 1886. Á þeim tíma var það eina kaupfélagið sem hafði fastan grundvöll en þrjú önnur voru stofnuð sama ár. Hann tók fljótlega upp samstarf við Jón Vídalín. Zöllner var milligöngumaður um ýmsa verslun og þáði 2,5% umboðslaun fyrir. Hann var lánardrottinn og lagði út fyrir kaupum og sá um flutning til landsins. Til að mynda lánaði hann 18 þúsund krónur til verslunar Þórðar og Baldvins Gunnarssona, Höfðabræðra við Grenivík sem var gífurleg skuld. En þeir bræðurnir fjárfestu í sjávarútvegi og verslun sem skilaði hagnaði og náðu að greiða niður lánið. Annars staðar hækkuðu skuldir, svo sem hjá Árna Sveinssyni á Vestfjörðum sem safnaði skuldum upp á 70 þúsund með þeim afleiðingum að Zöllner yfirtók eignir hans: þrjú þilskip, vörubirgðir og skuldir viðskiptavina og seldi Edinborgarversluninni. Árið 1894 tók Zöllner upp viðskipti við Thor Jensen og lánaði honum talsvert, meðal annars til kaupa á tveimur þilskipum. Fjórum árum síðar lánar Zöllner Thor meira fé, jafnvel þótt Thor hafi þá skuldað honum á bilinu 13–14 þúsund krónur. Ýmis óhöpp urðu þó til þess að Zöllner gekk að skuldum sínum og Thor varð gjaldþrota. Fjárfestingar Zöllners í íslenskum fyrirtækjum reyndust ekki gjöfular en aðra sögu er að segja um útflutningsverslun hans. Zöllner var allt frá 1886 eini kaupmaðurinn sem að nokkru ráði tók sauði í umboðssölu, en fram að 1896 kom oft til þess að sauðir voru keyptir beint af bændum. Árið 1896 settu Bretar þær takmarkanir á innflutningi sauðfjár að aðeins mætti flytja það til landsins ef það væri leitt beint til slátrunar af skipinu. Þessi takmörkun varð til þess að féið nýttist verr og lækkaði verðið og eftirsprun dróst saman. Í samvinnu við Jón Vídalín hóf hann einnig að versla með hross. Það gekk þó illa eftir að eftirspurn jókst frá Danmörku eftir hestum, því þar hafði Zöllner ekki betri sambönd en margir aðrir og hætti hann því um 1906. Um aldamótin 1900 tóku Bretar að kaupa saltfisk, sér í lagi áðurnefnd Edinborgarverslun og A. & D. Birrell í Liverpool sem réðu Zöllner sem umboðsmann sinn 1901 og verslaði hann með saltfisk að minnsta kosti til 1910. Annar Breti att samkeppni við Zöllner, Pike Ward að nafni. Einhver mestu umsvif Zöllners voru fólgin í skipaútgerð en hann var með gufuskipið Fridtjof á sínum snærum sem sigldi með ströndum Íslands með smærri sendingar. Einnig samdi hann við breska timburkaupmenn sem sendu stóra báta til Arkhangelsk í Rússlandi um viðkomu með vörur á Íslandi. Zöllner seldi einnig kol og steinolíu en lét í lægri hlut fyrir samkeppni DDPA, danska steinolíuhlutafélagsins, sem bauð honum, að eigin sögn, 375 pund á ári í fimm ár fyrir að hætta olíusölu til Íslands árið 1908. Loks kom Zöllner að stofnun Íslandsbanka 1904, sem keppa átti við Landsbankann. Þar átti Björn Kristjánsson kaupmaður að komast í sæti bankastjóra en vegna þrýstings frá Zöllner var fallið frá því. Zöllner lagði fram einn tíunda hlutafjárins eða 200 þúsund krónur. Eftir þetta beitti Zöllner sér fyrir því að íslensk kaupfélög og kaupmenn færðu viðskipti sín til Íslandsbanka. Jón Vídalín konsúll. Jón Pálsson Vídalín (f. 6. september 1857, d. ? ágúst 1907), oft nefndur Jón Vídalín konsúll, var íslenskur konsúll eða sendiherra og athafnamaður. Hann rak Vídalínsútgerðina ásamt Louis Zöllner um árabil. Geimskutla. Geimskutla er mönnuð og endurnýtanleg geimflaug, sem Bandaríska- og Sovéska geimferðastofnunin notuðu í geimferðum frá 1982. Síðustu geimskutluferðirnar verða farnar árið 2011. Alls verða geimskutluferðirnar 135 á braut um jörðu; þar af hafa tvær hafa farist með manntjóni: Challenger-slysið árið 1986 og Columbia-slysið árið 2003. Síðasta flughæfa geimskutlan, "Atlantis", fór sína síðustu ferð út í geiminn 8. júlí 2011 og lauk þar með sögu þeirra. Haffi Haff. Hafsteinn Þór Guðjónsson (fæddur 1984) er íslenskur/amerískur tónlistarmaður. Glenn Close. Glenn Close með leikaranum Jim Dale 2006. Clenn Close (fædd 19. mars 1947) er bandarísk leikkona. Hún hefur fimm sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna, tvisvar fyrir leik í aðalhlutverki, "Fatal Attraction" 1987 og "Dangerous Liasions" 1988, og þrisvar fyrir leik í aukahlutverki, "The World According to Garp" 1982, "The Big Chill" 1983 og "The Natural" 1984. Einnig er hún þekkt fyrir að hafa leikið Cruella De Vil í kvikmyndunum "101 dalmatíuhundur" og "102 dalmatíuhundar" með Gerard Depardieu. Hún hefur einnig leikið í fjölda söngleikja og sviðsleikrita. Í mars 2011 var hún ráðin til að leika aðalhlutverkið í fyrirhugaðri kvikmynd um feril skosku söngkonunnar Susan Boyle. Close, Glenn Grimmhildur Grámann. Grimmhildur Grámann (enska: Cruella de Vil eða Cruella De Vil) er sögupersóna sem rithöfundurinn Dodie Smith skapaði fyrst árið 1956 í bók sinni "The Hundred and One Dalmatians" og hefur síðan orðið þekkt sem teiknimynda- og kvikmyndapersóna. Grimmhildur er fín og rík frú sem er bæði frek, stjórnsöm og gráðug. Hún stelur Dalmatíuhundum af því að hana langar í hvolpaskinnskápu með hettu. Í bókinni á hún eiginmann sem er loðskinnakaupmaður og sér henni fyrir pelsum en hann er ekki með í teiknimyndinni Hundalíf, sem Disney gerði árið 1961 og heldur ekki í kvikmyndunum. Kvikmyndin 101 dalmatíuhundur var gerð árið 1996 með Glenn Close í hlutverki Grimmhildar og framhald hennar, 102 dalmatíuhundar, var gerð árið 2000. Sopaipilla. Sopaipilla, "sopapilla", "sopaipa", eða "cachanga" er djúpsteikt brauð í ýmsum útfærslum, ýmist sætt eða ósætt, sem borðað er meðal annars í Argentínu, Bólivíu, Síle, Nýja-Mexíkó, Perú og Texas. Í Bandaríkjunum er það oftast borið fram sem eftirréttur, til dæmis með hunangi, sykri eða ís. Dragonlance. Dragonlance er fantasía eftir Margaret Weis og Tracy Hickman. Jiang Zemin. Jiang Zemin (江泽民) árið 1999, á 50 ára afmæli Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína. Sem leiðtogi „Þriðju valdakynslóðar“ er tók við af Deng Xiaoping, festi Jiang í sessi efnahagsumbætur og markaðshagkerfi er skilaði hagsvexti og breyttum lífskjörum hundraða milljóna Kínverja til betri vegar. Jiang Zemin (fæddur 17. ágúst 1926) var kínverskur stjórnmálamaður og meginleiðtogi „þriðju valdakynslóðar“ kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína. Hann var framkvæmdastjóri flokksins 1989-2002, forseti Alþýðulýðveldisins 1993- 2003, og formaður Hermálanefndar flokksins 1989-2004. Jiang Zemin gekk til liðs við Kommúnistaflokkinn á námsárum árið 1946. Hann útskrifaðist úr rafmagns- og vélaverkfræðideild Shanghai Jiaotong háskóla árið 1947. Árið 1955 hlaut Jiang ársstarfsþjálfun í „Jósef Stalín bílaverksmiðjunum“ („ZiL“) í Moskvu Rússlandi. Næstu tvo áratugi gegndi Jiang ýmsum störfum í iðnaði Shanghai borgar. Að endingu tók hann við opinberum embættum í Wuhan borg og höfuðborginni Beijing, en þar varð hann ráðherra rafmagnsframleiðslu 1982—1985. Sama ár tók hann sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins og gegndi því til 1987. Árið 1985 fór Jiang aftur til Shanghai borgar, þar sem hann gegndri stöðu borgarstjóra til 1987 og stöðu aðalritara flokksins í borginni. Hann var kjörinn í miðstjórn kommúnistaflokksins á 12. – 15. flokksþinginu Mið nefndir og kjörinn í Politburo á 13.- 15. flokkþinginu. Árið 1989 var Jiang kjörinn aðalritari miðstjórnarinnar og formaður hermálanefndar flokksins. Hann komst þá til valda í kjölfar óeirðanna á Torgi hins himneska friðar er hann tók við af Zhao Ziyang sem þótti taka og vægt á mótmælendunum. Jiang varð í raun leiðtogi Kína árið 1990 vegna elli leiðtogans Deng Xiaoping. Jiang var kjörinn forseti Alþýðulýðveldisins Kína árið 1993 sem hann gegndi til 2003. Hann sagði af sér sem formaður hermálanefndarinnar árið 2004. Undir forystu hans, upplifði Alþýðulýðveldið Kína gríðarlegar efnahagsumbætur; friðsamlega yfirtöku á stjórnun Hong Kong, Bretlands og Macau, Portúgals; og bætt samskipti við umheiminn. Á sama tíma hélt kommúnistaflokkurinn fast í stjórnartaumana. Jiang hefur verið gagnrýndur fyrir að vera of annt um persónulega ímynd sína heima fyrir, og fyrir linkind gagnvart Rússlandi og Bandaríkjunum erlendis. Þá hefur hann verið gagnrýndur fyrir veika kennismíð hans byggðum á marxisma. Sumir harðlínumenn í röðum kommúnista telja að á valdatíma Jiang hafi hreinn kapítalismi verið lögleiddur í Kína. Bakgrunnur. Jiang Zemin, fæddist þann 17. ágúst 1926 í Yangzhou í Jiangsu-héraði. Fjölskylda hans átti uppruna sinn í Jiangwan þorpi (江湾村) í Wuyuan sýslu (婺源县) í Norður-Jiangxi héraði. Hann ólst upp við hernám Japana á meginlandi Kína. Opinberar heimildir segja Jiang hafa alist upp hjá frænda sínum og fósturföður, Jiang Shangqing, lést í baráttunni gegn Japönum og var talinn sem slíkur píslavottur. Gagnrýnendur hafa sagt lífföður Jiang Shijun föður hans verið svikara sem unnið hafi með Japönum í hernáminu. Jiang nam fjarskiptaverkfræði við Þjóðarháskólanum (e. National Central University) í hertekinni Nanjing borg. Hann færðist síðar til Shanghai Jiao Tong háskóla í Shanghai borg, þaðan sem hann útskrifaðist í rafmagnsverkfræði árið 1947. Jiang tók þátt frá árinu 1943 í námsmannafélagi sem stýrt var af neðanjarðarhreyfingu Kommúnistaflokksins. Hann gekk loks til liðs við flokkinn í apríl 1946. Árið 1955 hlaut Jiang ársstarfsþjálfun í „Jósef Stalín bílaverksmiðjunum“ („ZiL“) í Moskvu Rússlandi. Á árunum 1956- 57, starfaði Jiang í bifreiðaverksmiðjum Changchun borgar (nú FAW Group Corporation). Árið 1972 ferðaðist Jiang til Rúmeníu þar sem hann dvaldi í tvö ár. Eftir heimkomuna varð hann aðstoðarforstöðumaður í alþjóðasamskiptadeild og síðan árið 1976 forstöðumaður hennar. Að endingu tók hann við opinberum embættum í Wuhan borg og höfuðborginni Beijing, en þar varð hann ráðherra rafmagnsframleiðslu 1982—1985. Sama ár tók hann sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins og gegndi því til 1987. Árið 1985 fór Jiang aftur til Shanghai borgar, þar sem hann gegndri stöðu borgarstjóra til 1987 og stöðu aðalritara flokksins í borginni. Sem borgarstjóri Shanghai fékk hann mismunandi dóma. Gagnrýnendur hans í Shanghai líktu honum við „blómavasa“ sem er kínversk lýsing á þeim sem meir eru til skrauts en gagns. Þar starfaði hann með hinum frjálslynda Zhu Rongji sem síðar varð aðstoðarforsætisráðherra Alþýðulýðveldisins. Þegar Jiang fékk loks frama gat hann ferðast til útlanda. Það virðist hafa ýtt við honum um að efnahagsumbóta væri þörf heima fyrir. Heimsókn til „fríverslunarsvæða“ á Írlandi og í Singapor ýtti undir stuðning hans við stofnun sambærilegra svæða í Alþýðulýðveldinu Kína. Jiang fylgdi að því er virtist fast eftir efnahagslegum umbótum Deng Xiaoping og var einn liðsmanna hans. Jiang var hækkaður í tign árið 1987 þegar hann varð meðlimur fastanefndar miðstjórnar kommúnistaflokksins. Var þar fylgt þeirri hefð að flokksleiðtogi Shanghai borgar taki þar sæti. Árið 1989 var róstusamt í kínverskum stjórnmálum. Í óeirðum á Torgi hins himneska friðar þótti hinn frjálslyndi Zhao Ziyang aðalritari flokksins og forsætisráðherra, taka of vægt á mótmælendunum. Zhao sem var talsmaður frjálsræðis og efnahagumbóta vildi frekari viðræður við mótmælendur. Flokksforystan leitaði að nýjum manni og horfði til Jiang flokksleiðtoga Shanghai sem steig vaxandi mótmælaöldur þar í borg. Þar þótti flokksforystunni honum hafa tekist vel upp með að bæla niður mótmælin. Það gerði hann með hörku. Hann lokaði m.a. dagblaðinu World Economic Herald sem hann taldi „skaðlegt“. Eftir þessu var tekið í höfuðborginni Beijing og Deng Xiaoping meginleiðtoga alþýðulýðveldisins. Þegar mótmælin mögnuðust í höfuðborginni var Zhao Ziyang, sem hingað til hafði verið talinn næsti arftaki Deng Xiaoping, fjarlægður úr starfi og fangelsaður. Jiang varð fyrir valinu óvænt sem nokkurs konar málamiðlun milli frambjóðenda tveggja andstæðra fylkinga. Annars vegar var það Li Ruihuan og hins vegar Chen Yun sem var fulltrúi hins íhaldssama arms Li Peng forsætisráðherra. Niðurstaða þessa var að Jiang var, árið 1989, kjörinn aðalritari miðstjórnarinnar og formaður hermálanefndar flokksins. Sem stjórnmálamaður kunni Jiang Zemin þá list að vita stöðu sína og sigla milli skers og báru. Sumir sögðu hann þannig vera „pólitískan vindhana“. Hann virtist sem stjórnmálamaður hafa sjötta skilningarvitið sem gerði honum kleift að sjá framtíðina fyrir. Upphafsár sem leiðtogi. Þegar Jiang komst til metorða 1989 var hann með tiltölulega veikt bakland sem þýddi að raunveruleg völd hans voru takmörkuð. Hann var álitinn bráðabirgðaleiðtogi uns annar sterkari eftirmaður fyndist. Jafnvel var rætt um að leiðtogar innan hersins, Yang Shangkun og Yang Baibing, hefðu íhugað valdarán. Jiang sem naut stuðnings Deng Xiaoping til forystu fyrstu árin var þó talinn gagnrýnin á markaðsvæðingu landsins. Hann varaði við of miklu frelsi „borgaralegra afla“. Hafa verður í huga að á þessum tíma voru Sovétríkin í upplausn og kommúnisminn þar í landi kominn að endastöð. Það hafði eðlilega áhrif á pólitískar umræður valdhafa í Alþýðulýðveldinu í Kína. Tryggja yrði meir stöðugleika. Á fyrsta fundi fastanefndar miðstjórnarinnar eftir átökin á Torgi hins himneska friðar 1989, var Jiang gagnrýninn á fyrri tíma þar sem lögð hafði verið mjög rík áhersla á hagkerfið en stjórnmálin setið á hakanum. Huga yrði meir að hugmyndafræðilegri vinnu og mikilvægi hennar. Jiang vildi auknar áherslur á áróðurmál og markaði fundurinn upphaf nýs tímabils í áróðri og pólitískri hugmyndavinnu. Áróðursdeild flokksins fékk því meiri bjargir, fjármagn og völd. M.a. var hófust hreinsanir innan raða þeirra sem höfðu stutt af mótmælin 1989. Á næstu árum var æ meir sveigt frá markaðsvæðingu efnahagslífsins og annarra efnahagsumbóta. Árin 1990 -1991 voru kommúnistum erfið víða um heim. Fall kommúnistastjórnarinnar í Póllandi tók tíu ár, tíu mánuði í Ungverjalandi, tíu vikur í Austur Þýskalandi, tíu daga í Tékkóslóvakíu, og 10 klst. í Rúmeníu. Skiljanleg hafði forystan í Alþýðulýðveldinu Kína áhyggjur. Ekki síst Jiang Zemin. Þann 1. júlí 1991 á 70 ára afmæli Kommúnistaflokksins hélt Jiang ræðu þar sem hann talaði gegn efnahagsumbótum í frjálsræðisátt. Hann vildi að einkafyrirtækin og sjálfstætt starfandi fólk yrði gerð gjaldþrota. Í þessari andstöðu sinni naut hann stuðnings Li Peng forsætisráðherra og róttækra vinstri afla innan flokksins. Horfið skyldi til fyrri vegar sósíalismans. Og Jiang fylgdi með. En þetta var gagnstætt því sem Deng hafði haldið fram að eina lausnin til réttlæta yfirráð Kommúnistaflokksins væri að halda áfram nútímavæðingu og efnahagsumbótum í frjálsræðisátt. Deng varð því æ gagnrýnni á forystu Jiang árið 1992. Með frægri „Suður för“ mótmælti Deng því að hægt hefði á efnahagsumbótum. Deng með bakland í foringjum hersins, taldi að „forysta flokksins“ með Jiang í fararbroddi bæri þar mesta ábyrgð. Embættismaðurinn Jiang las rétt í hina pólitísku stöðu og fylkti sér að fullu á bak við efnahagsumbætur Deng. Árið 1993 tók Jiang undir með Deng og talaði fyrir „Sósíalískum markaðsbúskap“ sem myndi færa hið miðstýrða sósíalíska skipulag Alþýðulýðveldisins Kína yfir í hagkerfi sem í meginatriðum var kapítalískt markaðshagkerfi sem ríkisstjórnin myndi skipuleggja með reglusetningu. Þetta hét samkvæmt kennismíð Deng „sósíalismi með kínverskum eiginleikum“. Eftir að hafa aftur fengið traust Deng kom Jiang mörgum af stuðningsmönnum sínum frá Shanghai borg, til aukinna valda í stjórnkerfinu í Beijing. Hnignað áhrif leiðtogans Deng Xiaoping vegna elli, þýddi að Jiang varð í raun leiðtogi Kína árið 1990. Innan þriggja ára hafði Deng flutt mest völd í ríkinu, flokknum og hernum til Jiang. Jiang afnam ráðgjafarnefnd flokksins þar sem samanstóð af gömlum og íhaldssömum byltingarhetjum. Hann varð formaður síðan formaður hernefndar flokksins árið 1989, og síðan forseti í mars 1993. Aðalritari og forseti. Leiðtoginn Deng Xiaoping dó í byrjun árs 1997 og í Alþýðulýðveldinu Kína voru tímar efnahagsumbóta og stöðugleika á tíunda áratugnum. Engu að síður voru margvísleg efnahagsleg og félagsleg vandamál áberandi. Á jarðarför Deng flutti Jiang honum eftirmæli: í landinu ríkti hömlulaus spilling stjórnvalda og ört vaxandi hagkerfi ógnaði stöðugleika á landinu. Sú hugmynd Deng að „sum svæði gætu orðið efnaðri á undan öðrum“hafði þýtt gjá í efnahag strandsvæða Kína og strjálbýlli héraða í vestri og norðri. Hinn ótrúlegi hagvöxtur hafði leitt til lokun margra ríkisfyrirtækja og atvinnuleysi var allt að 40% í sumum borgum á landsbyggðinni. Umfang fólksflutninga úr dreifbýli í þéttbýli hafði fá fordæmi í heiminum. Spilling og skipulagðir glæpir voru hvarvetna. Á sama tíma voru bætt umhverfismál að verða æ háværari krafa innanlands. Stærsta markmið Jiang í efnahagslífinu var meiri stöðugleiki sem fengist best með stöðugri ríkisstjórn með auknu miðstýrðu valdi. Pólitískum umbótum var því slegið á frest. Þrátt fyrir þetta hélt Jiang þó áfram að verja gríðarlegu fjármagni til þróunar fríverslunarsvæða á strandsvæðunum. Jiang nýtti sér sjónvarp til að bæta eigin ímynd hans. Árið 1996 beitti Jiang sér fyrir umbótum í ríkisfjölmiðlunum þannig að þeir studdu meir við „leiðtoga landsins“ á kostnað pólitískra andstæðinga Jiang. Þessi persónudýrkun hafði legið í láginni á tímum Deng, og leita þarf til embættisára Mao og Hua Guofeng til að finna sambærilegar áherslur. Kvöldfréttatímar CCTV-1 og „Dagblað fólksins“ settu atburði er tengdust Jiang í forgang. Og hvert tækifæri var nýtt. Árið 1997 nýtti Jiang jafnvel minningarathöfn Deng Xioping til að minna þjóð sína á hver væri forseti, formaður kommúnistaflokksins og yfirmaður heraflans. Á stórum borða sem hékk framan á svölum Alþýðuhallarinnar stóð: „Látið óuppfylltar óskir Dengs rætast undir leiðsögn flokksins með Jiang Zemin við stýrið.“ Utanríkisstefna Jiang Zemin. Jiang Zemin á leiðtogafundur með Bill Clinton forseta Bandaríkjanna árið 1997. Þeir voru sammála um að ræða ekki ágreining þjóðanna. Jiang Zemin fór í sögulega heimsókn til Bandaríkjanna árið 1997, þar sem ýmsar mótmælahreyfingar tóku á móti honum allt frá Sjálfstæðishreyfingu Tíbets til hreyfinga er berjast fyrir auknu lýðræði innan Kína. Hann flutti m.a. ræðu á ensku í Harvard háskóla, en fór ekki varhluta af spurningum um lýðræði og frelsi. Leiðtogafundur með forseta Bandaríkjanna Bill Clinton, var afslappaður þar sem Jiang og Clinton leituðu sameiginlegra áherslna á meðan ágreiningur var ekki ræddur. Clinton heimsótti Alþýðulýðveldið Kína í júní 1998 og undirstrikaði vináttu þjóðanna og samstarf. En þegar sprengjur NATO, undir forystu Bandaríkjanna, lentu á kínverska sendiráðinu í Belgrad árið 1999, mótmælti Jiang mjög harkalega að því er virtist til að ná stuðningi heima fyrir. Helstu utanríkisáherslur Jiang voru á sviði alþjóðlegra viðskipta og efnahagssamstarfs. Og Jiang Zemin fór víða um heim. Hann kom m.a. til Íslands í opinbera heimsókn um miðjan júní 2002, og átti fund annars vegar með Davíð Oddssyni þáverandi forsætisráðherra og Halldóri Ásgrímssyni þáverandi utanríkisráðherra og hins vegar Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. En Jiang fékk fremur kaldar kveðjur frá íslenskum almenningi, og nokkur hundruð Falun Gong meðlimum sem ferðuðust til landsins til að mótmæla á meðan heimsókn Jiang stóð. Íslensk stjórnvöld bönnuðu fjölda útlendinga sem ætluðu að taka þátt í mótmælum komu hingað til lands. Kennismíð um „þrískipt fulltrúahlutverk flokksins“. Kommúnistaflokkurinn gaf út leiðbeinandi bækur hvernig hinu „þrískipta fulltrúahlutverk flokksins“ verði best beitt á hinum ýmsum sviðum allt frá stjórnun flokksins og stjórnvalda til þróun efnahags og hersins. Áður en Jiang Zemin afhenti völd sín til yngri leiðtoga kynnti hann kenningu sína um „þrískipt fulltrúahlutverk“ flokksins. Með henni kynnti Jiang hugmyndafræði sem kvað á um að Kommúnistaflokkur Alþýðulýðveldisins ætti að vera fulltrúi fyrir félagslega þróuð framleiðsluöfl, háþróaða menningu og hagsmuni yfirgnæfandi meirihluta Kínverja. Samkvæmt þessu á flokkurinn að verða fulltrúi meirihluta fólks í stað eldri kenninga um að flokkurinn sé sértækur byltingarflokkur sem knúnir væru af öreigunum. Að vissu marki opnar þetta fyrir flokksaðild annarra þjóðfélagshópa á borð við kapítalista. Á 16. þingi Kommúnistaflokksins árið 2002 voru ákvæði um hið „þrískipta fulltrúahlutverk flokksins“ felldar inn í stjórnarskrá hans, ásamt kennismíð Marx-Lenínisma, „Hugsun Mao Zedong“ og „Kenningum Deng Xiaoping“. Þær voru um margt andstæðar marxisma og maóisma, en telast engu að síður til leiðsagnar um framtíðarhugmyndafræði flokksins. Gagnrýnendur telja þessa kennismíð bæði óljósa og bera einkenni áherslu Jiang á eigin persónudýrkun. Með kenningunum hafi Jiang viljað koma sér á stall við hlið hinna kínversku marxísku heimspekinga Mao og Deng. Gallinn sé hins vegar sá að kenningar Jiangs virðist aðeins vera samsafn af slagorðum. Og kennismíð Jiang flaug hvorki hátt né lengi. „Fjórða valdakynslóð“ undir forystu Hu Jintao, hefur fremur lagt áherslu á opnbera kennismíð Deng Xiaoping. Kenningar Jiang Zemin um hið „þrískipta fulltrúahlutverk“ telst nú einungis opinbert skjal sem vermir stór skjalasöfn flokksins. Efnahagsstjórn. Jiang sem var ekki lærður í hagfræði, afhenti árið 1997 stóran hluta stjórnar efnahagsmála til [Zhu Rongji], sem varð forsætisráðherra. Undir sameiginlegri stjórn þeirra hélt Alþýðulýðveldið Kína, að meðaltali 8% árlegum hagvexti, sem var einn sá mesti í helstu hagkerfum heims. Þetta náðist að mestu með því að þróa hagkerfið enn frekar í átt til markaðskerfis líkt og Deng Xioping hafi hvatt til. Og breytingarnar voru gríðarlegar: Landbúnaðarkommúnurnar sem Mao formaður var frumkvöðull að, hurfu og þúsundir ríkisfyrirtækja heyrðu sögunni til. Dregið var að mestu úr verðlagseftirliti, stór hluti efnahagslífsins heyrði nú til einkarekstrar, og verslun var nú tiltölulega frjáls. Þátttaka í Heimsviðskiptastofnuninni (WTO) þýddi að létta yrði meir á viðskiptahöftum og eftirliti á starfsemi erlendra fyrirtækja og fjárfestinga þeirra í kínverskum atvinnuvegum. Aðrir segja að stjórnun kommúnistaflokksins yfir Kína var enn frekar styrkt eftir að inngöngu landsins í Heimsviðskiptastofnunina (WTO) og enn frekar með Sumarólympíuleikunum í Beijing árið 2008. Starfslok. George W. Bush og kona hans Laura Bush bjóða Jiang Zemin forseta Alþýðulýðveldisins Kína og konu hans Wang Yeping velkomin á heimili þeirra í Crawford, Texasríki, í október 2002. Kínverski leiðtoginn Deng Xiaoping valdi á sínum tíma Jiang Zemin– en einnig Hu Jintao. Áður en hann lést 1997 hafði hann ákveðið að Jiang, myndi að lokum víkja fyrir Hu Jintao. Árið 2002 lét Jiang loks af völdum í miðstjórn kommúnistaflokksins og gaf um leið eftir mikil völd til svokallaðrar „fjórðu kynslóðar" undir forystu undir Hu Jintao. Samkvæmt áætlun Deng gamla um valdaskiptin átti „þriðja valdakynslóð“ kínverskra leiðtoga að víkja fyrir þeirri „fjórðu“, ekki aðeins á efsta þrepi valdastigans heldur í öllu forystuliði kommúnistaflokksins. Það gekk þó hægar eftir því stuðningsmenn Jiang voru margir andvígir valdaskiptaáætlun Deng og höfðu beyg af „fjórðu kynslóðinni“. Það merkti hægfara valdaskipti sem tók nokkur ár. Um leið og Hu tók stöðu aðalritara flokksins var valið í fastanefnd miðstjórnarinnar. Af nýjum meðlimum nefndarinnar voru sex af níu taldir til fylgismanna Jiang sem báru heitið „Shanghai klíkan“ Þó Jiang haldið formennsku í hernefnd flokksins voru flestar nefndarmenn faghermenn. Dagblað „Frelsishersins“ sem talið er að standi fyrir skoðun meirihluta hersins, birti grein 11. mars 2003, sem varaði við þeim vanda að þjóna tveimur herrum. Þetta var víða túlkað sem gagnrýni á tilraun Jiang til að halda í forystutaumana með Hu. Hu tók við af Jiang sem forseti Alþýðulýðveldisins Kína þann 15. mars 2003. Þrátt fyrir að eiga marga fylgismenn innan miðstjórnarinnar dvínuðu áhrif Jiang á opinbera fjölmiðla hratt. Á miðstjórnarfundi flokksins 19. september 2004 sagði Jiang af sér sem formaður hernefndar kommúnistaflokksins. Sex mánuðum síðar sagði hann einnig af sér sem formaður hermálanefndar hersins. Það var hans opinbera embætti. Það var löngu áður en starfstímabili hans átti að ljúka. Talið var að stuðningsmenn Hu Jintao hafi þrýst á að Jiang stígi til hliðar. Hann beið þar pólitískan ósigur fyrir Hu. Þetta markaði opinberlega lok valdatímabils Jiang í Alþýðulýðveldinu Kína sem stóð frá árunum 1993 til 2004. Þó Jiang sjaldan komið fram á opinberum vettvangi frá árinu 2004, hefur það þó gerst af og til þegar hann birtist opinberlega með Hu Jintao. Dæmi um það var þegar herinn fagnaði 80 ára afmæli og við opnunarathöfn Ólympíuleikana í Beijing 2008. Að auki birtist hann með Hu Jintao við skrúðgöngu á 60 ára afmæli Alþýðulýðveldisins Kína í október 2009. Persónan Jiang Zemin. Jiang Zemin var lýst með sæmilegt vald á nokkrum erlendum tungumálum, þar á meðal rúmensku, rússnesku, og ensku. Hann þótti njóta sín í viðræðum við erlenda gesti um myndlist og bókmenntir á móðurmáli þeirra, auk þess að syngja erlend lög á frummálinu. Opinberar fréttastofur Alþýðulýðveldisins segja Jiang hafa lesið mörg frægra verka vestrænna bókmennta, á borð við skáldsögur Mark Twain, „Hamlet“ eftir Shakespeare og erindi úr „Óði til vestanvindsins“ eftir Shelley. Hann þekkti mjög vel verk eftir Leo Tolstoy, Púshkín, Tsjekhov og Túrgenjev. Sömu heimildir segja segja hann ekki einungis unna bókmenntum heldur hafði einnig mörg önnur áhugamál. Hann naut jafnt kínverskrar þjóðlagatónlistar A Bing sem sinfóníutónlistar Mozart og Beethoven. Í frístundum spilaði hann á hefðbundin kínversk hljóðfæri s.s. bambus flautu auk þess sem hann spilaði á vestræn hljóðfæri s.s. píanó. Hann taldi að gersemi kínverskrar og vestrænnar menningar væru sameiginleg andleg auðæfi alls mannkyns. Jiang Zemin hefur notið gæfu í fjölskyldumálum. Hann og kona Wang Yeping hans eiga tvo syni, og tvö barnabörn, strák og stúlku. Í frítíma sínum hefur hann sinnt barnabörnum vel og kennt þeim sögur, lestur fornra ljóða og enskrar tungu. Þannig hefur Jiang notið þeirra auðnu sem liggur í hefðbundnu kínversku fjölskyldumynstri þar sem kynslóðirnar búa saman undir einu þaki. Hin pólitíska arfleifð. Sagnfræðingar og ævisagnaritarar hafa deilt um hvað eigi að telja til „pólitískrar arfleifðar Jiang Zemin“. Jiang sjálfur lagði mikið upp úr því að kennismíð hans um hið „þrískipta fulltrúahlutverk flokksins“ yrði mikilvægur þáttur í hugmyndafræðilegri arfleifð hans. Því lagði hann mikla áherslu á að þær yrðu felldar inn í stjórnarskrá kommúnistaflokksins, ásamt kennismíð Marx-Lenínisma, „Hugsun Mao Zedong“ og „Kenningum Deng Xiaoping“. Þannig kæmist hann á sögulegan stall. Enn er þó óljóst að þessi hugmyndafræðismíð hans ná því, þar sem kennismíð ríkjandi leiðtoga Hu Jintao skyggir verulega á þetta framlag Jiang. Jiang hefur einnig verið gagnrýndur innan kommúnistaflokksins fyrir að einblína um of á hagvöxtur, á kostnað afleiðinga markaðskerfisins á borð við umhverfisspjöll, aukna misskiptingu fólks og byggða og aðrar neikvæðar félagslegar afleiðingar. Eftirmenn hans [Hu Jintao] og [Wen Jiabao] hafa aftur á móti verið taldir sýna meiri viðleitni til að taka á þessum ójafnvægi efnahags og félagsmála. Þeir þykja hafa fært stefnuáherslur frá hagvexti til þátta á borð við heilsu og umhverfi. Innanlands, eru ólíkar skoðanir um pólitískan arfur Jiang. Sumir telja að valdatími hans hafi einkennst af stöðugleika og vexti. Aðrir telja að Jiang hafi gert lítið í að leiðrétta erfiðar afleiðingar markaðsvæðingar Deng Xiaoping. Margir Kínverjar hafa ekki gleymt því að valdaframi Jiang byggði á átökunum á Torgi hins himneska friðar og víðar í Kína. Sumir ævisagnaritarar Jiang telja að ríkisstjórn hans hafi fremur verið fáveldisstjórn en ekki flokksræði- eða alræðisstjórn. Hann hefur verið talinn mikill tækifærissinni og er sem slíkur fyrirmynd flokksmanna er nutu góðs af kerfisspillingu á valdatíma hans. Afskipti hans af rannsóknum á spillingarmálum undirstrikuðu þá mynd af Jiang. Vart verður fjallað um pólitíska arfleifð Jiang Zemin án þess að nefna hversu óhönduglega Jiang tók á málum tengdum Falunggong hreyfingarinnar, sem er varð vinsæl andleg hreyfing eða trúarhópur á tíunda áratugnum. Að sama skapi verður hans minnst fyrir íhaldssama afstöðu til pólitískra endurbóta. Það er etv. áhersla Jiang við eigin ímynd eða arfleifð sem vinnur gegn honum. Þessi sjálflægni sem kanna að þykja heillandi eða eðlilega á Vesturlöndum getur einmitt virkað þveröfugt í hinu tiltölulega íhaldssama kínverska samfélagi, þar sem slíkt er talið til hjákátleika og talið til skorts á karakter og innihaldi. Þegar Jiang Zemin forseti var að láta af völdum var gerð tilraun til ritunar sögulegrar arfleifðar hans með formlegri ályktun miðstjórn Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins. „Hin stórkostlegu afrek undanfarinna 13 ára verða örugglega skráð í hina dýrðlegu sögu hinnar miklu endurfæðingar kínversku þjóðarinnar,“ segir í ályktun miðstjórnarinnar. ― Það á síðan eftir að koma í ljós hve stór þáttur Jiang Zemin verður talinn í hinni merkilegu sögu Kínverja. Tengt efni. Zemin, Jiang Saumavél. Saumavél er vél sem notuð er til að sauma flíkur og fleira. Til eru ýmsar tegundir saumavéla sem hafðar eru til mismunandi nota. Saumavélar urðu til í Iðnbyltingunni en áður hafði allur saumaskapur verið unninn í höndunum. Almennt er talið að Englendingurinn Thomas Saint hafi fundið saumavélina upp árið 1790 en hann fékk raunar aðeins einkaleyfi á vél sem ætluð var til að sauma leður og segldúk en smiðaði aldrei gangfæra vél. Austurrískur klæðskeri, Josef Madersperger, bjó til nothæfa saumavél árið 1814. Árið 1830 fékk franski klæðskerinn Barthélemy Thimonnier einkaleyfi á vél sem saumaði beint keðjuspor (lykkjuspor) og árið 1841 hafði hann smíðað 80 vélar sem notaðar voru til að sauma einkennisbúninga fyrir franska herinn. Verksmiðja hans var hins vegar eyðilögð af klæðskerum sem óttuðust að missa vinnuna og var ekki endurreist. Árið 1833 fann Walter Hunt upp vél sem saumaði með stingsaum, sem er grunnsporið í nútímasaumavélum. Notaðir eru tveir þræðir, annar undir klæðinu sem á að sauma en hinn yfir, og vélin tengir þá síðan saman í hverju saumspori. Hann tók þó ekki einkaleyfi á vél sinni. Ýmsir gerðu endurbætur á uppfinningunni en það var Isaac Merritt Singer sem gerði fyrstu fjöldaframleiddu saumavélina og er hann oft talinn faðir saumavélarinnar. Sumar saumavélar eru tiltölulega einfaldar og sauma aðeins nokkur grunnspor en einnig eru til flóknar tölvustýrðar saumavélar sem geta saumað alls konar skrautspor og mynstur. Eldri gerðir voru ýmist handknúnar með sveif eða fótstignar en nú eru flestar saumavélar knúðar áfram með rafmagni. Draumurinn um rauða herbergið. Draumurinn um rauða herbergið er kínversk skáldsaga sem var samin um miðja 18. öld en kom fyrst út á 20. öld. Sagan, sem er eignuð Cao Xueqin, er almennt talin eitt merkasta bókmenntaverk á kínversku. Vladimír Vísotskí. Rússneskt frímerki með mynd af Vladimí Vísotskí frá árinu 1999. Vladimír Vísotskí (25. janúar 1938 – 25. júlí 1980) var rússneskur söngvari, sönglagahöfundur, ljóðskáld og leikari. Hann hafði gríðarmikil áhrif á rússneska menningu. Translations. Vísotskí, Vladimír Vísotskí, Vladimír Vísotskí, Vladimír Vísotskí, Vladimír Hipphopp. Hipphopp er tónlistarstefna sem að inniheldur fastan takt sem er oft fylgt með rappi eða töluðu máli. Hipphopp byrjaði þegar plötusnúðar einangruðu taktinn frá restinni af lögum sem þeir völdu þannig að það kom út samsuða af töktum, svipað Dub. MC komu svo fljótlega og var tilgangur þeirra helst að kynna plötusnúðana en einnig að halda áhorfendunum spenntum á milli laga. Hægt og rólega þróaðist þetta út í rapp. Upphaf hugtaksins. Keith Cowboy er talinn hafa komið með hugtakið fyrstur þó svo að Lovebug Starski og Dj Hollywood hafi báðir byrjað að nota þetta orð á sama tíma og Keith. Hann kom með orðið þegar hann var að stríða vini sínum með því að syngja orðin hipp hopp í takt við hvernig hermenn marsera en sá hafði nýlega gengið í bandaríska herinn. Upp úr því byrjuðu aðrir listamenn að nota orðin. Upphaf. Hipphopp kom fram á áttunda áratugi síðustu aldar þegar götu partí urðu vinsæl í New York borg Þá helst í fátækari hverfunum eins og Bronx. Í upphafi spiluðu plötusnúðar bara tónlist en fljótlega byrjuðu MC að tala og break dansarar sýndu listir sínar. Út frá þessum götu partíum byrjuðu plötusnúðar svo sem DJ Kool Herc og Grand Master Theodore að prufa sig áfram með tvo plötuspilara og að „scratcha“ til að hafa mismunandi áhrif á tónlistina. MC byrjuðu á því að tala og voru þá helst að kynna plötusnúðana eða að hvetja áhorfendur til að dansa eða hreinlega bara að skemmta þeim en með tímanum byrjuðu þeir að rappa með. Í upphafi voru þetta voða einfaldir textar en hægt og rólega fór þetta út í litlar vísur sem voru oft klúrar. Þeir gerðu það til að greina sig frá hvor öðrum. Út frá þessu byrjuðu þeir síðan að vinna saman og mynduðu hálfgerðar hljómsveitir með plötusnúði og MC, oft voru breakdansarar með. Þetta varð síðan að venju og er enn í gangi. Níundi áratugurinn. Á níunda áratuginum þróaðist hipp hopp yfir í flóknari takta og lög. Á þessum tíma jókst notkun trommuheila svo sem "Roland 808" og "Oberheim DMX" en Roland 808 er ennþá mikið notaður i dag. Mikil tækniframför á sviði tónlistar fór fram og varð þess valdandi að einfaldara var að „sampla“ lög og búa til takta. Á sama tíma þróuðust textarnir úr þvi að vera grín yfir í alvarlegri málefni, það markaði nýja stefnu innan hipp hopps. Þar var lagt meira upp úr textunum og rímum en einnig boðskapnum sem var oft mjög gagnrýninn á samfélagið og pólitíkina í því. Mikið af breytingunum er hægt að tengja við nýja kynslóð af hipp hopp listamönnum sem að fjölluðu um það sem þeir þekktu en það var hvernig það var að koma úr fátækrahverfum og hættunni sem steðjaði að ungu fólki á þessum tíma en þau notuðu oft einmitt tónlistina til að koma sér út úr þeim lífstíl. N.W.A eru taldir vera helsta ástæðan fyrir því að Gangsta rap náði vinsældum en það var með fyrstu hljóðversplötunni þeirra "Straight Outta Compton". Í framhaldi af því urðu textar mun óheflaðari og var það þess valdandi að fáir fengu spilun á stóru bandarísku útvarpsstöðvunum og sumum bannað að fara á tónleikaferðalög. Þrátt fyrir þetta þá varð þessi stíll af hipp hopp gríðarlega vinsæll til dæmis þá seldist Straight Outta Compton í tíu milljón eintökum einungis í Bandaríkjunum. Tíundi áratugurinn. Á tíunda áratuginum þá varð hipp hopp mest selda tónlistarstefnan. MC Hammer varð að nafni sem allir þekktu þegar fyrsta platan hans kom út 1990 og átti hún sinn þátt í vinsældum hipp hopps. Á svipiðum tíma þá var Dr. Dre að vinna í sinni fyrstu sóló plötu. Sú plata aðstoðaði við það að gera vesturstrandar gangsta rapp vinsælls en rapp austurstrandarinnar. Tónlistin sjálf breyttist mikið og byrjuðu sumir að syngja líka en ekki bara að rappa. Á þessum tíma var hálfgert stríð á milli vesturstrandarinnar og austurstrandarinnar og var vígvöllurinn helst í gegnum tónlistina þar sem að þeir stunduðu það að „dissa“ hvorn annan. Miðpunktur þessa stríð virtist vera hjá Notorious B.I.G og plötufyrirtækis hans Bad Boy Records sem að voru frá austurströndinni og svo Tupac Shakur og Death Row Records en þeir voru frá vesturströndinni. Endaði þetta með bæði dauða Notorious B.I.G og Tupac Shakur. Margir hvítir hipp hopp listamenn komu fram á tíunda áratugnum svo sem Eminem og Cage. Undir lok áratugarins þá var hipphopp orðið stór partur af tónlistarsenunni og notuðu margir aðrir listamenn hluta af hipp hoppi í sínum lögum. Miðvestur og suður Bandaríkin. Á meðan strandirnar tvær börðust blómstruðu önnur svæði í Bandaríkjunum svo sem mið-vestur hlutinn og suðurríkin. Frá Miðvestur-Bandaríkjunum komu margir listamenn svo sem Eminem og Twista. Munurinn á miðvestur-rappinu og svo austur- og vesturstrandar rappinu er að það er ekkert eitt sem að sameinar stílinn sem að þeir nota og er oft munur á milli tveggja listamanna í sömu borg sem gerir það erfitt að skilgreina eitthvað einkennandi við tónlistina sem kemur þaðan. Í suðurríkjum Bandaríkjanna var einnig mikið af hipp hopp listamönnum enn fyrstir til að verða virkilega vinsælir voru Geto Boys enn þeir komu frá Houston í Texas. Á tíunda áratugnum varð Atlanta í Georgíu ráðandi í Suðurríkja hipp hoppinu með hljómsveitum svo sem Outkast og Ying Yang Twins. Alþjóðlegt hipp hopp. Hipphopp sem tónlistarstefna breiddist hratt út og mörg lönd hafa haft mjög mikla hipp hopp menningu svo sem Frakkland þar sem að fyrsti sjónvarpsþátturinn ætlaður einungis hipphoppi kom fram. Breakdansarar áttu sinn þátt í vinsældum tónlistarstefnunnar því að í Japan, Ástralíu og Suður-Afríku kom dansinn fyrst og var dansað við bandarísk lög en svo seinna meir þá komu fram hljómsveitir og listamenn frá þessum löndum. Í fáum löndum hefur hipphopp væðingin verið jafn mikil og í Bretlandi þar sem að það kom sér undirstefna eða Breskt hipp hopp. Hipphopp dreifðist hratt til Suður-Ameríku þökk sé því að suður-amerískir innflytjendur í New York voru partur af fæðingu hipp hopps. Í Brasilíu er hipphopp orðið rótgróið í tónlistarlífinu þar. Í textunum er mikið talað um ójafna dreyfingu á auðinum í landinu og skort á tækifærum fyrir ungt fólk. Helsta ástæðan fyrir kraftinum í hipphoppi í Brasilíu er sú margir koma úr fátækrahverfum og eru að reyna að bæta stöðu sína. Í upphafi var hipp hoppið aðallega í São Paulo enn það breiddist hratt út og er núna í öllum stærstu borgum Brasilíu. Hipphopp hefur mikið verið notað þar til að reyna að koma krökkum úr skotlínu í stríðinu sem að lögreglan er að há gegn fíkniefnum og fá þau til að byrja í tónlist svipað og margir gerðu í Bandarikjunum á níunda áratugnum. Menningarbyltingin. Menningarbyltingin var bylting í Kína á árunum 1966 til 1976, sem leiddi til mikils glundroða í kínversku samfélagi, stjórnmálum og hagstjórn. Maó Zedong kom byltingunni af stað, að hans sögn vegna þess að frjálslynd borgaraleg öfl höll undir kapítalisma væru að koma sér fyrir á öllum stigum kínversks samfélags og stjórnkerfis. Svín (tegund). Svín (fræðiheiti:"Sus scrofa domesticus") eru húsdýr, ræktuð til kjötframleiðslu. Á íslensku heitir svínafjölskyldan göltur, gylta og grís. Eftir því hvaða kyni það er eða hve ungt það er. Hin venjulegu tömdu svín sem borðuð eru í formi skinku og hamborgara kjöts á hverjum deigi er hið al þekktasta afbrigði svína ("Sus scrofa domesticus" eða "Sus domesticus"), húsdýrsafbrigði villisvína og tilheyrir fjölskyldu svína ("Suidae"). Svín voru tamin fyrir níu þúsund árum síðan. Fullorðið svín vegur allt á milli 50 til 350 kg. Nytjar. Nytjar af svínum eru ekki eingöngu kjötið því að hárin eru líka nýtt. Hárin kallast burst og eru nýtt í hárbursta, pensla og kústa sem dæmi og áður fyrr voru þau nýtt í tannbursta. Ekki er óalgengt að nýta eyrun af svínum sem hundanammi. Eyrun eru ýmist þurrkuð eða reykt, síðan seld til gæludýraverslana. Á Íslandi eru eyrun innflutt í þessum tilgangi. Afkvæmi. Algengt er að gyltur eigi um átta til tólf grísi í hverju goti. Meðgöngutími þeirra er að meðaltali 114 dagar. Oft er sagt að meðgöngutíminn sé þrír mánuðir, þrjár vikur og þrír dagar. Tími milli gangmála hjá gyltum er að meðaltali 21 dagur og varir í um 48 klukkustundir. Gotið tekur yfirleitt mjög stuttan tíma miðað við allan þann fjölda grísa sem fæðast. Gylta er með 14 spena og ná því yfirleitt allir grísirnir að vera á spena í einu. Því fylgir mikil hamagangur og eignist gylta fleiri en 14 grísi í einu verða oft einhverjir útundan. Mesti fjöldi sem vitað er um á Íslandi eru 27 grísir en metið í Húsdýragarðinum eru 22 grísir. Við eðlilegt got eru grísir um 400-800 grömm en þeir stækka gríðarlega fljótt enda er móðurmjólkin orkumikil. Svín á Íslandi. Svínin fluttu landnámsmennirnir með sér hingað til lands og ekki er talið ólíklegt að þau hafi lifað nánast villt hér eftir það. ýmis örnefni benda mjög sterklega til þess, svo sem Svínafell, Galtarholt, Galtalækur og fleira. Svínarækt. Í Evrópu er víða reynt að tryggja veðferð alisvína. Evrópusambandið hefur látið rannsaka ýmsa þætti þeirra mála. Þar gilda einnig reglur um svínavernd. Á Íslandi gilda margar reglur um svín, og sérstaklega er ein reglugerð helguð þeim. Svínaræktarfélag Íslands gætir hagsmuna svínabænda og á aðild að Bændasamtökum Íslands. Það heldur úti vef um svínakjöt. Svínarækt á Íslandi. Talið er að svín hafi verið algeng hér á fyrstu öldum en með breyttum landkostum, eyðingu skóga, og harðnandi árferði hlutu svínin smám saman að hverfa en þó er talið að nokkuð hafi verið um svín allt fram á 16. og jafnvel 17. öld. Svínin á Íslandi eru ræktuð með það fyrir augum að fá sem mest og best kjöt af hverri skepnu. Það sést best á því að svínin hafa gríðar stóran búk en litlar fætur í samræmi við búk. Ræktuðu svínin eru samt sem áður komin út frá villisvínum og eru þau m.a. með vígtennur sem þaug hafa fengið í arf frá forfeðri sínum. Ekki hefur tekist að rækta vígtennurnar úr eldissvínum og er því oftast gripið til þess ráðs að klippa af tönnum grísa, þar sem þær særa spena gyltunnar og verða hættuleg vopn í fullorðnum svínum. Svínaræktarfélag Íslands var í samstarfi við svínaræktendur í Noregi árið 1995 og fluttu inn norsk svín. Þeim var blandað við íslenska svínastofninn. Svínabúum hefur fækkað mikið en þar á móti hafa þau stækkað til muna. Svínum hefur þrátt fyrir allt fjölgað og er stofninn nú tvöfaldur og neysla svínakjöts fjórfaldast. Fjöldi svína á Íslandi. Á landinu voru sextán bændur er ráku svínabú árið 2006 samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökunum úr Hagtölum landbúnaðarins. Þeir eru með um 260 svín hver á sínu búi. Alls voru um 4000 svín á Íslandi árið 2006 og framleidd voru 5.744 þúsund tonn af svínakjöti. Svínakjötsala á hvern íbúa á landinu það árið var 18,9 kg, heldur meira en nautakjöt þar sem neysla almennings var 10,5 kg á hvern Íslending. 101 dalmatíuhundur. "101 dalmatíuhundur" (enska: "101 Dalmatians") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1996 með Glenn Close í aðalhlutverki. Myndin er endurgerð á Disney-teiknimyndinni "Hundalíf" frá 1961 sem byggði á skáldsögu "Hundrað og einn dalmatíuhundur" eftir enska rithöfundinn Dodie Smith frá 1956. Framhaldsmyndin "102 dalmatíuhundar" var gefin út árið 2000. 102 dalmatíuhundar. "102 dalmatíuhundar" (enska: "102 Dalmatians") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2000 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "101 dalmatíuhundur". Myndin var gerð í London. Sagan um Genji. Sagan um Genji er japanskt bókmenntaverk sem er eignað japönsku yfirstéttarkonunni Murasaki Shikibu og er frá fyrri hluta 11. aldar. Steinþór Pálsson. Steinþór Pálsson er viðskiptafræðingur og bankastjóri Landsbankans en hann tók við því starfi af Ásmundi Stefánssyni árið 2010. Steinþór er viðskiptafræðingur að mennt og með MBA gráðu. Hann hóf störf hjá Actavis í apríl 2002, sem framkvæmdastjóri Actavis á Möltu. Hann stýrði þar þróun og endurbyggingu verksmiðjunnar og þróunarsetursins á Möltu. Ashoka mikli. Ashoka mikli (304 f.Kr. – 232 f.Kr.) var indverskur keisari sem réði yfir næstum öllu Indlandi á árunum 269 til 232 f.Kr. Aukageta. Aukageta er afurð eða afleiðing annarrar virkni sem getur þó ekki haft nein áhrif á undirstöðuna sem veldur henni. Til dæmis er aukagetuhyggja í hugspeki sú kenning að sálarlíf mannsins sé aukageta þannig að það orsakist af virkni heilans og sé þannig afleiðing efnislegrar undirstöðu en geti þó engin áhrif haft á móti á efnislega undirstöðu sína; það er að segja að virkni heilans orsaki mannlegt sálarlíf en sálarlíf mannsins hafi engin áhrif á virkni heilans. Dómkirkjan í Mainz. Dómkirkjan í Mainz er keisarakirkja í þýsku borginni Mainz og eru elstu hlutar hennar frá 10. öld. Í henni fóru fram nokkrar konungskrýningar. Í kirkjunni hvíla allmargir biskupar sem þjónað hafa í borginni. Byggingasaga. Byrjað var að reisa kirkjuna síðla á 10. öld að tilstuðlan erkibiskupsins Willigis, sem þá var kjörfursti í þýska ríkinu og á þessum tíma einnig ríkiskanslari. Áætlanirnar voru gerðar 975 og hófust framkvæmdir í framhaldi af því. Ein af ástæðum fyrir þessari glæsibyggingu var að flytja krýningar þýsku konunganna frá Aachen til Mainz og átti dómkirkjan að þjóna sem krýningarstaður. Borgin Mainz var lítil á þessum tíma og hafði þó nægar kirkjur fyrir. Fyrsta hlutanum, 75 metra löngu skipi, lauk 1009, og var hann helgaður heilögum Marteini frá Tours. Til beggja enda voru kórar. Talið er að kórarnir áttu að merkja veraldleg yfirráð biskupsins annars vegar og andleg yfirráð hans hins vegar. Á vígludeginum, 29. ágúst 1009, sennilega eftir vígsluna, brann kirkjan. Talið er að eldurinn hafi orsakast af hátíðarljósum. Kirkjan lá ónotuð næstu áratugi og fóru viðgerðir ekki fram fyrr en 1031-51. Hún var hins vegar vígð 1036 í viðurvist Konráðs II keisara. Kirkjan skemmdist enn í eldi 1081. Hinrik IV keisari lét endurbyggja kirkjuna í langbarðastíl í kringum árið 1100 og fékk hún þá núverandi mynd með þrjú skip. Hinrik dó 1106 og varð hún þá ekki fullkláruð fyrr en 1239, þar sem eftirmenn hans höfðu takmarkaðan áhuga á byggingunni. Árið 1184, nokkuð áður en kirkjan var fullkláruð, hélt Friðrik Barbarossa keisari veislu í kirkjunni af tilefni af því að synir hans tveir voru slegnir til riddara. Veisla þessi var talin mesta veisla miðalda. Krýningar. Nokkrar konungskrýningar hafa farið fram í dómkirkjunni. Fjórir konungar voru krýndir þar og tvær drottningar. Aðalkrýningarstaður þýskra konunga var hins vegar Aachen. Seinni saga. 1793 var franskur byltingarher í Mainz. Prússar gerðu umsátur um borgina og skutu á hana með fallbyssum. Í skothríðinni stórskemmdist dómkirkjan og nokkrar aðrar kirkjur. Prússar náðu borginni á sitt vald og notuðu dómkirkjuna sem vopnabúr fyrir herinn. Þegar Frakkar réðu Mainz aftur snemma á 19. öld aðskildu þeir kirkjuna frá ríkinu og leystu biskupsdæmið upp. Nokkrar kirkjur voru rifnar við það tækifæri og í upphafi stóð til að rífa dómkirkjuna einnig. Biskupinn Joseph Ludwig Colmar skaut málinu hins vegar til Napoleons sjálfs, sem ákvað að dómkirkjunni skyldi bjargað. Í kjölfarið hófust viðgerðir á byggingunni. En eftir hrakfrarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 stöðvuðu Frakkar þessar framkvæmdir og notuðu kirkjuna sem herspítala. Hluti hennar var einnig notuð sem svínastía. Það var ekki fyrr en eftir brotthvarf Frakka 1814 að byggingin varð nothæf á ný sem kirkja. Kirkjan fékk þá nýtt hvolfþak en það var rifið 1870 þar sem það þótti of þungt fyrir langskipið. Í upphafi 20. aldar fór vatnsspegill miðborgar Mainz að grynnka vegna framkvæmda við varanlega árbakka Rínarfljóts. Því fóru undirstöður dómkirkjunnar að fúna en þær voru gerðar af sverum trjábolum. Jarðvegsvinna við grunn kirkjunnar dróst fram yfir heimstyrjöldina fyrri en sökum stríðsins stöðvuðust framkvæmdir. Á tíma var óttast að kirkjan væri í hættu. 1924-28 fékk hún þó steypu- og stálgrunn og bjargaðist byggingin við það. 1942 stórskemmdist kirkjan í hörðum loftárásum. Þá brunnu öll þökin niður og þótti það þó vel sloppið miðað við aðstæður. Viðgerðir stóðu allt fram á 8. áratuginn. 1975 lauk framkvæmdum og var þá haldin þúsaldarhátið fyrir tilvist kirkjunnar. Listaverk og dýrgripir. 1631 hertóku Svíar borgina Mainz í 30 ára stríðinu. Þeir fluttu ýmsa dýrgripi dómkirkjunnar til Svíþjóðar. Sumir þeirra eru til sýnis í söfnum í Uppsölum enn þann dag í dag. Bronsdyr. Elsta listaverk dómkirkjunnar eru bronsdyrnar sem snúa að markaðstorginu. Þetta eru fyrstu málmdyr sem smíðaðar voru eftir daga Karlamagnúsar. Dyrnar voru reyndar í Frúarkirkjunni í Mainz í upphafi en hún var rifin 1803. Þá var ákveðið að setja þær upp í dómkirkjunni í stað þess að bræða þær. Efst í hurðunum er áletrun frá 1135, þar sem segir að erkibiskup Adalbert hafi veitt borginni Mainz borgarréttindi. Maríualtari. Merkasta altari kirkjunnar er Maríualtarið. Það var búið til um 1510 í gotneskum stíl. Altaristaflan er nokkurs konar helgiskrín með viðarstyttu af Maríu mey með Jesúbarnið. Henni til sitthvorrar handar er heilagur Marteinn og heilagur Bonifatíus. Hliðartöflurnar sýna Jesú í jötunni, umkringdan foreldrum sínum og vitringunum þremur. Minnisvarðar. Minnisvarði um Albrecht frá Brandenborg Í dómkirkjunni í Mainz eru fleiri minnisvarðar um horfna biskupa en í nokkurri annarri þýskri kirkju. Biskuparnir voru yfirmenn stærsta biskupsstóls norðan Alpa en einnig kjörfurstar þýska ríkisins. Sumir voru því útnefndir kanslarar keisara og aðrir staðgenglar páfans. Elsti minnisvarðinn er frá 13. öld og er til minnis um erkibiskup Siegfried III frá Eppstein. Einn glæsilegasti minnisvarðinn er um erkibiskupinn og kardinálann Albrecht frá Brandenborg. Hann sýnir biskupinn í mannsstærð, í fullum skrúða með ríkisdjásn. Styttan stendur í fögrum boga. Neðst er áletraður platti. Oftar en ekki eru minnisvarðarnir í mannsmynd en á seinni tíð hefur minningarplatti verið látin duga. Flestir biskupanna hvíla einnig í dómkirkjunni. Þar eru tvær grafhvelfingar, hvor í sínum enda kirkjunnar. Í austurhvelfingunni er auk þess skrín með líkamsleifum heilagra frá Mainz. Orgel. Fyrstu heimildir um orgel í dómkirkjunni eru frá 1334. Fleiri orgel fylgdu í kjölfarið. Núverandi orgel er eitt hið flóknasta í þýskri kirkju. Hún samanstendur af 7.984 pípum og er með 114 registur. Á hinn bóginn er hljómburður dómkirkjunnar ekki sérlega góður miðað við aðrar kirkjur. Klukknaverk. Klukknaverk dómkirkjunnar samanstendur af níu klukkum. Þær elstu eru frá 1809 og voru smíðaðar meðan kirkjan var í viðgerð á franska tímanum. Það var Napoleon sjálfur sem gaf kirkjunni málminn en hann var upprunninn úr prússneskum fallbyssum sem Frakkar hernámu. Þyngsta klukkan vegur rúmlega 3,5 tonn og heitir Martinus. Silfurmáfur. Silfurmáfur (fræðiheiti: "Larus argentatus") er stór máfur með grátt bak og svarta vængbrodda en hvítur á kvið og haus. Hann er með gulan gogg með rauðum blett undir að framan eins og sílamáfur og svartbakur. Einkum getur verið erfitt að greina milli silfurmáfs og sílamáfs. Hann verður fullvaxinn 63sm að lengd og vegur eitt kíló. Silfurmáfum hefur fjölgað á Norðurslóðum síðustu áratugi vegna nábýlis við manninn. Máfurinn gerir sig í vaxandi mæli heimakominn í bæjum og borgum þar sem hann finnur sér æti í sorpi. Silfurmáfur er einn af fjórum fuglum sem má veiða árið um kring á Íslandi. Hinir eru sílamáfur, svartbakur og hrafn. Duggönd. Duggönd (fræðiheiti: "Aythya marila") er lítil kafönd sem lifir á Norðurslóðum. Hún verður fullvaxin um 50sm að lengd með 70-80sm vænghaf. Steggurinn er svartur með hvítt bak og vængi en kollan og ungir steggir eru brún á lit. Duggendur líkjast mjög skúföndum en eru ekki með skúf og auk þess ljósari á bak. Duggendur lifa aðallega á skeldýrum og vatnaplöntum. Veiðar. Á Íslandi eru veiðar leyfðar á duggönd frá 1. september til 15. mars, en sáralítið er veitt af þeim á hverju ári. Jósúa (bók). Jósúabók er ein af bókum Gamla testamentis biblíu kristinna og Nevi'im Tanakhs gyðingdóms. Hún segir frá landnámi fyrirheitna landsins og skiptingu þess milli ættkvíslanna tólf. Henni lýkur með ræðu Jósúa og þingsamkomu ættkvíslanna í Síkem til endurnýjunar sáttmálans við guð. Samúel Thorsteinsson. Samúel Thorsteinsson (1. janúar 1893 – 25. nóvember 1956) var dansk/íslenskur læknir og fyrsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu. Ævi og störf. Samúel var sonur athafnamannsins Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar Guðmundsdóttur. Hann ólst að mestu upp í Kaupmannahöfn, nam læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og starfaði sem læknir í Danmörku alla ævi. Meðal systkina Samúels voru Friðþjófur og Gunnar sem báðir voru knattspyrnumenn og gegndu formennsku Knattspyrnufélagsins Fram, en Samúel æfði og keppti undir merkjum Framara í fríum sínum á Íslandi. Allir voru þeir bræður listamannsins Guðmundar „Muggs“ Thorsteinssonar. Um það leyti sem Samúel innritaðist í læknadeildina hóf hann að æfa með Akademisk boldklub, sem var knattspyrnulið Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1918 var hann í fyrsta sinn valinn í danska landsliðið, sem þá var talið eitt hið sterkasta í Evrópu. Alls urðu landsleikirnir sjö talsins, en lítið var um millilandakeppnir á þessum árum vegna heimsstyrjaldarinnar. Veturinn 1912-13 dvaldist Samúel á Ítalíu og gekk þar til liðs við Naples FC. Hann lék með liðinu í keppninni um Ítalíumeistaratitilinn, þar sem Naples FC tapaði gegn Lazio í úrslitum Suður-Ítalíukeppninnar. Árið 1919 tók Samúel þátt í Íslandsför Akademisk boldklub, sem þá voru nýkrýndir Danmerkurmeistarar. Haraldur Steinþórsson. Haraldur Steinþórsson (1. desember 1925 – 16. ágúst 2005) var varaformaður og framkvæmdastjóri BSRB og formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Haraldur fæddist á Akureyri, sonur Steinþórs Guðmundssonar skólastjóra og bæjarfulltrúa í Reykjavík og Ingibjargar Benediktsdóttur skáldkonu og kennara. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1944 og var þá þegar orðinn virkur þátttakandi í starfi Sósíalistaflokksins. Var hann forseti Æskulýðsfylkingarinnar í tvö ár. Árið 1948 fluttist Haraldur til Ísafjarðar og gerðist kennari við gagnfræðaskólann þar. Flutningarnir voru að frumkvæði félaga hans í Sósíalistaflokknum, þar sem flokkinn vantaði bæjarfulltrúaefni fyrir vestan. Hann var bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður Sósíalistaflokksins á Ísafirði 1950 til 1954, en náði ekki endurkjöri. Á Ísafirði kvæntist hann Þóru Sigríði Þórðardóttur og eignuðust þau fjögur börn. Eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur hélt Haraldur áfram kennslu, fyrst í Gagnfræðaskólanum við Vonarstræti og síðar Hagaskóla. Hann lét til sín taka innan samtaka kennara og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar sem hann var bæði varaformaður og framkvæmdastjóri um árabil. Undir lok starfsævi sinnar starfaði Haraldur mjög að málefnum hjartasjúklinga og vann m.a. að stofnun HL-stöðvarinnar, endurhæfingar fyrir hjarta- og lungnasjúklinga. Íþróttamál. Haraldur ólst upp á svæðinu umhverfis Ljósvallagötu og Ásvallagötu, sem þá var mikil Fram-nýlenda. Hann lék knattspyrnu með Fram upp í þriðja flokk. Á Ísafirði gerðist Haraldur formaður Knattspyrnufélagsins Vestra, en íþróttalífið á Ísafirði stóð þá í miklum blóma. Við komuna til Reykjavíkur var hann fenginn til að taka við embætti formanns Fram, sem hann gegndi frá 1955 til 1960. Árið 1958 fagnaði Fram fimmtíu ára afmæli sínu. Á hátíðarsamkomu að þessu tilefni tilkynnti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri Reykjavíkur að félagið hefði fengið lóð í Kringlumýri fyrir framtíðarfélagssvæði sitt. Haraldur var útnendur heiðursfélagi í Fram á áttatíu ára afmæli félagsins 1988. Ísland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Ísland hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 24 sinnum síðan að frumraun landsins í keppninni átti sér stað árið 1986. Ísland tók ekki þátt í keppninni árin 1998 og 2002 eftir að hafa fallið úr keppninni ári fyrr. Saga. Ísland tók fyrst þátt í "Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva" árið 1986. Áhugi hafði verið fyrir þáttöku í keppninni í mörg ár og hún hafði verið sýnd í beinni útsendingu frá árinu 1983, en beðið var eftir því að Ríkisútvarpið hefði efni á því að halda keppnina. Besti árangur Íslands í keppninni er annað sætið en því takmarki var náð árin 1999 og 2009. Árið 1999 tók Selma Björnsdóttir þátt fyrir hönd Íslandi með lagið „All Out of Luck“ sem fékk 146 stig. Árið 2009 tók Jóhanna Guðrún Jónsdóttir þátt fyrir hönd Íslands með lagið „Is it True?“ sem að hlaut 218 stig, en sigurlagið „Fairytale“ eftir Alexander Rybak var með 169 fleiri stig. Versti árangur Íslands var árið 1989 þegar Daníel Ágúst Haraldsson fékk engin stig fyrir lagið „Það sem enginn sér.“ Oft þegar vísað er til lagsins er það kallað „Það sem enginn heyrði.“ Fram að þessu er þetta eina framlag Íslendinga sem hefur ekki fengið eitt einasta stig. Árið 2001 lenti hljómsveitin Two Tricky í síðasta sæti með aðeins þrjú stig þegar þeir fluttu lagið „Angel.“ Árið 2004 var undanúrslitakeppni fyrst notuð í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og komst Ísland sjálfkrafa áfram það ár vegna velgengni Birgittu Haukdal í keppninni árið áður þegar hún lenti í áttunda sæti með 81 stig. Vegna þess að Ísland lenti fyrir utan topp tíu sætanna það árið þurfti það að keppa í undanúrslitum árin 2005, 2006 og 2007 en komst aldrei áfram. Árið 2008 var reglunum breytt og hafa allir þáttakendur fyrir utan Ítalíu, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Spán og sigurlandið frá árinu áður þurft að taka þátt í undanúrslitum. Síðan hefur Ísland alltaf komist upp úr undankeppninni. Í heild sinni er Ísland annað sigursælasta land keppninnar sem á eftir að vinna, fyrir aftan Möltu. Fjöldi söngvara hafa keppt oftar en einu sinni fyrir hönd Íslands, þar á meðal Sigríður Beinteinsdóttir sem að hefur farið fjórum sinnum (tvisvar í tvíeyki, einu sinni sem sólóisti og einu sinni sem bakraddasöngkona.) Stefán Hilmarsson hefur farið tvisvar fyrir hönd Íslands (í tvíeyki árin 1988 og 1991) og sama á við Selmu Björnsdóttir (sem sólóisti árin 1999 og 2005), Eirík Hauksson (í tríói árið 1986 og sem sólóisti árið 2007), Jónsa (sem sólóisti árið 2004 og í tvíeyki árið 2012), Friðrik Ómar (sem bakraddasöngvari árið 2009 og í tvíeyki árið 2008), Heru Björk (sem bakraddasöngkona árið 2009 og sem sólóisti árið 2010) og Regínu Ósk (sem bakraddasöngkona árið 2003 og í tvíeyki árið 2008). Fréttaskýrendur. Ísland Danmörk í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1978-2009). Danmörk Spánn í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1975-2009). Spánn Marokkó í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Marokkó tók þátt einu sinni í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva arið 1980. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1980). Marokkó Ormsbók. Ormsbók – (eða Bók Orms Snorrasonar) – var stórt íslenskt skinnhandrit frá árabilinu 1360–1400, sem á 17. öld var í Svíþjóð og notað af fræðimönnum þar. Handritið hlaut eflaust þetta nafn af því að Ormur Snorrason lögmaður skrifaði nafnið sitt í það og hefur líklega verið fyrsti eigandi þess. Ormsbók er talin hafa eyðilagst 7. maí 1697, þegar konungshöllin í Stokkhólmi brann. Saga handritsins. Árið 1602 var Ormsbók komin til Svíþjóðar, en þann 23. júní það ár fékk sænski fræðimaðurinn Johannes Bureus bókina að gjöf. Árið 1651 gaf Bureus sænsku krúnunni bókina og var hún afhent Ríkisskjalasafninu til varðveislu. Um og eftir miðja 17. öld notuðu nokkrir fræðimenn, t.d. Georg Stiernhielm og Olof Verelius, bókina við orðabókarvinnu, og eru orðasöfn þeirra mikilvæg heimild um efni handritsins, því að þar er oft vísað í blaðsíðu og línu. Eftir að Olof Verelius dó, 1682, tók Sænska fornfræðaráðið (Antikvitetskollegiet) við handritinu og lét á árunum 1690–1691 skrifa megnið af því upp, og var það Íslendingurinn Jón Vigfússon sem vann það verk. Seinast er getið um Ormsbók í eignaskrá Fornfræðaráðsins 1693, og er óvíst hvað varð um bókina. Flestir telja að hún hafi eyðilagst 7. maí 1697, þegar konungshöllin í Stokkhólmi brann, en einnig er hugsanlegt að hún hafi brunnið 16. maí 1702, í Uppsalabrunanum mikla, því að bókin var oft í láni í Uppsölum. Útlit handritsins. Ormsbók var skinnhandrit í stóru broti (folio.) eins og Skarðsbækurnar tvær, og tveggja dálka eins og þær. Hins vegar virðist skriftin hafa verið smærri, því að 49 línur voru í dálki á móti 38 í Skarðsbók postulasagna. Í handritinu voru á bilinu 90–100 blöð (180–200 síður), en eitthvað af blöðum vantaði, t.d. í Mírmanns sögu og einnig aftast. Greinilegt er að sænsku fræðimönnunum þótti mikið til handritsins koma og er líklegt að það hafi borið með sér eitthvað af þeim höfðingsbrag sem einkennir Skarðsbækurnar tvær, sem Ormur Snorrason lét rita. Olof Verelius. Olof Verelius (12. febrúar 1618 – 3. janúar 1682), var sænskur rúnafræðingur, málfræðingur, fornfræðingur og sagnfræðingur, sem starfaði lengst í Uppsölum. Olof Verelius tók saman fyrstu íslensku orðabókina í Svíþjóð: "Index linguo veterìs scytho-scandicæ sive gothico". Hann var einnig upphafsmaður þeirra hugmynda að Svíar væru „Hyperborear“. Aðstoðarmaður hans við íslenskunám og útgáfustörf var Íslendingurinn Jón Rúgmann. Æviágrip. Hann fæddist í Smálöndum, sonur Nils Petri prests þar og Botilda Olofsdotter. Strax sem ungur maður tók hann upp ættarnafnið Verelius. Eftir nám í Tartu (eða Dorpat) í Eistlandi og Uppsölum hóf hann kennslu. Fór svo í námsferð til Leiden og Parísar 1648–1650. Eftir að hann kom heim samdi hann bókina: "Epitomarum historio svio-gothico libri..." (1682), sem var á svo fagurri latínu að hún var síðar notuð sem kennslubók í þeirri grein. Þar koma fram háar hugmyndir um fortíð Svía. Verelius fluttist til Uppsala 1653 og varð fjárhaldsmaður Uppsalaháskóla og gegndi því embætti til 1679. Honum bauðst kennarastaða í sagnfræði 1657, afþakkaði hana, en varð prófessor í fornfræði föðurlandsins 1662. Hann var þjóðminjavörður 1666–1675 og aðstoðarmaður við Sænska fornfræðaráðið (Antikvitetskollegiet). Síðast háskólabókavörður 1679. Verelius hóf að rannsaka íslensk handrit og fékk þau send til Uppsala. Hann náði nokkuð góðum tökum á málinu og tók saman fyrstu íslensku orðabókina í Svíþjóð: "Index linguo veterìs scytho-scandicæ sive gothico", sem Olof Rudbeck gaf út 1691. Einnig gaf hann út nokkrar íslenskar fornsögur á íslensku, með sænskri þýðingu, m.a. "Gautreks sögu" og "Hrólfs sögu Gautrekssonar" ("Gothrici & Rolfi Westrogothiae regum historia", 1664), "Bósa sögu og Herrauðs" (1666) og "Hervarar sögu" (1672). Aðstoðarmaður hans við íslenskunám og útgáfustörf var Íslendingurinn Jón Jónsson (1636–1679) frá Rúgsstöðum í Eyjafirði, betur þekktur sem Jón Rúgmann eða Jonas Rugman. Þessar útgáfur eru með þeim fyrstu sem gerðar voru á íslenskum fornritum. Verelius samdi einnig rúnafræðirit á latínu og sænsku: "Olai Vereli Manuductio compendiosa ad runographiam Scandicam antiquam", Uppsala 1675. Hyperborear o.fl.. Olof Verelius var upphafsmaður þeirra hugmynda að Svíar væru „Hyperborear“ (gríska: Ὑπερβόρειοι / Hyperboreioi) sem nefndir eru í grískri goðafræði og áttu að búa lengst í norðri. Nemandi hans, Olof Rudbeck, varð síðar helsti talsmaður kenningarinnar. Verelius lenti í langvinnum deilum við prófessor Johannes Schefferus um það hvar hofið forna í Uppsölum stóð. Schefferus hélt því fram að það hefði verið í miðbæ Uppsala, en Verelius taldi það hafa verið þar sem kirkjan í Gömlu-Uppsölum er. Almennt er nú talið að kenning Vereliusar sé rétt. Þessar deilur leiddu til betri vinnubragða hjá sænskum sagnfræðingum. Fjölskylda. Kona Olofs Vereliusar var Anna Gestricia, ekkja, sem átti af fyrra hjónabandi soninn Jacob Reenhielm, síðar þjóðminjavörð. Verelius eignaðist ekki börn, en gekk börnum konu sinnar í föðurstað. Hann dó í Uppsölum 1682. Heimildir. Verelius, Olof Jón Rúgmann. Jón Rúgmann (Jón Rúgmann Jónsson eða Jonas Rugman, skírður: Jón Jónsson); (1. janúar 1636 – 24. júlí 1679) var íslenskur fornritafræðingur í Svíþjóð. Jón var mikilsmetinn maður í Svíþjóð og tók sér ættarnafnið Rúgmann eftir fæðingarbæ sínum Rúgsstöðum í Eyjafirði. Faðir Jóns var "Jón Guðmundsson" á Rúgsstöðum, prestur og málari, og móðir hans var "Sigríður „eldri“ Ólafsdóttir", húsmóðir. Jón fór í Hólaskóla en var rekinn fyrir mótþróa við rektor skólans. Jón hélt þá, árið 1658, með fátæklegt bókasafn sitt til Kaupmannahafnar að leita leiðréttingar mála sinna. Um þær mundir voru Svíar að vinna frægan sigur sinn yfir Dönum í fjórða dansk-sænska stríðinu. Svíar höfðu öll völd á hafinu og tóku skipið og hinn danska þegn Jón Jónsson og fluttu til Gautaborgar. Þar var fyrir dróttseti ríkisins Per Brahe, lærdómsmaður mikill, og fýsti hann að vita nokkuð um innihald bóka þeirra er Jón hafði í fórum sínum. Fékk hann mikinn áhuga á þeim þegar hann vissi að þar segði frá Gauta konungi á Gautlandi og Hrólfi syni hans, og einnig frá Yngva Uppsalakonungi og Ingibjörgu dóttur hans sem sprakk af harmi. Nú var Jón frá Rúgsstöðum leystur úr böndum og sendur til náms í Visingsö og Uppsölum, svo að hann yrði fær um að þýða hinar íslensku sögur á sænsku eða latínu. Komst hann þar í kynni við Olof Verelius og veitti honum mikilsverða aðstoð við að læra íslensku og lesa og þýða íslensk handrit. Árið 1667 var í Uppsölum stofnað sérstakt fornfræðaráð eða Collegium Antiqvitatum sem skyldi vera miðstöð fornaldarrannsókna, og var Jón Rúgmann í þjónustu þess til dauðadags. Eftir hans dag voru þar ýmsir Íslendingar við störf, stundum fleiri en einn í senn, allt fram á 18. öld. Meðal þeirra voru Guðmundur Ólafsson (d. 1695), Jón Eggertsson (d. 1689) og Jón Vigfússon (d. 1692). Svíar urðu og fyrstir til að gefa út íslenskar sögur, einkum svokallaðar fornaldarsögur sem gerast á þeim tíma er nú mundi kallaður „forsögulegur“. Töldu þeir að sögur þessar væru ritaðar á hinu forna tungumáli Svíþjóðar sem þeir kölluðu „forngausku“. Fyrsta sagan var Gautreks saga og Hrólfs saga Gautrekssonar sem Jón Rúgmann hafði í pússi sínu þegar hann var handtekinn; hún var prentuð í Uppsölum árið 1664. Kona Jóns Rúgmanns (gift 1671) varð Birgitta Bring; faðir hennar var prófessor í lögum við Uppsalaháskóla. Þau eignuðust tvö börn. Mosfellskirkja (Mosfellsdal). Mosfellskirkja er kirkja í Mosfellsdal og tilheyrir Mosfellsprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð 4. apríl 1965. Mosfellskirkja var gjöf Stefáns Þorlákssonar og er sjálfseignarstofnun. Hún hefur tekjur af sölu heits vatns sem Stefán lét henni eftir í erfðaskrá. Mosfellskirkja er talin ein best búna kirkja á Íslandi. Koparklukka ein forn hangir i kórnum vinstra megin við altarið þegar inn er gengið, og er henni hringt við allar kirkjuathafnir. Akademisk Boldklub. Akademisk Boldklub eða AB er danskt knattspyrnufélag í Gladsaxe, úthverfi Kaupmannahafnar. Saga. Akademisk Boldklub, er í dag betur þekkt undir skammstöfuninni AB. Það var stofnað árið 1889 við sameiningu tveggja knattspyrnu- og krikketfélaga námsmanna í Kaupmannahöfn. Nýja félagið gerði þá einu kröfu til liðsmanna sinna að þeir væru nemendur við Kaupmannahafnarháskóla eða væru útskrifaðir þaðan. AB hefur sjö sinnum orðið Danmerkurmeistari í knattspyrnu frá því að byrjað var að keppa um þann titil árið 1913. Fyrsti meistaratitillinn vannst árið 1919 en sá síðasti árið 1967. Í seinni tíð hefur félagið átt erfiðara uppdráttar og lengst af verið í næstefstu deild. Það átti þó skammvinnt blómaskeið í kringum síðustu aldamót, þar sem það hafnaði tvívegis í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar og varð bikarmeistari árið 1999. Árið 1962 flutti AB frá Kaupmannahöfn til núverandi heimkynna sinn í nágrannabænum Gladsaxe. Gladsaxe stadion, núverandi heimavöllur AB. Kunnir leikmenn. Frægasti leikmaður í sögu AB er vafalítið eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Niels Bohr, sem lék um tíma í marki liðsins. Bróðir hans, Harald Bohr var prófessor í stærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla og einn helsti markahrókur AB um árabil. Harald var í danska liðinu sem vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 1908 í Lundúnum. Íslendingurinn Samúel Thorsteinsson lék lengi með Akademisk Boldklub og var í fyrsta Danmerkurmeistaraliði félagsins árið 1919. Knud Lundberg (1920 – 2002) varð fimm sinnum Danmerkurmeistari með AB á fimmta og sjötta áratugnum. Hann er einn kunnasti íþróttamaður Dana, ekki hvað síst fyrir það afrek að leika landsleiki í þremur í íþróttagreinum: knattspyrnu, handknattleik og körfubolta. Íslandsförin 1919. Íslenskir knattspyrnumenn áttu snemma þann draum að fá erlendan knattspyrnuflokk í heimsókn, en vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar voru slíkar ferðir ómögulegar. Strax að stríðinu loknu var farið að svipast um eftir vænlegum gestum og má telja líklegt að AB hafi orðið fyrir valinu vegna milligöngu Samúels Thorsteinssonar leikmanns þess. Eftir að samið hafði verið um heimsóknina varð AB danskur meistari í fyrsta sinn og jók það enn á eftirvæntingu Íslendinga að taka á móti meistaraliðinu. Hópurinn sem hingað kom í ágústbyrjun var blandaður af leikmönnum úr aðal- og varaliðinu. Olli það íslenskum knattspyrnuáhugamönnum nokkrum vonbrigðum að Harald Bohr var ekki með í för. Engu að síður var mikið um dýrðir og bæjarlífið í Reykjavík snerist um heimsókn dönsku gestanna, ekki hvað síst vegna þess að með sama skipi kom hópur kvikmyndagerðarmanna sem hugðist taka upp Sögu Borgarættarinnar með Guðmund „Mugg“ Thorsteinsson í aðalhlutverki. Ákveðið hafði verið að AB léki fjóra kappleiki í ferðinni. Fyrst mættu Danirnir sameinuðu liði Vals og Víkings og sigruðu 7:0. Því næst voru KR-ingar lagðir að velli 11:2 og Framarar urðu fórnarlömbin í þriðju viðureigninni, 5:0. Til tals kom að Samúel Thorsteinsson léki með Framliðinu í þessum leik, þar sem hann var skráður meðlimur í báðum félögum. Úr því varð þó ekki. Mest eftirvæntingin var þó fyrir leiknum gegn íslenska úrvalsliðinu, sem í raun má telja fyrsta íslenska landsliðið. Það skipuðu Framararnir Pétur Sigurðsson, Gísli Pálsson, Tryggvi Magnússon og Friðþjófur Thorsteinsson, KR-ingarnir Kristján L. Gestsson, Gunnar Schram og Róbert Hansen, Valsararnir Stefán Ólafsson og Magnús Guðbrandsson & Víkingarnir Páll Andrésson og Óskar Norðmann. Úrvalsliðið kom mjög á óvart með því að sigra AB með fjórum mörkum gegn einu. Leikið var í úrhellisrigningu við mjög erfiðar aðstæður. Danirnir afsökuðu tapið með því að leikmennirnir hefðu þjáðst af harðsperrum eftir útreiðartúr til Hafnarfjarðar daginn áður, en auk hestamennskunnar höfðu gestirnir slett ærlega úr klaufunum um kvöldið. Ákveðið var að bæta við nýjum lokaleik við úrvalsliðið og sigruðu gestirnir þá 7:2. Skáldsagan Höfuðlausn eftir rithöfundinn Ólaf Gunnarsson gerist meðan á heimsókn AB og danska kvikmyndatökuliðsins til Reykjavíkur stendur. Þýskaland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1975-2009). Þýskaland Fjalakötturinn (kvikmyndaklúbbur). Fjalakötturinn var kvikmyndaklúbbur sem hóf starfsemi veturinn 1975-1976 og starfaði fram á níunda áratug 20. aldar. Það var Kvikmyndaklúbbur menntaskólanna, sem í voru nemendur Menntaskólans við Tjörnina, Menntaskólans við Hamrahlíð og Menntaskólans í Reykjavík sem hóf samstarf við stúdenta í Háskóla Íslands og stofnuðu saman Fjalaköttinn. Klúbburinn stóð fyrir reglulegum kvikmyndasýningum í Tjarnarbíói. Fjalakötturinn kenndi sig við hið horfna hús Fjalaköttinn sem stóð við Aðalstræti 8. Friðrik Þór Friðriksson, sem var einn af stofnundum Fjalakattarins, var formaður félagsins á áttunda áratug 20. aldar. Sunnudaginn 22. maí 2010 hófust aftur sýningar í nafni Fjalakattarins. Siglingakeppni. Siglingakeppni eða kappsigling er keppni í siglingum þar sem seglbátar (kænur, kjölbátar eða seglbretti) eigast við. Siglingakeppnir skiptast í strandsiglingakeppnir sem fara fram nálægt landi, oft í kringum baujur eða eyjar, og úthafssiglingakeppnir þar sem keppt er á löngum siglingaleiðum. Siglingakeppnir geta verið forgjafarkeppnir milli báta af ólíkum gerðum og klassakeppnir milli báta af sömu tegund eða sem uppfylla sömu hönnunarviðmið. Tvíliðakeppnir eru siglingakeppnir þar sem aðeins tveir sams konar bátar keppa sín á milli, oftast nokkrar umferðir. Johannes Bureus. Teikning frá 1624 af glötuðum rúnasteini (Upplands runinskrifter 439). Johannes Bureus – eða Johan Bure, fullu nafni Johannes Thomae Agrivillensis Bureus – (15. mars eða 25. mars 1568 – 22. október 1652), var sænskur fornfræðingur, málfræðingur, dulspekingur, skáld og vísindamaður. Hann var fyrsti þjóðminjavörður og landsbókavörður Svía, og fyrsti rúnafræðingur þeirra. Hann er stundum kallaður faðir sænskra málvísinda. Æviágrip. Johannes Bureus fæddist í Åkerby í Uppsalastifti. Foreldrar hans voru Thomas Mattiae kirkjuvörður og Magdalena Burea, af svokallaðri Bure-ætt, sem varð fjölmenn í hópi menntamanna og kirkjuhöfðingja á stórveldistíma Svíþjóðar. Foreldrar hans áttu gott bókasafn og í nágrenninu var fjöldi rúnasteina, sem hvort tveggja hafði mikið að segja um það hvert áhugamál hans beindust. Hann stundaði nám í Uppsölum og víðar. Johannes Bureus var fjöfræðingur eins og algengt var á þeirri tíð, kunni fjölda tungumála, latínu, grísku, hebresku, arabísku, finnsku o.fl., og fékkst við margar fræðigreinar. Á árunum 1611–1634 hafði hann umsjón með bóka- og skjalasafni ríkisins, og má því telja hann fyrsta landsbókavörð og ríkisskjalavörð Svía. Árið 1630 var hann skipaður þjóðminjavörður, þegar því embætti var komið á fót, og gegndi því til 1648. Þar hafði hann frumkvæði að því að prestarnir í Uppsalastifti voru fengnir til að lýsa fornminjum í sóknum sínum. Johannes Bureus er talinn fyrsti sænski málfræðingurinn og faðir sænskra málvísinda. Hann hóf fræðilegar rannsóknir á sænskri tungu, tók saman fornsænska málfræði, sem nú er glötuð, og hóf vinnu við sænska orðabók. Hann hafði mikinn áhuga á rúnum og gaf út rit um þær, t.d. "Runokenslones lerespon", 1599, og "Runa-ABC-boken", 1611, sem var ætluð skólum. Hann teiknaði um 200 rúnasteina og hafa sumir þeirra glatast síðan. Hann rannsakaði forn handrit og gaf m.a. út "Konunga och Hövdingastyrelsen", 1634, en það er sænskt rit frá því um 1350, sem er hliðstætt "Konungsskuggsjá" en ekki eins frumlegt rit, því að það er að mestu þýtt úr latínu. Hugsanlegt er að það hafi verið samið fyrir Hákon 6. Magnússon, síðar konung. Starf Bureusar við að leita uppi og lýsa fornminjum og birta á prenti forn handrit, lagði grunninn að því blómaskeiði í sænskum fornfræðirannsóknum sem stóð fram yfir 1700, og leiddi síðar til nýrrar vakningar í þeim fræðum á 19. öld. Meðal handrita sem hann átti var Ormsbók, eða Bók Orms Snorrasonar. Hann hafði mikil áhrif á næstu kynslóð sænskra fornfræðinga, svo sem Olof Verelius, Laurentius Bureus o.fl. Dulspeki eða dulhyggja var áberandi þáttur í lífsstarfi hans. Johannes Bureus giftist (1591) Margaretha Mårtensdotter Bång. Seinni kona hans (1636) var Ingeborg Gyntesdotter. Olof Rudbeck. Olof Rudbeck eldri, málverk eftir Martin Mijtens eldri (1696). Olof Rudbeck eða Olof Rudbeck eldri, (13. september 1630 – 17. september 1702), var sænskur vísindamaður sem var prófessor í Uppsalaháskóla og fékkst við margar fræðigreinar, læknisfræði, grasafræði, sagnfræði o.fl. Hann varð víðkunnur fyrir rannsóknir í líffærafræði þegar hann uppgötvaði sogæðakerfið (1652). Hann var einnig þekktur grasafræðingur og bjó í haginn fyrir Carl von Linné. Æviágrip. Olof Rudbeck var fæddur í Västerås, sonur biskupsins þar Johannes Rudbeckius (1581–1646), (eldri) og síðari konu hans Magdalena Carlsdotter Hising (1602–1649). Hann ólst upp og gekk í skóla í Västerås, hóf nám í Uppslalaháskóla 1648 og valdi læknisfræði sem aðalgrein. Hann varði doktorsritgerð 22. maí 1652, um hringrás blóðsins. Námsferð til Leiden í Hollandi 1653–1654, fór þá aftur til Uppsala og hóf kennslu í læknisfræði og grasafræði. Hann varð prófessor í náttúrufræði 1660. Árið 1661 varð Olof Rudbeck rektor Uppsalaháskóla og vann eftir það stórvirki við uppbyggingu skólans. Komu honum þar að góðu haldi náin tengsl við hirðina og ríkiskanslarann, Magnus Gabriel De la Gardie. Sem prófessor og síðar rektor lagði hann mikla árherslu á verklegt og hagnýtt nám, sem gæti gagnast ríkinu, og leitt til framfara jafnt í vísindum og verklegum greinum, eins og skipasmíðum, húsagerð o.fl. Eftir 1680 lenti Rudbeck í hörðum deilum við aðila sem sökuðu hann um að fara illa með fé háskólans o.fl. Þó að hann stæði það af sér, varð það til að veikja stöðu hans, m.a. gagnvart konunginum. Árið 1691 gaf hann syni sínum, Olof Rudbeck yngri, eftir prófessorsstöðuna í læknisfræði og grasafræði, og dró sig síðan að nokkru leyti í hlé. Í Uppsalabrunanum mikla vorið 1702 brann hús Rudbecks með meginhluta eigna hans, margvíslegum söfnum og ómetanlegum handritum. Þar glataðist einnig megnið af þeim ritverkum hans sem enn voru óprentuð. Hann dó síðar á sama ári og var grafinn í miðri dómkirkjunni í Uppsölum. Síðan þá hafa Svíakonungar oft verið krýndir yfir gröf hans. Olof Rudbeck var áberandi persónuleiki og það streymdi frá honum styrkur og lífsgleði. En hann átti sér veikleika, þoldi t.d. ekki gagnrýni og eyddi mikilli orku í tilgangslausar deilur. Starfsorka hans var takmarkalaus og átti þátt í því að hann reyndi að gína yfir öllu. Og þó að hann legði fram markverðan skerf til margra fræðigreina, þá er lífsstarf hans fremur brotakennt. Sogæðakerfið. Olof Rudbeck er talinn eiga heiðurinn af því að hafa einna fyrstur uppgötvað að sogæðar í mönnum og dýrum mynda heildstætt kerfi. Hann kynnti niðurstöður sínar við hirð Kístínar Svíadrottningar í apríl 1652, þá 22 ára gamall. Hins vegar birti hann ekkert á prenti um það fyrr en vorið 1653, í ritinu "Nova exercitatio anatomica exhibens ductus hepaticos aquosos et väsa glandulorum serosa", eftir að danski læknirinn Thomas Bartholin eldri hafði gefið út rit með svipuðum niðurstöðum (í desember 1652). Urðu af þessu harðar deilur um það hvorum þeirra bæri heiðurinn, en almennt er nú talið að þeir hafi báðir uppgövað þetta á sama tíma. Þessi uppgötvun leiddi til þess að drottningin og fleiri aðilar veittu Rudbeck öflugan stuðning til frekari rannsókna. Lét hann reisa kúpul á háskólabygginguna, "Gustavianum", þar sem var stunduð verkleg kennsla og rannsóknir í líffærafræði. Raunar er talið að Ítalinn Gasparo Aselli hafi fyrstur lýst sogæðum á prenti (1627), og Frakkinn Jean Pecquet lýsti sogæðakerfinu 1651 og 1653 um svipað leyti og þeir Rudbeck og Bartholin gerðu sínar uppgötvanir. Grasafræði. Olof Rudbeck var einnig kunnur grasafræðingur, kom upp fyrsta grasagarði í Uppsölum og gaf út plöntulista o.fl. Um 1670 hóf hann að undirbúa mikið útgáfuverk um plöntur, "Campus elysii", þar sem birta átti myndir af um 11.000 plöntum, eða nær öllum þeim sem þekktar voru. Hver planta eða afbrigði var teiknuð nákvæmlega upp og síðan gerðir prentstokkar eða mót. Annað bindið kom út 1701, og fyrsta bindið 1702, en nær allt upplagið eyðilagðist í Uppsalabrunanum 1702, og einnig flest prentmótin sem gerð höfðu verið. Árið 1878 fannst í bókasafninu í Löfstabruk í Upplandi eitt sett af þessum jurtamyndunum, 11 bindi af 12 (fyrsta bindið glatað), með um 6.200 frumteikningum í lit, sem myndamótin hafa verið gerð eftir. Atlantica – Fornfræði. Á árunum 1670-1702 fékkst Olof Rudbeck mikið við söguleg og málfræðileg skrif til þess að varpa ljóma á sögu Svíþjóðar. Ritaði hann 3.000 bls. verk í fjórum bindum, "Atland, eller Manheim" (latína: "Atlantica, sive Manheim"), þar sem hann reyndi að sanna að Svíþjóð væri hið forna Atlantis, vagga siðmenningarinnar, og að sænska væri tungumál sem latína og hebreska hefðu þróast úr. Fyrsti hluti verksins kom út 1677–1679. Þessi skrif voru harðlega gagnrýnd, m.a. af Ludvig Holberg, sem ritaði háðsádeilu um þau, og franski fjölfræðingurinn Denis Diderot nefndi þau sem dæmi um hvernig óvísindaleg orðsifjafræði gæti leitt menn á rangar brautir. Þessar hugmyndir ber að skoða með hliðsjón af stórveldistíma Svíþjóðar. Annars hefur verið sagt að "Atlantica" sé í rauninni mikið skáldverk, innblásið af heitri ættjarðarást. Skáldið Atterbom segir um verkið, að þó að það sé eitt mesta dellurit sögunnar, séu hugarórarnir í því þó margfalt áhugaverðari en skynsemi flestra þeirra sem gagnrýndu það. Olof Rudbeck fékkst nokkuð við íslensk fræði og hélt áfram starfi læriföður síns í sagnfræði, Olofs Vereliusar, t.d. með því að gefa út fyrstu íslensku orðabókina í Svíþjóð: "Index linguo veterìs scytho-scandicæ sive gothico" (1691), sem Verelius hafði tekið saman. Þessi vinna vakti áhuga hans á rúnasteinum og fjallaði hann nokkuð um þá í verkum sínum. Rudbeck átti einnig þátt í því að Magnus Gabriel De la Gardie gaf Uppsalaháskóla 1669 hið merka handritasafn sitt, en helstu dýrgripirnir í því eru "Silfurbiblían" ("Codex Argenteus") með hinni gotnesku guðspjallaþýðingu Wulfila frá því um 500 e.Kr., og "Uppsla-Edda" sem hefur að geyma eina gerð "Snorra-Eddu". Bæði þessi handrit hafði De la Gardie keypt, en það fyrrnefnda hafði nokkru áður verið herfang úr styrjöldum Svía. Fjölskylda – Eftirmæli. Kona Olofs Rudbecks var Wendela Lohrman (1637–1711). Dóttir þeirra, Wendela Rudbeck (1668–1710), giftist Petrus Olai Nobelius (1655–1707). Af þeim er Nóbel-fjölskyldan komin, t.d. Alfred Nobel og Ludvig Nobel. Sonur hans Olof Rudbeck yngri (1660–1740), var kunnur læknir og grasafræðingur. Þriðja barnið var Johanna Kristina. Carl von Linné gaf einni ættkvísl plantna nafnið "Rudbeckia", í virðingarskyni við Olof Rudbeck og son hans, Olof Rudbeck yngri. Bændamarkaður. Bændamarkaður er markaður þar sem bændur selja vöru sína til neytenda milliliðalaust eða nánast milliliðalaust. Oft leggja bændamarkaðir áherslu á staðbundna matvöru, árstíðabundinn og lífrænan mat. Með því að draga úr fjölda milliliða geta bændur fengið hærra verð fyrir vöruna miðað við heildsölu og neytendur hugsanlega sömu vöru á lægra verði en annars staðar. Flestir bændamarkaðir leggja þó fremur áherslu á aukin gæði en lægra verð. Tim Duncan. Timothy „Tim“ Theodore Duncan (fæddur 25. apríl 1976 í Christiansted, U.S. Virgin Islands) er bandarískur körfuknattleiksmaður. Hann á tvær eldri systur, Cheryl og Tricia en er eini sonur Lone og Williams Duncan. Áður en hann reyndi fyrir sér í körfubolta var hann sundmaður og nokkuð góður í þeirri íþróttagrein. Duncan spilaði fyrir Wake Forest-háskólann og var mjög góður námsmaður. Nú er hann leikmaður San Antnoio Spurs. Duncan, Tim Tékkland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (2007-2009). Tékkland Hollenska veikin. Hollenska veikin er hugtak í hagfræði, sem á við ójafnvægi sem skapast í hagkerfi ríkis vegna auðlindagnægðar, sem dregur úr iðnframleiðni og veldur óeðlilegri hækkun gengis gjaldmiðilsins. Dregur nafn sitt af gengishækkun hollenska gyllinisins í kjölfar olíu- og jarðgasfundanna úti fyrir Hollandsströndum kringum 1960. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 2010. Heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2010 var haldið í Suður-Afríku dagana 11. júní til 11. júlí 2010. Heimsmeistaramótið er það 19. í röðinni, en það eru haldin á fjögurra ára fresti. Spánverjar unnu Hollendinga í úrslitum 1-0, og Þjóðverjar Úrúgvæji í leik um 3ja sætið, 3-2. Sumarólympíuleikarnir 1996. Sumarólympíuleikarnir 1996 voru haldnir í Atlanta í Bandaríkjunum frá 19. júlí til 4. ágúst, 1996. 10.320 íþróttamenn frá 197 löndum tóku þátt. Þar af voru 6.797 karlar og 3.523 konur. Keppnisgreinar. Keppt var í 271 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar sendu níu íþróttamenn til Atlanta, fjórar konur og fimm karla. Þrír kepptu í sundi, einn í júdó og einn í badminton. Í fyrsta sinn áttu Íslendingar fulltrúa í fimleikakeppninni, Rúnar Alexandersson. Keppendur Íslands í frjálsum íþróttum voru fjórir. Guðrún Arnardóttir komst í undanúrslit í 400 metra grindahlaupi, sem þótti mjög góður árangur. Mestar vonir voru þó bundnar við tugþrautarkappann Jón Arnar Magnússon. Hann náði sér ekki fyllilega á strik og hafnaði í tólfta sæti. Vetrarólympíuleikarnir 1998. Vetrarólympíuleikarnir 1998 voru 18. vetrarólympíuleikarnir. Þeir voru haldnir í Nagano í Japan. Tónaútgáfan. Tónabúðin var hljóðfæra- og hljómplötuverslun sem stofnuð var 15. október 1966 á Akureyri. Það var Pálmi Stefánsson tónlistarmaður (Póló) sem stofnaði verslunina. Sagan - Útgáfan. Í fyrstu seldi Tónabúðin mest hljómplötur og komu innfluttar plötur aðallega frá Bandaríkjunum, Svíþjóð og Noregi. Á þeim tíma hafði Sportvöru og hljóðfæraverslun Akureyrar samning við flesta innflytjendur hljómplatna og íslenska útgefendur um að þeir seldu ekki öðrum verslunum á Akureyri hljómplötur. Af þeirri ástæðu gekk Tónabúðinni illa að fá plötur til að selja. Árið 1967 stofnar Tónabúðin svo útgáfu íslenskra hljómplatna á merkinu Tónaútgáfan. Fyrstu plöturnar voru með Póló og Bjarka og Póló og Erlu en svo er landið tekið með trompi og „Lifun“ Trúbrots kemur út á merki Tónabúðarinnar árið 1971. Ásamt hljómplötuútgáfunni seldi Tónabúðin hljóðfæri og hljómtæki en þegar Akureyringar ná útsendingum Sjónvarpsins 1968 verður Tónabúðin helsti söluaðili sjónvarps og myndbandstækja og verður leiðandi fyrirtæki í afþreyingargeiranum norðan heiða. Margir vinsælustu listamennirnir af suðvesturhorninu koma út á plötum Tónaútgáfunnar svo sem Björgvin Halldórsson, Ragnar Bjarnason, Flowers, Ævintýri og fleiri. Þá brýtur Tónaútgáfan blað í útgáfu tónlistar með fyrstu íslensku safnplötunni „Pop Festival ´70“ sem kom út 1970, þar sem lögum með vinsælustu poppstjörnum dagsins safnað saman á eina stóra LP plötu, 33 snúninga. Á þeim tíma hafði Jón Ármannsson gerst hluthafi í Tónaútgáfunni og sá hann aðallega um samskipti við popparana í Reykjavík og nágrenni. Jón seldi svo Tónabúðinni sinn hlut í Tónaútgáfunni nokkrum árum síðar og og flutti til Frakklands. Síðasta hljómplata Tónaútgáfunnar kom út 1985 og um miðjan níunda áratuginn leggst hljómplötuútgáfan af þegar Tónabúðin selur útgáfurétt sinn til „Steinar hf“ (Sena í dag), en fyrirtækið heldur áfram starfsemi og sérhæfir sig í sölu hljóðfæra og tækjum þeim tengdum. Tónaútgáfan og SG-hljómplötur - Fréttatilkynning Upptökuver. Árið 1974 ákvað Tónabúðin að koma sér upp hljóðveri á Akureyri og var því komið fyrir í tveggja hæða húsi að Norðurgötu 2B en þar hafði áður verið reykhús. Keypt voru tvö Revox segulbandstæki og sex rása hljóðmixer ásamt fylgihlutum og var þar hljóðritað efni sem gefið var út á nokkrum plötum Tónaútgáfunnar. Armenía í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (2006-2009). Armenía Eistland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1994-2009). Eistland Lettland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (2009-2009). Lettland Litháen í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1994-2009). Litháen Koblenz. Koblenz er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 106 þúsund íbúa. Borgin var stofnuð af Rómverjum og er með elstu borgum Þýskalands. Hlutar hennar eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Loftmynd af Koblenz. Fyrir framan er Rín, til hægri er Mósel. Hornið sem samflæðið myndar heitir Deutsches Eck (Þýska hornið) Koblenz liggur við samflæði Mósel og Rínarfljóts mjög vestarlega í Þýskalandi. Belgísku landamærin eru 60 km til vesturs. Næstu stærri borgir eru Bonn til norðvesturs (50 km), Frankfurt am Main til suðausturs (120 km) og Trier til suðvesturs (120 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Koblenz er rauður kross á silfurlituðum grunni og gullkórónu fyrir framan. Merki þetta kom fyrst fram á 14. öld og er tákn erkibiskupsdæmisins Trier en Koblenz tilheyrði því frá 1018. Kórónan er tákn Maríu mey, verndardýrling borgarinnar. Orðsifjar. Borgin hét Confluentes á tímum Rómverja, en það þýðir "samflæði". Meint er samflæði ánna Mósel og Rín. Úr Confluentes verður Coblenz með tímanum. Það var ekki fyrr en 1926 að rithátturinn breyttist úr Coblenz í Koblenz. Rómverjar. Það var Júlíus Caesar sjálfur sem fyrstur Rómverja kom til borgarstæðisins Koblenz árið 55 f.Kr. eftir að hafa sigrað galla í Gallastríðunum. Fyrsta virki Rómverja á staðnum reis þó ekki fyrr en á tíma Ágústusar keisara en það var reist til að tryggja leiðina um Rínardalinn milli Mainz, Köln og Xanten. Í kjölfarið myndaðist rómversk byggð á staðnum. Því er Koblenz með elstu borgum Þýskalands. Um 85 e.Kr. tilheyrði virkið og byggðin þar í kring skattlandinu Germania Superior. Rómverjar lögðu brýr yfir Rín og Mósel. Brúin yfir Rín var gerð úr 650-750 eikarbolum með járnbroddi efst. 51 bolur eru enn til í dag. Snemma á 4. öld þrengdu germanir sér yfir landamæravegg Rómverja ("Limes"). Til að vernda borgina gegn framsókn þeirra lét Konstantínus keisari víggirða Koblenz með þykkum múrum og 19 varðturnum. En allt kom fyrir ekki. Germanir héldu áfram að flæða yfir rómversk svæði. Snemma á 5. öld yfirgáfu Rómverjar borgina en frankar settust að á svæðinu. Rómverjar munu sennilega hafa brennt brýrnar sem þeir höfðu lagt en borgarmúrarnir stóðu uppi í margar aldir enn. Frankar. Heimildir eru um að konungar frankaríkisins hafi ósjaldan setið í borginni. Þannig sat Kildebert II þar árið 585 og hélt móttökur og ef til vill þing. Eftir lát Karlamagnúsar erfði Lúðvík hinn frómi allt ríkið. En hann hafði takmarkaðan áhuga á stjórnun þess. Því börðust synir hans þrír um yfirráðin og drógust bardagar á langinn. Loks var ákveðið að setjast niður og skipta frankaríkinu mikla í þrjá hluti. Sáttarfundir þessir fóru fram í Koblenz 19. – 24. október 842. Samningurinn sjálfur var þó ekki undirritaður fyrr en ári síðar í borginni Verdun (Verdun-samningurinn). Samkvæmt honum lenti Koblenz í miðjuríkinu, Lóþaringíu. 870 var Lóþaringíu skipt í tvennt (Mersen-samningurinn). Lenti annar hlutinn í vesturríkinu (Frakklandi), en hinn hlutinn, ásamt Koblenz, í austurríkinu (þýska ríkinu). Þar með varð Koblenz endanlega þýsk borg og svo er enn. Árið 882 sigldu víkingar upp eftir Rínarfljóti og gerðu víða strandhögg. Þannig komu þeir einnig til Koblenz en hana rændu þeir og brenndu. Yfirráð biskupa. 1018 gaf Hinrik II keisari biskupssetrinu í Trier borgina Koblenz. Erkibiskup þá var Poppo frá Babenberg og varð hann því veraldlegur fursti yfir stórt landsvæði. Trier var höfuðborgin, en biskuparnir höfðu gjarnan aðsetur í Koblenz og sátu þá í virkinu Ehrenbreitstein sem gnæfir á hæð yfir borginni. Virkið var talið óvinnanlegt og því sátu biskuparnir þar einnig á ófriðartímum. 1198 fengu biskuparnir í Trier kjörgengi fyrir þýsku konungskjörin. Á þessum tíma voru flestar kirkjur í miðborginni reistar. 1105 hittust Hinrik IV keisari og sonur hans Hinrik í Koblenz. Þeim fundi lauk með því að sonurinn lét varpa föður sínum í dýflissu og tók sonurinn við konungdóminum í staðinn. Hann kallaði sig Hinrik V. 1138 var Konráður III kjörinn til konungs þýska ríkisins í Koblenz, en hann hafði áður verið gagnkonungur. Eftir kjörið var Konráður krýndur í Aachen, eins og flestir konungar ríkisins á miðöldum. Eftir lát Hinriks VI keisara 1197 var nýtt konungskjör í uppnámi. Kjörþingið náði ekki að komast að niðurstöðu og því risu tveir aðilar upp og lýstu sjálfa sig konunga. Þetta voru Filippus af Staufen-ættinni (sonur Friðriks Barbarossa) og Otto af Welfen-ættinni. Þeir söfnuðu liði og mættust í orrustu við borgardyr Koblenz. Þar hafði hvorugur betur. Ríkið brann í konungsstríði í áratug enn þar til Filippus var myrtur 1208. 1338 hélt Lúðvík IV keisari þing í Koblenz. Játvarður III Englandskonungur var viðstaddur þetta þing sem sérlegur gestur. 30 ára stríðið og 9 ára stríðið. Koblenz 1632 í umsátri Svía Siðaskiptin fóru aldrei fram í Koblenz. Borgin var í föstum höndum erkibiskupanna í Trier og átti Lúterstrú ekki upp á pallborðið í borginni. Fyrsti lúterski söfnuðurinn í borginni myndaðist ekki fyrr en 1784. Borgin var því kaþólsk er 30 ára stríðið hófst 1618. Þegar stríðið var 14 ára gamalt, gekk biskupinn og kjörfurstinn Filippus Kristof til liðs við Frakka (sem einnig voru kaþólskir). Franskur her var boðinn til borgarinnar, þrátt fyrir að bærískar hersveitir væru fyrir í borginni. Báðir aðilar voru því kaþólskir. Þegar bæjarar neituðu að yfirgefa borgina, gerðu Frakkar umsátur um hana og fengu góðan liðsstyrk í sænskum her, sem var lúterskur. Í umsátri þessu var því öllum trúmálum snúið á hvolf. Koblenz féll eftir mánaðar umsátur. 1636 voru bæjarar aftur á ferðinni og réðust á borgina Koblenz. Þeir náðu að hrekja Frakka á braut eftir árs umsátur um virki þeirra. Þegar stríðinu lauk var Koblenz nær gjöreyðilögð og íbúum hafði fækkað um helming. 40 árum seinna voru Frakkar enn á ferðinni í 9 ára stríðinu. Þeir réðust á borgina og skutu látlaust á hana með fallbyssum. Skemmdir urðu gríðarlegar, en borgin hélt velli. Hún var meðal fárra borga í Rínarlöndunum sem Frakkar náðu ekki að hertaka í þessu stríði. Franski tíminn. Í frönsku byltingunni bauð kjörfurstinn Clemens Wenzeslaus frönskum konungssinnum hæli í Koblenz. Borgin varð brátt að nokkurs konar miðstöð þeirra. Þegar franskur byltingarher réðist inn í Rínarlöndin 1794, var Koblenz nánast varnarlaus borg. Hún gafst þegar upp og hertóku Frakkar hana bardagalaust. Kjörfurstinn flúði til Ágsborgar. Herseta Frakka markaði endalok kjörfustadæmisins Trier. Koblenz var innlimuð Frakklandi 1801. Napoleon sjálfur sótti heim borgina 1804 ásamt Jósefínu eiginkonu sinni. Hinn franski borgarfógeti Koblenz, Jean Marie Thérèse Doazan, gaf borginni merkilegan minnisvarða, kallaður Kastorbrunnurinn. Hann var í formi eins og 3ja metra hár turn og átti að minna á hina sigursælu innrás Napoleons í Rússland. Innrásin misheppnaðist hins vegar herfilega. Engu að síður var minnisvarðinn látinn standa og er hann á sínum stað enn í dag. Það var rússneski herforinginn Saint-Priest sem fékk það hlutverk 1814 að ráðast á Koblenz og hrekja Frakka þaðan. Nýrri tímar. Koblenz í rústum í lok heimstyrjaldarinnar síðari 1814 úrskurðaði Vínarfundurinn að Koblenz skyldi tilheyra Prússlandi. Prússar víggirtu borgina gífurlega. Háir og þykkir múrar voru reistir umhverfis borgina. Múrarnir voru þó engin prýði fyrir borgina og voru rifnir aftur 1890 til að skapa byggingarsvæði fyrir ört vaxandi borgina. Þá var iðnbyltingin í fullum gangi. Koblenz kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. Í stríðslok hins vegar hernámu Bandaríkjamenn borgina sem héldu henni til 1923. Þá eftirlétu þeir Frökkum borgina. Franski herinn yfirgaf Koblenz ekki fyrr en 1929. Ári síðar sótti ríkisforsetinn Paul von Hindenburg borgina heim til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af frelsun borgarinnar. Þá átti sér stað stórslys eftir flugelda kvöld eitt að bráðabirgðabrú eyðilagðist og féllu tugir manna í Rínarfljót. 38 manns biðu bana. Í heimstyrjöldinni síðari varð Koblenz fyrir gífurlegum loftárásum. Þær verstu urðu 6. nóvember 1944 en þá létu breskar flugvélar 150 þús sprengjum rigna yfir borgina. Eyðileggingin var ótrúleg. Um 87% hennar voru rústir einar. Borgarbúar neyddust til að yfirgefa borgina. Í mars 1945 sprengdu nasistar allar brýr yfir Rín og Mósel. Aðeins nokkrum dögum síðar hernámu Bandaríkjamenn borgina. Þeir fundu aðeins fáeinar sálir í rústunum þar. Um sumarið eftirlétu þeir Frökkum borgina, enda var hún á hernámssvæði Frakka. 1946 var sambandslandið Rínarland-Pfalz stofnað. Koblenz varð að höfuðborg þess lands. 1950 var hins vegar ákveðið að færa höfuðborgina til Mainz. Á móti kom þó að ýmsar ríkisskrifstofur voru fluttar til Koblenz. 1957 fengu þýskir hermenn að flytja í herstöðvar í Koblenz, sem enn í dag er stærsta þýska herstöðin í Þýskalandi. Síðustu frönsku hermennirnir yfirgáfu borgina 1969. Árið 2002 voru fjölmargar byggingar í borginni settar á heimsminjaskrá UNESCO. Kastorkirkjan í Koblenz. Kastorkirkjan er elsta kirkja borgarinnar Koblenz í Þýskalandi, enda reist á 9. öld. Kirkjan stendur á Deutsches Eck, tanganum sem slútir út í samflæði fljótanna Rín og Mósel. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga kirkjunnar. Það var Hetti, erkibiskupinn í Trier, sem reisti kirkjuna 817-836. Til þess naut hann fulltingis Lúðvíks guðhrædda (syni Karlamagnúsar). Kirkjan var vígð 836 og helguð heilögum Kastor, en hann hafði verið kristniboði í héraðinu á 4. öld. Dóttir Lúðvíks, Rizza, var einnig dýrkuð í kirkjunni, en hún hvílir í henni enn í dag. Seinna á 9. öld var klaustri bætt við. Í þessu klaustri fór fram fundur um skiptingu hins mikla frankaríkis Karlamagnúsar árið 842, en Karl hinn sköllótti fékk vesturhlutann (Frakkland í dag), Lóþar fékk miðhlutann (og borgina Koblenz) og Lúðvík hinn þýski fékk austurhlutann (Þýskaland og Norður-Ítalía í dag). Samningur þessi var svo undirritaður í borginni Verdun árið eftir. Á 10. öld var kirkjan lengd og á 11. öld var núverandi turnum skipt út fyrir gamla hringturna. 1138 var Konráður III kjörinn konungur þýska ríkisins í kirkjunni. 1110 stofnaði erkibiskupinn Bruno von Lauffen spítala (einn hinn fyrsta norðan Alpa). Seinna var þýska riddarareglan kölluð til borgarinnar og henni gefið landstykki við kirkjuna og spítalann. Þetta svæði kallaðist Deutscher Ordt og seinna Deutsches Eck sem það heitir enn í dag og er tanginn við samflæði Rín og Mosel. 1338 gerðist síðasti markverði atburðurinn í kirkjunni, er keisarinn Lúðvík IV hinn bæríski og Játvarður III Englandskonungur gerðu með sér vinasamning. 1803 lögðu Frakkar klaustrið niður. Kirkjan sjálf skemmdist nokkuð í loftárásum seinna stríðsins. Viðgerðum lauk ekki fyrr en 1973, en turnarnir voru ekki teknir í gegn fyrr en 1979-80. Árið 2002 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO. Madonnumynd. Eitt mesta listaverk kirkjunnar er Madonnumyndin, sem kennd er við heilaga Birgittu frá Svíþjóð (Brigitten-Madonna). Myndin var máluð síðla á 14. öld af bæheimskum listamanni. Á innskrift á bakhliðinni má lesa að það hafi verið Eleonóra, systir Karls V keisara, sem fór með málverkið til Danmerkur, en hún giftist Kristjáni III Danakonungi. Á 17. öld var málverkið eign biskupsins Otto Reinhold von Andrimot, en hann flutti það til Wetzlar í Þýskalandi. 1836 var málverkið flutt til Koblenz og síðan 1849 hangir það í Kastorkirkjunni þar. Sólarúr. Í garðinum fyrir utan kirkjuna stendur sólarúr. Það er tiltölulega nýtt og sýnir klukkuna og dagsetninguna. Vegna sólargangs verður hins vegar að færa miðkúlu úrsins til, allt eftir því hvaða árstími er í gangi. Þá er einnig hægt að lesa stjörnumerkið sem ríkir hverju sinni. Kastorbrunnurinn. 1812 reistu Frakkar minnisvarða um sigursæla herför Napoleons til Rússlands á kirkjulóðinni. Minnisvarði þessi kallast Kastorbrunnurinn sökum þess hve hann líkist brunni að utan. Herförin misheppnaðist hins vegar, en minnisvarðinn var látinn standa. Albanía í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (2004-2009). Albanía Nonni og Manni. Nonni og Manni er bók eftir Jón Sveinsson. Hann samdi margar unglingabækur sem urðu vinsælar í byrjun 20. aldar. Nonnabækurnar fjalla um hin ýmsu ævintýri sem Jón sjálfur lenti í með bróður sínum Ármanni (Manna). Bækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Lögmál. Kenning er líklegasta eða rökréttasta skíringin á tilteknum atburðum sem eiga sér stað í náttúrunni eða á rannsóknarstofu. Þegar búið er að setja fram kenningu verður að prófa hana hvað eftir annað. Ef hún stenst margendurteknar tilraunir er hún yfirleitt talin sannreynd. Mikilvægar og viðurteknar kenningar eru oft byggðar á lögmálum og þær eru í fullu samræmi við það sem best er vitað. Veigamikil lögmál sem menn telja víst að gildi í náttúrunni og segir til um gang hennar kallast náttúrulögmál. Á hitt ber þó að líta að bæði kenningar og lögmál geta átt eftir að breytast vegna síðari athugana og tilrauna. AA Gent. KAA Gent (Koninklijke Atletiek Associatie Gent) er knattspyrnufélag frá Gent. Upplýsingafulltrúi. Upplýsingafulltrúi er maður í fyrirtæki eða stofnun sem fæst við fræðslu og dreifingu upplýsinga, m.a. með samskiptum við fjölmiðla. Upplýsingafulltrúar er oft fyrrverandi blaðamenn eða einstaklingar sem hafa fjölmiðlamenntun. Hugtakið upplýsingafulltrúi er oftast notað um mann sem sér um ytri samskipti fyrirtækja, en einnig blaðafulltrúi, en sá titill er samt ábúðarfyllri og oftast haft um starfsmann ríkisstjórna og stærri fyrirtækja. Whale Wars. Whale Wars eða Hvalastríð á íslensku eru Amerískir raunveruleikaþættir sem sýndir eru vikulega á Animal Planet. Fyrsti þátturinn fór í loftið 7. nóvember 2008. Kvikmyndatökumenn fylgja Paul Watson , stofnanda Sea Shepherd Conservation Society og áhöfn Steve Irwin, Ady Gil og Bob Barker og eftir þar sem að þau reyna að hindra Japani frá því að slátra hvölum í Suður-íshafi fyrir utan strendur Antartíku. Fyrsti þáttur í þriðju seríu fór í loftið 4 júní, 2010. Sumarið 2011 fóru samtökin til Færeyja þar sem tilgangurinn var að stöðva grindhvaladráp. Saga þáttanna. Árið 2007 taldi Paul Watson Discovery channel á að gera þátt um baráttu Sea Shepherd við japanska hvalveiðimenn fyrir utan strendur Antartíku. Sea Shepherd vilja meina að hvalveiðar Japana á hvalafriðlandinu í Suður-Íshafi séu ólöglegar en Japanir skýla sér á bakvið það að þetta séu rannskóknaveiðar. Sea Shepherd hafa verið gagngrýndir fyrir aðgerðir sýnar, t.d. að flækja köðlum í skrúfur á hvalveiðiskipunum, henda smjörsýrukrukkum á þilför, fara um borð og fleri leiðir til að hindra að Japanirnir slátri hvölunum. Sea Shepherd hafa bent á að sýran sé meinlaus og gefi einungi vonda lykt frá sér sem gerir þilfarið óvinnuhæft í nokkra daga. Þeir hafa líka bent á það að hráki og tómatsósa séu með hærra sýrustig en smjörsýran og þessvegna sé hún vitameinlaus. Nýskáldsagan. Nýskáldsagan (eða nýsagan franska) (franska: "nouveau roman") er hugtak sem haft er um sumar skáldsögur Frakka á árunum 1942-1970 og eru allar eftir höfunda sem sneru baki við hinni hefðbundnu skáldsögu. Nýskáldsögur skrifuðu höfundar eins og Alain Robbe-Grillet, Robert Pinget og Nathalie Sarraute en margir af þeim gáfu einmitt út hjá forlaginu Editions de Minuit. Nýskáldsagan var tilraunakennd, lék sér að ritstílum og átti sér heimspekilegar rætur. Hugtakið varð til hjá gagnrýnandanum Emile Henriot þann 22. maí 1957, þegar hann skrifaði grein um bókina "La Jalousie" eftir Alain Robbe-Grillet. Þjálfarar meistaraflokks Fram í knattspyrnu karla. Knattspyrnufélagið Fram hefur sent lið til keppni á Íslandsmóti karla í knattspyrnu frá upphafi, ef frá er talið sumarið 1928. Óljóst er hvort hægt sé að titla nokkurn þjálfara þessi fyrstu ár í nútímaskilningi þess orðs. Lítil áhersla var lögð á taktík og liðsuppstilling ákveðin á stjórnarfundum. Einhver leikmanna, t.d. sá elsti í hópnum, sá svo um að stjórna æfingum. Þegar meistaraflokkurinn var endurreistur árið 1929 komst meiri festa á hlutina. Guðmundur Halldórsson fékk það skilgreinda hlutverk að stýra æfingum og halda utan um hópinn. Þjálfarastarfið var þó enn töluvert frábrugðið því sem síðar varð, t.d. var það lengi vel algengt að erlendir þjálfarar kæmu til landsins um það leyti sem Íslandsmótið hófst. Í seinni tíð hefur þjálfun meistaraflokka í knattspyrnu í vaxandi mæli breyst í að vera fullt starf eða því sem næst, allan ársins hring. Yu Suzuki. Yu Suzuki er japanskur tölvuleikjahönnuður sem starfar fyrir japanska tölvuleikjaframleiðandann Sega. Suzuki er þekktur fyrir spilakassaleiki sem einkennast af miklum hraða og byltingarkenndu myndefni eins og "Hang-On", "Virtua Figter" og "Virtua Cop". Hann er einnig þekktur fyrir Shenmue-leikina en þeir voru upprunalega hannaðir fyrir Dreamcast-leikjatölvuna. Hermann Lindemann. Hermann Lindemann (29. október 1910 – 23. júlí 2002) var þýskur knattspyrnumaður og þjálfari Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Hermann Lindemann lék knattspyrnu í um aldarfjórðung, með ýmsum liðum í heimalandi sínu. Sumarið 1938 var hann í þýsku úrvalsliði sem heimsótti Ísland, en um þær mundir var hann framherji hjá Eintracht Frankfurt. Í kjölfar heimsóknarinnar vaknaði sú hugmynd hjá forsvarsmönnum Fram að fá Lindemann til að þjálfa Framliðið sumarið 1939. Framarar urðu Íslandsmeistarar þetta sumar, í fyrsta sinn frá árinu 1925. Jafnframt héldu þeir í mikla keppnisför til Danmerkur í tengslum við afmælismót Danska knattspyrnusambandsins, þar sem leikið var við úrvalslið nokkurra landshluta. Lindemann tók þátt í nokkrum þeirra viðureigna sem leikmaður. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk, sneri hann sér að þjálfun og sinnti frá starfi frá 1946 til 1970. Vestur-Þjóðverjar stofnuðu ekki landsdeild sína, Bundesliguna, fyrr en 1963. Lindemann þjálfaði í eitt keppnistímabil í henni, veturinn 1969-70, þegar hann stýrði hinu kunna félagi Borussia Dortmund. Þá kom hann liðum sínum í þrígang í úrslitaleik vestur-þýsku bikarkeppninnar, en tapaði í öll skiptin: TSV Alemannia Aachen 1953 og Fortuna Düsseldorf 1957 & 1958. Listi yfir þjóðminjaverði Svía. Þjóðminjavörður Svía (sænska: "Riksantikvarie") er embættistitill þeirra sem hafa umsjón með þjóðminjavörslunni í Svíþjóð ("Riksantikvarieämbetet"). Embættið var stofnað 20. maí 1630, þegar Gústaf II Adolf skipaði Johannes Bureus þjóðminjavörð. Almenningsíþróttadeild Fram. Almenningsíþróttadeild Fram er íþróttadeild sem stofnuð var innan Knattspyrnufélagsins Fram árið 2003. Hún heldur utan um ýmis konar starfsemi sem ekki fellur undir hefðbundnar keppnisíþróttir Sagan og starfið. Árið 2003 varð Fram fyrst reykvískra íþróttafélaga til að stofna sérstaka almenningsíþróttadeild. Var það í samræmi við íþróttastefnu Reykjavíkurborgar, sem kveður á um að íþróttafélög skuli bjóða upp á slíka starfsemi og helst innan sérstakra deilda. Í raun var deildin aðeins framhald á starfsemi sem þegar fór fram á vegum félagsins. Frá 1995 var starfandi leikfimihópur í tengslum við íþróttahús og tækjasal Fram. Jafnframt höfðu verið skipulagðir skokk- og stafgönguhópar fyrir Framara og aðra íbúa hverfisins. Almenningsíþróttadeildin er í dag starfrækt á tveimur stöðum: í Safamýri og í Grafarholti. Á báðum stöðum heldur deildin úti Íþróttaskóla Fram fyrir börn á aldrinum 3-6 ára. Skóli þessi var upphaflega stofnsettur af handknattleiksdeild Fram árið 1993. Veturinn 2010-11 mun Fram senda lið til keppni í 2. deild Íslandsmóts karla í körfuknattleik undir merkjum almenningsíþróttadeildar. Verður það í fyrsta sinn sem Framarar tefla fram liði í þeirri íþrótt frá því að körfuknattleiksdeildin lognaðist út af á níunda áratugnum. Safamýri. Safamýri er gata í Háaleitis- og Bústaðahverfi í Reykjavík sem tengist Háaleitisbraut í báða enda, við gatnamót Ármúla í norðri en Fellsmúla í suðaustri. Útfrá Safamýri ganga sömuleiðis göturnar Starmýri og Álftamýri. Ákvörðun um götuheitið var tekin á fundi byggingarnefndar Reykjavíkurbæjar snemma árs 1958. Farið var að úthluta lóðum við Safamýri á árinu 1960 og byggðist hún hratt upp á næstu árum. Safamýrarskóli stendur við Safamýri 5 og dregur nafn sitt af götunni. Hann er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu. Knattspyrnufélagið Fram hefur höfuðstöðvar sínar í Safamýri 26. Þar er íþróttahús, félagsaðstaða, upphitaður gervigrasvöllur og grasæfingasvæði. Tónabær, félagsmiðstöð ÍTR er starfrækt í Safamýri 28, í húsnæði sem upphaflega var reist sem félagsheimili Knattspyrnufélagsins Fram. Rithöfundurinn og ljóðskáldið Gerður Kristný ólst upp í Safamýri. Hreppsnefnd Akrahrepps. Hreppsnefnd Akrahrepps er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Akrahreppi. Hreppsnefnd ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum. 2010. Síðast var kosið til hreppsnefndar í hreppsnefndarkosningunum 29. maí 2010. Eftir þær kosningar er Akrahreppur eina sveitarfélag landsins þar sem eingöngu sitja karlar í sveitarstjórn. 2006. Úrslit í hreppsnefndarkosningunum 27. maí 2006. 2002. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 25. maí 2002. 1998. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 1998 1994. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 26. maí 1990. 1986. Í hreppsnefndarkosningunum 31. maí 1986 var aðeins einn flokkur í framboði, Félagshyggjumenn og var hann því sjálfkjörinn.. 1982. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1982 1978. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 27. maí 1978 1966. Í hreppsnefndarkosningunum 1966 var aðeins einn flokkur í framboði og var hann því sjálfkjörinn.. 1962. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 23. júní 1962 Heimildir. Akrahreppur H Reipslagarabraut. Reipslagarabraut var gata í miðbæ Reykjavíkur sem var á milli Pósthússtrætis og Veltusunds. Belgía í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1975-2009). Belgía Akrahreppslistinn. Akrahreppslistinn bauð fram í hreppsnefndarkosningum í Akrahreppi í hreppsnefndarkosningunum 25. maí 2002. Óhlutbundnar kosningar höfðu verið í hreppnum 3 kjörtímabil á undan og kom Hreyfingarlistinn fram með lista gegn sitjandi hreppsnefnd sem tefldi þá fram Akrahreppslistanum. Hreyfingarlistinn. Hreyfingarlistinn bauð fram í hreppsnefndarkosningum í Akrahreppi í hreppsnefndarkosningunum 25. maí 2002. Óhlutbundnar kosningar höfðu verið í hreppnum 3 kjörtímabil á undan og kom Hreyfingarlistinn fram með lista gegn sitjandi hreppsnefnd sem tefldi þá fram Akrahreppslistanum. Meginmarkmið listans voru þrjú: Að vekja umræðu um hreppsmálin sem hafði ekki verið mikil árin á undan, hreyfa við sitjandi hreppsnefnd og nýta kvenkosti í hreppnum.. 50 ára afmælismót Danska knattspyrnusambandsins. 50 ára afmælismót Danska knattspyrnusambandsins var haldið árið 1939 í tilefni af hálfrar aldar afmæli Danmarks Boldspil Union. Að því tilefni var efnt til óopinbers Norðurlandamóts í knattspyrnu á Idrætsparken. Úrslit mótsins. Fjögur lið tóku þátt í mótinu: heimamenn Dana, Norðmenn, Svíar og Finnar. Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. Í fyrsta leik sigruðu Danir lið Finna 5:0. Norðmenn komu nokkuð á óvart með því að vinna Svía 1:0 í hinum undanúrslitaleiknum. Í úrslitunum sigruðu Danir Norðmenn 6:3, eftir að staðan hafði verið 2:3 í hálfleik. Danir fögnuðu vel þessum óopinbera Norðurlandameistaratitli. Fyrir mótið höfðu þeir kallað sér til aðstoðar enskan þjálfara, Edward Magner, sem lagði höfuðáherslu á að bæta líkamlegan styrk leikmanna að hætti enskra atvinnumanna. Þáttur Knattspyrnufélagsins Fram. Danska knattspyrnusambandið bauð Knattspyrnufélaginu Fram að senda lið sitt til Danmerkur í tengslum við afmælismótið. Við setningarathöfnina voru leikmenn Framliðsins leiddir inn á völlinn og látnir stilla sér upp ásamt landsliðunum fjórum. Þeir voru kynntir til sögunnar sem „liðið frá Íslandi“ og látnir klæðast rauðum sokkum við Frambúninginn, væntanlega til að líkja eftir fánalitunum og ýja þannig að því að íslenska landsliðið (sem enn var ekki til) væru gestir á mótinu. Í kjölfarið kepptu Framarar fjóra leiki gegn dönskum úrvalsliðum. Í þeim fyrsta var leikið við úrvalslið Sjálands utan Kaupmannahafnar og sigruðu heimamenn 4:3. Þessu næst unnu Framarar lið Borgundarhólms 4:2 í Rønne. Fram vann því næst lið Fjóns 1:0 í Óðinsvéum og loks Suður-Jóta með sex mörkum gegn einu í Tønder, þar sem Jón Magnússon skoraði fimm mörk. Pétur 2.. Pétur 2. (Rússneska: Пётр II Алексеевич eða "Pyotr II Alekseyevich"; 23. október 1715 – 30. janúar 1730) var Rússakeisari og ríkti yfir Rússlandi frá 18. maí 1727 til dauðadags. Mehmet 2. Tyrkjasoldán. Mehmet 2. (ottoman tyrkneska: محمد الثانى ", tyrkneska: II. Mehmet), einnig þekktur sem "el-Fātiḥ" (30. mars 1432 – 3. maí 1481) var Tyrkjasoldán og ríkti yfir Tyrkjaveldi frá 1444 til september 1446 og aftur frá febrúar 1451 til dauðadags. Jónína Benediktsdóttir. Jónína Benediktsdóttir er íslenskur íþróttafræðingur, detox-ráðgjafi, athafnakona og samfélagsrýnir. Rak um árabil líkamsræktarstöðvar og veitir detox-ráðgjöf. John Cleese. John Marwood Cleese (fæddur 27. október 1939) er enskur leikari, grínisti, höfundur og kvikmyndaframleiðandi. Cleese er þekktastur fyrir að hafa verið meðlimur Monty Python-grínhópsins og fyrir gamanþættina "Fawlty Towers", sem hann skrifaði og lék í ásamt þáverandi eiginkonu sinni, Connie Bolt. Meðal kvikmynda sem Cleese hefur leikið í má nefna "A Fish Called Wanda", "Fierce Creatures", "Clockwise", tvær James Bond-myndir sem Q, tvær myndir um Harry Potter og þrjár um Shrek. Cleese lék einnig í auglýsingum fyrir Kaupþing-banka. Staðalform. Til að mynda mætti rita töluna sem formula_2. Predore. Predore er stærsta borg Langbarðaland og fimmta stærsta borg Ítalíu. Í janúar 2009 voru íbúar borgarinnar 1.886. Harmagedón. Harmagedón (arabíska أرمجدون al-Malhama al-Kubra; latína: Armagedōn; forngríska: Ἁρμαγεδών Harmagedōn; hebreska: הר מגידו‎ har məgiddô) er staðurinn þar sem standa mun hin mikla úrslitaorrusta milli afla góðs og ills við heimsendi innan hinna abrahamísku trúarbragða. Samkvæmt kristnum túlkunum mun frelsarinn Jesús Kristur snúa aftur til jarðar og sigra andkrist í lokabardaga Harmagedón. Hjalteyri. Hjalteyri er smábyggð norðan við Akureyri á Galmaströnd í Eyjafirði. Í dag starfar þar Fiskeldi Eyjafjarðar sem sérhæfir sig í lúðueldi. Árið 2003 bjuggu þar á bilinu 60-70 manns. Saga. Norðmenn hófu síldarsöltun um 1880, Svíar, Þjóðverjar og Skotar bættust í hópinn og upp byggðist sjávarpláss með mörgum þorsk- og síldveiðiskipum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 hurfu útlendingarnir á brott og Thor Jensen athafnamaður, sem tekið hafði Hjalteyri á leigu ári áður byggði upp síldarvinnslu. Árið 1937 var byggð stór síldarverksmiðja við Hjalteyri, sú stærsta í Evrópu á þeim samkvæmt sumum heimildum. Eftir því sem leið á 20. öldina dró úr umsvifum Thorsaranna og eftir að síldarbresturinn varð á sjöunda áratugnum var síldarverksmiðjunni lokað 1966. Hreppsnefnd Seyluhrepps. Hreppsnefnd Seyluhrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Seyluhreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. maí 1990. 1986. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 14. júní 1986. Sigfús og Erna Geirsdóttir urðu jöfn með 46 atkvæði og réð hlutkesti því að Sigfús var kjörinn aðalfulltrúi. 1982. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1982. 1978. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 25. júní 1978. Guðmann og Páll Dagbjartsson urðu jafnir með 53 atkvæði og réð hlutkesti því að Guðmann var kjörinn aðalfulltrúi. 1974. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 30. júní 1974. 1970. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. júní 1970. 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1966. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 24. júní 1962. 1958. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 29. júní 1958. 1954. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 27. júní 1954. 1950. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 25. júní 1950. 1946. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 7. júlí 1946. 1942. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 12. júlí 1942. Heimildir. Seyluhreppur H Þjóðhagsvarúð. Höfuðstöðvar Alþjóðagreiðslubankans (BIS) í Basel í Sviss. Bankinn hefur ásamt seðlabönkum heims horft í auknum mæli til fjármálastöðugleika eftir alþjóðlega lausafjárkreppu 1997. Þjóðhagsvarúð (e. macroprudential) er fjármála- og hagfræðihugtak sem segir að áhætta í hagkerfinu kunni að vera meiri en einföld summa einstakra áhættuþátta fjármálafyrirtækja og markaða. Því þurfi að huga að stöðugleika fjármálakerfisins í heild sinni fremur en einstökum hlutum þess, svo takmarka megi kerfisáhættu og mögulegt framleiðslutap vegna fjármálaáfalls. Huga ber að heildaráhættu. Með „Þjóðhagsvarúð“ er litið til stöðugleika fjármálakerfisins í heild fremur en einstökum hlutum þess, með það að markmiði að takmarka kerfisáhættu og mögulegt framleiðslutap vegna fjármálaáfalls. Slík kerfisáhætta hagkerfisins tekur á sig tvö meginform: Annars vegar kerfisáhættu hvers tíma vegna kerfislegs mikilvægis einstakra fjármálastofnana, og smitleiða og tenginga á milli fjármálastofnana. Hins vegar er kerfisáhætta sem fylgir útlána- og eignaverðssveiflum. Fjármálafyrirtæki eiga möguleika á að hafa áhrif á eignaverð og hegðun einstakra fjármálafyrirtækja sem kann að vera óhagkvæm fyrir heildina (e. endogenous risk). Þannig er í hugtakinu tekið tillit til þess að áhætta í kerfinu er meiri en einföld summa einstakra áhættuþátta fjármálafyrirtækja og markaða. Hugtakið Þjóðhagsvarúð var sett fram í lok áttunda áratugarins af Alþjóðagreiðslubankanum (BIS). Hugtakið kom meir í umræðu eftir alþjóðalega fjármálakreppu 1997. Alþjóðastofnanir og seðlabankar hafa litið til þjóðhagsvarúðar í auknum mæli undanfarin ár. Fyrir alþjóðakreppuna 1997 miðaðist starf eftirlitsstofnana að mestu við svokallaða eindarvarúð (e. microprudential) þar sem fylgst var með stöðu einstakra fjármálafyrirtækja. Fjármálakerfið í heild var álitið stöðugt ef hvert fjármálafyrirtæki um sig var talið standa traustum fótum. Allmennt var litið svo á að áhætta væri utanaðkomandi í fjármálakerfinu og þar með óháð aðgerðum einstakra fjármálafyrirtækja. Líklegt verður að telja að kastljósið muni beinast í æ ríkari mæli að heildinni, þe. til þjóðarhags í stað einstakra þátta hagkerfisins. Þar sem hugtakið þjóðhagsvarúð er svo nýtt af nálinni verður að telja að það eigi eftir að þróast talsvert á komandi árum með hagrannsóknum og bættri hugtakasmíð. Þróun hugtaksins. Líklegt verður að telja að kastljósið muni beinast í æ ríkari mæli að heildinni, þe. til þjóðarhags í stað einstakra þátta hagkerfisins. Þar sem hugtakið þjóðhagsvarúð er svo nýtt af nálinni verður að telja að það eigi eftir að þróast talsvert á komandi árum með hagrannsóknum og bættri hugtakasmíð. Slík greining, „þjóðhagsvarúðargreining“ mun ekki síst þróast hjá seðlabönkum sem fylgjast með fjármálastöðugleika ríkja ásamt verðstöðugleika. Þjóðhagsvarúðareftirlit. Þjóðhagsvarúðareftirlit gengur út á vöktun þátta sem ógna stöðugleika fjármálakerfisins í heild sinni og notkun varúðartækja til að fyrirbyggja og bregðast við kerfisáhættu. Hagspekingar leitast við að þróa sérstök varúðartæki fyrir hagkerfið til að beita svo draga megi úr áhættu í fjármálakerfinu í heild fremur en einstökum hlutum þess. Letur. Orðið letur getur átt við eftirfarandi hugtök Skrifletur. Útbreiðsla leturs í heiminum.Skrifletur, ritkerfi, eða einfaldlega "letur", er kerfi notað til þess að skrifa tungumál með táknum. Stafróf. Stafróf nota yfirleitt eitt tákn fyrir hvert hljóð (til dæmis wikipedia). Dæmi: latneskt letur, grískt letur, georgíska stafrófið. Abdsjad. Abdsjad virkar eins og stafróf nema hvað að sérhljóð eru sjaldnast skrifuð. Lesandinn verður að þekkja orðið í útliti (til dæmis „wkpda“). Dæmi: arabískt letur, fönikískt stafróf, hebreska stafrófið. Abúgída. Abúgídur byggjast fyrst og fremst á samhljóðum. Sérhljóðar gegna aukahlutverki en þeim má þó ekki sleppa (til dæmis WiKiPeDia). Dæmi: devanagari, baybayin, taílenskt letur. Athvæðaróf. Í slíkum kerfum stendur hvert tákn yfirleitt fyrir eitt athvæði (til dæmis (wi-ki-pe-dia). Dæmi: katakana, cree, línuletur B. Myndletur. Hvert myndtákn stendur yfirleitt fyrir eina hugmynd (til dæmis [wiki]+[pedia] í tveimur táknum). Dæmi: kínversk tákn, híeróglýfur, fleygrúnir. Stefán Sigurður Guðmundsson. Stefán Sigurður Guðmundsson (f. 24. maí 1932 á Sauðárkróki, d. 10. september 2011) var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra frá 1979 – 1999 og var stjórnarformaður Kaupfélags Skagfirðinga þegar hann lést. Fjölskylda. Stefán er sonur Guðmundar Sveinssonar (11. mars 1893 – 19. október 1967) skrifstofustjóra og fulltrúa hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og konu hans Dýrleifar Árnadóttur (4. júlí 1899 – 9. mars 1993) húsmóður. Kona hans var Hrafnhildur Stefánsdóttir (11. júní 1937 – 15. júlí 1998) verslunarmaður. Stefán hefur alla tíð verið búsettur á Sauðárkróki. Ferill. Stefán lauk gagnfræðaprófi á Sauðárkróki 1949 og iðnskólapróf þar 1951. Hann fékk sveinsbréf í húsasmíði 1956 og lauk meistaraprófi í greininni 1959. Hann stofnaði ásamt fleirum Trésmiðjuna Borg hf. á Sauðárkróki 1963 og var framkvæmdastjóri hennar 1963-1971. Hann varð síðan framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Skagfirðinga 1971 og gegndi því starfi til 1981. Stefán var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Sauðárkróki 1966-1982. Hann var kjörinn á Alþingi árið 1979 og sat þar til 1999. Árið 1998 var hann kjörinn í sveitarstjórn Skagafjarðar og sat þar eitt kjörtímabil, til 2002. Stefán hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins (síðar Byggðastofnunar) 1980-1987 og 1995 og formaður stjórnarinnar 1983-1987. Hann sat í stjórn Steinullarverksmiðjunnar hf. frá 1982 og hefur verið í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga frá 1982. Í stjórn Fiskiðju Sauðárkróks hefur hann verið frá 1983. Einnig sat hann í stjórn Íslenskrar endurtryggingar 1988-1993. Páll Dagbjartsson. Páll Dagbjartsson (f. 31. ágúst 1948) var skólastjóri í Varmahlíðarskóla til 2012. Starfsferill. Kennari við Reykholtsskóla í Borgarfirði og Gagnfræðaskólann í Kópavogi á árunum 1969 til 1974. Varð skólastjóri í Varmahlíðarskóla 1974 og hefur verið það síðan ef undanskilin eru 2 ár, 1989-1991, þar sem hann var skólameistari við Framhaldsskólann á Laugum. Pólitík. Sat tvisvar á Alþingi sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1985. Sat í hreppsnefnd Seyluhrepps 1986-1990 og í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 2006-2010 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fjölskylda. Páll er giftur Helgu Friðbjörnsdóttur og eiga þau fjögur börn. Bróðir Páls er Björn Dagbjartsson sem sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandskjördæmi eystra frá 1984 til 1987. Jim Jefferies. Jim Jefferies er ástralskur uppistandari. Á meðal áhrifavalda Jefferies eru Richard Pryor og Eddie Murphy. Max von Laue. Max von Laue (9. október 1879 í Koblenz – 24. apríl 1960 í Berlín) var þýskur eðliðsfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði. Æviágrip. Max von Laue fæddist í þýsku borginni Koblenz 1879, en nam eðlisfræði í háskólunum í Strassborg, Göttingen, München og loks Berlín. Í Berlín var lærimeistari hans Max Planck. Strax að námi loknu 1905 gerðist von Laue aðstoðarmaður Plancks. Eitt höfuðverkefna von Laues var afstæðiskenning Einsteins, sem þá var nýkomin út. Með notkun á afstæðiskenningunni tókst von Laue að skýra Fizeau-tilraunina 1907. Árið 1909 starfaði von Laue í háskólanum í München. Þar gaf hann út fleiri rannsóknarniðurstöður en einnig gaf hann út fyrstu kennslubókina um afstæðiskenninguna. 1912 var hann einn þriggja vísindamanna sem uppgötvaði bogadregna röntgengeisla. Einnig uppgötvaði hann teningslaga strúktúr á kristöllum. Fyrir þá vinnu hlaut hann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1914. 1919 sneri hann aftur til Berlínar, þar sem hann starfaði bæði í háskólanum og við Kaiser Wilhelm stofnunina í eðlisfræði, en á síðarnefnda vettvangnum var hann oftar en ekki staðgengill Alberts Einsteins. Þegar nasistar komust til valda flúði Einstein til Bandaríkjanna, en von Laue varði hann í orði og ritum. Hann tók einnig afstöðu gegn hinni ‚þýsku eðlisfræði‘ sem nasistar voru iðnir við að nota í stríðsrekstri sínum. Max von Laue var einn þeirra þýsku vísindamanna sem Bretar fluttu til Farm Hall í Englandi, ásamt mönnum eins og Otto Hahn og Werner Heisenberg. Eftir stríð varð von Laue heiðursdoktor við háskólann í Göttingen og átti stóran þátt í myndun yfirstofnunar þýskra eðlisfræðifélaga. 1953 var hann einnig gerður að heiðursdoktor við háskólann í Berlín. 1957 var hann einn þeirra vísindamanna sem skrifuðu undir áskorunarskjal þess efnis að Þýskaland ætti að vera kjarnorkuvopnalaust land en nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Max von Laue lést 24. apríl 1960 í bílslysi. Hann hvílir í Göttingen. Heimildir. Laue, Max von Nýmiðill. Nýmiðill er hugtak sem varð til samfara almennri tölvueign á Vesturlöndum seint á 20. öld og lýsir notkun tölvunnar sem samskiptamiðils. Einkenni á nýmiðlum eru ótímabundinn aðgangur, margmiðlun, gagnvirkni og virk þátttaka notenda í sköpun efnisins. Oft er rætt um nýmiðla til að lýsa þeim breytingum sem urðu á samskiptatækni með tilkomu Internetsins með vísun í þróun nýs hnattvædds almannarýmis, sýndarveruleika og netmenningu. Rauðhumla. Rauðhumla (fræðiheiti: "Bombus hypnorum") er býflugnategund sem er dreifð um alla Evrópu og hluta af Austur-Asíu. Kjörlendi rauðhumlu eru húsagarðar með miklum fjölda blómplantna. Útlit. Rauðhumlan er smávaxnari en húshumla en stærri en móhumla. Hún er lík ryðhumlu. Rauðhumla er svört nema bakið á frambol er einlitt og ryðrautt. Afturendi rauðhumlunnar er hvítur. Rauðhumla á Íslandi. Rauðhumlan er nýr landnemi á Íslandi og hefur sést í Keflavík, Hafnarfirði og Reykjavík. Rauðhumla sást fyrst á Íslandi 19. ágúst 2008. Önnur sást ári síðar. Vorið 2010 sáust bæði rauðhumlur og ryðhumlur. Rauðhumla er frábrugðin þeim býflugnategundum sem fyrir voru á Íslandi, þær voru allar gul- og svartröndóttar með hvítan afturenda. Umm Kulthum. Umm Kulthum (أم كلثوم, fædd أم كلثوم إبراهيم البلتاجي (Umm Kulthum Ebrahim Elbeltagi'") um 1900, dáin 3. febrúar 1975) var egypsk söngkona, lagahöfundur og leikkona. Hún fæddist í þorpinu Tamay ez-Zahayra sem tilheyrir El Senbellawein og var oft nefnd „stjarnan úr austri“ ("kawkab el-sharq"). Hún er talin ein frægasta söngkona Arabalandanna á 20. öld. Tilvísanir. Kulthum, Umm Kulthum, Umm Shahnameh. Shāhnāmeh (شاهنامه ("Konungabók")) er gríðarmikið kvæði, um 60 þúsund ljóðlínur að lengd, eftir persneska skáldið Ferdowsi um árið 1000 klassískt verk innan persneskra bókmennta. Shahnameh segir frá goðsögnum og sögu Persíu frá uppruna heimsins fram að íslömskum tíma á 7. öld. Ibn Khaldun. Ibn Khaldūn eða Ibn Khaldoun (fullt nafn: أبو زيد عبد الرحمن بن محمد بن خلدون الحضرمي (Abū Zayd ‘Abdu r-Raḥman bin Muḥammad bin Khaldūn Al-Hadrami; 27. maí 1332 – 19. mars 1406) var arabískur fjölfræðingur — stærðfræðingur, stjörnufræðingur, hagfræðingur, sagnfræðingur, félagsfræðingur, guðfræðingur, lögfræðingur, stjórnmálamaður og hugsuður — fæddur í Norður-Afríku (í dag Túnis). Hann er talinn vera fyrirrennari ýmissa fræðigreina, svo sem lýðfræði, menningarfræða og félagssögu, félagsfræði og hagfræði. Vatnsfjarðar-Kristín Björnsdóttir. Kristín Björnsdóttir (um 1374 – 1458), oftast nefnd Vatnsfjarðar-Kristín, var íslensk hefðarkona á 14. og 15. öld og einna auðugust Íslendinga á sinni tíð. Kristín var dóttir Björns Einarssonar Jórsalafara og Solveigar Þorsteinsdóttur konu hans, sem bjuggu í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hún átti einn bróður, Þorleif, og segja sögur að hann hafi verið hraustmenni en Kristín heilsuveil og lengi rúmliggjandi á unga aldri. Þorleifur drukknaði við Melgraseyri uppkominn og er sagt að þegar lík hans var borið heim í Vatnsfjörð hafi Kristínu brugðið svo við að hún reis úr rekkju, var alheilbrigð upp frá því og náði háum aldri. Kristín tók við öllum auði foreldra sinna eftir lát þeirra. Hún erfði marga tugi jarða víðs vegar um Vestfirði og ýmsar aðrar eignir. Mörgum jarðanna fylgdu hlunnindi af fiskveiði, reka og öðru. Kristín þótti skörungur og rausnarkona mikil. Kristín var tvígift. Fyrri maður hennar, sem hún giftist 1392, var Jón, bróðir Lofts Guttormssonar ríka. Hann lést í Svarta dauða. Þau áttu einn son sem einnig hét Jón og dó á barnsaldri. Síðan giftist hún Þorleifi Árnasyni sýslumanni á Auðbrekku í Hörgárdal og í Glaumbæ í Skagafirði. Hún bjó svo í Vatnsfirði eftir lát hans en síðustu árin var hún í Æðey. Synir þeirra Kristínar og Þorleifs voru Einar hirðstjóri í Vatnsfirði, Björn ríki hirðstjóri á Skarði, maður Ólafar ríku Loftsdóttur, og Árni, sem giftist Soffíu Loftsdóttur. Dæturnar voru Helga eldri kona Guðmundar Arasonar ríka á Reykhólum, Solveig húsfreyja í Víðidalstungu og á Breiðabólstað, kona Orms Loftssonar, Helga yngri húsfreyja í Garpsdal, kona Skúla Loftssonar, og Guðný í Auðbrekku, kona Eiríks slógnefs Loftssonar. Fimm systkinanna giftust börnum Lofts Guttormssonar. Kendra Wilkinson. Kendra Leigh Baskett (fædd 12. júní 1985), betur þekkt af fæðingarnafni sínu Kendra Wilkinson, er bandarísk sjónvarpsstjarna og glamúrmódel. Hún er vel þekkt fyrir hlutverk sitt í raunveruleikaþættinum The Girls Next Door, þar sem sagt var frá lífi þriggja kærasta Hugh Hefners sem sýndur var á E! sjónvarpstöðinni. Þrátt fyrir að hún hafi ekki verið Playboy „leikfélagi“ (e. „playmate“), hefur hún setið fyrir í þremur nektarmyndartökum með hinum tveimur kærustunum, Holly Madison og Bridget Marquardt. Hennar eigin raunveruleikaþáttaröð, "Kendra", fór í loftið í júní 2009. Æska. Kendra Wilkinson fæddist í San Diego, Kaliforníu og er af írskum ættum. Hún á einn yngri bróður, Colin. Móðir hennar, Patti, er upphaflega frá Cherry Hill í New Jersey og var klappstýra fyrir "The Philadelphia Eagles". Faðir hennar, Eric, ólst upp í Bryn Mawr í Pennsylvaniu og í Ocean City í New Jersey, áður en hann flutti til San Diego í Kaliforníu þegar hann var 15 ára. Hann er með gráðu í lífefnafræði frá háskólanum í Kaliforníu og stofnaði nokkur líftækni-fyrirtæki, áður en hann fór á eftirlaun 48 ára gamall. Patti og Eric giftust 5. nóvember 1983. Þau skildu 25. mars 1994, þegar Kendra var átta ára. Amma hennar, Gloria Wilkinson, dó í desember 2004. Kendra ólst upp í Clairemont, mið-klassa samfélagi í miðbæ San Diego og gekk í Clairemont menntaskólann þar sem hún útskrifaðist árið 2003. Hún spilaði mjúkbolta (e. „softball“) í sex ár með „The Clairemont Bobby Sox“. Þegar hún hafði klárað menntaskólann byrjaði hún að vinna sem glamúr-fyrirsæta og vann líka sem aðstoðarkona tannlæknis í stuttan tíma. Ferill. Kendra hitti Hugh Hefner í 78 ára afmælisveislu hans í apríl 2004, þar sem hún hafði verið ráðin sem ein af „máluðu stelpunum“ (konur sem eru alveg naktar nema það eru málaðir skartgripir og þess háttar á þær). Hefner hafði greinilega séð myndina hennar, sem var tekin af Kim Riley, á faxtæki á Playboy setrinu og vildi vita hver hún væri. Stuttu eftir að þau hittust bar Hefner Kendru að verða ein af kærustunum hans og hún flutti inn á Playboy setrið ásamt hundunum sínum, Raskal og Martini. Hún var meðlimur í raunveruleikaþættinum „The Girls Next Door“ sem var sýndur á E! sjónvarpstöðinni en hann fylgdist með lífi þriggja þáverandi kærasta Hefners: Kendru Wilkinson, Holly Madison og Bridget Marquardt. Hún flutti út af setrinu árið 2009 eftir að hún kynntist núverandi eiginmanni sínum, Hank Baskett, og er núna með sinn eigin raunveruleikaþátt á E! sem heitir „Kendra“. Fyrsta þáttaröðin var um hana að lifa lífinu upp á eigin spýtur og skipulagningu brúðkaupsins. Wilkinson hefur birst í nokkrum þáttum eins og Las Vegas og Entourage. Hún kom einnig fram í tónlistarmyndbandi Akons við lagið „Smack That“. Á meðan upptaka mynbandsins stóð yfir, hellti Eminem flösku af vatni á hausinn á henni, þó að þau hafi sæst síðar. Árið 2006 birtist hún í „Playboy Special Editions Sexy 100“. Árið 2007 birtist hún í tónlistarmynbandi við lagið „Rockstar“ með hljómsveitinni Nickelback, ásamt Holly og Bridget. Hún hafði einnig lítið hlutverk í Scary Movie 4. Kendra hefur sagt að hana langi að verða nuddari eða leiklýsandi. Í desember 2005 fór hún að blogga reglulega í dálk á vefsíðu „The Philadelphia Eagles“, liðið sem móðir hennar var atvinnuklappstýra fyrir og eiginmaður hennar leikur fyrir. Kendra „leikur“ núna í þáttunum "Kendra", sem einblína á líf hennar eftir að hún yfirgaf Playboy setrið og trúlofaðist fótboltakappanum Hank Baskett. "Kendra" fór í loftið þann 7. júní 2009 og sló áhorfendamet stöðvarinnar og var vinsælasti raunveruleikaþáttur stöðvarinnar síðan "The Anna Nicole Show" byrjaði árið 2002. E! hafði gefið grænt ljós á átta þætti. Hún vinnur núna að annarri þáttaröðinni sem fór af stað í mars 2010. Árið 2007 kom Hank Baskett fram í þætti af "WWE Raw" með Bridget Marquardt. Einkalíf. Þann 13. ágúst 2008, sagði Wall Street Journal frá því að Hank Baskett væri besti frægasti aðdáandi Olive Garden. Kendra Wilkinson hafði áður lýst matnum á Olive Garden sem „sálarmatnum sínum“. Blaðið lagði áherslu á að stöðugar fullyrðingar hennar um matinn á fjölskyldustaðnum væru ósviknar, persónulegur og væru ekki bundnar neinum greiðslum frá Olive Garden. Í rauninni tók veitingastaðurinn lofum hennar blendnum tilfinningum og eitthvað af því var tengt því að staðurinn leggur áherslu á fjölskylduvænt umhverfi. Hjónaband. Þann 22. september 2008 tilkynnti Alþjóðlega viðskiptatímaritið að Wilkinson væri trúlofuð fótboltakappanum Hank Baskett. Í fyrstu neitaði Wilkinson þessari tilkynningu en játaði seinna að hún ætti í sambandi við Baskett þann 7. október 2008. Þann 6. nóvember 2008 tilkynnti E! Online að Kendra og Hank væru trúlofuð eftir að hann hafi beðið hennar síðastliðinn laugardag. Kendra giftist Hank Baskett þann 27. júní 2009 á Playboy setrinu. Þrátt fyrir að það hafi upphaflega verið tilkynnt um að Hugh Hefner myndi gefa brúðina, var það bróðir Kendru, Colin, sem leiddi hana upp að altarinu. Fjölskylda Kendru var á staðnum sem og Holly Madison og Bridget Marquardt. Us Weekly borgaði parinu 120.000 dollara fyrir brúðkaupsmyndirnar. Í brúðkaupsþætti Kendru, sögðu þau að Kendra myndi ekki taka eftirnafn eiginmannsins. Ólétta. Þann 11. júní 2009 tilkynnti Kendra að hún og Hank ættu von á sínu fyrsta barni. Barnið, strákur sem nefndur var Hank Baskett IV, fæddist þann 11. desember 2009 klukkan 12:37 að staðartíma í Carmel, Indiana með keisaraskurði. Hann vó 4,2 kg. Í viðtali eftir fæðingu Hanks IV, sagði Kendra að hún hafi þjáðst af fæðingarþunglyndi. „Eftir að hafa fætt, greiddi ég mér aldrei, burstaði aldrei tennurnar eða fór í sturtu,“ sagði hún. „Ég leit í spegilinn einn daginn og var mjög þunglynd.“ Eftir meðgönguna vó hún 70 kíló samkvæmt E!. Hún rakti þunglyndið til þess að flytja til Indianapolis þar sem eiginmaður hennar lék svo snemma eftir fæðingu sonarins og henni fannst hún vera einangruð. Heimildir. Wilkinson, Kendra Lena Meyer-Landrut. Lena Meyer-Landrut (fædd 23. maí 1991 í Hannover) er þýsk söngkona. Lena sigraði í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2010 og með lagið „Satellite“. Hún keppti aftur ári síðar með lagið „Taken by a stranger“ en hafnaði í 10. sæti, þrátt fyrir að hafa verið spáð sigri. Tenglar. Meyer-Landrut, Lena Meyer-Landrut, Lena Cougar Town. Cougar Town er bandarískur gamanþáttur. Þátturinn fjallar aðallega um fráskilda konu sem reynir að koma sér aftur inn í stefnumótalífið sem er fullt af yngri karlmönnum á meðan hún býr með 18 ára syni sínum og leggur af stað í ferð til að uppgötva sjálfa sig upp á nýtt á meðan hún er umkringd fólki í sömu stöðu. Fyrsti þátturinn var sýndur á eftir Modern Family. ABC gaf leyfi á fulla seríu í október 2009. Þátturinn var búinn til af Bill Lawrence og Kevin Biegel og er framleiddur af Couquette Productions í samstarfi við ABC studios. Þættirnir eru teknir upp í Culver myndverunum í borginni Culver í Kaliforníu. Alls horfðu 11,28 milljónir á fyrsta þáttinn. Í janúar 2010 voru samningar við þáttinn endurnýjaðir fyrir aðra þáttaröð. Persónur og leikendur. Í þáttunum eru sjö aðalpersónur ásamt öðrum. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1997. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1997 var 42. skipti sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin en hún var haldin í Point Theatre í Dyflinni í Írlandi 3. maí árið 1997. Niðurstöður. 1997 Solveig Þorleifsdóttir. Solveig Þorleifsdóttir (um 1415 – 1479) var íslensk hefðarkona á 15. öld, dóttir Þorleifs Árnasonar í Auðbrekku og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur. Solveig giftist Ormi Loftssyni hirðstjóra, syni Lofts Guttormssonar ríka, 17. október 1434. Þau bjuggu í Víðidalstungu og áttu saman synina Einar og Loft Ormsson Íslending. Ekki er víst hvenær Ormur dó, líklega þó um 1446. Þó eru til sagnir um að það ár hafi hann farið til útlanda, þvert gegn vilja Solveigar, en hún hafi þá sagt að hann mætti ábyrgjast hvað af því kæmi - og tekið svo saman við Sigmund Steinþórsson prest á Miklabæ í Blönduhlíð þegar Ormur var farinn. Hvað sem til er í því gerðist Solveig fylgikona séra Sigmundar, hugsanlega á meðan Ormur var enn á lífi. Sigmundur átti í hörðum deilum við Ólaf Rögnvaldsson biskup og við eftirmann sinn á Miklabæ, séra Jón Broddason. Tók Solveig þátt í þeim og var talið að hún hefði hvatt séra Sigmund áfram. Fór svo að hún var bannfærð 20. desember 1474. Var henni meðal annars gefið að sök að hafa ráðist á prest nokkurn þegar hann ætlaði að lesa upp bréf í kirkjunni í Flatatungu, þar sem Solveig og Sigmundur bjuggu þá og tekið bréfin af honum. Í bréfi sem séra Jón Broddason skrifaði um þetta atvik segir hann að Solveig sé þrjósk, þrálynd og illskufull, enda lét hún sér ekki segjast við bannfæringuna. Börn Solveigar og Sigmundar voru Jón Sigmundsson lögmaður, Ásgrímur, sem veginn var í brúðkaupi Jóns bróður síns í Víðidalstungu 1483, Bergljót húsfreyja á Reykjum í Miðfirði, Ástríður kona Péturs skyttu og Guðrún. Oksítanska. Oksítanska ("okkitíska") er indóevrópskt tungumál af ætt rómanskra tungumála. Málið á uppruna sinn í latínu. Það telst til undirflokksins "oksítanórómönsk" mál. Trier. Trier er háskólaborg í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 105 þúsund íbúa. Trier er með allra elstu borgum Þýskalands og var stofnuð af Rómverjum. Ýmis mannvirki þar í borg eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Gamla Rómverjahliðið Porta Nigra er með þekktustu mannvirkjum Þýskalands Trier liggur við ána Mósel nær vestast í sambandslandinu, aðeins um 8 km fyrir vestan landamærin að Lúxemborg. Næstu borgir eru Lúxemborg til suðvesturs (30 km), Saarbrücken til suðurs (60 km) og Koblenz til norðausturs (80 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Trier sýnir Pétur postula með stóran lykil á rauðum grunni. Pétur er verndardýrlingur borgarinnar síðan á 12. öld. Merki þetta hefur verið nær óbreytt síðan á 15. öld. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Augusta Treverorum á tímum Rómverja. Fyrri hlutinn var til heiðurs Ágústusar keisara. Seinni hluti heitisins er dregið af keltneska þjóðflokknum "treveri" sem bjó þar í grennd. Á tímum Claudiusar keisara var heitið lengt í Colonia Augusta in Treverum. Úr Treverum verður svo Treviris og loks Trier. Saga Trier. Módel af rómversku borginni Augusta Treverorum (Trier í dag). Rómverjar. Það voru Rómverjar sem reistu borgina Trier 16 f.Kr. Þeir höfðu áður, 30 f.Kr., reist herlager á svæðinu, en höfðu yfirgefið það aftur. Borgin varð höfuðborg skattlandsins Belgica. Um miðja 3. öld var biskupsstóll stofnaður í Trier, en hann er sá elsti á þýskri grundu. Fyrsti biskupinn hét Eucharius. Trier varð keisaraborg Vestrómverska ríkisins síðla á 3. öld. Þar sátu keisarar eins og Konstantínus II., Valentiníanus I., Gratíanus, Magnus Maximus og Valentinanus II. Á þessum tíma var Trier stærsta borg Evrópu norðan Alpa. En snemma á 5. öld fóru germanir að flæða yfir lönd Rómverja. 413 og 421 hertóku frankar Trier og rændu hana. Atli Húnakonungur gerði slíkt hið sama 451. 475 náðu frankar borginni endanlega á sitt vald. Eftir það varð hún hluti af frankaríkinu mikla. Miðaldir. Árið 882 eyddu víkingar borginni nær algjörlega, en þeir höfðu sigld upp eftir Rín og Mósel. Trier varð ekki hluti af þýska ríkinu fyrr en 925, en þá var Hinrik I keisari þar. 1212 veitti Otto IV keisari borginni fríborgarstatus. En Trier var ávallt sterkt biskupssetur. Erkibiskuparnir í Trier voru kjörfurstar í ríkinu og náðu þeir veraldlegum yfirráðum yfir borginni 1309. Þar með missti Trier fríborgarstatus sinn. Þetta fyrirkomulag hélst allt til tíma Napoleons. Trier var höfuðborg kjörfurstadæmisins, en þó bjuggu biskuparnir ekki þar fyrr en snemma á 16. öld. 1473 hittust Friðrik III keisari og Karl hinn kjarkmikli frá Búrgúnd á ráðstefnu í borginni. Sama ár var háskóli stofnaður í borginni sem var starfræktur allt þar til Napoleon lét loka honum. 1512 var haldið mikið ríkisþing í borginni. Frakkar. Trier 1646. Mynd eftir Matthäus Merian. Í 30 ára stríðinu var Trier hernumin tvisvar. Fyrst voru það Spánverjar 1634 en síðar voru það Frakkar 1645. Í 9 ára stríðinu voru Frakkar aftur á ferðinni. Erkibiskupinn og kjörfurstinn í Trier, Karl Kaspar, reyndi eftir fremsta megni að haldast hlutlaus í því stríði. Engu að síður gerðu Frakkar umsátur um borgina 1673 og gerðu árásir á hana. Hún féll þó ekki fyrr en eftir níu mánuði. Frakkar víggirtu borgina gríðarlega en urðu frá að hverfa 1675. Frakkar hernámu borgina á nýjan leik 1684 og 1688 og aftur 1702 og 1705 í spænska erfðastríðinu. Frakkar voru enn á ferðinni 1794 en þá hernam franskur byltingarher borgina. 1801 var borgin innlimuð Frakklandi og fengu íbúarnir við það franskar ríkisborgararétt. Við það leystist kjörfurstadæmið Trier upp. Frakkar lokuðu auk þess öllum klaustrum, en einnig háskólanum. Mörg klaustranna voru rifin, öðrum var umbreytt og fengu þau nýtt hlutverk. 6. janúar 1814 náðu Prússar að frelsa borgina og hrekja Frakka á brott. Vínarfundurinn úrskurðaði árið eftir að borgin skyldi tilheyra Prússlandi. Það gekk á ýmsu með prússneska stjórn, enda var borgin enn rammkaþólsk. Nýrri tímar. Borgarmúrar Trier fengu að standa langt fram á 19. öld. Helsta tekjulind borgarinnar voru hveiti- og sláturskattar. Flytja þurfti allar slíkar vörur um borgarhliðin allt til 1875. Þegar skattakerfinu var breytt voru nær allir borgarmúrar rifnir til að skapa pláss fyrir nýjar byggingar. Prússar yfirgáfu borgina eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918. Frakkar hernámu hana þá enn einu sinni og héldu henni til 1930. Í heimstyrjöldinni síðari varð Trier fyrir nokkrum loftárásum. Þær verstu urðu í desember 1944, en þá vörpuðu Bandaríkjamenn og Bretar rúmlega 1.500 tonnum af sprengjum yfir borgina. Borgin féll í hendur bandamönnum 2. mars 1945 án teljandi bardaga. Síðan 1946 er Trier hluti af nýstofnuðu Rínarlandi-Pfalz. 1970 var háskólinn endurstofnaður. 1984 voru mikil hátíðarhöld í borginni í tengslum við 2000 ára afmæli Trier. 1986 voru ýmsar byggingar í borginni settar á heimsminjaskrá UNESCO, þar á meðal gamlar rómverskar byggingar (til dæmis Porta Nigra og baðhúsin), dómkirkjan og frúarkirkjan. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Eintracht Trier, en það leikur í neðri deildum. Kvennaliðið í handbolta leikur í 1. deild og varð þýskur meistari 2003. Körfuboltalið karla, TBB Trier, leikur í 1. deild og varð bikarmeistari 1998 og 2001. Hafnaboltaliðið Trier Cardinals varð þýskur meistari 1995 og 1996. Síðan 2000 fer rallakstur fram í og við Trier sem gefur stig á HM í rallakstri. Byggingar og kennileiti. Rómversku baðhýsin eru rústir einar í dag Porta Nigra. Porta Nigra er gamalt rómverskt borgarhlið í þýsku borginni Trier og stærsta rómverska bygging Þýskalands í dag. Hliðið er jafnframt einkennisbygging borgarinnar og eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Það er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga hliðsins. Hluti af módeli sem sýnir rómversku borgina Trier. Porta Nigra er lengst til hægri. Hliðið var reist af Rómverjum um 180 e.Kr. í tíð Markúsar Árelíusar keisara. Þeir kölluðu það Porta Martis, sem merkir "Marshliðið". Hliðið var við norðurenda borgarinnar og var hluti þjóðvegarins til norðurs. Hins vegar var fljótt einnig talað um Porta Nigra, sem merkir "Svartahliðið". Talað var um að hermennirnir fóru út um hliðið til orrustu (Mars var stríðsguð Rómverja). Svarti liturinn var sagður vera sorgin sem var meðal hermannanna eftir að margir þeirra lágu í valnum. Bæði heitin komu fyrir fram á miðaldir, en eftir það var bara talað um Porta Nigra. Hins vegar er hliðið mjög dökkt á að líta, sérstaklega þegar sandsteinninn fór að viðrast og dökkna með tímanum. 1028 settist einsetumaðurinn og munkurinn Simeon að í hliðinu. Þegar hann lést 1035, var hann grafinn undir byggingunni. Á sama ári var hann lýstur heilagur af páfa. Honum til heiðurs var Símeonkirkjan reist í og við hliðið, en Porta Nigra var mikill hluti þeirrar kirkju. Þar sem menn vildu aðeins hafa einn turn á Símeonkirkjunni (en Porta Nigra var með tvo flata turna), var annar turninn rifinn niður. Því er ásýnd hliðsins í dag nokkuð sérkennileg. Á miðöldum var jörðin í kringum hliðið hækkuð, þannig að inngangur hliðsins var neðanjarðar. Því var gengið inn á 2. hæð byggingarinnar. Símeonhliðið var því notað sem inngangur í staðin, en það stóð við hliðina á Porta Nigra. 1804 lét Napoleon rífa Símeonkirkjuna, þannig að Porta Nigra stóð aftur sem stök bygging. Auk þess var jarðvegur fluttur frá og jarðhæðin notuð á nýjan leik. Þessari vinnu lauk ekki fyrr en á tímum Prússa 1815. Eftir þessar framkvæmdir varð Porta Nigra fyrsta safn borgarinnar Trier. Á 8. áratug 19. aldar voru allir borgarmúrar rifnir, þar á meðal Símeonhliðið. Aðeins Porta Nigra fékk að standa, enda þá orðin víðþekkt bygging. Síðan þá hefur hliðið staðið óbreytt til dagsins í dag. Það slapp að öllu leyti við skemmdir og eyðileggingar í heimstyrjöldinni síðari. 1986 var Porta Nigra sett á heimsminjaskrá UNESCO. Nálægðarreglan. Nálægðarreglan er ein af grunnreglum Evrópusambandsins. Hefur hún það markmið að takmarka völd Evrópusambandsins og stofnana þess. Nálægðarreglan mælir fyrir um að Evrópusambandið geti eingöngu aðhafst í máli, sem fellur utan einkalögsögu þess (e. "exclusive competence"), ef hvert Evrópusambandsland eða svæði þess lands getur ekki á fullnægjandi máta náð þeim markmiðum sem stefnt er að. Vegna umfangs eða áhrifa málsins á Evrópusambandið sé sambandið því betur til þess fallið að koma að málinu. Með öðrum orðum þurfa tvö skilyrði að vera fyrir hendi: í fyrsta lagi nást markmið sambandsins ekki með atbeina einstakra ríkja og í öðru lagi nást markmiðin betur vegna umfangs þeirra eða áhrifa á Evrópusambandið. Með Lissabonsáttmálanum var komið á fót ferli sem gerir þjóðþingum aðildarríkjanna kleift að koma á framfæri athugasemdum sínum telji þau lagafrumvarp framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins brjóta gegn reglunni. Hvert þjóðþing hefur átta vikna frest frá því því var kynnt lagafrumvarpið til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Ef athugasemd berst frá einhverju þjóðþingi fer í gang sérstakt ferli. Hvert þjóðþing aðildarríkjanna þarf þá að taka afstöðu til þess hvort það telji umrætt lagafrumvarp brjóta gegn nálægðarreglunni. Hefur hvert þjóðþing tvö atkvæði. Ef einfaldur meirihluti þinganna greiðir atkvæði með því að lagafrumvarpið brjóti gegn nálægðarreglunni er framkvæmdastjórnin skyldug til að endurskoða afstöðu sína til þess hvort lagafrumvarpið samræmist nálægðarreglunni. Getur framkvæmdastjórnin tekið frumvarpið til baka, breytt því eða haldið því óbreyttu. Haldi hún lagafrumvarpinu óbreyttu þarf hún að rökstyðja mál sitt. Að lokum taka þá Ráðherraráðið og Evrópuþingið afstöðu til málsins. Ef 55% Ráðherraráðsins eða einfaldur meirihluti þingmanna Evrópuþingsins þeirrar skoðunar að lagafrumvarpið samræmist ekki nálægðarreglunni, er lagafrumvarpið úr sögunni. Þá hefur Evrópudómstóllinn vald til að endurskoða ákvarðanir stofnana sambandsins með tilliti til nálægðarreglunnar. Saga reglunnar innan Evrópusambandsins og tilgangur. Nálægðarreglan kom fyrst inn í rétt Evrópusambandsins með Maastricht-sáttmálanum árið 1992. Hana er nú að finna í 3. mgr. 5. gr. sáttmála um Evrópusambandið. Tillaga að setningu reglunnar var upphaflega sett fram af Þjóðverjum en Bretar urðu ákafir stuðningsaðilar hennar. Hugmyndin að baki nálægðarreglunni er sú að vinna gegn evrópskri miðstýringu og færa ákvarðanatöku enn frekar til svæða sambandsins. Reglan á að stuðla að varðveislu menningarlegra og sögulegra mismuna og varðveita þjóðarímyndir og venjur. Önnur regla sem hefur einnig það markmið að draga úr völdum Evrópusambandsins er hin svokallaða meðalhófsregla. Samkvæmt henni má Evrópusambandið ekki grípa til víðtækari ráðstafana en nauðsynlegar eru til að ná því markmiði sem stefnt er að. Lögmætisreglan (Evrópusambandið). Lögmætisreglan er ein af grunnreglum Evrópuréttarins. Samkvæmt reglunni má Evrópusambandið og stofnanir þess ekki grípa til hvaða ráðstafana sem er til að ná markmiðum sínum, heldur þurfa ráðstafanir þess og stofnana þess (t.d. setning tilskipana eða rammatilskipana) að eiga sér lagastoð í sáttmálum um sambandið. Hugmyndin að baki reglunni er að vernda aðildarríkin gegn fullveldisframsali sem þau hafa ekki samþykkt sem og að afmarka verksvið stofnanna sambandsins gagnvart hverri annarri og viðhalda „stofnanalegu jafnvægi“ (þýs. "institutionelles Gleichgewicht"). Lögmætisreglan hefur tvær hliðar. Annars vegar snýr lögmætisreglan að Evrópusambandinu sem slíku og takmarkar þá völd sambandsins gagnvart aðildarríkjunum Þurfa aðgerðir sambandsins að vera innan þeirra valdmarka sem aðildarríkin hafa sett sambandinu í samningum um sambandið. Þannig haldast öll völd sem aðildarríkin hafa "ekki" framselt sambandinu hjá aðildarríkjunum. Hins vegar snýr lögmætisreglan að stofnunum Evrópusambandsins og mælir þá svo fyrir, að hver stofnun megi eingöngu grípa til ráðstafana sem rúmast innan valdmarka stofnunarinnar. Í stuttu máli verður því Evrópusambandið og stofnanir þess að geta sýnt fram á að gjörðir þeirra eigi sér stoð annað hvort beint eða með túlkun annars vegar sáttmála um Evrópusambandið eða hins vegar sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins. Af þessu leiðir til dæmis að stofnanir sambandsins hafa ekki val um hvort þau senda frá sér reglur í formi tilskipunar eða rammatilskipunar ef þau eiga að nota annað hvort formið samkvæmt þeirri lagaheimild sem er að baki setningu reglnanna. Þá þurfa stofnanir sambandsins að halda sig við þá málsmeðferð við setningu reglna sem mælt er fyrir um í lagaheimild að baki reglunum. Ef tvö eða fleiri ákvæði heimila aðgerðir sambandsins er talið að sambandið verði að aðgerðirnar styðjist við öll ákvæðin. Þetta á þó ekki við ef mismunandi málsmeðferðarreglur gilda samkvæmt ákvæðunum. Þarf þá viðkomandi stofnun sambandsins að velja á milli þeirra réttarheimilda sem hún ætlar að styðja ráðstöfun sína við. Valdaútvíkkun (Evrópusambandið). Valdaútvíkkun (þýs. Kompetenzergänzungsbestimmung) er ein af grunnreglum Evrópusambandsins og kemur fram í 352. gr. sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins. Hún mælir fyrir um að undir vissum kringumstæðum geti Evrópusambandið sett reglur þrátt fyrir að ekki sé heimild fyrir reglusetningunni í sáttmálum sambandsins. Skyld þessari reglu er eldri kenning um „implied powers“, sem réttlætir það að fyllt sé í eyður sáttmála sambandsins þegar ekki er bein heimild í þeim fyrir tiltekinni reglusetningu sambandsins. Hún hefur nú að mestu vikið fyrir almennri heimild í 352. gr. sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins. Þrátt fyrir lögmætisreglu Evrópuréttarins, sem mælir fyrir um að Evrópusambandið og stofnanir þess þurfi að byggja gjörðir sínar á heimild í sáttmálum um sambandið, var við samningu sáttmála sambandsins talið ljóst að vegna viðskiptalegrar framþróunar og flækjustigs þeirra sviða sem sambandið væri að setja reglur á, væri ekki við samningu sáttmálanna hægt að sjá fyrir allar aðstæður sem upp geta komið, þar sem þyrfti að setja reglur til að ná fram markmiðum sambandsins. Þess vegna er að finna í 352. gr. sáttmála um starfsemi Evrópusambandsins almenna heimild til valdaútvíkkunar, sem heimilar Ráðherraráðinu með samþykki Evrópuþingsins að setja reglur, þrátt fyrir að ekki sé til þess heimild í sáttmálum um Evrópusambandið, ef reglusetningin er nauðsynleg til að ná markmiðum samningsins. Meðalhófsreglan (Evrópusambandið). Meðalhófsreglan er ein af grunnreglum Evrópusambandsins. Hana er nú að finna í 4. mgr. 5. gr. sáttmála um Evrópusambandið þar sem úrrræði sambandsins séu takmörkuð við það sem sé nauðsynlegt til að ná markmiðum sáttmálanna um Evrópusambandið. Evrópusambandið er með öðrum orðum skyldað til að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur þegar unnið er að því að ná þeim markmiðum sáttmálanna sem stefnt er að. Verða þá úrræði þau sem sambandið grípur til í senn að vera til þess fallin að ná markmiðunum og að vera nauðsynleg til þess. Ef mörg úrræði standa sambandinu til boða til að ná aðstefndu markmiði ber sambandinu að grípa til vægasta úrræðisins (t.d. að velja rammatilskipun í stað tilskipunar). Loks verða úrræði þau sem sambandið grípur til að standa í eðlilegu samhengi með hinum aðstefndu markmiðum. Mattíasarklaustrið í Trier. Mattíasarklaustrið er þekktur pílagrímsstaður í þýsku borginni Trier. Þar hvílir postulinn Mattías síðan á tímum Rómverja. Þar er einnig að finna flís úr krossi Jesú. Saga Mattíasarklaustursins. Vatnsmynd af byggingunum 1783. Kirkjan til vinstri, klaustrið til hægri. Klaustrið er orðið mjög gamalt, en reglan hófst seint á 5. öld eða snemma á 6. öld. Ekki er vitað hvenær fyrsta klaustrið var reist, en það mun hafa verið áður en Rómverjar yfirgáfu borgina. Helena, móðir Konstantínusar mikla keisara, lét flytja líkamsleifar postulans Mattíasar til Trier og voru þau sett í klaustrið. Mattías tók við postuladómi í stað Júdasar. Í klaustrinu voru einnig ýmsir biskupar í Trier lagðir til hvíldar, þar á meðal Eucharius, en hann var fyrsti biskupinn í Trier og þar með fyrsti biskupinn í Þýskalandi. Snemma á 12. öld var ákveðið að rífa gamla klaustrið og byggja nýtt. Núverandi klaustursbygging var vígð 1148. Helgiskrín Mattíasar var þá sett til sýnis og síðan þá hefur klaustrið verið mikill pílagrímsstaður. Klaustrið skemmdist ekki í neinum stríðum sem hrjáð hafa borgina Trier. En það voru Frakkar sem lokuðu klaustrinu 1802. Þeir létu rífa niður hin ýmsu klaustur. Mattíasarklaustrið fékk þó að standa, þar sem því var breytt í íbúðarhús. Klaustrið var ekki endurstofnað fyrr en 1922. Nasistar lokuðu því hins vegar aftur, en strax 1945 fluttu munkar þangað inn á nýjan leik. Klausturkirkjan er sóknarkirkja í dag. Gröf Mattíasar. Postulinn Mattías hvílir í kirkjunni, enda ber hún nafn hans. Í upphafi var kista hans ekki til sýnis. Það var ekki fyrr en núverandi bygging var reist 1148 að steinkista postulans var sett upp til sýnis. Þá hóf fólk að sækja þangað í stórum stíl, en Mattíasarklaustrið var ákaflega vinsæll pílagrímsstaður. Þegar Frakkar lögðu klaustrið niður, var kista Mattíasar sett í grafhvelfingu. Hún var sett upp til sýnis í kórinn þegar klaustrið var endurstofnað. En 2007 var kista Mattíasar sett í grafhvelfinguna á ný. Í kórnum var þess í stað sett upp steingröf og á henni hvílir steinstytta í fullri lengd sem tákna á postulann Mattías. Klausturkirkjan er enn sótt af pílagrímum, en í miklu minni mæli en áður. Krossflísin. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig flís úr krossi Jesú barst til Trier, en nokkrar flísar eru um víð og dreif í þýskum kirkjum. Flísin hvílir innan í miklu listaverki sem smíðað var á 13. öld, en fyrir miðju þess er gullkross alsettur gimsteinum. Þar í gullkrossinum hvílir flísin sjálf. Listaverkið og flísin eru til sýnis í leiðsögn um klaustrið. Jón frá Pálmholti. Jón frá Pálmholti (fæddur Kjartansson 25. maí 1930 í Pálmholti, Arnarneshreppi, í Eyjafirði, dáinn á heimili sínu 13. desember 2004) var rithöfundur og þekktur baráttumaður fyrir bættum hag efnalítils fólks. Eftir hann liggja fjölmörg ritverk, ljóðabækur, skáldsögur, ævisögur, þýðingar, auk fjölda blaða- og tímaritagreina. Ferill. Jón Kjartansson fæddist 25. maí árið 1930 í Pálmholti, Arnarneshreppi, í Eyjafirði. Hann var sonur hjónanna Kjartans Ólafssonar bónda og Þuríðar Jónsdóttur húsmóður. Jón lauk gagnfræðaprófi frá héraðsskólanum á Laugum 1954, stundaði nám við Kennaraskóla Íslands 1955-1957 og stundaði einnig nám í Námsflokkum Reykjavíkur og Félagsmálaskóla alþýðu. Jón var barnakennari á árunum 1955-1957. Samhliða ritstörfum vann hann ýmis störf á árunum 1957-1979, m.a. gullsmíði, steinsmíði hjá Steinsmiðju Sigurðar Helgasonar. Hann var starfmaður Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar 1979-1989. Jón átti frumkvæði að stofnun Leigjendasamtakanna árið 1978 og var formaður þeirra á árunum 1978-1985 og 1989-2001. Hann var aðaldriffjöður þeirra samtaka og mjög þekktur fyrir skrif sín í þágu þeirra. Hann vann kauplaust fullt starf hjá samtökunum um árabil. Jón var einn stofnfélögum Rithöfundasambands Íslands og sat hann þar í stjórn 1962-1963 og 1971-1973. Árið 1972 var Jón einn stofnenda Ásatrúnarfélagsins og sat hann í stjórn félagsins á árunum 1979-1988. Eftir Jón liggur fjöldi blaðagreina enda talinn á sínum tíma einn ötulasti og einlægasti málsvari láglaunafólks á Íslandi. Jón giftist Ingibjörgu Gunnþórsdóttur en þau skildu. Þau eignuðust tvö börn en auk þess eignaðist Jón eitt barn með Steinunni Ósk Magnúsdóttur. Hreppsnefnd Fellshrepps. Hreppsnefnd Fellshrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Fellshreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1986. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 14. júní 1986. 1982. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1982. 1978. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 25. júní 1978. 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1966. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 1958. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1958. Heimildir. Fellshreppur H Hreppsnefnd Fljótahrepps. Hreppsnefnd Fljótahrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Fljótahreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. maí 1990. Heimildir. Fljótahreppur H Brúðkaupsafmæli. Brúðkaupsafmæli er afmæli brúðkaups hjóna haldið sama dag og brúðkaupið fór fram. Brúðkaupsafmæli á Vesturlöndum eiga sér hefðbundin nöfn eftir því hversu mörg ár eru liðin frá brúðkaupinu. Fimmtíu ára brúðkaupsafmæli er til dæmis kallað „gullbrúðkaup“. Gérard Depardieu. Gérard Depardieu (f. 27. desember 1948) er franskur leikari. Hann hefur leikið í miklum fjölda franskra kvikmynda og einnig í nokkrum bandarískum myndum. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir titilhlutverkið í myndinni "Cyrano de Bergerac" árið 1990 og hlaut sama ár Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni "Green Card". árið 2000 lék Depardieu í 102 Dalmantians sem Jean Pierre LePels ásamt Glenn Close. Depardieu ólst upp í bænum Châteauroux í Frakklandi. Hann hætti í skóla 13 ára. Þegar hann var 16 ára hélt hann til Parísar þar sem hann lærði dans og fór síðan að leika í kvikmyndum. Ein fyrsta mynd hans sem vakti á honum alþjóðlega athygli var "Les Valseuses" (enskur titill: "Going Places"). Hann hefur síðan leikið í miklum fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Auk Cyrano de Bergerac og Green Card má nefna "Jean de Florette" og "Greifann af Monte Cristo" og hann hefur einnig leikið Steinrík í þremur kvikmyndum um Ástrik gallvaska. Depardieu er mikill áhugamaður um vín og mat. Hann á víngarð í Róndalnum og hafa vín þaðan fengið mjög góða dóma. Hann á líka veitingahús í París og hefur gefið út matreiðslubók. Valentine's Day. Valentine's Day er bandarísk rómantísk gamanmynd frá árinu 2010 sem leikstýrt var af Garry Marshall. Katherine Fugate skrifaði handritið upp úr bók eftir sjálfa sig, Abby Kohn og Marc Silverstein. Leikaraliðið er dæmi um eitt það stærsta í sögu Hollywood en í myndinni leika Julia Roberts, Bradley Cooper, Ashton Kutcher, Jessica Alba, Patrick Dempsey, Anne Hathaway, Jessica Biel, Jamie Foxx, Jennifer Garner, George Lopez, Hector Elizondo, Nigel Quashie, Emma Roberts, Taylor Swift, Taylor Lautner, Eric Dane, Queen Latifah, Shirley MacLaine og Topher Grace. Söguþráður. Í Los Angeles biður blómasalinn Reed Bennett (Ashton Kutcher) kærustunnar sinnar Morley (Jessica Alba) og hún játar. Vinir hans, Alphonso (George Lopez) og Julia Fitzpatrick (Jennifer Garner), verða mjög hissa. Morley skiptir um skoðun og fer frá Reed seinna þennan dag. Alphonso segir Reed að hann og Julia vissu að sambandið myndi aldrei ganga á milli hans og Morley og Reed óskar þess að þau hafi sagt honum það. Í flugvél á leið til Los Angeles hittir Kate Hazeltine (Julia Roberts), kapteinn í bandaríska hernum í eins dags leyfi, nýlega einhleypann Holden Bristow (Bradley Cooper). Kate og Holden tala saman, spila og segja brandara. Þegar Kate þarf að bíða í marga klukkutíma eftir leigubíl, býður Holden henni glæsivagninn sinn, sem Kate þiggur. Julia, grunnskólakennari er nýlega ástfangin af Dr. Harrison Copeland (Patrick Dempsey) en veit ekki að hann er giftur. Reed kemst að því þegar Harrison pantar blóm fyrir bæði hana og eiginkonuna. Reed varar Juliu við en hún neitar að trúa honum og fer upp í flugvél til San Francisco (þar sem Harrison segist vera að gera aðgerð). Hún fer á spítalann sem hann segist vera á og spyr eftir honum. Hjúkrunarkonurnar við borðið segja henni að hann sé giftur og segja henni nafnið á veitingastaðnum sem hann ætlar að fagna deginum með konunni. Hún klæðir sig upp sem þjónustustúlku og gerir læti á veitingastaðnum og gefur Harrison dótið sem hann hafði gefið henni um morguninn. Einn nemenda Juliu, Edison (Bryce Robinson), pantar blóm frá Reed sem hann vill láta senda til „elskunnar sinnar“. Það er seinkun á sendingunni en Edison krefst þess að Reed komi blómunum til skila þennan sama dag. Þau eru til Juliu, sem leggur til að Edison gefi blómin til stúlku sem er með honum í bekk, sem hann gerir svo. Barnapía Edisons, Grace (Emma Roberts), ætlar að missa meydóminn með kærastanum Alex (Carter Jenkins). Planið fer út um þúfur þegar mamma Grace gengur inn á nakinn Alex í herbergi Grace þar sem hann er að æfa lagið sem hann samdi fyrir Grace á gítarinn sinn. Á meðan amma og afi Edisons, Edgar (Hector Elizondo) og Estelle (Shiley MacLaine) eiga í vandræðum eftir langt hjónaband. Grace útskýrir fyrir þeim að hún vilji stunda kynlíf með Alex og segir „Það er ekki eins og ég muni bara sofa hjá einni manneskju“. Þetta veldur Estelle uppnámi og leiðir til þess að hún segir Edgar frá framhjáhaldi sem hún átti í við einn af viðskiptafélögum hans. Menntaskólavinir Grace, Willy (Taylor Lautner og Felicia (Taylor Swift), eru nýlega ástfangin og hafa ákveðið að bíða með kynlíf. Á Valentínusardaginn gefur Willy Feliciu stóran hvítan bangsa sem hún labba um með allan daginn og Felicia gefur honum gráan hlaupabol (sem hann átti fyrir) og hafði straujað númerið 13 á bakið „til lukku“. Fréttirnar taka viðtal við þau og þau auglýsa nýja ást sína og stuðning hvort annars. Sean Jackson (Eric Dane) er samkynhneigður (ekki kominn út úr skápnum) fótboltaspilari og er að berjast við lok ferilsins ásamt fjölmiðlafulltrúanum sínum Köru (Jessica Biel) og umboðsmanninum Paulu (Queen Latifah). Kara, góðvinkona Juliu, er að skipuleggja árlega "Ég hata Valentínusardaginn" teitið sitt en verður fljótlega hrifin af íþróttafréttamanninum Kelvin Moore (Jamie Foxx) sem hefur verið sendur út á götu af framleiðandanum Susan (Kathy Bates) til að vinna frétt um Valentínusardaginn þar sem lítið er um að vera í íþróttunum, og deila þau hatri á þessum degi. Paula hefur nýlega ráðið nýjan móttökuritara sem heitir Liz (Anne Hathaway) sem hefur nýlega byrjað ástarsamband með póstmanninum Jason (Topher Grace). Jason verður í fyrstu mjög skelkaður þegar hann kemst að því að Liz vinnur fyrir sér með því að stunda símakynlíf. Jason ákveður að starfið hennar sé of mikið fyrir hann en hann ákveður seinna að halda sambandinu áfram. Sean kemur út úr skápnum í beinni útsendingu og Holden (sem er ástmaður Seans) kemur aftur til hans. Kate fer heim til að hitta son sinn Edison. Willy skilar Feliciu heim eftir daginn og þau kveðjast. Kelvin og Kara hittast á stöðinni sem Kelvin vinnur á og kyssast, Alphonso á góðan kvöldverð með konunni, Grace og Alex bíða með kynlíf, Edgar og Estelle endurnýja hjúskaparheitin, Jason byrjar aftur með Liz og þau ákveða að tengjast í gegnum einföldu hlutina í lífinu, Morley sést úti að labba með hundinn að reyna að hringja í Reed og í lok myndarinnar kyssast Julia og Reed. Khaled Hosseini. Khaled Hosseini (fæddur 4. mars 1965) er þekktur rithöfundur sem ólst upp í Afganistan. Vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan árið 1979 flúði hann úr landi með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þar sem hann hefur búið allar götur síðan þá. Árið 2003 gaf Hosseini út sína fyrstu skáldsögu, "Flugdrekahlauparinn", sem sló rækilega gegn á heimsvísu og er búinn að seljast í rúmlega 12 milljónum eintaka um heim allan. Önnur skáldsaga Hosseini, "Þúsund bjartar sólir", kom út 22.maí 2007. Bókin var sú vinsælasta í Bandaríkjunum fjórar vikur í röð og var á ófáum listum yfir bestu bækur ársins 2007. Tilvísanir. Hosseini, Khaled Seltún. Seltún er hverasvæði í Krýsuvík á Íslandi, ekki langt frá Kleifarvatni. Seltún er litríkur staður og þar eru ófáir bullandi leirhverir og sjóðandi vatnspollar. Fyrir neðan Seltún er Fúlipollur. Seltún er einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn á Íslandi. Hreppsnefnd Staðarhrepps (Skagafjarðarsýslu). Hreppsnefnd Staðarhrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Staðarhreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. maí 1990. 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1966. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 Heimildir. Staðarhreppur (Skagafjarðarsýslur) H Siglufjarðarskarð. Siglufjarðarskarð er íslenskur fjallvegur sem liggur á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði. Það var áður aðalleiðin frá Skagafirði til Siglufjarðar, allt þar til Strákagöng voru opnuð 1967. Allt í kringum Siglufjörð eru há og brött fjöll og leiðin um Siglufjarðarskarð, sem er í 630 metra hæð yfir sjávarmáli, var greiðfærasta leiðin úr firðinum og þó ærið erfið, bæði vegna þess hve brött hún var Siglufjarðarmegin og ekki síður vegna snjóa og illviðra á vetrum. Eftir að þéttbýli myndaðist á Siglufirði fóru nær allir flutningar fram sjóleiðina. Upphaflega var fjallseggin í skarðinu svo mjó að þar mátti sitja klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Í þessa egg hafði þó til forna verið höggvið skarð, nægilega breitt til að unnt væri að koma klyfjahesti þar í gegn. Skarðið var svo sprengt niður um fjórtán metra árið 1940 og í framhaldi af því var lagður akfær vegur um skarðið árið 1946. Hann var yfirleitt aðeins fær fjóra til fimm mánuði á ári vegna snjóþyngsla en þó var mikil samgöngubót að honum. Sagnir voru um óvætti í skarðinu fyrr á tíð og árið 1735 flutti Þorleifur Skaftason í Múla, sem talinn var kunna ýmislegt fyrir sér, þar messu að boði Steins Jónssonar biskups og er sagt að honum hafi tekist að beina vondum öflum úr skarðinu og í Afglapaskarð, þar skammt fyrir sunnan. Ferðir um Siglufjarðarskarð lágu niðri að mestu eða öllu í mörg ár eftir að Strákagöng voru opnuð en nú er reynt að halda veginum opnum yfir sumartímann, að minnsta kosti fyrir jeppa. Hreppsnefnd Skefilsstaðahrepps. Hreppsnefnd Skefilsstaðahrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Skefilsstaðahreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. maí 1990. 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1966. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 24. júní 1962. Heimildir. Skefilsstaðahreppur H Jessica Alba. Jessica Marie Alba (fædd 28. apríl 1981) er bandarísk leikkona. Hún byrjaði ferilinn þrettán ára í "Camp Nowhere and The Secret World of Alex Mack" (1994). Hún lofaði góðu sem leikkona eftir aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni "Dark Angel" (2000-2002). Hún lék seinna í mörgum myndum, meðal annars "Honey" (2003), "Sin City" (2005), "Fantastic Four" (2005), "Into the Blue" (2005), "Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer" og "Good Luck Chuck", báðum árið 2007. Alba er álitin kyntákn og fær oft athygli fjölmiðla fyrir útlit sitt. Hún er tíður gestur á lista yfir fallegasta fólk í heimi. Hún hefur unnið fjölmörg verðlaun fyrir leik sinn, meðal annars Teen Choice verðlaunin fyrir bestu leikkonu og Golden Globe tilnefningu fyrir leik sinn í "Dark Angel". Æska. Alba fæddist í Pomona í Kaliforníu. Foreldrar hennar eru Catherine Alba (áður Jensen) og Mark Alba. Móðir hennar er af dönskum og fransk-kanadískum ættum og faðir hennar er frá Mexíkó, þrátt fyrir að báðir foreldrar hennar séu fædd í Kaliforníu. Jessica á yngri bróður, Joshua. Faðir hennar var í flughernum en starfið hans flutti þau til Biloxi í Mississippi og Del Rio í Texas áður en þau fóru aftur til Kaliforníu þegar hún var níu ára. Alba lýsti fjölskyldunni sinni sem mjög íhaldsamri, dæmigerðri kaþólskri, Suður-Amerískri fjölskyldu. Æska Jessicu einkenndist af miklum sjúkrahúsförum. Þegar hún var lítil fékk hún tvisvar sinnum samfallið lunga og fékk lungnabólgu 4-5 sinnum á ári ásamt fleiri kvillum. Hún einangraðist frá öðrum krökkum í skólanum vegna þess að hún var svo oft á sjúkrahúsi vegna veikinda sinna að hún náði aldrei að eignast vini. Hún hefur einnig haft astma síðan hún var lítil. Alba sagði einnig að stöðugir flutningar fjölskyldunnar hefðu orðið til þess að hún einangraðist. Jessica hefur einnig greint frá því að hún þjáðist af miklum áráttu-þráhyggjuröskunum á uppvaxtarárum sínum. Alba útskrifaðist úr menntaskóla (e. "highschool") þegar hún var 16 ára og hélt síðan áfram námi í The Atlantic Theater Company. Ferill. Alba hefur haft áhuga á leiklist síðan hún var fimm ára. Árið 1992, bað hin 11 ára Alba móður sína um að fara með hana í leiklistarkeppni í Beverly Hills í Kalifonríu, þar sem fyrsti vinningur var fimm fríir leiklistartímar. Alba vann fyrstu verðlaun og fór í fyrstu leiklistartímana sína. Hún fékk samning hjá umboðsmanni níu mánuðum seinna. Fyrsta kvikmyndahlutverk hennar var árið 1994 í "Camp Nowhere" sem Gail. Hún var upphaflega ráðin í tvær vikur en hlutverkið varð tveggja mánaða starf sem aðalhlutverk eftir að ein af aðalleikkonunum hætti. Alba lék í tveimur stórum auglýsingum fyrir Nintendo og J.C. Penney sem barn. Hún lék seinna í nokkrum óháðum kvikmyndum. Hún færði sig inn í sjónvarpið árið 1994 með aukahlutverk í gamanþáttaröðinni "The Secret World of Alex Mack" en þar lék hún hina dramatísku Jessicu í þremur þáttum. Hún var síðan í hlutverki Mayu í fyrstu tveimur þáttaröðunum af sjónvarpsþáttaröðinni "Flipper". Undir handleiðslu móður sinnar, sem var lífvörður, lærði Alba að synda áður en hún lærði að ganga, og er hún með réttindi til að kenna köfun, en þeir hæfileikar nýttust vel í þáttunum, sem voru teknir upp í Ástralíu. Alba varð aðeins frægari í Hollywood árið 1999 eftir að hafa leikið meðlim í snobbuðu menntaskólaklíkunni í "Never Been Kissed" sem Drew Barrymore lék aðalhlutverkið í, og sem aðalleikkonan í gaman-hryllingsmyndinni "Idle Hands" (1999) á móti Devon Sawa. Stóra tækifærið kom þegar höfundurinn/leikstjórinn James Cameron valdi Alba úr potti 1.200 kandítata fyrir hlutverk erfðabreytta ofur-hermannsins, Max Guevara, í sjónvarpsþáttaröðinni "Dark Angel". Þátturinn var sýndur í tvö ár, eða til 2002, og fékk Jessica mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína og færði hlutverkið henni tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna. Hún sagði seinna að hún hefði þjáðst af átröskun á meðan hún undirbjó sig fyrir hlutverkið í "Dark Angel". Alba fékk Teen Choice-verðlaunin fyrir „bestu leikkonu“ og Saturn-verlaunin fyrir „bestu sjónvarpsleikkonu“ fyrir hlutverk sitt í "Dark Angel". Hún var einnig orðin tíður gestur á lista Maxim: „Hot 100“. Árið 2006 fékk Alba MTV-kvikmyndaverðlaunin fyrir „Kynþokkafyllstu framkomuna“ fyrir "Sin City". Leikur hennar hefur einnig orðið fyrir mikilli gagnrýni, til að mynda fékk hún tilnefningu til Razzie-verðlaunanna fyrir „verstu leikkonu“ fyrir frammistöðu sína í "Awake", "Good Luck Chuck" og '. Hún var einnig tilnefnd til sömu verðlauna árið 2005 fyrir frammistöðu sína í "Fantastic Four" og "Into the Blue". Athyglisverðastu hlutverk Alba á hvíta tjaldinu eru meðal annars sem danskennari í "Honey", framandi dansarinn Nancy Callahan í "Sin City" og sem teiknimyndablaða-persónan Sue Storm, ósýnilega konan, í "Fantastic Four". Hún lék seinna í framhaldsmyndinni, "Into the Blue" seinna sama það ár og "Good Luck Chuck" nokkrum árum seinna. Alba var kynnir MTV kvikmyndaverðlaununum og lék í „sketsum“ þar sem hún gerði grín að myndum eins og "King Kong", ' og "The Da Vinci Code". Umboðsmenn Alba hafa verið Patrick Whitesell og Brad Cafarelli. Árið 2008 reyndi Alba fyrir sér í hryllingsmyndum í kvikmyndinni "The Eye", endurgerð kínveskrar myndar. Myndin kom út þann 1. febrúar 2008. Þrátt fyrir að myndin fengi hræðilega dóma fékk frammistaða Alba bæði jákvæða og neikvæða dóma. Alba vann Teen Chocie-verðlaun fyrir bestu kvikmyndaleikkonuna í hryllings- eða spennutrylli og Razzie-tilnefningu fyrir verstu leikkonu. Einnig árið 2008 lék Alba í mynd með Mike Myers og Justin Timberlake í hinni vinsælu "Love Guru". Bæði myndin og frammistaða Alba fengu hörmulega dóma. Alba var þá tilnefnd til Razzie-verðlauna sem versta leikkonan. Seinni hluta árs 2008 skrifaði Alba undir samning um að leika aðalhlutverkið í "An Invisible Sign of My Own". Tökur kláruðust í nóvember 2008 og er áætlað að myndin komi út árið 2010. "Ugly Betty" stjarnan America Ferrera átti upphaflega að leika aðalhlutverkið en þurfti að hætta við vegna anna við tökur á "Ugly Betty". Alba lék ásamt Kate Hudson og Casey Affleck í kvikmynd sem var byggð á samnefndri bók, "The Killer Inside Me". Í myndinni lék Alba Joyce Lakeland sem er vændiskona. Áætlað er að myndin komi út 2010. Einnig lék Alba í "Valentine's Day" þetta sama ár, ásamt Juliu Roberts, Anne Hathaway, Jessicu Biel, Emmu Roberts, Ashton Kutcher og Jennifer Garner. Myndin kom út 12. febrúar 2010. Einkalíf. Jessica kynntist eiginmanni sínum Cash Warren við gerð "Fantastic Four" árið 2004. Þau giftu sig í Los Angeles þann 19. maí 2008. 7. júní 2008 eiguðust þau sitt fyrsta barn, stúlku, Honor Marie Warren. 13. ágúst 2011 eignuðust þau sína aðra dóttur, Haven Garner Warren. Heimildir. Alba, Jessica Hreppsnefnd Lýtingsstaðahrepps. Hreppsnefnd Lýtingsstaðahrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Lýtingsstaðahreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. maí 1990. 1986. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 14. júní 1986. 1982. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 22. maí 1982 1978. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 23. júní 1978. 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1966. Heimildir. Lýtingsstaðahreppur H Heiða Kristín Helgadóttir. Heiða Kristín Helgadóttir (fædd 20. apríl 1983) er kosningarstjóri Besta Flokksins og frv. aðstoðarmaður Jóns Gnarrs sem borgarstjóra Reykjavíkur. Hún er nú varaformaður Besta flokksins og framkvæmdastjóri hans. Hún er næst yngst fjögurra systkina og ólst upp í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og B.A. í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Berifoss. Berifoss er nýlega fundinn foss á miðhálendi Íslands. Út í fossinn rennur stundum heitt vatn svo hækt sé að baðast í honum. Mjög torfært getur verið að honum og þarf iðulega að ganga um þriggja kukkustundar leið, svo fólk getur verið nokkuð öruggt um að verða ekki fyrir ónæði annarra gesta. Sven B.F. Jansson. Sven B.F. Jansson – fullu nafni Sven Birger Fredrik Jansson, oft kallaður Rúna-Janni – (19. janúar 1906 – 19. apríl 1987), var sænskur rúnafræðingur, sem var prófessor í rúnafræði við Stokkhólmsháskóla og þjóðminjavörður Svía 1966–1972. Sven B.F. Jansson fæddist Kungsholms-hverfi við Stokkhólm 1906. Eftir nám varð hann sendikennari við Háskóla Íslands 1938–1939. Hann tók doktorspróf 1944 með ritgerðinni "Sagorna om Vinland". Hann starfaði hjá embætti þjóðminjavarðar í Stokkhólmi 1947–1955, prófessor í rúnafræði við Stokkhólmsháskóla 1955–1966, þjóðminjavörður 1966–1972. Hann var landskunnur í Svíþjóð sem fremsti rúnafræðingur Svía og var nánast persónugervingur fræðigreinarinnar. Þegar fregnir bárust af því að fundist hefði rúnarista á steini eða klöpp, leið ekki á löngu þar til Rúna-Janni var kominn á staðinn til að rannsaka hana. Hann lagði áherslu á að miðla niðurstöðunum til almennings og lífgaði oft upp á frásögnina með hæfilegri gamansemi. Með því að gera efnið áhugavert og koma því á framfæri, t.d. í útvarpsfyrirlestrum, stuðlaði hann að því að fólk tilkynnti um nýja rúnafundi. Rúnasteina má finna um Norðurlöndin öll, en Svíþjóð sker sig úr vegna fjölda þeirra. Sven B.F. Jansson hélt góðum tengslum við Ísland frá því að hann var hér sendikennari. Hann tók saman ásamt öðrum íslensk-sænska orðabók sem kom fyrst út 1943 og oft síðan, talsvert aukin. Í fyrstu þremur útgáfunum eru þeir Gunnar Leijström og Jón Magnússon skráðir meðhöfundar. Dóttir Svens er Gunnel Engwall (f. 1942) prófessor í rómönskum tungumálum. Þór Saari. Þór Saari (f. á Miami Beach, Florida 9. júní 1960) er Íslenskur alþingismaður Suðvesturkjördæmis fyrir Hreyfinguna, áður Borgarahreyfinguna. Foreldrar hans eru Lee Elis Roi Saari flugvirki og Rannveig Steingrímsdóttir. Hann er af finnskum og bandarískum ættum. Jessica Biel. Jessica Claire Biel (fædd 3. mars 1982) er bandarísk leikkona og fyrirsæta sem hefur leikið í fjölmörgum Hollywood-kvikmyndum, meðal annsr "Summer Catch", endurgerð "The Texas Chainsaw Massacre", "The Illusionist", "I Now Pronounce You Chuck and Larry" og "Valentine's Day". Hún er einnig þekkt fyrir hlutverk sitt sem Mary Camden í sjónvarpsþættinum "7th Heaven". Biel, Jessica Biel, Jessica Stimpilgjald. Stimpilgjald er hugtak sem haft er um það gjald sem greiða skal til ríkisins af skjölum samkvæmt lögum 36/1978. Sem dæmi um skjöl sem greiða skal stimpilgjald af eru til dæmis heimildarbréf fyrir fasteignir og þegar gefin eru út verðbréf. Stimpilgjöld eru nefnd svo vegna þess að ríkið þarf að stimpla skjölin til að þau séu lögleg. Péturskirkjan í Trier. Péturskirkjan er dómkirkja þýsku borgarinnar Trier og elsta dómkirkja Þýskalands. Í grafhvelfingunni hvíla hinir ýmsu erkibiskupar og kjörfurstar sem setið hafa í Trier. Þar er einnig að finna hina heilögu skikkju en það er skikkjan sem Jesús er talinn hafa verið í. Dómkirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga Péturskirkjunnar. Fyrirrennari núverandi kirkju var reistur á 4. öld er Konstantínus mikli gerði kristni að ríkistrú í Rómaveldi. Kirkjan varð brátt að einni stærstu kirkjubyggingu Evrópu, með fjórum skipum, ásamt hliðarkapellum. Hún var jafnframt elsta dómkirkja á þýskri grundu. Kirkja þessi var eyðilögð af frönkum á 5. öld. Hluti hennar var þá endurreistur, en víkingar gjöreyddu henni svo árið 882. Núverandi bygging var reist í kjölfarið á því en hún var stækkuð á komandi öldum. Einnig voru gerðar á henni ýmsar breytingar. Þak kirkjunnar brann 1717 og voru þá gerðar viðamiklar breytingar á kirkjunni. Kirkjan skemmdist talsvert í loftárásum seinna stríðs. Viðgerðir fóru hins vegar fljótt fram. 1986 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO. 2008 fór í fyrsta og eins skiptið fram blessun yfir manneskju í kirkjunni, er móðir Rósa (1826-1906) var lýst blessuð, en það er fyrirrennari þess að vera lýstur helgur. Í kirkjunni fara iðulega fram tónleikar. Hið helga skikkja. Teikning frá 1933 af skikkjunni helgu, en engar ljósmyndir eru til af henni Helsti dýrgripur Péturskirkjunnar er hin helga skikkja sem Jesús var í í lifanda lífi. Samkvæmt Jóhannesarguðspjalli vörpuðu Rómverjar hlutkesti um klæði Jesú hver mátti eignast hana. Það var Flavía Ágústa, móðir Konstantínusar mikla, sem kom með skikkjuna til Trier, en hún kallast skikkjan helga. Hún kom fyrst fram við skjöl 1196 og lengi vel geymd innan í altari í kirkjunni. 1512 var altarið opnað og skikkjan tekin út í fyrsta sinn. Hún var þá hengd upp til sýnis en þúsundir manna streymdu þá til kirkjunnar sem pílagrímar. Skikkjan var hins vegar aðeins til sýnis á vissum árum og þá í stuttan tíma í senn: 1513-1517, 1524, 1531, 1538, 1545, 1655, 1810, 1844, 1891, 1933, 1959 og 1996. Árið 1810 var skikkjan til sýnis í 18 daga og streymdu á þessum stutta tíma rúmlega 200 þúsund manns í kirkjuna. 1844 var skikkjan til sýnis í sjö vikur og sóttu þá rúmlega milljón manns kirkjuna heim. 1933 voru það tvær milljónir manna og 1959 1,8 milljónir. Milli 1657-1794 var skikkjan geymd í virkinu Ehrenbreitstein í Koblenz, enda voru þá ótryggir tímar og stríð tíð. Næsta skiptið sem skikkjan mun vera til sýnis er 2012. Tilurð skikkjunnar er umdeild. Engar rannsóknir hafa farið fram um uppruna hennar og því liggja engar frekari upplýsingar fyrir. Andrésarskrínið. Andrésarskrínið er lítið gullslegin kista sem geymir einn sandala postulans Andrésar. Skrínið er ekki nema 45 x 22 cm að stærð. Ofan á skríninu er afsteypa af fæti Andrésar úr gulli. Auk sandalans er í skríninu nokkrir aðrir helgihlutir, svo sem nokkur skegghár sem er sagt vera af Pétri postula, keðjuhringur Péturs sem hann var bundin með, nagli sem sagður er úr krossi Jesú og drykkjarbikar heilagrar Helenu, móður Konstantínusar mikla. Kirkjusteinninn. Fyrir framan aðalinngang að Péturskirkjunni liggur um fjögurra metra löng granítsúla, 65 tonn að þyngd. Sagan segir að kölski hafi verið ginntur til að aðstoða við að reisa kirkjuna gegn veglegum launum. Þegar hann svikin launum sínum, hafi hann tekið súluna og kastað henni í kirkjuna, í þeirri von að hún eyðilagðist. Kirkjan stóð óhreyfð en súlan hafi síðan fengið að liggja þar sem hún lenti. Sennilegt er þó að súlan hafi verið ein af uppistöðum fyrirrennara kirkjunnar sem frankar eyðilögðu á 5. öld. Kirkjuklukkur. Allar kirkjuklukkur eyðilögðust í bruna og hita í heimstyrjöldinni síðari. 1951 fékk kirkjan því tíu nýjar klukkur, en þær eru samanlagt eitt þyngsta klukknaverk í þýskri kirkju. Sú þyngsta vegur tæp átta tonn og heitir Kristus & Helena. Samanlagt vegur klukknaverkið 24,3 tonn. Fossvogslög. Fossvogslögin eru meðal þekktustu setlaga í íslenska jarðlagastaflanum. Þetta er setlagasyrpa þar sem skiptast á jökulruðningslög og sjávarsetlög með skeljum og sums staðar straumvatnaset. Lögin finnast við Fossvog, í Nauthólsvík og út með Skerjafirði. Þau hafa einnig komið í ljós í húsgrunnum á Háskóla- og flugvallarsvæðinu. Lög þessi hafa lengi verið þekkt meðal náttúrufræðinga og margt hefur verið um þau ritað allt frá öndverðri 19. öld. Ýmsar tegundir skelja og kuðunga hafa fundist í lögunum til dæmis smyrslingur (mya truncata), hallloka (macoma calcaria), beitukóngur (buccinium undatum), hrúðurkarlar (Balanus balanus) og fleira. Allt eru þetta tegundir sem enn lifa við Íslandsstrendur. Jökulrispaðar klappir Reykjavíkurgrágrýtis og jökulruðningur er undir skeljalögunum og ofan á þeim má sums staðar sjá yngri jökulruðning. Jarðlög þessi hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðs meðan jöklar voru enn að verki á höfuðborgarsvæðinu, ýmist að hörfa eða sækja fram. Sjór stóð þá töluvert hærra en hann gerir í dag. Aldursgreiningar á skeljum úr Fossvogslögum sýna að sjávarsetið í þeim er 12.500 - 13.000 ára, eða frá Allerød tímabilinu í ísaldartlok og jökulruðningurinn ofan á lögunum er frá yngra dryas kuldakastinu. Friðlýsing. Fossvogsbakkar kallast það svæði sem Fossvogslögin ná yfir og voru þeir friðlýstir árið 1999. Svæðið er 17,8 hektarar og telst til náttúruvættis samkvæmt friðunarlögum. Dvergtré. Dvergtré eða bonsaitré eru tré sem eru ræktuð í pottum og eru klippt þannig til að þau fá nokkur af einkennum dvergvaxtar og verða eins og litlar útgáfur af fullvöxnum trjám. Að móta dvergtré tekur áratugi og er gert með því bæði að snyrta greinar, blöð og rætur og sveigja tréð til með vírum meðan það vex til að ná tilteknum listrænum markmiðum. Margrét Skotadrottning. Margrét Skotadrottning (apríl? 1283 – september/október 1290) eða Jómfrú Margrét (enska: "Margaret, Maid of Norway") var norsk konungsdóttir sem var þjóðhöfðingi Skotlands frá 1286 til dauðadags. Eftir lát hennar hófust langvinnar erfðadeilur. Margrét var dóttir Eiríks prestahatara Noregskonungs og konu hans Margrétar, dóttur Alexanders 3. Skotakonungs. Móðir hennar dó skömmu eftir fæðingu hennar, sennilega af barnsförum, og var þá Eiríkur konungur faðir hennar aðeins fimmtán ára gamall. Ári eftir fæðingu hennar lést Alexander krónprins Skotlands, móðurbróðir hennar, og var hún þá eini eftirlifandi afkomandi Alexanders afa síns. Hann fékk skoska þingið til að samþykkja hana sem ríkisarfa. Sjálfur var hann þó aðeins rúmlega fertugur ekkill við góða heilsu og giftist aftur 1285. Þegar hann lést óvænt af slysförum 19. mars 1286 var kona hans talin þunguð en annaðhvort var ekki svo eða barnið fæddist andvana fyrir tímann. Í október sama ár var Margrét litla lýst þjóðhöfðingi Skota og hópur biskupa og aðalsmanna valinn til að stýra landinu í hennar nafni. Ekki sættu allir sig við þetta og Róbert Bruce, lávarður af Annandale, og sonur hans, Róbert jarl af Carrick (faðir og afi Róberts 1. Skotakonungs), hófu uppreisn sem þó var bæld niður. Jóhann Balliol gerði einnig tilkall til krúnunnar. Skosku aðalsmennirnir töldu mikla hættu á borgarastyrjöld og óttuðust líka að Eiríkur Noregskonungur gæti reynt að ná völdum í Skotlandi í nafni dóttur sinnar. Eiríkur vildi aftur á móti tryggja dóttur sína í sessi og báðir aðilar leituðu því til Játvarðs 1. Englandskonungs, sem var ömmubróðir Margrétar. Játvarður var fljótur til og samdi um trúlofun Margrétar og tveggja ára sonar síns, Játvarðs. Með giftingu þeirra hefðu krúnur Englands og Skotlands sameinast en Játvarður samþykkti þó að tryggja sjálfstæði Skotlands. Það var hluti af samkomulaginu sem hann gerði við Eirík og skosku höfðingjana um þetta að Margrét skyldi send til Skotlands fyrir 1. nóvember 1290 og alast þar upp. Játvarður 1. sendi skip til Noregs vorið 1290 til að sækja tengdadótturina tilvonandi og er sagt að það hafi verið hlaðið alls konar varningi sem konungurinn taldi unga stúlku geta girnst, svo sem sætabrauði, fíkjum og rúsínum. Eiríkur konungur var þó ekki sáttur við þetta, hann vildi senda dóttur sína með norsku skipi til hins nýja heimalands hennar, og gerði skipið afturreka. Í september 1290 sigldi Jómfrú Margrét því af stað til Skotlands á norsku skipi. Ferðalagið gekk illa, skipið lenti í illviðri og hraktist af leið. Margrét hafði aldrei verið heilsuhraust og dó rétt eftir að skipið náði landi í Orkneyjum. Lík hennar var flutt aftur til Noregs og grafið í Kristskirkju í Björgvin. Umdeilt er hvort telja eigi Margréti með í röð þjóðhöfðingja Skotlands þar sem hún var ekki krýnd og steig aldrei fæti á skoska jörð. Skoska konungsættin dó út með henni og þeir voru alls fjórtán sem gerðu tilkall til krúnunnar, þar á meðal Eiríkur faðir hennar. Þegar erfðamálin voru enn óleyst tveimur árum eftir lát hennar var Játvarður 1. aftur beðinn að leysa málinn og hann útnefndi Jóhann Balliol sem konung og lepp sinn. Í kjölfarið hófst langvinn borgarastyrjöld. Árið 1300, ári eftir lát Eiríks prestahatara, kom kona nokkur til Björgvinjar og hélt því fram að hún væri Margrét konungsdóttir og hefði sér verið rænt. Ýmsir lögðu trúnað á orð hennar þótt hún væri að sögn augsýnilega að minnsta kosti fertug að aldri og þótt Eiríkur konungur sjálfur hefði borið kennsl á lík dóttur sinnar. Á endanum var hún þó ákærð fyrir svik og fals og brennd á báli árið 1301. Kaiserslautern. Kaiserslautern er háskólaborg í þýska sambandsríkinu Rínarlandi-Pfalz og er með tæp 100 þúsund íbúa. Lega. Keisarabrunnurinn í Kaiserslautern sýnir Friðrik Barbarossa keisara Kaiserslautern liggur mjög sunnarlega í sambandslandinu, fyrir vestan Rínarfljót en fyrir austan Saarland. Næstu borgir eru Ludwigshafen og Mannheim til austurs (50 km) Saarbrücken til suðvesturs (50 km) og Karlsruhe til suðausturs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Kaiserslautern eru þrjár lóðréttar rendur, rautt-hvítt-rautt. Í hvítu röndinni er fiskur. Hvíta röndin kemur fyrst fram 1266 og merkir ána Lauter sem rennur í gegnum borgina. Fiskurinn kemur fyrst fram 1373 og er tekinn úr þjóðsögu um Friðrik Barbarossa keisara. Núverandi merki var tekið upp 1842. Orðsifjar. Borgin er nefnd eftir ánni Lauter, sem áður var kölluð Lutra. Til er þjóðsaga um tilurði heitisins Lutra. Þar segir frá kristinni konu að nafni Lutrina. Hún var frá Trier en varð fyrir barðinu á trúarofsóknum. Lutrea flúði því og settist að við læk sem hún kallaði Lutra, eftir sjálfa sig. Kaiser-nafninu var bætt við eftir að Friðrik Barbarossa keisari lét reisa virki í borginni 1152. Miðaldir. 830 kemur bærinn fyrst við skjöl og kallaðist þá Lutra eða Villa Lutra. 985 gefur Otto III keisari Otto frá Kärnten bæinn, ásamt virki þar í grennd. Otto var af Salier-ættinni. Afkomendur hans reistu mikil borgarvirki sem Friðrik Barbarossa keisari lét stækka 1152. Friðrik gerði virkið að aðsetri sínu, þrátt fyrir að hann sæti ekki í því nema fjórum sinnum alls. Eftir þetta breyttist heiti bæjarins í Kaiserslautern (Lutra Imperialis á latínu). Bærinn óx mikið í kringum keisarasetrið. 1269 var haldið brúðkaup mikið þar, er Richard frá Cornwall af Plantagenet-ættinni (sonur Jóhanns landlausa Englandskonungi) kvæntist Beatrix frá Falkenburg. Richard var einn þeirra erlendu smákonunga þýska ríkisins sem varla stigu fæti á landið í konungslausa tímanum (Interregnum). 1276 veitti konungurinn Rúdolf af Habsburg Kaiserslautern fríborgarstatus. Þessi tími var blómatími borgarinnar. Fríborgarstatusinn hélst þó ekki nema til 1357, er borgin verður hluti af héraðinu Pfalz. 30 ára stríð og eftirmáli. Kaiserslautern á 17. öld. Mynd eftir Matthäus Merian. Strax við upphaf 30 ára stríðsins voru borgarmúrarnir endurnýjaðir. Engu var til sparað og varð Kaiserslautern að miklu virki. Engu að síðu náðu Spánverjar að hertaka borgina 1621. Þeir héldu borginni í ellefu ár, þar til sænskur her nálgaðist 1632. Í stað þess að verjast, flúðu Spánverjar og eftirlétu Svíum borgina. Í hvorugu skiptin var skotið á borgina. En 1635 birtist keisaraher við borgardyrnar og gerði umsátur um Kaiserslautern. Ráðist var á borgina og skotið á hana með fallbyssum. Þegar borgarmúrinn gaf sig nálægt kastalanum 17. júlí 1635 komust óvinahermenn inn í borgina. En þeir urðu að fara í gegnum vínkjallara kastalans. Áður en lengra var haldið supu margir þeirra ótæpilega á víninu og réðust svo inn í borgina. Í hálfölvuðu ásigkomulagi ollu þeir miklu blóðbaði meðal almennings og brenndu borgina nær til kaldra kola. Þeir sem af komust flúðu út í nálæga skóga. Einn hópur eftirlifenda náðist og var strádrepinn. Það tók 150 ár þar til íbúar Kaiserslautern urðu aftur jafn fjölmennir og þeir voru áður en árásin skall á. 1644 hröktu Frakkar keisaraherinn burt úr borginni, sem við það var aftur hluti af Pfalz. Friður var saminn 1648. Þrátt fyrir það yfirgáfu síðustu spænsku hermennirnir ekki héraðið fyrr en 1652. Í 9 ára stríðinu hertóku Frakkar borgina og héldu henni til stríðsloka 1697. Í spænska erfðastríðinu 1703 hertóku Frakkar borgina enn á ný. Að þessu sinni rifu þeir niður ýmis varnarvirki. Bardaginn um Kaiserslautern. 1793 réðist franskur byltingarher inn í þýska ríkið og nálgaðist Kaiserslautern í nóvember. Þar mættu þeim herir frá Saxlandi og Prússlandi. Það dró til stórorrustu milli þessara aðila sem stóð í þrjá daga (28.-30. nóvember). Í orrustunni biðu Frakkar lægri hlut og urðu frá að hverfa. Einn herforingja prússa var Blücher en hann ritaði seinna um orrustuna að hann hefði aldrei á ævi sinni tekið þátt í eins flóknum bardaga og í orrustunni um Kaiserslautern. En 1796 komu Frakkar aftur og náðu að þessu sinni að hertaka borgina. 1804 sótti Napoleon sjálfur borgina heim til að litast um á orrustuvellinum þar sem Frakkar biðu ósigur 11 árum áður. 1814 yfirgáfu Frakkar héraðið. Prússar og Rússar taka borgina, sem í upphafi var stjórnuð af bærískum og austurrískum fulltrúum. 1816 drógu Austurríkismenn sig í hlé og verður Kaiserslautern þá innlimuð í konungsríki Bæjaralands. Nýrri tímar. Á bæríska tímanum hélt iðnbyltingin innreið sína í borgina. Lagning járnbrautarinnar 1848 var gífurleg lyftistöng fyrir borgina. Að öðru leyti var iðnaður þar ekki eins mikill og í öðrum borgum í Rínarlandi. 1918 varð borgin hluti af Saarland og er hersetin af Frökkum allt til 1930. Kaiserslautern varð fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Um tveir þriðju hlutar borgarinnar eyðilagðist. Þann 20. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina, en hún var eftir stríð á franska hernámssvæðinu. Þrátt fyrir það var bandarísk herstöð starfrækt þar en milli 1951-55 var hún stærsta bandaríska herstöðin í Evrópu. 1969 voru nokkur nágrannasveitarfélög innlimuð borginni. Við það fór íbúafjöldi borgarinnar yfir 100 þúsund en hefur dalað aðeins síðan. 1992 yfirgáfu síðustu frönsku hermennirnir borgina. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er 1. FC Kaiserslautern. Það hefur fjórum sinnum orðið þýskur meistari (1951, 1953, 1991 og 1998) og tvisvar bikarmeistari (1990 og 1996). Meðal fyrrum leikmanna félagsins má nefna Michael Ballack, Mario Basler, Andreas Brehme og Miroslav Klose. Auk þess lék Íslendingurinn Lárus Guðmundsson með félaginu 1987-88. Johan Fredrik Peringskiöld. Johan Fredrik Peringskiöld (eða Peringskjöld) (13. september 1689 – 2. mars 1725), var sænskur fornfræðingur og þýðandi fornrita, þjóðminjavörður Svía 1720–1725. Hann fæddist í Stokkhólmi, sonur Johans Peringskjölds fornfræðings og þjóðminjavarðar og fyrri konu hans, Elisabeth Eliædotter. Hann hóf nám í Uppsalaháskóla 1703, og að loknu námi þar fór hann að vinna fyrir sænska fornfræðaráðið (Antikvitetsarkivet). Árið 1712 tók hann við af föður sínum sem "translator antiquitatum" (þýðandi fornrita), og árið 1719 sem ritari og minjavörður. Þegar faðir hans dó, 1720, var hann skipaður þjóðminjavörður og gegndi því embætti til dauðadags; dó í Stokkhólmi 1725. Hann var ógiftur. Sem þjóðminjavörður reyndi hann að ljúka nokkrum af verkum föður síns. Helsta framlag hans til fræðanna voru þýðingar á heimildaritum, svo sem eftir Adam frá Brimum og Jordanes. Hann þýddi einnig nokkur íslensk fornrit, og voru þrjú þeirra gefin út á prenti. Segja má að með Jóhanni F. Peringskjöld hafi lokið því blómaskeiði í sænskum fornfræðirannsóknum, sem hófst með Johannesi Bureus. Helstu þýðingar og útgáfur. Hann gaf einnig út "Ättar-tal för Svea och Götha konunga-hus" (1725), sem var rit sem faðir hans hafði undirbúið. Heimildir. Peringskiöld, Johan Fredrik Peringskiöld, Johan Fredrik Eldeyjardrangur. Eldeyjardrangur er drangur handan við Eldey. Jarðskálftar í Eldeyjardrang. Nokkrir jarðskálftar hafa verið í Eldeyjardrang þar á meðal skjálfti sem var 27. febrúar 2007. Mesti skálftinn mældist 4,8 á richter. Geirfugladrangur. Geirfugladrangur var drangur sem var úti fyrir Reykjanesi, tíu sjómílur suðvestur af Eldey, Reykjanesi en hrundi 22. mars 1972. Drangurinn var um tíu metra hár og sást í ratsjá en eftir að hann hrundi varð þarna hættulegt blindsker, enda sást hann þá aðeins í rennisléttum sjó og stórstraumsfjöru. Þetta er stök strýta sem rís upp af hafsbotninum en 130 metra dýpi er víðast hvar í kringum dranginn og þar eru fengsæl fiskimið og fjölfarin siglingaleið. Breski sjóherinn notaði dranginn sem skotmark til æfinga á stríðsárunum og hrundi þá nokkuð úr honum og bandarískir flugmenn héldu þeirri iðju áfram síðar. Alþingi samþykkti árið 1959 að reisa radíóvita á dranginum en af því varð aldrei. Drangurinn er enn einn af grunnlínupunktum landhelginnar en erlendar þjóðir hafa gert kröfu um að hann verði aflagður ásamt Eldeyjardrangi. Johan Peringskiöld. Johan Peringskiöld (eða Peringskjöld) (6. október 1654 – 24. mars 1720) var sænskur fornfræðingur, þjóðminjavörður 1693–1719. Hann hét Johan Peringer fram til 1693, þegar hann var aðlaður, en breytti þá eftirnafninu. Hann fæddist í Strängnäs. Foreldrar hans voru Laurentz Fredrik Peringer kennari og Anna Andersdotter. Hann varð stúdent frá Uppsalaháskóla 1677, og fór að taka að sér verkefni fyrir Sænska fornfræðaráðið 1680. Árið 1682 var honum falið, með Johan Hadorph, að fara í rannsóknarferðir um landið og teikna upp gamlar minjar og rúnasteina. Urðu þar til fyrstu drög að hinu mikla verki um rúnasteina, sem kom út árið 1750 undir nafninu "Bautil". Hann hafði strax á námsárunum í Uppsölum vakið athygli fyrir færni sína í teikningu og gerð myndamóta, og eru teikningar hans af horfnum minjum nú dýrmætar heimildir. Eftir að hann varð fastur starfsmaður hjá Fornfræðaráðinu 1687, einbeitti hann sér að því að draga saman efni í sænskt fornbréfasafn, ættfræðiheimildir og æviskrár. Í hallarbrunanum 1697 eyðlögðust 18 bindi af því safni, en Peringer lét vinna aftur það sem hægt var og halda áfram á sömu braut. Einnig hélt hann áfram rannsóknum á fornum minjum. Árið 1693 varð Peringer ritari við Fornfræðaráðið (sem þá fékk nafnið Antikvitetsarkivet) og þjóðminjavörður, og var aðlaður sama ár og tók upp nafnið "Peringskiöld". Á árunum 1698–1711 var hann einnig þýðandi íslenskra fornrita. Peringskiöld lét af embætti þjóðminjavarðar 1719 og varð þá fulltrúi í stjórnarráðinu. Hann dó í Stokkhólmi árið eftir. Johan Peringskiöld hafði um sumt svipuð viðhorf til fræðistarfa og Olof Rudbeck, var full djarfur í ályktunum og þarf að nota rit hans með gætni, t.d. ættartölurit. En hann var mjög atorkusamur við að draga saman heimildir sem annars hefðu glatast. Eru þessi söfn varðveitt í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi og Ríkisskjalasafninu og eru mikil að vöxtum. Þar eru m.a. drög að miklu verki um sænskar minjar og sögustaði: "Swea och Göta minnings-merken", og komu út tvö bindi um Tíundaland, 1710 og 1719. Johan Peringskjöld beitti sér fyrir söfnun og útgáfu íslenskra handrita. Hans verður einna lengst minnst fyrir útgáfu sína á "Heimskringlu" Snorra Sturlusonar (1697–1700), sem var frumútgáfa bókarinnar á íslensku, og með sænskri og latneskri þýðingu varð hún aðgengileg fræðimönnum á Norðurlöndum og víðar. Bókin er í stóru broti og allur frágangur hennar með aðalsbrag. Guðmundur Ólafsson fornritafræðingur átti talsverðan þátt í þeirri útgáfu. Johan Peringskjöld giftist fyrst (1687) Elisabeth Eliædotter (d. 1707). Seinni kona hans (1711) var Sophia Polus, greifynja. Sonur hans af fyrra hjónabandi var Johan Fredrik Peringskiöld (1689–1725) fornfræðingur og þjóðminjavörður. Heimildir. Peringskiöld, Johan Peringskiöld, Johan Al-Ghazali. Abū Ḥāmed Muḥammad ibn Muḥammad al-Ghazālī (ابو حامد محمد ابن محمد الغزالی), þekktastur sem Al-Ghazali, (1058 – 1111) var persneskur guðfræðingur, heimspekingur, heimsfræðingur og dulspekingur og er einn merkasti hugsuður í íslamskri hugmyndasögu. Hreppsnefnd Rípurhrepps. Hreppsnefnd Rípurhrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Rípurhreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 26. maí 1990. Aðeins einn listi bauð sig fram og var því sjálfkjörið.. 1986. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 14. júní 1986. Aðeins einn listi bauð sig fram, Frjálslyndir kjósendur, og var því sjálfkjörið.. 1982. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1982 1966. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 26. júní 1966.. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 Heimildir. Rípurhreppur H Einarsfjörður. Fjallið Illerfissalik (Búrfell) við botn Einarsfjarðar. Einarsfjörður (g. "Igalikup Kangerlua" eða "Igaliko-fjorden") er fjörður skammt frá Eiríksfirði á Grænlandi, annar meginfjörður hinnar fornu Eystribyggðar. Þar voru Garðar, biskupssetur Grænlands og önnur besta jörðin í Eystribyggð á eftir Bröttuhlíð. Einarsfjörður var nefndur eftir Einari Þorgeirsyni, en faðir hans var Þorgeir leysingi en ekki er vitað um föðurnafn hans. Í Eiríks sögu rauða segir að Einar hafi beðið Guðríðar Þorbjarnardóttir en faðir hennar hafi ekki viljað gifta hana þrælssyni. Fjörðurinn er 65 kílómetra djúpur og stendur bærinn Qaqortoq við fjörðinn. Hreppsnefnd Viðvíkurhrepps. Hreppsnefnd Viðvíkurhrepps er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Viðvíkurhreppi. Hreppsnefnd ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 26. maí 1990. 1982. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1982 1966. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 1966 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 1958. Í hreppsnefndarkosningunum 1958 var aðeins einn flokkur í framboði og var hann því sjálfkjörinn.. Heimildir. Viðvíkurhreppur H Þjálfarar meistaraflokks Fram í handknattleik karla. Knattspyrnufélagið Fram sendi lið til þátttöku á fyrsta Íslandsmóti meistaraflokks karla í handknattleik árið 1940 og hefur verið með upp frá því. Erfitt er að segja með fullri vissu hverjir hafi verið þjálfarar meistaraflokks fyrstu árin. Starf þjálfarans var lengi vel mun óformlegra en síðar varð, en segja má að breyting hafi orðið á eðli þess með komu Karls Benediktssonar frá Svíþjóð, en hann kynnti Íslendinga fyrir nýrri hugsun í handknattleiksþjálfun. Þá var sérstök handknattleiksdeild ekki stofnuð fyrr en árið 1963, en fyrir þann tíma eru allar upplýsingar af skornum skammti. Hana Soukupová. Hana Soukupová (fædd 18. desember 1985 í Karlovy Vary í Tékklandi) er tékknesk fyrirsæta. Soukupová, Hana Margrét af Búrgund. Margrét af Búrgund (1290 – 14. ágúst 1315) var fyrri kona Loðvíks 10. Frakklandskonungs. Hún var elsta dóttir Róberts 2. hertoga af Búrgund og konu hans Agnesar, dóttur Loðvíks 9. Frakklandskonungs. Margrét giftist Loðvík prinsi frænda sínum árið 1305. Snemma árs 1314 var hún handtekin ásamt Blönku af Búrgund, frænku sinni og mágkonu, sem gift var Karli prinsi, bróður Loðvíks (síðar Karl 4.). Þær voru sakaðar um framhjáhald og var eitt helsta vitnið gegn þeim Ísabella mágkona þeirra, kona Játvarðs 2. Englandskonungs. Jóhanna systir Blönku, sem gift var þriðja bróðurnum, Filippusi (síðar Filippus 5.), var sökuð um að hafa hylmt yfir með þeim og jafnvel hafa tekið þátt í ástaleikjum í Tour de Nesle-málinu, eins og það var kallað, en hún var þó hreinsuð af því. Margréti og Blönku var varpað í neðanjarðardýflissu í kastalanum Château-Gaillard og þar lést Margrét rúmu ári síðar. Loðvík hafði fengið hjónaband þeirra dæmt ógilt en þó er sagt er að hann hafi látið kyrkja hana, fimm dögum áður en hann giftist seinni konu sinni. Hann var krýndur konungur fáum dögum síðar en hafði tekið við konungsembætti þegar faðir hans dó ári fyrr og Margrét telst því hafa verið drottning Frakklands þótt hún gengdi aldrei því hlutverki í raun. Margrét og Loðvík áttu eina dóttur, Jóhönnu (1311-1349), sem síðar varð drottning Navarra. Eftir að upp komst um framhjáhald móður hennar var þó vafi talinn leika á faðerninu. Blanka af Búrgund. Blanka af Búrgund (um 1296 – 29. apríl 1326) var fyrsta kona Karls 4. Frakkakonungs. Hún var dóttir Ottós 4. greifa af Búrgund. Blanka giftist Karli prinsi, sem var þriðji sonur Filippusar 4. Frakkakonungs, 20. maí 1308. Snemma árs 1314 var hún handtekin ásamt Margréti af Búrgund frænku sinni og mágkonu, sem gift var Loðvík prinsi, bróður Karls (síðar Loðvík 10.). Þær voru sakaðar um framhjáhald og var eitt helsta vitnið gegn þeim Ísabella mágkona þeirra, kona Játvarðs 2. Englandskonungs. Systir Blönku, Jóhanna af Búrgund, sem gift var þriðja bróðurnum, Filippusi (síðar Filippus 5.), dróst einnig inn í málið en var hreinsuð af sök. Blanka og Margrét voru aftur á móti dæmdar sekar og varpað í dýflissu í kastalanum Château-Gaillard. Þar dó Margrét ári síðar. Blanka var enn í dýflissunni þegar Karl eiginmaður hennar var krýndur konungur Frakklands 1322 og varð því drottning Frakklands þótt hún kæmi aldrei fram sem slík. Karl hafnaði náðunarbeiðni frá henni og fékk Jóhannes XXII páfa til að ógilda hjónabandið 19. maí sama ár. Blanka var þó flutt í klaustur og dó þar fáeinum árum síðar, enda farin að heilsu eftir vistina í dýflissunni. Blanka og Karl áttu tvö börn sem bæði voru dáin þegar hjónaband þeirra var gert ógilt, Filippus (1314-1322) og Jóhönnu (1315-1320). Hreppsnefnd Hólahrepps. Hreppsnefnd Hólahrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Hólahreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hafði falið sveitarstjórnum. Hinn 6. júní 1998 sameinaðist Hólahreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði, og mynduðu þau saman "sveitarfélagið Skagafjörð". 1994. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 28. maí 1994. 1990. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 26. maí 1990. 1982. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1982 1966. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 1966 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 1958. Í hreppsnefndarkosningunum 1958 var aðeins einn flokkur í framboði og var hann því sjálfkjörinn.. Heimildir. Hólahreppur H Jóhanna af Búrgund. Jóhanna af Búrgund (15. janúar 1292 – 21. janúar 1330) var kona Filippusar 5. Frakkakonungs og drottning Frakklands 1316-1322. Jóhanna var eldri dóttir Ottós 4. greifa af Búrgund. Hún giftist Filippusi prinsi, sem var næstelsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs, árið 1307. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott, að minnsta kosti var Filippus mjög örlátur við konu sína og veitti henni stuðning í Tour de Nesle-málinu, þegar hún var sökuð um að hafa vitað af framhjáhaldi systur sinnar og frænku, Blönku af Búrgund og Margrétar af Búrgund, sem giftar voru bræðrum Filippusar, og jafnvel verið seld undir sömu sök. Þær voru hnepptar í dýflissu og og eiginmenn þeirra höfnuðu þeim. Jóhanna var sett í stofufangelsi en Filippus neitaði að segja skilið við hana og hún sneri aftur til hirðarinnar 1315. Ári síðar dó Loðvík 10., bróðir Filippusar. Síðari kona hans var þá þunguð og ól son (Jóhann 1.) nokkrum mánuðum síðar, 15. nóvember, en hann dó fimm daga gamall og þá varð Filippus konungur. Þau Jóhanna voru krýnd í Reims 9. janúar 1317. Filippus dó í janúar 1322 en Jóhanna árið 1330. Hún hafði erft greifadæmin Búrgund og Artois eftir foreldra sína og gengu þau til elstu dóttur hennar, Jóhönnu, sem hafði verið gift Ottó 4. hertoga af Búrgund, tíu ára gömul árið 1318, og sameinuðust hertogadæmið Búrgund og greifadæmið Búrgund þar með. Þrjár aðrar dætur Jóhönnu og Filippusar komust upp en franska krúnan gekk til Karls bróður hans. Gunnar Gíslason. Séra Gunnar Gíslason (f. 5. apríl 1914, d. 31. mars 2008) var prestur í Glaumbæ í Skagafirði frá 1943 til 1982 en sinnti Barðssókn til 1984. Lauk guðfræðiprófi 1943 og varð prestur sama ár í Glaumbæ. Skipaður prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi 1977. Samhliða prestsskap í Glaumbæ stundaði Gunnar búskap í Glaumbæ en síðustu árin bjó hann í Varmahlíð Gunnar sat í hreppsnefnd Seyluhrepps í 40 ár og sat jafnfram á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1959 til 1974. Tveir synir Gunnars og konu hans, Ragnheiðar Margrétar Ólafsdóttur hafa sinnt sveitastjórnarmálum, Arnór sat í hreppsnefnd Seyluhrepps frá 1986 til 1994 og Gísli var oddviti Sjálfstæðismanna í Sveitarfélaginu Skagafirði 1998 til 2002. Faðir Gunnars var Gísli Jónsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Loðvík 10.. Loðvík 10. Frakkakonungur (4. október 1289 – 5. júní 1316), kallaður Loðvík þrætugjarni eða Loðvík þrjóski var konungur Navarra frá 1305 og Frakklands frá 1314 til dauðadags. Loðvík fæddist í París og var elsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu 1. af Navarra. Hann erfði krúnu Navarra við lát móður sinnar 2. apríl 1305. Þann 21. september sama ár, rétt fyrir sextán ára afmæli sitt, giftist hann Margréti af Búrgund, sem var ári yngri. Þau eignuðust eina dóttur, Jóhönnu. Yngri bræður hans, Filippus og Karl, giftust frænkum Margrétar, systrunum Jóhönnu og Blönku af Búrgund. Snemma árs 1314 flæktust þau öll inn í Tour de Nesle-málið svonefnda, þar sem Margrét og Blanka voru sakaðar um að hafa fallið í hórdóm með tveimur aðalsmönnum og Jóhanna um að hafa vitað af framhjáhaldinu eða jafnvel tekið þátt í því. Margrét og Blanka voru fundnar sekar og varpað í dýflissu en Jóhanna sýknuð. Loðvík reyndi að fá hjónaband sitt ógilt, enda mun það ekki hafa verið hamingjusamt, en það var þó ekki gert. Filippus faðir hans dó sama ár og varð Loðvík þá konungur. Hann var þó ekki krýndur fyrr en 24. ágúst árið eftir. Tíu dögum áður hafði Margrét dáið í dýflissunni og er ekki talið ólíklegt að Loðvík hafi látið myrða hana því að hann gekk að eiga Klementíu af Ungverjalandi fimm dögum eftir lát Margrétar. Ríkisstjórnartíð Loðvíks var ekki löng og einkenndist af átökum við aðalinn, enda réðist hann í aðgerðir sem ætlað var að auka tekjur krúnunnar. Árið 1315 lýsti hann því yfir að bændaánauð skyldi ljúka en bændur áttu þó að borga fyrir að losna úr ánauð. Filippus faðir hans hafði rekið gyðinga úr landi en Loðvík leyfði þeim búsetu í Frakklandi að nýju með ákveðnum skilyrðum. Þeir áttu að bera auðkennisarmbönd og máttu aðeins búa á ákveðnum stöðum. Loðvík átti líka í stríðsátökum í Flæmingjalandi. Loðvík var áhugasamur um Jeu de paume, sem var forveri tennisíþróttarinnar. Í júníbyrjun 1316 lék konungurinn langan og erfiðan leik og drakk síðan mikið af kældu víni. Þetta varð honum að aldurtila skömmu síðar. Klementía drottning var þá barnshafandi og var beðið átekta þar til hún varð léttari en Filippus bróðir Loðvíks var útnefndur ríkisstjóri á meðan. Jóhanna, dóttir Loðvíks og Margrétar, var að vísu á lífi en vafi lék á hvort konur ættu yfir höfuð erfðarétt til krúnunnar samkvæmt gildandi lögum í Frakklandi auk þess sem faðerni prinsessunnar var ekki talið öruggt vegna framhjáhalds móðurinnar. Barnið fæddist 15. nóvember og var drengur sem hlaut nafnið Jóhann 1. Hann lifði þó ekki nema fimm daga og þá tókst Filippusi að fá erfðarétt sinn viðurkenndan, bæði til krúnunnar í Frakklandi og Navarra, þar sem hann ríkti undir nafninu Filippus 2. Jóhanna dóttir Loðvíks hefði raunar átt að erfa krúnu Navarra því þar áttu konur ótvíræðan erfðarétt en þó var gengið framhjá henni. Hún varð samt drottning þar 1328 að báðum föðurbræðrum sínum látnum og 250 árum seinna erfðu afkomendur hennar frönsku krúnuna. Hreppsnefnd Haganeshrepps. Hreppsnefnd Haganeshrepps er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Haganeshreppi. Hreppsnefnd ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum. 1982. Úrslit úr sveitarstjórnarkosningunum 22. maí 1982 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1966. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 1958. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1958. 1954. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1954. Heimildir. Haganeshreppur H Hreppsnefnd Skarðshrepps. Hreppsnefnd Skarðshrepps er lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Skarðshreppi. Hreppsnefnd ber ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið hefur falið sveitarstjórnum. 1994. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 11. júní 1994 1990. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 9. júní 1990 1986. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 14. júní 1986 1982. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 22. maí 1982 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 Heimildir. Skarðshreppur H Jóhann 1. Frakkakonungur. Stytta á grafhvelfingu Jóhanns 1. Jóhann 1. (15. nóvember 1316 – 20. nóvember 1316) var konungur Frakklands og Navarra þá fimm daga sem hann lifði. Hann var sonur Loðvíks 10. Frakkakonungs og síðari konu hans, Klementíu af Ungverjalandi. Faðir hans lést 5. júní 1316 og þar sem Klementía drottning var þá þunguð var Filippus bróðir Loðvíks útnefndur ríkisstjóri þar til í ljós kæmi hvort barnið væri drengur eða stúlka. Þegar drengurinn fæddist var hann þegar útnefndur konungur en hann lést fimm daga gamall og Filippus varð þá konungur. Sumir hafa haldið því fram að Filippus hafi komið drengnum fyrir kattarnef og einnig gengu sögur um að hann hefði látið ræna barninu og koma barnslíki fyrir í staðinn. Á sjötta áratug aldarinnar kom fram maður í Provence sem hélt því fram að hann væri Jóhann 1. Hann var þegar hnepptur í varðhald og dó í fangelsi nokkru síðar. Adrian Lux. Adrian Lux, (fæddur 1. maí 1986), er sænskur plötusnúður og upptökustjóri. Hann hefur gefið út tvær smáskífur "Boy" og "Teenage Crime". Smáskífan "Teenage Crime" varð platínuplata í Ástralíu og var í þriðja sæti á Ultratop Flanders vinsældarlistanum í Belgíu. Ca Mau-flugvöllur. Ca Mau-flugvöllur ("Sân bay Cà Mau") er flugvöllurinn í Ca Mau í Víetnam. Can Tho-flugvöllur. Can Tho-flugvöllur ("Sân bay Cần Thơ") er flugvöllurinn í Can Tho (Cần Thơ) í Víetnam. Jacob Reenhielm. Jacob Reenhielm (1644 – 1691), var sænskur aðalsmaður, fornfræðingur og þýðandi fornrita, þjóðminjavörður Svía 1675–1678. Hann hét Jacob Isthmenius, en tók upp nafnið Reenhielm (eða Reenhjelm) þegar hann var aðlaður, 1675. Hann fæddist í Uppsölum. Foreldrar hans voru Isacus Isthmenius prófastur og prófessor, og Anna Gestricia. Jacob missti föður sinn ungur og giftist móðir hans þá Olof Vereliusi fornfræðingi og þjóðminjaverði, sem varð stjúpfaðir hans. Jacob hóf ungur nám í Uppsalaháskóla og naut leiðsagnar stjúpföður síns, Olofs Vereliusar, sem leiðbeindi honum við nám í fornfræði, einkum í fornsögum og minjum frá fyrri tíð. Jacob Isthmen ákvað að leggja fyrir sig herþjónustu og hafði náð liðsforingjatign 1675, þegar hann var aðlaður og skipaður þjóðminjavörður. Hann tók þá upp nafnið Reenhielm. Embættisveitingin var þó aðeins að nafninu til, því að stjúpfaðir hans, Olof Verelius, og fornfræðingurinn Johan Hadorph, sem gengið hafði verið fram hjá við embættisveitinguna, fóru í raun með embættið. Og þar sem Reenhielm fékk engin laun fyrir, sagði hann embættinu lausu 1678 og gekk árið eftir að nýju í þjónustu hersins. Hann tók þátt í hernaði á Skáni og í Noregi, en dró sig fljótlega í hlé og settist að á búgarði sínum Täby í Uppsalaléni. Þar dó hann 1691. Kona hans (1669) var Anna Böllja. Jacob Reenhielm fékkst nokkuð við útgáfustörf og þýðingar á fornritum, og er hans fyrst og fremst minnst fyrir frumútgáfuna á "Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk". Bandaríski fræðimaðurinn Theodore M. Andersson fer viðurkenningarorðum um þá útgáfu í nýlegri þýðingu sögunnar (2003), og telur hana óvenjulega metnaðarfulla miðað við sinn tíma. Hin svokallaða Lundarbók í Háskólabókasafninu í Lundi er stundum kölluð Codex Reenhielmianus, af því að Jacob Reenhielm átti hana og ritaði nafnið sitt í hana, 1682. Heimildir. Sænskir fornfræðingar Sænskir þjóðminjaverðir Frumútgáfa. Frumútgáfa er fyrsta útgáfa rits í bókarformi. Frumútgáfur geta haft sérstakt gildi í augum safnara, einkum ef um falleg eintök er að ræða. Sengoku-öldin. Sengoku-öldin eða Sengokutímabilið (japanska: 戦国時代 eða "Sengoku jidai"), þýðir bókstaflega „tímabil ríkja í stríði“, er tímabil í sögu Japans sem nær frá 1467 til 1573. Þad var a tímabil af borgarastyljöd. Róbert 1. Skotakonungur. Róbert 1. (11. júlí 1274 – 7. júní 1329) eða Róbert Bruce (enska: Robert the Bruce) var skoskur aðalsmaður, frægur stríðsmaður, leiðtogi Skota í frelsisstríði þeirra gegn Englendingum og konungur Skotlands frá 1306 til dauðadags. Hann er talinn þjóðhetja í Skotlandi. Uppruni og erfðatilkall. Róbert var elsti sonur Róberts de Brus, lávarðs af Annandale, og konu hans Marjorie, greifynju af Carrick. Hún var mikill kvenskörungur og er sagt að hún hafi haldið föður hans föngnum þar til hann féllst á að kvænast henni. Þau áttu fjölda barna auk Róberts: Synirnir voru Játvarður, Alexander, Thomas og Neil og dæturnar Christina, Ísabella Noregsdrottning, kona Eiríks prestahatara, Margaret, Matilda og Mary, sem var fönguð og flutt til Englands árið 1306 og höfð þar í búri, almenningi til sýnis, í fjögur ár. Frá móður sinni erfði Róbert jarldæmið Carrick þegar hún lést 1292 en gegnum föður sinn taldi hann sig eiga erfðarétt að skosku krúniunni þar sem faðirinn var afkomandi Davíðs 1. Skotakonungs. Í erfðadeilunni sem reis eftir lát hinnar barnungu Margrétar drottningar árið 1290 tókst fjarskyldum frænda Róberts, Jóhanni Balliol, að fá sig tekinn til konungs. Feðgarnir hófu fljótlega baráttu gegn honum. Þeir sóru Játvarði 1. Englandskonungi hollustu í ágúst 1296 en töldu hann svo hafa svikið sig og Róbert yngri studdi uppreisn Skota gegn honum ári síðar. Jóhann Balliol hafði þá sagt af sér og Róbert Bruce og John Comyn, náfrændi Balliols, voru saman útnefndir ríkisstjórar Skotlands. Samkomulag þeirra var þó ekki gott, enda töldu þeir sig báðir eiga tilkall til krúnunnar. Árið 1299 var biskupinn af St. Andrews útnefndur þriðji ríkisstjórinn til að reyna að halda frið milli hinna tveggja. Bruce sagði þó af sér árið eftir og hinir árið 1301. Játvarður 1. réðist inn í Skotland í júlí það ár og var það sjötta innrás hans. Vopnahlé var þó samið í janúar 1302. Um það leyti var á kreiki orðrómur um að Jóhann Balliol, sem var í útlegð í Frakklandi, yrði aftur settur á konungsstól og raunar munu margir aðalsmenn hafa stutt það. Þó varð ekkert af því. Játvarður gerði enn eina innrásina árið 1303 og varð vel ágengt; í febrúar árið eftir höfðu allir leiðtogar Skota nema William Wallace (Braveheart) beygt sig undir vald hans. Þeir samþykktu að öll lög skyldu vera eins og verið hafði á ríkisárum Alexanders 3. og þeim mætti ekki breyta án þess að bera þau undir Játvarð. Frændi Játvarðs, jarlinn af Richmond, átti að leiða stjórn Skotlands sem yrði undir Játvarð gefin. Um sumarið var William Wallace svo handtekinn nálægt Glasgow og tekinn af lífi í London 23. ágúst. Konungur. Þótt Róbert Bruce hefði svarið Játvarði hollustu virðist Játvarður ekki hafa treyst honum, heldur grunað hann um græsku, enda hafði hann ýmist stutt Englendinga eða Skota í átökum undangenginna ára. Róbert taldi tilkall sitt til skosku krúnunnar ótvírætt og áleit sig rétta manninn til að leiða baráttuna gegn yfirráðum Englendinga en margir Skotar treystu honum ekki heldur og þar stóð andstæðingur hans og keppinautur, John Comyn, betur að vígi þar sem hann hafði staðið mun harðar gegn Englendingum og erfðatilkall hans var að minnsta kosti jafnsterkt og tilkall Bruce. Margt er óljóst um atburðarásina en svo mikið er víst að þegar Robert Bruce var við ensku hriðina síðsumars 1305 ætlaði Játvarður konungur að láta handtaka hann, en tengdasonur konungs, Ralph de Monthermer, sem var vinur Róberts, varaði hann við svo að hann náði að flýja og komst norður til Skotlands. Þann 10. febrúar 1306 hittust þeir Comyn á fundi í Grábræðrakirkjunni í Dumfries og þar kom til átaka á milli þeirra og Róbert drap Comyn fyrir framan háaltari kirkjunnar. Hann flýtti sér síðan til Glasgow, játaði voðaverkið og vanhelgun kirkjunnar fyrir Robert Wishart biskupi og fékk aflausn. Wishart gaf klerkum landsins fyrirmæli um að styðja Róbert. Þrátt fyrir það var hann fallinn í bann af verknaði sínum. Hann sá þá að nú væri að hrökkva eða stökkva og setti fram tilkall sitt til krúnunnar. Fáir urðu til andmæla og hann var krýndur konungur Skota 25. mars. Skæruliðaforingi. Ekki blés byrlega fyrir hinum nýja konungi fyrst í stað í átökum við Englendinga. Hann tapaði hverri orrustunni af annarri. Kona hans, dóttir og systur voru teknar til fanga og sendar til Englands, þar sem þær áttu illa vist. Bróðir hans var tekinn til fanga og líflátinn. Sjálfur flúði Róbert ásamt tryggustu fylgismönnum sínum út í eyjar við strönd Skotlands. Þeir sneru aftur til meginlandsins í febrúar árið eftir og hófu þar skæruhernað. Tveir bræðra Róberts til viðbótar náðust og voru líflátnir, en smám saman fór honumað ganga betur í baráttu sinni við Englendinga og aðra óvini sína, þar á meðan John Comyn, son hins gamla fjandmanns síns. Í maí vann hann sigur á liði Comyns í orrustunni við Inverurie og sigraði síðan setulið Englendinga í Aberdeen. Róbert reyndist afar snjall skæruliðaforingi. Í ágúst 1309 réði hann öllu norðanverðu Skotlandi og ári síðar viðurkenndi skoska kirkjan hann sem konung á kirkjuþingi þótt hann væri enn í banni. Næstu árin vann hann hvern sigurinn á fætur öðrum og fór jafnvel herferðir inn í Norður-England. Endahnúturinn var svo rekinn á þessa baráttu í orrustunni við Bannockburn 1314. Hernaðarsigrar Róberts stigu honum til höfuðs og hann sendi herlið til Írlands. Hann sagðist vilja hjálpa Írum í baráttu þeirra gegn Englendingum en sá um leið sjálfan sig eða ætt sína fyrir sér sem þjóðhöfðingja allra gelískra landa. Bróðir hans, Játvarður Bruce, var kjörinn yfirkonungur Írlands en þeim gekk þó ekki nægilega vel að fá Íra á sitt band og þegar Játvarður féll í orrustunni við Faughart 14. október 1318 var draumurinn úti. Fjölskylda. Róbert giftist fyrst 1295 Ísabellu af Mar, dóttur hertogans af Mar, og er sagt að þau hafi verið afar ástfangin hvort af öðru. Hjónabandið var skammvint því Ísabella dó af barnsförum 19 ára að aldri í desember 1296. Barnið var stúlka, Marjorie Bruce. Hún dó einnig 19 ára eftir að hafa fætt barn. Seinni kona Róberts, sem hann giftist 1302, var Elizabeth de Burgh, sem samkvæmt sumum heimildum var aðeins um 13 ára að aldri. Hún var fönguð sumarið 1306, ekki löngu eftir krýningu þeirra hjónanna, og flutt til Englands ásamt Marjorie stjúpdóttur sinni og mágkonum, Christina og Mary, og höfð þar í haldi í átta ár. Þá var hún látin laus í fangaskiptum eftir orrustuna við Bannockburn. Þau Róbert áttu þrjú börn sem komust upp, soninn Davíð 2. Skotakonung og dæturnar Matilda og Margaret. Róbert átti líka allmörg lausaleiksbörn en um mæður þeirra er ekkert vitað. Hann lést 7. maí 1329 og hafði átt við veikindi að stríða um tíma. Lík hans var grafið í Dumferline-klaustri. Worms. Worms er gömul keisaraborg í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 82 þúsund íbúa. Worms hefur gengið í söguna sem Niflungaborgin, en hún er einnig þekkt Lútherborg. Orðsifjar. Borgin hét Borbetomagus á tímum fyrir Rómverja, sem þýðir "landið við ána Borbet". Rómverjar breyttu heitinu í Vangionen eftir keltneska þjóðflokknum vangjóna. Allt fram á 16. öld kölluðu borgarbúar sig Vangjónar. Úr Vangionen verður Wormatia, sem breytist í Worms á miðöldum. Lega. Worms stendur við Rínarfljót. Til vinstri er Niflungabrúin. Worms liggur við Rínarfljót austast í sambandslandinu, gegnt Hessen. Næstu borgir eru Mannheim til suðurs (15 km), Mainz til norðurs (20 km) og Kaiserslautern til suðausturs (30 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Worms er hvítur lykill á rauðum grunni. Uppi til hægri er gul fimmarma stjarna. Lykillinn er tákn fyrir Pétur postula en hann er verndardýrlingur dómkirkjunnar. Tákn þetta var tekið upp árið 1500 en 1890 var stjörnunni bætt við. Upphaf. Borgina sem slíka stofnuðu Rómverjar á 1. öld e.Kr. en keltar munu hafa búið þar áður. Samkvæmt söguhring Niflunganna var Worms heimaborg Niflungaættarinnar. Þangað kom Sigurður Fáfnisbani eftir að hafa drepið Fáfni, og kvæntist Grímhildi, systur Gunnars konungs. Lítið er þó vitað um borgina á þessum tíma. Enn í dag er borgin gjarnan kölluð Niflungaborgin Worms. Á 9. öld gerði Karlamagnús Worms að vetraraðsetri sínu. Þar voru haldin ýmis ríkisþing. Það var þó ekki fyrr en á 11. öld sem hið raunverulega blómaskeið borgarinnar hófst en þá voru konungar úr Salier-ættinni við völd. Ríkisþing. Worms 1655. Mynd eftir Matthäus Merian. 1076 hélt Hinrik IV þing í Worms. Hinrik var andsnúinn Gregoríusi VII páfa og gerði sér lítið fyrir og lýsti páfa rekinn úr embætti. Gregoríus var á þessum tíma á leiðinni til Ágsborgar til fundar við kjörfursta ríkisins og leitaði skjóls í virkinu Canossa í Norður-Ítalíu. Páfi lét sér frekju Hinriks ekki lynda og bannfærði hann samstundis. Þar með var Hinrik keisari kominn í alvarleg vandræði, þar sem páfi gaf haft áhrif á næsta konungskjör. Auk þess mátti ekki aðstoða bannfærðan mann. Hinrik fór því í iðrunarför til Canossa og sættist við páfa. Annað mikilvægt ríkisþing í Worms var haldið 1122. Þar voru þýsku staðamálin leidd til lykta. Þar viðurkenndi Hinrik V keisari tilkall kirkjunnar til kirkjustaða og annarra eigna kirkjunnar í þýska ríkinu. Samkomulag þetta var hið fyrsta í evrópskri sögu og gekk í sögubækurnar sem Wormser Konkordat ("Worms-samkomulagið"). Á hinn bóginn leysti þetta úr læðingi átök um veraldleg yfirráð yfir borginni Worms milli biskupanna og borgarráðs, sem stóð alveg fram á 16. öld. Enn eitt mikilvægt ríkisþing var haldið í Worms 1495. Þar innleiddi Maximilian keisari ný lög um ríkisskatt, ríkisdóma og bann við erfðatengdum ættarerjum. Marteinn Lúther. Marteinn Lúther á ríkisþinginu í Worms 1521. Lúther er lengst til vinstri. Í hásætinu situr Karl V keisari. 1517 hóf Lúther mótmæli sín í borginni Wittenberg. Þetta leysti þvílíka holskeflu úr læðingi að kirkjumenn og keisari vissu ekki hvernig átti að snúa sér í málum. Lúther var yfirheyrður nokkrum sinnum og loks bannfærður. Samt sem áður var honum boðið að mæta á ríkisþingi í Worms 1521, sem Karl V keisari hélt, og svara þar til saka. Á þinginu hélt Lúther mikla varnarræðu, sem endaði á orðunum: „Samviska mín er fönguð orðum Guðs; ég get ekki og vil ekki taka neitt til baka, því það er hættulegt og ómögulegt að misbjóða samviskunni. Svo hjálpi mér Guð. Amen.“ Til er önnur útgáfa af lokaorðum Lúthers en þar átti hann að hafa sagt: „Hér stend ég og get ekki annað. Svo hjálpi mér Guð. Amen.“ Eftir fundinn fordæmdi Karl keisari Lúther í ríkinu og bannaði honum að rita og predika. Sömuleiðis var bannað að aðstoða hann, lesa rit hans eða hýsa hann. Það varð honum til lífs að góðviljaðir menn ‘rændu’ honum meðan hann var enn í Worms og fluttu hann til virkisins Wartburg. En aðeins þremur árum seinna, 1524, var Worms enn miðpunktur siðaskiptanna. Þá var í fyrsta sinn prentuð lútersk messa. Og enn tveimur árum seinna lét Englendingurinn William Tyndale prenta fyrsta enska eintak Nýja Testamentisins í Worms. Afleiðingin af þessu umróti varð til þess að Worms tók heils hugar við siðaskiptunum, þrátt fyrir að kaþólsku biskuparnir voru enn með sterk veraldleg völd þar í borg. Nýrri tímar. Engar upplýsingar eru til um það hvernig Worms reið af í 30 ára stríðinu. En í 9 ára stríðinu 1689 réðust Frakkar á borgina og nær gjöreyddu henni. 1792 hertók franskur byltingarher borgina aftur og var hún innlimuð Frakklandi. Worms var því frönsk allt til falls Napoleons 1814. Þá varð borgin hluti af stórhertogadæmi Hessen. Á þessum tíma var Worms einungis smáborg í Þýskalandi. Blómatími hennar var löngu liðin. Worms varð fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Þær verstu urðu 21. febrúar og 18. mars 1945. Í þessum tveimur árásum var borgin nær gjöreydd. Við uppbyggingu hennar voru nýtískuleg hús reist í miðborginni, frekar en að endurreisa miðborgarkjarnan eins og hann var áður. Byggingar og kennileiti. Dómkirkjan í Worms var reist af Niflungum Niflungasafnið. Turninn við hliðina er frá 11. öld. Jafnhliða þríhyrningur. Jafnhliða þríhyrningur er rúmfræðilegur þríhyrningur þar sem allar þrjár hliðar eru jafnar. Guðrún frá Lundi. Guðrún Baldvina Árnadóttir (3. júní 1887 – 22. ágúst 1975) sem notaði jafnan höfundarnafnið Guðrún frá Lundi var íslenskur rithöfundur sem var einn vinsælasti og afkastamesti skáldsagnahöfundur þjóðarinnar á sinni tíð. Bækur Guðrúnar seldust jafnan mjög vel og voru lengi útlánahæstu bækur íslenskra bókasafna. Ferill. Guðrún fæddist á Lundi í Stíflu í Fljótum í Skagafirði, ein af ellefu börnum Árna Magnússonar og Baldvinu Ásgrímsdóttur. Hún ólst upp í Lundi til ellefu ára aldurs og kenndi sig jafnan við þann bæ sem rithöfundur. Á unglingsárum átti hún heima á Höfðaströnd og Skaga. Árið 1910 giftist hún Jóni Þorfinnssyni og bjuggu þau lengi á Ytra-Mallandi á Skaga en fluttu til Sauðárkróks árið 1940 og áttu þar heima til æviloka. Guðrún skrifaði mikið þegar hún var barn og unglingur en ekkert þann tíma sem hún var húsmóðir í sveit. Eftir að hún flutti á Sauðárkrók hóf hún skriftir að nýju og fyrsta bindi "Dalalífs", fimm binda skáldsögu hennar (samtals 2189 bls.), kom út árið 1946, þegar Guðrún var 59 ára, og náði miklum vinsældum. Eftir það sendi hún frá sér eina bók á ári allt til 1973, nema árið 1969. Hún skrifaði því samtals 26 bækur en sögurnar eru færri því sumar skáldsagna Guðrúnar voru í nokkrum bindum. Guðrún sækir efnivið sinn í sveitalífið og allar bækur hennar nema ein gerast í sveit, flestar um eða upp úr aldamótum 1900. Guðrún frá Lundi skrifaði fyrst og fremst sjálfri sér og öðrum til ánægju. Bækur hennar eru þjóðlegar skemmtibókmenntir en um leið raunsæjar og henni þykir takast einstaklega vel að lýsa hversdagslífi og daglegu amstri. Bækur hennar nutu framan af lítils álits meðal bókmenntafræðinga og ritdómara en þær hafa lifað og haldið vinsældum og í rauninni má segja að Guðrún hafi skapað sérstaka bókmenntagrein sem nýtur æ meiri viðurkenningar. Guðrún Pálsdóttir (f. 1956). Guðrún Pálsdóttir (fædd 7. desember 1956) var bæjarstjóri Kópavogs. Hún tók við embættinu af Gunnsteini Sigurðssyni 15. júní 2010 og lét af því þegar nýr meirihluti komst til valda 14. febrúar 2012. Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Kópavogsbæ síðan 1. janúar 1986. Fyrstu áratugina var hún fjármála- og hagsýslustjóri Kópavogsbæjar en sumarið 2008 tók hún við starfi sviðsstjóra tómstunda- og menningarsviðs Kópavogsbæjar. Guðrún hafði áður gegnt tímabundið stöðu bæjarstjóra og bæjarritara Kópavogs. Syrtlingur. Syrtlingur var ein af fjórum neðansjávareldstöðvum í Surtseyjargosinu (hinar voru Surtsey, Jólnir og Surtla) og ein þriggja eyja sem mynduðust. Fyrst varð vart við umbrot í lok maí 1965 um 600 metra austnorðaustur af Surtsey og 8. júní var þar komin eyja, um 16 metra há og 170 metrar í þvermál. Hún hvarf snöggvast en kom aftur og 17. september var hún rúmir 70 metrar á hæð og um 650 metrar á lengd. Um það leyti hætti gos í Syrtlingi og hann var fljótur að hverfa í briminu; síðast sást til eyjarinnar 17. október og hún var horfin með öllu viku síðar. Þarna er nú 34 metra dýpi. Jólnir. Jólnir var eyja sem varð til í Surtseyjargosinu en hvarf aftur í hafið tíu mánuðum eftir að gos hófst þar. Fyrst varð vart við gos í hafinu um 900 metra suðvestur af Surtsey 26. desember 1965 og þann 28. desember sást fyrst að ný eyja var að myndast. Henni var fljótt gefið nafnið Jólnir af því að gosið hófst á annan dag jóla. Þann 3. janúar var eyjan orðin um 100 metrar á lengd og 50 metrar á breidd og þá gaus þar í tveimur gígum. Tveimur dögum síðar var eyjan horfin en hún sást aftur 14. janúar. Aftur hvarf hún í miklu óveðri í janúarlok en birtist í þriðja sinn viku síðar, hvarf enn og birtist svo enn á ný. Hún minnkaði og stækkaði á víxl og hvarf í fimmta sinn í apríl í nokkra daga. 25. júní mældist hún 568 m löng og um 55 m há en mældist mest 62 m. Í lok júlí dró mjög úr gosinu og því lauk 10. ágúst. Eftir það minnkaði eyjan hratt og 20. september var ekki annað eftir en hvalbakur sem braut yfir á flóði. Síðan var þar rif eða sker smátíma en nokkrum mánuðum eftir goslok var það horfið og nú er þarna um 39 metra dýpi. Surtla. Surtla var eldstöð um 2,5 kílómetra austnorðaustur af Surtsey, sem gaus í neðansjávareldgosum 28. desember 1964 – 6. janúar 1965. Gosefnin náðu aldrei að hrúgast svo mikið upp að þau kæmust upp á yfirborðið og myndaðist því engin eyja þarna eins og í gosunum í Surtsey, Jólni og Syrtlingi. Minnsta dýpi sem þar mældist var 23 metrar en nú er dýpið þar sem Surtla var 47 metrar. Speyer. Speyer er keisaraborg í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 50 þúsund íbúa. Dómkirkjan í borginni er stærsta rómanska kirkja heims. Lega. Dómkirkjan í Speyer er á heimsminjaskrá UNESCO Speyer liggur við Rínarfljót nær austast í sambandslandinu, gegnt Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Mannheim til norðurs (20 km), Hockenheim í Bæjaralandi til austurs (10 km) og Karlsruhe til suðurs (25 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Speyer sýnir vesturhlið dómkirkjunnar frægu. Dómkirkjan hefur verið til á innsiglum borgarinnar síðan á 13. öld. Núverandi skjaldarmerki var tekið upp 1846 meðan Speyer tilheyrði Bæjaralandi. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Civitas Nemetum með viðheitinu „"id est Spira"“ en var fljótlega breytt í Noviomagus. Þegar germanir tóku borgina kölluðu þeir hana Spira, sem breyttist í Speyer með tímanum. Spira var heitið á ánni sem germanska þorpið hafði staðið við. Rómverjar. Upphaf Speyer er rómersk herstöð sem reist var 10 f.Kr en á þeim tíma reistu Rómverjar herstöðvar á vissu millibili við Rínarfljót til að tryggja landamærin til Germaníu. Árið 74 e.Kr. voru Rómverjar búnir að hernema svæði austan við Rínarfljót. Við það varð Speyer ekki lengur landamærastöð og yfirgáfu þá hermenn svæðið. Þess í stað settust almennir rómverskir borgarar að í stöðinni og varð Speyer að borg í skattlandinu Germania Superior. Þrátt fyrir það réðust germanir oft yfir landamærin og gerðu Rómverjum miklar skráveifur. Árið 275 réðust alemannar á Speyer og nær gjöreyddu henni. Alemannar voru áfram mikil ógn við borgarbúa, þannig að Speyer var víggirt. Árið 343 varð Speyer að biskupssetri, einum hinum elsta á þýskri grundu. Á 5. öld brustu flótgáttirnar og germanir streymdu á landsvæðið vestan Rínar. Rómverjar yfirgáfu borgina smátt og smátt. Um aldamótin 500 var heiti borgarinnar breytt í Spira og markar það landnám germana í borginni. Miðaldir. Speyer varð brátt hluti hins mikla frankaríkis, en var þó ekki mikilvæg borg. Þó komu Karlamagnús og nokkrir konungar þýska ríkisins þar við, en dvöldu ávallt stutt. Sökum þess að landgreifarnir og biskuparnir voru í sífelldum erjum um yfirráðin yfir borginni, ákvað Otto I keisari árið 969 að gefa biskupunum í borginni pólitískt stjórnunarvald yfir héraðinu en slíkt var ekki óalgengt í ríkinu. Þetta fyrirkomulag hélst allt til 1294. Það var Konráður II sem hóf Speyer sem keisaraborg, með því að láta reisa margar nýjar byggingar og dvelja þar. Eftirmenn hans héldu þróuninni áfram. Þetta var hinn mikli blómatími borgarinnar, sem varð að einum mesta verslunarstað við ofanvert Rínarfljót í þýska ríkinu. Konráður sjálfur hvílir í dómkirkjunni, ásamt nokkrum öðrum konungum. Árið 1111, daginn sem Hinrik V tók við konungdómi af föður sínum, veitti hann borginni víðtæk réttindi. Borgin komst því sem næst að vera fríborg, þrátt fyrir að biskuparnir voru enn veraldlegir stjórnendur hennar. Við andláts Hinriks 1125 dó Salier-ættin út. Nýr konungur varð þá Lóþar III. Hann var ekki sérlega vinsæll og var Konráður III af Staufen-ættinni valinn sem gagnkonungur. Borgin Speyer hélt við Konráð, sem oftar en ekki sat í Speyer, og varð að nokkurs konar höfuðborg ríkisins til skamms tíma. Við þetta gat Lóþar ekki unað. 1128 safnaði hann liði og gerði umsátur um Speyer. Borgin var með mikla varnarmúra og stóðst öll áhlaup. En þegar hungrið tók að sverfa að, gáfust borgarbúar upp. Konráður flúði, en Speyer varð að vígi fyrir Lóþar. Aðalbert biskup réði þar öllu, enda vilhollur Lóþari. Lóþar lést 1137 og varð Speyer þá aftur hliðholl Konráði og eftirmönnum hans. Krossferðir. Borgin var svo mikilvæg í ríkinu að 1141 var safnast saman þar og lagt af stað í 2. krossferðina til landsins helga. 1146 var franski munkurinn Bernard frá Clairvaux í Speyer og predikaði í dómkirkjunni. Hann hvatti til krossferða til landsins helga, enda var hann einn ötullasti málsvari krossferðanna síns tíma. 1189 ákvað Friðrik Barbarossa keisari að legga í krossferð, þá þriðju í sögunni. Í ferðinni átti hann að sameinast herjum Ríkharðs ljónshjarta Englandskonung og Filippusar II Frakklandskonungs. Friðrik drukknaði hins vegar á leiðinni. Nýr konungur varð Hinrik VI, sonur Friðriks. Ríkharður hafði hins vegar stutt andstæðinga hans. Því gerðist það á heimleið Ríkharðs að hann var handtekinn af Leopold, hertoganum í Vín 1192. 28. mars framseldi Leopold hann til Hinriks VI í borginni Speyer. Ríkharður var þó ekki lengi fangi í Speyer, því Hinrik lét setja hann í varðhald í virkinu Trifels í Pfalz, þar til Ríkharður hafði gengið að öllum skilyrðum fyrir lausn sinni. 1294 urðu biskuparnir undir í baráttunni um veraldlegu völdin í borginni og afsöluðu sér öllum réttindum. Speyer varð að fríborg í ríkinu. Siðaskipti. Stytta af Marteini Lúther og tveimur furstum sem stóðu að mótmælunum á ríkisþinginu í Speyer 1529. Á 16. öld var Speyer oft miðdepill ríkisins. Á fyrri hluta aldarinnar voru haldin 30 ríkisþing, þar af fimm í Speyer. 1525 var í fyrsta sinn predikuð lúterstrú í Speyer. Nýja trúin féll í góða jarðvegi, en fékk ekki útbreiðslu sökum sterkra ítaka kaþólsku kirkjunnar þar í borg. Seinna sama ár gerðu bændur í nálægum héruðum uppreisn. Um sumarið þrömmuðu þeir til Speyer og var ætlunin að hertaka borgina og gera hana lúterska. Íbúar notuðu tækifærið til að mótmæla gömlu trúnni og tökin sem hún hafði á hversdagslíf þeirra. En áður en til bardaga kom var samið við bændur og þeir sneru sér annað. Næsta ár var haldið ríkisþing í borginni. Karl V keisari var ekki mættur í eigin persónu. Rætt var um nýju trúna en að öðru leyti var niðurstaða þingsins lítil. Á þessum tíma datt engum í hug að kirkjan myndi klofna. Annað var upp á teningnum fjórum árum seinna. Ríkisþingið í Speyer 1529 var vendipunktur siðaskiptanna. Þar var samþykkt sú tillaga að afnema það litla trúfrelsi sem þegnar ríkisins höfðu búið við og banna með öllu nýju trúna. Auk þess átti að leggja ríkisbann á Martein Lúther. Það sem í raun var verið að samþykkja var að kaþólska kirkjan fengi enn meiri völd yfir fólkinu. Þessu mótmæltu furstar og hertogar víða um ríkið. Þeir sömdu mótmælaskjal sem lesið var upp á þinginu en því var vitanlega hafnað. Þetta skjal markar upphafið á klofningu kirkjunnar. Lúterstrúin varð formlega að klofinni kirkju frá kaþólsku kirkjunni. Héðan í frá var í fyrsta sinn talað um mótmælendur ("Protestanten" á þýsku), það er að segja þeir sem mótmæltu afnámi trúfrelsis á þinginu. Mótmælin á ríkisþingingu í Speyer urðu því að heimssögulegum atburði. Nokkur fleiri ríkisþing voru haldin í Speyer. Eitt allra stærsta þingið í þýska ríkinu var haldið þar 1570. Á þessum tíma var Speyer orðin lútersk borg. Þingið stóð yfir í tíu heila mánuði en ekki kom fram neitt nýtt í tengslum við siðaskiptin. Hins vegar var ákveðið að staðsetja æðsta ríkisdómstólinn í Speyer. Dómstóllinn var mannaður af upplýstu og frjálslegu fólki. Til marks um gott dómsstarf meðlimanna má nefna að í Speyer var aðeins ein persóna brennd á báli fyrir galdra á þessum tímum, þrátt fyrir að nær stanslaust var verið að vísa galdramálum til dómsins. Stríð. Í upphafi 30 ára stríðsins var Speyer meðlimur í bandalagi mótmælenda. En sökum þess hve borgin var illa varin (fáir vopnfærir menn) og erfiðrar fjárhagsstöðu, gekk borgin úr bandalaginu 1621 og lýsti yfir hlutleysi. Speyer var þar með fyrsta borgin í ríkinu sem lýsti yfir hlutleysi. Í fyrstu kom borgin ekki við sögu í stríðinu, annað en að margir flóttamenn settust þar að. Spánverjar voru hins vegar í héraðinu í kringum 1630. Eftir það dundu hörmungarnar yfir. Á aðeins þremur árum, 1632-35, var Speyer hertekin þrisvar. Fyrst af Svíum, síðan af keisaraher og loks af Frökkum. 1635 hernam keisareherinn borgina á nýjan leik og hélt henni til 1644. Eftir það voru Frakkar á ferðinni á ný og héldu borginni út stríðið. Síðustu herirnir hurfu ekki þaðan fyrr en 1650, tveimur árum eftir stríðslok. Við bættist pest og hungursneyð. Íbúum hafði snarfækkað og borgin var orðin sárafátæk. Gullaldartími Speyer var endanlega liðinn. 1689 réðust Frakkar aftur á Speyer í 9 ára stríðinu. Þeir ráku flesta borgarbúa burt, rændu öllu sem hægt var að ræna og brenndu borgina til kaldra kola. Aðeins örfáar byggingar stóðu eftir uppi, þar á meðal dómkirkjan. Enn voru Frakkar á ferðinni 1792, en þá hertók franskur byltingarher borgina. Hún var innlimuð Frakklandi fimm árum síðar. Frakkar afnámu lénsskipulagið, leystu upp klaustur, gerðu eignir kirkjunnar upptæka, settu ný lög og neyddu borgarbúa til hlýðni. Þeir voru komnir á fremstan hlunn með að rífa dómkirkjuna frægu, en biskupnum í Mainz tókst að hindra það á síðustu stundu. Þess í stað notuðu Frakkar kirkjuna sem hesthús og lager. Frakkar voru hraktir úr borginni 1814. En þegar Napoleon flúði frá Elbu og safnaði liði, varð Speyer að viðkomustað evrópskra herja. 27. júní 1815 hittust Friðrik Vilhjálmur III Prússakonungur, Frans I keisari Austurríkis og Alexander I Rússakeisari í Speyer til að ráða ráðum sínum um framhaldið í Napoleonsstríðinu. Þegar stríðinu lauk úrskurðaði Vínarfundurinn að Speyer skyldi tilheyra Bæjaralandi. Nýrri tímar. Sögusafnið í Speyer. Þar er m.a. keisarakóróna Konráðs II geymd til sýnis. 1815 voru 6.000 íbúar í Speyer og jókst sú íbúatala hægt. Ekki er hægt að tala um mikla iðnbyltingu í borginni sökum þessa. 1837 var Rínarhöfnin við borginni lögð og 1847 fékk borgin járnbrautartengingu. Þessi samgöngubót varð borginni meiri lyftistöng en nýstofnaður iðnaður. Íbúar 1871 voru til dæmis aðeins tæpir 13 þúsund. Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri yfirgáfu herdeildir frá Bæjaralandi og Austurríki borgina, en Frakkar komu í staðin. Franska hersetan varaði til 1930, er Speyer varð aftur bærísk. Í heimstyrjöldinni síðari slapp borgin við nær allar loftárásir bandamanna. Skemmdir urðu óverulegar. Síðustu dagar stríðsins í borginni voru dramatískir. 22. mars 1945 ákvað herforingi nasista að verja skyldi borgina til hinsta manns, en bandamenn voru þá að nálgast. Um kvöldið var ákveðið að flytja borgarbúa burt. Þeir voru því smalaðir saman og fluttir yfir Rínarfljót. Daginn eftir kröfðust konurnar úr borginni hins vegar að herliðið ætti að gefast bardagalaust upp fyrir Bandaríkjamönnum. Nasistar voru á báðum áttum. Þeir sprengdu að vísu Rínarbrúna, en ákváðu svo að flýja einir. Þýskir hermenn yfirgáfu svæðið og skildu borgarbúa eftir við eystri Rínarbakkann. Að morgni 24. mars þrömmuðu Bandaríkjamenn inn í Speyer og fundu hana mannlausa fyrir. Borgarbúar fengu að snúa til baka. Speyer var á hernámssvæði Frakka og var hún undir franskri stjórn allt til stofnun sambandslandsins Rínarlands-Pfalz 1949. Eitt stærsta iðnfyrirtæki sem starfrækt var í borginni eftir strið var flugvélafyrirtækið Heinkel. Kvennafrídagurinn. Kvennafrídagurinn var baráttudagur sem íslensk kvenréttindasamtök stóðu fyrir mánudagin 24. október árið 1975 og var haldinn hátíðlegur með ræðum og söng á Lækjartorgi í Reykjavík og víðar á Íslandi. Haldið var upp á 30 ára afmæli dagsins þann 2005. Þjálfarar meistaraflokks Fram í handknattleik kvenna. Knattspyrnufélagið Fram sendi fyrst lið til þátttöku á Íslandsmóti meistaraflokks kvenna í handknattleik árið 1946 og hefur verið með upp frá því. Erfitt er að segja með fullri vissu hverjir hafi verið þjálfarar meistaraflokks fyrstu árin. Starf þjálfarans var lengi vel mun óformlegra en síðar varð. Þá var sérstök handknattleiksdeild ekki stofnuð fyrr en árið 1963, en fyrir þann tíma eru allar upplýsingar af skornum skammti. Saarland. Saarland er minnsta sambandsland Þýskalands utan borgríkjanna Berlín, Hamborg og Bremen, með aðeins 2.568 km². Það er einnig yngsta sambandslandið, en það var ekki stofnað fyrr en 1957. Íbúarnir eru aðeins rétt rúmlega ein milljón, sem gerir Saarland að næstfámennasta sambandslandi Þýskalands. Aðeins Bremen er fámennari. Saarland hefur lengi verið bitbein milli Þýskalands og Frakklands, rétt eins og Elsass (Alsace) og Lothringen (Lorraine). Lega. Saarland liggur suðvestarlega í Þýskalandi og á löng landamæri að Frakklandi í vestri. Vestasti oddinn tengist einnig Lúxemborg. Að öðru leyti er Saarland hálf umlukið af sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Saarlands er eins og þýski fáninn, nema hvað búið er að setja skjaldarmerki sambandslandsins í miðjuna. Fáni þessi var tekinn upp 1957, þegar Saarland var stofnað sem sambandsland, gagngert til að sýna fram á að landið væri þýskt. Skjaldarmerki Saarlands er fjórskipt. Efst til vinstri er hvítt ljón á bláum grunni en það var merki greifanna frá Saarbrücken. Efst til hægri er rauður kross á hvítum grunni en það var merki kjörbiskupanna frá Trier. Neðst til vinstri er þrír hvítir ernir á rauðum borða á gulum grunni, en það var merki hertogadæmisins Lothringen (Lorraine), sem í dag er franskt. Neðst til hægri er gullitað ljón á svörtum grunni en það var merki hertogadæmisins Pfalz-Zweibrücken. Skjaldarmerki þetta var tekið upp 1. janúar 1957, daginn sem Saarland varð að sambandslandi. Orðsifjar. Saarland er nefnt eftir ánni Saar sem rennur í gegnum landið og er þverá Mósel. Áin hét Saravus á 3. öld og er heitið dregið af indógermanska orðinu ser, sem merkir "að fljóta". Áin Saar á upptök sín í Frakklandi og heitir Sarre á frönsku. Helena Eyjólfsdóttir. Helena og hljómsveit Ingimars Eydal 1967 Helena Eyjólfsdóttir, söngkona, fædd 1942 er íslenskur tónlistarmaður. Æviágrip. Helena Eyjólfsdóttir fæddist 23. janúar 1942. Söngferill hennar hófst með söng inn á jólaplötu í formi jólakorts (einnig hljómplötu) árið 1954 þegar Helena var aðeins 12 ára gömul. Næsta plata kom út 1958. Sú plata og lagið "Ástarljóðið mitt" setti Helenu á lista meðal fremstu dægurlaga söngvara landsins. Helena hefur í gegnum tíðina sungið með ýmsum hljómsveitum, svo sem Neo kvartettinum og Atlantic kvartettinum. Síðar söng hún með Hljómsveit Svavars Gests en lengst af með Hljómsveit Ingimars Eydal og Hljómsveit Finns Eydal sem hún rak um árabil ásamt eiginmanni sínum Finni Eydal (1940 - 1996). Þann 17. júní 2010 var Helena sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Rafsuða. Rafsuða er hugtak sem er haft um það að festa saman málmhluti með því að nota rafstraum til að hita snertifleti að bræðslumarki. Þeim er svo ýtt saman og fyllt í samskeyti og eyður með heppilegum málmblöndum. Ekki má rugla rafsuðu saman við logsuðu, en í hinu fyrrnefnda er notast við rafmagn, en hinu síðarnefnda gas. Rúlluvél og pinnavél. Til eru tvær gerðir af rafsuðutækjum: "rúlluvél" og "pinnavél". Rúlluvélin notast við hlífðargas eða kápu utanum vír til varnar því að súrefni komist í suðu og eyðileggi hana. Þá er vír af vírrúlllu bræddur í fletina sem á að sjóða saman. Í pinnavél, er notaður pinni sem er festur við rafsuðutöng. Töngin og kapallinn er tengdur við for- (+) og bakskaut (-) vélarinnar, fer eftir efni og vír. Skoltaklemma með mínus eða plús vélarinnar er tengd við fletina sem á að sjóða. Pinninn er þá látinn strjúkast við málminn en við það myndast blossi. Öryggi. Helstu öryggistæki við rafsuðu er suðuhjálmur og hanskar. Hjálmurinn kemur í veg fyrir að rafsuðumaður fái neista í andlitið eða ljósblindu og hanskarnir að neistar brenni húðina. Gjall. Við rafsuðu kemur gjall á málminn sem er bruni hans. Það er hreinsað með því að nota gjallhamar, en með honum er það lamið burt. Íslandshornið. Íslandshornið er knattspyrnukeppni sem Knattspyrnufélagið Valur setti á laggirnar árið 1917. Mótið fór fram að haustlagi, en síðast var keppt um titilinn árið 1921. Saga. Knattspyrnufélagið Fram festi kaup á bikar og efndi til fyrsta Íslandsmótsins í knattspyrnu árið 1912. Vegna þessa litu Framarar svo á að mótið væri þeirra eign. Þeir sáu um skipulagninguna og hirtu allan ágóða. Fótboltafélag Reykjavíkur vildi ekki una þessu og sniðgekk Íslandsmótið árin 1913 og 1914. Að lokum fannst sú lausn á málinu að stofnað var til sérstaks Reykjavíkurmóts, sem Fótboltafélagið hafði umsjón með. Árið 1917 var Knattspyrnufélagið Valur orðið gildandi íþróttafélag og vildi stofna sitt eigið mót. Einn af velunnurum félagsins, Egill Jacobsen kaupmaður, gaf félaginu þá verðlaunagrip, útskorið horn. Var ákveðið að nýja knattspyrnukeppnin skyldi nefnast Knattspyrnuhorn Íslands. Framarar mótmæltu nafninu harðlega, þar sem hætta væri á að því yrði ruglað saman við nafn og verðlaunagrip Íslandsmótsins, knattspyrnubikar Íslands. Þeir neituðu því að taka þátt í mótinu haustið 1917. Í hefndarskyni hótuðu Valsmenn og KR-ingar að taka ekki þátt í Íslandsmótinu 1918. Framarar gáfu þá eftir og lofuðu að taka þátt að ári. Keppnin um Íslandshornið reyndist þó skammlífari en búist hafði verið við. KR fór með sigur af hólmi tvö fyrstu árin, en því næst unnu Framarar þrisvar í röð og unnu verðlaunagripinn því til eignar árið 1921. Þar sem Knattspyrnufélagið Valur var í mikilli lægð um þær mundir, hafði félagið ekki bolmagn til að festa kaup á nýju horni. Auk þess hafði Knattspyrnuráði Reykjavíkur verið komið á laggirnar. Ráðið hafði yfirumsjón með framkvæmd móta og sá um að hagnaði af miðasölu væri skipt með eðlilegum hætti og því ekki lengur þörf á að hafa jafn mörg mót og knattspyrnufélög. Ásgeir Jónsson. Ásgeir Jónsson (f. 21. júní 1970) er íslenskur hagfræðingur og rithöfundur. Hann starfaði áður sem yfirmaður greiningardeildar Kaupþingsbanka. Eftir bankahrunið skrifaði hann bókina "." Ásgeir er sonur Jóns Bjarnasonar ráðherra og þingmanns Vinstri grænna. Ásgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1990 og BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1994. Lokaritgerð hans hét „Siglt gegn vindi" og var þjóðhagfræðileg greining á Íslenska hagkerfinu 1400-1600 og var birt í Fjármálatíðindum, seinna hefti árið 1994. Ásgeir lauk meistaraprófi í hagfræði frá Indianaháskóla 1997 og doktorsprófi frá sama skóla 2001. Andrzej Strejlau. Andrzej Strejlau (19. febrúar 1940) er pólskur íþróttamaður, knattspyrnuþjálfari og fyrrverandi þjálfari Knattspyrnufélagsins Fram. Starfsferill. Strejlau var kunnur knattspyrnu- og handknattleiksmaður á yngri árum í heimalandi sínu og keppti í efstu deild í báðum greinum. Hann á að baki landsleiki í handbolta fyrir Pólland. Hann sneri sér að þjálfun á sjöunda áratugnum með góðum árangri. Hann stjórnaði pólska ungmennalandsliðinu um árabil og var aðstoðarlandsliðsþjálfariá Ólympíuleikunum 1972 og 1976, sem og á HM 1974. Á þessum árum stýrði hann einnig Legia Varsjá, einu öflugasta félagsliði Póllands. Árið 1989 varð hann aðalþjálfari pólska landsliðsins og gegndi því starfi til ársins 1993, en hætti eftir að honum mistókst að koma liði sínu á HM 1994. Hann hefur upp frá því gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir pólska knattspyrnusambandið. Þjálfari Framara. Knattspyrnufélagið Fram falaðist eftir erlendum þjálfara fyrir sumarið 1982, helst frá Sovétríkjunum eða Póllandi, en Pólverjar voru um þær mundir hátt skrifuð knattspyrnuþjóð. Fyrir milligöngu pólsku utanríkisþjónustunnar stóð Frömurum til boða að fá Strejlau til starfa í tvö ár. Kostnaður Framara var mun minni en búast mátti við, enda litu Pólverjarnir á þetta sem kynningar- og þróunarverkefni. Strejlau gjörbreytti skipulagi knattspyrnuþjálfunar innan Fram. Hann minnkaði æfingahópinn til muna og úthýsti þeim sem ekki komu til greina í keppnisliðið. Hann lagði áherslu á stuttan samleik, sem lítið hafði farið fyrir í íslenska boltanum og breytti ýmsu í þjálfun yngri flokkanna. Framarar máttu bíta í það súra epli að falla úr efstu deild haustið 1982, þrátt fyrir að hafa aðeins tveimur stigum minna en liðið í fimmta sæti. Engum kom þó til hugar að kenna þjálfaranum um ófarirnar, enda liðið kornungt. Strejlau þjálfaði Framara í 2. deildinni sumarið 1983 og leiddi liðið til sigurs í henni, auk þess sem Framarar urðu Reykjavíkurmeistarar. Segja má að þessi ár hafi mikilvægur grunnur verið lagður að hinu sigursæla tímabili Framliðsins 1985 til 1990. Strejlau, Andrzej Strejlau, Andrzej Friðrik Dór. Friðrik Dór Jónsson (fæddur 7. október 1988) er hafnfirskur R&B og popp-söngvari og lagahöfundur. Að loknum grunnskóla fór Friðrik Dór í Verzlunarskóla Íslands þar sem hann tók þátt í söngleiknum Welcome to the Jungle. Þar söng Friðrik Dór titillagið auk þess sem hann söng fjölmörg önnur lög, aðeins á fyrsta ári sínu í skólanum. Friðrik Dór tók þátt í fleiri söngleikjum á vegum Verzlunarskólans, þar má nefna söngleikinn Á Tjá og Tundri. Í menntaskóla var Friðrik Dór nokkuð áberandi í félagslífinu, hann tók þátt í fjölmörgum Morfískeppnum fyrir ræðulið skólans en þar var hann frummælandi. Hann tók einnig þátt í ýmsum verkefnum á vegum skólans, svo sem annál og þá var hann meðlimur í 12:00 á síðasta ári sínu í Verslunarskólanum. Tónlistarferill. Friðrik Dór hóf feril sinn með hafnfirsku hljómsveitinni Fendrix, sem hann stofnaði með félögum sínum þegar hann var í 8. bekk í grunnskóla. Hljómsveitin tók þátt í Músíktilraunum árið 2003 og komst í útslit, en sigraði ekki. Friðrik Dór spilaði þar á trommur, en hann hefur æft á hljóðfærið frá því hann var smástrákur. Eftir tapið í Músíktilraunum gekk Friðrik Dór úr hljómsveitinni og hóf síðan sólóferil að loknu námi í Verzlunarskólanum. Hann sló fyrst í gegn haustið 2009 með laginu „Hlið við hlið“. Lagið naut mikilla vinsælda og náði öðru sæti á Íslenska listanum á útvarpsstöðinni FM 957. Lagið var einnig spilað í kvikmyndinni Bjarnfreðarson, sem var frumsýnd um jólin 2009. Keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Reykjavík komu fram í myndbandi við lagið. Því næst gaf hann út lagið „Á sama stað“ þar sem hann fékk rapparann Erp Eyvindarson í lið með sér. Hann gaf út lagið „Fyrir hana“ vorið 2010 og í kjölfarið gaf hann út myndband við það lag. Vorið 2010 tók Friðrik Dór þátt í fimmta þætti af grínþættinum Steindinn okkar, sem sýndur var á Stöð 2. Í lokaatriði þáttarins var frumsýnt myndband við lagið „Geðveikt fínn gaur“ þar sem grínistarnir Steindi jr. eða Steinþór H. Steinþórsson og Ásgeir Orri Ásgeirsson komu fram ásamt Friðriki. Í lok myndbandsins ræna þeir og „myrða“ Friðrik Dór. Áður en banaskotið ríður af fara grínistarnir með fyrstu línuna úr laginu „Hlið við hlið“. Lagið naut talsverðra vinsælda á FM 957 og fluttu Steindi, Ásgeir Orri og Friðrik Dór lagið ásamt nokkrum útvarpsmönnum í Eldhúspartýi FM 957 í nóvember 2010. Friðrik Dór var valinn nýliði ársins á Hlustendaverðlaunum FM 957 sem haldin voru í júní 2010. Í sama mánuði kom út lagið „Keyrum'ettígang“ með röppurunum Henrik Biering og Erpi Eyvindarsyni en Friðrik syngur viðlagið í laginu. Fyrir jólin 2010 gaf Sena út breiðskífuna "Allt sem þú átt" með Friðrik Dór en á henni eru tólf lög. Á plötunni eru meðal annars lögin „Hlið við hlið“, „Fyrir hana“, „Hún er alveg með'etta“ og lagið „Til í allt“ sem Friðrik flytur ásamt Steinda jr. og Ásgeiri Orra. Í nóvember 2010 náði Friðrik Dór þeim áfanga að lögin Hún er alveg með'etta, Til í allt og Keyrum'ettígang voru öll á topp 20 á síðunni tónlist.is, auk þess sem Allt sem þú átt var í 3. sæti yfir mest seldu plöturnar á síðunni. Friðrik Dór var gestur Audda og Sveppa í vinsælum sjónvarpsþætti þeirra á Stöð 2 í febrúar 2011. Í þættinum var frumflutt nýtt lag þeirra félaga, Sjomleh, sem þeir syngja saman. Lagið sló í gegn og náði fyrsta sæti á Íslenska listanum á FM 957. Í apríl 2011 söng Friðrik Dór í endurgerð lags Valgeirs Guðjónssonar, Vopn og verjur, fyrir nýja smokkaherferð á vegum Ástráðs, félags læknanema, Félagasamtakanna Smokkur - sjálfsögð skynsemi, og Íslensku auglýsingastofunnar. Unnsteinn Manúel í hljómsveitinni Retro Stefson tók að sér að endurgera lagið fyrir herferðina og var það frumflutt 18. apríl 2011. Herferðin var endurtekning á sambærilegri herferð frá árinu 1986. Hann var einnig í þætti Jóns Ársæls, "Sjálfstætt fólk" og þar sagði hann m.a. frá stærsta aðdáanda sínum, Höddu Maríu sem setti mynd af honum á afmæliskökuna sína. Laurentius Bureus. Laurentius Bureus (eða Lars Bure) (1623 eða 1624 – 1665), var sænskur fornfræðingur, og þjóðminjavörður Svía 1657–1665. Hann fæddist líklega í Stokkhólmi, sonur biskupsins Jacobus Zäbråzynthius (Bureus) og Catharina Nilsdotter Bothniensis Stiernman. Hann varð stúdent í Uppsölum 1640 og hóf þá nám í fornfræði hjá Johannesi Bureus. Frá árinu 1647 tók hann þátt í rannsóknarferðum um landið sem aðstoðarmaður Johannesar Bureus. Á árunum 1651–1657 var hann erlendis við gagnasöfnun og nám, einkum í Leiden og Kaupmannahöfn. Árið 1657 var hann skipaður þjóðminjavörður og var einnig prófessor í sagnfræði í Uppsalaháskóla 1658–1661. Hann dó í Stokkhólmi 1665. Hann var ógiftur. Laurentius Bureus var ekki atkvæðamikill fræðimaður og ekkert af verkum hans var prentað. Hann hélt áfram rannsóknum læriföður síns á rúnasteinum og lauk þeim hluta sem fjallaði um Uppland. Hann hóf vinnu við stóra fornsænska orðabók en lauk aðeins við bókstafina A og B. Í sambandi við þá vinnu orðtók hann íslensk handrit, t.d. Ormsbók, enda litu menn svo á að málið á þeim væri „fornsænska“. Þá skrifaði hann upp handrit og þýddi fornrit. Georg Stiernhielm. Georg Stiernhielm – áður Göran Olofsson – (7. ágúst 1598 – 22. apríl 1672), var sænskur, fjölfræðingur, skáld og þjóðminjavörður 1648–1651. Hann hefur verið kallaður „faðir sænskrar ljóðlistar“. Æviágrip. Stiernhielm fæddist 1598 í Dölunum í Svíþjóð, þar sem faðir hans Olof Markvardsson starfaði. Hann stundaði fyrst nám í skólanum í Västerås en hlaut framhaldsmenntun í Uppsalaháskóla. Árið 1631 var Stiernhielm aðlaður og breytti hann þá nafni sínu. Sem embættismaður var hann meðal annars þjóðminjavörður og frá 1667 stjórnarmaður í hinu nýstofnaða fornfræðaráði (Antikvitetskollegium). Hann dó í Stokkhólmi 1672. Eins og algengt var á þeirri tíð fékkst Stiernhielm við margar fræðigreinar, stærðfræði, náttúrufræði, heimspeki, lögfræði, málfræði og textafræði, auk skáldskaparins. Hann samdi 50–60 ritverk og hefur um helmingur þeirra varðveist. Ritsafn hans kom út 1975–1978. Sem lögfræðingur kynnti hann sér gömlu sænsku lögbækurnar og gaf út Vestgautalögin fornu. Hann var sá fyrsti sem tók saman skýringar við sænsku lögbækurnar. Hann fékkst einnig við sagnfræði og málfræði og notaði til dæmis handritið Ormsbók við orðabókarvinnu. Hans verður lengst minnst fyrir framlag sitt til sænskrar tungu og bókmennta. Honum tókst að vekja áhuga og meiri virðingu fyrir móðurmálinu, sem þá var frekar lítils metið meðal menntamanna. Áður hafði sænsk ljóðlist mest verið trúarleg en Stiernhielm fór inn á nýjar brautir og vandaði meira til verka en fyrirrennarar hans, án þess þó að geta talist mikill skáldsnillingur. Eitt þekktasta verk hans er kvæðið "Hercules" undir sexliðahætti og er efnið sótt til grískrar fornaldar. Kona hans var Cecilia Burea, bróðurdóttir Johannesar Bureus. Loðvík 16.. Loðvík 16 (23. ágúst 1754 – 21. janúar 1793) var konungur Frakklands frá 1774 til 1791. Varennes. Varennes er sveitarfélag í Frakklandi sem er aðallega þekkt fyrir það að þar var Loðvík 16. handtekinn þegar hann var að flýja byltinguna 1791. Spur Cola. Spur Cola (sem almenningur kallaði Spur eða Spurið) var gosdrykkur frá Canada Dry sem fékkst á Íslandi frá því 19. mars 1954 til ársins 19. mars 1988. Síðustu árin var líka til sykurlaust Spur Cola. Sumarólympíuleikarnir 1906. Sumarólympíuleikarnir 1906 voru haldnir í Aþenu 22. apríl til 2. maí 1906 í tilefni af tíu ára afmæli fyrstu nútímaólympíuleikanna. Í dag eru leikar þessi ekki viðurkennd sem fullgildir Ólympíuleikar. Mikilvægi þeirra í Ólympíusögunni er ótrírætt þar sem með þeim var nýju lífi blásið í Ólympíuhreyfinguna eftir frekar misheppnaða leika árin 1900 og 1904. Aðdragandi. Fyrstu ólympíuleikarnir nútímans voru haldnir í Aþenu árið 1896. Létu þjóðernissinnaðir Grikkir sig dreyma um að leikarnir yrðu bundnir við Grikkland. Alþjóða-Ólympíunefndin var á öðru máli og vildi færa leikana milli stórborga á fjögurra ára fresti. Sú málamiðlun varð ofaná árið 1901 að frá og með 1906 skyldi Aþena fá að skipuleggja Ólympíumót til hliðar við aðalleikana á fjögurra ára fresti. Sú niðurstaða var þó í óþökk Pierre de Coubertin, aðalforsprakka hreyfingarinnar. Ólympíuleikarnir 1900 og 1904 voru að ýmsu leyti misheppnaðir. Þeir teygðust yfir margra mánaða tímabil og féllu í skuggann af heimssýningum sem haldnar voru um sama leyti. Áhuginn á hinum nýendurreistu Ólympíuleikum virtist því á fallanda fæti. Hinir óformlegu Ólympíuleikar 1906 breyttu þessu. Leikarnir. Grísk stjórnvöld studdu rausnarlega við bakið á íþróttamótinu og tryggðu að umgjörð þess yrði hin glæsilegasta. Þátttakendur voru um 900 frá nítján löndum. Ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar sem í dag þykja sjálfsagður hluti af framkvæmd Ólympíuleika: s.s. sérstök lokaathöfn, sá siður að draga að húni þjóðfána verðlaunahafa, hópganga íþróttamanna undir fánum sínum við setningarathöfnina og komið var upp vísi að Ólympíuþorpi þar sem keppendur gistu meðan á leikunum stóð. Frakkar hlutu flest verðlaun á leikunum, því næst komu Bandaríkjamenn og Grikkir. Norðmenn hlutu flest gullverðlaun Norðurlandaþjóða, fern talsins. Keppnisgreinar. Keppt var um 78 gullverðlaun í þrettán íþróttaflokkum. (Fjöldi gullverðlauna gefinn upp í sviga.) Einstakir afreksmenn. Danir urðu vandræðalítið Ólympíumeistarar í knattspyrnu, en auk þeirra kepptu þrjú lið skipuð Grikkjum á mótinu, þar af tvö sem tilheyrðu Ottómanaveldinu. Danska liðið vann báða leiki sína, 5:1 og 9:0, en seinni leiknum var hætt eftir 45 mínútur. Þátttaka Dana í keppninni skýrðist af því að gríski krónprinsinn var tengdasonur Kristjáns níunda Danakonungs. Írskur þjóðernissinni, Peter O´Connor, vann til gullverðlauna í þrístökki og silfurverðlauna í langstökki, 34 ára að aldri. O´Connor hafði verið skráður til leiks sem Breti, enda Írland ekki sjálfstætt ríki. Við verðlaunaafhendinguna fyrir langstökkið tókst O´Conor ásamt bandarískum og írskum félögum að halda á lofti fána írskra þjóðernissinna, en koma í veg fyrir að breski fáninn væri dreginn að hún. Er þetta líklega fyrsta dæmið um pólitíska mótmælaaðgerð á Ólympíuleikum. Kanadabúinn William Sherring fór með sigur af hólmi í Maraþonhlaupinu. Hann var verkamaður við kanadísku járnbrautirnar og þurfti að mestu að fjármagna ferðalag sitt sjálfur. En náði þó að öngla saman fyrir farseðli. Hann vann sem lestarstarfsmaður í Aþenu í tvo mánuði fyrir leikana og náði þannig að venjast aðstæðum. Sherring fékk styttu af gyðjunni Aþenu og lamb að sigurlaunum. Bandaríkjamaðurinn Martin Sheridan vann tvenn gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun fyrir stökk- og kastgreinar. Hann var efstur á verðlaunapalli í kringlukasti 1904, 1906 og 1908. Tennisleikarinn Max Decugis frá Frakklandi vann til þriggja gullverðlauna á leikunum. Hann hafði unnið til silfurverðlauna í tvíliðaleik árið 1900, þá átján ára að aldri. Tuttugu árum síðar, á ÓL 1920 vann hann til verðlauna í tvenndarleik. Fáir, ef nokkrir, hafa unnið til verðlauna á ÓL með svo löngu millibili. Bandaríkjamaðurinn Ray Ewry vann til tveggja gullverðlauna á leikunum, en auk þeirra gat hann státað af átta gullverðlaunum á viðurkenndum Ólympíuleikum sem gerir hann að einum öflugasta ÓL-íþróttamanni sögunnar. Öll verðlaun Ewrys voru fyrir keppni í stökkgreinum án atrennu. Heimsmet hans í langstökki án atrennu, 3,48 metrar var enn við lýði þegar keppni í greininni var hætt á fjórða áratugnum. Hrísar í Svarfaðardal. Hrísar í Svarfaðard, Dalvík og Karlsárfjall í bak Hrísar er bær í utanverðum Svarfaðardal, skammt frá Dalvík. Þótt bæjarins sé ekki getið í Landnámu er líklegt að þar hafi verið búið allt frá landnámsöld. Hrísa er fyrst getið í Valla-Ljóts sögu vegna bardaga sem þar var háður á 11. öld. Bærinn heitir eftir víðáttumiklum hrís- og lyngmóum, Hrísamóum, sem setja enn svip sinn á þetta svæði. Neðan við bæinn er Hrísatjörn, lítið stöðuvatn, þar er mikið fuglalífi og nokkur silungsveiði. Við tjörnina er Hrísahöfði. Tjörnin og höfðinn eru innan Friðlands Svarfdæla. Hrísahöfði er jökulgarður sem hefur myndast utan við skriðjökulstungu sem lá út allan Svarfaðardal í ísaldarlok fyrir um 11000 árum. Á sama tíma hlóðust upp miklar malareyrar þar sem Hrísamóar eru nú og mararhjallar mynduðust utan í Hrísahöfða. Hæð hjallanna sýnir að þá stóð sjór um 15 m hærra en hann gerir nú. María Markan. María Markan Östlund (fædd "María Einarsdóttir"; 25. júní 1905 – 15. maí 1995) var íslensk óperusöngkona. Hún er af mörgum talin ein helsta klassíska söngkona sem Ísland hefur alið. María starfaði mjög víða, til dæmis í Berlín, Kaupmannahöfn, London og New York. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1940. Æfiágrip. María fæddist í Ólafsvík og ólst síðar upp í Laugarnesinu í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Einar Markússon, síðar aðalbókari ríkisins, og kona hans, Kristín Árnadóttir. María var alin upp á mjög tónelsku heimili og æfði píanóleik frá 8 ára aldri. Hún stundaði síðar nám við Kvennaskóla Reykjavíkur í tvö ár, og hugðist leggja stund á hjúkrun en var hvött til að einbeita sér að tónlistinni. Hún hélt sína fyrstu sjálfstæðu tónleika á íslandi árið 1930. Hún stundaði svo söngnám hjá Ellu Schmucker í Berlín, en hún var sjálf nemandi Pauline Viardot-Garcia af hinni víðfrægu Garcia söngfjölskyldu. Maria Markan hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín árið 1935 og var ráðin sama ár að Schiller-óperunnni í Hamborg. Á næstu árum söng hún víðsvegar um Þýskaland og Norðurlönd. Haustið 1938 söng María hlutverk greifafrúarinnar í Brúðkaupi Figaros eftir Mozart við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Þar heyrði hinn frægi hljómsveitarstjóri Fritz Busch til hennar og réð hana umsvifalaust til að syngja sama hlutverk við hina nafntoguðu óperu í Glyndebourne á Bretlandi. Í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar fór Maria Markan í sex mánaða söngferðalag til Ástralíu. Þaðan lá leiðin til Kanada og loks til New York, þar sem María Markan var ráðin að Metropolitan-óperunni. María Markan starfaði við Metropolitan-óperuna á árunum 1941 – 42 en árið 1942 gekk hún að eiga Georg Östlund, sem var sonur Davíðs trúboða og prentsmiðjustjóra. Þau hjón bjuggu fyrst í New York, síðan í Kanada en fluttust til Íslands árið 1955. Þau eignuðust einn son, Pétur Östlund, sem er þekktur tónlistarmaður og býr og starfar i Svíþjóð. Eftir heimkomuna rak Maria Markan söngskóla í Reykjavík og kenndi mörgum verðandi söngvurum. Eftir lát eiginmanns síns fluttist María Markan aftur í Laugarnesið. Stífkrampi. Stífkrampi er sjúkdómur eða lífshættulegt krampaástand sem stafar af eitrinu "spasmin" sem kemur úr bakteríunni "Clostridium tetani". Þessi baktería er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít og getur smitast með óhreinindum sem komast í sár. Bakterían getur aðeins vaxið í loftfirrtu umhverfi.. Bakterían framleiðir spasmin eingöngu á smitstaðnum en þaðan berst eitrið með taugaþráðum um líkamann. Spasmin hefur áhrif á vöðva með herpingi og stífni sem getur leitt til dauða. Áhrif koma fyrst fram í andliti og hnakka því þar eru taugaþræðir stuttir og stífur hnakki og andliti eru þess vegna einkenni. Eitrið kemur í veg fyrir að vöðvar geti slakað á. Til eru móteitur sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess en eina örugga vörnin er bólusetning. Byggðasafnið Hvoll. Byggðasafnið að Hvoli á Dalvík. Byggðasafnið Hvoll við Karls rauða torg á Dalvík var opnað 12. desember 1987. Safnið er þrískipt; byggðasafn, náttúrgripir og persónusaga. Munir safnsins eru flestir frá Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd. Þar eru meðal annars áhöld og innanstokksmunir frá fyrri tíð sem vitna um þróun verkmenningar í sveitarfélaginu og sögu byggðarinnar. Einnig eru þar skrautmunir af ýmsu tagi gerðir af hagleiksfólki af svæðinu. Eftirmynd af Upsakristi, hinni fornu róðu úr Upsakirkju, er þar til sýnis. Í safninu er fjöldi uppstoppaðra íslenskra fugla og dýr úr undirdjúpum sjávar. Einnig eru þar spendýr t.d. ísbjörn. Auk þess er grasasafn, skeljasafn, eggja- og steinasafn. Stórt kort af Friðlandi Svarfdæla sýnir hvaða fuglar verpa þar eða hafa viðkomu á svæðinu. Hluti safnsins er tileinkaður minningu þekktra einstaklinga úr byggðinni — Jóhanns Svarfdælings, Kristjáns Eldjárns forseta Íslands, bræðranna Jóns, Kristjáns og Hannesar Vigfússona frá Litla-Árskógi auk sr. Friðriks Friðrikssonar æskulýðsleiðtoga. Spói. Spói (fræðiheiti "Numenius phaeopus") er vaðfugl og farfugl af snípuætt. Spóinn er háfættur og með langt og íbjúgt nef, um 40 sm á lengd. Vænghafið er um 25 sm. Nef spóa er næmt leitartæki sem hann notar til að leita í fjörusandi að burstaormum, lindýrum og öðrum hryggleysingjum. Spóinn er vaðfugl en gerist oft mófugl um varptíma og er þá oft að finna í mólendi og lyngmóum á láglendi. Spói er einkvænisfugl og virðast sambönd endast ævilangt. Parið helgar sér óðal og hefur ástarleiki með dillandi hljóðum. Eru þessi vell með tilbrigðum, stundum langvell, stundum hringvell. Hreiður er einfalt og áberandi og eru eggin oftast fjögur. Foreldrarnir skiptast á að sitja á eggjum. Ungarnir eru hreiðurfælnir, þ.e. þeir fara strax á stað að bjarga sér og leita eftir skordýrum. Þeir verða fleygir 6 vikna gamlir. Spóar á Íslandi. Spóar koma til Íslands í byrjun maí og eru flestir farnir í september. Spóar fara að safnast saman í hópa sunnanlands í lok ágúst og byrjun september og fljúga þá stundum í oddaflugi. Stærstu hóparnir yfirgefa landið um miðjan september og fara þá til vetursetu í Vestur-Afríku (Senegal). Á veturna halda þeir sig oft á kjarrsléttum og veiða engisprettur. Engir íslenskir spóar (Numenius phaeopus) hafa hérna vetursetu en stundum hafa fjöruspóar (Numenius arquata) hér vetursetu en þeir eru stærri en íslenskir spóar eða um 58 sm á lengd. Stofnstærð við Ísland er um 200.000 varppör. Spóar eru friðaðir. Spóar. Spóar eru átta flokkar fugla af tegundinni "Numenius", einkenni þeirra eru mjór niðursveigður goggur og brúnar fjaðrir sem breytast lítið eftir árstíðum. Í Evrópu er vanalega aðeins talað um eina tegund spóa, það er að segja "Numenius arquata". What Happens in Vegas. What Happens in Vegas er bandarísk rómantísk-gamanmynd frá árinu 2008. Með aðalhlutverkin fara Cameron Diaz og Ashton Kutcher. Titillinn er byggður á fræga frasanum: „það sem gerist í Vegas, verður eftir í Vegas“ (e. „what happens in Vegas, stays in Vegas“) Söguþráður. Í New York-borg er uppstífa verðbréfasalanum Joy Ellis McNally (Cameron Diaz) sagt upp af unnustanum í óvænta afmælispartýinu hans sem hún heldur fyrir hann, fyrir framan alla vini þeirra. Á meðan er hinn rólegi smiður Jack Fuller (Ashton Kutcher) rekinn úr vinnunni, þar sem faðir hans, Jack Sr. (Treat Williams), er yfirmaðurinn. Bæði verða mjög tilfinningalega rugluð og fara þau með bestum vinum sínum, barþjóninum Tipper (Lake Bell), og lögfræðingnum Hater (Rob Corddry) og fara í villta ferð til Las Vegas. Þau hittast af tilviljun þegar þau fá sama hótelherbergið vegna villu í tölvunni. Eftir að hafa leyst misskilninginn og fengið mun betri herbergi og afsláttarmiða á hina ýmsu klúbba, skemmta þau sér og drekka saman og enda Joy og Jack kvöldið á því að gifta sig. Daginn eftir átta þau sig á mistökunum og ákveða að skilja. Áður en þau ger það, notar Jack smápening sem Joy gefur honum, í spilakassa. Hann fær þrjár milljónir dollara í vinning og Joy minnir Jack á að þau séu gift og þar með eigi hún rétt á helmingnum af peningunum. Parið snýr aftur til New York þar sem þau reyna að skilja. Dómarinn þeirra, (Dennis Miller) fyrirskipar að parið megi ekki skilja fyrr en þau reyni að láta hjónabandið ganga í hálft ár, á meðan þau fara reglulega tíma til hjónabandsráðgjafa (Queen Latifah). Ef þau rækta hjónabandið en munu enn vilja skilnað að sex mánuðum loknum, má hvort þeirra eiga helminginn. Ef annað hvort þeirra sýnir að það leggi ekki metnað í hjónabandið mun dómarinn gera féð upptækt. Nýgiftu hjónin finna sífellt upp á meiri og betri brögðum til að klekkja á hinu. Til dæmis segir Jack Joy að tíminn hjá hjónabandsráðgjafanum hafi verið færður til að sýna að hún leggi ekki vinnu í hjónabandið og Joy býður fullt af stelpum í íbúðina þeirra til að reyna að fá Jack til að halda framhjá sér. Jack gefur fyrrum unnusta Joy, Mason (Json Sudeikis), trúlofunarhringinn til baka án þess að Joy viti nokkuð af því. Í helgarfríi með vinnunni hennar Joy, finna Jack og Joy sig loksins vera að vaxa og þroskast og þróa með sér samband og átta sig á því að hjónaband þeirra hefur dregið það besta fram í þeim báðum. Eftir að þau koma heim úr fríinu, er kominn tími til að dómarinn ákveði hvað verði um peningana. Á leiðinni í dómshúsið hittir Joy fyrrverandi unnustann, Mason, og hann segir henni að hann vilji hana aftur. Hann gefur henni trúlofunarhringinn til baka og segir henni að hún sé nógu góð fyrir hann. Joy áttar sig á að Jack hefur planað þetta svo að hún byrji aftur með Mason og haldi þar af leiðandi framhjá honum svo að Jack fengi alla peningana. Joy gengur frá Mason og fer í dómshúsið. Þar segir hjónabandsráðgjafinn að þau hafi virkilega lagt sig fram við að rækta hjónabandið. Dómarinn ákveður að þau fái hvort um sig 1,5 milljónir, fyrir utan skatta, skuldir Joy og þá peninga sem Jack notaði til að stofna sitt eigið smíðaverkstæði. Joy segir dómaranum að hún vilji enga peninga og gefur Jack trúlofunarhringinn aftur og segir að hún vilji ekkert frá honum. Jack áttar sig þá á að hún hefur talað við Mason. Joy fær stöðuhækkun, en segir yfirmanninum að hún vilji frekar vera hamingjusöm við að gera ekki neitt heldur en að gera eitthvað sem hún hatar og líða illa. Í næsta atriði er Jakc að tala við foreldra sína og segja þau honum að það hafi í rauninni litið þannig út að Jack og Joy væru raunverulega ástfangin. Þá áttar hann sig á mistökunum, fer til vinkonu Joy, Tipper, til að komast að því hvar hún er. Hann hefur grun um að hún hafi farið á strönd (Fire-eyjuna, New York) sem hún sagði honum frá, eini staðurinn þar sem hún er hamingjusöm. Jack biður hana að giftast sér (aftur) og hún játar. Þegar þau tvö sameinast segir Joy að hún hafi hætt í vinnunni sinni og viti ekkert hvað hún ætli að gera næst. Jack minnir hana þá á að þau eiga fullt af peningum. Joy segir að þau hafi unnið stóra vinninginn og Jack getur ekki neitað því (þá á hann bæði við peningana og Joy). Á meðan kreditlistinn rúllar sést hvað gerðist á milli Tipper og Hater þegar Jack og Joy giftust. Þar sjást Tipper og Hater einnig skipuleggja plan til að hefna sín á Mason, byggt á ráði frá Tipper fyrr í myndinni. Lafði Margrét Beaufort. Lafði Margrét Beaufort biðst fyrir. Málverk eftir óþekktan listamann. Lafði Margrét Beaufort (31. maí 1443 – 29. júní 1509), greifynja af Richmond og Derby, var ensk hefðarkona á 15. öld, ættmóðir Tudor-ættar, móðir Hinriks 7. Englandskonungs og amma Hinriks 8. Árið 1509 var hún skamma hríð ríkisstjóri Englands fyrir hönd sonarsonar síns. Margrét var dóttir John Beaufort, hertoga af Somerset, sem var sonarsonur Johns af Gaunt, sonar Játvarðar 3., og Margrétar konu hans. Faðir hennar hafði gert samkomulag við Hinrik 6. Englandskonung um að ef hann dæi skyldi kona hans hafa forsjá dóttur þeirra og ráða giftingu hennar. Þeir konungur urðu svo ósáttir og þegar faðir Margrétar dó ári eftir fæðingu hennar sveik konungur samstundis heit sítt og fól hertoganum af Suffolk forræði Margrétar, sem var einkaerfingi auðæfa föður síns. Hún var þó áfram hjá móður sinni. Snemma árs 1450, þegar Margrét var sex ára að aldri, var hún gefin saman við John de la Pole, son hertogans af Suffolk, sem var ári eldri. Páfaleyfi þurfti til giftingarinnar, þó ekki vegna æsku brúðhjónanna, heldur vegna þess að þau voru of skyld. Þremur árum seinna var hjónabandið ógilt og konungurinn lét hálfbræður sína, Jasper og Edmund Tudor jarl af Richmond, fá forræði Margétar litlu, enda hafði hann þá þegar ákveðið að hún ætti að giftast Edmund. Þau gengu í hjónaband 1. nóvember 1455 og var Margrét þá 12 ára en Edmund 24 ára. Rúmlega hálfu ári síðar var Edmund, sem var Lancaster-megin í Rósastríðunum, handsamaður af mönnum hertogans af York og hafður í haldi í Carmarthen-kastala í Wales. Þar dó hann úr plágu í nóvember. Margrét var þá þrettán og hálfs árs og komin sjö mánuði á leið. Hún ól son 28. janúar 1457, Hinrik Tudor, sem síðar varð Hinrik 7. Fæðingin var mjög erfið og Margrét ól ekki fleiri börn. Hinrik ólst að mestu leyti upp hjá föðurfjölskyldu sinni í Wales og síðar í útlegð í Frakklandi. Margrét gekk að eiga þriðja mann sinn, Henry Stafford, son hertogans af Buckingham, 3. janúar 1462 og var þá átján ára. Þau þurftu undanþágu vegna skyldleika. Hjónaband þeirra virðist hafa verið hamingjusamt en Stafford dó 1471. Margrét virðist þó hafa virt Edmund mann sinn meira, kannski vegna þess að hann var faðir sonar hennar, því að hún tók fram í erfðaskrá sem hún gerði 1472 að hún vildi láta grafa sig við hlið hans. Í júní sama ár giftist hún Thomas Stanley en það virðist hafa verið hagkvæmnishjónaband og þegar frá leið kaus hún að búa ein og vann skírlífisheit með samþykki eiginmanns síns. Eftir dauða Játvarðar 4., valdatöku Ríkharðs 3. bróður hans og hvarfs prinsanna í turninum taldi Hinrik sonur Margrétar sig eiga erfðatilkall til krúnunnar þar sem móðir hans var barnabarnabarn Johns af Gaunt, þriðja sonar Játvarðar 3. John hafði gengið að eiga frillu sína, Katherine Swynford, árið 1396 og áttu þau þá saman fjögur börn, þar á meðal John Beaufort, afa Margrétar. Ríkharður 2., þáverandi konungur, hafði lýst börnin skilgetin en erfðakrafa Hinriks þótti vafasöm þar sem hún var um kvenlegg og langafi hans þar að auki fæddur utan hjónabands. Margrét gerði þá bandalag við Elísabetu Woodville, ekkju Játvarðar 4., og sömdu þær um trúlofun Hinriks og Elísabetar af York, elstu dóttur Elísabetar Woodville og Játvarðar 4. Þetta styrkti erfðakröfu Hinriks til muna. Í orrustunni á Bosworth-völlum árið 1485 féll Ríkharður 3. og Thomas Stanley setti kórónu hans á höfuð Hinriks stjúpsonar síns. Stanley var síðar gerður jarl af Derby og var Margrét eftir það titluð greifynja af Richmond og Derby. Við hirðina var hún hins vegar kölluð konungsmóðirin og naut mikillar virðingar. Þingið veitti henni rétt til að eiga eignir án þess að eiginmaður hennar hefði umráð yfir þeim, eins og hún væri ógift. Hún er talin hafa haft mikil áhrif á son sinn og verið mjög valdamikil. Þegar Hinrik dó 21. apríl 1509 hafði hann skipað móður sína tilsjónarmann erfðaskrárinnar og hún var gerð að ríkisstjóra fyrir sonarson sinn, Hinrik 8., sem talinn var of ungur til að stýra ríkinu einn. Ríkisstjóratíð hennar varð þó ekki löng því hún dó tveimur mánuðum á eftir syni sínum. Margrét var vel menntuð og mikil áhugamanneskja um menntun. Hún lét reisa ókeypis almenningsskóla í Wimborne í Dorset og gaf fé til stofnunar tveggja skóla (colleges) við háskólann í Cambridge. Fyrsti kvennaháskólinn í Oxford, Lady Margaret Hall, var nefndur eftir henni. Hreppsnefnd Holtshrepps. Hreppsnefnd Holtshrepps var lýðræðislegur vettvangur kjörinna fulltrúa íbúa Holtshreppi. Hreppsnefnd bar ábyrgð því að framfylgja þeim málefnum sem ríkið fól sveitarstjórnum. 1986. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 14. júní 1986. 1982. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 26. júní 1982. 1966. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1966. 1962. Úrslit úr hreppsnefndarkosningunum 24. júní 1962 1958. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1958. Í þessum kosningum var minnsta kjörsókn á landinu í Holtshreppi, 23,8%.. 1954. Úrslit úr hreppsnefndarrkosningunum 1954. Heimildir. Holtshreppur H Leap Year. Leap Year er bandarísk rómantísk gamanmynd frá árinu 2010. Í aðalhluverkum eru Amy Adams og Matthew Goode sem aðalpersónurnar Anna og Declan. Söguþráður. Anna (Amy Adams) ferðast til Dublin á Írlandi til að biðja kærastans Jeremy (Adam Scott) á hlaupársdegi, 29. febrúar, vegna þess að samkvæmt írskri hefð má kona biðja mann um að giftast sér á hlaupársdegi. Þegar hún er hálfnuð flugleiðina til Dublin skellur á mikið óveður og neyðist flugvélin til að lenda í Cardiff sem er í Wales. Anna leigir bát til að fara með hana til Cork en veðrið er það slæmt að það neyðir hana að landi á Dingle-skaganu. Hún krefst hjálpar frá pirruðum írskum kráareiganda, Declan (Matthew Goode) til að keyra hana þvert yfir landi til Dublin svo að hún komist í tæka tíð og byrjar Anna að efast um samband sitt við Jeremy þegar hún nær tengslum við Declan. Í fyrstu neitar Declan að keyra Önnu til Dublin en eftir hótun frá Önnu morguninn eftir fellst hann á að keyra hana fyrir 500 evrur. Þau bryrja í gömlum bíl Declans en þau lenda fljótlega í kúahjörð. Anna rekur þær í burtu en stígur í kúamykju svo að hún hallar sér að bílnum sem rennur í vatnið. Reið við Declan, labbar Anna í burtu frá honum, húkkar bíl og býðst bílstjórinn til að taka töskuna hennar og keyrir svo af stað, Declan til mikillar gleði. Þau komast loksins á pöbb þar sem þau hitta mennina sem eru að fara í gegnum farangur Önnu. Declan kýlir þá og eru þau bæði rekin út af eiganda staðarins. Þau koma loksins gangandi að lestarstöð. Til að drepa tímann þar til lestin kemur fara þau að nálægum kastala. Declan spyr Önnur hverju hún myndi bjarga ef það kviknaði í íbúðinni hennar og hún hefði eina mínútu, en hún getur ekki svarað. Lestin kemur snemma og Anna missir af henni. Þau fara á lítið gistihús („bed and breakfast“) þar sem þau neyðast til að segjast vera gift svo að þau megi gista hjá íhaldsömu eigendunum. Á meðan kvöldverðurinn stendur yfir neyðast Anna og Declan til að kyssast sem kemur upp spennu á milli þeirra. Þessa nótt sofa þau einnig í sama rúmi. Næsta dag flýja þau undan hagléli inn í brúðkaup. Næsta dag komast þau með rútu til Dublin. Á leiðinni á hótelið stoppa þau í almenningsgarði og Declan segir henni að hann hafi einu sinni verið trúlofaður en unnustan hafi farið frá honum, byrjað með besta vini hans og tekið fjölskylduhring Declans með sér til Dublin. Anna hvetur hann til þess að sækja hringinn. Þegar Anna er komin á hótelið til Jeremy biður hann um hönd hennar og hún játar eftir að hafa hikað en Declan gengur í burtu. Í trúlofunarveislunni kemst Anna að því að Jeremy bað hana aðeins að giftast sér til að ganga í augun á umboðsmanni íbúðarinnar sem þau voru að reyna að kaupa. Miður sín setur Anna eldvarnarkefið í gang og horfir á Jeremy grípa öll raftækin áður en hann flýr úr íbúðinni. Anna fer aftur til Dingle-skagans þar sem Declan gengur vel að reka pöbbinn/hótelið/veitingastaðinn. Hún kemur með þá tillögu að þau byrji saman til að gera engin plön og Declan yfirgefur herbergið. Anna túlkar þetta sem höfnun, svo hún fer út og stendur á hamri yfir sjónum. Declan eltir hana út og segir, „Frú O'Brady Callaghan, hvert í fjandanum ertu eiginlega að fara?“ og biður hana að giftast sér með hringnum sem hann hafði sótt til fyrrum unnustu sinnar þegar hann var í Dublin. Stuttu seinna sjást þau akandi í bíl Declans með skilti aftan á sem á stendur: „Nýgift“. Skarfur. Skarfur (fræðiheiti: "Phalacrocoracidae") er ætt pelíkanfugla sem telur um 40 tegundir um allan heim nema á eyjum í miðju Kyrrahafi. Skarfar eru sjófuglar sem halda sig við ströndina eða á vötnum nálægt sjó. Flestir skarfar eru dökkleitir eða svartir, með langan mjóan gogg með krók á endanum. Skarfar lifa á fiski og kafa eftir æti. Þeir verpa í varpnýlendum á skerjum og í klettum. Skráarending. Skráarending er viðskeyti aftan við heiti tölvuskráar sem segir til um í hvaða skráarsniði innihald hennar er. Oftast er skráarending aðgreind frá skráarheiti með punkti. Misjafnt er hvað stýrikerfi gera við skráarendingar. Í sumum stýrikerfum (t.d. DOS) eru skráarendingar skilyrði, en í öðrum (t.d. RISC OS) eru þær ekki notaðar. Sum stýrikerfi takmarka fjölda stafa í skráarendingum meðan önnur gera það ekki. Til dæmis eru viðurkenndar skráarendingar fyrir HTML-stiklutexta tvær: codice_1 og codice_2 þar sem sú fyrri var fyrir stýrikerfi sem ekki leyfa fleiri en þrjá stafi í skráarendingu. Lónasóley. Lónasóley (fræðiheiti "Ranunculus trichophyllus Chaix" eða "Ranunculus confervoides" eða "Ranunculus aquatilis") er lítil vatnajurt með hvítum blómum. Hún vex á kafi í vatni en blómin fljóta og blómgast á yfirborðinu. Lónasóley hefur oft fundist í tjörnum og votlendi á hálendi Íslands, allt upp í 770 m hæð. Mirinda. Mirinda var vinsæll gosdrykkur sem til var á 20. öld. Jeu de paume. Jeu de paume-kappleikur frá 17. öld.Jeu de paume er ævagömul frönsk íþróttagrein, sem telja má forföður tennisíþróttarinnar. Keppt hefur verið í ólíkum afbrigðum hennar á Ólympíuleikum, bæði sem sýningargrein og fullgild keppnisgrein. Reglur og uppruni. Jeu de paume þróaðist á ofanverðum miðöldum úr boltaleikjum sem þá voru vinsælir. Til eru kenningar þess efnis að iðkun hennar hafi byrjað meðal munka í munkaklaustrum. Í fyrstu gekk leikurinn út á að tveir keppendur slógu á milli sín knött með lófunum, fyrst berhentir en síðar í hönskum. Af því er dregið nafn greinarinnar ("paume" merkir lófi, svo orðrétt þýðing væri "lófaknattleikur"). Eftir miðja fimmtándu öld var hins vegar farið að slá knöttinn, harða korkkúlu, með spöðum. Nútímakeppnisvöllur í Jeu de paume. Fyrstu keppnisvellirnir hafa væntanlega verið hallargarðar eða klausturgarðar með veggi á allar hliðar. Net er strengt yfir miðjan völlinn sem keppendur reyna að slá yfir. Nota má veggina umhverfis sem batta, líkt og í skvassi, en á veggjunum geta verið ýmis konar útskot, þakskyggni eða annað sem gerir skopp knattarins óútreiknanlegra. Engir tveir keppnisvellir í Jeu de paume eru eins. Stigatalning í Jeu de paume minnir mjög á tennis og eins og í tennis er keppt bæði í ein- og tvíliðaleik. Til er annað afbrigði af Jeu de paume sem leikið er utandyra á bersvæði og svipar það enn meira til nútímatennis. Vegna þessara líkinda tala enskumælandi þjóðir gjarnan um greinina sem „alvöru tennis“. Jeu de paume í mannkynssögunni. Tennisvallareiðurinn (f. Le Serment du Jeu de paume), málverk eftir Jacques-Louis David frá 1791.Íþróttin þótti við hæfi fyrirfólks í árnýöld. Hinrik VIII Englandskonungur var ástríðufullur spilari. Talið er að önnur eiginkona hans, Anna Boleyn, hafi verið að horfa á keppni í Jeu de paume þegar hún var handtekinn og konungurinn hafi verið í miðjum leik þegar honum barst fregnin af aftöku hennar. Karl VIII Frakklandskonungur lést að völdum höfuðhöggs sem hann fékk í kappleik árið 1498. Íþróttin varð öðrum frönskum konungi að aldurtila tæpum 200 árum fyrr. Loðvík X fékk lungnabólgu og lést eftir að hafa drukkið of mikið kælt rauðvín yfir óvenjulangri og spennandi viðureign. Jeu de paume kom óbeint við sögu í frönsku byltingunni. Tennisvallareiðurinn svokallaði, þar sem fulltrúar þriðju stéttar risu upp gegn konungsvaldinu, var einmitt svarinn í einni hinna ótalmörgu keppnishalla Parísarborgar. Elsta meistarakeppni í heimi. Keppt hefur verið um heimsmeistaratitil í Jeu de paume óslitið frá árinu 1740 og getur engin önnur íþrótt státað af jafnlangri samfelldri sögu. Lengi vel gátu sitjandi heimsmeistarar neitað að keppa við áskorendur sína og eru dæmi um meistara á nítjándu öld sem héldu titlinum í þrjá áratugi. Ólympíuíþrótt. Keppt var í Jeu de paume á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 1908. Ellefu keppendur tóku þátt, allt Bretar og Bandaríkjamenn. Gullverðlaunahafinn kom frá Bandaríkjunum, Jay Gould II. Hann var barnabarn járnbrautakonungsins Jay Gould, sem var á sinni tíð einn ríkasti maður í heimi en þótti einkar ófyrirleitinn kaupsýslumaður. Jeu de paume var aftur á dagskrá á Ólympíuleikunum 1924, en þá sem sýningargrein. Lounge paume, utanhússafbrigði Jeu de paume var sýningargrein á Ólympíuleikunum 1900. Hún er iðkuð enn í dag, en útbreiðsla hennar er að mestu bundin við ákveðin héruð í Frakklandi. Vínviður. Vínviður er ættkvísl klifurjurta af vínviðarætt. Aldin hans nefnast vínber. Vuvuzela. Vuvuzela er hljóðfæri úr plasti sem mælist um 65 cm að lengd. Þegar blásið er í vuvuzela heyrist hár B♭3 tónn. Ýmsar gerðir af vuvuzela eru til og gefa frá sér mismuanandi tónsvið eftir stærð og útliti. Svipað hljóðfæri sem heitir "corneta" er notað í Brasilíu og öðrum löndum í Suður-Ameríku. Vuvezela er mest notað á knattspyrnuleikum í Suður-Afríku, enda orðið tákn leikvanga þar í landi. Vuvuzela varð þekkt um allan heim á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu 2010 sem núna er haldið í Suður-Afríku. Töluvert hefur verið kvartað yfir notkun vuvuzela á leikjum að undanförnu. Hafa menn jafnvel hugleitt að banna á vuvuzela á HM en lítið hefur þó farið fyrir framkvæmdum í þeim efnum. Landráð. Landráð eða föðurlandssvik eru skilgreind sem brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkins, út á við eða inn á við. Sá sem gerir sig sekan um landráð er landráðamaður eða föðurlandssvikari. Í íslensku merkti orðið „landráð“ upphaflega að ráða yfir landi og í fornum ritum er talað um að menn hafi farið með landráð og er þá átt við að þeir hafi stýrt landi. Orðið er þó einnig notað í nútímamerkingu í Heimskringlu. Misjafnt er eftir löndum hvort hugtakið landráð nær einungis yfir athafnir sem stefnt er að því að skaða föðurlandið og þá oftast öðru ríki til hagsbóta eða hvort það er einnig haft um aðgerðir sem ætlað er að kollvarpa stjórnvöldum eða þjóðhöfðingja. Einn þekktasti landráðamaður allra tíma var Norðmaðurinn Vidkun Quisling, sem var leiðtogi norska nasistaflokksins "Nasjonal Samling" og forsætisráðherra leppstjórnarinnar 1942-1945. Hann var tekinn af lífi 24. október 1945. Föðurlandssvikarar eru oft kenndir við hann og kallaðir "kvislingar". Gísli Ásmundsson. Gísli Ásmundsson (24. mars 1906 – 29. júní 1990) var þýskukennari og afkastamikill þýðandi. Hann er einna þekktastur fyrir þýðingar sínar á bókum Stefan Zweig ("Magellan, könnuður Kyrrahafsins"), Thomas Mann ("Tóníó Kröger"), Goethe ("Raunir Werthers unga") og Karen Blixen ("Jörð í Afríku"). Þá þýddi hann einnig fjölda barnabóka, svo sem bækurnar um Hardý-bræðurna Frank og Jóa. Gísli stundaði nám í bókmenntasögu, þýsku og mannkynssögu við háskólana í Heidelberg, Leipzig og Vín á árunum 1930-1933. Hann var kennari við Verslunarskóla Íslands í fjörtíu ár, frá 1933 til 1973. Ólympíuleikar Zappas. Ólympíuleikar Zappas voru íþróttaleikar sem haldnir voru í Aþenu árin 1859, 1870 og 1875 undir heitinu Ólympíuleikar, þótt þeir séu í dag ekki viðurkenndir sem slíkir. Í seinni tíð eru mót þessi yfirleitt kennd við forsprakka þeirra, gríska auðkýfinginn Evangelis Zappas. Eru leikarnir taldir mikilvægir í sögu endurreisnar Ólympíuleikanna. Upphaf og aðdragandi. Ottó Grikklandskonungur lagði blessun sína yfir Ólympíuleika Zappas. Grísk þjóðernishyggja efldist mjög um og fyrir miðja nítjándu öld. Mikilvægur þáttur hennar var að dusta rykið af ýmsum hefðum frá gullaldarskeiði Grikklands til forna. Hugmyndin um endurreisn Ólympíuleikanna kom fram á fjórða áratug nítjándu aldar og var haldið á lofti af rómantískum skáldum. Ekki voru allir þó jafnhrifnir af hugmyndinni, sem ýmsir töldu til marks um fortíðarþrá og að Grikkir ættu fremur að horfa til framtíðar en að eltast við löngu horfnar hátíðir. Kaupsýslumaðurinn Evangelis Zappas, einn ríkasti maður Austur-Evrópu á sinni tíð, heillaðist af þessum hugmyndum og bauð grískum stjórnvöldum árið 1856, að kosta slíka leika. Ottó Grikklandskonungur veitti að lokum samþykki sitt fyrir að settir yrðu á stofn leikar, sem halda skyldi á fjögurra ára fresti og kenna mætti við Ólympíu. Leikarnir 1859. Þann 15. nóvember 1859 voru þessir nýju Ólympíuleikar settir í fyrsta sinn. Keppendur voru allir af grísku bergi brotnir og voru þeir ýmist íbúar Grikklands eða hluti af gríska þjóðarbrotinu í veldi Óttómana. Þar sem Panaþenaíkóleikvangurinn hafði ekki verið endurnýjaður, fór keppnin fram á stóru togi í miðborginni. Aðstæður voru þar erfiðar og áhorfendur sáu lítið af því sem fram fór. Þá var kalt í veðri um þessar mundir. Íþróttamennirnir voru sérkennilegur samtíningur. Öllum var frjálst að skrá sig og þar sem peningaverðlaun voru í boði, ákváðu margir að spreyta sig þrátt fyrir að hafa enga reynslu af íþróttum. Keppnisgreinarnar voru valdar með það í huga að líkja eftir íþróttum fornaldarinnar. Keppt var í hlaupi, stökki, fangbrögðum, spjótkasti, kringlukasti og stauraklifri. Sigurlaunin í einni keppnisgreininni voru gefin af Englendingurinn Dr. William Penny Brookes, sem stóð um svipað leyti fyrir tilraun til að stofnsetja Ólympíuleika í Bretlandi. Brookes átti síðar eftir að koma við sögu í aðdragandanum að stofnun Ólympíuhreyfingarinnar og hvetja franska baróninn Pierre de Coubertin til dáða. Leikarnir 1870. Gríski auðkýfingurinn Evangelis Zappas. Evangelis Zappas lést 1865 og lifði því aðeins að sjá fyrstu íþróttaleikana. Erfðaskrá hans tryggði hins vegar talsvert fé til að halda áfram endurgerð Panaþenaíkóleikvangsins og lauk því verki árið 1869. Tók völlurinn þá 30.000 áhorfendur, sem þótti geysimikið á þeim tíma. Ákveðið var að efna til nýrra leika á nýuppgerðum leikvanginum síðla árs 1870. Íþróttamótið var sett 1. nóvember, en vegna kulda varð að fresta allri keppni um hálfan mánuð. Öllu formlegri bragur var á þessum leikum en hinum fyrri, þannig kepptu íþróttamennirnir í búningum og keppendur voru látnir sverja eið þar sem þeir lofuðu að hafa ekki rangt við. Fyrir sjálfa leikana var haldin forkeppni, til að tryggja að allir þátttakendur yrðu frambærilegir. Að lokum kepptu 31 íþróttamaður sín á milli á leikunum. Samliða mótinu var verðlaunasamkeppni, þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir listgreinar. Leikarnir þóttu takast vel. Áhorfendur voru margir og var keppnin lofuð í dagblöðum. Keppendurnir voru sem fyrr allir frá Grikklandi eða gríska þjóðarbrotinu í Ottómanaveldinu. Leikarnir 1875. Verðlaunapeningur frá leikunum 1875, með mynd af Georg I Grikklandskonungi á framhlið. Þótt áhorfendur kynnu vel að meta leikana 1870, voru ekki allir á sama máli um ágæti þeirra. Meðal sigurvegara höfðu verið menn úr alþýðustétt, svo sem slátrari og verkamaður. Töldu ýmsir heldri borgarar að slíkt væri óhæfa og að íþróttamennirnir ættu einungis að koma úr efstu lögum samfélagsins. Skipulagning þriðju leikanna, árið 1875, var í höndum Ioannis Fokianos, sem var yfirmaður íþróttamála í Grikklandi. Hann tók þá ákvörðun að banna lágstéttarmönnum að keppa. Íþróttamennirnir, 24 talsins, voru betur þjálfaðir en í fyrri skiptin. Áhorfendur kunnu þó illa að meta að forréttindastéttin væri látin einoka leikana. Spruttu af því harðar deilur sem leiddu til þess að fallið var frá frekara mótshaldi. Fjórðu leikarnir? Íþróttahofið Zappeion var hannað af danska arkitektinum Theophil von Hansen og var meðal annars notað á Sumarólympíuleikunum 1896. Árið 1888 lauk vinnu við Zappeion, íþrótta- og samkomumiðstöð í Aþenu sem reist var fyrir fé sem Evangelis Zappas hafði ánafnað til verkefnisins í erfðaskrá sinni. Var mannvirkið meðal annars notað fyrir skylmingarkeppni fyrstu nútímaólymíuleikanna árið 1896. Ioannis Fokianos varð forstöðumaður þessarar nýju íþróttamiðstöðvar og stóð hann fyrir leikum vorið 1889 sem kallaðir voru Ólympíuleikar, þrátt fyrir að vera ekki á vegum nefndarinnar sem skipulagði fyrri íþróttamótin. Um þrjátíu íþróttamenn úr heldri stéttum kepptu á leikunum í fjölda greina, en aðgangur áhorfenda var afar takmarkaður. Deilt er um hvort telja skuli þetta mót sem fjórðu Ólympíuleika Zappas og er því yfirleitt sleppt í upptalningum. Dómkirkjan í Dresden. Dómkirkjan í Dresden er óvenjuleg að formi til Dómkirkjan í Dresden kallast Hofkirche. Hún var reist 1739-55 í barokkstíl og er stærsta kirkjan í Saxlandi. Hún er að sama skapi mjög óvenjuleg að formi til. Kirkjan nær gjöreyðilagðist í loftárásum 1945. Endurreisnin stóð alveg til 1965. Í grafhvelfingu liggja tugir fyrirmenna Saxlands. Saga dómkirkjunnar. Brúin milli kirkjunnar og hallarinnar Það var Friðrik Ágúst II konungur Saxlands sem lét reisa dómkirkjuna 1739-1755. Kirkjan átti að verða konungskirkjan í borginni og var því kölluð Hofkirche, sem merkir "hallarkirkja". Hún var vígð 29. júní 1751 heilagri þrenningu. Kirkjan var á sínum tíma ein skrautlegasta bygging Saxlands. Hún er 92 metra löng og 86 metra há. Formið er mjög óvenjulegt, þar sem tveir turnar rísa við sitt hvorn enda kirkjuskipsins. Skipið sjálft er einnig óvenjulegt, en öll er byggingin í barokkstíl. Frá kirkjunni liggur lokuð brú til hallarinnar, þannig að konungur og hans fólk þurti ekki að fara út á götu til að fara í kirkju. Dómkirkjan gjöreyðilagðist í loftárásum í febrúar 1945. Þakið hrundi niður og stór hluti ytri veggjanna einnig. Nær allt innviðið eyðilagðist. Eftir að hafa legið sem rústir í mörg ár eftir stríð var hafist handa við að endurreisa kirkjuna. Því verki lauk 1965. Þó fékk kirkjan ekki nýtt orgel fyrr en 1971. Styttur heilagra. Utan á byggingunni er styttur af 78 heilögum, gerðar af ítalska listamanninum Lorenzo Matielli. Hér er um höfuðpostulana að ræða, en einnig ýmsa aðra heilaga frá ýmsum stöðum í Evrópu. Þar má nefna heilagan Benedikt frá Núrsíu, stofnanda Benediktsreglunnar, heilagan Bernhard frá Clairvaux, franskan munk og einn ötullegastan talsmann krossferðanna, heilagur Frans frá Assisí og Hinrik I keisara. Altaristaflan. Altaristaflan er gerð úr marmara og eru kantar gullslegnir. Málverkið er eftir Anton Raphael Mengs, sem málaði það 1752-1761. Það sýnir himnaför Jesú. Ramminn var gerður af konunglega myndhöggvaranum Joseph Deibel. Grafhvelfing. Í kirkjunni eru alls 49 kistur og hvíla þar ýmsir meðlimir kjörfursta- og konungsættarinnar í Saxlandi. Elsta kistan er frá 1721, en í henni hvílir sonur Ágústs III, sem lést ársgamall. Kirkjan sjálf var ekki vígð fyrr en 1751. Alls eru fjórar kistur eldri, en þær voru settar í grafhvelfinguna strax og hún var tilbúin. Yngsta kistan er frá 1947. Þá lá kirkjan í rústum, en kistan var sett í kirkjuna strax og hún hafði verið endurreist 1965. Hárreitisýki. Hárreitisýki er skilgreint sem „hárlos vegna síendurtekið hárreiti af völum einstaklings“ og einkennist af endurteknum hvötum til að reita af sér hár á höfðinu, andlitinu, úr nefinu, af kynfærum, augnbrúnum og/eða önnur líkamshár og stundum hlýst augljósir hárlausir blettir. María Tudor. María Tudor (18. mars 1496 – 25. júní 1533) var yngri systir Hinriks 8. Englandskonungs: Hún giftist Loðvík 12. Frakkakonungi og var drottning Frakklands skamma hríð. Síðar giftist hún hertoganum af Suffolk. María var dóttir Hinriks 7. Englandskonungs og Elísabetar af York. Hún var sögð ein fallegasta prinsessa Evrópu og er svo lýst að hún hafi verið há, grönn, fölleit og græneyg, með afar sítt og fallegt rauðgullið hár. Ellefu ára gömul var hún trúlofuð Karli af Kastilíu, síðar Karli 5. keisara en þeirri trúlofun var síðar slitið þegar heppilegra þótti að gera annars konar pólitískt bandalag og 9. október 1514, þegar María var 18 ára, var hún gift Loðvík 12. Frakkakonungi, sem var 52 ára, og var hún þriðja kona hans. Loðvík átti engan son á lífi og reið á að afla sér erfingja en hann dó á nýársdag 1515, innan við þremur mánuðum eftir brúðkaupið, og var sagt að ofreynsla í hjónasænginni hefði orðið honum að aldurtila. María reyndist ekki vera þunguð og Frans 1., frændi Loðvíks, tók við konungdæminu. Hinrik 8. sendi vin sinn, Charles Brandon (um 1484-1545) hertoga af Suffolk, þegar til Frakklands til að sækja Maríu. Hann mun hafa vitað að systir hans hafði áður rennt hýru auga til hertogans en tók af honum loforð um að biðja Maríu ekki. Þrátt fyrir það gengu þau í leynilegt hjónaband í Frakklandi 3. mars 1515. Þar með varð Brandon í raun landráðamaður því hann hafði gifst konungborinni konu án samþykkis konungsins og þegar Hinrik komst á snoðir um hjónabandið varð hann ævareiður. Hann hlífði Brandon þó við lífláti eða fangelsun en dæmdi þau í háar sektir. Þau giftust opinberlega 13. maí 1515 í Englandi. Þrátt fyrir þetta var María yfirleitt kölluð „franska drottningin“ við ensku hirðina en ekki hertogaynjan af Suffolk. María var mjög andsnúin áformum bróður síns um að láta ógilda hjúskap hans og Katrínar af Aragóníu til að giftast Önnu Boleyn. Anna hafði á sínum tíma verið í fylgdarliði Maríu þegar hún var send til Frakklands til að giftast og hafði þeim jafnan komið illa saman. Þetta spillti sambandi þeirra systkinanna en þau höfðu verið mjög samrýmd í bernsku og Hinrik lét elstu dóttur sína heita í höfuðið á systur sinni. Þau hjónin áttu tvo syni sem dóu ungir og tvær dætur, Frances, sem giftist Henry Gray markgreifa af Dorset og var móðir lafði Jane Grey, og Eleanor, sem giftist Henry Clifford jarli af Cumberland; afkomendur hennar hefðu erft ensku krúnuna eftir lát Elísabetar 1. ef farið hefði verið eftir þeirri erfðaröð sem Hinrik 8. ákvað í erfðaskrá sinni. Þegar María dó 25. júní 1533 var yngri sonur þeirra enn á lífi, um tíu ára gamall og trúlofaður Catherine Willoughby, þrettán ára stúlku sem hertoginn hafði forræði yfir eftir lát föður hennar. En þegar hann varð ekkjumaður ákvað hann að giftast sjálfur stúlkunni, sem var vellauðug, og gengu þau í hjónanband aðeins þremur mánuðum síðar. Sonurinn dó næsta ár. Loðvík 12.. Loðvík 12. (27. júní 1462 – 1. janúar 1515) var konungur Frakklands frá 1498 til dauðadags og áður hertogi af Orléans frá 1465. Hertogi af Orléans. Loðvík var sonur Karls hertoga af Orléans og Maríu af Cleves og varð hertogi þriggja ára gamall, þegar faðir hans lést. Ungur að aldri tók hann þátt í uppreisn aðalsmanna gegn konunginum, Karli 8. frænda sínum, og var handtekinn og hafður í haldi í þrjú ár en þá var honum sleppt og tók hann síðan þátt í herferðum á Ítalíu með Karli. Karl var ekki orðinn þrítugur og átti unga konu sem ól barn á hverju ári svo að Loðvík hefur varla búist við að erfa krúnuna þótt hann væri kominn í beinan karllegg af Karli 5., sem var Frakkakonungur 1364-1380. Þó fór svo að Karl 8. lést óvænt 1498 eftir að hafa orðið fyrir slysi þegar hann var að leika jeu de paume. Öll börn hans og konu hans, Önnu af Bretagne, voru þá dáin og stóð Loðvík næstur til ríkiserfða þótt fjarskyldur væri. Hjúskaparmál konungs. Í hjúskaparsamningi sem gerður hafði verið milli Karls og Önnu 1491 var áskilið að ef þau dæju barnlaus skyldi hún giftast eftirmanni hans, en hún var þá ríkasta kona Evrópu og Frakkakonungar höfðu mikinn hug á að ná erfðaríki hennar, Bretagne, undir sig. Sá galli var að vísu á göf Njarðar að Loðvík var þegar kvæntur, hafði gengið að eiga Jóhönnu, systur Karls 8. 1476, þegar hann var um 14 ára og hún 12 ára. Loðvík brá á það ráð að krefjast ógildingar hjónabandsins vegna þess að kona hans væri vansköpuð og hann hefði ekki getað uppfyllt hjúskaparskyldur sínar vegna fötlunar hennar, enda væru þau barnlaus eftir 22 ára hjónaband. Jóhanna barðist hart á móti og leiddi fram vitni um að hjónabandið hefði víst verið fullkomnað. Loðvík hefði vafalaust ekki fengið sínu framgengt ef Alexander VI páfi hefði verið hlutlaus dómari en af pólitískum ástæðum úrskurðaði hann konungi í vil. Var hjónaband konungshjónanna ógilt 15. desember 1498 og Loðvík giftist Önnu 8. janúar 1499. Stjórnartíð Loðvíks. Loðvík skrifar Önnu drottningu bréf frá Ítalíu. Loðvík var meira en hálffertugur þegar hann hann erfði kórónuna óundirbúinn en reyndist öflugur ríkisstjórnandi. Hann gerði endurbætur á franska réttarkerfinu og stjórnsýslunni og dró úr skattheimtu. Honum gekk vel að fást við valdamikla aðalsmenn og tókst að gera stjórnkerfið stöðugra. Hann lét einnig til sín taka í utanríkismálum, hélt áfram að herja á Ítalíu og náði Mílanó á sitt vald 1499. Árið 1509 vann hann góðan sigur í stríði við Feneyinga. Þó fór að draga úr velgengni hans um 1510, einkum eftir að Júlíus II varð páfi og stofnaði Heilaga bandalagið til að berjast gegn ásælni Frakka á Ítalíu. Voru Frakkar hraktir frá Mílanó 1513. Þótt herfarir Loðvíks væru kostnaðarsamar báru endurbætur hans í ríkisfjármálum svo góðan árangur að hallarekstur krúnunnar jókst ekkert og Loðvík var vinsæll hjá þegnum sínum. Fjölskylda. Loðvík og Anna drottning áttu sjö börn. Fimm fæddust andvana en tvær dætur lifðu, Þær voru hins vegar ekki gjaldgengar til ríkiserfða í Frakklandi því þar erfðist krúna ekki í kvenlegg og þegar Loðvík fór að óttast að Anna ætti ekki eftir að ala honum son ákvað hann að Claude, eldri dóttirin skyldi giftast Frans af Angoulême, sem stóð næstur til ríkiserfða í Frakklandi. Claude var ríkisarfi í Bretagne, því þar gátu konur erft ríkið, og þetta var því enn ein tilraun Frakkakonunga til að sameina hertogadæmið Frakklandi. Anna drottning vildi viðhalda sjálfstæði Bretagne og neitaði að samþykkja ráðahaginn. Hún dó í janúar 1514 og giftust þau Claude og Frans nokkrum mánuðum síðar. Loðvík var rúmlega fimmtugur þegar Anna dó og hafði enn færi á að bæta úr sonarleysinu. Hann giftist Maríu Tudor, 18 ára systur Hinriks 8. Englandskonungs, 9. október sama ár en dó á nýársdag 1515 og var sagt að ofreynsla í hjónasænginni hefði orðið honum að aldurtila. Frans frændi hans og tengdasonur erfði því ríkið. Pelóta. Pelóta er spænskt orð fyrir knött eða bolta. Það er því notað um ýmis afbrigði boltaleikja, en oftast þó í merkingunni basknesk pelóta, sem er rótgróin keppnisgrein. Keppt hefur verið í pelótu á fernum Ólympíuleikum, þar af einu sinni sem fullgildri keppnisgrein. Lýsing og uppruni. Keppt í pelótu á Ólympíuleikunum árið 1900. Elstu frásagnir af keppni í pelótu eru frá Íberíuskaga á þrettándu öld. Upp frá því hefur íþróttin verið vinsæl víða á Spáni og í Frakklandi en einkum meðal Baska. Í kjölfar landafundanna barst hún til vesturheims og er pelóta í miklum metum víða í Rómönsku Ameríku. Fjöldamörg afbrigði pelótu eru til, þar sem greinin þróaðist með ólíkum hætti eftir einstökum svæðum. Það er fyrst í seinni tíð sem reynt hefur verið að sæmræma reglur og fækka viðurkenndum keppnisabrigðum. Í grundvallaratriðum er pelóta ekki ósvipuð tennis. Hún var í fyrstu leikin með berum höndum. Síðar íklæddust keppendur þykum leðurhönskum og loks komu fram sérstakar keppniskylfur, þótt enn í dag megi finna öll þessi afbrigði. Að þessu leyti minnir þróun leiksins nokkuð á frönsku íþróttina Jeu de paume, sem talin er formóðir tennisíþróttarinnar. Megineinkenni pelótu er hins vegar að hún fer fram á keppnisvelli (innandyra jafnt sem utan), með háum vegg meðfram einni eða tveimur hliðum vallarins. Keppendur standa á vellinum og keppast við að slá knöttinn þannig að hann lendi innan afmarkaðs svæðis á veggnum og skoppi til baka. Stig vinnst þegar mótherjinn nær ekki að slá knöttinn áður en hann skoppar tvisvar eða þegar hann hittir ekki afmarkaða svæðið. Keppt er ýmist í einliða- og tvíliðaleik í pelótu, en til eru afbrigði þar sem fleiri eru saman í liði. Alþjóðleg keppnisgrein. Nútímakeppnisvöllur í pelótu. Basknesk pelóta er í dag langkunnasta afbrigði íþróttarinnar. Erfitt er að tímasetja með vissu uppruna hennar. Líklega hefur hún þó verið komin fram í núverandi mynd í upphafi nítjándu aldar. Um miðja nítjándu öld braust út sannkallað pelótu-æði í baskahéruðunum. Voru atvinnumenn í pelótu taldir einhverir hæstlaunuðu íþróttamenn Evrópu á ofanverðri öldinni. Vegna þessara vinsælda var pelóta meðal keppnisgreina á Ólympíuleikunum í París árið 1900. Keppt var í tvíliðaleik og voru raunar aðeins tvö lið skráð til keppni, frá Spáni og Frakklandi. Fór svo að Spánverjarnir unnu viðureignina en ekki er vitað um stigaskorið. Pelóta hefur upp frá þessu í þrígang verið sýningargrein á Ólympíuleikum, þegar keppt hefur verið á Spáni, Frakklandi og í Rómönsku Ameríku. Í París 1924 voru þrjú pelótu-afbrigði meðal sýningargreina, þar af eitt þar sem keppendur léku berhentir. Í Mexíkó 1968 voru fimm afbrigði pelótu kynnt til sögunnar sem sýningargreinar. Þar á meðal var Jai alai-útgáfan, sem oft er sögð hraðasta íþróttagrein í heimi. Dæmi eru um að pelótu-knettir í leik hafi mælst á 300 km. hraða á klst. Á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 var pelóta enn á ný á dagskrá. Í það skipti var keppt um tíu verðlaun. Konur voru í fyrsta sinn meðal keppenda í íþróttinni á þessum leikum. Ekki hefur komið til tals að gera pelótu að fastri keppnisgrein á ÓL, enda eru iðkendalöndin í það fæsta og afbrigðin full mörg. Pelóta er viðurkennd íþróttagrein í fjölda landa, einkum í Vesturálfu, en iðkendurnir eru í ansi mörgum tilvikum brottfluttir baskar eða afkomendur þeirra. Ekki er vitað til að keppt hafi verið í pelótu á Íslandi. Greek. Greek (skrifað til útlitsáhrifa með gríska stafrófinu sem GRΣΣK en Σ er ekki e heldur sigma) eða Skólaklíkur er bandarískur gaman/drama þáttur sem fylgist með lífi stúdenta í Cyrpus-Rhodes háskólanum (CRU), Ohio, sem taka þátt í „grísku húsfélögum“ skólans. Sögusvið þáttarins er að stærstum hluta innan bræðrafélaganna, "Kappa Tau Gamma" (ΚΤΓ) og "Omega Chi Delta" (ΩΧΔ) og systrafélagsins "Zeta Beta Zeta" (ZBZ), en félög þessi eru aðeins til í þáttunum. Þáttarraðirnar hafa kynnt hinar ýmsu persónur og sumar hverjar búa ekki í „grísku húsunum“ en þær eru samt sem áður allar hluti af heildarsöguþræði „Grikkja“. Þann 19. febrúar 2010 var tilkynnt um að fjórðu og síðstu þáttaröðina sem var frumsýnd þann 3. janúar 2011. Fjórða og síðasta þáttaröðin af "Greek" hefur hlotið nafnið: "Greek: Síðasta önnin". Framleiðsla. Í apríl 2007 tilkynnti ABC Family áætlun sína um að byrja að sýna Greek í júlí það sumar. Fyrsta þáttaröðin fór í loftið 9. júlí 2007. Þátturinn gerist í skóla sem svipar til Miami háskólans í Oxford, Ohio þar sem einnig er stórt „grískt“ samfélag. Aðalframleiðandinn, Patrick Sean Smith, sá þáttinn fyrir sér sem eitthvað sem hann vildi virkilega sjá, þegar hann tók eftir því að það vantaði 45 mínútna langa þætti sem fylgdust með gamansömu lífi háskólastúdenta. Hann vitnaði í þætti eins og Grey's Anatomy og Ugly Betty sem voru mjög nálægt því að vera eins og þátturinn sem hann hafði í huga en Smith sá fyrir sér yngri persónur en í fyrrnefndum þáttum. Greek varð dæmi um löngun ABC Family til að breyta ímynd sinni til að ná meiri breidd í áhorfendahóp sinn. Innihald þáttarins er þó ekki talið mjög „fjölskylduvænt“ þar sem þátturinn lýsir mikið áfengisdrykkju og kynlífi. Framleiðendurnir og stöðin héldu því fram að vináttan, sem er fjölskylda þeirra sem eru í háskóla (e. college), tengdist nýju mottói stöðvarinnar: „Ný gerð af fjölskyldu“ (e. „New Kind of Family“). Í hjarta seríunnar er systkinasamband milli Casey og Rusty. Framleiðendurnir skilja þó að þetta sé þáttur um fjölskyldur, þá er hann ekki endilega "fyrir" fjölskyldur, því í þættinum er sýnt raunverulegt eðli háskólans og því eru auðvitað allt sem því tengist í þáttunum. En þrátt fyrir það er reynt að tryggja að frásögnin sé ekki „of raunveruleg“. Þátturinn er aðallega tekinn upp í Los Angeles en hann er einnig tekinn upp á skólalóð UCLA-skólans í Westwood, sem er í úthverfi Los Angeles. Mörg atriði sem gerast á skólalóðinni hafa einnig verið tekin í Tækniháskólanum í Kaliforníu (Caltech) í Pasadena í Kaliforníu. Það hefur einnig verið tekið upp í háskóla Norður-Karólínu og stundum hafa verið notaðar myndir úr Stanford-háskóla. Húsið sem er notað í fyrsta þættinum til að sýna heimkynni stelpnanna í "ZBZ" er sama hús og hefur verið notað í raunveruleikaþáttunum "Beauty and the Geek". Tafir urðu á fyrstu þáttaröðinni í september 2007 vegna verkfalls handritshöfunda en þátturinn sneri aftur þann 24. mars 2008 og hafði þá þrefaldað vinsældir sínar. Þann 1. maí 2008 endurnýjaði ABC Family samninga við Greek um aðra þáttaröð sem var frumsýnd þann 26. ágúst 2008. Pantaðir voru 12 þættir í viðbót fyrir vorið 2009 og var byrjð að sýna þá 30. mars. Þann 31. janúar 2009 var tilkynnt um þriðju þáttaröðina af Greek og fór hún af stað 31. ágúst 2009. Þættirnir voru sýndir á BBC Three í Bretlandi og FOX8 í Ástralíu en RÚV á sýningarréttinn á þáttunum hérlendis. Þann 19. febrúar 2010 var tilkynnt um að gerð yrði tíu þátta löng sería, sú fjórða. Í mars tilkynnti Sean Smith að fjórða þáttaröðin væri sú síðasta. Hann vildi enda þættina á meðan þeir væru enn vinsælir og allir hlökkuðu til að hittast aftur, klára þáttinn og enda vel. Hann bætti því síðan við að ABC Family hefði ekki ákveðið að hætta framleiðslu þáttanna heldur hefðu handritshöfundarnir og framleiðendurnir ákveðið að hætta eftir fjórar góðar þáttaraðir. Fyrsta þáttaröð. Rusty Cartwright (Jacob Zachar) er nýnemi í Cyprus-Rhodes háskólanum og hefur það takmark að afmá nördalega ímynd sína, svo hann ákveður að ganga í bræðrafélag. Eldri systir hans, Casey (Spencer Grammer), er meðlimur Zeta Beta Zeta systrafélagsins og er í ástarsambandi við Evan Chambers (Jake McDorman), en hann er í Omega Chi Delta bræðrafélaginu. Evan bíður Rusty pláss í Omega Chi en Rusty neitar eftir að hann sér Evan halda framhjá Casey með Rebeccu Logan (Dilshad Vasaria). Seinna ákveður Rusty að þiggja sama boð frá Kappa Tau, þar sem Cappie (Scott Michel Foster), fyrrverandi kærasti Casey, ræður ríkjum og veldur það Casey miklum áhyggjum. Til viðbótar við það hefur strangtrúaður herbergisfélagi Rustys, Dale (Clark Duke), einnig miklar áhyggjur af því að Rusty sé að blanda geði við „gríska“ fólkið en samþykkir seinna nýjan lífstíl hans og jafnvel samkynhneigðan vin hans, Calvin Owens(Paul James), sem er að reyna að komast inn í Omega Chi og kemur besta vinkona Casey, Ashleigh (Amber Stevens), óvart upp um samkynhneigð hans. Stærsta hneykslið í grísku röðinni verður þegar ný kærasta Rustys, Jen K, sem er nýliði í Zeta Beta Zeta, skrifar grein um leyndarmál fólksins í grísku röðinni og kemur þeim í vandræði, sem neyðir Bowman rektor til að leggja strangari reglur á „Grikkina“. Þar sem greinin byggist í kringum Zeta Beta Zeta, neyðir alþjóðlegt samband ZBZ Frannie (Tiffany Dupont) til að hætta sem formaður félagsins og fær Casey til að taka við hennar starfi. Önnur þáttaröð. Þegar kosningar eru á næsta leyti beita Casey og Frannie öllum ráðum til að ná í atkvæði. Eftir að hafa skipst á orðum á húsfundi velja stelpurnar að lokum Ashleigh sem forseta. Eftir það yfirgefur Frannie ZBZ ásamt nokkrum öðrum stelpum til að stofna nýtt systrafélag, Iota Kappa Iota. Þegar nýi kærastinn hennar, Evan, fær margra milljóna sjóð í hendurnar frá foreldum sínum, hikar Frannie ekki við að nota hann sér til framdráttar og til að hjálpa við stofnun nýja félagsins. Á meðan byrjar Casey ástarsamband við „námsráðgjafa“ Rustys, Max, en parið lendir í erfiðleikum þegar það kemur að því að hann útskrifast og að þau muni ekki eyða sumrinu saman. Þegar nýtt ár byrjar kemst Casey að því að Max hafnaði fullum skólastyrk fyrir framhaldsnám til að geta verið í CRU með Casey. Eins langt og sambönd ná, byrjar Rusty með nýliða í ZBZ, Jordan. Ashleigh byrjar með Fischer sem vinnur hjá ZBZ. Fisher og Rebecca kyssast og Casey kemst að því en hún segir Ashleigh það ekki. Til viðbótar eru Cappie og Evan valdir í leynilegt félag sem Bowman rektor stjórnar og þar byrjar þeir tveir að ráða fram úr sínum málum. Í Kappa Tau-partýi segir Casey Kappie að hún beri tilfinningar til hans, en hann vill ekki að hún klúðri sambandi sínu við Max, svo hún hættir með honum. Þriðja þáttaröð. Rebecca játar að hafa kysst Fischer og Ashleigh neitar að taka við afsökunarbeiðnum þeirra. Sambandsslitin við Max voru erfið fyrir Casey en hún notar orkuna í að taka þátt í Pan Hellenic. Á meðan á Rusty erfitt með að halda meðaleinkunninni sinni um leið og hann tekur þátt í félagslífi Kappa Tau og Cappie býður sig fram til hjálpar. Calvin og Grant byrja leynilegt ástarsamband og Evan hjálpar þeim að halda því leyndu frá félögum Omega Chi. Rusty og Jordan fara með sambandið á næsta stig en vegna tækifæris sem Jordan fær til að flytja til New York, hætta þau saman. Casey uppgötvar að Cappie og Evan eru orðnir vinir aftur og verða þau þrjú vinir aftur eins og á fyrsta árinu. Þegar þakkargjörðin kemur byrja Casey og Cappie aftur saman. Dale og Rusty rífast þegar þeir eiga báðir möguleika á sama skólastyrknum. Cappie og Evan gera samning um að egna húsunum sínum á móti Huck lögreglumanni, en Evan svíkur Cappie og þrír Kappa Tau bræður eru reknir úr skólanum. Hús Gamma Psi brennur og er það ZBZ að kenna. Fjórða þáttaröð. Casey, Ashleigh og Evan útskrifast á meðan Calvin og Rebecca laga sig að nýjum skyldum sínum sem forsetar. Eftir nokkra rannsókn kemst Casey að raunverulegum ástæðum þess að hún komst ekki inn í lögfræðideild CRU og ákveður að vera áfram í CRU sem lögfræðinemi og húsmóðir ZBZ. Ashleigh kemur síðan seinna í ZBZ-húsið og segist hafa verið rekin úr starfinu í New York, en það kemur síðan fram að hún var send til að sækja kaffi einn daginn og hún hætti bara og kom aftur til CRU því hún var einmana og líkaði ekki við yfirmanninn. Á meðan reynir Cappie að byrja aftur með Casey, eftir að hún segir honum að þau gætu kannski byrjað saman aftur og lofar Cappie að hann muni breytast svo að einhvern daginn sé hann þess virði að vera kærastinn hennar. Calvin tekst á við afleiðingar þess að hafa logið til að verða forseti ΩX (Omega Chi). Eftir að hafa talað við Evan ákveður Dale að reyna að komast inn í Omega Chi. Að lokum missa Kappa Tau-bræðurnir alla nýliðana nema einn, Peter Parks, arfleið, en faðir hans er Lasker Parks, upphafsmaður 'Joshua Whopper' hugbúnaðarins. Konungar Frakklands. Umdeilt er hvenær Frakkland varð til sem ríki. Stundum er miðað við Mervíkingaríkið sem Frankinn Clovis 1. stofnaði 486 eftir að hafa unnið sigur á síðasta herforingja Rómverja í Gallíu. Það konungsríki leið undir lok á 8. öld. Vestur-Frankaland var stofnað með friðarsamningunum i Verdun 843 og er við það miðað hér, þar sem það ríki þróaðist yfir í Frakkland síðari alda. Listinn hefst því á Karli sköllótta, sonarsyni Karlamagnúsar. Karlungar (843 til 987). Odo og Rúdolf hertogi af Búrgund voru ekki af Karlungaætt, heldur af ætt sem kennd hefur verið við Róbert sterka, f0ður Odo og Róberts 1. Sú ætt kallaðist síðar Capet-ættin eða Kapetingar og var kennd við Húgó Capet, son Húgós mikla, son Róberts 1.. Kapetingar (987 til 1328). Capet-ættin eða Kapetingar, afkomendur Húgós Capet í karllegg, stýrði Frakklandi samfleytt frá 987 til 1792 og afturfrá 1814 til 1848. Eftir 1328 er ættin þó greind í tvær undirættir, Valois-ætt og Bourbon-ætt. Kapetingar, Bourbon-grein (1589-1792). "Loðvík Karl, sonur Loðvíks 16., var konungur Frakklands að nafninu til frá 21. janúar 1793 til 8. júní 1795. Hann var þó fangi allan þann tíma og byltingarforingjar höfðu völdin. Þegar hann dó gerði föðurbróðir hans, Loðvík Stanislás, tilkall til krúnunnar sem Loðvík 18. Hann varð þó ekki konungur Frakklands í raun fyrr en 1814." Fyrsta lýðveldið (1792-1804). "Fyrsta franska lýðveldið stóð frá 1792 til 1804, en þá var fyrsti konsúll þess, Napóleon Bónaparte, lýstur keisari Frakklands." Bónaparte-ætt, Fyrra keisaradæmið, endurreist (hundrað dagarnir, 1815). "Frá 22. júní til 7. júlí 1815 litu stuðningsmenn Napóleosn á son hans, Napóleon 2., sem lögmætan handhafa krúnunnar þar sem faðir hans hafði afsalað henni til sonarins. Drengurinn var þó aldrei raunverulegur þjóðhöfðingi, enda bjó hann í Austurríki með móður sinni. Loðvík 18. settist aftur á konungsstól 7. júlí." Annað lýðveldið (1848 - 1852). "Annað franska lýðveldið stóð frá 1848 til 1852, en þá var forseti þess, Louis-Napoléon Bonaparte, lýstur keisari Frakklands." Þjóðhöfðingjar eftir 1871. Listi yfir forseta Frakklands. Dulminjasafn Reykjavíkur. Dulminjasafn Reykjavíkur var safn í Reykjavík sem var til húsa að Skálholtsstíg 2. Safnið var stofnað árið 1956 og stofnandi þess var Sigfús Elíasson. Árið 1958 stofnaði hann einnig Dulspekiskólann í Reykjavík sem var á sama stað. Dulminjasafnið lagði upp laupana í lok sjöunda áratugsins. G-20. Aðildarríki G-20 eru hér dökkblá á meðan þau ríki Evrópusambandsins sem ekki eiga beina aðild eru ljósblá. G-20 eru samtök sem samanstanda af fjármálaráðherrum og seðlabankastjórum 19 ríkja ásamt fulltrúm Evrópusambandsins. Samtökin eru umræðuvettvangur um málefni er varða hagkerfi heimsins. Vaðfuglar. Vaðfuglar (fræðiheiti: "Charadrii") eru undirættbálkur strandfugla. Þessi hópur telur um 210 tegundir fremur lítilla fugla sem flestar lifa í votlendi og við strendur. Þær tegundir sem lifa nálægt Norðurslóðum eru farfuglar en tegundir í hitabeltinu eru oft staðfuglar. Einkenni á vaðfuglum eru langir fætur að mestu án sundfita og langur og mjór goggur sem þeir nota til að tína hryggleysingja upp úr leir eða sandi. Mismunandi lag goggsins gerir það að verkum að ólíkar tegundir vaðfugla geta nýtt sama svæðið til fæðuöflunar án þess að vera í samkeppni sín á milli. Vaðfuglar á Íslandi. Ísland er mikilvæg varpstöð og viðkomustaður evrópskra vaðfugla. Talið er að allt að 20 % evrópskra vaðfugla hafi þar búsetu á sumrin og vor og haust er Ísland viðkomustaður farfugla sem fljúga milli Evrópu og Norður-Ameríku. Á Íslandi varpa 11-13 tegundir vaðfugla. Þeir eru af tjaldaætt (tjaldur), lóuætt (vepja, sandlóa og heiðlóa) og snípuætt (spói,jaðrakan, stelkur, sanderla, tildra, rauðbrystingur, sendlingur og lóuþræll). Tínamúar. Tínamúar (fræðiheiti: "Tinamidae") eru ætt fugla sem lifa í Mið- og Suður-Ameríku. Ættin telur 47 tegundir fugla sem flestir halda sig við jörðu og fljúga aðeins ef mikið liggur við. Þeir minna þannig á orra og akurhænur en eru skyldari stórum ófleygum fuglum á borð við strúta. Tínamúar mynda því eigin fylkingu fugla, "Tinamiformes". Spjátrur. Spjátrur (fræðiheiti: "Pteroclididae") eru eina ætt fugla sem eftir er í ættbálknum "Pteroclidiformes". Spjátrur lifa á þurrum sléttum í Gamla heiminum, einkum í Afríku, Íberíuskaga, Miðausturlöndum, Indlandsskaga og Mið-Asíu. Flestar spjátrur fara um í flokkum og nærast á fræjum sem þær tína upp af jörðinni. Þær eru skjótar til flugs og eru með fiðraða fætur svo þær minna dálítið á fugla af orraætt eins og rjúpu en eru þó alls óskyldar þeim. Storkfuglar. Storkfuglar (fræðiheiti: "Ciconiiformes") eru ættbálkur fugla sem áður innihélt fjölda háfættra votlendisfugla með stóran gogg á borð við hegra, storka og íbisfugla, en telur nú aðeins eina ætt, storkaætt. Tranfuglar. Tranfuglar (fræðiheiti: "Gruiformes") eru ættbálkur fugla sem telur nokkrar ættir bæði núlifandi og útdauðra fugla sem margar eiga lítt sameiginlegt útlitslega. Venjan er að telja til tranfugla fjórtán tegundir af stórum trönum ("Grui") og 145 tegundir rella ("Ralli") auk nokkurra ætta sem innihalda eina til þrjár tegundir sem óvíst er um flokkun á. 300. Árið 300 (CCC) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á mánudegi. 700. Árið 700 (DCC) var í gregoríanska tímatalinu hlaupár sem byrjaði á fimmtudegi. Claude af Bretagne. Claude drottning með dætrum sínum. Claude af Bretagne og Frakklandi (14. október 1499 – 20. júlí 1524) var drottning Frakklands og hertogaynja af Bretagne á 16. öld. Claude var dóttir Loðvíks 12. Frakkakonungs og Önnu hertogaynju af Bretagne. Af fjórtán börnum sem móðir hennar ól í hjónaböndum með tveimur konungum Frakklands lifðu aðeins tvær dætur og var Claude sú eldri. Hún erfði því hertogadæmið Bretagne eftir móður sína. Konur gátu hins vegar ekki erft frönsku krúnuna. Anna vildi viðhalda sjálfstæði Bretagne gagnvart Frakklandi og samdi þess vegna um trúlofun hennar og Karls af Lúxemborg (síðar Karls 1. Spánarkonungs og Karls 5. keisara), þegar þau voru fárra ára gömul. Loðvík var þó ósáttur við það og trúlofuninni var fljótlega slitið. Þess í stað var hún árið 1506 heitin Frans hertoga af Angoulême, sem var erfingi frönsku krúnunnar ef Loðvík eignaðist ekki son. Anna móðir hennar var þó mjög mótfallin hjónabandi þeirra því að hún vissi að ef Claude og Frans eignðust saman son sem erfa mundi bæði frönsku krúnuna og hertogadæmið Bretagne þýddi það endalok sjálfstæðis Bretagne. Það var því ekki fyrr en eftir lát hennar, snemma árs 1514, sem þau Claude og Frans giftust og var brúðkaup þeirra haldið 18. maí um vorið. Loðvík faðir Claude giftist aftur um haustið ungri konu, Maríu Tudor, en dó innan við þremur mánuðum síðar og þar sem María var ekki þunguð varð Frans þegar konungur og Claude drottning. María sneri aftur til Englands en tvær konur úr fylgdarliði hennar, systurnar Mary og Anne Boleyn, urðu hirðmeyjar Claude. Mary varð um tíma ástkona konungsins, ein af mörgum, en Anna var túlkur fyrir Claude þegar enskir gestir komu til hirðarinnar. Annars var Claude drottning, sem var smávaxin með slæma hryggskekkju og herðakistil, lítt áberandi við hirðina og féll algjörlega í skugga tengdamóður sinnar Lovísu af Savoy, og mágkonu sinnar, systur Frans, Margrétar drottningar af Navarra, sem báðar voru afburðagáfaðar og glæsilegar. Claude var auk þess nær stöðugt þunguð og eignaðist barn á hverju ári. Þegar hún dó, 24 ára að aldri, hafði hún fætt manni sínum sjö börn. Fimm þeirra komust upp: Frans krónprins, sem dó 18 ára, Hinrik 2. Frakkakonungur, Magdalena, sem giftist Jakobi 5. Skotakonungi en dó úr berklum eftir hálfs árs hjónaband, tæplega 17 ára að aldri, Karl hertogi af Orléans, sem dó 23 ára, og Margrét, sem giftist Emmanúel Filibert hertoga af Savoy. Þegar Claude lést erfði Frans sonur hennar hertogadæmið Bretagne og það gekk síðan til Hinriks bróður hans. Þegar Frans 1. dó 1547 og Hinrik varð konungur sameinaðist Bretagne Frakklandi. Sumarólympíuleikarnir 1904. Veggspjald fyrir ólympíuleikana í St. Louis 1904. Sumarólympíuleikarnir 1904 voru þriðju Ólympíuleikar nútímans. Þeir voru haldnir í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum á tímabilinu 1. júlí til 23. nóvember. Líkt og fjórum árum fyrr voru leikarnir haldnir samhliða heimssýningu og féllu talsvert í skuggann af henni. Framkvæmd leikanna þótti að mörgu leyti takast vel, en þó skyggði á að nær eingöngu keppendur frá Norður-Ameríku tóku þátt í þeim. Aðdragandi og skipulagning. Ákveðið hafði verið að Ólympíuleikarnir 1904 yrðu haldnir í Chicago. Á sama tíma var hins vegar unnið að undirbúningi heimssýningar í borginni St. Louis. Aðstandendur heimssýningarinnar vildu ekki sjá neina samkeppni og hótuðu því að efna til annars íþróttamóts í tengslum við sýningarhald sitt. Niðurstaðan varð sú að Chicago gaf keppnina frá sér og annað sinn í röð urðu Ólympíuleikarnir að hliðaratburði heimssýningar. Mannvirki heimssýningarinnar í St. Louis voru hin glæsilegustu. Heimssýningin stóð í fjóran og hálfan mánuð og reyndu skipuleggjendur hennar að standa fyrir íþróttaviðburði upp á hvern einasta dag allan þann tíma. Það þýddi að boðið var upp á ýmsar óvenjulegar íþróttir og kom það síðar í hlut Alþjóðaólympíunefndarinnar að greiða úr flækjunni og ákveða hvaða verðlaunahafar skyldu teljast raunverulegir Ólympíusigurvegarar. Hinn langi mótstími og langt ferðalag varð til þess að Evrópubúar létu varla sjá sig á leikunum. Í meirihluta keppnisgreina voru einungis bandarískir þátttakendur og í mörgum öðrum slógust nokkrir Kanadabúar í hópinn. Þannig voru Bandaríkjamenn á leikunum eitthvað á sjötta hundrað, en Þjóðverjar sendu rétt tæplega tuttugu og voru þó fjölmennasta Evrópuliðið. Hafa ber þó í huga að áherslan á þjóðerni íþróttamanna var ekki sú sama í byrjun tuttugustu aldar og síðar varð. Litið var svo á að keppendur væru fyrst og fremst fulltrúar einstakra íþróttafélaga eða skóla. Varð mikil keppni milli bandarísku háskólanna hver þeirra hlyti flest verðlaun á leikunum. Keppnisgreinar. Keppt var í 91 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Archie Hahn í spretthlaupsstöðu. Auglýsingamynd fyrir ólympíuleikana 1904. Bandaríkjamaðurinn Archie Hahn var einhver dáðasti frjálsíþróttamaður leikanna og sigraði í spretthlaupsgreinunum þremur: 60 metrum, 100 metrum og 200 metrum. Sú sérkennilega staða kom upp í kringlukastkeppninni að tveir efstu menn, Martin Sheridan og Ralph Rose, köstuðu nákvæmlega jafn langt: 39,28 metra. Þurfti því að grípa til aukakasts þar sem Sheridan hafði betur. Keppt var í tugþraut í fyrsta sinn í sögu Ólympíuleikanna. Sigurvegarinn, Tom Kiely, er skráður Breti í afrekaskrá Alþjóðaólympíunefndarinnar, en var sjálfur eldheitur írskur þjóðernissinni og sagðist alla tíð keppa fyrir Írland. Keppnin í Maraþonhlaupi var öll með miklum ólíkindablæ. Keppt var í steikjandi hita á malarvegum þar sem umferð hesta og bíla þyrlaði upp ryki. Bandaríkjamaðurinn Frederick Lordz kom fyrstur í mark og var fagnað sem hetju. Lordz hafði hins vegar gefist upp snemma hlaups og fengið bílfar drjúgan hluta leiðarinnar til baka. Hann ákvað að bregða á leik og tók þátt í fagnaðarlátunum. Thomas Hicks nær örmagna í Maraþonhlaupinu. Hicks fékk gullverðlaunin í kjölfarið. Hann hafði komið annar í mark, reyndar eftir að hafa örmagnast í hitanum og fengið blöndu af koníaki og örvandi efnum, sem teldust í dag ólögleg. Í fjórða sæti í keppninni varð kúbanskur betlari, Andarín Carvajal, sem hefði vísast náð enn ofar ef hann hefði ekki staðnæmst til að éta skemmd epli sem ollu honum slíkri iðrakveisu að hann þurfti að leggja sig á leiðinni. Sex konur tóku þátt á leikunum. Þær kepptu allar í bogfimi. Fimleikamaðurinn George L. Eyser vann til sex verðlauna á leikunum, þar af þriggja gullverðlauna. Afrek Eysers var þeim mun merkilegra í ljósi þess að hann var með tréfót, eftir að hafa misst annan fótinn í slysi á barnsaldri. Keppt var í norður-amerísku boltaíþróttinni Lacrosse í fyrsta sinn á Ólympíuleikum. Þrjú lið tóku þátt: eitt bandarískt og tvö kanadísk. Annað kanadíska liðið var að öllu leyti skipað Mohawk-indíánum. Galt Football Club frá Ontario í Kanada fór með sigur af hólmi í knattspyrnukeppninni, en auk þess tóku tvö félög frá St. Louis þátt í leikunum. Verðlaunaskipting eftir löndum. Silfurverðlaunapeningur fyrir 800 metra hlaup á Ólympíuleikunum 1904. Snus. Snus (eða snustóbak og var á tímabili kallað sænskt skro) er fínskorið blautt munntóbak sem sett er undir vörina. Það hefur svipuð áhrif og reyktóbak. Snus er upphaflega sænsk tóbaksafurð og er mikið notuð þar í landi. Að taka snus í vörina getur valdið slímhúðarbólgu. Íslenskt neftóbak. Á Íslandi er oftar en ekki tekið „íslenskt neftóbak“ í vörina. Það er hvortveggja selt í grunnum dósum eða gráum hornum úr plasti. Enn hefur ekki verið sannað til vísinda að íslenskt neftóbabak tekið í vörina valdi munnkrabbameini eða tannholdssýkingum. Að fá sér í vörina er oft kallað að "fá sér lummu" eða "fá sér bagg" og er sögnin að "bagga" einnig höfð um hið sama. Þessi athöfn hefur jafnvel verið nefnd að "fá sér i forstofuna". Sænskt munntóbak (snus). Sænskt munntóbak er blautara en íslenska neftóbakið. Það var gert ólöglegt í Evrópusambandinu árið 1994 en þegar Svíþjóð fékk aðild að Evrópusambandinu fengu þeir undanþágu undan banninu vegna þess að „snus“ er hluti af sænskri menningu. Svíþjóð er með minnstu tíðni af lungnakrabbameini í Evrópu. Til eru tvær gerðar af „snusi“. Það eru pokar og laust tóbak. Saga. Saga „snus“ má rekja aftur til 19. aldar þegar Jacob Fredrik Ljunglöf var með það markmið að gera betra „snuff“ en hver annar og fann upp á „snus“ 1822 og nefndi sitt eigið eigið „snus“ „Ettan“. Karlar sem hata konur. Karlar sem hata konur (sænska: "Män som hatar kvinnor") er fyrsta skáldsagan í Millennium-þríleik sænska höfundarins Stieg Larsson. Bókin hefur farið sigurför um heiminn og setið efst á öllum helstu metsölulistum heimsins. Halla Kjartansdóttir þýddi á íslensku. Hinar tvær bækurnar eru "Stúlkan sem lék sér að eldinum" og "Loftkastalinn sem hrundi." Útdráttur. Sagan segir frá blaðamanninum Mikael Blomkvist sem dæmdur er í þriggja mánaða fangelsi fyrir meiðyrði í garð viðskiptajöfursins Hans-Eriks Wennerström og ákveður því í framhaldinu að taka sér frí frá störfum á tímaritinu Millennium, blaðinu sem hann á hlut í og vinnur hjá. Um þetta sama leyti fær hann skringilega upphringingu frá Henrik Vagner, fyrrum forstjóra hinnar voldugu Vanger-samsteypu. Hann vill ráða Mikael í vinnu til að skrifa sögu fjölskyldunnar. Fjölskyldusagan er þó bara yfirskyn. Hið raunverulega verkefni er að komast að því hvað varð um frænku forstjórans, Harriet, sem hafði horfið fjörutíu árum fyrr. Þar sem Mikael hefur lítið að gera þessa dagana og bíður eftir því að hefja afplánunina slær hann til, þó eftir nokkra umhugsun. Hann fær að búa í litlum gestakofa á landareign Henriks og fær í hendurnar lögreglurannsóknir og öll þau gögn sem Henrik hefur tínt til í gegnum árin. Honum til aðstoðar er ung kona, Lisbeth Salander, mjóslegin, náföl, tattúveruð og félagsfælin sem er þó frábær rannsakandi og tölvuséní. Harry Potter og leyniklefinn (kvikmynd). Harry Potter og leyniklefinn bresk ævintýrakvikmynd sem leikstýrt var af Chris Columbus og byggð á samnefndri bók eftir J. K. Rowling. Myndin er önnur í myndaflokknum um vinsæla galdrastrákinn Harry Potter. Steven Kloves skrifaði handritið að myndinni eins og þeirri fyrri en David Heyman framleiddi myndina. Meirihluti leikaraliðs Viskusteinsins sneri aftur fyrir leyniklefann, m.a. barnastjörnurnar Daniel Radcliffe, Emma Watson og Rupert Grint. Þetta er þó í síðasta skipti sem leikarinn Richard Harris fer með hlutverk Dumbledore og þetta er einnig síðasta Harry Potter myndin sem Columbus leikstýrir. Nýir leikarar voru m.a. Kenneth Branagh sem Gilderoy Lockhart og Jason Isaacs sem Lucius Malfoy. Myndin fékk mjög góða aðsókn og halaði inn 879 milljón dollurum um allan heim. Hún var einnig tilnefnd til BAFTA-kvikmyndaverðlauna árið 2003. Kerling í Eyjafirði. Kerling er hæsta fjall Tröllaskaga, um 1538 metrar á hæð. Hinrik 2. Frakkakonungur. Hinrik 2. (31. mars 1519 – 10. júlí 1559) var konungur Frakklands frá 31. mars 1547 til dauðadags. Hinrik var sonur Frans 1. Frakkakonungs og fyrri konu hans, Claude. Frans bróðir hans var ári eldri og var því ríkisarfi en hann dó átján ára að aldri 1536 og varð Hinrik þá krónprins og erfði jafnframt hertogadæmið Bretagne, sem bróðir hans hafði erft eftir móður þeirra árið 1524. Þegar þeir bræður voru sjö og átta ára voru þeir sendir til Spánar sem gíslar í skiptum fyrir föður sinn, sem Karl Spánarkonungur hafði náð á sitt vald eftir orrustuna við Pavia. Þeir voru í haldi í Madrid í fjögur ár og var sagt að þeir hefðu aldrei beðið þess bætur. Hjónaband. Fjórtán ára að aldri gekk Hinrik að eiga jafnöldru sína, Katrínu af Medici. Hún var alin upp á vegum frænda síns, Klemens VII páfa, sem hét að greiða háa fjárhæð í heimanmund með henni. Þau giftust 28. október 1533 og var sagt að Frans konungur hefði ekki yfirgefið svefnherbergi þeirra á brúðkaupsnóttina fyrr en hann var viss um að hjónabandið hefði verið fullkomnað. Katrín var í miklum metum við frönsku hirðina fyrsta hjónabandsárið en þegar Klemens páfi dó haustið 1534 og eftirmaður hans, Páll III, neitaði að greiða heimanmundinn, dró úr vinsældum hennar. Tveimur árum síðar varð Hinrik krónprins þegar bróðir hans dó og þótti ýmsum þá hafa tekist illa til við val á framtíðardrottningu Frakklands þar sem hún var ekki konungborin, færði lítið í búið og virtist auk þess vera óbyrja því tíu ár liðu þar til hún ól fyrsta barnið. Hinrik átti aftur á móti fjölda hjákvenna og enginn vafi lék á frjósemi hans. Þekktust ástkvenna konungs var Diane de Poitiers, sem var tuttugu árum eldri en hann, hafði verið falið að kenna honum hirðsiði þegar hann var tólf ára og var vinkona hans og áhrifavaldur til dauðadags og ástmey frá 1538. Ríkisár. Hinrik varð konungur þegar faðir hans dó 1547. Hans er ekki síst minnst fyrir ofsóknir gegn húgenottum, en hann lét brenna marga þeirra á báli eða skera úr þeim tunguna fyrir guðlast. Hann kom líka á strangri ritskoðun. Árið 1551 sagði Hinrik Karli 5. keisara stríð á hendur og hafði í hyggju að ná aftur undirtökum á Ítalíu og bæta stöðu Frakka gegn áhrifum Habsborgara í Evrópu. Hann gerði meðal annars bandalag við Suleiman 1. soldán til að vinna gegn ítökum Habsborgara á Miðjarðarhafi og verjast áhlaupum úr suðri, svo að hann gat einbeitt sér að hernaði í Lorraine og Flæmingjalandi og svo aftur á Ítalíu. Árið 1558 drógust Englendingar inn i átökin og tókst Frökkum þá að ná borginni Calais, sem Englendingar höfðu haldið í tvær aldir. Hinrik neyddist þó til að ganga til friðarsamninga 1559 og afsala sér öllum kröfum til landa á Ítalíu. Dauði. Burtreiðarnar þar sem Hinrik 2. fékk banasárið. Innifalið í samningunum var að Emmanúel Filibert hertogi af Savoja skyldi ganga að eiga Margréti systur Hinriks og fá aftur hertogadæmi sitt og Filippus 2. Spánarkonungur skyldi fá fjórtán ára dóttur Hinriks, Elísabetu og var hún þriðja kona hans. Elísabet hafði raunar verið trúlofuð Karli syni Filippusar frá fyrsta hjónabandi en giftist föður hans í staðinn í júnílok 1559. Burtreiðar voru hluti af hátíðahöldunum og tók Hinrik 2. þátt í þeim, enda mikill íþrótta- og veiðimaður, en þar gerðist það slys að konungur fékk flís úr lensu í augað og síðan blóðeitrun sem dró hann til dauða. Þegar honum var ljóst hvert stefndi krafðist hann þess að Emmanúel Filibert gengi þegar að eiga Margréti, því hann óttaðist að hann stæði ekki við heit sitt ella. Þau giftust 10. júlí og konungur dó sama dag. Á banasænginni bað hann hvað eftir annað um að sent yrði eftir ástkonu sinni, Diane de Poitiers, en Katrín drottning kom í veg fyrir að það væri gert og sendi svo Diane í útlegð. Ári fyrir dauða sinn hafði Hinrik gift elsta son sinn, Frans, Maríu Skotadrottningu, sem alin var upp við frönsku hirðina. Með því hugðist hann ekki aðeins tryggja Frökkum tilkall til skosku krúnunnar, heldur einnig hugsanlega þeirrar ensku, því María stóð næst til erfða eftir systurnar Maríu Englandsdrottningu og Elísabetu. Það gekk þó ekki eftir því að þótt Frans 2. yrði konungur Frakklands eftir föður sinn lifði hann ekki nema árið og María sneri aftur heim til Skotlands. Börn. Þrjú börn í viðbót dóu í vöggu eða fæddust andvana. Frans 2. Frakkakonungur. Frans 2. (19. janúar 1544 – 5. desember 1560) var konungur Frakklands frá 10. júlí 1559 til dauðadags og eiginmaður Maríu Skotadrottningar frá 1558. Frans var elsti sonur Hinriks 2. Frakkakonungs og Katrínar af Medici. Yngri bræður hans voru Karl 9. Frakkakonungur og Hinrik 3. Frakkakonungur. Þegar hann var fjögurra ára gerði faðir hans samkomulag við forráðamenn Maríu, sem hafði verið drottning Skotlands frá því að Jakob 5. faðir hennar dó þegar hún var sex daga gömul. María var fimm ára þegar gengið var frá trúlofuninni og var hún þá send til Frakklands til að alast upp við hirðina með eiginmanni sínum tilvonandi. Sagt er að vel hafi farið á með þeim alla tíð þótt ekki væri hjónasvipur með þeim; María var mjög hávaxin og málglöð en Frans óvenju lágvaxinn og stamaði. Þau giftust 24. apríl 1558, þegar Frans var fjórtán ára en María fimmtán og hálfs. Rúmu ári síðar dó Hinrik 2. eftir að flís úr lensu stakkst í auga hans í burtreiðum og Frans var krýndur konungur. Kórónan var svo þung að fjórir aðalsmennn þurftu að styðja við hana á höfði hans. Móðir hans, Katrín af Medici, var útnefnd ríkisstjóri en líklegt er að móðurbræður Maríu, sem var frönsk í móðurætt, hafi ráðið miklu. Frans hafði alltaf verið heilsuveill og 5. desember 1560 dó hann, tæplega sautján ára að aldri. Þau María áttu engin börn og Karl bróðir Frans, sem var tíu ára að aldri, tók við krúnunni. Karl 9. Frakkakonungur. Karl 9. (27. júní 1550 – 30. maí 1574) var konungur Frakklands frá 5. desember 1560 til dauðadags. Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar settu mark á ríkisstjórnarár Karls og þekktasti atburðurinn á stjórnartíð hans var Bartólómeusarvígin 1572. Bernska. Karl, sem var útnefndur hertogi af Orléans við fæðingu, var þriðji sonur (annar í röð þeirra sem upp komust) Hinriks 2. Frakkakonungs og Katrínar af Medici. Faðir hans lést 1559 og rúmu ári síðar dó eldri bróðir hans, Frans 2., og varð Karl þá konungur, tíu ára að aldri. Móðir hans var útnefnd ríkisstjóri. Hún hafði ekki fengið að koma nálægt stjórn landsins á meðan maður hennar lifði en lét nú mjög til sín taka. Hún hafði mikil áhrif á son sinn fyrstu árin og raunar alla stjórnartíð hans. Árið 1562 gaf Katrín út Saint-Germain-tilskipunina, þar sem húgenottar voru í fyrsta skipti formlega viðurkenndir og leyft að stunda trú sína á laun. Við þetta var þó mikil andstaða og upp úr þessu hófust Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar sem stóðu með hléum til 1598. Trúarbragðastyrjaldirnar. Átökin snerust ekki aðeins um trúarbrögð, þau voru um leið átök milli franskra aðalsætta. Margir aðalsmenn voru húgenottar en andstaða kaþólikka var leidd af mönnum af Guise-ætt. Katrín reyndi að miðla málum og halda friðinn. Eftir blóðug átök kom fjögurra ára vopnahlé og meðan á því stóð tók Karl konungur við stjórnartaumunum að nafninu til og ferðaðist með móður sinni um landið til að kynna sér ríki sitt. Átök hófust aftur 1567. Ýmis erlend ríki veittu fylkingunum lið; Hollendingar, Englendingar og konungsríkið Navarra studdu mótmælendur en Spánn, Toskana og páfaríkið kaþólikkana. Enn var gert vopnahlé 1570. Hluti af vopnahléssamkomulaginu var að Hinrik, krónprins Navarra og einn af helstu leiðtogum húgenotta, skyldi giftast Margréti, systur Karls konungs. Brúðkaup þeirra var haldið 19. ágúst 1572 en þá var Hinrik orðinn konungur Navarra. Mikil veisluhöld voru í París vegna brúðkaupsins og komu þangað margir aðalsmenn úr röðum húgenotta, þar á meðal Gaspard de Coligny aðmíráll, helsti herforingi þeirra. París var rammkaþólsk borg og vera svo margra þekktra húgenotta í borginni skapaði spennu. Bartólómeusarvígin. 22. ágúst varð Coligny fyrir skoti á götu í París og særðist alvarlega. Alls óvíst er hver stóð að baki tilræðinu en helst hafa verið nefnd hertoginn af Guise, hertoginn af Alba og Katrín af Medici, en sagt er að hún hafi haft áhyggjur af því hve mikil áhrif Coligny var farinn að hafa á konunginn. Hvað sem því líður jókst spennan í borginni mjög við þetta og þótt Karl konungur hefði heimsótt Coligny á sjúkrabeð og lofað honum að hafa hendur í hári tilræðismannanna varð úr að mæðginin ákváðu í sameiningu að losa sig við þá leiðtoga húgenotta sem voru staddir í París. Það var gert og Hinrik hertogi af Guise leiddi sjálfur flokk sem drap Coligny (sem hertoginn taldi ábyrgan fyrir dauða föður síns, Frans hertoga af Guise) og fleiri en á eftir fylgdu skipuleg morð á mótmælendum í París, framin bæði af hermönnum og af múg sem fór um og myrti þá sem höndum var komið yfir. Borgarhliðunum var lokað til að fólk slyppi ekki út. Óeirðirnar breiddust síðan út um sveitirnar umhverfis París. Hinrik af Navarra slapp naumlega með hjálp konu sinnar. Andlát Karls og erfingjar. Karl konungur hafði samþykkt morðin mjög nauðugur og ofbauð það sem hann sá og heyrði af; hann sagðist heyra neyðaróp hinna myrtu stöðugt fyrir eyrunum og kenndi ýmist sjálfum sér eða móður sinni um. Hann hafði aldrei verið heilsuhraustur, var líklega með berkla, og vorið 1574 var hann farinn að hósta blóði. Hann dó 30. maí og var þá 24 ára. Karl 9. giftist Elísabetu af Austurríki 26. nóvember 1570 og átti með henni eina dóttur sem dó sex ára að aldri. Þar sem konur gátu ekki erft frönsku krúnuna varð bróðir hans, Hinrik hertogi af Anjou, konungur. Karl átti líka óskilgetinn son, Karl hertoga af Angoulême. Karl var mikill áhugamaður um veiðar og skrifaði bók um það efni, "La Chasse Royale", sem þó var ekki gefin út fyrr en 1625 en þykir merk heimild. Rimar. Vallafjall, Messuhnjúkur og Rimar. Berghlaupið Hofshólar og Hofsskál eru á miðri mynd. Bæirnir Hof og Hofsá eru sitt hvoru megin við Hofsána sem fellur í gljúfri úr Hofsdal Rimar er fjall við utanverðan Svarfaðardal að austanverðu. Rimar eru mikið fjall og hátt, 1371 m þar sem hæst ber við innanverðan Hofsdal. Norðar á háfjallinu er stór og vel gerð landmælingavarða, hún er í 1265 m yfir sjávarmáli. Norðan við Rimar eru Messuhnjúkur og Vallafjall en sunnan þeirra er Sælukolla. Fjallið tekur nafn af rindum eða hryggjum sem liggja upp og ofan háhlíðar þess og setja á það einkennandi svip. Stærsti rindinn nefninst Stóririmi. Fjallganga á Rimar er allmikil ganga en ekki torsótt. Fjallið er tiltölulega flatt að ofan og ekki með hnjúkum eða tindum. Það er að mestu úr basalti. Best er að ganga á Rimar frá Hofi í Svarfaðardal upp með Hofsá, þar sem Goðafoss beljar í gljúfrum, og upp eftir hinu fagurskapaða berghlaupi Hofshólum, upp með Hofsskál og þaðan á fjallsöxlina sunnan við Messuhnjúk og á háfjallið. Nafnið Rimar er ýmist haft í karl- eða kvenkyni. Félagsheimili Svarfdælinga, Rimar, heitir eftir fjallinu. Miðlari. Í tölvunarfræði er miðlari (sbr. netþjónn eða þjónn) hvaða samsetning vélbúnaðs eða hugbúnaðs sem ætlað er að veita þjónustu til biðlara. Þegar hugtakið er notað eitt og sér, á það aðallega við um tölvur sem keyrðar eru á miðlara stýrikerfi, en er einnig notað til að vísa í hvaða hugbúnað eða sérnota vélbúnað sem er fær um að veita slíka þjónustu. Annögl. Annögl er orð sem haft er um tvennt á íslensku. Í fyrsta lagi um hin lausa húðflipi ofan við nöglina, sem einnig gengur undir nafninu fénögl. Í öðru lagi er annögl haft um sárt hold framan undir nögl. Í riti þess íslenska lærdómslistafelags, sem kom út á árunum 1781-1798, stendur: "Anneglur eru hið hvíta hvel, sem er ofantil við neglurnar, og af líkíng sinni vid hálft túngl, kallast anatomicis lunula". Þar segir líka: "Íslenskir kalla einnig hálfhríng þann af holdrosunni, er liggur fram á neglurnar að ofanverðu, anneglur". Þingsályktun. Þingsályktun er samþykkt Alþingis sem ekki þarf staðfestingar forseta Íslands, ólíkt almennum lögum. Þær geta haft þýðingu sem réttarheimild. Þingsályktunartillögur eru þannig eins konar viljayfirlýsing af hálfu löggjafarvaldsins. Sem dæmi um þingsályktunartillögur sem hafa haft sögulega þýðingu má nefna þingsályktun um niðurfellingu dansk-íslenska sambandslagasamninginn frá 1918, nr. 32/1944, þingsályktun um gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þann 29. nóvember 2011 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um viðurkenningu á Palestínuríki með landamæri fyrir Sex daga stríðið 1967. Ísland varð þar með fyrst Vestur-Evrópskra ríkja til þess að viðurkenna ríki Palestínumanna. Hinrik 3. Frakkakonungur. Hinrik 3. Frakkakonungur. Málverk frá 1570. Hinrik 3. (19. september 1551 – 2. ágúst 1589 var konungur Frakklands frá 1574 til dauðadags og konungur Póllands og stórhertogi Litháens frá 1573 til 1575. Hann var upphaflega nefndur Alexandre Édouard en nafni hans var breytt í Henri 1564. Í Póllandi kallaðist hann Henryk Walezy og í Litháen Henrikas Valua. Prins og hertogi af Anjou. Hinrik var fjórði sonur Hinriks 2. Frakkakonungs og konu hans Katrínar af Medici. Eldri bræður hans voru Frakkakonungarnir Frans 2. og Karl 9. Hann var útnefndur hertogi af Angoulême og Orléans 1560 og hertogi af Anjou 1566. Móðir hans hélt mikið upp á hann og hann var að mörgu leyti talinn fremri bræðrum sínum. Hann var listelskur og bókhneigður en hafði lítinn áhuga á veiðum og íþróttum (nema skylmingum), öfugt við föður sinn og bræður. Karl bróðir hans hafði horn í síðu hans og öfundaði hann af hreysti hans og góðri heilsu en Karl var heilsuveill. Talið er líklegt að Hinrik hafi verið samkynhneigður eða þó öllu fremur tvíkynhneigður því hann átti ýmsar ástkonur. Árið 1570 kom til greina að Hinrik gengi að eiga Elísabetu Englandsdrottningu. Hann var þá tæplega tvítugur en hún 37 ára. Ekkert var þó úr því og er talið líklegt að Elísabet hafi aðallega verið að stríða Spánverjum með því að gera sig líklega til að mægjast frönsku konungsættinni. Hinrik virðist ekki hafa verið hrifinn af hugmyndinni, talaði illa um Elísabetu og gerði mikið úr aldursmuninum. Hinrik barðist í Frönsku trúarbragðastríðunum og stýrði meðal annars liði kaþólikka í umsátrinu um La Rochelle. Hann tengdist einnig Barthólomeusarvígunum en tók þó ekki beinan þátt í slátruninni. Hann var þó ekki heittrúaður og hafði í bernsku sagst hliðhollur húgenottum. Konungur Póllands. Vorið 1573 var Hinrik kjörinn konungur Póllands og stórhertogi Litháen en Sigmundur 3. Ágústus Póllandskonungur hafði dáið sumarið áður án þess að eiga erfingja og var þá ákveðið að ríkjasamband Póllands og Litháen skyldi framvegis kjósa sér konung. Pólverjar/Litháar ákváðu að kjósa sér franskan konung og fá í staðinn stuðning gegn Rússum og Tyrkjum og fjárhagsaðstoð. Einnig var ætlast til þess að Hinrik gengi að eiga Önnu Jagiellon, systur Sigmundar konungs, sem var fimmtug að aldri, nærri þrjátíu árum eldri en Hinrik. Hinrik kom ekki til Póllands fyrr en í janúar 1574 og var krýndur í febrúar. Hann hafnaði því þó að giftast Önnu og leist ekki vel á sig í hinu nýja konungsríki sínu, þótti það fátækt og frumstætt. Stjórnartíð hans varð þó ekki löng því að í júní bárust honum fregnir af því að Karl bróðir hans væri látinn og hann hefði erft frönsku krúnuna. Hélt hann þá þegar til Frakklands svo lítið bar á og sviptu Pólverjar hann krúnunni sumarið 1975 en ungverski prinsinn Stefán Báthory fékk hana í staðinn og giftist Önnu. Konungur Frakklands. Hinrik 3. veitir arftaka sínum, Hinrik af Navarra, blessun sína á banabeði.Hinrik var krýndur konungur Frakklands 13. febrúar 1575 í dómirkjunni í Reims. Daginn eftir gekk hann að eiga Lovísu af Lorraine. Hjónaband þeirra er sagt hafa verið hamingjusamt framan af en þeim tókst ekki að eignast erfingja og olli það þeim báðum miklu hugarangri og óhamingju, ekki síst eftir að yngsti bróðir Hinriks, Frans hertogi af Anjou, dó 1584. Þá var húgenottinn Hinrik af Navarra næsti erfingi krúnunnar. Árið 1576 hafði Hinrik undirritað samkomulag við húgenotta þar sem þeir fengu ýmsum kröfum sínum framgengt. Það varð til þess að Hinrik hertogi af Guise stofnaði Kaþólska bandalagið og á endanum þurfti Hinrik að taka aftur flest það sem húgenottar höfðu fengið. Jafnframt fékk hertoginn konunginn til að tilkynna að tilkall Hinriks af Navarra til krúnunnar væri ógilt. Togstreita milli konungsins og hertogans varð sífellt meiri og þegar hertoginn kom til Parísar vorið 1588 flúði konungurinn borgina og hélt til Blois-hallar í Loire-dal, sem raunar var helsta aðsetur hans. 23. dsember sama ár komu hertoginn af Guise og bróðir hans, kardínálinn af Guise, til hallarinnar til fundar við konung en hann greip þá tækifærið og lét menn sína vega þá báða og handtaka son hertogans. Hertoginn af Guise hafði verið vinsæll í Frakklandi og morðin kveiktu mikla reiði í garð konungs, sem gekk þá í bandalag við Hinrik af Navarra og gerði sig líklegan til að ráðast á París með her sínum. Áður en til þess kom náði þó ungur dóminíkanamunkur, Jacques Clément, að ráðast að konungi og stinga hann í kviðinn, 1. ágúst 1589. Sárið virtist í fyrstu ekki banvænt en dró konunginn þó til dauða daginn eftir og mikill fögnuður braust út í París þegar fréttist af dauða hans. Hann var síðasti konungurinn af Valois-ætt; með valdatöku Hinriks 4. hófst tímabil Búrbóna-ættarinnar. Sjö ára stríðið. Stríðsaðilar í 7 ára stríðinu. Blátt er Bretland, Prússland og Portúgal, ásamt nýlendum í Ameríku og Asíu. Grænt er aðallega Frakkland, Austurríki og Rússland, ásamt nýlendum í öðrum álfum, en einnig Spánn og Svíþjóð. 7 ára stríðið var stórstyrjöld Evrópuríkja á 18. öld. Það var háð 1756-1763 og lauk með friðarsamkomulaginu í París og í Hubertusburg. Aðalkeppinautar voru Bretland og Prússland, ásamt nokkrum smærri bandamönnum annars vegar, og Frakkland, Austurríki, Rússland, Svíþjóð, ásamt nokkrum smærri bandamönnum hins vegar. Í stríðinu var aðallega barist í Evrópu, en einnig var tekist á í Norður-Ameríku og úti á höfunum. Stríðinu lauk með nær óbreyttri ríkjaskipan í Evrópu. Hins vegar urðu miklar breytingar á nýlendum í Ameríku og Asíu. 7 ára stríðið var fyrsta styrjöldin sem háð var í fleiri heimsálfum, enda kallaði Winston Churchill stríðið ‘"fyrstu heimstyrjöldina".’ Oft er litið á stríð þetta sem framlengingu á austurríska erfðastríðinu sem háð var 1740-48. Forsaga. Friðrik mikli konungur Prússlands var miðpunktur 7 ára stríðsins Austurríska erfðastríðinu lauk með friðarsamningunum í Aachen. En samningarnir tóku ekki tillit til þess að Prússland hafði hertekið Slesíu, sem áður tilheyrði Austurríki (en er suðvestasti hluti Póllands í dag). Á þeim 8 árum sem liðu milli friðarsamningana í Aachen og 7 ára stríðsins, reyndi Austurríki að endurheimta Slesíu með því að einangra Prússland pólitískt séð. Það tókst nokkurn veginn, enda voru Bretar þeir einu sem gengu í bandalag við Prússland. Georg II, konungur Bretlands, var á þessum tíma einnig þjóðhöfðingi Hannover, sem tengdist Prússlandi. Austurríki aftur á móti fann sterka bandamenn í Frakklandi og Rússlandi. Rússland var á þessum tíma með útþennslustefnu og sá hér tækifæri til landvinninga til vesturs. Frakkar gátu ekki hugsað sér að sitja hjá þegar Bretar færu í stríð í Evrópu, enda voru þessar þjóðir erkióvinir. Þar að auki hófst landnemastríð milli breskra og franskra landnema í Norður-Ameríku þegar árið 1754, jafnvel þó að ekkert formlegt stríð var í gangi milli Bretlands og Frakklands. Þjóðir og þjóðhöfðingjar. Listi yfir þátttökuþjóðir ásamt viðkomandi þjóðhöfðingjum. 1756. Stríðsyfirlýsingar milli Breta og Frakka voru afhentar 18. maí, nærri tveimur árum eftir að átök hófust í Norður-Ameríku. Fyrstu átök í Evrópu hófust tveimur dögum seinna er Frakkar og Bretar háðu sjóorrustu við Menorca í Miðjarðarhafi. Hvorugur hafði betur, en Bretar hörfuðu til Gíbraltar. Í ágúst réðist Friðrik mikli með prússaher sínum inn í Saxland og hertók það í hendingskasti. Þaðan ætlaði hann að hertaka Bæheim og þvinga Austurríki til uppgjafar. Þegar María Teresa sendi her til Bæheims, var barist við Lobositz. Þar sigruðu prússar, en þeir náðu ekki að fylgja þessu eftir í það skiptið og hertaka Bæheim. Í Norður-Ameríku náðu Frakkar að hernema allt svæðið í kringum Ontaríóvatn. 1757. Orrustan við Kolin nálægt Prag. Þar áttust við prússar og Austurríkismenn Friðrik II réðist inn í Bæheim í maí. 6. maí var orrustan við Prag. Þar sigruðu prússar Austurríkismenn, en þeir síðarnefndu náðu að loka sig inni í borginni. Prússar hófu umsátur um Prag þar til nýr austurrískur her nálgaðist í júní. Í orrustunni við Kolin sigruðu Austurríkismenn prússa, sem urðu að hörfa og yfirgefa Bæheim. Í júní réðist franskur her inn í Hannover. Sökum þess að Friðrik mikli hafði hertekið Saxland, setti keisarinn Frans I frá Habsborg ríkisbann yfir honum. Keisaraher var sendur til Saxlands, en prússar sigruðu þann her í orrustunni við Rossbach í Saxlandi. Austurríkismenn létu hins vegar kné fylgja kviði er þeir sigruðu prússa í tveimur orrustum í Slésíu og náðu að hertaka hluta af gamla héraðinu á ný. Í austri réðust Rússar á borgirnar Memel og Königsberg. Þeir tóku Memel, en prússar náðu að sigra Rússana við Königsberg. Eftir það drógu Rússar sig til baka og héldu Memel. Sami prússneski her fór síðan til Pommern, þar sem Svíar höfðu tekið nokkrar borgir. Prússar náðu að hrekja þá þaðan. Í árslok héldu Svíar aðeins Stralsund. Í desember blés Friðrik mikli til sóknar í Slésíu. Honum tókst að sigra Austurríkismenn og hertaka héraðið á ný. Engu að síður voru prússar mjög aðþrengdir í árslok. 1758. Frakkar fagna sigri í Ticenderoga í Ameríku Í ársbyrjun hófu Rússar nýja sókn vestur og reyndu að sameinast Austurríkismönnum. Friðrik mikli sendi her frá Slésíu á vettvang og reyndi að koma í veg fyrir þetta. Í orrustunni við Zorndorf sló herjunum saman. Þar biðu Rússar ósigur og héldu sig eftir þetta í hæfilegri fjarlægð. Fyrir vikið voru fáir prússar í Slésíu og gengu Austurríksmenn á lagið. Þeir náðu að hertaka héraðið allt meðan prússar börðu á Rússum. Austurríkismenn reyndu meira að setja að ráðast inn í Saxland og sátu um borgina Dresden. En leiðangur þeirra var árangurslaus. Í vestri náði þýskur her frá Hannover að sigra Frakka, með hjálp Englendinga, í tveimur orrustum (við Rheinberg og við Krefeld). Frakkar voru hraktir vestur yfir Rínarfljót þrátt fyrir að vera miklu fjölmennari. Aðeins í Ameríku voru Frakkar sigursælir. Þeir sigruðu miklu fjölmennari enskan her í orrustunni við Ticenderoga. 1759. Sjóorrustan við Quiberonflóa milli Breta og Frakka Þetta ár þurrkaðist Prússland nær út. Rússar og Austurríkismenn reyndu aftur að sameina lið sitt og tókst það að þessu sinni rétt austan við Frankfurt an der Oder. Friðrik mikli hafði dregið lið sitt frá Saxlandi til að mæta þeim. Í stórorrustunni við Kunersdorf 12. ágúst biðu prússar hins vegar mikinn ósigur og leystist prússneski herinn algerlega upp. Leiðin til Berlínar var greið. Í þokkabót réðist keisaraherinn inn í Saxland og hertók það nær algerlega. Endalok Prússland var í sjónmáli. En bæði Rússar og Austurríkismenn höfðu orðið fyrir miklu mannfalli. Þar að auki hófst deila milli þeirra, sem endaði með því að Rússar drógu sig til baka og Austurríkismenn fóru til Saxlands til að sameinast keisarahernum. Friðrik mikli hafði alvarlega íhugað að segja af sér og fremja sjálfsmorð. En hið glataða tækifæri óvina hans að taka Berlín bjargaði Prússlandi. Friðrik mikli sagði sjálfur í bréfi til bróður síns að þetta hefði verið ‘"kraftaverk í þágu húss Brandenborgar".’ Ljósi punkturinn var að Frakkar höfðu beðið mikinn ósigur fyrir Hannover í orrustunni við Minden og dregið sig til baka. Þess í stað ráðgerðu þeir að ráðast inn í England og söfnuðu herjum sínum saman í hafnarborgum sínum. Ráðagerð þessi fór hins vegar út um þúfur er Bretar sigruðu Frakka í tveimur sjóorrustum, sú fyrri við Lagos suður undan Portúgal og hina síðari við Bay de Quiberon við suðurströnd Bretagne. Í Ameríku höfðu Bretar betur gegn Frökkum. Þetta ár hertóku þeir nær allt Kanada. 1760. 1760 var annað erfitt ár fyrir Prússland, sem þó náði að rísa úr öskunni. Eftir mikinn ósigur fyrir Austurríkismönnum í Slésíu, réðist Friðrik mikli inn í Saxland og freistaði þess að endurheimta Dresden. Í þeirri atlögu skemmdist miðborg Dresden talsvert. Meðan á þessu stóð fóru fram tvær stærri orrustur milli Frakka og Hannover, sem endaði með einum sigri fyrir hvorri fylkingu. Engar breytingar áttu sér hins vegar stað þar. Frakkar náðu ekki að brjótast austur og sameinast Austurríki. Þegar Austurríkismenn sendu nýjan her til Dresden, sem sameinaðist austurríska hernum frá Slesíu, ákvað Friðrik mikli að safna öllum sínum herjum saman og mæta Austurríkismönnum í stórorrustu. Hún fór fram í 15. ágúst við borgina Liegnitz. Þar unnu prússar stórsigur, þrátt fyrir að vera talsvert fáliðaðri. Samtímis þessu hafði keisaraherinn aftur tekið Saxland og Rússar höfðu hafið skærusókn til vesturs og rænt og ruplað í Berlín. Í orrustunni við Torgau náði Friðrik mikli aftur að sigra Austurríkismenn. En aðstæður voru afar erfiðar fyrir prússa. Rússar höfðu hertekið Austur-Prússland, Austurríki stjórnaði Slésíu og keisaraherinn réði yfir Saxlandi. Þar að auki höfðu Svíar aftur hafið útrás og tekið stóran hluta af Pommern. Í Ameríku höfðu Bretar náð betri og betri tökum á aðstæðum. Þeir náðu að hrekja Frakka burt úr lendum sínum og luku hertöku Kanada. Franskur sigur við Sainte-Foy í Quebec breytti engu þar um. Þegar Montreal féll var allt Kanada á valdi Breta. 1761. 1761 var rólegasta stríðsárið í styrjöldinni. Prússneski herinn lokaði sig inni í virkinu Bunzelwith í norðurhluta Slésíu. Þar réðust Austurríkismenn og Rússar á þá, en fengu ekki unnið virkið. Síðsumars voru Rússar orðnir óþolinmóðir og ákváðu að fara austur og búa sig undir komandi vetur. Á leiðinni hertóku þeir borgina Kolberg, síðust hafnarborg prússa við Eystrasalt. Þá yfirgáfu prússar virkið og börðu á Svíum í Pommern. Svíar voru lánlausir og voru hraktir til baka til Stralsund. Frakkar voru máttlausir í vestri og gátu sig hvergi hreyft. Það kom ekki síst til af því að fjárhagur þeirra gekk til þurrðar. Bretar höfðu lagt hafnbann á Frakkland og sjóher þeirra sá um að einangra franskar hafnir. 25. desember gerðist það að Katrín keisaraynja lést í Rússlandi. Eftirmaður hennar varð Pétur III, sem var mjög vilhallur prússum. Hann dýrkaði Friðrik mikla og datt ekki í hug að eiga í stríði við hann. Hann gerði friðarsamning við Friðrik og þar með voru Rússar úr leik. Auk þess átti Pétur III milligöngu um friðarsamning milli prússa og Svía. 1762. Strax í janúar 1762 lýsti Bretland Spáni stríð á hendur. Í kjölfarið varð Portúgal þátttakandi í stríðinu, en þeir gerðu með sér samning við Bretland. Spánverjar réðust því inn í Portúgal og náðu að taka borgina Almeida. Bretar sendu liðsauka og náði hann að hefta framrás Spánverja. Í júlí var Pétur III myrtur og tók Katrín mikla þá við stjórnartaumum í Rússlandi. Hún leysti friðarsamningana upp, en viðhélt þó friðinum. Þegar Friðrik mikli var laus við Rússa og Svía, tók hann aftur til við að berjast við Austurríkismenn. Hann sigraði þá í orrustu í Slésíu og aftur við Freiberg í Saxlandi. Þannig náði hann báðum héruðunum aftur á sitt vald. Orrustan við Freiberg var jafnframt síðasta orrusta þessara landa. Í júní reyndu Frakkar mikla framrás í vestri. Þeir biðu hins vegar mikla ósigra í tveimur orrustum og voru hraktir vestur yfir Rínarfljót. Frakkar voru í mikilli neyð þar sem hafnbann Breta skilaði miklum árangri. Stríðsvilji þeirra þvarr og hvarf alveg þegar fréttist af miklum ósigri gegn Bretum við Nýfundnaland. Friðarsamningarnir í París 1763. Lítið var barist þetta ár. Allir stríðsaðilar voru þreyttir og þar sem prússar höfðu full yfirráð yfir Slésíu, var ekki mikill vilji til að halda stríðsrekstri áfram. 10. febrúar voru friðarsamningar gerðir í París milli Frakka og Spánverja annars vegar og Breta og Portúgali hins vegar. Hinn óumdeildi sigurvegari var Bretland, en Bretar náðu að halda Frökkum niðri í Evrópu og náðu auk þess stórum frönskum nýlendum í Ameríku á sitt vald, bæði Kanada og svæði austan Mississippi. Frakkar misstu einnig allar nýlendur sínar á Indlandi til Bretlands. Auk þess urðu Spánverjar að afhenda Bretum Flórída, sem á þessum tíma var afar fámenn. Bretar fengu ennfremur franskar nýlendur í Afríku, þ.e. Senegambíu (sem í dag eru ríkin Senegal og Gambía). Síðastnefnda svæðið komst aftur í eigu Frakklands þegar Bretar töpuðu frelsisstríði Bandaríkjanna 1783. Friðarsamningarnir í Hubertusburg 1763. 15. febrúar hittust prússar og stríðsaðilar úr austri í kastalanum Humbertusburg í Saxlandi. Þar sömdu prússar, saxar og Austurríkismenn frið (Rússar og Svíar voru áður búnir að semja). Prússar fengu að halda Slésíu og missti Austurríki allt tilkall til héraðsins. Prússar samþykktu að yfirgefa Saxland og láta það land í friði í framtíð. Friðrik mikli samþykkti sem kjörfursti einnig að velja son Maríu Teresu sem næsta keisara þýska ríkisins. Eftirmáli. Við þessa friðarsamninga voru landamæri í Evrópu þau sömu og áður og aðstæður voru því sem næst óbreyttar. Hins vegar höfðu öll þátttökuríkin veikst talsvert, enda höfðu þau barist í fleiri ár. Frakkland stóð verst að vígi. Herir þeirra höfðu engu áorkað og landið hafði veikst mikið af hafnbanni Breta. Aðstæður almennings versnuðu og lögðu grunninn að frönsku byltingunni 26 árum seinna. Bretar voru óyggjandi sigurvegarar stríðsins. Þeir voru mesta siglingaveldi heims og unnu gríðarmikil landsvæði í Ameríku. Prússland var einnig nokkurs konar sigurvegari, en sigur þeirra var frekar varnarsigur. Þótt keisaradæmið væri í framhaldinu í höndum Habsborgara (sem réði í Austurríki), þá liðu ekki nema um 40 ár þar til það var lagt niður. Goðafoss í Skjálfandafljóti. "Getur einnig átt við S Goðafoss, skip Eimskipafélagsins." Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Hann er 12 m hár og 30 m breiður í fjórum meginhlutum. Nafnsifjar. Árið 1000 kusu Íslendingar að taka upp kristni. Þjóðsagan segir að þá hafi skurðgoðum hinna gömlu goða verið kastað í fossin í táknrænni athöfn. Á glugga í Akureyrarkirkju er teikning sem vísar til þessarar sögu. Atvinnubílstjóri. Atvinnubílstjóri er maður sem hefur það að atvinnu að keyra ökutæki. Atvinnubílstjóri getur til dæmis verið leigubílstjóri, rútubílstjóri, vörubílstjóri eða ökumaður í dreifingu. Vatnajarðfræði. Vatnajarðfræði (hydrogeology) er undirgrein jarðfræðinnar. Þar er jarðfræðin skoðuð með tilliti til hegðunar vatnsins. Vatnajarðfræði fæst við samspil vatns og jarðlaga. Allir þeir síbreytilegu þættir sem vatnafræði, vatnajarðfræði og jarðfræði spanna eru einu nafni nefndir vatnafar. Sá sem stundar fræðigreinina nefnist vatnajarðfræðingur (hydrogeologist). Sérstök gerð korta lýsa vatnafari. Þau nefnast vatnafarskort. Vatnafar er hugtak sem notað er um almenna eiginleika og hegðun ferskvatns bæði ofanjarðar og neðan og gagnkvæmt samspil þess við umhverfið. Orðið gefur til kynna síbreytilegt ástand og er hliðstætt orðinu veðurfar. Í ensku er ekkert eitt orð til yfir hugtakið en hydrologiocal conditions er oft notað. Veere. Veere er lítil borg og sveitarfélag í Suðvestur-Hollandi. Íbúafjöldi er um 1.650. Sambandslagafrumvarpið. Sambandslagafrumvarpið var frumvarp sem kosið var um árið 1918. Það snerist um ríkjasamband Íslands og Danmerkur, en þar sagði að Ísland og Danmörk væru fullvalda ríki í sambandi um einn og sama konung. Þegar rætt var um frumvarpið árin á undan vildu flestir eða allir fullveldi en menn greindi á um hve langt skyldi ganga í næsta áfanga. Sjálfstæðisflokkur og Heimastjórnarflokkur voru tveir helstu stjórnmálaflokkar tímabilsins. Sá fyrrnefndi vildi ganga heldur lengra í kröfugerð Íslendinga. Kosningaþátttaka var 43,8%. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra, eða 92,5% var samþykkur sambandslögunum eða 12.411 manns. Nei sögðu 999 kjósendur. Saxland-Anhalt. Saxland-Anhalt (þýska: "Sachsen-Anhalt") er áttunda stærsta sambandsland Þýskalands með 20.445 km². Það var áður fyrr hluti af víðáttumiklu landsvæði sem kallaðist Saxland. Eftir heimstyrjöldina síðari var það í Austur-Þýskalandi og varð að sambandslandi við sameiningu Þýskalands 1990. Íbúar eru tæplega 2,4 milljónir talsins. Höfuðborgin er Magdeburg. Stórfljótið Saxelfur rennur í gegnum Saxland-Anhalt frá norðri til suðausturs. Vestast eru Harzfjöllin og mynda þau náttúruleg landamæri að Neðra-Saxlandi. Lega. Saxland-Anhalt er austarlega í Þýskalandi og nær hvergi að sjó. Fyrir austan er Brandenborg, fyrir suðaustan er Saxland, fyrir sunnan er Þýringaland ("Thüringen") og fyrir vestan er Neðra-Saxland. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Saxlands-Anhalt eru gerður úr tveimur láréttum röndum, gult að ofan og svart að neðan. Litirnir voru teknir úr skjaldarmerkinu. Fáninn var tekinn upp í fyrsta sinn 1947, en var lagður niður þegar landið var leyst upp í endurskipulagningu Austur-Þýskalands 1952. 1992, eftir sameiningu Þýskalands, var fáninn tekinn óbreyttur upp. Skjaldarmerkið samanstendur aðallega af gulum og svörtum röndum. Þvert yfir það er græn krónurönd. Í horninu eftst til hægri er svartur örn, en hann táknar Prússland. Neðst er svartur björn á borgarvirki, en hann merkir fyrrverandi fríríkið Anhalt. Skjaldarmerki þetta var tekið upp 1991, tæpu ári eftir að Saxland-Anhalt varð til sem sambandsland sameinaðs Þýskalands. Gamla skjaldarmerkið var svipað, nema hvað þar var enginn björn. Þess í stað voru þar hamar og meitill og kornax, tákn sósíalimans. Orðsifjar. Orðið Sachsen (Saxland) er upprunnið af germanska ættbálknum saxa. Orðið saxi er dregið af gamla germanska orðinu "sahs", sem merkir "sverð" eða "langur hnífur" (sbr. að saxa á íslensku). Anhalt var fyrst til sem kastalavirki og merkir einfaldlega stað þar sem maður stoppar (sbr. "anhalten" = "að stoppa"). Sauðá. Sauðá er bergvatnsá í vestanverðum Skagafirði og dregur Sauðárkrókur nafn af ánni. Sauðá kemur upp í fjallinu Molduxa sunnan við Sauðárkrók og rennur í Sauðárgili gegnum bæinn. Þegar niður á jafnsléttu kom rann áin áður til norðurs þar sem nú er íþróttavöllur bæjarins og sundlaug og síðan til sjávar gegnum gamla bæinn. Oft komu flóð í ána sem ollu skaða og árið 1950 var ánni veitt til austurs niður á Borgarmýrar og í Tjarnartjörn. Í Sauðárgili er skógrækt og kallast þar Litliskógur. Þar var hlaðinn upp sundpollur árið 1912, veitt í hann vatni og hann notaður til sundkennslu um langt skeið. Nokkru ofar er stífla í ánni sem reist var 1930 þegar áin var virkjuð. Þaðan er nú veitt vatni til iðnaðarfyrirtækja á Sauðárkróki. Sunnan við Sauðá stóð áður samnefndur bær. Á Sauðá var lengi þingstaður hreppsins, sem kallaðist þá Sauðárhreppur, en árið 1907 var honum skipt í Sauðárkrókshrepp og Skarðshrepp. Alexandersflugvöllur. Alexandersflugvöllur eða Sauðárkróksflugvöllur er flugvöllur við botn Skagafjarðar, á Borgarsandi austan við Sjávarborg. Flugbrautin er rúmlega 2000 metra löng. Upphaflega var flugvöllur lagður á Borgarsandi 1949. Nýr völlur var svo gerður á 8. áratug aldarinnar og tekinn í notkun 23. október 1976. Árið 1988 var efnt til flughátíðar á Sauðárkróki og hlaut völlurinn þá nafnið Alexandersflugvöllur til heiðurs Alexander Jóhannessyni háskólarektor og frumkvöðuls í flugmálum, en hann var alinn upp á Sauðárkróki og var farþegi í fyrstu flugvél sem lenti þar, en það var þegar sjóflugvélin Súlan lenti fyrir framan Villa Nova á Sauðárkróki sumarið 1928. Fyrsta landflugvélin lenti á Borgarsandi 1938 og var það Agnar Kofoed-Hansen sem flaug henni. Borgarsandur. Borgarsandur er slétt og allvíðáttumikið sandflæmi, nú gróið að miklu leyti, við botn Skagafjarðar að vestanverðu, frá Sauðárkróki að Vesturósi Héraðsvatna. Svört sandfjaran er tæpir fjórir kílómetrar á lengd. Þar er göngu- og útivistarsvæði og vinsælt að láta hesta spretta úr spori. Borgarsandur er kenndur við bæinn Sjávarborg. Hann er nefndur í Landnámabók; þar segir frá því að Kráku-Hreiðar Ófeigsson „kom í Skagafjörð og sigldi upp á Borgarsand til brots“. Amersfoort. Amersfoort er næststærsta borgin í héraðinu Utrecht í Hollandi. Miðborgin er miðaldarleg og fögur. Borgin er með 146 þúsund íbúa. Lega og lýsing. Amersfoort liggur við ána Eem um miðbik Hollands, rétt fyrir sunnan stöðuvatnið Eemmeer, sem er syðsti hluti Ijsselmeer. Borgin er því sem næst við landfræðilega miðju landsins. Næstu borgir eru Utrecht til vesturs (15 km), Apeldoorn til austurs (45 km), Arnhem til suðausturs (55 km) og Amsterdam til norðvesturs (60 km). Orðsifjar. Amersfoort merkir "vaðið yfir ána Amer" en Amer heitir Eem í dag og mundar í Eemmer rétt norðan við borgina. Söguágrip. Amersfoort kom fyrst við skjöl 1028. Þar sem bærinn lá vel við þjóðvegina austur-vestur og norður-suður, létu furstabiskuparnir í Utrecht, sem ríktu yfir svæðinu, reisa sér aðsetur til að stjórna svæðinu. 1259 veitti biskupinn Hendrik van Vianden Amersfoort borgarréttindi. 1340 varð mikill bruni í borginni sem eyddi helming allra húsanna. Í sjálfstæðisstríðinu á 16. öld hertóku Hollendingar borgina en Spánverjar náðu henni 1573. 1579 náði Jan VI af Nassau-Dillenburg að fresla borgina. Sama ár gekk hún í Utrecht-bandalagið. Síðan þá var mikil stöðnun í efnahagslífinu og í upphafi 19. aldar bjuggu aðeins 8.000 manns í borginni. Margir lifðu á tóbaksrækt. Efnahagslífið batnaði mikið með tilkomu járnbrautarinnar 1863 og iðnvæðingarinnar. Í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari var í Amersfoort stærsta herdeild Hollendinga. Í maí 1940 voru allir íbúar borgarinnar fluttir á brott er búist var við innrás Þjóðverja. Innrásin hófst 10. maí og var barist í fjóra daga. Eftir það var íbúum leyft að snúa heim á ný. Rétt utan borgar opnuðu nasistar fangabúðir sem var nokkurs konar biðstöð eftir lestarferð í útrýmingarbúðir lengra í austur (aðallega Auschwitz og Sobibor). Alls fóru um 32 þúsund manns um búðirnar, en fangarnir komu víðs vegar að úr Hollandi. Eftir stríð hélt borgin áfram að vaxa. 1974 var gamla þorpið Hoogland innlimað borginni þrátt fyrir áköf mótmæli bæjarbúa. Í dag eru íbúðahverfi umhverfis gamla þorpið. 2006 var Amersfoort kjörin grænasta borgin í Hollandi og ári síðar grænasta borgin í Evrópu. Þjóðsaga. Graníthnullungurinn vegur heil 9 tonn Árið 1661 gerðist það að skáldið og landeigandinn Everard Meyster stóð í veðmáli við landeiganda frá Amersfoort sem Meyster vann. Til að jafna skuldina varð sá sem tapaði að rúlla 9 tonna graníthnullungi frá mýrunum í Soest til miðborgar Amersfoort (um þriggja km leið). Hann fékk aðstoð 400 manna við verkið (allt íbúar Amersfoort), sem allir fengu bjór og brauð í lok dags. Hnullungurinn lá í miðborginni og voru íbúar Amersfoort mikið uppnefndir eftir þetta. Þeir voru kallaðir Keientrekker. Key er hnullungur og trekker er sá sem dregur. Eftir ellefu ára niðurlægingu var ákveðið að jarða hnullunginn og var það gert 1672. Hnullungurinn fannst á ný 1903 og var settur á stall í miðborginni sem minnisvarði, þar sem hann stendur enn í dag. Amersfoort er gjarnan kölluð Keistad ("hnullungaborgin"). Íþróttir. Tennissamband Hollands (KNLTB) er með aðalskrifstofur í Amersfoort. Þar í borg eru nokkur tennisfélög og þar eru tennismót haldin árlega (Dutch Open). Meðal annarra íþróttagreina sem leikið er í efstu deild eru ruðningur, badminton, hokkí, sundbolti og júdó. Stúlkan sem lék sér að eldinum. Stúlkan sem lék sér að eldinum (sænska: "Flickan som lekte med elden") er önnur skáldsagan í Millennium-þríleik sænska höfundarins Stieg Larsson en bækurnar hafa farið sigurför um heiminn. Halla Kjartansdóttir þýddi á íslensku. Á undan kom "Karlar sem hata konur" en sú síðasta er "Loftkastalinn sem hrundi". Stieg Larsson hafði skrifað þrjár bækur um þau Lisbeth Salander og Mikael Blomkvist áður en hann fann útgefanda. Hann lést áður en fyrsta bókin kom út. Í bókinni eru margar þær persónur sem eru í "Karlar sem hata konur", meðal þeirra er Lisbeth Salander, „stelpan“ í titli bókarinnar og félagsfælinn tölvurefur, og Mikael Blomkvist, rannsóknarblaðamaður og útgefandi tímaritsins Millennium. Söguþráður. Mikael Blomkvist, útgefandi tímaritsins Millennium hefur gert sér lifbrauð að því að koma upp um óprúttnar og spilltar persónur í sænska samfélaginu. Svo þegar ungur blaðamaður kemur til hans með rannsókn á kynlífsviðskiptum í Svíþjóð og þá hátt settu menn sem nota sér þjónustu stúlkna undir lögaldri, hendir Blomkvist sér í rannsókn málsins. Lisbeth Salander er eftirlýst. Blaðamaðurinn á Millennium sem hafði unnið að greininni um mansal og kynlífsviðskipti finnst myrtur ásamt kærustunni sinni, á dularfullan hátt og fingraför Lisbeth á vopninu. Blöðin grafa upp sögur af geðsjúkrahúsvist hennar sem barn og ofbeldisfullu framferði hennar og samfélaginu stendur ógn af henni. En hvar er hún? Blaðamaðurinn Mikael Blomkist trúir ekki að Lisbeth hafi framið morðin. Á Millennium leggjast allir á eitt við að draga fram sannleikann í málinu en hann er ekki alltaf fagur. Ofbeldi og spilling hafa sett mark sitt á fortíð Lisbeth Salander. En hún lætur engan eiga neitt inni hjá sér. Sumarólympíuleikarnir 1928. Ólympíuleikvangurinn í Amsterdam. Sumarólympíuleikarnir 1928 voru haldnir í Amsterdam í Hollandi á tímabilinu 28. júlí til 12. ágúst. Leikarnir voru minni í sniðum en oft áður, en þóttu þó takast ágætlega. Þýskaland tók á ný þátt í Ólympíuleikum eftir nokkurra ára útlegð. Aðdragandi og skipulagning. Amsterdam hafði sóst eftir að halda Ólympíuleikana árin 1920 og 1924, en ekki fengið. Að þessu sinni hreppti borgin hins vegar hnossið eftir baráttu við Los Angeles. Reistur var Ólympíuleikvangur í miðri borginni. Höfundur hans var arkitektinn Jan Wils, einn kunnasti boðberi nýtistefnunnar í hollenskri byggingarlist. Wils var meðal frumkvölða De Stijl-hreyfingarinnar ásamt myndlistarmanninum Piet Mondrian. Helsta einkenni leikvangsins var hinn hái Maraþon-turn, en á toppi hans logaði Ólympíueldurinn meðan á leikunum stóð. Á turninum héngu jafnframt voldugir hátalarar til að bera áhorfendum úrslit og fréttir af gangi mála. Var það nýjung á íþróttavöllum. Keppnisgreinar. Keppt var í 109 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Lina Radke (t.h.) og Kinue Hitomi (t.v.) hlutu gull og silfurverðlaunin í umdeildu 800 metra hlaupi kvenna. Yfirburðir Finna í langhlaupum voru rækilega staðfestir á leikunum. Finnsku hlaupararnir sigruðu í 1.500, 5.000 og 10.000 metra hlaupunum og unnu þrefalt í 3000 metra hindrunarhlaupi. Paavo Nurmi vann sín níundu Ólympíugullverðlaun á ferlinum í 10.000 metra hlaupinu. Konur tóku í fyrsta sinn þátt í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna. Lengsta hlaupagreinin í kvennaflokki var 800 metra hlaup sem Þjóðverjinn Lina Radke vann. Hlaupið var við erfiðar aðstæður og sumir keppendanna, sem voru í misgóðri æfingu, örmögnuðust á leiðinni. Það varð til þess að greinin var tekin af dagskrá Ólympíuleikanna til ársins 1960 og hafði hlaupið skaðleg áhrif á framgöngu kvennaíþrótta á leikunum. Bandaríski táningurinn Betty Robinson sigraði í 100 metra hlaupi kvenna. Hún var sextán ára gömul og hafði einungis keppt þrisvar í greininni áður en til Amsterdam var komið. Indverska liðið hafði mikla yfirburði í hokkíkeppninni 1928. Mikio Oda frá Japan sigraði í þrístökkskeppninni, með stökki upp á 15,21 metra. Hann varð þar með fyrsti Asíubúinn til að sigra í einstaklingskeppni á Ólympíuleikum. Bandaríkjamaðurinn Johnny Weissmuller vann til tvennra gullverðlauna í sundi, til viðbótar við gullin sín þrjú frá leikunum 1924. Hann varð síðar heimsfrægur á hvíta tjaldinu í hlutverki Tarzans apabróður. Lið Indlands sigraði í hokkíkeppni leikanna. Besti leikmaður þeirra var Dhyan Chand, einn kunnasti hokkíleikmaður fyrr og síðar. Hann skoraði 14 af 29 mörkum liðsins í keppninni. Indverjar fengu ekkert mark á sig í leikjunum fimm, sem er fágætt í hokkí. Knattspyrnukeppni ÓL 1928. Fyrirliðar Úrúgvæ og Argentínu stilla sér upp ásamt dómara og línuvörðum fyrir úrslitaleik Ólympíukeppninnar 1928. Líkt og í París fjórum árum fyrr, var litið á knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna sem óopinbera heimsmeistarakeppni í íþróttinni. Sautján lið tóku þátt í keppninni, þar af þrjú frá Suður-Ameríku: Chile, Argentína og Úrúgvæ. Voru síðarnefndu tvö liðin talin sigurstranglegust ásamt Ítölum, sterkasta evrópska liðinu. Þessar þrjár þjóðir reyndust í sérflokki og komust fyrirhafnarlítið í undanúrslitin. Þar mættust Úrúgvæ og Ítalía í hörkuleik sem Suður-Ameríkumennirnir unnu með þremur mörkum gegn tveimur. Úrúgvæ og Argentína tókust því á í draumaúrslitaleik knattspyrnuáhugamanna á troðfullum Ólympíuleikvanginum. Völlurinn tók um 28.000 áhorfendur, en skipuleggjendur Ólympíuleikanna fengu óskir um 250.000 miða á leikinn. Úrslitaleiknum lauk með 1:1 jafntefli og þurftu liðin því að mætast að nýju þremur dögum síðar. Þar hafði Úrúgvæ betur, 2:1. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hélt þing sitt í Amsterdam samhliða Ólympíuleikunum. Þar var ákveðið að efna til heimsmeistarakeppni í knattspyrnu árið 1930. Árið 1929 var svo ákveðið að mótið skyldi haldið í Úrúgvæ og hafði Ólympíumeistaratitillinn mikið með þá ákvörðun að gera. Upp frá því varð HM í knattspyrnu aðalkeppni landsliða, en Ólympíukeppnin varð miklu lægra skrifuð. Kappliðin á Ólympíuleikunum voru lengi vel skipuð áhugamönnum, en síðar yngri leikmönnum. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íþróttasamband Íslands efndi til fjársöfnunar með sölu á íþróttamerkjum til að standa undir kostnaði við að senda fulltrúa á leikana í Amsterdam. Salan gekk illa og þegar fregnir bárust af því að ekki yrði unnt að koma Íslensku glímunni að sem sýningargrein, var hætt við þátttöku. Verðlaunaskipting eftir löndum. Forsíða upplýsingabæklings með dagskrá Ólympíuleikanna 1928. David Arnason. David Arnason flytur erindi í Manitobaháskóla. David Arnason (f. 1940) er kanadískur rithöfundur og prófessor í ensku og bókmenntum við Manitobaháskóla í Winnipeg. Foreldrar Davids voru Baldvin og Gudrun Arnason sem bæði eru fædd í Nýja Íslandi, Manitoba. Baldvin var af eyfirskum ættum, frá Villingadal í föðurætt en úr Svarfaðardal í móðurætt, kominn út af Arngrími málara og Þórunni Hjörleifsdóttur ljósmóður í Gullbringu. David Arnason settist í Manitobaháskóla og lauk þaðan BA og MA prófi en útskrifaðist síðan með Ph.D. gráðu frá háskólanum í New Brunswick. Hann hóf kennslu við Manitobaháskóla 1972 og var deildarforseti enskudeildarinnar 1997-2006. Hann var settur deildarstjóri yfir íslenskudeildinni þar 1998-2006. Hann hefur oft haldið fyrirlestra og námskeið á Íslandi, meðal annars í samstarfi við Bill Holm (d. 2009) á Hofsósi. David Arnason hefur gefið út allmargar bækur með ljóðum, smásögum og skáldsögum. Hann hefur einnig gert sjónvarpsþætti og hafa sumir þeirra verið sýndir í íslenska ríkissjónvarpinu. Rit. Arnason, David Arnason, David Christian Wulff. Christian Wilhelm Walter Wulff (fæddur 19. júní 1959 í Osnabrück) er þýskur lögfræðingur og stjórnmálamaður í kristilega demókrataflokknum. Hann var forsætisráðherra Neðra-Saxlands frá 2003 til 2010 og 10. forseti Þýskalands frá 2010 til 2012 þegar hann sagði af sér embætti í kjölfar spillingarmála. Kokhlust. Kokhlustin eru göng sem tengja saman miðeyrað og kokið sem hafa þann tilgang að jafna loftþrýsting (þrýstijafnari) og fjarlægja slím úr miðeyranu, en þau eru um 35 mm í fullvaxta manneskjum. Forseti Þýskalands. Forseti Þýskalands (þýska: "Bundespräsident") er þjóðhöfðingi þýska sambandsríkisins. Líkt og í mörgum öðrum þingræðisríkjum er forseti Þýskalands fremur valdalítill, en telst þó æðsti embættismaður þjóðarinnar. Forsetakjör í Þýskalandi fer fram á sérstökum kjörmannafundi sem skipaður er þingmönnum Sambandsþingsins og jafn mörgum fulltrúum kosnum af þingum sambandslandanna sextán. Núverandi forseti Þýskalands er Joachim Gauck og er hann sá 11. í röðinni frá stofnun Sambandlýðveldisins árið 1949. Þýskalandsforsetar Halle. Halle er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Saxland-Anhalt með 232 þúsund íbúa. Hún er þó ekki höfuðborg landsins (sem er Magdeburg). Íbúafjöldinn fer þó snarminnkandi og mun hann innan skamms fara niður fyrir Magdeburg. Lega. Halle liggur við ána Saale nær syðst í sambandslandinu og steinsnar fyrir vestan landamærin að Saxlandi. Næstu borgir eru Leipzig til suðausturs (20 km), Magdeburg til norðurs (50 km) og Erfurt til suðvesturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Halle eru tvær rauðar stjörnur og rauður hálfmáni á hvítum grunni. Merki þetta var tekið upp 1450 en óvíst er um merkingu þess. Kenningar eru uppi um að stærri stjarnan sé sólin, að hún sé merki Maríu mey og að hún sé afbakaður saltkristall. Orðsifjar. Germanir nefndu staðinn upphaflega Dobrebora en fljótlega eftir að Karl hamar hertók var farið að kalla bæinn Halla og síðan Halle. Tvær skoðanir eru um merkingu þess. Í fyrsta lagi að það tengist salti, að Salz hafi breyst í Halla ("sal" verður að "hal"). Í öðru lagi að um slakka í landslaginu sé að ræða. Upphaf. Byggðin myndaðist í kringum saltnámur á miðöldum. Þar bjuggu þá ýmsir þjóðflokkar germana, en einnig slavar eins og vindar. Salt var óvíða að fá og því var svæðið mjög eftirsótt. Árið 735 hertók Karl hamar allt héraðið og innlimaði það frankaríkinu. Hann gaf hermönnum sínum saltnámurnar. Árið 806 kemur heitið Halle (eða Halla) fyrst fyrir í skjölum. 968 er biskupsdæmið í Magdeburg stofnað og tilheyrir Halle því allt til 1680. 1281 er Halle í Hansasambandinu. Aðalverslunarvaran er salt. 1503 flutti erkibiskupinn frá Magdeburg í nýreistan kastala í Halle og sitja biskupar þar allt til 1680. Siðaskipti og stríð. 1541 fóru siðaskiptin formlega fram í Halle eftir að Marteinn Lúther hafði sjálfur predikað þar nokkrum sinnum. Halle var á þessum tíma aðsetur biskupsins Albrecht von Brandenburg, sem jafnframt var kardináli. Hann ákvað að yfirgefa borgina í fússi og tók öll verðmæti með sér. Borgin var þaðan í frá stjórnuð af fulltrúa biskupanna. Við andlát Lúthers 1546 var líkami hans geymdur til skamms tíma í Halle. 1625 hertók Wallenstein borgina í 30 ára stríðinu. 1631 náðu Svíar að hrekja keisaraherinn á brott og hertaka borgina. 1680 lést síðasti biskupinn í borginni. Við það varð hún hluti af erkibiskupsdæminu í Brandenborg. 1701 varð borgin sjálf innlimuð í konungsríkið Brandenborg og var gerð að höfuðborg hertogadæmisins Magdeburg til skamms tíma. Nýrri tímar. 1806 birtust Frakkar við borgardyrnar. Þeir áttu í orrustu við prússa og sigruðu þá. Í kjölfarið hertóku þeir Halle. Nokkrum dögum síðar sótti Napoleon borgina heim. Hann lét loka háskólanum þar ("Alma mater halensis"). Ári síðar gaf Napoleon borgina konungsríkinu Vestfalíu. En eftir fall Napoleons 1815 varð hún prússnesk á ný. Síðla á 19. öld óx borgin mjög. 1890 fór íbúafjöldinn yfir 100 þúsund. Í apríl 1891 voru fyrstu rafmagns sporvagnarnir teknir í notkun, en þetta var slíka kerfið í Evrópu. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir óverulegum loftárásum bandamanna. Halle er því ein af fáum stórborgum Þýskalands sem slapp við skemmdir stríðsins. Um miðjan apríl hertóku Bandaríkjamenn borgina, en þeir skiluðu henni til Sovétmanna í júlí, enda í sovéska hernámssvæðinu. Halle varð þá höfuðborg héraðsins Sachsen í eitt ár. Halle var í Austur-Þýskalandi allt til sameiningar Þýskalands 1990. Við sameininguna varð gríðarmikið atvinnuleysi í borginni, þar sem atvinnuvegir áttu í erfiðleikum með að keppa við vestrænan varning. Enn í dag á borgin við erfiðleika að etja og fækkar íbúum enn mjög. Þeir voru 316 þúsund við sameiningu en eru aðeins 233 þúsund í dag. Þetta er ein allra mesta mannfækkun í þýskri stórborg á síðari tímum. Byggingar og kennileiti. Rauði turninn er einkennisbygging Halle. Til hægri er Frúarkirkjan. Dómkirkjan í Halle. Þar var Georg Friedrich Händel organisti meðan hann var ungur. Frúarkirkjan í Halle. Frúarkirkjan séð að austan. Turnbrúin sést vel á myndinni. Frúarkirkjan í Halle er fjögurra turna kirkja í miðborg þýsku borgarinnar Halle. Hún var reist á 16. öld og hófust siðaskiptin í Halle í henni. Hún er óvenjuleg að því leyti að í kirkjunni er engin kór, heldur tvær turnhliðar, ein að framan og ein að aftan. Lík Lúthers var geymt til skamms tíma í þessari kirkju 1546. Á 18. öld spiluðu Bach-feðgarnir á orgel kirkjunnar. Byggingarsaga. Albrecht frá Brandenborg lét reisa kirkjuna. Snemma á 16. öld varð Albrecht von Brandenburg ríkjandi biskup í borginni. Honum fannst að Halle ætti að skarta glæsibyggingum og því afréð hann að reisa Frúarkirkjuna. Til þess urðu tvær aðrar kirkjur, sem stóðu hlið við hlið, að víkja, þ.e. Maríukirkjan og Geirþrúðarkirkjan. Gömlu kirkjurnar voru farnar að taka við lúterstrú og því þótti biskupi ráð að fjarlægja þær fyrir nýja glæsikirkju. Aðeins turnar gömlu kirknanna fengu að standa. Frúarkirkjan var síðan reist á grunni þessara tveggja kirkna 1529-1554. Gömlu turnarnir eru sem sé turnar núverandi kirkju. Sökum þessa fékk nýja kirkjan engan kór. Skipið var reist milli gömlu turnanna og því eru framturnarnir allt öðruvísi en afturturnarnir. Afturturnarnir voru tengdir með brú. Hún gerði vaktmanninum þar kleift að fara turna á milli til að vara borgarbúa við eldsvoða og aðra óáran. Kirkjan sjálf er 88 metra löng. Saga kirkjunnar. Skírnarskráning Georgs Friedrichs Händel í kirkjuþjónustubók Frúarkirkjunnar árið 1685. Þrátt fyrir að vera höfuðkirkja biskupsins í Halle, fór fljótlega að bera á nýja siðnum í predikunum prestanna. Fljótlega eftir að áhrifa Marteins Lúthers fór að gæta í Halle fór Justus Jonas að predika lúterstrú og var honum vel tekið af borgarbúum. Kirkjan var þá enn í byggingu og varð söfnuðurinn að sitja að hluta til undir berum himni. 1541 kom það í hlut Jonasar að tilkynna formlega viðtöku lúterstrúar í borginni. Albrecht biskup, sem þá var orðinn nokkuð fullorðinn, lét þar við sitja og yfirgaf Halle fyrir fullt og allt. Reyndar lét hann taka alla dýrgripi og listaverk úr kirkjunni og hafði hann það á brott með sér. Lúther sjálfur predikaði í kirkjunni þrisvar eftir þetta, árin 1545 og 1546. Á síðarnefna árinu lést Marteinn Lúther í borginni Eisleben. Lík hans var flutt til Wittenberg, en meðan líkfylgdin kom við í Halle var lík hans geymt í frúarkirkjunni. 24. febrúar 1685 var Georg Friedrich Händel skírður í þessari kirkju, en hann er þekktasta barn borgarinnar. Árið 2006 var lítið Lúthersafn opnað í kirkjunni. Þar er m.a. að sjá dauðagrímu hans og afþrykki af höndum hans. Á brúnni milli framturnanna eru haldnir lúðratónleikar í dag, sérstaklega um jólin. Orgel. Orgelið í kirkjunni var smíðað 1663-64 og er meðal elstu orgelum í Mið-Þýskalandi. Það kostaði á sínum tíma 200 ríkisdali. Meðan Georg Friedrich Händel var enn kornungur fékk hann að æfa sig á orgelinu. 1746-1764 var Wilhelm Friedemann Bach organisti í kirkjunni, en hann var sonur meistarans Johanns Sebastians Bach. Bach yngri er oft kallaður Hallescher Bach til aðgreiningar frá föður sínum. Reyndar fékk Bach eldri einnig að spila á orgel í kirkjunni, en það var nýrra orgel frá 1716. Það orgel var viðgert 1984 og er í dag með 4.170 pípur. Sú stærsta er fimm metra há, en sú minnsta aðeins sex millimetra. Listaverk. Mýmörg málverk hanga í kirkjunni, aðallega frá 15. og 16. öld. Altaristaflan er frá 1529. Hún sýnir Maríu mey með ungbarn, sitjandi á hálfmána. Sitthvoru megin eru hliðartöflur sem hægt er að loka. Altarið sjálft er fengið frá annarri hvorri fyrirrennarakirkjunni og er frá 1430. Predikunarstóllinn er mikilfenglegur. Hann er úr sandsteini og var smíðaður 1541. Þak hans er frá 1596. Elinóra, mærin fagra af Bretagne. Elinóra af Bretagne (um 1184 – 10. ágúst 1241), sem kölluð var Mærin fagra af Bretagne, var dóttir Geoffrey Plantagenet, fjórða sonar Hinriks 2. Englandskonungs, og konu hans Konstönsu hertogaynju af Bretagne. Geoffrey faðir Elinóru dó árið 1186 og lét eftir sig tvær dætur, Elinóru og Matthildi, sem dó ung, en sjö mánuðum eftir dauða hans fæddist sonurinn Arthúr. Bróðir Geoffreys, Ríkharður konungur ljónshjarta, dó barnlaus 1199 og þá var Arthúr næstur í erfðaröðinni þar sem faðir hans hafði verið eldri en Jóhann landlausi, fimmti sonur Hinriks 2. En Jóhann gerði kröfu til þess að vera tekinn til konungs fremur en hinn 12 ára gamli Arthúr, enda hafði Ríkharður útnefnt hann arftaka sinn á banabeði, og eftir orrustuna við Mirabeau voru Arthúr og Elinóra tekin höndum. Arthúr hvarf árið 1203 og er talið að Jóhann hafi látið fyrirkoma honum eða jafnvel drepið hann sjálfur. Elinóra var höfð í haldi í Corfe-kastala í Dorset. Með réttu hefði hún átt að erfa hertogadæmið Bretagne eftir að Arthúr bróðir hennar var úr sögunni (móðir þeirra sagði af sér 1194 og þá varð hann hertogi) en aðalsmenn í hertogadæminu vildu ekki hætta á að hafa hertogaynju sem væri fangi Jóhanns landlausa, sem gæti þá stýrt Bretagne í gegnum hana, svo að þeir gerðu yngri hálfsystur hennar, Alix, að hertogaynju í staðinn. Elinóra átti líka í raun fullgilt tilkall til ensku krúnunnar eftir að Jóhann dó en þess í stað var níu ára sonur hans, Hinrik, gerður konungur. Elinóra var fangi í Corfe-kastala í 42 ár og dó þar án þess að fá nokkru sinni frelsi. Nellika. Nellika (eða drottningarblóm) (fræðiheiti: "Dianthus") er ættkvísl skrautplantna innan hjartagrasættar. Margar tegundir nellika eru ræktaðar sem garðplöntur og til afskurðar. Albrecht von Wallenstein. Mynd af Wallenstein frá 1625. Albrecht Wenzel Eusebius von Wallenstein (24. september 1583 – 25. febrúar 1634), líka Albrecht von Waldstein, var bæheimskur herstjóri yfir her hins Heilaga rómverska ríkis í Þrjátíu ára stríðinu. Hann kom sér upp gríðarstórum her til að berjast gegn mótmælendum og hrakti Kristján 4. til Sjálands sem batt endi á „danska tímabil“ styrjaldarinnar. Ferdinand 2. keisari óttaðist að Wallenstein hygði á valdarán og leysti hann því frá störfum 1630, en þegar Svíar, undir stjórn Gústafs Adolfs höfðu unnið marga sigra á keisarahernum var hann aftur kallaður til. Hann kom sér upp her á fáum vikum og hélt gegn Svíum. Eftir orrustuna við Lützen þar sem Gústaf Adolf féll, dró Wallenstein sig í hlé með her sinn. Eftir herfarir sumarsins 1633 urðu ráðamenn í Vín sannfærðir um að hann hygði á svik með bandalagi við Svía. Hann var myrtur ásamt nánustu herforingjum sínum af liði dragóna undir stjórn írskra og skoskra foringja. Sumarólympíuleikarnir 1920. Plakat Ólympíuleikanna í Antwerpen. Sumarólympíuleikarnir 1920 voru haldnir í Antwerpen í Belgíu á tímabilinu 20. apríl til 12. september. Evrópa var í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina, en þrátt fyrir það var ákveðið vorið 1919 að halda leikana í Antwerpen. Aðdragandi og skipulagning. Upphaflega áttu Ólympíuleikarnir 1920 að fara fram í Búdapest í Ungverjalandi, en Amsterdam og Lyon höfðu einnig falast eftir að halda þá. Eftir stríðið voru Þýskaland og bandalagsríki þeirra úr fyrri heimsstyrjöldinni beitt refsiaðgerðum. Því var Þjóðverjum, Austurríkismönnum, Ungverjum, Búlgörum og Tyrkjum meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum. Belgum var falin umsjón leikanna með rétt rúmlega árs fyrirvara og var það sagt í virðingarskyni við þær fórnir sem belgíska þjóðin hafði fært í stríðinu. Vegna hins skamma fyrirvara reyndist ekki unnt að ráðast í mikla mannvirkjagerð og voru flest íþróttamannvirki ýmist reist til bráðabirgða eða látið nægja að lappa upp á þau sem fyrir voru. Ólympíuleikvangur var þó reistur í flýti og er hann í seinni tíð heimavöllur knattspyrnuliðsins K.F.C. Germinal Beerschot. Skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Antwerpen varð gjaldþrota í kjölfar þeirra. Fyrir vikið eru minni upplýsingar varðveittar um skipulag og rekstur en um ýmsa aðra leika. Lokaskýrsla leikanna kom ekki út fyrr en 37 árum síðar og höfðu þá ýmis gögn tapast. Keppnisgreinar. Keppt var í 154 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Nedo Nadi vann til fimm gullverðlauna á leikunum og setti þar með met. Keppt var í 29 greinum frjálsíþrótta. Þar af unnu Bandaríkjamenn og Finnar til níu verðlauna hvor þjóð. Frakkinn Joseph Guillemot sigraði í 5.000 metra hlaupi og varð annar í 10.000 metrunum, þrátt fyrir að lungu hans hefðu stórskaðast af völdum sinnepsgass í heimsstyrjöldinni. Hinn 23 ára gamli Paavo Nurmi frá Finnlandi kom fram á sjónarsviðið og hlaut þrjú gull og eitt silfur í langhlaupum. Ítalski skylmingakappinn Nedo Nadi vann til fimm gullverðlauna á leikunum. Það var met sem stóð allt þar til Mark Spitz sigraði í sjö greinum á Ólympíuleikunum 1972. Svíinn Oscar Swahn vann til silfurverðlauna í skotfimi, 72 ára að aldri. Hann er elsti verðlaunahafinn í sögu Ólympíuleikanna ef frá eru taldar listgreinar. Hann hugðist keppa aftur á leikunum 1924, en komst ekki vegna veikinda. Belgar verða seint taldir til mestu íþróttaþjóða Evrópu. Þeir unnu þó til fjórtán gullverðlauna á leikunum, þar af átta í bogfimi. Tennisspilarinn Suzanne Lenglen var einn fyrsti kveníþróttamaðurinn til að öðlast frægð á við karlkyns keppendur. Bandaríski táningurinn Aileen Riggin sigraði í dýfingum af þriggja metra bretti. Hún var þá nýorðin fjórtán ára gömul. Hnefaleikakappinn Eddie Eagan frá Bandaríkjunum vann til gullverðlauna í hnefaleikakeppninni. Tólf árum síðar endurtók hann leikinn í bobsleðakeppninni á Vetrarólympíuleikunum í Lake Placid. Hann er því einn örfárra manna sem unnið hafa til verðlauna á bæði sumar- og vetrarleikum og sá eini sem hlotið hefur gull á þeim báðum. Knattspyrnukeppnin var söguleg og endaði í illdeilum. Landslið hins nýstofnaða ríkis Tékkóslóvakíu komst í úrslitaleikinn eftir að hafa sigrað alla andstæðinga sína með miklum mun. Í úrslitum mætti liðið heimamönnum Belga. Belgar komust í 2:0 og þegar einn leikmaður Tékkóslóvakíu var rekinn út af á 40. mínútu gekk allt liðið af velli til að mótmæla dómgæslunni í leiknum. Tékkum var í kjölfarið vikið úr keppni. Fyrr í keppninni komu Norðmenn mjög á óvart með því að slá út breska liðið, sem talið hafði verið sigurstranglegt. Svíar áttu fjóra efstu menn í keppni í nútíma fimmtarþraut. Sænskir íþróttamenn einokuðu raunar þessa keppnisgrein og unnu gullverðlaunin í fimm fyrstu skiptin sem keppt var í henni á Ólympíuleikum. Franska tenniskonan Suzanne Lenglen vann til gullverðlauna í einliðaleik og tvenndarleik. Hún var fyrsta stórstjarnan úr röðum kvenkyns tennisspilara og fékk viðurnefnið „gyðjan“, La Divine, í frönskum blöðum. Hún gerðist síðar atvinnutennisleikari í Bandaríkjunum. Bandaríkjamaðurinn Jack Kelly vann til tveggja gullverðlauna í róðrarkeppni leikanna. Hann var faðir leikkonunnar Grace Kelly. Bretar sigruðu í póló-keppninni. Meðal keppenda í breska liðinu var John Wodehouse 3ji jarlinn af Kimberley. Frændi hans var rithöfundurinn P. G. Wodehouse og er jarlinn sagður fyrirmyndin að hinni vinsælu persónu Bertie Wooster í bókum hans. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Vestur-íslensku ísknattleiksmennirnir á skipsfjöl á leiðinni á Ólympíuleikana 1920. Í ljósi nýfengins fullveldis var mikill áhugi meðal Íslendinga að taka þátt í Ólympíuleikunum. Alþingi veitti Íþróttasambandi Íslands styrk til keppnisfarar og stóð til að íslensk glíma yrði sýningargrein á sama hátt og í Stokkhólmi 1912. Flugkappinn Frank Fredrickson var fyrirliði Fálkanna. Hann gerðist síðar atvinnumaður í íþróttinni og vann Stanley-bikarinn, eftirsóttasta verðlaunagrip ísknattleiksmanna. Babb kom í bátinn þegar í ljós kom að Ólympíuferðin myndi rekast á við fyrirhugaða Íslandsför Kristjáns X Danakonungs sumarið 1920. Konungur óskaði eftir að fá að sjá glímu og vildu forystumenn íþróttamála tryggja að bestu keppendur landsins væru til reiðu. Var Ólympíuförin því blásin af, sem reyndist mistök því konungur neyddist til að fresta ferð sinni um eitt ár og kom ekki fyrr en sumarið 1921. Jón Kaldal var um þessar mundir búsettur í Kaupmannahöfn og lagði stund á langhlaup og ljósmyndun. Honum stóð til boða að keppa fyrir hönd Dana í 5.000 metra hlaupi á leikunum og neyddist til að þiggja boðið eftir að ÍSÍ kvað afdráttarlaust upp úr um það að ekki stæði til að senda keppendur til Antwerpen. Jón var fjarri sínu besta og komst ekki upp úr undanriðlum. Íslendingar áttu fleiri óbeina fulltrúa á leikunum en Jón Kaldal. Keppt var í tveimur greinum vetraríþrótta: listdans á skautum og ísknattleik. Lið Winnipeg Falcons mætti til leiks í ísknattleikskeppninni fyrir hönd Kanada, en liðið hafði fyrr á árinu unnið Allen-bikarinn, sem var landskeppni kanadískra áhugamannaliða. Nær allir leikmenn liðsins komu úr röðum Vestur-Íslendinga og höfðu sumir þeirra töluverð tengsl við upprunalandið. Þannig hélt fyrirliðinn Frank Fredrickson beint til Íslands að leikunum loknum, þar sem hann starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands. Lið Fálkanna stóð uppi sem sigurvegari í ísknattleikskeppninni og vann alla þrjá leiki sína án teljandi vandræða. Til að minnast þessara fyrstu Ólympíumeistara í sögu íþróttagreinarinnar skartar íslenska ísknattleikslandsliðið mynd af fálka. Marattaveldið. Kort af Suður-Asíu árið 1760. Marattaveldið er litað gult. Marattaveldið var ríki hindúa stofnað 1674 af Shivaji í vesturhluta Suður-Asíu þar sem nú er héraðið Maharashtra. Shivaji gerði fyrst uppreisn gegn íslömsku Dekkansoldánsdæmunum á suðurhluta Indlandsskaga og síðan gegn Mógúlveldinu fyrir norðan. Á hátindi sínum um miðja 18. öld myndaði Marattaveldið ríkjasamband sem náði yfir nær allan Indlandsskaga. Eftir orrustuna við Panipat gegn Durraniríkinu í Afganistan varð ríkjasambandið laustengdara og Bretar lögðu þessi ríki svo smám saman undir sig í þremur styrjöldum 1777-1818. Bórhópur. Bórhópur er þrettándi flokkur í lotukerfinu. Bór er fyrsta efnið í flokknum og er málmungur, restin eru tregir málmar. Tæring. Tæring er sundrun efnis í frumefni sín vegna efnahvarfa við önnur efni (aðallega oxíð) í umhverfi þess. Eiríkur Björn Björgvinsson. Eiríkur Björn Björgvinsson (f. í Reykjavík 6. september 1966) er bæjarstjóri á Akureyri. Eiríkur Björn varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 1987, lauk íþróttakennaraprófi á grunn- og framhaldsskólastigi frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1990 og diplómu frá Íþróttaháskólanum í Köln árið 1994 auk diplómaprófs í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000. Eiríkur Björn var æskulýðs- og íþróttafulltrúi Egilsstaðabæjar 1994-1996, íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar 1996-2002 og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði 2002-2010. Hann hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá 12. ágúst 2010. Eiginkona hans er Alma Jóhanna Árnadóttir, fædd 29. janúar 1969 á Húsavík. Hún er grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Þau eiga þrjá syni: Árna Björn, Birni Eiðar og Hákon Bjarnar. Einar Vilberg Hjartarson. Jónas og Einar - Gypsy Queen 1972 Plötudómur um Starlight í Tímanum 1976 Einar Vilberg (f. 26. apríl 1950) er íslenskur söngvari og lagasmiður. Ferill. Einar Vilberg fæddist í Reykjavík og ólst upp í Þingholtunum. Fjórtán ára byrjaði hann að semja eigin lög. Fyrsta alvöru hljómsveitin sem Einar var í hét Beatnicks, en hún lék mest þekkt og vinsæl erlend lög á skólaböllum. Einar hélt svo til London með Pétri Kristjánssyni söngvara og Gunnari Jökli trommuleikara árið 1969 á vegum Laufútgáfunar. Þeir bókuðu tíma í Regent Studio og tóku upp fjögur lög eftir Einar á átta tímum. Tvö laganna komu út á plötu árið eftir; "Vitskert veröld" og "Blómið sem dó" sem Pétur söng en hin tvö biðu þess að koma út löngu seinna á safndiski Péturs. Gypsy Queen. Á þessum tíma samdi Einar einnig lög fyrir aðra listamenn svo sem Janis Carol og Jónas R. Jónsson. Samvinnan við Jónas varð að samstarfi og árið 1972 gáfu þeir út LP plötuna "Gypsy Queen" sem var tekin upp í stúdíói Pétrurs Steingrímssonar að undanteknum tveimur lögum sem voru tekin upp í Svíþjóð. Platan vakti mikla athygli og þótti framsækin, umslagið var tvöfalt sem var nýlunda á þeim tíma. Platan var líka gefin út á kassettu og mun hún vera fyrsta íslenska hljómplatan sem kemur út á snældu. Í kjölfar "Gypsy Queen" var þeim félögum boðið að taka þátt í Yamaha Song Festival tónlistarhátíðinni í Tokyo í Japan og gáfu út tveggja laga plötu þar í landi. Starlight. Næsta stóra skref var gerð plötunnar "Starlight" sem kom út árið 1976. Platan var hljóðrituð í nýju átta rása stúdíói, Hljóðrita í Hafnarfirði. Upptökumaður var Jónas R. Jónsson en honum til aðstoðar var Baldur Már Arngrímsson. Einari til fulltingis við gerð plötunnar voru helstu popptónlistarmenn þess tíma eins og Pálmi Gunnarsson, Lárus Grímsson, Þórður Árnason, Ásgeir Óskarsson og fleiri. Platan fékk góða dóma. Gunnar Salvarsson skrifaði plötudóm í Tímann 4. Apríl 1976. bls,3. Noise. Í kjölfar útkomu "Starlight" flutti Einar sig um set og settist að í Kaupmannahöfn þar sem hann vann að sólóferli. Árið 1981 kom svo LP platan "Noise" út. "Noise" var tekin upp í Stúdíó Hlust við Rauðalæk og sá Rafn Sigurbjörnsson um upptökur. Útgáfufyrirtækið "Toni Permo" ýtti plötunni úr vör en Tóní þessi Permo mun vera samnefnari fyrir ákveðna tegund söngvara. Bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði. Fyrstu formlegu bæjarstjórnarkosningarnar í Hafnarfirði fóru fram 1. júní 1908. Fram til ársins 1930 fóru bæjarstjórnarkosningar yfirleitt fram á tveggja ára fresti og var kosið um tvo til fjóra bæjarfulltrúa í hvert skipti. Tveir til fjórir bæjarfulltrúar þurftu þá að víkja sæti fyrir hverjar kosningar, en máttu bjóða sig fram aftur. Frá og með 1930 hafa bæjarstjórnarkosningar farið fram á fjögurra ára fresti og hefur þá verið kosið um alla bæjarfulltrúa til fjögurra ára í senn. Í upphafi voru bæjarfulltrúar kosnir úr hópi kaupmanna og atvinnurekenda í Hafnarfirði og stuðningsmanna þeirra. Árið 1914 bauð Verkamannafélagið Hlíf fram lista fyrir bæjarstjórnarkosningar og myndaðist þá fyrsti vísir af flokkaskiptingu í bænum. 1908. Í lok febrúar 1908 fór fram prófkjör til að ákveða hverjir skyldu veljast til setu í bæjarstjórn. Prófkjörið fór þannig fram að fjölmennustu félög bæjarins kusu sér fulltrúa til að setja saman framboðslista. Þessir fulltrúar, sem samtals voru 11, létu prenta atkvæðaseðla með nöfnum nokkurra manna sem þóttu líklegir til að ná kjöri. Kjósendur í félögunum völdu síðan sjö manns af listunum, jafnmarga og fjölda bæjarfulltrúa, en einnig var heimilt að bæta nýjum nöfnum á atkvæðaseðilinn. Í kosningunum 1. júní var aðeins þessi eini listi í boði, með þeirri breytingu að Þórður Edílonsson kom inn í stað Páls Einarssonar, sem skömmu áður hafði verið skipaður borgarstjóri Reykjavíkur. Af rúmlega 400 manns sem voru á kjörskrá mættu aðeins 25 á kjörstað og greiddu allir þessum lista atkvæði. Félög í Hafnarfirði urðu öll ásátt um sameiginlegan framboðslista og því má segja að hinar raunverulegu bæjarstjórnarkosningar hafi verið prófkjörið sem fór fram í lok febrúar, kosningarnar 1. júní hafi aðeins verið formsatriði. Árið 1930 var horfið frá því fyrirkomulagi að bæjarfógeti væri jafnframt bæjarstjóri. 1909. Ógild atkvæði voru 19. Á kjörskrá voru rúmlega 480 manns. Kristinn Vigfússon sagði sig úr bæjarstjórn 10. september 1910 vegna heilsubrests. Í stað hans var kosið um nýjan fulltrúa 11. október sama ár. Eini frambjóðandinn var Sigurgeir Gíslason og var hann kosinn með öllum atkvæðum. 1912. Ógild atkvæði voru 28. Kosningu hlutu Þórður Edílonsson og Sigurgeir Gíslason Kosningu hlutu Elías Halldórsson og Sigurður Bjarnason 1914. Kosningu hlutu August Flygenring, Guðmundur Helgason og Magnús Jóhannesson. Kosningu hlutu Sveinn Auðunsson og Pétur V. Snæland. Kosningu hlutu Einar Þorgilsson, Davíð Kristjánsson, Gísli Kristjánsson og Þórður Edílonsson. Þó að fulltrúar Hlífar hafi verið fimm að loknum þessum kosningum þýðir það ekki að Hlíf hafi haft meirihluta í bæjarstjórninni. Flokkaskipting var ekki orðin eins skýr og hún varð síðar. Auk þess hafði Pétur V. Snæland aldrei verið í félaginu. Kosningu hlutu Guðmundur Helgason, Sigurgeir Gíslason og Steingrímur Torfason. Kosningu hlutu Pétur V. Snæland og Sveinn Auðunsson. Greidd voru 711 atkvæði, 11 voru ógild. Kosningu hlutu Ólafur Böðvarsson (A) og Gunnlaugur Kristmundsson (B) Þetta voru síðustu kosningarnar þar sem Verkamannafélagið Hlíf bauð fram lista. Við Verkamannafélaginu í þessum málefnum tók fulltrúaráð verkalýðsfélaganna og Alþýðuflokksins, sem þá hafði nýlega verið stofnað í Hafnarfirði. Þessar kosningar voru einnig sögulegar að því leyti að lengi vel upp frá þessu tókust tvö öfl á um völdin í bænum: Alþýðuflokkurinn og Borgaraflokkurinn (sem síðar varð að Íhaldsflokknum, og enn síðar að Sjálfstæðisflokknum). Þrjá fulltrúa átti að kjósa til sex ára. Þar voru einnig A-listi Alþýðuflokksins og B-listi Íhaldsflokksins í framboði. Bæjarfulltrúar urðu Björn Jóhannesson (A), Þorvaldur Árnason (A) og Ásgrímur M. Sigfússon (B). Þessar kosningar urðu upphafið að 28 ára samfelldum meirihluta Alþýðuflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Bæjarstjórnarkosningar áttu að fara fram 21. janúar. Alþýðuflokkurinn og Íhaldsflokkurinn ákváðu hins vegar að bjóða fram sameiginlegan lista, sem á voru Gunnlaugur Kristmundsson (Alþýðuflokki) og Helgi Guðmundsson (Íhaldsflokki). Þar sem sýnt þótti að flokkarnir fengju hvor sinn fulltrúa var ákveðið að aflýsa kosningunum. Enginn annar listi bauð fram og voru Gunnlaugur og Helgi því sjálfkjörnir, án þess að kosningar færu fram. Greidd atkvæði voru 1432, þar af voru 24 atkvæði ógild. Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar, 28. janúar, var Björn Jóhannesson kosinn forseti bæjarstjórnar. Emil Jónsson var kosinn bæjarstjóri og Davíð Kristjánsson varabæjarstjóri. Þorvaldur Árnason óskaði eftir lausn frá bæjarfulltrúastarfinu 22. febrúar 1930. Emil Jónsson tók sæti hans, en hann hafði verið fyrsti varabæjarfulltrúi Alþýðuflokksins. Helgi Guðmundsson sagði sig úr bæjarstjórn vegna flutnings úr bænum í upphafi ársins 1931. Sæti hans tók Bjarni Snæbjörnsson. Bæjarstjóri varð Emil Jónsson og forseti bæjarstjórnar var Björn Jóhannesson. Guðmundur Jónasson varð varabæjarstjóri. Davíð Kristjánsson tók við sem forseti bæjarstjórnar í janúar 1936, en Björn Jóhannesson gat ekki sinnt störfum vegna veikinda. Við sæti hans í bæjarstjórn tók Magnús Kjartansson. Emil Jónsson lét af embætti bæjarstjóra 1. maí 1937, en sat þó áfram í bæjarstjórninni. Á sama tíma fékk Guðmundur Jónasson lausn frá starfi varabæjarstjóra. Sem varabæjarstjóri í hans stað var kosinn Guðmundur Gissurarson og sinnti hann störfum bæjarstjóra út kjörtímabilið. Ólafur Þórðarson sagði sig úr bæjarstjórninni 15. desember 1937 og tók Sigurgeir Gíslason sæti hans. Björn Jóhannesson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Bæjarstjóri var kosinn Friðjón Skarphéðinsson. Hann tók þó ekki við embættinu fyrr en í júní 1938 og var Guðmundur Gissurarson bæjarstjóri þangað til. Bæjarstjóri var Friðjón Skarphéðinsson. Hann lét af störfum í lok febrúar 1945 og var Eiríkur Pálsson ráðinn bæjarstjóri í stað hans, 1. mars 1945. Hermann Guðmundsson sagði sig úr bæjarstjórn 20. október 1942 og sæti hans tók Bjarni Snæbjörnsson. Björn Jóhannesson varð forseti bæjarstjórnar og Eiríkur Pálsson var bæjarstjóri. Eiríkur lét af starfi bæjarstjóra 1. nóvember 1948. Guðmundur Gissurarson varð bæjarstjóri til ársloka 1948, en 1. janúar 1949 tók Helgi Hannesson við embættinu. Bjarni Snæbjörnsson sagði sig úr bæjarstjórn 6. maí 1947 og tók Þorleifur Jónsson við sæti hans. Helgi Hannesson var endurkjörinn bæjarstjóri og Guðmundur Gissurarson varð forseti bæjarstjórnar. Þorleifur Jónsson sagði sig úr bæjarstjórn 6. janúar 1951 og tók Ingólfur Flygenring sæti hans. Framsóknarflokkurinn bauð fram lista í fyrsta sinn í Hafnarfirði, en hingað til hafði flokkurinn stutt Alþýðuflokkinn í bæjarmálunum. Meirihluti Alþýðuflokksins féll í þessum kosningum, en hann hafði verið óslitinn frá árinu 1926. Alþýðuflokkurinn myndaði þess vegna meirihluta með Sósíalistaflokknum. Stefán Gunnlaugsson var kjörinn bæjarstjóri og Geir Gunnarsson varabæjarstjóri. Forseti bæjarstjórnar var endurkjörinn Guðmundur Gissurarson. Emil Jónsson tók bæjarfulltrúasæti Stefáns Gunnlaugssonar 2. mars 1954. Stefáni fannst ekki fara vel á því að vera bæði bæjarfulltrúi og bæjarstjóri. Um tíma slitnaði upp úr meirihlutasamstarfinu vegna deilna Alþýðuflokksins og Sósíalistaflokksins um rekstur Bæjarútgerðarinnar seint á árinu 1956. Þá hófust tilraunir um meirihlutamyndun - annars vegar milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og hins vegar milli Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks. Alþýðuflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn náðu hins vegar samkomulagi um Bæjarútgerðina og hófst meirihlutasamstarf þeirra að nýju. Þessar kosningar urðu sögulegar að því leyti að konur settust í fyrsta sinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið mynduðu meirihluta. Stefán Gunnlaugsson var áfram bæjarstjóri, Geir Gunnarsson varabæjarstjóri og Guðmundur Gissurarson var forseti bæjarstjórnar. Guðmundur Gissurarson lést 6. júní 1958 og tók Emil Jónsson sæti hans í bæjarstjórn. Forseti bæjarstjórnar varð Kristinn Gunnarsson. Frá 1959-1962 sat Þórður Þórðarson í bæjarstjórn í stað Emils Jónssonar, sem tók sér frí frá bæjarstjórnarstörfum vegna anna í ríkisstjórn og á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu meirihluta að loknum kosningunum. Hafsteinn Baldvinsson var ráðinn bæjarstjóri og Stefán Jónsson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Embætti varabæjarstjóra var lagt niður. Í janúar 1963 slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Næstu mánuði var enginn ákveðinn meirihluti í bæjarstjórninni, en í júní 1963 mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur meirihluta, sem stóð út kjörtímabilið. Í þessum kosningum kom fram nýtt stjórnmálaafl: Félag óháðra borgara, sem samanstóð af fólki úr öllum stjórnmálaflokkum og óflokksbundnu fólki. Helsti hvatinn að stofnun þess var óánægja með meirihlutasamstarf Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Árni Gunnlaugsson var kosinn forseti bæjarstjórnar og Kristinn Ó. Guðmundsson var ráðinn bæjarstjóri fyrst um sinn. Meirihlutamyndun gekk erfiðlega, en í september 1966 náðu Sjálfstæðisflokkurinn og Félag óháðra borgara samkomulagi um meirihlutasamstarf. Kristinn Ó. Guðmundsson var ráðinn bæjarstjóri út kjörtímabilið. Kristinn Gunnarsson sagði sig úr bæjarstjórninni 27. júlí 1967 og settist Vigfús Sigurðsson í sæti hans. Hörður Zóphaníasson var erlendis veturinn 1968-1969 og var Yngvi Rafn Baldvinsson í bæjarstjórninni þann vetur. Stefán Jónsson var kosinn forseti bæjarstjórnar árið 1968. Greidd atkvæði voru 4776, þar af voru 60 seðlar auðir og ógildir. Alþýðuflokkurinn, Félag óháðra borgara og Framsóknarflokkurinn mynduðu meirihluta að loknum kosningunum. Kristinn Ó. Guðmundsson var endurráðinn bæjarstjóri og Stefán Gunnlaugsson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Greidd atkvæði voru 5584. Auðir og ógildir seðlar voru 58. Við þessar kosningar var bæjarfulltrúum fjölgað um tvo og urðu þeir nú ellefu í stað níu. Sjálfstæðisflokkurinn og Félag óháðra borgara mynduðu meirihluta eftir kosningarnar. Kristinn Ó. Guðmundsson var endurráðinn bæjarstjóri út kjörtímabilið. Stefán Jónsson varð forseti bæjarstjórnar. Haukur Helgason sagði sig úr bæjarstjórninni 21. júní 1977 vegna flutnings úr bænum. Við sæti hans tók Guðríður Elíasdóttir. Samtals voru greidd 6107 atkvæði. Auðir seðlar og ógildir voru 136. Sjálfstæðisflokkur og Félag óháðra borgara héldu meirihlutasamstarfi sínu áfram. Kristinn Ó. Guðmundsson var endurráðinn bæjarstjóri og Stefán Jónsson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Kristinn Ó. Guðmundsson lét af starfi bæjarstjóra í júlí 1979 og var Einar Ingi Halldórsson ráðinn í hans stað. Hann tók við starfinu 15. júlí 1979. Rannveig Traustadóttir var erlendis 1979-1981 og sat Þorbjörg Samúelsdóttir í bæjarstjórn í forföllum hennar. Atkvæði greiddu 6571, þar af voru 188 seðlar auðir og ógildir. Sjálfstæðisflokkurinn og Félag óháðra borgara héldu meirihlutasamstarfinu áfram. Árni Grétar Finnsson var kosinn forseti bæjarstjórnar og Einar Ingi Halldórsson var ráðinn bæjarstjóri út kjörtímabilið. Samtals voru greidd 7469 atkvæði. Auðir og ógildir seðlar voru 142. Að þessum kosningum loknum hófu Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið meirihlutasamstarf. Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar þann 16. júní var Guðmundur Árni Stefánsson ráðinn bæjarstjóri. Jóna Ósk Guðjónsdóttir var kosin forseti bæjarstjórnar og varð hún þar með fyrsta konan til að gegna því embætti. Greidd atkvæði voru 8530. Auðir og ógildir seðlar voru 107. Alþýðuflokkurinn fékk hreinan meirihluta í þessum kosningum, í fyrsta sinn síðan árið 1950. Að kosningum loknum áttu Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið í óformlegum viðræðum um áframhaldandi meirihlutasamstarf, en enginn samstarfsflötur fannst í þessum viðræðum. Alþýðuflokkurinn sat því einn í meirihluta á þessu kjörtímabili. Guðmundur Árni Stefánsson var endurráðinn bæjarstjóri og Jóna Ósk Guðjónsdóttir var kosin forseti bæjarstjórnar. Guðmundur Árni var skipaður heilbrigðis- og tryggingaráðherra 14. júní 1993. Hann lét því af starfi bæjarstjóra en sat áfram sem bæjarfulltrúi til loka kjörtímabilsins. Við embætti bæjarstjóra tók Ingvar Viktorsson og gegndi hann starfinu út kjörtímabilið. Atkvæði greiddu 9984, þar af voru auðir og ógildir seðlar 158. Þetta voru síðustu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði þar sem Alþýðubandalagið bauð fram lista Alþýðuflokkurinn missti hreinan meirihluta sinn í þessum kosningum. Eftir meirihlutaviðræður, bæði við Alþýðuflokk og Sjálfstæðisflokk myndaði Alþýðubandalagið meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Magnús Jón Árnason var ráðinn bæjarstjóri og Ellert Borgar Þorvaldsson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Í júní 1995 slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins. Alþýðuflokkurinn myndaði þá nýjan meirihluta ásamt tveimur af fjórum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins: Jóhanni G. Bergþórssyni og Ellerti Borgari Þorvaldssyni. Ingvar Viktorsson var ráðinn bæjarstjóri og Ellert Borgar Þorvaldsson var kosinn forseti bæjarstjórnar.. Þessi meirihluti hélst til loka kjörtímabilsins. Atkvæði greiddu 9930, 363 seðlar voru auðir og ógildir. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn gengu klofnir til þessara kosninga. Hluti Sjálfstæðismanna bauð fram Hafnarfjarðarlistann, sem samanstóð af stuðningsmönnum Jóhanns G. Bergþórssonar. Fjarðarlistinn var skipaður fólki úr Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu, kvennalistanum og óflokksbundnum jafnaðar- og félagshyggjumönnum. Þetta voru síðustu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði þar sem Alþýðuflokkurinn bauð fram. Hafnarfjörður var jafnframt eina sveitarfélagið á landinu þar sem Alþýðuflokkurinn bauð fram sérstakan lista. Eftir kosningarnar mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn meirihluta. Magnús Gunnarsson var ráðinn bæjarstjóri og Valgerður Sigurðardóttir var kosin forseti bæjarstjórnar. Í lok október 1999 sameinuðust Alþýðuflokkurinn og Fjarðarlistinn, ásamt fleiri félögum, undir merkjum Samfylkingarinnar. Samfylkingin átti þar með fimm bæjarfulltrúa það sem eftir var af kjörtímabilinu. Greidd atkvæði voru 11. 393, þar af voru 347 seðlar auðir og ógildir. Samfylkingin vann hreinan meirihluta í þessum kosningum og var Lúðvík Geirsson ráðinn bæjarstjóri að þeim loknum. Jóna Dóra Karlsdóttir var kosin forseti bæjarstjórnar. Í lok júní 2004 lét Jóna Dóra af embætti forseta bæjarstjórnar og við henni tók Gunnar Svavarsson. Gunnar gegndi starfi forseta út kjörtímabilið. Greidd atkvæði voru 11.723, auðir og ógildir seðlar voru 338. Lúðvík Geirsson varð áfram bæjarstjóri að loknum kosningunum. Gunnar Svavarsson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Gunnar Svavarsson náði sæti á Alþingi í alþingiskosningum í maí 2007. Í júní sama ár lét hann af starfi forseta bæjarstjórnar. Við honum tók Ellý Erlingsdóttir. Í febrúar 2010 sagði Ellý Erlingsdóttir sig úr bæjarstjórninni vegna flutninga. Eyjólfur Sæmundsson tók sæti hennar í bæjarstjórn. Forseti bæjarstjórnar í stað Ellýjar var kosinn Guðmundur Rúnar Árnason. Greidd atkvæði voru 11.589. Auðir seðlar voru 1578 og ógildir seðlar voru 106. Meirihluti Samfylkingarinnar féll í þessum kosningum. Samfylkingin myndaði þess vegna meirihluta með Vinstrihreyfingunni-Grænu framboði. Lúðvík Geirsson varð áfram bæjarstjóri og Guðmundur Rúnar Árnason var kosinn forseti bæjarstjórnar. Samkvæmt samkomulagi sem flokkarnir tveir gerðu með sér var ákveðið að Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tæki við embætti bæjarstjóra í júní 2012. Ráðning Lúðvíks sem bæjarstjóra mætti nokkurri andstöðu meðal bæjarbúa. Meðal annars var litið svo á að hann hafi sett bæjarstjórastólinn að veði í kosningunum, en hann komst ekki að sem bæjarfulltrúi. Þann 8. júlí 2010 fór því svo að Lúðvík ákvað að láta af störfum sem bæjarstjóri. Við bæjarstjórastarfinu tók Guðmundur Rúnar Árnason. Hann gegndi embættinu til 27. júní 2012, en þann dag tók Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir við starfinu og varð þar með fyrsta konan til að gegna embætti bæjarstjóra í Hafnarfirði. Guðmundur Rúnar lét af embætti forseta bæjarstjórnar í september 2010 og í stað hans var Sigríður Björk Jónsdóttir kosin forseti. Í október 2011 lét Sigríður Björk af starfi forseta og tók Margrét Gauja Magnúsdóttir við af henni. Guðmundur Rúnar Árnason var svo kosinn forseti bæjarstjórnar 27. júní 2012, eftir að hann lét af embætti bæjarstjóra. Guðmundur Rúnar lét af störfum sem bæjarfulltrúi í september 2012. Við sæti hans í bæjarstjórn tók Lúðvík Geirsson. Forseti bæjarstjórnar í stað Guðmundar var kosin Margrét Gauja Magnúsdóttir. Margrét Gauja Magnúsdóttir fór í fæðingarorlof frá ágúst 2010 til febrúar 2011 og tók Lúðvík Geirsson sæti hennar í bæjarstjórn á meðan. Árhvammur í Öxnadal. Árhvammur er nýbýli úr landi Auðna í Öxnadal, byggt árið 1956 af Guðmundi Heiðmann Jósavinssyni (f. 8. maí 1931) frá Auðnum og Jennýju Júlíusdóttur (f. 14. mars 1934) frá Hörg á Svalbarðseyri. Steinsstaðir. Steinsstaðir er bær í Tungusveit í Skagafirði, fornt höfuðból og landnámsjörð Kráku-Hreiðars. Búskapur lagðist niður á Steinsstöðum 1943 en jörðinni var þá skipt niður í nokkur nýbýli og nú hefur risið dálítið þéttbýli í landi Steinsstaða. Mikill jarðhiti er í landi Steinsstaða og næstu jarðar, Reykja. Þar var frá fornu fari þvottalaug, Steinsstaðalaug, sem mestöll sveitin nýtti sér. Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem fæddur var á Steinsstöðum 1762, lýsir lauginni svona árið 1792: „Spottakorn fyrir sunnan Reyki er hin fagra Steinsstaðalaug, sem er ekki heitari en svo að þægilegt er að þvo í henni. Þess vegna hefur verið gert þar þvotta- og þófarastæði fyrir hérumbil alla sveitina (þófara­bálkur).“ Páll Sveinsson silfursmiður á Steinsstöðum, faðir Sveins, smíðaði vatnsmyllu við laugarlækinn. Árið 1822 hóf Jón Þorláksson Kærnested sundkennslu sem mun hafa farið fram í Steinsstaðalaug þótt oft sé sagt að hún hafi verið á Reykjum. Er talið vel líklegt að Fjölnismenn, eða einhverjir þeirra, hafi þá verið meðal nemenda hans, því Jónas Hallgrímsson og Brynjólfur Pétursson voru við nám í Goðdölum og Konráð Gíslason átti heima skammt frá. Eftir það var sund kennt þar öðru hverju og frá 1890 á hverju vori. Síðar var hlaðin upp laug á Steinsstöðum og var þar fyrsti opinberi sundstaður Skagafjarðarsýslu. Árið 1925 var svo hafist handa við að steypa upp sundlaug og var það fyrsta steinsteypta laug sýslunnar. Núverandi sundlaug var tekin í notkun 1980. Á Steinsstöðum reis skóli fyrir sveitina 1949 og var þar heimavist til 1976. Kennslu var hætt í Steinsstaðaskóla vorið 2003 og farið að flytja alla nemendur í Varmahlíðarskóla. Nú er skólahúsið nýtt til ferðaþjónustu. Félagsheimilið Árgarður var vígt 1974. Í landi jarðarinnar hafa risið mörg nýbýli, iðnaðarbýli og íbúðarhús, þar á meðal þjónustu- og ferðamannamiðstöðin Bakkaflöt. Þar er einnig nokkur sumarbústaðabyggð. Uniform Type Identifier. Uniform Type Identifier eða UTI er strengur skilgreindur af Apple Inc til að einkenna með einkvæmum hætti tegund hvers kyns gagna, hvort sem það eru skrár, möppur, skráavöndlar, klemmuspjaldsgögn eða annað. UTI var bætt við í Mac OS X 10.4. Tilgangurinn var að búa til aðferð til að einkenna gögn sem væri áreiðanlegri en eldri aðferðir; MIME-tegund, skráarending, Type code eða Creator code. Nafnrýmið codice_1 inniheldur allar grunngagnagerðir kerfisins. Alþjóðlegur staðall. Alþjóðlegur staðall er staðall sem hefur verið samþykktur af alþjóðlegri staðlastofnun. Slíkir staðlar eru ætlaðir til notkunar um allan heim. Þekktasta stofnunin af þessu tagi er Alþjóðlega staðlastofnunin. Notkun alþjóðlegra staðla er ein leið til þess að minnka hindranir í alþjóðaviðskiptum og notkun nýrrar tækni. Hugbúnaðarhönnun. Hugbúnaðarhönnun er hönnun hugbúnaðarlausna með því að taka niðurstöður þarfagreiningar og vinna úr þeim áætlun fyrir hugbúnaðarþróun. Hugbúnaðarhönnun getur falist jafnt í því að útfæra einstaka forritshluta, gagnagrindur og reiknirit eins og að gera heildarlíkan af hugbúnaðinum sem ætlunin er að þróa. Hugbúnaðarleyfi. Hugbúnaðarleyfi er samningur sem notendur hugbúnaðar samþykkja, venjulega þegar hugbúnaðurinn er settur upp í tölvu. Samningurinn kveður á um skilyrði fyrir notkun og dreifingu hugbúnaðarins. Allur hugbúnaður, nema hugbúnaður sem kominn er í almenning, er háður skilyrðum höfundaréttar. Venjulega tiltekur notkunarleyfið að notandi megi nota eitt eða fleiri eintök hugbúnaðarins sem ella væri brot á einkarétti höfundarétthafa. Hugbúnaður er gjarnan flokkaður í sérbúnað, fríbúnað og frjálsan hugbúnað, eftir því hvers konar notkunarleyfi fylgir honum. Málning. Málning er litaður þornandi vökvi sem borinn er á undirlag til að lita það og/eða verja gegn skemmdum með því að þekja það ógagnsærri, þurri filmu. Meginhlutar málningar eru bindiefnið (sem oftast skilgreinir hverrar tegundar málningin er), litarefni, leysiefni, fylliefni og hjálparefni. Hluti málningarinnar (leysiefni og ýmis hjálparefni) gufar upp þegar hún þornar en hluti verður eftir í filmunni (þurrefnisinnihald). Málning getur verið eðlisþornandi eða efnisþornandi eftir því hvort hún þornar við uppgufun leysiefnisins (s.s. akrýlmálning) eða við efnahvörf í bindiefninu (s.s. alkýðmálning). Þýringaland. Þýringaland (þýska: "Thüringen") er eitt af sambandslöndum Þýskalands. Íbúar eru rúmlega 2,2 milljónir talsins, en höfuðborgin heitir Erfurt. Þýringaland var heimaland og eitt helsta áhrifasvæði Marteins Lúthers á 16. öld. Þar má nefna kastalavirkið Wartburg þar sem hann faldist og þýddi Nýja testamentið á þýsku. Lega. Þýringaland er nokkuð miðsvæðis í Þýskalandi og var áður suðvestasta héraðið í gamla Austur-Þýskalandi. Það er umkringt öðrum sambandslöndum og nær hvergi að sjó. Fyrir sunnan er Bæjaraland, fyrir vestan er Hessen, fyrir norðvestan er Neðra-Saxland, fyrir norðan er Saxland-Anhalt og fyrir austan er Saxland. Orðsifjar. Héraðið hét upphaflega Turingia (eða Thuringia) og er nefnt eftir samnefndum germönskum þjóðflokki sem þar bjó. Getgátur eru uppi um það að forskeytið "thur-" sé dregið af gamla germanska orðinu "þorri", sem merkir "fjöldi". Fáni og skjaldarmerki. Fáni Þýringalands hefur tvær láréttar rendur, hvít að ofan og rauð að neðan. Litirnir eru fengnir að láni frá gamla skjaldarmerki Konráðs von Thüringen frá 13. öld. Fáni þessi var tekinn upp 1920 er landið Thüringen var stofnað. Skjaldarmerkið er tvílitað ljón, rautt og hvítt á bláum grunni. Í kringum það eru átta hvítar stjörnur, sem tákna þau sjö fríríki sem Thüringen var sett saman úr 1920, auk einnar stjörnu fyrir Prússland. Ljónið er merki Ludowinger-ættarinnar. Merkið var tekið upp í breyttu formi 1945. Núverandi merki var tekið upp 1990, við sameiningu Þýskalands. Theodór Árnason. Theodór Árnason (10. desember 1889 – 7. maí 1952) var fiðluleikari og þýðandi. Hann er hvað þekktastur fyrir hafa þýtt Grimms ævintýri. 1005. Á Íslandi. Fimmtardómur var stofnaður. Hann starfaði sem einskonar yfirréttur. Frostastaðir. Frostastaðir eru bær í Blönduhlíð í Skagafirði, fornt stórbýli og um skeið sýslumannssetur. Jarðarinnar er getið í Sturlungu en um 1332 komst hún í eigu Hólastóls. Jón Steingrímsson eldklerkur, sem fæddur var á Þverá, næsta bæ, bjó á Frostastöðum 1754-1756. Jón Espólín sýslumaður og fræðimaður eignaðist jörðina árið 1822 og bjó þar til dauðadags 1836. Sonarsonur hans, Jón Espólín Hákonarson, fór til Danmerkur og Svíþjóðar og stundaði þar nám, meðal annars í jarðyrkju. Þegar hann kom heim hóf hann búskap á Frostastöðum 1852 og tók þá til sín nemendur í jarðyrkju. Má segja að það hafi verið fyrsti vísir að bændaskóla á Íslandi en hans naut ekki lengi við því Jón dó sumarið 1853. Hjaltastaðir (Blönduhlíð). Hjaltastaðir er bær í Blönduhlíð í Skagafirði. Jörðinni tilheyrðu áður hjáleigurnar Hjaltastaðahvammur og Hjaltastaðakot (nú Grænamýri) og á 20. öld var nýbýlið Hjalli reist í landi jarðarinnar. Hjaltastaða er fyrst getið árið 1388 en þá hét jörðin raunar Syðstihvammur. Hjaltastaðanafnið var þó komið fram árið 1449. Eggert Briem, sýslumaður Skagfirðinga, bjó á Hjaltastöðum frá 1862-1872 og þar ólst upp dóttir hans, húsmæðrakennarinn Elín Briem. Frá 1878 til 1880 starfaði Kvennaskóli Skagfirðinga á Hjaltastöðum en hann hafði verið stofnaður 1877 í Ási í Hegranesi. Skólinn var svo fluttur að Flugumýri. Uppsalir (Blönduhlíð). Uppsalir er fremsti bær í Blönduhlíð í Skagafirði. Jarðarinnar er fyrst getið í Sturlungu en Guðmundur dýri Þorvaldsson galt hana í manngjöld árið 1188. Þar og í öðrum elstu heimildum kallast bærinn Uppsalir en seinna var hann oft nefndur "Umsvalir". Bærinn á Uppsölum stóð áður mun hærra og nær fjallinu en núverandi bæjarstæði. Guðný Ólafsdóttir, kona Bólu-Hjálmars, var frá Uppsölum og þau Hjálmar bjuggu þar 1829-1833 en byggðu þá upp á Bólu, sem var gömul eyðihjáleiga frá Uppsölum. Jóhannes Birkiland rithöfundur var frá Uppsölum og lýsir uppvexti sínum þar í bók sinni "Harmsaga ævi minnar". Jena. Jena er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Þýringalandi ("Thüringen") og er með 104 þúsund íbúa. Jena er háskólaborg en háskólinn þar er sá stærsti í Þýringalandi með rúmlega 20 þúsund stúdenta. Lega. Jena liggur austarlega í Þýringalandi, rétt fyrir norðan miðhálendið Thüringer Wald. Næstu borgir eru Weimar til vesturs (20 km), Gera til austurs (30 km) og Leipzig til norðausturs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir erkiengilinn Míkael, sem þrykkir lensu inn um gin græns dreka. Á hægri hendi Míkaels er gulur skjöldur með svörtu ljóni en það er gamalt merki greifanna frá Meissen. Neðst er annar skjöldur með vínberjum en hann vísar til vínræktunar héraðsins. Öll eru merkin orðin nokkuð gömul og hafa breyst í tímans rás. Síðustu breytingar voru gerðar 1999. Orðsifjar. Elsta heiti borgarinnar er Jani en það er dregið af gamla orðinu Jahne og merkir hér sennilegast "vínrunnaröð". Upphaf. 1182 kemur heiti borgarinnar fyrst við skjöl svo öruggt sé, en bærinn er þó nokkuð eldri. 1230 fékk Jena borgarréttindi og var þá byrjað að víggirða hana. Aðalatvinnuvegurinn er vínrækt. 1423 varð Jena hluti af kjörfurstadæminu Saxland. Siðaskipti og háskóli. 1523 urðu siðaskiptin í borginni með predikaranum Martin Reinhardt. Hann þótti helst til róttækur, þannig að Marteinn Lúther lét vísa honum burt úr borginni ári síðar. 1525 gerðu bændur uppreisn mikla og eyðilögðu tvö klaustur í borginni. 1558 var háskólinn í Jena stofnaður. Hann var á sínum tíma einn nafntogaðasti háskóli þýska ríkisins og jafnframt einn sá stærsti. Milli 1706 og 1720 námu þar 1.800 stúdentar, fleiri en í nokkrum öðrum þýskum skóla. Þar voru ýmsir merkir menn kennarar. Johann Wolfgang von Goethe var ráðgjafi í borginni og hafði umsjón með skólanum. Af þekktum kennurum má nefna Georg Hegel heimspeking og Friedrich Schiller skáld. Af þekktum nemendum háskólans má nefna Axel Oxenstjerna sænskur ríkiskanslari, Gottfried Wilhelm Leibniz eðlisfræðing og stærðfræðing, Ernst Abbe eðlisfræðing og á 19. öld Karl Marx heimspeking. Orrustan við Jena. Napoleonssteinninn. Minnisvarði um orrustuna við Jena. 1806 réðist Napoleon inn í héraðið. Prússar tóku þar á móti þeim og kom þar til stórorrustu við Jena 14. október. Prússar voru með varaher sinn í og við Jena. Aðalherinn, ásamt herjum Saxlands, voru við Auerstedt, 22 km norðaustar. Þar sem Napoleon vissi ekki nákvæma staðsetningu á herjum Prússa vegna þoku, taldi hann herinn við Jena vera aðalher þeirra. Napoleon var með 95 þúsund manns en prússar aðeins 53 þús. Frakkar gjörsigruðu í orrustunni. Í valnum lágu 10 þúsund Prússar. Varaher Frakka gekk hins vegar beint í flasið á aðalher prússa við Auerstedt. Þrátt fyrir það náðu Frakkar að sigra í þeirri orrustu líka en hún fór fram samtímis orrustunni við Jena. Eftir þennan stórsigur Napoleons, hertók hann Jena, seinna Erfurt og þremur vikum síðar hélt hann innreið sína í Berlín. Austurþjóðverjar héldu minningarhátíð um þessa orrustu 1986 en þá voru liðin 180 ár frá því hún átti sér stað. 2006, 200 árum eftir orrustuna, var sett upp viðamikil útileiksýning við Jena þar sem orrustan við Jena var leikin eftir. Leiksýning þessi er endurtekin á fimm ára fresti. Nýrri tímar. Stækkunargler frá 1879 úr smiðju Carl Zeiss 1830 voru íbúar í Jena 5.491 samkvæmt manntali. Með upprennandi iðnbyltingu jókst íbúafjöldinn mjög. Auk mikilvægra iðngreina var landbúnaður, ekki síst vínberjarækt, mikilvægur. 1846 stofnaði Carl Zeiss linsufyrirtæki í Jena sem síðar varð að heimsmerki. 1874 fékk borgin járnbrautartengingu. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir talsverðum loftárásum. Þær verstu urðu 19. mars 1945 en í þeim eyðilagðist stór hluti miðborgarinnar. 11. apríl stóðu Bandaríkjamenn við borgardyrnar. Þeir náðu ekki að hertaka borgina fyrr en eftir tveggja daga skotbardaga við nasista. 1. júlí var borgin afhent Sovétmönnum, enda á þeirra hernámssvæði. Jena var þar af leiðandi í Austur-Þýskalandi eftir stríð. 1953 varð allsherjar uppreisn borgarbúa gegn kommúnistastjórninni en 30 þúsund manns kröfðust frjálsra kosninga, sameingar Þýskalands og afsögn ríkisstjórnarinnar í Austur-Berlín. Stjórnin bað um aðstoð Sovétmanna, sem sendu her og skriðdrekaflokk. Lýst var yfir neyðarástandi meðan hermennirnir börðu mótmælin niður. Mörg hundruð manns voru handteknir og nokkrir teknir af lífi. 1989 var efnt til stærstu mótmælaöldu borgarinnar en þá söfnuðust 40 þúsund manns saman til að krefjast lýðræðis. Aðeins fáeinum dögum síðar var Berlínarmúrinn fallinn. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er F.C. Carl Zeiss Jena, sem þrisvar varð austurþýskur meistari (1963, 1968 og 1970), fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 1980) og komst í úrslit Evrópukeppni bikarhafa 1981 (tapaði þá fyrir Dynamo Tiflis frá Georgíu). Liðið leikur í neðri deildum í dag. Gera. Gera er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Þýringalandi ("Thüringen") og er með 99 þúsund íbúa. Lega. Miðborg Gera. Myndin er tekin úr ráðhústurninum. Gera er austasta stórborgin í Þýskalandi og liggur aðeins steinsnar fyrir vestan landamerkin að Saxlandi. Næstu borgir eru Jena til vesturs (30 km), Chemnitz til austurs (40 km) og Leipzig til norðurs (50 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er gyllt ljón á svörtum grunni, en ljónið er merki Plauen sem landgreifarnir frá Weida tóku yfir. Hann á uppruna sinn á 14. öld. Skjöldurinn sjálfur er á ská. Fyrir ofan er gylltur hjálmur með skrauti og blævængju ofan á. Síðustu breytingar á þessu skjaldarmerki voru gerðar 1995. Orðsifjar. Gera heitir eftir samnefndri á og hefur ávallt heiti þessu nafni. Heitið er dregið af forngermönsku orðunum "ger" og "aha", sem merkir "spjótslaga fljót". "Ger" merkir "spjót" (sbr. "geir" á íslensku), "aha" merkir "á". Upphaf. 995 Heitið Gera kemur fyrst við skjöl, er Otto III keisari gefur biskupnum frá Naumburg svæðið. Aðeins fjórum árum síðar gefur Otto keisari systur sinni, Aðalheiði abbadísi í Quedlinburg, svæðið. Bærinn Gera var hins vegar lítill og kom ekkert við sögu næstu aldir. 1209 var landgreifunum frá Weida veittur yfirráð yfir bæinn. Eftir það tók hann að dafna og 1237 kom fram í skjali að Gera sé þegar komin með borgarréttindi. Nú til dags er árið 1237 tekið sem stofnár borgarinnar. 1358 erfði markgreifinn frá Meissen borgina. Siðaskipti og stríð. 1533 urðu siðaskiptin í borginni, þrátt fyrir alla mótstöðu markgreifans frá Meissen. Í kjölfarið fylgdi trúarstríðið mikla (Schmalkaldischer Krieg). Markgreifinn frá Meissen, í sameiningu við kjörfurstann í Saxlandi, gáfu þá borgina Gera til Bæheims. Konungurinn í Bæheimi hafði þó engin bein áhrif á borgarbúa. Þrátt fyrir það var Gera formlega bæheimsk allt til stofnunar Saxlands sem konungsríkis 1806. Í 30 ára stríðinu var til þess að gera rólegt í Gera. En 1639 kom sænskur skæruliðaflokkur til borgarinnar og lagði eld að henni. Þriðjungur hennar brann niður. 1686 varð hins vegar versta eyðilegging í sögu borgarinnar, er eldur læsti sig óvart í húsi einu. Hann breiddist hratt út og áður en yfir lauk voru tveir þriðju hlutar hennar brunnir niður til kaldra kola. Enn einn stórbruninn átti sér stað 1780 en þá brann nær gjörvöll miðborgin niður. Nýrri tímar. Gröf ókunnugs fanga úr dauðagöngunni 1806 var konungsríkið Saxland stofnað og varð Gera hluti af því. 11. október á því ári var Napoleon í Gera til að hvíla sig. 13. október lagði hann af stað úr borginni og barðist sama dag í orrustunni við Jena, sem hann sigraði í. Eftir að Napoleonsstríðunum lauk fór iðnbyltingin í gang í Gera. Fyrsta gufuvélin var tekin í notkun þar 1833. Árið 1859 var komið á járnbrautartengingu. Aðalatvinnuvegurinn var þó vefnaður. 1892 fékk Gera rafmagnssporvagna, næstfyrst allra þýskra borga. Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri varð Gera til skamms tíma höfuðborg fríríkisins Reuss, þar til fríríkið Þýringaland var stofnað 1920. Árið 1925 sótti Adolf Hitler borgina heim og hélt þar ræður. Í aðdraganda að heimstyrjöldinni síðari voru 3.000 stríðsfangar úr nýherteknum löndum (Bæheimi, Austurríki) neyddir til að vinna í verksmiðjum í borginni fyrir hervæðinguna. Auk þess ýmsir þýskir stjórnarandstæðingar, einnig konur og börn. Gera varð fyrir miklum loftárásum í stríðinu. Þær verstu urðu 6. apríl 1945. Viku seinna, 13. apríl, komu fangar úr Buchenwald vinnubúðunum við í Gera á dauðagöngu sinni. 8 manns voru skotnir til bana þar áður en gangan hélt áfram. Daginn eftir hertóku Bandaríkjamenn borgina eftir að skipst hafði verið á skotum í örstutta stund. 2. júlí var borgin eftirlátin Sovétmönnum, enda á hernámssvæði þeirra. Gera var því í Austur-Þýskalandi til sameingar Þýskalands 1990. Gengistrygging. Gengistrygging er það þegar skuldabréf (þ.e. "gengistryggt skuldabréf") eða lán breytist í samræmi við breytingar á gengi ákveðins gjaldmiðils, t.d. evru, bandaríkjadollars eða jena, allt eftir því hvernig samið var. Þann 16. júní 2010 dæmdi Hæstiréttur Íslands þess efnis að gengistrygging lána væri óheimil og hefði ekki verið heimilt samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, það er að binda lán gengi erlendra gjaldmiðla. 1. Ef innlendir aðilar tóku á sig lögmætar skuldbindingar gagnvart aðilum búsettum erlendis. 2. Sá sem endurlánaði erlent lánsfé var heimilt að áskilja að hið innlenda lán ásamt vöxtum skyldi miðast við sama gengi og gilti um erlenda lánið. Meðal þeirra undantekninga sem komu inn árið 1979 var að Alþingi og Seðlabankanum, eða síðar Viðskiptaráðherra var heimilt að leyfa gengistryggingu með lögum eða reglugerð. Eyvindur tekur þó fram að Alþingi setti aldrei slík lög. Seðlabankinn hins vegar setti fyrst fram reglugerð á þessum grunni árið 1987. Þá næstu árið 1995 og að lokum aðra árið 1999. Þá giltu ákvæði laga um vexti og verðtrygginu nr. 38/2001. Heimild seðlabankans/viðskiptaráðherra til að leyfa gengistryggingu í reglugerð var felld á brott. Í staðinn var samtímis lögunum sett reglugerð nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. 13. gr.) Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krón um þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðsl urnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla. 14. gr.) Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir. Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Hæstiréttur staðfesti svo 16. júní 2010 að túlka skyldi þessar greinar sem svo að aðeins væri heimilt að miða verðtrygginu við innlenda vísitölu neysluverðs. Gengistrygging væri því óheimil. Lögunum um vexti og verðtryggingu var breytt með lögum 151/2011 til að takast á við niðurstöðu hæstaréttar og leiðbeina um endurreikning þeirra samninga sem höfðu miðað við hina ólögmætu gengistryggingu. Ásamt því að sett var á stofn sérstakt embætti umboðsmanns skuldara. Sjá dóma hæstaréttar eftir hrun Handritamálið. Handritamálið er nafn á þeirri kröfu Íslendinga gagnvart Dönum bróðurpart 20. aldar en sér í lagi eftir seinni heimsstyrjöldina og stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944 að íslenskum fornhandritum yrði skilað aftur til landsins. Handritin voru fjölmörg en þar bar helst að nefna Sæmundaredda, safn Eddukvæða, og Flateyjarbók, sem er safn Noregskonungasagna. Fyrirsögn Morgunblaðsins þann 21. apríl 1971 var „HANDRITIN HEIM“. Þremur vikum áður, 1. apríl 1971, höfðu menntamálaráðherrar landanna tvegga, Gylfi Þ. Gíslason og Helge Larsen undirritað samning þess efnis að Danir myndu skila handritunum. Sumarólympíuleikarnir 1924. Aðalleikvangur Ólympíuleikanna í París 1924. Sumarólympíuleikarnir 1924 voru haldnir í París í Frakklandi á tímabilinu 4. maí til 27. júlí. Mikið var lagt í umgjörð leikanna, t.d. var í fyrsta sinn reist Ólympíuþorp þar sem keppendur höfðust við meðan á íþróttamótinu stóð. Gestgjafarnir voru mjög andsnúnir því að Þjóðverjar tækju þátt í leikunum og fór svo að lokum að þeir sátu heima. Aðdragandi og skipulagning. Amsterdam, Los Angeles, Rio de Janeiro og Róm sóttust eftir leikunum ásamt Parísarborg sem varð hlutskörpust þrátt fyrir að hafa haldið leikana tæpum aldarfjórðungi fyrr. Þar mun Pierre de Coubertin hafa ráðið mestu um, en leikarnir voru þeir síðustu sem skipulagðir voru undir forystu hans. Á leikunum var einkunnarorð Ólympíuleikanna Citius, altius, fortius (Hraðar, hærra, fastar) kynnt til sögunnar í fyrsta sinn. Í tengslum við Parísarleikanna var haldin keppni í vetrargreinum í Chamnoix í Ölpunum frá 25. janúar til 5. febrúar undir heitinu „vika vetraríþrótta“. Síðar fékk íþróttakeppni þessi heitið Vetrarólympíuleikar. Keppnisgreinar. Keppt var í 127 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Paavo Nurmi var skærasta stjarna frjálsíþróttakeppninnar. Bandaríkin hlutu tólf af gullverðlaununum 27 í frjálsíþróttakeppninni og Finnar tíu. Finnsku keppendurnir einokuðu langhlaupskeppnina og hlutu þeir viðurnefnið „Finnarnir fljúgandi“, þar var Paavo Nurmi fremstur í flokki. Hann vann til fimm gullverðlauna, þar á meðal í 1.500 og 5.000 metra hlaupi, þótt innan við hálftími væri á milli þeirra. Finninn Albin Stenroos sigraði í Maraþonhlaupi með talsverðum yfirburðum, en hann hafði ekki keppt í þeirri vegalengd í fimmtán ár. Argentínumenn sigruðu í póló á leikunum.Bretar unnu til þriggja gullverðlauna í styttri hlaupagreinunum. Harold Abrahams sigraði í 100 metra hlaupi og Eric Liddle í 400 metrum. Abrahams var gyðingur en Liddle skoskur kristinboði. Óskarsverðlaunamyndin Chariots of Fire fjallar um þátttöku þeirra félaga á leikunum í París. Bandaríkjamaðurinn Harold Osborn vann til gullverðlauna í hástökki og tugþraut. Hann er eini maðurinn í sögu leikanna til að vinna til gullverðlauna bæði í tugþrautinni og stakri keppnisgrein. Bandaríska sundkonan Sybil Bauer sigraði í 100 metra baksundskeppninni. Hún var einhver fremsta sundkona sinnar tíðar, en lést úr krabbameini 23 ára að aldri. Hún var trúlofuð skemmtikraftinum Ed Sullivan. Knattspyrnukeppni ÓL 1924. Pedro Cea varð Ólympíumeistari með Úrúgvæ 1924 og 1928. Hann varð einnig markahæsti leikmaður liðsins á fyrstu heimsmeistarakeppninni 1930. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, var stofnað árið 1904 og snemma kviknuðu hugmyndir um að standa fyrir heimsmeistarakeppni í knattspyrnu. Þær hugmyndir strönduðu á kostnaði og deilum um áhugamennsku eða atvinnumennsku í íþróttinni. Knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna var því lengi vel helsta alþjóðlega mótið í greininni, þótt gæðin væru misjöfn. Á Ólympíuleikunum í Antwerpen varð knattspyrnukeppnin einna vinsælasta greinin og á Parísarleikunum var þriðjungur teknanna af miðasölu á knattspyrnuleiki. FIFA sá um skipulagningu knattspyrnukeppninnar á Ólympíuleikunum 1924 og 1928, sem gaf henni aukið vægi. 22 landslið kepptu í knattspyrnu á Parísarleikunum, en svo mörg landslið kepptu ekki aftur á alþjóðlegu knattspyrnumóti fyrr en í úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar á Spáni 1982. Heimilað var að greiða leikmönnum fyrir vinnutap vegna ferðalagsins, sem gerði það að verkum að Danir og Bretar neituðu að taka þátt. Með því að slaka á áhugamannareglunum voru keppnisliðin 1924 mun sterkari en verið hafði, en um leið kom til árekstra við aðstandendur Ólympíuleikanna. Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi og varð nokkuð um óvænt úrslit. Belgar, Ólympíumeistararnir frá 1920, steinlágu í fyrsta leik 8:1 gegn Svíar sem hrepptu að lokum bronsið. Þá unnu Egyptar 3:0 sigur á Úrúgvæmönnum, sem taldir höfðu verið líklegir til afreka. Það voru hins vegar leikmenn Úrúgvæ sem stálu senunni og heilluðu áhorfendur. Landslið Úrúgvæ var fyrsta liðið frá Suður-Ameríku til að leika í Evrópu. Í Rómönsku Ameríku hafði þróast leikstíll sem byggðist á hröðum og stuttum samleik, meðan evrópsk knattspyrna var stórkarlaleg og snerist um langar og fastar spyrnur. Evrópsku liðin reyndust ekki eiga neitt svar við þessum nýju mótherjum, sem unnu flesta leiki sína með miklum mun. Í úrslitum sigraði Úrúgvæ lið Sviss með þremur mörkum gegn engu að viðstöddum 60 þúsund áhorfendum þar sem mun færri komust að en vildu. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Ólympíunefnd var stofnuð á vegum Íþróttasambands Íslands árið 1921, með það að markmiði að safna fé og undirbúa ferð íslenskra íþróttamanna á leikana í París. Deilur komu upp um sjálfstæði og verksvið nefndarinnar og lognaðist hún út nokkru síðar. Íþróttalíf Íslendinga var sömuleiðis í nokkurri lægð á þriðja áratugnum og því óljóst hvort þjóðin hafði yfir nokkrum einstaklingsíþróttamönnum að búa sem erindi ættu á Ólympíuleika. Íslenskir knattspyrnumenn voru hins vegar fullir bjartsýni og ákváðu að stofna sína eigin Ólympíunefnd og stefna á þátttöku. Efnt var til fjársöfnunar og varð til nokkur sjóður. Horfið var frá þessum áformum. Hætt er við að íslenskt knattspyrnulið hefði beðið algjört skipbrot á Ólympíuleikunum, enda höfðu Íslendingar aldrei keppt utan landsteinanna og ekki einu sinni leikið fótboltaleik á grasi. Brettingsstaðir (Laxárdal). Brettingsstaðir er eyðibýli efst í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu, vestan Laxár, sem rennur meðfram endilöngu landi jarðarinnar. Þar eru margir ágætir silungsveiðistaðir. Brettingsstaðir fóru í eyði árið 1954. Þar hafa fundist fornar kirkjurústir. Á milli Brettingsstaða og Ljótsstaða, næstu jarðar fyrir neðan, sem einnig er í eyði, er Varastaðaskógur, fallegur birkiskógur sem er á náttúruminjaskrá. Bílfært er með varfærni úr Mývatnssveit að Brettingsstöðum og þaðan liggur vinsæl gönguleið niður Laxárdal. Weimar. Weimar fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Þýringalandi með 65 þúsund íbúa. Weimar var áður fyrr höfuðborg hertogadæmisins Sachsen-Weimar frá 1572-1816. Borgin er sennilega þekktust fyrir Weimar-lýðveldið sem stofnað var í leikhúsi borgarinnar 1919. Í Weimar eru ýmis mannvirki á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Horft yfir miðborg Weimar. Fyrir miðju mynd er Herderkirkjan. Til vinstri er kastalinn. Weimar liggur við ána Ilm nokkuð miðsvæðis í Þýringalandi. Næstu borgir eru Erfurt til vesturs (20 km), Jena til austurs (20 km) og Leipzig til norðausturs (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svart ljón á gulum grunni. Allt í kring eru 14 rauð hjörtu. Ljónið var tákn greifanna frá Orlamünde, en uppruni þess er hjá dönsku prinsessunni Soffíu sem giftist þangað um aldamótin 1200. Skjaldarmerkinu var síðast breytt 1975 í tilefni af 1.000 ára afmæli borgarinnar. Orðsifjar. Elstu heiti borgarinnar eru Wimares og Wimari en það merkir "heilagt vatn". Wi er dregið af germanska orðinu weihe, sem merkur "helgaður", "heilagur". Mar er dregið af mare, sem merkir "vatn", "sjór". Upphaf. 975 kemur heitið fyrst við skjöl ritað af Otto II keisari. Ártal þetta er viðurkennt í dag sem stofnár borgarinnar. Öruggt þykir að bærinn mun hafa haft góðar varnir, því 984 sat Otto III keisari um hann, en náði ekki að vinna hann. Það tókst landgreifanum Ludwig III (Ludowinger-ætt) hins vegar en hann eyddi bænum veturinn 1173-74. Aftur var setið um bæinn 1214. Að öðru leyti kom bærinn lítið við sögu. Weimar hlaut ekki borgarréttindi fyrr en 1410. Árið 1424 nær gjöreyðilagðist borgin í miklum bruna. 1552 gerði hertoginn Johann Friedrich borgina að höfuðborg hertogadæmisins Sachsen-Weimar en það stóð allt til 1918. Litlar sögur fara af því hvernig borginni reiddi í 30 ára stríðinu. Blómaskeið. Íbúar voru frjálslegir og hertogarnir einnig. 1816 veitti Carl August hertogi þegnum sínum stjórnarskrá, en hún var sú fyrsta á þýskri grundu. Á þeim tíma voru listir í hávegum hafðar í borginni. Þar voru listamenn eins og Goethe og Friedrich Schiller. Þessi tími er gjarnan kallaður "gullnu árin". 1842 var Franz Liszt gerður að hljómsveitarstjóra þar og 1849 dvaldi Richard Wagner í skamman tíma í borginni. Stofnaður var listaskóli, söfn, kór og lestrarfélög. Árin frá miðbik 19. aldar fram að aldamótum eru gjarnan kölluð "silfurárin". Listir og iðnbylting fara þar hönd í hönd. Weimar-lýðveldið. Við stofnun Weimar-lýðveldisins í Þjóðleikhúsinu í Weimar. Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918 fyrri sagði Vilhjálmur II keisari af sér og skildi landið eftir í höndum ríkisráðsins. Það ákvað að efna til þjóðarsamkomu í janúar 1919. Fjórir staðir komu sterklega til greina sem fundarstaður, þar sem Berlín var of ótrygg: Bayreuth og Nürnberg í Bæjaralandi og Jena og Weimar í Þýringalandi. Valið féll Weimar í skaut. Þjóðarsamkoman var haldin 6. febrúar til 11. ágúst 1919 í Þjóðleikhúsinu í Weimar. Samkoman samþykkti þar ný lög er gerðu ráð fyrir að Þýskalandi yrði að lýðveldi í stað keisararíkis. Friedrich Ebert var kosinn ríkisforseti og valdi hann Philipp Scheidemann sem forsætisráðherra. Eftir þessa gjörninga var lýðveldið formlega stofnað og hlaut það heitið Weimar-lýðveldið, eftir fundarstaðinn. Lýðveldi þetta stóð til valdatöku nasista 1933. Strax 1920 varð Weimar gerð að höfuðborg héraðsins Þýringalands, sem þá var nýstofnað. Heimstyrjöld og eftirstríðsárin. 1937 reistu nasistar útrýmingarbúðirnar Buchenwald í úthverfi borgarinnar. Þær voru starfræktar allt til stríðsloka 1945. Á þeim tíma voru um 250 þús manns vistaðir þar til lengri eða skemmri tíma. Talið er að um 56 þús þeirra hafi verið drepnir eða látið lífið á annan hátt. Búðirnar eru opnar almenningi í dag og eru minnisvarði um hrylling nasismans og helförina. Weimar varð þrisvar fyrir loftárásum bandamanna: 9. febrúar, 27. febrúar og 10. mars 1945. Skemmdir urðu miklar en þó ekki í líkingu við aðrar borgir. Weimar var á sovéska hernámssvæðinu og var höfuðborg Þýringalands til 1952, er landið var leyst upp. Við sameiningu Þýskalands 1990 tók Erfurt við sem höfuðborg Þýringalands. 1993 kusu Sameinuðu þjóðirnar Weimar sem menningarhöfuðborg Evrópu fyrir það ár. 1996 var byrjað á að setja ýmis mannvirki í borginni á heimsminjaskrá UNESCO. 2004 brann hertogabókasafnið í borginni. Við það eyðilögðust um 50 þús bækur, sumar frá 16. öld. Byggingar og kennileiti. Auk bygginganna hér að neðan eru mýmörg hús í Weimar sögutengd og friðuð. Þar má nefna heimili þjóðskáldsins Goethe, Franz Liszt og Friedrichs Schiller. Auk þess eru Buchenwald útrýmingarbúðirnar opnar almenningi. Eyvindur Loðinsson. Eyvindur Loðinsson var landnámsmaður í Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Ekki er getið um landnámsjörð hans. Faðir Eyvindar var að því er segir í Landnámabók Loðinn öngull, sem fæddur var í Öngley á Hálogalandi. Hann hraktist undan Hákoni jarli Grjótgarðssyni til Íslands en dó á leiðinni. Eyvindur sonur hans nam Flateyjardal upp til Gunnsteina og blótaði þá. „Þar liggur Ódeila á milli og landnáms Þóris snepils,“ segir í Landnámu. Þessi örnefni eru nú óþekkt en Þórir snepill Ketilsson var landnámsmaður í Fnjóskadal. Í Landnámabók segir að sonur Eyvindar hafi verið Ásbjörn dettiás, faðir Finnboga ramma, en í Finnboga sögu ramma er faðir Ásbjarnar sagður hafa heitið Gunnbjörn Ingjaldsson. Þórir snepill Ketilsson. Þórir snepill Ketilsson var landnámsmaður í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu en hafði áður numið land í Köldukinn. Í Landnámabók segir að hann hafi verið sonur Ketils brimils, sem ekki er ættfærður nánar. Þórir sigldi skipi sínu til Íslands en á leiðinni reyndu víkingar að ræna hann og förunauta hans. Einn þeirra, Gautur, sló stafnbúa víkingaskipsins með hjálmunveli (stýrissveif skipsins) og hættu víkingarnir þá ránstilrauninni en Gautur var eftir það nefndur Hjálmun-Gautur. Þeir lentu skipi sínu í Skjálfandafljótsósi og nam Þórir fyrst land í Köldukinn milli Skuggabjarga og Ljósavatnsskarðs en líkaði ekki vistin þar. Hann flutti sig því um set og nam Fnjóskadal allan til Ódeilu (á Flateyjardalsheiði). Hann bjó í Lundi og „blótaði lundinn“ eftir því sem segir í Landnámu. Kona Þóris var Guðlaug Hrólfsdóttir og voru börn þeirra Öngull hinn svarti, Hrafn, faðir Þórðar á Stokkahlöðum og Guðríður kona Þorgeirs Ljósvetningagoða. Skagi Skoftason. Skagi Skoftason var landnámsmaður sem nam austanverða strönd Eyjafjarðar frá Varðgjá út til Fnjóskadalsár. Samkvæmt því sem segir í Landnámu nam Helgi magri upphaflega allan Eyjafjörð, einnig austurströndina, en lét svo öðrum landnámsmönnu hana eftir og hefur Skagi verið fyrstur þeirra. Skagi var frá Mæri og er sagður hafa orðið ósáttur við Eystein glumru, föður Rögnvaldar jarls, og þess vegna farið til Íslands. Hann bjó í Sigluvík. Þengill mjögsiglandi. Þengill mjögsiglandi var landnámsmaður í Höfðahverfi við austanverðan Eyjafjörð, út frá Fnjóská til Grenivíkur, og nam hann land þar að ráði Helga magra, sem áður hafði numið allt land við Eyjafjörð að því er segir í Landnámabók. Hann bjó á Höfða í Höfðahverfi. Ó-vegir. Ó-vegir eru þrír vegir á Íslandi sem þóttu ógreiðfærir og hættulegir og liggja um staði sem byrja á bókstafnum Ó. Ó-vegirnir voru þrír, vegur um Óshlíð á Vestfjörðum, vegur um Ólafsvíkurenni á Snæfellsnesi og vegur um Ólafsfjarðarmúla á Norðurlandi. Þormóður (landnámsmaður). Þormóður var landnámsmaður utanvert við austanverðan Eyjafjörð. Hann nam Grenivík og Látraströnd alla út til Þorgeirsfjarðar. Höfundur Landnámu hefur ekki haft neina vitneskju um uppruna Þorgeirs eða landnámsjörð en segir að sonur hans hafi heitið Snörtur og séu Snertlingar komnir af honum. Óshlíð. Óshlíð er mjög brött hlíð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og heitir ysti hluti hennar Óshyrna. Óshólar eru þar skammt undan við sjóinn og þar er viti. Um Óshlíðina liggur Óshlíðarvegur. Óshlíðarvegur var eina leiðin landveginn frá Bolungarvík til Ísafjarðar og mjög varasöm sökum grjóthruns og snjóflóða. Þorgeir (landnámsmaður). Þorgeir var landnámsmaður yst á Gjögraskaga eða Flateyjarskaga, milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, og nam hann land í Þorgeirsfirði og Hvalvatnsfirði, sem einu nafni kallast Fjörður. Þorgeirsfjörður er kenndur við Þorgeir landnámsmann og hefur landnámsjörð hans verið þar, líklega Þönglabakki, en annars hefur Landnáma enga vitneskju um Þorgeir þennan, hvorki fyrri heimkynni hans né afkomendur. Súlnasker. Súlnasker er ein Vestmannaeyja og er suðvestur af Heimaey. Þar er önnur stærsta súlnabyggð á landinu. 60-70 metra háir hamrar umlykja eyna og er brimasamt við hana og uppganga erfið. Skerið stendur á fjórum bergstöplum eða súlum og er ýmist sagt draga nafn af þeim eða af súluvarpinu. Mikill halli er norðan á eynni. Í þjóðsögunni "Súlnasker og skerpresturinn" er hann skýrður þannig að í fyrsta sinn sem farið var í skerið hafi tveir menn komist þar upp og annar hafi sagt: „Hér er ég þá kominn fyrir guðs náð,“ en hinn sagði: „Hér er ég kominn hvort guð vill eða ekki.“ Snaraðist skerið þá á hliðina og hristi guðleysingjann af sér en skerpresturinn sem sagður er búa í Súlnaskeri bjargaði hinum. Kampa-Grímur. Kampa-Grímur var landnámsmaður í Suður-Þingeyjasýslu. Hann kom til Íslands frá Suðureyjum, lenti í sjóhrakningum allt sumarið og braut að lokum skip sitt í Skjálfandafljótsósi. Hann nam land í Köldukinn. Þar hafði Þórir snepill Ketilsson áður numið land en ekki kunnað við sig svo að hann yfirgaf landnám sitt og færði sig yfir í Fnjóskadal. Eftir að til Íslands kom giftist Grímur Vigdísi, dóttur Þorsteins rauðs og sonardóttur Auðar djúpúðgu, og hafa þau Grímur og Auður líklega verið kunnug frá Suðureyjum. Geldungur. Geldungur er eyja eða sker sunann við Heimaey, norður af Súlnaskeri. Þetta var áður ein eyja og gat í gegnum hana með steinboga yfir en hann hrundi í jarðskjálfta 1896 og urðu eyjarnar þá tvær, Stóri Geldungur og Litli Geldungur. Nokkur sker eru við Geldung og má þar nefna Hundasker, Þúfusker og Bládrangur, en hann hrundi í brimi um 1907 og eru aðeins leifar hans eftir. Gróður í Geldungi fór illa í Surtseyjargosinu. Þar verpir súla og fleiri sjófuglar. Geirfuglasker (Vestmannaeyjum). Geirfuglasker, einnig kallað Freykja, er 43 m hátt sker suðvestur af Heimaey. Nafnið er dregið af gamalli geirfuglabyggð sem var í eynni og var skerið einn af þremur öruggum varpstöðum geirfuglsins við Ísland en hinir voru Geirfuglasker og Eldey út af Reykjanesi. Geirfuglabyggðin í skerinu var aleydd um aldamótin 1800. Gróður er ekki á allri eynni en skarfakál og fleiri jurtir er þó að finna þar. Fugladrit litar hamra eyjarinnar hvíta. Viti er á skerinu. Það var áður syðsta eyjan í Vestmannaeyjum og syðsti punktur Íslands fram að Surtseyjargosinu. Smáeyjar. Hér sést til hlua Smáeyja. Hæna, Hani og hluti af Hrauney. Smáeyjar eru vestur af Heimaey í Vestmannaeyjum. Eyjarnar eru fjórar en fjöldi dranga og smáskerja í kring. Hani er stærstur Smáeyja og heitir hæsti hluti hans Hanahöfuð og er það 37 metrar á hæð. Mikið gras er í Hana. Hæna er syðst eyjanna og er hún 57 m há. Áberandi hellir er á eynni og heitir hann Kafhellir. Þriðja eyjan er Hrauney. Hún er gróin að ofan en áberandi grýttir hamrar koma upp úr grrasinu. Í Hana og Hraunsey eru ból og þar er lundaveiði stunduð. Minnst eyjanna er Grasleysa og er hún ólík hinum vegna þess að ekki er eitt stingandi strá þar að finna. Í kringum þessar eyjar eru drangar og sker eins og Nafar, Jötunn og Potturinn. Óshyrna. Fjallið Óshyrna í Bolungarvík. Strandkletturinn sem skagar fram úr fjallinu er nefndur Þuríður Óshyrna séð frá höfninni í Bolungarvík Óshyrna er fjall sem stendur við Ísafjarðardjúp og minni Bolungarvíkur. Óshyrna er jafnframt ysti hluti Óshlíðar. Mælingar sýna að stór sprunga er í Óshyrnu sem fer stækkandi. Mögulega getur orðið stórt hrun í Óshyrnu sem gæti valdið flóðbylgju um Ísafjarðardjúp. Sífellt hrynur úr klettavegg Óshyrnu og geta stærri hrunin verið meira en 20 rúmmetrar að stærð. Hins vegar er ekki talin hætta á flóðbylgju ef Óshyrna molnar niður smám saman. Í Óshyrnu er strandklettur sem nefndur er Þuríður og er kenndur við landnámskonuna Þuríði Sundafylli. Andakílsárvirkjun. Andakílsárvirkjun er vatnsaflsvirkjun í Borgarfjarðarsveit sem reist var á árunum 1945-47. Hún virkjar fall Andakílsár úr Skorradalsvatni. Virkjunin var á sínum tíma reist af sveitarfélögum á Vesturlandi en tilheyrir í dag Orkuveitu Reykjavíkur. Aðdragandi. Árið 1907 festi enskur kaupsýslumaður og rafmagnsverkfræðingur, Cooper að nafni, kaup á vatnsréttindum og landareignum við Andakílsfossa. Ætlun hans var að reisa virkjun og hefja verksmiðjurekstur. Næstu tvö árin stóð félag Coopers fyrir rennslismælingum, en ekkert varð af framkvæmdum. Skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var stofnað félag á Vesturlandi um virkjun Andakílsár. Gerðar voru teikningar, en verkið fór út um þúfur þegar ekki fékkst ríkisábyrgð fyrir framkvæmdinni. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar komst á ný skriður á virkjunarmálið. Stofnað var sameignarfélag í eigu Akraness, Borgarfjarðarsýslu og Mýrasýslu árið 1942. Ákvað félagið árið 1944 að reisa 3,7 MW rafstöð. Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina og fór undirbúningur þá í fullan gang. Íslensk hönnun. Árni Pálsson verkfræðingur var hönnuður stöðvarhússins og stíflumannvirkja. Hann var jafnframt tæknilegur ráðunautur verksins ásamt Jakobi Guðjohnsen, síðar Rafmagnsstjóra í Reykjavík. Andakílsárvirkjun var því fyrsta stóra virkjunin sem var að öllu leyti hönnuð og reist af Íslendingum. Í október 1947 var virkjunin gangsett. Hún var þá þriðja stærsta virkjun á landinu. Aðeins Ljósafossvirkjun og Laxárvirkjun,voru stærri. Árið 1974 var afl stöðvarinnar rúmlega tvöfaldað upp í 8 MW, þegar bætt var við nýrri vélasamstæðu. Um leið voru stíflumannvirki styrkt og stækkuð. Við yfirtöku Orkuveitu Reykjavíkur á veitufyrirtækjum Akranesbæjar árið 2001 komst Andakílsárvirkjun í eigu Orkuveitunnar. Þuríður sundafyllir. Þuríður sundafyllir var landnámsmaður í Bolungarvík og bjó á Vatnsnesi í Syðridal. Talið er að hún hafi komið til Íslands um 940. Hún og förunautar hennar námu Bolungarvík alla og Skálavík. Þjórólfur bróðir hennar bjó í Þjóðólfstungu sem síðar er nefnd Tunga. Þuríður leyfði Þjóðólfi bróður sínum að eiga jafn mikið land af sínu og hann gæti girt fyrir á einum degi. Þjóðólfur lagði garð frá Stiga fyrir Hlítardal og hálfan Tungudal og deildu þau syskinin um Tungudal og lögðu hvort á annað að verða að steindröngum. Þuríður óskaði þess að sem flestir fuglar myndu drita á Þjóðólf og hann lagði á Þuríði að á henni skyldu vindar gnauða mest. Eisenach. Eisenach er borg í þýska sambandslandinu Þýringalandi og er með 42 þúsund íbúa. Borgin var einn starfsvettvangur Marteins Lúthers, ekki síst Wartburgkastalinn þar í grennd sem er eitt þekktasta kastalavirki Þýskalands. Í Eisenach var auk þess stjórnmálaflokkurinn SPD stofnaður og þar voru bílaverksmiðjur Wartburg-bifreiðarinnar á tímum Austur-Þýskalands. Johann Sebastian Bach er fæddur í borginni. Lega. Eisenach er vestasta borgin í Þýringalandi og liggur við landamerkin að Hessen. Næstu borgir eru Erfurt til austurs (40 km), Kassel til norðvesturs (50 km) og Göttingen til norðus (60 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir heilagan Georg í herklæðum. Í vinstri hönd heldur hann á skildi með rauðum krossi og er kornöx þar fyrir ofan. Í hægri hönd heldur hann á spjóti með rauða krossinum á borða. Bakgrunnurinn er blár, en auk þess er hvítur riddarakross til vinstri. Heilagur Georg hefur verið á innsiglum borgarinnar alveg frá 13. öld, enda dýrkaði landgreifinn Ludwig der Springer hann og valdi hann sem verndardýrling borgarinnar. Orðsifjar. Heitið Eisenach er samsett úr Isen (eða Ysen) og Ache. Isen gæti merkt járn (þýska: Eisen). Ache merkir "lækur". Upphaf. Talið er að frankneskir landnemar hafi fyrst sest að á svæðinu á 8. öld. Hins vegar kemur bærinn ekki við skjöl fyrr en eftir að kastalavirkið Wartburg er reist frá og með árinu 1067 af Ludwig dem Springer. Í lok 12. aldar varð Wartburg aðalaðsetur landgreifanna í Thüringen og við það efldist Eisenach og varð að borg. Meðan Wartburg varð að einu merkasta menningarsetri þýska ríkisins, var lífið í Eisenach sjálfri frekar fábreytt. Listamenn og trúbedúrar fóru oft úr virkinu í borgina og léku listir sínar en Wartburg var eitt þekktasta aðsetur trúbedúra í ríkinu á miðöldum. Siðaskipti. 1498 kom Marteinn Lúter til Eisenach og gekk í klausturskólann. Hann var þá aðeins 15 ára gamall. Eftir nám sitt þar fór hann í háskólann í Erfurt. Lúther kom aftur til Eisenach 1521. Þá var hann búinn að mótmæla gegn kaþólsku kirkjunni og var bannfærður maður. Hann fékk að predika nýju trúna í Georgskirkjunni. Síðan dvaldist hann í Wartburg, þar sem hann þýddi Nýja testamentið á þýsku. 1523 kom upp mikill ágreiningur meðal borgarbúa, sem endaði þannig að múgur æddi inn í allar kirkjur og klaustur, og eyðilagði margt. Sumar kirkjur voru brenndar niður. 1525 kom hluti úr bændahernum í uppreisninni miklu til Eisenach til að biðja um vistir og skjól. Borgarstjóranum tókst að lokka bændur inn í borgina, þar sem þeir voru handteknir. Foringjar þeirra voru teknir af lífi á markaðstorginu eftir stutt réttarhöld. 1528 fóru siðaskiptin formlega fram í borginni. Dauði og listir. Eisenach 1647. Virkið Wartburg má sjá á í bakgrunni. Mynd eftir Matthäus Merian. Eisenach kom ekki við sögu í 30 ára stríðinu sjálfu, en leið mikið af afleiðingum stríðsins. 1617 og 1636 urðu stórbrunar í borginni og 1626 geysaði svarti dauðinn þar. Seinna á 17. öld voru einstaklingar í Bach fjölskyldunni þekktir tónlistarmenn. Johann Sebastian Bach fæddist þar 1685 og var skirður í Georgskirkjunni. Eftir aldamótin bjó Georg Philipp Telemann í Eisenach og samdi þar mörg af verkum sínum. Síðla á 18. öld voru margir þekktir listamenn í borginni og má þar nefna þjóðskáldið Goethe. 19. öldin. 1807 kom Napoleon til Eisenach til að hvílast. Hann var þá búinn að sigra prússa í mörgum orrustum og hafði samið frið við þá og við Rússa. Frakkar voru með herstöð í borginni og vopnabúr. 1810 varð stórslys er vopnabúrið sprakk í loft upp. Stór hluti borgarinnar eyðilagðist í sprengingunni og eldinum sem braust út. 70 manns biðu bana. Frakkar voru aftur fjölmennir í Eisenach eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1813-14. Þreyttir og veikir hermenn komu í herstöðina, en við það braust út taugaveikisfaraldur. Seinna á árinu 1814 kom rússneski keisarinn Alexander I til Eisenach, en þá voru allir Frakkar á bak og burt. Fyrsta Wartburghátíðin var haldin 1817 til minningar um siðaskiptin, en þá voru liðin 300 ár frá því að Lúther hengdi upp mótmælarit sín á kastalakirkjuna í Wittenberg. Síðan þá hafa tvær aðrar Wartburghátíðir farið fram: 1848 og 1948. Um miðja 19. öldina hóf iðnbyltingin innreið sína í Eisenach. Fyrstu stóru iðngreinarnar voru vefnaður og málningaframleiðsla. 1847 fékk borgin járnbrautartengingu til austurs (Gotha og Erfurt). Til að greiða leið fyrir verkafólki stofnuðu August Bebel og Wilhelm Liebknecht sósíaliska vinnuflokkinn 1869, sem breyttist í stjórnmálaflokkinn SPD 6 árum síðar. Fleiri iðngreinar fylgdu í kjölfarið. 1896 var bifreiðaverksmiðja stofnuð í borginni en Eisenach varð þó ekki að bílaborg fyrr en á eftirstríðsárunum. 20. öldin. Íbúum fjölgaði og voru þeir orðnir 40 þúsund við lok heimstyrjaldarinnar fyrri. Verksmiðjum fjölgaði. BMW-verksmiðja tók til starfa og framleiddi meðal annars flugvélar. Á árum heimstyrjaldarinnar síðari voru stríðsfangar gjarnan notaðir í þessum verksmiðjum. Langflestir voru frá Úkraínu og Rússlandi (tæplega 3.500). Eisenach varð fyrir nokkrum loftárásum bandamanna í stríðinu. Skemmdir voru þó tiltölulega litlar. Flestar byggingar voru lagfærðar strax eftir stríð. Borgin var á sovéska hernámssvæðinu og var landamæraborg í Austur-Þýskalandi. Þegar múrinn mikli var reistur milli Austur- og Vestur-Þýskalands, var vestasti hluti borgarinnar á bannsvæði landamæranna og ekki aðgengilegur almenningi. Á kommúnistatímanum var Eisenach lítil iðnarðarborg. Þar voru Wartburg verksmiðjurnar stofnaðar 1956 en árleg framleiðsla á bifreiðunum nam tugum þúsunda, mest 1985 (74 þúsund bifreiðar). Vegna mikils iðnaðar, bílaumferðar og kolakyndingar fór rykmengun einatt yfir hættumörk í borginni. Vandamál þetta hvarf ekki fyrr en með sameiningu Þýskalands 1990. Árið 1998 sótti Bill Clinton borgina heim í boði kanslarans Helmuts Kohl. Viðburðir. Sommergewinn í Eisenach er ein stærsta vorhátíð Þýskalands. Hátíðin er ævagömul og á uppruna sinn í heiðni. Hér eru vetur og sumar látin mætast. Hús borgarinnar eru fagurlega skreytt eftir fornum sið. Hlaupið er með brennandi vagnhjól í fjölfarinni skrúðgöngu. Herra Vetur og frú Sunna sitja á rökræðum, en vitanlega fer frú Sunna með sigur á hólmi að lokum. Hún táknar sólgyðjuna. Veturinn er síðan brenndur í formi hálmdúkku. Thüringer Bachwochen er tónlistarhátíð tileinkuð Johann Sebastian Bach. Snemmsumars hittast hundruðir gamalla bíla í miðborginni og taka rúntinn í kringum borgina. Byggingar og kennileiti. Nikulásarkirkjan og Nikulásarhliðið. Styttan af Marteini Lúther er til vinstri. Syðridalur. Syðridalur er dalur sem gengur upp af víkinni sem Bolungarvík er kennd við. Tveir dalir ganga upp af þeirri vík en það eru Syðridalur og Tungudalur og er fjallið Ernir á milli þeirra. Syðridalur er nokkuð breiður og í mynni hans er Bolungarvíkursandur. Inn af sandinum er Syðridalsvatn. Áin Ósá rennur frá Syðridalsvatni til sjávar. Andrea Bocelli. Andrea Bocelli (fæddur 22. september 1958 í Lajatico í Toskana) er ítalskur lýrískur tenór og poppsöngvari. Bocelli fæddist með gláku og hlutasjón en þegar hann var tólf ára missti hann sjónina eftir slys sem átti sér stað þegar hann var að spila fótbolta. Tenglar. Bocelli, Andrea Bocelli, Andrea Bocelli, Andrea Bocelli, Andrea Guðmundur Rúnar Árnason. Guðmundur Rúnar Árnason er íslenskur stjórnmálamaður og bæjarstjóri í Hafnarfirði. Hann hefur setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar frá árinu 2002 og var varabæjarfulltrúi næsta kjörtímabil á undan. Á þessum tíma hefur hann meðal annars átt sæti í bæjarráði og verið þar formaður. Hann hefur jafnframt verið formaður Fjölskylduráðs og forseti bæjarstjórnar. Guðmundur er nú bæjarstjóri í Hafnarfirði og oddviti Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Stapafell. Stapafell er um 526 m hátt mænislaga bert og skriðurunnið móbergsfjall sem gengur suður úr undirhlíðum Snæfellsjökuls, um 3 km norður frá Hellnum og fyrir ofan Arnarstapa. Vegur liggur upp með fjallinu að austan norður um Kýrskarð og Jökulháls til Ólafsvíkur. Norðasutan við Stapafell er Botnsfjall sem í er Rauðfeldsgjá og er hægt að ganga inn eftir gjánni inn að botni. Efst á Stapafelli er kletturinn Fellskross, fornt helgitákn en fellið er talið vera bústaður dulvætta. Gatklettur milli Arnarstapa og Hellna. Gatklettur er sérkennilegur sjávarklettur nálægt Arnarstapa á Snæfellsnesi. Hann er leifar af berggangi þar sem sjórinn hefur rofið sérstætt gat á bergganginn. Mikið fuglalíf og brim er á við klettinn. Vinsæl gönguleið liggur milli Hellna og Arnarstapa meðfram ströndinni og er þar farið framhjá Gatkletti. Saxhóll. Saxhóll er gígur á vestanverðu Snæfellsnesi 9 km sunnan við Hellissand. Gönguleið liggur upp á gíginn og þaðan er gott útsýni. Drápuhlíðarfjall. Drápuhlíðarfjall er 527 m hátt fjall nálægt Stykkishólmi á Snæfellsnesi. Fjallið er afar litskrúðugt. Í því er bæði basalt og líparít. Surtarbrandur er þar milli blágrýtislaga og steingerðir trjábolir. Einnig er þar mikið um brennisteinskís og ýmsa sérkennilega steina, jaspis og glerhalla. Um tíma var haldið að gull væri í fjallinu og heitir þar Gullberg. Í fjallinu er mikil steinnáma og vinsælt var að taka flöguberg úr Drápuhliðarfjalli og nota í arinhleðslur og veggi en slík grjóttaka er nú bönnuð. Þar hafa fundist surtarbrandsleifar og steinrunnir gildir trjábolir. Hafnarfjall. Hafnarfjall er 844 m hátt fjall um 4 km suðaustur af Borgarnesi, nálægt Vesturlandsvegi. Fjallsins er getið í Landnámabók (Hafnarfjöll) og náði hið víðlenda landnám Skallagríms að því. Hafnarfjall er snarbratt, skriðurunnið og hlíðarnar gróðurlausar. Það er hluti eldstöðvar sem var virk fyrir fjórum milljónum árum við Skarðsheiði. Það er að mestum hluta myndað úr blágrýti, en í norðurhlíð fjallsins finnast þó ljósleit klettanef úr granófýri sem heita Flyðrur. Þar ofan við er hæsti tindur fjallsins, Gildalshnúkur. Um það bil þrjá tíma tekur að ganga á Hafnarfjall og er þægilegast að ganga á það að norðan ofan Borgarfjarðarbrúar eða sunnan frá brekkurótum norðan Ölvers. Undir fjallinu er Hafnarskógur, ræktaður birkiskógur sem er talinn einn af merkari skógum landsins. Vindasamt er undir Hafnarfjalli og þar verða oft varhugaverðir sviptivindar. Sumarólympíuleikarnir 1976. Sumarólympíuleikarnir 1976 voru haldnir í Montréal í Quebec í Kanada frá 17. júlí til 1. ágúst. Ákvörðunin um staðsetninguna var tekin vorið 1970, en Los Angeles og Moskvasóttust einnig eftir að halda leikana. Fjöldi Afríkuríkja sniðgekk Ólympíuleikana af pólitískum ástæðum. Aðdragandi og skipulagning. Montréal gat ekki státað af miklum mannvirkjum sem sæma þóttu Ólympíuleikum og þurfti því að reisa nýja velli og íþróttahús fyrir flestar greinar. Undirbúningurinn fór hægt af stað og framkvæmdir töfðust af ýmsum sökum, meðal annars vegna verkfalla. Íhugaði Alþjóðaólympíunefndin á árinu 1975 að flytja leikana annað. Ólympíuþorpið sem hýsti íþróttamennina meðan á leikunum stóð. Tímahrakið og vanáætlaður byggingarkostnaður varð til þess að stórtap varð á leikunum, sem reyndust borginni þung byrði. Tókst ekki að ljúka við skuldabaggann fyrr en árið 2006. Dýrastur var Ólympíuleikvangurinn eftir franska arkitektinn Roger Taillibert. Átti að vera hægt að draga þak yfir leikvöllinn í slæmu veðri, en ekki tókst að koma því við fyrir leikana. Þá tókst ekki að ljúka við aðaleinkennistákn leikvangsins, gríðarháan turn, fyrr en mörgum árum síðar. Keppendum fækkaði nokkuð frá því sem verið hafði í München fjórum árum fyrr. Aðalástæðan var sú að 28 ríki, nær öll frá Afríku, ákváðu að sniðganga leikana. Með því vildu þau mótmæla að Nýja Sjálandi væri heimiluð þátttaka á Ólympíuleikum, en Nýsjálendingar höfðu keppt landsleik í rúgbý við Suður-Afríku og brotið þannig gegn alþjóðlegu banni við íþróttasamskiptum við stjórn hvíta minnihlutans í landinu. Keppnisgreinar. Keppt var í 198 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Bärbel Wöckel (fædd Eckel) var í hópi austur-þýsku hlaupadrottninganna á leikunum 1976 og sigraði í 200 metra hlaupi og 4*100 metrum. Lasse Virén bættist í stóran hóp sigursælla finnskra hlaupara á Ólympíuleikum. Kanadamönnum tókst ekki að vinna til gullverðlauna á leikunum. Er það í eina skiptið sem gestgjöfum á Ólympíuleikum mistekst að eignast sigurvegara. Sovétmenn hlutu flest gullverðlaun en athygli vakti að Austur-Þjóðverjar skutu Bandaríkjamönnum aftur fyrir sig og hlutu næstflest Ólympíugull. Kúbverjinn Alberto Juantorena vann gullverðlaunin í 400 og 800 metra hlaupi. Hann hóf íþróttaferil sinn sem körfuknattleiksmaður og byrjaði ekki að æfa frjálsar íþróttir fyrr en hann var kominn á þrítugsaldur. Hann keppti í fyrsta skipti í 800 metra hlaupi skömmu fyrir leikana. Líkt og á leikunum 1972, fór Finninn Lasse Virén með sigur af hólmi í 5.000 og 10.000 metra hlaupinu. Daginn eftir úrslitin í 5.000 metrunum keppti Virén í Maraþonhlaupi, en hafnaði þar í fimmta sæti. Sovétmaðurinn Viktor Saneyev hlaut gullverðlaun í þrístökki þriðju leikana í röð. Hann átti kost á að bæta við fjórða gullinu á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980, en hafnaði þá í öðru sæti. Miklós Németh frá Ungverjalandi sigraði með yfirburðum í spjótkastkeppni karla. Hann setti heimsmet í fyrsta kasti sínu, 94,58 metrar. Næsti maður kastaði nærri sjö metrum styttra. Austur-Þýskaland, Vestur-Þýskaland og Sovétríkin skiptu á milli sín 31 af 39 verðlaunum frjálsíþróttakeppni kvenna. "Sugar" Ray Leonard vann til gullverðlauna í hnefaleikum og gerðist síðar atvinnumaður. Fjórtán ára gömul rúmensk fimleikastúlka, Nadia Comaneci, vann til þriggja gullverðlauna og fékk sjö sinnum hæstu einkunn, 10,0. Stjarna leikanna í München, Olga Korbut, var meidd og náði sér ekki á strik í keppninni. Sovétmaðurinn Nikolai Andrianov vann fern gullverðlaun í fimleikakeppninni. Á ferli sínum vann hann til 15 verðlauna á Ólympíuleikum. Hnefaleikakappinn Sugar Ray Leonard vann til gullverðlauna í sínum þyngdarflokki fyrir Bandaríkin. Sama gerðu bræðurnir Michael og Leon Spinks. Allir urðu þeir síðar kunnir atvinnumenn í greininni. Bandarísku sundmennirnir unnu öll gullverðlaun nema ein í karlaflokki og austur-þýsku stúlkurnar öll nema þrenn í kvennaflokki. Kornelia Ender hlaut fern gullverðlaun og setti heimsmet í hverju sundi, þótt tvö þeirra færu fram með hálftíma millibili. Síðar hafa komið fram sterkar vísbendingar um að austur-þýskir læknar hafi gefið mörgum íþróttamönnum stera án vitundar þeirra og varpar það nokkurri rýrð á afrekin. Boris Onishcenko, sovéskur keppandi í nútímafimmtarþraut, varð uppvís að því að eiga við rafbúnað í skylmingarsverði sínu svo að það gæfi honum fleiri stig en honum bar. Sovésku sveitinni var vísað úr keppni vegna þessa sérstæða svindlmáls. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar sendu fjórtán íþróttamenn til keppni á Ólympíuleikunum í Montréal. Flestir voru keppendur í frjálsum íþróttum, átta talsins. Þrír Íslendingar kepptu í sundi, tveir í júdó og einn í Ólympískum Lyftingum Þá höfðu karlalandslið Íslands í blaki, knattspyrnu, körfuknattleik og handbolta öll tekið þátt í forkeppni Ólympíuleikanna án þess að komast í úrslitakeppnina. Hreinn Halldórsson náði bestum árangri frjálsíþróttamanna. Hann varð fimmtándi í kúluvarpskeppninni, en fyrirfram var Hreinn talinn líklegastur til afreka á leikunum. Íslenska sundfólkið náði best þrítugasta sæti, en árangurinn þótti góður þar sem sett voru Íslandsmet í sjö af þeim átta greinum sem keppt var í. Júdómennirnir tveir töpuðu báðir í fyrstu viðureign sinni. Guðmundur Sigurðsson tók þátt í Ólympískum Lyftingum og varð í áttunda sæti af nítján keppendum í sínum þyngdarflokki. Verðlaunaskipting eftir löndum. Kyndillinn sem notaður var við setningu Ólympíuleikanna 1976. Glanni. Glanni er foss í Norðurá í Norðurárdal, skammt frá Bifröst. Paradísarlaut er skammt frá fossinum. Norðurá. Norðurá skammt frá fossinum Glanna. Norðurá er bergvatnsá í Norðurárdal. Hún á upptök sín í Holtavörðuvatni á Holtavörðuheiði og renna margir lækir og ár í hana. Norðurá rennur um Norðurárdal uns hún sameinast Hvítá um 5,6 km frá sjó. Vatnasvið Norðurár er 518 km og lengd hennar frá Holtavörðuvatni að ósi í Hvítá er tæpir 61 km. Í Norðurá eru fossarnir Laxfoss og Glanni. Halli árinnar er mjög lítill upp að Sanddalsá ef undan er skilið svæðið milli Laxfoss og Glanna. Þegar Grábrókarhraun rann til austurs frá Grábrók fyrir um 3000 árum stíflaði hraunið Norðurá. Þá myndaðist stöðuvatn í dalnum sem smám saman fylltist af framburði árinnar. Áin gróf sig svo með tímanum í gegnum hraunhaftið. Mikil laxveiði er í Norðurá og þar eru einnig urriði og bleikja. Vatnaleiðin. Vatnaleiðin er gönguleið milli Hnappadals á Snæfellsnesi og Norðurárdals í Borgarfirði. Milli þessara dala er farið um Hítardal og Langa­vatnsdal. Á leiðinni er margbreytilegt fjall­lendi og heiðarlönd en sérstaklega einkenna leiðina öll vötnin sem eru frá Hlíðarvatni í Hnappadal að Hreðavatni í Norðurárdal. Leiðin oftast er oftast farin á þremur dögum og er þá lagt upp frá Hallkelsstöðum, farið um Hallkelsstaðahlíð um Hellisdal í skála við Hítarhólm. Þá er haldið um Þórisdal og Hafradal að norðanverðu Langavatni og þaðan í skála að Torfhvalastöðum, að lokum er meðal annars farið um Beilárheiði á Vikrafell og að Hreðavatni og Bifröst. Eldborg (Hnappadal). Eldborg í Hnappadal er gjallgígur, 38 km fyrir norðan Borgarnes. Gígurinn rís 100 m yfir sjávarmáli en 60 m yfir hrauninu í kring og er stærstur gíga í stuttri gossprungu. Gígurinn er formfagur, sporöskjulaga eldgígur með bröttum gígveggjum mynduðum úr þunnum hraunskánum, um 200 m að lengd og 50 m á dýpt. Þar hafa orðið tvö gos, það síðara sennilega á landnámsöld. Eldborgarhraun er kjarri vaxið og var skógurinn mikið höggvinn áður fyrr. Eldborg var friðlýst 1974. Hægt er að ganga upp á gígbarminn og ganga eftir honum allan hringinn. Along Came Polly. Along Came Polly er bandarísk rómantísk gamanmynd frá árinu 2004 með Ben Stiller og Jennifer Aniston í aðalhlutverkum. Myndin var skrifuð og leikstýrt af John Hamburg. Söguþráður. Reuben Feffer (Ben Stiller) vinnur við áhættutryggingar og þar sem vinnan hans snýst um að greina áhættur fyrir tryggingar, lifir hann lífinu þannig að það sé eins áhættulítið og hægt er, laust við alla óþarfa áhættu. Þegar myndin byrjar er hann að fagna brúðkaupi sínu og Lisu Kramer (Debra Messing) en grípur hana stuttu síðar í bólinu með öðrum manni, Claude (Hank Azaria), frönskum köfunarkennara, í brúðkaupsferðinni. Eftir að hann snýr heim aftur reynir hann að raða lífi sínu saman aftur. Eitt kvöld fer Reuben á listasýningu, eftir að besti vinur hans, fyrrum unglingsstjarnan Sandy (Philip Seymour Hoffman), neyðir hann til að fara. Þar hittir hann óvænt fyrrum bekkjarsystur sína úr menntaskóla, Polly Prince (Jennifer Aniston). Við lok kvöldsisn hafa þau ákveðið að hittast aftur. Reuben og Polly byrja saman og kynnir hún hann fyrir því sem hann hafði stimplað "of áhættumikið", eins og að borða á marokkóskum veitingastað (Reuben þjáist af hægðalosandi sjúkdómi) og salsa-dansi. Munur þessara tveggja persónuleika búa til fyndnar aðstæður í gegnum myndina. Í vinnunni reynir Reuben að fá að tryggja Lelan Van Lew, ástralskan viðskiptajöfur sem finnst gaman að lifa lífinu á áhættusaman hátt (eins og að synda með hákörlum) sem gerir það erfiðara að tryggja hann. Sandy er einnig mjög upptekinn við að taka upp heimildarmynd um líf hans "sem stjarna". Reuben lendir í klemmu þegar hann er fastur milli hinnar frjálslega þenkjandi Polly og Lisu, sem hefur snúið aftur og segir að hún vilji taka aftur saman við Reuben. Til að leysa þetta vandamál setur hann Polly og Lisu inn í "Risk Master", tölvuforrit sem metur áhættuna í prósentum þegar tekið er tillit til kosta og galla fólks. Tölvan segir honum, þrátt fyrir þónokkur neyðarleg atvik með henni, sé rétti kosturinn fyrir hann. Polly móðgast þegar hún sér að Reuben hefur sett samband þeirra inn í áhættumæli og þrátt fyrir bænir Reuben og staðfestu fyrir því að hafa valið hana, hafnar Polly honum og boði hans um að flytja inn til hans. Á meðan þau rífast segir hún Reuben frá því að faðir hennar hafi í raun átt tvær konur og tvær fjölskyldur, sem er ástæða þess að hún sé hrædd við skuldbindingar. Hún slítur sambandinu þá og segir honum að hann sé betur settur með Lisu. Eftir sambandsslitin við Polly, byrjar Reuben aftur samband við Lisu en er óhamingjusamur og líður ekki vel. Þegar hann kemst að því að Polly er að flytja, flýtir hann sér í íbúðina hennar og nær henni rétt áður en hún fer. Reuben biður hana afsökunar og segir að hún sé áhættusöm en þess virði. Polly er ekki sannfærð svo Reuben fer og kaupir hnetur af götusala og hendir þeim í götuna áður en hann borðar þær, til að sýna henni að hann geti tekið áhættur. Hann segir henni líka að ef hún fari, muni hún aldrei vita hvað þau hefðu getað átt saman. Næsta atriði sýnir Reuben og Polly á ströndinni þar sem hann og Lisa voru í brúðkaupsferð í byrjun myndarinnar og þar hitta þau Claude aftur. Í stað þess að vera reiður í þetta skiptið er Reuben þakklátur Claude og fer síðan í vatnið með Polly. Ferskja. Ferskja (fræðiheiti: "Prunus persica") er sætur flauelskenndur ávöxtur ferskjutrés, ræktaður til matar. Ferskjur eru upprunnar í Kína, en bárust fyrst til Evrópulanda frá Persíu og þess vegna nefndu Grikkir aldinið melon persikón sem þýðir: persneskt epli. Til eru að sögn yfir tvö þúsund mismunandi afbrigði af ferskjum og eru þau fyrst og fremst flokkuð í tvo meginflokka. Eitt ferskjuafbrigðið er nektarína sem er mjög sætt afbrigði og minnir bragðið á nektar (blómahunang) og þar af er nafnið komið. Þær eru ekki eins safaríkar og ferskjur og eru líka oftast minni og þéttari og ekki með neina „loðnu“ (flauel). Sáttamiðlun. Sáttamiðlun er kerfisbundin samningaaðferð sem snýst um að sætta ágreiningsaðila. Hún hefur verið mikið notuð í Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu. Sáttamiðlun er helst notuð í einkamálum, meðal annars fjölskyldumálum, nágrannadeilum, árekstrum á vinnustað og skólum og í opinberum málum m.a. vegna afbrota ungra afbrotamanna en jafnframt í deilum milli ríkja og ólíkra menningarheima. Sáttamiðlun getur verið öflug leið til að viðhalda tengslum til dæmis á milli fyrirtækis og viðskiptavina þess, með það fyrir augum að komast að samkomulagi um málalok sem henta báðum aðilum. Paradísarlaut. Paradísarlaut er gróðurvin í Grábrókarhrauni nokkru neðan við fossinn Glanna í Norðurá. Þar eru stórar og fallegar lindir. Í nágrenni Paradísarlautar eru Deildartunguhver, Grábrók, Reykholt í Borgarfirði og Baula. Leiðarlýsing. Þegar farið er að Paradísarlaut er beygt út af þjóðvegi 1, skömmu áður en komið er að Bifröst og er þar afleggjari vel merktur Paradísarlaut. Frá bílastæði og þjónustuhúsi er gönguleið að Paradísarlaut og Glanna og gerður hefur verið góður útsýnispallur þaðan sem fossinn sést vel. Staupasteinn. Staupasteinn er bikarlaga steinn við gamla þjóðveginn um Hvalfjörð skammt frá Hvammsvík. Þar var áður fyrr vinsæll áningarstaður ferðamanna sökum fagurs útsýnis yfir Hvalfjörðinn. Steinninn sem friðlýstur var 1974, er einnig þekktur undir nöfnunum: Prestasteinn, Steðji, "Karlinn í Skeiðhóli" og Skeiðhólssteinn. Steinninn er ofan við Skeiðhól, og sést ekki frá núverandi vegi um Hvalfjörð. Þjóðsaga. Sagan segir að í Staupasteini dvelji einbúi nokkur, Staupa-Steinn, sem fáum er sýnilegur. Erla Stefánsdóttir sjáandi hefur oft staldrað við hjá Staupa-Steini á leið sinni fyrir Hvalfjörð og lýsir honum sem síðhærðum og skeggjuðum karli, góðlyndum, gamansömum og sérlega barngóðum. Staupa-Steinn skemmtir sér að sögn best þegar fjölskyldufólk staldrar við nálægt Staupasteini og krakkar leika sér með bolta á meðan foreldrar njóta útilofts og náttúrufegurðar. Einbúinn Staupa-Steinn skaut upp kollinum í kynningarstarfi vegna Hvalfjarðarganga vorið 1997 og prýddi þá m.a. boli þátttakenda í víðavangshlaupi sem Spölur styrkti á Akranesi og límmiða til að setja á bílrúður. Erla Stefánsdóttir sjáandi veit einungis um átta einbúa sömu ættar á Íslandi. Einn býr til dæmis við Brynjudalsá í Hvalfirði, tveir eru í Kópavogi og einn heldur sig nálægt þjóðveginum við Blönduós. Aðrir áhugaverðir staðir í nágrenni Staupasteins eru: fossinn Glymur, Hallgrímskirkja í Saurbæ, Hvalstöðin í Hvalfirði og Geirshólmi. Staupasteinn (sjónvarpsþáttur). Staupasteinn er bandarískur sjónvarpsþáttur sem sýndur var í 11 ár frá 1982 til 1993. Enska heitið á honum er Cheers. Norðurárdalur (Borgarfirði). Norðurárdalur er dalur í Borgarbyggð norðan við Stafholtstungur og nær að Holtavörðuheiði. Þjóðvegur 1 liggur um dalinn og Norðurá rennur um hann. Í dalnum hefur myndast þéttbýli í kringum háskólann á Bifröst og búa þar um 250 manns. Dalurinn var áður sérstakur hreppur, Norðurárdalshreppur en þann 11. júní 1994 varð hreppurinn hluti af Borgarbyggð. Ólafsdalsskólinn. Ólafsdalsskólinn var bændaskóli sem starfræktur var 1880 til 1907 í Ólafsdal í Gilsfirði. Skólastjóri hans var Torfi Bjarnason. Ólafsdalsskólinn var fyrsti bændaskóli á Íslandi og tilgangur með stofnun hans að kenna bændum verklega og bóklega jarðrækt. Húnvetningar höfðu haft hug á að stofna til þessa sérstaklega fyrirmyndarbú og fá Torfa til forustu þess. Í því skyni sigldi Torfi til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur íslendinga og hafði Torfi meðferðis til baka búfræðiþekkingu frá Skotlandi. Ólafsdalsskóli var settur á stofn fyrir sakir áhrifa strauma erlendis frá, en með stofnun hans var formgerð þekking Torfa og fleiri sem þá störfuðu víða um land sem farandbúfræðingar. Skólinn var settur i fyrsta sinn 1. júní 1880 þegar fimm ungir menn hófu þar nám. Var námsárið frá vori til vors og námstíminn tvö ár. Voru nemendur ráðnir til ársvistar í senn með áskilnaði um skipulagt jarðræktarnám. Áhersla í námi var á kennslu í notkun hestaverkfæra við jarðræktarstörf og heyskap og komu nemendur jafnframt að smíði á eigin verkfærum. Bókleg kennsla var í reikningi, efnafræði, grasa- og jarðræktarfræði, hagfræði og teikningu, húsdýrafræði og eðlisfræði. Nemendur gengu jafnt til allra verka sem og undirbúnings fyrirlestra kennarans. Innritaðir nemendur á starfstíma Ólafsdalskóla 1880-1907 töldu 154 alls. Í Skotlandsdvöl sinni 1866-1867 kynnti Torfi sér m.a steinsmíði er nýttist vel við uppbyggingu húsakosts í Ólafsdal. Skólahúsið frá 1896 var viðgert og allt yfirfarið 1995-1996 og stendur þar enn. Torfi Bjarnason. Torfi Bjarnason (28. ágúst 1838 – 24. júní 1915) var skólastjóri Ólafsdalsskólans á Vestfjörðum. Hann er einna þekktastur fyrir að vinna að framförum í landbúnaði á Íslandi, aðallega með stofnun Ólafsdalsskólans og með því að stuðla að útbreiðslu Torfaljásins og Ólafsdalsplógsins. Hann var fyrstur Íslendinga til að nema jarðyrkju í útlöndum. Æska og foreldrar. Torfi fæddist að Skarði á Skarðsströnd. Faðir hans var "Bjarni Bjarnason" en móðir hans hét "Ingibjörg Guðmundsdóttir". Þriggja ára gamall fluttist Torfi með foreldrum sinum að Bessatungu í Saurbæ og þar ólst hann upp fram yfir tvítugsaldur. Árið 1860 fór hann norður að Þingeyrum til Ásgeirs frænda síns og var hjá honum nokkur ár. Var þá í ráði fyrir Húnvetningum að stofna hjá sér fyrirmyndarbú og fá Torfa til forustu þess. Í því skyni sigldi Torfi til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur íslendinga. Skotland. Í Skotlandi ritaði hann búnaðarmálabréfin þrjú sem birtust í Nýjum félagsritum (XXV. árg.). Um þessi bréf Torfa segir í Sunnanfara 1901, að þau séu rituð „af svo mikilli greind og framsýnu fyrirhyggju-viti, að mjög mikið er á að græða enn, slík ókjör, sem rituð hafa verið um búnað og búnaðarmálefni síðan vor á meðal“. Það mun hafa verið Jón Sigurðsson, er á marga lund hvatti og uppörvaði Torfa á þessum árum. Kemur það víða fram í bréfum Jóns, að hann hefur haft miklar mætur á Torfa og borið hið besta traust til hans. Sama ár og búnaðarbréfin komu út i Nýjum Félagsritum birtist verðlaunaritgjörð Torfa: „Hvað á að gjöra til að draga úr hinum mikla manndauða hér“, sem þótti stórmerk ritgjörð. Hana samdi Torfi meðan hann var vinnumaður í Húnaþingi. Torfaljárinn. Í Skotlandsvist sinni kyntist Torfi nýju lagi á ljáum. Breytti hann lagi þeirra eftir íslenskum aðstæðum og smíðaði eftir þeirri fyrirmynd 12 ljáblöð sem hann tók með sér heim — og reyndi hér. Varð sú reynsla með þeim hætti, að skosku ljáirnir, sem síðar voru kallaðir Torfaljáir, útrýmdu íslensku ljáunum á 2—3 árum. Segir svo um Torfa-ljáina í æviágripi Torfa í Sunnanfara, að þeir muni vera: „hér um bil hin mesta búnaðarframför á öldinni sem leið, er aflað mundi hafa upphafsmanninum auð fjár, hvar sem var um hinn menntaða heim annarsstaðar en hér, — sem sé með einkaleyfissölu. Ljáum þessum eiga skógarleifar vorar líf sitt að þakka, það litlar sem þeir eru; en engin skógarhrísla væri liklega til á landinu nú, ef ljáadengslan mikla hefði haldið áfram.“ En í ljáadengsluna fór mikið af kol og kolagerð á Íslandi eyddi skógum á þeim árum. Fyrstu búskaparárin. Árið 1807 kom Torfi heim og kvæntist þá frændsystur sinni, "Guðlaugu Sakaríasdóttur" frá Heydalsá, fósturdóttur Ásgeirs á Þingeyrum. Reistu þau bú fyrst á Varmalæk í Borgarfirði, en fluttust þaðan eftir tveggja ára dvöl, og munu aðallega hafa tekið sig upp vegna þess þjóðbrautar-erils er jörðinni fylgdi. Keypti Torfi þá Ólafsdal, árið 1871, af Jóni Bjarnasyni alþingismanni, og bjó þar jafnan síðan. Í Ólafsdal. Torfi gerði mikið fyrir jörðina eftir kaupin. Ólafsdalur var nokkrum árum síðar flestum jörðum betur húsaður; tún slétt, girðingar ágætar og slíkur fyrirmyndar frágangur á öllu innanhúss sem utan að vart sást annað eins myndarbýli á landinu. Árið 1880 stofnaði Torfi Ólafsdalsskólann á eigin spýtur og hélt honum einn uppi fyrstu 5 árin, en fékk sér þá aðstoð. Stóð skólinn með miklum blóma fullan aldarfjórðung. Venjulega voru 12 lærisveinar, 6 nýir á hverju ári í skólanum. Úr hópi lærisveina Torfa urðu margir frægir búfræðingar. Auk skólastjórastarfsins var Torfi hlaðinn mörgum og miklum öðrum störfum störfum í þarfir sveitarfélags, sýslu og amts. Hann stofnaði verslunarfélag Dalamanna 1885, kaupfélag Saurbæinga 1899, og var lífið og sálin i öllum félagsskap þar um slóðir um margra ára skeið. En við stjórnmálastarfsemi vildi hann aldrei fást, þótt hann ætti þess margsinnis kost að taka að sér þingmensku fyrir Dalasýslu. Eitt framfarafyrirtækið, sem Torfi beitti sér fyrir, var að koma upp tóvinnuvélum í Ólafsdal — með miklum erfiðismunum. En verksmiðjan brann nokkrum árum síðar. Í blöð og tímarit ritði Torfi ógrynnin öll og allt það verið einkennt sömu kostunum: eldlegum áhuga fyrir framsókn og framförum landbúnaðar, eindreginni fyrirlitningu á ómennsku, ónytjungsskap og tómlæti, samfara óvenju mikilli greind og haldgóðri margra ára eigin reynslu. Ólafsdalur. thumb thumb Ólafsdalur er um 5 km langur dalur og samnefndur bóndabær í Gilsfirði. Þar var Ólafsdalsskólinn sem var fyrsti bændaskólinn á Íslandi. Bærinn er núna í eyði. Skólasel Menntaskólans við Sund í Reykjavík var þar um tíma. Pólarnir. Pólarnir er heiti sem í daglegu tali var haft um bráðabirgðahúsnæði sem Reykjavíkurbær lét reisa syðst við Laufásveg á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar til að bæta úr brýnni húsnæðisþörf bæjarbúa. Saga. Mikil húsnæðisekkla var í Reykjavík á árum fyrri heimsstyrjaldar svo jaðraði við neyðarástand. Íbúum fjölgaði hratt en nýbyggingar voru litlar sem engar, ekki hvað síst vegna stríðsins. Árið 1916 var ákveðið að reisa bráðabirgðahúsnæði fyrir bágstaddar fjölskyldur og var því fundinn staður syðst við Laufásveg sem þá náði mun lengra en síðar varð. Næstu misserin voru reistar þar tæplega fimmtíu íbúðir af miklum vanefnum, til dæmis voru þær ekki með rennandi vatni. Þótt Pólarnir hafi upphaflega verið hugsaðir sem bráðabirgðahúsnæði, gekk hægt að rífa þá og var búið í flestum húsanna vel fram á sjötta áratuginn. Sigurður A. Magnússon rithöfundur ólst upp í Pólunum og dró upp mynd af lífinu þar í endurminningarbók sinni Undir kalstjörnu. Hermann Jón Tómasson. Hermann Jón Tómasson (fæddur 13. apríl 1959 á Akureyri) er fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri. Hermann Jón ólst upp á Dalvík og stundaði nám í Dalvíkurskóla, Menntaskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands og í Texas Tech University. Hann hefur einnig stundað nám í stjórnun við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hermann hefur lengst af unnið við kennslu, ráðgjöf og stjórnun í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hermann var varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar 2002-2006 og bæjarfulltrúi 2006-2012. Hann var formaður bæjarráðs 2006-2009 og bæjarstjóri á Akureyri í ár, 2009-2010. Hermann er kvæntur Báru Björnsdóttur leikskólakennara og eiga þau þrjú börn. Sumarólympíuleikarnir 1932. Hlið Ólympíuleikvangsins í Los Angeles. Sumarólympíuleikarnir 1932 voru haldnir í Los Angeles í Bandaríkjunum á tímabilinu 30. júlí til 14. ágúst. Umgjörð leikanna var með glæsilegasta móti, en vegna heimskreppunnar og hins langa ferðalags voru þátttakendur innan við helmingur þess sem verið hafði í Amsterdam 1928. Aðdragandi og skipulag. Los Angeles hafði sóst eftir að halda Ólympíuleikana árin 1924 og 1928, en ekki fengið. Að þessu sinni sóttist engin önnur borg eftir leikunum. Ráðist var í endurbætur á aðalíþróttaleikvangi borgarinnar, sem tekinn hafði verið í notkun árið 1923. Völlurinn var einnig notaður árið 1984 þegar Ólympíuleikarnir voru á ný haldnir í Los Angeles. Ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar á leikunum. Má þarf nefna að ljósmyndir voru teknar við marklínu í spretthlaupum til að skera úr um sigurvegara. Þá var bryddað upp á þeirri nýjung að láta verðlaunahafa stíga upp á misháa palla við verðlaunaafhendingu. Keppnisgreinar. Keppt var í 117 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Matti Järvinen sigraði auðveldlega í spjótkastskeppninni, sem var finnsk sérgrein. Finninn Paavo Nurmi hugðist keppa á sínum fjórðu Ólympíuleikum, en var meinað að taka þátt á þeirri forsendu að hann hefði þegið greiðslu fyrir keppni á íþróttamóti í Þýskalandi. Eftir leikana var úrskurðinum breytt og Nurmi beðinn afsökunar. Bandaríska frjálsíþróttakonan “Babe” Didrikson Zaharias vann til gullverðlauna í 80 metra grindahlaupi og spjótkasti og silfurverðlauna í hástökki. Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk, sneri hún sér að golfíþróttinni og keppti á móti karlatvinnumanna mörgum áratugum áður en aðrar konur náðu að leika það eftir. Árið 1999 valdi Associated Press hana íþróttakonu 20. aldar. Volmari Iso-Hollo frá Finnlandi sigraði í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Hlaupið varð reyndar 3.460 metrar, þar sem starfsmaðurinn sem átti að telja hringina gleymdi sér við að fylgjast með öðrum keppnisgreinum og sleppti út hring. Þau mistök kostuðu Iso-Hollo heimsmet. Japaninn Chūhei Nambu sigraði í þrístökki á nýju heimsmeti, 15,72 metrum. Stanisława Walasiewicz sigraði í 100 metra hlaupi. Hún keppti fyrir Pólland þrátt fyrir að búa og hafa alist upp í Bandaríkjunum. Eftir dauða hennar árið 1980 kom í ljós að hún hafði kynfæri bæði karls og konu og varð ekki ekki með fullu skorið úr um líffræðilegt kyn hennar. Ólymíuhreyfingin viðurkennir hana þó enn sem verðlaunahafa í kvennaflokki. Finnar unnu þrefalt í spjótkasti. Gullið kom í hlut Matti Järvinen sem var langöflugasti spjótkastari heims um þær mundir. Á árunum 1930 til 1936 bætti hann heimsmetið í greininni tíu sinnum í röð. Finnsku keppendunum þótti lítið til andstæðinga sinna á leikunum koma og hirtu ekki einu sinni um að fara úr æfingagöllunum meðan á keppninni stóð. Ellen Preis frá Austurríki vann til gullverðlauna í skylmingum, tvítug að aldri. Þetta voru hennar fyrstu leikar, en hún átti eftir að keppa á hverjum einustu leikum til 1956. Japanir komu mjög á óvart sundkeppni karla, þar sem þeir hlutu fimm af sex gullverðlaunum og alls ellefu af verðlaunapeningunum átján. Helene Madison frá Bandaríkjunum vann til þriggja gullverðlauna í sundi. Hún var um þetta leyti langöflugasta sundkona heims og hafði sett sextán heimsmet á jafnmörgum mánuðum á tímabilinu 1930-31. Eftir Los Angeles-leikanna lék Madison í kvikmynd þar sem hún sýndi sundhæfileika sína, með þeim afleiðingum að bandaríska Ólympíunefndin leit á hana sem atvinnumann og hleypti henni ekki á Berlínar-leikana 1936. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íþróttasamband Íslands skipaði fulltrúa í Ólympíunefnd á árinu 1931 til að kanna möguleikann á þátttöku í leikunum. Niðurstaðan varð sú að ferðalag til Los Angeles yrði alltof dýrt og kostnaðarsamt svo allar slíkar hugmyndir voru slegnar út af borðinu. Bókasafns- og upplýsingafræði. Bókasafns- og upplýsingafræði þverfaglegt fag sem fjallar um skipulagningu og miðlun upplýsinga, þekkingar eða hugsunar sem skráð er með einhverjum hætti. Með tilkomu internetsins hafa bókasafnsfræði og upplýsingatækni í auknum mæli skarast. Í því augnamiði að gera upplýsingar aðgengilegar þarf að safna þeim, flokka þær og geyma. Bókasafnsfræði var fyrst kennd í Columbia-háskóla árið 1887. Bókasafns- og upplýsingafræði snýst á sama tíma einnig um upplýsingalæsi. Hvernig einstaklingar verða sér út um og nota upplýsingar. Holstein Kiel. Holstein Kiel er þýskt knattspyrnufélag stofnað í Kíl. Bjarni Friðriksson. Bjarni Friðriksson (f. 29. maí 1956) er fyrrverandi íslenskur júdóglímukappi. Á Sumarólympíuleikunum 1984 vann hann bronsverðlaun í júdó. Jakob Björnsson. Jakob Björnsson (f. í Vopnafirði 27. apríl 1950) er fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og núverandi framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorg á Akureyri. Ævi. Jakob útskrifaðist með landspróf í Laugaskóla í Reykjadal 1968 og úr Samvinnuskólanum í Bifröst 1970. Síðan fór hann í framhaldsnám á vegum Samvinnuskólans, sem fólst í námskeiði í viðskiptadeild Háskólans, vinnu úti í fyrirtækjum og kennslu á Bifröst. Jakob fór að því loknu í framhaldsnám við Norska samvinnuskólann. Hann starfaði við bókhald í Noregi á árunum 1974-1982 en fluttist að því loknu til Akureyrar með fjölskyldu sína. Jakob var fjármálastjóri Skinnaiðnaðar á Akureyri 1982-1994. Jakob sat í bæjarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn á Akureyri á árunum 1990-2006 og var bæjarstjóri á Akureyri 1994-1998 og formaður bæjarráðs 1994-1998 og 2002-2006. Jakob hefur verið framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorg á Akureyri frá árinu 1999. Eiginkona hans er Linda Björnsson, fædd í Noregi. Sonur þeirra er Sverre Andreas Jakobsson, landsliðsmaður í handbolta. Halldór Jónsson. Halldór Jónsson (f. 22. nóvember 1950 á Akureyri) er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og fyrrum forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Halldór var bæjarstjóri á Akureyri 1990-1994. Halldór útskrifaðist með stúdentspróf frá MA árið 1970 og lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1977. Halldór vann við bókhald og tölvuvinnslu hjá ríkisbókhaldi 1971-1975. Var eigandi ásamt fleirum að G.T. búðinni hf. og í hlutastarfi þar 1976-1979. Framkvæmdastjóri hjá Málmvörum hf. 1977-1979. Sölustjóri hjá G.T. búðinni hf. 1979-1980. Hafði umsjón með tölvuvinnslu bókhalds hjá Vélum og verkfærum hf. 1979-1980. Framkvæmdastjóri Norðlenskrar tryggingar hf., síðar N.T. umboðsins hf., 1980-1984. Halldór var bæjarstjóri á Akureyri 1990-1994. Halldór var skrifstofustjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 1984-1985 og svo framkvæmdastjóri FSA 1985-1990 og 1994-1999. Hann var forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri 1999-2013 og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja frá 2013. Halldór var mikill afreksmaður í rallakstri og blaki á yngri árum. Hann var margfaldur íslands- og bikarmeistari í blaki auk þess sem hann varð síðar landsliðsþjálfari Íslands í blaki karla og kvenna. Why Iceland? Why Iceland?: How One of the World's Smallest Countries Became the Meltdown's Biggest Casualty er bók eftir Ásgeir Jónsson, fyrrverandi yfirmann greiningardeildar Kaupþings banka, um bankahrunið á Íslandi haustið 2008. Í bókinni sem skrifuð er á ensku, rekur hann stuttlega sögu Íslands áður en hann greinir frá túlkun sinni á ástæðum þess að til bankahrunsins kom. Bókin er gefin út af bandaríska útgáfurisanum McGraw-Hill. Ólafur Pétursson. Ólafur Pétursson (24. maí 1919 – 12. janúar 1972) var íslenskur samstarfsmaður nasista á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og var dæmdur í tuttugu ára hegningarvinnu í Noregi eftir stríð fyrir njósnir og uppljóstranir. Ákærandinn í Gulaþingsdómi í Bergen fór þó fram á dauðarefsingu. Í Noregi var hann kallaður „Íslenski böðullinn“. Ólafur var sonur Péturs Ingimundarsonar, slökkviliðsstjóra í Reykjavík, og Guðrúnar Benediktsdóttur. Hann hélt til náms skömmu fyrir stríð og komst í ágúst 1940 í kynni við Þjóðverja sem störfuðu fyrir leyniþjónustu þýska hersins, og tæpu ári seinna gekk hann þeim á hönd. Hann kom sér í kynni við félaga í norsku andspyrnuhreyfingunni og upplýsingar sem hann aflaði sér á meðal þeirra leiddu til þess að margir voru handteknir og lentu sumir í fangabúðum Þjóðverja og nokkrir þeirra voru drepnir. Leifur Müller, sem lenti í Sachsenhausen, útrýmingarbúðum Nasista, segir frá því í ævisögu sinni, "Býr Íslendingur hér?", að Ólafur hafi líklega látið handtaka sig eftir kaffiboð sem hann hélt honum og Svanhvíti Friðriksdóttur í Noregi, en Svanhvít náði að flýja. Þegar Ólafi var orðið óvært í Noregi vegna njósnastarfsemi sinnar hvarf hann til Danmerkur. Þar dvaldist hann til stríðsloka og reyndi þá að komast til Íslands með Esjunni. Þegar skipið var á leið til Íslands sigldi breski herinn í veg fyrir það, gekk um borð og handtók Ólaf. Íslensk stjórnvöld leystu Ólaf frá dómi í Noregi eftir stríð, og kom hann aftur til Íslands árið 1947 eftir að hann hafði verið dæmdur þar í tuttugu ára hegningarvinnu 31. maí sama ár. Ákærandinn hafði þó farið fram á dauðadóm. Í forystugrein norska hægriblaðsins "Morgenavisen" var látið að því liggja að Ólafi hefði verið sleppt til þess að ekki kæmi til leiðinda við Snorrahátíðina í Reykholti þar sem Norðmenn hugðust gefa Íslendingum styttu af Snorra Sturlusyni. Ólafur stofnaði síðar endurskoðunarfyrirtæki í Reykjavík og var meðal annars einn af hvítliðunum í óeirðunum á Austurvelli árið 1949. Undanlátssemin við íslensk stjórnvöld vakti mikla reiði í Noregi, ekki síst í Bergen og nágrenni þar sem Ólafur hafði mest látið til sín taka. En þremur mánuðum eftir að Ólafur var dæmdur í Noregi gekk hann frjáls ferða sinna um götur Reykjavíkur. Þegar Ólafur tók síðan þátt í óeirðunum á Austurvelli 1949 í sveit hvítliða varð það til þess að ferill hans í Noregi var rifjaður upp og afskipti stjórnvalda af málinu. Þá mun utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hafa látið í ljós þá skoðun að ómannúðlegt væri að rifja þetta upp þar sem það gæti valdið Ólafi sárindum. Björn Ingimarsson. Björn Ingimarsson (fæddur 30. desember 1954) er bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði. Björn varð stúdent frá MA árið 1976 og útskifaðist úr þjóðhagfræði frá háskólanum í Gautaborg 1984. Hann var sveitarstjóri Þórshafnarhrepps 2001 – 2006 og Langanesbyggðar 2006 – 2009. Björn var sjálfstætt starfandi við rekstrar- og stjórnunarráðgjöf 2009 – 2010 og var ráðinn bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs í júlí 2010. Hann hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, stofnana og nefnda á vegum sveitarfélaga og var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi 2009 – 2010. Björn er kvæntur Sigrúnu Jónu Óskarsdóttur förðunarfræðingi. Hreppsnefnd Sauðárkróks. Sauðárkrókshreppur varð til árið 1907 þegar Sauðárhreppi hinum forna var skipt í tvennt, annars vega Sauðárkrókshrepp og hins vegar Skarðshrepp. Því var kosið í hreppsnefnd Sauðárhrepps. 1946. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 27. janúar 1946. 1942. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 25. janúar 1942. 1938. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1. febrúar 1938. 1934. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1934 1931. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1931 1928. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1928 1925. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1925 1922. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1922 1919. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1919 1916. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1916 1913. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1913 1910. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1910 1907. Hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1907 Heimildir. Sauðárkrókur H How I Met Your Mother (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af bandaríska gamanþættinum How I Met Your Mother hóf sýningar þann 19. september 2005 og kláraðist þann 15. maí 2006. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 22 mín. að lengd. Útdráttur. Árið 2030 sest Ted Mosby (Bob Saget talar fyrir hann) niður með dóttur sinni og syni til að segja þeim söguna af því hvernig hann kynntist móður þeirra. Sagan byrjar árið 2005 þegar Ted (Josh Radnor) er einhleypur, 27 ára arkitekt sem býr með tveimur bestu vinum sínum úr háskóla; Marshall Eriksen (Jason Segel), laganema, og Lily Aldrin (Alyson Hannigan), leikskólakennara, sem hafa verið saman í næstum níu ár þegar Marshall biður hana að giftast sér. Trúlofun þeirra veldur því að Ted fer að hugsa um hjónaband og að finna sálufélagann en sjálfskipuðum besta vini hans, Barney Stinson (Neil Patrick Harris), lýst ekkert á það, en Ted hitti Barney á baðherberginu eftir drykkjukvöld. Barney er þekktur kvennamaður og er starf hans óþekkt. Ted byrjar leitin að sálufélaganum og hittir unga og metnaðarfulla fréttakonu, Robin Scherbatsky (Cobie Smulders), en hann verður fljótlega ástfanginn af henni. Robin, vil hins vegar ekki æða inn í samband og þau ákveða að vera vinir. Framtíðar-Ted segir að Robin sé ekki móðir barna hans og talar um hana sem "Robin frænku". Ted byrjar með bakara, Victoriu, sem hann hittir í brúðkaupi sem verður til þess að Robin verður afbrýðissöm og áttar sig á að hún ber tilfinningar til Teds. Victoria flytur til Þýskalands til að á skólastyrk og ákveða þau að reyna að halda sambandinu gangandi. Þegar Ted kemst að því að Robin ber tilfinningar til hans segir hann henni að hann sé hættur með Victoriu, þrátt fyrir að hann sé það ekki. Þau sofa næstum því saman, en Victoria hringir óvart í Robin. Ted og Victoria hætta saman og Robin verður reið út í Ted en þau sættast að lokum og ákveða að fara á stefnumót. Á meðan fer Lily að hugsa um hvort hún sé að missa af einhverjum tækifærum vegna sambands hennar og Marshalls og ákveður að fara á skólastyrk til San Francisco í listaskóla og hættir með Marshall í leiðinni. Þáttaröðin endar á því að Ted kemur heim í íbúðina, morguninn eftir að hafa eytt nótinni með Robin í fyrsta skipti, og finnur Marshall sitjandi úti í rigningunn með trúlofunarhringinn í höndunum. Hreppsnefnd Sauðárhrepps. 1904 . Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1904 1901. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1901 1898. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1898 1895. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1895 1892. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1892 1889. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1889 1886. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1886 1884. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1884 1883. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1883 1880. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1880 1876. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1876 1875. Hreppsnefnd Sauðárhrepps sem var kosin í sveitarstjórnarkosningunum 1875 Heimildir. Sauðárhreppur H Egill Holmboe. Egill Holmboe (24. apríl 1896 – 4. ágúst 1986) var Norðmaður (Egil Holmboe) en tók upp nafnið Egill Fálkason þegar hann hlaut íslenskan ríkisborgararétt. Holmboe var í norsku utanríkisþjónustunni fyrir síðari heimsstyrjöld og var þá meðal annars vararæðismaður Norðmanna í Reykjavík en hélt aftur til Noregs 1939. Holmboe var félagi í norska nasistaflokknum og á hernámsárunum í Noregi var Holmboe skrifstofustjóri í innanríkismálaráðuneyti Quislings. Hann var meðal annars túlkur Adolfs Hitlers þegar Knut Hamsun heimsótti hann í Berghof í Austurríki 1943. Leifur Muller, sem var handtekinn þegar hann hafði áformað að flýja frá Noregi til Svíþjóðar og sendur í fangabúðir í Þýskalandi, grunaði Holmboe um að hafa svikið sig í hendur Þjóðverja, en hann hafði verið heimilisvinur Müller-fjölskyldunnar þegar hann bjó á Íslandi. Holmboe var dæmdur til nokkurra ára fangelsisvistar í Noregi eftir stríð. Árið 1953 flutti hann til Íslands og fékk íslenskan ríkisborgararétt 1955. Síðari kona hans var íslensk, Sigríður dóttir Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar. Hann starfaði lengst af hjá bandaríska hernum á Keflavíkurvelli. Sumarólympíuleikarnir 1952. Paavo Nurmi tendrar Ólympíueldinn í Helsinki. Sumarólympíuleikarnir 1952 voru haldnir í Helsinki í Finnlandi frá 19. júlí til 3. ágúst. Áður hafði staðið til að Helsinki hýsti leikana árið 1940, en þeir féllu niður vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Fjöldi landa tók þátt í Ólympíuleikum í fyrsta skipti í Helsinki, þar á meðal Sovétríkin og Alþýðulýðveldið Kína. Aðdragandi og skipulag. Ólympíuleikvangurinn í Helsinki, myndin er tekin í kringum heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum 2005. Ólympíuleikarnir 1940 áttu að fara fram í Tókýó í Japan. Vegna stríðs Japana og Kínverja ákvað Alþjóðaólympíunefndin á árinu 1938 að leikarnir skyldu haldnir í Helsinki, sem lent hafði í öðru sæti í staðarvalinu. Finnar voru vel undir verkefnið búnir. Framkvæmdir við Ólympíuleikvanginn höfðu hafist þegar árið 1934 og var hann tekinn í notkun á árinu 1938. Arkitektar hans voru þeir Yrjö Lindegren og Toivo Jäntti, en þeir voru ásamt Alvar Aalto leiðandi í þróun finnskrar byggingarlistar um miðja tuttugustu öld. Árið 1947 ákveðið hvar halda skyldi leikana fimm árum síðar. Helsinki vann þar afgerandi sigur í keppni við Amsterdam, Minneapolis, Los Angeles, Detroit, Chicago og Fíladelfíu. Þjóðverjar og Japanir tóku á ný þátt eftir heimsstyrjöldina, auk þess sem Sovétríkin og Kína bættust í hóp þátttökuþjóða. Sú ráðstöfun varð þó til þess að Formósa sniðgekk leikana af pólitískum ástæðum. Keppnisgreinar. Keppt var í 149 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Bandaríkin unnu til flestra gullverðlauna. Næstir komu nýliðar Sovétmanna, en í þriðja sæti varð Ungverjaland sem telja mátti eitt mesta íþróttaland heims þótt íbúarnir væru einungis rétt um átta milljónir. Emil Zátopek ásamt silfurverðlaunahafanum í Maraþonhlaupi á leikunum 1952, Reinaldo Gorno frá Argentínu. Kringlukastarinn Nina Romashkova vann til fyrstu gullverðlauna Sovétmanna í Ólympíusögunni. Sovétríkin hlutu raunar líka silfrið og bronsið í greininni. Emil Zátopek frá Tékkóslóvakíu þótti mestur afreksmaður frjálsíþróttakeppninnar. Hann sigraði í 5.000 metra hlaupi, 10.000 metrum og í Maraþonhlaupi, þrátt fyrir að hafa aldrei áður hlaupið þá vegalengd og ákveðið á síðustu stundu að taka þátt. Hann setti Ólympíumet í öllum þremur greinunum. Eiginkona Emils, Dana Zátopková, fékk gullverðlaunin í spjótkasti. Átta árum síðar, á Ólympíuleikunum í Róm, vann hún til silfurverðlauna í sömu grein, þá 37 ára að aldri. Ingemar Johansson og Floyd Patterson berjast um heimsmeistaratitilinn í þungavigt árið 1959. Báðir voru þeir meðal verðlaunahafa á leikunum í Helsinki. Joseph Barthel hlaut gullið í 1.500 metra hlaupi og varð þar með óvæntasti sigurvegari frjálsíþróttakeppninnar. Hann er eini gullverðlaunahafi Lúxemborgar í sögu Sumarólympíuleikanna. Bandaríkjamaðurinn Walter Davis sigraði í hástökki. Á barnsaldri veiktist hann af lömunarveiki og gat ekki gengið í þrjú ár, en náði að yfirvinna fötlun sína. Eftir Ólympíuleikana gerðist hann atvinnumaður í körfubolta og lék í NBA um nokkurra ára skeið. Ungverjar urðu Ólympíumeistarar í knattspyrnu. Gullaldarlið þeirra, með Ferenc Puskás fremstan í flokki, vakti í fyrsta sinn verulega athygli á leikunum og var næstu misserin talið það besta í heimi. Bandaríkjamenn unnu körfuknattleikskeppnina að vanda. Sovétmenn voru andstæðingar þeirra í úrslitaleiknum og gripu til þess ráðs að keyra niður hraðann. Úrslitin urðu því sérkennileg, 36:25. Meðal þátttakenda í hnefaleikakeppninni voru nöfn sem síðar áttu eftir að lifa í hnefaleikasögunni. Bandaríkjamaðurinn Floyd Patterson hlaut gullið í millivigt og Svíinn Ingemar Johansson fékk silfurverðlaunin í þungavigt. Báðir áttu eftir að verða heimsmeistarar atvinnumanna í þungavigt. Gullverðlaunin í þeim þyngdarflokki á leikunum komu hins vegar í hlut Ed Sanders, sem gerðist atvinnumaður líkt og hinir en lést í hnefaleikahringnum árið 1954. Íþróttin Pesäpallo var sýningargrein á leikunum. Það er afbrigði af hafnarbolta sem er nær einvörðungu spilað í Finnlandi og af fólki af finnskum uppruna annars staðar í heiminum. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar lögðu ríka áherslu á að koma glímunni inn á dagskrá Ólympíuleikanna sem sýningargrein. Ekki var orðið við þeim óskum, en glímuflokkur á vegum Ármanns hélt þó til Helsinki og sýndi íþróttina þar í borg á sama tíma og leikarnir fóru fram. Knattspyrnumenn höfðu hug á að taka þátt á leikunum, enda fullir sjálfstrausts eftir óvæntan 4:3 sigur á Svíum á Melavellinum 1951. Kostnaður við slíkt ævintýri reyndist þó að lokum of mikill. Einnig var hætt við að senda sundfólk á leikana af sömu ástæðu. Níu frjálsíþróttamenn kepptu fyrir Íslands hönd, allt karlar. Það voru hlaupararnir Ásmundur Bjarnason, Pétur Fr. Sigurðsson, Guðmundur Lárusson, Hörður Haraldsson, Ingi Þorsteinsson og Kristján Jóhannsson. Stangarstökkvarinn Torfi Bryngeirsson og kringlukastararnir Friðrik Guðmundsson og Þorsteinn Löve. Tíundi íþróttamaðurinn var tugþrautarkappinn Örn Clausen. Miklar vonir voru bundnar við þátttöku hans, en Örn tognaði illa eftir að til Helsinki var komið og gat því ekki tekið þátt. Kristján Jóhannsson setti eina Íslandsmetið á leikunum þegar hann náði 26. sæti í 10.000 metra hlaupi. Aðrir keppendur voru nokkuð frá sínu besta. Árangurinn olli verulegum vonbrigðum á Íslandi, þar sem væntingarnar höfðu verið mjög miklar. Dagverðarnes. Dagverðarnes er nes í Dalasýslu, ekki langt frá Búðardal, og dregur nafn sitt af þeirri sögusögn að Auður djúpúðga hafi snætt þar dögurð er hún fór þar um með fylgdarliði sínu inn inn Hvammsfjörð í leit að öndvegissúlum sínum. Á Dagverðarnesi er kirkja sem var vígð árið 1933 en kirkja hefur verið þar frá miðri 19. öld, og stendur þar sem áður var bænhús. Eyðibýli innan Klofnings er staðsett fremst á Dagverðarnesi. Klofningsfjall. Klofningsfjall er fjall í Dalasýslu og gengur það á milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar og skiptir þeim upp. Vestan á fjallinu er hvöss öxl og heitir hún Klofningshyrna. Fjallið er kennt við klettarana sem liggur fram af enda þess og heitir Klofningur og er þar útsýnisskífa þar sem helstu kennileiti eru merkt. Í framhaldi af Klofningi er Langeyjarnes og síðan Langey og fleiri eyjar. Vinsæl gönguleið liggur upp á Klofningsfjall og er oftast gengið frá bænum Stakkabergi. Af fjallinu er mjög fallegt útsýni yfir Breiðafjörð og Breiðafjarðareyjar og til Snæfellsness og Barðastrandar. Lóndrangar. Lóndrangar eru tveir basaltklettadrangar, fornir gígtappar er rísa stakir og formfagrir úti við ströndina á sunnanverðu Snæfellsnesi, skammt austan Malarrifs en um 10 km vestan við Hellna. Hærri drangurinn er 75 m á hæð og er sagt að Ásgrímur Bergþórsson hafi klifið hann manna fyrstur árið 1735. Sá minni er 61 m hár og var fyrst klifinn 1938 að því er best er vitað. Þessir tveir gígtappar eru leifar gosmalarfyllingar úr gíg sem í vefjast basaltgöng en brimið hefur sorfið burt sjálft eldvarpið utan móbergið í Svalþúfu, leifar af austurhluta gígbarmsins. Nokkuð varp er í Lóndröngum, þar er rita og langvía og fýll. Lundi verpir í brekkum ofan við bjargbrúnir og örn verpti fyrrum á hærri drangnum. Áður fyrr var útræði við Lóndranga og var lendingin fyrir austan hærri dranginn, þar sem heitir Drangsvogur. Sagt er að þaðan hafi verið gerð út tólf skip þegar mest var. Lífsval ehf.. Lífsval ehf. er íslenskt fyrirtæki í eigu fjársterkra aðila og hefur lagt áherslu á að kaupa upp jarðir með kvóta eða vatnsréttindi. Talið er félagið eigi nú yfir 40% af öllum mjólkurkvóta í landinu auk verulegs kjötkvóta. Flóasnípa. Flóasnípa (fræðiheiti "Gallinago delicata") er lítill vaðfugl skyldur hrossagauki. Fullorðnir fuglar eru 23–28 sm langir með 39–45 sm vænghaf. Fuglarnir hafa stutta grængráa fætur og mjög langan og beinan gogg. Flóasnípa hefur fundist sem flækingur á Íslandi, í fyrsta skipti árið 2010. Magma Energy Corp. Magma Energy Corp var kanadískt fyrirtæki sem sérhæfir sig í kaup á grænum orkufyrirtækjum. Þeir eru taldir hafa stofnað dóttur- og skúffufyrirtækið "Magma Energy Sweden AB" til að vera heimilt að kaupa hlut í HS Orku. Um þetta hafa spunnist þó nokkrar deilur. Ákvarðanir um sölu á hlut í HS orku til Magma Energy voru teknar af meirihluta Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, en í forsvari fyrir þá var Árni Sigfússon. Að þeim umræðum kom líka Orkuveita Reykjavíkur. Árið 2011 sameinuðust Magma Energy Corp og Plutonic Power Corp í fyrirtækið Alterra Power Corp. Dreyfus-málið. Dreyfus-málið (f. "affaire Dreyfus") var stjórnmálahneyskli sem kom upp í Frakklandi undir lok nítjándu aldar. Málið snerist um Alfred Dreyfus, franskan gyðing, sem var kafteinn í franska hernum og var fundinn sekur um landráð í nóvember 1894 fyrir að hafa komið hernaðarleyndarmálum til Þjóðverja. Dreyfus fékk lífstíðardóm og var sendur til fangaeyjunar Djöflaeyjunnar undan ströndum Frönsku Gvæjana og látinn í einangrun. Tveimur árum eftir sakfellingu Dreyfusar varð yfirmönnum franska hersins ljóst að Dreyfus var saklaus en hinn raunverulegi sökudólgur var majór að nafni Ferdinand Walsin Esterhazy. Frekar en að frelsa Dreyfus og fangelsa Esterhazy var sá síðarnefndi náðaður fyrir herdómstól og sönnunargögn fölsuð af leyniþjónustumanninum Hubert-Joseph Henry lögð fram sem staðfestu á ný sekt Dreyfusar. Rithöfundurinn Émile Zola hreyfði við málinu með birtingu opins bréfs "J'accuse" ("Ég ásaka") í dagblöðum í janúar 1898. Málið var tekið fyrir dóm á ný 1899 og Dreyfus fluttur aftur til Frakklands. Þá tók við langur málflutningur sem skók franska þjóðfélagið og skipti því í tvennt; milli þeirra sem studdu Dreyfus og héldu fram sakleysi hans og þeirra sem töldu hann sekan. Málið markaðist af gyðingahatri. Þannig fór að Dreyfus var dæmdur saklaus af öllum ákærum og tók hann á ný við stöðu sinni í franska hernum árið 1906. Hann barðist í fyrri heimsstyrjöldinni. Eyrugla. Eyrugla (fræðiheiti: "Asio otus" (áður: "Strix otus")) er uglutegund sem verpir í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Eyrugla er meðalstór ugla 31–37 sm löng með 86–98 sm vænghaf. Kvenfuglinn er stærri og dekkri en karlfuglinn. Varptími er frá febrúar til júlí. Eyruglur eru að hluta til farfuglar sem fljúga suður á bóginn á veturna. Heimkynni eyrugla eru skógarjaðrar nálægt opnu svæði. Eyruglur gera hreiður í trjám, oft barrtrjám og nota gömul hreiður frá öðrum fuglum eins og krákum og hröfnum. Vanalega eru eggin 4 - 6 og útungunartími er 25 - 30 dagar. Eyruglur veiða á opnum svæðum að nóttu til. Fæða eyruglna er aðallega nagdýr, lítil spendýr og fuglar. Eyruglur eru nýir landnemar á Íslandi og hafa verpt þar. Þær má þekkja frá branduglum á því að þær hafa stærri eyru og augu þeirra eru appelsínugul en gul í branduglum. Gatklettur á Djúpalónssandi. Gatklettur er á sunnaverðu Snæfellsnesi, nálægt Arnarstapa og um 10 km frá Hellnum. Gatklettur eru leifar af berggangi þar sem sjórinn hefur rofið sérstætt gat á bergganginn. Mikið fuglalíf og brim er við Gatklett. Guðrúnarlaug. Guðrúnarlaug er hlaðin laug í Dalabyggð, um 20 km frá Búðardal. Guðrúnarlaug er nútíma endurgerð á laug sem forðum var í Sælingsdal, og mun hafa verið sú elsta sem sögur fara af hér á landi. Sú laug hvarf undir skriðu á 19. öld, en þótti á sínum tíma heilnæm baðlaug og var mikið notuð. Hennar bæði getið í Laxdælu og Sturlungu. Núverandi Guðrúnarlaug er hlaðin eins og menn ætla að sú forna hafi litið út, en við hana hefur einnig verið byggt skýli þar sem má hafa fataskipti. Bárðarlaug. Bárðarlaug er sporöskjulaga köld tjörn í gjallgíg vestanvert við veginn að Hellnum. Laugin var friðlýst sem náttúruvætti 1980. Sögur og sagnir. Segir sagan að Bárðarlaug sé baðstaður Bárðar Snæfellsáss. Hann mun hafa numið land á Snæfellsnesi og verið af risaættum. Bárður kallað jökulinn Snjófell og Snæfellsnesið Snjófallaströnd. Hann lenti í útistöðum við frændur sína og nágranna og lét sig hverfa en talið er að hann hafi gengið í jökulinn. Upp frá því fóru menn að ákalla hann og hlaut hann þá nafnið Snæfellsás. Vampírubaninn Buffy. Vampírubaninn Buffy (enska: "Buffy the Vampire Slayer") er bandarísk drama-/grínþáttaröð með hrollvekjubrag sem var sýnd á árunum 1997-2003. Þátturinn var búinn til af Joss Whedon og fjallar um unglingsstelpuna Buffy Summers (Sarah Michelle Gellar) sem er vampírubani. Buffy Summers þarf að vernda heiminn frá vampírum og öðrum myrkraverum. Aðrar persónur eru grínistinn Xander Harris (Nicholas Brendon) sem var skotinn í Buffy í fyrstu þáttaröðinni, Willow Rosenberg (Alyson Hannigan), besta vinkona Buffyar sem síðar verður öflug norn, og Vörður (e. Watcher) Buffyar, Rupert Giles (Anthony Stewart Head), sem þjálfar hana og vinnur á bókasafninu í skólanum. Þættirnir eru upprunaðir frá samnefndri "flop"-mynd frá 1992, sem Whedon samdi handritið að. Þættirnir eru ekki tendgir myndinni heldur upprunalegu handriti Whedons. Eftir að þáttunum lauk hélt söguþráðurinn áfram í teiknimyndasögunum "Buffy the Vampire Slayer: Season Eight" sem komu fyrst út 2007 og eru enn að koma út. Whedon bjó líka til þættina "Angel" sem þróuðust út frá Buffy. Whedon hefur einnig unnið að tilraunaþætti fyrir "Buffy the Vampire Slayer: The Animated Series". Hljómsveitin Nerf Herder flytur aðalstef þáttarins (Buffy the Vampire Slayer Theme). Fyrsta þáttaröð. Í fyrstu þáttaröðinni flytur Buffy frá Los Angeles til smábæjarins Sunnydale í Kaliforníu út af skólavandamálum, en hún brenndi íþróttahús skólans til þess að drepa vampírur. Buffy vonast til þess að gleyma vampírum, en nýji vörðurinn hennar Giles kemur í veg fyrir það. Undir þorpinu Sunnydale liggur nefnilega Vítismunninn, sem er samleitnispunktur dulrænna afla og orku. Meistarinn nýtir orkuna frá vítismunninum til að ná yfir heiminn. Buffy hittir Xander og Angel sem þurfa að berjast á móti Meistaranum og hjálpa henni síðar í öllum verkefnum. Önnur þáttaröð. Hinn smurði hyggst endurvekja meistarann með því að nota beinin hans og ræna vinum Buffy, en hún mölvar beinin og bjargar vinum sínum. Vampíruparið Spike og Drussilla koma í bæinn og ætla að drepa Buffy og fá Angel í lið með sér, en Angel var áður vampíra. Buffy fær liðstyrk frá vampírubananum Kendru Young til að berjast á móti Spike og Drussilla, en Angel er þó tekinn og breyttur aftur í vampíru, Angelus. Í bardaganum lamast vampíran Spike, og síðar drepst vampírubaninn Kendra. Skólastjórinn kennir Buffy um brotthvarf Kendru, og rekur hana úr skólanum. Baráttan við vampírurnar heldur áfram, Angelus vill opna hlið fyrir djöfullinn Acathla og notar Giles til þess. Buffy drepur Angelus fyrir vikið, en fær mikið samviskubit og flytur aftur til Los angeles. Þriðja þáttaröð. Eftir að Buffy jafnar sig á samviskubitinu við að senda Angel í vítisveröld, fer Buffy aftur til Sunnydale. Nýr eftirmaður er fenginn í staðinn fyrir Kendru, sem heitir Faith. Aðalóvinur Buffy og félaga í þáttaröðinni bæjarstjórinn Richard Wilkins. Faith drepur mannveru og fer í lið með Wilkins. Faith skýtur Angel með eiturör, sem á að drepa hann hægt. Buffy tekur í taumana, og leyfir Angel að drekka blóð úr sér til að lifa. Bæjarstjórinn verður að djöfli við útskrift Buffy, en allur árgangurinn verður hervæddur. Bæjarstjórinn fylgir Buffy inn í bókasafn skólans og Giles sprengir upp bókasafnið og skólann sem drepur bæjarstjórann. Í kjölfarið yfirgefur Angel Sunnydale. Fjórða þáttaröð. Buffy, Willow og Oz byrja í Sunnydale-deild UCLA háskólans. Spike kemur til Sunnydale til að reyna að drepa Buffy, en er fangaður af einhverskonar hermönnum. Hermennirnir sem um ræðir eru í verkefninu The Initiative, verkefni leitt af Maggie Walsh. Spike tekst að sleppa, en situr eftir með tölvukubb sem refsar honum í hvert skipti sem hann meiðir eða ræðst á mannverur. Í ljós kemur að Riley er einn af hermönnum The Intiactive, og eftir að hann kemst að leyndarmáli Buffy og hún að leyndarmáli hans, byrja þau tvö saman. Adam fær Spike í lið með sér gegn því að hann afhendi kóðaða diska um sjálfan sig. Spike sannfærir Giles um að hann sé óþarfi í lífi Buffy, þar sem hann er ekki vörður hennar lengur. Diskarnir sem Willow vildi skyndilega afkóðast, og í ljós kemur að hann sé með plútónkjarna sem knýr hann áfram. Fimmta þáttaröð. Yngri systir Buffy, Dawn birtist og er eðlilegur hluti af lífi Buffyar og vina hennar. Buffy berst við vítisgyðjuna Glory sem er að leita að Lyklinum að vítisvíddinni sem hún var bannfærð úr. Þegar Glory notar Lykilinn munu veggir allra vídda hrynja og heimurinn mun farast. Lykillinn er þó manneskja og engin önnur en Dawn, systir Buffy. Varðsráðið og Spike hjálpa Buffy að finna Glory. Á meðan ákveður Riley, kærasti Buffyar að hún elski hann ekki. Móðir Buffy deyr úr æðasjúkdómi. Buffy í kjölfarið fórnar lífi sínu fyrir Dawn, svo að helvíti opni ekki á jörðu. Þessi þáttaröð var sú síðasta hjá bandarísku sjónvarpstöðinni WB. Sjötta þáttaröð. Sjötta þáttaröðin er sú fyrsta hjá bandarísku sjónvarpstöðinni UPN. Vinir Buffyar endurvekja Buffy, en hún upplýsir að hún hafi farið til himnaríkis, en ekki helvítis, eins og vinir hennar höfðu haldið. Giles uppgvötvar að Buffy er háð þekkingu hans. Spike og Buffy fara saman í samband, þar sem Spike misbýður Buffy endurtekið. Buffy og vinir hennar berjast við tríóið, sem er nördahópur undir forystu Warren Mears, sem vilja drepa Buffy og taka yfir Sunnydale. Buffy berst gegn þessum tilraunum, og að lokum drepst Tara fyrir byssuskoti Warrens. Eftir baráttuna við tríóið uppgvötvar Spike að Buffy verðskuldar betra en hann er og biður djöful um að fá sálu sína aftur. Sjöunda þáttaröð. Ljóst verður að endurkoma Buffy frá himnaríki hefur skapað ójafnvægi milli góðs og vonds. Nemendur sem eru að vinna sér leið að því að vera vampírubanar eru drepnir og varðsráðið er eyðilagt. Faith og nýji skólastjóri menntaskóla Sunnydale hjálpa til við að berjast á móti hinu illa. Hellmouth undir Sunnyville verður virkari, og flestar manneskjur og djöflar flýja Sunydale til þess að lenda ekki í helvíti. Angel kemur og lætur Buffy fá vopn, sem hún áframsendir til Spike, og hann varpar geislum sólarinnar með því og drepur alla í Hellmouth. Eftir stendur gígur þar sem Sunnydale er, og þeir einu sem sleppa eru í einni skólarútu. Sá atburður markar endalok þáttana um vampírubanann Buffy. Aðalpersónur. Buffy Anne Summers (Sarah Michelle Gellar) Alexander "Xander" LaVelle Harris (Nicholas Brendon) Rupert "Ripper" Giles (Anthony Stewart Head) (Aðalhlutverk í þáttaröð 1-5, aukahlutverk í þáttaröð 6-7) Aðrar persónur. Joyce Summers (Kristine Sutherland) þáttaröð 1-5 og 7 Cordelia "Cordy" Chase (Charisma Carpenter) þáttaröð 1-3 Angel/Angelus/Liam (David Boreanaz) þáttaröð 1-3,4,5 og7 Spike/William the Bloody (James Marsters) þáttaröð 2,3,4-7 Daniel "Oz" Osbourne (Seth Green) þáttaröð 2-4 Anya Christina Emmanuella Jenkins/Anyanka/Aud (Emma Caulfield) þáttaröð 3,4-7 Riley Finn (Marc Blucas) þáttaröð 4-6 Tara Maclay (Amber Benson) þáttaröð 4-6 Dawn Summers (Michelle Trachtenberg) þáttaröð 5-7 Faith Lehane (Eliza Dushku) þáttaröð 3,4,7 Harmony Kendall (Mercedes McNab) þáttaröð 1-5 Jonathan Levinson (Danny Strong) þáttaröð 2-4,6-7 Warren Mears (Adam Busch) þáttaröð 5-7 Andrew Wells (Tom Lenk) þáttaröð 6-7 Amy Madison (Elizabeth Anne Allen) þáttaröð 1-4,6,7 Jenny Calendar (Robia LaMorte) þáttaröð 1-3 Snyder skólastjóri (Armin Shimmerman) þáttaröð 1-3,4 Willkins bæjarstjóri (Harry Groener) þáttaröð 3,4,7 Sýningargrein á Ólympíuleikum. Sýningargrein á Ólympíuleikum er íþróttakeppni sem fram fer í tengslum við Ólympíuleika og er hluti af hinni formlegu dagskrá þeirra, en hefur þó ekki stöðu formlegrar keppnisgreinar og sigurvegararnir teljast ekki Ólympíuverðlaunahafar. Greinar hafa einkum verið valdar sem sýningaríþróttir af tveimur ástæðum. Annars vegar í reynsluskyni, með það í huga að þær geti í fyllingu tímans orðið fastir liðið á dagskrá leikanna. Hins vegar getur verið um að ræða greinar sem njóta sérstakra vinsælda í því landi sem heldur Ólympíuleikana hverju sinni. Upphaf sýningargreina. Sjóskíðaíþróttir voru sýningargrein á Ólympíuleikunum 1972. Hugtakið sýningargrein á Ólympíuleikum varð ekki til fyrr en á Stokkhólmsleikunum 1912. Þá var samþykkt að heimila keppni í tveimur greinum, hafnarbolta og íslenskri glímu, í tengslum við sjálfa leikana. Hafnarbolti var þá glæný íþrótt í Svíþjóð og höfðu iðkendur hennar hug á að nýta tækifærið úr því að von væri á stórum hópi bandarískra íþróttamanna til landsins, koma á æfingarleik og kveikja áhuga heimamanna. Sú ákvörðun að leyfa glímunni að vera með skýrist af frændrækni Svía í garð Íslendinga, sem sóttu það stíft að fá að sýna glímu. Glíman og hafnarboltinn fengu því að vera hluti af hinni opinberu dagskrá leikanna án þess að vera þar formlegar keppnisgreinar. Alþjóðaólympíunefndin fundaði samhliða leikunum í Stokkhólmi og tókst þar á við það flókna verkefni að greiða úr skrám yfir keppendur og verðlaunahafa frá fyrri leikum. Einkum voru leikarnir 1900 og 1904 mikill höfuðverkur, þar sem þeir voru haldnir yfir langt tímabil samhliða heimssýningum og lítill greinarmunur verið gerður á hvort um Ólympíukeppni eða almenna íþróttasýningu væri að ræða. Á þessum fundum var ákveðið afturvirkt hvaða úrslit skyldu færð inn í opinberar bækur Ólympíuhreyfingarinnar. Þannig var til að mynda ákveðið að sigurvegararnir í ruðningi, póló og knattspyrnu á Parísarleikunum 1900 skyldu teljast fullgildir Ólympíumeistarar, en að flugdrekafimi, loftbelgjaflug, jeu de paume og bréfdúfukeppni þessara sömu leika skyldu teljast sýningargreinar. Búbót fyrir gestgjafa. Valensísk pílóta er spænskur knattleikur sem kynntur var í tengslum við Ólympíuleikana í Barcelona. Þær borgir sem héldu Ólympíuleika næstu áratugi á eftir Stokkhólmsbúum kusu að fylgja fordæmi þeirra og taka inn sýningargreinar. Var þar oft um að ræða greinar sem nutu staðbundinna vinsælda, oft hópíþróttir, sem vænta mátti að skilaði vel í kassann. Þannig buðu leikarnir í Antwerpen 1920 og Amsterdam 1928 upp á korfbal, boltaíþrótt sem er vinsæl í Niðurlöndum. Í Los Angeles 1932 var keppt í amerískum fótbolta. Í Helsinki 1952 gaf að líta finnskt afbrigði af hafnarbolta og fjórum árum síðar í Melbourne var ástralskur fótbolti á dagskránni, svo nokkur dæmi séu nefnd. Alþjóðasambönd þeirra íþróttagreina sem ekki eru fastar keppnisgreinar á Ólympíuleikum leggja yfirleitt ríka áherslu á að komast inn fyrir gættina. Fyrsta skrefið í þeirri baráttu getur verið að komast að sem sýningargrein. Þannig var tennis sýningargrein á leikunum í Mexíkóborg 1968 og aftur í Los Angeles 1984, uns það varð fullgild grein fjórum árum síðar. Tækvondó var sömuleiðis sýningargrein í tvígang, 1988 og 1992, uns það fékk fulla aðild á leikunum í Atlanta 1996. Ekki tekst öllum sýningargreinum að hljóta náð fyrir augum Alþjóðaólympíunefndarinnar. Keila var til að mynda sýningargrein í Seoul 1988, en hvarf í kjölfarið af radar Ólympíuhreyfingarinnar. Hafnarbolti var sýningargrein á helium sex leikum (1912, 1936, 1952, 1956, 1964 og 1984) áður en hann varð fullgild keppnisgrein, til þess eins að vera felldur út á ný fyrir leikana í Lundúnum 2012. Þá varð hjólaskautahokkí aldrei sú stóra íþrótt sem aðstandendur leikanna í Barcelona 1992 vonuðust eftir. Ákveðið var eftir Barcelona-leikana að afnema sýningargreinar á Ólympíuleikunum, enda væri dagskrá þeirra nógu troðin fyrir. Þessari ákvörðun hefur þó ekki verið fylgt út í ystu æsar. Þannig var til dæmis staðið fyrir keppni í skák í tengslum við Ólympíuleikana í Sydney og móti í kínversku bardagalistinni wushu samhliða leikunum í Beijing. Deilt um skilgreiningar. Indverski eltingaleikurinn Kabaddi var sýndur á Berlínarleikunum, en deilt er um hvort hann telst fullgild sýningargrein. Ekki væri auðvelt mál að taka saman nákvæman lista yfir sýningargreinar á Ólympíuleikum sem allir yrðu sáttir við. Ólympíuleikarnir eru stærsta íþróttahátíð heims og því eðlilegt að áhugafólk um vöxt og viðgang einstakra íþróttagreina reyni að nota þennan vettvang til að vekja athygli á greinum sínum. Þær kynningar eru skipulagðar í mismiklu samráði við aðstandendur leikanna. Íslenska glíman er gott dæmi um þetta. Íslendingar sendu glímumenn á þrenna Ólympíuleika: 1908, 1912 og 1952. Árið 1912 er óumdeilt að glíman var fullgild sýningargrein. Árið 1952 er sömuleiðis óumdeilt að glímuflokkur Ármenninga hélt til Helsinki á eigin vegum og sýndi þar glímu meðan á leikunum stóð, en hafði enga formlega stöðu. Þegar kemur að leikunum 1908, er hefð fyrir því á Íslandi að líta svo á að glíman hafi verið formleg sýningargrein og má því til stuðnings benda á að íslensku glímumennirnir tóku þátt í setningarathöfn leikanna. Hins vegar geta útlendar skrár yfir keppnis- og sýningargreinar á Ólympíuleikum sjaldnast um glímuna 1908. Indverska íþróttin kabaddi, sem er nokkurs konar liðakeppni í eltingaleik, var kynnt á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og bardagaíþróttin sambo var sýnd í tengslum við Ólympíuleikana í Moskvu 1980. Unnendur beggja greinanna líta svo á að þær hafi verið sýningaríþróttir, þótt þeirra sé sjaldnast getið í opinberum gögnum. Fleiri dæmi af þessu tagi mætti tína til. Geirshólmi. Geirshólmi er lítil eyja innst í Hvalfirði, gegnt Hvalstöðinni. Hún er einnig kölluð Geirshólmur og stundum Harðarhólmi, en það er rangnefni. Sögur og sagnir. Sagan segir að í Geirshólma hafi Hólmverjar svokallaðir hafst við, ræningjalið undir forystu Harðar Grímkelssonar og voru í flokknum vel á annað hundrað manns að því er segir í Harðar sögu og Hólmverja. Sagt er að kona Harðar, Helga Haraldsdóttir, sem var jarlsdóttir frá Gautlandi, hafi bjargað sér og tveimur sonum þeirra, Birni 4 ára og Grímkatli 8 ára, á sundi úr Geirshólma og í land þar sem heitir Helgusund. Á Sturlungaöld hafði flokkur fylgismanna Sturlu Sighvatssonar undir forystu Svarthöfða Dufgussonar frænda hans um tíma aðsetur í Geirshólma og þaðan fóru þeir ránshendi um nálægar sveitir. Hafa komið fram tilgátur um að þeir atburðir séu í raun kveikjan að Harðar sögu. Nálægir staðir. Fossinn Glymur, Hallgrímskirkja í Saurbæ, Akrafjall, Gljúfrasteinn, Staupasteinn, Hvalstöðin í Hvalfirði. Hólahólar. Hólahólar eru forn gígaþyrping norðan við Beruvíkurhraun, á sunnanverðu Snæfellsnesi um 14 km frá Hellnum. Einn gíganna er opinn á hlið en botninn er sléttur og gróinn svo minnir helst á geysimikið hringleikahús. Mögulegt er að aka inn í gígþyrpinguna þar sem heitir nú Berudalur. Sögur og sagnir. Eyðibýlið Hólahólar var áður höfuðból þegar útræði var í Dritvík og á Djúpalónssandi, en lagðist í eyði 1880 og síðan hefur huldufólk ráðið þar ríkjum æ síðan að talið er. Skyggnir menn telja sig verða vara við mikla byggð huldufólks og eru til um sögur. Þannig hafa sumir sem brugðið hafa þar á leik heyrt og fundið mikið lófatak og klapp ofan úr hlíðum Berudals og því meira sem mennskir eru þar færri. Getgátur eru um að saman fari núverandi Hólahólar og eldri nafngift, Aðalþegnshólar er segir frá í Bárðar sögu Snæfellsás. Þingeyrar. Þingeyrar er bóndabær í Húnaþingi milli vatnanna Hóps og Húnavatns, landmikil hlunnindajörð og löngum stórbýli. Bærinn stendur á lágri hæð í miðju héraði og þaðan er afar víðsýnt. Á Þingeyrum var þingstaður Húnvetninga til forna en engar fornminjar eru þar sem tengjast þinghaldi nema sporöskjulagaður garður eða hleðsla sem kallast Lögrétta. Sagt er að Jón Ögmundsson Hólabiskup hafi farið til vorþings á Þingeyrum eftir mikinn hallærisvetur skömmu eftir að hann tók við biskupsdómi og hafi þá fengið þingheim til að heita því að reisa klaustur á Þingeyrum. Þingeyraklaustur hóf þó ekki starfsemi fyrr en 1133. Kirkjan á Þingeyrum var helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Prestssetur Þingeyraprestakalls var þó ekki þar, heldur í Steinnesi, allt þar til það var flutt til Blönduóss 1970. Núverandi kirkja var reist á árunum 1864-1877 og þykir mjög merk, hlaðin úr grjóti límdu saman með kalki, en þar sem varla finnst steinn í landi Þingeyra var allt hleðslugrjótið sótt yfir Hópið á sleðum á vetrum. Kirkjuhvefingin er bogadregin, blámáluð með gylltum stjörnum sem sagðar eru 1000 að tölu. Margir fornir og merkir gripir eru í kirkjunni og einnig eru ýmsir gripir úr henni á Þjóðminjasafninu. Eftir að klaustrið var lagt af um siðaskipti sátu jafnan höfðingjar á Þingeyrum. Má nefna Jón Jónsson lögmann, Þorleif Kortsson lögmann, sem þekktastur er fyrir galdraofsóknir sínar og Lauritz Gottrup lögmann, sem byggði þar vegleg húsakynni og timburkirkju. Jóhann Gottrup sonur hans bjó á Þingeyrum en sóaði auði sem hann erfði eftir foreldra sína og dó í fátækt. Eftir að hann missti Þingeyrar bjó þar Bjarni Halldórsson sýslumaður og þótti yfirgangssamur og héraðsríkur. Um miðja 19. öldina bjó á Þingeyrum miklu rausnarbúi Ásgeir Einarsson alþm. og þjóðfundarfulltrúi og byggði að mestu á eigin kostnað á árunum 1864-1877 steinkirkjuna sem enn stendur á staðnum. Grjót í bygginguna lét hann uxa draga á ís yfir Hópið, enda lítið um grjót í landi Þingeyrar. Kirkjuhvelfingin er bogadregin, blámáluð með gylltum stjörnum sem sagðar eru 1000 að tölu. Margir fornir og merkir gripir eru í kirkjunni og einnig eru ýmsir gripir úr henni á Þjóðminjasafninu. Sonur Ásgeirs var Jón Ásgeirsson þjóðkunnur hestamaður, faðir Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp. Prófessor Björn M. Ólsen, málvísindamaður og fyrsti rektor Háskóla Íslands, fæddist á Þingeyrum og þar fæddist einnig Jón Eyþórsson veðurfræðingur og jöklarannsóknamaður. Þar fæddist líka Ásgeir Jónsson, sem kenndi sig við Gottorp og þekktur er fyrir bókina "Horfnir góðhestar". Hulda Á. Stefánsdóttir skólastjóri og frumkvöðull í menntun kvenna var lengi húsfreyja á Þingeyrum. Á Þingeyrum er nú rekinn hestabúgarður. Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Héraðsskjalasafn Austfirðinga er íslenskt skjalasafn staðsett á Egilsstöðum. Umdæmi safnsins eru sveitarfélögin Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur. Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar. Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar er íslenskt skjalasafn staðsett á Neskaupstað. Umdæmi safnsins er Neskaupstaður. Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu. Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu er íslenskt skjalasafn staðsett á Höfn í Hornafirði. Umdæmi safnsins er Sveitarfélagið Hornafjörður. Héraðsskjalasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Héraðsskjalasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga er íslenskt skjalasafn staðsett í Skógum undir Eyjafjöllum. Umdæmi safnsins er Ásahreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Skaftárhreppur. Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja. Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja er íslenskt skjalasafn staðsett í Vestmannaeyjum. Umdæmi safnsins er Vestmannaeyjabær. Héraðsskjalasafn Árnesinga. Héraðsskjalasafn Árnesinga er íslenskt skjalasafn staðsett í Sveitarfélaginu Árborg. Umdæmi safnsins er Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus. Héraðsskjalasafn Kópavogs. Héraðsskjalasafn Kópavogs er íslenskt skjalasafn staðsett í Kópavogsbæ. Umdæmi safnsis er Kópavogsbær. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar er íslenskt skjalasafn staðsett í Mosfellsbæ. Umdæmi safnsins er Mosfellsbær. Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar. Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar er íslenskt skjalasafn staðsett á Akranesi. Umdæmi safnsins er Akraneskaupstaður. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar er íslenskt skjalasafn staðsett á Borgarnesi. Umdæmi safnsins er Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur. Héraðsskjalasafn Dalasýslu. Héraðsskjalasafn Dalasýslu er íslenskt skjalasafn staðsett í Búðardal.Umdæmi safnsins er Dalabyggð. Héraðsskjalasafnið Ísafirði. Héraðsskjalasafnið Ísafirði er íslenskt skjalasafn staðsett í Ísafjarðarbæ. Umdæmi safnsins er Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur. Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu. Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu er íslenskt skjalasafn staðsett á Hvammstanga. Umdæmi safnsins er Húnaþing vestra. Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu. Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu er íslenskt skjalasafn staðsett á Blönduósi. Umdæmi safnsins er Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er íslenskt skjalasafn staðsett á Sauðárkróki. Umdæmi safnsins er Akrahreppur og Sveitarfélagið Skagafjörður. Héraðsskjalasafn Siglufjarðar. Héraðsskjalasafn Siglufjarðar er íslenskt skjalasafn staðsett á Siglufirði. Umdæmi safnsins er Fjallabyggð. Héraðsskjalasafn Svarfdæla. Héraðsskjalasafn Svarfdæla er íslenskt skjalasafn staðsett í Dalvík. Umdæmi safnsins er Dalvíkurbyggð. Héraðsskjalasafnið á Akureyri. Héraðsskjalasafnið á Akureyri er íslenskt skjalasafn staðsett á Akureyri. Umdæmi safnsins er Akureyrarbær, Arnarneshreppur, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur. Héraðsskjalasafn Þingeyinga. Héraðsskjalasafn Þingeyinga er íslenskt skjalasafn staðsett á Húsavík. Umdæmi safnsins er Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit. Þorsteinn Sigmundarson. Þorsteinn Sigmundarson var landnámsmaður í Mývatnssveit og bjó „að Mývatni“ eins og segir í Landnámabók. Hann var sonarsonur Gnúpa-Bárðar, landnámsmanns í Bárðardal og síðar í Fljótshverfi. Sigmundur faðir Þorsteins hefur líklega orðið eftir norðan heiða þegar faðir hans yfirgaf landnám sitt og fór suður Bárðargötu og sonur hans hefur síðar tekið sér land í Mývatnssveit. Raunar nefnir Landnáma enga landnámsmenn í Mývatnssveit, heldur þrjá menn sem sagðir eru hafa búið þar fyrstir, þá Þorstein, Geira á Geirastöðum og Þorkel hinn háva á Grænavatni. Þeir virðast allir hafa komið seint til landsins eða verið afkomendur landnámsmanna þannig að sveitin hefur ekki byggst fyrr en í lok landnámsaldar eða eftir að henni var í raun lokið. Talið er líklegt að Reykjahlíð hafi verið landnámsjörð Þorsteins. Þar bjó Arnór sonarsonur hans. Geiri (landnámsmaður). Geiri var landnámsmaður sem að sögn Landnámabókar byggði fyrstur manna á Geirastöðum í Mývatnssveit. Hann er sagður hafa verið „maður norrænn“ og hefur því líklega verið nýlega kominn til Íslands þegar hann settist að á Geirastöðum, sem hefur verið í lok landnámsaldar eða eftir að henni lauk, enda talar Landnáma ekki um landnámsmenn í Mývatnssveit, heldur aðeins þá menn sem „byggðu þar fyrstir“. Geiri og synir hans, Glúmur skáld og Þorkell, börðust við Þorberg höggvinkinna og Þorstein son hans og féll Þorsteinn. Fyrir það voru þeir gerðir útlægir úr héraðinu. Þá segir Landnáma að þeir hafi farið vestur til Breiðafjarðar og búið að Geiradal í Króksfirði. Sonur Þorkels Geirasonar var Þórður Ingunnarson, annar maður Guðrúnar Ósvífursdóttur. Þorfinnur máni Áskelsson. Þorfinnur máni Áskelsson (eða Þorfiður máni) var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann nam land í Bárðardal neðanverðum, frá Eyjadalsá til Landamóts, og hluta af Ljósavatnsskarði. Landnámsjörð hans var Öxará í Bárðardal. Landnámabók segir að faðir Þorfinns hafi verið Áskell torfi en ekkert er fleira um hann vitað, hvorki uppruna hans né afkomendur. Þórir Grímsson. Þórir Grímsson var landnámsmaður í Ljósavatnsskarði í Suður-Þingeyjarsýslu og nam hann mestallt skarðið en einhver hluti þess var þó í landnámi Þorfinns mána Áskelssonar að því er segir í Landnámabók. Þórir var frá Rogalandi í Noregi, sonur Gríms gráfeldarmúla. Sonur Þóris var Þorkell leifur eða Þorkell hinn hávi, faðir Þorgeirs Ljósvetningagoða og móðurafi Finnboga ramma. Líklega hefur Ljósavatn verið landnámsjörð Þóris. Vestmaður (landnámsmaður í Öxarfirði). Vestmaður var landnámsmaður í Öxarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Að því er segir í Landnámabók fór hann til Íslands með Vémundi bróður sínum og Einari Þorgeirssyni. Þeir keyptu sér saman skip, sigldu til Íslands og fóru norður fyrir landið og sigldu fyrir Melrakkasléttu. Þar settu þeir „öxi í Reistargnúp og kölluðu því Öxarfjörð; þeir settu örn upp fyrir vestan og kölluðu þar Arnarþúfu; en í þriðja stað settu þeir kross; þar nefndu þeir Krossás.“ Þannig helguðu þeir sér allan Öxarfjörð en ekkert er sagt um hvernig þeir skiptu landnáminu á milli sín eða hvar þeir bjuggu. Ekki er heldur sagt neitt meira frá bræðrunum Vestmanni og Vémundi. Vémundur (landnámsmaður í Öxarfirði). Vémundur var landnámsmaður í Öxarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Að því er segir í Landnámabók fór hann til Íslands með Vestmanni bróður sínum og Einari Þorgeirssyni. Þeir keyptu sér saman skip, sigldu til Íslands og fóru norður fyrir landið og sigldu fyrir Melrakkasléttu. Þar settu þeir „öxi í Reistargnúp og kölluðu því Öxarfjörð; þeir settu örn upp fyrir vestan og kölluðu þar Arnarþúfu; en í þriðja stað settu þeir kross; þar nefndu þeir Krossás.“ Þannig helguðu þeir sér allan Öxarfjörð en ekkert er sagt um hvernig þeir skiptu landnáminu á milli sín eða hvar þeir bjuggu. Ekki er heldur sagt neitt meira frá bræðrunum Vestmanni og Vémundi. Einar Þorgeirsson. Einar Þorgeirsson var landnámsmaður í Öxarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Landnámabók segir að hann hafi verið sonur Þorgeirs klaufa og Þórdísar dóttur Torf-Einars Orkneyjajarls en hún var alin upp af Rögnvaldi Mærajarli. Þegar Einar Þorgeirsson var fullvaxinn fór hann til Orkneyja að hitta frændur sína en þeir vildu ekkert við hann kannast. Hann keypti þá skip í félagi við tvo bræður, Vémund og Vestmann. Þeir sigldu svo til Íslands, fóru norður fyrir landið og sigldu fyrir Melrakkasléttu. Þar settu þeir „öxi í Reistargnúp og kölluðu því Öxarfjörð; þeir settu örn upp fyrir vestan og kölluðu þar Arnarþúfu; en í þriðja stað settu þeir kross; þar nefndu þeir Krossás.“ Þannig helguðu þeir sér allan Öxarfjörð en ekkert er sagt um hvernig þeir skiptu landnáminu á milli sín eða hvar þeir bjuggu. Sonur Einars var Eyjólfur, sem veginn var af Galta Gríssyni í Ási í Kelduhverfi, sonarsyni Ljóts óþvegins landnámsmanns, en dóttir hans var Ljót, móðir Hróa hins skarpa, sem hefndi móðurbróður síns og vó Galta. Sveinungur (landnámsmaður). Sveinungur var landnámsmaður í Sveinungsvík við Þistilfjörð. Um hann og Kolla nágranna hans er Landnámabók afar fáorð og hefur aðeins þetta að segja: „Sveinungur nam Sveinungsvík, en Kolli Kollavík, og bjó þar hvor, sem við er kennt síðan.“ Ketill þistill. Ketill þistill var landnámsmaður í Norður-Þingeyjarsýslu og nam Þistilfjörð á milli Hundsness (Rauðaness?) og Sauðaness á Langanesi. Ekkert er sagt í Landnámabók um uppruna Ketils eða búsetu en sonur hans var Sigmundur landnámsmaður á Laugarbrekku á Snæfellsnesi, faðir Laugarbrekku-Einars, sem frásögn er af í Landnámu og í Bárðar sögu Snæfellsáss. Kolli (landnámsmaður í Þistilfirði). Kolli var landnámsmaður í Norður-Þingeyjarsýslu og nam Kollavík við Þistilfjörð. Um hann og Sveinung nágranna hans, sem nam Sveinungsvík, hefur höfundur Landnámabókar ekkert vitað nema nöfnin og ekki er heldur minnst á þá í öðrum heimildum. Héðinn Þorsteinsson. Héðinn Þorsteinsson var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann fór til Íslands ásamt Höskuldi bróður sínum, en þeir voru synir Þorsteins þurs. Þeir námu land fyrir austan Laxá en innan Tunguheiði, sem er milli Tjörness og Kelduhverfis, og er Húsavík í landnámi þeirra. Héðinn bjó á Héðinshöfða en Höskuldur í Skörðum. Kona Héðins hét Guðrún og dóttir þeirra Arnríður. Maður hennar var Ketill, sem kallaður var Fjörleifarson, en faðir hans var Þórir leðurháls, sonur Þorsteins Gnúpa-Bárðarsonar. Þau bjuggu í Húsavík. Höskuldur Þorsteinsson. Höskuldur Þorsteinsson var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann fór til Íslands ásamt Héðni bróður sínum, en þeir voru synir Þorsteins þurs. Þeir námu land fyrir austan Laxá en innan Tunguheiði, sem er milli Tjörness og Kelduhverfis. Héðinn bjó á Héðinshöfða en Höskuldur nam „lönd öll fyrir austan Laxá“ að því er segir í Landnámabók og bjó í Skörðum. Hann er sagður hafa drukknað í Höskuldsvatni, sem er við hann kennt. Hróaldur sonur hans giftist Ægileifu, dóttur Hrólfs Helgasonar magra. Vestmaður (landnámsmaður í Reykjadal). Vestmaður var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann kom til Íslands á skipi með Úlfi fóstbróður sínum og námu þeir Reykjadal að neðanverðu frá sjó, fyrir vestan Laxá, allt upp til Vestmannsvatns. Kona Vestmanns hét Guðlaug en meira er ekki frá honum sagt í Landnámabók. Úlfur (landnámsmaður). Úlfur var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók fór hann til Íslands á skipi með Vestmanni fóstbróður sínum. Þeir námu Reykjadal allan fyrir vestan Laxá, frá sjó upp til Vestmannsvatns, en ekkert segir um hvernig þeir skiptu með sér löndum. Úlfur er sagður hafa búið undir Skrattafelli (líklega á Ytra-Fjalli). How I Met Your Mother (2. þáttaröð). Önnur þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "How I Met Your Mother" fór af stað þann 18. september 2006 og kláraðist 14. maí 2007. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 22 mínútur að lengd. Söguþráður. Árið 2030 sest Ted Mosby (Bob Saget talar fyrir hann) niður með dóttur sinni og syni til að segja þeim hvernig hann kynntist móður þeirra. Ted Mosby (Josh Radnor) og Robin Scherbatsky (Cobie Smulders) eru núna par og hryggbrotinn Marshall Eriksen (Jason Segel) reynir að halda áfram að lifa lífinu án Lily Aldrin (Alyson Hannigan). Lily hefur áttað sig á að hún er ekki listamaður og snýr aftur til New York. Lily og Marshall endurnýja samband sitt og endar þáttaröðin á brúðkaupi þeirra. Barney Stinson (Neil Patrick Harris) tapar „slap bet“, sem leyfir Marshall að slá hann fimm sinnum, á hvaða tímapunkti sem er í framtíðinni, hvenær sem hann vill, sem hann gerir tvisvar í þáttaröðinni. Það kemur fram að Barney á svartan samkynhneigðan bróður (Wayne Brady). Barney trúir því að Bob Barker sé faðir hans og fer til Kaliforníu til að gerast þátttakandi í "The Price is Right". Allir komast að því að Robin var kanadísk poppstjarna í byrjun 10. áratugarins (þrátt fyrir að myndbandið virðist gerast á seinni hluta 9. áratugarins þar sem sá tíundi kom ekki til kanada fyrr en í kringum '93), með smellinum „Let's Go To The Mall“. Barney horfir oft á tónlistarmyndbandið. Í lokaþættinum segir Ted Barney að hann og Robin hafi ekki verið saman í nokkurn tíma vegna mismunandi skoðana sinna á hjónabandi. Þau sögðu engum það til að draga ekki athygli frá brúðkaupi Marshalls og Lily. Þáttaröðin endar á því að Barney er spenntur yfir því að Ted sé einhleypur aftur og að þeir munu mála bæinn rauðan. Eyvindur Þorsteinsson. Eyvindur Þorsteinsson var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var sonur Þorsteins höfða, hersis á Hörðalandi. Eftir að faðir hans lést ákvað hann að fara til Íslands og bað þá Ketill hörðski bróðir hans að nema land fyrir sig líka ef hann skyldi ákveða að fara til Íslands síðar. Eyvindur sigldi norður fyrir landið og tók land á Húsavík. Hann fór upp í Reykjadal og nam þar land upp frá Vestmannsvatni fyrir sig og bróður sinn. Náttfari hafði áður eignað sér dalinn og gert merki á tré en Eyvindur rak hann í burtu og sagði honum að hann gæti átt Náttfaravík en ef hann vildi það ekki fengi hann ekkert. Eyvindur bjó á Helgastöðum í Reykjadal. Hann sendi svo Katli orðsendinug um landnámið og kom Ketill síðar til Íslands og bjó á Einarsstöðum. Synir Eyvindar voru Helgi bóndi á Helgastöðum, sem drukknaði á Grímseyjarsundi, og Áskell goði. Hann giftist dóttur Grenjaðar landnámsmanns á Grenjaðarstað. Einn sona þeirra var Víga-Skúta. Ketill hörðski Þorsteinsson. Ketill hörðski Þorsteinsson var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var sonur Þorsteins höfða, hersis á Hörðalandi. Eyvindur bróðir hans ákvað að fara til Íslans eftir að faðir þeirra lést og bað Ketill hann þá að nema land fyrir sig líka ef hann skyldi ákveða að fara til Íslands síðar. Eyvindur nam land í Reykjadal eftir að hafa rekið Náttfara á brott og sendi svo bróður sínum orðsendingu um landnámið. Ketill kom þá til Íslands og settist að á Einarsstöðum í Reykjadal en Eyvindur bjó á Helgastöðum. Sonur Ketils var Konáll, faðir Einars sem bjó á Einarsstöðum og bærinn er kenndur við. Grenjaður Hrappsson. Grenjaður Hrappsson var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var bróðir Geirleifs Hrappssonar landnámsmanns í Hörgárdal. Grenjaður nam land, eins og segir í Landnámabók um „Þegjandadal og Kraunaheiði, Þorgerðarfell og Laxárdal neðan“ og bjó á Grenjaðarstað. Kona hans var Þorgerður Helgadóttir og sonur þeirra var Þorgils vámúli, afi Ófeigs Járngerðarsonar í Skörðum, sem tókst á við Guðmund ríka á Möðruvöllum. Dóttir Grenjaðar, ónefnd, giftist Áskeli syni Eyvindar Þorsteinssonar landnámsmanns í Reykjadal og var móðir Víga-Skútu. Karl Steinröðarson. Karl Steinröðarson var landnámsmaður við vestanverðan Eyjafjörð. Hann nam Upsaströnd frá Upsum til Míganda. Þetta var upphaflega ysti hlutinn af landnámi Helga magra og hefur Karl því fengið land hjá honum. Í dag tilheyrir þetta land Dalvíkurbyggð. Sweet Taste of Liberty. Sweet Taste of Liberty er þriðji þáttur 1. þáttaraðar bandarísku gamanþáttanna "How I Met Your Mother". Þátturinn var fyrst sýndur 3. október 2005. Næsti þáttur er „Return of the Shirt“. Söguþráður. Barney hefur ákveðið að það sé kominn tími til að Ted hætti að fara alltaf á sama barinn. Hann segir Ted að hann vilji gera eitthvað „sögulegt“ (e. „legendary“). Barney dregur Ted inn í leigubílinn sinn og segir honum að hann þurfi að sækja einhvern á flugvöllinn. Ted gerði sér ekki grein fyrir því að Barney væri að fara á JFK-flugvöllinn til að ná sér í stelpur. Barney segir Ted að þeir séu að leika alþjóðlega viðskiptamenn sem eru nýkomnir úr vel heppnaðri ferð til Japan. Barney ákveður síðan að þeir muni fljúga til Fíladelfíu, bara vegna þess að tvær fallegar konur eru líka að fara þangað. Barney hringir í Marshall (sem á að vera upptekinn við að læra lögfræði) til að koma líka til Fíladelfíu í Fieronum, vegna þess að þetta eigi eftir að vera „sögulegt“. Ted og Barney komast að lokum að því stelpurnar eiga kærasta sem spila fyrir Philadelphia Eagles. Ennfremur eru Ted og Barney handteknir af öryggisvörðum flugvallarins, þar sem þeir skildu farangurinn eftir á JFK-flugvellinum. Þeim er haldið þar í nokkra stund en er sleppt þegar það kemur í ljós að taska Barneys var full af smokkum og orkustöngum. Þeir fara síðan heim til Söschu (Sascha var öryggisvörðurinn á flugvellinum), en það er ekki mikið teiti þar (þrátt fyrir að Barney haldi því fram að það verði „sögulegt“), aðallega vegna þess að afi hennar er sofandi uppi. Barney — vegna þess að hann hitti öryggisvörð hjá Frelsisbjöllunni (e. Liberty Bell) — ákveður að það væri „sögulegt“ að sleikja Frelsisbjölluna. Ted neitar í fyrstu, en eftir að Barney segir Ted að hann sé besti vinur hans, samþykkir Ted það. Allan þennan tíma, hringja Barney og Ted í Marshall og segja honum annaðhvort að snúa við og fara heim vegna þess að það er ekkert spennandi að gerast, eða að koma vegna þess að þetta verður „sögulegt“. Lily og Robin fara á barinn til að eiga stelpukvöld. Lily verður afbrýðissöm út í Robin, því hún er einhleyp, og það er ennþá reynt við hana og strákar kaupa drykki handa henni. Hún spyr Marshall hvort hún megi taka trúlofunarhringinn af og Marshall samþykkir það. Lily reynir þá að laða til sín stráka en það gengur ekki vel en henni tókst aðeins að fá samkynhneigðan mann til að segja henni að hún sæti á vínberi. Robin verður pirruð þegar Lily breytir hegðun sinni og sannfærir hana um að hún hafi það sem flestar einhleypar stúlkur dreymir um að eiga: góðan kærasta. Homminn býðst til að hjálpa henni að losna við vínbersblettinn og Marshall labbar inn um leið og hann er að hjálpa henni. Marshall, sem kom aðeins vegna þess að hann hafði áhyggjur af því að Lily hafði fjarlægt hringinn þetta kvöld, var tilbúinn að lemja gaurinn en faðmaði hann þegar hann komst að því að hann væri hommi. Þá kemur kærasti hans, líka afbrýðissamur, og slæst við Marshall. Þórólfur Skallagrímsson. Þórólfur Skallagrímsson (d. 937) var íslenskur fornkappi, sonur Skallagríms Kveldúlfssonar og eldri bróðir Egils Skallagrímssonar. Hann var sagður manna fríðastur, fremstur í öllum íþróttum og afar vinsæll, öfugt við Egil. Þrátt fyrir það var samkomulag þeirra gott og þeir voru nánir. Þórólfur ólst upp á Borg áMýrum en fór ungur að árum til Noregs og dvaldist þar lengi. Þar komst hann í vináttu við Eirík blóðöx og fór með honum í ferðalög, meðal annars til Bjarmalands þar sem Eiríkur hitti Gunnhildi sem síðar varð kona hans. Eftir nokkurra ára dvöl í Noregi fór Þórólfur til Íslands og kom aftur með Ásgerði Bjarnardóttur, sem hann kvæntist síðan, og Egil bróður sinn, sem þá var unglingur. Þeir bræður Þórólfur og Egill fóru saman í víking, herjuðu við Eystrasalt og auðguðust mjög. Þeir voru taldir óvinnandi þegar þeir börðust hlið við hlið. Síðan ákváðu þeir að fara til Englands. Þar gerðust þeir menn Aðalsteins konungs, sem vantaði málaliða, létu prímsignast og börðust gegn Skotum. Aðalsteinn setti þá hvorn fyrir sína sveitina. Egill vildi ekki skiljast við bróður sinn en lét þó undan. Skotar sóttu harðar að Þórólfi og mönnum hans og fór svo að Þórólfur féll. Segir svo frá í Egils sögu: „Þórólfur gekk svo fram, að fáir voru menn hans fyrir honum, en þá er hann varði minnst, þá hlaupa þar úr skóginum Aðils jarl og sveit sú, er honum fylgdi; brugðu þegar mörgum kesjum senn á Þórólfi, og féll hann þar við skóginn, en Þorfinnur, er merkið bar, hopaði aftur, þar er liðið stóð þykkra, en Aðils sótti þá að þeim, og var þar þá orusta mikil. Æptu Skotar þá siguróp, er þeir höfðu fellt höfðingjann.“ Ásgerður ekkja Þórólfs giftist síðan Agli. Þau Þórólfur áttu aðeins eina dóttur saman, Þórdísi. Hún giftist Grími Svertingssyni lögsögumanni á Mosfelli og dvaldist Egill hjá þeim síðustu æviárin. Mælifell (Skagafirði). Mælifell er bær, kirkjustaður og áður prestssetur framan til í Skagafirði vestanverðum. Bærinn stendur undir Mælifellshnjúk, einu þekktasta og mest áberandi fjalli Skagafjarðar. Vestan við hnjúkinn er Mælifellsdalur og þar um lá áður fjölfarin leið milli Norður- og Suðurlands, inn á Kjalveg og Stórasand. Á meðal þekktustu presta sem þjónuðu Mælifellssókn má nefna Arngrím Jónsson lærða. Nú er á Mælifelli lítil steinkirkja, sem vígð var 1925. Helmut Schmidt. Helmut Schmidt (fæddur 23. desember 1918 í Hamborg) er þýskur stjórnmálamaður og fyrrum kanslari Vestur-Þýskalands. Hann var einnig varnarmálaráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra á sinni tíð. Schmidt tilheyrði sósíaldemókrataflokki Þýskalands SPD ("Sozialdemokratische Partei Deutschlands"). Hermaður. Helmut Schmidt fæddist í 1918 í Hamborg og var af gyðingaættum. Faðir hans, Gustav, var sonur verslunarmanns sem var gyðingur. Bæði Gustav og Helmut fölsuðu ættarbók sína til að sanna að þeir væru „hreinræktaðir“ aríar. Schmidt var aðeins 15 ára þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi. Schmidt sjálfur ljóstraði ekki upp um fölsunina fyrr en 1984, tveimur árum eftir að hann lét af embætti sem kanslari. Hann var tekinn í herinn 1939 og þjónaði á austurvígstöðvunum. Þar tók hann þátt í umsátrinu um Leningrad. Við stríðslok var Schmidt kominn á vesturvígstöðvarnar. Þar var hann yfirmaður og sem slíkur handtekinn af Bretum og settur í fangabúðir í Belgíu. Eftir stríð nam hann hagfræði í háskólanum í Hamborg og útskrifaðist 1949. Samfara því gekk Schmidt í sósíaldemókrataflokk þýskalands. 1953 var hann kosinn á þing í fyrsta sinn og starfaði sem þingmaður fyrir sambandslandið Hamborg til ársins 1962. Hamborg. 1961 varð Helmut Schmidt lögreglumálaráðherra í sambandslandinu Hamborg (embættið breyttist í innanríkisráðherra ári síðar). Sem slíkur var hann framkvæmdaraðili í stormflóðinu mikla sem skall á Hamborg í febrúar 1962. Í því þótti hann standa sig með prýði, enda samhæfði hann björgunaraðgerðir með mikilli röggsemi. Í aðgerðunum notaði hann ekki eingöngu björgunarsveitir, heldur einnig herinn ásamt hinum ýmsum hjálpartækjum. Schmidt stjórnaði þannig fyrstu stóraðgerðum í náttúruhamförum í Þýskalandi og gat sér frægðar fyrir mikla röggsemi og útsjónarsemi. 1965 var Schmidt kjörin til þings á nýjan leik og varð þá þingflokksformaður SPD til 1969. Ráðherra. Willy Brandt og Helmut Schmidt á flokksþingi SPD 1973 Eftir kosningasigur SPD 1969 varð Willy Brandt kanslari Vestur-Þýskalands. Helmut Schmidt varð þá að varnarmálaráðherra. Í hans tíð stytti hann herskylduna úr 18 mánuðum í 15 mánuði. Auk þess stofnaði hann herháskóla í Hamborg og í München. 1972 tók hann við embætti fjármálaráðherra og gegndi því til 1974. Kanslari. a> leiðtogi Austur-Þýskalands á fundi 1981 1974 sagði Willy Brandt af sér sem kanslari. Þingið kaus þá Helmut Schmidt nýjan kanslara þ. 16. maí sama ár. Hann varð því fimmti kanslari Vestur-Þýskalands. Fyrsta erfiða málið sem hann þurfti að glíma við var olíukrísan. Í Evrópumálum átti starfaði hann náið saman með Frakklandsforseta Valéry Giscard d’Estaing, en þeir áttu mikinn þátt í stofnun evrópska myntbandalagsins. Árangurinn af því var seinna meir Evran. Schmidt og Giscard d’Estaing áttu einnig mestan heiður af stofnun G7-hópsins, þ.e. samstarf sjö helstu iðnríkja heims. Schmidt var einn ötullasti vestræni leiðtoginn sem benti á mögulega hættu í Evrópu af vopnatilburðum Sovétríkjanna. Því samþykkti hann að leyfa Bandaríkjamönnum að staðsetja meðaldrægar eldflaugar í Evrópu. Sú ákvörðun var mjög umdeild, einnig innan eigin flokks. Að lokum varð þetta mál til þess að SPD klofnaði og stofnuðu þeir sem frá hurfu græningjaflokkinn í Þýskalandi. Samþykki um að fjarlægja allar meðaldrægar eldflaugar var ekki undirritað fyrr en í Reykjavík 1987. En einnig í efnahagsmálum kom Schmidt sér í vandræði. Síðsumars 1982 sögðu allir ráðherrar samstarfsflokksins í ríkisstjórn, flokks frjálslyndra demókrata FDP, af sér og var Schmidt þá allt í einu kanslari í minnihlutastjórn. Hann tók því að sér utanríkisráðuneytið samfara kanslaraembættinu. En allt kom fyrir ekki. 1. október 1982 var vantrauststillaga á hendur honum samþykkt í þinginu og þar með lauk kanslaraferli Helmut Schmidts. Nýr kanslari varð Helmut Kohl. Schmidt hefur síðan verið einn útgefanda tímaritsins "Die Zeit". Fjölskylda. Helmut Schmidt kvæntist Hannelore Glaser (oftast kölluð Loki) 27. júní 1942 meðan hann var enn í hernum. Þeim fæddust tvö börn. Helmut Walter (f. 1944) fæddist fatlaður og lést 1945. Susanne (f. 1947) starfar fyrir sjónvarpsstöðina Bloomberg TV í London. Eitt og annað. Schmidt og Giscard d’Estaing Frakklandsforseti voru góðir vinir Heimildir. Schmidt, Helmut Return of the Shirt. „Return of the Shirt“ er fjórði þátturinn í 1. þáttaröð gamanþáttanna "How I Met Your Mother". Þátturinn var fyrst sýndur 10. október 2005. Þátturinn á undan var „Sweet Taste of Liberty“ — næstur er „Okay Awesome“. Söguþráður. Í framtíðinni útskýrir Ted fyrir börnunum sínum að aðeins ein saga getur endað með „hamingjusöm til æviloka“ en hinar enda á því að einhver særist. Ted fer í skyrtu sem hann hefur átt í sex ár en aldrei líkað við. Hann áttar sig á að smekkur hans hefur breyst. Hann hittir alla hina á barnum og áttar sig á að honum líkar við viskí, sem hann hélt að hann hataði. Hann ákveður að endurskoða allar þær stelpur semm hann hefur verið með og virtust ekki vera réttar á þeim tíma. Barney bendir á að það séu aðeins ein ástæða til að byrja með stelpu sem þú hefur verið með áður: brjóstastækkun. Ted hugsar til baka og hugsar hlýlega til þeirra stunda sem hann átti með Natalie en hann var ekki að leita að alvarlegu sambandi á þeim tímapunkti. Í fyrstu er Ted ekki viss um að hún muni eftir honum, en hún hefur ekki gleymt Ted og skellir á hann um leið þegar hann hringir. Þegar Lily talar við Ted um ástæðu þess að Natalie sé fúl út í hann, játar hann að hafa sagt henni upp á afmælisdaginn hennar, og til að gera það enn verra, gerði hann það með því að skilja eftir skilaboð á símsvaranum. Lily byrjar að lemja hann og segir að hann hefði ekki átt að hætta með henni á afmælisdaginn, hvað þá í gegnum síma. Strákarnir benda síðan á að það sé engin góð leið til að hætta með einhverri. Ted fer síðan heim til Natalie og biðst afsökunar á fyrri hegðun sinni og gefur henni stóran apa-bangsa sem afmælisgjöfina sem hann gaf henni aldrei. Natalie segir að það sé aðeins meira á bakvið reiði hennar; vinir hennar biðu eftir henni með óvænta veislu þegar Ted hringdi og skildi eftir skilaboðin. Ted biður hana að gefa honum annað tækifæri, bara til að fá sér kaffibolla með honum. Þau enda fljótlega í rúminu. Ted og Natalie byrja aftur saman og eftir þrjár vikur virðist allt gagna vel. Vinum hans líkar vel við Natalie og þau eru sammála um að hún sé besta kærasta hans í mög ár. Ted segir að hann verði að hætta með henni, því að hann viti að hún sé ekki „sú eina rétta“. Kvöldið eftir fer Ted með Natalie út að borða og ætlar að gera það rétta og hætta með henni með því að tala við hana. Hún segir honum að hún eigi afmæli og það sé engin ástæða til að gefa henni afmælisgjöf, hann hafi gefið henni bestu gjöfina: hún getur treyst aftur. Hún segir að mamma hennar geti ekki beðið eftir því að hitta hann, en Ted getur ekki beðið lengur og segist vilja slíta sambandinu. Natalie verður bálreið og Ted reynir að vera hreinskilinn en það gerir bara allt verra. Hún krefst góðrar skýringar og þegar Ted getur ekki gefið henni fullnægjandi svar, notar hún það sem hún lærði í Krav Maga-tímum til að lúskra á Ted. Ted snýr aftur á barinn í sárum og er skyrtan sem byrjaði þetta allt saman, rifin. Hann ákveður að það sé í rauninni ekki til nein góð leið til að hætta með einhverjum. Ásamt þessari lífsreynslu, kemst sonur Ted að því að stelpa hafi lúskrað á pabba hans. Barney reynir að fá Robin til að segja eða gera vafasama hluti í fréttunum fyrir peninga. Robin neitar í fyrstu en framkvæmir fyrstu þolraun Barneys þegar hún segir „nipple“ (geirvarta) í staðinn fyrir „nickle“ (smápeningur). Hún framkvæmir síðan aðra þolraunina, að segja „I'm a dirty, dirty girl“ við lok fréttar og rassskella sig. Þegar hún kemst að því að enginn, ekki einu sinni yfirmaðurinn, horfir á fréttirnar sem hún segir, hún ákveður að hún gæti allt eins framkvæmt þolraunirnar. Í þriðju þolrauninni frá Barney, tekur hún í brjóstin á sér í miðri frétt. Barney, setur upp þá fjórðu og fer á barinn og segir öllum að horfa á svolítið stórköstlegt. Robin ætlar að framkvæma þolraunina en hættir við á síðustu stundu. Þegar hún tekur viðtal við elsta hestvagnastjóra New York-borgar áttar hún sig á að starfið hennar er mikilvægt, þrátt fyrir að enginn sé að hofa. Hún stendur upp en rennur og lendir í hrúgu af hestaskít og blótar í miðri útsendingu. Barney finnst þetta betra en nokkuð sem hann hefði getað planað og allir á barnum voru að horfa með honum. Robin skammast sín mikið, sérstaklega þegar Ted segist hafa séð atvikið á netinu. Mælifellshnjúkur. Mælifellshnjúkur er fjall í framanverðum Skagafirði að vestan. Hann er 1138 metrar á hæð, gnæfir yfir öll nærliggjandi fjöll og er mjög áberandi og eitt þekktasta fjall Skagafjarðar. Sagt er að í björtu veðri sjáist á hnjúkinn úr tíu sýslum. Af honum er einnig mjög víðsýnt og er því vinsælt að ganga á hann, enda er uppgangan tiltölulega auðveld. Hnjúksins er getið í Landnámabók, þar sem sagt er frá því að Kráku-Hreiðar Ófeigsson, landnámsmaður í Tungusveit, kaus að deyja í Mælifell. Nafnið vísar til þess að í sveitunum utan við hnjúkinn var frá alda öðli talið hádegi þegar sól var yfir honum. Hnjúkurinn hefur líka verið notaður til að spá fyrir veðri; ef þokubelti er um hann miðjan en toppurinn stendur vel upp úr er talið víst að þurrkur verði daginn eftir. Í austanverðum hnjúknum er fönn fram á sumar sem þykir líkjast hesti, séðum frá hlið. Hún minnkar svo þegar líður á sumarið og þegar hesturinn var farinn í sundur um bógana var talið að Stórisandur væri orðinn fær, en forn þjóðleið suður á Stórasand og Kjalveg lá um Mælifellsdal, vestan við hnjúkinn. Undir hnjúknum er bærinn Mælifell, kirkjustaður og áður prestssetur. Jakob H. Líndal rannsakaði jarðfræði Mælifellshnjúks og skrifaði grein um hana í Náttúrufræðinginn, 10. árg. 1940. Ýmsir hafa rannsakað fjallið síðar. Mælifellshnjúkur er gerður úr móbergi (kubbabergi og móbergstúffi) sem hvílir á miklu eldri basalthraunlögum. Hann hefur orðið til við gos undir þykkum ísaldarjökli á skammvinnu eldgosaskeiði sem kom upp í Skagafirði löngu eftir að aðaljarðlagastafli héraðsins hafði hlaðist upp og megin drættir landslagsins höfðu mótast. Drangey, Málmey, Þórðarhöfði og jarðmyndanir yst á Skaga urðu til á sama skeiði. Mælifellshnjúkur er talinn vera um milljón ára gamall. Stórisandur. Stórisandur er landflæmi í óbyggðum norðan við Langjökul, gróðurlítið og mishæðótt. Sandurinn er í 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli. Um hann lá fyrr á öldum "Skagfirðingavegur", þjóðleið milli Norður- og Vesturlands, en oft var einfaldlega talað um að fara Stórasand. Leiðin var fremur greiðfær þótt sumstaðar lægi hún um stórgrýtt hraun og var vel vörðuð. Þegar Stórisandur var farinn úr Skagafirði var haldið upp Mælifellsdal og yfir húnvetnsku heiðarnar, þvert á Kjalveg norðan Seyðisár. Við Sauðafell, skammt frá Kjalvegi, taka við melöldur með grunnum dölum á milli. Þær þóttu leiðigjarnar yfirferðar eins og gamall vísuhelmingur bendir til: „Átján öldur undir Sand / eru frá Sauðafelli.“ Þá tók Stórisandur við og af honum var svo komið á Arnarvatnsheiði og þaðan ýmist haldið niður með Hvítá til Borgarfjarðar eða suður Kaldadal. Sunnan við sandinn er fjallið Krákur, sem er 1167 m á hæð og sést víða að. Grettishæð heitir strýta á sandinum og er stundum sagt að þar hafi Þorbjörn öngull grafið höfuð Grettis Ásmundarsonar. Tvídægra. Tvídægra er heiðaflæmi á milli norðanverðs Borgarfjarðarhéraðs og Vestur-Húnavatnssýslu. Arnarvatnsheiði liggur öðrum megin við hana, Holtavörðuheiði hinum megin. Heiðin er fremur flöt og víða votlend og illfær, mikið um tjarnir og vötn en lágar hæðir og holt á milli. Margar ár og lækir renna frá vötnunum á heiðinni og í flestum þerira er einhver silungsveiði. Tvídægra skiptist í þrjár heiðar, Húksheiði vestast, þá Núpsheiði og síðan Aðalbólsheiði, og eru þær kenndar við innstu bæina í Miðfjarðardölum: Húk í Vesturárdal, Efra-Núp í Núpsdal og Aðalból í Austurárdal. Um Tvídægru var áður fjölfarin leið en vandrötuð og lentu ferðamenn þar oft í hrakningum. Á Tvídægru urðu Heiðarvíg, sem segir frá í Heiðarvíga sögu. Þar lenti líka Kolbeinn ungi Arnórsson í hrakningum með menn sína á Sturlungaöld. Grímsá. Grímsá er bergvatnsá í Borgarfirði og rennur um Lundarreykjadal. Hún er ein af bestu laxveiðiám landsins, en þar veiddust áður margir stórlaxar, þó þeir séu nú sjaldséðir. Laxgengur hluti Grímsár er um 32 kílómetrar en þá eru eftir um tíu kílómetrar að upptökunum í Reyðarvatni, inn af Lundarreykjadal, en það er gott bleikjuveiðivatn. Efst í Lundarreykjadal rennur þveráin Tunguá í Grímsá og er hún einnig laxgeng. Af þekktum veiðistöðum í ánni má nefna Laxfoss, fyrir neðan mynni Lundareykjardals, Strengina og Svartastokk. Laxveiði hefur verið stunduð í Grímsá frá landnámsöld en fyrst er vitað um stangaveiði þar 1862 og voru þar Englendingar á ferð. Lengi vel voru það einkum enskir veiðimenn sem veiddu í Grímsá. Við Laxá var reist glæsilegt veiðihús 1972 sem teiknað er af bandaríska arkitektinum Ernst Schwiebert og það tekið í notkun 1973. Vaðalfjöll. Vaðalfjöll eru tveir blágrýtisgígtappar sem standa um 100 metra upp úr Þorskafjarðarheiði. Auðvelt er að ganga að fjöllunum og upp á tindana. The Spectacular Spider-Man. The Spectacular Spider-Man (ísl. Stórfenglegi köngulóarmaðurinn) eru bandarískir teiknimyndaþættir hannaðir af Greg Weisman og Victor Cook. Þættirnir voru sýndir á árunum 2008-2009. Hætt var við gerð þriðju þáttaraðarinnar vegna veseninu sem varð við kaup Disney á Marvel haustið 2009 og í staðinn verður búinn til ný þáttaröð byggð á "Ultimate Spider-Man"-blöðunum. Þáttunum var lýst sem blöndu af upprunalegu blöðunum, Ultimate-syrpunni og kvikmyndunum. Þeir fengur frábæra dóma frá gagngrýnendum og aðdáendum blaðanna. Þættirnir hafa ekki enn hafið sýningar á Íslandi. Persónur og leikarar. Peter Parker/Köngulóarmaðurinn — Unglingspiltur sem gengur í Midtown High. Eftir að hafa verið bitinn af erfðabreyttri könguló fékk Peter ofurkrafta. Hann gerðist Köngulóarmaðurinn eftir að frændi hans var myrtur af glæpamanni. Raddsettur af Josh Keaton. Gwen Stacy — Besta vinkona Peters og er ástfangin af honum. Raddsett af Lacey Chabert. Harry Osborn — Besti vinur Petes. Lifir í lúxuslífi hjá ríkum foreldrum en langar heitast að faðir sinni virði sig. Raddsettur af James Arnold Taylor. Norman Osborn — Faðir Harrys. Hann á stórfyrirtækið OsCorp. Hann er dónalegur og hrokafullur vísindamaður. Hann álítur Peter betri en son sinn. Raddsettur af Alan Rachins. May frænka — Forráðakona Peters og ekkja Bens Parkers. Veit ekki að hann er Köngulóarmaðurinn og þolir ekki þegar hann kemur seint heim. Hún reynir hvað hún getur að sjá fyrir honom. Raddsett af Deboruh Strang. Eddie Brock/Venom — Hálfgerður stóri bróðir Peters í gegnum foreldra þeirra. Hann vinnur á rannsóknarstofa Dr. Connors. Hann verður seinna illmennið Venom. Raddsettur af Benjamin Diskin. Mary Jane Watson — Frænka vinkonu May frænu og May vill að Peter fari með á henni á haustballið. Mary Jane segir Peter að hún sé ekki að leita eftir sambandi og þau verða góðir vinir. Raddsett af Vanessu Marshall. J. Jonah Jameson — Skapstyggi ritsjóri Daily Bugle og hatar Köngulóarmanninn. Raddsettur af Daran Norris. L. Thompson Lincoln/Tombstone/The Big Man of Crime — Skúrkur sem ræður yfir glæpaheimum New York-borgar. Raddsettur af Kevin Michael Richardson og Keith David (bara í fyrsta þættinum). George Stacy — Lögregluforing og faðir Gwen. Hann telur Köngulóarmannin hetju og fattar svo hver hann er. Raddsettur af Clancy Brown. Flash Thompson — Fyrirliði ruðningsliðsins og dýrkar að stríða Peter. Hins vegar er hann mesti aðdáandi Köngulóarmannsins. Raddsettur af Joshua LeBar. Liz Allan — Klappstýra og ein af vinsælu stelpunum. Hún var kærasta Flash en féll síðan fyrir Peter. Raddsett af Alönnu Ubach. Green Goblin — Ofurskúrkur sem ætlar sér að ná völdum yfir glæpaheiminum. Hann klæðist grænum brynbúning og flýgur um á svifdreka og er með graskerssprengjur. Raddsettur af Steve Blum. How I Met Your Mother (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af bandaríska gmanþættinum "How I Met Your Mother" byrjaði 24. september 2007 og lauk þann 19. maí 2008. Þættirnir voru 20 og hver var að meðaltali 22 mín. að lengd. CBS sýndi þættina á mánudagskvöldum í Bandaríkjunum til 10. desember 2007 þegar útstendingar trufluðust vegna verkfalls handritshöfunda en þáttaröðin seri aftur 17. mars 2008. Þáttaröðin var sýnd á þriðjudagskvöldum á Stöð 2. Söguþráður. Robin snýr aftur úr ferð til Argentínu með kærastanum Gael (Enrique Iglesias) og verður Ted að sætta sig við Robin er bara vinur hans. Marshall og Lily ákveða að flytja í sitt eigið húsnæði og verða ástfangin af íbúð sem þau hafa ekki efni á. Marshall kemst að því að Lily er haldin kaupæði og skuldi mikla peninga, sem kemur í veg fyrir að þau geti tekið hagstætt lán. Þrátt fyrir það geta þau keypt draumaíbúðina en komast þá að því að hún er illa staðsett og í mun verra ástandi en þau gerðu sér greinfyrir. Barney er sleginn í þriðja skiptið á þakkargjörðinni en Marshall kallar hátíðina „Slapsgiving“. Ted segir börnunum sínum að hann hitti móður þeirra í gegum sögu af gulu regnhlífinni hennar. Hann finnur regnhlífina á klúbbi og tekur hana heim með sér eftir að hafa farið í partý á degi heilags Patreks þar sem framtíðar-konan hans var, þrátt fyrir að þau hafi ekki hist. Ted reynir að heilla Stellu (Sarah Chalke), húðsjúkdómalækni sem hann fer til vegna vandræðalegs húðflúrs. Þetta leiðir til eftirminnilegs tveggja mínútna stefnumóts, sem inniheldur samtal, kvöldmat, kvikmynd, kaffi, tvær leigubílaferðir og koss, allt á innan við tveimur mínútum. Robin sefur hjá Barney eftir að hann huggar hana eftir sambandsslit, sem leiðir til þess að Ted vill ekki vera vinur hans lengur. Eftir það ákveður Ted að vera ekki vinur Barneys lengur. Á meðan fer ókunnug kona að eyðileggja tilraunir Barneys til að næla í stelpur. Það reynist var Abby (Britney Spears), ritari Stellu, en hún er fúl út í hann fyrir að hafa ekki hringt í hana eftir að þau sváfu saman. Í lokaþættinum, eftir að Ted og Barney lenda hvort í sínu bílslysinu og lenda á spítala, endurnýja þeir vináttuna. Það kemur í ljós að Barney ber miklar tilfinningar til Robin og Ted biður Stellu að giftast sér. Norðurfrísnesku eyjarnar. Þýskt kort af Norðurfrísnesku eyjunum Norðurfrísnesku eyjarnar er eyjaklasi í Norðursjó meðfram þýsku og dönsku ströndunum. Eyjaklasinn er í Vaðhafinu nyrst í Þýskalandi og teygir sig allt til dönsku borgarinnar Esbjerg. Margar eyjanna eru álitlega stórar og eru í byggð. Sumir vilja meina að dönsku eyjarnar tilheyri ekki Norðurfrísnesku eyjunum, heldur séu eigin eyjaklasi. Jarðfræðilega og sögulega eru þær þó af sama meiði. Jarðfræði. Langflestar eyjarnar voru áður fyrr miklu stærri og voru að hluta tengdar meginlandinu. En stormar og straumar hafa brotið af eyjunum, þannig að með tímanum hafa þær minnkað og í flestum tilfellum fjarlægst meginlandið. Nokkrar eyjar hafa klofnað í miklum flóðum. Það á við um eyjarnar Nordstrand og Pellworm, en þær voru ein eyja til 1634 er óveður mikið ("Burchardi-flóðið") braut þær í sundur. Í dag er Nordstrand orðin landföst. Enn í dag eiga sér stað breytingar á eyjunum. Þær eiga það til að brotna meira niður en einnig að stækka, eftir því sem við á hverju sinni. Örfáar eyjar eru aðeins sandrif og eru ekki í byggð. Eyjan Amrum fyrir sunnan Sylt er nær eingöngu gerð úr sandi og er reyndar stærsta rif Þýskalands. Þar búa samt um níu þúsund manns. Samgöngur. Hafnarbærinn List nyrst á Sylt er nyrsti bær Þýskalands Siglt er út í flestar eyjar með bátum og ferjum. Sökum þess hve Vaðhafið er grunnt er það þó erfiðleikum háð. Búið er að tengja nokkrar eyjar, svo sem Oland og Langeness, með smáteinum sem handknúin lest fer eftir. Eyjan Sylt er tengd meginlandinu með járnbrautarbrú. Hægt er að stíga upp í lestina í bænum Klanxbüll en bílar eru aðeins settir á lestina í Hamborg. Eingöngu danska eyjan Rømø er tengd með bílabrú frá meginlandinu. Í fjöru myndast víðáttumiklar leirur í kringum eyjarnar ("Watten" á þýsku). Við þær aðstæður er hægt að komast fótgangandi í margar eyjar. Slíkt er hins vegar hættulegt sökum fjarlægðar og sökum þess að það flæðir hratt að. Mælt er með að göngur um leirurnar séu eingöngu í fylgd með vönum leiðsögumönnum. Saga. Upphaflega bjuggu frísar á eyjunum. Þeir lutu Danakonungi í gegnum aldirnar. Eyjarnar urðu síðan hluti af hertogadæminu Slésvík. En Bismarck hrifsaði Slésvík til sín í dansk-þýska stríðinu 1864 og urðu þær því eign Prússlands. Í atkvæðagreiðslu íbúa Slésvíkur 1920 kusu íbúar Rømø að sameinast Danmörku á ný og er eyjan því dönsk í dag. Allar eyjar þar fyrir sunnan eru hins vegar þýskar. Reyndar er norðuroddi eyjarinnar Sylt einnig nyrsti oddi Þýskalands. Listi eyjanna. Eftirfarandi listi yfir Norðurfrísnesku eyjanna tekur aðeins fyrir byggðar eyjar. Eyjarnar eru taldar frá norðri til suðurs. Hraun í Fljótum. Hraunamöl skilur milli Miklavatns og sjávar. Hraun í Fljótum er bær í Fljótum í Skagafirði, ysti bær í héraðinu að austan. Ysti bærinn í vestanverðri Skagafjarðarsýslu, yst á Skaga, heitir einnig Hraun en sá er munur að þar er nafnið í eintölu en hér er það haft í fleirtölu. Bæirnir liggja álíka norðarlega en Hraun á Skaga þó aðeins utar. Frá Hraunum er góð útsýn um Fljótin og yfir Skagafjörð. Bærinn stendur í brekku fyrir ofan Miklavatn og milli þess og sjávar er langur grandi sem kallast Hraunamöl. Þaðan var útræði áður fyrr. Norðan við hana er vik er nefnist Hraunakrókur. Þar var drepinn hvítabjörn sem gekk á land á Hraunum árið 1870. Þjóðleiðin til Siglufjarðar lá og liggur enn framhjá Hraunum — áður upp Hraunadal um Siglufjarðarskarð en nú um Almenninga og Strákagöng — og þar var því mjög gestkvæmt fyrr á tíð. Seint á 19. öld var komið þar á fót verslun sem síðar fluttist þó til Haganesvíkur. Á Hraunum var löngum stórbýli, enda fylgja jörðinni ýmis hlunnindi, svo sem veiði í Miklavatni og æðarvarp. Einna þekktastur Hraunabænda á síðari öldum er Einar Baldvin Guðmundsson (1841-1910), alþingismaður og kaupmaður. Hann var þríkvæntur og átti fjölda barna og kallast afkomendur hans Hraunaætt. Steinn Steinsen. Steinn Steinsen Moritzsson (20. júní 1891 - 19. febrúar 1981) var bæjarstjóri á Akureyri á árunum 1934-1958. Hann hefur verið bæjarstjóri lengst allra á Akureyri, þ.e. í 24 ár. Steinn var byggingarverkfræðingur að mennt. Fellsströnd. Fellsströnd er sveit í Dalasýslu. Hún tekur við utan við Hvammssveit og eru sveitarmörkin um Hólsá en ströndin nær út að Klofningi, þar sem Skarðsströnd tekur við. Þar er allmikil skógrækt. Margar jarðir í sveitinni eru nú komnar í eyði. Innsti bær sem nú er í byggð á Fellsströnd er Breiðabólstaður. Þar hefur sama ættin búið frá miðri 18. öld. Þaðan var Friðjón Þórðarson ráðherra. Nokkru utar er eyðibýlið Skógar og þaðan er nær samfellt skóglendi út að Staðarfelli, kirkjustað og fornu höfuðbóli á ströndinni, þar sem höfðingjar sátu löngum. Einn hinna fyrstu var Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu. Af síðari alda bændum á Staðarfelli er Bogi Benediktsson fræðimaður einna þekktastur og seint á 19. öld var Hannes Hafstein þar um tíma. Seinna var húsmæðraskóli á Staðarfelli en nú er þar starfsemi á vegum SÁÁ. Við Ytrafellsmúla breikkar undirlendið og margar eyjar eru fyrir landi. Flekkudalur og Galtardalur ganga inn á milli fjallanna. Þar er svokölluð Efribyggð. Í landi eyðijarðarinnar Ytrafells er eitthvert mesta skóglendi sýslunnar. Landnámsjörð Kjallaks gamla, Kjallaksstaðir, er vestan Kjallaksstaðaár og síðan tekur við Vogur, sem Bjarni Jónsson frá Vogi kenndi sig við. Þar er minnisvarði um hann. Utarlega á Fellsströnd er Arnarbæli, sem þótti ein besta jörð landsins fyrr á öldum. Vestan Arnarbælis er Dagverðarnes,sem nú er í eyði. Þar nær Dalasýsla lengst til vesturs, að eyjunum frátöldum. Klofningsfjall er yst á nesinu. Fram af því er klettastapi, Klofningur, sem gengur í sjó fram og þurfti að sprengja úr honum þegar vegurinn var lagður. Um hann eru mörkin milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar. Skarðsströnd. Skarðsströnd er sveit í Dalasýslu, norðan til á Klofningnesi, sem er á milli Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar. Mörkin milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar eru um Klofning, klettarana fram af Klofningsfjalli, sem skilur á milli sveitanna. Skarðsströnd nær svo inn að Fagradalsá, en þar tekur Saurbærinn við. Nokkuð breitt undirlendi er frá Klofningi að Skarði á Skarðsströnd en þar eru margir bæir farnir í eyði þótt landið sé vel gróið og búsældarlegt. Ballará er þó enn í byggð. Þar bjó meðal annars Pétur Einarsson, sem skrifaði "Ballarárannál". Seinna bjó þar séra Eggert Jónsson, sem sumir telja að hafi að hluta verið fyrirmyndin að séra Sigvalda í "Manni og konu" eftir Jón Thoroddsen. Helsta höfuðból á Skarðsströnd og raunar eitt helsta höfuðból landsins fyrr á öldum er Skarð. Þar hefur sama ættin búið frá 11. öld og jafnvel allt frá landnámsöld. Margir þekktir einstaklingar af ætt Skarðverja hafa búið á Skarði og þekktust allra kannski Ólöf ríka Loftsdóttir, sem bjó á Skarði á 15. öld. Kirkja er á Skarði og átti hún áður margt góðra gripa en nu er fátt eftir nema altaristafla sem sagt er að Ólöf hafi gefið. Tvær frægar skinnbækur eru líka kenndar við Skarð. Í Skarðsstöð, hinni fornu höfn Skarðverja, er smábátahöfn og er þar nokkur útgerð, ekki síst á grásleppu. Þar var fyrsta fasta verslun í Dalasýslu og hófst 1890. Nokkru innar á ströndinni er höfuðbólið Búðardalur, sem ekki má rugla saman við kauptúnið Búðardal við Hvammsfjörð. Þekktastur bænda í Búðardal er Magnús Ketilsson sýslumaður, sem stundaði þar merkar jarðyrkjutilraunir á 18. öld og skrifaði fjölda fræðirita. Innst á Skarðsströnd eru svo bæirnir Ytri- og Innri-Fagridalur. Í Ytri-Fagradal er nú unnið að sauðfjárræktarverkefni sem felst í því að ala lömb á hvönn, sem þykir skila sér í bragðinu af kjötinu. Welcome to the Hellmouth. Welcome to the Hellmouth (ísl. Velkomin til Vítismunnsins) er fyrsti þátturinn af Vampírubananum Buffy sem var sýndur í sjónvarpi. Þátturinn var sýndur 10. mars 1997. Í þættinum byrjar vampírubaninn Buffy Summers í Sunnydale-miðskólanum og vonast til þess að geta gleymt vampírubanaskyldum sínum og eignast vini í staðinn. En allt verður fyrir ekki þegar nýi Vörðurinn hennar Rupert Giles segir henni að Sunnydale stendur á dulrænum samleitnispunkti sem laðar að sér vampírur og aðrar myrkraverur. Söguþráður. Þátturinn byrjar með því að strákur og stelpa (Darla) laumast inn í Sunnydale-miðskólann um miðja nótt til gamna sér. Strákurinn er dularfullur og stelpan er feimin og hrædd. Stelpan telur sig heyra eitthvað þannig að strákurinn athugar hvort eitthvað sé þarna. Hann finnur ekkert en er hann snýr sér breytist sakleysislegt andlit stelpunnar í djöfullegt andlit vampíru og hún bítur strákinn í hálsinn. Næsta morgunn vaknar Buffy við martröð þar sem hún sá djöfullegt andlit gamallar vampíru, vampíruher, kross, kirkjugarð og bók sem á stóð „Vampyr“. Buffy fer niður og borðar morgunmat og lofar móður sinni Joyce að hún muni vera þæg og svo keyrir hún Buffy í skólann. Lúðinn Alexander „Xander“ Harris er á leiðinni í skólann á hjólabretti og dettur þegar hann tekur eftir Buffy. Hann hittir bestu vini sína Willow Rosenberg og Jesse McNally og þau tala saman um nýju stelpuna, Buffy. Buffy hittir Flutie skólastjóra sem er fyrstu ánægður að fá hana í skólann þangað til að hann sér að hún brenndi niður íþróttasalinn í Hemery-skólanum. Buffy reynir að afsaka sig að íþróttasalurinn hafi verið „fullur af vampí- abesti...“ Hann vonast bara að hún verði bara góður nemandi. Þegar að Buffy fer úr skriftsofu skólastjórans missir hún skóladótið sitt í gólfið. Xander hjálpar henni og eftir smávandræðalegt samtal fer Buffy í tími. Eftir að Buffy er farinn finnur Xander stikann hennar á gólfinu. Í sögutími hittir Buffy hina vinsælu Cordeliu Chase. Henni líkar strax við Buffy vegna þess að hún er frá Los Angeles og spyr Buffy nokkra spurninga til að sjá hversu svöl hún sé og Buffy svarar öllu „rétt“. Buffy sér síðan rétti liti Cordeliu þegar Cordelia gerir lítið úr klæðaburði hinnar feimnu Willow. Buffy er undrandi yfir því hversu andstyggileg Cordelia var. Buffy fer síðan á bókasafnið til að fá bók fyrir sögutímann. Á bókasafninu hittir hún breska bókasafnsvörðinn Rupert Giles. Þegar Giles kemst að því að hún heitir Buffy Summers tekur hann upp leðurbundna bók sem á stendur „Vampyr“ eins og í draumnum. Buffy segist ekki vilja þessa bók og fer út úr bókasafninu. Í búningsklefa stelpnanna finna tvær stelpur líkið stráknum í byrjun þáttarins. Buffy hittir Willow og spyr hana hvort Willow geti hjápað sér ná upp námskeiðum. Willow segist geta það og segir henni að Giles bóksafnsvörður sé nýkominn til Sunnydale. Xander og Jesse koma til þeirra og byrja tala við Buffy og Xander afhendir Buffy stikann hennar. Buffy segir að stikinn sé til sjálfsvarnar í L.A. „...piparúði er svo gamaldags“. Cordelia kemur og segir Buffy að það verða engar íþróttir út af „voðadauða gaurnum“. Buffy spyr hana hvort það voru einhvað tannafar á líkinu sem slær Cordeliu út af laginu. Buffy brýst inn í búningsklefann (bókstaflega, því hún brýtur hurðina) og finnur vampírutannafar á hálsi stráksins. Buffy fer til Giles og spyr hann hvað er gangi. Giles segir henni að hann sé nýi Vörðurinn hennar og að það hafi ekki verið tilviljun að hún hafi komið til Sunnydale vegna þess að bærinn stendur á dulrænum samleitnispunkti. Buffy segist ekki vilja vera vampírubaninn og fer út af bókasafninu og Giles á eftir henni. Xander kemur allt í einu undrandi undan bókahillunum og heyrði samtalið þeirra. Buffy segir Giles að það muni ekkert slæmt gerast í Sunnydale. Neðanjarðar eru vampíruhópur leiddur af Luke að endurvekja Meistarann. Hann vill að hinar vampírurnar undirbúi sig fyrir „uppskeruna“ og heimtar „mat“. Á leiðini á skemmtistaðinn The Bronze um kvöldið hittir Buffy dularfullan mann (Angel) sem afhendir henni krosshálsfesti. Hann segir henni að Uppskerjan nálgast og biður hana velkomna til Vítismunnsins. Á Bronze hittir Buffy Willow og segir henni að Willow þurfi að grípa augnablikið: „Vegna þess á morgun gætirðu verið dauð.“ Jesse sést dansa við Dörlu og hún biður hann að koma með sér. Buffy sér Giles á Bronze og talast. Giles vill að Buffy reyni að finna vampíru vegna þess að klúbburinn er tilvalinn fyrir vampírur. Buffy finnur fljótt vampíru (Thomas) út af því að hann er í svo gamaldagsklæðnaði. Buffy er skelfingulostin þegar hún sér Willow tala við vampíruna. Hún hleypur út og reynir að ná til hennar og ræðst næstum því á Cordeliu með stikanum sínum. Cordelia fer aftur inn og telur Buffy geðbilaða. Buffy hitt Xander og hann segir henni að hann veit hver hún er. Hún biður hann að hjálpa sér að finna Willow. Thomas leiðir Willow í grafhýsi í kirkjugarðinum. Darla kemur fljótt inn með Jesse sem er bitinn. Áður en að Thomas ræðst á Willow kemur Buffy og berst við hann og rekur stika í hjartað á honum. Buffy segir Willow, Xander og Jesse að flýja á meðan hún berst við Dörlu. En Luke fleygir henni til hliðar og skipar Dörlu að elta krakkana. Buffy og Luke berjast en hann hefur yfirhendina. Á sama tíma eru Willow, Xander og Jesse króuð af vampírum. Luke ætlar sér að drekka blóð Buffyar... Höfundur: Joss Whedon Hálfdan Narfason. Hálfdan Narfason (d. 1568) var prestur í Felli í Sléttuhlíð í Skagafirði á 16. öld. Hann var talinn rammgöldróttur og eru til um hann ýmsar þjóðsögur en hin þekktasta segir frá því þegar hann reyndi að sækja húsfreyjuna í Málmey í tröllaheldur. Hálfdan var bróðursonur Einars Benediktssonar, ábóta í Munkaþverárklaustri, en ætt hans er annars óþekkt. Hann var orðinn prestur á Hólum í Hjaltadal 1507 en var síðar mjög lengi prestur á Felli, allt til dauðadags. Fátt er vitað um hann með vissu en um hann og galdrakunnáttu hans hafa þó spunnist margar sögur. Flestar segja þær frá smáatvikum eða meinlausum glettum, eða þá að séra Hálfdan notar kunnáttu sína öðrum til hjálpar, enda var hann kenndur við hvítagaldur en ekki svartagaldur. Þekktust er sagan af því þegar bóndinn í Málmey leitaði til Hálfdanar eftir að kona hans hvarf á aðfangadag á tuttugasta og fyrsta vetri þeirra í eynni en enginn mátti búa lengur en tuttugu ár þar (sumir segja nítján). Hálfdan sagðist ekki geta náð konunni aftur en fékkst þó til að reyna. Settust þeir hann og bóndinn þá á gráan hest sem stóð við kirkjugarðinn á Felli og þaut hesturinn á ógnarhraða eftir sjónum út fyrir Dalatanga og Siglunes. Í eitt skipti var eins og hesturinn hrasaði og bóndinn rak upp óp en Hálfdan sagði: „Þar skriplaði á skötu og haltu kjafti“. Þeir héldu áfram þar til komið var undir Hvanndalabjarg (aðrir segja Ólafsfjarðarmúla), þar sem presturinn knúði dyra á bjarginu og komu þá út tvær konur og leiddu Málmeyjarhúsfreyju á milli sín, en hún var orðin „næsta torkennileg og ólík því, sem hún var áður, þrútin og blá að yfirlit og hin tröllslegasta; krossmark var í enni konunnar með réttum holdslit“. Bóndanum varð svo mikið um að hann vildi ekkert við konu sína tala og hurfu þeir frá við svo búið. Föhr. Gervihnattamynd af Föhr. Baðstrendurnar á suðurströndinni sjást greinilega. Til vinstri að ofan er Sylt, að neðan Amrum. Til hægri er meginlandið. Föhr (frísneska: Feer; danska: Før) er þýsk eyja í Norðursjó og er hluti af Norðurfrísnesku eyjunum. Hún er stærsta þýska eyjan sem ekki tengist meginlandinu með samgöngumannvirki (brú eða járnbrautarlínu). Íbúar eru rúmlega 8.600 en á ferðamannatímabilinu margfaldast sú tala. Lega og lýsing. Föhr er næstnyrsta þýska eyjan í Norðursjó og liggur fyrir sunnan og austan eyjuna Sylt. Reyndar nær nyrsti oddi Föhr norður fyrir syðsta tanga Sylt. Fyrir sunnan liggur eyjan Langeness og fyrir suðvestan er eyjan Amrum. Förh er 12 km löng og 6,8 km breið. Flatarmálið er 82 km². Þar sem Föhr liggur nokkurn vegin í skjóli fyrir úthafsöldum innan við Sylt og Amrum, hefur eyjan breyst tiltölulega lítið í gegnum aldirnar. Landbrot er lítið og gróður mikill. Af þeim sökum er Föhr gjarnan nefnd „græna eyjan“. Meginþorri eyjarinnar er gerður úr föstum jarðvegi. Hæsta hæðin er þó eingöngu 13 metra há. Miklir sandar eru meðfram suðurströnd Föhr, sem eru ákaflega vinsælir meðal baðgesta. Baðströndin þar er heilir 15 km löng. Á Föhr eru samtals 16 þorp, flest þeirra smá. Þeirra stærst er Wyk með 4.400 íbúa. Saga Föhr. Föhr var áfast meginlandinu allt til 1362. Þá braut stormflóð landsvæðið frá og þannig myndaðist eyjan. Íbúar hennar voru frísar og gengu þeir Danakonungi á hönd. Norðurhluti eyjarinnar var grunn vík lengi vel, en frísum tókst að þurrka hana 1523 og búa til ræktarland. Þremur árum seinna, 1526, hófust siðaskiptin á eynni og lauk því ferli á 4 árum. Á 17. og 18. öld voru hvalveiðar mikilvæg tekjulind eyjaskeggja. Í lok 18. aldar bjuggu um þúsund sæfarar þar. Mörg gömul glæsihús frá þeim tíma standa enn á Föhr. Þegar hvalveiðarnar lögðust af, fækkaði íbúum, enda varð landbúnaður þá aftur aðalatvinnuvegur. 1842 dvaldi Kristján VIII Danakonungur á Föhr sumarlangt og við það varð baðströndin þar þekkt. Meðan dansk-þýska stríðið geysaði 1864 var danski flotaforinginn Otto Christian Hammer í hafnarbænum Wyk á Föhr með lítinn flota. Honum tókst að verjast prússneskum sjóliðum af miklum vaskleik. Danir töpuðu hins vegar stríðinu og var Hammer flotaforingi þá handtekinn. Í stríðslok varð Föhr prússnesk, rétt eins og aðrar norðurfrísneskar eyjar. Gengið var til aðkvæðagreiðslu á eynni 1920 þar sem Weimar-lýðveldið gaf eyjaskeggjum kost á að kjósa til um hvort þeir vildu tilheyra Þýskalandi áfram eða verða Danir eins og fyrir 1864. Flestir bæirnir kusu áframhald með Þýskalandi. Þrír bæir kusu hins vegar að sameinast Danmörku. Þar sem ákveðið var að skipta eyjunni ekki upp, var eyjan því áfram þýsk. Aðalatvinnuvegur íbúanna er ferðamennska. Hinar miklu baðstrendur laða að tugþúsundir ferðamanna. Fáeinir stunda þó enn landbúnað og sömuleiðis er örlítið útgerð frá eynni. Orðsifjar. Eyjan hét áður Foer, Føør og Ford. Það er dregið af germanska orðinu "fer" og merkir "að fara". Sennilega hefur verið talað um „að fara út í ey“. Aðrir vilja meina að heitið sé dregið af frísneska orðinu "feer", sem merkir "ófrjósamur". Wyk. Wyk er höfuðstaður Föhr og er með 4.400 íbúa. Bærinn liggur suðaustast á eynni og er eina hafnaraðstaða hennar. 1819 varð Wyk opinber baðstaður en 1910 hlaut hann borgarréttindi. Í dag starfa flestir íbúanna við ferðamennsku. Árið 2002 voru gistinætur í Wyk 492 þúsund. Frá Föhr er hægt að sigla á ferju til Dagebüll á meginlandinu en einnig til eyjarinnar Amrum. Við Wyk eru víðáttumiklar baðstrendur. Nikulásarkirkjan. Á Föhr eru þrjár kirkjur, allar frá 12. og 13. öld. Nikulásarkirkjan er í þorpinu Boldixum nálægt Wyk. Hún var reist á 13. öld og kom fyrst við skjöl 1240. Árið 1426 var kirkjan notuð sem fundarstaður fyrir lénsherra sem rituðu niður frísnesk lög í fyrsta sinn. Lögbók þessi kallast "Siebenhardenbeliebung". Altaristaflan er geysifögur. Hún var smíðuð 1643 og er í þremur hlutum með alls konar fígúrum og myndum. Orgelið er frá 1735. Í kirkjunni er viðarstytta af heilögum Nikulási sem smíðuð var árið 1300. Nikulás er verndardýrlingur kirkjunnar, sem og sjómanna og barna. Frísasafnið í Wyk. Í Wyk er Frísasafnið ("Friesenmuseum") sem gerir grein fyrir menningu og sögu eyjarinnar Föhr. Þar má sjá ýmislegt í sambandi við sjómennsku, stormflóðin, frísneska menningu, jarðfræði og dýralíf. Vindmyllur. Vindmyllan Venti Amica (Vinur vindsins) Á Föhr eru alls fimm vindmyllur, þar af tvær í Wyk. Flestar eru frá 19. öld og eru í einkaeigu, nema myllan í þorpinu Wrixum. Vaðhafið. Á fjöru myndast víðáttumiklar leirur í kringum Föhr. Hægt er að ganga langar leiðir á leirunum, til dæmis til nágrannaeyjarinnar Amrum. Leirurnar eru þó varasamar, því það flæðir mjög hratt að. Leirurnar eru mikilvægar fyrir ýmsar fuglategundir en á Föhr er mikið af tjaldi, æðarfugli og brandönd. Á fartímanum og á veturna eru milljónir vaðfugla á leirunum. Þjóðsaga. Við upphaf siðaskiptanna 1524 átti djákni nokkur í einni kirkjunni að hafa barist mjög á móti nýju trúnni. Hann ákvað að sanna að kaþólska kirkjan væri eina rétta kirkjan með því að fara ríðandi yfir leirurnar í Vaðhafinu til nágrannaeyjarinnar Amrum. Hann lagði mikla áherslu á það við eyjaskeggja að ef hann ætti ekki afturkvæmt, væri lúterska trúin rétt. Djákni lagði af stað og komst klakklaust til Amrum. En á bakaleiðinni féll hann af hestabaki og hálsbrotnaði. Hann lést á staðnum. Eftir þetta gengu siðaskiptin vandræðalaust fyrir sig. Glerhallavík. Glerhallavík er vík undir hömrum Tindastóls á Reykjaströnd við Skagafjörð, norðan Reykja. Hún er þekkt vegna glerhalla sem voru þar í fjörunni en það eru holufyllingar úr kvarsi sem hafa losnað úr berginu og slípast í brimi í fjörunni. Steinataka í Glerhallavík er bönnuð nema með leyfi landeigenda. Búðir. Búðir eru vestast í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hraunhafnará fellur um Búðahraun og um Búðaósana í sjó fram. Þar hét áður Hraunhöfn. Þangað hafa kaupskip komið allt frá því er land byggðist og hófst verslun þar snemma. Verslunarsvæði Búða var allt sunnanvert Snæfellsnes og Mýrasýsla á einokunartímanum. Mikil útgerð var frá Búðum og hákarlaveiðar allt fram til 1933, en í dag er gert út á ferðamenn að sumarlagi og starfrækt þar hótel. Búðarkirkja. Bent frá Hraunhöfn, fékk leyfi frá Jón Biskupi Vídalín árið 1701 til að byggja kirkju að Búðum á Snæfellsnesi. Ekki fannst kirkjustæði og gömul kona sagði að taka ætti 3 örvar og merkja eina láta mann snúa sér svo svimaði og lægi við yfirliði og skjóta öllum örvunum og síðan a byggja kirkjuna þar sem merkta örinn lenti. Hún lenti í stóri hraunkvos sem var fyllt af sandi og kirkjan síðan reist. Upprunalega torfkirkja var borguð að mest af Bent en kaupmenn og skiparar bættu við og vígð 1703 Árið 1816 var búðakirkja afnuminn með konungsbréfi. Guðmundur nokkur lét lengi reyna á að fá Kirkjuna aftur en ekkert gekk. Er Guðmundur lést var umleitunum þess efnis hætt í smá tíma en síðan fór Steinunn ekkja Guðmundar á Búðum að fá vitrun frá Bent og fór að vinna í að fá kirkjuna aftur. Árið 1847 var gefin út afturköllun og birt á prestastefnu 1849 um að byggja megi aftur kirkju á Búðum og skuli Búðamönnum skylda að fjármagna hana að fullu og viðhalda. En Steinunn hafði haldið vel utan um kirkju gripina, skrúða og annað. Þá var bara messað þriðja hvern helgidag á sumri og sjötta hvern á vetri Steinun tók upprunalega Hurðarhringinn sem á stóð “1703 Bent Lauridtsen og Marínar Jensdóttur Forær“ Steinunn lét letra á hurðarhringinn hinu meginn „kirkjan er endurreist ár 1848 án styrks þeirra andlegu feðra.“ Sá hringur er enn í hurðinni. Árið 1951 var kirkjan endurbætt og var rafmagn leitt í kirkjuna og aftur á árunum 1984-´86 en þá var hún flutt lítillega og byggð eftir upprunalegum teikningum frá Danmörku. Búðahraun. Búðahraun er hraunbreiða á milli Staðarsveitar og Breiðuvíkur á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hraunið nær austan frá Búðum og í sjó fram í Faxaflóa og nær vestur að Hraunlandarifi. Uppsprettu þess má rekja til Búðakletts (88 m), sem rís fyrir miðju hrauni. Gígbarma Búðakletts má sjá að austanverðu, en sjálfur gígurinn er opinn til vest-suðvesturs hvaðan leggur sig út Búðahellir, 382 m að lengd, meðfram gígnum. Opnast hellir þessi til norðurs vestan við Búðaklett og hægt er að ganga á Búðaklett og inn í Búðahelli, ef hafðir eru meðferðis ljósgjafar til að lýsa leið. Þótt úfið sé að sjá, er Búðahraun ágætlega vel fallið til gönguferða og frá fornu fari hefur legið þar í gegn gata, Klettsgata, mjó, hlykkjótt og grýtt leið frá Búðum til Hraunlanda sem mikið var farin áður fyrr. Í dag er Hraunlönd eyðibýli í vesturjaðri hraunsins. Gróðurfar. Búðahraun er þekkt fyrir fjölbreytt gróðurfar og hafa þar fundist rúmlega 130 tegundir af plöntum. Þar má finna 11 af 16 tegundum íslenskra burkna, sóleyjar og blágresi sem nær allt að 1 m á hæðina. Þá má finna þar fágætari friðaðar jurtir eins og skrautpunt og fjögurra laufa smára. Austurhluti Búðahrauns, frá Búðaósum og upp að Þjóððólfshelli og til sjávar var friðað árið 1977. Eldborgarhraun. Eldborgarhraun liggur vestan við þjóðveginn á milli Kaldár og Haffjarðarár. Kaldá aðgreinir Eldborgarhraun (33 km2) og Barnaborgarhraun 9 km2). Hraunið er vel kjarri vaxið og einnig er þar nokkuð skóglendi. Skógurinn var mikið höggvin á árum áður, en er í örum vexti og er "eldra" (sjá neðar) hraunið víða vaxið allþéttu háu birki. Sjálf Eldborgin er formvogur eldstöð sem rís um 60 m yfir hraunið í kring og keilan um 50 m djúpur gígur, sá stærsti af fimm á um 1 km langri gossprungu. Jarðfræðingar eru ekki sammála um aldur hraunsins og telja sumir að það hafi myndast í einu gosi fyrir um 5-8 þúsund árum en aðrir að það hafi myndast í tveimur gosum og það yngra runnið á sögulegum tíma. Ætla má að taki um 3 tíma að ganga um Eldborgarhraun og upp á sjálfa Eldborgina. How I Met Your Mother (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröð bandarísku gamanþáttanna "How I Met Your Mother" fór af stað þann 21. september 2009 og lauk 24. maí 2010. Þáttaröðin samanstendur af 24 þáttum og er hver þeirra að meðaltali 22 mín. að lengd. CBS sýndi 5. þáttaröðina á mánudagskvöldum í Bandaríkjum. Serían hefur ekki enn verið sýnd hér á landi. Söguþráður. Ted byrjar fyrsta daginn sinn sem kennari, standandi í miðri kennslustofu - þrátt fyrir að móðirin hafi verið þar, reynist þetta þó ekki vera arkitektatíminn sem hann átti að vera að kenna. Barney og Robin hafa átt í kynferðislegu samabandi um sumarið og Lily læsir þau inni í herbergi og neyðir þau til að ákvarða hvað samband þeirra er. Eftir erfiðan tíma ákveða þau að hætta saman. Robin lýsir þessu þó þannig að þau séu tveir vinir að byrja aftur saman. Barney snýr strax til eldri siða, og notar leikjabókina til að ná í konur. Í gegnum þáttaröðina sjást merki þess að Robin og Barney sjái eftir sambandinu. Ted byrjar samband með nemanda sem heitir Cindy (Rachel Bilson) og kemur í ljós að herbergisfélagi hennar sé framtíðar-konan hans. Robin hittir Don, nýjan samstarfsmann í morgunþættinum. Þrátt fyrir að henni líki ekki við hann í fyrstu byrja þau saman eftir nokkurn tíma og flytja inn saman. Í lok seríunnar hætta þau saman þegar Don tekur starfi í Chicago, þrátt fyrir að Robin hafi hafnað starfinu til að geta verið með honum. Marshall lemur Barney í fjórða sinn, aftur á þakkargjörðinni. Ted kaupir hús, sem þarfnast mikilla viðgerða, en það kemur seinna fram að þetta er húsið sem Ted mun búa í með fjölskyldunni. Lily og Marshall ræða hugmyndina um að eignast barn, þrátt fyrir að Lily sé óviss. Parið ákveður að láta það eiga sig þar til þau sjá síðasta tvífara hópsins. Að lokum sér Lily mann sem hún telur vera síðasta tvífarann, þó að restin af hópnum mótmæli því, sýnir það að þau eru bæði tilbúin til að eignast barn. How I Met Your Mother (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "How I Met Your Mother" fór af stað þann 22. september 2008 og lauk 18. maí 2009. Þáttaröðin samanstóð af 24 þáttum og var hver þeirra að meðaltali 22 mín. að lengd. CBS sýndi þættina á mánudögum í Bandaríkjunum. Þeir voru sýndir á þriðjudagskvöldum á Stöð 2. Söguþráður. Stella játast Ted. Robin tekur nýju starfi í Japan en hættir fljótlega og snýr aftur til NEw York til að fara í brúðkaup Teds. Stella yfirgefur Ted við altarið og byrjar aftur með barnsföður sínum, Tony. Barney glímir við tilfiningar sínar í garð Robin þegar fyrirtækið hans setur hann í framkvæmdarhóp nýs fyrirtækis, Goliath National Bank (GNB). Marshall og Lily flytja inn í nýju íbúðina og velta því fyrir sér hvort að þau séu tilbúin til að eignast börn. Robin verður sambýlingur Teds þegar hún fær starf sem stjórandi morgunþáttar sem fer í loftið klukkan fjögur á morgnana. Ted kemst að því að Barney er ástfanginn af Robin þegar Ted og Robin byrja að sofa saman til að koma í veg fyrir sífelldar deilur. Ted kemst að því að Lily hefur eyðilagt öll sambönd hans með konum sem henni líkaði ekki við og gæti hafa hjálpað til við sambandsslit hans og Robin. Robin og Ted enda á því að tala um það, og verður það til þess að vinátta þeirra verður betri. Þegar Barney sefur loksins hjá 200. konunni, eftir að hafa nuddað því framan í strák sem stríddi honum þegar hann var yngri, hugsar hann um hvað hann eigi að gera það sem eftir er lífsins, en það gerir hann enn vissari um tilfinningar sínar í garð Robin. Þegar Ted er með gulu regnhlífina rekst hann á Stellu og Tony. Tony kemur seinna í heimsókn og vottar honum samúð sína eftir að hafa misst Stellu. Tony býður honum starf sem kennari í arkitektúr en Ted hafnar því. Í lokaþættinum kemst Robin að því að Barney er ástfanginn af henni. Ted ákveður að hann sé hættur að vera arkitekt og ákveður að fara að kenna frekar. Lokaþátturinn endar á því að Ted er að undirbúa sig fyrir fyrsta tímann og Framtíðar-Ted segir að ein af konunum í bekknum sé móðir þeirra. Þistilfjörður. Þistilfjörður er fjörður á Norðausturlandi, sem gengur inn austan við Melrakkasléttu en norðan við Langanes. Inn af firðinum er samnefnd sveit, láglend og grösug með grunnum dölum og lágum hæðum á milli. Þar eru allmargir bæir og fleiri bæir voru áður í heiðalöndunum inn af firðinum. Þistilfjörður er í Norður-Þingeyjarsýslu og er sérstakt sveitarfélag, Svalbarðshreppur, sem dregur nafn af kirkjustaðnum Svalbarði, gömlu stórbýli. Þar er nú skóli sveitarfélagsins. Fjörðurinn er hins vegar sagður kenndur við landnámsmanninn Ketil þistil. Þistilfjörður er rótgróið sauðfjárræktarsvæði og á Gunnarsstöðum í Þistilfirði er eitt af stærri sauðfjárbúum landsins. Þaðan er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Nokkrar ár renna um Þistilfjörð og stærstar eru Svalbarðsá, Sandá, Hölkná og Hafralónsá. Þær eru nokkuð vatnsmiklar og straumharðar. Lax- og silungsveiði er í þeim flestum. Reki er hlunnindi á mörgum jörðum í hreppnum og dúntekja einnig. Varðberg. Varðberg, félag ungra áhugamanna um vestræna samvinnu'", er íslensk félagasamtök, eins konar ungliðahreyfing Samtaka um Vestræna samvinnu og alþjóðamál. Þau voru upprunalega stofnuð árið 1961. Markmið þeirra er að efla skilning meðal ungs fólks á Íslandi á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta og hvetja til samstarfs lýðræðisþjóðanna til verndar friðinum. Samtökin hafa aðsetur hjá upplýsingaskrifstofu Atlantshafsbandalagsins (NATÓ) á Íslandi, sem er í Reykjavík. Saga. Stofnun Varðbergs á rætur sínar að rekja til ráðstefnu fyrir unga leiðandi stjórnmálamenn sem haldin var í Washington í Bandaríkjunum á vegum Atlantshafsbandalagsins dagana 26. maí til 1. júní 1960. Þrír ungir Íslendingar sóttu ráðstefnuna, hver á vegum síns flokks; Guðmundur H. Garðarsson, var þar fyrir hönd Sambands ungra sjálfstæðismanna, Jón Rafn Guðmundsson fyrir hönd Sambands ungra framsóknarmanna og Sigurður Guðmundsson fyrir hönd Sambands ungra jafnaðarmanna. Í kjölfar ráðstefnunnar fengu Íslendingar áheyrnarfulltrúa í framkvæmdastjórn heildarsamtaka ungra lýðræðissinnaðra stjórnmálasamtaka innan NATO. Guðmundur tók það sæti áheyrnarfulltrúa fyrstu árin og sömuleiðis varð hann fyrsti formaður Varðbergs eftir að það var stofnað. Varðberg var formlega stofnað 18. júlí 1961 með stuðningi Samtaka um Vestræna samvinnu (SVS) sem þá var undir forystu Péturs Benediktssonar bankastjóra. Staðbundin félög voru stofnuð víða um landið og í samvinnu við SVS gaf félagið út tímaritið Viðhorf. Félagið efndi til NATO-ráðstefnu í júní árið 1962 sem var sótt af ungum stjórnmálaleiðtogum víðsvegar að og skipulagði heimsóknir til aðalstöðva NATO í París og Brussel og til Noregs, Danmerkur og Bandaríkjanna Vaðlaheiði. Vaðlaheiði er heiði eða fjall milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Yfir heiðina lá áður Þjóðvegur 1 í fjölmörgum beygjum og sveigjum, einkum austan megin, en þar voru beygjurnar 13 talsins. Vegurinn lá hæst í um 520 m hæð og heitir Steinsskarð efst á heiðinni þar sem vegurinn liggur. Hann var lagður um 1930. Efst á heiðinni er gamall húsgrunnur og hafa sumir getið þess til að þar hafi staðið sá frægi „Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr“ en það er oft talið lengsta orð í íslensku. Árið 1985 var þjóðvegurinn færður út í Víkurskarð og hætt að mestu að nota gamla Vaðlaheiðarveginn. Nú eru hins vegar uppi áform um að gera jarðgöng undir Vaðlaheiði og stytta þar með hringveginn um 16 kílómetra. Er verið að leita leiða til að fjármagna framkvæmdina. Vaðlaheiði er víðast hvar nokkuð vel gróin og af henni er mikið útsýni um Eyjafjörð og Fnjóskadal. Árið 1784 var 35 hreindýrum sleppt á Vaðlaheiði. Þeim fjölgaði nokkuð ört en hurfu af heiðinni og úr Fnjóskadalsafrétti snemma á 19. öld, sum drápust eða voru felld en önnur eru talin hafa leitað í austurátt. Tilgátubær Eiríks rauða. "Tilgátubær Eiríks rauða" er heiti yfir bæ sem hefur verið reistur á Eiríksstöðum í Haukadal, með hliðsjón af rannsóknum fornleifafræðinga á rústum, sem þar hafa verið grafnar upp og rannsakaðar. Hinrik 4. keisari. Hinrik (krjúpandi) ræðir við Matthildi frá Toscana og Húgó ábóta frá klaustrinu Cluny Hinrik IV (11. nóvember 1050 í Goslar – 7. ágúst 1106 í Liége) var konungur og keisari þýska ríkisins af Salier-ættinni. Hann þótti einn umdeildasti keisari miðalda og ríkti í hartnær hálfa öld, lengur en nokkur annar þjóðhöfðingi síns tíma. Hinrik er sennilega þekktastur fyrir deilur sínar við Gregoríus VII páfa og iðrunarferð sína til Canonssa. Ungur konungur. Keisarahöllin í Goslar, fæðingarstaður Hinriks. Hinrik fæddist í keisarahöllinni í Goslar árið 1050. Foreldrar hans voru hinn aldni keisari Hinrik III og eiginkona hans Agnes frá Poitou. Þegar Hinrik var aðeins þriggja ára, lét faðir hans kjörfurstana velja hann til meðkonungs sem ætti svo að taka við af sér. Ári síðar var hann svo krýndur til konungs í keisaraborginni Aachen, þá aðeins fjögurra ára gamall. 1056 lést svo hinn aldni Hinrik III í viðurvist Viktors II páfa. Páfi og kjörfurstarnir fóru þá með hinn 6 ára gamla Hinrik til Aachen, þar sem hann var formlega krýndur. En sökum ungs aldurs tók móðir hans, Agnes, við stjórnartaumunum. Sökum óánægju með stjórn hennar tóku sig nokkrir ríkisfurstar saman og gerðu uppreisn 1062 undir forystu Annos erkibiskup í Köln, sem var einn kjörfurstanna. Hann rændi Hinrik og setti hann í stofufangelsi hjá sér. Þannig náði Anno völdum í ríkinu og stjórnaði að eigin geðþótta, í nafni konungs. Þetta fyrirkomulag hélst í heilt ár, en þá var Hinrik látinn laus. Hann varð myndugur 1065. Saxastríðin. Fyrsta stóra málið sem Hinrik varð að taka á var uppreisn saxa í norðurhluta ríkisins. Hinrik hélt inn í Saxland og taldi sér trú um að allt væri í lagi þar. Hann lét taka besta landið fyrir sig sjálfan, reisa kastalavirki til að geta haft stjórn á fólkinu og krafðist viðurværis fyrir her sinn. Saxar létu sér hins vegar ekki segjast. Þeir söfnuðu miklu liði og gerðu umsátur um konung er hann sat í virkinu Harzburg í Harsfjöllum. Hinriki tókst hins vegar að flýja í skjóli nætur. Sökum þess að fáir sem engir ríkisfurstar vildu aðstoða hann í þessum erjum, varð hann að fara alla leið suður til Worms til að vera óhultur. Næsta ár safnaði Hinrik liði og hélt til Saxlands á ný. Þar mætti honum miklu stærri saxneskur her. Hins vegar dró ekki til orrustu, þar sem báðir aðilar hikuðu. Þess í stað var sest niður og samið. Hinrik samþykkti allar kröfur saxa og hélt á braut. Virkin voru rifin niður, nema Harzburg, enda hvíldu ungur sonur og bróðir Hinriks í kirkjugarðinum þar. Hlutirnir snerust hins vegar þegar saxar tóku sig saman og rifu sjálfir niður Harzburg og svívirtu grafirnar. Þá safnaði Hinrik liði á ný og hélt á næsta ári aftur í herferð til Saxlands. Hann sigraði þá í orrustu við Homburg árið 1075. Saxar gáfust upp og létu af öllum kröfum sínum. Staðamálin. Aðeins skömmu síðar gaus upp næsta stóra málið, staðamálin í ríkinu. Deilur spruttu upp milli páfa og konungs um embætti biskupanna. Oftar en ekki voru biskuparnir ekki bara þjónar kirkjunnar, heldur einnig ríkisfurstar. Þannig voru erkibiskuparnir í Köln, Trier og Mainz samtímis kjörfurstar. Konungur vildi því eðlilega hafa nokkur áhrif á hvaða menn klæddu þessi embætti. Páfarnir sömuleiðis. Á þessum tíma tíðkaðist nokkuð að menn keyptu sér embætti, bæði af páfa og af keisara, allt eftir því hver væri sterkari aðilinn hverju sinni. Báðir aðilar settu auk þess menn í embætti sem voru þeim hliðhollir. Aðstæðurnar urðu mjög alvarlegar þegar Hinrik setti mann í embætti erkibiskups Milano sem Alexander II páfi hafði áður bannfært. 1073 varð Gregoríus VII páfi í Róm. Hann var ákaflega mótfallin því að konungur skyldi fetta fingur í það hvaða menn yrðu biskupar. Hann hóf að semja við Hinrik um málið, en þegar það skilað engum árangri lét páfi bannfæra ráðgjafa konungs. Hinrik hefndi sín á því að setja aftur mann í embætti erkibiskups í Milano sem var honum hliðhollur, án þess að ráðfæra sig við páfa. Eftir harðort mótmælabréf frá páfa hélt Hinrik ríkisþing í Worms 1076. Á þessu þingi samþykktu allir biskupar tillögu konungs að setja Gregoríus páfa af. Biskuparnir rituðu í bréfi að Gregoríus hafi ekki hlotið páfakjör á hefðbundinn hátt, heldur hafi almenningur gert hann að páfa. Auk þess hafi konungur ríkisins vald til að setja páfa af eða á. Gregoríus brást illa við þessum tíðindum. Hann lýsti því samstundis yfir að Hinrik væri settur af sem konungur og bannfærði hann að auki. Eftir þennan gjörning yfirgáfu margir ríkisfurstar og biskupar Hinrik. Iðrunarförin til Canossa. Ríkisfurstarnir gerðu Hinrik grein fyrir því að ef hann væri ekki búinn að leysa sín mál við Gregoríus páfa fyrir febrúar næsta árs, myndu þeir velja annan konung yfir sér. Sjálfur safnaði páfi liði og hélt norður til fundar við kjörfurstana til að vera viðstaddur nýtt konungskjör sem fara átti fram í Ágsborg. Nú var Hinrik í vondum málum. Hinrik tók skjóta ákvörðun. Hann hélt af stað með litlu liði til móts við páfa, yfir snæviþakin Alpafjöll í janúar. Páfi frétti af komu hans og leitaði skjóls í kastalavirkinu Canossa í Appenínafjöllum. Hinrik kom til Canossa 25. janúar 1077 og klæddist iðrunarfötum. Í fjóra heila daga þurfti Hinrik að iðrast þannig og bíða í kuldanum eftir svari páfa. Loks hleypti páfi honum inn og leysti hann úr bannfæringunni, aðeins fimm dögum áður en frestur kjörfurstanna var liðinn. För Hinriks varð víðfræg. Aldrei áður hafði konungur þýska ríkisins þurft að lúta svo lágt. Hvort Hinrik raunverulega iðraðist eða hvort þetta var aðeins pólitískur gjörningur hjá honum er erfitt að meta. Fræðimenn seinni tíma telja að iðrunarförin hafi styrkt Hinrik sem konung, en til langframa veikt konungdóminn í ríkinu. Gagnkonungar. Þrátt fyrir sátt páfa og konungs funduðu kjörfurstarnir í mars 1077 og leystu Hinrik konung af. Jafnframt kusu þeir Rúdolf frá Rheinfelden sem nýjan konung. Rúdolf hét því að gera ekkert tilkall til krúnunnar fyrir afkomendur sína og skipta sér ekki af embættissetningu biskupa. Rúdolf þessi gekk í sögubækurnar sem gagnkonungur og var alla tíð duglítill konungur. Hann er oft ekki einu sinni nefndur í upptalningum á konungum og keisurum þýska ríkisins. Hinrik sá sitt óvænna og safnaði liði til að berjast við nýja mótstöðumanninn. Auk þess setti hann ríkisbann á Rúdolf, sem flúði til Saxlands þrátt fyrir stuðning meirihluta kjörfurstanna. Í Saxlandi fóru fram tvær orrustur, við Mellrichstadt 1078 og við Merseburg 1080. Í báðum orrustum sigraði Rúdolf, en særðist þó í seinni orrustunni. Hann missti hægri höndina og fékk banvænt sár í kviði. Bandamenn Hinriks höfðu hátt um það að það væri Guðs vilji að Hinrik ætti að vera konungur, enda væri töpuð hægri hönd réttlát refsing fyrir krúnuræningja. Kjörfurstarnir hikuðu. Eftir heilt ár komu þeir saman og kusu Hermann frá Salm sem nýjan konung. Samtímis því hafði Hinrik farið til Ítalíu á fund Klemens III páfa, sem krýndi hann til keisara þýska ríkisins. Hann kom því tvíefldur heim. 1085 réðist hann inn í Saxland með álitlegan her. Hermann flúði bardagalaust til Danmerkur, en sneri þaðan að ári. Hann sigraði Hinrik í orrustunni við Pleichfeld við Main og náði að vinna Würzburg. En hann náði ekki að fylgja þessu eftir. Æ fleiri furstar viðurkenndu nú Hinrik sem réttkjörin konung og keisara. Hermann lét lífið í hólmgöngu stuttu seinna. Ítalíuferðir. Hinrik IV og Klemens III páfi sitja saman Árið 1080 bannfærði Gregor páfi Hinrik á nýjan leik. Að þessu sinni brást Hinrki allt öðruvísi við en síðast. Hann hélt kirkjuþing í Bressanone (þýska: Brixen) í Tírol ásamt meirihluta biskupa frá þýska ríkinu og Langbarðalandi. Þar var erkibiskupinn Wibert frá Ravenna kjörinn sem gagnpáfi og tók hann sér nafnið Klemens III. Eftir að hafa barið á Rúdolf gagnkonungi, fór Hinrik til Rómar þar sem hann sat í heil þrjú ár um borgina. Á milli neyddist hann til að hörfa til Norður-Ítalíu af ýmsum ástæðum. En Róm féll loks 31. mars 1084. Klemens III komst því formlega til valda og krýndi Hinrik og eiginkonu hans, Bertu, til keisara og keisaraynju. Á meðan hafði Gregoríus VIII lokað sig af í virkinu Englaborg ("Castel Angelo") í Róm og beið eftir liðsauka frá normönnum og márum. Þegar þeir komu, yfirgaf Hinrik Róm og hélt heim. Normannar og márar frelsuðu að vísu Gregor, en þeir rændu og rupluðu borgina og kveiktu í henni. Gregor yfirgaf því borgina einnig og lést í Salerno ári síðar. 1090 fór Hinrik aftur til Ítalíu til að berjast gegn bandalagi sem myndast hafði við nýjan páfa (eftirmanns Gregors), sem kallaði sig Úrbanus II. Nýi páfinn bannfærði Hinrik, í þriðja sinn. Um páskaleytið 1091 var Hinrik búinn að hertaka borgina Mantua. En þá yfirgaf stríðslukkan hann. Óvinir hans lokuðu Alpaskörðunum og króuðu keisarann þannig af á Norður-Ítalíu í þrjú ár. Þetta reyndist erfiður tími fyrir hann, enda yfirgaf sonur hans, Konráður, hann, þrátt fyrir að hafa verkið krýndur sem meðkonungur. Hinrik komst ekki til baka í ríki sitt fyrr en 1097. Fall Hinriks. Hinrik IV gerir son sinn, Hinrik, að meðkonungi sínum Það var ekki margt sem Hinrik afrekaði eftir þetta. Hann setti Konráð son sinn af og lét krýna yngri son sinn, Hinrik, sem meðkonung. Árið 1100 lést Klemens páfi. Samfara því hafði Paskalis II verið gagnpáfi og bannfærði hann Hinrik enn á ný 1102, í fjórða sinn. Við þetta ráðgerði Hinrik að fara í pílagrímsferð til landsins helga og losa sig þannig af bannfæringunni. En uppreisn Hinriks, sonar hans, gerði þessi áform að engu. Hinn ungi Hinrik snerist á sveif með óvinum föður síns og gekk til liðs við Paskalis páfa vegna þess að hann óttaðist að verða ekki viðurkenndur konungur eftir daga föður síns. Síðla árið 1105 lét hinn ungi Hinrik loka föður sinn inni í virkinu Böckelheim og neyddi hann til að segja af sér. Sjálfur tók hann ríkisdjásnin og tók við konungdómi af föður sínum sem Hinrik V. Kjörfurstarnir létu sér þetta vel líka. Hinum aldna Hinrik tókst að flýja stuttu seinna og safna liði. Á tímabili lá við borgarastyrjöld. Á hvítasunnu var hinn aldni konungur í Liége. Þar veiktist hann hastarlega og lést eftir nokkurra mánaða legu árið 1107. Hann var hvílir í dómkirkjunni í Speyer. Fjölskylda. 1089 kvæntist Hinrik Aðalheiði frá Kiev. Þeim var ekki barna auðið. Heimildir. Höfer, Manfred. "Die Kaiser und Könige der Deutschen", Bechtle 1994. Brákarey. Brákarey er lítil klettaey fram af Borgarnesi og er eyjan tengd við land með brú yfir Brákarsund. Eyjan er sögð nefnd eftir Þorgerði brák, sem var ambátt á Borg og fóstra Egils Skallagrímssonar. Í Egils sögu segir að Skallagrímur Kveldúlfsson á Borg, faðir Egils, hafi banaði Þorgerði brák á Brákarsundi með steinkasti. Krosshólaborg. Krosshólaborg er minnismerki um Auði djúpúðgu og er að finna í landi Hvamms í Dölum. Sagt er að hún hafi beðist fyrir þar á borginni. Ingjaldshóll. Ingjaldshóll er eyðibýli, fyrrum þingstaður og höfuðból í Neshreppi utan Ennis. Ingjaldshóll er um 1 km frá Hellissandi og þar hefur staðið kirkja frá árinu 1317 og var hún fram á 19du öld þriðja stærsta kirkja landsins, á eftir dómkirkjunum í Skálholti og á Hólum, en áður var þar bænhús. Bæði var að sóknin var fjölmenn og eins mun hafa verið þar margmenni víða að af landinu á vertíðum og mun kirkjan hafa rúmað um 400 manns. sjá má merki um stærð hennar út frá hornsteinum sem þar sjást enn í kirkjugarðinum. Núverandi Ingjaldshólskirkja er elsta steinsteypta kirkja á landinu og raunar í öllum heiminum, reist árið 1903 og meðal gripa hennar er altaristafla sem danskir kaupmenn gáfu árið 1709 og lánuð var Brimilsvallakirkju 1923. Sú altaristafla sem nú er þar er eftirlíking af altaristöflu Dómkirkjunnar í Reykjavík frá 1903. Sögur og sagnir. Ingjaldur var þarna hætt kominn, en mun hafa bjargast fyrir tilverknað Bárðar Snæfellsáss. Sagnir hafa gengið um að sumarið 1477 hafi komið tiginn maður á skipi að Rifi og haft vetursetu á Ingjaldshóli. Hefur getum verið leitt að því að þar hafi farið Kristófer Kólumbus (1447-1506) sem þangað hafi komið til að kynna sér siglingar norrænna manna vestur um haf. Stúdentafélag HR. Stúdentafélag HR (SFHR) er nemendafélag við Háskólann í Reykjavík. Um Stúdentafélagið. Stúdentafélagið (SFHR) er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík. Félaginu ber að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna sem og að auka einingu meðal nemenda skólans. Allir nemendur Háskólans í Reykjavík eru meðlimir í SFHR og eru félagsgjöld engin. Stjórn SFHR er skipuð þremur til fimm aðilum sem sitja eitt skólaár í senn og fara kosningar fram á vorönn. Starfsemi félagsins gengur að miklu leyti út á að veita skólanum aðhald hvað varðar gæði kennslunnar og aðstöðu nemenda til náms. Félagið er því í góðu sambandi við stjórnendur skólans og er oft kallað eftir áliti stjórnar SFHR varðandi úrlausn ýmissa mála. Formaður SFHR situr í háskólaráði og varaformaður í námsráði. Hver deild við skólann hefur sitt hagsmunafélag sem stendur vörð um hagsmuni félagsmanna sinna. Formaður hvers hagsmunafélags situr svo í framkvæmdarstjórn SFHR og hefur þannig áhrif á stefnu og verkefni SFHR. Aðilar að SFHR eru sjálfkrafa aðilar að Byggingarfélagi námsmanna (BN) og Bandalagi íslenskra námsmanna (BÍSN). BN sér um byggingu og viðhald námsmannaíbúða sem standa nemendum HR til boða á nemendagörðum sem staðsettir eru víðsvegar um borgina. BÍSN er námsmannahreyfing sem gætir hagsmuna nemenda sjö aðildarskóla sinna. Tröllafossar. Tröllafossar eru við Fossatún í Borgarfirði, um 88 km frá Reykjavík og 20 km frá Borgarnesi. Tröllafossar eru fossa- og flúðasvæði í Grímsá, laxveiðiá í Lundareykjardal. Í klettum við árbakkann er sögð vera afar skýr tröllkonumynd. Útsýni og sjónarhorn er á fjallstindinn Skessuhorn. Grímsá er mikil laxveiðiá með mörgum fossum og flúðum og á sumrin er algengt að sjá laxa stökkva upp fossana. Krosslaug. Krosslaug eða Reykjalaug er í Lundarreykjadal í Borgarfirði, um 7 km innan við ármót Tunguár og Grímsár, skammt neðan Brautartungu. Laugin er 43°C, friðlýst og girt er í kring um hana. Veggir laugarinnar voru hlaðnir upp árið 1980 undir umsjón þjóðminjavarðar. Sögur og sagnir. Sagan segir að vestanmenn hafi látið skíra sig í Krosslaug, er þeir riðu frá Alþingi eftir að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Þeir höfðu neitað að láta skíra síg í köldu vatni á Þingvöllum og kusu frekar heita vatnið í Krosslaug, að því er segir í Kristni sögu. Akraós. Akraós er mikið sjávarlón fyrir innan Akranes og Hítarnes og í það fellur Hítará í sjó fram. Í ósnum eru eyjar og hólmar og úti fyrir honum eru Hvalseyjar er voru í byggð hér áður fyrr, þó engin séu þar vatnsból. Mun það hafa verið reki, dún- og fuglatekja sem taldist þar til hlunninda sem tiheyrðu hinu forna höfuðbóli og kirkjustað, Ökrum. Akrar (Mýrum). Akrar eru fornt höfuðból og kirkjustaður. Núverandi kirkja á Ökrum var reist aldamótaárið 1900 og endurbyggð í sinni upprunalegu mynd á árunum 1983-88. Í kirkjunni er margt merkra muna og m.a tvær klukkur frá 1673 og 1734 er munu komnar þangað úr Hjörseyrarkirkju. Álftanes á Mýrum. Álftanes á Mýrum er gamall kirkjustaður og stórbýli sem stendur niður við ströndina á samnefndu nesi. Fyrstur ábúenda á Álftanesi var Skalla-Grímur Kveldúlfsson á Borg á Mýrum, en hann gaf hana síðar tengdaföður sínum til ábúðar, eftir sem segir í Eglu. Sjór hefur rofið land og minnkað nokkuð jarðnæði frá því sem áður var. Núverandi kirkja þar var reist 1904 og hún endurbyggð 1988. Álftártunga. Álftártunga er bær og forn kirkjustaður á Mýrum í Borgarfirði. Þar var kirkja komin um 1200 og er hennar getið í Sturlungu. Kirkjan var endurbyggð árið 1795 úr viðum Reykjavíkurkirkju sem þá hafði nýlega verið rifin. Núverandi kirkja var reist árið 1873 og þess minnst á jólum 1993 að 120 ár væru liðin frá byggingu hennar. Kirkjan, sem er lítil, tekur um 30 manns í sæti, var illa farin 1970 og stóð til að afhelga hana. Heimamenn mótmæltu, tóku á sig viðhald og gerðu upp kirkjuna að nokkru leyti og hefur helgihald haldist þar síðan. Árhver. Árhver eða Vellir, sprettur upp úr skeri, um i m að hæð sem staðsett er til móts við félagsheimilið Logaland. Mun auðveldara er þó að komast að hvernum með því að vaða yfir ána frá árbakkanum sunnan megin. Þvermál Árhvers er um 1 m og vatn bullar í honum af töluverðum krafti, hiti þess er um 100°C og rennsli hans um 10-15 sekúndulítrar. 1890 voru gos í Árhver 1,5 m í loft upp, en eftir jarðskjálfta 1896 færðust þau í aukana og naðu allt að 10 m hæð. Tveimur árum síðar voru þau aftur komin í fyrri hæð og í dag gýs Árhver ekki af sjálfsdáðum, þó svo hægt sé að fá hann til að gjósa allt að tveim metrum ef borin er í hann sápa. Garðar Gíslason. Garðar Gíslason (14. júní 1876 – 11. febrúar 1959) var íslenskur stórkaupmaður. Hann stofnaði verslun sína Garðar Gíslason hf. árið 1901. Hann var lengi umboðsmaður bresks tryggingarfélags á Íslandi, The British Dominions General lnsurance Co. Garðar var fyrsti formaður Verzlunarráðs Íslands þegar það var upprunalega stofnað árið 1917 (í dag Viðskiptaráð Íslands). Hann sat einnig í fyrstu stjórn Eimskipafélags Íslands. Hann var tengdafaðir Halldórs H. Jónssonar. Guðmundur Kjartansson (1909-1972). Guðmundur Kjartansson (18. maí 1909 – 7. apríl 1972) var íslenskur jarðfræðingur fæddur að Hruna í Hrunamannahreppi. Foreldrar hans voru Kjartan Helgason prófastur í Hruna og kona hans Sigríður Jóhannesdóttir. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1929 og hóf síðan nám í forsplallsvísindum við HÍ en innritaðist síðan í Hafnarháskóla árið eftir og hóf nám í náttúrufræðum með jarðfræði sem aðalfag. Hann lauk síðan magisterprófi í jarðfræði 1939. Guðmundur Kjartansson var annar í röð Íslendinga til að ljúka háskólaprófi í jarðfræði. Hinn fyrsti var dr. Helgi Pjeturss. Að námi loknu starfaði Guðmundur fyrst sem kennari við Flensborg en 1955 var hann ráðinn til starfa sem jarðfræðingur á Náttúrugripasafn Íslands, seinna Náttúrufræðistofnun Íslands, og þar vann hann til æviloka. Guðmundur er í hópi fremstu jarðfræðinga landsins. Hann skrifaði fjölmargar greinar um fræði sín, mest í "Náttúrufræðingnum" en einnig bækur auk þess vann hann mikið að jarðfræðikortagerð. Hann rannsakaði jarðfræði Suðurlands og lagði þar mikla áherslu á ísaldarminjar, einnig rannsakaði hann Heklu og Hekluhraun og fylgdist með gosinu mikla 1947-1948. Hann skrifaði grundvallarritgerðir um flokkun íslenskra fallvatna og lagði grunn að skilningi manna á móbergi og móbergsmyndunum með stapakenningunni svonefndu. Eiginkona Guðmundar var Kristrún Steindórsdóttir. Þau eignuðust tvö börn Solveigu (1942) og Kjartan (1958). Shigeru Miyamoto. Shigeru Miyamoto er japanskur tölvuleikjahönnuður sem starfar fyrir japanska tölvuleikjaframleiðandann Nintendo. Á meðal þeirra leikja sem hann hefur hannað eru The Legend of Zelda-leikirnir og Mario-leikirnir en báðar leikjaraðirnar eru í hópi mest seldu leikjaraða allra tíma. Ron Gilbert. Ron Gilbert á Penny Arcade Expo árið 2009. Ron Gilbert er bandarískur tölvuleikjahönnuður sem er þekktastur fyrir ævintýraleiki sem hann hannaði fyrir bandaríska tölvuleikjaframleiðandann LucasArts (sem þá hét Lucasfilm Games). Á meðal þeirra leikja sem Gilbert er þekktur fyrir eru "Maniac Mansion" og Monkey Island-leikirnir. Gilbert er einnig þekktur fyrir fyrir SCUMM forritunarmálið en það var notað í fjölda leikja sem hannaðir voru hjá LucasArts, þar á meðal "Day of the Tentacle", "Sam & Max Hit the Road" og "Indiana Jones and the Fate of Atlantis". Joss Whedon. Joseph Hill „Joss“ Whedon (fæddur 23. júní 1964) er bandarískur handritshöfundur, leikstjóri og sjónvarpsþáttaframleiðandi. Whedon er best þekktur fyrir að hafa samið þættina "Buffy the Vampire Slayer" (1997-2003). Hann samdi þáttaraðirnar "Angel" (1999-2004) ásamt David Greenwalt sem er aukaafurð Buffy-þáttanna, "Firefly" (2002), "Dollhouse" (2009-2010) og internetsöngleikinn "Dr. Horrible's Sing-along Blog" ásamt bræðrum sínum Zack og Jed Whedon og eiginkonu Jeds, Maurissu Tancharoen. Whedon samdi líka handritið að "Buffy the Vampire Slayer"-kvikmyndinni og var einn af handritshöfundum fyrstu Toy Story myndarinnar. Hann hefur líka samið söguþræði fyrir teiknimyndasögur. Hann er handritshöfundur og leikstjóri ofurhetjumyndarinnar "The Avengers", þriðju tekjuhæstu kvikmyndar allra tíma. Whedon, Joss Whedon, Joss Sarah Michelle Gellar. Sarah Michelle Gellar (fædd 14. apríl 1977) er bandarísk leikkona sem er best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Buffy Summers í hrollvekju-drama-gamanþáttunum "Buffy the Vampire Slayer" (1997-2003). Hún er einnig þekkt fyrir hlutverk sitt á hrollvekjmyndinni "I Know What You Did Last Summer" og lék Daphne Blake í "Scooby Doo"-myndunum. Árið 2009 lék hún aðalhlutverkið í myndinni "Veronika Decides to Die". Nýlega leikur hún tvíburasysturnar Bridget Kelly og Siobhan Martin í þáttunum "Ringer" og er einnig framleiðandi þáttanna. Árið 2002 giftist hún leikaranum Freddie Prinze, Jr. sem hún hafði kynnst við tökur á "I Know What You Did Last Summer" og eiga þau eitt barn saman. Gellar, Sarah Michelle Botnsheiði (Borgarfirði). Botnsheiði heitir heiði milli innri hluta Skorradals og Hvalfjarðarstrandar og Botnsdals. Brúarfoss (Hítará). Brúarfoss er bær og bæjarstæði á eystri bakka Hítarár rétt hjá þjóðveginum um Mýrar. Nafnið er dregið af samnefndum fossi í Hítará. Jóhannes Jósefsson glímukappi og veitingamaður á Hótel Borg byggði veiðihús á Brúarfossi og hafði fyrir sumaraðsetur sitt í mörg ár. Bæjargil. Bæjargil er að finna fyrir ofan bæjarstæði á Húsafelli. Gilið er vítt og djúpt og skilur þar á milli Bæjarfells og útfjallsins. Innarlega í gilinu er hár foss og þar í hlíðunum er að finna auðunnið og sérstætt rauðleitt og bláleitt grjót sem ábúendur Húsafells, þar á meðal myndlistamaðurinn Páll á Húsafelli, hafa unnið úr legsteina og aðra steingripi. Fært er úr gilinu upp við fossinn og að baki hans er tveir aðrir háir en vatnslitlir fossar. Bæjarfell í Hítardal. Bæjarfell er fjall (235) norður af bænum Hítardal í Hítardal. Bæjarfell er auðveld uppgöngu og er þaðan gott útsýni. Þá eru nokkrir þekktir hellisskútar í móbergi fjallsins, þar á meðal Sönghellir, Fjárhellir, Paradís, Víti og Hundahellir. Þar er og kletturinn Nafnaklettur sem svo er nefndur sökum þess að í hann hefur verið skorinn fjöldi nafna og fangamarka hvers sögur má rekja allt aftur á 18. öld. Bær í Bæjarsveit. Bær í Bæjarsveit er gamall kirkjustaður og klausturjörð, þar var stofnað eitt fyrsta klaustur á Íslandi um 1030. Þá var þar starfræktur fyrsti skóli sem vitað er um hérlendis, er settur var á fót af Rúðólfi biskupi, sem einnig setti á stofn klaustrið í Bæ. Í skólanum í Bæ voru innleiddir bókstafir í stað rúnaleturs. Rúðólfur fór úr landi 1049 og þá mun skóla- og klausturhald hafa lagst af í Bæ. Bæjarbardagi, sem háður var 28. apríl 1237, var ein af mannskæðari orrustum Sturlungaaldar. Keeping Up with the Kardashians. Keeping Up with the Kardashians er bandarískur raunveruleikaþáttur sem sýndur er á sjónvarpstöðinni E!. Þættirnir fylgjast með lífi Kardashian/Jenner fjölskyldunnar en sú fyrri samanstendur af fyrri eiginkonu og börnum látna lögfræðingsins Roberts Kardashians. Þátturinn mun snúa aftur í sjöttu seríu í maí. Þórhaddur Steinsson. Þórhaddur Steinsson var landnámsmaður á Mýrum. Hann nam land í Hítardal, milli Hítarár og Kaldár til sjávar, og er talinn hafa búið í Hítardal. Þórhaddur var sonur Steins mjögsiglanda, landnámsmanns á Skógarströnd. Afkomendur hans bjuggu í Hítardal að minnsta kosti fram yfir Sturlungaöld. Dragháls í Svínadal. Dragháls er lítill bær í Svínadal í Borgarfirði, þar sem áður bjó Sveinbjörn Beinteinsson, skáld og allsherjargoði Ásatrúarfélagsins. Þar hjá og ofan við bæinn hefur verið reist líkneski af guðinum Þór og er þar helsti blótstaður Ásatrúarfélagsins á Íslandi. Draugagil (Húsafelli). Draugagil er gil, sem liggur í norð-austur upp með fjallinu Strúti (938 m), skammt frá Húsafelli í Borgarfirði. Gilið er grunnt efst, en um eða yfir 100 m á dýptina þar sem hún er mest þegar neðar er komið. Út úr sjálfu gilinu gengur þröngt gljúfur sem víkkar innst inni í 10 m og er þar svo mikið þverhnípi að hvergi er fullbjart á miðjum degi. Þar fyrir innan má finna margra metra þykkt bólstraberg í bland við risabólstra er mynda líkt og dökkar rósir á bergveggjum glúfursins. Sagt er að Snorri prestur á Húsafelli hafi kveðið niður drauga og steypt þeim í gilið og dragi það nafn af því. Eyrarfoss. Eyrarfoss er í Laxá í Leirársveit, um 2 km neðan við Eyrarvatn sem Laxá fellur úr, en til sjávar fellur Laxá í Leirárvogum. Eyrarfoss er ekki mjög á hæðina en þykir fallegur og neðan hans er mikill hylur sem freistar laxveiðimanna. Magnús Arason (sýslumaður). Magnús Arason (1599 – 14. nóvember 1635) var íslenskur sýslumaður á 17. öld. Hann bjó á Reykhólum og hafði sýsluvöld í Barðastrandarsýslu frá 1633. Magnús var elsti sonur Ara Magnússonar í Ögri og konu hans Kristínar Guðbrandsdóttur, Þorlákssonar biskups. Magnús ólst upp í Ögri hjá foreldrum sínum og var með föður sínum þegar hann fór að baskneskum skipbrotsmönnum við Ísafjarðardjúp 1615. Hann átti sjálfur töluverðan þátt í Spánverjavígunum því að hann hafði byssu og felldi Spánverjana einn af öðrum með skotum. Magnús fór til náms í Hamborg en kom svo heim, kvæntist ungur og bjó á Reykhólum. Hann var umboðsmaður föður síns í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu 1629-1630 en varð sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1633 og hélt til dauðadags. Kona hans var Þórunn ríka Jónsdóttir (1594 – 17. október 1673). Hún hafði áður verið gift Sigurði, syni Odds Einarssonar biskups, en hann dó 1617. Dóttir þeirra, Hólmfríður, giftist síðar Jóni Arasyni presti í Vatnsfirði, bróður stjúpa síns. Á meðal barna Magnúsar og Þórunnar voru þeir Jón sýslumaður á Reykhólum og Sigurður sýslumaður á Skútustöðum, faðir Magnúar í Bræðratungu. Ferjukot. Ferjukot er bær og forn verslunarstaður við Hvítá í Borgarfirði, undir Þjóðólfsholti, handan árinnar gegnt Hvítárvöllum. Ferjukot var verslunarstaður á 13. öld og má enn sjá móta fyrir rústum skammt fyrir ofan brúna þar sem heitir Búðahöfði. Í Egils-sögu segir frá láti Böðvars, sonar Egils Skalla-Grímssonar, sem drukknaði er hann var með mönnum sem fluttu varning frá verslunarstaðnum við Hvítá. Við Ferjukot er Hvítárbrú, sem vígð var 1928 og var mikil samgöngubót. Þó lokaðist þjóðvegurinn oft við Ferjukot vegna vatnavaxta en Hvítá flæddi oft yfir veginn þar og var þá ófært í Ferjukot nema á báti. Bærinn var lengi í alfaraleið og var þar um skeið verslun, bensínstöð, pósthús og fleira. Niðursuða á laxi hófst í Ferjukoti um 1880 og stóð þar til netaveiði var aflögð í ánni. Í Ferjukoti er til mjög mikið af munum og öðru sem tengist sögu laxveiði á Íslandi og er þar vísir að laxveiðiminjasafni. Giljafoss. Giljafoss er ofarlega í Reykjadalsá og sést víða að úr Reykholtsdal. Manngengt er á bak við Giljafoss svo komast má þar undir ána þurrum fótum. Yfir Reykjadalsá má fara yfir á brú yfir í syðri hluta dalsins eða áfram inn dalinn. Geitland. Geitland er hrauntunga mitt á milli Geitár og Hvítár er teygir sig inn til jökla á milli Hafrafells og Hádegisfella. Geitland er þakið Geitlandshrauni sem runnið hefur norður milli Hafrafells og hæðanna vestan Geitár og hefur hraunið runnið úr gíg sem er uppi undir jökli suður af Hafrafelli. Eldvarpið er mosagróinn hóll með reglulegri gígskál, um 100 m í þvermál og liggja frá honum fimm hrauntraðir, sú stærsta eftir Geitlandi endilöngu þar sem hefur runnið Svartá. Hraunið er 1- rúmkílómetrar og um 40 ferkílómetrar, úfuð en ágætlega gróið og syðst nær það heim undir bæ á Húsafelli og standa flest sumarhús Húsfellinga á Geitlandshrauni. Kvarnasteinsnáma í hrauninu var nýtt af Húsfellingum er sóttu grjótið á hestum og hjuggu til heima við fram á síðustu áratugi 19. aldar. Gljúfurá (Borgarfirði). Gljúfurá er á sem á upptök sín í Langavatni á Mýrum. Reyndar er er affallið úr Langavatni áin Langá en fljótlega þá klofnar Glúfurá út frá Langá og rennur til vesturs en Langá til suðurs. Glúfurá rennur langa leið niður í Norðurárdal og sameinast Norðurá stutt frá ármótum Norðurár og Hvítár. Þjóðvegur 1 fer yfir Gljúfurá skammt frá Svignaskarði en þar rennur hún í gegnum gljúfrið sem hún tekur nafn sitt af. Yfir Gljúfurá liggja tvær brýr skammt frá hvor annarri, gamla og nýja brúin. Þar er gott að leggja bílum og má ganga upp og niður með ánni, þangað sem gljúfrið endar og áin fellur niður á jafnsléttu. Hítará. Hítará er bergvatnsá sem rennur úr Hítarvatni eftir Hítardal og fellur í Akraós. Hítará afmarkar Mýrasýslu og Snæfells- og Hnappadalssýslu. Í ánni eru fossarnir Kattarfoss og Brúarfoss og er í henni góð laxveiði en hún er nú laxgeng allt til upptaka. Selir ganga stundum upp í ána allt að Brúarfossi. Jóhannes á Borg byggði sér veiðihús á árbakkanum og kallaði "Lund". Þar er að finna mikið safn uppstoppaðra fugla sem Jóhannes viðaði að sér. Hítarvatn. Hítarvatn á Mýrum er stöðuvatn í Hítardal, um níu km frá samnefndu fornu bæjarstæði, klaustur- og kirkjustað. Hítarvatn er 7,6 km að flatarmáli og er mesta dýpt þess 24 m. Grasi vaxnir hólmar eru í vatninu og þar er góð veiði. Skammt frá þar er Hítará rennur úr Hítarvatni má sjá í rústir af bæ Björns Hítdælakappa og er þar nú sæluhús. Við vatnið eru fjöllin Tröllakirkja, Geirhnúkur, Smjörhnúkur og Foxufell, þar hjá er Bjarnarhellir. Vatnið dregur nafn sitt af tröllskessunni Hít sem sögð var búa við það. Hjarðarholt (Stafholtstungum). Hjarðarholt er bær og kirkjustaður í Stafholtstungum í Borgarfirði, við afleggjarann upp í Þverárhlíð. Hjarðarholt er landmesta jörð í Stafholtstungum og þar bjuggu oft sýslumenn og aðrir höfðingjar. Í Hjarðarholti er lítil, en formfögur kirkja, sem byggð var á árunum 1896-1897 og er hún bændakirkja, reist af Jóni Tómassyni hreppstjóra í Hjarðarholti. Í henni er altaristafla frá árinu 1764. Kirkju er fyrst getið í Hjarðarholti í máldaga Skálholtsdómkirkju árið 1140. Hjarðarholtssókn var lögð niður 1991. Hraundalsréttir. Hraundalsréttir eru fjárréttir í mynni Hraundals á Mýrum, skammt frá eyðibýlinu Syðri-Hraundal. Réttin er margbreytileg bygging og liggja dilkarnir í ranghölum inn á hraunið. Hraundalsréttir voru á árum áður með fjölmennustu og þekktustu réttum landsins. Sögur og sagnir. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar lýsir Eggert Hraundalsréttum ítarlega sem nokkurs konar markaði, þar sem komi saman bændur og sjómenn til að skiptast á sjávarafurðum og landbúnaðarvörum. Segir þar enn fremur að réttardagar séu þrír eða fjórir og sé þar stundum drykkjuskapur með tilheyrandi illdeilum og áflogum. Hraundalur. Hraundalur er dalur á Mýrum í Borgarbyggð. Hraundalshraun eða Álftárhraun fylla næstum dalinn, en þau eiga upptök í Rauðukúlum (291 m) innarlega í dalnum. Neistaflug. Neistaflug er fjölskylduhátíð, sem haldin hefur verið árlega síðan 1993 í Fjarðabyggð (betur þekkt sem 'Neskaupstaður") um Verslunarmannahelgi. Hátíðin er haldin og skipulögð af "Tónlistarklúbbnum Brjáni". Efnisgrein. Efnisgrein er röð málsgreina á milli greinaskila og fjallar oftast um eitthvað afmarkað. Fallstjórn. Fallstjórn er það þegar orð (oftast áhrifssögn eða forsetning) stýrir falli á fallorði og veldur því að það lendi í aukafalli. Málsnið. Málsnið vísar til heildaryfirbragðs málsins, og er mismunandi eftir aðstæðum. Botnsdalur (Súgandafirði). Botnsdalur er dalur inn af botni Súgandafjarðar. Dalurinn er ágætlega gróinn og þar er nokkuð um birkikjarr og reyni. Einnig er þar mikill burknagróður. Um dalinn rennur Botnsá en upp af honum er Botnsheiði. Yfir hana lá vegurinn áður en nú liggja jarðgöng undir hana. Í Botnsdal er surtarbrandsnáma og var surtarbrandur unninn þar bæði á árum fyrri og síðari heimsstyrjaldar, þegar eldsneytisskortur var mikill. Dalurinn er á náttúruminjaskrá vegna gróðurfars og vegna surtarbrandsins. Í Botnsdal eru bæirnir Botn, landnámsjörð Hallvarðar súganda, og Birkihlíð. Botnsheiði (Súgandafirði). Botnsheiði er heiði upp af Botnsdal í Súgandafirði, um 500 m há. Um hana lá áður helsta samgönguleið Súgfirðinga til annarra byggðarlaga og þar var eina bílfæra leiðin úr firðinum. Vegurinn skiptist á heiðinni og lá önnur leiðin í norður til Ísafjarðar en hin upp á Breiðadalsheiði og síðan niður Breiðadal í Önundarfjörð. Heiðin var þó oft ófær mánuðum saman á veturna. Leiðin frá Botni yfir í Ísafjörð var talin þriggja tíma ganga í góðu færi. Árið 1991 hófst vinna við Vestfjarðagöng, þríarma jarðgöng undir Botnsheiði og Breiðadalsheiði og tengja þau Ísafjörð, Súgandafjörð og Önundarfjörð. Göngin voru opnuð fyrir umferð í desember 1995 en verkinu lauk þó ekki endanlega fyrr en 1996. Skálholtskirkjur. Skálholtskirkjur eru kirkjur þær, sem staðið hafa og sú kirkja sem enn stendur upp í Skálholti. Hallbera Þorsteinsdóttir. Hallbera Þorsteinsdóttir (d. 1330) var íslensk hefðarkona á 13. og 14. öld, abbadís í Reynistaðarklaustri og stofnandi klaustursins með Jörundi Hólabiskupi. Hallbera var dóttir Þorsteins Halldórssonar á Hesti og Stórólfshvoli og síðar ábóta og Ingigerðar Filippusdóttur, Sæmundssonar í Odda, Jónssonar Loftssonar. Hún var því komin af auðugu fólki og hefur líklega verið ekkja eftir einhvern ríkan höfðingja; Guðrún systir hennar var gift Kolbeini Bjarnasyni Auðkýlingi, einum helsta höfðingja Norðurlands. Svo mikið er víst að Hallbera var vellauðug og lagði mikið fé til stofnunar klaustursins. Hún virðist þó ekki hafa orðið fyrsta abbadís klaustursins þegar það var stofnað 1298, heldur var fengin til þess Katrín nokkur, sem áður hafði verið nunna eða einsetukona á Munkaþverá, en hún dó strax árið eftir og þá var Hallbera vígð abbadís. Raunar hefur einnig komið fram sú kenning að Katrín og Hallbera séu ein og sama manneskjan og Hallbera hafi tekið sér dýrlingsnafnið Katrín þegar hún tók vígslu. Hvað sem því líður gegndi Hallbera starfi abbadísar í 30 ár og hefur vafalaust mótað allan brag klaustursins og haft mikil áhrif á þróun þess. Bæði Auðunn rauði Hólabiskup og Lárentíus Kálfsson báru mikið lof á Hallberu og störf hennar. Lárentíus biskup orti latínuvers um hana og las fyrir erkibiskupinn í Niðarósi. Hún dó 1330 og hefur þá vafalaust verið orðin háöldruð, líklega fædd um miðja 13. öld. Heimildum ber ekki saman um næstu abbadís, nefnd eru nöfnin Guðný Helgadóttir, Katrín og Kristín, en líklega er þetta allt sama manneskjan. Baldvin L. Baldvinsson. Baldvin Lárus Baldvinson (26. október 1856 – 7. desember 1936) var vestur-íslenskur skósmiður, ritstjóri Heimskringlu, þingmaður og aðstoðarfylkisritari. Baldvin var sonur Baldvins skálda Jónssonar og Helgu Egilsdóttur yfirsetukonu. Hann ólst upp með móður sinni, fyrst á Akureyri, en svo tvö ár í Reykjavík þar til amma hans fyrir norðan, Guðný Kráksdóttir, tók við honum á þrettánda ári. Var hann í fóstri hjá henni og eiginmanni hennar Steini Kristjánssyni járnsmið til 1873 en það ár fluttist hann til Vesturheims aðeins 17 ára gamall. Baldvin kom til Toronto í félagi við Árna Friðriksson og bjó þar í tæp níu ár. Þar lærði hann skósmíði og stundaði enskunám í kvöldskóla. Þegar Íslendingar voru orðnir fjölmennir í Manitoba fluttist hann til Winnipeg, vorið 1882, en þar starfaði hann í verslun. Baldvin eignaðist síðar skóverslun í félagi við aðra í Winnipeg. Aðalstarf hans á þessum árum var þó að fara til Íslands og annast margskonar umsýslu á vegum kanadískra stjórnvalda vegna innflytjenda. Hann fór sex sinnum til Íslands og taldist sjálfum svo til að hann hefði leiðbeint rúmelga sjö þúsund Íslendingum vestur um haf. Baldvin sneri sér aftur að viðskiptum 1894 og eftir verslunarrekstur og fasteignaviðskipti ýmiskonar keypti hann blaðið Heimskringlu og gerðist ritstjóri þess 1898. Baldvin og Sigtryggur Jónasson, ritstjóri Lögbergs, deildu um árabil harkalega í blöðum sínum og spörðu ekki stóryrðin. Þeir tilheyrðu tveimur andstæðum flokkum, Baldvin Íhaldsflokknum ("Conservative Party of Manitoba") og Sigtryggur Frjálslynda flokknum. Árið 1899 komst Baldvin á þing fyrir Manitoba og var endurkjörinn 1903. Eftir þingsetuna varð Baldvin aðstoðarfylkisritari og var þá enn öflugur í félagsmálum Íslendinga, var meðal annars einn forkólfanna þegar safnað vr fjárframlögum meðal Vestur-Íslendinga til stofnunar Eimskipafélags Íslands 1914. Baldvin kvæntist helgu Sigurðardóttur úr Skagafirði 1886 og eignuðust þau sex börn. Baldvin lést í Kaliforníu þar sem hann bjó síðustu árin hjá dóttur sinni. Kaldidalur. Kaldidalur er fjallvegur sem liggur frá Reyðarvatni innan Lundarreykjadals, milli Langjökuls og Oks til efstu bæja í Hálsasveit, innan við Húsafell, og síðan má halda áfram um Stórasand til Norðurlands. Hæsti hluti Kaldadalsvegar, Langihryggur, er í 727 metra hæð yfir sjó og er Kaldidalur því einn hæsti fjallvegur landsins. Vegurinn er fær flestum bílum nokkra mánuði á hverju sumri. Hann var ruddur sumarið 1830 að frumkvæði Fjallvegafélagsins, sem Bjarni Thorarensen amtmaður stýrði. Bílfær vegur var fyrst lagður um Kaldadal rétt fyrir 1930 og var það þá eini bílfæri vegurinn milli Suður- og Norðurlands því vegur var ekki kominn fyrir Hvalfjörð. Kaldidalur var fjölfarinn áður fyrr, ekki síst milli Þingvalla og uppsveita Borgarfjarðar, en Norðlendingar notuðu hann einnig, meðal annars þegar þeir riðu til þings. Sunnarlega á dalnum er beinakerling, varða sem ferðamenn stungu áður mismunandi klúrum vísum í. Á Kaldadal er Skúlaskeið, grýttur og erfiður kafli og er um hann sú þjóðsaga að maður sem Skúli hét hafi verið dæmdur til dauða á Alþingi fyrir einhverjar sakir en sloppið á hesti sínum, Sörla, og tekist að sleppa undan þeim sem hann eltu þegar hann reið þarna yfir. Um þetta orti Grímur Thomsen kvæðið "Skúlaskeið". Heiðará (Öxnadalsheiði). Heiðará er bergvatnsá sem rennur um Öxnadalsheiði til vesturs og fellur síðan í Norðurá þegar kemur niður í Norðurárdal. Hún á upptök í Kaldbaksdal, sem gengur til suðurs skammt austan við sýslumörkin á heiðinni. Neðan til, næst Norðurárdal, er Öxnadalsheiðin ekki annað en þröngur dalur og þar rennur Heiðaráin í alldjúpu og hrikalegu gili. Vegurinn liggur uppi í hlíðinni eða á gilbarminum og fyrr á öldum voru þar tæpar reiðgötur, oft ófærar langtímum saman á vetrum vegna snjóa og hálku. Þurftu ferðalangar þá að þræða botninn á árgilinu, meðfram ánni, og þótti það viðsjárverð leið. Eylendið (Skagafirði). Eylendið er víðáttumikið flatlendi í miðjum Skagafirði, nær utan frá sjó beggja vegna við Hegranes og suður að norðurmörkum Vallhólmsins en stundum er nafnið þó notað um allt sléttlendið í firðinum inn að Reykjatungu. Hegranes klýfur Eylendið sundur til hálfs en að því frátöldu er Geldingaholt eina mishæðin á því öllu, nema miðað sé við víðari skilgreininguna, þá bætast Vallholt og Skiphóll við. Annars er landið allt rennislétt og svo hallalítið að 20 km frá sjó er hæðin yfir sjávarmáli aðeins 6 metrar. Eylendið er sundurskorið af Héraðsvötnum, sem sumstaðar renna í nokkrum kvíslum eða breiðum farvegum og hafa í aldanna rás oft skipt um farveg, og Húseyjarkvísl, sem raunar heitir ýmum nöfnum þar sem hún rennur um Eylendið. Það skiptist því sundur í hólma, eyja og nes. Þarna eru víðáttumestu flæðilönd landsins. Þau voru áður víða nýtt sem engjar. Sumstaðar hefur landið verið þurrkað upp og breytt í tún en annars staðar er votlendið griðland fugla, einkum þó Austara-Eylendið, austan við Hegranes, og er það á náttúruminjaskrá. Þar er mikið og fjölbreytt fuglalíf, endur, grágæs, óðinshani, stelkur og jaðrakan, svo og sjaldgæfari tegundir, svo sem flórgoði. Winnipegvatn. Winnipegvatn er stöðuvatn í Manitobafylki í Kanada. Vatnið er ellefta stærsta stöðuvatn heims, um fimm hundruð kílómetra langt og hundrað kílómetra breitt þar sem það er breiðast og því ámóta stórt og hálft Ísland. Við Winnipegvatn stendur Gimli, sem er höfuðborg Nýja Íslands. Rauðárdalur. Rauðárdalur (enska: "Red River Valley") er víðáttumikil svæði í Norður-Ameríku sem teygir sig suður úr Manitobafylki í Kanada gegnum Norður-Dakota og austur inn í Minnesotafylki í Bandaríkjunum. Rauðárdalur er talinn vera eitt besta hveitiræktarland í heimi. Íslenskir vesturfarar völdu sér land örlitíð norðan við bestu ræktunarsvæðin, líklega vegna þess að þeir kunnu betur til verka við búfjárrækt og fiskveiðar. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1999. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1997 var 44. skipti sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin, en hún fór fram í International Convention Center í Jerúsalem í Ísrael 29. maí árið 1999. Kynnar keppninnar voru Yigal Ravid, Dafna Dekel og Sigal Shahamon en það var í fyrsta sinn sem þrír kynnar sáu um að kynna keppnina. Sigurvegarinn í keppninni var Charlotte Nilsson, fulltrúi Svíþjóðar með „Take me to your heaven“, sem hlaut 163 stig. 12 Stig. Eftirfarandi lönd gefa 12 stig í... 1999 Daniel Clowes. Daniel Clowes (fæddur 14. apríl 1961) er bandarískur myndasöguhöfundur. Meðal þekktari verka hans eru myndasögurnar "Ghost World" og "David Boring" en eins og flestar af þeim sögum sem hann hefur samið birtust þær upprunalega í tímaritinu "Eightball". Tvær kvikmyndir hafa verið gerðar eftir verkum Clowes, "Ghost World" og "Art School Confidential" en þeim var báðum leikstýrt af Terry Zwigoff. Björgunarsveitin. "Björgunarsveitin" (enska: "The Rescuers") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á bókum eftir enska rithöfundarins Margery Sharp, aðallega bókunum "The Rescuers" og "Miss Bianca". Myndin var frumsýnd þann 22. júní 1977. Kvikmyndin var tuttugasta og þriðja kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Wolfgang Reitherman, John Lounsbery og Art Stevens. Framleiðandinn var Wolfgang Reitherman. Handritshöfundar voru Larry Clemmons, Vance Gerry, Ken Anderson, Frank Thomas, Burny Mattinson, Fred Lucky, Dick Sebast og Dave Michener. Tónlistin í myndinni er eftir Artie Butler, Sammy Fain, Carol Connors, Ayn Robbins og Shelby Flint. Framhaldsmyndin "Benni og Birta í Ástralíu" (enska: "The Rescuers Down Under") var gefin út árið 1990 í kjölfar velgengni myndarinnar. Prinsessan og froskurinn. "Prinsessan og froskurinn" (enska: "The Princess and the Frog") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Pictures. Myndin er byggir að hluta á skáldsögu E. D. Baker "The Frog Princess" frá árinu 2002 sem aftur nýtir sér þjóðsagnaminnið um froskaprinsinn sem meðal annars kemur fyrir í þjóðsagnasafni Grimmbræðra. Myndin var frumsýnd þann 11. desember 2009. Kvikmyndin var fertugasta og níunda kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Ron Clements og John Musker. Framleiðendur voru Peter Del Vecho og John Lasseter. Handritshöfundar voru Ron Clements, John Musker og Rob Edwards. Tónlistin í myndinni er eftir Randy Newman. Litla hafmeyjan (kvikmynd 1989). "Litla hafmeyjan" (enska: "The Little Mermaid") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1989. Myndin byggir á samnefndri sögu eftir danska rithöfundinn Hans Christian Andersen. Fríða og dýrið (kvikmynd 1991). "Fríða og dýrið" (enska: "Beauty and the Beast") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1991. Hún byggir á sögunni "Fríða og dýrið" eftir franska 18. aldar rithöfundinn Jeanne Marie Le Prince de Beaumont sem aftur byggði á lengri skáldsögu eftir Gabrielle-Suzanne Barbot de Villeneuve. Hringjarinn í Notre-Dame (kvikmynd 1996). "Hringjarinn í Notre-Dame" (enska: "The Hunchback of Notre-Dame") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Feature Animation. Myndin er byggir á samnefndri skáldsögu eftir franska rithöfundinn Victor Hugo frá 1831. Myndin var frumsýnd þann 21. júní 1996. Kvikmyndin var þrítugasta og fjórða kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Gary Trousdale og Kirk Wise. Framleiðandinn var Don Hahn. Handritshöfundar voru Tab Murphy, Irene Mecchi, Bob Tzudiker, Noni White og Jonathan Roberts. Tónlistin í myndinni er eftir Alan Menken og Stephen Schwartz. Árið 2002 var gerð framhaldsmynd, ', sem var aðeins dreift á mynddiski. Káinn. Káinn (skírður Kristján Níels Jónsson en nefndur K.N. eða Káinn) (1859 – 25. október 1936) var vestur-íslenskt skáld, aðallega þekkt fyrir kersknar og fyndnar ferskeytlur sínar. Káinn fluttist 18 ára til Kanada og starfaði alla tíð í vesturheimi sem landbúnaðarverkamaður. Fyrst í Winnipeg og síðan í Duluth og Norður-Dakóta. Káinn var drykkfeldur, en vinsæll hagyrðingur, enda snöggkvæður og fyndinn. Dr. Stefán Einarsson skrifar í Bókmenntasögu sinni, að þekking Káins á íslenskum skáldskap, „ekki síst hinum íslensku meisturum, og beint samband hans við ameríska kímni, gerði hann að kímniskáldi, og átti hann sem slíkur engan sinn líka og það eigi aðeins meðal landa í Vesturheimi, heldur líka á Íslandi.“ Skapafarði. Skapafarði (fræðiheiti: "smegma" umritun á gríska orðinu σμήγμα sem þýðir sápa) (einnig nefndur reður- eða limfarði eða óformlega forhúðarostur í tilviki karlmenna) er samblanda af afflögnuðum þekjuvefsfrumum, húðfitu og raka sem sterk lykt og bragð er af og safnast fyrir undir forhúð karldýra og í sköpum kvendýra. Skapafarði myndast á kynfærum allra spendýra. Teide. Teide er eldfjall á eyjunni Tenerife á Kanaríeyjum, Spáni. Efsti tindur fjallsins er í 3.718 metra yfir sjávarmáli, en Teide er hluti af Parque Nacional del Teide, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Teide er hæsta fjall á Spáni og einn af stærstu eldfjöllum heims. Tenerife er eyja byggð um fjallið El Teide og er að rúmmáli, þriðja stærsta eldfjall veraldar. Tenerife heitir eftri máli innfæddra, "tene-" (mountain) "-ife" (white). Í leiðarbókum Kólumbusar segir 9. ágúst 1492: „Þeir sáu elda mikla stíga frá hábungu Tenerifeeyjar, sem er afar há.“ Kólumbus kom aldrei sjálfur til Tenerife-eyjar, en svo virðist sem hann hafi séð eldfjallið Teide á bakaleiðinni frá La Gomera áður en hann hélt í leiðangurinn yfir Atlantshafið. Aðrar heimildir um eldgosið 1492 hafa þó ekki fundist. Sverðið í steininum. "Sverðið í steininum" (enska: "The Sword in the Stone") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1963. Hreðavatn. Mynd tekin frá Grábrókargíg, Hreðarvatn efst til hægri með Bifröst í forgrunni. Hreðavatn er stöðuvatn í neðanverðum Norðurárdal í Borgarbyggð. Við vatnið stendur samnefndur bær. Í grennd Hreðavatns er laxveiðiáin Norðurá og fossarnir Laxfoss og Glanni, Grábrókarhraun og Grábrókargígar. Í vatninu er silungsveiði. Hreðavatnsskáli, byggður (1933), var fjölsóttur gisti- og áningar- og veitingastaður ferðamanna um áratugaskeið. Háskólinn á Bifröst, áður "Samvinnuskólinn", með tilheyrandi byggð hefur verið starfræktur í landi Hreðavatns frá 1955. Gróðurfar. Nokkrir gróðri vaxnir hólmar með kjarrlendi og blómum eru í Hreðavatni og heita þeir Hrísey og Álftahólmi. Í landi Hreðavatns þar sem er eyðibýlið Hreðavatnssel, er sunnan undir Þórisengismúla að finna surtarbrand sem um skeið var unninn þar til eldsneytis. Surtarbrandsnámið gekk ekki sem skyldi og hrundu námagöngin á endanum saman. Þá hafa fundist þar jarðvegsleifar með steingervingum af jurtaleifum, svo sem laufblöðum trjáa, sem gefa til kynna að fyrir nokkuð löngu síðan hafi vaxið á Íslandi gróður, sem nú er helst að finna í sunnanverðri Mið-Evrópu. Í austurhlíðum Þorvaldsdals skammt frá Hreðavatnsseli, eru enn fremur ljóslituð jarðlög, botnlög stöðuvatns sem þar hefur verið fyrir um sjö milljónum ára. Þá hafa í landi Jafnaskarðs verið ræktaðar og gróðursettar innan skógræktargirðingar, ýmsar tegundir barrtrjáa sem dafna þar vel. Hvalfell. Hvalfell er móbergsstapi (852 m) með grágrýtiskolli, innst í Botnsdal í Hvalfirði. Hvalfell hlóðst upp í miklu eldgosi og upp úr jökulhvelinu á einhverju af síðustu jökulskeiðum ísaldar og lokaði um leið Botnsdal sem var áður mun lengri. Þegar að jökullinn svo bráðnaði myndaðist stöðuvatn, Hvalvatn á bak við Hvalfell með afrennsli norðan fjallsins sem heitir Botnsá, og rennur hún til vesturs. Hvalvatn er um160 m djúpt og var lengi dýpsta vatn landsins, eða allt þar til Öskjuvatn myndaðist eftir sprengigos í Dyngjufjöllum árið 1875. Kollur Hvalfells er mosagróinn og hlíðar þess eru mjög brattar og grafnar miklum giljum, en gott útsýni er af kollinum, sem ganga má á frá Stóra-Botni í Botnsdal og upp með gljúfri Botnsár og Glyms að austan. eða upp með gljúfrinu að vestan með því að vaða yfir Botnsá fyrir ofan Glym. Hvammur í Norðurárdal. Hvammur í Norðurárdal er bóndabýli og kirkjustaður í Mýrasýslu. Þar var einnig prestssetur til 1911, en nú er kirkjunni þjónað frá Stafholti. Í Hvammi var í kaþólskum sið kirkja helguð Maríu guðsmóður, en núverandi kirkja er lítil timburkirkja, forkirkjulaus, byggð árið 1880. Altaristafla kirkjunnar er eftir Þórarinn B. Þorláksson listmálara og kaleikur og patína eftir Eggert Guðmundsson í Sólheimatungu. Þar er einnig skírnarfontur smíðaður af Ríkarði Jónssyni, myndhöggvara. Árið 1808 féll mikið snjóflóð á bæinn í Hvammi er braut hann niður og varð syni þáverandi prests, Þórðar Þorsteinssonar (1754-1819), að bana. Eftir það var bærinn færður þangað sem hann er nú. Þórarinn B. Þorláksson. Þórarinn Benedikt Þorláksson (14. febrúar 1867 – 10. júlí 1924) var íslenskur listmálari og fyrstur Íslendinga til að nema málaralist erlendis. Hann hélt fyrstu eiginlegu málverkasýningu á Íslandi og var fyrsti listmálarinn sem hlaut opinbera styrki. Þórarinn málaði aðallega landslagsmyndir. Ásamt Ásgrími Jónssyni, Jóhannesi Kjarval og Jóni Stefánssyni er hann talinn til "frumkvöðlanna fjögurra" í íslenskri myndlist. Þórarinn var næstelsta barn foreldra sinn en þau eignuðust fjórtán afkvæmi. Faðir Þórarins, sem var prestur á Undirfelli í Vatnsdal, lést þegar Þórarinn var aðeins fimm ára gamall. Þórarinn lærði upphaflega bókbandsiðn og veitti síðan um skeið forstöðu bókbandsstofu Ísafoldar. Árið 1900 fékk hann styrk frá Alþingi til að nema listir í Danmörku. Þórarinn hélt til Kaupmannahafnar, veturinn 1905, og lauk þar málaranámi, fyrstur Íslendinga. Hann hafði áður fengið nokkra tilsögn í dráttlist hjá frú Þóru Thoroddsen. Þegar hann kom til Íslands ferðaðist hann um landið og málaði landslagsmyndir og hélt síðar sýningu á verkum sínum í Glasgow sem var hinn fyrsta eiginlega myndlistasýning á Íslandi. Þann 30. desember 1913 var Þórarinn skipaður í nefnd sem hanna átti fána Íslands. Hann kenndi teikningu í Iðnskólanum og var forstöðumaður skólns 1916 til 1922. Einnig rak hann bókaverslun og blaðaafgreiðslu. Þórarinn var einn af helstu forgangsmönnum stofnunar Listvinafjelagsins og stóð fyrir byggingu sýningarskála þess á Skólavörðuholtinu. Þórarinn var kvæntur "Sigríði Snæbjarnardóttur". Þau áttu þrjú börn, tvær dætur og einn son. Þórarinn lést af völdum hjartaáfalls í sumarbústaði sínum við Laugarvatn. Nox Medical. Nox Medical er íslenskt sprotafyrirtæki sem hannaði svefngreiningartækið NOX-T3. Fyrirtækið hlaut Vaxtarsprotann árið 2010. Mentor. Mentor er íslenskt sprotafyrirtæki sem þróaði samnefnt upplýsingakerfi. Fyrirtækið hefur tvisvar hlotið Vaxtarsprotann, árið 2008 og árið 2009. Vaxtarsprotinn. Vaxtarsprotinn eru íslensk verðlaun sem afhent eru árlega en tilgangur verðlaunanna er að „...vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja“. Geitaskarð. Geitaskarð er bær í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu, fornt stórbýli og var löngum sýslumannssetur. Bærinn var áður í Engihlíðarhreppi en tilheyrir nú Blönduósbæ. Bærinn stendur undir grösugu skarði sem kallast Skarðskarð og nær yfir á Laxárdal. Geitaskarð á einnig land að Blöndu. Geitaskarð var meðal helstu höfuðbóla Húnaþings allt frá landnámsöld og þar hafa margir höfðingjar búið. Sýslumenn Húnvetninga bjuggu margir á Geitaskarði og er talið að einir tólf sýslumenn hafi setið þar. Þar er nú rekin ferðaþjónusta. Laxárdalur (Skagafirði). Laxárdalur er dalur sem liggur vestan við Tindastól í Skagafjarðarsýslu og er hann um 14 km langur. Hann liggur út að sjó norðan við Tindastól og heitir þar Sævarlandsvík. Utan við Laxárdal tekur Skaginn við. Dalurinn liggur nær beint í suður inn með Tindastól en vestan við hann eru lág fell og hálsar. Hann beygir svo til suðvesturs og þrengist. Um dalinn rennur áin Laxá, sem á upptök sín í Hryggjafjalli á Staðarfjöllum. Á Laxárdal voru nokkrir bæir og eru fáeinir enn í byggð en aðrir farnir í eyði. Hvammur í Laxárdal var kirkjustaður og prestssetur og á að hafa verið landnámsjörð Eilífs arnar, sem nam Laxárdal að því er segir í Landnámabók. Laxárdalur er nú mun fjölfarnari en áður, eftir að vegurinn um Þverárfjall var byggður upp, en hann liggur um Laxárdal og Gönguskörð til Sauðárkróks. Skagi (Skagafirði). Skagi eða Skaginn er byggðarlag á austanverðum Skaga, Skagafjarðarmegin, en byggðin vestan á Skaga (Húnaflóamegin) kallast Skagaströnd. Skaginn nær frá Sævarlandsvík, við mynni Laxárdals, og út á Skagatá og er ströndin um 30 km á lengd, tiltölulega bein og láglend, að undanskildum Ketubjörgum. Upp af ströndinni eru lágir ásar og fell og á milli þeirra mýrar, móar og fjöldi stöðuvatna. Í mörgum þeirra er ágæt silungsveiði. Innsti bærinn á Skaga heitir Skefilsstaðir og var þar áður þingstaður hreppsins, Skefilsstaðahrepps, en nú tilheyrir Skaginn Sveitarfélaginu Skagafirði. Allmargir bæir voru á Skaga en sumir þeirra eru nú komnir í eyði. Ysti bærinn, Hraun, er þó enn í byggð. Helsta höfnin á Skaga er í Selvík. Þar var áður verstöð og má sjá þar rústir gamalla verbúða. Úr Selvík sigldi floti Kolbeins unga áleiðis til Vestfjarða um Jónsmessu 1244 en mætti skipum Þórðar kakala á miðjum Húnaflóa og hófst þá Flóabardagi, eina sjórrusta Íslandssögunnar. Margar jarðir á Skaga eru hlunnindajarðir og þar er reki, silungsveiði, selveiði, æðarvarp og fleiri hlunnindi en þar þykir næðingssamt og kalsalegt, enda liggur byggðin opin fyrir norðanvindinum og hvergi skjól af fjöllum. Landslagið er víðast hvar sviplítið en fallegt útsýni er yfir Skagafjörð. Kirkja sveitarinnar er í Ketu, lítil timburkirkja og er hún friðuð. Innri-Hólmur. Innri-Hólmur er stórbýli, kirkjustaður og fornt höfuðból, skammt frá gangamunna Hvalfjarðarganga. Þar bjó fyrstur Þormóður Bresason er nam Akranes ásamt bróður sínum. Þeir bræður voru kristnir og talið að þeir hafi haft með sér presta eða munka til Íslands. Segir í Landnámu um Innra-Hólma að þar hafi verið reist kirkja nokkuð löngu fyrir kristnitöku. Um aldur kirkju á Innra-Hólmi er annars vitað að þar er sóknarkirkja þegar tíundarlög eru sett árið 1096. Þá er hennar einnig getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og þess getið að hún sé helguð Jóhannesi postula. Sú kirkja sem þar stendur enn var reist 1891 að undangengnum deilum eftir að eldri kirkja var þar aflögð og sóknin lögð til Garða. Olli það miklum deilum og reistu íbúar í Innri-Hólmssókn nýja kirkju sem upphaflega var úr timbri, en hefur nú verið múrhúðuð. Í kirkjunni er að finna altaristöflu eftir Jóhannes Kjarval listmálara. Hvítárbakki. Hvítárbakki er í Bæjarsveit, á milli Grímsár og Flókadalsár. Þar stofnaði Sigurður Þórólfsson (1869-1929) einn fyrsta lýðháskóla landsins árið 1905. Lýðháskólinn á Hvítárbakka var rekinn að norrænni fyrirmynd til 1920. Héraðsmót voru haldin á Hvítárbakka sem var vinsæll samkomustaður, þar til þau voru flutt að Þjóðólfsholti hjá Ferjukoti. Fjármagnstekjuskattur. Fjármagnstekjuskattur er skattur sem leggst á eignatekjur, þ.e. vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur. Skatturinn er 20% tekjuskattur. Jafnaskarð. Jafnaskarð er bóndabýli í um 100 m hæð vestan við Hreðavatn í Norðurárdal. Þar hjá, sunnan og vestan vatnsins, er 150 skógur birkis og barrviðar, sem nefnist Jafnaskarðsskógur. Skógurinn var afgitur og friðaður af Skógrækt ríkisins árið 1941. Í og við Jafnaskarðsskóg eru merktar gönguleiðir og reiðgötur. Kalmanstunga. Kalmanstunga er stórbýli í Hvítársíðu og efsti og austasti bær í Borgarbyggð, um 50 km frá sjó. Að sögn Landnámu heitir bærinn svo eftir suðureyskum landnámsmanni sem flutti þangað bú sitt frá Katanesi eftir að synir hans drukknuðu í Hvalfirði. Kalmanstunga var á árum áður hvoru tveggja í senn, afskekkt sveitabýli umgirt torfærum ám og stórbýli í þjóðbraut þá er fjölfarinn reiðvegur lá norðan úr landi um Stórasand og Arnarvatnsheiði og áfram um Kaldadal suður á Þingvelli. Það var ekki fyrr en á sjötta tug þessarar aldar að Kalmanstunga komst í varanlegt og gott vegasamband, þegar brýr voru gerðar yfir Norðlingafljót og Hvítá. Kalmanstunguland er hvað víðáttumest landareign í Mýrasýslu og er þar undir meðal annars allt Hallmundarhraun inn að jöklum. Kirkja var í Kalmanstungu til 1812, en aðeins tveir aðrir bæir áttu þar kirkjusókn. Kvíahellan. Kvíahellan er aflraunasteinn Snorra bónda á Húsafelli og er hann að finna við kvíarnar framan við gilkjaft ofan við heimatúnið á Húsafelli. Hella þessi, sem er rúmlega 180 kg og mjög óárennileg til átaks þykir vel tæk til þriggja miserfiðra þrauta. Auðveldast þykir þannig að lyfta henni upp á norðurkambinn á syðri kvíadyrunum. Þrautin þyngri er svo að forfæra kvíahelluna upp á stóran stein í miðju norðurveggjar, hvar nafn Snorra bónda mun vera klappað í steininn. Þrautin þyngsta og frækilegasta þótti að taka kvíahelluna upp á brjóst sér og og ganga þannig með hana umhverfis kvíarnar og hafa nokkrir náð þeim árangri á síðustu áratugum, þar á meðal aflraunamaðurinn Jón Páll Sigmarsson (1960-1993). Kvíahellan hefur notið vinsælda á aflraunamótum og meðal annars verið notuð til keppni í Laugardalshöll og móti sem kennt er við sterkasta mann heims sem haldið var á Þingvöllum. Langavatn (Mýrum). Langavatn allstórt stöðuvatn í Langavatnsdal á Mýrum, um 214 m yfir sjávarmáli. Það er um 5 ferkílómetrar að stærð og allt að 36 m niður þar sem það er dýpst. Vatnið hefur orðið til fyrir hraun sem stíflað hefur afrennsli dalsins. Í Langavatn rennur Langadalsá að norðan og Beilá að suðaustanverðu. Silungsveiði er í Langavatni og við útfallið þar sem Langá fellur úr vatninu er stífla til vatnsmiðlunar vegna laxaræktar í ánni og vatnakerfi hennar. Langá. Langá á Mýrum er lindá, sem rennur úr Langavatni í Langavatnsdal. Skammt fyrir neðan brúna á þjóðveginum er í ánni Sjávarfoss, þangað sem gætir sjávarfalla og nokkru ofar fossinn Skuggi. Í minni Grenjadals er mikill laxastigi við Sveðjufoss og annar hjá fossinum Skugga og nokkru neðar við brúna er Langárfoss, þekktur laxveiðistaður. Urriðaá fellur í Langá á leirum við ósinn og um 5 km frá upptökum rennur úr Langá Gljúfurá, sem síðan rennur í Norðurá, skammt frá ármótum hennar við Hvítá. Góð laxveiði er í ánni. Langá hefur líklega forðum haft afrennsli niður Hraundal áður en þar varð eldgos í Rauðukúlum (291 m) sem stíflaði afrennsli niður í dalinn. Ofan hraunsins myndaðist Sandvatn og Langá fékk afrennsli suðaustur úr Hraundal og út í Borgarfjörð fyrir vestan Borgarnes. Leirá (Leirársveit). Leirá er fornt höfuðból í í Leirársveit, kirkjustaður og fyrrum prestssetur, er stendur við samnefnda fengsæla laxveiðiá. Vegur liggur áfram frá Leirá til hringvegarins við Leirárvoga. Að Leirá hefur verið útkirkja frá Saurbæ frá 1883, en áður lá Leirá til Mela. Þar var kirkja helguð Pétri postula í kaþólskum sið. Núverandi kirkja á Leirá var reist árið 1914 og á árunum 1973-1976 voru gerðar á henni verulegar endurbætur. Meðal kirkjugripa eru silfurkaleikur og patína sem smíðuð eru í Kaupmannahöfn af Sigurði Þorsteinssyni og gefin kirkjunni af Magnúsi Stephensen árið 1797. Altaristafla kirkjunnar er eftir Eggert Guðmundsson. Sögur og sagnir. Leirár er fyrst getið í Landnámu sem aðsetur Oddgeirs er átti Hróðgeir hinn spaka fyrir bróður og bjó Hróðgeir fyrstur í Saurbæ. Oddgeir þessi flutti síðan að Oddgeirsstöðum í Flóa. Leirá hefur verið meðal mestu höfuðbóla og öndvegisjarða hérlendis og sátu þar margir höfðingjar og áhrifamenn í íslensku þjóðlífi. Meðal þeirra voru Árni lögmaður Oddsson (1592-1665), Jón Vigfússon (1643-1690) síðar biskup á Hólum, Oddur lögmaður Sigurðsson er andaðist með vofveiflegum hætti 1741 og Magnús amtmaður Gíslason (1704-1766) sem tók að sögn Leirá fram yfir Bessastaði þegar hann var amtmaður. Þá bjuggu á Leirá feðgarnir Ólafur Stefánsson (1731-1812) og Magnús Stephensen (1762-1833), er lét reisa þar prentsmiðju og prentaði meðal annars sálmabók 1801. Það sama ár flutti Magnús inn orgel í sóknarkirkjuna á Leirá, eitt það fyrsta í íslenskri kirkju. Þá sat Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld, sá er samdi fyrstu skáldsöguna á íslensku í nútímalegum skilningi á Leirá frá 1863 til dauðadags. Munaðarnes. Munaðarnes er bær við Norðurá, þar sem rekin er orlofshúsabyggð Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í landi Munaðarness er einnig 32 ha skógræktargirðing. Rauðanes. Rauðanes, áður "Raufarnes", er bær á Mýrum, skammt vestan við Borg á Mýrum. Sögur og sagnir. Segir svo í Egils sögu að þar hafi Skallagrímur Kveldúlfsson haft smiðju og stundað þar rauðablástur. Enn fremur að þá er Skallagrím vanhagaði um hentugan stein, harðan og sléttan til að lýja á járnið, hafi hann róið út á fjörðinn og kafað þar eftir hentugum steini. Steininn þann fann hann fyrir utan Miðfjarðareyju ólíkan mjög öðru grjóti í nágrenni Rauðaness, hóf upp í bát sinn og reri með til lands og lagði fyrir utan smiðjuna. Ber sögum ekki saman um hvort hann sé þar enn, af sumum er talið að hann sé aftur kominn á sinn stað í sjónum, en aðrir telja sig hafa séð hann og segja á sínum stað, brimsorfinn og barinn mjög að ofan. Knappsstaðir. Knappsstaðir eru eyðibýli, kirkjustaður og áður prestssetur í Stíflu í Fljótum í Skagafirði, landnámsjörð Þórðar knapps. Bærinn fór í eyði árið 1974. Hann stendur undir fjalli sem heitir Breiðarkollur og er 932 m á hæð. Kirkja hefur verið á Knappsstöðum frá því mjög snemma á öldum og þar sátu prestar sóknarinnar. Knappsstaðabrauð þótti þó alltaf með rýrari brauðum, enda er Stífla snjóþung og þótti harðbýl þótt sumarfagurt hafi verið þar áður en Skeiðsfossvirkjun sökkti stórum hluta sveitarinnar undir vatn. Þann 12. júní 1838 stórskemmdist Knappsstaðakirkja í jarðskjálfta. Ákveðið var að reisa nýja kirkju. Var hún vígð 1840 og er elsta timburkirkja landsins og ein hinna minnstu. Kirkjubyggingin var meðal annars fjármögnuð með því að selja Guðbrandsbiblíu, sem kirkjan átti, og barst hún til útlanda en var síðan gefin aftur til Íslands 1933 og er nú í Landsbókasafni. Knappsstaðabrauð var lagt niður 1881 og kirkjan lögð undir Barð. Eftir að Stífla fór í eyði að mestu voru sóknirnar sameinaðar og eru síðan tvær kirkjur í Barðssókn. Messað er í kirkjunni einu sinni á ári og eru þær messur jafnan fjölsóttar. Hof í Hjaltadal. Hof er bær í Hjaltadal í Skagafirði, landnámsjörð Hjalta Þórðarsonar að sögn Landnámabókar, og þar segir líka að á Hofi hafi verið hin fjölmennasta og ágætasta erfidrykkja á landinu, sem synir Hjalta héldu eftir föður sinni. Á Hofi er mikið af fornminjum sem ekki hafa verið rannsakaðar svo neinu nemi en svo virðist sem þar hafi verið stórbýli en búseta hafi lagst þar af á 11. öld og bærinn fluttur í Hóla, sem eru örskammt frá Hofi. Byggð virðist hafa verið stopul á Hofi allt til 1827 en þá var reist þar hjáleiga frá Hólum. Bærinn stendur á háum hól og segir sagan að þar hafi virki Hjaltasona verið. Höfði á Höfðaströnd. Höfði er bær á Höfðaströnd í austanverðum Skagafirði, landnámsjörð Höfða-Þórðar Bjarnarsonar og áður kirkjustaður. Höfði er norðan við Höfðavatn, í hvammi suðvestan undir Höfðahólum, sem eru framhlaup úr fjallinu fyrir ofan. Höfði var ysti bær í Höfðahreppi hinum forna en þar utan við tók Fellshreppur við. Hálfur Þórðarhöfði tilheyrir Höfða en hinn helmingurinn Bæ. Höfði á einnig Höfðamöl milli Höfðavatns og sjávar og hlutdeild og veiðirétt í Höfðavatni. Kirkja sem verið hafði á Höfða frá fornu fari var lögð af 1891. Höfði kemur mjög við sögu í kvikmyndinni Bíódagar eftir Friðrik Þór Friðriksson. Friðrik er ættaður frá Höfða og þar var upphafsatriðið í kvikmynd hans Börn náttúrunnar einnig tekið upp. Hof í Vesturdal. Hof í Vesturdal í Skagafirði er nú í eyði en var áður gamalt stórbýli og kirkjustaður, landnámsjörð Eiríks Hróaldssonar í Goðdölum og líklega ættarsetur Goðdæla, sem voru niðjar Eiríks. Nýbýli sem reist voru í landi Hofs eru í byggð þótt heimajörðin hafi farið í eyði 1999. Land Hofs var geysilega víðlent, náði yfir allt land á milli Hofsár í Vesturdal og Vestari-Jökulsár allt suður að Hofsjökli, sem er einmitt kenndur við Hof. Ennfremur fylgdi Hofsafrétt jörðinni og var hún einhver landmesta jörð á Íslandi. Frá Hofi eru um 20 kílómetrar fram að Hofsjökli en út að sjó við Sauðárkrók eru um 65 kílómetrar. Jarðhiti er í landi Hofs og er vatn þaðan nýtt til upphitunar á tveimur bæjum. Hvammur í Laxárdal. Hvammur í Laxárdal er eyðibýli, kirkjustaður og áður prestssetur í Skagafjarðarsýslu. Hvammur er í Laxárdal, sem liggur vestan við Tindastól, og tilheyrði áður Skefilsstaðahreppi en er nú í Sveitarfélaginu Skagafirði og liggur undir Sauðárkróksprestakall eftir að prestakallið var lagt niður 1970, en í því var auk Hvamms kirkjan á Ketu á Skaga. Hvammur var alla tíð talið ákaflega rýrt brauð og prestar þar voru margir bláfátækir. Kirkjan í Hvammi var til forna Ólafskirkja, helguð Ólafi helga. Núverandi kirkja er úr timbri og var byggð árið 1892. Skammt frá Hvammi er gamalt eyðibýli sem heitir Atlastaðir og er sagt að Atli, sonur landnámsmannsins Eilífs arnar, hafi búið þar en líklegt er að Hvammur hafi verið landnámsjörð Eilífs. Insane Clown Posse. Insane Clown Posse er þungarokkhljómsveit sem var stofnuð 1989 af Joe Bruce og Joseph Utsler. Rauðsgil. Rauðsgil er bær sem stendur á bakka samnefnds gljúfragils sem skerst inn í suðurhlíðar Reykholtsdals í Borgarfirði. Í Rauðsgili er að finna fossa svo sem Bæjarfoss, Laxfoss, Einiberjafoss og svo Tröllafoss, sem er ofan gils. Rauðsgil er einnig fæðingastaður (1899) Jóns Helgasonar, skálds og prófessors, en eitt af þekktari kvæðum hans nefnist "Á Rauðsgili". Reyðarvatn. Reyðarvatn er stöðuvatn austan Þverfells. Það er rúmir 8 km að flatarmáli, tæpir 49 m þar sem það er dýpst og stendur 325 m yfir sjávarmáli. Úr vatninu norðanverðu fellur Grímsá í fossum og flúðum niður í Lundarreykjadal og í því veiðist silungur á stöng. Við árósinn má sjá votta fyrir fornum hleðslugarði, sem er talinn hafa verið hlaðinn til að auðvelda um fyrir meiri veiði í Grímsá. Síðumúli. Síðumúli er kirkjustaður á Hvítársíðu í Borgarbyggð. Þar er jarðhiti og eru sögur um mikinn hver sem þar var en hvarf eða færði sig til, suður yfir Hvítá og myndi þar geta verið Hurðarbakshver. Þar sem áður var hverinn talinn hafa verið er nú náttúruleg laug. Í Síðumúla var fyrrum útkirkja frá Gilsbakka en söfnuði þar er nú þjónað frá Reykholtsprestakalli. Núverandi kirkja í Síðumúla er steinsteypt og reist árið 1926. Í kirkjunni er altaristafla eftir Eyjólf Eyfells listmálara og skírnarfontur úr graníti eftir Jóhann Eyfells. Skallagrímsdalur. Skallagrímsdalur er lystigarður í Borgarnesi miðju, upp af Kveldúlfsvík. Samkvæmt Egils sögu drukknaði Böðvar Egilsson, sonur Egils í Borgarfirði og er heygður í Skallagrímsdal. Þar voru fyrir heygðir fyrir þeir Kveldúlfur og Skallagrímur sonur hans, faðir Egils Skallagrímssonar. Í garðinum er minnismerki um Egil Skallagrímsson með vísan í Sonatorrek, eftirmæli Egils um Böðvar og Gunnar syni sína, en Gunnar hafði dáið skömmu áður en Böðvar drukknaði. Stálpastaðir. Stálpastaðir er eyðibýli í Skorradal í Borgarbyggð. Þar er mikið skóglendi, en upphaflega var jörðin um 160 ha lands og voru af þeim um 100 ha vel fallnir til skógræktar, sem nú eru fullnýttir. Margar erlendar trjátegundir hafa verið þar settar niður, en mest þó af rauðgreni, sitkagreni og stafafuru sem þykja dafna þar vel. Í skógræktinni eru nú merktir minningarlundir og göngustígar og eru uppi áform um að auka merkingar, og þá meðal annars með vísan til og í þær trjátegundir sem ræktaðar hafa verið upp í landi Stálpastaða. Haukur og Soffía Thors ánöfnuðu Skógrækt ríkisins Stálpastaði 1952. Stefánshellir. Stefánshellir er hellir í Hallmundarhrauni (3555 m) sem rannsóknir hafa leitt í ljós að er í raun sami hellir og Surtshellir. Sennilega hafa þeir áður verið einn og sami hellirinn áður en að hrun hafi orðið í hellinum og þannig lokast á mili þeirra. Aðalop Stefánshellis er niðri í gjá, um 350 m frá nyrsta opi Surtshellis og sést opið ekki fyrr en komið er alveg að hellismunanum. Vegvísar vísa leið við slóð og benda á helstu niðurföll og op inn í hellinn og inni í honum eru ranghalar og hvelfingar er saman mynda flókið völundarhús. Lovsamling for Island. Lovsamling for Island – (Lagasafn fyrir Ísland) – er útgáfuverk með safni lögfræðiheimilda sem snerta Ísland frá árabilinu 1096–1874. Það kom út á árunum 1853–1889 og er alls 21 bindi. Efni ritverksins verður best lýst með undirtitlinum sem er á titilblaði, en þar stendur: „Úrval af mikilvægustu eldri og yngri lögum og tilskipunum, úrskurðum, fyrimælum og reglugerðum, Alþingisdómum og samþykktum, bréfum stjórnardeilda, skipulagsskrám og gjafabréfum, ásamt öðrum skjölum sem varpa ljósi á réttarfar og stjórnarfar á Íslandi á fyrri og seinni tímum.“ Jón Sigurðsson forseti átti hugmyndina að útgáfunni og sá um hana að mestu, en fékk til liðs við sig sem lögfræðilegan ráðgjafa Oddgeir Stephensen stjórnardeildarforseta. Í ársbyrjun 1845 rituðu þeir kansellíinu bréf og óskuðu eftir styrk til að undirbúa verkið. Það var samþykkt haustið 1847 og komu fyrstu tvö bindin út árið 1853. Við afmörkun efnisins kom til greina að miða við upphaf einveldisins árið 1661, eða þegar Rentukammerið tók við málefnum Íslands um 1683, eða þegar farið var að nota Norsku lög um 1700 og Hæstiréttur Danmerkur varð æðsta dómsvald í íslenskum málum. Ákveðið var að byrja á tíundarlögum Gissurar biskups Ísleifssonar, 1096, en farið er fljótt yfir sögu í fyrsta bindinu sem nær til 1720. Málið á flestum skjölunum er danska, en sum eru þó á íslensku. Sum skjölin hafa einnig birst í öðrum heimildasöfnum, t.d. "Íslensku fornbréfasafni". Á árunum 1854–1875 komu út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi "Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands", þrjú bindi, og er þar íslenskur texti flestra þeirra stjórnvaldsákvarðana sem birtar voru á því árabili, en danski textinn er í "Lovsamling for Island". Ástæðan fyrir því að "Lovsamling for Island" endar á árinu 1874, er sú að þá fóru að koma út "Stjórnartíðindi fyrir Ísland", sem hafa komið út samfellt til þessa dags. A-deildin kom út á íslensku og dönsku til 1918, en eftir það á íslensku. B-deildin aðeins á íslensku. Þó að "Lovsamling for Island" sé ekki tæmandi heimidasafn, er það mikilvægt sagnfræðilegt og lögfræðilegt heimildarrit, en er minna notað en skyldi vegna þess hversu fágætt það er. Benedikt Sveinsson (f. 1938). Benedikt Sveinsson (f. 31. júlí 1938) er íslenskur fjárfestir og athafnamaður. Hann er faðir Bjarna Benediktssonar lögmanns. Íslenskt fornbréfasafn. Íslenskt fornbréfasafn – (latína: Diplomatarium Islandicum) – er heildarútgáfa á íslenskum fornbréfum og skjölum frá elstu tímum fram undir 1590. Meginhluti skjalanna er frá því eftir 1250. Komin eru út 16 bindi. Útgáfan er stafrétt og á því máli sem bréfin eru skrifuð á. Ítarlegar skrár fylgja hverju bindi, um mannanöfn, staðanöfn og atriðisorð. Fullur titill ritsins er: „Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn.“ Hið íslenska bókmenntafélag gaf fornbréfasafnið út. Fyrsta bindið kom út 1857–1876 og 16. bindið 1952–1972. Fyrstu fjögur bindin og hluti af því fimmta voru gefin út í Kaupmannahöfn, en eftir það fluttist útgáfan til Reykjavíkur, eftir að útgáfu- og fræðastarfsemi þar var orðin öflugri. Skjölunum er raðað í tímaröð innan hvers bindis, og því mynda hinar eldri bréfabækur ekki samfellda heild í útgáfunni. Einnig er nokkur skörun í tíma milli binda, þegar ný skjöl hafa komið í leitirnar. Málið á flestum skjölunum er íslenska. Ýmis bréf, einkum þau sem varða kirkjumál eða samskipti við önnur lönd, eru á latínu. Í 16. bindinu, sem Björn Þorsteinsson sá um, eru nær eingöngu birt ensk (og þýsk) skjöl sem snerta sögu Íslands á 15. og 16. öld. Björn gaf einnig út ritið: "Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld", Hið íslenska bókmenntafélag, Rvík 1969, og má líta á það sem skýringarrit með 16. bindi "Fornbréfasafnsins". "Fornbréfasafnið" eða "Diplomatarium Islandicum" (oft skammstafað DI) er ómissandi heimildasafn um sögu Íslands frá upphafi og fram yfir siðaskipti. Langidalur (Húnaþingi). Langidalur er dalur í Austur-Húnavatnssýslu og liggur frá Refasveit við Blönduós til suðausturs inn að mótum Blöndudals og Svartárdals. Raunar er það aðeins austurhluti dalsins, austan við Blöndu, sem kallast Langidalur, nafnið er ekki notað um svæðið vestan árinnar, að minnsta kosti ekki af heimamönnum. Meðfram dalnum endilöngum er Langadalsfjall, um 25 km á lengd og 700-800 m hátt víðast hvar, en í það eru þrjú djúp skörð yfir í Laxárdal fremri, eyðidal austan fjallsins. Langidalur er grösugur og búsældarlegur og þar er fjöldi bæja. Kirkja sveitarinnar er á landnámsjörðinni Holtastöðum en af öðrum höfuðbólum má nefna Geitaskarð og Móberg. Laxá í Aðaldal. Laxá í Aðaldal er lindá í Suður-Þingeyjarsýslu, önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins og ein þekktasta laxveiðiáin. Hún á upptök í Mývatni og rennur þaðan um Laxárdal og Aðaldal til sjávar í Skjálfandaflóa. Ofan við Brúarfossa nefnist hún Laxá í Laxárdal. Frá Mývatni til sjávar er áin um 58 kílómetrar að lengd. Náttúrufegurð þykir mikil við Laxá en áin rennur á hrauni allan Aðaldal að Æðarfossum neðan við Laxamýri, um 1 km frá sjó, en þar fellur hún fram af hraunbrúninni. Brúarfossar eru þó ekki svipur hjá sjón eftir að Laxá var virkjuð þar um 1950. Margir góðir veiðistaðir eru í Laxá og þar hafa oft veiðst miklir stórlaxar. Laxá í Refasveit. Laxá í Refasveit er dragá í Austur-Húnavatnssýslu. Hún á upptök á Laxárdal fremri, löngum, grösugum dal sem liggur samhliða Langadal, austan Langadalsfjalls. Þar voru áður um tuttugu bæir en nú er dalurinn nær allur kominn í eyði. Við Skrapatungurétt rennur Norðurá í Laxá ofan úr Norðurárdal og þar sveigir Laxá til vesturs og rennur út í Húnaflóa í Laxárvík í Refasveit. Vegurinn yfir Þverárfjall til Sauðárkróks liggur meðfram Laxá að ármótunum en síðan með Norðurá. Neðan við þjóðveginn sem liggur út á Skagaströnd rennur Laxá í gljúfri og þar var áður brú þar sem þrengst er. Heitir það Ámundahlaup. Þar er nú laxastigi. Coronel Fabriciano. Coronel Fabriciano er borg í Brasilíu með yfir 105 þúsund íbúa (2008). Laxá í Laxárdal (Skagafirði). Laxá í Laxárdal, einnig kölluð Laxá á Skaga, er dragá sem rennur um Laxárdal í Skagafirði og til sjávar í Sævarlandsvík, norðan við Tindastól. Áin á upptök á Hryggjafjalli á Staðarfjöllum. Nokkur laxveiði er í ánni. Straumfjörður. Straumfjörður er fyrrum verslunarstaður og nú eyðibýli í Álftaneshreppi í Borgarbyggð er stendur við samnefndan fjörð. Þaðan var stundað útræði og er talið að Hamborgarkaupmenn hafi siglt þangað fyrr á öldum. Einokunarkaupmenn sigldu þangað um hríð, eða frá 1669 til 1672, en skip sigldu þangað tíðum að afléttri einokun á verslun og 1863 varð Straumfjörður löggiltur verslunarstaður. Eftri að Borgarnes varð einnig löggiltur verslunastaður fjórum árum síðar, tók verslun í Straumfirði hins vegar að hnigna og lagðist hún alveg af um aldamótin 1900. Síðastur til að versla þar var Ásgeir Eyþórsson (1869-1942), faðir Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrum forseta Íslands, frá 1896-1901. Eftir að Ásgeir Eyþórsson lét af verslun var stórt verslunarhús, sem þar hafði verið reist skömmu fyrir aldamót tekið í sundur og flutt að Borg á Mýrum og endurreist til afnota sem prestssetur 1902. Siglingin inn Straumfjörð var ávalt varasöm og fórust þar kaupskip í gegn um tíðina. Þá varð þar eftirminnilegt sjóslys, er steytti á skerinu Hnokka og brotnaði í spón, franska rannsóknaskipið Pourquoi pas? í miklu fárviðri haustið 1936. Allir þeir sem með skipinu voru, 39 alls fórust, utan einn skipverja er tókst að komast lífs af. Svignaskarð. Svignaskarð er fornt stórbýli og höfuðból í Norðurárdal í Borgarbyggð. Samkvæmt Sturlungu mun Svignaskarð hafa verið eitt af búum Snorra Sturlusonar og þar bjó um tíma Torfi Erlendsson (1598-1665), sýslumaður og umboðsmaður konungsjarða í Borgarfirði. 1903-1939 bjó þar athafnamaðurinn Guðmundur Daníelsson (1873-1939). Hafði hann keypt jörðina og tekið við í mikilli niðurníðslu, en byggt hana upp og gert aftur að miklu stórbýli. Svignaskarð var á þessum árum í alfaraleið norður í land og þar þróaðist með Guðmundi mikil fyrirgreiðsla við ferðamenn og taldi fjöldi þeirra sem stöldruðu við á Svignaskarði árið 1914 til að mynda 3434 ferðamenn. Að sumri til dvöldu margir þar í um lengri eða skemmri tíma við útivist og stangveiði í Norðurá og var gistingu haldið þar úti allt til ársins 1952. Svignaskarð var síðan selt til Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík árið 1968 og hefur félagið þar síðan reist orlofshúsabyggð í kjarrlendinu norður af eldri bæjarhúsum. Skammt austan við bæinn í túninu hjá Svignaskarði er klettaborg sem nefnist Kastali og er þaðan gott útsýni yfir Borgarfjarðarhérað. Sökum þess að þar var gott vígi frá náttúrunnar hendi, var bærinn fluttur þar upp á Sturlungaöld, þar sem að fyrir utan víðsýni var þar nánast sjálfgert vígi að kalla. Á milli bæjarhúsa og Kastalans er heimagrafreitur hvar hvíla Guðmundur Daníelsson, fyrrum bóndi og ábúandi á Svignaskarði og kona hans, Guðbjörg Sæmundsdóttir. Þjófakrókur. Þjófakrókur er kriki milli Hádegisfells, Kaldadals og Langjökuls. Talið er að Þjófakrókur heiti svo eftir útilegumanninum Fjalla-Eyvindi og að hann hafi hafst þar við um hríð með vitneskju Húsafellsprests. Er jafnvel talið að Fjalla-Evindur, sem talinn er hafa verið hagleikssmiður, hafi dvalið með óreglulegum hætti á Húsafelli og smíðað þar ýmsa húsmuni fyrir prest. Frá Þjófakrók er auðvelt að komast á Langjökul og hafa Borgfirðingar sameinast um að þróa þar margvíslega aðstöðu til skíða- og frístundaiðkunar sem sérstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem þangað koma og vilja fara á jökulinn. Laxá í Laxárdal (Þingeyjarsýslu). Laxá í Laxárdal er efri hluti Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem hún rennur úr Mývatni og niður Laxárdal, ofan Brúarfossa og Laxárvirkjunar, en neðri hluti árinnar kallast Laxá í Aðaldal. Efsti hluti árinnar er oftast kallaður Laxá í Mývatnssveit. Áin er um 33 kílómetrar að lengd frá Brúarfossum að upptökum í Mývatni. Hún er að mestu leyti hrein lindá, nema hvað Kráká fellur í hana efst. Vatnsmagnið er því nokkuð stöðugt. Allt umhverfi árinnar er vel gróið og þykir einstaklega fagurt og þar er mikið og fjölbreytt fuglalíf. Laxá í Laxárdal er líka þekkt fyrir að vera ein besta urriðaveiðiá landsins og veiðast þar oft stórir og vænir urriðar. Stóra-Holt (Fljótum). Stóra-Holt er bær og áður kirkjustaður í Fljótum í Skagafirði. Þar var löngum stórbýli og var Holt ein af stærstu jörðum í Fljótum. Jörðin átti allt land frá Fljótaá til fjalls, milli Brúnastaða og Saurbæjar, þar á meðal allan Holtsdal. Fjallið fyrir ofan bæinn heitir Holtshyrna. Í Holti var kirkja allt til ársins 1906 en þá fauk þáverandi kirkja í ofviðri og varð úr að byggja hana ekki upp aftur. Holt var aldrei prestssetur eftir siðaskipti, heldur þjónaði presturinn á Barði Stóra-Holtskirkju. Kourtney Kardashian. Kourtney Mary Kardashian (fædd 18. apríl 1979) er bandarískur frumkvöðull, félagsvera og raunveruleikaþáttastjarna sem varð fræg fyrir að vera í þáttunum "Filthy Rich: Cattle Drive", "Keeping Up with the Kardashians" og "Kourtney and Khloé Take Miami". Hún er elsta barn Kris Jenner og lögfræðingsins Roberts Kardashian, systir Kim og Khloé Kardashian, og stjúpdóttir íþróttamannsins Bruce Jenner. Æska. Kourtney Kardashian fæddist í Los Angeles og er elsta barn látna lögfræðingsins Roberts Kardashian og Kris Jenner (áður Houghton) og er systir Kim, Khloé og Rob Kardashian. Hún er af armönskum ættum (faðir) og af hollenskum-, skoskum- og bandarískum uppruna í móðurætt. Robert Kardashian sem er best þekkur fyrir að vera lögfræðingur O. J. Simpson við réttarhöld í morðmáli hans, lést þann 30. september 2003. Móðir hennar skildi við Robert árið 1989 og giftist fyrrum Ólympíu-íþróttamanninum Bruce Jenner árið 1991. Kardashian gekk í rómansk-kaþólskan stúlknaskóla í Marymount. Eftir útskrift yfirgaf hún Kaliforníu og flutti til Dallas þar sem hún gekk í Southern Methodist háskólann í tvö ár. Síðan flutti hún til Tucson, Arizona og gekk í háskólann þar og útskrifaðist þaðan með gráðu í leiklist með spænsku sem aukagrein. Bekkjarfélagar hennar voru m.a. Nicole Richie og Luke Walton. Kardashian á þrjá stjúpbræður, (frá elsta til yngsta) þá Burt Jenner, Brandon Jenner og Brody Jenner, stjúpsysturina Casey Jenner og hálfsysturnar Kendall og Kylie Jenner. Ferill. Kourtney og móðir hennar opnuðu fatabúðir bæði í Los Angeles og New York borg sem báru nafnið „Smooch“. Kourtney er einnig meðeigandi og rekur D-A-S-H, fatabúð í Los Angeles, Miami og New York með systrum sínum Kim og Khloé. Kardashian varð fyrst þekkt fyrir að vera í raunveruleikaþættinum "Filthy Rich: Cattle Drive" árið 2005 þar sem hún safnaði peningum til góðgerðarmála. Hún varð síðan ein af aðalpersónum þáttanna "Keeping Up with the Kardashians" þar sem fylgst er með lífi fjölskyldu hennar. Hún systir hennar, Khloé, byrjuðu síðan með sinn eigin þátt út frá því, "Kourtney and Khloé Take Miami", og fylgdist fyrsta þáttaröðin með því þegar þær opnuðu D-A-S-H útibú í Miami árið 2009. Kardashian stefnir að því að skrifa bók, Kardashian Konfidential, með systrum sínum Kim og Khloe og kemur bókin út í nóvember 2010. Hún mun leika í 3. þáttaröð 90210 með Kim og Khloé Kardashian. Þær munu leika sig. Einkalíf. Kourtney á soninn Mason Dash Disick (f. 14. desember 2009) með kærastanum Scott Disick. Bær á Höfðaströnd. Bær á Höfðaströnd er bær í austanverðum Skagafirði, skammt norðan við Hofsós. Bær á land við ströndina milli Hofs og Höfðavatns og á hálfan Þórðarhöfða á móti Höfða og einnig Bæjarmöl, syðri grandann sem tengir höfðann við land, og veiðirétt í Höfðavatni með öðrum jörðum við vatnið. Neðan við túnið í Bæ eru Bæjarklettar og Bæjarvík. Þar var fyrr á tíð ágæt lending og var þaðan töluvert útræði. Þar voru löngum nokkrar þurrabúðir og bjó þar fólk sem lifði fyrst og fremst af sjósókn. Skömmu fyrir miðja 19. öld risu líka fáein hús við Höfðavatn í landi Bæjar og lifðu íbúar þar einnig á veiðiskap. Var því Bær lengi vel ein mesta útgerðarstöð við Skagafjörð. Þessi byggð fór svo í eyði þegar hafnarmannvirki voru gerð á Hofsósi og fólk fluttist þangað. Laxá í Laxárdal (Dalasýslu). Laxá í Laxárdal eða Laxá í Dölum er bergvatnsá í Dalasýslu og ein af bestu laxveiðiám landsins. Áin kemur að hluta úr Laxárvatni á Laxárdalsheiði, sem er milli Hvammsfjarðar og Hrútafjarðar, og rennur um Laxárdal og til sjávar í Hvammsfirði, skammt sunnan við Búðardal. Margar litlar þverár og lækir falla í ána en hún er þó oft mjög vatnslítil. Um 36 veiðistaðir eru í ánni og er hinn efsti við Sólheimafoss en af þekktum veiðistöðum má nefna hylinn Papa. Veiðifélag var stofnað um ána 1935 og er í hópi elstu veiðifélaga landsins. Síðan hefur áin verið leigð út. Bandarískir auðmenn voru lengi með hana á leigu, meðal annars forstjóri Pepsi-gosdrykkjafyrirtækisins, og komu margir heimskunnir menn að veiða í ánni, svo sem geimfarinn Neil Armstrong og kylfingurinn Jack Nicklaus. Einhver fyrsta tilraun til laxaklaks á Íslandi var gerð við Laxá þegar Guttormur Jónsson í Hjarðarholti byggði klakhús í landi jarðar sinnar. Seinna var byggt klakhús í landi jarðarinnar Leiðólfsstaða, þar sem heitir Þrándargil. Þar hjá er nú veiðihús veiðifélagsins og heitir það einnig Þrándargil. Laxá í Hrútafirði. Laxá í Hrútafirði er dragá í sunnanverðri Strandasýslu. Hún á upptök á Laxárdalsheiði eins og Laxá í Dölum, sem fellur til vesturs í Hvammsfjörð, en Laxá i Hrútafirði fellur aftur á móti til austurs og í Hrútafjörð skammt utan við Borðeyri. Áin er um 14 kílómetrar að lengd. Hún er mjög vatnslítil á sumrin. Laxá í Leirársveit. Laxá í Leirársveit er lindá í Borgarfirði. Upptök hennar teljast í Eyrarvatni í Svínadal en í rauninni rennur hún milli allra vatnanna í Svínadal og heitir efst Draghálsá, þar sem hún fellur í Geitabergsvatn, síðan Þverá milli þess og Þórisstaðavatns og á milli Þórisstaðavatns og Eyrarvatns heitir hún Selós. Áin fellur svo um Leirársveit og til sjávar norðan við Akranes. Kallast víðáttumikið ósasvæði hennar Leirárvogar eða Grunnafjörður og er friðland fyrir fugla. Ósasvæðið er um 6 km langt að sjó, áin sjálf, frá ósasvæðinu að Eyrarvatni, er um 14 km að lengd og vötnin og árnar þar fyrir ofan um 10 km. Laxá er ein af betri laxveiðiám landsins. Áður var hún aðeins laxgeng upp að Eyrarfossi, um 2 km neðan við Eyrarvatn, en árið 1950 var gerður laxastigi í fossinn og er hún síðan laxgeng alveg upp í Draghálsá. Laxá í Nesjum. Laxá er bergvatnsá í sveitinni Nesjum í Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu, skammt vestan við Höfn. Hún rennur milli bæjanna Akurness og Meðalfells ofan við þjóðveginn en neðan við hann rennur hún milli Árnaness og Borga. Um 1960 var grafinn farvegur fyrir ána frá Borgum vestur í Hoffellsá við Skógey og lagður flugvöllur þar sem áin rann áður. Fyrri flugvöllur í Hornafirði var á Suðurfjörutanga og varð þá að róa yfir Hornafjörð til að komast á flugvöllinn. Umhverfi Laxár þykir fallegt og áin er lygn og oftast fremur vatnslítil. Úr henni hafa stundum komið stórir laxar. Laxá á Ásum. Laxá á Ásum, stundum kölluð Neðri-Laxá, er bergvatnsá á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu, um 14 km að lengd. Hún var lengi gjöfulasta og dýrasta laxveiðiá landsins þótt dregið hafi úr veiðinni á síðari árum. Áin fellur úr Laxárvatni en í það fellur aftur Fremri-Laxá úr Svínavatni. Laxá á Ásum rennur svo í Húnavatn, sem Vatnsdalsá fellur einnig í, og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Áin er fremur vatnslítil en í hana hefur oftast gengið mjög mikið af laxi og gat áin áður fyrr gefið gífurlega mikla veiði, allt að 1800 laxa á þriggja mánaða tímabili. Hefur jafnvel verið fullyrt að hún hafi verið besta laxveiðiá í heimi en á árunum fyrir 1990 var áin ofveidd og stofninn lét verulega á sjá. Þar er nú aðeins leyfð fluguveiði og er veiðin á uppleið að nýju. Margir heimsfrægir menn hafa í áranna rás veitt í Laxá og sumir koma ár eftir ár. Laxá var virkjuð um 1930 til að afla rafmagns fyrir Blönduós og nærliggjandi sveitir og var þá gerð stífla sem myndaði uppistöðu (Laxárvatn). Þar var gerður laxastigi svo að laxinn kæmist áfram upp í Fremri-Laxá. Grenjuður Hermundarson. Grenjuður Hermundarson var landnámsmaður í innanverðum Hrútafirði að vestan. Hann nam land með Þresti bróður sínum inn frá Borðeyri og bjuggu þeir á Melum að því er segir í Landnámabók. Þeir hafa því numið land í landnámi Bálka Blængssonar, en það var mjög stórt. Landnáma segir ekkert hvaðan þeir bræður voru en rekur nokkra afkomendur þeirra beggja. Þröstur Hermundarson. Þröstur Hermundarson var landnámsmaður í innanverðum Hrútafirði að vestan. Hann nam land með Grenjuði bróður sínum inn frá Borðeyri og bjuggu þeir á Melum að því er segir í Landnámabók. Þeir hafa því numið land í landnámi Bálka Blængssonar, en það var mjög stórt. Landnáma segir ekkert hvaðan þeir bræður voru en rekur nokkra afkomendur þeirra beggja. Björn (landnámsmaður á Ströndum). Björn eða Þorbjörn var landnámsmaður í Bjarnarfirði á Ströndum. Landnáma hefur ekkert um ætt hans og uppruna að segja en afkomendur hans og Ljúfu konu hans voru nafnkunnir. Sonur þeirra var Svanur á Svanshóli, fyrsti nafnkunni galdramaðurinn á ströndum, en dóttir þeirra var Hallfríður, kona Höskuldar Dala-Kollssonar og móðir Hallgerðar langbrókar. Eiríkur snara. Eiríkur snara var landnámsmaður í Strandasýslu. Hann nam land frá Ingólfsfirði til Ófæru, sunnanvert við miðja Veiðileysu. Reykjarfjörður og Trékyllisvík voru í landnámi hans og bjó hann í Trékyllisvík. Síðar gaf hann Önundi tréfæti hluta af landnámi sínu, Veiðileysu alla, Reykjarfjörð og Reykjanesið sunnanvert. Kona Eiríks var Álöf, dóttir Ingólfs landnámsmanns í Ingólfsfirði. Sonur þeirra var Flosi. Hann bjó í Trékyllisvík þegar skip frá Noregi strandaði þar. Úr flakinu gerðu Norðmennirnir nýtt skip sem þeir kölluðu "Trékylli". Flosi sigldi með þeim þegar þeir héldu til Noregs en varð afturreka í Öxarfjörð. „Þaðan af gerðist saga Böðmóðs gerpis og Grímólfs,“ segir í Landnámabók. Bandarísk stjórnmál. Bandarísk stjórnmál lúta að almennri opinberri stjórnun Bandaríkjanna, í heild sinni eða í einstökum fylkjum. Bandaríkin eru stjórnarskrárbundið sambandsríki með sterka þrískiptingu ríkisvaldsins. Ennfremur eru Bandaríkin lýðveldi sem býr við forsetaræði. Þjóðhöfðingi Bandaríkjanna er forsetinn, en forsetinn er einnig höfuð framkvæmdavaldsins. Núverandi forseti Bandaríkjanna er Barack Obama. Aðrar greinar ríkisvaldsins eru þingið, sem situr í tveimur deildum, öldungadeild og fulltrúadeild. Dómskerfið dæmir eftir lögum sem sett eru af Bandaríkjaþingi. Hæstiréttur Bandaríkjanna er æðsta dómsstig landsins. Hvert af 50 ríkjum Bandaríkjanna hefur sitt eigið þing og ríkisstjóra, auk síns eigin dómkerfis og hæstarétt. Í Bandaríkjunum er tveggja flokka kerfi, þar sem demókrataflokkurinn (til vinstri) og repúblíkanaflokkurinn (til hægri) keppa um völd. Auk þessara tveggja flokka starfar fjöldinn allur af smærri stjórnmálaflokkum, en sögulega hafa þeir átt erfitt með að koma mönnum á þing. Það er helst á ríkisþingum sem flokkum utan tvíflokkakerfisins hefur tekist að fá menn kjörna. Algengt er að vinsælir stjórnmálamenn bjóði sig fram utan flokka, sem sjálfstæðir þingmenn. Þó spurningin um rétt ríkja til að segja sig úr lögum við Bandaríkin hafi verið útkljáð í Bandaríska borgarastríðinu hafa spurningar um valdssvið alríkisstjórnarinnar komið upp margsinnis (e. states rights). Sérkenni stjórnkerfis Bandaríkjanna. Stjórnkerfi Bandaríkjanna er um margt mjög ólíkt stjórnkerfum annarra þróaðra ríkja. Eitt þeirra er hversu margir synjunarvaldsleikendur (e. veto player) eru í löggjafarferlinu. Á sama tíma er nánast ógerlegt að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bandaríkjunum. Þjóðaratkvæðagreiðslur er í raun aðeins hægt að halda um breytingar á stjórnarskrá Bandaríkjanna, en í þeim ræður þó ekki meirihluti þjóðarinnar, heldur meirihluti ríkjanna. Annar mikilvægur munur er vald öldungadeildar þingsins. Þá er valdssvið hæstaréttar óvanalega mikið. Forsetinn skipar hæstaréttardómara, en þeir eru skipaðir til lífstíðar og eru með öllu óháðir framkvæmda- eða löggjafarvaldinu. Þá er mikilvægur munur á stjórnmálum Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda hversu stórt hlutverk stjórnarskráin leikur í öllum stjórnmálum og stjórnmálaumræðu í Bandaríkjunum. Njörður Sigurjónsson. Njörður Sigurjónsson (f. 1974) er doktor í menningarstjórnun og kennari við Háskólann á Bifröst. Njörður er meðal annars þekktur fyrir gagnrýni sína á viðskiptafræðikennslu. Ingólfur Herröðarson. Ingólfur Herröðarson var landnámsmaður í Ingólfsfirði á Ströndum. Samkvæmt því er segir í Landnámabók var hann sonur Herröðar hvítaskýs, göfugs manns í Noregi, sem Haraldur konungur hárfagri lét drepa. Þá fóru synir hans þrír til Íslands og námu land á Ströndum hlið við hlið, firðina fyrir sunnan Dranga: Eyvindur nam Eyvindarfjörð, Ófeigur Ófeigsfjörð en Ingólfur nam land syðstur þeirra, í Ingólfsfirði. Ingólfur átti dóttur sem hét Álof og giftist hún Eiríki snöru, sem nam land næst fyrir sunnan landnám Ingólfs. Eyvindur Herröðarson. Eyvindur Herröðarson var landnámsmaður í Eyvindarfirði á Ströndum. Landnámabók segir að hann hafi verið sonur Herröðar hvítaskýs, göfugs manns í Noregi, sem Haraldur konungur hárfagri lét drepa. Þá fóru synir hans þrír til Íslands og námu land á Ströndum hlið við hlið, firðina fyrir sunnan Dranga: Eyvindur nam Eyvindarfjörð, Ófeigur Ófeigsfjörð en Ingólfur nam Ingólfsfjörð. Ófeigur Herröðarson. Ófeigur Herröðarson var landnámsmaður í Ófeigsfirði á Ströndum. Í Landnámabók er sagt frá því að eftir að Haraldur konungur hárfagri lét drepa Herröð hvítaský, göfugan mann í Noregi, hafi synir Herröðar þrír haldið til Íslands og numið land á Ströndum. Bræðurnir námu firðina fyrir sunnan Dranga: Eyvindur nam Eyvindarfjörð, Ófeigsfjörð, en Ingólfur nam Ingólfsfjörð. André Clot. André Clot (1909 – 2002) var franskur rithöfundur. Bókmenntir. Clot, André Smallville. Smallville eru bandarískir sjónvarpsþættir sem fjalla um uppvaxtarár Clarks Kent í smábænum Smallville í Kansas áður en hann verður að Ofurmenninu. Aðalrithöfundar þáttana eru Alfred Gough og Miles Millar. Í þáttunum lærir Clark (Tom Welling) um uppruna sinn sem geimvera frá plánetunni Krypton og notar ofurkrafta sína til að bjarga vinum sínum úr háska. Meðal vina hans eru Lana Lang (Kristin Kreuk), sem hann er skotinn í; Lex Luthor (Michael Rosenbaum), sem verður erkióvinur Ofurmennisins í framtíðinni; Chloe Sullivan (Allison Mack), besta vinkona Clarks og dreymir um að verða blaðamaður; og Lois Lane (Erica Durance), sem verður eiginkona Clarks í framtíðinni. Eftir sjöundu þáttaröðina hættu Gough og Millar að vinna að þáttunum og rithöfundarnir Kelly Souders og Brian Peterson tóku við af þeim. Michael Rosenbaum og Kristin Kreuk hættu líka í þáttunum. Fyrsta þáttaröð (2001-2002). Fyrsta þáttaröðin einblínir á hjónin Martha og Jonathan Kent, sem reyna að hjálpa ný ættlæddum syni sínum Clark að takast á við uppruna sinn frá geimverum. Hjónin hjálpa jafnframt Clark að þróa sína ofurnáttúrulega hæfileika. Clark verður að hafa umburðarlyndi fyrir þeim sem urðu fyrir stjörnuregninu, ást hans á Lönu Lang og að hann geti ekki sagt bestu vinum sínum, Pete Ross og Chloe Sullivan um uppruna sinn. Clark verður jafnframt vinur Lex Luthor. Önnur þáttaröð (2002-2003). Önnur þáttaröðin tekur við af þeirri fyrstu, þar sem Clark tekur á við skemmdirnar í kjölfarið á hvirfilbyljunum. Clark lærir að hann er frá plánetunni Krypton, en áttar sig jafnframt að hann á sér örlög, ákveðin af líffræðilegum föður sínum. Samband Clarks við Lönu Lang verður nánara, sem gerir vinasamband hans við Chloe Sullivan erfiðara. Besti vinur Clarks, Pete Ross, uppgötvar leyndarmál Clarks í þáttaröðinni. Þriðja þáttaröð (2003-2004). Þrátt fyrir að Clark viti örlög sín, þá vill hann ekki fylgja þeim eftir, og sér eftir þeim fórnum sem Jonathan gerði til að fá hann aftur til Smallville. Lex tekst á við sálrænt áfall við það að vera yfirgefinn á óbyggðri eyju, sem espar ágreining hans við föður sinn. Leyndarmál Clarks hefur mikil áhrif á Pete, og samband Clarks við Lönu fer í blindgötur. Fjórða þáttaröð (2004-2005). Fjórða þáttaröðin einblínir á tilraun Clarks að sameina kunnátu sína úr steinunum þremur. Clark reynir að sætta sig við samband Lönu við Jason Teague. Samband Clarks og Lex verður stirt, og Clark trúir Lex sífellt minna. Æskuvinur Clarks, Pete Ross er ekki að finna í þáttaröðinni og Jason Teague hefur tekið við sem ein af aðalsögupersóna þáttaraðarinnar. Clark kynnist frænku Chloear, Lois Lane. Undir lok þáttaraðarinnar kemst Chloe að leyndarmáli Clarks. Fimmta þáttaröð (2005-2006). Fimmta þáttaröðin snýst um eftirmála stjörnurengisins. Eftir að Clark var fluttur til norðurheimskautsins notaði hann kryptónskan kristal til að mynda Einveruvirkið til að hefja kryptónsku þjálfunina sína. Clark tekst á við líf fullorðna, háskólavist, alvöru samband við Lönu og brotthvarfs náinnar manneskju. Clark hættir að treysta Lex þegar hann kemst að leyniverkefnum LuthorCorp. Chloe hefur störf á Daily Planet og Lionel verður að betri manni. Lois Lane verður ein af aðalpersónum þáttanna. Illmennið Brainiac kemur til jarðar og ætlar sér að frelsa Zod hershöfðingja. Sjötta þáttaröð (2006-2007). Clark reynir að endurheimta fanga úr fangelsinu Phantom Zone. Örlög Lionels og Lex Luthor koma í ljós eftir eftirmála þess að Lex var tekinn af Zod, og Lionel settur sem sendiherra Jor-El, ættfræðilegs föður Clarks. Lana og Lex giftast og þáttaröðin fylgir eftir 33,1 leyniverkefnum Lex. Lois fær áhuga fyrir blaðamennsku og hefur störf hjá slúðurblaðinu "Inquisitor". Sjöunda þáttaröð (2007-2008). Í þáttaröðinni hittir Clark ættfræðilega frænku sína, Köru, og kennir henni að nota krafta sína opinberlega. Illmennið Bizarro kemur til sögunnar, sem tók á sig útlit og krafta Clarks. Lex Luthor uppgvötvar að Lana sviðsetti dauða sinn. Lois fær starf hjá Daily Planet og Chloe uppvötvar hæfileika sinn gagnvart kryptóníti og leyndarmál Daily Planet ritstjórans, Grants Gabriel. Tvær ógnir stafa að Clark, ein frá illmenninu Brainiac og það seinna að Lex uppgvötvar leynilegt samfélag föður síns sem vill stjórna Clark. Áttunda þáttaröð (2008-2009). Clark byrjar að starfa hjá blaðinu Daily Planet og byrjar að sætta sig við hlutverk sitt sem hetja jarðarinnar. Lex Luthor er álitinn dauður og Lana Lang yfirgefur Smallville til frambúðar. Tvær nýjar sögupersónur koma í stað þeirra, Davis Bloom sem er skrímslið Doomsday og nýr forstjóri LuthorCorp, Tess Mercer. Clark og Lois byrja saman. Clark og Oliver Queen eru ósammála um hvað eigi að gera þegar Lex birtist aftur og Cloe Sullivan og Jimmy Olsen setja samband sitt á næsta stig. Níunda þáttaröð (2009-2010). Eftir dauða Jimmys Olsen, ákveður Clark að hann þurfi að hefja kryptónsku þjálfun sína og klæðist nýjum búningi þegar hann berst við glæpamenn sem The Blur. Chloe hefur lokað sig af í Watchtower-turninum og Oliver ákveður að hætta sem Green Arrow. En þegar Lois kemur skyndilega aftur úr framtíðinni breytist allt. Á meðan komst yngri klón af Zod til jarðar með öllum hermönnum sínum en þeir hafa enga kryptónska ofurkrafta. Tíunda þáttaröð (2010-2011). Eftir að Clark sigraði Zod féll hann til jarðar stunginn með bláu kryptoníti. Lois finnur lík hans og kemst að því að Clark sé The Blur og bjargar honum. Clark fær skilaboð frá Jor-El að mikil illska sé að koma til jarðar. Clark ákveður að gerast hetjan sem heimurinn þarfnast þegar hann þarf að kljást við Darkseid. Chloe setur hjálm Dr. Fates á sig og sér framtíðina. Clark segir Lois sannleikann um hver hann sé og biður hana að giftast sér þegar líður á þáttaröðina. Landsmót UMFÍ. Landsmót UMFÍ, sem Ungmennafélag Íslands heldur, er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi. Fyrsta landsmótið var haldið árið 1909 á Akureyri en þau hafa frá árinu 1940 að jafnaði verið haldin á þriggja ára fresti. Nokkrar undantekningar hafa þó verið á því. Næst verður Landsmót UMFÍ haldið árið 2013, en það verður á Selfossi. Kim Kardashian. Kimberly Noel „Kim“ Kardashian (fædd 21. október 1980) er bandarísk athafnakona, fyrirsæta og leikkona. Hún er best þekkt fyrir að vera í raunveruleikaþáttnum "Keeping Up with the Kardashians" og "Dancing With the Stars". Hún er annað barn Kris Jenner og Roberts Kardashian og stjúpdóttir íþróttamannsins Bruce Jenner. Æska. Kardashian fæddist í Los Angeles, Kaliforníu og er dóttir hins látna Roberts Kardashians og Kris Jenner (áður Houghton). Hún er af armenskum ættum en föðuramma hennar og afi eru armensk og tyrknesk en móðir hennar er af skoskum og hollenskum uppruna. Kardashian á tvær systur, Kourtney og Khloé og einn bróður Robert. Hún á stjúpbræðurna Burton, Brandon og Brody Jenner, stjúsysturina Casey Jenner og hálfsysturnar Kendall og Kylie Jenner. Í menntaskóla vann Kardashian við tónlistar-markaðsmynd föður síns, "Movie Tunes". Ferill. Fyrsta hlutverk hennar var í sjónvarpsþættinum "Beyond the Break". Hún lék síðan Lisu í myndinni "Disaster Movie" árið 2008. Kardashian lék lítið hlutverk í "How I Met Your Mother" þættinum „Benefits“. Hún mun leika í fyrsta þætti þriðju þáttaraðar "90210" ásamt systrum sínum, Khloe og Kourtney en þær munu leika þær sjálfar. Fyrirsætustörf. Kim hefur verið á forsíðum margra tímarita eins og "Cosmopolitan" og "Ocean Drive Magazine" og sat Kardashian nakin fyrir í desemberblaði "Playboy" árið 2007. Í febrúar 2008 tilkynnti Bongo Jeans að Kardashian myndi verða andlit þeirra. Kardashian er einnig fyrirsæta fyrir Travis Barker's Famous Stars og Straps-fatalínuna. Kardashian hefur verið gesatdómari í "America's Next Top Model" og "Brothers". "Keeping Up with the Kardashians". Kardashian er ein af stjörnum raunveruleikaþáttarins "Keeping Up with the Kardashians" ásamt tveimur systrum sínum, móður, bróður, hálfsystrum og sjúpföður. "America's Next Top Model". Kardashian var gestadómari í 13. þáttaröð "America's Next Top Model" "CSI: NY". Kardashian var gestastjarna í þætti CBS, ' ásamt Vanessu Minnillo þann 14. desember 2009. "Dancing With the Stars". Kardashian var ein af þrettán þátttakendum sjöundu þáttaraðar "Dancing with the Stars". Hún var pöruð við núverandi sigurvegara þáttanna, Mark Balls. Kardashian endaði í 11. sæti og var þriðji keppandinn sem kosinn var heim. Sjónvarpsþáttaframleiðandi. Kardashian er framleiðandi "SPINdustry", raunveruleikaþáttaraðar um Command PR, almannatengslafyrirtæki í New York, og er því stjórnað af Jonathan Cheban og Simon Huck. Þátturinn flygist með þeim þegar þeir koma sér fyrir á skrifstofum sínum í Los Angeles. Kardashian er vinkona beggja, sérstaklega Jonathans og bregður henni oft fyrir í þáttunum. DVD. Þann 2. maí 2008, gaf Kardashian út æfingadisk, " Fit in your jeans by Friday by Kim Kardashian ", röð þátta þar sem hún kennir fólki ýmsar æfingar með hjálp frá þjálfaranum Kathy Kaehler. Einkalíf. Árið 2000 giftist Kardashian tónlistarframleiðandanum Damon Thomas, en samband þeirra endaði með skilnaði árið 2004. Hún átti í ástarsambandi við R&B söngvarann Ray J árið 2007 en seinna það sama ár byrjaði hún með ruðningshetjunni Reggie Bush eftir að þau hittust á ESPY-verðlaununum. Parið sleit samvistum í lok júlí 2009. Þann 20. september 2009 sagði sjónvarpstöðin E! frá því að Kardashian hefði heimsótt Bush. "Brúðkaup Khloé varð til þess að hún saknaði hans, svo hún fór og heimsótti hann". Samkvæmt raunveruleikaþætti þeirra, byrjuðu þau aftur saman í október 2009, þrátt fyrir að hætta síðan aftur saman í mars 2010. Árið 2010 átti hún í stuttu sambandi við fótboltakappann Cristiano Ronaldo og sáust þau kyssast á veitingastað í Madríd í apríl 2010. Hún átti í sambandi við Miles Austin. Kim byrjaði síðan í sambandi með NBA leikmanninum Kris Humphries. Þau giftu sig 20.ágúst 2011 í Montecito, California. 31.október 2011 sótti Kim um skilnað efir aðeins 72 daga hjónaband. Heimildir. Kardashian, Kim Unglingalandsmót UMFÍ. Unglingalandsmót UMFÍ er íþróttakeppni sem haldin er árlega af Ungmennafélagi Íslands. Fyrsta Unglingalandsmótið var haldið á Dalvík árið 1992 og það næsta verður á Höfn í Hornafirði árið 2013. Ottó I (HRR). Ottó I þegar hann var gerður að konungi Langbarðalands Otto I (23. nóvember 912 í Wallhausen – 7. maí 973 í Memleben) var konungur og keisari þýska ríkisins af ætt Liudolfinger. Hann var einnig konungur Ítalíu. Otto I er gjarnan kallaður Otto hinn mikli. Prinsinn. Otto fæddist árið 912 og var sonur Hinriks I hertoga í Saxlandi og eiginkonu hans Matthildi. Lítið er vitað um Otto ungan. Þó er kunnugt að hann hlaut herþjálfun ungur. Aðeins 16 ára gamall átti hann son með slavneskri konu, Vilhjálm, sem seinna varð erkibiskup í Mainz. Ári síðar kom faðir hans, Hinrik I konungur ríkisins, því í gegn að sonur sinn yrði kjörinn næsti konungur þýska ríkisins. Otto var því markaður háleitur farvegur. Hann var látinn kvænast Edgitha frá Englandi. Hinrik var fyrsti saxneski konungur ríkisins og hélt hann tryggð við England, þar sem England var hálfu árþúsundi fyrr numið meðal annars af söxum. Edgitha hlaut borgina Magdeburg í morgungjöf. Koungurinn. Ottó konungur og Edgitha frá Englandi. Styttur á dómkirkjunni í Meissen. 2. júlí 936 lést Hinrik I, faðir Ottós. Þar sem búið var að ganga frá ríkiserfðunum, varð Ottó næsti konungur ríkisins. Það tók aðeins fáeinar vikur að koma valinu og krýningu í kring. Ottó var fyrsti konungur ríkisins eftir daga Karlamagnúsar sem krýndur var í keisaraborginni Aachen. Það gerðist 7. ágúst 936 og framkvæmdi Hildebert erkibiskup í Mainz krýninguna. Eftir þetta varð Aachen almennt að krýningarstað konunganna í ríkinu fram á miðja 16. öld. Krýning Ottós var þó ekki öllum að skapi. Hálfbræður hans, Thankmar og Hinrik, vildu sjálfir verða konungar, enda eldri. Furstar hingað og þangað í ríkinu voru heldur ekki ánægðir. Frankahertoginn Eberhard gerði opna uppreisn gegn konungi og gekk til liðs við Thankmar. Eftir að hafa hertekið virkið Belecke og frelsað Hinrik prins, sem var í stofufangelsi, var Thankmar drepinn. Eberhard missti nær allt liðið sitt og gafst upp. Hann var settur í útlegð. Hertoginn Giselbert frá Lóþaringíu, ásamt ýmsum bandamönnum, gerði næstur uppreisn gegn Ottó. En Óttó sigraði þá í orrustunni við Birten hjá Xanten. Að lokum varð Hinrik prins foringi uppreisnar gegn konungi. Hann gerði samsæri um að drepa Ottó konung, hálfbróður sinn. En Ottó komst á snoðir um þessa ráðagerð og tók til sinna ráða. Hann lét varpa Hinrik í dýflissu en aðrir samsærismenn voru teknir af lífi. Hinrik náði að flýja ári síðar en honum snerist hugur og baðst vægar. Eftir þetta var Ottó óskoraður konungur þýska ríkisins. Stjórn Ottós sem konungur gekk í berhögg við aðalinn. Hann virti ekki erfðarétt aðalsins, heldur gaf vinum og venslamönnum landsvæði og embætti, sem aðalsmenn hafa hingað til haft rétt á í ríkinu. Þetta gerði það að verkum að staða Ottós sem konungs styrktist verulega en áhrif aðalsins minnkaði. Árið 951 ákvað Ottó að ráðast inn í Ítalíu. Þar hafði síðasti konungur landsins dáið og skilið eftir sig tæplega tvítuga ekkju, Aðalheiði, sem tengd var eiginkonu Liudolfs, sonar Ottós. Berengar hertogi hafði rænt Aðalheiði og hrifsað til sín völdin. Ottó hertók Langbarðaland bardagalaust. Hann lét frelsa Aðalheiði og færa hana til sín í Pavia. Þar kvæntist hann henni, enda var fyrri eiginkona hans, Edgitha, þá látin. Eftir þetta hlaut Ottó titilinn Konungur franka og Langbarðalands. Þar með var Ottó orðinn valdamesti konungurinn í þýska ríkinu. Hann fór einnig til Rómar í því skyni að láta krýna sig til keisara. En af ókunnum ástæðum neitaði Agapet II páfi honum um það. Árið 953 gerði Liudolf, sonur Ottós, uppreisn, enda taldi hann sig eiga rétt á Ítalíu. Liudolf fékk ýmsa hertoga í lið með sér, sem höfðu yfirráð yfir ýmsum borgum. Áður en árinu lauk var Ottó búinn að gera umsátur um Mainz og Regensburg. En hann náði ekki að útkljá málið áður en næsta ógn steðjaði að ríkinu. Orrustan við Lechfeld. Orrustan við Lechfeld var mesti hernaðarsigur Ottós mikla. Þar biðu Ungverjar endanlega ósigur. Meðan Ottó áttist við son sinn Liudolf, gerðu Ungverjar innrás í þýska ríkið. Ungverjar höfðu á liðnum áratugum reglulega ráðist inn í ríkið og rænt og ruplað. Þeir voru enn heiðnir og höfðu 50 árum áður sest að í kringum Balatonvatn á ungversku sléttunni. Þaðan fóru þeir í ránsferðir. Ungverjar réðust nú inn í Bæjaraland og herjuðu þar á leið sinni vestur. Þeir voru við borgardyr Ágsborgar sumarið 955. Við þessar hættulegu aðstæður tók Liudolf sinnaskiptum og sættist við föður sinn. Saman söfnuðu þeir liði og fóru gegn Ungverjum, sem enn höfðu ekki náð að vinna Ágsborg. Orrustan við Lechfeld nálægt Ágsborg 10. ágúst 955 er einn mesti hernaðarsigur Ottós konungs, þar sem hann náði að hrinda árás ungversku riddaranna. En Ottó var einnig búinn að manna ýmis virki og ferjustaði. Eftir sigurinn flúðu Ungverjar úr orrustunni. Þeir voru svo fjölmennir (eftirlifendur um 20 þúsund) að íbúar Ágsborgar héldu að þeir væru enn að gera árás á borgina er þeir riðu framhjá. Við virkin voru þeir splundraðir og strádrepnir. Aðeins lítill hluti þeirra komst heim. Afleiðingin var sú að Ungverjar hættu flakki sínu og ránsferðum. Þeir blönduðust slövum, báðu um kristniboða og gerðust kristnir. Afkomendur þeirra búa enn á ungversku sléttunni í dag. Orrustan við Lechfeld varð ekki aðeins til að binda enda á ránsferðir Ungverja, heldur voru furstar ríkisins svo hrifnir af sigrinum að Ottó átti til að gera náðuga daga það sem hann á eftir ólifað. Aðeins þó í þýska ríkinu, ekki á Ítalíu. Keisarinn. Jóhannes páfi XII tekur á móti Ottó konungi Meðan Ungverjar herjuðu á þýska ríkið gerðist Berengar II, lénsherrann í Langbarðalandi, svo frakkur að stjórna Ítalíu eigin hendi, án ráða frá Ottó, sem þó var réttur konungur Langbarðalands. Þegar Berengar hins vegar ásældist einnig suðurhluta Ítalíu og hrifsaði til sín lönd af páfaríki, kallaði Jóhannes XII á hjálp. Ottó fór suður til Ítalíu 961. Berengar og bandamenn hans drógu sig til baka í virkin sín og forðust beinar orrustur. Ottó fór því beint suður til Rómar, þar sem Jóhannes páfi krýndi hann til keisara þýska ríkisins 2. febrúar 962. Ottó var því þriðji keisari ríkisins síðan Karlamagnús. (Áður voru Karl III og Arnulf krýndir á 9. öld). Aðalheiður, eiginkona hans, var samtímis krýnd keisaraynja. Eftir þetta fór Ottó norður til Langbarðalands og sat um Berengar. En vinátta hans og páfa varaði ekki lengi. Strax á næsta ári gerði páfi samning við son Berengars gegn Ottó. Ottó létti þá umsátrinu og flýtti sér til Rómar. Þar greip hann í tómt, því páfi hafði flúið. Þá greip Ottó til ráðs að láta kardinálana sverja sér að velja engan páfa án samþykkis keisara fyrst. Hann kallaði saman kirkjuþing, þar sem Jóhannes páfi var leystur af. Í hans stað var Leó VIII kjörinn páfi. Þetta var einsdæmi í sögunni fram að þessu, en aldrei hafði nokkur keisari gerst svo frakkur að leysa sitjandi páfa af. Samtímis þessu var Berengar handtekinn og fluttur í böndum til Bamberg. En Ottó var varla farinn frá Rómar áður en Jóhannes sneri aftur sem páfi og tók borgina. Leó flúði til keisara. Jóhannes lést hins vegar skömmu síðar og var þá Benedikt V kjörinn páfi, í trássi við keisara. Hann gerði sér enn ferð til Rómar, leysti Benedikt af og setti Leó aftur í embætti sem páfa. Benedikt var sendur til Hamborgar í böndum. Árið 965 fór Ottó svo heim aftur í ríki sitt eftir að hafa verið á Ítalíu í fjögur ár. Þar var honum tekið með kostum og kynjum. Ottó var á hátindi ferlis síns og var máttugasti konungur og keisari þýska ríkisins síðan á dögum Karlamagnúsar. 966 sneri Ottó aftur til Ítaliu og dvaldi þar næstu 6 árin. Hann sett enn einn páfann af, í þriðja sinn á ferli sínum, og setti Jóhannes XIII aftur í embætti, sem Rómverjar höfðu hrakið burt. Meðan Ottó dvaldi á Ítalíu lét hann krýna son sinn, sem einnig hét Ottó, sem meðkonung sinn. Jóhannes páfi krýndi hann svo sem meðkeisara í borginni Verona árið 967. Þannig varð hinn ungi Otto II að eftirmanni föður síns, án tilkomu ríkisfurstanna. Otto sneri aftur heim í ríki sitt 972. Hann lést ári síðar eftir stutt veikindi og hitaköst í kastalavirkinu Mamleben (núverandi Saxland-Anhalt). Hann hvílir í dómkirkjunni í Magdeburg. Við ríkinu tók sonur hans Ottó II. Katrín af Medici. Katrín þótti ekki sérlega lagleg, hún var sögð með stór, útstæð augu og munnstór, en henni var hrósað fyrir glæsilegt vaxtarlag, fallega húð og sérlega fagurlagaðar hendur. Katrín af Medici (13. apríl 1519 – 5. janúar 1589) eða Caterina Maria Romula di Lorenzo de' Medici var drottning Frakklands á 16. öld, kona Hinriks 2. Frakkakonungs og móðir Frakkkakonunganna Frans 2., Karls 9. og Hinriks 3., tengdamóðir Hinriks 4. og einnig tengdamóðir Filippusar 2. Spánarkonungs. Hún hélt í raun um stjórnartaumana í Frakklandi í nærri 30 ár og hafði mjög mikil áhrif á stjórnmál og listir í Frakklandi. Æska Katrínar. Katrín var fædd í Flórens á Ítalíu, dóttir Lorenzos 2. af Medici, hertoga af Urbino, og Madeleine de La Tour d'Auvergne. Móðir hennar dó hálfum mánuði eftir fæðinguna og faðir hennar lést 4. maí, sennilega úr sárasótt, svo að Katrín varð munaðarlaus þriggja vikna gömul. Hún ólst upp hjá ættingjum í Flórens, undir verndarvæng frænda sinna, páfanna Leós X og Klemens VII. Þegar andstæðingar Medici-ættar boluðu ættinni frá völdum 1527 tóku þeir Katrínu í gíslingu og var hún höfð í haldi í nunnuklaustrum í borginni til 12. ágúst 1530, þegar her Karls 5. keisara tók Flórens eftir langt umsátur. Á meðan umsátrið varði hafði Katrín stundum verið sett upp á asna sem var teymdur gegnum borgina henni til háðungar. Klemens páfi kallaði nú Katrínu til Rómar og hófst handa við að finna henni eiginmann. Það torveldaði leitina að hún var ekki háaðalborin; Medici-ættin var nýrík og faðir hennar hafði verið gerður hertogi af Leó páfa frænda sínum. Hún hafði hins vegar erft mikið fé eftir foreldra sína og Klemens páfi hét hárri fjárhæð í heimanmund. Frans 1. Frakkakonungur bauð fram næstelsta son sinn, Hinrik hertoga af Orléans, og voru þau Katrín gefin saman í Marseille 28. október 1533, þá bæði 14 ára. Sagt var að Frans konungur hefði ekki yfirgefið svefnherbergi þeirra á brúðkaupsnóttina fyrr en hann var viss um að hjónabandið hefði verið fullkomnað. Katrín var í miklum metum við frönsku hirðina fyrsta hjónabandsárið en þegar Klemens páfi dó haustið 1534 og eftirmaður hans, Páll III, neitaði að greiða heimanmundinn, dró úr vinsældum hennar. Krónprinsessa og drottning. Katrín af Medici. Myndin er máluð áður en hún varð ekkja því eftir það gekk hún alltaf í einföldum svörtum fötum og hafði blæju á höfði. Tveimur árum síðar varð Hinrik krónprins þegar bróðir hans dó og þótti ýmsum þá hafa tekist illa til við val á framtíðardrottningu Frakklands þar sem hún var ekki konungborin, færði ekki þann auð í búið sem lofað hafði verið og virtist auk þess vera óbyrja því tíu ár liðu þar til hún ól fyrsta barnið. Enginn vafi lék aftur á móti á um frjósemi eiginmanns hennar, sem átti margar hjákonur. Ýmsir ráðgjafar hans hvöttu hann til að skilja við Katrínu til að tryggja ríkiserfðirnar. Hún greip til alls konar ráða til að reyna að verða þunguð en það er sagt að kynlífsráðgjöf læknisins Jean Fernel hafi loks leyst vandamálið og 20. janúar 1544 fæddi hún son og á næstu tólf árum níu börn til viðbótar. Frans 1. dó 1547 og þá tók Hinrik við og Katrín varð drottning. Hinrik leyfði henni þó ekki að taka neinn þátt í stjórnsýslunni og virti hana lítils en var undir miklum áhrifum frá helstu ástmey sinni, Diane de Poitiers. Katrín hefndi sín þegar Hinrik varð fyrir slysi í burtreiðum 1559 sem dró hann til dauða. Þá neitaði hún að senda eftir Diane þótt konungur bæði um það hvað eftir annað. Eftir lát konungs rak hún svo Diane í útlegð. Ekkjudrottning. Elsti sonur þeirra, Frans 2., var þá fimmtán ára og heilsuveill. Móðir hans hélt um stjórnvölinn í raun og þegar hann lést ári síðar stýrði hún ríkinu fyrir Karl 9., sem þá var aðeins níu ára. Hún var þó í raun aldrei einvaldur í Frakklandi því landið var á barmi borgarastyrjaldar og víða höfðu aðalsmenn undirtökin og réðu meiru en konungsvaldið. Árið 1562 gaf Katrín út Saint-Germain-tilskipunina, þar sem húgenottar voru í fyrsta skipti formlega viðurkenndir og leyft að stunda trú sína á laun. Við þetta var þó mikil andstaða og upp úr þessu hófust Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar sem stóðu með hléum til 1598. Katrín reyndi að miðla málum og halda friðinn og 1563 var gert vopnahlé sem stóð til 1567. Þótt Karl 9. væri lýstur lögráða og tæki að nafninu til við völdum 1563 hafði hann lítinn áhuga á að stýra landinu og Katrín hélt áfram um stjórnartaumana. Hún vildi efla tengsl krúnunnar við þegnanna og hélt því ásamt konunginum og hirðinni í ferðalag um Frakkland sem stóð frá því í janúar 1564 fram í maí 1565. Karl 9., nýtekinn við ríkjum. Bartólómeusarvígin. Vopnahlé var gert að nýju árið 1570 og hluti af vopnahléssamkomulaginu var að Hinrik, krónprins Navarra og einn af helstu leiðtogum húgenotta, skyldi giftast Margréti, yngstu dóttur Katrínar sem upp komst. Hinrik var jafnframt sá sem stóð næstur til að erfa frönsku krúnuna ef engum af sonum Katrínar yrði sonar auðið. Brúðkaup þeirra Margrétar og Hinriks var þó ekki haldið fyrr en 19. ágúst 1572 en þá var Hinrik orðinn konungur Navarra. Mikil veisluhöld voru í París vegna brúðkaupsins og komu þangað margir aðalsmenn úr röðum húgenotta, þar á meðal Gaspard de Coligny aðmíráll, helsti herforingi þeirra. Þremur dögum eftir brúðkaupið var honum sýnt banatilræði og hafa ýmsir verið nefndir sem líklegir til að hafa staðið að baki því, þar á meðal Katrín, en sagt er að hún hafi haft áhyggjur af því hve mikil áhrif Coligny var farinn að hafa á konunginn. Í framhaldi af þessu ákváðu mæðginin að losa sig við þá leiðtoga húgenotta sem voru staddir í París og koma þar með í veg fyrir að þeir gerðu uppreisn vegna tilræðisins við Coligny. Í kjölfarið fylgdu skipuleg morð á húgenottum í París, framin bæði af hermönnum og af múg sem fór um og myrti þá sem höndum var komið yfir og hafa þessir atburðir verið kallaðir Bartólómeusarvígin. Hinrik af Navarra slapp naumlega með hjálp konu sinnar og neyddist til að snúast til kaþólskrar trúar. Stjórnartíð Hinriks 3.. Tveimur árum síðar dó Karl konungur, sem hafði aldrei verið heilsuhraustur, aðeins 23 ára að aldri. Á banabeði útnefndi hann móður sína ríkisstjóra þar sem ríkisarfinn, Hinrik bróðir hans, var í Póllandi og hafði skömmu áður verið tekinn þar til konungs. Hinrik sneri svo heim og tók við ríkjum sem Hinrik 3. Hann var í uppáhaldi hjá móður sinni og öfugt við bræður sína var hann fullorðinn maður þegar hann varð konungur. Hann hafði þó takmarkaðan áhuga á að stýra ríkinu og Katrín hélt því völdum sínum að nokkru leyti en gat þó ekki stjórnað Hinrik á sama hátt og Frans og Karli. Hún varð eins konar framkvæmdastjóri, sáttasemjar og sendifulltrúi konungs og ferðaðist víða um landið til að reyna að efla frið. Tæplega sextug að aldri hélt hún í átján mánaða ferðalag um sunnanvert Frakklands til að ræða við leiðtoga Húgenotta. Með þessu og fleiru ávann hún sér smátt og smátt nokkra virðingu þjóðarinnar, sem löngum hafði haft litlar mætur á ekkjudrottningunni, og var henni vel fagnað þegar hún sneri aftur til Parísar. Friðarhorfur jukust þó lítið þrátt fyrir þetta. Hinrik var kvæntur en hjónabandið var barnlaust. Árið 1584 dó yngsti sonur Katrínar, Frans hertogi af Anjou, og þar sem hann var barnlaus var ljóst að eftir dauða Hinriks yrði það húgenottinn Hinrik af Navarra, tengdasonur Katrínar, sem settist í hásætið. Þetta olli nýrri ólgu meðal kaþólikka og 1588 neyddist Hinrik til að undirrita yfirlýsingu þar sem látið var undan öllum kröfum Kaþólska bandalagsins og Hinrik af Navarra sviptur erfðarétti. Í framhaldi af því svipti hann Katrínu móður sína öllum völdum. 23. desember sama ár leiddi hann hertogann og kardínálann af Guise, helstu leiðtoga Kaþólska bandalagsins, í gildru og lét drepa þá en um það vissi móðir hans ekkert fyrr en eftir á. Hún tók þennan atburð mjög nærri sér og var sagt að það hefði leitt til þess að hún dó tæpum tveimur vikum síðar, 5. janúar 1589. Eftirmæli. Katrín af Medici hefur fengið misjöfn eftirmæli. Óumdeilt er að í tæp þrjátíu ár hélt hún í raun um stjórnartaumana í Frakklandi að því marki sem hægt er að stjórna landi þar sem skiptast á blóðugar borgarastyrjaldir og mikil spenna og hatur milli trúarhreyfinga og aðalsætta. Hún sveifst einskis til að reyna að halda sonum sínum á konungsstóli og er talið ólíklegt að þeir hefðu enst lengi án hennar. Katrín var mikill listunnandi. Hún safnaði málverkum og öðrum listaverkum, styrkti listamenn úr ýmsum greinum og eyddi háum fjárhæðum í listir. Mestan áhuga hafði hún þó á byggingarlist og lét reisa ýmsar hallir og önnur mannvirki, þar á meðal Tuileries-höll í París. Mörgum þeirra var þó aldrei lokið og fátt stendur eftir í dag. Helgisaga Ólafs Haraldssonar. Helgisaga Ólafs Haraldssonar eða Helgisaga Óláfs konungs er konungasaga sem fjallar um Ólaf helga Noregskonung. Hún er með köflum nánast samhljóða "Elstu sögu Ólafs helga", sem er að miklu leyti glötuð. Sagan er frekar sundurlaus og stirðlega samin og er að nokkru byggð á dróttkvæðum. Í sögunni er Ólafur konungur ekki sveipaður neinum dýrðarljóma, en í lok hennar er sagt frá nokkrum jarteiknum (kraftaverkum) Ólafs, sem eru ástæðan fyrir helgisögu-nafninu. Í sögunni hefur varðveist athyglisverður kveðskapur. Sagan er varðveitt í einu norsku handriti frá miðri 13. öld eða skömmu fyrr, og er þar heil, sem er óvenjulegt um svo gamalt handrit. Höfundurinn er ókunnur, en gæti hafa verið Norðmaður. Talið er að sagan sé samin skömmu eftir 1200. Snorri Sturluson virðist ekki hafa notað hana, þegar hann setti saman "Ólafs sögu helga hina sérstöku" og "Heimskringlu". Elísabet af Valois. Elísabet af Valois (2. apríl 1545 – 3. október 1568) var drottning Spánar (þar kölluð Isabel de Valois) frá 1559 til dauðadags. Hún var þriðja eiginkona Filippusar 2. Spánarkonungs. Elísabet var elsta dóttir Hinriks 2. Frakkakonungs og Katrínar af Medici. Í bernsku deildi hún svefnherbergi með Maríu Skotadrottningu, sem ólst upp við frönsku hirðina og var rúmum tveimur árum eldri. Þær urðu nánar vinkonur. Þegar Elísabet var barn að aldri var hún trúlofuð Karli prinsi af Astúríu, elsta syni Filippusar 2. Spánarkonungs, en bæði af pólitískum ástæðum og vegna bágrar geðheilsu Karls varð úr að Filippus gekk sjálfur að eiga hana 1559, ári eftir að önnur eiginkona hans, María 1. Englandsdrottning, lést. Elísabet var þá 14 ára en Filippus 32 ára. Þrátt fyrir aldursmuninn virðist hjónabandið hafa verið hamingjusamt. Filippus heillaðist af hinni ungu brúði sinni (sem var 29 árum yngri en María) og sleit sambandi við hjákonu sína. Elísabet virðist líka hafa verið ánægð með eiginmann sinn. Samband hennar við stjúpsoninn Karl var líka mjög gott en geðheilsuhans fór stöðugt hrakandi og að lokum neyddist Filippus til að láta loka hann inni, Elísabetu til mikillar sorgar. Karl prins dó svo skömmu síðar og er sagður hafa svelt sig í hel. Elísabet ól andvana tvíbura 1564, síðan tvær dætur sem komust upp, en árið 1568 fæddi hún andvana barn fyrir tímann og dó sama dag. Katrín af Medici vildi halda Filippusi sem tengdasyni og bauð honum yngstu dóttur sína, Margréti, en Filippus hafnaði boðinu. Þess í stað giftist hann systurdóttur sinni, Önnu af Austurríki. Karl prins af Astúríu. Don Carlos. Málverk eftir Alonzo Sánchez Coello. Karl prins af Astúríu (8. júlí 1545 – 24. júlí 1568) eða Don Carlos af Spáni var elsti sonur Filippusar 2. Spánarkonungs og fyrstu konu hans, Maríu Manúelu af Portúgal. Hann var líkamlega fatlaður og átti einnig við geðræna erfiðleika að stríða. Foreldrar Karls voru náskyld, systkinabörn báðum megin, svo að hann átti aðeins tvo langafa og tvær langömmur og aðeins sex langa- langafa og ömmur á meðan flestir eiga 16 forfeður í þeim lið. Talið er að þessi mikla skyldleikaræktun, sem viðgekkst öldum saman meðal Habsborgara og þó einkum spænsku og portúgölsku konungsfjölskyldnanna, hafi verið orsök þeirrar fötlunar sem hann átti við að stríða en hann var vanskapaður bæði í andliti og á vöxt. Móðir hans dó skömmu eftir fæðingu hans, tæplega átján ára að aldri, og Karl óx upp við eftirlæti föður síns en fór að sýna merki um geðtruflanir á unglingsárum. Hann var hins vegar ágætlega greindur og áhugasamur um utanríkismál. Árið 1559 var samið um trúlofun Karls og jafnöldru hans Elísabetar af Valois, elstu dóttur Hinriks 3. Frakkakonungs, en svo fór að hún giftist Filippusi föður hans í staðinn árið 1560. Ekkert bendir til þess að ástarsamband hafi verið milli Karls og Elísabetar en þau urðu góðir vinir og sýndu hvort öðru umhyggju. Ýmsar aðrar hugsanlegar brúðir voru til athugunar fyrir hinn unga prins, þar á meðal María Skotadrottning, Margrét af Valois, yngri systir Elísabetar og síðar drottning Frakklands, og Anna af Austurríki, sem seinna varð fjórða kona Filippusar 2. Árið 1562 datt Karl niður stiga og meiddist illa á höfði. Borað var gat á höfuðkúpuna til að létta af þrýstingi á heilann og tókst að bjarga lífi prinsins en eftir aðgerðina versnaði skap hans og geðheilsa til muna og varð meðal annars mjög andsnúinn föður sínum. Svo fór að í janúar 1568 lét Filippus handtaka son sinn og setja hann í einangrun. Karl prins lést sex mánuðum síðar og var því haldið fram að Filippus hefði látið eitra fyrir hann en talið er líklegast að hann hafi verið haldinn átröskun og hafi svelt sig í hel. Elísabet stjúpmóðir hans dó af barnsförum nokkrum mánuðum síðar. Sagan um Karl prins, Elísabetu af Valois og Filippus 2. hefur orðið kveikja að ýmsum bókmennta- og tónverkum og er þekktast þeirra óperan "Don Carlos" eftir Giuseppe Verdi. OMX Copenhagen 20. OMX Copenhagen 20 er hlutabréfavísitala sem samanstendur af 20 hlutabréfum í 19 fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. OMX Helsinki 25. OMX Helsinki 25 er hlutabréfavísitala sem samanstendur af 25 hlutabréfum í jafnmörgum fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni í Helsinki. Baník Karviná. Baník Karviná, HCB Karviná eða HC Baník OKD Karviná er tékkneskt handknattleiksfélag frá borginni Karviná í tékkneska hluta Slésíu. Félagið er eitt það sigursælasta í tékkneskum handknattleik og var áður í hópi sterkari félagsliða í Tékkóslóvakíu. Saga og titlar. Baník Karviná var stofnað árið 1955, fyrst sem drengjafélag í grunnskóla en jafnt og þétt fóru umsvif þess vaxandi. Liðið vann sér sæti í efstu deild í handknattleik karla í Tékkóslóvakíu og varð síðan meistari árið 1968 og skaut þar með Dukla Prag ref fyrir rass, en Dukla var eitt albesta handknattleikslið Evrópu og bar höfuð og herðar yfir samlanda sína á sjötta og sjöunda áratugnum. Árið 1972 hlaut Baník sinn annan Tékkóslóvakíumeistaratitil. Næstu áratugina var Baník Karviná í efstu deild og gerði nokkrum sinnum atlögu að titlinum, án árangurs. Eftir að Tékkland og Slóvakía fóru hvort í sína áttina, fór hagur Baník Karviná að vænkast. Á árunum 2000 til 2010 varð liðið Tékklandsmeistari tíu sinnum, aðeins árið 2003 gekk meistaratignin því úr greipum. Yfirburðir Baník Karviná heimafyrir hafa þó ekki skilað sér í alþjóðlegum keppnum. Ástæðan er sú að sterkustu leikmenn Tékka leika undantekningarlítið utan heimalands síns og er styrkleiki tékkneskra félagsliða því ekki í samræmi við styrk tékkneska landsliðsins. Baník Karviná heimsótti Ísland síðla árs 1965 í boði Knattspyrnufélagsins Fram og lék þá vígsluleik Laugardalshallar gegn úrvalsliði reykvískra handknattleiksmanna. OMX Stockholm 30. OMX Stockholm 30 er hlutabréfavísitala sem samanstendur af 30 hlutabréfum í 29 fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni í Stokkhólmi. Dómínókenningin. Dómínókenningin var kenning í utanríkisstefnu Bandaríkjanna á tímum Kalda stríðsins sem gekk út á það að ef eitt land tæki upp kommúnisma væri aukin hætta á því að nágrannalönd þess fylgdu í kjölfarið vegna dómínóáhrifa. Dómínókenningin var notuð til að réttlæta afskipti Bandaríkjamanna af stjórnmálum ríkja um allan heim. Hún var sérstaklega notuð til að réttlæta þátttöku Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu. OBX. OBX er hlutabréfavísitala sem samanstendur af 25 hlutabréfum í jafnmörgum fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni í Osló. Aaron Burr. Aaron Burr jr. (6. febrúar 1756 í Newark í New Jersey – 14. september 1836 á Staten Island) var þriðji varaforseti Bandaríkjanna, (1801 – 1805) undir Thomas Jefferson og var fyrsti varaforsetinn sem ekki varð forseti Bandaríkjanna. Hann barðist í frelsisstríðinu og gegndi mikilvægu pólitísku hlutverki í árdaga Bandaríkjanna. Stjórnmálaferill. Aaron Burr var lögfræðingur að mennt og fylgdi flokki demókratískra repúblikana í New York að málum. Hann sat á fylkisþingi New York 1784 –1785 og 1798 – 1799, var dómsmálaráðherra fylkisins 1789 – 1791 og öldungardeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi 1791 – 1797. Burr var í framboði til forsetaembættisins árið 1800 og urðu hann og Thomas Jefferson jafnir, með 73 kjörmenn hvor. Það kom því til kasta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kjósa á milli Burr og Jefferson. Á þessum tíma giltu aðrar reglur en nú um kosningu forseta og varaforseta, þannig að sá sem varð í fyrsta sæti varð forseti en sá sem lenti í öðru sæti varð varaforseti. Þetta þýddi að í þessum tveimur æðstu embættum gátu setið menn sem ekki tilheyrðu sama flokki (þessu var breytt með stjórnarskrárbreytingu 1804). Eftir 36 atkvæðagreiðslur í þinginu var Jefferson loks kosinn forseti en Burr varaforseti. Seinni ár. Aaron Burr beið lægri hlut í kosningum til fylkisstjóra New York 1804. Í þeim kosningum var Burr gagnrýndur hart af Alexander Hamilton en þeir höfðu lengi eldað grátt silfur saman í stjórnmálum. Eitt sinn voru þeir báðir, Burr og Hamilton, gestir í veislu og móðgaðist Burr við Hamilton og skoraði hann á hólm í einvígi. Einvígið fór fram 11. júlí 1804 og særði Burr Hamilton til ólífis. Burr var ákærður fyrir morð, bæði í New York og New Jersey, en ákærurnar voru seinna látnar niður falla. Einvígið sætti hins vegar það mikilli gagnrýni, að það eyðilagði frekari frama Burrs í stjórnmálum. Eftir nokkurra ára sjálfskipaða útlegð erlendis flutti Burr aftur til New York og stundaði lögfræðistörf en lifði að öðru leyti kyrrlátu lífi til dauðadags án frekari þátttöku í stjórnmálum. Burr, Aaron Burr, Aaron Árnabotn. Árnabotn er stuttur dalur inn af Hraunsfirði í Helgafellssveit. Þar um var vegur áður en Hraunsfjörður var brúaður en hefur nú verið aflagður, þó hann muni henta vel sem gönguslóði. Í Árnabotni eru þrjú eyðibýli. Niður í hann falla tveir fossar, Árnabotnsfossar. Berserkjagata. Berserkjagata liggur suðaustur frá bænum í Bjarnarhöfn í gegn um Berserkjahraun. Segir í Heiðarvíga sögu, að hún sé rudd af berserkjunum Halli og Leikni fyrir Styr og segja fræðimenn að sjá megi nokkuð glögglega dys, sem í hafa fundist mannabein tveggja þrekvaxinna karla þar hjá sem hlaðinn er garður meðfram götunni í Berserkjahrauni. Aðrir fræðimenn telja götuna hafa verið rudda af nauðsyn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og að hún og hraunið séu kennd við fjórar gróðurlausar vikurkúlur og gjallgíga sem gnæfa yfir hraunið og hafi þeir sökum gróðurleysis verið nefndir Berserkir. Breiðabólstaður á Skógarströnd. Breiðabólstaður á Skógarströnd er bær, fornt höfuðból, kirkjustaður og fyrrum prestssetur á Snæfellsnesi. Kirkja hefur verið þar síðan árið 1563 og þar brann með öllum gripum eldri kirkja árið 1971, en ný kirkja var reist þar aftur fljótlega, eða árið 1973. Sögur og sagnir. Í Eiríks sögu rauða segir að á Breiðabólstað á Skógarströnd hafi búið Þorgestur hinn gamli Steinsson og léði Eiríkur honum eitt sinn setstokka. Þegar svo Þorgestur skilaði ekki stokkum þessum, gerði Eiríkur rauði sér ferð og sótti þá. Þessu reiddist Þorgestur svo að hann veitti Eiríki eftirför. Sló svo í bardaga með þeim hjá Dröngum og féllu þar tveir synir Þorgests, sem þótti þar hafa farið ógæfuför. Brimilsvellir. Brimilsvellir er fyrrum stórbýli, bær og kirkjustaður, um 3 km austan við vegamótin til Fróðárheiðar. Þar var forðum stórbýli og sjóþorp fyrr á öldum, enda fyrrum mikið útræði stundað þaðan. Áður fyrr var þar bænhús, en þegar að kirkjan að Fróðá var færð til Ólafsvíkur, lengdist kirkjuferð fyrir hluta sóknarinnar og árið 1915 var ákveðið að skipta Ólafsvíkursókn og kirkja reist á Brimilsvöllum 1923. Hjá Brimilsvöllum ganga klettar í sjó fram og þar má ganga með ströndinni vestur að vogskornu Vallnabjargi, sem víða er í sérkennilegt stuðlaberg og þar er einnig allmikið af fugli. A.P. Møller-Mærsk. Höfuðstöðvar A.P. Møller-Mærsk í Kaupmannahöfn. A.P. Møller-Mærsk einnig þekkt sem Maersk á alþjóðavettvangi er dönsk fyrirtækjasamsteypa sem er meðal annars með rekstur á sviði sjóflutninga, vörustjórnunar og smásölu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Kaupmannahöfn. Danske Bank. Höfuðstöðvar Danske Bank í Kaupmannahöfn. Danske Bank er danskur banki sem rekur útibú á Norðurlöndunum, á Írlandi (Norður-Írlandi og Írska lýðveldinu) og í Eystrasaltslöndunum. Höfuðstöðvar bankans eru í Kaupmannahöfn. Nordea. Nordea Bank eða Nordea er norrænn banki. Höfuðstöðvar bankans eru í Stokkhólmi. Hugtök í nótnaskrift. Nótnaskrift á við þau tákn sem eru notuð í nótnaheftum. Lyklar. Lyklar afmarka tónhæðina og eru meðal fyrstu táknanna til vinstri á nótnastrengnum. Algeng formerki. Formerki breyta tónhæð þeirrar nótu sem það fylgir. modify the pitch of the notes that follow them on the same staff position within a measure, unless cancelled by an additional accidental. Colbie Caillat. Colbie Marie Caillat (f. 28. maí 1985) er bandarísk popp- og kántrísöngkona, lagahöfundur og gítarleikari frá Malibu, Kaliforníu. Hún gaf út sína fyrstu plötu árið 2007, "Coco", sem innihélt smellina „Bubbly“, „Realize“ og „The Little Things“. Árið 2008 söng hún dúett með Jason Mraz, „Lucky“, og vann lagið Grammy-verðlaun. Caillat gaf út sína aðra plötu, "Breakthrough", í ágúst 2009. 2. desember 2009 var "Breakthrough" tilnefnd sem besta popp-platan á 52. Grammy-verðlaununum. Hún var einnig tilnefnd tvisvar fyrir besta popp-samstarfið, fyrir að hafa sungið „Lucky“ með Jason Mraz og fyrir að hafa sungið bakraddir og skrifað lag Taylor Swift, „Breathe“, og var hún í hópnum sem vann „plötu ársins“ fyrir bakraddasöng sinn og hafa samið lög fyrir plötu Taylor Swift "Fearless". Colbie hefur selt 2,5 milljónir platna í Bandaríkjunum en um fjórar milljónir um allan heim. Ævi. Caillat fæddist í Newbury Park í Kaliforníu en ólst upp á Malibu í sama fylki. Faðir hennar, Ken Caillat, var plötuframleiðandi. Framleiðandinn Mikal Blue réð hina ungu Caillat til að syngja bakraddir í teknólögum sem átti að nota á tískusýningum. Caillat byrjaði að skrifa lög með Blue árið 2004. Heimildir. Caillat, Colbie Vestas. Vestas Wind Systems eða Vestas er danskt fyrirtæki sem framleiðir vindhverfla. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Randers. Púpa. Púpa (hýðisormur eða útklekingur) er eitt þróunarstig skordýra og er millistig milli lirfu og fullþroskaðs dýrs hjá skordýrum sem búa við algjöra myndbreytingu. Þegar skordýrið púpar sig, fer það í einhverskonar híði til að ummyndast og leggst stundum um leið í tímabundinn dvala. Silkiormarnir spinna utan um sig hýði úr þráðum (silki) og verða síðan að fiðrildum. Snorri Björnsson. Snorri Björnsson (eða Snorri á Húsafelli) (3. október 1710 – 15. júlí 1803) var íslenskur prestur og skáld á 18. öld, fyrst á Stað í Aðalvík en lengst af á Húsafelli í Borgarfirði. Snorri fæddist á Höfn í Melasveit, sonur Björns Þorsteinssonar bónda þar og konu hans Guðrúnar Þorbjarnardóttur. Móðuramma hans var Steinunn Finnsdóttir skáldkona. Snorri ólst upp í stórum systkinhópi og æfði ýmsar íþróttir með bræðrum sínum. Þeir kunnu meðal annars að synda, sem var mjög fátítt þá. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla og gerðist síðan prestur á Stað í Aðalvík. Þar var hann í 16 ár og kynntist þar konu sinni, Hildi Jónsdóttur, sem var dóttir fyrirrennara hans á Stað, Jóns Einarssonar. Árið 1757 fékk Snorri Húsafell og bjó þar síðan til dauðadags. Hann var lítill búmaður og komst því aldrei í miklar álnir en hann var góður smiður og fékkst töluvert við smíðar. Hann var líka sagður afar sterkur og er enn hægt að sjá á Húsafelli kvíar sem hann hlóð og aflraunasteininn sem sagt er að hann hafi reynt krafta sína og annarra á, Kvíahelluna, sem er 180 kíló. Fljótlega eftir að Snorri flutti að vestan lagðist á það orð að hann væri fjölkunnugur og hefði numið galdur af Hornstrandamönnum, en galdraorð lá löngum á mörgum Vestfirðingum. Var oft leitað til Snorra að liðsinna fólki sem taldi sig verða fyrir ásókn drauga og gekk honum oft vel að telja í það kjark og „lækna“ það og trúðu þá margir því að hann hefði kveðið niður draugana. Var sagt að hann hefði kveðið niður sjötíu eða áttatíu draug á Húsafelli, ýmist í Draugarétt eða Draugagili. Hann var talinn kraftaskáld en litlum sögum fer þó af ljóðagerð hans á yngri árum. Þegar hann tók að reskjast fór hann að yrkja, oft undir fornum og flóknum bragarháttum, en ljóð hans eru lítið við hæfi nútíðarmanna. Hann samdi líka leikrit, gleðileikinn "Sperðil", og er það elsta íslenska leikrit sem varðveitt er. Snorri átti þrjá syni og fjórar dætur sem upp komust. Björn sonur hans lærði til prests og varð aðstoðarprestur föður síns 1789 en varð að láta af embætti ári síðar vegna veikinda og dó 1797. Þá vígðist séra Jón Grímsson að Húsafelli en Snorri bjó þar áfram og messaði öðru hverju fram yfir nírætt. Afkomendur hans búa enn á Húsafelli. Miklar þjóðsögur spunnust um Snorra, bæði meðan hann var enn á lífi og eftir dauða hans. Um hann hafa verið skrifaðar bækur, meðal annars ævisagan "Snorri á Húasfelli", sem Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir sendi frá sér 1989. George Clinton. George Clinton (26. júlí 1739 – 20. apríl 1812) var bandarískur stjórnmálamaður, einn af landsfeðrum Bandaríkjanna, fyrsti fylkisstjóri New York (1777 – 1795 og 1801 – 1804) og fjórði varaforseti Bandaríkjanna (1805 – 1812). Clinton var annar tveggja varaforseta til að þjóna undir tveimur forsetum (hinn var John C. Calhoun), þeim Thomas Jefferson og James Madison og sá fyrsti til að deyja í embætti. Clinton, George Clinton, George Karviná. Karviná (pólska Karwina) er fimmtánda fjölmennasta borg Tékklands, með nærri 65 þúsund íbúa. Hún er höfuðstaður Karviná-héraðs, sem er eitt mikilvægasta kolaiðnaðarsvæði landsins. Langmikilvægasti vinnuveitandi héraðsins er námafyrirtækið OKD, sem stofnað var á valdatíma kommúnista í Tékkóslóvakíu. Fyrirtækið er jafnframt helsti bakhjarl Baník Karviná-handknattleiksliðsins og var heiti OKD bætt við nafn félagsins snemma á 21. öldinni. Runólfur Ágústsson. Runólfur Ágústsson (f. 9. apríl 1963) lögfræðingur og athafnamaður var rektor háskólans á Bifröst (1999-2006) og umboðsmaður skuldara, embættis sem hann gegndi reyndar aðeins einn dag, 3. ágúst 2010. Hljómsveitin Silfurberg. Silfurberg er íslensk hljómsveit sem samanstendur af sex einstaklingum, söngkonu og fimm hljóðfæraleikurum, en leiðir þeirra lágu saman í tónlistarskóla FÍH. Sumarið 2010 starfaði hljómsveitin sem sumarlisthópur hjá Hinu húsinu og flutti norræn þjóðlög í eigin útsetningum fyrir gesti og gangandi víðs vegar um Reykjavík. Útsetningarnar voru af ýmsum toga. Fyrsta plata þeirra, Skandimanía kom út í júlí 2010. Búlandshöfði. Búlandshöfði er höfði sem gengur brattur í sjó fram milli Eyrarsveitar og Fróðársveitar. Akvegur var gerður fyrir Búlandshöfða á árunum 1959-1961. Fyrir þann tíma var þar aðeins vandfarin hestaslóð um snarbrattar skriður með hengiflug fyrir bæði ofan og neðan. Heitir þrælaskriða þar sem leiðin er tæpust, en þar munu þrælar í leit að undankomu hafa fyrir sakir örvinglan hlaupið fyrir björg. Var Búlandshöfði, ásamt með Ólafsvíkurenni, lengi hinn mesti faratálmi og erfiðasti hluti leiðar um norðanvert Snæfellsnes. Í Búlandshöfða má finna í um 135-180 m hæð, merkileg jarðlög frá fyrri hluta ísaldar, harðnað jökulberg og steingerfinga af sjóskeljum. Ofan á sjávarseti með íshafsskeljum og jökulruðningi situr síðan leirkennd setlag með leifum af hlýsjávarskeljum sem hraun hefur runnið yfir á hlýindaskeiðum og jökullinn svo aftur í kjölfarið. Munu þessar leifar til marks um miklar loftslagssveiflur á ísöld og frá jökulskeiðum yfir á hlýrri skeið. Þannig mun jökulskjöldur hafa hulið mestan part landsins á kuldaskeiðum, sem vara í nokkur hundruð þúsund ár en loftslag og jökulhula hafa verið svipað og nú er á hlýindaskeiðum landsins sem talin eru spanna yfir um tíu til tuttugu þúsund ár. Má ætla að hlýindaskeið það sem nú hefur varað í um það bil tíu þúsund ár, sé eitt slíkt hlýindaskeið fremur heldur en lok ísaldar. Einarslón. Einarslón er fyrrum stórbýli, um 1 km fyrir austan Djúpalónssand og vestan við Malarrif. Þessi fyrrum útgerðar- og kirkjustaður sem nú er eyðibýli, var um tíma til helminga í eigu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara, er sótti þangað og í næsta nágrenni, innblástur og efni í mörg listaverk. Árið 1703 voru á Einarslóni um 62 ábúendur á 12 býlum alls. Einni öld síðar hafði þeim fækkað niður í 38 manns uns fór svo, að Einarslón lagðist í eyði um miðja síðustu öld. Má enn sjá þar móta fyrir bæjarrústum og fornum tóftum. Öndverðarnes. Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsnes og um leið Neshrauns, sem runnið er úr Öndverðarneshólum og Saxhólum. Á Öndverðarnesi var á árum áður mikil útgerð og margar þurrabúðir, en hún hefur nú verið í eyði frá árinu 1945. Jörðin er ríkisjörð og má sjá nokkrar rústir, auk þess sem að þar er rekinn viti. Þar má og finna haglega hlaðinn djúpann og að nokkru yfirbyggðan brunn, er ganga má niður í eftir nokkrum steinþrepum. Brunnurinn, sem nefndur er Fálki var áður eina vatnsból Öndverðarness og er hann ævaforn og friðaður með öllu. Sagan segir og var sú trú manna, að í Fálka væri að finna þrjár ólíkar lindir. Var ein með fersku vatni, önnur bar með sér einkenni ölkeldu og sú þriðja keim af salti. Fáskrúðarbakki. Fáskrúðarbakki er bær og kirkjustaður í Miklaholtshreppi, örskammt frá þjóðbraut á bakka árinnar Fáskrúðar. Þar hefur verið kirkja sem flutt var þangað frá Miklaholti, frá árinu 1934. Í kirkjunni eru nokkrir góðir gripir, til að mynda altaristafla frá árinu 1728. Í landi Fáskrúðsbakka er einnig félagsheimilið Breiðablik, sem reist var á árunum 1947-1950 og síðan endurbætt árið 1972. Fornihvammur. Fornihvammur er eyðibýli efst í Norðurárdal í Borgarfirði og var áður síðasti bær áður en lagt var á Holtavörðuheiði. Þar var um árabil rekið veitinga- og gistihús. Fornihvammur var gömul eyðijörð í eigu Hvammskirkju í Norðurárdal þegar Einar Gilsson frá Þambárvöllum byggði þar upp að nýju árið 1853. Bærinn varð þegar áningarstaður ferðamanna sem fóru yfir heiðina þrátt fyrir þrengsli og lítil efni ábúenda en árið 1883 byggðu hjónin Davíð Bjarnason og Þórdís Jónsdóttir þar rúmgóðan bæ í því skyni að veita ferðamönnum beina. Þegar hafið var að gera bílfæran veg norður var ljóst að umferð um Holtavörðuheiði mundi aukast mjög og varð úr að ríkissjóður keypti jörðina og Vegagerðin lét reisa þar gistihús sumarið 1926. Það var svo stækkað 1947 og gátu eftir það 50 manns gist þar og um 150 manns fengið þar mat samtímis. Áætlunarbílar milli Reykjavíkur og Akureyrar áttu þar fastan viðkomustað. Ábúendur í Fornahvammi höfðu jörðina leigulaust gegn því að sjá um rekstur gisti- og veitingahússins, Vegagerðinni að kostnaðarlausu. Eftir því sem vegirnir bötnuðu fækkaði þó viðkomum í Fornahvammi og umhverfið þótti ekki hafa upp á margt að bjóða fyrir almenna ferðamenn. Svo fór að gistihúsið hætti starfsemi vorið 1974 og jörðin fór í eyði. Þann 5. október 1983 var húsið brennt til grunna því það var talið ónýtt. Fróðá. Fróðá er eyðibýli í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi, í mynni Fróðárdals við þjóðveginn upp að Bugsvötnum. Fróðá hefur verið í eyði síðan árið 1929. Þar var kirkja fram til 1892, að hún var flutt til Ólafsvíkur. Hjá Fróðá eru vegamót, þar sem má komast á veginn norður með Snæfellsnesströnd og á annan veg suður yfir Fróðárheiði til Breiðuvíkur. Frá Fróðá liggja einnig leiðir vestur til Ólafsvíkur og austur til Búlandshöfða. Fróðárundur. Fróðá er þekkt fyrir Fróðárundur, dularfulla atburði sem segir frá í Eyrbyggju. Sumarið fyrir undrin hafði rignt yfir staðinn blóði að því er segir í sögunni, en sjálf undrin hófust vegna vofveiflegs dauða heimamanna. Þeim atburði fylgdi síðan urðarmáni er sveif um veggi og hús Fróðárbæjar. Eftir að það gekk yfir, sáust sjódauðir menn ganga til langelda og aðrir menn dauðir rísa úr gröfum sínum. Svo fór að gerð var gangskör að því að kveða þennan ófögnuð niður og var það gert með því að settur var dyradómur svokallaður yfir draugunum öllum, sextán að tölu, og farið þar í öllu að þingadómum. Að dóminum gengnum risu hinir dauðu upp úr sætum sínum og hurfu við svo búið á braut. Að svo komnu máli var vígt vatn borið á hús og helgir dómar bornir um og hefur ekki borið þar á draugum síðan. Cargotec. Cargotec er finnskt fyrirtæki sem meðal annars framleiðir lyftara, krana og annan vélbúnað sem notaður er til þess að flytja farm. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Helsinki. KONE. KONE er finnskt fyrirtæki sem meðal annars framleiðir lyftur og rúllustiga. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Espoo. Nokian Tyres. Nokian Tyres er finnskt fyrirtæki sem framleiðir hjólbarða. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Nokia. Tieto. Tieto er finnskt-sænskt fyrirtæki sem starfar í upplýsingatæknigeiranum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Helsinki. Elbridge Gerry. Elbridge Thomas Gerry (17. júlí 1744 í Marblehead Massachusetts – 23. nóvember 1814 í Washington D.C.) var bandarískur stjórnmála- og embættismaður, kjörinn fimmti varaforseti Bandaríkjanna undir James Madison (1813 – 1814). Gerry var annar varaforsetinn til að deyja í embætti og annar tveggja varaforseta James Madison sem báðir létust á meðan þeir gengdu embættinu (hinn var George Clinton). Hann var fyrsti varaforsetinn sem bauð sig aldrei fram til forseta. Gerry var níundi fylkisstjóri Massachusetts (1810 – 1812). Ævi og starfsferill. Gerry var þriðji í röð tólf systkina, lagði stund á læknisfræði við Harvard háskóla og starfaði jafnframt hjá skipafélagi föður síns. Hann gat sér fyrst frægðar fyrir andstöðu sína við skattlagningu Bresku krúnunnar á bandarískar vörur og var kosinn á fylkisþing Massachusetts 1772, á and-breskum forsendum. Elbridge Gerry var kjörinn á seinna fulltrúarþing hinna þrettán nýlenda (e. Continental Congress) og var einn af þeim sem undirritaði sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og hann skrifaði einnig undir fyrstu stjórnarskrá Bandaríkjanna (Articles of Confederation). Gerry var einn þriggja fulltrúa á bandaríska stjórnlagaþinginu 1787, sem neitaði að skrifa undir stjórnarskrá Bandaríkjanna vegna þess að í hana vantaði mannréttindakaflann, sem síðar var bætt við hana (Bill of Rights). Elbridge Gerry lést úr hjartaslagi í Washington D.C. þann 23. nóvember 1814. Gerry, Elbridge Gerry, Elbridge Blómkálseyra. Blómkálseyra (fræðiheiti:" hematoma auris, perichondrial hematoma" eða "traumatic auricular hematoma") er aflagað ástand ytra eyrans. Blómkálseyru eru algeng meðal þeirra sem stunda box, glímu, jiu-jitsu, júdó, rúbbí og blandaðar bardagaíþróttir. Þegar ytri hluti eyrans verður fyrir síendurteknum höggum eða áverkum getur blóðtappi eða aðrir líkamsvessar safnast fyrir undir brjóskhimnunni. Við það skilst brjóskið frá ofanáliggjandi himnunni sem veitir henni næringu og viðskilnaðurin veldur því að brjóskið deyr. Það leiðir síðan til aflögunar á húðinni sem liggur ofan á brjóski ytra eyrans. Þegar þetta gerist verður ytra eyrað varanlega bólgið og afmyndað og minnir á blómkál. Daniel Tompkins. Daniel D. Tompkins (21. júní 1774 í Scarsdale í New York – 11. júní 1825 í Tompkinsville á Staten Island) var bandarískur frumkvöðull, lögfræðingur, fjórði fylkisstjóri New York (1807 – 1817) og sjötti varaforseti Bandaríkjanna, (1817 – 1825), undir James Monroe. Ævi og starfsferill. Tompkins stundaði lögfræðinám við Columbia-háskóla og útskrifaðist 1797. Hann stundaði lögfræðistörf í New York og var fulltrúi á stjórnlagaþingi fylkisins 1801. Hann var kosinn þingmaður í fulltrúadeild fylkisins 1804 en tók ekki sæti á þingi, heldur varð í staðinn dómari við Hæstarétt New York-fylkis. Árið 1807 sigraði hann sitjandi fylkisstjóra, Morgan Lewis, í fylkisstjórakosningum New York og var endurkjörinn þrisvar sinnum. Hann varð einn af afkastamestu „stríðsfylkisstjórunum“ í stríðinu við Breta 1812. Hann hóf einnig ferjusiglingar á milli Staten Island og Manhattan. Hann afþakkaði boð James Madison forseta um að gerast utanríkisráðherra í stjórn hans. Á árum sínum sem fylkisstjóri New York hafði Tompkins persónulega gengið í ábyrgð fyrir lánum til að standa straum af kostnaði fylkisins í stríðinu við Breta 1812, þegar fylkisþingið neitaði að samþykkja fjárlög þess efnis. Eftir stríðið hófst áralangt málaskak vegna þessara lána en hvorki New York-fylki né alríkisstjórnin borguðu féð til baka. Þetta tók sinn toll af bæði fjárhag og heilsu Tompkins og hann hóf að drekka ótæpilega, var meðal annars oft drukkinn í þinginu þegar hann var varaforseti Bandaríkjanna. Daniel D. Tompkins lést 21. júní 1825, aðeins 99 dögum eftir að hann lét af störfum sem varaforseti. Tompkins, Daniel Tompkins, Daniel Haraldur hérafótur. Haraldur hérafótur - eða hugmynd síðari tíma listamanns um hann. Haraldur hérafótur (um 1015 – 17. mars 1040) eða Haraldur 1. (enska: "Harold Harefoot") var konungur Englands frá 1037 til dauðadags og áður ríkisstjóri frá 1035, svo að konungstíð hans er yfirleitt talin frá þeim tíma. Auknefni hans mun vísa til þess að hann hafi verið fljótur á fæti og mikill veiðimaður. Haraldur var sonur Knúts mikla, konungs Englands, Danmerkur og Noregs, og Ælfgifu konu hans. Albróðir hans var Sveinn Alfífuson en yngri hálfbróðir hans, sonur Knúts og Emmu drottningar, var Hörða-Knútur. Knútur dó 12. nóvember 1035 og þá var Hörða-Knútur löglegur arftaki hans þar sem hann var skilgetinn en hann var í Danmörku og komst ekki til Englands að láta krýna sig þar sem hann átti í átökum við Norðmenn og Svía um þær mundir. Haraldur hérafótur var þá gerður að ríkisstjóra þar til Hörða-Knútur gæti tekið við en margir Englendingar vildu hann frekar sem konung. Helstu andstæðingar hans voru hins vegar þau Guðini jarl af Wessex, Emma ekkjudrottning og synir hennar með Aðalráði ráðlausa, fyrri eiginmanni hennar, Alfreð og Játvarður góði. Fljótlega skarst í odda, Emma hraktist til Flæmingjalands eftir að Haraldur hafði komið Alfreð syni hennar fyrir kattarnef, og Haraldur var kosinn konungur 1037. Fátt er raunar vitað um hann og stjórn hans og hefur þess verið getið til að Alfífa móðir hans hafi verið hinn raunverulegi stjórnandi ríkisins. Hörða-Knútur hálfbróðir hans hafði á endanum treyst sig svo í sessi að hann ákvað að sigla til Englands og freista þess að ná völdum þar. Hann kom við í Brügge, þar sem móðir hans var, og á meðan hann dvaldi þar bárust þau tíðindi að Haraldur hérafótur hefði látist óvænt í Oxford, 17. mars 1040. Sigldi hann þá til Englands og tók við kórónunni. Haraldur var ókvæntur en er sagður hafa átt son sem gerðist munkur. Fróðárheiði. Fróðárheiði er fjallvegur sem liggur yfir Snæfellsnes til Fróðársveitar, austan við Ólafsvík. Sunnan megin við heiðina liggja vegamótin upp á hana skammt frá Búðum, en að norðan skammt austan við Ólafsvík. Heiðin þessi er raunverulega snjóþungt og veðrasamt skarð, en þó liggur vegurinn þar sem fer hjá Rjúpnaborgum í um 361 m hæð yfir sjávarmáli. Reimt mjög hefur þótt á Fróðárheiði og eru til um það margar sögur. Grettisbæli. Grettisbæli er 426 m hátt móbergsfjall, er gengur suðaustur úr Fagraskógarfjalli (684 m). Efst í fjallinu eru skörðóttir móbergstindar er standa upp úr annars snarbröttum skriðunum. Í Grettis sögu segir að Grettir Ásmundarson hafi haft aðsetur í hellisskúta í fjallinu í þrú ár, enda hafi fjallið verið mjög svo ákjósanlegt vígi til varna frá náttúrunnar hendi. Aðrar heimildir segja hann hafa dvalist þar nokkuð skemur, eða í um eitt ár. Mun Grettir hafa gengið svo frá hellismuna að lítið bæri þar á mannaferðum og síðan herjað á nágrannabyggðir um vistir og viðurværi. Gullborgarhraun. Gullborgarhraun er hraun sem runnið hefur úr eldstöðinni Gullborg í Hnappadal fyrir 7000-9000 árum. Sjálft eldvarpið, Gullborg (143 m) er austarlega og sunnarlega í hrauninu sem er það stærsta í Hnappadal, um 15 ferkílómetrar. Í Gullborgarhrauni fundust árið 1957, nokkrir stórir hellar sem þykja skoðunarverðir og þá einkum fyrir sakir sérkennilegrar dropasteinsmyndunar og eru þeir á náttúruminjaskrá. Nefnist lengsti hellirinn, sem er um 670 m að lengd Borgarhellir og stutt frá honum samsíða, liggur 320 m langur Vegghellir. Hellir sá dregur nafn sitt af minjum um mannvist í hellinum, fornum hlöðnum vegg er nánast lokar hann af einum 70 m innan hellismunnans. Veggur þessi í Vegghelli er hlaðinn úr hraungrýti sem þar er fyrir að finna og er getum að því leitt, að hann hafi annað hvort hlaðið útigangsmenn er þar hafi hafst við, eða að þar hafi verið fylgsni Arons Hjörleifssonar, er var liðsmaður Guðmundar Arasonar biskups og segir frá í Sturlungu. Gekk Aron þessi skörulega fram í bardaga í Grímsey þá er Sturlungar freistuðu þess að ráða hann af dögum og þurfti hann af þeim sökum að fara huldu höfði eftir það. Hafa sagnir verið um Aronshelli á þessum slóðum sem nú er týndur. Helgrindur. Helgrindur eru fjallabálkur ofan Grundarfjarðar er myndar meginfjöll í fjallgarðinum á Snæfellsnesi. Snjóa leysir aldrei í efstu tindum Helgrinda og leggur þar oft stórviðri niður fjallaskörðin í Grundarfjörð. Í hvassviðri hvín svo hátt í Helgrindum, að heyrist sem væl niður í byggð. En þó Helgrindur þyki hrikalegar ásýndum úr byggð munu þær þó ágætlega kleifar göngugörpum, sem geta gengið á þrjá tinda Helgrinda, sem er Tröllkerling (891 m), Böðvarskúla (988 m) og Kaldnasi (986 m) hvaðan mun vera frábært útsýni til allra átta. Umboðsmaður skuldara. Embætti Umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem heyrir undir velferðarráðuneyti á að gæta hagsmuna skuldara gagnvart lánastofnunum og veita umbjóðendum sínum aðstoð til að komast úr skuldavanda. Embættið tók til starfa 1. ágúst 2010 samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010. Stofnunin er byggð á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem starfað hafði síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Runólfur Ágústsson lögfræðingur var skipaður umboðsmaður skuldara og tók við embættinu þann 1. ágúst 2010. Tveimur dögum síðar, þann 3. ágúst, sagði Runólfur sig frá embættinu eftir að fjölmiðlar höfðu fjallað um fjárhagsleg málefni hans. Þann 4. ágúst 2010 var Ingi Valur Jóhannsson þáverandi deildarstjóri í í félags- og tryggingamálaráðuneytinu settur tímabundið til að gegna embætti umboðsmanns skuldara. Ásta Sigrún Helgadóttir lögfræðingur tók svo við embættinu 5. ágúst 2010. Hún hafði áður gegnt forstöðu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Hlutverk umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum er m.a. að gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á. Einnig á hann að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar. Í kjölfarið að hafa hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi. Önnur hlutverk eru að veita aðstoð við gerð samninga um greiðsluaðlögun og að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Þá á Umboðsmaður skuldara að vera félags- og tryggingamálaráðherra til ráðuneytis um málefni skuldara og stefnumörkun á því sviði og útbúa framfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega og taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds. Hjá umboðsmanni starfa í dag um 70 starfsmenn. San Cristóbal de La Laguna. San Cristóbal de La Laguna San Cristóbal de La Laguna, einnig nefnd La Laguna, er borg á Tenerife og er þriðja stærsta borg Kanaríeyja. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Íbúar borgarinnar eru um 150 þúsund. La Laguna er nálægt Santa Cruz de Tenerife sem er höfuðborg Tenerife. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði eða SAM eru hagsmunasamtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði á Íslandi. Vilhjálmur 1. Englandskonungur. Vilhjálmur 1. (um 1028 – 9. september 1087), oft nefndur Vilhjálmur bastarður eða Vilhjálmur sigursæli (franska: "Guillaume le Bâtard" eða "Guillaume le Conquérant") var konungur Englands frá 1066 til dauðadags og jafnframt hertogi af Normandí frá 1035. Hann var fyrsti Normannakonungur Englands. Hertogi af Normandí. Vilhjálmur fæddist líklega í Falaise-höll í Normandí haustið 1028 en hugsanlega þó ári fyrr. Hann var óskilgetinn einkasonur Róberts 1. hertoga af Normandí og frillu hans, Herleifar. Vilhjálmur var fimmti liður í beinan karllegg frá Göngu-Hrólfi Rögnvaldssyni. Afasystir hans var Emma af Normandí, sem gift var Aðalráði ráðlausa Englandskonungi og síðan Knúti mikla og var móðir Englandskonunganna Hörða-Knúts og Játvarðar góða. Faðir Vilhjálms lést í Níkeu 2. júlí 1035 á heimleið úr pílagrímsferð til Jerúsalem. Áður en hann hélt af stað hafði hann útnefnt Vilhjálm erfingja sinn og varð hann hertogi þótt óskilgetinn væri en ýmsir töldu sig þó eiga gildara tilkall til hertogadæmisins og var líf hans því í stöðugri hættu þegar hann var barn. Hann naut þó stuðnings Hinriks 1. Frakkakonungs og náði snemma góðum árangri í baráttu við fjandmenn sína og uppreisnarmenn. Árið 1053 gekk Vilhjálmur að eiga Matthildi af Flæmingjalandi, sem var fjarskyld frænka hans (hún var líka afkomandi Göngu-Hrólfs í fimmta lið) og styrkti hjúskapurinn hann mjög í sessi. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott og þau eignuðust tíu börn saman. Innrásin í England. Þegar Játvarður góði Englandskonungur dó barnlaus 5. janúar 1066 gerðu þrír tilkall til ensku krúnunnar: Haraldur Guðinason, jarl af Wessex, Haraldur harðráði Noregskonungur og Vilhjálmur, sem var skyldur Játvarði gegnum Emmu móður hans en þó ekki sjálfur afkomandi Englandskonunga. Vilhjálmur hélt því fram að Játvarður, sem hafði dvalið langdvölum í Normandí í útlegð á meðan danskir konungar réðu Englandi, hefði heitið sér ríkinu árið 1052 og svarið sér hollustueið árið 1064. Játvarður hafði þó arfleitt Harald Guðinason að krúnunni á banabeði. Fall Haraldar Guðinasonar. Mynd á Bayeux-reflinum. Haraldur var krýndur konungur daginn eftir lát Játvarðar en Vilhjálmur undirbjó innrás og safnaði saman miklum flota við strendur Normandí. Sagt er að hann hafi haft 696 skip. Haraldur safnaði jafnframt saman miklu herliði á suðurströnd Englands. Vilhjálmur gat þó ekki lagt af stað strax í innrásina vegna óhagstæðra vinda og má segja að það hafi orðið honum til happs að innrásin tafðist í marga mánuði. Honum tókst að halda liði sínu saman en Haraldi gekk það verr og þegar kom að uppskerutímanum um haustið sendi hann menn sína heim að gæta búa sinna. En örskömmu síðar bárust þær fréttir að Haraldur harðráði væri kominn með her frá Noregi og hefði tekið land skammt frá York. Haraldur kallaði þá lið sitt saman að nýju, skundaði norður á bóginn og vann sigur á innrásarliðinu í bardaga 25. september. Vindáttin hafði breyst 12. september og floti Vilhjálms sigldi úr höfn, þurfti að vísu að leita vars og bíða átekta, en 28. september tók Vilhjálmur land á strönd Sussex og hélt til Hastings, þar sem hann lét reisa virki úr timburflekum sem hann hafði haft með sér, rændi vistum frá bændum í kring og beið komu Haraldar. Haraldur og menn hans fóru 388 kílómetra á fimm dögum til að mæta innrásarhernum og þegar nálgaðist Hastings sló í bardaga, 14. október 1066. Orrustan við Hastings stóð allan daginn og þótt hersveitirnar væru álíka fjölmennar voru menn Vilhjálms mun betur búnir vopnum og öðrum hergögnum. Þeim gekk þó verr í fyrstu en síðan snerist bardaginn Normönum í hag, Haraldur féll og bræður hans einnig, og þeir Englendingar sem eftir lifðu voru reknir á flótta. Andspyrna gegn Vilhjálmi. Vilhjálmur bjóst við að verða útnefndur konungur eftir fall Haraldar en þess í stað tóku Englendingar unglinginn Játgeir, bróðursonarson Játvarðar góða, til konungs, en hann var þó ekki krýndur. Vilhjálmur hélt þá til London og hugðist taka borgina en mætti mótspyrnu. Eftir að Vilhjálmi barst liðsauki frá Normandí tókst honum þó að þvinga Englendinga til að gefast upp, Játgeir sagði af sér og Vilhjálmur var tekinn til konungs. Hann var krýndur í Westminster Abbey á jóladag 1066. Andspyrna gegn Vilhjálmi hélt þó áfram í Norður-Englandi og víðar allt til 1072. Íbúar Norðymbralands gerðu uppreisn árið 1068 undir forystu Játgeirs, sem naut einnig stuðnings Skota og Dana. Vilhjálmi tókst þó að bæla þessa uppreisn og aðrar niður og lagði hluta Norðymbralands í auðn, brenndi allt sem brunnið gat, drap búfénað og sáði salti í akra að sögn. Þegar honum hafði tekist að berja niður alla mótspyrnu í Norður-Englandi gerði hann innrás í Skotland. Ríkisstjórn Vilhjálms. Ensk mynt frá ríkisárum Vilhjálms 1. með andlitsmynd hans Vilhjálmur dvaldi lítið í Englandi. Hann var um kyrrt í Normandí og stýrði með tilskipunum. Eftir að hann náði Englandi á sitt vald jukust áhrif og mikilvægi hertogadæmisins Normandí til mikilla muna og Vilhjálmur reyndi að ná Bretagne á sitt vald. Hann átti í útistöðum og deilum við ýmsa aðra franska hertoga en alvarlegasta ógnunin var þó uppreisn sem elsti sonur hans, Róbert, efndi til gegn honum og þurfti Vilhjálmur að leita aðstoðar Frakkakonungs. Í bardaga árið 1079 veitti Róbert föður sínum sár með sverði en áttaði sig þá á því hvern hann var að berjast við og hlífði honum. Árið 1080 tókst Matthildi drottningu þó að sætta feðgana. Hún er sögð hafa haft góð áhrif á Vilhjálm og stjórn hans varð mun harðari eftir að hún lést 1083. Miklar breytingar urðu í Englandi á konungsárum Vilhjálms. Hann dró úr áhrifum aðalsmanna og jók miðstýringu. Hann lét byggja kastala og virki víða um landið og kom þar fyrir liði til að bæla niður uppreisnir. Hann setti normannska aðalsmenn í staðinn fyrir nær allan engilsaxneska aðalinn; suma hrakti hann í útlegð eða rak af landi sínu og lét eignir þeirra og titla í hendur Normanna. Árið 1086, þegar Dómsdagsbókin var skráð, voru aðeins 8% jarðeigna í höndum engilsaxneskra aðalsmanna. Dauði og erfingjar. Í umsátri um borgina Mantes árið 1087 féll Vilhjálmur af hestbaki og hlaut meiðsli sem drógu hann til dauða. Hann dó í Rouen 9. september og hafði áður skipt löndum sínum og eignum milli þriggja eftirlifandi sona sinna, en sá næstelsti, Ríkharður hertogi af Bernay, var þá látinn. Róbert fékk hertogadæmið Normandí, Vilhjálmur rauður fékk England í sinn hlut og varð Vilhjámur 2. og yngsti sonurinn, Hinrik, fékk fimm þúsund pund silfurs sem hann átti að nota til að kaupa sér land. Hann varð seinna Hinrik 1. Englandskonungur þar sem Vilhjámur 2. dó barnlaus. Vilhjálmur og Matthildur áttu líka sex dætur en aðeins ein þeirra, Adela af Blois, átti afkomendur. Hún var móðir Stefáns Englandskonungs. John C. Calhoun. John Caldwell Calhoun (18. mars 1782 í Abbeville Karólínu – 31. mars 1850 í Washington D.C.) var sjöundi varaforseti Bandaríkjanna (1825 – 1832) og einn af fremstu stjórnmálamönnum frá suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrri helmingi nítjándu aldar, jafnt í ræðu sem riti. Hann var annar tveggja varaforseta í sögu Bandaríkjanna til að þjóna undir tveimur forsetum (hinn var George Clinton), þeim John Quincy Adams og Andrew Jackson. Hann var einnig annar tveggja varaforseta til að segja af sér embætti (hinn var Spiro T. Agnew). Calhoun, John C. Sumarólympíuleikarnir 1960. Ólympíuleikvangurinn í Róm. Framkvæmdir við völlinn hófust árið 1901 og hefur hann margoft verið endurnýjaður, síðast fyrir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu 1990. Sumarólympíuleikarnir 1960 voru haldnir í Rómaborg á Ítalíu frá 25. ágúst til 11. september. Mikið var lagt í umgjörð leikanna, þar sem heimamenn kappkostuðu að rifja upp forna sögu Rómar. Íslendingar bundu vonir við að Vilhjálmur Einarsson kæmist á verðlaunapall eins og fjórum árum fyrr, en hann hafnaði í fimmta sæti í þrístökkskeppninni. Aðdragandi og skipulag. Rómaborg átti á sínum tíma að halda Ólympíuleikana 1908 en fallið var frá því, ekki hvað síst vegna eldgoss í Vesúvíusi árið 1906. Ákvörðunin um staðarvalið var tekin sumarið 1955. Sex aðrar borgir sóttust eftir upphefðinni: Brussel, Búdapest, Detroit, Lausanne, Mexíkóborg og Tókýó. Fór Róm með sigur af hólmi eftir harða baráttu við Lausanne. Íþróttamenn frá 83 löndum tóku þátt á leikunum, en líkt og á leikunum 1956 og 1964 kepptu Austur- og Vestur-Þjóðverjar saman undir merkjum Þýskalands. Suður-Afríka var meðal þátttökulanda í síðasta sinn uns aðskilnaðarstefnan var afnumin í landinu. Keppnisgreinar. Keppt var í 150 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Austur-þýska dýfingarkonan Ingrid Krämer var sigursæl á Ólympíuleikunum 1960. Bandaríski spretthlauparinn Wilma Rudolph vann gullverðlaun í 100 metrum, 200 metrum og 4*100 metra boðhlaupi. Hún öðlaðist miklar vinsældir heimafyrir og var mikið gert úr þeirri staðreynd að hún átti við lömunarveiki og fleiri alvarlega sjúkdóma að etja fram á unglingsár. Abebe Bikila frá Eþíópíu varð fyrstur þeldökkra Afríkubúa til að vinna gullverðlaun á Ólympíuleikum þegar hann kom fyrstur í mark í Maraþonhlaupi. Undrun vakti að hann hljóp berfættur alla leiðina. Rafer Johnson frá Bandaríkjunum hlaut gullverðlaunin í tugþraut. Meðan á æfingum fyrir leikana stóð bauðst honum hlutverk í stórmyndinni Spartacus, sem hann neyddist að lokum til að afþakka þar sem talið var að slíkur kvikmyndaleikur myndi stangast á við áhugamannareglur Ólympíuleikanna. Tyrkir höfnuðu í sjötta sæti yfir fjölda gullverðlauna á leikunum, með sjö slík verðlaun. Þau unnust öll í fangbragðakeppninni. Sovétmennirnir Yury Vlasov sigraði í þungavigt kraftlyftinga. Vlasov þótti óvenjulegur lyftingakappi, skartaði þykkum gleraugum og lá í bókum. Hann sneri sér síðar að ritstörfum og stjórnmálum og átti um tíma sæti á rússneska þinginu. Gríski krónprinsinn sigraði í siglingum á Ólympíuleikunum. Danskur hjólreiðakappi, Knud Enemark Jensen, hneig niður í miðri hjólreiðakeppninni og var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi skömmu síðar. Hann varð þar með annar íþróttamaðurinn í sögu nútímaólympíuleikanna til að deyja í keppni. Síðar kom í ljós að lyfjanotkun Jensens hefði átt hlut að máli og varð það til þess að farið var að taka lyfjamisnotkun íþróttamanna fastari tökum en verið hafði. Aladár Gerevich var í gullverðlaunasveit Ungverja í skylmingakeppninni, fimmtugur að aldri. Hann vann þar með til verðlauna á sínum sjöttu leikum, en hann keppti fyrst í Los Angeles árið 1932. Kóngafólk var fyrirferðarmikið í siglingakeppninni. Gríski krónprinsinn (síðar Konstantín II Grikkjakonungur) vann til gullverðlauna fyrir þjóð sína, en Soffía systir hans (síðar drottning Spánar) keppti í kvennaflokki. Pakistan rauf óslitna sigurgöngu Indverja í hokkíkeppninni frá leikunum 1928. Sovésku stúlkurnar unnu fimmtán af sextán mögulegum verðlaunum í fimleikakeppninni. Cassius Clay, sem síðar tók upp nafnið Muhammad Ali, sigraði í -81 kílógramma flokki hnefaleikakeppninnar. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar sendu níu íþróttamenn til keppni á leikunum, sjö frjálsíþróttamenn og tvo keppendur í sundi. Ágústa Þorsteinsdóttir keppti í sundi og varð fyrsta konan til að keppa fyrir Íslands hönd á sumarólympíuleikum frá því á leikunum í Lundúnum tólf árum fyrr. Svavar Markússon varð tuttugasti í 1.500 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti, 3:47,1 mínútum. Var það eina Íslandsmetið á leikunum. Mestar vonir voru bundnar við Vilhjálm Einarsson. Til að gefa honum kost á að prófa aðstæður, var Vilhjálmur einnig skráður til keppni í langstökki, þrátt fyrir að leggja ekki sérstaklega stund á þá grein. Í úrslitum þrístökkskeppninnar stökk Vilhjálmur 16,37 metra. Það var lengra en sigurstökkið á leikunum fjórum árum fyrr, en gaf að þessu sinni fimmta sætið. Íslenska knattspyrnulandslíðið tók þátt í forkeppni Ólympíuleikanna og var í riðli með Danmörku og Noregi. Liðið komst ekki áfram en gerði jafntefli á útivelli gegn Dönum, þar sem litlu mátti muna að Íslendingar ynnu sinn fyrsta sigur á gömlu herraþjóðinni. Sumarólympíuleikarnir 1948. a> var aðalíþróttavöllur Ólympíuleikanna 1948. Sumarólympíuleikarnir 1948 voru haldnir í Lundúnum í Bretlandi frá 29. júlí til 14. ágúst. Leikarnir báru þess merki hversu skammt var frá lokum seinni heimsstyrjaldarinanr. Ekki voru reist ný mannvirki, heldur notast við leikvanga sem fyrir voru. Aðstaða íþróttamanna var fábrotin og tóku sum keppnislið með sér vistir að heiman vegna matarskömmtunar. Aðdragandi og skipulagning. Árið 1939 hafði verið ákveðið að Ólympíuleikarnir 1944 færu fram í Lundúnum. Þeir féllu þó niður vegna stríðsins. Miklar efasemdir voru um að Bretar hefðu burði til að halda leikanna 1948 vegna eyðileggingar stríðsins og vildu ýmsir að Bandaríkjamönnum yrði falin framkvæmd þeirra. Georg 6. lagði hins vegar mikla áherslu á að leikarnir yrðu haldnir samkvæmt áætlun og taldi það mikilvægt til að þjóðin rétti úr kútnum. Það var ekki fyrr en í mars 1946 að Alþjóðaólympíunefndin ákvað að Lundúnir skyldu hýsa leikana. Aðrar borgir sem sóttust eftir upphefðinni voru Baltimore, Minneapolis, Los Angeles, Fíladelfía og Lausanne í Sviss. Hinn skammi undirbúningstími og erfiðleikar í kjölfar stríðsins hafði talsverð áhrif á framkvæmd mótsins. Þýskaland og Japan fengu ekki að keppa á þessum Ólympíuleikum vegna styrjaldarinnar og Sovétríkin afþökkuðu boð um þátttöku. Ákveðið var að tendra Ólympíueldinn í Ólympíu í Grikklandi líkt og gert hafði verið í Berlín tólf árum fyrr og hlaupa með hann á keppnisstaðinn. Hefur þessi hefð haldist upp frá því í tengslum við leikana. Keppnisgreinar. Keppt var í 136 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Bandaríkin unnu til flestra gullverðlauna. Næstir komu Svíar og þá Frakkar. Fanny Blankers-Koen var kjörin frjálsíþróttakona 20. aldar af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu árið 1999. Hollenska hlaupakonan Fanny Blankers-Koen varð hetja frjálsíþróttakeppninnar. Hún vann fern gullverðlaun í hlaupagreinum, þrátt fyrir að vera þrítug og tveggja barna móðir (og ófrísk af því þriðja eins og síðar kom í ljós). Fram að þeim tíma hættu íþróttakonur undantekningarlítið keppni þegar þær hófu hjúskap. Micheline Ostermeyer frá Frakklandi vann til gullverðlauna í kúluvarpi og kringlukasti, auk bronsverðlauna í hástökki. Auk frjálsíþróttanna var Ostermeyer einhver kunnasti píanóleikari sinnar tíðar í Frakklandi. Finninn Tapio Rautavaara sigraði í keppni í spjótkasti. Auk þess að vera um þær mundir einn helsti íþróttagarpur Finnlands, var hann einn vinsælasti dægurlagasöngvarinn í heimalandinu auk þess að leika í fjölda kvikmynda. Svíin William Grut sigraði í nútímafimmtarþraut. Bandaríkjamaðurinn Bob Mathias sigraði í tugþraut. Hann var einungis sautján ára að aldri og yngstur allra til að hljóta gull í frjálsum íþróttum. Gantaðist hann sjálfur með að rétt væri að fagna titlinum með því að byrja að raka sig! Síðar átti Mathias sæti í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Repúblikanaflokkinn. Ungverjinn Károly Takács sigraði í skammbyssuskotkeppninni af 25 metra færi. Afrek hans vakti mikla athygli, þar sem hann missti hægri höndina í stríðinu og þurfti því að æfa sig frá grunni í að skjóta með vinstri. Edwin Vásquez frá Perú vann gullverðlaunin í 50 metra skammbyssuskotfimi. Er hann eini gullverðlaunahafinn í Ólympíusögu landsins. Tyrkneskir glímukappar hlutu sex af sextán gullverðlaunum í fjölbragðaglímukeppninni og Svíar fimm. Finninn Veikko Huhtanen var sigursælastur fimleikamanna með fimm verðlaun, þar af þrenn gullverðlaun. Voru það flest verðlaun einstaks keppanda á leikunum. Á bogahesti urðu þrír Finnar efstir og jafnir að stigum og deildu því með sér gullverðlaunum. Svíar urðu Ólympíumeistarar í knattspyrnu. Í liði þeirra voru félagarnir Gunnar Nordahl, Gunnar Gren og Nils Liedholm. Þeir gengu skömmu síðar til liðs við ítalska stórliðið A.C. Milan. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar sendu stóran hóp til keppni á leikunum í Lundúnum. Tólf frjálsíþróttamenn og átta keppendur í sundi, þar af þrjár konur. Til tals kom að senda lið knattspyrnumanna en til þess kom ekki vegna ágreinings innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Þess í stað voru fjórir knattspyrnumenn sendir utan til að fylgjast með keppninni og læra af henni. Íslenskt íþróttalíf var í talsverðum blóma um þessar mundir og voru sumir bestu frjálsíþróttamenn landsins í fremstu röð. Bestum árangri Íslendinga náði Örn Clausen sem varð tólfti í tugþraut af 35 keppendum. Örn var aðeins nítján ára og hafði ekki keppt áður í tugþrautinni. Tvíburabróðir hans Haukur varð þrettándi í 100 metra hlaupi og í kringum tuttugasta sætið í 200 metrunum. Þá varð Óskar Jónsson fimmtándi í 800 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti. Í sundkeppninni komst Sigurður Þ. Jónsson í undanúrslit í 200 metra bringusundi og hafnaði í fjórtánda sæti. Var það besti árangur íslenskra sundmanna í Lundúnum. Sumarólympíuleikarnir 1936. Sumarólympíuleikarnir 1936 voru haldnir í Berlín í Þýskalandi frá 1. ágúst til 14. ágúst. Keppnisgreinar. Keppt var í 129 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Indverjar urðu hlutskarpastir í hokkíkeppninni. Þjóðverjar hlutu flest gullverðlaun á leikunum, 33 á móti 24 gullverðlaunum Bandaríkjamanna. Í frjálsíþróttakeppninni komust Bandaríkjamenn hins vegar fjórtán sinnum á efsta pall en Þjóðverjar aðeins fimm sinnum. Bandaríkjamaðurinn Jesse Owens vann eitt mesta afrek Ólympíusögunnar með því að vinna til fernra gullverðlauna: í 100 og 200 metra hlaupi, langstökki og 4*100 metra boðhlaupi. Heimildir herma að Adolf Hitler hafði stórlega mislíkað að þeldökkur íþróttamaður yrði stjarna leikanna. Glenn Morris frá Bandaríkjunum sigraði í tugþraut á nýju heimsmeti. Að leikunum loknum fetaði hann í fótspor sundkappans Johnny Weissmuller með því að leika Tarzan apabróður á hvíta tjaldinu. Sohn Kee-Chung sigraði í Maraþonhlaupinu og varð þar með fyrsti Kóreubúinn til að vinna til gullverðlauna. Þar sem Kórea var á þessum tíma undir yfirráðum Japana, þurfti hann þó að keppa fyrir þeirra hönd og undir japanskri útgáfu nafns síns, Son Kitei. Við setningu Ólympíuleikanna í Seoul 1988 bar hann kyndilinn með Ólympíueldinum inn á íþróttaleikvanginn. Fimleikakappinn Konrad Frey hlaut flest verðlaun heimamanna, sex talsins. Þar af þrenn gullverðlaun. Egyptinn Khadr Eltouny sigraði í -75 kílógramma flokki í kraftlyftingum. Fyrir leikana hafði alþjóða kraftlyftingasambandið neitað að leggja trúnað á tilkynningar egypska lyftingasambandsins um heimsmet Eltounys og talið að þær hlytu að vera uppspuni. Það breyttist eftir glæstan sigur hans í Berlín. Adolf Hitler var viðstaddur lyftingakeppnina og fagnaði afreki Eltounys með því að nefna götu í Berlín í höfuðið á honum. Bandaríska stúlkan Marjorie Gestring varð yngsti gullverðlaunahafi Ólympíusögunnar þegar hún sigraði í dýfingum af þriggja metra bretti, 13 ára og 268 daga gömul. Kristjan Palusalu frá Eistlandi sigraði í þungavigt í báðum keppnisflokkum fangbragða: grísk-rómverskri glímu og með frjálsri aðferð. Telja Eistlendingar afrek hans meðal hápunkta íþróttasögu sinnar. Japanir unnu meira en helming allra verðlauna í sundkeppni karla. Í kvennaflokknum voru hollenskarstúlkur sigursælastar með fern af fimm gullverðlaunum. Norður-Ameríkulöndin: Bandaríkin, Kanada og Mexíkó röðuðu sér í þrjú efstu sætin í keppninni körfuknattleik, sem var í fyrsta sinn formleg keppnisgrein. Leikið var utandyra og gátu leikmenn því ekki rakið knöttinn á moldarvellinum ef blautt var í veðri. Lítið varð því um stigaskor og lauk úrslitaleik Bandaríkjamanna og Kanadabúa, 19:8. Keppni í svifflugi var sýningargrein á leikunum, án þess þó að neinn sigurvegari væri krýndur. Í kjölfarið ákvað alþjóða Ólympíunefndin að svifflug skyldi verða fullgild keppnisíþrótt á næstu leikum, en til þess kom þó aldrei. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Þjóðverjar hugðust nota Ólympíuleikana í áróðursskyni og veittu rausnarlega styrki, svo ljóst var að Íslendingar gætu sent marga þátttakendur til keppni. Ákveðið var að senda fjóra frjálsíþróttamenn og sundknattleikslið. Þá var boðið upp á glímusýningu ellefu glímukappa í tengslum við leikana, að Adolf Hitler viðstöddum, en hún var þó ekki hluti af formlegri dagskrá. Sundknattleiksmennirnir voru reynslulitlir og töpuðu öllum leikjum sínum stórt. Skoruðu eitt mark en fengu á sig 24 í leikjunum þremur. Í frjálsíþróttakeppninni keppti Sveinn Ingvarsson í 100 metra hlaupi, Sigurður Sigurðsson í hástökki og þrístökki, Kristján Vattnes Jónsson í spjótkasti og Karl Vilmundarson í tugþraut en lauk ekki keppni. Verðlaunaskipting eftir löndum. Ólympíukyndillinn frá leikunum í Berlín. Vilhjálmur 2. Englandskonungur. Vilhjálmur 2. Mynd frá 13. öld. Vilhjálmur 2. (um 1056 – 2. ágúst 1100) eða Vilhjálmur rauður (enska: "William II Rufus", franska: "Guillaume II d'Angleterre") var konungur Englands frá 1087 til dauðadags. Talið er líklegt að hann hafi fengið auknefni sitt af því að hann hafi verið rjóður í framan. Vilhjálmur var fæddur í Normandí einhverntíma á árunum 1056-1060, þriðji í röðinni af fjórum sonum Vilhjálms hertoga og síðar Englandskonungs og Matthildar af Flæmingjalandi. Elsti bróðirinn, Róbert stuttsokkur, átti að erfa Normandí, sá næsti, Ríkharður, átti að fá England í sinn hlut, en þegar Ríkharður lést um 1080 stóð Vilhjálmur næstur til erfða. Hann var eftirlætissonur föður síns en átti eins og hann löngum í útistöðum við elsta bróðurinn, Róbert. Þegar Vilhjálmur bastarður dó og lönd hans skiptust milli sonanna kom það sér illa fyrir marga normannska aðalsmenn sem áttu lendur beggja vegna Ermarsunds, ekki síst vegna fjandskapsins milli bræðranna, því þeir þurftu nú að þjóna tveimur herrum. Þeir sáu þá lausn að sameina England og Normandí að nýju undir einum þjóðhöfðingja og gerðu því uppreisn gegn Vilhjálmi 1088 undir forystu Odos biskups af Bayeux, hálfbróður Vilhjálms bastarðar. En Róbert kom ekki til Englands til að leiða menn sína og Vilhjálmi tókst að vinna aðalsmennina á sitt band með fjáraustri og loforðum um betri stjórn. Árið 1091 réðist hann svo inn í Normandí, vann sigur á her bróður síns og neyddi hann til að afsala sér hluta af löndum sínum. Þeir sættust þó á endanum og Vilhjálmur stýrði nú öflugasta konungsríki í Evrópu. Helsti ráðgjafi Vilhjálms bastarðs, sem hafði einnig verið aðalkennari Vilhjálms 2., Lanfranc, erkibiskup af Kantaraborg, lést tveimur árum eftir að Vilhjálmur tók við völdum og hann dró í mörg ár að útnefna nýjan erkibiskup og hirti sjálfur tekjur af erkibiskupsdæminu. Árið 1093 veiktist konungur alvarlega, óttaðist um líf sitt og útnefndi nýjan erkibiskup, Anselm (síðar heilagur Anselm af Kantaraborg), sem talinn var helsti guðfræðingur síns tíma, en þeir urðu fljótt ósammála um margt og árið 1097 fór Anselm í útlegð og leitaði á náðir Úrbans II páfa. Það dugði þó ekki til því að páfi gerði samkomulag við Vilhjálm, sem fékk að hirða tekjur af erkibiskupsdæminu allt til dauðadags. Vilhjálmur þótti harður í horn að taka í innanlandsmálum og miskunnarlaus stjórnandi. Hann hafði lítið álit á Engilsöxum eins og margir af hans ætt og var óvinsæll konungur. Þegar Róbert bróðir hans ákvað að halda í Fyrstu krossferðina 1096 skorti hann fé til að fjármagna herförina og veðsetti bróður sínum hertogadæmið Normandí fyrir 10.000 mörk, sem var um fjórðungur af árlegum skatttekjum Vilhjálms. Vilhjálmur lagði þungan aukaskatt á allt England til að afla fjárins. Hann stýrði svo Normandí sem ríkisstjóri á meðan Róbert var fjarverandi en hann sneri raunar ekki aftur fyrr en mánuði eftir lát Vilhjálms. Vilhjálmur varð fyrir örvarskoti og beið bana á veiðum í Nýskógum (New Forest) en óvíst er hvernig það bar að höndum, hver skaut örinni eða hvort það var slysaskot eða viljaverk. Þegar fréttist af láti hans hélt yngsti bróðir hans, Hinrik, þegar til London og lét krýna sig konung, þar sem Róbert hafði enn ekki snúið aftur úr krossferðinni. Vilhjálmur kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. Ýmislegt er talið benda til þess að hann hafi verið samkynhneigður. Hlíðarvatn. Hlíðarvatn er stærsta stöðuvatn á Snæfellsnesi, en það liggur í Hnappadal norðan Gullborgarhrauns. Vatnið er 4,4 ferkílómetrar að stærð og 21 m þar sem það er dýpst. Úr Hlíðarvatni fellur hin þekkta laxveiði á Haffjarðará, en í sjálfu vatninu er góð silungsveiði. Árið 1964 var komið fyrir og gerð tilraun með á Hlíðarvatni, rekstur fljótandi sumarhótels. Þetta fljótandi Hótelið var smíðað í mynd víkingaskips að ytra útliti og nefnt Hótel Víkingur. Um borð í Hótel Víking bauðst fólki gisting, veitingar og veiðileyfi fyrir allt að fjórtán manns í einu og var hótelinu siglt um Hlíðarvatn til veiði á daginn. Hótel Víkingi var haldið úti í tvö sumur og hætti síðan starfsemi. Enn er þó veiddur silungur í Hlíðarvatni og fást veiðileyfi á nálægum bæjum. Hnappadalur. Hnappadalur er breið dalhvilft undir Snæfellsnesfjallgarði. Fjallasýn úr Hnappadal er sérkennileg og mikilfengleg og í dalnum eru mörg eldvörp og mikil hraun. Eru þar helst Rauðamelskúlur, Rauðhálsar og Gullborg sem stíflaði af dalinn ofan hrauns og mynduðust við það stöðuvötnin Hlíðarvatn og Oddastaðavatn. Helstu fjöll sem sjá má úr dalnum eru Hrútaborg (819 m), Kolbeinsstaðafjall (862 m) og Hafursfell og svo fjallstindar þrír, Þrífjöll, Skyrtunna og Hestur. Hofgarðatjörn. Hofgarðatjörn er tjörn í landi Hofgarða, sem er eyðibýli neðan vegarins við Hoftún í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Hofgarðatjörn nú friðlýst sökum sérstæðs náttúrufars og fuglalífs. Þar er að finna sjaldgæfar jurtir eins og tjarnarblöðku, vatnalauk og safastör og þar verpir Flórgoði, Skeiðönd, Duggönd og Skúfönd. Fiat Nuova 500. Fiat 500 (ítalska: cinquecento Italian framburður: [ˌ tʃiŋkwetʃɛnto]) er bíll sem framleiddur er af Fiat fyrirtækinu á Ítalíu á milli 1957 og 1975. Bíllinn var hannaður af Dante Giacosa. Honum var hleypt af stokkunum sem Nuova (nýr) 500 í júlí 1957 og var það markaðssett sem ódýr og hagnýtur bíll. Á 50 ára afmæli bílsins hleypti Fiat af stokkunum bíl af svipuðum stíl, lengri og þyngri framhjóladrifnum bíl sem kallast Fiat Nuova 500. Fiat 500 var valinn bíll ársins árið 2008. Hinrik 1. Englandskonungur. Hinrik 1. (um 1068/1069 – 1. desember 1135) var konungur Englands frá 1100 til dauðadags og jafnframt hertogi af Normandí frá 1106. Hinrik var fjórði og yngsti sonur Vilhjálms bastarðs og Matthildar af Flæmingjalandi. Hann var ágætlega menntaður og var fyrsti Normannakonungurinn sem talaði reiprennandi ensku. Einn sona Vilhjálms 1. dó á undan honum en Vilhjálmur skipti arfi milli hinna þriggja þannig að Róbert fékk hertogadæmið Normandí, Vilhjálmur rauður fékk England en Hinrik fékk fimm þúsund pund silfurs. Konungur Englands. Hinrik reyndi að etja bræðrum sínum hvorum gegn öðrum en þótt þeir væru engir vinir tóku þeir höndum saman gegn honum og gerðu með sér samkomulag um að ef annarhvor þeirra dæi án þess að eignast son skyldi hinn erfa hann. En þegar Vilhjálmur 2. varð fyrir örvarskoti á veiðum í Nýskógum og dó 2. ágúst árið 1100 var Róbert í krossferð en Hinrik var í Englandi og var snöggur til, náði yfirráðum yfir ríkiskassanum og tryggði sér þar með krúnuna. Grunsemdir hafa verið uppi um að Hinrik hafi frétt af því að Róbert væri á heimleið með unga brúði og hafi þá brugðist skjótt við og látið drepa Vilhjálm til að tryggja sjálfum sér ríkið. Hann var krýndur konungur Englands 5. ágúst í Westminster Abbey og tryggði stöðu sína með því að gefa út réttindaskrá handa aðalsmönnum, sem talin er undanfari Magna Carta. Hinrik gekk að eiga Edit, dóttur Melkólfs 3. Skotakonungs, 11. nóvember árið 1100. Hún var af gömlu ensku konungsættinni, Wessexætt, og Normannabarónunum líkaði það illa, svo að til að reyna að milda þá breytti Edit um nafn og kallaðist Matthildur eftir að hún varð drottning. Hins vegar jók hjónabandið vinsældir Hinriks meðal Engilsaxa. Árið 1101 reyndi Róbert stuttsokkur, hertogi af Normandi og eldri bróðir Hinriks, að ná Englandi á sitt vald, enda taldi hann sig eiga tilkall til þess, og gerði innrás. Þeir náðu þó samkomulagi um að Róbert viðurkenndi Hinrik sem konung Englands gegn því að fá háa fjárhæð greidda. Hinrik kveinkaði sér þó undan greiðslunni og treysti heldur ekki bróður sínum svo að árið 1105 gerði hann innrás í Normandí. Þann 28. september [1106] háðu þeir bræðurnir bardaga í þorpinu Tinchebray. Hinrik hafði betur, handsamaði Róbert og hafði hann í haldi í Englandi það sem hann átti ólifað, eða í 28 ár. Hinrik lagði svo Normandí undir sig og hertogadæmið tilheyrði Englandi næstu hundrað árin. Hinrik kom á margs konar endurbótum á stjórnartíð sinni, bæði réttarfarslegum og fjárhagslegum. Hann endurbætti skattheimtukerfið og samdi frið við kirkjuna, sem Vilhjálmur bróðir hans hafði átt í deilum við. Á stjórnarárum hans minnkaði bilið milli Normanna og Engilsaxa og sjálfur giftist hann konu af gömlu ensku konungsættinni. Hins vegar tókst honum ekki að ganga tryggilega frá ríkiserfðum eftir sinn dag. Fjölskylda. Hinrik og Matthildur (Edit) áttu tvö börn sem komust upp, dótturina Matthildi (1102 – 1167), sem giftist fyrst Hinrik 5. keisara hins Heilaga rómverska keisaradæmis og gekk jafnan undir nafninu Matthildur keisaraynja, og soninn Vilhjálm Adelin (1103 – 1120), sem átti að erfa ríkið. Hinrik konungur samdi um trúlofun hans og dóttur Fulk 5., greifa af Anjou, til að draga úr hættu á að Fulk réðist á Normandí, og giftust þau 1119. Vilhjálmur fórst þó á sjó ári síðar en árið 1128 giftist Matthildur, sem þá var orðin ekkja, Geoffrey Plantagenet, syni Fulks. Matthildur drottning, kona Hinriks, hafði dáið 1. maí 1118 og 29. janúar 1121 giftist hann aftur Adelizu af Louvain en þau eignuðust ekki börn og Hinrik lét þá aðalsmenn í ríki sínu sverja þess eið að viðurkenna Matthildi keisaraynju sem erfingja krúnunnar. Matthildur og Geoffrey bjuggu í Normandí og árið 1135 fór Hinrik þangað til að hitta dóttursyni sína, sem hann hélt mikið upp á. Þar lést hann 1. desember 1035 úr matareitrun eða ofáti á sæsteinsugum, sem hann hafði mikið dálæti á. Eftir lát hans upphófst mikil erfðadeila milli Matthildar, sem margir vildu ekki samþykkja sem þjóðhöfðingja bæði vegna þess að hún var kona og vegna þess að hún hafði gifst manni af Anjou-ætt, sem Normannar álitu óvini sína, og Stefáns af Blois, sem var dóttursonur Vilhjálms 1. og þau Matthildur því systkinabörn. Úr varð borgarstyrjöld, Stjórnleysið svokallaða, sem stóð í nærri tvo áratugi. Hinrik 1. átti margar frillur og er sagður hafa eignast á milli 20 og 25 óskilgetin börn. Þar á meðal voru Róbert, fyrsti jarlinn af Gloucester og áberandi í borgarastyrjöldinni, þar sem hann studdi fyrst Stefán konung en varð síðan öflugasti liðsmaður Matthildar hálfsystur sinnar, og Sybilla af Normandí, kona Alexanders 1. Skotakonungs. Matthildur af Flæmingjalandi. Matthildur drottning; myndin er frá 1894. Matthildur af Flæmingjalandi (um 1031 – 2. nóvember 1083) (enska: "Matilda of Flanders", franska: "Mathilde de Flandre") var drottning Englands frá "1066" til dauðadags, eiginkona Vilhjálms 1. Englandskonungs og móðir konunganna Vilhjálms 2. og Hinriks 1. Matthildur var dóttir Baldvins 5., greifa af Flæmingjalandi og Adèle Capet, dóttur Róberts 2. Frakkakonungs. Vilhjálmur bastarður, hertogi af Normandí, bað hennar en sagt er að hún hafi ekki viljað hann i fyrstu þar sem hún taldi sig of tiginborna til að giftast bastarði. Ýmsar sagnir eru um hvernig kvonbænirnar gengu en á endanum skipti Matthildur um skoðun og giftist Vilhjálmi þótt páfinn legði bann við þvi vegna skyldleika þeirra. Þau giftust 1053 og áttu saman tíu eða ellefu börn - synirnir voru fjórir en um dæturnar er allt óljósara og aðeins ein þeirra eignaðist afkomendur, Adela móðir Stefáns af Blois, síðar Englandskonungs. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott en þó hljóp snurða á þráðinn þegar Róbert sonur þeirra gerði uppreisn gegn föður sínum því Matthildur tók afstöðu með honum. Eftir að hún lést varð Vilhjálmur mun harðari stjórnandi en áður og var dauða hennar kennt um. Matthildur var sögð hafa verið smávaxnasta drottning Bretlands og fyrir misskilning komst sú sögn á kreik að hún hefði aðeins verið 127 cm á hæð. Mælingar sem gerðar voru á hluta af beinum hennar, sem varðveist hafa, árið 1819 og aftur 1959 leiddu þó í ljós að hún hefur líklega verið um 150 cm há. Emma af Normandí. Emma og Knútur mikli. Mynd frá 1031. Emma af Normandí (um 985 – 6. mars 1052) var drottning Englands á 11. öld, seinni kona Aðalráðs ráðlausa og síðar kona Knúts mikla, móðir tveggja Englandskonunga og stjúpmóðir tveggja annarra. Hún var líka afasystir Vilhjálms bastarðs Englandskonungs. Drottning tveggja konunga. Emma var dóttir Ríkharðs óttalausa, hertoga af Normandí, og seinni konu hans, Gunnóru. Aðalráður ráðlausi Englandskonungur bað hennar til að tryggja sig gegn árásum frá Normandí og giftust þau árið 1002 og áttu saman tvo syni og eina dóttur. Börnin, Játvarður góði, Alfreð og Goda, voru send til Normandí þegar Knútur mikli gerði innrás í England 1013 og ólust þar upp. Aðalráður dó árið 1016. Sonur hans og stjúpsonur Emmu, Játmundur járnsíða, tók við ríkjum en dó í nóvemberlok sama ár og þá varð Knútur konungur Englands. Knútur hafði lengi verið giftur eða búið með Alfífu frá Northampton og átti með henni tvo syni, Svein Alfífuson og Harald hérafót, en ef til vill var hjónaband þeirra ekki gilt að lögum, að minnsta kosti giftist hann Emmu í júlí, sennilega einnig til að tryggja gott samband við Normandí. Þegar Hörða-Knútur sonur þeirra fæddist hét hann því að hann skyldi erfa Danaveldi. Þau áttu líka dótturina Gunnhildi, sem giftist Hinrik 3. keisara. Útlegð í Brügge. Knútur dó 1035. Hörða-Knútur var þá í Danmörku og komst ekki strax til Englands til að tryggja stöðu sína þar svo að Haraldur hérafótur hálfbróðir hans náði þar völdum. Á meðal helstu andstæðinga hans voru Emma og synir hennar og Aðalráðs, sem höfðu snúið heim frá Normandí. Haraldur lét taka Alfreð og blinda hann og dó hann skömmu síðar en Játvarður komst undan til Normandi og sjálf hraktist Emma í útlegð til Flæmingjalands og settist að í Brügge. Þangað kom Hörða-Knútur sonur hennar þegar hann lagði loks af stað í herför til Englands til að ná því úr höndum Haraldar en þá barst þangað sú fregn snemma árs 1040 að Haraldur hefði dáið óvænt. Var Hörða-Knútur þá tekinn til konungs og Játvarður gat snúið aftur heim. Knútur lýsti því yfir að ef hann eignaðist enga syni skyldi Játvarður verða konungur Englands og gekk það eftir, þegar Hörða-Knútur dó 1042. Emma studdi hann þó ekki, hún vildi fá Magnús góða fyrir konung, og lét Játvarður taka hana höndum og hafði hana í haldi um skeið. Raunar virðast litlir kærleikar hafa verið með þeim mæðginunum. Emma dó 1052 og hefur þá verið hátt á sjötugsaldri. Confessions of a Shopaholic. Confessions of a Shopaholic er bandarísk kvikmynd frá árinu 2009 sem byggð er á tveimur bókum eftir Sophie Kinsella: "Draumaveröld kaupalkans" og "Kaupalkinn í New York". Myndinni var leikstýrt af P. J. Hogan og leikur Isla Fisher aðalpersónuna, Rebeccu „Becky“ Bloomwood, kaupsjúka blaðakonu. Söguþráður. Rebecca Bloomwodd (Isla Fisher) er haldin kaupæði og býr með bestu vinkonu sinni, Suze (Krysten Ritter). Í augnablikinu vinnur Becky sem blaðamaður fyrir garðyrkjutímarit en dreymir um að fá vinnu á tískutímaritinu "Alette". Dag einn tekst henni að tryggja sér viðtal hjá blaðinu en á leiðinni í viðtalið sér hún grænan Danny & George trefil og ákveður að kaupa hann. Kreditkortinu hennar er hafnað, svo Rebecca þýtur að næsta pylsuvagni og býðst til að kaupa allar pylsurnar í vagninum ef sölumaðurinn innleysir ávísun frá henni og segir hún að trefillinn sé handa veikri frænku sinni. Að lokum gefur maður henni 20 dollara. Þegar Rebecca kemur í viðtalið er henni sagt að það sé búið að ráða í stöðuna en ef hún tæki starfi hjá öðru blaði, gæti það komið henni að hjá "Alette". Ritarinn segir henni að það sé laus staða hjá fjármálatímaritinu "Successful Savings". Þegar hún kemur í viðtalið hittir hún Luke Brandon (Hugh Dancy), ritstjóra "Successful Savings", og áttar hún sig á að hann er maðurinn sem lánaði henni 20 dalina. Á meðan hann talar í símann felur hún trefilinn undir skrifborði. Viðtalið gengur vel og reynir Rebecca stöðugt að draga athygli Brandons að öðru. Aðstoðarkona Lukes kemur inn í herbergið og segir Rebeccu að hún hafi misst trefilinn sinn. Rebecca áttar sig á að tíminn hennar er útrunninn og fer. Becky og Suze skrifa drukknar bréf til "Alette" og "Successful Savings" en hún víxlar bréfunum og sendir bréfið ætlað "Alette" til "Successful Savings" og öfugt. Engu að síður ræður Luke Brandon hana. Í stað þess að klára verkefnið sem henni var sett fyrir, fer Becky á fataútsölu. Þegar hún fer að skoða kasmírkápu áttar hún sig á því að kápan er ekki úr 100% kasmírull og verður það henni innblástur fyrir verkefnið og kallar hún sig „stelpuna með græna trefilinn“ og verður dálkurinn hennar strax vinsæll. Á meðan segir Rebecca öllum að innheimtumaðurinn hennar, Derek Smeath, sé fyrrverandi kærasti sem eltir hana. Luke býður henni á ráðstefnu og ball. Á ráðstefnunni vekur hún hrifningu nokkurra forstjóra sem lofa að auglýsa í "Successful Savings". Alicia (Leslie Bibb) hjá Alette, býður Luke með sér á ballið og situr Rebecca sár eftir. Rebecca snýr aftur heim og neyðist til að forðast Derek Smeath einu sinni enn, svo Suze fær hana til að ganga í stuðningshóp fyrir kaupalka. Leiðbeinandi hópsins, fröken Korch (Wendie Malick), neyðir hana til að gefa tvo kjóla sem hún hafði verið að kaupa til góðgerðarmála. Annar kjóllinn er brúðarmeyjarkjóllinn fyrir brúðkaup Suze en hinn er kjóll fyrir sjónvarpsviðtal. Hún býðst til að kaupa báða kjólana aftur en hefur aðeins efni á öðrum og kaupir kjólinn fyrir viðtalið. Í viðtalinu er Rebecca ásökuð af Smeath fyrir að hafa ekki borgað skuldir sínar og missir vinnuna. Suze verður mjög reið þegar hún kemst að því að Rebecca hafi selt brúðarmeyjarkjólinn. Rebecca fer þá heim til foreldra sinna þegar Alette sjálf birtist og býður henni stöðu hjá tímaritinu. Þó að þetta sé stærsti draumur Rebeccu hafnar hún tilboðinu og segir að það myndu vera mistök. Því næst selur hún mestöll föt sín til að borga skuldirnar. Á meðan hafnar Luke tilboði um sitt eigið tímarit og stofnar nýtt fyrirtæki, Almannatengslafyrirtæki Brandons. Sala Rebeccu gengur vel og getur hún borgað skuldir sínar. Rebecca fer í brúðkaup Suze eftir að hafa keypt kjólinn aftur og fyrirgefur Suze henni. Rebecca og Luke hittast aftur og Luke skilar henni græna treflinum eftir að hafa sagt henni að hann hafi verið sá sem keypti trefilinn á uppboðinu. Rebecca fer síðan að vinna hjá nýju tímariti Lukes og eru þau saman. Isla Fisher. Isla Lang Fisher (f. 3. febrúar 1976) er leikkona og höfundur. Hún byrjaði að leika í áströlsku sjónvarpi, í skammlífu sápuóperunni "Paradise Beach" áður en hún lék Shannon Reed í sápuóperunni "Home and Away". Síðan þá hefur hún orðið þekkt fyrir gamanhlutverk í "Wedding Crashers" (2005), "Hot Rod" (2007), "Definitely, Maybe" (2008) og "Confessions of a Shopaholic" (2009). Fisher, Isla Konunglega breska vísindafélagið. Konunglega breska vísindafélagið (enska: "Royal Society") er breskt vísindafélag sem var stofnað í London árið 1660 með konunglegu leyfisbréfi frá Karli 2. Félagið spratt upp úr Ósýnilega háskólanum og var ætlað að vera vettvangur fyrir vísindalegar rökræður og rannsóknir. Félagið er núna vísindaakademía sem styrkir rannsóknir og þiggur fé frá bresku ríkisstjórninni fyrir að gegna hlutverki ráðgjafa hennar í vísindalegum efnum. Félagið telur nú rúmlega 1300 félagsmenn sem hafa leyfi til að nota skammstöfunina FRS ("Fellow of the Royal Society") á eftir nafni sínu, auk konunglegra félaga, heiðursfélaga og erlendra félaga. Núverandi forseti félagsins er breski stjarneðlisfræðingurinn Martin Rees. Stofnendur félagsins voru tólf vísindamenn sem voru þekktir sem Ósýnilegi háskólinn og hittust reglulega á ýmsum stöðum. Meðal þeirra voru Christopher Wren, John Wilkins, Jonathan Goddard, Robert Hooke, William Petty og Robert Boyle. Megintilgangur félagsskaparins var að ræða um hin nýju vísindi sem Francis Bacon hafði rætt í bók sinni "New Atlantis" 1624, skipuleggja sýnitilraunir og deila uppgötvunum sínum. Félagið hefur gefið út vísindaritið "Philosophical Transactions of the Royal Society" samfleytt frá 1665. Múgsaxari. Múgsaxari er landbúnaðartæki sem er notað við votverkun heys. Múgsaxarinn tætir múganum í sig af túninu og blæs svo grasinu söxuðu upp í vagn sem dreginn er á eftir. Notkun múgsaxarans er sprottin af því, að vothey verkist best ef hið nýslegna gras er forþurrkað nokkuð áður en það er rakað í múga og svo saxað, og þá látið í votheyshlöðu. Kerlingarskarð. Kerlingarskarð er skarð í Snæfellsnesfjallgarði, í um 310 m hæð yfir sjávarmáli. Um skarð þetta hefur lengi legið einn af þremur fjallvegum sem farnir eru yfir fjallgarðinn og liggur þessi vegur, sem nú er í litlu viðhaldi og einungis fær stærri bílum, milli Helgafellssveitar norðan á nesinu og Miklaholtshrepps að sunnanverðu. Hinir tveir liggja yfir Fróðárheiði og um Heydal. Líklegt er að nafnið á skarðinu sé dregið af stökum steindrangi all háum, sem ber við loft þar sem hann stendur í öxl Kerlingarfjalls austan við veginn og heitir Kerling. Segir sagan að þar fari tröllskessa er orðið hafi að steini og sé hún með silungakippu á bakinu. Kolbeinsstaðir. Kolbeinsstaðir eru kirkjustaður í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Þetta forna höfuðból og höfðingjasetur er austan vegar þegar ekið er norður með Eldborgarhrauni. Á Kolbeinsstöðum var í kaþólskum sið kirkja helguð guði og Maríu Guðsmóður, Pétri Postula, Magnúsi eyjajarli, heilögum Nikulási, heilögum Dómeníkusi og ölum heilögum í kaþólskum sið. Til er máldagi Kolbeinsstaðakirkju frá 1397, þar sem taldir eru upp margir góðir gripir í eigu kirkjunnar, svo og jarðir og aðrar eignir. Prestur sat þar til 1645 en nú heyrir sóknin undir Söðulsholtsprestakall. Núverandi kirkja er reist árið 1933. Hún er byggð úr steinsteypu og vígð árið 1934. Altaristafla er eftir Brynjólf Þórðarson listmálara og þar er silfurkaleikur frá 14-15 öld og forn skírnarskál úr tini frá 1732. Á Kolbeinsstöðum er einnig félagsheimili hreppsins, Lindartunga. Á miðöldum voru Kolbeinsstaðir um langt skeið eitt helsta valdasetur landsins, þegar jörðin var í eigu og ábúð embættismannaættar sem kölluð hefur verið Kolbeinsstaðamenn. Ketill Þorláksson, lögsögumaður og prestur frá Hítardal og mágur Gissurar Þorvaldssonar, settist þar að um 1235. Sonur hans var Þorleifur hreimur Ketilsson, sem var síðasti íslenski lögsögumaðurinn, en tengdasonur Ketils var Narfi Snorrason frá Skarði, sem bjó á Kolbeinsstöðum. Synir hans, Þorlákur, Þórður og Snorri, urðu allir lögsögumenn og bjó Þorlákur á Kolbeinsstöðum. Sonur hans var Ketill Þorláksson hirðstjóri og riddari á Kolbeinsstöðum, einn helsti tignarmaður landsins á fyrri hluta 14. aldar. Kona Ketils var Una Guttormsdóttir, systir Jóns skráveifu, hirðstjóra og lögmanns, sem mun hafa dvalist hjá þeim og gaf hann kirkjunni á Kolbeinsstöðum hálfa jörð fyrir sálu sinni. Kolbeinsstaðir héldust lengi í ættinni og má á meðal síðari eigenda nefna Erlend Erlendsson sýslumann á Hlíðarenda, föður Vigfúsar Erlendssonar lögmanns og hirðstjóra og Þorvarðar Erlendssonar lögmanns, föður Erlendar Þorvarðarsonar lögmanns, sem bjó um tíma á Kolbeinsstöðum. Kolgrafamúli. Kolgrafamúli er 427 m hátt fjall austan Kolgrafafjarðar, sem er fjörður á norðanverðu Snæfellsnesi og næsti fjörður austan við Grundarfjörð. Kolgrafamúli er að þó nokkrum hluta úr ljósgrýti og eru skriður múlans því nokkuð áberandi og litskrúðugar, þar sem þær blasa við þeim er eiga ferð um Eyrar- og Helgafellssveit. Í fjallinu hafa enn fremur fundist djúpbergstegundir á borð við granófýr og gabbró og þá einnig jaspis, hrafntinna og geislasteinar. Brú sem lögð var yfir Kolgrafafjörð árið 2004, styttir leiðina á milli Grundarfjarðar og Stykkishólms um rúma 6 km. Laugarbrekka. Laugarbrekka er eyðibýli í Breiðuvíkurhreppi, upp frá Hellnum og vestan undir Laugarholti, þar sem er Bárðarlaug. Byggð lagðist af í Laugarbrekku 1887, en þar var gamalt kirkjusetur og kirkja frá 1563, eða allt þar til hún var færð að Hellnum þar skammt frá árið 1881. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir svo frá, að Bárður hafi búið að Laugabrekku á meðan hann dvaldi meðal manna. Hin víðförla Guðríður Þorbjarnardóttir fæddist á Laugarbrekku árið 980 og fluttist árið 1000 til Grænlands með foreldrum sínum. Þar kynntist hún og giftist Þorsteini, syni Eiríks rauða landnámsmanns í Grænlandi og saman freistuðu þau þess að sigla til Vínlands. Sú för för heppnaðist ekki og dó Þorsteinn í þeirri ferð. Komin aftur í Brattahlíð kynntist Guðríður Þorfinni Karlsefni, giftist honum og sigldi með honum til Vínlands. Þar fæddist sonur þeirra Snorri og varð Guðríður þá móðir fyrsta Evrópumannsins sem vitað er til að hafi fæðst á meginlandi Norður-Ameríku. Lárós. Lárós gengur inn af Látravík í Eyrarsveit, norðan undir Búlandshöfða og vestan við fjallið Stöð við Grundarfjörð. Lárós er ós Lárvaðals og hefur verið þar laxeldi allt frá þá er Lárós var stíflaður árið 1965. Vatn þetta er um 1,6 ferkílómetri að umfangi og 11 metrar niður þar sem mest er dýpi. Mikið er af bleikju í sjálfu vatninu, Lárvaðli, en við lónið hefur verið gerð um 160 ha stífla og er meðaldýpi þar 2,5-3 m. Lýsuhóll. Lýsuhóll er bær í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Á Lýsuhóli er jarðhiti og þar er starfræktur skóli og félagsheimili. Sundlaug er hituð er upp með heitu ölkelduvatni sem þar rennur upp. Borað var eftir vatni þar árin 1946 og 1963 og hefur ölkelduvatnið á Lýsuhóli verið sett í sölu á almennum markaði í neytendaumbúðum. Jarðhitinn, laugin og ölkelduvatnið eru þekkt frá fornu fari og langt síðan að laugin var fyrst notuð til baða. Var þá byggt yfir hana baðhús sem nú er löngu horfið, en þróin þar sem baðkerið var sést þar enn. Gamla laugin og kalkútfellingar þar hjá eru á náttúruminjaskrá, ásamt hallamýri ofan þeirra, hvar er óvenjulegt gróðurfar og sjaldséðar jurtir. Fjöllin fyrir ofan Lýsuhól eru nokkuð sérstök, mjög brött og gerð úr djúpbergi. Í Lýsuhyrnu er gabbró og granófýr og úr gígum uppi í Þorgeirsfelli og Ánahyrnu hafa runnið Hraunsmúlahraun og Bláfeldarhraun. Malarrif. Malarrif er bær í Breiðuvíkurhreppi undir Jökli, skammt vestan við Lóndranga. Þangað eru um tveir km frá þjóðbraut og eru Malarrif sem syðsti hluti Snæfellsness nánast í hásuður frá tindum Snæfellsjökuls. Frá Malarrifi var útgerð og útræði öldum saman og allmikil sjósókn allt til aldamótanna 1900. Viti var þar fyrst byggður árið 1917 og hann síðan endurbyggður árið 1946. Bærinn stendur á Purkhólahrauni. Austan við Malarrif eru Lóndrangar og Þúfubjarg og þar á milli er merkt gönguleið. Vestan við Malarrif eru Djúpalónssandur og Dritvík. Miklaholt. Miklaholt er kirkjustaður og fyrrum prestssetur í Miklaholtshreppi. Þar hefur verið byggð frá því nokkuð fyrir 1200 og er elsti máldagi Miklaholtskirkju sennilega frá 1181. Í kaþólskum sið var kirkjan í Miklaholti helguð Jóhannesi skírara, en eftir 1645 var þar útkirkja frá Rauðamel. Þegar ný sóknarkirkja var vígð á Fáskrúðarbakka og kirkja lögð af í Miklaholti árið 1936, féll það í grýttan jarðveg þar um slóðir og við svo búið var ráðist í endurreisn staðarkirkju. Nýja kirkjan var byggð úr steinsteypu árið 1945 og vígð 1946. Altari og predikunarstóll eru úr gömlu kirkjunni og meðal annarra kirkjugripa er söngtafla sem talin er gerð af Sölva Helgasyni, altaristafla gerð af Kurt Zier skólastjóra og skírnarsár eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara. Mælifell (Staðarsveit). Mælifell í Staðarsveit (566 m) á Snæfellsnesi er fjallshnjúkur upp af Búðum. Mælifell er úr ljósgrýti og þykir formfagurt á að líta þá þegar ljósgrýtið skiptir litum eftir birtuskilyrðum. Efst uppi á fjallinu er gígur og í honum vatn sem fylgir svipuð þjóðsaga og tjörninni á Tindastóli í Skagafirði. Í henni segir, að óska- eða náttúrusteinar fljóti upp og að vatnsbakkanum á Jónsmessunótt. Áhöld eru uppi um tilurð fjallsins og jarðfræðingar ekki á einu máli um hvort Mælifell sé hraungúll er hafi myndast við troðgos eftir að jökulhettan hopaði, eða hvort fjallið hafi myndast á öllu hefðbundnari hátt við gos undir jökulhettunni sem þá var. Narfeyri. Narfeyri er kirkjustaður á Skógarströnd, utarlega við austanverðan Álftafjörð. Í kaþólskum sið var þar kirkja helguð heilögum Nikulási, en frá 1563 hefur þar verið útkirkja, nú síðast frá Stykkishólmi síðan árið 1970, þá er Skógarströnd varð hluti af Stykkishólmsprestakalli. Núverandi kirkja er lítil timburkirkja, byggð árið 1889. Aldamótaárið 1900 skekktist hún á grunni í ofsaveðri er þá gekk yfir og var endurbyggð það sama ár. Forveri þessarar litlu timburkirkju fauk hins vegar alveg af grunni í ofsaveðri 1867 og var einnig endurbyggð það sama ár. Oddastaðavatn. Oddastaðavatn er stöðuvatn í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadal á Snæfellsnesi. Stöðuvatn þetta er um 3 ferkílómetrar að umfangi og 15 m á mesta dýpi. Oddastaðavatn er hringlaga nokkuð og vogskorið mjög og í það fellur vatn úr Hlíðarvatni. Þá er nokkuð fuglalíf í kring um tvo hólma sem eru úti í miðju vatninu. Afleggjari er á milli Hlíðarvatns og Oddastaðavatns og liggur hann frá þjóðveginum að Hallkelsstaðahlíð. Rauðamelur ytri. Rauðamelur ytri er kirkjustaður er stendur undir hárri hraunbrún skammt norðan Gerðubergs. Á Rauðamel var endurreist kirkjusetur árið 1570, fyrst sem útkirkja frá Kolbeinsstöðum, til 1645 og þá frá Miklaholti og stendur nú á Rauðamel lítil timburkirkja. Fyrir ofan bæinn er reglulega lagaður gjallgígur, Ytri Rauðamelskúla (222 m) sem stendur um 100 m yfir úfnu apalhrauninu í kring. Stuttan spöl frá þjóðveginum er í landi Rauðamels, ein frægasta og vatnsmesta ölkelda landsins, Rauðamelsölkelda og er hún á náttúruminjaskrá. Í hraungjótu rétt við bæinn á Rauðamel fundust árið 1959 fjórir eirkatlar. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þeim var komið þar fyrir, en lögun þeirra mun benda til að þeir hafi verið smíðaðir á 13. eða 14. öld. Slíkir eirkatlar þóttu mikil verðmæti áður fyrr og eru heimildir fyrir því í Búalögum, að einn slíkur hafi þá virtur til jafns við áttæring. Rauðfeldsgjá. Rauðfeldsgjá er djúp gjá sem skerst inn í austanvert Botnsfjall (406 m) vestan við Hnausahraun. Hægt er að ganga inn eftir gjánni, sem er þröng, dimm og djúp og klýfur Botnsfjall niður í rætur. Þegar komið er inn fyrir gættina, blasa á hvora hönd við lóðréttir móbergsveggir, er slúta fram á nokkrum stöðum og byrgja fyrir birtu niður að botni gjárinnar. Þar steypist niður lækurinn Sleggjubeina í háum fossi ofan í gjána. Breska. Breska eða brýþonska var keltneskt tungumál sem talað var í Bretlandi áður en Englarnir námu landið. Breska þróaðist úr fornkeltnesku. Fyrir 6. öld hafði breska breyst í fjögur aðskilin tungumál: velsku, bretónsku, kornísku og kúmbrísku. Talið er að péttneska gæti verið skyld bresku. Merki um áhrif frá latínu á bresku finnast í velsku, sérstaklega í þeim orðum sem tengjast kirkjunni og kristni. Seinna var enska tekin upp í staðinn fyrir bresku, og tungumálið dó út. Setberg (Eyrarsveit). Setberg er kirkjustaður og fyrrum prestssetur í Grundarfirði, Eyrarsveit. Þar var kirkja helguð heilögum krossi í kaþólskum sið, en í dag er Setberg annexía frá Grundarfjarðarkaupstað. Á Setbergi er reisuleg timburkirkja, sem byggð var árið 1882. Á meðal gripa sem þar má sjá, eru altaristafla frá 1892, hökull frá 1696 og ljósakróna frá 1789. Stefán Englandskonungur. Stefán (um 1096 – 25. október 1154), oft nefndur Stefán af Blois (enska: "Stephen of Blois"; franska: "Étienne de Blois") var konungur Englands frá 1135 til dauðadags og var síðasti Normannakonungurinn. Hann átti mestalla valdatíð sína í stríði við frænku sína, Matthildi keisaraynju, og hefur tímabilið verið kallað Stjórnleysið. Í fornum íslenskum heimildum er Stefán stundum kallaður "Stefnir". Uppvöxtur og ríkiserfðir. Stefán var sonur Stefáns greifa af Blois og Adelu, dóttur Vilhjálms sigursæla Englandskonungs, og var einn tíu systkina. Hann fæddist í Frakklandi en tíu ára gamall var hann sendur til Englands og alinn upp hjá móðurbróður sínum, Hinrik 1., sem hélt upp á hann en ætlaði þó Matthildi dóttur sinni að erfa krúnuna og hafði tekið loforð af enskum aðalsmönnum um að styðja hana til ríkis. Um 1125 giftist Stefán Matthildi af Boulogne. Hjónaband þeirra mun hafa verið hamingjusamt og hún veitti manni sínum öflugan stuðning í borgarastyrjöldinni. Þau eignuðust þrjá syni og tvær dætur. Stefán átti tvo eldri bræður sem hefðu átt að eiga tilkall til ensku krúnunnar fremur en hann, jafnvel þótt litið sé framhjá erfðakröfu Matthildar, en sá elsti, Vilhjálmur, virðist aldrei hafa komið til greina og hefur því stundum verið haldið fram að hann hafi verið vanheill á geðsmunum eða þroskaheftur en líklega var hann þó aðeins haldinn slæmum skapgerðarbrestum og talinn óhæfur stjórnandi. Næstur í röðinni var Teóbald 2. af Champagne en hann virðist ekki hafa haft áhuga á ensku krúnunni eða var að minnsta kosti ekki nógu fljótur að bregða við þegar Hinrik 1. dó 1135. Ýmsir komu til greina til að taka við krúnunni en Matthildur keisaraynja, eina skilgetna barn Hinriks sem eftir lifði, naut ekki mikils stuðnings, bæði vegna þess að hún var kona og ekki síður af því að hún var gift Geoffrey greifa af Anjou, en Normannar og Anjoumenn voru erfðaféndur. Aðrir sem komu til greina voru Stefán og Teóbald bróðir hans og Róbert jarl af Gloucester, óskilgetinn sonur Hinriks konungs. Stefán hafði svarið Matthildi hollustu að beiðni Hinriks en lýsti því nú yfir að Hinrik hefði skipt um skoðun á bananbeði og lýst sig erfingja. Hann lét krýna sig og tryggði sér stuðning meirihluta aðalsmanna. Fyrstu ríkisár hans voru friðsamleg að mestu. Stjórnleysið. Stefán leyfði aðalsmönnum landsins að sölsa undir sig jarðir og önnur verðmæti og gerði ekkert til að stöðva harðstjórn þeirra og grimmdarverk gagnvart almenningi. Í landinu var ekkert sterkt miðstjórnarvald, svo að lénsherrar tóku lögin í eigin hendur og lögðu á skatta og refsingar að eigin geðþótta. Valdatími Stefáns varð „nítján langir vetur, þegar Kristur og dýrlingar hans sváfu.“ (Árbækur Engilsaxa). Stefán var skiljanlega ekki vinsæll konungur og árið 1139, þegar Matthildi keisaraynju hafði tekist að afla sér nægilegs herstuðnings, gerði hún innrás í England og þar með hófst borgarastyrjöldin sem kölluð hefur verið Stjórnleysið. Matthildi gekk misjafnlega en lengst náði hún í apríl árið 1141, þegar hersveitir hennar unnu sigur á liði Stefáns konungs í orrustunni við Lincoln og náðu konungi á sitt vald. Matthildur hafði hann í haldi í Bristol. En Matthildur drottning, kona Stefáns, hvatti Lundúnabúa til stuðnings við hann og þar sem Matthildur keisaraynja þótti hrokafull og neitaði að lækka skatta var hún hrakin frá borginni. Þegar menn Matthildar drottningar náðu hálfbróður hennar og aðalherforingja, jarlinum af Cloucester, á sitt vald neyddist hún til að hafa fangaskipti á honum og Stefáni konungi. Borgarastyrjöldin hélt áfram næstu árin. Matthildi keisaraynju tókst að tryggja völd sín í Normandí en í Englandi varð henni lítt ágengt og eftir innrásartilraun árið 1147 hætti hún að reyna að vinna England undir sig. En þá var Hinrik, elsti sonur hennar, kominn á unglingsaldur (f. 1133) og hann hélt baráttunni áfram næstu árin og varð mun betur ágengt. Elsti sonur og erfingi Stefáns, Eustace, lést skyndilega í ágúst 1153. Stefán átti raunar annan son á lífi, Vilhjálm af Blois, en hann og þegnar hans allir voru búnir að fá nóg af endalausum stríðsátökum og það varð að samkomulagi að Hinrik skyldi erfa ríkið eftir hann. Stefán dó svo ári síðar í Dover og tók Hinrik þá við ríkjum sem Hinrik 2. Englandskonungur, fyrsti konungur af Plantagenetætt. Vilhjálmur af Blois var skömmu síðar bendlaður við samsæri um að myrða Hinrik og flúði til Normandí, þar sem hann dó 1159. Sumarólympíuleikarnir 1912. Sumarólympíuleikarnir 1912 voru haldnir í Stokkhólmi í Svíþjóð 5. maí til 22. júlí. Keppnisgreinar. Keppt var í 102 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Frá úrslitaleik Dana og Breta í knattspyrnukeppni leikanna, sem lauk með sigri þeirra síðarnefndu. Jim Thorpe á Ólympíuleikunum 1912. Bandaríkjamaðurinn Jim Thorpe (réttu nafni Jacobus Fransiscus Thorpe) sigraði í fimmþraut og tugþraut, sem keppt var í í fyrsta sinn. Thorpe, sem var hálfur indíáni, þótti geysifjölhæfur íþróttamaður og keppti m.a. í hafnarbolta, körfuknattleik og ruðningi á löngum ferli. Hann var eftirlæti áhorfenda meðan á Ólympíuleikunum stóð, en að þeim loknum var hann sviptur verðlaunum fyrir brot á áhugamannareglum. Alþjóðaólympíunefndin sneri þeirri ákvörðun við mörgum áratugum síðar. Matt McGrath frá New York sigraði auðveldlega í sleggjukasti. Hið stysta af sex köstum hans var lengra en lengstu köst næstu manna. Ólympíumet hans á leikunum var ekki slegið fyrr en í Berlín 1936. Finninn Hannes Kolehmainen vann til þriggja verðlauna í hlaupakeppninni: í 5.000 metra hlaupi, 10.000 metra hlaupi og víðavangshlaupi. Hann varð þar með fyrstur í röð finnskra hlaupagarpa sem einokuðu nánast langhlaupin á næstu árum. Suður-Afríkubúinn Kenneth McArthur varð hlutskarpastur í Maraþonhlaupinu. Það varpaði skugga á hlaupið að portúgalskur keppandi lést í miðri keppni að völdum hjartaáfalls. Var það fyrsti íþróttamaðurinn til að deyja á Ólympíuleikum. Konur tóku í fyrsta sinn þátt í sundkeppni leikanna. Fanny Durack sem keppti undir merkjum Ástralasíu sigraði í einstaklingskeppninni. Hún var öflugasta sundkona heims á seinni hluta annars áratugarins og handhafi flestra heimsmeta. Keppt var nútímafimmtarþraut í fyrsta skipti, en greinin var hugarfóstur Pierre de Coubertin leiðtoga Ólympíuhreyfingarinnar. Svíar höfðu mikla yfirburði og röðuðu sér í átta af tíu efstu sætunum. Um miðjan hóp keppenda lenti Bandaríkjamaðurinn George S. Patton, sem síðar varð einn kunnasti herstjórnandi tuttugustu aldar. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Þegar leið að Ólympíuleikunum í Stokkhólmi, vaknaði áhugi íslenskra glímumanna að endurtaka leikinn frá Lundúnaleikunum fjórum árum fyrr. Sigurjón Pétursson, kenndur við Álafoss var helstur forystumaður íslenskra glímukappa. Íþróttasamband Íslands var stofnað í ársbyrjun 1912, ekki hvað síst til að geta sótt um þátttökurétt á leikunum. Sendir voru sjö glímumenn til keppni, en glíma var formlega viðurkennt sem önnur af tveimur sýningargreinum leikanna, en þetta var í fyrsta sinn sem boðið var upp á formlegar sýningargreinar. Keppt var um sérstakan verðlaunagrip og stóðu vonir til að glíma yrði fastur liður á dagskrá leikanna í framtíðinni. Formaður og gjaldkeri hópsins var Hallgrímur Benediktsson Auk þess að keppa í íslenskri glímu tók Sigurjón Pétursson þátt í grísk-rómverskri glímu. Áttundi Íslendingurinn í hópnum, Jón Halldórsson, tók þátt í 200 metra hlaupi en komst ekki áfram úr sínum riðli. Sumarólympíuleikarnir 1964. Frímerki frá Austur-Þýskalandi, gefið út vegna Ólympíuleikanna 1964. Sumarólympíuleikarnir 1964 voru haldnir í Tókýó í Japan frá 10. október til 24. október. Leikarnir voru í fyrsta sinn haldnir í Asíu. Með hjálp gervihnattatækni var leikunum sjónvarpað bæði víðar og meira mæli en nokkru sinni fyrr. Aðdragandi og skipulagning. Frá setningarathöfn leikanna. Tókýó átti upphaflega að halda ólympíuleikana 1940, en var svipt þeim vegna styrjaldar Japans og Kína. Borgin falaðist einnig eftir að halda leikana 1960, en fékk ekki. Á þingi Alþjóðaólympíunefndarinnar vorið 1959 hlaut Tókýó hins vegar yfirburðakosningu sem gestgjafi fimm árum síðar. Detroit, Vínarborg og Brussel sóttust einnig eftir hnossinu. Miklu var kostað til vegna undirbúnings leikanna og fjöldi nýrra mannvirkja reistur. Mikil áhersla var lögð á að hátækni við skipulagninguna, s.s. varðandi sjónvarpsútsendingar. Þá var ljósmyndatækni beitt til að skera úr um sigurvegara í kappgreinum og tölvustýrðar klukkur notaðar við tímatökur. Markmiðið var ekki hvað síst að sýna hversu framarlega Japan stæði á tæknisviðinu. Ungur íþróttamaður tendraði Ólympíueldinn við setningarathöfnina. Hann var fæddur í Hiroshima þann 6. ágúst 1945, sama dag og kjarnorkusprengju var varpað á borgina. Suður-Afríku var neitað um keppnisrétt vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar. Norður-Kórea og Indónesía ákváðu að sniðganga leikana til að mótmæla þátttöku Ísraels og Tævan. Keppnisgreinar. Keppt var í 163 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Einstakir afreksmenn. Karin Balzer frá Austur-Þýskalandi varð hlutskörpust í 80 metra grindahlaupi. Bandaríkin hlutu flest gullverðlaun, en Sovétmenn næstflest á leikunum. Gestgjafarnir komu svo í þriðja sæti. Bandaríkjamaðurinn Bob Hayes sigraði í 100 metra hlaupi á nýjum heimsmetstíma, 10,06 sekúndum. Hann varð síðar kunnur ruðningskappi með Dallas Cowboys. Abebe Bikila frá Eþíópíu varði gullverðlaun sín frá Ólympíuleikunum í Róm og varð þannig fyrstur allra til að sigra tvívegis í Maraþonhlaupi á Ólympíuleikum. Sovésku systurnar Irina og Tamara Press unnu báðar til gullverðlauna, aðra leikana í röð. Irina sigraði í tugþraut en Tamara í spjótkasti og kringlukasti. Haraldur krónprins Norðmanna tók þátt í siglingakeppni leikanna og var fánaberi norska liðsins við setningarathöfnina. Tekin var upp keppni í blaki á leikunum, en greinin naut mikilla vinsælda í Japan. Talið er að sigur japanska kvennaliðsins í úrslitaleiknum hafi verið sá íþróttaviðburður leikanna sem flestir heimamenn fylgdust með í sjónvarpi. Bandaríkjamaðurinn Joe Frazier hreppti gullverðlaunin í þungavigt í hnefaleikum. Hann varð síðar heimsmeistari í flokki atvinnumanna. Fimleikakeppni kvenna snerist upp í einvígi Larissu Latyninu frá Sovétríkjunum og Veru Cáslavská fræa Tékkóslóvakíu, sem báðar eru meðal sigursælustu fimleikakvenna sögunnar. Bandaríska liðið hafði lítið fyrir að vinna körfuknattleikskeppni leikanna. Í liði þeirra var Bill Bradley, sem síðar gerðist stjórnmálamaður og sóttist eftir að verða fulltrúi Demókrata í forsetakosningunum 2000. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Vegna mikils ferðakostnaðar treystu Íslendingar sér ekki til að senda nema fjóra íþróttamenn á leikana. Tvo sundmenn og tvo keppendur í frjálsum íþróttum. Guðmundur Gíslason varð 22. Í 400 metra fjórsundi á nýju Íslandsmeti. Sundkonan Hrafnhildur Guðmundsdóttir varð hins vegar fyrir því óláni að fingurbrotna í fyrstu grein sinni. Jón Þ. Ólafsson keppti í hástökki á leikunum og Valbjörn Þorláksson í tugþraut. Hafnaði Valbjörn í tólfta sæti í tugþrautarkeppninni. Íslenska knattspyrnulandslíðið tók þátt í forkeppni Ólympíuleikanna og mætti þar Englendingum í tveimur leikjum sem samtals töpuðust 10:0. Var þó um áhugamannalandslið Englands að ræða. Karl Wernersson. Karl Emil Wernersson er íslenskur viðskiptamaður og fyrrverandi milljarðamæringur. Karl átti m.a. Sjóvá, Milestone, Askar Capital og Lyf og heilsu. Sumarólympíuleikarnir 1968. Sumarólympíuleikarnir 1968 voru haldnir í Mexíkóborg frá 12. október til 27. október. Keppnisgreinar. Keppt var í 172 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Íslendingar sendu fjóra sundmenn, þrjá frjálsíþróttamenn og einn lyftingamann til þátttöku á leikunum. Ekkert Íslandsmet leit dagsins ljós á leikunum, sem ef til vill má kenna hinu þunna lofti í Mexíkóborg. Valbjörn Þorláksson keppti á sínum þriðju leikum í röð, en gat ekki lokið keppni í tugþraut vegna meiðsla. Óskar Sigurpálsson keppti í Ólympískum Lyftingum. Íslenska knattspyrnulandslíðið tók þátt í forkeppni Ólympíuleikanna og mætti þar áhugamannalandslið Spánar. Leiknum í Reykjavík lauk með 1:1 jafntefli, en Spánverjar unnu á heimavelli, 5:3 í fjörugum markaleik. Sumarólympíuleikarnir 1988. Sumarólympíuleikarnir 1988 voru haldnir í Seoul í Suður-Kóreu frá 17. september til 2. október. Keppnisgreinar. Keppt var í 237 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Handknattleikskeppni ÓL 1988. Með góðum árangri á HM í Sviss 1986, tryggði Ísland sér þátttökurétt á leikunum í Seoul og voru miklar vonir bundnar við góðan árangur. Styrkleikalisti Alþjóðahandknattleikssambandsins setti Ísland í fjórða sæti heimslistans skömmu fyrir leikana. Tólf lið kepptu í tveimur riðlum og var riðill Íslands ógnarsterkur. Fyrstu tvær viðureignir liðsins voru gegn lökustu andstæðingunum, Alsír og Bandaríkjunum. Unnust þeir leikir auðveldlega. Íslendingar reyndust Svíum lítil fyrirstaða í þriðja leiknum. Því næst fylgdi jafntefli gegn Júgóslövum, með jöfnunarmarki á lokasekúndunni. Sovétmenn reyndust svo of stór biti í lokaleik riðilsins. Andstæðingar Íslands í leiknum um sjöunda sætið voru Austur-Þjóðverjar og hefði sigur tryggt sæti á HM í Tékkóslóvakíu 1990. Leikurinn varð sögulegur. Eftir tvær framlengingar var staðan 28:28, en Þjóðverjarnir höfðu betur í vítakeppni. Sovéska landsliðið varð Ólympíumeistari með talsverðum yfirburðum, vann allar viðureignir sínar með nokkrum mun. Suður-Kórea hlaut silfurverðlaunin en Júgóslavar bronsið. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar sautján íþróttamenn til Seoul: sjö frjálsíþróttamenn, sex sundmenn, tvo júdókappa og tvo kappsiglingarmenn. Eðvarð Þór Eðvarðsson náði bestum árangri sundmanna, varð sautjándi í 100 metra baksundi. Uppskeran í frjálsíþróttakeppninni olli vonbrigðum. Íslendingar áttu á að skipa góðum keppendum í kastgreinum, s.s. kringlukastaranum Vésteini Hafsteinssyni, Kúluvarparanum Pétri Guðmundssyni og spjótkösturunum Vilhjálmi Einarssyni og Sigurði Einarssyni. Þeir voru allir nokkuð frá sínu besta. Einar varð þrettándi og Pétur fjórtándi. Sumarólympíuleikarnir 1992. Sumarólympíuleikarnir 1992 voru haldnir í Barcelona á Spáni frá 25. júlí til 9. ágúst. Keppnisgreinar. Keppt var í 237 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Handknattleikskeppni ÓL 1992. Þremur dögum fyrir setningu Ólympíuleikanna var tilkynnt að vegna samskiptabanns Sameinuðu þjóðanna, yrði Júgóslövum bannað að keppa í hópíþróttum á leikunum. Íslendingum var því boðið að hlaupa í skarðið á síðustu stundu í handknattleikskeppninni. Íslenska liðið fór rólega af stað. Naumur sigur vannst á liði Brasilíu í fyrsta leik. Því næst fylgdi jafntefli við Tékkóslóvakíu. Stórsigur á Ungverjalandi og sigur á Suður-Kóreu þýddu að liðið var komið í undanúrslit, þrátt fyrir skell gegn heimsmeisturum Svía í lokaleik riðilsins. Í undanúrslitunum reyndist lið Samveldis sjálfstæðra ríkja of sterkur andstæðingur fyrir íslenska liðið. Samveldið varð að lokum Ólympíumeistari eftir sigur á Svíum í úrslitum. Íslenska liðið tapaði loks fyrir Frökkum í leik um bronsið. Uppskeran varð því fjórða sætið, sem var besti árangur Íslands á stórmóti í handknattleik fram að því. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar þrettán íþróttamenn til Barcelona: fjóra frjálsíþróttamenn, tvær sundkonur, þrjá júdókappa, þrjá badmintonmenn og einn keppanda í skotfimi. Spjótkastarinn Sigurður Einarsson náði bestum árangri einstaklingsíþróttamannanna, hafnaði í fimmta sæti. Fyrir leikanna hafði Vilhjálmur Einarsson verið talinn líklegastur til afreka, en hann varð fjórtándi og missti naumlega af því að komast upp úr forkeppninni. Kringlukastarinn Vésteinn Hafsteinsson og kúluvarparinn Pétur Guðmundsson höfnuðu fyrir ofan miðjan hóp. Óvenjufáir íslenskir sundmenn tóku þátt á leikunum, þær Helga Sigurðardóttir og Ragnheiður Runólfsdóttir. Náði sú síðarnefnda nítjánda sæti í 100 metra bringusundi. Carl J. Eiríksson keppti í skotfimi. Hann var elstur þátttakenda á öllum leikunum, 65 ára að aldri. Keppendur Íslands í badminton og júdó féllu allir snemma úr keppni. Sumarólympíuleikarnir 1972. Sumarólympíuleikarnir 1972 voru haldnir í Munchen í Vestur-Þýskalandi frá 26. ágúst til 10. september. Keppnisgreinar. Keppt var í 195 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga. Handknattleikskeppni ÓL 1972. Innanhússhandknattleikur var í fyrsta sinn á dagskrá Ólympíuleikanna árið 1972. Íslenska landsliðið tryggði sér keppnisrétt með góðum árangri í forkeppni á Spáni í marsmánuði. Sextán lið tóku þátt og var Ísland í B-riðli ásamt Austur-Þýskalandi, Tékkóslóvakíu og Túnis. Íslendingar töpuðu fyrir Austur-Þjóðverjum í fyrstu viðureign og misstu unninn leik gegn Tékkóslóvakíu niður í jafntefli. Íslenska liðið hefði þurft að vinna 22 marka sigur á Túnis í lokaleik til að komast áfram úr riðlinum, en það tókst ekki. Eftir töp gegn Pólverjum og Japönum hafnaði íslenska liðið loks í tólfta sæti. Lið Júgóslava hlaut gullverðlaunin eftir sigur á Tékkum í úrslitaleik og bronsverðlaunin komu í hlut Rúmena. Þátttaka Íslendinga á leikunum. Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar fjóra sundmenn, fjóra frjálsíþróttamenn og tvo lyftingamenn á leikana þá Óskar Sigurpálsson og Guðmund Sigurðsson. Í Ólympískum Lyftingum varð Óskar Sigurpálsson í 19 sæti í -110 kg. flokki og Guðmundur Sigurðsson í 13. sæti í - 90 kg. flokki. Guðjón Guðmundsson náði bestum árangri sundmanna. Hann varð 36. í 100 metra bringusundi á nýju Norðurlandameti. Var hann valinn Íþróttamaður ársins 1972 fyrir afrek sitt. Sundkappinn Guðmundur Gíslason keppti á sínum fjórðu Ólympíuleikum. Í frjálsíþróttakeppninni varð Bjarni Stefánsson 30. í milliriðli í 400 metra hlaupi, en hafði áður sett nýtt Íslandsmet í forriðli. Lára Sveinsdóttir keppti í hástökki og varð þar með fyrst íslenskra kvenna til að keppa í frjálsum íþróttum á leikunum. Matthildur af Boulogne. Matthildur eða Maud (1105? – 3. maí 1152) var greifaynja af Boulogne í Frakklandi og drottning Englands frá 1135 til dauðadags, kona Stefáns Englandskonungs og einn öflugasti stuðningsmaður hans í borgarastyrjöldinni um miðja 12. öld. Matthildur var fædd í Boulogne og var dóttir Eustace 3. greifa af Boulogne og konu hans, Maríu af Skotlandi, dóttur Melkólfs 3. Skotakonungs og heilagrar Margrétar af Skotlandi. Hún var einkabarn foreldra sinna. Árið 1125 giftist hún Stefáni af Blois og þá sagði faðir hennar af sér og gekk í klaustur en Matthildur og Stefán tóku við stjórn Boulogne. Þau dvöldu þó oft í London því bæði áttu miklar eignir í Englandi og Stefán var í uppáhaldi hjá móðurbróður sínum, Hinrik konungi 1. Þegar Hinrik dó 1135 flýtti Stefán sér til Englands og tókst að fá sig samþykktan sem konung þótt Hinrik hefði ætlað dóttur sinni, Matthildi keisaraynju, krúnuna og fengið aðalsmenn, þar á meðal Stefán, til að sverja henni hollustu. Matthildur keisaraynja var mjög ósátt við að missa krúnuna úr höndum sér og brátt kom til borgarastyrjaldar sem stóð í mörg ár og hefur verið kölluð Stjórnleysið. Matthildur keisaraynja náði Stefáni konungi á sitt vald vorið 1141 og hélt honum föngnum en Matthildur drottning hvatti fylgismenn hans til dáða og tókst að kveða upp herafla og náði hálfbróður og herforingja Matthildar keisaraynju, Róbert hertoga af Gloucester, á sitt vald og gat haft fangaskipti á honum og Stefáni konungi. Matthildur var mun meiri skörungur en maður hennar, sem þótti lítill stjórnandi. Árið 1151 afhenti Matthildur Eustace, eldri eftirlifandi syni þeirra hjóna og líklegum ríkisarfa Englands, greifadæmið Boulogne. Hún dó svo ári síðar. Eustace dó skyndilega 1153 og þá erfði Vilhjálmur, yngri bróðir hans, Boulogne en varð hins vegar ekki Englandskonungur eftir föður sinn. Vilhjálmur dó barnlaus og María, eina eftirlifandi barn Matthildar og Stefáns, var þá þvinguð til að yfirgefa klaustrið sem hún hafði dvalist í frá barnsaldri og giftast til að tryggja hertogadæminu erfingja. Ætiþistill. Ætiþistill (fræðiheiti: "cynara cardunculus") er fjölær matjurt af körfublómaætt. Ætiþistillinn er þykkur og með kjötkennd reifablöð sem nefnd eru "þistilhjörtu", en þau eru borðuð sem grænmeti. Ætiþistillinn er skyldur "kambabollu" og trúlega upprunalega ræktað afbrigði hennar. Plantan er um eða yfir eins metra há og ber stór blóm. Þistilhjörtu eru góð og holl, trefjarík og fitusnauð, aðeins 25 hitaeiningra í meðalþistli og eru ágætur C-vítamín og fólínsýrugjafi, og innihalda nauðsynleg steinefni eins og magnesíum, mangan og króm. DaGeek. daGeek (áður TellmeTwin) er netsamfélag þar sem notendur gefa hlutum einkun eftir því hversu vel þeir kunna við viðkomandi hlut (bók, tónlist, kvikmynd eða hvað sem er). Notandinn getur síðan fundið fólk með svipaðan smekk eða fólk með algjörlega andstæðan smekk. Síðan fékk Red Herring 100 Europe verðlaunin árið 2009. Höfuðstöðvar daGeek eru í Reykjavík á Íslandi. Stöð (Eyrarsveit). Stöð í Eyrarsveit er lágt (268 m) aflangt fell á Brimlárhöfða, á milli Lárvaðals og Grundarfjarðar á Snæfellsnesi. Stöðin og systurfjall þess Kirkjufell, eru nær slitin frá meginfjallgarðinum og verða sem eyjar, þegar fellur að sjór yfir eiði þar á milli. Í Stöðinni leynast steingerðar skeljar og plöntuleifar af gróðri sem þarna spratt upp og dafnaði fyrir meira en miljón árum síðan. Samsvara þessi lög sér í aldri, þekktum hlýsjávarskeljalögum í Búlandshöfða. Svalþúfa. Svalþúfa er stór móbergshöfði skammt austan Lóndranga undir Jökli. Framhluti höfðans ber nafnið Þúfubjarg og er það mikið fuglabjarg. Þó svo Svalþúfa sé að jafnaði vel grasi vaxin, þá má ekki slá það, þar sem höfðinn er talinn vera í eigu álfa. Sagan hermir að kölski og Kolbeinn Grímsson hafi háð kvæðaeinvígi á bjargbrúninni og Kolbein sigrað með því að finna nýjan bragarhátt sem við hann er kenndur. Sölvahamar. Sölvahamar eru háir (50-60 m) sjávarhamrar norður af Arnarstapa og vestast í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Skammt fyrir ofan klettabrúnina er hraunið Klifhraun sem runnið er úr Snæfellsjökli og fram af hömrunum, sem í er mikið fuglalíf, falla nokkrir fossar og heitir einn þeirra Þrífyssa. Á fjöru má ganga undir klettunum og virða fyrir sér gróðurinn og jafnvel seli í sólbaði. Brekka er frá Sölvahamri og að Arnarstapa og heitir hún Stapaklif. Hefur gata verið sprengd inn í brekkuna, sem þykir ill yfirferðar á vetrum, og hlaðnir þar kantar. Á milli hraunjaðars og klettabrúna var fyrrum alfaraleið og lá gatan víða tæpt á brúninni fram með Klifhrauni og þar sem það stöðvast á brúninni er klettur. Eru til um þessa leið og klettinn ýmsar sagnir og tvennar sögur fara af forsendum fyrir Sölvanafni á hömrunum. Sögur og sagnir. Um klettinn fyrrnefnda segir, að hann heiti Göngukonusteinn og er um hann sú saga, að einhverju sinni hafi hestalest sem þar átti leið um riðið fram á förukonu þar sem hún lá undir steininum. Bað hún lestarmenn um matarbita og neituðu þeir umsvifalaust bón hennar. Reiddist hún þá mjög við og lagði svo á um, að hraun myndi þeim eyða. Gusu upp við svo búið jarðeldar og þeir eyddu hestalestinni. Vestan við Göngukonustein eru gamlar rústir ofan við götuna, sem hafa verið friðlýstar síðan 1928 og eru þær samkvæmt munnmælasögum rústirnar af bæ Sölva. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir að Bárði hafi sinnast svo við bróðurson sinn, Sölva Þorkelsson á Arnarstapa, að hann hafi tekið hann og varpað fram af hömrum þessum, Sölvi látið þar lífið og bær Sölva við svo búið lagst í eyði. Annars staðar segir svo frá í Landnámu, að Sölvi hafi numið land á milli Hellishrauns og Sleggjubeinsár og hafi hann fyrst búið í Brenningi en síðar á Sölvahamri. Þingvellir á Þórsnesi. Þingvellir á Þórsnesi er bær skammt fyrir ofan Stykkishólm í Snæfellsbæ. Þingvellir á Þórsnesi eru fyrir botni lítils vogs er nefnist Þingvallavogur og var þar fjórðungsþingstaður til forna. Þar hafa við fornleifarannsóknir fundist fleiri en 40 búðatóftir, sú lengsta yfir 20 m að lengd. Er getum að því leitt að fjórðungsþingstaður hafi þangað verið fluttur eftir að menn höfðu með heiftarblóði vanhelgað hinn fyrri þingstað. Í Eyrbyggja sögu segir, að þá er hún er rituð sjáist þar dómhringur og að inni í honum sé blótsteinn. Voru þeir menn sem blóta skyldi brotnir um stein þennan, er nefndur var Þórssteinn. Þórssteinn er þar enn svo kallaður, en dómhringur sést þar hvergi. Alex Ferguson. Sir Alex Ferguson (fæddur 31. desember 1941, einnig þekktur sem Fergie) er skoskur knattspyrnustjóri og fyrrverandi leikmaður. Hann er núverandi knattspyrnustjóri enska félagsliðsins Manchester United og hefur verið þar við stjórnvöld í rúm 26 ár. Ferguson hefur áður stýrt liðunum East Stirlingshire, St. Mirren og Aberdeen, auk þess sem að hann stýrði skoska landsliðinu tímabundið. Hann tók svo við Manchester United þann 6. nóvember 1986 og er þar enn. En hættir í lok leiktíðar 2012-2013 Galdraskræða Skugga. Galdraskræða Skugga er bók eftir Jochum M. Eggertsson rithöfund, sem nefndi sig "Skugga". Í bókinni er fjallað um galdra og galdrastafi, bæði hvítagaldur og svartagaldur. Helstu heimildir bókarinnar eru gömul handrit sem eru á Landsbókasafni og gamlar vestfirskar og norðlenskar galdraskræður. Kverið kom fyrst út 1940 en var endurútgefið af Bókavörðunni 1982. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar eða ÍBH eru samtök íþróttafélaga í Hafnarfirði. Ungmennasamband Kjalarnesþings. Ungmennasamband Kjalarnesþings eða UMSK eru samtök íþróttafélaga á Álftanesi, í Garðabæ, Kjósarhreppi, Kópavogi, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi. Jochum M. Eggertsson. Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu Skuggi. Hann var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Jochum sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna "Brísingamen Freyju", "Syndir guðanna - þessar pólitísku", "Viðskipta- og ástalífið í síldinni" og "Skammir sem menn hafa alltaf beðið eftir". Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag. Kenningar Skugga. Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina "Gullskinnu" eða "Gullbringu", sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu. Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu "Krýsa" (Chrysostomosa eða gullmunna) og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir. Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt. Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Hinrik 2. Englandskonungur. Hinrik 2. Málverk frá um 1620 eftir óþekktan listamann. Hinrik 2. (5. mars 1133 – 6. júlí 1189) var konungur Englands frá 1154 til dauðadags og jafnframt lávarður Írlands, hertogi af Normandí, Akvitaníu og Gaskóníu og greifi af Anjou, Maine og Nantes. Hann réði því mestöllu vestanverðu Frakklandi, auk meirihluta Bretlandseyja. Uppvöxtur og lýsing. Hinrik Plantagenet var sonur Geoffreys hertoga af Anjou og konu hans Matthildar, sem jafnan var nefnd Matthildur keisaraynja. Hún var dóttir Hinriks 1. Englandskonungs og taldi sig eiga erfðarétt eftir hann en frændi hennar, Stefán, hafði sölsað England undir sig og hún háði baráttu við hann árum saman og kallaðist það tímabil Stjórnleysið. Þegar Hinrik, elsti sonur hennar, óx úr grasi tók hann þátt í baráttunni og tók svo við af móður sinni og gerði tilkall til krúnunnar. Hinrik var rauðhærður og freknóttur, stór og sterkur og mikill íþróttamaður. Hann var mjög vel gefinn og sagður lærðasti konungur Evrópu á sinni tíð, frábærlega minnisgóður, tungumálamaður og lögspakur, lítillátur og mannblendinn, gjafmildur og gamansamur. Hann var hins vegar mikill skapmaður og átti oft erfitt með að hafa hemil á sér. Hjónaband og börn. Rósamunda fagra, ástkona Hinriks 2. Málverk eftir John William Waterhouse. Hinrik giftist Elinóru hertogaynju af Akvitaníu 18. maí 1152 en þá voru aðeins tveir mánuðir síðan hún hafði fengið hjónaband sitt og Loðvíks 7. Frakkakonungs gert ógilt. Hinrik var nítján ára en Elinóra þrítug. Hún var auðugasta kona Evrópu og með henni fékk hann hertogadæmin Akvitaníu og Gaskóníu, sem þau stýrðu í sameiningu. Hún var einnig orðlögð fyrir fegurð og gáfur. Hjónaband Hinriks og Elinóru var jafnan stormasamt. Þau áttu saman átta börn, synina Vilhjálm, sem dó í bernsku, Hinrik unga, Ríkharð ljónshjarta, Geoffrey 2. hertoga af Bretagne og Jóhann landlausa og dæturnar Matthildi hertogaynju af Saxlandi, Elinóru drottningu Kastilíu og Jóhönnu drottningu Sikileyjar. Hinrik var ekki trúr konu sinni og átti ýmsar hjákonur og nokkur óskilgetin börn. Þekktust ástkvenna hans var Rosamund Clifford eða Rósamunda fagra. Samband þeirra hófst um 1166, þegar Elinóra drottning gekk með yngsta barn sitt, og eru þau sögð hafa elskað hvort annað mjög heitt. Rosamund lést 1176 og gengu miklar sögur um að Elinóra hefði byrlað henni eitur en enginn fótur mun vera fyrir því, enda var hún þá í stofufangelsi og Rosamund hafði nýverið tekið sér bólsetu í klaustri, sem gæti bent til þess að hún hafi verið haldin einhverjum sjúkdómi. Konungur Englands. Í ársbyrjun 1153 hélt Hinrik yfir Ermarsund með þrjú þúsund manna her. Honum varð mjög vel ágengt og eftir að Eustace, sonur og erfingi Stefáns konungs, lést óvænt um sumarið ákvað Stefán að semja við hann, enda voru þegnar hans allir búnir að fá sig fullsadda af óstjórn og borgarastyrjöld, og urðu þeir ásáttir um að Hinrik tæki við krúnunni að Stefáni látnum þótt hann ætti son á lífi. Stefán dó í október árið eftir og 19. desember var Hinrik krýndur í Westminster Abbey. Þar með hófst valdatími Plantagenetættar. Skömmu eftir að Hinrik tók við ríki virðist hann hafa haft áform um að ráðast inn í Írland og vinna það handa Vilhjálmi, yngri bróður sínum, en Vilhjálmur dó skömmu síðar og ekkert varð af þessu fyrr en 1166, en þá leitaði írskur undirkonungur, Diarmait Mac Murchada, liðsinnis hans til að ná aftur ríki sínu, sem hann hafði verið hrakinn frá. Hinrik brást vel við en lagði allt landið undir sig í leiðinni og lýsti sig lávarð Írlands árið 1171. Þar með hófust yfir 800 ára yfirráð Englendinga. Morðið á Thomasi Becket. Hinrik átti í baráttu við kirkjuna og vildi reyna að draga úr völdum hennar. Helsti andstæðingur hans var Thomas Becket, erkibiskup af Kantaraborg, sem áður hafði verið vinur konungs. Í október 1164 kallaði konungur Becket fyrir ríkisráðið en biskupinn flúði til Frakklands og leitaði ásjár hjá Loðvík 7., þar sem hann dvaldi næstu árin. Árið 1170 var svo komið að páfinn hótaði að bannfæra allt England og féllst Hinrik þá á að Becket mætti snúa heim. Þó leið ekki á löngu þar til konungi gramdist svo við Becket að hann formælti honum í sand og ösku og fjórir riddarar konungs, sem heyrðu reiðilesturinn, töldu hann hvatningu til að grípa til aðgerða og 29. desember 1170 fóru þeir að Thomasi Becket í dómkirkjunni í Kantaraborg og drápu hann. Hinrik harmaði dauða hans alla tíð, enda varpaði morðið skugga á orðspor konungs. Þremur árum seinna gerði páfinn Becket að dýrlingi. Fjölskylduerjur. Gröf Hinriks 2. og Elinóru í Fontevraud-klaustri. Árið 1174 réðist Vilhjálmur ljón Skotakonungur inn í England en Hinrik gjörsigraði hann, tók hann til fanga og lagði sunnanvert Skotland undir sig. Um sama leyti voru eldri synir konungs vaxnir úr grasi. Þeir voru metnaðargjarnir og þótti faðirinn fastheldinn á völd í ríkjum sínum og ófús að láta þeim eitthvað eftir. Árið 1173 gerðu því Hinrik ungi og Rikharður ljónshjarta uppreisn gegn föður sínum en hann var fljótur að bæla hana niður og fór mildum höndum um synina en öðru máli gegndi um Elinóru móður þeirra, sem hafði stutt þá. Hún var sett í stofufangelsi og var þar meðan Hinrik lifði, eða í sextán ár. Árið 1182 kom aftur til átaka innan fjölskyldunnar en að þessu sinni tókust þrír elstu synirnir, Hinrik ungi, Ríkharður og Geoffrey, á og um leið var gerð uppreisn í Angoulême í Frakklandi. Hætta var á borgarastyrjöld en hún hvarf þegar Hinrik ungi dó skyndilega 11. júní 1183 og hinir bræðurnir hurfu þá tl síns heima. Árið eftir réðust þó Geoffrey, sem þá stýrði Bretagne, og Jóhann, lávarður Írlands á Ríkharð en hann var fljótur að hafa þá undir og þeir reyndu ekki aftur að rísa gegn honum. Raunar dó Geoffrey tveimur árum síðar og kann þá að hafa verið að undirbúa nýja uppreisn. Dauði Hinriks. Ríkharður, sem var farinn að óttast um arf sinn af því að faðir hans hafði meira dálæti á Jóhanni, gerði hins vegar bandalag við Filippus Ágústus Frakkakonung og þeir réðust saman inn í Anjou sumarið 1189. Hinrik, sem var farinn að heilsu og þreki, lét undan öllum kröfum þeirra. Hann lést svo 6. júlí, einn og yfirgefinn af öllum nema óskilgetnum syni sínum, Geoffrey erkibiskupi af York. Ríkharður var krýndur konungur Englands 1. september 1189. Vilhjálmur I (Prússland). Vilhjálmur I var fyrsti keisari Prússlands Vilhjálmur I (22. mars 1797 í Berlín – 9. mars 1888 í Berlin) var konungur og keisari Prússlands. Eftir að hafa ráðið Bismarck sem ríkiskanslara, stóð hann í stríði við Danmörku, Austurríki og Frakkland og vann þau öll. Fyrir vikið varð hann krýndur keisari Prússlands, en Prússland var keisararíki allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri. Prins. Vilhjálmur fæddist í Berlín, höfuðborg Prússlands, 1797. Foreldrar hans voru Friðrik Vilhjálmur III konungur Prússlands og Luise drottning, dóttir Karls II hertoga af Mecklenburg-Strelitz. Vilhjálmur var þó ekki nema næstelstur, en Friðrik Vilhjálmur (seinna konungur Prússlands) var eldri. Vilhjálmur hlaut herþjálfun ungur og aðeins 9 ára gamall gerði faðir hans hann að yfirforingja. Þetta gerðist nokkrum mánuðum eftir að prússar töpuðu fyrir Napoleon í orrustunum við Jena og Auerstedt. Hinn ungi yfirforingi fékk að fylgja föður sínum til Frakklands eftir fall Napoleons 1814, þá 17 ára gamall, og var með í för er París var hertekin. 8. júní 1815 var hann gerður að major. Hin aldni konungur Prússlands, Friðrik Vilhjálmur III, lést 1840. Varð þá eldri bróðir Vilhjálms næsti konungur landsins sem Friðrik Vilhjálmur IV. Í byltingunni miklu 1848 fékk Vilhjálmur það verkefni að brjóta byltingarherinn á bak aftur, sem hafði reist götuvígi. Eftir mikið stapp tókst það verkefni, en við mikið mannfall. Fyrir vikið varð Vilhjálmur afar óvinsæll og jafnvel hataður. Meðan byltingin stóð enn yfir tók konungur, bróðir hans, það til bragðs að senda Vilhjálm til Lundúna. Hann fékk þó að snúa aftur sama ár og á næsta ári sló hann niður byltingarsinna í vesturhluta Prússlands. Eftir það settist hann að í Koblenz. Meðan hann dvaldi þar naut hann mikilla vinsælda, sem bárust alla leið til Berlínar. Menn voru fljótir að gleyma hlutverki hans í að hrinda byltinguna á bak aftur. Þegar konungur, eldri bróðir hans, varð veikur 1857, varð Vilhjálmur staðgengill hans, enda var konungur að vísu kvæntur, en barnlaus. Konungur. Konungurinn lést 1861 og varð Vilhjálmur þá næsti konungur Prússlands. Hann var krýndur 18. október í Königsberg. Eitt stærsta vandamálið sem Vilhjálmur þurfti að glíma við var endurnýjun hersins. Þingið hafnaði breytingunni og vildu þingmenn sjálfir koma fram nýjum lögum sem konungi var ekki í geð. Þessi andstaða leiddi til þess að konungur réði Otto von Bismarck sem forsætisráðherra (þ.e. kanslara) í september 1862. Bismarck var reiðubúinn að starfa að málefnum konungs og fékk fyrir vikið að starfa að eigin hugðarefnum í leið. Bismarck var mikill skörungur í þinginu og í allri framkvæmd og varð það til þess að áhrif konungsins urðu meiri. Her og lögregla voru sett í fyrirrúmið, en innri bætur á þjóðfélaginu voru látnar bíða. Bismarck var harður á að festa landamæri ríkisins. Fyrsta hindrunin var Slésvíkurmálið, sem tæknilega tilheyrði þýska ríkinu, en laut þó Danakonungi. 1864 samþykkti Vilhjálmur stríðsyfirlýsingu á Dönum og í leifturstríði sigraði Bismarck Dani í orrustunni við Dybbøl 1864. Þessu fylgdi stríð við Austurríki, en bæði Prússar og Austurríkismenn sóttust eftir forræði í þýska bandalaginu. 1866 tók Vilhjálmur að sér herstjórnina gegn Austurríki og sigraði þá í orrustunni við Königsgrätz. Ári síðar var norðurþýska sambandið stofnað og var Prússland þá leiðandi aðili í því með Vilhjálm konung sem forseta þess. 1870 sagði Frakkland Prússlandi stríð á hendur. Ástæða þess var að Prússland hafði boðið upp á Leópold prins af Hohenzollern-Sigmaringen sem nýjan konung Spánar. Þetta gátu Frakkar ekki sætt sig við, þar sem þeir óttuðust þýska innrás úr tveimur áttum. Aftur var Vilhjálmur konungur herstjórnandi prússahers, sem sigraði í orrustunum við Gravelotte og við Sedan. Eftir þessa sigra var leiðin til Parísar greið. Í Versölum var samið um frið, en jafnframt fór fram undirbúningur á stofnun þýsks ríkis með Vilhjálm konung sem leiðtoga. Keisari. Keisarakrýning Vilhjálms í Versölum 1871. Fyrir miðju sér í Bismarck kanslara (í hvítum jakka). Það var erfitt fyrir Bismarck að sannfæra Vilhjálm konung um að stofna þýska ríkið og láta Prússland leysast upp í því, jafnvel þó að Vilhjálmur ætti að vera þjóðarleiðtogi hins nýja ríkis. Bismarck lagði til að Vilhjálmur yrði krýndur keisari, en Vilhjálmur var mjög mótfallinn þeirri hugmynd, allt fram á síðasta dag. En hann lét loks undan. Vilhjálmur var krýndur keisari hins nýja þýska ríkis í speglasal kastalans í Versailles 18. janúar 1871. Þá voru nákvæmlega 170 ár liðin síðan að Prússland varð að konungsríki. Við krýninguna var Vilhjálmur enn reiður Bismarck eftir rifrildi þeirra í milli um titil hins nýja keisara. Vilhjálmur hafnaði því að láta kalla sig "keisara Þýskalands" eða "þýski keisarinn". Friðrik I, stórhertogi af Baden, sem fékk það hlutverk að hylla keisarann í krýningunni, leysti vandann með því að hrópa ‘Vilhjálmur keisari.’ Eftir krýninguna tók Vilhjálmur ekki í hönd Bismarcks. Keisarinn varð þess áþreifanlega var að stefna og stjórnmál voru ákvörðuð af Bismarck. Við þetta varð keisari æ gramari með hverju ári sem leið. Hann samþykkti þó að vera gestgjafi þriggjakeisarafundarins í Berlín 1872, er Frans Jósef I frá Austurríki og Alexender II frá Rússlandi, sóttu. 1878 var gerð skotárás á Vilhjálm er hann reið einsamall í opnum vagni í miðborg Berlínar. Hann fékk högl í andlit og öxl og særðist alvarlega. Það tók hann hálft ár að ná heilsu á ný. Vilhjálmur naut vaxandi vinsælda í þýska ríkinu í elli sinni. Hann naut einnig friðar, enda stjórnaði Bismarck ríkinu í raun. Margir sáu í Vilhjálmi tákngerving Prússlands. Hann lést í Berlín 1888 á 91. aldursári. Fjölskylda. Vilhjálmur kvæntist 11. júní 1829 Ágústu frá Sachsen-Weimar-Eisenach. Hjónaband þeirra var ekki sérlega lukkulegt, enda skipulagt af foreldrum þeirra. Þeim var þó tveggja barna auðið. Orrustan við Dybbøl. Orrustan við Dybbøl (danska: "Slaget ved Dybbøl") var eina orrustan í þýsk / danska stríðinu 1864 en henni töpuðu Danir. Barist var um yfirráðin yfir héraðinu Slésvík sem Danir höfðu áður innlimað. En fyrir vikið innlimuðu prússar héraðið. Forsaga. Héraðið Slésvík var í gegnum aldirnar nyrsta svæði þýska ríkisins. Á hinn bóginn voru Danakonungar hertogar héraðsins. Í raun má segja að stjórnkerfið væri í höndum Danakonunga en skatturinn rann til keisarans. Í þjóðarvakningunni á 19. öld kröfðust þýskumælandi íbúar héraðsins sameiningu við þýska ríkið, það er að segja Prússland. Kristján IX Danakonungur ásældist að sama skapi héraðið og neitaði íbúum réttinn um kosningu. Aftur á móti löggilti hann dönsk lög í héraðinu, þrátt fyrir að Slésvík og Holtsetaland voru meðlimir í þýska sambandinu. Þetta gat Bismarck kanslari ekki sætt sig við. Hann setti Dönum úrslitakosti um að leyfa kosningu og taka lögin aftur. Þegar því var ekki sinnt sögðu Prússland og Austurríki Dönum stríð á hendur. Fram kemur í bók Sverris Kristjánssonar sagnfræðings að í örvæntingarfullri tilraun Dana við að halda í Slésvík hafi þeir boðið Bismarck að skipta á Íslandi og hluta af Slésvík, en því var hafnað. Orrustan. Þegar úrslitakostum Bismarcks var ekki sinnt fóru prússneskir og austurrískir herir yfir ána Egðu, sem þá markaði landamæri ríkjanna. Þetta gerðist 1. febrúar 1864. Austurríkismenn áttu að ráðast á Dani við Danavirki en Prússar að sneiða framhjá og ráðast á Dani að aftan. Þetta misheppnaðist þar sem danski herforinginn sá hvað verða vildi og veik með danska herinn á eyjuna Als. Ekki þótti ráðlegt að elta Dani þangað sjóleiðina. Prússar gengu því landleiðina áleiðis til Sønderborg, sem liggur við sundið til Als. Á meðan bjuggu Danir sig undir orrustu við Dybbøl, rétt vestan við Sønderborg. Prússar komu þangað 7. febrúar og urðu einhverjar skærur milli herjanna. Þegar Austurríkismenn voru komnir á vettvang hófst stórsóknin 18. febrúar. Sameiginlega voru þeir um 37 þúsund talsins, en Danir aðeins um 11 þúsund. Fyrsta sóknin hófst kl. 2 um morguninn með byssuskothríð. Kl. 10 gengu hermenn fram í bardaga og stóð hann til 13:30. Þá gáfust Danir upp. Í orrustunni létust um 1200 Prússar en tæplega 5000 Danir. Eftirmáli. Með sigri Prússa og Austurríkismanna við Dybbøl hertók Bismarck hertogadæmin Slésvík og Lauenburg en Austurríki hlaut Holtsetaland. Á þeim tíma náði Slésvík lengra í norður en í dag. 1867 varð Holtsetaland einnig prússneskt. Það var ekki fyrr en eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri að Danir hlutu norðurhluta Slésvíkur á ný og voru þá sett þau landamæri sem enn eru í gildi í dag. Dover. St Mary in Castro & Roman Lighthouse Dover er bær og mikilvæg ferjuhöfn í sýlsunni Kent í Suðaustur-Englandi. Bærinn snýr að Frakklandi og liggur við þrengstu lengju Ermarsundsins. Dover er fyrir suðaustan Kantaraborg, fyrir austan höfuðbæ sýlsunnar Maidstone og fyrir norðaustan Dungeness og Hastings. Bærinn er þjónustumiðstöð svæðisins og þaðan sigla ferjur til Calais í Frakklandi. Höfnin í Dover er stór og mikilvæg og er næsta höfnin að Frakklandi í Englandi. Dover er þekkt um heim allan fyrir kalksteinshamrana "Hvítukletta". Uppgröftur á svæðinu sýna að staðsetning bæjarins hafi verið mikilvæg í gegnum söguna, og að fólk hafi lengi verið að koma inn í og fara ut úr landinu í gegnum Dover. Áin Dour gaf bænum nafnið hans og er meðal fárra enskra staðarnafna sem eiga samsvarandi nöfn í frönsku: "Douvres". Flestir sem búa í Dover vinna í þjónustum tengdum ferjunum, þótt margar ferjaþjónustur hafi hætt undanfarin ár. Margir vinna í ferðamannaþjónustu. Það var einu sinni hermannaskáli í Dover, en honum var lokað árið 2007. Javier Hernández. Javier Hernández Balcázar (f. 1. júní 1988), einnig þekktur sem Chicharito'", er mexíkóskur knattspyrnumaður sem spilar sem framherji fyrir enska liðið Manchester United, fyrstur allra Mexíkóa, og mexíkóska landsliðið. Hann var áður samnigsbundinn mexíkóska liðinu Guadalajara. Æskuár. Hernández fæddist í mexíkósku borginni Guadalajara þann 1. júní 1988. Faðir hans, Javier Hernández Gutiérrez, er fyrverandi landsliðsmaður Mexíkó. C.D. Guadalajara. Hernández skrifaði undir atvinnumannasamning hjá C.D. Guadalajara 15 ára að aldri, eftir að hafa æft hjá félaginu síðan hann var níu ára. Hans fyrst leikur fyrir aðalliðið var árið 2006 og skoraði hann í þeim leik. Manchester United. Hernández vakti fyrst athygli njónara Manchester United í október 2009. Manchester United gerðu síðan tilboð í leikmanninn eftir að hann var valinn í landsliðshóp Mexíkóa fyrir HM 2010. Þann 8. apríl 2010 samþykkti Hernández samning sem Manchester United bauð honum. Hluti samningsins var að United myndu leika gegn Guadalajara í undirbúningstímabili sínu. Félagsskiptin voru gerð opinber þann 1. júní 2010. Hernández spilaði svo sinn fyrsta leik fyrir Manchester United þegar hann kom inn á fyrir Nani á 63. mínútu í leik liðsins gegn úrvalsliði MLS-deildarinnar; og skoraði 18 mínútum seinna. Hann skoraði gegn Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn eftir að hafa sparkað boltanum í andlit sitt og þaðan í netið. Mexíkó U-20. Hernández var einn af 21 leikmönnum sem valinn var í U-20 ára landslið Mexíkóa fyrir U-20 HM 2007 sem var haldið í Kanada. Honum var úthlutað treyju númer 11. Mexíkóska landsliðið. Þann 30. september 2009 lék Hernández sinn fyrsta leik fyrir A-landsliðið geng Kólumbíu, þar sem hann lagði upp mark í 2-1 tapi. 24. febrúar 2010 skoraði hann fyrstu mörk sín er hann gerði tvö mörk gegn Bólivíu. Hernández var valinn í hópinn fyrir HM 2010 í Suður-Afríku. Hann skoraði tvö mörk þar, eitt á móti Frakklandi og annað gegn Argentínu. Tenglar. Hernández, Javier Hastings. Hastings er bær í sýslunni Austur-Sussex á Englandi. Hann er þekktastur fyrir orrustuna við Hastings sem háð var þar í grennd árið 1066. Orrustan markaði upphaf landvinninga Normanna á Englandi. Hastings var mikilvægur fiskibær í margar aldir. Þótt fiskiveiðar séu ekki jafnmikilvægar í bænum og áður er þar stærsti strandveiðifloti á Englandi. Seinna varð Hastings vinsæll orlofsstaður. Bærinn hefur einnig verið kallaður upphafsstaður sjónvarps, því uppfinningamaðurinn John Logie Baird bjó þar á árunum 1922–24. Hastings er ennþá vinsæll ferðamannastaður, þótt hótelin séu færri í dag en áður. Árið 2008 voru íbúar bæjarins um 86.400. Bringuhár. Bringuhár er almennt heiti yfir þekju líkamshára sem vex á brjósti karlmanna. Hárvöxturinn er mismunandi milli einstaklinga og stjórnast bæði af erfðum og svo magni karlhormóna í blóði, hárin fara að vaxa á lokastigi kynþroskaskeiðsins. Bringuhár geta þakið svæði allt frá skeggrót á hálsi, yfir axlir og niður eftir endilöngum kvið karlmannsins þar sem þau tengjast skapahárum hans. Þéttleikinn og þau svæði sem bringuhár manna þekja eru mjög mismunandi eftir einstaklingum en eru þó oft flokkuð í mynstur eftir fjórum algengustu svæðunum þar sem þau vaxa. Karlmenn sem hafa mikinn og þéttann hárvöxt á bringu og líkama eru gjarnan kallaðir „loðnir“. Þrátt fyrir sérstætt líffræðilegt gildi þá hefur loðinn bringa karlmannsins einnig haft stórt menningarlegt gildi í gegnum mannkynssöguna. Í sumum menningarheimum voru bringuhár álitin dýrsleg og villimannsleg, en öðrum, einkum norður Evrópu og Skandinavíu voru bæði mikill skeggvöxtur og bringuhár álitin merki um þrótt, styrk, karlmennsku og fegurð. Vöxtur og þroski. Þótt líkamshárin séu flest til staðar á líkama stráka í æsku þá á hugtakið bringuhár aðeins við þau endanlegu líkamshár sem myndast eftir að seyting karlhormóna (aðalega testósteróns) hefur náð hámarki í blóði þeirra eftir kynþroska. Líkt og skegg eða skapahár eru bringuhárin af annari gerð en höfuðhár og flokkast undir kynhár. Karlmenn er þaktir mun meira af líkamshárum en kvenmenn einkum á bringu, baki, lærum, maga og andliti. Vöxtur bringuhára hefst vanalega á síðustu stigum kynþroskaskeiðsins, milli 16 og 19 ára aldurs hjá sumum, en milli 20 og 30 hjá öðrum, svo vöxtur líkamshára hefur ekki náð lokastigi hjá mörgum ungum mönnum fyrr en eftir þrítugt. Hinrik ungi. Hinrik ungi (28. febrúar 1155 – 11. júní 1183 var elstur þeirra fjögurra sona Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu sem upp komust og átti að erfa krúnuna. Hann var krýndur meðkonungur föður síns árið 1170 en lést á undan honum og er ekki talinn með í ensku konungaröðinni. Hinrik var jafnan nefndur Hinrik ungi eða ungi konungurinn (enska: H"enry the Young King") til aðgreiningar frá föður sínum. Hann er sagður hafa verið glæsimenni, glaðlyndur, háttprúður og gjafmildur en um leið hégómafullur, kærulaus, fyrirhyggjulaus og lítill stjórnandi. Hann hafði heldur engan sérstakan áhuga á daglegri stjórn ríkisins, öfugt við föður sinn og yngri bræður, en var hins vegar sá eini af fjölskyldunni sem naut vinsælda meðal almennings. Hann var íþróttamaður, hafði mikinn áhuga á burtreiðum og ferðaðist fram og aftur um Frakkland til að taka þátt í burtreiðastefnum. 2. nóvember 1160, þegar Hinrik var fimm ára, var gengið frá trúlofun hans og Margrétar af Frakklandi, dóttur Loðvíks 7. og miðkonu hans, Konstönsu af Kastilíu. Hún var þá tveggja ára. Trúlofunin átti að tryggja sátt milli Frakklands og greifadæmisins Anjou, en það var eitt þeira léna sem Hinrik 2. réði yfir á meginlandinu, um ákveðnar jarðeignir og var samið um að þær yrðu heimanmundur Margrétar. Þau giftust svo tólf árum síðar, 27. ágúst 1172. Þau eignuðust aðeins einn son sem fæddist fyrir tímann 1177 og dó fárra daga gamall. Ári eftir brúðkaupið gerði Hinrik ungi uppreisn gegn föður sínum, líklega vegna þess að prinsinn var ósáttur við að faðir hans vildi ekki láta honum eftir neitt af ríkinu til að stjórna en djúpstæð óánægja ýmissa aðalsmanna með stjórn Hinriks virðist hafa ýtt undir. Ríkharður ljónshjarta, næstelsti sonurinn, tók einnig þátt í uppreisninni. Hinrik hélt þó velli og sendi Elinóru drottningu, sem hafði stutt syni sína, í stofufangelsi en sættist við synina. Ríkharður var sendur til Akvitaníu til að berja á aðalsmönnum sem höfðu stutt þá bræðurna í uppreisninni en Hinrik ungi sneri sér að burtreiðum á ný og fékk auknar fjárveitingar frá föður sínum til að sinna áhugamáli sínu. Upp úr 1180 fór spennan milli Hinriks unga og Ríkharðs bróður hans vaxandi og 1183 réðust Hinrik og Geoffrey, þriðji bróðirinn, inn í Akvitaníu. Innrásin rann þó út í sandinn þegar Hinrik fékk blóðkreppusótt og dó 11. júní um sumarið. Þar með var Ríkharður orðinn ríkiserfingi. Integralismi. Integralismi er heimspekileg og stjórnmálaleg hugmyndafræði sem byggir á þeirri trú að samfélög manna sem og annara dýrategunda séu í grundvelli sínum lífræn heild. Hann hefur að geyma trú á félagslegt stigveldi þar sem samhljóða samvinna milli mismunandi þjóðfélagsstétta eða erfðastétta stendur í fyrirrúmi. Intergralismi er oft álitin einkennast af trú á sterka hefðarhyggju sem byggir á tilfinningu fyrir varðveitingu „blóðs og jarðar“ eða „umhverfis og erfða“. Samkvæmt kenningunni eru bestu stjórnmálastofnanirnar fyrir hverja þjóð fyrir sig mismunandi allt eftir sögu, menningu og því ytra umhverfi sem þjóðin hefur þróast og mótast í. Integralismi hefur verið talin skyldur fasisma en slík samlíking er umdeild þar sem margir þættir integralismans stangast á við kenningar fasismas, þar má sérstaklega nefna þá áherslu sem hann leggur á mikilvægi þess að efla átthagabönd og hreppapólitík. Ágrip af Noregskonungasögum. Ágrip af Noregskonungasögum, eða Ágrip, er konungasaga sem gefur stutt yfirlit um sögu Noregskonunga frá því um 880 til 1136. Sagan er rituð af óþekktum höfundi um 1190, líklega í Niðarósi, og er elsta konungasagan sem varðveist hefur. Ágrip er varðveitt í einu íslensku skinnhandriti frá árabilinu 1200–1225, sem er nú í Árnasafni í Kaupmannahöfn, undir nafninu AM 325 II 4to. Handritið er ekki heilt, og vantar bæði upphaf og endi. Árni Magnússon komst yfir það árið 1707 og gerði sér strax grein fyrir að það væri einstæður gripur (rarissimum). Samkvæmt upplýsingum sem hann aflaði var það áður á Hvalfjarðarströnd og í Kjós. Frásögnin hefst með fráfalli Hálfdanar svarta og endar um það leyti sem Ingi krypplingur tók við völdum, og nær því u.þ.b. yfir árabilið 880–1136. Sagan hefur líklega hafist á ævi Hálfdanar svarta, föður Haralds hárfagra og er talið að frásögnin hafi endað með falli birkibeinans Eysteins meylu árið 1177, um það leyti sem Sverrir konungur komst til valda. Hugsanlegt er að Sverrir konungur hafi átt frumkvæðið að verkinu til þess að setja sín eigin afrek í stærra samhengi. Höfundurinn hefur notað bæði rit á latínu og norrænu, en einnig einnig munnlegar heimildir, einkum úr Þrándheimi, og hann hefur verið vel að sér í norskum lögum. Sagan er frekar klaufalega samin. Ágrip er oft borið saman við tvö önnur yfirlitsrit um sögu Noregs frá svipuðum tíma, "Historia Norvegiæ" og "Historia de Antiquitate Regum Norwagiensium", eftir Theodoricus monachus. Bæði þessi rit eru á latínu. Aftur á móti var Ágrip brautryðjandaverk að því leyti að það var skrifað á því máli sem þá var talað í Noregi. Heildarhyggja. Heildarhyggja er sú kenning að tilteknar heildir (til dæmis lifandi verur eða hugmyndakerfi) beri að skoða og skilja sem slikar en ekki einungis út frá pörtum sínum. Fatamölur. Fatamölur (gulur fatamölur og sem fullorðið dýr mölfluga) (fræðiheiti: "Tineola bisselliella") er fiðrildi af mölfiðrildaætt. Fatamölurinn er víða meindýr og lifir á dýrahárum (svo sem ull) og fiðri. Listi yfir Greek-þætti. Þetta er listi yfir alla Greek-þætti, en Greek eru bandarískir sjónvarpsþættir sem voru upphaflega frumsýndur á ABC Family þann 9. júlí 2007. Yfirlit. Eftir að fyrstu 10 þættirnir voru sýndir, var gert hlé á framleiðslu þáttarins vegna verkfalls handritshöfunda. Vegna þess að það átti eftir að sýna seinni hluta 1. þáttaraðar, voru fyrstu 10 þættirnir gefnir út á DVD sem "1. þáttaröð: Fyrsti kafli". Eftir að verkfallinu lauk var seinni helmingur þáttaraðarinnar gefinn út sem "1. þáttaröð: Annar kafli". Þær þáttaraðir sem fylgdu í kjölfarið var einnig skipt til helminga, eða í kafla. Fyrsta þáttaröð 2007-2008. Fyrsti kafli þáttanna fylgist með nýnemanum Rusty Cartwright (Jacob Zachar) þegar hann tekst á við Cyprus-Rhodes háskólann (CRU). Rusty er vísinda-nördi en systir hans, Casey Cartwright (Spencer Grammer), er ein sú vinsælasta í kerfinu. Þegar Rusty ákveður að ganga í bræðrafélag rekast félagslíf þeirra á. Rusty sér þegar kærasti Casey, Evan (Jake McDorman), heldur framhjá henni með Rebeccu Logan (Dilshad Vadsaria), einnig nýnema. Casey nær sér niður á Evan með því að sofa hjá fyrrverandi kærasta sínum, Cappie (Scott Michael Foster), forseta partý-bræðrafélagsins, Kappa Tau, sem Rusty gengur síðan til liðs við. Í gegnum þáttaröðina vinnur Casey í sambandi sínu við Evan og berst við Rebeccu sem reynir að grafa undan því valdi sem hún hefur í ZBZ. Rusty reynir að finna jafnvægi á milli þess að vera í bræðrafélaginu og vera heiðursnemandi í verkfræði, með hjálp frá Casey, Cappie, herbergisfélaganum Dale (Clark Duke), vininum Calvin (Paul James) og fyrstu kærustunni Jen K (Jessica Rose). Asleigh (Amber Stevens) verður vinkona Calvins og lætur óvart meðlimi Omega Chi vita að hann er hommi. Þegar Jen K skrifar grein í skólablaðið sem segir frá öllum leyndarmálum grísku raðarinnar, neyðist Casey til að taka sér sæti forseta systrafélagsins. Rusty hættir með Jen K og Evan hættir með Casey vegna þess að hún ber enn tilfinningar til Cappie. Annar kaflinn byrjar í fyrstu viku nýrrar annar. Grikkirnir neyðast nú til að hlýða mun strangari reglum en áður og Casey er undir vökulu auga fulltrúa alþjóðanefndar ZBZ, Lizzie (Senta Moses), sem kemur með mun meiri hefðir og reglur inn í systrafélagið. Cappie og Rebecca byrja saman og Evan og Casey læra að vera vinir þar til afbrýðissemi Evans verður fyrir. Casey fyrirgefur Frannie og hleypir enni aftur inn í ZBZ, Rusty syrgir lok fyrsta sambands síns og keppnin milli bræðrafélagana verður til þess að það slitnar upp úr vináttu hans við Calvin. Saga Cappie, Casey, Evans og Frannie er skoðuð í afturlitsþætti. Grískar hefðir eru skoðaðar í öðrum kafla, eins og Hr. Fullkominn (Mr. Purr-fect) keppni, All Greek-boltinn og foreldrahelgi. Allar þessar hefðir leiða til þess að í vorhléinu brotnar Rebecca niður vegna föður síns og segir Cappie til syndanna þegar hún er drukkin, sem verður til þess að Cappie og Casey kyssast á ströndinni og Rusty og Calvin verða aftur vinir. Elinóra af Akvitaníu. Elinóra af Akvitaníu (1122 – 1. apríl 1204) var hertogaynja af Akvitaníu, sem hún erfði eftir föður sinn, drottning Frakklands 1137-1152 og síðan drottning Englands 1154-1189. Hún var móðir Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa. Hún var ein auðugasta og valdamesta kona í Vestur-Evrópu á miðöldum. Uppvöxtur. Elinóra var elst þriggja barna Vilhjálms 10., hertoga af Akvitaníu, og konu hans, Aenor de Châtellerault. Yngri bróðir hennar dó í bernsku og móðir þeirra um leið en systirin Petrónilla lifði. Hún átti líka tvo óskilgetna hálfbræður. Elinóra var erfingi föður síns en hertogadæmið Akvitanía var stærsta og auðugasta hérað Frakklands og hún var því besti kvenkostur landsins og þótt víðar væri leitað. Faðir hennar var sjálfur vel menntaður listunnandi og kappkostaði að veita dætrum sínum bestu fáanlega menntun. Elinóra talaði og skrifaði latínu, var vel að sér í tónlist og bókmenntum en einnig í reiðlist og veiðum. Hún er sögð hafa verið mjög vel gefin, lífsglöð, mannblendin og sterkur persónuleiki. Árið 1137 lagði Vilhjálmur hertogi af stað í pílagrímsferð til Santiago de Compostela á Spáni og skildi dætur sínar eftir í umsjá erkibiskupsins í Bordeaux. En hann dó á leiðinni, 9. apríl 1137, og varð Elinóra þá hertogaynja. Vilhjálmur fól í erfðaskrá sinni Loðvík 6. digra Frakkakonungi forræði hennar og bað konung að finna henni hentugan eiginmann. Þar sem hætta var á að Elinóru yrði rænt og hún neydd til að giftast einhverjum sem vildi krækja í auð hennar fól hann förunautum sínum að leyna dauða sínum þar til konungurinn hefði verið látinn vita og Elinóra væri örugg. Drottning Frakklands. Loðvík digri, sem sjálfur var fárveikur, var ekki seinn á sér að grípa tækifærið. Ríkisarfinn, Loðvík sonur hans, var ókvæntur og innan fárra klukkustunda var hann lagður af stað til Bordeaux með fríðu föruneyti og þann 25. júlí 1137 voru þau Elinóra gefin saman þar. Um leið varð Loðvík hertogi af Akvitaníu við hlið Eleónóru en þó var það skilyrði sett að hertogadæmið héldi sjálfstæði sínu þar til elsti sonur Elinóru hefði tekið við bæði hertogadæminu og frönsku krúnunni. Þann 1. ágúst dó svo Loðvík digri og Loðvík 7. varð konungur. Hann var þá 17 ára en Elinóra 15 ára. Vinstri helmingur myndarinnar sýnir brúðkaup Elinóru og Loðvíks; á þeim hægri sést Loðvík leggja af stað í krossferðina. Ungu konungshjónin áttu ekki vel saman. Loðvík var vel menntaður en strangtrúaður og siðavandur, enda hafði honum verið fyrirhugaður frami innan kirkjunnar, þar til eldri bróðir hans dó óvænt. Elinóra á einhvern tíma að hafa sagt: „Ég hélt að ég hefði gifst konungi en ég giftist munki.“ Elinór var ekki vinsæl við hirðina, þótti léttúðug og ekki nægilega alvörugefin. Loðvík var þó mjög ástfanginn af konu sinni og lét allt eftir henni. Petrónilla, systir Elinóru, hafði fylgt henni og var í tygjum við aðalsmann nokkurn, Raoul af Vermandois, en sá hængur var að hann var giftur Elinóru, systur Teóbalds greifa af Champagne og Stefáns Englandskonungs. Að beiðni Elinóru leyfði Loðvík Raoul að segja skilið við konu sína og giftast Petrónillu en fyrir það voru þau bannfærð af páfanum og Loðvík átti í tveggja ára stríði við Teóbald greifa. Árið 1145 ákvað Loðvík að taka sjálfur þátt í Annarri krossferðinni og Elinóra krafðist þess að fara með. Þau komust til Antiokkíu eftir mikið harðræði - Loðvík hafði meðal annars sloppið naumlega þegar Tyrkir slátruðu hluta af her hans af því að hann var klæddur hversdagslegum kufli eins og pílagrímur en einkennisklæddir lífverðir hans voru strádrepnir. Í Antiokkíu réði Raymond af Poitiers, föðurbróðir Elinóru, ríkjum og fór ákaflega vel á með þeim, enda höfðu þau verið mjög náin í bernsku, en Raymond var fáeinum árum eldri en Elinóra. Gekk jafnvel orðrómur um að þau væru elskendur en ekkert er nú talið benda til að það sé rétt. Eftir fleiri ósigra franska hersins komust konungshjónin til Jerúsalem og héldu þaðan til Rómar og svo til Frakklands. Samkomulag Loðvíks og Elinóru fór síversnandi og konungsríkið skorti erfingja - þau áttu tvær dætur en engan son. Elinóra vildi segja skilið við mann sinn og hann samþykkti það loksins. Þann 21. mars 1152 var hjónaband þeirra dæmt ógilt með páfaleyfi á þeiri forsendu að þau væru of skyld til að eigast, en þau voru bæði afkomendur Róberts 2. Frakkakonungs. Dætur þeirra tvær, María og Alix, skyldu þó teljast skilgetnar. Elinóra skyldi jafnframt fá hertogadæmið og aðrar eignir sínar aftur. Drottning Englands. Elinóra var 32 ára, miðaldra á þeirra tíma mælikvarða, en enn glæsileg kona og hún var á ný orðin einn álitlegasti kvenkostur Vestur-Evrópu. Hún hélt heim til Poitiers en á leiðinni reyndu tveir aðalsmenn, Teóbald 5., greifi af Blois (sem seinna giftist Alix dóttur Elinóru(), og Geoffrey greifi af Nantes (18 ára bróðir Hinriks hertoga af Normandí) að ræna henni í þeim tilgangi að giftast henni og krækja þar með í eignir hennar. Báðar tilraunirnar mistókust en 18. maí 1152, sex vikum eftir að hjónaband Elinóru og Loðvíks var ógilt, giftist hún Hinrik hertoga af Normandí. Hann var um 11 árum yngri en hún og skyldari henni en Loðvík hafði verið. Áður hafði komið til greina að Hinrik giftist Maríu, eldri dóttur Elinóru, en það var þá ekki talið koma til greina vegna skyldleika þeirra; hins vegar sagði enginn neitt þegar hann giftist móður hennar, sem var þó skyldari honum. Hinrik varð konungur Englands 25. október 1154 og Elinóra drottning. Þau eignuðust saman fjóra syni og þrjár dætur sem lifðu til fullorðinsára. Hjónabandið var sagt mjög stormasamt. Hinrik var kvennabósi og átti hjákonur og nokkur börn með þeim en þekktust ástkvenna var Rosamund Clifford eða Rósamunda fagra. Þegar Rosamund dó fóru af stað miklar sögur um að Elinóra hefði byrlað henni eitur en enginn fótur er talinn vera fyrir þeim. Í desember 1167, ári eftir fæðingu yngsta barnsins, Jóhanns, hélt Elinóra til Akvitaníu og bjó um sig í Poitiers, þar sem hún og María dóttir hennar höfðu um sig Ástarhirðina svonefndu, miðstöð riddaramennsku og rómantíkur, umkringdar trúbadorum og listamönnum. Margar sagnir spunnust um Ástarhirðina en í raun er fátt vitað um hana og jafnvel hefur verið dregið í efa að hún hafi í raun verið til. Í mars 1173 efndi Hinrik ungi, elsti sonur Elinóru og Hinriks, til uppreisnar gegn föður sínum. Yngri bræður hans, Ríkharður og Geoffrey, höfðu verið hjá móður sinni í Akvitaníu og nú sendi hún þá til að leggja bróður sínum lið gegn föðurnum og hvatti aðalsmenn í Akvitaníu til að styðja þá. Sjálf fór hún á eftir en menn konungs náðu henni á liðinni og sendu hana til Hinriks 2. sem staddur var í Rouen. Allt næsta ár vissi enginn hvar drottningin var en á meðan braut Hinrik mótspyrnu sonanna á bak aftur. Elinóra var svo flutt til Englands og höfð í stofufangelsi næstu fimmtán árin, eða meðan Hinrik lifði. Hún fékk þó stundum að koma aftur til hirðarinnar, til dæmis um jólin, en sá syni sína sjaldan. Ekkjudrottning. Hinrik ungi dó 1183 og var það Elinóru mikið áfall en hún hélt þó enn meira upp á Ríkharð, sem hafði aðsetur í Akvitaníu. Um sama leyti fékk hún aukið frelsi og ferðaðist stundum með manni sínum en var þó alltaf undir eftirliti. Hinrik dó 6. júlí 1189 og Ríkharður tók við krúnunni. Eitt fyrsta verk hans var að senda skipun til Englands um að sleppa Elinóru úr haldi en gæslumenn hennar höfðu þá þegar gefið henni frelsi. Hún hélt til London og tók við stjórn ríkisins þar til Ríkharður kom til landsins. Fáeinum mánuðum síðar hélt Ríkharður af stað í Þriðju krossferðina og gerði móður sína að ríkisstjóra. Þegar hann var á heimleið 1192 handsamaði Leópold hertogi af Austurríki hann og seldi hann síðar í hendur Hinriks 6. keisara. Elinóra fór til Þýskalands og samdi um lausn hans gegn geysiháu gjaldi en henni tókst að afla peninganna með þungum skattaálögum og gat keypt Ríkharð lausan 1194. Ríkharður varð fyrir örvarskoti þegar hann sat um kastala uppreisnarmanna í Frakklandi og dó úr blóðeitrun 6. apríl 1199 í örmum móður sinnar. Jóhann landlausi bróðir hans tók við konungdæminu. Hann gerði friðarsamning við Filippus 2. Frakkakonung og í honum fólst meðal annars að Loðvík, krónprins Frakklands, skyldi giftast einni af dætrum Elinóru drottningu af Kastilíu, systur Jóhanns. Konungur sendi Elinóru móður sína, 77 ára gamla til Kastilíu til að velja úr prinsessunum. Hún var handsömuð á leiðinni af einum af fjandmönnum Plantagenetættar en tókst að fá sig lausa og komast alla leið til Kastilíu. Þar valdi hún Blönku, ellefu ára dótturdóttur sína, sem brúði franska prinsins og hélt síðan með hana til baka yfir Pýreneafjöllin en komst ekki lengra en til Bordeaux, þar var hún orðin örmagna og fékk erkibiskupinn í Bordeaux til að fylgja Blönku á leiðarenda. Sjálf hélt hún í Fontevraud-klaustur í Loiredalnum og dvaldist þar við fremur bága heilsu. Ævilok. gröf Elinóru og Hinriks 2. í Fontevaud. Árið 1201 braust út stríð milli Jóhanns og Filippusar Frakkakonungs. Elinóra studdi Jóhann og fór frá Fontevraud til Poitiers til að hindra sonarson sinn, Arthúr hertoga af Bretagne, í að leggja Akvitaníu undir sig en Arthúr gerði tilkall til ensku krúnunnar og raunar réttilega, þar sem Geoffrey faðir hans hafði verið eldri en Jóhann. Arthúr frétti af ferð ömmu sinnar og gerði umsátur um Mirabeau-kastala, þar sem hún var þá stödd. Jóhann kom þar að, handsamaði Arthúr og varpaði honum og Elinóru systur hans í fangelsi, þar sem Arthúr hvarf 1203 en systirin var höfð í haldi til dauðadags, eða í fjörutíu ár. Elinóra amma þeirra fór aftur til Fontevraud og gerðist nú nunna. Hún lést 1204 og var grafin í klaustrinu, við hlið Hinriks manns síns og Ríkharðs sonar sins. Þegar hún dó, 82 ára að aldri, voru öll börn hennar látin nema Jóhann og Elinóra Kastilíudrottning. Antonio Valencia. Luis Antonio Valencia Mosquera (fæddur 4. ágúst 1985), þekktur sem Antonio Valencia, er knattspyrnumaður frá Ekvador. Hann spilar fyrir enska knattspyrnuliðið Manchester United og ekvadórska landsliðið. Hann kom til Manchester United frá Wigan Athletic sumarið 2009 fyrir rúmar 16 milljónir punda. Wigan Athletic. Valencia var lánaður til Wigan sumarið 2006, upphaflega til eins árs. Láninu var síðan framlengt um eitt ár í viðbót og var Valencia síðan keyptur til Wigan í jánúarglugganum 2008 og skrifaði hann undir þriggja og hálfs árs samning. Hann vakti athygli fyrir frammistöðu sína og hafnaði hann m.a. Real Madrid í janúar 2009. En í júní 2009 var hann síðan seldur til Manchester United, Manchester United. Þann 30. júní 2009 skrifaði Valencia undir fjögurra ára samning við Manchester United. Kaupin á Valencia voru fyrstu kaup félgasins þetta sumar og talið er að kaupverð hafi verið í kringum 16 milljónir punda. Á undirbúningstímabilinu 2009 spilaði Valencia sinn fyrsta leik fyrir United gegn Boca Juniors í Audi bikarnum og skoraði hann í þeim leik. Hans fyrsti leikur á tímabilinu var hins vegar gegn Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn 2009. Hans fyrsta deildarmark var síðan í 2-1 sigri á Bolton Wanderers. Valencia var í byrjunar liði United í úrslitaleik deildarbikarsins gegn Aston Villa og var hann valinn maður leiksins. Valencia var síðan valinn í lið tímabilsins ásamt liðsfélögum sínum Evra, Fletcher og Rooney. Valencia, Antonio Ríkharður ljónshjarta. Ríkharður ljónshjarta. Mynd úr handriti frá 12. öld. Ríkharður 1. (8. september 1157 – 6. apríl 1199) eða Ríkharður ljónshjarta var konungur Englands frá 6.júlí 1189 til dauðadags. Hann var einnig hertogi af Normandí, Akvitaníu og Gaskóníu, lávarður Írlands, yfirkonungur Kýpur, greifi af Anjou, Maine og Nantes og yfirlávarður Bretagne. Auknefnið ljónshjarta (enska: "Lionheart"; franska: "Cœur de Lion") fékk hann vegna þess orðspors sem hann hafði sem hermaður og herforingi. Bernska. Ríkharður var sonur Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu. Hann var fæddur í Oxford en lærði aldrei að tala ensku, fremur en raunar flestir aðrir konungar af Plantagenetætt. Foreldrar hans voru bæði frönsk og dvöldu langdvölum Frakklandsmegin við Ermarsund. Hann er talinn hafa fengið góða menntun. Ríkharður er sagður hafa verið ljósrauðhærður, fölur, hávaxinn og mjög myndarlegur. Hann sýndi snemma herkænsku og hæfileika til stjórnunar og var þekktur fyrir hugrekki og riddaramennsku. Ríkharður átti eldri bróður, Hinrik unga, sem var krýndur meðkonungur föður þeira árið 1170. Hann gat því ekki búist við að erfa ensku krúnuna en ráð var fyrir því gert að hann fengi Akvitaníu frá móður sinni. Þegar Ríkharður var tveggja ára var samið um að hann skyldi giftast einni af dætrum Ramóns Berenguer 4., greifa af Barselóna, en af því varð þó ekki. Nokkrum árum síðar var hann trúlofaður Alísu, dóttur Loðvíks 7. Frakkakonungs, sem áður hafði verið giftur móður hans. Margrét systir hennar hafði trúlofast Hinriki unga nokkru fyrr. Alísa var send til Englands átta eða níu ára að aldri til að alast upp við hirð tengaföður síns tilvonandi. Átök við Hinrik 2.. Ríkharður ljónshjarta. Málverk frá 17. öld. Árið 1171 fór Ríkharður til Akvitaníu, en móðir hans hafði þá slitið sambúð við föður hans og sest að í Poitiers, og ári síðar tók hann formlega við hertogadæminu, en faðir hans fékk þó mestallar tekjurnar af því eftir sem áður. Eldri bræðurnir þrír, Hinrik ungi, Ríkharður og Geoffrey, gerðu uppreisn gegn föður sínum 1173 - Jóhann var enn barn að aldri og var með Hinriki konungi í Englandi - og nutu þeir stuðnings Elinóru móður sinnar og Loðvíks 7. Frakkakonungs. Hinrik tókst þó að bæla uppreisnina niður og setti Elinóru í stofufangelsi, þar sem hún var næstu sextán árin, meðal annars til að tryggja að Ríkharður héldi sig á mottunni, en hann og móðir hans voru sögð náin. Hinrik gerði svo friðarsamning við Loðvík og bræðurnir sáu þá þann kost vænstan að gefast upp og biðja föður sinn fyrirgefningar. Hinrik gaf sonum sínum upp sakir en skerti tekjustofna þeirra nokkuð. Hinrik fól svo Ríkharði það hlutverk að refsa aðalsmönnum í Akvitaníu sem risið höfðu gegn honum. Sautján ára að aldri var hann því farinn að stýra her og beita honum gegn mönnum sem áður höfðu stutt hann. Hann þótti standa sig mjög vel og það var á þessum árum sem hann fékk viðurnefni sitt. Harka hans og óvægni leiddi þó til þess að gerð var uppreisn gegn honum 1179 og leituðu uppreisnarmenn til bræðra hans, Hinriks unga og Geoffreys, um aðstoð. Þeir brugðust vel við en Ríkharður hafði betur. Á árunum 1181-1182 kom einnig til átaka víða en þá naut Ríkharður stuðnings föður síns og Hinriks unga bróður síns og barði óvini sína til hlýðni. Spennan milli Ríkharðs og Hinriks unga fór þó vaxandi á ný og Ríkharður neitaði að fara að boði föður þeirra og sverja Hinriki hollustu. Það varð heldur ekki til að bæta samkomulagði á milli feðganna að almælt var að Alísa, unnusta Ríkharðs, sem alltaf hafði verið um kyrrt í Englandi, væri ein af mörgum ástkonum Hinriks 2. Þetta gerði hjúskap hennar og Ríkharðs í raun óhugsandi í augum kirkjunnar en þó var trúlofun þeirra ekki slitið, bæði vegna þess að henni fylgdi verðmætur heimanmundur sem Hinrik vildi ekki þurfa að skila og svo var hún systir hins unga Filippusar 2. Frakkakonungs, sem hvorugur þeirra feðga vildi móðga. Árið 1183 réðust Hinrik ungi og Geoffrey inn í Akvitaníu til að reyna að beygja Ríkharð undir sig. Hann tók harkalega á móti þótt sumir þegnar hans snerust á lið með innrásarmönnum. Hlé varð á átökunum sumarið 1183, þegar Hinrik ungi dó, en Hinrik 2. gaf brátt Jóhanni, yngsta syni sínum, heimild til að ráðast inn í Akvitaníu. Átökum milli feðganna linnti ekki þótt Ríkharður væri nú ríkisarfi. Til að styrkja stöðu sína gerði hann bandalag við Filippus 2. Samband þeirra vakti furðu margra og er stundum talið kveikjan að orðrómi um samkynhneigð Ríkharðs, en fleira kom þó til. Konungur Englands. Ríkharður og Filippus 2. Frakkakonungur Árið 1189 fóru þeir Ríkharður og Filippus í herför gegn Hinrik 2. og unnu sigur á her hans 4. júlí 1189. Hinrik féllst á að útnefna Ríkharð erfingja sinn. Tveimur dögum síðar dó hann og Ríkharður varð konungur Englands. Hann var krýndur í Westminster Abbey 3. september 1189. Samkvæmt einni heimild hafði hann lagt bann við því að konur og Gyðingar væru við krýningarathöfnina en nokkrir Gyðingar komu þó með gjafir handa konunginum. Hann lét fletta þá klæðum, húðstrýkja þá og varpa á dyr. Orðrómur komst á kreik um að hann hefði fyrirskipað að allir Gyðingar skyldu drepnir og upphófst þá fjöldamorð á Gyðingum í London. Önnur heimild segir aftur á móti að borgarbúar hafi átt upptök að morðunum og Ríkharður hafi refsað hinum seku. Ríkharður hafði, nokkru áður en hann varð konungur, heitið því að fara í krossferð og nú varð úr að hann og Filippus 2. ákváðu að fara saman í Þriðju krossferðina, líklega vegna þess að báðir óttuðust að ef annar færi myndi hinn nota tækifærið til að leggja undir sig lendur. Ríkharður tæmdi fjárhirslur föður síns, hækkaði skatta, seldi eignir og kúgaði fé af þegnum sínum til að kosta krossferðina og hélt svo af stað sumarið 1190 með 100 skip og 8000 manna her. Ríkharður dvaldi því aðeins sex mánuði af konungstíma sínum í Englandi, kvartaði yfir kulda og rigningu og sagðist til í að selja London ef kaupanda væri að finna. Hann setti biskupinn í Durham og jarlinn af Essex til að stýra ríkinu en Elinóra móðir hans mun þó hafa ráðið miklu. Jóhann bróðir hans var ekki sáttur við þetta fyrirkomulag, fannst að hann hefði sjálfur átt að stýra landinu, og fór að vinna gegn Ríkharði í laumi. Ríkharður á Sikiley og Kýpur. Ríkharður og Filippus komu til Sikileyjar í september 1190. Vilhjálmur 2. Sikileyjarkonungur var þá nýlega látinn og frændi hans, Tancred af Lecce, hafði hrifsað völdin og fangelsað ekkju Vilhjálms, Jóhönnu drottningu, sem var systir Ríkharðs. Ríkharður fékk hana látna lausa en fékk ekki arf sem hún átti rétt á afhentan. Ríkharður brást reiður við, réðist á Messína og lagði borgina undir sig. Tancred gafst þó ekki upp fyrr en í mars 1191 og gerðu þeir þá samning sem fól í sér að Jóhanna fékk peningagreiðslu í stað lands sem hún hafði átt að erfa. Ríkharður útnefndi Arthúr hertoga af Bretagne, son Geoffreys bróður síns, sem erfingja sinn og Tancred hét að gifta honum eina af dætrum sínum. Þeir Rikharður og Filippus dvöldu áfram á Sikiley um hríð en við það fór spenna á milli þeirra vaxandi. Að lokum ákváðu þeir að setjast niður og ræða ágreining sinn og tókst þá með þeim samkomulag sem fól meðal annars í sér að trúlofun Ríkharðs og Alísu var slitið en þá var 21 ár síðan hún var ákveðin. Raunar var Ríkharður þá þegar heitbundinn Berengaríu af Navarra og hún var kominn til hans á Sikiley. Ríkharður sigldi svo frá Messína áleiðis til Akkó í Landinu helga en óveður tvístraði flotanum á leiðinni og skipið sem flutti Berengaríu og Jóhönnu Sikileyjardrottningu, systur Ríkharðs, hraktist til Kýpur, þar sem stjórnandi eyjarinnar, Ísak Komnenos, hafði þær í haldi. Ríkharður hertók eyjuna með hjálp ýmissa krossfara sem komið höfðu þangað frá Landinu helga, steypti Ísak Komnenos af stóli og frelsaði konurnar. Síðan var brúðkaup þeirra Berengaríu haldið í Limassol á Kýpur, 12. maí 1191. Í Landinu helga. Síðan sigldu þau til Akkó og þangað kom Ríkharður 8. júní. Hann gekk í bandalag við Guy af Lusignan, sem hafði komið honum til hjálpar á Kýpur og átti í deilum við Konráð af Montferrat um hvor þeirra skyldi vera konungur Jerúsalem. Ríkharður var veikur þegar þarna var komið sögu en barðist þó með mönnum sínum í umsátrinu um Akra, sem krossförum tókst að vinna. Í framhaldi af því gerðu þeir samkomulag við Saladín soldán um að þeir héldu ströndinni og mættu fara í pílagrímsferðir til Jerúsalem. Fljótlega eftir þetta lenti Ríkharður í deilum við Leópold 5., hertoga af Austurríki, sem fór á burt í fússi með menn sína. Filippus 2. hvarf einnig á brott eftir deilur við Ríkharð. Ríkharður fór svo frá Akkó en lét áður taka af lífi 2700 múslimska gísla sem krossfarar höfðu tekið til að tryggja að Saladín héldi vopnahlésskilmála. Á fyrri helmingi 1192 var hann í Askalon og styrkti varnir borgarinnar. Hann vann nokkra sigra á her Saladíns en varð ekkert ágengt í sókninni til Jerúsalem. Þegar Konráði af Montferrat tókst að fá sig kosinn konung Jerúsalem seldi Ríkharður keppinauti hans, Guy af Lusignan, eyna Kýpur. Nokkrum dögum síðar, 28. apríl 1192, var Konráð drepinn af tilræðismönnum og átta dögum síðar var ólétt ekkja hans, Ísabella, látin giftast Hinrik 2. af Champagne, systursyni Ríkharðs. Sterkur grunur lá á um að Ríkharður hefði átt aðild að morðinu. Ríkharður hafði þegar hér var komið sögu gert sér grein fyrir því að jafnvel þótt hann gæti unnið Jerúsalem tækist honum aldrei að halda borginni. Honum var líka farið að liggja á að komast heim því bæði Filippus og Jóhann bróðir hans notuðu fjarveru hans til að auka áhrif sín og seilast til landa. Hann gerði því samkomulag við Saladín en í því fólst meðal annars þriggja ára vopnahlé. Síðan sigldi hann heim á leið en Berengaría var farin áður. Hann lenti í illviðri og neyddist til að lenda á Korfú, þar sem honum var illa tekið, enda hafði hann hrifsað til sín Kýpur, sem tilheyrt hafði Býsansríkinu. Hann dulbjó sig sem musterisriddara og sigldi fáliðaður á brott en skipið fórst við botn Adríahafsins og þeir þurftu að leggja í hættulegt ferðalag um Mið-Evrópu. Fangi hertoga og keisara. Rétt fyrir jólin 1192 handsamaði Leópold hertogi af Austurríki Ríkharð nálægt Vínarborg og sakaði hann um að standa á bak við morðið á Konráði af Montferrat, sem var frændi Leópolds. Ríkharði var haldið í Dürnstein-kastala. Það var ólöglegt að halda krossfara föngnum og Selestínus III páfi bannfærði Leópold hertoga. Hann afhenti þá Hinrik 6. keisara fangann en keisarinn þóttist eiga ýmissa harma að hefna gegn Ríkharði og hafði hann í haldi í Trifels-kastala. Páfinn bannfærði hann líka en keisarinn sinnti því ekki því hann bráðvantaði peninga til að koma sér upp her og tryggja völd sín á Suður-Ítalíu. Hann krafðist því 65.000 punda silfurs í lausnargjald af Englendingum. Elinóra móðir Ríkharðs lagði hart að sér að afla peninganna, lagði þunga skatta á landsmenn og gerði sjóði kirkna upptækja. Berengaría kona hans reyndi einnig að afla fjár á meginlandinu. Jóhann bróðir Ríkharðs og Filippus Frakkakonungur buðu keisaranum aftur á móti háa fjárhæð ef hann vildi halda Ríkharði föngnum til hausts 1194 en því hafnaði hann. Hinrik keisari fékk svo uppsett lausnargjald og lét Ríkharð lausan 4. febrúar 1194. Þá sendi Filippus Jóhanni orðsendingu: „Gættu nú að þér, djöfsi er laus.“ Síðustu æviár og dauði. Gröf Richards í Fontevaud-klaustri í Frakklandi. Ríkharður fyrirgaf þó bróður sínum þegar þeir hittust og útnefndi hann erfingja sinn í stað Arthúrs af Bretagne. Hann hóf svo tilraunir til að ná aftur Normandí, sem Filippus hafði lagt undir sig á meðan Ríkharður var í burtu. Þeir börðust um hertogadæmið næstu árin. Ríkharður reisti hinn vandlega víggirta kastala Château Gaillard, sem sagður var einn hinn glæstasti í Evrópu, og gerði hann að aðalaðsetri sínu. Hann gerði bandalag gegn Filippusi við Baldvin 9. af Flæmingjalandi, Renaud greifa af Boulogne og Sancho 6. af Navarra, tengdaföður sinn, og vann ýmsa sigra. Í mars 1199 var Ríkharður í Limousin að berja niður uppreisn. Hann settist um kastalann Chalus-Chabrol. Að kvöldi 25. mars varð hann fyrir ör sem skotið var af kastalaveggnum. Örin kom í handlegginn. Læknir nokkur fjarlægði hana en tókst það illa og sýking kom í sárið. Konungur dó 6. apríl í örmum móður sinnar og hafði áður arfleitt Jóhann bróður sinn að öllum lendum sinum en Ottó systurson sinn að skartgripum sínum. Hjónaband og arfleifð. Ríkharður og Berengaría voru barnlaus. Ríkharður sinnti ekkert um Berengaríu eftir að hann losnaði úr haldi keisarans en þegar Selestínus III páfi skipaði honum að viðlagðri bannfæringu að taka hana til sín og vera henni trúr hlýddi Ríkharður og fylgdi konu sinni til kirkju vikulega þaðan í frá. Annars virðist hann hafa lítið skipt sér af henni. Margt hefur verið ritað um kynhneigð Ríkharðs. Sagnfræðingurinn Jean Flori hefur gert rannsókn á verkum samtímahöfunda og segir að þeir hafi almennt talið Ríkharð samkynhneigðan og segir að tvær opinberar syndajátningar hans, 1191 og 1195, beri því vitni. Ekki eru þó allir sammála því áliti. Samtímaheimildir segja líka frá sambandi hans við konur og hann gekkst við einum óskilgetnum syni, Filippusi af Cognac. Flori telur hann því hafa verið tvíkynhneigðan. Ríkharður hefur fengið góð eftirmæli í sögunni og mun betri en flestir sagnfræðingar telja að hann eigi skilið. Steven Runciman segir í "History of the Crusades" að hann hafi verið „slæmur sonur, slæmur eiginmaður og slæmur konungur, en glæsilegur og frábær hermaður“. Þótt hann dveldist nær ekkert í Englandi og talaði nær enga ensku hafa Englendingar löngum litið á hann sem þjóðhetju og hann er einn þekktasti konungur Englands fyrr á öldum og einn örfárra eftir 1066 sem jafnan er einkenndur með viðurnefni en ekki tölustaf. Sambuca Pistoiese. Sambuca Pistoiese er um 1.600 manna bær í Pistoia. Dzhambúl. Frímerki með mynd af Dzhambúl. Trúði Laxness því, að Dzhambúl hefði ort kvæðið. Frumflutti hann þýðingu sína við mikinn fögnuð á fundi íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn 11. apríl 1938. Guðmundur Böðvarsson minnist einnig á Dzhambúl í kvæði, sem hann orti í Alma Ata í boðsferð til Ráðstjórnarríkjanna vorið 1953. Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages. Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages – skammstafað SkP – er útgáfuverkefni, sem gengur út á að gefa út í nýrri vísindalegri útgáfu öll varðveitt dróttkvæði frá Íslandi og Noregi. Útgáfan mun að mestu leysa af hólmi hið mikla verk Finns Jónssonar, "Den Norsk-Islandske Skjaldedigtning", Kbh. 1912–1915, og önnur hliðstæð rit. Útgáfan er samvinnuverkefni fræðimanna frá mörgum löndum og hefur verið komið upp vefsíðu þar sem hægt er að kynna sér verkefnið og framgang þess. Nokkrir Íslendingar taka þátt í verkefninu, t.d. dr. Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar. Hún er m.a. ritstjóri 4. bindis, sem áætlað er að komi út 2012. Berengaría af Navarra. Berengaría af Navarra (um 1165 – 23. desember 1230) var drottning Englands frá 1191-1199, kona Ríkharðs ljónshjarta Englandskonungs. Hún kom þó aldrei til Englands á meðan hún var drottning. Foreldrar Berengaríu voru Sancho 6., konungur Navarra, og kona hans, Sancha af Kastilíu. Lítið er vitað um uppvöxt hennar eða kynni þeirra Ríkharðs en þau munu þó hafa hist einu sinni, mörgum árum fyrir brúðkaup sitt. Berengaría var orðin hálfþrítug þegar þau giftust en á þessum öldum var algengt að konungsdætur giftust á barnsaldri og svo var til dæmis um allar alsystur Ríkharðs. Ríkharður hafði sjálfur verið heitbundinn Alísu systur Filippusar 2. Frakkakonungs, frá því að hann var tólf ára og hún níu og var hún alin upp við ensku hirðina. Þau höfðu þó aldrei gifst en það orð lék á að Alísa hefði verið hjákona föður Ríkharðs, Hinriks 2. Þegar Ríkharður og Filippus bróðir Alísu höfðu viðdvöl á Sikiley í Þriðju krossferðinni sömdu þeir um að trúlofuninni skyldi slitið en þá hafði hún varað í meira en 20 ár. Ríkharður lét síðan fylgja Berengaríu til sín og hefur væntanlega verið búinn að semja við föður hennar um hjúskaparmálin nokkru fyrr. Þegar hún kom til Sikileyjar stóð fastan yfir og þau gátu því ekki gifst strax. Ríkharður tók hana því með þegar hann hélt áfram ferð sinni. Floti hans lenti í óveðri á austanverðu Miðjarðarhafi og skipið sem Berengaría og Jóhanna Sikileyjardrottning, systir Ríkharðs, voru á hraktist til Kýpur, þar sem stjórnandi eyjarinnar, Ísak Komnenos, hélt þeim föngnum. Ríkharður kom þó fljótt á vettvang, fékk krossferðariddara frá Landinu helga sér til aðstoðar, lagði eyna undir sig og bjargaði konuum. Síðan gekk hann að eiga Berengaríu í Georgskirkjunni í Limassol. Hann tók svo Berengaríu með sér í krossferðina. Þau urðu ekki samferða heim. Ríkharður var tekinn höndum á leiðinni og haldið föngnum en Berengaría fór um og reyndi að afla fjár til að kaupa hann lausan. Að lokum losnaði hann úr haldi og fór til Englands en tók ekki konu sína með sér. Hann hélt svo til Frakklands að berjast við Filippus 2. um lendur sem hann hafði lagt undir sig en sinnti ekkert um konu sína. Það var ekki fyrr en Selestínus III páfi skipaði honum að taka við henni og vera henni trúr sem hann lét sér segjast. Eftir það var Berengaría með honum en hann virðist hafa lítið sinnt henni. Fátt er vitað um samband þeirra. Þau áttu engin börn og sumir hafa haldið því fram að konungurinn hafi engan áhuga haft á konum. Berengaría tók þó mjög nærri sér þegar Ríkharður dó 6. apríl 1199. Berengaría er oft sögð eina Englandsdrottningin sem aldrei steig fæti á enska jörð. Hún kann þó að hafa komið þangað eftir lát hans og svo mikið er víst að hun sendi oft fulltrúa sína til Englands tl að reyna að herja út fé sem henni bar sem ekkjudrottningu úr Jóhanni landlausa, bróður Ríkharðs. Bæði Elinóra af Akvitaníu, tengdamóðir Berengaríu, og Innósentíus III páfi reyndu að þrýsta Jóhanni til að borga en þó skuldaði hann henni enn 4000 sterlingspund þegar hann dó. Hinrik 3., sonur hans, stóð hins vegar við allar greiðslur. Berengaría settist að í Le Mans og gekk síðar í klaustur, þar sem hún lést rúmum þrjátíu árum eftir að Ríkharður dó. Brennihvelja. Brennihvelja (fræðiheiti "Cyanea capillata") er stærsta þekkta marglyttutegundin. Hún lifir í köldum sjó í Norður-Íshafinu, Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi og finnst sjaldan sunnar en á 42°N breiddargráðu. Sams konar marglyttur, hugsanlega af sömu tegund finnast í hafi nálægt Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Stærsta brennihveljan sem hefur fundist rak í fjöru á Massachusetts Bay árið 1870 og var ummálið 2,3 m og armarnir voru 36,5 m langir. Brennihveljur er mestan hluta lífsferil síns á úthafssvæðum en hafa tilhneigingu til að setjast að í grunnum og vörðum fjörðum á seinasta hluta eins árs æviskeiðs síns. Brennihveljur í úthafinu eru fljótandi vinjar fyrir ýmsar dýrategundir í hafinu. Afræningjar brennihvelju eru sjófuglar, stórir fiskar, aðrar marglyttutegundir og sjóskjaldbökur. Marglytturnar sjálfar éta dýrasvif og fiskaseiði. Fullorðin dýr halda sig í uppsjó og afla sér fæðu með löngum öngum sem eru alsettir stingfrumum. Stingfrumurnar lama smádýrin. left Brennihveljur æxlast bæði með kynæxlun á hveljustigi og kynlausri æxlun á holsepastigi. Á eins árs líftíma sínum fer brennihvelja í gegnum fjögur mismunandi stig, lirfustig, holsepastig, efýru stig og hveljustig. Karlkyns brennihveljur gefa frá sér sæði og frjóvgun verður á munnanga (manibrium) kvendýrs. Ungviðið þroskast fyrst í munnanga kvendýrsins en síðan leita lirfurnar niður að botni þar sem þær setjast og verða að holsepa. Separnir lifa á smákrabbadýrum. Þeir fjölga sér svo með kynlausri æxlun, vaxtaræktun (strobilering) þannig að af sepanum bútast litlar hveljur (efýrur) sem leita upp og verða að fullvöxnum hveljum þar Hver holsepi verður að mörgum marglyttum, ungar hveljur (ephyraes) losna frá og vaxa yfir í hveljustig og verða að kynþroska brennihveljum. Holsepinn getur lifað í nokkur ár og framleitt efýrur að vorlagi ár eftir ár. Fullvaxnar hveljur lifa hins vegar aðeins eitt ár. Holsepinn getur framleitt fóthylki (podocysta) sem er dvalarstig þar sem sepinn fjölgar sér kynlaust við erfiðar umhverfisaðstæður. Separnir sjálfir geta einnig fjölgað sér kynlaust, heill sepi getur vaxið út úr öðrum. Lítil brennihvelja sem rekið hefur upp á strönd Brennihveljur sjást oft seinsumars og á haustin þegar þær eru orðnar stórar og hafstraumar bera þær nær ströndu. Brennihvelja við Ísland. Brennihvelja er ein af sex marglyttutegundum sem finnast við Ísland og er ásamt bláglyttu sú algengasta. Uppvaxtarsvæði brennihvelju við Ísland er talið vera á Vestfjörðum. Tjón hefur orðið í fiskeldi af völdum brennihvelju. Í miklum straumi geta marglyttur lent á fiskikvíum og slitnað sundur og angar dreifst um allt. Stingfrumur geta verið virkar í marga daga eftir að þær hafa losnað frá. Mikið tjón varð í fiskeldi í Mjóafirði af völdum brennihvelju. Edit af Skotlandi. Edit af Skotlandi (um 1080 – 1. maí 1118) var drottning Englands frá 11. nóvember 1100 til dauðadags og var fyrri kona Hinriks 1. Englandskonungs. Hún tók sér nafnið Matthildur þegar hún varð drottning. Edit var dóttir Melkólfs 3. Skotakonungs og konu hans, heilagrar Margrétar. Hún ólst upp ásamt systur sinni í ensku klaustri frá sex ára aldri. Þegar Hinrik varð konungur í ágúst árið 1100 var eitt hans fyrsta verk að finna sér brúði og varð Edit fyrir valinu. Edit og Hinrik virðast hafa þekkst fyrir brúðkaupið og í tveimur samtímaheimildum er talað um langvarandi aðdáun Hinriks á henni. Reyndar var í fyrstu talinn leika vafi á því hvort hún væri nunna eða ekki og leitaði Hinrik því leyfis hjá Anselm erkibiskupi af Kantaraborg, sem kallaði saman biskupanefnd til að úrskurða hvort hún gæti gengið í hjónaband. Edit vitnaði þar að hún hefði aldrei svarið klaustureiða, heldur hefðu þær systur verið sendar til Englands til að njóta menntunar hjá móðursystur sinni, Kristínu abbadís, og þær hefðu borið blæju sem vernd gegn ástleitnum Normönnum. Biskuparáðið úrskurðaði að hún væri ekki nunna og gæti því gifst Hinrik. Edit var af gömlu ensku konungsættinni. Móðir hennar var dóttir Játvarðs útlaga, sonar Játmundar járnsíðu og sonarsonar Aðalráðs ráðlausa. Hjónabandið varð því til þess að auka mjög vinsældir Normannakonungsins Hinriks meðal landsmanna. Hins vegar voru margir Normannar ósáttir og Edit tók sér því normannskt nafn, Matthildur, og gekk undir því síðan. Einnig bætti hjónabandið samskipti Englendinga og Skota. Þrír bræður Matthildar urðu Skotakonungar og voru samskipti landanna með besta móti á meðan hún lifði. Hinrik og Matthildur giftust í Westminster Abbey 11. nóvember árið 1100 og áttu tvö börn, Matthildi, fædda 1102, og Vilhjálm, fæddan 1103. Hún var trúrækin og lítillát, unnandi tónlistar og ljóðlistar og tók þátt í stjórn ríkisins þegar maður hennar var fjarstaddur. Hún var vinsæl og eftir að hún lést var hún kölluð "Góða drottningin Matthildur" og jafnvel var reynt að fá hana tekna í dýrlingatölu. Sonur þeirra Hinriks, Vilhjálmur Adelin, drukknaði tveimur árum eftir að móðir hans lést. Systir hans, Matthildur, deildi árum saman við Stefán frænda sinn um ríkiserfðir. Eftir dauða Stefáns varð sonur Matthildar, Hinrik 2., konungur Englands. Hveldýr. Hveldýr (fræðiheiti hydrozoa) er flokkur mjög lítilla rándýra sem lifa aðallega í saltvatni, oft í sambýli margra einstaklinga. Hveldýr eru skyld marglyttum og kóraldýrum og tilheyra holdýrum. Flest hveldýr fara í gegnum bæði holsepa og hveljustig á lífsferli sínum. Þeim fjölgar bæði með kynæxlun og knappskotum. Knappskotin eru þannig að lítill sepi vex úr líkamanum og fær arma og munn og losnar frá. Hveldýr sem lifa í fersku vatni eru kölluð armslöngur. 500 px Portúgalskt herskip. Portúgalskt herskip (eða Portúglska herskipið) (fræðiheiti: "Physalia physalis") er sambú holdýra. Það er sambýli fjögurra tegunda örsmárra sérhæfra lífvera sem eru sérhæft á sepa- eða hveljustigi. Portúgalskt herskip flýtur í yfirborði sjávar, það hefur loftblöðru sem virkar eins og segl sem gerir því kleift að fljóta og það berst áfram með vindum, hafstraumum og flóði og fjöru. Seglið er glært og bláleitt eða fjólublátt. Það getur verið 9 til 30 cm langt og getur náð allt að 15 cm upp úr vatni. Undir seglinu og niðri í sjónum eru angar sem geta verið 20 m langir en eru þó að meðaltali 10 m. Verðleikaræði. Verðleikaræði er stjórnkerfi sem leggur áherslu á að útdeila valdi og ábyrgð til einstaklinga eftir verðleikum fremur en auðlegð, vinsældum eða félagslegri stöðu þeirra. Hugtakið var fyrst opinberlega notað í niðrandi merkingu í bókinni "Rise of Meritocracy" eftir Michael Young árið 1958, bókin lýsir fjarlægri framtíð þar sem félagslegar skyldur og hlutverk einstaklinga ráðast af greind þeirra, hæfni, getu og viðleitni. Í bókinni leiðir þetta kerfi að lokum til byltingar með því að lýðurinn steypir valdhöfum af stóli, þar sem þeir hafa orðið hrokafullir og fráhverfir tilfinningum almennings. Þrátt fyrir neikvæða notkun orðsins í upphafi aðhyllast margir verðleikaræði á grundvelli þess að það sé bæði réttlátara og afkastameira en önnur kerfi, jafnframt því að það myndi að lokum binda enda á mismunun á grundvelli kynþáttar eða efnahags. Jóhann landlausi. Jóhann landlausi (24. desember 1167 – 19. október 1216) var konungur Englands frá 6. apríl 1199 til dauðadags. Viðurnefni sitt (enska: "John Lackland") hlaut hann af því að hann var yngstur bræðra sinna og erfði engar lendur þegar faðir hans dó og jafnframt vegna þess að á konungstíð sinni tapaði hann stórum landsvæðum í hendur Frakkakonungs. Uppvöxtur. Jóhann var fimmti sonur Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu og erfði krúnuna þegar Ríkharður ljónshjarta bróðir hans dó. Eldri bræður hans þrír (sá fjórði dó fárra ára gamall) gerðu allir uppreisn gegn föður þeirra, sumir oftar en einu sinni. Elinóra móðir þeirra studdi þá og var sett í stofufangelsi 1173, þegar Jóhann var um fimm ára gamall. Barn að aldri var Jóhann heitbundinn Alais, dóttur og erfingja Humberts 3. af Savoja. Stúlkan var flutt til Englands til að alast upp við hirð tengdaföður síns en dó áður en af brúðkaupinu varð. Jóhann fékk snemma á sig orð fyrir undirferli og sviksemi og vann ýmist með eða á móti bræðrum sínum, Hinrik unga, Ríkharði og Geoffrey. Árið 1184 gerðu Ríkharður og Jóhann báðir kröfu til yfirráða í Akvitaníu, sem var hertogadæmi móður þeirra. Árið 1185 var Jóhann settur yfir Írland og gerði sig svo óvinsælan þar að hann hraktist á brott eftir átta mánuði. Á meðan Ríkharður var í Þriðju krossferðinni, frá 1190 til 1194, vann Jóhann á móti honum og þeim sem hann hafði sett yfir ríkið. Þegar Ríkharður var á heimleið var hann handsamaður af Leópold 5. Austurríkishertoga og síðan afhentur Hinrik 6. keisara, sem krafðist offjár í lausnargjald. Jóhann og Filippus 2. Frakkakonungur gengu í bandalag og buðu keisaranum háa fjárhæð fyrir að halda Ríkharði föngnum. Hann neitaði og Elinóru móður þeirra bræðra og Berangaríu af Navarra, konu Ríkharðs, tókst að skrapa saman fé í lausnargjaldið. Jóhann bað Ríkharð fyrirgefningar þegar hann sneri heim og fékk hana; Ríkharður, sem var barnlaus, útnefndi hann líka erfingja sinn. Konungur Englands. Jóhann landlausi. Mynd úr handriti frá 14. öld. Þegar Ríkharður dó 1199 játuðu Normandí og England Jóhanni hollustu og hann var krýndur í Westminster Abbey 27. maí. En Anjou, Maine og Bretagne höfnuðu honum og kusu fremur Arthúr hertoga af Bretagne, son Geoffreys eldri bróður Jóhanns. Hann naut líka stuðnings Filippusar 2. Frakkakonungs fyrst í stað en árið 1200 viðurkenndi Filippus tilkall Jóhanns. Aðalsmenn í Poitou, sem var eitt af greifadæmum Jóhanns á meginlandinu, voru ósáttir við ýmislegt í stjórn hans og sneru sér til Filippusar. Hann kallaði Jóhann til sín í París en Jóhann neitaði að hlýða. Þar sem frönsku hertoga- og greifadæmin sem Jóhann réði voru frönsk lén gat Filippus kallað þetta óhlýðni við lénsherra og hann lýsti því yfir að Jóhann hefði fyrirgert rétti sínum til þeirra. Hann seldi Arthúri svo allar lendurnar að léni og trúlofaði hann jafnframt Maríu dóttur sinni. Jóhann hófst handa við að láta smíða flota til að geta háð stríð handan Ermarsunds og var það í raun upphaf breska konunglega flotans. Arthúr reyndi að ná Elinóru af Akvitaníu, ömmu sinni og móður Jóhanns, á sitt vald með umsátri um kastalann Mirabeau, en Jóhann kom honum að óvörum og handsamaði hann. Arthúri var varpað í dýflissu og er ekki titað hvað um hann varð en hann er talinn hafa dáið eða verið drepinn fljótlega. Systir Arthúrs, Elinóra, var einnig sett í fangelsi og þar var hún til dauðadags 1241. Magna Carta. Í júní 1204 náði Filippus Normandí á sitt vald og einnig hluta af Anjou og Poitou. Jóhann þurfti á miklu fé að halda til að halda úti her ef hann átti að eiga von í að ná frönsku lendunum á ný en með þeim hafði hann jafnframt tapað miklum tekjum svo að ljóst var að hann yrði að leggja á þunga skatta. Hann lagði meðal annars á tekjuskatt í fyrsta sinn og einnig hækkaði meðal annars greiðslu sem aðalsmenn þurftu að inna af hendi til að sleppa við beina herþjónustu, ellefu sinnum á sautján árum. Síðustu hækkanirnar voru mestar og þá var aðalsmönnum nóg boðið. Í september 1214 neituðu margir aðalsmennn að borga, enda höfðu þeir enga trú á að Jóhanni tækist að ná frönsku lendunum aftur. Í maí 1215 höfnuðu þeir alfarið greiðslunni, héldu til London undir forystu Robert fitz Walter og tóku borgina, svo og Lincoln og Exeter. Jóhann átti fund með þeim við Runnymede nálægt London 15. júní 1215 og undirritaði þar Magna Carta, lagabálk sem takmarkaði vald konungsins og gerði honum skylt að hlíta tilteknum lögum og reglum. Borgarastyrjöld. Jóhann átti í hörðum deilum við kaþólsku kirkjuna framan af ríkisárum sínum og fór svo að páfi bannfærði hann árið 1209. Til að losna undan bannfæringunni féllst Jóhann á það árið 1213 að gera England og Írland að lénsríkjum guðs, Péturs postula og Páls postula og gjalda páfanum ákveðna fjárhæð árlega og viðurkenna hann sem lénsherra sinn. Nú ákvað hann að nota sér þetta. Þar sem hann hafði verið beittur þrýstingi til að undirrita skjalið leitaði hann til lénsherra síns, páfans, og bað hann um að ógilda það. Páfinn varð við því en hópur aðalsmanna gerði þá uppreisn gegn konungi og leitaði meðal annars aðstoðar hjá Loðvík, krónprinsi Frakklands, og bauð honum ensku krúnuna að launum. Kona Loðvíks, Blanka af Kastilíu, var dótturdóttir Hinriks 2. og systurdóttir Jóhanns. Jóhann fór víða um England og barðist gegn uppreisnarmönnum og jafnframt gegn Alexander 2. Skotakonungi, sem hafði notað tækifærið og ráðist inn í Norður-England. Hann réðist hins vegar ekki til atlögu við uppreisnarmenn í London, sem þeir höfðu á valdi sínu. Þann 21. maí 1216 lenti Loðvík með her sinn í Kent, hélt þaðan til London og var lýstur konungur Englands í Pálskirkju en þó ekki krýndur. Í lok sumars hafði hann náð þriðjungi Englands á sitt vald og naut stuðnings tveggja þriðju hluta allra aðalsmanna. Jóhann konungur hraktist stað úr stað og var orðinn sjúkur af blóðkreppusótt. Sigur Loðvíks virtist skammt undan en þá dó Jóhann í Newark-kastala í Lincolnshire, 18. eða 19. nóvember 1216. Hinrik sonur Jóhanns, þá níu ára að aldri, tók við krúnunni og þá brá svo við að ensku aðalsmennirnir snerust flestir á sveif með hinum nýja konungi. Her hans vann sigur á her Loðvíks í orrustu við Lincoln 20. maí 1217 og í ágúst tapaði franski flotinn sjóorrustu við þann enska. Þá neyddist Loðvík til að ganga til samninga þar sem hann féllst á að ráðast aldrei á England aftur og viðurkenna að hann hefði aldrei átt löglegt tilkall til krúnunnar. Í staðinn fékk hann allháa fjárhæð greidda. Eftirmæli. Jóhann hefur fengið afar slæmt eftirmæli í sögunni, bæði vegna þess að hann tapaði miklum lendum í Frakklandi á fyrstu ríkisstjórnarárum sínum, hann stýrði ríki sínu inn í borgarastyrjöld og hann gerði England að lénsríki páfastóls. Hans er þó helst minnst fyrir það að hann var þvingaður til að undirrita Magna Carta. Að mörgu leyti var hann þó hæfur stjórnandi, vel að sér um málefni ríkisins og réttsýnn og varoft fenginn til að dæma í málum. Hann var hins vegar tortrygginn, sveifst einskis til að koma sínu fram og naut lítils trausts þegna sinna. Hjónabönd og börn. Jóhann kvæntist Ísabellu af Gloucester, dóttur William Fitz Robert, jarls af Gloucester. Þau voru barnlaus og Jóhann fékk hjónaband þeirra gert ógilt vegna skyldleika um það leyti eða skömmu eftir að hann varð konungur. Hún hefur því aldrei verið talin drottning. 24. ágúst árið 1200 gekk Jóhann svo að eiga Ísabellu af Angoulême, sem hann hafði rænt frá unnusta hennar, Hugh 10. de Lusignan. Þau áttu fimm börn: Hinrik 3. Englandskonung, Ríkharð, jarl af Cornwall, Jóhönnu Skotadrottningu, konu Alexanders 2., Ísabellu keisaraynju, konu Friðriks 2. keisara, og Elinóru, sem fyrst giftist jarlinum af Pembroke og síðar Simon Montfort, jarli af Leicester. Jóhann er sagður hafa verið mjög kvensamur og svo mikið er víst að hann átti fjölda óskilgetinna barna. Ísabella af Gloucester. Ísabella af Gloucester (um 1173 – 14. október 1217) var fyrri kona Jóhanns landlausa Englandskonungs en hann fékk hjónaband þeirra gert ógilt um það leyti sem hann varð konungur og hún er yfirleitt ekki talin með drottningum Englands. Nafn hennar er raunar óvíst því hún er kölluð ýmsum nöfnum í heimildum. Ísabella var af Normandíætt, dóttir William Fitz Robert, jarls af Gloucester, en faðir hans, Róbert jarl af Gloucester, var óskilgetinn sonur Hinriks 1. Englandskonungs. Hún giftist Jóhanni 29. ágúst 1189 og hann fékk þá titilinn jarl af Gloucester. Tíu árum síðar lét hann ógilda hjónabandið vegna skyldleika þeirra en þau voru þremenningar. Þau áttu engin börn saman. Ísabella giftist ekki aftur fyrr en 20. janúar 1214 og var maður hennar Geoffrey Fitz Geoffrey de Mandeville, jarl af Essex, sem var um átján árum yngri en hún. Hann dó 1216 en ári síðar, í september 1217, giftist Ísabella í þriðja sinn, Hugh de Burg, sem síðar var gerður jarl af Kent. Hún dó mánuði eftir brúðkaupið. Ísabella af Angoulême. Ísabella af Angoulême (1188 – 31. maí 1246) var drottning Englands frá 24. ágúst árið 1200 til 19. október 1216, þegar maður hennar, Jóhann landlausi, lést. Hún var einnig greifynja af Angoulême, sem hún erfði eftir föður sinn. Ísabella var einkadóttir Aymer Taillefer, greifa af Angoulême, og Alísu af Courtenay. Langafi hennar í móðurætt var Loðvík 6. Frakkakonungur. Ísabella hafði ung að aldri verið heitin Hugh le Brun, greifa af Lusignan, en Jóhann landlausi tók sér hana fyrir konu ári eftir að hann fékk hjónaband sitt og Ísabellu af Gloucester gert ógilt. Hin nýja drottning var þá tólf ára að aldri og þegar orðlögð fyrir fegurð en brúðguminn 33 ára. Englandskonungar höfðu landeignir sínar í Frakklandi að léni frá Frakkakonungi og Filippus 2. Frakkakonungur notaði það að Jóhann hafði gifst stúlku sem lofuð var öðrum lénsmanni hans sem eina helstu átylluna fyrir því að taka allar frönsku lendurnar undir sig. Sagt er að Jóhann hafi verið ákaflega ástfanginn af barnungu drottningunni sinni og vanrækt stjórn ríkisins af þeim sökum. Samkomulag þeirra var þó ekki gott, bæði vegna aldursmunarins og ekki síður vegna þess að þau voru bæði mjög skapmikil. Ísabella var orðin 19 ára þegar fyrsta barn hennar fæddist og var það Hinrik, sem síðar varð konungur. Alls eignuðust þau Jóhann fimm börn sem öll lifðu til fullorðinsára. Um leið og Jóhann dó í október 1216 lét Ísabella krýna Hinrik son sinn. Ári síðar skildi hún hann eftir í umsjá ríkisstjórans, jarlsins af Pembroke, og sneri heim til Angoulême, sem hún hafði erft eftir föður sinn 1202. Um vorið 1220 giftist hún æskuunnusta sínum, Hugh 10. af Lusignan. Áður hafði reyndar verið ákveðið að elsta dóttir hennar, Jóhanna, ætti að giftast honum og hafði hún verið alin upp við hirð hans, en þegar Hugh sá Ísabellu aftur, jafnfagra og fyrr, kaus hann hana fremur. Jóhanna var í staðinn heitbundin Alexander 2. Skotakonungi og giftist honum 1221, þá tæplega ellefu ára. Ísabella og Hugh eignuðust níu börn sem öll komust upp. Ísabella var hégómagjörn og sætti sig aldrei við að hafa lækkað úr tign, úr drottningu niður í greifafrú. Árið 1241 móðgaðist hún ákaflega þegar Blanka ekkjudrottning, móðir Loðvíks 9. Frakkakonungs, virti hana ekki viðlits, og tók ásamt eiginmanni sínum og ýmsum óánægðum aðalsmönnum þátt í samsæri gegn Frakklandskonungi. Það mistókst þó og Hugh samdi frið við konunginn en árið 1244 voru tveir matreiðslumenn konungs handteknir og sakaðir um að hafa reynt að eitra fyrir konungi. Þeir játuðu að hafa verið keyptir til þess af Ísabellu. Hún flúði þá og leitaði skjóls í Fontevraud-klaustri, þar sem hún lést 31. maí 1246. Sum barna Ísabellu og Hughs settust að í Englandi undir verndarvæng Hinrik 3., hálfbróður síns. Adeliza af Louvain. Adeliza af Louvain (1103 – 23. apríl 1151) var drottning Englands frá 1121 til 1135. Hún var seinni kona Hinriks 1. Englandskonungs. Adeliza (einnig kölluð "Adela" og "Aleidis") var dóttir Goðfreys 1., greifa af Louvain, hertoga af Neðri-Lóthringen og landgreifa af Brabant. Þegar Adela og Hinrik gengu í hjónaband var hún líklega átján ára og hann 53. Hann vildi reyna að eignast son en eini skilgetni sonur hans hafði farist á sjó ári áður. Hann átti að vísu fleiri óskilgetin börn en nokkur annar enskur konungur, eða milli 20 og 25 sem hann gekkst við, en aðeins eina skilgetna dóttur á lífi, Matthildi keisaraynju. Honum tókst hins vegar ekki að geta nein börn með Adelizu. Hún skipti sér ekkert af stjórn ríkisins en var bókhneigð og ýmsir höfundar tileinkuðu henni verk sín. Þegar Hinrik dó, 1. desember 1135, tók Adeliza sér fyrst í stað aðsetur í klaustri. Árið 1139 giftist hún svo William d'Aubigny, jarli af Arundel, sem verið hafði einn helsti ráðgjafi Hinriks manns hennar. Hann studdi Stefán konung í borgarastyrjöldinni við Matthildi dóttur Hinriks en ýmislegt bendir til þess að Adeliza hafi fremur stutt stjúpdóttur sína. Þau William áttu nokkur börn saman. Hinrik 3. Englandskonungur. Hinrik 3. Mynd frá 13. öld. Hinrik 3. (1. október 1207 – 16. nóvember 1272) var konungur Englands í fimmtíu og sex ár á 13. öld, eða frá 1216 til dauðadags. Hann var fyrsti barnakonungur Englands síðan Aðalráður ráðlausi varð konungur 978. Barnakonungur. Hinrik fæddist í Winchester-kastala og var af samtíðarmönnum oftast kallaður "Henry of Winchester". Hann var elsti sonur Jóhanns konungs landlausa og seinni konu hans, Ísabellu af Angoulême. Hann var krýndur þegar eftir dauða föður síns, níu ára gamall, en þar sem öll krúnudjásnin, þar á meðal konungskórónan, höfðu skömmu áður glatast var látið nægja að setja einfaldan gullbaug á höfuð hans og erkibiskupinn af Kantaraborg var ekki viðstaddur eins og venja var, þar sem hann hafði gengið í lið með Loðvík, krónprinsi Frakklands, sem hafði ráðist inn í England og unnið vænan hluta þess af Jóhanni landalausa. Hinrik var því krýndur öðru sinni 1220. Fjöldi enskra aðalsmanna hafði snúist á sveif með Loðvík gegn Jóhanni, sem var mjög óvinsæll, en þegar hann var látinn vildu þeir flestir fremur styðja innlendan konung en erlendan og ríkisstjórar Hinriks hétu því þegar að stýra landinu í samræmi við Magna Carta, sem Jóhann hafði reynt að fella úr gildi. Leið því ekki á löngu uns Loðvík sá sitt óvænna og hvarf úr landi. Simon de Montfort. Hinrik 3. (frá 17. öld; seinna hefur einhver skrifað Játvarður á málverkið). Ríkisstjórnartíð Hinriks var friðsöm framan af en þegar hann tók sjálfur við ríkisstjórnartaumunum leitaðist hann við að efla vald konungs gegn aðalsmönnum en þeir stóðu fastir á móti. Hann kvæntist franskri drottningu, Elinóru af Provence, og átti frönsk hálfsystkini. Margir franskir ættmenn þeirra hjóna og aðrir Frakkar komust til mikilla metorða við hirð hans. Þetta varð til þess að baka honum óvinsældir meðal enskra aðalsmanna. Helsti andstæðingur hans, Simon de Montfort, var raunar franskur sjálfur og hafði verið í hópi þeirra Frakka sem konungurinn hóf til metorða. Árið 1238 giftist hann Elinóru, systur Hinriks konungs, með samþykki konungs en þó leynilega. Elinóra hafði áður verið gift jarlinum af Pembroke en varð ekkja sextán ára að aldri og vann þá skírlífisheit, sem hún rauf með því að giftast de Montfort. Það vakti því ólgu þegar uppskátt varð um hjónabandið; erkibiskupinn af Kantaraborg fordæmdi það og Ríkharður jarl af Cornwall, bróðir Hinriks konungs og Elinóru, gerði uppreisn. Hinrik greiddi honum háa fjárhæð til að friður kæmist á en smátt og smátt varð ósætti með Hinrik og Simon og konungur sagði hann hafa dregið systur sína á tálar og þvingað sig til að samþykkja ráðahaginn. Borgarastyrjöldin. Líki Simon de Montfort var misþyrmt á vígvellinum. Simon de Montfort varð með tímanum leiðtogi þeirra aðalsmanna sem vildu reyna að draga úr valdabrölti Hinriks og festa Magna Carta í sessi. Deilan varð smátt og smátt harðari og árið 1263 hófst borgarastyrjöld. De Montfort og menn hans náðu fljótt mestöllu Suðaustur-Englandi á vald sitt og í orrustunni við Lewes, 14. maí 1264, voru Hinrik konungur og ríkisarfinn, Játvarður, handsamaðir og hafðir í stofufangelsi. Hinrik var áfram konungur en þó aðeins að nafninu til. Játvarður slapp nokkru síðar, safnaði saman liði konungssinna, stappaði stálinu í það og tókst að vinna sigur á de Montfort í orrustunni við Evesham 1265, þar sem de Montfort féll. Borgarastyrjöldinni lauk þó ekki endanlega fyrr en 1267 Trúrækni Hinriks. Hinrik tók þá aftur við stjórn ríkisins. Hann var mjög trúrækinn og þegar hann var á ferðalögum gengu þau oft hægt því konungurinn vildi hlýða á messu oft á dag. Einhvern tíma þegar hann heimsótti Loðvík 9. Frakkakonung, mág sinn, þótti Loðvík honum sækjast ferðin svo hægt að hann lét reka alla presta burt frá leiðinni sem Hinrik fór. Hann hafði sérstakt dálæti á Játvarði góða Englandskonungi, sem var tekinn í helgra manna tölu 1161, og lét elsta son sinn heita eftir honum. Hann lét endurbyggja Westminster Abbey í gotneskum stíl, Játvarði helga til dýrðar. Hinrik var þekktur Gyðingahatari og fyrirskipaði að Gyðingar í Englandi skyldu bera sérstakt einkennismerki. Hjónaband og börn. Þann 14. janúar 1236 giftist Hinrik fegurðardísinni Elinóru af Provence, dóttur Ramón 4. Berenguer, greifa af Provence. Hún var mjög óvinsæl í Englandi þar sem hún flutti marga ættingja sína með sér til Englands og konungur var talinn hygla þeim óhóflega mikið. Þau áttu fjögur börn sem komust upp: Játvarð 1. Englandskonung, Margréti Skotadrottningu, konu Alexanders 3. Skotakonungs, Beatrice, konu Jóhanns 2. hertoga af Bretagne og Játmund krossbak, jarl af Lancaster. Windsor-kastali. Windsor-kastali er heimsins stærsti kastali, sem enn er í notkun. Kastalinn stendur í Windsor í Berkshire-sýslu á Englandi. Kastalinn er frá tíma Vilhjálms sigursæla. Gólfflatarmál kastalans er um 45.000 m². Ásamt Buckinghamhöll í London og Holyroodhöll í Edinborg er Windor-kastali eitt opinberra heimila þjóðhöfðingja Bretlands. Elísabet 2. býr þar í margar helgar ársins og notar það til persónulegrar og þjóðlegrar skemmtunar. Önnur tvö heimili drottningarinnar eru Sandringham House og Balmoral-kastali, sem eru einkaheimili konunglegu fjölskyldunnar. Flestir konungar og drottningar Englands og síðar konungar og drottningar Bretlands hafa haft áhrif á byggingu og þróun kastalans, sem hefur verið virki, heimili, opinber höll eða stundum fangelsi þeirra. Tímatalslegt fylgst saga kastalans með ríkisárum konunga og drottninga sem hafa búið þar. Á fríðartíma var kastalinn stækkað með byggingu stórra og mikilfenglegra íbúða en á stríðstíma hefur hann verið þunglegar styrktur. Þessi venja heldur áfram í dag. Gróðurhús. Gróðurhús er bygging með gler eða plastþaki og oft veggjum úr gleri eða plasti, sem hleypa greiðlega í gegn sólargeislum. Gróðurhús eru notuð til að skapa hagstæð vaxatarskilyrði fyrir jurtir á þann hátt að sólarljósið hitar upp loftið inni í gróðurhúsinu þannig að hlýrra verður í því en fyrir utan það. Amtmannshúsið (Arnarstapa). Amtmannshúsið (Stapahúsið) á Arnarstapa er einlyft timburhús sem byggt var á tímabilinu 1774 – 1787. Það var flutt að Vogi á Mýrum 1849 og tekið niður árið 1983 til viðgerðar og reist aftur á Arnarstapa 1985 – 1986. Það var friðað 1. janúar 1990. Hornbjarg. Hornbjarg er þverhnípt sjávarbjarg og fuglabjarg sem rís úr sjó á norðvestur horni Vestfjarða. Hæstu tindar þess eru Kálfatindur 534 m og Jörundur 429 m. Nyrsta nef Hornbjargs heitir Horn en það er nyrsti tangi Vestfjarða og miðja Hornstranda en þar skiptast þær í Austur- og Vesturstrandir. Hornstrandir draga nafn sitt af Horni. Innst við sunnanvert Hornbjarg standa berggangarnir Fjalir. Í Flateyjarbók er sagt frá ferð fóstbræðranna Þormóðs Kolbrúnarskálds og Þorgeirs Hávarðssonar í Hornbjarg þar sem Þorgeir missti fótfestu í bjarginu en bjargaði sér með að halda í hvannnjóla þar til Þormóður kom honum til bjargar. Mikið er um langvíu í Hornbjargi en einnig eru þar milljónir af stuttnefju, máfi og ritu. Einnig eru þar fuglategundir eins og hvítmáfur, álka, fýll, æðarfugl, svartbakur, hávella, toppönd, óðinshani, lundi og teista. Fuglabjargið er þéttsetnast á Jörundi og í þræðingum Dyraskarða sem liggja milli Jörundar og Kálfatinda. Hornbjarg hefur verið nytjað til eggjatöku frá fornu fari og er eggjataka ennþá stunduð í Harðvirðisgjá. Berggangar. Berggangar er sprungufyllingar í bergi sem hafa orðið til þannig að bergkvika hefur þrýst sér út í sprungur og storknað þar. Berggangar eru því alltaf yngri en bergið í kring. Þeir geta verið lóðréttir eða eins og syllur sem fylgja jarðlagamótum. Berggangar geta verið aðfærslukerfi bergkviku að eldstöð eða þeir geta hafa myndast við lárétt kvikuhlaup“ út frá eldstöð. Hvítmáfur. Hvítmáfur (fræðiheiti: "Larus hyperboreus") er stórvaxin máfategund sem verpir á Norðurslóðum og við Atlantshafsströnd Evrópu. Hann er farfugl og hefur vetursetu í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi allt suður til Bretlandseyja og nyrstu fylkja Bandaríkjanna og við vötnin miklu. Einstaka fuglar fara sunnar. Hvítmáfar verpa 2-4 ljósbrúnum eggjum með dökkbrúnum flekkjum. Fullorðnir hvítmáfar eru með ljósgráa vængi og þykkan gulan gogg. Ungar eru ljósgráir með bleika og svarta gogga. Fuglarnir verða fullvaxnir fjögurra ára gamlir. Hvítmáfur eru næststærsta máfategund á Íslandi, litlu minni en svartbakur. Vænghaf er um 150 sm og þyngd á bilinu 1,3 til 1,6 kg. Heimkynni hvítmáfa á Íslandi eru aðallega við Breiðafjörð og Vestfirði. Játvarður 1.. Játvarður 1. (17. júní 1239 – 7. júlí 1307), einnig þekktur sem "Játvarður skankalangi" og "Skotasleggja" (enska: "Edward Longshanks"; "Hammer of the Scots"), var konungur Englands frá 1272 til 1307. Hann hefur verið talinn mun hæfari konungur en bæði faðir hans og sonur, kom á ýmsum umbótum og átti þátt í að móta enska þingið. Æskuár. Játvarður var sonur Hinriks 3. og Elinóru af Provence og var hann elstur fjögurra barna þeirra sem upp komust. Árið 1254 giftist hann Elinóru af Kastilíu, systur Alfons 10. Kastilíukonungs, og samdi faðir hans um ráðahaginn til að afstýra yfirvofandi innrás Kastilíumanna í hertogadæmið Gaskóníu, sem var lénsríki Englandskonunga. Játvarður var hertogi af Gaskóníu að nafninu til en Simon de Montfort, jarl af Leicester, stýrði héraðinu fyrir hans hönd og hirti tekjurnar af því. Við brúðkaupið var hann líka gerður lávarður af Írlandi og fékk miklar eignir í Englandi og Wales en þessu fylgdu þó engin raunveruleg völd og faðir hans tók mestallar tekjurnar af þessum lendum til sín. Játvarður var framan af undir miklum áhrifum frá frönskum ættingjum sínum, fyrst fjölskyldu móður sinnar, Savojördum, en síðar hálfbræðrum föður síns, de Lusignan-mönnum. Báðir hóparnir voru valdamiklir við ensku hirðina og óvinsælir meðal landsmanna. Árið 1258 krafðist hópur enskra aðalsmanna endurbóta á stjórnsýslu og var þeirri kröfu raunar fyrst og fremst beint gegn áhrifum Lusignan-manna. Játvarður studdi fyrst frændur sína en skipti smám saman um skoðun og 15. október 1259 lýsti hann yfir stuðningi við leiðtoga aðalsmanna, Simon de Montfort, sem giftur var föðursystur hans. Á næstu mánuðum ögraði Játvarður föður sínum á ýmsan hátt og Hinrik taldi jafnvel að hann væri að undirbúa valdarán. Þeir sættust þó og Játvarður var sendur til Frakklands, þar sem hann gekk að nýju í bandalag við frændur sína af Lusignan-ætt, sem höfðu verið sendir þangað í útlegð. Borgarastyrjöldin. Árið 1263 sendi Hinrik Játvarð í herför til Wales gegn Llywelyn ap Gruffud með takmörkuðum árangri. Um sama leyti sneri Simon de Montfort, sem hafði verið erlendis frá 1261, aftur til Englands og hóf að nýju að skipuleggja andstöðu aðalsmanna við konung. Hinrik virtist að því kominn að láta undan kröfum þeirra en þá tók Játvarður málin í sínar hendur og einbeitti sér þaðan í frá að því að verja völd konungs. Hann sættist aftur við ýmsa sem hann hafði áður deilt við og varð aðalleiðtogi konungssinna í borgarastyrjöldinni sem stóð frá 1264 til 1267. Framan af var Simon de Montfort leiðtogi uppreisnarmanna og í orrustunni við Lewes 14. maí 1264 vann hann sigur á liði Hinriks konungs og Játvarðs prins og tók þá báða höndum. Játvarður var í haldi til 28. maí árið eftir en þá tókst honum að sleppa og 4. ágúst 1265, í orrustunni við Evesham, vann hann sigur á liði uppreisnarmanna og Simon de Montfort var drepinn og lík hans illa leikið. Borgarastyrjöldin hélt þó áfram, Simon de Montfort yngri stýrði liði uppreisnarmanna og fullnaðarsigur vannst ekki fyrr en 1267. Játvarður krossfari. Árið 1270 hélt Játvarður af stað í krossferð ásamt Játmundi bróður sínum. Elinóra kona hans fór líka með, enda fylgdi hún manni sínum hvert sem hann fóri. Til að fjármagna krossferð prinsanna fékk konungur þingið til að leggja á nýjan skatt gegn því að hann staðfesti að nýju Magna Carta. Játvarður sigldi af stað 20. ágúst og hélt fyrst til Frakklands en Loðvík 9. Frakkakonungur var leiðtogi krossfaranna. Loðvík var þá kominn til Túnis ásamt bróður sínum, Karli af Anjou, sem hafði sett sjálfan sig í konungsstól á Sikiley, og var markmið þeirra að ná fótfestu í Norður-Afríku. En fljótlega eftir komuna þangað kom upp farsótt í franska liðinu og Loðvík dó 25. ágúst. Þegar Játvarður kom til Túnis hafði Karl samið frið við emírinn og ekkert þar að gera meira. Þau Elinóra héldu því til Sikileyjar til vetursetu. Karl og Filippus 3., hinn nýi Frakkakonungur, höfðu misst áhuga á krossferðum og Játvarður hélt áfram einn. Hann kom til Akkó 9. maí 1271. Þar var þá helsta vígi kristinna manna í Landinu helga því Jerúsalem hafði fallið í hendur múslima 1244. Hann og riddarar hans áttu í ýmsum skærum við Mamelúka ásamt heimamönnum í Akra en varð ekkert ágengt og í maí 1272 samdi Húgó 3. konungur Kýpur, sem var að nafninu til konungur Jerúsalem og var af Lusignan-ætt, tíu ára vopnahlé við Baibars, soldán Mamelúka. Játvarður og Elinóra héldu heim á leið í september og þegar þau komu loks til Sikileyjar bárust þeim þau tíðindi að Hinrik 3. hefði dáið 16. nóvember og Játvarður væri orðinn konungur. Ríkisstjórnin var þó í öruggum höndum aðalsmannaráðs og Játvarði lá ekkert á heim, hann heimsótti páfann í Róm, ferðaðist um Ítalíu og Frakkland, bældi niður uppreisn í Gaskóníu og kom ekki aftur til Englands fyrr en 2. ágúst 1274. Þau Elinóra voru svo krýnd 19. ágúst. Konungur Englands. Þegar heim kom sneri Játvarður sér að því að lagfæra það sem aflaga hafði farið á ríkisstjórnarárum föður hans, koma á röð og reglu og reyna að styrkja völd krúnunnar og ná aftur ýmsum eignum sem tapast höfðu. Hann bældi tvívegis niður uppreisn í Wales og lagði landið undir sig á árunum 1276-1277. Hann var fenginn til að miðla málum í deilunum um ríkiserfðir í Skotlandi eftir lát Alexanders 3. og síðan Margrétar Skotadrottningar og stýra Skotlandi þar til deilan væri leyst en þegar Jóhann Balliol var orðinn konungur var Játvarður tregur til að sleppa völdum og 1296 réðist hann inn í Skotland og setti Jóhann af. Hann hafði líka í huga að fara í aðra krossferð og reyndi að koma á friði milli stríðandi konunga á meginlandinu í þeim tilgangi að fá þá með sér í krossferðina en þau áform urðu að engu 1291, þegar fréttist að Akkó hefði fallið í hendur Mamelúka. Krossferð Játvarðar 1271-1272 varð því síðasta krossferðin. Játvarður dvaldi oft í hertogadæmi sínu, Gaskóníu, en var eins og aðrir Englandskonungar í klemmu vegna þess að sem hertogi af Gaskóníu var hann lénsmaður Frakkakonungs og þurfti að votta honum hollustu. Það hafði hann gert á heimferð sinni 1286 en árið 1294 kvaddi Filippus 3. hann á sinn fund í París. Játvarður neitaði að mæta og þá lýsti Filippus því yfir að þar með skyldi hann sviptur Gaskóníu. Þetta leiddi vitaskuld til stríðs milli Játvarðar og Frakkakonungs. Játvarður treysti á stuðning frá Niðurlöndum, Þýskalandi og Búrgund en sá stuðningur brást og hann neyddist til að semja frið. Í því samkomulagi fólst meðal annars að hann gekk að eiga Margréti, dóttur Filippusar. Stríð við Skota og dauði. Hann þurfti líka að snúa aftur til Skotlands því þar hafði Willim Wallace risið upp og gerst leiðtogi í frelsisbaráttu Skota. Játvarður vann sigur á liði hans í orrustunni við Falkirk 22. júlí 1298 en náði honum ekki og Wallace hélt áfram baráttu sinni með skæruhernaði. Þegar Róbert Bruce gekk í lið með Englendingum fór þeim þó að ganga betur og árið 1305 náðu þeir William Wallace og fluttu hann ti London þar sem hann var tekinn af lífi. En ári síðar lét Róbert Bruce krýna sig konung Skotlands og hóf baráttu fyrir sjálfstæði landsins. Játvarður var farinn að missa heilsu og stýrði hernum ekki sjálfur gegn honum. Englendingum gekk betur í fyrstu og mikilli hörku var beitt gegn Skotum en það varð til þess að þjappa þeim saman og Róbert konungur safnaði liði að nýju og vann sigur á Englendingum í orrustunni við Loudon-hæð. Játvarður hélt þá sjálfur norður á bóginn til að berjast við hann en veiktist á leiðinni af blóðkreppusótt og dó í herbúðum rétt sunnnan við skosku landamærin 7. júlí 1307. Stríðsbrölt Játvarðs var dýrt og hann hafði neyðst til að leggja þunga skatta á landsmenn við litla hrifningu þeirra. Hann naut þó yfirleitt virðingar þegna sinna sem stjórnandi og hermaður. Sú virðing var oft óttablandin því Játvarður var skapmikill og yfirgangssamur, sérlega hávaxinn og hermannlegur. Á yngri árum var hann talinn óútreiknanlegur og ótraustur en það breyttist þó heldur með aldrinum. a>i, endurgert samkvæmt hugmyndum um konungleg húsakynni um aldamótin 1300. Arftaki hans, Játvarður 2., erfði miklar skuldir, pólitískt vantraust og stríð við Skotland. Játvarðs er líka minnst fyrir illa meðferð á gyðingum en hann rak þá á endanum alla úr landi 1290 og þeim var ekki heimil landvist í Englandi að nýju fyrr en 1656. Hjónabönd og fjölskylda. Játvarður var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elinóra af Kastilíu, sem hann giftist þegar hann var fimmtán ára og hún þrettán. Þau eru sögð hafa elskað hvort annað mikið og hún fylgdi honum í nær öll hans ferðalög, líka á vígvöllinn. Hann var henni trúr alla tíð og syrgði hana mikið þegar hún dó 28. nóvember 1290 eftir 36 ára hjónaband. Í friðarsamningum við Frakka árið 1294 var svo samið um að Játvarður skyldi giftast Margréti dóttur Filippusar 3. Frakkakonungs, og giftust þau 1299, þegar Margrét var tvítug. Játvarður og Elinóra áttu fjórtán til sextán börn (heimildum ber ekki saman). Fimm af dætrunum komust upp en af fjórum sonum lifði aðeins yngsta barnið, Játvarður, til fullorðinsára. Með Margréti átti Játvarður tvo syni sem náðu fullorðinsaldri. Toppskarfur. Toppskarfur (fræðiheiti: "Phalacrocorax aristotelis") er sjófugl af ætt skarfa. Útbreiðsla. Hann verpir á sjávarklettum í Vestur- og Suður-Evrópu, Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku. Hann hefur oftast vetursetu á svipuðum slóðum og hann verpir, nema þeir fuglar sem verpa allra nyrst. Við Ísland er ein mesta skarfabyggðin við Breiðafjörð en þar voru taldir árið 1975 um 6.600 hreiður og er það einnig aðal varpsvæði hanns. Á veturnar er hann aftur á móti við ströndina um allt vesturland, frá Vestmannaeyjum og Faxaflóann og allt norður fyrir Vestfirði, á Ströndum inn á Húnaflóa. Útlit. Ungur toppskarfur, dökkbrúnn ólíkur svörtum foreldrum sínum. Toppskarfurinn er meðalstór svartur, grannur og langur sjófuglar, um 68 - 78 sentimetra langur með 95 – 110 sentimetra vænghaf. Honum er oft ruglað saman við Dílaskarf en þótt hann sé líkur honum er hann nokkru minni en Dílaskarfurinn. Á varptímanum er hann alsvartur með grænleitri slikju en hún er tilkomin vegna dökkra fjaðrajaðra og virðist hann fyrir vikið vera hálf hreistraður að ofan. Fullorðnir fuglar hafa einkennandi uppsveigðar fjaðrir á höfðinu frá því eftir áramótin og fram á vor. Ungfuglarnir eru aftur á móti dökkbrúnir með ljósan framháls. Varp. Toppskarfar halda hópinn og verpa í byggðum og þá helst á lágum eyjum og hólmum en einnig stundum á lágum klettum og í fuglabjörgum. Hreiðrið er einfaldur hraukur úr þangi og fóðrað með fjöðrum og grasi. Eggin eru frá einu til sex og liggur hann á í 30 til 31 dag. Almennt. a>i og má þar sjá einn þeirra vera að þurrka sér, „messa“, eins og það er oft kallað. Toppskarfur heldur sig við ströndina og sést sjaldan inn í landi. Hann er einn besti kafari meðal skarfa og getur kafað 45 metra eða meira. Fæða hans kemur frá sjávarbotni og aðalfæða þeirra er sandsíli. Toppskarfurinn rennblotnar svo við köfunina að hann þarf að þurrka sig og sjást þeir oft með útbreidda vængina í sólbaði eða að blaka þeim. Er oft sagt að þá sé hann að „messa“. Eins og með marga fugla sem sérhæfa sig í köfun er hann er frekar klaufskur við að taka sig á loft. Hann er nokkuð veiddur og hefur því fækkað aðeins fyrir vikið. Dílaskarfur. Dílaskarfur að þurrka sig eftir köfun. Dílaskarfur (fræðiheiti: "Phalacrocorax carbo") er stór sjófugl af ætt Skarfa. Hann er stór og svartur og er oft ruglað saman við Toppskarf sem er mjög svipaður í í útliti en heldur minni. Þyngd er frá 1,5 til 5,3 kíló en algengust 2,6 til 3,7 kíló.. Lengd getur verið frá 70 til 102 sentimetrar og vænghafið frá 121 til 160 sentimetrar. Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim. Óðinshani. Óðinshani (fræðiheiti: "Phalaropus lobatus") er lítill vaðfugl sem verpir á Norðurslóðum. Hann er farfugl sem heldur sig úti á sjó í hitabeltinu yfir vetrartímann. Kvenfuglinn á frumkvæði að mökun, velur varpstæði og maka og ver þau fyrir öðrum kvenfuglum. Um leið og hún er búin að verpa hverfur hún á braut en karlfuglinn ungar eggjunum út. Elinóra af Provence. Elinóra af Provence (um 1223 – 24./25. júní 1291) var eiginkona Hinriks 3. Englandskonungs og drottning Englands frá 1236 til 1272. Hún var næstelst fjögurra dætra Ramon Berenguer 4., greifa af Provence, og Beatrice af Savoja. Systurnar fjórar, sem voru orðlagðar fyrir fegurð, urðu allar drottningar: Margrét varð drottning Frakklands, Elinóra Englandsdrottning, Sanchia (Cynthia) varð drottning Þýskalands og Beatrice drottning Sikileyjar. Gengið var frá trúlofun Elinóru og Hinriks 22. júní 1235 og var þá líklega tólf ára að aldri en hann 28 ára. Þau giftust svo 14. janúar 1236 og hittust í fyrsta skipti á brúðkaupsdaginn. Sama dag var Elinóra krýnd drottning Englands. Elinóra var vel menntuð, greind og sögð gott ljóðskáld. Hún var líka mjög áhugasöm um tísku og fatnað og innleiddi nýja fatatísku á Englandi. Hún studdi mann sinn eindregið og var honum trú en var þó óvinsæl meðal landsmanna og þó sérstaklega Lundúnabúa, einkum vegna franskra ættingja sinna, sem komust til mikilla metorða við hirð Hinriks. Þegar bát drottningar var siglt niður Thames 13. júlí 1263 var hann grýttur með steinum, leir, fúleggjum og skemmdu grænmeti og Elinóra slapp naumlega undan. Hún virðist hafa haldið sérstaklega mikið upp á Játvarð son sinn og ríkiserfingja en þegar yngsta barn hennar, Katrín, sem var heyrnarlaus, dó þriggja ára gömul voru báðir foreldrarnir frá sér af sorg. Eftir að Hinrik dó og Játvarður var konungur ól Elinóra upp nokkur barnabörn sín. Hún dó í júní 1291. Önnur börn þeirra Hinriks sem upp komust voru Margrét Skotadrottning, kona Alexanders 3., Beatrice, kona Jóhanns 2. hertoga af Bretagne og Játmundur krossbakur, jarl af Lancaster. Þúfutittlingur. Þúfutittlingur eða grátittlingur (fræðiheiti: "Anthus pratensis") er lítill fugl af erluætt. Hann er farfugl sem verpir víða í Norður-Evrópu og Asíu og hefur vetursetu í Suður-Evrópu, Norður-Afríku og Suður-Asíu en er staðfugl á Írlandi og Bretlandseyjum en færir sig þar til strandsvæða og niður á láglendi að vetrarlagi. Þúfutittlingur er brúngulur, mógulur eða gulgrænn. Hann verpir oftast tvisvar á ári. Hann er 15 sm á lengd, vegur milli 15 og 25 grömm og vænghaf er 22-25 sm. Maríuerla (fugl). Maríuerla (fræðiheiti "Motacilla alba") er lítill spörfugl af erluætt. Búsvæði maríuerlu er opið land, oft nálægt vatni. Maríuerla er farfugl. Mófugl. Mófugl (eða móafugl) er safnheiti yfir fugla sem velja sér opið mólendi og mýrlendi til varps. Flestir mófuglar eru vaðfuglar og algengastir þeirra eru tjaldur, heiðlóa, sandlóa, spói, jaðrakan, stelkur, hrossagaukur, lóuþræll, sendlingur og óðinshani. Kjói, rjúpa og þúfutittlingur eru einnig algengir mófuglar. Á Íslandi er óvenjuhár þéttleiki vaðfugla á grónu landi. Það stafar af hentugum búsvæðum, hæfilegri beit og frjósömum eldfjallajarðvegi. Stór hluti af heimsstofni sumra mófugla verpir á Íslandi, hér er um 40% af heimsstofni spóa, um helmingur af heimsstofni sandlóu og stelks. Kirtilrifs. Kirtilrifs (eða hvít rifsber) (fræðiheiti: "Ribes glandulosum") er hvítt afbrigði af rifsberjum. Kirtilrifs er ræktað út frá venjulegum rifsberjarunnum, og eru í raun hvítingja-afbrigði hinna hefðbundnu rifsberja, en er samt talin sem önnur tegund. Blómin á hvítrifsrunnanum eru gul-græn á litin, og verða síðan hvít eða ljósbleik. Notkun og bragð. Kirtilrifs eru vanalega minni og sætari heldur en hin hefðbundnu rifsber. Þau eru oftast notuð til að gera bleikar rifsberjasultur. Kirtilrifs eru sjaldan notuð til matargerðar en eru oftast borin fram hrá. Úr kirtilrifsum eru aðalega búnar til sultur, vín og sýróp. Berin innihalda mikið af thiamine og C vítamínum, og eru rík af kopar og járni. Mölflugumaðurinn. Mölflugumaðurinn er nafn sem var gefið óþekktu fyrirbæri sem fjölmargir einstaklingar töldu sig sjá í Point Pleasant í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Yfirvöldum þar barst fjöldi tilkynninga frá fólki sem taldi sig sjá fljúgandi veru í mannslíki. Flestar tilkynningar bárust frá landamærum Ohio á árstímabili, milli nóvember 1966 og nóvember 1967. Mölflugumanninum hefur verið lýst sem skepnu sem minnir á hávaxin karlmann með glóandi rauð augu og vængi Mölflugu. Honum hefur einnig verið lýst sem höfuðlausum og augun sjáist við brjóstsvæðið. Fólk sem séð hefur Mölflugumanninn lýsir honum sem nær 2 metra háum, með langa og stóra vængi og risaxin glóandi augu. Hann gaf frá sér furðulegt og hávært væl sem heyrðist í nær kílómeters fjarlægð. Atburðirnir. Mölflugumaðurinn — nafn sem fjölmiðlar gáfu verunni eftir samnefndri persónu úr hinum vinsælu sjónvarpsþáttum um leðurblökumanninn á þeim tíma — sást fyrst þann 12. nóvember árið 1966. Fimm grafarar unnu við að grafa gröf í kirkjugarði nálægt Clendenin í Vestur-Virginíu lýstu fyrir lögreglu að þeir hefðu séð „brúnleita veru, líka manni með vængi“ takast snögglega á loft frá nálægum trjám þar sem þeir unnu og fljúga yfir þá. Seinna um kvöld þann 15. nóvember var ungt vinafólk frá Point Pleasant, þau Roger og Linda Scarberry og Steve og Mary Mallette í bílferð á bíl þeirra Scarberry hjóna, þau keyrðu nálægt gamalli dínamítverksmiðju frá tíð seinni heimstyrjaldarinnar, sem staðsett er um 6 km utan við Point Pleasant á um 10 km² landareign McClintic Wildlife Station, þegar þau sjá tvö rauð ljós lýsa úr myrkrinu frá gömlum rafal við hlið verksmiðjunar. Þau stöðva bílin og snöggbregður þegar þau gera sér grein fyrir að ljósin eru glóandi rauð augu á því sem Roger Scarberry lýsti sem „stórvaxinni skepnu sem líktist manni en stærri, kannski tveir metrar á hæð, með stærðarinnar vængi sem féllu niður eftir bakinu“. Skelfingu lostin flúðu þau á bílnum í átt að þjóðvegi 62. Þau keyrðu á ofsahraða niður afleggjaran að þjóðveginum og sáu þar veruna aftur þar sem hún stóð á vegriði nærri veginum, breyddi úr vængjunum, tókst á loft og elti bíl þeirra allt að borgarmörkunum. Skelkaðir fjórmenningarnir leituðu sér aðstoðar ráðhúsinu í Mason sýslu og sögðu varðstjóra að nafni Millard Halstead sögu sína, Halstead sagði seinna „Ég hef þekkt þessa krakka allt þeirra líf. Það hefur aldrei verið neinn vandræðagangur á þeim áður og þau voru virkilega hrædd þetta kvöld. Ég tók því sögu þeirra alvarlega.“ Hann fylgdi svo Roger Scarberry aftur að verksmiðjunni en sá ekkert varhugavert. Næsta kvöld, þann 16. nóvember, þrömmuðu fjölmargir bæjarbúar útbúnir vopnum að verksmiðjunni í leit að fyrirbærinu sem hrellt hafði pörin kvöldið áður, á sama tíma voru hjónin Wamsley og Marcella Bennett með kornunga dóttur sína Teenu í bíl á leiðinni að heimsækja vinafólk sitt nærri því sem kallað var „inúítahúsin“, yfirgefin steypubyrgi sem minntu á snjóhús og voru reist nærri verksmiðjunni til að geyma sprengiefni á sínum tíma. Aðeins börn vinafólksins reyndust hinsvegar vera heima svo lítið varð úr heimsókninni, en þegar þau ætluðu til baka að bílnum sjá þau einhverskonar ásýnd birtast aftan við hann. Frú Bennett sagði að það virtist sem fyrirbærið hefði legið í jörðinni og risið svo hægt upp, stórt og gráleitt með glóandi rauð augu. Þau hlupu til baka að húsinu og á meðan hr. Whamsley hljóp í símann til að hringja á lögregluna gekk veran upp að verönd hússins og kíkti inn um gluggana. 24. nóvember, bárust tilkynningar frá fjórir einstaklingum, fókið sagðist allt hafa hafa veruna fljúga í loftinu yfir svæði dínamít verskmiðjunar. Morgunin 25. nóvember barst tilkynning aftur, í þetta skiptið frá manni að nafni Thomas Ury, hann hafði verið að keyra eftir þjóðvegi 62 norður af verksmiðjunni, samkvæmt lýsingum hans stóð veran á túni við þjóðveginn, þar sem hún skyndilega breyddi úr vængjunum og tókst á loft og elti bíl hans á ofsahraða, þar sem hann reyndi að flýja og flýtti sér til Point Pleasant til lögreglunar. 26. nóvember barst tilkynning frá Ruth Foster um að Mölflugumaðurinn hefði staðið í garðinum sínum í Charleston, úthverfi í Vestur-Virginíu nærri St.Albans, en hann var farin þegar mágur hennar fór út í garð til að athuga. Morgunin 27. nóvember barst tilkynning um að vera hefði unga konu nærri Mason-sýslu, í Vestur-Virginíu. Veran sást aftur í St. Albans þetta sama kvöld. Mölflugumaðurinnsást aftur 11. janúar árið 1967, og svo aftur nokkru sinnum það sama ár. Smám saman dró úr tilkynningum og engin hefur borist yfirvöldum síða í nóvember 1967. Elinóra af Kastilíu. Elinóra og Játvarður. Höggmyndir í dómkirkjunni í Lincoln. Elinóra af Kastilíu (1241 – 28. nóvember 1290) var drottning Englands frá 1272 til dauðadags, fyrri kona Játvarðar 1. Englandskonungs. Elinóra var dóttir Ferdínands helga, konungs Kastilíu og León og seinni konu hans, Jóhönnu greifynju af Ponthieu. Alfons 10. Kastilíukonungur var hálfbróðir hennar, tuttugu árum eldri. Faðir Elinóru og bróðir höfðu upphaflega í hyggju að gifta hana Teóbald 2., hinum unga konungi Navarra, til að reyna að tryggja sér yfirráð yfir landinu en Margrét af Bourbon, móðir Teóbalds, gerði þess í stað bandalag við Jakob 1. Aragóníukonung og gaf honum hátíðlegt loforð um að aldrei yrði af hjónabandi Teóbalds og Elinóru. Eiginkona krónprinsins. Árið 1252 reyndi Alfons 10. svo að gera tilkall til hertogadæmisins Gaskóníu, sem þá var eitt eftir af lendum Englandskonunga í Frakklandi. Hinrik 3. Englandskonungur brást við með því að semja við Alfons um að Elinóra systir hans og Játvarður sonur Hinriks skyldu ganga í hjónaband og Alfons afsalaði um leið til Eðvarðs því erfðatilkalli sem hann kynni að eiga til Gaskóníu. Þau Játvarður og Elinóra giftust í Burgos í Kastilíu 1. nóvember 1254. Ráðahagurinn var ekki vinsæll í Englandi því að landsmenn óttuðust að margir ættingjar brúðarinnar eltu hana til Englands og kæmust til metorða þar eins og ættmenn tengdamóður hennar, Elinóru af Provence, höfðu gert. Sú varð líka raunin, þó ekki í sama mæli. Í borgarastyrjöldinni á árunum 1264-1267 studdi Elinóra eiginmann sinn og tengdaföður og lét meðal annars flytja bogaskyttur frá greifadæmi móður sinnar, Ponthieu, til Englands. Þegar Hinrik og Játvarði var varpað í fangelsi eftir orrustuna við Lewes var Elinóra sett í stofufangelsi í Westminsterhöll vegna orðróms um að hún væri að senda eftir herliði til Kastilíu. Játvarður slapp svo úr haldi og vann sigur á uppreisnarmönnum. Krossferðin. Þegar þar var komið sögu hafði Elinóra alið þrjár dætur sem allar dóu í vöggu en árið 1266 eignaðist hún son, 1268 annan og árið 1269 dóttur, svo að ríkiserfðirnar virtust tryggðar. Árið 1270 hélt Játvarður af stað í krossferð og Elinóra fór með, enda fylgdi hún manni sínum jafnan hvert sem hann fór, en börnin voru skilin eftir. Þau dvöldu um veturinn á Sikiley en fóru síðan til Akkó í Landinu helga. Krossferðin var misheppnuð og þau héldu áleiðis heim haustið 1272. Þau komu til Sikileyjar í desember og þangað bárust þeim þær fregnir að Hinrik 3. væri látinn og Játvarður orðinn konungur. Þau héldu heim eftir ýmsum krókaleiðum, komu til Englands sumarið 1274 og voru krýnd 19. ágúst. Annar sonurinn sem þau skildu eftir hafði dáið á meðan þau voru í krossferðinni, hinn dó nokkrum mánuðum eftir heimkomuna. Á ferðalaginu höfðu þau raunar eignast soninn Alfons, sem varð þá ríkisarfi. Drottning Englands. Játvarður og Elinóra virðast hafa verið hamingjusamlega gift. Hún var vel gefin og menntuð en tók engan þátt í stjórn ríkisins. Hún var hins vegar mjög bókhneigð og lét rita fyrir sig bækur af ýmsu tagi. Játvarður var henni trúr, sem var óvenjulegt hjá evrópskum þjóðhöfðingjum þessara tíma, og þau voru alltaf saman, hún fylgdi honum jafnvel í herferðir. Vorið 1284 var Játvarður í leiðangri í Wales, sem hann hafði lagt undir sig skömmu áður; Elinóra var með honum og var þunguð, að öllum líkindum í sextánda sinn. Þá var Játvarður að láta reisa Caernarfon-kastala. Elinóra lagðist á sæng í bráðabirgðarskýli og ól þar soninn Játvarð. Alfons sonur hennar dó um sumarið og varð Játvarður þá ríkisarfi. Af öllum börnum Elinóru var hann eini sonurinn sem komst upp en einnig náðu fimm dætur fullorðinsaldri. Elinóra dó í þorpinu Harby í Nottinghamskíri 28. nóvember 1290 en þar höfðu þau Játvarður verið á ferðalagi. Hann flutti lík hennar til greftrunar í Westminster Abbey og lét reisa voldugan róðukross á hverjum og einum af tólf áningarstöðum á leiðinni, frá Lincoln í Nottinghamskíri til Charing við London. Af krossinum í Charing dregur Charing Cross nafn. Margrét af Frakklandi, Englandsdrottning. Margrét af Frakklandi (1282 – 14. febrúar 1318) var drottning Englands frá 1299 til 1307 en var þó aldrei krýnd. Hún var seinni kona Játvarðar 1. Englandskonungs. Margrét var dóttir Filippusar 3. Frakkakonungs og Maríu af Brabant. Játvarður missti fyrri konu sína, Elinóru af Kastilíu, árið 1290 og syrgði hana mikið. Hann hafði hins vegar miklar áhyggjur af ríkiserfðunum þvi að aðeins yngsti sonur þeirra Elinóru, Játvarður, lifði og þótt hann ætti fimm eldri systur óttaðist Játvarður erfðadeilur og borgarastyrjöld eftir sinn dag ef eitthvað henti Játvarð yngri. Hann fór því að líta í kringum sig eftir nýrri konu. Hann átti í deilum og stríði við Filippus 4. Frakkakonung og í friðarsamningum þeirra á milli 1394 var ákveðið að Játvarður, sem þá var 55 ára, skyldi ganga að eiga hálfsystur Filippusar, Margréti, sem þá var 12 ára. Hann mun raunar hafa viljað fá Blönku systur hennar, sem var fjórum árum eldri, en hún var lofuð Rúdólf 3., hertoga af Austurríki. Það liðu þó fimm ár þar til brúðkaup Játvarðs og Margrétar var haldið, 8. september 1299. Brúðguminn var þá sextugur en brúðurin 17 ára. Skömmu eftir brúðkaupið hélt Játvarður norður til Skotlands til að halda áfram að reyna að bæla niður sjálfstæðisbaráttu Skota. Margréti leiddist í London og nokkrum mánðum síðar fór hún norður á bóginn til manns síns. Þetta gladdi hann mjög, enda var hann vanur því að Elinóra fyrri kona hans fylgdi honum hvert sem hann fór. Þrátt fyrir aldursmuninn var hjónabandið gott og samband Margrétar við stjúpbörnin, sem nær öll voru eldri en hún, var einnig gott. Margrét var sögð hafa mildandi áhrif á eiginmann sinn og fékk hann stundum til að sýna mönnum vægð. Ríkiserfðirnar voru líka tryggðar því Margrét fæddi son innan við ári eftir brúðkaupið og síðan annan 1301. Báðir komust upp. Játvarður dó 7. júlí 1307 og þá tók Játvarður 2. við ríkjum. Litlum sögum fer af Margréti eftir það. Hún settist að í Marlborough-kastala í Wiltshire og dó þar 1318. Charles Le Brun. Charles Le Brun (24. febrúar 1619 – 22. febrúar 1690) var franskur listmálari og einn af áhrifamestu listamönnum 17. aldar. Hann fæddist í París og gerðist ungur skjólstæðingur hins valdamikla Pierre Séguier kanslara sem kostaði hann í listnám hjá Simon Vouet. Hann fór í námsferð til Rómar með Nicolas Poussin árið 1642 og bjó þar í fjögur ár á kostnað kanslarans. Þegar hann sneri aftur fékk hann nóg að gera. Loðvík 14. var aðdáandi hans og gerði hann að konunglegum hirðmálara 1662. Árið eftir varð hann stjórnandi Frönsku myndlistarakademíunnar og þar með valdamesti myndlistarmaður landsins. Hann var þar fylgjandi „poussinista“ sem töldu teikningu grundvöll myndlistar gegn „rubinistum“ sem töldu litanotkun grundvöll myndlistar. Le Brun skrifaði hina áhrifamiklu bók "Méthode pour apprendre à dessiner les passions" sem kom út að honum látnum árið 1698. Jersey djöfullinn. Jersey djöfulinnn eða Jersey hesturinn er þjóðsagnakennd vera sem á að lifa á svæði Pine Barrens suður af New Jersey í Bandaríkunum. Skepnunni hefur oftast verið lýst sem vængjaðri veru með hófa og gengur upprétt, en fjölmargar mismunandi lýsingar hafa verið gefnar. Aðrar lýsa loðinni skepnu líkri apa, skrímsli sem líkist stórum hundi, eða hreinlega hefðbundnum púka. En flestar eru tilkynningar sem lýsa skepnunni sem vængjaðri veru sem minnir á teikningu Johns Tenniel af Jabberwock-skrímslinu í bókinni Through the Looking Glass eftir Lewis Carroll, þó með djöfullegri ásjónu. Þjóðsögnin veitti NHL íshokkíliði New Jersey innblástur fyrir nafn sitt: New Jersey djöflarnir. Jón Pálsson Maríuskáld. Jón Pálsson Maríuskáld (um 1390 – 1471) var íslenskur prestur, prófastur og skáld á 15. öld. Hann var eitt helsta skáld síns tíma og orti "Maríulykil" og fleiri lofkvæði um Maríu guðsmóður. Sumum samtímamönnum hans þótti nóg um lofið og fékk hann af því viðurnefnið "Maríuskáld". Ekki er vitað um ætt Jóns þótt ýmsar tilgátur hafi komið fram. Hann var ráðsmaður á Hólum fram til 1429 og prófastur í Hegranesþingi 1426-1429. Þegar Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup kom til að taka við biskupsdæmi sínu fór Jón þaðan og var prestur á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu frá 1427 til 1430 og síðan á Breiðabólstað í Fljótshlíð frá 1431 til 1440. Þá fór hann aftur norður á Grenjaðarstað og var þar prestur til dauðadags. Hann var prófastur í Þingeyjarþingi 1440-1448. Hann var einn af voldugustu og auðugustu prestum landsins á sinni tíð, fyrirferðarmikill og deildi við höfðingja, ekki síst Jón Vilhjálmsson Craxton. Marcellus Skálholtsbiskup setti Jón líka í bann um tíma en ekki er vitað af hverju það var. Fylgikona Jóns var Þórunn Finnbogadóttir, dóttir Finnboga Jónssonar gamla í Ási í Kelduhverfi. Þau áttu nokkur börn en þekktastur þeirra er Finnbogi Jónsson lögmaður í Ási, sem kallaður var Finnbogi Maríulausi, líklega af því að hann þótti ekki jafnhollur Maríu mey og faðir hans. Einnig er talið að Brandur Jónsson lögmaður á Hofi á Höfðaströnd hafi verið sonur Jóns, sem hann hefur þá átt ungur. Ekki er vitað hver móðir hans var. Helga Aradóttir. Helga Aradóttir (um 1538 – 1614) var íslensk hefðarkona á 16. öld, kona Staðarhóls-Páls Jónssonar og húsfreyja á Staðarhóli í Saurbæ og Reykhólum. Hún var dóttir Ara Jónssonar lögmanns, sonar Jóns Arasonar biskups, og konu hans Halldóru Þorleifsdóttur Grímssonar sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði. Eftir að faðir Helgu var tekinn af lífi 1550 ólst hún upp hjá Þórunni Jónsdóttur á Grund, föðursystur sinni. Hún var sögð uppivöðslusöm og ódæl, mjög skapmikil og er sagt að allt heimilisfólk á Grund hafi fagnað þegar hún fór þaðan. Páll Jónsson frá Svalbarði við Eyjafjörð var fáeinum árum eldri en Helga og urðu þau hrifin hvort af öðru á unglingsárum. Páll bað hennar en Þorleifur afi hennar sagði þvert nei. Páll hélt þó áfram að sækjast eftir ráðahagnum og orti eldheit ástarljóð til Helgu. Eitt þeirra hefst á ljóðlínunum: „Ég leit í einum garði / yfrið fagurt blóm.“ Hann hafði stuðning séra Sigurðar Jónssonar á Grenjaðarstað, föðurbróður Helgu. Sjálf sagðist hún vilja ganga með Páli ef það álitist jafnræði sitt því hún vildi ekki taka niður fyrir sig. Voru menn nefndir í dóm á Skriðu í Hörgárdal 1556 og úrskurðuðu þeir að jafnræði væri með Helgu og Páli því hann hafði þá komið höndum yfir Staðarhól í Saurbæ og bætt mjög hag sinn, en þó voru eignir hennar mun meiri. Var brúðkaup þeirra haldið á Grund rétt eftir nýár 1558. Fór miklum sögum af því hve heitar ástir þeirra voru og er sagt að þau hafi ekki risið úr rekkju í margar vikur eftir brúðkaupið. Ástarbríminn kulnaði þó fyrr en varði. Árið 1578 skildu þau svo að borði og sæng, sem þá var mjög fátítt, en þó var Helga stundum hjá Páli en skeytti lítið um búið. Árið 1590 fór hún svo til Elínar dóttur þeirra og var þar líklega upp frá því. Ári síðar stefndi Páll henni fyrir dóm og bar á hana ýmsar sakir, meðal annars samvistarslit, brottför af heimili og fjáreyðslu; „hér með hefur hún verið þrálynd, keppin og óhlýðin og sagt upp á sig óheyrilega hluti.“ Málinu var vísað til Alþingis en ekki tekið fyrir fyrr en 1594. Þá taldi lögrétta það ekki löglega undirbúið þar sem Helga var ekki kölluð fyrir og enginn fulltrúi hennar. Oddur biskup Einarsson stóð á móti Páli og sagði hann standa í þessum klögumálum þvert gegn vilja ættingja og væri hann öðrum til hneykslunar. Páll skrifaði biskupi þá bréf, mótmælti þessu og sagði lítt sæma að börn sín og gamalmenni eins og séra Sigurður á Grenjaðarstað og Þórunn á Grund væru talinn vitrari en hann og myndi hann ekki leita ráða hjá þeim. Ástæðan fyrir þessu brölti Páls var að hann vildi fá lögskilnað frá Helgu, þar sem hann hafði fest ást á Halldóru Guðbrandsdóttur Þorlákssonar Hólabiskups, sem að vísu var um fjörutíu árum yngri en hann, og hafði hug á að giftast henni. Hún hafði þó engan áhuga á þeim ráðahag. Börn þeirra Helgu og Páls voru Ragnheiður, sem fyrst giftist Gissuri Þorlákssyni sýslumanni á Núpi og síðar Sveini Símonarsyni presti í Holti í Önundarfirði, móðir Brynjólfs Sveinssonar biskups; Pétur, sýslumaður á Staðarhóli; og Elín, kona Björns Benediktssonar sýslumanns á Munkaþverá. ASSA ABLOY. ASSA ABLOY er sænskt fyrirtæki sem framleiðir lása, hurðaopnara, hjarir og aðrar vörur tengdar hurðum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stokkhólmi. Electrolux. Electrolux er sænskt fyrirtæki sem framleiðir heimilistæki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stokkhólmi. Ericsson. Telefonaktiebolaget LM Ericsson betur þekkt sem Ericsson er sænskt fjarskiptafyrirtæki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stokkhólmi. H&M. H & M Hennes & Mauritz betur þekkt sem H&M er sænskt fyrirtæki sem rekur tískuvöruverslanir. Fyrirtækið býður uppá föt fyrir konur, karla, unglinga og börn. Það hefur næstum 2.200 verslanir í 38 löndum og þar starfa um 87.000 manns. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stokkhólmi. Verksmiðjur þeirra eru um 800 talsins og eru í Evrópu og Asíu. Sandvik. Sandvik er sænskt fyrirtæki sem býr til verkfæri og vélbúnað. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stokkhólmi (áður í Sandviken). Scania. Scania er sænskt fyrirtæki sem framleiðir vörubifreiðar, strætisvagna, rútur og vélar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Södertälje í Svíþjóð. SEB. Skandinaviska Enskilda Banken eða SEB er sænskur banki. Höfuðstöðvar bankans eru í Stokkhólmi. Securitas (fyrirtæki). Securitas er sænskt öryggisfyrirtæki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stokkhólmi. SKF. SKF er sænskt fyrirtæki sem framleiðir legur. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Gautaborg. Swedbank. Swedbank er sænskur banki. Höfuðstöðvar bankans eru í Stokkhólmi. Játvarður 2.. Játvarður 2. Mynd í handriti frá 14. öld. Játvarður 2. (25. apríl 1284 – 21. september 1327 (?)) var konungur Englands frá því að faðir hans dó 7. júlí 1307 af Plantagenetætt og þar til hann var neyddur til að segja af sér 24. janúar 1327. Örlög hans eftir það eru óviss. Prins af Wales. Játvarður 2. með föður sínum. Játvarður var sonur Játvarðar 1. Englandskonungs og fyrri konu hans, Elinóru af Kastilíu, yngstur af sextán börnum þeirra og eini sonurinn sem komst upp. Hann átti þó tvo yngri hálfbræður sem náðu fullorðinsaldri. Hann fæddist í bráðabirgðahúsnæði í Caernarfon-kastala í Wales en þangað hafði móðir hans fylgt föður hans þegar hann var að láta reisa kastalann. Hann var fyrsti enski prinsinn sem fékk titilinn prins af Wales og var það samþykkt af enska þinginu 7. febrúar 1301. Faðir hans þjálfaði hann í hernaðarfræðum og stjórnvísi frá unga aldri en hann hafði takmarkaðan áhuga. Játvarður var stór og sterklegur eins og faðir hans en skorti metnað og drifkraft Játvarðar 1. Hann hafði mestan áhuga á skemmtunum en einnig á íþróttum. Sagt er að hann hafi skort sjálfstraust og því oft látið stjórnast af mönnum sem voru viljasterkari en hann sjálfur. Hann fékk hins vegar snemma orð á sig fyrir munaðarlifnað. Konungurinn kenndi um áhrifum frá vini Játvarðar, gaskónska riddaranum Piers Gaveston, og rak hann frá hirðinni. Konungur og Gaveston. Skjalið þar sem Gaveston er skipaður jarl af Cornwall. Játvarður 1. lést í herför til Skotlands sumarið 1307 og Játvarður 2. tók þá við. Eitt fyrsta verk hans var að kalla Gaveston til sín að nýju. Hann setti hann meira að segja ríkisstjóra Englands þegar hann ferðaðist til Frakklands í ársbyrjun 1308, þar sem hann gekk að eiga Ísabellu af Frakklandi, dóttur Filippusar 4., þann 25. janúar. Hún var þá líklega tólf ára að aldri. Hjónabandið var ekki hamingjusamt; Játvarður sinnti Ísabellu lítið en eyddi þeim mun meiri tíma með vinum sínum. Þó eignuðust þau tvo syni og tvær dætur, auk þess sem Játvarður átti óskilgetinn son. Samband Játvarðar og Gaveston var mjög náið en ekki er alveg ljóst hvers eðlis það var þótt yfirleitt sé talið að Játvarður hafi verið samkynhneigður eða tvíkynhneigður. Svo mikið er víst að samtímanenn álitu samband þeirra ósiðlegt og Ísabella drottning kvartaði undan því í bréfum til föður síns. Gaveston var glæsimenni, nokkrum árum eldri en Játvarður, greindur og orðheppinn og Játvarður hlóð á hann metorðum, útnefndi hann til að mynda jarl af Cornwall. Margir aðalsmenn voru mjög óánægðir með þau miklu áhrif sem Gaveston hafði á konunginn og hófu að vinna gegn honum. Játvarður fékk ekki rönd við reist þegar Gaveston var handtekinn árið 1312 samkvæmt skipun Thomas Plantagenet, jarls af Lancaster og frænda konungs, og síðan myrtur. Konungur syrgði vin sinn ákaflega en fékk brátt um annað að hugsa. Orrustan við Bannockburn. Orrustan við Bannockburn. Mynd úr Biblíuhandriti frá 14. öld. Á fyrstu ríkisstjórnarárum Játvarðar hélt Róbert Bruce áfram að vinna Skotland til baka úr höndum Englendinga. Játvarður fór eða lét fara nokkrar herferðir norður til Skotlands en sérhverri þeirra lauk með því að hann tapaði meira af landvinningum föður síns; hann átti engin svör við skæruhernaðaraðferðum Róberts. Í júní 1314 var ekkert eftir af Skotlandi í höndum Englendinga nema Stirlingkastali. Kastalinn var undir stöðugu umsátri og Játvarður hélt norður á bóginn með 20.000 fótgönguliða og 3000 manna riddaralið til að reyna að hrekja Skota burt og tryggja varnir kastalans. Vegna herstjórnarmistaka hans og snjallra herbragða Róberts biðu Englendingar afhroð í orrustunni við Bannockburn 24. júní og er það talinn hafa verið mesti ósigur þeirra síðan í orrustunni við Hastings 1066. Næstu árin eftir orrustuna var Játvarður konungur afskiptalítill um stjórn landsins og frændi hans, jarlinn af Lancaster, réði mestu. Despenserfeðgar. Svo fór þó að aðalsmaðurinn Hugh Despenser yngri komst í uppáhald hjá konungi og náði þeirri stöðu sem Gaveston hafði áður haft en jarlinn af Lancaster var settur til hliðar. Kona Despensers var systurdóttir konungs og systir hans hafði verið gift Galveston. Aðalsmenn voru óánægðir með þau völd sem Despenser og faðir hans, Hugh Despenser eldri, fengu í sínar hendur og árið 1320 var ástandið í Englandi orðið mjög ótryggt og konungurinn óvinsæll. Hann var neyddur til samkomulags við aðalsmennina og til að reka Despenser-feðgana frá hirðinni. Þá upphófst mikil valdabarátta meðal aðalsmanna sem snerist um að fylla tómarúmið sem feðgarnir skildu eftir sig og margir aðalsmenn voru myrtir. Keppnin um hylli konungs varð til þess að Játvarður og Despenser-feðgar náðu öllum völdum í sínar hendur og á þingi sem haldið var í York 1322 gaf Játvarður út yfirlýsingu þar sem allar ráðstafanir sem gerðar höfðu verið til að draga úr völdum hans voru ógiltar, svo að hann yrði ekki lengur háður vilja þingsins, heldur skyldi hann einráður. Andstæðingum konungs óx þó fiskur um hrygg að nýju og var jarlinn af Lancaster þar fremstur í flokki. Uppreisn drottningar. Játvarður átti í deilu við Karl 4. Frakkakonung, mág sinn (þrír bræður Ísabellu voru konungar Frakklands, hver af öðrum), þar sem hann neitaði að votta konungi hollustu sem lénsmaður hans og hertogi af Gaskóníu, eina héraðinu sem Englandskonungur réði enn á meginlandinu. Að lokum sendi Játvarður Ísabellu drottningu til að semja um frið við Karl. Hún greip færið fegins hendi því hún gat bæði heimsótt fjölskyldu og föðurland og verið laus við eiginmann sinn og Despenser-feðgana um tíma en henni var orðið meinilla við hana alla. Hún undirritaði friðarsamning 31. maí 1325 og var hann Frökkum í vil. Þar var því heitið að Játvarður kæmi og vottaði Karli konungi hollustu en Játvarður sendi Játvarð, eldri son sinn, sem þá var þrettán ára, í staðinn. Það reyndust mikil mistök því Ísabella lýsti því nú yfir að hvorki hún né Játvarður yngri kæmu aftur til Englands fyrr en Despenser-feðgar hefðu verið sviptir völdum. Hún sendi svo fylgdarmenn sína, sem voru hliðhollir Játvarði, heim. Þeir komu til Englands 23. desember og upplýstu þá að Ísabella væri komin í ástarsamband við enska aðalsmanninn Roger Mortimer og væru þau að skipuleggja innrás í England. Játvarður bjó sig undir innrásina en reyndist njóta lítils stuðnings. Í september 1326 gerðu Ísabella drottning og Mortimer innrás. Þau voru fáliðuð en brátt dreif að þeim mikið lið og fáir vildu berjast fyrir konunginn. Játvarður og Despenser-feðgar flúðu frá London 2. október og skildu borgina eftir stjórnlausa. Konungurinn flúði til suðurhluta Wales, þar sem Despenser-feðgar áttu land, en þeim tókst ekki að skera upp herör og flestir þjónar hans yfirgáfu hann 31. október. Afsögn og dauði. Fáeinum dögum áður, 27. október, hafði Hugh Despenser eldri verið hengdur og afhöfðaður í Bristol. Þann 16. nóvember féllu konungurinn og Despenser yngri svo í hendur velskra uppreisnarmanna. Þeir sendu Despenser til Ísabellu drottningar en seldu konunginn í hendur jarlinum af Lancaster. Despenser yngri var pyndaður og líflátinn að viðstöddum miklum mannfjölda, þar á meðal Ísabellu drottningu og Roger Mortimer, en konungur var hafður í haldi í Kenilworth-kastala. Játvarður 2., koparstunga frá 18. öld. Neðri myndin sýnir morð hans. Vandmál Ísabellu drottningar og elskhuga hennar var hvað ætti að gera við hann. Einfaldast hefði verið að láta taka hann af lífi og þá varð Játvarður sonur hans sjálfkrafa konungur en honum gátu móðir hans og Mortimer ráðið yfir vegna æsku hans. Hins vegar var talið óvíst að Játvarður konungur hefði brotið nægilega mikið af sér til að unnt væri að dæma hann löglega til dauða. Því varð að ráði að hann skyldi hafður í varðhaldi til dauðadags. Vandamálið var þó að konungsvaldið var enn í höndum hans lögformlega þótt drottningin stýrði landinu. Því var ákveðið að leggja málið í hendur þingsins og eftir miklar umræður var samþykkt að konungurinn skyldi láta af völdum. Hann var þó ekki settur af, heldur farið fram á að hann segði af sér. Ákærurnar voru lesnar yfir honum 20. janúar 1327 og var hann meðal annars sakaður um vanhæfi, að hafa látið aðra stjórna sér, að stunda athæfi sem ekki sæmdi konungi, að hafa tapað Skotlandi vegna lélegrar stjórnar, að hafa valdið kirkjunni skaða, að hafa látið óátalið að aðalsmenn væru drepnir, sviptir eignum, fangelsaðir eða reknir í útlegð og að hafa flúið í félagsskap við þekktan óvin ríkisns og skilið landið eftir stjórnlaust. Játvarður tók ákærurnar mjög nærri sér og grét á meðan þær voru lesnar. Hann féllst á að afsala sér völdum í hendur sonar síns. Afsögnin var tilkynnt í London 24. janúar. Játvarður 2. var áfram í haldi en var færður í Berkeley-kastala í Gloucestershire. Þar er talið að sendimaður Ísabellu og Mortimers hafi myrt hann 11. október 1327 og segir sagan að glóandi járni hafi verið stungið upp í endaþarm hans. Um það er þó ekkert vitað með vissu og því hefur einnig verið haldið fram að hann hafi lifað að minnsta kosti til 1330, jafnvel að hann hafi verið sendur í útlegð og dáið á Ítalíu um 1341. Játvarður sonur hans var þó ekki í vafa um örlög föður síns því þegar hann varð sjálfráða og tók við stjórn ríkisins árið 1330 lét hann taka Roger Mortimer af lífi fyrir landráð; eitt helsta sakarefnið var morðið á Játvarði 2. Hann hlífði hins vegar Ísabellu móður sinni. Játvarður og Ísabella áttu sem fyrr segir fjögur börn, Játvarð 3., Jóhann jarl af Cornwall, sem dó tvítugur 1336, Elinóru, sem giftist Reinoud svarta, greifa af Gelderland (nú í Hollandi að mestu) og Jóhönnu, fyrri konu Davíðs 2. Skotakonungs. Judith Butler. Judith Butler (f. 24. febrúar 1956 í Cleveland í Ohio) er bandarískur heimspekingur sem hefur haft mikil áhrif innan kynjafræði og hinsegin fræða, einkum fyrir gagnrýni sína á eðlishyggju í femínisma. Í bókinni "Gender Trouble" (eftir kvikmynd John Waters, "Female Trouble") frá 1990 færir hún rök fyrir því að kynferði sé mótað með flutningi á „stílfærðum líkamsathöfnum“. Þessi endurtekni flutningur skapar þá hugmynd að kynferði sé fólki eðlislægt. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að hafna líkamlegum grundvelli reynsluheims kvenna. Hún hefur líka verið gagnrýnd fyrir að réttlæta klæðskipti með skrifum sínum. Nýja hagkerfið. Nýja hagkerfið er hugtak sem varð vinsælt seint á 10. áratug 20. aldar til að lýsa eins konar straumhvörfum sem verða í þróuðum ríkjum þegar þungamiðja verðmætasköpunar flyst frá iðnaði til þjónustu. Meðal þeirra sem áttu þátt í að skilgreina hugtakið var bandaríski ritstjórinn Kevin Kelly sem gaf út metsölubókina "New Rules for a New Economy" árið 1998. Lykilstarfsemi fyrirtækja snýst þannig ekki lengur um framleiðslu heldur óefnislegar eignir á borð við vörumerki, vöruskilgreiningar og tækniþekkingu. Aðra hluti sem skipta minna máli á að útvista. Samkvæmt bjartsýnustu höfundum einkenndist þetta nýja hagkerfi af fjárfestingu í upplýsingatækni, mikilli getu til atvinnusköpunar og ónæmi fyrir efnahagssveiflum. Þegar netbólan sprakk um aldamótin 2000 þótti hins vegar sýnt að þessar væntingar stóðust ekki og síðan þá hefur hugtakið stundum verið notað í háði til að lýsa ótímabærri bjartsýni um framtíð efnahagslífsins. Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku. Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku (enska: "North American Free Trade Agreement", NAFTA; spænska: "Tratado de Libre Comercio de América del Norte", TLCAN eða TLC) er samningur um fríverslun sem ríkisstjórnir Mexíkó, Bandaríkjanna og Kanada gerðu með sér og gekk í gildi 1. janúar 1994. Samningurinn skapaði stærstu viðskiptablokk heims. Hann var meðal annars undir áhrifum frá Maastrichtsamningnum frá 1992. Samningurinn tók við af Fríverslunarsamningi Kanada og Bandaríkjanna frá 1988. Það sem helst einkennir samninginn er afnám tolla í skrefum. Samningurinn hefur verið gagnrýndur í öllum aðildarríkjunum meðal annars fyrir að styrkja menningarlegt og efnahagslegt forræði Bandaríkjanna í Kanada, fyrir að auka fólksflutninga gegnum suðurlandamæri Bandaríkjanna og fyrir að gefa bandarískum og kanadískum stórfyrirtækjum færi á að eignast mikilvægar auðlindir í Mexíkó. Sama dag og samningurinn gekk í gildi hóf Þjóðfrelsisher Zapatista uppreisn gegn ríkisstjórn Carlos Salinas de Gortari í héraðinu Chiapas í Mexíkó. Marshall McLuhan. Herbert Marshall McLuhan (21. júlí 1911 – 31. desember 1980) var kanadískur bókmenntafræðingur og fjölmiðlafræðingur sem er þekktastur fyrir setninguna „miðillinn er skilaboðin“ og hugtakið „heimsþorpið“. Lengst af starfaði hann við Toronto-háskóla þar sem hann var forstöðumaður menningar- og tæknistofnunar háskólans sem var stofnuð sérstaklega fyrir hann árið 1963. Þekktustu verk hans eru "The Mechanical Bride" frá 1951, "The Gutenberg Galaxy" frá 1961 og "Understanding Media" frá 1964. Ísabella af Frakklandi, Englandsdrottning. Ísabella drottning. Mynd frá 14. öld. Ísabella af Frakklandi (um 1295 – 22. ágúst 1358), stundum kölluð "Franska úlfynjan", var drottning Englands frá 1308, þegar hún giftist Játvarði 2., og þar til hann var þvingaður til að segja af sér í janúar 1327. Eftir það stýrði hún ríkinu í félagi við elskhuga sinn, Roger Mortimer, þar til Játvarður 3. sonur hennar tók völdin í sínar hendur 1330. Uppvöxtur og gifting. Ísabella var dóttir Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu af Navarra, yngsta barn þeirra sem upp komst og eina dóttirin en þrír eldri bræður hennar urðu allir konungar Frakklands. Ísabella prinsessa var orðlögð fyrir fegurð, eins og raunar bæði faðir hennar, Filippus fagri, og bræður hennar. Hún var líka sögð afar vel gefin, heillandi og átti auðvelt með að fá aðra á sitt mál. Ísabella með foreldrum sínum og bræðrum. Gengið var frá trúlofun hennar og Játvarðar 1303, þegar hún var líklega átta ára en hann 19 ára, en hjónabandið hafði þó verið ákveðið á meðan hún var enn í vöggu. Þegar Ísabella náði tólf ára aldri, sem var algengur giftingaraldur evrópskra kóngsdætra, var hún send til Englands og þar gengu þau Játvarður í hjónband í janúar 1308. Hann hafði þá tekið við konungdæmi við lát föður síns sumarið áður. Lífið var ekki auðvelt fyrir hina ungu drottningu. Maður hennar, sem var glæsimenni og mjög vinsæll meðal þegna sinna í upphafi stjórnartíðar sinnar, hafði ekki mikinn áhuga á henni en hafði mikið dálæti á vini sínum Piers Gaveston, átti í deilum við aðalsmenn og barðist við Skota. Ísabella spilaði á aðstæður eftir bestu getu, studdi mann sinn og kom sér í vinfengi við Gaveston en eftir að hann var myrtur af óvinum sínum í hópi aðalsmanna versnaði staða hennar. Hún var með Játvarði í herförinni í Skotlandi þegar Englendingar misstu síðustu ítök sín þar og sluppu konungshjónin þá naumlega undan. Hún ferðaðist líka stundum til Frakklands, með Játvarði eða ein, og sinnti þá oft erindum fyrir mann sinn því hún hafði mjög góð sambönd við frönsku hirðina og var vel að sér um utanríkismál. Í ferð sem þau Játvarður fóru þangað 1313 hafði hún gefið mágkonum sínum, Margréti af Búrgund, konu Loðvíks, og Blönku af Búrgund, konu Karls, útsaumaðar pyngjur. Við hátíðakvöldverð í London nokkru síðar veitti Ísabella því athygli að tveir normannskir aðalsmenn báru nú þessar buddur og dró hún þá ályktun að mágkonurnar ættu í ástarsambandi við þá. Þegar hún fór aftur til Frakklands 1314 sagði hún Filippusi föður sínum frá þessu og varð það til þess að mágkonurnar tvær (og raunar einnig sú þriðja, Jóhanna af Búrgund, kona Filippusar) voru handteknar og varpað í dýflissu. Þar sátu Margrét og Blanka þar sem þær áttu ólifað en Jóhönnu var sleppt eftir ár og talin sýkn saka. Ísabella bakaði sér nokkrar óvinsældir í Frakklandi með þessu. Despenser-feðgar. Játvarður fann sér svo nýtt uppáhald, Hugh Despenser yngri, og Ísabellu kom illa saman við hann og föður hans, Hugh eldri. Játvarður og Despenser-feðgarnir urðu líka sífellt óvinsælli meðal aðalsmanna. Ísabella neitaði að sverja Hugh yngri hollustueið og var í kjölfarið svipt völdum sem hún hafði haft við hirðina. Þegar Játvarður sendi hana til Frakklands 1325 til að gera friðarsamning við Karl bróður hennar greip hún tækifærið þegar Játvarður sendi Játvarð elsta son þeirra til Parísar til að votta Karli hollustu vegna hertogadæmisins Gaskóníu, eins og Ísabella hafði samið um, og tilkynnti manni sínum að hvorugt þeirra sneri aftur fyrr en Despenser-feðgar hefðu verið gerðir brottrækir. Líklega hefur hún þó alls ekki búist við að Játvarður yrði við því, enda hafði hún þá hafið ástarsamband við enska aðalsmanninn Roger Mortimer, jarl af March, sem var útlagi í París eftir að hafa strokið úr Lundúnaturni 1323. Mortimer, sem var harður andstæðingur konungs og Despenser-feðga, var giftur og tólf barna faðir. Ísabella tók mikla áhættu með þessu ástarsambandi því þótt ekki þætti tiltökumál þótt evrópskir konungar og hefðarmenn á miðöldum tækju sér hjákonur gegndi öðru máli um konur, eins og örlög mágkvenna hennar voru dæmi um. Flest bendir til þess að samband hennar og Mortimers hafi verið mjög ástríðufullt og þau áttu mörg áhugamál sameiginleg. Innrás drottningarinnar. Sumarið 1326 héldu Ísabella og Mortimer norður til greifadæmisins Hainaut (nú í Belgíu og Frakklandi) en kona Vilhjálms 1. greifa þar, Jóhanna af Valois, var frænka hennar, sonardóttir Filippusar 3. Frakkakonungs. Ísabella gerði samkomulag við þau um trúlofun Játvarðar sonar síns og Filippu dóttur þeirra. Hún fékk þegar greiddan vænan heimanmund og hafði áður fengið lán hjá Karli bróður sínum. Þessa peninga notaði hún til að leigja sér málaliða og útvega skip. Síðan sigldu þau Mortimer til Englands 22. september. Þau voru þó fáliðuð, sumir segja að þau hafi aðeins haft 300 hermenn en fleiri tala þó um 1500. Játvarður hefði átt að eiga auðvelt með að verjast innrásinni, sem hann hafði átt von á, en menn streymdu fljótt til liðs við þau, þar á meðal Tómas jarl af Norfolk, hálfbróðir Játvarðar konungs, og Hinrik Plantagenet, jarl af Lancaster og öflugasti andstæðingur Játvarðar. 27. september höfðu fregnir af innrásinni borist til London og mikill órói greip um sig í höfuðborginni. Játvarður óttaðist um hag sinn og flúði London 2. október áleiðis til Wales. Þegar þar var komið sögu höfðu Ísabella og Mortimer gert bandalag við alla helstu andstæðinga Játvarðar og náði London auðveldlega á sitt vald. Síðan lét hún lið sitt elta Játvarð og settist um Bristol, þar sem Despenser eldri hafði búið um sig. Hún vann borgina eftir viku umsátur og náði til sín dætrum sínum, Elinóru og Jóhönnu, sem Despenser hafði haft á valdi sínu. Hinrik og Despenser yngri náðust loks í Wales 16. nóvember. Ríkisstjóri. Despenser eldri tekinn af lífi. Þar með var öll mótspyrna brotin á bak aftur og Lancastermenn og aðrir óvinir Játvarðs og Despenserfeðga hófu hefndaraðgerðir. Despenser eldri var tekinn af lífi og lík hans höggvið í búta og gefið hundum að éta. Despenser yngri var pyndaður og líflátinn 24. nóvember. En þegar búið var að taka helstu fylgismenn Despenserfeðga af lífi sýndu Ísabella og Mortimer meiri miskunn og margir lægra settir aðalsmenn voru náðaðir. Eftir stóð spurningin um hvað ætti að gera við Játvarð, sem enn var konungur Englangs og eiginmaður Ísabellu. Úr varð að þingið, þar sem stuðningsmenn Ísabellu og Mortimers voru í meirihluta, samþykkti að fara fram á við konung að hann segði af sér. Ákærurnar voru lesnar yfir honum 20. janúar 1327 og féllst konungur á að afsala sér völdum í hendur Játvarðar sonar síns. Afsögnin var tilkynnt í London 24. janúar. Játvarður var áfram í haldi og er ekki fullljóst hver örlög hans urðu en almennt er þó talið að hann hafi verið drepinn 11. október 1327 að undirlagi Ísabellu og Mortimers, enda gátu þau aldrei verið örugg um sig meðan hann lifði því alltaf var hætta á að einhverjir fylgismanna hans freistuðu þess að frelsa hann og koma honum aftur til valda. Næstu árin stýrðu Ísabella og Mortimer landinu saman þótt Ísabella teldist ein ríkisstjóri. Þau söfnuðu sér miklum auði og voru talin ágjörn en eyddu líka miklu og lifðu óhófslífi. Þau sönkuðu að sér löndum og titlum og á örfáum árum varð Ísabella einn stærsti landeigandi í öllu Englandi. Brúðkaup Játvarðar 3. konungs og Filippu af Hainaut var haldið með miklum glæsibrag í London 1228 en Ísabella neitaði að afhenda Filippu jarðeignir sem drottningu Englands var ætlað að hafa tekjur af og hélt þeim fyhrir sjálfa sig. Hún gerði líka samning við Skotakonung um að Játvarður afsalaði sér öllu tilkalli til landa í Skotlandi og viðurkenndi Róbert Bruce sem konung, Jóhanna dóttir Ísabellu skyldi giftast Davíð, syni hans, og landamærin voru einnig fastákveðin. Í staðinn greiddu Skotar Englendingum 20.000 sterlingspund, sem Ísabella stakk raunar í eigin vasa. Þessi samningur var óvinsæll í Englandi ásamt fleiri ráðstöfunum Ísabellu og Mortimers og þau fóru að missa stuðning aðalsmanna. Í árslok 1328 reis hertoginn af Lancaster upp á móti þeim og borgarastyrjöld hófst að nýju en var þó skammvinn því að Ísabella og Játvarður konungur náðu Lancaster á sitt vald, þyrmdu lífi hans en dæmdu hann til að greiða afar þunga fjársekt. Játmundur af Kent, hálfbróðir Játvarðar 2., hafði stutt Ísabellu þegar hún gerði innrásina en hafði nú snúist á sveif með bróður sínum, sem hann hélt fram að væri á lífi. Árið 1330 var hann handtekinn, sakaður um þátttöku í samsæri, og tekinn af lífi. Aftakan var raunar svo óvinsæl að böðullinn neitaði að mæta og sá eini sem fékkst til að ganga í verkið var sjálfur dauðadæmdur fangi sem vann sér til lífs að hálshöggva jarlinn. Steypt af stóli. Játvarður konungur var þegar hér var komið sögu orðinn sautján ára og var mjög ósáttur við þau völd sem Mortimer hafði fengið og við stjórn hans og móður sinnar. Hann aflaði sér stuðnings útvalinna aðalsmanna og kirkjuleiðtoga gegn þeim. Þau voru nú farin að óttast um sinn hag og bjuggu um sig í Nottinghamkastala. Þann 19. október fóru menn hans inn í kastalann um leynigöng, náðu honum á sitt vald og handtóku Mortimer. Þingið var svo kallað saman og Mortimer ákærður fyrir landráð. Ísabella var útmáluð sem saklaust fórnarlamb og ekkert var minnst á ástarsamband þeirra. Mortimer var tekinn af lífi en Játvarður sýndi honum þá mildi að líkið var ekki hlutað sundur eða stjaksett. Ísabellu var haldið í stofufangelsi til 1332 en þá fekk hún að flytja sig í Rising-kastala í Norfolk sem hún átti sjálf. Hún var svipt meirihluta landareigna sinna en Játvarður sá henni fyrir rausnarlegum lífeyri og hún lifði munaðarlífi. Hún hélt mikið upp á barnabörn sin, einkum þó Játvarð svarta prins, elsta son Játvarðs 3., sem hún arfleiddi að mestöllum eignum sínum. Hún varð mjög trúuð með aldrinum og ferðaðist oft um og heimsótti helga staði. Hún hélt þó sambandi sínu við hirðina, kom þangað stundum og fékk mikið af heimsóknum. Ísabella dó 22. ágúst 1358 og var jarðsungin í London. Þau Játvarður höfðu átt fjögur börn, Játvarð 3., Jóhann jarl af Cornwall, sem dó tvítugur 1336, Elinóru, sem giftist Reinoud svarta, greifa af Gelderland (nú í Hollandi að mestu) og Jóhönnu, fyrri konu Davíðs 2. Skotakonungs. Með Mortimer átti Ísabella engin börn. Mikið hefur verið skrifað um Ísabellu drottningu, bæði sagnfræðirit og sögulegar skáldsögur, og hefur hún fengið afar misjöfn eftirmæli. Oft er hún sýnd sem fagurt en slóttugt flærðarkvendi, jafnvel sem morðóður hommahatari sem hefur það sem meginmarkmið að tortíma manni sínum og elskhugum hans. Í öðrum verkum er þó gefin önnur og mun jákvæðari mynd af henni. Ísabella af Valois. Brúðkaup hinnar sex ára gömlu Ísabellu og Ríkharðs 2. konungs. Ísabella af Valois (9. nóvember 1389 – 13. september 1409) var drottning Englands frá 1396 til 1400, seinni kona Ríkharðs 2. Seinna giftist hún Karli hertoga af Orléans, frænda sínum, og dó af barnsförum 19 ára að aldri. Ísabella var dóttir Karls 6. Frakkakonungs og Ísabellu af Bæjaralandi, og systir Karls 7. Frakkakonungs. Hún var tæplega sjö ára að aldri þegar hún giftist Ríkharði 2. Englandskonungi, 31. október 1396, en fyrri kona hans, Anna af Bæheimi, hafði látist tveimur árum áður. Ríkharður var að verða þrítugur og hjónabandið átti að tryggja frið milli Frakklands og Englands en þetta var í miðju Hundrað ára stríðinu. Að sjálfsögðu var ekki um eiginlegt hjónaband að ræða vegna æsku drottningarinnar ungu en þau Ríkharður virðat hafa átt góð samskipti og virt hvort annað mikils. Í maí 1399 hélt Ríkharður í herför til Írlands. Á meðan notaði Hinrik Bolingbroke frændi hans, sem hafði verið gerður útlægur, tækifærið, kom heim til Englands og safnaði um sig liði. Konungurinn var óvinsæll og andstæðingar hans flykktust til Hinriks. Þegar Ríkharður sneri aftur frá Írlandi 24. júlí sá hann sitt óvænna og 19. ágúst gafst hann upp fyrir Hinrik og hét að segja af sér ef hann fengi að halda lífi. Hann var hafður í haldi í Lundúnaturni og sagði af sér 29. september. Þann 13. október var Hinrik kjörinn konungur. Eftir það er óljóst um örlög Ríkharðs en hann er talinn hafa verið myrtur eða sveltur til dauða í febrúar árið 1400. Þar með var Ísabella orðin ekkja, tíu ára gömul. Hinrik 4. skipaði henni að flytja úr Windsorkastala og taka sér aðsetur hjá biskupinum af Salisbury. Síðan ákvað hann að hún ætti að giftast elsta syni hans, Hinrik, sem þá var tólf ára. En þá setti Ísabella hnefann í borðið og neitaði. Á endanum gafst Hinrik konungur upp og leyfði henni að fara aftur til Frakklands. Tuttugu árum seinna giftist Hinrik 5. Katrínu af Valois, systur Ísabellu, en hún var ekki fædd þegar hér var komið sögu. Ísabella giftist aftur 29. júní 1406 Karli hertoga af Orléans. Þau voru bræðrabörn og hann var aðeins ellefu ára en hún sextán. Þremur árum síðar dó Ísabella af barnsförum en barnið, dóttirin Jóhanna, lifði. Fimmtíu og þremur árum síðar fæddi þriðja kona Karls hertoga honum son sem varð seinna Loðvík 12. Frakkakonungur. Kongsberg Automotive. Kongsberg Automotive er norskt fyrirtæki sem framleiðir hluti fyrir bifreiðar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Kongsberg. Marine Harvest. Marine Harvest er norskt fyrirtæki sem framleiðir og selur sjávarafurðir. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Osló. Norsk Hydro. Norsk Hydro er norskt orku- og álfyrirtæki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Osló. Orkla. Orkla er norsk fyrirtækjasamsteypa. Dótturfélög Orkla framleiða margvíslegar vörur eins og mat og álsnið. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Osló. REC. Renewable Energy Corporation eða REC er norskt sólarorkufyrirtæki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Sandvika. Statoil. Statoil er norskt orkufyrirtæki. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stafangri. Hugljómun. Hugljómun (enska: "Inception") er bandarísk kvikmynd frá árinu 2010. Leikstjóri myndarinnar er Christopher Nolan og með aðalhlutverk fara Leonardo DiCaprio, Ken Watanabe, Joseph Gordon-Levitt, Marion Cotillard, Ellen Page, Tom Hardy, Cillian Murphy, Tom Berenger, Michael Caine og Dileep Rao. Eulersregla. þar sem formula_6 er formula_7-fall Eulers og formula_8 merkir að vinstri hliðin sé samleifa hægri hliðinni mátaðri við formula_1. Eiríkur helgi. Innsigli Stokkhólms með mynd Eiríks helga. Eiríkur helgi, Eiríkur Játvarðsson eða Eiríkur 9. var hugsanlega tekinn til konungs í Svíþjóð á 6. tug 12. aldar. Fátt er þó vitað um hann með vissu nema að hann hafði konungsvöld á Vestur-Gautlandi árið 1158 og dó á árunum 1160-1162 (samkvæmt helgisögu Eiríks dó hann 18. maí 1160). Rannsókn á jarðneskum leifum hans hefur leitt í ljós að hann var drepinn, sennilega hálshöggvinn. Föðurnafn Eiríks kann að benda til þess að faðir hans hafi verið enskrar ættar en um það er þó allt óvíst. Vitað er að maður að nafni Jóar Játvarðsson var við hirð Knúts Eiríkssonar, sonar Eiríks, og gæti hann hafa verið bróðir hans. Í páfabréfi 1172 kemur fram að Eiríkur hafi verið drepinn í fyllirísslagsmálum og leggur páfinn bann við að dýrka slíkan mann sem dýrling. Í helgisögninni segir að hann hafi fallið í bardaga við Magnús Hinriksson, sem varð konungur næstur á eftir honum. Það litla sem um Eirík hefur verið skrifað snýst fyrst og fremst um helgi hans. Konungstíð hans varði stutt, líklega frá 1156 til 1160 og hann virðist ekki hafa látið mikið til sín taka. Því hefur verið haldið fram að hann hafi leitt fyrstu krossferðina til Finnlands 1155 en það kann að vera saga sem sögð var til að auðveldara yrði að fá hann tekinn í helgra manna tölu. Tilraunir til þess hófust þegar á ríkisstjórnarárum Knúts sonar hans. Elsta ritaða helgisaga Eiríks er frá 1344 og þar er lýst 50 kraftaverkum sem tengd eru Eiríki. Sagt var að lind hefði sprottið fram þar sem blóði hans var úthellt. Eiríkur var grafinn í Uppsölum og árið 1273 var helgiskrín hans fært úr gömlu Uppsaladómkirkju í þá nýju. Eftir það var það borið á milli kirkjanna í skrúðgöngu 18. maí ár hvert. Mynd Eiríks var sett í innsigli Stokkhólmsborgar 1376. Kona Eiríks var Kristín, dóttir Björns sonar Haraldar kesju, sonar Eiríks góða Danakonungs, og Katrínar dóttur Inga eldri Svíakonungs. Þau áttu fjögur börn sem vitað er um, Knút Eiríksson, Svíakonung 1167-1196, Filippus, Katrínu og Margréti Noregsdrottningu, konu Sverris konungs. Ofviðrið. "Ofviðrið" er leikrit eftir William Shakespeare talið skrifað 1610-1611. Sumir telja það síðasta leikritið sem Shakespeare skrifaði einn. Leikritið gerist á fjarlægri eyju þar sem útlægur hertoginn af Mílanó, Prosperó, notar galdur til að skapa ofviðri þannig að skip sem ber Antóníó svikulan bróður hans, Alfonsó konunginn af Napólí og Ferdinand, son hans, strandar við eyjuna. Hann nær þannig fram réttlæti gagnvart þeim sem rændu hann hertogadæminu. Ferdinand prins og dóttir Prosperós, Míranda, verða ástfangin. Aðrar persónur í leikritinu eru þjónustuandinn Aríel, Kalíban, þræll Prosperós, trúi ráðgjafinn Gonsaló, hirðfíflið Trinkúló og drykkfelldi brytinn Stefanó. Leikritið er rómansa sem nýtir sér hluti úr tragíkómedíum, sem þá voru nýjar af nálinni, grímuleikjum sem voru í tísku við ensku hirðina á 16. og 17. öld og ítalska gamanleiknum ("commedia dell'arte"). Meðal samtímarita sem talið er að hafi haft áhrif á samningu leikritsins eru "Naufragium" eftir Erasmus frá Rotterdam sem kom út í enskri þýðingu árið 1606 og "De orbe novo" eftir Pietro Martire. Eins hafa sumir bent á hliðstæður við frásögn William Strachey af skipbroti skipsins "Sea Venture" á eyjunni Bermúda árið 1609 og landnámi Englendinga þar. Auk þess er ein af ræðum Gonsalós tekin beint upp úr ritgerð eftir Michel de Montaigne og stór hluti af ákæru Prosperós fenginn úr ræðu Medeu í "Ummyndunum" Ovidiusar. Eiríkur hinn smámælti og halti. Eiríkur Eiríksson (1216 — 2. febrúar 1250), oft nefndur Eiríkur hinn smámælti og halti en einnig "Eiríkur 9." (sjálfur kallaði hann sig "Eirík 3.") var konungur Svíþjóðar tvisvar, fyrst í bernsku 1222-1229 og svo aftur frá 1234 til dauðadags. Eiríkur var einkasonur Eiríks Knútssonar konungs og Ríkissu, dóttur Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs. Hann fæddist eftir lát föður síns. Páfinn vildi að Eiríkur tæki við af föður sínum en Jóhann Sörkvisson, sem þá var 15 ára, var kjörinn konungur því sænskum aðalsmönnum leist ekki á að hafa ómyndugan konung í hásæti í mörg ár. Jóhann dó hins vegar 10. mars 1222 og þá var Eiríkur tekinn til konungs. Frændur hans og aðrir aðalsmenn. stýrðu ríkinu og þar bar mest á Knúti langa Hólmgeirssyni. Árið 1229 var Eiríki steypt af stóli eftir orrustuna við Olustra og Knútur langi lét krýna sig konung. Eiríkur flúði til Danmerkur á náðir Valdimars sigursæla móðurbróður síns og dvaldi þar næstu fimm árið. En árið 1234 dó Knútur og Eiríkur sneri þá aftur og var konungur til dauðadags 1250. Kona Eiríks var Katrín Súnadóttir, dótturdóttir Sörkvis yngri. Þau voru barnlaus. Systir Eiríks, Ingibjörg, hafði gifst Birgi Magnússyni, síðar jarli, árið 1236 og var elsti sonur þeirra, Valdimar, kjörinn konungur að Eiríki látnum. Hann var þá um ellefu ára gamall og var faðir hans ríkisstjóri og hélt í raun um stjórnartaumana í Svíþjóð þar til hann lést 1266. Knútur Eiríksson. Knútur Eiríksson d. 1195/1196) var konungur Svíþjóðar frá 1167. Fyrstu árin barðist hann um völd við þá Kol og Búrisláf Sörkvissyni en frá 1172/1173 var hann einn konungur. Knútur var sonur Eiríks konungs helga og Kristínar konu hans. Hann var barn að aldri þegar faðir hans var drepinn og varð að flýja land undan óvinum hans. Árið 1167 sneri hann aftur til Svíþjóðar og felldi þá Karl konung Sörkvisson. Næstu árin háði hann stríð við frændur hans, Kol Sörkvisson og Búrisláf Sörkvisson en þeir gerðu í sameiningu kröfu til krúnunnar. Árið 1172 eða 1173 hafði honum þó tekist að fella þá báða og var eftir það einn konungur Svíþjóðar til dauðadags, eða í meira en tuttugu ár. Knútur gerði, eða jarl hans, Birgis Brosa, fyrir hans hönd, fyrsta verslunarsamninginn sem Svíar gerðu við erlent ríki. Hann var einnig í samskiptum við Hinrik 2. Englandskonung, sem sendi honum hertygi að gjöf. Hann átti góð samskipti við Sverri Noregskonung og gifti honum systur sína, Margréti, árið 1185. Knútur giftist um 1160. Nafn og ætt konu hans er óþekkt en þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Jóhanns Sörkvissonar, sonar Sörkvis eldra. Varðveist hefur bréf sem konungur skrifaði páfanum árið 1193, þar sem fram kemur að árið 1190 hafði drottningin veikst alvarlega og vart verið hugað líf. Hafði hún þá heitið skírlífi ef hún læknaðist. Það gerðist og nú vildu þau hjónin fá hana leysta undan heitinu. Páfinn svaraði því að hún skyldi standa við heit sitt og neyddist drottningin þá til að leggja niður kórónuna og ganga í klaustur. Þegar Knútur féll frá um 1196 voru synir hans fjórir enn allir á barnsaldri og Birgir Brosa kom því til leiðar að Sörkvir yngri, sonur Karls Sörkvissonar, var kjörinn konungur. Þegar synir Knúts uxu úr grasi reyndu þeir að ná ríki föður síns aftur og þrír þeirra, Jón, Knútur og Jóar, féllu í orrustunni við Älgarås í nóvember 1205. Eiríkur komst einn undan og varð síðar konungur Svíþjóðar. Lambastaðir. Lambastaðir voru bær á sunnanverðu Seltjarnarnesi, ein helsta jörðin í Seltjarnarneshreppi hinum forna, útvegsjörð, prestssetur og um tíma biskupssetur. Í landi Lambastaða hófst fyrsta þéttbýlismyndun í landi núverandi sveitarfélags, snemma á 20. öld. Reykjavíkurprestur sat á Lambastöðum um 200 ára skeið. Þegar séra Geir Vídalín varð biskup Skálholtsbiskupsdæmis 1797 og flytja átti biskupsdæmið til Reykjavíkur fékkst ekki húsnæði fyrir biskupinn í kaupstaðnum og varð því úr að hann sat áfram á Lambastöðum og var þar biskupssetur um tíu ára skeið. Raunar mun Geir líka hafa viljað vera um kyrrt, þótti betra að stunda búskap á Lambastöðum en í kaupstaðnum og „Seltirningar siðugri en þeir í Vík“. Séra Brynjólfur Sívertsen, sem tók við af Geir sem dómkirkjuprestur, settist að í Seli. Geir biskup var afar gestrisinn og gjöfull við þurfamenn og var mikil umferð að Lambastöðum og margir sem fengu þar mat. Sagt er að Geir hafi einhverntíma sagt að það væru tveir staðir þar sem aldrei slokknaði eldur, í helvíti og á Lambastöðum, og átti þá við að þar væri stöðugt verið að elda mat handa gestum og gangandi. Árið 1807 var svo komið að Geir, sem þá var orðinn biskup alls Íslands, varð gjaldþrota. Var honum þá gert að flytja frá Lambastöðum og í Aðalstræti 10, þar sem honum voru skammtaðar ákveðnar vörur til lífsviðurværis. Þegar Seltjarnarneshreppur hinn nýi var stofnaður 1948 bjuggu þar um 500 manns, langflestir í Lambastaðahverfi. Landamerki Reykjavíkur og Seltjarnarness eru enn í dag að mestu hin sömu og gömlu landamerkin milli Víkur annars vegar og Lambastaða og Eiðis hins vegar. Eiríkur Knútsson. Eiríkur Knútsson (d. 10. apríl 1216), einnig nefndur "Eiríkur 10." og "Eiríkur 2.", var konungur Svíþjóðar frá 1208 til dauðadags. Hann var sonur Knúts Eiríkssonar Svíakonungs og konu hans, en nafn hennar er óvíst. Fæðingarár Eiríks er óþekkt en hann og bræður hans þrír, Jón, Knútur og Jóar, voru allir börn eða unglingar þegar faðir þeirra dó og var því enginn þeirra tekinn til konungs, heldur varð Sörkvir yngri, sonur Karls Sörkvissonar sem verið hafði konungur á undan Knúti, næsti konungur. Bræðurnir bjuggu áfram við hirðina, allt til 1203, en þegar þeir fullorðnuðust fóru þeir að gera kröfur til krúnunnar. Sörkvir sinnti því ekki og bræðurnir fóru til Noregs. Þar fengu þeir stuðning og sneru aftur með herlið 1205 en biðu ósigur í orrustunni við Älgarås. Þar féllu hinir bræðurnir þrír en Eiríkur komst undan og flúði til Noregs. Þar dvaldi hann næstu þrjú ár en kom aftur 1208 með herlið og vann sigur á Sörkvi. Sörkvir komst undan og reyndi að vinna ríkið aftur en féll í orrustunni við Gestilren 1210. Í nóvember sama ár var Eiríkur krýndur konungur Svíþjóðar og er það fyrsta krýningin sem vitað er um með vissu í Svíþjóð. Þegar Snorri Sturluson var í Svíþjóð árið 1219 var honum gefið merki það (fáni) sem borið hafði verið fyrir herliði Eiríks í orrustunni við Gestilsvein (Gestilren). Um það leyti sem Eiríkur var krýndur gekk hann að eiga Ríkissu, dóttur Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs og systur Valdimars sigursæla, sem þá var orðinn konungur, og bætti það mjög samskiptin við Danmörku, sem fram að því hafði stutt konunga af Sörkvisætt. Fátt er vitað um ríkisstjórnarár Eiríks en árið 1216 staðfesti Innósentíus III páfi, sem fram að því hafði verið hlutlaus í deilum Eiríks- og Sörkvisætta, rétt Eiríks til yfirráða, ekki bara yfir Svíþjóð, heldur einnig til þeirra svæða sem honum tækist að vinna af heiðingjum. Bréfið gagnaðist þó lítt því það barst ekki fyrr en eftir lát Eiríks og þá hafði Jóhann Sörkvisson verið tekinn til konungs en ekki sonur Eiríks, Eiríkur hinn smámælti og halti, sem fæddist eftir lát föður síns. Auk Eiríks áttu Eiríkur Knútsson og Ríkissa drottning að minnsta kosti þrjár dætur. Ein þeirra var Ingibjörg, sem giftist Birgi jarli Magnússyni og var móðir konunganna Valdimars Birgissonar og Magnúsar hlöðuláss. Sörkvir eldri. Þessa veggmynd, sem er að finna í sænskri kirkju, er sögð eiga að tákna Sörkvi konung. Sörkvir eldri (d. 25. desember 1156) var konungur í Svíþjóð frá því um 1130 og til dauðadags. Hann var ættfaðir Sörkvisættar. Hann var auðugur höfðingi frá Austur-Gautlandi og hét faðir hans Kolur samkvæmt Skáldatali. Hann var hylltur sem konungur skömmu eftir 1130 og vann síðan Vestur-Gautland af Magnúsi sterka, syni Níelsar Danakonungs. Sörkvir var konungur í um 26 ár en fátt er þó vitað um hann. Samkvæmt rússneskum heimildum urðu átök á milli Svía og Garðaríkis 1142 en þá hafði friður ríkt þar á milli í heila öld. Sörkvir styrkti ríki sitt og völd með giftingum. Fyrri kona hans var Úlfhildur Hákonardóttir, ekkja Inga yngri, sem var konungur Svíþjóðar 1110-1125. Hún var af norskri höfðingjaætt og styrkti Sörkvir því bæði tengsli við Noreg og við ætt Inga konungs. Raunar hafði hún í millitíðinni verið gift Níels Danakonungi en sagði skilið við hann. Seinna giftist Sörkvir Ríkissu af Póllandi, sem áður hafði verið gift Magnúsi sterka og síðan Volodar fursta af Minsk. Sörkvir er sagður hafa átt í stríði við Svein Eiríksson Danakonung upp úr 1150. Knútur stjúpsonur hans, sonur Ríkissu og Magnúsar sterka, var meðkonungur Sveins, sem lét svo drepa hann 1157. Þá hafði Sörkvir sjálfur verið drepinn en það gerðist á jóladag 1156, þegar hann var að fara til morgunmessu. Morðinginn var hestasveinn hans. Grunur lék á Magnús Hinriksson stæði að baki morðinu, en hann gerði kröfu til krúnunnar sem dóttursonur Inga hins yngri. Það var þó Eiríkur helgi sem varð konungur eftir Sörkvi en Magnús lét drepa hann nokkrum árum síðar og varð sjálfur konungur skamma hríð. Með Úlfhildi átti Sörkvir meðal annars synina Jóhann, sem var drepinn vegna kvennaráns sem hann framdi, og Karl, sem varð konungur Svíþjóðar 1161, og dótturina Ingigerði, sem giftist stjúpbróður sínum, Knúti Magnússyni Danakonungi. Þau voru barnlaus. Með Ríkissu átti Sörkvir soninn Búrisláf og einnig átti hann son sem Kolur hét en óvíst er hver móðir hans var. Báðir gerðu þeir kröfu til krúnunnar en féllu fyrir Knúti konungi Eiríkssyni. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1996. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1996 var 41. skipti sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin en hún var haldin í Spektrum í Ósló í Noregi 18. maí árið 1996.Haldin var undankeppni í mars 1996 þar sem að lögum var fækkað úr 29 í 23.Rússland,Ísrael,Danmörk,Þýskaland & Ungverjaland duttu út.Rúmenía ætlaði að koma aftur eftir hlé 1995 og Makedónía ætlaði að gera frumþáttöku en duttu bæði löndin út.Þýskaland og Ungverjaland hefðu dottið út vegna lélegs árangurs 1995 en Danmörk,Rúmenía,Rússland og Makedónía hefðu getað veið með.Hugsanlega hefðu Portúgal,Belgía og Bosnía og Hersegóvinía dottið út í staðinn fyrir löndin fyrir utan Þýskaland og Ungverjaland en árangur Portúgals þetta ár er sá besti hingað til. 1996 Bernarsáttmáli til verndar bókmenntum og listaverkum. Kort sem sýnir aðila að Bernarsáttmálanum Bernarsáttmáli til verndar bókmenntum og listaverkum oftast kallaður aðeins Bernarsáttmálinn er alþjóðasamningur sem fjallar um gagnkvæma vernd höfundaréttar í aðildarlöndum. Fyrsta útgáfa samningsins var samþykkt í Bern í Sviss árið 1886. Grunnstoðir sáttmálans eru gagnkvæmni milli ríkja (þ.e. að erlend verk njóti sömu verndar og innlend í hverju landi) og sjálfvirkni réttarins sem má ekki vera háður neinum formlegum skilyrðum eins og t.d. skráningu verksins. Sáttmálinn var saminn að undirlagi Victors Hugo og samtakanna Association Littéraire et Artistique Internationale. Hann byggist á franska höfundaréttarhugtakinu "droit d'auteur" sem felur í sér að höfundaréttur verður til sjálfkrafa um leið og hugmynd verður að hugverki með því að henni er fengið fast form en "copyright"-löggjöfin fól þá í sér að höfundur þurfti að sækja sérstaklega um eða tilkynna um höfundarétt. Sáttmálinn var saminn í kjölfarið á Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar frá 1883 sem fjallaði um hin svið hugverkaréttar: einkaleyfi, vörumerki og verndun iðnhönnunar. Upphaflega var Bernarsáttmálinn með eigin stofnun líkt og Parísarsáttmálinn en 1893 sameinuðust þær í eina Sameinaða stofnun um vernd hugverkaréttinda. 1967 var nafni þessarar stofnunar breytt í Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) sem varð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna árið 1974. Bernarsáttmálinn hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum frá upphafi: í París 1896, Berlín 1908, Bern 1914, Róm 1928 (sæmdarréttur og gildistími 50 ár frá dauða höfundar), Brussel 1948 (kvikmyndir og ljósmyndir), Stokkhólmi 1967 (þriggja skrefa prófið fyrir undanþágur frá einkarétti höfundar), París 1971 og endurskoðaður 1979. Bretland undirritaði sáttmálann árið 1887 en staðfesti ekki stóra hluta hans fyrr en með "Copyright, Designs and Patents Act" árið 1988. Bandaríkin neituðu lengi vel að undirrita samninginn þar sem hann fól í sér miklar breytingar á bandarískum höfundalögum. Bandaríkin urðu fyrst aðilar að samningnum árið 1989. Ísland undirritaði samninginn fyrst 7. september 1947 löngu á eftir hinum Norðurlöndunum sem höfðu lengi kosið að virða sáttmálann gagnvart íslenskum höfundum en bentu jafnan á að Íslendingar gerðu ekki hið sama gagnvart öðrum. Rithöfundafélag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna höfðu barist fyrir því að Ísland gerðist aðili að Bernarsambandinu frá því á 3. áratugnum. Fullgilding fól í sér breytingar á lögum um rithöfundarétt og prentfrelsi. Endurskoðaður texti Bernarsáttmálans frá 1971 var útfærður með sérstökum höfundalögum 1972. Alþjóðahugverkastofnunin. Alþjóðahugverkastofnunin (enska: "World Intellectual Property Organization" eða WIPO) er ein af 16 sérhæfðum stofnunum innan Sameinuðu þjóðanna með höfuðstöðvar í Genf, Sviss. Stofnunin var sett á fót árið 1967 til að „hvetja sköpun og stuðla að vernd hugverkaréttinda um allan heim“. Aðildarríki WIPO eru 184 talsins eða nánast öll þau ríki sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum. Stofnunin hefur yfirumsjón með 24 alþjóðasamningum. Núverandi forstöðumaður er austurríski lögfræðingurinn Francis Gurry sem tók við embætti árið 2008. Stofnunin hefur nokkra sérstöðu meðal stofnana Sþ þar sem mest af tekjum hennar koma ekki frá aðildarríkjunum heldur í gegnum rekstur alþjóðaskrifstofu stofnunarinnar sem rekur kerfi fyrir beitingu hugverkaréttinda og skráningu hugverka (Samstarfssamningur um einkaleyfi (PCT), Alþjóðlegt skráningarkerfi vörumerkja (Madrídarkerfið) og Hagsamþykktin um alþjóðlega skráningu iðnhönnunar (Hag-kerfið)). Forveri WIPO var alþjóðastofnunin "Bureaux Internationaux Réunis pour la Protection de la Propriété Intellectuelle" (BIRPI) sem var sett á stofn árið 1893 til að hafa umsjón með Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar frá 1883 og Bernarsáttmála til verndar bókmenntum og listaverkum frá 1886. Alþjóðahugverkastofnunin var stofnuð með Samningi um stofnun Alþjóðahugverkastofnunarinnar sem gekk í gildi árið 1970. Stofnunin varð ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna árið 1974. Blog.is. blog.is er íslenskt bloggsvæði sem Árvakur hf á og rekur. Bloggsvæðið tengist fréttamiðlinum mbl.is en bloggarar geta tengt fréttir af mbl.is inn á bloggsíður sínar. Um árabil hefur blog.is verið fjölsóttasti íslenski bloggvefurinn. Álftaver. Álftaver er lítil og flatlend sveit í Vestur-Skaftafellssýslu, vestan við Kúðafljót og austan við Mýrdalssand, en að norðan fellur áin Skálm á byggðarmörkum. Sveitin er stundum nefnd Ver. Hún myndaði Álftavershrepp og Þykkvabæjarklausturssókn. Gengið hefur á byggðina í Kötlugosum. Jarðmyndanir. Í Ytra-Eldgjárhrauni í Álftaveri er þyrping af gervigígum. Minþakseyri. Minþakseyri var forn höfn í Vestur-Skaftafellssýslu. Þangað voru hafskipasiglingar. Frásögn "Landnámu". "Ingólfur tók þar land, er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að hnoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt. Þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyri. Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum." Minþakseyri var samkvæmt þessu á milli Ingólfshöfða og Hjörleifshöfða. Á korti frá 1595 finnst hún sett vestan við Kúðafljót, óvíst um nákvæmni. Hún gæti hafa horfið í Kötlugosum. Eyjólfur Sæmundsson. Eyjólfur Sæmundsson (d. 1158) í Odda á Rangárvöllum var prestur og ef til vill goðorðsmaður. Sturlunga. Í ættartölum framarlega í Sturlungusafninu stendur: „Sæmundur hinn fróði átti Guðrúnu, dóttur Kolbeins Flosasonar. Þeirra börn voru þau Eyjólfur prestur og Loftur prestur og Loðmundur og Þórey, er átti Þorvarður Ólafsson.“ Í 126. kafla af "Íslendingasögu" í sama safni stendur, að Eyjólfur Sæmundarson hafi átt hálfan Oddastað, sem Loftur og Loðmundur bræður hans hafi tekið í arf. Þorláks saga. Í þriðja kafla af "Þorláks sögu hinni elstu" stendur, að móðir Þorláks biskups vildi koma honum til mennta, og „réðust þau mæðgin í hinn æðsta höfuðstað í Odda undir hönd Eyjólfi presti Sæmundarsyni, er bæði hafði höfðingsskap mikinn og lærdóm góðan, gæsku og vitsmuni gnægri en flestir aðrir. Og heyrðum vér hinn sæla Þorlák það vitni bera honum, að hann þóttist trautt þvílíkan dýrðarmann reynt hafa sem hann var... svo bar oft til, þá er vér hældum hans góðum háttum, að hann kvað það vera siðvenjur Eyjólfs fóstra síns Sæmundarsonar... Eyjólfur virti Þorlák mest allra sinna lærisveina um það allt, er til kennimannsskapar kom...“ Eyjólfur kann að hafa hvatt og styrkt Þorlák til að stunda sem nýlega vígður prestur framhaldsnám í París. Uffa Fox. Uffa Fox (15. janúar 1898 – 26. október 1972) var breskur skútuhönnuður og siglingaáhugamaður. Hann fæddist á Wight-eyju og ólst upp í Cowes þar sem hann setti upp bátasmiðju 21 árs gamall. Hann var upphafsmaður fleytikænunnar og einn af þeim fyrstu sem nýttu masturstaugar í hönnun sinni. Eftir Síðari heimsstyrjöld nýtti hann sér mikið mótaðan krossvið sem byggingarefni. 1947 vingaðist hann við Filippus hertoga og tók oft þátt í Cowes-vikunni með honum. Hann kenndi börnum Filippusar og Elísabetar að sigla. Meðal báta sem Fox hannaði eru Flying Fifteen, National 12, Albacore, Firefly og Javelin. Dart 18. Dart 18 er 18 feta (5,5 metra) löng tvímenningstvíbytna úr glertrefjum hönnuð árið 1975 af enska skútuhönnuðinum Rodney March sem líka hannaði Tornado-tvíbytnuna. Dart 18 er ekki með fellikjöl eins og Tornado heldur ugga aftarlega á skrokkunum. Dart 18 er með eitt fullsprekað stórsegl og fokku með tveimur stuttum sprekum. Masturstaug er fyrir annan siglingamanninn. Kúðafljót. Kúðafljót í Vestur-Skaftafellssýslu er ein af mestu jökulám Íslands. Í rauninni er það þó samsafn margra vatnsfalla af stóru vatnasvæði á Suðurlandi. Upphaf Kúðafljóts telst þó þar sem Hólmsá, Tungufljót og stór hluti Eldvatns mætast þar sem heitir Flögulón og rennur það þaðan til suðurs, vestan Álftavera og Þykkvabæjarklaustur til sjávar á Meðallandssandi. Samkvæmt Landnámu dregur áin nafn sitt af skipi Vilbalda sem Kúði hét, en þar segir: "„Hann fór af Írlandi og hafði skip það, er Kúði hét; hann kom í Kúðafljótsós.“" Óstaðfestar sagnir eru til um að Kúðafljót hafi verið skipgengur fjörður og þar hefi verið kaupstaður á eyjunni Kúðahólma. Fannst þar skiphald af járni sem sumir telja sönnun þess. Eysteinn Erlendsson. Eysteinn Erlendsson (um 1120 – 26. janúar 1188) var erkibiskup í Niðarósi frá 1160. Hann var í Noregi tekinn í helgra manna tölu. Afi hans í föðurætt var Íslendingur. Eysteinn sendi bréf til Íslands um kirkjumál, sem eru prentuð í "Íslenzku fornbréfasafni", og vígði tvo íslenska biskupa, Brand Sæmundsson og Þorlák Þórhallsson. Jón Þorsteinsson (söngvari). Jón Þorsteinsson (fæddur 11. október 1951) er íslenskur tenórsöngvari sem hefur lengstum starfað í Hollandi við "Ríkisóperuna" í Amsterdam, eða frá árinu 1980. Hann hlaut verðlaun í óratóríusöngkeppninni í Amsterdam árið 1983. Jón stundaði fyrst söngnám í Noregi og í þrjú ár söng hann við "Det Jyske Musikkonsvervatorium" í Árósum. Síðan stundaði hann nám á Ítalíu og um tveggja ára skeið söng hann fyrstur Íslendinga í óperukór Wagner-tónlistarhátíðarinnar í Bayreuth í Þýskalandi. Hann hefur einnig túlkað og sungið kirkju- og nútímatónlist víðs vegar um Evrópu, unnið til verðlauna á þeim vettvangi og sungið einsöng á óperusviði og með kórum í flestum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum. Jón hefur einnig tekið þátt í starfi Pólýfónkórsins sem einsöngvari og einnig með Kór Langholtskirkju, Fílharmóníukórnum og Passíukórnum á Akureyri. Eiríkur Ívarsson. Eiríkur Ívarsson (dáinn 1213) var biskup í Stafangri frá 1171 og erkibiskup í Niðarósi frá 1188. Hann var góðrar ættar og hafði menntast í Viktorsklaustrinu í París. Eysteinn Erlendsson hafði vígt hann biskupsvígslu og bent á hann sem eftirmann sinn á stóli erkibiskups. Eiríkur lenti í deilum við Sverri konung og varð landflótta fyrir honum en páfinn bannfærði Sverri. Þessi ár dvaldist Eiríkur í Danmörku á vegum Absalons erkibiskups. En eftir að konungaskipti voru orðin í Noregi 1202, sættist Eiríkur við hinn nýja konung og sneri heim til stóls síns. Hann var þá orðinn blindur. Eiríkur var 1178 einn af þeim þremur biskupum, sem voru að vígslu Þorláks helga, og vitnaði að honum látnum um heilagleika hans. Magnús Erlendsson. Magnús Erlendsson (um 1076 – 16. apríl 1115) var jarl á Orkneyjum. Hann var leiddur til höggs, sem var kallað píslarvætti. Hann var síðan álitinn helgur maður, sem Leó páfi XIII. staðfesti 1898. Á Norðurlöndum er Magnús talinn með norskum dýrlingum en í sumum öðrum löndum telst hann með skoskum dýrlingum. Sögur. Finnbogi Guðmundsson gaf sögurnar út í Reykjavík 1965: "Orkneyinga saga", Íslenzk fornrit XXXIV. Geirfuglasker (Reykjanesi). Geirfuglasker er lítið sker skammt frá Reykjanesi í Gullbringusýslu. Eins og nafnið bendir til var skerið nytjað til veiða á geirfugli. Í þjóðsögunni um Rauðhöfða er talað mikið um Geirfuglasker. Ljósop. Í ljósmyndun er talað um ljósop á linsum. Einfalda skýringin á því hvað ljósop sé er að það sé stærð opsins sem ljósið fellur í gegnum í linsunni. Stærð ljósops er stillanleg. Breyting á stærð ljósops er ein þriggja þátta sem hafa áhrif á lýsingu myndar. Hinir þættirnir eru lokuhraði og ljósnæmi. Ljósop er ekki föst stærð í millimetrum heldur er ákveðið hlutfall miðað við brennivídd fræðilegrar linsu. Hér er talað um fræðilega linsu vegna þess að fjöldi glerja, gerð þeirra og yfirborðsmeðhöndlun getur raskað því hlutfalli. Linsuframleiðendur leitast við að miða ákveðið ljósop við þá birtu sem fellur í gegnum linsuna á myndflöguna eða filmuna. Þess vegna er oft brugðið út frá fræðilegum stærðum en birtumagn á að vera það sama miðað við sama ljósop í mismunandi linsum að öðru jöfnu. Ljósop dæmigerðrar linsu eru valin þannig að við hvert ljósop upp tvöfaldaðist ljósmagnið sem fellur á myndflöguna. Slík breyting er kölluð eitt stopp í ljósmyndun. Dæmigerðar stærðir ljósopa eru 2,8 4 5,6 8 11 16 22 32. Hærri tala þýðir minna ljósop. Áður fyrr voru lokuhraðar einnig tilgreindir þannig að tíminn tvöfaldaðist eða helmingaðist milli stillinga. Hraðinn var tilgreindur sem hlutur úr sekúndu. Hraðinn 60 var þannig 1/60 úr sekúndu. Næsti hraði var 1/125 og síðan 1/250, 1/500 1/1000 þ.e.a.s. alltaf tvöföldun/helmingun á milli stillinga sem jafngildir einu stoppi. Dæmi: Mynd sem var rétt lýst með hraðanum 1/500 og ljósopi 8 var líka rétt lýst ef hraðinn var aukinn í 1/1000 og ljósopið stækkað í 5,6. Mest ljós kemst í gegn með stillingunni 2,8 en minnst á stillingunni 32. Til eru linsur með enn stærra ljósopi þ.e. enn lægri tölur. Linsur með mjög stóru ljósopi er kallaðar bjartar linsur í daglegu tali. Linsur með breytilegri brennivídd þ.e. zoom linsur geta verið með breytilegu minnsta ljósopi eftir þeirri brennivídd sem valin er. Stærð ljósops hefur áhrif á hvað er í fókus í myndinni. Þegar ljósop er lítið (há tala) næst bæði það sem er nálægt myndavélinni og það sem er fjarri henni í fókus. Svæðið sem er í ásættanlegum fókus er kallað fókusdýpt. Að jafnaði er 1/3 fókusdýptarinnar fyrir framan punktinn sem fjarlægðarstillingin er sett á og 2/3 fyrir aftan. Í landslagsmyndum er oftast leitast við að hafa lítið ljósop þ.e. djúpann fókus. Á sumum nýjum myndavélum er stilling sem auðkennd er með táknmynd fjalls. Þegar hún er valin leitast vélin við að hafa lítið ljósop. Önnur táknmynd sýnir mynd af andliti og velur þá vélin grunna fókusdýpt þ.e. stórt ljósop. Brennivídd linsu hefur líka áhrif á fókusdýpt. Þegar valin er sjálfvirk stilling sem leitast við að hafa ljósopið lítið eykst þörfin fyrir að halda myndavélinni stöðugri. Þar sem sama ljósmagn verður að falla á myndflöguna leitast myndavélin við að auka lýsingartímann. Hætt er við að minniháttar hreyfingar handarinnar þegar smellt er af komi fram sem óskírleiki ef ekki er stuðst við eitthvað. Sveigja ljóssins og bylgjulengd gera það að verkum að minnsta ljósopið er ekki það sem skapar skarpasta fókusinn. Þumalfingursregla segir að skýrasti fókusinn verði að jafnaði þegar stillt er á ljósop í miðjum skala linsunnar. Sálmarnir. Sálmarnir eru bók í "Biblíunni", 19. bókin í "Gamla testamentinu" (21. bók í kaþólskum "Biblíum"), einnig kölluð "Davíðssálmarnir" og "Saltarinn". Þessir sálmar eru 150 að tölu. Þeir eru mikilvægur hluti af tíðabænum, sem kaþólskir prestar, klaustrafólk og fleiri fara með á hverjum degi. „Sálmarnir eru mjög fjölbreytilegir að gerð. Mest fer fyrir harmsálmum en lofgjörðarljóð eru einnig fyrirferðarmikil. Þar er að finna ýmsar aðrar gerðir sálma, svo sem spekiljóð, konungssálma og þakkarljóð. Sálmarnir eru ýmist einstaklingssálmar eða sálmar safnaðar,“ stendur í inngangi þeirra í Biblíuútgáfunni árið 2007. Lincoln. Lincoln er borg í Lincolnshire á Austur-Englandi. Íbúar voru 85.595 árið 2001. Þar er forn dómkirkja. Þorlákur helgi stundaði nám í Lincoln eftir miðja tólftu öld. Verndardýrlingur. Verndardýrlingur er dýrlingur, sem talinn er sérstakur málsvari á himnum fyrir heimsálfu, þjóð, stað, atvinnugrein, starfsstétt eða það fólk, sem á erfitt vegna tiltekins sjúkdóms eða annarra atvika. Þessi trú tekur til þeirra kristnu kirkjusamfélaga, sem viðurkenna dýrlinga sem talsmenn hinna trúuðu gagnvart Guði. Sem dæmi er Þorlákur helgi verndardýrlingur Íslands en Ólafur helgi verndardýrlingur Noregs, því að báðir eru álitnir hafa oft veitt landsmönnum sínum lið. Vel má þó biðja til þeirra um málefni, sem tengjast ekki þessum löndum, eða snúa sér til fleiri helgra manna með íslensk og norsk málefni. Múrinn í Kirkjubæ. Múrinn kallast á færeysku "Múrurin" og er ófullgerð dómkirkja í Kirkjubæ í Færeyjum. Veggirnir standa og eru á lengd 26,5 metrar, á breidd 10,8 metrar, á hæð 9 metrar og að þykkt 1,5 metri. Erlendur biskup hóf þessa kirkjusmíði um árið 1300. Húsið átti að helga hinum heilaga Magnúsi Orkneyjajarli. Á einum stað í veggjunum er innmúrað hólf, sem kallast Gullskápurinn. Hann var opnaður 1905, og inni í honum voru óskaddaðir helgir dómar, sem kirkjunni höfðu verið gefnir. Þeir voru látnir á sama stað og múrað fyrir aftur. Sagt er, að einn þessara gripa sé ofurlítill hluti af helgum dómi Þorláks Þórhallssonar, sem þá væri hið eina, sem af honum er varðveitt. Trúarjátning (kristni). Trúarjátning er stuttur texti, sem staðfestir meginatriði trúarinnar. Á latínu er upphafsorðið í þekktustu játningunum "credo", sem þýðir "ég trúi". Þaðan er komið íslenska orðið "kredda", sem oftar er þó haft í niðrandi merkingu. Á erlendum málum er sömuleiðis oft notað um trúarjátningu orðið "symbol", sem merkir "tákn", því að staðfesting á mikilvægustu trúaratriðum er tákn um trúna. Þorlákstíðir. Þorlákstíðir eru fornar tíðabænir, sem fram að siðskiptum voru sungnar í Skálholti á messudögum Þorláks helga. Textar eru að miklu leyti varðveittir, og þeir eru á latínu. Nótnasetningu má einnig lesa. Sönghópurinn "Voces Thules" gaf tíðirnar út í heilu lagi á nokkrum diskum en textana á bók árið 2006. Þær taka um þrjár klukkustundir í flutningi. Þorláks finnst sömuleiðis getið í fornum tíðabókum biskupsdæmisins í Niðarósi. Hamraborg (gata). Hamraborg er gata í Kópavogi sem liggur á milli Kópavogskirkju og Álfhólsvegar. Við götuna er ýmis starfsemi, m.a. fjölmargar verslanir, og þar er einnig listasafn Kópavogs, Gerðarsafn. Bjarnarhellir. Bjarnarhellir er náttúrlegur hellir við fjallið Foxufell skammt frá Hítarvatni á Mýrum. Í hellinum hafa rúnir verið meitlaðar í stein og sæti verið hoggið í bergið. Sandar. Sandar er eyðibýli í Dýrafirði, áður kirkjustaður, prestssetur og höfuðból. Sandar voru við sunnanverðan fjörðinn, suðvestan undir Sandafelli, og er Þingeyri reist í landi Sanda. Sandar koma við sögu í Sturlungu en þar bjó höfðinginn Oddur Álason. Þeir Órækja Snorrason höfðu verið vinir en árið 1234 fór Órækja að Oddi, sem þá var staddur á Eyri við Arnarfjörð, og bar eld að bænum. Oddur og sex menn aðrir brutust út og reyndu að verjast en Oddur var felldur. Einn þeirra sem var þarna með honum hét Bárður Þorkelsson. Hann bjó seinna á Söndum og var kallaður Sanda-Bárður. Jörðin var þó í eigu Hrafns Oddssonar, sem þá var unglingur. Þegar Þórður kakali Sighvatsson kom til Vestfjarða 1242 var Bárður einn sá fyrsti sem gekk til liðs við hann og gaf hann Þórði bú sitt. Þótti það geysistórmannlegt, eins og segir í Sturlungu. Nokkru síðar, þegar hagur Þórðar fór heldur að batna, launaði hann fyrir sig með því að gefa Bárði Svefneyjar á Breiðafirði. Seinna sátu margir merkir prestar á Söndum og má þar nefna séra Ólaf Jónsson skáld, sem var prestur þar frá 1596 til 1627. Hann orti fjölda sálma, oft undir óvenjulegum bragarháttum, og samdi lög við þá líka og er því eitt elsta íslenska tónskáldið sem þekkt er með nafni. Á árunum 1708-1735 var séra Jón Þórðarson dettir prestur á Söndum. Hann var sagður göldróttur og var sagt að þegar hann fór frá Söndum hefði hann lagt það á að fáir skyldu fara auðugir frá Söndum þaðan í frá. Kirkjan og bærinn á Söndum eru sögð hafa staðið upphaflega niður við sjó, á eyrunum innan við Sandaá, en verið flutt ofar vegna ágangs sjávar. Kirkjan var helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Kirkjan var flutt til Þingeyrar árið 1911 og prestssetrið einnig. Þingeyrarhreppur keypti jörðina Sanda árið 1938 og eftir sameiningu sveitarfélaga er hún í eigu Ísafjarðarbæjar. Allmargar hjáleigur voru landi Sanda og var ein þeirra Þingeyri, á samnefndri eyri norðan undir Sandafjalli. Þar mun hafa verið þingstaður til forna og eru þar friðlýstar tóftir. Verslun hófst snemma á Þingeyri og kauptún fór að myndast þar um miðja 19. öld. Á Söndum er nú miðstöð hestamennsku á Vestfjörðum og þar er ný reiðhöll, kappreiðabraut og önnur aðstaða fyrir hestamenn. Töluvert skógræktarsvæði er i landi Sanda og er skógræktin þar hluti af verkefninu Landgræðsluskógar. Um 2008 voru uppi hugmyndir um að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og var þá land Sanda annað tveggja svæða sem helst þóttu koma til greina. DR. DR (áður skammstöfun Danmarks Radio) er ríkisrekinn fjölmiðill í Danmörku sem rekur bæði sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Höfuðstöðvar DR eru í Kaupmannahöfn. NRK. NRK ("Norsk Rikskringkasting") er ríkisrekinn fjölmiðill í Noregi sem rekur bæði sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Höfuðstöðvar NRK eru í Osló. SVT. Sveriges Television eða SVT er ríkisrekinn fjölmiðill í Svíþjóð sem rekur sjónvarpsstöðvar. Höfuðstöðvar SVT eru í Stokkhólmi. YLE. Yleisradio (finnska), Rundradion (sænska) eða Yle er ríkisrekinn fjölmiðill í Finnlandi sem rekur sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Höfuðstöðvar Yle eru í Helsinki. Lindisfarne. Lindisfarne er eyja við norðausturströnd Englands. Hún er einnig þekkt sem Eyjan helga (e. "Holy Island"), og er það nafn sveitarfélagsins. Eyjan er tengd meginlandinu með sandrifi. Talið er að nafnið "Lindisfarne" eigi rætur að rekja til fornensku og þýðir „eyja Lindseyjarfaranna“, sem gæti þýtt að eyjan hafi verið numin af mönnum sem komu frá Lindsey, eða ferðuðust þangað. Árið 2001 voru íbúar eyjunnar 162. Í verkinu "Historia Brittonum" er eyjan kölluð fornvelsku nafni, "Medcaut". Írinn Aidan af Lindisfarne stofnaði munkaklaustur á eyjunni. Um árið 635 e.Kr. var hann sendur þangað frá Jónu, sem liggur við vesturströnd Skotlands, að beiðni Ósvalds af Norðymbralandi. Klaustrið varð miðstöð kristniboðs í Norður-Englandi og jafnvel var send þaðan sendisveit til Mersíu og varð henni vel ágengt. Munkar frá Jónu fluttu til eyjarinnar. Cuthbert, verndardýrlingur Norðymbralands, var munkur og síðar ábóti munkaklausturs á Lindisfarne. Beda prestur skrásetti æviágrip og öll kraftaverk Cuthberts. Seinna varð Cuthbert biskup af Lindisfarne. Árið 793 gerðu víkingar árás á Lindisfarne og er sá atburður oft talinn marka upphaf víkingaaldar. Árásin vakti mikla skelfingu á Vesturlöndum á þessum tíma og er sagt frá henni í Annál Engilsaxa. Erfðamengjafræði. Erfðamengjafræði fjallar til dæmis um byggingu litninga, raðgreiningu erfðamengja, starfsemi erfðamengja og samanburð á erfðamengjum. Erfðamengjafræðin er tiltölulega ný fræðigrein, og má rekja upphaf hennar til verkefnis sem miðaði að því að raðgreina allt erfðamengi (genome) mannsins. Það verkefni krafðist mikillar fjárfestingar í líftækni, verkfræði og hugbúnaði sem leiddi til þess að erfðamengi fjölmargra baktería, fornbaktería og heilkjörnunga hafa verið raðgreind. Erfðamengjafræðin fjallar einnig um starfsemi erfðamengja, það er hvernig genin virka, hvar og hvenær þau eru tjáð, um hlutverk litningaenda, þráðhafta og hvernig stökklar og hlutlausar raðir hegða sér í erfðamenginu. C-gildis ráðgátan (C-value paradox) er ein af elstu viðfangsefnum fræðigreinarinnar. C-gildið mælir magn erfðaefnis (DNA) í lífverum. Vísindamenn veittu því eftirtekt að magn erfðaefnis var mjög mismunandi meðal heilkjörnunga og ekki endilega mest í spendýrum eða mönnum, lífverum sem vísindamenn álitu flóknari en aðrar. Ráðgátan var sú, hví eru „einfaldar“ lífverur með meira DNA en flóknar lífverur? Svarið er að DNA magn er ekki í réttu samhengi við fjölda gena. Erfðamengi margra lífvera innihalda margar aðrar raðir (stundum kallaðar ruslDNA). Breytileiki í erfðaefni. Erfðaefnið hvers einstaklings er ófullkomið afrit af erfðaefni foreldra (eða foreldris í tilfelli lífvera með kynlausa æxlun). Stökkbreytingar geta orðið þegar erfðaefnið er fjölritað og af þeim ástæðum er erfðafræðilegur munur á genum, þau eru með ólíkar genasamsætur. Erfðamengjafræðin miðar að því að finna hvaða staðir í erfðaefninu eru breytilegir, hvaða hlutar gena eru stökkbreyttir og hvers eðlis eru breytingarnar. Margar aðferðir hafa verið notaðar til að skoða erfðabreytileika, en sú besta er að raðgreina erfðamengi í heild sinni. Nú í upphafi erfðamengjaaldar hafa erfðamengi margra einstaklinga nokkura tegunda verið raðgreind í heild sinni. Til að mynda voru erfðamengi 171 ávaxtaflugna greind í heild sinni og stefnt er að því að raðgreina erfðamengi 1001 stofna Vorskriðnablómsins (Arabidopsis thaliana)http://1001genomes.org/index.html Annáll Engilsaxa. Annáll Engilsaxa (e. "Anglo-Saxon Chronicle") er safn annála á fornensku sem segja frá sögu Engilsaxa. Annálarnir voru skrifaðir á 9. öld, líklega í Wessex, þegar Alfreð mikli var ríkjandi. Afrit handritanna voru gerð og send til munkaklaustra um allt England, og þessi voru endurnýjuð á óháðan hátt. Var einn annála til dæmis endurnyjaður þangað til 1154. Í dag standast níu handrit í heild eða að vissu leyti, en ekkert þeirra er frumeintak. Talið er að það elsta hafi verið byrjað undir lok ríkisára Alfreðs mikla, en það yngsta var skrifað á klaustrinu í Peterborough eftir eld þar árið 1116. Næstum því allt safnið er skrifað í formi annála, það elsta byrjar árið 60 f.Kr. og fjallar um sögu þangað til tímans þegar annállinn var skrifaður. Annállinn er ekki óhlutdrægur og hægt er að sjá að atburðarnir í textanum eru hlutdrægir í samanburði við aðrar miðaldaheimildir. Til eru líka atburðar í textanum sem stangast á við aðrar heimildir frá þessum tíma. Samt sem áður er ánnallinn ein mikilvægasta heimild frá þessari öld um England. Miklar upplýsingar sem eru í annálnum eru ekki skráðar annarsstaðar. Auk þess er annállinn mikilvæg heimild um sögu enska tungumálsins, sérstaklega Peterborough-annállinn sem er eitt elsta dæmi um miðensku sem er til. Sjö af annálunum níu eru nú geymdir á þjóðbókasafni Bretlands. Hinir eru á Bodelian-bókasafninu í Oxford-háskóla og Parker-bókasafninu í Cambridge-háskóla. Hinrik 1. Frakkakonungur. Hinrik 1. Mynd úr handriti frá 12. öld. Hinrik 1. (4. maí 1008 – 4. ágúst 1060) var konungur Frakklands frá 1031 til dauðadags og hertogi af Búrgund 1016-1032. Krúnulendur Frakkakonungs voru aldrei minni um sig en á valdatíma hans og hann er þess vegna oft talinn hafa verið veikur og valdalítill konungur en sumir sagnfræðingar telja að hann hafi verið nokkuð sterkur en raunsær og þurft að haga seglum eftir vindi. Hinrik var af ætt Kapetinga, næstelsti sonur Róberts 2. hreintrúaða og Konstönsu af Arles. Árið 1016 gerði faðir hans hann að hertoga af Búrgund og ári síðar var elsti bróðirinn, Húgó 2. Magnus, krýndur meðkonungur að föðurnum lifandi eins og venja var hjá Kapetingum. Hann dó þó 1025. Hinrik var krýndur meðkonungur 14. maí 1027 en fékk þó lítil raunveruleg völd og nokkru síðar gerði hann og þriðji bróðirinn, Róbert, uppreisn gegn föður sínum og nutu stuðnings móður sinnar. Þeir höfðu betur og hröktu Róbert konung til Parísar. Uppreisning stóð enn þegar faðirinn dó 20. júlí 1031 en þá upphófust átök milli bræðranna um krúnuna og studdi móðirin Róbert. Hinrik tryggði sig þó í sessi og árið 1032 lét hann Róbert hertogadæmið Búrgund eftir. Hinrik naut meðal annars stuðnings Róberts 1., hertoga af Normandí, í átökunum við bróður sinn og launaði það fáeinum árum síðar, þegar Róbert lést, með því að styðja barnungan, óskilgetinn son hans, Vilhjálm bastarð, til þess að verða hertogi Normandí. En árið 1053 giftist Vilhjálmur Matthildi af Flæmingjalandi, sem var dóttir Adelu systur Hinriks, og jukust völd hans svo mjög við þann ráðahag að Hinrik fór að óttast hann og gerði tvívegis innrás í Normandí en var gerður afturreka í bæði skiptin. Hinrik var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Matthildur, dóttir Konráðs 2. keisara. Eftir lát hennar giftist hann Matthildi af Fríslandi árið 1043 en hún dó árið eftir, að sögn eftir keisaraskurð. Þriðja kona Hinriks var Anna af Kænugarði en systur hennar voru Ellisif drottning Noregs og Anastasía drottning Ungverjalands. Sonur þeirra var Filippus 1. Frakkakonungur, sem tók við krúnunni þegar faír hans dó 1060. Þá var hann aðeins sjö ára að aldri og stýrði móðir hans ríkinu fyrir hann í samvinnu við mág sinn, Baldvin greifa af Flæmingjalandi, eiginmann Adelu systur Hinriks. Filippus 1. Frakkakonungur. Filippus 1. Mynd úr handriti frá 12. öld. Filippus 1. (23. maí 1052 – 29. júlí 1108), kallaður "hinn ástleitni" (franska: "Philippe l' Amoureux") var konungur Frakklands frá 1060 til dauðadags, eða í 48 ár, en fyrstu sex árin stýrði móðir hans ríkinu í félagi við Baldvin greifa af Flæmingjalandi, sem kvæntur var Adelu föðursystur hans. Filippus var sonur Hinriks 1. Frakkakonungs og konu hans, Önnu af Kænugarði, og var það hún sem valdi honum nafn en Filippus var nær óþekkt nafn í Vestur-Evrópu fyrir hans dag. Hann var sjö ára þegar faðir hans dó og tók sjálfur við ríkisstjórn 1066, þegar hann var fjórtán ára. Stór hluti hinna mörgu ríkisstjórnarára Filippusar fór í að bæla niður uppreisnir lénsherra og reyna að efla konungsvaldið. Árið 1077 samdi hann frið við Vilhjálm sigurvegara, sem hætti þá tilraunum til að leggja Bretagne undir sig. Filippus jók líka við krúnulendurnar með því að taka Vexin undir sig 1082 og Bourges árið 1100. Filippus giftist Bertu, dóttur Floris 1., greifa af Hollandi, árið 1072 og átti með henni soninn Loðvík og dótturina Konstönsu. En síðar varð hann ástfanginn af Bertrade de Montfort, eiginkonu Fulks 4. greifa af Anjou, rak Bertu frá sér á þeirri forsendu að hún væri of feit og giftist Bertrade 15. maí 1092. Fyrir það var hann bannfærður af erkibiskupinum af Lyon 1094 og síðan af Úrban páfa II árið 1095. Bannfæringunni var aflétt nokkrum sinnum við það að Filippus hét að segja skilið við Bertrade en hann tók alltaf saman við hana aftur og á endanum gáfust kirkjunnar menn upp og sættu sig við hjónabandið. Filippus og Bertrade áttu tvo syni og eina dóttur. Vegna bannfæringarinnar og deilnanna við Úrban páfa tók Filippus ekki beinan þátt í fyrstu krossferðinni en bróðir hans, Húgó af Vermandois, fór aftur á móti fyrir sveit franskra krossferðariddara. Í samtímaheimild segir að hann hafi mörg síðustu ríkisstjórnarár sín verið svo heltekinn af ást á Bertrade að hann hafi varla sinnt nokkru öðru og misst allan áhuga á stjórn ríkisins. Loðvík 6. Frakkakonungur. Loðvík 6. (1. desember 1081 – 1. ágúst 1137), kallaður Loðvík digri (franska: "Louis le Gros") var konungur Frakklands frá 1108 til dauðadags, eða í 29 ár. Loðvík var sonur Filippusar 1. og fyrri konu hans, Bertu af Hollandi, en þegar hann var um tíu ára aldur skildi faðir hans við móður hans og tók sér nýja konu, Bertrade de Montfort. Helsti ráðgjafi hans frá unga aldri var Suger ábóti af St. Denis, sem skráði sögu Loðvíks og varð síðan helsti ráðgjafi Loðvíks 7. sonar hans. Mestalla ríkisstjóratíð sína þurfti Loðvík eins og faðir hans að berjast við stöðugar uppreisnir ódælla lénsherra. Þó tókst honum að styrkja konungsvaldið svo um munaði og varð hann einn sterkasti konungur Frakklands eftir að Karlungaríkið leið undir lok. Hann barðist meðal annars við Róbert stuttsokk, hertoga af Normandí, son Vilhjálms sigursæla. Loðvík gekk að eiga Lucienne de Rochefort 1104 en Pascal II páfi ógilti hjónaband þeirra 1107. Árið 1115 giftist Loðvík svo Adélaide de Maurienne. Þau eignuðust sjö syni og eina dóttur. Elsti sonurinn, Filippus, var krýndur meðkonungur föður síns 1129 en lést 1131 efir fall af hestbaki. Þá varð Loðvík bróðir hans ríkisarfi en hann hafði ætlað að gerast munkur og var ekki sáttur við hlutskipti sitt. Vorið 1137 frétti Loðvík, sem þá var fárveikur, af því að Vilhjálmur 10. hertogi af Akvitaníu hefði dáið í pílagrímsferð til Santiago de Compostela. Fimmtán ára dóttir hans, Elinóra, erfði ríkið og hafði Vilhjálmur falið Loðvík forræði hennar. Hann brá snarlega við, sendi Loðvík son sinn þegar á vettvang og lét hann giftast hertogaynjunni ungu en dó svo úr blóðkreppusótt 1. ágúst 1137, áður en sonurinn komst heim með brúði sína. Ósamþátta. Tölurnar formula_1 og formula_2 eru ósamþátta og því sker lína á milli þeirra enga punkta í punktagrind. Tvær heiltölur formula_3 og formula_4 þykja ósamþátta eða ósamþættar ef stærsti samdeilir þeirra er einn (formula_5) en það er stundum táknað með rithættinum formula_6. Dæmi um tölur sem eru ósamþátta eru formula_2 (þáttað formula_8) og formula_9 (þáttað formula_10) þar sem þær hafa engan sameiginlegan þátt en formula_11 (þáttað formula_12) og formula_9 (formula_14) eru hins vegar samþátta þar sem þær deila þættinum formula_15. Talan einn er ósamþátta öllum heiltölum og því er formula_16 alltaf jafnt og 1 þegar formula_3 er heiltala. Almennt brot af gerðinni formula_18 þar sem formula_19 og formula_20 eru ósamþátta heiltölur telst vera fullstytt brot. formula_21-fall Eulers formula_22 skilar fjölda heiltalna sem eru ósamþátta formula_23. Nota má keðjudeilingu (reiknirit Evklíðs) til að ákvarða hvort tvær tölur séu ósamþátta. Loðvík 7. Frakkakonungur. Loðvík 7. (1120 – 18. september 1180), kallaður Loðvík ungi (franska ("Louis le Jeune") var konungur Frakklands frá 1137 til dauðadags. Eins og forfeður hans átti hann í erjum við baldna lénsmenn sína en einnig hófst aldalöng barátta Frakka og Englendinga á valdatíma hans. Uppvöxtur. Loðvík var af Kapet-ætt, næstelsti sonur Loðvíks digra Frakkakonungs og seinni konu hans, Adélaide de Maurienne. Honum var ætlað að öðlast frama innan kirkjunnar en þegar hann var ellefu ára varð hann skyndilega erfingi frönsku krúnunnar þegar Filippus, eldri bróðir hans, fórst í slysi. Loðvík hafði dvalið löngum stundum í klaustrinu Saint-Denis hjá Suger ábóta, ráðgjafa föður síns, var vel menntaður og sérlega trúrækinn og hefði mun fremur viljað vera prestur eða munkur en konungur. Þegar hann var 17 ára sendi faðir hans hann til Bordeaux til að giftast Elinóru hertogaynju af Akvitaníu, sem þá hafði nýverið erft hertogadæmið eftir föður sinn. Fáeinum dögum eftir brúðkaupið dó Loðvík digri og ungu hjónin urðu konungur og drottning og ríktu jafnframt saman yfir Akvitaníu. Hjónaband þeirra var þó ekki gott því þau voru afar ólík, Elinóra lífsglöð og veraldlega sinnuð en Loðvík siðavandur og alvarlegur. Hann er þó sagður hafa elskað hana heitt. Stríð við Teóbald 2.. Þrátt fyrir trúrækni sína lenti konungur í deilum við Innósentíus II páfa, fyrst út af tilnefningu nýs biskups í Bourges og svo þegar Raoul af Vermandois, frændi konungs, afneitaði konu sinni til að geta gifst Petrónellu, yngri systur Elinóru drottningar. Fyrir bænarstað konu sinnar heimilaði Loðvík þeim að giftast en Teóbald 2. af Champagne, bróðir fyrri konu Raouls, tók þetta afar illa upp og fór í stríð við konunginn. Hann studdi líka biskupsefni páfans í embættið í Bourges. Stríðið stóð frá 1142-1144. Loðvík hertók Champagne og lét brenna bæinn Vitry-le-François. Yfir þúsund manns fórust í eldinum og tók Loðvík það afar nærri sér, hvarf burt frá Champagne með lið sitt, samþykkti tilnefningu páfabiskupsins og setti Raoul og Petrónellu í ónáð. Til að bæta fyrir syndir sínar hét hann því á jóladag 1145 að fara í krossferð. Krossferðin. Loðvík og Elinóra sigla heim úr krossferðinni. Hann hélt svo af stað í Aðra krossferðina í júní 1147 og fór Elinóra drottning með honum ásamt fylgdarliði. Þau héldu landleiðina til Sýrlands með viðkomu í Konstantínópel og komust til Antiokkíu 1148 eftir mikið harðræði - Loðvík hafði meðal annars sloppið naumlega þegar Tyrkir slátruðu hluta af her hans af því að hann var klæddur hversdagslegum kufli eins og pílagrímur en einkennisklæddir lífverðir hans voru strádrepnir. Hann var þó sagður hafa gengið vasklega fram sjálfur í bardaganum. Í Antiokkíu réði Raymond af Poitiers, föðurbróðir Elinóru, ríkjum og fékk hún Loðvík til að leggja honum lið í bardögum við Aleppó-menn. Loðvík vildi þó umfram allt komast til Jerúsalem og tókst loks að komast þangað. Þar tók hann höndum saman við Konráð 3. Þýskalandskonung og Baldvin 3., konung Jerúsalem, og settust þeir um Damaskus. Það umsátur mistókst þó hrapallega og Loðvík ákvað að halda heim, þrátt fyrir andstöðu Elinóru, sem vildi leggja frænda sínum lið áfram. En Loðvík neitaði að verða við óskum hennar að þessu sinni og þau héldu heim sjóleiðina 1149; Raymond féll svo í bardaga þá um sumarið. Skilnaður og seinni hjónabönd. Loðvík og Adela drottning fá langþráðan son frá Kristi. Samkomulag Loðvíks og Elinóru fór síversnandi og konungsríkið skorti erfingja - þau áttu tvær dætur en engan son. Elinóra vildi segja skilið við mann sinn og hann samþykkti það loksins. Þann 21. mars 1152 var hjónaband þeirra dæmt ógilt með páfaleyfi á þeiri forsendu að þau væru of skyld til að eigast, en þau voru bæði afkomendur Róberts 2. Frakkakonungs. Dætur þeirra tvær, María og Alix, skyldu þó teljast skilgetnar. Elinóra skyldi jafnframt fá hertogadæmið og aðrar eignir sínar aftur. Nokkrum vikum síðar giftist hún Hinrik 2. Englandskonungi og varð hann þar með hertogi Akvitaníu með henni. Loðvík giftist Konstönsu, dóttur Alfons 7. Kastilíukonungs, árið 1154, en eignaðist ekki son með henni heldur, aðeins tvær dætur, Margréti og Alísu. Hinrik 2. Englandskonungur hafði augun opin fyrir þeim möguleika að Loðvík eignaðist ef til vill engan son og samdi því þegar árið 1160 um hjúskap Hinriks, elsta sonar síns, og Margrétar (þau voru þá fimm og tveggja ára), með það fyrir augum að tryggja sátt milli ríkjanna en einnig með það í huga að sonur þeirra gæti hugsanlega erft bæði ríkin. Sá möguleiki hvarf þó fljótlega úr sögunni. Konstansa drottning dó af barnsförum 4. október sama ár og fimm vikum síðar gekk Loðvík að eiga Adelu af Champagne, dóttur Teóbalds fyrrum fjandmanns síns. Árið 1165 fæddist loks langþráður sonur, Filippus 2. Ágústus. Þau áttu líka dótturina Agnesi. Efri ár Loðvíks. Þegar synir Hinriks 2. urðu baldnir og gerðu tíðar uppreisnir gegn föður sínum, studdi Loðvík þá og reyndi að notfæra sér deilurnar innan Plantagenetfjölskyldunnar til að auka eigin áhrif. Það tókst þó ekki sem skyldi, meðal annars vegna innbyrðis ósættis prinsanna. Á stjórnartíma hans töpuðust ýmis landsvæði og hann var vondur herstjóri en ýmislegt var hins vegar bætt í stjórnkerfi ríkisins og hann átti góð samskipti við kirkjuna á síðari hluta stjórnartíðar sinnar. Framfarir urðu í landbúnaði og verslun, fólki fjölgaði og menntun batnaði; meðal annars var Parísarháskóli stofnaður. Árið 1179 var Filippus krýndur meðkonungur föður síns í Reims og var hann síðasti Frakklandskonungur sem krýndur var að forvera sínum lifandi. Loðvík gat þó ekki verið viðstaddur krýninguna þar sem hann var sjúkur og lamaður. Hann dó haustið 1180. Þorláks saga. Þorláks saga fjallar um ævi og jarteinir Þorláks Þórhallssonar Skálholtsbiskups, sem dó árið 1193. Á norrænu finnst sagan í þremur gerðum, sem stundum eru auðkenndar með bókstöfunum A, B og C, eftir aldri þeirra. Yngri gerðirnar segja meðal annars frá staðamálum. Einnig hefur saga af biskupi verið til í fjórum latneskum gerðum. Þessi söguritun virðist hafa byrjað skömmu eftir að Íslendingar lýstu Þorlák helgan mann 1198, og hefur að minnsta kosti höfundur elstu sögunnar mátt hafa góða frásögn. En ekki er í þeirri gerð sagt frá deilumálum, sem vörðuðu föður Páls biskups Jónssonar, sem varð eftirmaður Þorláks og dó árið 1211. Þetta hefur verið talið benda til ritunar undir handarjaðri hans. Jarteinabækur Þorláks helga. Jarteinabækur Þorláks helga geyma frásagnir af máttarverkum, sem svo voru álitin og þökkuð Guði fyrir árnaðarorð Þorláks biskups Þórhallssonar. Þessar bækur urðu ekki færri en þrjár. Eftir að áheit voru leyfð á Þorlák biskup 1198, fóru gjafir að berast til Skálholts og frásagnir af jarteinum. Páll Jónsson biskup lét skrá þetta skipulega á bók, sem var lesin í heyranda hljóði á Alþingi sumarið 1199. Í bókinni eru 46 frásagnir, sem allar eru úr biskupsdæminu og allar gerðust á undanfarandi einu ári. Margar þeirra eru beinlínis kallaðar jarteinir og þakkaðar Guði og hinum sæla Þorláki biskupi, en stundum er ekki sagt svo mikið. Nálægt fjórðungur af þessum frásögnum varðar búpening og búskap og meira en þriðjungur læknngu af mannanna meinum, fjórar snúa að ferjusiglingum, tvær að ölbruggun, tvisvar kemst fólk frá dukknun og nokkrar varða týnda hluti. Síðar voru fleiri bækur ritaðar með jarteinum Þorláks. Í þeim er blandað saman frásögnum úr Skálholtsbiskupsdæmi, frá Norðurlandi og úr öðrum löndum. Þessar bækur þykja í mörgu sýna áhugaverðar þjóðlífsmyndir. Einna lengst að komin er frásögnin um væringja í Miklagarði, sem voru hætt komnir í herkví en hlupu fram með orðunum: "Göngum nú fram þrekmannlega í trausti hins sæla Þorláks biskups og sigrumst snarplega eða deyjum allir drengilega." Þeir unnu fagran sigur á ofurefli heiðingja, og síðan var kirkja reist þar eystra og helguð Þorláki. Þorláksskrín. Þorláksskrín var smíðað nálægt árinu 1200 utan um líkamsleifar Þorláks helga. Það stóð yfir háaltari í dómkirkjunni í Skálholti og var verðmætasti gripur á Íslandi. Það var borið í helgigöngum á messudögum hans. Fyrir verðleika Þorláks gerðust frammi fyrir skríninu alls konar jarteinir: „Þar fá blindir sýn, daufir heyra, krypplingar réttast, líkþráir hreinsast, haltir ganga, vitstolnir og djöfulóðir fá fulla bót, herteknir frjálsast, hvar á löndum er kalla á hans nafn. Mállausir fá mál, og alls konar innansóttir og sjúkleikar batna þar, og það er ekkert til meins mönnum eða fénaði, á sjó eða landi, að Guð gefur eigi heilsu og hjálp fyrir árnaðarorð síns blessaða vinar, Þorláks biskups, þegar á hann er heitið.“ Páll Jónsson biskup fékk til að gera þetta skrín fyrir helgan dóm Þorláks „gullsmið þann, er Þorsteinn hét og þá var hagastur maður að málmi á öllu Íslandi... lagðist þar til ógrynni fjár í gulli og gimsteinum og í brenndu silfri. Hann lagði þar og eigi minna fé til skrínis og smíðarkaups með tillögum annarra manna en fjögur hundruð hundraða. Það smíði var mjög vandað, að það bar eigi minna af öðrum skrínum, þeim er á Íslandi voru, um fegurð en um vöxt, og var það betur en þriggja álna...“ Á siðskiptatímanum lét Gissur Einarsson setja það afsíðis í Skálholtskirkju. Síðast er vitað af skríninu, að það var selt á uppboði í Skálholti 1802. Jón Helgason biskup bætti því við, að Gissur hefði látið „taka skrautið af skríni Þorláks og síðan eyða því. Þó voru til einhverjar leifar af því í Skálholti eftir það, og lét Brynjólfur biskup búa til nýtt skrín úr því, er geymdi skininn lærlegg úr manni. Þetta bein tók Jón biskup Vídalín 1715 og lét grafa niður í kirkjugarði.“ Símavændi. Símavændi er símasamtal tveggja einstaklinga, þar sem annar aðilinn borgar fyrir veitta kynferðislega örvun. Oftast er um að ræða tvo einstaklinga, en einnig eru til fjöldasamtöl. Norræna stofnunin í Finnlandi. Norræna stofnunin í Finnlandi (Nifin) er menningarstofnun rekin af Norrænu ráðherranefndinni. Markmið stofnunarinnar er að miðla þekkingu um tungumál og menningu Norðurlandanna í Finnlandi og þekkingu um finnsku og menningu Finnlands annars staðar á Norðurlöndum. Ennfremur sér Norræna stofnunin í Finnlandi í samvinnu við systurstofnanir sínar og hús á Norðurlöndunum um að efla menningartengsl milli Norðurlandanna og nágrannaríkja þeirra. Í Nifin er að finna Norrænt bókasafn með u.þ.b. 16.000 titlum. Auk fagurbókmennta og fræðibóka er þar einnig að finna tímarit, geisladiska, myndbönd og margmiðlunarefni. Bóksafnið er opið öllum. Nifin býður reglulega upp á menningarviðburði af ýmsu tagi, m.a. rithöfundakvöld, lista- og kvikmyndasýningar og fyrirlestra um norræn málefni oft í samstarfi með öðrum stofnunum og menningarmiðstöðum. Ennfremur skipuleggur Nifin ráðstefnur og býður upp á tungumálanámskeið í norrænum málum, gefur út efni um Norðurlöndin og norræn tungumál. Nifin starfar náið með skólum og menntastofnunum í Finnlandi. Nifin var sett á stofn árið 1997 og er til húsa í byggingu Norræna fjárfestingabankans við Kaisaniemenkatu 9 í miðbæ Helsinki. Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar. Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar eru verðlaun sem Samband ungra sjálfstæðismanna hafa veitt árlega frá árinu 2007. Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Kjartani Gunnarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi bankaráðsmanns Landsbankans. Nokkuð var gagnrýnt að samtökin InDefence skyldu taka við verðlaununum árið 2010 í ljósi þess að samtökin höfðu mjög látið að sér kveðja í umræðunni um Icesave reikningana og þótti mörgum kaldhæðnislegt að samtökin tækju við verðlaunum sem kennd voru við mann svo nátengdan Icesave reikningunum. Stjórn SUS ákvað að nefna verðlaunin eftir Kjartani til að heiðra það starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar. Kraftaverk. Kraftaverk eða "máttarverk" er óvæntur atburður, sem þakkaður er guðdómlegri hjálp. Stundum er álitið, að kraftaverkamaður, dýrlingur eða trúarleiðtogi eigi þátt í, að þessi hjálp sé veitt. Á íslensku voru kraftaverk fyrr á öldum oftast kölluð "jarteinir" eða "jarteiknir". Magnús Hinriksson. Magnús Hinriksson (d. 1161) var danskur aðalsmaður og líklega konungur Svíþjóðar 1160-1161. Það er þó óvíst því samkvæmt einhverjum heimildum dó Eiríkur helgi, forveri hans, ekki fyrr en 1162 og afar fáar heimildir eru um konungstíð Magnúsar. Magnúsar er fyrst getið 1148. Hann var sonur Hinriks halta, sem var sonur Sveins, eins margra sona Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Kona Hinriks og móðir Magnúsar var Ingiríður Rögnvaldsdóttir, dóttir Rögnvaldar konungs stutthöfða. Hún giftist síðar Haraldi gilla Noregskonungi, síðan Óttari birtingi og að lokum Árna Ívarssyni á Stoðreimi. Sonur þeirra Haraldar og hálfbróðir Magnúsar var Ingi krypplingur, Noregskonungur. Magnús giftist stjúpsystur sinni, Brígiðu, sem var óskilgetin dóttir Haraldar gilla. Ekki er vitað til þess að þau hafi átt barn saman. Árið 1160 tók Magnús sér konungsvald í Svíþjóð eftir að hafa ráðið Eirík konung helga af dögum. Konungstíð hans var þó ekki löng því 1161 féll hann í bardaga við Karl Sörkvisson, sem varð síðan konungur. Brígiða ekkja hans giftist aðalsmanninum Birgi Brosa og átti með honum fjölda barna, þar á meðal Ingigerði, konu Sörkvis yngri Karlssonar. Karl Sörkvisson. Karl Sörkvisson (1130 – 12. apríl 1167) var konungur Svíþjóðar allrar frá 1161 til dauðadags. Hann var sonur Sörkvis eldri Svíakonungs, sem var drepinn árið 1155 eða 1156, og Úlfhildar Hákonardóttur. Sennilega hefur hann orðið konungur eða jarl Austur-Gautlands þegar við lát föður síns en vitað er að Eiríkur helgi réði Vestur-Gautlandi 1158. Danski aðalsmaðurinn Magnús Hinriksson réð Eiríki helga bana árið 1160 og tók sér konungsnafn, en árið 1161 féll hann í bardaga við Karl Sörkvisson. Eftir það nefndi Karl sig konung Svía og Gauta. Lítið er vitað um ríkisstjórnartíð hans. Rússneskar heimildir segja að Svíar hafi farið í misheppnaða krossferð til Rússlands árið 1164 en um hana er ekkert vitað. Á ríkisstjórnartíma hans fengu Svíar sinn fyrsta erkibiskup, Stefán. Árið 1163 hafði Karl gengið að eiga Kristínu, dóttur skánska höfðingjans Stígs Hvide, en móðir hennar var Margrét, systir Valdimars mikla. Sonur þeirra var Sörkvir. Vorið 1167 sneri Knútur Eiríksson, sonur Eiríks helga, heim úr útlegð, barðist við Karl á Visingö, eyju í Vättern, felldi hann og varð síðan konungur, enda var Sörkvir yngri þá aðeins þriggja ára. Karl er grafinn í klaustrinu í Alvastra, sem foreldrar hans höfðu stofnað. Innsigli hans er elsta sænska konungsinnsiglið sem varðveist hefur. Karl var fyrsti Svíakonungurinn með því nafni og ætti því að kallast Karl 1. Hann er hins vegar stundum nefndur Karl 7. en það er seinni tíma uppfinning og miðast við niðurtalningu frá Karli 9., sem tók sér konungsheiti út frá "Gothorvm sveonvmqve historia" (Saga Gota og Svía), sem Johannes Magnus skrifaði á 16. öld og er uppspuni. Lyferfðamengjafræði. Lyferfðamengjafræði miðar að því að beita verkfærum og nálgunum erfðamengjafræðinnar til að rannsaka eiginleika lyfja, leita að lífvirkum efnum og kanna viðbrögð sjúklinga við lyfjum og meðferð. Fræðigreinin hefur haslað sér völl á undanförnum áratug. Sérstakt tímarit "Pharmacogenomics" var einmitt stofnað árið 2000. Sörkvir yngri Karlsson. Mynt sem Sörkvir yngri lét slá. Sörkvir yngri Karlsson (1164 – 17. júlí 1210) var konungur Svíþjóðar frá 1196 þar til honum var steypt af stóli 1208. Hann var af Sörkvisætt, sonur Karls Sörkvissonar, sem var konungur Svíþjóðar 1161-1167, og konu hans, Kristínar Stígsdóttur. Hann var aðeins þriggja ára þegar Knútur Eiríksson lét drepa föður hans og settist sjálfur í hásætið. Móðir hans fór þá með hann til ættingja sinna í Danmörku og þar ólst hann upp. Þegar Knútur konungur dó 1196 var sömu sögu að segja, synir hans fjórir voru of ungir til að verða konungar og því sneri Sörkvir heim til Svíþjóðar og var kjörinn konungur með stuðningi jarlsins Birgis Brosa. Sörkvir hafði gifst danskri aðalsjómfrú sem hét Benedikta Ebbadóttir eða Bengta Hvide fyrir eða um 1190 og átti með henni að minnsta kosti þrjú börn. Hún var dáin fyrir árið 1200, því þá giftist Sörkvir Ingigerði dóttur Birgis Brosa. Erfðadeilurnar milli Sörkvisættar og Eiríksættar náðu hámarki á valdatíma Sörkvis yngri. Birgir Brosa, sem hafði verið mjög áhrifamikill, dó 1202 og Sörkvir gerði ársgamlan son sinn, Jóhann, að jarli í hans stað. Það líkaði sonum Knúts Eiríkssonar, sem höfðu alist upp við hirð Sörkvis, illa. Þeir fóru að gera kröfu til ríkis og voru gerðir eða fóru í útlegð til Noregs. Þeir sneru aftur með herlið árið 1205 og nutu stuðnings Birkibeina. Sörkvir vann þó sigur á þeim og felldi þrjá þeirra en sá fjórði, Eiríkur, komst undan. Eiríkur sneri svo aftur í ársbyrjun 1208 með norskan liðsauka og tókst að vinna sigur á her Sörkvis, sem stýrt var af Ebba Súnasyni, fyrrverandi tengdaf0ður hans, í orrustunni við Lena 31. janúar. Eiríkur hrakti Sörkvi í útlegð til Danmerkur og tók sér sjálfur konungsnafn. Sörkvir hafði verið í góðu sambandi við páfastól og stuðlaði að auknum áhrifum páfa í Svíþjóð en Eiríksættin vildi auka sjálfstæði sænsku kirkjunnar. Sörkvir naut því stuðnings Innósentíusar III páfa, sem reyndi að beita áhrifum sínum til að koma honum aftur á konungsstól, en Svíar sinntu því engu, enda var Sörkvir oft álitinn danskur konungur. Árið 1210 gerði hann innrás í Svíþjóð með stuðningi Dana og freistaði þess að ná krúnunni að nýju en féll í orrustunni við Gestilren 17. júlí. Fólki jarl, sonur Birgis Brosa, féll í orrustunni við hlið Sörkvis. Sonur hans, Súni, er sagður hafa rænt Helenu, dóttur Sörkvis af fyrra hjónabandi, eftir orrustuna og gifst henni. Dóttir þeirra var Katrín, kona Eiríks konungs smámælta og halta. Skriftaboð Þorláks helga. Skriftaboð Þorláks helga var leiðarvísir skriftaföður eftir Þorlák Þórhallsson sem var ætlaðar til að leiðbeina prestum hvernig menn skyldu bæta fyrir ýmsar þær syndir sem menn játuðu í skriftarstól. Þorlákur Þórhallsson tók vígslu sem Skálholtsbiskup árið 1178 og er talinn hafa skrifað skriftaboðin snemma í biskupsdómi sínum. Almennur hluti. Skriftaboðin setja almennar reglur, einkum þessar: „Meira skal bjóða ávallt fyrir jafna synd auðgum en aumum, meira heilum en vanheilum, meira lærðum en ólærðum, meira meir vígðum en miður vígðum, meira sælum en vesælum, meira eldri en tvítugum en þeim er yngri eru.” Einnig er gert ráð fyrir meiri yfirbótum, ef brot eru framin á þeim tímum kirkjuársins, þegar sérstaklega á að hafa kristindóm hugfastan. "Ástæða" skiptir máli, hvort til dæmis er stolið fyrir illsku sakir eða vesældar. Einnig "leiðrétting á broti", hvort þýfi er til dæmis skilað. Sérstakur hluti. Mestur hluti skriftaboðanna er upptalning á einstökum brotum og yfirbótum fyrir þau. Skírlífisbrot eru fyrirferðarmest. Þyngstar yfirbætur varða það, að fólk hafi átt mök við samkynja fólk og búfé. Ef skyldmenni hafa lagst hvort með öðru, er í alllöngu máli gerður greinarmunur á, hve náin þau eru, en allt eru þetta álitin alvarleg brot. „Fyrir það skal minnst bjóða [þ.e. sekta], sem misgert er vakandi manni, ef hann saurgast af blíðlæti við konu. Þetta er minnst sök. Meira ef hann saurgast af höndum sínum sjálfs. Meira ef hann saurgast af tré boruðu. Mest af hann saurgast af annars karlmanns höndum“. Einnig er tekið á nokkrum annars konar brotum, til dæmis þetta: Spúi einhver á páskum eða þá er hann hefur nýlega tekið Corpus Domini, þótt eigi sé á páskum, þá skal bjóða að fasta sex dægur eina, ef af ofáti einu saman þykir vera og engri annarri vanheilsu. Biskups úrskurður. Nokkur alvarlegustu brot skal prestur ekki útkljá í skriftum, heldur sjálfur biskupinn skriftir skepja: Ef maður misþyrmir móður sinni eða dóttur eða systur eða þeirri konu nokkurri, er nánari er en systrunga að frændsemi eða sé þvílík mein að sifjum, eða sé misþyrmt kirkju eða helgum stöðum, eða vekur maður kristnum mönnum heiftar blóð, eða misbýður nokkru mjög kennimönnum, eða bölvar maður föður sínum eða móður, eða móðir barni sínu, eða guðlastar maður, eða tekur maður nauðuga konu berlega, eða situr maður úti til fróðleiks, eða fremur maður galdra eða þá hluti nokkra, er magnaðir séu. Biskup áskildi sér einnig að fjalla um sum afglöp presta við messugerð. Tegundir yfirbóta. Yfirbætur fólust meðal annars í föstuhaldi, allt að áratug fyrir mestu brotin, því að halda sig frá altarissakramentinu, einnig allt að nokkrum árum, bænahaldi (fara til dæmis 50 sinnum með Faðirvorið), knébeðjaföllum (svo að bæði komi niður hné og olnbogar, ef fólk er heilbrigt), veita fátækum og slá sig jafnvel með píski eða belti. Jóhann Sörkvisson. Mynt slegin á ríksstjórnarárum Jóhanns. Jóhann Sörkvisson (1201 – 10. mars 1222) eða Jón Sörkvisson var konungur Svíþjóðar frá 1216 til dauðadags. Jóhann var sonur Sörkvis yngri Svíakonungs og Ingigerðar, dóttur Birgis Brosa jarls. Hann var sjö ára þegar faðir hans var rekinn frá völdum og Eiríkur Knútsson tók við. Eiríkur dó svo óvænt úr hitasótt árið 1216. Ríkissa drottning var þunguð og ól son nokkru eftir lát manns síns og var honum gefið nafnið Eiríkur. Sænski aðallinn vildi þó ekki fá kornabarn á konungsstól og valdamiklir ættingjar Jóhanns í móðurætt studdu kosningu hans. Páfi, sem nokkrum árum fyrr hafði stutt Sörkvi yngri gegn Eiríki Knútssyni, lagðist nú á sveif með Eiríki hinum unga en úr varð að Jóhann var kosinn. Hann var þó ekki fullveðja sjálfur og var ekki krýndur fyrr en 1219. Honum er svo lýst að hann hafi verið bernskur og afar mildur og góðviljaður. Jóhann fór í misheppnaða kristniboðsferð til Eistlands 1220. Eftir að hann var sjálfur farinn heim féllu frændi hans, Karl daufi jarl, og Karl Magnússon biskup í orrustu við Eista. Raunar kom í ljós að bæði Danir og Þjóðverjar höfðu verið á ferð í Eistlandi og voru búnir að kristna flesta heiðingjana. Jóhann dó ógiftur og barnlaus 1222. Hann var síðasti konungurinn af Sörkvisætt og Eiríkur hinn smámælti og halti, sem var nú orðinn sex ára gamall, tók við krúnunni. Álfheiður Kjartansdóttir. Álfheiður Kjartansdóttir (8. október 1925 – 28. nóvember 1997) var íslenskur þýðandi og blaðamaður. Hún þýddi fjölda barnabóka, Kvikmyndahandbókina og bækur eftir jafn ólíka höfunda og Per Anders Fogelström ("Sumarið með Móniku"), Hammond Innes, Mary Stewart og Marilyn French, en einnig kafla í bókinni ' eftir Míkhaíl Sergejevítsj Gorbatsjov. Álfheiður var dóttir Kjartans Ólafssonar frá Hafnarfirði, lögregluþjóns og lengi bæjarfulltrúa þar, og konu hans Sigrúnar Guðmundsdóttur. Eldra barn þeirra var Magnús, ritstjóri og ráðherra. Álfheiður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1945 og innritaðist í norrænu þá um haustið. Hún lauk prófi í forspjallsvísindum um vorið en hélt þá til náms til Kaupmannahafnar. Þar giftist hún 2. apríl 1947 fyrri manni sínum, Guðna Guðjónssyni grasafræðingi. Þau skildu. Álfheiður giftist síðan aftur 27. nóvember 1954 seinni manni sínum Jóhannesi Jóhannessyni listmálara og gullsmið. Árið 1977 hóf Álfheiður nám í málvísindum og lauk BS gráðu í þeim frá Háskóla Islands 1983. Þegar í menntaskóla þýddi Álfheiður sína fyrstu bók, en þýðingar gerði hún síðar að ævistarfi, fyrst með verslunarstörfum, blaðamennsku og barnauppeldi, en síðar varð það hennar aðalstarf. Álfheiður var félagi í Rithöfundasambandi íslands. Fljótshlíð. Fljótshlíð er sveit í Rangárvallasýslu. Fyrir vestan hana er hinn forni Hvolhreppur, að sunnan Vestur- og Austur-Landeyjar og að suðaustan Vestur-Eyjafjallasveit. Fljótshlíðarhreppur náði yfir Fljótshlíð en hefur verið lagður niður sem sérstakt sveitarfélag. Löngum voru tvö prestaköll í Fljótshlíð. Annað var nefnt Fljótshlíðarþing, helstu kirkjur í Teigi, í Eyvindarmúla og á Hlíðarenda. Hitt prestakallið var kennt við Breiðabólstað, og undir það féllu að fornu annexíurnar Lambey, Ey, Þorvarðsstaðir og Vellir, auk bænhúss í Vatnsdal. Frá 1880 lögðust Fljótshlíðarþing undir Breiðabólstað. Fjölmargar jarðir í Fljótshlíð eru nú að öllu leyti eða hluta í eigu efnamanna af höfuðborgarsvæðinu sem sumir eru búsettir þar allt árið en aðrir eru þar eingöngu um helgar eða í leyfum. Á fæstum þessara jarða er rekinn hefðbundinn búskapur þótt sumir séu þar með hesta. Nú eru hátt á annað hundrað sumarbústaðir í Fljótshlíð. Fasta. Fasta eða "föstuhald" felst í því að neita sér um suman eða allan mat í lengri eða skemmri tíma. Hún getur verið gerð til heilsubótar, en í trúarbrögðum er hún yfirleitt gerð í yfirbótarskyni. Kristni. Föstuhald er ekki með einu móti í kristnum sið, á seinni árum einna mest í orþódoxum kirkjum, meðan ýmsar kirkjudeildir gera engar kröfur um föstuhald. Meðal annars er að þessu vikið í "Matteusarguðspjalli" 9.15, "Markúsarguðspjalli" 2.20 og "Lúkasarguðspjalli" 5.35. Föstuboð Þorláks helga. Föstuboð Þorláks helga var tilskipun eða boð Þorláks helga frá 1180 um föstuhald í Skálholtsbiskupsdæmi. Frá þeim segir í sögu hans: “Um daga Þorláks biskups var í lög leitt að halda heilagt Ambrosíusdag og Sessilíudag og Agnesardag og að fasta náttföstur fyrir postulamessur og Nikulásmessu. Hann bauð ríkt að halda frjádaga föstu, svo að engan skyldi tvímælt eta rúmhelgan, nema þann einn, er í páskaviku er. Hann hélt svo ríkt sjálfur frjádaga, að hann át alla þurrt, ef hann var heill, en hann var svo linur og hægur í því, þá er hann var sjúkur, að hann át hvítan mat á imbrudögum og frjádaga, ef hann var þess beðinn...” Föstuboð Þorláks tóku til þeirra, sem voru á aldrinum 16-70 ára og voru heilir heilsu, og nokkru linara var boðið, ef fátækt fólk átti ekki viðeigandi föstumat. Þessi boð eru prentuð í "Íslenzku fornbréfasafni". 12 mR. Tólf metra kjölbáturinn "Freedom" sem varði Ameríkubikarinn árið 1980. Tólf metra kjölbátur (12mR eða tólfa) er flokkur kappsiglingaskúta sem eru hannaðar samkvæmt alþjóðlegu metrareglunni. „Tólf metra“ á ekki við um lengd bátsins, en tólf metra kjölbátar eru oftast 20-23 metrar að lengd. Fyrsta tólfan var smíðuð árið 1907 og þessi gerð var ólympíubátur á ólympíuleikunum 1908, 1912 og 1920 en fáir bátar tóku jafnan þátt. Sumir af þessum bátum voru slúppur með gaffalseglum. Frá 1958 til 1987 var þessi gerð notuð til að keppa í Ameríkubikarnum. Allir þeir bátar voru með bermúdaseglum. Access 2.3. International Access 2.3 er lítill 2,3 metra langur kjölbátur fyrir einn siglingamann með eitt bermúdasegl og flatt stefni hannaður af ástralska skútuhönnuðinum Chris Mitchell á 10. áratug 20. aldar. Upphaflega hugmyndin var sú að hanna eins manns seglbát sem líka væri auðvelt að róa. Bátnum er ætlað að vera öruggur byrjendabátur sem hentar líka fötluðum siglingamönnum. Siglingamaðurinn situr ofaní bátnum þannig að hann snýr fram og stýrir með stýripinna aftan á kjölkistunni sem er tengdur við stýrið með böndum. Bóman situr hátt á mastrinu svo hún rekist ekki í höfuð siglingamannsins í vendingum. Fellikjölurinn er 20 kíló og báturinn er borðhár og -breiður til að veita hámarksöryggi. Hægt er að fá Access 2.3 með rafmótorstýringu fyrir stýri og stórskaut fyrir siglingamenn með takmarkaða hreyfigetu. Access 303. Access 303 er lítill 3,03 metra langur og 1,35 metra breiður kjölbátur fyrir einn til tvo siglingamenn með eitt bermúdasegl og sjálfvendandi fokku hannaður af ástralska skútuhönnuðinum Chris Mitchell fyrir fyrirtæki sitt Access Dinghies Systems. Bátnum er ætlað að vera öruggur kjölbátur sem hentar líka fötluðum siglingamönnum. Líkt og í Access 2.3 sitja siglingamennirnir ofaní bátnum hlið við hlið þannig að þeir snúa fram og stýra með stýripinna aftan á kjölkistunni sem er tengdur við stýrið með böndum. Bóman situr hátt á mastrinu svo hún rekist ekki í höfuð siglingamanna í vendingum. Fellikjölurinn er 30 kíló og báturinn er borðhár og -breiður til að veita hámarksöryggi. Hægt er að fá Access 303 með rafmótorstýringu fyrir stýri og stórskaut fyrir siglingamenn með takmarkaða hreyfigetu. Einn bátur af þessari gerð var tekinn í notkun af siglingafélaginu Nökkva árið 2011. Access Liberty. Access Liberty er 3,6 metra langur einmenningskjölbátur með eitt bermúdasegl, sjálfvendandi rúllufokku og tvö stýrisblöð hannaður af ástralska skútuhönnuðinum Chris Mitchell fyrir fyrirtæki hans Access Dinghies Systems. Bátnum er ætlað að vera öruggur en hraðskreiður keppnisbátur sem hentar líka fötluðum siglingamönnum. Líkt og í öðrum Access-bátum situr siglingamaðurinn í sæti ofan í bátnum þannig að hann snýr fram og stýrir með stýripinna aftan á kjölkistunni sem er tengdur við stýrið með böndum. Bóman liggur skáhallt upp frá mastrinu svo hún rekist ekki í höfuð siglingamannsins í vendingum. Fellikjölurinn er 72 kíló og báturinn er borðhár og -breiður með tvö stýrisblöð til að veita hámarksöryggi þótt hann halli mikið. Hægt er að fá Access Liberty með rafmótorstýringu fyrir stýri og stórskaut fyrir siglingamenn með takmarkaða hreyfigetu. Kormákur Ögmundarson. Kormákur Ögmundarson var íslenskt skáld um miðja 10. öld, sonur Ögmundar Kormákssonar á Mel í Miðfirði og Döllu Önundardóttur. Um hann er "Kormáks saga", sem talin er ein af eldri Íslendingasögum, en einnig er hans getið í Grettis sögu, Egils sögu og Landnámabók. Honum er svo lýst í Kormáks sögu:„Hann var svartr á hár ok sveipr í hárinu, hörundljóss ok nökkut líkr móður sinni, mikill ok sterkr, áhlaupamaðr í skapi.“ Kormáks saga fjallar aðallega um ástir Kormáks og Steingerðar Þorkelsdóttur og virðist vera að miklu leyti skrifuð í kringum ástarvísur sem hann orti til hennar. Brúðkaup þeirra hafði verið ákveðið en vegna álaga sem fjölkunnug kona að nafni Þórveig hafði lagt á Kormák varð ekkert af því. Steingerður giftist svo Hólmgöngu-Bersa og skoraði Kormákur hann á hólm en felldi hann þó ekki. Seinna sagði Steingerður skilið við Bersa og giftist þá manni sem hét Þorvaldur tinteinn. Kormákur fór til Noregs og í herför til Írlands með Haraldi konungi gráfeldi, kom aftur heim en fór utan öðru sinni, var með Sigurði jarli Hákonarsyni og orti þá "Sigurðardrápu", sem varðveitt er í Snorra-Eddu. Hann féll að lokum á Skotlandi. Knútur langi. Mynt sem Knútur langi lét slá. Knútur langi Hólmgeirsson (d. 1234) var konungur Svíþjóðar frá 1229 til dauðadags. Ekki er fullvíst um ætt hans en margt bendir til að hann hafi verið bróður- eða systursonur Knúts konungs Eiríkssonar. Þegar Jóhann Sörkvisson, síðasti konungur af Sörkvisætt, dó árið 1222 varð Eiríkur hinn smámælti og halti, sonur Knúts Eiríkssonar, konungur en hann var þó aðeins sex ára gamall og var landinu því stýrt af ríkisráði. Einn meðlimur þess var Knútur langi. Hann gerði svo uppreisn gegn konungi og vann sigur á fylgismönnum Eiríks í orrustunni við Olustra í Södermanland árið 1229. Eftir það tók Knútur sér konungnafn og kallaðist Knútur 2. Fáum sögum fer af konungstíð hans en hann dó 1234 og þá tók Eiríkur aftur við krúnunni. Kona Knúts var líklega af Fólkungaætt og kann að hafa verið dóttir Fólka Birgissonar jarls. Þau áttu tvo syni, Hólmgeir og Filippus, sem báðir féllu í átökum Fólkunga við Birgi jarl. Birgir jarl. Þessi samtímaynd af Birgi jarli er í Varnhemskirkju, þar sem hann er grafinn. Birgir jarl Magnússon (um 1210 – 21. október 1266) var sænskur jarl og valdamaður sem stýrði Svíþjóð í nafni Valdimars konungs, sonar síns, frá 1250-1266. Hann efldi mjög vald konungs í Svíþjóð og stýrði herförinni sem tryggði yfirráð Svía yfir Finnlandi. Hann er einnig talinn hafa stofnað höfuðborgina Stokkhólm um 1250. Birgir var af Bjälbo-ætt í Austur-Gautlandi og hétu foreldrar hans Magnús minnisskjöldur og Ingiríður Ylfa, sem sögð er hafa verið dótturdóttir Sörkvis eldri. Birgir Brosa jarl (d. 1202) var frændi hans og hét Birgir eftir honum. Seint á 4. áratug 13. aldar gekk hann að eiga systur Eiríks konungs smámælta og halta, Ingibjörgu. Á næstu árum styrkti Birgir mjög stöðu sína og var sennilega þegar orðinn einn valdamesti maður landsins þegar Eiríkur mágur hans gerði hann að jarli 1248. Eftir það var Birgir hinn raunverulegi stjórandi Svíþjóðar, allt þar til hann lést 1266. Árið 1249 tókst Birgi að binda enda á langvinnar deilur við Norðmenn og samdi þá meðal annars um trúlofun ellefu ára dóttur sinnar, Ríkissu, og Hákonar unga Hákonarsonar, sem hafði verið krýndur meðkonungur föður síns 1240 en var þó valdalaus. Þau giftust 1251 og áttu saman einn son sem dó ungur. Árið 1250 hélt Birgir svo í herför til Finnlands, sem seinna var kölluð Önnur sænska krossferðin, og tókst að ná Finnlandi endanlega undir sænsk yfirráð. Á meðan hann var þar lést Eiríkur konungur. Hann var barnlaus og Birgir flýtti sér heim til að fá elsta son sinn, Valdimar, kjörinn konung. Þegar hann kom heim hafði Valdimar, sem þá var aðeins um tíu ára gamall, þegar verið kjörinn og varð Birgir ríkisstjóri. Bæði fyrir og eftir lát Eiríks reyndu ýmsir aðalsmenn, þar á meðal synir Knúts konungs langa, að gera uppreisn gegn Birgi en hann bældi allt slíkt niður og lét taka syni Knúts af lífi. Birgir er oft sagður hafa stofnað borgina Stokkhólm en þáttur hans í því er þó óviss. Hann var síðasti jarlinn í Svíþjóð, titillinn var aldrei notaður eftir lát hans. Ingibjörg kona Birgis dó árið 1254 en 1261 giftist hann Mechthilde af Holtsetalandi, ekkju Abels Valdimarssonar Danakonungs. Hann dó 21. október 1266 og er grafinn í Varnhems-kirkju á Vestur-Gautlandi. Á meðal barna Birgis og Ingibjargar voru Ríkissa sem giftist fyrst Hákoni unga og síðar Hinrik fursta af Werle í Mecklenburg; Valdimar konungur; Magnús hlöðulás, konungur; Eiríkur hertogi af Smálöndum, sem sagður er hafa gefið sjálfum sér nafnið "Eiríkur alls-ekki", og Bengt eða Benedikt, hertogi af Finnlandi og biskup af Linköping. Einnig átti Birgir soninn Gregers. Valdimar Birgisson. Valdimar Birgisson Svíakonungur. Mynd í Skara-dómkirkju. Valdimar Birgisson (um 1240 – 26. desember 1302) var konungur Svíþjóðar frá 1250 til 1275, þegar hann var settur af. Valdimar var elsti sonur Birgis jarls Magnússonar og Ingibjargar Eiríksdóttur, sem var dóttir Eiríks Knútssonar konungs og systir Eiríks konungs smámælta og halta. Eiríkur dó barnlaus 1250 og var Valdimar systursonur hans, sem þá var um 10 ára gamall, valinn konungur í hans stað en faðirinn, Birgir jarl, varð ríkisstjóri. Hann hafði raunar verið valdamesti maður landsins síðustu árin sem Eiríkur lifði. Birgir stýrði Svíþjóð til æviloka og skpti þá litlu þótt Valdimar yrði myndugur. Þegar hann dó 1266 fékk Valdimar loks konungsvöld en mun hafa verið tilþrifalítill konungur og er raunar helst nafnkunnur fyrir ástarævintýri sín. Valdimar giftist Soffíu, elstu dóttur Eiríks plógpenings Danakonungs, árið 1260 og áttu þau allmörg börn. Árið 1272 átti hann í ástarsambandi við yngri systur hennar, Juttu, og er sagt að þau hafi átt barn saman. Juttu var þá komið fyrir í klaustri en skriftafeður Valdimars fyrirskipuðu honum að fara í pílagrímsferð til Rómar í yfirbótarskyni. Það gerði hann árið 1274 en þegar hann sneri aftur lenti hann í deilum við bræður sína, fyrst Eirík hertoga af Smálöndum og síðar Magnús hlöðulás, en deilur þeirra áttu sér líklega mun eldri rætur. Bræðurnir gerðu uppreisn gegn Valdimar, sem neyddist til að flýja til Noregs ásamt Soffíu drottningu. Hann reyndi að snúa aftur en var þá tekinn til fanga og neyddur til að segja af sér. Magnús hlöðulás tók völdin og var kjörinn konungur. Valdimar var svo sleppt úr haldi og hann gerður að hertoga af Gautlandi 1277. Um svipað leyti sagði Soffía drottning skilið við mann sinn og sneri heim til Danmerkur. Valdimar dvaldi sjálfur í Danmörku í níu ár en sneri síðan aftur heim og árið 1288 hneppti Magnús hann í varðhald í virkinu Nyköpingshus, að sögn vegna léttúðugs lífernis hans. Þar dvaldi hann þar til hann dó 1302 en mun þó hafa átt þægilega vist í fangelsinu og hafði meðal annars hjákonu sína þar með sér. Hallvarður Vébjörnsson. Hallvarður Vébjörnsson (um 1020 – 15. maí 1043) var bóndasonur á Vestfold í Noregi. Hann var í móðurætt náskyldur konungunum Ólafi helga og Haraldi harðráða. Hallvarður ætlaði eitt sitt að róa yfir vatnið Drafn, þegar að bar ánauðuga og vanfæra konu, sem bað hann að ferja sig, því að hún væri saklaus ásökuð um þjófnað og á flótta frá mönnum í vígahug. Hallvarður tók við konunni, en skömmu síðar bar að þrjá menn, sem hrundu fram öðrum báti og veittu þeim eftirför. Hallvarður bauð lausnargjald eða dóm á mál hennar en var skotinn með ör í hálsinn, sem var til ólífis. Menn þessir drápu konuna og urðuðu en bundu kvarnarstein um hálsinn á líki Hallvarðs og sökktu því. Það flaut um síðir upp, og jarteinir urðu við gröf hans, svo að Haraldur harðráði lét grafa upp líkið, smíða um það vandað skrín og flytja til kirkju í Osló. Þar var síðar reist mikil kirkja og helguð Hallvarði. Hann er verndardýrlingur borgarinnar, og mynd hans prýðir enn skjaldarmerki hennar. Hann er álitinn píslarvottur, því að hann hafi látið lífið við að hjálpa saklausum. Á Íslandi var rituð saga af Hallvarði á norrænu máli, en hún er aðeins varðveitt að litlum hluta í handritum Árnasafns. Benedikt Sveinsson (sýslumaður). Benedikt Sveinsson (20. janúar 1826 – 2. ágúst 1899) fæddist í Sandfelli í Öræfum. Ekki finnst lengur ministerialbók með skírn Benedikts, og sumir álíta hann fæddan sama dag árið 1827. Foreldrar hans voru séra Sveinn Benediktsson (1792-1849) og kona hans, Kristín Jónsdóttir (1794-1879). Benedikt ólst upp hjá foreldrum sínum á Mýrum í Álftaveri. Hann gekk í Reykjavíkurskóla 1846-1850 en var þá vikið úr skóla út af pereatinu. Hann gerðist þá um hríð kennari á Reynistað í Skagafirði en lauk stúdentsprófi utanskóla 1852. Á árunum 1852-1858 stundaði Benedikt laganám við Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk góðu embættisprófi og gegndi síðan embætti dómara og dómsmálaritara í Landsyfirréttinum í Reykjavík á árunum 1859-1870. Þá var honum vikið frá embætti fyrir umdeildar sakir. Benedikt bjó á Elliðavatni við Reykjavík á árunum 1860-1874. Þá fékk hann embætti sýslumanns í Þingeyjarsýslum, sem hann gegndi til 1897. Hann bjó nyrðra á Héðinshöfða á Tjörnesi. Eftir að hann lét af embætti, bjó hann í Reykjavík, fyrst í Skildinganesi og síðast á Vatnsenda. Benedikt giftist 1859. Kona hans var Katrín Einarsdóttir (1840-1914). Þau skildu. Þessi börn þeirra komust upp: Ragnheiður á Akureyri, f. 1860, Einar skáld og sýslumaður, f. 1864, Kristín, f. 1867, og Ólafur Sveinar Haukur bóndi á Vatnsenda, f. 1872. Benedikt átti sæti á Alþingi frá 1861 til dauðadags, samtals í 38 ár á 22 þingum. Á sjö þingum var hann forseti ýmist í neðri deild eða sameinuðu þingi. Hann lét mjög til sín taka sjálfstæðismál þjóðarinnar og fleiri umtöluð málefni og þótti um árabil einn helsti stjórnmálaleiðtogi landsins. Hamstrar. Hamstrar eru nagdýr (rodent) það eru til alls konar tegundir til dæmis Campbell, Winter White og Roborovski þessar tegundir eru frá Rússlandi. Það eru til bæði litlir og stórir hamstrar, loðhamstrar og venjulegir hamstrar. Hamstrar lifa yfirlett í 3-4 ár en roborovski lifa lengst af þessum tegundum. Hömstrum líður best á þurrum stöðum til dæmis eyðurmörkum. Magnús hlöðulás. Magnús hlöðulás. Freska í Överselö-kirkju. Magnús hlöðulás Birgisson (um 1240 – 18. desember 1290) var konungur Svíþjóðar frá 1275, þegar hann þvingaði Valdimar bróður sinn til að segja af sér, og til dauðadags. Áður var hann stundum kallaður Magnús 1. þar sem þeir tveir konungar með Magnúsarnafni sem verið höfðu á undan honum ríktu báðir stutt og ríkisstjórn þeirra var umdeild en nú er hann alltaf nefndur Magnús 3. Hertogi af Svíþjóð. Magnús var næstelsti sonur Birgis jarls Magnússonar og Ingibjargar Eiríksdóttur konu hans. Fæðingarár hans er óvíst en hann hefur líklega verið fæddur rétt eftir 1240. Fátt er vitað um uppvöxt hans en hann er sagður hafa verið dökkur yfirlitum og horaður. Rannsókn á beinagrind hans leiddi í ljós að hann var hávaxinn á þeirra tíma mælikvarða (183 cm) en virðist hafa átt við lungna- eða hjartasjúkdóm að stríða sem orsakaði afmyndun á útlimabeinum og kann að hafa dregið hann til dauða. Elsti bróðrinn, Valdimar, varð konungur við lát Eiríks konungs 1250 og Birgir jarl útnefndi Magnús sem arftaka sinn í jarlsembætti, en þegar Birgir dó 1266 varð hann þó ekki jarl, heldur fékk hann titilinn hertogi af Svíþjóð og varð mun valdaminni en faðir hans hafði verið. Ekki er hægt að finna neitt í sænskum heimildum sem bendir til þess að ósætti eða valdatogstreita hafi verið með bræðrunum frá 1266-1273 en þegar Valdimar sneri aftur úr suðurgöngu til Rómar hófu bræðurnir Magnús og Eiríkur, sem kallaði sjálfan sig "Eirík alls-ekki", að sögn vegna gremju yfir að hafa ekki fengið neinar nafnbætur eða völd, uppreisn gegn honum og nutu stuðnings Dana. Konungur Svíþjóðar. Þeir steyptu Valdimar af stóli og neyddu hann til að segja af sér sumarið 1275. Magnús var kjörinn konungur og Eiríkur varð hertogi en hann naut þess ekki lengi því hann dó í árslok sama ár. Eftir það var yngsti bróðirinn, Bengt (Benedikt), biskup og síðar hertogi af Finnlandi, helsti ráðgjafi Magnúsar, sem var krýndur 24. maí 1276 í Uppsaladómkirkju. Magnús hafði náð krúnunni með stuðningi Eiríks klippings Danakonungs og stofnað sér í skuldir við hann sem hann greiddi svo ekki. Danakonungur fór því að veita Valdimar stuðning, enda var Soffía kona Valdimars dönsk prinsessa og frænka Eiríks. Magnús leitaði í staðinn stuðnings hjá Geirharði hertoga af Holtsetalandi og gekk að eiga Helvig dóttur hans. Hann var raunar giftur fyrir en nafn konu hans er óþekkt; ógilding fyrra hjónabandsins og leyfi fyrir hinu síðara vegna skyldleika hjónanna var ekki gefið út af páfa fyrr en tíu árum síðar, 1286. Deilur héldu áfram milli Magnúsar og Valdimars næstu árin en Valdimar dvaldi að mestu í Danmörku. Magnús styrkti stöðu sína sífellt og árið 1285, þegar Valdimar sneri aftur til Svíþjóðar af óþekktum ástæðum, lét Magnús hneppa hann í varðhald þar sem hann sat til dauðadags 1302 en bjó þó ekki við neitt harðræði og undirritaði stundum skjöl og gerninga ásamt bræðrum sínum. Stjórnartíð Magnúsar. Magnús gerði ýmsar endurbætur á sænska stjórnkerfinu og Alsnö-tilskipunin frá 1279 eða 1280 er oft talin eins konar stofnskrá sænska erfðaaðalsins. Þar fengu allir þeir sem tóku að sér að sjá krúnunni fyrir vopnuðum riddara og hesti handa honum undanþágu frá ákveðnum sköttum og skyldum. Sagt er að viðurnefni konungs, "hlöðulás", megi einnig rekja til þessarar tilskipunar, því að þar var almenningur leystur undan skyldu til að sjá aðalsmönnum og biskupum fyrir fríu uppihaldi á ferðalögum - það mátti sem sagt læsa hlöðunum. (Raunar hefur líka komið fram sú kenning að Magnús hafi heitið Ladislaus að síðara nafni, enda átti hann til slavneskra forfeðra að telja, og "ladulås" sé afbökun úr því). Jafnframt stofnaði Magnús sænska ríkisráðið 1284 og lét þá um leið kjósa Birgi son sinn sem arftaka sinn og Eirík, yngri bróður hans, hertoga. Hann lét til sín taka í utanríkismálum, gerði ýmsa samninga við erlenda ráðamenn og mun að minnsta kosti í Þýskalandi hafa verið álitinn voldugastur norrænu konunganna. Börn. Þegar Magnús dó 1290 eftir langvarandi veikindi voru synir hans ungir og ríkisarfinn, Birgir Magnússon, líklega um tíu ára. Stýrði Helvig drottning ríkinu næstu árin ásamt ríkisráðinu. Börn þeirra Magnúsar sem upp komust voru Ingibjörg, sem giftist Eiríki menved Danakonungi, Birgir, konungur Svíþjóðar 1290-1321, hertogarnir Eiríkur og Valdimar, sem voru sveltir í hel af Birgi bróður sínum árið 1318, og Ríkissa abbadís í Klöruklaustrinu í Stokkhólmi. Karl 8. Frakkakonungur. Karl 8. Málverk frá 16. öld eftir óþekktan listamann. Karl 8. (30. júní 1470 – 7. apríl 1498) var konungur Frakklands frá 1483 til dauðadags. Hans er einna helst minnst fyrir að hafa ráðist inn í Ítalíu og hafið þar með fransk-ítölsku stríðin sem settu svip sinn á fyrri hluta 16. aldar. Æskuár. Karl var af Valois-ætt, sonur Loðvíks 11. og seinni konu hans, Karlottu af Savoja. Hann var 13 ára þegar faðir hans dó og hann tók við ríkjum. Hann var heilsuveill og af samtímamönnum var hann sagður ljúfmenni en fremur fákænn og enginn stjórnandi. Samkvæmt óskum Loðvíks föður hans var ríkisstjórnin fengin í hendur Önnu, eldri systur Karls, og manni hennar Pétri 2., hertoga af Bourbon. Anna var skarpgreind og klók og faðir hennar sagði einhverju sinni að hún væri „minnst klikkaða kona í Frakklandi“. Þau hjónin stýrðu ríkinu til 1491. Hjónaband. Árið 1482 var gengið frá trúlofun Karls og Margrétar af Austurríki, dóttur Maximilians 1. keisara. Margrét, sem þá var tveggja ára, var send til frönsku hirðarinnar til að alast þar upp og læra tungumál, siði og venjur þar, eins og algengt var þegar barnungar prinsessur voru lofaðar þjóðhöfðingjum annarra landa. En árið 1488 fórst Frans 2. hertogi af Bretagne af slysförum og erfingi hertogadæmisins var 11 ára dóttir hans, Anna. Bretónskir ráðamenn óttuðust mjög um sjálfstæði hertogadæmisins gegn ásælni Frakkakonunga og sömdu um hjónaband hennar og Maximilians keisara. Þau giftust með staðgengli 1490 og varð Anna þar með stjúpmóðir Margrétar. Frakkar neituðu að sætta sig við þetta hjónaband þar sem það þýddi að keisaraveldið átti landamæri að Frakklandi á tvo vegu. Karl 8. réðist svo inn í Bretagne, Maximilian gat ekki veitt konu sinni (sem hann hafði aldrei séð) lið, og Anna neyddist til að fallast á ógildingu hjónabandsins og giftast Karli í staðinn. Þau giftust svo í desember 1491, þegar Anna var tæplega fimmtán ára. Hún var ekki ánægð og sýndi það meðal annars með því að koma með tvö rúm með sér til brúðkaupsins. Hjónabandið var ekki hamingjusamt en Karl var þó mun sáttari því að við brúðkaupið lauk afskiptum ættingja hans af ríkisstjórn hans. Þótt Karl hefði slitið trúlofuninni við Margréti var hún ekki send heim til Austurríkis og mun Karl hafa haft í huga að gifta hana einhverjum sem honum hentaði. Margrét var afar ósátt, enda hafði hún verið hrifin af Karli, og til eru bréf frá henni til föður hennar þar sem hún hótar því að strjúka frá París á náttkjólnum ef þess þurfi með. Árið 1493 var henni þó skilað aftur heim ásamt þeim heimanmundi sem henni hafði fylgt. Hún hafði alla tíð síðan horn í síðu Frakka og Frakklands. Ítalíuherförin. Þrátt fyrir meðferð sína á Margréti og föður hennar tókst Karli að gera samning við Austurríki og einnig England og tryggja hlutleysi þeirra í hernaði þeim sem hann hafði fyrirhugað á Ítalíu. Hann hafði byggt upp stóran og vel búinn her og taldi sig eiga tilkall til konungsríkisins Napólí. Árið 1494 réðist hann inn á Ítalíu með stuðningi Innósentíusar VIII páfa, fór með her sinn suður Ítalíuskaga og tók Napólí auðveldlega. Alfons konungur var settur af og Karl krýndur konungur Napólí. Öðrum ítölskum þjóðhöfðingjum leist ekki á blikuna þegar þeir sáu hve auðveldlega Karli tókst að leggja Napólí undir sig og páfanum ekki heldur. Þeir stofnuðu and-franskt bandalag, Feneyjabandalagið, og árið 1495 vann herlið þess sigur á her Karls, sem þurfti að hverfa aftur heim til Frakklands. Á næstu árum reyndi hann að byggja her sinn upp á ný til að geta unnið aftur lönd á Ítalíu en það tókst ekki vegna þess hve skuldugur hann var eftir Ítalíuherförina. Dauði. Árið 1498 slasaðist Karl þegar hann var að spila jeu de paume og dó skömmu síðar. Þau Anne höfðu eignast sjö börn á sex árum en ekkert þeirra lifði föður sinn. Krúnan gekk því til frænda hans, hertogans af Orléans, sem varð þá Loðvík 12. Frakkakonungur. Samkvæmt samkomulagi sem gert hafði verið þegar Karl og Anna giftust átti hún að ganga að eiga eftirmann hans ef þeim yrði ekki sona auðið og varð það úr, jafnvel þótt Loðvík væri þegar giftur Jóhönnu systur Karls. Högni Sigurðsson. Högni Sigurðsson (11. ágúst 1693 – 7. júlí 1770) prestafaðir. Foreldrar hans voru séra Sigurður Högnason (1654 – 1732) og fyrri kona hans, Guðrún Böðvarsdóttir (1661 –). Þau sátu Einholt á Mýrum í Hornafirði og þar ólst Högni upp. Hann gekk í Skálholtsskóla og var útskrifaður með góðum vitnisburði 1710. Hann tók prestvígslu 1714 og þjónaði næstu ár sem aðstoðarprestur, ef til vill bæði hjá föður sínum og á Kálfafellsstað í Suðursveit. Hann var sóknarprestur á Kálfafellsstað 1717 – 1727, síðan á Stafafelli í Lóni 1727 – 1750 og loks á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1750 – 1763. Þá gaf hann kallið upp við Stefán son sinn en var áfram staðarhaldari til æviloka. Séra Högni var prófastur í báðum Skaftafellssýslum 1723-1739 en síðan hinni eystri 1739 – 1750. Hann missti skamma stund kjól og kall 1751, fyrir svokallað hervirki á hjáleigu frá Breiðabólstað, en fékk komið fyrir sig bótum. Hann þótti góður tungumálamaður og þýddi lærdómskver fyrir börn, sem var kallað "Ponti" og lengi notað. Hann ritaði einhverja elstu ministerialbók, sem varðveitt er á Íslandi. Séra Högni giftist 12. október 1718. Kona hans var Guðríður Pálsdóttir (1694-1762). Þau komu upp 17 börnum: Páll, f. 1719, Hólmfríður, f. 1721, Þórunn, f. 1722, Halldór, f. 1723, Stefán, f. 1724, Valgerður, f. 1725, Solveig, f. 1726, Guðrún, f. 1726, Böðvar, f. 1727, Guðrún, f. 1728, Sigurður, f. 1730, Þórður, f. 1731, Ögmundur, f. 1732, Árni, f. 1734, Vigdís, f. um 1734, Guðrún, f. 1735, Elín, f. 1739. Allir átta bræðurnir urðu prestar. Agnes af Frakklandi, keisaraynja. Agnes af Frakklandi (1171 – eftir 1204) eða Anna keisaraynja var frönsk konungsdóttir á 12. og 13. öld, keisaraynja í Býsansríkinu og var orðin ekkja eftir tvo býsanska keisara þegar hún var fjórtán ára. Agnes var dóttir Loðvíks 7. Frakkakonungs og þriðju eiginkonu hans, Adelu af Champagne. Hún var alsystir Filippusar 2. Ágústs Frakkakonungs. Manúel 1. Komnenos Býsanskeisari, sem hafði kynnst Loðvík 7. í Konstantínópel 1147 þegar hann var í Annarri krossferðinni, taldi nú tíma kominn til að eignast Frakka sem trygga bandamenn í Vestur-Evrópu og sendi fulltrúa sína til frönsku hirðarinnar veturinn 1178-1179 til að semja um hjónaband milli einkasonar síns og erfingja, Alexiosar, og dóttur Frakkakonungs. Loðvík samþykkti ráðahaginn og Agnes litla var send til Konstantínópel til að alast upp við hirð eiginmanns síns tilvonandi, eins og algengt var á miðöldum þegar hjónaband hafði verið ákveðið milli hefðarfjölskyldna. Alys hálfsystir Agnesar, sem átti að giftast Ríkharði ljónshjarta, ólst til dæmis upp við ensku hirðina frá níu ára aldri og þær systur sáust aldrei. Agnes sigldi frá Montpellier til Konstantínópel um páskana 1179 og fylgdu henni 19 skip. Tekið var á móti brúðinni ungu með miklum hátíðahöldum en þótt hana skorti þrjú ár upp á venjulegan lágmarksgiftingaraldur segja heimildir að hún og Alexíos, sem var tveimur árum eldri, hafi verið gefin saman ári síðar, 2. mars 1180, og hjónabandið hafi verið fullkomnað. Agnesi var þá gefið nafnið Anna. Alexíos varð keisari þegar faðir hans dó 24. september sama ár en móðir hans, María af Antíokkíu, réði mestu um stjórn ríkisins. Þremur árum síðar hrifsaði frændi Manúels keisara, Andronikos 1. Komnenos, til sín völdin. Hann lét handtaka og síðar lífláta Maríu af Antíokkíu og í október 1183 lét hann kyrkja Alexíos. Skömmu síðar giftist hann hinni tólf ára gömlu ekkju hans en sjálfur var hann um 65 ára gamall, hafði verið mikið glæsimenni og kvennamaður en einnig mjög hæfur herforingi og stjórnmálamaður. Þau Agnes/Anna voru gift í tvö ár en þá var Andronikosi steypt af stóli. Hann reyndi að flýja Konstantínópel með Agnesi og einni hjákonu sinni en náðist og var pyndaður og tekinn af lífi 12. september 1185. Önnu var ekki gert mein og næst fréttist af henni 1193 en þá er hún sögð vera ástkona Teódórs Branas, eins af herforingjum keisaradæmisins. Vitað er að þau giftust sumarið 1204 (sennilega ekki fyrr vegna þess að Anna tapaði lífeyri sínum við að giftast ótignum manni). Eftir það er ekkert um Önnu vitað en Teódór Branas var herforingi í keisarahernum að minnsta kosti til 1219. Vitað er að þau áttu eina dóttur. Nafn hennar er ekki þekkt en hún giftist Narjot de Toucy, sem var ríkisstjóri keisaradæmisins um tíma. Alísa af Frakklandi. Alísa af Frakklandi, greifynja af Vexin (4. október 1160 – um 1220) var frönsk konungsdóttir og lengi heitmey Ríkharðs ljónshjarta, þótt þau giftust aldrei. Alísa var dóttir Loðvíks 7. Frakkakonungs og annarrar konu hans, Konstönsu af Kastilíu, en fyrsta kona Loðvíks var Elinóra af Akvitaníu, sem síðar giftist Hinriki 2. Englandskonungi og varð móðir Ríkharðs. Dætur hennar og Loðvíks, María og Alix, voru því hálfsystur bæði Alísu og Ríkharðs. Konstansa dó af barnsförum þegar hún fæddi Alísu en fimm vikum síðar gekk faðir hennar að eiga Adelu af Champagne. Í janúar 1169 gerðu Loðvík og Hinrik 2. samkomulag um að Alísa og Ríkharður skyldu giftast. Þau voru þá átta og ellefu ára. Alísa var send til Englands og ólst upp við hirð Hinriks. Þau Ríkharður hefðu mátt giftast þegar hún varð tólf ára en af því varð ekki, ef til vill vegna þess að Ríkharður var þá farinn til Akvitaníu og var þar með móður sinni. Árið 1177 hótaði Alexander III páfi að setja lendur Englandskonungs á meginlandinu í bann ef ekki yrði af brúðkaupinu en til þess kom þó ekki. Miklar sögur voru á kreiki um að Hinrik hefði sjálfur gert Alísu að ástkonu sinni og hún hefði jafnvel alið honum barn. Um það er ekkert vitað með vissu en hvernig sem á því stóð var Ríkharður aldrei fáanlegur til að kvænast Alísu. Hinrik dó 1189 og 12. maí 1191 giftist Ríkharður Berengaríu af Navarra þótt trúlofun þeirra Alís hefði aldrei verið slitið formlega. Filippus 2., bróðir Alísu, bauð Jóhanni landlausa hana fyrir eiginkonu en Elinóra móðir Jóhanns er sögð hafa komið í veg fyrir að af því hjónabandi yrði. Alísa giftist að lokum Vilhjálmi 3. Talvas, greifa af Ponthieu, 20. ágúst 1195 og áttu þau tvær dætur sem komust upp. Önnur þeirra var amma Elinóru af Kastilíu, konu Játvarðar 1. Englandskonungs, svo að afkomendur Alísu sátu eftir allt saman á konungsstóli í Englandi. Margrét af Frakklandi, Ungverjalandsdrottning. Margrét í pílagrímsferð sinni til Landsins helga. Margrét af Frakklandi (nóvember 1157 – ágúst/september 1197) var frönsk konungsdóttir á 12. öld, kona Hinriks unga, sem var meðkonungur föður síns, Hinriks 2. Englandskonungs og því Englandsdrottning, og síðar drottning Ungverjalands. Margrét var eldri dóttir Loðvíks 7. og miðkonu hans, Konstönsu af Kastilíu. Þriggja ára að aldri var hún heitbundin Hinrik unga, elsta syni Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu, sem áður hafði verið gift Loðvík föður Margrétar. Dætur Loðvíks og Elinóru, María og Alix, voru því hálfsystur þeirra beggja. Ríkharður ljónshjarta, bróðir Hinriks unga, var líka trúlofaður Alísu, alsystur Margrétar. Margrét ól manni sínum son 19. júní 1177 en hann var fæddur fyrir tímann og dó fárra daga gamall. Fæðingin var mjög erfið og líklega varð hún til þess að Margrét gat ekki orðið þunguð aftur. Talið er að Hinrik hafi um 1182 farið að huga að því að reyna að fá hjónaband þeirra ógilt vegna barnleysisins og ásakaði hana meðal annars um framhjáhald með jarlinum af Pembroke, sem óvíst er að nokkur fótur hafi verið fyrir. En áður en af því yrði dó hann sumarið 1183. Árið 1186 giftist Margrét aftur Bela 3. Ungverjalandskonungi. Hann dó 1196 og ári síðar dó Margrét í Akkó, þegar hún var í pílagrímsferð til Landsins helga. Matthildur hertogaynja af Saxlandi. Matthildur af Englandi (1156 – 28. júní 1189), einnig nefnd Maud, var ensk konungsdóttir á 12. öld og síðar hertogaynja af Saxlandi og Bæjaralands. Matthildur var elsta dóttir Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu og systir Hinriks unga, Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa. Hún virðist hafa eytt bernskuárunum að mestu með móður sinni en árið 1165 kom erkibiskupinn af Köln til ensku hirðarinnar til að semja um að gifta Matthildi þýskum prinsi. Upphaflega átti að gifta hana syni Friðriks 1. keisara en úr varð að Matthildur var lofuð Hinrik ljóni, hinum valdamikla hertoga Saxlands og Bæjaralands. Hún var send frá Englandi til Þýskalands í september 1167, þá ellefu ára, og giftist Hinrik 1. febrúar 1168. Hann var þá 39 ára. Hinrik ljón var á þessum tíma einn auðgasti og voldugasti maður Þýskalands og bandamaður Friðriks 1. keisara. Hann fór í krossferð 1172-1173 og stýrði Matthildur löndum hans á meðan. En árið 1174 lenti Hinrik ljón í deilum við keisarann og þau hjónin urðu að flýja frá Þýskalandi og leita hælis hjá föður Matthildar í Normandí. Þar voru þau til 1185 en var þá leyft að snúa heim til Saxlands. Snemma árs 1189 skipaði keisarinn Hinriki aftur að fara í útlegð. Matthildur varð að þessu sinni eftir til að gæta hagsmuna eiginmanns síns en dó skömmu síðar. Þau áttu eina dóttur og fjóra syni, þar á meðal Ottó 4. keisara. Jakob Guðjohnsen. Jakob Guðjohnsen (f. 23. janúar 1899, d. 11. október 1968) var íslenskur verkfræðingur og rafmagnsstjóri í Reykjavík. Ævi og störf. Jakob fæddist á Húsavík, sonur Stefáns Guðjohnsens verslunarstjóra og konu hans. Hann lauk verkfræðiprófi í Kaupmannahöfn 1926 og hóf þá þegar störf sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og gegndi starfi rafmagnsstjóra frá 1961 til dauðadags. Samhliða störfum sínum fyrir Rafmagnsveituna kom Jakob að ýmsum verklegum framkvæmdum á sviði orkumála. Hann var t.a.m. ráðunautur við smíði Andakílsárvirkjunar. Elinóra Kastilíudrottning. Elinóra af Englandi (13. október 1162 – 31. október 1214) var ensk konungsdóttir og síðar drottning Kastilíu og Tóledó. Þar nefndist hún Leonor. Elinóra var næstelsta dóttir Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu, og systir konunganna Hinriks unga, Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa. Fjórtán ára að aldri var hún gift Alfons 8. Kastilíukonungi, sem var sjö árum eldri, og var markmiðið með hjónabandinu að tryggja suðurlandamæri Akvitaníu. Elinóra var sú dætra Elinóru af Akvitaníu sem þótti líkjast móður sinni mest hvað varðaði stjórnvisku og stjórnunarhæfileika. Hún var næstum jafnvaldamikill og maður hennar og hann mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að hún skyldi stýra ríkinu með syni þeirra. Hjónaband þeirra virðist hafa verið mjög gott. Alfons dó 5. október 1214 og Elinóra var að sögn svo miður sín að hún gat ekki stýrt útförinni. Hún veiktist svo og dó 28 dögum á eftir manni sínum. Aðeins einn af sonum Elinóru og Alfons lifði þau, Hinrik (f. 1204). Þar sem móðir hans dó svo skömmu á eftir manni sínum kom það í hlut elstu systur hans, Berengaríu, að vera ríkisstjóri. Svo fór að Hinrik tók aldrei við krúnunni því að hann varð fyrir tígulsteini sem féll af húsþaki og dó 6. júní 1217. Berengaría erfði þá krúnuna. Hún hafði verið gift Alfons 9. af León en hjónaband þeirra var ógilt 1204. Hún sagði raunar samstundis af sér og Ferdínand 3. sonur hennar tók við ríkjum í Kastilíu. Af öðrum dætrum Elinóru og Alfons má nefna Urraca, drottningu Portúgals, kona Alfons 2., Blanka, drottning Frakklands, kona Loðvíks 8. og Leonor, drottning Aragóníu, kona Jakobs 1. Ion Geolgau. Ion Geolgau (fæddur 20. febrúar 1961) er rúmenskur knattspyrnuþjálfari og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu. Ferill. Geolgau var meðal bestu leikmanna Rúmeníu á níunda áratugnum, lék 24 landsleiki á árunum 1980-88 og skoraði í þeim þrjú mörk. Frá 1976-89 lék Geolgau undir merkjum uppeldisfélags síns Universitatea Craiova. Liðið var eitt hið sterkasta í Rúmeníu og vann meistaratitilinn árin 1980 og 1981. Árið 1983 komst Universitatea í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða, fyrst rúmenskra liða. Á leiðinni þangað skoraði Geolgau mikilvæg mörk í leikjum við Bordeaux frá Frakklandi og Kaiserslautern frá Vestur-Þýskalandi. Að keppnisferlinum loknum sneri Geolgau sér að þjálfun. Frá 1997-2003 starfaði hann í Færeyjum, þar sem hann stýrði Þórshafnarliðunum HB og B36. Í kjölfarið var hann ráðinn til starfa hjá Knattspyrnufélaginu Fram sem aðalþjálfari meistaraflokks karla sumarið 2004. Geolgau var fyrsti útlendingurinn til að stýra Framliðinu frá árinu 1983 og voru miklar vonir bundnar við ráðninguna. Þær brugðust hins vegar illilega og var Geolgau leystur undan störfum á miðju sumri og Ólafur H. Kristjánsson ráðinn í staðinn. Árið 2009 var Geolgau ráðinn til starfa hjá sínu gamla félagið Universitatea Craiova sem yfirmaður íþróttamála. Geolgau, Ion Geolgau, Ion Jóhanna Sikileyjardrottning. a> Frakkakonungi þegar hann kemur til Sikileyjar. Jóhanna af Englandi (október 1165 – 4. september 1199) var ensk konungsdóttir á 12. öld, drottning Sikileyjar og síðar greifynja af Toulouse í Frakklandi. Jóhanna var sjöunda og næstyngsta barn Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu. Á meðal bræðra hennar voru þeir Ríkharður ljónshjarta og Jóhann landlausi. Jóhanna fæddist í Anjou og ólst upp með móður sinni í Winchester og Poitiers. Árið 1176 sendi Vilhjálmur 2. Sikileyjarkonungur fulltrúa sína til ensku hirðarinnar til að biðja um hönd Jóhönnu. Gengið var frá trúlofun þeirra 20. maí og 27. ágúst var Jóhanna send til Sikileyjar í fylgd biskupsins af Norwich og fleiri fyrirmanna. Ferðin gekk skrykkjótt en Jóhanna komst þó klakklaust á leiðarenda og 13. febrúar 1177 giftist hún Vilhjálmi og var krýnd drottning Sikileyjar. Hún var þá 11 ára en brúðguminn tíu árum eldri. Þau eignuðust einn son ári 1181 en hann dó í vöggu. Vilhjálmur dó 11. nóvember 1189 og þá hrifsaði Tancred, óskilgetinn frændi hans, til sín völdin og var krýndur konungur Sikileyjar skömmu síðar. Hann hafði Jóhönnu í varðhaldi en í september um haustið kom Ríkharður bróðir hennar til eyjarinnar á leið í krossferð og krafðist þess að hún yrði látin laus og öllum heimanmundi hennar og arfi eftir mann hennar skilað. Tancred neitaði að verða við þessu en Ríkharður ákvað þá að hafa vetursetu á Sikiley og lagði borgina Messína undir sig. Að lokum lét Tancred undan og greiddi féð. Í mars 1191 kom Elinóra móðir Ríkharðs og Jóhönnu til Sikileyjar með Berengaríu af Navarra, sem Ríkharður ætlaði að giftast. Hún sneri svo heim en Jóhanna tók að sér að sjá um Berengaríu. Ríkharður ákvað svo að fresta brúðkaupinu um sinn og sigldi af stað til Landsins helga. Jóhanna og Berengaría voru saman á öðru skipi en hann og þegar óveður skall á tvístraðist flotinn. Ríkharður hraktist til Krítar en skipið sem konurnar voru á strandaði við Kýpur. Ísak Komnenos, sem kallaði sig konung Kýpur, hertók þær en þá kom Ríkharður á vettvang, frelsaði þær, varpaði Ísak í dýflissu, giftist Berengaríu og sendi þær svo áfram til Akkó. Jóhanna var sögð eftirlætissystir Ríkharðs en hann hikaði þó ekki við að nota hana eins og peð í pólitísku tafli sínu. Honum kom jafnvel í hug að gifta hana bróður Saladíns, Al-Adil, og setja þau yfir Jerúsalem. Sú áætlun gekk þó ekki upp því Jóhanna vildi ekki giftast múslima og Al-Adil vildi ekki giftast kristinni konu. Einnig kom til tals að gifta hana Filippusi 2. Frakkakonungi en af því varð ekki, enda hefði slíkt hjónaband sennilega verið ógilt þar sem Loðvík 7., faðir Filippusar, hafði áður verið giftur móður Jóhönnu. Jóhanna sneri því ógift heim en í október 1196 giftist hún Raymond 6. greifa af Toulouse. Hún var fjórða kona hans af fimm eða sex. Hjónabandið var ekki hamingjusamt og árið 1199, þegar Jóhanna gekk með þriðja barn þeirra, strauk hún og ætlaði að leita á náðir Ríkharðs bróður síns en kom að banabeði hans. Hún flúði þá til móður sinnar í Rouen og leitaði síðan hælis í Fontevrault-klaustri.þar fæddi hún son sem dó nýfæddur og dó sjálf af barnsförum. Sonur hennar og Raymonds var Raymond 7. af Toulouse. Geoffrey Plantagenet. Geoffrey Plantagenet, greifi af Anjou og hertogi af Normandí. Geoffrey Plantagenet eða Geoffrey 5. greifi af Anjou – (24. ágúst 1113 – 7. september 1151) – var greifi af Anjou, greifi af Maine og hertogi af Normandí. Hann var faðir Hinriks 2. Englandskonungs og var því ættfaðir Plantagenet-konungsættarinnar. Æviágrip. Hann var elsti sonur Fulkos, sem var greifi af Anjou og konungur í Jerúsalem. Móðir hans var Erembourg af La Flèche, sem var erfingi að greifadæminu Maine. Geoffrey fékk viðurnefnið "Plantagenet" eftir plöntu af ertublómaætt ("planta genista", með gulu blómi), sem hann bar oft í hatti sínum. Nafnið „Geoffrey“ er af norrænum uppruna = „Guðröður“ Hinrik 1. Englandskonungur hafði heyrt um hæfileika Geoffreys, og sendi menn til Anjou til að semja um hjónaband hans og dóttur sinnar Maud (sem var einnig kölluð Matilda eða Matthildur). Samningar náðust og var Geoffrey sleginn til riddara, 15 ára gamall, í Rúðuborg (Rouen) til að búa hann undir hjónavígsluna. Kaþólska kirkjan mótmælti ekki hjónabandinu, þó að systir Geoffreys væri ekkja sonar Hinriks 1. Þau giftust á hvítasunnu 1127. Maud eða Matthildur var ellefu árum eldri en Geoffrey. Hún var ekkja Hinriks 5. keisara, og notaði gjarnan titilinn "keisaraynja" fremur en "greifynja", eftir að hún giftist Geoffrey. Hjónabandið var stormasamt, og komu löng tímabil sem þau bjuggu ekki saman. Árið eftir brúðkaupið fór faðir Geoffreys til Jerúsalem, þar sem hann varð konungur. Geoffrey varð þá greifi af Anjou (1129), en hafði áður tekið við greifadæminu Maine (1126). Þegar Hinrik 1. dó 1135 fór Matthildur strax til Normandí til að fá arfinn eftir hann, þar með talið konungdæmið á Englandi. En Stefán af Blois var þá krýndur konungur, líklega eftir sinnaskipti Hinriks 1. á dánarbeði. Hann fékk stuðning bæði af Englandi og Normandí. Matthildur hóf nú langa baráttu um ensku krúnuna. Geoffrey maður hennar lét árið eftir af hendi þrjú héruð, til að reyna kaupa sér stuðning í baráttunni. Árið 1139 steig Matthildur á land í Englandi með 140 riddara. Stefán reis til varnar, og hófst þá það sem kallað er stjórnleysistímabilið í sögu Englands. Stefán var handtekinn í Lincoln í febrúar 1141. Skömmu síðar lýstu æðstu menn kirkjunnar því yfir að hann væri settur af, og fékk Matthildur titilinn "Lafði Englendinga". Sama haust neyddist hún til að láta Stefán lausan og varð hann þá aftur konungur. Á árunum 1142 og 1143 lagði Geoffrey undir sig Normandí vestan og sunnan Signu, og 14. janúar 1144 fór hann yfir Signu og hertók Rúðuborg. Hann fékk titilinn Hertogi af Normandí sumarið 1144. Sama ár stofnaði hann Ágústínusarklaustur í Chateau-l'Ermitage í Anjou. Hann stjórnaði hertogadæminu til 1149, þegar hann afhenti það syni sínum, Hinriki 2. Loðvík 7. Frakkakonungur staðfesti það árið eftir. Sem greifi af Anjou barði Geoffrey niður þrjár uppreisnir sem lénsherrar stóðu á bak við, 1129, 1135 og 1145–1151. Hann stóð lengi í átökum við yngri bróður sinn, Elías, sem hann hélt í fangelsi til 1151. Yfirvofandi uppreisnir heima fyrir, komu í veg fyrir að hann gæti beitt herafla í átökunum um England. Árið 1153 var deilan um England leyst með Wallingford-samningnum, sem kvað á um að Stefán skyldi vera konungur til æviloka, og að Hinrik, sonur Geoffreys og Matthildar, skyldi taka við af honum sem Hinrik 2. Geoffrey dó skyndilega 7. september 1151 á heimleið frá fundi með ráðgjöfum sínum. Hann var grafinn í dómkirkjunni í Le Mans. Jean de Marmoutier segir að Geoffrey hafi verið rauðhærður, glaðlyndur, hraustur og góður herstjóri. Önnur heimild segir að undir fáguðu yfirborði hafi verið kaldlyndur og sjálfhverfur persónuleiki. Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar. Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar er kristið trúfélag og heyrir undir kirkjuna "Unification Church". Unification church er upphaflega frá Suður Kóreu. Meðlimir í Unification Church fylgja spámanni sínum Sun Myung Moon, sem er jafnframt stofnandi trúarinnar. Samtökin hafa haldið blessunarathöfn hjóna. Á blessunarathöfn þann 25. ágúst, árið 1995 á Ólympíuvellinum í Seoul, voru 360 þúsund hjón blessuð. Markmið samtakanna er að undirbúa fólk fyrir aðra komu Krists til jarðarinnar, með fjölskylduhreinsun. Vilhjálmur ljón. Vilhjálmur ljón (um 1143 – 4. desember 1214) eða Vilhjálmur 1. (gelíska: "Uilliam mac Eanraig") var konungur Skotlands frá 1165 til dauðadags og var ríkisstjórnartíð hans sú næstlengsta í sögu Skotlands fram að sameiningunni 1707; aðeins Jakob 6. var konungur lengur, eða frá 1567 til 1625. Foreldrar Vilhjálms voru Hinrik jarl af Norðymbralandi, sonur Davíðs 1. Skotakonungs, og kona hans Ada de Warenne, sem var af tignum enskum og frönskum ættum; Hinrik 1. Frakkakonungur var langafi hennar. Melkólfur (Malcolm), eldri bróðir Vilhjálms varð konungur 1153 þegar Davíð afi þeirra dó en faðir þeirra hafði dáið skyndilega ári fyrr. Melkólfur dó 9. desember 1165, ógiftur og barnlaus, og þá varð Vilhjálmur konungur. Hann var krýndur 24. desember 1165. Vilhjálmur var andstæða Melkólfs, sem hafði verið veiklulegur, kvenlegur og heittrúaður. Hann var kraftalega vaxinn, rauðhærður og einþykkur. Auknefnið ljón hlaut hann þó ekki fyrr en eftir dauða sinn og það vísar ekki til styrks hans eða skapferlis, heldur mun það stafa af því að hann hafði ljón í skjaldarmerki sínu, sem varð svo skjaldarmerki Skotakonunga. Vilhjálmur erfði titilinn jarl af Norðymbralandi árið 1152 en varð að láta Hinrik 2. Englandskonungi hann eftir 1157. Það dró dilk á eftir sér því að Vilhjálmur eyddi miklu þreki, tíma og mannafla í að reyna að vinna Norðymbraland að nýju eftir að hann varð konungur. Vilhjálmur réðist inn í England 1174 til að reyna að ná Norðymbralandi og fór sjálfur í fylkingarbrjósti í orrustunni við Alnwick. Þá féll hann af baki og var handtekinn og fluttur til Normandí en Hinrik sendi lið til Skotlands og hernam það. Vilhjálmur þurfti að viðurkenna Hinrik sem lénsherra sinn og samþykkja að greiða kostnaðinn af hernáminu til að sleppa. Jafnframt fékk Hinrik rétt til að velja Vilhjálmi konu. Kallaðist þetta samkomulag Falaise-samningurinn. Hann fékk þá að snúa heim og sór Hinrik hollustu í York 1175. Falaise-samningurinn var í gildi í 15 ár en þegar Ríkharð ljónshjarta skorti fé til að fjármagna krossferð sína féllst hann á að slíta honum gegn því að fá 10.000 merkur silfurs. Vilhjálmur dó í Stirling-kastala 1214. Hann hafði kvænst Ermengarde de Beaumont, sem var dóttir óskilgetinnar dóttur Hinriks 1. Englandskonungs, árið 1186 að boði Hinriks 2. Hjónabandið var ekki gott og það liðu mörg ár þar til erfingi fæddist en þó eignuðust þau á endanum þrjár dætur og einn son, Alexander 2., og tók hann við ríkjum af föður sínum. Samfélag trúaðra. Samfélag trúaðra er skráð kristið trúfélag á Íslandi. Söfnuðurinn fer eftir kenningum Bandaríkjamannsinns Williams Marrions Branhams. Samkvæmt kenningum Branhams þarf kristni að byggjast meira á rótum sínum, eins og kristni var fyrir árið 100. Forstöðumaður safnaðarins er séra Guðmundur Örn Ragnarsson. Alþjóðleg kirkja Guðs og Embætti Jesú Krists. Alþjóðleg Kirkja Guðs og Embætti Jesú Krists (Spænska: Iglesia de Dios Ministerial de Jesucristo Internacional) (Enska: Church of God Ministry of Jesus Christ International) er skráð trúfélag á Íslandi. Kort sem sýnir þau lönd þar sem kirkjan hefur bænarherbergi. Uppfært mars 2013. Fríkirkjan KEFAS. Fríkirkjan Kefas er skráð trúfélag á Íslandi og fríkirkja í evangelísk-lúthersku kirkjunni. Helsti munur á íslensku þjóðkirkjunni og Kefas er að Kefas hefur „léttara guðsþjónustuform og heilmikið sjálfboðastarf“, enda er Kefas byggt á biblíuklúbbi. Nafn safnaðarins er tekið úr grísku og merkir klettur. Boðunarkirkjan. Boðunarkirkjan er skráð trúfélag á Íslandi og fríkirkja í evangelísk-lúthersku kirkjudeildinni. Kirkjan heldur úti útvarpstöðinni Útvarp boðun. Samkvæmt vef Hagstofunnar, eru 103 einstaklingar í söfnuðinum. Búddistafélag Íslands. Búddistafélag Íslands er skráð trúfélag á Íslandi. Af þeim þremur búddista trúfélögum sem eru skráð á Íslandi er Búddistafélag Íslands fjölmennast. Söfnuðurinn byggir á "thervada búddisma", þar sem lögð er áhersla á "dhamma", sem er einn af grunnþáttunum í trúarjátningu búddista. Trúarjátningin er kölluð gimsteinarnir þrír. Helsta áherslan í dhamma er að losna við langanir, því langanir leiða af sér þjáningu, samkvæmt búddisma. Trúfélagið Zen á Íslandi, Nátthagi. Zen búddistar er skráð trúfélag á Íslandi. Zen búddistar aðhyllast mahayanstefnu búddista. Í zen búddisma er lögð aðaláhersla á hugleiðslu. Búddistasamtökin SGI á Íslandi. Búddistasamtökin SGI á Íslandi er skráð trúfélag á Íslandi. Fullt nafn safnaðarins er Soka Gakkai á Íslandi. Söfnuðurinn heyrir undir Soka Gakkai International. Söfnuðurinn aðhyllist japanskan sið mahayanstefnu búddista. Aðaláhersla SGI á Íslandi er friður, menning og menntun. Söfnuðurinn er virkur í hjálparstarfi. Söfnuðurinn tók þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti ásamt sjálfboðasamtökunum seeds, Rauða krossinum og þjóðkirkjunni, þann 23. mars 2010. Alexander 2. Skotakonungur. Alexander 2. (24. ágúst 1198 – 8. júlí 1249) (gelíska: "Alasdair mac Uilleim") var konungur Skotlands frá 1214 til dauðadags. Hann var einkasonur Vilhjálms ljóns, Skotakonungs, og Ermengarde af Beaumont, en átti þrjár systur. Hann dvaldi eitthvað í Englandi á unglingsárum og Jóhann landlausi sló hann til riddara árið 1213. Hann tók svo við skosku krúnunni þegar faðir hans lést 4. desember 1214 og var krýndur tveimur dögum síðar. Erfðaféndur konungsættarinnar, ættirnar Meic Uilleim og MacHeth, gerðu uppreisn árið 1215 en hún var fljótt bæld niður. Sama ár tók Alexander höndum saman við enska aðalsmenn gegn Jóhanni landlausa og fór með herlið til Englands gegn honum. Jóhann hefndi sín með því að láta sína menn ræna og rupla í landamærahéruðum Skotlands. Alexander fór með lið sitt til Dover á suðurströnd Englands og vottaði þar Loðvík Frakklandsprinsi, sem hafði gert innrás í England og gerði tilkall til krúnunnar, hollustu sína. En skömmu síðar dó Jóhann landlausi og meirihluti enskra aðalsmanna snerist þá á sveif með Hinrik syni hans. Frönsku og skoskur herirnir urðu að snúa heim. Friður var svo saminn milli Englendinga, Frakka og Skota 12. Samningurinn var svo styrktur með hjónabandi Alexanders og Jóhönnu, systur Hinriks konungs, í júní 1221. Hún var þá 11 ára en hann 23. Ári síðar lagði Alexander Argyll undir sig en það hérað hafði verið hálfsjálfstætt. Árið 1235 var uppreisn í Galloway bæld niður. Samið var um landamæri Englands og Skotlands í York-samkomulaginu 1237 og má segja að samskipti landanna hafi að mestu verið friðsamleg á stjórnarárum Alexanders þótt lægi við átökum 1243. Alexander einbeitti sér í staðinn að því að tryggja yfirráð sín yfir skosku eyjunum, sem enn lutu Noregskonungi, að minnsta kosti að nafninu til, en varð lítið ágengt. Árið 1249 reyndi Alexander að fá Ewen lávarð af Argyll til að slíta tengslum sínum við Hákon gamla Noregskonung og sigldi áleiðis til Suðureyja til að þrýsta á hann en veiktist og dó á eynni Kerrera. Hjónaband Alexanders og Jóhönnu af Englandi var barnlaust og hún dó 4. mars 1238. Alexander giftist aftur Marie de Coucy og átti með henni soninn Alexander 3., sem varð konungur eftir föður sinn. Alexander 3. Skotakonungur. Krýning Alexanders 3. Úr miðaldahandriti. Alexander 3. (4. september 1241 – 19. mars 1286) (gelíska: "Alasdair mac Alasdair") var konungur Skotlands frá 1249 til dauðadags. Alexander var eina skilgetna barn Alexanders 2. Skotakonungs og móðir hans var seinni kona Alexanders, Marie de Coucy. Alexander 2. lést þegar sonur hans var aðeins átta ára að aldri og allt þar til hann varð sjálfráða ríkti stöðug togstreita um völd milli tveggja blokka. Fyrir annarri þeirra fór Walter Comyn, jarl af Meteith, en fyrir hinni Aland Durward, sem var eins konar lögmaður eða dómsmálaráðherra Skotlands. Framan af var fyrrnefnda blokkin sterkari, svo náði hin undirtökunum en á endanum eignuðust báðar þátt í ríkisstjórninni, þar til Alexander varð myndugur 1262. Hann tilkynnti þá að hann hefði í huga að vinna áfram að fyrirætlunum sem faðir hans hafði haft um að ná skosku eyjunum undir sig og lagði fram formlegt tilkall til þeirra við Hákon gamla Noregskonung, sem hafnaði því og gerði innrás í Skotland en varð lítið ágengt. Hann sneri því heim á leið en dó í Orkneyjum 15. desember 1263. Þar með náði Alexander unditökunum og lagði Suðureyjar undir Skotland en greiddi Noregskonungi fjárupphæð fyrir þær. Norðmenn héldu þó Hjaltlandseyjum og Orkneyjum. Alexander gekk að eiga Margréti af Englandi, dóttur Hinriks 3. og Elinóru af Provence, 26. desember 1251, þegar hann var tíu ára en hún ellefu. Hún dó 1274 og hafði þá alið þrjú börn: Margréti (1260-1283), konu Eiríks prestahatara Noregskonungs, Alexander (1264-1284) og Davíð (1272-1281). Öll börn Alexanders dóu á innan við þriggja ára tímabili og hann átti aðeins einn afkomanda, dótturdótturina Margréti, sem var ársgömul. Hann fékk hana viðurkennda sem ríkiserfingja en þar sem hann var sjálfur aðeins rúmlega fertugur og við ágæta heilsu átti hann góða möguleika á að eignast fleiri börn og 1. nóvember 1285 giftist hann Jólöndu af Dreux. Hjónasælan var þó ekki langvinn því að 19. mars 1286 féll konungur af hestbaki í náttmyrkri og illviðri, hálsbrotnaði og fannst látinn um morguninn. Jólanda drottning var þunguð en hefur líklega fætt andvana barn og í nóvember 1286 var Margrét litla lýst drottning Skotlands. Hún dó á leið til Skotlands 1290 og þá upphófst erfðadeila sem ekki leystist fyrr en löngu síðar. Alexander 3. var öflugur og hæfur konungur og má leiða að því líkur að ef hann hefði lifað og eignast erfingja hefði saga Skotlands næstu áratugi verið allt önnur, en óvissuástandið sem skapaðist við lát hans vakti upp deilur, innanlandsófrið, stríð við Englendinga, hernám og borgarastyrjöld. Einholt í Hornafirði. Einholt á Mýrum í Hornafirði, bújörð og lengi kirkjustaður og prestsetur. Þar var Maríukirkja. Annexía var á fyrri öldum á Viðborði, einnig Maríukirkja. Kirkjustaður sóknarinnar var fluttur að Brunnhól 1899 og ný kirkja reist. Vötn slógu sér til, svo að stundum á 18. og 19. öldum var votlent í Einholti. Kristján Benediktsson ábúandi keypti jörðina 1928. Helstu hjáleigur frá Einholti. Fornar hjáleigur finnast nefndar, þar á meðal Sandholt, Gunnlaugshóll og Einbúi, og nöfn bæja hafa ekki alltaf verið með einu móti, Flaga til dæmis löngum nefnd Digurholt. Þjóðhöfðingjar Skotlands. Skjaldarmerki Skotakonunga, fram til 1603 Upp úr miðri 11. öld eða jafnvel fyrr voru Skotakonungar farnir að tala um sjálfa sig á latínu sem „rex Scotorum“ eða konung Skota. Sá titill var notaður til 1707, þegar konungsríkið Skotland sameinaðist konungsríkinu Englandi og úr varð konungsríkið Stóra-Bretland. Anna drottning telst því síðasti þjóðhöfðingi Skotlands (og raunar líka Englands) og um leið fyrsti þjóðhöfðingi Stóra-Bretlands. Ríkin tvö höfðu þó haft sameiginlegan konung frá 1603. Síðasti konungur sem krýndur var í Skotlandi var Karl 2., árið 1651. Dunkeldsætt, 1034–1286. Dungaður varð konungur eftir móðurafa sinn, Melkólf 2. Hann var svo drepinn af Makbeð, sem ríkti lengi við nokkuð góðan orðstír. Á árunum 1057-1058 barðist Melkólfur 3., sonur Dungaðs við Makbeð og síðan stjúpson hans, Lulach, og settist í hásætið. Eftir að Melkólfur féll í orrustu barðist Dómald bróðir hans við syni hans um völdin. Þeir urðu konungar hver af öðrum en eftir daga Davíðs 1. gekk skoska krúnan jafnan í erfðir frá föður til elsta sonar eða þá bróður. Sverrisætt (1286–1290). Alexander 3. var síðasti konungur af Dunkeldsætt. Eini erfingi hans þegar hann lést af slysförum var Margrét, dóttir Margrétar dóttur hans og Eiríks prestahatara Noregskonungs. Hún var þá þriggja ára. Hún var send til Skotlands haustið 1290 til að alast þar upp en dó á leiðinni. Hún var aldrei krýnd og steig aldrei fæti á skoskt land og er því stundum ekki talin með í skosku konungaröðinni. Balliol-ætt (1292–1296). Þegar Margrét litla dó hófst erfðadeila sem stóð í tvö ár. Hún var seinasti afkomandi Vilhjálms ljóns. Þrettán gerðu tilkall til krúnunnar en sterkustu kröfuna áttu tveir afkomendur Davíðs af Huntingdon, yngri bróður Vilhjálms, þeir Jóhann Balliol og Róbert Bruce. Játvarður 1. Englandskonungur var fenginn til að skera úr í deilunni. Hann notaði tækifærið og þvingaði Skota til að sverja sér hollustu sem yfirkonungi. Síðan lét hann konungsvaldið í hendur Jóhanni Balliol. Hann reyndist þó veikur og vanhæfur konungur og árið 1296 neyddi Játvarður hann til að segja af sér og reyndi svo að innlima Skotland í England. Bruce-ætt (1306–1371). Skotland var konungslaust í tíu ár en Skotar neituðu að sætta sig við yfirráð Englendinga. Fyrst leiddi William Wallace baráttuna gegn þeim en síðar tók Róbert Bruce (sonarsonur Róberts Bruce sem keppti um krúnuna 1292) við því hlutverki. Árð 1306 var Róbert krýndur konungur Skota og þar sem Játvarður 2. Englandskonungur reyndist mun veikari en faðir hans hafði verið tókst Skotum að komast undan yfirráðum Englendinga og árið 1329 var gert samkomulag þar sem Englendingar samþykktu sjálfstæði Skotlands. En þegar Róbert dó var Davíð sonur hans barn að aldri og Englendingar hófu ófriðinn að nýju. Davíð eyddi miklum hluta ævinnar í útlegð eða í ensku fangelsi. Hann sneri aftur 1357 og settist í hásæti en dó barnlaus 1371 og þar með leið Bruce-ætt undir lok. Stewart (1371–1567). Róbert Stewart var dóttursonur Róberts 1. og erfði ríkið eftir Davíð 2. móðurbróður sinn, sem þó var yngri en hann. Þá var Róbert orðinn gamall og Róbert 3. sonur hans, sem tók við af honum, var fatlaður eftir slys. Eftir þeirra dag var Skotlandi iðulega stýrt af ríkisstjórum því konungarnir voru oft barnungir þegar þeir tóku við ríkjum. Stúart-tímabilið einkennist þess vegna af því að konungsvald veiktist en voldugir aðalsmenn fóru sínu fram. Á milli komu svo tímabil þar sem konungar reyndu að auka vald sitt. Jakob 3. féll í valinn í borgarastyrjöld milli konungs og aðalsmanna. Á endanum var María 1. neydd til að segja af sér og kornungur sonur hennar, Jakob 6., varð konungur. Stuart (1567–1651). Jakob 6. varð konungur Englands og Írlands sem Jakob 1. árið 1603, þegar Elísabet 1. frænka hans lést. Eftir það höfðu konungarnir aðsetur í Englandi þótt krúnurnar væru enn aðskildar. Borgarastyrjöld hófst 1642 og Karl 1., sonur Jakobs, var tekinn af lífi 1649 og stofnun lýðveldis lýst yfir í Englandi. Eftir nokkurt hik samþykkti skoska þingið að rjúfa tengslin við England og taka Karl, son Karls 1., til konungs. Hannn ríkti sem konungur í Skotlandi til 1651 en þá lögðu herir Olivers Cromwell Skotland undir sig og ráku hann í útlegð. Stuart-ætt (endurreist) (1660–1707). Með endurreisn konungdæmisins ríkti Stuart-ættin aftur yfir Skotlandi en virti ekki rétt Skota. Karl 2. lagði skoska þingið niður og útnefndi Jakob bróður sinn landstjóra í Skotlandi. Jakob varð konungur 1685 en var rekinn frá völdum eftir þrjú ár. Í stað hans kom María dóttir hans og eiginmaður hennar, Vilhjálmur af Orange. Skoska þingið samþykkti þau sem þjóðhöfðingja eftir nokkurt hik. Anna systir Maríu tók við krúnunni eftir dauða Vilhjálms. Ekkert hinna fjölmörgu barna Önnu komst á legg. Englendingar vildu að krúnan gegni til Soffíu af Hanover, dótturdóttur Jakobs 6., en Skotar vildu fá Jakob prins, son Jakobs 7. og hálfbróður Önnu og Maríu, sem var í útlegð í Frakklandi. Þeir hótuðu að slíta ríkjasambandinu. Englendingar lögðu þá fram áætlun um að sameina ríkin tvö og stofna konungsríkið Stóra-Bretland, sem hefði aðeins einn þjóðhöfðingja og eitt þing. Skotar féllust á þetta með tregðu, aðallega af fjárhagsástæðum, og þar með var sögu konungsríkisins Skotlands lokið. Titlarnir Konungur Skota og Drottning Skota hafa ekki verið til síðan 1707. Um þjóðhöfðingja eftir þann tíma, sjá Lista yfir þjóðhöfðingja Bretlands. Framhyggja. Framhyggja, framstefna eða pósitívismi (stundum kölluð vissuhyggja, raunhyggja eða raunspeki) er vísindaheimspeki- og þekkingarfræðileg kenning eða hugmyndafræði sem heldur því fram að raunvísindi séu best til þess fallin að tryggja mannkyni efnalegar og andlegar framfarir. Þannig er innbyggð í kenninguna ákveðin bjartsýnistrú. Framhyggja hafnar yfirnátturulegum, trúarlegum og frumspekilegum skýringum sem hluta af vanþróuðum skýringarleiðum í leit mannsins að þekkingu. Samkvæmt framhyggju er öll þekking byggð á reynslu og þar með skynjun. Þar með ætti að leita þekkingar með því að útskýra eða lýsa raungögnum en vísindakenningar eiga samkvæmt framhyggjunni að leitast við að hafa forspárgildi. Helsti forvígismaður framhyggju er Auguste Comte. Framhyggja er að mörgu leyti byggð á vinnu raunhyggju mannanna Francis Bacon og Davids Hume. Í byrjun 20. aldar kom fram rökfræðileg raunhyggja eða nýframhyggja. Sú stefna bygði á hugmyndum Comte um framhyggju eða að öll þekking væri fengin með reynslu. Enn fremur að þekkingu mætti öðlast án reynslu en einungis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Lögð var áhersla á að smætta allar hugmyndir niður í prófanlegar rökfræðilegar staðhæfingar. Kassagerð Reykjavíkur. Kassagerð Reykjavíkur var reykvískt iðnfyrirtæki sem stofnað var árið 1932 en er nú hluti fyrirtækjasamsteypunnar Odda. Kassagerðin var um áratuga skeið stærsti umbúðaframleiðandi á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað um framleiðslu á trékössum, aðallega undir fisk, smjörlíki og niðursoðna mjólk. Síðar var hafin framleiðsla á bylgjupappa, pappakössum, öskjum undir hraðfrystan fisk og fleira. Í tengslum við áprentun á umbúðir kom Kassagerðin sér snemma upp fullkominni prentsmiðju og stóð lengi í hvers kyns prentframleiðslu, svo sem á dagatölum, stílabókum og reikningsbókum. Hinn 1. janúar 2001 sameinuðust Kassagerðin og Umbúðamiðstöðin undir heiti Kassagerðarinnar. Haustið 2008 rann fyrirtækið svo ásamt prentsmiðjunni Gutenberg og Odda inn í sameinað prentfyrirtæki sem ber heiti síðastnefnda fyrirtækisins. Kunnir starfsmenn. Ýmsir þjóðkunnir Íslendingar hafa starfað í Kassagerðinni. Jóhanna Sigurðardóttir starfaði þar sem skrifstofumaður frá 1971 til 1978, þegar hún tók sæti á Alþingi. Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens og bræðurnir Danny og Mike Pollock kynntust þegar þeir störfuðu saman í Kassagerðinni árið 1979. Þeir stofnuðu síðar saman hljómsveitina Utangarðsmenn. Músarrindill. Músarrindill (fræðiheiti "Troglodytes troglodytes") er mjög lítill spörfugl og var lengi vel minnstur allra fugla á Íslandi, áður en Glókollur nam land. Músarrindill er fjölkvænisfugl. Karlfuglinn byggir nokkur hreiður, 6 - 7 í Evrópu en færri í Ameríku. Hann er þekktur fyrir langa og flókna söngva. Álfur úr Króki. Álfur úr Króki (d. 1305) eða Krók-Álfur var norskur embættismaður, sendimaður Hákonar háleggs Noregskonungs. Hann kom fyrst til Íslands 1301 ásamt Bárði Högnasyni og Loðni af Bakka, sem áttu að verða lögmenn á Íslandi. Álfur hafði aftur á móti með sér ýmis bréf og kröfur Hákonar háleggs, sem hafði tekið við konungdæmi í Noregi 1299 og vildi að Íslendingar hylltu sig sem konung. Íslendingar tóku erindum þeirra illa og töldu að konungur ætti engan rétt til að útnefna lögmenn á Íslandi, það væri hlutverk Alþingis að kjósa þá. Varð ekkert af hyllingunni og þremenningarnir fóru bónleiðir til búðar. Sumarið eftir hylltu landsmenn þó Hákon konung á Alþingi en settu ýmis skilyrði, þar á meðal um endurskoðun Jónsbókar með bestu manna ráði, auk þess sem Gamli sáttmáli skyldi endurskoðaður. Álfur og Bárður Högnason komu aftur til Íslands 1303 með ýmis konungsbréf og erindi, þar á meðal þann boðskap að hver maður íslenskur sem ætti eignir að verðmæti fimm hundruð eða meira, skyldi gjalda konungi eina alin af hverju hundraði. Einnig stefndu þeir allmörgum íslenskum höfðingjum utan á fund Noregskonungs. Ekki voru undirtektir Íslendinga góðar við þessum erindum og utanstefnum, Íslendingar höfðu lítinn áhuga á að láta stefna sér á konungsfund og leggja í langar og hættulegar utanlandsferðir. Álfur fór um landið með bréf sín en var illa tekið. Skagfirðingar gerðu aðsúg að honum á Hegranesþingi sumarið 1304, svo að hann „vissi varla, hvar hann átti að hafa sig. Börðu strákar og lausamenn á skjöldu og með óp og háreysti. Varð hans hjálp það, að þeir drápu hann ekki, að herra Þórður af Möðruvöllum og aðrir herrar létu bera skjöldu upp fyrir hann,“ segir í Lárentíusar sögu biskups. Álfur fór þá norður í Eyjafjörð og var þar gert hróp að honum á Oddeyrarþingi. Hann fór þá í Dunhaga í Hörgárdal og ætlaði að hafa þar vetursetu en skömmu eftir jól veiktist hann og dó. Sú saga komst á kreik að Íslendingar hefðu drepið hann og þurftu margir síðar að sverja konungi eið að því að svo hefði ekki verið. Jenis av Rana. Jenis av Rana (f. 7. janúar 1953 í Trongisvágur) er færeyskur læknir og kristilegur stjórnmálamaður. Hann er formaður Miðflokksins í Færeyjum. Hann útskrifaðist sem læknir árið 1983 og hefur síðan þá starfað við lækningar í Þórshöfn. Hann var bæjarráðsmaður í Þórshöfn á árunum 1993-1996. Hann hefur gegnt þingmennsku fyrir Miðflokkinn á Lögþingi Færeyja frá árinu 1994. Fyrir stofnun Miðflokksins árið 1992 var hann meðlimur í Kristilega Fólkaflokknum. Jenis av Rana hefur verið lýst sem fordómafullum bókstafstrúarmanni. Hann hefur í gegnum tíðina skrifað reglulega í færeyska fjölmiðla um samkynhneigð en hann hefur það á stefnuskrá sinni að Færeyjum verði stjórnað eftir „lögum Biblíunnar.“ Hann hefur verið sakaður um að vera haldinn fordómum gagnvart samkynhneigðum en samkynhneigð er enn viðkvæmt umræðuefni meðal Færeyinga. Jenis av Rana vakti mikla athygli á Íslandi í byrjun september 2010 þegar hann neitaði að sitja veislu með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra Íslands, og eiginkonu hennar, Jónínu Leósdóttur, vegna samkynhneigðar þeirra. Veislan var haldin í tilefni af heimsókn Jóhönnu til Færeyja, en Jenis taldi heimsókn hennar „hreina ögrun“ þar sem hún væri „ekki í samræmi við heilaga ritningu.“ Honum hafi því ekki dottið í hug að sitja veisluna. Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum. Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (enska: "Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights", TRIPs) er alþjóðasamningur um hugverkaréttindi sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur umsjón með. Samningurinn var afrakstur Úrúgvæumferðarinnar í GATT-viðræðunum árið 1994. Samningurinn setur fram nokkur lágmarksskilyrði sem ríki þurfi að uppfylla varðandi vernd hugverka, þar á meðal um höfundarétt, flutningsrétt, rétt framleiðenda og útvarpsútsendinga, upprunamerkingar, iðnhönnun, hönnun rafeindarása, einkaleyfi, einkarétt á nýjum jurtategundum, vörumerki og vöruumbúðir, og meðferð trúnaðarupplýsinga (viðskiptaleynd). TRIPs-samningurinn kveður meðal annars á um framkvæmd laga, bætur og aðferðir við lausn deilumála. TRIPs var fyrsti alþjóðlegi viðskiptasamningurinn sem snerist um hugverk. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir þá vernd sem hann veitir lyfjaframleiðendum og fyrir að stuðla að hærra lyfjaverði í þróunarlöndum. Meðal annars vegna þessa áttu þróunarlöndin upptökin að viðræðum árið 2001 sem leiddu til Doha-yfirlýsingarinnar þar sem kveðið er á um að túlkun TRIPs-samningsins eigi að vera sveigjanleg en ekki þröng. Hugverk. Hugverk eru ákveðnar tegundir sköpunarverka mannsins þar sem inntak verksins er huglægt. Um hugverk hefur því skapast ákveðið regluverk í löggjöf sem nefnist einu nafni hugverkaréttur. Vegna þess að hugverkið er í eðli sínu huglægt þótt það eigi sér fast form þá er „eign“ hugverks annars eðlis en eign á efnislegri útfærslu þess. Til hugverkaréttar teljast höfundaréttur og grannréttindi, lög um einkaleyfi, vörumerkjavernd, vernd iðnhönnunar, nytjamynstur, upprunamerkingar og viðskiptaleynd. Hugverkaréttur gengur oftast út á tímabundinn einkarétt eiganda hugverksins sem hefur þá færi á að hagnast á verki sínu. Einkarétturinn (sem er í reynd einokun) er réttlættur með því að hann sé nauðsynlegur til að hvetja til sköpunar og birtingar hugverka í þágu almennings. Samkvæmt þessu er meginforsenda hugverkaréttar því sú að almenningur hafi ríka hagsmuni af því að nýjar hugmyndir séu birtar og þær komist í opinbera umræðu fremur en að þeim sé haldið leyndum. Einkarétturinn er hvati til birtingar í þágu almannahagsmuna. Eins er það sjónarmið ríkjandi í hugverkarétti að velgengni þess sem skapar hugverkið eigi að vera í samræmi við velgengni verksins; það sé til dæmis ekki eðlilegt eða sanngjarnt að höfundur að vinsælu lagi fái ekki notið fjárhagslegs ábata af vinsældum þess. Hugverkaréttur er í mörgum tilvikum samningsgrundvöllur rétthafa gagnvart til dæmis framleiðanda (í tilviki einkaleyfis eða höfundaréttar) eða dreifingaraðila (þar sem um er að ræða vörumerkjavernd eða upprunamerkingar) og veitir þessum samningsaðilum tímabundið skjól fyrir samkeppni. Menn greinir á um það hvert sé „eðli“ hugverkaréttar; hvort hann sé öðru fremur hluti upplýsingaréttar, samningsréttar eða jafnvel mannréttindi (sem eignaréttur) en þetta síðasta atriði er mjög umdeilt. Saga. Flest þau lög sem mynda hugverkarétt eiga rætur að rekja til leyfisbréfa sem konungar Evrópu notuðu til að stýra efnahagslífi ríkja sinna á tímum einveldisins og kaupauðgisstefnunnar. Bæði einkaleyfi og höfundaréttur voru upphaflega búin til í þágu fyrirtækja og stofnana sem greiddu fyrir þau gjald til konungsins. Með hugmyndum upplýsingarinnar um náttúrurétt breyttist viðhorfið þannig að farið er að tala um rétt einstaklinga sem eiga upptökin að nýjum hugmyndum eða listaverkum til yfirráða yfir þeim. Elstu lög sem kveða á um eignarétt uppfinningamanns á uppgötvun sinni eru frönsk lög frá 1791. Notkun hugtaksins „"propriété intellectuelle"“ eða „hugareign“ nær að minnsta kosti aftur til 1888 þegar Svissneska hugverkaskrifstofan ("Bureau fédéral de la propriété intellectuelle") var stofnuð í Bern, Sviss. 1893 var ákveðið að sameina stofnanir Parísarsamþykktar um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar frá 1883 og Bernarsáttmála til verndar bókmenntum og listaverkum frá 1886 og stofna eina Sameinaða alþjóðaskrifstofu um vernd hugverka ("Bureaux Internationaux Réunis pour la Protection de la Propriété Intellectuelle" eða "BIRPI"). Alþjóðahugverkastofnunin tók við hlutverki þessarar skrifstofu árið 1967. Íslenska orðið „hugverk“ á meira skylt við bandaríska 19. aldar hugtakið „"labor of the mind"“ og er hugsanlega uppfinning Ólafs Lárussonar lagaprófessors frá því um 1940. Árið 1994 var gerður Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum sem viðauki við GATT-samninginn. Hann kveður á um ákveðin lágmarksskilyrði sem ríki þurfa að uppfylla í löggjöf sinni til verndar hugverkum. Samningurinn var fyrsta raunverulega alþjóðlega samkomulagið um gagnkvæma vernd allra sviða hugverkaréttar, en áður höfðu ýmsir alþjóðlegir sáttmálar á borð við Parísarsáttmálann um einkaleyfi og Bernarsáttmálinn um höfundarétt náð mikilli útbreiðslu. Gagnrýni. Einkaréttur á hugverkum hefur oft verið gagnrýndur fyrir að ganga gegn megintilgangi sínum og skaða almannaheill með því að skapa gerviskort á ótakmörkuðum gæðum og stuðla þannig að óeðlilega háu verði t.d. á frumlyfjum í þróunarlöndum. Mikilvægi hugverkaréttar í efnahagslífi heimsins hefur vaxið stig af stigi frá því fyrst var farið að ræða hann á 19. öld og um leið hefur verið greinileg tilhneiging til að útvíkka einkaréttinn bæði í tíma og eins láta hann ná til sífellt fleiri sviða. Gagnrýnendur hafa meðal annars bent á að hugverkaréttur skerði hinn eiginlega eignarrétt í mörgum tilvikum. Iðnhönnun. Iðnhönnun eða vöruhönnun er hönnun framleiðsluvöru fyrir framleiðslu og markaðssetningu með því að bæta fagurfræði hennar, vinnuvistfræði og notagildi. Iðnhönnun er mikilvægur hluti af vöruþróun og þróun vörumerkja. Iðnhönnun á rætur sínar að rekja til iðnvæðingar í framleiðslu neysluvarnings um aldamótin 1900. Iðnhönnun sem hugverk. Iðnhönnun er vernduð sem hugverk í hugverkarétti. Verndin nær yfir þá þætti hönnunarinnar sem hægt er að greina frá hreinu notagildi hlutarins. Til að iðnhönnun njóti alþjóðlegrar verndar þarf að skrá hana samkvæmt Hagsáttmálanum hjá Alþjóðahugverkastofnuninni. Skráningin gildir aðeins í fimm ár en má endurnýja upp að því hámarki sem löggjöf hvers lands leyfir. Í Evrópusambandinu nýtur óskráð hönnun verndar sjálfvirkt, en aðeins í þrjú ár eftir að hún kemur fyrst fyrir almennings sjónir. Í ýmsum löndum er þessi vernd óskráðra verka lengri (t.d. tíu ár í Bretlandi). Skráð hönnun getur aftur á móti notið verndar í allt að 25 ár ef skráningin er endurnýjuð á fimm ára fresti. Í Bandaríkjunum er hönnun skráð sem einkaleyfi og gildir í tíu ár (endurnýjunar krafist eftir fimm). Í einstaka tilvikum hefur iðnhönnun verið varin á forsendum höfundaréttar sem þá gildir í 70 ár eftir andlát höfundar (hönnuðarins). Venjulega hefur verið talið að þröskuldurinn til að njóta slíkrar verndar fyrir hönnun nytjahlutar væri mjög hár, en nokkrir nýlegir dómar (t.d. í tilviki Tripp Trapp-barnastólsins) gefa til kynna að sé hönnun nægilega frumleg (uppfylli skilyrði um verkshæð) kunni hún að njóta verndar höfundaréttar líkt og hönnun arkitekta eða listaverk. Viðskiptaleynd. a>i árið 1712 er stundum nefnt sem dæmi um iðnaðarnjósnir. Viðskiptaleynd eru upplýsingar sem ekki eru á allra vitorði eða auðfundnar sem fyrirtæki getur nýtt sér í rekstri sínum til að bæta stöðu sína gagnvart samkeppnisaðilum og viðskiptavinum. Sum staðar eru slíkar upplýsingar skilgreindar í lögum sem trúnaðarupplýsingar. Í alþjóðlegum hugverkarétti nýtur viðskiptaleynd verndar sem hugverk og fyrirtæki mega setja inn í samninga við starfsmenn sína ákvæði um bann við samkeppni og bann við að láta af hendi upplýsingar er varða fyrirtækið (innan þeirra marka sem atvinnuréttur og samningsréttur leyfa). Lögin um viðskiptaleynd tryggja fyrirtækjum í reynd ótakmarkaðan einkarétt á þessum upplýsingum. Viðskiptaleynd er að sumu leyti andstæðan við einkaleyfi: öfugt við einkaleyfi gildir viðskiptaleynd aðeins um óbirtar upplýsingar og öfugt við einkaleyfi er viðskiptaleynd ekki bundin tímatakmörkunum. Það að segja frá viðskiptaleyndarmálum eða reyna að komast að slíkum leyndarmálum með iðnaðarnjósnum gefur oftast aðeins tilefni til höfðunar einkamáls þar sem viðskiptaleynd nýtur ekki sömu formlegu verndar og einkaleyfi. Nytjamynstur. a> sem nytjamynstur. Sama mynstur var notað á bolta næstu fimm heimsmeistaramóta. Nytjamynstur eru uppfinningar sem teljast til hugverka. Hægt er að sækja um einkarétt á nytjamynstri með skráningu þess, eins konar „lítið einkaleyfi“. Venjulega nær vernd nytjamynstra yfir mun styttra tímabil (venjulega 6-10 ár) en einkaleyfi og auðveldara er að skrá nytjamynstur en fá einkaleyfi þar sem yfirleitt eru gerðar minni formkröfur. Venjulega er hægt að skrá nytjamynstur á einkaleyfastofum í þeim löndum þar sem nytjamynstur njóta verndar samkvæmt lögum. Við skráningu þarf uppfinningamaðurinn að láta í té nægjanlega ítarlegar upplýsingar um uppfinninguna til þess að annar aðili geti endurgert hana. Eins og með einkaleyfi þá er tilgangurinn með því að skrá nytjamynstur sá að hvetja til þess að þau séu gerð opinber. Mörg lönd sem annars veita vernd fyrir nytjamynstur takmarka þá hluti sem geta fallið undir slíka skráningu. Calais. Calais (borið fram, hollenska: "Kales") er bær í Norður-Frakklandi í umdæminu Pas-de-Calais. Þó Calais sé stærsti bærinn í umdæminu er höfuðborg þess Arras, sem er þriðji stærsti bær umdæmisins. Íbúar Calais voru 125,584 frá og með manntali árið 1999. Calais liggur að Ermarsundinu þar sem það er aðeins 34 km að breidd, og er sá bær í Frakklandi sem er næstur Englandi. Einu sinni var bærinn og svæðið í kring hann undir stjórn Englands. Þegar skýrt er, eru hvítu klettarnir í Dover sjáanlegir frá Calais. Gamli bærinn, Calais-Nord, er staddur á mannbyggðri eyju sem er umkringd skurðum og höfnum. Nýrri hluti bæjarins, St-Pierre, liggur suðvestan við gamla bæinn. Vegna legu sinnar hefur Calais verið mikilvæg höfn í margar aldir. Ferjur sigla þangað frá Dover í Englandi og þetta er aðalleið á milli þessara landa. Munni Ermarsundsganganna er nálægur Calais í Coquelles. Fólk hefur búið í Calais frá ómunatíð, en Rómverjar kölluðu bæinn "Caletum". Með tíð og tíma varð Calais mikilvægur hafnarbær. Bærinn var undir stjórn ýmislegra landa og talaði fólkið aðallega hollensku. Játvarður 3. Englandskonungur hélt að hann væri lögmætur konungur Frakklands og ákvað að gera innrás á Calais árið 1347, vegna legu hans við England. Brétigny-sáttmálinn lét Calais af hendi til Englands. Í tvær aldir var Calais hluti Englands og var með fulltrúa í Enska þinginu. Loksins tók Frakkland Calais aftur í sínar hendur árið 1558. Árið 1805 komu hermenn Napóleons saman í Calais fyrir áætlaða innrás á Englandi. Á fyrri heimsstyrjöldinni var Breski herinn staðsettur í bænum, en á seinna heimsstyrjöldinni var orrustan við Calais háð þar. Upprunamerking. a>i með upprunamerkingunni AOC "Appellation d'Origine Contrôlée". Upprunamerking vöru er merki sem tengir hana við ákveðið landfræðilegt svæði þar sem hún er upprunnin (t.d. land, hérað eða bæ). Notkun upprunamerkinga getur verið eins konar vottun þess að varan búi yfir ákveðnum eiginleikum eða njóti tiltekins orðspors vegna þessarar tengingar. Upprunamerkingar eiga sér langa sögu og Evrópuríki hafa notað vörumerki til að einkenna matvöru frá tilteknum ræktunarsvæðum (sjá t.d. Chianti) og lagt bann við misnotkun eða eftirlíkingum. Sumar upprunamerkingar eru jafnframt vottun um að varan uppfylli tilteknar gæðakröfur sbr. upprunamerkingu á Parmesanosti. Í Evrópusambandinu er til kerfi verndaðs uppruna fyrir heiti matvæla sem eiga sér langa hefð í þeim tilgangi að vernda orðspor vörunnar og verja hana fyrir samkeppni. Þannig máttu danskir ostaframleiðendur t.d. ekki lengur nota heitið fetaostur yfir ost sem þeir framleiða úr kúamjólk en líkist annars grískum fetaosti sem er úr geitamjólk. Í alþjóðaviðskiptum hefur verið reynt að koma á reglum um upprunamerkingar. Lissabonsáttmálinn um vernd og skráningu upprunamerkinga var gerður árið 1958 en 1997 höfðu einungis 17 ríki undirritað hann. Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum frá 1994 tilgreinir tvö skilyrði sem aðilar samningsins skuldbinda sig til að uppfylla varðandi upprunamerkingar: að hægt sé að koma í veg fyrir misvísandi upprunamerkingar sem gefa til kynna að varan komi annars staðar frá en hún gerir í raun, og að hægt sé að koma í veg fyrir merkingar á vínum sem innihalda upprunamerkingu en bæta við „í anda“, „af gerð“ eða einhverju slíku, jafnvel þótt réttur uppruni komi annars staðar fram og jafnvel þótt ekki sé um ósanngjarna samkeppni að ræða. Undantekning frá þessu eru upprunamerkingar sem komin er hefð á að nota sem almennt heiti. Listi yfir The Closer (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 13. júní 2005 og sýndir voru 13 þættir. Listi yfir The Closer (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 12. júní 2006 og sýndir voru 15 þættir Listi yfir The Closer (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 18. júní 2007 og sýndir voru 15 þættir. Listi yfir The Closer (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 14. júlí 2008 og sýndir voru 15 þættir. Listi yfir The Closer (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 8. júní 2009 og sýndir voru 15 þættir. Magnús Ólafsson (prestur í Bjarnanesi). Magnús Ólafsson (1746 – 14. október 1834) fæddist í Haga á Barðaströnd. Foreldrar hans voru Ólafur Árnason sýslumaður (1707 – 1754) og kona hans, Halldóra Teitsdóttir (1718 – 1800). Magnús var útskrifaður úr Skálholtsskóla 1769. Hann var aðstoðarprestur í Reynisþingum í Mýrdal 1771 – 1773 en sóknarprestur í Berufirði í Suður-Múlasýslu 1773 – 1785 og í Bjarnanesi í Nesjum í Hornafirði 1785 – 1829. Á árunum 1801 – 1834 bjó hann ekki á prestsetrinu, heldur hjáleigunni Stapa. Fyrri kona séra Magnúsar var Guðrún Bergsdóttir yngri (1746 – 1786). Af fimm börnum þeirra komust þrjú upp: Bergur, f. 1772, Ingibjörg, f. 1773, Ólafur, f. 1781. Seinni kona séra Magnúsar 1787 var Rannveig Jónsdóttir (1768 – 1845). Af 17 börnum þeirra komust ellefu upp: Jón, f. 1788, Páll, f. 1789, Mensalder Raben, f. 1790, Herdís, f. 1791, Guðrún, f. 1793, Bergur, f. 1797, Þóra, f. 1798, Sigurður, f. 1800, Þorleifur, f. 1802, Matthías, f. 1805, Guðbjörg, f. 1806. Seinni kona séra Magnúsar var bróðurdóttir fyrri konunnar. Fjölmenn ætt er frá prestinum og konum hans. Í Þjóðskjalasafni eru prestsþjónustubók séra Magnúsar 1784 – 1816 og mörg skjöl með hendi hans. Menningarsetur múslima á Íslandi. Menningarsetur múslima er skráð trúfélag með 305 meðlimi. Söfnuðurinn er annar tveggja sem aðhyllist íslam eða múslimatrú. Söfnuðurinn hefur tekið skref að því að búa til menningarmiðstöð múslima. Karim Askari, varaformaður Menningaseturs múslima, er talsmaður fjögurra manna stjórnar sem annast framkvæmd á Ýmishúsinu við Skógarhlíð til að gera það hæft sem menningarmistöð fyrir múslima. Stærsti styrktaraðili félagsins eru Al-Risalah-samtökin í Sádí-Arabíu. Menningarseturs múslíma var stofnað 2009 eftir klofning frá Félagi múslíma þar sem þáverandi formanni þótti trúarhugmyndir þeirra of öfgafullar. Ímman eða trúarleiðtogi félagsins, Ahmad Seddeq, varð mjög umdeildur á Íslandi 2013 eftir viðtal í sjónvarpsþættinum Spegillinn á RÚV þar sem hann viðraði þá skoðun sína að samkynhneigð stuðli að því að börnum sé rænt og þau seld á mörkuðum og að konur þurfi að hylja hár sitt til að koma í veg fyrir framhjáhald. Birgir Magnússon. Birgir Magnússon (1280 – 1321) var konungur Svíþjóðar frá 1290 til 1318 en þá var honum steypt af stóli. Ríkisstjórnarár hans einkenndust af stöðugri togstreitu og ófriði við yngri bræður hans tvo, "Bræðrastríðinu" svonefnda. Birgir var elsti sonur Magnúsar hlöðuláss Birgissonar, sem var konungur Svíþjóðar frá 1275-1290, og Helvig af Holtsetalandi, og hét hann eftir afa sínum, Birgi jarli. Hann var aðeins tíu ára þegar faðir hans lést og hafði Þorgils Knútsson marskálkur forræði yfir Birgi og yngri bræðum hans, Eiríki og Valdimar, sem kallaðir voru einu nafni hertogarnir. Birgir var krýndur konungur Svíþjóðar í Söderköping 1302 en fljótlega eftir það hófst togstreita milli hans og bræðranna. Hertogarnir viðurkenndu yfirráð bróður síns með samningi 1305 en fljótlega sótti í sama farið og þeir fengu stuðning frá Hákoni hálegg Noregskonungi. Birgir hafði mikinn stuðning af Þorgils Knútssyni en bræðrum hans tókst að baktala Þorgils svo að konungur lét handtaka hann og flytja hann í hlekkjum til Stokkhólms, þar sem hann var hálshöggvinn í febrúar 1306. Þann 29. september um haustið heimsóttu hertogarnir Birgi konung bróður sinn í konungsgarðinn Hátún. Hann tók vel á móti þeim en um kvöldið handtóku menn hertoganna konung og drottningu, en hirðsveinn nokkur komst undan með Magnús son þeirra og var farið með hann til Danmerkur, í hendur Eiríks menveds konungs, móðurbróður hans. Birgi konungi var haldið föngnum þar til hann hét því árið 1308 að skipta ríkinu með bræðrum sínum. Þessir atburðir kölluðust "Hátúnaleikurinn". Eiríkur hertogi var að reyna að stofna sjálfstætt konungsríki í Hallandi og Bóhúsléni, sem hann hafði fengið sem heimanmund með konu sinni, Ingibjörgu dóttur Hákonar háleggs, en það leist hvorki Dönum né Norðmönnum á og þeir tóku höndum saman gegn Eiríki og fóru í stríð við hann. Eiríkur var snjall herforingi og hafði betur. Í friðarsamningum milli Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur var samið um að Birgir yrði konungur að nafninu til en hann þurfti að láta stóra hluta ríkisins í hendur bræðra sinna. Haustið 1317 bauð Birgir bræðrum sínum til veislu í Nyköping-kastala, gestaboðsins í Nyköping, sem svo hefur verið nefnt. Þegar veislan stóð sem hæst lét hann handtaka bræðurna og varpa þeim í dýflissu kastalans. Þar létust þeir snemma árs 1318 og er ekki ljóst hvort þeir voru myrtir eða urðu hungurmorða. Seinna sama ár var Birgir hrakinn í útlegð af stuðningsmönnum hertoganna undir forystu ekkna þeira, Ingibjargar Hákonardóttur ekkju Eiríks og Ingibjargar Eiríksdóttur ekkju Valdimars. Mats Ketilmundsson var ríkisstjóri fyrst í stað en árið 1319 var Magnús, þriggja ára sonur Eiríks og Ingibjargar, sem þá hafði erft norsku krúnuna eftir afa sinn, tekinn til konungs í Svíþjóð einnig og stýrðu móðir hans og Helvig amma hans ríkinu ásamt ríkisráði. Birgir flúði til Danmerkur og dó þar 1321. Kona hans var Marta af Danmörku, dóttir Eiríks klippings Danakonungs og systir Eiríks menved og Kristófers 2. Sonur þeirra, Magnús Birgisson, var tekinn af lífi í Stokkhólmi 1320. Mýrar (sveit í Hornafirði). Mýrar eru sveit í Hornafirði. Austurmörk eru Hornafjarðarfljót, og handan þeirra er sveitin Nes. Vesturmörk Mýra voru Heinabergsvötn, sem síðar breyttu um farveg, og teljast mörkin nú vera lína úr Hafrafellshálsi, um Hánípu og til sjávar austan Sævarhólalands. Mýrar voru um skeið sérstakt hreppsfélag, Mýrahreppur. Í Holtum var helsti þingstaður sýslunnar. Prestsetur og sóknarkirkja sveitarinnar var lengst í Einholti, en kirkjan var 1899 færð að Brunnhól. Helstu vatnsföll á Mýrum eru Hornafjarðarfljót, Djúpá, Hólmsá og Heinabergsvötn. Á fyrri tíð komu stundum mikil hlaup úr Vatnsdal en nú eru þau hætt vegna þess hve jökullinn hefur hopað. Eiríkur Magnússon Svíakonungur. Eiríkur Magnússon (1339 – 21. júní 1359) eða Eiríkur 12. var konungur Svíþjóðar og Skáns frá 1357 til dauðadags. Eiríkur var eldri sonur Magnúsar Eiríkssonar, konungs Svíþjóðar og Noregs, og konu hans Blönku af Namur. Árið 1343 var hann útnefndur ríkisarfi Svíþjóðar en Hákon bróðir hans, sem var ári yngri, varð ríkisarfi Noregs. Hákon ólst að mestu upp í Noregi og tók formlega við konungsvöldum 1355. Eiríkur fékk hins vegar engin völd og ekki einu sinni sæti í sænska ríkisráðinu. Þetta féll honum ekki vel og árið 1356 gerði hann uppreisn gegn föður sínum og varð vel ágengt, svo að Magnús neyddist til að skipta ríkinu með honum. Eiríkur fékk mestalla Suður-Svíþjóð og Finnland. Árið 1359 sættust þeir feðgar og ákváðu að stýra Svíþjóð saman en fáeinum mánuðum síðar dó Eiríkur úr plágu. Hann hafði gifst Beatrix af Bæjaralandi, dóttur Loðvíks 4., árið 1356. Hún var þunguð þegar Eiríkur dó en lést á jóladag sama ár eftir að hafa alið andvana son. Þær sögur gengu að Blanka, móðir Eiríks, hefði byrlað þeim báðum eitur en nú er talið að þau hafi bæði dáið úr plágu. Hvítuklettar. Hvítuklettar í Dover (enska: "White Cliffs of Dover") eru klettar sem standa við Ermarsundið og snúa að Frakklandi. Klettarnir eru hluti North Downs-hóla í Suður-Englandi og eru allt að 107 m að hæð. Klettarnir eru úr hvítum kalksteini og svörtum tinnusteini og eru á ströndinni vestan og austan við bæinn Dover í sýslunni Kent, sem er gamall og mikilvægur hafnarbær. Í Bretlandi eru klettarnir taldir mjög táknrænir vegna þess að þeir snúa að meginlandi Evrópu þar sem Ermarsundið er þrengst. Þar hafa innrásir verið gerðar og litið er á klettana sem útvörð. Vegna þess að Dover var í alfaraleið til meginlands Evrópu fyrir komu flugvéla voru klettarnir annað hvort það fyrsta eða síðasta sem sást af Englandi þegar farið var til Evrópu eða komið þaðan. Klettarnir veðrast smám saman og þeir minnka um allt að 1 cm á ári. Stundum hrynja björg úr klettunum í sjó fram, t.d. árið 2001. Grannréttindi. Grannréttindi höfundaréttar eru skyld hugverkaréttindi sem ekki er þó fjallað um í Bernarsáttmálanum heldur í öðrum samningum. Algeng skilgreining á grannréttindum er að þau séu réttindi annarra en höfundar í tengslum við höfundarvarið verk, til dæmis framleiðanda, útgefanda, flytjanda o.s.frv., en oft er líka fjallað um önnur réttindi eins og gagnagrunna og samrásir sem grannréttindi. Í sumum löndum (eins og Íslandi) eru grannréttindi hluti af höfundalögum, en í öðrum falla þau undir önnur lög. Dæmi um grannréttindi eru réttur listflytjenda, réttindi framleiðenda, réttindi sem varða útvarps- og sjónvarpsútsendingar og gagnagrunna. Stundum er einkaréttur á hönnun samrása líka talinn til grannréttinda. Um grannréttindi er fjallað í Rómarsáttmála um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana. Eiríkur Jónsson. Eiríkur Jónsson (18. mars 1822 – 30. apríl 1899) fræðimaður, varaprófastur og ritstjóri í Kaupmannahöfn. Foreldrar hans voru Jón Bergsson (1795 – 1852) og fyrri kona hans, Sigríður Eiríksdóttir eldri (1800-1847). Þau bjuggu í Stórulág í Nesjum í Hornafirði, en 1828 tók Jón prestsvígslu og fékk Einholt á Mýrum. Eiríkur lauk prófi frá Bessastaðaskóla 1846, sigldi síðan til Kaupmannahafnar og settist þar að. Hann las guðfræði og síðar málfræði við háskólann en lauk ekki lokaprófi. Hann starfaði sem styrkþegi hjá Árnasafni og varaprófastur á Garði 1873-1899. Hann var ritstjóri "Skírnis" árin 1863 – 1872, 1875 og 1877 – 1887. Eftir að hann lét af því starfi, sendi hann "Ísafold" erlendar fréttir. Eiríkur átti þátt í að gefa út "Reykjabók" og "Hauksbók", og á yngri árum starfaði hann við söfnun til fornmálsorðabókarinnar, sem kennd er við Cleasby-Vigfússon. Síðar samdi Eiríkur sjálfur "Oldnordisk Ordbog", sem kom út 1863, 856 bls. rit, og inn í eintak Árnasafns í Kaupmannahöfn skráði hann auk heldur margar viðbætur. Eiríkur missti ungur sjón á öðru auga af slysi í smiðju og finnst stundum kallaður "Eiríkur eineygði". Hann var hagmæltur. Hann stofnaði 1844 bindindisfélag í Austur-Skaftafellssýslu. Hann gekk 1868 í hjónaband, kona hans Jensine "Petrine" Jensen (1836 – 1900). Blanka af Namur. Blanka drottning með Magnús son sinn. Málverk eftir Albert Edelfelt frá 1877. Blanka af Namur (um 1320 – 1363) var drottning Svíþjóðar og Noregs og kona Magnúsar smeks Eiríkssonar konungs. Hún var elsta dóttir Jóhanns 1., markgreifa af Namur (nú í Belgíu), og konu hans Maríu af Artois. Ekki er vitað hvernig á því stóð að Magnús konungur leitaði sér kvonfangs í Namur en hann gerði sér ferð þangað frá Noregi árið 1334 til að biðja Blönku. Gengið var frá trúlofuninni og Magnús sneri heim um haustið. Ári síðar kom Blanka til Noregs og brúðkaupið fór fram í október eða nóvember 1335. Hún var krýnd í júlí árið eftir í Stokkhólmi. Samtímaheimildir lýsa henni sem fagurri og gáfaðri konu. Blanka og Magnús áttu tvo syni, Eirík, sem ákveðið var að fengi Svíþjóð í sinn hlut, og Hákon, sem erfði norsku krúnuna. Þrjár dætur þeirra dóu ungar. Sögusagnir voru um að Magnús smek væri samkynhneigður og svo mikið er víst að Bengt Algotsson, hertogi af Finnlandi, var í miklu uppáhaldi hjá honum. Samband Magnúsar og Blönku virðist þó hafa verið gott og hún hafði ýmis pólitísk áhrif. Það varð þó til þess að hún var nokkuð umdeild. Árið 1359 gengu til dæmis sögur um að hún hefði eitrað fyrir tengdadóttur sinni, Beatrix af Bæjaralandi, og jafnvel einnig fyrir Eiríki syni sínum, en hann dó um sumarið og kona hans um jólin. Nú er þó talið að þau hafi bæði dáið úr plágu. Heilög Birgitta, sem var fengin til að kenna Blönku þegar hún kom fyrst til Svíþjóðar, hafði horn í síðu drottningar og hataðist við Eirík konung. Hún sakaði drottningu um ótryggð og hélt því jafnvel fram að Bengt Algotsson væri elskhugi bæði konungs og drottningar. Blanka dó rétt eftir brúðkaup Hákonar sonar síns og Margrétar dóttur Valdimars atterdags, en það fór fram 9. apríl 1363. Róbert I. Douglas. Róbert Ingi Georgsson Douglas (fæddur 4. júní 1973) er íslenskur leikstjóri. Ingibjörg Hákonardóttir af Noregi. Ingibjörg Hákonardóttir. Lágmynd í Linköping-dómkirkju. Ingibjörg Hákonardóttir (1301 – 1361) eða Ingibjörg hertogaynja var norsk konungsdóttir sem varð sænsk hertogaynja og átti sæti í bæði norska og sænska ríkisráðinu. Hún var móðir Magnúsar Eiríkssonar smeks. Sumir sagnfræðingar telja að hún hafi í raun verið þjóðhöfðingi Svíþjóðar 1318-1319 og hún hafði mikil áhrif á stjórn Svíþjóðar og Noregs í yfir 40 ár. Barnung brúður. Ingibjörg var eina skilgetna barn Hákonar háleggs Noregskonungs og Eufemíu af Rügen. Þegar hún var eins árs var samið um giftingu hennar og Eiríks hertoga af Södermanlandi, bróður Birgis Magnússonar Svíakonungs. Hann var 19 árum eldri og hefur líklega þótt langt að bíða eftir því að hann fengi yfirráð yfir heimanmundi hennar, sem var meðal annars hertogadæmið Halland. Hann krafðist þess því árið 1308 að brúðkaupið færi fram en Hákon konungur vildi það ekki, enda áttu þeir þá í ófriði. Eiríkur sleit þá trúlofuninni og bað Soffíu af Mecklenburg-Werle. Þeirri trúlofun var þó sliðtið seinna og Eiríkur og Ingibjörg giftust í Osló árið 1312, þegar Ingibjörg var 11 ára en Eiríkur þrítugur. Brúðkaupið var tvöfalt því að um leið giftist Valdimar hertogi, bróðir Eiríks, Ingibjörgu dóttur Eiríks prestahatara, bróður Hákonar háleggs. Ekkja og ríkisstjóri. Ingibjörg ól son, Magnús, vorið 1316 og dótturina Eufemíu 1317. Það sama haust lét Birgir konungur handtaka bræður sína, hertogana Eirík og Valdimar, og varpa þeim í dýflissu. Frænkurnar tvær, eiginkonur þeirra, urðu leiðtogar fylgismanna þeirra og 16. apríl 1318 gerðu þær bandalag í Kalmar við Kristófer hertoga, bróður Danakonungs (síðar Kristófer 2.) og Ásgeir erkibiskup í Lundi með það að markmiði að frelsa hertogana. Nokkru síðar kom þó í ljós að þeir voru látnir, höfðu verið drepnir eða soltið í hel í dýflissunni, en Birgi var samt sem áður steypt af stóli og hann flúði til Danmerkur. Á þessu tímabili var hin unga hertogaynja ótvírætt valdamesta manneskja Svíþjóðar. Hákon háleggur dó vorið 1319 og Magnús sonur Ingibjargar var lýstur konungur. Hún var sjálf gerð að ríkisstjóra og sat í norska ríkisráðinu. Skömmu síðar kaus sænski aðallinn Magnús einnig konung Svíþjóðar. Ingibjörg fékk þá sæti í sænska ríkisráðinu og Ingibjörg frænka hennar einnig. Ekki er ljóst hver völd Ingibjargar konungsmóður voru raunverulega en einn helsti bandamaður hennar, Mats Kettilmundsson, stýrði sænska ríkisráðinu og hún hafði atkvæðisrétt í báðum ríkisráðunum og réði auk þess sínum eigin víðáttumiklu lénum. Deilur við ríkisráðin. Ingibjörg þótti fara sínu fram, oft án þess að bera málefni undir ríkisráðin, og var harðlega gagnrýnd fyrir það. Hún hafði um sig hirð ungra, erlendra manna og bar þar mest á Dananum Knúti Porse, sem brátt varð elskhugi hennar. Ingibjörg þótti hlusta meira á þessa ungu vini sína en eldri og reyndari ráðgjafa og voru sett lög sem bönnuðu útlendingum setu í sænska ríkisráðinu. Ingibjörg og Knútur Porse höfðu hug á að leggja Skán undir sig og í því skyni samdi Ingibjörg árið 1321 við Hinrik hertoga af Mecklenburg um brúðkaup Eufemíu dóttur sinnar og Albrechts sonar Hinriks; var samið um að Mecklenburg og fleiri þýsk ríki skyldu hjálpa Ingibjörgu að ná Skáni af Dönum. En þegar sveitir hennar undir forystu Knúts Porse gerðu innrás á Skán 1322-1323 sveik Hinrik hana um hjálp og áætlunin mistókst. Trúlofun barnanna hélt þó og giftust þau 1336. Árið 1322 kom til átaka milli Ingibjargar og sænska ríkisráðsins og ráðið gerði samþykkt um að ekki mætti hlýða neinum fyrirmælum hennar nema allt ríkisráðið hefði samþykkt þau. Norska ríkisráðið reis líka upp gegn henni 20. febrúar 1323 og hún var svipt ríkisstjóraembættinu. Eftir 1323 voru því völd hennar í báðum ríkjunum verulega takmörkuð. 14. febrúar 1326 var hún svo svipt öllum völdum sínum í Svíþjóð en hélt ennþá einhverjum völdum í Noregi. Seinna hjónaband og ekkjuár. Ingibjörg giftist Knúti Porse 1327 og varð hann þá hertogi af Hallandi, sem Ingibjörg hafði fengið í heimanmund. Hann var svo gerður hertogi af Eistlandi 1329 en dó ári síðar. Þau áttu þá tvo barnunga syni sem urðu hertogar af Hallandi. Eftir lát Knúts varð samband Ingibjargar og Magnúsar sonar hennar aftur náið. Báðir synir Ingibjargar og Knúts Porse dóu úr Svarta dauða 1350, rúmlega tvítugir, og varð hún þá hertogaynja af Hallandi. Hún dó 1361. Nes (sveit í Hornafirði). Nes eru sveit í Hornafirði og takmarkast að austan af fjallgarði, en handan hans er sveitin Lón. Vesturmörk Nesja eru Hornafjarðarfljót, og vestan þeirra er sveitin Mýrar. Nesjasveit myndaði um árabil svokallaðan Nesjahrepp, sem hefur verið lagður niður með sameiningu við Höfn. Prestsetur var löngum á bænum Bjarnanesi, og þar er enn sóknarkirkja. Annexía var í Hoffelli en lögð niður 1894. Á fyrri öldum voru hálfkirkjur á Horni, á Setbergi og í Árnanesi. Albrekt af Mecklenburg. Albrekt af Mecklenburg (1338/1340 – 31. mars eða 1. apríl 1412) eða Albrekt 1. Svíakonungur og Albrekt 2. hertogi af Mecklenburg og Schwerin var konungur Svíþjóðar 1363/1364 þar til hann var settur af 1389 en hann sagði þó ekki formlega af sér fyrr en 1405. Albrekt var næstelsti sonur Albrekts mikla hertoga af Mecklenburg og Eufemíu Eiríksdóttur, systur Magnúsar smeks, konungs Noregs og Svíþjóðar. Þegar kom fram yfir 1360 var mikil óánægja í Svíþjóð með stjórn Magnúsar; aðalsmenn risu gegn honum en hann hrakti marga þeirra í útlegð 1363. Hópur aðalsmanna, undir forystu Bo Jonsson Grip, hélt þá til Mecklenburg og bauð Albrekt mikla krúnuna handa næstelsta syninum gegn því að hann hjálpaði þeim að koma Magnúsi frá. Albrekt mikli sendi 1600 manna lið til Svíþjóðar og voru þeir fljótir að ná landinu á sitt vald. Albrekt yngri var hylltur konungur í Stokkhólmi í nóvember og 18. febrúar 1364 var hann formlega kjörinn konungur Svíþjóðar. Magnús sneri aftur ásamt Hákoni syni sínum, sem hafði tekið við konungsvöldum í Noregi, árið 1365 en þeir biðu ósigur í orrustu og Albrekt tók Magnús til fanga. Hákon komst hins vegar undan og fékk Valdimar atterdag Danakonung í lið með sér en Albrekt naut stuðnings ýmissa þýskra fursta og Hansaborga. Þetta þýddi aukin erlend áhrif í Svíþjóð og það gerði Albrekt óvinsælan hjá almenningi en Hákon fékk aukinn stuðning. Á endanum var þó saminn friður og Magnúsi konungi var sleppt gegn greiðslu lausnargjalds. Hákon fékk yfirráð í hluta Svíþjóðar en meirihluti ríkisins var undir stjórn dróttsetans, Bo Jonsson Grip. Albrekt var konungur Svíþjóðar að nafninu til en réði þó aðeins yfir Stokkhólmi og nokkrum köstulum. Hann var algjörlega háður Bo Jonsson Grip og öðrum aðalsmönnum og vald þeirra stórjókst. Eftir dauða dróttsetans árið 1386 reyndi Albrecht þó að styrkja stöðu sína en aðalsmenn sneru sér til Margrétar drottningar í Danmörku og báðu um aðstoð. Hún sendi lið til Svíþjóðar en Albrekt leitaði sér hjálpar í Þýskalandi og í orrustunni við Åsle í febrúar 1389 barðist danskt og þýskt herlið við hlið beggja fylkinga Svía. Albrekt tapaði og var tekinn höndum ásamt Eiríki syni sínum. Þeim var ekki sleppt lausum fyrr en haustið 1395. Albrekt hélt þá til Mecklenburg en hann hafði erft hertogadæmið þegar Hinrik eldri bróðir hans dó 1384. Hann sagði þó ekki formlega af sér konungdómi fyrr en 1405, sextán árum eftir að hann var settur frá völdum. Albrekt var tvígiftur. Árið 1359 giftist hann hinni ellefu ára gömlu Rikardis af Schwerin og áttu þau tvö börn. Sonurinn, Eiríkur af Mecklenburg, var fæddur um 1365. Hann sat í fangelsi með föður sínum en 1396, ári eftir að þeim var sleppt lausum, hélt hann til Gotlands og lagði það undir sig en dó svo úr plágu 1397. Seinni kona Albrekts, sem hann giftist i Schwerin 1396, var Agnes af Braunschweig-Lüneburg. Hún var þó aldrei drottning. Sonur þeirra var Albrekt hertogi af Mecklenburg og Schwerin. Bjarnanes. Bjarnanes í Nesjum er bújörð og kirkjustaður, og þar sátu löngum sóknarprestar. Þar var Maríukirkja. Heimajörð og hjáleigur voru árið 1697 metin á 60 hundruð að dýrleika. Oftast héldu prestar í Bjarnanesi svokallað "Bjarnanesumboð" yfir allmörgum jörðum í héraðinu. Pinkskip. Pinkskip (úr hollensku: "pincke", lítið flutningaskip) voru lítil (50 til 200 tonna) einmastra flatbotna flutningaskip með gaffalsegl eða þversegl og grannan skut sem voru algeng í Norðursjó frá 17. öld til 19. aldar. Skipin ristu mjög grunnt og voru því einkum notuð þar sem skjól var fyrir öldugangi, eins og á skipaskurðum, ám og vötnum, og þar sem þurfti að sigla skipinu upp á sandstrendur. Pinkskip voru fremur hraðskreið og meðfærileg skip sem gerði þau að hentugum farkosti þar sem annars voru erfiðar aðstæður til siglinga vegna grynninga, skerja eða kóralrifja. Pinkskip urðu algeng á Miðjarðarhafinu (ítalska: "pinco genovese") þar sem þau gátu borið allt að þrjú möstur með bæði þverseglum og latínseglum. Sveinsstaðafundur. Sveinsstaðafundur eða Sveinsstaðareið var sögufrægur bardagi á Sveinsstöðum í Húnaþingi á 16. öld, þar sem þeir tókust á, Jón Arason, þá biskupsefni, og Teitur Þorleifsson ríki í Glaumbæ, sem þá var sýslumaður í Húnaþingi. Teitur hafði tekið að sér mál Einars, sonar Jóns Sigmundssonar lögmanns, sem Jón taldi hafa fallið í sekt við Hólastól af því að hann hafði samneytt föður sínum meðan hann var bannfærður, en Teitur mótmælti því og neitaði að framselja Einar. Jón fór vestur í Húnaþing 31. janúar 1522 með stóran hóp fylgismanna, þar á meðal Grím Jónsson lögmann og Hrafn Brandsson, sýslumann Skagfirðinga, og ætluðu þeir að sækja málið á Sveinsstaðaþingi. Teitur vildi ekki leyfa þeim að setja þingið á hefðbundnum þingstað og var það sett á hól í Sveinsstaðalandi. Þangað kom Teitur með sveit manna og sló í bardaga á milli sveitanna. Einn maður úr liði Jóns féll, Árni Bessason, og nokkir særðust úr báðum liðum, þar á meðal Teitur sýslumaður, en Grímur lögmaður skaut hann með ör í handlegginn. Teitur hélt því raunar fram að Jón Arason hefði haldið sér föstum meðan hann var skotinn. Helgi Höskuldsson, ábóti í Þingeyraklaustri, kom með lið manna á vettvang og tókst að skilja fylkingarnar að og var honum þakkað að ekki varð meira mannfall. Jón Arason lét svo dæma Teit í þungar sektir en Teitur harðneitaði að taka mark á dómnum. Á Alþingi um sumarið var hann svo kjörinn lögmaður í stað Gríms og var sýknaður af kæru Jóns með tylftardómi. Þremur árum síðar náði Jón biskup fram hefndum. Þá fékk hann Hrafn Brandsson, sem skömmu síðar varð tengdasonur hans, kjörinn lögmann í stað Teits. Hrafn stefndi svo Teiti fyrir rétt og krafðist vígsbóta fyrir Árna Bessason. Teitur mætti ekki til réttarhaldsins en þar dæmdi Hrafn hann sekan og útlægan og hálft fé hans til konungs en hálft til erfingja. Eftir að hafa fengið konungsstaðfestingu á dómnum hrakti hann Teit burt úr Skagafirði og lagði eignir hans undir sig. Reykholtsmáldagi. Reykholtsmáldagi er kirkjumáldagi eða eignaskrá Reykholtskirkju. Elsti hluti máldagans er talinn frá því um 1185 og er hann elsta varðveitta frumskjal á íslensku. Í öðrum hluta máldagans er getið um gjafir Snorra Sturlusonar og Hallveigar konu hans til kirkjunnar í Reykholti, og er hugsanlegt að Snorri hafi sjálfur haldið þar á penna. Reykholtsmáldagi er e.t.v. elsta varðveitta frumskjal á norrænni tungu. Sigurður Jónsson á Grenjaðarstað. Sigurður Jónsson (um 1520 – 1595) var prestur á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu á 16. öld, einn helsti klerkur landsins og tvívegis kjörinn biskup en í hvorugt skiptið fékkst kjör hans samþykkt. Sigurður var yngsti sonur Jóns Arasonar Hólabiskups og fylgikonu hans, Helgu Sigurðardóttur. Hann varð prestur á Grenjaðarstað eftir að Magnús bróðir hans, sem þar hafði verið prestur, dó ungur. Hann var sagður mikill lærdómsmaður og eftir að klaustrið á Munkaþverá var lagt niður um siðaskipti hafði hann skóla hjá sér á Grenjaðarstað og kenndi ungum mönnum. Sigurður var talinn mestur vitsmunamaður af bræðrum sínum en friðsamari en bræður hans, Björn og Ari, og stóð að miklu leyti utan við átökin þótt hann styddi föður sinn. Hann var líka fulltrúi Jóns biskups í mörgum málum sem tengust rekstri Hólastóls og rak erindi hans erlendis; árið 1542 sendi Jón Sigurð og Ólaf Hjaltason prest í Laufási, á konungsfund og dvöldust þeir við hirð Danakonungs um veturinn. Þó er að sumu leyti eins og Jón, Ari og Björn hafi haft lítið álit á Sigurði og talið hann huglausan; Ari talaði að sögn um að hann hefði kálfshjarta og Jón kallaði hann dóttur sína en sagði að Þórunn væri sonurinn. Eftir að Jón biskup, Björn og Ari voru handteknir og síðan teknir af lífi fór Sigurður í Hóla og sá um rekstur stólsins. Þá gerði hann meðal annars ítarlega skrá um eignir biskupsstólsins, sem varðveist hefur. Vorið 1551 komu tvö dönsk herskip til Oddeyrar og var Sigurður kallaður þangað ásamt öðrum helstu höfðingjum Norðlendinga og voru þeir látnir sverja Danakonungi hollustueið. Sigurður var tvívegis kjörinn biskup á Hólum en í bæði skiptin neitaði konungur að samþykkja kjör hans. Hann var þó áfram helsti og auðugasti prestur norðanlands, hélt sig með rausn og hafði jafnan vopnaða fylgdarsveina. Fylgikona Sigurðar og síðar eiginkona var Sesselja, dóttir Péturs Loftssonar í Stóradal í Eyjafirði, sem var einhver auðugasti maður á Íslandi á sinni tíð. Þau áttu tvö börn sem bæði dóu ógift og barnlaus en laundóttir Sigurðar með Guðrúnu Markúsdóttur var Þuríður Sigurðardóttir húsfreyja í Stóradal og er af henni komin mikil ætt. Barna-Sveinbjörn Þórðarson. Sveinbjörn Þórðarson (1406 – um 1491) eða Barna-Sveinbjörn var prestur í Múla í Aðaldal á 15. öld. Hann var einkum þekktur fyrir frjósemi sína. Sveinbjörn var líklega sonur Þórðar Þorsteinssonar bónda á Stóru-Laugum og konu hans Þórdísar, dóttur Finnboga Jónssonar gamla í Ási í Kelduhverfi. Hann var prestur í Múla frá 1433 til dauðadags og prófastur í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi. Hann var einn helsti klerkur norðanlands á sinni tíð en var þó langþekktastur fyrir barneignir sínar því honum voru að sögn eignuð yfir 50 börn sem hann gekkst við, 24 synir og 26 dætur. Nöfn barnsmæðra hans eru ekki þekkt. Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, var sonardóttir hans og einnig voru þeir Guðbrandur Þorláksson biskup og Hallgrímur Pétursson sálmaskáld á meðal afkomenda hans. Maríulind. Maríulind eða Gvendarbrunnur er lind sem sprettur undan hraunjaðri við Hellna á Snæfellsnesi. Þórufoss. Þórufoss er 18 m hár foss í Laxá í Kjós. Sauðárkrókskirkja. Sauðárkrókskirkja er kirkja á Sauðárkróki sem var vígð 9. desember 1892. Kirkjusóknin var sameinuð Sjávarborgar- og Fagranessóknum, og nær sóknin yfir Reykjaströnd, Gönguskörð, Sauðárkrók og Borgarsveit. Kirkjan var stækkuð árin 1957 og 1958 og turninn endurbyggður og steyptur kjallari. Fyrir hundrað ára afmæli kirkjunnar var hún svo endurbyggð að miklu leyti og lengd um tæpa fjóra metra til vesturs. Altaristafla kirkjunnar er frá 1895. Hún er eftir danska málarann Anker Lund. Ljósakrónur í kirkjuskipinu eru olíulampar sem gerðir voru að rafljósum 1923. Steindir gluggar eru í kirkjunni. Kirkjugarðurinn er á Nöfunum fyrir ofan bæinn. Elsti hluti garðsins er frá 1893. Elliðavatn. Elliðavatn er lindarvatn á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Elliðavatn var upphaflega tvö vötn, Vatnsendavatn sem var í Kópavogi og Vatnsvatn sem tilheyrði Reykjavík. Vötnin tengdust með mjóum ál framan við Þingnes. Árin 1924-1928 nær tvöfaldaðist flatarmál vatnins vegna þess að miðlunarstífla var reist á Elliðavatnsengi. Elliðavatn er nú alls um 2 km² að stærð en vatnið er grunnt og er meðaldýpi um 1 m og mesta dýpi um 2,3 m. Vatnasvið Elliðavatns er um 270 km² Mikill hluti af aðstreymi vatns í Elliðavatn rennur neðanjarðar gegnum hraun. Tvær ár renna í vatnið, Bugða eða Hólmsá og Suðurá. Úr Elliðavatni rennur ein á sem heitir Dimma en neðar taka Elliðaár við. Elliðavatn og vatnasvið Elliðaánna er á náttúruminjaskrá. Við Elliðavatn er Þingnes en þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands og staður þar sem hið forna Kjalarnesþing var haldið. Skiptá. Skiptá er á í Kjálkafirði og er áin mörk Austur- og Vestur-Barðastrandasýslu. Í ánni er fossinn Skiptárfoss. Borgarey. Borgarey er ein af þremur eyjum á Ísafjarðardjúpi. Þar er æðarvarp og mikil lundabyggð og eru nytjar af eynni hlunnindi prestsetursins í Vatnsfirði. Borgarey er innsta og minnsta eyjan á Ísafjarðardjúpi, minni en bæði Æðey og Vigur. Eyjan var síðast í byggð í kringum aldamótin 1900 en takmarkaður aðgangur að ferskvatni hamlaði byggð þar. Gleraugna-Pétur Einarsson. Þýsk gleraugu frá 16. öld. Líklega hafa gleraugu Péturs verið þessarar gerðar. Pétur Einarsson (d. 1582), kallaður Gleraugna-Pétur, var íslenskur sýslumaður og prestur á 16. öld og kom mjög við sögu siðaskiptanna á Íslandi. Pétur var sonur Einars Snorrasonar Ölduhryggjarskálds og Guðrúnar Oddsdóttur fylgikonu hans, bróðurdóttur Sveins biskups spaka. Á meðal bræðra hans voru þeir Marteinn Einarsson biskup í Skálholti og Moldar-Brandur, sýslumaður á Snorrastöðum, en systir hans, Guðrún, var kona Daða Guðmundssonar í Snóksdal. Pétur var við nám í Þýskalandi ungur að árum en kom síðar heim og var einn af sveinum Ögmundar biskups. Hann hallaðist þó að siðaskiptamönnum, sem hann hefur kynnst í Þýskalandi, og Ögmundur bannfærði hann en Gissur Einarsson, sem þá var orðinn biskup, studdi hann. Pétur varð umboðsmaður konungs 1542 og sýslaði meðal annars með eignir klaustranna. Hann settist að í Viðeyjarklaustri og virðist sem honum hafi verið umhugað að eyðileggja allt sem minnti á kaþólsku kirkjuna. Ýmsar sögur gengu um framferði hans þar og var meðal annars sagt að hann hefði leitt skolpræsi frá bænum að kirkjurústunum og kirkjugarðinum. Einnig er sagt að hann hafi rekið munkana berfætta og grátandi úr Helgafellsklaustri. Ekki er þó víst hvað satt er í þessum sögum en siðaskiptamenn voru mjög óvinsælir á þessum tíma og mikið gert úr framferði þeirra. Umboðsmennsku Péturs lauk 1547 en hann hafði jafnframt verið prestur í Hjarðarholti í Laxárdal frá 1543. Hann hafði seinna umboð Helgafellsklaustursjarða um tíma og bjó þá á Arnarstapa. Sýsluvöld hafði hann líka stundum en var prestur í Hjarðarholti allt til 1581. Hann varð sjóndapur á efri árum og notaði þá gleraugu, sem var þá mjög fátítt; jafnvel er hugsanlegt að hann hafi verið fyrsti Íslendingurinn sem gekk með gleraugu. Kona Péturs var Ingiríður Guðmundsdóttir, systir Daða í Snóksdal, og voru þeir því tvöfaldir mágar. Hún hafði áður verið fylgikona Ólafs Guðmundssonar, prests í Hjarðarholti. Einkadóttir þeirra Péturs var Katrín, kona Teits Eiríkssonar bónda í Ásgarði í Hvammssveit. Eimreiðarhópurinn. Eimreiðarhópurinn var hópur karla kenndur við tímaritið "Eimreiðina" sem boðaði hugmyndir frjálshyggju á Íslandi á áttunda áratugnum. Margir meðlimir hópsins urðu seinna meir áhrifamiklir í íslensku þjóðlífi og sem dæmi um það má nefna að þrír meðlimir hópsins, Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde urðu seinna formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrar Íslands. Um leið voru þau áhrif sem hópurinn hafði mjög umdeild, einkum eftir að bankahrunið 2008 skall á, þegar sumir töldu að baráttumál hópsins hefðu átt sinn þátt í að valda hruninu. Offa af Mersíu. Mynd af Offa frá handriti Offa af Mersíu var konungur engilsaxneska konungsríkisins Mersíu, sem var í miðhluta Englands, frá 757 til dauðadags í júlí 796. Offa var sonur Thingfriths og afkomandi Eowa, bróður Penda af Mersíu, sem hafði stjórnað Mersíu allt að einni öld fyrr. Offa kom til ríkis eftir borgarastríðið sem fylgdi í kjölfar dauða Æthelbalds, þar sem hann sigrað Beornred, sem einnig hafði gert tilkall til krúnunnar. Snemma á ríkisárum Offa er talið að hann hafi styrkt stjórn sína yfir þeim þjóðum sem byggðu miðhéröð Englands, það er að segja Hwicce og Magonsæte. Árið 762 notfærði hann sér ófrið í konungsríkinu Kent til að leggja það undir sig. Einhverntíma fyrir 771 náði hann yfirráðum í konungsríkinu Sussex, en í báðum ríkjunum mætti stjórn hans mótstöðu. Um 1780 tókst honum að ná undir sig meginhluta Suður-Englands og myndaði svo bandalag við Beorhtric af Wessex sem giftist dóttur Offa, Eadburh. Offa náði á ný stjórn yfir Suðaustur-Englandi og varð lénsherra Austur-Anglíu. Hann lét afhöfða Æthelberht 2. af Austur-Anglíu árið 794, mögulega af því hann gerði uppreisn gegn Offa. Offa var kristinn konungur en átti í deilum við kirkjuna, sérstaklega við Jaenberht erkibiskup af Kantaraborg. Einar Snorrason Ölduhryggjarskáld. Einar Snorrason (d. 1538), kallaður Einar Ölduhryggjarskáld, var íslenskur prestur og skáld á 16. öld. Synir hans og tengdasonur voru framarlega í hópi siðaskiptamanna um miðja öldina. Talið er að Einar hafi verið sonur Snorra Sveinssonar bónda í Ytra-Skógarnesi í Miklaholtshreppi en að öðru leyti er ætt hans óþekkt. Einar kemur fyrst við skjöl árið 1497 og var þá orðinn prestur, líklega á Stað á Ölduhrygg, þar sem hann var alla tíð síðan. Hann mun hafa verið þekkt skáld á sinni tíð og Jón Arason kallar hann höfuðskáld vestanlands, en ekkert er nú þekkt af kveðskap hans. Fylgikona Einars var Guðrún Oddsdóttir, bróðurdóttir Sveins biskups spaka, og voru synir þeirra Gleraugna-Pétur, prestur og sýslumaður, og Moldar-Brandur, sýslumaður á Snorrastöðum og í Hítarnesi. Einar átti líka börn með Ingiríði Jónsdóttur, systur Stefáns biskups, en ekki er ljóst hvort hún var fylgikona hans. Börn þeirra voru Marteinn biskup Einarsson og Guðrún, kona Daða Guðmundssonar í Snóksdal. Fleiri börn átti Einar en um mæður þeirra er ekki vitað. Faxi. Faxi er íslenskt tímarit sem er gefið út í Reykjanesbæ af Málfundafélaginu Faxa. Fyrsta tölublað kom út 21. desember 1940. Árið 2005 hlaut Málfundafélagið Faxi Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar. Konungsríkið Norðymbraland. Konungsríkið Norðymbraland (enska: "Northumbria" eða "Northhumbria", fornenska: "Norþanhymbra" eða "Norþhymbre") var konungsríki sem var til á miðöldum, undir stjórn Engla, á því svæði sem er nú Norður-England og Suðaustur-Skotland. Seinna varð Norðymbraland jarlsdæmi í konungsríkinu England á tíma Engilsaxa. Nafnið er dregið af því að ríkið lá norðan við ána Humber. Æthelfrith konungur myndaði Norðymbraland í miðhluta Stóra-Bretlands á tíma Engilsaxa. Í byrun 7. aldar sameinuðust konungsríkin Bernicia og Deira. Samkvæmt skrifum Hinriks af Huntingdon frá 12. öld var Norðymbraland eitt ríkjanna sjö í Sjökonungaríkinu. Þegar konungsríkið var víðlendast náði það rétt suður fyrir ána Humber, vestur til árinnar Mersey og norður til Forth (það er að segja frá Sheffield til Runcorn til Edinborgar). Til er sönnunargagn sem bendir til þess að það gæti hafa verið miklu stærra. Síðara og minna jarlsdæmið varð til þegar suðurhluti Norðymbralands (áður fyrr Deira) var tekinn yfir af Danalögum. Í fyrstu hélt norðurhlutinn (áður fyrr Bernicia) stöðu sem konungsríki en síðar var það gert að jarlsdæmi undir stjórn Dana, og hélt nafninu þegar Wessex kollvarpaði Danalögum. Jarlsdæmið náði yfir svæðið á milli ánna Tees í suðri og Tweed í norðri (nokkurn veginn það svæði sem er nú kallað Norðaustur-England). Miklar deilur voru um þetta land, en að lokum var það sameinað Englandi með York-samkomulaginu árið 1237. Nú er orðið „Northumbria“ mikið notað í nöfnum samtaka og annarra stofnana á svæðinu, til dæmis háskólinn í Norðymbralandi (e. "University of Northumbria"), og í nöfnum lögregluliða í Norðaustur-Englandi. Annars er orðið ekki notað í daglegu tali og er ekki opinbert nafn Norðaustur-Englands, sem Bretland og Evrópusambandið setja sem skilyrði. Daði Guðmundsson. Daði Guðmundsson (um 1495 – 1563) eða Daði í Snóksdal var bóndi og sýslumaður á 16. öld. Hann bjó í Snóksdal í Dalasýslu og kom mjög við sögu siðaskiptanna á Íslandi. Daði var sonur Guðmundar Finnssonar bónda í Snóksdal og konu hans, Þórunnar Daðadóttur, sem var bróðurdóttir Torfa Arasonar hirðstjóra. Árið 1525 giftist hann Guðrúnu, dóttur séra Einars Snorrasonar Ölduhryggjarskálds, sem bjó á Staðarstað, systur Marteins Einarssonar biskups og þeirra Gleraugna-Péturs og Moldar-Brands, sem allir voru með helstu foringjum siðaskiptamanna á Íslandi. Daði hefur sjálfsagt fengið nokkurt fé eftir foreldra sína en hann auðgaðist mjög af eigin rammleik og þótti mikill dugnaðar- og gróðamaður, byggði upp mikið veldi kringum Hvammsfjörð sem byggðist ekki síst á útgerð og fiskverslun. Hann hafði jafnan um sig hóp sveina og átti fullkomin hertygi fyrir þrjátíu til fjörutíu menn. Daði var kvensamur og féll oft í sektir vegna hjúskaparbrota sinna. Var því mikilsvert fyrir hann að eiga gott samband við Skálholtsbiskup og því vænkaðist hagur hans þegar Marteinn mágur hans var kjörinn biskup eftir lát Gissurar Einarssonar. Jón Arason biskup áleit þá Daða og Gleraugna-Pétur mág hans helstu andstæðinga sína og sagði einhverntíma að nú hefði hann undir sér allt Ísland nema hálfan annan kotungsson, en það voru þeir Daði og Pétur. Hann bannfærði Daða í janúar 1549. Hann fór svo með her manna vestur og ætlað að handtaka Daða en gat það ekki. Daði þorði þó ekki annað en hafa um sig mikið lið og er sagt að hann hafi haft 50-80 menn undir vopnum í Snóksdal vorið 1549. Haustið 1550 reið Jón ásamt sonum sínum, Ara og Birni, vestur í Dali, annaðhvort til að reyna að ná Daða á sitt vald eða ná samningum við hann. Þeir fóru þó ekki í Snóksdal, heldur að Sauðafelli, þar sem Daði átti einnig bú. Daði notaði tækifærið og safnaði að sér miklu liði og gerði svo áhlaup á Jón biskup og hans menn í kirkjugarðinum á Sauðafelli og náði þeim fljótlega á sitt vald. Til er frásögn Daða sjálfs af bardaganum og gerir hann þar nokkuð úr hetjulegri framgöngu sinni en lætur þess reyndar ógetið að hann lét menn sína skjóta af byssum inni í kirkjunni sjálfri og hæfði ein kúlan Björn biskupsson í handlegginn. Eftir að hafa haft feðgana í varðhaldi í rúmlega þrjár vikur kom Daði þeim í hendur umbosðmanns Kristjáns skrifara í Skálholti og þar voru þeir höggnir 7. nóvember um haustið. Er sagt að Daði hafi lengi verið tregur til að samþykkja aftökuna en hafi þó fallist á hana að lyktum. Eftir siðaskiptin hélt Daði áfram að auðgast og hafði meðal annars umboð Helgafellsklausturjarða um skeið. Síðustu árin sem hann lifði hafði hann bú á fjórum stórjörðum, Snóksdal, Sauðafelli, Knarrarhöfn og Síðumúla í Borgarfirði. Á þessum búum hafði hann árið 1563 62 kýr, 48 geldneyti og á annað þúsund ær og geldfé. Hann átti alls 55 jarðir sem samtals voru 1140 hundruð að dýrleika. Einnig átti hann sex skip sem haldið var til útróðra undir Jökli og á Ströndum. Hann átti í deilum við Staðarhóls-Pál um yfirráð yfir Staðarhóli í Saurbæ og var tregur til að sleppa jörðinni jafnvel þótt konungur hefði dæmt Páli hana. Daði og Guðrún kona hans áttu aðeins eina dóttur sem upp komst, Þórunni, sem giftist árið 1545 Birni Hannessyni sýslumanni í Bæ á Rauðasandi, syni Hannesar Eggertssonar hirðstjóra og bróður Eggerts Hannessonar lögmanns. Um 1554 hugðust þau flytjast búferlum að Nesi við Seltjörn en drukknuðu á leiðinni. Þrjú ung börn þeirra erfðu því mestallar eignir Daða. Einar, launsonur Daða, er sagður hafa verið trúlofaður Sigríði dóttur Þorleifs Pálssonar lögmanns á Skarði en veiktist daginn áður en hann ætlaði að ríða til brúðkaups þeirra og dó. Snóksdalur. Snóksdalur er bær og kirkjustaður í Miðdölum í Dalasýslu, þekktastur af því að þar bjó Daði Guðmundsson, einn helsti andstæðingur Jóns Arasonar biskups, á 16. öld. Kirkja hefur verið í Snóksdal að minnsta kosti frá því snemma á þrettándu öld og er hennar getið í Sturlungu. Kirkjan var helguð heilögum Stefáni og var í bóndaeign. Í elstu máldögum kirkjunnar, frá 13. og 14. öld, er kveðið á um að þar skuli vera bæði prestur og djákni. Guttormur Ormsson bóndi í Þykkvaskógi í Miðdölum, sonur Orms Snorrasonar og faðir Lofts Guttormssonar ríka, var veginn í Snóksdal 1381. Í lok 15. aldar bjó Guðmundur Finnsson í Snóksdal. Sonur hans, Daði Guðmundsson, bjó síðan stórbúi á jörðinni og auðgaðist mjög. Hannes Björnsson, dóttursonur Daða, bjó þar seinna og afkomendur hans mjög lengi síðan. Í Snóksdalskirkju er enn klukka sem Hannes gaf henni árið 1595 og fleiri merkir gripir eru í kirkjunni, meðal annars kaleikur frá 16. öld. Núverandi kirkja er byggð árið 1875 og var gerð upp í samstarfi við Húsafriðunarnefnd á árunum 1975-1978. Framtakssjóður Íslands. Framtakssjóður Íslands eða FSÍ er íslenskur fjárfestingarsjóður sem stofnaður var 8. desember 2009. Hlutverk sjóðsins sem er í eigu 16 lífeyrissjóða er að stuðla að endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar bankahrunsins 2008. Sjóðnum er ætlað að starfa tímabundið en reiknað er með að starfstími sjóðsins verði allt að 10 ár með mögulegri framlengingu um 2 ár í viðbót. Kolbeinn kaldaljós Arnórsson. Kolbeinn Arnórsson kaldaljós (d. 1246), einnig nefndur Staðar-Kolbeinn, var einn af höfðingjum Ásbirninga á Sturlungaöld. Hann bjó á Reynistað í Skagafirði. Hann átti tvo alnafna, Kolbein Arnórsson goðorðsmann (d. 1166), sem var afi hans, og Kolbein Arnórsson unga. Faðir Kolbeins kaldaljóss var Arnór Kolbeinsson (d. 1180) og móðir hans var Guðrún, dóttir Brands Sæmundssonar biskups. Halldóra systir hans var seinni kona Jóns Sigmundssonar, goðorðsmanns á Valþjófsstöðum, af ætt Svínfellinga, og var sonur þeirra Brandur Jónsson biskup. Föðurbróðir Kolbeins var Tumi Kolbeinsson goðorðsmaður í Ási, faðir þeirra Kolbeins og Arnórs Tumasona og Halldóru Tumadóttur, konu Sighvatar Sturlusonar. Kona Kolbeins kaldaljóss var Margrét, dóttir Sæmundar Jónssonar í Odda. Kolbeinn var því náskyldur eða tengdur mörgum helstu valdamönnum Sturlungaaldar. Í rauninni hefði Arnór faðir Kolbeins átt að erfa Ásbirningagoðorð eftir föður sinn og svo Kolbeinn eftir hann því Arnór var skilgetinn, en Tumi bróðir hans ekki. Þó fór svo að Tumi fékk goðorðið og síðan synir hans og Kolbeinn ungi dóttursonur hans. Hafa þeir líklega þótt betur til höfðingja fallnir, enda metnaðargjarnir og valdafíknir, en Kolbeinn kaldaljós og Brandur sonur hans virðast hafa verið friðsamir og góðgjarnir og vel látnir af flestum. Kolbeinn kemur þó oft við sögu í Sturlungu. Við lát Kolbeins unga gengu völdin þó til Brands, sonar Kolbeins kaldaljóss, en hann féll í Haugsnesbardaga ári síðar, 1245. Þá var Kolbeinn faðir hans orðinn gamall og hrumur og dó síðar sama ár. Auk Brands áttu Kolbeinn og Margrét soninn Pál, sem bjó á Reynistað og var friðsemdarmaður eins og þeir feðgar, og Valgerði. McKinleyfjall. McKinleyfjall (enska: "Mount McKinley") er hæsta fjall Norður-Ameríku, 6.194 metrar á hæð. Það er í Alaska. McKinleyfjall er fellingafjall og er í Alaskafjallgarðinum. Annað nafn fjallsins er Denali, sem er nafn frumbyggja á fjallinu og opinbert nafn þess í Alaska en gullgrafari nokkur sem studdi McKinley í framboði til forseta Bandaríkjanna 1896 gaf því nafn hans og hefur það haldist síðan utan Alaska. Rúnturinn. Rúnturinn er hugtak sem haft er um nokkuð fastmótaða hringleið í miðbæ borgar sem ungt fólk vanar til að sjást og sjá aðra. Rúnturinn er venjulega farinn til að drepa tímann, en einnig til að sjá aðra og/eða kynnast verðandi kærasta eða kærustu. Rúnturinn er venjulega til í öllum stærri þéttbýliskjörnum. Í sambandi við rúntinn þá er talað um að "rúnta", "fara á rúntinn" eða "vera á rúntinum". Reykjavík. Upphaflega, í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20.stu, var rúnturinn í miðborg Reykjavíkur farinn á tveimur jafnfljótum. Hann taldist þá vera Austurstræti, Aðalstræti, Kirkjustræti og Pósthússtræti. Rúntinum frá þessum tíma er vel lýst í Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson. Nú er rúnturinn í Reykjavík farinn á bílum og er upp Hverfisgötuna, niður Laugarveg, Bankastræti og Austurstræti og svo beygt við Ingólfstorg til norðurs og svo Hafnarstræti til austurs og svo upp Hverfisgötuna á ný. Einnig er stundum farinn hlykkur frá Bankastræti út Lækjargötu til suðurs og svo Pósthússtræti til norðurs og svo beygt inn á Austurstræti. Mersía. Konungsríki í Bretlandi um árið 800. Mersía (enska: "Mercia", fornenska: "Mierce" eða "Myrce") var engilsaxnekst konungsríki og eitt ríkjanna sjö í Sjökonungaríkinu. Það var á svæðinu sem umkringir ána Trent; þetta svæði er þekkt sem Miðhéruð Englands (e. "Midlands") í dag. Orðið „Mersía“ er latnesk þýðing enska orðsins, sem þýðir „fólkið sem býr við landamærið“. Mersía átti landamæri við Norðymbraland, Powys, konungsríkin í Suður-Wales, Wessex, Sussex, Essex og Austur-Anglíu. Stundum er nafnið „Mersía“ notað í dag í nöfnum samtaka og annarra stofnana. Fyrsti konungur Mersíu sem þekkt er um var Creoda, sem var talinn vera sonarsonarsonur Icels. Hann kom til ríkis um árið 584 og byggði vígi í Tamworth, sem varð hásæti Mersíu. Sonur hans Pybba tók við af honum árið 593. Cearl, ættingi Creoda, tók við af Pybba árið 606. Árið 615 giftist dóttir Cearls, Cwenburga, Edwin konungi Deira. Næsti konungur Mersíu var Penda, sem var á hásæti frá 626 eða 633 til 655. Sumt af því sem er þekkt um Penda kemur frá frásögn Beda prests, sem var illa við Penda vegna þess að hann var konungur ríkis sem keppti við Norðymbraland, og að hann var heiðinn. Samt sem áður viðurkenndi Beda prestur að Penda leyfti kristnum trúboðum frá Lindisfarne inn í Mersíu og bannaði þeim ekki að predika. Sonur Penda, Peada, kom á eftir Penda en var drepinn árið 656. Wulfhere stjórnaði Mersíu sem sjálfstætt konungsríki til dauðadags árið 675. Næsti konungurinn var Æthelred, sem sigraði Norðymbraland á orrustunni við Trent árið 679. Sonur Wulfhere, Cœnred, kom á eftir Æthelred. Árið 709 tók Ceolred við af Cœnred og svo enduðu ríkisár ættingja Penda. Næsti konungur af Mersíu var Æthelbald (716–757). Við dauða Æthelbald árið 757 hófst borgarastríð í Mersíu. Loksins kom Offa til ríkis, einn mikilvægasti konungur af Mersíu. Árið 2009 var fjársjóður af Staffordshire uppgötvaður í Lichfield, sem var trúmiðstöð Mersíu. Smíðisgripirnir eru taldir vera frá 600–800 e.Kr. Er ekki þekkt hvort fjársjóðurinn sé kristinn eða heiðinn. Åre Gamla kirkja. Åre Gamla kirkja er lútersk kirkja í sænsku borginni Åre, Jämtland, Svíþjóð. Hún var byggð á 11. öld. Hólmskaupstaður. Hólmskaupstaður eða Hólmsverslun var ein af bækistöðum einokunarverslunarinnar á Íslandi og náði kaupsvæðið yfir Seltjarnarnes, Kjósarsýslu og Borgarfjarðarhérað sunnan Hvítár. Kaupskapur hófst í Hólmi um 1520. Mögulegt er talið að kaupstaðurinn hafi verið í Grandahólma sem er smáeyja vestur af Örfirisey. Verslunin var flutt til Reykjavíkur 1779-1780. Öll byggð í Örfirisey eyddist í Básendaflóðinu 1799. Miðhéruð Englands. Miðhéruð Englands eða bara Miðhéruð (enska: "Midlands") er svæði í Englandi sambærilegt við konungsríkið Mersíu. Það á landmæri að Suður-Englandi, Norður-Englandi, Austur-Anglíu og Wales. Stærsta borgin á svæðinu er Birmingham sem var mikilvæg borg í iðnbyltingunni á 18. og 19. öldum. Stjórnsýslulega skiptist svæðið í tvennt: Austur-Miðhéruð (e. "East Midlands") og Vestur-Miðhéruð (e. "West Midlands"). Samt sem áður eru hlutar hefðbundna svæðisins í öðrum sýslum: Bedfordshire, Cambridgeshire, Peterborough (Austur-Englandi), Oxfordshire (Suðaustur-Englandi), Gloucestershire (Suðvestur-Englandi) og Norður-Lincolnshire (Yorkshire og Humber). Davíð 2. Skotakonungur. Davíð 2. í orrustunni við Neville's Cross, þar sem hann var tekinn höndum og fluttur til Englands. Mynd frá 14. öld. Davíð 2. (5. mars 1324 – 22. febrúar 1371) eða David Bruce var konungur Skotlands frá 7. júní 1329 til dauðadags, annar og síðasti konungur af Bruce-ætt. Barnakonungur. Davíð var sonur Róberts 1. Skotakonungs og seinni konu hans, Elísabetar de Burgh, og eina barn þeirra sem upp komst. Hann var aðeins fimm ára þegar hann varð konungur við lát föður síns en hafði þá þegar drottningu sér við hlið því að 17. júlí 1328 var hann gefinn saman við Jóhönnu, dóttur Játvarðs 2. Englandskonungs. Hann var þá fjögurra ára en brúðurin nýorðin sjö ára. Konungurinn ungi var foreldralaus því móðir hans hafði dáið 1327. Nánasti ættingi hans, Róbert Stewart, sonur eldri hálfsystur hans, var aðeins 13 ára og kom því ekki til greina sem ríkisstjóri. Fyrsti forráðamaður Davíðs, jarlinn af Moray, dó sumarið 1332 og þá var jarlinn af Mar valinn í staðinn. Hann féll tíu dögum síðar í bardaga við stuðningsmenn Játvarðs Balliol, sem gerði tilkall til krúnunnar. Sir Andrew Murray var valinn í staðinn en tekinn til fanga af Englendingum í apríl 1333. Þá tók Archibald Douglas við en féll í bardaga við Englendinga í bardaganum á Halidon-hæð í júlí um sumarið. Eftir tap Skota á Halidon-hæð voru konungurinn og drottningin send til Frakklands, þar sem Filippus 6. tók vel á móti þeim. Þar dvöldu þau næstu árin en árið 1341 höfðu stuðningsmenn Davíðs náð undirtökunum og konungur sneri aftur heim 2. júní það vor og tók þá sjálfur við stjórnartaumum, enda orðinn 17 ára. Ellefu ár í haldi. Árið 1346 gerði Davíð innrás í England að undirlagi Frakka en beið lægri hlut og var tekinn til fanga um haustið og fluttur til London. Hann var fangi í Englandi í ellefu ár en sætti engu harðræði og var í raun í stofufangelsi. Róbert Stewart stýrði Skotlandi á meðan. Eftir langvinnar samningaviðræður var gert samkomulag í Berwick-upon-Tweed 3. október 1357 þar sem skoski aðallinn féllst á að greiða 100.000 mörk í lausnargjald fyrir konunginn. Eftir að skoska þingið hafði samþyktt samninginn 6. nóvember var honum sleppt úr haldi. Ríkiserfðir. Davíð hélt þegar heim en ríkið var svo fátækt að ekki tókst að afla fjár til að greiða lausnargjaldið. Nokkrar afborganir voru þó greiddar en Davíð reyndi að komast undan greiðslum með því að semja við Játvarð 3. um að hann eða einhver sona hans tæki við völdum í Skotlandi eftir sinn dag, en Davíð átti engin börn. Honum var þó vel ljóst að Skotar myndu aldrei fallast á þetta, síst af öllu Róbert Stewart, sem var löglegur erfingi Davíðs. Árið 1364 hafnaði skoska þingið tillögu um að gera einn sona Játvarðs, Lionel, hertoga af Clarence, að ríkisarfa en Davíð hélt áfram að reyna að komast að samkomulagi við Játvarð í laumi. Jóhanna drottning dó 1362 og í febrúar 1364 giftist Davíð konungur Margréti Drummond, ungri ekkju sem hafði verið hjákona hans, en skildi við hana í mars 1370 á þeirri forsendu að hún væri óbyrja. Margrét sætti sig ekki viðþetta, heldur fór á fund páfa í Avignon og fékk hann til að ógilda skilnaðarleyfið. Davíð hafði hins vegar í huga að giftast hjákonu sinni, Agnesi Dunbar. En áður en af því yrði lést hann skyndilega. Róbert systursonur hans tók þá við ríkjum og varð Róbert 2. Keflavíkursamningurinn. Keflavíkursamningurinn var tvíhliða alþjóðasamningur á milli Íslands og Bandaríkjanna árið 1946 um að bandaríski herinn, sem komið hafði í seinni heimsstyrjöldinni, myndi halda af landi brott, en að bandarískir borgaralegir starfsmenn myndu áfram reka Keflavíkurflugvöll. Rekstur Keflavíkurflugvallar var í höndum bandaríska fyrirtækisins Lockheed Overseas Aircraft Service á árunum 1948–1951. Ný flugstöð sem jafnframt var hótel var tekin í notkun vorið 1949. Sama ár varð Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og tveimur árum seinna tók Varnarsamningurinn við af Keflavíkursamningum. Þá komu Bandaríkjamenn sér upp herstöð á Miðnesheiði. Eiríkur 14.. Eiríkur 14. Svíakonungur. Málverk eftir Domenicus Werwildt. Eiríkur 14. (13. desember 1533 – 26. febrúar 1577) var konungur Svíþjóðar frá 1560 þar til hann var settur af árið 1568 vegna geðsýki. Eftir það var hann fangelsaður til æviloka og var sennilega drepinn með eitri. Uppvöxtur og kvonbænir. Eiríkur var sonur Gústafs Vasa og fyrstu konu hans, Katrínar af Saxe-Lauenburg. Móðir hans dó þegar hann var tæplega tveggja ára og skömmu síðar giftist faðir hans að nýju Margréti Leijonhufvud. Jóhann hálfbróðir hans fæddist í árslok 1537, elstur af átta börnum Gústafs og Margrétar. Aðalkennari bæði Eiríks og Jóhanns var franski kalvínistinn Dionysius Beurreus. Eiríkur var góður námsmaður, einkum í tungumálum og stærðfræði, en hafði einnig góða sagnfræðikunnáttu, var ritfær og hafði þekkingu á stjörnuspeki. Eiríkur hóf þreifingar um hjónaband við ensku konungsdótturina Elísabetu Tudor, síðar drottningu, þvert gegn vilja föður síns. Hann reyndi í nokkur ár að semja um giftingu og var á leið til Englands 1560 þegar fregnir bárust af láti föður hans og að hann væri orðinn konungur. Þá gaf hann Elísabetu upp á bátinn en leitaði síðar eftir hjúskap við Maríu Skotadrottningu og ýmsar evrópskar prinsessur, án árangurs. Ríkisstjórnarár Eiríks. Eiríkur er talinn hafa verið greindur, listfengur og pólitískt metnaðargjarn, en mjög skapríkur og tortrygginn sýndi snemma einkenni geðrænna truflana sem þróuðust yfir í geðveiki. Geðlæknar sem rannsakað hafa lýsingar á konungi og hegðun hans telja að hann hafi verið geðklofi en þó ber að athuga að þegar hann var settur af er líklegt að andstæðingar hans hafi reynt að gera sem mest úr einkennunum og ekki víst að allt sé satt sem sagt var um konunginn. Sænskir aðalsmenn voru ósáttir við margt í stjórnun konungs og einn helsti leiðtogi þeirra var Jóhann, bróðir hans, sem var hertogi af Finnlandi og kvæntur pólskri konungsdóttur, svo að hann naut stuðnings frá Póllandi. Eiríkur lét handtaka Jóhann 1563 fyrir landráð og hafði hann í haldi í nokkur ár. Sama ár hófst Sjö ára stríðið við Danmörku en Friðrik 2. Danakonungur var ósáttur við útþenslustefnu Eiríks í Eystrasaltslöndum. Á næstu árum virðist geðheilsu Eiríks hafa hrakað, ákvarðanir hans voru vanhugsaðar og fólu oft í sér ofbeldi. Árið 1566 lét hann drepa ýmsa meðlimi Sture-ættarinnar, sem hann grunaði um landráð. Sture-morðin svonefndu mæltust mjög illa fyrir og andstaða við konunginn fór sífellt vaxandi. Karin Monsdóttir. Eiríkur konungur með Karinu og Jöran Persson ráðgjafa sínum. Árið 1565 tók konungurinn sér fimmtán ára þjónustustúlku Elísabetar systur sinnar fyrir ástkonu. Hún hét Karin Monsdóttir og var af fátæku fólki komin. Eiríkur hafði áður átt fjölda hjákvenna - ein þeirra var Agda Persdóttir, sem ól honum fjórar dætur - en eftir að Karin kom til sögunnar leit hann ekki á aðrar konur. Hann lét hana fá eigin íbúð og þjónustufólk í höllinni, lét kenna henni að lesa og skrifa og þegar Sigríður dóttir þeirra fæddist 1566 var hún meðhöndluð eins og hún væri skilgetin. Karin er sögð hafa verið afar falleg, skapgóð, lítillát og ljúf og hún virðist hafa verið sú eina sem hafði tök á að róa konunginn niður. Eiríkur giftist Karinu leynilega 1567 og opinberlega 1568, eftir að hún hafði fætt honum soninn Gústaf, og lét krýna þá hana drottningu undir nafninu Katrín Magnúsdóttir og lýsa börn þeirra skilgetin. Líklega var brúðkaupið kornið sem fyllti mælinn því að þótt Karin ætti sér enga óvini og nyti raunar velvildar hjá konungsfjölskyldunni vegna þeirra góðu áhrifa sem hún hafði á Eirík, þá þótti hún engan veginn honum samboðin og gifting þeirra olli mikilli hneykslun. Skömmu síðar gerðu bræður Eiríks uppreisn með stuðningi aðalsins, hnepptu konungsfjölskylduna í varðhald og settu Eirík af. Jóhann var gerður að konungi í hans stað. Fangavist og dauði. Helsti ráðgjafi Eiríks, Jöran Persson, tók á sig mikið af sökinni fyrir illvirki sem framin höfðu verið í stjórnartíð Eiríks og var hann tekinn af lífi.Fyrstu árin var fjölskyldan höfð saman í haldi og Karin ól tvo syni í viðbót sem dóu báðir á barnsaldri. Eftir það voru þau aðskilin og skömmu síðar var Gústaf prins sendur til Póllands, þar sem hann ólst upp. Eiríkur var hafður í haldi í ýmsum köstulum í Svíþjóð og Finnlandi en dó í Örbyhus-kastala eftir níu ára fangavist. Sagan segirað hann hafi dáið eftir að hafa borðað skál af eitraðri baunasúpu. Til er bréf, undirritað af Jóhanni bróður hans og aðalsmanninum Bengt Bengtsson Gylta, þar sem varðmönnum Eiríks er gefið leyfi til að eitra fyrir honum ef einhver reyndi að leysa hann úr haldi. Seinni tíma rannsókn á beinum hans leiddi í ljós að hann hafði innbyrt banvænan skammt af arseniki. Tígrisdýr. Tígrisdýr eða tígur (fræðiheiti: "Panthera tigris") er stærsta tegundin af fjórum innan ættkvíslar stórkatta ("panthera"). Hinar þrjár tegundirnar eru hlébarði, ljón og jagúar. Tígrisdýr geta orðið 3,3 metrar á lengd og vegið allt að 306 kílóum. Það er þriðja stærsta landrándýrið (á eftir ísbirni og skógarbirni). Það er með einkennandi svartar rendur á rauðgulum feldi. Það er með einstaklega sterkar og langar vígtennur sem geta orðið allt að 9 cm að lengd. Þau geta orðið allt að 26 ára gömul. Tígrisdýr voru áður algeng um alla Asíu en hefur fækkað mjög svo nú ná búsvæði þeirra aðeins yfir 7% af sögulegu útbreiðslusvæði. Þær sex deilitegundir sem eftir eru eru skilgreindar í útrýmingarhættu af IUCN. Talið er að milli 3.062 og 3.948 dýr séu enn til í náttúrunni en voru um 100.000 við upphaf 20. aldar. Stofnarnir hafa lifað af á litlum einangruðum svæðum. Helstu ástæður fækkunar tígrisdýra eru búsvæðaeyðing, tvístrun búsvæða og veiðiþjófnaður. Jóhann 3. Svíakonungur. Jóhann 3. Svíakonungur. Málverk eftir Johan Baptista van Uther frá 1582. Jóhann 3. (20. desember 1537 – 17. nóvember 1592) var konungur Svíþjóðar frá því að Eiríkur 14. bróðir hans var settur af árið 1568 og til dauðadags. Hann var einnig hertogi af Finnlandi frá 1556-1563. Eftir að hann varð konungur tók hann sér titilinn stórfursti af Finnlandi. Hertogi Finnlands. Jóhann var næstelsti sonur Gústafs Vasa. Móðir hans var miðkona Gústafs, Margrét Leijonhufvud. Eldri hálfbróðir hans, Eiríkur, erfði krúnuna þegar faðir þeirra dó 1560. Ekki er annað að sjá en vel hafi farið á með bræðrunum framan af en um það leyti sem Eiríkur varð konungur fór hann að sýna ýmis einkenni geðklofa og fékk sænska aðalinn upp á móti sér, þar með talinn Jóhann bróður sinn. Eiríkur ásakaði bróður sinn um landráð og í júní var dæmdur frá lífi, eignum og erfðarétti. Jóhann, sem ekki var viðbúinn dómnum, var innikróaður í Åbo-kastala og varðist þar í nokkrar vikur en gafst svo upp gegn því að vera settur í fangelsi sem hentaði stétt hans. Hann var svo fluttur til Svíþjóðar og hafður í haldi í Gripsholmshöll ásamt eiginkonu sinni, pólsku konungsdótturinni Katrínu Jagelloniku, sem hann hafði gifst ári áður. Þar voru þau í fjögur ár og fæddust tvö börn þeirra í fangelsinu. Jóhann, sem var bókhneigður, drap tímann með því að lesa og auka menntun sína, sem raunar var ágæt fyrir. Jóhann var látinn laus í október 1567. Geðsýki Eiríks konungs magnaðist þó stöðugt og Jóhann óttaðist mjög að vera aftur hnepptur í fangelsi. Hann tók því höndum saman við yngsta bróðurinn, Karl hertoga, sem þá var fullvaxinn, og ýmsa aðalsmenn, og eftir að Eiríkur giftist almúgastúlkunni Karinu Monsdóttur í júlí 1568 jókst andstaða gegn honummeð leifturhraða. 29. september um haustið var Eiríkur tekinn til fanga og skömmu síðar var Jóhann hylltur konungur. Konungur Svíþjóðar. Jóhann var mjög tortrygginn að eðlisfari eins og hann átti kyn til og hann taldi setu sína á konungsstóli ekki trygga meðan Eiríkur bróðir hans lifði og hafði miklar áhyggjur af að einhverjir reyndu að frelsa hann og nota hann sér til framdráttar. Árið 1571 gaf hann vörðunum sem gættu Eiríks fyrirmæli um að ef minnsti grunur léki á að eitthvað slíkt væri í undirbúningi skyldi drepa Eirík með eitri. Ekki er vitað hvort svo fór en þegar Eiríkur dó 1577 fóru strax á kreik sögur um að hann hefði verið drepinn og þegar bein hans voru rannsökuð á 20. öld fundust sterkar vísbendingar um banvæna arsenikeitrun. Eitt af fyrstu verkefnunum sem Jóhann þurfti að takast á við var að ljúka Sjö ára stríðinu, sem bróðir hans hafði hafið, og tókst honum að ná fram tiltölulega hagstæðum friðarsamningum árið 1570. Hann barðist líka við Rússa í Líflandi. Þar sem kona hans var pólsk mátti sjá greinileg pólsk áhrif í utanríkisstefnu hans, ekki síst eftir að sonur hans, Sigmundur 3. Vasa, varð konungur Póllands 1587. Kaþólsk áhrif drottningar á Jóhann voru líka greinileg og hún ól börn þeirra upp í kaþólskri trú, sem sænsku kirkjunni og aðlinum féll mjög illa. Þó dró úr kaþólsku áhrifunum á konunginn þegar hann giftist seinni konu sinni, sem var eindreginn mótmælandi. Hann átti líka oft í deilum við Karl hertoga bróður sinn. Arfleifð. Þegar Jóhann tók við völdum var hann fremur vinsæll hjá aðlinum og í góðu sambandi við kirkjuna en hann var skapbráður, tortrygginn og ofbeldisfullur eins og faðir hans og bróðir en skorti skarpskyggni þeirra, festu og varfærni og smátt og smátt hurfu allir bandamenn hans frá stuðningi við hann. Sonurinn Sigmundur fór til Póllands og tók þar við konungdómi og dóttirin Anna dvaldist þar einnig meira og minna. Hann reyndi að sættast við bróður sinn en fljótlega urðu þeir ósáttir að nýju og má segja að Jóhann konungur hafi staðið aleinn síðustu mánuði ævinnar. Hann dó í Stokkhólmi 17. nóvember 1592 og lét eftir sig mikinn óleystan vanda, bæði í innan- og utanríkismálum. Þótt Jóhann þyki ekki hafa verið tilþrifamikill eða góður konungur skildi hann eftir sig mikla arfleifð í þeim húsum og mannvirkjum sem hann lét reisa. Hann var mikill listunnandi og hafði sérstakan áhuga á byggingarlist, fékk fjölda erlendra arkitekta, myndhöggvara og málara til Svíþjóðar og teiknaði jafnvel byggingar sjálfur. Hann hafði sérstakan áhuga á viðhaldi og endurbyggingu á gömlum kirkjum og höllum. Fjölskylda. Fyrri kona hans var sem áður segir Katrín Jagellonika, yngsta dóttir Sigmundar 1. Póllandskonungs, sem var ellefu árum eldri en hann. Þau áttu tvö börn sem upp komust, Sigmund og Önnu, sem giftist aldrei. Katrín Jagellonika lést í Stokkhólmi 1583. Þann 15. febrúar 1585 giftist Jóhann konungur svo sænsku aðalsmeynni Gunnhildi Jóhannsdóttur, sem þá var sextán ára gömul. Með henni átti hann soninn Jóhann, hertoga af Austur-Gautlandi og Finnlandi. Cool Britannia. Verkið "The Physical Impossibility of Death in the Mind of Someone Living" frá 1992 er eitt þekktasta verk Damien Hirst. "Cool Britannia" (bókstafl. „Svala Bretland“) er slagorð sem var áberandi í fjölmiðlum frá 1995 til 2000 og átti við breska samtímamenningu með vísun í britpophljómsveitir á borð við Blur og Oasis og myndlistarmenn á borð við Damien Hirst og Tracey Emin sem mynduðu hópinn Young British Artists. Hugtakið var notað í staðarmarkaðssetningu Bretlands á tímum Nýja verkamannaflokksins undir stjórn Tonys Blair. Um aldamótin þótti þetta hugtak hins vegar orðið þreytt og eftir það var það varla notað nema í kaldhæðnistón. Hugtakið er orðaleikur sem vísar til breska ættjarðarljóðsins „"Rule, Britannia!"“. Það á sér hliðstæðu í hugtakinu Swinging London sem vísaði til menningar Lundúnaborgar á 7. áratug 20. aldar. Hellislíking Platons. Hellislíking Platons er táknsaga úr "Ríkinu" eftir Platon. Platon ímyndaði sér hóp af fólki sem hefur búið handjárnað í helli allt sitt líf, fólk sem sneri út í auðan vegg. Fólkið horfir á skugga sem varpaðir eru á vegg, skuggarnir eru fólk og hlutir sem færast frá flöktandi eld bak við þá og fæðast myndir af þeim skuggum. Samkvæmt Platon, eru skuggarnir eins nálægt raunveruleikanum, sem fangarnir fá að sjá. Hann skýrir þá hvernig heimspekingur er eins og fangi sem er leystur frá hellinum og áttar sig á því að skuggarnir á veggnum teljast ekki raunveruleiki yfirleitt, þar sem hann mun koma til með að skynja hina réttu mynd af veruleikanum frekar en bara skuggann sem áður blasti við föngunum. Fangarnir myndu einnig telja bergmál vera raunveruleg hljóð, ekki bara spegilmynd af raunveruleikanum, þar sem þeir höfðu aldrei séð eða heyrt. Hefðu þeir ekki lofað og heillað þann sem nógu snjall væri til að geta best giskað á hvaða skuggi myndi koma næst, eins og einhver sem skildi eðli heimsins? Og mundi ekki allt samfélag þeirra velta á skuggunum á veggnum? Staðarmarkaðssetning. Staðarmarkaðssetning er markaðssetning tiltekins staðar, lands, borgar, hverfis, sveitar eða héraðs, í þeim tilgangi að laða að ferðamenn, fjárfesta eða viðskipti. Staðarmarkaðssetning er áberandi þegar borgir keppa sín á milli um hýsingu tiltekinna viðburða á borð við Ólympíuleikana. Staðarmarkaðssetning er oft erfið vegna þess hve margir hagsmunaaðilar þurfa að koma að mótun hennar. Ef ekki næst samstaða um aðferðir og framsetningu missir hún auðveldlega marks. Krossreið fyrri. Krossreið fyrri eða Barkaðarmál var atburður sem gerðist á bænum Krossi í Austur-Landeyjum árið 1360 og eftirmál sem af honum urðu. Á Krossi bjó þá bóndi sem Ormur hét en föðurnafn hans er óþekkt. Hann mun hafa átt í einhverjum útistöðum við Markús barkað Marðarson, sem virðist hafa verið ójafnaðarmaður og hafði áður farið með Jóni skráveifu Guttormssyni um umdæmi Árna hirðstjóra Þórðarsonar og framið alls konar spjöll. Markús, kona hans og tveir synir fóru að Krossi og veittu Ormi bónda áverka. Hélt annar sonurinn Ormi á meðan Markús og kona hans veittu honum áverkana. Árni hirðstjóri handsamaði Markús og fjölskyldu hans og lét dæma þau fyrir ólöglega heimreið, rán og hernað á þingi á Lambey í Fljótshlíð um sumarið og voru þau höggvin eftir dóminn. Þann 18. júní 1361 lét svo Smiður Andrésson, sem þá var orðinn hirðstjóri, höggva Árna Þórðarson á Lambeyjarþingi eftir að hann hafði verið dæmdur sekur um að hafa látið lífláta Markús og fjölskyldu hans í heimildarleysi. Varð þetta ekki til að auka vinsældir Smiðs og var ein af orsökum Grundarbardaga. Krossreið síðari. Krossreið síðari var atburður sem gerðist á Krossi í Austur-Landeyjum haustið 1471, en þá riðu þeir Þorvarður Eiríksson, sonur Eiríks slógnefs, Loftssonar ríka, og Narfi Teitsson, með flokk manna að Krossi að næturlagi og drápu bóndann þar. Bóndinn hét Magnús Jónsson og er ekki vitað um ættir hans en talið er að hann hafi verið skyldur eða tengdur Þorleifi Björnssyni hirðstjóra. Hann hafði keypt Kross þetta saman vor og flutt þangað norðan úr Skagafirði eða Húnavatnssýslu. Ekkert er vitað hvað honum og banamönnum hans bar á milli en þeir drógu hann að sögn nakinn úr faðmi konu sinnar og síðan drap Narfi hann. Kona Magnúsar særðist þegar hún reyndi að hjálpa manni sínum. Þeir Þorvarður og Narfi voru dæmdir útlægir og friðlausir fyrir illvirki þetta og eignir þeirra féllu til konungs. Þorvarður dó skömmu síðar en um Narfa er ekki vitað. Kona Magnúsar, sem særðist í tilræðinu, var Ragnheiður Eiríksdóttir Krákssonar frá Skarði á Landi, systir Ingibjargar móður Torfa Jónssonar í Klofa. Hún hafði áður verið gift Þorsteini Helgasyni á Reyni í Mýrdal og giftist síðast Eyjólfi Einarssyni lögmanni. Á meðal barnabarna Ragnheiðar má nefna Ragnheiði Pétursdóttur á rauðum sokkum. Pólitískt veitingarvald. Pólitískt veitingarvald kallast það þegar stjórnmálamaður eða meðlimur í stjórnmálaflokki ræður einstakling í starf til þess að verðlauna hann fyrir stuðning við sig eða við þann stjórnmálaflokk sem hann tilheyrir. Starf sem ráðið er í á þennan máta er kallað bitlingur. Ingibjörg Jónsdóttir (rithöfundur). Ingibjörg Jónsdóttir (14. nóvember 1933 − 25. desember 1986) var íslenskur rithöfundur og þýðandi. Fyrstu bækur hennar voru ástarsögur en fljótlega fór hún einnig að skrifa myndskreyttar barnabækur. "Músabörn í geimflugi" sem kom út 1963 með myndum eftir Þórdísi Tryggvadóttur var gerð að söngleik árið eftir og var fyrsta leikritið sem Þjóðleikhúsið setti upp eftir íslenska konu. Eftir 1970 fékkst Ingibjörg að mestu við þýðingar á ástarsögum og spennusögum, meðal annars eftir Vivien Stuart og Edge-bækurnar eftir George G. Gilman. Hún þýddi fyrstu þrjátíu Ísfólksbækurnar eftir Margit Sandemo og söguna "Gvendur bóndi á Svínafelli" eftir J. R. R. Tolkien sem kom út 1979. Rhea. Rhea var í grískri goðafræði dóttir Úranosar og af kynslóð Títana. Hún giftist bróður sínum Krónosi. Bjargaði yngsta barninu þeirra, Seifi, þegar Krónos ætlaði að borða barnið. Krónos gleypti stein vafinn í ungbarnareifar í stað barnsins. Phil Ivey. Phil Ivey er bandarískur pókerspilari. Hann er talinn einn sá allra besti í sögu pókers og í dag telja flestir atvinnuspilarar hann vera besta spilarann í bæði mótapóker og peningaleikjum. Phil Ivey hefur unnið átta World Series of Poker armbönd, 1 World Poker Tour armband og hefur oftar en 20 sinnum komist á lokaborð í stórmóti þó sigrar hans séu ekki teknir með. Hann hefur unnið meiri pening í mótapóker en nokkur annar í sögu íþróttarinnar eða 13,8 milljónir dollara. Helgastaðir (Reykjadal). Helgastaðir er bær og kirkjustaður í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Bærinn er landnámsjörð Eyvindar Þorsteinssonar, sem hrakti Náttfara úr landnámi sínu í Reykjadal og settist þar að sjálfur. Sagt er að hann hafi gefið bænum nafn eftir syni sinum sem drukknaði á Grímseyjarsundi. Í Reykdæla sögu eru nefnd hjónin Háls Fjörleifarson og Helga Granadóttir á Helgastöðum og var sambúð þeirra mjög stormasöm. Helgastaðir koma svo töluvert í sögu við Sturlungu, fyrst þegar segir frá miklum og hörðum deilum um arf eftir Teit Guðmundsson á Helgastöðum. Fyrir tilstilli Guðmundar dýra Þorvaldssonar komust þó á sættir. Í Helgastaðabardaga um 1220 börðust fylgismenn Guðmundar biskups góða, sem þá var á flakki um Þingeyjarsýslu við litlar vinsældir bænda, og fylgismanna Arnórs Tumasonar og Sturlu Sighvatssonar. Biskupsmenn vörðust í kirkjugarðinum en flúðu svo í kirkju og báðust griða. Og um 1254 kom Eyjólfur ofsi Þorsteinsson í Helgastaði við fimmtánda mann. Tóku þeir bóndann á Helgastöðum, Halldór galpin, og drápu hann í hefndarskyni fyrir að hafa verið með Oddi Þórarinssyni þegar hann handtók Heinrek Hólabiskup og flutti að Flugumýri. Kirkjan á Helgastöðum var í kaþólskum sið helguð Maríu mey og heilögum Nikulási. Við Helgastaði er kennt handrit sem nefnist "Helgastaðabók" og er talið skrifað af Bergi Sokkasyni ábóta. Handritið, sem er fagurlega skreytt og er talið frá því um 1400 hefur að geyma Nikulásarsögu. Handritið var eitt sinn í eigu kirkjunnar á Helgastöðum en komst í einkaeign löngu eftir siðaskipti og hafnaði í Stokkhólmi. Naglalakk. Naglalakk er lakk sem borið er á neglurnar til skreytingar og varnar. Mývatnssveit. Mývatnssveit er sveitin umhverfis Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu og setur vatnið mjög svip á sveitina, náttúru hennar og lífríki, en það er um 37 ferkílómetrar og mjög vogskorið. Landslag og náttúra. Landslag sveitarinnar er einnig mjög mótað af eldstöðvum og eldfjöllum sem hafa spúð ösku og hrauni yfir sveitina og má þar nefna Kröflu og Hverfell eða Hverfjall, sem er einn stærsti sprengigígur heims, um 1 km í þvermál og myndaðist í öflugu þeytigosi fyrir um 2500 árum. Auðvelt er að ganga upp á brún gígsins. Séð ofan í gíg Hverfells. Í Mývatnssveit eru einnig gervigígar, sem verða til þegar hraun rennur yfir vatn eða votlendi. Verður þá gufusprenging undir hrauninu og gervigigarnir myndast. Þekktastir eru Skútustaðagígar, sem eru friðlýstir sem náttúruvætti frá 1973. Mikilfenglegastar þykja hraunmyndanirnar þó í Dimmuborgum, austan vatnsins. Þar eru alls konar furðulegar hraunmyndanir, hellar og gatklettar. Dimmuborgir mynduðust í gosi í Þrengslaborgum fyrir um 2000 árum. Síðustu gos í sveitinni voru Mývatnseldar árin 1724-1729 og Kröflueldar 1975-1784. Af öðrum þekktum fjöllum sem umkringja sveitina má nefna Vindbelg, Sellandafjall og Reykjahlíðarfjall. Austan við Námafjall er mikið brennisteinshversvæði og þar voru brennisteinsnámur fyrr á öldum og brennisteinninn fluttur út. Mikill jarðhiti er í Mývatnssveit og í Bjarnarflagi er elsta gufuaflsvirkjun landsins en Kröfluvirkjun er þó mun stærri og þekktari. Byggð. Áður var talið að Mývatnssveit hefði byggst í lok landnámsaldar, þegar láglendið var fullbyggt, og Landnámabók eru taldir upp þrír menn sem fyrstir bjuggu í sveitinni en enginn þeirra er kallaður landnámsmaður. Þetta voru þeir Þorsteinn Sigmundarson, sem líklega bjó í Reykjahlíð, Þorkell hái, sem bjó á Grænavatni, og Geiri, sem bjó á Geirastöðum sunnan Mývatns. Hins vegar hafa fornleifarannsóknir gefið til kynna að sveitin hafi byggst strax um 870. Mikill fornleifauppgröftur og rannsóknir hafa farið fram á Hofstöðum í Mývatnssveit á undanförnum árum. Sauðfjárbúskapur og silungsveiði voru löngum aðalatvinnuvegir Mývetninga. Á síðustu öld var starfrækt þar kísilþörungavinnsla í nærri fjörutíu ár og höfðu margir atvinnu í kísiliðjunni en rekstri hennar var hætt árið 2004. Nú er ferðaþjónusta mikilvægur atvinnuvegur í sveitinni. Þéttbýlt er við Mývatn og í Reykjahlíð er þorp, auk þess sem dálítill byggðarkjarni er á Skútustöðum. Jarðböð. Jarðböð eða gufuböð hafa lengi verið stunduð við Mývatn og eru ýmsar fornminjar og sagnir til merkis um það, svo og örnefnið Jarðbaðshólar. Grjótagjá var vinsæll baðstaður í helli hálffullum af heitu vatni en í Kröflueldum um 1977 hækkaði hitastig vatnsins í gjánni svo mjög að ógerlegt var að baða sig þar. Það hefur þó lækkað eitthvað að nýju á síðustu árum. Stóragjá tók að einhverju leyti við sem baðstaður en var þó mun óhentugri en Grjótagjá hafði verið. Árið 2004 voru Jarðböðin við Mývatn opnuð en þar er baðlón með hveravatni og náttúruleg gufuböð. Starfræn erfðamengjafræði. Stafræn erfðamengjafræði miðar að því að skilja starfsemi gena og DNA raða í erfðamengjum lífvera. Hluti erfðamengisins ber í sér margvíslegar upplýsingar, sem hafa áhrif á starfsemi, eiginleika og eðli lífverunar. Annar hluti erfðamengisins hefur engin eða ákaflega lítil áhrif á eiginleika lífverunar — slíkt DNA er kallað rusl DNA (junk DNA). Markmið fræðigreinarinnar er að finna og skilgreina gen, finna hvar þau eru tjáð, hvaða stjórnraðir móta tjáningu gensins, hvaða þættir bindast við slíkar stjórnraðir, hvernig erfðaefnið er eftirmyndað (sjá DNA eftirmyndun) og hvaða áhrif stökkbreytingar í erfðamenginu hafa á svipfar lífverunnar. Einnig er leitast við að skilja samspil þátta, t.d. prótína og stýrilraða og hvernig slíkt samspil breytist með tíma og þroskastigi. Samvirkni gena (epistasis/genetic interaction) má einnig greina með erfðafræðilegum aðferðum, tölfræðilegum greiningum og prótínmengjafræði. Brýþonsk tungumál. Brýþonsk tungumál (einnig þekkt sem bresk tungumál) eru þau keltnesku tungumál sem töluð eru í Wales, Cornwall og Bretagne. Fyrir komu Engilsaxa voru þau töluð um allt Bretland. Brýþonsk tungumál eiga rætur að rekja til bresku sem töluð var í Bretlandi sunnan við Firth of Forth á járnöld og tíma Rómverja. Norðan við Firth of Forth var töluð péttneska, sem er talin vera skyld bresku. Á 4. og 5. öld flutti fólk til Bretagne frá Bretlandseyjum og tók tungumálið með sér. Á eftirfarandi öldum skiptist breska í nokkrar ólíkar mállýskur sem þróuðust smám saman í velsku, kornbresku, bretónsku og kumbrísku. Nú eru aðeins velska og bretónska talaðar sem móðurmál, en smá endurlífgun kornbresku hefur verið undanfarin ár. Vegna útbreiðslu gelísku og ensku á fyrri öldum er kumbríska nú dáin út. Útflyjendur sem tala brýþonsk tungumál búa í Englandi, Frakklandi og Argentínu. Merkigil. Merkigil (gilið); sér yfir í Bústaði handan Austari-Jökulsár. Merkigil er eyðibýli í Austurdal í Skagafirði og var nyrsti bærinn í dalnum austanverðum. Jörðin þótti góð bújörð en hún er umkringd djúpum og hrikalegum gljúfrum og háum fjöllum og aðdrættir því afar erfiðir. Vestan við land Merkigils er gljúfur Austari-Jökulsár en norðan við það er Merkigil, mikið klettagil sem skilur í sundur Kjálka og Austurdal. Yfir það var jafnan farið þegar fara þurfti í kaupstað eða út á Kjálka og í Blönduhlíð. Vegna þess hve þröngt einstigið er sem liggur fyrir framan klettasnös eina í gilinu var ekki hægt að fara þar um með fyrirferðarmiklar klyfjar og var því ull og annað slíkt flutt yfir Nýjabæjarfjall og niður í Eyjafjörð og síðan til Akureyrar. Á Merkigili bjuggu margir góðu búi fyrr á öldum en þekktasti bóndi þar er ekkjan Monika Helgadóttir, sem bjó þar fyrst með Jóhannesi manni sínum frá 1926 en þegar hann lést á besta aldri 1947 frá átta ungum börnum, því yngsta nokkurra vikna, hélt Monika áfram búi þar með rausn og byggði meðal annars steinsteypt íbúðarhús á bænum 1949. Var allt efni í húsið flutt yfir Merkigilið á hestum. Monika varð þjóðkunn þegar Guðmundur G. Hagalín skrifaði um hana bókina "Konan í dalnum og dæturnar sjö" árið 1954. Monika barðist lengi fyrir því að fá brú á Austari-Jökulsá yfir í Merkigil og tókst það loksins. Er brúin oft kennd við hana og kölluð Monikubrú. Þegar öll börn Moniku voru flutt að heiman árið 1972 og hún ein eftir seldi hún Helga Jónssyni jörðina en var þar áfram allmörg ár. Hún lést árið 1988. Helgi varð síðasti bóndi á Merkigili því hann hrapaði til bana í Merkigili árið 1997. Hann hafði þá í mörg ár verið eina sóknarbarnið í Ábæjarsókn. Guðmundur Magnússon (f. 1966). Guðmundur Magnússon (fæddur 13. ágúst 1966) er íslenskur stjórnmálamaður. Guðmundur ólst upp í Árbæjarhverfi sem var að byggjast upp á þessum árum kringum 1960-1970. Foreldrar eru Magnús Guðmundsson kjötiðnaðarmeistari og Ásta Gunnarsdóttir húsmóðir. Árið 1988 kvæntist Guðmundur núverandi eiginkonu Lisbeth Thompson og eiga þau sama þrjú börn. Guðmundur stundaði nám við Árbæjarskóla á sínum grunskólaaldri og lagði hann stund á íþróttir frá unga aldri. Hann gekk ungur til liðs við Íþróttafélagið Fylkir í Árbæjarhverfi sem stofnað var 28. maí 1967. Guðmundur hefur leikið með öllum flokkum félagsins í knattspyrnu og einnig yngri flokkum félagsins í handknattleik. Síðar á ferlinum lék Guðmundur knattspyrnu með meistaraflokkum KR, ÍBÍ og Selfossi. Einnig hefur Guðmundur leikið fjölda leikja með ungmennalandsliðum Íslands í knattspyrnu. Árið 1988 stofnaði Guðmundur fyrirtækið Margt smátt sem sérhæfir sig í sölu og framleiðslu á sérmerktum auglýsinga og gjafavörum. Árið 2005 störfuðu um það bil 25 starfsmenn hjá félaginu og starfsemin var að Guðríðarstíg 6-8 í um 1500 fermetra húsnæði. 2005 seldi Guðmundur og fjölskylda hlutabréf sín í félaginu. Í dag er Guðmundur Magnússon stjórnarformaður og hluthafi fyrirtækisins Áberandi ehf. Árið 2010 tók Guðmundur sæti í bæjarstjórn Seltjarnarness fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðmundur gegnir stöðu forseta bæjarstjórnar og er meðal annars formaður fjáhags og launanefndar bæjarins. Guðmundur varð annar í prjófkjöri Sjálfstæðismanna í nóvember 2009. Kraftganga. Kraftganga, í núverandi mynd, var stofnuð árið 1989 af Árnýju Helgadóttur, hjúkrunarfræðingi BSc og íþróttaþjálfara. Kraftganga er líkamsþjálfun sem byggir á röskri göngu, ásamt æfingum og teygjum. Undanfarin 19 ár hefur Kraftganga verið starfrækt í Perlunni, Öskjuhlíð. Við upphaf hvers Kraftgöngutíma, hittir leiðbeinandi þátttakendur í anddyri Perlunnar, þar sem upphitunaræfingar eru gerðar. Að þeim loknum er arkað af stað, í göngu um Öskjuhlíðina, þar sem reglulega er stoppað til þess að gera annars konar líkamsæfingar. Öskjuhlíðin býður upp á margar skemmtilegar gönguleiðir, þar sem hægt er að ganga á jafnsléttu eða spreyta sig á bröttum brekkum. Kraftganga hefur verið starfrækt allan ársins hring, og leiðbeinendur láta óveður eða kulda ekki hafa áhrif á starfsemina - áfram skal arkað, sama hvernig vindar blása. Kraftganga hefur einnig upp á margs konar gönguferðir, bæði fjallgöngur og annars konar göngur. Í fjölda ára hafa unnendur Kraftgöngu gengið á fjöll af öllum stærðargráðum, allt frá Vífilfelli, yfir í erfiðari göngur á t.a.m. á Hvannadalshnúk. Codex Vaticanus. Codex Vaticanus (Skammstafað B (Wettstein), 03 (Gregory) eða δ1 (Von Soden)) er handrit sem er til af biblíunni. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 4. öld e.Kr. Handritið er nú 759 blöð (27 x 27 cm). Textinn er í 3 dálkum, 40-44 línur á hverri síðu. Handritið er geymt í Biblioteca Vaticana (Gr. 1209). Aðaldalur. Aðaldalur er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann liggur upp frá botni Skjálfandaflóa, milli Skjálfandafljóts að vestan og Laxár og Hvammsheiðar að austan og nær allt suður að Vestmannsvatni. Suðurhluti dalsins er klofinn sundur af Garðsnúpi, sem gengur til norðurs úr Fljótsheiði. Reykjadalur gengur til suðurs frá Aðaldal og eru engin glögg landfræðileg skil milli dalanna. Laxárdalur gengur svo til suðausturs frá Aðaldal upp til Mývatnssveitar. Aðaldalur var áður sérstakt sveitarfélag, Aðaldælahreppur, en er nú hluti af Þingeyjarsveit. Út við Skjálfandaflóa eru breiðir sandar en síðan tekur Aðaldalshraun við og þekur mestan hluta sléttlendisins, enda er það um 100 ferkílómetrar. Aðalhraunbreiðurnar eru tvær; eldra hraunið rann úr Ketildyngju fyrir um 3500 árum og fyrir um 2000 árum rann annað hraun yfir það úr Þrengslaborgum í Mývatnssveit. Hraunið er víða vel gróið, vaxið birki, eini, hrís og lyngi. Norðausturhluti þess var þó áður gróðursnauður en um miðja síðustu öld var sett þar upp sandgræðslugirðing og hefur gróðurfarið breyst mjög til batnaðar síðan. Sunnan til í dalnum er víða nokkuð votlent. Að dalnum liggja víðast vel grónar heiðar. Allmargir bæir eru í Aðaldal en byggðin er dreifð. Norðan til eru bæirnir yfirleitt í jaðri Aðaldalshrauns. Þéttust er byggðin í kringum Laxárvirkjun og svo við Hafralækjarskóla, en þar er jarðhiti og sundlaug. Þar skammt frá er félagsheimilið Ýdalir. Kirkjur eru á Grenjaðarstað og í Nesi í Aðaldal. Flugvöllur er í Aðaldalshrauni en þangað er ekki áætlunarflug lengur. Laxárdalur fremri. Laxárdalur er dalur í Austur-Húnavatnssýslu sem oft er kallaður Laxárdalur fremri til aðgreiningar frá Laxárdal í Skagafjarðarsýslu, sem er handan við fjallgarðinn milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslu og er stundum kallaður "Laxárdalur ytri". Laxárdalur fremri liggur samsíða Langadal, frá Refasveit og næstum fram að Bólstaðarhlíð og Vatnsskarði. Þar var áður allmikil byggð, um tuttugu bæir, en nú er aðeins einn eftir í byggð. Dalurinn er grösugur og nokkuð búsældarlegur en mjög snjóþungur. Norður eftir dalnum rennur Laxá í Laxárdal, sem kallast Laxá í Refasveit eftir að hún kemur fram úr dalnum og sameinast Norðurá. Vatnaskil eru nokkuð sunnan við miðjan dal, á móts við Litla-Vatnsskarð og rennur Auðólfsstaðaá þaðan til suðurs og síðan til vesturs um Auðólfsstaðaskarð í Blöndu. Ingiríður Rögnvaldsdóttir. Ingiríður Rögnvaldsdóttir (d. eftir 1161) var sænsk konungsdóttir á 12. öld og síðar drottning Noregs, móðir Magnúsar Hinrikssonar Svíakonungs og Inga krypplings Noregskonungs. Ingiríður var dóttir Rögnvaldar stutthöfða Svíakonungs, sonar Inga eldri. Fyrsti maður hennar var Hinrik halti, sonur Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Sögur herma að hjónaband þeirra hafi ekki verið gott og að Ingiríður hafi einhverju sinni reynt að strjúka með ungum elskhuga sínum, klæddd karlmannsfötum, en maður hennar náði henni og hafði hana í haldi þar til hann féll í orrustu 4. júní 1134. Sonur þeirra var Magnús, sem varð konungur Svíþjóðar stuttan tíma um 1160. Aðrir synir þeirra voru Rögnvaldur, sem var ríkisjarl í Svíþjóð þegar bróðir hans ríkti þar, og Búris. Ingiríður giftist þá Haraldi gilla Noregskonungi og átti með honum soninn Inga, sem síðar var kallaður krypplingur. Það hjónaband er einnig sagt hafa verið óhamingjusamt og Haraldur var drepinn 14. desember 1136 í rúminu hjá einni af mörgum frillum sínum. Strax um nóttina ráðgaðist Ingiríður drottning við helstu höfðingja sem voru við hirðina og átti stóran þátt í því að smádrengirnir Ingi sonur hennar og Sigurður munnur, stjúpsonur hennar, voru lýstir samkonungar. Hún var einn helsti ráðgjafi Inga alla tíð sem hann ríkti. Ingiríður átti svo í sambandi við mann sem kallaðist Ívar sneis og eignaðist með honum soninn Orm, sem kallaður var konungsbróðir og varð seinna helsti herforingi Magnúsar konungs Erlingssonar. Þau giftust þó ekki en þriðji eiginmaður Ingiríðar var Óttar birtingur, valdamikill norskur höfðingi. Hann var drepinn af launmorðingja í Niðarósi um 1146. Ingiríður giftist svo í fjórða sinn Árna Ívarssyni á Stoðreimi, öðrum valdamiklum höfðingja, og var hann eftir það kallaður konungsmágur. Þau fóru til Danmerkur eftir fall Inga konungs og er ekkert minnst á Ingiríði eftir það. Þau áttu fjögur börn, Filippus í Herðlu, Inga, Nikulás, sem varð biskup og einn helsti foringi Baglanna, og Margéti, móður baglakonungsins Filippusar Símonarsonar. Codex Alexandrinus. Codex Alexandrinus (Skammstafað A (Wettstein), 02 (Gregory) eða δ4 (Von Soden)) er handrit sem er til af biblíunni. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 5. öld e.Kr. Handritið er geymt í British Library (MS Royal 1. D. V-VIII) í London. Handritið er nú 773 blöð (32 x 26 cm). Textinn er í tveimur dálkum, 29 línur á hverri síðu. Codex Ephraemi Rescriptus. Codex Ephraemi Rescriptus (Skammstafað C (Wettstein), 04 (Gregory) eða δ3 (Von Soden)) er handrit sem er til af biblíunni. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 5. öld e.Kr. Handritið er geymt í Bibliothèque nationale de France (Gr. 9) í París. Handritið er nú 209 blöð (33 x 27 cm). Textinn er í 1 dálki, 40-46 línur á hverri síðu. Evdoxos. Evdoxos frá Knídos (fæddur 410 eða 408 f.Kr., dáinn 355 eða 347 f.Kr.) var forngrískur stærðfræðingur, stjörnufræðingur og heimspekingur. Hann var nemandi og síðar samstarfsmaður Platons við Akademíuna í Aþenu. Dexippos (heimspekingur). Dexippos (Δέξιππος; uppi um 350) var forngrískur heimspekingur og nemandi nýplatonistans Jamblikkosar. Dexippos samdi skýringarrit um ritverk Platons og Aristótelesar. Eitt þeirra er varðveitt, um "Umsagnir" Aristótelesar. Málmfríður af Kænugarði. Málmfríður af Kænugarði (um 1105 – eftir 1137) var rússnesk prinsessa á 12. öld, drottning Noregs frá því fyrir 1120 til 1130 og síðan drottning Danmerkur 1134-1137. Málmfríður var dóttir Mstislavs 1. stórhertoga af Kænugarði, sem kallaður er "Haraldur" í Heimskringlu, líklega eftir móðurafa sínum Haraldi Guðinasyni, og Kristínar Ingadóttur af Svíþjóð, dóttur Inga eldri Svíakonungs. Einhverntíma á árunum 1116-1120 giftist Málmfríður Sigurði Jórsalafara Noregskonungi og er sagt að hjónaband þeirra hafi ekki verið gott. Þau eignuðust eina dóttur, Kristínu, sem varð móðir Magnúsar konungs Erlingssonar. Þegar Sigurður Jórsalafari dó 1130 fór Málmfríður til Danmerkur en Ingibjörg systir hennar var gift Knúti lávarði, bróðursyni Níelsar konungs. Magnús sterki, sonur Níelsar, myrti Knút raunar skömmu síðar. Málmfríður giftist Eiríki eymuna, hálfbróður Knúts og árið 1131 kom hún á hjúskap milli systurdóttur sinnar, Kristínar dóttur Knúts, og Magnúsar Noregskonungs, stjúpsonar síns. Þegar Eiríkur og Málmfríður hröktust frá Danmörku 1133 undan feðgunum Magnúsi og Níelsi fóru þau til Noregs og leituðu á náðir Magnúsar. Kristín drottning komst að því að maður hennar hugðist svíkja þau í tryggðum og varaði þau við. Þau gengu þá í staðinn í bandalag við Harald gilla, meðkonung Magnúsar, og Magnús sagði skilið við Kristínu. Eiríkur varð konungur Danmerkur 1134 eftir fall Magnúsar og Níelsar og Málmfríður varð þá drottning. Það stóð þó ekki lengi því Eiríkur var myrtur 1137. Eftir það er Málmfríðar ekki getið. Þau Eiríkur voru barnlaus. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík eða RIFF (skammstöfun á Reykjavík International Film Festival) er kvikmyndahátíð sem hefur verið haldin árlega í Reykjavík frá árinu 2004. Listi yfir hástafahandrit Nýja testamentisins. Hástafahandrit Nýja testamentisins urðu flest til á tímabilinu frá 3. öld fram á 10. öld eftir Krist. Einkennandi fyrir þessi handrit er efnið, þ.e. bókfell eða skinn (pergament) sem kom í staðinn fyrir papýrus, bókarformið sem kom í stað rúllu (bókrollu), og stafagerðin, gríska hástafaletrið. Á 9. öld fóru menn að nota lágstafaletur, og leysti það brátt hástafaletrið af hólmi. Nú eru kunn 322 hástafahandrit með textum úr Nýja testamentinu, en flest þeirra eru aðeins lítil brot. Rannsóknir á hástafahandritunum á 19. og 20. öld höfðu mikla þýðingu fyrir textafræði Nýja testamentisins. Codex Bezae. Codex Bezae (Skammstafað D (Wettstein), 05 (Gregory) eða δ5 (Von Soden)) er handrit af Nýja testamentinu. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 5. öld e.Kr. Handritið er geymt í Cambridge-háskóla (Nn. II 41) í Cambridge. Handritið er nú 406 blöð (26 x 21,5 cm). Textinn er í 1 dálki, 33 línur á hverri síðu. Margrét friðkolla. Margrét friðkolla Ingadóttir (d. 1130) var sænsk konungsdóttir sem varð drottning Noregs 1101-1103 og síðar Danmerkur frá 1105 til dauðadags og var þá hinn raunverulegi stjórnandi landsins. Margrét var dóttir Inga eldri Steinkelssonar, konungs Svíþjóðar. Þegar Svíar og Norðmenn sömdu frið í Konungahellu 1101 var hjónaband milli hennar og Magnúsar berfætts Noregskonungs hluti af samkomulaginu og var Margrét send til Noregs með fríðu föruneyti. Viðurnefnið "friðkolla" er rakið til þessara friðarsamninga. Hjónabandið var þó skammvinnt því Magnús féll á Írlandi 1103. Þau höfðu ekki átt barn saman. Árið 1105 giftist Margrét svo Níels, yngsta syni Sveins Ástríðarsonar, sem hafði orðið konungur Danmerkur ári fyrr. Hann þótti ekki stjórnsamur og er sagt að Margrét drottning hafi að mestu séð um að stýra ríkinu. Það mun henni hafa farist vel úr hendi og voru samskipti við Svíþjóð til dæmis sérlega friðsamleg meðan hún lifði. Hún lét slá sína eigin mynt og stendur á peningum "Margareta-Nicalas" (Margrét-Níels). Margrét dó árið 1130 og eftir lát hennar giftist Níels Úlfhildi Hákonardóttur, ekkju Inga yngri Svíakonungs, sem skildi þó fljótt við Níels og giftist Sörkvi eldri Svíakonungi. Margrét og Níels áttu synina Magnús sterka og Inga, sem dó á barnsaldri. Úlfhildur Hákonardóttir. Úlfhildur drottning stofnaði Alvastra-klaustur í Svíþjóð og er grafin þar. Úlfhildur Hákonardóttir (um 1095 – 1148) var norsk hefðarkona sem var drottning Svíþjóðar frá því um 1117 til 1125, síðan skamma hríð drottning Danmerkur og svo Svíadrottning öðru sinni frá 1134 til dauðadags. Úlfhildur var dóttir norska höfðingjans Hákonar Finnssonar úr Þjóttu. Hún giftist fyrst Inga yngri Svíakonungi, líklega um 1116. Sagt er að hún hafi fengið hann til að myrða Filippus bróður sinn og meðkonung á eitri árið 1118 og einnig að hún hafi seinna byrlað honum sjálfum eitur. Svo mikið er víst að hún hafði illt orð á sér í Svíþjóð og eftir dauða Inga leitaði hún hælis í Danmörku því henni var ekki vært í Svíþjóð. Fljótlega eftir að Danadrottning, Margrét friðkolla, dó árið 1130 giftist Níels konungur Úlfhildi. Í Danmörku aflaði hún sér einnig óvinsælda og því hefur jafnvel verið haldið fram að hún hafi staðið að baki níðingsverki Magnúsar sterka stjúpsonar síns, þegar hann myrti Knút lávarð frænda sinn. Úlfhildur sagði skilið við Níels og er sögð hafa farið aftur til Svíþjóðar árið 1132; sumir telja að hún hafi þá strax gifst Sörkvi eldri Svíakonungi en líklegra er að þau hafi ekki gengið í hjónaband fyrr en eftir að Níels lést 1134, að minnsta kosti virðist aldrei hafa verið gerð athugasemd við hjónabandið eða dregið í efa að börn þeirra væru skilgetin, sem örugglega hefði verið gert ef þau hefðu gifst meðan Níels var enn á lífi. Úlfhildur átti engin börn í fyrri hjónaböndum sínum en með Sörkvi átti hún synina Jóhann, sem var drepinn vegna kvennaráns sem hann framdi, og Karl, sem varð konungur Svíþjóðar 1161, og dótturina Ingigerði, sem giftist stjúpbróður sínum, Knúti Magnússyni Danakonungi. Úlfhildur lést 1148 og Sörkvir giftist aftur Ríkissu af Póllandi, ekkju Magnúsar sterka, stjúpsonar Úlfhildar. Orðspor Úlfhildar hefur löngum verið í þá átt að hún hafi verið hið versta flagð og kvendjöfull en nútímasagnfræðingar telja fremur að hún hafi verið viljasterk og stjórnsöm kona. Hún var framtakssöm og átti samskipti við marga höfðingja víða, var til dæmis mikil vinkona Össurar erkibiskups í Lundi. Hún stofnaði Alvastra-klaustur með Sörkvi manni sínum og er grafin þar. Knútur lávarður. a> frá miðöldum í kirkjunni í Vigersted í Danmörku. Knútur lávarður (um 1096 – 7. janúar 1131) var danskur konungssonur og jarl og síðar hertogi af Slésvík og Holtsetalandi. Knútur var eini skilgetni sonur Eiríks góða Danakonungs og Bóthildar drottningar. Faðir hans átti einnig frillubörnin Harald kesju, Eirík eymuna og Ragnhildi, sem varð móðir Eiríks lambs. Foreldrar Knúts dóu bæði í Jórsalaferð árið 1103. Knútur þótti þá of ungur til að taka við ríkjum og varð því Níels föðurbróðir hans konungur. Knútur ólst upp hjá Hvide-ættinni á Sjálandi. Árið 1115 gerði Níels föðurbróðir hans hann að jarli af Slésvík og fól honum að berjast gegn ásælni obotríta, slavnesks þjóðflokks í Holtsetalandi. Við þetta varð Knúti svo vel ágengt að obotrítar kusu hann konung sinn árið 1129. Lóthar 3. keisari viðurkenndi yfirráð hans og gerði hann að hertoga af Holtsetalandi. Knútur tók sér þá einnig titilinn hertogi af Slésvík. Knútur var vinsæll meðal þegnanna og munu þeir Níels konungur og sonur hans, Magnús sterki, hafa óttast vinsældir hans en þó ekki síður tengsl hans við keisarann. Magnús leit á Knút sem hættulegan keppinaut um ríkiserfðir og í ársbyrjun 1131 bauð hann Knúti á fund í Haraldsted-skógi við Ringsted og myrti eða lét myrða hann þar 7. janúar. Morðið þótti mikið níðingsverk og var það upphafið á borgarastyrjöld sem í raun lauk ekki fyrr en 1157, þegar Valdimar sonur Knúts varð einn konungur Danmerkur. Valdimar barðist hart fyrir því að fá föður sinn tekinn í helgra manna tölu og tókst það árið 1170. Sagan segir að lind hafi sprottið upp á morðstaðnum og var á henni mikil helgi. Kapella var reist á staðnum þar sem Knútur var myrtur og var hún fjölsótt af pílagrímum allt til siðaskipta en féll þá í gleymsku og fannst ekki aftur fyrr en 1883. Lindin helga hefur ekki fundist. Messudagur Knúts lávarðs er dánardagur hans, 7. janúar. Knútur var giftur Ingibjörgu af Kænugarði, dóttur Mstislavs 1. og Kristínar, dóttur Inga eldri Svíakonungs. Þegar Knútur var myrtur áttu þau þrjár dætur en sjö dögum eftir lát hans fæddi Ingibjörg son sem hún nefndi Valdimar eftir afa sínum. Ein dóttir þeirra Knúts og Ingibjargar var Kristín, sem giftist Magnúsi blinda Noregskonungi. Listi yfir heilbrigðisstofnanir á Íslandi. Þetta er listi yfir heilbrigðisstofnanir á Íslandi. Kolbeinn Flosason. Kolbeinn Flosason var íslenskur lögsögumaður á árunum 1066-1071; Ari fróði segir í Íslendingabók að hann hafi tekið við embætti árið sem Haraldur konungur féll á Englandi. Lengi hefur verið deilt um hver Kolbeinn þessi hafi verið og hafa þrír menn verið nefndir til - eða tveir, eftir því hvernig á málin er litið. Annars vegar er það Kolbeinn Flosason af ætt Svínfellinga en þar koma tveir möguleikar til greina. Í lok Njálu segir svo, eftir að sagt hefur verið frá afdrifum Brennu-Flosa Þórðarsonar: „En börn þeirra Hildigunnar [bróðurdóttur Flosa] og Kára voru þeir Starkaður og Þórður og Flosi. Son Flosa var Kolbeinn er ágætastur maður hefir verið einnhver í þeirri ætt.“ Þessi ummæli um ágæti Kolbeins benda til þess að hann hafi verið alþekktur og ekki ósennilegt að hann hafi einmitt gegnt embætti lögsögumanns. Þó er umdeilt hvort orðin „son Flosa“ eigi við Flosa Kárason eða Flosa Þórðarson, það er að segja hvort Kolbeinn lögsögumaður hafi verið sonur Brennu-Flosa og þá líklega fæddur um 1000, eða sonur Flosa sonar Kára Sölmundarsonar og þá varla fæddur fyrr en 1035 í fyrsta lagi. Um hvorugan manninn (hafi þeir verið til) er neitt meira vitað. Í Ljósvetninga sögu segir að Kolbeinn lögsögumaður hafi verið grafinn í Fljótshverfi en síðan hafi ekkja hans látið flytja líkið til Rauðalækjar í Öræfum og sé sú frásögn rétt styrkir hún þessa ættfærslu því þar var kirkja Svínfellinga. Sumar heimildir segja aftur á móti að Kolbeinn lögsögumaður hafi verið sonur Flosa, sonar Valla-Brands Áskelssonar á Völlum í Landsveit. Dóttir Kolbeins Flosasonar Valla-Brandssonar var Guðrún, kona Sæmundar fróða Sigfússonar. Kristín Knútsdóttir. Kristín Knútsdóttir (um 1118/1120 – eftir 1139) var dönsk hefðarkona af konungsættinni, sonardóttir Eiríks góða, og drottning Noregs 1133. Kristín var dóttir danska konungssonarins Knúts lávarðs, hertoga af Slésvík, og konu hans Ingibjargar af Kænugarði. Árið 1131, sama ár og Magnús sterki drap föður hennar, trúlofaðist hún Magnúsi Sigurðssyni Noregskonungi og mun Málmfríður af Kænugarði, móðursystir Kristínar og áður stjúpmóðir Magnúsar hafa haft milligöngu um það. Hún var þó talin of ung til að giftast en fór til Noregs 1133 og giftist Magnúsi. Málmfríður giftist Eiríki eymuna, hálfbróður Knúts lávarðs, árið 1131 og tók þátt í baráttu hans gegn Níels Danakonungi og Magnúsi sterka syni hans Þau flúðu frá Danmörku 1133 og leituðu hælis hjá Magnúsi og Kristínu í Noregi. Kristín komst að því að Magnús hefði í hyggju að svíkja þau og þau gerðu þá bandalag við Harald gilla, meðkonung Magnúsar. Magnús rak þá Kristínu frá sér og hefur hún líklega farið heim til Danmerkur, að minnsta kosti þegar Eiríkur eymuni varð konungur sumarið 1134. Snemma árs 1135 lét Haraldur gilli svo blinda og gelda Magnús og setti hann af sem konung. Kristínar er ekkert getið eftir lát hans 1139 og hefur hún sennilega dáið ung. Olíumálning. Olíumálning er eins og nafnið gefur til kynna málning sem innheldur olíu sem bindiefni og er mikið notuð af myndlistarmönnum og húsamálurum. Myndlistarmenn búa sumir hverjir til sína eigin olíumálningu með því að blanda litadufti saman við línolíu (úr hörfræjum), valhnetuolíu eða valmúaolíu. Línolía er langalgengust, ýmist hrein, soðin eða í formi fernisolíu. Yfirleitt er blandað í hana efnahvötum til að flýta fyrir þornun. Talið er að olíumálning hafi verið fundin upp á 12. öld, en yfirleitt er talað um að hún líti dagsins ljós á endurreisnartímann og að sá fyrsti til að nota hana hafi verið hinn flæmski listmálari Jan van Eyck. Í almennu tali er orðið „olíumálning“ oft notað um alkýðmálningu sem er algeng í húsamálun og hegðar sér á svipaðan hátt og línolíumálning; leysist til dæmis upp með terpentínu. Alkýð er þó ekki olía heldur fjölliða sem inniheldur fitusýruhluta. Charles Joseph Minard. a>s. Á skýringarmyndinni kemur fram mannfall, stefna og hitastig. Charles Joseph Minard (27. mars 1781 – 24. október 1870 í Bordeaux í Frakklandi) var franskur verkfræðingur og brautryðjandi á sviði hönnunar skýringarmynda. Minard fæddist í Dijon og lærði stærðfræði við École Polytechnique skammt frá París. Hann starfaði sem verkfræðingur við hönnun stíflna, skurða og brúa um alla Evrópu. Hann var skipaður í stöðu við École Polytechnique árið 1830, þá tæplega fimmtugur að aldri, þar sem hann starfaði sem í sex ár. Þá tók hann við stöðu sem skoðunarmaður brúa og vega til ársins 1851 en þá settist hann í helgan stein. Árið 1869 gaf hann út skýringarkort (f. "Carte figurative des pertes successives en hommes de l'Armée Française dans la campagne de Russie 1812-1813", sjá mynd til hægri) sem sýndi vegferð hers Napóleons 1812 til Rússlands. Á því korti kemur fram Vísindamaðurinn Étienne-Jules Marey veitti korti Minards strax athygli og sagði kortið segja skýrari sögu en penna sagnfræðingsins. Edward Tufte segir kortið hugsanlega vera bestu myndrænu framsetningu á gögnum fyrr og síðar í bók sinni "The Visual Display of Quantitative Information". Tenglar. Minard, Charles Joseph Margrét Eiríksdóttir Noregsdrottning. Margrét Eiríksdóttir (dáin 1209) var sænsk konungsdóttir og drottning Noregs frá 1185 til 1202, kona Sverris Sigurðssonar Noregskonungs. Margrét var dóttir Eiríks helga Svíakonungs og Kristínar Björnsdóttur konu hans. Hún giftist Sverri konungi árið 1185. Ekki er vitað hve gömul hún var þá en hún hefur ekki verið fædd seinna en 1160 því það ár dó faðir hennar. Þau Sverrir eignuðust aðeins eina dóttur, Kristínu. Drottningarinnar er sjaldan getið í sögu Sverris konungs en ýjað er að því að hún hafi verið grunuð um græsku. Þegar Sverrir dó 9. mars árið 1202 fór Margrét til Vestur-Gautlands, þar sem hún átti miklar eignir, en varð að skilja Kristínu dóttur sína eftir þvert gegn vilja sínum. Hún sneri aftur rétt fyrir áramótin 1203-1204. Á nýársdag dó Hákon konungur Sverrisson, stjúpsonur hennar, og þótti ýmislegt benda til þess að honum hefði verið byrlað eitur. Margrét var grunuð um verknaðinn og reyndi hún að sanna sakleysi sitt með járnburði. Hún bar þó glóandi járnið ekki sjálf, heldur lét einn þjóna sinna gera það fyrir sína hönd. En það fór ekki vel því maðurinn brenndist illa, sem var talið sönnun um sekt. Manngreyinu var drekkt en Margrét drottning flúði í skyndingu til Svíþjóðar. Í Sverris sögu og Böglunga sögum andar mjög köldu til Margrétar drottningar og Kristínar Níelsdóttur, systurdóttur hennar, sem var með drottningu og gekk síðar að eiga Hákon jarl galinn. Margrét er talin sek um að hafa eitrað fyrir Hákon konung og sömuleiðis var Kristín grunuð um að hafa átt þátt í dauða barnakonungsins Guttorms Sigurðssonar síðar sama ár. Margrét kom þó aftur til Noregs síðar og var viðstödd árið 1209 þegar Kristín dóttir hennar giftist Filippusi Símonarsyni, konungsefni baglanna og systursyni Nikulásar biskups Árnasonar, helsta foringja bagla og erkióvini Sverris manns hennar. Þá hafði Noregi í raun verið skipt í þrennt og samið um að Filippus skyldi ráða Upplöndum og hluta af Víkinni en fengi ekki konungsnafn; aftur á móti fékk hann Kristínu, einkabarn Sverris konungs, fyrir konu. Margrét veiktist skömmu eftir brúðkaupið og dó innan fárra vikna. Kristín Sverrisdóttir af Noregi. Kristín Sverrisdóttir (d. 1213) var einkadóttir Sverris Noregskonungs og Margrétar konu hans en hálfbræður hennar voru þeir Sigurður lávarður og Hákon Sverrisson harmdauði. Eftir dauða Sverris konungs fór Margrét drottning til heimkynna sinna í Svíþjóð og ætlaði að taka dóttur sína með en það leist birkibeinum illa á; líklega hafa þeir takið hættu á að andstæðingar þeirra næðu tökum á henni. Þeir fluttu hana því til Hákonar konungs bróður hennar í Björgvin, þvert gegn vilja móðurinnar. Kristín er sögð hafa verið trygg móður sinni og stórlynd eins og hún. Þegar friður var saminn milli bagla og birkibeina 1208 var meðal annars ákveðið að Kristín skyldi giftast konungsefni bagla, Filippusi Símonarsyni. Hann skyldi jafnframt stýra Upplöndum og hluta af Víkinni en fékk ekki konungsnafn. Samkvæmt Böglunga sögum var Kristín ósátt, hún vildi ekki mann sem hvorki var af konungsætt né mundi hljóta viðurkenningu sem konungur. Þau giftust þó 1209 og kom Margrét móðir hennar til brúðkaupsins en dó nokkrum vikum síðar. Filippus hélt reyndar áfram að kalla sig konung þrátt fyrir samkomulagið og hefur Kristín vafalaust ekki latt hann til þess og sjálfsagt litið á sig sem drottningu. Sjálf dó Kristín af barnsförum árið 1213 og áttu þau Filippus ekki barn sem lifði. Sverris saga. Sverris saga er saga Sverris Sigurðssonar, en hann var færeyskur prestur sem sagðist vera sonur Sigurðar Noregskonungs. Hann hóf uppreisn í Noregi árið 1177, náði þar völdum og ætt hans stýrði síðan Noregi fram til 1387. Sverrir var ræðuskörungur og herstjórnandi ágætur og virðist hann sjálfur hafa fengið þá hugmynd að láta setja sama sögu sína. Til þess fékk hann Karl Jónsson ábóta á Þingeyrum og virðist sagan einum þræði samin til að staðfesta tilkall Sverris til valda og skýra að hann sé konungur valinn af guði með mikla hæfileika og sonur konungs. Ellisif af Kænugarði. Ellisif. Freska frá 11. öld í Soffíukirkjunni í Kiev. Ellisif af Kænugarði (1025 – um 1067) eða Elisaveta Yaroslavna var rússnesk furstadóttir og drottning Noregs 1046-1066 sem eiginkona Haraldar harðráða. Elisaveta var dóttir Jarisleifs 1. fursta af Kænugarði og Ingigerðar Ólafsdóttur af Svíþjóð, dóttur Ólafs skotkonungs. Systur hennar voru Anna, drottning Frakklands, Anastasía, drottning Ungverjalands, og Agata, kona Játvarðar útlaga. Veturinn 1043-1044 giftist hún Haraldi Sigurðssyni, hálfbróður Ólafs digra Noregskonungs, sem þá var í þjónustu föður hennar. Árið 1045 fóru þau svo til Noregs, þar sem Magnús bróðursonur Haraldar var þá tekinn við konungdómi. Haraldur gerði kröfu til þess að verða meðkonungur hans og þar sem hann átti gnótt fjár tókst honum að kaupa sér fylgi höfðingja og verða konungur og Elisaveta varð þá drottning og var kölluð Ellisif. Magnús góði dó ári síðar og varð Haraldur þá einn konungur. Ellisif var hins vegar ekki eina drottningin því að Haraldur tók sér aðra konu, Þóru Þorbergsdóttur, og er þess ekki getið í heimildum að neinar athugasemdir hafi verið gerðar við það fyrirkomulag. Þegar Haraldur réðist inn í England 1066 fór Ellisif með og einnig dætur þeirra, María og Ingigerður. Haraldur féll þar í orrustunni við Stafnfurðubryggju og er sagt að Maríu dóttur hans hafi orðið svo mikið fréttina að hún hafi dáið. Ellisif fór með Ingigerði dóttur sína aftur til Noregs með þeim sem eftir lifðu úr herliðinu. Hún var eftir það í skjóli Ólafs kyrra, sonar Haraldar og Þóru, en lifði líklega ekki lengi, dó trúlega 1067. Ingigerður dóttir hennar giftist fyrst Ólafi hungri Danakonungi og síðan Filippusi Svíakonungi. Þóra Þorbergsdóttir. Þóra Þorbergsdóttir (1025 – eftir 1067) var norsk hefðarkona og eiginkona Haraldar konungs harðráða Noregskonungs en vafasemt er hvort skuli telja hana drottningu þar sem Haraldur var þegar kvæntur annarri konu, Ellisif drottningu, þegar hann gekk að eiga Þóru. Hún varð þó seinna drottning Danmerkur. Þóra var dóttir Þorbergs Árnasonar, höfðingja á Giska, og konu hans Ragnhildar Erlingsdóttur, sem var dóttir Erlings Skjálgssonar og bróðurdóttir höfðingjanna Finns og Kálfs Árnasona. Haraldur giftist Þóru árið 1048, ári eftir að hann varð einn konungur í Noregi, líklega til að styrkja stöðu sina og efla tengslin við eina voldugustu ætt landsins. Ekki er að sjá af heimildum að neinar athugasemdir hafi verið gerðar við lögmæti hjónabandsins þrátt fyrir tvíkvæni konungsins. Synir Þóru og Haraldar voru konungarnir Ólafur kyrri og Magnús Haraldsson. Eftir að Haraldur konungur féll í orrustunni við Stafnfurðubryggju 1066 giftist Þóra Sveini Ástríðarsyni Danakonungi og varð þriðja kona hans. Þau áttu soninn Knút Magnús, sem dó ungur. Mello. Mello er í sögupersóna í japönsku anime þáttunum Death Note. Mello er einn af þrem mögulegum eftirmönnum L. hinir tveir eru near/nate og Matt/mail. Mello er ljóshærður, bláeygður og hávaxinn, Hann hefur sérstakt dálætti á leðri og súkkulaði. hann var alinn upp á munaðarleysingjahælinu whammy's house. hann hefur alltaf litið upp til L og vonaðist eftir að fá að taka við af honum, en near hefur alltaf verið skrefi á undan honum. Honum bauðst til að fá að vinna í kira málinu með því skylirði að hann og near myndu vinna saman. Hann neitaði því og gegst í lið við mafíuna og ætlaði sér að ná kira uppá eigin spýtur til að sanna fyrir near (og sjálfum sér) Mello kemur fyrst til sögunar í kafla 59 í manganu en í þætti 26 í animeinu. aldur:þegar hann kemur fyrst til sögunar er hann 13-15 ára, hann deyr bandamenn:Matt (var alinn upp á sama munaðaleysingjahæli og mello, er einig besti vinur hans.)mafian. Svínasúpan. Svínasúpan er sjónvarpsþættir sem sýndir voru á stöð 2 2003-2004 með leikstjóranum Óskari Jónassyni og framleidd af Storm. Leikarar þáttarins eru Auðunn B. Kristjánsson sjónvarpsmaður, Edda Björg Eyjólfsdóttir leikari, Guðlaug Ólafsdóttir leikkona Pétur Jóhann Sigfússon leikari, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) sjónvarpsmaður og Sigurjón Kjartansson tónlistarmaður og útvarpsmaður. Jón Gunnar Kristinsson borgarstjóri bættist svo við í annari þáttaröð þáttarins. DVD diskur Svínasúpunnar fór í gullsölu og mæðrastyrksnefnd var veitt eintök af myndisknum við afhendingu gullplötunnar. Ingiríður Sveinsdóttir. Ingiríður Sveinsdóttir (dáin eftir 1093) var dönsk konungsdóttir og drottning Noregs 1067-1093, kona Ólafs kyrra Noregskonungs. Ingiríður var dóttir Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Ekki er vitað hver móðir hennar var en líklega var það engin af þremur konum Sveins konungs, heldur einhver af mörgum frillum hans. Fimm hálfbræður Ingiríðar urðu konungar Danmerkur. Sveinn Ástríðarson taldi sig eiga tilkall til norsku krúnunnar eftir að Haraldur harðráði féll á Englandi 1066 en Ólafur kyrri, sonur Haraldar, gerði samkomulag við Svein þar sem hann féll frá tilkalli sínu og Ólafur gekk að eiga Ingiríði dóttur hans. Þau voru barnlaus þrátt fyrir langt hjónaband. Eftir að Ólafur lést 1093 og Magnús berfættur, frillusonur hans, tók við ríkinu er sagt að Ingiríður hafi flutt vestur í Sogn, gengið að eiga Svein Brynjólfsson á Aurlandi og átt með honum dótturina Hallkötlu. Til hennar eru raktar ættir í íslenskum ættartölum. Gyða af Svíþjóð. Gyða Önundardóttir (d. um 1049) eða Gunnhildur Önundardóttir var sænsk konungsdóttir á 11. öld og síðar drottning Danmerkur, fyrsta kona Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Gyða var dóttir Önundar Jakobs Svíakonungs. Kona Önundar var Gunnhildur Sveinsdóttir og ber heimildum ekki saman um hvort Gyða var dóttir hennar eða stjúpdóttir. Fátt er vitað um Gyðu en talið er að hún hafi verið gift Sveini Ástríðarsyni árið 1047 eða 1048, um sama leyti og hann varð konungur Danmerkur. Þó má vera að þau hafi gifst fyrr, þegar Sveinn var í útlegð við sænsku hirðina. Hún lést eftir um eins árs hjónaband og voru þau Sveinn líklega barnlaus. Önundur Jakob lést árið 1050 og skömmu síðar giftist Sveinn Gunnhildi, fyrrverandi tengdamóður (eða stjúptengdamóður) sinni. Slíkt hjónaband var óheimilt samkvæmt lögum kirkjunnar og neyddust þau til að skilja. Þeim mæðgum er oft ruglað saman, enda hétu þær líklega sama nafni og voru báðar giftar Sveini. Gunnhildur Sveinsdóttir. Rústir Guðheimsklausturs. Það var trú manna að Gunnhildur hefði stofnað það en klaustrið var þó ekki stofnað fyrr en 100 árum eftir dauða hennar. Hún kann þó að vera grafin þar. Gunnhildur Sveinsdóttir (d. um 1060), samkvæmt sumum heimildum Gunnhildur Haraldsdóttir, var norskættuð hefðarkona á 11. öld, drottning Svíþjóðar og síðan drottning Danmerkur. Faðerni Gunnhildar er óvíst; samkvæmt sumum heimildum var hún Haraldsdóttir en líklegra er talið að hun hafi verið dóttir Sveins Hákonarsonar Hlaðajarls og Hólmfríðar, sem var dóttir eða systir Ólafs skotkonungs. Ekki er vitað hvenær Gunnhildur gekk að eiga Önund Jakob Svíakonung. Samkvæmt sumum heimildum var hjónabandið barnlaust en aðrar heimildir segja að Gyða dóttir Önundar, sem giftist Sveini Ástríðarsyni Danakonungi um 1048, hafi einnig verið dóttir Gunnhildar. Þeim mæðgum eða stjúpmæðgum er oft ruglað saman. Önundur Jakob dó árið 1050 og Gyða hafði dáið árið áður. Gunnhildur ekkjudrottning hélt til Danmerkur og giftist þar Sveini (stjúp)tengadyni sínum. Slíkt hjónaband var óheimilt samkvæmt lögum kirkjunnar, hvort sem Gyða var dóttir Gunnhildar eða ekki, og er sagt að páfi hafi hótað þeim bannfæringu. Þau slitu þá samvistir og Gunnhildur hélt aftur til Svíþjóðar 1051 eða 1052. Ekki er vitað hvort Gunnhildur var móðir einhvers hinna fjölmörgu barna Sveins. Gunnhildur eyddi síðustu æviárunum í Vestur-Gautlandi við bænaiðkun og hannyrðir og er sögð hafa stofnað vefstofu þar sem unnin voru messuklæði og ýmis vefnaður fyrir kirkjur. Adam frá Brimum kallaði hana "Sanctissima" og dásamaði gestrisni hennar við kristna trúboða sem konungur hafði hrakið á brott. Adela af Flæmingjalandi. Adela af Flæmingjalandi (um 1064 – 1115) var drottning Danmerkur 1080-1086 (þar var hún kölluð Edel) og síðar hertogaynja Apúlíu á Ítalíu og ríkisstjóri Apúlíu um tíma. Adela var dóttir Róberts 1. greifa af Flæmingjalandi og konu hans Geirþrúðar af Saxlandi. Hún giftist Knúti Danakonungi 1080, sama ár og hann varð konungur, og átti með honum þrjú börn, soninn Karl (f. 1084) og tvíburadæturnar Sesselju og Ingibjörgu (f. 1086/1086). Þegar Knútur var myrtur árið 1086 flúði Adela til Flæmingjalands með son sinn en dæturnar urðu eftir í Danmörku. Adela var með föður sínum og bróður í Flæmingjalandi til 1092, þegar hún fór til Ítalíu og giftist þar Roger Borsa, hertoga af Apúlíu, en Karl sonur hennar varð eftir í Flæmingjalandi og erfði síðar greifadæmið. Með seinni manni sínum átti Adela þrjá syni en aðeins einn komst upp, Vilhjálmur hertogi. Þegar Roger dó árið 1111 stýrði Adela hertogadæminu þar til sonur hennar varð fullveðja 1114. Hún dó svo ári síðar. Þegar Knútur fyrri maður Adelu var tekinn í helgra manna tölu 1101 sendi hún fé og fagra gripi til að búa helgiskrín hans í dómkirkjunni í Óðinsvéum sem fagurlegast. Ingigerður Haraldsdóttir af Noregi. Ingigerður Haraldsdóttir (1046 – eftir 1118) var norsk konungsdóttir, drottning Danmerkur 1086-1095 og síðan drottning Svíþjóðar frá 1105-1118. Ingigerður var dóttir Haraldar harðráða Noregskonungs og Ellisifjar af Kænugarði. Hún hét eftir ömmu sinni, Ingigerði dóttur Ólafs skotkonungs. Ekki er vitað hvenær hún giftist fyrri manni sínum, Ólafi syni Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Hann varð konungur eftir að Knútur helgi bróðir hans var drepinn 1186 og hefur Ólafur jafnvel verið grunaður um að hafa staðið á bak við morðið. Synir þeirra dóu ungir og Eiríkur góði bróðir Ólafs erfði krúnuna. Ingigerður hélt þá til Svíþjóðar og giftist Filippusi syni Hallsteins konungs Steinkelssonar. Hann varð konungur ásamt Inga bróður sínum þegar Ingi eldri, föðurbróðir þeirra, dó árið 1105 og Ingigerður varð þá drottning að nýju. Þau áttu ekki börn svo vitað sé en raunar er nánast ekkert vitað um Filippus og stjórnartíð hans. Hann dó árið 1118 og þá var Ingigerður enn á lífi. Pritzker-verðlaunin. Pritzker-verðlaunin eru verðlaun fyrir byggingarlist sem veitt eru árlega. Verðlaunin sem voru sett á fót af Jay A. Pritzker og konu hans Cindy njóta mikillar virðingar og sem dæmi um það þá er oft talað um þau sem „Nóbelsverðlaunin í byggingarlist“ Samanburðarerfðamengjafræði. Samanburðarerfðamengjafræði byggir á þeirri staðreynd að allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði. Skyldar tegundir eru áþekkar að byggingu og erfðamengi þeirra eru einnig mjög svipuð (t.d. er um 1-2% munur á genum manna og simpansa). Mikilvægustu hlutar lífvera eru varðveittir af náttúrulegu vali, t.d. hafa öll spendýr hryggjasúlu og taugafrumur. Á sama hátt varðveitir náttúrulegt val genin sem nauðsynleg eru til að byggja og viðhalda mikilvægum eiginleikum. Með því að bera saman erfðamengi fjarskyldra tegunda, t.d. manns og ávaxtaflugu, má finna gen sem nauðsynleg eru fyrir grundvallarferli (sem mikilvæg eru fyrir starfsemi allra fjölfruma dýra). Markmið fræðigreinarinnar er að þróa aðferðir til að bera saman erfðamengi, skilja þróun gena og prótína, kortleggja þróun litninga, þráðhafta og litningaenda. Hún nýtist til að finna gen, stjórnraðir, mörk innraða og útraða, og mikilvæga hluta einstakra gena og aðrar raðir sem náttúrulegt val hefur varðveitt. Mikilvægt er að velja réttar tegundir til samanburðar. Náskyldar tegundir gefa vísbendingu um nýlegar breytingar, sem einkenna ákveðna tegund eða fjölskyldu, á meðan samanburður á fjarskyldari tegundum sýna hvaða gen og kerfi má kalla grunneiningar viðkomandi lífveruhóps, t.d. að nota Fugu (fisktegund í Japan) sem viðmið fyrir spendýr. Magnús sterki. Magnús Níelsson (um 1106 – 4. júní 1134), sem oftast er kallaður Magnús sterki, var danskur konungssonur á 12. öld og konungur hluta Svíþjóðar (Gautlands) 1125-1130. Magnús var sonur Níelsar Danakonungs og konu hans, Margrétar friðkollu, dóttur Inga eldri Svíakonungs. Fyrri maður hennar var Magnús berfættur Noregskonungur og hefur Magnús sterki sennilega verið látinn heita eftir honum en Magnúsarnafnið var þá nánast óþekkt í Danmörku. Þegar frændi Magnúsasr, Ingi yngri Svíakonungur, dó árið 1125 gerði Magnús tilkall til erfða í Svíþjóð sem elsta barnabarn Inga eldri. Vestur-Gautar kusu hann konung sinn en samkvæmt lögum þeirra þurfti hann líka að hljóta samþykki Svía til að verða konungur og þeir vildu fremur Rögnvald stutthöfða. Gautar drápu þó Rögnvald, líklega um 1126, en ekki dugði það Magnúsi til að ná völdum í allri Svíþjóð. Um 1130 hrakti svo Sörkvir eldri Magnús úr landi og lagði sjálfur Gautland undir sig. Magnús er þó yfirleitt hafður með í sænsku kóngaröðinni. Magnús sterki stóð á bak við eitt alræmdasta morð Danmerkursögunnar, þegar hann leiddi frænda sinn, Knút lávarð, hertoga af Slésvík, í gildru og lét drepa hann 7. janúar 1131. Hann mun hafa verið farinn að líta á Knút sem hættulegan keppinaut um ríkiserfðir. Afleiðingin varð borgarastyrjöld þar sem helsti andstæðingur feðganna Níelsar og Magnúsar var Eiríkur eymuni, hálfbróðir Knúts. Þann 4. júní 1134 varð bardagi milli fylkinganna nálægt Lundi. Þar féll Magnús. Níels konungur flúði til Slésvíkur en íbúar þar hefndu Knúts lávarðs og drápu hann. Magnús giftist árið 1129 Ríkissu, dóttur Búrislavs 3., konungs Póllands. Þau eignuðust tvo syni, Knút, sem var konungur Danmerkur 1146-1157 ásamt Sveini Grathe og Valdimar mikla, og Níels, sem gerðist munkur. Ríkissa af Póllandi. Ríkissa af Póllandi (12. apríl 1116 – eftir 25. desember 1156) var pólsk konungsdóttir (pólska: Ryksa Bolesławówna), tvívegis drottning Svíþjóðar, krónprinsessa Danmerkur og furstynja af Minsk. Ríkissa var dóttir Búrisláfs 3., konungs Póllands, og seinni konu hans Salóme af Berg. Hún er sögð hafa verið undurfögur. Þegar Búrisláfur faðir hennar gekk í bandalag við Níels Danakonung gegn Vartislafi 1. hertoga af Pommern var hluti af samkomulaginu að Ríkissa skyldi giftast eldri syni Níelsar, Magnúsi sterka. Þau giftust um 1127 og þá var Magnús konungur Svíþjóðar (eða raunar aðeins Vestur-Gautlands) og Ríkissa varð drottning. Magnús var þó hrakinn frá völdum um 1130 og Sörkvir eldri varð konungur í Svíþjóð. Þegar Magnús sneri aftur til Danmerkur leist honum illa á hve vinsæll og valdamikill frændi hans, Knútur lávarður, var orðinn og lét myrða hann í ársbyrjun 1131. Af því kviknaði borgarastyrjöld og Magnús féll í orrustu 4. júní 1134 og faðir hans var drepinn skömmu síðar. Ríkissa fór til föður síns í Póllandi eftir fall manns síns en virðist hafa skilið syni sína, Knút og Níels, eftir í Danmörku. Búrisláfur konungur gifti Ríkissu aftur Volodar Glebovich, fursta af Minsk. Hjónabandinu var ætlað að tryggja bandalag Póllands og Minsk gegn Dönum og Kænugarðsfurstum. Þau eignuðust þrjú börn, Vladimir fursta af Minsk, Vasilko og Soffíu af Minsk, sem var fædd um 1140. En um 1145 var þörfin fyrir bandalagið farin að minnka og fór svo að hjónabandinu var slitið og Ríkissa sneri enn til Póllands, skildi synina eftir en tók dótturina Soffíu með. Árið 1148 dó Úlfhildur Hákonardóttir, kona Sörkvis eldri Svíakonungs og skömmu síðar gekk hann að eiga Ríkissu. Þau eignuðust að minnsta kosti einn son, Búrisláf, sem var konungur hluta Svíþjóðar um tíma eftir lát Karls hálfbróður síns 1167. Sumir sagnfræðingar telja líklegt að Ríkissa hafi gifst Sörkvi til að geta aðstoðað Knút, elsta son sinn, sem var að reyna að ná völdum í Danmörku og varð síðar meðkonungur Sveins Eiríkssonar Grathe og Valdimars mikla Knútssonar. Árið 1156 giftist Knútur Helenu, dóttur Sörkvis og Úlfhildar, fyrri konu hans, þannig að Ríkissa varð stjúptengdamóðir sonar síns. Á jóladag sama ár var Sörkvir myrtur. Vitað er að Ríkissa lifði eitthvað lengur en þjóðsögur segja að hún hafi gifst í fjórða sinn einum þeirra sem stóðu á bak við morðið á manni hennar. Engar heimildir eru þó til sem styðja þær sögur. Soffía af Minsk, dóttir Ríkissu, giftist Valdimar mikla 1157. 9. ágúst sama ár bauð Sveinn Eiríksson Grathe meðkonungum sínum, Knúti og Valdimar, til veislu og drap svo Knút en Valdimar komst undan og felldi síðar Svein og varð einn konungur Danmerkur. Árið eftir dó Níels, næstelsti sonur Ríkissu, sem var líklega munkur í Esrom-klaustri. Soffía af Minsk. Soffía af Minsk (um 1140 – 1198) var hertogadóttir frá Minsk (nú í Hvíta-Rússlandi) og drottning Danmerkur 1157-1182 og seinna greifynja af Thüringen. Soffía var dóttir Ríkissu af Póllandi og Volodars fursta af Minsk, sem var annar í röðinni af eiginmönnum Ríkissu. Sá fyrsti var Magnús sterki, krónprins Danmerkur (d. 1134). Eftir að hjónabandi Ríkissu og Volodars var slitið um 1145 fór hún til Svíþjóðar með Soffíu og giftist þar Sörkvi Svíakonungi (d. 1156). Soffía ólst því upp við sænsku hirðina. Hún var sögð afar fögur en metnaðargjörn og stjórnsöm. Hálfbróðir Soffíu, sonur Ríkissu, var Knútur Magnússon, sem framan af var undirkonungur Sveins Eiríkssonar Grathe en árið 1154 gerði hann samkomulag við Valdimar son Knúts lávarðs, sem áður hafði stutt Svein, um að þeir skyldu verða konungar saman og hrekja Svein úr landi. Hluti af samkomulaginu var að Valdimar skyldi fá Soffíu fyrir konu og fá í heimanmund með henni einn áttunda af eignum Knúts. Þau giftust þó ekki strax vegna þess hve ung Soffía var. Árið 1157 sneri Sveinn aftur og samkomulag var gert um að þeir yrðu allir þrír konungar. Sveinn ginnti meðkonunga til sín skömmu síðar og drap Knút en Valdimar mágur hans komst undan, særður þó, og felldi svo Svein í bardaga um haustið og varð þá einn konungur. Um sama leyti giftist hann Soffíu. Soffía og Valdimar mikli áttu átta börn sem upp komust, þar á meðal konungana Knút 6. og Valdimar sigursæla og dæturnar Ríkissu, sem giftist Eiríki Knútssyni Svíakonungi, og Ingibjörgu, sem giftist Filippusi 2. Frakkakonungi. Samkvæmt þjóðkvæðum var Soffía grimmlynd og hefnigjörn og lét meðal annars látið brenna Tófu, frillu Valdimars, inni. Ekkert er þó vitað um sannleiksgildi þeirra sagna. Valdimar dó árið 1182 og um það bil tveimur árum seinna giftist hún Lúðvík greifa af Thüringen. Hann sagði þó skilið við hana stuttu síðar og sendi hana aftur til Danmerkur og þótti hún hafa gert mikla sneypuför. Soffía dó í Danmörku og er grafin í Ringsted hjá Valdimar fyrri manni sínum. Frank Gehry. Frank Gehry (28. febrúar 1929) er kanadísk-bandarískur arkitekt. Á meðal verka Gehrys má nefna Guggenheim-safnið í Bilbao og Walt Disney-tónleikahúsið í Los Angeles. Gehry hlaut Pritzker-verðlaunin árið 1989. Norman Foster. Norman Foster (f. 1. júní 1935) er breskur arkitekt. Á meðal verka Fosters má nefna 30 St Mary Axe í London og höfuðstöðvar Commerzbank í Frankfurt. Foster hlaut Pritzker-verðlaunin árið 1999. Rem Koolhaas. Rem Koolhaas er hollenskur arkitekt. Á meðal verka eftir Koolhaas má nefna hollenska sendiráðið í Berlín og Casa da Música í Porto. Koolhaas hlaut Pritzker-verðlaunin árið 2000. Jørn Utzon. Jørn Utzon (9. apríl 1918 – 29. nóvember 2008) var danskur arkitekt. Hans þekktasta verk er án efa óperuhúsið í Sidney en það var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 2007. Utzon hlaut Pritzker-verðlaunin árið 2003. Jean Nouvel. Jean Nouvel er franskur arkitekt. Á meðal verka hans má nefna Torre Agbar í Barselóna og Guthrie-leikhúsið í Minneapolis. Nouvel hlaut Pritzker-verðlaunin árið 2008. Hinir postullegu feður. Hinir postullegu feður – "Hinir postullegu kennifeður" eða "Postullegir feður" (latína: "patres apostolici") – er hugtak sem notað er um nokkra kristna rithöfunda frá tímabilinu um 90 til 150 e.Kr. Þeir eru taldir hafa staðið nærri stofnendum hinna fyrstu kristnu safnaða. — (Dæmi eru um að talað sé um "postulafeður", sem getur verið villandi hugtak). Að frátöldum ritum Nýja testamentisins, eru bréf postullegu feðranna elstu heimildir um hina fornu kristnu söfnuði. Þeim má ekki rugla saman við rit Biblíunnar (Nýja testamentisins) og ekki heldur Apókrýf rit Nýja testamentisins. Heitið "hinir postullegu feður" kom upp skömmu fyrir 1700 þegar ritin voru fyrst gefin út saman (1672), þó án Bréfs Díógnetusar og Didache – hið síðarnefnda fannst fyrst 1873. Í frumkristninni er talað um postulatímabilið, sem nær fram til um 90 e. Kr. Síðan tekur við tímabil postullegu feðranna, 90–150 e.Kr., og þar á eftir tímabil kirkjufeðranna ("patres ecclesiastici"). Postullegu feðurnir voru lærisveinar postula Krists og héldu starfi þeirra áfram við að útbreiða kristindóminn, og einkennast rit þeirra af barnslegri trú. Á tímabili kirkjufeðranna tók hins vegar við umfangsmikil guðfræðileg og heimspekileg rökræða og fræðilegar deilur. Helga Sigurðardóttir (f. um 1485). Helga Sigurðardóttir (f. um 1585) var íslensk hefðarkona á 16. öld, fylgikona Jóns Arasonar biskups. Helga var dóttir Sigurðar Sveinbjarnarsonar, sem var prestur og officialis í Múla í Aðaldal, sonur Barna-Sveinbjarnar Þórðarsonar prests í Múla. Móðir hennar er óþekkt en bróðir hennar var Laga-Auðunn Sigurðsson, bóndi og lögréttumaður á Héðinshöfða og í Garði í Aðaldal. Helga átti fyrst barn með Ólafi Daðasyni, staðarhaldara á Helgastöðum í Reykjadal og var það Þóra, sem giftist Tómasi Eiríkssyni ráðsmanni á Hólum og síðar presti á Mælifelli í Skagafirði og seinast ábóta á Munkaþverá. Helga gerðist síðan fylgikona Jóns Arasonar, sem fyrst var prestur á Helgastöðum og síðan á Hrafnagili, þá Hólaráðsmaður og loks biskup á Hólum. Þau áttu að minnsta kosti níu börn saman en sex komust upp, Magnús, Björn, Helga, Ari, Þórunn og Sigurður. Vorið 1551, eftir að Jón var höggvinn í Skálholti ásamt þeim Birni og Ara, komu dönsk herskip til landsins og tóku land á Oddeyri. Var þeim ætlað að bæla niður alla mótspyrnu og taka meðal annars Hólastól í sína umsjá. Þegar fregnir af ferðum þeirra bárust til Hóla fór Helga í felur. Hún leyndist fyrst á Vindárdal í Blönduhlíðarfjöllum í mosalituðu tjaldi en það var svo talið of nærri Hólum og var tjaldið þá flutt í hlíðar Glóðafeykis í Blönduhlíð og þar var Helga að sögn lungann úr sumrinu ásamt Guðrúnu Magnúsdóttur, sonardóttur sinni. Í samningi sem Helga gerði árið 1526 við Hólastól um próventu sína segir meðal annars að Helga skuli vinna að hannyrðum fyrir Hóladómkirkju á hverju ári meðan hún sé til fær. Múli (Aðaldal). Múli (áður Fellsmúli) er gamalt stórbýli, kirkjustaður og lengi prestssetur í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu og stendur fremst á hálsi sem teygir sig niður í breiðan dalbotninn. Stjörnu-Oddi Helgason var vinnumaður í Múla á 12. öld og skoðaði gang himintungla, bæði þar og í Flatey á Skjálfanda. Múli þótti mjög gott brauð fyrr á tíð og var prestakalli því eftirsótt og þar voru margir þekktir prestar. Einn þeirra var Barna-Sveinbjörn Þórðarson, sem uppi var á 15. öld og var sagður hafa eignast 50 börn. Einnig má nefna Einar Þorsteinsson, síðar biskup, og Þorleif Skaftason. Skúli Magnússon fógeti lærði til stúdentsprófs í Múla hjá séra Þorleifi, sem varð stjúpfaðir hans. Jón Jónsson alþingismaður (1855-1912) bjó lengi í Múla. Árni sonur hans, sem einnig var þingmaður, var jafnan kenndur við bæinn. Synir hans voru þeir Jónas og Jón Múli Árnasynir. Kirkja var í Múla til 1890 en þá var hún lögð af og um leið var prestakallið lagt undir Grenjaðarstað. Síðasti prestur í Múla var séra Benedikt Kristjánsson. Kirkjan var rifin og úr timbrinu var reist íbúðarhús á Halldórsstöðum í Laxárdal, sem enn stendur. Reykjadalur. Reykjadalur er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu, inn af Aðaldal. Fljótsheiði liggur að dalnum að vestan en austan við hann er Laxárdalsheiði, sem skilur milli Reykjadals og Laxárdals, og síðan Mývatnsheiði. Dalurinn er vel gróinn og nokkuð þéttbýll. Þar hefur ekki runnið hraun eins og í dölunum í nágrenninu. Um hann fellur Reykjadalsá og rennur í Vestmannsvatn, sem er í mynni dalsins. Úr því rennur svo Eyvindarlækur í Laxá í Aðaldal. Í Reykjadal er skólasetrið Laugar í landi Litlu-Lauga og þar er dálítið þorp með ýmiss konar þjónustu, svo sem verslun og veitingastað, hótel og ferðaþjónustu. Þar er einnig sundlaug og mjög góð íþróttaðastaða. Þar er líka Framhaldsskólinn á Laugum, heimavistarskóli þar sem rúmlega 100 nemendur stunda nám. Félagsheimili sveitarinnar er á Breiðumýri, þar skammt fyrir norðan. Við Vestmannsvatn hafa lengi verið starfræktar sumarbúðir á vegum þjóðkirkjunnar. Reykjadalur er nú í Þingeyjarsveit en var áður sérstakt sveitarfélag, Reykdælahreppur. Þar áður voru Reykjadalur og Aðaldalur einn hreppur, Helgastaðahreppur. Kirkja sveitarinnar er á Einarsstöðum og áður var einnig kirkja á Helgastöðum. Fljótsheiði. Fljótsheiði er víðáttumikið heiðaflæmi í Suður-Þingeyjarsýslu, á milli Bárðardals að vestan og Aðaldals og Reykjadals og síðan Mývatnsheiðar að austan. Hringvegurinn liggur yfir heiðina, frá Fosshóli í Bárðardal að Breiðumýri í Reykjaldal. Heiðin er láglend og víðast vel gróin, nokkuð mýrlend, einkum að norðanverðu, en sunnan til á heiðinni er sumstaðar nokkur uppblástur. Allmargir bæir voru áður í heiðinni og dölum sem inn í hana ganga. Flestir þeirra byggðust upp á 19. öld, oft þar sem áður höfðu verið sel frá bæjunum niðri í dölunum. Sumir bæjanna voru í byggð fram á 20. öld en þeir eru nú allir komnir í eyði. Skauthnitakerfi. Skauthnitakerfi sýnir hnit tveggja mismunandi punkta. Skauthnitakerfi eða "pólhnitakerfi" er tvívítt hnitakerfi þar sem staðsetning er gefinn með fjarlægð frá föstum punkti og horni í ákveðna stefnu. Fasti punkturinn nefnist póll eða skaut hnitakerfisins (sambærilegt upphafspunkti kartesískts-hnitakerfis), láréttur hægri geisli frá skautpunkti nefnist skautás. Fjarlægð punkts frá skautpunkti nefnist geislahnit og hornið hornhnit. Persastríð. Persastríð voru átök milli Forngrikkja annars vegar og Persa hins vegar á 5. öld f.Kr. Meginheimildin um Persastríðin er rit forngríska sagnaritarans Heródótosar. Venja er að miða upphaf stríðsins við innrás Persa í Grikkland árið 490 f.Kr. og endalok þess við ósigur Persa í orrustunum við Plataju og Mýkale árið 479 f.Kr. en einnig er stundum miðað við Frið Kallíasar árið 449 f.Kr. Upptök stríðsins má rekja til uppreisnar grísku borgríkjanna í Jóníu gegn Persíu árið 499 f.Kr. Heiðveig af Slésvík. Heiðveig af Slésvík (d. 1374) eða Helvig var hertogadóttir frá Slésvík og drottning Danmerkur frá 1340 til dauðadags. Hún var dóttir Eiríks 2. hertoga af Slésvík og Aðalheiðar Hinriksdóttur af Holtsetalandi-Rendsborg. Bróðir hennar var Valdimar 3., sem var konungur Danmerkur 1326-1329, þegar hann var unglingur, en var síðar lengi hertogi af Slésvík og hjálpaði Valdimar atterdag að endurreisa konungdæmið í Danmörku og verða konungur árið 1340. Sama ár giftist Valdimar konungur Heiðveigu, systur Valdimars hertoga, og fékk með henni fjórðung af Norður-Jótlandi í heimanmund. Þau eignuðust saman sex börn og lifðu þrjú til fullorðinsára. Konungshjónin sökuðu þó hvort annað um ótryggð og Heiðveig flutti frá Valdimar í sinn eigin kastala og hafði þar sína eigin hirð. Valdimar hóf svo sambúð með frillu sinni, Tófu, og var drottningunni þá nóg boðið, svo að hún tók sér aðsetur í Esrum-klaustri 1355 og dvaldist þar til dauðadags. Hún er grafin í klausturkirkjunni. Kristófer, sonur þeirra, dó 1363 af sárum sem hann hlaut í stríði Valdimars við Hansasambandið. Ingibjörg, dóttir þeirra, giftist Hinrik hertoga af Mecklenburg og átti með honum soninn Albrecht en dó 1370. Þá var yngsta dóttirin, Margrét, ein eftir. Hún giftist Hákoni 6. Noregskonungi og átti með honum soninn Ólaf, sem erfði dönsku krúnuna eftir afa sinn. Vikas Swarup. Vikas Swarup er rithöfundur. Hann skrifaði bækurnar "Viltu vinna milljarð" (e. "Q & A", kvikmynduð undir heitinu Slumdog Millionaire) og Sex grunaðir (e. Six suspects). Evfemía af Pommern. Lágmynd á gröf Evfemíu drottningar í Sórey. Evfemía af Pommern (1285 – 26. júlí 1330) var hertogadóttir frá Pommern, sem var drottning Danmerkur 1320-1326 og aftur frá 1329 þar til hún lést ári síðar. Evfemía var dóttir Bogislavs 4., hertoga af Pommern, og seinni konu hans, Margrétar af Rügen. Hún giftist Kristófer, næstelsta syni Eiriks klippings Danakonungs, líklega skömmu eftir 1300, og eignaðist með honum eina dóttur og þrjá syni sem upp komust. Hjónabandið var án efa sprottið af pólitískum rótum og ætlað að styrkja tengsl Danmerkur við Pommern. Þegar Eiríkur menved, bróðir Kristófers, dó í nóvember 1319 og átti ekki börn á lífi var ekki sjálfgefið að Kristófer erfði krúnuna en árið 1320 samþykktu danskir ráðamenn þó að gera hann að konungi og Evfemía varð þá drottning. Sama ár fæddi hún yngsta son sinn, Valdimar. Árið 1326 var Kristófer steypt af stóli og fjölskyldan fór í útlegð. Kristófer var þó aftur tekinn til konungs 1329 en hafði engin raunveruleg völd. Evfemía dó árið 1330 er grafin í klausturkirkjunni í Sórey. Ingibjörg Magnúsdóttir af Svíþjóð. Ingibjörg drottning. Mynd á gröf konungshjónanna í kirkjunni í Ringsted. Ingibjörg Magnúsdóttir (1277 – 5. apríl eða 15. ágúst 1319) var sænsk konungsdóttir og drottning Danmerkur frá 1296 til dauðadags. Hún er stundum kölluð Ingibjörg Danabót í dönskum heimildum. Ingibjörg var dóttir Magnúsar hlöðuláss Svíakonungs og konu hans, Helveg af Slésvík. Gengið var frá trúlofun hennar og Eiríks menveds Danakonungs árið 1288, þegar hún var ellefu ára og hann fjórtán, en þau giftust ekki fyrr en 1296 í Helsingjaborg. Þau voru of skyld til að mega giftast og fengu undanþágu hjá páfa en þó raunar ekki fyrr en eftir brúðkaupip. Tveimur árum seinna giftist Birgir Svíakonungur, bróðir Ingibjargar, Mörtu systur Eiríks. Eiríkur og Birgir voru bandamenn og þegar Birgir og Marta urðu landflótta 1318 leituðu þau hælis í Danmörku. Ingibjörgu er svo lýst að hún hafi verið fögur og blíðlynd og vinsæl hjá þegnunum en ekki er talið að hún hafi haft nein afskipti af stjórn ríkisins. Ekki er hægt að segja að hún hafi búið við barnalán; hún eignaðist átta syni og missti sex sinnum fóstur eða ól andvana börn. Allir synir hennar dóu í vöggu. Þó segir þjóðsagan að árið 1318 hafi Ingibjörg drottning alið son sem virtist ætla að lifa. Þegar hann var fjórtán vikna vildi hún sýna þegnunum að hún hefði eignast langþráð lifandi barn, fór með hann í ökuferð í vagni sínum og lyfti honum að sögn upp til að hann sæist betur en missti takið á honum svo að hann féll í götuna, hálsbrotnaði og dó. Aðrar heimildir segja þó að hann hafi einfaldlega fallið úr vagninum. Ingibjörg gekk þá í klaustur í Hróarskeldu og dó þar ári síðar. Sumir segja að Eiríkur konungur hafi reiðst henni svo þegar sonurinn dó að hann hafi sent hana í klaustrið en önnur sögn segir að hún hafi verið harmi slegin bæði vegna barnamissisins og vegna bræðra sinna, hertoganna Eiríks og Valdimars, sem Birgir konungur bróðir þeirra hafði svelt í hel eða látið drepa. Hvað sem því líður dó Ingibjörg vorið eða sumarið 1319. Eiríkur konungur dó svo í nóvember sama ár. Pepsideild karla í knattspyrnu 2011. Árið 2011 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 100. skipti. Þór kom upp eftir átta ára fjarveru ásamt Víkingum, sem höfðu fallið 2007 á meðan Breiðablik reyndi að verja sinn fyrsta titil. KR-ingar unnu sinn 25. Íslandsmeistaratitil og hafa með því unnið fjórðung allra Íslandsmeistaratitla frá upphafi. Þetta þýddi að KR-ingar hömpuðu titlinum á 100. Íslandsmótinu, en fyrir höfðu þeir hrósað sigri á 1. og 50. Íslandsmótinu. Báðir nýliðarnir féllu, en það var í annað skiptið í röð sem það gerðist. Spáin. Líkt og fyrri tímabil spáðu þjálfarar og fyrirliðar liðanna fyrir um lokastöðu Íslandsmótið. Návígi. Návígi er viðtalsþáttur sem sýndur er vikulega í Sjónvarpinu. Umsjónarmaður þáttarins er Þórhallur Gunnarsson. Heimanmundur. Heimanmundur eða heimanfylgja er verðmæti (peningar, munir, jarðeignir eða annað) sem kona fær við giftingu með sér inn í hjónabandið. Heimanmundur var alsiða frá ómunatíð og fram á 19. og 20. öld á Vesturlöndum og tíðkast enn víða um heim. Í sumum þjóðfélögum er þessu þó öfugt farið, þar borgar brúðguminn foreldrum brúðarinnar brúðarverð. Í mörgum þjóðfélögum var litið á heimanmund sem fyrirframgreiddan arf sem átti að hjálpa ungu hjónunum að stofna heimili. Fyrr á öldum réð eiginmaðurinn yfirleitt yfir þeim heimanmundi sem konan hafði fært í búið, eins og öðrum eignum, þótt hann teldist sameign. Þó gilti yfirleitt sú regla að ef hjónabandinu var slitið með skilnaði eða ógildingu átti hann að skila heimanmundinum og ef hjónin dóu barnlaus gekk heimanmundurinn gjarna aftur til ættingja konunnar. Í konungs- og aðalsfjölskyldum Evrópu fyrr á öldum var heimanmundurinn oft víðáttumiklar jarðeignir, jafnvel heil héruð eða landshlutar. Hjá almenningi var vitaskuld um minni verðmæti að ræða og þá fólst hluti heimanfylgjunnar oft í vefnaðarvöru og öðrum munum sem brúðurin hafði unnið og safnað allt frá barnsaldri í brúðarkistuna sína eða brúðarskápinn. Morgungjöf eða "tilgjöf" er aftur á móti verðmæti sem brúðguminn lagði fram og gaf brúðinni. Morgungjöfin var séreign hennar og átti að tryggja framfærslu hennar ef hann félli frá. Eiginmaðurinn mátti ekki ráðstafa morgungjöfinni. Codex Claromontanus. Codex Claromontanus (Skammstafað D (Wettstein), 06 (Gregory) eða δ 1026 (Von Soden), 12 (Beuron)) er með handrit af Nýja testamentinu. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 6. öld e.Kr. Handritið er geymt í Bibliothèque nationale de France (Gr. 107) í París. Í handritinu eru textar Bréfa Páls postula. Handritið er nú 533 blöð (24,5 x 19,5 cm). Textinn er í 1 dálki, 21 línur á hverri síðu. Þriðji geirinn. Þriðji geirinn (líka kallaður hagnaðarlausi geirinn eða félagshagkerfið) er starfsemi sem hvorki tilheyrir opinbera geiranum né einkageiranum. Þetta á einkum við starfsemi félagasamtaka og sjálfseignarstofnana en getur í sumum tilvikum átt við um hlutafélög. Einkenni á stórum hluta þriðja geirans er sjálfboðavinna og að starfsemi innan hans er hvorki hagnaðarsækin eins og einkafyrirtæki né hagnaðardreifandi eins og opinber stofnun. Starfsemi þriðja geirans er þannig einkarekin en snýst um að skapa vörur og þjónustu sem teljast til almannagæða. Starfsemi innan þriðja geirans er flokkuð samkvæmt INCPO-staðli Sameinuðu þjóðanna í menningar- og listastarfsemi, menntastofnanir, rannsókna- og þróunarstarfsemi, heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, húsnæðisfélög, og góðgerðasamtök og líknarfélög. Starfsemi innan þriðja geirans er oft fjármögnuð með frjálsum framlögum, en líka opinberum og alþjóðlegum styrkjum. Gagnrýni á þriðja geirann felst meðal annars í því að hann auki valdsvið ríkjandi afla með því að færa það niður í grasrótina og að hann stofnanavæði andspyrnu. Bent hefur verið á að vöxtur þriðja geirans í þróunarlöndum tengist því að ríkisvaldið sker niður félagslega þjónustu í nafni frjálshyggju í efnahagsstjórn ríkjanna. Þriðji geirinn sé eins konar staðgengill fyrir ríkisvaldið og merki um hnignun velferðarhugsjónarinnar. Eins hefur þriðji geirinn verið gagnrýndur fyrir ógagnsæi, bæði í ákvarðanatöku og meðferð fjármuna, og skort á lýðræði. Á Íslandi voru samvinnufélög áberandi fulltrúi þriðja geirans á 20. öld en þeim hefur farið ört fækkandi síðustu 20 ár. Á móti hefur félagsaðild almennings aukist verulega og sjálfseignarstofnunum fjölgað á sama tíma. Bárðardalur. Bárðardalur er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi, teygir sig um 45 kílómetra til suðurs, inn að mörkum Sprengisands og Ódáðahrauns. Dalurinn er sagður heita eftir landnámsmanninum Bárði Heyangurs-Bjarnarsyni, sem nam þar land að sögn Landnámabókar og bjó á Lundarbrekku en líkaði ekki vistin og hélt suður á land um Bárðargötu og nam land í Fljótshverfi. Skjálfandafljót rennur eftir endilöngum dalnum, sem er fremur mjór. Vestan hans eru fjöll, yfirleitt 600-700 metra há, sem skilja á milli hans og Fnjóskadals, en austan dalsins er Fljótsheiði, sem er lægri, einkum norðan til. Hlíðarnar eru víðast hvar nokkuð brattar en ágætlega grónar og klettalausar. Dalbotninn er nokkuð sléttur og þakinn grónu hrauni, Bárðardalshrauni, sem er talið um 9000 ára gamalt. Dalurinn er víðast hvar þurrlendur og sumstaðar er töluverður skógur í hlíðunum. Nokkrir fagrir fossar eru í fljótinu; þekktastir þeirra eru Goðafoss og Aldeyjarfoss en einnig má nefna Hrafnabjargafoss, Barnafoss og Ullarfoss. Bárðardalur tilheyrði eitt sinn Ljósavatnshreppi en varð sjálfstæður hreppur, Bárðdælahreppur, árið 1907. Árið 2002 sameinuðust svo Bárðdælahreppur, Hálshreppur, Ljósavatnshreppur og Reykdælahreppur í eitt sveitarfélag, Þingeyjarsveit. Condoleezza Rice. Condoleezza Rice (fædd 14. nóvember 1954) er bandarískur prófessor og stjórnmálamaður. Hún starfaði í ríkisstjórn George W. Bush og gegndi þar m.a. embætti utanríkisráðherra og var fyrsta blökkukonan til þess. Áður en hún tók við því embætti hafði hún starfað sem öryggisráðgjafi forseta. Fyrr á ferli sínum starfaði hún sem prófessor í stjórnmálafræði við Stanford háskóla. Þar áður hafði hún starfað sem ráðgjafi í ríkisstjórn George H. W. Bush þar sem hún var sérfræðingur í málum er snéru að Sovétríkjunum og Austur-Evrópu. Æska og menntun. Condoleezza Rice fæddist í Birmingham í Alabama fylki þar sem hún ólst upp fram að 13 ára aldri. Eftir að hafa flutt með fjölskyldu sinni til Denver í Colorado árið 1967, hóf hún nám við kaþólska stúlknaskólann St. Mary‘s Academy og lauk því árið 1971. Hún hóf svo nám við háskólann í Denver, með píanóspilun sem aðal námsbraut, en fór fljótlega að leita á önnur mið og skipti yfir í stjórnmálafræði. Árið 1974 lauk hún B.A. prófi í stjórnmálafræði þá aðeins 19 ára gömul, og ári seinna lauk hún svo mastersnámi í stjórnmálafræði frá háskólanum í Notre Dame. Eftir að hafa klárað mastersnám hélt hún áfram námi en ákvað þá að snúa aftur til háskólans í Denver og lauk þaðan doktorsprófi í stjórnmálafræði árið 1981. Pólitískar skoðanir Condoleezza Rice aðhylltust Demókrataflokkinn til ársins 1982 en snérist þá til Repúblikanaflokksins eftir að hafa orðið ósammála skoðunum fyrrum forseta Bandaríkjanna Jimmy Carter í utanríkismálum. Þess má geta að faðir hennar skipti einnig úr Demókrataflokknum yfir í Repúblikanaflokkinn eftir að honum hafði verið neitað um skráningu í flokkinn árið 1952. Akademískur ferill. Eftir að hafa lokið námi árið 1981 hóf hún að kenna við Stanford háskóla. Þar var hún aðstoðarprófessor í stjórnmálafræði með áherslu á Sovétríkin og hélt þeirri stöðu til 1987 þegar hún hlaut stöðuhækkun. Hún hefur síðan unnið við háskólann með hléum en snéri aftur til starfa þar eftir að ný ríkisstjórn tók við í byrjun árs 2009. Upphaf stjórnmálaferils. Árið 1986, ásamt því að sinna alþjóðamálum innan Utanríkisráðuneytisins, starfaði hún sem aðstoðarmaður yfirmanns Hernaðarráðs. Frá árunum 1989 til mars 1991 sat hún í stjórn George H. W. Bush Bandaríkjaforseta sem yfirmaður og síðar meir sem æðsti yfirmaður í málum er snéru að Sovétríkjunum og Austur-Evrópu í Öryggisráðuneyti Bandaríkjanna. Sem aðstoðarmaður í Öryggisráðuneytinu tók hún þátt í því að þróa stefnur Bush og James Baker utanríkisráðherra hvað varðar sameiningu Þýskalands. Seinni hluta árs 1991 skipaði ríkisstjóri Kaliforníu, Pete Wilson, hana í þverpólitíska nefnd sem hafði það hlutverk að gera drög að nýju löggjafarvaldi og löggjafarþingi umdæmis í Kaliforníuríki. Árið 1997 sat hún í ráðgjafanefnd er snéri að herþjálfun kynjanna. Í kosningabaráttu George W. Bush árið 2000 tók hún sér ársleyfi frá Stanford háskóla til þess að aðstoða hann sem ráðgjafi í utanríkismálum. Þann 17. desember árið 2000 tók hún við stöðu ráðgjafa í Öryggisráðuneyti Bandaríkjanna og sagði upp stöðu sinni við Stanford háskóla. Var hún fyrsta konan til að gegna því embætti. Embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna (2005-2009). Þann 16. nóvember 2004 var hún tilnefnd í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna af George W. Bush og þann 26. janúar 2005 var sú tilnefning staðfest af öldungadeildinni með 85 atkvæðum gegn 13. Þau atkvæðu sem bárust gegn skipun hennar komu frá öldungadeildarþingmönnum sem, að sögn Barbara Boxer, voru þeirrar skoðunar að gerð höfðu verið mistök í málefnum Íraks og stríðinu gegn hryðjuverkum og að þau mistök væru á ábyrgð Condoleezza Rice og öðrum meðlimum ríkisstjórnar Georg W. Bush. Þeirra rök voru þau að óábyrgt hafi verið af henni að leggja stjórnarfar Saddam Hussein að jöfnu við þau hryðjuverk sem kennd voru við Islam. Sem dæmi greiddi öldungadeildarþingmaðurinn Robert Byrd atkvæði gegn skipun hennar og gaf um leið til kynna að hún stæði vörð um að völd forsetans um stríðsrekstur væru umfram það sem stjórnarskráin kvæði á um. Á tíð sinni sem utanríkisráðherra talaði hún fyrir útbreiðslu lýðræðis sem stjórnarfars í heiminum. Hún sagði árásirnar 11. september hafa átt rætur að rekja til kúgunar og vonleysis og því þyrftu Bandaríkin að koma að erindinu um bætt stjórnskipulag, í formi lýðræðis, til Mið-Austurlandanna. Condoleezza gerði umtalsverðar breytingar á utanríkisráðuneytinu og talaði hún um erindrekstur umbreytinga (e. Transformational Diplomacy) sem nýtt hlutverk þess. Þetta nýja hlutverk ráðuneytisins var að vinna með nánum bandamönnum um heim allan með það að markmiði að koma á fót vel stýrðum lýðræðisríkjum þar sem þarfir þegnanna eru hafðar í forgrunni og viðhöfð er góð og ábyrg hegðun á meðal alþjóðakerfisins. Vangaveltur um forsetakosningarnar 2008. Víða höfðu verið vangaveltur um hvort Condoleezza Rice hugðist bjóða sig fram í forkosningar Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2008. Í febrúar 2008 útilokaði hún þann möguleika með því að segja að það eina sem hún sæi sjálfa sig ekki gera væri að bjóða sig fram í eitthvert af kjörnum embættum innan Bandaríkjanna. Í skoðanakönnun Gallup, sem gerð var dagana 24. – 27. mars 2008, kom fram að átta prósent spurðra nefndu hana sem fyrsta valkost varaforsetaefnis John McCain. Varðandi þann möguleika sagði hún hins vegar í viðtali, sem birt var við hana í Washington Post þann 27. mars 2008, að hún hefði einfaldlega ekki áhuga. Tilvísanir. Rice, Condoleezza Jon Stewart. Jon Stewart (fæddur Jonathan Stuart Leibowitz; 28. nóvember 1962) er grínisti, leikari og sjónvarpsþáttastjórnandi, þekktur sem þáttastjórnandi bandaríska háðsádeiluþáttarins The Daily Show. Uppruni. Jon Stewart fæddist í New York-borg og ólst upp í New Jersey þar sem hann gekk í Lawrence High School, fjölskylda hans eru gyðingar. Síðar sótti hann nám í The College of William and Mary í Williamsburg í Virginíufylki. Í dag er hann giftur Tracey McShane og eiga þau tvö börn. Ferill. Stewart flutti til New York árið 1986 til þess að reyna fyrir sér í uppistandi. Ári síðar steig hann á svið í klúbbnum The Bitter End þar sem hann hóf feril sinn. Stewart tók við sem kynnir þáttarins The Daily Show á Comedy Central í upphafi árs 1999 en Stewart er einnig höfundur og meðframleiðandi þáttarins. Stewart hefur einnig leikið í grínmyndum á borð við "Evan Almighty" þar sem hann kemur fram sem hann sjálfur og verið gestaleikari í grínþáttum á borð við "The Nanny", "Spin City" og "American Dad". Hann hefur gefið út tvær bækur, "Naked Pictures of Famous People" árið 1998 og "America (The Book): A Citizen´s Guide to Democracy Inaction" árið 2004. Seinni bókin er skrifuð af rithöfundum The Daily Show og er háðsádeila á bandarískt stjórnskipulag þar sem stofnanir þess eru krufðar á kaldhæðinn hátt. Pólitísk staða. Þegar Stewart tók við sem þáttastjórnandi The Daily Show breytti hann áherslum þáttarins úr hversdagslegum umfjöllunum um frægt fólk yfir í hnitmiðaða pólitíska ádeilu. Hann bað starfsmenn sína um að skrifa út frá sínum eigin pólitísku sjónarmiðum og leyfa ástríðu um málefnin að koma fram á gamansaman hátt. Þeir kalla þáttinn plat fréttaþátt sem dragi helstu ádeilur sínar úr nýliðnum fréttum um stjórnmál og stjórnmálamenn ásamt gagnrýni á fjölmiðla. Adam Clymer hefur haldið því fram að The Daily Show hygli demókrötum á kostnað repúblikana. Stewart segir ástæðu þess að repúblikanaflokkurinn virðist oftar eiga undir högg að sækja í þáttunum sé vegna þess hversu flokkurinn sé sterkur fyrir og álítur að þeir séu því betra skotmark, demókrataflokkurinn hafi veika stöðu til áhrifa í þjóðfélaginu, það skili því litlu að gagnrýna þá sem hafi lítil áhrif. The Daily Show hefur hins vegar styrkt demókratann Anthony Weiner til framboðs í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þátturinn hefur verið gagnrýndur fyrir að gera ungt fólk sjálfumglatt og láta það fari á mis við háleitari markmið stjórnmálanna. Þessu er svarað með því að segja að aðal markmið þáttanna sé að skemmta fólki og fyrst og fremst eigi að líta á þáttinn sem grín. Tenglar. Stewart, Jon Mark Zuckerberg. Mark Zuckerberg (fæddur 14. maí 1984) er bandarískur frumkvöðull. Zuckerberg er þekktastur fyrir það að hafa verið einn af stofnendum netsamfélagsins Facebook þegar hann var nemandi við Harvard-háskóla árið 2004. Ljósavatnsskarð. Ljósavatnsskarð er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu sem liggur á milli Fnjóskadals að vestan og Köldukinnar og Bárðardals að austan. Norðan við dalinn eru Kinnarfjöll og Fornastaðafjall en sunnan við hann Ljósavatnsfjall og Birningsstaðafjall. Í austanverðu Ljósavatnsskarði er allstórt stöðuvatn sem heitir Ljósavatn og úr því rennur Djúpá til Skjálfandafljóts. Talið er að einhverntíma hafi Skjálfandafljót runnið um skarðið til vesturs í Fnjóskadal. Nú rennur Þingmannalækur úr vestanverðu skarðinu til Fnjóskár. Dalurinn (eða skarðið) er djúpur og breiður, nokkuð vel gróinn og hlíðar víða kjarri vaxnar. Allmikill skógur, Sigríðarstaðaskógur, er í norðanverðum dalnum. Í Ljósavatnsskarði eru allnokkrir bæir, þar á meðal kirkjustaðurinn Ljósavatn og Stórutjarnir, en þar er grunnskóli og sundlaug. Ljósavatn (bær). Ljósavatn er bær og kirkjustaður í Ljósavatnsskarði í Suður-Þingeyjarsýslu, skammt frá samnefndu stöðuvatni. Bærinn er í austanverðu mynni skarðsins, þar sem það mætir Bárðardal. Þekktasti ábúandi Ljósavatns er Þorgeir Ljósvetningagoði, lögsögumaður og höfðingi, sem þar bjó um árið 1000 og var sonarsonur Þóris Grímssonar, landnámsmanns í Ljósavatnsskarði. Þegar kristnir menn og heiðnir deildu á Alþingi árið 1000 var Þorgeiri falið að skera úr deilunni og úrskurðaði hann, eftir að hafa legið undir feldi, að allir landsmenn skyldu taka skírn og gerast kristnir. Þjóðsagan segir að sjálfur hafi hann varpað goðalíkneskjum sínum í Goðafoss þegar heim kom. Kirkja var á Ljósavatni frá fornu fari, helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Hún var bændakirkja í 900 ár en var afhent söfnuðinum 1914. Árið 2000 var reist ný kirkja á Ljósavatni, Þorgeirskirkja, til minningar um 1000 ára afmæli kristnitökunnar, og er hún helguð Þorgeiri Ljósvetningagoða. Eldri kirkja er á staðnum, reist á árunum 1892-1893. Fnjóská. Fnjóská er vatnsmikil dragá sem rennur norður endilangan Fnjóskadal og um Dalsmynni í Eyjafjörð, skammt frá Laufási. Hún er um 117 kílómetrar að lengd og telst vera níunda lengsta á landsins. Fyrr á tíð - á síðasta sumartímabili ísaldar - mun hún hafa fallið um Flateyjardalsheiði og til sjávar í Skjálfandaflóa. Þá hefur hún verið lengsta á Íslands. Enn má sjá gljúfur hennar á heiðinni. Upptök árinnar eru í Bleiksmýrardrögum á Sprengisandi, inn af Bleiksmýrardal, sem er vestastur og lengstur dalanna þriggja sem liggja til suðurs inn af Fnjóskadal. Í botni Fnjóskadals rennur Bakkaá í hana en hún verður til skömmu innar þegar Hjaltadalsá og Timburvalladalsá, sem koma úr hinum dölunum tveimur, falla saman. Umhverfi árinnar þykir víða fallegt en hún rennur meðal annars um Vaglaskóg. Allnokkur lax- og silungsveiði er í ánni. Elsta Fnjóskárbrúin var reist árið 1908 og var það fyrsta brú sem gerð var á Íslandi úr járnbentri steinsteypu og auk þess lengsta steinsteypubogabrú á Norðurlöndum á þeim tíma. Norma Leah McCorvey. Norma Leah McCorvey (fædd 22. september 1947), betur þekkt undir dulnefninu „Jane Roe“, var stefnandi í bandaríska dómsmálinu, Roe gegn Wade. Málið markaði þáttaskil í þarlendri réttarsögu, en um var að ræða lög um fóstureyðingar þar sem hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp dóm þess efnis að bann við fóstureyðingum samræmdist ekki stjórnarskránni. Samkvæmt henni ættu bandarískar konur rétt á því að taka ákvörðun um hvort þær létu eyða fóstri á fyrsta og öðrum þriðjungi meðgöngu án afskipta yfirvalda. Ævi og menntun. Norma Leah fæddist í Simmesport í Louisiana en var alin upp í Houston í Texas af Vottum Jehóva. Foreldrar hennar skildu þegar hún var mjög ung og ólst hún upp hjá móður sinni sem var ofbeldisfullur alkahólisti. Faðir hennar lést 27.september árið 1995. Skólagöngu hennar lauk þegar hún var fjórtán ára gömul og tveimur árum síðar giftist hún Woody McCorvey en hélt því fram að hann beitti hana ofbeldi og fór frá honum á meðan hún gekk með sitt fyrsta barn, Melissu (f.1965). Norma Leah varð ófrísk aftur árið eftir en það barn var gefið til ættleiðingar. Eftir það flutti hún aftur til móður sinnar sem síðar afneitaði henni þegar hún trúði henni fyrir því að hún laðaðist kynferðislega að konum og tók yfir forræði dótturdóttur sinnar, Melissu. Roe gegn Wade. Norma Leah varð barnshafandi árið 1969 í þriðja sinn. Hún hafði hug á því að fara í fóstureyðingu í Dallas og bar því við að sér hafi verið nauðgað þar sem fóstureyðingar voru heimilaðar Í Texas í tilfellum þar sem um nauðgun eða sifjaspell hafði verið að ræða. Henni varð hins vegar ekki að ósk sinni, þar sem engar sannanir voru til sem staðfestu að henni hafi í raun verið nauðgað. Í kjölfar þess að hafa verið synjað um fóstureyðingu eftir löglegum leiðum leitaði hún til aðila sem stunduðu ólöglega starfsemi á þessu sviði en kom þar að lokuðum dyrum því starfseminni hafði verið lokað. Henni var hins vegar ráðlagt að leita til tveggja lögfræðinga, Linda Coffee og Sarah Weddington. Það leiddi til málaferla er tóku þrjú ár, þar sem lögfræðingar hennar tókust á við Henry Wade fulltrúa Texas ríkis um niðurstöðu í málinu. Meðan á málaferlunum stóð ól Norma Leah barn sitt en gaf það til ættleiðingar. Nokkrum dögum eftir að úrskurður hafði verið kveðinn upp í hæstarétti kom Norma Leah fram í fjölmiðlum með yfirlýsingu þess efnis að hún væri í raun Jane Roe en það nafn hafði verið notað til að verja einkalíf hennar. Jafnframt sagðist hún vera atvinnulaus og auk þess þjást af þunglyndi og því hefði henni verið mikið í mun að enda meðgönguna. Sinnaskipti. Síðar, þ.e. á níunda áratugnum, hélt hún því hins vegar fram að hún hafi verið notuð af lögfræðingunum tveim er fóru með mál hennar. Hún taldi lögfræðingana einungis hafa þurft einhvern stefnanda með mál af þessu tagi, til að sækja gegn Texas ríki og fá þannig þáverandi lögum um fóstureyðingu breytt. Í seinni tíð hefur afstaða Norma Leah breyst og er hún nú mjög virk í andstöðu sinni gegn fóstureyðingum. Árið 1994 skrifaði Norma Leah bók byggða á reynslu sinni málinu og heitir hún "I am Roe". Fjórum árum síðar, þ.e. árið 1998, skrifaði hún síðan aðra bók sem hún nefndi "Won by love" og fjallar um hugarfarsbreytingar sínar gagnvart fóstureyðingum. Holtastaðir. Holtastaðir er gamalt höfuðból og kirkjustaður í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu og landnámsjörð Holta Ísröðarsonar, sem nam Langadal ofan frá Móbergi. Jón Arason biskup eignaðist Holtastaði á 16. öld og þar bjuggu afkomendur hans í rúmar tvær aldir, fyrstur þeirra Jón Björnsson sýslumaður, elsti sonur séra Björns Jónssonar. Nú hefur sama ættin búið á Holtastöðum frá 1863. Kirkja hefur verið á Holtastöðum frá fornu fari og var hún í bændaeign allt til 1942, þegar hún var afheint söfnuðinum. Núverandi kirkja var reist árið 1892 og vígð 1893. Þar er meðal annars kaleikur sem Jón Björnsson gaf kirkjunni á 16. öld. Úr kirkjunni er "Holtastaðaljónið" svokallaða, vatnskanna í ljónslíki sem nú er á Þjóðminjasafninu. Arnold Schwarzenegger. thumb Arnold Schwarzenegger (f. 30. júlí 1947) er bandarískur stjórnmálamaður, leikari og fyrrverandi heimsmeistari í vaxtarækt. Hann er fyrrum ríkisstjóri Kaliforníu Schwarzenegger er fæddur og uppalin í Thal í Austurríki. Aðeins 20 ára gamall var hann fyrsti maðurinn til þess að vinna vaxtarræktartitilinn Hr. Alheimur og vann hann alls 12 titla á sínum vaxtarræktarferli. Árið 1968 flutti hann til Bandaríkjanna með það markmið að slá í gegn í Hollywood og rættist úr þeim draumi hans árið 1970 þegar hann lék í kvikmyndinni Hercules in New York og reis frægðarsól hans hæst með kvikmyndinni. Árið 1986 giftist hann fréttakonunni Maria Shriver og eiga þau saman fjögur börn. Pólitískur ferill. Árið 1983 hlaut hann bandarískan ríkisborgararétt og hefur nú bæði bandarískan og austurrískan ríkisborgararétt. Árið 2003 tilkynnti hann framboð sitt til ríkisstjóra Kalifornníu í viðtali við Jay Leno. Hann bauð sig fram fyrir hönd repúblikana en þykir þó heldur frjálslyndur af repúblikana að vera. Seinna það ár vann hann öruggan sigur í kosningunum með rúmlega 48% atkvæða. Hann var endurkjörin í embætti árið 2006 og mun gegna því til ársins 2011. Hans helstu baráttumál hafa verið heilsu og líkamsræktarmálefni, en einnig hefur hann lagt mikla áherslu á að koma fjármálum Kaliforníu á rétta braut, en þetta fjölmennasta ríki Bandaríkjanna hefur staðið frammi fyrir gríðarlegum fjárlagahalla undanfarin ár. Tenglar. Schwarzenegger, Arnold Margrét Sambiria. Margrét Sambiria (d. í desember 1282), einnig kölluð Margrét hestasprengir (danska: "Margrete Sprænghest") og Svarta-Gréta var furstadóttir frá Pommern og drottning Danmerkur frá 1252-1259. Margrét var dóttir Sambors fursta af Pommern og Mechtild af Mecklenburg, konu hans. Hún giftist Kristófer, yngsta syni Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal, árið 1248. Árið 1252 var Abel Danakonungur, bróðir Kristófers, drepinn og Kristófer tókst að fá sig kjörinn konung þótt Abel ætti syni á lífi, Þau Kristófer og Margrét voru því krýnd konungur og drottning Danmerkur en þetta var upphafið á langri togstreitu milli afkomenda þeirra og Abelsættarinnar. Kristófer dó 29. maí 1259 og tíu ára sonur þeirra, Eiríkur, varð konungur. Margrét var forráðamaður hans til 1264 en átti í stöðugum deilum bæði við Jakob Erlandsen erkibiskup, Eirík Abelsson hertoga af Slésvík og holsteinsku greifana. Biskupinn studdi kröfu Abelsættarinnar til ríkiserfða og hótaði að bannsyngja alla biskupa sem tekið höfðu þátt í að krýna hinn unga konung. Hann varð þó að láta í minni pokann og flúði land. Þá taldi Margrét sig nægilega sterka til að takast á við Eirík Abelsson í Slésvík en þá komu holsteinsku greifarnir honum til hjálpar. Margrét og Eiríkur biðu ósigur í orrustunni á Lóheiði sunnan Danavirkis 1261 og voru tekin til fanga. Margrét var höfð í haldi í Hamborg en slapp þó með hjálp Alberts hertoga af Brúnsvík og tókst að ná syni sínum til sín og koma honum aftur í hásætið. Talið er að hún hafi haft mikil völd, líka eftir að sonur hennar varð fullveðja. Hún er talin hafa verið hæfur og upplýstur stjórnandi, dugmikil og viljasterk og er talið að auknefnið „sprænghest“ vísi til þess þótt einnig sé til sú þjóðsaga að hún hafi sprengt hest þegar hún reyndi að komast undan óvinum á flótta. Auk Eiríks komust tvær dætur þeirra Kristófers upp. Erfðadeilan við Abelsættina varð til þess að árið 1263, áður en Eiríkur giftist og átti börn, skrifaði Margrét Úrban IV páfa bréf og bað hann að heimila að konur mættu erfa dönsku krúnuna. Með því vildi hún reyna að tryggja að dætur hennar gætu erft ríkið ef Eiríkur dæi. Páfi hreyfði engum mótmælum en ekki reyndi á þetta því Eiríkur eignaðist síðar nokkra syni. Margrét dó í desember 1282 og er grafin í klausturkirkjunni í Bad Doberan í Mecklenburg. Mechthilde af Holtsetalandi. Sködduð mynd Mechthilde á grafhýsi Birgis jarls og fjölskyldu hans í Varnhem í Svíþjóð. Mechthilde (1220 eða 1225 – 1288) eða Matthildur var greifadóttir frá Holtsetalandi, drottning Danmerkur 1250-1252 og síðan ríkisstjórafrú í Svíþjóð. Mechthilde var dóttir Adólfs 4. greifa af Holtsetalandi og Heiðveigar af Lippe. Hún giftist Abel, syni Valdimars sigursæla Danakonungs, í Slésvík 25. apríl 1237. Abel varð konungur Danmerkur árið 1250, eftir morðið á Eiríki plógpeningi bróður hans, og þau voru krýnd í Hróarskeldu 1. nóvember sama ár. Þau áttu eina dóttur, Soffíu, og þrjá syni, Valdimar hertoga af Slésvík, Eirík hertoga af Slésvík og Abel, sem fæddist eftir lát föður síns. Abel var myrtur 1252 og Mechthilde var þá gert að yfirgefa Danmörku og ganga í klaustur. Henni tókst að ná Valdimar syni sínum úr höndum erkibiskupsins af Köln, sem hafði haft hann í varðhaldi, og barðist fyrir því að synir hennar erfðu hertogadæmið Slésvík. Hún gerði bandalag við Jakob Erlandsen, erkibiskup í Lundi, og árið 1261 rauf hún klausturheit sín og giftist sænska ríkisstjóranum, Birgi jarli. Þau áttu engin börn saman. Hann dó 1266 og Mechthilde flutti þá til Kílar, þar sem hún dvaldi til æviloka. Mechthilde var óvinsæl í Danmörku, ekki síst vegna þess að fyrir tilstilli hennar komust bræður hennar, greifarnir af Holstein, yfir víðar lendur á Suður-Jótlandi. Hún var meðal annars kölluð dóttir Djöfulsins og sökuð um að hafa eyðilagt bréf frá páfanum og keisaranum til Valdimars sigursæla tengdaföður síns. Al Franken. Alan Stuart 'Al' Franken (fæddur 21. maí 1951) er bandarískur stjórnmálamaður sem er fulltrúi Minnesotaríkis í öldungadeild Bandaríkjaþings. Franken er meðlimur í Demókrataflokknum og sigraði hann naumlega repúblikanann og þáverandi öldungadeildarþingmann Minnesota, Norm Coleman í bandarísku þingkosningunum árið 2008. Franken er einnig þekktur fyrir störf sín á sviði leiklistar auk þess að vera metsöluhöfundur, Emmy-tilnefndur handritshöfundur og fyrrum útvarpsmaður. Ævi. Al Franken var fæddur þann 21. maí árið 1951 í New York. Hann ólst upp í St. Louis Park í Minnesota og stundaði síðar nám við Harvard háskóla. Hann útskrifaðist árið 1973 með B.A gráðu í stjórnmálafræði. Árið 1975 fékk Franken starf sem handritshöfundur við nýjan þátt sem var þá í pípunum og hét Saturday Night Live. Síðar fór Franken einnig að leika í þáttunum. Rithöfundur. Árið 1992 gaf Franken út sína fyrstu bók sem var byggð á persónum sem að hann hafði skrifað fyrir Saturday Night Live þættina. Franken tók sín fyrstu skref í gamansamri umfjöllun um pólitík í riti með bók sinni "Rush Limbaugh Is a Big Fat Idiot and Other Observations" árið 1996. Stjórnmál. Samkvæmt Richard Corliss, í grein sem að birtist í tímaritinu "Time", má líta svo á að Franken hafi verið á sinn hátt að undibúa stjórnmálaferil allt frá 8. áratugnum. Franken var til að mynda þekktur fyrir tíðan brandara í Saturday Night Live þar sem Franken skipaði fólki að kjósa Al Franken án þess að ljóst væri hvað Franken væri að bjóða sig fram í. Árið 1999 gaf Franken út bók sem bar titilinn "Why Not Me?". Bókin var uppskálduð frásögn á sömuleiðis uppskáldaðri kosningabaráttu Frankens til embættis Bandaríkjaforseta. Franken hefur ekki farið leynt með óánægju sína með hægri-sinnaða útvarpsmanninn Rush Limbaugh, en sú óánægja kemur meðal annars fram í bók hans frá 1996, "Rush Limbaugh Is a Big Fat Idiot and Other Observations". Þegar að Franken komst að því að eina umfjöllunin sem 21% Bandaríkjamanna heyrðu var einmitt frá pólitískum spjallþáttum í útvarpi, miðli sem að hægri-vængurinn hafði heljartak á á þeim tíma, hóf Franken feril sinn sem útvarpsmaður. Í þáttum sínum fjallaði hann aðallega um málefni er snéru að stjórnmálum í Bandaríkjunum. Framboð til Bandaríkjaþings. Þann 14. febrúar, 2007 í útvarpsþætti sínum á útvarpsstöðinni "Air America Radio" tilkynnti Franken framboð sitt til öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hans helsti keppinautur um tilnefningu "DFL, Democratic Farmer Labor", Demokrataflokks Minnesota var Jack Nelson-Pallmeyer, háskólakennari, rithöfundur og aðgerðasinni. Franken hlaut tilnefningu flokksins þann 7. júní 2008. Franken att kappi við þáverandi öldungadeildarþingmann Minnesota, frambjóðanda repúblikana, Norm Coleman. Kosningin milli Franken og Coleman var gríðarlega jöfn. Fyrstu tölur sýndu Coleman rúmlega 700 yfir Franken en þegar talningu var lokið var Coleman einungis með 215 fleiri atkvæði en Franken. Þar sem það var minna en 0,5% bil þurfti endurtalning að eiga sér stað samkvæmt kosningalögum Minnesota. Að endurtalningu lokinni fékkst staðfest að Franken sigraði kosninguna með 225 fleiri atkvæði en Coleman. Coleman kærði kosninguna en að lokum var það Franken sem var úrskurðaður sigurvegari kosninganna. Franken sór embættiseið þann 7. júlí 2009. Heimildir. Franken, Al Jutta af Saxlandi. Jutta eða Júdit af Saxlandi var drottning Danmerkur frá 1242 til 1250, en þá var maður hennar, Eiríkur plógpeningur, myrtur. Síðar var hún greifafrú í Þýskalandi. Jutta var dóttir Alberts 1., hertoga af Saxlandi og fyrstu konu hans, Agnesar dóttur Leópolds 6. af Austurríki. Hún giftist Eiríki, elsta syni Valdimars sigursæla Danakonungs, árið 1239 og varð drottning þegar hann tók við ríki eftir föður sinn 1242. Fátt er vitað um ævi hennar en eftir morð Eiríks giftist hún Burchard 8. greifa af Querfurt-Rosenburg. Jutta og Eiríkur áttu tvo syni sem dóu ungir og fjórar dætur, Soffíu, sem giftist Valdimar Birgissyni Svíakonungi, Ingibjörgu, sem giftist Magnúsi lagabæti Noregskonungi, og Juttu og Agnesi, sem báðar urðu nunnur og síðar abbadísir í klaustri heilagrar Agnetu í Hróarskeldu. Berengaría af Portúgal. Berengaría af Portúgal (um 1195 – 1221), kölluð Beingerður ("Bengjerd") í Danmörku, var portúgölsk konungsdóttir og drottning Danmerkur frá 1214 til dauðadags. Berengaría var tíunda í röðinni af ellefu börnum Sanchos 1., konungs Portúgals, og Dulce af Aragóníu. Hún kom til frönsku hirðarinnar ásamt bróður sínum, Ferrante, árið 1211 og kynntist þar Ingibjörgu drottningu, konu Filippusar 2. Frakkakonungs og systur Valdimars sigursæla Danakonungs, og kynnti hún Berengaríu fyrir Valdimar. Dagmar, fyrri kona hans, dó af barnsförum 1212 eða 1213 og í þjóðkvæði segir að hún hafi á banabeði beðið Valdimar að gifast annarri stúlku, ekki „fallega blóminu“ Berengaríu, en miklar sögur fara af fegurð hennar. Engar heimildir aðrar styðja frásagnir kvæðisins og Valdimar og Berengaría giftust 1214. Dagmar hafði verið afar vinsæl meðal þegnanna. Berengaría var andstæða hennar, dökk yfirlitum og sögð harðlynd og drambsöm. Hún var því óvinsæl í Danmörku og margir kenndu henni um háa skatta sem Valdimar lagði á þegnana en þeir runnu þó aðallega til stríðsreksturs hans. Berengaría reyndi þó að afla sér vinsælda, meðal annars með því að gefa kirkjum og klaustrum gjafir. Berengaría eignaðist fjögur börn sem upp komust á árunum 1216-1219 en dó svo af barnsförum árið 1221. Hún var móðir þriggja Danakonunga, Eiríks plógpenings, Abels og Kristófers 1., auk dótturinnar Soffíu, sem giftist Jóhanni markgreifa af Brandenburg. Hún er grafin í kirkju heilgas Bendts í Ringsted við hlið manns síns en Dagmar drottning hvílir við hina hlið hans. Gröf Berengaríu var opnuð 1855 og fannst þá meðal annars þykk og mikil hárflétta. Dagmar af Bæheimi. Minningartafla um Dagmar í kirkjunni í Ringsted. Dagmar af Bæheimi (um 1186 – 1212/1213), sem hét réttu nafnið Markéta (Margrét) var konungsdóttir frá Bæheimi og drottning Danmerkur frá 1205 til dauðadags. Markéta var dóttir Ottokars 1. hertoga og síðar konungs af Bæheimi, og fyrri konu hans, Aðalheiðar af Miessen. Hún giftist Valdimar sigursæla Danakonungi um 1205 í Lübeck og var eftir það nefnd Dagmar. Drottningin varð fljótt mjög vinsæl í Danmörku og fékk orð á sig fyrir góðmennsku. Hún var ljóshærð og norræn í útliti, þveröfugt við Berengaríu af Portúgal, seinni konu Valdimars, sem var mjög dökk yfirlitum að sögn. Árið 1209 eignaðist Dagmar soninn Valdimar en 1212 eða 1213 dó hún, líklega af barnsförum. Í gömlu þjóðkvæði segir að hún hafi beðið Valdimar mann sinn að giftast ekki Berengaríu, heldur annarri konu, en trúlega má rekja þá sögn til óvinsælda Berengaríu, sem Valdimar giftist svo 1214. Drottningarnar eru grafnar sín hvoru megin við Valdimar í kirkju heilags Bendts í Ringsted. Valdimar sonur þeirra var útnefndur meðkonungur föður síns árið 1218 en hann varð fyrir slysaskoti á veiðum árið 1231 og lést. Það voru því synir Berengaríu sem erfðu ríkið, hver á eftir öðrum. Listi yfir leyniþjónustur. Þetta er listi yfir leyniþjónustur eftir löndum. Eiðrofsmálið. a> um viku eftir hinn örlagaríka ráðherrafund í byrjun árs 1942. Eiðrofsmálið var íslenskt stjórnmálahneyksli árið 1942 sem snerist um kjördæmaskipan. Skipan kjördæma var ákaflega hagstæð Framsóknarflokknum þar sem vægi atkvæða var meira til sveita, þar sem Framsóknarflokkurinn hafði meira fylgi, en í þéttbýli. Eftir því sem fjölgaði í þéttbýlissvæðunum, og sérstaklega Reykjavík, fannst framámönnum í Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum, tveimur vinsælustu flokkunum, mikilvægara að þeir fengju kosna þingmenn í meira samræmi við hlutfallslegt kjörfylgi flokkanna óháð hvernig dreifing atkvæðanna væri. Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn neyttu lags og breyttu kosningakerfinu sér í hag þvert á persónuleg drengskaparheit sem leiðtogar Sjálfstæðisflokksins höfðu gefið leiðtogum Framsóknarflokksins um að ekki yrði farið í slíkar breytingar. Afleiðingarnar urðu þær að stirt var á milli flokkanna, einkum leiðtoga þeirra, Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors. Ekki voru gerðar veigamiklar breytingar á kjördæmakerfinu fyrr en 1959. Aðdragandi. Á þessum árum geysaði seinni heimsstyrjöldin og höfðu fyrst Bretar hernumið Ísland en þegar hernáminu lauk vorið 1941 tóku Bandaríkjamenn að sér hervernd Íslands að ósk íslenskra stjórnvalda. Annað ráðuneyti Hermanns Jónassonar, sem var þjóðstjórn mynduð af Sveini Björnssyni þá ríkisstjóri Íslands, hafði tekið við 18. nóvember 1941. Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra eins og hafði verið í þeirri ríkisstjórn sem á undan sat, Stjórn hinna vinnandi stétta. Ísland var ekki enn orðið sjálfstætt lýðveldi, það gerðist ekki fyrr en 17. júní 1944, en Danmörk var hersetin af Þjóðverjum. Því sem nær dró áramótunum 1941-42 sögðu fleiri stéttarfélög upp kjarasamningum og óttuðust stjórnmálamenn að "dýrtíðin", eða mikil verðbólga, yrði óviðráðanleg. Ráðherrar Stjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sáu þá einu leið færa að láta setja gerðardóm um laun og verðlag en það gekk þvert á stefnu Alþýðuflokksins sem tók það ekki í mál. Þann 8. janúar var frumvarp um gerðardóm lagt fram á ráðherrafundi og samþykkt sem bráðabirgðalög. Stefán Jóhann Stefánsson mótmælti þessu frumvarpi ráðherra Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins og sagðist ekki geta stutt það. Hinir ráðherrarnir vissu hins vegar að þetta myndi þýða stjórnarslit enda baðst Stefán lausnar frá ráðherraembætti utanríkis- og félagsmálaráðherra og lauk þannig þjóðstjórn Hermanns þann 17. janúar 1942. Ríkisstjórn Hermanns hafði þá setið í aðeins tvo mánuði. Breytingar á kjördæmakerfinu. Framsóknarmenn óttuðust að Alþýðuflokkurinn myndi bregðast við útgöngu sinni úr ríksstjórn með því að bjóða Sjálfstæðisflokknum samvinnu við breytingar kjördæmakerfinu þannig að það kæmi báðum flokkunum vel. Alþýðuflokkurinn hafði áður haft það á sinni stefnuskrá að landið allt yrði gert að einu kjördæmi, það hugnaðist Sjálfstæðisflokknum hins vegar ekki. Kjördæmaskiptanin hygldi Framsónarfloknum þó mjög á kostnað þéttbýlisflokkanna, í síðustu alþingiskosningunum 1937 fékk Framsóknarflokkurinn 24,6% atkvæða og 19 þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 40,8% atkvæða en 17 þingmenn. Til þess að tryggja sig fékk Hermann Jónasson drengskaparloforð frá Ólafi Thors, formanni Sjálfstæðisflokksins og Jakobi Möller ráðherra Sjálfstæðisflokksins, á ráðherrafundi 17. janúar 1942 að Eysteini Jónssyni viðstöddum, um að ekki yrði farið í slíkar kjördæmabreytingar á komandi þingi. Breytingar á kjördæmunum þurfti að gera með breytingu á stjórnarskránni en samkvæmt stjórnarskránni þurfti og þarf enn að efna til nýrra þingkosninga eftir að samþykktar hafa verið breytingar á stjórnarskránni og þarf hið nýkosna Alþingi að staðfesta breytingarnar. Stjórnarskrármálið. Snemma á árinu 1942 lögðu þingmenn Alþýðuflokksins sem nú voru í stjórnarandstöðu fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni þannig að þingmönnum í Reykjavík yrði fjölgað og hlutbundnar kosningar yrðu í tvímenningskjördæmum. Eftir umræðu í neðri deild var málinu vísað til sérstakrar stjórnarskrárnefndar 30. mars. Fulltrúar Framsóknarflokksins vildu þá tengja fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni við fyrirhuguð sambandsslit við Danmörku en því var hafnað og sögðust Framsóknarmenn þá ekki ætla að styðja nokkra breytingu á stjórnarskránni. Stjórnarskrárnefndin lauk störfum sínum 8. maí og var frumvarpið samþykkt með atkvæðum þingmanna Alþýðuflokksins, Sósíalistaflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hermann Jónasson leit á þetta sem svik við sig. Hann hafði lofað því á miðstjórnarfundum Framsóknarflokksins að ekkert yrði aðhafst á yfirstandandi þingi varðandi breytingar á kjördæmum. Þann 16. maí 1942 baðst Hermann Jónasson því lausnar fyrir sig og ráðherra Framsóknarflokksins og þá lauk 15 ára valdatíð Framsóknarflokksins. Við tók fyrsta ráðuneyti Ólafs Thors. Deilur í málsgögnum stjórnmálaflokkanna. Þann 30. júlí 1943, um sama leyti og barist var í orrustunni um Kúrsk í Sovétríkjunum, birtist grein í Tímanum, málsgagni Framsóknarflokksins, undir fyrirsögninni „"Svika-Mörður og 17. janúar"” en undirfyrirsögnin var „"Vinsamlegt bréf til Ólafs Thors"”. Höfundur greinarinnar Þórarinn Þórarinnsson, sem seinna ritaði sögu Framsóknarflokksins, ásakaði Ólaf Thors um drengskaparbrot í greininni án þess þó að útskýra nánar málsatvik. Þá liðu um þrír mánuðir þangað til að öll forsíða Tímans þann 28. október var lögð undir „"Skýrslu Eysteins Jónssonar og Hermanns Jónassonar"” undir fyrisögninni „"Rofið drengskaparheit"”. Í ítarlegri skýrslu sinni röktu Eysteinn og Hermann málið og sökuðu Ólaf Thors staðfastlega um að hafa gengið á bak orða sinna. Þessari skýrslu svöruðu Ólafur Thors og Jakob Möller með grein sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember. Hús Sláturfélags Suðurlands (Laugarnesvegi). Hús Sláturfélags Suðurlands (eða SS-húsið) í Laugarnesi í Reykjavík er 10.295 fermetra stórhýsi sem var reist undir vinnslu- og dreifingarmiðstöð og skrifstofuhúsnæði Sláturfélags Suðurlands á árunum 1985-1988. Húsið stendur að Laugarnesvegi 91 en þangað ætlaði félagið að flytja aðstöðu sína sem félagið hafði á Skúlagötunni. Úr því varð þó aldrei og húsið var aldrei fullklárað og stóð autt í nokkur ár. Í húsi Sláturfélags Suðurlands er núna Listaháskóli Íslands en lítil ánægja hefur verið með húsnæðið frá upphafi. Árið 1978 var borgarafundur með þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, Birgi Ísleifi Gunnarssyni. Þar kom fram að í febrúar 1977 skrifuðu 630 íbúar Laugarneshverfis undir áskorun til borgarstjórnar Reykjavíkur um að tún það, sem afmarkast af Laugarnesvegi, Laugalæk og Sætúni, yrði ekki lagt undir frekari byggingar en lagfært sem útivistarsvæði fyrir íbúa hverfisins með því að slétta það og ræsa fram, en á því voru opnir skurðir sem fylltust af vatni og alls konar drasli og svæðið af þeim sökum í megnustu óhirðu. En borgarstjórn hafði tekið afstöðu til málsins og hún var sú að halda sig við upphaflega skipulagið, það er að segja að þarna yrði úthlutað lóðum til fyrirtækja sem starfa í kjötiðnaði. Samband íslenzkra samvinnufélaga hafði þá þegar fengið þarna lóð og Sláturfélag Suðurlands sótt um lóð. Bygging SS-hússins hófst árið 1985. Árið 1987 höfðu farið 94,5 milljónir til byggingaframkvæmdanna og þá var enn langt í land og talað var um 150, 200 eða jafnvel fleiri milljónir á þávirði færu í framkvæmdir við bygginguna áður en yfir lyki. En reyndin var sú að alls fóru yfir 500 miljónir í bygginguna. Á þessum árum átti SS að rýma þáverandi höfuðstöðvar sínar við Skúlagötu fyrir árið 1990 vegna nýs Skúlagötuskipulags borgarinnar og þeir hugðust flytja í hið nýja húsnæði í Laugarnesi. Af því varð þó ekki, Sláturfélag Suðurlands varð að endurskipuleggja allan rekstur sinn vegna slæmrar stöðu. Húsið var því aldrei klárað og 1989 sagði forstjóri Sláturfélags Suðurlands, Steinþór Skúlason, að húsnæðið væri ekki komið svo langt í byggingu að það væri orðið of sérhæft til að nýtast öðrum en Sláturfélaginu. Og hugðust þá selja það. Forráðamenn félagsins biðu þess síðan óþreyjufullir að Ríkið mundi kaupa húsnæðið en salan var í raun forsenda þess að flutningur á kjötvinnslu SS til Hvolsvallar gæti orðið að veruleika. Árið 1991 keypti síðan ríkissjóður SS-húsið með það fyrir augum að þar yrði í framtíðinni miðstöð æðri listmenntunar. Kaupverðið var 430 milljónir en þar af greiddi ríkið 300 milljónir með tíu fasteignum. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverndi fjármálaráðherra, og Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, undirrituðu samninginn. Sama dag var húsið opið frá klukkan 14 til 17 þar sem nemendur og kennarar Leiklistarskólans, Myndlista- og handíðaskólans og Tónlistarskólans í Reykjavík „munu láta kjötvinnslustöðina iða af lífi í samræmi við þá framtíð sem nú blasir við“, eins og sagði í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Heimir Steinsson. Sr. Heimir Steinsson (1. júlí 1937 – 15. maí 2000) var prestur, skólastjóri, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og útvarpsstjóri á Rúv um árabil. Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Berglind Björg Þorvaldsdóttir (f. 18. janúar 1992) er íslensk knattspyrnukona, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún leikur nú með Íþróttabandalagi Vestmannaeyja. Berglind er „ein af vonarstjörnum íslenskrar kvennaknattspyrnu“. Berglind lék með íslenska kvennalandsliðinu í Algarve Cup í Portúgal á árinu 2010. Í september varð hún markahæsti leikmaður undir 19 ára landsliðsins frá upphafi eftir tvö mörk í 4-0 sigri liðsins á Úkraínu. Hún skipti um lið þann 13. nóvember og mun spila með Íþróttabandalagi Vestmannaeyja. Dagný Brynjarsdóttir. Dagný Brynjarsdóttir (f. 10. ágúst 1991) er íslensk knattspyrnukona, fædd og uppalin á Hellu. Hún leikur nú með Val. Dagný var valinn efnilegasti leikmaðurinn í Pepsi deild kvenna, í júlí 2010. Hún var fyrirliði undir 17 ára og 19 ára landsliðsins. Hún var valin íþróttamaður ársins í Rangárþingi ytra árið 2010, en hún einmitt fædd í þeirri sýslu. Hennar fyrsti leikur með íslenska kvennalandsliðinu var gegn Bandaríkjunum í Algarve-bikarnum. Hallbera Guðný Gísladóttir. Hallbera Guðný Gísladóttir (f. 14. september 1986) er íslensk knattspyrnukona, fædd og uppalin á Akranesi. Hún leikur nú með Piteå í efstu deild Svíþjóðar. Hallbera var valinn leikmaður 10. umferðar, ársins 2010. Harpa Þorsteinsdóttir. Harpa Þorsteinsdóttir (f. 27. júní 1986) er íslensk knattspyrnukona, fædd og uppalin í Garðabæ. Hún leikur nú með Breiðabliki. Harpa skoraði þrennu á móti eistnesku liði, Levadia Tallin. Hún var markahæst í undankeppni Meistaradeildar Evrópu, 2010. Málfríður Erna Sigurðardóttir. Málfríður Erna Sigurðardóttir (f. 30. maí 1984) er íslensk knattspyrnukona, fædd og uppalin í Reykjavík. Hún leikur nú með Val. Málfríður var í barnsburðarleyfi árið 2009, og leik að þeim sökum ekkert á sama tímabili.. Hún gerði eitt af átta mörkum Vals, í 8-1 sigri félagsinns gegn Cardiff, á árinu 2008. Ingibjörg af Danmörku, Frakklandsdrottning. Ingibjörg af Danmörku (1175 – 29. júlí 1236) var dönsk konungsdóttir og drottning Frakklands, þar sem hún var kölluð Isambour. Hún var drottning frá 1193 til 1223 en þó ekki viðurkennd sem slík af eiginmanni sínum, konunginum, nema einn dag við upphaf hjónabandsins og svo síðustu tíu árin. Hluta af tímanum var hann giftur annarri konu og taldist hún einnig drottning. Uppruni. Ingibjörg var dóttir Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs og Soffíu af Minsk og systir Danakonunganna Knúts 6. og Valdimars sigursæla og Ríkissu Svíadrottningar. Hún giftist Filippusi 2. Ágústusi Frakkakonungi 15. ágúst 1193 en hann hafði misst fyrstu konu sína, Ísabellu af Hainaut, árið 1190. Stefán biskup af Tournai lýsti henni svo við það tækifæri að hún væri „mjög ljúf, ung að árum en gömul að visku“. Ógildingartilraunir Filippusar. Daginn eftir brúðkaupið virtist Filippus konungur hafa fengið skyndilega óbeit á brúði sinni og er ekki ljóst hver ástæðan var. Hann vildi ekkert með drottninguna hafa og þremur mánuðum eftir brúðkaupið lét Filippus kalla saman prestastefnu og lagði þar fram falsað ættartré sem sýndi að Ingibjörg hefði verið of skyld fyrri konu hans til að þau mættu eigast. Var því hjónaband þeirra dæmt ógilt. Ingibjörg skildi varla orð í frönsku og gerði sér ekki strax grein fyrir hvað var að gerast en þegar það rann upp fyrir henni fann hún sér athvarf í klaustri og leitaði síðan liðsinnis hjá Selestínusi III páfa og Knúti bróður sínum. Sendinefnd sem fór frá Danmörku til Rómar tókst að sannfæra páfa um að ættartréð væri falskt og páfinn lýsti ógildingu hjónabandsins ógilda og bannaði Filippusi að ganga í hjónaband að nýju. Tvíkvæni konungs. Ingibjörg eyddi næstu tuttugu árum í stofufangelsi eða varðhaldi víða um Frakkland. Knútur konungur bróðir hennar hélt áfram að berjast gegn ógildingunni og sama gerði Valdimar sigursæli þegar hann tók við ríkjum. Heimildir benda til þess að margir franskir ráðamenn hafi einnig stutt Ingibjörgu. Páfinn stóð með henni en gat þó lítið gert. Filippus reyndi að fá hann til að fallast á ógildingu á þeirri forsendu að hjónabandið hefði ekki verið fullkomnað, það er að segja að þau hefðu ekki haft samfarir. En Ingibjörg mótmælti og sagði að það hefði víst verið fullkomnað og hún væri þar með lögleg eiginkona hans og drottning Frakklands. Filippus lét sér ekki segjast og gekk að eiga Agnesi af Meraníu í júní 1196. Hann lét loka Ingibjörgu inn í Étampes-höll, þar sem hún var fangi í turnherbergi, mátti ekki fá heimsóknir og fékk ekki alltaf nóg að borða. Galdraáburður. Árið 1198 lýsti nýr páfi, Innósentíus III, þetta hjónaband ógilt þar sem Filippus væri þegar giftur. Hann skipaði konungi að senda Agnesi frá sér og taka Ingibjörgu til sín aftur. Hún hafði þá skrifað honum og kvartað yfir illri meðferð og einangrun og sagðist hafa hugleitt að taka líf sitt. Konungur hlýddi ekki páfa, sem setti Frakkland þá í bann árið 1199. Í september 2000 féllst Filippus þó á að fara að tilmælum páfa, sem aflétti þá banninu. Filippus sendi Angesi frá sér og hún dó níu mánuðum síðar, úr harmi að því er sagt var. Ingibjörg var þó áfram fangi. Árið 1201 bað Filippus páfann um að lýsa börn hans og Agnesar skilgetin og gerði páfi það til að fá stuðning hans í öðrum málum. En síðar sama ár fór Filippus aftur fram á ógildingu hjónabands þeirra Ingibjargar á þeirri forsendu að hún leggði stund á galdraiðkan, hefði reynt að leggja á hann álög á brúðkaupsnóttina og því hefði hann ekki getað fullkomnað hjónabandið. Páfi varð ekki við óskum hans. Sættir og ævilok. Filippus sættist svo við Ingibjörgu árið 1213, ekki vegna þess að hann iðraðist meðferðarinnar á henni, heldur vegna þrýstings frá páfanum og Valdimar Danakonungi og af því að hann vildi styrkja tilkall það sem hann taldi sig eiga til ensku krúnunnar með bættum tengslum við Danmörku. Ekki fer miklum sögum af sambandi þeirra eftir það en Ingibjörg dvaldi ekki við hirðina, heldur fór víða um Frakkland og helgaði sig góðverkum og guðrækilegum lifnaði. Þó er sagt að þegar Filippus lá banaleguna 1223 hafi hann sagt Loðvík 8. syni sínum að gera vel við Ingibjörgu og svo mikið er víst að bæði Loðvík 8. og Loðvík 9. viðurkenndu hana sem lögmæta ekkjudrottningu. Eftir lát Filippusar dvaldi hún löngum í klaustrinu Saint-Jean-de-l’Ile, sem hún hafði stofnað. Soffía Eiríksdóttir af Danmörku. Soffía Eiríksdóttir (1241 – 1286) var dönsk konungsdóttir og drottning Svíþjóðar frá 1260 til 1275, þegar manni hennar var steypt af stóli. Soffía var dóttir Eiríks plógpenings Danakonungs og Juttu af Saxlandi. Faðir hennar var myrtur 1250 og móðir hennar giftist aftur þýskum greifa. Sagt er að þegar Soffíu var sagt að hún ætti að giftast Valdimar Birgissyni Svíakonungi hafi hún farið í dyngju sína og beðið til Maríu meyjar: „Gefðu að ég verði hamingjusöm með honum og hann með mér.“ Þau giftust 1260. Soffíu er svo lýst að hún hafi verið falleg kona, ör, skapmikil, valdafíkin og orðhvöt. Hún kallaði mága sína „Magnús ketilbæti“ og „Eirík alls-ekki“ (aðrar heimildir segja þó að Eiríkur hafi gefið sjálfum sér það viðurnefni). Hún var líka þekkt fyrir áhuga á skák. Yngri systir hennar, Jutta, hafði verið í klaustri í Danmörku en yfirgaf það 1272 og fór til systur sinnar í Svíþjóð. Ári síðar eignaðist hún barn með Valdimar mági sínum. „Vei mér... Vei því að systir mín skyldi nokkurn tíma líta Svíþjóð augum,“ er haft eftir Soffíu. Jutta var aftur send í klaustur og Valdimar látinn fara í pílagrímsferð til Rómar í yfirbótarskyni. Það dugði ekki til og árið 1275 var Valdimar steypt af stóli og Magnús bróðir hans tók við ríkjum. Soffía fór til Danmerkur 1277 og hafði þá gefist upp á framhjáhöldum og frillulifnaði manns síns. Á meðal barna þeirra voru Ingibjörg, fyrri kona Geirharðs blinda greifa af Holtsetalandi og Ríkissa, kona Przemysl 2., konungs Póllands. Bergur Sokkason. Bergur Sokkason (d. 1350) var íslenskur munkur, ábóti og fræðimaður. Hann var árið 1316 munkur í Þingeyraklaustri en fluttist þaðan í Munkaþverárklaustur. Þar var hann príor árið 1322 en ábóti árin 1325 – 1334 og aftur 1345 – 1350. Hann er talinn hafa sagt af sér ábótadæminu 1334 vegna lítillætis, þótt síðar þyrfti hann að taka við því öðru sinni. Laurentius biskup hafði kennt Bergi: „Varð hann hinn fremsti klerkur, söngvari harla sæmilegur og mælskumaður mikill, svo að hann setti saman margar sögubækur heilagra manna í norrænu máli með mikilli snilld. Unnust þeir bróðir Bergur og Laurentius með hjartanlegri elsku, því að alla þá, sem Laurentius sá, að gott vildu nema og til góða vildu hafa sína mennt, elskaði hann.“ Einnig finnst sagt frá ábótavígslu Bergs: „Var hann formenntur maður umfram flesta menn þá á Íslandi um klerkdóm, letur, söng og málsnilld. Samansetti hann margar heilagra manna sögur í norrænu, sem birtast mun og auðsýnast, meðan þetta land er byggt. Hér yfir fram hafði sá góði mann ágætt siðferði með klausturlegum lifnaði. Voru þeir Bergur ábóti og Laurentius biskup í kærlegri vináttu.“ Bergur mun hafa ritað sögur af Guðmundi góða, heilögum Nikulási, Mikael erkiengli og vísast fleirum. Annað meginlandsþing Bandaríkjanna. Þann 10. maí 1775 kom Annað meginlandsþingið (e "Second Continental Congress") saman í Philadelphiu, Pennsylvaníu. Fyrsta meginlandsþingið hafði verið haldið í Philadelphia árið áður. Helsta viðfangsefni þingsins var að ræða samhæfðar hernaðaraðgerðir nýlendnanna og nauðsyn þess að nýlendurnar kæmu sér upp þjálfuðu herliði. Bandaríska byltingin hafði þá þegar hafist. Þingið sat með hléum frá 10. maí 1775 til 1. mars 1781, þegar Sambandsþing Bandaríkjanna (e. "Congress of the Confederation") tók við. Verkefni þingsins. Mikilvægasta verkefni þingsins var að samhæfa hernaðaraðgerðir nýlendnanna. Þar til að meginlandsþingið tók að sér yfirstjórn herja nýlendnanna hafði byltingin verið næsta skipulagslaus. Þann 14. júní 1775 myndaði þingið Meginlandsherinn (e. "Continental Army"). George Washington var skipaður yfirmaður hersins. Afrek þingsins. Mikilvægasta afrek þingsins var þó ótvírætt samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna þann 4. júlí 1776. Þingið lagði einnig grunn að varanlegu stjórnskipulagi Bandaríkjanna með því að samþykkja fyrstu stjórnarskrá landsins — Sambandsskrána (e. "The Articles of Confederation") þann 15. febrúar 1777. Það tók ríkin langan tíma að samþykkja Sambandsskrána, en hún var loks undirrituð af fulltrúum allra nýlendnanna þrettán þann 1. mars 1781. Í kjölfarið er talað um þing Bandaríkjanna sem Sambandsþingið. Kosningaréttur. Þó um fimmtíu fulltrúar hafi setið bæði Annað meginlandsþing Bandaríkjanna og sömu leiðis Sambandsþing Bandaríkjanna, var atkvæðisréttur á báðum þingum í höndum ríkjanna og því voru aðeins 13 fullgild sæti á báðum þingum. Bæði á Öðru meginlandsþinginu og Sambandsþinginu hafði hvert ríki neitunarvald. Það var ekki fyrr en Sambandsskráin vék árið 1789 fyrir Stjórnarskrá Bandaríkjanna sem sætum var fjölgað á þinginu og atkvæðagreiðslur með meirihlutavægi teknar upp á þinginu. Fulltrúar á þinginu. Meðal þekktra fulltrúa á öðru meginlandsþingi Bandaríkjanna voru Benjamin Franklin, Thomas Jefferson og John Hancock, sem seinna meir tóku þátt í að skrifa stjórnarskrá Bandaríkjanna og teljast til Landsfeðra Bandaríkjanna (e "The Founding Fathers"). John Hancock var kjörinn forseti þingsins 24 maí 1775. Fyrsta meginlandsþingið. Þann 5. september 1774 hittust 56 fulltrúar frá tólf af nýlendunum þrettán (Georgíuríki sendi ekki fulltrúa) í Philadelphiu, í Pennsylvaníuríki, á Fyrsta meginlandsþinginu, (e. "First Continental Congress"). Fundurinn var kallaður saman til að ræða viðbrögð við "The Coercive Acts" (þekkt sem "The Intolerable Acts" í Bandaríkjunum), lögum sem breska þingið hafði sett 1774 um málefni nýlendnanna í Norður-Ameríku í kjölfar teboðsins í Boston, 1773. Niðurstaðan var að konungi Bretlands var send bænaskrá þar sem farið var fram á að lögunum yrði aflétt. Um leið var ákveðið að önnur samkoma skyldi kölluð saman ef konungur yrði ekki við kröfunum. Helsta afrek Fyrsta meginlandsþingsins var að fulltrúar nýlendnanna bundust böndum um að breskar vörur yrðu sniðgengnar frá og með 1 desember 1774. Árangurinn fór fram úr björtustu vonum þar sem innflutningur frá Bretlandi hrundi. Bandaríski sagnfræðingurinn T.H. Breen hefur í þessu sambandi talað um mikilvægi neytendavitundar í bandarísku byltingunni, og myndun bandarískrar þjóðarvitundar. Konungurinn varð ekki við kröfum nýlendubúa og þann 19. apríl 1775 hófst bandaríska byltingin. Þann 10. maí 1775 kom Annað meginlandsþing Bandaríkjanna saman. Genfarsamþykkt um höfundarétt. Genfarsamþykkt um höfundarétt var alþjóðasamningur um gagnkvæma vernd höfundaréttar sem var unninn af Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna og samþykktur í Genf í Sviss árið 1952. Ástæðan fyrir gerð þessa sáttmála var sú að Bandaríkin og Sovétríkin auk margra þróunarríkja vildu ekki staðfesta Bernarsáttmálann frá 1886; Bandaríkin vegna þess að staðfesting hefði þýtt róttækar breytingar á bandarískri löggjöf, og Sovétríkin og þróunarríkin vegna þess að þau töldu Bernarsáttmálann fyrst og fremst þjóna hagsmunum hugverkaútflytjandi vestrænna ríkja. Með Genfarsamþykktinni var þannig komið á alþjóðlegri gagnkvæmri viðurkenningu höfundaréttar. Genfarsamþykktin gengur mun skemmra en Bernarsáttmálinn í veigamiklum atriðum og er ekki eins ítarleg. Genfarsamþykktin gerir til dæmis ráð fyrir því að hægt sé að skilyrða vernd höfundaréttar við ákveðin formskilyrði eins og skráningu verka í löndum þar sem það tíðkast. Lágmarkstímalengd verndar er 25 ár frá andláti höfundar en í Bernarsáttmálanum var þá kveðið á um vernd í 50 ár frá andláti höfundar. Mörg lönd sem voru fyrir aðilar að Bernarsáttmálanum gerðust líka aðilar að Genfarsamþykktinni, þar á meðal Ísland sem undirritaði hana 1956. Með tilkomu Samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum missti Genfarsamþykktin þýðingu sína að miklu leyti. Jóhann Smári Karlsson. Jóhann Smári Karlsson (f. 30. júní 1961) er íslenskur ljósmyndari, sem ólst upp í Reykjavík. Hann hefur sýnt myndir sínar síðan á fjöldanum öllum af samsýningum sem og einkasýningum, meðal annars á Ítalíu, Tékklandi og Íslandi. Ásamt því að taka þátt í og halda sýningar, hefur Jóhann Smári fengið ljósmyndir sínar birtar í mörgum miðlum, dagblöðum, tímaritum og í sjónvarpi. Jóhann Smári fylgdist vel með Búsáhaldabyltingunni á Íslandi sem fór fram veturinn 2008 og hefur sýnt myndir sínar frá henni á einkasýningunni Revolution, sem hefur farið víða á Ítalíu. Jóhann Smári var kosinn ljósmyndari ársins 2009 af danska ljósmyndablaðinu Zoom -Danmarks Professionelle Fotomagasin. Jafnframt heldur hann úti vef um útilistaverk í Reykjavík. Einkasýningar. þess má geta að myndir hans frá búsáhaldabyltingunni komu fram í sjónvarpsþættinum Silfur Egils og í fyrirlestrum Guðmundar Odds Magnússonar um myndbirtingu búsáhaldabyltingarinnar. Samsýningar. Jóhann tók þátt í sameiginlegri ljósmyndarkeppni íslenska flickr notenda, flickr-flakk og heljastökk í Ljósmyndarsafni Reykjavíkur. Flickr.com vefurinn er myndasíða á netinu og ljósmyndarasamfélag. Hluti af þessari sýningu var settur upp á "Íslenskri menningarhátíð í prag", Tékklandi, í október 2007, þar á meðal voru verk Jóhanns. Íslenski flickr hópurinn setti jafnframt upp sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur í maí 2008, undir nafninu flickr@iceland. Útgáfur. Jóhann sendi inn myndir í keppnina Grand Prix 2009, haldin af danska ljósmyndarablaðinu Zoom. Í aprílmánuði ársins sendi hann inn myndina "Hvor er himmerlige" og myndirnar "Natur" og "På månen" í september og október sama árs. Síðasta mynd Jóhanns í keppninni var "Der kommer fremmende", í desember á árinu, en hún var valin vinningsmynd ársins, í janúar 2010. Jóhann var jafnframt valinn ljósmyndari keppninar. Vinningsmynd Jóhanns í Grand Prix 2009 var síðar valin af National Geographic sem mynd dagsinns, 11. maí 2010 og í ljósmyndarsyrpu fyrstu viku maí. Litarefni. Litarefni eru efni sem eru bætt í til dæmis mat til þess að breyta litnum. Ákveðin litarefni eru þó varasöm í matvælum (E102, E104, E110, E122, E124 og E129) þar sem þau geta valdið óæskilegri hegðun barna. Litarefni voru fyrst notuð á tímum hellamynda, fyrir 33.000 árum. Ingibjörg Eiríksdóttir af Danmörku. Ingibjörg Eiríksdóttir (um 1244 – 24./26. mars 1287) var dönsk konungsdóttir, drottning Noregs frá 1263 til 1280 og var valdamikil á ríkisstjórnarárum Eiríks sonar síns þótt hún væri ekki ríkisstjóri. Ingibjörg var næstelsta dóttir Eiríks plógpenings Danakonungs og Juttu af Saxlandi. Hún var aðeins um sex ára að aldri þegar faðir hennar var drepin. Móðir hennar sneri aftur til Saxlands og giftist að nýju en Ingibjörg og systur hennar þrjár ólust að mestu leyti upp við hirð Kristófers 2. föðurbróður síns og Margrétar Sambiria drottningar. Þær voru erfingjar að víðáttumiklum lendum í Danmörku og því eftirsóttir kvenkostir. Hákon gamli Noregskonungur hafði augastað á einhverri Plógpeningsdætra handa eina eftirlifandi syni sínum, Magnúsi. Sú elsta, Soffía, var þegar gift Valdimar Birgissyni Svíakonungi, og hafði Kristófer konungur komið því til leiðar skömmu fyrir dauða sinn 1259, þvert gegn vilja Margrétar drottningar. Hún var nú orðin ríkisstjóri og Hákon konungur sendi fulltrúa sína til að biðja um hönd næstelstu dótturinnar en Margrét hafði engan áhuga á að missa yfirráð á eignum fleiri Plógpeningsdætra og sendi Ingibjörgu í klaustur við Horsens. Hákon sendi nýja sendinefnd sumarið 1261 en nú voru það sjö herskip og mörg hundruð manna lið undir stjórn Hákonar biskups af Ósló. Þeim gekk ekkert að tala drottningu til og fór þá Hákon biskup til Horsens, sótti heim klaustrið þar sem Ingibjörg var og bar fram bónorð fyrir hönd konungssonarins. Ingibjörgu hugnaðist ekki klausturlifnaðurinn fremur en yngri systrum hennar síðar og kaus fremur að vera drottning Noregs, en bað biskupinn að koma aftur seinna, þegar hún hefði undirbúið brottför sína. En á siglingunni norður eftir mættu Norðmennirnir sænskum flota undir merki Birgis jarls, föður Valdimars Svíakonungs og raunverulegs stjórnanda Svíþjóðar. Norðmennirnir höfðu rökstuddan grun um að hann væri einnig í bónorðsferð; hann var nýlega orðinn ekkjumaður og hafði látið í ljósi áhuga á að giftast Ingibjörgu, systur tengdadóttur sinnar. Þeir sneru því við, fóru aftur í klaustrið með alvæpni og sóttu Ingibjörgu og sigldu sem hraðast norður til Túnsbergs. Eftir nokkra hvíld þar var siglt áfram til Björgvinjar en ferðin gekk illa og tók þrjár vikur í stað einnar venjulega. Hún hitti þó loks eiginmann sinn tilvonandi og giftust þau með pompi og pragt 11. september 1261 og voru þegar á eftir krýnd konungur og drottning Noregs. Magnús fékk að vísu engin völd sem meðkonungur föður síns en erfði ríkið 16. desember 1263, þegar faðir hans dó í herför til Suðureyja. Ingibjörg virðist ekki hafa haft nein afskipti af stjórn ríkisins meðan maður hennar lifði. Fátt er vitað um hana á þeim árum en árið 1263 skemmti Sturla Þórðarson henni með því að segja henni "Huldar sögu", af tröllkerlingu nokkurri. Magnús konungur hafði verið Sturlu reiður en með sagnalist sinni tókst honum að vinna hylli drottningar og blíðka svo konunginn. Sagt er að hjónaband þeirra Ingibjargar og Magnúsar hafi verið gott. Magnús dó 1280 og Eiríkur, eldri eftirlifandi sonur þeirra (tveir elstu synirnir dóu á barnsaldri) var þá á tólfta ári. Ingibjörg varð ekki ríkisstjóri en hafði þó töluverð áhrif á stjórn ríkisins og þau jukust eftir að Eiríkur var lýstur fullveðja 1283, enda var hann veikur stjórnandi og fákænn, virðist til dæmis aldrei hafa lært að lesa og skrifa. Helsti bandamaður hennar var Álfur Erlingsson yngri, frændi Magnúsar manns hennar. Eftir lát hennar lenti hann þegar í útistöðum við Hákon jarl, yngri son drottningar, sem gerði hann útlægan og lét taka hann af lífi 1290. Eftir lát Magnúsar fór Ingibjörg að reyna að ná arfi sínum í Danmörku, sem aldrei hafði verið greiddur þeim systrum. Af því spannst langvinn deila sem ekki lauk fyrr en eftir lát Ingibjargar 1287. Margrét Skúladóttir. Margrét Skúladóttir (um 1208 – 1270) var norsk jarlsdóttir og drottning Noregs frá 1225 þar til maður hennar, Hákon gamli, lést í árslok 1263. Margrét var dóttir Skúla jarls Bárðarsonar og Ragnhildar Jónsdóttur konu hans. Faðir hennar var hálfbróðir Inga Bárðarsonar konungs og gerði tilkall til krúnunnar þegar Ingi dó 1217 en Hákon Hákonarson var valinn í hans stað. Skúli varð þá ríkisstjóri og réði mestu um stjórn landsins fyrstu ár Hákonar á konungsstóli en þegar frá leið dró úr völdum hans og um leið jókst togstreita milli konungs og jarls. Árið 1219 var samið um giftingu Hákonar og Margrétar dóttur Skúla og voru það ráðgjafar Hákonar sem áttu hugmyndina og vildu með því reyna að draga úr líkum á að Skúli reyndi á ný að gera tilkall til krúnunnar. Hún var þó of ung til að giftast og brúðkaupið var ekki haldið fyrr en 25. maí 1225. Mægðirnar dugðu þó ekki til. Samskipti þeirra tengdafeðganna versnuðu stöðugt og lauk með því að Skúli gerði uppreisn árið 1239 og lét taka sig til konungs á Eyraþingi en tapaði í baráttunni við Hákon og var drepinn í Niðarósi 1240. Sagt er að Margrét hafi tekið deilur þeirra mjög nærri sér og að sjálfsögðu dauða föður síns einnig. Samkvæmt því sem segir í sögu Hákonar virðist Margrét oftast hafa verið í för með honum þegar hann ferðaðist á milli landshluta en fátt er vitað um hana sjálfa. Hún virðist ekki hafa haft nein pólitísk áhrif né heldur sóst eftir þeim. Þau Hákon eignuðust þrjú börn sem upp komust, Hákon unga, Magnús lagabæti og Kristínu. Hákon dó í Orkneyjum í árslok 1263 og Magnús sonur þeirra tók við. Margrét var hjá honum næstu árin en tók sér bólsetu í klaustri 1267 og var þar líklega til dauðadags 1270. Teboðið í Boston. Þann 16. desember 1773 safnaðist saman hópur frelsisbaráttumanna við höfnina í Boston, Massachusetts, til þess að mótmæla skattheimtu Breta á nýlendur sínar í Norður-Ameríku. Úr varð að skipsförmum af bresku te var hent í höfnina. Þessi atburður sem síðar hefur verið nefndur The Boston Tea Party hefur verið talinn mikilvægur vendipunktur í frelsisbaráttu Bandaríkjanna. Sögulegur aðdragandi. Frá árinu 1607 hafði Norður-Ameríku verið skipt í 13 nýlendur breska heimsveldisins. Í kjölfar stríðsreksturs Bretlands í Sjö ára stríðinu (1756-1763) voru Bretar orðnir skuldsettir og í fyrsta sinn sáu þeir sig knúna til þess að leggja skattaálögur á nýlendur sínar í Ameríku. Hinar nýju skattheimtur urðu til þess að spenna myndaðist í samskiptum heimsveldisins og nýlendanna og hin víðfræga krafa "No taxation without representation" varð slagorð frelsisbaráttumanna sem börðust fyrir því að eiga fulltrúa á breska þinginu til þess að geta haft áhrif á málefni á borð við skattheimtu heimsveldisins. Töldu þeir að þar sem þeir höfðu ekki eigin fulltrúa á breska þinginu, væri verið að brjóta gegn stjórnarskrárbundnum rétti þeirra sem nýlendubúa breska heimsveldisins. Bretar létu ekki undan kröfum nýlendubúa; árið 1765 lagði breska þingið álögur á prentaðar vörur með The Stamp Act. Tveimur árum síðar var svo lagt á The Townshend Act, skattalöggjöf sem ætlað var tryggja rétt Breta til þess að leggja skatta á nýlendur þeirra í Ameríku. Frelsissinnar mótmæltu þessum skattalöggjöfum og í Boston, árið 1770, brutust út átök (The Boston Massacre), milli breska hersins og nýlendubúa, en þar létu fimm borgarar lífið. Um svipað leiti fjallaði breska þingið um löggjöfina, þar sem ákveðið var að hverfa frá mörgum af fyrirhuguðum skattaálögum, að undanskildu ákvæði um skattheimtu á te, The Tea Act. Uppreisn gegn skattheimtu. Með skattalöggjöfinni á te var Austur-Indíafélaginu (e. East India Company) í raun gefið einokunarleyfi á teverslun milli Bretlands og nýlendanna. Með nýju fyrirkomulagi var útvöldum umboðsmönnum í nýlendum Breta í Ameríku veitt leyfi til að versla með te. Þrátt fyrir að löggjöfin sjálf fæli í sér lækkun á teverði, þá fólst í henni einokunarverslunarákvæði sem nýlendubúar Ameríku töldu að Bretar gætu yfirfært á aðra verslunarvöru, seinna meir. Aukin heldur litu nýlendubúar svo á að með því að greiða þessa skatta væru þeir að samþykkja rétt Breta til þess að leggja skatta á nýlendubúa sína, án þess að þeir hefðu fulltrúa á breska þinginu. Í öllum nýlendum Ameríku, nema Massachusetts, voru umboðsmenn tesölu þvingaðir af frelsisbaráttumönnum, til að senda á brott skipsfarma af te, en í Boston veittu umboðsmenn viðnám og neituðu að vísa skipum úr höfn. Samuel Adams, leiðtogi hóps frelsisbaráttumanna er kölluðu sig Syni frelsisins (e. Sons of Liberty), kallaði saman fjöldafund, þar sem hann kynnti úrlausn á málinu, sem fólst í því að hvetja skipstjóra kaupskipana til að hverfa á brott, þar sem ekki yrðu greidd aðflutningsgjöld að kröfu breskra stjórnvalda. Á sama tíma gættu menn skipanna, til þess að koma í veg fyrir að teinu væri skipað í land. Þar sem umboðsmennirnir létu ekki undan kröfum nýlendbúa, gripu uppreisnarmenn til þess ráðs að dulbúast sem innfæddir og ráðast um borð í kaupskipin þar sem þeir hentu svo tefarminum í höfnina. Eftirmálar. Teboðið í Boston vakti hörð viðbrögð breskra stjórnvalda, sem leiddi til þess að breska þingið samþykkti ný lög,The Intolerable Acts. Margir nýlendubúar töldu lögin gerræðisleg og brot á réttindum sínum og árið 1774 var Fyrsta meginlandsþingið haldið í Philadelphiu þar sem viðbrögð við lagasetningunni var rædd og mótmæli og aðgerðir nýlendubúa gegn lögunum samræmdar. Spenna milli Bretlands og íbúa nýlendnanna stigmagnaðist og árið 1775 braust út frelsistríð Bandaríkjanna. Árið 1776 lýstu nýlendur Breta í Norður Ameríku yfir sjálfstæði og stofnuðu Bandaríki Norður Ameríku. Dalvik. Dalvik er heiti sýndarvélar Android-stýrikerfisins frá Google. Dalvik er innbyggður hluti Android, sem er aðallega notað í meðbærum tækjum svo sem farsímum, töflutölvum og netfartölvum. Áður en Android-forrit eru keyrð, er þeim breytt yfir á hið samþjappaða Dalvik Executable (.dex)-snið, sem er hannað fyrir kerfi með takmarkað vinnsluminni og örgjörvahraða. Dalvik-sýndarvélin er, eins og Android að öðru leyti, opinn hugbúnaður. Upprunalegur höfundur hennar er Dan Bornstein, sem nefndi hana eftir bænum Dalvík þaðan sem hann er ættaður að langfeðgatali. Bygging. Ólíkt flestum sýndarvélum og sönnum Java-sýndarvélum sem eru staflavélar, er Dalvik-sýndarvélin gistursvél. Skiptar skoðanir eru um hvor gerðin, staflavélar eða gistursvélar, hefur fleiri kosti Almennt talað þurfa vélar af staflagerð að nota skipanir til að hlaða gögnum á staflann og meðhöndla þau, og þurfa því fleiri skipanir en gistursvélar til að inna sama hástigsmálið, en skipanirnar í gistursvél verða að kóða uppruna- og áfangastaðarskrárnar og eru því yfirleitt stærri. Þessi mismunur skiptir mestu máli fyrir sýndarvélartúlka en hjá þeim er oppkóða-tímaveiting yfirleitt dýr sem og aðrir þættir er varða tímanlega þýðingu. Tól er nefnist dx er notað til að breyta sumum (en ekki öllum) Java-klasa-skrám yfir á.dex-sniðið. Margir klasar rúmast í einni.dex-skrá. Strengir og aðrir fastar sem notaðir eru í marg-klasa-skrám koma aðeins fyrir einu sinni í.dex-frálagi til að spara pláss. Java-bætakóða er einnig breytt yfir í annarskonar skipanamengi sem Dalvik-sýndarvélin notar. Óþjöppuð.dex-skrá er venjulega nokkrum prósentum minni en þjappað Java-gagnasafn sem leitt er út frá sömu.class-skrám. Dalvik-keyrsluskrám kann að vera breytt aftur þegar þær eru settar upp á meðbæru tæki. Í skyni frekari beztunar kann bætaröð að vera skipt út í vissum gögnum, einfaldir gagnastrúkturar og falla-söfn kunna að vera innlínu-tengd og tómum klasahlutum kann að vera skammhleypt, til dæmis. Frá og með Android 2.2 hefur Dalvik tímanlegan þýðanda. Ennfremur hefur Dalvik verið hönnuð þannig að tæki geti keyrt fleiri en eitt tilvik sýndarvélarinnar á skilvirkan hátt. Klasasafn. Dalvik lagar sig hvorki að Java SE né Java ME klasasafna-prófílum (þ.e. Java ME-klasar, AWT og Swing eru ekki studd). Hún notar sitt eigið safn í staðinn á grundvelli hlutmengis Apache Harmony-Java-fullbúningarinnar. Leyfismál. Dalvik er sögð vera fullbúning af gerð hreins-herbergis-hönnunar en ekki þróun ofan á staðlaða Java-keyrsluskrá, sem þýðir að hún erfir höfundarréttartengdar leyfistakmarkanir hvorki frá staðal- né opins-uppruna-útgáfum Java-keyrsluskráa. Dalvik er gefin út undir Apache 2-leyfinu. Ísabella Bruce. Ísabella Bruce (um 1281 – 1358) var skosk jarlsdóttir og drottning Noregs frá 1293 til 1299. Eftir fráfall Eiríks manns síns bjó hún svo í nær sextíu ár sem ekkjudrottning í Noregi og dó í Björgvin tæplega áttræð að aldri. Ísabella var dóttir Róberts Bruce, jarls af Carrick (d. 1308) og Marjorie konu hans. Bróðir hennar, Róbert, var konungur Skotlands frá 1306. Ísabella kom til Noregs með föður sinum 1293 til að giftast Eiríki, sem þá var 25 ára og hafði verið ekkjumaður í tíu ár. Fyrri kona hans, Margrét, var einnig skosk og einkabarn þeirra, Margrét Skotadrottning, var þá látin. Ísabella og Eiríkur eignuðust líka eina dóttur, Ingibjörgu, sem fæddist 1297. Eiríkur dó 1299 en Ingibjörg litla erfði ekki ríkið, heldur Hákon föðurbróðir hennar, sem var framar í erfðaröðinni samkvæmt norskum lögum. Ísabella sneri ekki heim til Skotlands, hvorki þegar hún varð ekkja né þegar Róbert bróðir hennar varð konungur, enda var lífið mun friðvænlegra í Noregi en í Skotlandi, þar sem innanlandsófriður geisaði auk stöðugra átaka við Englendinga; þrír af bræðrum Ísabellu voru hengdir á árunum 1306-1307 og tvær systur hennar, drottningin mágkona hennar og dóttir Róberts bróður hennar voru í haldi í Englandi 1306-1314 og sættu illri meðferð. Ísabella kaus fremur að búa sem ekkja í Björgvin og virðist aldrei hafa heimsótt ættland sitt eftir að hún kom fyrst til Noregs en hún hafði þó bréfaskipti við systur sína og kann að hafa lagt hönd á plóg þegar friður var saminn milli Orkneyinga, Hjaltlendinga og Skota 1312. Annars virðist hún hafa látið lítið fyrir sér fara. Hún styrkti löngum kirkjurnar og biskupsstólinn í Björgvin rausnarlega. Talið er að Ísabella hafi ráðið því að Ingibjörg dóttir hennar, þá þriggja ára, var föstnuð Jóni Magnússyni Orkneyjajarli árið 1300 en ekkert varð af brúðkaupi því jarlinn dó árið 1311. Þá samdi Ísabella um giftingu dóttur sinnar og Valdimars Magnússonar hertoga, yngsta bróður Birgis Magnússonar Svíakonungs, og giftust þau 1312. Samtímis giftist Eiríkur bróðir Valdimars Ingibjörgu dóttur Hákonar háleggs. Sex árum síðar dóu hertogarnir báðir í dýflissu þar sem Birgir bróðir þeirra hafði sett þá. Ingibjörg Eiríksdóttir giftist aldrei aftur, fremur en móðir hennar hafði gert, en bjó áfram í Svíþjóð. Í sænsku skjali frá 1357 kemur fram að Ísabella ekkjudrottning eigi að taka arf eftir dóttur sína og virðist hún því hafa dáið á undan henni. Margrét af Skotlandi, Noregsdrottning. Margrét af Skotlandi (28. febrúar 1261 – 9. apríl 1283) var skosk konungsdóttir og drottning Noregs frá 1281 til dauðadags, fyrri kona Eiríks Magnússonar prestahatara. Margrét var dóttir Alexanders 3. Skotakonungs og Margrétar af Englandi, dóttur Hinriks 3. Hún kom til Noregs 1281, tvítug að aldri, til að giftast Eiríki konungi, sem var aðeins tólf eða þrettán ára. Eitt helsta markmiðið með hjónabandinu mun hafa verið að bæta samkomulagið milli Norðmanna og Skota, sem hafði lengi verið stirt vegna deilna um Suðureyjar, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar. Margrét sjálf er sögð hafa verið á móti hjónabandinu, svo og margir vinir hennar og ættingjar, en Alexander konungur fékk sínu framgengt. Ekki er hægt að segja að jafnræði hafi verið með konungshjónunum. Margrét var vel menntuð og háttvís, fullþroskuð kona en Eiríkur ungur stráklingur, ómenntaður, jafnvel illa læs og skrifandi, rustalegur og ósiðaður. Tengdamóðirin, Ingibjörg Eiríksdóttir ekkjudrottning, stýrði syni sínum og hafði engan áhuga á að gefa eftir eitthvað af völdum sínum; samkvæmt skoskum heimildum kom hún í veg fyrir að tengdadóttirin væri krýnd. Sagt er að Margrét hafi reynt að mennta mann sinn, kenna honum ensku og frönsku og leiðbeina honum um borðsiði og klæðnað, en orðið lítið ágengt. Eiríkur átti hins vegar ekki í neinum vandræðum með að fullkomna hjónabandið þótt ungur væri. Margrét fæddi dóttur snemma í apríl 1283 og dó skömmu eftir fæðinguna. Eiríkur varð því ekkjumaður og faðir á fimmtánda ári. Dóttirin hlaut nafnið Margrét og þegar Alexander móðurbróðir hennar dó óvænt snemma árs 1284 stóð hún næst til erfða eftir afa sinn í Skotlandi. Bambi 2. "Bambi 2" er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2006 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Bambi". Myndinni var aðeins dreift á mynddiski. Refurinn og hundurinn 2. "Refurinn og hundurinn 2" (enska: "The Fox and the Hound 2") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2006 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Refurinn og hundurinn". Myndin var aðeins dreift á mynddiski. Myndin gerist á æskuárum refsins Tedda og hundsins Kobba þar sem Kobbi freistast til að taka þátt í hljómsveit syngjandi heimilislausra hunda. Leikstjóri myndarinnar er Jim Kammerud og með aðalhlutverk fara Patrick Swayze og Reba McEntire. Framleiðandi er Ferrell Barron. Handritshöfundur er Roger S.H. Schulman Björn bróðir 2. "Björn bróðir 2" (enska: "Brother Bear 2") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2006 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Björn bróðir". Myndin var aðeins dreift á mynddiski. Konungur ljónanna 2. "Konungur ljónanna 2" (enska: "The Lion King II: Simba's Pride") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1998 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Konungur ljónanna". Myndinni var aðeins dreift á mynddiski. Konungur ljónanna 3. "Konungur ljónanna 3" (enska: "The Lion King 1½") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2004 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Konungur ljónanna" og "Konungur ljónanna 2". Myndinni var aðeins dreift á mynddiski. Bófabæli Mikka. "Bófabæli Mikka" (enska: "Mickey's House of Villains") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2002 sem var aðeins dreift á mynddiski og VHS. Myndin er byggð á Disney Channel sjónvarpsþáttaröðinni "Disney's House of Mouse". Múlan. "Múlan" (enska: "Mulan") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1998. Árið 2005 var gerð framhaldsmynd, "Múlan 2", sem var aðeins dreift á mynddiski. Tröllhettuskurðurinn. Tröllhetturskurðurinn (eða Trollhätteskurðurinn) (sænska: "Trollhätte kanal") er 82 kílómetra langur skurður sem gerir Gautelfi skipgenga til Vænis, en 10 kílómetrar af skurðinum er manngerður. Við borgina Trollhättan eru stórir fossar í Gautelfi sem hafa verið virkjaðir, en Tröllhettuskurðurinn liggur einmitt framhjá fossunum. Vænir er 43,8 metrar yfir sjávarmáli og því eru sex skipastigar á leiðinni frá Jótlandshafi (Kattegat) til Vænis. Hvítárvatn. Hvítárvatn er stöðuvatn í Árnesþingi undir Langjökli en þar á Hvítá upptök sín sem vatnið tekur nafn sitt af. Í Hvítárvatn skríður Norðurjökull Langjökuls sem gerir það að verkum að vatnið er mjög jökullitað. Hvítárvatn er 30 km² og mesta dýpt þess er 84 metrar. Frá Gullfossi eru 45 kílómetrar að Hvítárvatni. Ketubjörg. Ketubjörg eru tilkomumikil sjávarbjörg við Skagafjörð, skammt sunnan við eyðibýlið Ketu á Skaga, leifar af eldstöð frá ísöld sem sjórinn hefur sorfið og myndað dranga og gatkletta. Í Ketubjörgum, sem eru rúmlega 120 metra há, er stuðlaberg og úti fyrir eru stakir drangar, sá stærsti og mesti heitir Kerling. Í björgunum er auðugt fuglalíf. Þau eru friðuð. Þjóðvegurinn lá á bjargbrúninni og þótti stundum illfært um hann fyrir tröllagangi en mikil tröllabyggð var sögð vera í Ketubjörgum og var sagt að tröllin héldu þing í skarði sem liggur gegnum björgin og kallast Tröllalögrétta. Prestar sem þjónuðu Ketukirkju, sem var útkirkja frá Hvammi á Laxárdal, voru þá vanir að hringja bjöllu þegar þeir komu að hól sem Presthóll kallast og héldu því áfram þegar þeir riðu með björgunum. Þegar séra Hálfdán á Felli þjónaði sókninni um tíma tókst honum að losna við tröllaganginn með fjölkynngi. Bolungarvíkurgöng. Bolungarvíkurgöng (almennt kölluð Óshlíðargöng) eru jarðgöng á Vestfjörðum sem tengja saman Bolungarvík og Hnífsdal. Göngin sem voru opnuð almenningi 25. september 2010 leystu af Óshlíðarveg en sá vegur var einn sá hættulegasti á Íslandi vegna grjóthruns og snjóflóða. Göngin voru nefnd Óshlíðargöng á meðan framkvæmdum stóð, og eru almennt kölluð svo af heimamönnum. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson (f. 15. júní 1971) er íslenskur viðskiptafræðingur og bankamaður. Þorvaldur er þekktastur fyrir að hafa verið forstjóri fjárfestingarbankans Saga Capital frá stofnun bankans 2006 til 2011. Ævi. Þorvaldur var í stjórn SUS á sínum yngri árum auk þess að vera í ræðuliði MA öll sín ár við skólann. Þá var hann einig í ræðuliði Heriot-Watt háskóla í Edinborg á námsdvöl sinni í Skotlandi. Hann útskrifaðist með BA (Hons.)-gráðu í alþjóðaviðskiptum og tungumálum frá Heriot-Watt háskóla í Edinborg, Skotlandi, árið 1995. Að námi loknu, árið 1995 starfaði Þorvaldur hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Englandi í eitt ár. Að því loknu vann hann hjá Kaupþingi Norðurlands, en flutti sig þaðan til Kaupþings hf. í Reykjavík. Umskiptin tengdust kaupum Sparisjóðs Norðlendinga á meirihluta hlutafjár í Kaupþingi Norðurlands. Hjá Kaupþingi í Reykjavík setti Þorvaldur á stofn deild eigin viðskipta bankans sem þá hóf að sinna viðskiptum með verðbréf fyrir eigin reikning bankans (e: Propreitary trading). Hann gegndi stöðu forstöðumanns Markaðsviðskipta/miðlunar og síðar framkvæmdastjóra Eigin viðskipta til ársins 2006, en hið sama ár stofnaði Þorvaldur fjárfestingarbankann Saga Capital ásamt samstarfsmönnum frá Kaupþingi og hópi fjárfesta. Þorvaldur sagði upp stöðu sinni sem forstjóri Saga Fjárfestingarbanka í apríl 2011, í kjölfar fjölmiðlaumræðu um persónuleg fjármál hans og aðkomu að viðskiptum sem voru til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara. Þorvaldur er best þekktur innan íslensks viðskiptalífs fyrir að hafa þróað s.k. eigin viðskipti bankastofnana á Íslandi (proprietary trading) og að hafa komið bankanum Saga Fjárfestingarbanka í gegnum fjármálakrísuna frá 2008. Þorvaldur hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsóknum Sérstaks saksóknara á viðskiptum Kaupþings og Glitnis í tengslum við viðskipti með skuldabréf fjárfestingarfélagsins Stím. Múlan 2. "Múlan 2" (enska: "Mulan II") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2005 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Múlan". Myndin var aðeins dreift á mynddiski. Tarsan (kvikmynd 1999). "Tarsan" (enska: "Tarzan") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Feature Animation. Myndin er byggir á sögu "Tarzan of the Apes" eftir Edgar Rice Burroughs. Myndin var frumsýnd þann 18. júní 1999. Kvikmyndin var þrítugasta og sjöunda kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Chris Buck og Kevin Lima. Framleiðandinn var Bonnie Arnold. Handritshöfundar voru Tab Murphy, Bob Tzudiker og Noni White. Tónlistin í myndinni er eftir Mark Mancina og sungið af Phil Collins. Árið 2005 var gerð framhaldsmynd, "Tarsan 2", sem var aðeins dreift á mynddiski. Tarsan 2. "Tarsan 2" (enska: "Tarzan II") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2005 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Tarsan". Myndinni var aðeins dreift á mynddiski. Wakko's Wish. "Wakko's Wish" er bandarísk teiknimynd frá árinu 1999 sem var aðeins dreift á VHS. Myndin er byggð á sjónvarpsþáttaröð "Animaniacs", sýnd árin 1993-98. Evfemía af Rügen. Evfemía af Rügen (d. 1. maí 1312), einnig nefnd Evfemía af Arnstein, var drottning Noregs frá 1299 til dauðadags. Talið er að hún hafi verið dóttir Günthers greifa af Arnstein en alist upp hjá móðurafa sínum, Witzlav 2., fursta af Rügen. Hún giftist Hákoni hertoga Magnússyni í Maríukirkjunni í Ósló sumarið 1299. Talið er að gengið hafi verið frá trúlofun þeirra þegar Norðmenn og Danir gengu til friðarsamninga haustið 1298 en þar var Witzlav fursti sáttasemjari. Áður hafði verið reynt að finna enska og síðan franska brúði handa Hákoni en það gekk ekki up. Skömmu eftir brúðkaupið dó Eiríkur konungur, bróðir Hákonar, og voru Hákon og Evfemía krýnd konungur og drottning Noregs 1. nóvember sama ár. Evfemía var mjög bókhneigð og er sagt að hún hafi átt eitt stærsta bókasafn í Evrópu á sinni tíð. Hún hafði mikinn áhuga á riddarabókmenntum og lét meðal annars þýða þrjár franskar og þýskar riddarasögur í ljóðum og sendi afrit til sænsku hirðarinnar af því að hún vildi innleiða evrópska riddaramennsku á Norðurlöndum. Þessar sögur eru þekktar sem "Evfemíuvísurnar" og nutu mikilla vinsælda. Eina barn Evfemíu og Hákonar sem lifði var Ingibjörg, sem fædd var 1301. Um jólin 1302, þegar hún var eins árs, var hún heitbundin Eiríki Magnússyni hertoga, bróður Birgis Svíakonungs, sem þá var um tvítugt og var í miklu uppáhaldi hjá Evfemíu drottningu. Witzlav fursti var viðstaddur í tilefni af trúlofuninni en dó í jólaveislunni. Reyndar var trúlofuninni tvívegis slitið af pólitískum ástæðum en þau giftust þó 29. september 1312, þegar Ingibjörg var ellefu ára. Evfemía drottning hafði látist þá um vorið. Hún var grafin í Maríukirkjunni í Ósló. Hákon konungur var grafinn við hlið hennar sjö árum síðar. Líkamsleifar þeirra fundust við fornleifauppgröft í kirkjurústunum 1982 og voru færðar í grafhýsi í Akershúskastala. Filippus 2. Frakkakonungur. Krýning Filippusar 2. að viðstöddum Hinrik 2. Englandskonungi. Filippus 2. (21. ágúst 1165 – 14. júlí 1223) eða Filippus Ágústus var konungur Frakklands frá 1180 til dauðadags. Hann var einn áhrifamesti konungur Frakka á miðöldum, stækkaði ríki sitt verulega og jók völd konungsins. Undir stjórn hans jókst velmegun í Frakklandi og hann var vinsæll meðal þegna sinna. Uppvöxtur. Filippus var sonur Loðvíks 7. og þriðju konu hans, Adelu af Champagne. Áður hafði faðir hans eignast fjórar dætur í tveimur hjónaböndum, hafði verið kvæntur Adelu í fimm ár og var orðinn 45 ára, sem var nokkuð hár aldur á 12. öld, svo að hann var orðinn langeygur eftir erfingja. Filippus var líka framan af oft kallaður "Dieudonné" (guðsgjöf). Þegar hann var þrettán ára villtist hann frá félögum sínum á veiðum og lá úti í skógi heila nótt. Hann veikist af volkinu og var talinn í lífshættu. Loðvík fór í pílagrímsferð til Kantaraborgar til að biðja fyrir lífi sonar síns. Heilsufar Loðvíks fór hraðversnandi og hann lét krýna Filippus meðkonung sinn í Rheims 1. nóvember 1179 og 28. apríl vorið eftir giftist Filippus svo Ísabellu af Hainaut, sem var nýorðin tíu ára. Hún færði honum greifadæmið Artois í heimanmund. Í raun fékk Filippus öll völd í sínar hendur strax eftir krýninguna því faðir hans varð smátt og smátt elliær. Það líkaði móður hans og bræðrum hennar fjórum (tveir þeirra voru jafnframt tengdasynir Loðvíks) illa því þau höfðu ráðið afar miklu síðustu stjórnarár Loðvíks. Hann dó svo 18. september 1180 og Filippus varð konungur, fimmtán ára að aldri. Filippus og Hinrik 2.. Filippus hóf stríð við Filippus greifa af Flæmingjalandi 1181 vegna yfirráða yfir Vermandois-héraði og náði hluta þess á sitt vald við friðarsamninga. Árið 1183 dó svo Hinrik ungi, elsti sonur Hinriks 2. Englandskonungs. Hann hafði verið giftur Margréti systur Filippusar, sem krafðist þess að heimanmundi hennar yrði skilað þar semþau voru barnlaus. Hinrik var tregur til en Filippus fylgdi kröfunni fast eftir, einkum þegar Bela 3. Ungverjalandskonungur bað um hönd ekkjunnar, og Hinrik lét að lokum undan. Filippus og Geoffrey Plantagenet, hertogi af Bretagne, fjórði sonur Hinriks 2., voru miklir vinir og stundum í bandalagi gegn Hinrik. Hann var raunar á stundum góðvinur allra sona Hinriks og notaði þá gegn föður þeirra þegar honum hentaði, en vinátta þeirra Geoffreys hélst sterk allt þar til Geoffrey dó óvænt í París 1186. Þá krafðist Hinrik þess að fá forræði yfir Arthúr syni hans, sem fæddist eftir lát hans. Filippus taldi sig hins vegar réttan forráðamann drengsins þar sem Bretagne var hluti af Frakklandi og Arthúr því lénsmaður Filippusar. Hann krafðist þess líka að Ríkharður ljónshjarta, sonur Hinriks, giftist Alísu systur hans, en þau höfðu verið heitbundin frá barnsaldri og Alísa ólst upp við ensku hirðina. Þessar deilur urðu tilefni styrjaldar og gerði Filippus í fyrstu bandalag við Ríkharð og Jóhann landlausa, syni Hinriks, sem voru í uppreisn gegn föður sínum. Árið 1189 fóru þeir Ríkharður og Filippus í herför gegn Hinrik 2. og unnu sigur á her hans 4. júlí 1189. Tveimur dögum síðar dó Hinrik og Ríkharður varð konungur Englands. Þriðja krossferðin. Filippus og Ríkharður taka við lyklunum að Akkó. Filippus og Ríkharður fóru saman í Þriðju krossferðina 1190. Þeir höfðu vetursetu í Messína á Sikiley og sigldu þaðan til Landsins helga um vorið. Filippus kom þangað á undan og hóf umsátur um Akkó. Ríkharður kom svo í júníbyrjun og Akkó gafst upp 12. júlí en þá var Filippus illa haldinn af blóðkreppusótt. Hann varð líka ósáttur við Ríkharð vegna framkomu hans eftir fall Akkó og ákvað að snúa heim til Frakklands. Hann skildi þó eftir tíu þúsund manna herlið undir stjórn Húgós 3. hertoga af Búrgund. Ríharður hafði endanlega slitið trúlofun sinni við Alísu systur Filippusar í Messína 1191 og gifst Berengaríu af Navarra. Heimanmundur hennar, sem að hluta til var Vexin, hernaðarlega mikilvægt hérað í Frakklandi, hefði átt að endurgreiðast en til að halda frið milli þeirra í krossferðinni hafði Filippus fallist á að Ríkharður skyldi halda Vexin og það ganga til karlkyns erfingja hans en ef hann eignaðist ekki erfingja skyldi Filippus fá héraðið aftur. En þegar Filippus kom aftur til Frakklands haustið 1191 vildi hann reyna að ná Vexin. Hann hafði þó svarið Ríkharði eið um að láta lendur hans vera á meðan hann væri fjarverandi. Hann sýndi því fulltrúum Ríkharðs gögn sem áttu að sanna að Ríharður hefði fallist á að afhenda honum Vexin á ný en þeir tóku ekki mark á þeim. Hann gerði líka bandalag við Jóhann, bróður Ríkharðs. Barist um Normandí. Filippus 2. og Ríkharður ljónshjarta berjast í Normandí 1198. Þegar Filippus frétti af því 1193 að Ríkharður hefði verið tekinn höndum á leið heim úr krossferðinni var hann fljótur að ráðast inn í Vexin. Síðan hélt hann áfram og réðist langt inn í Normandí og settist um Rúðuborg í félagi við Baldvin greifa af Flæmingjalandi en jarlinum af Leicester, sem þar var í forsvari, tókst að verjast þeim. Í júlí 1193 samdi Filippus við ráðgjafa Ríkharðs um að hann skyldi halda því landi sem hann hafði náð en skila því ef Ríkharður vottaði honum hollustu sína. Filippus og Jóhann reyndu að múta Hinrik 6. keisara til að hafa Ríkharð lengur í haldi en þar sem búið var að safna saman lausnargjaldi til að greiða fyrir hann neitaði keisarinn. Ríkharður kom heim til Englands 13. mars og þann 12. maí lagði hann af stað í herför til Normandí. Filippus hafði náð stórum hluta héraðsins á sitt vald en Ríkharði tókst að vinna nokkra sigra á liði hans þótt aldrei kæmi til meiri háttar bardaga. Á næstu árum gekk á ýmsu en smátt og smátt hallaði á Filippus, ekki síst eftir að Baldvin af Flæmingjalandi gekk í lið með Ríkharði 1197 og Ottó 4., systursonur Ríkharðs, varð keisari 1198. Um sumarið réðist Filippus á Vexin en Ríkharður kom að honum óvörum og á flóttanum var Filippus næstum drukknaður þegar brú hrundi undan þunga herliðsins. Um haustið hafði Ríkharður náð aftur nær öllu því landsvæði sem Filippus hafði tekið 1193. Konungarnir tveir hittust í janúar 1199 - Ríkharður stóð á báti úti í Signu, Filippus stóð á árbakkanum og þeir kölluðust á - og í framhaldi af því var samið um fimm ára vopnahlé. En seinna sama ár féll Ríkharður í umsátri um kastala aðalsmanns sem gert hafði uppreisn gegn honum. Átök við Jóhann landlausa. Frakkland þegar Filippus tók við ríkjum og við dauða hans. Jóhann landlausi, yngsti sonur Hinriks 2., varð þá konungur og jafnframt hertogi af Normandí og þeir Filippus skrifuðu undir friðarsamninga í maí árið 1200. Arthúr hertogi af Bretagne, hinn ungi sonur Geoffreys, gerði einnig tilkall til krúnunnar og Filippus hafði stutt hann fyrst í stað en sneri nú við blaðinu og viðurkenndi Jóhann sem konung. Í staðinn var landamærum Normandí breytt svo að hertogadæmið minnkaði verulega og Jóhann samþykkti líka að greiða Filippusi stórfé. Til að innsigla sættina var samið um hjónaband Loðvíks, elsta sonar Filippusar, og einhverrar af dætrum Elinóru Kastilíudrottningar, systur Jóhanns, og varð Blanka fyrir valinu. Friður komst þó ekki á því mikil óánægja með stjórn Jóhanns á hertogadæminu Akvitaníu leiddi til uppreisnar þar, sem Filippus studdi í laumi og árið 1202 lýsti hann aftur yfir stuðningi við Arthúr hertoga og gekk frá trúlofun hans og sex ára dóttur sinnar, Maríu. En síðar sama ár náði Jóhann Arthúri á sitt vald og fljótlega hvarf hann sjónum og urðu afdrif hans aldrei ljós þótt flestir þættust þess fullvissir að Jóhann hefði látið myrða hann. Þetta jók mjög andstöðu við Jóhann, sem flúði til Englands, og í árslok 1204 hafði Filippus náð mestöllum löndum hans í Frakklandi á sitt vald. Tvíkvæni konungs. Ísabella drottning dó af barnsförum árið 1190 og lét eftir sig einn son, Loðvík. Filippus giftist Ingibjörgu, dóttur Valdimars mikla Danakonungs, 15. ágúst 1193, og var hún nefnd "Isambour" í Frakklandi. En af einhverri ástæðu fylltist Filippus óbeit á henni þegar eftir brúðkaupið. Hann vildi ekki láta krýna hana drottningu. Þremur mánuðum eftir brúðkaupið lét Filippus kalla saman prestastefnu og lagði þar fram falsað ættartré sem sýndi að Ingibjörg hefði verið of skyld fyrri konu hans til að þau mættu eigast. Var því hjónaband þeirra dæmt ógilt. Þegar það rann upp fyrir Ingibjörgu hvað var að gerast fann hún sér athvarf í klaustri og leitaði síðan liðsinnis hjá Selestínusi III páfa og Knúti bróður sínum. Sendinefnd sem fór frá Danmörku til Rómar tókst að sannfæra páfa um að ættartréð væri falskt og páfinn lýsti ógildingu hjónabandsins ógilda og bannaði Filippusi að ganga í hjónaband að nýju. Hann lét það sem vind um eyru þjóta og fann sér nýja brúði, Margréti af Genf, en þegar hún ferðaðist til Parísar til að giftast honum rændi Tómas 1. af Savoja henni og giftist henni sjálfur. Filippus giftist svo Agnesi af Meraníu (Dalmatíu) 7. maí 1196 og átti með henni tvö börn. Innósentíus III lýsti hjónaband þeirra ógilt þar sem Filippus væri enn giftur Ingibjörgu. Hann skipaði Filippusi að losa sig við hana og þegar hann varð ekki við því lýsti hann landið í bann 1199. Því var aflétt 7. september 1200, eftir að Filippus hafði sent Agnesi frá sér. Hann fékk því þó framgengt að börn þeirra voru lýst skilgetin. Hann tók heldur ekki Ingibjörgu til sín, heldur hafði hana í haldi í köstulum og klaustrum víða í Frakklandi. Herför til Flæmingjalands. Árið 1212 átti Jóhann í hörðum deilum við páfastól og Filippus sá sér þá leik á borði og ákvað að gera innrás í England. Til að fá stuðning páfa sættist hann við Ingibjörgu árið 1213 eftir að hafa í tuttugu ár reynt að losa sig við hana. Jóhann sættist að vísu einnig við páfa og samþykkti að England og Írland skyldu vera lénsríki páfastóls. Þá lét Innósentíus III Filippus vita að hann yrði að hætta við innrásina en Filippus réðist þá á Flæmingjaland í staðinn og settist um Ghent. Þangað frétti hann að enski flotinn hefði lokað þann franska inni í höfninni í Dam. Hann flýtti sér þangað en þegar hann sá að hann gæti ekki bjargað skipum sínum lét hann brenna þau frekar en að þau féllu í óvinahendur - og lét svo brenna borgina Dam í leiðinni. Hann kenndi íbúum Flæmingjalands um þennan ósigur og þegar hann hélt heim lét hann brenna og eyða öllum flæmskum bæjum og þorpum á leiðinni og drepa íbúana eða selja þá í þrældóm. Orrustan við Bouvines. Filippus vinnur sigur við Bouvines. Jóhanni steig sigurinn á franska flotanum til höfuð svo að hann fór að undirbúa innrás í Frakkland til að vinna aftur lönd sín. Hann hélt til La Rochelle í febrúar 1214. Jafnframt komu bandamenn hans, Ottó 4. keisari og greifinn af Flanders, úr norðri og mættu her Filippusar við Bouvines-brú. Filippus hafði um 15.000 manna her en andstæðingar hans samtals um 25.000 menn. Bardaginn var harður; Filippusi var hrundið af hesti sínum en hertygin björguðu lífi hans. Ferdínand greifi af Flæmingjalandi særðist illa og féll í hendur Frakka og særður hestur Ottós keisara hljóp með hann af vígvellinum. Þá lögðu menn þeirra á flótta og Filippus hélt í sigurför heim til Parísar en Jóhann sneri heim til Englands með skottið milli fótanna. Sigur Filippusar var afar afdrifaríkur. Jóhann hafði veikst svo mjög að skömmu síðar neyddist hann til að láta undan kröfum aðalsmanna og undirrita Magna Carta. Sigurinn styrkti hins vegar mjög konungsvaldið í Frakklandi. Eftirmæli og ævilok. Filppus 2. stóð fyrir margvíslegum framförum í ríki sínu. Hann lét helluleggja helstu götur í París og reisa markaðinn Les Halles. Hann hélt áfram byggingu Notre Dame, sem faðir hans hafði byrjað að reisa 1163, byggði Louvre-kastala og gaf Parísarháskóla stofnskrá árið 1200. Verslun og viðskipti efldust mjög á stjórnarárum hans, sem voru almennt velmegunarár í Frakklandi. Filippus 2. dó 14. júlí 1223 og tók Loðvík 8., sonur hans og Ísabellu fyrstu konu hans, við ríkjum eftir hann. Fylkisstjóri (Bandaríkin). Fylkisstjóraembættin, einnig nefnt ríkisstjóraembætti, eru æðstu embættisstöður innan fylkja (ríkja) Bandaríkjanna. Fylkisstjóri heyrir undir alríkið og takmarkast vald hans af því. Fylkisstjórinn er andlit ríkisins út á við ásamt því að veita framkvæmdavaldi þess forystu. Hlutverk og valdsvið. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um að landið sé bandalag fullvalda fylkja/ríkja sem deila fullveldi sínu með alríkinu og að þau völd sem ekki heyra undir ríkisstjórn alríkisins séu í höndum ríkjanna. Þar af leiðandi er ekki litið á fylkin sem héruð eða almennt sem svæði sem heyri undir stjórn alríkisins. Hvert fylki hefur sín eigin lög ásamt því að hafa sína eigin fylkistjórn. Fylkistjóri er hæstráðandi í hverju af þeim 50 fylkjum Bandaríkjanna og öðlast hann stöðu sína með beinni kosningu. Misjafnt er hversu mikil völd fylkisstjórar hafa en að öllu jöfnu hafa þeir talsverð völd hvað varðar ríkisfjárlög, skipunarvald yfir hinum ýmsu embættismönnum (þar á meðal mörgum dómurum) og einnig getur hann haft töluverð áhrif á lagasetningu. Þrátt fyrir mikil völd getur löggjafarvald sama fylkis, og í einhverjum tilfellum aðrir kjörnir handhafar framkvæmdavalds, temprað umrædd völd að einhverju leyti. Fylkisstjórinn getur einnig gegnt fleiri embættum, svo sem eins og æðsti yfirmaður varaherliðs fylkisins þegar það heyrir ekki beint undir alríkisvaldið "(e. federalized)" og í mörgum fylkjum og yfirráðasvæðum hefur fylkisstjórinn að nokkru eða öllu leyti vald til að milda eða veita sakaruppgjöf er varðar sektardóma í sakamálum. Kjör. Í öllum fylkjum Bandaríkjanna er fylkisstjóri kjörinn í beinum kosningum. Á þeim fimm landsvæðum sem ekki eru fylki en eru undir yfirráðum Bandaríkjanna, þ.e. Púertó Ríkó, Bandarísku Jómfrúaeyjar, Bandaríska Samóa, Gvam og Norður-Maríanaeyjar, eru engu að síður kjörnir fylkisstjórar í beinum kosningum. Allir fylkisstjórar sitja í fjögur ár nema þeir sem sitja í New Hampshire og Vermont en þeir sitja einungis í tvö ár. Neitunarvald. Allir fylkisstjórar hafa neitunarvald á lagafrumvörp ríkjanna. Í öllum ríkjum að sjö undanskildum getur fylkisstjóri beitt sérstöku sérneitunarvaldi "(e. line item veto)". Sérneitunarvald þetta, sem Bandaríkjaforseti hefur ekki, er á þann hátt að þeir fylkisstjórar sem hafa slíkt vald geta neitað einstökum ákvæðum innan frumvarpanna án þess að synja þeim í heilu lagi. Í sumum fylkjanna getur löggjafarvaldið hafnað neitunarvaldi ríkisstjóra með tveimur þriðju hluta atkvæða og í öðrum með þremur fimmtu hluta atkvæða. Í Alabama, Indiana, Kentucky og Tennessee getur löggjafarvaldið hafnað neitunarvaldi fylkisstjóra með einföldum meirihluta sem rýrir notagildi þess umtalsvert. Í Arkansas getur löggjafarvaldið hafnað neitunarvaldi fylkisstjóra með hreinum meirihluta og í Norður-Karólínu hafði ríkisstjóri ekki neitunarvald þar til slíkt vald var samþykkt í fylkisatkvæðagreiðslu árið 1996. Skipun öldungadeildarfulltrúa. Þegar losnar um sæti í öldungadeild Bandaríkjanna hafa fylkisstjórar í 47 af 50 ríkjum vald til að skipa fulltrúa í umrætt sæti þar til kosið er sérstaklega um hver skal taka það sæti og eru það ríkisstjórar Oregon, Alaska og Wisconsin sem hafa ekki þetta vald. Önnur hlutverk. Árlega halda flestir fylkisstjórar hina svokölluðu „Ræðu um ástand fylkisins“ "(e. State of the State Address)". Einnig eru fylkisstjórar viðstaddir ýmsar hátíðlegar uppákomur, til dæmis að veita hefðarfólki og þjóðhöfðingjum viðtöku, halda táknrænar viðhafnarræður og vera viðstaddir svonefnda ríkishátíð. Fylkisstjórar mega eiga sér opinber híbýli og kallast þau fylkisstjórasetur "(e. Governor´s Mansion)". Saga embættisins. Á nýlendutímum Bandaríkjanna var embætti fylkisstjóra öðruvísi þar sem hann var fulltrúi einveldisins innan ríkisins. Í fyrstu voru þeir kjörnir óbeint á þann hátt að löggjafarvald nýlendanna valdi fylkisstjóra. Síðustu ár aðdraganda bandaríska frelsisstríðsins breyttist fyrirkomulagið á vali á fylkisstjóra smám saman þar sem konungur Bretlands skipaði í stöðu fylkisstjóra. Á tímum bandaríska frelsisstríðsins flúðu allir fylkisstjórar sem skipaðir höfðu verið af konungi Bretlands nema Jonathan Trumbull sem hélt stöðu sinni gegnum stríðið. Mörgum hinna 50 fylkja Bandaríkjanna var stjórnað af alríkinu áður en þau voru skilgreind sem fylki. Þau svæði sem ekki voru skilgreind sem fylki voru engu að síður með fylkisstjóra sem tilnefndur var af forsetanum og síðan valinn af öldungadeild þingsins. Í dag eru fylkisstjórar hins vegar kosnir beint af íbúum fylkjanna. Allar stelpur úr að ofan. "Allar stelpur úr að ofan" er smáskífa með Dáðadrengjum sem kom út árið 2003. Esja (breiðskífa). "Esja" er breiðskífa með hljómsveitinni Esju sem kom út árið 2008. Breiðskífan er fyrsta plata hljómsveitarinnar. How to make friends. "How to make friends" er breiðskífa með hljómsveitinni FM Belfast sem kom út árið 2008. Hún hefur fengið dóma sem ein besta partýplata Íslands. Rahm Emanuel. Rahm Israel Emanuel (f. 29. nóvember 1959) er bandarískur stjórnmálamaður og fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins í ríkisstjórn Baracks Obama. Ævi. Hann er fæddur í Chicago Bandaríkjunum inn í fjölskyldu gyðinga og sem barn var hann settur í leikskóla sem starfar í nafni íhaldssamra gyðinga. Þegar fjölskylda hans flutti svo til bæsins Wilmette gékk hann í hefðbundnari opinbera barnaskóla. Síðan hann var ungur hefur hann dansað ballet og hefur hann B.A gráðu frá dansdeild Sarah Lawrence College. Eftir dansnámið fór hann í nám í Northwestern University þar sem hann öðlaðist meistaragráðu í "Speech and Communication" Í persaflóastríðinu árið 1991 vann hann sem sjálfboðaliði fyrir Ísraelska herinn. Pólitískur ferill. Pólitískur ferill Emanuel hófst þegar hann starfaði árið 1984 starfaði við kosningaherferð demókratans Paul Simon til öldungadeildarþings bandaríkjanna og fjórum árum seinna stjórnaði hann herferðum. Þegar Bill Clinton, þáverandi ríkisstjóri Arkansas bauð sig fram til forseta árið 1992 var Emanuel ráðin fjármálastjóri kosningabaráttunnar. Undir hans stjórn safnaði kosningasjóður Clinton 72 milljón dollurum sem var á þeim tíma mesta upphæð sem safnast hafði. Sagt var að þessum árangi hafi hann náð vegna þeirra tengsla sem hann átti við hóp fjársterkra gyðinga. Eftir að Clinton náði kjöri réð hann Emanuel sem einn af sínum helstu ráðgjöfum og starfaði Emanuel í Hvíta Húsinu frá 1993 til 1998. Starfsmannastjóri Hvíta hússins. Aðeins tveimur dögum eftir að Obama lýsti yfir sigri í forsetakosningunum 2008 var tilkynnt að Rahm Emanuel myndi gegna starfi starfsmannastjóra Hvíta hússins. Hlutverk starfsmannastjóra hvíta hússins er meðal annars að vera helsti ráðgjafi forsetans ásamt því að ráða aðra ráðgjafa forsetans og starfsmenn forsetaembættissins. Þá er fellur það einnig í hlutverk starfsmannastjórans að vera í sambandi við bandaríska þingið og aðra pólitíkusa og sjá til þess að stefna forsetans nái fram að ganga. Það er því ekki að ástæðulausu sem talað erum stöðuna sem eina þá áhrifamestu í bandarískum stjórnmálum. Ráðning Emanuels sem starfsmannastjóri var talsvert umdeild vegna tengsla hans við Ísrael og meintar síonískar skoðanir hans. Þó voru einhverjir sem töldu að ráðning hans væri góð með tilliti til friðarviðræðna á vesturbakkanum þar sem hann væri nógu harður og ákveðin til að sjá til þess að Ísraelar stöði frekari byggðir landnema á Gaza ströndinni. Framboð til borgarstjóra Chicago. Þann 30.september 2010 var tilkynnt að Emanuel myndi hætta sem starfsmannastjóri hvíta hússins til þess að fara í framboð til borgarstjóra Chicago. Pete Rouse var settur sem tímabundinn eftirmaður hans þann 2. oktober 2010. Persónulegt líf. Foreldrar hans eru Benjamin M. Emanuel, ísraelskur barnalæknir og Marsha Smulevitz, dóttir verkalýðsleiðtoga í Chicago. Emanuel er giftur Amy Rule og eiga þau saman einn son og tvær dætur. Bróðir Rahm, Ari Emanuel (f. 1961) er fyrirmynd umboðsmannsins Ari Gould í sjónvarpsþáttaröðinni Entourage, en Ari Emanuel hefur verið umboðsmaður fyrir fjölda þekktra leikara. Emanuel er giftur Amy Rule og eiga þau saman einn son og tvær dætur. Persónuleiki. Emanuel þykir harður í horn að taka og er hann þekktur fyrir mikinn skapofsa. Heimildir. Emanuel, Rahm Serpentyne. "Serpentyne" er breiðskífa með hljómsveitinni XIII sem kom út árið 1994. Upptökur á plötunni hófust sumarið 1994 og hún var hljóðblönduð í Grjótnámunni í Reykjavík af Ingvari Jónssyni og Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni. Platan var gefin út af Spor á íslandi, CNR Musik í Benelux og Sempahore gaf plötuna út í Þýskalandi, Sviss og Austurríki. Sólveig Anna Jónsdóttir. Sólveig Anna Jónsdóttir (f. 1975) er íslenskur aktivisti. Sólveig er formaður íslandsdeildar Attac-samtakanna og formaður Reykjavíkurfélags vinstri-grænna. Hún er einn hinna svokölluðu „nímenninga“ sem ákærðir hafa verið fyrir árás á Alþingi 8. desember 2008 í tengslum við búsáhaldabyltinguna. Sólveig starfar sem ómenntaður leikskólastarfsmaður. Sólveig er dóttir Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, útvarpsþuls. Hún er gift Magnúsi Sveini Helgasyni sagnfræðingi. John Kerry. John Forbes Kerry (f. 11. desember 1943) er öldungadeildarþingmaður á bandaríska þinginu fyrir demókrata. Hann er formaður þingnefndar öldungardeildaþingsins um utanríkismál (e. Foreign Relations Committee). Hann var í framboði til forseta fyrir demókrataflokkinn árið 2004 en tapaði þar fyrir George W. Bush. Kerry barðist í Víetnam en eftir að hann kom heim frá Víetnam var hann talsmaður fyrrverandi hermanna gegn stríðinu. Áður en Kerry settist á þing starfaði hann sem aðstoðarsaksóknari og vararíkisstjóri í Massachusetts, heimabæ sínum. Æviágrip. John Kerry, sonur Richard John Kerry (f. 1915) og Rosemary Forbes Kerry (f. 1913) fæddist í Massachusetts árið 1943. Hann og systkini hans þrjú ólust upp í kaþólskri trú. Kerry útskrifaðist úr Yale árið 1966 með BA-gráðu í stjórnmálafræði. Eftir að Kerry útskrifaðist frá Yale gekk hann í bandaríska sjóherinn. og barðist í Víetnamstríðinu. Hann þjónaði meðal annars sem sjóliðsforingi á hraðbát (e. Swift boat). Þegar Kerry sneri heim úr stríðinu í apríl 1969 starfaði hann fyrir herinn í ár en baðst þá snemmbúinnar lausnar frá herskyldu vegna þess að hann hugðist bjóða sig fram til þings það haust. Árið 1970 gekk Kerry í samtökin VVAW, samtök fyrrverandi bandarískra hermanna sem tóku þátt í Víetnamstríðinu en samtökin mótmæltu Víetnamstríðinu. Kerry var einn helsti talsmaður samtakanna en hann var fyrsti hermaðurinn til að bera vitni um stríðið í Víetnam fyrir þinginu þegar lögð var fram tillaga um að enda stríðið. Kerry tók meðal annars þátt í mótmælum ásamt þúsundum hermanna þar sem þeir hentu heiðursmerkjum og borðum frá hernum yfir girðingu fyrir framan þinghúsið. Kerry giftist Julia Thorne (f. 1944) árið 1970 og eignuðust þau tvær dætur. Kerry og Thorne skildu árið 1988 og fengu síðan hjónabandið ógilt árið 1997. Kerry giftist aftur árið 1995, þá stúlku að nafni Teresa Simões-Ferreira Heinz. Stjórnmálaferill. Árið 1972 bauð Kerry sig fram til þings en náði ekki kjöri en hugsanlega höfðu hneykslismál og ádeilur á hann áhrif auk þess sem aðeins nokkrum dögum fyrir kosningarnar dró sjálfstæður frambjóðandi framboð sitt tilbaka en mótframbjóðandi Kerry, repúblikaninn Paul W. Cronin, græddi á því og sigraði kosningarnar. Eftir ósigurinn í þingkosningunum hóf Kerry laganám sem hann lauk árið 1976 frá Boston-háskóla og tók þá strax lögmannspróf og fór að vinna sem saksóknari á skrifstofu ríkissaksóknara í Massachusetts. Síðar varð hann aðstoðarríkissaksóknari og svo ríkisstjóri Massachusetts árið 1982. Árið 1984 bauð Kerry sig fram til öldungardeildarþingi Bandaríkjanna og sigraði hann naumlega. Hann sór embættiseið í janúar 1985. Framboð til forseta. Árið 2004 tilkynnti Kerry að hann hygðist bjóða sig fram sem forsetaefni fyrir demókrata. Hlaut hann tilnefningu demókrataflokksins og keppti hann um forsetastólinn við George W. Bush. George W. Bush bar hins vegar sigur úr býtum og þann 3. nóvember 2004 tilkynnti Kerry um ósigur sinn í forsetakosningunum. Hópur fyrrverandi hermanna sem barist höfðu í Víetnam voru meðal þeirra sem börðust gegn því að Kerry ynni kosningabaráttuna. Kölluðu þeir sig „“ og er orðatiltækið „swiftboating“ komið frá þeim en það er notað yfir einhvers konar skítkast í kosningabaráttu. Þessi hópur dró í efa afrek Kerry í Víetnamstríðinu og gagnrýndi Kerry fyrir andhernaðar athafnir sínar með VVAW. Heimildir. Kerry, John Attac samtökin. Meðlimir Attac á mótmælafundi í Köln 2004 Attac (skammstöfun sem stendur fyrir "Association pour la taxation des transactions financières pour l'aide aux citoyens") eru samtök sem vinna að málefnum sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin urðu til árið 1998 í Frakklandi. Alls eru deildir 48 löndum um allan heim. Félagar eru alls yfir 85.000. Íslandsdeild Attac samtakanna var stofnuð 2009. Formaður Íslandsdeildar Atttac samtakanna er Sólveig Anna Jónsdóttir. Saga Attac samtakanna. Í desember árið 1997 skrifaði ritstjóri franska blaðsins "Le Monde diplomatique", Spánverjinn Ignacio Ramonet, grein í blaðið um nauðsyn þess að koma á örskatti á gjaldeyrisbrask, hinum svokallaða Tobin-skatti. Stofna þyrfti samtök sem myndu þrýsta á yfirvöld hvarvetna um að koma á þessum skatti. Í kjölfarið voru Attac samtökin stofnuð. Stefnumál Attac samtakanna. Upphaflegt stefnumið Attac var aðeins eitt, að krefjast þess að Tobin-skatt yrði komið á. Attac vinnur nú að fjölda málefna sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin hafa eftirlit með starfi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO; Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins AGS. Attac lítur ekki á sig sem andstæðing hnattvæðingar en gagnrýnir þá hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem samtökin líta á að stýri hnattvæðingunni. Þau styðja það sem þau kalla sjálfbæra hnattvæðingu og félagslegt réttlæti. Þá fordæma samtökin markaðsvæðingu samfélagsins. Eitt af slagorðum Attac er „Veröldin er ekki til sölu“. Starfsemi Attac samtakanna. Samtökin eru grasrótarsamtök en skipulag þeirra byggir á hugmyndum um valddreifingu. Hver deild er sjálfstæð og skipuleggur fundi, ráðstefnur og semur og dreifir kynningarefni. Nokkur munur er á starfsemi samtakanna milli landa en hver deild beinir spjótum sínum að neikvæðum birtingarmyndum hnattvæðingar og fjármálavæðingar í sínu eigin landi. Attac vill virkja almenning til baráttu, tengja saman fræðasamfélagið og almenning og fræða almenning um starfsemi alþjóðastofnana sem samtökin hafa eftirlit með, birtingarmyndir hnattvæðingar og afleiðingar fjármálavæðingar. Attac var einn af þeim aðilum sem skipulagði og boðaði til World Social Forum í Porto Alegre í Brasilíu 2001 en þar myndaðist vettvangur þar sem hnattvæðingu á forsendum nýfrjálhyggju var kröftuglega mótmælt. Heimildir. Árni Daníel Júlíusson, „Hvað er Attac“, http://www.attac.is/index.php?option=com_content&view=section&layout=blog&id=3&Itemid=41 Skoðað 29. september 2010, kl. 8:10. Adela af Champagne. Adela af Champagne (um 1140 – 4. júní 1206), einnig nefnd Adelaide og Alix í heimildum, var drottning Frakklands frá 1160 til 1180. Adela var dóttir Teóbalds 2. greifa af Champagne og Matthildar af Kärnten. Hún varð þriðja eiginkona Loðvíks 7. Frakkakonungs og giftust þau í nóvember 1160, aðeins fimm vikum eftir að önnur kona hans, Konstansa af Kastilíu, dó af barnsförum. Með henni eignaðist Loðvík eina son sinn, Filippus 2., sem kallaður var "Dieudonné" (guðsgjöf). Adela og bræður hennar, Hinrik 1. af Champagne, Teóbald 5. af Blois (sem báðir voru jafnframt tengdasynir Loðvíks) og Vilhjálmur erkibiskup af Reims höfðu mikil áhrif á stjórn ríkisins á seinni ríkisstjórnarárum Loðvíks. Þegar ríkiserfinginn, Filippus 2., giftist Ísabellu af Hainaut og tók að mestu við stjórn ríkisins 1179 og varð svo konungur 1180 þegar faðir hans lést, dró mjög úr völdum Adelu og bræðra hennar. Hún stýrði þó ríkinu upp úr 1190, þegar Filippus var í Þriðju krossferðinni, en dró sig í hlé árið 1192, þegar hann sneri aftur. Eftir það átti hún þó þátt í stofnun margra klaustra. Börn Adelu og Loðvíks voru Filippus (f. 21. ágúst 1165) og Agnes (líklega fædd 1171), keisaraynja í Býsansríkinu. Konstansa af Kastilíu. Konstansa af Kastilíu (1141 – 4. október 1160) var drottning Frakklands frá 1154 til dauðadags. Hún lést nítján ára að aldri þegar hún fæddi annað barn sitt. Konstansa var dóttir Alfons 7., konungs Galisíu, León og Kastilíu, og Berenguelu af Barcelona. Þrettán ára gömul giftist hún Loðvík 7. Frakkakonungi, sem hafði sagt skilið við fyrstu konu sína, Elinóru af Akvitaníu, tveimur árum fyrr. Opinbera ástæðan fyrir ógildingu hjónabands þeirra var sú að þau væru of skyld til að mega eigast samkvæmt kirkjulögum en Loðvík og Konstansa voru þó enn skyldari. Hið sama mátti raunar segja um Elinóru og seinni mann hennar, Hinrik 2. Englandskonung. Konstansa eignaðist dótturina Margréti 1158 og 4. október 1160 fæddi hún aðra dóttur, Alísu, en lést sama dag. Loðvík konungur átti þá fjórar dætur en engan son og var mjög í mun að tryggja ríkiserfðirnar, svo að hann giftist þriðju konu sinni, Adelu af Champagne, aðeins fimm vikum eftir lát Konstönsu. Ísabella af Hainaut. Ísabella af Hainaut (5. apríl 1170 – 15. mars 1190) var greifadóttir frá Hainaut og drottning Frakklands frá 1180 til dauðadags, fyrsta kona Filippusar 2. Frakkakonungs. Hún dó af barnsförum tæplega tvítug að aldri. Ísabella var dóttir Baldvins 5. greifa af Hainaut og Margrétar af Flæmingjalandi. Þann 28. apríl 1180, þegar hún var nýorðin tíu ára, giftist hún hinum tæplega fimmtán ára Filippusi, einkasyni og ríkisarfa Loðvíks 7. Frakkakonungs. Hann hafði verið krýndur meðkonungur föður síns haustið áður og var Ísabella krýnd drottning mánuði eftir brúðkaupið. Hún færði manni sínum greifadæmið Artois sem heimanmund. Tengdamóðir Ísabellu, Adela ekkjudrottning, og bræður hennar voru óánægð með valið á brúðinni en það var móðurbróðir hennar, Filippus greifi af Flæmingjalandi, sem hafði samið um hjónabandið við Loðvík konung. Filippus konungur taldi að héraðið Vermandois væri hluti af heimanmundi Ísabellu en það vildi Filippus greifi ekki fallast á. Þeir fóru í stríð 1181 og stóð það í nokkur ár. Árið 1184 reyndi Filippus að segja skilið við Ísabellu, bæði vegna þess að faðir hennar studdi mág sinn en ekki tengdasoninn og ekki síður vegna þess að hin fjórtán ára drottning hafði enn ekki alið honum erfingja. Róbert af Dreux, föðurbróðir konungs, gat þó talað um fyrir honum og þann 5. september 1187 ól Ísabella son, Loðvík, síðar konung. Hún varð aftur þunguð sumarið 1189 og var meðgangan mjög erfið. Þann 14. mars 1190 ól hún tvíbura sem lifðu aðeins fáa daga. Sjálf lést hún daginn eftir. Quarashi (breiðskífa). "Quarashi" er fyrsta breiðskífa með hljómsveitinni Quarashi sem kom út árið 1997. Xeneizes. "Xeneizes" er breiðskífa með hljómsveitinni Quarashi sem kom út árið 1999. Jinx. "Jinx" er breiðskífa með hljómsveitinni Quarashi sem kom út árið 2002. Kristnihald undir jökli (breiðskífa). "Kristnihaldi undir jökli" er breiðskífa með hljómsveitinni Quarashi sem kom út árið 2001. Guerilla disco. "Guerilla disco" er síðasta breiðskífa með hljómsveitinni Quarashi sem kom út árið 2004. Soka Gakkai. Soka Gakkai International ("SGI") eru samtök búddista með rúmlega 12 milljónir meðlima í 192 löndum og svæðum um allan heim. Fyrir meðlimi SGI er búddismi virk heimspeki sem stuðlar að jákvæðum hugarfarsbreytingum einstaklingsins, hvatningu til sjálfsþroska og ábyrgðar á eigin lífi. Saga. Soka Gakkai var stofnað 18. nóvember 1930, sem trúfélag á Nichiren búddisma. Markmið félagsins var að endurbæta Japanska skólakerfið og stofnandi þess Tsunesaburo Makiguchi gaf út bók þar sem trúað er að menntun, sjálfsvitund, viska og þroski leiði af sér ótakmarkandi möguleika. Á sama ári byrjaði heimstyrjöldin síðari og síðan þá hefur félagið stefnt að betrun samfélagsins í heild sinni. Við þessar breytingar tók Josei Toda við félaginu af forvera sínum og var forseti félagsins til ársins 1960. Árið 1960 tók Daisaku Ikeda við sem arftaki Toda. Hann var 32 ára þegar hann varð forseti Soka Gakkai árið 1960. Undir hans leiðsögn héldu samtökin áfram að vaxa og tóku upp víðtækari stefnu. Alþjóðasamtök Soka Gakkai voru stofnuð 1975 vegna ört vaxandi fjölda meðlima um allan heim. Í dag eru samtökin alþjóðleg hreyfing sem starfar í 190 löndum og svæðum. SGI á Íslandi var stofnað 17. júní 1980. Til að minnast stofnunar SGI leggur Ikeda fram þann 26. janúar ár hvert, tillögur til Sameinuðu þjóðanna þar sem hann bendir á aðferðir til að stuðla að friði. Nichiren búddismi. Heimspeki Nichiren má rekja til kenninga "Shakyamuni", sögulegs upphafsmanns búddismans sem var uppi á Indlandi fyrir um það bil 2.500 árum. Nichiren uppgötvaði að "Lótus kenningin" ("sútran") inniheldur kjarnann í kenningum búddismans og sannleikann sem Shakyamuni uppljómaðist um. Þessi sútra útskýrir að grundvallarlögmálið, svokallað búddaeðli, búi í öllu lífi. Hún staðfestir að allt fólk er fært um að öðlast djúpstæðan skilning á raunveruleika lífsins. Nichiren var búddamunkur uppi á þrettándu öld í Japan. Nichiren var fullkomlega sannfærður um að búddisminn gerði fólki kleift að takast á við raunveruleg vandamál í dagsins önn, efla lífskraft sinn og breyta lífi sínu til hins betra. Búddismi Nichiren leggur áherslu á djúpstæð tengsl milli okkar eigin hamingju og hamingju annarra. Dýpsta lífsfylling og ánægja fyrir okkar sjálf fæst með því að vinna að hamingju annarra. Kenningar hans staðhæfa að hver einstaklingur, burtséð frá kynþætti, kyni, hæfileikum eða félagslegri stöðu, búi yfir krafti til að yfirstíga óumflýjanleg viðfangsefni lífsins, þróa með sér innihaldsríkt skapandi líf og þannig hafa jákvæð áhrif á sitt nánasta umhverfi, þjóðfélagið og umheiminn. Speki. Meðlimir SGI og gestir þeirra koma saman á mánaðarlegum umræðufundum og ræða um hin ýmsu málefni er varða lífið og tilveruna og hvernig hægt er að nýta kenningar búddismanns í daglegu lífi. Meðlimir samtakanna deila með sér framtíðarsýn um betri heim. Heimspeki búddisma SGI er undirstaða hreyfingarinnar, sem leggur áherslu á frið, menningu og menntun. Sem leikmenn og „virkir búddistar“ leggja meðlimir SGI sig daglega fram um að þroska með sér trú á lífið, skapa verðmæti við allar kringumstæður og leggja sitt af mörkum fyrir velferð fjölskyldu, vina og samfélagsins. Megin áherslan í starfsemi SGI felst í að efla frið, menningu og menntun. Samræður þessar og önnur verk hans hafa verið gefin út á 24 tungumálum. Sem aðildarsamtök og meðlimir Soka Gakkai International (SGI), helgum við okkur þeim markmiðum og hlutverki að leggja okkar af mörkum til friða, menningar og menntunar, með heimspeki og hugsjónir búddhisma "Nichiren Daishonin" að leiðarljósi. Við gerum okkur grein fyrir að aldrei fyrr í sögunni hefur mannkynið upplifað samtímis jafn gífurlegar andstæður stríðs og friðar, mismununar og jafnréttis, fátæktar og allsnægta eins og á 20. öldinni. Þróun á sífellt flóknari hernaðartækni eins og kjarnorkuvopnum hefur skapað ástand þar sem sjálf lífsafkoma mannkynsinsins hangir á bláþræði. Sá raunveruleiki sem felur í sér ofbeldisfulla mismunun og aðgreiningu á þjóðarbrotum og trúarbrögðum býður upp á endalausa hringrás átaka. Eigingirni og óhóf mannkynsins hafa orsakað vandamál á heimsmælikvarða. Þeirra á meðal eru vanvirðing á náttúrunni og sívaxandi efnahagsleg gjá milli ríkra og fátækra þjóða, sem hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir sameiginlega framtíð mannkynsins. Við trúum því að búddisminn, mannúðarheimspeki Nichiren Daishonin, byggð á óendanlegri virðingu fyrir helgi lífsins og umhyggju fyrir öllu lífi, geri einstaklingnum fært að rækta og birta meðfædda visku. Hún nærir sköpunargáfu mannsandans sem gerir einstaklingum kleift að yfirstíga erfiðleika og þær ógnir sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þannig getur vonin um samfélög sem þrífast hlið við hlið í friðiog velgengni orðið að veruleika. Meðlimir og aðildarsamtök SGI eru ákveðin í að halda á lofti merki heimsborgarans, í anda umburðarlyndis og virðingar fyrir mannréttindum, með mannúð búddismans að leiðarljósi. Við tökumst á við þau sameiginlegu vandamál sem mannkynsið stendur frammi fyrir með viðræðum og raunhæfu framtaki byggðu á staðfastri skuldbindingu okkar um baráttu án ofbeldis. Hér með fylgjum við þessari stefnuskrá og staðfestum eftirfarandi ásetninga og grundvallaratriði. Hægt er að draga saman kjarnann í heimspeki SGI í hugtakinu „mannúðarbylting.“ Þetta er sú hugmynd að sjálfsprottin löngun einstaklings til jákvæðra innri breytinga í lífi sínu muni hafa áhrif á hið stóra net lífsins og muni að lokum leiða til endurnýjunar mannlegs samfélags. Newt Gingrich. Newton Leroy 'Newt' Gingrich (fæddur 17. júní 1943) er bandarískur stjórnmálamaður sem gegndi embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá árinu 1995 til ársins 1999. Gingrich sat á þingi fyrir Repúblikanaflokkinn frá 1979 þar til hann sagði af sér 1999 í kjölfar kosninganna 1998 til Bandaríkjaþings þar sem repúblikanaflokkurinn tapaði 5 þingsætum til demókrata. Gingrich hefur í seinni tíð verið harður gagnrýnandi Barack Obama forseta Bandaríkjanna en Gingrich hefur meðal annars skrifað bókina "To Save America: Stopping Obama's Secular-Socialist Machine" sem var gefin út 2010. Ævi og menntun. Newt Gingrich var fæddur þann 17. júní árið 1943 í Harrisburg, Pennsylvaníu. Hann lærði sagnfræði við Emory-háskóla í Atlanta og síðar Tulane-háskóla í New Orleans, en við þann síðarnefnda hlaut hann doktorsgráðu í evrópskri samtímasagnfræði árið 1971. Doktorsritgerð Gingrich fjallaði um menntastefnu Belga í Kongó á árunum 1945 til 1960. Að loknu námi tók Gingrich upp kennslu á háskólastigi og kenndi allt fram til 1978. Stjórnmál. Gingrich bauð sig fram til fulltrúadeildarinnar árin 1974 og 1976 en hafði ekki erindi sem erfiði og þurfti að lúta í lægra haldi fyrir demókratanum Jack Flynt sem var þá fulltrúi á þingi fyrir Georgíufylki, heimafylki Gingrich. Árið 1978 bauð Gingrich sig fram á nýjan leik. Þá gaf Flynt hinsvegar ekki kost á sér til endurkjörs og Gingrich sigraði demókratann Virginia Shapard örugglega. Gingrich sat á þingi frá 1979 til 1999. Í janúar 1995 var Gingrich kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar og varð í kjölfarið, í nokkrum skilningi, andlit repúblikanaflokksins og andstöðu hans gegn þáverandi forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton. Í þingkosningunum 1998 galt repúblikanaflokkurinn afhroð og tapaði 5 sætum til andstæðinga sinna í demókrataflokknum. Í kjölfarið lét Gingrich af embætti sínu bæði sem forseti fulltrúadeildarinnar og sem fulltrúadeildarþingmaður. Gingrich hefur haldið áfram að vera hávær rödd í bandarískri stjórnmálaumræðu og er tíður gestur í útvarps- og sjónvarpsþáttum sem snúa að stjórnmálum. Orðrómar voru á tímabili uppi um að Gingrich væri að skoða þann möguleika að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna í forsetakosningunum árið 2012. Heimildir. Gingrich, Newt John Hancock. John Hancock (fæddur 23. janúar 1737, látinn 8. október 1793) var bandarískur kaupmaður og stjórnmálamaður ásamt því að vera mikilvægur þáttakandi í bandarísku byltingunni. John Hancock er talinn til "landsfeðra" Bandaríkjanna. Fjölskylda. Hancock var fæddur í Braintree Massachusetts foreldrar hans voru John Hancock og Mary Hawke Thaxter. Eftir andlát föður hans (1744) var hann sendur til að búa hjá frænda sínum Thomas Hancock og konu hans Lydia (Henchman) Hancock. Í æsku kynntist hann John Adams sem síðar varð forseti Bandaríkjanna. Menntun og störf. John Hancock gekk í Boston Latin School og útskrifaðist þaðan 1750 eftir það stundaði hann nám í Harvard-háskóla og útskrifaðist þaðan 1754. Eftir útskriftina byrjaði hann að vinna í skipafyrirtæki frænda síns en á sama tíma var háð stríð milli Bretlands og Frakklands í Norður-Ameríku (1754-1763). Frá 1760 til 1761 bjó hann í Bretlandi þar sem hann vann að myndun betri viðskiptasambanda fyrir fyrirtækið, þegar hann sneri til baka var heilsa frænda hans farin að versna, árið 1763 varð hann meðeigandi í fyrirtækinu. Fljótlega eftir að hann hafði orðið meðeigandi lést frændi hans og hann erfði allt fyrirtækið árið 1764. Stjórnmálaferill. Á stjórnmálaferli sínum starfaði hann sem forseti Annars meginlandsþings Bandaríkjanna, sem undirritaði sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna, og var einnig sá fyrsti til að undirrita hana. Sjálfstæðisyfirlýsingin sem var formleg útskýring á því hvers vegna þingið hefði ákveðið að slíta stjórnmálatengslum við England, hún var samþykkt þann 4 júlí 1776 sem hefur síðan verið þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna. Hancock gegndi einnig embætti sem fyrsti og þriðji ríkisstjóri Massachusetts. Fyrir byltinguna var hann mjög auðugur maður eftir að hafa erft stórt skipa fyrirtæki frá frænda sínum. Hancock hóf sinn feril í stjórnmálum í Boston þar sem hann var lærlingur Samuel Adams en hann var áhrifamikill stjórnmálamaður þess tíma. Eftir að spenna jókst á milli Breta og Bandaríkjamanna valdi Hancock að nota auðæfi sín í að styrkja byltinguna en hann naut mikillar hilli fyrir það í Massachusetts. Þátttaka hans í byltingunni. Uppi hafa verið deilur um hvort Hancock hafi í raun verið að smygla varningi, hann var þó ákærður í nokkrum tilfellum án þess að hann væri dæmdur sekur. Orðspor hans gerði hann að vinsælum manni meðal alþýðunnar þó það hafi aldrei verið sannað að hann væri smyglari. Hancock, John Sam Worthington. Samuel Henry J. „Sam“ Worthington (fæddur 2. ágúst 1976) er ástralskur leikari. Emily Browning. Emily Jane Browning (fædd 7. desember 1988) er áströlsk leikkona. Sambandssinnaflokkurinn. Flokkur Sambandssinna . Sambandssinna flokkurinn (enska: The Federalist Party) var bandarískur stjórnmálaflokkur sem var starfandi á tímabilinu 1792 – 1816. Flokkurinn var stofnaður af Alexander Hamilton, sem á fyrsta kjörtímabili George Washington sem forseti byggði upp hóp stuðningsmanna sem að mestu voru aðilar innan fjármála- og bankakerfisins, til að styðja við efnahagsstefnu sína. Sambandssinna flokkurinn lagði megin áherslu á borgaraleg gildi, þjóðernishyggju og efnahagslega trausta stjórn ríkjasambandsins. Stefna. Stefna sambandssinna var að koma á fót opinberum seðlabanka, setja á tolla ásamt því að stuðla að góðum samskiptum við Breta. Leiðtogi rebúblikana-demókrata, Thomas Jefferson, fordæmdi ásamt flokki sínum stefnu Sambandssinna í meginatriðum. Sérstaklega varðandi Seðlabankann og samskiptin við Breta. En rebúblikanar töldu að með stefnu sambandssinna væri verið að svíkja hugsjónir lýðveldissinna í hendur breska heimsveldinu. Áhrif og afdrif. Sambandssinnar héldu sterkri stöðu á þéttbýlli svæðum Bandaríkjanna en rebúblikana-demókratar voru sterkari í dreifðari byggðum suðurríkjanna. Í kosningunum árið 1800 sigruðu rebúblikanar og sambandssinnar náðu aldrei aftur völdum en þeir þóttu of hallir undir yfirstéttina og áttu því erfitt með að sækja stuðning til millistéttarinnar. Að lokum þurkaðist flokkurinn nánast út eftir stríðið við Breta 1812. Áhrifa sambandssinna og stefnu þeirra gætir þó enn í formi styrkra stoða undir ríkisstjórnina ásamt traustum grunni fjármálakerfisins. Codex Basilensis. Codex Basilensis (Skammstafað E (Wettstein), 07 (Gregory) eða ε 55 (von Soden) er með handrit af Nýja testamentinu. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 8. öld e.Kr. Handritið er geymt í Háskólanum í Basel (AN III 12). Í handritinu eru textar guðspjallanna fjögurra. Handritið er nú 318 blöð (23 x 16,5 cm). Textinn er í 1 dálki, 23 línur á hverri síðu. Júragarðurinn. Júragarðurinn er bandarísk kvikmynd frá árinu 1993 í leikstjórn Stevens Spielberg. Myndin er byggð er á samnefndri bók eftir Michael Crichton frá árinu 1990. Myndin fjallar um eyju þar sem tekist hefur að endurskapa risaeðlur með nútímatækni. Júragarðurinn var langvinsælust kvikmynda á Íslandi árið 1993. 78.000 manns sáu myndina í Háskólabíói, Reykjavík og Sambíóunum. Hraunlýjur. Hraunlýjur eru gjóska sem er undirflokkur gosbergsmyndana. Hraunlýjur eru langir, örmjóir þræðir sem líkjast hárum. Myndast við storknun í þunnfljótandi, gasríkri, basískri kviku þegar loftbólur springa, kvikan slettist upp í loft og teygist í langa þræði. Alexander Hamilton. Alexander Hamilton (11. janúar 1755 – 12. júlí 1804) var fyrsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna (1789-1795) og einn hinna svokölluðu „landsfeðra“ Bandaríkjanna. Í bandarísku byltingunni barðist Hamilton við hlið George Washington og var einn nánasti ráðgjafi hans. Að stríði loknu, árið 1782, var Hamilton kosinn á Sambandsþingið sem fulltrúi New York, en hann sagði því starfi lausu til að helga sig lögmennsku og bankarekstri. Stjórnmálaskoðanir Hamiltons. Hamilton var einn af fremstu lögspekingum síns tíma í Bandaríkjunum og einn mikilvægasti áhrifavaldur á stjórnskipunarrétt í Bandaríkjunum. Um helmingur "The Federalist Papers" var saminn af Hamilton og sem fulltrúi New York ríkis á Sambandsþinginu var hann einn þeirra sem undirrituðu Stjórnarskrá Bandaríkjanna árið 1789. Hamilton var talsmaður sterks miðstjórnarvalds og lagði grunninn að fjármálakerfi Bandaríkjanna með útgáfu ríkisskuldabréfa en ríkisfjármál og skuldir bæði alríkisins og einstakra ríkja voru í upplausn að loknu frelsisstríðinu. Hamilton kom því einnig til leiðar að stofnaður var fyrsti seðlabanki Bandaríkjanna, The Bank of the United States. Hamilton var einn stofnenda Flokks Sambandssinna, "The Federalist Party", fremsti hugmyndafræðingur flokksins og höfundur stefnumála hans. Helsti andstæðingur Hamiltons í stjórnmálum var Thomas Jefferson og stjórnmálaflokkur hans, Demokratískir repúblíkanar. Jefferson hélt því fram að Hamilton væri of hallur undir sterkt miðstjórnarvald og hagsmuni peningaafla í borgum vesturstrandarinnar. Illdeilur Hamiltons og Arons Burr. Hamilton lést árið 1804 í einvígi við pólítískan andstæðing, Aaron Burr. Aðdragandi einvígisins voru illdeilur og óvinskapur Burrs og Hamiltons sem átti meðal annars rætur í forsetakosningunum 1800. Í forsetakosningunum það ár fengu Thomas Jefferson og Burr jafn marga kjörmenn og kom það því til kasta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kjósa forseta. Burr og Jefferson nutu hins vegar jafn mikils fylgis í þinginu og var það ekki fyrr en Hamilton lýsti yfir stuðningi við Jefferson sem hann náði meirihluta og var kjörinn forseti. Burr varð þá varaforseti Jeffersons. Ástæða þess að Hamilton kaus að styðja þennan pólítíska andstæðing sinn var sú að hann taldi Burr óheiðarlegan og óttaðist stjórnmálaskoðanir hans. Sögulegur arfur. Á nítjándu öldinni var Hamilton hampað af Viggum (the Whig party) og síðar hinum nýstofnaða Repúblíkanaflokk sem einum mikilvægasta landsföður Bandaríkjanna. Hamilton, Alexander Hamilton, Alexander Christine O'Donnell. Christine O'Donnell (fædd Christine Therese O'Donnell 27. ágúst 1969) er fulltrúi Repúblikanaflokksins í Delaware fyrir komandi þingkosningar í Bandaríkjunum sem haldnar verða 2. nóvember 2010. Persónuhagir. Hún hefur unnið við markaðsmál, almannatengsl og sem fréttaskýrandi fyrir Fox News. O'Donnell er af írskum og ítölskum ættum og ólst hún upp í Moorestown, New Jersey. Hún er önnur yngst af sex systkinum og var alin upp í kaþólskri trú en í dag aðhyllist hún evangelíska kristni. O'Donnell er ógift og barnlaus. Framboð 2010. O'Donnell er hluti af svokallaðri Teboðshreyfingu og staðsetur sig sem repúblikana sem vill halda í ákveðin gildi, þegar kemur að samfélaginu í heild. Einn helsti leiðtogi Teboðshreyfingarinnar er Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaefni repúblikana. O'Donnell sigraði fyrrverandi ríkisstjórann Michael N. Castle, sem þótti sigurstranglegur en það kom mörgum á óvart að hún hafði betur og sýnir hvað Teboðshreyfingin er sterkt stjórnmálaafl. O'Donnell sigrað Castle með 6 prósenta mun og fékk meira en 30 þúsund atkvæði. Samkvæmt "New York Times" eru það aðallega stuðningsmenn úr suðurhluta Delaware fylki sem vilja sjá hana í embætti og eru þeir flestir íhaldssamir repúblikanar. Fyrri framboð. Árið 2006 bauð O'Donnell sig fram í forkosningum fyrir repúblikana í Delaware. Hún hafnaði í þriðja sæti með 17 prósent atkvæða á eftir Michael D. Protack og sigurvegaranum Jan C. Ting. Sama ár bauð hún sig fram í almennum kosningum sem „write-in candidate“ (frambjóðandi sem ekki er á nafnalista á kjörseðli en getur hlotið atkvæði ef að kjósandi bætir nafni frambjóðandans á listann). Hún bauð sig fram á móti Jan C Ting og Thomas R. Carper og var Carper endurkjörinn. Árið 2008 var hún tilnefnd fyrir hönd Repúblikanaflokksins og skákaði þar viðskiptamanninum Tim Smith. Í almennu kosningunum sama ár var mótherji hennar öldungadeildarþingmaðurinn Joe Biden en hann var einnig á þeim tíma að bjóða sig fram til varaforseta Bandaríkjanna og var útnefndur í það af Barack Obama. O'Donnell gangrýndi Biden fyrir að vera í tveimur kosningabaráttum á sama tíma og vilja ekki taka þátt í rökræðum og opinberri umræðu. Biden sagði öldungadeildarstöðunni lausri þann 15. janúar 2009 í kjölfar þess að vera kosinn 47. varaforseti Bandaríkjanna. Biden sigraði O'Donnell með 65 prósentum atkvæða gegn 35 prósentum. Árið 2008 var það tilkynnt að sérstakar kosningar yrðu haldnar samhliða almennu kosningunum 2010 um öldungadeildarsætið sem fór til starfsmannastjóra Biden, Ted Kaufman sem átti að sitja í tvö ár af þeim sex sem Biden átti að sitja. O'Donnell var ekki lengi að tilkynna framboð sitt í þá kosningabaráttu. Stefnumál og skoðanir. Aðal stefnumál O'Donnell er að setja sig upp á móti heilbrigðisfrumvarpinu og fella það úr gildi og koma á heilbrigðiskerfi sem útilokar samkeppni. Hún er ekki hlynnt því að auka skatta og er einnig harður talsmaður gegn fóstureyðingum, nema í sérstökum tilfellum. Hún vill harðari refsingar gegn vinnuveitendum sem ráða ólöglega innflytjendur og vill einnig hækka aldur varðandi bótaþega. O'Donnell hefur flaggað sínum skoðunum í gegnum tíðina og ekki farið leynt með þær. Hún hefur mótmælt sjálfsfróun og kynlífi sem ekki leiðir til getnaðar, gagnrýnt þróunarkenningu Darwins og sagt að samkynhneigðir séu haldnir blekkingu um eigið sjálf. O'Donnell, Christine Gordon Gekko. Gordon Gekko er karakter í kvikmyndunum Wall Street (1987) og (2010) eftir Oliver Stone. Gekko er leikinn af Michael Douglas, og er túlkun hans á hinum ógeðfellda Gekko í fyrri myndinni talin einn besta frammistaða Douglas í kvikmynd. Árið 1988 hlaut Douglas Óskarsverðlaunin, sem besti karlleikari í aðalhlutverki fyrir það hlutverk. Karakter Gekko. Í kvikmyndinni Wall Street (1987) er Gekko umbreytingarfjárfestir sem kaupir fyrirtæki í skuldsettum yfirtökum þeim tilgangi einum að hagnast á því að leysa þau upp og selja eignir. Slík viðskipti eru kölluð fyrirtækjagripdeildir (e: "corporate raiding"). Gekko, sem er holdgerfingur græðgi og öfga Wall Street á níunda áratugnum, hefur verið valinn 24. best heppnaða íllmenni kvikmyndasögunnar. Fyrirmyndir að Gekko. Gekko er byggður á „ruslbréfakonginum“ Michael Milken, verðbréfasala hjá fjárfestingarbankanum Drexel Burnham Lambert sem varð gjaldþrota 1990. Ástæða gjaldþrotsins var ekki síst viðamikil rannsókn Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna á starfsemi Milken. Árið 1990 játaði Milken ýmis brot á skattalögum og lögum um verðbréfaviðskipti og sat tvö ár í fangelsi frá 1991-1993. Smallville (1. þáttaröð). Smallville er bandarísk ofurhetjuþáttaröð. Sýningar á fyrstu þáttaröðinni hófust þann 24. október 2001 og þeim lauk 21. maí 2002. Þættirnir voru 21 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Aðalleikarar. Sam Jones III sem Pete Ross Gestaleikarar. Mitchell Kosterman sem Ethan Miller fógeti Hiro Kanagawa sem H. James Kwan skólastjóri Joe Morton sem Steven Hamilton læknir Jade Unterman sem ung Lana Lang Malkolm Alburquenque sem ungur Clark Kent Matthew Munn sem ungur Lex Luthor Chad E. Donella sem Greg Arkin Loðvík 8. Frakkakonungur. Loðvík 8. (5. september 1187 – 8. nóvember 1226) eða Loðvík ljón var konungur Frakklands frá 1223 til dauðadags. Hann var einnig greifi af Artois frá 1190 og erfði þann titil eftir móður sína. Loðvík var af ætt Kapetinga, sonur Filippusar 2. Frakkakonungs og fyrstu konu hans, Ísabellu af Hainaut. Móðir hans dó þegar hann var á þriðja ári 23. maí árið 1200, þegar Loðvík var tólf ára, giftist hann Blönku af Kastilíu, sem var hálfu ári yngri. Hjónabandið var hluti af friðarsamningum á milli Filippusar og Jóhanns landlausa Englandskonungs, móðurbróður Blönku. Englandsherför Loðvíks. Þegar enskir aðalsmenn gerðu uppreisn gegn Jóhanni konungi árið 1216 buðu þeir Loðvík krónprinsi krúnuna. Hann sigldi til Englands með herlið, steig á land 21. maí 1216 og mætti lítilli mótspyrnu. Hann hélt þegar í stað til London og var lýstur konungur Englands í Pálskirkju. Hann var þó ekki krýndur konungur en fjöldi aðalsmanna kom á fund hans og vottaði honum hollustu og það gerði Alexander 2. Skotakonungur einnig. Ekki leið á löngu þar til Loðvík réð yfir hálfu Englandi og sigurinn virtist vís. En þá dó hinn óvinsæli Jóhann konungur og í ljós kom að margir aðalsmannana kusu fremur að þjóna níu ára syni hans, Hinrik 3., en frönskum konungi. Loðvík tapaði orrustu við Lincoln 20. maí 1217 og þegar hann fékk engan stuðning frá föður sínum, Filippusi konungi, og sjóher hans beið einnig lægri hlut neyddist hann til að semja frið og viðurkenna að hann hefði aldrei verið löglegur konungur Englands. Konungur Frakklands. Krýning Loðvíks 8. og Blönku. Þann 14. júlí 1223 lést Filippus konungur og Loðvík tók við. Hann var krýndur í Reims 6. ágúst sama ár. Hann hélt áfram stríðinu við Englandskonung en nú á franskri grund og réðist á þær lendur sem Hinrik 3. átti enn á meginlandinu og hertók meðal annars héraðið Languedoc. Loðvík átti líka í hörðum deilum við Teóbald 4., greifa af Champagne, en ekki kom þó til átaka á milli þeirra. En árið 1226 réðist Loðvík í herför (kallaða krossferð) gegn Raymond 7. greifa af Toulouse, sem páfinn hafði bannfært fyrir stuðning við kaþara, og varð vel ágengt. Hann hertók meðal annars borgina Avignon, sem áður hafði heyrt undir hið Heilaga rómverska ríki en tilheyrði eftir þetta Frakkakonungi. En á heimleiðinni veiktist hann af blóðkreppusótt og dó 8. nóvember 1226 í Montpensier-höll í Auvergne. Hann er grafinn í St. Denis-klausturkirkjunni í París. Loðvík og Blanka eignuðust þrettán börn en aðeins fimm komust til fullorðinsára. Elsti eftirlifandi sonurinn, Loðvík 9., varð konungur við lát föður síns, tólf ára gamall, og var móðir hans ríkisstjóri fyrstu árin. Önnur börn þeirra voru Róbert greifi af Artois, sem féll í Egyptalandi 1250 í Sjöundu krossferðinni, Alfons, greifi af Poitiers, sem dó á heimleið úr Áttundu krossferðinni, heilög Ísabella og Karl, konungur Sikileyjar. Blanka af Kastilíu. Blanka af Kastilíu (4. mars 1188 – 26. nóvember 1252) var konungsdóttir frá Kastilíu, drottning Frakklands frá 1223 til 1226 og síðan ríkisstjóri fyrir Loðvík 9. son sinn þar til hann varð fullveðja. Blanka var dóttir Alfons 8., konungs Kastilíu, og Elinóru drottningar, sem var dóttir Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu. Þegar Filippus 2. Frakkakonungur og Jóhann landlausi Englandskonungur, móðurbróðir Blönku, sömdu frið sín á milli árið 1200 var eitt af ákvæðum samningsins að Loðvík, krónprins Frakklands, skyldi giftast dóttur Elinóru. Upphaflega mun Urraca, systir Blönku, hafa átt að vera brúðurin en þegar Elinóra amma þeirra kom til Kastilíu að sækja hana var það álit hennar að Blanka yrði hentugri Frakklandsdrottning og hún fór því með hana til Frakklands í staðinn vorið 1200. Loðvík krónprins og Blanka gengu í hjónaband 23. maí árið 1200 og voru þá bæði tólf ára að aldri. Þegar enskir aðalsmenn gerðu uppreisn gegn Jóhanni konungi árið 1216 ákváðu þeir að bjóða Loðvík prinsi ensku krúnuna vegna þess að Blanka var barnabarn Hinriks 2. og börn þeirra voru því afkomendur Englandskonunga. Loðvík hélt þá í herför til Englands og varð vel ágengt. En þegar Jóhann dó í október 1216 kusu Englendingar fremur Hinrik 3. son hans en franskan konung og snerust gegn Loðvík. Þrátt fyrir öflugan stuðning Blönku, sem sendi honum flota frá Calais, varð hann að semja um frið og yfirgefa England. Loðvík varð konungur og Blanka drottning 1223 en Loðvík dó aðeins þremur árum seinna. Þá lifðu sjö af þrettán börnum þeirra (það yngsta, Karl, á fyrsta ári) en tveir synir dóu innan fárra ára og aðeins fimm komust upp. Elsti sonurinn, Loðvík, varð konungur en hann var aðeins tólf ára og móðir hans varð ríkisstjóri. Hún reyndist dugmikill og ákveðinn stjórnandi og tókst að bæla niður mótstöðu franskra aðalsmanna og verjast árásum Hinriks Englandskonungs. Hún ávann sér virðingu og aðdáun aðalsmannanna og telja má víst að Loðvík sonur hennar hafi átt henni að þakka að ríkið hélst saman. Hann tók við völdum 1234 en móðir hans hafði þó áfram mikil áhrif. Loðvík giftist Margréti af Provence árið sem hann tók við völdum en samskipti þeirra tengdamæðgnanna voru ekki góð og Blanka vildi helst ekki að Loðvík og Margrét eyddu neinum tíma saman, nema þá í rúminu við að afla erfingja. Loðvík fór í krossferð 1248, þvert gegn vilja móður sinnar, og varð hún þá aftur ríkisstjóri. Henni tókst að halda friði heima fyrir um leið og hún kreisti út fé og mannafla til að senda syni sínum til Austurlanda og þurfti að útvega morð fjár til að kaupa Loðvík lausan þegar Egyptar hertóku hann. En hún var orðin roskin og á endanum þoldi hún ekki álagið, veiktist í nóvember 1252 og dó fáum dögum seinna. Landsfeður Bandaríkjanna. Með hugtakinu Landsfeður Bandaríkjanna er yfirleitt átt við þá stjórnmálamenn sem tóku þátt í samningu tveggja grundvallarskjala Bandaríkjanna, Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna árið 1776 eða Stjórnarskrár Bandaríkjanna á árunum 1788-89. Í Bandaríkjunum er stundum gerður greinarmunur er stundum gerður á þessum tveimur hópum með því að vísa til þeirra sem sömdu sjálfstæðisyfirlýsinguna sem „the signers“ og þeirra sem sömdu stjórnarskrána sem „the framers“. Uppruni hugtaksins. Fyrstur til að nota hugtakið landsfeður Bandaríkjanna var Warren G. Harding árið 1916. Harding notaði hugtakið nokkrum sinnum á næstu árum, meðal annars í ræðu sem hann flutti er hann sóð embættiseið sem forseti Bandaríkjanna, 1921. Skilgreining. Sagnfræðingar notast yfirleitt við mun breiðari skilgreiningu á hugtakinu landsfeður. Í stað þess að vísa einvörðungu til stjórnmálamanna sem sátu á Öðru meginlandsþingi Bandaríkjanna sem samdi og samþykkti sjálfstæðisyfirlýsinguna eða Sambandsþinginu sem samdi og samþykkti Stjórnarskrá Bandaríkjanna, tala sagnfræðingar ekki aðeins um alla þá stjórnmálamenn, lögspekinga og blaðamenn sem tóku þátt í umræðum um þessi skjöl sem landsfeður Bandaríkjanna, heldur líka alla þá sem börðust í bandarísku byltingunni eða tóku með öðrum hætti þátt í því að leggja grunn að sjálfstæði Bandaríkjanna. Að undanförnu hefur hugtakið landsfeður sætt gagnrýni á þeim forsendum að það sé óeðlilega karllægt og geri lítið úr hlut kvenna við stofnun Bandaríkjanna. Í því sambandi hefur verið talað um landsmæður en margir sagnfræðingar og stjórnmálamenn tala nú orðið einfaldlega um stofnendur Bandaríkjanna (e: "The Founders"). Sjö mikilvægustu landsfeðurnir, að mati bandaríska sagnfræðingsins Richard B. Morris eru: Benjamin Franklin, George Washington, John Adams, Thomas Jefferson, John Jay, James Madison, og Alexander Hamilton. Meðal annarra þekktra landsfeðra Bandaríkjanna má nefna Samuel Adams, og John Hancock. Berta af Hollandi. Berta drottning. Filippus sagði hana of feita en listamaðurinn sem gerði þessa mynd hefur verið annarrar skoðunar. Berta af Hollandi (um 1055 – 1093) var drottning Frakklands frá 1072 til 1092 en þá sagði Filippus konungur skilið við hana og tók sér aðra konu. Berta var dóttir Floris 1., greifa af Hollandi, og konu hans, Geirþrúðar af Saxlandi. Floris dó 1061 og Geirþrúður giftist Róbert 1. greifa af Flæmingjalandi, sem kallaður var Róbert Fríslendingur. Hann gerði friðarsamning við Filippus 1. Frakkakonung árið 1072 og í þeim samningi fólst meðal annars að Filippus skyldi ganga að eiga Bertu. Níu ár liðu þar til Berta fæddi ríkiserfingjann Loðvík og er sagt að einsetumaðurinn Arnoul hafi beðið fyrir frjósemi drottningar og og gefið drengnum nafn. Þau eignuðust síðan fleiri börn, þar á meðal dótturina Konstönsu, sem giftist Húgó 1. af Champagne og síðan Bohemund 1. af Antiokkíu, og soninn Karl, sem varð ábóti. Árið 1092 sagði Filippus skilið við Bertu á þeirri forsendu að hún væri of feit. Hann kom Bertu fyrir í virkinu Montreuil-sur-Mer, þar sem hún var í stofufangelsi, tók saman við Bertrade de Montfort, greifynju af Anjou og giftist henni þótt bæði ættu maka á líf. Berta dó ári síðar. John Jay. John Jay (1745 – 1829) var fyrsti forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna. Jay var einn leiðtoga flokks Sambandssinna og ásamt Alexander Hamilton og James Madison höfundur The Federalist Papers. Jay er talinn með mikilvægustu „landsfeðra“ Bandaríkjanna. Fjölskylda og menntun. John Jay var fæddur í New York inní ríka fjölskyldu sem stundaði kaupmennsku. Afi hans í föður ætt hafði flutt til New York frá Frakklandi árið 1685 eftir að Edict of Nantes var fellt úr gildi en með því féllu úr gildi ýmis forréttindi og eignir voru gerðar upptækar. Faðir hans Peter Jay og móðir hans Mary Van Cortlandt eignuðust tíu börn en einungis sjö þeirra lifðu af en af þeim glímdu tvö þeirra við bólusótt. John stundaði nám við "King's College" sem varð síðar Columbia University hann útskrifaðist árið 1764. Störf. Eftir að útskrifast úr háskóla hóf hann störf sem aðstoðarmaður dómarans Benjamin Kissam. Árið 1768 fékk hann aukin réttindi sem lögfræðingur og í kjölfarið stofnaði hann ásamt Robert Livingston lögfræðistofu sem hann starfaði hjá fram til 1771 það sama ár stofnaði hann sína eigin stofu. Árið 1774 var hann meðlimur í Committee of Correspondence sem var skugga ríkisstjórn stofnuð af leiðtogum nýlenduríkjanna í upphafi amerísku byltingarinnar og hafði það að markmiði að viðhalda lögum og reglum ásamt því að vernda eignarrétt manna. John var forseti fyrsta meginlandsþingsins frá 1778 til 1779 en á meðan á byltingunni stóð og eftir hana starfaði hann sem sendiherra Spánar og Frakklands og var utanríkisráðherra Bandaríkjanna frá 1784–1789 og átti þátt því stóran þátt í að móta utanríkisstefnu Bandaríkjanna á þeim tíma. Hann gegndi fyrstur embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1789 til 1795. Hann var einn höfunda Federalist Papers sem og að vera leiðtogi Sambandssinna og starfaði sem annar ríkisstjóri New York frá 1795 til 1801 á sínum tíma var hann leiðandi í þeirri baráttu að afnema þrælahald. Merkilegir viðburðir. John tók þátt ásamt þeim John Adams og Benjamin Franklin í friðarviðræðum sem hófust árið 1782 en þeim lauk með undirritun Parísarsáttmálans. Sáttmálinn kom til með að enda amerísku byltinguna, hann var undirritaður árið 1783 og staðfestur af þinginu þann 14 janúar 1784 og af konungi Breta þann 9 apríl 1784. John var mikill andstæðingur þrælahalds og á starfsævi sinni lagði hann í þrígang fram frumvörp um afnám þrælahalds. Árið 1785 stofnaði hann félag sem gekk undir nafninu New York Manumission Society. Félagið stóð fyrir því að sniðganga dagblöð,kaupmenn og aðra sem notuðust við þræla sem vinnuafl ásamt því stóð félagið fyrir því að veita blökkumönnum lagaaðstoð. Árið 1799 tókst loks að setja lög um afnám þrælahalds í New York. Fyrir andlát hans árið 1829 hafði tekist að frelsa alla þræla í New York. Jay, John Bertrade de Montfort. Bertrade de Montfort. Mynd frá 13. öld. Bertrade de Montfort (um 1070 – 14. febrúar 1117) var frönsk hefðarkona sem giftist Filippusi 1. Frakkakonungi árið 1092 en þá áttu þau raunar bæði maka á lífi og hjónabandið tæpast gilt. Bertrade telst þó yfirleitt hafa verið drottning Frakklands frá 1092 til 1108, þegar Filippus dó. Bertrade var dóttir Símonar 1. af Montfort og Agnesar greifynju af Evreux. Hún var fimmta (líklega) og síðasta kona Fulks 4., greifa af Anjou, sem varð ástfanginn af henni, sagði skilið við konu sína og giftist henni 1189. Þau eignuðust saman soninn Fulk, sem síðar varð konungur Jerúsalem og var afi Hinriks 2. Englandskonungs. En árið 1092 yfirgaf Bertrade mann sinn og tók saman við Filippus konung, sem sagði skilið við Bertu drottningu og giftist Bertrade 15. maí 1092. Hann var svo ástfanginn af henni að hann neitaði að láta hana frá sér þótt páfi hótaði honum bannfæringu. Árið 1095 bannfærði Úrban II páfi svo Filippus og hindraði hann í því að taka þátt í Fyrstu krossferðinni. Bannfæringunni var aflétt nokkrum sinnum við það að Filippus hét að segja skilið við Bertrade en hann tók alltaf saman við hana aftur og á endanum gáfust kirkjunnar menn upp og sættu sig við hjónabandið. Berta var þá löngu dáin en Fulk var enn á lífi og lifði raunar ári lengur en Filippus. Í samtímaheimild segir að konungur hafi mörg síðustu ríkisstjórnarár sín verið svo heltekinn af ást á Bertrade að hann hafi varla sinnt nokkru öðru og misst allan áhuga á stjórn ríkisins. Sagnaritarinn Jean de Marmoutier segir um Bertrade að enginn maður hafi nokkru sinni hrósað henni fyrir neitt annað en fegurð. Bertrade og Filippus áttu eina dóttur og tvo syni. Bertrade var mjög í mun að annarhvor sonur hennar erfði ríkið en ekki Loðvík stjúpsonur hennar og sendi meðal annars Hinrik 1. Englandskonungi bréf og bað hann að taka Loðvík höndum. Einnig var því haldið fram að hún hefði reynt að koma honum fyrir kattarnef, fyrst með fjölkynngi og síðan með göldrum. En tilraunir hennar mistókust og Loðvík tók við ríkjum þegar faðir hans dó 1108. Bertrade, sem þá var að sögn enn afar fögur, gerðist þá nunna í Fontevraud-klaustri, þar sem hún dó 1117. Smallville (2. þáttaröð). Smallville er bandarísk dramaþáttaröð. Sýningar á annari þáttaröðinni hófust þann 24. september 2002 og þeim lauk 20. maí 2003. Þættirnir voru 23 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Aðalleikarar. Sam Jones III sem Pete Ross Gestaleikarar. Mitchell Kosterman sem Ethan Miller fógeti Emmanuelle Vaugier sem Hellen Bryce læknir Rob LaBelle sem Dr. Frederick Walden Christopher Reeve sem Dr. Virgil Swann Camille Mitchell sem Nancy Adams fógeti Jill Reed sem Maggie Sawer lögregluforingi Smallville (3. þáttaröð). Smallville er bandarísk gamanþáttaröð. Sýningar á þriðju þáttaröðinni hófust þann 1. október 2003 og þeim lauk 19. maí 2004. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Miles Millar einn aðalrithöfunda Smallville leikstýrði þættinum Memoria, og John Schneider leikstýrði Talisman. Aðalleikarar. Tom Welling sem Clark Kent/Kal, ungur Jor-El Kristin Kreuk sem Lana Lang, Louise McCallum Sam Jones III sem Pete Ross Gestaleikarar. Lorena Gale sem Dr. Claire Foster Camille Mitchell sem Nancy Adams fógeti Christopher Reeve sem Dr. Virgil Swann Francoise Yip sem Dr. Lia Teng Jill Reed sem Maggie Sawer lögregluforingi Martin Cummins sem Dr. Lawrence Garner Adrianne Palicki sem Lindsey Harrison/gervi-Kara Zor-El Gliese 581 g. Samanburður á Gliese 581-sólkerfinu og sólkerfi okkar. Gliese 581 g er fjarreikistjarna á sporbaug um rauða dverginn Gliese 581 í stjörnumerkinu Voginni í 20,5 ljósára fjarlægð frá jörðu. Gliese 581 g er sú pláneta sem talin er líkust jörðinni af þeim sem menn hafa uppgötvað til þessa. Smallville (4. þáttaröð). Smallville er bandarísk dramaþáttaröð. Sýningar á fyrstu þáttaröðinni hófust þann 22. september 2004 og þeim lauk 21. maí 2005. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Lois Lane (sem verður eiginkona Clarks Kent í framtíðinni) kemur fram í þessari þáttaröð og er frænka Chloear. Aðalleikarar. Kristin Kreuk sem Lana Lang, Isobelle Thoreaux greifynja Gestaleikarar. Jane Seymore sem Genevieve Teague, Gertrude hertogynja Michael Ironside sem Sam Lane hershöfðingi Hundurinn Bud sem Shelby (áður Krypto og Clarky) Smallville (5. þáttaröð). Smallville er bandarísk dramaþáttaröð. Sýningar á fyrstu þáttaröðinni hófust þann 29. september 2005 og þeim lauk 11. maí 2006. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Tom Welling aðalleikari þáttana leikstýrði fyrsta þættinum sínum sem bar nafnið Fragile. Aðalleikarar. Michael Rosenbaum sem Lex Luthor, Zod-í-Lex Gestaleikarar. James Marsters sem Milton Fine prófessor/Brainiac Lee Thompson Young sem Victor Stone Camille Mitchell sem Nancy Adams fógeti Jill Reed sem Maggie Sawer lögregluforingi Tom Wopat sem Jack Jennings þingmaður Alana De La Graza sem Aethyr Denise Quinones sem Andrea Rojas/Acrata (Angel of Vengeance) Nímenningarnir. Nímenningarnir (eða mál nímenninganna) er hugtak sem notað er um dómsmál ríkissaksóknara gegn níu manns sem freistuðu þess, ásamt rúmlega 20 öðrum, að komast á palla Alþingis þann 8. desember 2008. Atburðurinn var hluti af mótmælaöldu veturinn 2008 – 2009 sem gjarnan hefur verið nefnd Búsáhaldabyltingin. Nímenningarnir voru sýknaðir þann 16. febrúar 2011 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Heimsókn stöðvuð. Þingverðir og lögregla meinuðu fólkinu að komast á þingpalla og í þvögunni sem myndaðist urðu einhverjir pústrar sem leiddu meðal annars til þess að einn úr hóp nímenninganna féll aftur fyrir sig á þingvörð, sem varð til þess að sá féll á miðstöðvarofn og hlaut af því áverka. Í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins 20. maí 2010 lýstu tvö nímenninganna, Sólveig Anna Jónsdóttir og Snorri Páll, því að ásakanir um að þau hefðu „ráðist á Alþingi“ væru „fráleitar“ og að þau hafi hvorki beitt ofbeldi eða hótað ofbeldi. Ákærur. Nímenningarnir voru ákærðir fyrir brot á 1. mgr. 100. gr., 1. mgr. 106. gr., 107. gr., 1. og 2. mgr. 122. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vanhæfi ríkissaksóknara. Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari lýsti sig vanhæfan til að fara með málið, eftir að bent var á ættartengls hans við einn brotaþola, sem er mágkona Valtýs. Í framhaldinu var Lára V. Júlíusdóttir hrl sett ríkissaksóknari í máli nímenninganna. Sögulegt fordæmi. Aðeins einu sinni hefur verið ákært undir 100 grein hegningarlaga, í kjölfar óeirða á Austurvelli 1949. Einn þeirra sem þá var ákærður var Jón Múli Árnason, faðir Sólveigar, eins nímenninganna. Teboðshreyfingin. Teboðshreyfingin (e. "tea-party movement") er heiti sem notað er yfir ýmis grasrótarsamtök sem komu fram á hægrivæng Repúblikanaflokksins eftir sigur Baracks Obama í forsetakosningunum 2008. Nafn sitt dregur hreyfingin af Teboðinu í Boston. Þá hafa liðsmenn hreyfingarinnar útskýrt nafn hreyfingarinnar sem svo að TEA standi fyrir Taxed Enough Already. Meðlimir hreyfingarinnar kalla sig "Teapartiers", en í bandarískum bloggheimum er oft talað um "teabaggers" og hreyfingin kölluð "teabagger movement", þ.e. tepokahreyfingin. Þó nafnið teabaggers hafi í upphafi einnig verði notað af áhangendum hreyfingarinnar er það nú aðallega notað af andstæðingum hreyfingarinnar. Nafnið kom til vegna þess að eitt allra fyrsta uppátæki forystumanna hreyfingarinnar vorið 2009 var að hvetja reiða kjósendur til að senda þingmönnum tepoka í pósti til að minna þá á teboðið í Boston árið 1773. Hins vegar voru vinstrimenn og grínistar fljótir að benda á að "tea-bagging" er umdeild kynlífsathöfn og gerðu stólpagrín að teboðshreyfingunni. Eftir það varð "teabagger" einskonar uppnefni. Pólítísk stefnumál. Teboðshreyfingin er hvorki formleg stjórnmálahreyfing né hefur hún neinn ákveðinn leiðtoga. Teboðshreyfingin hefur enga yfirstjórn á landsvísu en mikið af starfi hreyfingarinnar fer fram í svæðisbundum samtökum sem starfa í nafni hreyfingarinnar. Talið er að svæðisbundin teboðshreyfingarsamtök hafi verið um 1000 árið 2010 en þeim hafi nú fækkað töluvert eða niður í rúmlega 600. Flestir meðlimir hreyfingarinnar tilheyra Repúblikanaflokknum en þó eru sumir innan Teboðshreyfingarinnar sem styðja Frjálshyggjuflokkinn eða eru óflokksbundnir. Töluverður ágreiningur hefur ríkt milli félagslegra íhaldsmanna og frjálslyndra innan Repúblikanaflokksins. Teboðshreyfingin hefur ekki viljað stuðlað að sundrungu innan flokksins og starfar hreyfingin því sem valdamikill þrýstihópur innan Repúblikanaflokksins. Þá hefur hreyfingin sýnt það í verki hvers megnug hún er en ein helsta sönnun þess var þegar Teboðshreyfingin hafði gríðarleg áhrif á framvindu mála í fulltrúaráðskosningunum árið 2010. Þá endurheimtu Repúblikanar meirihluta í þingunu með því að bæta við sig 63 sætum frá fyrri kosningum. Sökum vinsælda hreyfingarinnar meðal kjósenda flokksins hefur fjöldi Repúblikana, bæði innan þings og utan, keppst um að tala máli hreyfingarinnar. Skipulag. Helstu stefnumál Teboðshreyfingarinnar má gróflega setja í fimm flokka. Helstu talsmenn. Sarah Palin er fyrrverandi ríkisstjóri Alaska og varaforsetaefni John McCains í forsetakosningunum árið 2008. Hún varð fljótt einn mest áberandi talsmaður Teboðshreyfingarinnar. Michele Bachmann er meðlimur á þjóðþingi Bandaríkjanna og stofnaði hún þingflokk í nafni Teboðshreyfingarinnar. Hún stefndi að því að verða forsetaefni Repúblikana fyrir kosningarnar árið 2012 en hlaut afhroð í forkosningum í Iowa árið 2011 og dró í kjölfarið framboð sitt til baka. Ron Paul er megintalsmaður frjálslyndra sjónarmiða innan hreyfingarinnar. Hann hefur hlotið viðurnefnið „Guðfaðir“ Teboðshreyfingarinnar þar sem mörg af helstu baráttumálum hreyfingarinnar koma frá honum. Hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 1988 í nafni Frjálshyggjuflokksins en hlaut einungis 0,5 % atkvæða á landsvísu. Þá hefur hann í tvígang sóst eftir útnefningu sem forsetaefni Repúblikana flokksins. Fyrst árið 2008 þar sem hann beið lægri hlut fyrir John McCain og svo árið 2012 þar sem Mitt Romney hreppti hnossið. Ísland brennur. "Ísland brennur" er breiðskífa með DYS sem kom út árið 2003. Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna. Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (e. "United States Securities and Exchange Commission", SEC) er sjálfstæð eftirlitsstofnun sem hefur eftirlit með verðbréfamörkuðum og kauphöllum í Bandaríkjunum. Verðbréfaeftirlitið er hluti alríkisins. Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna er líklega sú stofnun í Bandaríkjunum sem er hvað sambærilegust Fjármálaeftirliti Bretlands (FSA) og Fjármálaeftirlitinu á Íslandi en þeim er ætlað að hafa heildstætt eftirlit með fjármálamörkuðum. Verðbréfaeftirlitið var upprunalega stofnað með lögum um verðbréfaviðskipti frá 1934 (e. "The Securities Exchange Act of 1934"), og var hluti New Deal lagasetningar Franklin Delano Roosevelt sem var ætlað að reisa efnahag Bandaríkjanna úr öskustó Kreppunnar miklu. Tony Curtis. Tony Curtis áritar ævisögu sína, "American Prince", árið 2009. Tony Curtis (3. júní 1925 – 29. september 2010), upphaflegt nafn Bernard Schwartz, var bandarískur leikari. Hann var sonur ungverskra innflytjenda af gyðingaættum og talaði eingöngu ungversku þar til hann var fimm eða sex ára að aldri. Hann lék í meira en eitt hundrað kvikmyndum, auk sjónvarpsmynda og sjónvarpsþáttaraða. Þekktasta hlutverk hans var líklega hlutverk Joe/Josephine í kvikmyndinni "Some Like it Hot" frá árinu 1959, þar sem hann lék á móti Jack Lemmon og Marilyn Monroe. Einnig var hann þekktur fyrir leik sinn í bresku sjónvarpsþáttaröðinni "The Persuaders", á árunum 1971-1972, þar sem hann lék á móti Roger Moore. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti aðalleikari fyrir hlutverk sitt í "The Defiant Ones" frá árinu 1958, þar sem hann lék á móti Sidney Poitier, og léku þeir strokufanga sem hlekkjaðir voru saman. Hann hlaut einnig lof fyrir túlkun sína á þrælnum Antoníusi í "Spartacusi" og raðmorðingjanum Albert DeSalvo í "The Boston Strangler". Curtis giftist leikkonunni Janet Leigh árið 1951 og eignuðust þau dæturnar Kelly Lee og Jamie Lee Curtis, sem báðar urðu leikkonur. Curtis og Leigh skildu árið 1962 og giftist Curtis aftur fimm sinnum í og eignaðist fjögur börn í viðbót. Árið 1998 giftist hann Jill Vanderberg, sem var 42 árum yngri en hann, og voru þau gift þar til hann lést úr hjartaáfalli á heimili sínu í Nevada 29. september 2010. Curtis, Tony Birkir Bjarnason. Birkir Bjarnason (fæddur 27. maí 1988 á Akureyri) er íslenskur knattspyrnumaður sem spilar fyrir Viking FK í Stafangri í Noregi. Hann byrjaði fótboltaferil sinn hjá varaliði norska liðsins Figgjo. Hann er 182 cm á hæð og vegur 74 kg. Birkir spilar með Viking Fotballklubb í Stafangri. Systir hans, Björg Bjarnadóttir spilar fyrir Klepp Elite í annarri deild kvenna í Noregi. Viking Fotballklubb. Viking Fotballklubb (Viking FK Stavanger) er knattspyrnufélag frá Stafangri sem var stofnað 10. ágúst 1899. Félagið spilar heimaleiki sína á Viking Stadium sem opnaði á árið 2004. Meðaltal áhorfenda á því tímabili var 12.439 sem var áhorfendamet. Núverandi met var sett árið 2007 þegar meðaltalið var 15.936 áhorfendur. Búningur liðsins er dökkblá skyrta, hvítar buxur og dökkbláir sokkar. Indriði Sigurðsson. Indriði Sigurðsson (f. 12. október 1981) er íslenskur knattspyrnumaður sem nú leikur með Viking FK í Stafangri í Noregi. Indriði kom frá KR þar sem hann hafði byrjað feril sinn. Þaðan fór hann til Lillestrøm SK árið 2000 og þaðan til KRC Genk í Belgíu árið 2003. Hann fór aftur til KR í lok júlí 2006, en eftir stutt stopp þar fór hann til Lyn. Stefán Gíslason. Stefán Gíslason (f. 15. mars 1980) er íslenskur knattspyrnumaður, sem spilar fyrir Lilleström IF. Á yngri árum Stefáns spilaði hann með varaliði Arsenal en eftir fáa leiki með félaginu snéri hann til Knattspyrnufélags Reykjavíkur á láni. Hann spilaði síðar fyrir Strømsgodset, Grazer AK og Keflavík áður en hann gekk til liðs við Lyn 2005. Hann varð fljótt varafyrirliði liðsins og spilaði 62 leiki af 65 mögulegum. Sumarið 2007, hálfu ári áður en samningur hanns rann út, samdi hann við danska félagið Brøndby. Hann varð fyrirliði liðsins í febrúar 2008 fram til enda tímabilsins 2009 en þá var honum tilkynnt að hann mætti yfirgefa liðið. Ári síðar fór hann á láni til Viking Fotballklubb. Ríkharður Daðason. Ríkharður Daðason (fæddur 26. apríl 1972) er fyrrverandi íslenskur knattspyrnumaður. Á unglingsárum Ríkharðs var hann jafnframt hæfileikaríkur handboltaleikmaður. Hann hóf feril sinn í Fram og fluttist síðar til KR þar sem hann varð topp markaskorari í íslensku deildinni árið 1996. KR ferill hans tók óvænta stefnu, þegar hann fluttist til Grikklands, í janúar 1997. Sú dvöl var þó stutt, og hann kom aftur til KR. Árið 1998 fluttist hann til Viking Fotballklubb í Stafangri í Noregi, og eftir að hafa skorað 15 mörk eða fleiri þrjú tímabil í röð var hann fenginn í Stoke City, sem á þeim tíma keypti marga íslenska leikmenn. Ríkarður átti í erfiðleikum með að spila reglulega með Stoke og hélt til Noregs. Frá og með 2004 lék hann aftur og enn einu sinni með Fram. Ríkarður var fyrst valinn í landslið Íslands í maí 1991, í vinarleik á móti Möltu í skiptingu fyrir Grétar Einarsson. Hann lék síðasta alþjóðlega leik sinn árið 2003, hefur leikið 44 sinnum og skorað 14 mörk fyrir landsliðið. Ríkharður skoraði minnistætt mark gegn Frakklandi, sem voru nýlega orðnir heimsmeistarar, þann fimmta september, 1998. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður er móðir Ríkharðs. Grettissund. Grettissund er það afrek nefnt þegar Grettir Ásmundarson synti frá Drangey að Reykjanesi á Reykjaströnd. Nú er það kallað Grettissund þegar synt er úr Uppgönguvík í Drangey, sem er um 7,1 km, en Drangeyjarsund þegar synt er úr fjöru sunnan til á eynni, sem er stysta vegalengd úr eyju í land, samtals 6,6 kílómetrar. Sundið þótti mikið þrekvirki en margir litu á það sem ýkjusögu þar til menn syntu sömu leið í byrjun tuttugustu aldar. Upphaf þess að menn reyndu við Grettissund var sú hvatning sem ungir menn fengu við að heyra af afreki Benedikts G. Waage þegar hann synti í land frá Viðey árið 1914. TD Garden. TD Garden er heimavöllur Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta og Boston Bruins í NHL-deildinni í íshokkí. Höllin sem skýrð er í höfuðið á styrktaraðila sínum TD Bank var opnuð árið 1995. Höllin hét TD Banknorth Garden á árunum 2005-2009 en nafninu var breytt yfir í TD Garden 16. júlí 2009. Upp í rjáfum hanga 21 númer frá Boston Celtics. Manute Bol. Manute Bol (fæddur 16. október 1962, dáinn 19. júní 2010) var körfuknattleiksmaður frá Súdan. Hann var 2,31 m á hæð og 102 kg miðherji í NBA-deildinni. Hann spilaði með Washington Bullets, Golden State Warriors, Philadelphia 76ers og Miami Heat. Hann var með 1599 stig, 2647 fráköst og 2086 varin skot á ferli sínum. Hann var alinn upp af hávaxinni fjölskyldu. Mamma hans var 208 cm, pabbi hans 203 cm, systir hans líka 203 cm og afi hans var 239 cm. Lucienne de Rochefort. Lucienne de Rochefort (1088 – eftir 1137) var fyrri kona Loðvíks digra Frakkakonungs en var þó ekki drottning Frakklands því hjónabandi þeirra lauk 1107, ári áður en hann varð konungur. Hún var dóttir Guy de Monthery og Elísabetar af Crecy. Lucienne giftist Loðvík árið 1104 og eignaðist með honum eina dóttur, Ísabellu, árið 1105, en hann sagði skilið við hana og fékk Paskalis II páfa til að gera hjónaband þeirra ógilt ári áður en hann varð konungur. Hann giftist svo Adélaide de Maurienne nokkrum árum síðar en Lucienne gekk að eiga Guichard 4. af Beujeau og átti með honum fjölda barna þótt aðeins tvö lifðu til fullorðinsára. Adélaide de Maurienne. Adelaide de Maurienne (1092 – 18. nóvember 1154) eða Adelaide af Savoja var drottning Frakklands frá 1115 til 1137. Heimildir segja að hún hafi verið ófríð en trúrækin. Adelaide var dóttir Úmbertós 2., greifa af Savoja, og Gíselu af Búrgund. Kalixtus II páfi var móðurbróðir hennar. Hún giftist Loðvík digra Frakkakonungi 3. ágúst 1115 og var seinni kona hans en hann hafði fengið hjónaband sitt og fyrri konunnar, Lucienne de Rochefort, gert ógilt árið 1107. Adelaide og Loðvík eignuðust átta börn, þar á meðal Loðvík 7. Frakkakonung. Hún virðist hafa haft mikil afskipti af stjórn ríkisins, sem meðal annars má sjá á því að á opinberum skjölum er ekki aðeins tekið fram hversu lengi maður hennar hafði ríkt þegar skjalið var samið, heldur einnig hve lengi hún hafði verið drottning. Þegar Loðvík dó 1137 gekk Adelaide ekki í klaustur eins og algengt var um ekkjudrottningar á þeirri tíð, heldur var áfram við hirðina. Hún giftist Matthíasi de Montmorency árið 1141 og stýrðu þau Frakklandi á meðan Loðvík 7. var í Annarri krossferðinni. Anthony David Weiner. Anthony David Weiner (f. 4. september 1964) er bandarískur stjórnmálamaður, demókrati og fulltrúadeildarþingmaður í Bandaríkjunum. Fjölskylda og menntun. Weiner er giftur Huma Abedin aðstoðarkonu Hillary Clinton. Þann 10. júlí 2010 voru þau gefin saman af Bill Clinton fyrrum Bandaríkjaforseta. Weiner útskrifaðist með BA próf frá State University of New York at Plattsburg árið 1985. Að loknu háskólanámi var Weiner meðleigjandi Jon Stewart sem nú er þáttastjórnandi The Daily Show. Stewart hefur styrkt Weiner í framboðum sínum. Störf. Hann vann fyrir fulltrúadeildar þingmanninn Chuck Schumer á árunum 1985-1991. Schumer hvatti Weiner til að hefja sinn eigin feril í stjórnmálum. Árið 1991 náði Weiner kjöri í borgarráð New York borgar, þá 27 ára og yngstur manna til að ná þeim árangri. Weiner barðist fyrir betri hag almennings, meðal annars stóð hann að því að virkja unglinga sem áttu erfitt uppdráttar með því að láta þau þrífa veggjakrot. Hann var í undirnefnd sem sá um félagslegar íbúðir og krafðist aukinna styrkja í þann málaflokk. Einnig vildi hann auka löggæslu í úthverfunum. Þáttaka á þingi. Weiner komst fyrst á þing eftir sigur á repúblikananum Louis Telano árið 1998. Hann náði endurkjöri árin 2000, 2002, 2004, 2006 og 2008 með yfir 65% atkvæða öll skiptin. Weiner á sæti í nokkrum nefndum, meðal annars þeim sem fjalla um orku og utanríkisverslun. Hann bauð sig fram til Borgarstjóra New York borgar árið 2005 en náði ekki kjöri. Frumvörp og baráttumál. Weiner er stuðningsmaður nýja frumvarpsins um heilbrigðistryggingar ("Medicare"). Hann gerir lítið úr mótbárum Repúblikana á frumvarpið og segir að þeir séu dótturfélag tryggingaiðnaðarins. Weiner var fylgjandi frumvarpinu 11 Health and Compensation Act, sem áttu að útvega styrki vegna veikinda þeirra sem komu fyrst að árásunum á tvíburaturnana í New York þann 11. september 2001. Hann gagnrýndi harðlega þá Repúblikana sem voru andvígir því. Weiner var fylgjandi valdbeitingu í Íraksstríðinu en síðar skipti hann um skoðun og lagði til að herliðið yrði dregið til baka. Weiner og Jarrod Nadler lögðu til að stöðvaður yrði 20 milljarða dollara vopnaskiptasamningur sem ríkisstjórn George W. Bush hafði gert við Sádí Arabíu. Ástæðurnar meðal annars þær að Sádi Arabía hefði ekki lagt sitt af mörkum til að stöðva hryðjuverk en einnig vegna þess að 15 af 19 hryðjuverkamönnum í árásunum 11. september hafi verið þaðan. Þá hefur hann einnig gagnrýnt ríkisstjórn Barrack Obama fyrir að vilja selja þeim vopn fyrir 60 milljarða dollara og segir ástæðuna vera að Sádi Arabía hafi fjármagnað hryðjuverk og þeir kenni skólabörnum hatur á kristnum og gyðingum, því væru þeir að senda röng skilaboð. Misferli í starfi og afsögn þingmennsku. Weiner hefur tvisvar verið sektaður fyrir fjárhagslegt misferli. Bæði tengjast styrkjum eða lánum tengdum framboðum hans. Þann 16. júní 2011 sagði Weiner af sér í kjölfar þess að upp komst að hann hafði sent konum ósiðlegar ljósmyndir af sjálfum sér á Twitter. Neðanmálsgreinar. Weiner, Anthony David Smallville (6. þáttaröð). Smallville er bandarísk dramaþáttaröð. Sýningar á sjöttu þáttaröðinni hófust þann 28. september 2006 og þeim lauk 17. maí 2007. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Michael Rosenbaum leikstýrði 125. þættinum Freak. Smallville (7. þáttaröð). Smallville er bandarísk dramaþáttaröð. Sýningar á sjöundu þáttaröðinni hófust þann 27. september 2007 og þeim lauk 15. maí 2008. Þættirnir voru 20 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Gert var hlé á framleiðslu þessara þáttaraðar vegna rithöfundaverkfallinu 2007-2008 og urðu þess vegna bara 20 þættir framleiddir í staðinn fyrir 22. Þetta var síðasta þáttaröðin af Smallville sem Alfred Gough og Miles Millar unnu við og einnig var þetta síðasta þáttaröðin þar sem Michael Rosenbaum og Kristin Kreuk eru í aðalleikhópnum. Smallville (8. þáttaröð). Smallville er bandarísk dramaþáttaröð. Sýningar á áttundu þáttaröðinni hófust þann 18. september 2008 og þeim lauk 14. maí 2009. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Eftir að Alfred Gough og Miles Millar hættu tóku Brian Peterson, Kelly Souders, Todd Slavkin og Darren Swimmer við sem þáttstjórnendur. Allison Mack leikstýrði fyrsta þættinum sínum sem bar nafnið Power. Loðvík 9.. Loðvík helgi. Mynd úr handriti frá 13. öld. Loðvík 9. (25. apríl 1214 – 25. ágúst 1270) eða Loðvík helgi var konungur Frakklands frá 1226 til dauðadags. Hann er eini konungur Frakklands sem tekinn hefur verið í helgra manna tölu og heita margir staðir eftir honum, svo sem borgin St. Louis í Bandaríkjunum. Ríkisár Loðvíks. Loðvík var af Kapet-ætt, sonur Loðvíks 8. og Blönku af Kastilíu. Faðir hans dó 8. nóvember 1226, þegar hann var tólf ára að aldri, og var hann krýndur skömmu síðar í Reims. Móðir hans var ríkisstjóri fyrstu árin. Talið er að Loðvík hafi tekið við stjórnartaumum árið 1234 en Blanka varð áfram einn helsti ráðgjafi hans, allt þar til hún lést 1252. Ríkisár Loðvíks voru blómaskeið í sögu Frakklands, bæði efnahagslegt og pólitískt. Ríki hans var þá stærsta og auðugasta konungsríki Evrópu og hann réð yfir stærsta hernum. Frakkaland var einnig miðpunktur lista og mennta í álfunni á valdatíma Loðvíks. Hann naut mikillar virðingar, ekki aðeins vegna þess hve valdamikill hann var, heldur einnig vegna þess að hann þótti réttlátur og sanngjarn og hann var oft fenginn til að gegna hlutverki sáttasemjara þegar aðrir höfðingjar deildu. Konungurinn var þekktur fyrir trúrækni sína og trúarhita. Um 1240 keypti hann af Baldvin 2., keisara í Konstantínópel, þyrnikórónu Kristst og brot úr hinum helga krossi og greiddi fyrir 135.000 "livres". Yfir þessa helgigripi reisti hann svo Sainte Chapelle, hina heilögu kapellu, við konungshöll sína. Til þess að fjármagna þetta, svo og fyrri krossferð sína, gerði hann alla gyðinga sem stunduðu lánastarfsemi útlæga úr ríki sínu og gerði eignir þeirra upptækar en felldi ekki niður lán sem kristnir menn skulduðu gyðingunum, heldur hirti afborganirnar sjálfur. Hann lét líka brenna um 12.000 gyðingleg handrit í París árið 1243. Fyrri krossferðin. Loðvík fór í tvær krossferðir, fyrst í Sjöundu krossferðina 1248 og svo aftur árið 1270 í Áttundu krossferðina. Þegar hann fór í fyrri krossferðina gerði hann móður sína að ríkisstjóra. Hann byrjaði á að ná hafnarborginni Damietta í Egyptalandi á sitt vald í júní 1249 og hélt þaðan yfir óshólmasvæði Nílar áleiðis til Kaíró. Ferðin gekk hægt og þann 6. apríl 1250 beið her Loðvíks lægri hlut fyrir her mamlúka í orrustunni við Fariskur og Loðvík féll í hendur Egypta. Þeir kröfðust lausnargjalds sem nam 400.000 "livres" en á þessum tíma voru árstekjur franska ríkisins aðeins um 250.000 livres. Margrét drottning, kona Loðvíks, sem var með honum í krossferðinni og lá á sæng í Damietta þegar fréttir bárust af því að konungur hefði verið handsamaður, aflaði fjár fyrir lausnargjaldinu, meðal annars með því að fá lán hjá Musterisriddurum, en raunar var aldrei nema hluti lausnargjaldsins greiddur. Eftir að Loðvík slapp úr haldi Egypta var hann næstu fjögur árin í krossfararíkjunum Akkó, Caesarea og Jaffa og vann meðal annars að því að styrkja varnir þeirra og reyna að koma á diplómatískum tengslum við múslimaríkin í kring. Margrét drottning var með honum og fæddust þeim þar tvö börn til viðbótar. Þegar Loðvík hélt heimleiðis skildi hann eftir allstórt herlið í Akkó til að verja borgina gegn árásum múslima. Síðari krossferðin og dauði. Dauði Loðvíks helga í Túnis. Um 1265 náði mamlúkasoldánninn Baibars allmörgum borgum í Landinu helga úr höndum krossfara. Loðvík efndi þá til Áttundu krossfararinnar en hafði ekki eins mikinn stuðning og þegar hann lagði í þá sjöundu. Bróðir Loðvíks, Karl Sikileyjarkonungur, taldi hann á að ráðast fyrst á Túnis því þar væri gott að hafa bækistöð þegar ráðist yrði til atlögu við Egypta. Loðvík hélt af stað sumarið 1270 og lenti í Túnis í júlí. Það var versti árstíminn til hernaðar þar. Drykkjarvatn var óhæft og stór hluti hersins veiktist fljótlega. Þann 25. ágúst, daginn eftir að Karl bróðir Loðvíks kom með liðsauka, dó konungurinn sjálfur. Sagt er að andlátsorð hans hafi verið „Jerúsalem“. Fjölskylda. Kona Loðvíks var Margrét af Provence, elst fjögurra dætra Ramon Berenguer 4., sem allar voru orðlagðar fyrir fegurð og urðu allar drottningar. Þau áttu ellefu börn og komust níu þeirra upp en elsti sonurinn, Loðvík, dó þó tæplega sextán ára. Það var því Filippus bróðir hans sem tók við ríkjum við lát föður síns. Þriðji sonurinn, Jóhann Tristan, sem fæddur var í Damietta í fyrri krossferðinni, dó úr blóðkreppusótt í Túnis eins og faðir hans. Yngsti sonurinn, Róbert, varð ættfaðir hertoganna af Bourbon og þegar Valois-ættin dó út með Hinrik 3. árið 1589 þurfti að fara aftur til Róberts til að finna ríkiserfingja en til hans átti Hinrik 4. Frakkakonungur ætt að rekja í tíunda lið í karllegg. Margrét af Provence. Margrét drottning. Mynd frá 15. öld. Margrét af Provence (vorið 1221 – 21. desember 1295) var drottning Frakklands frá 1234 þar til maður hennar, Loðvík 9., dó árið 1270. Foreldrar Margrétar voru Ramon Bereguer 4., greifi af Provence, og Beatrice af Savoja, dóttir Tómasar greifa af Savoja. Margrét hét eftir ömmu sinni, Margréti af Genf, sem hafði verið á leið til Parísar að giftast Filippusi 2. Frakkakonungi þegar Tómas af Savoja rændi henni og giftist henni sjálfur. Margrét var elst fjögurra systra sem allar voru orðlagðar fyrir fegurð og urðu allar drottningar. Næst Margréti var Elinóra af Provence, sem giftist Hinrik 3. Englandskonungi, og voru þær systur alla tíð mjög nánar. Síðan kom Sanchia, sem giftist Ríkharði jarli af Cornwall, bróður Hinriks 3. og einum auðugasta manni Evrópu, sem var svo kjörinn konungur Þýskalands 1257. Yngst var Beatrix, sem giftist Karli af Anjou, yngsta bróður Loðvíks 9 og varð drottning Sikileyjar árið 1266. Margrét og Loðvík halda heim frá Akkó. Margrét giftist Loðvík 27. maí 1234, þá nýorðin þrettán ára, en brúðguminn var tvítugur. Hún var krýnd daginn eftir. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott framan af þótt Loðvík væri mun guðræknari og lítillátari en Margrét. Hún fylgdi manni sínum þegar hann fór í Sjöundu krossferðina. Þegar fregnir bárust af því til Damietta að Egyptar hefðu tekið hann höndum lá hún á sæng en bað riddarann sem stóð vörð um svefnherbergi hennar að drepa sig og nýfæddan soninn fremur en að láta þau falla í hendur múslima. Hún tókst líka á hendur stjórn liðsaflans sem eftir var, gerði ráðstafanir til að tryggja nægan mat fyrir alla kristna menn í borginni og safnaði síðan saman fé til að greiða gríðarhátt lausnargjald fyrir mann sinn. Margrét varð þannig eina konan sem stýrt hefur krossferð þótt um skamma hríð væri. Hún dvaldi síðan áfram með manni sínum í Landinu helga allt til 1254 og eignaðist þar tvö börn til viðbótar en alls áttu þau hjónin níu börn sem komust upp. Margrét var mjög metnaðargjörn og lét til sín taka í stjórnsýslu en með misjöfnum árangri og Loðvík var óánægður með ýmis tiltæki hennar. Þegar elsti sonur þeirra, Loðvík, lést árið 1260 taldi Margrét Filippus, sem þá varð ríkiserfingi, fimmtán ára gamall, á að sverja eið að því að sama hversu gamall hann yrði þegar hann erfði ríkið, þá skyldi hann hlíta ráðum móður sinnar þar til hann yrði þrítugur. Þegar Loðvík, sem sjálfur hafði lengi verið undir stjórn móður sinnar, Blönku, komst að þessu hafði hann þegar samband við páfann og fékk Filippus leystan undan eiðnum. Loðvík dó síðsumars 1270 í Áttundu krossferðinni í Túnis og einnig Jóhann sonur þeirra, sem var barnið sem fæddist í Damietta 1250. Margrét hafði ekki farið með manni sínum í krossferðina í þetta sinn. Þegar Filippus 3. tók við sneri hún aftur til bernskuheimkynna sinna í Provence og dvaldi þar til dauðadags, 21. desember 1295. 90210. "90210" er þáttaröð frá árinu 2008 og er enn til sýningar á sjónvarpstöðinni CBS í Bandaríkjunum. Þátturinn var sýndur á íslensku sjónvarpstöðinni SkjáEinum árið 2009. "90210" fjallar um líf krakka í Beverly Hills, sem ganga í West Beverly Hills menntaskólann. Krakkarnir eru synir og dætur þeirra sem komu fram í þáttaröðinni "Beverly Hills 90210". Nýjir íbúar í Beverly Hills eru Annie Wilson og Dixon Wilson. Faðir þeirra, Harry Wilson kom frá Kansas, til bernskuheimilis síns í Beverly Hills til þess að sjá um móður sína, Tabitha Wilson. Tabitha er áfengisjúlingur og lendir í ágreiningi við konu hans, Debbie. Táningarnir Annie og Dixon eiga erfitt með að aðlagast nýju hverfi og eignast vini. Í fyrstu þáttaröðunum má sjá bæði foreldrana og táningana í þáttunum, en eftir þriðju þáttaröð koma foreldrarnir ekki meira við sögu. Filippus 3. Frakkakonungur. Filippus 3. (30. apríl 1245 – 5. október 1285), einnig kallaður Filippus djarfi, var konungur Frakklands frá 1270 til dauðadags. Viðurnefnið „djarfi“ fékk hann vegna færni sinnar á hestbaki og í bardögum en ekki vegna stjórnvisku sinnar eða pólitískrar áræðni. Stjórn Filippusar. Filppus var af Kapet-ætt, sonur Loðvíks 9. og Margrétar af Provence. Hann varð krónprins Frakklands þegar eldri bróðir hans, Loðvík, lést tæplega 16 ára í janúar 1260. Árið 1270 fór Filippus í krossferð með föður sínum og þremur bræðrum en Loðvík konungur og einn bræðranna dóu úr blóðkreppusótt í Túnis og Filippus varð þá konungur, 25 ára að aldri. Hann er sagður hafa verið lítill í sér, óákveðinn og undanlátssamur og látið stjórnast af viljasterkum foreldrum sínum og síðan ráðgjöfum en þó einkum af föðurbróður sínum, Karli Sikileyjarkonungi. Um leið og hann hafði tekið við krúnunni í Túnis sneri hann aftur til Frakklands en fól Karli frænda sínum að ganga til friðarsamninga. Hann var krýndur konungur 12. ágúst 1271. Skömmu síðar dó annar föðurbróðir hans, Alfons greifi af Poitou, Toulouse og Auvergne, á Ítalíu á heimleið úr krossferð og Filippus erfði lén hans og bætti þeim við frönsku konungslendurnar. Seinna erfði hann einnig lendur eftir Pétur bróður sinn. Krossferðin til Aragóníu. Árið 1284 fór Filippus ásamt sonum sínum í herferð til Aragóníu, en Pétur 3., konungur Aragóníu og mágur Filippusar, hafði hertekið Sikiley, sem Karl föðurbróðir Filippusar réði, árið 1282 og síðan verið bannfærður af Marteini IV páfa. Bæði Sikiley og Aragónía töldust lénsríki páfastóls og páfinn hafði látið Karl af Valois, son Filippusar, hafa Aragóníu að léni. Þar sem herferðin var farin með blessun páfans var hún kölluð krossferð. Þeir tóku bæinn Girona 7. september 1285 en síðan veiktist stór hluti franska hersins af blóðkreppusótt, þar á meðal Filippus konungur. Frakkar urðu að hörfa og Filippus dó í Perpignan í októberbyrjun. Var hann þriðji konungur Frakka í röð til að deyja úr blóðkreppusótt í herferð. Fjölskylda. Filippus var tvíkvæntur. Þann 28. maí 1262 giftist hann Ísabellu af Aragóníu, dóttur Jakobs 1. af Aragóníu og Jólöndu af Ungverjalandi. Hún dó á heimleið úr krossförinni til Túnis í ársbyrjun 1271 og árið 1274 giftist Filippus Maríu af Brabant, dóttur Hinriks 3., hertoga af Brabant og Adelaide af Búrgund. Elsti sonur Filippusar, Loðvík, dó ellefu ára gamall 1276 og var talið að eitrað hefði verið fyrir honum og stjúpmóður hans jafnvel kennt um. Næstelsti sonurinn, Filippus, varð konungur við lát föður síns, sautján ára að aldri. Yngsti sonur þeirra var Karl greifi af Valois, sem eignaðist fjölda léna en varð þó aldrei konungur Aragóníu eins og páfinn hafði heitið honum. Börn Filippusar og Maríu voru Loðvík greifi af Évreux, sem varð tengdafaðir Karls 4. Frakkakonungs, Blanka, sem giftist Rúdolf 3. hertoga af Austurríki, og Margrét, sem giftist Játvarði 1. Englandskonungi og varð drottning Englands. Ísabella af Aragóníu, Frakklandsdrottning. Ísabella á banabeði. Filippus og riddarar hans syrgja hana. Ísabella af Aragóníu (1247 – 28. janúar 1271) var konungsdóttir frá Aragóníu og drottning Frakklands í tæplega hálft ár, frá því í ágústlok 1270 til dauðadags. Ísabella var dóttir Jakobs 1., konungs Aragóníu, og annarrrar konu hans, Jólöntu (Víólöntu) af Ungverjalandi, dóttur Andrésar 2. Ungverjalandskonungs. Hún giftist Filippusi, krónprinsi Frakklands, í Clermont 28. maí 1262. Þau eignuðust fjóra syni en tveir komust til fullorðinsára, þeir Filippus fagri og Karl af Valois. Elsti sonurinn, Loðvík, dó 11 ára að aldri árið 1276 og var talið að hann hefði verið myrtur með eitri. Ísabella fylgdi manni sínum þegar hann fór í Áttundu krossferðina til Túnis en þar lést Loðvík 9., faðir Filippusar, og hann varð konungur. Á heimleiðinni höfðu konungshjónin viðstöðu á Ítalíu. Ísabella var komin sex mánuði á leið og 11. janúar, þegar þau voru nýlögð af stað aftur heim til Frakklands, féll hún af hestbaki og slasaðist. Hún ól barn sitt fyrir tímann og dó svo 28. janúar. María af Brabant. María af Brabant, drottning Frakklands. María af Brabant (13. maí 1254 – 10. janúar 1321) var hertogadóttir frá Brabant og drottning Frakklands frá 1275 til 1285, seinni kona Filippusar 3. Frakkakonungs. María var dóttir Hinriks 3., hertoga af Brabant, og Adelaide af Búrgund, dóttur Húgós 4., hertoga af Búrgund. Hún giftist Filippusi 3. Frakkakonungi 24. júní 1275 en fyrri kona hans, Ísabella, hafði dáið fjórum árum áður og lét eftir sig þrjá syni. Filippus var veiklundaður og undir miklum áhrifum frá móður sinni, ekkjudrottningunni Margréti af Provence, og lækni sínum, Pierre de Brosse. Elsti sonur Filippusar, Loðvík krónprins, lést 1276, ellefu ára gamall, og þótti allt benda til þess að honum hefði verið byrlað eitur. Var de Brosse fangelsaður og síðar tekinn af lífi en María drottning var grunuð um að hafa staðið á bak við verknaðinn og var það einkum tengdamóðir hennar sem ásakaði hana en Filippus virtist samsinna móður sinni. Ekkert var þó gert frekar í málinu og María ól manni sínum þrjú börn, þar á meðal Margréti, sem giftist Játvarði 1. og varð drottning Englands. Eftir að Filippus dó 1285 og Filippus 4. stjúpsonur Maríu varð konungur helgaði hún sig uppeldi barna sinna, en settist að í klaustrinu Les Mureaux árið 1316 og dó þar fimm árum síðar. Filippus 4. Frakkakonungur. Stytta Filippusar fagra í St. Denis í París. Filippus 4. (vor 1268 – 29. nóvember 1314) eða Filippus fagri var konungur Frakklands frá 1285 til dauðadags. Hann var einnig konungur Navarra og greifi af Champagne sem eiginmaður Jóhönnu 1. Navarradrottningar. Fyrstu konungsárin. Filippus var af Kapet-ætt, sonur Filippusar 3. Frakkakonungs og fyrri konu hans, Ísabellu af Aragóníu. Hann fylgdi föður sínum í herförina til Aragóníu og sá til þess að koma honum og afganginum af liðinu út úr landinu eftir að konungur veiktist og herförin fór út um þúfur. En Filippus 3. dó í Perpignan og Filippus yngri varð konungur, 17 ára að aldri. Filippus þótti fríður ásýndum og var því kallaður Filippus fagri en var hins vegar stífur og stirður í umgengni og sumir líktu honum við myndastyttu. Hann lagði mikla áherslu á að styrkja vald konungdæmisins og reiddi sig mjög á embættismannakerfi til að fylgja því fram. Þann 16. ágúst 1284 giftist Filppus Jóhönnu drottningu Navarra, sem hafði erft krúnuna eftir föður sinn, Hinrik 1., árið 1274. Um leið fékk hann yfirráð yfir eignum hennar í Champagne og Brie, sem lágu að eignarlöndum frönsku krúnunnar og voru því mun mikilvægari fyrir Frakkakonung en fjallaríkið Navarra. Navarra og Frakkland höfðu þó sama þjóðhöfðingja til 1329 en þá skildi leiðir. Stríð við Játvarð 1.. Filippus og Játvarður 1. heilsast með virktum. Ekki fór alltaf svo vel á með þeim. Játvarður 1. Englandskonungur var jafnframt hertogi af Akvitaníu og því lénsmaður Filippusar og þurfti að votta honum hylli sína. Játvarður var giftur Margréti, hálfsystur Filippusar og samskipti þeirra höfðu verið góð, en fóru að versna eftir fall Akkó 1291. Árið 1293 kvaddi Filippus Játvarð til frönsku hirðarinnar en Játvarður var önnum kafinn í hernaði í Skotlandi og sinnti ekki kvaðningunni. Filippus greip tækifærið og svipti Játvarð öllum lénum hans í Frakklandi. Þetta leiddi til styrjaldarátaka og var barist um yfirráð yfir Gaskóníu í Suðvestur-Frakklandi, fyrst 1294-1298 og aftur 1300-1303. Gengið var til friðarsamninga í París 1303 og þar var meðal annars samið um að Ísabella, dóttir Filippusar, skyldi giftast prinsinum af Wales. Þau giftust svo 1308 en í stað þess að innsigla frið milli landanna má að einhverju leyti rekja rætur Hundrað ára stríðsins til þessa hjónabands. Gyðingar og musterisriddarar ofsóttir. Filippusi veittist erfitt að afla fjár til að kosta átökin og meðal annars handtók hann gyðinga og gerði eigur þeirra upptækar og gerði þá að lokum útlæga úr öllu Frakklandi 22. júlí 1306. Þeir fengu þó að koma aftur 1315. Hann felldi líka gengi gjaldmiðilsins og lagði skatta á franska klerka sem námu helmingi af árstekjum þeirra. Það leiddi til langvinnra deilna við páfann en Filippus hafði betur og kom því til leiðar að aðsetur páfa var flutt til Avignon. Filippus var stórskuldugur Musterisriddurunum, sem höfðu stundað bankastarfsemi í tvær aldir. Eftir að krossferðirnar voru úr sögunni nutu þeir ekki jafnmikils stuðnings og áður og Filippus greip tækifærið og leysti regluna upp til að losna við skuldir sínar. Föstudaginn 13. október 1307 lét hann handtaka hundruð musterisriddara víða um Frakkland og beita þá pyntingum til að fá þá til að játa að reglan ástundaði trúvillu. Musterisriddararnir áttu einungis að vera ábyrgir gagnvart páfanum en Klemens V var Filippusi leiðitamur. Hann reyndi þó að efna til réttarhalda yfir riddurunum en þá hafði Filippus þegar látið brenna marga þeirra á báli. Síðasti stórmeistari reglunnar, Jacques de Molay, var brenndur árið 1314. Sagt var að hann hefði bölvað bæði konungi og páfa á banastundinni og sagst mundu kalla þá fyrir dómstól Drottins innan árs. Bæði Filippus konungur og Klemens V páfi voru dánir innan árs. Nesleturnsmálið og dauði Filippusar. Filippus og Jóhanna með börnum sínum. Filippus og Jóhanna drottning áttu sjö börn. Þrjú dóu ung en þrír synir þeirra komust upp og urðu allir konungar Frakklands, hver eftir annan - Loðvík 10, Filippus 5. og Karl 4. - en urðu allir skammlífir og enginn þeirra eignaðist son sem lifði, svo að Valois-ætt dó út með þeim. Dóttir Filippusar og Jóhönnu, Ísabella, giftist Játvarði 2. Englandskonungi og varð drottning Englands. Árið 1314 voru tengdadætur Filippusar 4., Margrét af Búrgund (kona Loðvíks 10.) og Blanka af Búrgund (kona Karls 4.) ásakaðar um hórdómsbrot í hinu svokallaða Nesleturnsmáli. Þeim var varpað í dýflissu og meintir elskhugar þeirra voru pyntaðir og teknir af lífi. Þriðja tengdadóttirin, Jóhanna 2. (kona Filippusar 5.) var sökuð um að hafa vitað af framhjáhaldinu eða jafnvel tekið þátt í því en maður hennar stóð með henni og henni var sleppt. Sagt er að Filippus hafi tekið þetta mál mjög nærri sér og það hafi jafnvel flýtt fyrir dauða hans. Hann fékk slag þegar hann var á veiðum haustið 1314 og dó nokkrum vikum síðar í Fontainebleau. Loðvík 10. sonur hans tók við krúnunni. Vampírubaninn Buffy (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubanans Buffy" fór af stað þann 10. mars 1997 og kláraðist 2. maí 1997. Þættirnir voru 12 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Söguþráður. Í fyrstu þáttaröðinni flytur Buffy með móður sinni Joyce frá Los Angeles til smábæjarins Sunnydale í Kaliforníu út af skólavandamálum (Buffy brenndi niður íþróttahöllina til að drepa vampírur). Hún heldur áfram með seinni hluta annars árs síns í Sunnydale. Hún kynnist vinsælu stelpunni Cordelia Chase, en vingast frekar við tölvunördinn Willow Rosenberg og lúðann Xander Harris. Buffy væntist til þess að geta gleymt vampírum og vampírubanakjaftæðinu en allt verður fyrir ekki þegar að nýi bókasafnsvörðurinn er nýi Vörðurinn hennar, Rupert Giles. Giles reynir að fá Buffy til að sætti sig við hlutskipti sín sem vampírubani svo hún geti barist við illu vampíruna sem kallast Meistarinn (Mark Metcalf). Willow og Xander komast að leyndarmáli Buffy og þau hjálpa henni mörgum sinnum að drepa vampírur og saman mynda þau Skúbí-gengið (þess má geta að Sarah Michelle Gellar lék Daphne í Scooby Doo-myndunum). Cordelia reynir hvað sem hún getur til að niðurlægja Buffy þar til Buffy bjargar henni og hún kemst líka að leyndarmálinu. Buffy kynnist svo Angel, dularfullri góðri vampíru sem veitir henni mikilvægar upplýsingar til að berjast við Meistarann og verður hún líka ástfangin af honum. Í ljós kemur að Angel var áður hrottafulla vampíran Angelus (þýð. þessi með andlit engilsins) sem varð fyrir bölvun sígauna sem fól í sér að hann fengi sálina sína aftur og eftir það byrjaði hann að fyrirlita sjálfan sig og aðrar vampírur. Giles kynnist tölvukennaranum Jenny Calendar (Robia LaMorte) og verða þau ástfangin hvort af öðru. Giles kemst að því að Meistarinn er að reyna að opna Vítismunninn (Hellmouth) sem Sunnydale er byggður á. Vítismunnurinn er samleitnipunktur dulrænna afla og orku. Orkan frá Vítismunninum gerir Meistaranum kleift að ná yfir heiminn. Stóráætlun Meistarins í því verki kemur í ljós í þættinum "Never Kill a Boy on the First Date", þar sem hann fær til hliðar sér þann Smurða (The Anointed One), sem er reyndar bara smákrakki (Andrew J. Ferchland) og samkvæmt fornum spádómi vampíra mun hann leiða vampírubanans í bæli Meistarans og mun Meistarinn drepa hana. Allt þetta rætist í lokaþætti fyrstu þáttaraðarinnar "Prophecy Girl", þar sem Meistarinn drepur Buffy eftir að hinn Smurði leiddi Buffy í bælið hans, en Xander fær Angel til leiða sig í bæli Meistarans og lífgar hann Buffy við með öndunaraðferðinni þar sem Buffy drukknaði. Meistarinn og vampíruherinn hans fara í áttina að skólanum vegna þess að Vítismunnurinn er akkúrat undir bóksafninu. Buffy drepur Meistarann og einungis beinin hans verða eftir. Eftir það fara Buffy og vinir hennar (og Cordelia) á vorlokaballið. Vampírubaninn Buffy (2. þáttaröð). Önnur þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubaninn Buffy" fór af stað þann 15. september 1997 og kláraðist 19. maí 1998. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Söguþráður. Önnur þáttaröðin byrjar með því að Buffy er með áfallaröskun eftir að hafa verið dáin í nokkrar mínútur þegar hún barðist við meistarann. Hún er hrokafull og leiðinleg við vini sína, Angel og Giles. Hinn Smurði hyggst endurvekja Meistarann með því að nota beinin hans og ræna vinum Buffyar sem voru í nálægð við Meistarann þegar hann dó (Willow, Giles, Jenny, Cordelia) en Buffy mölvar beinin og bjargar vinum sínum. Eftir að hafa fengið útrás á reiði sinni yfir Meistaranum, verður hún sama góða Buffy á ný og Buffy og Angel byrja saman. En vandamál koma fram í skólanum þegar Snyder skólastjóri (Armin Shimerman) ætlar sér að nota hvaða afsökun sem er til að reka Buffy úr skólanum, og með komu Spikes og Drusillu, vampírupar sem ætlar sér drepa Buffy og tengjast fortíð Angels. Spike brennir þann Smurða og tekur yfir störfum hans. Nýr vampírubani Kendra Young (Bianca Lawson) kemur til Sunnydale sem staðgengill Buffyar vegna "dauða" hennar. Kendra sem hefur lesið allar handbækurnar og veit allt um sögu vampírubana þarf vinna með Buffy sem vill frekar lifa venjulegu lífi með banaskyldum sínum og spinnur upp allt sem hún gerir í starfi sínu sem vampírubani. Þegar Spike hyggst veita hinni veiku Drusillu fullan styrk á ný þarf hann að nota blóð vampírurnar sem gerði hana að vampíru, þ.e.a.s. Angel. Hann ræður djöflalaunmorðingja til að trufla Buffy og ræna Angel. Athöfnin heppnast en Spike lamast í bardaganum við Kendru og Buffy. Willow byrjar með gítarleikaranum Oz, sem breytist seinna í varúlf við fullt tungl, og Xander byrjar með Cordeliu. Á 17 ára afmæli Buffyar sefur hún hjá Angel. En bölvun Angels er létt og hann verður aftur Angelus og gengur í lið með Spike og Drusillu. Angelus og Drusilla vilja eyða heiminum, enda bæði jafniklikkuð. Í ljós kemur að Jenny Calendar er fædd inn sígaunaflokkinn sem lagði bölvunina á Angel. Hún reynir að þýða þuluna fyrir bölvuninni en Angelus finnur og drepur hana. Buffy ákveður að Angel sé farinn fyrir fullt og allt. Næsta áætlun Angelusar er að opna hlið fyrir djöflinum Acathla sem mun rústa heiminum. Kendra snýr aftur til að hjálpa Buffy og Willow finnur þulu Jennyar og hyggst flytja hana en lendir í dái. Drusilla drepur Kendru og Snyder skólastjóri kennir Buffy um og rekur hana úr skólanum. Buffy og Spike semja um vopnahlé til að stöðva Angelus (Spike vill ekki að heimurinn endi því hann vill skemmta sér meira) og Joyce kemst að því að Buffy sé vampírubani. Hún segir Buffy að ef hún verði ekki heima þurfi hún ekki að koma aftur. Willow vaknar og er enn ákveðin í að flytja bölvunina. Angelus rænir Giles til þess að fá hann til að segja honum hvernig hann getur vakið Acathla og eftir ítrekaðar pyntingar Giles segir honum að blóðið hans (Angelusar) sé lykillinn. Buffy kemur á ögurstundu og fær Xander til að bjarga Giles. Spike tefur fyrir Angelus og leyfir Buffy að berjast við hann meðan hann flýr úr bænum með Drusillu. Meðan Buffy og Angelus berjast flytur Willow bölvunina og Angel fær sálina sína aftur. En Acathla er alveg að komast í gegn og eina leiðin til að stöðva hann er að drepa Angel - lykilinn. Buffy rekur Angel á hol með sverði og hann sogast í einhverja vítisveröld. Eftir allt þetta yfirgefur Buffy Sunnydale og fer til Los Angeles. Vampírubaninn Buffy (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubaninn Buffy" fór af stað þann 29. september 1998 og kláraðist 13. júlí 1999. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Söguþráður. Eftir að Buffy yfirgaf Sunnydale reyna Xander, Willow, Giles, Cordelia og Oz að berjast við vampírurnar í hennar stað. Buffy býr í Los Angeles undir nafninu Anne og vinnur sem þjónustustúlka á matstað. Eftir jafna sig á samviskubitinu fyrir að hafa sent Angel í vítisveröldina, fer Buffy aftur til Sunnydale. Vinir hennar eru vonsviknir út í hana, sérstaklega Xander (þau vissu ekki hvað gerðist) en eftir smátíma sættast þau. Buffy og mamma hennar tekst að skrá Buffy aftur í skólann svo hún geti klárað lokaárið sitt. Angel kemst svo einhvernveginn að sleppa frá vítisveröldinni og Buffy heldur honum leyndum frá Skúbí-genginu (sérstaklega Giles). Gengið kemst að því að Buffy lendi honum og Giles og Xander verða aftur vonsviknir út í Buffy. Eftirkona Kendru, kærulausi vampírubaninn Faith (Eliza Dushku) kemur til Sunnydale og byrjar að þjálfa með Buffy eftir að Vörðurinn hennar var drepinn. Vampíran Hr. Trick eltir Faith ásamt meistara sínum Kakistos. Buffy og Faith drepa Kakistos. Trick reynir seinna sjálfur að drepa Faith og Buffy en mistekst. Xander fellur allt í einu fyrir Willow og Cordy og Oz koma seinna að þeim að kyssast. Cordy hættir með Xander og hættir líka í Skúbí-genginu. Oz og Willow sættast um jólin. Um sama leytið ásækir draugur Jennyar Angel og vill hún að hann sætti sig við eðli sitt sem Angelus og drepi Buffy. Angel elskar Buffy of mikið til þess þannig að hann ákveður að fremja sjálfsmorð með standa úti við sólarupprás. Buffy kemst að því að þessi "draugur" var í rauninni formbreytileg líkamslaus vera sem kallast Fyrsta Illskan (The First Evil). Buffy grátbiður Angel að fremja ekki sjálfsmorð en hann vill ekki særa Buffy og vini hennar. En Angel fær annað tækifæri þegar sólin rís ekki um morgininn. Eftir sambandsslit Cordyar og Xanders, hittir hún stelpuna Önyu (Emma Caulfield) sem er í raun hefndardjöfull og veitir konum í ástarsorg ósk. En Anya missir mátt sinn og neyðist til að vera áfram í Sunnydale sem dauðleg stelpa. Seinna fellur hún fyrir Xander og þau fara saman á lokaballið. Aðalóvinur gengisins þetta árið er bæjarstjórinn Richard Wilkins III (Harry Groener). Wilkins seldi sálina sína fyrir ódauðleika fyrir hundrað árum og ætlar sér að framkvæma athöfn sem kallast upphafningin (Ascension) sem mun breyta honum í djöful og gerir honum kleift að taka yfir Sunnydale. Hr. Trick gengur seinna í lið með honum. Á átján ára afmæli Buffyar á hún að takast á við prófraun án kraftanna sinna og berjast við geðsjúka vampíru. En vampíran sleppur og rænir móður Buffyar og þarf Buffy að bjarga henni og drepa vampíruna. Buffy stenst prófraunina en Giles er rekinn sem Vörður Buffyar af Quentin Travers (Harris Yulin), yfirformanni Varðaráðsins (e. The Watchers' Council) í Lundúnum, fyrir að hafa sagt Buffy sannleikann um prófið. Buffy og Faith fá í staðinn nýjan Vörð; hinn ofursnobbaða og óreynda Wesley Windham-Pryce (Alexis Denisof). Cordy fellur fyrir Wesley. Þegar Buffy ákveður að skemmta sér með Faith meðan þær elta uppi forna vampíru, drepur Faith óvart mannveru: aðstoðarmann bæjarstjórans. Faith vill gleyma því sem gerðist og sýnir ekkert samviskubit yfir atburðinum. Hún segir Giles að Buffy drap manninn en Giles trúir henni ekki og Faith er handtekin af Varðaráðinu en hún sleppur. Buffy reynir að ná henni svo að þeir drepi hana ekki. Buffy og Faith berjast hvor við aðra en Hr. Trick kemur til að drepa þær. Faith sleppur og Buffy berst við hann. Trick tekst næstum því að drepa Buffy, en Faith drepur hann og fer svo í burtu. Hún gengur í lið með Wilkins bæjarstjóra og verður sem dóttir hans og býr glæsilegri þakíbúð. Faith og bæjarstjórinn reyna að gera Angel aftur að Angelus og fá hann í lið með sér, en Buffy og Angel plötuðu þau og komust að svikum Faith. Seinna hlutar þáttaraðana fjalla um gengið stöðva áætlanir bæjarstjórans, samband Buffyar og Angels og galdranotkun Willows. Undir lokin er allt tilbúið fyrir Upphafningu bæjarstjórans og Joyce sannfærir Angel að það væri besti fyrir hann og Buffy ef hann yfirgæfi Sunnydale. Daginn fyrir Upphafninguna skýtur Faith Angel með eiturör sem drepur vampírur hægt. Buffy og gengið kemst að því að blóð vampírubana séu eina móteitrið. Buffy rífst við Wesley, sem vill að hugsi um að stöðva bæjarstjórann frekar en að bjarga Angel, og hættir hún hjá Varðaráðinu. Hún ákveður að drepa Faith og nota blóðið hennar til að lækna Angel. Vampírubanarnir berjast í þakíbúð Faith og Buffy stingur hana í kviðinn með rýtingnum sem bæjarstjórinn gaf Faith. Faith vill frekar að Angel deyji og stekkur af þakíbúðinni og lendir aftan í vörubíl. Buffy ákveður að leyfa Angel að drekka blóðið úr sér. Angel drekkur næstum of mikið og Buffy fellur í yfirlið. Hann fer með hana á spítala og í ljós kemur að bæjarstjórinn er þar með Faith sem er í dái vegna blóðmissi. Buffy dreymir sig og Faith pakka niður í þakíbúð Faith og Faith segir Buffy að bæjarstjórinn eigi sér mannlegan veikleika (sig). Buffy vaknar og segist vera tilbúin í stríð við bæjarstjórann. Í ljós kemur að bæjarstjórinn verður dauðlegur þegar hann verður djöfull og hann verður lík ræðumaður við útskriftina þeirra. Þau komast að því að við upphafninguna verður sólmyrkvi og bæjarstjórinn notar vampíruher til að drepa fólkið. Buffy og gengið fær skólafélaga sína (Harmony, Jonathan og Larry svo fáir séu nefndir) saman til að undirbúið stríðið á útiskriftardeginum. Oz og Willow sofa saman í fyrsta skiptið. Á útiskriftardeginum breytist bæjarstjórinn í risastóran snákdjöful og étur Snyder skólastjóra. En bæjarstjóranum til mikillar undrunar er allur útsriftar árgangurinn vopnaður ýmsum vopnum og leiða Buffy og Xander árásina. Giles, Angel og Wesley leiðir starfsfólk og aðra nemendur til að berjast. Buffy sýnir bæjarstjóranum rýtinginn sem hún stakk Faith með og espir hann upp svo að hann elti sig inn í bókasafnið. Buffy fer út um glugga og Giles sprengir upp bókasafnið (og skólan með) sem drepur bæjarstjórann. Eftir bardagann sér Buffy Angel yfirgefa Sunnydale og sættir hún sig við ákvörðun hans. Buffy, Xander, Willow, Cordy, og Oz sitja saman um kvöldið og eru stolt yfir því að hafa lifað af miðskólaárin og búa sig undir framhaldið. Vampírubaninn Buffy (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubaninn Buffy" fór af stað þann 5. október 1999 og kláraðist 23. maí 2000. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Söguþráður. Í fjórðu þáttaröðinni byrja Buffy, Willow og Oz í Sunnydale-deild UCLA-háskólans (Cordelia flutti til L.A.) á meðan fer Xander á vinnumarkaðinn og byrjar með Önyu. Giles er atvinnulaus eftir að skólinn var sprengdur í loft upp. Spike kemur aftur til Sunnydale til að reyna að drepa Buffy og er byrjaður með Harmony Kendall, bestu vinkonu Cordeliu, sem breyttist í vampíru í endanum á þriðju þáttaröð. En háskólalífið er erfitt fyrir Buffy vegna skyldum sínum sem vampírubanninn. Á meðan gengur Willow frábærlega (nú er manni ekki strítt fyrir að vera gáfaður) og Oz er fljótur að eignast nýja vini. Xander er sífellt að skipta um vinnu. Buffy og Willow skrá sig saman í sálfræði sem er kennd af Maggie Walsh prófessor og verður Buffy skotin í aðstoðarkennaranum Rily Finn (Marc Blucas). Samband Willows og Oz endar þegar Oz óttast að hann geti ekki haft stjórn á varúlfahliðinni í sér og yfirgefur Sunnydale. Willow fellur í þunglyndi. Spike er síðan fangaður af einhverskonar hermönnum sem laumast um skólalóðina. Í ljós kemur að þeir eru hluti af djöflaföngunarverkefni fyrir ríkisstjórnina sem kallast "The Initiative" og er verkefnið leitt af Maggie Walsh og Riley er einn af hermönnunum. Buffy og Riley vilja byrja saman en vita ekki hvort sambandið muni ganga upp út af leynilífum þeirra (Buffy veit ekki að Riley er einn af hermönnunum og Riley veit ekki að Buffy er vampírubanninn). Spike tekst að sleppa frá The Initiative en kemst að því þeir settu tölvukubb í heilann á honum sem veldur honum gífurlegum sársauka ef hann reynir að meiða/ráðast á mannverur. Spike leitar athvarfs hjá Giles og Skúbí-genginu. Eftir að hafa jafnað sig smá yfir sambandssliti sínu við Oz gengur Willow í Wicca-grúppu í háskólanum og kynnist feimnu norninni Töru Maclay (Amber Benson) og verða þær vinir. Samband þeirra breytist seinna í ástarsamband. Buffy og Riley komast að leyndarmáli hvors annars og ákveða þau eftir smáefasemdir að reyna byrja saman. Riley kynnir Initiative-liðinu fyrir Buffy en Walsh er ekki sérlega sátt við að hafa þar og óttast að Buffy gæti komist að leyniverkefninu sýnu mann-djöful-vélverunni Adam (Georgehertz), sem er nokkurskonar Frankenstein-skrímsli búið til úr pörtum af mönnum, djöflum og vélum. Walsh ákveður að leiða Buffy í gildru og drepa hana en það mistekst og Buffy segist ætla láta Walsh finna fyrir því. Walsh ákveður að gangsetja Adam en hann drepur hana og sleppur. Adam ætlar sér að búa til her af "fullkomnum" lífverum: með gáfur og aðlögunarhæfni manna; grimmd og styrk djöfla; og tilfinningarleysi véla. Adam fær vampírur og aðra djöfla í lið með sér og fær þá til að leyfa Initiative að fanga sig. Á meðan Adam gengur laus, vaknar Faith úr dáinu og kemst að því að Buffy hefur drepið bæjarstjórann. Faith finnur töfragrip frá bæjarstjóranum sem gerir henni kleif að skipta líkama við Buffy. Buffy í líkama Faith er handtekin af Varðaráðinu og Faith í líkama Buffy-ar lifir lífinu með vinum hennar og sefur hjá Riley. Tara og Willow komast að því að eitthvað er Buffy og framkvæma galdur sem gerir þeim kleift að finna alvöru Buffy. Buffy tekst að flýja frá Varðaráðinu og sannfærir Giles að hún sé ekki Faith með því að segja honum frá nýlegum atburðum hjá Skúbí-genginu (og ástarsambandi Giles við Joyce). Tara og Willow útvega Buffy sama galdragrip til að koma Buffy og Faith aftur í líkama sína. Adam sendir vampírur til að halda fólki gíslingu í kirkju og Buffy og Faith koma fólkinu til bjargar. Eftir þær hafa drepið vampírurnar berjast þær hvor við aðra og Buffy notar galdragripinn til að komast aftur í líkamann sinn. Faith sleppur og flýr til L.A. (Hún hittir Angel og hann fær hana til gefa sig fram til yfirvalda fyrir morðið í þriðju þáttaröð). Oz kemur skyndilega aftur og hefur lært að stjórna varúlfabreytingunni. En þegar hann kemst að ástarsambandi Willow og Töru breytist hann í varúlf að degi til og er handsamaður af Initiative. Riley reynir hjálpa honum að sleppa en er sjálfur handsamaður. Buffy og Skúbí-gengið bjarga Oz og Riley og Riley hættir hjá Initiative. Oz sættir sig við ástarsamband Willow og Töru og yfirgefur Sunnydale aftur. Adam fær Spike í lið með sér og lofar honum að hann muni fjarlægja tölvukubbinn ef hann hjálpi sér. Adam lætur Spike "afhenda" Willow kóðaða diska sem eiga innihalda upplýsingar um sig. Síðan lætur hann Spike sundra Skúbí-genginu svo að Buffy verði einsömul þegar hún reynir að stöðva sig. Spike sannfærir Giles um að Buffy telji hann óþarfi vegna þess að hann er ekki vörðurinn hennar lengur; Xander að Willow og Buffy telji hann heimskan fyrir að hafa ekki komist í háskóla; og Willow að Buffy sé ósátt við ástarsamband hennar og Töru. Buffy fattar hvað Spike er að bralla og gengið sættist. Skyndilega afkóðast diskarnir sem Willow fékk að sjálfsdáðum og þau komast að leynilegri rannsóknar stofu sem Adam notar og að hann sé með plútónkjarna sem knýr hann áfram. Vampírubaninn Buffy (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubaninn Buffy" fór af stað þann 26. september 2000 og kláraðist 22. maí 2001. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Vampírubaninn Buffy (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubanans Buffy" fór af stað þann 2. október 2001 og kláraðist 21. maí 2002. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Vampírubaninn Buffy (7. þáttaröð). Sjöunda þáttaröð bandaríska gamanþáttarins "Vampírubaninn Buffy" fór af stað þann 24. september 2002 og kláraðist 20. maí 2003. Þættirnir voru 22 og hver þáttur var að meðaltali 42 mínútur að lengd. Smallville (9. þáttaröð). Smallville er bandarísk ofurhetju-dramaþáttaröð. Sýningar á 9. þáttaröðinni hófust þann 25. september 2009 og lauk 14. maí 2010. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Todd Slavkin og Darren Swimmer hættu að vinna að þáttunum og eftir sátu Brian Peterson og Kelly Souders sem þáttstjórnendur. Tom Welling, aðalleikari þáttana, varð gerður að framleiðanda frá og með þessari þáttaröð. Justin Hartley var einn höfundana að þættinum Sacrifice. Pétur Jónsson. Pétur Jónsson (2. ágúst 1856 – 25. apríl 1908) blikksmiður frá Skógarkoti var iðnrekandi og íþróttafrömuður í Reykjavík. Ævi og störf. Pétur fæddist í Skógarkoti Þingvallasveit.Móðir hans Kristín Eyvindsdóttir (13. mars 1813 – 22. ágúst 1868). - faðir hans Jón Kristjánsson (5. október 1811 – 31. maí 1895),var bóndi og hreppstjóri Skógarkoti. Pétur var kvæntur Önnu Kristjönu Bjarnadóttir (3. apríl 1853 – 16. nóvember 1937) frá Bjarnabæ í Hafnarfirði. Synir þeirra voru Jón Bjarni Pétursson (25. apríl 1885 – 28. febrúar 1956) forstjóri og Kristinn Pétursson (16. febrúar 1889 – 5. maí 1965) blikksmiður. Pétur lærði blikksmíði og niðursuðu hjá Hafliða Guðmundssyni á Siglufirði. Árið 1883 stofnaði hann fyrstu blikksmiðjunna í Reykjavík, Blikksmiðju Péturs Jónssonar að Vesturgötu 22 á 15 fermetra gólfrými. Þegar Pétur lést árið 1908 tóku synir hans við rekstrinum og hlaut smiðjan þá nafn eldri sonar hans Blikksmiðja J.B.Péturssonar. Pétur var mikill áhugamaður um íþróttamál og var hann annar af aðalstofnendum Glímufélagsins Ármanns 1888.. Gliese 667 B. Gliese 667 B er næsta sólin í sólkerfinu Gliese 667. Hún er af tegundinni appelsínugulur dvergur. Gliese 667 A og Gliese 667 B eru mjög líkar og mætti kalla þær tvíburastjörnur enda eru þær næstum því af sömu stærð. Gliese 667 B snýst um Gliese 667 C á 42 árum. Sólin er í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Gliese 581 b. Gliese 581 b er stærsta fjarreikistjarna Gliese 581-sólkerfisins og sú önnur í röðinni. Hún er svipað stór og Neptúnus þó hún sé talsvert heitari. Hún var uppgötvuð 30. nóvember 2005, fyrst af öllum plánetum í Gliese-sólkerfi. Gliese 581 b snýst um Gliese 581 á fimm dögum og er hún í um átta milljóna km fjarlægð (Merkúr er í 58 milljón km). Plánetan er þó ekki svo heit þó hún sé nær sólu því Gliese 581 er fjórum sinnum minni en sólin og kaldari. Plánetan er gashnöttur. Lilja Mósesdóttir. Lilja Mósesdóttir (fædd 11. nóvember 1961) er hagfræðingur og íslenskur stjórnmálamaður. Menntun. Lilja er með BBA gráðu í viðskiptafræði (1984) frá Iowaháskóla í Bandaríkjunum, M.A. gráðu í þróunarhagfræði (1988) frá Sussexháskóla í Brighton, Bretlandi 198 og doktorsgráðu (Dr. phil.) í hagfræði (1999) frá University of Manchester Institute of Science and Technology (UMIST) Management School. Starfsferill. Lilja starfaði sem kennari við VÍ 1985-1986. Hagfræðingur hjá ASÍ 1988-1989. Lektor við HA 1989-1991. Ráðgjafi og námskeiðakennari hjá Iðntæknistofnun Íslands 1992-1993. Verkefnaráðinn ráðgjafi atvinnu- og félagsmálaráðherra grænlensku heimastjórnarinnar 1995-1997. Verkefnaráðinn sérfræðingur í sérfræðingahópi ESB 1997-1999. Kennari og sérfræðingur við Tækniháskólann í Luleå, Svíþjóð, 1999-2000. Dósent við Háskólann í Reykjavík 2000-2002. Prófessor við Háskólann á Bifröst 2003-2007. Verkefnaráðinn sérfræðingur í sérfræðingahópum ESB 2004-2009. Hagfræðingur hjá HÍ frá 2008. Ferill í stjórnmálum. Lilja tók fyrst þátt í stjórnmálum í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, en hún bauð sig fram í prófkjöri Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 7. mars 2009 fyrir kosningarnar vorið 2009. Lilja lenti í þriðja sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík. Hún situr á Alþingi sem sjötti þingmaður Reykavíkurkjördæmis suður. 21. mars 2011 sagði hún sig úr þingflokki Vinstri grænna. Nýr stjórnmálaflokkur undir formennsku Lilju var kynntur í Iðnó 7. febrúar 2012, en hann hlaut nafnið Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar. 22. desember 2012 tilkynnti svo Lilja að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í alþingiskosningunum vorið 2013 og því mun hún ekki leiða lista Samstöðu. Ingibjörg Eiríksdóttir af Svíþjóð. Slitið og máð innsigli Ingibjargar Eiríksdóttur. Ingibjörg Eiríksdóttir (um 1212 – um 1254) var sænsk konungsdóttir og síðar jarls- og ríkisstjórafrú í Svíþjóð og móðir tveggja sænskra konunga. Ingibjörg var dóttir Eiríks Knútssonar Svíakonungs og Ríkissu Valdimarsdóttur af Danmörku, dóttur Valdimars mikla. Eiríkur, yngri bróðir hennar, sem fæddur var eftir lát föður þeirra 1216, varð konungur Svíþjóðar eftir lát Jóhanns Sörkvissonar 1222, var svo settur af 1229 en varð aftur konungur 1234. Ingibjörg fylgdi móður sinni og bróður í útlegð til Danmerkur 1216 og aftur með bróður sínum 1229 og ólst þar upp að miklu leyti hjá ættingjum móður sinnar. Eiríkur varð konungur öðru sinni 1234 eftir lát Knúts langa og naut til þess meðal annars stuðnings hinnar valdamiklu Bjälbo-ættar. Líklega hefur sá stuðningur átt þátt í því að Birgir Magnússon af Bjälbo-ætt varð hlutskarpastur margra biðla Ingibjargar konungssystur og gengu þau í hjónaband skömmu síðar. Þau eignuðust fjölda barna, þar á meðal Valdimar og Magnús, sem urðu konungar Svíþjóðar og Ríkissu, sem giftist Hákoni unga, syni og meðkonungi Hákonar gamla Noregskonungs. Vegur Birgis óx mjög eftir að hann varð mágur konungsins. Hann var gerður að jarli og varð brátt einn valdamesti maður ríkisins. Eiríkur eignaðist engin börn með konu sinni og þegar hann lést 1250 var elsti systursonur hans, Valdimar Birgisson, valinn konungur. Birgir jarl var gerður að ríkisstjóra þar til Valdimar yrði fullvalda en stýrði landinu í raun allt þar til hann lést 1275. Sem konungsmóðir og ríkisstjórafrú var Ingibjörg því tignasta kona landsins og ígildi drottningar í fáein ár en hún dó um eða upp úr 1254, líklega af barnsförum þótt komin væri á fimmtugsaldur. Katrín Súnadóttir. Stytta Katrínar á gröf hennar í Guðheimsklaustri. Katrín Súnadóttir (um 1215 – 1251/1253) var sænsk hefðarkona og drottning Svíþjóðar frá 1244 til 1250, þegar maður hennar, Eiríkur konungur, lést. Síðustu árin var hún í Guðheimsklaustri og var ef til vill abbadís þar. Katrín var dóttir Súna Fólkasonar og Helenu, dóttur Sörkvis yngri Karlssonar Svíakonungs og systur Jóhanns Sörkvissonar. Súni faðir hennar var lögsögumaður Vesturgauta og er nefndur jarl í sumum heimildum. Hann var af Bjälbo-ætt. Hjónabandi Katrínar og Eiríks konungs mun hafa verið ætlað að styrkja Eirík í sessi með því að tengja hann við Sörkvisætt en Eiríksætt og Sörkvisætt höfðu lengi tekist á um völd í Svíþjóð og skipst á um konungstitilinn hvað eftir annað. Katrín, sem átti enga bræður, aðeins eina systur, er sögð hafa fengið ógrynni fjár í heimanmund, allt að því „hálft kóngsríkið“. Þau Katrín og Eiríkur virðast ekki hafa átt börn, að minnsta kosti engin sem lifðu föður sinn því að við lát Eiríks 2. febrúar 1250 erfði Ingibjörg systir hans auðævi hans en Valdimar Birgisson sonur hennar varð konungur. Katrín gaf Guðheimsklaustri stórfé og gekk sjálf í klaustur þar. Klausturvistin hefur þó ekki verið ýkja löng því vitað er að hún var dáin í febrúar 1253. Ingigerður Birgisdóttir. Ingigerður Birgisdóttir (um 1180 – eftir 1210) var sænsk hefðarkona á 13. öld og drottning Svíþjóðar frá 1200 þar til manni hennar, Sörkvi yngri, var steypt af stóli árið 1208. Ingigerður var af Bjälbo-ætt, dóttir Birgis jarls Brosa og konu hans Brígiðu Haraldsdóttur, sem var dóttir Haraldar gilla Noregskonungs og hafði áður verið gift Magnúsi Hinrikssyni Svíakonungi. Ingigerður giftist Sörkvi konungi árið 1200 eftir að Benedikta Ebbadóttir, fyrri kona hans, lést. Faðir hennar var annar valdamesti maður Svíþjóðar en þegar hann lést 1202 lýsti gerði Sörkvir konungur ársgamlan son þeirra Ingigerðar, Jóhann, að jarli í hans stað og lýsti hann höfuð Bjälbo-ættar. Árið 1204 kom til deilna milli konungsins og ættingja Ingigerðar og eftir að þrír synir Knúts Eiríkssonar Svíakonungs féllu í bardaga við menn Sörkvis konungs í orrustunni við Älgarås varð fullkominn fjandskapur þar á milli. Ingigerður reyndi að sætta mann sinn og ætt sína en það tókst ekki. Sörkvi var steypt af stóli 1208 og árið 1210 féll hann í orrustunni við Gestilren, þegar hann reyndi að ná völdum að nýju. Ekkert er vitað um ævi Ingigerðar eftir það og óvíst er hvenær hún dó þótt ártalið 1230 hafi verið nefnt. Jóhann sonur hennar varð konungur 1216 en hann dó 1222. Benedikta Ebbadóttir. Benedikta Ebbadóttir (fædd milli 1165 og 1170, dáin 1199 eða 1200), einnig nefnd Bengta í Svíþjóð, var dönsk hefðarkona á 12. öld og drottning Svíþjóðar frá 1196 til dauðadags. Benedikta var líklega dóttir danska höfðingjans Ebba Súnasonar Hvide. Hún giftist Sörkvi yngri Karlssyni um eða upp úr 1185 og þegar hann varð konungur Svíþjóðar eftir lát Knúts konungs Eiríkssonar árið 1196 varð hún drottning. Um sama leyti kom föðurbróðir hennar, Andrés Súnason prestur, til Svíþjóðar frá Frakklandi og varð annar helsti kirkjuhöfðingi landsins undir Absalon erkibiskupi, sem raunar var einnig frændi Benediktu drottningar. Hún er sögð hafa verið mjög trúhneigð og studdi kirkjuna í valdabaráttu hennar gegn konungsvaldinu. Benedikta drottning dó árið 1199 eða 1200. Eini sonur þeirra Sörkvis, Karl, dó á undan móður sinni en hún skildi eftir sig tvær eða þrjár dætur. Ein þeirra var Helena, móðir Katrínar Súnadóttur Svíadrottningar, konu Eiríks hins smámælta og halta. Brígiða Haraldsdóttir. Rústir Risebergs-klausturs, þar sem Brígiða bjó síðustu árin. Brígiða Haraldsdóttir (eftir 1130 – 1209), einnig nefnd Birgitta, var norsk konungsdóttir sem var drottning Svíþjóðar skamma hríð, 1160-1161, og einnig gift tveimur sænskum jörlum. Brígiða var óskilgetin dóttir Haraldar gilla Noregskonungs en móðir hennar er óþekkt þótt þess hafi verið getið til að það kunni að hafa verið Þóra Guttormsdóttir, sem lengi var frilla Haraldar, og hefur Brígiða þá verið alsystir Sigurðar munns. Sagnir herma að hún hafi fyrst verið gift Inga konungi yngri en talið er útilokað að svo hafi verið; fyrsti maður hennar hefur líklega verið sænski jarlinn Karl Súnason (Sónason), sem hefur þá dáið eftir skammvinnt hjónaband. Brígiða giftist þá danska prinsinum Magnúsi Hinrikssyni, sem var afkomandi Sveins Ástríðarsonar Danakonungs, en móðir Magnúsar var Ingiríður Rögnvaldsdóttir af Svíþjóð, sem hafði verið gift Haraldi gilla og var því stjúpmóðir Brígiðu. Magnús gerði tilkall til sænsku krúnunnar árið 1160 eftir morðið á Eiríki helga (ártöl og fleira er þó mjög á reiki á þessu tímabili sænskrar sögu) og telst hafa verið konungur yfir hluta Svíþjóðar í eitt ár en árið 1161 féll hann í bardaga við Karl Sörkvisson, sem þá varð konungur. Brígiða giftist síðan öðrum sænskum jarli, Birgi Brosa af Bjälbo-ætt, einum valdamesta manni Svíþjóðar um langt skeið. Þegar Eysteinn meyla, sem kvaðst vera sonur Haraldar gilla og því bróðursonur Brígiðu, gerði tilkall til norsku krúnunnar 1174 leitaði hann stuðnings hjá Brígiðu og Birgi og fékk hann. Tveimur árum seinna leitaði Sverrir Sigurðsson einnig til þeirra eftir stuðningi. Þau vísuðu honum í fyrstu frá sér en ráðlögðu svo birkibeinum að fylgja Sverri sem konungsefni. Filippus, sonur þeirra, gekk líka í þjónustu Sverris og varð jarl hans. Magnús dó árið 1202 og Brígiða eyddi síðustu æviárunum í Riseberga-klaustri. Ekki er vitað til þess að hún hafi átt börn með fyrri mönnum sínum en þau Birgir eignuðust mörg börn saman, þar á meðal Ingigerði, konu Sörkvis yngri Svíakonungs, Filippus jarl, Knút jarl, sem féll í orrustunni við Lena 1208, og Fólka jarl, sem féll í orrustunni við Gestilren 1210. Ríkissa Valdimarsdóttir. Ríkissa drottning. Mynd á legsteini sem ætlaður var á gröf hennar en aldrei settur þar vegna þess að hún dó og var grafin í Danmörku. Ríkissa Valdimarsdóttir (1190 – 1220) eða Ríkissa af Danmörku var dönsk konungsdóttir og drottning Svíþjóðar frá 1210 til 1216. Ríkissa var dóttir Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs og Soffíu af Minsk. Hún hét eftir móðurömmu sinni, Ríkissu af Póllandi. Þegar Eiríkur Knútsson Svíakonungur taldi sig fastan í sessi eftir að hafa fellt fyrirrennara sinn, Sörkvi yngri Karlsson, í orrustu 1210, vildi hann byggja upp friðsamleg og góð samskipti við Danmörku, sem áður hafði stutt Sörkvisætt í átökunum við Eiríksætt. Því bað hann um hönd Ríkissu, systur Valdimars sigursæla, sem þá hafði tekið við ríkjum í Danmörku. Sagnir herma að þegar Ríkissa kom til Svíþjóðar hafi það komið henni mjög á óvart að henni var ætlað að sitja hest en ekki ferðast með vagni eins og hún var vön í hinni flötu Danmörku en hirðmeyjar hennar ráðlögðu henni að taka upp siði hins nýja heimalands síns en reyna ekki að innleiða danska siði. Þegar Eiríkur dó 1216 áttu þau eingöngu dætur á lífi en Ríkissa var þunguð og nokkrum mánuðum síðar eignaðist hún son sem nefndur var Eiríkur. Þá hafði Jóhann Sörkvisson þegar verið kjörinn konungur og Ríkissa og börn hennar hröktust í útlegð til Danmerkur. Þar dó Ríkissa 1220 en tveimur árum síðar var Eiríkur sonur hennar tekinn til konungs í Svíþjóð eftir lát Jóhanns. Dætur Ríkissu og Eiríks sem upp komust voru þær Soffía, sem giftist Hinrik 3. af Mecklenburg, og Ingibjörg, sem giftist Birgi jarli, ríkisstjóra Svíþjóðar, og var móðir Svíakonunganna Valdimars Birgissonar og Magnúsar hlöðuláss. Robert Biswas-Diener. Robert Biswas-Diener (fæddur 27. júlí 1972) er jákvæður sálfræðingur. Öfugmælavísa. Öfugmælavísa er vísa sem segir öfugt frá því sem gengur og gerist í heiminum, það er að öllu er lýst þveröfugt við raunveruleikann (t.d. myrkur kallað bjart, steinn mjúkur o.s.frv.). Öfugmælavísur eru oftast kveðnar í hálfkæringi, en stundum einnig með broddi. David Schweickart. David Schweickart (f. 1942) er bandarískur stærðfræðingur, heimspekingur og róttækur þjóðfélagsrýnir. Schweickart er með doktorsgráðu í stærðfræði frá Virginíuháskóla og doktorsgráðu í heimspeki frá Ríkisháskóla Ohio. Hann hefur kennt við Loyolaháskóla í Chicago síðan 1975 þar sem hann er prófessor í heimspeki. Þekktustu rit. Þekktasta, og um leið nýjasta rit Schweickart er "After Capitalism" (2002) sem er að miklu leyti bætt og endurskrifuð útgáfa tveggja eldri bóka hans sem vöktu mikla athygli, "Against Capitalism" (1993) og "Capitalism or Workers' Control: An Ethical and Economic Appraisal" (1980). Að auki hefur Scweickart skrifað mikinn fjölda greina, bæði í fræðirit og óritrýnd rit, auk fjölmargra kafla í fræðiritum. Bækur Schweickart hafa meðal annars verið þýddar á kínversku og spænsku. Hugmyndir Schweickart. Schweickart er þekktastur fyrir gagnrýna greiningu sína á kapítalisma og kapítalísku þjóðskipulagi. Schweickart hefur hafnað því sem hann telur algengustu réttlætinguna fyrir kapítalisma, nefnilega að hann sé í raun óumflýjanlegur því það sé einfaldlega ekki hægt að hugsa sér annað þjóðfélagskerfi sem geti virkað jafn vel. Þess í stað vill hann meina að til sé valkostur við kapítalisma sem hann heldur fram að sé ekki einasta réttlátari og sanngjarnari, heldur mun hagkvæmari. Helsta gagnrýni Schweickart á kapítalískt þjóskipulag er að það sói verðmætum og auðlindum, bæði náttúruauðlindum og hráefnum, en ekki síður mannauð. Í þessu sambandi bendir hann meðal annars á atvinnuleysi og auglýsingar. Hann hafnar því þeim rökum að kapítalisminn geti ráðstafað framleiðsluþáttum á hagkvæmasta máta. Þá vísar hann því á bug að kapítalískt samfélag tryggi jöfnuð, og bendir á að tekjumisskipting hefur farið hratt vaxandi á undanförnum áratugum. Loks hafnar hann fullyrðingum um að kapítalismi og lýðræði séu með einhverjum hætti tengd. Hugmynd Schweickart er að starfsmennirnir eða verkamennirnir taki sjálfir yfir stjórn vinnustaða og verksmiðja. Markaðslögmál framboðs og eftirspurnar myndu áfram gilda á markaði fyrir vörur og þjónustu, en fjárfestingum væri að stórum hluta stýrt af hinu opinbera sem hefði til þess fjárfestingarsjóði sem væru fjármagnaðir með skattheimtu. Fyrirmyndir þessarar samfélagsmyndar sækir Schweickart í hugmyndir um framleiðendasamvinnu, sérstaklega Mondragon-samvinnuhreyfinguna á Spáni, í japanskan kapítalisma eftirstríðsáranna og að lokum í tilraunir með útfærslur á sósíalísku skipulagi í Júgoslavíu á eftirstríðsárunum. Ein helsta gagnrýnin á hugmyndir Schweickarts er að þær gera ráð fyrir því að verkamenn og alþýða fólks sé félagslega meðvitaðari og hegði sér með rökréttari hætti en sagan hefur sýnt að réttlætanlegt sé að gera sér vonir um. Smallville (10. þáttaröð). Smallville eru bandarískir ofurhetjudramaþættir. Sýningar á 10. þáttaröðunni hófust þann 24. september 2010 og lauk þeim þann 13. maí 2011 með tvöföldum lokaþætti. Justin Hartley leikstýrir þættinum "Dominion". Tvöhundraðasti þátturinn var sýndur þann 15 október og með 215. þættinum sló Smallville Guinnessmet Stargate-þáttana um lengstu vísindaskáldskaparþætti. 10. þáttaröðin er lokaþáttaröð Smallville-þáttana. Tjarnargata. Tjarnargata liggur meðfram vestanverðri Reykjavíkurtjörn. Hún er ein elsta gata Reykjavíkur og hlaut núverandi nafn sitt um miðja nítjándu öld. Fjöldi sögufrægra húsa stendur við Tjarnargötu. Tjarnargata á sér að öllum líkindum langa sögu sem troðningur eða vegarslóði frá bæjarhúsum gamla Reykjavíkurbæjarins einhvern spotta meðfram Tjörninni til suðurs. Upp úr aldamótunum 1900 var ráðist í að leggja þokkalega götu fyrir neðan Tjarnarbakkann, sem þá var orðið vinsælt byggingarsvæði. Á næstu árum myndaðist samfelld húsaröð meðfram vestanverðri götunni allt til Skothúsvegar. Snemma var ákveðið að breikka götuna allverulega með landfyllingu út í Tjörnina. Mörg húsa þeirra sem reist voru við Tjarnargötuna á fyrstu árum tuttugustu aldar voru reisuleg timburhús sem ættuð voru frá Noregi. Ýmsir af æðstu embættismönnum og athafnamönnum Reykjavíkur á þessum tíma bjuggu sér heimili við Tjarnargötuna. Málvenja. Í bók sinni "Skynsamleg orð og skætingur" skrifar Helgi Hálfdanarson grein um forsetningar og staðarnöfn og þar kemur fram að það sé málvenja að tala um að eitthvað sé „í Tjarnargötu“. Dæmi í dagblöðum styðja þessa venju. Rosalia mey. Rosalia mey er verndardýrlingur í heimaborg sinni, Palermo á Sikiley. Hún var góðrar ættar, fékk ung löngun til að helga sig kristinni trú og gerðist einsetukona, ef til vill nunna af reglu heilags Basilíusar. Helgisaga greinir, að tveir englar hafi fylgt henni að helli uppi á Monte Pellegrino, og þar hafi hún sest að en dáið 4. september 1165. Sums staðar er ártalið haft 1166. Árið 1624 geysaði drepsótt í Palermo, og þá á Rosalia að hafa birst veikri konu, sagt henni frá hellinum og ráðlagt að sækja líkamsleifar sínar og bera þær í helgigöngu inn í Palermo. Það var gert, og drepsóttin rénaði. Urbanus páfi VIII. lýsti árið 1630 yfir helgi þessarar meyjar. Messudagar hennar eru 15. júlí og 4. september. Eldborgargil. Eldborgargil er nyrsti hluti skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Þar eru nú starfræktar fjórar skíðalyftur sem allar heita eftir persónum í Tinna-bókunum. Skíðadeild Knattspyrnufélagsins Fram, sem stofnuð var árið 1972, hefur frá upphafi haft höfuðstöðvar sínar í Eldborgargili. Þar reisti deildin lítið hús árið 1976, en árið 1989 var skíðaskálinn Eldborg tekinn í notkun. Ingibjörg af Kænugarði. Ingibjörg af Kænugarði (d. eftir 1137) eða Engilborg var rússnesk furstadóttir á 12. öld, sem giftist Knúti lávarði Danaprinsi. Hún var móðir Valdimars mikla Danakonungs. „Síðan átti konungr tal við dóttur sína Engilborg ok við annat ráðuneyti sitt ok tjáði þetta mál fyrir þeim. Allir fýstu þessa ráðs, ok þótti þetta vel efnat, ok var þat ráð gört með samþykki Engilborgar, konungs dóttur, at hana skyldi gipta Knúti lávarði, ok fór Viðgautr til Danmerkr með þessum erendum ok fann Knút lávarð ok sagði honum frá sínum ferðum. Hertoginn þakkaði honum sitt starf. Eptir þetta efnaði Knútr lávarðr til brúðlaups síns, en Haraldr sendi Engilborg, dóttur sína, austan ór Hólmgarði at nefndri stundu með fríðu föruneyti. En er hon kom til Danmerk, tók hertoginn vel við henni ok þar með öll alþýða; síðan gerði hann brúðlaup sitt með miklum sóma. Þau áttu nökkur börn, þau er enn munu síðar nefnd vera.“ Þau eignuðust saman þrjár dætur. Um áramótin 1130-1131 átti hún enn von á barni. Knútur maður hennar var þá boðinn í heimsókn til frænda síns, Magnúsar sterka, sem var sonur Níelsar konungs, föðurbróður Knúts. Ingibjörg reyndi að fá mann sinn ofan af því að fara en tókst það ekki og þann 7. janúar var Knútur myrtur af mönnum Magnúsar. Sjö dögum síðar fæddi Ingibjörg son og nefndi hann Valdimar eftir afa sínum, Vladimir stórfursta af Kænugarði. Ingibjörg kom seinast við heimildir árið 1137, þegar sumir vildu taka Valdimar son hennar til konungs á þingi í Ringsted eftir drápið á Eiríki eimuna. Ingibjörg neitaði, vildi ekki að sonur hennar yrði barnakonungur sem stýrt yrði af aðalsmönnum. Ekkert er vitað hvað um hana varð eftir það. Hennar var ekki getið þegar Valdimar fékk föður sinn tekinn í helgra manna tölu 1169 og hún er ekki grafin við hlið hans. Þess hefur verið getið til að hún hafi horfið aftur heim til Rússlands og Valdimar hafi ef til vill alist þar upp að hluta. Ein dætra Ingibjargar var Kristín, sem var skamma hríð drottning Noregs, kona Magnúsar blinda Noregskonungs. Samtök lánþega. Samtök lánþega voru stofnuð 2009, og eru ein þeirra grasrótarsamtaka sem stofnuð voru í kjölfar bankahrunsins 2008. Markmið samtakanna er að berjast fyrir hagsmunum lánþega og aðstoða þá við að takast á við þær byrðar heimili landsins tóku á sig í formi hærri lána vegna hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins í kjölfar bankahrunsins. Markmiði sínu ætla samtökin að ná með því að beita fjármálastofnanir þrýstingi, meðal annars með með því að hvetja fólk til aðgerða gegn fjármálastofnunum í formi greiðslufalls og jafnframt með fjöldaþátttöku í hópmálsókn. Samtökin leggja áherslu á samstöðu félagsmanna og að allir þeir sem standi að aðgerðum geri það af fúsum og frjálsum vilja. Stofnandi samtakanna er Guðmundur Andri Skúlason. Guðmundur Andri Skúlason. Guðmundur Andri Skúlason (fæddur 1971) er íslenskur aðgerðarsinni og stofnandi Samtaka lánþega árið 2009. Guðmundur hefur verið talsmaður samtakanna síðan þá. Guðmundur er menntaður vélstjóri frá Vélskóla Íslands og rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Guðmundur Andri hefur setið í stjórn Borgarahreyfingarinnar og fyrir Alþingiskosningarnar 2009 var hann í framboði til Alþingis í Norðvesturkjördæmi og skipaði 3. sæti listans. Hagsmunasamtök heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna (stofnuð 15. janúar 2009) eru grasrótarsamtök, sem spruttu upp í kjölfar bankahrunsins 2008. Samtökin eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Stofnandi samtakanna var Ólafur Garðarsson sem er núverandi formaður samtakanna. Tilgangur samtakanna er að veita fólkinu í landinu möguleika til að sameinast um og að taka þátt í að verja hagsmuni heimilanna með þátttöku sinni, vera talsmaður og málsvari í umræðum um hagsmuni heimilanna til skemmri og lengri tíma. Tilgangur samtakanna er að taka á brýnum fjárhagsvanda heimilanna í landinu sem skapaðist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, og að forða heimilunum í landinu frá ósanngjarnri eignaupptöku, óbærilegum skuldaklyfjum og upplausn. Meginmarkmið samtakanna er krafa um leiðréttingu stökkbreyttra húsnæðislána og afnám verðtryggingar. Til að afla þessu markmiði stuðning efndu samtökin sumarið 2011 til sem stóð yfir til ársloka. Þann 1. október 2011 afhentu samtökin Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra 33.525 undirskriftir og hófu í kjölfarið viðræður við forsætisráðuneytið. Samtökin söfnuðu nokkrum þúsundum undirskrifta til viðbótar og afhentu forseta Íslands þann 21. febrúar 2012 rúmlega 37.000 undirskriftir. Þann 18. október 2012 var þingfest málsókn að undirlagi samtakanna, sem varð sú fyrsta sem var til þess ætluð að reyna á lögmæti verðtryggingar neytendalána. Núverandi stjórn samtakanna skipa sjálfboðaliðarnir: Ólafur Garðarsson (formaður), Vilhjálmur Bjarnason (varaformaður), Gunnar Magnússon (gjaldkeri), Björk Sigurgeirsdóttir (ritari), Sigrún Viðarsdóttir, Kristján Þorsteinsson og Vilhjálmur Bjarnason. Varamenn eru: Björg Sigurðardóttir, Guðrún Harðardóttir, Sigrún Jóna Sigurðardóttir, Bjarni Bergmann, Jón Tryggvi Sveinsson, Una Eyrún Ragnarsdóttir og Þóra Guðmundsdóttir. Erindreki samtakanna er Guðmundur Ásgeirsson kerfisfræðingur. Einhamar. Samkvæmt sögunni var því Gísli dysjaður í urðinni undir Einhamri. Árið 1930 létu Arnfirðingar höggva þessa rúnaáletrun á Einhamar: „Minning um Gísla Súrsson óg Tryggvi Magnússon listmálari hjó letrið í drekamunstri og innan í mynd af vopnum Gísla, sverði, öxi og skildi. Tengt efni. Gísla saga Súrssonar Dómpápi. Dómpápi (fræðiheiti: "Pyrrhula pyrrhula") er spörfugl af finkuætt. Hann er keilunefjaður með mjög stuttan og digran gogg og með rauða bringu. Dómpápinn er flækingur á Íslandi. Selvík á Skaga. Selvík er vík á austanverðum Skaga, um 35 kílómetrum norðan við Sauðárkrók. Þar er besta lendingin Skagafjarðarmegin á Skaganum og þaðan var löngum nokkur útgerð. Á eyðibýlinu Selnesi, við víkina norðanverða, má sjá greinilegar rústir verbúða. Þarna munu líka erlendir kaupmenn hafa verslað fyrr á öldum eins og örnefnið Þýskaleiði bendir til. Selvík varð löggiltur verslunarstaður 27. nóvember 1903 og höfðu kaupmenn á Sauðárkróki þar verslunarútibú um skeið og ráku þar einnig fiskverkun. Nú er smábátahöfn í Selvík og gert þaðan út á grásleppu. Selvík kom við sögu á Sturlungaöld en þaðan sigldi floti Kolbeins unga áleiðis til Vestfjarða um Jónsmessu 1244 en mætti skipum Þórðar kakala á miðjum Húnaflóa og hófst þá Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar. Í ágúst árið 1931 nauðlenti sjóflugvélin "Súlan", sem hafði verið í síldarleit, á Skagafirði vegna vélarbilunar og rak inn eftir firðinum í átta klukkustundir í haugasjó en rétt áður en hana rak upp í kletta við Selvík tókst áhöfninni að gera fólki á Selnesi vart við sig með köllum. Kom þá vélbátur úr landi og dró flugvélina inn á víkina. Daginn eftir tókst áhöfninni að gera við vélina og fljúga á brott. Jóhanna 1. Navarradrottning. Jóhanna, drottning Navarra og Frakklands. Jóhanna 1. (14. janúar 1273 – 31. mars/2. apríl 1305) var konungsdóttir frá Navarra sem erfði krúnuna og var drottning Navarra frá 1274 til dauðadags og drottning Frakklands frá 1285. Jóhanna var einkabarn Hinriks 1., konungs Navarra, og konu hans Blönku af Artois, sonardóttur Loðvíks 8. Faðir hennar dó þegar hún var á öðru ári og varð hún þá drottning Navarra en móðir hennar var ríkisstjóri. Ýmsir, bæði innan og utan Navarra, reyndu að nýta sér þessa stöðu og leitaði Blanka því skjóls við hirð Filippusar 3. Frakkakonungs og ólst Jóhanna þar upp að mestu leyti. Hún hafði verið trúlofuð Hinrik, krónprinsi Englands, syni Játvarðar 1., frá fárra mánaða aldri en hann dó árið 1274, sjö ára að aldri. Þegar Jóhanna var 11 ára, 16. ágúst 1284, giftist hún Filippusi, krónprinsi Frakklands, sem þá var 16 ára. Filippus 3. faðir hans dó ári síðar og urðu þau þá konungur og drottning. Filippus konungur þótti glæsimenni og var kallaður Filippus fagri en Jóhanna er sögð hafa verið þybbin og fremur óásjáleg. Hún var hins vegar áræðin, framtakssöm og fylgin sér. Hún hafði þó engin áhrif á stjórnarhætti manns síns en beitti sér þeim mun meira í sínum eigin lendum í Navarra og Champagne og þegar greifinn af Bar gerði uppreisn gegn henni stýrði hún sjálf hernum sem mætti honum og fangaði hann. Jóhanna stofnaði líka háskóla í París, "College de Navarre". Jóhanna dó árið 1305, líklega af barnsförum. Hún átti fjögur börn sem upp komust, Loðvík, Filippus og Karl, sem allir urðu konungar Frakklands, og Ísabellu, sem varð drottning Englands. Þegar Jóhanna dó varð Loðvík, elsti sonur hennar, konungur Navarra. Konur áttu erfðarétt í Navarra en ekki Frakklandi og því hefði Jóhanna dóttir Loðvíks átt að erfa krúnuna þótt hún gæti ekki orðið drottning Frakklands en af ýmsum ástæðum var gengið framhjá henni. Hún varð þó drottning 1328 og þá slitnaði ríkjasambandið sem myndast hafði milli Navarra og Frakklands við giftingu Jóhönnu eldri og Filippusar 4. Klementía af Ungverjalandi. Klementía (1293 – 12. október 1328) eða "Clémence d'Anjou" var frönsk hefðarkona á 14. öld, seinni kona Loðvíks 10. Frakkakonungs og drottning Frakklands og Navarra frá 1315 – 1316. Klementía var dóttir Karls Martels af Anjou, sem var sonur Maríu af Ungverjalandi og gerði tilkall til ungversku krúnunnar eftir lát Ladislás 4. árið 1290, og Klementíu af Habsburg, dóttur Rúdólfs 1. keisara. Foreldrar Klementíu dóu báðir þegar hún var í bernsku og faðir hennar varð aldrei konungur en Karl bróðir hennar varð hins vegar konungur Ungverjalands árið 1312. Hún ólst upp hjá Maríu ömmu sinni, sem búsett var í Napólí. Klementía giftist Loðvík 10. Frakkakonungi 19. ágúst 1315, fimm dögum eftir að Margrét drottning, fyrri kona hans, dó í fangelsinu sem hún hafði setið í frá 1314 og er talið víst að konungur hafi látið myrða hana til að geta gifst að nýju. Klementía og Loðvík voru krýnd 24. ágúst. Hjónabandið entist þó ekki árið því Loðvík dó í júní árið eftir. Klementía var þá þunguð. Filippus mágur hennar varð ríkisstjóri en ríkiserfðirnar voru í óvissu og allir biðu þess að sjá hvort barnið yrði drengur eða stúlka, þar sem konur áttu ekki erfðarétt að frönsku krúnunni. Klementía eignaðist son, Jóhann, 16. nóvember og varð hann konungur Frakklands við fæðingu. Hann lifði þó aðeins í fimm daga og þá varð Filippus konungur. Klementía og Filippus urðu fljótt ósátt þar sem hann neitaði að greiða henni þann lífeyri sem Loðvík hafði ætlað henni og skrifaði hún mörg bréf, bæði til fjölskyldu sinnar og Jóhannesar XXII páfa, til að leita stuðnings. Hún dvaldi í Aix-en-Provence til 1321 en kom þá aftur til Parísar og var við hirð Karls mágs síns, sem varð konungur 1322. Hún dó 12. október 1328. Eigur hennar voru seldar á uppboði og er skráin yfir þær einhver ítarlegasta eignaskrá sem til er frá hennar tíð, níutíu og níu blaðsíður þar sem hverjum grip í eigu hennar er ítarlega lýst og sagt frá hver keypti hann. Dikta. Dikta er íslensk hljómsveit, stofnuð árið 1999. Hún hefur gefið út þrjár breiðskífur en varð ekki fræg á Íslandi fyrr en við útgáfu hinnar þriðju. Þriðja breiðskífa sveitarinnar, Get it together, var 26 sinnum í röð á topp 30 lista plötulista Smáís og þar af margsinnis í fyrsta sæti listans. Þessi sama plata hljómsveitarinnar seldist í rúmlega 7.000 eintökum og er svokölluð gullplata. Dikta fékk svo verðlaun sem vinsælasti flytjandinn á Íslensku tónlistarverðlaununum, árið 2010. Saga. Jón Bjarni Pétursson gítarleikari, Jón Þór Sigurðsson trommuleikari og Skúli Gestsson bassaleikari voru allir í Garðaskóla, Garðabæ og æfðu í bílskúr Jóns Bjarna. Söngkona var upphaflega með sveitinni og með henni innanborðs tók hljómsveitin þátt í Músíktilraunum Tónabæjar árið 1999. Þessi sama söngkona sagði síðar skilið við Diktu. Síðar hittust Skúli og Haukur í strætó og þá var bandið fullskipað. Nafn sveitarinnar þýðir að semja, ljúga eða skálda. Orðið dikta þekkist jafnframt á sænsku í svipaðri merkingu. Þannig var lénið dikta.is frátekið af sænskum aðilum sem vildu selja það fyrir hálfa miljón íslenskra króna. Hljómsveitin tók þó ekki því boði, og stofnaði síðuna dikta.net. Jón Dúason. Dr Jón Norðmann Dúason (30. júlí 1888 – 5. maí 1967) var íslenskur hagfræðingur og fræðimaður sem hafði einstaka yfirsýn yfir tengsl Íslendinga við Grænland og hélt fram ríkri réttarstöðu Íslendinga til ítaka þar í landi. Hann var talinn töluverður sérvitringur og var þekktur í Reykjavík á meðan hann bjó þar og lifði. Jón fæddist í Langhúsum í Haganeshreppi í Skagafirði. Hann lauk stúdentsprófi árið 1913 og stundaði nám í samvinnufélagsfræðum (þjóðfélagsfræði) við Hafnarháskóla í Danmörku og Skotlandi. Eftir það stundaði hann hagfræði og varð cand. polyt. í Kaupmannahöfn árið 1919. Hann stundaði því næst nám í bankamálum í Bretlandi og Norðurlöndum og var nokkur ár starfsmaður ríkis og borgar í Höfn. Árið 1928 varði Jón ritgerð fyrir doktorsgráðu í lögum við háskólann í Osló. Ritgerðin nefndist: „Grönlands rettsstilling i middelalderen“. Tveimur árum áður, það er 1926, hafði Jón gerst stórkaupmaður, en innan tíðar gaf hann þó kaupmennskuna upp á bátinn og sneri sér að því verkefni sem áttu hug hans - að rannsaka og safna heimildum til sögu Grænlands og réttarstöðu. Jón er einnig hvað þekktstur fyrir öll þau mörgu rit sem hann skrifaði um réttartilkall Íslendinga til Grænlands. Allt í drasli (3. þáttaröð). Allt í drasli er íslensk þáttaröð. Sýningar á "þriðju", og jafnframt seinustu þáttaröðinni hófust þann 25. september 2007 og þeim lauk 8. janúar 2008. Þættirnir voru 13 og er hver þeirra um 22 mín. að lengd. Þessi þáttaröð er ólík þeim fyrri að því leyti, að ljósmóðirin Eva Ásrún Albertsdóttir er í hlutverki kynnis í stað Heiðars sem var í fyrstu tveimur þáttaröðunum. Auk þess eru 3 af 13 heimilum valin í stórtækar breytingar í þættinum útlit. Game Tíví (3. þáttaröð). Game Tíví er íslensk þáttaröð. Sýningar á "þriðju þáttaröð" hófust þann 17. janúar 2008 og þeim lauk 22. maí 2008. Þættirnir voru 18 og er hver þeirra um 22 mín. að lengd. Game Tíví (4. þáttaröð). Game Tíví er íslensk þáttaröð. Sýningar á "fjórðu þáttaröð" hófust þann 11. september 2008 og þeim lauk 18. desember 2008. Þættirnir voru 15 og er hver þeirra um 22 mín. að lengd. Game Tíví (6. þáttaröð). Game Tíví er íslensk þáttaröð. Sýningar á "sjöttu þáttaröð" hófust þann 17. september 2009 og þeim lauk 17. desember 2009. Þættirnir voru 14 og er hver þeirra um 22 mín. að lengd. Game Tíví (5. þáttaröð). Game Tíví er íslensk þáttaröð. Sýningar á "fimmtu þáttaröð" hófust þann 5. febrúar 2009 og þeim lauk 14. maí 2009. Þættirnir voru 15 og er hver þeirra um 22 mín. að lengd. Gneis. Gneis. Lagskipting bergsins er mjög augljós. Gneis er myndbreytt berg orðið til úr ýmsum bergtegundum við mikinn þrýsting og hátt hitastig í fellingafjöllum. Gneis er samsett af sömu bergtegundum eins og granít, en þar er meira af glimmer en minna af feldspati. Gneis einkennist af dökkum og ljósum böndum. Filippus 5. Frakkakonungur. Filippus 5. (1292 – 3. janúar 1322) eða Filippus hávaxni var konungur Frakklands og Navarra (sem Filippus 2.) og greifi af Champagne frá 1316 til dauðadags. Hann var í miðið af þremur bræðrum sem allir urðu konungar Frakklands. Hefur hann verið talinn hæfastur þeirra á konungsstóli og er sagður hafa verið vel gefinn og snjall stjórnandi, enda var hann almennt nokkuð vel liðinn þótt hann þyrfti að byrja á að takast á við vandamál sem faðir hans og Loðvík bróðir hans (konungur Frakklands 1314-1316) höfðu skilið eftir sig. Hjónaband. Filippus var af Kapet-ætt, næstelsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu 1. af Navarra. Árið 1307, þegar Filippus prins var 15 ára, gekk hann að eiga Jóhönnu, eldri dóttur Ottós 4., greifa af Búrgund, árið 1307. Hann var mjög rausnarlegur við hana og jós yfir hana gjöfum og reyndi eins og hann gat að tryggja að hún héldi þeim ef hann skyldi deyja á undan henni. Hann gaf henni hallir og þorp, peninga og gimsteina, eignir allra gyðinga í Búrgund, sem gerðar höfðu verið upptækar. Þegar systir hennar og frænka, sem voru giftar bræðrum Filippusar, voru hnepptar í fangelsi og dæmdar fyrir hórdóm árið 1314 dróst Jóhanna inn í málið og var sökuð um að hafa vitað af framhjáhaldinu og jafnvel tekið þátt í því. Hún var sett í stofufangelsi en Filippus stóð óhikað með henni og kom því til leiðar að hún var hreinsuð af sök og fékk að koma aftur til hirðarinnar. Margt bendir því til þess að hann hafi verið innilega ástfanginn af henni. Konungur Frakklands. Þegar Loðvík 10., bróðir Filippusar, dó sumarið 1316 var drottningin, Klementía af Ungverjalandi, með barni og ljóst var að jafnvel þótt það væri sveinbarn og lifði þyrfti ríkisstjóra, fyrst þar til hann fæddist og síðan þar til hann yrði fullveðja. Filippus bolaði keppinautum sínum til hliðar og fékk sig útnefndan ríkisstjóra. Um haustið eignaðist Klementía son, Jóhann 1., en hann lifði aðeins í fimm daga. Loðvík 10. átti dóttur, Jóhönnu, með fyrri konu sinni en konur áttu ekki erfðarétt samkvæmt frönskum lögum. Ýmsir valdamiklir aðalsmenn viðurkenndu þó ekki þessi lög og vildu Jóhönnu sem drottningu. En annað kom til: Vegna framhjáhaldsdómsins yfir móður hennar lék grunur á að hún væri ekki dóttir Loðvíks. Því varð úr að Filippusi tókst að fá sig krýndan konung 9. janúar 1317 en krýningu hans var víða mótmælt. Hann kallaði þá aðalsmenn í snarhasti á ráðstefnu og tókst þar að afla sér nægilegs stuðnings til að tryggja sig í sessi og hnykkja á því að konur ættu ekki erfðarétt. Hann varð líka konungur Navarra. Þar áttu konur erfðarétt og var því freklega gengið framhjá Jóhönnu bróðurdóttur hans. Hún varð þó drottning þar á endanum, árið 1328. Filippus hélt áfram að styrkja stöðu sína næsta árið. Hann gifti elstu dóttur sína, Jóhönnu, Ottó 4. hertoga af Búrgund, sem hafði verið helsti andstæðingur hans. Hann kom á ýmsum umbótum í stjórnsýslu, myntkerfi og fleiru og varð nokkuð vinsæll þrátt fyrir uppskerubresti og hungursneyðir á næstu árum. Hann átti í erjum við Róbert 3., greifa af Flæmingjalandi, og Játvarð 2. Englandskonung en ekki kom þó til átaka. Dauði og erfingjar. Árið 1321 fór hann til Suður-Frakklands til að koma þar á ýmsum umbótum en veiktist þar um haustið, hjarnaði þó við tímabundið en dó í París rétt eftir áramótin 1322, þá 29 ára að aldri. Filippus átti engan son á lífi og þar sem hann hafði sjálfur látið staðfesta erfðalögin komu dætur hans ekki til greina sem ríkiserfingjar. Það var því yngri bróðir hans, Karl 4., sem tók við konungdæminu. Hann eignaðist heldur ekki son og varð því síðasti konungur af Kapet-ætt. Filippus og Jóhanna drottning eignuðust tvo syni sem báðir dóu á barnsaldri og fjórar dætur sem komust upp: Jóhönnu, sem giftist Ottó 4. hertoga af Búrgund, Margréti, sem giftist Loðvík 1. af Flæmingjalandi, Ísabellu, sem giftist Guigues de Viennois og Blönku, sem giftist ekki. Adidas. adidas er þýskt fyrirtæki sem framleiðir íþróttafatnað og aðrar íþróttavörur undir merkjum adidas, CCM, Reebok, Rockport og TaylorMade. Höfuðstöðvar adidas eru í Herzogenaurach. Allianz. Allianz er evrópskt fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í München. Karl 4. Frakkakonungur. Karl 4. (18./19. júní 1294 – 1. febrúar 1328), oft nefndur Karl fagri, var konungur Frakklands og Navarra (sem Karl 1.) og greifi af Champagne frá 1322 til dauðadags. Hann var síðasti konungur Frakklands af Kapet-ætt. Karl var þriðji og yngsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu 1. af Navarra. Hann tók við ríkjum þegar Filippus 5. bróðir hans lést í ársbyrjun 1322. Ólíkt honum og raunar einnig föður þeirra er hann álitinn hafa verið fremur íhaldssamur og lítið gefinn fyrir að stuðla að framförum. Hann var þó ágætlega menntaður. Hjónabönd Karls. Árið 1308, þegar Karl var 16 ára, giftist hann Blönku, dóttur Ottós 4. greifa af Búrgund, sem þá var tíu ára. Jóhanna systir hennar var þá gift Filippusi bróður hans og Margrét frænka þeirra elsta bróðurnum, Loðvík. Árið 1314 voru þær Blanka og Margrét sakaðar um að hafa drýgt hór með tveimur riddurum og dæmdar í dýflissu þar sem Margrét dó tveimur árum síðar - líklega drepin að skipan manns síns, sem þá var orðinn konungur - en Blanka sat í haldi til 1322, þegar Karl varð konungur. Þá fékk hann hjónaband þeirra gert ógilt og hún var flutt í klaustur þar sem hún dó svo ekki löngu síðar. Jóhanna af Búrgund dróst einnig inn í málið en Filippus maður hennar stóð með henni, öfugt við bræður sína. Bæði börn Karls og Blönku höfðu dáið ung svo að hann þurfti erfingja og því giftist hann Maríu af Lúxemborg, dóttur Hinriks 7. keisara, 21. september 1322. Hún dó af barnsförum 26. mars 1324 og barnið einnig. Ári síðar giftist Karl í þriðja sinn Jóhönnu d'Évreux, sem var náfrænka hans (feður þeirra voru hálfbræður), og fengu þau páfaleyfi til giftingarinnar. Stjórnartíð Karls. Stytta Karls 4. í Louvre. Helsti ráðgjafi Karls framan af stjórnartíð hans var föðurbróðir hans og nafni, Karl af Valois, sem einnig hafði verið ráðgjafi Loðvíks bróður hans. Hann stóð sjálfur næstur til ríkiserfða ef Karl 5. eignaðist ekki son. Óvinsældir Karls fóru vaxandi þegar leið á stjórnartíð hans. Hann þótti fégráðugur og gerði meðal annars upptækar eignir óvina sinna eða manna sem honum var illa við. Hann gerði einnig fjölda gyðinga útlæga úr Frakklandi og gerði eignir þeirra upptækar. Karl átti í deilum við Játvarð 2. Englandskonung, sem neitaði að votta honum hollustu sína sem lénsherra vegna Akvitaníu. Árið 1323 kom til stríðs og ári síðar hafði Karl náð Akvitaníu á sitt vald að undanskildum strandhéruðunum. Ísabella systir Karls var gift Játvarði konungi og hann sendi hana til Frakklands 1325 til að semja um frið við bróður sinn en þegar henni tókst að fá Játvarð, elsta son sinn, til sín síðar sama ár neitaði hún að snúa aftur heim og hóf uppreisn í félagi við elskhuga sinn, Roger Mortimer. Hún fékk lán hjá bróður sínum sem hún notaði til að fjármagna málaliðaher og ráðast inn í England. Þar steypti hún manni sínum af stóli og var hann myrtur 1327. Játvarður 3. tók þá við og komst að samkomulagi við Karl, greiddi honum háa fjárhæð og fékk stóran hluta af Akvitaníu aftur. Dauði og erfingjar. Karl dó 1. febrúar 1328, 33 ára að aldri og varð þó eldri en bræður hans báðir. Hann átti ársgamla dóttur á lífi, Maríu, en drottningin var þunguð og þurfti því að skipa ríkisstjóra ef hún skyldi eignast son. Karl af Valois var þá látinn en Filippus sonur hans stóð næstur til erfða og varð hann ríkisstjóri. Tveimur mánuðum eftir lát Karls eignaðist Jóhanna dóttur sem nefnd var Blanka. Filippus varð þá konungur og var krýndur sem Filippus 6. í maí um vorið. Játvarður 3. Englandskonungur andmælti og sagði að þótt kona gæti ekki erft frönsku krúnuna gæti hún erfst um kvenlegg og sem elsti sonur Ísabellu, systur Karls, væri hann sjálfur réttborinn til arfs. Af þessu spratt deila sem varð kveikjan að Hundrað ára stríðinu. Filippus 6. erfði hins vegar ekki Navarra. Þar gátu konur erft og Jóhanna, dóttir Loðvíks 10. fékk loksins þann erfðarétt sem hún hafði verið svipt árið 1316, þegar Filippus 5. föðurbróðir hennar tók sér konungsvald í Navarra eftir lát föður hennar. Bayer. Bayer er þýskt lyfja- og efnafyrirtæki með höfuðstöðvar í Leverkusen. Commerzbank. Commerzbank er þýskur banki með höfuðstöðvar í Frankfurt. María af Lúxemborg. María af Lúxemborg, drottning Frakklands. María af Lúxemborg (1304 – 26. mars 1324) var drottning Frakklands og Navarra frá 1322 til 1324 sem önnur kona Karl 4. Frakkakonungs. María var af Lúxemborgarætt, dóttir Hinriks 7. keisara og Margrétar af Brabant. Systkini hennar voru Beatrix Ungverjalandsdrottning og Jóhann blindi af Bæheimi, faðir Karls 4. keisara. Hún giftist Karli 4. Frakkakonungi skömmu eftir að hann sagði skilið við fyrstu konu sína, Blönku af Búrgund, sem þá hafði setið í átta ár í dýflissu eftir að hafa verið dæmd fyrir hórdóm. Börn þeirra voru þá bæði dáin og Karli lá á að reyna að eignast son því að hann var síðastur af Kapet-ætt. María missti fóstur 1323. Í mars 1324 átti hún aftur von á barni en hestvagni hennar hlekktist á og hún slasaðist mikið. Hún ól son fyrir tímann og hann dó innan fárra klukkustunda. Sjálf dó hún nokkrum dögum seinna, nítján ára gömul. Daimler. Daimler er þýskur bílaframleiðandi með höfuðstöðvar í Stuttgart. Á meðal vörumerkja Daimler má nefna Mercedes-Benz, Maybach, smart, Mercedes-AMG, Freightliner, Mitsubishi-Fuso, Detroit Diesel, Setra og Western Star. Lufthansa. Deutsche Lufthansa betur þekkt sem Lufthansa er þýskt flugfélag með höfuðstöðvar í Köln. MAN. MAN er evrópskur bílaframleiðandi sem framleiðir meðal annars vöruflutningabíla og vélar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í München. Jóhanna d'Évreux, Frakklandsdrottning. Jóhanna (1310 – 4. mars 1371) eða Jeanne d'Évreux var frönsk hefðarkona, drottning Frakklands og Navarra frá 1325 til 1328 sem þriðja kona Karls 4. Frakkakonungs. Jóhanna var dóttir Loðvíks af Frakklandi, greifa af Évreux, og konu hans Margrétar af Artois. Faðir hennar var sonur Filippusar 3. Frakkakonungs og hálfbróðir Filippusar 4., föður Karls. Þau voru því bræðrabörn og þurftu að sækja um leyfi til Jóhannesar XXII páfa til að mega ganga í hjónaband. Það var auðfengið og þau giftust 1325. Þau eignuðust tvær dætur, Jóhönnu, sem dó á fyrsta ári, og Maríu, og þegar Karl dó 1. febrúar 1328 var Jóhanna þunguð að sínu þriðja barni, átján ára að aldri. Þess var beðið í ofvæni hvort barnið yrði sonur því að þá hefði hann erft krúnuna. En Jóhanna ól enn eina dóttur, Blönku, og það var Filippus, sonur Karls af Valois, annars föðurbróður Karls 4., sem varð konungur. María dóttir Jóhönnu dó ógift árið 1340 en Blanka giftist Filippusi hertoga af Orléans. Tíðabók (bænabók) Jóhönnu, skrifuð á meðan hún var drottning og líklega gjöf frá Karli konungi, er enn varðveitt og er í Metropolitan-safninu í New York. Dárakista. Dárakista var upprunalega búr eða klefi þar sem hættulegir geðsjúklingar voru læstir niður í. Hér er dárakista frá geðveikrahælinu Bedlam í London. Dárakista var upprunalega kista eða búr eða fangaklefi sem hættulegir geðsjúklingar voru læstir niður í. Frá um 1600 hefur orðið dárakista verið notað í víðari merkingu almennt um geðveikrahæli. Egils Pilsner. Egils Pilsner er íslensk bjórtegund sem var fyrst framleidd árið 1917 af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Egils Pilsner var þriðja framleiðsluvara þessa unga fyrirtækis, sem átti eftir að vaxa og dafna svo um munaði á næstu árum. Egils Pilsner er enn framleiddur í dag og hefur því verið drukkinn í 93 ár. Síðustu ár bjórbannsins á Íslandi kom upp sú tíska að blanda sterku áfengi, til dæmis vodka saman við Egils Pilsner og var það kallað bjórlíki. Hægt er að fá Egils Pilsner sem léttöl en einnig er hægt að kaupa drykkinn í ÁTVR sem bjór og þá 4% að alkohólsstyrkleika. Egils Appelsín. Egils Appelsín var fyrst framleitt 1955 af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni og er svo enn þann daginn í dag. Egils Appelsín er mest selda appelsínugos á Íslandi og er eitt allra vinsælasta vörumerki landsins í dag. Talið er að fólk hafi tekið að blanda saman Egils Malti og Egils Appelsíni strax á 6. áratugnum til að drýgja Maltið, sem var frekar dýrt. Í dag eru fá heimili sem halda heilög jól án þess að þessi merka blanda komi við sögu. Undanfarin sumur hefur Egils Appelsín staðið fyrir sumarleikjum og er þeirra helsta slagorð: Sólskin í hverjum sopa. Bakkagerði. Bakkagerði er lítið þorp við botn Borgarfjarðar eystri og gengur raunar oftast undir nafninu Borgarfjörður eystri (eystra) í daglegu tali. Um 100 manns búa í þorpinu en um 140 í öllum Borgarfjarðarhreppi, sem nær yfir sveitina inn af firðinum og nærliggjandi víkur, svo og eyðifjörðinn Loðmundarfjörð. Bakkagerði varð löggiltur verslunarstaður árið 1894 en fyrsta verslunarhúsið var reist þar ári fyrr. Þar er þó hafnleysa frá náttúrunnar hendi, kauptúnið stendur við vík fyrir opnu hafi en nú hefur hafnaraðstaða verið bætt töluvert með gerð smábátahafnar við Hafnarhólma. Nokkrir bátar eru gerðir út frá Bakkagerði og þar er fiskvinnsla. Sérkennileg klettaborg, Álfaborg, er skammt innan við þorpið og er sagt að þar sé mikil huldufólksbyggð. Þar uppi er hringsjá sem sýnir fjallahringinn. Skammt frá borginni er Bakkagerðiskirkja. Hún var áður á Desjarmýri en var flutt til Bakkagerðis um aldamótin 1900. Jóhannes Kjarval listmálari, sem ólst upp í Geitavík í Borgarfirði en var fæddur suður í Meðallandi, málaði mikið á þessum slóðum. Altaristaflan í Bakkagerðiskirkju er eitt af þekktari verkum Kjarvals, máluð árið 1914, og má þar sjá Jesú Krist flytja fjallræðuna af Álfaborg, með Dyrfjöll í baksýn, en ýmis kunn andlit úr Borgarfirði sjást meðal áheyrenda. Í félagsheimilinu Fjarðarborg á Bakkagerði er Kjarvalsstofa til minningar um Jóhannes Kjarval og er þar reynt að sýna tengsl hans við heimabyggðina. Grunnskóli er á Bakkagerði og þar er líka verslun og ýmis ferðamannaþjónusta. Álfaborg. Álfaborg er klettaborg á Borgarfirði eystra, rétt innan við þorpið Bakkagerði, fyrir miðjum botni víkurinnar. Fjörðurinn er kenndur við borgina, sem var friðlýst sem fólkvangur árið 1976. Mikil huldufólkstrú er tengd Álfaborg og er sagt að þar búi álfadrottning Íslands. Álfabyggðir eru sagðar vera víða við Borgarfjörð og nágrenni og var kirkja álfanna að sögn í Kirkjusteini á Kækjudal, inn af Borgarfirði. Göngustígur liggur upp á Álfaborg og þar er hringsjá sem sýnir allan fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð. Við borgina er tjaldstæði. Mario Vargas Llosa. Mario Vargas Llosa (f. 28. mars 1936) er perúískur rithöfundur, ritgerðarsmiður og stjórnmálamaður. Mario er meðal vinsælustu rithöfunda í hinum spænskumælandi heimi. Hann starfaði áður sem blaðamaður og tók þátt í stjórnmálum í Perú. Hann bauð sig fram sem forseta landsins árið 1990 en laut í lægra haldi fyrir Alberto Fujimori. Hann hefur hlotið fjölda bókmenntaverðlauna fyrir verk sín, ekki bara í heimalandi sínu heldur víða um heim, svo sem Planeta-verðlaunin 1993 og Cervantes-verðlaunin 1995. Árið 2010 hlaut hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum „fyrir að hafa kortlagt innviði valdsins og skapað hnífskarpar myndir af mótstöðu einstaklingsins, uppreisn hans og falli.“ Vargas Llosa hóf feril sinn árið 1959 með smásagnasafninu "Los Jefes" (Yfimennirnir) en hann sló fyrst í gegn með skáldsögunni "La Ciudad y Los Perros" (Borgin og hundarnir) sem kom út árið 1963. Hann er einna þekktastur fyrir skáldsögur sínar: "La casa verde" (1965/1968) (Græna húsið) og "Conversación en la catedral" (1969/1975) (Samtal í dómkirkjunni). Æska og námsár. Mario Vargas Llosa fæddist inn í miðstéttarfjölskyldu í borginni Arequipa í Perú. Hann var eina barn "Ernesto Vargas Maldonado" og "Dora Llosa Ureta". Stuttu eftir fæðingu Marios, kom í ljós að faðir hans hafði átt í ástarsambandi við þýska konu, þannig að Marío á tvo yngri hálfbræður: "Enrique" og "Ernesto Vargas". Vargas Llosa bjó með móðurfjölskyldu sinni í Arequipa eftir skilnað foreldra sinna, en móðurafi hans var útnefndur heiðursræðismaður Perú í Bólivíu á þessum árum. Hann fluttist þá með mömmu sinni og fjölskyldu hennar til Cochabamba í Bólivíu, þar sem hann eyddi fyrstu árum bernsku sinnar. Sem barn var Vargas Llosa sagt að faðir hans væri látinn þar eð móðir hans og fjölskylda hennar vildi ekki að hann vissi af skilnaði foreldra hans. Í ríkisstjórnartíð perúíska forsetans José Bustamante Y Rivero var móðurafa hans fengin diplómatísk staða í Perú, nánar tiltekið í strandborginni Piura, en með því flutti öll fjölskyldan aftur til Perú. Þegar þangað var komið sótti Vargas Lliosa grunnskóla í hinum kaþólska Academy Colegio Salesiano. Árið 1946, þegar hann var tíu ára, flutti hann til höfuðborgarinnar Lima með fjölskyldu sinni og hitti föður sinn í fyrsta skipti. Foreldrar hans tóku þá upp þráðinn á ný og bjuggu öll táningsár hans í Magdalena del Mar, sem er miðstéttarhverfi í úthverfum Lima. Meðan hann bjó í Lima, stundaði hann nám við Colegio La Salle, hinum kristna gagnfræðaskóla, frá 1947 til 1949. Þegar Vargas Llosa var fjórtán ára sendi faðir hans hann í Leoncio Prado-herskólann í Lima, en um þá reynslu átti hann síðar eftir að segja að það hafi verið eins og að „kynnast helvíti á jörðu“. Ári áður hann brautskráðist hóf hann störf sem áhugamanna-blaðamaður á dagblaði. Hann dró sig síðar út úr herskólanum og lauk námi sínu í Piura, þar sem hann starfaði fyrir staðardagblaðið, "La Industria", og kom fyrsta verki sínu á svið, en það var leikritið: "La huida del Inca". Árið 1953, þegar ríkisstjórn Manuel A. Odría var við völd, nam Vargas við Þjóðarháskólann í San Marcos, hvorttveggja lögfræði og bókmenntir. Tveimur árum síðar kvæntist hann "Julia Urquidi", eiginkonu móðurbróður síns, en hann var þá 19 ára e hún 13 árum eldri. Vargas Llosa byrjaði svo bókmenntaferil sinn fyrir alvöru árið 1957 með útgáfu smásagnasafnsins Los jefes og El abuelo, en þau skrifaði hann meðan hann starfaði fyrir tvö mismandi perúísk dagblöð. Eftir að hann brautskráðist frá Þjóðarháskólanum í San Marcos árið 1958 fékk hann styrk til náms við Complutense-háskóanum í Madríd á Spáni. Árið 1960, eftir að námsstyrkur hans í Madrid var fyrir bí, flutti hann sig til Frakklands með þá fullvisu að hann fengi námsstyrk til að læra þar. En þegar þangað kom fékk hann að vita að beiðni hans til námsstyrks var hafnað. Þrátt fyrir óvænta fjárhagslega erfiðleika þeirra hjóna ákváðu þau að vera áfram í París og hann tók að skrifa af krafti. Hjónabandi varaði þó ekki lengi og endaði með skilnaði árið 1964. Ári síðar giftist hann frænku sinni, "Patricia Llosa", en með henni á hann þrjú börn: "Álvaro Vargas Llosa" (f. 1966), rithöfundur og ritstjóri; "Gonzalo" (f. 1967), kaupsýslumaður, og "Morgana" (f. 1974), sem er ljósmyndari. Á árunum 1969-1970 var hann lektor í Suður-Amerískum bókmennntum við King's College í London, en að því loknu ákvað hann að skrifa í fullu starfi. Tenglar. Llosa, Mario Vargas Lilja Rafney Magnúsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir (f. 24. júní 1957) er íslenskur stjórnmálamaður. Lilja er með með gagnfræðapróf úr Grunnskólanum Reykjum í Hrútafirði, en hún hefur unnið í fiski og við ýmis almenn verslunar- og skrifstofustörf. Starf innan verkalýðshreyfingarinnar. Lilja var formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súganda 1988 – 2004. Hún hefur setið í stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga frá 2004. Varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða 1990 – 1992 og frá 1998. Pólítískur ferill. Á árunum 1990 – 1994 var Lilja Oddviti Suðureyrarhrepps 1990-1994. Varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið mars – apríl 1993, nóv. 1998, og Vinstrihreyfinguna grænt framboð, janúar – febrúar 2007. Lilja tók sæti á þingi sem sjötti þingmaður Norðvesturkjördæmis fyrir Vinstrihreyfinguna Grænt framboð eftir Alþingiskosningarnar 2009. Önnur störf. Í orkuráði 1995 – 1999. Í stjórn Byggðastofnunar 1999 – 2003. Í stjórn Íslandspósts hf. frá 2000, varaformaður frá 2009. Í fulltrúaráði Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frá 2000. Í hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar frá 2006. Bolli Þorleiksson. Bolli Þorleiksson er sögupersóna í Laxdæla sögu. Hann var fóstbróðir Kjartans Ólafssonar en kom á undan Kjartani heim frá Noregi og giftist Guðrúnu Ósvífursdóttur, sem hafði lofað Kjartani að sitja í festum í þrjú ár. Þegar Kjartan kom heim varð missætti með honum og Bolla og Guðrúnu og fór svo að Bolli gerði Kjartani aðför og drap hann. Í hefndarskyni fóru bræður Kjartans og fleiri að Bolla og Helgi Harðbeinsson drap hann. Björn Valur Gíslason. Björn Valur Gíslason (f. 20. september 1959) er íslenskur stjórnmálamaður og varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Björn Valur er nú varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Menntun og starfsreynsla. Björn lauk þriðja stigs prófi, skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 1984 og hefur starfað síðan 1975 sem sjómaður, stýrimaður og skipstjóri á bátum og togurum. Hafði svo yfirumsjón með fyrsta stigs námi við Stýrimannaskólann sem kennt var í Ólafsfirði veturna 1986 - 1988 og leiðbeinandi í sjóvinnu við Gagnfræðaskólann í Ólafsfirði 1986-1988. Björn tók próf í kennsluréttindum við Háskólann á Akureyri 2006. Pólítískur ferill og starf innan verkalýðshreyfingarinnar. Var bæjarfulltrúi Vinstrimanna og óháðra og síðar Ólafsfjarðarlistans og nefndarmaður í ýmsum nefndum fyrir Ólafsfjarðarbæ á árunum 1986-1998. Var formaður fræðslunefndar Ólafsfjarðarbæjar kjörtímabilið 2002-2006. Varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið í Norðurlandskjördæmi Eystra, desember 1990, og fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð í Norðausturkjördæmi október-nóvember 2007, apríl og október-nóvember 2008. Áttundi þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð 2009 - 2013. Kjörinn formaður þingflokks Vinstri grænna 29. september 2011. Björn Valur sóttist ekki eftir sæti á lista í Norðausturkjördæmi í aðdraganda kosninga 2013 og færði sig um set til Reykjavíkur. Hann hlaut ekki brautargengi í forvali Vinstri grænna í Reykjavík og var ekki meðal efstu manna en sat í 4. sæti lista flokksins í Reykjavík norður. Hann er þar með annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu. Björn Valur var kjörinn varaformaður Vinstri grænna á landsfundi 23. febrúar 2013. Stjórnarmaður í Skipstjóra- og stýrimannafélagi Norðurlands í mörg ár. Í stjórn Félags skipstjórnarmanna. Annað. Auk þess er Björn Valur með grunnmenntun í gítarleik frá Tónskólanum í Ólafsfirði og hefur verið hljóðfæraleikari í hljómsveitinni Roðlaust og beinlaust um árabil, haldið fjölda tónleika út um allt land og gefið út þrjá geisladiska með sveitinni. Þorleifur Gunnlaugsson. Þorleifur Gunnlaugsson (fæddur 27. mars 1955) er íslenskur stjórnmálamaður. Þorleifur er menntaður dúklagningameistari, en hefur unnið við sjómennsku og ýmis verkamannastörf. Þorleifur var varaformaður og síðan formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík, auk þess að sinna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hann var varaborgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2006 til september 2007, þegar hann tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann hefur verið fyrsti varaborgarfulltrúi VG síðan 2010 og fulltrúi flokksins í velferðarráði og umhverfis- og samgönguráði. Á yngri árum sat Þorleifur í stjórnum ýmissa róttækra vinstri samtaka. Á árunum 1971-1983 sat hann í stjórn KSML í Reykjavík og í miðstjórn KSML(b). Þá var hann formaður BSK og átti sæti í miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga. Þorleifur hefur verið virkur í ýmsum öðrum félagasamtökum og hagsmunafélögum. Á árunum 1986-2009 sat hann í stjórn og framkvæmdastjórn SÁÁ, hann var formaður Félags dúklagninga- og veggfóðrarameistara, auk þess að eiga sæti í stjórn Meistarasambands byggingamanna. Eiginkona Þorleifs er Hjálmdís Hafsteinsdóttir, félagsliði. Synir Þorleifs eru Haraldur Ingi, fæddur ´77 og Jökull, fæddur ´81. Tolli. Þorlákur Kristinsson Morthens (fæddur 3. október 1953), betur þekktur sem Þorlákur Morthens eða Tolli er íslenskur myndlistarmaður sem hefur verið þekktur fyrir landslags og abstrakt verk sín síðan á 9. áratugnum. Tolli hefur í gegnum tíðina selt fleiri myndir en nokkur annar íslenskur myndlistarmaður. Verk Tolla eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og listasafns Háskóla Íslands, auk nokkurra stofnana í Evrópu og Bandaríkjunum. Líf. Tolli er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Faðir hans, Kristinn Morthens, hefur málað alla tíð og vandist Tolli snemma við trönur og lyktina af olíumálningu, ekki síst vegna þess að Gréta, móðir hans málaði líka. Tolli málaði og teiknaði frá því að hann var krakki og þegar jafnaldrar hans voru í fótbolta þá málaði hann og teiknaði, hann ætlaði að verða málari. Mamma hans reyndi að tala hann út úr því þar sem hún taldi það ekki borga sig að vera myndlistarmaður, hann átti að vera arkitekt og tryggja afkomuna og svo gæti myndlistin verið áhugamál. Hún hafði búið með málara og fannst það ekki fýsilegur kostur fyrir drengina sína. Tolli hefur alltaf skarað framúr í teikningu og myndlist og fékk alltaf tíu í skóla fyrir það fau fög. Það má segja að hann hafi farið í Myndlista- og handíðaskólann úr neyð, hann hætti í skóla og hausinn á honum var ekki í nógu góðu lagi til að takast á við menntaskóla, en hann vissi að hann gat teiknað og honum vantaði húsaskjól. Hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og lauk þar prófi úr nýlistadeild árið 1983. Eftir það fór hann í Hochschule der Künste í Vestur-Berlín undir handleiðslu Karl-Horst Hödicke prófessors og sneri heim 1985 og hefur starfað sem myndlistarmaður síðan. Fram að því hafði hann stundað sjómennsku við Íslandsstrendur, jafnt á fiskibátum og togurum. Hann var einnig farandaverkamaður í ýmsum sjávarplássum víða um Ísland og skógarhöggsmaður í Norður-Noregi. Byrjunin. Fyrstu sýningar Tolla voru í Reykjavík og á Akureyri árið 1982 og fyrsta einkasýning hans var síðan í gúmmívinnustofunni í Reykjavík árið 1984. Árin 1982 – 1992 sýndi hann tuttugu og tvær einkasýningar hér á landi og erlendis, og tók þátt í sautján samsýningum sem þykir mjög mikið. Á aðeins nokkrum árum hafði Tolli náð að skapa sér nafn sem einn af hinum fremstu meðal yngri kynslóðar íslenskra myndlistarmanna. Um Tolla. Tolli sérhæfir sig í landslagsmálverkum og reynir að nálgast hana á marga hætti. Hann fær innblástur úr náttúrunni og hvað er að gerast í heiminum að hverju sinni. Hann gengur mikið á fjöll og jökla, fer á kajak og heimsækir afskekkta staði til að styrkja tengslin enn frekar og sækir síðan minningar til að mála, oft löngu eftir en þær gleypast í minni. Honum finnst að allt sem skipti máli gerist í náttúrunni og að það hafi síðan áhrif á ásýnd náttúrunnar. Það skiptir ekki máli hversu oft hann leggur til atlögu við fjarlæg fjöll, hvort sem hann er í Kákasus, á köldu klettum Grænlands eða í himinhæðum Nepals, þá er hann ekki fullkomlega í essinu sínu nema á einum stað á jörðinni — íslensku hálendi. Viðfangsefni og stíll Tolla hafa breyst nokkuð ört og þróast. Eldri verkin voru mörg kraftmikil verk af dýrum og torkennilegum verum, dökkar myndir af sjávarsíðunni eða næstum logandi líkamar í undarlegri iðu. Um hríð heillaðist Tolli af torræðum hlíðum, líflausum skriðum og steinum innan um kalda fjalltinda en undanfarið hefur hann málað myndir af speglun í tjörnum, eldgosinu, eyðibýlum og er að byrja að taka fyrir þokuna. Helsti munurinn á gömlu og nýju landslagsmyndum Tolla liggur í afstöðu hans til birtunnar. Áður mætti birtan afgangi; hún var tæki til að hnykkja á þrívídd og efnisþáttum landslagsins. Í dag er birtan hrygglengja verkanna. Fjöllin leysast upp eða renna saman með dularfullum hætti, það kviknar í jöklunum og hafið molnar niður í marglit mynstur. Tolli leitar út fyrir hið litla íslenska samfélag með myndir sínar. Hann rak vinnustofu í Berlín í nokkur ár jafnhliða aðstöðu í Reykjavík en vinnur nú langmest í Reykjavík. Hann hefur efnt til sýninga í Þýskalandi, Danmörku, Mónakó, Bretlandi, Bandaríkjunum og Suður-Kóreu. Tolli var ekki alltaf bara myndlistamaður heldur var hann líka í tónlist á sínum tíma. Hann gaf út tvær plötur með hljómsveitinni Ikarus. „Ég er hrikalega góður, en ég lofa engu að svo stöddu; ég segi bara eins og stjórnmálamennirnir, minn tími mun koma. Ég hef keypt mér góðan gítar, það er æft í laumi og það er eitthvað í vændum.“ Mari Kiviniemi. Mari Johanna Kiviniemi (fædd 27. september 1968 í Seinäjoki), er finnskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Finnlands. Hún var kjörin forsætisráðherra þann 22. júní 2010- 22. júní 2011. Kiviniemi, Mari Voorhout. Voorhout er bær og fyrrum sveitarfélag í vestanverðu Hollandi. Sveitarfélagið Voorhout var 12,59 km² að stærð áður en það, ásamt sveitarfélögunum Sassenheim og Warmond, sameinaðist sveitarfélaginu Teylingen þann 1. janúar 2006. Voorhout er á svæði sem heitir „Sandöldu og blómlaukssvæðið“ (hollenska: "Duin-en Bollenstreek"). Porsche 550. Porsche 550 var sportbíll framleiddur af Porsche á árunum 1953-1956. Porsche 550 Spyder var fyrst kynntur á bílasýningunni í París árið 1953. Porsche Boxster S 550 Spyder er almennt talinn arftaki Porsche 550. James Dean ók Porsche 550 þegar hann fórst í bílslysi þann 30. september 1955. Navarra. Navarra (baskneska: "Nafarroa") er sjálfstjórnarhérað á Norður-Spáni, að mestu í og undir rótum Pýreneafjalla. Höfuðstaður þess er Pamplona. Hluti íbúanna er Baskar. Navarra var eitt sinn sjálfstætt konungsríki, Konungsríkið Navarra, en er nú sjálfsstjórnarsvæði með eigið þing og stjórn, sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum, atvinnumálum, menntun, félagsþjónustu, húsnæðismálum og fleiru eins og önnur spænsk sjálfsstjórnarhéruð. Það eru þó aðeins Navarra og Baskaland sem hafa yfirráð í skatta- og fjármálum sínum en verða þó að fylgja reglum sem spænska stjórnin setur. Navarra skiptist í 272 sveitarfélög. Íbúatalan árið 2006 var 601.874 og þar af bjó um helmingur í Pamplona og nærliggjandi bæjum. Enginn annar stórbær er í héraðinu. Þótt Navarra sé ekki ýkja stórt um sig - aðeins 2,2% af flatarmáli Spánar - má þar finna mikla fjölbreytni í landslagi, frá tindum og hlíðum Pýreneafjalla (hæsti tindurinn er Hiru Erregeen Mahaia, 2.428 m) í norðri til sléttanna við Ebro-fljót í suðri. Þar er ræktað hveiti, grænmeti, vínviður og ólífutré. Navarra er leiðandi í nýtingu sjálfbærrar orku. Árið 2004 var 61% rafmagnsnotkunar héraðsins framleitt á sjálfbæran hátt, ýmist með vindmyllum, litlum vatnsorkuvirkjunum eða sólarorkuverum. Stefnt er á að 100% orkunvinnslunnar verði sjálfbær. Spænska er opinbert tungumál Navarra og baskneska einnig í þeim sveitarfélögum þar sem baskneskumælandi íbúar eru í meirihluta en það er einkum í norðvesturhluta landsins. Valdimar Ásmundsson. Valdimar Ásmundsson (fullu nafni "Jóhann Valdimar Ásmundsson") (10. júlí 1852 – 17. apríl 1902) var stofnandi og ritstjóri "Fjallkonunnar". Valdimar var kvæntur Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindafrömuði og útgefanda "Kvennablaðsins". Valdimar fæddist að Hvarfi í Bárðardal og ólst upp hjá foreldrum sínum í Þistilfirði. Hann var ekki settur til mennta en stundaði nám upp á eigin spýtur. Milli tvítugs og þrítugs hélt hann til Reykjavíkur og fékkst um hríð við alþýðukennslu þar til hann stofnaði tímaritið Fjallkonuna árið 1884. Annað aðalstarf hans var að búa útgáfu Sigurðar Kristjánssonar á Íslendingasögunum undir prentun og semja vísnaskýringar við sögurnar. Hann samdi einnig bók um íslenskar ritreglur sem brátt varð að alþýðukennslubók síns tíma og var mjög mikið notuð. Valdimar kunni vel þýsku, ensku og frönsku, auk dönsku, en öll þessi tungumál hafði hann kennt sér sjálfur að mestu. Hann var og mætavel að sér í íslensku. Valdimar þýddi Drakúla eftir Bram Stoker sem birtist undir heitinu "Makt myrkranna", fyrst í Fjallkonunni en var síðan gefin út á bók árið 1901. Halldór Laxness talar um þýðingu þessa í einni minningarbók sinna. Valdimar lést eftir tæpa sólarhringslegu úr slagi eða heilameinsemd vart fimmtugur að aldri. Agnes af Meraníu. Agnes af Meraníu (d. í júlí 1201), fullu nafni Agnes María af Andechs-Meraníu var evrópsk hefðarkona á 12. öld og kallaðist drottning Frakklands frá 1196 til 1200. Hún var þó ekki drottning með réttu því maður hennar, Filippus 2., var kvæntur fyrir og páfi neitaði að viðurkenna ógildingu hjónabandsins. Agnes var dóttir Bertholds 4., greifa af Andechs í Bæjaralandi og síðar hertoga af Meraníu í Istríu (Dalmatíu). Móðir hennar hét Agnes af Rochlitz. Heiðveig systir hennar giftist Hinrik 1., hertoga af Slésíu og var tekin í helgra manna tölu árið 1267. Önnur systir hennar, Geirþrúður, giftist Andrési 2. Ungverjalandskonungi og var móðir heilagrar Elísabetar af Ungverjalandi. Filippus 2. Frakkakonungur hafði gifst Ingibjörgu, dóttur Valdimars mikla Danakonungs, árið 1193 en fór þegar daginn eftir brúðkaupið að reyna að losa sig við hana og fékk franska biskupa til að lýsa hjónabandið ógilt. Ingibjörg leitaði til páfa, sem neitaði að viðurkenna ógildinguna og skipaði Filippusi að taka Ingibjörgu til sín aftur. Hann lét fyrirmælin sem vind um eyru þjóta og giftist Agnesi 7. maí 1196. Hann hafði raunar ætlað að giftast Margréti af Genf en þegar hún var á leið til brúðkaups í París rændi Tómas 1. af Savoja henni og giftist henni sjálfur. Filippus fékk hvað eftir annað fyrirmæli frá páfa um að sendi Agnesi frá sér og taka Ingibjörgu til sín að nýju en hlýddi þeim ekki þótt páfi bannfærði hann. Það var ekki fyrr en Innósentíus III hafði sett allt Frakkland í bann árið 1199 sem Filippus lét undan. Hann sendi Agnesi frá sér árið 1200 en tók þó ekki Ingibjörgu til sín, heldur hélt henni áfram í stofufangelsi við þröngan kost. Agnes settist að í Poissy-kastala, um 25 km frá París, og dó þar sumarið 1201, að sögn úr hjartasorg. Hún hafði átt tvö börn með Filippusi og fékk hann því framgengt árið 1201 að páfi úrskurðaði þau skilgetin þótt hjónaband foreldranna væri ógilt. Liu Xiaobo. Liu Xiaobo (f. 28. desember 1955) er kínverskur aðgerðasinni og handhafi friðarverðlauna Nóbels en hann hlaut þau árið 2010 „fyrir langa og friðsamlega baráttu sína fyrir grundvallar mannréttindum í Kína“. Kínversk yfirvöld brugðust illa við afhendingunni og sögðu hana ganga gegn meginreglum verðlaunanna, ásamt því að vera „guðlast“ við verðlaunin. Xiaobo aflplánar nú 11 ára fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir það að grafa undan ríkisvaldinu. Seinäjoki. Seinäjoki er bær í sunnanverðum Austurbotni í Finnlandi. Seinäjoki varð sérstakt sveitarfélag árið 1868. Gamalt sænskt nafn á bænum er Östermyra en það er nú afar sjaldan notuð, jafnvel meðal sænskumælandi fólks. Steven Brand. Steven Brand (fæddur 26. júní 1969) er skoskur leikari. Brand, Steven Edmund Fanning. Edmund Fanning (16. júlí 1769 – 23. apríl 1841) var bandarískur landkönnuður og skipstjóri á Kyrrahafi. Hann fann meðal annars Fanning-eyju árið 1797 en hún kallast nú Tabuaeran og tilheyrir Kiribati. Árið 1829 átti hann stóran þátt í að senda bandaríska flotann í sinn fyrsta könnunarleiðangur og stóð einnig á bak við Wilkes-leiðangurinn svonefnda, sem farinn var um suðurhöf á árunm 1838-1842. Mürzzuschlag. Mürzzuschlag er bær í Steiermark í Austurríki, með 9569 íbúa (2001). Bærinn er þekktastur fyrir að vera fæðingarstaður Nóbelsverðlaunahafans í bókmenntum árið 2004, Elfriede Jelinek. Í bænum er líka stærsta skíðaiðkunar- og vetraríþróttasafn í heimi. Silfur Egils (10. þáttaröð). Silfur Egils er íslensk þáttaröð. Sýningar á tíundu þáttaröðinni hófust þann 20. september 2009 og þeim lauk 30. maí 2010. Þættirnir voru 34 og er hver þeirra um 117 mín. að lengd. Kastljós (dægurmálaþáttur) (1. þáttaröð). Kastljós er íslensk dægurmálaþáttaröð. Sýningar á fyrstu þáttaröðinni hófust þann 2. júní 2006 og þeim lauk 31. maí 2007. Þættirnir voru 273 og er hver þeirra að meðaltali um 46 mín. að lengd. Þetta er þáttaröðin þar sem Kastljós sendi frá sér yfirlýsingu varðandi fullyrðingu sína að Lucia gæti hafa notið sérréttinda vegna tengsla sinna við Jónínu Bjartmarz. Þáttaröðin er oftast nær með einstök mál í hverjum þætti, auk þess að í flestum tilfellum kemur tónlistarfólk til þess að flytja lag í lok þáttarins. Nýr þáttaliður byrjaði í Kastljósinu þann 7. júlí. Í þáttaliðnum fékk Kastljós til sín aðkomandi, oftast fjölmiðlamenn, til þess að tjá sig um hverjar séu helstu fréttir vikunnar. Sérstakir þættir voru gerðir nærri lok þáttarinnar, Borgarafundir og Leiðtogaumræður. Borgarafundirnir voru haldnir með áhorfendum og þessum sömu áhorfendum bauðst að spyrja stjórnmálaflokkana spurninga. Leiðtogaumræðurnar voru á milli allra flokka sem buðu sig fram í kosningunum 2007. Umfjöllunarefni í fleiri en einum þætti. Meðal mála sem hafa komið oftar en í einum þætti er myndun nýs ráðherraliðs ríkistjórnarinnar. Þeir þættir voru í sýningu 6. - 10. júní, 2006. Í sama mánuði tók Kastljós trúleysingann Richard Dawkins fyrir í tveim þáttum, 25. og 26. júní. Næsta dag á eftir, 27. og 28. júní voru Kastljósmenn síðan með tvo þætti um Mengunarslysið á Eskifirði. Kastljós fór í næsta mánuði svo gott sem ofaní saumana á lyfjaverði á íslandi, þann 3-6. júlí. Skömmu síðar afhjúpaði þátturinn að athugasemdir Gríms Bjarnarsonar, verkfræðings, um Kárahnjúkavirkjun voru leynd fyrir stjórnarandstöðunni, og eyddu tveimur þáttum, 24. og 25. ágúst í þá umfjöllun. Meðal vinsælustu viðfangsefna þáttaraðarinnar voru símhleranir og breiðavíkurmálið. Þær símahlerarnir sem átt er við, eru símhleranir hjá Jóni Baldvini, sem var þá utanríkisráðherra, og Árna Páli, núverandi efnahags og viðskiptaráðherra. Málið var skoðað í samhengi við símahleranamálið árið 1949-1968, en á þeim tíma fóru fram víðtækar símhleranir. Þessir þættir fóru fram 12. október, 10. október, 30. nóvember og 21. desember. Breiðavíkurmálið, hinsvegar, er um vistun vandræðaunglinga á heimilinu Breiðavík og er sérlega viðkvæmt í eðli sínu út af þeim misþyrmingum og kynferðisofbeldi sem átti sér stað á heimilinu. Málið stóð yfir frá 1964-1971. Þættir Kastljós um málið voru 2. febrúar, og síðan í röð frá 5. til 8. febrúar. Flosagjá. Flosagjá er gjá á Þingvöllum sem rennur saman við Nikulásargjá fyrir enda hraunrima sem nefnist Spöngin. Flosagjá og Nikulásargjá eru því samtengdar. Í Nikúlásargjá mun Nikulás Magnússon sýslumaður hafa drekkt sér 24. júlí 1742 en Nikulásargjá er líka stundum nefnd Nikulásarpyttur. Eftir að menn tóku að kasta skildingum í Nikulásargjá af brúnni, sem er hluti af veginum að Þingvallabænum, kalla menn nú staðinn Peningagjá. Margir kannast aðeins við gjána undir því nafni en það er þó ekki eiginlegt nafn hennar. Nikulás Magnússon. Nikulás Magnússon (1700 – 24. júlí 1742) var sýslumaður Rangæinga á 18. öld og bjó síðast á Barkarstöðum í Fljótshlíð. Hann var sonur Ingibjargar Þorkelsdóttur og Magnúsar Benediktssonar á Hólum í Eyjafirði, sem var af höfðingjaættum en var „nafnkunnugt illmenni“ að sögn Jóns Espólíns og var dæmdur fyrir morð á barnsmóður sinni. Nikulás varð stúdent frá Skálholtsskóla og sigldi síðan og nam við Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð sýslumaður Rangæinga árið 1727. Hann mun hafa átt við andlega örðugleika að stríða og verið afar skapbráður. Á Alþingi 1742 sturlaðist hann, fór úr rúmi sínu í Nikulásarbúð um nótt og drekkti sér í eystri hluta Flosagjár, sem eftir það kallaðist Nikulásargjá en er nú oftast kölluð Peningagjá. Þótt allir vissu að hann hefði fyrirfarið sér var hann grafinn í kirkjugarði en ekki utan garðs eins og átti að gera við þá sem frömdu sjálfsmorð. Listi yfir þjóðhöfðingja Navarra. Skjaldarmerki konunga Navarra 1212. Nú er það skjaldarmerki franska héraðsins Basse Navarre (Neðra-Navarra) og þorpsins Donapaleu - Saint Palais í Basse Navarre. Þetta er listi yfir konunga og ríkjandi drottningar konungsríkisins Pamplóna, sem síðar varð konungsríkið Navarra. Ríkið var kallað Pamplóna allt þar til það gekk í ríkjasamband við Aragóníu (1076-1134). Eftir það var heitið Navarra oftast notað og á síðari tímum hefur það einnig oft verið haft um konungsríkið á fyrstu öldum þess. Íñiguez-ætt, ? 824–905. Íñiguez-ættin stofnaði konungsríkið Pamplóna árið 824 eða þar í kring, þegar hún gerði uppreisn gegn yfirráðum Franka (Karlunga). Jiménez-ætt, 905–1234. Árið 905 neyddi bandalag grannríkja Fortún Garcés til að setjast í helgan stein í klaustri og í stað hans kom ný konungsætt. Á valdatíma hennar ruddi heitið Navarra smátt og smátt heitinu Pamplóna til hliðar. Þegar Sancho 4. var drepinn réðust frændur hans, Alfons 6. Kastilíukonungur og Sancho Ramírez Aragóníukonungur, inn í landið og sá síðarnefndi lagði það undir sig. Eftir það var Navarra undir stjórn Aragóníumanna í meira en hálfa öld. Þegar Alfons dó kom til erfðadeilu í Aragóníu og aðalsmenn í Navarra gripu tækifærið og endurreistu sjálfstætt konungsríki. Þeir völdu sem konung barnabarn óskilgetins bróður Sancho 4. Champagne-ætt 1234–1284. Sancho 7. var síðastur konunga af Jimenez-ætt og þegar hann dó gekk krúnan til sonar systur hans, Blönku af Navarra, greifynju af Champagne, sem hafði reyndar verið ríkisstjóri mestalla stjórnartíð bróður síns. Trastámara-ætt, 1425–1479. Jóhann 2. hélt hásætinu eftir dauða konu sinnar en sonur hans og eldri dóttir gerðu tilkall til hennar og hefðu í raun átt að erfa hana. Albret-ætt, 1518–1572. Árið 1512 vann Ferdínand 2., konungur Aragóníu, sigur á liði Jóhanns 3. og lagði síðan undir sig allt konungsríkið Navarra sunnan Pýreneafjalla og lét krýna sig konung þar. Konungar Navarra eftir 1512 réðu því aðeins yfir Neðri-Navarra, þeim hluta ríkisins sem var norðan fjallanna. Bourbon-ætt, 1572–1620. Hinrik 3., konungur Navarra, varð Hinrik 4. Frakkakonungur og síðan gekk krúna Navarra áfram til Frakkakonunga. Árið 1620 var konungsríkið Navarra innlimað í Frakkland. Frakkakonungar héldu þó áfram að skarta titlinum Konungur Navarra til 1791 og hann var svo endurvakinn árið 1814 og viðhélst til 1830. Gliese 581 d. Gliese 581 d er fjarreikistjarna á sporbaug um stjörnuna Gliese 581. Hún uppgötvaðist þann 27. apríl 2007 og er í um 20,5 ljósára fjarlægð frá jörðu. Hún er af stærðartegundinni súperjörð og er berghnöttur. Eins og með Gliese 581 c var haldið að þar gæti þrifist líf. Eftir frekari rannsóknir kom í ljós að plánetan væri of köld, mjög lík Mars. Árið á plánetunni er 66 dagar. Góð trú. Góð trú eða grandleysi er hugtak í lögfræði, sem má rekja allt til Rómarréttar ("bona fides"). Það merkir, að maður viti ekki um atvik, sem varða réttarstöðu hans, og vanrækslu hans sé ekki um þennan þekkingarskort að kenna. Þá getur hann öðlast rétt, sem hann nyti ekki, ef hann teldist vera í vondri trú. Undir vanrækslu fellur margs konar óaðgæsla, þar á meðal vanviska í lögum og túlkun þeirra. Vond trú. Vond trú er hugtak í lögfræði, sem má rekja allt til Rómarréttar ("mala fides"). Það merkir, að maður viti um atvik, sem útiloka hann frá að öðlast eða halda tilteknum réttindum. Stundum er nóg, að hann hafi mátt vita um atvikin, svo að réttur hans glatist. Eins og nafnið bendir til, er vond trú í lögfræði andstæða við góða trú. Jóhann mildi af Holtsetalandi. Jóhann mildi (um 1297 – 27. september 1359) eða Jóhann 3. af Holtsetalandi var greifi af Schauenburg, Holtsetalandi-Plön og Holtsetalandi-Kiel, sem stýrði Danmörku í félagi við frænda sinn, Geirharð 3. af Holtsetalandi-Rendsburg og fleiri þýska aðalsmenn, á árunum 1332-1340, en þá var konungslaust í landinu. Jóhann var sonur Geirharðs 2. blinda af Holtsetalandi og Agnesar af Brandenborg, sem verið hafði drottning Danmerkur 1273-1286 (kona Eiríks klippings) og var móðir Danakonunganna Eiríks menved og Kristófers 2., sem voru því hálfbræður Jóhanns. Jóhann var stórauðugur og keypti eftir dauða föður síns upp mestallar jarðeignir eldri hálfbróður síns, Geirharðs. Í krafti auðs síns komst hann í félagi við frænda sinn, Geirharð 3. (þeir voru bræðrasynir), í valdaaðstöðu í Danmörku og hirtu þeir allar tekjur af landinu á meðan það var konungslaust. Þegar gerð var uppreisn gegn Kristófer 2. árið 1326 og hann hrakinn úr landi leitaði hann til Jóhanns hálfbróður síns, veðsetti honum Sjáland og Skán fyrir 100.000 merkur silfurs og var tekinn til konungs þar aftur að nafninu til 1329. Geirharði hafði hann veðsett Jótland og Fjón fyrir sömu upphæð. Jóhann var hálfbróður sínum þó fremur hliðhollur og brátt kom til átaka milli frændanna Jóhanns og Geirharðs. Fór Jóhann halloka og varð að viðurkenna Geirharð sem yfirboðara sinn í Danmörku. Jóhann skipti sínum hluta landsins upp í minni lén og lét aðra norðurþýska aðalsmenn fá þau. Þeir gengu margir hart fram í skatheimtu og íbúar Skánar gerðu uppreisn 1332 og leituðu liðsinnis hjá Magnúsi Eiríkssyni smek, konungi Svíþjóðar og Noregs. Hann keypti veðbréfið fyrir Skán og titlaði sig eftir það einnig konung Skánar. Kristófer var settur af öðru sinni og dó skömmu síðar. Jóhann réð áfram yfir Danmörku austan Stórabeltis en þótt enginn væri konungurinn virðist hann ekki hafa látið mikið til sín taka pólitískt, heldur einbeitti sér að því að hafa sem mestar tekjur af landinu. Árið 1340 tókst Valdimar atterdag, syni Kristófers 2., að ná Danmörku undir sig að nýju og þar með var valdaskeiði holsteinsku greifanna lokið. Jóhann átti fyrst í stað samtarf við Valdimar bróðurson sinn til að reyna að fá greitt það sem eftir stóð af skuldinni en smátt og smátt dró úr áhrifum hans og þegar hann dó réði hann aðeins yfir þýsku greifadæmunum sem hann hafði átt alla tíð. Jóhann var tvígiftur og átti fjórar dætur sem allar giftust norður-þýskum aðalsmönnum en eini sonur hans, Adolf, var barnlaus og dó því ættleggur hans út með honum. Filippa af Englandi. Stytta Filippu drottningar eftir Herman Wilhelm Bissen. Filippa af Englandi (4. júní 1394 – 7. janúar 1430) var ensk konungsdóttir og drotting Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs frá 1406 til dauðadags. Hún var ríkisstjóri Danmerkur og Noregs frá 1423 til 1425. Filippa var dóttir Hinriks Bolingbroke, sem varð svo Hinrik 4. Englandskonungur, og Maríu de Bohun. Skömmu eftir aldamótin 1400 fóru Hinrik konungur og Margrét Danadrottning að ræða hugsanlegt bandalag milli Englands og Kalmarsambandsins og átti að innsigla það með því að Eiríkur af Pommern, sem þá var orðinn konungur allra Norðurlanda þótt Margrét héldi um stjórnartaumana, giftist Filippu og Hinrik prins af Wales, bróðir hennar, giftist Katrínu systur Eiríks. Af bandalaginu varð ekki því Margrét gat ekki samþykkt þau skilyrði sem Englendingar settu en þó var gengið frá trúlofun Filippu og Eiríks og þau giftust 26. október 1406, þegar Filippa var tólf ára. Hún er fyrsta prinsessa sögunnar sem staðfest er að hafi gift sig í hvítum brúðarklæðum, kyrtli og yfir honum hvítri silkiskikkju bryddaðri með grárum íkorna- og hermelínskinnbryddingum. Ungu hjónin bjuggu í Kalmar í Svíþjóð fyrstu árin og Filippa átti raunar eftir að eyða miklum hluta drottningarára sinna í Svíþjóð, þar sem henni höfðu hlotnast miklar lendur. Sagt er að hún hafi stýrt Svíþjóð að meira eða minna leyti, hvort sem Eiríkur var þar eða ekki, hún sat í forsæti í sænska ríkisráðinu 1422 þegar skera þurfti úr deilu milli aðalsætta, og þegar Eiríkur ferðaðist um Evrópu og til Jerúsalem á árunum 1423 til 1425 gerði hann hana að ríkisstjóra allra Norðurlandanna á meðan. Bæði samtímamönnum og seinni tíma fræðimönnum ber saman um að hún hafi staðið sig vel í hlutverki ríkisstjóra og að sumu leyti verið betri stjórnandi en maður hennar. Hún gerði til dæmis samkomulag við Hansaborgirnar Lübeck, Hamborg, Lüneburg og Wismar um sameiginlega myntsláttu. Myntbandalagið var reyndar úr sögunni 1426 þegar átök hófust milli Dana og Hansasambandsins. Árið 1428 stýrði Filippa vörnum Kaupmannahafnar gegn umsátri Hansasambandsins og þótti standa sig mjög hetjulega. Árið 1429, eftir 23 ára hjónaband, ól Filippa eina barnið sem vitað er til að hún hafi átt og fæddist það andvana. Fæðingin virðist hafa verið henni mjög erfið og rétt eftir áramótin 1430 dó hún í Svíþjóð og var grafin í klausturkirkjunni í Vadstenaklaustri. Hún hafði notið mikilla vinsælda víða um ríki sitt, ekki síst í Kaupmannahöfn, og tóku borgarbúar það mjög óstinnt upp þegar Eiríkur konungur tók Sessilíu hirðmey hennar sem frillu sína. Vængjasláttur í þakrennum. Vængjasláttur í þakrennum er bók eftir Einar Má Guðmundsson var skrifuð 1983 og var gefinn út af Almenna bókafélaginu, Reykjavík. Sagan á að gerast í kringum sjöunda áratuginn og fylgjumst við með Jóhanni Péturssyni. Hann er sögumaðurinn og sjáum við hans viðhorf til hlutanna í gegnum bókina. Jóhann og bróðir hans Tryggvi eiga sérstakt áhugamál, Dúfnasöfnun en á þeim dögum var þetta vinsælt meðal strákanna í hverfinu. Þeir fengu þessa hugmynd frá hugmyndaríkum rakara í hverfinu sem hafði ætíð mikinn áhuga á dúfum. Dúfurnar sem strákarnir söfnuðu gat notast sem gjaldmiðill til Antons rakara en hann klippti strákana í staðin og voru strákarnir komnir með hátískuklippingar allir saman. Kassar voru smíðaðir og var mikið lagt í nýjungar til dúfnaveiðanna. Vinur þeirra Diddi oft kallaður Diddi dúfa var talinn vera dúfna kóngurinn því hann átti svo margar og var þetta mikið veldi að mati strákanna og annarra. Þessir strákar unnu sér vel við dúfuveiðarnar en hrekkjusvínin voru ekki langt undan en þeir voru leynifélag sem þutu um götur reykjavíkur á skellinöðrum og brutu og brömluðu. Mikill rígur var milli þeirra og stofnuðu Dúfuvinirnir samtökin FUF eða félag unglinga í fjölbýlishúsum til að varðveita og standa fyrir málstað sínum. Mikill götuslagur varð milli þessara tveggja samtaka og voru barefli, tjara og glerbrot meðal árasavopna í bardaganum. Lögreglan kom oft til sögu til að grípa til aðgerða leynifélagssinns og voru þeir að verki m.a. þegar þeir hleyptu villiköttum til Antons rakara og voru þeir búnir að slátra öllum dúfunum hans.Hápunktur sögunnar fannst mér þegar lögreglan kom upp um þá og umkringdu þá í fylgsninu sínu og fundu þar á meðal ránsfeng úr kjörbúðum, áfengi og fjöldan allan af bareflum. Seinna með voru íbúar hverfisins orðnir þreyttir á þessum dúfum þegar allt var farið að vera í dúfnaskít og voru þær farnar að valda fólki andvöku um nætur. Bylting varð hjá íbúum og var komið að hreinsunardegi. Anton rakari kom með hugmynd að stofnun Sameinaðs dúfnafélags en sú humynd var fljótt vísað á bug. Flestar dúfurnar voru reknar en rauðhærði dúfnakóngurinn leiddi dúfurnar líkt og Móses yfir elliðárnar frá bænum og sendi þær á brott og hafa ekki sést síðan þá í borginni. Höfundur kemur mikið með menningu til sögu í bókinni m.a. þegar Tryggvi hætti dúfnastandinu og byrjaði að hlusta á The Shadows og seinna með bítlana í segulbandstækinu og tók upp á því að ganga í leðurjakka, greiða sér með geli og drekka kók með strákunum. Bítlarnir komu sterkt til sögu í seinni hluta sögunnar þar sem það breytti algerlega stílnum, eða svokallaðri tískunni á þeim tíma og breyttust greiðslur, tónlistarsmekkir og fatastílar. Strákarnir byrjuðu að safna hári og kvikmyndastjörnur eins og Marlon Brando og Marilyn Monroe orðnar það heitasta. Dóróthea af Brandenborg. Dóróthea af Brandenborg (1430/1431 – 10. nóvember 1495) var þýsk hefðarkona og drottning Danmerkur 1445-1448 (sem kona Kristófers af Bæjaralandi) og aftur 1449-1481 (sem kona Kristjáns 1.), Noregs 1445-1448 og aftur 1450-1481 og Svíþjóðar 1445-1448 og aftur 1457-1464). Hún var einnig ríkisstjóri Danmerkur í fjarveru Kristjáns 1. Dóróteha var dóttir Jóhanns markgreifa af Brandenburg-Kulmbach og Barböru af Saxe-Wittemberg. Þann 12. september 1445 giftist hún í Kaupmannahöfn Kristófer af Bæjaralandi, sem verið hafði konungur Danmerkur frá 1440, Svíþjóðar frá 1441 og Noregs 1442, og varð drottning allra landanna. Hún var krýnd tveimur dögum seinna. Hjónaband þeirra Kristófers var skammvinnt því hann dó snemma í janúar 1448. Þau voru barnlaus og Kristófer átti enga nána ættingja sem til greina komu sem erfingjar; því var farið allt aftur til afkomenda Eiríks klippings (d. 1286) og þá varð Kristján greifi af Aldinborg fyrir valinu. Hann varð svo konungur sem Kristján 1. en það var skilyrði að hann giftist Dórótheu, hinni kornungu ekkju fyrirrennara síns, þar sem hún hafði fengið miklar eignir í öllum löndunum þremur þegar hún giftist Kristófer og ef hún hefði flutt frá Norðurlöndum hefði þurft að gjalda henni geysimikið fé fyrir þær. Þau gengu í hjónaband 28. október 1449 og Dóróthea varð drottning Danmerkur og Noregs öðru sinni en Svíþjóð hafði sagt sig úr ríkjasambandinu. Dóróthea missti eignir sínar í Svíþjóð þegar landið gekk úr Kalmarsambandinu. Hún var ekki tilbúin að sætta sig við það og reyndi til æviloka að ná þeim aftur. Árið 1451 urðu deilur um eignir drottningar kveikja að stríði milli Danmerkur og Svíþjóðar. Þegar Svíþjóð gekk aftur í ríkjasambandið 1457 fékk drottningin eignirnar en tapaði þeim aftur 1464. Hún leitaði meðal annars aðstoðar páfans, sem bannfærði sænska ríkistjórann Stein Sture eldri árið 1455. Það spillti fyrir samskiptum ríkjanna áratugum saman og þegar Dóróthea dó 1495 lét Hans konungur sonur hennar það verða eitt sitt fyrsta verk að fá bannfæringunni aflétt. Tveimur árum síðar varð hann konungur Svíþjóðar. Dóróthea deildi einnig um arf eftir föður sinn við frændur sína. Dóróthea gegndi starfi ríkisstjóra þegar Kristján maður hennar var fjarverandi. Hún var mjög valdamikil, ekki síst í krafti auðs síns, sem hún notaði til að stýra bæði manni sínum og syni. Hún lánaði manni sínum fé sem hann gat svo ekki greitt til baka og þá yfirtók hún lendur sem hann hafði sett að veði. Þannig fékk hún Holtsetaland árið 1479 og Slésvík árið 1480 og stýrði hertogadæmunum sem sínu eigin ríki. Hún hafði mikið dálæti á yngri syni sínum, Friðrik, og ætlaði honum bæði hertogadæmin en þó varð úr 1487 að bræðurnir skyldu stýra þeim saman, að minnsta kosti að nafninu til. Dórótheu er svo lýst að hún hafi verið kaldlynd, raunsæ og mikil fjáraflamanneskja. Hún dó 25. nóvember 1495 og er grafin við hlið seinni manns síns í Hróarskeldudómkirkju. Tveir elstu synir hennar og Kristjáns dóu kornungir en synirnir Hans og Friðrik urðu báðir konungar Danmerkur. Dóttirin Margrét giftist Jakob 3. Skotakonungi árið 1469 og varð drottning Skotlands. Kosningar til stjórnlagaþings á Íslandi 2010. Kosningar til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 voru haldnar þann 27. nóvember 2010. Hver og einn kjörgengur Íslendingur gat kosið 25 frambjóðendur og raðað þeim í forgangsröð. Ráðgefandi stjórnlagaþing sem verður skipað 25 fulltrúum mun síðan koma saman í síðasta lagi þann 15. febrúar 2011 til þess að endurskoða stjórnarskrá Íslands. Kjörsókn var 36,77% og þurfti hver frambjóðandi 3.200 atkvæði til þess að ná kjöri. Kosið var í fyrsta sinn með svokallaðri Forgangsröðunaraðferð (e. "Single transferable vote"). Ákvörðun Hæstaréttar. Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings með ákvörðun þann 25. janúar 2011. Sex hæstaréttardómarar fjölluðu um kærur vegna kosningarinnar. Þeir voru: Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson. Hæstarétti bárust kærur frá Óðni Sigþórssyni, Skafta Harðarsyni og Þorgrími S. Þorgrímssyni. Lutu þær að ýmsum ágöllum sem kærendur töldu vera á framkvæmd kosningarinnar. Hæstiréttur fann fimm annmarka á framkvæmd kosningarinnar, þar af tvo verulega annmarka. Hæstiréttur vísaði til þess að það væri hlutverk löggjafans að setja skýrar og ótvíræðar reglur um framkvæmd opinberra kosninga þar sem tekið væri réttmætt tillit til aðstæðna sem leiða af sérstöku eðli þeirra. Það væri á hinn bóginn ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd kosninga vegna fjölda frambjóðenda eða nýs verklags sem hentugt þætti vegna rafrænnar talningar atkvæða. Ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna var umdeild. Nokkru eftir ákvörðunina skipaði Alþingi s.k. "stjórnlagaráði", sem skyldi vera ráðgefandi um nýja stjórnaskrá. Stjórnlagaráðið var skipað flestum þeim er kosnir voru til stjórnlagaþingsins og tók til starfa um vorið. Hæstiréttur hafnaði síðar ógildingarkröfu Öryrkjabandalagsins varðandi forsetakosnningarnar 2012. Þorvaldur Gylfason hélt því fram í kjölfarið að í þessum tveimur ákvörðunum væri hrópandi ósamræmi. Heiðhvolf. Heiðhvolfið er hvolf lofthjúps jarðar, sem tekur við af veðrahvolfi og nær upp að miðhvolfi. Staðsetning þess er á milli um 10 og 50 km hæð yfir yfirborði jarðar, en yfir heimskautum eru neðri mörkin kringum 8 km. Í heiðhvolfinu finnst ósonlag jarðar, sem veldur því að hiti hættir að falla með hæð og eykst þess í stað þegar ofar dregur. Alrúna. Alrúna (fræðiheiti: "Mandragora officinarum") er jurt af Náttskuggaætt með þykka, oft greinda rót (stólparót) sem gerir það að verkum að hún fær stundum mannsmynd. Alrúna vex villt í Miðjarðarhafslöndunum. Á miðöldum var hún tengd við ýmiss konar hjátrú og litið á hana sem öflugan verndargrip. Hjátrú tengd alrúnu. Á miðöldum var talið að alrúna yxi undir gálga og yrði til af sæði hinna hengdu. Var hennar einkum að leita á slíkum slóðum, enda stundum nefnd „gálgamaður“, til dæmis í dönskum bókmenntum. Ekki var hlaupið að því að grafa upp alrúnurót. Helst var það reynandi fyrir sólarupprás á föstudegi. Skyldi maður þá bera vax í eyru sér, fara til gálgastaðar og hafa með sér kolsvartan hund (eða svartan hana að öðrum kosti). Ekki mátti snerta sjálfa rótina, heldur var grafið umhverfis og bandi brugðið um hana og hnýtt í hundinn. Síðan var hann lokkaður frá rótinni með vænum kjötbita og kippti henni þá upp um leið. Heyrðist þá angistarvein og ógurleg öskur þegar alrúnan slitnaði upp. Varð það venjulega bani hundsins. Hvítu líni var nú sveipað um alrúnurótina, hún síðan böðuð í rauðvíni og klædd í hvítrauðan klæðnað. Varð hún eftir þetta verndarvættur eigandans. Oft fluttu ferðalangar Alrúnurætur sunnan yfir Alpafjöll og seldu í Norður-Evrópu. En iðulega var hún fölsuð og seldar rætur annarra jurta, sem auðveldara var að ná í, til dæmis sverðliljurætur o. fl. Opinberlega var verslun með alrúnurætur stranglega bönnuð og á galdrabrennuöldinni voru konur sem versluðu með hana brenndar á báli. Læknislyf fornaldar. Talið er að Forn-Egyptar hafi haft miklar mætur á alrúnunni. Aldin hennar hafa fundist þar í fornaldargröfum, fléttuð í hálskransa, til dæmis í gröf Tútankamons. Rót, blöð og aldin jurtarinnar voru notuð til lækninga fyrir a.m.k. 3500 árum. Hippókrates, hinn frægi læknir Forn-Grikkja, ráðlagði seyði rótarinnar við þunglyndi, sjálfsmorðshugleiðingum og jafnvel krampa. Í Alexandríu var hún notuð sem deyfilyf löngu fyrir Kristsfæðingu. Konungsríkið Aragónía. Konungsríkið Aragónía var sjálfstætt ríki á Pýreneaskaga á miðöldum og náði yfir nokkurn veginn sama svæði og sjálfstjórnarhéraðið Aragónía á Spáni gerir nú. Aragónía var upphaflega frankneskt lén umhverfis borgina Jaca. Á fyrri hluta 8. aldar varð það lénsríki konungsríkisins Pamplóna (seinna Navarra) en greifaættin sem réði því dó út árið 922 og Navarrakonungar yfirtóku það. Þegar Sancho 3., konungur Navarra, dó árið 1035 var ríki hans skipt milli sona hans. Óskilgetni sonurinn Ramíro fékk Aragóníu en átti þó að vera settur undir García bróður sinn, sem fékk Navarra og Baskaland. Gonzalo bróðir þeirra fékk greifadæmin Sobrarbe og Ribargorza en þegar hann var drepinn eignaðist Ramíro lönd hans, sameinaði Aragóníu og tókst að öðlast sjálfstæði í reynd frá García. Flestir kölluðu hann konung en sjálfur titlaði hann sig ævinlega Ramíro, son Sanchos konungs. Hver sem staða Aragóníu var meðan Ramíro lifði varð ríkið ótvírætt sjálfstætt konungsríki eftir dauða hans. Sonur hans náði Navarra undir sig og voru afkomendur hans konungar beggja ríkjanna í rúm fimmtíu ár en þá varð Navarra sjálfstætt að nýju. Aragónía stækkaði líka smátt og smátt til suðurs með því að vinna lönd af Márum. Höfuðstaðurinn færðist frá Jaca suður til Huesca 1096 og síðan til Zaragoza 1118. Eftir að Petrónilla, drottning Aragóníu, gekk að eiga Ramon Berenguer 4., greifa af Barcelona, árið 1150 varð Ríkjasambandið Aragónía til og náði það ekki aðeins yfir konungsríkið Aragóníu, heldur einnig Katalóníu og seinna Majorka og nálægar eyjar, Valensíu, Sikiley, Napólí og Sardiníu. Þetta samband var þó fremur laust í reipunum og stækkaði og skrapp saman á víxl. Þjóðhöfðinginn, konungur Aragóníu, var í raun það eina sem ríkjasambandið átti sameiginlegt. Ríkjasambandið leystist upp eftir að Ferdínand 2., konungur Aragóníu, giftist Ísabellu 1., drottningu Kastilíu, árið 1469 og ríkin sameinuðust en það var undanfari sameiningar Spánar undir einum þjóðhöfðingja. Eftir það hélt Aragónía þó vissu sjálfstæði allt til 1707. Konungsríkið Kastilía. Konungsríkið Kastilía var sjálfstætt ríki á Pýreneaskaga á miðöldum og er nú hluti af Spáni. Nafnið kemur fyrst fram í heimildum um árið 800 og er dregið af því að þá var þetta svæði austurhluti konungsríkisins Astúríu og þar reis fjöldi kastala til að verja landamærin gegn Márum. Greifadæmið Kastilía. Svæðið var þá greifadæmi og fyrsti greifinn sem vitað er um var Rodrigo, um 850, og var hann lénsmaður Astúríukonunganna Ordoño 1. og Alfons 3. Eftir daga hans skiptist greifadæmið niður í minni lén en var sameinað að nýju 931 af Fernán Gonzalez greifa, sem gerði uppreisn gegn konungsríkinu León, sem hafði tekið við af Astúríu. Honum tókst að ná fram sjálfstæði og hann og afkomendur hans í karllegg stýrðu greifadæminu næstu öldina. Jiménez-ætt. En þegar García Sanchez tók við árið 1017 var hann barn að aldri og Kastilíumenn samþykktu að gangast undir yfirráð Sanchos 3., konung Navarra, sem kvæntur var systur García. Þegar García var ráðinn af dögum 1028 gerði Sancho Ferdínand, yngri son sinn, að greifa í Kastilíu. Kona hans var Sancha af León, systir Bermudos 3. konungs þar. Eftir dauða Sanchos hófu Ferdínand og bróðir hans, García Sanchez 3., konungur Navarra, stríð við Bermudo og felldu hann. Ferdínand tók þá við völdum í León í nafni konu sinnar og kallaði sig konung León og Kastilíu. Var það í fyrsta sinn sem Kastilía kallaðist konungsríki. Þegar Ferdínand 1. dó 1065 skiptu synir hans með sér ríkinu og varð Sancho 2. konungur Kastilíu, Alfons 6. konungur León og García konungur Galisíu, en systur þeirra fengu borgir í sinn hlut. Bræðurnir Sancho og Alfons gerðu seinna bandalag gegn García bróður sínum og skiptu Galisíu á milli sín. Varla var því lokið þegar Sancho snerist gegn Alfons og rak hann í útlegð með aðstoð El Cid og sameinaði ríkin þrjú að nýju. Urraca systir hans veitti meginhluta hers León skjól í borginni Zamora, sem hún réði. Sancho settist um borgina árið 1072 en var myrtur meðan á umsátrinu stóð og kastilíski herinn hvarf frá. Alfons 6. sneri þá aftur, settist í hásæti í León að nýju og varð nú einnig konungur Kastilíu og Galisíu. Búrgundarætt. Ríkin á Pýreneaskaga árið 1210. Á valdatíma Alfons 6. jukust samskipti Kastilíumanna við önnur evrópsk konungsríki og hann gifti þrjár dætur sínar frönskum aðalsmönnum. Ein þeirra, Urraca, sem gifst hafði Raymond af Búrgund en var orðin ekkja, settist í hásætið þegar faðir hennar lést og síðan tók sonur hennar, Alfons 7., sem hafði verið krýndur konungur Galisíu árið 1111, við ríkjum í Kastilíu og León árið 1126 og hófst þá valdaskeið Búrgundarættar. Hann skipti ríkinu milli sona sinna tveggja og varð Sancho 3. konungur Kastilíu árið 1157 en Ferdínand 2. varð konungur León og Galisíu. Aðskilnaðurinn stóð þó ekki nema hálfa öld, Kastilía, León og Galisía sameinuðust aftur undir stjórn Ferdínands 3., sem var sonur Berengaríu Kastilíudrottningar og Alfons 9., konungs León, og voru undir einni stjórn eftir það. León og Galisía voru áfram sérstök konungsríki að nafninu til en konungshirðin og miðstöð valdanna var í Kastilíu frá 1230. Á 12. öld var Kastilía ein helsta menningarmiðstöð Evrópu og má rekja það til ársins 1085, þegar Kastilíumenn náðu borginni Toledo, einni helstu menningarmiðstöð Mára, á sitt vald og kynntust þar mörgum stórmerkum bókmenntaverkum, fræðiritum og vísindaritum og gátu kynnt sér störf og fræði múslimskra vísindamanna. Þar var fjöldi íslamskra og grískra rita þýddur á latínu á næstu áratugum og fræðimenn komu víða að úr Evrópu til að læra og stunda rannsóknir í Toledo. Jakobsvegurinn, pílagrímaleiðin til Santiago de Compostela lá líka um Kastilíu og León. Hann var fjölfarinn og því voru samskipti við Evrópu mikil. Trastámara-ætt. Búrgundarættin er talin ríkja til 1369, þegar Pétur grimmi var drepinn af óskilgetnum hálfbróður sínum, Hinrik, eftir þriggja ára borgarastyrjöld. Hinrik varð þá konungur, hinn fyrsti af Trastámara-ætt, en John af Gaunt, sonur Játvarðar 3. Englandskonungs, gerði einnig kröfu til ríkis í nafni Konstönsu konu sinnar, sem var dóttir Péturs. Hinrik hélt þó krúnunni og erfðadeilunni lauk 1388 þegar Hinrik 3. sonarsonur hans gekk að eiga Katrínu af Lancaster, dóttur Johns og Konstönsu. Trastámara-ætt stýrði Kastilíu 1369-1504, Aragóníu 1369-1516, Navarra 1425-1479 og Napólí 1442-1501. Árið 1469 giftust þau Ísabella 1. af Kastilíu og Ferdínand 2. af Aragóníu og sameinuðust ríkin tvö þegar faðir Ferdínands lést árið 1479 og hann erfði ríkið. Þar með má segja að Spánn hafi orðið til og dóttursonur þeirra, Karl 5., varð fyrsti eiginlegi konungur Spánar. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings er neðri deild Bandaríkjaþings, en þar sitja 435 þingmenn fyrir 50 fylki. Um þingið. Bandaríkjaþing á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1787 þegar Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði og ákveðið var að hafa tvær deildir til að tryggja það að ekki skapaðist ójafnvægi á milli fylkja heldur hefðu öll fylki fulltrúa til að standa vörð um þeirra hagsmuni. Fulltrúar í neðri deild Bandaríkjaþings eru 435 talsins en þeir eru kosnir til tveggja ára í einmenningskjördæmiskosningu. Auk fulltrúanna 435 eru nokkur svæði með áheyrnafulltrúa sem eru án atkvæðisréttar en það eru höfuðborgin, Washington DC, Bandarísku Samóaeyjarnar, Gvam (Guam), Jómfrúreyjar og Norður-Maríanaeyjar auk eins fastafulltrúa (e. "Resident Commissioner") frá Puerto Rico sem kosinn er til fjögurra ára. Þessir sex fulltrúar og fastafulltrúinn mega taka þátt í umræðum og kjósa í nefndum. Þeir mega einnig kjósa í „nefnd heildarinnar“ (e. Committee of the Whole) þegar atkvæði þeirra ráða ekki úrslitum en nefnd heildarinnar er nokkurs konar tæki þingsins til að kanna viðhorf þingmanna til frumvarps og leggja fram lagabreytingar. Misjafnt er hversu margir þingmenn sitja fyrir hvert fylki en eftir því sem íbúar fylkisins eru fleiri, því fleiri kjördæmi eru innan fylkisins. Kalifornía er með flesta þingmenn eða 53 en sjö fylki hafa aðeins einn þingmann en það eru Alaska, Delaware, Montana, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Vermont og Wyoming. Þingmenn bera ákveðnar skyldur gagnvart sínu heimafylki og fara oft heim í fríum til að sinna vinnu þar en hugmyndin er að þingmennirnir kjósi um frumvörp á grundvelli hagsmuna síns kjördæmis. Frambjóðendur til fulltrúadeildarinnar verða að vera 25 ára, hafa búið í Bandaríkjunum í sjö ár og búa í því fylki sem þeir eru fulltrúi fyrir en ekkert takmark er fyrir því hversu oft þingmenn mega bjóða sig fram til setu í fulltrúadeildinni. Kosningar til fulltrúadeildarinnar eru ávallt á þriðjudegi eftir fyrsta mánudag í nóvember á árum sem enda á sléttri tölu. Helstu embætti innan þingsins. Helstu leiðtogar á þinginu er forseti þingsins (e. speaker) eða forseti þingsins sem nú er Nancy Pelosi. Forseti þingsins er jafnframt leiðtogi meirihlutans og hefur hann þó nokkur völd. Hann ákveður í hvaða nefndir frumvörp eru send, skipuleggur dagskrána og er andlit flokks síns út á við. Forseti á að framfylgja reglum þingsins á sanngjarnan hátt en þó er búist við því að hann nýti sér forréttindin sem fylgja embættinu flokk sínum í hag. Leiðtogi minnihlutans sem nú er John Boehner er síðan andlit minnihlutans út á við. „Svipa“ (e. "whip") meirihluta og minnihluta er einnig mikilvægt hlutverk en svipan er í raun samskiptastjóri flokksins, hann á að vita hvað flokksmeðlimir vilja, hvað þeir þola og sjá til þess að þeir kjósi rétt. Svipa meirihluta nú er James E. Clyburn en svipa minnihluta Eric Cantor. Aðrir mikilvægir aðilar eru formaður flokksstjórnarfundar og formaður nefndar um þingframboð flokksins. Innan fulltrúadeildarinnar starfa nefndir ýmissa málefna, s.s. landbúnaðarnefnd, dómsmálanefnd, utanríkisnefnd, skattanefnd og fleira, alls 25 talsins. Einnig eru skipaðar tímabundnar nefndir en helstu hlutverk nefndanna eru að bæði valdinu og vinnunni sé dreift. Fulltrúadeildin myndi án þeirra hafa allt of mikið að gera, auk þess sem þetta hvetur þingmenn til að sérhæfa sig á ákveðnum sviðum til að komast í nefndarsetu. Hlutverk. Mikilvægasta hlutverk fulltrúadeildarinnar er löggjafarvaldið en auk þess hefur fulltrúadeildin umsjón með fjárlögum og yfirlýsingu um stríð. Einnig hefur fulltrúadeildin mikilvægt hlutverk í að stuðla að jafnvægi í þrískiptingu valdsins og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Löggjöf fer þannig fram að frumvörp verða til í annarri hvorri deildinni nema frumvörp sem varða fjárlög, þau verða að koma frá fulltrúadeildinni. Báðar deildirnar skiptast á að ræða og kjósa um frumvörp, alls tvisvar, en báðar deildir verða að samþykkja frumvarpið áður en það er sent til forsetans til undirritunar. Ef forsetinn neitar að undirrita frumvarpið þá er það sent aftur til þingsins en frumvarpið verður þá ekki að lögum nema með 2/3 atkvæða í báðum deildum þingsins. Fulltrúadeildin hefur að auki ákveðin völd sem öldungadeildin hefur ekki, svo sem að kjósa forsetann ef kjörmannaráð stendur á jöfnu og leggja til málshöfðun gegn forseta (e. "impeachment") en helsti munur á öldungadeildinni og fulltrúadeildinni er að öldungadeildin er mun frjálslegri. Í fulltrúadeildinni er ákveðið í upphafi hversu lengi megi ræða frumvarp en í öldungadeildinni er málþóf algengt þar sem tíminn er ekki takmarkaður og aðeins er hægt að stoppa málþóf með samþykki aukins meirihluta (60 þingmenn af 100) öldungadeildaþingmanna. Þetta gerir það að verkum að réttur minnihlutans verður meiri og meirihlutinn neyðist oft til að málamiðla. Að auki eru flokkslínur í öldungadeildinni óljósari heldur en í neðri deildinni þar sem mikill flokksagi ríkir. Tennisfélag Hafnarfjarðar. Tennisfélag Hafnarfjarðar er íþróttafélag sem stofnað var í Hafnarfirði árið 1928. Lítið er vitað um starfsemi félagsins og varð það ekki langlíft. Þetta mun þó vera eitt fyrsta dæmið um sjálfstætt tennisfélag hér á landi. Listi yfir fugla Íslands. Þessi listi yfir fugla Íslands samanstendur af um 370 tegundum fugla sem sést hafa við landið. Fuglalífi Íslands svipar nokkuð til þess sem er í öðrum löndum norðvestur Evrópu, en fáir staðfuglar verpa á landinu vegna þess hve harðir veturnir eru. Á listanum er ein útdauð tegund, ein á alþjóðlegum válista og ein tegund sem kom upp stofni á landinu vegna afskipta manna. __NOTOC__ Anatidae. a>. Til hægri er karlfugl og kvenfugl til vinstri. Charadriidae. a> er í hugum margra Íslendinga tákn um að vor og sumar sé á næsta leiti. Corvidae. a>inn er stærsti spörfuglinn á Íslandi. Emberizidae. a> er kvenkenndur að sumri og kallaður sólskríkja. Heimildir. Fuglar á Íslandi Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2002. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2002 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 2002. Invaders Must Die. "Invaders Must Die" er fimmta breiðskífa ensku rafhljómsveitarinnar The Prodigy. Hljómplatan var gefin út 18. febrúar 2009. Röksteinninn. Röksteinninn (sænska: "Rökstenen") er rúnasteinn í Svíþjóð sem var ristur á 9. öld eftir Krist. Röksteinninn er samtals með um 760 rúnir, dreifðar á öllum fimm hliðunum sem upp snúa og er einna frægastur allra rúnasteina sem til eru. Í ristunni á steininum notar ristarinn, "Varinn", bæði eldra og yngra rúnastafrófið og einnig þrídeilur og aðrar dulrúnir á margvíslegan hátt. Efnið er mjög erfitt að skýra, og sumir segja af ásettu ráði gert myrkt. Röksteinninn stendur við Rökskirkju, ekki langt frá Linköping í Austur-Gautlandi. Margrét af Austurríki. Margrét af Austurríki á yngri árum. Margrét af Austurríki (10. janúar 1480 – 1. desember 1530) var austurrísk hertoga- og síðan keisaradóttir, heitkona Frakkakonungs, kona ríkiserfingja Spánar og hertogaynja af Savoja og síðan ríkisstjóri Niðurlanda 1507-1515 og aftur 1519-1530. Margrét var dóttir Maxímilíans af Austurríki, síðar keisara, og Maríu af Búrgund, sem jafnframt ríktu saman yfir Niðurlöndum. Hún hét eftir stjúpömmu sinni, Margréti af York, systur Játvarðar 4. og Ríkharðar 3., sem var þriðja kona Karls djarfa hertoga af Búrgund. María dó tveimur árum eftir fæðingu Margrétar og erfði þá Filippus fagri, eldri bróðir hennar, meirihluta Búrgundar og Niðurlönd en faðir þeirra var ríkisstjóri því Filippus var aðeins fjögurra ára. Heitkona Frakkakonungs. Sama ár undirrituðu þeir Maxímilían og Loðvík 11. Frakkakonungur Arras-samninginn, þar sem faðir Margrétar hét að gifta hana Karli, syni Loðvíks, og árið 1483 var gengið frá trúlofuninni og Margrét fékk Franche-Comté og Artois í heimanmund. Hún var send til frönsku hirðarinnar að alast þar upp eins og þá var algengt þegar konungabörn trúlofuðust. Hún var þá þriggja ára en Karl tíu árum eldri. Loðvík dó sama ár og Karl 8. varð konungur. Anna af Frakklandi, eldri systir Karls, var ríkisstjóri þar til hann varð fullveðja og sá líka um uppeldi Margrétar litlu. Margréti mun hafa þótt afar vænt um væntanlegan eiginmann sinn en haustið 1491 sleit hann samningnum, því hann hafði einsett sér að giftast Önnu hertogaynju af Bretagne, sem var fjórtán ára og hafði erft geysimikil auðævi. Hún hafði raunar gifst Maxímilían, föður Margrétar, í desember 1490 en það var staðgengilsbrúðkaup og þau höfðu enn aldrei sést. Karl þvingaði því Önnu til að samþykkja ógildingu hjónabandsins og giftist henni í desember 1491. Hann var þó ekkert að flýta sér að senda Margréti heim og mun hafa ætlað að velja henni mann sjálfur út frá pólitískum hagsmunum sínum. Margrét var mjög ósátt sem við mátti búast og skrifaði föður sínum bréf þar sem kemur fram að hún var til í að flýja frá París á náttkjólnum ef það væri eina leiðin til að öðlast frelsi. Árið 1493 var hún þó send aftur til fjölskyldu sinnar í Niðurlöndum og heimanmundinum skilað. Hún var að vonum mjög sár vegna framkomu Karls og hafði alla tíð horn í síðu Frakka. Tvö skammvinn hjónabönd. Maxímilían vildi koma á bandalagi við konungshjónin Ísabellu, drottningu Kastilíu, og Ferdínand, konung Aragóníu, og samdi því um að Margét skyldi giftast einkasyni þeirra og erfingja, Jóhanni prinsi af Astúríu, og Jóhanna dóttir þeirra skyldi giftast Filippusi syni hans. Margrét hélt til Spánar í árslok 1496 og giftist Jóhanni snemma árs 1497. En hann dó 4. október, eftir hálfs árs hjónaband. Margrét var þá barnshafandi en fæddi andavana dóttur 8. desember. Hún sneri aftur til Niðurlanda snemma árs 1500 og árið 1501 giftist hún jafnaldra sínum Filibert 2. hertoga af Savoja, en hann dó þremur árum síðar. Þau voru barnlaus. Margrét var þá orðin ekkja öðru sinni, 24 ára að aldri, og hafði auk þess verið svikin af fyrsta heitmanni sínum og uppeldisbróður, og hún sór þess eið að giftast aldrei aftur. Ríkisstjóri Niðurlanda. Margrét á seinni ríkisstjóraárum sínum. Árið 1507 var hún útnefnd ríkisstjóri Niðurlanda og forráðamaður Karls bróðursonar síns (síðar Karls 5. keisara), sem þá var sjö ára, en Filippus bróðir hennar hafði dáið á Spáni 1506. Hún þótti standa sig mjög vel í því starfi og gerði meðal annars verslunarsamning við Englendinga sem var hagstæður vefurum í Flæmingjalandi. Ríkisstjórn hennar lauk þegar Karl varð sjálfráða 1515. Hann reyndi fyrst að brjótast undan áhrifum hennar en áttaði sig brátt á að hún var einn besti ráðgjafi hans og árið 1519, eftir að Karl var sestur að í ríki sínu á Spáni, gerði hann hana aftur að ríkisstjóra Niðurlanda. Því embætti gegndi hún til dauðadags 1530. Stjórnartími Margrétar var að mestu friðar- og framfaraskeið í sögu Niðurlanda. Þó fór að bera á trúardeilum þegar mótmælendatrú breiddist út í norðurhlutanum. Margrét var þó fremur frjálslynd í trúarefnum og var mótfallin ofsóknum gegn mótmælendum. Margrét var mjög vel menntuð, vel lesin, lék á nokkur hljóðfæri og orti ljóð. Margir helstu menntamenn samtímans heimsóttu hirð hennar, sem hafði aðsetur í Mechelen, milli Antwerpen og Brussel. Hún átti stórt bókasafn og lét gera fyrir sig fjölda nótnahandrita með verkum helstu tónskálda samtímans til að senda ættingjum og þjóðhöfðingjum að gjöf. Hún dó í Mechelen, fimmtug að aldri, og hafði áður útnefnt Karl 5. bróðurson sinn sem einkaerfingja sinn. Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 (A-I). Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 (A-I) er listi íslenskra ríkisborgara sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, í stafrófsröð frá A til I. Í heildina voru frambjóðendur 523 talsins. Sjötíu prósent frambjóðenda voru karlar. Fréttatíminn. "Fréttatíminn" er íslenskt fréttablað sem kemur út einu sinni í viku. Fyrsta eintak blaðsins kom út 1. október 2010. "Fréttatímanum" er dreift á föstudögum í u.þ.b. 82 þúsund eintökum. Þar af um 74.000 dreift í lúgu á höfuðborgarsvæðinu (ytri mörk eru Mosfellsbær, Hafnarfjörður og Seltjarnarnes). Ritstjóri blaðsins er Jón Kaldal. Fréttastjóri blaðsins er Óskar Hrafn Þorvaldsson. Eignarhald. "Fréttatíminn" er í eigu Morgundags ehf. sem er í eigu Miðopnu ehf.. Eigendur Miðopnu eru Teitur Jónasson 30%, Jón Kaldal 30%, Valdimar Birgisson 13%, Óskar Hrafn Þorvaldsson 13 %, Jónas Haraldsson 9% og Haraldur Jónasson 5%. Fimleikafélagið Björk. Fimleikafélagið Björk er íþróttafélag sem stofnað var í Hafnarfirði árið 1951. Tildrög stofnunarinnar var að hópur stúlkna á táningsaldri hóf að æfa fimleika undir leiðsögn Þorgerðar M. Gísladóttur íþróttakennara haustið 1949. Þorgerður var jafnframt fyrsti formaður félagsins. Fyrstu árin var helsta viðfangsefni félagsins að skipuleggja fimleikasýningar á hátíðarhöldunum þann 17. júní. Nokkur deyfð var yfir starfsemi félagsins á sjöunda áratugnum og lögðust skipulagðar fimleikaæfingar af á tímabili. Eftir 1971 var hins vegar nýju lífi hleypt í starfið og hefur Björk upp frá því verið meðal öflugari fimleikafélaga landsins. Árið 1979 var gerð breyting á lögum félagsins þar sem körlum var leyfð þátttaka. Aðrar íþróttir. Á árunum í kringum 1960 hélt Fimleikafélagið Björk úti liði í körfuknattleik stúlkna og varð liðið m.a. Íslandsmeistari í 2. flokki árið 1963. Mót. Mílanó meistaramót Haustmót áhalda I FSÍ 2011 Haustmót FSÍ í hópfimleikum 2011 Haustmót áhalda II FSÍ 2011 Reykjavik International Games hópfimleikar 2012 Þrepamót FSÍ áhaldafimleikar 2012 Þrepamót FSÍ áhaldafimleikar 5.þrep kvk 2012 Íslandsmót unglinga í hópfimleikum 2012 Bikarmót FSÍ í áhaldafimleikum 2012 Bikarmót FSÍ í hópfimleikum 2012 Íslandsmeistaramót FSÍ í áhaldafimleikum 2012 Íslandsmeistaramót FSÍ í þrepum 2012 Undankeppni Íslandsmóts í hópfimleikum FSÍ 2012 Mílanó meistaramót FSÍ 2012 Íslandsmót FSÍ í hópfimleikum 2012 Arionbankamót FSÍ 2012 Haustmót áhalda I FSÍ 2012 Haustmót áhalda II FSÍ 2012 Fimleikafélagið Ernir. Fimleikafélagið Ernir var íþróttafélag sem starfaði í Hafnarfirði á árunum 1952 til 1958 eða þar um bil. Tildrög þess var að Guðjón Sigurjónsson hóf að skipuleggja fimleikaæfingar drengja í bænum síðla árs 1949. Um svipað leyti höfðu fimleikaæfingar kvenna hafist í Hafnarfirði, sem leiddu til stofnunar Fimleikafélagsins Bjarkar. Fimleikahópur Guðjóns Sigurjónssonar varð ekki að formlegu félagi fyrr en vorið 1952. Starfsemi þess lognaðist út af nokkrum árum síðar þegar Guðjón, fyrsti og eini formaður félagsins, hélt utan til náms. Meðan á starfstíma Fimleikafélagsins Arna stóð efndi félagið til keppni um titilinn Fimleikameistari Hafnarfjarðar. Dancer in the Dark. Dancer in the Dark er kvikmynd í leikstjórn Lars von Trier þar sem Björk Guðmundsdóttir fer með aðalhlutverk. Frans 1. Frakkakonungur. Frans 1. Málverk eftir Jean Clouet. Frans 1. (12. september 1494 – 31. mars 1547) var greifi af Angoulême og konungur Frakklands frá 1515 til dauðadags. Á stjórnartíma hans hófst mikið blómaskeið í menningarlífi Frakka. Ríkiserfingi og tengdasonur konungsins. Frans var einkasonur Karls greifa af Angoulême og Lovísu af Savoja. Faðir hans var sonarsonur Karls 5. Frakkakonungs. Karl greifi dó á nýársdag 1496. Tveimur árum seinna varð Loðvík 12., frændi Frans, konungur Frakklands og var þá strax ljóst að ef hann eignaðist ekki son stæði Frans næstur til erfða. Þá var hann gerður að hertoga af Valois. Loðvík konungur sagði skilið við konu sína, sem ekki hafði alið barn í meira en tuttugu ára hjónabandi, og giftist hinni ungu ekkjudrottningu, Önnu af Bretagne. Hún ól á næstu árum tvær dætur, Claude og Renée, og að minnsta kosti fjóra andvana syni. Dæturnar áttu ekki erfðarétt að frönsku krúnunni og árið 1506, þegar Loðvík var farinn að óttast að eignast ekki son, samdi hann um trúlofun Claude, eldri dóttur sinnar, og Frans, í því skyni að tryggja að afkomendur hans sætu áfram á konungsstóli. Anna drottning var þó mjög mótfallin þessu því að henni var mjög í mun að tryggja sjálfstæði erfðaléns síns, hertogadæmisins Bretagne, sem Claude átti að erfa, og vildi ekki að það rynni saman við Frakkland. Því varð ekkert af giftingunni meðan hún lifði. Anna dó í janúarbyrjun 1514 og 18. maí um vorið giftust Frans og Claude. Loðvík konungur var rúmlega fimmtugur en var ekki búinn að gefa upp alla von um að eignast son og giftist um haustið þriðju konu sinni, hinni átján ára Maríu Tudor, systur Hinriks 8. Englandskonungs. Hann naut hennar þó ekki lengi því hann dó á nýársdag 1515 og þar sem María var ekki barnshafandi varð Frans konungur Frakklands sem Frans 1. Listvinur og menntamaður. Frans var vel menntaður og varð snemma fyrir áhrifum af ítölsku endurreisnarstefnunni. Hann er oft kallaður fyrsti endurreisnarkonungur Frakklands. Hann var mikill listvinur, studdi marga helstu listamenn samtímans og fékk ýmsa þeirra til að koma til Frakklands og starfa þar, meðal annars Leonardo da Vinci, sem kom með ýmis helstu verk sín með sér, þar á meðal Monu Lisu. Da Vinci dó í Frakklandi og verk hans urðu þar eftir. Einnig má nefna gullsmiðinn Benvenuto Cellini. Frans hafði einnig umboðsmenn á Ítalíu sem keyptu verk eftir Michelangelo, Titian, Rafael og fleiri meistara og sendu til Frakklands. Upphaf hinna stórkostlegu listaverkasafna Frakklandskonunga sem sjá má í Louvre og víðar má rekja til stjórnartíðar Frans. Hann var einnig bókmenntasinnaður, orti sjálfur ljóð og veitti ýmsum helstu rithöfundum samtíma síns stuðning. Hann efldi mjög hið konunglega bókasafn og lét umboðsmenn sína á Ítalíu leita uppi fágæt handrit. Árið 1537 gaf hann út tilskipun um að konunglega bókasafnið skyldi fá eintak af hverri bók sem prentuð væri í Frakklandi og er það fyrsta dæmið um prentskilaskyldu. Og það var ekki nóg með að hann safnaði bókum, hann virðist líka hafa lesið bækurnar sem hann keypti. Hann leyfði líka fræðimönnum aðgang að bókasafni sínu til að ýta undir útbreiðslu þekkingar. Systir hans, Margrét drottning Navarra, var einnig mikil bókamanneskja og rithöfundur. Frans var stórtækur í byggingaframkvæmdum, lét reisa ýmsar hallir og skreyta þær með listaverkum. Þar á meðal var Fontainebleau-höll, sem varð aðalaðsetur hans og bústaður opinberrar hjákonu hans, Önnu hertogaynju af Étampes. Mikill munaður einkenndi hallirnar og í gosbrunnum í hallargarði Fontainebleau var vatnið blandað með víni. Heima fyrir gerði Frans ýmsar umbætur á stjórnsýslunni, meðal annars með því að gera frönsku að opinberu tungumáli ríkisins í stað latínu. Hann gaf einnig út tilskipun um að skrásetja skyldi allar fæðingar, brúðkaup og dauðdaga og setja upp skráningarskrifstofu í hverri sókn. Var Frakkland fyrsta ríki Evrópu til að koma slíku kerfi á. Hernaðarbrölt konungs. Frans var hins vegar ekki jafnhæfur á pólitíska sviðinu eða í hernaði. Hann reyndi að láta kjósa sig keisara hins Heilaga rómverska ríkis en tókst það ekki. Milli hans og Karls 5. keisara, sem réð yfir Austurríki, Spáni og Niðurlöndum, ríkti gagnkvæmt hatur og mikil togstreita og Karl skoraði hvað eftir annað á Frans í einvígi þótt ekkert yrði af því. Þeir lentu þó oft í átökum og í orrustunni við Pavia, 24. febrúar 1525, vann Karl sigur og fangaði Frans. Hann var hafður í haldi í Madrid og neyddist til að undirrita friðarsamning og gefa mikið eftir. Hann var látinn laus 17. mars 1526 en varð að senda syni sína tvo í gíslingu í Madrid. Hann fór líka í herför til Ítalíu 1536 en beið þar einnig lægri hlut fyrir Karli. Aftur fór hann í stríð á Ítalíu 1542-1546 og gekk ívið betur í það skiptið, ekki síst vegna fjárhagserfiðleika Karls keisara. Frans leitaðist við að auka áhrif Frakka í Nýja heiminum og Asíu og sendi þangað könnunarleiðangra. Hann sendi meðal annars Jacques Cartier til að rannsaka St. Lawrence-fljót í Quebec árið 1534 og leita þar að gulli og gersemum og árið 1541 sendi hann Jean-François de la Roque de Roberval til að nema land í Kanada og boða þar kaþólska trú. Franskir könnuðir fóru einnig til Indlands og Indónesíu. Frans var líka fyrsti evrópski þjóðhöfðinginn til að koma á tengslum við Ottómanaríkið og gerði bandalag við Súleiman mikla, sem raunar vakti hneykslan víða í Evrópu og Frans var hallmælt mjög fyrir að gera bandalag við ríki vantrúaðra. Arfleifð og fjölskylda. Frans dó 31. mars 1547. Hann hefur fengið nokkuð blendin eftirmæli þar sem menning og menntir blómstruðu á stjórnartíð hans en hins vegar átti hann í kostnaðarsömum og illa heppnuðum hernaðarátökum sem ekki fóru vel með efnahag Frakklands. Á síðustu stjórnarárum sínum hóf hann líka ofsóknir gegn mótmælendum og voru þær upphafið að Frönsku trúarbragðastríðunum, borgarastyrjöld sem geisaði í Frakklandi næstu áratugi með hléum og lauk ekki fyrr en 1598. Frans og Claude drottning eignuðust sjö börn. Tvær elstu dæturnar dóu ungar. Ríkisarfinn, Frans hertogi af Bretagne, dó átján ára að aldri 1536 og það var því Hinrik bróðir hans sem tók við af föður sínum, þá 28 ára. Þriðji bróðirinn, Karl hertogi af Orléans, dó 23 ára. Magdalena giftist Jakob 5. Skotakonungi 1537 en dó hálfu ári síðar úr berklum, tæplega 17 ára að aldri. Yngsta systirin var Margrét, sem giftist Emmanúel Filibert hertoga af Savoja. Claude drottning dó 1524 og 7. ágúst 1530 giftist Frans Elinóru af Austurríki, systur erkióvinar síns Karls 5., en þau voru barnlaus. Hann átti einnig ýmsar hjákonur og er sagt að ein þeirra hafi verið Mary Boleyn, sem einnig hafði verið ástkona Hinriks 8. Englandskonungs, systir Anne Boleyn. Þær systur voru um tíma hirðmeyjar Claude drottningar. Probus. Marcus Aurelius Probus (um 19. ágúst 232 – september/október 282) var keisari Rómaveldis í sex ár, frá 276 til 282. Probus var keisari á tímum 3. aldar kreppunnar í Rómaveldi, tímabili sem einkenndist af óstjórn og utanaðkomandi ógn. Þegar Probus varð keisari hafði þó nokkrum stöðugleika verið náð eftir hernaðarsigra Claudiusar Gothicusar og Aurelianusar. Aurelianus keisari var myrtur árið 275 og í kjölfarið var Tacitus hylltur sem keisari af öldungaráðinu. Tacitus var svo myrtur aðeins ári síðar og fékk bróðir hans, Florianus, þá stuðning hjá hluta af hernum til að taka við völdunum. Fljótlega hylltu þó herdeildir austast í Rómaveldi Probus sem keisara. Probus og Florianus börðust á árinu 276 um völdin en á endanum var Florianus myrtur af sínum eigin hermönnum. Ástandið í Gallíu var slæmt þegar Probus varð keisari og því varð það fyrsta verk hans að reka hina ýmsu germönsku þjóðflokka, sem höfðu ráðist þar inn, aftur norður yfir Rín. Þetta voru, meðal annarra, Frankar, Búrgundar og Alemannar. Að því loknu styrkti hann varnir við landamærin við Rín. Einnig notaði hann hermenn sína sem vinnuafl við að gróðursetja vínekrur þar sem landið var illa farið eftir afleiðingar langvinnra stríðsátaka. Probus var á leiðinni í herferð gegn Sassanídum, árið 282, þegar Carus, yfirmaður lífvarðasveitar keisarans, var hylltur sem keisari. Probus sendi herlið til að kveða niður uppreisnina en herliðið snerist á sveif með Carusi. Í kjölfarið var Probus myrtur af eigin hermönnum og Carus varð keisari. Jóhanna af Valois. Jóhanna af Valois (23. apríl 1464 – 4. febrúar 1505) eða Jóhanna af Frakklandi var frönsk konungsdóttir, hertogaynja af Orléans, drottning Frakklands í skamman tíma 1498 og síðan hertogaynja af Berry. Hún var tekin í helgra manna tölu 28. maí 1950 sem "heilög Jóhanna af Valois". Jóhanna var dóttir Loðvíks 11. Frakkakonungs og seinni konu hans, Karlottu af Savoja. Þau systkini hennar sem upp komust voru Karl 8. Frakkakonungur og Anna af Frakklandi, hertogaynja af Búrgund og ein valdamesta kona 15. aldar. Þegar Jóhanna var tólf ára, 8. september 1476, giftist hún frænda sínum, Loðvík hertoga af Orléans, sem var tveimur árum eldri. Hann hélt því raunar fram síðar að hann hefði verið yngri. Litlum sögum fer af samlífi þeirra en þau eignuðust ekki börn. Jóhanna var heilsuveil og líklega eitthvað fötluð. Þann 7. apríl 1498 dó Karl bróðir hennar af slysförum og Loðvík varð konungur sem Loðvík 12. Í hjúskaparsamningi sem gerður hafði verið milli Karls og drottningar hans, Önnu af Bretagne, árið 1491 var áskilið að ef Karl dæi barnlaus skyldi hún giftast eftirmanni hans, en hún var þá ríkasta kona Evrópu og Frakkakonungar höfðu mikinn hug á að ná erfðaríki hennar, Bretagne, undir sig. Fáeinum dögum eftir að Loðvík tók við krúnunni lýsti hann hjónaband sitt ógilt á þeirri forsendu að kona hans væri vansköpuð og hann hefði ekki getað uppfyllt hjúskaparskyldur sínar vegna fötlunar hennar, enda væru þau barnlaus eftir 22 ára hjónaband. Auk þess hefði hann ekki verið orðinn fjórtán ára og því ekki mátt giftast. Jóhanna barðist hart á móti og leiddi fram vitni um að hjónabandið hefði víst verið fullkomnað. Loðvík hefði vafalaust ekki fengið sínu framgengt ef Alexander VI páfi hefði verið hlutlaus dómari en af pólitískum ástæðum úrskurðaði hann konungi í vil. Var hjónaband konungshjónanna ógilt 15. desember 1498 og Loðvík giftist Önnu 8. janúar 1499. Jóhanna var ævareið en sagðist ætla að biðja fyrir fyrrverandi eiginmanni sínum. Hann gaf henni titilinn hertogaynja af Berry og hún flutti til Bourges í Berry og settist þar að, stofnaði klaustur og iðkaði bænir. Hún dó 4. febrúar 1505 og var grafin í klaustrinu. Gröf hennar var vanhelguð og líkamsleifar hennar brenndar af Húgenottum 27. maí 1562. Skömmu eftir dauða hennar voru henni kennd kraftaverk og ýmis jarteikn og hún var talin dýrlingur. Jóhanna af Valois var svo formlega tekin í dýrlingatölu af Píusi XII páfa árið 1950. Tennisfélag Reykjavíkur. Tennisfélag Reykjavíkur er íþróttafélag sem starfrækt var í Reykjavík frá 1920 til 1926. Það stundaði tennisæfingar á leikvelli Barnaskólans í Reykjavík og í grennd við Höfða. Til að fjármagna gerð Höfðavallarins stóð Tennisfélagið fyrir uppsetningu í Iðnó á revíunni "Boltinn með lausa naflann" eftir Pál Skúlason og er sýningin talin marka upphaf revíualdarinnar í reykvísku leikhúslífi. Árið 1926 rann félagið inn í nýstofnaða tennisdeild Íþróttafélags Reykjavíkur. Þjóðfundur um stjórnarskrá á Íslandi 2010. Þjóðfundur um stjórnarskrá á Íslandi 2010 var haldinn í Reykjavík 6. nóvember 2010. Hann var hluti af ferlinu við að breyta stjórnarskrá Íslands. Þjóðfundinum var ætlað að leggja línurnar um vilja þjóðarinnar varðandi ýmis gildi fyrir Stjórnlagaþingið 2011. Framkvæmd. 950 þáttakendur tóku þátt í þjóðfundinum. Að lok þjóðfundarins voru allir þáttakendur spurðir um gagnsemi fundar, fræmkvæmd hans, fundarform og notagildi. Mikill meirihluti þáttakenda (75-97%) voru jákvæðir í garð þessara spurninga. Miklagljúfursþjóðgarður. Miklagljúfursþjóðgarður er þjóðgarður í bandaríkjunum sem stofnaður var árið 1919. Þjóðgarðurinn er 49.308 ferkílómetrar að stærð og er einn elsti sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Mörk þjóðgarðarins eru þjóðar minnismerkið Miklagljúfur-Parashant til norðvesturs, Havasupi og Haulapai verndarsvæðunum til suðvesturs og Navaho verndarsvæðinu til austurs. Bæði til suðurs og norðurs eru mörk þjóðgarðarins að Kaibab þjóðskóginum. Land í Miklagljúfursþjóðgarði er að miklu leyti í eigu ríkisins, eða 49.147 ferkílómetrar, og afgangurinn er í eigu einkaaðila. Þjóðgarðinum er stjórnað af þjóðgarðsnefnd Innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Þjóðgarðurinn er á Heimsmynjaskrá UNESCO. Stjórnlagaþing á Íslandi 2011. Stjórnlagaþing á Íslandi 2011, síðar endurskilgreint og nefnt Stjórnlagaráð, er hluti af því ferli að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Á undan stjórnlagaþinginu var haldinn þjóðfundur sem var ætlað að leggja línurnar um vilja þjóðarinnar varðandi ýmis gildi fyrir Stjórnlagaþingið. Eftir að Hæstiréttur úrskurðaði kosningar til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 ólögmætar var heiti þingsins breytt í "Stjórnlagaráð" og sömu mönnum boðin seta í því og hlutu kosningu til stjórnlagaþingsins, að sumra sögn til að fara á svig við úrskurð Hæstaréttar. Stjórnlagaráð skilaði frumvarpi að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 27. júlí 2011. San Salvador. San Salvador, einnig nefnd "biðeyjan", er eyja í eyjaklasanum Bahamaeyjar. San Salvador er 21km að lengd, og 8km að breidd. Sagan segir að eyjan sé fyrsti lendingarstaður Kristófers Kólumbusar, þann 12. október 1492. San Salvador varð fyrir mikilli fólksfækkun vegna þrælaflutningum fólksins á eyjunni til Afríku. Jafnframt kom Bandaríkjaher til eyjarinnar í seinni heimstyrjöldinni. Í dag er litið á San Salvador sem ferðamannaparadís. Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar. Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar var reist árið 1935 af íþróttakennaranum Jóni Þorsteinssyni. Húsið er númer sjö við Lindargötu og hýsir í dag tvö leiksvið Þjóðleikhússins "Kassann" og "Kúluna". Saga. Jón Þorsteinsson kom heim til Íslands sem menntaður íþróttakennari og hóf þegar restur íþróttaskóla. Nefndist skólinn upphaflega Müllersskólinn enda var þar einkum staðið fyrir kennslu í hinum vinsælu Müllersæfingum. Auk kennslu fyrir almenning, sá Jón um að þjálfa meðlimi flestallra íþróttafélaga bæjarins í fimleikum. Árið 1935 lét Jón Þorsteinsson reisa veglegt, sérhannað íþróttahús. Arkitektar þess voru Einar Sveinsson og Sigmundur Halldórsson og var húsið í Funkisstíl. Íþróttaskólinn var starfræktur í húsinu næstu fjóra áratugina, til ársins 1976. Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar var stærsta íþróttahús Reykjavíkur þar til bærinn eignaðist íþróttahúsið Hálogaland rétt eftir síðari heimsstyrjöldina, en um var að ræða gamlan íþróttabragga frá breska hernámsliðinu. Fyrstu árin fór keppni á Íslandsmótinu í handknattleik fram í Lindargötuhúsinu. Þar var einnig um árabil aðalæfingaraðstaða Ármenninga. Tilvísanir. Jón Þorsteinsson Arabar. Arabar er hugtak sem haft er um fólk sem hefur arabísku að móðurmáli, tilheyrir arabískri menningu eða getur rakið ætt sína til Arabíu. Arabar eru fjölmennastir í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Flestir kenna þeir sig einnig við heimaland sitt og jafnvel héruð eða ættbálka. Þessi dreifða búseta og örar breytingar á seinni árum valda því að öll arabamenning er ekki steypt í nákvæmlega sama far. Trúarbrögð eru ekki heldur ótvírætt einkenni. Þótt stærstur hluti araba aðhyllist íslam, er kristni gömul í löndum þeirra en reyndar fækkar því fólki hlutfallslega. Giskað er á, að fjöldi araba nemi samtals allt að 300 – 350 milljónum manna. En þeir eiga heima í mjög mörgum löndum, og nákvæma tölu er ómögulegt að reikna. Saga. Orðið "arabar" finnst fyrst notað um hóp af fólki fyrir langdrægt þrjú þúsund árum. Ýmsar skýringar eru gefnar á upphaflegri merkingu, einkum "hirðingjar í eyðimörkum". Þáttaskil urðu í sögu araba snemma á sjöundu öld, þegar Múhameð hóf að kenna ný trúarbrögð, sem fengu mikinn hljómgrunn á meðal þeirra. Í kjölfarið fylgdu landvinningar, og stórveldi risu. Þar á meðal var Ottómanveldið, sem stóð frá 1299 til 1922. Menningaráhrif frá aröbum. Á miðöldum fór að gæta í Evrópu menningaráhrifa frá aröbum í vísindum. Þeir miðluðu meðal annars margvíslegri fornmenningu og arabískum tölum. Að einhverju leyti höfðu þeir einnig áhrif í myndlist, tónlist og bókmenntum. Lífstykkjabúðin. Lífstykkjabúðin var stofnuð árið 1916 sem reykvísk verslun og iðnfyrirtæki. Fyrirtækið er starfrækt enn í dag sem undirfataverslun að Laugavegi 82 en framleiðslu lífstykkja er löngu hætt. Saga. Elísabet Foss stofnaði Lífstykkjabúðina árið 1916 en hún hafði lært lífstykkjagerð í Danmörku. Fyrirtækið varð fljótlega nær einrátt í framleiðslu á lífstykkjum, brjóstahöldum og magabeltum hérlendis. Fyrirtækið hóf starfsemi sína í Hafnarstræti 9 og hafði þá yfir einni saumavél að ráða en þegar mest var störfuðu hjá fyrirtækinu 6-9 stúlkur við afgreiðslu og saumaskap. Verðandi (1882). Verðandi var íslenskt tímarit sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1882 og er upphaf raunsæisstefnunnar á Íslandi miðað við útgáfu þess. Aðeins kom út eitt hefti af tímaritinu en það hafði þó mikil áhrif á íslenskar bókmenntir. Útgefendur tímaritsins voru fjórir ungir menntamenn sem allir voru eða höfðu verið við nám í Danmörku. Þetta voru þeir Gestur Pálsson, Einar H. Kvaran, Bertel Þorleifsson og Hannes Hafstein, sem var yngstur fjórmenninganna, rétt rúmlega tvítugur. Gestur og Einar birtu smásögur í tímaritinu en Hannes og Bertel ljóð. Sum ljóð Hannesar sem þarna birtust í fyrsta sinn urðu alþekkt, svo sem "Stormur", "Skarphéðinn í brennunni", "Nei, smáfríð er hún ekki", "Sprettur" (Ég berst á fáki fráum) og "Þar sem háir hólar", en af öðru efni tímaritsins er smásaga Gests, "Kærleiksheimilið", líklega þekktust. Ekki var neinn sérstakur inngangur eða stefnuyfirlýsing í tímaritinu en þó varð strax ljóst að þarna var ný stefna á ferðinni sem ekki hafði áður sést í íslenskum bókmenntum. Voru fjórmenningarnir kenndir við tímaritið og kallaðir "Verðandimenn". H.f. Útvarp. H.f. Útvarp er fyrsta útvarpsstöð sem starfrækt hefur verið á Íslandi. Stöðin var í einkaeigu og sendi út á árunum 1926 til 1928. Reksturinn reyndist ekki bera sig og lagði fyrirtækið því upp laupana, en hafði þó náð að kynna Íslendingum möguleika útvarpstækninnar og ýtti þannig undir stofnun Ríkisútvarpsins. Aðdragandi. Ottó B. Arnar (1894-1974) var rétt kominn yfir fermingu þegar hann réð sig til starfa hjá Landssíma Íslands. Hann starfaði sem símritari og hafði árið 1915, 21 árs að aldri, forgöngu um stofnun Félags íslenskra símamanna. Félagið hóf þegar útgáfu blaðsins Elektron, sem síðar nefndist Símablaðið. Blaðið birti mikið af greinum um það sem nýjast var í heimi tækninnar, þar á meðal um útvarpstæknina. Hin nýja tækni heillaði Ottó, sem hélt bæði til Bandaríkjanna og Bretlands til að kynnast notkunarmöguleikum hennar. Árið 1924 fékk hann Alþingismanninn Jakob Möller til að flytja frumvarp um sérleyfi til útvarpsrekstrar á Íslandi. Samkvæmt frumvarpinu skyldi fimm nafngreindum einstaklingum, með Ottó sjálfan fremstan í flokki, veitt heimild til stofnunar hlutafélags um rekstur útvarpsstöðvar, Að tíu árum liðnum hefði ríkið kauprétt að stöðinni. Frumvarpið var samþykkt á þingi árið 1925, en þó með þeirri veigamiklu breytingu að félagið fékk ekki einkaleyfi á sölu útvarpsviðtækja eins og óskað hafði verið eftir. Með þessu var fótunum í raun kippt undan rekstri stöðvarinnar, þar sem tekjur af viðtækjasölu voru ein aðalrekstrarforsendan. Engu að síður var félagið stofnað, hlutafé safnað og fyrsta útvarpssendingin fór fram þann 31. janúar 1926. Rekstur stöðvarinnar. Útsendingarbúnaði H.f. Útvarps var komið fyrir í loftskeytastöðinni á Melunum, en stúdíó stöðvarinnar var í húsi Búnaðarfélags Íslands. Fyrstu vikurnar var haldið úti tilraunaútsendingum, en formlegur upphafsdagur útvarpsstöðvarinnar var 18. mars 1926 og flutti Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra opnunarræðuna. Takmarkaðar upplýsingar eru til um dagskrá þessarar fyrstu útvarpsstöðvar. Á morgnanna var stutt útsending með veðurfregnum og smáfréttum. Aðaldagskráin var á kvöldin með fréttum, sem einkum voru lesnar upp úr Morgunblaðinu, upplestrum, leikritum og söngvum. Þá var stundum útvarpað frá messum um helgar og naut það mikilla vinsælda. Rekstur H.f. Útvarps var alla tíð þungur, ekki hvað síst úr því að félagið hafði ekki fengið einkaleyfið á viðtækjasölunni. Komið var á laggirnar Félagi útvarpsnotenda, sem ætlað var að tryggja hagsmuni viðtækjaeigenda en í raun var það fyrst og fremst stofnað til höfuðs hlutafélaginu. Hvatti Félag útvarpsnotenda mjög til þess að hið opinbera hefði frumkvæði að stofnun kraftmikillar útvarpsstöðvar. Þegar komið var fram á árið 1928 var rekstur hlutafélagsins kominn í uppnám. Útsendingar urðu með tímanum stopular og lognuðust að lokum út af. Ekki er ljóst hvenær stöðin sendi síðast út, en vitað er um útsendingar um jólaleytið 1928. Þá um vorið hafði Alþingi samþykkt lög um stofnun Ríkisútvarpsins og voru örlög einkaútvarpsreksturs því ráðin. Svipa. Svipa er frumulíffæri sem margir gerlar og forngerlar nota til að hreyfa sig. Sunnyvale. Sunnyvale er borg í Silicon Valley í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Federalist Papers. Forsíðan af fyrstu prentunininni af "Federalist Papers" (1788) Federalist skjölin eru safn 85 ritgerða, af þessum greinum voru 77 þeirra birtar í dagblaðinu "The New York Packet" á árunum 1787 til 1788. Árið 1788 voru allar greinarnar gefnar út í tveimur bindum sem gengu undir nafninu "Federalist" og undirtitlinum "nýja stjórnarskráin". Markmið greinanna var að sannfæra íbúa um að kjósa yfir sig stjórnarskrá sem hafði verið rituð árinu áður í Philadelphiu en töldu þeir mikilvægt fyrir landið að styrkja ríkisvaldið sem var veikt fyrir enda var ekki löngu áður búið að fá sjálfstæði viðurkennt. Sambandsþingið (e. Confederation Congress) var starfrækt fram til ársins 1789 en liður í því að fá nýja stjórnarskrá samþykkta var til að byggja enn sterkara sambandsríki. Höfundar. Greinarnar voru í upphafi ritaðar undir dulnefninu Publius og var því ekki vitað hverjir höfundarnir væru, þó höfðu vissir aðilar grun um hverjir þeir væru. Eftir andlát Alexanders Hamilton fundust skjöl þar sem hann gekkst við því að vera rithöfundur margra greina. Það var fræðimaðurinn Douglass Adair sem rannsakaði hverir væru höfundar hverrar greinar væri en árið 1944 birti hann útlistun á því hver ætti hvaða grein. Höfundarnir voru þeir Alexander Hamilton sem ritaði 51 greinar, James Madison en hann ritaði 29 greinar þá ritaði John Jay fimm greinar. Unnu þeir Madison og Hamilton að nokkrum greinum í sameiningu. Tilgangur ritgerðanna. Markmið ritgerðanna var að fá íbúa New York og aðra íbúa landsins til að kjósa yfir sig nýja stjórnarskrá og fá hana fullgilda. Ritgerðirnar eru heimspekilegar vangaveltur um hvernig sé best að túlka stjórnarskránna og hvernig stjórnkerfi landsins sé best borgið og eru skjölin enn í dag notuð sem heimild um hvernig beri að túlka stjórnarskránna. Ritgerðirnar hafa margsinnis verið notaðar sem gögn í dómsmálum fyrir hæstarétti í Bandaríkjunum þar sem er deilt um merkingu stjórnarskráarinnar. Deilur um ritgerðir. Ritgerðirnar vöktu mikla athygli og voru að mörgu leyti einstakar í pólitísku samhengi þar sem ritgerðirnar virtust vera eftir einn rithöfund en voru í raun eftir þrjá rithöfunda sem höfðu mjög ólíkar skoðanir en Madison og Hamilton urðu fljótlega eftir að stjórnarskráin var samþykkt pólitískir andstæðingar. Þar sem um var að ræða þrjá höfunda birtust stjórnmálakenningar ekki á eins skipulagðan hátt eins og ef um einn rithöfund væri að ræða og kom það meðal annars fram sem mótsögn þar sem í vissum tilfellum voru tillögur varðar sem áður hafði verið andmælt. Útvarpsstöðin á Sjónarhæð. Útvarpsstöðin á Sjónarhæð er önnur útvarpsstöðin sem stofnuð var á Íslandi. Stöðin var rekin á vegum Sjónarhæðarsafnaðarins á Akureyri á árunum 1927 til 1929. Útsendingum lauk þegar stöðin fékk ekki endurnýjað starfsleyfi sitt. Aðdragandi. Útvarpsstöðin á Sjónarhæð var hugarfóstur breska trúboðans Arthurs Gook. Hann hafði fengið köllun frá Guði um að halda til Íslands og boða guðsorð. Árið 1905 kom Gook til landsins, settist að á Akureyri og stofnaði Sjónarhæðarsöfnuðinn, sem enn starfar. Eftir að hafa lesið sér til um útvarpstæknina, komst Gook að þeirri niðurstöðu að hana mætti nýta til trúboðs í strjálbýlu landi eins og Íslandi. Hann sótti um leyfi landssímastjóra til útvarpsreksturs árið 1925 og fékk það skömmu síðar. Gook bað safnaðarfélaga sína í Bretlandi um stuðning við kaup á útvarpsstöð og fékkst fullbúin stöð send hingað til lands fyrir gjafafé þeirra í september 1927. Rekstur stöðvarinnar. Um leið og stöðin kom til Akureyrar var hún sett upp og útsendingar hófust skömmu síðar. Þegar best lét náðust útsendingarnar víða um land og jafnvel til fjarlægra heimshorna, en oft bar á rafmagnstruflunum sem torvelduðu útsendingu. Megintilgangur stöðvarinnar var að senda út guðsþjónustur og erindi um trúarleg málefni, en þó átti margt annað að vera á boðstólum s.s. fréttir, veðurfregnir, tónlistarflutningur af hljómplötum, upplestur úr tímaritum, tungumálakennsla o.fl. Ekki tókst að standa við öll þessi fyrirheit. Rekstur stöðvarinnar var dýr og flókinn, auk þess sem ýmis tæknileg vandamál komu upp. Helst var útvarpað í kringum stórhátíðir og þótti sumum þeirra sem keypt höfðu sér dýr útvarpsviðtæki að Gook hefði tekið fullstórt upp í sig þegar hann lofaði mikilli og fjölbreyttri skemmtidagskrá. Þessar vanefndir urðu loks til þess að starfsleyfi stöðvarinnar fékkst ekki endurnýjað í desember 1929 og lauk þar með starfsemi hennar. Líklegt má þó telja að hin raunverulega ástæða þess að leyfið fékkst ekki hafi verið sú að unnið var að stofnun Ríkisútvarpsins sem tók til starfa á árinu 1930. Bókabúð Máls og menningar. Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg í Reykjavík hefur lengi verið með stærstu bókabúðum landsins. Búðin var stofnuð 1940. Nokkur útibú voru stofnuð síðar, hið stærsta þeirra við Síðumúla. Bókabúðin var lengst af í eigu bókaforlagsins Máls og menningar en árið 2003, ekki löngu eftir sameiningu bókaútgáfunnar við Vöku-Helgafell í Eddu - miðlun og útgáfu voru verslanirnar seldar til Eymundssonar árið 2003 vegna fjárhagsörðugleika félagsins og sameinaðar verslunum Pennans. Verslunin á Laugaveginum hélt þó nafninu Bókabúð Máls og menningar áfram þar til hún flutti á Skólavörðustíg sumarið 2009. Skömmu síðar var opnuð ný bókaverslun í húsnæðinu á Laugavegi 18 undir nafninu "Bókabúð Máls og menningar". Hún er þó ótengd bókaforlaginu. Forsetakosningar í Bandaríkjunum. Forsetakosningar Í Bandaríkjunum eru óbeinar kosningar. Í því felst að í hverju ríki fyrir sig kjósa kjósendur kjörmenn í kjörmannaráð. Kjörmenn kjósa svo forsetann og varaforsetann í beinum kosningum. Þessar kosningar eru á fjögurra ára fresti. Alltaf er kosið á tímabilinu 2.-8. nóvember á þriðjudegi. Kosningaferlinu er stýrt af bæði sambands- og ríkjalögum. Hverju ríki er úthlutað ákveðnum fjölda kjörmanna í jöfnu hlutfalli við þingmannafjölda öldungadeildar og fulltrúadeildar. Þar að auki er Washington D.C. úthlutað kjörmönnum í jöfnu hlutfalli við minnsta ríkið. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna hefur löggjafarvald hvers ríkis fyrir sig rétt á því að tilnefna kjörmenn að eigin vali. Þar af leiðandi er almenn atkvæðagreiðsla í höndum hvers ríkis fyrir sig en ekki alríkisins "(e. federal government)". Bandaríkjaþing hefur síðan lokaorðið hvað varðar niðurstöðu kosninga kjörmanna. Saga kosninganna. Hinir fyrstu leiðtogar Bandaríkjanna "(e. founding fathers)" stofnuðu það lýðræði sem hefur með tímanum þróast í það sem þekkist í dag. Þetta þótti algjör nýjung þar sem einveldi var það eina sem þekktist í flestum öðrum löndum. Með nýfengið frelsi undan breska heimsveldinu var hin óreynda þjóð ekki með neinn konung. Þess í stað kom forseti Bandaríkjanna sem fékk stöðu sína með kosningu. Þessari stöðu fylgdi sú ábyrgð að leiða ríkisstjórnina, framfylgja lögum og reglum landsins og sinna stöðu yfirhershöfðingja herafla þjóðarinnar. Þrátt fyrir að forsetinn sé orðinn táknmynd þess lífs sem Bandaríkin boða hefði þetta þó getað farið á allt annan veg. Áður en George Washington tók við embætti forsetans þann 30. apríl 1789 höfðu margir Bandaríkjamenn séð fyrir sér einveldi og kórónu fyrir þennan vinsæla plantekrubónda frá Virginíu. Hann harðneitaði þó að slíkt gæti orðið og feður stjórnarskrárinnar stóðu með honum í þeirri ákvörðun hans. Í meira en 200 ár hafa forsetar Bandaríkjanna og fjölskyldur þeirra búið á 1600 Pennsylvania Avenue í Washington D.C. í sandsteins höfðingjasetri sem þekkist einnig undir nafninu Hvíta húsið. Hvíta húsið hefur 132 herbergi, 412 hurðar, 28 arin og ekki eitt einasta hásæti. George Washington var einn af stofnendum "(e.founding father)" og einn af aðal leiðtogum bandarísku byltingarinnar. Hann var kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna og er sá eini sem hefur nokkurn tímann unnið slíka kosningu með einhljóða kjöri kjörmannaráðs "(e.electoral college)". Hann sat tvö tímabil áður en hann dró sig í hlé. Önnur grein í stjórnarskrá Bandaríkjanna kom upprunalega af stað þeirri aðferð sem notuð er í dag í forsetakosningunum ásamt því sem þekkist í kjörmannaráði. Var það árangur málamiðlunar stofnenda stjórnarskrárinnar sem vildu að þingið kysi forsetann og þeirra sem vildi að forsetinn yrði kosinn með þjóðaratkvæðagreiðslu. Prófkjör. Prófkjör eru undanfari forsetakosninganna sjálfra þar sem kosið er um hvaða frambjóðendur munu verða í forsvari fyrir flokkinn og keppast um embætti forseta. Prófkjörið byrjar á því að kosið er innan ríkjanna í óbeinni kosningu sem þýðir að atkvæði kjósenda fer ekki beint til tiltekins frambjóðanda heldur til fulltrúa hans sem er svo skyldugur til þess að kjósa þann frambjóðanda á Landsfundi þess flokk sem frambjóðandinn tilheyrir. Misjafnt er eftir ríkjum hvernig prófkjörið fer fram. Sum ríki notast við hlutfallskosningu þar sem fjöldi fulltrúa fer eftir hlutfalli atkvæða hvers frambjóðanda. Í öðrum ríkjum er það einn frambjóðandi sem fær alla fulltrúa þess flokk í tilteknu ríki ef hann fær flest atkvæði. Prófkjörið skiptist einnig milli þess þar sem notast er við venjulega kosningu sem er rekið af stjórn ríkisins eða opin kosning "(e. caucus)" sem þýðir að minni leynd hvíli yfir atkvæðum kjósenda og er haldið utan þá kosningu um af flokknum sjálfum. Landsfundir. Þegar flokkarnir hafa kosið innan ríkisins um hversu marga fulltrúa hver frambjóðandi fær er haldin landsfundur þar sem skorið er úr um hvaða frambjóðandi fái að bjóða sig fram til forseta fyrir sinn flokk. Allir flokkar hafa rétt á því efna til landsfundar en fundir demókrata og repúblikana fá mesta umfjöllun. Á landsfundinum velja fulltrúarnir þann frambjóðanda sem þeir hafa gefið formlegt loforð um að kjósa. Ef kosningin sker ekki úr um hvaða frambjóðandi hljóti kosningu er kosið aftur en þegar kosið er aftur hafa fulltrúar frjálsar hendur og mega því kjósa þann frambjóðanda sem þeir vilja. Framkvæmd kosninganna á kjördag. Kosningarnar eru á þann hátt að hvert ríki hefur sínar eigin kosningar um hverjir hljóta tilnefningu kjörmanna. Því eru forsetakosningarnar sambland margra aðskilinna kosninga sem haldnar eru samtímis. Líkt og í öðrum kosningum í Bandaríkjunum er kjörgengi einstaklinga stjórnarskrárbundið og er framkvæmd kosninganna í höndum ríkjanna. Í stjórnarskránni er kveðið á um að ekki megi neita einstaklingum kosningarétti á grundvelli kynþáttar né kyns þeirra borgara sem náð hafa 18 ára aldri. Venjulega greiða kjósendur sín atkvæði á þann hátt að merkt er við einn frambjóðanda til forseta, ásamt varaforsetaefni hans, í kjörseðli sem inniheldur lista allra frambjóðenda viðkomandi ríkis. Atkvæðið sem frambjóðandi hlýtur er óbeint því í raun eru það kjörmenn hans sem hljóta atkvæðið. Kjörmannaráðið. Í kjörmannaráði eru 538 kjörmenn og er fjöldi þeirra úr hverju ríki í ágætu samhengi við íbúafjölda þess. Sá frambjóðandi sem ber sigur úr býtum í sérhverju ríki fær alla kjörmenn þess. Að loknum kosningum, nánar tiltekið fyrsta mánudag í kjölfar annars miðvikudags í desember, koma kjörmennirnir saman í kjörmannaráði og velja forsetann og varaforsetann. Þrátt fyrir að tæknilegur möguleiki sé til staðar fyrir kjörmenn kjörmannaráðsins að velja hvaða frambjóðanda sem er hafa 24 ríki lög um refsingu í garð þeirra kjörmanna sem ekki velja þann frambjóðanda sem þeir hafa heitið að velja. Snemma í janúar, þeim næsta í kjölfar forsetakosninganna, eru atkvæði kjörmannaráðs gerð opinber. Er það á þann hátt að sitjandi varaforseti Bandaríkjanna, þá í hlutverki forseta öldungadeildarinnar, sem gerir þeim skil á sameiginlegum þingfundi beggja deilda Bandaríkjaþings. Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er æðsta embætti neðri deildar bandaríkjaþings, fulltrúadeildarinnar. Embættið er grundað í fyrstu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna og hefur því embættið verið til staðar frá fullgildingu stjórnarskráarinnar árið 1789. Samkvæmt stjórnarskrá er forseti fulltrúadeildarinnar næstur í röðinni á eftir varaforseta Bandaríkjanna til að taka við stöðu Bandaríkjaforseta skyldi hann deyja, segja af sér, eða á einhvern hátt vera leystur frá störfum. Núverandi forseti fulltrúadeildarinnar er Nancy Pelosi, en hún er fyrsta konan sem gegnir embættinu og tók hún við embættinu þann 4. janúar 2007. Pelosi er þingmaður áttunda kjördæmis Kaliforníu. Auk þess að vera fyrsta konan til að gegna þessu embætti var Pelosi fyrsti Kaliforníubúinn og fyrsti Bandaríkjamaðurinn af ítölskum uppruna til að gegna embættinu. Kosning forseta fulltrúadeildarinnar. Allir þeir flokkar sem sitja í fulltrúadeild þingsins tilnefna frambjóðenda á sínum vegum til embættisins. Fyrsta dag hvers þings er kosið um forseta og þarf hreinan meirihluta til að hljóta kosningu. Þess ber að geta að samkvæmt stjórnarskrá er ekki skilyrði að kjörinn forseti sé þingmaður. Hinsvegar hefur það aldrei gerst að kjörinn forseti sé ekki sitjandi þingmaður. Oftast er sá háttur á að forseti fulltrúadeildarinnar kemur frá þeim flokki sem situr í meirihluta. Þó hefur það gerst að forsetinn komi úr röðum flokks sem er í minnihluta innan deildarinnar. Þetta er þó ekki algengt, þar sem ætlast er til þingmenn kjósi þann frambjóðanda sem að tilnefndur hefur verið af eigin flokki. Í þeim tilvikum þar sem þingmaður kýs ekki þann sem hefur verið valinn af eigin flokki til framboðs er ætlast til þess að þingmaðurinn kjósi annan einstakling úr eigin flokki eða sitji hjá. Ef að þingmaður kýs ekki eftir flokkslínum á hann í hættu að missa starfsaldurstengd forréttindi. Seinast átti slíkt sér stað þegar kosið var til forseta fulltrúadeildarinnar árið 2000. Þá notaði demókratinn James Traficant atkvæði sitt til að kjósa tilnefningu repúblikana, Dennis Hastert. Traficant var þá refsað af demókrötum á þann hátt að hann missti öll starfsaldurstengd forréttindi ásamt því að vera leystur frá öllum nefndarstörfum á vegum flokksins. Síðar var Traficant ákærður og dæmdur fyrir að þiggja mútur, svíkjast undan skatti, misbeita valdi sínu og fjárkúga. Upphafsár embættisins. Fyrsti forseti fulltrúadeildarinnar var Frederic Muhlenberg sem sat á þingi fyrir Federalista, sambandsstjórnarsinna. Muhlenberg gegndi embættinu frá 1789 til 1791 og aftur frá 1793 til 1795. Það var hins vegar í höndum Henry Clay að völd og áhrif embættisins jukust, en Clay var kjörinn forseti fulltrúadeildar árið 1811 og gegndi hann embættinu í þrígang með hléum á milli. Clay notaði forsetaembættið til að stýra málum innan þingsins með það að markmiði að ná fram þeim breytingum sem hann var hlynntur. Það er í valdatíð Clay að forseti fulltrúadeildar verður að málefnalegum leiðtoga innan bandarískra stjórnmála. Það ber að nefna að Clay hafði til að mynda mikil áhrif á niðurstöðu kosninganna til embættis forseta Bandaríkjanna árið 1824. Enginn frambjóðenda hlaut meirihluta kjörmanna í þeirri kosningu og samkvæmt stjórnarskrá var það því í höndum fulltrúadeildar að kjósa forseta Bandaríkjanna. Ákvörðun Clay að styðja John Quincy Adams er talin hafa ráðið úrslitum í því að Adams sigraði. Skyldur þingforseta. Þingforseti hefur þó nokkur völd þó þau hafi raunar verið takmörkuð í seinni tíð. Þingforseti er, líkt og aðrir þingmenn, fulltrúi síns fylkis og á að gæta hagsmuna þess en hann tekur þó sjaldan þátt í umræðum né kýs, nema þegar atkvæði hans gæti haft úrslitaáhrif eða í mikilvægum málefnum eins og stjórnarskrárbreytingum. Þingforsetinn er annar í röðinni til forsetaembættisins á eftir varaforsetanum ef forseti deyr, er leystur frá störfum, segir af sér eða annað kemur í veg fyrir að forseti geti sinnt starfi sínu. Það gerir þingforseta að þriðja æðsta manni ríkisins. Helstu skyldur þingforseta eru að halda reglu í þinginu, láta þingmenn sverja embættiseið, skipuleggja dagskrá þingsins og stjórna umræðum og mælendaskrá eða útdeila því til annars þingmanns. Þingforseti hefur mikil völd yfir nefndarferlinu þar sem hann stýrir því í hvaða nefndir frumvörp eru send auk þess að velja níu fulltrúa af þrettán í eina valdamestu nefndina, löggjafarnefndina (e. Committee on Rules). Hann velur einnig fulltrúa til setu í þingnefndum (e. Select committees) og ráðgjafanefndum (e. Conference committees). Þingforseta ber skylda til að framfylgja reglum þingsins og sjá til þess að aðrir fylgi þeim einnig og á hann að vera sanngjarn gagnvart minnihluta þó flestir vænti þess að þingforseti nýti sér forréttindin er fylgja embættinu flokk sínum í hag, til dæmis með því að stjórna dagskránni og reyna þannig að tryggja að frumvörp meirihlutans fái samþykki. Önnur formleg störf þingforseta eru til dæmis að staðfesta úrslit forsetakosninga, hafa eftirlit með embættismönnum fulltrúadeildarinnar og skipa í ýmis embætti innan hennar. Flokkshollusta forsetans. Stjórnarskrá Bandaríkjanna gerir engar kröfur til forseta fulltrúadeildarinnar er snúa að hlutleysi og hefur sú hefð myndast í gegnum tíðina að forsetinn er flokkshollur. Slíkt er í skarpri andstæðu við, til að mynda, forseta neðri-málstofu breska þingsins. Forseti fulltrúadeildarinnar telst leiðtogi flokks síns innan þingsins og er staðan jafnan talin sú valdamesta innan flokksins. Forsetinn stýrir málum í lagasetningu en hefur hefur jafnframt kosningarétt og ávarpsrétt þó að mjög sjaldgæft að forsetinn kjósi um málefni eða taki þátt í umræðum á þingi. Þekktir þingforsetar. Meðal þekktra þingforseta má nefna repúblíkanann Thomas Brackett Reed sem var þingforseti á árunum 1889–1891 og 1895–1899 en hann hafði mikil áhrif á embættið með því víkka út völdin sem því fylgdu. Hann ruddi þannig brautina fyrir komandi þingforseta en Joseph Gurney Cannon sem varð þingforseti á árunum 1903 til 1911 var einn þeirra sem nýtti sér það mjög. Hann er oft talinn öflugasti þingforseti í sögu Bandaríkjanna en hann stjórnaði hvaða frumvörp voru rædd og hvernig, hann ákvað hvers konar breytingar mætti gera á frumvörpum og hvernig skyldi kosið um þau. Þannig hafði Cannon gríðarleg völd yfir þinginu. Annar þekktur þingforseti í sögu Bandaríkjanna er repúblíkaninn Newt Gingrich sem var þingforseti á árunum 1995-1999. Hann var eitt helsta andlit repúblikanaflokksins í sigri flokksins í þingkosningunum 1994 en þá höfðu Repúblikanar ekki haft meirihluta í fulltrúadeildinni í 40 ár. Gingrich er helst þekktur fyrir að leiða öfluga andstöðu gagnvart þáverandi Bandaríkjaforseta, demókratanum Bill Clinton. Sá eini sem setið hefur lengur en 15 ár sem þingforseti er demókratinn Sam Rayburn en hann var þingforseti í 17 ár. Hann sat á árunum 1941-1960 með tveim tveggja ára hléum. Nancy Pelosi. Nancy Patricia D'Alesandro Pelosi (fædd 26. mars 1940) er 60. forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings (2007-2011). Pelosi hefur setið á þingi fyrir Demókrataflokkinn fyrir 8. kjördæmi Kaliforníu frá 1987 en kjördæmið var númerað sem hið 5. fyrstu þrjú kjörtímabil Pelosi. Pelosi er fyrsta konan til þess að gegna embætti forseta fulltrúadeildarinnar en samkvæmt stjórnarskrá er hún önnur í röðinni, á eftir Joe Biden varaforseta bandaríkjanna, til að taka við embætti forseta Bandaríkjanna skyldi hann deyja, segja af sér eða á einhvern hátt vera leystur frá störfum. Pelosi er því valdamesti kvenmaður í sögu bandarískra stjórnmála. Ævi og menntun. Pelosi var fædd Nancy Patricia D'Alesandro í Baltimore í Maryland fylki í Bandaríkjunum þann 26. mars 1940. Pelosi er dóttir Thomas D'Alesandro, Jr. sem var öldungardeildarþingmaður fyrir Maryland fylki og síðar borgarstjóri Baltimore. Árið 1962 útskrifaðist hún frá Trinity háskóla í Washington D.C. með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði. Við Trinity háskóla kynntist hún eiginmanni sínum, Paul Frank Pelosi. Parið giftist ári eftir útskrift og fluttist til New York borgar og síðar San Francisco. Stjórnmál. Á meðan háskólanámi stóð vann Pelosi sem aðstoðarmaður öldungardeildarþingmannsins Daniel Brewster. Þegar hún fluttist til San Francisco fór hún að vinna á vegum demókrataflokksins í Kaliforníu. Þar kynntist hún fulltrúadeildarþingmanninum Phillip Burton, sem sat á þingi fyrir 5. kjördæmi — kjördæmið sem Pelosi myndi síðar vera fulltrúi fyrir. Phillip Burton lést árið 1983 og var þá kona hans Sala Burton kjörin í hans stað. Þegar að Sala greindist með krabbamein á síðari hluta áratugarins og bauð sig ekki fram til endurkjörs árið 1988. Pelosi hlaut stuðning Burton til kosninga um tilnefningu demókrata til sætisins og sigraði naumlega andstæðing sinn. Þegar kosið var um fulltrúa 5. kjördæmisins til fulltrúadeildar sigraði hún frambjóðanda repúblikana með miklum yfirburðum. Árið 2004 varð Pelosi fyrsta konan til að gegna stöðu leiðtoga minnihlutans í fulltrúadeildinni. Þremur árum síðar, við upphaf 110. þings Bandaríkjaþings var hún kjörin forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Heimildir. Pelosi, Nancy Englendingar. Englendingar (enska: "English people") eru þjóð og þjóðarbrot sem búa á Englandi og hafa ensku að móðurmáli. Þjóðernisvitund Englendinga á rætur að rekja til miðalda þegar fólkið var þekkt á fornensku sem "Anglecynn". England er nú eitt fjögurra landa sem tilheyra Bretlandi og meginhluti Englendinga eru líka Bretar. Upprunalega voru Englendingar komnir af nokkrum ættflokkum með svipuð gen, það er að segja Fornbretum, germönsku ættflokkunum Engilsaxar, Saxar og Jótar, sem stofnuðu England (fornenska: "Englaland"), og síðar af Víkingum og Normönnum. Undir Sambandslögunum 1707, þar sem Konungsríkið England varð hluti Konungsríkisins Stóra-Bretland, varð þjóðernisvitund og menningu Englendinga blandað saman við þær Breta. Í dag eiga margir Englendingar rætur að rekja til annarra evrópskra landa og landa í Breska samveldinu. Sem stofnendur Breska heimsveldisins eru Englendingar uppruni enska tungumálsins, þingræðis, fordæmisréttar í mörgum löndum og margra vinsæla íþrótta. Skinney-Þinganes hf.. Skinney-Þinganes hf. er sjávarútvegsfyrirtæki á Höfn í Hornafirði sem var stofnað í janúar 1999. Fyrirtækiði var til þegar þrjú fyrirtæki runnu saman í eitt: útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Skinney hf. og útgerðarfélagið Þinganes ehf. og Borgey hf. Þau hafa síðan verið rekin undir nafninu Skinney–Þinganes hf. Kosningar í Bandaríkjunum. Kosningar í Bandaríkjunum fara annars vegar á vettvangi alríkisstjórnarinnar og hins vegar á vettvangi ríkjanna sjálfra þar sem stjórnkerfi Bandaríkjanna er á tveimur sviðum og er kosningakerfið nokkuð flókið. Einu kosningarnar sem fara fram á vettvangi alríkisstjórnarinnar eru forsetakosningar, allar aðrar kosningar fara fram á vettvangi ríkjanna. Það er því ekki um eiginlegar þjóðaratkvæðagreiðslur að ræða, að undanskildum kosningum um forsetaembætti, heldur fara kosningar fram í hverju ríki fyrir sig, á sama degi. Ríkin hafa umsjón með kosningum, og reglur varðandi kosningar eru mismunandi milli ríkja. Ríkin hafa sjálfræði hvað viðkemur framkvæmd og reglugerðum um kosningar. Eitt einkenni á kosningum í Bandaríkjunum er það að kosið er um einstaklinga, flokkarnir gegna aukahlutverki. Annað einkenni á kosningum er fjöldi þeirra sem kosið er um, en áætlað er að á hverju ári sé um gervöll Bandaríkin kosið í um 1 milljón embætta, sem dreifast um stjórnkerfið. Meðal embætta sem kosið er um eru dómarar, þingmenn, ríkisstjórar, löggæslumenn o.fl. Ennfremur kjósa Bandaríkjamenn mun oftar heldur en tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum. Fyrirkomulag kosninga. Flestar kosningar fara fram á ártölum með sléttri endatölu, en sumar ríkja – og bæjarstjórnakosningar fara þó fram á oddatöluárum. Forsetakosningar fara fram á fjögurra ára fresti, en þá er kosið bæði um forseta og varaforseta. Á tveggja ára fresti er kosið til fulltrúadeild Bandaríkjaþings, og er þá kosið um öll 435 sætin. Kosningar til öldungadeild Bandaríkjaþings fara fram á tveggja ára fresti, en þingmenn eru þó kosnir til 6 ára í senn, því er einungis kosið um 1/3 hluta öldungadeildarþingmanna í hverjum kosningum. Ennfremur geta ríki ákveðið að boða til kosninga til að fylla í skarð embættismanna,sem láta óvænt af störfum. Forseti Bandaríkjanna og varaforseti Bandaríkjanna eru kosnir í tveimur umferðum, forkosningum (enska: "primary elections") og almennum kosningum (enska: "general elections"). Hið sama á við um önnur pólitísk embætti, almennt þegar kosið er til þeirra í Bandaríkjunum, fara fram forkosningar og almennar kosningar. Forkosningar eru haldnar á undan almennum kosningum, til þess að ákvarða frambjóðendur flokkanna. Sigurvegarar forkosninganna verða fulltrúar flokkanna í seinni umferð kosninganna. Almennu kosningarnar ákvarða hvaða frambjóðendur komast svo endanlega að. Í almennum kosningum geta menn boðið sig fram óháð flokkum, en þurfa að skila ákveðnum fjölda meðmælenda. Ennfremur hafa kjósendur í sumum ríkjum þann möguleika að skrifa inn nafn þess einstaklings sem þeir vilja styðja, þrátt fyrir að sá hafi hvorki verið frambjóðandi flokks, né skilað lista með meðmælendum. Af og til hljóta einstaklingar embætti með slíkum hætti. Kosningar snúast ekki einvörðungu um kosningu einstakra embætta, því stundum er kosið um opinber stefnumál og fá þá kjósendur tækifæri til þess að kjósa með eða á móti einhverju málefni. Dæmi um slíkt eru kosningar um hvort ríkið skuli taka lán fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum eða um menntastefnu ríkis. Ríkjakosningar. Kosningar á vettvangi ríkja eru ákvarðaðar af stjórnarskrá ríkjanna (enska: "state constitutions") og lögum þeirra. Þar sem þrískipting ríkisvaldsins er hvort tveggja á vettvangi alríkisstjórnarinnar og ríkjastjórna, er kosið á vettvangi ríkja til embætta á sviðum löggjafar – framkvæmda og dómsvalds. Kosið er um ríkisstjóra, þingmenn, dómara og fjöldann allan af öðrum embættum. Bæjarstjórnarkosningar. Á vettvangi bæjarstjórna er kosið til opinberra embætta, fyrir sýslur og borgir. Misjafnt er milli sýslna, hversu umfangsmiklar slíkar kosningar eru. Í sumum sýslum er t.a.m. kosið um lögreglustjóra, borgar- eða bæjarstjóra og jafnvel í skólastjórnir. Kjörgengi. Kjörgengi er ákvarðað af stjórnarskrá þar sem kveðið er á um að allir ríkisborgarar yfir 18 ára aldri hafa atkvæðisrétt. Konur fengu kosningarétt árið 1920. Það liggur í höndum ríkisþinghúsa (enska: "state legislatures") að hafa eftirlit með kjörgengi kjósenda. Það er misjafnt eftir ríkjum, hvort fangar hafi kjörgengi; Einungis í Maine og Vermont mega fangar kjósa; 35 ríki fyrirmuna þeim sem eru á skilorði að kjósa og sex ríki svipta lífstíðafanga kjörgengi. Áætlað er að núverandi séu um 5,3 milljónir Bandaríkjamanna sem hafa verið sviptir kjörgengi vegna sakfellingar. Kjörskráning. Skráning á kjörskrá liggur í höndum kjósenda sjálfra. Í öllum ríkjum, að undanskildu, Norður-Dakota, þurfa kjósendur að skrá sig á kjörskrá til þess að vera heimilt að kjósa. Sex ríki heimila kjósendum að skrá sig á kjördag, flest önnur ríki gera kröfu um að kjósendur hafi skráð sig allt að 30 dögum fyrir kosningar. Árið 1993 var samþykkt "The National Voter Registration Act of 1993", sem skyldaði stjórnvöld á ríkjastigi til þess að einfalda kjörskráningarferlið, í viðleitni þess að auka kjörsókn. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla. Bandarískir ríkisborgarar sem eru staðsettir utan Bandaríkjanna á kjördegi geta kosið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu, í alríkiskosningum. Kjósendur þurfa að senda inn beiðni um utankjörfundaratkvæðagreiðslu áður en kosningar eiga sér stað. Árið 1986 voru sett lög sem gerðu hermönnum staðsettum utan Bandaríkjanna, og fjölskyldum þeirra, kleift að kjósa í alríkis-, ríkja – og bæjarstjórnakosningum (enska: "federal, state and local elections"). Kosningaþátttaka. Kosningaþátttaka í Bandaríkjunum er almennt minni heldur en í sambærilegum lýðræðisríkjum. Yfir heildina hefur kosningaþátttaka verið um 50-55% kjörgengra manna. Til samanburðar, hefur kosningaþátttaka á Íslandi almennt verið um 90% kjörgengra manna. Ef litið er til fjölda skráðra kjósenda, þá er þátttaka á bilinu 85-90%, þannig að stærstur hluti þeirra sem skrá sig á kjörskrá taka þátt. Það eru ýmsir þættir sem hafa þarf í huga þegar litið er til lítillar kosningaþátttöku Bandaríkjamanna. Kosningar fara fram mun oftar en í flestum öðrum ríkjum, og einnig hefur það eitthvað að segja að í mörgum ríkjum þurfa kjósendur að skrá sig mánuði fyrir kosningar. Þá hefur það áhrif að kosningar eru ávallt á virkum degi, sem getur takmarkað þátttöku vinnandi manna. Tæknilegt fyrirkomulag atkvæðagreiðslu. Kosningavélar eru nauðsynlegar, bæði vegna þess að gríðarlegur fjöldi manna er á kjörskrá og vegna þess að í hverjum kosningum er verið að kjósa í fjöldann allan af embættum. Fyrirkomulagið er misjafnt eftir ríkjum, þar sem þau hafa nokkuð sjálfræði til þess að ákvarða hvernig fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar er. Algengar vélar eru skannar ("optical scan voting machine"), þar sem kjósandi ýmist merkir við eða gatar við þann sem hann kýs, og skannar svo inn kosningaseðilinn. Einnig eru notaðar kosningatölvur, með snertiskjáum (enska: "DRE voting machines") og svokallaðar „"lever-machines"“ þar sem kjósandi velur frambjóðendur eftir ákveðnu kerfi, og tekur svo í handfang sem merkir við þá aðila sem kjósandi hefur valið. Árið 2002 var samþykkt frumvarp, "Help America Vote Act", sem ætlað var að betrumbæta fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, sérstaklega vegna kosninganna árið 2000, en þá komu upp vandamál, vegna þess að kosningavélar gátu ekki lesið úr niðurstöðum kjörseðla. Því þurfti að handtelja fjölda atkvæða, en margir atkvæðaseðlar voru ógildir, vegna smáatriða, t.d. ef ekki tókst að gata kjörseðilinn alveg í gegn. Einnig var gagnrýnt hversu óskýr uppsetning kjörseðla var. Hin nýja lagasetning fól í sér að auknu fjármagni var veitt til ríkjanna svo unnt væri að skipta út óskilvirkum kosningavélum, þá helst til að skipta út „"lever machines"“ og gatakortavélum (enska: "punch-card machine"). Trjónupeðla. Trjónupeðla "(Psilocybe semilanceata)" er lítill hattsveppur sem vex í graslendi víða í norðanverðri Evrópu. Hann inniheldur efnið psilocin sem getur valdið ofskynjunar áhrifum. Trjónupeðla vex í byrjun ágúst september og alveg fram í byrjun Nóvember, September er háannatímabil sveppsins Sveppurinn er algengur á Íslandi. Íslandsmeistarar í frjálsíþróttum. Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fyrst fram árið 1927, á íþróttavellinum á Melunum í Reykjavík, eða agana 6., 7. og 10. ágúst. Forveri þess var Allsherjarmót ÍSÍ sem farið hafði fram um nokkurra ára skeið en þar var keppni í frjálsíþróttum þungamiðjan. Forstöðu fyrsta mótsins hafði Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) og var stjórn félagsins jafnframt framkvæmdanefnd mótsins. Keppendur voru 11, þar af 10 úr Reykjavík. Eini utanbæjarmaðurinn var Þorgeir Jónsson frá Gufunesi sem keppti fyrir Íþróttafélag Kjósarsýslu. Það bar m.a. til tíðinda á mótinu, að 10.000 metra hlaupið var dæmt ónýtt eftir að annar keppandinn hratt hinum út úr brautinni að hálfnuðu hlaupi. Annars var keppt í 100, 200, 400, 800, 1500 og 5000 metra hlaupum, langstökki, þrístökki, hástökki, kúluvarpi, kringlukasti beggja handa og fimmtarþraut. Keppni var auglýst í spjótkasti en féll niður. Bambi, A Life in the Woods. "Bambi, A Life in the Woods" er skáldsaga eftir austurríska rithöfundinn Felix Salten. Á frummálinu var hún fyrst gefin út árið 1923. Gliese 581 e. Gliese 581 e er fjarreikistjarna í Gliese 581-sólkerfinu. Er hún næst sólu (Gliese 581). Hún var uppgötvuð þann 21. apríl 2009. Merkilegast við Gliese 581 e er árið, en hún snýst um Gliese 581 á þremur dögum (samanber Merkúr sem snýst um sólu á 88 dögum). Plánetan, sem er berghnöttur, er aðeins stærri en Merkúr. Eris (dvergreikistjarna). Eris, reikistirnisnafn: 136199 Eris, er mssamesta dvergreikistjarnan á sporbaug um sólu og níunda massamesta fyrirbærið í sólkerfinu. Hún er talin hafa þvermálið 2.326 km (±12) og vera 27% þyngri en Plútó eða um það bil 0,27% af massa jarðarinnar. Eris fannst í janúar 2005 í Palomar-stjörnuathugunarstöðinni af teymi sem starfaði undir stjórn Mike Brown og tilvist hennar var staðfest síðar það ár. Hún er útstirni handan brautar Neptúnusar og tilheyrir einnig flokki dreifstirna sem eru útstirni sem ganga um sólina eftir mjög ílöngum brautum. Eina þekkta tungl hennar er Dysnómía. Árið 2011 var Eris stödd 96,6 stjarnfræðieiningar (AU) frá sólinni eða þrisvar sinnum fjær sólu en Plútó. Ef frá eru skildar sumar halastjörnur þá eru Eris og Dysnómía fjarlægustu þekktu fyrirbæri sólkerfisins. Þar sem Eris virtist vera stærri en Plútó þá lýstu uppgötvarar hennar og NASA henni í fyrstu sem tíundu reikistjörnunni. Vegna þessa og vegna vaxandi líka á því að fleiri áþekkir hnettir myndu finnast ákvað Alþjóðasamband stjarnfræðinga (IAU) að skilgreina í fyrsta skiptið hugtakið „reikistjarna“. Samkvæmt skilgreiningunni sem samþykkt var 24. ágúst 2006 var Eris skilgreind sem dvergreikistjarna ásamt hnöttum á borð við Plútó, Seres, Hámeu og Makemake. Bráðabirgðaniðurstöður af athugunum á stjörnumyrkva af völdum Erisar 6. nóvember 2010 bentu til þess að þvermál hennar sé um það bil 2.326 km en það er minna en talið var í fyrstu og nokkurn veginn sama stærð og Plútó. Vegna vikmarka í stærðaráætlunum er ekki hægt að slá því föstu að svo stöddu hvort Plútó eða Eris er stærri. Báðir hnettirnir eru taldir hafa þvermál í kringum 2.330 km. Uppgötvun. Hópur vísindamanna undir stjórn Mike Brown, Chad Trujillo og David Rabinowitz fann Eris hinn 5. janúar 2005 á myndum sem teknar voru 21. október 2003. Tilkynnt var um fundinn hinn 29. júlí 2005, sama dag og tilkynnt var um fund Makemake og tveimur dögum eftir að tilkynnt hafði verið um fund Hámeu. Hópurinn hafði leitað kerfisbundið að stórum útstirnum í nokkur ár og hafði áður fundið nokkur slík, þar á meðal 50000 Quaoar, 90482 Orcus og 90377 Sedna. Venjubundnar athuganir fóru fram 21. október 2003 með 1,2 m Schmidt stjörnusjónauka í Palomar-stjörnuathugunarstöðinni í Kaliforníu en myndin af Eris fannst þó ekki þá vegna afar hægrar yfirferðar hennar. Sjálfvirkur hugbúnaður hópsins hundsaði alla hluti sem færðust hægar en 1,5 bogasekúndu á klukkustund til þess að fækka fölskum niðurstöðum. Þegar Sedna fannst þá færðist hún yfir himininn á 1,75 bogasekúndu á klukkustund og í ljósi þess var ákveðið að kanna aftur gömul myndagögn með lægri mörkum og fara yfir allar niðurstöðurnar sem hafnað hafði verið í fyrri atrennu. Í janúar 2005 sást Eris á hægri ferð miðað við fastastjörnur. Athuganir fóru fram í kjölfarið til þess að ákvarða sporbaug Erisar og út frá því fjarlægð hennar. Hópurinn hafði ætlað sér að fresta opinberum tilkynningum um fund Erisar og Makemake þar til útreikningum og athugunum væri lokið en fallið var frá því og tilkynnt um fundina 29. júlí 2005 eftir að annar hópur á Spáni varð fyrri til þess að tilkynna um fund Hámeu en hópurinn í Kaliforníu var þá einnig að fylgjast með henni. Frekari athuganir leiddu það í ljós í október 2005 að Eris hafði fylgitungl sem síðar var kallað Dysnómía. Athuganir á sporbaugi hennar gerðu vísindamönnum það kleift að ákvarða massa Erisar og var það gefið út í júní 2007 að hún væri 1,66 × 1022 kg, 27% þyngri en Plútó. Flokkun. Eris er dreifstirni, það er útstirni sem talið er hafa kastast úr Kuiper-beltinu og á aflangari og óvenjulegri sporbauga vegna víxverkunar við þyngdarsvið Neptúnusar þegar sólkerfið var í myndun. Brautarhalli hennar er verulegur miðað við flest dreifstirni en líkön benda til þess að hlutir sem voru innarlega í Kuiper-beltinu hafi dreifst á óreglegri og meira hallandi sporbauga en hlutir sem voru utarlega í því. Hlutir sem eru innarlega eru vanalega stærri en þeir sem ganga utar þannig að stjörnufræðingar reikna með því að finna fleiri útstirni á hallandi sporbaugum á borð við Eris en slíkir sporbaugar hafa ekki verið kannað ítarlega hingað til. Þar sem að Eris kann að vera stærri en Plútó, og virðist örugglega vera þyngri, þá var henni í fyrsti lýst sem „tíundu reikistjörnunni“ af NASA og í fjölmiðlum. Vegna óvissu um flokkun Erisar og eldri umræðna um stöðu Plútós ákvað IAU að skipa nefnd stjörnufræðinga til þess að skilgreina með nákvæmari hætti hugtakið reikistjarna. Hin nýja skilgreining var tekin upp 24. ágúst 2006 og með henni var bæði Plútó og Eris skipað í nýjan flokk dvergreikistjarna sem aðskilinn er frá reikistjörnunum sem nú eru aðeins átta talsins. Brown hefur síðar tekið fram að hann sé samþykkur því að Plútó hafi misst nafnbót sína sem reikistjarna. Í kjölfarið fór Eris á reikistirnalista IAU þar sem hún fékk heitið "(136199) Eris." Nafn. Eris heitir eftir grísku gyðjunni Erisi (gríska: "Ἔρις") sem var holdgervingur erfiðleika og ósættis. Nafnið varð fyrir valinu þann 13. september 2006 eftir óvenjulega langt tímabil þar sem formlegt heiti hennar var bráðabirgðaheitið 2003 UB313 sem henni var gefið sjálfkrafa samkvæmt nafnavenjum IAU vegna reikistirna. Xena. Vegna óvissu um hvort að fyrirbærið yrði flokkað sem reikistjarna eða reikistirni — en ólíkar venjur um nafngiftir gilda um þessa flokka — þá var ekki hægt að ákveða nafn formlega fyrr en eftir 24. ágúst 2006 þegar niðurstaðan lá fyrir frá IAU um skilgreiningu reikistjarna. Fram að því varð fyrirbærið þekkt á meðal almennings sem "Xena". Xena var óformlegt nafn sem hópurinn sem fann hana notaði innbyrðis og var sótt í kvenhetjuna úr samnefndum sjónvarpsþáttum, '. Hópurinn hafði geymt nafnið til þess að nota á fyrsta hnöttinn sem fyndist sem væri stærri en Plútó. Formlegt nafn valið. Samkvæmt vísindafréttamanninum Govert Schilling vildi Brown í upphafi að fyrirbærið fengi nafnið Lila eftir hugtaki úr hindú goðafræði sem lýsir alheiminum sem niðurstöðu leiks sem Brahma lék. Nafnið var einnig líkt „Lilah“ sem var nafn nýfæddrar dóttur Brown. Brown hafði í huga að gera nafnið ekki opinbert fyrr en það hafði verið formlega samþykkt. Í tilfelli Sednu nokkru áður hafði hann gert það og hlotið gagnrýni fyrir. Hann skráði hins vegar heimasíðu sína þar sem uppgötvun Erisar var lýst á slóðina "/~mbrown/planetlila" og hafði gleymt að breyta því í öllum látunum í kringum uppgötvun Hámeu. Í stað þess að reita aðra stjörnufræðinga frekar til reiði gaf hann þá skýringu að síðan væri svo nefnd vegna dóttur hans og féll frá því að leggja til Lila sem nafn. Brown hafði einnig vakið máls á því að nafnið "Persefóna" væri viðeigandi þar sem hún var eiginkona Plútós. Nafnið hafði verið notað í vísindaskáldskap og naut vinsælda á meðal almennings, það vann til að mynda könnun á vegum "New Scientist" tímaritsins (Xena lenti þar í fjórða sæti þrátt fyrir að vera aðeins gælunafn). Þetta var hins vegar ekki mögulegt eftir að fyrirbærið var flokkað sem dvergreikistjarna vegna þess að þegar var til smástirni með þessu nafni, 399 Persefóna. Þar sem að reglur IAU kveða á um að fyrirbæri á stöðugum sporbaugum handan Neptúnusar ættu að bera nöfn sem tengdust sköpunarsögum þá hafði hópu Mike Brown jafnframt hugleitt slíka möguleika. Eftir að deilurnar um stöðu fyrirbærisins leystust þá stakk hópurinn upp á nafninu Eris hinn 6. september 2006. Nafnið hlaut svo staðfestingu IAU sem opinbert heiti hinn 13. september sama ár. Að mati Brown þá var það viðeigandi í ljósi þess að Eris hafði talist reikistjarna til skamms tíma að hún fengi nafn úr grískri eða rómverskri goðafræði eins og hinar reikistjörnunar. Langflest þeirra nafna voru frátekin af smástirnum en Eris var ekki þar á meðal. Brown sagði hana vera uppáhaldsgyðjuna sína og nafnið endurspeglar jafnframt það ósætti sem upp kom á meðal stjörnufræðinga um stöðu Erisar og Plútós við fund hennar. Sporbaugur. a>. Teikningin til vinstri horfir beint ofan á sléttu sólbaugsins en á teikningunum hægra meginn er horft þvert á sólbaug frá tveimur sjónarhornum. Fjarlægðir Erisar og Plútós frá sólu næstu 1000 árin. Umferðartími Erisar er 557 ár og árið 2011 var hún stödd 96,6 AU frá sólinni, sem er nálægt því lengsta sem hún fer (sólfirrð hennar er 97,5 AU). Seinasta sólnánd Erisar átti sér stað á árunum 1698 til 1699 og seinasta sólfirrð í kringum 1977. Næsta sólnánd verður í kringum 2256 til 2258. Nú eru Eris og Dysnómía fjarlægustu hlutirnir í sólkerfinu sem vitað er um ef frá eru taldar sumar halastjörnur og nokkur könnunarför sem menn hafa sent út að mörkum sólkerfisins. Hins vegar eru í kringum 40 þekkt útstirni sem ganga enn lengra frá sólu en Eris þó að þau séu öll nær en Eris nú um stundir. Sporbaugur Erisar er mjög miðskakkur. Næst sólinni er hún í 37,9 AU fjarlægð sem er dæmigerð sólnánd dreifstirna. Þetta er inn fyrir sporbaug Plútós en þó það fjarri Neptúnusi (29,8-30,4 AU) að þyngdarsvið hans verkar hverfandi lítið á Eris. Plútó fylgir á hinn bóginn eins og önnur plútóstirni sporbaugi sem er ekki jafn miðskakkur og ekki jafn hallandi miðað við sporbauga reikistjarnanna og getur farið inn fyrir sporbaug Neptúnusar án hættu á árekstri vegna brautahermunar. Mögulega er Eris í 17:5 hermun með Neptúnusi en frekari athugana er þörf áður en það fæst staðfest. Sporbaugur Erisar er mjög hallandi miðað við reikistjörnurnar eða um 44° miðað við sólbaug. Eftir um 800 ár mun Eris ganga nær sólinni en Plútó til skamms tíma (sjá línuritið hægra megin). Sýndarbirta Erisar er 18,7 sem nógu bjart til þess að sjást mögulega í betri stjörnusjónaukum áhugamanna. 200 mm sjónauki með ljósflögu getur greint Erisi við bestu aðstæður. Ástæðan fyrir því að hún fannst ekki fyrr er mikill brautarhalli hennar en athyglin hefur fyrst og fremst beinst að sólbauginum þar sem flest fyrirbæri sólkerfisins liggja. Nú er Eris í hvalsmerkinu. Hún var í Myndhöggvaranum frá 1876 til 1929 og Fönix frá 1840 til 1874. Árið 2036 mun hún færast yfir í Fiska og verður þar fram til 2065 þegar hún gengur yfir í Hrútinn Eftir það gengur Eris inn á norðurhvolf himinsins þegar hún færist yfir í Perseif árið 2128. Vegna brautarhallans þá gengur Eris aðeins fá stjörnumerki hins hefðbunda dýrahrings. Stærð, massi og þéttni. Árið 2005 var þvermál Erisar áætlað 2.397 km með skekkjumörkum upp á 100 km út frá myndum Hubble geimsjónaukans. Stærðin er metin út frá reyndarbirtu og endurskinshlutfalli. Úr 97 AU fjarlægð myndi hlutur sem er 3000 km í þvermáli hafa sýndarþvermálið 40 bogamillisekúndur sem er sýnilegt með Hubble en þó alveg á mörkum þess sem sjónaukinn getur greint. Sé þetta rétt þá er Eris af svipaðri stærð og Plútó, sem er 2.330 km í þvermáli. Það bendir líka til þess að endurskinshlutfall Erisar sé 0,96 sem er hærra en hjá nokkru öðru fyrirbæri í sólkerfinu fyrir utan tunglið Enceladus. Getgátur eru um að hið háa endurskinshlutfall stafi af ís á yfirborðinu sem endurnýjist reglulega vegna hitasveiflna sem fylgja ílöngum sporbaugi Erisar. Árið 2007 fóru fram talsverðar athuganir á stærstu útstirnunum handan Neptúnusar með Spitzer-geimsjónaukanum en niðurstaða þeirra um þvermál Erisar var að hún væri 2.600 km en með skekkjumörkum á bilinu 2.400-3.000 km í þvermáli. Áætlanir Spitzer og Hubble sjónaukanna liggja saman á bilinu 2.400-2.500 km sem þýðir 4-8% stærra þvermál en Plútó. Stjörnufræðinga grunar hins vegar núorðið að snúningsmöndull Eris beinist í átt að sólinni um þessar mundir sem myndi þýða að sú hlið sem snýr að sólu sé hlýrri en meðaltalið sem myndi skekkja allar mælingar sem byggja á innrauðum geislum. Í nóvember 2010 var fylgst með Erisi ganga fyrir fastastjörnu, það var fjarlægasti slíki viðburðurinn sem sést hefur hingað til. Bráðabirgðaniðurstöður þeirrar athugunar vekja efasemdir um fyrri stærðarmöt. Lokaniðurstöður þessarar athugunar voru þær að þvermál Erisar var áætlað sem 2.326 ±12 km. Varasamt er að bera þessa tölu saman við Plútó til að reyna að ákvarða hvort Eris eða Plútó eru stærri. Það gildir jafnt um Plútó að þvermál hans er háð óvissu vegna þess að Plútó hefur talsverðan lofthjúp sem gera það erfitt að mæla fast yfirborð hans. Það mun þó væntanlega skýrast 2015 með leiðangri New Horizons sem nú stefnir til Plútó. Massa Erisar er hægt að áætla með meiri vissu en þvermálið. Ef byggt er á því að umferðartími Dysnómíu um Eris sé 15,774 sólarhringar þá er Eris 27% þyngri en Plútó. Ef gengið er út frá þvermálinu sem fékkst með athugunum á stjörnumyrkvum þá hefur Eris eðlismassan 2,52 g/cm3 sem er talsvert meira en eðlismassi Plútós og gæti skýrst af því að Eris sé að stærri hluta úr bergi en Plútó. Yfirborð og lofthjúpur. Innrautt litróf Erisar borið saman við Plútó sýnir líkindi dvergreikistjarnanna. Hugmynd listamanns um Eris og Dysnómíu. Eris er stærri og Dysnómía grái hnötturinn aðeins ofar. Dauf sólin sést efst til vinstri. Hópurinn sem fann Eris fylgdi uppgötvuninni eftir með litrófsgreiningu sem gerð var með 8 m Gemini North sjónaukanum á Hawaii hinn 25. janúar 2005. Innrautt ljós frá Eris afhjúpaði metanís á yfirborðinu sem er ekki ósvipað Plútó sem fram að því hafði verið eina þekkta útstirnið með metani á yfirborðinu og jafnframt er það líkt Tríton, tungli Neptúnusar. Ómögulegt er með þeim tækjum sem nú eru í boði að sjá yfirborðseinkenni á Eris. Hitastig á yfirborði Erisar er talið sveiflast frá 30 til 56 kelvin (-243 °C til -217 °C) eftir því hvort hún er í sólnánd eða sólfirrð. Ólíkt Plútó og Tríton sem virðast hafa rauðleitan blæ þá virðist Eris vera frekar grá. Rauður blær Plútós er talinn vera tilkominn af þólínútfellingum á yfirborði hansog þar sem þessar útfellingar dekkja yfirborðið þá dregur það í sig meira sólarljós og hitnar meira en ella sem stuðlar að uppgufun metans. Eris er á hinn bóginn það fjarri sólinni og því svo köld að metangas frýs á yfirborðinu jafnvel þó að undirlagið sé dökkt. Metanhrím sem sem dreifist jafnt yfir allan hnöttin gæti því hulið mögulegar þólínútfellingar og valdið hinu mjög háa endurskini Erisar. Þrátt fyrir að sólfirrð Erisar sé þrisvar sinnum fjær sólu en sólfirrð Plútós þá kemur hún líka nógu nálægt til þess að metanhrímið á yfirborði hennar hlýni mögulega nógu mikið til þess að valda þurrgufun (þ.e. breytist beint úr föstu formi yfir í gas án þess að verða fyrst að vökva). Metan er mjög rokgjarnt efni þannig að af návist þess á Erisi má draga þá ályktun að hún hafi annað hvort alltaf verið svo utarlega í sólkerfinu að metanið hefur haldist frosið eða þá að hún hefur eigin uppsprettu metans sem endurnýjar það sem er á yfirborðinu í stað þess sem sleppur úr lofthjúpnum út í geiminn. Athuganir á öðru stóru útstirni, Hámeu, eru allar á annan veg og benda til návistar vatnsís en ekki metans. Tungl. Árið 2005 var hópur vísindamanna að nota Keck-sjónaukana á Hawaii til þess að gera athuganir á fjórum björtustu útstirnunum (Plútó, Makemake, Hámeu og Erisi) með nýrri lasermiðaðri tækni. Myndir sem teknar voru 10. september afhjúpuðu tungl á braut um Erisi. Það var í samræmi við gælunafnið "Xena" sem þá var notað um Erisi að hópur Mike Brown nefndi tunglið gælunafninu „Gabrielle“ í höfuðið á tryggri aðstoðarkonu Xenu úr sjónvarpsþáttunum um stríðsprinsessuna. Þegar Eris fékk formlegt heiti sitt staðfest hjá IAU var tunglinu jafnframt gefið heitið "Dysnómía" í höfuðið á dóttur grísku gyðjunnar Erisar en Dysnómía er jafnframt gyðja lögleysis og upplausnar. Brown segist hafa valið það vegna líkinda við nafn eiginkonu sinnar, Diane. Í nafninu felst líka óbein vísun til gælunafnsins "Xena" þar sem þar sem hún var leikin af Lucy Lawless (þar sem að lawless merkir lögleysa). Lífís. Líftryggingafélag Íslands eða Lífís er íslenskt tryggingafélag með höfuðstöðvar í Reykjavík. VÍS. Vátryggingafélag Íslands eða VÍS er íslenskt tryggingafélag með höfuðstöðvar í Reykjavík. Það var stofnað árið 1989 með samruna tryggingarfélaganna, Samvinnutrygginga.g.t. og Brunabótafélagi Íslands. Öryggismiðstöðin. Öryggismiðstöðin er íslenskt öryggisfyrirtæki með höfuðstöðvar í Kópavogi. Útilíf. Útilíf er íslensk verslunarkeðja sem selur íþróttar- og útivistarvörur. 11-11. 11-11 er íslensk verslunarkeðja sem rekur matvöruverslanir. BYKO. BYKO er íslensk verslunarkeðja sem rekur byggingavöruverslanir. Árið 1962 opnuðu Guðmundur H. Jónsson og Hjalti Bjarnason 135 fermetra byggingavöruverslun við Kársnesbraut í Kópavogi. Í upphafi var einungis verslað með grófa vöru en innan árs var opnuð þar smávöruverslun. Árið 1972 var verslunin flutt að Nýbýlavegi 6, þar sem nú er sýningarsalur Toyota. Verslunin á Nýbýlaveginum varð strax leiðandi verslun í byggingavöru þar sem seldar voru allar helstu byggingavörurnar á einum stað. Árið 1988 flutti verslunin í nýtt og rúmbetra húsnæði í Breiddinni. Nokkru áður, eða árið 1980, var stórt athafnasvæði fyrir timbursölu tekið í notkun við Skemmuveg í Kópavogi þar sem nú er Timbursala BYKO í Breiddinni. BYKO rekur í dag verslanir á sjö stöðum á landinu. Kjarval (verslunarkeðja). Kjarval er íslensk verslunarkeðja sem rekur matvöruverslanir. Nóatún (verslunarkeðja). Nóatún er íslensk verslunarkeðja sem rekur matvöruverslanir. Norvík. Norvík eða Norvik er íslensk fyrirtækjasamsteypa með höfuðstöðvar í Reykjavík. Bjarni Runólfsson. Bjarni Runólfsson (10. apríl 1891 – 4. september 1938) var bóndi og rafstöðvasmiður í Hólmi í Landbroti. Foreldrar Bjarna voru Runólfur Bjarnason (1863 – 1949) og kona hans, Rannveig Bjarnadóttir (1857 – 1949). Þau bjuggu í Hólmi, og Bjarni var elsta barn þeirra. Hann tók við búi af þeim 1920 og bjó á jörðinni til dauðadags. Hann gekk 18. september 1921 að eiga Valgerði Helgadóttur (1896 – 1981). Bjarni var sjálfmenntaður en reisti á árununum 1927 – 1937 alls 101 rafstöð í ellefu sýslum landsins, auk þess að smíða túrbínur fyrir aðra rafvirkja. Hann átti verulegan þátt í rafvæðingu til sveita, oft með því að virkja bæjarlæki en stundum stærri vatnsföll, með fallhæð allt að 100 metrum. Þegar til féll, smíðaði hann úr því járni, sem fékkst úr strönduðum skipum og var venjulega selt á uppboði. Eftir að Bjarni féll frá, héldu samverkamenn hans, Eiríkur og Sigurjón Björnssynir frá Svínadal í Skaftártungu, áfram að virkja á líkan hátt. Bjarni húsaði bæ sinn myndarlega nálægt 1930. Hann keypti 1926 nýjan Ford T vörubíl, þótt akvegir væru litlir í þessum sveitum. Það var fyrsti bíll í Skaftafellssýslum (númerið "SF 1", sem síðar breyttist í "Z 1"). Hann reisti klakstöð fyrir silung, sleppti í nokkur ár 100.000 – 300.000 seiðum í Skaftá og fékkst talsvert við veiðiskap, auk þess að gera aldursrannsóknir á hreistri. Hann byggði í Hólmi frystihús með tveimur frystiklefum og vélaklefa og smíðaði sjálfur spírala og annað, sem til þurfti. Þar nálægt reisti hann sláturhús. Hægt var að frysta 200 skrokka á sólarhring, sem síðan var ekið með til Reykjavíkur. Bjarni var í þann mund að stækka frystihúsið, svo að hægt yrði að frysta 600 skrokka á sólarhring, þegar hann fékk slag og dó. Einnig áformaði hann að smíða fleiri rafstöðvar. Bjarni var formaður í Framsóknarfélagi Vestur-Skaftafellssýslu og sat í miðstjórn Framsóknarflokksins. Hann starfaði fyrir Búnaðarfélag Íslands. Í Hólmi er enn varðveitt smiðja Bjarna með verkfærum öllum, sem hann smíðaði sum sjálfur, og sömuleiðis rafstöð hans niðri við Rásina í Skaftá. Þjóðminjasafn á aðild að varðveislunni. Einnig eru munir úr búi Bjarna og Valgerðar í safninu í Skógum. Þau fengu leg í heimagrafreit í Hólmi. Lýsing (fyrirtæki). Lýsing er íslenskt fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík. SkjárGolf. SkjárGolf er íslensk sjónvarpstöð sem hefur verið starfandi frá 27. september 2010. Sjónvarpstöðin sýnir eingöngu golf og þá helst: Ryder-bikarinn, Forsetabikarinn, Opna breska meistaramótið, Opna bandaríska mótið, Heimsmótaröðina, Bandaríska mótaröðina, Bvrópska mótaröðina og kvennagolf. Stöðin er iðulega með beinar útsendingar. Listi yfir stórmeistara í skák (1950-1970). Þetta er listi yfir stórmeistara í skák, frá 1950 til 1970. Listinn var síðast uppfærður 22. júlí, 2009 og á listanum eru 40 stórmeistarar. Skák Sveinn Pálsson (f. 1762). Sveinn Pálsson varð fyrstur manna til að ganga á Öræfajökul. Sveinn Pálsson (25. apríl 1762 – 23. apríl 1840) var íslenskur læknir og náttúrufræðingur sem stundaði umfangsmiklar rannsóknir á náttúru Íslands og varð meðal annars fyrstur manna til að átta sig á eðli skriðjökla og fleiri náttúrufyrirbæra. Nám. Sveinn var fæddur á Steinsstöðum í Tungusveit í Skagafirði, sonur hjónanna Páls Sveinssonar bónda og gullsmiðs og Guðrúnar Jónsdóttur yfirsetukonu. Hann var settur til mennta og varð stúdent frá Hólaskóla 1782. Næsta ár var hann við sjóróðra en hóf síðan læknisnám hjá Jóni Sveinssyni landlækni og var hjá honum í fjögur ár. Þá fór hann til Kaupmannahafnar og nam læknisfræði við Hafnarháskóla í fjögur ár til viðbótar en lauk ekki prófi. Hann stundaði jafnframt nám í náttúruvísindum og fékk þriggja ára ferðastyrk frá danska náttúruvísindafélaginu árið 1791 til að fara til Íslands og stunda rannsóknir. Hann hafði í hyggju að snúa aftur til Kaupmannahafnar og ljúka námi en af því varð ekki. Starfsferill og fjölskylda. Hann ferðaðist um Ísland frá 1791-1794, vann að ýmsum rannsóknum og sendi niðurstöður sínar til Kaupmannahafnar en fékk ekki framlengingu á styrknum, sem hann hafði vonast eftir, og varð að snúa sér alfarið að búskap og læknisstörfum, sem hann hafði þó stundað jafnframt ferðalögunum. Þann 4. október 1799 var hann skipaður fjórðungslæknir í Sunnlendingafjórðungi og átti að sinna Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum. Fyrir þetta fékk hann 66 ríkisdala árslaun, sem þótti afar naum og varð hann alla tíð að róa til fiskjar á vetrum jafnframt læknisstörfum og búskap. Þegar Sveinn var 33 ára gekk hann að eiga Þórunni, dóttur Bjarna landlæknis Pálssonar, sem var mikill dugnaðarforkur og sá að miklu leyti um búskapinn alla tíð. Þau eignuðust 15 börn en 10 komust upp, svo að heimilið var þungt og erfitt að framfæra þennan stóra hóp. Sveinn reyndi oft að fá kjör sín bætt en fékk ekki einu sinni embættisbústað sem átti þó að fylgja starfinu fyrr en eftir meira en tíu ára baráttu; þá fékk hann hálfa jörðina Vík frítt til ábúðar. Árið 1816 bötnuðu kjörin þó verulega og fékk Sveinn þá 300 ríkisdali í árslaun. Rannsóknir. Sveinn er þó ekki þekktastur fyrir læknisstörf sín, heldur rannsóknir sínar á náttúru Íslands, en hann varð fyrstur manna í heiminum til að átta sig á eðli skriðjökla og skýra hreyfingu þeirra. Árið 1793 varð hann líka fyrstur til að setja fram þá kenningu að gervigígar mynduðust við gufusprengingar en það varð ekki almennt viðurkennt fyrr en um 1950. Hann hlaut þó ekki þann sess í sögu jarðvísinda sem honum hefði borið fyrir uppgötvun sína því að skýrsla hans eða rit um jöklana fékkst ekki birt; helstu vísindarit hans komu út löngu eftir lát hans. "Ferðabók Sveins Pálssonar", eins konar dagbók um athuganir hans um náttúru, land og þjóð, var skrifuð á dönsku og ekki þýdd og gefin út á íslensku fyrr en 1945. Hann ferðaðist víða um landið og skrifaði mikið um athuganir sínar og ýmis önnur efni. Hann þýddi líka ýmis rit um læknisfræði og náttúruvísindi fyrir almenning. Honum mun hafa fallið þungt að geta ekki einbeitt sér að vísindarannsóknum en þurfa stöðugt að strita við bústörf og læknisstörf í fjölmennasta héraði landsins. Sveinn var meðal annars fyrstur til að koma að Lakagígum 1794, tíu árum eftir Skaftárelda, og sama ár gekk hann á Öræfajökul fyrstur manna og gerði tilraun til að ganga á Snæfell en varð frá að hverfa vegna óveðurs. Hann varð fyrstur til að hvetja til aðgerða gegn eyðingu skóga á Íslandi og er Dagur umhverfisins haldinn árlega á fæðingardegi hans, 25. apríl. Listi yfir stórmeistara í skák (1971-1990). Þetta er listi yfir stórmeistara í skák, frá 1971 til 1990. Listinn var síðast uppfærður 22. júlí, 2009 og á listanum eru 245 stórmeistarar. Skák Listi yfir stórmeistara í skák (1991-2000). Þetta er listi yfir stórmeistara í skák, frá 1991 til 2000. Listinn var síðast uppfærður 22. júlí, 2009 og á listanum eru 413 stórmeistarar. Skák Landssímadeild karla í knattspyrnu 1999 (1. - 5. umferð). 1. umferð. KR og ÍA þjófstörtuðu Íslandsmótinu þann 18. maí 1999. Miklar væntingar voru bundnar við KR, á 100 ára afmælisári félagsins. Skagamenn mættu á KR-völlinn með tölfræðina gegn sér því að þeir höfðu ekki unnið KR á KR-velli í sex ár. Leikurinn fór fjörlega af stað og á 17. sekúndu skoraði Sigþór Júlíusson fyrsta, og eina, mark leiksins. KR-ingar sköpðu sér mjög fá færi og þóttu ekki sannfærandi. 2. umferð. Erfiður útivöllur beið KR-inga er þeir komu í heimsókn til Leifturs á Ólafsfirði. Leiknum hafði verið frestað til 27. júní vegna flóða. Leikurinn var fjörugur og einkenndist af mikilli baráttu og voru það KR-ingar sem byrjuðu betur þegar þeir skoruðu fyrsta markið, en þar var að verki Þórhallur Hinriksson á 18. mínútu. Leiftur jafnaði þó metin á 31. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Í seinni hálfleik voru bæði lið svikin um vítaspyrnu. KR-ingar höfðu alla burði til að sigrað þennan leik en markvörður Leifturs, Jens Martin Kundsen, var hetja Leifturs og varði oft vel. 3. umferð. Valsmenn mættu fullir sjálfstrausts til leiks á KR-völlin eftir markalaust jafntefli gegn þáverandi Íslandsmeisturum. Valsmenn höfðu ekki unnið á KR-velli frá árinu 1991, þegar þeir unnu 1-0. Staða KR var óljós vegna þeirra vonbrigða sem að leikurinn gegn ÍA var. Nýr leikmaður hafði komið í raðir KR frá leik þeirra gegn ÍA, Bjarki Gunnlaugsson. Strax í upphafi var ljóst að þetta yrði leikur kattarinnar að músinni. KR-ingar spiluðu glimrandi sóknarbolta og Valsmenn lögðust oftar en ekki í nauðvörn. KR-ingum gekk þó ekki vel að skora í fyrri hálfleik, en undir lok hans var staðan 1-0 fyrir KR. Skothríð KR-inga hélt áfram í seinni hálfleik og bar betri árangur en í fyrri hálfleik. Leiknum lauk með 5-1 sigri KR-inga. 4. umferð. Grindvíkingum hafði eins og oft áður verið spáð falli og vildu senda þá spá beint aftur til föðurhúsanna. Grindvíkingar hafa verið þekktir fyrir mikinn dugnað og baráttu, en í fyrri hálfleik sáu þeir varla til sólar og voru KR-ingar allsráðandi. Góður sóknarbolti einkenndi leik KR-inga sem að skoruðu fyrstu 2 mörk leiksins þegar um hálftími var liðinn af leiknum. Fyrst skoraði Skotinn Allister McMillan sjálfsmark eftir að hafa átt við Guðmund Benediktsson. Stuttu seinna skoraði Guðmundur með þrumuskoti rétt við vítateiginn og var staðan 2-0 þegar flautað var til leikhlés. Grindvíkingar komust mun betur í leikinn í seinni hálfleik þegar dró úr sóknum KR-inga. Þeir skoruðu á 61. mínútu en KR-ingar létu þá ekki komast upp með það, og svöruðu strax, með marki frá Andra Sigþórssyni. KR-ingar fengu síðar í leiknum vítaspyrnu, en Albert markvörður Grindvíkinga sá við honum Andra Sigþórssyni og varði spyrnuna. 3-1 sigur KR-inga þegar uppi var staðið. 5. umferð. KR-ingar tóku á móti liði Blika sem að var það lið sem hafði komið mest á óvart og hrokir allar fallspár burt og sigruðu m.a. Íslandsmeistara ÍBV í 4. umferð. KR-ingar höfðu líka verið afar sannfærandi og sigarð í öllum þremur leikjum sínum upp að þessum. Leikurinn var daufur og lítið markvert gerðist. Blikar byrjuðu þó betur og voru tvisvar sinnum komnir nálægt því að skora og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. KR-ingar komust í gang í seinni hálfleik. Blikar björguðu á línu eftir aukaspyrnu frá Guðmundi Benediktssyni og voru heppnir að lenda ekki undir, því KR-ingar fengu fleiri færi sem þeir ekki nýttu. Markalaust jafntefli var því niðurstaðan. Landssímadeild karla í knattspyrnu 1999 (6. - 10. umferð). 6. umferð. Erfiður leikur beið báðum liðum. Byrjun ÍBV á Íslandsmótinu hafði ekki verið sannfærandi. Með sigri gátu Eyjamenn komiðsér í toppsæti deildarinnar en með sigri KR-inga gátu þeir stungið af á toppnum. KR-ingar byrjuðu strax af krafti og skoruðu á 6. mínútu. KR-ingar héldu sókn sinni áfram en gegn gangi leiksins skoruðu Eyjamenn úr hornspyrnu, rúmum 10 mínútum eftir mark KR. Eyjamenn hresstust mjög í kjölfarið á þessu marki og áttu 3 hættuleg færi. Í seinni hálfleik færðist meiri ró yfir leikinn og einkenndist hann mest megnis af baráttu. En það var á 84. mínútu sem að Eyjamenn fengu hornspyrnu. Baldur Bragason tók hornspyrnuna og var Ívar Ingimarsson mættur í markteiginn og skallaði knöttinn í netið. KR-ingar voru djarfir en það dugði ekki til, einbeitingarleysi varð þeim að falli. 7. umferð. Gamlir erki óvinir KR-inga komu í heimsókn á KR-völlinn í 7. umferð og ljóst var að leikurinn hafði mikla þýðingu fyrir bæði lið. Fram var eina liðið í deildinni sem að var taplaust upp að 7. umferð. Til liðs við KR hafði nýlega gengið Framarinn Hilmar Björnsson sem átti eftir að verða góður liðsstyrkur. Strax í upphafði lögðust Framarar afur og leyfðu KR-ingum að stjórna leiknum. KR-ingar sköpuðu sér mikið af marktækifærum og hentaði þessi leikaðferð liðinu vel. Það var á 12. mínútu sem að Einar Þór Daníelsson skoraði fyrsta mark KR og Guðmundur Benediktsson bætti við marki 25 mínútum síðar. KR-ingar höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik og sköpuðu sér mörg marktækifæri. Mikið var um gróf brot í fyrri hálfleik. Fljótlega eftir að seinni hálfleikur hófst skoruðu Framarar, en þeir komust þó ekki lengra, sóknarleikur þeirra var of tilviljunarkenndur. Bjarki Gunnlaugsson gerði síðan endanlega út um leikinn rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok. Einar Þór Daníelsson fékk rautt spjald undir lok leiksins og tók út leikbann í næsta leik KR, gegn Leiftri, leik sem hafði verið frestað frá 2. umferð. 8. umferð. Nýliðar deildarinnar komu í heimsókn til KR-inga og hafði þeim verið spáð falli þetta ár. KR-ingar voru á toppi deildarinnar og í vænlegri stöðu, eftir gott gengi undanfarið. KR-ingar voru allsráðandi í leiknum, stannslaus skothríð KR-inga á mark Víkinga í 90 mínútur var erfið fyrir Víkinga að eiga við, og á 22. mínútu skoruðu KR-ingar fyrsta mark leiksins. Eftir því sem leið á leikinn sóttu KR-ingar meira og meira og skoruðu þeir sitt annað og þriðja mark í síðari hálfleik. Víkingum tókst að minnka muninn úr hornspyrnu á 83. mínútu en KR-ingar kláruðu leikinn á 90. mínútu, þegar að Einar Örn skoraði fjórða mark þeirra. 9. umferð. Keflvíkingar höfðu reynst KR-ingum erfiðir viðureignar undanfarin ár. Keflvíkingar voru ósigraðir á heimavelli upp að þessu. Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og á 11. mínútu var dæmd vítaspyrna á KR og var það Eysteinn Hauksson sem skoraði úr vítinu. KR áttu í miklu basli með að brjóta upp vörn Keflavíkur en það tókst á 33 mínútu þegar Guðmundur Benediktsson fékk og skoraði úr vítaspyrnu. Seinni hálfleikinn áttu KR-ingar frá upphafi til enda, þeir þreyttu Keflvíkinga mjög og sýndu mikla þolinmæði, skoruðu 2 mörk á stuttum tíma og komust tveimur mörkum yfir. Keflvíkingar fengu vítaspyrnu á loka mínútum leiksins, en Kristján Finnbogason gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Eysteins Haukssonar. 10. umferð. Skagamenn höfðu í áraraðir verið erfiðir heim að sækja og unnu KR-ingar síðast á skaganum árið 1994. Þó svo að gengi liðsins undanfarið hafði ekki verið sannfærandi voru þeir með sterkan mannskap og úrval leikmanna af hæsta gæðaflokki. Skagamenn komu afar ákveðnir til leiks, þeir voru afar sterkir fysta stundarfjórðunginn en það breyttist þegar að Stefán Þórðarson, sóknarmaður ÍA sló til Kristjáns Finnbogasonar og fékk að líta rautt spjald fyrir vikið. Eftir það nýttu KR-ingar sér liðsmuninn og voru beittari í sóknarleik sínum. Í seinni hálfleik tóku KR-ingar völdin á vellinum og skoruðu fljótlega í síðari hálfleik. Á 65. mínútu fékk David Winnie rauða spjaldið, en leikmenn ÍA nýttu sér það ekki. Þvert á móti skoruðu KR-ingar og þar við sat. Landssímadeild karla í knattspyrnu 1999 (11. - 15. umferð). 11. umferð. Leiftur kom í heimsókn í Vesturbæinn, í harðri baráttu um 3. sætið, á meðan að KR-ingar voru í baráttu um Íslandsmeitstaratitilinn. Leiftur hóf leikinn í mikilli vörn, vörðust aftarlega og voru mjög skipulagðir. KR-ingar spiluðu hugmyndasnauðan sóknarbolta og komust ekki fram fyrir sterka vörn Leiftursmanna. Leiftursmenn skoruðu beint úr aukaspyrnu á 19. mínútu, af 40 metra færi, fyrsta marksot þeirra í leiknum. KR-ingar héldu áfram að sækja og á 38. mínútu fengu þeir vítaspyrnu eftir einstaklingsframtak Sigþórs Júlíussonar, þegar boltinn fór í höndina á einum Leiftursmanni og skoraði Guðmundur Benediktsson úr spyrnunni. Það sem eftir liði leiks gerðist ekkert markvert og lauk leiknum 1-1. 12. umferð. Valsmenn tóku á móti KR í 12. umferð deildarinnar á Hlíðarenda. Valsmenn höfðu rekið þjálfara sinn Kristinn Björnsson fyrr á tímabilinu og hafði síðan gengið allt í haginn, með Inga Björn Albertsson sem nýjan þjálfara meistaraflokks en staða þeirra var þó ekki mjög góð. Fólk var enn að setjast niður þegar að Valsarar komust yfir á 4. mínútu, þar var að verki Guðmundur Brynjólfsson, en markið sló KR-inga út af laginu og náðu sér ekki á strik. Þeir skoruðu þó mark á 31. mínútu þegar að Bjarki Gunnlaugsson skoraði af stuttu færi og voru ekki skoruð fleiri mörk í fyrri hálfleik. Þegar leið á leikinn benti allt til þess að leikinum lyki með jafntefli. Á lokamínútum leiksins skoraði Bjarni Þorsteinsson fyrir KR með vinstrifótarskoti, úr vítateiginum og fögnuðu KR-ingar sigri í leikslok. 13. umferð. Grindvíkingar voru í fallbaráttu þegar þeir mættu í heimsókn í Frostaskjólið. Þeir höfðu ekki tapað leik á KR-velli í tvö ár og mættu þeir fullir eldmóði til leiks. Leikurinn byrjaði af krafti og stefndi allt í markaveislu því eftir 15 mínútur var búið að skora þrjú mörk. Fyrst kom David Winnie KR í 1-0 áður en Grétar Ólafur jafnaði metin á tíundu mínútu en Bjarki Gunnlaugsson kom KR-ingum yfir á 14. mínútu. Eftir það fjaraði leikurinn út, allur kraftur fór úr leiknum. Ekkert markvert gerðist það sem eftir var af leiknum og lauk leiknum með sigri KR-inga. 14. umferð. Blikar tóku á móti sprækum KR-ingum á Kópavogsvelli í 14. umferð Landssímadeildarinnar en Blikar höfðu aðeins unnið einn leik í síðustu 9 umferðum. KR-ingar gátu ekki óskað eftir betri byrjun, því strax á 7. mínútu skoraði Guðmundur Benediktsson eftir að hafa komist fram hjá varnarmönnum Breiðabliks. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði hálfleisins. Mikil barátta einkenndi fyrri hálfleikinn og fór leikurinn mikið fram á miðjum velli. Leikurinn opnaðist fyrst fyrir alvöru þegar að Blikar fóru að sækja af einhverju viti. Það nýttu KR-ingar sér til þess að bæta við tveimur mörkum á 80., og 81. mínútu. 15. umferð. Leikurinn sem flestir höfðu beðið eftir var að hefjast, Íslandsmeistarar tveggja síðustu ára mættu KR-ingum sem að sátu á toppi deildarinnar. Liðin höfðu fyrir löngu stungið önnur lið af í deildinni og myndi þessi leikur ráða miklu um hvort liðið yrði Íslandsmeistari. Hátt í sex þúsund manns lögðu leið sína á KR-völlinn til að horfa á leikinn. KR-ingar byrjuðu hægt, og aftarlega og leyfðu Eyjamönnum að hefja leikinn af krafti. Þeir komust þó meir og meir inn í leikinn og tóku loks öll völd á vellinum. Sigþór Júlíusson skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu. Gífurleg spenna var ríkjandi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Einar Þór Daníelsson fékk vítaspyrnu stuttu eftir að KR-ingar skoruðu fyrsta mark sitt. Birkir Kristinsson varði þó vítaspyrnu Guðmunds Benediktssonar. Fimmtán mínútum síðar fengu Eyjamenn vítaspyrnu og var það markahæsti maður ÍBV, Steingrímur Jóhannesson, sem að tók spyrnuna, en eins og félagi hans í marki ÍBV, varði Kristján Finnbogason spyrnu Jóhannesar. Eyjamenn fylgdu þessu ekki eftir og tóku KR-ingar öll völd á vellinum. Einar Þór Daníelsson skoraði á 41. mínútu og voru KR-ingar tveimur mörkum yfir í hálfleik. Í síðari hálfleik höfðu Eyjamenn ekki þann styrk sem að þurfti til að brjóta vörn KR-inga á bak aftur, sóknarleikur þeirra var of einhæfur. KR-ingar ráku svo síðasta naglann í kistu ÍBV, þegar að Guðmundur Benediktsson skoraði á 82. mínútu úr víaspyrnu. Klórdíoxíð. Klórdíoxíð er efnasamband með formúlunni ClO2. Yfir 95% af því klórdíoxíði sem framleitt er í heiminum í dag er búið til úr borðsalti og notað til að bleikja pappírskvoðu. Klórdíoxíð er einnig notað til sótthreinsunar á drykkjarvatni og til að bleikja hveiti. Klórdíoxíð er aðalefnið í mixtúrunni "MMS" eða "Miracle Mineral Solution" en heilbrigðisyfirvöld víða um lönd hafa varað við inntöku þessa iðnaðarbleikiefnis vegna aukaverkana svo sem ógleði og uppkasta. Landlæknir gaf 12. janúar 2010 út viðvörun vegna notkunar þess. Landbrot. Séð yfir Landbrot og Eldhraun úr lofti. Landbrot er sveit í Vestur-Skaftafellssýslu og afmarkast að norðan af Skaftá, sem fellur til austurs sunnan við Síðuheiðar. Vesturmörk má kenna við Eldvatn og austurmörk við Landbrotsvötn, þótt allt sé það vatn ættað úr Skaftá. Segja má, að bæirnir standi á síðustu öldum í hálfhring á brún hrauns, sem talið er runnið úr Eldgjá niður hjá Skaftárdal. Lengi mynduðu Landbrot og Síðubæir vestan við Geirlandsá í sameiningu Kirkjubæjarhrepp, en það svæði var áður hluti af Kleifahreppi. Allir bæir á Síðu og í Landbroti mynduðu hins vegar sókn, sem á mismunandi tímum var ýmist kennd við Kirkjubæjarklaustur eða Prestsbakka. Landslag. Eins og nafn sveitarinnar bendir til, hefur landslag ekki alltaf verið með sama móti, því að hraun og vötn hafa rúskað í henni. Sem hlýtur að hafa verið lengi, því að byggð þessi er þegar kölluð Landbrot í 149. kafla Brennu-Njáls sögu. Hinir svokölluðu Landbrotshólar einkenna landslagið víða. Þeir eru úr gjalli og kallast gervigígar. Sumir þeirra eru holir að innan og hafa jafnvel verið notaðir sem fjárbyrgi. Þeir hafa verið rannsakaðir með tilliti til aldurs. Bayeux-refillinn. Mynd:Tapisserie agriculture.JPG|thumb|310px|Hluti af Bayeux-reflinum. Sendiboðar Vilhjálms hertoga koma til Guys greifa af Ponthieu.Fyrir ofan stendur á latínu:...UBI:NUNTII:WILLELMI:DU[CI]..Þ.e.: „Þarna koma] sendimenn Vilhjálms hertoga...“ Bayeux-refillinn – (borið fram: "bæjö-refillinn") – er 70 metra langt og um 50 cm breitt refilsaumað klæði, sem sýnir orrustuna við Hastings árið 1066. Refillinn er varðveittur í safni skammt frá dómkirkjunni í Bayeux í Normandí, en var áður í dómkirkjunni þar. Um refilinn. Bayeux-refillinn var líklega gerður samkvæmt pöntun frá Odo biskupi af Bayeux, sem var hálfbróðir Vilhjálms sigursæla. Talið er að hann hafi verið saumaður í nunnuklaustri á Englandi. Á reflinum er aðdragandi orrustunnar við Hastings og orrustan sjálf sýnd í myndasöguformi, sem var skiljanlegt öllum almenningi. Tilgangurinn hefur verið að halda á lofti þessum sögulega atburði, auk þess sem það hafði áróðursgildi að sýna atburðina frá sjónarhóli sigurvegaranna. Fram á 19. öld töldu flestir að kona Vilhjálms, Matthildur af Flæmingjalandi, hefði látið sauma refilinn, og var hann í Frakklandi oft kallaður „refill Matthildar drottningar“. Nú eru flestir þeirrar skoðunar að Odo biskup hafi pantað hann. Fyrir því eru einkum þrenn rök: 1) Refillinn var eign dómkirkjunnar í Bayeux, sem Odo lét byggja. 2) Þrír af fylgismönnum Odos sem nefndir eru í Dómsdagsbókinni ensku, eru sýndir á reflinum. 3) Refillinn gæti hafa verið sýndur fyrst við vígslu dómkirkjunnar 1077. Fram hafa komið fleiri kenningar, t.d. að Edit af Wessex, ekkja Játvarðar góða, hafi látið gera hann. Á reflinum er skýringartexti á latínu, og koma fram í honum fornensk orð, sem benda til að refillinn sé enskt verk. Enskur útsaumur (Opus Anglicanum) var víðkunnur á miðöldum. Þá hafa slíkir reflar verið algengir, en yfirleitt í smærri stíl – styttri. Bayeux-refillinn hefur líklega varðveist af því að hann var svo langur, að hann var aðeins hengdur upp við hátíðlegustu tækifæri. Eftirgerð í fullri stærð var árið 1886 sett upp í safni í Reading á Englandi. Árið 2000 hóf hópur útsaumskvenna í Álaborg í Danmörku að gera nákvæma eftirmynd, með upprunalegum aðferðum og jurtalituðu garni. Í febrúar 2010 vantaði 20 metra upp á að verkinu væri lokið. Margrét Vigfúsdóttir. Margrét Vigfúsdóttir (um 1406 – 1486) var íslensk hefðarkona á 15. öld, húsfreyja á Möðruvöllum í Eyjafirði og bjó ekkja þar og á Hólum í Eyjafirði í fjóra áratugi eftir lát manns síns. Margrét var dóttir Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra (d. 1420) og Guðríðar Ingimundardóttur (um 1374 - eftir 1436) sem var af auðugum norskum höfðingjaættum. Bróðir Margrétar, Ívar Vigfússon hólmur, bjó á Kirkjubóli á Miðnesi um 1430 og var Margrét þar hjá honum. Sagan segir að Magnús kæmeistari, foringi sveina Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, hafi beðið Margrétar en verið vísað á bug og til að hefna fyrir það hafi sveinarnir ráðist á bæinn á Kirkjubóli, borið eld að honum og drepið Ívar eða jafnvel alla heimilismenn, en Margrét hafi naumlega komist undan, flúið norður í land og heitið því að giftast þeim sem hefndi bróður hennar. Hvað sem til er í þessu er víst að Margrét giftist Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum, sem átti harma að hefna á Jóni Gerrekssyni og var einn helsti foringi þeirra sem fóru að honum og drápu hann sumarið 1433. Gifting þeirra varð þó ekki fyrr en þremur árum síðar og því alls óvíst að hún hafi tengst drápi biskupsins. Þorvarður var sonur Lofts Guttormssonar og stórauðugur og Margrét hefur einnig verið mjög efnuð, enda voru þau talin ríkustu hjón á Íslandi á sinni tíð. Þorvarður dó 1446, eftir aðeins tíu ára hjónaband, en Margrét bjó áfram, fyrst á Möðruvöllum en síðan á Hólum. Þau áttu þrjár dætur: Ingibjörgu konu Páls Brandssonar sýslumanns á Möðruvöllum, en þau og synir þeirra dóu öll í plágunni síðari 1494; Guðríði, konu Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og móður Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra; og Ragnhildi, sem giftist Hákarla-Bjarna Marteinssyni á Ketilsstöðum á Völlum og síðar á Eiðum. Giftust dæturnar allar í einu á Möðruvöllum 1465 og var þar haldin mikil og rausnarleg veisla. Heimildir í fornbréfum benda eindregið til þess að Margrét hafi verið skörungskona sem naut mikillar virðingar samtíðarmanna sinna. Hún annaðist sjálf öll fjármál sín og dætra sinna eftir lát manns síns og mun hafa aukið auð sinn fremur en hitt. Hún átti miklar eignir hérlendis og einnig jarðeignir í Noregi, sem hún hefur líklega erft eftir móður sína. Jón Helgason (alþingismaður). Jón Helgason (f. 4. október 1931) var bóndi í Seglbúðum í Landbroti og í 21 ár alþingismaður og fimm ár ráðherra. Fjölskylda. Foreldrar Jóns voru Helgi Jónsson (1894 – 1949) og kona hans, Gyðríður Pálsdóttir (1897 – 1994). Þau bjuggu í Seglbúðum. Jón gekk 1961 að eiga Guðrúnu Þorkelsdóttur (f. 1929). Börn þeirra voru: Helga (f. 1968) og Bjarni Þorkell (f. 1973) og fóstursonur Björn Sævar Einarsson (f. 1962). Æviatriði. Jón ólst upp í Seglbúðum en fór þaðan til náms og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Síðan hafði hann forstöðu á búi móður sinnar og tók að fullu við búsforráðum í Seglbúðum 1959. Hann varð einkum nafnkunnur fyrir sauðfjárrækt. Á árunum 1974 – 1995 sat Jón á alþingi fyrir Suðurlandskjördæmi, og meðal annars var hann forseti Sameinaðs Alþingis 1979 – 1983. Auk þess var hann dóms- og kirkjumálaráðherra 1983 – 1987 og landbúnaðarráðherra 1983 – 1988. Ritverk og ræður. Jón ritaði um föður sinn í bókina "Faðir minn – bóndinn" (Reykjavík 1975). Og hann ritaði um Kirkjubæjarhrepp í bókina "Sunnlenskar byggðir VI" (bls. 85 – 187, Búnaðarsamband Suðurlands 1985), sem er rannsókn á byggðasögu. Hann flutti einnig margar ræður vegna hinna opinberu starfa sinna, auk heldur stundum endranær, prédikaði til dæmis um friðarmál í dómkirkjunni í Reykjavík 12. september 1982. Bjarni Marteinsson. Bjarni Marteinsson (d. fyrir 1488), kallaður Hákarla-Bjarni, var íslenskur höfðingi á 15. öld, bóndi á Ketilsstöðum á Völlum og síðar á Eiðum. Bjarni var sonur Marteins Gamlasonar, sýslumanns á Ketilsstöðum, og konu hans Rannveigar Sturludóttur. Hann tók við búi á Ketilsstöðum eftir föður sinn en árið 1465 kvæntist hann Ragnheiði, dóttur Þorvarðar Loftssonar á Möðruvöllum, sem þá var löngu látinn, og Margrétar Vigfúsdóttur. Gifti Margrét dætur sínar þrjár samtímis og hélt brúðkaupsveislu þeirra á Möðruvöllum. Þorvarður hafði átt Eiða og eignir sem þeirri jörð fylgdu og fékk Bjarni þær með konu sinni. Þau fluttu fljótlega þangað og höfðu þar mikið bú. Jafnframt búskapnum stundaði Bjarni útgerð. Sagt er að hann hafi verið með hákarlaútgerð i Bjarnarey og fengið viðurnefni sitt af því að hann - eða menn hans - hafi að jafnaði veitt 100 hákarla á hverju vori. Fiskiútgerð hafði Bjarni á Eiðabjargi, skammt frá Höfn í Borgarfirði eystra. Bjarni bjá á Eiðum í um tvo áratugi og auðgaðist vel. Þau hjónin áttu þrjár dætur og þrjá syni. Á meðal barna þeirra má nefna Ragnhildi, konu Björns Guðnasonar sýslumanns í Ögri, Þorvarð, sem bjó fyrst á Eiðum eftir föður sinn og síðan í Njarðvík eystra, og Erlend sýslumann á Ketilsstöðum sem Englendingar drápu einhverntíma á öðrum eða þriðja áratug 16. aldar, að sögn með því að setja hann í gaddatunnu. Xi Jinping. Xi Jinping (习近平) núverandi varaforseti Kína er talinn líklegur til að leiða næstu valdakynslóð þessa fjölmennasta ríkis veraldar. Xi Jinping (einfölduð kínverska: 习近平); f. 1. júní 1953) er mjög háttsettur leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína. Hann er varaforseti landsins og varaformaður hinnar valdamiklu Hernaðarnefndar Kommúnistaflokks landsins. Hann er skólastjóri Flokksskóla miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína, á sæti í fastanefnd miðstjórnar flokksins sem er í raun valdamesta stofnun ríkisins. Hann er jafnframt líklegur til að leiða næstu valdakynslóð Kína. Sem sonur kommúnista Xi Zhongxun þjónað Xi Jinping að mestu leyti í Fujian héraði í upphafi ferils síns, og var síðar skipaður flokksleiðtogi yfir Zhejiang héraðinu, og síðar sem flokksleiðtogi Shanghai í kjölfar brottvikningar Chen Liangyu. Hann varð þekktur fyrir frjálslynda stefnu, en sterka andstöðu við spillingu. Hann var talsmaður umbóta í stjórnmálum og í átt vil markaðshagkerfis. Æskuár. Xi Jinping er fæddur í höfuðborginni Beijing 1. júní 1953. Rætur forfeðra hans liggja þó samkvæmt kínverskri venju í Fuping-sýslu í Shaanxi-héraði. Hann er yngsti sonur Xi Zhongxun (1913-2002), eins af stofnendum skæruliðahreyfingar kommúnista í Shaanxi-héraði í norðurhluta Kína, fyrrum varaforsætisráðherra og taldist til fyrstu valdakynslóðar Kína með Maó. Xi Zhongxun starfaði sem yfirmaður áróðursdeildar kommúnistaflokksins og síðar varaformaður þing Kommúnistaflokksins. Þegar Xi var tíu ára lenti faðir hans í „hreinsunum“ menningarbyltingar Maós Zedong og var sendur til starfa í verksmiðju í Luoyang og síðan í fangelsi árið 1968. Hann kom aftur inn í stjórnmálin, nú sem einn lærifeðra verðandi leiðtoga Kína á borð við Hu Jintao núverandi foreta og Wen Jiabao núverandi forsætisráðherra. Að auki var það Xi Zhongxun sem lagði til og kom í framkvæmd uppbyggingu Shenzhen sem fyrsta „fríverslunarsvæðinu“ í Alþýðulýðveldinu Kína. Það varð síðan öðrum svæðum fyrirmynd. Á meðan Xi Zhongxun var „hreinsaður“ í menningarbyltingunni naut sonurinn ekki verndar föður síns og var sendur í vinnu í Yanchuan-sýslu í Shanxi-héraði, árið 1969. Hann varð þar síðar flokksritari í framleiðsluteymi sem hann gegndi til 22 ára aldurs. Á árunum 1975 til 1979 nam Xi Jinping efnaverkfræði við hinn virta Tsinghua-háskóla í Beijing. Það hefur vakið spurningar um fyrrum menntun hans þar sem hann hafi hvorki lokið menntaskóla. Hann lauk síðan doktorsnámi við sama háskóla árið 2002 þrátt fyrir að hafa ekki lokið meistaraprófi. Á árunum 1979 til 1982 starfaði Xi Jinping sem ritari hans fyrir Geng Biao fyrrum undirmann föður síns. Geng Biao gegndi þá stöðu varaforsætisráðherra og framkvæmdastjóra og framkvæmdastjóra herráðsins. Flokksframi. Xi gekk til liðs við Æskulýðshreyfingu Kommúnistaflokksins árið 1971 og í Kommúnistaflokk Kína árið 1974. Árið 1982 var hann sendur til Zhengding-sýslu í Hebei sem flokksritari. Xi starfaði síðan í fjórum héruðum á pólitískum ferli sínum: Shaanxi, Hebei, Fujian og Zhejiang. Xi gegndi stöðu flokksleiðtoga flokksnefndar Fuzhou sveitarfélagsins og varð síðan forseti flokkskólans í Fuzhou árið 1990. Árið 1999 var hann gerður að aðstoðarríkisstjóra Fujian héraðs og ríkisstjóra þar ári síðar. Þar beitti hann sér meðal annars fyrir því að fjárfesta að frá Taiwan og efla frjálsara markaðshagkerfi. Í febrúar árið 2000 sem hann og flokksritari héraðsins Chen Mingyi kallaðir fyrir fjóra æðstu menn í framkvæmdanefnd miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína þá Jiang Zemin forseti, Zhu Rongji forsætisráðherra, Hu Jintao varaforseta og Wei Jianxing yfirmann aganefndar Kommúnistaflokksins til að meta Yuanhua hneyksli, sem fjallaði um smygl, mútur og spillingu innan Xiamen fríverslunarsvæðisins undir forystu athafnamannsins Lai Changxing. Árið 2002 tók Xi við háttsettum stöðum á vegum ríkisins og Kommúnistaflokksins í Zhejiang héraði. Að lokum tók hann forystuhlutverk í héraðinu sem flokksleiðtogi. Hann varð síðan varamaður 15 þing Kommúnistaflokksins og sem aðalmaður á því 16. Það opnaði leið hann inn í landsmálin. Undir stjórn Xi var Zhejiang, áfram eitt af auðugustu héruðum Kína og að meðaltali með 14% efnahagslegan vöxt á ári. Ferill hans í Zhejiang byggði á mjög eindreginni andstöðu gegn spilltum embættismönnum, nokkuð sem kom honum að í innlendum fjölmiðlum og vakti athygli æðstu leiðtoga Kína. Eftir brottrekstur Chen Liangyu sem flokkleiðtoga Shanghai í september 2006 vegna hneykslis sem upp kom vegna lífeyrissjóðs, var Xi fluttur til Shanghai í mars 2007 til að taka við flokksleiðtogi Shanghai. Þessi skipun sýndi að Xi naut stuðnings flokksforystunnar. Í Shanghai sýndi hann varkárni í að tengjast umdeildum málum og fylgdi flokkslínum hvívetna. Hann tengdist þar engum alvarlegum hneykslismálum eða naut alvarlegar pólitískar stjórnarandstöðu. Hann var efni í leiðtoga „næstu valdakynslóð“ þessa fjölmennasta ríkis veraldar. Fjölskylduhagir. Xi giftir árið 1987 Peng Liyuan, frægri söngkona kínverskrar þjóðlagatónlistar. Það var annað hjónaband hans. Peng Liyuan er afar vel þekkt í Kína í raun þekktari en eiginmaður hennar. Vegna starfa sinna búa hjónin ekki mikið saman. Saman eiga þau dótturina Xi Mingze sem er gjarnan kölluð Xiao Muzi. Tengt efni. Jinping, Xi The Observer. "The Observer" er breskt blað sem gefið er út á sunnudögum. Það er systurblað "The Guardian", sem keypti það árið 1993. "The Observer" tekur frjálslynda afstöðu í flestum málum eins og systurblaðið. Það er heimsins elsta sunnudagsblað. Saga. W.S. Bourne gaf fyrsta tölublaðið út 4. desember 1791 og var það fyrsta sunnudagsblað í heimi. Hann bjóst við að dagblaðið yrði tekjuöflunarleið fyrir sig en þess í stað komst hann í 1.600 punda skuld. Árið 1794 reyndi hann að selja andstæðingum ríkisstjórnarinnar blaðið en tókst það ekki. Þá bauð bróðir Bournes ríkistjórninni blaðið en boðið var afþakkað. Hins vegar féllst stjórnin á að veita blaðinu nokkurn styrk gegn því að geta haft áhrif á ritstjórnarstefnu þess. Fyrir vikið tók blaðið stöðu gegn róttæklingjum á borð við Thomas Paine, Francis Burdett og Joseph Priestley. Sundlaugin. Sundlaugin er upptökuver, staðsett í Álafosskvos, Mosfellsbæ. Frá árinu 1933 til 1964 var sundlaugin notuð til sunds, innanhús. Síðar nýttist húsið fyrir hljómsveitina Sigur Rós sem upptökuver, frá árinu 2001 til 2008. Árið 2008 varð upptökuverið opið öllum tónlistarmönnum. Amnesty International. Amnesty International eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir mannréttindum um allan heim. Samtökin voru stofnuð árið 1961 af breskum lögfræðingi, Peter Benenson. Samtökin hafa enga skoðun á pólitík, trúmálum eða hugmyndafræði. Árið 1963 urðu samtökin fyrst alþjóðleg. Samtökin fengu friðarverðlaun Nóbels árið 1977. Merki samtakana er gaddagirðing sem umlykur kerti og var hannað af Diana Redhouse. Saga. Upphaf Amnesty varð þegar stofnandi samtakana, Peter Benenson, breskur lögfræðingur, hóf átak fyrir mannréttindum, 1961. Fyrsta mál hans var fangelsisvist Portúgalskra nemenda sem höfðu verið fangelsaðir fyrir mótmæli fyrir frelsi. Ári síðar fór Amnesty í sína fyrstu rannsóknarferð, til Ghana. Á sama áratug fékk Amnesty ráðgjafarhlutverk hjá UNESCO og hafa unnið náið með Sameinuðu þjóðunum síðan þá. Bayeux. Bayeux – (borið fram: "bæjö") – er borg í Calvados-héraði í Normandí í norðvesturhluta Frakklands. Borgin er um 10 km frá ströndinni við Ermarsund, skammt vestan við borgina Caen. Íbúar eru tæplega 15 000. Saga borgarinnar. Á tímum Rómaveldis var borgin kölluð "Augustodurum", sem merkir „Hlið Ágústusar keisara“. (Orðið "durum" merkir "dyr" eða "hlið"). Þá var borgin mikilvægur staður í rómverska skattlandinu Gallia Lugdunensis. Skömmu fyrir fall Rómaveldis var farið að kenna borgina við keltneskan þjóðflokk sem bjó á svæðinu og var kallaður "Bodiocassi", á latínu "Bajocassi". Það nafn breyttist síðar í Bayeux. Orðið "Bodiocassi" er talið skylt fornírska orðinu "Buidechass" = 'með ljósa lokka'. Skömmu fyrir 300 e.Kr. var borgin víggirt til að verjast árásum Saxa sem sóttu inn á svæðið. Leifar af virkisveggjunum sjást enn. Um 890 lögðu Normannar borgina í rúst. En eftir að þeir höfðu lagt undir sig svæðið og tekið kristna trú, var borgin byggð upp aftur. Síðari heimsstyrjöldin. Í seinni heimsstyjöldinni var Bayeux með fyrstu bæjunum sem bandamenn náðu á sitt vald eftir innrásina í Normandí. Þann 16. júní 1944 hélt Charles de Gaulle hershöfðingi fyrstu ræðu sína um frelsun Frakklands í Bayeux. Borgin var nánast óskemmd eftir stríðið, því að hersveitir Þjóðverja hörfuðu til Caen til þess að verjast þar. Í Bayeux er stærsti herkirkjugarður Breta í Frakklandi. Bayeux-refillinn. Í miðbænum er gotnesk dómkirkja, vígð 1077. Frægasta eign dómkirkjunnar er Bayeux-refillinn, sem sýnir herferð Vilhjálms sigursæla til Englands og orrustuna við Hastings árið 1066. Refillinn er nú til sýnis í sérstöku safni skammt frá dómkirkjunni. Það var í Bayeux sem Vilhjálmur bastarður neyddi Harald Guðinason til að sverja sér trúnaðareið við tvö dýrlingaskrín. Þegar Haraldur sveik það og varð sjálfur konungur, fór Vilhjálmur að undirbúa innrás í England. FC Barcelona. FC Barcelona er handboltafélag, fótboltafélag og körfuboltafélag staðsett í Barselóna, Katalóníu, Spáni. Félagið hefur þá sérstöðu, að það er rekið á fjármagni stuðningsmanna liðsins. Áður en félagið fékk merki UNICEF á búninga félagins, hafði það aldrei haft auglýsingar á búningum sínum. Samningurinn við UNICEF er líka nokkuð sérstakur, því UNICEF er borgað fyrir að hafa auglýsinguna á búningnum, en venjulega er hinn hátturinn hafður á. FC Barcelona hefur jafnframt sögulegt gildi, gagnvart ríkinu katalónu og krafa er gerð til þess að katalóníska sé töluð af öllum leikmönnum liðsins. Leikvangur FC Barcelona er Camp Nou, eða nývangur uppá íslensku. Stofnun (1899–1922). FC Barcelona var stofnað þann 22. október 1899, þegar Joan Gamper setti auglýsingu í bæjarblaðið Los Deportes um að stofna knattspyrnulið. 1902 vann Barcelona fyrsta bikar sinn, Copa Macaya fyrir að vera besta knattspyrnulið Katalóníu. 14. mars 1909 færði liðið sig í leikvanginn "Camp de la Industria" sem gat tekið við 8.000 manns. Á sama tímabili breytti félagið opinberu tungumáli sínu frá spænsku yfir á katalónsku og varð síðar mikilvægt tákn katalóníu. Stjórnartímabil Rivera (1923–1957). Þann 14. júní 1925 fór hreyfing sem var á móti stjórn "Primo de Rievera" konungsfjölskyldunnar og söng þjóðsöng spánverja á leikvangi Barcelona. Hreyfingunni var refsað með því að loka leikvanginum og eiganda félagsins var þvingaður til að segja af sér. 3. Júlí 1927 keppti félagið gegn Spænska landsliðinu. Leikurinn hófst eftir að boltanum hafði verið sleppt úr flugvél. Spænska borgarastyrjöldin hófst árið 1936 og leikmenn frá Barcelona og Athletic Bilbao börðust gegn uppgangi hersins. 6. Ágúst myrtu hermenn forseta félagsins, Josep Sunyol sem var jafnframt talsmaður sjálfstæðisflokks borgarinnar. Hans er minnst sem píslarvotts og atvikið skiptir miklu í sögu FC Barselona og sjálfstæðisbaráttu Katalóníu. 16. mars 1938 varð Barselóna fyrir loftárásum frá Ítalska hernum. Félaginu var skipað að breyta nafni sínu í Club de Fútbol Barcelona og að fjarlægja fána Katalóníu úr merki sínu. Club de Fútbol Barcelona (1957-1978). 1952 vann félagið fimm mismunandi bikara; spænsku úrvalsdeildina, deildarbikarinn, Latin Cup, Copa Eva Durante og Copa Martini Rossi. Velgenginni frá 1952 var fylgt eftir árið 1959 þegar liðið vann tvennu og árið 1961 varð það fyrsta félagið til að sigra Real Madrid í Evrópukeppninni. Þegar að valdatímabili Franco lauk árið 1974 skipti félagið aftur í sitt gamla nafn. Stöðuleika árin (1978-2000). Frá 1978 hefur forseti Barselóna verið valinn af meðlimum félagsins og þessi ákvörðun er tengd lýðræðisvæðingu Spánar árið 1974 eftir einræði Franco. Ári síðar, 20. október 1979, var uppeldistarf félagsins elft í sveitasetrinu La Masia. La Masia var fyrir þennan tíma höfuðstöðvar félagsins. Árið 1988 setti Johan Cruyff saman hið svokallaða Drauma lið félagsins. Í liðinu var Josep Guirdiola, José Mari Bakero, Txiki Begiristain, Ronald KoeMan, Michael Laudrup, Romario og Hristo Stoichkov. Barselóna vann úrvalsdeildina fjórum sinnum í röð með þessu liði frá 1991 til 1994. Harry Martinson. Harry Martinson (6. maí 1904 – 11. febrúar 1978) var sænskur rithöfundur, pistla- og ferðasöguhöfundur og ljóðskáld. Hans er helst minnst fyrir ljóð sín í heimalandi sínu, enda með dáðustu ljóðskálda Svíþjóðar á 20. öld. Harry var meðlimur í Sænsku akademíunni ("Svenska Akademien") frá 1949 þar til hann dó. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1974 ásamt samlanda sínum Eyvind Johnson. Tenglar. Martinson, Harry Martinson, Harry Hyde Park, London. Hyde Park er almenningsgarður í London, Bretlandi. Garðurinn var stofnaður árið 1637. Garðurinn státar af tveimur minnisvörðum, eitt fyrir fyrrum forsetafrú Wales, Díönu og annað fyrir fórnarlömb sprengjuárásarinnar 7. júlí 2005. Hyde Park státar jafnframt af "Speakers' Corner", þar sem almenningur segir sína skoðun. Menn eins og Karl Marx, Lenin, George Orwell og Willam Morris hafa allir verið með ræður í því horni garðsins. Saga. Upphaflega var svæðið þar sem Hyde Park stendur nú, í eigu munka og voru það í 500 ár, frá 1090 til 1536. Á árinu 1536 keypti konungurinn Henry áttundi svæðið og breytti í af girtan veiðigarð. Svæðið var aldrei opnað almenningi fyrr en einni öld síðar. Umfangsmiklar landsframkvæmdir áttu sér stað í Hyde Park fyrst árið 1642. Frá 1642-1649 stóð yfir borgarastyrjöld og varnargarðar voru myndaðir í austurátt garðsins. 40 árum síðar, 1989 var lagður einkavegur um landið, fyrir kónginn William sem keypti hús í eystri hluta garðsins. Sá vegur var sá fyrsti upplýsti vegur sinnar tegundar í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en á næstu öld, 1728 sem mestu breytingarnar urðu á garðinum. Þá var skorið 1,2 ferkílómetrum af Hyde park, til þess að mynda garðinn "Kensington Gardens". Garðarnir tveir eru aðgreindir með skurði á milli þeirra tveggja. Síðar var vegur lagður á milli þeirra, um árið 1820, sem heitir "Carriage Drive". Sjónvarpsútsending. Sjónvarpsútsending er þegar að efni hvar sem er í heiminum, eða alheiminum jafnvel, er útgefið í gegnum sjónvarpsmyndavél og dreift til notenda í gegnum sjónvarpstæki. Fyrsta sjónvarpsútsendingin var í London, á vegum BBC. Sjónvarpsútsendingin sýndi frá krýningu Georgs sjötta í Hyde Park. Örbylgjusendingar. Sendingar á örbylgju (VHF/UHF) dreifikerfi á íslandi fer um örbylgju eða með ljósleiðara til aðalsenda. Aðalsendar dreifikerfisins dreifa svo áfram til endurvarpsenda og þaðan til notenda.. Örbylgju dreifikerfi á íslandi eru á vegum RÚV og Vodafone. Munurinn á stafrænum örbylgjusendingum og hliðrænum liggur í sendingarbúnaði og getu stafræna kerfisins til að senda margar stöðvar í einu. Netdreifing. Netdreifing getur verið tvenns konar. Í fyrsta lagi dreifing sem sýnd er á vefssíðum sem streymi, eða í öðru lagi dreifing um internet sem fer um afruglara á leiðinni í sjónvarpið. Það síðarnefnda hefur oft verið nefnt Breiðband. Breiðband gefur þá möguleika fram yfir örbylgju að dagskrá getur verið gagnvirk. Breiðbands kerfi á íslandi er á vegum Skjásins, sem er rekið af Símanum. Gervihnattadreifing. Gervihnattasendingar eru sendingar frá sjónvarpstöðvum um gervihnött sem endurvarpar merkinu aftur til viðtakanda um gervihnattadiska. RÚV sendir út dagskrá sína í gegnum gervihnött. Þetta er gert í gegnum norska fjarskiptafyrirtækið Telenor. Útsendingarnar eru í læstri dagskrá, svo að íbúar utan íslands nái ekki sendingunni. Asni. Asni (fræðiheiti: "Equus asinus") er hófdýr af hestaættkvísl, sem maðurinn tamdi sem húsdýr fyrir eitthvað fimm þúsund árum. Einnig finnast í Afríku og Asíu villiasnar, sem er skipt í fjórar tegundir. Líkamsbygging og lifnaðarhættir. Asnar eru harðgerar og sterkar skepnur, sem þola allvel þurrt loftslag í heitum löndum. Dæmigerður asni er nálægt 125 sentimetrar á hæð um axlirnar (sumir þó talsvert lægri, aðrir nokkru hærri), hefur löng eyru, sem hann er auðkenndur á, og er grár að lit en heldur ljósari eða hvítur á kvið og snoppu. Hálsinn er ekki mjög langur, og asnar hafa hárbrúsk neðst á halanum. Þeir eru fótvissir og geta því ferðast um brattlendi og jafnvel fjöll. Þeir eru grasbítar en leggja sér fleira til munns, ekki síst gulrætur en jafnvel runnagróður, enda eru meltingarfæri þeirra góð. Asnar geta náð meira en 25 ára aldri, jafnvel allt að 50 ára aldri. Þeir verjast árás á sama hátt og hestar: sparka með afturfótunum, slá með framfótunum og bíta. Villiasnar eru sprettharðir. Í Asíu munu þeir á stuttri vegalengd geta náð allt að 70 kílómetra hraða á klukkustund, en í tveggja klukkustunda þolhlaupi allt að 25 kílómetra meðalhraða á klukkustund. Villiasnar eru félagslyndir og mynda oft hjarðir (einnig finnst orðið "asnastóð" í prentuðu máli). Áætlað hefur verið, að á jörðinni séu að minnsta kosti 44 milljónir af ösnum, ef til vill mun fleiri. Afkvæmi. Karldýrið kallast asni og kvendýrið asna. Hestar og asnar geta átt afkvæmi saman. Afkvæmi asna og hryssu kallast múldýr. Afkvæmi ösnu og hests kallast múlasni. Sebrahestur og asna eiga ógjarnan afkvæmi saman, þótt það hafi komið fyrir í dýragörðum. Stungið hefur verið upp á að kalla þá dýrategund "sebraasna". Ösnur eru að meðaltali fylfullar í tólf mánuði og eignast eitt afkvæmi hverju sinni, sem er kallað foli eða folald. Ösnumjólk. Ösnumjólk líkist móðurmjólk. Í henni er meiri mjólkursykur og minni fita en í kúamjólk. Þess vegna hefur ösnumjólk verið gefin ungbörnum, ef mæður þeirra mjólka lítið. Ösnumjólk hefur einnig verið notuð sem áburður á húðina, því að hún geri hana fallegri. Sagt er, að þeirrar skoðunar hafi verið Kleópatra drottning í Egyptalandi, Poppaea Sabina miðkona Nerós keisara og Pálína systir Napóleons keisara. Ösnumjólk er víða ófáanleg, en í sumum löndum er hún verslunarvara, til dæmis á Ítalíu. Notkun á ösnum. Asnar eru einkum hafðir til reiðar, burðar og dráttar. Hægt er að temja ösnur til að gæta sauðfjár og geita, halda bæði þessum skepnum saman og vernda þær fyrir refum, sléttuúlfum og hundum. Asnar geta tamið hestfola og kálfa að því marki að gera þá bandvana. Einnig er álitið gagnlegt fyrir hestfolöld að geta umgengist asna, þegar þau eru vanin frá mæðrum sínum. Hið sama á við órólega, sjúka og slasaða hesta. Þeir sækja styrk í skapferli asnans. Börn og fatlað fólk eiga oft auðveldara með að ríða ösnum en hestum, því að þeir eru minni, hreyfa sig hægar og fara gætilega. Ösnur eru einnig að nokkru marki notaðar til að gæta barna. Dvergasnar eru vinsæl gæludýr. Í Afganistan hafa hryðjuverkamenn reynt að koma fyrir sprengiefni á ösnum til að granda fólki. Plinius eldri ritaði, að menningarvitinn Gaius Maecenas hefði látið matbúa kjöt af asnafolöldum, en eftir hans dag hafi það ekki verið álitinn góður matur. Asnakjöt hefur þó lengi verið haft til matar bæði á Ítalíu, í Frakklandi og víðar en dregið hefur úr neyslu þess á síðari árum og sumstaðar hefur verið barist gegn sölu á því. Á Ítalíu hefur það meðal annars verið notað í staðbundna rétti eins og pastasósuna "stracotto di asino" í Mantova, svo og í pylsur eins og "salame di asino". Hljóð asnans. Sagt er, að asnar "hríni", þegar þeir gefa frá sér hljóð. Orðið "asnagnegg" finnst einnig í ritmálssafni hjá Orðabók Háskólans. Þeir eru ekki alltaf lágværir í tjáskiptum sínum. Asnar í bókmenntum og listum. Í dæmisögum Esóps koma asnar á allmörgum stöðum fyrir. Í eitt skiptið bjargar asni sér með hyggindum úr klóm úlfs, en oftar eru atvik ösnunum ekki til sóma eða hamingju. Rómverski rithöfundurinn Apuleius ritaði seint á annarri öld bókina "Gullni asninn" (Asinus Aureus) og lét aðalsöguhetjuna Lucius í upphafi bókar breytast í asna. Á líkan hátt lét William Shakespeare höfuðið á einni persónu í leikritinu "Draumur á Jónsmessunótt" breytast í asnahöfuð. Carlo Collodi lét í bók sinn um "Gosa" óþæga stráka breytast í asna. Á helgimyndum má sjá heilagan Antóníus frá Padúa með asna, sem bar svo til, að hann prédikaði eitt sinn iðrun og afturhvarf fyrir bónda nokkrum. Sá skeytti því engu, og hóf þá Antóníus á loft helgaða hostíu. Þegar asni eða múlasni bóndans sá það, kraup hann frammi fyrir kennimanninum, og þá fyrst snérist bónda hugur. Jesús Kristur er sýndur á helgimyndum frá pálmasunnudeginum sem ríðandi inn í Jerúsalem á ösnu. Sömuleiðis eru María mey og Jesúbarnið sýnd á helgimyndum ríðandi á asna á flóttanum til Egyptalands. Enn eitt myndefni úr "Biblíunni" er af því, þegar asna Bíleams hafði vit fyrir honum á ferðalagi, svo að engill Drottins dræpi hann ekki með sverði sínu. En Bíleam sá ekki það, sem hún sá, og barði hana þrisvar sinnum, þangað til Drottinn lauk upp munni hennar, svo að hún gat talað við húsbónda sinn. Löggjöf um asna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað með reglum nr. 504/2008 frá 6. júní 2008, að gefa skuli út vegabréf handa öllum ösnum, sem eiga heima innan sambandsins eða flytja þangað frá öðrum löndum. Folöld fá þó ekki skilríki sín útgefin fyrr en þau ná sex mánaða aldri. Ketilsstaðir á Völlum. Ketilsstaðir er bær í Hjaltastaðaþinghá í Norður-Múlasýslu, gamalt stórbýli og löngum talin ein mesta og besta bújörð á Héraði. Þar sátu ýmsir höfðingjar fyrr á öldum, þar á meðal margir sýslumenn Norðmýlinga. Ketilsstaðir eru landnámsjörð og bjó þar landnámsmaðurinn Ásröður, sem fékk með Ásvöru Herjólfsdóttur konu sinni allt land austan Lagarfljóts, milli Gilsár og Eyvindarár. Margir nafnkunnir menn voru á meðal afkomenda þeirra og hafa einhverjir þeirra vafalaust búið á Ketilsstöðum en bærinn kemur þó ekki við Íslendingasögur og er ekki getið fyrr en á dögum Páls Þorvarðarsonar sýslumanns á Eiðum (d. 1403) en hann átti Ketilsstaði. Þegar Ingibjörg dóttir hans giftist Lofti ríka Guttormssyni mun hún hafa fengið Ketilsstaði í heimanmund og var jörðin lengi í eigu afkomenda þeirra. Marteinn Gamlason, sýslumaður í Norður-Múlasýslu um 1440, mun hafa búið á Ketilsstöðum og síðan Bjarni sonur hans, sem kallaður var Hákarla-Bjarni. Árið 1465 giftist hann Ragnhildi, dóttur Þorvarðar sonar Lofts ríka. Hann eignaðist þó ekki Ketilsstaði með henni, heldur Eiða, og fluttu þau þangað, en Ingibjörg systir Ragnhildar, kona Páls Brandssonar sýslumanns Eyfirðinga, hefur líklega fengið Ketilsstaði í sinn erfðahlut. Erlendur sýslumaður, sonur Bjarna og Ragnhildar, bjó þar hins vegar fram á 16. öld og er sagt að enskir sjómenn hafi farið þar að honum og drepið hann. Bjarni sonur Erlendar bjó á Ketilsstöðum fram um 1570; hann var stórauðugur og þótti mikill fyrir sér. Bessi Guðmundsson sýslumaður bjó á Ketilsstöðum frá 1712 og bjó þar til dauðadags 1723 og síðan Jórunn ekkja hans áfram í 30 ár. Árið 1747 flutti Pétur Þorsteinsson sýslumaður að Ketilsstöðum og bjó þar stórbúi til dauðadags 1795. Á meðal barna hans var Sigurður Pétursson sýslumaður og leikritaskáld. Páll Melsteð sýslumaður í Norður-Múlasýslu settist að á Ketilsstöðum 1821 og keypti jörðina. Bústýra hans þar fyrsta árið var Skáld-Rósa Guðmundsdóttir. Páll lét reisa mikið timburhús á Ketilsstöðum og var það fyrsta timburhús sem reist var á sveitabæ á Héraði. Oft var margbýlt á Ketilsstöðum og þar voru um skeið sex kotbýli í túninu eða rétt utangarðs: Hallberuhús, Hraukur, Kinn, Oddagerði, Steinagerði og Sigurðargerði. Áður höfðu hjáleigurnar Keldhólar og Útnyrðingsstaðir byggst úr landi jarðarinnar og urðu svo sjálfstæðar jarðir. Á síðari árum hafa nýbýlin Hlégarður og Ártún byggst úr landi jarðarinnar. Hálfkirkja var á Ketilsstöðum frá árinu 1500 fram til um 1900. Á árunum 1948-1968 hafðist Jóhannes Kjarval listmálari oftast við á sumrin í skúr í landi Ketilsstaða og er örnefnið Kjarvalshvammur kennt við hann. Xi Zhongxun. Xi Zhongxun (f. 15. október 1913, d. 22. maí 2002) var stjórnmálamaður í Alþýðulýðveldinu Kína, einn af stofnendum skæruliðahreyfingar kommúnista í Shaanxi-héraði í norðurhluta Kína, fyrrum varaforsætisráðherra landsins og taldist til fyrstu valdakynslóðar landsins með Maó Zedong. Hann starfaði sem yfirmaður áróðursdeildar Kommúnistaflokksins og síðar varaformaður þings Kommúnistaflokksins og varaforsætisráðherra landsins. Í „hreinsunum“ menningarbyltingar Maós var hann sendur til starfa í verksmiðju í Luoyang og í fangelsi árið 1968. Hann hóf aftur þátttöku í stjórnmálum er hann varð ríkisstjóri Guangdong og stýrði gríðarlegrar uppbyggingu þess. Hann er faðir Xi Jinping núverandi varaforseta Kína sem talinn er líklegur til að leiða næstu valdakynslóð. Æviferill. Xi Zhongxun fæddist árið 1913 í fjölskyldu landeigenda í Fuping-sýslu í Shaanxi-héraði. Hann gekk til liðs við Æskulýðshreyfingu Kommúnista í maí 1926 og í Kommúnistaflokk Kína árið 1928. Hann varð eins af stofnendum skæruliðahreyfingar kommúnista í Shaanxi-héraði í norðurhluta Kína. Á árunum 1959 til 1962 var hann varaforsætisráðherra landsins uns hann féll í ónáð í flokknum og var í menningarbyltingunni sakaður um óheilindi við Maós Zedong. Hann lenti í „hreinsunum“ og var sendur til starfa í verksmiðju í Luoyang og síðan í fangelsi árið 1968. Að Maó gengnum átti Xi Zhongxun endurkvæmt í stjórnmálin. Í mars 1978 var hann kjörinn sem annar flokksritari Guangdong-héraðs og síðan aðalritari flokksins í Guangzhou. Sama ár var hann kjörinn til miðstjórnar flokksins. Hann var gerður ríkisstjóra Guangdong-héraðs í Suður-Kína á árunum 1979 til 1981. Það var hann sem lagði til og kom í framkvæmd uppbyggingu Shenzhen sem fyrsta „fríverslunarsvæðis“ í Alþýðulýðveldinu Kína. Það varð síðan öðrum svæðum fyrirmynd. Þau urðu síðan grunnurinn að gífurlegum efnahagsframförum Kínverja á undanförnum áratugum. Í september 1982 var kjörinn fulltrúi í miðstjórn Kommúnistaaflokksins og í apríl 1988 var kjörin varaformaður sjöunda þings Kommúnistaflokks Kína. Hann þótti sýna umburðarlyndi gagnvart annarri menningu og trúarbrögðum. Hann var einn fárra talsmanna opin markaðshagkerfis innan Kína. Á níunda áratugnum var hann einn fárra talsmanna opnunar og var ofsóttur fyrir vikið. Í störfum sínum var hann einn lærifeðra verðandi leiðtoga Kína á borð við Hu Jintao núverandi foreta og Wen Jiabao núverandi forsætisráðherra. Hann var faðir Xi Jinping núverandi varaforseta Kína sem er nú talinn líklegur til að leiða næstu valdakynslóð Alþýðulýðveldisins. Hann lést 22. maí 2002 vegna veikinda. Fjölskylda. Xi Zhongxun var tvíkvæntur. Með annarri konu sinni, Qi Xin, áttu hann fjögur börn: Xi Qiaoqiao, Xi An'an, Xi Jinping (nú varaforseta Kína) og Xi Yuanping. Heimildir. Zhongxun, Xi Ásröður (landnámsmaður). Ásröður var fyrsti bóndinn á Ketilsstöðum á Völlum og telst í hópi landnámsmanna þótt hann kæmi ekki að ónumdu landi þar, heldur fékk hann öll lönd austan Lagarfljóts, milli Gilsár og Eyvindarár, í heimanmund með konu sinni, Ásvöru Herjólfsdóttur, dóttur Herjólfs Þorgeirssonar, sem nam Heydalalönd. Eftir að faðir hennar dó hafði móðir henanr gifst bróður hans, Brynjólfi gamla, landnámsmanns í Fljótsdal og á Völlum, og réð hann giftingu Ásvarar og fékk henni heimanmund. Landnámabók getur ekki um ætt Ásröðar en sonur þeirra Ásvarar var Þorvaldur holbarki. Dætur Holbarka voru Þórunn, kona Þorbjarnar Graut-Atlasonar, og Ástríður, formóðir Kolskeggs fróða, helsta heimildarmanns höfundar Landnámabókar um landnám í Austfirðingafjórðungi, og Finns Hallssonar lögsögumanns. Þjóðsögur segja að Ásröður hafi verið heygður í Rauðshaugi, á hálsinum milli Valla og Eyvindarárdals. Leiðtogar Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína. Leiðtogar Kommúnistaflokks Alþýðueldisins Kína eru leiðtogar Kommúnistaflokksins frá stofnun hans í maí, 1921. Deng Xiaoping. Deng Xiaoping var leiðtogi Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldis Kína 22. desember 1978 - 12. október 1992. Hann var lengi í útistöðum við stefnu Mao í kína, og komst ekki til valda fyrr en eftir dauða hans. Sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Alþýðulýðveldinu Kína var Deng siðbótarmaður sem leiddi Kína í átt að markaðshagkerfi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gegnt formlegu embætti sem þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar Kína þá var hann engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína frá 1978 til 1990. Jiang Zemin. Jiang Zemin var leiðtogi Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldis Kína frá 27. mars 1993 - 15. mars 2003. Hann tók við af Deng Xiaoping sem leiðtogi flokksins. Hann hafði mjög lítið bakland á bak við sig, þegar hann var kosinn formaður flokksins og var fyrst álitin vera aðeins til bráðabirgða. Undir forystu hans, upplifði Alþýðulýðveldið Kína gríðarlegar efnahagsumbætur; friðsamlega yfirtöku á stjórnun Hong Kong, Bretlands og Macau, Portúgals; og bætt samskipti við umheiminn. Á sama tíma hélt kommúnistaflokkurinn fast í stjórnartaumana. Hu Jintao. Hu Jinato er leiðtogi Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldis Kína frá 15. mars 2003 og situr enn í því hlutverki. Hann tók við af Jiang Zemin sem leiðtogi flokksins. Hann varð yngsti meðlimur í æstaráði flokksins árið 1992. Á valdatíma Hu hafa áhrif Kínverska Alþýðulýðveldisins í Afríku, Rómönsku Ameríku og öðrum þróunarríkjum aukist mjög. Efri-Núpur. Efri-Núpur eða Efrinúpur er bær og kirkjustaður í Núpsdal, sem er einn Miðfjarðardala inn af Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Efri-Núpur var áður í þjóðbraut því þaðan var gjarna farið upp á Arnarvatnsheiði og suður til Borgarfjarðardala og var þaðan talinn 10 klukkutíma gangur að efstu bæjum í Borgarfirði. Var algengt að ferðamenn tækju sér gistingu á Efra-Núpi, annaðhvort þegar þeir komu ofan af heiðinni eða áður en þeir lögðu á hana. Kirkja hefur verið á Efra-Núpi frá fornri tíð og var þar sérstakt prestakall fram yfir siðaskipti en eftir það útkirkja frá Staðarbakka. Nú er kirkjunni þjónað frá Melstað. Núverandi kirkja var vígð 1961 og kom hún í stað gamallar timburkirkju sem þá var rifin. Enn er þar kirkjuklukka frá 1510. Í kirkjugarðinum er leiði skáldkonunnar Vatnsenda-Rósu. Hún dó á Efra-Núpi 28. september 1855 en þar hafði hún tekið sér gistingu á heimleið úr kaupavinnu í Húnaþingi. Húnvetnskar konur komu fyrir minnismerki á leiði hennar árið 1965 og kemur árlega fjöldi gesta að Efra-Núpi til að heimsækja leiði skáldkonunnar. Wen Jiabao. Wen Jiabao (kínverska: 温家宝, fæddur 15. september 1942 í Tianjin í Alþýðulýðveldinu Kína) er kínverskur stjórnmálamaður og jarðfræðingur að mennt. Hann hefur frá 2003 gegnt stöðu forsætisráðherra og verið formaður ríkisráðsins. Lífs- og starfsferill. Wen Jiabao (温家宝) er forsætisráðherra fjölmennasta ríkis veraldar. Wen Jiabao fæddur á svæðinu Beijiao í Tianjin-héraði. Á árunum 1960-1965 nam hann við jarðfræðirannsóknir við Jarðfræðistofnunina í Beijing og á árunum 1965-1968 var hann við framhaldsnám við sömu stofnun þar sem hann fékk doktorsgráðu. Hann gekk í Kínverska kommúnistaflokkinn árið 1965. Í menningarbyltingunni vann hann verkfræðingur í Gansu-héraði, þar sem hann varð 1978, pólitískur forstöðumaður jarðfræðirannsóknarstofnunar héraðsins. Árið 1982 sneri aftur hann til Beijing og árið 1983 aðstoðarráðherra jarðfræði og námunýtingar. Wen var síðan skipaður sem forstöðumaður hinnar almennu skrifstofu Kommúnistaflokksins sem sá um daglegan rekstur leiðtoga flokksins. Þar var hann í átta ár. Þrátt fyrir að margir þeir sem voru við völd árið 1989, svo sem Zhao Ziyang, þegar óeirðir brutust út á Torgi hins himneska friðar (Tiananmen) virðist Wen Jiabao hafa haldið stöðu sinni í kjölfarið. Ástæður þess eru ókunnar. Árið 1998 fékk Wen Jiabao það hlutverk á skrifstofu forsætisráðherra að veita landbúnaðar-, umhverfis- og fjármálum forstöðu. Það hlutverk var talið mjög mikilvægt þar sem Alþýðulýðveldið var á leið inn í Heimsviðskiptastofnunina (WTO). Frá 1998 til 2002 varð hann ritari þeirrar nefndar sem hefur yfireftirlit með kínverska hagkerfinu. Í nóvember 2002 var Wen skipaður í fastanefndarinnar miðstjórnar flokksins, æðstu valdastofnunar Kína. Þar var hann þriðji í röð níu manna. Hann varð síðan í mars 2003 skipaður forsætisráðherra undir forsæti Hu Jintao. Hlutverk hans var að fylgja eftir efnahagslegum umbótum í Kína og jafnframt að tryggja að hagvöxtur landsins nái til fleiri þegna landsins, ásamt öðrum félagslegum markmiðum, svo sem almennri heilsugæslu og menntamálum. Wen Jiabao var endurkjörinn forsætisráðherra 16. mars 2008. Auk áðurnefndra markmiða hefur hann lagt mikla áherslu á efnahagslegan og stjórnmálalegan stöðuleika landsins. Hann hefur verið í áberandi hlutverki á erlendri grund að kynna utanríkisstefnu Kína og hefur orðið æ sýnilegri á alþjóðavettvangi um leið og sem efnahagsleg völd í Kína hafa aukist. Í fjölmiðlum hefur hann verið mun meira áberandi en Hu Jintao forseti. Í ræðu og riti hefur hann lagt áherslu á aukið lýðræði og frelsi til handa Kínverjum. Sumt af því hefur ekki þótt birtingarhæft í þarlendum ríkisfjölmiðlum. Einkalíf. Wen Jiabao er kvæntur Zhang Peili, skartgripasérfræðingi og fjárfesti, sem sjaldan sést opinberlega með Wen. Þau eiga son, Wen Yunsong, sem er forstjóri kínverska netfyrirtækisins Unihub, og dótturina Wen Ruchun. Tengt efni. Wen Jiabao Hundalíf. "Hundalíf" (enska: "One Hundred and One Dalmatians") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Productions. Myndin er byggir á skáldsögu "Hundrað og einn dalmatíuhundur" eftir enska rithöfundinn Dodie Smith frá 1956. Myndin var frumsýnd þann 25. janúar 1961. Kvikmyndin var sautjánda kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Clyde Geronimi, Hamilton Luske og Wolfgang Reitherman. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundur var Bill Peet. Tónlistin í myndinni er eftir George Bruns og Mel Leven. Árið 2003 var gerð framhaldsmynd, ', sem var aðeins dreift á mynddiski. Hundrað og einn dalmatíuhundur. "Hundrað og einn dalmatíuhundur" (enska: "The Hundred and One Dalmatians") er skáldsaga eftir breska rithöfundinn Dodie Smith. Í Bretlandi var hún fyrst gefin út árið 1956. Dómkirkjan í Bayeux. Dómkirkjan í Bayeux – (franska: "Cathédrale Notre-Dame de Bayeux") – er dómkirkja frá 11. öld í miðbæ Bayeux í Normandí. Kirkjan er helguð Maríu guðsmóður (Vorri frú). Þar hefur biskupinn í Bayeux aðsetur sitt. Hinn frægi Bayeux-refill var eign dómkirkjunnar. Kirkjan er friðlýst sem einn af þjóðardýrgripum Frakklands. Þar sem kirkjan stendur er forn helgistaður, allt frá tímum Rómverja. Síðar var byggð þar kirkja. Bygging núverandi dómkirkju hófst 1047 og hún var vígð 14. júlí 1077 að viðstöddum Vilhjálmi sigursæla hertoga af Normandí og konungi Englands. Það var hér sem Vilhjálmur neyddi Harald Guðinason til að sverja sér trúnaðareið, sem Haraldur svo sveik. Það leiddi til innrásar Normanna í England, 1066. Odo biskup í Bayeux, hálfbróðir Vilhjálms, tók þátt í innrásinni. Manresa. Manresa (katalónskur framburður: [mənrɛzə]) er höfuðstaður Bages-sýslu, sem er í landfræðilegri miðju Katalóníu á Spáni. Áin Cardener rennur í gegnum bæinn. Manresa er iðnaðarbær og þar er stundaður textíliðnaður, málmiðnaður og gleriðnaður. Heilagur Ignatius Loyola dvaldi í Manresa við bænagjörð árið 1522 eftir pílagrímsferð sína til Montserrat en eftir það hefur bærinn sjálfur orðið áfangastaður pílagrímsferða. Talið er að nafn sýslunnar, Bages, sé dregið af nafni Bakkusar, enda er mikil vínframleiðsla í héraðinu fyrr á tíð. Vínviður var ræktaður á stöllum og má víða sjá slíka stalla upp eftir hlíðum héraðsins. Vínlús "(phylloxera)" hefur orðið til þess að verulega hefur dregið úr vínframleiðslu en hún er þó enn mikilvæg atvinnugrein. Merkasta byggingin í Manresa er dómkirkjan Santa Maria de la Seu, sem er frá fjórtándu öld. Þar er einnig kirkjan Sant Ignasi frá 17. öld, en undir henni er hellirinn þar sem sagt er að heilagur Ignatius hafi dvalið við bænir og hugleiðslu. Yunnan. Yunnan héraðið hefur mikið aðdráttarafl, en náttúra þess er óvenju falleg og hefur að geyma mikla líffræðilega og landfræðilega fjölbreytni. Yunnan (einfölduð kínverska: 云南), merkir „suður ský“) er hérað í Alþýðulýðveldinu Kína, sem staðsett er í suðvesturhluta landsins við landamæri Búrma, Laos og Víetnam. Það er um 394.000 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg héraðsins er Kunming. Íbúar eru um 47 milljónir og 38% þeirra teljast til minnihlutahópa. Yunnan er fjallahérað með mikla hækkun fjalla í norðvestri en lægri fjalllendi í suðaustri. Flestir íbúanna héraðsins búa í austurhluta héraðsins. Yunnan er ríkt af náttúruauðlindum svo sem áli, blýi, sinki, tini, kopar og nikkel. Héraðið hefur mestan fjölbreytileika jurta í Kína. Yunnan hefur yfir 600 ár og vötn, sem fela í sér möguleika á virkjunum allt að 90 GW. Snjór á fjöllum í Diqing í norðvesturhluta Yunnan-héraðs. Yunnan varð hluti af Hanveldinu (206 f.Kr. – 220 e.Kr.) á 2. öld f.Kr. Það varð aðsetur konungsríkisins Nanzhao á 8. öld en það var fjölmenningarsamfélag. Mongólar hernámu héraðið á 13. öld en staðbundin stjórn stríðsherra réði ríkjum fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. Herseta Japana í seinni heimstyrjöldinni í Norður-Kína ýtti undir landflutninga til Yunnan. Konur af þjóðarbroti Hani í Yunnan. Í Yunnan búa um 46.710.000. Af þeim teljast 38% til minnihlutahópar eða þjóðarbrota á borð við Yi, Bai, Hani, Zhuang, Dai og Miao. Höfuðborg héraðsins er Kunming með 1,8 milljónir íbúa) er kölluð „borg hins eilífa vors“ vegna milds loftslags og gróskumikils gróðurs. Þar er miðstöð stjórnmála, viðskipta og menningar í Yunnan. Erhai vatn í Dali, Yunnan héraði. Konur af þjóðarbroti Zhuang í Guangnan í Yunnan. Hin þekkta Yangzi á í Yunnan héraði. Akrar í fjalllendi Yunnan héraðs. Stærstu lekar Wikileaks. Stærstu lekar Wikileaks eru lekar frá vefsetrinu Wikileaks. Wikileaks hefur þá stefnu að aðeins skjöl af pólítískum, diplómatískum, sögulegum eða siðferðilegum toga eru birt á vefnum. Með orðalaginu stærstu lekar vefveitunnar, er átt við leka frá Wikileaks sem hafa stór áhrif, annaðhvort á Wikileaks vefinn sjálfan, einstök lönd eða alla heimsbyggðina. Sómalískar morðskipanir. Í desember 2006 var fyrsti leki Wikileaks gefin út. Lekinn fjallaði um leynilega ákvörðun Hassan Dahir Aweys sem er leiðtogi andspyrnusamtakanna Islamic Courts Union í Sómalíu. Hann mælti í lekanum um dráp á opinberum ríkisstarfsmönnum með því að nota glæpamenn sem leigumorðingja. Óvíst var um áreiðanleika skjalsins og vonuðust Wikileaks til þess að notendahópur sinn myndi hjálpa við málið. Fjölskylduspilling Daniel arap Moi. 31. ágúst 2007 var breska blaðið "The Guardian" með forsíðufrétt þess efnis um spillingu fjölskyldu fyrrum kenýska leiðtogans Daniel Arap Moi. Dagblaðið gaf það út að fréttin væri byggð á heimildum Wikileaks. Julius Baer bankinn lögsækir Wikileaks. Í febrúar 2008 var Wikileaks.org lénið tekið niður eftir að svissneski bankinn Julius Baer Bank kærði Wikileaks og nafnaþjónsaðila þeirra, Dynadot, í Bandaríska ríkinu Kalíforníu og náðu fram varanlegum fyrirmælum sem skipuðu um lokunina. Wikileaks hafði hýst ásakanir um ólögleg athæfi bankans á Cayman eyjum. Hýsingaraðili Wikileaks í Bandaríkjunum, Dynadot, framfylgdi skipunninni með því að fjarlægja nafnaþjóns færslur. Hins vegar var enn þá hægt að komast á síðuna gegnum IP tölu hennar, og virkir meðlimir spegluðu Wikileaks á fjölmörgum stöðum víðs vegar um heiminn. Bandaríski héraðsdómurinn snéri við ákvörðun sinni um lokun Wikileaks. Rökin voru spurningar um fyrri takmarkanir og möguleg brot á fyrstu grein stjórnarskrárinnar. Wikileaks gat því sett síðuna sína upp aftur. Áframhald lögsóknar hefði sett bankann í hættu vegna laga í Kaníforníu sem verndar fólk sem hefur verið kært um að tala um opinber mál. Þetta er talið vera ástæðan fyrir því að bankinn áfrýjaði aldrei dómi héraðsréttarins. Dómarinn dró jafnframt til baka beiðni bankans um að banna birtingar vefsíðunnar. Vinnureglur í Guantánamo Bay. Afrit af "Staðlaðar vinnureglur fyrir Camp Delta" frá Bandaríkjaher, skrifað í mars 2003 var sett inn á heimasíðu Wikileaks 7. nóvember 2007. Skjalið, sem heitir „gitmo-sop.pdf“, er einnig speglað á vefsvæði tímaritsins Guardian. Skjalið lítur út fyrir að vera raunverulegt skjal af reglunum árið 2003 á herfangelsinu við Guantanamo-flóa á Kúbu. Skjalið segir að nýir fangar séu settir í einangrun fyrstu tvær vikurnar svo að yfirheyrslur rannsóknarmanna og til þess að auka og nýta skynleysi fangana í yfirheyrslum. Skjalið gefur einnig í skyn að sumir fangar hafi ekki verið aðgengilegir alþjóðadeild Rauða krossins, sem er nokkuð sem herinn hefur þegar neitað. Skjalið lýsir í smáatriðum hvernig fangar eiga að vera handjárnaðir, leitaðir, hreyfðir og hvernig handjárnin séu tekin af eftirá. 3. desember 2007 birti Wikileaks afrit af 2004 útgáfu af handbókinni, með nákvæmum lýsingum á breytingunum milli útgáfanna tveggja. Innihald Yahoo tölvupóstfangs Söruh Palin. Í september 2008 voru tekin skjáskot af Yahoo reikningi í eigu Söruh Palin. Sarah Palin var á þeim tíma í framboði til varaforseta Bandaríkjanna. Skjáskotin voru birt á vef Wikileaks, eftir að hópur sem kallar sig „Anonymous“ skurkaði sig inn á pósthóf hennar. Lekinn sýnir að Palin hefur notað einkapósthóf fyrir vinnu sína, sem brýtur í bága við lög um að opinberar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar, óski einstaklingur eftir því. Aðgangsbrotið á netpóstinum hennar var birt víðsvegar í almennum fjölmiðlum. Þó að Wikileaks hafi tekist að halda nafni tölvuþrjótsins leyndu þá var komist að hvaðan netpósturinn frá Palin kom. Tölvuþrjóturinn notaði proxy þjóninn Ctunnel, sem að hleypir skólakrökkum á vinsælar vefsíður með aðstoð proxy þjónsins, svo þeir komist í gegnum varnir skólans. Skurk er þó ekki á meðal þess sem er leyft á þjóninum. Stofnandi þjónsins er Gabriel Ramuglia og vegna ólölegs aðgangs hjálpaði hann alríkslögreglu Bandaríkjanna að finna hvaðan skurkið kom. Tölvuþrjóturinn reyndist vera David Kernell, 20 ára hagfræðinemi við háskólann í Tennessee og sonur opinbers fulltrúa demókrata frá Tennessee, Mike Kernell, frá Memphis. Listi yfir meðlimi í Breska þjóðarflokknum. Listi yfir meðlimi í Breska þjóðarflokknum birtust fyrst á bloggsíðu á netinu, sem var síðar eytt. Síðar birtist sami listinn á Wikileaks 18. nóvember 2008. Listinn birti persónulegar upplýsingar 13.500 meðlima Breska þjóðarflokksinns. Nokkur fjöldi af kennurum og lögregluþjónum eru á listanum. Samkvæmt samþykkt félags lögreglufulltrúa í Bretlandi er bannað að ganga til liðs við eða koma Breska þjóðarflokknum á framfæri. Að minnsta kosti einum lögregluþjóni var sagt frá störfum vegna listans. Flokkurinn var þekktur til þess að fara svoldið langt í að leyna upplýsingum um meðlimi sína. Þann 19. nóvember, sagði formaður flokksins, Nick Griffin, sagði að hann vissi hver upprunalega lak listanum og lýsti honum sem harðlínuyfirmanni sem sagði sig úr flokknum 2007. Listar yfir ritskoðun Internetsins. Wikileaks hefur birt lista yfir bönnuð eða ólögleg lén í nokkrum löndum. 19. mars 2009 birti Wikileaks svarta lista Áströlsku samskiptar stofnunarinnar. Forsaga málsins er að ástralska þingið tók til umræðu í Janúar 2008 lög um að netþjónustuaðilar ættu að sía út óæskilegt efni til heimila. Ríkistjórnin réttlætti lögin með því að segja að ritskoðunin sé ómissandi gegn baráttunni á barnaklámi, höfundarrétt og ærumleiðingum. Ljóst er að listinn er ekki vopn gegn barnaklámi eins og hann átti að vera. Margar síðana innihalda meðalmagn af fullorðinsefni, pókerráðum eða engu sem getur talist umdeilt. Samskiptaráðherra Ástralíu, Stephen Conroy, afneitaði listanum. Hann sagði listann ónákvæman og að hann sé ekki sá sem væri í prófunum. Svartur listi frá tælandi var birtur á Wikileaks. Julian Assange sagði í tengslum við þann lista að ritskoðunarkerfi væru "undantekningarlaust siðspillt". Tælenski listinn innihélt yfir 1.200 síður þar sem konungsfjölskyldan var gagnrýnd. Listinn átti upphaflega að berjast á móti barnaklámi. Listinn var síðast uppfærður 18. nóvember 2007 og inniheldur í heild sinni 50.000 vefsíður. Wikileaks hefur jafnframt birt svartan lista frá Danmörku og Noregi. Bilderberg Group fundarskýrslur. Síðan í maí 2009 hefur Wikileaks birt nokkrar fundaskýrslur Bilderberg Group, leynilegs félags konungsfjölskyldna og æðstu manna ríkistjórna Bandaríkjanna og Evrópu. Fundarskýrslunar eru flestar frá sjötta áratug 20. aldar. Fundarskýrslan frá árinu 1956 innihélt sögu hópsins. Olíuskandall Perú 2008. 28. janúar 2009 birti Wikileaks 86 símhleranir af perúskum sjtórnmála- og viðskiptamönnum tengdir perúska olíuskandalnum 2008, "Petrogate". Birting upptakanna fór á forsíður fimm perúskra dagblaða. Eiturefnalosun í Afríku: Minton skýrslan. 14. september 2009 gaf Wikileaks út skýrslu frá fyrirtækinu Trafigura um brennisteins efnaleka við eina stærstu borg Fílabeinstrandarinnar, Abidjan. Forsaga málsins byrjaði árið 2002, þegar að Cadereyta endurvinnslan, í Abidjan, Fílabeinströndinni, fékk of mikið af úrgangi frá Mexíkanska ríkisfyrirtækinu Pemex. Endurvinnslan hafði ekki búnað til þess að minnka brennistein og sílíkon díoxíð. Þeir reyndu sjálfir að vinna efnin, en það hafði áhrif á aðra vinnslu endurvinnslunar. Efnið var því flutt í ker, og 30 mánuðum síðar þegar kerið varð fullt var brennisteinninn losaður úr kerinu til að gera efnið seljanlegt. Eftir stóð brennisteinn sem endurvinnslan þurfti að losna við. Þeir reyndu að fá hann unnin annars staðar, en fannst að lokum verðið of dýrt. 500 tonnum af brennistein var því dælt í kringum Abdjan, stærstu borg Fílabeinstrandarinnar. 16 drápust við atvikið og 100.000 urðu fyrir heilsuvandamálum vegna lekans. Í kjölfarið sendi Breska lögfræðistofan Carter Ruck lögfræðistefnu til Noregs, Hollands, Eistlands, á tímaritið The Times og þáttinn Newsnight hjá BBC. Jafnframt var tímaritið Guardian kært fyrir að birta fyrirspurnir um málið á Breska þinginu. Málið olli titringi á samfélagsvefnum Twitter. Tilgangur málsóknanna var að stoppa umfjöllun um Trafigura málið. Bæði notendur á samfélagsvefnum Twitter og tímaritið Guardian hafa staðhæft að þau ótalmörg tvít sem voru um málið á Twitter höfðu haft áhrif á farveg lögsóknarinnar. Lögsóknin var síðar dregin til baka. Kaupþing. Wikileaks hefur birt innra skjal Kaupþings rétt fyrir hrun íslenska bankakerfisins, sem leiddi til kreppunnar 2008-2010. Kaupþing krafðist lögbanns á fréttaflutningi Ríkisútvarpsins úr lánayfirliti bankans. Kaupþing sagði ástæðu lögbannsins að vernda trúnaðarsamband sitt við viðskiptavini. Ekkert var þó hægt að aðhafast í málinu gagnvart Wikileaks, þar sem vefsíðan er utan íslenskrar lögsögu. Málið vakti mikla umfjöllun og óánægju íslensks almennings um að ekki mætti birta upplýsingar um mikilvæg mál. Lögsóknin á hendur RÚV var síðar dregin til baka, til að Kaupþing myndi ekki baka sér óvinsældir almennings. Í kjölfarið voru ákærur tengdar margmilljarðar evru láni til Exista og annarra stórra hlutabréfahafa eru í rannsókn. Bankinn er að reyna að ná til baka lánum tekinn af fyrrum starfsmönnum bankans fyrir hrun. Síðar, að frumkvæði Birgittu Jónsdóttur, sjálfboðaliða Wikileaks og íslensks þingmanns, var Wikileaks fengið til þess að vera ráðgefandi fyrir lög um Icelandic Modern Media Initiative. Það miðar að því að byggja upp verndun á hvaðan fréttir koma, fréttamönnunum og útgefendum fréttanna. Skýrsla bandarísku leyniþjónustunnar um Wikileaks. 15. mars 2010 setti Wikileaks á vefinn leynilega 32 blaðsíðna gagnleyniþjónustu greiningarskýrslu frá Varnamálaráði Bandaríkjanna frá því í mars 2008. Skjalið lýsti nokkrum áhugaverðum lekum sem höfðu átt sér stað á síðunni sem tengdust öryggismálum Bandaríkjanna og lýstu mögulegum leiðum til að skipuleggja félagið. Ritstjóri Wikileaks, Julian Assange, sagði að sumar upplýsingar skýrslunnar væru ekki alveg réttar og það sem hún mælti með væri gallað og einnig voru áhyggjur um Bandaríkjaher sem skýrslan olli bara í þykjustunni. Í skýrslunni var rætt hvort vega skyldi mögulega uppljóstrara með því að segja þeim upp og ákæra þá fyrir glæpsamleg athæfi. Ástæður fyrir árásinni voru meðal annars áberandi lekar svo sem eyðsla Bandaríkjanna á ýmsum búnaði, mannréttindabrot í Guantanamo Bay og bardaginn yfir íraska bænum Fallujah. Myndband frá flugárás í Bagdad. 5. Apríl 2010 sleppti Wikileaks trúnaðargögnum frá bandaríska hernum í formi myndefnis frá röð árása sem gerð var á Bagdad 12. júlí 2007 af bandarískri þyrlu sem drap 12, þar á meðal tvo fréttamenn frá Reuters, Saeed Chmagh og Namir Noor-Eldeen, á síðu sem nefndist „tryggingamorð“. Myndefnið var gert úr 39 mínútum af óbreyttu efni og 18 mínútum af efni sem hafði verið breytt og skýringartal sett inn á. Greiningar á myndbandinu bendir til þess að maður, sem var talinn bera AK-47 árásarriffil og annar með eldflaugahandsprengju, þó að „enginn hefði búist við óvinveittum aðgerðum.“ Bandaríski herinn gerði „óformlega“ rannsókn á atvikinu, en á eftir að gefa frá sér efni málsins (svo sem svarnar yfirlýsingar hermanna sem tengjast málinu eða áætlaðar skemmdir frá bardögunum) sem voru notuð, sem leiddi til þess að fréttin um málið var gagnrýnd sem „óvönduð“. Vikunni eftir birtingu fréttarinar varð leitarorðið "Wikileaks" með mesta vöxt á heimsvísu seinustu sjö daga samkvæmt mælingum Google. Handtaka Bradley Manning. 22 ára upplýsingasérfræðingur í her BNA, óbreyttur af fyrstu gráðu (fyrrum sérfræðingastöðu) Bradley Manning, var handtekinn eftir að meintir spjallrásarannálar voru sendir til yfirvalda af fyrrverandi hakkaranum Adrian Lamo, sem hann hafði treyst. Manning á að hafa sagt Lamo að hann væri með fréttaleka um flugárásirnar á Bagdad 12. júlí 2007 ásamt myndbandi af Granai flugárásinni og um 260.000 diplómatíska kapla sem fóru bæði til Wikileaks. Wikileaks sagði „ásakanir í Wired sem segja að okkur hafi verið sendir 260.000 bandarískir trúnaðarkaplar eru, að okkar bestu vitneskju, ósannar.“ Wikileaks hafa sagt að þeir hafa enn ekki getað staðfest hvort að Manning væri í raun uppljóstrari myndbandsins og segja „við söfnum aldrei persónulegum upplýsingum um uppljóstrara okkar“ en þeir hafa samt sem áður „tekið varúðarráðstafanir til þess að gæta öryggis hans og lagalega vörn.“ 21. júní sagði Julian Assange The Guardian að WikiLeaks hefði ráðið þrjá bandaríska glæpalögfræðinga til þess að verja Manning en að þeim hefði ekki verið veittur aðgangur að honum. Manning á að hafa skrifað að „alls staðar þar sem Bandaríkin gera sig heimakomna er diplómatískur skandall sem á eftir að uppljóstrast.“ Samvkæmt Washington Post lýsti hann köplunum einnig sem „útskýringu á hvernig vesturheimar nýta þriðja heiminn í smáatriðum frá innanverðu sjónarhorni.“ Á dagskrá. Wikileaks hafa sagst eiga myndbandsupptökur af fjöldamorði á borgurum í Afganistan framin af bandaríska hernum, ef til vill Granai fjöldamorðið, sem þeir eru að undirbúa að birtingu á fljótlega. Julian Assange hefur sagt að „akkúrat núna erum við með sköpun sögunnar í höndunum“. Sebrahestur. Sléttusebrinn vegur 175 – 385 kíló. Sebrahestar (einnig kallaðir "sebradýr") eru hófdýr og grasbítar af hestaætt. Helsta einkenni þeirra eru ljósar og dökkar rendur sem þekja allan skrokkinn. Sebrahestar eru algengastir um miðbik Afríku og í henni austanverðri og sunnanverðri, einkum á gresjum, en sumir sebrahestar lifa þó í fjalllendi. Greifasebri ("Equus grevyi"). Greifasebrar eru stærstu sebrahestarnir, nálægt 150 sentimetrar á herðakamb og 400 kíló á þyngd. Þeir finnast einkum í Kenía. Þeir þola vel þurrt loftslag. Fjallasebri ("Equus zebra"). Þessi tegund skiptist í tvær deilitegundir: "Höfðasebri" (Equus zebra zebra) er lágvaxinn og fáséður. "Hartmannssebri" (Equus zebra hartmanni) er stærri og nokkru algengari. Sléttusebri ("Equus burchelli"). Sléttusebrinn heldur sig á sléttum í austanverðri Afríku, frá Súdan í norðri og allt til Suður-Afríku. Hann er á stærð við smávaxinn hest. Ljón veiða oft sléttusebra. Kvaggi ("Equus quagga"). Kvaggar voru nokkuð frábrugðnir öðrum sebrahestum og útbreiddir um alla Suður-Afríku. Á ofanverðri 19. öld liðu þeir undir lok, mest vegna ofveiði. Reynt hefur verið með kynbótum að endurgera þetta dýr, en árangur er umdeildur. Soffía Loftsdóttir. Soffía Loftsdóttir var íslensk hefðarkona á 15. öld, dóttir Lofts ríka Guttormssonar riddara og Ingibjargar Pálsdóttur konu hans og líklega yngst barna þeirra. Hún var alsystir Ólafar ríku. Loftur Guttormsson gifti fimm barna sinna börnum þeirra Þorleifs Árnasonar, sýslumanns á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og í Vatnsfirði og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar. Ormur og Skúli, synir Lofts og Kristínar Oddsdóttur fylgikonu hans, giftust Sólveigu og Helgu Þorleifsdætrum, Ólöf Loftsdóttir giftist Birni Þorleifssyni hirðstjóra, Eiríkur slógnefur giftist Guðnýju Þorleifsdóttur og Soffía gekk að eiga Árna Þorleifsson 1434. Hefur hún þá líklega verið mjög ung. Soffía og Árni áttu soninn Þorleif, sem fæddist um 1437, en Árni dó um 1440. Soffía giftist aftur síðar Bjarna Ívarssyni. Hann var launsonur Ívars hólms Vigfússonar, sem sveinar Jóns Gerrekssonar brenndu inni á Kirkjubóli á Miðnesi 1432. Þau eignuðust einn son sem Ormur hét. Bjarni dó um 1473 og Soffía líklega skömmu síðar en þá var Ormur enn ungur að árum. Margrét Vigfúsdóttir, föðursystir Bjarna og mágkona Soffíu (ekkja Þorvarðar bróður hennar) tók hann að sér og sá um fjárhald hans. Um það og arf eftir Soffíu urðu síðar deilur milli Margrétar og sona Þorleifs, Árna og Teits, síðar lögmanns, en þeir vildu fá fjárráð Orms föðurbróður síns og arf eftir Soffíu ömmu sína. Eiríkur Loftsson slógnefur. Eiríkur Loftsson slógnefur (um 1415 – febrúar 1473) var íslenskur höfðingi á 15. öld, bóndi á Auðbrekku í Hörgárdal og Grund í Eyjafirði. Eiríkur var sonur Lofts Guttormssonar ríka og konu hans, Ingibjargar Pálsdóttur. Árið 1445 giftist hann Guðnýju Þorleifsdóttur, dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar og Þorleifs Árnasonar á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og í Vatnsfirði. Fjögur systkini Eiríks giftust systkinum Guðnýjar. Þau Eiríkur og Guðný bjuggu fyrst á Auðbrekku en síðar á Grund í Eyjafirði. Synir Eiríks og Guðnýjar voru Þorvarður, sem var annar forsprakki þeirra sem voru í Krossreið síðari, og Þóroddur. Launbörn Eiríks voru Sumarliði bóndi á Grund, faðir Eiríks Sumarliðasonar ábóta í Þingeyraklaustri, og Guðrún, fylgikona Gottskálks Nikulássonar grimma Hólabiskups og móðir Odds Gottskálkssonar, þýðanda Nýja testamentisins. Hæstiréttur Bandaríkjanna. Hæstiréttur Bandaríkjanna er æðsta dómsstig Bandaríkjanna. Hæstarétt Bandaríkjanna skipa níu hæstaréttardómarar og gegnir einn þeirra um leið embætti forseta hæstaréttar. Í samráði við og með staðfestingu öldungadeildarinnar skipar Forseti Bandaríkjanna hæstaréttardómara. Hæstaréttardómarar eru æviráðnir, að viðhöfðu virðulegu hátterni samkvæmt þriðju grein stjórnarskrárinnar, og halda þeir embætti sínu til andláts, þar til þeir segja af sér, setjast í helgan stein eða hljóta sakfellingu vegna formlegrar ákæru um embættisafglöp fyrir landsdómi "(e. impeachment)". Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmir fyrst og fremst í málum áfrýjuðum til hans af lægri dómsstigum í Bandaríkjunum en til eru einstaka mál þess eðlis að fyrsta dómsstig þeirra er hjá honum. Með óformlegum hætti er oft talað um hæstarétt Bandaríkjanna sem háréttinn "(e. High Court)" og/eða skótus "(e. SCOTUS)", en hið síðarnefnda er skammstöfun enska heiti réttarins "(e. Supreme Court of the United States)", borið fram eins og samsetning bókstafanna gefur til kynna. Húsakynni hæstaréttar Bandaríkjanna eru í Washington. Saga. Hæstiréttur Bandaríkjanna er eini dómstólinn sem kveðið er á um í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Upphaflega átti hæstirétturinn að standa saman af sex hæstaréttardómurum en hafa þeir verið níu talsins nær alla tíð frá upphafi hans. Hæstiréttur Bandaríkjanna kom fyrst saman árið 1790. Fyrst um sinn komu fá mál á borð hæstaréttar Bandaríkjanna en fyrsta dómsuppkvaðning hans varð í réttarfarsmáli West gegn Ellsworth árið 1791. Á þeim tíma var hæstirétturinn án húsakynna og heimilisfangs og skorti almennt virðingu og upphefð. Á tíma John Marshall í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna, á árabilinu 1801-1835, urðu miklar breytingar á háttum réttarins, upphefð hans og virðingu. Meðal þeirra breytinga sem urðu þá var yfirlýsing réttarins um að hann væri æðsti túlkandi stjórnarskrárinnar og einnig féllu dómar sem drógu skýrar línur um hlutverk hans í hinu stjórnarskrárbundna valdajafnvægi milli ríkjanna og alríkisins. Við lok embættistíðar John Marshall lagði rétturinn niður þá aðferð að hver hæstaréttardómari kvæði upp sinn eigin úrskurð og var þess í stað tekin upp aðferð meirihlutaúrskurða, þ.e. að einfaldur meirihluti hæstaréttardómara kvæði upp einn sameiginlegan dómsúrskurð, og hefur sá háttur verið hafður allar götur síðan þá. Fjöldi hæstaréttardómara. Stjórnarskrá Bandaríkjanna tekur ekki sérstaklega fram fjölda dómara í hæstaréttinum en samkvæmt þriðju grein stjórnarskrárinnar hefur Bandaríkjaþing yfirráð til að ákveða fjölda dómara. Samkvæmt lögum um dómstólaskipan "(e. Judiciary Act of 1789)" frá árinu 1789 kveður á um að skipaðir séu sex dómarar. Eftir því sem landið stækkaði landfræðilega bætti Bandaríkjaþing við dómurum til að samsvara aukinni yfirferð dómstólanna "(e. judicial circuits)". Bætt var við einum dómara árið 1807 og þannig urðu þeir sjö, níu árið 1837 og tíu árið 1863. Samkvæmt lögum um dómstólaskipun frá árinu 1869 var ákveðið það ár að dómarar skyldu vera níu talsins og hefur sá fjöldi verið sá sami allar götur síðan. Skipun dómara í hæstarétt Bandaríkjanna. Önnur grein stjórnarskrár Bandaríkjanna veitir Bandaríkjaforseta umboð til að tilnefna dómara en þó einungis með ráðgjöf og samþykki öldungadeildar. Flestir forsetar tilnefna dómara í hæstarétt sem deilir sömu hugmyndafræði en það tryggir þó ekki að sá dómari sem tilnefndur var af viðkomandi forseta taki ákvarðanir út frá því sem er forsetanum í hag. Þar sem stjórnarskráin setur ekki fram nein skilyrði sem dómari þarf að uppfylla getur forsetinn tilnefnt hvern sem er í stöðu dómara. Öldungadeildin þarf þó alltaf að samþykkja dómara áður en hann öðlast stöðu sína sem dómari hæstaréttar. Samþykki öldungadeildar felst í að einfaldan meirihluta þarf til að samþykkja eða hafna frambjóðanda. Ekki samþykkir öldungadeildin alltaf þá sem forsetinn tilnefnir en það hefur gerst 12 sinnum þar sem öldungadeildin tók afgerandi stöðu gegn tilnefningu forsetans og höfnuðu því frambjóðandanum en það telst þó afar sjaldgæft að slíkt gerist. Seta í embætti. Að meðaltali sitja hæstaréttardómarar í meira en 25 ár áður en þeir ýmist segja af sér eða láta lífið. Í ársbyrjun 2005 var meðal starfsaldur núverandi dómara rétt undir 20 ár og sá sem yngstur var í starfinu hafði setið frá árinu 1994. Þar sem svona hár starfsaldur ríkir hjá hæstaréttardómurum er farið afar varlega í ráðningar en það er vegna þess að bæði er vilji fyrir því að ráða dómara sem deila sömu pólitísku hugmyndafræðinni og þeir og von er um að þeir komi til með að halda áfram að hafa áhrif á þá hugmyndafræði næstu áratugina. Að sama skapi er farið afskaplega varlega í þessa ráðningu sökum þess hversu neyðarlegt það getur verið út frá pólitísku sjónarmiði að tilnefna einhvern sem síðar meir er uppvís að smánarlegu leyndarmáli, hvort sem það tengist fjölskyldu eða frama. Sá dómari sem lengst hefur setið í hæstarétti er William O. Douglas, sem sat 36 ár og 209 daga. Douglas sem var einn eindregnasti talsmaður persónufrelsis og borgaralegra réttinda í sögu réttarins var skipaður 15. apríl 1939 af Franklin D. Roosevelt sem eftirmaður Louis O. Brandeis. Þrátt fyrir að hafa fengið heilablóðfall í desember 1974 neitaði Douglas að láta af störfum fyrr en 12. nóvember 1975. Eftirmaður Douglas var John Paul Stevens. Hæstiréttur og pólitík. Dómarar hæstaréttarins eru ekki studdir opinberlega af stjórnmálaflokkum eins og þekkist hjá framkvæmdar- og löggjafarvaldinu. Þeim er hinsvegar skipt óformlega niður í þrjá flokka, íhaldssama, frjálslynda og svo þeir sem eru mitt á milli. Þessi skipting tengis þó einungis lagalegri hlið málsins þar sem dómarar eiga að vera óháðir flokkum. Hæstiréttur er ekki laus við pólitísk tengsl en hver dómari ræður til sín aðstoðarmenn sér til stuðnings. Aðstoðarmenn dómarans hafa óskrifað vald sem felst í að hugmyndir þeirra koma fram í gegnum skrif á dómum sem þeir vinna fyrir sinn dómara. Hefur það tíðkast að dómarar velji sér aðstoðarmenn sem tengjast einum flokk fremur en öðrum og má í því samhengi nefna Clarence Thomas hæstaréttardómara, en hann hefur ráðið til sín 84 aðstoðarmenn á 20 árum og hafa þeir allir tengst Repúblikanaflokknum. Valdsvið hæstaréttar. Valdsvið hæstaréttar afmarkast í öðrum hluta þriðju greinar stjórnarskrár Bandaríkjanna. Valdsviðinu má skipta í tvo hluta og eru það annarsvegar mál sem rétturinn getur tekið upp beint og hinsvegar mál sem hefur verið áfrýjað frá öðrum dómsstigum. Dómurinn velur mál sem gjarnan eru deilumál innan þjóðfélagsins, mál sem snúa ýmist að þinginu eða forseta landsins og mál sem krefjast túlkunar á stjórnarskránni. Þetta eru þá frekar óskráðar reglur þar sem hæstiréttur útskýrir aldrei ástæðu valsins. Hæstiréttur getur tekið upp mál án þess að þeim hafi verið áfrýjað til réttarins. Hæstiréttur er í hlutverki fyrsta dómsstigs í ákveðnum tegunda mála. Dæmi um slík mál eru þegar sendiherrar eða aðrir ráðherrar eiga hlut að máli, í málum þar sem ríki er annar málsaðili og þegar ríki fer í mál við annað ríki vegna deilna. Núverandi Dómarar. John G. Roberts (f. 1955, skipaður árið 2005 af George W Bush) Antonin Scalia (f. 1936, skipaður árið 1986 af Ronald Reagan) Anthony Kennedy (f. 1936, skipaður árið 1988 af Ronald Reagan) Clarence Thomas (f. 1948, skipaður árið 1991 af George H.W. Bush) Ruth Bader Ginsburg (f. 1933, skipuð árið 1993 af Bill Clinton) Stephen Breyer (f. 1938, skipaður 1994 af Bill Clinton) Samuel Alito (f. 1950, skipaður 2006 af George W. Bush) Sonia Sotomayor (f. 1954, skipuð 2009 af Barack Obama) Elena Kagan (f. 1960, skipuð 2010 af Barack Obama) Forsetar Hæstaréttar. John Jay, (1789 - 1795) skipaður af George Washington John Rutledge, (1795) skipaður af George Washington Oliver Ellsworth, (1796-1800) skipaður af George Washington John Marshall, (1801-1835), skipaður af John Adams Roger B. Taney, (1836-1864), skipaður af Andrew Jackson Salmon P. Chase, (1864-1873), skipaður af Abraham Lincoln Morrison Waite, (1874-1888), skipaður af Ulysses S. Grant Melville Fuller, (1888-1910), skipaður af Grover Cleveland Edward D. White, (1910-1921), skipaður af William Howard Taft William H. Taft, (1921-1930), skipaður af Warren G. Harding Charles E. Hughes, (1930-1941), skipaður af Herbert Hoover Harlan F. Stone, (1941-1946), skipaður af Franklin D. Roosevelt Fred M. Vinson, (1946-1953), skipaður af Harry S. Truman Earl Warren, (1953-1969), skipaður af Dwight D. Eisenhower Warren E. Burger, (1969-1986), skipaður af Richard M. Nixon William Rehnquist, (1986-2005), skipaður af Ronald Reagan John G. Roberts, (2005-), skipaður af George W. Bush Þorsteinn Eggertsson. Þorsteinn Eggertsson (f. 25. febrúar 1942) er myndlistarmaður, söngvari og textahöfundur. Hann var um tíma söngvari hjá KK sextettinum, söng með með Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík og fleiri hljómsveitum. Hann fór í myndlistanám í Kaupmannahöfn og varð 1963 fréttaritari Alþýðublaðsins í Kaupmannahöfn og þegar hann sneri frá námi 1965 gerðist hann blaðamaður við tvö táningatímarit og fór að semja dægurlagatexta fyrir hljómplötur að áeggjan Þóris Baldurssonar sem þá var í Savanna tríóinu. Eftir Þorsteinn liggur mikið magn dægurlagatexta en rúmlega fjögur hundruð þeirra hafa verið gefnir út á hljómplötum og geisladiskum. Bilderberg Group. Bilderberg Group er leynilegt félag, stofnað árið 1952, með meðlimi sem spanna frá Rockefeller fjölskyldunni til konungsfjölskyldna Evrópu og Bandaríkjanna ásamt æðstu mönnum í ríkistjórnum þeirra. Meðal margra fremstu fjármagns og viðskiptamanna er litið á Bilderbarg jafnhátt og æðsta ráð fremstu presta kapítalismans. Ekki er hægt að bjóða sig fram í slíkan hóp og í stað þess velur sérstök nefnd innan hópsins meðlimi. Leyndin innan hópsins er jafnframt á hernaðarstigi. Nöfn meðlima eru ekki nefnd í fundarskýrslum og meðlimir ræða ekki hvað hafi farið fram á fundinum. Hópurinn tekur ekki á móti Asíu-búum, fólki frá Suður Ameríku, eða Afríkubúum. Jón Magnússon á Svalbarði. Jón Magnússon ríki (1480 – 1564) var íslenskur höfðingi á 16. öld, bóndi og lögréttumaður á Svalbarði við Eyjafjörð. Hann hafði einnig bú á Skriðu (Rauðuskriðu) í Reykjadal og var stórauðugur. Hann var ættfaðir Svalbarðsættar. Jón var sonur Magnúsar Þorkelssonar, bónda á Grýtubakka í Höfðahverfi, Grenivík, Svalbarði og síðast í Rauðuskriðu og um tíma sýslumanns í Vaðlaþingi, og konu hans Kristínar, dóttur Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum og víðar, sonar Arnfinns Þorsteinssonar hirðstjóra. Magnús faðir Jóns gaf honum hálft höfuðbólið Svalbarð árið 1517 en hinn helminginn keypti hann í nokkrum bútum á árunum 1518-1522 og áttu afkomendur hans jörðina mjög lengi. Jón var sagður vitur maður og forspár og var talinn fjölkunnugur. Til er bréf frá 1543 þar sem Jón Arason biskup gefur Jóni Filippussyni prófasti umboð til að veita Jóni Magnússyni aflausn fyrir „fordæðuskap, fjölkynngi og galdra“. Guðbrandur Þorláksson biskup hafði þetta bréf í bréfasafni sínu og hefur líklega stuðst við það þegar hann kærði Jón lögmann, son Jóns Magnússonar, fyrir ýmsar sakir og sagði í kæruskjalinu að faðir lögmanns hefði meðkennt upp á sig allra handa galdra og einnig að hann hefði „þá brúkað í langa tíð, og það, að hann hafi þar með mörgum manni skaða gert“. Þrátt fyrir þetta hélt Jón Magnússon virðingu sinni og var alltaf í röð mestu höfðingja. Jón sýktist af sárasótt sem gekk á Íslandi um 1560 „í þá daga áður menn færi að brúka tóbak“, eins og segir í "Magnúsar sögu prúða", og er sagt að hann hafi ekki viljað þiggja lækningu. 10. ágúst 1562 segist hann vera mjög að þrotum kominn vegna elli og krankleika, en hann dó 1564. Fyrri kona Jóns var Ragnheiður á rauðum sokkum, dóttir Péturs Loftssonar ríka, bónda í Stóradal í Eyjafirði. Þau eignuðust sjö börn sem upp komust og urðu flest nafnkunn. Elst var Steinunn, sem fyrst var fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, giftist svo Ólafi Jónssyni í Snóksdal og seinast Eggert Hannessyni; þá Sólveig kona Filippusar Brandssonar á Svínavatni á Ásum, sem vó Hrafn Brandsson lögmann; Þórdís kona Þorgríms Þorleifssonar í Lögmannshlíð; og synirnir, Magnús prúði, Staðarhóls-Páll, Jón lögmaður á Vindheimum og Sigurður sýslumaður á Reynistað. Ragnheiður var dáin fyrir 1540 og árið 1553 giftist Jón aftur Guðnýju Grímsdóttur, dóttur Gríms Pálssonar sýslumanns á Möðruvöllum og ekkju Jóns Sturlusonar í Dunhaga, en Elín dóttir Guðnýjar og Magnús prúði sonur Jóns höfðu gengið í hjónaband nokkru fyrr. Jón og Guðný áttu ekki börn saman en launsonur Jóns var Kolbeinn klakkur, bóndi á Einarslóni á Snæfellsnesi. Afkomendur Jóns ríka kallast Svalbarðsætt - stundum Svalbarðsætt síðari því önnur eldri ætt hafði verið kennd við Svalbarð. Heiðar Már Guðjónsson. Heiðar Már Guðjónsson (f. 22. apríl 1972) er íslenskur hagfræðingur sem starfar fyrir fjárfestingarfélag í Sviss. Hann var í hópi fjárfesta sem átti hæsta tilboð í opnu útboðsferli Sjóvár 2010. DV hefur sakað hann um að taka stöðu gegn krónunni í aðdraganda bankahrunsins en hann hefur stefnt blaðinu fyrir meiðyrði. Félagið var selt öðrum aðilum og í kjölfari birtist Heiðar Már í viðtali og sagði Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, hafa hótað að siga lögreglunni á hann og að tilboð hans hafi verið 5 milljörðum hagstæðara en tilboðið sem tekið var. Heiðar Már varaði við óumflýjanlegri leiðréttingu krónunnar, með tilheyrandi skakkaföllum í efnahagslífinu, frá árinu 2005. Heiðar hefur fullyrt í viðtali að engin lán tengd honum hafi nokkurn tímann verið afskrifuð, né heldur á eignarhaldsfélög sem hann átti hlut í eða sat í stjórn. Heiðar hefur lýst því yfir að hann telji að Ísland eigi að leggja niður íslensku krónuna og taka upp einhliða annan gjaldmiðil. Ævi. Heiðar Már fæddist á Íslandi en ólst upp í Svíþjóð. Faðir hans er Guðjón Magnússon, fyrrverandi aðstoðarlandlæknir, prófessor og rektor og móðir hans Sigrún Gísladóttir, kennari og skólastjóri. Heiðar Már er kvæntur Sigríði Sól Björnsdóttur og eiga þau þrjú börn. Heiðar Már lauk stúdentsprófi við Verslunarskóla Íslands og hagfræðigráðu við Háskóla Íslands. Hann vann hjá Fjárvangi, Íslandsbanka, og stýrði vogunarsjóðnum GIR Capital Investment fyrir Kaupþing. GIR var kynntur fjárfestum á Íslandi á kynningarfundi á Hótel Holti „við lok síðasta árþúsunds“. Samkvæmt einum fundargestinum var útskýrt á fundinum hvernig hægt væri að forðast skattlagningu fjárfestingar í sjóðnum og boðin aðstoð við það. Skattrannsóknarstjóri ákvað að hefja rannsókn í byrjun árs 2009. Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Lífeyrissjóður bænda og Stapi, lífeyrissjóður (þá Lífeyrissjóður Norðurlands) fjárfestu í GIR-sjóðnum á Caymaneyju. Árið 2005 varð Heiðar Már meðeigandi (e. partner) í Novator Partners, London. Í frétt DV frá 2010 var Heiðar sagður „undanfarin ár [hafa] verið í innsta hring með Björgólfi Thor.“ Heiðar Már sagði á forsíðu Fréttatímans hafa fjármögnunaraðila fyrir sæstreng til Evrópu, en framkvæmdin gæti kostað um 450 milljarða króna. Wide Open Spaces. "Wide Open Spaces" er breiðskífa með hljómsveitinni Dixie Chicks sem kom út 23. janúar 1998. Breiðskífan varð til þess að áheyrendaskari hljómsveitarinnar stækkaði; fyrst og fremst samanstóð hann af ungum konum sem gátu séð sjálfar sig í bæði hljómsveitarmeðlimum og textum þeirra. Tónlist Dixie Chicks kom þeim í efstu 5. sætin á bæði kántrí- og poppvinsældalistum. Þannig seldist "Wide Open Spaces" í 12 milljón eintökum á kántrívettvanginum einum saman en það reyndist vera met hjá dúett eða hljómsveit í sögu kántrítónlistar. Fram til 2008 seldust 12 milljónir eintaka af plötunni í heiminum öllum og hlaut hún þannig demantssöluverðlaun. Næsta árið komu út þrjár smáskífur af breiðskífunni og komust allar í efsta sæti kántrí-vinsældalistanna; „There's Your Trouble“, „You Were Mine“ og titillagið „Wide Open Spaces“. Fly. "Fly" er breiðskífa með hljómsveitinni Dixie Chicks sem kom út 31. ágúst 1999. Breiðskífan fór beint inn í efsta sæti Billboard 200-vinsældalistans og seldist í meira en 10 milljón eintökum. Níu smáskífur voru gefnar út af plötunni þar á meðal lögin „Cowboy Take Me Away“ og „Without You“ sem komust bæði í fyrsta sæti. Hljómsveitin fór í sérstakt tónlistarferðalag, Fly Tour fyrir plötuna. Hljómsveitin var aðalatriðið á ferðalaginu, en fram komu einnig gestaflytjendur; þeir Joe Ely og Ricky Skaggs á hverjum tónleikum og annað veifið einnig Sarah McLachlan, Sheryl Crow og aðrar kventónlistarmenn sem tóku þátt í Lilith Fair. Refsing. a> voru áður algengar refsingar og tíðkast sumstaðar enn. Refsing er neikvæð viðbrögð yfirvalds af einhverju tagi við óæskilegu eða bönnuðu athæfi eða hegðun og hefur yfirleitt í för með sér meiri eða minni óþægindi fyrir þann sem brotið hefur af sér. Yfirvaldið sem ákvarðar refsinguna og leggur hana á hinn brotlega getur ýmist verið einstaklingur, hópur eða heilt samfélag og refsingin getur verið óformleg, allt frá því þegar foreldri refsar barni sínu fyrir óþekkt eða yfirsjón með því að slökkva á sjónvarpinu yfir í harðar refsingar (fangelsisrefsingar og í sumum löndum líkamsrefsingar og dauðarefsingar) dómstóla og réttarkerfis fyrir alvarlega glæpi og jafnvel refsingar sem beinast gegn heilum þjóðum, til dæmis með viðskiptabanni eða jafnvel hernaðaraðgerðum. Húsdýr. Húsdýr eru dýr, sem hafa lengi aðlagast manninum og komið honum að notum með vinnu sinni eða afurðum, oft að lokinni tamningu og ræktun. Þótt sagt sé, að dýrategund teljist með húsdýrum, er ekki átt við, að allir einstaklingar af henni geti kallast húsdýr. Venjulega eru einnig fjölmörg dýr, sem eru algerlega villt. Þannig nýta Samar til dæmis hreindýr sem húsdýr, þótt víða annars staðar gangi þau villt og séu ekki notuð nema til veiða. Með húsdýrum eru gjarnan talin þau dýr, sem veita fólki félagsskap á heimilum þess, til dæmis skrautfuglar og gullfiskar, þótt lítið annað gagn sé af þeim að hafa. Um slík dýr finnast einnig orðin heimilisdýr og gæludýr. Á íslensku eru þessi tvö orð oft notuð, svo að orðið "húsdýr" nær fremur til hefðbundinna nytjadýra. Á þýsku er þessu öfugt farið, svo að gæludýr yfirtaka oft í daglegu tali orðið húsdýr (Haustier). Steinunn Jónsdóttir á Melstað. Steinunn Jónsdóttir (um 1513 – eftir 1593) var íslensk hefðarkona á 16. öld. Hún var af Svalbarðsætt, dóttir Jóns Magnússonar ríka á Svalbarði og Ragnheiðar á rauðum sokkum Pétursdóttur, konu hans, og var hún elst af börnum þeirra. Steinunn gerðist fylgikona séra Björns Jónssonar, sonar Jóns biskups Arasonar, og er kaupmáli þeirra dagsettur 25. apríl 1534. Sama ár hófu þau búskap á Melstað í Miðfirði, þar sem Björn var prestur, og bjuggu þar uns hann var tekinn af lífi í Skálholti haustið 1550 ásamt föður sínum og bróður. Þau áttu þá sjö börn, það elsta tólf ára, og því er sagt að Björn hafi sagt, þegar hann var leiddur á höggstokkinn: „Æ og æ, börnin mín, bæði ung og mörg.“ Börnin voru: Jón sýslumaður á Holtastöðum og síðar á Grund í Eyjafirði (1538 – 1613), Bjarni bóndi á Brjánslæk (um 1540 – eftir 1616), Árni bóndi á Sauðafelli í Dölum (um 1540 - um 1590), Magnús bóndi á Hofi á Höfðaströnd og víðar (1541 – eftir 1625), Ragnheiður (f. um 1545), kona Sigurðar Bjarnasonar lögréttumanns á Stokkseyri og formóðir Stokkseyrarættar, Halldóra (f. um 1545), kona Bjarna Pálssonar á Skriðu í Hörgárdal, og Teitur (um 1549 – 1619), lögréttumaður á Hofi í Vatnsdal og Holtastöðum í Langadal. Ekki löngu eftir aftöku Björns giftist Steinunn Ólafi Jónssyni, syni Jóns Einarssonar sýslumanns á Geitaskarði í Langadal og konu hans Kristínar, dóttur Gottskálks Nikulássonar biskups. Þau bjuggu í Snóksdal og hugsanlega áður á Hofi í Vatnsdal. Þau eignuðust eina dóttur, Guðrúnu (1553 – 1648), sem giftist Hannesi Björnssyni lögréttumanni í Snóksdal. Seinasti maður Steinunnar var Eggert Hannesson hirðstjóri og lögmaður í Bæ á Rauðasandi og víðar, og var hún seinni kona hans. Hann fluttist til Hamborgar 1580 og dó þar þremur árum síðar. Höfðu þau Steinunn þá slitið samvistir og varð hún eftir á Vestfjörðum og lifði fram yfir 1593. Vestur-Barðastrandarsýsla. Vestur-Barðastrandarsýsla er sýsla á Vestfjörðum og er nú tvö sveitarfélög, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur. Þau hafa með sér töluvert samstarf þótt Tálknafjarðarhreppur hafi kosið að taka ekki þátt í sameiningu hinna sveitarfélaganna í sýslunni í eitt sveitarfélag. Sýslumörkin að norðan við Vestur-Ísafjarðarsýslu eru frá Langanestá í Arnarfirði upp á Glámu, en á Glámuhálendinu eru mörk fjögurra sýslna, Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Mörkin milli Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu eru um Skiptá í Kjálkafirði upp á Glámu. Úti á Breiðafirði liggja sýslumörkin sunnan Stagleyjar. Í sýslunni voru áður eftirtalin sveitarfélög: Barðastrandarhreppur, sem náði frá sýslumörkum í Kjálkafirði út á Skorarhlíðar. Þar tók Rauðasandshreppur við og náði að Altarisbergi á Raknadalshlíð. Áður náði hreppurinn að Tálknatá, á nesinu milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar, en Patrekshreppi var skipt úr honum sem sérstöku sveitarfélagi árið 1906. Tálknafjarðarhreppur náði eins og nú frá Tálknatá að Kálfadalsá og þar tók Ketildalahreppur við að Skorarnúpi. Loks náði Suðurfjarðahreppur þaðan að sýslumörkum á Langanestá. Flateyjarhreppur tilheyrði áður Vestur-Barðastrandarsýslu en nú Dalabyggð. Í norðurhluta sýslunnar eru fremur þröngir firðir (Arnarfjörður, Tálknafjörður og Patreksfjörður) og undirlendi fremur lítið en miklir og breiðir sandar setja svip á suðurhlutann. Víða eru sæbrött fuglabjörg, þar á meðal Látrabjarg, stærsta fuglabjarg við norðanvert Atlantshaf. Ysti oddinn heitir Bjargtangar og þar nær Ísland lengst í vestur. Helstu höfuðból sýslunnar til forna voru Selárdalur, Saurbær á Rauðasandi, Brjánslækur og Hagi á Barðaströnd. Víða eru fornar verstöðvar en nú eru þrír þéttbýlisstaðir í sýslunni, Patreksfjörður, Tálknafjörður og Bíldudalur. Kirkjur eru í Haga, á Brjánslæk, í Saurbæ, í Breiðuvík, í Sauðlauksdal, á Patreksfirði, á Tálknafirði, í Stóra-Laugardal, á Bíldudal og í Selárdal. Sýslumaður Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu hefur aðsetur á Patreksfirði. Þar eru líka skrifstofur sveitastjórnar Vesturbyggðar, heilsugæslustöð og læknisþjónusta. Sögufélag Skagfirðinga. Sögufélag Skagfirðinga er félag sem hefur það að markmiði að skrásetja allt sem lýtur að sögu Skagafjarðar og gefa út rit sem hana varða. Félagið er elsta héraðssögufélag landsins sem enn starfar, stofnað 1937, og hefur það gefið út yfir 80 rit sem tengjast sögu Skagafjarðar. Sögufélagið hefur frá 1966 gefið út tímaritið "Skagfirðingabók". Sjá höfundaskrá á heimasíðu félagsins. Aðalverkefni félagsins undanfarin ár hefur verið að gefa út "Byggðasögu Skagafjarðar" en af henni eru nú komin út fimm bindi. Félagið hefur einnig gefið út ritröðina "Skagfirskar æviskrár". Á heimasíðu félagsins er leitarvél til að finna í hvaða bindi tiltekin æviskrá birtist. Núverandi formaður félagsins er Hjalti Pálsson. Into the Wild. Into the Wild getur átt við bók, gefna út 1996 eða kvikmynd árið 2007, framleidd af Sean Penn. Sama saga getur jafnframt átt við heimildarmynd frá árinu 2007, The Call of the Wild, eða dagbókarfærslur Christopher McCandless. Sagan fjallar um "Christopher A. McCandless", nýútskrifaðan framhaldskólastúdent. Hann ákvað að fara í puttaferðalag til þess að uppgötva sjálfan sig. Á leiðinni fór hann upp og niður Austur Bandaríkin, fór í heimsókn til Mexíkó og endaði í Alaska. Christopher kemur frá fjölskyldu þar sem bæði hann og systir hans, Carrie, voru lausaleiksbörn. Faðir hans var enn giftur annarri konu þegar að hann átti þau tvö. Faðir hans, Walt McCandless rak og stofnaði flug ráðgjafar fyrirtæki ásamt eiginkonu sinni og stjúpbróður. Walt, og kona hans áttu mörg rifrildi sín á milli, sem leiddu til þess að bæði Christopher og systir hans Kerin minnkuðu samskipti sín við foreldra sína. Kerin fór þó aldrei það langt að yfirgefa foreldra sína, eins og Christopher gerði. Í leit sinni að hvernig lífið ætti að vera fór hann í puttaferðalag. Hann ákvað að hann myndi vera eins lengi og hann þyrfti til að gera upp hug sinn. Hann gaf háskólasjóð sinn til til góðgerðarmálefnisins Oxfram áður en hann fór. Christopher er ekki mjög félagslynd persóna en hann kann bækur eftir Lev Tolstoj, Henry David Thoreau og Jack London utanað. Hann er gjarn á að vitna úr bókum þessara þriggja höfunda. Fótgangandi um Bandaríkin. Á ferðalögum sínum kallaði hann sig "Alexander Supertramp". Alexander er millinafn Christopher McCandless og "supertramp" er til marks um ferðalög hans. Hann skildi við bíl sinn í Arizona eyðimörkinni og hélt áfram gangandi í austurátt. Á leið sinni rakst hann á ferðalanga í hjólhýsum. Í Suður Dakóta vann hann hjá Wayne Westerberg við hrísgrjónaframleiðslu. Christopher hélt góðum samskiptum við Wayne, þangað til hann lét verða af enn stærri draum sínum, að ferðast til Alaska. Ferðir Cristophers héldu áfram á kanó, sem hann keypti sjálfur, niður Colorado ánna. Hann fór alla leið suður að Hoover stíflunni. Þar fór hann í gegnum flóðgáttir stíflunnar. Hinum megin stíflunnar var mýrlendi, en hann hélt áfram til Mexíkó og varð síðar fundinn af leiðsögumönnum í fuglaveiði. Hann var vísaður úr landi og endaði í Las Vegas þar sem hann bjó á götunni, árið 1991. Ferð til Alaska. Í aprílmánuði, 1992 fór hann til Alaska, fyrst til Fairbanks og byrjaði ferð sína þar rétt sunnan við Healy. Hann tók með sér 6kg af hrísgrjónum og hélt áfram Stampede gönguleiðina. Eftir aðeins tvo daga, féll hann í ísilagt vatn, samkvæmt dagbók hans. Á fjórða degi göngunnar fann hann yfirgefna rútu sem notaður er af veiðimönnum. Hann kallaði rútuna "Magic Bus", í dagbók sinni. Á 67 degi, eða eftir rúmlega tíu vikur í Alaska hélt hann til baka til Healy. Hann gekk 16km og þá stöðvaði fljótið Tenlankika för hans. Miklir vatnavextir voru í ánni, og Christopher komst ekki lengra. Hann fór því aftur í rútuna og reyndi að lifa af. Síðustu dagbókarfærslur Christophers segja frá að hann hafi verið í sínu versta ástandi ævi sinnar. Christopher dó að lokum í rútunni og vóg 30kg. Hann fannst eftir að veiðimaður hafði lokið veiðiferð sinni á elg. Þar sem rútan er hefðbundinn hvíldarstaður veiðimanna á svæðinu, hélt hann áfram þangað og fann Christopher. Við dánarbeð hans fannst bækurnar The terminal man, Doctor Zhivago og Edication of a Wnadering man. Ásamt bókunum var 22 kalíbera riffill, myndavél og dagbók sem lýsti 113 dögum hans í Alaska allt fram til ágústsmánuðar. Í rútunni hafði Christopher skrifað: "Enginn sími. Enginn sundlaug. Engin gæludýr. Engar sígarettur. Algjört frelsi...aldrei aftur fangelsaður af samfélaginu flýr hann og gengur einn í óbygðum til þess að verða týndur í óbyggðum." Bókin Into the Wild. Bókin Into the Wild var útgefin árið 1996. Við undirbúning bókarinnar hafði höfundur hennar, Jhon Kraukner farið í ítarlega rannsóknarferð, sem hófst árið 1993. Hann fann vísbendingar um för Christopher eina í einu, frá bílnum sem Cristopher skildi eftir, til Wayne Westerberg, sem Christopher hafði víðtækustu áhrif á. Stærsti þátturinn í bókinni var þó þegar að hann vann traust systur Christophers, sem sýndi honum höfuðkúpuna í skáp bróður síns. Það var fyrst þá, að Kraukner skildi afhverju Christopher fór upphaflega í þessa ferð. Kvikmyndin Into the Wild. Kvikmyndin var leikstýrð af Sean Penn og gefin út 21. september 2007. Kvikmyndin hefur áherslu á þau persónulegu tengsl sem Christopher myndar með sér á leiðinni. Kvikmyndin flakkar á milli þriggja sjónarhorna. Fyrsta sjónarhornið er frá æsku Christophers, annað sjónarhornið sýnir frá ferð hans í Alaska og það þriðja frá ferð hanns um Bandaríkin. Öll þessi sjónarhorn koma fyrir til skiptis í kvikmyndinni og fyrir vikið þá fylgir myndin engann veginn tímaröð þeirra atburða sem að Christopher lenti í. Kvikmyndin The Call of the Wild. Kvikmyndin The Call of the Wild fer yfir þær spurningar sem ekki hefur verið svarað. Fræin sem Christopher át, í Alaska eru rannsökuð og talað við marga af þeim sem Christopher vingaðist við. Myndin hefur ekki verið útgefin enn sem komið er. Benni og Birta í Ástralíu. "Benni og Birta í Ástralíu" (enska: "The Rescuers Down Under") er bandarísk teiknimynd framleidd af Walt Disney Feature Animation. Myndin er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Björgunarsveitin" frá árinu 1977, byggir á bókum eftir enska rithöfundarins Margery Sharp. Myndin var frumsýnd þann 16. nóvember 1990. Kvikmyndin var tuttugasta og nítjánda kvikmynd Disney-kvikmyndaversins í fullri lengd. Leikstjórar myndarinnar voru þeir Hendel Butoy og Mike Gabriel. Framleiðandinn var Thomas Schumacher. Handritshöfundar voru Jim Cox, Karey Kirkpatrick, Byron Simpson og Joe Ranft. Bill O'Reilly. Bill O'Reilly". Bill O'Reilly (f. 10. september 1949) er bandarískur fjölmiðlamaður og þáttastjórnandi með sinn eigin þátt á sjónvarpsfréttastöðinni Fox News. Þátturinn heitir The O'Reilly Factor en hann hefur verið í loftinu alla virka daga síðan 1996 og snýr að beinskeyttum og ögrandi pólitískum umræðum. Í þættinum er svokallað „No Spin Zone“ en það á að vera svæði þar sem aðeins er talað um staðreyndir og ekkert reynt að fegra hlutina né tala í kringum þá. O'Reilly er einnig rithöfundur en hann hefur skrifað bækur út frá þættinum, þær þekktustu eru The O'Reilly Factor og. Báðar hafa þær náð fyrsta sæti á metsölulista "The New York Times". Ferillinn. Bill O'Reilly er fæddur og uppalinn á Long Island í New York fylki, hann stundaði nám við Marist-háskólann í Poughkeepsie í New York og útskrifaðist þaðan með gráðu í sagnfræði. Eftir það fór hann í Boston University og aflaði sér meistaragráðu í fjölmiðlafræði með áherslu á útsendingar svo sem sjónvarp og útvarp. Sjónvarpsferill hans hófst í Scranton í Pennsylvaníu með viðkomu, meðal annars, í Dallas, Oregon, Hartford og Boston. Árið 1980 stjórnaði hann eigin þætti á WCBS sjónvarpsstöðinni í New York og ekki löngu eftir það starfaði hann sem fréttaritari fyrir CBS á stríðshrjáðum svæðum í El Salvador og á Falklandseyjum. Hann fór að vekja meiri athygli á seinni hluta 9. áratugarins sem fréttaritari fyrir Worlds News Tonight á ABC fréttastofunni og einnig sem fréttaflytjandi í Inside Edition. Eftir aðeins þrjár vikur í þættinum tók hann við sem stjórnandi næstu sex árin, á þessum árum fékk þátturinn metáhorf. Árið 1995 hætti O'Reilly sem þáttastjórnandi til að nema meistarafræði í stjórnsýslu við Harvard-háskóla og eftir útskriftina var honum boðinn sinn eigin þáttur hjá Fox fréttastofunni. Hann greip tækifærið og þannig varð The O'Reilly Factor til. Umdeildur. Bill O'Reilly er umdeildur í Bandaríkjunum fyrir sterkar skoðanir sínar. Nýjasta dæmið er þegar hann var gestur í spjallþættinum The View og yfirlýsingar hans urðu til þess að tveir af þáttastjórnendunum gengu út. Umræðuefnið var moskan sem byggja á nærri þar sem Tvíburaturnarnir féllu í hryðjuverkaárásinni 11. september 2001, O'Reilly sagði að þar sem það hefðu verið múslimar sem urðu fjölda bandarískra borgara að bana þann dag ætti ekki að reisa mosku á þessum stað, það væri einfaldlega óviðeigandi. Joy Behar og Whoopi Goldberg var nóg boðið þegar þær heyrðu þetta og gengu því út. O'Reilly hefur verið sakaður um að láta sprengjur líkt og þessar falla til þess að vekja athygli á sér og selja fleiri bækur en það er ljóst að hann er óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós þó að þær séu umdeildar. Umbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna. Umbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna voru veigamikill þáttur í bandarísku forsetakosningunum 2008. Fulltrúar demókrata, Hillary Clinton og Barack Obama, lögðu bæði fram hugmyndir um umbætur á heilbrigðiskerfinu sem var ætlað að bæta aðgengi almennings til heilbrigðisþjónustu. Ríflega tveimur árum eftir að Obama hafði sigrað kosningarnar, þann 23. mars 2010, undirritaði hann heilbrigðisfrumvarpið (enska:"The Patient Protection and Affordable Care Act"). Frumvarpið olli deilum á Bandaríkjaþingi og skiptar skoðanir voru á lögmæti þess. Repúblikanar töldu frumvarpið fela í sér brot á stjórnarskrá, með því að heimila yfirtöku stjórnvalda (enska: "Government takeover") í einkageiranum og skylda þegna til að kaupa heilbrigðistryggingar. Lögin munu taka gildi í áföngum, en lokaáfanginn er áætlaður árið 2018. Auk þess að fela í sér aukin réttindi borgara til heilbrigðisþjónustu er lögunum ætlað að draga úr halla ríkissjóðs um 143 milljarða dollara á fyrsta áratug eftir gildistöku þeirra. Obama var tíðrætt um frumvarpið á opinberum vettvangi, bæði í kosningabaráttu sinni og þegar hann hafði tekið við forsetaembættinu. Hann hefur lagt áherslu á að heilbrigðisþjónusta sé hluti af réttindum borgara, en ekki forréttindi. Ennfremur gagnrýndi hann starfshætti tryggingafélaga. Eftir að frumvarpið hafði verið samþykkt sagði Obama í sjónvarpsávarpi að þetta væri birtingarmynd breytinga: „"This is what change looks like"“. „"Change"“ (íslenska: "Breytingar") var eitt af lykilorðunum í kosningabaráttu Obama. Ferill frumvarpsins í Bandaríkjaþingi. Obama byrjaði að vinna að umbótum á heilbrigðiskerfinu fljótlega eftir að hafa tekið forsetaembættinu. Í febrúar 2009 var boðaði Obama þingdeildir á sameiginlegan fund, þar sem unnið var að áætlun til að koma á fyrirhuguðum umbótum. Í mars 2009 hóf Obama umbótaferilinn formlega og hélt ráðstefnu fyrir mikilvæga aðila innan heilbrigðisgeirans. Obama óskaði eftir því að frumvarpið færi í gegn um báðar þingdeildir áður en hlé yrði gert á störfum þeirra yfir sumarið, en það markmið náðist ekki. Þar sem frumvarpið mætti andstöðu margra þingmanna var komið á samvinnu milli repúplikana og demókrata. Öldungadeildarþingmaðurinn Max Baucus leiddi það starf, og gerði í kjölfar þess breytingar á frumvarpinu sem tóku mið af áherslum beggja flokka. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að kostnaðurinn við umbæturnar lækkaði talsvert. Þessar breytingar komu einnig í veg fyrir að um alhliða almenningstryggingar (enska: "Public insurance option") væri að ræða. Ferill frumvarpsins í Öldungadeild. Ferill frumvarpsins öldungadeildinni var tímabundið stöðvaður vegna hótana þingmanns repúplikana fyrir Nebraska, Ben Nelson, um að kæfa það í málþófi (enska: "Filibuster"). Nelson hvarf frá fyrirætlunum sínum eftir að frumvarpinu var breytt á þann hátt að Medicaid-kerfi Nebraska hlaut hærri fjárstuðning en upphaflega stóð til. Frumvarpið var afgreitt í Öldungadeild Bandaríkjaþings 24. desember 2009 með 60 atkvæðum með og 39 á móti. Allir þingmenn demókrata sem og óháðir, kusu með frumvarpinu, en allir repúblikanar kusu gegn því. Ferill frumvarpsins í Fulltrúadeild. Þegar frumvarpið var lagt fyrir fulltrúadeildina, var nokkuð ljóst að það hefði ekki nægan stuðning til að verða samþykkt. Talið var að demókratar sem taka afstöðu gegn fóstureyðingum myndu kjósa gegn því, þar sem í frumvarpinu var upphaflega ákvæði um fjárhagslegan stuðning alríkisins til fóstureyðinga. Til að tryggja stuðning þessa hóps var ákvæðinu breytt þannig að fjárhagslegur stuðningur til fóstureyðinga fengist einungis ef um væri að ræða þungun í kjölfar nauðgunar, sifjaspells eða þegar líf móður er í hættu. Í kjölfar þessara breytinga fékkst stuðningur leiðtoga þessa hóps demókrata, sem tryggði samþykkt frumvarpsins í fulltrúadeildinni. Í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings var frumvarpið samþykkt 21. mars 2010, með 219 atkvæðum gegn 212. Allir 178 þingmenn repúblikana í fulltrúadeildinni kusu gegn því, ásamt 34 þingmönnum demókrata. Heilbrigðiskerfið var óskilvirkt. Árið 2009 fór um 17% af þjóðarframleiðslu til útgjalda til heilbrigðismála, sem er hærra hlutfall en í öllum öðrum iðnríkjum. Samkvæmt rannsókn sem birtist á vegum tímaritsins Health Affairs voru, árið 2007, heildarútgjöld til heilbrigðisþjónustu 2,4 þúsund milljarðar eða $7900 á hvern íbúa Bandaríkjanna. Út frá því nam kostnaður við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum 52% meira á mann heldur en í því landi sem kemur næst á eftir Bandaríkjunum hvað varðar útgjöld til heilbrigðisþjónustu, sem er Noregur. Fjárlagaskrifstofa þingsins (enska: "Congressional Budget Office") áætlaði að án breytinga á heilbrigðiskerfinu myndi þetta hlutfall vera orðið 25% af þjóðarframleiðslu, árið 2025. Demókratar hafa talið heilbrigðisútgjöld vera byrði á ríkinu, vegna þess að kerfið hafi ekki verið nægilega skilvirkt og fjármunum hafi verið sóað. Umbætur áttu því að stemma stigu við útgjöldum og lækka fjárlagahallann. Fjöldi Bandarískra þegna var án heilbrigðistrygginga. Hlutfall ótryggðra Bandaríkjamanna hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum. Sífellt færri Bandaríkjamenn hafa góðar heilbrigðistryggingar og því ekki aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Fyrir setningu laganna voru um 46 milljónir Bandaríkjamanna án heilbrigðistrygginga og 25 milljónir í viðbót höfðu ekki fullnægjandi heilbrigðistryggingar. Ein stærsta ástæðan fyrir þessu var sú að margir atvinnuveitendur höfðu hætt að bjóða stafsmönnum sínum tryggingar vegna of mikils kostnaðar. Önnur ástæða fyrir þessu var sú að tryggingafélög neituðu einstaklingum með heilsufarsvandamál, eða slæma heilsufarssögu, um tryggingar. Grunnhugmynd Obama var að skapa ríkisstyrkt heilbrigðiskerfi sem tryggir alla Bandaríkjamenn á svipaðan hátt og Medicare tryggingakerfið, sem þegnar yfir 65 ára aldri hafa einir átt kost á hingað til. Annað markmið Obama var að koma í veg fyrir að tryggingafyrirtæki mismuni einstaklingum á grundvelli heilsufars. Obama hefur sett fram leiðir til að fjármagna nýja heilbrigðistryggingakerfið. Í því felst meðal annars hagræðing á Medicaid og Medicare heilbrigðisþjónustunum. Obama hefur bent á að með bættu heilbrigðiskerfi megi uppræta þá misnotkun og sóun sem er til staðar í núverandi kerfisskipan. Ennfremur er skattahækkunum á tekjuhærri einstaklinga hugsaðar til að fjármagna þessar umbætur á heilbrigðiskerfinu. Tryggingamiðlanir á vegum ríkjanna (enska: "Health Care Exchange"). Mikilvægur þáttur í nýju heilbrigðislögunum eru tryggingamiðlanir (enska: "Health Care Exhange"). Með stofnun slíkra miðlana á að koma á fót vettvangi þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um hvernig tryggingar eru nú í boði fyrir almenning. Upphaflega markmiðið var að þessar tryggingamiðlanir myndu starfa á vettvangi alríkisins. Þessu var breytt á þann hátt að lögin kveða nú á um að sjálfstæðar tryggingamiðlanir munu starfa á vegum ríkjanna. Ríkin munu fá styrki frá alríkinu sem þau nýta til að setja upp tryggingamiðlanir. Ef ríkin ákveða að nýta ekki þessa styrki sem skyldi þá mun alríkið grípa í taumana. Tilgangur tryggingamiðlana. Með því að koma á fót tryggingamiðlunum sem starfræktar eru af ríkjunum, er reynt að tryggja að ríkin geti gert hagstæða samninga við tryggingafélög fyrir þegna sína, og miðlað þeim svo áfram til einstaklinga. Með því að koma á fót slíkum miðlunum er komið á stjórnskipulagi sem hefur umsjón með skráningu trygginga og auðveldar flutningshæfni trygginga, til að mynda þegar fólk skiptir um atvinnu eða flytur búferlum. Ennfremur er þessum miðlunum ætlað að auka gagnsæi og neytendavernd innan heilbrigðistryggingakerfisins. Tryggingamiðlunum er ætlað að bjóða neytendum upp á mismunandi valkosti á heilbrigðistryggingum þar sem áhersla er lögð á verðsamkeppni. Einnig er lögð áhersla á að upplýsa neytendur um það hvaða vernd mismunandi tegundir tryggingaleiða fela í sér, þær eiga því að þjóna ráðgjafahlutverki. Annað hlutverk þessa vettvangs er að leiða til umbóta á tryggingamarkaðnum og koma í veg fyrir að fólki sé neitað um tryggingar sökum heilsufars. Ólíkt fyrirkomulag tryggingamiðlana. Nokkur ríki hafa nú þegar komið á fót tryggingamiðlunum. Tryggingamiðlun Utah hefur komið slíkri á fót, en íbúar geta nálgast upplýsingar og verslað tryggingar á vefsíðu miðlunarinnar. Rekstraraðilar miðlunarinnar í Utah skilgreina ákveðna skilmála sem tryggingarfélögum ber að uppfylla. Að þeim uppfylltum fá tryggingafélögin aðgang að miðluninni, þar sem neytendur geta sjálfir valið þau tryggingafélög sem henta þeim best. Tryggingamiðlun Massachusetts starfar eftir öðrum formerkjum. Þar er ríkið viðskiptavinur tryggingafélaga, sem kaupir hagstæðustu tryggingarnar út frá verði og tryggingavernd og endurselur svo íbúum innan ríkisins tryggingarnar. Gagnrýnisraddir. Deilan um heilbrigðislögin tengist málaflokkum sem lengi hafa verið átök um í bandarískum stjórnmálum, sérstaklega varðandi aukin ríkisafskipti alríkisvaldsins (enska: "The Federal Government") og aukna skattheimtu. Andstæðingar frumvarpsins hafa bent á að með heilbrigðislögunum og öðrum breytingum á skattkerfinu, sé verið að grafa undan grunnstoðum bandarísks samfélags, sem ættu að byggjast á lágmarks ríkisafskiptum og frjálsum markaði. Heilbrigðisfrumvarpið hefur valdið talsverðum stjórnmáladeilum, bæði áður en það var samþykkt og eftir að það varð að lögum. Helstu andstæðingar heilbrigðislaganna hafa verið liðsmenn teboðshreyfingarinnar og repúblikanar, en einnig hafa nokkrir hægrisinnaðir demókratar verið á móti þeim. Helstu ágreiningsmál í þessari deilu hafa snúið að auknum umsvifum alríkisins, og aukinni skattlagningu á tekjuháa einstaklinga. Svör Obama við gagnrýni. Obama hefur svarað gagnrýni á heilbrigðislögin með því að leggja áherslu á að þau snúist ekki um stjórnmál, heldur um það að heilbrigðiskerfið sé að sliga bandarískar fjölskyldur. Of mörg mannslíf og lífsviðurværi fjölda bandarískra fjölskyldna væru í húfi. Hann hefur ennfremur lagt áherslu á að nýju heilbrigðislögin taki mið af sjónarmiðum repúblikana og demókrata. Þau feli ekki í sér ríkisrekið heilbrigðiskerfi líkt og margir vinstrisinnaðir hafi viljað koma á í fortíðinni. Þau feli heldur ekki í sér það sem margir á hægri væng hafi sagt, að þeim reglum sem tryggingafélög þurfi að fara eftir muni fækka. Þess í stað, sameini lögin hugmyndir frá bæði repúblíkönum og demókrötum, þar sem báðir flokkarnir komu að því að semja lögin. Dauðastjórnir (enska: "Death Panels"). Sarah Palin er hugmyndasmiðurinn á bakvið hugtakið „dauðastjórnir“ (enska: "Death Panels"), sem hún taldi að heilbrigðislögin myndu leiða til. Í því felst að komið verði á stjórn af skrifræðisfólki (enska: "bureaucrats") á vegum hins opinbera, sem muni hafa ákvörðunarvald um hvort einstaklingar geti haldið áfram að fá heilbrigðisþjónustu eða ekki. Heilbrigðisþjónusta verði skömmtuð og hið opinbera skrifræðisfólk muni skammta þá þjónustu. Sú skömmtun muni byggjast á framleiðslugetu einstaklingins í samfélaginu. Þannig muni heilbrigðiskerfið flokka einstaklinga sem verðuga eða óverðuga til að hljóta heilbrigðisþjónustu. Þetta muni bitna fyrst og fremst veikum einstaklingum, öldruðum og fötluðum. Gagnrýnisraddir, bæði af hálfu demókrata og repúblikana hafa látið í ljós að þessar staðhæfingar séu mjög langsóttar og eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Howard Dean, fyrrverandi formaður demókrataflokksins, sagði staðhæfingar hennar einfaldlega ósannar. Jack Kingston, fulltrúardeildarþingmaður repúblikana, hefur einnig sagt hugmynd Palin ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Álit almennings. Áður en lögin voru samþykkt voru háð fjölmörg mótmæli gegn þeim. Auk teboðshreyfingarinnar voru repúblikanar meðal þeirra sem skipulögðu fjöldamótmæli og hvöttu almenning til þátttöku í mótmælum gegn frumvarpinu. Útvarpsmaðurinn og repúblikaninn Glenn Beck var einn af þeim sem hvatti almenning til að rísa upp gegn ætlunum Obama. Í mars 2010, skömmu eftir að Obama hafði undirritað lögin, var gerð könnun á vegum USA TODAY og Gallup, til að kanna viðhorf almennings gagnvart lögunum. 49% þátttakenda voru hlynntir þeim en 40% mótfallnir þeim. 48% töldu heilbrigðislögin vera fyrsta skrefið í rétta átt, en frekari umbóta væri þörf. 4% sögðu að lögin sjálf fælu í sér mikilvægustu umbætur sem heilbrigðiskerfi þjóðarinnar þyrfti á að halda. Henging. Henging í mjög stuttri ól og án fallhlemms. Henging felst í því að binda annan endann á kaðli eða öðru traustu reipi ("hengingaról") utan um hálsinn á manni, venjulega með hengingarhnút (sá hluti af kaðlinum nefnist "snara"), en festa hinn endann fyrir ofan manninn (oft á "gálga" eða "gálgaás"), svo að hann hangi í kaðlinum, þegar undirstaðan fyrir fætur hans er síðan fjarlægð (til dæmis með "fallhlemmi"). Súrefni berst þá ekki til heilans, sem leiðir til köfnunar og dauða, sé ekki komið fljótt til hjálpar. Oft brotnar háls mannsins einnig. Henging hefur í ýmsum löndum verið notuð til að framfylgja dauðarefsingu eða sem hluti af umfangsmeiri aftöku. Á Íslandi þótti henging óvirðulegur dauði og var ætluð óærlegum dauðamönnum (einkum þjófum), en afhöfðun með exi var ætluð ærlegum dauðamönnum. Sverðdragari. Sverðdragari er fisktegund sem lifir viðsvegar og hefur þá sérstöðu að geta breytt um kyn þegar á þarf að halda. Leonardo DiCaprio. Leonardo Wilhelm DiCaprio (fæddur 11. nóvember 1974) er bandarískur leikari og kvikmyndaframleiðandi. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga, þar á meðal Golden Globe-verðlaun fyrir besta leikara eftir frammistöðu sína í "The Aviator" (2004). Þar að auki hefur hann meðal annars unnið Silfurbjörn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, Chlotrudis-verðlaun og Satellite-verðlaun og verið tilnefndur af Screen Actors Guild og BAFTA. DiCaprio, sem var fæddur og upp alinn í Los Angeles í Kaliforníu, hóf leikferil sinn á því að koma fram í sjónvarpsauglýsingum áður en hann landaði hlutverki í sápuóperunni "Santa Barbara" og gamanþættinum "Growing Pains" snemma á tíunda áratugnum. Fyrsta kvikmyndahlutverk hans var í grín-hryllingsmyndinni "Critters 3" (1991) en hann vakti fyrst markverða athygli fyrir frammistöðu sína í "This Boy's Life" (1993). DiCaprio hlaut svo vaxandi frægð með aukahlutverkum í myndunum "What's Eating Gilbert Grape" (1993), "Marvin's Room" (1995), "The Basketball Diaries" (1996) og loks með aðalhlutverki í "Romeo + Juliet" (1996). Árið 1997 lék hann í tekjuhæstu kvikmyndinni fram til ársins 2010, "Titanic" undir leikstjórn James Cameron, sem gerði DiCaprio þekktan um heim allan. Fleiri myndir sem hafa hlotið jákvæða umfjöllun gagnrýnenda eru "Catch Me If You Can" (2002), "Gangs of New York" (2002), "The Aviator" (2004), "Blood Diamond" (2006), "The Departed" (2006) og "Revolutionary Road" (2008). Nýjustu myndir hans, "Shutter Island" (2010) og "Inception" (2010) vöktu mikla athygli og þénuðu vel. DiCaprio er eigandi framleiðslufyrirtækisins Appian Way Productions. Stígvélaði kötturinn. Stígvélaði kötturinn hittir fólk á akri. Stígvélaði kötturinn (finnst einnig nefndur "Stígvélakötturinn") er þekktastur sem persóna í frönsku ævintýri ("Le Maistre Chat, ou Le Chat Botté"), sem Charles Perrault samdi í lok 17. aldar. Fátækur malarasonur fær kött í föðurarf. Hann reynist geta talað og vill láta smíða á sig stígvél, sem malarasonurinn lætur eftir honum. Síðan leggur kötturinn af stað, og honum tekst með brögðum að færa húsbónda sínum bæði auðæfi og prinsessu sem konuefni. Áður hafði Giovanni Francesco Straparola skráð áþekka sögu ("Costantino Fortunato"). Það hafði Giambattista Basile einnig gert ("Pippo"). Fleiri eldri sögur má finna, sem svipar nokkuð til sögunnar eftir Perrault. Ekki hefur verið sýnt fram á, að hann hafi þekkt neina þeirra. Gerðar hafa verið 15 kvikmyndir um stígvélaða köttinn, auk þess sem hann kemur fyrir í myndunum um Skrekk ("Shrek"). Grimmsbræður tóku upp í ævintýrasafn sitt eina gerð af sögu Perraults, nokkuð frábrugðna. Ludwig Tieck gerði leikrit eftir henni. Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj notaði stígvélaða köttinn í þriðja þætti af ballettinum "Þyrnirós". César Cui og Xavier Montsalvatge sömdu hvor um sig óperu um hann. Ævintýrið um stígvélaða köttinn var fyrst gefið út á íslensku af Kristjáni Ó. Þorgrímssyni árið 1880 í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. Ýmsir aðrir Íslendingar hafa með einhverjum hætti fengist við stígvélaða köttinn, þar á meðal: Auður Haralds, Böðvar Guðmundsson, Freysteinn Gunnarsson, Gylfi Ægisson, Jón Orri, Loftur Guðmundsson, Þorsteinn frá Hamri og Þorsteinn Ó. Thorarensen. Diðrik Píning. Diðrik Píning og Hans Pothorst á Haus des Glockenspiels í Bremen í Þýskalandi. Mynd frá 1934. Hér gerir listamaðurinn ráð fyrir að þeir hafi komið til Norður-Ameríku og hitt þar indíána fyrir. Diðrik Píning (d. 1491) var sæfari og sjóræningi í þjónustu dönsku konunganna Kristjáns 1. og Hans á seinni hluta 15. aldar og um tíma hirðstjóri eða höfuðsmaður á Íslandi. Við hann er kenndur svonefndur Píningsdómur. Erlendis er hann þekkastur vegna kenninga um að hann kunni að hafa komið til Ameríku á 8. áratug 15. aldar. Uppruni. Fátt er í raun vitað um Diðrik Píning og til dæmis er alls óvíst hvort hann var Norðmaður eða Þjóðverji. Í grein í "Historisk tidsskrift" 1882 kemur fram að nafnið Pining eða Pinning er gamalt í Noregi og þar er nefndur Einar Pinning í Björgvin árið 1304 og virðist hafa verið aðalsmaður. Hann átti soninn Hákon Píning. Þýskir ættfræðingar telja Diðrik Píning aftur á móti fæddan í Hildesheim í Þýskalandi um 1428. Diðrik Píning tengdist hins vegar árið 1490 stóru erfðamáli í Noregi og bendir það til þess að hann hafi verið Norðmaður. Diðrik Píning er sagður hafa verið tíma í þjónustu Hamborgarkaupmanna og stýrði þá skipi sem elti uppi ensk kaupskip á Norður-Atlantshafi. Einnig er sagt að hann og félagi hans, Hans Pothorst, hafi ráðist á skip Hansakaupmanna og rænt þau. Seinna gengu þeir í þjónustu Danakonunga. Landkönnun. Dr. Sofus Larsen setti fram þá kenningu í bók árið 1925 að Diðrik Píning hefði um 1473 verið settur til að stýra þýsk-dönskum leiðangri sem kostaður var af Portúgölum og átti að kanna Grænland og önnur lönd í norðri. Hans Pothorst var með í leiðangrinum og einnig portúgölsku könnuðirnir João Vaz Corte-Real og Álvaro Martins. Siglingafræðingur leiðangursins á að hafa verið hinn þjóðsagnakenndi Johannes Scolvus. Sumir vilja meina að Kristófer Kólumbus hafi einnig verið í þessum leiðangri. Larsen taldi að leiðangurinn hefði siglt af stað frá Björgvin, farið til Íslands og Grænlands og að lokum fundið Terra do Bacalhau, "Þorskaland", sem liklega hefði verið Nýfundnaland eða Labrador. Corte-Real var skipaður landstjóri á Azoreyjum 1474 og Píning hirðstjóri á Íslandi 1478 og taldi Larsen að það hefðu verið laun þeirra fyrir landafundina. Engar samtímaheimildir segja beinlínis frá þeissum leiðangri en sagnir eru um að Corte-Real hafi uppgötvað Terra do Bacalhau og vitað er að Píning og Pothorst voru sendir til Íslands 1473 og áttu þeir einnig að freista þess að kanna strendur Grænlands og leita norrænna manna þar. Þeir komu til Grænlands 1476, líklega nálægt Angmassalik, en fundu þar aðeins fjandsamlega Inúíta. Hugsanlegt er að þeir hafi farið lengra en engar heimildir eru til sem staðfesta það. Hirðstjóri og sjóræningi. Diðrik Píning var gerður að hirðstjóra á Íslandi árið 1478, hugsanlega þó aðeins að sunnan og austan, og gegndi því starfi að minnsta kosti til 1481, líklega til 1483. Honum var falið að berjast gegn Englendingum, sem seildust æ meira til yfirráða á Íslandi og höfðu fáum árum fyrr drepið Björn Þorleifsson hirðstjóra í Rifi. Líklega hefur þess vegna þótt tilvalið að gera sjóræningjaforingja að hirðstjóra. Eftir að hirðstjórnartíðinni lauk sigldu þeir Píning og Pothorst um Norður-Atlantshaf og stunduðu sjórán á vegum Danakonungs. Árið 1484 náðu þeir til að mynda þremur spænskum eða portúgölskum skipum sem þeir færðu Hans konungi til Kaupmannahafnar. Þeir herjuðu einnig á Hansaborgir í félagi við Jakob junkara, bróðurson Hans konungs. Af öllu þessu varð Píning óvinsæll og hataður víða. Árið 1486 fylgdi Diðrik Píning konungi til Björgvinjar og er þá titlaður aðmíráll danska flotans. Árið 1487 stýrði hann dönskum flota sem hertók Gotland. Í júlí 1489 var hann í hópi norskra aðalsmanna sem hylltu Kristján, elsta son konungs, sem ríkiserfingja Noregs í Kaupmannahöfn. Hirðstjóri öðru sinni. Hans konungur samdi frið við Englendinga snemma árs 1490 og viðurkenndi rétt þeirra til að veiða fisk við Ísland og stunda þar verslun, ef þeir greiddu af þvi gjöld og fengju leyfi hjá konungi. Í samkomulaginu er þó tekið fram að Diðrik Píning og annar aðmíráll, Bartod Busch, falli ekki undir það, líklega vegna sjórána þeirra. Þar er Diðrik nefndur hirðstjóri á Íslandi og raunar einnig í bréfi frá 1488 og hefur hann líklega fengið embættið eftir að Þorleifur Björnsson dó 1486. Hann mun hafa haft hirðstjórn yfir öllu landinu í þetta skipti. Þrátt fyrir að vera sjálfur undanskilinn í friðargerðinni lagði hann hana fyrir Alþingi um sumarið við litla hrifningu innlendra höfðingja, sem sáu í henni samkeppni um vinnuafl. Því varð úr að 1. júlí 1490 var gerð samþykkt sem síðan nefndust Píningsdómur og var í raun ógilding á samkomulagi konungs og Englendinga. Kom þar meðal annars fram að útlendingum væri bönnuð veturseta eins og verið hafði og að landsmenn væru skyldir að vera í vist hjá bændum ef þeir hefðu ekki efni á að reisa sjálfir bú. Óvíst er hve mikinn þátt Diðrik átti í dómnum sem kenndur er við hann en vegna hans hafði hann lengi heldur jákvætt orðspor á Íslandi. Diðrik Píning fékk jafnframt Vardøhus að léni árið 1490. Hann lést árið 1491 og eru óljósar sagnir um að dauðdaga hans hafi borið að með vofeiflegum hætti, jafnvel að hann hafi verið hengdur eða drepinn á annan hátt en allt er óljóst um það. Theodor Möbius. Theodor Möbius (fullu nafni "August Theodor Möbius") – (22. júní 1821 í Leipzig – 25. apríl 1890 á sama stað) – var þýskur norrænufræðingur og textafræðingur. Hann var prófessor í háskólunum í Leipzig og Kiel. Æviferill. Theodor fæddist í Leipzig. Foreldrar hans voru stærðfræðingurinn og stjörnufræðingurinn August Ferdinand Möbius (1790–1868) og Dorothea Christiane Juliane Rothe (1790–1859). Theodór ólst upp í stjörnurannsóknarstöðinni í Leipzig, sem faðir hans veitti forstöðu. Að loknu stúdentsprófi í Nicolaiskólanum í Leipzig, hóf hann háskólanám og lærði klassíska textafræði, 1840–1842 í Leipzig og 1843–1844 í Berlín. Hann fékk mikinn áhuga á forníslenskum bókmenntum og varði doktorsritgerð í þeirri grein 1852. Á árunum 1845–1861 var hann bókavörður í Háskólabókasafninu í Leipzig og síðar forstöðumaður þess. Hann varð háskólakennari 1852 og prófessor 1859. Árið 1865 fékk hann stöðu við Háskólann í Kiel, eftir að Þjóðverjar tóku Holtsetaland, og starfaði þar til 1889 þegar hann missti heilsu. Theodór Möbius leit svo á að norræn textafræði væri nátengd germönskum fræðum, sem hann fékkst við á nokkuð víðum grunni. Aðal framlag hans til fræðanna var útgáfa á forníslenskum ritum, sem hann sinnti af miklum áhuga. Einnig gaf hann út forníslensk-þýska orðabók og bókaskrár um norræn fræði. Í gegnum fræðistörfin kynntist Theodór Möbius nokkrum Íslendingum, t.d. Guðbrandi Vigfússyni og unnu þeir saman að útgáfuverkefnum, t.d. "Fornsögum" 1860. Einnig aðstoðaði hann Guðbrand við útgáfu á "Eyrbyggja sögu" 1864, þýddi forspjallið á þýsku og las prófarkir. Hugo Gering. Hugo Gering – (21. september 1847 – 3. febrúar 1925 í Kiel) – var þýskur miðaldafræðingur sem fékkst við germönsk fræði á víðum grunni. Hann var lengst prófessor í Háskólanum í Kiel. Þekktustu verk hans eru þýðingar á Eddukvæðum (1892) og Bjólfskviðu (1906). Hugo Gering fæddist í Heinrichsberg í Vestur-Prússlandi (nú í Póllandi). Hann stundaði háskólanám í Leipzig og Bonn, einkum í málvísindum, heimspeki og sagnfræði. Eftir þátttöku í þýsk-franska stríðinu 1870–1871 fór hann í Háskólann í Halle an der Saale, þar sem hann lauk doktorsprófi 1873 með ritgerðinni "Über den syntaktischen Gebrauch der Participia im Gotischen". Í Halle fékkst hann fyrst við fornháþýsku en síðar hneigðist hugur hans að íslenskum fræðum. Hann varð dósent í Háskólanum í Halle 1883. Árið 1889 varð hann prófessor í norrænum fræðum í Háskólanum í Kiel (tók við af Theodor Möbius), og starfaði þar uns hann fór á eftirlaun 1921. Kennslugreinar hans þar voru norræn fræði, germönsk textafræði, gotneska, forn- og miðháþýska og fornenska. Árið 1892 hófu þeir Hugo Gering, Eugen Mogk og Gustaf Cederskiöld útgáfu á ritröðinni Altnordische Saga-Bibliothek. Þetta er vönduð útgáfa á íslenskum fornsögum með fræðilegum formálum og skýringum neðanmáls, með sama sniði og tíðkast hafði við útgáfu á latneskum og grískum fornritum. Safnið varð alls 18 bindi (1892–1929), og var ætlað háskólanemendum og þeim sem vildu læra tilsagnarlaust. Árið 1888 varð Gering ritstjóri "Zeitschrift für deutsche Philologie" (stofnað 1868), og birti þar fjölda fræðilegra greina. Hann var nákvæmur og vandaður fræðimaður. Hugo Gering kom til Íslands þegar hann var um sextugt til þess að hafa persónuleg kynni af landi og þjóð. Hann var fjölskyldumaður en missti son sinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Magnús Kjartansson (tónlistarmaður). Magnús Jón Kjartansson (f. 6. júlí 1951) er íslenskur tónlistarmaður. Magnús ólst upp í Keflavík. Foreldrar hans voru Kjartan Henry Finnbogason (1928 – 2005) og kona hans, Gauja Guðrún Magnúsdóttir (f. 1931). Magnús stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Keflavíkur og Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Herbert H. Ágústssyni og Ragnari Björnssyni. Frá árinu 1966 hefur Magnús verið tónlistarmaður að aðalstarfi. Hann hefur leikið með mörgum hljómsveitum (aðallega á hljómborð, píanó og trompet), verið útsetjari og upptökustjóri og samið eigin tónlist. Hann hefur starfað mikið að málefnum FTT og STEF og verið formaður í báðum félögunum. Magnús gekk 28. febrúar 1971 að eiga Sigríði Kolbrúnu Oddsdóttur (f. 1951). Þau áttu frá 1980 heima í Hafnarfirði. Magnús starfaði um tíma að bæjarmálum þar. Balthazar van Damme. Balthazar van Damme var hirðstjóri á Íslandi frá 1423 en óvíst er hvenær hirðstjóratíð hans lauk, líklega á árunum 1426-1428. Balthazar kom til Íslands 1423 með Hannesi Pálssyni og hafði konungur veitt þeim landið að léni. Líklega var Balthazar hinn eiginlegi hirðstjóri en Hannes fógeti og umboðsmaður konungs en þeir eru þó oft taldir báðir hirðstjórar. Miklar erjur voru milli Englendinga og fulltrúa Danakonungs þessi ár og rændu Englendingar konungsgarðinn á Bessastöðum bæði 1423 og 1424. Þeir fóru að sögn fjörutíu saman til að taka Balthazar og Henns af lífi en tókst ekki. Þeir Hannes og Balthazar voru hins vegar óvinsælir meðal landsmanna, einkum Hannes, eftir að sveinar hans saurguðu Helgafellsklaustur 1425, brutu upp klaustur og kirkju og skutu mann í kirkjugarðinum. Sama ár drápu Englendingar tvo af mönnum Danakonungs, brutu skip konungsmanna og erkibiskups og réðust enn einu sinni á Bessastaði, tóku Kláus Ólafsson umboðsmann og rændu hann og handtóku svo Ólaf Nikulásson, sendimann norska ríkisráðsins, og fluttu þá báða til Englands ásamt fleirum. Síðar um sumarið 1425 fóru þeir Hannes og Balthazar að Englendingum í Vestmannaeyjum og ætluðu að taka þá fasta en Englendingar brutu báta þeirra, handtóku þá, rændu fé þeirra og fluttu þá síðan til Englands og „hörmuðu það fáir“, segir í "Lögmannsannál". Sennilega hafa þeir þurft að borga ríflegt lausnargjald til að sleppa. Hannes kom ekki til landsins aftur en Balthazar kom með ensku skipi sumarið 1426. Þá var hann samþykktur sem hirðstjóri á Alþingi. Hann fór þó aftur til Englands með skipi um haustið og er ekkert um hann vitað eftir það. Þorsteinn Ólafsson var hirðstjóri norðan lands og vestan frá 1427 en kann að hafa verið það í umboði Balthazars fyrst í stað. Miðaldafræði. Bók í miðaldastíl, gefin út af William Morris. Miðaldafræði er þverfagleg fræðigrein sem fjallar um evrópskar miðaldir eða tímabilið frá því um 500 til 1500. Miðaldafræðingar reyna að varpa ljósi á þetta tímabil með því að virkja eftirtaldar fræðigreinar: Sagnfræði, fornleifafræði, textafræði, bókmenntafræði, heimspeki, guðfræði, listfræði, málvísindi og fleiri. Miðaldafræðingar hafa skapað sér vettvang í fræðafélögum og útgáfu tímarita. Í Þýskalandi gefa þeir til dæmis út tímaritið "Das Mittelalter". Heimspekideild Háskóla Íslands býður upp á nám í miðaldafræðum. Miðaldir í listum. Menning miðalda hefur orðið mörgum listamönnum aflvaki til listsköpunar. Má þar til dæmis nefna William Morris sem sótti til miðalda hugmyndir að listaverkum og bókmenntaverkum. Einnig sótti rómantíska stefnan viðfangsefni og hugmyndir til miðalda. Charles Perrault. Charles Perrault (12. janúar 1628 – 16. maí 1703) var franskur rithöfundur sem er frægastur fyrir að hafa gert ævintýri fyrir börn byggð á þjóðsögum að virtri bókmenntagrein með sögum eins og Rauðhetta ("Petit Chaperon rouge"), Þyrnirós ("La Belle au bois dormant"), Stígvélaði kötturinn ("Le Maître chat ou le Chat botté"), Öskubuska ("Cendrillon ou la petite pantoufle de verre"), Bláskeggur ("La Barbe bleue") og Tumi þumall ("Le Petit Poucet"). Sumar af sögum hans eru elstu þekktu útgáfur sagnanna þótt vitað sé að þær byggja á þekktum evrópskum þjóðsögum frá tíma Perraults. Not Ready to Make Nice. "Not Ready to Make Nice" er smáskífa með hljómsveitinni Dixie Chicks sem kom út 16. mars 2006. Lagið af smáskífunni kom út á breiðskífu Taking the Long Way. Lagið er samið af Dixie Chicks og lagahöfundinum Dan Wilson. Lagið fjallar á beinan hátt um pólítísku deilurnar sem Dixie Chicks áttu í árin þrjú á undan og fjölda hótunarbréfa í garð Maines. Robison sagði: „Það var meira í húfi með þessu lagi. Við vissum að það var sérstakt vegna þess að það var nokkurskonar ævisaga okkar og við urðum að hafa það allt saman rétt. Um leið og lagið var tilbúið vorum við mun frjálsari við að vinna breiðskífuna, þungu fargi af okkur létt.“ Tónlistarmyndbandið við lagið var síðar skopstælt af Mad TV. Lagið var verðlaunað á Grammy verðlaunafhendingunni í febrúar 2007 fyrir „Lag ársins“ og „Smáskífa ársins“. Lagið náði sínum besta árangri á Billboard Hot 100-listanum eftir verðlaunafhendinguna, og lenti í 4. sæti. Tónlistarmyndbandið var tilnefnt til CMT Music Video Awards í flokkunum „Myndband ársins“ og „Hljómsveitarmyndband ársins“ en hlaut hvorug verðlaunin. Konunglegi breski sjóherinn. Konunglegi breski sjóherinn (enska: "Royal Navy") er elsta herdeildin innan Breska hersins. Flotinn er úthafsherfloti og annar stærsti sjóher innan NATO mældur í smálestum. Árið 2010 voru 88 herskip skráð sem hluti af sjóhernum, þar á meðal flugmóðurskip, þyrlumóðurskip, landgönguskip, flugskeytakafbátar, kjarnorkukafbátar, stýriflaugatundurspillar, freigátur og minni skip og bátar. Í apríl 2009 taldi sjóherinn 39.100 manns þar af 7.500 konunglega landgönguliða. Sjóherinn er hluti af Bresku flotaþjónustunni ("Naval Service") sem telur líka Konunglega landgönguliðið og varalið sjóhersins. Breski sjóherinn var öflugasti herfloti heims frá því snemma á 18. öld fram yfir miðja 20. öld og lék lykilhlutverk í því að gera Bretland að stórveldi á 19. öld. Í Síðari heimsstyrjöld taldi flotinn 900 skip og á tímum Kalda stríðsins var honum að mestu breytt í kafbátaleitarflota. Upphaflega stofnun fastaflota með sérstökum skrifstofum, skipasmíðastöðvum og slippum, má rekja til Hinriks 8. á 16. öld en formlega skipulegur sjóher varð fyrst til á tímum Enska samveldisins um og eftir miðja 17. öld sem afleiðing af stríðum Englendinga og Hollendinga sem þá voru eitt mesta sjóveldi Evrópu og kepptu við Englendinga um nýlendur í Ameríku. Formleg stofnun núverandi sjóhers átti sér stað um leið og Karl 2. Englandskonungur tók við stjórnartaumunum 1660. Sąspów. Sąspów er lítið þorp í miðhluta Póllands. Íbúar voru 1361 árið 2010. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2009 (undanúrslit). Undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva 2009 voru tvær undankeppnir haldnar 12. og 14. maí árið 2009. 37 lönd tóku þátt í undankeppnunum tveimur. 21 lönd úr undankeppunum tveimur komust áfram á úrslitakvöld keppninnar. Seinni undanúrslit. 2009 (undanúrslit) Marmari. Marmari er bergtegund sem myndast hefur við myndbreytingu á kalksteini eða dólómíti. Mörg litaafbrigði finnast af marmaranum en hreinn hvítur marmari er afleiðing myndbreytingar á mjög hreinum (kísilsnauðum) kalksteini. Litaður marmari og æðarnar sem oft sjást í honum eru afleiðing óhreininda eins og leirs, silts, sands og járnoxíða sem voru til staðar sem korn eða lög í kalksteininum. Vegna þess hve mjúkur og auðvinnanlegur marmari er hefur hann löngum verðið notaður í myndastyttur og í byggingariðnaði. Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 (Í-R). Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 (Í-R) er listi íslenskra ríkisborgara sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, í stafrófsröð frá Í til R. Í heildina buðu um 500 manns sig fram til stjórnlagaþings. Eftirfarandi listi er opinber og aðeins hluti hans er birtur í þessari grein. Aðrir frambjóðendur til stjórnlagaþings eru á frambjóðendalistanum frá A-I og frambjóðendalistanum frá S-Ö. Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 (S-Ö). Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 (S-Ö) er listi íslenskra ríkisborgara sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, í stafrófsröð frá S til Ö. Í heildina buðu um 500 manns boðið sig fram til stjórnlagaþings. Eftirfarandi listi er opinber og aðeins hluti hans er birtur á þessari grein. Aðrir frambjóðendur til stjórnlagaþings eru á frambjóðendalistinn frá A-I og frambjóðendalistans, frá Í-R. Einar Hafliðason. Einar Hafliðason (15. september 1307 – 22. september 1393) var íslenskur prestur og rithöfundur á 14. öld. Hann var frá Breiðabólstað í Vesturhópi og var þar prestur í nærri hálfa öld. Einar var einn af höfuðklerkum Norðlendinga og gegndi stundum starfi Hólaráðsmanns og var officialis nokkrum sinnum. Hann er þó þekktastur fyrir ritstörf sín en hann skráði meðal annars sögu Lárentíusar Hólabiskups, sem er merkileg heimild um ýmislegt á 14. öld, og Lögmannsannál, sem þykir með áreiðanlegri annálum. Einar var sonur Hafliða Steinssonar, hirðprests Noregskonungs um skeið, ráðsmanns á Hólum í Hjaltadal frá því um 1292 til 1308 og síðan prests á Breiðabólstað í Vesturhópi til dauðadags 1319, og fylgikonu hans, Rannveigar Gestsdóttur. Einar var sendur til náms hjá Lárentíusi Kálfssyni í Þingeyraklaustri þegar hann var tíu ára að aldri. Hann varð síðar trúnaðarmaður og skrifari Lárentíusar og fylgdi honum til Hóla þegar hann varð þar biskup. Þegar að því kom að Einar skyldi vígjast til prests var Lárentíus þó orðinn sjúkur og sendi hann þá Einar suður í Skálholt til Jóns Halldórssonar biskup, sem vígði hann prest í Skarði á Landi haustið 1332 og var hann prestur í Keldnaþingum í hálft annað ár. Vorið 1334 varð Einar svo prestur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd. Árið 1343 fékk hann Breiðabólstað í Vesturhópi, sem þá var eitt besta brauð norðanlands og veitt af erkibiskupinum í Niðarósi, og hélt því embætti til æviloka, eða í 49 ár. Sonur hans var Árni bóndi á Auðbrekku í Hörgárdal og síðar staðarhaldari á Grenjaðarstað, faðir Þorleifs Árnasonar á Auðbrekku og víðar. Imperial Presidency. Hugtakið Imperial Presdency – Forsetinn sem einvaldskeisari er notað um forsetaembætti Bandaríkjanna sem hefur þótt hafa tekið til sín meiri völd en stjórnarskráin segir til um. Hugtakið kom fram á sjöunda áratug síðustu aldar og var síðan titill bókar Arthurs M. Schlesingers yngri sem kom út árið 1972. Schlesinger bendir á að vandamálið sé tvíþætt, annars vegar sé forsetaembættið orðið stjórnlaust og þurfi skýrari afmörkun og skilgreiningu. Hitt er að að vald forsetans sé farið að ógna því jafnvægi sem stjórnarskráin tilgreinir. Forseti Bandaríkjanna sem æðsti yfirmaður heraflans virðist, þegar hægt er að benda á ógn við Bandaríska hagsmuni, eiga auðvelt með að taka sér þau völd sem honum hugnast og þá á kostnað þingsins. Sögulegt yfirlit. Kenningar eru uppi um að þetta samband á milli þingsins og framkvæmdavaldsins einkennist af eilífri togstreitu. Þegar forsetinn hefur náð að styrkja stöðu og auka valdsvið embættisins, gjarnan í krafti stríðsátaka sem kalli á skjót og tafarlaus viðbrögð þá komi þingið og reyni að ná aftur vopnum sínum. Þetta var tilfellið þegar þingið gekk hart fram við að ná til baka þeim völdum sem það hafði misst í forsetatíð Franklin D. Roosevelt. Hann hafði nýtt sér til fulls að hafa farið í gegnum kreppuna miklu og seinni heimstyrjöldina á 12 ára valdatíma sínum og styrkt völd forsetaembættisins umtalsvert. Þingið stytti þá hámarks valdatíma forsetans í tvö kjörtímabil en Harry Truman og þeir sem á eftir komu og stóðu í framlínu kaldastríðsins, juku aftur vald forsetaembættisins. Því hefur verið haldið fram að í valdatíð Lyndons B. Johnson og Richards M. Nixon sem stóðu í ströngu í Víetnamstríðinu, hafi þingið í raun einungis verið þeim til stuðnings og aðstoðar við að framfylgja stefnu forsetaembættisins í utanríkismálum. Aldrei hafi þeir notið ráðgjafar eða haft þingið með í ráðum heldur einungis kynnt fyrir þingmönnum hvað það væri sem þeir væru að styðja, kæmi það ekki nógu skýrt fram í fjölmiðlum. Þessu var ekki snúið við fyrr en í kjölfar afsagnar Nixons á áttunda áratugnum. Þá hafði Nixon gerst býsna stórtækur til valda og hafði með ýmsum ráðum víkkað út valdsvið foretans. Þau ráð voru ekki bara víðtæk heldur hreinlega glæpsamleg því Hvíta húsið var farið að iðka stjórnarhætti sem hæfðu frekar starfsemi leyniþjónustu en stjórnvaldsforystu. Nixon kom því þannig fyrir að menn höfðu eftirlit hver með öðrum, ein stofnun var með nefið ofan í málum annarrar til að tryggja að enginn færi út af sporinu og með því að reka fólk óhikað skapaði hann ótta og undirgefni. Þessi spilaborg hrundi þegar Watergate málið kom upp og í ljós kom ólögleg starfsemi á borð við innbrot, þjófnaði, mútugreiðslur og Nixon neyddist til að segja af sér. Í kjölfar þessa brást þingið því við með því að auka gegnsæi og aðhald með forsetaembættinu. Meðal annars var stofnuð nefnd sem höfðu það hlutverk að líta eftir fjárútlátum auk þess sem ýtt var undir möguleika starfsmanna stjórnkerfisins til að tilkynna um mál sem þóttu athugaverð með aukinni vernd þeim til handa. Þegar litið er til síðustu ára er skemmst að horfa til atburðanna 11. september 2001 og eftirmála þeirra. Þá reyndi mjög á forsetaembættið og utanríkismál Bandaríkjana voru í sviðsljósinu. Hægt að fullyrða að forsetinn gat í ljósi hinna dramatísku atburða og þess ástands sem ríkti í kjölfarið tekið sér ákveðin völd sem auðveldara var fyrir fólk að skrifa upp á en ella. Þar gekk varaforsetinn Dick Cheney einnig mjög ákveðið fram í auka völd síns embættis. Það hefur hins vegar verið bent á að Bush stjórnin hafi fyrir atburðina 11. september, haft í frammi bæði yfirlýsingar og tilburði í þá átt að færa til sín meira vald. Liberty Island. Liberty Island er eyja í New Jersey (undir stjórn hafnaryfirvalda í New York) í Bandaríkjunum. Á henni er Frelsisstyttan sem Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum til að minnast 100 ára afmælis sjálfstæðisyfirlýsingarinnar og var hún afhjúpuð 28. október 1886. Eyjan hét áður "Bedloe's Island" en var gefið nafnið Liberty Island árið 1956. Valdarán. Þingmenn ráðast að Napóleoni eftir valdarán hans 18. brumaire 1799. Valdarán, hallarbylting eða ríkisbylting eru ólögleg stjórnarskipti sem fara fram með þeim hætti að lítill hópur innan stjórnkerfisins tekur völdin, oftast með stuðningi hersins. Listi yfir The Closer (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 12. júlí 2010 og sýndir voru 15 þættir. Hugh Marwick. Hugh Marwick (30. nóvember 1881 – 21. maí 1965, Kirkjuvogi) var orkneyskur málfræðingur sem er þekktur fyrir rannsóknir sínar á norræna málinu í Orkneyjum, Norn. Hugh Marwick fæddist í Hrólfsey (Rousay), sonur Hugh Marwick eldri. Námsferill hans var slitróttur vegna fátæktar og varð hann að vinna fyrir sér með kennslu í Aberdeen og víðar. Hann tók meistarapróf frá Háskólanum í Edinborg. Eftir að hafa verið kennari í Lancashire á Englandi, varð hann árið 1914 skólastjóri unglingaskólans í Kirkjuvogi í Orkneyjum (sem þá hét "The Burgh School"). Samhliða þessu stundaði hann rannsóknir og ritstörf, og undirbjó m.a. doktorsritgerð sína sem hann varði við Edinborgarháskóla 1926. Ritgerðin varð kjarninn í höfuðriti hans "The Orkney Norn". Árið 1929 varð hann formaður Menntamálaráðs Orkneyja (Orkney Education Committee), og starfaði þar til 1946. Með bókinni um norræna málið í Orkneyjum var fyllt skarð í norrænum fræðum, og mikilvægri vitneskju bjargað, sem þá var að hverfa. Færeyingurinn Jakob Jakobsen hafði unnið slíkt verk fyrir Hjaltlandseyjar, og hafði hugsað sér að taka Orkneyjar næst fyrir, en entist ekki aldur til þess. Jakobsen hitti Marwick árið 1909, og fékk hjá honum ýmsar upplýsingar frá Orkneyjum. Marwick vann einnig merkilegt starf á sviði örnefnarannsókna. Hugh Marwick var einn af stofnendum Fornfræðafélagsins í Orkneyjum (Orkney Antiquarian Society) árið 1922, var ritari þess í 17 ár (allan starfstíma þess), og birti ritgerðir í tímariti félagsins ("Proceedings of the Orkney Antiquarian Society"). Hann var einnig félagi í Fornfræðafélagi Skotlands (Society of Antiquaries of Scotland) og var kjörinn heiðursfélagi þess. Hugh Marwick fékk margvíslega viðurkenningu fyrir fræðistörf sín, bæði heima fyrir og erlendis. Árið 1938 Order of the British Empire, fékk norsku St. Ólafs-orðuna 1946, heiðursdoktor frá Háskólanum í Aberdeen 1956, og Háskólanum í Bergen 1964. Hann varð heiðursfélagi Víkingafélagsins í London 1965. Hugh Marwick kvæntist árið 1914, Jane Barritt. Þau eignuðust einn son, Hugh Marwick, sem dó ungur af slysförum. Höskuldsstaðir (Skagaströnd). Höskuldsstaðir er bær, kirkjustaður og áður prestssetur á Skagaströnd í Austur-Húnavatnssýslu. Prestssetrið var flutt í kauptúnið á Skagaströnd árið 1964. Á Höskuldsstöðum sátu ýmsir þekktir prestar fyrr á öldum. Einn hinna þekktustu var séra Einar Hafliðason, sagna- og annálaritari, sem var þar prestur 1334-1343. Síðar á 14. öld var Marteinn Þjóðólfsson prestur á Höskuldsstöðum (d. 1383). Legsteinn úr stuðlabergi, sem líklega hefur verið settur yfir hann, með rúnaáletruninni "her: huilir: sira: marteinn: prestr" er í kirkjugarðinum og er hann talinn annar elsti legsteinn sem varðveist hefur á landinu. Árið 1722 varð prestur á Höskuldsstöðum Stefán Ólafsson, faðir Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns og ættföður Stephensenættar. Hann drukknaði í Laxá 17. apríl 1748. Núverandi kirkja á Höskuldsstöðum var vígð 1963. Björn Bjarnason bæjarfulltrúi í Reykjavík fæddist á Höskuldsstöðum. Watergate-nefndin. Watergate nefndin var sett á fót í febrúar 1973. Hún var sérstök nefnd skipuð af öldungadeildarþingi Bandaríkjanna til að rannsaka innbrot í Watergate bygginguna og það hneyksli sem kom upp síðar. Þetta var gert eftir að komst upp að innbrotsþjófunum hafði verið sagt að brjótast inn í höfuðstöðvar demókrataflokksins af endurkjörsnefnd Richard Nixon og koma þar fyrir hljóðnemum. Formlegt nafn nefndarinnar var Sérstök rannsóknarnefnd stjórnmálabaráttu innan forsetaframboða. Í stað þess að láta þar við sitja var nefndin, með Sam Ervin í stjórn, beðin um að rannsaka málið enn frekar. Þessi nefnd gegndi lykilhlutverki við að safna sönnunargögnum sem myndu verða til þess að 40 starfsmenn stjórnsýslunnar yrðu ákærðir og nokkrir af aðstoðarmönnum Nixon yrðu sakfelldir fyrir meðal annars að standa í vegi fyrir réttlæti. Uppljóstranir nefndarinnar urðu til þess að greinar landsdóms voru kynntar fyrir neðdri deild þingsins gegn forsetanum. Þetta leiddi á endanum til afsagnar Nixon. Nixon hefði að öllum líkindum verið kærður fyrir hindrun réttlætis og er það nógu alvarlegt til að hann yrði færður fyrir landsdóm. Watergate hneykslið. Watergate hneykslið er nafn yfir hneykslismál sem kom upp árið 1972 vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Þá voru fimm menn handteknir fyrir að hafa brotist inn í höfuðstöðvar Demókrataflokksins. Þeir uppljóstruðu að þeir væru að vinna fyrir Richard Nixon, þáverandi forseta Bandaríkjanna, og að þeir hefðu fengið borgað úr fjármagnssjóð Nixon fyrir endurkjör. Sögulegt mikilvægi nefndarinnar. Nefndin kom upp um eitt mesta hneykslismál innan Bandarískra stjórnmála og varð til þess að Richard Nixon þurfti að segja af sér þar sem annars hefði hann átt yfir höfði sér landsdóm. Réttarhöld nefndarinnar gegn Nixon urðu mjög vinsæl meðal almennings og um 319 klukkustundir af efni var sent út sem að yfir 85% íbúa Bandaríkjanna sáu á einum tímapunkti eða öðrum. CBS, NBC og ABC auk PBS voru helstu sjónvarpsstöðvarnar sem sýndu frá réttarhöldunum. Stafsmenn nefndarinnar. Nefndin var með tvo ráðgjafa, Sam Dash og Fred Thompson, sem ráðlögðu meðlimum nefndarinnar. Hljóðupptökur. Watergate hljóðupptökurnar eru safn upptaka sem innihalda samræður á milli Nixon og ýmissa starfsmanna Hvíta Hússins. Þær fyrstu eru frá 1971 og ná til 18. júlí 1973. Watergate nefndin hafði að minnsta kosti tvær ástæður fyrir því að halda að þessar upptökur væru til. Í fyrsta lagi innihéldu gögn sem lögmaður Nixon, Fred Buzhardt, lét nefndina fá svo virðist sem orðréttar samræður á milli Nixon og John Dean. Í öðru lagi var framburður Dean fyrir rétti grunsamlegur þar sem að Dean sagði að Nixon hefði spurt sig leiðandi spurninga og hann hefði fengið á tilfinninguna að herbergið væri hljóðritað. 16. júlí árið 1973 ljóstraði Alexander Butterfield því upp fyrir nefndinni að Nixon hefði beðið um hljóðritunarkerfi í Hvíta Húsið. Fyrst um sinn neitaði Nixon að gefa frá sér upptökurnar og sagði að þær væru nauðsynlegar öryggi Bandaríkjanna. Árið 1974 gaf Hvíta Húsið frá sér upptökurnar. Ein af þeim var kölluð „smoking gun“ tape frá 23. júní 1972, sex dögum eftir Watergate innbrotin. Sú upptaka sannaði sekt forsetans í þessu máli og síðan þá hefur frasinn „smoking gun“ verið notaður yfir sönnunargögn sem gegna veigamiklu hlutverki. Skagaströnd (sveit). Skagaströnd er byggðarlag á vesturströnd Skagans á Norðurlandi. Upphaflega var nafnið eingöngu haft um ströndina og byggðina á henni en verslunarstaðurinn undir Spákonufelli kallaðist "Höfði" eða "Höfðakaupstaður". Danskir kaupmenn sem þar versluðu fóru að kalla kaupstaðinn "Skagestrand" og fesist það smám saman við verslunarstaðinn og síðar kauptúnið sem þar reis. Þegar nú er talað um Skagaströnd er oftar en ekki átt við þéttbýlið þótt sveitin hafi enn sama nafn. Skagaströnd liggur norðan við Refasveit og eru mörkin milli byggðanna um Laxá. Ströndin er aðeins talin ná út undir Króksbjarg; bæirnir þar fyrir norðan eru sagðir vera á Skaga. Ströndin er fremur láglend, einkum norðan til, en fjöllin hækka þegar sunnar dregur og þar ber mest á Spákonufelli fyrir ofan kauptúnið. Upphaflega var öll Skagaströnd í Vindhælishreppi en árið 1939 var honum skipt í þrennt. Ytri hluti strandarinnar ásamt bæjunum yst á Skaga varð þá Skagahreppur, miðhlutinn (kauptúnið og næsta nágrenni) varð Höfðahreppur en syðri hlutinn hét áfram Vindhælishreppur. Árið 2002 sameinuðust Vindhælishreppur og Skagahreppur á ný undir nafninu Skagabyggð en Höfðahreppur, sem nú heitir Sveitarfélagið Skagaströnd, klýfur Skagabyggð í miðju. Á Skagaströnd voru áður tvö prestaköll, Höskuldsstaðaprestakall og Hofsprestakall. Enn eru kirkjur á Höskuldsstöðum og Hofi en ströndin og þorpið eru nú eitt prestakall, Skagastrandarprestakall. Einnig var kirkja á Spákonufelli en hún var lögð af þegar Hólaneskirkja á Skagaströnd var byggð 1928. Víðidalur. Víðidalur er breiður, gróinn og búsældarlegur dalur í Vestur-Húnavatnssýslu, inn af Vesturhópi. Austan við dalinn er Víðidalsfjall, sem er hátt og tindótt en vestan að honum er Fitjárdalur og svo austurbrún Miðfjarðarháls, sem er fremur lágur og ávalur. Í norðanverðum dalnum eru gamir sethjallar sem bera þess merki að á ísöld hafi sjór gengið langt inn í dalinn. Um dalinn rennur Víðidalsá, sem á upptök á heiðunum suður af dalnum og er mikil laxveiðiá. Í hana fellur Fitjá, sem kemur upp á Stórasandi. Í miðjum dalnum rennur Víðidalsá í gljúfrum, 20-25 metra djúpum og hrikalegum. Kallast þau Kolugljúfur og eru sögð kennd við tröllknuna Kolu. Auðunn skökull Bjarnarson nam land í Víðidal fyrstur manna og bjó á Auðunarstöðum en helsta höfuðbólið í dalnum er þó Víðidalstunga, utarlega í tungunni á milli Víðidalsár og Fitjár. Þar er kirkja sveitarinnar. Félagsheimilið Víðihlíð er í landi Auðunarstaða, svo og veitingaskálinn og ferðamannaverslunin Víðigerði. Húksheiði. Húksheiði er vestust heiðanna þriggja sem saman mynda Tvídægru, heiðaflæmið á milli Vestur-Húnavatnssýslu upp af Miðfjarðardölum og Borgarfjarðar, og er hún kennd við bæinn Húk í Vesturárdal, sem átti heiðina. Húkur var lengi í eigu Staðarbakkakirkju og þegar jörðin var seld árið 1913 hélt kirkjan afréttinum eftir. Torfustaðahreppar eignuðust svo heiðina árið 1934 og nú er hún eign Húnaþings vestra. Núpsheiði. Núpsheiði er ein heiðanna þriggja sem saman mynda Tvídægru, heiðaflæmið milli Vestur-Húnavatnssýslu upp af Miðfjarðardölum og Borgarfjarðar. Heiðin er kennd við kirkjustaðinn Efri-Núp (Fremri-Núp) í Núpsdal, sem er í miðið af dölunum þremur. Núpsheiði er einnig í miðið af heiðunum þremur og er Húksheiði vestan hennar en Aðalbólsheiði austan við. Heiðin tilheyrði Efra-Núpi frá fornu fari en Ytri- og Fremri-Torfustaðahreppur keyptu hana sem upprekstrarland árið 1896. Aðalbólsheiði. Aðalbólsheiði er austust heiðanna þriggja sem saman mynda heiðaflæmið Tvídægru upp af Miðfjarðardölum, á milli Vestur-Húnavatnssýslu og Borgarfjarðar. Hún er kennd við eyðibýlið Aðalból í Austurárdal, sem er austastur Miðfjarðardala. Austan hennar er Víðidalstunguheiði. Heiðin tilheyrði áður Aðalbóli, sem var eign Hólastóls, en var seld Ytri- og Fremri-Torfustaðahreppi sem upprekstrarland skömmu fyrir 1900. Ályktunin um beitingu hervalds. Ályktunin um beitingu hervalds (enska: "The War Powers Resolution"), sem er frá árinu 1973, var unnin í samvinnu beggja deilda bandaríska þingsins. Ályktunin takmarkar heimildir forsetans til að senda vopnaðar hersveitir til átaka erlendis á þann hátt að annars vegar sé nauðsynlegt að þingið samþykki aðgerðirnar og hins vegar að Bandaríkin hafi orðið fyrir árás. Með ályktuninni er þess krafist forsetinn ráðfæri sig við þingið innan 48 klukkustunda frá því að hervaldi hefur verið beitt og jafnframt að herlið sé ekki lengur en 60 daga í hersetu, þar með taldir 30 dagar sem ætlaðir eru til flutninga, án heimilda til beitingu hervalds eða yfirlýsingar um stríð. Saga. Samkvæmt bandarísku stjórnarskránni er hervaldið klofið. Þingið hefur vald til þess að lýsa yfir stríði, kalla til vopnað herlið og styðja það ásamt því að hafa umsjón með fjárveitingum vegna hernaðar og búa til lög sem nauðsynleg eru til að hægt sé að framfylgja þeim verkefnum sem liggja fyrir. Forsetinn er Æðsti yfirmaður hers Bandaríkjanna, sem gefur honum vald til þess að hrekja á brott þá sem ráðast á Bandaríkin og setur hann í það ábyrgðarhlutverk að leiða vopnaðar hersveitir. Eins og gildir með allar aðgerðir þingsins, þá hefur forsetinn neitunarvald þegar kemur að því að skrifa undir lög og samþykkja aðgerðir eins og stríðsyfirlýsingar. Þegar stríðin í Kóreu og Víetnam dundu á rann það upp fyrir Bandaríkjastjórn að Bandaríkin væru hlutaðeigandi í eldfimum átökum án þess að nokkurn tíman hafði verið lýst yfir stríði og varð þinginu mjög umhugað um þverrandi þingræði. Ályktunin um beitingu hervalds var samþykkt bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni en Richard Nixon, þáverandi forseti beitti neitunarvaldi gegn henni. Þingið kaus hinsvegar gegn neituninni með tveimur þriðja meirihluta í hvorri deild fyrir sig og ályktunin var sett í lög 7.nóvember árið 1973. Síðan þá hafa forsetar Bandaríkjanna lagt fram 118 greinargerðar til þingsins enda þótt aðeins ein þeirra (Mayagüez atvikið) hafi greint frá því að vopnað herlið hafi verið kvatt til átaka eða væri í yfirvofandi hættu. Spurningar er varða stjórnlagalegt réttmæti. Ætíð síðan ályktunin um beitingu hervalds var sett í lög hefur hún verið mjög umdeild. Þegar þingið samþykkti ályktunina var vísað í ákvæði í fyrstu grein stjórnarskrárinnar þar sem segir að þingið hafi allt nauðsynlegt vald til að búa til lög [3]. Það vald nær ekki einungis yfir starfsemi þingsins sjálfs heldur líka allar stofnanir og embætti innan Bandaríkjastjórnar sem sækja vald sitt til stjórnarskrárinnar. Þar sem ályktunin takmarkar vald forsetans til að beita hervaldi þá er deilt um það hvort ákvæði í henni samræmist stjórnarskránni. Philip Bobbitt, bandarískur lögfræðingur og rithöfundur, hélt því fram að hugmyndin um að lýsa yfir stríði sé sú sama og að hefja stríð sé í raun hugmynd sprottin fram og mótuð í samtímanum. Hans trú var sú að samkvæmt landsfeðrum bandaríkjanna ætti yfirlýsing á stríði við um hin algeru stríð en ekki þau stríð sem eru háð á afmörkuðu hernaðarlega mikilvægu landsvæði. Samkvæmt Bobbit var ekkert til sem hægt væri að kalla algera þrískiptingu valdsins, heldur væri í stjórnskiplaginu ákveðin innbyrðis tenging þar sem vald þingsins yfir hervaldinu væri í takt við nauðsyn hverju sinni á meðan hlutverk forsetans er að gefa fyrirmæli. Aðrir lýsa yfir áhyggjum sínum yfir skiptingu valdsins og hvernig ályktunin um beitingu hervalds myndar rof á milli þessara tveggja valdhafa með því að breyta valdajafnvæginu milli löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Ágreiningurinn er um hvort kröfur ályktunarinnar um að forsetinn þurfi að leita samþykkis þingsins vegna aðgerða og skila inn greinargerðum því tengdu breyti því valdajafnvægi sem stjórnarskráin kveður á um. Þá er átt við það vald sem þinginu er falið algjört vald þegar kemur að því að lýsa yfir stríði og hafa umsjón með fjárveitingum til hernaðaraðgerða á meðan framkvæmdavaldið sem er áskapað vald sem æðsti yfirmáður alls herafla Bandaríkjanna. Í stjórnarskránni segir að þingið hafi heimild til að láta í té og viðhalda skipaflota en engin skilyrði eru sett um viðhald á landher. Hins vegar eru ákvæði um að þingið stofni og styðji landher ef aðstæður knýðu á um nauðsyn þess. Í stjórnarskránni segir að þingið hafi heimild til að láta í té og viðhalda skipaflota en engin skilyrði eru sett um viðhald á landher. Hins vegar eru ákvæði um að þingið stofni og styðji landher ef aðstæður knýðu á um nauðsyn þess. Í nútímanum þar sem her er til staðar og forsetanum er sett það vald í hendur að hafa yfirumsjón með heraflanum, þá gefur það til kynna getu hans til að manna og stjórna herafla og uppfylla þannig skyldur sínar gagnvart þegnum landsins ásamt því að verja stjórnarskránna. Réttindaskrá Bandaríkjanna. Réttindaskrá Bandaríkjanna (enska: "The Bill of Rights") var frumvarp sem lagt var fram af James Madison árið 1789 en þar voru lagðar fram breytingartillögur á stjórnarskránni sem hafði verið tekin í notkun árið 1787. Madison sem er talinn til „landsfeðra“ Bandaríkjanna átti stóran þátt í mótun samfélagsins á þessum tíma. Réttindaskrá (e. The Bill of Rights USA). Frumvarpið var hugsað til að bæta réttindi almennings sem þóttu ekki nægilega vel varðveitt í upprunalegu stjórnarskránni, því voru ritaðir viðaukar sem innihéldu mun ýtarlegri útlistun á borgaralegum réttindum. Svo frumvarpið gæti orðið að veruleika og tekið gildi sem viðbót við stjórnarskránna þurfti að fá samþykki 3/4 hluta aðildarríkja Fyrsta sameinaða ríkjaþingsins (e. "First United State Congress"). Breytingarnar voru síðar samþykktar þar þann 15 desember árið 1791. Með frumvarpinu var öryggi almennings gagnvart ríkinu aukið og vald ríkisins gagnvart borgurum takmarkað verulega. Uppruni. Þegar hafið var vinnu við að rita réttindaskránna var horft aftur og meðal annars stuðst við Magna Carta frá árinu 1215 og réttindaskrá Englands frá árinu 1689. Þegar stjórnarskráin hafið verið samþykkt höfðu andstæðingar hennar áhyggjur af þeim möguleika að ríkisstjórnin gæti beitt þegna landsins harðræði og þar með gengið á borgaraleg réttindi þeirra. Hafði þar mikið að segja hvernig framkoma Breta hafði verið á byltingartímanum og brot þeirra gegn almenningi í landinu. Nokkur ríki höfðu meðal annars sett það sem skilyrði fyrir undirritun stjórnarskráarinnar að viðauki líkt og réttindaskráin yrði settur. Til að auka enn á mikilvægi þess að réttindaskrá yrði rituð þá hafði Thomas Jefferson skrifað bréf til James Madison þar sem hann lýsti því yfir að réttindaskrá væri eitthvað sem allir einstaklingar ættu rétt á gagnvart ríkisstjórnum hvar sem er í heiminum. Gagnrýni. Alexander Hamilton gagnrýndi frumvarpið með skrifum sínum í Federalist skjali nr. 84, þar beitti hann meðal annars þeim rökum að með því að tilgreina þau réttindi sem nytu verndar gæti komið upp sú staða að þau réttindi sem ekki væru nefnd myndu ekki vera virt og þar af leiðandi ekki njóta sömu verndar og önnur. Hamilton vildi halda því fram að með stjórnarskránni væri fólk ekki að afsala sér réttindum sínum og því væri í raun ekki nauðsynlegt að bæta réttindaskránni við stjórnarskránna þar sem stjórnarskráin veitti í raun borgaraleg réttindi. Réttindi almennings. Réttindaskráin er safn tíu greina þar sem tilgreint er um réttindi almennings gagnvart ríkinu en þau eru. Calgary. Calgary er stærsta borg Alberta-fylkis í Kanada. Kolugljúfur. Kolugljúfur er gljúfur Víðidalsár í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu, 1-2 km að lengd og nokkrir tugir metra á dýpt. Þar sem áin fellur niður í gljúfrið eru fossar sem heita Kolufossar. Gljúfrin eru víðast hvar ógeng en þykja falleg og stórbrotin. Þau eru sögð kennd við tröllskessuna Kolu, sem sagt er að hafi grafið þau og átt þar síðan bústað. Bærinn Kolugil stendur við ána, rétt ofan við þar sem hún rennur ofan í gljúfrin, og ýmis örnefni tengd Kolu tröllkonu eru þar og í gljúfrunum. Vaxmyndasafnið. Vaxmyndasafnið er safn eftirmynda úr vaxi af frægum einstaklingum sem Óskar Halldórsson útgerðarmaður og börn hans stofnuðu og gáfu íslenska ríkinu árið 1951. Í því voru eftirmyndir af átján Íslendingum og fimmtán útlendingum. Aðeins ein kona er hluti af safninu en það er eftirmynd af Önnu Borg Reumert, leikkonu, oftast aðeins kölluð Anna Borg. Safninu var til bráðabirgða komið fyrir í húsi Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu og var meðal fyrstu sýninganna sem settar voru upp í því húsi þegar safnið var opnað árið 1951. Vaxmyndasafnið var opið fram til ársins 1969 en það ár sáu forráðamenn Þjóðminjasafnsins sér ekki lengur fært að hafa það uppi við vegna plássleysis og var vaxbrúðunum komið fyrir í geymslu. Menningarstjórnun. Menningarstjórnun er fræðigrein sem leggur áherslu á að skoða samspil menningar og stjórnunar á gagnrýninn hátt. Sérstaklega er fjallað um stofnanir, fyrirtæki og skipulagsheildir sem hafa með miðlun menningararfs og list að gera, hver markmið þessara stofnana eru og hvernig þeim markmiðum verður best náð. Menningarstjórnun fjallar einnig um hlutverk „menningarstjórnandans“ og vald/möguleika hans/hennar til þess að hafa áhrif á starf menningarfyrirtækja, umhverfi þeirra og samfélagið í heild. Menningarstjórnun er sjálfstætt rannsóknarsvið en tengist öðrum greinum, svo sem fagurfræði, listasögu, safnastjórnun, markaðsfræði og hagfræði. Sopi. Sopi eða Mangó-Sopi var íslenskur mysudrykkur sem Mjólkursamsalan setti á markað árið 1980. Miklar vonir voru bundnar við framleiðslu þessa svaladrykks, sem þróaður var undir stjórn næringarfræðingsins Jóns Óttars Ragnarssonar. Tilgangurinn var að finna not fyrir það mikla magn skyrmysu sem Mjólkursamsalan þurfti að hella niður á ári hverju. Auk mysu var mangó-ávöxturinn meginuppistaðan í Sopa. Til stóð að setja fleiri bragðtegundir á markað, en úr því varð ekki. Mangó-Sopi hvarf endanlega úr hillum verslana á seinni hluta níunda áratugarins. Mangó-Sopi var einkum ætlaður börnum. Hann var seldur í ¼ lítra pakkningum eins og kókómjólk. Umbúðirnar prýddi teiknimynd af rauðklæddri ofurhetju. Yfirbótakirkja heilögu fjölskyldunnar. Sagrada Família að nóttu til, árið 2006 Yfirbótakirkja heilögu fjölskyldunnar (katalónska: "Temple Expiatori de la Sagrada Família", spænska: "Templo Expiatorio de la Sagrada Familia"), í daglegu tali kölluð Sagrada Família, er kaþólsk kirkja í Barselóna á Spáni, sem hefur verið í byggingu síðan 1882. Áætlað er að byggingu kirkjunnar verði lokið árið 2026. Kirkjan er talin meistaraverk katalónska arkítektsins Antoni Gaudí (1852–1926). Hönnunin og stærð kirkjunnar hafa gert hana að einum vinsælasta ferðamannastað í Barselóna og það hefur hún verið í mörg ár. Benedikt 16. páfi helgaði kirkjuna og útnefndi hana sem basilíku þann 7. nóvember 2010, þegar hann heimsótti Santiago de Compostela og Barselóna. Landssímadeild kvenna 2000. Árið 2000 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsímans. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Símadeild kvenna 2001. Árið 2001 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Símans. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Símadeild kvenna 2002. Árið 2002 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Símans. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Víðidalsá (Húnaþingi). Víðidalsá er bergvatnsá sem rennur um Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu og er ein þekktasta og besta laxveiðiá landsins. Þar er einnig mjög góð sjóbleikjuveiði. Áin er dragá sem á upptök á Víðidalstunguheiði og Stórasandi og heitir ein upptakakvíslin þar Dauðsmannskvísl. Nafnið er sagt komið af því að Ásgeir æðikollur, bóndi á Ásgeirsá, hafi fundið smalamann sinn þar sofandi og reiðst honum svo að hann hafi drepið hann og dysjað hann við kvíslina. Ýmsir lækir og smærri ár renna í Víðidalsá og niðri í Víðidal rennur svo Fitjá í hana. Í Víðidal rennur áin alllangan spöl í tilkomumiklu gljúfri sem kallast Kolugljúfur. Þar sem hún fellur ofan í gljúfrið eru fossar sem heita Kolufossar. Víðidalsá fellur í Hópið, rétt austan við Skollanes, í landi jarðarinnar Gottorp. Hópið er hálfsalt stöðuvatn eða lón sem nær út undir Húnaflóa. Víðidalstunguheiði. Víðidalstunguheiði er heiði í Vestur-Húnavatnssýslu, suður og upp af Víðidal, á milli Aðalbólsheiðar að austan og Haukagilsheiðar að vestan og nær inn að Stórasandi. Heiðin er ágætlega gróin en mýrlend og víða erfið yfirferðar, einkum norðan og vestan megin, en sunnar og austar eru hæðahryggir. Hún er í fjögur til fimm hundruð metra hæð yfir sjávarmáli. Mörg stöðuvötn eru á heiðinni og þar eiga Víðidalsá og Fitjá upptök. Landsbankadeild kvenna 2003. Árið 2003 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Landsbankadeild kvenna 2004. Árið 2004 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Landsbankadeild kvenna 2005. Árið 2005 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Landsbankadeild kvenna 2006. Árið 2006 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Dómkirkja heilags Vincent de Paul. Dómkirkja heilags Vincent de Paul (enska: "Cathedral of St. Vincent de Paul") (franska: "Cathédrale Saint-Vincent-de-Paul") er rómversk kaþólsk dómkirkja Túnis. Hún er nefnd eftir heilögum Vincent de Paul, presti sem var seldur í þrældóm til Túnis. Kirkjan er höfuðstöðvar biskupsstólsins í Túnisborg og er hún staðsett við Habib Bourgibastræti (franska: "Avenue Habib Bourguiba") Kirkjan er ekki byggð í einum byggingarstíl heldur þrem: Márískum-, gotneskum- og Nýbýzantískum stíl. Framkvæmdir hófust árið 1893 og var þeim lokið 1897 fyrir utan að kirkjuklukkurnar voru tímabundið gerðar úr tré vegna fjárskorts. Lavigerie kardináli hafði lagt grunnstein að nýrri dómkirkju neðar í götunni árið 1881 en þáverandi dómkirkja Túnisborgar var Dómkirkja heilags Loðvíks í Karþagó. Dómkirkjan var byggð hratt en ástand hennar tók fljótt að versna vegna lélegrar undirstöðu og því var núverandi dómkirkja Túnis byggð. Miðfjarðardalir. Miðfjarðardalir heita einu nafni dalirnir þrír sem ganga inn af Miðfirði og suður í heiðaflæmið sem einu nafni kallast Tvídægra. Á milli dalanna eru fremur lágir hálsar. Vesturárdalur er vestastur dalanna þriggja, þá Núpsdalur og austastur er Austurárdalur. Allir dalirnir voru áður byggðir en nú er Austurárdalur kominn í eyði. Um dalina renna samnefndar ár og sameinast svo í Miðfjarðará. Landsbankadeild kvenna 2007. Árið 2007 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Kóngsmelur. Kóngsmelur var heiti á landspildu á toppi Öskjuhlíðar í Reykjavík. Um er að ræða svæði sem rutt var fyrir hátíðarhöld Reykvíkinga vegna komu Kristjáns IX Danakonungs sumarið 1874 á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Sjálf hátíðarhöldin þóttu misheppnuð þar sem mikið moldrok gerði meðan á skemmtuninni stóð, auk þess sem tveir danskir sjóliðar slösuðust alvarlega þegar þeir ætluðu að skjóta af fallbyssu til heiðurs konungi. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru reistir heitavatnstankar á Kóngsmel sem höfðu að geyma vatn sem Hitaveitan dældi ofan úr Mosfellssveit. Síðar voru geymar þessir rifnir og nýir reistir ásamt útsýnishúsinu Perlunni. Engar menjar finnast lengur um hátíðarsvæðið á Kóngsmel. Landsbankadeild kvenna 2008. Árið 2008 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Landsbankinn. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Hof (Skagaströnd). Hof er bær, kirkjustaður og áður prestssetur utarlega á Skagaströnd. Þar var áður sérstakt prestakall sem náði yfir ytri hluta strandarinnar og bæina yst á Skaga. Útkirkja var á Spákonufelli. Hofsprestakall var lagt niður 1907 og sameinað Höskuldsstaðaprestakalli. Nú tilheyrir Hofskirkja Skagastrandarprestakalli. Á Hofi eru gamlar rústir sem kallast Goðatóftir og er sagt að kunni að vera af hofi. Engar sagnir eru þó til um blót þar eða goða og raunar er ekkert vitað um landnám og búsetu á ströndinni til forna því að eyða er í Landnámabók á milli þess sem sagt er frá landnámi Holta á Holtastöðum í Langadal og landnámi Hólmgöngu-Mána, sem náði að Fossá, norðan við Hof. Skammt norðan við Hof er Króksbjarg og nær út að Kálfshamarsvík, um 10 kílómetra leið, undir ýmsum nöfnum. Björgin eru 40-50 metra há og liggur vegurinn víðast á bjargbrúninni. Hof þótti fremur rýrt brauð og ekki eftirsóknarvert og voru flestir prestar þar aðeins fáein ár, á meðan þeir biðu eftir að fá betra embætti. Einn þeirra sem lengst sat þar var séra Árni Illugason, sem var prestur á Hofi 1796-1825. Hafði hann áður beðið í 10 ár eftir að fá embætti og síðan verið í átta ár prestur í Grímsey, sem var enn verra brauð en Hof. Sonur hans var Jón Árnason þjóðsagnasafnari, sem fæddist á Hofi árið 1819. Núverandi Hofskirkja er timburkirkja, múrhúðuð, reist árið 1876. Hún er turnlaus og ekkert söngloft í henni. Í kirkjunni er gömul altaristafla og ævagamall prédikunarstóll. Pepsideild kvenna 2009. Árið 2009 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Pepsi. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Pepsideild kvenna 2010. Árið 2010 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Pepsi. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Í lok tímabils. Upp um deild: 20pxÞróttur, Niður um deild:, 20pxHaukar Málþóf í öldungadeild Bandaríkjaþings. Málþóf í öldungadeild Bandaríkjaþings er þegar þingmenn tefja, aðallega með orðræðu, svo að kosið verði ekki um frumvörp og á endanum séu þau látin falla niður. Algengasta aðferðin til málþófs er þegar þingmenn reyna að tefja eða koma í veg fyrir kosningu með því að lengja umræður, reglurnar leyfa þingmönnum að tala eins lengi og þeir vilja og um hvaða mál sem þeir velja. Þó er hægt að knýja fram atkvæðagreiðslu með því að takmarka umræðu en til þess þarf um 60 af 100 þingmönnum. Þó að orðræða sé algengasta aðferðin til að tefja fyrir eru þó til nokkrar aðrar. Venjulega þarf einróma samþykki fyrir því að halda áfram með dagskrána og hefja umræðu á máli, þá getur einn þingmaður tafið fyrir með því að samþykkja ekki. Í sumum tilfellum getur þetta frestað umræðu um einn dag en þar sem frestunin gildir aðeins þegar þingið situr er hægt að slíta fundi í smá tíma og koma svo aftur saman. Áhrifaríkasta aðferðin til að tefja fyrir er að fá meirihlutann til að takmarka umræður og knýja fram atkvæðagreiðslu mörgum sinnum um sama málið. Til dæmis að vera með málþóf um tillögu og þá þarf að knýja fram atkvæðagreiðslu til að hún verði að frumvarpi, svo þegar frumvarpið er komið er hægt að gera það sama þar og þá verður að takmarka umræðu aftur og knýja fram atkvæðagreiðslu. Þar með er meirihlutinn búinn að fara í gegnum þetta tvisvar og þá þarf að fara aftur í gegnum það ef breyta á frumvarpinu en þess þarf oft. Þetta ferli virkar hindrandi fyrir meirihlutann og freistast hann því til að láta frumvarpið falla niður. Heggur. Heggur (eða heggviður) (fræðiheiti: "Prunus padus") er lauftré af rósaætt og er skylt ferskju- og plómutré. Náttúrulegt vaxtarsvæði heggs er Norður- og Austur-Asía og Evrópa, en heggur vex til dæmis villtur um allan Noreg alveg upp í 1.250 m hæð. Villtur heggur vex í rökum og næringarríkum jarðvegi en hann þrífst vel í venjulegri garðmold. Heggur þrifst allsæmilega á Íslandi. Eitt og annað. Lokaorð skáldsögunnar Gerplu eftir Halldór Laxness eru: „Þá var túngl geingið undir og felur nóttin dal og hól að Stiklarstöðum, og svo hinn síðfrjóva hegg.“ Heggur er raunar ekki síðfrjór, í Noregi var það haft til marks að þegar heggurinn blómstraði á vorin mætti fara að sá í akra. Menningarhúsið Hof. Menningarhúsið Hof er bygging á Akureyri sem er hönnuð fyrir sviðslist og ráðstefnur. Í byggingunni, sem tekin var í notkun 27. ágúst 2010, eru tveir salir, annar 500 sæta og hinn 200 sæta, veitingahús og aðstaða til fundarhalda. Miðfjarðará. a> í Miðfirði. Miðfjarðará í baksýn. Miðfjarðará er á sem rennur um Miðfjörð í Vestur-Húnavatnssýslu. Áin verður til þegar Vesturá og Austurá sameinast en oft er þó nafnið notað um allar árnar þrjár sem renna um Miðfjarðardali, Austurá, Vesturá og Núpsá. Árnar þrjár sem mynda Miðfjarðará eiga upptök sín á heiðunum suður af Miðfjarðardölum. Vesturá kemur upp á Húksheiði og rennur um Vesturárdal; Núpsá, sem er vatnsminnst, á upptök í Kvíslavötnum á Núpsheiði og rennur um Núpsdal og Austurá, sem er vatnsmest, á aðalupptök í Arnarvatni stóra og fellur um Austurárdal. Núpsá og Austurá renna saman þar sem dalirnir mætast og kalla sumir ána Miðfjarðará frá þeim ármótum en aðrir kalla hana Austurá þar til hún rennur saman við Vesturá. Áin þykir mjög falleg og er ein besta og dýrasta laxveiðiá landsins, 113 km að lengd og þar eru yfir tvö hundruð veiðistaðir. Við ána er veiðhúsið Laxahvammur. Sumarið 2010 var besta veiðisumar í Miðfjarðará frá upphafi og veiddust þá 4043 laxar í ánni. Gullfoss (skip, 1915). Gullfoss var fyrsta skip Eimskipafélags Íslands og kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 16. apríl 1915. Var þá almennur frídagur í bænum og mikið fagnað. Þetta fyrsta vélknúna millilandaskip Íslendinga var smíðað í Kaupmannahöfn og var ganghraði þess 11 sjómílur á klukkustund. Í því var rými fyrir 74 farþega og sigldi skipið með fólk og varning, ýmist milli Íslands og Bandaríkjanna og Íslands og Evrópu, auk þess að stunda strandsiglingar hér. Skipið kom hlaðið af vörum frá útlöndum en fyrsta sigling þess með farm eftir að heim kom var farin til Hafnarfjarðar 19. apríl og var þá öllum boðið að fara með ókeypis sem vildu. 400-500 manns notfærðu sér það boð. Gullfoss varð innlyksa í Danmörku við hernámið 1940 og var undir yfirráðum Þjóðverja til stríðsloka. Þá fannst skipið illa farið í Kiel og var selt til Færeyja þar sem það nefndist "Tjaldur". Gullfoss var rifinn 1953 í Hamborg í Þýskalandi. Cindy Sampson. Cindy Sampson (fædd 27. maí 1978) er kanadísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "Rumours" og Supernatural. Einkalíf. Sampson er fædd og uppalin í Halifax, Nova Scotia.Stundaði hún nám við "Randolph Academy of the Performing Arts". Kvikmyndir. Stærsta kvikmyndahlutverk hennar hefur verið sem Zoe Ravena í "Live Once, Die Twice". Fyrir kvikmyndina "The Shrine" þá þurfti hún að horfa á ákveðnar hryllingsmyndir fyrir hlutverk sitt. Sjónvarp. Í sjónvarpi þá hefur Cindy komið fram í þáttum á borð við "Reaper", Supernatural og "Rumours". Sampson sóttist upprunalega um hlutverk Belu Talbot í Supernatural en fékk ekki hlutverkið. Var henni síðan boðið hlutverk Lisa Braeden í staðinn. Tenglar. Sampson, Cindy 1. deild kvenna í knattspyrnu 1972. Árið 1972 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin í fyrsta skipti í sögunni. Um riðlakeppni var að ræða, þar sem leikið var í tveimur riðlum og sigurvegarar þeirra riðla mættust í úrslitaleik. Átta lið tóku þátt: Ármann, Breiðablik, Fram, FH, Grindavík, Haukar, Keflavík og Þróttur. Lokastaða A-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 8-0 20px Þróttur | 20px Þróttur 2-2 | 2-1 20px Þróttur | Lokastaða B-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Ármann 4-0 20pxHaukar | 0-2 20pxGrindavík | 20pxGrindavík 4-0 20px Haukar | 0-8 Ármann | 20pxHaukar 1-0 | Ármann 8-1 20pxGrindavík Míla ehf. Míla ehf er fyrirtæki, stofnað 1. apríl 2007, sem á og rekur víðtækasta fjarskiptakerfi á Íslandi og felst reksturinn í uppbyggingu og viðhaldi á kerfinu. Rekstur fjarskiptanetsins er þó að miklu leyti í höndum annarra fyrirtækja, vegna samstarfsamninga Mílu um þjónustu. Míla veitir fjarskiptaþjónustu til sæstrengja Farice. Fjarskiptanet Mílu skiptist í stofnnet og aðgangsnet. Stofnnetið er dreifikerfi þess um allt land, en aðgangsnet eru tengingar til fyrirtækja, stofnana og heimila. Stofnnet Mílu byggir á koparlínum, ljósleiðurum og örbylgjusambandi. Uppbygging ljósleiðarakerfisins er í hringtengingu í kringum landið. Aðgangsnet Mílu byggir á koparlínum, ljósleiðurum og kóaxstrengjum. Algengast er að flest fyrirtæki, heimili og stofnanir séu tengdar með koparlínum. Í maí árið 2010 voru bensínsprengjum komið fyrir við fjarskiptamöstur við Veðurstofuna í Reykjavík. Landsvirkjun, Fjarski, Vodafone, Síminn, Tetra og Míla eru öll með búnað í fjarskiptamöstrunum þremur. Eldurinn hafði ekki áhrif á kerfi neinna fyrirtækjanna. Í næsta mánuði, apríl 2010 hafði Míla beint myndavélum sínum á Valahnjúki og Þórólfsfelli að Fimmvörðuhálsi í tengslum við gosið. Um 4 milljónir heimsóttu heimasíðu Mílu á meðan gosið stóð vegna þessa. Menningarstríðin (Bandaríkin). Menningarstríðin í Bandaríkjunum er myndlíking notuð yfir pólitískan ágreining í Bandaríkjunum vegna ólíkra menningarlegra gilda. Hin ólíku gildi grundvallast á skoðunum íhaldssamra annars vegar og frjálslyndra hins vegar. Talið er að menningarstríðin í Bandaríkjunum hafi fyrst orðið áberandi á sjöunda áratug 20. aldar, þótt uppruni þeirra nái lengra aftur í tímann, og hafa þau tekið upp margvíslega mynd frá þeim tíma. Uppruni. Hugtakið menningarstríð er talið hafa smitast til enskrar tungu frá hinu þýska „kulturkampf“, átök milli þýska keisaraveldisins og kaþólsku kirkjunnar á árunum 1871-1878, sem þýðir bókstaflega „menningabarátta“. Á þriðja áratug 20. aldar setti ítalski marxistinn Antonio Gramsci fram kenningu um menningarlega drottnun yfirstéttarinnar sem ástæðu hægrar þróunar á umbótum verkafólks í Evrópu. Vildi hann meina að menningarlega fjölbreyttu samfélagi væri hægt að stjórna með einokun einnar stéttar á boðleiðum skilaboða, til dæmis á fjölmiðlum. Gramsci talaði því fyrir menningarstríðum þar sem and-kapítalísk öfl ættu að vinna markvisst að því að láta til sín heyra á áhrifamiklum vettvangi, svo sem í menntakerfinu og í fjölmiðlum. Um nokkurra áratuga skeið frá þriðja áratug 20. aldar urðu umtalsverðir fólksflutningar til borga og annarra þéttbýlla svæða í Bandaríkjunum. Var sú þróun afleiðing hinna áköfu ára þriðja áratugarins "(e. Roaring 20‘s)" þegar innflytjendalög voru hert umtalsvert. Þessi þróun hafði í för með sér átök um ólík gildi þeirra sem heyrðu til þéttbýlis annars vegar og dreifbýlis hins vegar. Eru það þessi átök ólíkra gilda sem átt er við þegar fjallað er um menningarstríðin sem bandarískt fyrirbæri. 1980-1990. Menningarstríðin í Bandaríkjunum á níunda áratug 20. aldar einkenndust fyrst og fremst í andrúmslofti hinna íhaldssömu í forsetatíð Ronald Reagan. Hinir trúarlegu hægri sinnar "(e. religious right)" höfðu uppi stöðuga gagnrýni í garð fræðimanna og listamanna í baráttu gegn því sem þeir sögðu vera vansæmandi og guðlastandi niðurrifsstarfsemi. Einnig héldu þeir uppi stanslausum áróðri þess efnis að pólitískir andstæðingar sínir græfu undan vestrænni siðmenningu og hefðbundnum gildum fjölskyldunnar. 1990-2000. Hugtakið menningarstríð birtist fólki þegar bók James Davison Hunter félagsfræðings við háskólann í Virginíu, Culture Wars: The Struggle to define America, kom út árið 1991. Í henni lýsir Hunter því hversu miklar umbreytingar og togstreita einkenndi orðið amerísk stjórnmál og menningu. Í bókinni bendir hann á það hversu mörg málefni væru orðin að hitamáli þegar minnst væri á þau, mál eins og fóstureyðing, aðskilnaður ríkis og kirkju, einkalíf, neysla eiturlyfja til afþreyingar, samkynhneigð og mál er varða ritskoðun. Við þetta hafði skapast áberandi klofningur í tvær áttir. Ekki nóg með það að þessi málefni yllu sundrung heldur virtist fólk taka afstöðu til málefnanna út frá hugmyndafræðilegri heimssýn frekar en út frá trú, þjóðerni, stétt eða jafnvel afstöðu þeirra gagnvart stjórnmálum. Samkvæmt Hunter stafaði þessi klofningur af því sem hann kallar Framfarastefnu "(e. Progressivism)" og Bókstafartrú "(e. Orthodoxy)". Á landsþingi repúblikana árið 1992 fékk Pat Buchanan ræðutíma á besta tíma ráðstefnunnar til að flytja ræðu sína sem eftir það hefur fengið viðurnefnið “menningarstríðsræðan“. Á málefnaskrá sem [Bill] Clinton og [Hillary] Clinton munu þröngva upp á Ameríku – fóstureyðingar samkvæmt eftirspurn, fylgnipróf "(e. litmus test)" fyrir hæstarétt, réttur samkynhneigðra, fordómar gegn trúarlegum skólum, konur í hernaði – þetta eru allt breytingar, svo er víst. En þetta eru ekki þess konar breytingar sem Bandaríkin vilja. Þetta er ekki þess konar breyting sem Bandaríkin þarfnast. Og þetta er ekki þess konar breytingar sem við getum sætt okkur við sem þegnar í því sem við enn köllum Guðs landi. Ég mun nota áheyrnapontu "(e. bully pulpit)" forseta Bandaríkjanna, eins ítarlega og mér er unnt, til að verja bandarískar hefðir og þau gildi trúar, fjölskyldu og lands gegn árásum úr öllum áttum. Og í sameiningu munum við hrekja þá sem ýta undir hugmyndir er varða kynhneigð og ofbeldi aftur undir klettana þaðan sem þau komu. Menningarstríð á 21. öldinni. Menningarstríðin eftir árið 2000 hafa tengst trúarlegum ágreiningi. Helstu ágreiningsmál nútímans hafa snúið að réttindum samkynhneigðra og réttindum kvenna til fóstureyðinga. Réttindi samkynhneigðra. Réttindi samkynhneigðra eftir árið 2000 hafa meðal annars falist í rétti þeirra til þess að þjóna í hernum og rétti þeirra til að ganga í hjónaband. Samkvæmt frjálslyndum Bandaríkjamönnum er réttur samkynhneigðra til þess að ganga í hjónaband mál sem snýr að jöfnuði sem ganga á jafnt yfir alla en hjá íhaldsmönnum tengist málið trú og siðferði. Barack Obama hefur tjáð skoðun sína á þessu máli í bók sinni Audacity of hope sem kom út árið 2006. Segir hann þar að samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og aðrir en hvað varðar hjónabönd þá eigi samfélagið að halda sig við hið hefðbundna. Árið 2003 féll mikilvægur hæstaréttardómur í máli Lawrence gegn Texas, um réttindi samkynhneigðra. Málið snéri að sódómsku lögum í Texas "(e. Sodomy law)" og féll dómur Lawrence í vil. Í dómnum kom meðal annars fram að ríkinu væri óheimilt að skipta sér að kynlífi samkynhneigðra í þeirra einkalífi. Árið 1993 hlaut tillaga Bill Clinton um þátttöku samkynhneigðra í hernum samþykki. Tillagan gengur undir nafninu ekki spyrja, ekki segja frá "(e. Don‘t ask, don‘t tell)" sem felur í sér að samkynhneigðir megi þjóna í hernum svo lengi sem þeir komi ekki út úr skápnum. Í febrúar 2010 samþykkti fulltrúadeild þingsins tillögu þess efnis að samkynhneigðir mættu opinskátt þjóna í hernum. Tillagan fór í gegn eftir magnþrungna umræðu í fulltrúadeildinni en málið hefur ekki enn verið tekið upp í öldungadeildinni. Fóstureyðingar. Umræður um fóstureyðingar eru umfangsmikill hluti menningarstríðsins og spanna þær nokkra áratugi. Þær snúast um siðferðilegar og lagalegar hliðar málsins. Andstæðar afstöður umræðunnar skiptist á milli þeirra sem styðja frelsið til að velja "(e. Pro choice)" og þeirra sem styðja verndun lífs "(e. Pro life)". George W. Bush samþykkti lög árið 2003 sem banna síðbúnar fóstureyðingar "(e. Partial-Birth Abortion)", en það eru fóstureyðingar seint á meðgöngu eða eftir 16. viku. Þetta var hitamál sem kom aftur upp árið 2007 þegar mál Gonzales gegn Carhart fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna. Þar tapaði Gonzales málinu og því héldu lögin. Núverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur aðrar skoðanir á málefnum fóstureyðinga og samkynhneigðra en forveri hans George W. Bush. Bush lagði áherslu kristin gildi og siðferði á meðan Obama er frjálslyndari og vill aukna fræðslu um fóstureyðingar og getnaðarvarnir. SYKUR (hljómsveit). Sykur er íslensk hljómsveit sem gefið hefur út tvær breiðskífur: "Frábært eða frábært" árið 2009 og "Mesópótamíu" árið 2011. Þess má geta að áður en Stefán Finnbogason gerðist meðlimur í hljómsveitinni Sykur var hann í þungarokkssveitinni Underdrive, sem var Overdrive "tribute" band. Samuel Adams. Samuel Adams (27. september 1722 – 2. október 1803) var virtur stjórnmálamaður, heimspekingur og er talinn til „landsfeðra“ Bandaríkjanna. Hann var leiðtogi hreyfingar sem stóð að baki amerísku byltingunni. Hann var einn af upphafsmönnum stefnu repúblikana sem hefur átt stóran þátt í mótun bandarísks samfélags síðan. Æska og nám. Samuel Adams fæddist í Boston í Massachusetts. Hann var sonur Samuel Adams eldri og Mary (Fifield) Adams. Hann var alinn upp á trúuðu heimili og var faðir hans virkur þátttakandi í stjórnmálum. Í æsku stundaði hann nám við Boston Latin school en að því loknu gekk hann í Harvard-háskóla. Í lokaritgerð sinni í meistaranámi fjallaði hann um, lögmæti þess að mótmæla æðsta yfirvaldi ef á annan hátt sé ekki hægt að stuðla að varðveislu á þjóðfélagsins. Ritgerðin þótti sýna framá stöðu hans í stjórnmálum og hver réttur nýlenduríkja væri gagnvart Bretlandi. Störf og embætti. Að námi loknu reyndi Adams fyrir sér í viðskiptum með miður góðum árangri, hann starfaði einnig sem skattinnheimtumaður en það aflaði honum vinsælda meðal vina og kunningja þar sem hann átti það til að sleppa þeim við að greiða skatt. Þá gegndi hann einnig ýmsum embættum í kjördæmi sínu en hann var ritari í fulltrúadeild Massachusetts, þá var hann einnig fulltrúi fyrir Massachusetts í fyrsta meginlandsþinginu (e. Continental Congress). Hann gegndi einnig starfi forseta þingsins í Massachusetts og síðar aðstoðar ríkisstjóri Massachusetts þar sem hann leysti John Hancock af þegar hann lét af störfum áður en kjörtímabilinu lauk en þar með varð Adams fjórði ríkisstjóri Massachusetts. Atburðir. Samuel Adams var andstæðingur þess að Breska þingið gæti skattlagt nýlenduríkin án þeirra samþykki, árið 1768 ritaði hann bréf þar sem var óskað eftir samstarfi milli nýlenduríkjanna til að andmæla skattlagningu Breta. Bretar sendu í kjölfarið á því her til Boston sem endaði með atburði sem er þekktur undir "Boston Massacre". Með betra skipulagi og aukinni samvinnu milli nýlenduríkjanna var undirbúningur að Amerísku byltingunni hafinn. Adams, Samuel Adams, Samuel Landsdómur (Bandaríkin). Landsdómur (e. Impeachment) Bandaríkjanna eða þingdómur er vald löggjafarvaldsins til þess að kæra opinbera starfsmenn fyrir brot í starfi. Í stjórnarskránni má finna ákvæði um landsdóm þar sem honum eru tryggð réttindi til þess að ákæra fyrir afglöp opinberra aðila í starfi. Samkvæmt henni eru brot sem gætu leitt til ákæru fyrir landsdóm landráð, mútur og aðrir glæpir hvort sem er minni- eða meiriháttar. Meiriháttar brot og minniháttar glæpir hefur síðan verið túlkað sem almenn lögbrot, misnotkun á valdi, brot á almennu trausti eða annað sem meirihluti fulltrúadeildar telur brot miðað við aðstæður. Landsdómur er bæði til á vettvangi fylkja þar sem ríkisstjórar og aðrir opinberir starfsmenn fylkja geta verið ákærðir og svo á vettvangi alríkisins þar sem forsetar og aðrir embættismenn hins opinbera eru ákærðir. Ferli landsdóms alríkisins. Það að reka opinberan embættismann úr starfi í Bandaríkjunum er gert í tveim skrefum: Fyrst er lögð fram ákæra til landsdóms af fulltrúadeildinni og síðan þarf sakfellingu í öldungadeild þingsins. Fulltrúadeildin ein hefur völd til þess að ákæra embættismenn til landsdóms. Þegar til ákæru kemur hefur dómsmálanefnd (e. judicial committee) fulltrúadeildarinnar opinbera rannsókn á málinu og hún ákveður síðan hvort ástæða er til ákæru og af hverju. Ef ákveðið er að halda áfram með ákæruna taka við umræður og kosningar um hverja grein ákærunnar í fulltrúadeildinni. Viðkomandi er svo ákærður fyrir þær greinar sem meirihluti næst fyrir. Þá fara fram réttarhöld sem öldungadeildin sér um þar sem sakfelling með 2/3 meirihluta er nauðsynleg ef reka á viðkomandi úr embætti. Varaforsetinn stýrir öldungadeildinni í öllum landsdómsmálum nema þegar um er að ræða forseta en þá er það forseti hæstaréttar sem stýrir réttarhöldunum. Þetta er gert þar sem varaforsetinn hefur of mikilla hagsmuna að gæta þar sem hann yrði næsti forseti ef forsetinn yrði settur af. Landsdómur er ekki ósvipaður hefðbundnum réttarhöldum í Bandaríkjunum þar sem kviðdómur dæmir. Í landsdóm eru öldungadeildarþingmenn kviðdómur en nokkrir aðilar eru valdir úr fulltrúadeildinni til að starfa sem saksóknarar í málinu. Viðkomandi embættismaður sem ákærður hefur verið er síðan með eigin verjendur. Komi til sakfellingar í öldungadeildinni er viðkomandi sjálfkrafa vísað úr embætti. Öldungadeildin getur einnig kosið um hvort banna eigi viðkomandi að starfa á opinberri skrifstofu í framtíðinni en þá þarf aðeins einfaldan meirihluta. Saga landsdóms. Ákvæði um landsdóm má finna í stjórnarskrá Bandaríkjanna frá árinu 1789. Það var Benjamin Franklin sem einna fyrstur mælti fyrir mikilvægi þess að koma á ákveðnu ferli til þess að víkja opinberum starfsmönnum úr starfi en hann taldi það heppilegra að til væri opinbert ferli til að reka fólk úr embætti fremur en að myrða það sem sögulega hefði verið notað til þess að losna við ýmsa embættismenn. Mál landsdóms. Nítján embættismenn hafa verið ákærðir til landsdóms en af þeim voru aðeins sjö sakfelldir. Meirihluti þeirra sem ákærðir eru til landsdóms eru alríkisdómarar eða fimmtán en allir þeir sem sakfelldir hafa verið voru alríkisdómarar. Aðrir sem ákærðir hafa verið eru tveir forsetar, ritari framkvæmdavalds (e. Cabinet secretary) og öldungadeildaþingmaður. Meðal þess sem ákært hefur verið fyrir er landráð, hlutdrægni í dómskerfinu, meinsæri, drykkjuskap og ólögmæta úrskurði, mútur og skattalagabrot. Þrátt fyrir að fjórum sinnum hafi bandarískir forsetar á einn eða annan hátt komið við sögu landsdóms hefur enginn þeirra verið sakfelldur. Meðal þeirra sem forseta sem hafa komið við sögu landsdóms er John Tyler, Bandaríkjaforseti árin 1841-1845. Fulltrúadeildin lagði fram tillögu um að ákæra hann vegna máls er tengdist fylkisréttindum (e. state‘s rights issues) en tillagan var felld. Andrew Johnson, Bandaríkjaforseti á árunum 1865–1869, var ákærður þegar þingið taldi hann hafi brotið lög um fastráðningu embættismanna (e. Tenure of office act) en hann var sýknaður í öldungadeildinni þar sem munaði einungis einu atkvæði og sat hann því áfram. Fulltrúadeildin var að ræða það að ákæra Richard Nixon, Bandaríkjaforseta frá 1969 til 1974, þegar hann sagði af sér frekar en að verða ákærður fyrir landsdóm. Bill Clinton, Bandaríkjaforseti 1993-2001, var ákærður af fulltrúadeildinni fyrir að bera ljúgvitni og fyrir að hindra réttvísina í svokölluðu Monicu Lewinsky- hneykslismáli. Clinton var hins vegar sýknaður í öldungadeildinni. Ponte Buggianese. Ponte Buggianese er um 8.400 manna bær í Pistoia á Ítalíu. Húðkeipur. Húðkeipur er bátur úr skinni sem er (oftast) róinn af einum manni. Húðkeipur er til dæmis haft um grænlenska kajakinn og er að mestu haft um báta karlmanna á Grænlandi. Húðskútan ("umiak") (líka stundum nefnd "konubátur" eða "kvennabátur" á íslensku) er stærri en húðkeipurinn og er selskinn þanið á öllu opnari trégrind. Húðkeipur er þó einnig haft um báta skrælingja á Vínlandi í Eiríks sögu rauða og stundum um kajaka almennt. Húðskútan var hér áður fyrr mikið notuð til að bera vörur og til flutninga á veiði. Hún er gerð úr skinni og flýtur vel á öldunum. Í fylgd með hverri húðskútu voru oft veiðimenn á húðkeipum. „Húðkeiparnir voru sem tundurbátar, kvennabáturinn hið mikla orustuskip“, þannig lýsir Peter Freuchen þessum bátum. Veiðimenn eru fljótir í förum á húðkeipunum og af þeim er auðvelt að skutla seli ef færi gefst. Komi mikil kvika, er húðkeipunum róið á vindborða við húðskúturnar og þær notaðar sem bárufleygar. Í seinna Íþróttabindi Alfræði Menningarsjóðs er húðkeipur haft almennt um kajak: „Kænuróðraíþróttir (e. canoeing; þ. Kanusport) er heildarheiti á róðri á þremur mismunandi kænutegundum: húðkeip (kajak), kanadískri eikju (canadian) og sambrotseikju“. Citizens United gegn kosninganefnd alríkisins. Dómur hæstaréttar um fjármögnun kosningaauglýsinga. Dómsúrskurðurinn, sem markaði þáttaskil í sögu hæstaréttar Bandaríkjanna, kveður á um að ekki sé hægt að styðjast við fyrsta ákvæði stjórnarskrárinnar til að takmarka fjárveitingar einkafyrirtækja til framleiðslu á óháðu pólitísku myndefni sem gert er í tilefni forkosninga til forsetaembættis Bandaríkjanna. Dæmt var samtökunum Citizen United í vil og var upphafið að málinu deilur um hvort samtökunum, sem starfa án ávinnings, væri heimilt að sýna kvikmynd sem ætlað var að gagnrýna Hillary Clinton og jafnframt hvort þeim væri heimilt að auglýsa myndina með andlit Hillary Clinton í forgrunni. Deilan snérist líka um hvort aðgerðir samtakana væru andstæðar við „Lög um fjárveitingar í kosningum“, ályktun sem gerð var árið 2002 (einnig þekkt sem the McCain-Feingold Act). Forsaga. Citizens United, samtök íhaldssamra sem starfa án ávinnings, freistuðu þess að kynna kvikmynd sína, Hillary: The Movie, með sjónvarpsauglýsingum og sýna í framhaldinu á DirecTV en ályktun um fjárveitingar í kosningum sem samþykkt var árið 2002 kom í veg fyrir það. Kvikmyndin var í áróðursskyni um Hillary Clinton þáverandi öldungadeildarþingmann. Ályktunin bannar fyrirtækjum og félagasamtökum að nota fjármagn sitt í áróðursskyni gegn einstaka frambjóðendum og einnig að veita fjárstyrki til einstaklinga í kosningabaráttu ef þeim er ætlað að rægja andstæðinga á opinberum vettvangi. Í janúar 2008 dæmdi héraðsdómurinn í Columbia fylki að auglýsingarnar brytu gegn ákvæðum ályktunarinnar og bönnuðu enn fremur að atkvæðasmölun færi fram 30 dögum fyrir forkosningar. Rök samtakanna voru þau að kvikmyndin væri byggð á staðreyndum en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að gerð myndarinnar hafði þann eina tilgang að gera lítið úr trúverðugleika Hillary Clinton. Í september 2009 var málið tekið fyrir í hæstarétti Bandaríkjanna, þar sem fimm af níu dómurum töldu að breytingar á kosningalögum sem bönnuðu fjárveitingar frá óháðum fyrirtækjum og samtökum væru ekki réttmæt og ættu ekki að ná yfir tilfellið sem varðaði kvikmyndina um Hillary Clinton. Ástæðan fyrir þeim úrskurði var að hluta til sú að slíkar takmarkanir myndu heimila þinginu að bæla niður pólitíska umræðu í fjölmiðlum, hvort sem það væri á prenti eða í ljósvakamiðlum, en slíkt myndi ganga gegn fyrsta ákvæði stjórnarskrárinnar. Viðbrögð. Úrskurðurinn hefur vakið mikla athygli á og meðal annars vegna ummæla Baracks Obama í stefnuræðu hans í janúar 2010: „Með fullri virðingu fyrir skiptingu valdsins, þá er það mín sannfæring að dómur hæstaréttar, sem hnekkti aldagömlum lögum, muni opna flóðgáttir fjármagns til kosningaframboða sem eingöngu myndi þjóna sérsökum hagsmunum einkaaðila og þar með talið erlendra fyrirtækja og gefa þessum óháðu hagsmunaðilum tækifæri til að eyða án nokkurra takmarka fjármunum í okkar kosningum. Mér hugnast ekki að bandarískar kosningar séu fjármagnaðar af landsins valdamestu hagsmunaaðilum eða það sem verra væri, af erlendum aðilum“. Samuel Alito hæstaréttadómari sást hrista höfuð sitt undir ræðu forsetans og segja til skiptis „ekki satt“ eða „það er lygi“. Hvað hann í raun sagði er erfitt að fá staðfest, því það virðist fara eftir því hver verður fyrir svörum. Haraldur Guðinason. Haraldur konungur á fálkaveiðum. Mynd af Bayeux-reflinum. Haraldur Guðinason (um 1022 – 14. október 1066) eða Haraldur 2. var síðasti engilsaxneski konungur Englands. Konungstíð hans var stutt, frá 6. janúar 1066 þar til hann féll í orrustunni við Hastings um haustið. Ætt og uppruni. Haraldur var sonur Guðina jarls af Wessex og konu hans Gyðu Þorkelsdóttur. Á meðal systkina hans voru Tósti jarl og Edit af Wessex, kona Játvarðar konungs góða. Haraldur varð jarl af Austur-Anglíu eftir að systir hans varð drottning. Hann fylgdi föður sínum í útlegð 1051 en þeir sneru aftur ári síðar. Þegar Guðini dó 1053 varð Haraldur jarl af Wessex, sem þá náði yfir syðsta þriðjung Englands, og því næstvaldamesti maður landsins á eftir konunginum. Játvarður góði hafði snúið aftur úr 25 ára útlegð í Normandí árið 1042. Hann þótti flytja með sér normönnsk áhrif og margir engilsaxneskir höfðingjar settu sig á móti þeim. Guðini hafði verið leiðtogi þeirra og nú tók Haraldur við. Hann gat sér góðan orðstír í átökum við Gruffydd ap Llywelyn af Gwynedd, prins af Wales, og lauk baráttu þeirra með því að Gruffydd féll fyrir eigin mönnum eftir að hafa beðið ósigur í orrustu 1063. Konungur Englands. Mynt sem Haraldur lét slá 1066. Tósti jarl, bróðir Haraldar, hækkaði skatta í jarldæmi sínu árið 1065 og gerðu Norðymbrar uppreisn gegn honum. Haraldur studdi þá gegn bróður sínum og setti hann af. Við það jók hann líkur sínar á að erfa kóngsríkið, en Játvarður góði var barnlaus. Hins vegar klofnaði fjölskylda hans í tvennt og Tósti gerði bandalag við Harald harðráða Noregskonung. Játvarður konungur veiktist í árslok 1065 og féll í dá án þess að hafa útnefnt arftaka sinn. Hann dó 5. janúar 1066 en komst að sögn áður til meðvitundar snöggvast og fól Haraldi að sjá um drottninguna og konungsríkið - eftir því sem segir í Heimskringlu heyrði þó enginn orð konungs nema Haraldur sjálfur. Á Bayeux-reflinum sést Játvarður á banabeði benda á mann sem talið er að eigi að vera Haraldur. Fjöldi aðalsmanna var samankominn í Westminster til að halda þrettándagleði og var Haraldur valinn konungur daginn eftir lát Eðvarðs og var hann svo krýndur sama dag. Þegar Vilhjálmi hertoga af Normandí bárust fréttir af konungskjörinu hóf hann að undirbúa innrás. Fyrst í stað gekk honum illa að fá stuðning en eftir að honum tókst að sannfæra menn um að Haraldur hefði svarið við helgan dóm að styðja tilkall sitt til ríkis en gengið á bak orða sinna fékk hann blessun kirkjunnar og margir aðalsmenn komu til liðs við hann. Haraldur hafði njósn af fyrirætlunum hans og safnaði saman varnarliði á eynni Wight en vindáttir voru óhagstæðar og ekkert bólaði á Normönnum. Þann 8. september sendi Haraldur lið sitt heim og sneri aftur til London. Orrustan við Stafnfurðubryggju. Sama dag og Haraldur hélt af stað til London lenti Haraldur harðráði Noregskonungur skipum sínum í mynni árinnar Tyne. Tósti bróðri Haraldar var með honum. Þeir unnu sigur á sveitum jarlanna af Mersíu og Norðymbralandi 20. september en nokkrum dögum síðar kom Haraldur Guðinason skálmandi norður í land með her sinn og vann sigur á liði Haraldar og Tosta við Stafnfurðubryggju 25. september. Haraldur konungur var sagður glæsimenni, hávaxinn, sterkur, hugdjarfur og málsnjall, og hefur eftirfarandi frásögn Snorra Sturlusonar verið nefnd sem dæmi um það: Í Heimskringlu segir frá því að fyrir bardagann riðu tuttugu riddarar úr liði Englendinga fyrir her Norðmanna og spurðu eftir Tósta jarli, en hann gaf sig fram. Orrustan við Hastings. Fall Haraldar eins og það er sýnt á Bayeux-reflinum. Haraldur fékk ekki að njóta sigursins lengi. Floti Vilhjálms hafði siglt úr höfn 12. september, varð afturreka vegna óveðurs en hélt aftur úr höfn 27. september og lenti við strönd Austur-Sussex daginn eftir. Her Vilhjálms var líklega um 7000 menn. Þegar Haraldur frétti af innrásinni var bardaganum við Stafnfurðubryggju vart lokið en hann varð að hraða sér eins og hann gat með menn sína nærri 400 kílómetra leið suður til Sussex. Þar kom til orrustu við Hastings 14. október. Hún stóð í 9 klukkustundir og var lengi tvísýn en loks féll Haraldur konungur og brast þá flótti í lið hans. Sagan segir að konungur hafi fengið ör í augað og er dauði hans einnig sýndur þannig á Bayeux-reflinum en þar kann þó að vera um seinni tíma viðbót að ræða. Fylgikona Haraldar um tuttugu ára skeið var Edit, sem kölluð var svanaháls, og áttu þau saman sex börn sem talin voru skilgetin, enda leit almenningur á þau sem hjón þótt kirkjan gerði það ekki. Samkvæmt einni heimild var Haraldur um tíma heitbundinn Adelizu eða Alís, barnungri dóttur Vilhjálms sigurvegara, en ef það er rétt varð ekkert af brúðkaupi. En í ársbyrjun 1066, um sama leyti og Haraldur varð konungur, giftist hann Edit af Mersíu (Ealdgyth), ekkju velska prinsins Gruffydd ap Llywelyn, sem hann hafði barist við nokkrum árum áður. Hún var þunguð þegar Haraldur féll og mun hafa alið tvíbura í nóvember 1066. Þeir hétu Haraldur og Úlfur og er talið að þeir hafi verið í útlegð frá Englandi alla ævi. Edit drottning hefur líklega einnig farið úr landi. Tveir eldri synir Haraldar, Guðini og Magnús, gerðu árangurslausar innrásartilraunir í England nokkrum sinnum. Systir þeirra, Gyða af Englandi, giftist Valdimar 2. stórhertoga af Kænugarði. Á meðal afkomenda þeirra var Ísabella af Frakklandi, kona Játvarðar 2., og settust því afkomendur Haraldar í enska hásætið um síðir. Óttar M. Norðfjörð. Óttar M. Norðfjörð (f. 29. janúar 1980) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Bækur Óttars hafa margar vakið mikið umtal og sumar selst vel. Ævisagan "Hannes: nóttin er blá, mamma" sat í margar vikur í efsta sæti metsölulista Eymundsson og varð jafnframt ein mest selda bók ársins 2006. Þá var skáldsagan "Hnífur Abrahams" 15. mest selda bókin á íslensku árið 2007. Bækur hans hafa verið þýddar á hollensku, þýsku og spænsku. Óttar var tilnefndur til Blóðdropans, hinna íslensku glæpasagnaverðlauna árið 2012 fyrir skáldsöguna Lygarann. Ævi og störf. Óttar fæddist í Reykjavík og ólst upp í Norðurmýri. Hann er sonur arkitektanna og hjónanna Alenu Anderlovu og Sverris Norðfjörð. Sverrir lést árið 2008. Óttar gekk í æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands, þar sem hann var m.a. hluti sveitar skólans á skólaskákmóti Reykjavíkur. Þaðan fór Óttar í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist sem einingadúx af eðlisfræði- og náttúrufræðibraut vorið 2000. Hann er með meistaragráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands. Sumar bækur Óttars bera þess merki að hann stundaði myndlistarnám frá unga aldri, en árið 2004 hélt hann sýningu á málverkum sínum í Gallerí Tukt. Stjórnmálaþátttaka og samfélagsmál. Óttar skipaði 9. sæti á framboðslista Nýs afls í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum 2003.. Óttar hefur verið virkur í starfi Torfusamtakanna. Veturinn 2007-2008 skipulagði hann mótmælafund og herferð til að verja hús við Laugaveg niðurrifi. Úr varð að Reykjavíkurborg keypti húsin sem um ræddi af verktökunum sem ætluðu að rífa þau og hefur síðan látið gera þau upp. Óttar var eitt þeirra skálda sem vöktu athygli fyrir vasklega framgöngu í búsáhaldabyltingunni. Verk. Óttar hefur gefið út ljóðabækur, teiknimyndasögur og klippiverk hjá Nýhil. Fyrsta skáldsaga hans, "Barnagælur", kom út hjá Máli og menningu árið 2005 og síðan þá hafa komið út "Hnífur Abrahams" (2007), "Sólkross" (2008), "Paradísarborgin" (2009), "Áttablaðarósin" (2010), "Lygarinn" (2011) og "Una" (2012) hjá Sögum útgáfu. Hof í Vatnsdal. Hof í Vatnsdal er bær í austanverðum Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, stórbýli að fornu og nýju og landnámsjörð Ingimundar gamla Þorsteinssonar, eftir því sem segir í Landnámabók og Vatnsdæla sögu. Bærinn á Hofi er miðsvæðis í dalnum í skjólgóðum hvammi milli Hofsmela og Kötlustaðamela, sem kenndir eru við eyðibýlið Kötlustaði. Á heiðnum tíma var þar eitt þriggja höfuðhofa í Húnaþingi og í Melabók Landnámu segir að það hafi verið stærsta hof landsins ásamt hofinu á Hofi á Kjalarnesi en stærðartölurnar sem þar eru gefnar upp fá þó vart staðist. Norður af bænum er hóll sem heitir Goðhóll og er sagt að hofið hafi verið þar. Hof er nefnt í Sturlungu, bæði í "Þórðar sögu kakala" og "Prestssögu Guðmundar góða" en samkvæmt henni var Guðmundur staddur á Hofi haustið 1200. Kirkja var á Hofi til forna og var hún helguð Jóhannesi guðspjallamanni. Hun er nefnd í Landnámu og segir þar frá því að Þorkell bóndi á Hofi hafi tekið skírn af Friðriki biskupi og allir Vatnsdælir einnig og hafi Þorkell látið reisa kirkju á Hofi. Samkvæmt nýlegum fornleifarannsóknum á Hofi var þar kirkjugarður að minnsta kosti frá því fyrir 1104. Árið 1706 var enn hálfkirkja á Hofi og var henni þjónað frá Undirfelli. Ekki er vitað hvenær kirkjan lagðist af. Á Hofi var Kvennaskóli Húnvetninga 1882-1883 en var þá sameinaður Kvennaskóla Skagfirðinga og fluttur að Ytri-Ey á Skagaströnd. Kollgátan. "Kollgátan" var spurningaþáttur á RÚV árið 1985 undir stjórn Illuga Jökulssonar. Sýndir voru sjö þættir, þar sem átta einstaklingar kepptu með útsláttarfyrirkomulagi. Fyrsti þátturinn var sýndur laugardagskvöldið 2. febrúar en úrslitin fóru fram 20. apríl. Stjórn upptöku var í höndum Viðars Víkingssonar Keppnisfyrirkomulagið var á þá leið að sömu spurningar voru lagðar fyrir báða keppendur. Spurningarnar voru sex talsins, hver með þremur vísbendingum og gátu gefið tíu, fimm eða tvö stig. Engir áhorfendur voru í stúdíói við upptöku þáttanna. Þvottabjörn. Þvottabjörn ("Procyon lotor") er tegund spendýra innan ættkvíslarinnar Procyon. Lífshættir, útbreiðsla og nytjar. Þvottabirnir eru stærstir allra hálfbjarna; skrokklengd fullvaxins dýrs er 40-70 cm og þyngdin frá 3,5-9 kíló. Þvottabjörninn er yfirleitt næturdýr. Hann er alæta, étur jurtir og aldin, orma, skordýr, ýmis smádýr, fugla og fiska, og þegar hann tekur sér bólfestu nálægt mannabústöðum sækir hann oft í sorp og úrgang til að leita sér matar. Þvottabjörninn er upprunninn í Norður-Ameríku og náttúruleg heimkynni hans þar eru í laufskógum og á mörkum barr- og laufskógabelta en aðlögunarhæfni hans er mikil og hann hefur einnig tekið sér bólfestu í fjallendi, við strendur og í bæjum og borgum. Fyrir og um miðja 20. öld voru þvottabirnir fluttir til Evrópu, Kákasuslanda og Japan, þar sem þeim var ýmist sleppt viljandi eða þeir sluppu úr haldi og náðu útbreiðslu. Þvottabirnir hafa lengi verið veiddir vegna feldsins, sem hefur verið notaður í yfirhafnir og húfur. Reynt var að rækta þvottabirni á loðdýrabúum á fyrri hluta 20. aldar en það þótti ekki svara kostnaði. Þvottabjörnum fjölgaði mjög í Bandaríkjunum um miðja öldina og jukust veiðarnar þá að sama skapi. Met var sett veturinn 1976-1977, þegar 5,2 milljónir dýra voru veidd. Síðan hefur dregið mjög úr eftirspurn eftir loðfeldum og hefur veiddum dýrum þá fækkað að sama skapi. Þvottabirnir á Íslandi. Ársæll Árnason flutti sjö þvottabirni til Íslands í september 1932 og fór eitt par til Vestmannaeyja en hin dýrin voru höfð í kjallara og garði á Sólvallagötu 33 í Reykjavík fyrst í stað en síðan í loðdýrabúi nálægt Vífilsstöðum. Þaðan slapp eitt ungt dýr og lifði villt nokkra mánuði en var svo skotið í hænsnabúi á Kjalarnesi. Þvottabirnir munu hafa verið í íslenskum búum í að minnsta kosti áratug; vorið 1941 eru 10 þvottabirnir taldir meðal búpenings landsmanna. Ginnungagap. Ginnungagap er samkvæmt heimsmynd norrænnar goðafræði hið mikla gap eða frumrýmið fyrir tilurð heimsins. Norðurhluti Ginnungagaps fylltist af ís og hrími úr ám þeim er Élivogar kallast en suðurhlutinn hitnaði af eldi og neistum úr Múspellsheimi. Þar sem hrímið og neistarnir mættust í miðju Ginnungagapi varð til hrímþursinn Ýmir. Óðinn og bræður hans drápu Ými og smíðuðu jörðina í miðju Ginnungagapi. Samkvæmt því sem segir í Snorra-Eddu er ein af þremur rótum Asks Yggdrasils „með hrímþursum, þar sem forðum var Ginnungagap.“ Hans J. G. Schierbeck. Hans Jacob George Schierbeck (24. febrúar 1847 – 7. september 1911) var danskur læknir sem starfaði í um áratug sem landlæknir á Íslandi. Ævi og störf. Schierbeck fæddist í Óðinsvéum, sonur málmiðnaðarmanns þar í borg. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði árið 1876 og sótti síðar framhaldsmenntun í París og víðar. Árið 1883 var Schierbeck settur landlæknir á Íslandi og gegndi þá jafnframt forstöðu Læknaskólans. Hann sagði sig frá embætti árið 1894 og flutti þá alfarinn frá Íslandi. Hann gerðist síðar stiftsyfirlæknir á Norður-Sjálandi. Arfleið á Íslandi. Koma Schierbecks til Íslands 1883 hafði í för með sér ýmsar jákvæðar nýjungar í íslenskum heilbrigðisvísindum. Hann vakti athygli lækna á mikilvægi aukins hreinlætis, en talsvert hafði skort á í þeim efnum. Hann gerði sömuleiðis miklar rannsóknir á holdsveiki, sem var þrálátari sjúkdómur hér á landi en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Einna kunnastur er Schierbeck þó í Íslandi fyrir framlag sitt til garðyrkjumála. Hann var ástríðufullur garðyrkjumaður frá æskuárum og kom sér upp fjölskrúðugum matjurtargarði við hús sitt í Reykjavík. Hann varð fyrsti formaður Hins íslenska garðyrkjufélags, sem stofnað var árið 1885. Starfsemi þess varð til þess að vekja athygli fjölmargra landsmanna á möguleikum garðyrkju. Gísli Hjálmarsson. Gísli Hjálmarsson (d. 25. maí 1915), betur þekktur sem "þingmaður Bolvíkinga", var áberandi persóna í bæjarlífi Reykjavíkur á fyrstu árum tuttugustu aldar. Í andlátsfregn í Morgunblaðinu var Gísli sagður fyrrverandi kaupmaður og honum lýst á þennan hátt: "…hniginn á efri ár og heilsa líkama og sálar hafði lengi verið slæm. – Gísli var einn af auðnuleysingjum þessa lands. " Gísli var óreglumaður og átti við andlega vanheilsu að stríða. Fjótlega upp úr aldamótum beit hann í sig að hann væri réttkjörinn Alþingismaður fyrir Bolungarvík, sem þó var ekki sérstakt kjördæmi. Allt til dauðadags kallaði hann sig þingmann og skemmtu ýmsir bæjarbúar sér við að ala á þeim ranghugmyndum, þannig birtu dagblöðin öðru hvoru fréttir af ferðum þingmannsins með strandferðaskipunum. Gísli reyndi ítrekað að komast inn í þinghúsið til að sinna ímynduðum embættisskyldum sínum, en var yfirleitt vísað brott af þingvörðum. Þá gekk hann a.m.k. einu sinni í hópi þingmanna frá Dómkirkjunni til Alþingshússins við þingsetningu. Ungir jafnaðarmenn. Ungir jafnaðarmenn eru ungliðahreyfing Samfylkingarinnar og var stofnuð 11. mars árið 2000. Formaður samtakanna er Stefán Rafn Sigurbjörnsson. Hreyfingin hefur það markmið að efla nýsköpun og frumkvæði ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks. Miðstjórn. Í Miðstjórn eiga sæti allir í framkvæmdastjórn auk átta miðstjórnarfulltrúa, formanna aðildarfélaga og kjördæmafulltrúar. Jöfn og Frjáls. Málgagn Ungra jafnaðarmanna kallast "Jöfn og Frjáls", og er útgáfustjóri framkvændastjórnar jafnframt ritstjóri blaðins. Avinash Dixit. Avinash Kamalakar Dixit (fæddur 1944 í Bombay, Indlandi) er bandarískur hagfræðingur af indverskum uppruna. Dixit hefur starfað sem kennari í Princeton-háskóla við hagfræðideildina síðan árið 1981. Dixit er annar tveggja höfunda að bókinni "Thinking Strategically" ásamt því að hafa ásamt fleiri höfundum gefið út bókina "Games of Strategy". Menntun og uppruni. Akademískur ferill Dixit, sem er fæddur í Bombay, Indlandi, hófst ekki með hagfræðinni. Hann útskrifaðist með gráðu í stærðfræði og eðlisfræði frá háskólanum í Bombay árið 1963 og útskrifaðist með gráðu í stærðfræði frá Cambridge-háskóla árið 1965. Dixit leiddist af slysni út í það að læra hagfræði. Hann var að leita að nýjum áhugaverðum aðferðum í stærðfræði þegar vinur hans stakk upp á því að hann læsi bók Pauls Samuelson "Foundation of Economics" og bók Gérards Debreau "Theory of Value". Dixit heillaðist algjörlega af fræðunum og skráði sig í Massachusetts tækniháskólann (e. "Massachusetts Institute of Technology") til þess að komast í nám hjá Samuelson og öðlaðist þaðan doktorsgráðu sína árið 1968 í hagfræði. Akademískur ferill. Dixit, sem hefur kennt við Princeton-háskóla frá því árið 1981, lýsir starfi sínu sem kennara við hagfræðideildina á eftirfarandi hátt: „Fyrir mér, vitsmunalega, er það sem er mest gefandi við það að kenna háskólanemum á fyrsta stigi það að fá tækifæri til að hugsa upp nýjar leiðir til að einfalda hugtök.“ Dixit hefur kennt í háskólum bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi ásamt því að hafa haldið stöðu sem gestafyrirlesari við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Russell Sage-stofnunina. Árið 2006 var hann kjörinn forseti Bandaríska hagfræðifélagsins (e. "American Economic Association"). Kennsluaðferðir Dixit. Dixit er orðinn alþjóðlega þekktur hagfræðingur en segist nota „lífið sjálft“ til að finna dæmi sem geta hjálpað til við að útskýra fyrir nemendum hans kenningar bæði tengdum hagfræði og leikjafræði. Samkvæmt Dixit tekur leikjafræði á aðstæðum þar sem tveir eða fleiri aðilar eru með áætlanir sem gætu eða gætu ekki gengið upp á sama tíma. Samkvæmt Dixit hefur þetta með auknum mæli orðið það sameinaða sjónarmið þegar skoðaðar eru flestar hagfræðilegar spurningar tengdar samkeppni og samvinnu. Til að útskýra flókna skilgreiningu á neysluverðsvísitölu notar hann gjarnan dæmi um hversu mikinn auka pening foreldrar eiga að senda börnum sínum þegar verð á vöru sem þau gjarnan kaupa hækkar í verði. Að sama skapi notar hann atriði úr kvikmyndum eins og L.A. Confidential og The Gods Must Be Crazy til þess að útskýra þegar teflt er á tæpasta vaði í tengslum við leikjafræði. Önnur dæmi úr raunveruleikanum má finna í viðskipta- og stjórnmálaheiminum ásamt því sem hann notar dæmi af samskiptum sínum við eigin vini og ættingja. Þetta hefur Dixit um starf sitt hjá Princeton að segja: „Princeton er einstaklega frábær staður til að starfa sem kennari þar sem nemendurnir eru góðum gáfum gæddir og fróðleiksfúsir strax frá upphafi.“ Afrek. Dixit, sem hefur hlotið John J.F. Sherrard '52-prófessorsstöðu Princeton í hagfræði, er þekktur fyrir verk sín í leikjafræði, rekstrarhagfræði, alþjóðlegri verslun og framleiðslu og þróunarfræði. Verk hans eru lesin víðs vegar um heim á fjölda tungumála. Hann er meðhöfundur vinsællar bókar innan leikjafræðinnar "Thinking Strategically" sem tekur á ýmsum málum sem fólk með enga sérfræðiþekkingu getur skilið ásamt bókinni sem ætluð er fyrir byrjendur "Games of Strategy". Þýddar útgáfur af bókinni "Thinking Strategically" hafa verið á lista mest seldra bóka í bæði Ísrael og Japan. Dixit hefur einnig unnið til fjölda verðlauna fyrir rannsóknarvinnu sína og kennslu. Árið 2006 vann hann Richard E. Quandt-fræðsluverðlaunin fyrir framúrskarandi starf seitt við kennslu háskólanema í grunnnámi. Heimild. Dixit, Avinash Kamalakar Thomas Schelling. Thomas Crombie Schelling (f. 14. apríl 1921) er bandarískur hagfræðingur og prófessor við Maryland-háskóla ásamt því að starfa við New England Complex Systems Institute. Árið 2005 hlaut Schelling Nóbelsverðlaunin í hagfræði ásamt Robert Aumann fyrir framlag sitt til aukins skilnings á átökum og samvinnu með greiningu leikjafræðinnar. Æviágrip. Schelling fæddist í Oakland í Kaliforníu en foreldrar hans voru John M. Schelling og Zelda M. Zyres. Schelling útskrifaðist frá San Diego High og fór síðan og stundaði nám við Kaliforníuháskóla í Berkeley, þar sem hann lauk B.A.-gráðu í hagfræði árið 1944. Hann hóf síðan doktorsnám í hagfræði við Harvard-háskóla og útskrifaðist þaðan árið 1948. Þá hóf Schelling að starfa á skrifstofu Bandaríkjaforseta þar sem hann kom meðal annars að Marshall-aðstoðinni og samningagerð fyrir hönd ríkisins sem síðar varð kveikjan að því að tengja samningagerð við leikjafræði. Vegna Marshall-verkefnisins eyddi hann nokkrum tíma í Evrópu þar sem hann skrifaði megnið af fræðiritgerðinni sinni um ferli þjóðartekna (e. national income behavior). Schelling starfaði á skrifstofu Hvíta hússins fram til ársins 1953 en þá sagði hann upp til þess að starfa fyrir hagfræðideild Yale-háskóla. Árið 1958 var hann skipaður sem hagfræðiprófessor þar og árið 1969 hóf hann störf í Kennedy-stofnun Harvard. Þar kenndi hann í 20 ár ásamt því að stunda rannsóknir við International Institute for Applied Systems Analysis í Austurríki á árunum 1994-1999. Hann settist í helgan stein árið 1990 en tók þó við stöðu sem háttvirtur prófessor í Maryland-háskóla. Schelling giftist Corinne Tigay Saposs árið 1947 og saman áttu þau fjóra syni en þau skildu árið 1991. Schelling giftist aftur sama ár og skilnaðurinn átti sér stað, þá konu að nafni Alice M Coleman. Árið 2009 hlaut Schelling sérstaka heiðurs-doktorsgráðu frá Yale-háskóla og einnig frá Manchester-háskóla. Verk Schelling. Schelling gaf út heilmikið af bæði bókum og greinum. Meðal greina sem höfðu mikil áhrif og margir telja áhrifaþátt þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin eru greinarnar „Essay on Bargaining“ sem kom út 1956 og „Bargaining, Communication, and Limited War“ sem kom út 1957. Þar kemur hann heilmikið inn á samvinnu og átök í leikjafræðilegum skilningi þó án þess að hafa kynnt sér formlega leikjafræði líkt og hann gerði seinna. Einnig hafði bók hans "Micromotives and Macrobehavior" mikil áhrif en í henni má finna mörg dæmi um leikjafræði. The Strategy of Conflict. Bók Schelling, "The Strategy of Conflict" sem út kom 1960 var mikið tímamótaverk þar sem hún ruddi brautina fyrir fræði um samninga og hernaðarskipulag í því sem Schelling kallar atferli átaka (e. Conflict behavior). Bókin er talin hafa verið ein af 100 áhrifamestu bókum á Vesturlöndum síðan 1945. Í bókinni kynnir hann mikilvæg hugtök leikjafræðinnar eins og miðpunktur (e. focal point) og trúverðug skuldbinding (e. credible commitment). Þú stendur á bjargbrún, hlekkjaður á ökklanum við annan aðila. Ykkur verður sleppt og annar ykkar fær stór verðlaun um leið og hinn gefur eftir. Hvernig sannfærirðu hinn aðilann um að gefa eftir þegar eina aðferðin sem þú gætir nýtt þér er að hóta því að ýta honum af bjarginu sem myndi drepa ykkur báða. Svar: Þú byrjar að færa þig nær og nær bjargbrúninni. Þannig þarftu ekki að sannfæra hann um að þú myndir gera eitthvað fáránlegt, það er henda honum og sjálfum þér af bjarginu. Þú þarft bara að sannfæra hann um að þú sért tilbúin til að taka meiri áhættu en hann á því að detta fyrir slysni af bjarginu. Ef þú getur gert það, þá vinnur þú. Arms and Influence. Kenningar Schelling um stríð voru útvíkkaðar í bók hans "Arms and Influence" sem kom út 1966.. Textinn á kápu bókarinnar segir að hún haldi áfram með þá greiningu sem svo snilldarlega byrjaði í fyrra verki hans, "The Strategy of Conflict" og "Strategy and Arms Control" sem hann skrifaði með Morton Halperin og kom út árið 1961 en jafnframt sé hún mikilvægt innlegg í vaxandi bókmenntir um nútímastríð og ríkiserindrekstur. Models of Segregation. Árið 1969 gaf Schelling út grein um kynþætti sem kallaðist „Models of Segregation“ eða „Módel aðskilnaðar“ sem mikið hefur verið vísað í síðan. Í greininni sýnir Schelling fram á að hin minnsta löngun í að velja sér nágranna af sama kynþætti og maður sjálfur gæti leitt til algjörrar aðskilnaðarstefnu. Hann notaði myntir á grafpappír til að sýna kenningu sýna með því að setja krónur og aura í mismunandi munstur á spjaldið og síðan að færa myntirnar eina af einni ef þeir væru í „óhamingjusamri“ stöðu. Á endanum myndu allar krónurnar koma saman á ákveðin part blaðisins og allir aurarnar safnast saman á öðrum. Þetta gæti síðan gerst hvar sem er með hverskonar hópa sem er; það er þetta gæti gerst í íbúðarhverfum, á kaffihúsi eða hvers konar opinberum stöðum og gæti greinst að eftir kynþætti, eftir aldurshópum, eftir kyni og svo framvegis. Tenglar. Schelling, Thomas Merlot. Merlot er rauðvínsþrúga sem er bæði notuð í blönduð vín og einnar þrúgu vín. Nafnið er talið dregið af franska orðinu yfir svartþröst og nafngiftin stafi af svarbláum lit berjanna. Merlot er með miðlungsfyllingu og keim af berjum, plómum og kúrenum. Þrúgan nær snemma þroska og vinsælt er að blanda henni saman við cabernet sauvignon sem þroskast seinna og inniheldur meira tannín. Merlot er ein af aðalþrúgunum sem notaðar eru í Bordeaux-vín ásamt cabernet sauvignon, cabernet franc, malbec og petit verdot. Merlot er líka ein vinsælasta þrúgan til að búa til einnar þrúgu vín. Vegna þessara fjölhæfni þrúgunnar er hún ein víðræktaðasta þrúga heims. Játvarður góði. Játvarður góði (um 1003 – 5. janúar 1066) var konungur Englands frá 1042 til dauðadags og er yfirleitt talinn síðasti konungurinn af Wessex-ætt. Hann var tekinn í helgra manna tölu árið 1161 og er verndardýrlingur bresku konungsfjölskyldunnar. Uppruni og útlegð. Játvarður var sonur Aðalráðs konungs ráðlausa og Emmu af Normandí. Þegar Danir gerðu innrás í England 1013 fór Emma drottning til Normandí með börn sín. Aðalráður dó í apríl 1016 og Játmundur járnsíða, eldri hálfbróðir Játvarðar, tók þá við ríki en dó sjö mánuðum síðar og Knútur mikli tók við ensku krúnunni. Hann giftist svo Emmu, móður Játvarðar. Játvarður var áfram í útlegð í Normandí næsta aldarfjórðunginn, á meðan Knútur og síðan synir hans, Haraldur hérafótur og Hörðaknútur (hálfbróðir Játvarðar) réðu ríkjum. Hann komst til metorða þar og var meðal annars einn þeirra sem Róbert hertogi af Normandí, frændi hans, útnefndi sem forráðamenn Vilhjálms sonar síns þegar hann hélt í pílagrímsferð til Landsins helga. Árið 1036, eftir að Knútur mikli dó og Haraldur hérafótur sonur hans sölsaði undir sig völd í Englandi, fóru þeir Játvarður og Alfreð bróðir hans til Englands til að reyna að komast til valda en varð lítið ágengt. Játvarður sneri aftur til Normandí en Alfreð féll í hendur Guðina jarls af Wessex, sem lét blinda hann með glóandi skörungum og dó Alfreð skömmu síðar af sárum sínum. Konungur Englands. Árið 1041, þegar Hörða-Knútur hálfbróðir Játvarðar hafði tekið við ríkjum í Englandi, var Játvarður kvaddur heim og hugsanlega gerður að meðkonungi hans. Hörða-Knútur lést svo 8. júní 1042 og Játvarður var einróma kjörinn konungur. Móðir hans studdi þó Magnús góða Noregskonung og lét Játvarður fangelsa hana um tíma. Samband þeirra mæðgina var ekki gott og virðist Emma hafa haft lítið dálæti á börnum sínum af fyrra hjónabandi. Stjórnartíð Játvarðar góða var friðsæl og blómleg en hann þurfti sífellt að takast á við þrjá valdamikla jarla: Guðina jarl af Wessex og jarlana af Mersíu og Norðymbralandi. Engilsaxnesku jörlunum þótti Játvarður normannskur í hugsun og hliðhollur Normönnum og varð Guðini jarl helsti leiðtogi andstöðunnar gegn normönnskum áhrifum. Breyttist það ekkert þótt Játvarður gengi að eiga Edit dóttur hans árið 1045. Upp úr sauð þegar Játvarður útnefndi Normannann Robert of Jumièges erkibiskup af Kantaraborg og Guðini var gerður útlægur ásamt sonum sínum árið 1051 og Edit drottning send í klaustur. Guðini sneri þó aftur með her ári síðar og Játvarður neyddist til að taka við honum að nýju og senda normannska ráðgjafa sína frá sér. Guðini dó 1053 og Haraldur sonur hans tók við jarldæminu. Ríkiserfðir. Útför Játvarðar, sýnd á Bayeux-reflinum. Játvarður og Edit voru barnlaus og ekki ljóst hver ætti að erfa krúnuna. Játvarður kallaði bróðurson sinn, Játvarð útlaga son Játmundar járnsíðu, heim árið 1056 en hann hafði dvalið nær alla ævi í útlegð í Ungverjalandi. Hann dó þó nokkrum mánuðum síðar. Játvarður útnefndi son hans, Játgeir Ætheling, erfingja sinn en hann naut lítils stuðnings enskra aðalsmanna, enda barn að aldri og talinn útlendingur. Játgeir var 14 ára þegar Játvarður afabróðir hans dó 5. janúar 1066 og Haraldur Guðinason var ekki seinn á sér að hrifsa krúnuna og láta kjósa sig konung. Aðrir gerðu þó einnig kröfu til ríkiserfða og voru þar helstir þeir Vilhjálmur hertogi af Normandí og Haraldur harðráði Noregskonungur. Heilagur Játvarður. Hinrik 2. fékk Alexander III páfa til að taka Játvarð í dýrlingatölu árið 1161 og er hann verndardýrlingur konunga, erfiðra hjónabanda og fráskilinna. Hann var einnig verndardýrlingur Englands til 1348, þegar heilagur Georg tók við því hlutverki, en Játvarður er þó enn verndardýrlingur bresku konungsfjölskyldunnar. Tempranillo. Tempranillo er dökk rauðvínsþrúga frá Spáni þar sem hún er notuð í vín með mikla fyllingu, eins og Rioja-vín. Nafnið er dregið af spænska orðinu "temprano" sem þýðir „snemma“ og vísar til þess að þrúgan þroskast fyrr en flestar aðrar spænskar þrúgur. Dýrari Tempranillo-vín eru látin eldast í eikartunnum í nokkur ár áður en þau eru drukkin. Tempranillo-vín eru dökkrauð með ávæning af berjum, plómum, tóbaki, vanillu, leðri og kryddjurtum. Sangiovese. Sangiovese er rauðvínsþrúga frá Ítalíu. Nafnið er komið úr latínu "sanguis Jovis", sem þýðir: „blóð Júpíters“. Sangiovese er algengasta þrúgan á Mið-Ítalíu og er uppistaðan í Chianti-víni frá Toskana, en til að Chinti-vín geti talist slík þarf að vera að minnst kosti 70% af sangiovese-þrúgunni í víninu. Sangiovese er líka notuð í þekkt einnar þrúgu vín eins og Brunello di Montalcino og ýmis Sangiovese-vín frá Emilía-Rómanja. Þessi þrúgutegund var þekkt á 16. öld. Þekktasta afbrigði Sangiovese er Brunello. Bragðið af Sangiovese er ferskt og ávaxtaríkt og eilítið kryddað, en eldra vín sem hefur þroskast í eikartunnum fær á sig eikarkeim og jafnvel ávæning af tjöru. Syrah. Syrah eða shiraz er dökk rauðvínsþrúga notuð í bragðmikil rauðvín. Þrúgan er upphaflega frá héraðinu Rhône í Frakklandi en hún hefur notið mikilla vinsælda um allan heim og er ræktuð víða. Nafnið „shiraz“ er notað við markaðssetningu á áströlskum vínum þar sem syrah er vinsælasta dökka vínþrúgan. Syrah-vín eru bragðmikil með mikilli fyllingu. Bragðið teygir sig frá því að hafa ávæning af fjólum og berjum og getur auk þess haft keim af súkkulaði, kaffi og svörtum pipar. Með aldri fá þau aukna jarðtóna eins og af leðri og trufflum. Pinot noir. Pinot noir er rauðvínsþrúga frá héraðinu Búrgund í Frakklandi. Nafnið er úr frönsku og merkir „svartur köngull“. Það vísar til litarins á þrúgunum og hversu þétt þær sitja í klasanum. Pinot noir er ræktuð um allan heim en hún er talin erfiðari í ræktun en mörg önnur yrki. Þrúgan er mjög móttækileg fyrir bragði úr jarðvegi og gerjun og pinot noir-vín hafa því breiðan bragðvönd sem ruglar oft smakkara. Almennt séð er pinot noir með litla eða meðalfyllingu með keim af svörtum kirsuberjum, hindberjum eða kúrenum. Barbera. Barbera er rauðvínsþrúga frá Ítalíu. Vínviður hennar er þekktur fyrir að gefa mikla uppskeru, og vínin hafa djúpan rauðan lit, hafa lítið tannín og mikla sýrni. Þekktasta vínið sem framleitt er úr þrúgu þessari er Barbera d'Asti frá Fjallalandi á Ítalíu. Barbera-vín er hið hefðbundna borðvín í Fjallalandi og Langbarðalandi. Það hefur ávæning af brómberjum. Margir vínframleiðendur nota ristaðar eikartunnur til að þroska vín þrúgunnar, en það er gert til að skerpa bragðið. Utan Ítalíu er barbera aðallega ræktað af afkomendum ítalskra innflytjenda í Suður-Ameríku og í vínræktarhéruðum Kaliforníu. Landvinningar Normanna á Englandi. Landvinningar Normanna á Englandi hófust þann 28. september 1066 með innrás í England undir forystu Vilhjálms sigursæla. Hann vann sigur á Haraldi Guðinasyni í orrustunni við Hastings þann 14. október sama ár. Her Haralds var illa laskaður eftir sigur á her Haralds harðráða í orrustunni við Stafnfurðubryggju sem háð var á Norður-Englandi 25. september 1066. Það tók Vilhjálm sex ár að ná fullri stjórn á meginhluta Englands, en hann var mætti mótspyrnu allt þar til hann dó, 1087. Sigur Normanna var vendipunktur í sögu Englands. Innlenda valdstéttin missti tök sín, en í staðinn innleiddi Vilhjálmur nýjan aðal og nýja prestastétt sem talaði frönsku. Þannig hófst nýtt tímabil í sögu Englands sem kallað er Normannaöldin. Það leiddi til mikilla breytinga í tungumáli og menningu Englendinga. Landvinningar Normanna tengdu England nánar við meginland Evrópu, drógu úr áhrifum Skandinava og ýttu undir átök á milli Englendinga og Frakka í margar aldir á eftir. Auk þess höfðu þeir talsverð áhrif á önnur svæði á Bretlandseyjum, leiddu til frekari landvinninga í Wales og Írlandi, og normannskra áhrifa í Skotlandi. Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010. Frambjóðendur til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 eru íslenskir ríkisborgarar sem buðu sig fram í kosningum til stjórnlagaþings á Íslandi 2010. Hver frambjóðandi þurfti að safna að minnsta kosti 30 meðmælendum, en undirskrift hvers meðmælanda þurfti að vera vottuð með undirskriftum tveggja annara borgara. Hver meðmælandi mátti aðeins mæla með einum frambjóðanda. Skilafrestur rann út mánudaginn 18. október 2010 að hádegi, en fyrir þann tíma þurfti að skila inn umsókn til Landskjörstjórnar Hlutverk stjórnlagaþingsins átti að vera gerð tillögu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands vorið 2011. Eftir að Hæstiréttur ógilti kosninguna voru flestir þeirra, sem áður höfðu verið lýstir réttkjörnir, skipaðir fulltrúar í nýtt Stjórnlagaráð með þingsályktun Alþingis. Alls höfðu 526 manns gefið kost á sér, en þrír drógu framboð sín til baka svo eftir stóðu 523, 159 konur og 364 karlar. Eftirfarandi listi er byggður á opinberum lista Landskjörstjórnar. Fornbretar. a> um miðja 5. öld. Brýþonsk tungumál Gelísk tungumál Péttnesk tungumál Fornbretar voru þeir Keltar sem bjuggu á Bretlandi frá járnöld til upphafs miðalda. Þeir töluðu keltneska tungumálið bresku eða brýþonsku. Þeir bjuggu sunnan við Firth of Forth, en eftir 5. öld flutti talsverður fjöldi þeirra til meginlands Evrópu þar sem þeir settust að í Bretagne í Frakklandi og í Britoniu á því svæði sem er nú Galisía á Spáni. Mikið hefur verið deilt um tengsl þeirra við Pikta sem bjuggu norðan við Firth of Forth en talið er að péttneska, tungumál Pikta, sé brýþónskt tungumál skylt bresku en talsvert ólíkt henni. Fyrstu sannindamerki um Breta og tungumál þeirra eru frá járnöld. Eftir landvinninga Rómverja árið 43 e.Kr. hófst tímabil rómversk-breskrar menningar. Við komu Engilsaxa á 5. öld fór menningu Fornbreta hnignandi. Fyrir 11. öld höfðu afkomendur þeirra skipst í marga ólíka hópa og nú er átt við Walesbúa, Kornbreta, Bretóna og fólkið frá "Hen Ogledd" („gamla norðrinu“). Með tímanum breyttist breska í fjögur aðskilin tungumál: velsku, kornísku, bretónsku og kumbrísku. Józef Gosławski. Józef "Jan" Gosławski (fæddur 24. apríl 1908 í Polanówka í Póllandi, látinn 23. janúar 1963 í Varsjá) var pólskur myndhöggvari á 20. öld. Hann gerði meðal annars minnisvarða, myntir og minnispeningar. Hagkvæmnishjónaband. Hagkvæmnishjónaband kallast það þegar fólk gengur í hjónaband, ekki vegna þess að það hafi orðið ástfangið hvort af öðru, heldur til að uppfylla einhverjar fjárhagslegar eða félagslegar þarfir. Stundum er talað um hagkvæmnishjónaband þegar ættin eða foreldrar velja börnum sínum maka en einnig kann fólk að kjósa sjálft að ganga í hjónaband þótt ást sé ekki til staðar vegna einhvers ávinnings eða af því að það hentar því af einhverjum ástæðum betur en einlífi. Stundum er tilgangur hagkvæmnishjónabands sá að öðlast einhver tiltekin réttindi og er hjónabandið þá oft aðeins málamyndagerningur, svo sem þegar fólk giftist til að eiga aukna möguleika á dvalarleyfi eða hæli í heimalandi makans. Annað dæmi um slíkt eru „sparimerkjagiftingar“ sem nokkuð var um á Íslandi fyrr á árum. Rómverska Bretland. Rómverska Bretland á við þann hluta Bretlandseyja sem Rómverjar stjórnuðu frá árinu 43 til um það bil 410. Rómverjar kölluðu þetta svæði Brittaníu, og með tíð og tíma náði það yfir suðurhluta landsins norður að landamærum Kaledóníu. Fyrir landvinninga Rómverja höfðu Bretar menningar- og viðskiptatengsl við meginland Evrópu, en innrásarmennirnir innleiddu nýjungar í landbúnaði, þéttbýlisþróun, iðnaði og byggingarlist. Enn í dag sjást merki um þessi áhrif. Heimildir sem fjalla um tímann eftir landvinninga Rómverja eru fáar, en nokkrir rómverskir sagnaritarar fjalla lauslega um Brittaníu. Nöfn margra landstjóra Brittaníu eru þekkt. Helstu heimildir um rómverska Bretland stafa frá fornleifafundum og áletrunum. Fyrsta herferð Rómverja til Bretlands var á vegum Júlíusar Caesars árið 55 og 54 f.Kr. Landvinningar byrjuðu þó ekki fyrr en 43 e.Kr. undir stjórn Claudíusar keisara. Rómverjar stofnuðu þar rómverskt skattland og smám saman færðu þeir út yfirráðasvæði sitt, en aldrei tókst þeim að ná tökum á Kaledóníu. Landvinningum þessum fylgdi tímabil rómversk-breskrar menningar. Til þess að koma í veg fyrir árásir úr norðri byggðu Rómverjar Hadríanusarmúrinn á norðurlandamærum skattlandsins, og var lokið við hann um árið 128. Árið 142 fóru þeir enn norðar og byggðu Antonínusarmúrinn, en hörfuðu suður um það bil tuttugu árum síðar. Um árið 197 skiptist Brittanía í tvö skattlönd: Britannia Superior og Britannia Inferior, en árið 305 skiptist hún í fleiri skattlönd og var gerð að biskupsdæmi. Þá var mikið um innrásir barbara og skattlöndin komust oft undir stjórn valdaræningja. Rómverjar fóru frá Bretlandi árið 410 en áhrif þeirra héldust í mörg hundruð ár. Firth of Forth. Loftmynd af Firth of Forth Norður-England. Norður-England (e. "Northern England", "North of England" eða "the North") er ekki opinbert stjórnunarsvæði á Englandi, en er óformlegt samband sýslna sem eiga sameiginlega menningu og sögu. Suðurhluti svæðisins nær að ánni Trent og norðurhlutinn á landamæri að Skotlandi. Sögulega hefur eyjan Mön verið tengd svæðinu og að sumu leyti er hún það enn. Íbúar á Norður-Englandi eru um það bil 14,5 milljónir, og svæðið er 37.331 km² að flatarmáli. Í fornöld var Norður-England hluti "Brigantiu", stærsta brýþonska konungsríkis á Bretlandi. Eftir landvinninga Rómverja á Bretlandi varð Jórvík höfuðborg svæðisins, sem þá hét Britannia Inferior og síðar Britannia Secunda. Eftir tímabil Rómverja urðu til ný konungsríki "Hen Ogledds" („gamla norðursins“). Englar stofnuðu konungsríkin Bernisíu og Deiru. Þaðan kom konungsríkið Norðymbraland sem átti sína gullöld í menningu og menntun. Höfuðstaður þess var Lindisfarne, þar sem írskir munkar stofnuðu munkaklaustur. Síðar komst svæðið undir stjórn Víkinga sem stofnuðu þar Danalögin. Á þeim tíma voru sterk tengsl á milli Norður-Englands og Manar, Dyflinar og Noregs. Síðar sameinaði Játráður Englandskonungur Norðymbraland Englandi. Við landvinningar Normanna árið 1066 hófst óróatímabil á Norður-England, en mikil uppbygging og stofnun nýrra bæja fylgdu því. Á miðöldum var ráð Norður-Englands stofnað, og starfaði það fram til upphafs enska samveldisins. Á svæðinu voru margar orrustur háðar, þar til Bretland sameinaðist á Stúart-tímabilinu. Hlutdeildarskírteini. Hlutdeildarskírteini er hugtak í viðskiptafræði og er haft um þá staðfestingu sem eigandur í verðbréfa- og fjárfestingarsjóði fá þegar sjóðurinn fjárfestir. Á hlutdeildarskírteininu kemur til dæmis fram uppgefin hlutdeild þeirra í fjárfestingunni, en eigendur hlutdeildarskírteina eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína. Meginreglan er sú að hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum eru ætíð innleysanleg að kröfu eiganda. Aftur á móti gera lög ekki ráð fyrir því að hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða séu ætíð innleysanleg að kröfu eiganda. Listi yfir afskriftir fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þetta er listi yfir afskriftir fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins 2008'": Tekið er fram hvaða fyrirtæki fékk afskriftirnar ("debt write-off") - hversu háar þær voru og hvenær þær fóru fram og hvaða banki afskrifaði. Hafa ber í huga að afskriftir skulda fyrirtækja eru á kostnað bankanna og kröfuhafa þeirra. Þær eru ekki greiddar af skattborgurum eða almenningi. Í svörum efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar, við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar á Alþingi 2011 kom fram að afskriftir til fyrirtækja og hlutafélaga námu 480 milljörðum króna af alls 503 milljarða afskriftum lána í bankakerfinu á árunum 2009 og 2010. Beringshaf. Kort sem sýnir Beringshaf fyrir miðju, til hægri er Alaska og til vinstri Síbería með Kamtjatkaskaga Beringshaf (á ensku: Bering Sea; á rússnesku: Бе́рингово мо́ре) er hafssvæði í nyrsta hluta Kyrrahafsins milli Alaska í austur, austurströnd Síberíu og Kamtjatkaskaga í vestur, Alaskaskaga og Aleuteyjum í suður og suðaustur. Í norður tengist það Tjúktahafi og Norður-Íshafi í gegnum Beringssund. Hafið dregur nafn af danska landkönnuðinum Vitus Bering sem fyrstur Evrópumanna fór þar um árið 1728 og síðar 1741. Beringshaf er 2 315 000 km² að flatarmáli, og mæting hafsstrauma norðan úr Íshafi og sunnan úr Kyrrahafi gera það að einu ríkasta sjávarlífríki á jörðu. Bæði Bandaríkin og Rússland eiga landhelgi á Beringshafi auk alþjóðlegs hluta sem nefndur er „Donut Hole“ á ensku. Krókódíll. Krókódíll er skriðdýr af ættinni "Crocodylidae" innan krókódílaættbálks. Sparimerkjagifting. Sparimerkjagifting eða sparimerkjabrúðkaup kallaðist það þegar ungt fólk gekk í hjónaband til að geta leyst út skyldusparnað, en á árunum 1957-1993 var öllum ungmennum á aldrinum 16-25 ára skylt að spara ákveðinn hluta launa sinna, lengst af 15%, og greiddi vinnuveitandi þann hluta launanna með sparimerkjum sem viðtakandi límdi svo inn í þar til gerða sparimerkjabók og geymdi. Sparimerkin fengust útborguð við 26 ára aldur en hægt var að fá undanþágu og fá uppsafnaðan sparnað greiddan út, meðal annars vegna skólanáms, við íbúðarkaup eða stofnun heimilis og var í síðastnefnda tilvikinu miðað við giftingu. "„Sparimerkjagifting. Er kannski svipað ástatt fyrir þér, unga mær. Þú færð ekki að leysa fjárhagsvandræðin öðruvísi en að gifta þig. Leggðu þá nafn þitt og símanúmer inn á augld. DV merkt Beggja hagur 832.“" "„Ert þú blönk? En átt inni skyldusparnað? Hvað um samhjálp í krísu, þ.e. „sparimerkjagiftingu“. Greiði allan kostnað. Trúnaður. Tilboð sendist DV, merkt D7.“" Oftast lauk kynnum hjónanna þegar að giftingarathöfninni afstaðinni, nema hvað þau þurftu seinna að ganga frá skilnaði. Það gat þó dregist og dæmi voru um að fólk uppgötvaði mörgum árum síðar, þegar það ætlaði að giftast öðrum, að sparimerkjahjónabandið var enn í fullu gildi. Skyldusparnaður var lagður niður 1993 en nokkru áður hafði undanþága vegna giftingar verið numin úr gildi vegna sparimerkjabrúðkaupa. Scream. Scream (ísl. "Öskur") er bandarísk hrollvekjumynd frá árinu 1996 samin af Kevin Williamson og leikstýrð af Wes Craven. Með aðalhlutverkin fara David Arquette, Neve Campbell, Courtney Cox og Jamie Kennedy ásamt fleirum leikurum. Myndin var gífurlega vinsæl og fjöldin af hermimyndum fylgdu í kjölfarið og grínmyndin "Scary Movie" frá 2000 var aðallega að gera grín að "Scream"-myndunum. Söguþráður. Myndin byrjar á því að miðskólastelpan Casey Becker og kærastinn hennar Steve Orth eru myrt af grímuklæddum morðingja (Ghostface) sem hafði hringt í Casey, spurt hana spurningar um hrollvekjumyndir og hótað henni síðan lífláti. Næsta dag eru allir bæjarbúar Woodsboro í sjokki. Þetta er ekkki heldur góð tímasetning fyrir hina ungu Sidney Prescott, því árið áður var móður hennar myrt og nauðgað. Sidney taldi Cotton Weary sekan því að jakkinn hans fanst hjá líki móður hennar og var hann dæmdur til dauða. Fréttakonan Gale Weathers kemur til Woodsboro til að fjalla um morðin á Casey og Steve og er einnig að gefa út bók um sakleysi Cottons. Þegar morðinginn ræðst á Sidney kemur í ljós að hún er aðalfórnarlambið hans. Dewey Riley reynir leysa málið og það endar með því að yfirvöld koma á útgöngubanni fyrir allan almenning til að koma í veg fyrir fleiri morð en unglingarnir halda í staðinn partí í afskekktu húsi fyrir utan bæinn; tilvalið tækifæri fyrir morðingjann að drepa fleiri af vinum Sidneyar. Endirinn. Í endanum kemur í ljós að Billy Loomis, kærasti Sidneyar, og Stu Macher, besti vinur hans, voru morðingjarnir og myrtu líka móður Sidneyar árið áður vegna þess að mamma hennar svaf hjá föður Billys sem olli því að móðir hans yfirgaf hann. Stu hinsvegar vildi bara gera lífið sitt eins og hrollvekju. Saman ætluðu þeir að skella skuldinni á föður Sidneyar en Gale bjargaði Sidney og Randy, og svo drap Sidney Billy. Leikarar. David Arquette sem Dwight „Dewey“ Riley Neve Campbell sem Sidney Prescott Courtney Cox sem Gale Weathers Rose McGowan sem Tatum Riley, besta vinkona Sidneyar og litla systir Deweys Skeet Ulrich sem Billy Loomis, kærasti Sidneyar Matthew Lillard sem Stuart „Stu“ Macher, besti vinur Billys og kærasti Tatum Jamie Kennedy sem Randy Meeks, vinur Sidneyar og kvikmyndanörd sem vinnur á videóleigu W. Earl Brown sem Kenny, myndatökumaður Gale Henry Winkler sem Himbry skólastjóri Lawrence Hecht sem Neil Prescott, faðir Sidneyar Joseph Whipp sem Burke fógeti Drew Barrymore sem Casey Becker, fyrsta fórnalambið og skólasystir Sidneyar Lynn McRee sem Maureen Prescott, móðir Sidneyar sem var myrt og nauðgað fyrir ári síðan Liev Schreiber sem Cotton Weary, maðurinn sem Sidney taldi að hafa myrt móður sína Roger L. Jackson sem rödd Ghostface Viðtökur. "Scream" varð óhemjuvinsæl þegar hún kom út og fólkinu fannst sniðugt að "Scream" var að gera grín að gömlum hrollvekjuklisjum, búa til reglur hvernig á að lifa af hrollvekju og að persónurnar töluðu sífellt um aðrar kvikmyndir. Framhaldið "Scream 2" kom út 1997 og fékk hún ágætis dóma og "Scream 3" kom svo út 2000. Wes Craven leikstýrði öllum þrem og Kevin Williamson samdi handritið að "Scream 2". "Scream 4" er væntanleg í apríl 2011 undir leikstjórn Cravens og handritagerðar Willamsons ásamt tveimur framhaldsmyndum: "Scream 5" (2012) og "Scream 6" (2013). Vinsældir "Scream" olli endurlífgun hrollvekjumyndanna og fjöldinn allur af hermimyndum fylgdu s.s. "I Know What You Did Last Summer" (einnig samin af Kevin Williamson), "Urban Legend", "Cherry Falls" o.fl. Flestar þessara mynda fengu hræðilega dóma. Einnig var haldið áfram með gamlar hrollvekjur eins og "Nightmare on Elmstreet" (upprunalega myndin frá 1984 var samin og leikstýrð af Wes Craven) og "Friday the 13th". Ingi Randver Jóhannsson. Ingi Randver Jóhannsson (fæddur 5. desember 1936 og dáinn 2010) var íslenskur alþjóðlegur meistari og landsliðsmaður í skák. Ingi varð Íslandsmeistari árin 1956, 1958, 1959 og 1963 auk þess að hafa verið Norðurlandameistari 1961. Staðgengilsbrúðkaup. Staðgengilsbrúðkaup er brúðkaup þar sem annaðhvort brúður eða brúðgumi, hugsanlega bæði, eru fjarstödd en staðgengill svarar fyrir þann fjarstadda. Slík hjónabönd eru þó ekki lagalega bindandi nú á tímum nema í fáeinum löndum. Fyrr á öldum voru staðgengilsbrúðkaup algeng hjá konungs- og aðalsættum Evrópu. Þegar konungsdóttir eða hefðarjómfrú giftist til fjarlægs lands eða héraðs sendi brúðguminn oft fulltrúa sinn sem giftist brúðinni sem staðgengill hans og flutti hana svo til nýrra heimkynna, þar sem önnur giftingarathöfn fór yfirleitt fram. Stundum leið þó alllangur tími þar til brúðhjónin hittust. Þannig giftist til dæmis Katrín af Aragóníu Arthúr prinsi af Wales 19. maí 1499 en þau sáust fyrst 4. nóvember 1501 og var giftingarathöfn haldin tíu dögum síðar. Eitt þekktasta dæmið á síðari öldum er brúðkaup Napóleons Bónaparte og Maríu Lovísu, síðari konu hans, en hún giftist staðgengli keisarans 11. mars 1810 og síðan honum sjálfum 1. apríl sama ár. Hjónabandið taldist þó ekki fullkomið fyrr en hjónin höfðu haft kynmök og þótt staðgengisbrúðkaup væri lagalega bindandi var yfirleitt auðveldara að ógilda slík hjónabönd en önnur og stundum var ekki einu sinni hirt um það. Anna hertogaynja af Bretagne giftist Maxímilían 1. af Austurríki 1490 með staðgengli en þau höfðu enn aldrei hist þegar Karl 8. Frakkakonungur þvingaði hana til að giftast sér ári síðar og Innósentíus VIII páfi lýsti svo hjónaband þeirra löglegt þar sem hjónaband Önnu og Maxímilíans hefði aldrei verið fullkomnað. Staðgengilsbrúðkaup tíðkast enn sumstaðar, oftast vegna þess að annað hjónanna getur ekki verið viðstatt vegna herþjónustu, fangelsisvistar, farbanns eða af öðrum gildum ástæðum. Lagalegt gildi þeirra er þó misjafnt. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna geta hermenn í þjónustu erlendis þó notað staðgengil til að giftast maka sínum löglega. Rússneski geimfarinn Júríj Malechenko giftist Ekaterínu Dmitrievu með staðgengli 10. ágúst 2003. Hann var þá í geimstöð á sporbaug um jörðu en hún í Texas. Beaufort-haf. Blái liturinn sýnir Beauforthafið Beauforthafið er hafsvæði í Norður-Íshafi norðan við Alaska og norðvestur Kanada. Hafsvæðið er um 80 000 km² að flatarmáli og mesta dýpt er 4 683 metrar. Beauforthaf er ísi þakið allt árið að undanteknum mánuðunum ágúst og september þegar 50 til 100 km breið rák næst landi opnast. Hafsvæðið er nefnt eftir breska aðmírálnum Sir Francis Beaufort. Á hafsbotninum fannst olía og gas upp úr 1960 en fyrstu tilraunaboranirnar fóru fram 1986. Bandaríkin og Kanada deila enn um hvar draga eigi mörk milli landanna á hafsvæðinu. Mackenziefljótið og mörg minni fljót renna út í Beauforthaf en í því er mjög ríkt dýralíf fiska, fugla, sela og hvala. Þar er meðal annars mikið af mjaldri. Hannes Hlífar Stefánsson. Hannes Hlífar Stefánsson (fæddur 18. júlí 1972) er sjöundi og jafnframt einn fremsti Stórmeistari Íslands í skák. Hann hlaut stórmeistaratitilinn árið 1993. Scream 2. Scream 2 (ísl. "Öskur 2") er bandarísk hrollvekjumynd frá 1997 og er framhaldsmynd af "Scream" frá 1996. Höfundur fyrstu myndarinnar, Kevin Williamson, samdi framhaldsmyndina og Wes Craven, leikstjóri fyrstu myndarinnar, leikstýrði framhaldinu. Með aðalhlutverkin fara David Arquette, Neve Campbell, Courtney Cox og Jamie Kennedy ásamt öðrum leikurum. Söguþráður. Tvö ár eru liðin frá Woodsboro-morðunum og Sidney er byrjuð í Windsor-háskólanum ásamt Randy, sem lifði fyrri myndina af. Sidney er byrjuð í leiklist og er á föstu með strák sem heitir Derek. Cotton Weary var sýknaður morðinu á móður Sidneyar og Gale Weathers hefur gefið út bók byggt á Woodsboro-morðunum. Á frumsýningu hrollvekjumyndarinnar Stab (sem er byggð á bók Gale) eru tveir Windsor nemendur (Maureen Evans og Phil Stevens) myrtir af Ghostface. Skyndilega fylkjast fjölmiðlarnir að Sidney meðal þeirra Gale og smáfréttakonan Debbie Salt. Dewey kemur til Windsor til að vernda Sidney og fær hrollvekjusérfræðinginn Randy að hjálpa sér að klófesta morðingjann. Þegar Casey „Cici“ Cooper er myrt sjá Gale og Dewey að morðinginn er að herma eftir Woodsboro-morðunum (Maureen Evans - Maureen Prescott; Phil Stevens - Steven Orth; og Casey Cooper - Casey Becker). Endir. Í enda myndarinnar kemur í ljós að morðingjarnir voru Mickey og Debbie Salt. Debbie var í rauninni frú Loomis, móðir Billys, og ætlaði að drepa Sidney fyrir að hafa drepið son sinn. Hún fann Mickey á spjallsíðu og fékk til að hjálpa sér þegar hún borgaði háskólanámið hans. Mickey ætlaði að láta lögregluna handtaka sig og síðan ætlaði hann að kenna kvikmyndunum um og öðlast frægð í gegnum réttarhöldin. Frú Loomis skýtur síðan Mickey og reynir að drepa Sidney en Cotton Weary bjargar henni. Í endanum lifðu bara Sindey, Dewey, Gale og Cotton af (Randy var myrtur af frú Loomis fyrir að tala illa um Billy og Derek var myrtur af Mickey). Upphaflega áttu Hallie, Derek og frú Loomis að vera morðingjarnir en handritið var opinberað þannig að Hallie og Derek voru drepin og Mickey var gerður að hinum morðingjanum. Vinnsla. Meðan var verið að taka upp fyrstu Scream-myndina stakk Kevin Williamson upp á því að gera þetta að þríleik ef fyrsta myndin yrði nógu vinsæl og var hún heldur betur það. Wes Craven ákvað að leikstýra framhaldsmyndinni og leikurunum leist vel á handritið og komu aftur. Þrátt fyrir að koma út einu ári eftir að fyrri myndin kom út er tvö ár liðin frá Woodsboro-morðunum. Viðtökur. Myndin fékk ágætisdóma og flestum finnst myndinn jafngóð ef ekki betri en fyrri myndin (sem er sjaldgjæft hjá framhaldsmyndum). Það eina sem aðdáendunum líkaði ekki var að Randy þurfti að deyja enda var hann uppáhaldspersóna flestra. Gary Neville. Gary Neville (fæddur 18. febrúar 1975) er enskur fyrrverandi knattspyrnumaður sem spilaði með Manchester United. Neville, Gary Cornelius Fudge. Cornelius Fudge er galdramàlaráðherra í Harry Potter-bókunum. Hann er yfirleitt með grænan kúluhatt og klæddur í svarta skikkju. Honum var sparkað úr embætti eftir að hafa harðneitað því að Voldemort hafi snúið aftur. í stað hanns kom Rufus Skrimgur sem var áður yfirmaður skyggnaskrifstofunnar. Akureyjar (Skarðsströnd). Akureyjar er eyjaklasi fyrir Skarðsströnd í Dalasýslu, út af mynni Gilsfjarðar og hafa eyjarnar raunar stundum verið sagðar í Gilsfirði. Heimaeyjan, þar sem bærinn var, er í miðjum klasanum, umkringd um 30 smærri eyjum og er víða grunnt á milli eyjanna og hægt að ganga þar um fjöru. Varast ber að rugla eyjunum saman við Akureyjar í Helgafellssveit. Á fyrri öldum voru eyjarnar stundum byggðar en stundum ekki þótt þar þætti góð bújörð því eigendur þeirra bjuggu á höfuðbólum uppi á landi og vildu stundum nýta eyjarnar sem hlunnindi í stað þess að leigja þær. Þar var þó búið 1703 en á meðan Magnús Ketilsson sýslumaður bjó í Búðardal á síðari hluta 18. aldar og átti eyjarnar nytjaði hann þær sjálfur. Afkomendur hans settust þar svo að og dóttursonur hans, séra Friðrik Eggerz, bjó þar frá 1851 um nær 30 ára skeið og er þekktasti ábúandi eyjanna. Minningar hans," Úr fylgsnum fyrri aldar I-II", komu út á árunum 1950-1952. Ein af vinnukonum séra Friðriks í Akureyjum var skáldkonan Júlíana Jónsdóttir, sem varð fyrst íslenskra kvenna til að gefa út ljóðabók, og var hún oft kennd við eyjarnar. Akureyjar fóru í eyði 1954. Síðasti ábúandi eyjanna var Tómas Jónsson frá Elivogum á Langholti í Skagafirði, þekktur sem fyrirmyndin að Hervaldi í Svalvogum í skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, "Þjófur í Paradís". Birgir Leifur Hafþórsson. Birgir Leifur Hafþórsson (fæddur 16. maí 1976 á Akranesi) er kylfingur. Hann varð atvinnumaður í golfi tvítugur eða árið 1997. Birgir Leifur hefur orðið Íslandsmeistari í golfi í fjögur skipti, síðast árið 2010. Elendis lenti Birgir Leifur í öðru sæti í úrtökumóti fyrir síðari hluta sænsku mótaraðarinnar, í Vesteras, árið 1997. Stofnað var fyrirtæki um kylfinginn, sem heitir Eigendur Birgis. Íslandsmeistarar í golfi. Íslandsmeistaramótið í golfi hefur verið haldið frá 1942 í karlaflokki og frá 1967 í kvennaflokki. Steinkol. Steinkol eru kol með mjög hátt kolefnisinnihald, eða 75 – 90% og því það kol sem mest eru unnin til eldsneytis. Þau eru kolsvört á litin, gljáandi og mjög hörð og finnast í misþykkum lögum í jörðu. Sem eldsneyti eru þau einkum notuð til raforkuframleiðslu og fyrir fjarveitur til húshitunar en einnig til gas og koks framleiðslu. Høgni Hoydal. Høgni Karsten Hoydal (fæddur 28. apríl 1966 í Kaupmannahöfn) er færeyskur stjórnmálamaður. Hoydal, Høgni Karsten Bankasýsla ríkisins. Bankasýsla ríkisins er íslensk ríkisstofnun sem tók til starfa í janúar 2010 í kjölfar bankahrunsins 2008. Hlutverk stofnunarinnar er að fara með hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og á hún að hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum eftir að hún var sett á fót. Tímon og Púmba. Tímon og Púmba eru persónur í teiknimyndunum "Konungi ljónanna" og annarri sem er samnefnd þeim báðum. Púmba er feitt vörtusvín en Tímon er jarðköttur. Upplýsingalæsi. Upplýsingalæsi er nýlegt hugtak á sviði bókasafns- og upplýsingafræða sem snýst um að geta skilgreint ákveðna og meðvitaða upplýsingaþörf og geta fullnægt henni með því að afla viðkomandi þekkingar. Hugtakið er ákveðin framlenging á hugtakinu læsi sem vísar til þess að kunna að lesa. Aðrar framlengingar á læsi hafa einnig verið nefndar til sögunnar og jafnvel talist nauðsynlegar til þess að einhver geti talist upplýsingalæs; s.s. myndlæsi, fjölmiðlalæsi, tölvulæsi og netlæsi. Í Prag-yfirlýsingunni svonefndu um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu frá árinu 2003 var upplýsingalæsi sagt fela í sér „"þekkingu á eigin upplýsingaþörfum og hæfileikanum til að staðsetja, finna, meta, skipuleggja og nota á skilvirkan hátt upplýsingar við að fjalla um þau málefni og viðfangsefni sem eru til staðar, er forsenda þess að taka fullan þátt í upplýsingasamfélaginu og er hluti af þeim grundvallar mannréttindum að njóta símenntunar"“. Við þessa skilgreiningu hefur krafa um siðræna notkun upplýsinga og gagnrýna hugsun einnig bætst. Hugtakið upplýsingalæsi er fyrst talið hafa verið notað árið 1974 af Paul G. Zurkowski, sem var þá formaður Samtaka Upplýsingaiðnaðsins (í dag "Software and Information Industry Association"). Með aukinni hnattvæðingu; þróunar á sviði upplýsingatækni hefur umræða um upplýsingalæsi orðið meira áberandi. Dennis Hastert. John Dennis „Denny“ Hastert (2. janúar 1942) er bandarískur stjórnmálamaður. Hastert var þingmaður Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir 14 kjördæmi Illinois frá 1987 til 2007. Frá 1999 til 2007 gegndi Dennis starfi þingforseta fulltrúadeildarinnar. Hastert er sá repúblikani sem hefur gengt starfi þingforseta hvað lengst. Hastert sagði af sér þingmennsku 26. nóvember 2007, en hann hafði þá verið bendlaður við nokkur spillingarmál. Hastert hafði þannig tengst víðfemu spillingarmáli Jack Abramoff, hann var sakaður um að hafa beitt völdum sínum í þinginu til að hagnast á óheiðarlegu landabraski í Illinois og fyrir að hafa hylmt yfir kynferðislegri áreitni repúblikanans Mark Foley gegn ungum karlkyns starfsmönnum þingsins. Dennis Hastert er sagður fyrirmyndin að persónunni Glen Allen Walken, þingforseta Bandaríkjaþings í sjónvarpsþáttunum The West Wing. Walken er leikinn af John Goodman. Hastert, Dennis Martröð á Álmstræti. "A Nightmare on Elm Street" (ísl. "Martröð á Álmstræti") er hrollvekjumynd frá 1984 sem var samin og leikstýrð af Wes Craven. Með aðalhlutverkin fara Heather Langenkamp, Robert Englund, John Saxon, Ronee Bakley og Johnny Depp (í sínu fyrsta hlutverki í kvikmynd). Söguþráður. Myndin fjallar um unglingsstúlkuna Nancy Thompson og vini hennar sem eru ásóttir í draumi af Freddy Krueger. Freddy drepur vini Nancyar í draumi með hnífahanska og hefur mátt til þess að stjórna draumum krakkana. Foreldrar Nancyar segja henni að Freddy var barnamorðingi sem myrti yfir tuttugi börn á Álmstræti. Hann var handtekinn en var sleppt á tækniatriði. Foreldrarnir á Álmstræti tóku lögin í eigin hendur og brenndu Freddy lifandi inn í skemmunni þar sem hann myrti börnin og nú er Freddy að drepa börn foreldrana í draumi til að hefna sín. Nancy ákveður að hún verður að færa Freddy úr draumheiminum í raunveruleikan til að drepa hann. Halloween. "Halloween" (ísl. "Hrekkjavaka") er sjálfstæð bandarísk hrollvekjumynd frá 1978 sem var samin af John Carpenter og Debru Hill og leikstýrð af John Carpenter. Carpenter samdi einnig tónlistina í myndinni. Með aðalhlutverkin fara Donald Pleasence og Jamie Lee Curtis (í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki). Framhaldið "Halloween II" kom út 1981 og átta framhaldsmyndir fylgdu. Myndin var endurgerð 2007 af Rob Zombie. Söguþráður. Hrekkjuvökukvöldið 1963 í smábænum Haddonfield í Illinois myrðir sex ára gamall Michael Myers 15 ára gömlu systur sína Judith með eldhúshníf. Hann er lagður á Smith's Grove-geiðveikrahælið í umsjón Dr. Sams Loomis sem er staðráðinn í að Michael sé illskan uppmáluð. Eftir að hafa verið 15 ár í Smith's Grove er Michael fluttur í öryggisfangelsi en sleppur kvöldið fyrir hrekkjavökuna og fer aftur til Haddonfield og Loomis flýtir sér þangað. Loomis uppgötvar að Michael hefur tekið legstein Judithar og fær Brackett fógeta að hjálpa sér að finna hann. Michael (nú með hvíta plastgrímu um andlitið) byrjar að elta unglingsstelpuna Laurie Strode. Hrekkjavökukvöldið á Laurie að passa fyrir vinafólk og vinir hennar skemmta sér í húsinu á móti en Michael myrðir þau miskunarlaust og stillir þeim upp svo að Laurie getur fundið þau þegar hún rannsakar húsið. Michael ræðst að henni og hún flýr. Hún stingur Michael með prjóni í hálsinn og með herðatré í augað og hníf í bringuna en hann deyr ekki. Þegar Michael er að kyrkja Laurie bjargar Loomis henni og skýtur Michael sex sinnum og hann dettur af svölunum. Þegar Loomis kemur út á svalirnar er Michael horfinn. Halloween II. "Halloween II" (ísl. "Hrekkjavaka II") er bandarísk hrollvekjumynd frá árinu 1981 og er framhald "Halloween" frá 1978. Höfundar fyrstu myndarinnar John Carpenter og Debra Hill sömdu framhaldið og Rick Rosenthal leikstýrði (og John Carpenter leikstýrði nokkrum senum). Með aðalhlutverkin fara Donald Pleasence og Jamie Lee Curtis. Carptenter semur tónlistina ásamt Alan Howarth. Framhaldið "Halloween III: Season of the Witch" kom út 1982. Myndin var svo endurgerð 2009 af Rob Zombie. Söguþráður. Myndin byrjar þar sem fyrri myndin endaði: Eftir að Michael Myers myrti þrjá unglinga og réðst á Laurie Strode skaut Dr. Sam Loomis Michael sex sinnum og hann féll niður af svölum en tókst að sleppa. Á meðan Laurie er flutt á spítala leita Dr. Loomis og lögreglumenn Haddonfield að Michael. Þeir sjá grímklæddan mann sem flýr frá þeim en lendir milli tveggja bíla sem springa og hann deyr. Loomis er ekki viss um að þetta hafi verið Michael. Í rauninni er Michael á lífi og frétti af því að Laurie var flutt á spítalan og brýst þar inn og byrjar að drepa starfsfólkið eitt á fætur öðru. Á spítalanum verður sjúkraliði sem heitir Jimmy skotinn í Laurie og vingast við hana. Meðan Laurie sefur fær hún endurlit um það þegar henni var sagt ap hún væri ættleidd. Seinna segir Jimmy Laurie að morðinginn hafi heitið Michael Myers — sem myrti eldri systur sína sex ára gamall 1963 og hafði sloppið frá geðveikrahælinu og Laurie spyr hvers vegna Michael hafi reynt að drepa sig en Jimmy veit ekki svarið Það kemur í ljós að grímuklæddimaðurinn var 17 ára gamall unglingur. Þeir komast að því að Michael hafði einnig brotist inn í grunnskóla og hafði skrifað „Samhain“ í blóði á töfluna (Samhain er drottnari hinna dauðu og hátíð hans er 31. október þ.e. hrekkjavaka). Aðstoðarkonan hans Marion Chambers kemur í skólann og segir Loomis að yfirgeðlæknir Smith‘s Grove-hælisins vilji skipta Loomis út fyrir annan lækni til að finna Michael. Á spítalanum tekst Michael að finna herbergi Lauriear en henni hafði tekist að sleppa en deyfilyfið sem henni var gefið kemur í veg fyrir að hún komist langt. Jimmy og ein hjúkkan reyna að finna Laurie og hitt starfsfólkið. Jimmy finnur yfirhjúkkuna Alves látna (Michael hafði bundið hana niður dælt úr henni blóðinu) en rennur í blóðpollinum og rotast. Hjúkkan reynir að fara og láta lögregluna vita en Michael skar á bensínleiðsluna og dekkin á öllum bílunum í bílastæðinu. Hún flýtir sér inn og finnur Laurie en Michael drepur hana og byrjar að elta Laurie. Henni tekst að sleppa og kemst út á bílastæðið og felur sig inn í bíl. Á meðan eru Dr. Loomis og Marion á leiðinni til geðveikrahælisins. Marion segir Loomis að Laurie Strode er litla systir Michaels Myers. Loomis neyðir lögreglumanninn með byssu til að fara með sig á spítalann vegna þess að hann veit Michael ætlar að drepa þessa systur sína líka. Jimmy fer inn í bílinn sem Laurie felur sig í og reynir að starta hann en hann fer ekki í gang og fellur í yfirlið með andlitið á flautuna. Laurie reynir að koma sér úr bílnum og sér Dr. Loomis koma. En er of veikburða til að kalla til þeirra og þau fara inn í spítalann. Hún kemst á fætur og hleypur að spítaladyrunum en Michael kemur á bílaplanið og eltir hana. Loomis hleypur Laurie inn og skýtur Michael fimm sinnum. Marion fer út í bílinn og kallar á liðsauka. Michael rís og drepur lögreglumanninn. Loomis og Laurie flýja og felu sig í skurðstofu en Michael brýst inn og stingur Loomis. Laurie tekur byssu sem Loomis gaf henni og skýtur Michael í bæði augun en hann lifir enn. Loomis kemst á fætur og byrjar að skrúfa fyrir eldfim gös og segir Laurie að flýja. Eftir að Laurie er farin kveikir Loomis á kveikjara og hann og Michael lenda í sprengingunni og Michael deyr loksins. Laurie er í sjokki en er flutt á annann spítala Ferdinand de Saussure. Ferdinand de Saussure (26. nóvember 1857 – 22. febrúar 1913) var svissneskur málvísindamaður og einn þeirra sem lagði grunninn að þróun málvísinda á 20. öld. Hann er talinn faðir strúktúralismans. Tenglar. de Saussure, Ferdinand Dauðarósir. Dauðarósir er skáldsaga eftir Arnald Indriðason sem kom út árið 1998. Söguþráður. Lík ungar stúlku finnst á leiði Jóns Sigurðsonar skömmu eftir hátíðarhöldin 17. júní. Enginn veit hver hún er, hvaðan hún kemur eða hvers vegna hún var myrt. Og því síður afhverju hún var lögð á leiði sjálfstæðishetju Íslands. Við rannsókn málsins kemur í ljós að dauði stúlkunnar er angi af enn stærra máli sem snertir alla þjóðina og gæti áður en yfir lýkur valdið einhverjum mestu þjóðfélagsbreytingum sem orðið hafa í Íslandssögunni. Tom Foley. Thomas Stephen Foley (fæddur 26. mars 1929) er bandarískur stjórnmálamaður. Foley sat á þingi fyrir demokrataflokkinn sem fulltrúi 5. kjördæmis Washingtonríkis frá 1965 til 1995. Foley var þingforseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá 1989 til 1995. Foley, sem er lögfræðingur að mennt, var fyrst kjörinn á þing í stórsigri demokrataflokksins í kosningunum 1964 þegar frambjóðandi demokrata Lyndon B. Johnson sigraði repúblíkanann Barry Goldwater. Kjördæmi Foley hafði fram að því kosið repúblíkana en eftir að hafa náð kjöri 1964 náði Foley kjöri með nokkuð öruggum hætti í þrjá áratugi. Í kosningunum 1994, þar sem repúblíkanar unnu sögulegan stórsigur sinn undir forystu Newt Gingrich, féll Foley hins vegar út af þingi og var fyrstur sitjandi þingforseta í sögu Bandaríkjanna til að ná ekki endurkjöri. Árið 1981 var Foley kjörinn „Svipa“ demokrataflokksins í fulltrúadeildinni. Foley gegndi því embætti til 1987, þegar hann tók við embætti þingflokksformanns. Árið 1989 tók Foley við sem forseti deildarinnar af Jim Wright. Foley gegndi því starfi til 1995 þegar hann féll út af þingi. Árið 1997 skipaði Bill Clinton Foley sendiherra Bandaríkjanna í Japan. Foley gegndi því starfi til 2001 þegar hann settist í helgan stein. Foley, Tom Títanía (tungl). Titanía er stærsta tungl Úranusar. Það er um helmingi minna en tungl Jarðar og áttunda stærsta tungl sólkerfis. Þvermál Títaníu er 1578 km, og hún snýst um Úranus á níu dögum. Þýskur stjörnufræðingur William Herschel, sá sami og fann Úranus, uppgötvaði Títaníu þann 11. janúar 1787. Stærsta glúfur tunglsins er Messina Chasma og er það 1492 km á stærð. Innviði tunglsins eru aðalega úr ís og bergi. Títanía heitir eftir Títaníu, Álfdrottningin úr "Draumur á Jónsmessunótt". Óberon (tungl). Óberon er tíunda stærsta tungl sólkerfis og helmingi minni en tungl Jarðar. Þvermál Óberons er um 1522 km, og það snýst um Úranusi á 14 dögum. William Herschel uppgötvaði Óberon 11. janúar 1787. Skrítin svartur gígur er á tunglinu að nafni Hamlet, og er 206 km á stærð. Stærsta glúfrið er þó Mommur Chasma og er það 537 km djúpt. Inviði tunglsins eru aðallega úr ís og bergi. Óberon heitir eftir Óberon, Álfakónginum úr "Draumur á Jónsmessunótt". Rea (tungl). Rea er næststærsta tungl Satúrnusar. Giovanni Domenico Cassini uppgötvaði Reu þann 23. desember 1672. Rea snýst um Satúrnus á 4,52 dögum. Þvermál Reu er 1528 km og er þar með nær helmingi minna en tungl jarðar. Haldið er að Rea gæti verið með hringkerfi. Rea heitir eftir Reu, dóttur Krónosar (Satúrnusar) í grískri goðafræði. Scream 3. Scream 3 (ísl "Öskur 3") er bandarísk hrollvekjumynd frá árinu 2000. Myndin er þriðja myndin í Scream-myndsyrpunni og var handritið samið af Ehren Kruger. Wes Craven leikstýrir þriðju myndinni og David Arquette, Neve Campbell og Courtney Cox fara með aðalhlutverkin. Söguþráður. Einhver tími er liðinn frá morðunum úr seinni myndinni: Gale Weathers og Dewey Riley reyndu að gerast kærustupar en það gekk ekki upp því Gale vildi verða fræg í spjallþáttum en Dewey vildi búa í Woodsboro. Cotton Weary er orðinn umdeildur spjallþáttastjórnandi og á að fara með gestahlutverk í þriðju Stab-myndinni (Stab 2 var byggð á Windsor-morðunum) og Sidney lifir í afskekktu húsi í skóginum með varðhund og heljarinsöryggiskerfi og númerabirti á símanum. Eitt kvöldið þegar Cotton er á leiðinni úr vinnunni hringir Ghostface í hann og hótar að drepa kærustuna hans nema segi honum hvar Sidney feli sig. Cotton neitar og flýtir sér heim en Ghostface drepur bæði hann og kærustuna. Daginn eftir talar Mark Kincaid rannsóknarlögreglumaður við Gale og segir henni að mynd af Maureen Prescott, móður Sidneyar, fannst við lík Cottons. Lögreglan telur tökurnar á Stab 3 vera tengdar og þarf Gale að aðstoða þá þar. Í Hollywood hittir hún Dewey sem tæknilegur ráðgjafi fyrir Stab 3 og lífvörður Jennifer Jolie, leikonunnar sem leikur Gale í myndinni. Morðinginn byrjar síðan að myrða leikarana í þeirri röð sem þeir deyja í myndinni. Þegar morðinginn hringir loksins í Sidney neyðist hún að fara til Hollywood til að stöðva morðingjann sem virðist tengja morðin við móður hennar. Endir. Eftir að allir leikararnir eru drepnir af Ghostface, lokkar hann Sidney til sín þegar hann heldur Dewey og Gale í gíslingu. þau slást og enda í leynilegu sýningarherbergi þar sem morðinginn reynist vera Roman Bridger, leikstjóri Stab 3 og hálfbróðir Sidneyar. Í ljós kemur að Maureen hafði áður verið hrollvekjuleikkona í Hollywood á 8. áratugnum undir nafninu Rina Reynolds en var nauðgað í partíi og eignaðist son í kjölfarið. Hann leitaði hennar en hún sagðist ekki vera Rina og Roman varð öfundsjúkur út Sidney og fékk Billy Loomis til að drepa Maureen eftir að hann sýndi Billy að hún hefði sofið hjá föður hans. Roman ætlar að kenna Sidney um morðin og verða frægur fyrir að drepa hana. Þau slást og Roman skýtur Sidney. En hún hafði verið með skothelt vesti á sér og stingur Roman í hjartað. Roman hafði líka verið með skothelt vesti og Dewey skýtur hann í hausinn. Eftir að öllu þessu er lokið ákveður Sidney að reyna lifa lífinu í frið og ró. Vinnsla. Kevin Williamson ætlaði að semja handritið en var upptekinn við að vinna að sjónvarpsþættinum Wasteland þannig að Ehren Kruger (handritshöfundur Arlington Road) samdi handritið byggt á athugasemdum Williamsons. Ákveðið var að þetta yrði lokakafli Scream-syrpunnar en 2009 var tilkynnt framhaldið Scream 4 (stundum skrifað Scre4m) væri í vinnslu og mundi koma út 2011. Viðtökur. Myndin fékk ágæta dóma en ekki eins háa og Scream og Scream 2. Flestir álíta Scream 3 veikustu myndina. Jim Wright. James Claude Wright, Jr. (fæddur 22. desember 1922), er bandarískur stjórnmálamaður. Wright sat á þingi fyrir Demókrataflokkinn sem fulltrúi 12. kjördæmis Texas frá 1954 til 1989. Wright gegndi embætti þingforseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá 1987 til 1989. Wright, sem lauk ekki háskólanámi, var kosinn á ríkisþing Texas árið 1947. Árið 1950 var hann kjörinn borgarstjóri Weatherford, Texas. Árið 1954 var Wright kjörinn á Bandaríkjaþing sem fulltrúi 12. kjördæmis Texas, en kjördæmið náði bæði yfir Weatherford og Fort Worth. Næstu áratugi reis Wright til metorða innan demokrataflokksins og varð einn áhrifamesti meðlimur fulltrúadeildarinnar. Árið 1977 var Wright gerður að þingflokksformanni Demókrataflokksins. Hann gegndi því embætti til 1987 þegar hann var kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar. Wright sagði af sér sem forseti fulltrúadeildarinnar 6. júní 1989 og þingmennsku 30. júní 1989 í kjölfar þess að ásakanir um spillingarmál tengd honum komust í hámæli. Þingið hafði í upphafi árs 1989 birt niðurstöður rannsóknar sem sýndu að Wright hafði farið á svig við reglur þingsins um hámarksþóknanir fyrir fyrirlestra. Ásakanirnar á hendur Wright voru fyrst settar fram af Newt Gingrich og léku mikilvægt hlutverk í því að auka hróður Gingrich. Uppljóstranir á spillingu Wright og afsögn hans léku einnig mikilvægt hlutverk í því að skapa þá ímynd sem varð ráðandi í lok níunda áratugarins og upphafi þess tíunda að þingmeirihluti demokrata væri spilltur. Stuðningsmenn Wright héldu því hins vegar fram að hann hafi verið neyddur til að segja af sér vegna harðrar gagnrýni hans á aðgerðir bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Nicaragua. Wright, Jim Svíaríki. Svíaríki eða Svíaland (sænska: "Svealand") er einn af þremur landshlutum Svíþjóðar (hinir tveir eru Gautland og Norðurland). Svíaríki skiptist í héruðin Dali, Närke, Suðurmannaland, Uppland, Vermaland og Vestmannaland. Nafnið "Svíaríki" er stundum notað um Svíþjóð í heild. Norðurland (Svíþjóð). Norðurland er nyrsti hluti Svíþjóðar. Norðurland (sænska: "Norrland") er nyrstur þriggja landshluta Svíþjóðar (hinir tveir eru Gautland og Svíaríki). Norðurland skiptist í héruðin Gästrikland, Helsingjaland, Herjadal, Jamtaland, Medelpad, Angurmannaland, Vesturbotn, Norðurbotn og Lappland. Lundur (Svíþjóð). Lundur (sænska "Lund") er borg í sveitarfélaginu "Lunds kommun" á Skáni í Svíþjóð. Í sveitarfélaginu eru um 110.000 íbúar en í borginni 76.000 og er hún ellefta stærsta borg Svíþjóðar. Lundur er háskólasetur og eru alls 34.100 stúdentar við nám í Háskólanum í Lundi. Helsingjaborg. Helsingjaborg (sænska: "Helsingborg") er hafnarborg í sveitarfélaginu "Helsingborgs kommun" á Skáni í Svíþjóð. Í sveitarfélaginu eru um 135.000 íbúar en í borginni 97.000 og er hún áttunda stærsta borg Svíþjóðar. Helsingjaborg er við Eyrarsund þar sem það er þrengst, og eru aðeins fjórir kílómetrar yfir til Helsingjaeyrar í Danmörku. Ferjur ganga milli borganna. Sveppaldin. Gróin myndast í sérstökum æxlunarlíffærum sem eru mismunandi eftir tegundum.• Hjá sumum erusveppum eru þessi æxlunarlíffæri einfaldar stilkur og á toppi þess er klassi af gróum. Aðrir sveppir, til dæmis hattsveppir, eru með fyrirferðamiil æxlunarfæri sem gerð eru úr mörgunm afar þéttum sveppþráðum. Þetta æxlunarfæri sem var talað um að ofan er nefnt sveppaldin og er hatturinn á hattsveppnum vel þekkt dæmi um það. •Sveppaldinn er oft eini sýnilegi hluti sveppsins. Neðan á hattinum myndast gróin í sérstökum gróhýrslum sem komið er fyrir á fönum eða í pípum. •Í gróhirslum sumra sveppa má finna miljónir gróa. Gróin verða þó að fá réttan hita og raki og næring við hæfi og þess vegna nær aðeins lítill hluti þeirra að spýra Kurt Fuller. Kurt Fuller (fæddur Curtis Fuller, 16. september 1953) er bandarískur leikari sem hefur komið fram í mörgum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og leikritum. Þekktastur er hann fyrir hlutverk sín í "Wayne's World" og "Anger Management" en einnig fyrir hlutverk sitt sem engillinn Zachariah í Supernatural. Einkalíf. Kurt er uppalinn í San Joaquin Valley sem er þekkt landbúnaðarsvæði í Kaliforníu. Fuller veiktist af leikarabakteríunni þegar hann var við háskólanám við UC Berkley, þar sem hann fékk gráðu í enskum bókmenntum. Eftir útskrift fluttist hann til Los Angeles með allt sem hann átti í skottinu á Dodge Cart bílnum sínum. Næstu tíu árin vann hann sem fasteignamiðlari á daginn og sviðleikari á kvöldin. Kurt er giftur leikkonunni Jessica Hendra (dóttir höfundarins Tony Hendra) og saman eiga þau tvö börn. Ferill. Fyrsta stóra hlutverk hans var í sjónvarpsþættinum "Wildside" frá árinu 1985, þar sem hann lék Elliot Thogmorton og kom fram í sex þáttum. Síðan þá hefur hann komið jafnt og þétt sem gestaleikari í fjölmörgum sjónvarpsþáttum þar á meðal: Psych, "Timecop","Capital News", Desperate Housewives, Boston Legal, Alias, The 4400, House, The West Wing, Monk, "Las Vegas", Malcolm in the Middle og Supernatural. Fuller hefur unnið með mörgum af bestu leikstjórum Hollywood þar á meðal: Paul Schrader, Ridley Scott, Wim Wenders, Taylor Hackford, Mike Newell, Harold Ramis, Brian De Palma og Ivan Reitman. Helstu kvikmyndir hans eru: "Auto Focus", "Ray", "Pushing Tin", "The Jack Bull", "Ghostbusters 2", "Wayne´s World" og "Anger Management". Tenglar. Fuller, Kurt Rand Paul. Randal Howard „Rand“ Paul (fæddur 7. janúar 1963) er bandarískur og öldungadeildarþingmaður. Hann er meðlimur Repúblikanaflokksins og er sonur repúblikanans Rons Paul Uppvöxtur. Paul er fæddur í Pensivaníu en ólst upp í Texas. Hann nam við Baylor University í Waco Texas frá 1981 til 1984 en flutti sig í Duke University School of Medicine og útskrifaðist þaðan 1988 með M.D.-gráðu. Hann er kvæntur Kelley Rand og eiga þau þrjá syni. Saga. Paul stofnaði Kentucky Taxpayers United (KTU) árið 1994 og var einnig formaður félagsins. Samtökin hvetja stjórnmálamenn til að koma í veg fyrir skattahækkanir. Paul kom fram fyrir hönd föður síns Ron Paul öldungadeildarþingmanns í aðdraganda kosninganna 2008 Framboð til öldungadeildar. Í upphafi árs 2009 kom Paul til greina sem arftaki öldungadeildarþingmannsins Jim Bunning og staðfesti hann framboð sitt í ágúst sama ár. Hann sigraði Trey Greyson í prófkjöri Repúblikana 18. maí 2010 og sigraði loks frambjóðanda demókrata Jack Conway í kosningunum 2. nóvember 2010. Skoðanir. Rand Paul er gagnrýninn á utanríkisstefnu Bandaríkjanna og hefur talað gegn stríðsrekstri og fjárframlögum til hersins. Hann hefur barist hart gegn skattahækkunum. Paul er í öllum kringumstæðum andsnúinn fóstureyðingum en er hlynntur notkun neyðarpillunnar. Hann tekur afstöðu gegn alríkinu í málinu og vill að hvert ríki hafi kost á að setja lög sem banni fóstureyðingar. Hann er andsnúinn lögum sem gera löggæslu kleift að framkvæma leit án heimildar eða úrskurðar. Þá er hann andstæðingur Federal Reserve Act sem segir til um miðstýrðan seðlabanka sem geti haft áhrif á vexti í landinu. Hann vill að ríki hafi frekari kost á að setja reglur í menntastefnu og vill setja af alríkislög varðandi menntun og heimakennslu. Hann er einnig á móti niðurgreiðslu til orkufyrirtækja en myndi kjósa að veita skattafrádrátt þeim fyrirtækjum sem framleiði vistvæna orku. Paul er andsnúinn niðurgreiðslu til heilbrigðisgeirans og heldur því fram til stuðnings að ríkið hafi gert heilbrigðisgeirann óskilvirkan, kostnaður hafi aukist og gæði minnkað. Hann vill að komið verði upp auknu landamæraeftirliti og að börn ólöglegra innflytjenda verði ekki sjálfkrafa ríkisborgarar. Hann vill einnig takmarka regluverk varðandi skotvopn og segir takmarkanir vera brot á annarri breytingu stjórnarskrárinnar. Hann telur að ríki ættu að fá að ráða hvort maríjúana yrði leyfilegt í lækningaskyni og þá ættu ríkin einnig að fá að ráða hvort samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband. Hneykslismál. Paul titlaði sig löggiltan augnlækni en í raun hafði leyfi hans runnið út árið 2005. Paul hafði stofnað sitt eigið hagsmunafélag augnlækna sem Augnlæknafélag Bandaríkjanna viðurkennir þó ekki. Hann hefur hinsvegar lýst sig andvígan þeirri miðstýringu sem slíkt félag hafi yfir stéttinni og kveðst ávalt hafa verið andvígur slíkri miðstýringu og hafi því neyðst til að grípa til eigin ráða. Hann var einnig gagnrýndur fyrir að hafa verið í bræðrafélagi á meðan hann nam við Baylor University en félagið hafði á þeim tíma verið rekið úr skólanum fyrir mikla hörku og ofbeldi. Paul, Rand Paul, Rand Harry Reid. Harry Mason Reid (fæddur 2. desember 1939) er bandarískur stjórnmálamaður, þingflokksformaður Demókrataflokksins í Öldungadeild Bandaríkjaþings og annar tveggja fulltrúa Nevada í öldungadeildinni. Í kosningunum 2010 sigraði Reid Sharron Angle, frambjóðanda Teboðshreyfingarinnar. Reid, sem er lögfræðingur að mennt, hóf feril sinn í stjórnmálum árið 1968 þegar hann náði kjöri til ríkisþings Nevada þar sem hann sat árin 1969 og 1970. Það ár náði Reid kjöri sem Vararíkisstjóri Nevada (e: Liutenant Governor), en Reid gegndi því embætti til 1974 þegar hann bauð sig fram til öldungadeildarinnar fyrir Nevada. Reid tapaði í þeirri kosningu. Árið 1975 bauð Reid sig fram sem borgarstjóri Las Vegas en tapaði þeirri kosningu sömu leiðis. Árið 1982 nái Reid hins vegar kjöri sem þingmaður fyrir 1. kjördæmi Nevada sem nær yfir Las Vegas og nærsveitir. Reid var endurkjörinn árið 1984. Í kosningunum 1986 náði Reid kjöri sem öldungadeildarþingmaður Nevada. Á tíunda áratugnum reis Reid til áhrifa innan flokksins og árið 1999 var hann valinn „Svipa“ Demókrataflokksins í Öldungadeildinni. Reid gegndi því embætti árin 1999-2005. Árið 2005 var Reid kjörinn þingflokksformaður demókrata í Öldungadeild Bandaríkjanna og eftir að flokkurinn náði meirihluta í Öldungadeildinni í kosningunum 2006 varð hann sjálfkrafa leiðtogi meirihlutans. Reid, Harry John G. Roberts. John Glover Roberts, Jr. (fæddur 27. janúar 1955) er 17. og núverandi forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna. Roberts, sem var skipaður í embættið af George W. Bush eftir andlát William Rehnquist fyrirrennara hans í embætti forseta Hæstaréttar, tók sæti í hæstarétti árið 2005. Roberts er þriðji yngsti forseti Hæstarétar frá upphafi. Hann er talinn íhaldssamur í túlkun sinni á lögum og stjórnarskrá Bandaríkjanna og til hægri í skoðunum sínum á samfélags- og stjórnmálum. Roberts, John G. Roberts, John G. Magnús Árni Magnússon. Magnús Árni Magnússon (f. 14. mars 1968) er íslenskur stjórnmálafræðingur. Magnús var rektor Háskólans á Bifröst frá júní 2010 til janúar 2011. Árin 1998 og 1999 sat Magnús á þingi fyrir Alþýðuflokkinn sem 15. þingmaður Reykvíkinga. Magnús er stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hann útskrifaðist með BA gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1997, MA gráðu í hagfræði frá University of San Francisco árið 1998, M.Phil. gráðu í Evrópufræðum frá Cambridge-háskóla 2001 og doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2011. Síldarminjasafnið á Siglufirði. Síldarminjasafnið er safn á Siglufirði sem sýnir sögu síldveiða Siglfirðinga. Samuel Alito. Samuel Anthony Alito, Jr. (f. 1. apríl 1950) er dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna. Hann var skipaður af George W. Bush sem eftirmaður Söndru Day O'Connor sem lét af dómsetu sökum aldurs. Alito tók sæti í hæstarétti 31. janúar 2006. Menntun og starfsferill. Alito útskrifaðist árið 1972 með BA gráðu frá Woodrow Wilson School of Public and International Affairs við Princeton-háskóla. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í lögfræði (Juris Doctor) frá lagaskóla Yale-háskóla árið 1975. Árið 1987 var Alito skipaður af Ronald Reagan sem alríkissaksóknari fyrir New Jersey. Alito gegndi því starfi til 1990 þegar hann var skipaður af George H.W. Bush sem dómari við áfrýjunardómstól þriðja alríkisumdæmisins (e: Court of appeals for the Third Federal Circuit). Þriðja alríkisumdæmið nær yfir Delaware, New Jersey og stóran hluta Pennsylvaníu. Alito gegndi því embætti til 2006 þegar hann tók sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Skipun í hæstarétt. Sandra Day O'Connor, sem skipuð var dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna af Ronald Reagan árið 1981, tilkynnti fyrsta júlí 2005 að hún vildi láta af störfum. George W. Bush skipaði þá John G. Roberts sem eftirmann O'Connor. Þann 3. september 2005, áður en skipun Roberts hafði komið til afgreiðslu í Öldungadeild Bandaríkjaþings, lést forseti Hæstaréttar, William Rehnquist. Bush dró þá skipun Roberts sem eftirmanns O'Connor til baka og skipaði hann sem eftirmann Rehnquist og þar með sem forseta Hæstaréttar. Þann 3. október skipaði Bush Harriet Miers, aðallögfræðing forsetans, og náinn samverkamann frá Texas, sem eftirmann O'Connor. Skipun Miers mætti mikilli andstöðu bæði frá repúblíkönum og demokrötum. Miers hafði enga reynslu sem dómari, og þótti engan veginn standanst hæfniskröfur sem gera yrði til hæstaréttardómara. Þann 27. október, þegar útséð var um að Öldungadeildin myndi samþykkja skipun hennar bað Miers Bush að draga skipun sína til baka. Þann 31. október tilkynnti Bush að hann hygðist skipa Samuel Alito í sæti O'Connor's, og 10 nóvember var skipun hans lögð fyrir Öldungadeild Bandarikjaþings. Lögmannasamband Bandaríkjanna (American Bar Association) lýstu því yfir að Alito væri „mjög hæfur“ í embættið. Skipun Alito mætti mikilli andstöðu frá demokrötum og ýmsum vinstrisinnuðum og frjálslyndum þrýstihópum, enda þótti hann einstaklega íhaldssamur í túlkun sinni á lögum og stjórnarskrá og mjög langt til hægri í afstöðu til samfélags- og stjórnmála. Skipun Alito var talin færa Hæstarétt full langt til hægri, enda væru skoðanir hans helst í anda Clarence Thomas og Robert Bork. The American Civil Liberties Union (ACLU) lagðist formlega gegn skipan Alito en það er í þriðja skipti í sögu samtakanna sem þau hafa lagst gegn skipun hæstaréttardómara. Síðast lögðust samtökin gegn skipun Robert Bork árið 1987 en öldungadeildin hafnaði skipun hans. Tilraun demokrata til að stöðva skipun Alito með málþófi í janúar 2006 mistókst. Leiðtogi málþófstilraunarinnar var John Kerry. Þann 31. janúar samþykkti Öldungadeildin skipun Alito með 58 atkvæðum gegn 42. Alito, Samuel Alito, Samuel. Nína Björk Árnadóttir. Nína Björk Árnadóttir (7. júní 1941 – 16. apríl 2000) var íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og leikskáld. Nína Björk var fædd á Þóreyjarnúpi í Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru Árni Sigurjónsson, systursonur Stefáns frá Hvítadal, og kona hans Lára Hólmfreðsdóttir, en Nína Björk var fóstruð frá þrettán mánaða aldri af hjónum Ragnheiði Ólafsdóttur og Gísla Sæmundssyni, sem bjuggu á Garðsstöðum við Ögur í Ísafjarðardjúpi til 1946 og síðan í Reykjavík. Nína Björk stundaði gagnfræðanám á Núpi í Dýrafirði og síðan leiklistarnám í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur. Árið 1965 kom út fyrsta ljóðabók Nínu Bjarkar, "Ung ljóð", sem vakti mikla athygli og var fljótlega þýdd á dönsku. Síðan komu frá henni níu ljóðabækur, tvær skáldsögur ("Móðir, kona, meyja" og "Þriðja ástin") og nokkur leikrit. Þeirra þekktust eru líklega "Súkkulaði handa Silju" og "Fugl sem flaug á snúru". Einnig skrifaði hún ævisögu myndlistarmannsins Alfreðs Flóka. Leikrit hennar voru sett upp í Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar og víðar, auk þess sem þau voru flutt í útvarpi, bæði á Íslandi og erlendis. Nína Björk fékk ýmsar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn og var borgarlistamaður í Reykjavík árið 1985. Ljóð hennar voru þýdd á ýmis tungumál; öll Norðurlandamálin, þýsku, spænsku, rússnesku, pólsku, nokkur indversk tungumál og fleiri. Eiginmaður Nínu Bjarkar var Bragi Kristjónsson bóksali og eignuðust þau þrjá syni. Tötraöreigar. Tötraöreigar (eða tötraöreigalýður) (þýska: "Lumpenproletariat") er hugtak sem Karl Marx og Friedrich Engels settu fyrst fram í Kommúnistaávarpinu (1848) og skilgreindu betur í seinnitíma verkum sínum. Hugtakið var smíðað af Marx til að tákna þann hluta verkamannastéttarinnar sem mun aldrei öðlast neina stéttarvitund, og þess vegna vera svo til gagnslaus í allri baráttu verkalýðsins. Tötraöreigar teljast t.d. þeir sem grafa undan ávinningum verkalýðsbaráttunnar með því að taka vinnu verkfallsfólks fyrir minna kaup. Einnig þjófar, vændisfólk og betlarar. Geðtengsl. Geðtengsl er hugtak í sálfræði og er haft um gagnkvæm tilfinningatengsl milli barns og foreldra sem einkennast af gagnkvæmum tilfinningaböndum og löngun til að viðhalda nánd. Innan Þroskasálfræðinnar eru geðtengslin sögð sérstaklega mikilvæga eigind fyrir framtíðarvelferð barnsins, persónuþroska þess og geðheilsu. Geðtengsl við móður eða föður eru til dæmis sögð helsta forsenda fyrir eðlilegum samskiptum við ókunnu síðar á ævinni. Öryggistengsl eða kvíðatengsl. Geðtengsl eru sögð verða annaðhvort merkt öryggi eða kvíða. Öryggistengsl verða þegar uppalandi kann að bregðast rétt við merkjum barnsins og lætur ekki eigið sálarástand ráða viðbrögðunum. Kvíðatengsl á hinn bóginn verða ef uppalandi er ekki nógu næmur fyrir hlutverki sínu og lætur eigið skap ráða samskiptunum við barnið. NESU - Félag viðskipta- og hagfræðinema á Norðurlöndum. NESU eða Nordiska Economie Studerandes Union (á íslensku Félag viðskipta- og hagfræðinema á Norðurlöndum) er félag viðskiptafræði- og hagfræðinema á Norðurlöndunum. NESU er virkt í þremur af Norðurlöndunum fimm: Danmörku, Íslandi og Finnlandi. Allir nemendur sem stunda nám á háskólastigi í viðskipta- eða hagfræði á Norðurlöndunum og Eistlandi eiga rétt á að taka þátt í starfi NESU. Starfsemi. Starfsemi NESU snýst um að leyfa þátttakendum að kynnast öðrum viðskipta- og hagfræðinemum ásamt því að fræðast um hin Norðurlöndin, menningu þeirra og fyrirtæki. NESU nær þessu takmarki með því að halda ráðstefnur, fyrirlestraraðir, skemmtanir og 'sitsfest'. Ráðstefnur. NESU heldur ráðstefnur tvisvar á ári, haustönn og vorönn. Fyrirlestraraðir. Haldnar eru af og til fyrirlestraraðir um málefni núlíðandi stunda, þessar fyrirlestraraðir eru skipulagðar af NESU á hverjum stað fyrir sig. Skemmtanir. Skemmtanir geta verið með ýmsu móti en þú er algengast að það sé í formi sitsfesta. Aðra skemmtanir geta verið skipulögð teiti meðal félagsmanna og. Sitsfest. Í anda sameiginlegra forfeðra okkar, víkinganna, eru haldnar svokallaðar setuhátíðir eða sem í daglegu tali þekkist sem sitsfest. Sitsfest byrja á því að þjóðlegir réttir gestgjafanna eru bornir á borð og eftir matinn eru þjóðardrykkir kneyfaðir. Þegar roði kemst í kinnar sitsfestgesta er tekið til við að syngja skandínavíska söngva og þar á eftir flytur hver hópur skemmtiatriði. Á þessum hátíðum myndast sérstök stemming og margskonar samnorræn tengsl myndast. Sitsfestin eru ómissandi þáttur á ráðstefnum NESU og í starfi NESU. Danmörk. Danir hafa verið misvirkir í félaginu síðastliðin þrjú ár. Lítið hefur verið hugað að nýliðun í félögin í Árósum og Kaupmannahöfn. Tilraun var gerð til að setja á laggirnar NESU í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn(CBS). NESU í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn mun einnig vera þekkt sem: NESU-CBS. Eistland. Eistland er nýjast viðbótin í NESU. Viðskipta- og hagfræðisnemar frá Eistlandi tóku fyrst þátt árið 2010. Finnland. Finnar hafa verið til fyrirmyndar þegar kemur að NESU starfsemi undanfarin ár, enda er hún sú virkasta á Norðurlöndunum. NESU er virkt í langflestum háskólum þar sem kennd er viðskipta- og/eða hagfræði. Ísland. Á Íslandi er að finna ófáa viðskiptaháskóla og því leiðinlegt að segja frá því að einunig er einn skóli virkur á Íslandi. Viðskiptafræðinemar við Háskóla Íslands eru virkir í NESU. Noregur. Viðskiptaháskólar Noregs hafa ekki verið virkir í nokkurn tíma. Svíþjóð. Þrátt fyrir mikinn fjölda viðskiptaháskóla í Svíþjóð er enginn þeirra virkur þátttakandi í NESU. Njarðvíkurskriður. Njarðvíkurskriður er sæbrött fjallshlíð milli Borgarfjarðar eystra og Njarðvíkur. Þar var löngum hættuleg leið, meðal annars vegna grjóthruns, en þó fjölfarin. Bílvegur var fyrst ruddur um Njarðvíkurskriður árið 1950. Það orð hefur löngum legið á Njarðvíkurskriðum að þar hafi fyrr á tíð orðið fjölmörg alvarleg slys, en ekki eru þó til margar staðfestar frásagnir um slys þar. Sagt var að óvættur sem "Naddi" hét byggi í skriðunum og sæti þar um ferðamenn og gerði þeim mein. Naddi var sagður halda sig í Naddagili, djúpu gili fast norðan við skriðurnar. Átti hann einkum að vera skeinuhættur þegar farið var um skriðurnar eftir að dima tók. Þjóðsögur segja að Jón í Gilsárvallahjáleigu í Borgarfirði, sonur Björns skafins, hafi glímt við Nadda og verið að því kominn að tapa þegar hann hét því að ef hann hefði óvættinn undir skyldi hann reisa krossmark í skriðunum. Náði hann þá að sigra Nadda og hrinda honum í sjó fram en komst sjálfur illa leikinn til bæja. Lét hann svo reisa kross í skriðunum og var á hann letruð áskorun á latínu til allra sem framhjá fóru að krjúpa og gera bæn sína. Kross er enn í skriðunum og hefur verið endurnýjaður en ekki er víst hvenær hann var fyrst settur upp. Raunar er á honum ártalið 1306 en óvíst hvað er að marka það. Björn skafinn, faðir Jóns, var uppi um miðja 16. öld og hafi krossinn verið settur upp að frumkvæði Jóns hefur það verið eftir siðaskipti, en slíkir krossar tengjast yfirleitt kaþólskum sið. Önnur sögn segir að krossinn hafi verið reistur eftir að presturinn á Desjarmýri hrapaði til bana í skriðunum þegar hann var á leið til messuhalds í Njarðvík. Avebury. Avebury er mannvirki frá nýsteinöld sem samanstendur af risasteinum, staðsett við þorpið Avebury í Wiltshire í Englandi. Það er eitt stærsta og fínasta mannvirki frá nýsteinöld í Evrópu, og er um 5.000 ára gamalt. Þó Avebury sé eldra en Stonehenge, sem liggur 32 km fyrir sunnan, er það talið vera frá sömu öldinni. Avebury er staðsett á milli bæjanna Marlborough og Calne, við veginn A4. Að breskum lögum er Avebury friðað sem "Scheduled Ancient Monument" og er í eigu National Trust. Það er líka á Heimsminjaskrá UNESCO. Mannvirkið samanstendur af nokkrum hringum af risasteinum, steinabrautum (e. "stone avenues") og haugum. Landvinningar Rómverja á Bretlandi. Landvinningar Rómverja á Bretlandi áttu sér stað á löngum tíma. Landvinningarnir hófust árið 43 e.Kr. undir stjórn Claudíusar keisara. Hershöfðingi hans Aulus Plautius var fyrsti landstjóri Brittaníu. Bretland hafði áður orðið fyrir mörgum árásum hermanna rómverska lýðveldisins og rómverska keisaradæmisins. Bretland hafði haft góð verslunartengsl við Rómaveldi frá því Júlíus Caesar herjaði á landið árin 55 og 54 f.Kr. og hafði það talsverð áhrif á hagkerfi og menningu Breta, sérstaklega í suðurhluta landsins. Ágústus keisari undirbjó innrásir árin 34 f.Kr., 27 f.Kr. og 25 f.Kr. Fyrstu innrásinni og þeirri þriðju var aflýst vegna uppreisna annars staðar í Rómaveldi. Þeirri annarri var aflýst því það leit út fyrir að Bretar væru að fara að gefast upp. Samkvæmt "Res Gestae" Ágústusar flýðu tveir breskir konungar, Dubnovellaunus og Tincomarus, til Rómaborgar. Strabo grískur sagnfræðingur og heimspekingur segir frá því í verki sínu "Landafræði", að Bretland greiði meira í tollum en hægt væri að fá í sköttum ef gerð væri innrás í landið. Árið 40 e.Kr. skipulagði Calígúla innrás á Bretland, en hún var framkvæmd á undarlegan hátt. Samkvæmt Súetóníusi skipaði hann hermönnum sínum að ráðast á vatnið í Ermarsundinu, og lét þá síðan safna skeljum saman; er ekki vitað hvort þetta var refsing fyrir hermennina eða afleiðing geggjunar hjá Calígúlu. Calígúla lét byggja vita í Bolougne-sur-Mer, sem var fyrirmynd að vita sem byggður var í Dover um árið 43. Sá undirbúningur auðveldaði innrás Claudíusar þremur árum síðar. Fönixreglan. Fönixreglan er undarleg regla í Harry Potter-bókunum. Fimmta bókin, "Harry Potter og Fönixreglan", sem fjallar um Fönixregluna og leyndardóma hennar. Allir í Weasley-fjölskylduni nema Ron, Percy og Ginny eru meðlimir í Fönixregluni. Meðlimir í núverandi Fönixreglunni eru: Albus Dumbledore, Severus Snape, Aberforth Dumbledore, Arthúr Weasley, Molly Weasley, Bill Weasley, Charlie Weasley, Fred Weasley, George Weasley, Remus Lupin, Nymphadora Tonks, Alastor Skröggur Illauga, Sirius Black, Minerva McGonagall, Kingsley Shaclebolt, Ágústa Longbottom, Mundungus Flecher, Dawlish, Hestia Jones, Dedalus Diggle. Karl Rove. Karl Christian Rove (fæddur 25. desember 1950) gegndi störfum ráðgjafa og starfsmannastjóra Hvíta hússins í forsetatíð George W. Bush. Innan Hvíta hússins hefur hann einnig verið yfirmaður í ýmsum öðrum deildum. Eftir starfstíma hans í Hvíta húsinu hefur hann unnið fyrir Fox fréttastöðina, "Newsweek" og "The Wall Street Journal" en þar fékkst hann við greiningu á sviði pólitíkur. Fyrir starfstíma hans í Hvíta húsinu fékkst hann við störf tengd ótal kosningabaráttum fyrir Repúblikanaflokkinn. Yngri ár. Karl Rove er fæddur í Denver í Colorado en ólst upp í Sparks í Nevada. Hann er alinn upp af móðir sinni og stjúpföður. Þegar Karl Rove var 15 ára gamall flutti hann til Salt Lake City og gekk þar í menntaskóla (e. High school) og nam þar rökræðu. Í framhaldsnámi komu fram hæfileikar hans í stjórnun kosningabarátta því hann var kjörinn forseti nemendaráðs. Árið 1981 þegar Karl Rover varð 31 árs missti hann móður sína er hún tók eigið líf. Þátttaka í stjórnmálum. Fyrsta innkoma Karl Rove í stjórnmál var aðkoma hans að kosningarbarráttu öldungadeildar þingmannsins Wallace F. Bennet en Bennet varð seinna leiðbeinandi hans. Karl Rove fór í háskólann í Utah en samhliða skólagöngu sinni hélt hann áfram aðkomu sinni að kosningabaráttum. Þegar Karl Rove var 19 ára braust hann inn í kosningaskrifstofu Alan J. Dixon og stal þar dreifimiðum og bjó til nýja með fölskum skilaboðum. Engu að síður vann Dixon kosningarnar. Karl Rove hefur þurft að svara fyrir þetta atvik og hefur hann afsakað þetta sem meinlausan hrekk. Ungir repúblikanar og aðkoma hans að Watergate málinu. Karl Rove hætti í framhaldsnámi og gekk til liðs við unga repúblikana og tók meðal annars virkan þátt í kosningabaráttu Richard Nixon. Þegar upp komst um Watergate málið og Alríkislögreglan hóf rannsókn á því kom nafn Karl Rove upp þar sem hann hafði áður tekið þátt í spillingu gegn demókrötum. Hann var boðaður til skýrslutöku af frumkvæði George H W. Bush en mál hans fellt niður. Eftir að mál hans var fellt niður gerir Bush eldri hann að formanni ungra repúblikana en seinna gerði Bush eldri hann að sérstökum ráðgjafa í ráði Repúblikanaflokksins á landsvísu (e. Republican National Committee) en Bush eldri var þá formaður þess. Á þessum tíma kynntist Karl Rove George W. Bush í fyrsta skipti og átti starfsamband þeirra eftir að blómstra með tímanum. 1977 – 1981. Karl Rove var aðstoðarmaður fulltrúadeildarþingmanns í Texas, Fred Agnich, árið 1977 og var það hans fyrsta starf í Texas. Hann aðstoðaði repúblikanann Bill Clements til sigurs í ríkisstjórakosningunum í Texas árið 1978 en yfir 100 ár höfðu liðið frá því repúblikani hafði gegnt því embætti síðast. Hann var fyrstur þeirra sem George H.W. Bush réði í kosningabaráttu forkosninga repúblikana til forsetaframboðs árið 1980, sem fóru á þann veg að Bush tapaði en varð varaforsetaefni Ronalds Reagan í sjálfum kosningunum. 1981 – 1991. Árið 1981 stofnaði Karl Rove auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki og á meðal fyrstu viðskiptavina þess voru Bill Clements og Bill Gramm, þingmaður demókrata sem seinna varð þingmaður repúblikana. Karl Rove aðstoðaði Phil Gramm til sigurs gegn Ron Paul í forkosningum repúblikana, og gegn demókratanum Lloud Doggot í sjálfum kosningunum, í baráttunni um öldungadeildarsætið í Texas árið 1984. Karl Rove aðstoðaði Bill Clements við að ná kjöri í kosningunum um ríkisstjóraembættið í annað sinn árið 1986 en Clements hafði tapað ríkisstjóraembættinu til Mark White fjórum árum áður. Rove aðstoðaði Thomas R. Phillips við að verða fyrsti repúblikaninn til að ná kjöri forseta hæstaréttar í Texas árið 1988. 1992 – 2004. George W. og Laura Bush ásamt Karl Rove Árið 1991 sagði Dick Thornburgh af sér embætti dómsmálaráðherra og bauð sig fram fyrir repúblikana í öldungadeildaþingkosningunum í Pennsylvaníu. Auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki Karl Rove vann við kosningabaráttu Thornburgh en úrslitin urðu óvænt tap fyrir frambjóðanda demókrata, Harris Wofford. Karl Rove starfaði við kosningabaráttu George H.W. Bush í forsetakosningunum árið 1992 en var rekinn þaðan fyrir að hafa komið fyrir neikvæðum fréttum um óánægju með fjármögnunarstjóra kosningabaráttunnar, Robert Moshbacher Jr. Karl Rove veitti George W. Bush ráðgjöf í aðdraganda kosninganna um ríkisstjóraembættið í Texas árið 1994. Bush tilkynnti framboð sitt í nóvember 1993 og strax í janúar 1994 hafði hann eytt yfir 600.000 dollurum í kosningabaráttuna, sem var gegn Ann Richards, frambjóðanda demókrata, og fóru þar af 340.000 dollarar til auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki Rove. Karl Rove veitti George W. Bush einnig ráðgjöf í kosningabaráttu sinni til endurkjörs ríkisstjóra Texas árið 1998. Á sex mánaða tímabili, frá júlí og fram í desember 1998, greiddi kosningasjóður Bush um 2,5 milljónir dollara til auglýsinga- og ráðgjafafyrirtækis Rove. Árið 1999 seldi Karl Rove auglýsinga- og ráðgjafafyrirtæki sitt. Hann var að taka að sér starf kosningastjóra í kosningabaráttu George W. Bush til embættis forseta Bandaríkjanna árið 2000 og var salan á fyrirtækinu skilyrði sem Bush setti honum fyrir starfinu. Bush sigraði í þeim kosningum, gegn frambjóðenda demókrata, Al Gore, á sögulegan hátt. Bush sigraði einnig forsetakosningarnar 2004, þá gegn John Kerry, og þakkaði í kjölfarið Karl Rove fyrir snilli sína og kallaði hann „arkitektinn“ í sigurræðu sinni. Ríkisstjórn George W. Bush. Þegar George W.Bush var fyrst vígður í embætti forseta í janúar árið 2001 þáði Rove embætti æðsta ráðgjafa. Honum var síðar veitt staða starfsmannastjóra Hvíta hússins eftir hinar árangursríku forsetakosningar 2004. Í apríl 2006 var Rove úthlutað nýrri stöðu, áður hafði hann sinnt hlutverki að þróa áfram stefnumótun en það fólst í því að einblína á að undirbúa herferð fyrir þingkosningarnar sem væntanlegar voru í nóvember 2006. Rove sagði þeirri stöðu lausri frá og með 31.ágúst 2007. Afdrif Karl Rove að loknum störfum í Hvíta húsinu. Skömmu eftir að hafa sagt starfi sínu lausu í Hvíta húsinu var Rove ráðinn til að skrifa um forsetakosningar sem voru árið 2008 fyrir tímaritið Newsweek. Hann var einnig ráðinn sem ráðgjafi hjá Wall Street Journal og sérfræðingur á sviði stjórnmála fyrir Fox News. Rove var óformlegur ráðgjafi John McCain sem bauð sig fram fyrir hönd Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum árið 2008 en einnig styrkti hann þá kosningabaráttu sjálfur um 2300 dollara. Ævisaga hans Courage and Consequence var síðan gefin út í mars árið 2010. Rove hefur einnig eytt miklum tíma í það að halda fyrirlestra víðs vegar í skólum og fyrir hina ýmsu hópa. Í mars árið 2008 var Rove ráðinn til að halda fyrirlestur við háskólann í Iowa en á þann fyrirlestur mættu um 1000 manns. Þar var honum ekki vel tekið og honum sýndur fjandskapur en lögreglan þurfti að fjarlægja tvo nemendur eftir að þeir reynda að handsama hann með borgaralegri handtöku fyrir meinta glæpi hans á meðan hann starfaði innan stjórnar Bush. 22. maí árið 2008 fékk Rove stefnu frá formanni dómstóla fulltrúadeildarinnar (e. House Judiciary Committee) John Conyers en hann átti að bera vitni um stjórnmálavæðingu dómsmálaráðuneytisins. Rove neitaði hins vegar að viðurkenna löggjafarstefnuna og bar fyrir sig sérréttindi framkvæmdastjóra sem ástæðuna. Þann 23. febrúar árið 2009 var Rove aftur gert skylt að mæta fyrir dómstól fulltrúadeildar með löggjafarstefnu til að bera vitni um vitneskju hans hvað varðaði uppsagnir á opinberum saksóknurum (e. U.S. attorneys) og meintri málsókn á hendur ríkisstjóra Alabama, Don Siegleman, en mætti ekki fyrir rétt. Hann og fyrrum ráðgjafi Hvíta hússins hafa síðan samþykkt að bera vitni eiðsvarnir frammi fyrir þinginu um mál sem þessi. Sint-Truiden. Sint-Truiden (franska: Saint-Trond) er borg í Belgíu og fjórða stærsta borgin í héraðinu Limburg. Íbúar er 38.828 (2008). Borgin stendur við ána Cicindria. Íran-kontra hneykslið. Íran – kontra hneykslið var pólitískt hneykslismál í Bandaríkjunum sem komst í hámæli árið 1986 eftir að upp komst um ólöglega og leynilega vopnasölu Bandaríkjastjórnar til Íran. Var sölunni ætlað að liðka fyrir lausn bandarískra gísla sem voru í haldi Hezbollah-samtakanna í Líbanon. Fjármunum sem fengust fyrir vopnin var síðan veitt til stuðnings við hægrisinnaða Kontraskæruliða sem börðust gegn stjórnvöldum í Níkaragva. Hafði þessum stuðningi Bandaríkjastjórnar Kontraskæruliðana verið hafnað af Bandaríkjaþingi auk þess að hafa lítinn hljómgrunn meðal almennings. Vopnasala til Íran. Opinberir embættismenn Bandaríkjastjórnar höfðu trú á að viðskiptin myndu liðka fyrir bættum samskiptum Bandaríkjanna og Íran en þau gengu gegn opinberri stefnu sem bannaði vopnasölu þangað. Slóðin var falin með því að fara í gegnum Ísrael á þann hátt að Ísrael seldi írönskum aðilum vopnin en Bandaríkjamenn útveguðu þeim vopn í staðinn. Málin þróuðust á þann veg að bandaríkin seldu Írönum vopn í skiptum fyrir alla bandaríska gísla Hezbollah-samtakanna í Líbanon, í leynilegri aðgerð háttsettra bandarískra embættismanna. Var hún að stórum hluta skipulögð af Lautinant Oliver North sem átti sæti í Þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna. Stuðningur við Kontraskæruliða. Hluti af söluandvirði vopnanna var notaður til að styrkja hægrisinnaða Kontraskæruliða í Níkaragva en þeir áttu í baráttu við stjórn sandinista sem var þyrnir í augum bandarískra stjórnvalda. Bandaríkjastjórn studdi skæruliðana leynt og ljóst, síðustu árin í trássi við vilja Bandaríkjaþings. Nikaragva höfðaði síðar mál gegn Bandaríkjunum fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag sem úrskurðaði að íhlutun Bandaríkjanna væri brot á þjóðarétti. Hlutur Ronalds Reagan. Þótt Ronald Reagan þáverandi forseti Bandaríkjanna hafi stutt málstað Kontraskæruliðanna var ekki hægt að sanna að hann hafi komið að greiðslu fjárstuðnings til þeirra. Handskrifuð minnisblöð Caspars Veinberger þáverandi varnarmálaráðherra benda til þess að Reagan hafi verið kunnugt um gísla viðskiptin og vopnasöluna. Vitnisburður Johns Poindexter öryggismálafulltrúa Reagan- stjórnarinnar um að hann hefði aldrei tilkynnt Reagan um málið kom þó í veg fyrir að Reagan væri dreginn fyrir dóm. Hinsvegar fullyrðir Oliver North í endurminningum sínum að Reagan hafi bæði lagt blessun sína yfir viðskiptin við Íran sem og stuðning við Kontraskæruliðanna og hafi hann verið upplýstur reglulega um gang mála. Ekki hafa verið færðar sönnur á þessi ummæli North en hann var dæmdur fyrir að fara gegn þinginu og eyðingu opinberra gagna. North var síðar náðaður af Georg W. Bush með þeim rökum að gjörðir hans hefðu verið byggðar á tryggð við föðurlandið. Fæstosdiskurinn. Fæstosdiskurinn (eða Fæstoskringlan) er diskur úr brenndum leir sem er hluti af fornminjum Mínósarmenningarinnar og er kenndur við fundarstað sinn, höllina í Fæstos á grísku eyjunni Krít. Hann er talin vera frá seinni hluta bronsaldar mínósartímabilsins, það er frá öðru árþúsundi f.Kr. Diskurinn er um 15 sentimetra í þvermál og er báðum megin þakinn vindingslaga letrarunu. Tilgangur disksins eða merking letursins og jafnvel hvar hann var búinn til er enn óráðin gáta og er Fæstosdiskurinn talinn vera eitt af helstu leyndarmálum fornleifafræðinnar. Fæstosdiskurinn stendur til sýnis í Fornminjasafninu í Heraklíon á Krít. Ryðönd. Ryðönd (fræðiheiti: "Tadorna ferruginea") er fugl af andaætt. Ryðöndin er flækingur á Íslandi. Sáðlát. Sáðlát (eða sáðfall) er þegar sæði losnar (eða skýst) úr kynfærum karlmanns eða karldýrs út um þvagrás. Sáðlát er oftast afleiðing kynferðislegar ertingar og kemur þá oftast í kjölfar fullnægingar, en getur einnig orðið í svefni og nefnist þá "njórunnardrop" eða "draumkunta". Þorbjörg Alda Birkis Marinósdóttir. Þorbjörg Alda Birkis Marinósdóttir (f. 1984), einnig þekkt sem Tobba Marínós er íslensk fjölmiðlakona sem hefur starfað sem blaðamaður á Séð og heyrt og Júlíu ásamt því að vera einn af stjórnendum sjónvarpsþáttarins Djúpu laugarinnar á Skjá 1 eftir að hann var tekinn aftur á dagskrá árið 2009. Þorbjörg gaf út bókina Makalaus árið 2010 og í lok ársins einnig bókina Dömusiðir. Sæði. Sæði (eða brundur) er lífrænn vökvi með sáðfrumum sem losnar við sáðlát karlmanns eða karldýrs. Kynkirtlar og önnur kynfæri karldýra (eða tvíkynjungja) framleiða sæði sem frjóvgað geta eggfrumur kvendýra. Sæði karlmanna inniheldur m.a. ensím og frúktósa sem sjá um að sæðisfrumurnar lifi sem lengst og eykur drifkraftinn í „sundi“ þeirra að egginu. Séð og heyrt. Séð og heyrt er íslenskt glanstímarit sem kemur út á fimmtudögum. Það kom fyrst út árið 1996. Núverandi (2012) ritstjóri blaðsins er Lilja Katrín Gunnarsdóttir. Blaðið er prentað á glanspappír og einkennist af stórum myndum og stuttum textum, og þar fer mest fyrir fréttum af ástamálum misþekkra einstaklinga. Bróðir Svartúlfs. Bróðir Svartúlfs er íslensk hljómsveit, sem er afkvæmi fimm ólíkra hugmynda. Samstarfið hófst september 2008 og kom öllum meðlimunum strax á óvart hve samstilltir þeir voru, sérstaklega þegar litið var til forsögu hvers og eins þeirra í tónlist. Margur hefur reynt að koma bandinu fyrir innan ákveðins ramma eða stefnu, en ásættanleg niðurstaða í þeim málum hefur enn ekki fengist. Meðlimir kæra sig yfirleitt köllótta um þetta mál og fljóta því stefnulaust áfram, og hefur hömluleysið enn sem komið er einungis skilað sér í formi litríkari tónlistarsköpunar. Sveitin tók þátt í Músíktilraunir 2009 og ekki vildi betur til en svo að hún fór með sigur af hólmi, svo nú er ekki annað hægt en að krossleggja fingur og vona að þessir elskulegu drengir spili rétt úr þeim spilum sem þeir geyma upp í ermunum. Útgáfa. Bróðir Svartúlfs gaf út sína fyrstu plötu árið 2009 að nafni Bróðir svartúlfs. Platan fékk 4,0 í einkunn hjá vefritinu Rjómanum. John Boehner. John Andrew Boehner (f. 17. nóvember 1949) er bandarískur stjórnmálamaður, fulltrúadeildarþingmaður og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann hefur setið í fulltrúadeildinni fyrir Repúblikanaflokkinn síðan 1991, starfaði sem leiðtogi minnihlutans í þinginu síðan 2007 og var kjörinn forseti deildarinnar í janúar 2011. Þingferill. Boehner var fyrst kosinn á þing árið 1990 sem fulltrúi Ohio. Það fyrsta sem Boehner kom í verk á þingi var að taka þátt með Sjöklúbbnum (e. Gang of Seven) í að „taka til í þinginu“, meðal annars að loka fulltrúabankanum (e. House bank) vegna hneykslis varðandi fjárreiður þingmanna í tengslum við bankann. Einnig komu þeir upp um hneyksli varðandi veitingastað þingsins og pósthús en pósthúsið tengdist meðal annars eiturlyfjasölu og illa fengnu fé. Annað sem Boehner stóð að á þessum fyrstu árum sínum var að móta „samning við Bandaríkin“ (e. Contract with America) árið 1994, meðal annars í samstarfi við Newt Gingrich. Þetta skjal sem var í raun stefnuskrá, var notað í kosningabaráttu repúblikana árið 1994 og er talinn stór þáttur í því að repúblikanar náðu meirihluta í neðri deildinni í fyrsta skipti í fjóra áratugi. Boehner starfaði meðal annars sem fundarstjóri repúblikana í fulltrúadeildinni (e. House Republican Conference Chairman), var forseti ýmissa nefnda auk þess að leiða ýmis mikilvæg frumvörp á borð við „Ekkert barn skilið eftir“ (e. No Child left Behind) sem lagt var fram til að tryggja öllum börnum menntun. Árið 2006 var hann síðan kosinn til þess að leiða meirihluta repúblikana í þinginu sem hann gerði í eitt ár eða þar til demókratar náðu meirihluta í þinginu en Boehner var þá kosinn leiðtogi minnihlutans. Boehner var kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar þegar nýr meirihluti tók við 3. janúar 2011 en meðal kosningaloforða hans var að minnka útgjöld alríkisins, skapa fleiri störf og breyta vinnulagi í þinginu. Gagnrýnendur hans sögðu þetta þó ómarkviss loforð þar sem hann tilgreindi ekki á neinn hátt hvernig hann ætlaði að efna þessi loforð. Boehner tók einnig þátt í gagnrýni repúblikana á Obama og stjórn hans. Æviágrip. Boehner sem fæddist 17. nóvember 1949 ólst upp kaþólskri fjölskyldu í Cincinnati í Ohio ásamt ellefu systkinum. Faðir hans átti bar sem hann byrjaði að vinna á, ungur að aldri. Boehner úskrifaðist úr Xavier háskóla árið 1977 og fór að vinna í innpökkunarfyrirtæki þar sem hann varð síðar forstjóri þar til hann fór út í stjórnmál í Ohio árið 1984. Hann og kona hans, Debbie, eiga saman tvö börn. Þrátt fyrir að Boehner væri alinn upp í demókratafjölskyldu studdi hann repúblikana frá árinu 1970 og er nú þekktur íhaldsmaður og frjálshyggjusinni en hann hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir tengsl sín við ýmsa þrýstihópa. Tenglar. Boehner, John Glenn Beck. Glenn Lee Beck (fæddur 10. febrúar 1964) er bandarískur íhaldsmaður, útvarps- og sjónvarpsþáttarstjórnandi, pólitískur fréttaskýrandi, rithöfundur og athafnamaður. Hann stýrir eigin þætti sem kallast The Glenn Beck Program og er sendur út samtímis um öll Bandaríkin í gegnum útvarpskeðjuna Premiere Radio Networks. Hann er einnig stjórnandi eigin fréttaskýringaþáttar, nefndum eftir honum, sem sýndur er á Fox fréttastöðinni (e. Fox News Channel). Á ferli sínum sem rithöfundur hefur Beck átt sex metsölubækur (samkvæmt lista sem "New York Times" gefur út um bækur líklegar til vinsælda) og þarf af hafa fimm farið beint í fyrsta sæti eftir að þær komu fyrst út. Beck er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækis sem ber nafnið Mercury Radio Arts, margmiðlunarfyrirtækis sem framleiðir efni ætlað fyrir sviðsframkomu, útvarp, sjónvarp, til útgáfu og fyrir internetið. Fjölmiðlaeign Becks er uppspretta mikilla vinsælda og ríkidæmis en samtímis er hann mjög umdeildur og sætir mikilli gagnrýni. Meðal stuðningsmanna hans er hann lofaður fyrir að vera staðfastur málsvari stjórnarskrárinnar og fyrir að standa vörð um hefðbundin bandarísk gildi gegn trúlausum framfarasinnum. Aftur á móti halda gagnrýnendur hans því fram að hann stuðli að samsæriskenningum og skapi múgæsing með ræðumennsku sinni til að auka á vinsældir sínar. Einkalíf. Glenn Lee Beck fæddist í Everett í Washington-fylki og var alinn upp við rómversk-kaþólska trú. Þegar hann var þrettán ára vann hann keppni þar sem verðlaunin voru að vera skífuþeytir í útvarpsþætti á vegum útvarpsstöðvarinnar KBRC. Eftir útskrift úr framhaldsskóla starfaði hann á ýmsum útvarpsstöðvum í Utah, Washington og Connecticut og hitti hann eiginkonu sína, Claire, á meðan hann starfaði á útvarpsstöðinni WPGV. Saman eiga þau tvær dætur sem heita Hannah og Mary en Mary þjáist af krampalömun vegna heilablóðfalla sem hún fékk á meðan fæðingu hennar stóð. Glenn og Claire skildu árið 1994 og var ástæðan fyrir skilnaðinum fíkniefnanotkun hans. Hann hefur verið greindur með ofvirkni (ADHD) og er óvirkur alkahólisti og eiturlyfjaneytandi. Beck giftist seinni konu sinni, Tania, árið 1999 og eiga þau tvö börn, Raphe (ættleiddur) og Cheyenne, og hafa þau hjónin bæði skipt yfir í mormónatrú. Stjórnmálaskoðanir. Beck lýsir sjálfum sér sem íhaldsmanni með frjálslyndar tilhneigingar og snúast gildi hans um réttinn til lífs, trúfrelsi, takmörkuð afskipti stjórnvalda og fjölskylduna sem hornstein samfélagsins. Hann styður byssueign almennings og er andvígur löggjöf um skotvopn og er ekki sannfærður um að hlýnun jarðar sé í raun af manna völdum. Hann hefur sætt gagnrýni fyrir að nota framleiðslufyrirtæki sín í pólitískum tilgangi en hann svarar því með að segja að fyrirtæki hans framleiði eingöngu efni til afþreyingar. Framfarasinnar eiga ekki upp á pallborðið hjá honum en hann fyrirlítur þá og kallar þá krabbamein í bandarísku samfélagi og telur þá jafnframt ekki bera neina virðingu fyrir frelsi einstaklingsins og einkaeign, því samkvæmt framfarasinnum gangi ríkisvaldið fyrir og er það mjög andstætt frjálshyggjusjónarmiðum. Beck hefur stutt teboðshreyfinguna frá byrjun og deilir svipuðum skoðunum með liðsmönnum hennar þegar kemur að takmörkuðum afskiptum stjórnvalda. Heimildir. Beck, Glenn Nípa. Pastínakka (pastinakka, pastinakk eða nipa) (fræðiheiti: "Pastinaca sativa") er matjurt af sveipjurtaætt sem myndar svera stólparót sem er notuð sem grænmeti. Ólína Þorvarðardóttir. Ólína Þorvarðardóttir (fædd 8. september 1958) er íslenskur stjórnmálamaður. Hún var kjörin alþingismaður 2009 fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi. Formaður Vestnorræna ráðsins 2010. Starfsferill. Ólína hefur gegnt fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum í ýmsum nefndum og ráðum. Hún hefur skrifað fjölda fræðigreina auk skrifa um þjóðfélagsmál í blöð, bækur, tímarit og á vefsíður. Lawrence Durrell. Lawrence George Durrell (27. febrúar 1912 – 7. nóvember 1990) var utandveljandi breskur skáldsagnahöfundur, ljóðskáld, leikritasmiður og ferðasöguhöfundur. Hann er þekktastur fyrir fjórleikinn "Alexandríukvartettinn" ("The Alexandria Quartet"), sem eru fjórar skáldsögur er lýsa lífinu í Alexandríu á árunum fyrir heimsstyrjöldina síðari. Lawrence hefur verið lýst sem barni breska heimsveldisins enda mótaðist hann næstum því alfarið utan Bretlandseyja, enda bjó hann þar aldrei og sumir halda því fram að hann hafi aldrei verið með breskan ríkisborgararétt. Lawrence var bróðir Gerald Durrell. Durrell fæddist á Indlandi og var faðir hans járnbrautaverkfræðingur. Hann og kona hans voru bæði bresk, en þegar Lawrence fæddist hafði hvorugt þeirra nokkru sinni komið til Englands. Lawrence Durrell ólst upp á Indlandi til 12 ára aldurs en fór þá til Englands í skóla. Hann gerðist síðan stjórnarerindreki og fór þá víða. Síðustu 33 ár ævinnar bjó hann í Sommieres í Frakklandi en þar bjó hann með "Francoise Kesisman" veitingakonu. Áður hafði hann gengið í gegnum fjögur hjónabönd. Durrell, Lawrence 43. Árið 43 (XLIII) var í gregoríanska tímatalinu almennt ár sem byrjaði á þriðjudegi. Dolores Umbridge. Dolores Jane Umbridge eða Umbridge prófessor er kennari við Hogwartskóla í Harry Potter-bókaflokknum. Hún á að vera gráhærð, fúl, þybbin og leiðinleg og leit út eins og karta. Hún var alltaf í bleikum fötum, skrifstofan hennar var bleik bæði í Hogwarts og í ráðuneytinu. í 5. bók, "Harry Potter og Fönixreglunni", neyðist Harry til þess að sitja eftir hjá henni, hann þarf að skrifa niður á pappír orðin: "Ég má ekki ljúga". Hann skrifar með fjaðurpenna sem Umbridge lánar honum, pennin er með álögum þannig að hann skrifar með sínu eigin blóði og eftir viku í eftirsetu var hann með ör á handarbakinu sem var í laginu eins og setningin sem hann skrifaði. Harry sker sig á hverju kvöldi sem hann situr eftir hjá henni. Þegar hún er ekki að kenna í Hogwarts er hún yfiraðstoðarmaður galdramálaráðherra og tilskipun um skráningu galdrafólki af muggaættum. Feðradagurinn. Feðradagurinn er haldinn hátíðlegur annan sunnudag í nóvember ár hvert og var haldinn fyrst á Íslandi 14. nóvember 2006. Í tilefni af fyrsta Feðradeginum var haldin ráðstefna á vegum félagsmálaráðuneytisins, Félags ábyrgra feðra og Jafnréttisstofu á Nordica-hótelinu. Þar var fjallað um feður í samfélagi nútímans og mikla þátttöku feðra á Íslandi í fæðingarorlofi. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni ásamt Tom Beardshaw frá Félagi ábyrgra feðra í Bretlandi. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var heiðursgestur ráðstefnunnar. Feðradagurinn er skráður í Almanak Háskóla Íslands. Þess má geta að mæðradeginum hefur verið fagnað á Íslandi síðan árið 1934 en hann ber jafnan upp á annan sunnudag í maí. Kranablaðamennska. Kranablaðamennska er hugtak í blaðamennsku sem Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV smíðaði og notaði í grein sem hann birti 2. desember árið 2000. Þar útskýrir hann kranablaðamennsku þannig „að fjölmiðill fer að því leyti ekki að verklagsreglum, að hann skrúfar frá einu sjónarmiði í fréttaflutningi án þess að leita annarra sjónarmiða, ef ætla má, að þau séu til“. Kranablaðamennsku mætti því útskýra sem blaðamennsku sem styðst aðeins við eitt sjónarhorn í einu, lætur gagnrýnislaust yfir sig ganga sjónarmið úr einni átt, en leitar ekki að gildi hennar með því að gagnrýna hana með skoðunum úr annarri átt. Saratov. Saratov (rússneska: Сара́тов) er borg í Rússlandi. Mannfjöldi var um það bil 837 þúsund árið 2010. Itamar Franco. Itamar Augusto Cautiero Franco (28. júní 1930 – 2. júlí 2011) var 33. forseti Brasilíu (1992 - 1995). Hvítöl. Hvítöl er dökkt yfirgerjað léttöl af dönskum uppruna. Það er með áfengisinnihald undir 2,5% og gert með því að meskja maltið við mjög háan hita (76-78°C). Það skapar mikið af ógerjanlegum sykrum sem verða eftir sem sæta í ölinu þegar gerjun er lokið, en að sama skapi lítið af gerjanlegum sykrum sem gerið getur breytt í áfengi. Nafnið er dregið af því að ölið var búið til með „hvítu malti“, þ.e. malti sem var þurrkað rétt áður en hvítar spírurnar í byggfræjunum urðu grænar. Það þekkist í Danmörku frá 15. öld. Hefð er fyrir því í Danmörku að drekka hvítöl á jólum og hefur sú hefð meðal annars borist til Íslands. Í Danmörku er hvítöl því stundum markaðssett fyrir jólin sem „nisseøl“ en á Íslandi er það kallað jólaöl. Á Íslandi framleiddi Ölgerðin Egill Skallagrímsson hvítöl frá stofnun fyrirtækisins 1913. Fram undir 1980 var nýbrugguðu hvítöli tappað á brúsa sem viðskiptavinir komu sjálfir með í ölgerðina fyrir jólin þegar hvítölið var selt sem „jólaöl“. Sumir litu jafnvel á það sem ómissandi hluta af jólaundirbúningnum að standa í biðröð fyrir utan brugghús Ölgerðarinnar á Njálsgötu með brúsa í hendi síðustu dagana fyrir jól. Flæmska brúnölið oud bruin er skyld tegund af dökku öli með lítið áfengisinnihald en sem er yfirleitt látið þroskast á flöskum meðan hvítöl er oftast selt nýtt. Jerry Lewis. Jerry Lewis (fæddur Jerome Levitch 16. mars 1926) er bandarískur leikari sem með Dean Martin réðu yfir amerísku gríni um árin 1946 – 1956. Þeir eru taldir eitt vinsælasta tvíeiki allra tíma á hvíta tjaldinu og gerðu þeir saman myndir eins svo My friend Irma (1949), The Caddy (1953) og Pardners (1956) svo fáeinar séu nefndar. Jerry naut ekki bara velgengni með Dean Martin eftir að þeir hættu formlega að starfa saman árið 1956 gerði Jerry klassíkar myndir sem hann lék í leikstýrði og var handritshöfundur af The Ladies Man (1961), The Nutty Professor (1963) og The Bell Boy (1960) og gerði hann handritið og lék Cinderfella (1960). Jerry hefur haft áhrifamikinn og árangursríkan feril á þeim rúmum 80 árum sem hann er búinn að vera í brasanum en hann byrjaði að skemmta á sviði aðeins fimm ára gamall Æska. Jerry fæddist 16. mars 1926 eftir að móðir hans Rae Lewis var búinn að vera með hríðar í fjóra daga hana verkjaði svo mikið að hún bað um einhver lyf við verknum. Læknar létu hana fá verkjalyf en tók hún aðeins of stóran skammt þannig Jerry fæddist í dái. Læknar urðu óþolinmóðir og héldu að barnið myndi deyja ef ekki yrði gerð hryggjaraðgerð til að vekja hann en vitað var að það mundi vekja hann en skaða hann mikið. Vildi amma Jerrys gefa honum tíma og þann 18. mars vaknaði Jerry frá dáinu. Foreldrar Jerrys voru rússneskir gyðingar sem bæði voru skemmtikraftar. Móðir Jerrys var hin ágætasta söngkona en aðalhæfileikarnir hennar voru í píanóleik og lék hún undir þegar faðir Jerrys söng og var með gamanleik. Foreldrar Jerrys voru lítið heima vegna vinnu sinnar og var Jerry alinn upp hjá ömmu sinni sem Jerry sagði seinna í viðtali að það hafi verið manneskjan sem stutti hann mest við þá hugmynd að gerast skemmtikraftur. Samstarfið við Dean Martin. Jerry(hægri) og Dean(vinstri)Jerry lék í 17 kvikmyndum með Dean Martin á árunum 1949 – 1956 og var hver á eftir annari vinsælli en sú fyrri. Jerry varð upphaflega frægur með söngvarunum Dean sem var kvennagullið sem heillaði dömurnar uppúr skónum á meðan Jerry var meira í því að láta fólk hlæja í Martin og Lewis tvíeykinu. Þeir byrjuðu að skemmta á næturklúbbum og árið 1945 hitti hinn efnilegi söngvari Dino Paul Crocetti (Dean Martin) frá Ohio hinn unga og efnilega grínista Jerome Levitch (Jerry Lewis) frá Newark í New Jersey. klúbburinn sem Þeir hittust í fyrst hét Glerhattaklúbburinn (Glass Hat Club) í New York-borg sem þeir voru báðir að skemmta. Þeim fannst gaman að atriðum hvors annars og klöppuðu mikið fyrir hvort öðrum. Fyrsta skipti sem þeir sameinuðu atriðin sín var þann 2. júlí 1946 í Atlantic City (í næturklúbb sem hét Fimmhundruð-klúbburinn (500 club)). Ekki gekk allt upp og var lítið um hlátur þegar þeir skemmtu þetta kvöld og varaði eigandinn þá við Skinny D'Amato ef þeir gerðu ekki betur í seinna atriðinu sem var seinna um kvöldið yrðu þeir reknir. Fóru þeir út bakdyrnar inn í sundið sem var á bak við skemmtistaðinn og lögðu höfuð í bleyti, ákváðu þeir að gera bara eitthvað ekkert sem var í handritinu þeirra og söng Dean nokkur lög og Jerry kom inn úr eldúsinu klæddur sem þjónn og var með helling af diskum sem hann missti alla í gólfið. Gerðu þeir gys í áhorfendum sögðu gamla góða brandara og lék Jerry klaufskan þjón og var Dean sjarmatröllið og tóku áhorfendurnir svo sannarlega við sér og nú hlógu allir sig máttlausa. Sjónvarpsþættir. Fyrir utan það að hafa leikið í yfir 60 kvikmyndum var Jerry með sinn eigin þátt Sem hét Jerry Lewis-þátturinn (The Jerry Lewis show). Jerry Lewis þátturinn var sýndur á árunum 1957 – 1958, 1963 og 1967 – 1969. Árið 1948 kom Jerry fram í sjónvarpsþætti sem hét Velkominn um borð (Welcome Aboard) en það var hálftíma þáttur um nýja og efnilega skemmtikrafta sem voru að byrja að leika í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eða að gefa út sýna fyrstu plötu. Þetta var fyrsta skipti sem Jerry kom fram í sjónvarpi, Dean Martin kom líka fram í þessum þætti. Loftsteinninn. Loftsteinninn "11548 Jerrylewis" er skírður í höfuðið á leikaranum. Loftsteinninn var uppgvötvaður 25. nóvember árið 1992 af C. S. Shoemaker og D. H. Levy. Þeir fundu loftsteinin við stjörnuskoðun í Palomar Observatory í San Diego-sýslu, Kaliforníu. Heilsufar. Jerry hefur orðið fyrir margskonar meiðslum og fíknum sem tengjast bæði öldrun og bakmeiðslum sem hann fékk við að detta af píanói á Sands hótelinu í Las Vegas. Eftir slysið varð hann háður verkjalyfinu Percodan í þrettán ár. Hann segir að hann hafi hætt að taka lyfið inn árið 1978. Tilvísanir. Lewis, Jerry Donald Rumsfeld. Donald Rumsfeld(f. 9. júlí 1932) er bandarískur stjórnmálamaður og fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Á ferli sínum sem stjórnmálamaður var hann tvisvar sinnum varnarmálaráðherra. Fyrst frá 1975-1977 í ríkisstjórn Geralds Ford og var þá yngsti maður sem tekið hafði við þessu embætti. Svo frá 2001 – 2006 í ríkisstjórn George W. Bush og var þá sá elsti sem hafði tekið við þessu sama embætti. Yngri ár. Rumsfeld er fæddur í Evanston í Illinois en ólst upp í Winnetka í sama ríki. Hann var mjög virkur í skátastarfi á sínum yngri árum og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín innan hreyfingarinnar. Hann fékk skólastyrk til þess að stunda nám við Princeton-háskóla. Meðan hann var í námi var lagði hann stund á bæði glímu og ruðning og var hann fyrirliði á báðum liðum skólans í þessum greinum. Herbergisfélagi hans í Princeton var Frank Carlucci sem síðar varð einnig varnarmálaráðherra. 1954 – 2000. Árið 1954 gékk Rumsfeld í sjóher Bandaríkjanna þar sem hann var flugmaður og flugkennari. Hann var virkur í hernum til ársins 1957 en þá skráði hann sig í varalið hersins. Hann var skráður í herinn allt til ársins 1989. Rumsfeld var kosin til fulltrúardeildar bandaríkjaþings fyrir hönd 13.kjördæmis Illinois. Hann hlaut örugga kosningu í endurkjörum árin 1964, 1966 og 1968. Meðan hann var á þingi sótti hann kennslustundir og námskeið í Háskólanum í Chicago. Meðan hann var þar kynntist hann Milton Freidman og kenningum Chicago-skólans í hagfræði. Hann sagði upp sem þingmaður 1969 til þess að starfa í ríkisstjórn Nixons. Þar tók hann sæti sem ráðgjafi forsetans ásamt því að taka sæti í ýmsum ráðum og nefndum. Árið 1973 flutti Rumsfeld frá Washington D.C. til Brussel þar sem hann var sendiherra Bandaríkjana hjá NATO. Á meðan hann var í Brussel sinnti hann ýmsum störfum fyrir hönd Bandaríkjanna á sviði hernaðar- og vararmála og var meðal annars fastafulltrúi Bandaríkjana í Norður Atlantshafsráðinu. 1974 var hann kallaður aftur heim til Washington til þess að sjá um embættistöku Geralds Ford. Ári seinna tók hann við starfi starfsmannastjóra Hvítahússins og hélt því þar til Ford stokkaði upp ríkisstjórn sinni árinu seinni. Ford skipaði þá Rumsfeld sem varnarmálaráðherra og var hann í því embætti til 1977. Frá árunum 1977 – 2001 starfaði hann að mestu í einkageiranum en sat þó í hinum ýmsu ráðum og nefndum innan stjórnmálanna, flestum á sviði utanríkis-, hernaðar- og varnarmála. 2001 – 2006. Það var þegar George W. Bush var kjörinn forseti að hann varð varnarmálaráðherra í 2. sinn. Íraksstríðið. Í kjölfar hryðjuverkaárásana þann 11.september 2001 er Rumsfeld sagður hafa gefið skipanir til undirmanna sinna um að afla strax upplýsinga um árásirnar og dæma hvort þær séu nógu góðar til þess að ráðast gegn Saddam Hussein og Osama Bin Laden. Á meðan á Íraksstríðinu stóð var Rumsfeld mjög umdeildur og þá sérstaklega vegna þeirra pyntingarmála sem komu upp meðan á stríðinu stóð. Stríðsfangar sem höfðu verið handteknir á meðan á stríðinu stóð voru látnir sæta ýmiss konar pyntingum meðan þeir voru í haldi Bandaríkjamanna svo sem vatnspyntingum, svefnleysi, niðurlægingu og barsmíðum. Rumsfeld heimilaði þessar starfsaðferðir þvert á tilskipun genfarsáttmálans um meðferð stríðsfanga. Hann sagði seinna um pyntingarnar: „Þetta eru atburðir sem gerðust á meðan ég var varnarmálaráðherra. Ég er ábyrgur fyrir þeim.“ Rumsfeld gaf út minnisblað þar sem hann fjallar um pyntingar á herföngum. Í minnisblaðinu er meðal annars talað um að fangar séu látnir standa kyrrir í allt að fjóra tíma á dag. Á minnisblaðinu sem Rumsfeld hafði skrifað undir hafði hann einnig skrifað „Ég stend í 8-10 tíma á dag. Af hverju mega [fangarnir] aðeins standa í fjóra tíma“. Þegar þetta minnisblað var gert opinbert birti The Economist það á forsíðu sinni ásamt textanum „Segðu af þér Rumsfeld“. Eftir því sem leið á stríðið mætti Rumsfeld sífellt meiri andstöðu frá almenningi, innan ríkisstjórnarinnar og innan hersins. Í upphafi árs 2006 kröfðust alls átta hershöfðingjar og aðmírálar afsagnar Rumsfelds í fordæmalausri aðgerð í sögu Bandaríkjanna. Sökuðu þeir Rumsfeld um að hafa sýnt af sér gríðarlega vanhæfni í skipulagningu hernaðarátaka. Rumsfeld hafnaði þessum ásökunum. Bush stóð með Rumsfeld og sagðist muna styðja hann svo lengi sem hann væri forseti en þann 6. nóvember skrifaði Rumsfeld afsagnarbréf til Bush. Margir repúblikanar voru ósáttir við að uppsögnin hafi borist svo seint fyrir kosningar og trúðu því að margir hafi ákveðið að kjósa ekki repúblikana vegna Rumsfelds. Afsögn hans tók gildi þann 18. desember 2006 og tók þá Robert Gates við starfinu. Þegar Bush tilkynnti um afsögn Rumsfeld sagði hann: „Bandaríkin eru öruggari og heimurinn allur er öruggari vegna starfa Donald Rumsfeld.“ Tilvísanir. Rumsfeld, Donald Hvítrússneska. Hvítrússneska er indóevrópskt tungumál úr hópi slavneskra tungumála. Hvítrússneska er opinbert tungumál í Hvíta-Rússlandi ásamt rússnesku. Kendall Jenner. Kendall Jenner (fædd 3. nóvember 1995) er unglingsfyrirsæta og er í raunveruleikaþáttum á Keeping Up With The Kardashians á E! Einkalíf. Kendall Jenner er elsta sameiginlega dóttir Bruce Jenner og Kris Jenner. Hún á yngri alsystur, Kylie Jenner. Hún á einig fjórar eldri hálfsystur, Casey Jenner, Kourtney Kardashian, Kim Kardashian og Khloé Kardashian. Einnig á hún fjóra eldri hálfbræður, Burton Jenner, Brandon Jenner, Brody Jenner og Rob Kardashian. Miðnafn hennar Nicole er í höfuðið á guðmóður hennar, Nicole Brown Simpson. Kendall er í einkaskóla, Sierra Canyon High School í Chatsworth með yngri systur sinni Kylie. Hún er einnig í klappstýruliðinu þar. Kendall byrjaði sem fyrirsæta 14 ára gömul og fyrsta takan hennar var fyrir línuna: Forever 21. Hún hefur einnig unnið fyrirsætustörf fyrir Nordstrom og Lucca Couture. Fyrirsætuferill. Kendall er með samning við Wilhelmina Models sem unglingsfyrirsæta. Hún sat fyrir hjá Forever 21 og sýndi línu þeirra „Twist“, sem kom í janúar 2010. Kendall vann einnig fyrirsætustarf fyrir Luca Couture. Í maí 2010 kom hún fyrir í blaðinu "Teen Vogue" og svo í mars 2010 kom hún fram í blaðinu "Paper Magazine" með systur sinni Kyle Jenner. Heimildir. Jenner, Kendall Volgograd. Volgograd (rússneska: Волгогра́д, 1925-1961 nefnd Stalíngrad (r. Сталинград)) er borg í Rússlandi. Mannfjöldi var um það bil 980 þúsund árið 2010. Borgin er á vesturbakka Volgu um 500 kílómetra frá ósum fljótsins þar sem það rennur í Kaspíahaf. Borgin er hafnarborg og flutningamiðstöð. Sumarið 1942 til vetursins 1942-1943 háðu þjóðverjar og sovétmenn orrustuna um Stalíngrad sem lauk með sigri sovétmanna. Merkingarvefur. Merkingarvefur er hugtak yfir frekari þróun eða viðbót við veraldarvefinn þar sem tölvubúnaðurinn leggur merkingu í gögn sem berast frá notandanum. Þróun merkingarvefsins er nokkuð á veg komin en enn er talsvert í land. Skilgreiningarvinna á stöðlum tengdum merkingarvefjum á sér nú stað hjá W3C-samtökunum sem vinna að tæknistöðlum fyrir veraldarvefinn. Thomas Newcomen. Hreyfimynd sem útskýrir hvernig gufuvél Newcomens virkar. Thomas Newcomen var enskur uppfinningamaður þekktur fyrir uppfinningu sína, Newcomen-gufuvélina. Gufuvélar voru upphaflega smíðaðar til þess að dæla vatni úr námum þegar iðnbyltingin átti sér stað. Er þeirra frægust gufuvél James Watt, en hún var endurbót á vél Thomas Newcomen. Fólst endurbótin í að láta kælingu gufunnar, sem olli þeim undirþrýstingi sem knúði vélina, eiga sér stað í sér hólfi, sem ekki þyrfti að hita aftur áður en það var aftur fyllt gufu. Voru þessar vélar iðulega settar í mynni kolanáma, og gengu þær þar fyrir afgangskolum. Að auki smíðaði James Watt tveggja strokka gufuvél, sem gat valdið snúningshreyfingu. Greiddi það nýtingu hennar leið á fleiri sviðum, til dæmis í verksmiðjum. George Tiller. George Richard Tiller (f. 8. ágúst 1941, d. 31. maí 2009) var læknir í bænum Wichita í Kansas fylki, Bandaríkjunum. Tiller rak læknamiðstöð fyrir konur en helsta sérstaða þessarar miðstöðvar var fóstureyðingar seint á meðgöngu, það er eftir 21. viku meðgöngu. Einungis eru þrjár slíkar læknamiðstöðvar í Bandaríkjunum. Tiller var myrtur árið 2009 af andstæðingi fóstureyðinga. Lionel Messi. Lionel Andrés Messi (fæddur 24. júní 1987) er argentínskur fótboltamaður sem spilar fyrir FC Barcelona. Hann getur annaðhvort leikið í hlutverki framliggjandi kantmanns eða framherja. Hann hefur bæði argentínskan og spænskan ríkisborgararétt. Hann hlaut Gullknöttinn, verðlaun tímaritsins France football, árið 2009. Á sama ári var Messi valinn knattspyrnumaður ársins af alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA. Messi er jafnframt hæst launaði knattspyrnumaður heims. Messi hóf fótboltaferil sinn árið 1995 hjá fótboltaliðinu Newell's Old Boys, sem er staðsett í argentínsku borginni Rosario. Það var ekki fyrr en Messi varð orðinn þrettán ára, að hann fluttist til Barcelona. Eftir þriggja ára dvöl hjá Barcelona hafði hann farið í gegnum C og B lið félagsins og komst í leikmannshóp aðalliðs félagsins, sextán ára að aldri. Fyrsti leikur hans var vináttuleikur við Porto en hann varð ekki reglulegur leikmaður félagsins fyrr en að fjöldi leikmanna félagsins meiddist og yngri leikmenn voru kallaðir inn. Fiðrað kókaín. Fiðrað kókaín (eða Feathered Cocaine) er íslensk heimildarkvikmynd um fálka og fálkasölu í Arabalöndunum. Myndin var frumsýnd árið 2010. Leikstjórar myndarinnar eru þeir Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarsson. Jólagleði. Jólagleði var skemmtun sem haldin var fyrr á öldum. Þá var venjan að messað var á aðfangadagskvöld jóla, en að því búnu dvaldist kirkjufólkið á prestsetrinu til morguns við víkivakadans og annan mannfagnað. Dan Aykroyd. Daniel Edward Aykroyd (fæddur 1. júlí 1952) er kanadískur gamanleikari, handritshöfundur og tónlistarmaður. Hann er þekktastur fyrir að hafa búið til Blues Brothers með John Belushi og Ghostbusters með Harold Ramis (og Ivan Reitman). Hann lék einnig aðalhlutverkin í báðum myndum sem persónurnar Elwood Blues (Blues Brothers) og Dr. Raymond Stantz (Ghostbusters). Hann var einnig meðlimur af Saturday Night Live-þáttunum. Hann er einnig víngerðarmaður og sérfræðingur um fljúgandi furðuhluti (ufologist). Aykroyd, Dan Frísland. Frísland (frísneska: "Fryslân", hollenska: "Friesland") er þriðja stærsta fylki Hollands með 3.361km2. Fylkið samanstendur af meginlandi og nokkrum eyjum í Vaðhafinu. Frísland er eina fylki Hollands þar sem frísneska er töluð sem opinbert mál, auk hollensku. Lega og lýsing. Frísland liggur við Vaðhafið og við Ijsselmeer nyrst í Hollandi. Önnur héruð sem að Fríslandi liggja eru Groningen og Drenthe í austri, Overijssel og Vlevoland í suðri. Frá Fríslandi er hægt að keyra yfir sjávarvarnargarð yfir Ijsselmeer til fylkisins Norður-Hollands. Til Frieslands heyra Vesturfrísnesku eyjarnar Vlieland, Terschelling, Ameland og Schiermonnikoog. Í Friesland búa 647 þúsund manns. Höfuðborgin er Leeuwarden. Stór hluti Frieslands er undir sjávarmáli, sérstaklega í suðri og vestri. Hæsti punktur fylkisins er 45 metra yfir sjávarmáli og er á eyjunni Vlieland. Á fastalandinu er hæsti punkturinn 12 metra yfir sjávarmáli. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Fríslands samanstendur af fjórum bláum og þremur hvítum þverröndum. Í hvítu röndunum eru samanlagt sjö blöð vatnaliljunnar. Blöðin standa fyrir hinar sjö fornu sýslur sem fylkið samanstóð af á miðöldum. Þær koma fyrst fram á 11. öld. Skjaldarmerkið er miklu yngra, en það var formlega tekið upp 9. júlí 1957. Það samanstendur af tveimur gylltum ljónum á bláum fleti. Ljónin eru merki greifanna af Hollandi annars vegar og biskupanna frá Utrecht hins vegar en þeir áttu ítök í fylkinu á miðöldum. Ytra skrautið, ljónaberarnir og kórónan, eru nýrri tíma viðbætur. Orðsifjar. Frísland er nefnd eftir germanska þjóðflokkinum frísum sem bjuggu á svæðinu forðum (og búa enn). Heitið var áður fyrr notað yfir miklu stærra svæði, en forðum lá Frísland frá Norður-Hollandi allt til Suður-Danmerkur. Með tímanum afmarkaðist heitið. Nú eru Ostfriesland og Nordfriesland í Þýskalandi. Þjóðverjar kalla hollenska fylkið enn Vestfriesland, en það veldur oft misskilningi, því Hollendingar sjálfir kalla fylkið Norður-Holland gjarnan Westfriesland, þar sem það var vestasta hluti hins gamla Fríslands. Á frísnesku heitir fylkið opinberlega Fryslân. Frísar kalla fylkið oft It Heitilân, sem merkir "föðurlandið". Söguágrip. Frísland var áður fyrr miklu stærra svæði og var það hluti af frankaríkinu. Á miðöldum þess gekk austurhluti fylkisins upp í þýska ríkinu en greifarnir af Hollandi innlimuðu alltaf meira og meira af fylkinu í vestri. Eftir stutt sjálfstæði á 15. öld gekk Frísland í raðir Hollendinga í uppreisn þeirra gegn Spánverjum. Það varð svo að nokkuð sjálfstæðri einingu í hollenska ríkinu. Til dæmis kom fylkið sér upp eigin herflota, enda lá landið vel að sjó. Frakkar innlimuðu Frísland Batavíska lýðveldinu en síðan 1815 er Frísland að fylki í Hollandi. Gunnar Myrdal. Gunnar Myrdal (fremst til vinstri) við Nóbelsverðlaunafhendingu árið 1974. (Karl) Gunnar Myrdal (fæddur 6. desember 1898, í Gustafs, Dalarna, Svíþjóð, dáinn 17. maí 1987) var sænskur hagfræðingur. Hann útskrifaðist úr stjórnmálahagfræði árið 1933 frá Stokkhólmsháskóla. Hann hlaut nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1974 ásamt Friedrich August von Hayek. Gunnar Myrdal var jafnframt stjórnmálamaður og sat árið 1934 í sænska þinginu fyrir jafnaðarmannaflokk Svíþjóðar. Þekktasta verk hans kom í kjölfarið, þegar hann var beðinn um að rannsaka vandamál svartra í Bandaríkjunum. Úr þeirri rannsóknarvinnu varð til bókin "An american Dilemma: The Negro Problem and Modern Democracy". Eftir þá rannsókn sat hann í bankaráði Seðlabanka Svíþjóðar og tók síðar við stöðu forstöðumanns Efnahagsráðs Evrópu hjá Sameinuðu þjóðunum. Síðar á starfsferli sínum varð hann prófessor við háskólann í Stokkhólmi og New York háskóla. The Myth of the Negro Past. Bókin, "The Myth of the Negro Past", var gerð að frumkvæði Carnegie Corporation árið 1938 og var unnin með stuðningi 20 háskóla. Henni var ritstýrt af Karl Gunnar Myrdal, háskólanum í Stokkhólmi og Samuel A. Stoufer, í Chigago-háskóla. Í bókinni segir að „stöðugir ættbálkar voru regla, fremur en undantekning. Réttarkerfi og aðrar tengdar stofnanir tryggðu virkni lagakerfisins.“ Bókin staðhæfir að leiðtogar þessara ættbálka hafi oftast verið sendir sem þrælar til Afríku og að í nútímanum séu hefðir svartra upprunanr frá Indíánum Ameríku. Heimildir. Myrdal, Karl Galdraöldin. 17. öldin er stundum kölluð galdraöldin af því að þá trúði fólk mikið á meðal annars galdra, galdramenn, nornir, drauga, tröll og skrímsli. Margir voru þá hræddir við galdramenn. Þeir sem voru dæmdir fyrir galdur voru oft brenndir á báli. Á Íslandi voru 21 menn brenndir fyrir galdur, 20 karlmenn og ein kona á um það bil 60 árum. Hinn guðdómlegi gleðileikur. Hinn guðdómlegi gleðileikur (eða Gleðileikurinn guðdómlegi) (ítalska: la "Divina Commedia") er ítalskt söguljóð sem Dante Alighieri skrifaði á árunum frá 1308 og lauk við rétt fyrir dauða sinn árið 1321. Dante segir í kvæðinu frá ímynduðu ferðalagi sínu um Víti, Hreinsunareldinn og Paradís, en um hina fyrstu tvo staði fer hann í fylgd rómverska skáldsins Virgils og um Paradís í fylgd sinnar ástkæru Beatrísar. Gleðileikurinn guðdómlegi telst til leiðslukvæða. Það er talið vera ein helsta perla ítalskra bókmennta. Íslenskar þýðingar. "Hinn guðdómlegi gleðileikur" er að hluta til í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar ("Tólf kviður úr Gleðileiknum guðdómlega"), sem kom út árið 1968, og í lausamálsþýðingu Erlings E. Halldórssonar ("Gleðileikurinn guðdómlegi") sem kom út árið 2010. Málfríður Einarsdóttir reyndi einnig til við að þýða "Gleðileikinn", en sú þýðing kom aldrei út. Erlingur E. Halldórsson. Erlingur Ebeneser Halldórsson (f. 26. mars 1930) er mikilvirkur íslenskur þýðandi. Hann hefur meðal annars þýtt "Gargantúa og Pantagrúl" eftir François Rabelais, "Satýrikon" eftir Gajus Petróníus, "Tídægru" eftir Giovanni Boccaccio og "Kantaraborgarsögur" eftir Chaucer og einnig "Gleðileikinn guðdómlega" eftir Dante Alighieri. Blóðögðuveiki. Blóðögðuveiki (eða blóðögðusótt) (fræðiheiti: "Schistosomiasis") er sjúkdómur af völdum sníkjuorms í blóðrás en sjúkdómurinn tekur nafn sitt af sníkjuormi sem nefnist blóðagða. Mýrkjartan (konungur Íra). Mýrkjartan (dáinn 26. febrúar 943) var konungur Íra samkvæmt frásögn Laxdælu á 10. öld. Hann var faðir Melkorku, sem Höskuldur Dala-Kollsson keypti, og átti með henni soninn Ólaf pá. Mýrkjartan var í raun héraðshöfðingi yfir Dyflinni. Starfsmannastjóri Hvíta hússins. Starfsmannastjóri Hvíta hússins er æðsta staðan innan skrifstofu framkvæmdastjóra handhafa forsetavaldsins í Bandaríkjunum. Staðan hefur oft verið nefnd sú næst valdamesta í Washington. Eins hafa verið færð rök fyrir því að Starfsmannastjóri Hvítahússins sé eins konar forsætisráðherra Bandaríkjanna. Núverandi starfsmannastjóri er Pete Rouse. Saga embættisins. Upphaflega féllu þau verkefni sem nú falla undir starfsmannastjórann undir embætti einkaritara forsetans. Embætti einkaritarans var skipað nánustu ráðgjöfum og trúnaðarmönnum forsetans. Einkaritari forsetans var í raun æðsti aðstoðarmaður forsetans og sinnti bæði persónulegum verkefnum sem og verkefnum tengdum starfinu, oft og tíðum krefjandi verkefni sem kröfðust bæði færni og trúnaðar. Frá 1933 til 1939, á tímum kreppunar miklu, treysti Roosevelt sérstaklega á teymi ráðgjafa sem hann kallaði „gáfumannaráðið“ (e. "Brains Trust"). Þetta var teymi sérfræðinga sem sett var saman til þess að ráðleggja Roosevelt í hinum ýmsu málefnum og ákvarðanatökum. Vegna niðurskurðar og aðhalds í opinberum rekstri var ekki hægt að búa til stöður innan Hvíta hússins fyrir þessa sérfræðinga og voru þeir því skráðir fyrir hinum ýmsu lausu stöðum innan stjórnkerfisins svo hægt væri að greiða þeim laun. Það var ekki fyrir en árið 1939, á seinna kjörtímabili Roosevelt, að lagður var grunnur að sérstökum stöðum fyrir ráðgjafa forsetans. Þetta gerðist þegar Roosevelt fékk þingið til þess að samþykkja stofnun "skrifstofu framkvæmdastjóra handhafa forsetavaldsins" (e. "Executive Office of the President of the United States") sem myndi heyra beint undir forsetann sjálfan. Með auknum umsvifum framkvæmdavaldsins í Bandaríska ríkinu var árið 1946 sett á laggirnar staða "aðstoðarmanns forsetans". Þessi staða er beinn undanfari að embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins því árið 1953, í stjórn Eisenhower var þáverandi aðstoðarmaður forsetans gerður að starfsmannastjóra hvíta hússins og var það í fyrsta sinn sem sá titill var notaður. Embætti starfsmannastjórans var þó ekki komið í fastar skorður og var verkefnum starfsmannastjórans deilt með aðstoðarmanni forsetans, fjölmiðlafulltrúum Hvíta hússins og fleiri aðilum. Staðan varð ekki að fastri stöðu innan Hvíta hússins fyrir en í stjórn Nixons. Meðalstarfsaldur starfsmannastjórans er um það bil tvö og hálft ár en sá sem lengst hefur gegnt embættinu er John R. Steelman en hann var starfsmannastjóri í sex ár. Flestir starfsmannastjórar hafa verið fyrrverandi stjórnmálamenn og margir halda áfram í stjórnmálum eftir tímabil sitt sem starfsmannastjóri. Alexander Haig sem var starfsmannastjóri í stjórn Nixons varð seinna utanríkisráðherra og Dick Cheney, sem var starfsmannastjóri í stjórn Geralds Ford var seinna varnarmálaráðherra og varaforseti. Eins var Donald Rumsfeld starfsmannastjóri áður en hann varð varnarmálaráðherra. Hlutverk starfsmannastjórans. Þó svo að oft sé talað um embætti starfsmannastjórans sem það næst valdamesta í Washington er ljóst að mikill munur er á mismunandi starfsmannastjórum. H.R. Haldemann var fyrsti starfsmannastjóri Nixons og vann hann sér inn orðspor sem mikill harðstjóri og var vanur að hitta aðra embættismenn fyrir hönd Nixon og koma síðan skilaboðum frá þeim á leiðis til hans. Andrew Card sem var starfsmannastjóri í embættistíð George W. Bush þótti hinsvegar ekki vera valdamikill og segja sumir að hann hafi einfaldlega fallið í skuggan á Karl Rove sem er talinn vera arkítektinn að pólitískum frama Bush. Söguljóð. Söguljóð (kviða, hetjuljóð, óðsaga eða epísk kvæði'") er oftar en ekki langt kvæði ("epos"), sem er sagt af sögumanni, venjulega um hetjudáðir og atburði sem eru mikilvægir póstar einhvers menningarbrots eða þjóðar. Algengt er að söguljóð eigi sér rætur í munnlegri hefð og Albert Lord og Milman Parry hafa sett fram rök að því að klassísk söguljóð Forngrikkja hafi í grunninn verið til í munnlegri geymd og verið munnlega samin. Hvað sem um það er þá hafa söguljóð verið skrifuð niður síðan Hómerskviður voru ritaðar og verk Virgils, Dante Alighieri og John Miltons hefðu líklega ekki lifað hefðu þau ekki verið bókfest. Hin fyrstu söguljóð eiga sér undirstöðu í sjálfum sér, eins og "Bjólfskviða" og "Ilíonskviða" og eru því "frumkviður". Söguljóð sem braga eftir þessum gömlu kviðum, eins og til dæmis "Eneasarkviða" Virgils eða "Paradísarmissir" Miltons eru aftur á móti þekkt sem "síðkviður". Önnur tegund af söguljóði er "smákviðan", sem er stutt sagnrænt kvæði með rómantískum eða goðsögulegum efnivið. Smákviður urðu til á hellenískum tíma hjá höfundum á borð við Kallímakkos og Apolloníos frá Ródos. Ovidius er oft talinn meistari þessa bókmenntaforms. Stundum er þátturinn um Nísus og Evrýalus í 9. bók "Enesarkviðu" talinn dæmi um klasssíska smákviðu. Múskat (þrúga). Múskat er vínþrúga sem ræktuð er bæði til víngerðar, í rúsínur og sem ávöxtur. Litur múskatþrúga getur verið allt frá svarbláum yfir í hvítan. Bragðið er sterkt, sætt og ilmríkt. Múskat er aldagömul þrúga sem er ræktuð um allan heim. Útbreiðsla hennar í kringum Miðjarðarhafið og í Mið-Austurlöndum bendir til þess að hún sé elsta þekkta ræktunarafbrigði vínviðar. Vegna þess hve einkennandi bragð er af flestum múskatvínum er algengast að nota þrúguna í sæt eftirréttavín eða styrkt vín og freyðivín. Á Portúgal og Spáni eru þessi sætu, sterku desertvín þekkt sem "Moscatel" eða "Muscatel". Eftirlíking. Eftirlíking (eða stæling) er þegar eitt líkir eftir öðru, hvort sem er til listar, eitt er grunnur að öðru, eða til að endurframkalla frumverkið í annarri mynd. Eftirlíking getur til dæmis verið þegar eitthvert frumverk er endurskapað, annaðhvort til að ná fram samskonar áhrifum, eða þá að grunnur frumverksins er hafður til hliðsjónar en annað verk kallað fram. Dæmi um hið fyrrnefnda er til dæmis þegar listamaður stælir verk meistaranna til að komast betur í tengsl við verkin og reyna sig við handbragð þeirra. Hið síðarnefnda er þegar menn byggja verk á gömlum grunni, eins og t.d. þegar Virgill skrifaði "Eneasarkviðu" á grunni Hómerskviða. Hið fyrrnefnda bætir oft litlu við upphaflegu verkin, eru oftast aðeins flatar eftirlíkingar (stælingar), en hið síðarefnda er nýtt verk á gömlum grunni. Eftir að myndavélin kom til sögunnar tóku margir listamenn að berjast á móti andlausum eftirlíkingum viðfangsefnanna (sbr. portrettmyndir eða landslagsmálverk), en poplistamenn endursköpuðu eftirlíkingarnar með því að stækka þær og stilla upp sem listaverk. Stundum var eftirmyndin af hlutnum sjálfum stillt upp óbreytt, sbr. verk Andy Warhols "Campbell's Soup" eða Marcel Duchamp þegar hann tók mígildi og skírði "Fountain". Um er að ræða tvær ólíkar aðferðir eftirlíkinga. Hið síðarnefnda flokkast þó sem tilbúið listaverk ("found art"). Annarskonar eftirlíkingar. Eftirlíking getur líka verið þegar listin reynir að herma lífið. Samkvæmt frægri skilgreiningu Aristótelesar er harmleikurinn ("tragedían") t.d. eftirlíking (mímesís) atburðakeðju sem vekur með áhorfendum vorkunn og skelfingu. Oscar Wilde var aftur á móti með þá kenningu í "Hnignun lyganna" að lífið hermdi eftir listinni ("Life imitating art"). Eftirlíkingar í smækkaðri mynd eru stundum gerðar sem dægradvöl eða til hliðsjónar frummyndinni. Litlar eftirlíkingar frægra skipa eða módel af frægum flugvélum eru oft listasmíði í sjálfu sér. Slíkar eftirlíkingar ganga út á að sýna frummyndina í þægilegri stærð og jafnvel eftirlíkingar af frumverkum sem ekki eru lengur til, eins og t.d. Títaník. Orð geta verið eftirlíkingar af hljóði, eins og orðið voffi í merkingunni hundur. Canaiolo. Canaiolo er rauð vínþrúga upprunnin á Ítalíu. Hún er algeng um alla Mið-Ítalíu en þekktust í vínum frá Toskana þar sem það er ein af þeim þrúgum sem er notað í Chianti-vín ásamt sangiovese og hvítu þrúgunum trebbiano og malvasíu. Talið er að á 18. öld hafi canaiolo verið meginþrúgan í Chianti-víni fremur en sangiovese sem er aðalþrúga þess í dag. Vinsældir hennar stafa meðal annars af því að hægt er að þurrka hana að hluta án hættu á myglu og bæta þannig í gerjunartankinn á síðari stigum gerjunar til að lengja hana og gera vínið stöðugra. Þrúgan colorino hefur þessa sömu eiginleika en hefur ekki sömu mýkjandi áhrifin á sangiovese, sem er meginástæðan fyrir því að canaiolo er blandað við sangiovese í Chianti-víni. Apolloníos frá Ródos. Apolloníos frá Ródos (gríska: Ἀπολλώνιος Ῥόδιος Apollṓnios Rhódios) var bókavörður í bókasafninu í Alaxandríu. Hann er þekktastur fyrir söguljóð sitt Argóarkviðu ("Argonautica"), sem segir af Jasoni og Argóarförunum og leiðangri þeirra að Gullna reyfinu, og er eitt af helstu verkum klassískra söguljóða. Apolloníos var ekki frá Ródos, heldur bjó þar hluta af ævinni og kenndi sig eftir það við eyjuna. Trebbiano. Trebbiano er hvít vínþrúga sem er önnur mest ræktaða vínþrúga Ítalíu. Trebbiano gefur mikla uppskeru og fremur hlutlaust, auðseljanlegt vín sem endist stutt. Það er þannig algengt sem hluti af blönduðu víni en sjaldgæft sem einnar þrúgu vín. Trebbiano-safi er notaður til að búa til balsamedik og ýmsar tegundir af brandýi. Það er einnig mikið ræktað í Frakklandi þar sem það er líka þekkt sem "ugni blanc" og "St. Émilion". Í Frakklandi er það líka notað við framleiðslu á koníaki í Cognac. Kaffibaunamálið. Kaffbaunamálið var gjaldeyris- og skattatengt mál sem kom upp á Íslandi í byrjun árs 1985 og snerist um innkaup Sambandsins á kaffibaunum. Þá var SÍS kært fyrir svik við Kaffibrennslu Akureyrar. Árið 1988 féll dómur í Hæstarætti og voru tveir sýknaðir, en þrír dæmdir. Á þessum árum voru gjaldeyrishöft á Íslandi. Endurgreiðslur kaffisala sem keyptu kaffi frá Brasilíu á árunum 1979, 1980 og 1981 áttu að renna til Kaffibrennslu Akureyrar eftir útreikninga, en komu aldrei úr sjóðum Sambandsins. Rannsókn fór fram á vegum rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Sambandið framvísaði reikningum án þess afsláttar, sem sölufyrirtækið í Brasilíu veitti og fékk gjaldeyrisyfirfærslur til að greiða fyrir kaffið. Þannig munu hafa fengist gjaldeyrisyfirfærslur fyrir 16 milljónir dollara, en í raun var ekki greidd til hins erlenda fyrirtækis nema um hálf ellefta milljón. Sambandið greiddi kaffibrennslunni mismuninn eftir að rannsókn ríkisskattstjóra hófst. Þá beindist rannsóknin að því að kanna hvað orðið hefði um hálfa milljón Bandaríkjadala, sem ekki var skilað til íslenskra gjaldeyrisyfirvalda. Þeir sem lágu undir grun reyndu að hafa áhrif á almenningsálit í gegnum umfjöllun fjölmiðla. Fyrir málflutning í Hæstarétti réð Samband íslenskra samvinnufélaga til sín ráðgjafa til að vinna skýrslu um málið sem gagnast gæti verjendum í málinu. Skýrslan var lögð fyrir Hæstarétt og jafnframt afhent fjölmiðlum. Óskar Bertels Magnússon. Óskar Bertels Magnússon (20. júní 1915 – 22. janúar 1993) var sjálfmenntaður listavefari og kynlegur kvistur í Reykjavík um miðja 20. öld. Hann bjó fyrst í Blesugrófinni í Reykjavík í nokkur ár, byggði þar hús sitt sem þótti mjög sérkennilegt, en þegar það var rifið, fluttist hann í sjálfskipaða útlegð upp á Hellisheiðina. Hann var giftur Blómey Stefánsdóttur. Þau hjónin seldu oft vörur sínar við veginn yfir heiðina. Hálfbróðir Óskars er Sigurður A. Magnússon, rithöfundur. Árblinda. Mynd af svartmýi í hárri upplausn. Árblinda er hitabeltissjúkdómur sem er mjög algengur í Mið-Austurlöndum, Afríku og í Mið- og Suður-Ameríku. Árblinda berst með svartmýi (bitmý) sem verpir í flúðum fljóta og áa. Bit sýktrar flugu veldur útbrotum á húð og kýlum, og veldur því jafnframt að ormar berast inn í líkamann, tímgast þar ört og breiðast út. Loks berast þeir inn í augun og valda blindu. Um 30 milljónir manna víðs vegar um heim þjást af árblindu. Verst er ástandið í savannalöndum Vestur-Afríku. GNU Debugger. GNU Debugger (skammstafað sem GDB) er kembiforrit sem keyrir á UNIX-legum kerfum og styður mörg forrit eins og C, C++, Ada, FreeBASIC, Free Pascal og Fortran. Tim Schafer. Tim Schafer er bandarískur tölvuleikjahönnuður. Schafer er þekktur fyrir þá leiki sem hann hefur unnið að hjá fyrirtækjunum LucasArts og Double Fine Productions en síðarnefnda fyrirtækið stofnaði hann sjálfur árið 2000. Á meðal þeirra leikja sem hann hefur hannað eru "Day of the Tentacle" (ásamt Dave Grossman), "Full Throttle", "Grim Fandango" og "Psychonauts". Fernando Torres. Fernando Torres er spænskur fótboltamaður sem spilar fyrir Chelsea á Englandi. Torres spilar sem framherji hefur alla tíð verið mikill markaskorari en hefur skorað minna eftir að hann gekk til liðs við Chelsea en lagt upp mikið af mörkum í staðinn. Torres hóf feril sinn sem markmaður hjá unglingaliði Atlético Madrid en eftir að hafa brotið tönn ákvað hann að gerast framherji. Hann varð undir eins mikil stjarna fyrir unglingalið Madrid og skoraði mikinn fjölda marka. Torres hóf feril sinn hjá Atletico Madrid en fór þaðan árið 2007 og skrifaði undir samning hjá enska liðinu Liverpool. Torres var hjá Liverpool í fjögur ár áður en hann gekk til liðs við Chelsea. Tímabilið 2011-2012 hefur Torres skorað 6 mörk og lagt upp 15 í 24 byrjunarliðsleikjum hjá Chelsea. Hann hefur þess að auki komið 12 sinnum inná sem varamaður (uppfært 29. mars). Hjallastefnan. Hjallastefnan er uppeldiskenning með heildstæðri skólanámskrá sem Margrét Pála Ólafsdóttir er höfundur að. Hjallastefnan er þekktust fyrir kynjaskipt skólastarf og jafnréttisuppeldi samkvæmt sérstakri kynjanámskrá. Í Hjallastefnuskólum er að mestu notaður opinn efniviður í stað hefðbundinna leikfanga og kennslubóka. Hjallastefnan ehf. rekur tíu leikskóla á Íslandi og þrjá grunnskóla á yngsta- og miðstigi. Samanlagður fjöldi nemenda í Hjallastefnuskólunum er um 1700 og starfsfólk um 400. Margrét Pála Ólafsdóttir. Margrét Pála Ólafsdóttir (fædd árið 1957) fóstra er höfundur Hjallastefnunnar. Æviágrip. Hún er uppalin á Hólsfjöllum og síðar á Akureyri. Foreldrar hennar voru Kristín Gunnlaugsdóttir Oddsen húsmóðir og Ólafur Þorsteinn Stefánsson, bóndi og verkamaður. Margrét útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands árið 1981 en hafði þá um tíma starfað á leikskóla sem ófagmenntaður starfsmaður auk þess að hafa haft afskipti af stjórnmálum. Nýútskrifuð tók hún til starfa á Hagaborg en 1982 gerðist hún leikskólastjóri í Steinahlíð þar sem grunnatriði þeirrar uppeldisstefnu sem síðar varð Hjallastefnan tóku að þróast. Eftir að Margrét hætti störfum í Steinahlíð árið 1987 starfaði hún um eins árs bil við Dagvistarráðgjöfina sem var sjálfstætt rekið ráðgjafarfyrirtæki. Árið 1989 var Margrét ráðin leikskólastjóri á nýjan leikskóla í Hafnarfirði, Garðavelli, sem fljótlega fékk gælunafnið Hjalli. Á Hjalla tók Margrét ásamt starfsfólki til við að móta nýstárlega starfshætti s.s. að skipta börnum á deildir eftir kyni, að nota náttúrulegt leikefni í stað hefðbundinna leikfanga og að leggja áherslu á aga og jákvæðni í samskiptum. Þóttu þessir nýju starfshættir ögrandi og stóð talsverður styrr um leikskólann fyrsta starfsárið en hin síðari ár hefur Hjallastefnan verið að ryðja sér æ meir til rúms bæði á Íslandi og í öðrum löndum og eru nú 14 leik- og grunnskólar hér á landi sem nota Hjallastefnuna að hluta til eða í heild. Árið 1996 útskrifaðist Margrét Pála frá framhaldsdeild Fósturskóla Íslands með B.Ed.-gráðu í stjórnun, árið 2000 lauk hún meistaragráðu í uppeldis- og menntafræði frá Kennaraháskóla Íslands og árið 2011 lauk hún MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Margrét Pála stofnaði árið 2000 fyrirtækið Hjallastefnuna ehf. sem rekur nú þrettán leik- og grunnskóla á grunni þjónustusamninga við sveitarfélög. Margrét Pála hlaut árið 1997 Jafnréttisverðlaun jafnréttisráðs og ráðherra jafnréttismála fyrir Hjallastefnunna. Hún hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf sitt í skólamálum meðal annars hina íslensku fálkaorðu. Ritverk. Árið 1992 ritaði Margrét Pála bókina "Æfingin skapar meistarann" sem er lifandi og persónuleg frásögn af þróun og upphafsdögum Hjallastefnunnar. Mál og menning gaf bókina út en hún er nú uppseld og ófáanleg nema á bókasöfnum. Í samtalsbókinni "Ég skal vera Grýla" eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur sem kom út árið 2008, segir Margrét Pála Ólafsdóttir frá uppvexti sínum á einum afskekktasta bæ landsins, stormasömum æskuárum, afdrifaríkri ákvörðun um að verða fóstra, ástinni stóru, baráttunni við brennivínið, skrautlegum afskiptum af stjórnmálum og síðast en ekki síst hvernig Hjallastefnan varð til og hvað hún felur í sér. Héraðssaga. Héraðssaga er sagnfræðirit (eða fræðastarfsemi), sem takmarkar sig við ákveðið svæði, svo sem sýslu, byggðarlag eða kaupstað. Sjónarhorninu getur verið beint að héraðinu í heild eða hluta þess, allt niður í einstakar bújarðir. Æviskrárritun er oft mikilvægur þáttur í héraðssögu og tengist hún þannig ættfræði. Byggðasaga (eða byggðarsaga) er náskylt hugtak, en hefur þrengri merkingu og fjallar fyrst og fremst um sögu byggðaþróunar. Saga Kaupfélags Skagfirðinga getur verið hluti af héraðssögu, en er tæplega byggðarsaga. Héraðssaga stendur á gömlum rótum hér á landi. Segja má að margar Íslendingasögur geti talist héraðssögur. Á 19. öld varð vakning í slíkri söguritun, t.d. tók Gísli Konráðsson saman nokkur slík rit, t.d. "Strandamanna sögu", "Húnvetninga sögu", "Sögu Skagstrendinga og Skagamanna" o.fl. Elsta héraðssögufélag landsins sem enn starfar, er Sögufélag Skagfirðinga, stofnað 1937, og er það enn með öfluga starfsemi. Nú eru starfandi slík sögufélög í mörgum landshlutum, en annars staðar hefur slíkri fræðastarfsemi verið haldið uppi af öðrum aðilum, svo sem átthagafélögum, ungmennafélögum, sýslunefndum (síðar héraðsnefndum), sveitarfélögum eða menningarmiðstöðvum. Einnig eru dæmi um að einstaklingar standi fyrir slíku, t.d. gáfu þeir Þórður Tómasson í Skógum og Jón R. Hjálmarsson út tímaritið "Goðastein" (eldri) með efni úr Rangárþingi. Í flestum héruðum og bæjum hér á landi eru byggðasöfn og héraðsskjalasöfn sem einbeita sér að sögu viðkomandi héraðs og minjum og skjölum sem tengjast henni. Á síðari árum hefur víða verið komið upp menningartengdri eða sögutengdri ferðaþjónustu, til að miðla slíku efni til ferðamanna og gera svæðið áhugaverðara í augum þeirra. Æviskrá. Æviskrá er stuttur æviþáttur eða æviágrip einstaklings (eða hjóna), þar sem gerð er grein fyrir helstu staðreyndum, til dæmis um nám, störf og fjölskyldu. Æviskrá getur ýmist verið örstutt upptalning helstu atriða, eða nokkurra blaðsíðna greinargerð um manninn. Yfirleitt er miðað við að æviferill mannsins liggi fyrir í heild, það er að hann sé látinn, en einnig getur verið um að ræða æviskrár samtíðarmanna. Þá er stundum hafður sá háttur á að viðkomandi gerir æviskrána sjálfur, samkvæmt ákveðinni forskrift, og hún svo yfirfarin og lagfærð af ritstjóra. Oft er æviskrám safnað saman í margra binda ritverk, sem takmarkast oftast við ákveðið svið, til dæmis starfsgrein eða hérað. Flestar þjóðir hafa gefið út margra binda verk með æviskrám þekktra einstaklinga (æviskrárrit eða ævisöguleg uppflettirit). Danir eiga til dæmis "Dansk biografisk leksikon", sem komið hefur í þremur útgáfum, síðast 1979–1984, í 16 bindum. Þar má finna æviágrip margra Íslendinga frá fyrri öldum. Skyldar æviskrám eru ferilskrár (latína: "curriculum vitae"), sem fólk tekur sjálft saman, til dæmis við undirbúning starfsumsóknar. San Sebastián de los Reyes. San Sebastián de los Reyes er borg á Spáni. San Sebastián de los Reyes liggur inni í miðju landi á víðáttumikilli sléttu, nálægt Madrid. Prómeþeifur. Prómeþeifur (Προμηθεύς, orðrétt: „Forsjáll“) er Títani í grískri goðafræði, sonur Japetoss og Þemisar og bróðir Atlass, Epimeþeifs og Menöytíoss. Hann var velgjörðarmaður mannkyns og stal eldinum handa mannfólkinu. Seifur refsaði honum fyrir vikið með því að láta fjötra hann við klett þar sem örn át úr honum lifrina á hverjum degi en á hverri nótti greri hún aftur. Lýsandros. Lýsandros ("Λύσανδρος", dáinn 395 f.Kr.) var spartverksur herforingi sem fór fyrir spartverska flotanum við Hellusund í Pelópsskagastríðinu og sigraði aþenska flotann í orrustunni við Ægospotami árið 405 f.Kr. Árið eftir gáfust Aþeningar upp. Ned Block. Ned Joel Block (fæddur 1942) er bandarískur heimspekingur sem vinnur einkum á sviði hugspeki og hugfræði og rannsókna á mannlegri meðvitund. Menntun og starfsferill. Block lauk doktorsgráðu frá Harvard-háskóla undir leiðsögn Hilarys Putnam og var um árabil prófessor í heimspeki við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT). Nú kennir hann við heimspekideild New York-háskóla (NYU). Heimspeki. Block er frægur Blockhead-rökin gegn Turing-prófinu sem prófi á vitsmunum en rökin setti hann fram árið 1981 í frægri ritgerð sem heitir "Psychologism and Behaviourism". Hann er einnig kunnur fyrir gagnrýni sína á verkhyggju í hugspeki og heldur því fram að kerfi sem hefur sömu verkferla og manneskja þurfi ekki að hafa meðvitund. Tenglar. Block, Ned Block, Ned Block, Ned Vesturhóp. Vesturhóp er sveit í Vestur-Húnavatnssýslu og liggur út að Húnaflóa austan við Vatnsnes. Sunnan við Vesturhóp er Víðidalur en austan við sveitina er Hóp, fimmta stærsta stöðuvatn landsins. Annað stórt stöðuvatn, Vesturhópsvatn, er í miðri sveit og norðar er enn eitt allstórt vatn, Sigríðarstaðavatn. Þess hefur verið getið til að það hafi áður einnig heitið Hóp eða Vesturhóp og sveitin hafi fengið nafn af því. Vesturhóp er grösugur, grunnur og víður dalur sem liggur austan við Vatnsnesfjöll en næst sjónum eru allmiklir sandar, Sigríðarstaðasandur, austur að Bjargaós, sem er útfall Hópsins. Austan til í sveitinni eru langir hálsar og ásar með klettabeltum. Sá nyrsti endar í Nesbjörgum út við Bjargaós. Þekktasti bærinn í Vesturhópi er Breiðabólstaður, sem er vestan við sunnanvert Vesturhópsvatn, kirkjustaður og áður prestssetur þar sem oft sátu miklir merkisklerkar. Þar hófst ritöld á Íslandi með skrásetningu laga veturinn 1117-1118 og um 420 árum síðar var þar fyrsta prentsmiðja landsins. Austan við Vesturhópsvatn er blágrýtisstapi sem kallast Borgarvirki, 177 metra hár og er þaðan víðsýnt og gott að grípa til varna. Þar eru rústir af fornu virki en enginn veit hver hlóð það eða hvers vegna þótt þjóðsögur hermi að Víga-Barði Guðmundsson, sem frá segir í Heiðarvíga sögu og bjó í Ásbjarnarnesi við Hópið, hafi látið reisa það. Virkisveggirnir voru endurhlaðnir 1949-1950. Norðan við Borgarvirki, á milli Hóps og Vesturhópsvatns, er bærinn Stóra-Borg. Þar er fornkappinn Finnbogi rammi sagður hafa búið um tíma, áður en hann hrökklaðist norður í Trékyllisvík. Við norðurenda Vesturhópsvatns er bærinn Vatnsendi, sem skáldkonan Rósa Guðmundsdóttir er oft kennd við, og bjó hún þar um tíma með Ólafi manni sínum og Natani Ketilssyni ástmanni sínum. Sydney Shoemaker. Sydney Shoemaker (fæddur árið 1931) er bandarískur heimspekingur. Shoemaker var Susan Linn Sage-prófessor í heimspeki við Cornell-háskóla en er nú sestur í helgan stein. Shoemaker lauk doktorsgráðu í heimspeki frá Cornell-háskólaog BA-gráðu frá Reed-háskóla. Heimspeki. Árið 1971 flutti hann John Locke-fyrirlestrana við Oxford-háskóla. Hann fékkst einkum við hugspeki og heimspekilega sálarfræði og frumspeki. Í ritgerðinni „Self-Reference and Self-Awareness“, sem birtist árið 1968, færði hann rök fyrir því að það sem greinir milli þess að eigna sjálfum sér hugarferli (til dæmis „Ég sé kanarífulg“) annars vegar og hins vegar að eigna sjálfum sér líkamleg ferli eða eiginleika (til dæmis „Ég er 100 kg“) sé algjört ónæmi fyrir villu. Í ritgerðinni „Functionalism and Qualia“, sem birtist árið 1975, færði hann rök fyrir því að verkhyggja um hugarferli gæti útskýrt huglæga þætti þeirra. Tenglar. Shoemaker, Sidney Shoemaker, Sidney Shoemaker, Sidney Michel Ancel. Michel Ancel er franskur tölvuleikjahönnuður sem starfar fyrir franska tölvuleikjaframleiðandann Ubisoft. Á meðal þeirra leikja sem Ancel er þekktur fyrir eru Rayman-leikirnir og "Beyond Good & Evil". Jörðin (sjónvarpsþáttaröð). Jörðin er þáttaröð frá árinu 2006, framleidd í samvinnu sjónvarpstöðvanna Discovery og BBC. Þættirnir voru sýndir á RÚV og talsettir af Gunnari Þorsteinssyni. Þáttaröðin sýnir frá jörðinni, náttúru hennar og dýralífi. Jordan Mechner. Jordan Mechner er bandarískur tölvuleikjahönnuður. Mechner er þekktur fyrir það að hafa hannað Prince of Persia-leikina en hann hannaði einnig bardagaleikinn "Karateka" og ævintýraleikinn "The Last Express". Charles Cecil. Charles Cecil er breskur tölvuleikjahönnuður. Cecil er þekktur fyrir þá leiki sem hann hefur unnið að hjá fyrirtækinu Revolution Software en á meðal þeirra eru Broken Sword-leikirnir og "Beneath a Steel Sky". Home (kvikmynd). Home er kvikmynd frá árinu 2009, eftir leikstjórann Yann Arthus-Bertrand. Kvikmyndin var fjármögnuð af stórfyrirtækinu PPR, sem er móðurfyrirtæki tískuframleiðandans Gucci. Myndin er gefin út með Creative Commons leyfi og frítt er að dreifa myndinni, svo framalega að hún sé að öllu leyti óbreytt. Tilgangur og skilaboð kvikmyndarinnar er að mannkyn þurfi að taka sig á til að raska ekki jafnvægi jarðarinnar. Nokkur lönd eru nefnd til fyrirmyndar að þessu markmiði. Kosta Ríka er nefnd til fyrirmyndar að einblína á grunnstoðir samfélagsins og að hafa ákveðið að leggja niður her sinn. Nýja Sjáland, Ísland, Svíþjóð, Ástralía og Danmörk eru öll nefnd sem dæmi um þjóðir sem hafa nýtt sér endurnýjanlega orku, á einn eða annan hátt. Rush Limbaugh. Rush Hudson Limbaugh III (fæddur 12. janúar 1951) er bandarískur, hægri sinnaður útvarpsmaður, stjórnmálarýnir og jafnframt áhrifavaldur meðal íhaldsmanna í bandarískum stjórnmálum. Limbaugh er harður gagnrýnandi á stefnur Demókrataflokksins og hefur í seinni tíð orðið andlit Repúblikanaflokksins. Hann stýrir vinsælasta umræðuþætti í bandarísku útvarpi, "The Rush Limbaugh Show", en þátturinn hefur verið í loftinu síðan 1988. Yngri ár. Limbaugh er fæddur í Cape Girardeau í Missourifylki Bandaríkjanna. Hann tók sín fyrstu skref í útvarpi ungur að aldri en einungis 16 ára gamall fékk hann sitt fyrsta starf í útvarpi og kallaði sig þá Rusty Sharpe. Faðir, föðurbróðir og afi Limbaugh voru allir lögfræðingar og áhrifamiklir í Missouri, því var vænst af Limbaugh að hann myndi mennta sig. Limbaugh sótti Ríkisháskóla Suð-austur Missouri í tvær annir en hætti síðan í námi. Að sögn móður hans hafði hann fallið í öllu þar sem að hann hafði ekki áhuga á neinu öðru en útvarpi. Ferill í útvarpi. Á áttunda áratugnum vann Limbaugh hjá hinum ýmsu útvarpsstöðvum, fyrst í Pennsylvaníu og síðar í Kansas. Á þeim tíma var Limbaugh ekki spjallþáttarstjórnandi heldur einfaldlega plötusnúður og kom fram lengi vel undir nafninu Jeff Christie. Undir lok áratugarins sagði hann skilið við útvarp og tók við stöðu kynningarstjóra hjá hafnaboltaliðinu Kansas City Royals og var hann þar til fimm ára fram undir miðbik níunda áratugarins. Árið 1984 snéri Limbaugh sér aftur að útvarpi og þremur árum síðar í Sacramento, árið 1987, áttu sér stað þáttaskil í ferli hans. Þá fór í gegn ógilding laga sem skikkaði útvarpsstöðvar, sem útvörpuðu umdeildum sjónarmiðum, til þess að veita andstæðingum þessara umdeildu sjónarmiða möguleika til andsvara á útvarpsstöðinni. Þegar þessi löggjöf hafði gengið tilbaka var Limbaugh fyrstur til þess að nýta sér það. Limbaugh, með hinum ýmsu ummælum sínum, vakti áhuga forseta ABC Radio í New York. Limbaugh fluttist til New York og fór hann í loftið stuttu eftir Landsþing demókrata 1988. Þar með varð til útvarpsþáttur Limbaugh, "The Rush Limbaugh Show", og hefur New York verið heimili þáttarins allar götur síðan. Þættinum var úvarpað á AM bylgjum, en vert er að benda á að á þessum tíma voru útvarpsstöðvar farnar að færa sig yfir á FM bylgjur þar sem slíkt bauð upp á betri hljóðgæði. FM tæknin er dýrari en hljóðgæði eru betri, sérstaklega þegar hlustað er á tónlist. Munurinn á hljóðgæðum milli útsendingatæknanna tveggja er hinsvegar ekki jafn eftirtektarverður þegar einungis er útvarpað tali og s Þar sem að þátturinn hjá Limbaugh var einungis spjallþáttur var ákveðið að færa sig ekki yfir á FM bylgjur. Þetta hefur veitt fjölmörgum öðrum þáttarstjórnendum brautargengi á AM bylgjum og er þetta ein ástæðan fyrir því hve mikið af íhaldssömum spjallþáttastjórnendum útvarpa á AM bylgjum. 1990-2000. Árið 1990 var þátturinn orðinn vinsælasti spjallþátturinn í bandarísku útvarpi. Þættinum óx enn ásmegin á næstu misserum samfara því að Persaflóastríðið átti sér stað, en Limbaugh studdi það heilshugar í þætti sínum og gerði óspart grín að friðarsinnum. Í kjölfar þess að Bill Clinton sigraði forsetakosningarnar 1992 í Bandaríkjunum varð Clinton síðan skotspónn Limbaugh. Gagnrýni Limbaugh á Clinton og Demókrataflokkinn í heild sinni er talið hafa haft áhrif á kosningarnar á miðju kjörtímabili, 1994. Í kosningunum náðu repúblikanar meirihluta í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Þingmenn repúblikana heiðruðu Limbaugh fyrir þátt hans í Repúblikanabyltingunni (e. "Republican Revolution"). Þar með var staða hans sem áhrifavaldur innan Repúblikanaflokksins staðfest í fyrsta sinn. 2000-2010. Ræða sem Limbaugh hélt CPAC, samkomu Bandarískra íhaldsmanna snemma árs 2009 olli umtalsverðu fjaðrafoki. Þann 1. mars 2009 sagði Rahm Emanuel, þáverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, aðspurður að Limbaugh væri forkólfur Repúblikanaflokksins. Michael Steele formaður flokksins svaraði sama dag að Limbaugh væri einfaldlega skemmtikraftur og þau orð sem að Limbaugh hafði látið falla í ræðu sinni hafi verið ljót orð æsingamanns. Steele bað síðar Limbaugh afsökunar á þeim ummælum. Umdeild atvik. Árið 2006 sakaði Limbaugh leikarann Michael J. Fox, sem þjáist af Parkinson sjúkdómi, um að reyna að ýkja sjúkdómseinkenni sín og velti upp þeim möguleika að Fox væri vísvitandi að sleppa lyfjaskömmtun til þess að sjúkdómseinkenni væru sem mest. Fox hafði þá nýlega komið fram í auglýsingu til þess að auke meðvitund um sjúkdóminn. Vefmyndavél í hljóðveri Limbaugh sýndi hvernig Limbaugh hristi sig og lék eftir Fox. Limbaugh svaraði þeim ásökunum um að hann hafði verið að hæðast að Fox á þann veg að svo hefði ekki verið, hann hefði einfaldlega verið að reyna að sýna þeim sem höfðu verið að fylgjast með myndefninu frá vefmyndavélinni hvernig Fox hafði hreyft sig. Fox neitaði því að hafa verið að ýkja sjúkdómseinkenni og benti jafnframt á að einkennin hafi verið sérlega slæm af því að hann var á of stórum lyfjaskammti þegar að auglýsingin var tekin. Í aðdraganda forsetakosninganna árið 2008 hvatti Limbaugh hlustendur sína til þess að skrá sig í demókrataflokkinn til þess að geta tekið þátt í kosningum um frambjóðanda flokksins til forseta Bandaríkjanna. Hvatti hann þá til að kjósta hvern þann sem væri með minnst fylgi í skoðanakönnunum, vonaðist hann þannig til þess að skapa ringulreið innan Demókrataflokksins. Sagði hann að draumastaðan væri að skapast myndi slík ringulreið og reiði að kæmi til mótmæla og almenns uppþots. Ummæli um Eyjafjallajökul. Þann 16. apríl 2010 sagði Limbaugh að eldgosið í Eyjafjallajökli gæti verið svar Guðs við að heilbrigðisfrumvarp Barack Obama Bandaríkjaforseta hafði verið samþykkt í kosningu á Bandaríkjaþingi. Bækur. Limbaugh hefur gefið út tvær bækur. Sú fyrri, "The Way Things Ought to Be", kom út árið 1992 og sú seinni, "See, I Told You So", árið 1993. Báðar fóru bækurnar á topp metsölulista "The New York Times" og sat "The Way Things Ought to Be" á toppnum í 24 vikur. Heimildir. Limbaugh, Rush Katrín Magnússon. Katrín (Sigríður) Skúladóttir Magnússon (f. 18. mars 1858 í Hrappsey, Breiðafirði, d. 13. júlí 1932 í Reykjavík) var íslenskur stjórnmálamaður og stóð framarlega í kvenréttindabaráttu um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Katrín sat á árunum 1908-1916 í bæjarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar Katrínar voru Skúli Þorvaldsson Sívertsson, bóndi í Hrappsey (sonur Þorvaldar alþingismanns Sivertsens í Hrappsey) og kona hans Hlíf Jónsdóttir frá Helgavatni í Vatnsdal. Katrín giftist árið 1891 Guðmundi Magnússyni, lækni og prófessor. Uppvaxtarár og fjölskylda. Katrín ólst upp í Hrappsey og kom fyrst til Reykjavíkur 14 ára gömul og þá í kynnisför til Katrínar Sívertsen föðursystur sinnar sem gift var Jóni Árnasyni bókaverði og þjóðsagnaritara. Dvaldi hún eftir það oft á heimili þeirra og kynntist þar frænda Jóns, Guðmundi Magnússyni. Nýgift sigldu þau til Kaupmannahafnar og dvöldu þar um hríð, en 1892 fékk Guðmundur veitingu fyrir héraðslæknisembættinu í Skagafirði og þau settust að á Sauðárkróki. Þar áttu þau heima í tvö ár en eftir það í Reykjavík þar sem Guðmundur varð læknir og kennari við Læknaskólann. Árið 1911 þegar Háskóli Íslands var stofnaður varð Guðmundur prófessor í Læknisfræði við skólann. Þau eignuðust eina dóttur 1892 en hún lifði aðeins fáeina daga. Eina fósturdóttur ólu þau upp. Guðmundur var fyrsti læknir hér á landi sem gerði holskurði og aðstoðaði Katrín hann frá fyrstu tíð við skurðaðgerðir. Í blaðaviðtali sem tekið var við hana sjötuga kom fram að hugur hennar hefði alla tíð hneigst til lækninga en í æsku hennar þekktust ekki hjúkrunarkonur og ekki um aðra fræðslu að ræða í þeim efnum en ljósmæðrakennslu. Foreldrar hennar voru hins vegar mótallin því að hún yrði ljósmóðir. Katrín tók virkan þátt í störfum manns síns og hjúkraði sjúkum jafnvel dögum saman ef þess gerðist þörf. Magnús, sem var einn virtasti læknir Íslendinga á fyrstu áratugum aldarinnar var sagður eiga mikið af frama sínum og velgengni í læknisstörfðum Katrínu að þakka. Störf að félagsmálum og stjórnmálum. Katrín tók virkan þátt í félagsmálum í Reykjavík, einkum í samtökum kvenna. Full þjóðfélagsleg réttindi kvenna voru henni kappsmál og hún starfaði innan Hins íslenska kvenfélags (stofnað 1894, hætti 1961). Þegar fyrsti formaður þess, Þorbjörg Sveinsdóttir, lá banaleguna mælti hún svo fyrir að Katrín skyldi taka við formennsku af sér og gegndi Katrín formennskunni frá 1903 til 1924. Sem formaður félagsins átti Katrín þátt í stofnun Bandalags kvenna árið 1917 og hún var í fyrstu stjórn þess. Hún lét til sín taka í Thorvaldsensfélaginu, sat lengi í stjórn og var kjörin heiðursfélagi 1929. Þegar íslenskar konur tóku að beita sér fyrir söfnun fjár til Landspítalabyggingarinnar var hún því máli styrk stoð. Katrín lét sig menntunarmál kvenna varða og átti sæti um árabil í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík. Katrín stóð mjög framarlega í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna og þegar konur fengu kosningarétt og kjörgengi og báru í fyrsta sinn fram lista við bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík skipaði Katrín efsta sæti listans og var kosin með flestum atkvæðum allra bæjarfulltrúanna. Hún sat átta ár í bæjarstjórn Reykjavíkur og á þeim tíma starfaði hún m.a. í fátækranefnd sem af flestum var talin ein erfiðasta starfsnefnd bæjarstjórnarinnar. Katrínartún, áður Höfðatún. Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Höfðatúns í Reykjavík skyldi breytt í Katrínartún til að heiðra minningu Katrínar Magnússon. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Skúlagötu var breytt í Bríetartún til að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, nafni Sætúns í Guðrúnartún (til heiðurs Guðrúnar Björnsdóttur) og nafni Skúlatúns í Þórunnartún (til heiðurs Þórunni Jónassen). Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Guðrún Björnsdóttir. Guðrún Björnsdóttir (f. 27. nóvember 1853 að Eyjólfsstöðum á Völlum d. 11. september 1936 í Reykjavík) var íslenskur stjórnmálamaður og baráttukona fyrir kvenréttindum. Guðrún sat á árunum 1908 til 1914 í bæjarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar Guðrúnar voru Björn Skúlason, umboðsmaður og bóndi, og kona hans Bergljót Sigurðardóttir. Guðrún var gift Lárusi Jóhannessyni, presti. Uppvöxtur og fjölskylda. Guðrún Björnsdóttir fæddist að Eyjólfsstöðum á Völlum árið 1853 og ólst þar upp til 10 ára aldurs er faðir hennar féll frá. Fór hún þá til Eskifjarðar í fóstur og nokkrum árum síðar til móðurbróður síns á Langanesi. Þaðan sigldi hún til Kaupmannahafnar og var þar um skeið en kom síðan til baka til frændfólks síns á Langanesi. Hún gekk að eiga sr. Lárus Jóhannesson árið 1884 og bjuggu þau að Sauðanesi á Langanesi. Þau eignuðust fjórar dætur, Margréti Ragnheiði Friðriku, (f. 1885), Bergljótu (f. 1886), Guðrúnu Ingibjörgu (f. 1887) og Láru Ingibjörgu (f. 1888). Störf að félagsmálum og stjórnmálum. Guðrún varð ekkja eftir aðeins fjögurra ára hjónaband og dvaldist hjá bróður sínum, séra Halldóri Bjarnasyni að Presthólum í Núpasveit í Norður-Þingeyjarsýslu. Hún bjó um stund á Sigurðarstöðum þar í sveit uns hún flutti með dætrum sínum til Reykjavíkur árið 1900. Hóf hún þar mjólkursölu og rak hana af miklum dugnaði. Reit hún í blöð um mjólkursölumálin og sýndi meðal annars fram á nauðsyn þess að koma öðru og betra skipulagi á þau til tryggingar hreinlæti og heilbrigði bæjarbúa. Guðrún stóð framarlega í kvenréttindabaráttu fyrstu áratugi 20. aldarinnar og var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands. Guðrún var ein af þeim konum sem fyrstar voru kosnar í bæjarstjórn Reykjavíkur, en ásamt henni voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Þórunn Jónassen og Katrín Magnússon kosnar í bæjarstjórn árið 1908. Guðrún sat í bæjarstjórn árin 1908 til 1914. Í bæjarstjórn beindist áhugi hennar mest að heilbrigðismálum og fræðslumálum. Sérstaklega beitti hún sér fyrir jafnréttismálum, fræðslumálum kvenna og jafnrétti þeirra til embætta. Guðrún barðist meðal annars fyrir stofnun Námsstyrktarsjóðs kvenstúdenta. Guðrúnartún, áður Sætún. Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Sætúns í Reykjavík skyldi breytt í Guðrúnartún til að heiðra minningu Guðrúnar Björnsdóttur. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Skúlagötu var breytt í Bríetartún (til heiðurs Bríetar Bjarnhéðinsdóttur), nafni Höfðatúns í Katrínartún (til heiðurs Katrínu Magnússon og nafni Skúlatúns í Þórunnartún (til heiðurs Þórunni Jónassen). Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Jón Jónsson (landritari). Jón Jónsson, (f. 29. apríl 1841 í Reykjavík, d. 4. janúar 1883) þekktur sem Jón Jónsson landritari var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Uppvöxtur og fjölskylda. Foreldrar Jóns voru Jón Johnsen alþingismaður og dómari við Landsyfirréttinn og kona hans Anna Cathrine Martine Johnsen, f. Blichert, húsmóðir. Árið 1846 fluttist Jón barn að aldri til Danmerkur þar sem faðir hans hafði embætti. Jón lauk stúdentsprófi frá Frúarskólanum í Kaupmannahöfn 1861 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1867. Meðan hann var við Hafnarháskóla lærði Jón íslensku af íslenskum samstúdentum sínum en á heimili hans var töluð danska. Að námi loknu starfaði hann um skeið skeið sem aðstoðarmaður föður síns sem var bæjarfógeti í Álaborg. Embættisstörf. Eftir heimkomu vann hann við lögfræðistörf í Reykjavík veturinn 1867 – 1868, jafnframt því að starfa á skrifstofu stiftamtmanns. Jón var 1868 settur sýslumaður í Árnessýslu. Árið 1872 skipaði konungur Jón í nýstofnað embætti landritara, en því starfi gegndi Jón frá 1873 til dauðadags. Næstu árin gegndi Jón ýmsum öðrum embættum. Hann var skipaður árið 1875 lögreglustjóri og erindreki í fjárkláðamálinu og átti að hafa eftirlit með því að fjárkláði yrði upprættur á öllu landinu. Því starfi gegndi hann til 1878 þegar fjárkláða var útrýmt. Hlaut Jón viðurkenningu Alþingis fyrir vasklega framgöngu í því máli. Árið 1878 var Jón settur bæjarfógeti í Reykjavík. Sama ár var hann kosinn á þing sem þingmaður Skagfirðinga og endurkjörinn 1880. Jón sat á þingi til 1883. Samhliða þingstörfum átti Jón sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur en starfi bæjarfulltrúa gegndi hann 1879 – 1883. Auk þessa var hann skipaður málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1878 – 1880. Þó Jón væri veikburða hafði hann gríðarmikla starfsorku og þótti með eindæmum afkastamikill eins og þessi langi listi ber með sér. Störf að félagsmálum og stjórnmálaskoðanir. Samtímamönnum þótti Jón um margt sérkennilegur og framganga hans í embætti, sérstaklega í fjárkláðamálinu, þótti oft nokkuð harkaleg. Jón var mikill áhugamaður um umbætur á stjórnarfari og réttarfari á Íslandi en honum þótti sem opinberri stjórnsýslu hér á landi væri oft mjög ábótavant. Veturinn 1878-79 ferðaðist Jón til Englands til að kynna sér réttarfar og stjórnarhætti. Áður en hann lést hafði hann lagt á ráðin um ferð til Bandaríkjanna til að kynna sér samfélag, stjórnarfar og réttarfar þar í landi. Jón þótti frjálslyndur maður og var bæði stórhuga og víðsýnn. Jón var stofnandi og aðalritstjóri tímaritsins "Víkverja" 1873 – 1874. Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916. a> var ein af fjórum konum sem fyrst voru kosnar til embættis á Íslandi. Á árunum 1908-1916 buðu konur sig fram til embættis í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi í fyrsta skiptið. Fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn á Íslandi voru kjörnar af kvennalistum sem buðu fram til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík í janúar árið 1908. Í næstu fjórum kosningum bauð listinn fram og náði í öll skipti að koma manni að í bæjarstjórn. Kosningaréttur kvenna í bæjarstjórnarkosningum. Konur höfðu fyrst fengið kosningarétt í bæjarstjórnarkosningum árið 1882. Þá fengu ekkjur og ógiftar konur eldri en 25 ára sem stóðu fyrir búi kosningarétt. Þær fengu þó ekki kjörgengi fyrr en 1902. Árið 1908 fengu giftar konur í Reykjavík og Hafnarfirði í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi. Hjú og vinnufólk fékk ekki kosningarétt og kjörgengi í bæjarstjórnarkosningum fyrr en á árunum 1917 – 1926, þegar samræmd löggjöf var sett um allt land. Kvennaframboðið 1908. Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti hugmyndina að því að kvenfélögin í Reykjavík bæru fram sérstakan kvennalista árið 1908. Kvenfélögin sem stóðu að baki listanum voru fimm að tölu: Kvenréttindafélag Íslands, Hið íslenska kvenfélag, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn. Fyrir utan Hið íslenska kvenfélag starfa öll félögin enn þann dag í dag. Efsta sæti á listanum var skipað Katrínu Magnússon, formanni Hins íslenska kvenfélags. Kosningabaráttan. Konurnar skipulögðu framboðið mjög vel. Efnt var til fyrirlestra um lagalega stöðu kvenna, um nýju kosningalögin og um bæjar- og sveitarstjórnarmál. Þær skiptu bænum í níu hverfi og kusu nefndir sem höfðu það hlutverk að heimsækja hverja einustu konu með kosningarétt og hvetja hana til að kjósa. Þær opnuðu kosningaskrifstofu og gáfu út kosningastefnuskrá. Í stuttu máli má segja að þær hafi verið upphafsmenn að skipulögðum kosningaáróðri i Reykjavík. Kosningarnar 1908. Hópur kvenna á fundi, kenna má Guðrúnu Björnsdóttur og Katrínu Magnússon 6. og 7. Í kosningunum voru alls bornir fram 18 listar í Reykjavík en þetta var aðeins í annað skiptið sem haldnar voru listakosningar á Íslandi. Kvenfélögin í bænum báru fram sérstakan lista, Kvennalistann, og fékk hann bókstafinn F. Í kosningunum 1908 voru 2.838 á kjörskrá, en bæjarbúar voru alls 11.016. Konur á kjörskrá voru 1.209 og karlar 1.629. Atvæðisréttar neyttu 593 konur (49%) og 1.027 karlar (63%) eða 57% kjósenda og hafði þátttakan aldrei verið meiri. Framboðslisti kvenna fékk flest atkvæði af öllum listum sem í framboði voru, 345 eða 21,8% greiddra atkvæða og fjóra fulltrúa af þeim 15 sem um var kosið. Sá listi sem næstur var að atkvæðatölu fékk 235 atkvæði. Kosningar 1910 – 1916. 1908 var kosið um 15 fulltrúa en síðan átti að draga út fimm fulltrúa á 2ja ára fresti og kjósa aðra fimm í þeirra stað. Það voru því kosningar annað hvert ár. Kvenfélög í Reykjavík buðu fram lista í öllum kosningum fram til ársins 1918 að þau buðu fram með karlmönnum í fyrsta sinn. Konur sem kjörnar voru af kvennalista eða fyrir kvenfélögin sátu í bæjarstjórn til ársins 1922. Fylgi kvennalistanna 1908 – 1916:. Í kosningunum 1918 bauð Bandalag kvenna í Reykjavík fram með félaginu Sjálfstjórn, félagi borgara sem sameinuðust gegn Alþýðuflokknum. Bandalag kvenna náði einum manni inn, Ingu Láru Lárusdóttur. Kristján Jónsson (dómsstjóri og ráðherra). Kristján Jónsson (f. 4. mars 1852, á Gautlöndum við Mývatn, d. 2. júlí 1926) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Kristján var ráðherra Íslands árin 1911 – 1912. Fjölskylda og uppvöxtur. Fjölskylda Kristjáns var fyrirferðarmikil í íslenskum stjórnmálum á nítjándu öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Foreldrar Kristjáns voru Jón Sigurðsson alþingismaður og kona hans Solveig Jónsdóttir, húsmóðir. Bræður Kristjáns voru Pétur Jónsson alþingismaður og ráðherra og Steingrímur Jónsson alþingismaður. Kristján var tengdafaðir Sigurðar Eggerz alþingismanns og ráðherra. Árið 1880 giftist Kristján Önnu Þórarinsdóttur, dóttur Þórarins Böðvarssonar alþingismanns. Þau áttu saman átta börn. Embættisstörf. Kristján lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum árið 1870 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1875. Eftir útskrift starfaði Kristján sem Landfógetaskrifari 1876 – 1877. Árið 1878 var hann gerður sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu en því embætti gegndi hann í átta ár, til 1886. Hann lét af því embætti er hann var skipaður annar meðdómari og dómsmálaritari í Landsyfirrétti. Árið 1889 var hann skipaður fyrsti meðdómari og árið 1908 dómsstjóri og háyfirdómari. Því embætti gegndi hann til 1911 er hann gegndi embætti ráðherra. Eftir að hafa látið af ráðherrastörfum tók Kristján aftur við dómsstjóraembættinu sem hann gegndi til 1919 er Landsyfirréttur var lagður niður. Kristján var þá skipaður dómsstjóri við Hæstarétt, en hann gegndi því starfi til dauðadags. Dómarastörfin voru aðalstörf Kristjáns, en auk þeirra gegndi hann ýmsum öðrum embættum og trúnaðarstörfum. Kristján var settur amtmaður í Suður- og vesturamtinu 1891 – 1894. Gæslustjóri Landsbankans 1898 – 1909. Endurskoðandi landsreikninganna 1889 – 1895. Skipaður formaður milliþinganefndar í kirkjumálum 1904 en sagði því starfi af sér 1905. Endurskoðandi Íslandsbanka 1915 – 1920. Á árunum 1912 – 1914 var Kristján settur bankastjóri Íslandsbanka. Árin 1877, 1887 og 1891 var Kristján skrifstofustjóri Alþingis. Kristján kenndi kirkjurétt við Prestaskólann 1889 – 1908 og árin 1904 – 1909 var hann forseti Reykjavíkurdeildar Bókmenntafélagsins. Stjórnmálaferill. Á Hafnarárum sínum kynntist Kristján Jóni Sigurðssyni forseta og var með honum í ritnefnd Andvara á síðasta ári sínu í háskóla, 1875. Árin 1893 – 1905 sat hann á Alþingi sem konungkjörinn þingmaður. Kristján fylgdi Valtý Stefánssyni í stjórnarskrármálinu og var einn stofnenda Framsóknarflokksins eldri. Árið 1908 var Kristján kosinn á þing fyrir Borgfirðinga og aftur 1911 og sat á þingi til 1913, fyrst fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri, en hann gekk úr flokknum 1911 og sat eftir það á þingi utan flokka. Kristján gegndi embætti varaforseta efri deildar 1901 og forseta efri deildar 1909. Þann 14. mars 1911 var Kristján skipaður ráðherra Íslands. Kristján fékk lausn frá embætti 24. júlí 1912. Eftir 1913 bauð Kristján sig ekki aftur fram til Alþingis og hætti afskiptum af stjórnmálum. Jakob Valgeir Flosason. Jakob Valgeir Flosason er íslenskur útgerðarmaður og athafnamaður. Hann er þekktur fyrir að vera eigandi Stíms ehf sem komst í fréttirnar eftir bankahrunið á Íslandi 2008. Meðal helstu viðskiptafélögum hans eru Gunnar Torfason, Björg Hildur Daðadóttir, eiginkona Jakobs og faðir Jakobs, Flosi Jakob Valgeirsson. Málefni Stíms eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara sem bendir til þess að grunur um brot á lögum sé til staðar. Meistaradeild kvenna 1999. Árið 1999 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu Meistaradeild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Meistaradeild kvenna 1998. Árið 1998 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu Meistaradeild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Stofndeild kvenna 1997. Árið 1997 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Stofns. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Mizunodeild kvenna 1996. Árið 1996 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Mizuno. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Mizuno. Mizuno (stofnað árið 1906) er japanskt fyrirtæki sem framleiðir íþróttafatnað og aðrar íþróttavörur undir merkjum Mizuno. Höfuðstöðvar Mizuno eru í Osaka. Mizunodeild kvenna 1995. Árið 1995 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir merkjum styrktaraðilans Mizuno. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1994. Árið 1994 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1993. Árið 1993 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1992. ´Árið 1992 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Skotflaug. Skotflaug er eldflaug sem flýgur eftir skotfræðilegum ferli líkt og flugeldur, er hún að því leyti ólík stýriflaugum sem fljúga stýrðum ferli líkt og flugvélar. Hátæknivæddar skotflaugar geta lítillega breytt lokaferli sínu með sértilbúnum útblástursrörum eður vængjum, svo þær megi hæfa skotmörk sín. Dæmi um skotflaugar eru hin þýska V2 eldflaug og sovéska Scud eldflaug. Her (hernaðarleg deildarskipan). Her er í deildarskipan herja skipulagður hópur tveggja til fjögurra stórdeilda. Í slíkum hernaðareinginum eru því allt frá 60 til vel yfir 100 þúsund manns. Slíkur liðsafli er að öllu jöfnu undir stjórn fjögurra stjörnu hershöfðingja. José Manuel Reina. Reina byrjaði ferillinn hjá Barcelona og lék fyrir B-lið félagsins 1999-2000. Hann fór snemma að banka á dyr aðalliðsins og lék 30 deildarleiki og 11 leiki í Evrópukeppni tímabilin 2000-2001 og 2001-2002 þar af tvo leiki gegn Liverpool. Hann var í marki er Liverpool háði magnaða baráttu við Barca í undanúrslitum Evrópukeppni félagsliða. Liðin gerðu markalaust jafntefli á heimavelli Barca 5. apríl 2001 en Gary Macca skoraði úr vítaspyrnu framhjá Reina tveimur vikum síðar og tryggði Liverpool sæti í úrslitunum gegn Alaves. Reina fór til Villareal fyrir 2002-2003 tímabilið og var aðalmarkvörður liðsins þar til hann gekk til liðs við Liverpool. Hann lék 32 deildarleiki á fyrsta tímabili sínu en missti ekki úr deildarleik næstu tvö tímabil eftir það. Liverpool keypti Reina á sex milljónir punda árið 2005 sem var ekki mikill peningur fyrir jafn góðan og reyndan markmann sem var þá á sínu 23. aldursári. Hann sló strax í gegn hjá Liverpool og hlaut gullhanskann á sínu fyrsta tímabili en þau verðlaun eru veitt þeim markverði sem heldur oftast marki sínu hreinu í deildarleikjum tímabilsins. Hans helsta afrek á því tímabili, 2005-2006, var þegar hann varði þrjár vítaspyrnur frá leikmönnum West Ham United í úrslitaleik FA bikarsins en Liverpool hafði betur eftir vítaspyrnukeppni þar sem hann fór á kostum. Svipað var upp á teningnum þegar Reina hlaut gullhanskann annað tímabilið í röð, tímabilið 2006-2007, einnig sem að hann fór enn og aftur á kostum í vítaspyrnukeppni þegar hann varði tvær af þremur vítaspyrnum Chelsea-manna í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Í febrúar mánuði 2008 sló Reina met félagsins í að halda hreinu í fimmtíu skipti en það tókst honum í 92 deildarleikjum, var þremur leikjum fljótari en Markvörðurinn sem sló metið á árunum áður. Það var ekki mikil breyting á verðlaunum hans á því tímabili þar sem hann vann sinn þriðja gullhanska í röð á jafn mörgum tímabilum í Úrvalsdeildinni. Rétt fyrir byrjun tímabilsins 2008-2009 var hann í Evrópumeistaraliði Spánverja ásamt þremur öðrum leikmönnum Liverpool, þar lék hann einn leik en hann var varamarkvörður landsliðsins og verður í raun að teljast ótrúlegt að Spánn skuli vera með jafn öflugan markvörð á varamannabekknum en það er þó engin skömm enda Spánverjar með marga frábæra markverði í sínum röðum. Á núliðnu tímabili stóð Reina sig enn og aftur frábærlega á milli stanga liðsins og átti stóran þátt í góðum árangri liðsins á tímabilinu. Aldrei þessu vant tókst honum ekki að hljóta gullhanskann en hann var þó ekki langt frá því en aðeins munaði einum leik á honum og sigurverganum, hann hefði jafnað fjölda leikja án marks og deilt verðlaunagripnum hefði fyrrum samherji hans, Robbie Keane ekki skorað gegn honum í loka leik tímabilsins. Reina hefur slegið mörg glæsileg markmannsmet hjá Liverpool og það allra nýjasta er þegar hann var fljótasti markvörðurinn í sögu félagsins til að halda hreinu í hundrað leikjum en það tókst honum í mars árið 2009 í sínum 197. leik með Liverpool 1. deild kvenna í knattspyrnu 1991. ´Árið 1991 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1990. ´Árið 1990 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Íslenska kvennaknattspyrnudeildakerfið. Íslenska kvennaknattspyrnudeildakerfið er íslenskt deildakerfi í knattspyrnu í flokki kvenna. VISA-bikar kvenna. VISA-bikar kvenna er útsláttakeppni í knattspyrnu kvenna á Íslandi. Aðalstyrktaraðili keppninnar er VISA. Júlíus Havsteen (amtmaður). (Jóhannes) Júlíus Havsteen (f. 13. ágúst 1839 á Akureyri, d. 3. maí 1915 í Reykjavík) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Júlíus Havsteen var þingmaður og amtmaður. Fjölskylda. Foreldrar Júlíusar voru Jóhann Godtfred Havsteen kaupmaður á Akureyri og bróðir Péturs Havsteen amtmanns og alþingismanns og kona hans Sophie Jacobine Havsteen, f. Thyrrestrup húsmóðir. Pétur Havsteen, föðurbróðir Júlíusar breytti ættarnafni sínu í Hafstein, en hann var faðir Hannesar Hafstein ráðherra. Arið 1880 kvæntist Júlíus danskri konu, Johanne Margrethe, dóttur Otto Westengaards ofursta í danska landhernum, og eignuðust þau tvö börn, Helgu (f. 1880), sem giftist Henry Gad, höfuðsmanni í sjóher Dana, og Ottó Jacob (f. 1884), heildsala í Reykjavík. Menntun og embættisstörf. Júlíus lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1859 og hélt þá til Danmerkur þar sem hann nam lögfræði við Hafnarháskóla. Hann lauk embættisprófi árið 1866. Fyrst eftir útskrift starfaði Júlíus sem aðstoðarmaður og fulltrúi hjá amtmanninum í Holbæk á Sjálandi, en árið 1870 var hann ráðinn aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði til 1881. Þá var hann settur amtmaður i Norður- og Austuramti. Árið 1884 var hann skipaður í embættið og gegndi því til 1894 þegar hann var skipaður í embætti amtmanns í Suður- og vesturamts. Júlíus hélt því embætti til 1904 er amtmannaembættin voru lögð niður. Eftir það var Júlíus forseti amtráðs suðuramtsins til 1907 er amtsráðin voru lögð niður. Júlíus gegndi að auki ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, þar á meðal endurskoðandi Íslandsbanka í Reykjavík frá stofnun hans 1904 til æviloka. Gæslustjóri Söfnunarsjóðs frá 1905 til æviloka. Þingseta og afskipti af stjórnmálum. Auk embættisstarfa hafði Júlíus töluverð afskipti af stjórnmálum. Meðan hann var amtmaður Norður- og austuramtsins og var búsettur á Akureyri sat hann í bæjarstjórn Akureyrar. Þar var hann bæjarfulltrúi á Akureyri 1885—1893. Eftir að hann var skipaður Amtmaður Suður- og vesturamtsins fluttist Júlíus til Reykjavíkur. Júlíus sat að auki lengi á þingi. Hann var konungkjörinn þingmaður 1887 – 1891, og aftur 1899 til dauðadags, 1915. Júlíus starfaði með Heimastjórnarflokknum og Sambandsflokknum. Hann var varaforseti sameinaðs þings 1901 – 1903, forseti efri deildar 1905 – 1907 og 1912. Árin 1911 var hann annar varaforseti efri deildar og árin 1913 og 1914 varaforseti. Forseti efri deildar milli þinga 1913 – 1914. Júlíus hlaut fjölda heiðursmerkja, 1887 var hann gerður að riddara að Dannebrog, 1894 að Dannebrogsmanni, 1902 var hann gerður Kommandör 2. fl. af Dannebrog og 1904 Kommandör 1. fl. Að auki hlaut hann franska orðu, "Officer de l'Instruction publique". Eins og það var orðað í "Ísafold". „Heiðursmerki hafði hann alla leið upp i kommandörkross af 1. stigi, auk frakkneskrar orðu.“ Er hann lest af influensu var Júlíus aldursforseti Alþingis. Theodór Jónassen. (Eggert) Theodór Jónassen (f. 9. ágúst 1838 í Reykjavík, d. 29. september 1891 í Reykjavík) (einnig E. Th. Jónassen) var íslenskur embættismaður. Theodór var amtmaður og þingmaður. Fjölskylda. Foreldrar hans voru Þórður Jónasson (f. 1800, d. 1880) alþingismaður og háyfirdómari og kona hans Dorothea Sophia Rasmusdóttir, dóttir Rasmus Lynge á Akureyri. Bróðir Theodórs var Jónas Jónassen (f. 1840) alþingismaður og dómari. Theodór var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elín Magnúsdóttir, dóttir Magnúsar Stephensen í Vatnsdal, sýslumanns Rangæinga og systir Magnúsar Stephensen landshöfðingja. Eftir ándlát Elínar kvæntist Theodór aftur. Síðari kona hans var Carolina Siemsen, dóttir Georg Nicolai Edvard Siemsen kaupmanns og konsúls í Reykjavík. Theodór átti eina dóttur með fyrri konu sinni, en hún dó meðan hún var barn að aldri. Menntun og embættisstörf. Theodór útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1858, og sigldi þá til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á lögfræði. Hann varð kandídat í lögfræði frá Hafnarháskóla 1867. Starfaði í skrifstofu land- og bæjarfógeta 1867—1868. Árið 1868 var Theodór settur sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu og árið á eftir i Mýra- og Hnappadalssýslu. Árið 1871 var hann skipaður sýslumaður í báðum sýslum er þær voru sameinaðar. Meðan hann var sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu bjó hann í Hjarðarholti í Stafholtstungum. Árið 1878 var Theodór skipaður bæjarfógeti Reykjavíkur og fluttist þá til Reykjavíkur. Árið 1886 var hann skipaður amtmaður í Suður- og vesturamtinu og sat í því embætti til æviloka, 1891. Afskipti af stjórnmálum. Eftir að Theodór var skipaður amtmaður í Suður- og vesturamti sat hann einnig sem bæjarfulltrúi í Reykjavík, allt til æviloka eða frá 1886 til 1891. Árið 1887 var Theodór konungskjörinn þingmaður og sat á þingi 1887—1891. Líkt og margir aðrir embættismenn vildi hann fara hægt í sjálfstæðismálinu. Andstæðingar hans báru hins vegar virðingu fyrir honum enda var hann einstaklega ljúfur og lipur í samningum. Í Þjóðólfi var sagt að hann hefði verið "fyrstr til að hverfa frá þeim þvergirðingsskap hins konungkjörna flokks" að vilja enga endrskoðun leyfa á stjórnarskránni. Heimildir. "Þjóðólfur", 46. tbl. 43. árg. (2.október 1891), bls. 190. "Öldin", 5. tbl. 1. árg. (3. nóvember 1891), bls. 1. "Fjallkonan", 39-40. tbl. 8. árg (29. september 1891), bls. 158-159. Þórður Jónassen. Þórður Jónassen (Jónasson) (f. 26. febrúar 1800 í Nesi í Aðaldal, d. 25. ágúst 1880) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Þórður var háyfirdómari, þingmaður og settur stiftamtmaður. Fjölskylda. Foreldrar Þórðar voru Jónas Jónsson (f. 1773, d. 1861) prestur að Nesi í Aðalreykjadal og önnur kona hans, Þórdís Jónsdóttir. Þórður giftist 1838 Dorotheu Sophiu Rasmusdóttir Lynge (f. 1808, d. 1890). Þau áttu sjö börn, og að auki átti Þórður eitt barn utan hjónabands. Tveir synir Þórðar og Dorotheu, Jónas Jonassen og Theodór Jónassen, urðu alþingismenn. Menntun og embættisstörf. Þórður lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla árið 1820 og embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla árið 1830. Í nokkur ár eftir nám dvaldi Þórður í Danmörku og starfaði á ýmsum stjórnarskrifstofum. Árið 1835 var honum veitt embætti sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu 1834 – 1837. Dómari í landsyfirrétti 1837 – 1877, háyfirdómari frá 1856 þar til hann baðst lausnar árið 1877 sökum aldurs. Settur sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu um skeið 1840 og að nýju 1850 – 1853, gegndi þar og dómarastörfum 1855 – 1856. Þórður var settur amtmaður í Norður- og austuramtinu 1849 – 1850. Settur landfógeti frá marsmánuði 1852 fram á sumar. Settur stiftamtmaður um stund 1855 meðan Trampe greifi fór utan og er Trampe greifi fór alfarið af landi sumarið 1860 var Þórður settur stiftamtmaður til vors 1865 er Hilmar Finsen kom til landsins. Þórður var stundakennari við Lærða skólann í Reykjavík árin 1847 – 1852. Ritstjóri Skírnis 1828 – 1835 og Reykjavíkurpóstsins 1847 – 1849. Þátttaka í stjórnmálum. Árin 1847 – 1850 og 1851 – 1856 sat Þórður í bæjarstjórn Reykjavíkur. Hann var konungkjörinn þingmaður árin 1845 – 1859 og 1869 – 1875. Þórður var konungsfulltrúi á Þjóðfundinum 1851. Þá var Þórður konungsfulltrúi á Alþingi 1861—1865 og aðstoðarmaður konungsfulltrúa 1867. 1. deild kvenna í knattspyrnu 1989. ´Árið 1989 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1988. ´Árið 1988 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1986. ´Árið 1986 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1984. Árið 1984 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Um riðlakeppni var um að ræða. Lokastaða A-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Lokastaða B-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1983. Árið 1983 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1982. Árið 1982 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Pétur Havsteen. (Jörgen) Pétur Havsteen (f. 17. febrúar 1812, á Hofsósi, d. 24. júní 1875 í Reykjavík) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Fjölskylda. Foreldrar Péturs voru Jakob Havsteen (f. 1774, d. 1829) kaupmaður á Hofsósi og kona hans Maren Jóhannsdóttir Havsteen, fædd Birch. Pétur var þrígiftur. Árið 1847 giftist hann Guðrúnu Hannesdóttur Havstein, dóttur Hannesar Stephensen alþingismanns og Þórunnar Magnúsdóttur Stephensen. Saman áttu þau tvö börn. Eftir andlát Guðrúnar 1851 giftist Pétur aftur, Sigríði Ólafsdóttur Havstein, fædd Stephensen dóttur Ólafs Magnússonar Stephensen. Þau skildu nokkru síðar og gekk hún þá að eiga Stefán Thordersen alþingismann. Árið 1857 giftist Pétur þriðja sinn, Katrínu Kristjönu Gunnarsdóttur Havstein, dóttur Gunnars Gunnarssonar, prests í Laufási, systur Eggerts Gunnarssonar alþingismanns og Tryggva Gunnarssonar alþingismanns. Saman áttu þau níu börn. Meðal barna Péturs var Hannes Hafstein alþingismaður og ráðherra. Þrjár dætur Péturs giftust einnig alþingismönnum. Pétur var tengdafaðir Jóns Þórarinssyni alþingismanns, Jónasar Jónassens alþingismanns og Lárusar H. Bjarnasonar alþingismanns. Menntun og embættisstörf. Pétur lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1835. Að því loknu sigldi hann til Kaupmannahafnar og lauk embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla 1840. Að námi loknu starfaði Pétur í rentukammerinu í Kaupmannahöfn. Árið 1845 var hann skipaður sýslumaður í Norður-Múlasýslu og gegndi jafnframt sýslumannsstörfum í Suður-Múlasýslu 1845 – 1846. Árið 1850 var hann skipaður amtmaður í Norður- og austuramtinu og bjó þá á Möðruvöllum í Hörgárdal. Árið 1870 fékk Pétur lausn frá störfum sökum aldurs. Pétur sat sem konungkjörinn alþingismaður á einu þingi, 1853. 1. deild kvenna í knattspyrnu 1981. Árið 1981 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1987. Árið 1987 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1985. Árið 1985 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1980. Árið 1980 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Kristján Kristjánsson (f. 1806). Kristján Kristjánsson (Chr. Christiansson) (f. 21. september 1806 á Þórðarstöðum í Fnjóskadal, d. 13. maí 1882) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Kristján var sýslumaður og amtmaður í Norður- og austuramti. Fjölskylda. Foreldrar Kristjáns voru Kristján Jónsson (f. 1771, d. 1844) bóndi á Illugastöðum í Fnjóskadal og kona hans Guðrún Halldórsdóttir. Kristján Kristjánnson var bróðir Benedikts Kristjánssonar alþingismanns og Jóns Kristjánssonar alþingismanns. Árið 1845 giftist Kristján Ragnheiði Jónsdóttur Thorstensen, (f. 1824, d. 1897), dóttir Jón Thorstensen alþingismanns og landlæknis. Þau áttu engin börn. Menntun og embættisstörf. Kristján lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla árið 1826. Að stúdentsprófi loknu (árin 1826—1830) starfaði Kristján sem skrifari hjá Grími Jónssyni amtmanni á Möðruvöllum. Kristján sigldi þá til Danmerkur þar sem hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla árið 1838. Með námi og að því loknu (árin 1833-1840) starfaði Kristján í rentukammerinu í Kaupmannahöfn. Eftir heimkomu starfaði hann sem skrifari embættismannanefndarinnar í Reykjavík 1841 og sem málaflutningsmaður í Reykjavík 1841—1843. Árið 1843 var Kristján settur land- og bæjarfógeti í Reykjavík og sinnti því starfi árin 1843-1844. Hann var settur sýslumaður í Skaftafellssýslu 1844 en var skipaður í embættið 1845 og gegndi því til 1848. Árið 1848 var Kristján skipaður dómsmálaritari og 2. yfirdómari í landsyfirréttinum en tók ekki við því embætti fyrr en næsta sumar. Árið 1849 var hann skipaður land- og bæjarfógeti í Reykjavík en gegndi jafnframt áfram embætti yfirdómara þangað til Jón Pétursson tók við því sumarið 1850. Kristjáni var vikið frá embætti 28. september 1851 vegna framkomu sinnar á þjóðfundinum en gegndi því þó fram í marsmánuð 1852. Ástæða brottvikningarinnar var sú að Kristján þótti „þjóðhollari maður en góðu hófi þótti gegna hjá konunglegum embættismönnum í þá tíð“ eins og sagði í Norðanfara. Árið 1852 fór Kristján utan og varð fulltrúi í hinni íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn. Árið 1854 var Kristján skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, 1860 skipaður sýslumaður í Húnavatnssýslu. Árið 1871 var Kristján skipaður amtmaður í Norður- og austuramtinu. Kristján fékk lausn frá störfum 1881 sökum aldurs. Þingseta. Kristján sat á þingi sem aðstoðarmaður Bardenfleth konungsfulltrúa árið 1847 og sem konungkjörinn þingmaður árið 1849. Kristján var fulltrúi á Þjóðfundinum 1851, og var þá varaforseti fundarins. Heimildir. Magnús Stephensen, "Lögfræðingatal", "Tímarit hins íslenska bókmenntafélags", 3 árg. (1882), bls. 237-238. 1. deild kvenna í knattspyrnu 1979. Árið 1979 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1978. Árið 1978 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1977. Árið 1977 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" William Rehnquist. William Hubbs Rehnquist (f. 1. október 1924, d. 3. september 2005) var bandarískur lögfræðingur og hæstarettardómari. Rehnquist var 16. forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna. Rehnquist var til hægri í félags- og stjórnmálum og þótti íhaldssamur í túlkun sinni á lögum og stjórnarskrá Bandaríkjanna. Í lagatúlkun sinni lagði hann mikla áherslu á tíunda viðauka stjórnarskrárinnar sem takmarkar valdsvið alríkisins. Uppvöxtur og menntun. Rehnquist fæddist í Milwaukee í Wisconsin en óx upp í millistéttarúthverfi Shorewood. Faðir hans, William Benjamin Rehnquist, var pappírssölumaður og móðir hans þýðandi og húsmóðir. Hann gekk í bandaríska flugherinn í seinni heimsstyrjöldinn og gegndi herþjónustu frá 1943 til 1946. Hann tók þó aldrei þátt í neinum bardögum þar sem hann í þjálfun sem veðurathugunarmaður þar til sumarið 1945 þegar hann var sendur til Norður Afríku til að sinna veðurathugunum. Eftir að hann lauk herþjónustu innritaðist Rehnquist í Stanford-háskóla með fjárstuðningi sem hann fékk þökk sé svokölluðum „G.I. Bill“. Árið 1948 útskrifaðist Rehnquist bæði með BA og MA gráðu í stjórnmálafræði. Árið 1950 innritaðist hann í Harvard-háskóla þar sem hann fékk aðra MA gráðu, að þessu sinni í opinberri stjórnsýslu. Rehnquist innritaðist að nýju í Stanford og útskrifaðist árið 1952 útskrifaðist hann með embættispróf í lögfræði frá Stanford Law School. Rehnquist og Sandra Day O'Connor, sem síðar varð hæstaréttardómari, var í sama árgangi og Rehnquist. Eftir útskrift starfaði Rehnquist um skeið (árin 1952-53) sem aðstoðarmaður Robert H. Jackson, hæstaréttardómara. Afskipti af stjórnmálum. Frá 1953 til 1969 bjó Rehnquist í Phoenix í Arizona, þar sem hann starfaði sem lögmaður. Á þessum árum var Rehnquist virkur innan Repúblíkanaflokksins og starfaði meðal annars sem ráðgjafi fyrir forsetaframboð Barry Goldwater árið 1964. Eftir að Richard M. Nixon var kosinn forseti Bandaríkjanna 1968 fluttist Rehnquist til Washington þar sem hann starfaði sem yfirmaður (Assistant Attorney General) lögfræðiskrifstofu forsetans (The Office of Legal Councel) frá 1969-1971. Skipun í Hæstarétt. Þegar John Marshall Harlan II hæstaréttardómari fór á eftirlaun skipaði Nixon Rehnquist sem hæstaréttardómara. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti skipun Rehnquist með 68 atkvæðum gegn 26 þann 10. desember 1971. Rehnquist tók sæti í dómnum 7. janúar 1972. Þegar Warren E. Burger, forseti hæstaréttar, fór á eftirlaun 1986 var Rehnquist skipaður forseti hæstaréttar af Ronald Reagan. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti skipunina með 65 atkvæðum gegn 33. Antonin Scalia var skipaður í sæti Rehnquist. Rehnquist gegndi stöðu forseta hæstaréttar í nærri 19 ár. Aðeins þrír hæstaréttardómarar hafa gegnt þessari stöðu lengur, þeir John Marshall, Roger Taney, og Melville Fuller. Rehnquist, William Rehnquist, William OMG. OMG er netslangur, sem er skammstöfun fyrir ensku upphrópunina "Oh my God!", þ.e. "Guð minn góður"! Hún er mest notuð á netinu og í SMS-skilaboðum. Carl Emil Bardenfleth. Carl Emil Bardenfleth (9. maí 1807 – 3. september 1857) var danskur embættismaður og stjórnmálamaður sem var um skeið amtmaður og stiftamtmaður á Íslandi og konungsfulltrúi á Alþingi. Ferill. Hann var sonur Johans Frederiks Bardenfleth, sem var danskur flotaforingi og um skeið landstjóri Dana í Vestur-Indíum. Bardenfleth-ættin var upphaflega þýsk aðalsætt en forfeður Bardenfleths stiftamtmanns fluttust til Danmerkur snemma á 18. öld og gerðust danskir ríkisborgarar. Carl Emil Bardenfleth var bernskuvinur Friðriks prins, seinna Friðriks 7. Danakonungs, og naut jafnan hylli hans. Hann varð stúdent 1823 og lauk lagaprófi frá Kaupmannahafnarháskóla með hæstu einkunn árið 1827. Hann var skipaður bæjar- og héraðsfógeti í Frederikssund 1832 og var amtmaður og stiftamtmaður á Íslandi 1837–1841, en mágur hans, Moltke greifi, hafði gegnt sömu embættum 1819–1823. Bardenfleth þótti sanngjarn og velviljaður, var vel látinn og vinsæll og lagði sig meðal annars fram um að læra íslensku. Hann hafði ætlað sér að vera lengur á Íslandi en þegar Friðrik 6. konungur lést og Kristján 7. tók við kallaði hann Bardenfleth til Danmerkur 1840 til að vera hirðmeistari hjá Friðrik krónprinsi, sem þá var orðinn landstjóri á Fjóni. Fór hann utan hálfnauðugur og mun hafa gert ráð fyrir að snúa aftur ári síðar en af því varð ekki. Hann var skipaður stiftamtmaður á Fjóni 1843 og varð síðar þingmaður á danska þinginu, ráðherra og átti setu í ríkisráðinu. Kona Bardenfleths (gift 3. október 1832) var Sophie Amalie, greifynja von Schmettau (4. nóvember 1810 – 26. apríl 1893). Þau áttu fjölda barna og voru tvö þeirra fædd í Reykjavík. Sonur þeirra, sem hér fæddist, var látinn heita Ingolf eftir Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni. Konungsfulltrúinn á Alþingi. „Konungsfulltrúinn á alþíngi hefir marga þá kosti til að bera, sem öllum Íslendíngum þykir mikið til koma, og afla honum virðíngar hjá hverjum manni, sem kynnist honum. Hann er skynsamur maður og greindur, ráðsettur og alvarlegur; hann hefir ljósa hugsun og er fljótur að koma fyrir sig bæði hugsun og orðum; – hann hefir einnig gott lag á allri tilhögun og kann vel að sjá hvað bezt fer; það var og einnig sjáanlegt, að hann hafði varið mikilli ástundan til að kynna sjer málin og gjöra sjer sjálfur hugmynd um þau, því hann vildi vera einfær um verk sitt, eins og vera átti; hann hefir og einnig lagt svo mikla ástundan á að læra íslenzka túngu, að hann skilur vel það sem talað er, og getur allsæmilega framflutt á íslenzku ræðu, sem hann hefír skrifaða fyrír sjer; sýndi hann og í þvi lag sitt, að hann flutti sjálfur á islenzku ræður sínar fyrst og seinast á þínginu." The Paranoid Style in American Politics. The Paranoid Style in American Politics er ritgerð eftir bandaríska sagnfræðinginn Richard J. Hofstadter. Hann var mikils metinn hugsuður á 6. áratug síðustu aldar en aðalstarf hans var að kenna Bandaríkjasögu við Columbia háskólann. Hofstadter skrifaði margar þekktar ritgerðir og fékk meðal annars Pulitzer-verðlaunin fyrir tvær þeirra. The Paranoid Style in American Politics var birt í Harper‘s Magazine í nóvember 1964 og fjallar hún um pólitíska hreyfingu sem Hofstadter kýs að kalla „the paranoid style“. Á þessum árum fór að bera á því að öfgakenndir hægrisinnar notfærðu sér ástríðufullt hatur minnihlutahópa og næðu pólitísku tangarhaldi á þeim. Hofstadter sá á bak við þetta hugarfar sem var hvorki nýtt né tilheyrði einungis hægri-öfgasinnum og hann vildi kalla það „the paranoid style“ því að honum fannst það nafn passa hversu ýkt, grunsamleg og samsæriskennd þessi hugmynd hans væri. Hann lýsir þeim sem þjást af þessu vænisjúka hugarfari þannig að þeir sjái samsæri í samhengi við heimsendi, þeir líti ekki á samfélagslegar deilur og vandamál sem eitthvað sem hægt sé að leysa eða miðla málum um, heldur sjái þeir aðeins góða og slæma hlið. Slæmu hliðinni þarf að útrýma en þar sem það er yfirleitt ekki raunhæfur kostur verða þessir vænisjúku einstaklingar enn pirraðri og vænisjúkari en áður þegar þeir ná ekki takmarki sínu. Um þessar mundir lifir þessi hugmynd Hofstadter enn góðu lífi og hafa margir tengt Teboðshreyfinguna við hana. Fylgjendur Teboðshreyfingarinnar vilja meina að Bandaríkin endist ekki annað ár með Demókrata við stjórnvölinn í Hvíta Húsinu og á þinginu. Eðlisefnafræði. Eðlisefnafræði er ein þriggja höfuðgreina efnafræðinnar, en hinar eru lífræn efnafræði og ólífræn efnafræði. Eðlisefnafræðin fæst við að beita aðferðum eðlisfræðinnar við að leysa efnafræðileg vandamál. Þegar unnið er við efnasmíði er áherslan lögð á aðferðir til að búa til þekkt eða óþekkt efnasambönd, en í eðlisefnafræði reyna menn með tilraunum og fræðilegum aðferðum að skilgreina eiginleika efnasambanda. 1. deild kvenna í knattspyrnu 1973. Árið 1973 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir heitinu 1. deild. Um riðlakeppni var að ræða. Leikið í tveimur riðlum. Tvö efstu lið riðilsins mættust í umspili og sigurvegarar leikjanna mættust í úrslitaleik. Átta lið tóku þátt: Ármann, Breiðablik, FH, Keflavík, Haukar, ÍA, Stjarnan og Þróttur. Lokastaða A-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 14-0 20pxHaukar | 6-0 20pxHaukar | 20pxHaukar 1-2 | Lokastaða B-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 2-2 Ármann | 20pxÞróttur 10-0 20pxStjarnan | 20pxStjarnan 0-17 Ármann | Ármann 4-0 20pxÞróttur | 6-0 20pxÞróttur Ármann 2-0 DNA fjöldabreytingar. DNA fjöldabreytingar eru breytingar sem verða á genamengi sem koma í ljós þegar tvö genamengi eru borin saman, þar sem fjöldi basapara á ákveðnu svæði er ekki hinn sami milli þeirra. Þessar breytingar hafa orðið til vegna úrfellingar eða tvöföldunnar í öðru genamenginu, á heilu geni eða jafnvel á mörgum genum og nær yfirleitt yfir nokkra kílóbasa svæði. Á ensku kallast þetta Copy-number variation. 1. deild kvenna í knattspyrnu 1974. Árið 1974 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir heitinu 1. deild. Um riðlakeppni var að ræða. Lokastaða A-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Lokastaða B-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1975. Árið 1975 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir heitinu 1. deild. Um riðlakeppni var að ræða. Lokastaða A-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Lokastaða B-riðils. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" 1. deild kvenna í knattspyrnu 1976. Árið 1976 var Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin undir nafninu 1. deild. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" God,The Devil and Bob. God, The Devil & Bob (Guð, Djöfullin og Bubbi) er bandarísk sjónvarpsþáttaröð gerð af Matthew Carlson árið 2000 og var sýnd á bandarísku sjónvarpstöðinni NBC. Söguþráður. Guð (James Garner) ætlaði að eyðileggja heiminn og byrja upp á nýtt en hann vildi gefa mannkynninu séns. Svo hann bað djöfullinn (Alan Cumming) um að velja manneskju sem gæti bjargað heiminum ef hún gæti sannað sig. Sá útvaldi heitir Bob (French Stewart). Eftir að hafa bjargað heiminum í fyrsta þætti varð hann spámaður guðs. Endalok þáttarins. Þátturinn endaði eftir einn mánuð eftir að margir frá kristinni kirkju kvörtuðu vegna innihalds þáttarins og óvirðingar við guð eftir einungis fjóra þætti. En öll serían (13 þættir) var sýnd í Evrópu og Asíu, þar sem þættirnir urðu mjög vinsælir. Spútnik-geimferðaáætlunin. Spútnik-geimferðaáætlunin (rússneska: Спутник) er samheiti sem er gjarnan notað yfir fyrstu þrjár ómönnuðu geimferðir Sovétríkjanna. Í rússnesku getur orðið "„spútnik“" þýtt annaðhvort „förunautur“ eða „gervitungl“ og af þeirri ástæðu bera mörg síðari gervitungl Sovétríkjanna nafnið Spútnik þrátt fyrir að vera ótengd fyrstu þrem verkefnunum: Spútnik 1, Spútnik 2 og Spútnik 3. Verkefnin þrjú eru heldur ekki tengd innanbyrðis og eiga ekki margt annað sameiginlegt en að vera hluti af fyrstu geimferðum Sovétmanna. Bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Kosningar til bæjarstjórnar í Reykjavík voru fyrst haldnar árið 1836 og síðast árið 1958. Fyrst var bæjarstjóri kosinn beinni kosningu árið 1920. Eftir að nafni Reykjavíkurbæjar var breytt í Reykjavíkurborg, var farið að tala um borgarstjórn í stað bæjarstjórn. Fyrst var kosið til borgarstjórnar í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum 1962. 1908. Kosið var 24. janúar. Í fyrsta sinn var listakosning viðhöfð og reyndist mörgum erfitt að skilja hvernig hið nýja kosningakerfi virkaði. Mikill fjöldi framboða kom fram, þar sem forystumenn í bæjarmálum vildi flestir leiða sinn lista. Nöfn nokkurra einstaklinga komu fyrir á fleiri en einum framboðslista, þar sem heimilt var að stilla mönnum upp á lista að þeim forspurðum. Tíu af átján framboðslistum hlutu engan mann kjörinn og féllu atkvæði þeirra því dauð niður. Óhætt er að segja að reykvískar konur hafi nýtt sér vel þessa ringulreið. Konur höfðu öðlast kosningarétt og stilltu kvenfélög bæjarins upp sameiginlegum lista. Hlaut hann 345 atkvæði eða rösklega fimmtung atkvæða. Allir fjórir frambjóðendur kvennalistans náðu kjöri. Eftir á að hyggja var það kæruleysi hjá konunum að stilla ekki upp fleiri frambjóðendum, því litlu mátti muna að fylgið dygði fyrir fimmta fulltrúanum. Önnur þau framboð sem bestum árangri náðu, voru einnig boðin fram af stjórnmálafélögum eða hagsmunahópum. Listi Fram, félags Heimastjórnarmanna, hlaut þrjá fulltrúa, listi á vegum Iðnaðarmannafélagsins tvo og það sama gilti um lista sem Góðtemplarar stóðu að. Úrslitin urðu því mjög til að ýta undir stofnun og skipulag formlegra stjórnmálafélaga í Reykjavík. 1910. Kosið var 29. janúar um fimm af fimmtán sætum í bæjarstjórn. Dregin voru út nöfn fimm bæjarfulltrúa sem kjósa skyldi um á nýjan leik. Fimm listar voru í kjöri: listi Heimastjórnarflokksins, listi Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Kvennalisti, listi Góðtemplara og listi sem nokkrir kaupmenn stóðu saman að. Tryggvi Gunnarsson var efstur á lista Heimastjórnarmanna, en síðla árs 1909 hafði Björn Jónsson ráðherra vikið honum úr starfi sem bankastjóri Landsbankans. Stuðningsmenn ráðherra tefldu ekki fram lista í kosningunum, en áttu fulltrúa á lista Dagsbrúnar. Því litu Heimastjórnarmenn á kosningarnar öðrum þræði sem mælingu á styrk landsstjórnarinnar. 1912. Kosið var 27. janúar um fimm af fimmtán sætum í bæjarstjórn. Dregin voru út nöfn fimm bæjarfulltrúa sem kjósa skyldi um á nýjan leik. Tólf listar voru í framboði, en fjórir fengu obbann af atkvæðunum, listar Heimastjórnarflokksins, Sjálfstæðisfloksins (gamla), Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Kvennaframboðið. Hin framboðin átta fengu mun minna fylgi og allt niður í eitt atkvæði. Listar þessir voru margir hverjir skipaðir sama fólki og vinsælli framboðslistarnir en í annarri röð, þannig var Bríet Bjarnhéðinsdóttir í öðru sæti á hinum opinbera Kvennalista, en efst á F-lista, sem einnig var skipaður konum. Þorvarður Þorvarðsson var kjörinn í bæjarstjórn, en hann var bæði á framboðslista Heimastjórnarfélagsins og efsti frambjóðandi Dagsbrúnar. Þá var hann efstur á K-lista sem hlaut aðeins eitt atkvæði. Kjörsókn þótti léleg eða rétt rúmlega 40%. 1914. Kosið var 25. janúar um fimm af fimmtán sætum í bæjarstjórn. Dregin voru út nöfn fimm bæjarfulltrúa sem kjósa skyldi um á nýjan leik. Kosið var eftir nýjum reglum, sem heimiluðu kjósendum að strika út af framboðslistum eða endurraða þeim. Fyrir vikið varð hlutfall ógildra atkvæða mjög hátt. Sjö listar voru í framboði, en flest atkvæði fengu listar Heimastjórnarflokksins, Sjálfstæðisfloksins (gamla), Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Kvennaframboðið. Aukakosningar voru haldnar 5. desember um þrjú sæti í bæjarstjórn. Jóhann Jóhannesson, sem kjörinn hafði verið í ársbyrjun lést í nóvember. Knud Zimsen sagði af sér, þar sem hann hafði tekið við störfum borgarstjóra og Pétur G. Guðmundsson var fluttur úr bænum. Fjórir listar voru í framboði. Auk Heimastjórnarflokksins og Sjálfstæðisfloksins (gamla) buðu Templarar fram lista. Fjórði framboðslistinn var óháður flokkum eða félögum. 1916. Kosið var 31. janúar um fimm af fimmtán sætum í bæjarstjórn. Dregin voru út nöfn fimm bæjarfulltrúa sem kjósa skyldi um á nýjan leik. Fram komu fimm framboðslistar. Listi verkalýðsfélaganna vann stórsigur, hlaut þrjá af fimm fulltrúum en auk Verkamannafélagsins Dagsbrúnar stóðu Hásetafélagið og Verkakvennafélagið Framsókn að framboðinu. Úrslit kosninganna urðu til þess að ýta undir sameiningu borgaralegu aflanna í bænum. Heimastjórnarfélagið Fram fékk hin tvö sætin, en listar Sjálfstæðisfloksins (gamla) og Kvennaframboðið náðu ekki kjöri. Þrjú félög kvenna stóðu að Kvennalistanum, með Ingu L. Lárusdótttur í efsta sæti. Kvenréttindafélagið stóð hins vegar ekki að framboðinu og studdi Bríet Bjarnhéðinsdóttir framboð Heimastjórnarmanna. Fimmti framboðslistinn fékk langminnst fylgi. Hann státaði af Thor Jensen í efsta sæti, sem þó var í framboði fyrir Heimastjórnarflokkinn. Listanum hefur því verið ætlað að sundra atkvæðum Heimastjórnarmanna. 1918. Kosið var 31. janúar um sjö af fimmtán sætum í bæjarstjórn. Þrír listar voru í kjöri: A-listi jafnaðarmanna, B-listi Sjálfstjórnar og C-listi, sem talinn var boðinn fram á vegum Sjálfstæðisflokksins þversum. 1920. Kosið var 31. janúar um sex af fimmtán sætum í bæjarstjórn. Þrír listar voru í kjöri: A-listi jafnaðarmanna, B-listi Sjálfstjórnar og C-listi „Kjósendafélagsins“, sem var óháð framboð. Efnt var til aukakosninga 6. nóvember um eitt sæti í bæjarstjórn. Félagið Sjálfstjórn studdi Georg Ólafsson, en Framsóknarmenn, Alþýðuflokksmenn og Sjálfstæðismenn þversum studdu Þórð Sveinsson. 1922. Kosið var 28. janúar um þriðjung sæta í bæjarstjórn. Tveir listar voru í kjöri: A-listi borgaralegu aflanna, en að honum stóðu landsmálafélagið „Stefnir“ (sem stofnaðu var á grunni félagsins Sjálfsstjórnar og „Kjósendafélagið“ og B-listi Alþýðuflokksins. Hlutur kvenna þótti rýr á framboðslistunum og var stofnuð nefnd til að undirbúa framboð sérstaks kvennalista, en niðurstaða hennar var sú að hvorki væri tími né fjármagn til þess. 1924. Kosið var 26. janúar um þriðjung sæta í bæjarstjórn. Þrír listar voru í kjöri: A-listi Alþýðuflokksins, B-listi borgaralegu aflanna og C-listi sem leiddur var af Magnúsi Sigurðssyni bankastjóra. 1926. Kosið var 23. janúar um þriðjung sæta í bæjarstjórn. Tveir listar voru í kjöri: A-listi sem skipaður var forystumönnum Alþýðuflokksins og naut stuðnings Framsóknarmanna og B-listi borgaralegu aflanna. 1928. Kosið var 28. janúar um þriðjung sæta í bæjarstjórn. 1930. Gengið var til kosninga þann 26. janúar eftir nýjum lögum. Kosið var um alla borgarfulltrúana fimmtán í einu og kjörtímabil þeirra samræmt. 1942. Kosningar þessar fóru fram 15. mars, en sveitarstjórnarkosningarnar 1942 fóru að öðru leyti fram 25. janúar. 1950. Sveitarstjórnarkosningarnar 1950 fóru fram 29. janúar. Sigfús Sigurhjartarson lést á miðju kjörtímabili og tók Nanna Ólafsdóttir sæti hans sem bæjarfulltrúi Sósíalistaflokksins. 1954. Sveitarstjórnarkosningarnar 1954 fóru fram 31. janúar. Rúmri viku fyrir kosningar tilkynnti efsti maður Þjóðvarnarflokksins, Bárður Daníelsson, að hann viki af framboðslista flokks síns vegna ásakana um spillingu. Kjörstjórn úrskurðaði daginn fyrir kosningar að slíkt væri óheimilt. Niðurstaðan varð sú að annar maður á framboðslistanum, Gils Guðmundsson, tók sæti í bæjarstjórn uns fallið var frá rannsókn á máli Bárðar þá um haustið. Töldu Þjóðvarnarmenn að málið hefði kostað þá heilan bæjarfulltrúa. 1958. Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 fóru fram 25. janúar. Þetta voru síðustu bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Frá árinu 1962 var talað um borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Niðursuðudós. Þrjár niðursuðudósir af ýmsum stærðum. Hin minnsta þeirra er opnuð með togflipa. Niðursuðudós er blikkdós, oftast loftþétt, sem notuð er til að geyma matvæli, sem hafa verið soðin niður áður en þeim var komið fyrir í dósinni, og þannig getur maturinn geymst lengur. Enski uppfinningamaðurinn Peter Durand fékk einkaleyfi fyrir niðursuðudósina árið 1810, en hann byggði uppfinningu sína á niðursuðutilraunum franska kryddbakarans Nicolas Appert. Peter Durand sauð ekki niður nein matvæli sjálfur heldur seldi tveimur Bretum, Bryan Donkin og John Hall, uppfinningu sína. Þeir settu fljótlega upp niðursuðuverksmiðju og árið 1813 byrjuðu þeir að framleiða niðursuðuvörur fyrir breska herinn. Münchausen-heilkenni. Münchausen-heilkenni (eða sjúkdómsýkjur) er hugtak sem er haft um þá sem gera sér upp allavega kvilla með svo mögnuðum hætti að þeim fylgja líkamleg einkenni. Sjúklingar með þetta heilkenni eru oft lagðir inn á sjúkrahús jafnvel þótt engar vefrænar skýringar finnist nokkru sinni á „sjúkdómum“ þeirra. Munurinn á fólki með Münchausen-heilkenni og þeim sem þjást af ímyndunarveiki, er sá að hinir fyrrnefndu vita að þeir eru að ýkja, en hinir trúa því að þeir séu veikir. Münchausen-heilkennið er kennt við Münchausen barón. Witt-safnið. Witt-safnið (Museum Witt München, MWM) er fiðrildasafn í München í Þýskalandi og er hið stærsta sinnar tegundar í heiminum. Thomas Witt stofnaði safnið árið 1980. Í því eru 10 milljónir eintaka víðsvegar að úr heiminum. Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke. Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke greifi (18. júní 1790 – 10. ágúst 1864) eða Ludvig Moltke var danskur aðalsmaður, embættismaður og sendiherra sem var stiftamtmaður á Íslandi 1819–1823 og jafnframt amtmaður í Suðuramti. Moltke fæddist í Hróarskeldu en faðir hans, Werner Moltke, var þá amtmaður í Hróarskelduamti og voru þeir af gamalli þýsk-danskri aðalsætt sem hefur komið töluvert við sögu Danmerkur. Moltke lærði við háskólana í Kiel og Kaupmannahöfn og lauk embættisprófi í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1816. Þá fékk hann starf í utanríkisþjónustunni og var sendur til Stokkhólms og síðan fljótlega til Berlínar. Árið 1819 var hann skipaður stiftamtmaður á Íslandi og amtmaður í Suðuramti og varð þar hlutskarpari Grími Jónssyni, sem einnig hafði sótt um stiftamtmannsembættið. Þeim embættum gegndi Moltke til 1823 en varð þá amtmaður í Præstø og ári síðar stiftamtmaður í Álaborg. Þar var Stefán Gunnlaugsson, síðar landfógeti, í þjónustu hans um tíma. Hann gat sér gott orð í embætti, bæði á Íslandi og í Álaborg, og þegar Friðrik 6. heimsótti Álaborg 1828 hvatti hann Moltke eindregð til að gerast hirðmarskálkur Friðriks prins (seinna Friðriks 7.) og féllst Moltke á endanum á að taka það að sér. Hann sagði af sér því embætti fjórum árum síðar með þeim ummælum að sér hefði engin áhrif tekist að hafa á prinsinn og minnti um leið á að sér hefði verið lofað sendiherraembætti ef hann yrði ekki ánægður við hirðina. Friðrik 6. brást þegar við og útnefndi Moltke sendiherra Danmerkur í Svíþjóð og bjó hann í Stokkhólmi í 14 ár. Árið 1846 var hann gerður að sendiherra í París og var þar í áratug við góðan orðstír. Grímur Thomsen skáld starfaði hjá honum um tíma sem eins konar blaðafulltrúi sendiráðsins. En árið 1856 var Moltke skyndilega sviptur embætti og taldi hann sjálfur að það væri vegna þess að hann hafði talað eindregið gegn því að Friðrik 7. og Danner greifynja, eiginkona konungs „til vinstri handar“, heimsæktu frönsku hirðina. Moltke sárnaði embættissviptingin mjög og settist hann að í Kiel fyrst í stað. Árið 1863 flutti hann þó til Kaupmannahafnar og dó þar á næsta ári. Moltke í Reykjavík. Kona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús. Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var "Tværgaden", frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð "Langafortóv". Þar er nú Austurstræti. Ab-mjólk. Ab-mjólk er mjólkurvara, framleidd af Mjólkursamsölunni, en hún dregur nafn sitt af tveimur gerlum sem í hana eru settir, þ.e. Lactobacillus acidophilus (a) og Bifidobacterium bifidum (b). Í hverjum ml af Ab-mjólk eru um það bil 500 milljónir af hvorri tegund. Einnig inniheldur hún gerlana Streptococcus lactis og S. thermophilus. Eins og aðrir góðir mjólkursýrugerlar í skyri, jógúrt og súrmjólk, auðvelda þeir meltingu á mjólkurpróteinum og stuðla að hámarksnýtingu líkamans á kalki úr mjólkinni. Sérkenni Ab-mjólkurinnar er hins vegar samspil þessara a og b gerla sem, ólíkt öðrum mjólkursýrugerlum, lifa af ferðalagið í gegnum magann og halda starfsemi sinni áfram í þörmum, svo að óæskilegir gerlar eiga þar erfitt uppdráttar. Rannsóknir benda til að starfsemi ab gerla í meltingarveginum geti aukið mótstöðuafl líkamans og geti einnig komið í veg fyrir aukningu kólesteróls í blóði. Fyrir okkur íslendinga getur Ab-mjólk gert mikið gagn á ferðalögum erlendis til að koma í veg fyrir magakveisur. Guðrún Nordal. Guðrún Nordal (f. 27. september 1960) er prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Æviágrip. Foreldrar Guðrúnar eru Jóhannes Nordal fyrrum seðlabankastjóri, og Dóra Guðjónsdóttir Nordal píanóleikari og húsmóðir. Guðrún útskrifaðist með BA próf í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1982. Þá nam hún í Ludwig Maximiliens Universität í München 1982–83, og hlaut doktorsgráðu frá Oxford University, Christ Church College 1988. Guðrún var fyrirlesari um Halldór Laxness við University College í London 1990–1993, gegndi rannsóknarstöðu með aðstöðu á Stofnun Árna Magnússonar 1993–1996 og starfaði síðan sem fræðimaður við Stofnun Árna Magnússonar 1997–2001. Hún varð síðan dósent íslenskum miðaldabókmenntum við hugvísindadeild Háskóla Íslands og prófessor 2005. Hún varð forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 1. mars 2009. Helstu kennslusvið Guðrúnar eru íslenskar miðaldabókmenntir, Íslendingasögur, konungasögur, bókmenntafræði miðalda og Snorra-Edda, kveðskapur frá öndverðu til siðaskipta. Rannsóknarsvið hennar eru ritmenning íslenskra miðalda með megináherslu á ritun veraldlegra sagna og kveðskapar í ljósi bókmenntafræði miðalda. Helstu rannsóknarverkefni hennar síðustu misserin hafa verið dróttkvæði allt frá 9. öld til um 1400. Hún er einn fimm ritstjóra alþjóðlegrar heildarútgáfu á dróttkvæðum (Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages), og kom fyrsta bindið af níu út árið 2007. Hún ritstýrir þeim bindum sem geyma kveðskap í Íslendingasögum og í sögulegum verkum um Ísland. Sú útgáfa mun birtast í prentaðri og rafrænni gerð. Doktorsritgerð Guðrúnar frá Oxford University var um Sturlungu (útgefin árið 1998, "Ethics and action in Thirteenth-century Iceland"). Árið 2001 kom út rannsókn á dróttkvæðum og lærdómshefð 12. og 13. aldar ("Tools of Literacy"). Í bókinni er fjallað um Snorra-Eddu og málfræðiritgerðirnar, og hin fræðilega umræða í þeim verkum sett í samhengi við alþjóðlega strauma í bókmenntafræði sem og kveðskapariðkun og mikilvægi skáldskapar í samfélaginu. Guðrún er einn höfunda "Íslenskar bókmenntasögu" 1, Rvík 1992, (2. útg. 2006). Guðrún Nordal fékk íslensku fálkaorðuna 17. júní 2010. Maki Guðrúnar er Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt og eiga þau eina dóttur. Tilvitnun. „Dróttkvæðin eru einstakar heimildir um samtíma sinn og hafa ekki verið aðgengileg í greinargóðri og handhægri nútímaútgáfu... Bókmenntalegt gildi dróttkvæðanna er auðvitað óumdeilt... en kvæðin eru einnig mikilvægar heimildir um trúarviðhorf, hugmyndaheim, táknmál og skáldskaparhefð á fyrri tímum og nýtast því ýmsum ólíkum fræðasviðum.“ — Guðrún Nordal. Helstu rit. Guðrún hefur ritað fjölmargar greinar og bókakafla um bókmenntir og ritmenningu miðalda, sjá skrár Landsbókasafns. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1934. =Akureyri=. Kosið var 16. janúar. Töluverðar útstrikanir urðu á framboðslista Framsóknarflokksins. Brynleifur Tóbíasson, efsti maður listans, var strikaður svo mikið út að hann féll niður í þriðja sæti.. Steinn G. Steinsen var kjörinn bæjarstjóri. Hann gegndi embættinu í 24 ár, lengst allra, samfellt til ársins 1958. Katrín Pálsdóttir. Katrín Pálsdóttir (9. júní 1889 – 26. desember 1952) var borgarfulltrúi í Reykjavík og starfaði að ýmsum félags- og velferðarmálum. Ævi og störf. Katrín fæddist og ólst upp á Fróðholtshóli á Rangárvöllum. Hún giftist Þórði Þórðarsyni bónda og stunduðu þau búskap og annan atvinnurekstur víða á Suðurlandi, uns hann lést árið 1925. Að manni sínum látnum, flutti Katrín til Reykjavíkur þar sem hún lét mjög til sín taka á sviði félagsmála. Hún kom á fót sumardvalarheimili fyrir fátækar mæður í samstarfi við Laufeyju Valdimarsdóttur, sat í Mæðrastyrksnefnd og var um árabil varaformaður og síðar formaður Mæðrafélagsins. Katrín var virkur félagi í Sósíalistaflokknum. Hún var kjörin varaborgarfulltrúi í bæjarstjórnarkosningunum 1938 og sat sem bæjarfulltrúi frá 1942 til 1950. Björn Bjarnason (f. 1899). Björn Bjarnason (30. janúar 1899 – 19. janúar 1984) var verkamaður og borgarfulltrúi í Reykjavík frá 1934 til 1950. Ævi og störf. Björn fæddist á Höskuldsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu. Hann stundaði sjómennsku nyrðra á yngri árum, en fluttist til Reykjavíkur nærri þrítugur. Þar gerðist hann iðnverkamaður og varð einn af stofnfélögum Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið fram á elliár og lét einnig til sín taka á vettvangi Alþýðusambandsins. Hann var kjörinn bæjarfulltrúi fyrir Kommúnistaflokkinn árið 1934 og endurkjörinn fjórum árum síðar, en þá stóðu kommúnistar og Alþýðuflokksmenn að sameiginlegum framboðslista. Frá 1942 til 1950 sat Björn svo í bæjarstjórn fyrir Sósíalistaflokkinn. Skuggaþing. Skuggaþing er íslenskur umræðuvettvangur á Netinu, stofnaður af Gunnari Grímssyni. Rannsóknarnefnd flugslysa. Rannsóknarnefnd flugslysa er umboðsskrifstofa ríkisstjórnar Íslands. Tilgangur skrifstofunnar er að rannsaka flugslys og önnur flugatvik. Höfuðstöðvar hennar eru í Reykjavík. Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi er staðsett að Laufásvegi 21 og hefur verið þar síðan árið 1942 en var áður í Vonarstræti 4. Fyrsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi var Lincoln Mac Veag, en 30. september 1941 veitti ríkisstjóri honum móttöku í móttökusal ríkisstjóra í Alþingishúsinu. Mörg mótmæli hafa farið fram fyrir utan sendiráðið og nágrannar hafa iðulega kvartað yfir veru þess í hverfinu. Gaffall. Gaffall er mataráhald með handfangi og tindum á einum enda. Gaffall sem mataráhald hefur verið útbreiddastur á Vesturlöndum en á Austurlöndum fjær hafa matarprjónar verið algengari. Í dag eru gaflar miklu algengari í Austur-Asíu. Tilgangur gaflar er að lyfta mat að munninum eða halda honum föstum meðan hann er skorinn. Hægt er að lyfta mat með því að setja hann á tindana, eða stinga tindum í hann. Oft eru tindarnir lítið bognir. Til eru margs konar gaflar og þeir eru gerðir úr alls konar efnum, hin algengustu eru málmur og plast. Saga. Í Grikklandi hinu forna voru gaflar notaðir til að bera mat fram og mælt er um þá í Hebresku biblíunni. Samt sem áður voru gaflar ekki notaðir víða í Evrópu þar til 10. aldar. Rómaverjar notuðu gafla og mörg dæmi um þá eru sýnd í minjasöfnum um alla Evrópu, nokkur þeirra eru frá 2. aldar e.Kr. Áður en uppfinningur gaflar voru einustu mataráhöld hnífur og skeið. Því borðuðu flestir með höndunum og notuðu skeiðar aðeins þegar nauðsynlegt var. Þeir í aðlinum borðuðu stundum með tveimur hnífum og notuðu skeiðar til að borða súpur og seyði. Fyrstu gaflarnir voru með aðeins tveimur tindum en á skömmum tíma urðu gaflar með fleiri tindum vinsælir. Tindarnir á þessum göflum voru beinir og svo var ekki hægt að nota þá til að ausa mat upp. Þessa konar gaffall var áætlaður að halda t.d. kjöti föstu meðan á það var skorið, og var líka notaður til að stinga stykki af kjöti og hrista það af óæskilegri sósu eða öðrum vökva. Áður en 11. öld komst gaffall til Ítalíu og þar varð hann mjög vinsæll fyrr en 14. öld. Fyrir árinu 1600 höfðu báðar borgarastéttin og yfirstéttin byrjað að nota gafla. Það var talið kurteist að gestur kæmi með sinn eigin gafal sem var geymdur í lítlu boxi. Í Norður-Evrópu gekk upptaka gaflar miklu hægar. Thomas Coryat var sú fyrsti sem skýrði frá notkun gaflar á ensku í bindi frá skrifum sínum um ferðar sínar um Ítalíu (1611). Hann taldi gafalinn vera „ókarlmannleg“ tilgerð. Kaþólska kirkjan var sterklega á móti upptöku gaflar og taldi hann „óhóflegur fínleiki“. Ekki fyrr en 18. öld varð gafall vinsæll í Stóra-Bretlandi en samkvæmt sumum heimildum voru gaflar notaðir í Frakklandi, Englandi og Svíþjóð á 17. öld. Boginn gaffall eins og sá sem er nú notaður á meginhluta heims var þróaður í Þýskalandi á miðju 18 aldar. Hönnunin með fjórum tindum varð stöðluð á 19. öld. Á 20. öld var „skaffallinn“ hugsaður upp, það er að segja áhald sem er annar helmingur gaffall og hinn helmingur skeið. Með þessum nýjum skafli þarf aðeins eitt áhald til að borða (ef þarf ekki hníf). Bakhlið skaflar er skeiðarlöguð og þannig er hægt að ausa mat upp með honum. Skaffall er líka með stuttum tindum eins og gaffall sem má stinga mat með. Handhægt og auðvelt að nota er hann orðinn vinsæll á skyndibitastöðum og í hernum. Egon Friedell. Egon Friedell (fæddur Egon Friedmann) (21. janúar 1878 - 16. mars 1938) var austurískur heimspekingur, sagnfræðingur, blaðamaður, leikari, kabarettlistamaður og leikhúsrýnir. Hann er einna þekktastur fyrir listasögu sína sem hann nefndi: "Kulturgeschichte der Neuzeit" ("Menningarsaga nútímans") og kom út í þremur bindum á árunum 1927-1931. Thomas Mann taldi Egon Friedell vera einn af helstu stílistum þýskrar tungu. Spútnik 2. Spútnik 2 (rússneska: "Спутник-2") var sovéskt annað geimfar mannkynssögunnar á braut um Jörðu. Spútnik 2 var skotið á loft þann 3. nóvember, 1957 og innihélt tík sem hét Laíka. Farið sjálft var fjögurra metra hátt keilulaga hylki og um tveggja metra breitt þar sem það var breiðast. Þar var að finna hólf fyrir senditæki, fjarskiptasenda og -nema, forritunar-, endurnýjunar- og kælikerfi auk annarra vísindalegra áhalda. Annar innsiglaður klefi innihélt hundinn, Laíku. Upplýsingar voru sendar frá gervihnettinum Tral D fjarskiptakerfinu sem sendi gögn til Jarðarinnar í fimmtán mínútur hvers hrings umhverfis Jörðina. Tveir geislamælar voru um borð til þess að mæla geimgeislun, útfjólublátt ljós og röntgengeisla frá Sólinni. Yfirlit verkefnisins. Spútnik 2 var skotið á loft með ICBM R-7 eldflaug, ekki ósvipaðri þeirri sem notuð var til að skjóta á loft Spútnik 1. Sporbaugur gervihnattarins var 212 × 1660 kílómetrar og umferðatíminn 103,7 mínútur. Hluti eldflauganna sem notaðar voru til að koma geimfarinu á loft losnuðu ekki rétt frá sem olli því að hitajöfnunarbúnaður farsins skemmdist að hluta til svo hitinn reis upp í allt að 40°C. Laíka lifði af tæplega fjórar umferðir um Jörðina í stað þeirra tíu daga sem gert var ráð fyrir. Braut Spútnik 2 afmyndaðist smám saman og þann 14. apríl, 1958 fór farið inn í gufuhvolf Jarðarinnar eftir 162 daga í geimnum. Vatnabobbi. Vatnabobbar er lítill snigill með skel, en þeir eru stundum kallaðir lungnasniglar. Til eru tvær tegundir vatnabobba á Íslandi, það eru lóna- eða tjarnbobbi en hann er miklu elgeingari en dýjabobbi. Hann er útbreiddur í stöðuvötnum og tjörnum og einnig í mýrum hér á landi. Og hann er eitt af algengustu dýra í ferskvatni hér á landi. Þeir þola mikinn hita allt að 35°C. Vatnabobbar er mikilvæg fæða fyrir stærri dýr og fiska. Þeir halda sig við fast undirlag og skefur upp smáþörunga sem lifa utaná steinum. Sniglarnir eru um 11–22 mm á hæð en op kuðungsins er um 6–12 mm á breidd, en í köldum stöðuvötnum getur fullorðinn bobbi ekki orðið mikð lengri en 7 mm á lengd en í gróskumiklum tjörnum getur hann orðið a.m.k. 20 mm á lengd. Vatnabobbinn verpir eggjum sínum í slímhrúgur sem hann festur undir laufblöð vatnaplönturnar. Vatnabobbar eru líka algengir í Evrópu og finnast einnig í norðanverðri Afríku og í norðurhluta Asíu, til dæmis í Síberíu. Á Íslandi finnast einnig önnur tegundir þeirra ættkvíslar er tjarnabobbi. Fæða vatnabobba samanstendur af ásætuþörungum, gjarnan kísilþörungum, sem hann skefur upp með svo kallaðri skráptungu. Harold Urey. Harold Clayton Urey (fæddur 29. apríl 1893, dáinn 5. janúar 1981) var bandarískur efnafræðingur. Urey fæddist í Walkerton í Indiana í Bandaríkjunum. Hann er best þekktur fyrir uppgötvun sína á tvívetni og Miller–Urey tilraunina sem gekk út á að líkja eftir aðstæðum á Jörðinni fyrstu milljarð árin. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1934 fyrir uppgötvun hans á tvívetni Heimildir. Urey, Harold Spútnik 3. Spútnik 3 (rússneska: "Спутник-3") var sovéskt gervitungl sem skotið var á loft 15. maí 1958. Markmið verkefnisins var að rannsaka efri hluta lofthjúps Jarðarinnar. Saga. Í júlí árið 1956 hófust Sovétmenn handa við að hanna og byggja fyrsta gervitunglið sem kallast átti ISZ. Spútnik 3 átti upphaflega að vera fyrsti gervihnöttur Sovétmanna. Framkvæmdirnar við Spútnik 3 töfðust nokkuð svo Sergei Korolyov, verkefnisstjórinn, ákvað að skjóta á loft hinum einfalda gervihnetti, Spútnik 1, á undan Spútnik 3 vegna þess að Korolyov óttaðist að Bandaríkjamenn yrðu fyrstir þjóða til að koma á loft gervihnetti ef ekki væri inn í gripið. Á endanum var Spútnik 2 einnig skotið upp á undan Spútnik 3 og af þessari röð draga gervihnettirnir þrír nöfn sín. Það tók tvær tilraunir til að koma Spútnik 3 á loft. Sú fyrri fór fram þann 27. apríl 1958 en þá brotnaði eldflaugin eftir aðeins 88 sekúndur. Seinni tilraunin, þann 15. maí sama ár, tókst. Yfirlit verkefnisins. Spútnik 3 sem var 1.327 kg var skotið upp með R-7 Semyorka eldflaug, ekki ósvipaðri þeim sem notaðar voru við geimskot Spútnik 1 og 2. Farið sjálft var keilulaga, 3,57 meta langt og 1,73 metra breitt við grunninn. Braut farsins var 216 x 1863 kílómetrar og hallinn 65,3°. Spútnik 3 var sjálfvirkur vísindagervihnöttur sem safnaði upplýsingur um þrýsting og efnasamsetningu efri hluta lofthjúps jarðarinnar (Heið-, Mið- og hluta Hitahvolfsins). Einnig safnaði hann upplýsingum um fjölda hlaðinna öreinda, frumeindakjarna og ljóseindir í geimgeislum, raf- og segulsvið auk þess að leita eftir eindum úr loftsteinum. Upptökutækið um borð bilaði strax eftir geimskot og því var einungis hægt að safna upplýsingum frá geimfarinu þegar það var innan samskiptasvæða móttökustöðva Sovétmanna á Jörðinni. Þetta varð til þess að hið svokallaða Van Allen-belti var ekki uppgötvað af Sovétmönnum heldur Bandarísku gervihnöttunum Explorer 1 og Explorer 3. Þann 1. maí 1959 hætti Spútnik 3 að senda gagnlegar upplýsingar og brann upp í andrúmslofti Jarðar þann 6. apríl 1960. Geimferðastofnun Evrópu. Geimferðastofnun Evrópu eða ESA (enska: "European Space Agency") er geimferðastofnun sem stofnuð var árið 1975. Markmið stofnunarinnar er að rannsaka geiminn. Aðildarlönd ESA eru átján: Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Tékkland, Bretland, Belgía, Spánn, Sviss, Holland, Svíþjóð, Austurríki, Noregur, Danmörk, Finnland, Írland, Grikkland, Portúgal og Lúxemborg. Heimferð íslensku jólasveinanna. Heimferð íslensku jólasveinanna hefst eftir aðfangadag, samkvæmt ljóðinu „Jólasveinarnir“ í bókinni "Jólin koma" eftir Jóhannes úr Kötlum. Samkvæmt þeirri hefð sem ljóðið um jólasveinana þrettán byggist á, þá koma þeir til manna frá 12. desember og sá seinasti kemur á aðfangadag, 24. desember. Má af þessu ætla að á jóladag hafi fyrsti jólasveinninn, Stekkjastaur, lagt af stað aftur á fjöll. Svo einn af öðrum, uns sá síðasti, Kertasníkir, hverfur á braut á þrettándanum. Fullveldisdagurinn. Fullveldisdagurinn er svo nefndur til minningar um að þann 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag. Lítið var samt um hátíðahöld þegar upp á hann var haldið í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Katla gaus einnig frá 12. október til 4. nóvember og seint í október barst drepsótt sú sem kölluð var spánska veikin til landsins og létust hundruð manna. Loks brast á nýtt kuldakast þegar veikin stóð sem hæst og ekki þótti ráðlegt að hafa langa útisamkomu við þessar aðstæður. Fullveldisdagurinn sem þjóðhátíðardagur. Dagurinn varð þó ekki þjóðhátíðardagur þegar í stað. Fyrstu þrjú árin á eftir var nýi íslenski fáninn að vísu dreginn að hún sumstaðar og kennsluhlé gert í skólum eins og oft tíðkast enn. Árið 1921 var Fálkaorðan stofnuð og á þriðja og fjórða áratugnum var 1. desember oftast valinn til að sæma menn því heiðursmerki. Þá veitir þennan dag forseti Íslands afreksmerki lýðveldisins fyrir björgun úr lífsháska. Háskólastúdentar hófu hátíðarhöld á fullveldisdaginn á fyrstu árum þriðja áratugarins og héldu tryggð við daginn þegar 17. júní tók við sem þjóðhátíðardagur eftir lýðveldisstofnun 1944 og héldu því áfram til ársins 1960. Var upphaf þess fagnaður sá að árið 1921 minntust stúdentar þessa dags sem fæðingardags Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings og skálds og hófu samhliða því söfnun fjár í minningarsjóð hanns. Árið eftir, 1922, ákváðu stúdentar að halda 1. desember hátíðlegan sem þjóðminningardag og um leið hefja stórátak til fjársöfnunar fyrir byggingu stúdentagarðs. Fyrir utan hátíðarhöld stúdenta var þó lítið um viðburði þennan dag að öllu jöfnu. Samkomur voru mjög fátíðar í sveitum enda árstíminn illa til þess fallin við húsakost og samgöngur millistríðsáranna. Samkomur voru því einna helst í kaupstöðum og bar mest á því við Breiðafjörð og Vestfirði en einnig á Mið-Norðurlandi. Dagsins var mest minnst í skólum og samkomur haldnar í héraðsskólum eftir að þeir tóku til starfa kringum 1930. Nokkur dæmi eru einnig úr öllum landsfjórðungum að ungmennafélög í sveitum gengjust fyrir fullveldisfagnaði. Var víða litið á daginn líkt og sunnudag og reynt að hafa aðalmáltíðina í samræmi við það. Eftir stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 var það yfirleitt með hátíðardagskrá 1. desember. Almanak Þjóðvinafélagsins hefur löngum verið afar gætið við að bæta við nýjum almanaksdögum og í dagatali þess er fullveldisdagsins ekki getið fyrr en árið 1923 og þá orðað sem „Ísland sjálfstætt ríki 1918“. Það hélst til 1967 þegar orðið Fullveldisdagurinn var fyrst haft um 1. desember í almanakinu. Fullveldisdagurinn varð einn af opinberum fánadögum lýðveldisins með forsetatilskipun árið 1944. Sjaldnast er mikið um hátíðarhöld þennan dag í seinni tíð en oft er gefið frí í skólum. Spútnik 1. Spútnik 1 var fyrsta geimfar sem var sett á braut um jörðu. Sovétríkin skutu á loft geimfarinu þann 4. október 1957, frá Baikonor í Kasakstan. Spútnik 1 er kúlulaga með 58 cm þvermál, ásamt sendum sem voru 2.4 til 2.9 metra langir. Upphaf ferðarinnar og Spútnik verkefnisins var bókin Dreams of Earth and Sky, skrifuð af rússanum Konstantin Tsiolkovsky og útgefin árið 1885. Bókin sýndi fram á hvernig væri hægt að senda gervihnött á braut um jörðu. Christian Matras. Christian Matras var heiðraður með útgáfu á frímerki árið 1988. Christian Matras (7. desember 1900 á Viðareiði – 16. október 1988 í Þórshöfn) var færeyskur málfræðingur og skáld. Hann var fyrsti Færeyingurinn sem varð prófessor, og er ásamt William Heinesen (1900–1991), Jørgen-Frantz Jacobsen (1900–1938) og Heðin Brú (1901–1987) eitt af fjórum stærstu nöfnunum í færeysku menningarlífi á 20. öld. Æviferill. Ættarnafnið Matras er komið frá frönskum manni sem settist að í Færeyjum. Christian Matras fæddist árið 1900 í þorpinu Viðareiði á Borðoy nyrst í Færeyjum. Eftir barnaskólanám fór hann árið 1912 til Þórshafnar og var þar í unglingaskóla í bekk með Jørgen-Frantz Jacobsen og William Heinesen. Að loknu námi þar árið 1917 fór hann til Danmerkur og lauk stúdentsprófi í Sórey, 1920. Hann fór síðan í Kaupmannahafnarháskóla og nam þar norræn málvísindi. Hann dvaldist eitt misseri í Noregi þar sem hann kynnti sér norska ljóðagerð, sem hafði mikil áhrif á hans eigin skáldskap. Árið 1928 lauk hann meistaraprófi í málvísindum og loks doktorsprófi 1933 með ritgerð um færeysk örnefni. Frá 1936 starfaði Christian Matras við Háskólann í Kaupmannahöfn, og varð þar prófessor í málvísindum árið 1952. Hann var fyrsti Færeyingurinn sem gegndi prófessorsstöðu. Árið 1965 sneri Christian Matras aftur til Færeyja, þar sem hann veitti frá upphafi forstöðu færeysku deildinni í Fróðskaparsetri Færeyja. Hann var prófessor þar til ársins 1971 þegar hann fór á eftirlaun. Christian Matras dó 16. október 1988. Fyrr á sama ári, 6. júní 1988, hafði Postverk Føroya heiðrað hann með útgáfu á frímerki. Í október 2006 fengu göturnar í Viðareiði fyrst sérstök nöfn. Ein þeirra, "Kristjansgøta", ber nafn Christians Matrasar. Christian Matras hefur svipaða stöðu í færeysku menningarlífi og Jón Helgason prófessor hjá okkur Íslendingum, landskunnur fræðimaður í hinum þjóðlegu greinum og gott skáld. Nokkuð er til af íslenskum þýðingum á verkum hans, sjá skrár Landsbókasafns. Ritstörf. Christian Matras fékkst einkum við færeyskar bókmenntir, færeysk málvísindi og menningarsögu, og hann var einnig eitt fremsta ljóðskáld Færeyinga. Á námsárum sínum hóf Matras að vinna að færeysk-danskri orðabók, sem kom út 1927–1928, og var í áratugi eina orðabókin sem völ var á um færeyska tungu. Meðhöfundur var Mads Andreas Jacobsen (1891–1944). Nefna má tvö verk sem Christian Matras gaf út og eru áhugaverð fyrir málsögu Færeyinga: Annars vegar "Dictionarium Færoense", færeysk orðabók eftir Jens Christian Svabo, sem hafði verið óútgefin í handriti í um 200 ár. Hins vegar "Matteusarguðspjall" í færeyskri þýðingu Johans Henriks Schrøters. Báðir voru þeir brautryðjendur við mótun færeysks ritmáls, en notuðu hljóðrétta stafsetningu, sem hefur ekki unnið sér sess. Hið mikla verk "Føroya kvæði: corpus carminum Færoensium" (CCF), sem Svend Grundtvig og Jørgen Bloch höfðu safnað saman á 19. öld, er sígild grundvallarútgáfa á færeyskum danskvæðum. Í verkinu er saman kominn meginhluti þeirra danskvæða sem Færeyingar varðveittu í munnlegri geymd fram á 19. öld og tókst að bjarga frá glötun með skrásetningu. Verkið er í sjö bindum með skýringum á þýsku. Matras var fenginn til að fara yfir flestar námsbækur sem komu út í færeyjum á 4. áratugnum, og átti þannig þátt í að móta færeyskt ritmál. Hann samdi einnig fyrstu færeysku bókmenntasöguna. Þegar hann sneri aftur til Færeyja, 1965, hafði hann meðferðis mikið seðlasafn með drögum að færeyskri orðabók. Unnið var að henni næstu árin og kom hún út 1998 í ritstjórn Jóhans Hendrik Winther Poulsen. Þetta er færeysk-færeysk orðabók með um 65.700 uppflettiorðum. Lagrange-punktur. Staðsetning Lagrange-punkta. Bláar örvar tákna jafnvægi krafta og rauðar tákna ójafnvægi. Lagrange-punktar fimm og fjögur eru mjög stöðugir, á meðan hinir þurfa sífellt að vega á móti kröftunum sem vega ofan og neðan á þá. Lagrange-punktar nefnast punktar í þyngdarsviði þar sem að aðdráttarkraftar tveggja massa eru jafnstórir, en með gagnstæðar stefnur þ.a. enginn nettó þyngdarkraftur verkar á hlut í punktunum. Stærðfræðingurinn Joseph-Louis Lagrange fann þessa punkta, sem eru nefndir eftir honum. Lýsing á þeim birtist í riti hans (enska: "Three body problem") sem kom út árið 1772. Kenningar Jóhannesar Keplers segja að því minni sem sporbaugur reikistjörnu er, því hraðar ferðast hún eftir braut sinni. Lagrange bætti við hinsvegar, að sé hlutur staðsettur í vissum punkti bæði í þyngdarsviði sólar og plánetu, þá jafnist kraftarnir og ferð hlutarins sé þá jöfn hraða plánetunnar. Fimm Lagrange-punktar eru umhverfis sporbaug plánetunnar. "Fyrsti punkturinn" er fyrir framan plánetuna. Í þeim punkti togar sólin sterkt í hlutinn en plánetan heldur aftur af sólinni og fær hlutinn til þess að ferðast hægar um sporbaug. Punkturinn er tilvalinn til þess að fylgjast með sólinni. Fjarlægð Lagrange-punkts nr. 2 frá jörðu "Annar punkturinn" er fyrir aftan plánetuna. Í þeim punkti togar sólin veikt í hlutinn, en plánetan bætir upp þyngdarkraftinn og fær hlutinn til þess að ferðast hraðar um sporbaug. Punkturinn er í hvarfpunkti við sólu og er því tilvalinn fyrir geimsjónauka. "Þriðji punkturinn" er andspænis plánetunni á sporbaugi hennar. Samspil krafta plánetunnar og sólarinnar gera það að verkum að hluturinn ferðast á sama hraða og plánetan. "Fjórði og fimmti punkturinn" liggja 60 gráður fyrir aftan eða á undan plánetunni á sporbaug sínum. Á þeim punktum togar sólin jafnt á hlutinn eins og á plánetuna. Bæði plánetan og hluturinn ferðast á sama hraða. Wind (geimfar). Geimfarið Wind er hluti af alþjóðlegu verkefni sem rannsakar geislun í sólkerfinu okkar. Geimfarinu var skotið á loft af Bandaríkjamönnum 1. nóvember 1994. Í nóvember 1996 var geimferjan komin á Lagrange Punkt númer eitt og fylgdist með sólarvindum. Vegna staðsetningar sinnar, beint fyrir framan jörðina gat það gefið viðvaranir um sólarvinda með eins klukkutíma fyrirvara. Á árunum 1998-2003 færði geimferjan sig hinum megin við sólina, í Lagrange punkt númer þrjú, en færði sig einu ári síðar aftur á sama stað. Golfklúbburinn Mostri. Golfklúbburinn Mostri er golfklúbbur í Stykkishólmi. Hann var stofnaður 13. nóvember 1984. Völlur félagsins heitir Víkurvöllur. Félagið stafrækir golf- og körfuboltadeild. Golfdeild. 1988 var klúbbnum úthlutað landsvæði í miðri byggð Stykkishólms. 2000 keypti klúbburinn kennsluhúsnæði af Fjölbrautarskóla Vesturlands og breytti í klúbbhús. Skálinn var vígður 2001. Körfuknattleiksdeild. 2012 lenti lið körfuknattleiksdeildar Mostra í efsta sæti A-riðils 2. deildar karla. Félagið leikur sína heimaleiki í "Fjárhúsinu", Stykkishólmi. Heimabúningur þeirra er bleik og svört skyrta með svörtum og bleikum stuttbuxum. Þjálfari liðsins er Gunnlaugur Smárasson. Tenglar. Mostri Martti Ahtisaari. Martti Oiva Kalevi Ahtisaari (f. 23. júní, 1937) er finnskur stjórnmálamaður og alþjóðlegur samningamaður. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2008 „fyrir mikilvægar tilraunir sínar, í nokkrum heimsálfum og í meira en þrjá áratugi, við að leysa úr ágreiningi á alþjóðavettvangi“. Ahtisaari gegndi embætti forseta Finnlands á árunum 1994-2000. Tilvísanir. Ahtisaari, Martti Sæfíflar. Sæfíflar (fræðiheiti: "actiniaria") eru frumstæð fjölfruma sjávardýr af ættbálki ósamsettra kóraldýra. Ólíkt öðrum kóraldýrum lifir hver sæfífill út af fyrir sig en ekki í sambúum eins og önnur kóraldýr. Þekktar eru um 6000 tegundir sæfífla og eru þeir tegundaauðugasti undirhópur holdýra. Allt að tveir þriðju allra holdýra eru sæfíflar. Lifnaðarhættir. Þeir finnast á grunnsævi og allt niður á 5000 metra dýpi. Aðallega lifa þeir í hlýjum sjó og eru oft ákaflega litskrúðugir og eins mjög misstórir. Stærstur þeirra sem dæmi, Risasæfífillinn ("stichodactyla mertensii"), getur orðið allt að 1,25 metrar að lengd og er hann jafnframt stærsta núlifandi holdýrið. Þeir festa sig við sjávarbotninn eða aðra fasta hluti og geta þá sveigt og beygt líkaman. Líkamsbyggingu þeirra er þannig að þeir minna helst á upprétt blóm, en af því draga þeir nafn sitt, en það sem minnir á blóm er fjöldi arma eða anga í kringum eitt munnop, sem jafnframt gegnir hlutverki úrgangslosunar. Fjöldi armana er yfirleitt margfeldi af tölunni 6, eins og 12 eða 18 sem dæmi. Á hverjum armi eru stingfrumur líkt og hjá marglyttum og með þeim veiða þeir og eru það einkum smáfiskar sem þeir veiða. Þeir grípa þá fiskinn með örmunum, drepa hann með stingfrumunum og nota svo armana til að flytja bráðina að munnopinu. Mörg dýr lifa einnig á sæfíflum, meðal annars fiskar og margar tegundir sæsnigla. Ef þeir verða fyrir árás draga þeir að sér armana og loka munnopinu. Sæfíflar fjölgað sér bæði með kynæxlun og kynlausri æxlun. Við kynæxlun dæla þeir kynfrumum út í sjóinn og frjóvgun þeirra verður þar. Okfruman þroskast síðan í lirfu sem festir sig við hafsbotninn og þroskast þar sem nýr sæfífill. Við kynlausa æxlun aftur á móti myndast nýr einstaklingur með einskonar knappskoti og er afsprengið þá með nákvæmlega sama erfðaefni og hinn fyrri. Ramekin. Ramekin er lítið eldfast mót sem tekur einn skammt og er oft notað þegar menn gera crème brulee ("sviðin rjóma") og aðra sambærilega rétti. Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun er sjálfstæð opinber stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Hlutverk stofnunarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu fyrir hönd Alþingis með endurskoðun ríkisreiknings og reikninga ríkisaðila, og stuðla með öðrum hætti að hagkvæmari nýtingu almannafjár. Ríkisendurskoðun starfar samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun nr. 86/1997. Forsætisnefnd Alþingis skipar yfirmann stofnunarinnar, ríkisendurskoðanda, til sex ára. Núverandi ríkisendurskoðandi er Sveinn Arason og er hann skipaður ríkisendurskoðandi árin 2008-2014. Starfi Ríkisendurskoðunar lýkur jafnan með skýrslu sem send er til Alþingis og er einnig gerð opinber. Sérstök lög voru fyrst sett um Ríkisendurskoðun árið 1987 og var hún þá færð undir Alþingi. Áður, frá 1969 hafði Ríkisendurskoðun verið deild í fjármálaráðuneytinu. Listi yfir forseta Finnlands. Tenglar. Finnlandsforsetar Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, útskurður eftir Hans Peter Hansen. Sveinbjörn Sveinbjörnsson (28. júní 1847 – 23. febrúar 1927) var íslenskt tónskáld sem er best þekkt fyrir að hafa samið þjóðsöng Íslands, "Lofsöng". Sveinbjörn fæddist á Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Faðir hans var Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari í Landsyfirréttinum. Móðir Sveinbjarnar var Kirstín Katrín, dóttir Lars Mikael Knudsens, dansks verslunarstjóra og síðar kaupmanns í Reykjavík. Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Kosningar til borgarstjórnar í Reykjavík voru fyrst haldnar í sveitarstjórnarkosningunum 1962 eftir að Reykjavík tók sér borgarheiti. Frá 1836 til 1958 var kosið til bæjarstjórnar í Reykjavík. 1962. Sveitarstjórnarkosningarnar 1962 fóru fram 26. maí. 1966. Sveitarstjórnarkosningarnar 1966 fóru fram 21. maí. 1970. Sveitarstjórnarkosningarnar 1970 fóru fram 31. maí. 1974. Sveitarstjórnarkosningarnar 1974 fóru fram 26. maí. Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur í kosningunum, hlaut tæplega 58% atkvæða. Sameiginlegt framboð Alþýðuflokks og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna beið hins vegar afhroð. Framboðið hlaut færri atvkæði en SFV höfðu hlotið fjórum árum fyrr og mun færri en Alþýðiflokkurinn einn og sér i þeim kosningum. 1978. Sveitarstjórnarkosningarnar 1978 fóru fram 27. maí. Stjórn Sjálfstæðisflokksins féll í kosningunum og við tók þriggja flokka stjórn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. 1982. Sveitarstjórnarkosningarnar 1982 fóru fram 22. maí. Borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 í 21 fyrir þessar kosningar, en strax við næstu kosningar var þeim fækkað aftur niður í fyrri tölu. 1986. Sveitarstjórnarkosningarnar 1986 fóru fram 31. maí. Borgarfulltrúum var fækkað á ný úr 21 í 15. 1994. Sveitarstjórnarkosningarnar 1994 fóru fram 28. maí. R-listinn, sameiginlegt framboð Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Frasmóknarflokks og Kvennalista bauð fram og náði meirihluta. Kolefnishlutleysi. Kolefnishlutleysi á við þegar vegið er á móti útblæstri í andrúmslofti jarðar. Leitast er eftir að jafna eða hlutleysa mengunina með öðrum aðgerðum eins og til dæmis skógrækt. Þessar aðgerðir vega á móti koltvísýringi og öðrum gróðurhúsaloftegundum. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1930. =Akureyri=. Þessar bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri fóru fram 14. janúar. Kosið var eftir nýjum lögum. Bæjarfulltrúar skyldu vera ellefu talsins og kosið um þá alla í einu á fjögurra ára fresti. Reykjavík. Þessar Bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík fóru fram 26. janúar. Óháðir bindindismenn. Óháðir bindindismenn var óformlegt heiti á framboði bindindismanna við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík árið 1962. Listinn hlaut tæplega 900 atkvæði eða um 2,5% greiddra atkvæða og var langt frá því að fá kjörinn borgarfulltrúa. Framboð bindindismanna átti skamman aðdraganda. Í byrjun árs 1962 sendi hópur áhugafólks um bindindismál erindi til allra stjórnmálaflokkanna þar sem farið var fram á að yfirlýstir bindindismenn yrðu í öruggum sætum, en að öðrum kosti yrði blásið til sjálfstæðs framboðs. Erindið hlaut dræmar undirtektir. Framboðslisti var kynntur um mánuði fyrir kosningar. Í efsta sæti var Gísli Sigurbjörnsson forstjóri eilliheimilisins Grundar. Þar á eftir komu Benedikt Bjarklind stórtemplar, frú Sigþrúður Pétursdóttir og Loftur Guðmundsson rithöfundur. Stefnuskrá framboðsins snerist nær envörðungu um bindismál. Þar var þess krafist að borgarstjórn hætti að bjóða upp á vínveitingar í veislum, að hömlur á sölu áfengis væru auknar, fjárstuðningur til bindindissamtaka og að reist yrði ofdrykkjumannahæli. Framboðið naut ekki formlegs stuðnings Góðtemplarahreyfingarinnar og lögðu málgögn Sjálfstæðisflokksins ríka áherslu á að eðlilegra væri að bindindismenn fylktu sér á bak við Sjálfstæðismenn. Ekki varð framhald á starfsemi Óháðra bindindismanna að kosningunum loknum. Flokkunarhatturinn. Flokkunarhatturinn er töfrahattur úr sögunum um Harry Potter eftir J.K. Rowling. Hatturinn sér um að flokka nýnema Hogwartsskóla í heimavistirnar fjórar: Gryffindor, Ravenclaw, Hufflepuff og Slytherin. Norman Borlaug. Norman Ernest Borlaug (25. mars 1914 – 12. september 2009) var bandarískur landbúnaðarverkfræðingur, mannvinur og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hann hefur verið nefndur „faðir grænu byltingarinnar“. Borlaug lauk doktorsgráðu í plöntusjúkdómum og erfðafræði frá Háskólanum í Minnesota árið 1942. Hann tók til starfa í rannsóknum í Mexíkó, þar sem hann þróaði hveitiafbrigði sem voru vel varin sjúkdómum og höfðu mun betri nyt en önnur afbrigði. Um miðja 20. öldina kom hann ræktun þessara afbrigða í gang í Mexíkó, Pakistan og Indlandi með þeim afleiðingum að fæðuræktun í þessum löndum stórjókst og fæðuöryggi þeirra stórbatnaði. Þessi aukning í fæðuframboði hefur verið nefnt Græna byltingin og Borlaug er oft eignað að hann hafi bjargað yfir milljarði manna frá hungurdauða um allan heim. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1970 í þakkarskyni fyrir að hafa stuðlað að friði í heiminum með öruggara fæðuframboði. Seinna á lífsleiðinni einbeitti hann sér að því að auka fæðuframboð í Asíu og einkum Afríku. Heimildir. Borlaug, Norman Borlaug, Norman Borlaug, Norman Núllsummuleikur. Núllsummuleikur eða jafnvirðisleikur er leikur í leikjafræði þar sem samanlagður hagnaður og tap allra þátttakenda jafngildir núlli. Sigfús Sigurhjartarson. Sigfús Annes Sigurhjartarson (6. febrúar 1902 – 15. mars 1952) var stjórnmálamaður og einn af helstu foringjum íslenskra sósíalista á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Sigfús fæddist á Urðum í Svarfaðardal og var yngst barna Sigurhjartar Jóhannessonar og seinni konu hans Friðriku Sigurðardóttur. Sigfús lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1928. Að útskrift lokinni sinnti hann kennslu við ýmsar skólastofnanir. Hann var einn af stofnendum Sósíalistaflokksins og varaformaður frá stofnun hans árið 1938. Sigfús var kjörinn bæjarfulltrúi í Reykjavík árið 1942 og sat í bæjarstjórn til dauðadags. Í vorkosningunum 1942 varð hann landskjörinn þingmaður og í haustkosningunum sama ár var hann kjörinn þingmaður Reykjavíkur og sat sem slíkur til 1949. Sigfús skrifaði mikið í Þjóðviljann og var lengi einn af ritstjórum hans. Hann var handtekinn ásamt félögum sínum í ritstjórn blaðsins af bresku herstjórninni á stríðsárunum og sat um hríð í bresku fangelsi vegna skrifa sinna í Þjóðviljann. Ræðu- og ritgerðasafn Sigfúsar Sigurhjartarsonar, "Sigurbraut fólksins", kom út að honum látnum árið 1953. Ari Teitsson. Ari Teitsson (f. 1943) er bóndi í Þingeyjarsýslu og var kosinn til stjórnlagaþings. Hann var formaður bændasamtaka Íslands árið 1995. Menntun / starfsreynsla. B.Sc. próf í búvísindum frá Hvanneyri 1973. Sauðfjárbóndi frá 1973. Héraðsráðunautur og mjólkureftirlitsmaður 1973-1995, í hlutastarfi sem ráðunautur frá 2005. Formaður Bændasamtaka Íslands 1995-2004. Stjórnarformaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga frá árinu 1990. Víðtæk reynsla af félagsmálastörfum. Arnfríður Guðmundsdóttir. Arnfríður Guðmundsdóttir er prófessor í trúfræði frá Kópavogi og var kosinn til stjórnlagaþings. Kjartan Þór Ragnarsson. Kjartan Þór Ragnarsson (5. desember 1974) er íslenskur tannlæknir og fyrrum formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Kjartan er af miklum Fram-ættum og hafa ýmsir ættingjar hans gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið. Langafi hans, Ragnar Lárusson, var formaður félagsins um 1940 og faðir hans, Ragnar Steinarsson tannlæknir, var lengi varaformaður Fram. Kjartan er náfrændi Steinars Þórs Guðgeirssonar, formanns Fram 2007-2010. Á unglingsárum æfði Kjartan handknattleik og knattspyrnu með fram. Hann var formaður handknattleiksdeildar félagsins 2005-2007, en á þeim tíma vann Fram sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki karla frá árinu 1972. Árið 2010 tók Kjartan við formennsku í Knattspyrnufélaginu Fram en lét af embætti á aðalfundi árið 2012. CAC 40. CAC 40 er hlutabréfavísitala sem samanstendur af 40 hlutabréfum í jafnmörgum fyrirtækjum sem skráð eru á Euronext Paris. Sean Connery. Sean Connery (fæddur 25. ágúst 1930) er skoskur leikari og kvikmyndaframleiðandi. Hann er þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk James Bond í sjö myndum milli áranna 1962 og 1983. Connery, Sean Listi yfir forseta Frakklands. Í september 1792 var Frakkland lýst lýðveldi og konungsveldið afnumið. Í tíð fyrsta lýðveldis Frakklands (1792-1804) var hins vegar ekki stofnað forsetaembætti og það var hins vegar ekki fyrr í tíð annars lýðveldis Frakklands (1848-1852) sem embætti forseta var stofnað í Frakklandi. Fyrsti maðurinn til að gegna því var Louis-Napoléon Bonaparte. Fimmta lýðveldi Frakklands (1958-). Frakklandsforsetar Listi yfir forsætisráðherra Svíþjóðar. Þetta er listi yfir forsætisráðherra Svíþjóðar síðan 1905. Svíþjóð forsætirsráðherrar Julian Assange. Julian Assange (fæddur 1971) er ástralskur blaðamaður, aðgerðasinni og tölvurefur. Assange er þekktastur fyrir það að vera talsmaður og aðalritstjóri Wikileaks. Julian Assange fæddist í Townsville, Queensland, Ástralíu, bjó meginhluta æskuára sinna á Magnetic Island, en fluttist eftir það mjög víða um Ástralíu og nam við marga grunn- og háskóla. Hann var meðhöfundur bókarinnar "Underground" ásamt Suelette Dreyfus um undirheima internetsins. Í undirheimum internetsins var hann þekktur undir heitinu "mendax" og var þekktur fyrir að geta skurkað sig inn á flóknustu öryggiskerfi heims. Ein af höfuðreglum hans, sem hann nefnir í bókinni "Underground", var að skemma aldrei þau tölvukerfi sem hann brýst inn í. Í september 1991 skurkaði hann sig inná stjórnstöð kanadíska fjarskiptafyrirtækisins Nortel. Í dómsúrskurðinum segir dómarinn um ástæðu brotsins: "Það eru engar sannanir fyrir öðru en þarna væri á ferðinni þorsti fyrir þekkingu og nautnin við að geta vafrað um mismunandi tölvur". Niðurstaða dómsins var að greiða ríkinu litla upphæð í skaðabætur. Assange var handtekinn í Lundúnum þann 7. desember 2010 vegna ásakana um kynferðisbrot. Hann var leystur úr haldi 16. desember 2010 gegn 240.000 punda tryggingu. Miðnesheiði (heiði). Miðnesheiði er heiði á Reykjanesskaga. Árið 1951 gerðu Íslendingar verndarsamning við Bandaríkin sem fól í sér aðsetu bandaríska hersins á Íslandi. Á Miðnesheiði við Keflavík reis um 5000 manna byggð þar sem flestir hermennirnir komu sér fyrir, eins konar bandarískt þorp á Íslandi. Þorskalýsi. Þorskalýsi er brædd þorskalifur sem inniheldur A-vítamín, D-vítamín og ómega-3 fitusýrur. Strike Commando 2. "Strike Commando 2" er ítölsk kvikmynd frá árinu 1988 í leikstjórn Bruno Mattei. Þrettándinn. Þrettándinn er 6. janúar og er stytting á "þrettándi dagur jóla" og er almennt kallaður síðasti dagur jóla. Upphaflega hét hann opinberunarhátíð meðal Rómarkirkjunar og hefur verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum. Hann var talin fæðingardagur Krists, áður en sú trú fluttist yfir á 25. desember. Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar þann 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar. Formlega var ákveðið með það fyrirkomulag árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi. Uppruni dagsins. Í Biblíunni stendur hvergi hvenær Kristur fæddist og fyrir fyrstu kristnu söfnuðina fyrir botni Miðjarðarhafs var fæðingin þeim ekki talin eins mikils virði og skírnin og þó sérstaklega dauðastundin þegar menn fæddust til hins eilífa lífs, enda er dauðdagi Jesú Krists tímasettur í Biblíunni mjög nákvæmlega. Um tveim öldum eftir áætlaða fæðingu Krists tóku kristnir menn samt að velta fæðingardegi hanns fyrir sér. Fyrsti fæðingardagurinn sem menn komu sér saman um, var 6. janúar samkvæmt rómversku tímatali (júlíanska tímatalinu). Þarna, eins og með marga aðra daga kirkjunnar, tóku þeir yfir eldri tyllidag en 6. janúar hafði tengst flóðunum í Níl frá fornu fari. Hann var nefndur Opinberunarhátíð (Epiphania) en sagt var að Jesús hefði opinberast á fjóra vegu: við fæðinguna, tilbeiðslu vitringanna, skírnina í ánni Jórdan og brúðkaupið í Kana þegar hann framdi fyrsta kraftaverkið. Þegar kristni var gerð að ríkistrú í Rómarveldi, seint á 4. öld, ákváðu þau að gera skammdegishátíð sína að fæðingardegi Jesú Krists. Það var sólhvarfadagurinn, sem hét formlega „dagur hinnar ósigrandi sólar“ (l. dies natalis Solis invicti). Sólhvörfin færðust til í júlíanska tímatalinu en á þessum tíma (4.öld) bar þau upp á 25. desember. Kirkjan hófst nú handa við að réttlæta þessa ákvörðun sína um tilfærslu dagsins meðal annars með því að segja að Jesú Kristur væri hin eina sanna sól sem hefði sigrað dauðann og hefði hann sjálfur sagst vera ljós heimsins. Þrettándinn á Íslandi. Fram til ársins 1770 hvíldi á þrettándanum helgi og var hann almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður, sem og þriðji í jólum sem einnig hafði verið helgi-og frídagur og minnkaði við það mikið allt tilstand á þessum degi. Hérlendis hefur þrettándinn öðru fremur verið lokadagur jóla en eftir tímatalsbreytinguna árið 1700 munaði ekki miklu að hann bæri upp á sama dag og jólin hefðu annars byrjað samkvæmt gamla tímatalinu. Íslendingar undu því illa að færa jólin til með þessarri tímatalsbreytingu og var til dæmis í fyrsta almanakinu eftir tímatalsbreytinguna, sem Jón Árnason skálholtsbiskup gaf út 1707, sjö árum eftir breytinguna, merkt við 5. janúar sem „jóladagurinn gamli“ og var hann alveg fram um 1900 kallaður „gömlu jólin“. Sá ruglingur sem tímatalsbreytingin olli kann að valda því að sagnir, þjóðtrú og siðir um þrettándann, jól og nýársnótt svipar oft saman, sagnir eins og að kýr öðlist mannamál, selir kasti hamnum, að gott sé að sitja á krossgötum, leita spásagna og um vistaskipti álfa og huldufólks. Á þrettándanum fer Kertasníkir, síðastur jólasveina, frá mannabyggðum aftur til fjalla og þar með lýkur jólunum. Algengt var að gera sér dagamun í lok jóla og einnig var þrettándinn einskonar varadagur fyrir útiskemtanir ef veður brást um áramót. En nær eini siðurinn sem tengist þrettándanum í dag, eru útiskemtanir með brennu, dansi og söng. Þar koma fram álfar, tröll, jólasveinar og aðrir slíkir. Fólk kemur saman við brennuna með kyndla, skýtur upp síðustu flugeldunum frá áramótunum og syngur saman áramóta og álfasöngva. Geisladagur. Þrettándin átti sér áttund ("octava") eins og aðrar stórhátíðir, það er þann dag sem var átta dögum síðar eða 13. janúar og hét sá dagur "geisladagur," í latneskum kirkjubókum, "Octava Epiphanie Domini." Elsta heimild um nafnið geisladagurdaginn er frá 14. öld. Þrettándinn var upphaflega minningardagur um skírn Krists og almennur skírnardagur fullorðinna í austurkirkjunni og þar kenndur við ljós og sennilegast er að íslenska nafnið sé þaðan komið en einnig gæti nafnið tengst betlehemstjörnunni þar sem þrettándinn er tengdur austurlandavitringunum.. Hætt var að halda upp á hann fyrir mörgum öldum en enn er haldið upp á hann í Svíþjóð, sænskumælandi hluta Finnlands og hluta af Noregi og þar kallast hann "Tjugondedag jul" eða 20. dagur jóla, einnig nefndur "Knutdagen" eða Knúts dagur og er sænskur nafnadagur. Heilagur Knútur sem dagurinn er þar kenndur við var danskur prins, Knut Lavard, sem var drepinn árið 1131. Kerti. Kerti eru misbreiðir sívalningar úr steríni, vaxi eða tólg með kveik eða raki í miðjunni sem loginn rís upp af. Nútildags eru flest kerti gerð úr paraffíni, en sum eru úr bývaxi, sojabaunum eða jurtum. Einnig eru til „gelkerti“ sem eru gerð úr blöndu af vaxi og plasti. Kerti eru almennt látin standa í kertastjökum, undirskálum eða ljósakrónum, en ljósakróna fyrir kerti nefnist "kertahjálmur". Sá sem steypir kerti nefnist "kertasteypari" eða "kertagerðarmaður". Þegar kveikt er á kerti með eldspýtu eða kveikjara breytist vaxið í gufu. Þegar það gerist sameinast það súrefninu í loftinu og logi myndast. Þessi logi gefur nægan hita til að kertið haldi áfram að brenna, gerist það þannig: Vaxið bráðnar, vaxið smitast upp eftir kveikinum að loganum með hárpípukrafti, vaxið brennur í loganum. Við það að brenna styttist kertið. Sá hluti kveiksins sem gefur ekki eldsneyti frá sér brennur í loganum. Þannig er lengd kveiksins takmörkuð og kertið brennur upp með jöfnum hraði. Stundum er nauðsynlegt að klippa kveikinn með skærum ef hann brennur ekki vel í loganum. Áður fyrr og snemma á 20. öld fengust sérstök skæri til þess að klippa kveikinn. Þau gengu undir ýmsum nöfnum eins og "skarbítur" eða "kertaskæri". Áður en rafmagn varð almennt var kertið helsti ljósgafinn. Nú á dögum eru flest kerti notuð til skreytingar. Ungmennafélag Tálknafjarðar. Ungmennafélag Tálknafjarðar, skammstafað UMFT, er íslenskt íþróttafélag á Tálknafirði sem er á sunnanverðum Vestfjörðum. Eldspýta. Eldspýta er lítil viðarspýta með eldfimu efni á öðrum endanum sem er notuð til að kveikja eld, t.d. til að láta loga á kerti, í sígarettu eða öðru. Eldspýtur flokkast til eldfæra, rétt eins og kveikjari, eldjárn og bragðalur. Fyrstu eldspýturnar sem fluttust til Íslands komu seint á 19. öld og voru seldar í litlum renndum trébaukum. Yfirleitt eru eldspýtur seldar í stokk (þ.e. "eldspýtustokk") eða eldspýtnabréfum, en hinar síðarnefndu eru oftar en ekki gerðar úr þykkum pappír. Þegar eldspýta er dregin yfir ákveðið yfirborð er það núningskrafturinn sem myndar varma sem kveikir loga á eldenda spýtunnar. Sá endi inniheldur yfirleitt annaðhvort fosfór eða eitthvert efnasamband hans, auk matarlíms sem virkar sem bindiefni. Til eru tvær aðaltegundir eldspýtna: þær sem kviknar á þegar þeim er skrunað eftir hvaða grófu yfirborði sem er og svo þær sem skrunað er upp við ákveðið efnafræðilegt yfirborð. Talið er að Martialis skáld, sem upp var á tímum Rómaveldis hafi nefnt eldspýtur í ritum sínum, en það voru eldspýtur sem innihéldu brennistein. Forverar nútímaeldspýtunnar voru litlar spýtur úr furuviði, lagðar brennisteini og voru fundnar upp í Kína árið 577 e.Kr. Fyrsta sjálfkviknandi eldspýtan var aftur á móti fundin upp árið 1805, en það gerði aðstoðarmaður Louis Jacques Thénard prófessors. Endi hennar innihélt blöndu af kalíumklórati, fosfóri, sykri og gúmmí. Kveikt var á þeim með því að dýfa þeim í brennisteinssýru í asbestflösku. Eldspýtur þessar voru þó dýrar og hættulegar, þannig voru þær aldrei mjög vinsælar. Fyrsta „núningseldspýtan“ var fundin upp árið 1826 af enska efnafræðingnum John Walker. Hann uppgötvaði að hægt væri að kveikja í blöndu af antimoni, kalíumklórati, gúmmí og mjölva með því að draga því í föstu formi eftir grófu yfirborði. Þessum eldspýtum fylgdu þó ýmis vandamál, m.a. ofsalegt efnahvarf og óþægileg lykt þegar kveikt var í þeim. Stundum kviknaði líka á þessum eldspýtum með sprengingu sem varpaði neistum í allar áttir. Libra. Libra ehf er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur verið leiðandi í þróun og framleiðslu hugbúnaðar fyrir íslenskan fjármálamarkað frá árinu 1996. Fyrirtækið er með starfstöðvar í Kópavogi þar sem starfa um 30 manns og á Akureyri er 5 manna starfsstöð.. Helstu vörur fyrirtækisins, Libra Loan og Libra Securities, eru í notkun hjá flestum fyrirtækjum og stofnunum á íslenskum fjármálamarkaði. Bakgrunnur Libra. Libra á rætur að rekja til fjármáladeildar TölvuMynda, síðar TM Software, allt til ársins 1996. Deildin var rekin sem sjálfstæð eining innan TölvuMynda þar til um áramótin 2000/2001 þegar stofnað var dótturfyrirtækið Fjármálalausnir ehf. og Ólafur Jónsson, stjórnandi fjármáladeildar, var ráðinn framkvæmdastjóri þess. Ári síðar var nafninu breytt í Libra með þeim tilgangi að kenna fyrirtækið við aðalvöru þess auk þess sem Þórður Gíslason tekur við starfi framkvæmdastjóra, en hann hafði leitt vöruþróun frá upphafi. Í byrjun árs 2006 seldi TM-Software Libra til norrænu kauphallarinnar OMX og fékk nafnið OMX Technology á Íslandi, síðar OMX Banks and Brokers á Íslandi og loks OMX Broker Services á Íslandi. Við þessi eigendaskipti fer Þórður til OMX Broker Services í Stokkhólmi og Jón Páll Jónsson tekur við framkvæmdarstjóra OMX Broker Services á Íslandi. 2008 sameinuðust Nasdaq Kauphöllin í New York og OMX og við það var nafninu breytt í Nasdaq OMX Broker Services á Íslandi. Í mars 2009 seldu Nasdaq OMX til innlendra fjárfesta. Nafnið Libra var tekið upp á ný auk þess sem Þórður tók aftur við sem framkvæmdarstjóri. Stefna Libra. Á vefsíðu Libra kemur fram að:,Við erum leiðandi í smíði hugbúnaðar fyrir íslenskan fjármálamarkað. Við bjóðum stolt upp á vörur með sterkan tæknilegan bakgrunn og erum tilbúin fyrir nýja markaði. Við vinnum skipulega í hópi faglegra og umfram allt ánægðra starfsmanna og vinnum náið með viðskiptavinum okkar." Gildi Libra. Á vefsíðu Libra kemur fram að gildi fyrirtækisins séu traust, fagmennska, sveigjanleiki og frumkvæði. "Gildin okkar endurspeglast í nánu samstarfi við viðskiptavini, löngum viðskiptasamböndum, frumkvæði í lausnum og ráðgjöf, faglegri nálgun verkefna og stöðugri umbótahugsun." Prótínleki. Prótínleki (enska: "Proteinuria") er þegar aukið prótín finnst í þvagi. Við prótínleka virðist þvagið froðukennt (þó mun fleiri ásæður geti verið fyrir froðukenndu þvagi) eða nokkurs konar bólstrar sem minna á skýjabólstra sjást í þvaginu. Nýrun sía blóðið, skila úrgangsefnum í þvag en láta efni á borð við prótín og sykur aftur inn í blóðrásina. Séu nýrun undir miklu álagi, eins og til að mynda við háþrýsting, ná þau ekki að sinna hlutverki sínu nægilega vel og þá kemur það fram sem próteinleki. Xinjiang. Xinjiang er sjálfstjórnarhérað í norðvesturhluta Kína með landamæri að Afganistan, Rússlandi, Mongólíu, Kirgisistan og Tadsjikistan. Höfuðstaður héraðsins er Urumqi. Íbúar héraðsins eru 21,8 milljónir . Tungumál héraðsins er kínverska og úýgúríska. Héraðið var sjálfstætt og barist var um stjórn þess fram til 18 aldar. Árið 1884 keypti Kingveldið landið og innlimaði það inn í Kína og árið 1955 varð það að sjálfstjórnarhéraði. Stærsti þjóðfélagshópur fólks eru tyrknesk talandi múslimar. Um 60% tekna héraðsins kemur frá olíuiðnaði. Lúdó. Lúdó er spil sem spilað er með spilaborði, peðum og með því að tveir til fjórir þátttakendur kasta til skiptis spilateningi. Spilaborðið er vanalega ferningur með krossi. hver hluti krossins skiptist í þrjá dálka sem vanalega er skipt í sex reiti. Miðja krossins er síðasti reiturinn og skiptist oftast í fjóra litaða þríhyrninga. Hver þeirra er tengdur lituðum miðju dálks og lítur út eins og ör sem bendir á endareitinn. Örvarskaftið er svo heimadálkur hvers keppanda og er fimm reita löng. Hver þátttakandi hefur fjögur peð í sama lit sem er frábrugðinn lit annarra. Til að koma fyrsta peði inn á spilaborðið þarf leikmaður að fá upp töluna sex. Ef leikmaður fær aftur töluna sex þá getur hann sett annað peð í umferð. Lúdó er einfölduð útgáfa af indverska leiknum Pachisi. Jónína Jónatansdóttir. Jónína Jónatansdóttir (22. maí 1869 – 1. desember 1946) var reykvískur verkalýðsleiðtogi og bæjarfulltrúi frá 1922 til 1924. Ævi og störf. Jónína fæddist á Miðengi í Garðahverfi á Álftanesi. Hún giftist og fluttist til Reykjavíkur, þar sem hún starfaði sem húsmóðir. Hún lét sig réttindamál kvenna miklu varða og var aðalhvatamaður að stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar árið 1914 og gegndi formennsku þess fyrstu 20 árin. Jónína var meðal stofnenda Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins. Hún var kjörin bæjarfulltrúi í Reykjavík árið 1920, til tveggja ára. Félag íslenskra teiknara. Félag íslenskra teiknara, FÍT, er félagsskapur grafískra hönnuða og myndskreyta á Íslandi. Félagið var stofnað 23. nóvember 1953 og telur nú rúmlega 300 félagsmenn. Tæpur helmingur þeirra er starfsfólk á auglýsingastofum en meirihlutinn starfar sjálfstætt. Síðastliðin ár hefur þeim er starfa sjálfstætt farið ört fjölgandi. Stofnun félagsins. Félag íslenskra teiknara var stofnað 23. nóvember 1953 á vinnustofu Halldórs Péturssonar að Túngötu 38 í Reykjavík. Frumkvöðlarnir vou fimm, þeir Ásgeir Júlíusson, Atli Már Árnason, Halldór Pétursson, Jörundur Pálsson og Stefán Jónsson. Til stofnenda teljast einnig Tryggvi Magnússon og Ágústa Pétursdóttir. Samstarf stofnfélaga má þó telja eldra enda er þess getið í fyrstu fundargerð félagsins að "þessir sex menn höfðu áður haft nokkra samvinnu um verðtaxta þ.e. síðan des. 1946".. Markmið félagsins. Aðalmarkmið FÍT er að efla starfsstéttina, kynna hana út á við og auka samstöðu félagsmanna. Hvers kyns fræðsla og samvinna er á stefnuskrá FÍT. Félagið skipuleggur námskeið og sýningarhald, fræðslufundi og fyrirlestra, sér um að samkeppnisreglur séu virtar og er í samstarfi við sambærileg félög erlendis. Félagið beitir sér fyrir því að styrkja vinnuumhverfi teiknara og efla meðvitund félagsmanna um eigin rétt, m.a. með útgáfu á fréttabréfi fjórum sinnum á ári. Jaden Smith. Jaden Christopher Syre Smith (fæddur 8. júlí 1998) er bandarískur leikari, rappari, lagahöfundur, dansari og sonur Will Smith og Jada Pinkett Smith. Systir hans heitir Willow Smith og hún syngur lagið "Whip My Hair". Fyrsta kvikmyndahlutverk hans var í "The Pursuit of Happyness" árið 2006. Karl Staaff. Karl Staaff (21. janúar 1860 – 4. október 1915) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar tvívegis, frá 7. nóvember 1905 til 29. maí 1906 og 7. október 1911 til 17. febrúar 1914. Karl Straff myndaði fyrstu ríkisstjórn Frjálslynda flokksins árið 1905 og sat hún fram á árið 1906. Með Staaff sátu í stjórninni auk stjórnmálamanna margir ópólitískir embættismenn. Á háskólaárum sínum tók Staaff þátt í stofnun félagsins "Verdandi" (1882) og var formaður félagsins fyrstu árin. Verdandi var róttækt stúdentafélag og margir helstu framámenn úr röðum frjálslyndra sænskra stjórnmálamanna voru félagar í Verdandi, en auk þess voru málsmetandi sósíaldemokratar félagar, þeirra á meðal Hjalmar Branting. Staaff var kjörinn á þing árið 1896 fyrir "Folkpartiet", sem gekk árið 1900 inn í Frjálslynda flokkinn (s. "Liberala samlingspartiet") við stofnun hans. Staaff var forystumaður Frjálslynda flokksins á árunum 1907-1915, en flokkurinn átti fulltrúa á sænska þinginu frá 1900 til 1924. Sá flokkur í sænskum stjórnmálum sem í dag kallast Frjálslyndi flokkurinn (s. "Folkpartiet liberalerna") er hugmyndafræðilegur arftaki Frjálslynda flokksins sem Staaf stýrði og lítur á hann sem einn af frumherjum flokksins. Staaff, sem var lögfræðingur, var mjög frjálslyndur í skoðunum og á þingi barðist hann fyrir málefnum verkamanna og því að kosningaréttur yrði gerður almennari. Hann var einnig eindreginn hernaðarandstæðingur. Staaf átti í hörðum útistöðum við sænska íhaldsmenn sem þótti hann grafa undan sænskum hefðum og undirstöðum sænsks samfélags. Tilvísanir. Staaff, Karl Arvid Lindman. Salomon "Arvid" Achates Lindman (19. september 1862 – 9. desember 1936) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Lindman var foringi í sænska sjóhernum og umfangsmikill iðnrekandi. Lindman var tvívegis forsætisráðherra Svíþjóðar, fyrst frá 1906 til 1911 og síðan frá 1928 til 1930. Hann sat á þingi frá 1905 til 1935. Lindman var leiðtogi Almenna þingmannaflokksins (s. Allmänna valmannaförbundet) frá 1912 til 1935, og frá 1913 til 1935 var hann formaður Bænda- og borgaraflokksins (s. "Lantmanna- och borgarepartiet"), sem starfaði innan fyrrnefnds félags. Bænda- og borgaraflokkurinn var hógvær íhaldsflokkur sem starfaði sem þingflokkur í efri deild þingsins á árunum 1912 til 1934. Flokkurinn var stofnaður árið 1912 með samruna Þjóðlega framfaraflokksins (s. "Nationella framstegspartiet") og Bændaflokksins (s. "Lantmannapartiet"). Árið 1935 sameinaðist flokkurinn Þjóðarflokknum (s. "Nationella partiet"), sem starfaði einnig sem þingflokkur, en í neðri deild þingsins. Sameinaður flokkur fékk nafnið Þingflokkur hægrimanna, (s. Högerns riksdagsgrupp). Síðan 1969 hefur flokkurinn borið nafið "Moderata samlingspartiets riksdagsgrupp", eða einfaldlega "Moderatarna". Á Íslensku er sá flokkur er yfirleitt nefndur Hægriflokkurinn. Lindman, Arvid Libra Loan. Libra Loan er íslenskt lánaumsýslukerfi frá hugbúnaðarfyrirtækinu Libra ehf. Yfir 100.000 lán eru meðhöndluð í kerfinu hjá viðskiptavinum Libra, sem eru flest fyrirtæki og stofnanir á íslenskum fjármálamarkað. Libra Loan er fjölmynta lánaumsýslukerfi með öfluga upplýsingagjöf. Kerfið heldur utan um lántökur og lánveitingar og þriðja aðila umsýslu á skuldabréfum. Libra Loan er frá upphafi hannað fyrir íslenskan markað og ræður við séríslenskar þarfir og úrræði og styður fjölda lánaafbrigði. Bakgrunnur. Árið 2002 hófst hönnun á Libra Loan sem náði fljótt útbreiðslu á markaðinum. Í fréttatilkynningu frá undirritun fyrsta samningsins, sem var á milli Libra ehf. og Kaupþings-Búnaðarbanka, segir meðal annars: „Kerfið leysir af hólmi eldri hugbúnað en töluverðar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á sviði lánaumsýslu. Auknar kröfur eru um upplýsingagjöf, sveigjanleika við lántökur og lánveitingar og nú á síðustu misserum hafa einstaklingar, auk minni fyrirtækja, sýnt lántökum í erlendri mynt aukinn áhuga. Stærri fyrirtæki taka í síauknum mæli sambankalán, þ.e. gera stóra lánasamninga við fleiri en einn aðila og ádráttarlán eða lánalínu, þ.e. samningur um heimildir til lánatöku.“ Hjalmar Branting. Karl Hjalmar Branting (23. nóvember 1860 – 24. febrúar 1925) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Branting var leiðtogi sænska Sósíaldemókrataflokksins á árunum 1907 til 1925 og einn mikilvægasti forystumaður sænskra sósíaldemókrata á upphafsárum flokksins. Hann var einnig fyrsti forsætisráðherra flokksins. Branting var þrívegis forsætisráðherra Svíþjóðar, 10. mars 1920 til 27. október 1920, 13. október 1921 til 19. apríl 1923 og loks 18. október 1924 til 24. janúar 1925. Áður en hann varð þingmaður starfaði Branting sem blaðamaður. Branting hóf blaðamannsferil sinn árið 1884, en hann átti eftir að vera ritstjóri tímaritsins "Tiden" og dagblaðsins "Social-Demokraten," tveggja helstu málsgagna sósíaldemókrata í Svíþjóð. Árið 1888 sat Branting í fangelsi fyrir að hafa birt grein eftir Axel Danielsson, róttækan sósíalista og einn mikilvægasta hugmyndasvið sænskra sósíalista á mótunarárum hreyfingarinnar. Árið 1889 tók Branting þátt í stofnun Sænska sósíaldemókrataflokksins. Auk Branting er skylt að nefna August Palm sem einn frumherja flokksins. Branting var kjörinn á þing fyrir sósíaldemókrataflokknn árið 1896 og í sex ár eini þingmaður flokksins. Branting var andsnúinn hugmyndinni um byltingu, og taldi að hægt væri að umbreyta kapítalísku þjóðskipulagi innan frá og með þingræðslegum aðferðum. Branting var því í hógværari armi sósíalisdemókratafokksins. Árið 1917 klofnaði flokkurinn í kjölfar októberbyltingarinnar í Rússlandi og róttækari armur hans stofnaði sænska Kommúnistaflokkinn. Branting fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1921 fyrir starf sitt innan Þjóðabandalagsins, en hann hafði meðal annars beitt sér fyrir því að bandalagið leysti deilu Svía og Finna um Álandseyjar. Carl Gustaf Ekman. Carl Gustaf Ekman (6. október 1872 – 15. júní 1945) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Ekman var formaður Frjálslynda þjóðarflokksins (s. "Frisinnade folkpartiet") frá 1924 til 1932. Ekman var tvívegis forsætisráðherra Svíþjóðar, fyrst frá 7. júní 1926 til 2. október 1928, og seinna frá 7. júní 1930 til 6. ágúst 1932. Ekman sat á þingi frá 1911 til 1932 og var meðal áhrifamestu stjórnmálamanna síns tíma. Ekman var einn af stofnendum Frjálslynda þjóðarflokksins sem varð til þárið 1924 í kjölfar þess að Frjálslyndi flokkurinn (s. "Liberala samlingspartiet") klofnaði vegna afstöðunnar til þess hvort leyfa ætti áfengisdrykkju. Ekman var harður bindindismaður, en bindindismennirnir innan Frjálslynda flokksins stofnuðu Frjálslynda þjóðarflokkinn, hinir stofnuðu "Sveriges liberala parti". Sem formaður Frjálslynda þjóðarflokksins lék Ekman lykilhlutverk í sænskum stjórnmálum því hvorki hægrimenn né vinstrimenn höfðu meirihluta á þingi og þurftu stuðning miðjuflokka. Seinni ríkisstjórn Ekman glímdi við alvarlegt mótlæti sem að lokum leiddi til þess að Ekman hrökklaðist úr stjórnmálum. Stjórnin réð ekki við efnahagserfiðleika þá sem leiddu af heimskreppunni, en ríkisstjórn hans fylgdi strangri aðhaldsstefnu í ríkisútgjöldum sem urðu frekar til þess að dýpka áhrif kreppunnar. Þá var Ekman gagnrýndur fyrir að hafa þegið fjárstuðning fyrir hönd flokks síns frá sænska iðnjöfurnum og fjárglæframanninum Ivar Kreuger. Ekman neyddist til þess að segja af sér mánuði fyrir kosningarnar 1932 en flokkur hans beið niðurlægjandi ósigur í kosningunum. Árið 1934 sameinuðust aftur báðir frjálslyndu flokkarnir, "Frisinnade folkpartiet" (flokkur Ekman) og "Sveriges liberala parti", undir nafninu Þjóðarflokkurinn (s. Folkpartiet). Ekman, Carl Gustaf Skæri. Stór skæri til hverskyns nota Skæri er tæki til að klippa með, t.d. pappír eða klæðisefni. Skærin samanstanda af tveimur örmum, sem nefnast kinnar, og eru yfirleitt úr málmi. Kinnarnar falla þannig hver að annarri að skörpu brúnirnar saxa hver að annarri þegar finguraugunum er japlað sundur og saman. Skæri eru notuð til að klippa alls konar efni, en einnig til að skerða hár og klippa til mat, en ýmis íslensk þjóðtrú mælir gegn því. Klippur eru svipaðar skærum en öllu stærri. Til eru allavega skæri til ýmissa nota, t.d. barnaskæri með bitlausum kinnum úr plasti. Þau eru þá aðeins ætluð til að klippa pappír. Skæri sem notuð eru til að klippa hár eða fataefni eru öllu beittari. Stærstu skærin, nefnd klippur, eru notuð til að klippa málm eða limgerði (þ.e. garðklippur). Önnnur skæru er til dæmis: saumaskæri, sem eru með aðra kinnina beitta en hina bitlausa, naglaklippur, með stuttum bognum blöðum til að klippa tá- og fingurneglur. Annað dæmi um sérstök skæri eru takkaskæri, sem eru með aðra kinnina sagtennta og sem þá myndar bylgjaðan skurð þegar klippt er. Talið er að skærin hafi verið fundin upp í Egyptalandi hinu forna 1500 f.Kr. Elstu þekktu skærin voru brúkuð í Mesópótamíu fyrir 3000 til 4000 árum síðan. Bryntogari. Bryntogari er herskip sem líkist mjög togurum, sem notaðir eru til fiskveiða, en eru að nokkru leyti útbúnir eins og brynskip til sjóhernaðar. Bryntogarar voru mikið notaðir í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni, og komu t.d. við sögu við Grænland- og Íslandsstrendur í þeirri seinni. Per Albin Hansson. Per Albin Hansson (28. október 1885 – 6. október 1946) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Hann sat á þingi fyrir sænska Sósíaldemókrataflokksins 1918-1946 og var formaður flokksins 1925-1946. Hansson var með stuttu hléi forsætisráðherra Svíþjóðar frá 24. september 1932 til 6. október 1946. Ríkisstjórn Hansson missti meirihluta sinn á þingi sumarið 1936 og frá 19. júní 1936 til 28. september 1936 var Axel Pehrsson-Bramstorp forsætisráðherra. Eftir að Per Albin myndaði nýja ríkisstjórn um haustið sat Brahmstorp áfram sem landbúnaðarráðherra. Hansson gekk í Sósíaldemókrataflokkinn 1903 og varð skömmu seinna ritstjóri vikurits flokksins, Fram. Hann starfaði sem blaðamaður "Social-demokraten" frá 1909 til 1917 og ritstjóri blaðsins árið 1917. Árið eftir var Hansson kjörinn á þing fyrir flokkinn og skipaði sér þar í forystusveit hans. Hansson barðist gegn hernaðarútgjöldum og var gerður að varnarmálaráðherra í ríkisstjórnum Branting (1920-1925) og Rickard Sandler (1925-1926). Eftir dauða Branting 1925 varð Hansson formaður Sósíaldemókrataflokksins. Sem forsætisráðherra Svíþjóðar á fjórða áratugnum leiddi Hansson uppbyggingu sænska velferðarkerfisins, með eflingu almannatryggingakerfisins. Hansson var höfundur hugmyndarinnar um „þjóðarheimili“ (s. "folkhem"), þ.e. „Norræna velferðarkerfi“ sem tók á sig mynd eftir lok stríðsins. Hansson og sósíaldemókrataflokkurinn taldi að bregðast ætti við efnahagsþrengingum af völdum hinnar alþjóðlegu heimskreppu með vinnuaflsfrekum aðgerðum á vegum hins opinbera og ríkisstuðningi við landbúnað og auknum framlögum til atvinnuleysistrygginga. Flokkurinn hafði gagnrýnt harðlega niðurskurðarstefnu þá sem flestir hægri- og miðjumenn aðhylltust og framkvæmd hafði verið af ríkisstjórn Carl Gustaf Ekman. Hansson, Per Albin Felix Hamrin. Felix Teodor Hamrin (14. janúar 1875 – 27. nóvember 1937) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar frá 6. ágúst 1932 til 24. september 1932 en samhliða því gegndi hann starfi utanríkisráðherra. Hamrin er sá forsætisráðherra Svíþjóðar sem setið hefur skemst eða aðeins 50 daga. Hann sat á þingi frá 1912 til 1914 og frá 1918 til 1937. Hamrin var formaður hins hægrisinnaða miðjuflokks Þjóðarflokksins (s. "Folkpartiet") 1934-1936. Hamrin átti sæti í ríkisstjórnum Carl Gustaf Ekman en hann gegndi embætti viðskiptaráðherra í fyrri ríkisstjórn Ekman frá 1926 to 1928 og fjármálaráðherra í seinni ríkisstjórn Ekman, frá 1930 til 1932. Eftir að Ekman sagði af sér skömmu fyrir kosningar 1932 tók Hamrin við sem forsætisráðherra og gegndi því embætti þar til eftir kosningar. Sósíaldemókrataflokkurinn vann stórsigur í kosningunum og að þeim loknum tók leiðtogi þeirra, Per Albin Hansson við stjórnartaumunum. Hamrin, Felix Axel Pehrsson-Bramstorp. Axel Alarik Pehrsson-Bramstorp (19. ágúst 1883 – 19. febrúar 1954) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar um stutt skeið sumarið 1936 (frá 19. júní til 28. september). Pehrsson-Bramstorp hét Axel Alaraik Pehrsson en kenndi sig ævinlega við bæinn Bramstorp þar sem hann var bóndi og bætti á fullorðinsárum bæjarnafninu við ættarnafn sitt. Hann var oft einfaldlega kallaður Bramstorp. Pehrsson-Bramstorp sat á þingi frá 1918 til 1921 fyrir Frjálslynda flokkinn (s. "Liberala samlingspartiet") og 1929-1949 fyrir Bændaflokkinn (s. "Bondeförbundet"). Frá 1934 til 1949 var hann formaður Bændaflokksins. Vorið 1936 glataði fyrri ríkisstjórn Per Albin Hansson meirihluta sínum á þingi og leiddi Pehrsson-Bramstorp þá minnihlutastjórn Bændaflokksins sem sat fram að kosningum. Samhliða forsætisráðherraembættinu var hann landbúnaðarráðherra í minnihlutastjórn sinni og gegndi hann því embætti áfram eftir að Per Albin myndaði nýja ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Bændaflokksins um haustið. Pehrsson-Bramstorp gegndi embætti landbúnaðarráðherra til stríðsloka, 1945. Pehrsson-Bramstorp, Axel Rickard Sandler. Rickard Johannes Sandler (29. janúar 1884 – 12. nóvember 1964) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar. Hann sat á þingi frá 1912 til 1916 og svo frá 1919 allt til 1964 fyrir Sósíaldemókrataflokkinn. Hann beitti sér fyrir menntun verkamanna, hann var stofnandi "Arbetrarnas bildningsförbund" (ABF) árið 1912 og var kennari við alþýðuskólann Brunnsvik. Sandler tók við embætti forsætisráðherra 24. janúar 1925 þegar formaður Sósíaldemókrataflokksins, Hjalmar Branting gat ekki lengur gegnt embættinu sökum veikinda. Hann gegndi embættinu til 7. júní 1926. Auk þess að gegna forsætisráðherraembættinu átti Sandler sæti í öllum ríkisstjórnum sósíaldemókrata á millistríðsárunum. Hann var meðal annars utanríkisráðherra í ríkisstjórnum Per Albin Hansson á fjórða áratugnum, frá 24. september 1932 til 19. júní 1936, og aftur frá 28. september 1936 til 13. desember 1939, þegar hann sagði af sér vegna ágreinings um afstöðuna til hlutleysis í Vetrarstríðinu milli Finnlands og Sovétríkjanna. Sandler, Rickard Jafnaðarmannaflokkurinn (Svíþjóð). Sænski Jafnaðarmannaflokkurinn (s. "Sveriges socialdemokratiska arbetareparti", SAP) er elsti starfandi stjórnmálaflokkur Svíþjóðar. Hann var stofnaður 1889. Flokkurinn býður sig fram í kosningum sem Verkalýðsflokkurinn-Jafnaðarmannaflokkurinn (s. "Arbetarepartiet-Socialdemokraterna"). Fylgi flokksins hefur farið dvínandi á síðustu árum en í síðustu kosningum fékk hann rétt tæp 30% atkvæða. Á eftirstríðsárunum var flokkurinn lengst af með 40-50% fylgi en mest fylgi í kosningum hlaut flokkurinn 1940, 53,8%. Hægriflokkurinn (Svíþjóð). Sænski Hægriflokkurinn (s. Moderata samlingspartiet, yfirleitt stytt í "Moderaterna") var stofnaður 17. október 1904. Eins og nafnið ber með sér er flokkurinn til hægri í sænskum stjórnmálum og því er oft vísað til í daglegu tali sem Hægriflokksins, (s. "Högerpartiet"). Flokkurinn var stofnaður sem Almenni þingmannaflokkurinn (s. "Allmänna valmansförbundet") og var svar við risi Sósíaldemókrataflokksins (stofnaður árið 1889) og Frjálslynda flokksins (stofnaður 1902). Þó sænskir íhaldsmenn hafi verið atkvæðamiklir í stjórnmálum á nítjándu öld höfðu þeir ekki haft með sér formlegan félagsskap fram að þessu. Gullöld flokksins var á millistríðsárunum en Arvid Lindman var þá áhrifamesti leiðtogi flokksins. Eftir ris Sósíaldemókrataflokksins á fjórða áratugnum skrapp fylgi Miðflokksins saman og á eftirstríðsárunum var dróst fylgi hans enn frekar saman. Á síðustu áratugum hefur fylgi flokksins vaxið að nýju og vann hann afgerandi sigur í kosningunum 2010. Núverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt, er formaður Hægriflokksins. Flokkurinn hefur tvisvar skipt um nafn. Frá 1938 til 1952 hét flokkurinn "Högerns riksorganisation" og frá 1952 til 1969 hét hann einfaldlega "Högerpartiet". Þó flokkurinn hafi tekið að sér það hlutverk að leiða stjórnarandstöðuna gegn sósíaldemókrötum dróst fylgi flokksins saman frá 1934, og náði það lágmarki í kosningunum 1968 þegar flokkurinn varð minnsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Flokkurinn tók þá nýja stefnu og nafn sem endurspeglaði stefnubreytinguna, "Moderata samlingspartiet". Í kosningunum 1976 misstu Sósíaldemókratar þingmeirihluta sinn sem þeir höfðu haldið með stuttum hléum frá 1932 og tók Hægriflokkurinn þá þátt í myndun ríkisstjórnum Miðflokksins undir forsæti Thorbjörn Fälldin, 1976-1978 og 1979-1981. Árið 1981 sleit Hægriflokkurinn stjórnarsamstarfinu og í kjölfar kosninganna 1982 mynduðu sósíaldemókratar ríkisstjórn að nýju. Í kjölfar kosninganna 1991 mynduðu hægriflokkarnir að nýju ríkisstjórn, nú undir forsæti Carl Bildt, formanns Hægriflokksins. Á landsfundi flokksins 2003 breytti flokkurinn enn um áherslur og FredrikReinfeldt, núverandi formaður og forsætisráðherra Svíþjóðar, tók við stjórn flokksins. Í kosningunum 2006 vann hann stórsigur, 26,23% atkvæða, stærsta kosningasigur sinn síðan 1928. Reinfeld varð í kjölfarið forsætisráðherra í samsteypustjórn hægriflokkanna. Í kosningunum 2010 bætti flokkurinn við sig, og fékk nú 30,06% atkvæða. Miðflokkurinn (Svíþjóð). Sænski Miðflokkurinn (s. "Centerpartiet") er miðjuflokkur sem sækir stuðning sinn einna helst til dreifra byggða Svíþjóðar. Sögulega hefur flokkurinn lagt áherslu á hagsmuni landbúnaðar og bænda, umhverfismál og dreifingu valds frá ríki til sveitarfélaga. Þá hefur flokkurinn lengi barist gegn kjarnorku. Miðflokkurinn rekur rætur sínar til Bændaflokksins sem stofnaður var 1913. Árið 1921 sameinaðist Bændaflokkurinn og annar stjórnmálaflokkur bænda, Landssamtök bænda, (s. "Jordbrukarnas Riksförbund") undir fána Bændaflokksins. Árið 1936 var Axel Pehrsson-Bramstorp, formaður Bændaflokksins, um skamma stund forsætisráðherra Svíþjóðar. Flokkurinn átti lengi vel samleið með Sósíaldemókrataflokknum. Árin 1936-1945 og aftur 1951-1957 var Bændaflokkurinn með Sósíaldemókrataflokknum í ríkisstjórn. Árið 1957 sleit Bændaflokkurinn ríkisstjórnarsamstarfi sínu með Sósíaldemókrötum og tók um leið bæði upp nýja stefnu og nafn. Flokkurinn kallaði sig í fyrstu Miðflokkurinn-Bændaflokkurinn (s. Centerpartiet Bondeförbundet) en síðan einfaldlega Miðflokkurinn (s. Centerpartiet). Í stað þess að líta á sig sem talsmann bændastéttarinnar og landsbyggðarinnar, hreinan hagsmuna- eða stéttaflokk, tók flokkurinn nú að leggja meiri áherslu á almennari baráttumál, valddreifingu og umhverfismál. Þá markaði flokkurinn sér aukið sjálfstæði í samskiptum sínum við Sósíaldemókrata og leitaði eftir nánara samstarfi við mið- og hægriflokkana. Formaður Miðflokksins Thorbjörn Fälldin var forsætisráðherra í samsteypustjórnum mið- og hægriflokkanna 1976-1978 og aftur 1979-1982. Á síðustu árum hefur flokkurinn reynt að höfða til kjósenda í þéttbýli, og hefur leitast við að skilgreina sig sem frjálslyndan og borgaralegan stjórnmálaflokk. Hraun í Ölfusi. Hraun er sveitabær í sveitarfélaginu Ölfusi. Á Hrauni var eitt af síðustu mjólkurbýlunum í Ölfusi en þau hlupu á mörgum tugum en í dag er einungis eitt eftir á sveitarbænum Hvammi Á bökkum Ölfusár er dys ein, en í henni eru taldar vera jarðneskar leifar Lénharðs fógeta á Bessastöðum. „Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann.“ „Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann varð ófriðarins var. Varð þeim Torfa ekki greitt inngöngu, því að piltur úr liði Lénharðs, Eysteinn Brandsson að nafni, varði dyrnar svo fimlega, að þeim vannst ekki á, nema hætta sér undir vopn hans. Torfi greip þá til þess ráðs að láta rjúfa þekjuna á bæjarhúsunum, og féll fógeti eftir skamma viðureign, er menn Torfa voru inn komnir.“ Í landi Hrauns liggur Ölfusá og er þar góður veiðistaður. Veitingarstaðurinn Hafið Bláa er við ósa Ölfusár í landi Hrauns Hafið Bláa. Hafið Bláa er veitingastaður sem var stofnaður í apríl 2003. Hann er við ósa Ölfusár í landi Hrauns Í Ölfusi. Libra Securities. Libra Securities, sem áður hét Verðbréfavogin, er íslenskur fjármálahugbúnaður frá hugbúnaðarfyrirtækinu Libra ehf. Kerfið heldur utan um ferli verðbréfaviðskipta frá viðskiptum til uppgjörs, sjóðaumsýslu og rekstur verðbréfasafna. Libra Securities er í notkun hjá flestum fyrirtækjum og stofnunum á íslenskum fjármálamarkaði. Bakgrunnur. Libra Securities á rætur að rekja til fjármáladeildar TölvuMynda, síðar TM Software, allt til ársins 1996 þegar skrifað var verðbréfasjóðakerfi fyrir Búnaðarbankann Verðbréf.. Kerfið óx og dafnaði og varð að bakvinnslu-, vörslu- og eignarstýringarkerfinu, Libra Securities, sem nær allir aðilar á íslenska verðbréfamarkaðinum nota við sín daglegu störf. Markmiðið með kerfinu var að þróa kerfi sem leysir daglega vinnu verðbréfafyrirtækja og tengist öllum aðgerðum og viðskiptum sem þau gera. Kerfiseiningar. Libra Securities samanstendur af nokkrum kerfiseiningum sem styðja frágang viðskipta, greiðslur, eignaskipti, samskipti við fjárhagskerfi, eignaumsýsla, verðmat, fyrirtækjaaðgerðir, upplýsingagjöf og stuðning við fjárfestingarákvarðanir. Samstarf við Infinity. Í tilkynningu um samstarf TölvuMynda við erlenda hugbúnaðarfyrirtækið Infinity árið 1999 kemur fram að samstarfið feli meðal annars í sér að reynt verði að koma Verðbréfavoginni á markað erlendis. Baltasar Samper. Baltasar Samper (fæddur 9. janúar 1938 í Barselóna, Spáni) er spænskur listmálari. Hann er faðir Baltasars Kormáks, leikara. Hann var valinn sem heiðurslistamaður Kópavogs þann 11. maí 2007.Hann hélt um margra ára skeið íslandsmet fyrir stærsta málverkið en hann málaði heilan kirkjuvegg. Loftsteinatungl. Lofsteinatungl eru fylgihnettir smástirna og lofsteina. Það fyrsta sem fannst var eina tungl 532 Herkúlínu sem fannst snemma árs 1978. Nú hafa rúmlega 190 lofsteinatungl. Frjálslyndi flokkurinn (Svíþjóð). Sænski frjálslyndi flokkurinn (s. "Folkpartiet liberalerna") rekur rætur sína aftur til ársins 1900 en í janúar það ár sameinuðust nokkrir þingflokkar frjálslyndra bænda og ýmsir þingmenn sem höfðu staðið utan þingfylkinga. Árið 1902 var stofnaður formlegur stjórnmálaflokkur, Frjálslyndi flokkurinn (s. "Liberala samlingspartiet"). Flokkurinn var mjög atkvæðamikill á fyrri hluta aldarinnar. Karl Staaff, leiðtogi flokksins frá 1905 til 1915, veitti ríkisstjórn flokksins forsæti árin 1905 til 1906 og aftur árin 1911-1914. Árin 1917-1920 veitti þáverandi formaður flokksins Nils Edén ríkisstjórn flokksins aftur forsæti. Í maí 1923 klofnaði Frjálslyndi flokkurinn vegna afstöðu til bindisspurningarinnar. Sá hluti flokksins sem aðhylltist áfengisbann myndaði Frjálslynda þjóðarflokkinn (s. "Frisinnade folkpartiet") meðan sá hluti sem var andsnúinn áfengisbanni myndaði Sænska frjálslynda flokkinn (s. "Sveriges liberala parti"). Frjálslyndi þjóðarflokkurinn var töluvert atkvæðameiri, og voru báður formenn hans Carl Gustaf Ekman (formaður 1924-1932) og Felix Hamrin (formaður 1932-1935) forsætisráðherrar Svíþjóðar. Flokkarnir sameinuðust að nýju árið 1934 og ásamt nokkrum öðrum litlum frjálslyndum flokkum mynduðu þeir "Folkpartiet". Síðan þá hefur nafn flokksins ýmist verið þýtt á íslensku sem Þjóðarflokkinn eða Frjálslyndi flokkinn, enda hefur nafnið „liberalerna“ verið í titli flokksins síðan 1990, og hann lagt mikla áherslu á að hann fylgi frjálslyndum borgaralegum gildum. Í Svíþjóð er flokkurinn þó yfirleitt kallaður Þjóðarflokkurinn. Á eftirstríðsárunum hefur Frjálslyndi flokkurinn tekið þátt í ríkisstjórnum mið- og hægriflokkanna og um nokkurt skeið árin 1978-1979 leiddi flokkurinn minnihlutastjórn undir forsæti Ola Ullsten. Þó Frjálslyndi flokkurinn hafi ekki haft leiðandi hlutverk í sænskum stjórnmálum á eftirstríðsárunum hafa nokkrir af þekktustu stjórnmálamönnum Svía komið úr flokknum. Hagfræðingurinn Bertil Ohlin, handhafi nóbelsverðlaunanna í hagfræði árið 1977, var formaður flokksins frá 1944 til 1967. Þá var Hans Blix, vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu Þjóðanna í Írak utanríkisráðherra í minnihlutastjórn flokksins 1978-1979. Listi yfir forsætisráðherra Bretlands. Þetta er listi yfir forsætisráðherra Bretlands. Forsætisráðherra hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands er stjórnmálaleiðtogi landsins og höfuð ríkisstjórnar hennar hátignar, drottningarinnar. Talið er að Sir Robert Walpole væri fyrsti forsætisráðherra Bretlands og var hann í embætti í 21 ár frá 1721 til 1742. Núverandi forsætisráðherra Bretlands er David Cameron. Forsætisráðherrar undir Elísabetu 2. (1952–í dag). Bretland forsætisráðherrar Þjóðarflokkurinn (Svíþjóð). Sænski þjóðarflokkurinn (eða Þjóðarflokkur efrideildarinnar) (sænska: "Första kammarens nationella parti", yfirleitt kallaður "Nationella partiet") var sænskur stjórnmálaflokkur sem starfaði fyrst og fremst sem þingflokkur íhaldsmanna á fyrstu áratugum 20. aldar. Flokkurinn var stofnaður 1912 með sameiningu Sameinaða Hægriflokksins (s. "Förenade högerpartiet") og Miðjuflokks neðri deildar þingsins (s. "Första kammarens moderata parti"). Árið 1935 sameinaðist Þjóðarflokkurinn og Bænda- og Borgaraflokknum (s. "Lantmanna– och borgarepartiet") hinu Almenna þingmannasambandi, (s. "Allmänna valmansförbundet") og mynduðu þannig Hægriflokkinn. Tveir forsætisráðherrar Svíþjóðar komu úr röðum Þjóðarflokksins. Carl Swartz var forsætisráðherra frá 30. mars 1917 til 19. október 1917 og formaður flokksins árin (1913-1923 og 1924-1933), Ernst Trygger, var forsætisráðherra frá 19. apríl 1923 til 18. október 1924. Jón Ólafsson (úr Svefneyjum). Jón Ólafsson – stundum nefndur Jón Ólafsson Svefneyingur eða Jón Ólafsson eldri – (24. júní 1731 – 18. júní 1811) var íslenskur fornfræðingur og orðabókahöfundur frá Svefneyjum í Breiðafirði. Æviágrip. Foreldrar Jóns voru Ólafur Gunnlaugsson bóndi í Svefneyjum og Ragnhildur Sigurðardóttir frá Brjánslæk. Jón var því albróðir Eggerts Ólafssonar (1726–1768), skálds og náttúrufræðings, Magnúsar Ólafssonar (1728–1800) lögmanns og Jóns Ólafssonar yngra (um 1738–1775). Hann var föðurbróðir Finns Magnússonar leyndarskjalavarðar. Jón var tekinn í Skálholtsskóla 1747 og varð stúdent 1752. Hann fór til Kaupmannahafnar haustið 1753 og lauk námi í heimspeki 1756. Hann tók guðfræðipróf 1765, en hafði áður fengið mikinn áhuga á íslenskum fræðum. Hann einbeitti sér nú að þeim og varð styrkþegi Árnasjóðs 1768. Hann fékk síðar 400 ríkisdala styrk til að vinna að útgáfu rita Snorra Sturlusonar, og varð sú vinna grunnur að útgáfu þeirri á Heimskringlu sem kennd er við Norðmanninn Gerhard Schöning og hóf að koma út 1777. Jón átti mikinn þátt í útgáfu á fleiri ritum, til dæmis Landnámabók 1774, Hungurvöku 1778 og Sæmundar-Eddu sem hóf að koma út 1787. Þá þýddi hann á dönsku Sverris sögu, sem kom út 1813. Jón kallaði sig á stundum "Hypnonesius", sem er gríska og merkir "Svefneyingur". Danir kölluðu hann "hinn lærða Íslending". Jón var lengi ritari Árnanefndar og aðalmaður eða öldungur í stúdentafélagi Íslendinga í Kaupmannahöfn, sem hét „Sakir“. Páll Eggert Ólason segir um Jón: „Hann var valmenni, prýðilega að sér og vel metinn“. Hann dó í Kaupmannahöfn 1811. Hann var ógiftur og barnlaus. Eitt og annað. Þegar Englendingar skutu á Kaupmannahöfn árið 1807 kom upp eldur í borginni og brann þá mikið og merkilegt safn Gríms Thorkelíns leyndarskjalavarðar sem nam 4.500 bindum að sögn, og hafði að geyma stórmerkileg íslensk handrit, auk prentaðra bóka. Þá brann og orðabókin íslenska, sem Jón Ólafsson Svefneyingur hafði unnið að í þrjátíu ár – var búið að prenta af henni 20 arkir, en prentsmiðjan, handritið og það sem prentað var, brann til ösku. Í handritinu "Rask 16" í Árnasafni er reyndar mikið orðasafn frá hendi Jóns. Kjarnafæði. Kjarnafæði er íslenskt alhliða kjötvinnsla sem var stofnað þann 19. mars 1985 á Akureyri af bræðrunum Eiði og Hreini Gunnlaugssonum. Samanlögð velta Kjarnafæðis og dótturfélaganna var vel yfir fjögur þúsund milljónir króna árið 2009. Hjá fyrirtækinu starfa um 130 manns. Í upphafi var aðaláherslan lögð á að framleiða pizzur og hrásalat. Árið 1993 festi Kjarnafæði kaup á húsnæði á Svalbarðseyri og flutti stóran hluta af starfsemi sinni þangað. Dótturfyrirtæki. Árið 2002 stofnaði Kjarnafæði í samvinnu við HB Granda og Brim fiskvinnslufyrirtækið Norðanfisk. Norðanfiskur hóf starfsemi sína á Akureyri en flutti 2003 upp á Akranes. Norðanfiskur framleiðir frosinn fisk og reyktan og grafin lax. Árið 2004 stofnaði Kjarnafæði ásamt samlokugerðinni Júmbó, salat- og sósugerðina Nonna litla. Nonni litli er staðsett í Mosfellsbæ og er nú alfarið í eigu eignarhaldsfélags Kjarnafæðis. Nonni litli framleiðir matar- og brauðsalöt, kaldar sósur og forsteiktar kjöt- og fiskibollur. 2004 eignaðist Kjarnafæði hlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga en það hefur löngum verið einn af birgjum Kjarnafæðis. Árið 2005 eignaðist Kjarnafæði liðlega þriðjungs hlut í nýju félagi sem stofnað var um rekstur sláturhúss og kjötvinnslu Sölufélags Austur Húnvetninga á Blönduósi. Sölufélag Austur Húnvetninga er eitt af elstu starfandi fyrirtækjum landsins á sínu sviði, stofnað árið 1908. Barney Stinson. Barney Stinson er persóna í þáttunum How I Met Your Mother sem Neil Patrick Harris leikur. Hann gengur venjulega alltaf í jakkafötum og vinnur hjá Goliath National Bank og er svo til samviskulaus kvennaflagari. Barney hefur sett saman lista yfir þær konur sem hann hefur sofið hjá og samkvæmt honum eru þær „fleiri en tungumálin í Afríku“. Persónur þáttaraðarinnar hanga mikið á MacLaren's barnum. Besti vinur Barneys er Ted en hann er annarrar skoðunar. Fyrsta konan sem Barney Stinson sængaði hjá var kölluð „Randa the Man Maker“. Peniki. Peniki (finnska: Penikkala, rússneska: Пе́ники) er þorp sem stendur við Lomonosovfylki, Leníngrad Oblast í Rússlandi. Þar búa 1335 manns. Jökulsker. Jökulsker (eða núnatakkur) (e. "nunatak") kallast fjallstindar sem standa upp úr jökli. Sem dæmi um jökulsker má nefna Esjufjöll í Breiðamerkurjökli sem líklega hafa verið íslaus frá lokum síðasta kuldaskeiðs. Á 20. öld birtust fleiri jökulsker í Breiðamerkurjökli, Kárasker um 1940, Bræðrasker um 1965 og loks Maríusker í lok aldarinnar árið 2000. John Major. Sir John Major (fæddur 29. mars 1943) er breskur stjórnmálamaður og fyrrum forsætisráðherra Bretlands á árunum 1990 til 1997. Á þeim tíma var hann líka leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Hann var einnig utanríkisráðherra og fjármálaráðherra í ríkisstjórn Margrétar Thatcher. Hann var þingmaður kjördæmis Huntingdon á árunum 1979 til 2001. John Major var talinn mildur miðað við Thatcher sem var talin mjög ströng. Snemma á ferli sínum bar hann ábyrgð á þátttöku Bretlands í Persaflóastríðinu fyrra (mars 1991) og samdi við önnur lönd í Evrópubandalaginu um Maastrichtsáttmálann fyrir hönd Bretlands. Þrátt fyrir samdráttarskeið í Bretlandi leiddi hann Íhaldsflokkinn í fjórða sigri þeirra. Hann vann fleiri atkvæði en áður hafði verið gert í kosningasögu Bretlands í almennum kosningum 1992, en meirihlutinn í Neðra málstofunni minnkaði talsvert. Eftir að kalda stríðinu lauk breyttist margt í heiminum á meðan Major var í embætti. Meðal annars jókst mikilvægi Evrópusambandsins. Þetta var ennþá umdeilt mál í Íhaldsflokknum vegna hlutverks hans í falli Margrétar Thatchers. Major sá um fráhvarf Bretlands úr Evrópska gengiskerfinu (e. "European Exchange Rate Mechanism") eftir Svarta miðvikudaginn 16. september 1992. Eftir það gekk Íhaldsflokkinum ekki vel í skoðanakönnunum. Þrátt fyrir ýmislegt jákvætt eins og aukinn hagvöxt og byrjun friðarviðræðna á Norður-Írlandi flæktist Íhaldsflokkurinn í hneykslismál fram að miðju tíunda áratugsins og komu meðal annars þingmenn og nokkrir ráðherrar þar við sögu. Major varð fyrir svo mikilli gagnrýni að hann ákvað að segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins, en hann var kosinn aftur árið 1995. Áður hafði „nýi Verkamannaflokkurinn“ endurnýjað forystu sína og hafði aftur náð vinsældum. Undir forystu Tony Blairs var Verkamannaflokkurinn talinn vera eitthvað nýtt og eftir átjan ára valdatíð tapaði Íhaldsflokkurinn í almennum kosningum 1997. Þetta var eitt versta kosningatap síðan árið 1832. Eftir tapið sagði Major af sér og William Hague tók við af honum sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Hann var ekki í framboði til þings í almennum kosningum 2001 og er nú hættur störfum. Major, John Major, John Skeifukast. Námumenn í Newcastle í skeifukasti Nútíma útgáfa af skeifukasti til að spila í görðum Skeifukast er leikur þar sem keppendur henda hringjum úr málmi, reipi eða gúmmí og reyna að hitta á eða nálægt stöng. Ýmis afbrigði eru til af leiknum. Sum afbrigði af skeifukasti eru vinsælir borðleikir í krám en skeifukast er einnig spilað sem útileikur í görðum. Bláfugl. Bláfugl (stofnað í október 2000) er alþjóðlegt fragt flugfélag. Í febrúar 2005 yfirtók Icelandair flugfélagið og gerði að dótturfyrirtæki Icelandair Group. Borgundarhólmur. Borgundarhólmur (danska: "Bornholm") er eyja Danmerkur. Eyjan er 588 km² og er íbúafjöldi 42.154 (2006). Rønne er stærsta borgin. Anfield. Anfield, horft til Spion Kop stúkuna Anfield er heimavöllur enska knattspyrnuliðsins Liverpool. Völlurinn tekur rúmlega 45 þús manns í sæti. Liverpool hefur verið með afnot af Anfield síðan 1892 þegar félagið var stofnað. Áður var völlurinn heimavöllur Everton 1884-1892 áður en þeir fluttu til Goodison Park. Lega. Völlurinn Anfield er í hverfinu Anfield um 2 km (loftlínu) norðan við miðborg Liverpool og strax norður af hverfinu Everton. Reyndar er það svo að Goodison Park, heimavöllur knattspyrnuliðsins Everton, er staðsettur í hverfinu Walton við hlið Anfield og er aðeins rúmur hálfur kílómetri á milli vallanna. Everton. John Houlding stofnaði Liverpool sem knattspyrnufélag, en var áður stjórnarmaður í Everton Graslendið á Anfield var í eigu John Orrells sem leigði það til John Houldings, meðstjórnanda knattspyrnufélagsins Everton. Everton hafði fram að þessu leikið á Priory Road. Búinn var til leikvöllur og var Anfield formlega tekið í notkun 1884. Fyrsti leikurinn fór fram 28. september það ár milli Everton og Earlestown, sem þeir fyrrnefndu sigruðu 5-0. Á fyrsta árinu var stúka fyrir 8 þús manns reist, þó að völlurinn sem slíkur rúmaði þá 20 þús manns standandi. Völlurinn þótti það góður á þeim tíma að þar voru haldnir landsleikir. Sá fyrsti fór fram 1889 milli Englands og Írlands. Fyrsti deildarleikurinn á Anfield fór fram 8. september 1888 milli Everton og Accrington. 1892 ákvað Everton að kaupa lóðina sem völlurinn var á. Ekki tókst betur en svo að misklíð kom upp milli Houldings og stjórnar Evertons. Hún endaði þannig að Everton flutti úr Anfield og byggði upp aðstöðu í Goodison Park. Liverpool F.C.. Eftir brotthvarf Everton ákvað Houlding að stofna nýtt knattspyrnufélag og leika áfram á Anfield. Félagið hlaut heitið "Liverpool F.C. and Athletic Grounds Ltd.", sem síðar var stytt í Liverpool F.C. Fyrsti leikur nýja liðsins á Anfield var vináttuleikur við Rotherham Town 1. september 1892, sem Liverpool vann 7-1. Fyrsti deildarleikurinn á Anfield fór fram 9. september 1893 við Lincoln City sem Liverpool vann einnig 4-0. Tveimur árum síðar var stúka fyrir 3 þús manns reist þar sem í dag er stúkan Main Stand. Næsta stúka var ekki reist fyrr en 1903 og sú þriðja 1906. Sú hlaut heitið Spion Kop. Fjórða stúkan var reist skömmu síðar. Engar frekari breytingar voru gerðar á vellinum til 1928 þegar Spion Kop var endurbyggð og stækkuð. Eftir það rúmuðust þar 30 þús manns standandi. 1952 var sett áhorfendamet á Anfield er 61.905 manns sóttu leik Liverpool á móti Wolves í bikarkeppninni. Flóðljós voru ekki sett á völlinn fyrr en 1957 og voru í fyrsta sinn tendruð 30. október í leik gegn Everton. Mesta breytingin á vellinum fór fram 1973 er Main Stand stúkan var rifin niður og endurgerð. Flóðljósin voru endurnýjuð. Stúkan á Anfield Road var svo breytt 1982 þannig að sæti komu í stað standpláss. Á sama ári voru göng opnuð undir leikvanginn og kölluð Shankly Gates til heiðurs Bill Shankly fyrrum framkvæmdastjóra liðsins. 1994 var öllum standstæðum sem eftir voru á Anfield breytt í sæti. Ýmsar endurbætur á stúkum voru gerðar eftir þetta, þannig að nú eru tvær stúkanna tvílyftar, en aðrar tvær einlyftar. Stúkur. Allt í allt tekur Anfield 45.276 manns í sæti. Vellinum er skipt niður í fjórar stúkur. Main Stand. Main Stand er önnur langhliðin á vellinum og er elsta stúkan á Anfield. Hún var upphaflega reist 1895 og rúmaði 3000 manns. Þar voru þó eingöngu standstæði og héldust þau við í langan tíma. Þau síðustu hurfu ekki fyrr en á níunda áratugnum er stúkunni var breytt í sæti. Hún var þó áfram einlyft. Í stúkunni er einnig aðstaða fyrir fjölmiðla, sérstaklega sjónvarp, sem og einkaklefar fyrir stjórn liðsins. Undir stúkunni eru búningsklefar leikmanna og skrifstofur félagsins. Fyrir framan stúkuna eru varamannabekkirnir. Centenary Stand. Centenary Stand er hin langhliðin á leikvanginum. Hún hét áður Kemlyn Road Stand eftir götunni fyrir utan og var upphaflega einlyft. 1992 fóru fram miklar breytingar á stúkunni. Öll standstæðin hurfu og í stað komu sæti. Auk þess varð hún tvílyft. Stúkan rúmaði þá 11 þús manns í sæti. Þá var lúxusklefum bætt við. Stúkan var formlega opnuð 1. september af Lennart Johansson forseta UEFA og hlaut hún nafnið Centenary Stand (Aldarstúkan), sökum þess að Liverpool átti aldarafmæli sem knattspyrnufélag á þessu ári. Spion Kop. Spion Kop er einnig kölluð Kop Stand. Hún var upphaflega reist 1906 og nefnd Spion Kop eftir hæð í Suður-Afríku sem kom við sögu í Búastríðinu. 1928 var stúkan endurbyggð frá grunni og rúmaði þá 30 þús manns í stæði. Þau voru ekki tekin út fyrir sæti fyrr en 1994, en eftir það rúma hún ekki nema 12.390 manns. Stúkan er einlyft og er fyrir aftan marklínu. Í henni eru dyggustu áhangendur Liverpool og að sama skapi þeir háværustu. Undir stúkunni er minjagripaverslun og sögusafn félagsins ásamt bikurum. Anfield Road. Anfield Road stúkan snýr að samnefndri götu við norðvestur stutthliðina. Hún var upphaflega reist 1903 og var þá einlyft. Stúkan var endurbyggð 1965 og varð tvílyft 1998. Í stúkunni eru venjulega áhangendur gestaliðsins. Bill Shankly. "You'll never walk alone", til minningar um Bill Shankly Göng undir Anfield Road stúkunni kallast Shanklygöngin, eftir þjálfara Liverpool 1959-74, sem gerði góða hluti með félagið. Í göngunum er skoskur fáni (Shankly var Skoti), skoskur þistill og merki Liverpool. Við innganginn er skilti með orðunum: "‚You‘ll Never Walk Alone.‘" Setningin er komin úr vinsælu lagi með hljómsveitinni Gerry & The Pacemakers sem aðdáendur Liverpool höfðu tekið upp sem félagssöng sinn. Í göngunum setti Shankly upp skilti með livrarfuglinum og áletruninni: "This is Anfield." Ástæðan fyrir því var sú að hann vildi að gestaliðið, sem þurfti að ganga um göngin, myndi óttast að koma á leikvanginn. Að sama skapi var skiltið happamerki fyrir leikmenn Liverpool. Bronsstytta af Bill Shankly var sett upp 4. desember 1997 við gestamiðstöðina fyrir framan Spion Kop stúkuna. Á styttunni eru orðin: "Bill Shankly – He Made The People Happy" (Bill Shankly – Hann gerði fólkið ánægt). Bob Paisley. Önnur göng eru undir Spion Kop stúkunni og kallast Paisley Gateway eftir Bob Paisley, hinum árangursríka þjálfara liðsins á áttunda og níunda áratugnum. Í göngunum eru þrír Evrópubikarar sem liðið vann undur hans stjórn. Þar er einnig platti heimabæjar hans Hetton-le-Hole í Norðaustur-Englandi og Liverpool-merkið. Hillsboro minnisvarði. Hillsborough-slysið átti sér stað 1989 í borginni Sheffield en í því létust 96 áhangendur Liverpool í bikarleik Liverpool og Nottingham Forest. Eftir slysið var minnismerki um það sett upp við Shankly-göngin. Þar er tafla með nöfnum þeirra sem létust í slysinu og eilífur logi til minningar um þá, að þeir verða ekki gleymdir. Fánastöngin. Fánastöngin úr SS Great Eastern 1928 var toppmastur af skipinu SS Great Eastern sett upp fyrir utan Spion Kop stúkuna. Verið var að rífa skipið, sem var fyrsta stálskip Englands, í sundur í þurrkví í Birkenhead við Mersey (gegnt Liverpool) þegar toppmastrið var keypt af knattspyrnufélaginu Liverpool. Það hafði verið á höttunum eftir góða fánastöng. Mastrið var því tekið og flutt upp til Anfield. Þar var það sett niður fyrir utan stúkuna og hefur fengið að vera þar í friði allar götur síðan. Mastrið þjónar enn í dag sem fánastöng knattspyrnufélagsins. Önnur notkun. Á Anfield fara stöku sinnum fram landsleikir í knattspyrnu. Völlurinn var t.d. notaður í EM 1996. Síðasti landsleikurinn á Anfield fór fram 1. maí 2006, en í honum sigraði England Úrúgvæ 2-1. Nokkrar aðrar íþróttir hafa farið fram á Anfield. Á þriðja áratugnum var leikvangurinn endastöð fyrir Maraþonhlaupið í Liverpool. Á millistríðsárunum voru hnefaleikar gjarnan leiknir þar og 1958 tróðu Harlem Globetrotters upp á vellinum. 1991 fór fram úrslitaleikur í HM félagsliða í rúgbý á vellinum, en þar áttust við Penrith Panthers frá Ástralíu og Wigan Warriors frá Englandi. Áhorfendur voru 20 þús. Til stendur að nota Anfield á HM í rúgbý árið 2015. Anfield hefur einnig verið notað fyrir sjónvarpspredikara og fyrir tónleika. 1984 predikaði t.d. Billy Graham á vellinum fyrir framan 30 þús manns nokkur kvöld í röð. Ýmsar hljómsveitir hafa troðið upp á Anfield. 2008 var bítillinn Paul McCartney mættur í tengslum við það að Liverpool var á því ári menningarhöfuðborg Evrópu. Enska knattspyrnudeildarkerfið. Enska knattspyrnudeildarkerfið (oft kallað enski pýramídinn) samanstendur af 148 deildarkeppnum með 487 deildum og yfir 6.500 félögum. Efst í pýramídanum eru Premier League, The Championship, League One og League Two. Þessar fjórar deildir mynduðu áður The Football League en eftir að úrvalsdeildin var stofnuð samanstendur The Football League bara af þremur síðastnefndu. Verkamannafélagið Dagsbrún. Verkamannafélagið Dagsbrún var stéttarfélag verkamanna í Reykjavík, stofnað 26. janúar árið 1906. Árið 1998 sameinaðist það fleiri verkalýðsfélögum í Eflingu. Stofnun. Fyrsta verkamannafélag Íslands var stofnað á Seyðisfirði árið 1897. Á næstu árum var hugað að félagsstofnun verkamanna víðar um land. Skriður komst á málin í Reykjavík síðla árs 1905, þegar hópur manna hittist til að leggja drög að stofnun félags. Á nýársdag 1906 hófst útgáfa fyrsta verkamannablaðs á Íslandi, Alþýðublaðsins (eldra) og stóð útgáfa þess í á annað ár. Þegar kom að stofnfundi Dagsbrúnar, höfðu hátt í 400 menn undirritað stofnskrá félagsins. Sigurður Sigurðsson búfræðingur var kjörinn fyrsti formaður félagsins. Á fundinum voru jafnframt gerðar samþykktir um kaupgjald og vinnutíma. Var þar miðað við að venjulegur dagvinnutími teldist ellefu klukkustundir í stað tólf klukkustunda áður. Síðar sama ár varð Dagsbrún eitt af stofnfélögum Verkamannasambands Íslands, sem stofnað var í Reykjavík þann 15. nóvember. Tölvuþrjótur. Tölvuþrjótur (einnig tölvurefur, hjakkari, hakkari eða tölvuhakkari) í almennu tali á við einstakling sem nýtir sér afburða tölvukunnáttu sína til að brjótast inn í tölvukerfi (eða gagnavinnslukerfi) í þeim tilgangi að hagnast, stela upplýsingum, vinna skemmdarverk eða einfaldlega vegna þess að hann stenst ekki mátið. Í nútímanum hefur myndast stærðarinnar „undirmenning“ tölvuþrjóta í netheiminum. Tölvuþrjótar eru einnig þekktir fyrir að hanna og þróa tölvuvírusa sem þeir nota í sama tilgangi. Margir tölvuþrjótar af gamla skólanum, sem látið hafa af aðgangsbrotum sínum, hafa skapað sjálfum sér veglegan frama með því að selja tölvufyrirtækjum þekkingu sína og búa til öryggisforrit sem hafa það meginmarkmið að verjast árásum tölvuþrjóta og vírusa. Julian Assange forsprakki uppljóstrunarsíðunar Wikileaks er dæmi um tölvuþrjót af gamla skólanum sem hefur nýtt sér þekkingu sína til að skapa hina umdeildu vefsíðu. Flugfélagið Ernir. Flugfélagið Ernir (stofnað 1969) er íslenskt flugfélag sem flýgur frá Reykjavíkurflugvelli. Á upphafsárum þess var það stafrækt í póst og sjúkraflugi á Vestfjörðum, en var síðar lagt niður árið 1995. Þegar félagið var endurvakið, árið 2003 var ákveðið að fljúga frá Reykjavík. Flugleiðir félagsins eru til Bíldudals, Gjögurs, Hornarfjarðar og Vestmannaeyja. Flug félagsins til Bíldudals og Gjögurs eru og verða á styrk Vegagerðarinnar til ársins 2012. Flugfélagið fékk 100% stundvísi í athugun á Hornarfjarðarflugvelli, þar sem miðað er við hámark 15 mínútna töf, en annars telst vélin sein. Rønne. Rønne er danskur bær á Borgundarhólmi. Íbúafjöldi bæjarins er 13.924 (2010). Västerås. thumb Västerås er fimmta stærsta borg í Svíþjóð, við norðvesturenda Mälaren. Íbúar Västerås eru rúmlega 107 þúsund (2005). Örebro. thumb Örebro er sjöunda stærsta borg Svíþjóðar og er í sveitarfélaginu "Örebro kommun" í Närke. Íbúar Örebro eru rúmlega 98 þúsund (2005). Norrköping. thumb Norrköping er tíunda stærsta borg Svíþjóðar og er í sveitarfélaginu "Norrköpings kommun" í Austur-Gautlandi í Svíþjóð. Íbúar Norrköping eru rúmlega 83 þúsund (2005). Jonathan James. Jonathan James (12. desember 1983 - 18. maí 2008) eða c0mrade er einn alræmdasti tölvurefur Bandaríkjana. Hann hlaut heimsfrægð þegar hann varð fyrsti tölvurefurinn til að afplána fangelsisdóm aðeins 16 ára gamall. Stærstu innbrot James voru hátt settar stofnanir. Hann setti inn leynilegar bakdyr á kerfi DTRA (Defense Threat Reduction Agency server). DTRA er þjónusta innan Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjana sem sér um að verja Bandaríkin og bandamenn þeirra gegn kjarnorku- og efnavopnaárásum. Bakdyrnar sem hann bjó til veittu honum aðgang að viðkvæmum tölvupóstum og afrit af notendanöfnum og lykilorðum starfsmanna. James braust einnig inn í tölvukerfi NASA og stal hugbúnaði upp á 7,1 milljón bandarikjadala. Samkvæmt dómsmálaráðuneyti bandaríkjana var þetta hugbúnaður sem stjórnaði mikilvægum búnaði í alþjóðlegu geimstöðinni, þar á meðal hita og raka inni í stöðinni. NASA neyddist til að loka tölvukerfum sínum. Jonathan James framdi sjálfsmorð árið 2008. Gävle. thumb Gävle er borg í sveitarfélaginu "Gävle kommun" í Gästriklandi í Svíþjóð. Íbúar eru 68.700 (2005). Sundsvall. thumb Sundsvall er borg í Mið-Svíþjóð. Íbúar eru 49.339 (2005). Umeå. thumb Umeå (finnska: "Uumaja"; samíska: "Ubmi") er borg í Norður-Svíþjóð. Íbúar eru 75.645 (2010). Rock am Ring. Rock am Ring er hátíð sem haldin er árlega í Adenau á Þýskalandi. Hátíðin er sögð vera stærsta tónlistar- og leiklistarhátíð sem haldin er undir berum himni í heiminum. Hátíðin stendur í þrjá daga, fyrsta helgi í júní ár hvert. Tölvuveira. Tölvuveira, meinforrit eða veira er sjálfeftirmyndandi hugbúnaður sem dreifir sér með því að setja afrit af sér í aðra hugbúnaði eða önnur gögn. Mölndal. thumb Mölndal er borg í sveitarfélaginu "Mölndals kommun" í Vestur-Gautlandi í Suðvestur-Svíþjóð. Mölndal er úthverfi Gautaborgar. Íbúar eru 37.233 (2010). Forskriftarkrakki. Forskriftarkrakki (á ensku "script kiddie") er níðyrði haft yfir unga og óreynda tölvuþrjóta sem fremja aðgangsbrot, ráðast á tölvukerfi eða afskræma vefsíður með hugbúnaði sem aðrir hafa gert. Forskriftarkrakkar eru þekktir fyrir að styðjast við fjöldann allan af áhrifaríkum hættulegum forritum sem auðvelt er að nálgast og eiga auðvelt með að bjóta upp aðgang að tölvum og netkerfum. Forrit sem þeir nota eru fjarstýrð DoS forrit á borð við WinNuke og trójur á borð við Back Orifice, NetBus, Sub7, ProRat og Metasploit. Sprengingarnar í Stokkhólmi 2010. Lögreglan lokaði Drottningargötu eftir sprengingarnar Sprengingarnar í Stokkhólmi 2010 eru atburðir, sem urðu í miðborg Stokkhólms 11. desember 2010. Talið er að um tilraun til sjálfsmorðsárásar hafi verið að ræða, þó tilræðismaðurinn, sá sem sprengdi sig í loft upp, hafi verið sá eini sem lést. Hann ætlaði sér þó líklega að hafa fleiri með sér í dauðann. Einnig sprakk bílasprengja nokkru áður, en hún skaðaði engan. Samkvæmt lögreglu í Stokkhólmi sprakk bifreið í Drottningargötu klukkan 16:50 að staðartíma. Skömmu síðar sprakk önnur sprengja í sömu götu. Breska dagblaðið "The Guardian" sagði að maðurinn, sem sprengdi sjálfan sig í loft upp, "Taimour Abdulwahab al-Abdaly", hafi verið sænskur ríkisborgari, fæddur í Írak. "NRK" sagði svo frá því í fréttum sínum að þetta væri fyrsta íslamska hryðjuverkaárásin á Norðurlöndunum. Sprengingarnar urðu þegar margir voru að versla í miðborg Stokkhólms. En þrátt fyrir það slösuðust aðeins tveir einstaklingar, meðal þeirra var fyrrverandi starfsmaður Associated Press. Hann var sjónarvottur að sprengingunni og sá mann liggja á götunni og aðra gráta. Rannsókn er hafin bæði í Svíþjóð og á Bretlandi á tilræðinu. Augnfró. Augnfró (fræðiheiti: "Euphrasia frigida") er lítil einær jurt sem vex í mólendi á Norðurlöndunum. Hún er algeng um allt Ísland. Blöðin eru fjólublá og blómin hvít með fjólubláum röndum. Sighvatur Bjarnason. Sighvatur Kristinn Bjarnason (25. janúar 1859 – 30. ágúst 1929) var bankastjóri og bæjarfulltrúi í Reykjavík á fyrri hluta tuttugustu aldar. Ævi og störf. Sighvatur fæddist í Reykjavík, sonur tómthúsmanns og útgerðarmanns í Hlíðarhúsum. Hann stundaði nám í bankastörfum í Kaupmannahöfn og gerðist bókari í Landsbankanum þegar hann tók til starfa árið 1886. Sighvatur var ráðinn bankastjóri hins nýstofnaða Íslandsbanka árið 1904 og gegndi starfinu til ársins 1921. Hann átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur með hléum frá 1900 til 1920 og var forseti bæjarstjórnar frá 1916. Gensvipting. Gensvipting (e. "gene knockout") er erfðatækni þar sem komið er í veg fyrir að eitt gen sé starfhæft (tjáð) í lífveru. Þetta er iðullega gert þegar virkni þess er lítið/ekkert þekkt, til þess að sjá hver hún er. Lífveran er þá borin saman við villigerð sömu tegundar. Oftast er geninu stökkbreytt með því að skipta út útröð þess með utanaðkomandi genabút sem veldur því að genið verður óstarfhæft. Þróunarfræðileg sporun. Þróunarfræðileg sporun (e. "phylogenetic footprinting") er ferlið þar sem DNA röðum úr mörgum mismunandi (fjarskyldum) tegundum er raðað saman (aligned), iðullega í þeim tilgangi að greina þróunarlega varðveittar DNA raðir sem hugsanlega tjá prótein eða aðrar mikilvægar DNA raðir (t.d. bindiset umritunarþátta innan non-coding DNA raðar). Þróunarfræðileg skygging. Þróunarfræðileg skygging (e. Phylogenetic shadowing) er ferlið þar sem DNA röðum úr náskyldum tegundum er raðað saman (aligned), til þess að greina þróunarlega mjög vel varðveittar (betur varðveittar en í Phylogenetic footpringing) DNA raðir sem hugsanlega tjá prótein eða aðrar mikilvægar DNA raðir (til dæmis bindiset umritunarþátta innan non-coding DNA raðar). Byggingar erfðamengjafræði. Byggingar-erfðamengjafræði (e. "structural genomics") er lýsing á þrívíddarbyggingu allra próteina gefins erfðamengis. Almennt notast við X-ray christallygraphy, NMR spectroscopy og ýmis spálíkön til þess að lýsa þrívíddarbyggingu próteinanna. Stökkull (sameindalíffræði). Stökkull (enska "transposon") er DNA-röð sem getur flutt sig (enska "to transpose") á nýjan stað í erfðamenginu innan einnar frumu. Halldór Jónsson (f. 1859). Halldór Jónsson (12. nóvember 1857 – 26. desember 1914) var guðfræðingur, bankastarfsmaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1892 til 1912. Ævi og störf. Halldór fæddist á Bjarnastöðum í Bárðardal. Hann lauk prófi frá Prestaskólanum árið 1883 en tók aldrei vígslu. Þegar Landsbankinn hóf starfsemi sína árið 1886 gerðist hann gjaldkeri við bankann og starfaði þar til 1912. Hann átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur í tvo áratugi, frá 1892 til 1912 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið. Jafnframt var Halldór virkur í hreyfingu Góðtemplara og ritaði nokkrar bækur um áfengisbölið. Þegar tekin var upp listakosning til bæjarstjórnar árið 1908 náði Halldór kjöri af lista Templara. Meðal barna Halldórs voru Pétur Halldórsson, borgarstjóri og Gunnar Halldórsson, formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Bautinn. Bautinn er veitingastaður í Hafnarstræti 92 á Akureyri sem opnaði þann 6. apríl 1971. Bautinn var lítill staður í upphafi, en hefur stækkað mikið á undanförnum árum. Staðurinn er með hina ýmsu smáretti á boðstólnum, salatbar og hefur einnig töluvert úrval af allavega kjötréttum, enda þýðir "bauti" barið nautakjöt, buff. Kvöstur. Kvöstur (stökkull, vatnsstökkull eða stökkvill; "aspergillum" á latínu frá sögninni "aspergō" ‚ég stökkvi‘ eða ‚ég skvetti‘ og smækkunarendingunni "-illum") er lítill vöndur sem prestar nota til að stökkva vígðu vatni með til dæmis á sjálfa sig, líkkistu eða heimili sem verið er að blessa. Kvösturinn er til í tveimur mismunandi gerðum. Í fyrsta lagi sem götótt pjáturklót sem er fest við stutt handfang og svo sem nokkurskonar bursti sem er hristur. Skjólan sem helga vatnið er í og kvösturinn fær vatnið úr nefnist kvastarponta ("aspersorium" eða "situla"). Alanis Morissette. Alanis Nadine Morissette (fædd 1. júní 1974) er kandadísk söngkona/lagasmiður, upptökustjóri og leikkona. Hún hefur unnið 16 Juno-verðlaun og sjö Grammy-verðlaun. Morissette hóf feril sinn í Kanada og hljóðritaði þar tvær danspopphljómplötur á táningsaldri, "Alanis" og "Now is the Time" með útgáfufyrirtækinu MCA Records Canada. Fyrsta hljómplatan hennar sem gefin var út um allan heim, "Jagged Little Pill", er ennþá mest selda fyrsta hljómplata kvenkynssöngvara í Bandaríkjunum, og líka heimsins alls. "Jagged Little Pill" hefur selst í yfir 30 milljónum eintökum. Önnur hljómplatan hennar "Supposed Former Infatuation Junkie" var gefin út árið 1998 og seldist líka vel. Eftir útgáfu annarrar hljómplötu byrjaði Morissette að hafa yfirumsjón með upptöku hljómplata sinna, það er: "Under Rug Swept", "So-Called Chaos" og "Flavors of Entanglement". Yfir 40 milljón eintök hljómplatna Morrissette hafa selst á heimsvísu. Árið 2005 varð Morissette bandarískur ríkisborgari en hélt kanadíska ríkisborgararétti sínum. Uppeldisár. Morissette fæddist í Ottawa, Ontario í Kanada, dóttir Georgiu Mary Ann (fædd Feuerstein), kennara sem fæddist í Ungverjalandi, og Alans Richard Morissette, fransks-kanadísks grunnskólastjóra. Foreldrar Morissette voru heittrúaðir kaþólskir. Morisette er tvíburi og tvíburabróður hennar heitir Wade. Þau eiga einn eldra bróður sem heitir Chad. Þegar hún var sex ára gömul byrjaði hún á að spila píanó. Árið 1984 samdi Morissette fyrsta lagið sitt, "Fate Stay with Me", sem hún sendi til Lindsay Morgan þjóðlagasöngvara, sem gerði Morissette að skjólstæðingi sínum. Morissette gaf út "Fate Stay with Me" á smáskífu hjá plötufyrirtæki sem þær Morissette og Morgan stofnuðu saman. Takmarkað magn eintaka var gefið út og platan var ekki mikið spiluð í útvarpi. Í grunnskóla, en hún gekk í St. Elizabeth's, var Morissette sérlega talin vel gefin og tók þátt í verkefni fyrir snjalla nemendur. Á grunnskólaaldri fór hún í Immaculata High School og Glebe Collegiate Institute í Ottawa en samtímis hélt áfram að hlúa að tónlistarferli sínum. Árið 1986 mætti hún oft í sjónvarpsþáttinn "You Can't Do That on Television" á CTV/Nickelodeon. Árið 1987 tók hún þátt í fyrstu Rising Star hæfileikakeppninni sem held er í Toronto við Canadian National Exhibition. Osasco. Osasco er stórborg í Brasilíu með yfir 720 þúsund íbúa (2009). Örn Úlfar Sævarsson. Örn Úlfar Sævarsson (f. 28. febrúar 1973) var spurningahöfundur og dómari í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur árin 2010-2012. Hann var einn af höfundum Áramótaskaupsins árið 2011. Synir duftsins. Synir duftsins er fyrsta skáldsaga Arnaldar Indriðasonar, en hún kom út árið 1997. Hún kom svo út í kilju árið 2003. Sölvhóll. Sölvhóll var býli í Reykjavík, nánar tiltekið á Arnarhólstúni. Byggð hófst á Sölvhólsbænum laust fyrir 1780, en bæjarhúsin voru rifin árið 1930. Saga. Nafnið Sölvhóll vísar að öllum líkindum til gamalla búskaparhátta. Mikið var um sölvatekju í Örfirisey eða á Víkurfjörum. Vel má hugsa sér að Sölvhóllinn hafi verið notaður til að þurrka söl. Eldri orðmynd gæti þá hafa verið "Sölvahóll". Bærinn Arnarhóll var um aldir næsta bújörð við býlið Reykjavík, en eftir að jörðin var lögð undir tugthús hrakaði búskapnum hratt. Elstu heimildir um búsetu á Sölvhóli, sem þá hefur verið hjáleiga Arnarhóls, eru úr tíundarreikningum og fólkstali frá 1779. Tímamót urðu í sögu býlisins árið 1834. Þá settist þar að Jón Snorrason hreppstjóri í Seltjarnarneshreppi og reisti nýjan og veglegan torfbæ. Ári síðar var Arnarhólsland flutt undir Reykjavíkurkaupstað og Sölvhóll þar með. Jón var kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1836 sem fulltrúi tómthúsmanna. Bærinn sem Jón reisti stóð uppi í tæpa öld. Búið var að Sölvhóli fram á þriðja áratug tuttugustu aldar, en stöðugt þrengdi að býlinu. Mest þó árið 1919 þegar Samband íslenskra Samvinnufélaga reisti höfuðstöðvar sínar við gafl Sölvhólsbæjarins, í gamla kartöflugarðinum. Nokkrum árum síðar fluttu síðustu ábúendurnir úr húsinu. Það var rifið árið 1930, ef til vill í tengslum við komu Danakonungs og Alþingishátíðina sama ár. Ekki hefur þá verið talið við hæfi að hinir tignu gestir þyrftu að horfa upp á lúinn torfbæ í bæjarlandinu. Gatan Sölvhólsvegur í Reykjavík dregur nafn sitt af bænum Sölvhóli. Jón Snorrason. Jón Snorrason (20. september 1787 – 14. maí 1856) var tómthúsmaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík. Ævi og störf. Jón fæddist að öllum líkindum í Engey, sonur bændafólks þar. Árið 1834 reisti hann sér bæinn Sölvhól í landi Arnarhóls, sem þá tilheyrði Seltjarnarneshreppi. Jón var í miklum metum og gegndi embætti hreppstjóra. Rétt um ári eftir að Jón kom upp bæ sínum, var Arnarhóll færður undir lögsögu Reykjavíkur. Árið 1836 var svo í fyrsta sinn kosið til bæjarstjórnar í Reykjavík. Var Jón kjörinn í þessa fyrstu bæjarstjórn sem fulltrúi tómthúsmanna og sat hann í tíu ár í embætti. Möðruvallabók. Möðruvallabók ("AMagn. Nr. 132. Fol") er íslenskt fornhandrit skrifað á kálfskinn. Handritið er með stærri skinnbókum íslenskum, þó Flateyjarbók sé stærri og sumar lögbækur. Í Möðruvallabók eru 200 blöð og hvert blað er 34 cm á einn veginn, 24 á hinn. Í Möðruvallabók er eyða á milli Njáls sögu og Egils sögu og var þar að finna illlæsilegar tvær línur. Lengi vel var ekki vitað hvað þar stæði, þar til Jón Helgason prófessor gat lesið úr: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að [Herra] Grímur eigi hana.“ Gauks sögu Trandilssonar er þó ekki að finna í handritinu og er hún hvergi til, en þetta er eina örugga heimildin um tilveru þessarar Íslendingasögu. Jón sagði um þessar línur: „Þarna sér maður það svart á hvítu, að Gauks saga var til, en illu heilli var hún aldrei skrifuð í eyðuna“. Þingeyrakirkja. Þingeyrakirkja er fyrsta steinkirkja á Íslandi og stendur í Húnaþingi milli vatnanna Hóps og Húnavatns. Kirkjan var reist af Ásgeiri Einarssyni alþingismanni og var vígð árið 1877 Um miðja 19. öldina bjó Ásgeir á Þingeyrum miklu rausnarbúi og byggði kirkjuna að mestu á eigin kostnað á árunum 1864-1877. Grjót í bygginguna lét hann uxa draga á ís yfir Hópið, enda lítið um grjót í landi Þingeyra. Kirkjuhvelfingin er bogadregin, blámáluð með gylltum stjörnum sem sagðar eru 1000 að tölu. Margir fornir og merkir gripir eru í kirkjunni og einnig eru ýmsir gripir úr henni á Þjóðminjasafninu. Sonur Ásgeirs var Jón Ásgeirsson þjóðkunnur hestamaður, faðir Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp. Sverrir Runólfsson Sverresen, hlaðlistarfrömuður, byggði kirkjuna. Ungmennafélagið Æskan. Ungmennafélagið Æskan á Svalbarðsströnd var stofnað árið 1910. Félagið er aðildarfélag Ungmennasambands Eyjafjarðar, UMSE. Dragonball. Dragonball er japönsk manga-sería sem var síðar meir gerð að anime-þáttaröð. Dragonball og Dragonball Z segja sögu Goku. Sem er geimvera frá plánetunni "Vegeta". Dragonball er þekkt fyrir að svokallaðir ofurmenn geta skotið rosalegum geislum frá höndum sínum og breytt sér í "Super Saiyans". Ferlið eykur ekki aðeins krafta þeirra til muna, heldur litar það hár þeirra skærljóst. Digraneskirkja. Digraneskirkja er kirkja við Digranesveg 82 í Kópavogi. Digranessöfnuður var stofnaður í ágúst 1971. Kirkjuhúsið. Fyrsta skóflustungan að Digraneskirkju var tekin þann 27. mars 1993 af dr. Sigurbirni Einarssyni biskupi, og sr. Þorbergur Kristjánsson flutti ritningarorð og bæn. Þá voru í sóknarnefnd Þorbjörg Daníelsdóttir, formaður, Kristján Ingimundarson, varaformaður, Jónas Frímansson, ritari, Bjarni Bragi Jónsson, gjaldkeri, Sólveig Árnadóttir, Arnþór Ingólfsson og Hrefna Pétursdóttir. Í varastjórn voru Guðmundur Guðjónsson, Rannveig Sigurðardóttir, Magnús Bjarnfreðsson, Guðrún Vigfúsdóttir og Jón Þorkell Rögnvaldsson. Hitann og þungann af allri undirbúningsvinnu við kirkjubygginguna, m.a. langar umræður um staðsetningu hennar, bar byggingarnefndin, Þorbjörg Daníelsdóttir sóknarnefndarformaður, Jónas Frímansson ritari, Bjarni Bragi Jónsson gjaldkeri, Kristján P. Ingimundarson, varaformaður. Arkitekt var Benjamín Magnússon. Um burðarþolshönnun sá Verkfræðistofa Guðmundar Magnússonar. Suðurverk hf. sá um jarðvinnslu. Byggingarmeistari var Hallvarður S. Guðlaugsson, múrarameistari var Björn Kristjánsson, málarameistari var Guðmundur Helgason, pípulagningarmeistari var Daníel Guðmundsson og rafvirkjameistari var Þórður Kjartansson. Loftræstingu og pípukerfi hannaði Lagnatækni, en Ísloft sá um uppsetningu þess. Rafteikning hannaði raflagnir. Geir Svavarsson hjá Rafís sá um hljóðkerfi kirkjunnar. Um allar innihurðir og innréttingar sá smíðastofan Beyki. Byggingarstjóri var Magnús Bjarnason. Reisugildi kirkjunnar var haldið 4. desember 1993. og bauð sóknarnefndin upp á kaffiveitingar. Hr. Ólafur Skúlason, biskup yfir Íslandi vígði kirkjuna 17. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 25. september 1994 kl. 16:00. Séra Þorbergur Kristjánsson þjónaði fyrir altari ásamt biskupi. Tónlistarflutning fyrir athöfn önnuðust Smári Ólason organisti við Digraneskirkju, Örn Falkner organisti við Kópavogskirkju og Haukur Guðlaugsson söngmálastjóri. Við athöfnina sá Smári Ólason organisti um tónlistarflutnig ásamt Einari Jónssyni og Jóhanni Stefánssyni á trompet. Guðrún Lóa Jónsdóttir söng einsöng, ásamt kór Digraneskirkju og kór Kópavogskirkju. Orgel og kirkjumunir. Orgel kirkjunnar er 19 radda pípuorgel með 1128 pípum, sem Björgvin Tómasson smíðaði. Hökla kirkjunnar gerði Guðrún Vigfúsdóttir veflistakona. Elín Þorgilsdóttir saumaði og gaf altarisdúk sem er á altarinu. Skírnarskálina gerði Jónína Guðnadóttir myndlistamaður úr Hafnarfirði. Leó Guðlaugsson, Víghólastíg 20, gaf moldunarreku sem hann smíðaði úr rekaviði af Hornströndum. Guðrún Vigfúsdóttir gaf handofið efni í hvítan hátíðarhökul og tilheyrandi stólu. Prestar. Fyrsti sóknarprestur við Digraneskirkju var sr. Þorbergur Kristjánsson, kveðjuguðsþjónusta sr. Þorbergs var 30. júli 1995. Sr. Gunnar Sigurjónsson hefur verið sóknarprestur Digraneskirkju frá 1. ágúst 1995. Sumarið 2000 kom til starfa hjá söfnuðinum sr. Magnús Björn Björnsson og sr. Yrsa Þórðardóttir hóf störf haustið 2006. Organistar. Fyrsti organisti við kirkjuna var Smári Ólason, frá 10. águst 1994 til 31. ágúst 1996. Sólveig S. Einarsdóttir var organisti þar frá 1. september 1996 til 31. ágúst 1997 og Kjartan Sigurjónsson frá 1. september 1997 til 31. maí 2010. Þann 1. september 2010 tók Zbigniew Zuchowicz við starfi organista. Sóknarmörkin. Að skipulagi þjóðkirkjunnar mynda söfnuðirnir sóknir. Sóknin okkar nær frá Kópavogsgjánni í vestri, er sunnan Nýbýlavegar og nær að Skálaheiði í austri. Smárahvammslandið sunnan Digraneskirkju er allt í okkar sókn. Sóknarbörn eru u.þ.b. 9000 talsins. Llanquihuevatn. Llanquihuevatn (spænska: Lago Llanquihue) er stöðuvatn í Los Lagos-fylki í Suður-Chile. Puerto Varas er stærsta borgin nálægt vatninu. Rancovatn er 860 ferkílómetrar að stærð og dýpst 317 m. Úr vatninu rennur áin Río Maullín. Búenos Aíres-vatn. Búenos Aíres-vatn (spænska: Lago Buanos Aires, Lago General Carrera) er stöðuvatn í Patagónía í Suður-Chile og Argentínu. Chile Chico er stærsta borgin nálægt vatninu. Rancovatn er 1.850 ferkílómetrar að stærð og dýpst 559 m. Úr vatninu rennur áin Río Baker. Silfurský. Silfurský (eða "lýsandi næturský") eru ský ofan veðrahvolfs í 75-80 km hæð. Þau eru bláhvít, örþunn ský sem minna á slæður. Silfurský þekja heimskautasvæðin á sumrin en sjást aðeins að næturlagi þegar birtuskilyrði nætursólar afhjúpa þau. Ský þessi voru fyrst nefnd á prenti 8. júní 1885 en fyrir þann tíma var talið að skýin væru fylgifiskur eldgosa. Myndun. Silfurský myndast úr ískristöllum með hitastigið 99-123 gráður á celsíus. Ískristallar silfurskýja mynda utan um sig hlífðarhjúp úr málmi vegna hitastigsins. Fyrir vikið endurkasta silfurský radargeislum. Þau skína eftir að sólin hefur sest og eru stundum kölluð lýsandi næturský. Hitastig og magn vatnsgufu stjórnar því hvenær skýin myndast. Hnattrænar bylgjur í efri lögum himinhvolfsins hafa áhrif á ásýnd skýjanna staðbundið. Skýin eru jafnframt mismunandi eftir árstíðum. Silfurský eru rannsökuð í AIM gervihnatta verkefni NASA. Verkefnið hófst þegar gervihnetti var skotið á loft yfir Kyrrahafinu þann 25. apríl 2007. Útblástur geimskutlu, sem er 97% vatn getur færst yfir á heimskautasvæðin á innan við einum degi og myndað silfurský. Uppgvötvun. Silfurský voru uppgötvuð þann 8. júní 1885. Vísindamenn töldu að skýin væru fylgifiskur eldgossins á Krakatá, tveimur árum fyrr. Kenningar þess tíma voru að skýin mynduðust annaðhvort með vatnsgufu eða ösku sem eldfjallið hafði spúið í himingeiminn. Tvær kenningar í byrjun 20. aldar skilgreindu grundvöll skýjanna. Ein þeirra var kenning Wegener frá 1912 um að skýin væri gerð úr vatni og ís. Hin kenningin var sönnun Malzev frá árinu 1926 um að skýin væru ekki eingöngu mynduð vegna eldgosa. Foringjaræði. Foringjaræði er nýlegt hugtak í íslenskri stjórnmálaumræðu sem vísar til þeirrar þróunar að foringjar stjórnmálaflokka (oftast formenn og varaformenn) leika lykilhlutverki en almennur kjörinn þingmaður er atkvæðalítill. Þetta skýtur skökku við vegna þess að formlega séð eru allir þingmenn jafnréttháir en í reyndinni hefur íslenska flokkakerfið, nefnt fjórflokkakerfið, með sinni hefð fyrir meirihlutastjórnum, styrkt stöðu formanna stjórnmálaflokka svo mikið að sumum þykir varhugavert. Samkvæmt 48. gr. stjórnarskrár Íslands eru Alþingismenn einvörðungu bundnir við sannfæringu sína. Það þýðir að þeir lúta ekki boðvaldi neins. Dæmi úr umræðu. Í lok mars 2010 sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að það að tryggja meirihluta þingmanna á þingi til þess að setja lög væri eins og að smala köttum. Eygló Harðardóttir, úr Framsóknarflokknum sagði í umræðum í apríl 2010 um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að jafn mikið foringjaræði tíðkaðist ekki erlendis og að hún myndi óska eftir að Framsókn innleiddi flata forystu, eins og tíðkast í Sænska umhverfisflokknum. Innan raða Vinstri grænna hafa Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason öll talið að vinnubrögð stórra mála hafi einkennst af foringjaræði. Lilja hefur gagnrýnt foringjaræðið um nokkuð skeið og sagði í grein í lok apríl 2010 „"Ástæða þess að ég ákvað að skipta um starfsvettvang og taka þátt í pólitík var til þess að berjast fyrir endurreisn íslensks samfélags á forsendum almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Ég valdi mér stjórnmálaflokk sem hefur á stefnuskrá sinni að byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag. Stefna flokksins hefur fram til þessa verið mér kærari en hlýðni við forystuna, enda gekk ég ekki til liðs við ákveðna einstaklinga."“ Allir þrír þingmennirnir sátu hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarp 2011 og er það einsdæmi að stjórnarþingmenn sitji hjá við afgreiðslu fjárlaga á Íslandi. Í framhaldi af því urðu nokkrar deilur innan VG vegna þessa og m.a. fóru þremenningarnir fram á afsökunarbeiðni frá þingflokksformanni VG Árna Þór Sigurðssyni. BLAST. BLAST eða Basic Local Aligment Search Tool er tól sem finnur samsvörun á milli basaraða eða prótínraða. Það ber saman basa eða prótein raðir við raðir í gagnagrunninum og reiknar út með tölfræði hve líkar þessar raðir þegar þær eru bornar saman. Þessi útreikningur getur verið notaður til að finna skyld gen, prótínhneppi og mRNAraðir. BLAST er haldið úti af Miðstöðu lífupplýsinga við Heilbrigðistofnun Bandaríkjanna Pubmed. PubMed er opinn og gjaldfrjáls gagnagrunnur sem leita má í og skoða í gegnum veraldarvefinn. Í honum á finna rúmlega 20 milljónum heimilda frá gagnagrunni MEDLINE. Nálgast má ritrýndar vísindagreinar og bækur á sviði lífvísinda, læknisfræði og skyldra greina. Gagnagrunninum er haldið við af Miðstöð lífupplýsinga við heilbrigðisvísindastofnun Bandaríkjanna (National Center for Biotechnology Information (NCBI), National Institutes of Health (NIH)). Í grunninum má leita með lykilorðum en einnig með þrengri skilyrðum um höfunda, tímarit, árabil og fleira. Letters to Juliet. Letters to Juliet er bandarísk rómantísk gamanmynd frá árinu 2010 og í aðalhlutverkum eru Amanda Seyfried, Chris Egan, Vanessa Redgrave, Gael García Bernal og Franco Nero. Gary Winick leikstýrði myndinni og kom hún í bíó í Bandaríkjunum þann 14. maí 2010 en þann 28. júlí á Íslandi. Söguþráður. Sophie (Amanda Seyfried) er bandarísk stelpa sem vinnur fyrir tímaritið "The New Yorker" og sér um að sannreyna staðreyndir. Til að auka neistann í lífi sínu ákveður hún að fara í „fyrir-brúðkaupsferð“ með kærastanum sínum; kokknum Victor (Gael Gacia Bernal) sem er vinnualki, til Verona. En hinn vinnuglaði Victor er óhreyfður af töfrum Ítalíu og ver tíma sínum í að stunda rannsóknir fyrir veitingastaðinn sinn sem opnar bráplega og hunsar Sophie algjörlega. Hin einmana Sophie finnur fyrir slysni ósvöruðu „bréfi til Júlíu“ frá Clarie á 6. áratugnum — eitt af þúsundum bréfa sem hafa verið skilin eftir í garðinum við húsið sem Júlía á að hafa búið í, sem er oftast svarað af einum af „riturum Júlíu“. Sophie svarar bréfinu og fljótlega kemur hin nú aldraða Claire (Vanessa Redgrave) til Verona með barnabarni sínu, Charlie (Christoper Egan) sem er lögfræðingur og vinnur fyrir mannréttindum. Charlie og Sophie verða strax ósátt og er Charlie mjög ónærgætinn við Sophie á meðan hún er kaldhæðin í hans garð. Á meðan er Claire enn að leita týndu ástarinnar sinnar, Lorenzo Bartolini. Sophie heldur að saga Clair gæti hjálpað henni að verða rithöfundur og ákveður að hjálpa Claire í leitinni. Það sem gerist næst er saga rómantískra viðsnúninga. Þau leita að mörgum Lorenzo Bartolini. Eftir margra daga leit komast þau að því að einn Lorenzo Bartolini er dáinn. Charlie er reiður og ásakar Sophie fyrir dapurleika ömmu sinnar og öskrar á hana og segir að hún viti ekkert um hvað alvöru missir sé, sem verður til þess að Sophie gengur í burtu í uppnámi. Clarie sér litla rifrildið og segir Charlie að hann hafi rangt fyrir sér þar sem móðir Sophie hafi yfirgefið hana þegar hún var lítil stelpa. Daginn eftir krefst Claire þess að Charlie biðjist afsökunar og í morgunmatnum gerir hann það. Eftir kvöldmat fer Sophie út og talar við Charlie um ástina og hann kyssir hana. Snemma morguninn eftir, þar sem þetta er síðasti dagurinn þeirra í leitinni, bendir Claire á vínekru og spyr Charlie hvort hann geti stöðvað þar svo að þau geti skálað fyrir Sophie. Þegar Charlie keyrir veginn að vínekrunni sér Claire mann sem lítur nákvæmlega eins út og hennar Lorenzo. Hún kallar á Charlie að stoppa og hann hlýðir því. Það kemur í ljós að maðurinn er barnabarn Lorenzo Bartolini. Claire og Lorenzo hittast að lokum eftir 50 löng ár. Þegar Sophie kemur aftur til New York ákveður hún að slíta sambandinu við Victor. Sophie snýr aftur til Verona til að vera við brúðkaup Clarie og Lorenzos. Hún finnur Charlie þar með annarri konu og hleypur út. Charlie finnur hana stuttu seinna og hún játar að hún sé ástfangin af honum en segir honum að fara aftur til konunnar sem hann kom með. Hann segir Sophie þá að konan sé frænka hans og hann segir henni að hann elski hana líka og kyssir hana. IBEX 35. IBEX 35 er hlutabréfavísitala sem samanstendur af 35 hlutabréfum í jafnmörgum fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni í Madrid. Hannes Hafliðason. Hannes Hafliðason (19. júlí 1855 – 21. janúar 1931) var sjómaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1903 til 1908 og aftur frá 1912 til 1918. Ævi og störf. Hannes fæddist í Gufunesi í Reykjavík. Hann stundaði sjómennsku og var skipstjóri á þilskipum um árabil. Kennari í stýrimannafræði og prófdómari við Stýrimannaskólann um langa hríð. Forseti Fiskifélags Íslands 1911-1913 og 1915-1921. Átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur og gegndi stöðu slökkviliðsstjóra 1905-1908. Pétur G. Guðmundsson. Pétur Georg Guðmundsson (6. september 1879 – 13. ágúst 1947) var bókbindari, blaðamaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1910 til 1914. Ævi og störf. Pétur fæddist á Bjarnastöðum í Saurbæjarhreppi. Lærði bókband hjá Arinbirni Sveinbjarnarsyni og lagði lengi stund á iðngrein sína. Var meðal stofnenda Verkamannafélagsins Dagsbrúnar árið 1906 og ritstýrði þá fyrsta málgagni verkamanna á Íslandi, Alþýðublaðinu hinu fyrra. Varð annar formaður Dagsbrúnar árið 1908. Gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hreyfingu launafólks og félög bókbindara. Var kjörinn í bæjarstjórn Reykjavíkur af lista Dagsbrúnar árið 1910, en í sömu kosningum náði gamli bókbandsmeistari hans, Arinbjörn Sveinbjarnarson kjöri fyrir Heimastjórnarflokkinn. Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin. Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin var stofnuð árið 1999. Sveitin er rústabjörgunarsveit og er aðili að regnhlífasamtökum alþjóða rústabjörgunarsveita INSARAG. Sveitin hefur aðsetur á Keflavíkurflugvelli og að sveitinni standa Björgunarsveitin Ársæll, Hjálparsveit skáta Kópavogi, Hjálparsveit skáta Reykjavík, Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Björgunarsveitin Suðurnes, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Landspítalinn. Tyrkland, 1999. Fyrsta útkall sveitarinnar var til Tyrklands, árið 1999. Alsír, 2003. 21. maí 2003 varð jarðskjálfti 6,7 á Richter nærri bænum Thénia í norðurhluta Alsír. Fyrstu viðbrögð frá Alsír hvort sveitarinnar væri þörf voru neikvæð, en skömmu síðar óskuðu stjórvöld eftir aðstoð. 23. maí lagði íslenska alþjóðabjörgunarsveitin af stað til Alsír. Sveitin tók tengiflug til Lundúna og Rómar áður en kom að fluginu til Alsír. Marokkó, 2004. 25. febrúar, kl. 7:00 lagði sveitin af stað til Oujuda í Marokkó. Stjórnstöð aðgerða var í bænum Al Hoceima. Ásamt íslandi voru sveitir frá Hollandi, Frakklandi, Lúxemborg, Austurríki, Portúgal, Tyrklandi, Grikklandi, Spán, Belgíu, Tékklandi og Ungverjalandi. Haiítí, 2010. Þegar fréttist af skjálftanum var utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson kallaður til að fjármagna förina. Össur fékk staðfestingu frá fjármálaráðherra og sendiherra Haítí í Bandaríkjunum veitti samþykki sitt. Formlegt samþykki landsins var þó ekki veitt fyrr en á leiðinni til landsins enda samskipti landsins í molum. Fyrsta verk sveitarinnar var að finna búðir fyrir björgunaraðgerðirnar. Eftir að hafa ekið um höfuðborgina ákváðu þeir að byggja stöðina við flugvöllinn. Sem fyrsta sveit á svæðið byggðu þeir samskiptastöð, sem var virk eftir að sveitin fór 10 dögum síðar. Á öðrum degi sínum voru þeir kallaðir að verslunarmiðstöðinni Caribbean Market. Argentísk björgunarsveit hafði kortlagt tvo einstaklinga sem sú íslenska átti að sækja. Auk þess fengu þeir teikningar frá verslunarstjóranum sem þeir unnu eftir. Næsta verkefni sveitarinnar var að kortleggja svæðið. Við það notaðist sveitin við mannafla á íslandi, sem fann mörg rústasvæði í gegnum frásagnir fjölmiðla. Á lokadegi sveitarinnar í Haítí vann hún í rústum Montana hótelsins í höfuðborg Haítí Port au Prince. Leiguflug frá Iceland Express flutti sveitina aftur heim þann 20. janúar. Sveitin gaf út bók og kvikmynd um undirbúning, aðdraganda og út kallið til Haiítí árið 2010. Jafnframt kom sveitin til sögu í spjallþætti Opruh Winfrey, um björgunarstarf allra sveita á eyjunni. Silkitoppa. Silkitoppa (fræðiheiti: "Bombycilla garrulus") er spörfugl af silkitoppaætt sem svipar til stara að stærð og vexti. Hann hefur breiðan topp og rauðbrúnan til grábrúnan lit og svartan blett á hálskverk og við augar og gult endabelti á stéli. Einnig eru gult, hvítt og rautt í væng. Á fullorðnum fuglum er gult eða hvítt V á enda handflugfjaðra. Silkitoppa verpir í furuskógum nyrst í Evrópu, Síberíu og Ameríku. Utan varptíma lifir hún á berjum og flakkar sum ár í hópum út fyrir venjuleg vetrarheimkynni. Eðjustökkull. Eðjustökkull (eða leðjuvamli) (fræðiheiti: "Periophthalmus barburus") er láðs- og lagarfiskur af kýtlingaætt. Eðjustökkullinn er aðallega að finna í fenjaskógum Afríku og Asíu. Hann heldur sig til þar sem gætir flóðs og fjöru og þegar örfiri er gengur hann á land og nærist á smádýrum. Hann notast þá við eyruggana til að ýta sér áfram og hefur vatn með sér sem hann geymir í húðpokum undir tálknunum. Hann neyðist svo til að skipta því út reglulega, en getur þess á milli valsað um í rakri leðjunni eins og hann væri landdýr. Codex Laudianus. Codex Laudianus (Skammstafað Ea (Wettstein), 08 (Gregory) eða α 1001 (Von Soden)) er handrit af Nýja testamentinu. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 6. öld e.Kr. Handritið er geymt í Bodleian Library (Laud. Gr. 35 1397, I,8) í Oxford. Handritið er nú 227 blöð (27 x 22 cm). Textinn er í tveimur dálkum, 24 línur á hverri síðu. Ron Hardy. Ron Hardy (f. 8. maí 1958 - d. 2. mars 1992) var bandarískur plötusnúður. Hann var plötusnúður í Chicago og spilaði á skemmtistaðnum The Music Box. Hann ásamt Frankie Knuckles í klúbbnum The Warehouse lögðu mikið til grunninn að House tónlist og velgengni hennar. DJ Pierre Fór til the Music Box og Lét Ron Hardy fá upptöku af fyrsta Acid House laginu. Það hét upprunalega „In Your Mind“ en var skýrt aftur af Ron Hardy „Acid Trax“ af því að allir í skemmtistaðnum kölluðu það „Ron Hardy's Acid Trax“. Codex Boreelianus. Codex Boreelianus (Skammstafað Fe (Wettstein), 09 (Gregory) eða ε 86 (von Soden) er með handrit af Nýja testamentinu. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 9. öld e.Kr. Handritið er geymt í Universität Utrecht (Ms. 1) í Utrecht. Í handritinu eru textar guðspjallanna fjögurra. Handritið er nú 204 blöð (28,5 x 22 cm). Textinn er í 2 dálkum, 19 línur á hverri síðu. Undirætt (flokkunarfræði). Undirætt er flokkunarfræðilegt hugtak sem á við um hóp dýra sem öll tilheyra sömu undirætt. Max Delbrück. Max Ludwig Henning Delbrück (fæddur 4. september 1906 í Berlín, dáinn 9. mars 1981 í Pasadena í Kaliforníu) var þýskur og bandarískur eðlisfræðingur og sameindaerfðafræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa með tilraunum sínum lagt grunninn að sameindalíffræði. Hann hlaut Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði ásamt Salvador Luria og Alfred Hershey árið 1969 fyrir rannsóknir á afritunarferli erfðaefnisins og erfðafræði veira. Æviágrip. Max Delbrück fæddist inn í mikils metna fræðimannafjölskyldu. Faðir hans, Hans Delbrück, var prófessor í sagnfræði við Háskólann í Berlín og móðir hans, "Carolina Thiersch", var barnabarn hins þekkta efnafræðings Justus von Liebig. Föðurbróðir hans og nafni, Max Delbrück eldri, var þekktur efnafræðingur og frumkvöðull í líftækni gers. Delbrück nam stjörnufræði og kennilega eðlisfræði við Háskólann í Göttingen og útskrifaðist með doktorsgráðu árið 1930. Að því loknu starfaði hann að tímabundnum rannsóknaverkefnum, fyrst hjá John Lennard-Jones í Bristol og síðan hjá Niels Bohr í Kaupmannahöfn. Bohr og vangaveltur hans um algildi skammtafræðinnar, meðal annars varðandi lífverur og lífefnafræði, höfðu mikil áhrif á Delbrück og kveiktu hjá honum áhuga á þverfaglegum rannsóknum og líffræði. Hann fluttist aftur til Berlínar árið 1932 og starfaði sem rannsóknamaður hjá Lisu Meitner við "Kaiser Wilhelm stofnunina", en hún vann þá ásamt Otto Hahn að hinum þekktu rannsóknum sínum á geislavirkni úraníums. Á þessum tíma vann hann að kennilegum rannsóknum sínum á ljósbroti gammageisla sem síðar varð kennt við hann. Árið 1937, þegar honum þótti afskipti nasista af rannsóknastarfi í Berlín orðin ólíðandi, flutti Delbrück til Bandaríkjanna og tók þá af fullum krafti til við rannsóknir í lífvísindum, fyrst við Caltech þar sem hann fékkst við erfðafræði bananaflugna. Við Caltech kynntist hann fyrst bakteríum og veirum þeirra (gerilætum eða "fögum"). Árið 1942, þá starfandi við Vanderbilt Háskóla í Tennessee, sýndu hann og Salvador Luria fram á að þolni baktería gegn gerilætum kemur til vegna slembiháðra stökkbreytinga, en ekki vegna aðlögunar. Fyrir þessa rannsókn hlutu þeir Nóbelsverðlaunin, ásamt Alfred Hershey. Codex Augiensis. Codex Augiensis (Skammstafað Fp (Wettstein), 010 (Gregory) eða α 1029 (Von Soden), 12 (Beuron)) er með handrit af Nýja testamentinu. Það er skrifað með hástöfum á forngrísku og var unnið á 9. öld e.Kr. Handritið er geymt í "Trinity College" (B. XVII. 1) í Cambridge. Í handritinu eru textar Bréfa Páls postula. Handritið er nú 136 blöð (23 x 19 cm). Textinn er í 2 dálkum, 28 línur á hverri síðu. Ung vinstri græn í Borgarbyggð. Ung vinstri græn í Borgarbyggð er svæðisfélag Ungra vinstri grænna í Borgarbyggð. Vegna góðs gengis Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningum 2009 og sveitarstjórnarkosningum í Borgarbyggð 2010 þótti tilefni til að stofna ungliðahreyfingu í sveitarfélaginu. Vinstri grænir hafa þrjá þingmenn í NV-kjördæmi og tvo fulltrúa af 9 í sveitarstjórn Borgarbyggðar. UVGB er eina ungliðahreyfing flokksins í NV-kjördæmi. Stofnfundur UVGB fór fram 6. október 2010. Frímúrareglan á Íslandi. Frímúrarareglan á Íslandi (stofnuð 23. júlí 1951) er íslenskt bræðrafélag. Hún er ein af tveimur frímúrareglum á Íslandi. Hún hefur rúmlega 3.000 félaga í 27 "stúkum". Reglan er einskonar skóli, skipt í 11 "stig" sem skiptist á stúkur reglunnar. Hún veitir mönnum dýpri skilning á sjálfum sér og umhverfinu. Hún styður kristna trú og gerir kröfu um að allir meðlimir félagsins séu kristnir. Meðal stofnenda reglunnar á Íslandi var Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands. Frímúrarareglan á Íslandi hefur aðsetur á 13 stöðum á landinu. Skráð félagsamtök frímúra eru tíu og þau eru frímúraklúbburinn Norðurljós í Reykjanesbæ, Frímúrareglan Vestmannaeyjum, Frímúrareglan á Akureyri, Frímúrareglan á Húsavík, Frímúrastúkan Njörður í Hafnarfirði, Frímúrastúkan Vaka á Eskifirði og Frímúrareglan á Íslandi. Auk þess er frímúrakór starfræktur fyrir starfsemi og uppfærslur listamanna og Frímúrasjóður fyrir styrkveitingar reglunnar. Stigskipting. Inngangskröfur reglunnar er 24 ára aldur, kristin trú, óflekkað mannorð og að tveir meðlimir innan reglunar mæli með einstaklingnum. Eftir umsókn tekur við biðtími sem er ákvörðunartími reglunnar. Nýr meðlimur gengur í Jóhannestúku og tilheyrir henni alltaf enda er hún móðurstig reglunnar. Eftir að meðlimur hefur hækkað sig um þrjú stig, er hann færður í St. Andrésarstúku, en þetta þýðir að meðlimurinn færist í aðra stúku innan reglunnar. Á þennan hátt færir meðlimur sig upp um stig og stúkur. Á fundum félagsins, á öllum stigum notast fundarstjóri við tungumál án orða. Þetta táknmál á að höfða til samúðar og tilfinninga annara fundamanna. Gils Guðmundsson. Gils Halldór Guðmundsson (31. desember 1914 – 29. apríl 2005) var íslenskur rithöfundur og stjórnmálamaður. Ævi og störf. Gils fæddist í Hjarðardal í Önundarfirði hann ólst upp vestra, en hélt síðar til Reykjavíkur þar sem hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum árið 1938. Fljótlega sneri Gils sér að ritstörfum og varð mikilvirkur höfundur bóka um sagnfræðileg málefni. Verk hans um Skútuöldina, sem rakti sögu skútuútgerðar við Ísland naut gríðarlegra vinsælda og sama máli gegndi um ritröðina "Aldirnar" (Öldin okkar, Öldin sem leið o.fl.), þar sem Íslandssagan var sögð í smáfréttastíl. Gils var formaður Rithöfundasambandsins 1957 til 1958 og forstjóri Menningarsjóðs frá 1956 til 1975. Stjórnmálaafskiptin hófust í tengslum við herstöðvamálið. Hann var meðal stofnenda Þjóðvarnarflokksins og sat á þingi fyrir flokkinn frá 1953 til 1956. Hann kom mjög að stofnun Samtaka hernámsandstæðinga árið 1960, sem voru þverpólitísk samtök andstæðinga hersetunnar. Árið 1954 skipaði Gils annað sætið á lista Þjóðvarnarmanna í bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík, sem talið var baráttusætið. Flokkurinn náði einum fulltrúa, Bárði Daníelssyni, en hann tók ekki strax sæti vegna spillingarmáls sem var í rannsókn. Því var Gils um nokkurra mánaða skeið aðalmaður í bæjarstjórn. Síðar gekk hann til liðs við Alþýðubandalagið og sat á þingi fyrir Reykjaneskjördæmi frá 1963 til 1979. Hjalmar Hammarskjöld. Knut Hjalmar Leonard Hammarskjöld (f. 4. febrúar 1862, d. 12. október 1953) var sænskur fræðimaður, lögspekingur, stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar frá 1914 til 1917. Hammarskjöld sat á þingi frá 1923 til 1938. Hjalmar Hammarskjöld var faðir Dag Hammarskjöld, aðalritara Sameinuðu Þjóðanna frá 1953-1961. Hammarskjöld var af aðalsættum. Árið 1884 útskrifaðist hann með kandídatspróf í lögfræði frá Uppsalaháskóla og tveimur árum síðar hóf hann kennslu við sama skóla sem dósent. Árið 1891 varð hann prófessor í lögfræði við sama skóla. Hammarskjöld var á sínum tíma einn fremsti lögspekingur Svíþjóðar og hafði mikil áhrif á norrænan einkamálarétt. Áhrif hans voru einnig mikil innan alþjóðaréttar en hann varð dómari við Alþjóðagerðardóminn í Haag árið 1904. Alþjóðagerðardómurinn var stofnaður 1899 með það hlutverk að miðla málum og komast að niðurstöðum í ríkjadeilum og er aðskilinn Alþjóðadómstólnum í Haag, sem stofnaður var árið 1945. Hammarskjöld tók fyrst þátt í stjórnmálum sem utanþingsraðherra (dómsmálaráðherra, 1901-1902) í ríkisstjórn Fredrik von Otter. Þá var hann menntamálaráðherra í ríkisstjórn Christian Lundeberg sem sat haustið 1905. Hammarskjöld tók þátt í samningum vegna aðskilnaðar Svíþjóðar og Noregs árið 1905. Hammarskjöld var um stund sendiherra í Danmörku en eftir bændagönguna (bondetåget, 1914) var hann skipaður forsætisráðherra í utanþingsstjórn sem sat til 1917. Hammarskjöld þótti ósveigjanlegur og hallur undir Þjóðverja en hann neitaði meðal annars að skrifa undir verslunarsmaning við Breta sem Marcus Wallenberg, bróðir Knut Wallenberg sem var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Hammarskjöld. Ósætti innan ríkisstjórnarinnar varð til þess að hún missti stuðning íhaldsmanna í þinginu og féll stjórnin um vorið 1917. Þá var Hammarskjöld kennt um vöruskort og hungur sem íbúar Svíþjóðar þurftu að líða á stríðsárunum og var í því sambandi talað um „Hungur-skjöld“ (s. "Hungerskjöld"). Heimild. Hammarskjöld, Hjalmar OMIM. OMIM eða Online Mendelian Inheritance in Man er opinn vefur um mendelska eiginleika mannsins. Þetta er skráð vörumerki hjá Johns Hopkins háskólanum og er viðhaldið af NCBI. Þetta er gagnagrunnur sem heldur utan um upplýsingar um sambönd milli svipgerða og arfgerða. Gagngrunnurinn á rót sína í uppflettibækur um erfðir mannsins (MIM). Gagnagrunnurinn inniheldur texta upplýsingar um gen, stökkbreytingar, áhrif þeirra, sjúkdóma og vitanlega tilvísanir í frumheimildir. ENSEMBL. Ensembl er samvinnuverkefni EMBL-EBI og Wellcome Trust Sanger Institute. Þetta er gagnagrunnur sem inniheldur upplýsingar um erfðamengi valinna hryggdýra og annarra heilkjörnunga og eru þessar upplýsingar aðgengilegar á vefnum. Aðalhugmyndin með þessu verkefni samtvinna og setja fram með myndrænum hætti röð genum og önnur erfðafræðileg gögn, heimildir og upplýsingar. Vefsíðan inniheldur öflugt kerfi Biomart til að finna og hlaða niður hluta gagnagrunnsins, fyrir afmarkaðar rannsóknir. UCSC Genome Browser. UCSC Genome Browser er vefsíða sem samþættir DNA raðir úr raðgreindum erfðamengjum hryggdýra og lífupplýsingar úr ýmsum áttum. Hún var sett upp og er viðhaldið af Genome Bioinformatics Group, samstarfsverkefni tveggja deilda innan Kaliforníuháskóla í Santa Cruz. Með þessari vefsíðu er hægt að skoða gögn úr mörgum erfðamengjum, þar sem hægt er að skoða þekkt gen, spá fyrir genum, SNP og fjöl-tegunda greiningu ásamt mörgu öðru. UCSC genome browser þjónar svipuðu hlutverki og ENSEMBL. ENCODE. ENCODE eða ENCyclopedia Of DNA Elements er verkefni sem fjallar um að finna út virkni hinna mismunandi hluta erfðamengis mannsins. Um er að ræða samstarfsverkefni margra rannsóknarhópa styrkt af National Human Genome Research Institute (NHGRI). Markmið þessa verkefnis er að finna alla virka hluta í erfðamengi mannsins. Dæmi um virka hluta eru raðir sem skrá fyrir prótínum, raðir sem virka sem bindiset fyrir stjórnþætti, raðir sem mynda RNA sem ekki eru þýdd í prótín. Einnig er ætlunin að kortleggja eftirmyndun DNA, bindingu litninsprótína og litnisagna í ýmsum tilbrigðum í mismunandi frumugerðum eða vefjum. Upplýsingarnar eru samþættar erfðamenginu, eins og til dæmis á erfðamengjavafrara háskólans í Santa Cruz. Brjóstahaldari. Brjóstahaldari (stundum einnig brjóstahald eða brjóstahöld) er flík sem konur klæðas til að halda uppi brjóstunum og styðja við þau. Brjóstahaldarar eru með skálum sem lykja um brjóstin og í neðri jöðrum þeirra eru oft vírar til stuðnings. Saga. Sérstakar flíkur til að hylja og styðja brjóstin hafa þekkst í þúsundir ára og voru stundum notaðir lindar sem reyrðir voru um brjóstin, stundum til að þrýsta þeim upp. Á síðmiðöldum urðu lífstykki algeng og eitt hlutverk þeirra var að lyfta brjóstunum og móta þau. Talið er að nútímabrjóstahaldarar hafi þróast út frá lífstykkjum en fyrsta flíkin sem segja má að kallast geti brjóstahaldari var hönnuð af Oliviu P. Flynt árið 1876. Flíkin sem hún fékk einkaleyfi á var þó með stuttum ermum en ekki hlýrum. Umdeilt er hvort það hafi verið Herminie Cadolle eða Mary Phelps Jacob sem skapaði fyrsta brjóstahaldarann með nútímasniði en Jacob fékk einkaleyfi fyrir sínum haldara árið 1914. Nú eru til fjölmargar gerðir brjóstahaldara, svo sem upplyftingar (e. "push-up") og aðrir slíkir sem láta brjóstin virðast stærri og gera meira úr brjóstaskorunni en ella en einnig eru til brjóstahaldarar sem láta brjóstin sýnast minni. Einnig eru til hlýralausir haldarar, íþróttabrjóstahaldarar, meðgöngubrjóstahaldarar og brjóstagjafahaldarar, auk annarra gerða. Flestir brjóstahaldarar eru kræktir á bakinu með krókum og höldum en einnig eru til brjóstahaldarar sem eru kræktir að framan. Stærðir. Stærðaflokkun brjóstahaldara er tvöföld, annars vegar er um að ræða ummál líkamans undir brjóstum og hins vegar skálastærð. Því eru brjóstahaldrar framleiddir í mun fleiri stærðum en aðrar flíkur og er ekki óalgengt að hver tegund sé framleidd í 36 mismunandi stærðum og jafnvel fleiri. Skálastærðin er táknuð með bókstöfum og gefur til kynna mismuninn á ummáli undir brjóstum og um brjóstin; því er skálarnar á C 38-brjóstahaldara í raun mun stærri en á C 32-brjóstahaldara. Minnsta stærðin sem fæst í verslunum er A (í Bandaríkjunum er AA minnst) en þá er innan við 10 cm munur á brjóstmáli og ummáli undir brjóstum. D táknar að munurinn sé um 18 cm en þegar komið er í stærri stærðir er í raun ekki um neina stöðlun að ræða og þegar munur á ummáli og brjóstmáli er um 25 cm kallast skálastærðin G í Bretlandi en I, J eða K í Bandaríkjunum. Stærstu brjóstahaldarar sem fást í almennum undirfataverslunum eru yfirleitt af stærð G, GG eða H í Bretlandi og J-L í Bandaríkjunum. Konur sem þurfa stærri skálar þurfa að leita til sérverslana. Jens Lekman. Jens Martin Lekman (fæddur 6. febrúar 1981 í Angered, Svíþjóð) er sænskur söngvari sem býr í Melbourne í Ástralíu. Hann spilar sjálfstætt popp og notar aðallega gítarhljoð blönduð með úrtökum og hljóðum strokhljóðfæra. Söngtextarnir hans eru oft fyndnir, rómantískir en svolítið þunglyndir. Tónlistamennirnir Jonathan Richman og Belle & Sebastian hafa haft mikinn áhríf á tónlist hans. Hann hefur verið samanborinn við Stephin Merritt úr The Magnetic Fields og David Byrne. 20th Century Fox. Twentieth Century Fox Film Corporation (einnig þekkt sem 20th Century Fox, 20th eða bara Fox) er eitt af sex stórum kvikmyndafyrirtækjum Bandaríkjanna. Það er staðsett í Century City í Los Angeles, Kaliforníu, rétt vestur við Beverly Hills. 20th Century Fox er dótturfyrirtæki fjölmiðlafyrirtækisins News Corporation sem er í eigu Rupert Murdoch. 20th Century Fox var stofnað 31. maí 1935 við sameiningu tveggja kvikmyndagerðarfyrirtækja: Fox Film Corporation sem stofnað var af William Fox árið 1915, og Twentieth Century Pictures, stofnað árið 1933 af þeim Darryl F. Zanuck, Joseph Schenck, Raymond Griffith og William Goetz. Nokkrar vinsælustu kvikmyndir sem 20th Century Fox framleiddu eru meðal annnars "Avatar", "Simpsonfjölskyldan", "Stjörnustríð", "Ísöld", "Garfield", "Alvin and the Chipmunks", "X-Men", "Die Hard", "Alien", "Speed", "Revenge of the Nerds", "Apaplánetan", "Home Alone", "Dr. Dolittle", "Night at the Museum", "Predator", and "Töfralandið Narnía" (áður í eigu Walt Disney Pictures). Nokkrir þeir vinsælustu leikarar sem unnið hafa hjá fyrirtækinu eru Shirley Temple, Betty Grable, Gene Tierney, Marilyn Monroe og Jayne Mansfield. Síðast hefur 20th Century Fox unnið á velheppnaðan hátt með eftirfarandi fyrirtækjum: 1492 Pictures, Lucasfilm, Lightstorm Entertainment, Davis Entertainment, Walden Media, Regency Enterprises, Blue Sky Studios, Troublemaker Studios, Marvel Studios, Ingenious Film Partners, Scott Free Productions, Gracie Films, EuropaCorp, Color Force, Centropolis Entertainment, Conundrum Entertainment, Bad Hat Harry Productions, Dune Entertainment, Chernin Entertainment, The Donners' Company, 21 Laps Entertainment og Spyglass Entertainment. Genakort. Genakort sýna fjarlægð á milli gena og röð þeirra með því að skoða endurröðunartíðni á milli erfðamarka eða arfgengra eiginleika. Erfðamörk eru sameindalegar breytingar á erfðaefninu (SNP, DNA örtungl, innskot eða úrfellingar). Genakort eru byggð út frá ættartré, æxlun á milli skilgreindra stofna eða lína (stundum innræktaðra afbrigða) og með geislamerkingum á frumulínublendingum. Erfðafræðilegar lengdir eru gefnar upp í einingunni Morgan eða centiMorgan (cM). Genakort og raunkort eru mismunandi, því raunkort lýsa bara röð basa á litningi, en genakortið segir til um fjarlægð í endurröðunareiningum. Raunkort. Raunkort sýna fjarlægðir á milli gena og erfðamarka í raunfjölda basa. Þau eru búin til með því að finna lengdir í bösum, kílóbösum og megabösum á milli hluta í erfðamenginu. Þessi hlutir geta verið til dæmis gen, stjórnraðir, skerðiset fyrir skerðiensím og STS (sequence tagged sites). Genakort og raunkort eru mismunandi, því raunkort lýsa bara röð basa á litningi, en genakortið segir til um fjarlægð í endurröðunareiningum. 2010 (kvikmynd). 2010 er vísindaskáldsögumynd frá árinu 1984. Myndin er sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar. 2010 var bræði leikstýrt og skrifuð af Peter Hyams. Kyntákn. Kyntákn er frægur einstaklingur annaðhvort karl eða kona, að jafnaði leikari, söngvari, ofurfyrirsæta eða íþróttamaður, sem þekktur er fyrir kynþokka sinn. Slúðurblöð, stjörnuljósmyndarar og slúðurgjarnir spjallþættir öll leika hlutverk sitt í að skapa skynjun almennings á kyntákn. Eftirspurn frá almenningi eftir kynferðislegum myndum og myndböndum af stjörnum knýr þessa iðnaði fram. Dæmi um þetta eru fjölmiðlafár í blöðum eins og "Maxim", og óheimildar myndir sem teknar hafa verið af stjörnuljósmyndurum. Nokkur dæmi um kyntákn eru Elvis Presley, Michael Jackson, Marilyn Monroe, Madonna, Pamela Anderson, Janet Jackson og Orlando Bloom. Jólarefur. Jólarefur hét matur sá sem hverjum heimilismanni var skammtaður til jólanna (ket og flot o.s.frv.) á aðfangadagskvöldið. Vogue. "Vogue" er tísku- og lífsstílstímarit sem fyrirtækið Condé Nast Publications gefur út á 18 löndum. Í hverri útgáfu "Vogue" er fjallað um tísku, lífstíl og hönnun. "New York Times" telur "Vogue" heimsins áhrifamesta tískutímarit nú til dags. Undanfarin ár er ritstjóri tímaritsins Anna Wintour orðin velþekkt fyrir stjórnunarstíl sinn þannig að bók hefur verið skrifuð um hana að nafni "The Devil Wears Prada", sem var gerð að kvikmynd árið 2006. Saga. Tímaritið var stofnað árið 1892 af Arthur Baldwin Turnure og það var gefið út vikulega. Þegar að hann dó árið 1909 keypti Condé Nast tímaritið og það hófst að vaxa. Fyrsta breyting sem Nast gerði var að tímaritið varð gefið út aðra hverja viku. Á öðrum áratug 20. aldar fór Nast til útlanda. Hann fór til Bretlands og þar stofnaði hann annað "Vogue", sem gekk vel. Þá fór hann til Spánar en þar gekk honum ekki svo vel. Síðast fór hann til Frakklands og stofnaði "Vogue" þar, sem gekk ákaflega vel. Bæði fjöldi ritverka í eigu tímaritsins og hagnaður þess uxu mikið undir stjórn Nasts. Áskriftir stórjukust í Kreppunni miklu og aftur á seinni heimsstyrjöldinni. Á sjöunda áratugnum undir ritsjórn Diönu Vreeland lék "Vogue" hlutverk í kynferðislegu byltinginni með því að beina sér að samtímatísku og að ræða kynlíf opinberlega. "Vogue" hélt áfram að gera fyrirsætum að velþekktum stjörnum, þar á meðal Suzy Parker, Twiggy, Jean Shrimpton, Lauren Hutton, Veruschka, Marisa Berenson og Penelope Tree. Árið 1973 var byrjað á að gefa út "Vogue" mánaðarlega. Undir Grace Mirabella voru margar ritstjórnar- og stílsbreytingar hjá tímaritinu, sem viðbragð við breytandi bragðskyn markhóps tímaritsins. Núverandi ritsjóri "Vogue" er Anna Wintour, sem þekkt er fyrir hárgreiðslu sína og að hún er með sólgleraugu innandyra. Síðan hún tók við stjórn tímaritsins árið 1988 hefur Wintour reyndi að verja orðstír "Vogue" fyrir þeim annarra tímarita. Til þess að afreka það beindi hún "Vogue" að nýjum hugmyndum um tísku svo að tímaritið heillaði nýja lesendur. Þannig gat Wintour haldið dreifingu hárri og uppgötvað nýjar tískusveiflur sem lesendur gætu haft efni á. Til dæmis á fyrstu forsíðu Wintours var ísraelska fyrirsætan Michaela Bercu í gallabuxum og jakka eftir Christian Lacroix. Þetta var ólíkt því sem forverar hennar hafði gert, þar sem þau settu nærmynd af andlit konu á forsíðuna. All About Eve. "All About Eve" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1950 með Bette Davis í aðalhlutverki. Myndin var leikstýrð af Joseph L. Mankiewicz og byggð á smásögu frá árinu 1946 sem að heitir The Wisdom of Eve. Bette Davis fer með aðalhlutverk í myndinni sem Margo Channing, gömul Broadway-stjarna. Anne Baxter leikur Eve Harrington, ungan aðdáanda Channing sem að verður hluti af lífi hennar og ógnar ferli hennar og samböndum hennar. Myndin er ein af fyrstu hlutverkum Marilynar Monroe sem seinna varð stórstjarna. Myndin fékk frábæra dóma þegar að hún kom út og var tilnefnd til 14 Óskarsverðlauna (sem að var met í tilnefningum þangað til að "Titanic" kom út árið 1997) og vann sex þar á meðal besta kvikmynd. Enn í dag er hún eina mynd sem að hefur fengið fjórar óskarstilnefningar fyrir leikkonur. Myndin var svo valin sem sextánda besta bandaríska bíómynd allra tíma af AFI. Columbia Pictures. Fyrirsætan Jenny Joseph í merki Columbia Pictures Columbia Pictures Industries, Inc. (CPII) er bandarískt kvikmyndafyrirtæki og dreifingaraðili. Fyrirtækið er nú dótturfyrirtæki Columbia TriStar Motion Picture Group sem er í eigu Sony Pictures Entertainment, dótturfyrirtæki japanska fyrirtækisins Sony. Það er eitt heimsins helsta kvikmyndagerðafyrirtæki og er eitt þeirra svökölluðu „stóru sex“. Columbia var stofnað sem Cohn-Brandt-Cohn Film Sales árið 1919 af bræðunum Jack og Harry Cohn og honum Joe Brandt. Fyrirtækið gaf út fyrstu kvikmyndina sína ágúst 1922. Frá 1924 gekk það undir nafninu Columbia Pictures. Á þriðja áratugnum stækkaði Columbia mikið að nokkru leyti þökk sé leikstjóranum Frank Capra. Með Capra og öðrum varð Columbia frægt fyrir „screwball“ gamanmyndir. Síðar á fjórða áratugnum voru Jean Arthur og Cary Grant nokkrar frægustu stjörnurnar hjá Columbiu en á fimmta áratugnum varð Rita Hayworth aðalstjarna fyrirtækisins. Hún hjálpaði talinvert með því að auka velgengni Columbiu síðar á sjötta áratugnum. Rosalind Russell, Glenn Ford og William Holden urðu einnig frægar stjörnur hjá fyrirtækinu. Árið 1982 keypti Coca-Cola Columbiu og sama ár setti það TriStar Pictures í gang í sameign við HBO og CBS. Fimm árum síðan losnaði Coca-Cola við fyrirtækið sem síðar sameinaðist TriStar til að mynda Columbia Pictures Entertainment. Eftir stutt tímabil sem sjálfstætt fyrirtæki með lítilli fjárfestingu frá Coca-Cola keypti Sony fyrirtækið árið 1989. Golden Globe. Golden Globe-verðlaun eru verðlaun sem gefin eru af Hollywood Foreign Press Association til að viðurkenna ágæti í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð bæði í Bandaríkjunum og á öðrum löndum. Athöfnin þar sem verðlaunin eru veitt leikurum er haldin árlega á „verðlaunaárstíð“ kvikmyndaiðnaðarins sem endir á Academy Awards. Fyrsta verðlaunaathöfnin var haldin janúar 1944 á myndverum 20th Century Fox í Los Angeles. Næsta athöfnin verður haldin 16. janúar 2011 í Beverly Hills, Kaliforníu þar sem hún hefur verið haldin síðan 1961. Útsendingu Golden Globe-athafnarinnar er sjónvarpað á yfir 150 löndum og er þriðja vinsælasta verðlaunaathöfnin á eftir Óskars og Grammy-verðlaununum. Kynnir verðlaunaathafnarinnar er einhver nýr hvert ár, svipað að því leyti Screen Actors Guild-verðlaun en ólíkt öðrum athöfnunum. Mjólkursýrugerlar. Mjólkursýrugerlar eða mjólkursýrubakteríur er hópur Gram-jákvæðra gerla sem allir tilheyra ættbálkinum "Lactobacillales" og leggja stund á mjólkursýrugerjun. Þeir eru notaðir í matvælaiðnaði til geymsluþolsaukningar með sýringu, svo sem við gerð sýrðra mjólkurafurða á borð við súrmjólk og jógúrt, súrpæklaðs grænmetis á borð við súrkál og sýrðar gúrkur, gerjaðra kjötafurða á borð við spægipylsu, súrdeigs og fjölda annarra gerjaðra matvæla. Mjólkursýrugerlar finnast gjarnan í rotnandi plöntuleifum og nýtast einnig við súrheysgerð. Meðal helstu ættkvísla mjólkursýrugerla má nefna "Lactobacillus", "Leuconostoc", "Pediococcus", "Lactococcus" og "Streptococcus". Lactobacillales. Lactobacillales er ættbálkur Gram-jákvæðra gerla sem einkennast meðal annars af því að stunda mjólkursýrumyndandi gerjun sem meginleið til orkuefnaskipta. Þeir teljast því til loftfirrtra gerla, en þola þó flestir að súrefni sé til staðar (eru loftþolnir loftfirringar). Þeir eru algengir í vistkerfum þar sem lífræn efni eru auðfengin, svo sem í jarðvegi og rotnandi dýra- og plöntuleifum. Mjólkursýrugerlarnir tilheyra þessum ættbálki og er það hugtak stundum notað sem safnheiti yfir allan ættbálkinn. Ernst Trygger. Ernst Trygger (f. 27. október 1857, d. 23. september 1943) var sænskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar 1923-1924. Hann var íhaldsmaður og sá leiðtogi íhaldsmanna á millistríðsárunum sem eina mest bar á. Auk þess að gegna embætti forsætisráðherra var Trygger utanríkisráðherra Svíþjóðar frá 1928-1930. Trygger sem var lögfræðingur að mennt varð prófessor í lögfræði við Uppsalaháskóla árið 1889. Árið 1898 var Trygger kosinn á þing og sat hann á þingi til 1937. Trygger varð fljótt áberandi á þingi og var einn helsti leiðtogi hægrimanna á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Árið 1909 var hann kosinn leiðtogi íhaldsmanna í neðri deild þingsins og þegar þingflokkur íhaldsmanna, Þjóðarflokkurinn, eða Þjóðarflokks neðri deildar þingsins, (s. "Första kammarens nationella parti", "Nationella partiet"), var myndaður árið 1912 með sameiningu Sameinaða hægriflokksins (s. "Förenade högerpartiet") og Miðjuflokks neðri deildar þingsins (s. "Första kammarens moderata parti") varð Trygger formaður flokksins. Hann gegndi því embætti frá 1913 til 1923 þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra, og aftur frá 1924 til 1933 þegar hann lét af þingmennsku. Þjóðarflokkurinn sameinaðist Bænda- og borgaraflokknum (s. "Lantmanna- och Borgarpartiet") árið 1935 sem mynduðu Hægriflokkinn (s. "Högerns riksdagsgrupp"). Annar helsti leiðtogi íhaldsmanna á þessum árum var Arvid Lindman, leiðtogi þingflokks íhaldsmanna í efri deild þingsins. Eftir að önnur ríkisstjórn Hjalmar Branting féll árið 1923 var Trygger falið að mynda minnihlutastjórn. Stjórn Trygger sat fram að kosningum 1924 en þá juku sósíaldemókratar mjög við fylgi sitt og að kosningum loknum myndaði Branting þriðju ríkisstjórn sína. Ástin grípur alla. "Ástin grípur alla" eða "Love Actually" eins hún heitir á móðurmálinu er bresk jólamynd frá árinu 2003 sem að er leikstýrð af Richard Curtis. Handritið er skipt í um það bil níu söguþráða og hver einasti sýnir mismunandi gerðir af ást. Myndin gerist á fimm vikna tímabili fyrir jól og allir karakterarnir eru tengdir einhvern veginn. Leikendur eru flestallir breskar stórstjörnur þar á meðal Hugh Grant, Emma Thompson og Liam Neeson og fleiri. Atlantseyjafélagið. Atlantseyjafélagið (á dönsku: "Foreningen De Danske Atlanterhavsøer") var danskt hagsmunafélag sem vann að því að styrkja samband milli íbúa í danska ríkinu. Félagið var stofnað 1902 á þeim tíma sem umræða var um hvort danska ríkið ætti að selja Dönsku Vestur-Indíur til Bandaríkja Norður-Ameríku. Stofnendur félagsins voru andstæðingar sölu danskra landssvæða og margir efnaðir Kaupmannahafnarbúar studdu það. Í kjölfar sölunnar á Dönsku-Vestindíum fyrir 24 milljónir dollara árið 1917 var félagið endurskipulagt árið 1919 og nafni þess breytt í Dansk Samvirke. Félagið gaf út mánaðarritið Atlanten. Meirihluti fólks taldi sig ekki eiga mikið sameiginlegt með dönsku Vestur-Indíum og margir voru andstæðingar þrælahalds og nýlendueigenda þar. Valtýr Guðmundsson var félagsmaður í félaginu. Í desember 1909 var á fundi Íslendinga í Kaupmannahöfn mótmælt veru Íslendinga í Atlantseyjafélaginu og það kallað Skrælingjafélagið. Matthías Þórðarson (útgerðarmaður). Matthías Þórðarson (f. 1. júlí 1872 á Móum á Kjalarnesi, d. í Kaupmannahöfn 13. ágúst 1959) var íslenskur útgerðarmaður, rithöfundur og ritstjóri. Hann var frumkvöðull í útgerð frá Suðurnesjum og gerði út báta frá Sandgerði. Ævi. Árið 1897 fluttist hann til Seyðisfjarðar ásamt konu sinni Sigríði Guðmundsdóttur. Þau eignuðust son, Ástþór árið 1899. Þar á Seyðisfirði tók Matthías þátt í stofnun útgerðafélagsins Garðafélagsins sem Norðmaðurinn J.M. Hansen leiddi. Félagið fór flatt á of mikilli eyðslu og varð gjaldþrota 1901. Í ævisögu sinni er Matthías mjög gagnrýninn á viðskiptafélaga sína. Hann fluttist til Reykjavíkur eftir að Garðafélagið lagði upp laupana. Þá vildi svo til að Lauritzen konsúll Danmerkur hafði stofnað Íslands-Færeyjafélagið og hafði nýlega látið smíða 20 báta til síldveiða í Norðursjó. Matthías hafði meðal annars unnið fyrir dönsku landhelgisgæsluna og fékk Lauritzen hann til þess að velja stað á Íslandi fyrir höfn fyrir skipin. Matthías valdi Sandgerði eftir nokkra athugun. Þar varð mikil uppbygging á hafnaraðstöðu, vörugeymsluhúsum, íbúðarhúsum, fisk- og salthúsum. Þangað komu 14 bátar til útgerðar frá Danmörku. Þessi tilraun tókst þó ekki alveg sem skildi og Lauritzen seldi athafnamanninum Pétri Thorsteinssyni útgerðina. Pétur seldi svo aftur Matthíasi útgerðina. Árið 1913 seldi Matthías svo Lofti Loftssyni og Þórði Asmundssyni útgerð sína frá Sandgerði. Matthías stofnaði tímaritið Ægi árið 1905 og var fyrsti ritstjóri þess. Ásamt fleirum stofnaði hann Fiskifélag Íslands árið 1911. Árið 1920 keypti Matthías land Keflavíkur og þau hús sem voru í eigu H.P. Duus. Árið 1930 gaf hann út bókina Síldarsaga Íslands. Hann gaf út ævisögu sína í tveimur bindum á árunum 1946-7. Vivien Leigh. Vivian Leigh einnig þekkt sem Lady Olivier (5. nóvember, 1913 – 7. júlí, 1967) var fræg ensk leikkona. Hún fékk tvenn Óskarsverðlaun á ferli sínum, sinn fyrri fyrir leik sinn sem Scarlett O'Hara í "Gone with the Wind" og þann seinni fyrir leik sinn sem Blance DuBois í myndinni "A Streetcar Named Desire" sem að var hlutverk sem að hún hafði einnig leikið í leikhúsi í London. Á meðan að hún var á lífi lék hún oft á móti eiginmanni sínum Laurence Olivier sem að leikstýrði mörgum myndum með henni. Hlutverk hennar voru mismunandi og teygðu sig frá verkum William Shakespeare til ævisögu Kleópötru. Hún var fræg fyrir fegurð hennar, en Vivien fannst það koma í veg fyrir að vera tekinn alvarlega sem leikkona. Hún kljáðist einni við slæma heilsu og hún var einnig með sinnisveiki sem að orsakaði stöðugar geðsveiflur hjá henni. Hún varð fræg fyrir að vera erfið að vinna með og það leið oft langur tími á milli hlutverka hjá henni. Snemma á fimmta áratugi 20. aldar var hún greind með berkla sem að fylgdu henni í yfir tuttugu ár þangað til að hún dó úr þeim árið 1967. Æska. Vivian Mary Hartley fæddist í borginni Darjeeling í bresku nýlendunni í Indlandi til hjónanna Gertrude Robinson Yackje og Ernest Hartley sem að var enskur liðsforingi í indverska riddaraliðinu. Foreldrar hennar höfðu gifst árið áður og bjuggu í Darjeeling fyrstu fimm ár æfi hennar. Þá flutti faðir hennar til borgarinnar Bangalore en Vivien og móðir hennar fóru til Ootacamund. Frá því að hún var ungabarn langaði Vivien að verða leikkona og þó að móðir hennar hafði reynt að kveikja hjá henni áhuga í bókmenntun með því að láta hana lesa sögur H. C. Andersen og Lewis Carroll en ekkert bældi niður áhuga hennar á leiklistinni. Þegar að hún var sex ára var hún send í skóla í klaustri í London sem að var hefð fyrir betri stúlkur í Englandi. Þar hitti hún aðra stelpu sem að varð seinna önnur stór leikkona, Maureen O'Sullivan og þær töluðu oft saman um hversu mikið þær þráðu að verða leikkonur. Heimildir. Leigh, Vivien Hellcats. Hellcats (eða "Villikettir") er bandarísk gaman-drama þáttaröð um klappstýrur sem sýnd er á CW-stöðinni og fara Alyson Michalka, Ashley Tisdale, Robbie Jones og Matt Barr með aðalhlutverkin. Þættirnir eru byggðir á bókinni "Cheer: Inn í leynilegan heim háskólaklappstýra" eftir blaðakonuna Kate Torgovnick og er lýst sem blöndu af Election og Bring It On af gagnrýnendum. Þættirnir fylgjast með lífi Marti Perkins, háskólastelpu sem lærir lögfræði sem þarf að ganga í klappstýrulið skólans, Hellcats, til þess að halda uppi skólastyrknum sínum. 18. maí 2010 var tilkynnt um að Hellcats hefði verið valinn á haustdagskrá CW-stöðvarinnar. Þann 22. október 2010 tilkynnti stöðin að búin yrði til heil þáttaröð af Hellcats. Yfirlit. Hellcats fylgist með lífi Marti Perkins (Alyson Michalka) háskólastúlku sem nemur lögfræði við Lancer háskólann en missir skólastyrkinn sinn og neyðist til að ganga í klappstýrulið skólans, Hellcats, til þess að halda styrknum uppi. Þar hittir hún nýja herbergisfélagann sinn og fyrirliða liðsins, Savönnuh Monroe (Ashley Tisdale), hina meiddu Alice Verdura (Heather Hemmens), nýja félagann sinn Lewis Flynn (Robbie Jones) og þjálfara liðsins Vanessu Lodge (Sharon Leal) sem vonast til þess að vinna landsmótið, annars verður klappstýruliðið leyst upp. Á meðan þarf Marti einnig að takast á við fjárhagslegan óstöðugleika og stundum óábyrga móður sína, Wöndu Perkins (Gail O'Grady), sem hún hefur oft þurft að hjálpa út úr erfiðum aðstæðum en líka besta vin sinn Dan Patch (Matt Barr) sem er nýlega byrjaður með Savönnuh. Leikarar. Alyson Michalka leikur Marti Perkins, aðalpersónuna í þáttunum og er frá Memphis, Tennessee. Henni er lýst sem "ótrúlega gáfaðri", hún gengur til liðs við klappstýruliðið til þess að fá tækifæri til að halda áfram menntun sinni í Lancer eftir að skólanefndin sker niður skólastyrki til þeirra sem vinna við háskólann. Móðir hennar, Wanda Perkins (Gail O'Grady), vinnur á háskólabarnum og er partýstelpa sem fullorðnaðist aldrei. Hegðun móður hennar er að mestu leyti Marti til skammar. Savönnuh Monroe (Ashley Tisdale), liðstjóra liðsins, er lýst sem "hressri og fágaðri" með "frábæran styrk". Í fyrstu kemur þeim Marti illa saman, en hún áttar sig á að Marti er himnasending fyrir liðið svo að það geti unnið undankeppnina. Hún kýs Marti inn í liðið þegar þau neyðast til að leyta að nýjum "fljúgara" (e. "flyer") eftir að Alica Verdura meiðist á únlið. Alice (Heather Hemmens) er hættulega sjálfselsk og líkar ekki að Marti eigi að taka við stöðu hennar í liðinu, eða þá athygli sem Marti fær frá fyrrverandi kærasta Alice, Lewis Flynn. Lewis (Robbie Jones) er undirstaðan í liðinu og er rólyndur og elskar að hafa eitthvað í gangi. Hann var einu sinni stjarna í fótboltaliði Lancer en hætti þegar hann komast að því að liðsmenn væru keyptir inn í liðið af háskólanum. Hann fór í prufur fyrir klappstýruliðið eftir að bræðralagsfélagar hans mönuðu hann til þess og passaði strax inn. Hann verður strax hrifinn af Marti. Þau byrja seinna saman. Dan Patch (Matt Barr) er ekki í Lancer og er vinur Marti. Hann er hrifinn af henni en er í sambandi með Savönnuh, nýju vinkonu Marti. Sharon Leal leikur Vanessu Lodge, fyrrum Hellcats klappstýru og er núna þjálfari liðsins. Starf hennar er í hættu ef liðið kemst ekki á verðlaunapall í landskeppninni. Aukapersónur eru m.a. Red Raymond (Jeff Hephner), þjálfari fótboltaliðs Lancer og Derrick Altman (D. B. Woodside), kærasti Vanessu. Bill Curran (Aaron Douglas) er íþróttastjóri skólans sem er enn flæktur í "peningar fyrir leik" (e. "Pay for Play") sem gæti orðið til þess að ýmis íþróttalið skólans (m.a. Hellcats) væru lögð niður. The Devil Wears Prada (kvikmynd). "The Devil Wears Prada" (íslenskt heiti: "Djöfullinn gengur í Prada") er bandarísk gaman- og dramamynd sem kom út árið 2006. Hún er lauslega byggð á samnefndri bók eftir Lauren Weisberger sem gefin var út árið 2003. Í myndinni leikur Anne Hathaway persónuna Andy Sachs, nýútskrifaður nemandi sem flytur til New York og fær sér vinnu sem aðstoðarmaður tískuritstjórans Miranda Priestley, sem Meryl Streep leikur. Emily Blunt og Stanley Tucci eru í öðrum aðalhlutverkum, sem aðstoðamaður Miröndu Emily Charlton og listrænn stjórnandi Nigel. Adrian Grenier, Simon Baker og Tracie Thoms öll gegna öðrum mikilvægum hlutverkum. Wendy Finerman framleiddi myndina og David Frankel var leikstjóri. 20th Century Fox var drefingaraðili. Leikur Meryl Streep var viðurkenndur víða og fékk hún margar tilnefningar til verðlauna, þar á meðal fjórtándu tilnefningu sína til Óskarsverðlauna og einnig tilnefningu til Golden Globe. Emily Blunt fékk líka allmargar tilnefningar til verðlauna, auk margra þeirra sem tóku þátt í framleiðslu myndarinnar. Þó að myndin væri töluvert gagnrýnd tók almenningur vel á móti henni. Hún var árangursrík sumarmynd sem kom út 30. júní í Bandaríkjunum. Velgengni myndarinnar hélt áfram í öðrum löndum í október sama ár. Í desember gekk útgáfa "The Devil Wears Prada" á DVD mjög vel í Bandaríkjunum. Heildartekjur myndarinnar urðu yfir 300 milljónir bandaríkjadala. Þó að myndin eigi sér stað í tískuveröldinni vildu margir hönnuðir og aðrir sem vinna í iðnaðnum ekki taka þátt í myndinni út af því að þeir vildu ekki misbjóða henni Anna Wintour, ritstjóra "Vogue". Talið er að hún hafi verið innblástur persónunnar Miranda Priestley. En margir hönnuðir létu fötin sín vera notuð í myndinni og þannig var hún meðal þeirra kvikmynda með dýrasta búningi allra tíða. Síðar snérist Wintour hugur um myndina og sagðist sér hafa fundist hún skemmtileg og líkaði vel við leik hennar Streeps. Söguþráður. Andrea „Andy“ Sachs (Anne Hathaway) er duglegur blaðmaður sem er nýútskrifaður úr Northwestern-háskóla. Þó að henni finnist tískuiðnaðurinn grunnhygginn fær hún „vinnuna sem milljónir stelpur myndu deyja til að fá“: sem aðstoðarmaður hennar Miröndu Priestley (Meryl Streep), ískaldur ritstjóri tískutímaritsins "Runway". Andy verður að þola skrýtnu meðhöndlun hennar af sér svo að hún geti fengið sér vinnu sem blaðmaður hjá öðru tímariti. Fyrst gengur henni ekki vel í vinnunni og hún blandar ekki vel við vinnufélagana sína. Meðan Andy er á veitingarstað með föður sínum sem kom til New York í heimsókn til hennar hringir Miranda í hana: flugvellirnir í Flórídu þar sem hún er eru allir lokaðir vegna fellibyls en hún þarf að koma heim og biður Andy um að koma henni heim einhvern veginn. Andy reynir að bóka Miröndu flug hjá öllum flugfélögunum en það er ekkert flug vegna veðurs. Þegar Miröndu tekst að komast aftur til New York segir hún Andy frá því að hún hafi valdað sér fleira vonbrigðum en allir hinir aðstoðarmenn sem hún hefur ráð í vinnu áður. Andy á samtal við listrænan stjórnanda "Runway" Nigel (Stanley Tucci) sem gefur annað sjónarhorn á Miröndu, verki hennar og tískuiðnaðnum. Andy ákveður að breyta sér og smám saman lærir hún hlutverk sitt og byrjar að klæða sig öðruvísi. Með tíð og tíma byrjar hún að vanrækja einkalíf sitt fyrir vinnu. Miranda tekur eftir þessum breytingum í Andy og gefur henni nýtt verkefni: að bera „Bókina“ (drög af öllu sem verður í næstu útgáfu "Runway") út til raðhússins síns við Upper East Side. Því miður leika dætur Miröndu á henni og hún fer upp á efri hæð þar sem hún sér Miröndu og manninn hennar rífast. Í sjokki missir hún bókina niður og flýtur sér út úr húsinu. Miranda refsar Andy með því að gefa henni ómögulegt verkefni: að fá óútgefna handritið fyrir næstu "Harry Potter" bókina handa dætrum sínum svo að þær getu lesið það í lestinni. Andy fer að láta af störfum þegar Christian Thompson (Simon Baker), frægur höfundur og kunningi hennar Andyjar hringir í hana og lætur hana vita að hann hafa fengið handritið. Andy kemur með eintak til Miröndu, sem er orðlaus. Hún heldur vinnunni sinni sem valdar manninum sínum vonbrigðum. Þegar að Emily verður veik biður Miranda Andy um að fara með sér og Emily í hjálparstofnunarveislu þar sem aðstoðarkonurnar tvær þykjast vera gestir. Í rauninni eru þær að gefa Miröndu upplýsingar um þá sem hún er að tala við. Í veislunni bjargar Andy henni Emily þegar hún gleymir einu nafnanna. Þar hittir hún Jacqueline Follet, ritsjóra frönsku útgáfu "Runway" og afþakkar tilboð frá Christian fyrir tækifæri að hitta frægan útgefanda. Meðan hún er í veislunni missir hún af afmælisveislu mannsins síns Nate (Adrian Grenier). Eitt kvöld þegar að Andy er að bera bókina út til Miröndu lætur hún hana Andy vita að hún vill ekki að Emily komir til Parísar í viðskiptaferð. Þá hikar Andy af því Emily hefur verið að hæla sér af Parísarferðinni í nokkra mánuði. Miranda segir Andy að ef hún ákveður að afþakkar boðið þá gerir hún ráð fyrir að Andy sé ekki alvara um vinnuna sína hjá "Runway" eða öðrum tímaritum. Andy á engra kosta völ en að taka boðinu. Daginn eftir biður Miranda Andy um að segja Emily frá því að hún fari ekki til Parísar sem er á leiðinni aftur í skrifstofuna. Rétt þegar Andy fer að segja Emily frá því keyrir leigubíll á hana. Síðdegis þann dag lætur hún Christian kissa hana á kinninni sem vinkonan sín Lily sér. Lily segir Andy að tala við manninn sinn um að hún er að fara til Parísar. Hún gerir það og þá hætta þau saman. Í París fer Andy í tískusýningar og hittir tískuhönnuðinn Garavani Valentino. Miranda kynnir hana sem „nýja Emily“. Eitt kvöld kemur Andy í herbergi Miröndu þar sem hún sér hana að gráta í baðsloppi. Þegar hún er að skapa sætaskipan opnar Miranda sig og segja Andy að maðurinn sinn sé að skilja sér en að helstu áhyggjur sem hún hefur um dætur sína. Síðar kemst Andy að því að Nigel hefur fengið nýtt starf sem sköpunarstjóri nýs tískufyrirtækis. Andy fer í kvöldmat með Christian sem áttar sig á að hún sé einhleyp. Eftir nokkur vínglös sefur hún hjá honum. Morguninn eftir í hótelherbergi Christians þegar að hún er að fara í föt kemst Andy að því að eigandi "Runway" ætlar að skipta Miröndu út með Jacqueline Follet. Andy flýtur sér til Miröndu og ætlar að segja henni frá því. Þegar hún lætur Miröndu vita virðist henni að vera alveg sama. Í hádegismat fyrir tískuhönnuðinn James Holt tilkynnir Miranda að Jacqueline verður nýji sköpunarstjóri fyrirtækisins sem kemur Nigel og Andy á óvart. Á leiðinni í aðra sýningu segist Miranda hafa alltaf vitað um áætlunina að losna við sig og segir Andy að hún hafi verið búin að finna valkost fyrir Jacqueline. Þá ræður hún „listann“, það er listi yfir alla sem höfðu lofað að fylgja henni ef hún ákveður að hætta hjá "Runway". Eigandi "Runway" gerði sér grein fyrir að án þessa fólks væri tímaritið dauðadæmt. Miranda segist hafa verið ánægð með því að Andy hafði verið svo trygg og segir að hún sjái mikið að sjálfri sér í henni. Andy segist geta aldrei gert við einhvern það sem Miranda hafði gert við Nigel. Miranda svarar að hún hafi ennþá gert það þegar hún ákvað að koma til Parísar í stað fyrir Emily. Miranda segir að það verði að velja svona kosti til þess að fá lífið eins og hún hefur fengið. Þegar þær eru komnar í sýningunni fer Andy út af bílnum og kastar farsímanum sínum inn í gosbrunn á Place de la Concorde. Þegar hún kemur aftur til New York hittist hún manninn sinn í morgunmat. Hann hefur tekið boði í vinnu sem kokkur á veitingarstað í Boston. Andy verður vonsvikin en henni snýst hugur þegar hann segir henni að þau getu fundið lausn á þessu. Þá fer Andy í viðtal í vinnu sem blaðmaður. Viðtalsmaðurinn segir að Miranda hafi sagt sér að Andy hefur verið stærsta vonbrigðið hennar og að ef hann ákveður ekki að ráða henni í vinnu þá sé hann asni. Þá hringir Andy í Emily og ákveður að gefa henni öll fötin sem hún fékk í París. Eftir símtalið sér Andy Miröndu fara inn í bílinn hennar. Miranda lítur á henni en þykist að þær þekkjast ekki. Þegar hún er komin í bílnum brosar hún áður en að skipa ökumanninum sínum að keyra. Framleiðsla. Tökur átti sér stað á 57 daga tímabili í New York og París og hófust í október 2005 og luku í desember. Myndin kostaði rúmlegar 35 milljónir bandaríkjadala að búa til. Leikur. Meryl Streep ákvað að nota ekki breskan hreim í leik sínum til þess að vera ekki eins og eftirherma af Wintour. Hún sagði í viðtali að henni fannst það gera það ómögulegt fyrir hana að þróa karakterinn ef að hún væri bara að leika Wintour og fannst það gera hlutverk hennar of takmarkað. Leikstjóri myndarinnar David Frankel sagði að honum fannst þetta vera rétt stefna og ákvað einnig að láta Meryl líta út öðruvísi en Wintour svo að þær tvær yrðu ekki alveg eins. Streep hafði lesið nokkrar bækur um Wintour sem að höfðu verið skrifaðar af bæði fyrrverandi vinnufélugum og skjólstæðingum til þess að afla upplýsingum um hana til þess að geta leikið hana. Anne Hathaway æfði sig fyrir hlutverk sitt með því að gerast einkaritari uppboðshaldara í eina viku. Hathaway var víst skelfingu lostin áður en að tökur á fyrsta atriðinu hennar með Streep hófust enda var hún að fara að leika á móti átrúnaðargoði sínu. Meryl sagði við hana þegar að þær hittust „Mér finnst þú vera frábær í þessa mynd og ég er svo glöð að við fáum að vinna saman“ áður en að þau byrjuðu að taka atriðið en varaði hana við að það var eina góði hluturinn sem að hún myndi segja við hana á næsta klukkutímanum út af því að karakter hennar var svo mikill harðjaxl. Marcia Cross. Marcia Cross (fædd þann 25. mars árið 1962) er bandarísk leikkona sem er ef til vill best þekkt fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum "Desperate Housewives" og "Melrose Place". Hún hefur verið tilnefnd til þriggja Golden Globe verðlauna fyrir leik sinn sem Bree Van De Kamp í "Desperate Housewives". Cross varð fræg á tíunda áratugi 20. aldar fyrir leik sinn sem hin kolvitlausa Kimberly Shaw í "Melrose Place" sem að átti upprunalega bara að vera aukahlutverk en hún varð seinna ein af aðalleikurunum í seríunni. Eftir að hún lék í "Melrose Place" hætti Marcia næstum því að leika en fór í háskóla og fékk mastersgráðu í sálfræði. Marcia átti í ástarsambandi við leikarann Richard Jordan á árunum 1985 til 1993 þegar að hann dó úr heilaæxli. Hún giftist veðbréfasalanum Tom Mahoney árið 2006 og með honum á hún tvíburadætur. Æska. Marcia Anne Cross fæddist þann 25. mars árið 1962 í litlum bæ sem heitir Marlborough í Massachusettsfylki í Bandaríkjunum. Hún var annað barn hjónanna Janet og Mark Cross en eldri systir hennar er söngkonan Ellen Cross. Móðir hennar var skólakennari en faðir hennar Mark vann sem framkvæmdastjóri hjá litlu fyritæki í heimabæ hennar. Þegar að hún var yngri dreymdi Mörciu um ekkert annað en að verða leikkona sem að hún talaði stanslaust um. Þegar að Marcia var lítil klæddi hún sig oft upp með vinkonum sínum og þær myndu setja upp sýningar fyrir vini sína og syngja lög. Cross hefur verið kaþólikki frá því að hún var barn en foreldrar hennar eru mjög trúað fólk af enskum uppruna. Fyrstu hlutverk. Marcia lærði leiklist hjá virta listaskólanum Juilliard í New York. Leikferill hennar hófst árið 1984 þegar að hún fékk hlutverk í sápuópera "The Edge of Night" sem Liz Correll. Eftir það flutti hún frá New York til Los Angeles og fékk stuttu seinna hlutverk í sjónvarpsmyndum eins og „The Last Days of Frank and Jesse James“ með Johnny Cash og Kris Kristofferson í aukahlutverkum. Árið 1986 fékk hún hlutverk í dramaþáttaröðinni hjá ABC One Life To Live þar sem að hún lék Kate Sanders í eitt ár. Árið 1991 lék hún aukahlutverk í þrettándu seríu Knots Landing þar sem að hún lék eiginkonu Bruce Greenwood en þegar að samningur hennar rann út var ákveðið að endurnýja hann ekki. "Melrose Place". Árið 1992 var Marcia upprunalega ráðin í smá hlutverk í einn þátt í fyrstu seríu "Melrose Place" sem læknir sem að hét Dr. Kimberly Shaw. Framleiðendur þáttarins voru svo hrifnir af henni að þeir ákváðu að setja hana í fleiri þætti sem að leiddi til þess að hún varð ein af mörgum aðalpersónum þáttanna. Í annarri seríu komst það í ljós að karakter Cross var með sinnisveiki og hún varð fljótt aðal andstæðingur þáttanna. Karakterinn varð mjög vinsæll fyrir hversu brjálaða hluti sem að hún gerði í gegnum árin þar á meðal að stela barni, morðtilraunir og að sprengja húsaröðina þar sem að serían gerðist upp í loft upp í þriðju seríunni. Árið 1997 eftir fimm ár að leika í "Melrose Place" hætti Marcia í þáttunum og hætti að leika í smá tíma. Þó að hún hafi tekið að sér nokkur aukahlutverk í sjónvarpsseríum þar á meðal Seinfeld, Ally McBeal og Spin City þá einbeitti Marcia sér helst að náminu sínu en hún var þá að ná sér í masters gráðu hjá Antioch háskóla í Los Angeles í sálfræði. Hún vann að hluta til sem nemi hjá sálfræðingi og fékk að vera sálfræðingur nokkra kúnna. Á þeim tíma hafði hún íhugað að hætta að leika yfirhöfuð. Árið 2003 hélt Cross svo áfram að leika í fullu starfi með því að taka að sér hlutverk Lindu Abbot í þættinum Everwood. "Desperate Housewives". Snemma á árinu 2004 fór Marcia í áheyrnaprufu fyrir nýjann þátt sem að hét "Desperate Housewives". Marcia var valinn til að leika Bree Van De Kamp út úr stórum hóp af leikkonum en hlutverk hennar var eitt af fjórum aðalhlutverkum þáttarins. Í áheyrnaprufunum hafði Marcia farið í prufu fyrir hlutverk sögumannsins sem að fyrirfer sér í fyrsta þættinum en framleiðendur þáttanna báðu hana um að prófa líka fyrir Bree í staðinn. Þátturinn fór í gang um haustið seinna það ár og varð strax mjög vinsæll á meðal áhorfenda. Persónuleikinn sem að Marcia lék hét Bree Van De Kamp var húsfreyja sem að átti í skilnaðardeilum við eiginmann sinn og í erfiðu sambandi við börnin sín. Þátturinn er enn í gangi í dag og sjöunda serían er verið að sýna núna í sjónvörpum út um allan heim. Gagnrýnendur voru heillaðir upp úr skónum af leik Marciu í þáttunum enda hefur hún verið tilnefnd til þrenna Golden Globe verðlauna fyrir þættina og margra aðra í þokkabót. Önnur hlutverk. Marcia hefur leikið mjög oft á sviði þar á meðal í uppfærslum af La Ronde, Twelfth Night, or What You Will með leikfélaginu Hartford Stage Company og The Two Gentlemen of Verona með Old Globe leikfélaginu í San Diego. Þó að hún hafi leikið mest í sjónvarpsþáttum þá hefur hún leikið í nokkrum litlum kvikmyndum þar á meðal „Living in Fear“, „Always Say Goodbye“, „Dancing in September“, „Bad Influence“ og „Female Perversion“. Árið 2011 kemur svo út kvikmynd með henni í aukahlutverki sem að heitir „Bringing Up Bobby“. Einkalíf. Marcia Cross var í löngu ástarsambandi með leikaranum Richard Jordan á níunda áratugi 21. aldar sem að var 25 árum eldri en hún. Sambandið endaði árið 1993 þegar að Jordan dó úr heilaæxli eftir langa baráttu við krabbamein. Í janúar árið 2006 hófst samband hennar við veðbréfasalann Tom Mahoney og þau voru saman í sex mánuði þangað til að hann bað hana um að giftast sér. Þau giftust þann 24. júní árið 2006 í kirkju í San Gabriel, Kalifornía fyrir framan 200 gesti. Tveimur mánuðum seinna fann Marcia það út að hún ætti von á barni í febrúar. Snemma í janúar árið 2007 þurfti Marcia að vera í rúminu mestallan daginn varúðarástæðum. Hún var þá í miðjunni að taka upp þriðju seríuna af Desperate Housewives og það þurfti að breyta söguþráðnum til þess að hún myndi ekki þurfa að vera í næstu þáttum. Hún tók meira segja upp eitt atriði í svefnherberginu sínu sem að var málað til þess að líta út eins og svefnherbergi Bree. Marcia eignaðist tvíburadætur sínar þann 20. febrúar árið 2007 stuttu fyrir 45. afmæli hennar. Marcia sneri aftur í vinnuna stuttu seinna og náði að leika í lokaþætti þriðju seríu Desperate Housewives. Í janúar 2009 greindist eiginmaður Mörciu með krabbamein og er enn að berjast við það. Heimildir. Cross, Marcia The Devil Wears Prada. "The Devil Wears Prada" er skáldsaga gefin út árið 2003 eftir Lauren Weisberger. Bókin fjallar um unga nýútskrifaða konu sem er ráðinn til vinnu sem aðstoðarkona tískuritstjóra. Henni gengur ekki vel að halda vinnunni við vegna hlægilegra og lítilmannlegra krafna frá yfirmanninum sínum. Bókin var mjög vel heppnuð og var metsölubók hjá "New York Times" í sex mánuði. Samnefnd kvikmynd gefin út árið 2006 með Meryl Streep, Anne Hathaway og Emily Blunt var byggð á bókinni. Vanessa Williams. Vanessa Lynn Williams (fædd 18. mars 1963) er bandarísk R&B popp-söngkona, lagahöfundur, dansari og leikkona. Breiðskífur. A Peaked at No. 2 on the "Billboard" Gospel Albums chart. B Peaked at No. 6 on the "ARIA" R&B Albums chart. C Peaked at No. 1 on the "Billboard" Top Contemporary Jazz Albums chart. D Peaked at No. 2 on the "Billboard" Top Jazz Albums chart. Tenglar. Williams, Vanessa Oscar Carlén. Oscar Carlén (fæddur 11. maí 1988) er sænskur handboltamaður. Hann hefur leikið með liði Flensborgar frá árinu 2008 en hann fer til Hamborgar árið 2011. Carlén er hægri skytta og er sonur handboltamannsins Pers Carlén sem var rekinn frá þjálfun Flensborgar. Carlén er 193 cm að hæð og spilar í treyju númer 6 hjá Flensburg. Uppeldisfélag Carlén er Ystads IF HF í Svíþjóð en þar lék hann í Meistaraflokki frá árinu 2005 til 2008 en þá hélt hann til Flensborgar. Fyrsti leikur Carléns fyrir sænska landsliðið var árið 2007, 2. apríl gegn Noreg. Carlén, Oscar Melrose Place. Melrose Place er bandarísk þáttaröð frá árinu 1992 og var í sjö ár til sýningar á FOX sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum. Þátturinn var sýndur á íslensku sjónvarpstöðinni Stöð 2 árið 1994 og síðar endursýnd á SkjáEinum árið 2009. Þættirnir fjölluðu upprunalega um hóp af ungmennum í Los Angeles en þeir breyttu fljótt stefnu og margir nýjir leikarar bættust við í hópinn og aðrar persónur voru „drepnar“ svo að það yrði pláss fyrir nýja söguþráði. Aðeins einn leikari úr upprunalega hópnum, Thomas Calabro lék í öllum sjö seríum þáttana. Tökur. Allar sjö seríur voru teknar upp í myndveri í Santa Clarita í Kaliforníu þar sem að aðal húsaröðin þar sem að allir karakterarnir eiga heima var sett up. Skrifstofur og spítalar voru einni byggðir í myndveri en alvöru staðsetningar eins og strandir og svoleiðis voru notaðar fyrir atriði utan kvikmyndavers. Alþjóðlegar sýningar. Melrose Place hefur verið á dagskrá sjónvarpsstöðva í yfir 40 landa. Glee. "Glee" er bandarískur söngþáttur sem að er framleiddur og sýndur af Fox. Þátturinn fjallar um sönghópinn „New Directions“ í gagnfræðisskólanum William McKinley High og fylgir öllum meðlimum hópsins og vandamálum þeirra. Í aðalhlutverkum eru Matthew Morrison sem að leikur leikstjóra hópsins og spænskukennarann Will Schuester, Jane Lynch leikur hina illkvittnu Sue Sylvester sem að þjálfar klappstýrurnar í skólanum og hatar sönghópinn. Meðlimar sönghópsins eru ellefu alls og fara Chris Colfer, Dianna Agron, Kevin McHale, Lea Michele, Cory Monteith, Amber Riley, Mark Salling og Jenna Ushkowitz með hlutverk þeirra. Höfundar þáttanna eru Ryan Murphy, Brad Falchuk og Ian Brennan sem að skrifuðu það upprunalega sem kvikmynd. Prufuþátturinn var sýndur á Foxsjónvarpsstöðinni þann 19. maí árið 2009 og fyrsta serían fór í gang þann 9. september sama ár. Önnur þáttaröðin fór í gang þann 21. september árið 2010 og þriðja serían hefur nú þegar verið pöntuð. Í þáttunum setja persónunar upp söngatriði og höfundar þáttanna reyna að nota blöndu af vinsælum lögum og klassískum söngleikjalögum. Lögin sem að leikarar flytja í þættinum hafa einni verið gefin út á geisladiski og eru líka fáanleg til niðurhals á iTunes. Annars konar varningur hefur verið gefinn út meðal annars Blu-ray og mynddiskar, bókasería, iPad forrit og Wiileikur. Fyrsta þáttaröðin fékk mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda. Vefsíðan Metacritic sem að safnar saman dómum gagnrýnenda og blandar þeim saman til þess að fá meðaltal gaf fyrstu seríunni af Glee 77 prósent út úr hundraði. Glee var tilnefnd til nítjan Emmy verðlauna, fjögurra Golden Globe, sex Satellite verðlauna og fimmtíu og sjö annarra verðlauna. Af þeim tilnefningum unnu þættirnir Golden Globe verðlaunin fyrir bestu gamanseríu og Jane Lynch vann einni Emmy verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki. Önnur þáttaröðin var tilnefnd til margra verðlauna þar á meðal fimm Golden Globe verðlauna þar á meðal verðlaunin fyrir bestu gamanseríu og fyrir besta leik hjá Matthew Morrison, Lea Michele, Jane Lynch og Chris Colfer. Verðlaunaafhendingin mun fara fram í janúar 2011. Sköpun. Hugmyndin á bak við Glee kom frá Ian Brennan sem að byggði það á reynslu sinni í sönghópi gagnfræðiskólanum Prospect High School. Hann hafði upprunalega hugsað Glee sem kvikmynd og skrifaði fyrsta handritið í ágúst árið 2005. Það var lengi lítill áhugi á handritinu þangað til að vinur Brennans frá Los Angeles sem að var meðlimur sömu líkamsræktarstöðvar og Ryan Murphy, sjónvarpsframleiðanda, og hann gaf honum handritið af Glee. Þá var handritið endurskrifað frá byrjun til enda og innan fimmtán klukkutíma að Murphy hafði fengið handritið var Fox búið að kaupa það. Murphy sagði í viðtali „Það er við hæfi þegar að vinsælasti þáttur stöðvarinnar ("American Idol") er söngvaþáttur að gera eitthvað í þá átt“ Murphy tók yfir sem framkvæmdastjóri þáttanna ásamt Ian Brennan og Brad Falchuk. Þeir þrír skrifa einnig alla þættina. Glee á sér stað í smáborginni Lima í Ohio-fylki í Bandaríkjunum. Murphy var sá sem að valdi staðsetninguna út af því að hann kemur líka frá miðvesturríki í Bandaríkjunum og vildi heiðra þann hluta af Bandaríkjunum. Þættirnir eru samt kvikmyndaði í Hollywood-borg í Los Angeles. Glee hefur oft verið borið saman við "High School Musical" myndirnar en Murphy heldur því fram að hann hafi aldrei séð þær og Glee sé frekar nútímasöngleikur frekar en „þættir þar sem fólk hoppar í söng inn á milli.“ Murphy ímyndaði sér Glee sem undankoma frá heiminum út af því að honum fannst allt sem að var í sjónvarpinu á þeim tíma vera vísindaskáldsögur, löggur eða lögfræðingar að hlaupa í hringi. „Þetta er öðruvísi tegund af sjónvarpsefni, það er ekkert í sýningu núna sem að líkist Glee. Það er allt í heiminum svo dimmt núna, þess vegna virkaði Idol af því að það er veruleikaflótti.“ Murphy hefur planað þrjár þáttaraðir af Glee. Tónlistarval. Í hverjum þætti af Glee eru fjölmörg lög flutt af leikörunum sem að eru einhvern veginn flétt saman við söguþráð þáttanna. Ryan Murphy velur öll lögin sem að eru flutt og hann reynir að nota góða blöndu af klassískum söngleikjalögum og poppsmellum. Lagaval er ómissandi í skriftarferlinum og Murphy velur lögin vanalega á sama tíma og að hann velur þema fyrir hvern einasta þátt. Í annarri þáttaröðinni fór Murphy að nota vinsælli lög frekar heldur en gamla smelli til þess að laða að fleiri unglingum. Murphy sagði í viðtali að það hafði komið honum á óvart hversu margir listamenn felldust á það að leyfa þeim að nota lögin þeirra. „Ég held að þeim hafi litist vel á tón þáttarins. Þátturinn er um bjartsýni, allaveganna megnið af tímanum, og um að endurtúlka gömlu lögin þeirra fyrir nýja áhorfendur.“ Fáir listamenn hafa neitað að leyfa Glee að flytja eitthvað af lögunum þeirra meðal annars Bryan Adams og hljómsveitin Coldplay. Í júní árið 2010 skiptu meðlimir Coldplay um skoðun og gáfu framleiðendum þáttanna full rétindi á að nota lögin þeirra. Tónlistarmaðurinn Billy Joel hefur boðið framleiðendum þáttanna að nota lögin hans frítt og margir aðrir listamenn hafa einnig gert hið sama. Nokkrar plötur hafa verið gefnar út með lögunum sem að leikararnir syngja á þáttunum hafa verið gefnar út á bæði hljómplötum og á iTunes. Hver einasti þáttur kostar um það bil þrjár milljónir bandaríkjadala. Eftir að Murphy hefur valið hvert einasta lag þarf að plana dansatriði og flutning fyrir það og kaupa sviðsskreytingar fyrir atriðin sem að eru oft mjög kostnaðarsöm. Auglýsingarherferð. Á tímabilinu á milli prufuþáttarins og útgáfu annars þáttar Glee fóru aðalleikararnir að ferðast um Bandaríkin til þess að syngja í Hot Topic verslunarmiðstöðunum. Þau fengu einnig að syngja bandaríska þjóðsönginn á stórum hafnaboltaleik árið 2009. Glee var boðið að syngja í skemmtigöngu Macy's á Þakkargjörðinni árið 2009 en útsendingaraðili skrúðgöngunnar NBC sem að er keppinautur Fox höfnuðu tillögunni. Eftir að fyrstu þáttaröðinni lauk fóru leikararnir í tónleikaferðalag til Phoenix, Chicago, Los Angeles og New York. Matthew Morrison, Lea Michele, Cory Monteith og Chris Colfer hafa öll skrifað undir samning til þess að vera í einum þætti af „The Cleveland Show.“ Jane Lynch, Chris Colfer, Cory Monteith og Amber Riley komu fram á VMA verðlaununum hjá MTV þann 12. september árið 2010. Eftir að Dianna Agron, Cory Monteith og Lea Michele sátu fyrir GQ-blaðið í djörfum myndum þar sem að þær afklæddu sig að hluta til voru þættirnir gagnrýndir af bandarísku foreldrastofnununni „Parents Television Council“ þar sem að forseti stofnunarinnar sagði að leikarannir ættu að vera fyrirmyndir fyrst að þau væru átrúnaðargoð margra unglinga og barna. Hann sagði að þó að engar af myndunum hefðu sýnt nekt þá myndu þær samt senda röng skilaboð til ungra barna um hvernig ætti að klæða sig. Leikendur og hlutverk. Murphy fann Matthew Morrison á Broadway Þegar að Murphy fór að leita að leikurum fyrir Glee vildi hann fyrst og fremst finna leikara sem að færu létt með það að leika á sviði. Í stað þess að halda hefðbundnar áheyrnarprufur fór Murphy á Broadway í leit að fólki þar sem að hann fann Matthew Morrison sem að hafði þá nýlokið að leika í Hairspray, Leu Michele sem að fór með hlutverk í "Spring Awakening" og Jennu Ushkowitz sem að lék í nýrri upfærslu af "The King and I". Eftir að hafa fundið þessi þrjú hélt Murphy áheyrnarprufur þar sem að leikarar þurftu að sýna fram á dans og sönghæfileikana sína. Chris Colfer hafði enga reynslu þegar að hann fór í prufu fyrir hlutverk Arties en Murphy var svo hrifinn af honum að þegar að Kevin McHale fékk hlutverkið skrifaði hann nýja persónu inn í handritið bara fyrir hann. Leikkonan Jayma Mays söng lagið „Touch-a, Touch-a, Touch-a, Touch Me“ frá „The Rocky Horror Picture Show“, lag sem að hún fékk seinna að syngja á Glee. Cory Monteith sendi upprunalega inn myndband þar sem að hann lék aðeins og var síðan beðinn um að senda inn annað myndband þar sem að hann myndi syngja. Cory söng þá lagið „Can't Fight This Feeling“ eftir REO Speedwagon. Hlutverk Jane Lynchar átti upprunalega bara að vera lítið út af því að hún var í annarri seríu á þeim tíma en sú þáttaröð var stuttu seinna aflýst. Í samningi leikaranna stendur að þeir séu óafturkallanlega bundnir Glee til þess að gera upp að þremur kvikmyndum byggðar á þáttunum. Enn hafa engar myndir verið planaðar. Cory Monteith fer með hlutverk Finns í Glee Í "Glee" eru fimmtán aðalhlutverk. Morrison leikur spænskukennarann Will Schuester sem að verður leikstjóri sönghóps skólans í von um að endurreisa hann. Jane Lynch leikur hina siðspilltu Sue Sylvester, klappstýruþjálfann sem að hatar sönghópinn og alla meðlimina. Jayma Mays fer með hlutverk fer með hlutverk Emmu Pillsbury, nemendaráðgjafa skólans sem að er hrædd við öll óhreinindi og er skotin í Will. Lea Michele leikur Rachel Berry, hæfileikaríkann nemanda í sönghópnum sem að þráir ekkert heitar heldur en að verða fræg söngkona en er oft strítt af klappstýrum og íþróttafolunum. Cory Monteith leikur Finn Hudson, aðalleikmann ameríska fótboltaliðsins sem að stofnar vinsældum sínum í hættu með því að taka þátt í sönghópnum. Í hópnum eru einnig Mercedes Jones (leikin af Amber Riley) sem að sárnar af því að syngja aukaraddir, Kurt Hummel (leikinn af Chris Colfer) sem að er samkynhneigður tenór, Artie Abrams (leikinn af Kevin McHale) sem að er þverlamaður unglingur sem að dreymir um að geta dansað og Tina Cohen-Chang (leikin af Jennu Ushkowitz) sem að er hálf bandarísk-hálf japönsk unglingsstúlka sem að þykist vera með stama. Mark Salling bættist síðan seinna í hópinn sem Noah Puckerman, besta vin Finns. Dianna Agron fer með hlutverk Quinn Fabray, klappstýru sem að er í sambandi með Finn sem að gerist meðlimur sönghópsins. Heather Morris og Naya Rivera fara með hlutverk Brittany Pierce og Santönu Lopez sem að voru upprunalega bara aukahlutverk en í annarri seríu fengu þær stöðuhækkun og eru núna aðalleikarar. Þættir. Í fyrstu þáttaröð Glee voru 22 þættir. Prufuþátturinn var sýndur þann 19. maí árið 2009 og þáttaröðinn hófst þann 9. september hið sama ár og var sýndur á miðvikudögum til jóla en var síðan færður yfir á fimmtudag. Þann 11. janúar árið 2010 tilkynntu forstjórar Fox að þeir hefðu pantað aðra seríu af Glee. Tökur á næstu seríu hófust í júní 2010. Sýningar á annarri þáttaröðinni hófust þann 21. september, 2010 og þættirnir voru sýndir klukkan átta að kvöldi til á þriðjudögum. Fox planaði upprunalega að sýna Glee á miðvikudögum en hætti svo við og sýndu American Idol á þeim tíma í staðinn. Þriðja þáttaröðin var pöntuð af Fox þann 23. maí 2010. Hverfisgata 21. Hverfisgata 21 er hús við Hverfisgötu í Reykjavík sem fullgert var árið 1912. Jón Magnússon forsætisráðherra lét reisa það sem íbúðarhús fyrir sig og konu sína, Þóru Jónsdóttur. Þegar Kristján X Danakonungur heimsótti Ísland árið 1926 ásamt Alexandrínu drottningu sinni, lentu íslensk stjórnvöld í vandræðum með að finna bústað sem væri gestunum samboðinn. Varð úr að konungshjónin gistu á heimili Jóns, sem þá var forsætisráðherra. Jón Magnússon lést meðan á Íslandsheimsókn konungs stóð. Í kjölfarið eignaðist Sigurður Jónasson forstjóri Hverfisgötu 21. Hann seldi það Hinu íslenska prentarafélagi (nú Félag bókagerðarmanna) árið 1940 og hefur félagið haft höfuðstöðvar sínar þar upp frá því. James Cameron. James Francis Cameron (fæddur þann 16. ágúst árið 1954) er kanadískur leikstjóri, framleiðandi, handritshöfundur og uppfinningamaður. Hann er frægur fyrir að hafa skrifað og leikstýrt The Terminator, Aliens, The Abyss, True Lies, Titanic og nú síðast Avatar. Hann leikstýrði einnig nokkrum heimildarmyndum á tímanum á milli Titanic og Avatar. Hann hefur einnig þróað margar neðansjávarkvikmyndavélar og einnig háþróaðar þvívíddar myndavélar. Cameron, James Matthías Þórðarson (þjóðminjavörður). Dr. Matthías Þórðarson (f. 30. okt. 1877 á Fiskilæk í Melasveit, d. 29. des 1961 í Reykjavík) var þjóðminjavörður 1908-1947. Foreldrar Matthíasar voru Þórður Sigurðsson hreppstjóri á Fiskilæk og kona hans Sigríður Runólfsdóttir. Matthías varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík 1898 og stundaði síðan nám við Kaupmannahafnarháskóla til 1906. Hann kom þá heim og varð aðstoðarmaður við Forngripasafnið en var settur fornminjavörður 1. janúar 1908 og skipaður sama ár. Því embætti gegndi hann í rétt tæp 40 ár, eða til 1. desember 1947. Hann var í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags frá 1912 til dauðadags og forseti þess síðustu 15 árin. Fyrri kona Matthíasar var Alvilde Marie Jensen frá Kaupmannahöfn en síðar giftist hann Guðríði Guðmundsdóttur frá Lambhúsum á Akranesi. Nils Edén. Nils Edén (f. 25. ágúst 1871, d. 16. júní 1945) var sænskur sagnfræðingur, stjórnmálamaður og forsætisráðherra Svíþjóðar 1917–1920. Edén lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Uppsalaháskóla árið 1899 og var sama ár ráðinn sem dósent við sama skóla. Sérsvið Edéns var saga Svíþjóðar á 16. og 17. öld. Árið 1909 var Edén skipaður í prófessorsstöðu við Uppsalaháskóla. Edén, sem var frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum, var ákafur talsmaður þess að kosningaréttur yrði gerður almennur. Árið 1908 var Edén kosinn á þing og skipaði sér fljótt í fremstu röð frjálslyndra þingmanna. Árið 1912 varð hann leiðtogi frjálslyndra í kjölfar þess að Karl Staaf lést. Árið 1917 myndaði Edén ríkisstjórn með flokki jafnaðarmanna og var Hjalmar Branting fjármálaráðherra í þeirri stjórn. Mikilvægasta afrek stjórnarinnar var að koma loks í gegn breytingum á kosningalögum sem gerðu kosningarétt almennan en Branting og jafnaðarmenn höfðu lengi barist fyrir almennum kosningarétti. Lagabreytingin tók gildi 1921. Ríkisstjórn Edén sagði af sér árið 1920 vegna ýmissa deilna milli stjórnarflokkanna, sér í lagi í skattamálum. Nils Edén tilheyrði svokölluðum „bæjarliberölum“ (s. "stadsliberalerna") og var meðal annars andsnúinn áfengisbanni. Meirihluti þingflokks frjálslyndra fylgdi hins vegar áfengisbanni. Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um áfengisbann árið 1922 þar sem tillaga um bann var felld, klofnaði flokkur frjálslyndra. Í maí 1923 stofnuðu andstæðingar áfengisbanns úr röðum frjálslyndra eigin flokk, Sænska frjálslynda flokkinn (s. "Sveriges liberala parti"). Edén tók þátt í stofnun flokksins, en dró sig fljótlega úr stjórnmálum eftir klofninginn. Heimildir. Edén, Nils Edén, Nils Hverfisgata 29. Hverfisgata 29 er hús við Hverfisgötu í Reykjavík sem reist var árið 1913. Kaupmennirnir og bræðurnir Sturla og Friðrik Jónssynir (sem kunnir voru undir nafninu "Sturlubræður") höfðu reist veglegt timburhús á lóðinni árið 1903 og bjuggu þar ásamt móður sinni. Það hús brann á árinu 1912. Árið eftir reistu þeir steinhús það sem enn stendur. Árið 1919 seldu Sturlubræður dönsku stjórninni húsið og hefur sendiráð Danmerkur verið þar síðan. Klöpp. Klöpp var tómthúsbýli sem byggðist út úr landi bæjarins Arnarhóls árið 1838. Býlið stóð á hárri klöpp, sem það dró nafn sitt af. Vestan við bæinn var Klapparvör, sem þótti gott útræði. Maður að nafni Eyjólfur Þorkelsson reisti fyrsta bæinn á Klöpp. Sonur hans, Níels Eyjólfsson, var ábúandi þar um áratuga skeið ásamt Helgu konu sinni. Þau ræktuðu mikla kálgarða við bæinn suðvestanverðan. Þar reis síðar Trésmiðjan Völundur. Síðasta íbúðarhúsið á Klöpp var rifið árið 1931, þremur árum fyrr hafði fyrirtækið British Petroleum Company (síðar Olís) tekið í notkun olíustöð sína framan á klöppinni. Þann 21. október árið 1954 opnaði Olíuverslun Íslands nýja bensínstöð og smurstöð á Klöpp. Hún var talin sú stærsta og fullkomnasta á landinu, þar sem hægt var að smyrja fjórar bifreiðar í einu. Það var einnig þvottaplan fyrir tuttugu bíla og stór og fullkomin ryksuga. Slagorð smurstöðvarinnar var: "Á Klöpp er allt klappað og klárt." Gatan Klapparstígur heitir eftir bænum Klöpp. Kalvín. Jóhann KalvínJóhann Kalvín (10. júlí 1509 – 27. maí 1564) var áhrifamikill franskur guðfræðingur og prestur á tímum siðaskiptanna. Hann átti stóran þátt í þróun kristinnar guðfræði sem var svo síðar kölluð kalvínismi. Kalvín var upprunalega lærður í húmanisma lögfræði og skildi sig frá Rómversk-kaþólsku kirkjunni í kringum 1530. Eftir að trúarleg spenna hleypti af stað blóðugri uppreisn gegn mótmælendum í Frakklandi flúði Kalvín til Basel í Sviss þar sem hann gaf út fyrsta áhrifamikla verk sitt "Frumatriði kristinnar trúar" árið 1536. Hið sama ár var Kalvín fenginn af William Farel til að endurbæta kirkjuna í Genf. Borgarstjórn Genf var hinsvegar mótfallinn áætlunum þeirra og voru þeir báðir reknir. Eftir að hafa fengið boð frá Martin Bucer fór Kalvín til Strassborgar þar sem að hann var gerður að presti kirkju sem tók við frönskum flóttamönnum. Hann hélt áfram að styðja umbætur á kirkjunni í Genf og var á endanum fenginn aftur til að leiða hana. Með endurkomu sinni til Genfar kynnti Kalvín nýtt stjórnarskipulag kirkjunnar og nýja hætti tilbiðunnar, þrátt fyrir mótstöðu nokkurra valdamikla fjölskyldna í borginni sem reyndu hvað eftir annað að draga úr valdi Kalvíns. Á þessum tímapunkti kom Michael Servetus til borgarinnar, Spánverji sem var þekktur fyrir villitrúaskoðanir sínar og afneitun sinni á heilögu þrenningunni. Honum var afneitað af kalvínistum og því ákvað borgarráð að hann yrði brenndur á báli. Eftir skjóta aukningu í flóttamönnum hliðhollum kalvínistum og nýjum kosningum borgarráðs, voru andstæðingum Kalvíns fljótt þvingað frá stjórnartaumunum. Kalvín eyddi síðustu árum ævi sinnar í að stuðla að siðaskiptum, bæði í Genf og út um alla Evrópu. Kalvín var óþreytandi, gagnrýninn og þrætugjarn rihöfundur sem oftar en ekki leiddi til mikilla deilna. Hann skrifaðist einnig á við marga aðra siðbótarmenn, meðal annars Philipp Melanchthon og Heinrich Bullinger. Að auki við fyrrnefnt verk hans, þá skrifaði hann einnig skýringar á flestum bókum Biblíunnar, guðfræðiritum og trúarjátningum. Hann messaði reglulega í Genf. Kalvín var undir áhrifum hefða Ágústínusarreglunnar, sem leiddi hann til skýringa á kenningum um að allir menn séu fyrirfram valdnir inn í himnaríki og fullveldi guðs í frelsun sálarinnar frá dauða og eilífri fordæmingu. Rit og kenningar Kalvíns voru uppsprettan af hugmyndafræðinni sem ber nafn hans. Hinar endurbættu kirkjur og aðrir söfnuðir sem lýta á Kalvín sem sinn upphafsmann og túlkara trúar sinnar, hafa breiðst út um allan heim. Heimildir. Kalvín, Jóhann Annar í jólum. Annar í jólum er í hátíðadagatali Íslensku þjóðkirkjunnar 26. desember, nefndur Stefánsdagur til minningar um fyrsta píslarvottinn, Stefán frumvott, en hann var grýttur þennan dag á 1. öld. Peder Claussøn Friis. Titilblaðið á "Norske Kongers Chronica" (1633). Efst á titilblaðinu er nafn Snorra Sturlusonar. Peder Claussøn Friis – eða Peder Claussøn – (1. apríl 1545 – 15. október 1614) var norskur prestur og fornmenntafræðingur, sem fékkst við sagnfræði og landafræði. Æviágrip. Faðir hans var "Claus" eða "Nicolas Thorolfsen Friis", sem um 1550 var prestur í Undal, (Audnedal) nálægt suðurodda Noregs. Þar ólst Peder upp. Hann fór til náms í Stafangri og tók svo við af föður sínum sem prestur í Undal, aðeins 21 árs gamall. Sama ár varð hann prófastur í Lista prófastsdæmi. Jørgen Eriksen, biskup í Stafangri, kynntist Pétri Claussyni í fyrstu vísitasíu sinni 1572, og skipaði hann síðan kórsbróður eða kanoka í Stafangri 1575. Nokkrum árum síðar varð hann varaformaður dómklerkaráðsins þar. Hann tók síðar að sér ýmis erfið verkefni fyrir kirkjuna, sem leiddu til deilna og átaka við bændur og veraldleg yfirvöld. En þó að stundum skærist í odda naut hann samt virðingar meðal almúgans. Peder Claussøn var fulltrúi Stafangurs-biskupsdæmis við hyllingu Kristjáns 4. í Osló 1591. Peder var kvæntur, en ekki er vitað hvað kona hans hét. Claus sonur hans varð eftirmaður hans í prestsembætti, og hann átti einnig nokkrar dætur sem giftust bændum. Peder Claussøn dó um sjötugt á heimili sínu. Í Undals-kirkju er málverk af Peder Claussøn Friis, sem sýnir grófgerðan og þróttmikinn kirkjuhöfðingja, dökkan yfirlitum. Árið 1938 var reist stytta af honum við prestsetrið í Valle. Hún er eftir Gustav Vigeland (1869–1943), sem ólst upp skammt þar frá, á bænum Mjunebrokka. Fræðistörf. Peder Claussøn er kunnastur fyrir fyrir þýðingar sínar á konungasögum og einnig fyrir rit um staðfræði Noregs. Hann hafði ekki háskólamenntun og hafði aldrei ferðast til útlanda, en virðist þó hafa verið vel menntaður að þeirrar tíðar hætti. Staða hans innan kirkjunnar gaf honum færi á að kynnast mörgum lærðum og vel menntuðum mönnum, og hefur það vakið áhuga hans á norræna málinu og sögu og landafræði Noregs. Hinn lærði lögmaður í Agðafylki, Jon Simonsen, virðist hafa kennt honum fornnorsku, og fleiri hafa lánað honum forn handrit. Af erlendum höfundum (ritum) virðast þeir Olaus Magnus og Arngrímur Jónsson lærði hafa beint áhuga hans að sögulegum og landfræðilegum fróðleik. Fyrsta rit hans var stutt lýsing á Íslandi, frá (1580). Síðan fylgdu fróðleiksgreinar um Færeyjar (1592) og Grænland (1596). Árið 1599 lauk hann við lýsingu á náttúru Noregs í nokkrum stuttum ritgerðum: „Om alle slags Djur, som ere udi Norrig“, „om Fiske“, „om Fugle“, „om Skove og Træ“ og „om Urter og Blomster“. Hann var sá fyrsti sem þýddi "Heimskringlu" Snorra Sturlusonar yfir á norsku. Skattstjórinn Axel Gyldenstjerne fól honum verkið árið 1599, og þýddi Peder Claussøn einnig Böglunga sögur og Hákonar sögu Hákonarsonar, en í Sverris sögu notaði hann eldri þýðingu frá Björgvin. Þessari þýðingu gaf hann nafnið "Norske kongers Chronica", og rekur hún sögu Noregs frá fornöld til 1263. Þýðingin hefur ekki síst gildi vegna þess að Böglunga sögur þýddi hann eftir handriti af lengri gerð sögunnar, sem nú er að mestu glötuð. Um 1600 þýddi hann Landslög Magnúsar lagabætis og meðfylgjandi réttarbætur. Smárit hans „Om Tienden“ og „Enfoldig Forklaring over Fader vor“ eru glötuð, en sýna að hann hefur einnig ritað um trúmál. Á síðustu árum sínum fékkst hann einkum við landfræði Noregs. Fyrst tók hann saman „Stavangers beskrivelse“ (1609), og síðar tók hann saman í eitt rit drög sín að lýsingu Noregs: "Norriges Beskrivelse" (1613). Ekkert af ritum Peders Claussøns var prentað meðan hann var á lífi. Þau voru skrifuð upp og gefin eða seld áhugamönnum. Um 1630 fékk kanslarinn Christian Friis eintak af "Norriges oc Omliggende Øers sandfærdige Besschriffuelse". Hann gaf Ole Worm handritið, sem lét prenta það í Kaupmannahöfn 1632. Um svipað leyti barst eintak af konungasagnaþýðingunni "Norske Kongers Chronica" til Kaupmannahafnar, og lét Ole Worm prenta hana 1633. Önnur rit Peders Claussøns lágu óprentuð þar til Gustav Storm gaf þau út 1881. Með "Norske Kongers Chronica" fengu Norðmenn samfellda og læsilega framsetningu á sögu sinni frá fornöld til 1263, jafnframt því sem upplýst var að Snorri Sturluson væri höfundur Heimskringlu. Áður vissu menn ekki hver höfundurinn var. Talið er að nafn Snorra hafi verið í Heimskringluhandriti sem Peder Claussøn notaði. Þýðing Claussøns var höfuðrit um efnið þar til útgáfur þeirra Johans Peringskiölds og Þormóðar Torfasonar komu fram um aldamótin 1700. Noregslýsingin varð einnig áhrifarík og varð fyrirmynd margra hliðstæðra verka. Listi yfir hátíðardaga íslensku þjóðkirkjunnar. Listi yfir hátíðardaga Íslensku Þjóðkirkjunnar, það er þeir dagar sem marka kirkjuár hennar. Kirkjuárið. Kirkjuárið hefst með fyrsta sunnudegi í aðventu eða jólaföstu, sem getur verið frá 27. nóvember til 3. desember. Fer það eftir því hve margir Sunnudagar líða til Jóla, en aðventan inniheldur alltaf fjóra Sunnudaga. Á einu kirkjuári er farið í gegnum líf og starf Jesú Krists á afar skipulegan hátt í guðsþjónustum. Kirkjuárið skiptist í tvö misseri. Hátíðamisserið svokallaða byrjar með aðventunni og lýkur með þrenningarhátíð (trinitatis). Hátíðalausa misserið byrjar viku síðar. Sunnudagar þess tímabils geta flestir orðið 27. Nýár. Nýár eða nýársdagur, einnig nefndur "áttidagur" eða "áttadagur" í fornum ritum, vegna þess að hann er áttundi dagur jóla, er 1. janúar ár hvert. Í vestrænni menningu er hann fyrsti dagur nýs almanaksárs á Gregoríska tímatalinu. Mjög breytilegt er og hefur verið um heim allan hvenær haldið er upp á áramót. Sem dæmi má nefna að Kínverjar hafa eigin áramót sem lúta allt öðrum reglum en hér á Vesturlöndum og einnig í Íslamska tímatalinu sem er annað en hið Gregoríska. Saga nýársdags. Í Evrópu var byrjun ársins lengi vel mjög á reiki. Rómverjar höfðu í öndverðu látið árið hefjast 1. mars og bera nokkur mánaðarheiti enn þess merki; október þýðir í raun 8. mánuður ársins, nóvember þann 9. og desember 10. mánuður ársins. Frá fyrstu öld fyrir upphaf tímatals okkar létu Rómverjar svo árið byrja 1. janúar. Fyrstu páfarnir héldu sér við þá dagsetningu enda var ekki enn búið að ákvarða hinn opinbera fæðingardag Jesú Krists. Í Austrómverska ríkinu ákvað Konstantínus mikli hins vegar að árið skyldi hefjast 1. september og sumir páfar fylgdu þeim sið. Um árið 800 fyrirskipaði Karl mikli að í ríki sínu skyldi árið hefjast á boðunardegi Maríu meyjar 25. mars. Englendingar tóku snemma upp jóladag sem nýársdag og héldu sér við hann fram á 12. öld en þá færðu þeir hann einnig yfir á 25. mars. Á næstu öldum gat opinber byrjun ársins verið ólík eftir ríkjum, héröðum og jafnvel hertogadæmum. Nýársdagur á Íslandi. Íslendingar tóku jóladag sem nýársdag eftir ensku biskupakirkjunni eins og fleiri siði og héldu sér við hann fram til siðaskipta um 1540 en þá fluttu þeir hann á 1. janúar aftur. Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Mótmælendur í norðurálfunni aðrir en Íslendingar, þrjóskuðust lengi við en að lokum breyttu þeir einnig tímatali sínu. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752 en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að nýársdegi fyrr en árið 1783. Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið á undan mörgum öðrum þjóðum hins lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum 1600. Meðan Íslendingar héldu áramótin á sama tíma og jólin er greinilegt að 1. janúar hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að „hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“ Hjátrú. Hjátrú er trú, sem stendur utan opinberra trúfélaga og er almennt ekki viðurkennd sem slík. Hjátrú um föstudaginn 13. Algeng hjátrú er að þegar 13 dagur mánaðarins sem er jafnframt föstudagur sé óhappadagur. Þessi trú er útbreidd um allann heim. Dæmi um þetta í kristni er að í síðustu kvöldmáltíð Jesú Krists voru 13 menn samankomnir og einn af þeim sem sveik Jesú var krossfestur. Annað dæmi í ásatrú er svipað dæmi, þar sem 13 manns voru samankomnir sem endaði með því að Baldur var drepinn. Misjafnt er eftir trúarbrögðum hver kenningargrundvöllurinn sé fyrir að föstudagurinn 13 sé óhappadagur. Huldufólk. Álfasteinn við íbúðargötu í Kópavogi Á Íslandi. Fimmtíu og fjögur prósent Íslendinga telja að álfar séu til. Trú á huldufólk á Íslandi tengjast náttúrunni og landslagi. Álfatrú á sér djúpar rætur í þjóðarsálinni. Á Íslandi hefur hjátrú Íslendinga lítið breyst á 30 árum. Á Írlandi. Á Írlandi er trúað á dverg sem gætir fjarsjóða og gerir álfum skó. Írar trúa jafnframt á aðrar smáverur sem hafa galdrahæfileika búa saman og gefa fólki gjafir og hæfileika. Huldufólk eru jafnframt í skrúðgöngum í tengslum við hátíð Santi Patreks. Hjátrú um rauðhært fólk. Á Írlandi er ólánsmerki að mæta rauðhærðri konu. Talið er að þessi hjátrú hafi myndast vegna þess að Júdas var talinn rauðhærður en jafnframt var rauðhært fólk á þeim tíma mjög sjaldgæft. Jón Ásgeirsson. Jón Ásgeirsson (f. 11. október 1928 á Ísafirði) er íslenskt tónskáld. Meðal þekktustu verka hans eru óperurnar "Þrymskviða", "Galdra-Loftur" og "Möttulsaga". Hann hefur líka samið mörg vinsæl sönglög eins og lagið við ljóð Halldórs Laxness, "Maístjarnan". Jón útsetti og samdi millikafla við lag úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar árið 1960 og setti það við lausavísur sem eignaðar voru Vatnsenda-Rósu og kallaði "Vísur Vatnsenda-Rósu". Lagið varð mjög vinsælt og þekkt í þessari útgáfu. Jóni þótti á höfundarétti sínum brotið þegar lagið var kallað „íslenskt þjóðlag“ og útsetning eignuð öðrum í síðari útgáfum, meðal annars þar sem lagið var notað í kvikmyndinni "Tár úr steini" árið 1996. Úrskurðarnefnd á vegum STEFs úrskurðaði að Jón ætti stærstan hluta lagsins þótt það byggði á þjóðlagi. Jóni þótti STEF síðan sýna sér lítinn stuðning í málarekstri út af notkun lagsins og sagði sig því úr félaginu. Jón fékk riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2001 fyrir „störf í þágu lista og menningar.“ Hávallagata 24. Hávallagata 24 eða Hamragarðar er íbúðarhús við Hávallagötu í Reykjavík sem Samband íslenskra samvinnufélaga lét reisa fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu, einn kunnasta leiðtoga íslenskra samvinnumanna og skólastjóra Samvinnuskólans. Fékk Jónas húsið afhent árið 1941. Hamragarðar teljast merkilegt hús í byggingarsögulegu samhengi. Arkitekt þess var Guðjón Samúelsson, sem hafði þá ekki teiknað íbúðarhús í um áratug vegna anna við stór opinber verkefni. Leiðir Guðjóns og Jónasar höfðu raunar oft legið saman á undanliðnum árum í gegnum störf þess fyrrnefnda sem Húsameistari ríkisins. Áður en Jónas og fjölskylda hans fluttust inn í Hamragarða, höfðu þau búið í skólastjóraíbúð Samvinnuskólans við Sölvhólsveg. Í dag telst húsið eitt verðmætasta íbúðarhús Reykjavíkur. Ebóla. Rafræn smásjármynd af Ebóla veirunni Ebóla er veira þekkt sem ebólaveiran (EBOV) Ebólu-blæðingarsótt. Ebólu-veiran er einþátta RNA þráðveira sem veldur blæðandi veirusótthita í mönnum. Veiran er mjög skæð, ólæknandi og ein banvænansta veira sem þekkist nú á dögum. Veiran er nefnd eftir Ebólafljótinu í Austur-Kongó og kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1976. Fjögur þekkt afbrigði eru til af veirunni og öll nefnd eftir þeim svæðum sem þau hafa fundist á. Enn hefur faraldur af ebólu aðeins átt sér stað í Afríku. Einkenni. Ebólan ræðst á öll líffæri og vefi mannslíkamans nema vöðva og bein. Veiran bókstsaflega umbreytir öllum hlutum líkamans í hálfmaukað slím sem er gegnsýrt af sýkjandi veiruögnum. Veiran inniheldur sjö gerðir af dularfullum próteinum sem vinna þrotlaust líkt og vél og éta upp vefi líkamans á meðan veiran fjölgar sér í hýslinum. Örlitlir blóðtappar myndast í blóðrásinni og blóðið þykknar, blóðkekkirnir loða hver við annan og festast við æðaveggina. Blóðkekkirnir fara að mynda stærri tappa sem minna á mósaík innan í æðakerfinu. Þetta stöðvar blóðflæði til líffæra og vefja líkamans, veldur súrefnisþurrð og drepi í vefjum (nekrósu) sem birtist sem svartir blettir á heila, í lifur, nýrum, lungum, þörmum, eistum, brjóstum (karla og kvenna) og yfir allt yfirborð húðarinnar. Rauðir blettir myndast einnig á húðinni sem kallast petechiae, sem eru blæðingar undir húð. Veiran umbreytir kollagen-þráðum líkamans í mauk og neðsta lag húðarinnar deyr og verður vessakennt, húðin verður einnig þakin örsmáum hvítum blöðrum. Þetta ástand kallast maculopapular-roði og áferð húðarinnar fer að líkjast sagógrjónagraut. Rauðu blettirnir á húðinni stækka og mynda á endanum risavaxna marbletti yfir allan líkamann. Húðin bólgnar og verður mjög viðkvæm fyrir allri viðkomu og rifnar auðveldlega af við alla snertingu eða þrýsting. Blæðingar hefjast úr munnholi, tannholdi og munnvatnskirtlum. Smám saman fer að blæða úr öllum líkamsopum stórum og smáum. Yfirborð tungunnar verður eldrautt og flagnar að lokum af, sjúklingurinn annaðhvort spýtir því út úr sér eða gleypir það ósjálfrátt. Tungan verður mjög aum viðkomu og sjúklingurinn upplifir miklar kvalir. Yfirborð slímhúðar í koki og barka flagnar einnig af þegar blóðug uppköst hefjast. Blæðingar hefjast í gollurshúsi, hjartavöðvinn mýkist og blóð þrýstist í gegnum hann við hvern hjartslátt og veldur því að brjóstholið fyllist af blóði. Æðar heilans stíflast af blóðkekkjum, heilinn bólgnar og verður maukkenndur. Það blæðir inn í augun og blóð seytlar úr tárakirtlum sjúklingsins og hann virðist gráta blóði. Ebóla drepur mikið af vefjum líkamans meðan sjúklingurinn lifir, veldur nekrósuflekkjum á öllum líffærum og húð. Lifrin bólgnar einnig upp, verður gul að lit og byrjar að leysast upp, djúpar sprungur myndast í gegnum lifrina og að lokum deyr líffærið alveg. Nýrun stíflast einnig af blóðkekkjum og hætta að starfa, þetta orskar þvagmengun og eitrun í blóði. Miltað bólgnar upp og verður líkt og blóðkökkur á stærð við hafnabolta. Þarmar fyllast af blóði og þarmaveggurinn deyr, hann flagnar af og skolast út með blóðugum niðurgangi. Eistun bólgna upp í karlmönnum og verða blásvört, allt sæði deyr. Miklar blæðingar verða úr leggöngum kvenna. Ef konan er ólétt deyr fóstrið strax óháð meðgöngutíma. Hreindýr jólasveinsins (Bandaríkin). Samkvæmt bandarískri þjóðsögu ekur jólasveinninn (e. Santa Claus) um á sleða sem dreginn er áfram af töfrahreindýrum. Hefð er fyrir því að hreindýrin séu níu talsins. Í kvæði frá 1823 "A Visit from St. Nicholas" (betur þekkt sem "The Night Before Christmas") eftir bandaríska skáldið Clement C. Moore eru hreindýrin átta talsins, en á millistríðsárunum bættist Rúdolph, rauðnefjaða hreindýrið í flokkinn og hafa hreindýrin verið níu talsins síðan þá. Uppruni sögunnar. Nöfn fyrstu átta hreindýranna eru úr kvæði frá árinu 1823. Níunda hreindýrið, Rúdolph, á rætur að rekja til auglýsingaherferðar sem samin var fyrir Montgomery Ward vöruhúsakeðjuna árið 1939. Vöruhúsakeðjan lét semja teiknibók um ævintýrið um Rúdolph. Bókinni var dreift til barna í verslunum þeirra fyrir jólin. Árið 1948 samdi Johnny Marks jólalag um Rúdolph sem hefur öðru fremur borið hróður hinna fljúgandi hreindýra. Fyrsta hljóðritun lagsins er frá 1949 í flutningi Gene Autry. Sagan af Rúdolph og hreindýrunum fljúgandi er ein vinsælasta jólasaga samtímans, sérstaklega í hinum engilsaxneska heimi. Frederik Willem de Klerk. Frederik Willem de Klerk (fæddur 18. mars 1936), oft þekktur sem F.W. de Klerk, var jafnframt sjöundi og seinasti forsetinn á tímum Aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku. Hann gengdi embætti frá september 1989 til maí 1994. De Klerk var einnig leiðtogi Þjóðarflokks Suður-Afríku (sem varð svo seinna Nýi þjóðarflokkur Suður-Afríku) frá febrúar 1989 til september 1997. De Klerk er þekktastur fyrir að hafa stuðlað að endalokum aðskilnaðarstefnunnar og fyrir framtak sitt við umbreytingu Suður-Afríku yfir í fjöl-kynþátta samfélag þar sem allir þegnar ríkissins, svartir sem hvítir, hafa sömu réttindi og tækifæri. Fyrir þessi verk hlaut hann Friðarverðlaun Félix Houphouët-Boigny árið 1991. Einnig hefur hann deilt tveimur verðlaunum með Nelson Mandela, Verðlaun prinsins af Austurríki árið 1992 og Friðarverðlaun Nóbels árið 1993. De Klerk var einn af varaforsetum Suður-Afríku í stjórnartíð Nelsons Mandela og var hann orðinn síðasti hvíti maðurinn til að gegna því embætti þegar hann lét af störfum 1996. De Klerk dró sig alfarið úr stjórnmálum árið 1997. Uppruni og ferill. De Klerk fæddist hjónunum Jan de Klerk og Corrie Coetzer í Jóhannesarborg 1934. Fjölskylda de Klerks var hin hefðbundna, hvíta, Suður-Afríska fjölskylda og því mjög íhaldssöm. Langafi de Klerks hafði verið öldungardeildarþingmaður, afi hans hafði farið tvisvar í framboð til þings og frænka hans hafði verið gift forsætisráðherra. Árið 1948, árið sem að Þjóðarflokkurinn vann stórsigur í al-hvítri kosningu þar sem aðal áhersluefni þeirra var að koma á aðskilnaðarstefnunni, var faðir de Klerks gerður að aðalritara flokksins í héraði þeirra, svo seinna að ráðherra og að lokum varð hann forseti öldungadeildarinnar. Bróðir de Klerks, Willem, er frjálslyndur blaðamaður og einn af stofnendum Suður-Afríska demókrataflokksins. De Klerk er stúdent frá Monument menntaskólanum í Krugersdorp. Hann útskrifaðist 1958 frá Potchefstroom háskóla með BA og LL.B gráður. Eftir útskriftina fór de Klerk að vinna sem lögfræðingur í Vereeniging. Árið 1959 giftist hann Marike Willemse. Saman eignuðust þau þrjú börn, tvo syni og eina dóttur. De Klerk var fyrst kosinn í neðri deild þingsins árið 1969 og fór svo í ríkisstjórn 1978. Honum var boðin kennarastaða við Potchefstroom háskóla árið 1972 en hann hafnaði henni vegna setu á þingi. Árið 1978 var hann skipaður samskipta-og velferðarráðherra og árið eftir var hann gerður að orku-og umhverfismálaráðherra. Árið 1982 til 1985 var hann svo innanríkisráðherra og árið 1984 til 1989 skipaði hann embætti menntamálaráðherra. Lok aðskilnaðarstefnunnar. a>Sem menntamálaráðherra var de Klerk hlynntur aðgreindum háskólum og sem leiðtogi Þjóðarflokksins í sínu héraði var hann ekki þekktur sem talsmaður umbóta. Þó, eftir langan stjórnmálaferil og mjög íhaldssamt orðspor varð hann formaður verligte („þeir upplýstu“), öfl innan stjórnarflokksins sem leiddi til þess að hann var kosinn leiðtogi flokksins á landvísu í febrúar árið 1989 og loks í september sama ár var hann gerður að forseta eftir að hafa tekið við af P.W Botha sem hafði neyðst til að láta af völdum vegna heilablóðfalls. Í fyrstu ræðu de Klerks eftir að hafa tekið við sem leiðtogi þjóðarflokksins kallaði hann eftir fordómalausri Suður-Afríku og samningaviðræðum um framtíð landsins. Hann aflétti banni á vinstrisinnaða blökkumannaflokknum "ANC" og sleppti Nelson Mandela úr fangelsi. Hann afnam aðskilnaðarstefnuna og gerði veginn greiðan fyrir drög að nýrri stjórnarskrá sem myndi miðast við einstaklinginn. Samt sem áður sakaði Anthony Sampson hann um samsekt í blóðugum áflogum milli "ANC", "Inkatha frjálslyndaflokksins" og í málum öryggissveitanna. Í nýútgefinni ævisögu Nelsons Mandela segir að Sampson hafi ásakað de Klerk fyrir að hafa leyft ráðherrum sínum að byggja sín eigin glæpaveldi. Forsetatíð de Klerks einkenndist af samningaferlinu á milli Þjóðarflokks de Klerks og "ANC" flokks Mandela, sem leiddi til algjörs lýðræðis í Suður-Afríku. Árið 1990 gaf de Klerk út þau fyrirmæli að kjarnorkuvopnaáætlun Suður-Afríku ætti að leggja alfarið niður. Afvopnun kjarnavopnanna var lokið 1991. Tilvist áætlunarinnar var þó ekki viðurkennd fyrr en 1993. Eftir fyrstu frjálsu kosningarnar árið 1994, varð de Klerk fyrsti varaforseti í ríkisstjórn undir þjóðarsameiningu sem að Nelson Mandela leiddi eftir stórsigur í kosningunum. De Klerk hélt þessari stöðu til 1996. Árið 1997 lét hann af embætti sem leiðtogi Þjóðarflokksins og dró sig alfarið úr stjórnmálum. Heimildir. de Klerk, Frederik Willem de Klerk, Frederik Willem de Klerk, Frederik Willem Kirkjutorg 4. Kirkjutorg 4 eða Kirkjuhvoll er hús við Kirkjutorg í Reykjavík. Jón Sveinsson trésmiður hóf byggingu þessi árið 1899 og var henni lokið árið 1901. Kirkjuhvoll er veglegt timburhús sem vakti talsverða athygli á sínum tíma. Það var til dæmis fyrsta íbúðarhús Reykjavíkur þar sem komið var fyrir miðstöðvarhitun. Útlit hússins er nú mikið breytt frá því sem upphaflega var. Framhlið þess múruð með skeljasandi og lítið sést af hinum nýklassíska byggingarstíl þess. Á þriðja áratug tuttugustu aldar komst Kirkjuhvol í eigu bræðranna Herlufs og Arreboe Clausen. Þeir leigðu einstaka hluta þess út til ýmissa aðila, þar á meðal til Theódóru Sveinsdóttur sem rak þar um nokkurra ára skeið veitingasali með veisluþjónustu. Var sú starfsemi talinn marka straumhvörf í íslenskum veitingastaðarekstri. Kirkjuhvoll var lengi í eigu athafnamannanna Silla og Valda. Ýmis skrifstofu- verslunarstarfsemi hefur átt sér stað í húsinu í gegnum tíðina. Þar er um þessar mundir veitingahúsið Vínbarinn. Borås. thumb Borås er borg í sveitarfélaginu "Borås kommun" í Västra Götalandi í Svíþjóð. Íbúar eru 63.441 (2005). Eskilstuna. Eskilstunafljót og Gamalbæ í Eskilstuna thumb Eskilstuna er borg í sveitarfélaginu "Eskilstuna kommun" í Södermanlandi í Svíþjóð. Íbúar eru 60.185 Halmstad. thumb Halmstad er borg í sveitarfélaginu "Halmstads kommun" í Hallandi í Svíþjóð. Íbúar eru 55,688 (2005). Södertälje. thumb Södertälje er borg í sveitarfélaginu " Södertälje kommun" í Södermanlandi í Svíþjóð. Íbúar eru 60.279 (2005). Växjö. thumb Växjö er borg í sveitarfélaginu "Växjö kommun" í Smålandi í Svíþjóð. Íbúar eru 65.000 (2005). Titanic (1997 kvikmynd). "Titanic" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1997 sem James Cameron leikstýrði, framleiddi og skrifaði. Myndin gerist um borð í hinu fræga skipi RMS Titanic sem sökk í jómfrúarsiglingu sinni. Myndin fjallar um unga stúlku og ungan pilt sem hittast um borð og verða ástfangin. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu sem aftur er byggð á raunverulegum atburðum. Leonardo DiCaprio og Kate Winslet fara með aðalhlutverkin sem Jack Dawson og Rose DeWitt Bukater, ástfangið par hvort úr sinni stéttinni. Gloria Stuart fer með hlutverk Rose aldraðrar og er sögumaður kvikmyndarinnar. Framleiðsla myndarinnar hófst árið 1995 þegar Cameron fór að flaki skipsins og tók upp atriði á sjávarbotninum. Atriðin sem að gerast í nútímanum voru tekin upp um borð í rússneska rannsóknarskipinu "Akademik Mstislav Keldysh" sem var einnig bækistöð Camerons þegar hann tók upp atriðin við Titanic. Skipið var seinna endursmíðað í Mexíkó og mörg líkön voru smíðuð til þess að endurskapa síðustu stundir skipsins. Í myndinni voru notaðar mjög háþróaðar tæknibrellur til þess að bæta við stafrænu fólki, vatni og reyk sem að var allt mjög ný tækni á þeim tíma. Myndin var dýrasta mynd allra tíma þegar hún var framleidd og kostaði rúmar 200 milljónir Bandaríkjadala en myndverin 20th Century Fox og Paramount Pictures reiddu fram fjármagnið. Upphaflega stóð til að frumsýna myndina þann 2. júní árið 1997 en seinkanir í eftirvinnslu urðu til þess að útgáfunni var frestað til 19. desember. "Titanic" varð strax mjög vinsæl á meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Hún var tilnefnd til fjórtán Óskarsverðlauna og vann ellefu, þar á meðal verðlaunin fyrir „bestu leikstjórn“ og „bestu kvikmynd“. Myndin varð fljótt tekjuhæsta kvikmynd allra tíma enda tók hún inn rúma 1,8 milljarða Bandaríkjadala um allan heim. Hún hélt því sæti þangað til næsta mynd Camerons, "Avatar", kom í kvikmyndahús árið 2009. Myndin verður endursýnd í kvikmyndahúsum í apríl 2012 eftir að Cameron hefur sett hana í þrívídd. Söguþráður. Árið 1996 fer fornleifafræðingurinn Brock Lovett og teymið hans niður að flaki RMS Titanics í leit að hálsmeninu „Le Cœur de la Mer“ (Hjarta hafsins). Þeir trúa því að hálsmenið sé í peningaskápi Caledon Hockleys sem þeir taka upp með sér. Í stað þess að finna hálsmenið finna þeir teikningu af nakinni konu með hálsmenið á sér sem var teiknuð þann 14. apríl 1912, kvöldið sem að skipið sökk. Gömul kona að nafninu Rose Calvert fréttir af teikningunni og hefur samband við Lovett til þess að láta hann vita að hún sé konan á teikningunni. Hún og barnabarn hennar, Lizzy Calvert, fara til Lovetts á skipið hans. Þegar hún er spurð hvort að hún viti hvar hálsmenið er þá byrjar hún að segja sögu sína um ferð Titanics og lætur þá vita að hún sé í raun og veru Rose DeWitt Bukater, farþegi á fyrsta farrými sem átti að hafa farið niður með skipinu. Þann 10. apríl árið 1912 fer Rose um borð í skipið í Southampton í Englandi ásamt unnusta sínum Caledon Hockley og móður sinni Ruth DeWitt Bukater. Ruth leggur áherslu á hversu mikilvæg trúlofun þeirra sé vegna þess að hún muni leysa öll peningavandamál þeirra. Rose líður eins og allar ákvarðanir lífs hennar hafi verið teknar og hún ákveður að fyrirfara sér með því að stökkva fyrir borð. Áður en hún stekkur kemur Jack Dawson, flækingur af þriðja farrými, og telur hana af því að stökkva. Þau verða góðir vinir á næstu dögum. Cal og Ruth banna Rose að hitta Jack. Hún ögrar þeim með því að hitta Jack samt á stafni skipsins og hún ákveður að hún sé ástfangin af honum en ekki Cal. Þau fara síðan í herbergi hennar og hann teiknar hana nakta með menið um háls hennar en menið var trúlofunargjöf frá Cal til Rose. Eftir á fara þau niður í farmrými skipsins og hafa kynmök. Þau fara síðan upp á framþilfar skipsins þar sem að þau verða vitni að árekstri skipsins við ísjaka og heyra embætætismenn skipsins tala um hversu alvarlegt þetta væri. Þau ákveða þá að fara og vara móður Rose og Cal við. Cal finnur teikninguna hans Jack í peningaskápnum sínum og til þess að ná hefndum lætur hann aðstoðarmann sinn smeygja hálsmeninu í vasann hans Jacks til þess að láta það líta út eins og hann hefði stolið því. Jack er þá handtekinn og hann er handjárnaður við rör í herbergi öryggisvarðarins. Rose, Cal og Ruth fara þá að björgunarbátunum og Ruth fer um borð en Rose flýr og fer að finna Jack og bjargar honum. Næst fara þau upp á þilfar skipsins og finna Cal sem að sannfærir hana um að fara um borð í björgunarbát og hann segir að hann sé kominn með samning sem að muni hjálpa bæði honum og Jack. Um leið og Rose er komin um borð lætur Cal Jack vita að samningurinn hjálpi aðeins honum. Rose áttar sig á að hún getur ekki farið frá Jack og stekkur aftur yfir á skipið. Cal verður brjálaður og tekur upp skammbyssu sína og hleypur á eftir þeim og reynir að koma þeim fyrir kattarnef. Þegar hann hefur skotið öllum skotum sínum var hann aftur kominn út á þilfar og áttar sig á að skipið á ekki mikinn tíma eftir svo að hann grípur litla stelpu sem að er týnd og kemst um borð í björgunarbát og segir að hann sé það eina sem að hún á að. Þegar að Jack og Rose fara aftur upp á þilfarið eru allir björgunarbátarnir farnir og skutur skipsins er að rísa upp í loftið. Þau hlaupa upp á skutinn. Þegar skipið sekkur eru um það bil þúsund manns í ísköldu vatninu að deyja úr kulda þar á meðal Jack og Rose. Þau finna þiljubrot úr skipinu og Jack hjálpar Rose að komast upp á það en hann kemst ekki upp á sjálfur. Stuttu seinna deyr Jack úr ofkælingu áður en að björgunarbátarnir snúa aftur til þess að bjarga þeim sem fóru í sjóinn með skipinu. Aðeins örfáir voru enn á lífi þá og er Rose ein þeirra. Rose er þá tekin um borð í RMS Carpathia sem að flytur hana til New York borgar. Eftir að Rose hefur lokið sögu sinni fer hún alein að afturhluta skipi Lovetts og tekur fram hálsmenið og hendir því í sjóinn. Seinna, þegar að hún liggur í rúmi sínu, sér áhorfandinn allar myndirnar hennar frá lífi hennar sem að sýnir að hún lifði lífinu sem að hún vildi í stað þess að vera fyrsta farrýmis dama. Áhorfandinn sér þá hina ungu Rose ganga um borð og ganga um skipið ásamt öllum sem dóu þegar skipið sökk, þar á meðal Jack. Handritið. Áður en að Cameron hafði ákveðið að láta til skara skríða og búa til bíómynd um Titanic, hafði hann lengi verið heltekinn af skipbrotum og kallaði RMS Titanic „Everestfjall skipbrota.“ Þegar að Cameron frétti að fólk hafði farið niður að Titanic og tekið upp IMAX kvikmynd ákvað hann að búa til Hollywood kvikmynd til þess að borga fyrir ferð niður að skipinu og gera hið sama. „Þegar að ég ákvað að gera Titanic var ég að hugsa ‘Ég get búið til kvikmyndir þangað til að ég verð áttatíu ára en ég get ekki ferðast niður á hafsbotn þegar að ég verð áttatíu’“ Cameron skrifaði stuttann útdrátt að handriti fyrir "Titanic" og fór með það til 20th Century Fox og lýsti því sem „Rómeó og Júlía um borð Titanics.“ Það var löng þögn eftir að Cameron kláraði að útskýra myndina og sagði „Og vinir mínir, þetta er mynd sem að gerist í gamla daga, þetta mun kosta ykkur rúmar $150,000,000 og það verður ekki framhald.“ Þeir spurðu þá hvort að það væri einhver möguleiki því að koma einhverjum vélmennum í þessa þriggja tíma rómantísku hörmungarmynd en Cameron sagði nei. Starfsmenn Fox voru óvissir hvort að þeir ættu að styrkja þessa mynd en í von um að gera samning við Cameron fyrir fleiri hasamyndir leyfðu þeir honum að gera myndina. Cameron sannfærði Fox til þess að fara niður að skipinu og taka upp efni þar og taka myndir af skipinu sjálfu. Á tveggja ára tímabili fór hann niður að skipinu nokkrum sinnum. Cameron sagði að þau myndu þurfa að fara niður að skipinu til þess að kynna myndina og láta Lovett fara og leita að demantinum. Þannig gætu þau líka séð hvernig það hefði litið út um borð skipsins með því að endursmíða skipið frá nýju myndunum. Starfsmenn myndarinnar fór niður á botn Atlantshafsins ellefu sinnum árið 1995 og eyddi meirum tíma á skipinu heldur en að farþegar Titanics höfðu gert. Eftir að tökum lauk á hafsbotninum, byrjaði Cameron að skrifa handritið fyrir myndina. Hann vildi heiðra minningu þeirra sem að fóru niður með skipinu og eyddi sex mánuðum í leit að heimildum um farþega, áhöfnina og skipið. Hann bjó meira segja til mjög nákvæman tímaás fyrir sögu skipsins. Cameron sagði í viðtali að honum fannst saga skipsins vera eins og „frábær skáldsaga sem að gerðist í raun og veru“ og að tilgangur myndarinnar var að leyfa áhorfendum að upplifa stórslysið. Fjársjóðsleitarinn Brock Lovett átti síðan að tákna þá sem að sjá aldrei mannlegu hliðina við Titanic. Cameron vildi síðan að endirinn yrði þvoglulegur þannig að fólk gæti túlkað það á sinn eiginn máta. Hönnun. Harland and Wolff, fyrirtækið sem að byggði skipið, leyfðu framleiðendum myndarinnar að fara niður í skráageymslu þeirra og skoða gamlar teikningar af skipinu og fundu þeir þá teikningar sem að höfðu áður verið taldar glataðar. Framleiðsluhönnuður myndarinnar, Peter Lamont, leitaði að minjum frá byrjun tuttugustu aldar en hann gat ekki notað neinn þeirra sem að hann fann út af því að skipið hafði verið svo nýtt þegar að það sigldi og þess vegna þurfti allt að vera glænýtt. Fox öðlaðist 40 ekra af sjávarbakka, sunnan við Rosarito Beach í Mexíkó og byggingarvinna á skipinu hófst þann 31. maí 1996. Vatnstankur sem tók rúmlega sex milljón lítra af vatni var byggður og notaður sem útsýni fyrir skipið. Skipslíkanið var jafn stórt og skipið sjálft og byggt í réttum stærðarhlutföllum en Lamont ákvað að sleppa því að byggja um það bil 27 metra af 269 metra löngu skipinu. Undir skipinu var bretti sem hægt var að halla 30 gráður upp í loftið og gat því látið líta út fyrir að skipið væri í raun og veru að sökkva. Skutur skipsins var síðan einnig byggður á palli sem hægt var að halla 90 gráður sem að var notað í lokaatriðum myndarinnar þegar að skipið sekkur. Af varúðarástæðum voru allir hlutirnir á skutnum búnir til úr gúmmíi svo að áhættuleikararnir gætu runnið niður það án þess að meiða sig. Herbergin innan í skipinu voru byggð nákvæmlega eins og þau voru í skipinu, samkvæmt ljósmyndum og teikningum frá byggingarmeistörunum Harland and Wolff. Herbergin, gólfteppin, húsgögnin, skreytingarnar, hnífapörin og leirtauið var allt búið til nákvæmlega eins og það var á skipinu. Cameron réð einnig tvo Titanic-sagnfræðinga, Don Lynch og Ken Marschall, til þess að passa að allt hafði verið gert samviskusamlega. Tökur. Tökur á nútímaatriðunum hófust í júlí 1996 um borð rússneska rannsóknaskipsins "Akademik Mstislav Keldysh". Á meðan að tökum stóð á eitraði einn starfsmaður fyrir allri áhöfninni með því að setja okskynjunarlyf í súpuna sem að James Cameron og margir aðrið borðuðu það kvöld og meria en 50 manns þurftu að leggjast inn á spítala. Cameron gubbaði upp matnum áður en að lyfin náðu að segja til sín. Lewis Abernathy sagði að fólk hefði bara farið að leggjast á gólfið og fá ofsjónir. Það kom aldrei í ljós hver hafði framkvæmt glæpinn. Í nóvember 1996 hófust tökur á atriðunum sem að gerðust árið 1912 í Baja, Mexíkó. Þann 15. nóvember voru atriðin í Southampton tekin upp. Cameron réð siðaregluþjálfa í vinnu til þess að kenna leikendum myndarinnar hvernig fólk bar sig og hegðaði sér í byrjun 20. aldar. James Cameron var sá sem að teiknaði nektarmyndina af Rose sem að Jack átti að teikna í myndinni. Atriðið þar sem að Jack teiknar myndina var það fyrsta sem að Leonardo DiCaprio og Kate Winslet léku í saman. Cameron sagði að það hafði bara gerst af tilviljun að atriðið hafi verið tekið upp svona snemma í kvikmyndunarferlinum, „Þau voru bæði svo taugaveikluð. Þau höfðu æft atriðið en aldrei fyrir framan myndavélina. Við vorum bara að leita að atriðum til þess að kvikmynda út af því að stóra upptökuverið fyrir loka atriðin var ekki ennþá tilbúið.“ Teikningin af Rose sem að Jack teiknaði í myndinni Tökurnar á myndinni voru mjög erfiðar og þurfti Cameron að ráða til sín helling af sérfræðingum til þess að passa að leikararnir væru aldrei í lífshættu. Kate Winslet sagði í viðtali að hún hefði oft verið óttaslegin og haldið að hún myndi drukkna í stóra vatnstankinum sem að skipið var látið sökkva ofan í. Vinur Camerons, Bill Paxton, sem að lék Lovett í nútímaatriðunum hafði unnið með honum í fyrri myndum hans og sagði að „Þetta var stór hópur að fólki sem að vann að myndinni. Jim er bara ekki einn af þeim mönnum sem að eyðir tíma í það að kynnast öllum og verða vinur þeirra.“ Starfsmenn myndarinnar sögðu að á meðan að tökum stóð væri til einn góður James Cameron og einn illur Cameron. Upprunalega átti það bara að taka 138 daga að kvikmynda "Titanic" en seinkarnir, veikindi og bilanir töfðu tökur og tók það 22 aukadaga. Mikið af leikurunum fengu kvef, flensu og sýkingar eftir að eyða mörgum klukkustundum í köldu vatni. Kate Winslet var ein af þeim sem að fengu nýrnasýkingu og sagði hún að hún myndi aldrei aftur vinna með James Cameron nema að hún „nema að hún fengi helling af peningum.“ Eftir að þrír áhættuleikarar brutu í sér bein ákvað Screen Actors Guild að hefja rannsókn og komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert hættulegt við aðstæður á upptökuverum myndarinnar. Leonardo DiCaprio sagði að tökurnar hefðu verið erfiðar sérstaklega út af því að hann væri svo mikil kuldaskræfa en að honum hafði aldrei liðið eins og líf hans væri í hættu út af því að það voru svo margir sérfræðingar á staðnum til þess að passa að allt færi fram heilu og höldnu. Myndin átti upprunalega að kosta yfir 100 milljónir bandaríkjadala en á meðan að tökum stóð fór ráðstöfunarfé myndarinnar að hækka og varð að lokum um það bil $200.000.000. Starfsmenn 20th Century Fox, eitt af tveimur myndverum sem að reiddu fram fjármagn myndarinnar, fylltust af skelfingu og vildu að Cameron myndi fjarlægja klukkutíma af myndinni, sem á þeim tíma var yfir þrjár klukkustundir í lengd. Þeir sögðu að ef að myndin væri svona löng þá væri ekki hægt að sýna hana nógu oft til þess að myndin gæti grætt einhvern pening. Cameron neitaði að leyfa Fox að klippa myndina og sagði, „Ef þú vilt klippa myndina mína? Þá verðurðu að reka mig! Ef þú vilt reka mig? Þá verðurðu að drepa mig!“ Starfsmenn Fox ákváðu að hefja ekki framleiðslu á ný út af því að það myndi kosta of mikið, en þeir neituðu líka að taka á móti tilboði Camerons að gefa þeim hluta hans af ágóða myndarinnar út af því að þeir héldu að myndin myndi hvors sem er aldrei skila hagnaði. Tæknibrellur. Cameron vildi að atriðin í myndinni væru eins og raunveruleg og hægt væri og réð fyrirtækið Digital Domain til þess að vinna að tæknibrellunum með sér. Mikið af fyrri myndum um RMS Titanic sýndu vatn í „"slow motion"“, sem að Cameron fannst ekki líta út fyrir að vera sannfærandi. Hann hafði tekið upp endurgerð hans af skipinu eins og að hann „væri að taka upp auglýsingu fyrir skipið.“ Eftirá, bætti Cameron við stafrænu vatni og reyk til þess að gera það raunverulegra. Síðan tóku þeir upp fólk fyrir framan blátjald og bættu þeim við á skipið í gegnum tölvu. Fyrir atriðið þar sem að skipið brotnar í tvennt var 20 metra langt líkan byggt af skipinu og látið klofna. Flest herbergin á skipinu voru endurbyggð fyrir utan fyrsta farrýmis setustofuna. Til þess að spara peninga lét Cameron aðeins byggja lítið líkan af setustofunni og leikararnir léku atriðið út fyrir framan blátjald. Starfsmenn myndarinnar fundu út að vélarnar á skipinu SS Jeremiah O'Brien voru af sömu gerð og þær í RMS Titanic en þær í Jeremiah voru meira en helmingi minni en þær í Titanic. Til þess að láta það líta út eins og vélarrýmið væri í réttri stærð voru smækkuð líkön af pöllum stillt upp í rýminu. Síðan voru vélarmenn settir inn í herbergið með blátjaldi. Titanic var fyrsta kvikmyndin um skipið til þess að sýna skipið klofna í tvennt. Risastór 19.000.000 lítra vatnstankur var notaður til þess að sökkva skipinu og voru herbergin svo lækkuð ofan í tankinn. Til þess að sökkva stóra stiganum voru 340.000 lítrar af vatni sturtaðir ofan á sviðsmyndina á meðan að hún var lækkuð ofan í tankinn. Allt í einu rifnaði stiginn á meðan að vatnið helltist yfir hann og sögumönnum myndarinnar fannst að það væri líklegt að hið sama hefði gerst á skipinu sjálfu en stiginn komst ekki af þegar að það sökk. Atriðin sem að gerðust eftir að skipið sökk voru tekin upp í grunnum vatnstanki í myndveri og voru leikararnir málaðir með púðri til þess að það liti út eins og þau væru dauð. Hápunktur myndarinnar, þegar að skutur skipsins fer ofan í vatnið, var tekinn upp á palli sem að gat hallað 90 gráður upp í loftið, og voru 150 aukaleikarar og 100 áhættuleikarar í atriðinu. Cameron gagnrýnendi hvernig flestallar kvikmyndir um RMS Titanic sýndu skipið sökkva hljóðlega og með reisn. Honum langaði að „sýna hversu skelfilegar síðustu mínúturnar voru á skipinu.“ Í atriðinu þurfti fólk að vera hoppandi af skipinu en út af því að skipið var svo hátt upp í loftinu var það of hættulegt að láta áhættuleikara hoppa í alvörunni. Í staðinn voru leikarar teknir upp fyrir framan blátjald og síðan settir inn í myndina. Klipping. Það voru nokkrar sögulegar staðreyndir sem Cameron þurfti að klippa út úr myndinni. Það mikilvægasta var það um skipið SS Californian sem var í nágreninu við Titanic en hafði slökkt á útvarpinu sínu og heyrði ekki neyðarkall skipsins. Á fyrsta klipparafundi myndarinnar, breytti Cameron upprunalega endanum sem fjallaði meira um Brock Lovett heldur um Rose og Jack. Í upprunalega endanum sjá Brock og Lizzy hina öldruðu Rose við skut skipsins og halda að hún ætli að hoppa. Þau hlaupa að henni og Rose sýnir þá að hún sé með hálsmenið, „Le Coeur de la Mer“, og það liggi ekki niðri á hafsbotni. Hún leyfir Lovett að snerta það en handir því síðan í hafið svo að það komist niður að flakinu. Rose fer síðan aftur í klefann sinn til þess að sofa eins og gerðist í loka útgáfu myndarinnar. Cameron ákvað að sleppa þeim hluta myndarinnar af því að honum fannst að áhorfendum myndi ekki langa að sjá meira af Brock Lovett. Eftir að starfsfólk Camerons hafði að mestu lokið við klippingu á myndinni, var hún forsýnd fyrir framan áhorfendur til þess að fá gagnrýni. Í þeirri útgáfu af myndinni lofar Cal að gefa Lovejoy „Le Coeur de la Mer“ ef hann kemur Jack fyrir kattarnef. Hann eltir Jack og Rose niður í skipið á meðan það sekkur og þau slást við hann áður en að þau sleppa. Cameron hafði skrifað það til þess að fá meiri spennu inn í myndina en það var klippt út af því að áhorfendum fannst það „kjánalegt“. Mörgum fannst atriðið vera óraunhæft út af því að „enginn myndi setja sig í lífshættu fyrir peninga.“ Önnur atriði voru klippt út úr myndinni til þess að passa að hún færi ekki yfir þrjár klukkustundir. Tónlist. Tónlistin fyrir myndina var samin af James Horner. Horner réð norska söngkonu, Sissel Kyrkjebø, til þess að syngja í myndinni. Horner vantaði söngkonu til þess að syngja allskonar hljóma yfir tónlistina í myndinni og fékk um það bil 30 söngkonur í prufu fyrir hann áður en hann valdi Sissel sem „röddina sem átti að búa til 'hugarástand' myndarinnar.“ Horner skrifaði einnig lagið „My Heart Will Go On“ ásamt Will Jennings án þess að Cameron vissi út af því að hann vildi engin sönglög í myndinni. Céline Dion söng demó af laginu fyrir James Horner eftir að umboðsmaður hennar fékk hana til að fallast á það. Horner sýndi Cameron svo lagið og eftir að hann hafði spilað lagið nokkru sinnum ákvað hann að setja það í myndina. Cameron taldi það líka líklegt að ef að lagið yrði vinsælt þá gæti myndin líka orðið vinsæl og náð inn fleiri tekjum en myndverin áttu von á. Útgáfa. Paramount Pictures og 20th Century Fox reiddu fram fjármagn myndarinnar og áttu von á að James Cameron myndi klára "Titanic" snemma á árinu 1997 til þess að hægt væri að gefa hana út í kvikmynda hús 2. júlí það ár. Starfsmenn fyrirtækjanna höfðu viljað fullnýta sér sumarið þegar stórmyndir fá vanalega hærri tekjur. Í apríl sagði Cameron að það yrði ómögulegt að koma myndinni í kvikmyndahús þá enda væru brellu atriðin allt of flókin og ekki væri hægt að flýta þeim. Paramount seinkaði þá frumsýningu myndarinnar til 19. desembers. Forsýningar.. Fyrsta forsýningin af "Titanic" átti sér stað í Minneapolis þann 14. júlí 1997 og þótti umtal áhorfenda mjög jákvætt. Þegar Paramount hafði seinkað útgáfudegi myndarinnar fóru sögusagnir um það að myndin sjálf væri „stórslys“. Eftir forsýninguna breyttist umtal töluvert og var mikið rætt um hana á netinu. "Titanic" var frumsýnd þann 1. nóvember 1997 á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tókýó en samkvæmt The New York Times voru viðbrögð áhorfenda ekkert sérstök. Hins vegar, þegar Hollywood-frumsýningin átti sér stað þann 14. desember þótti ganga vel og þótti áhorfendum myndin frábær. Anderson Luís de Abreu Oliveira. Anderson Luís de Abreu Oliveira (fæddur 13. apríl 1988 í Porto Alegre í Brasilíu) er brasilískur knattspyrnumaður. Hann leikur með Manchester United á Englandi og brasilíska landsliðinu. Hann hóf feril sinn hjá Grêmio í Brasilíu en gekk til liðs við portúgalska liðið F.C. Porto, tímabilið 2005-06. Hann varð Portúgalsmeistari tvisvar og einu sinni handhafi portúgalska bikarsins. Hann var síðan seldur til Manchester United á 30 milljónir evra tímabilið 2007-08. Síðan þá hefur hann orðið Englandsmeistari tvisvar, Evrópumeistari og unnið deildarbikarinn. Anderson lék sinn fyrsta leik fyrir þjóð sína árið 2007 þegar Brasilía vann Suður-Ameríkubikarinn sama ár. Hann var einnig landsliðshópnum á Sumarólympíuleikunum 2008 í Kína. Grêmio. Anderson fæddist í Porto Alegre og hóf hann fótboltaiðkun sína í unglingaliðum Grêmio. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir liðið þann 23. október 2004 og skoraði hann í 3-1 tapi. Porto. Anderson gekk til liðs við Porto í janúar 2006, en kaupvirði er talið vera sjö milljónir evra. Hann spilaði sinn fyrsta leik þann 5. mars 2006. Hans fyrsti leikur í Meistaradeild Evrópu Manchester United. Þann 30. maí 2007 tilkynnti Manchester United að náðst hefði samkomulag um sölu Andersons frá Porto til Rauðu Djöflanna. Hann fékk atvinnumannaleyfi 29. júní og var síðan gengið frá sölunni þann 2. júlí 2007. Anderson var úthlutuð treyja númer 8 og lék sinn fyrsta leik gegn Sunderland þann 1. september 2007. Hans fyrsti leikur í Meistaradeild Evrópu var á móti Sporting CP í semptember 2007. Anderson skrifaði undir nýjan fjögurra og hálfs árs samning þann 15. desember, sem gildir þangað til í júní 2015. Landsliðsferill. Anderson spilaði sinn fyrsta leik fyrir brasilíska landsliðið í júní 2007 í 2-0 tapi gegn Mexíkó í Suður-Ameríkubikarnum 2007. Liðið endaði á því að vinna þann bikar. Hann var í fyrsta skipti í byrjunarliði á móti Chile þann 1. júlí 2007. Í júlí 2008 valdi þáverandi landsliðsþjálfari Brasilíu, Dunga, Anderson í hópinn fyrir Sumarólympíuleikana 2008 en Brasilía endaði í þriðja sæti þar. Ferilsyfirlit. "Síðast yfirfarið þann 26. desember 2010" Lengdareining. Lengdareining (lengdarmálseining eða fjarlægðareining) er hugtak sem er haft um allavega mælieiningar (kvarða) sem varða lengd hluta eða fjarlægð milli ótiltekinna fyrirbæra. Sem dæmi um lengdareiningar mætti nefna metra, ljósár eða sjómílu. Trygve Gulbranssen. Trygve Emanuel Gulbranssen (15. júní 1894 – 10. október 1962) var norskur rithöfundur, kaupsýslumaður og blaðamaður. Hann er þekktur fyrir þrjár bækur hans, sem seldist í yfir 12 milljónum eintaka og verið þýddar á meira en 30 tungumálum. Tenglar. Gulbranssen, Trygve Sjónvarpsstöð. Sjónvarpsstöð getur átt við fyrirtæki sem útvarpar sjónvarpsþætti. Sjónvarpsþáttum má útvarpa í hliðrænum eða stafrænum merkjum. Útsendingarstaðlar eru skilgreindir af ríkisstjórn landsins þar sem útvarpað er. Þessir staðlar eru ólíkir frá landi til lands. Yfirleitt þurfa sjónvarpsstöðvar útsendingarleyfi frá ríkistjórninní sem getur takmarkað stöðina. Sjónvarpsstöðvar geta starfað sem sjálfstæð fyrirtæki eða vera hluti sjónvarpssamtaka. Gottorp. Gottorp er eyðibýli við vestanvert Hópið í Austur-Húnavatnssýslu, rétt vestan við ósa Víðidalsár. Lauritz Gottrup lögmaður á Þingeyrum stofnaði býlið út úr jörðinni Ásbjarnarnesi, á rústum gamals eyðibýlis sem hét Þórdísarstaðir, rétt fyrir aldamótin 1700 og lét býlið heita "Gottrup" í höfuðið á eigandanum. Í Gottorp þykir fagurt um að litast niður við Hópið þar sem Skollanes gengur norður í vatnið. Stapi er um 60 metra hár klettur sem er í miðju landi jarðarinnar og sést víða að. Síðari hluta 19. aldar áttu þeir Þingeyrarfeðgar Ásgeir Einarsson, f. 1809, alþingismaður og síðar sonur hans, hinn kunni hesta- vísna- kvenna- og vínmaður Jón Ásgeirsson, f. 1839 Gottorp, ásamt fleiri jörðum við Húnafjörð og vötnin þar (Þingeyrar, Leysingjastaði, Geirastaði, Sigríðastaði, Ásbjarnarnes og Gottorp). Um tveggja ára skeið, 1836-38 bjó í Gottorp Vatnsenda-Rósa, sem löngu var landskunn af vísum sínum, en ekki síður vegna ástamála sinna. Í Gottorp bjó hún ásamt elskhuga sínum, Gísla Gíslasyni áður en þau giftust og fluttust til Ólafsvíkur. Vatnsenda-Rósa bjó áður um skeið á Vatnsenda sem er býli vestan við Gottorp og stendur við norðurenda Vesturhópsvatns. Rósa bjó þar með manni sínum Ólafi og viðhaldi sínu Natani Ketilssyni sem frægur var fyrir lækningar sínar, en var síðar myrtur og morðingjarnir (Friðrik og Agnes) tekin af lífi í síðustu aftöku á Íslandi 12. janúar 1830. Á fyrri hluta 20. aldar (1908-1942) bjó í Gottorp rithöfundurinn og hestamaðurinn Ásgeir Jónsson, f. 1876, sonur Jóns frá Þingeyrum, sem jafnan er kenndur við staðinn, en hann skrifaði bækurnar "Horfnir góðhestar", I og II bindi "Forystufé" og "Samskipti manns og hests" eftir miðja öldina. Við Kerlingarsíki er heimagrafreitur sem gerður var árið 1963 og var það síðasti heimagrafreitur sem leyfi var gefið fyrir á Íslandi. Þar voru hjónin frá Gottorp, Ásgeir og kona hans Ingibjörg Björnsdóttir, f. 1886, lögð til hvílu í steyptu grafhýsi. Þar hjá var Blesi, hinn frægi hestur Ásgeirs, heygður á staðnum þar sem hann stóð jafnan og horfði yfir til æskustöðvanna í Vatnsdalnum. Um miðja 20 öldina eignaðist bróðursonur Ásgeirs, Steinþór Ásgeirsson, f. 1912 verktaki í Reykjavík, jörðina og rak þar hrossabú um áratugaskeið, en bjó þar ekki sjálfur. Í dag er jörðin enn í eigu þessarar sömu ættar, því hana eiga dóttir Steinþórs og tveir synir hennar. Íbúðarhúsið í Gottorp stendur enn og er notað sem sumarbústaður. Hundadagar. Hundadagar eru tiltekið skeið sumars um heitasta tímann á norðurhveli, nú talið frá 13. júlí (Margrétarmessu) til 23. ágúst í, eða 6 vikur. Nafnið mun komið frá Rómverjum, er sóttu hugmyndina til Forn-Grikkja. Grikkir settu sumarhitana í samband við stjörnuna Síríus, sem Íslendingar kölluðu hundastjörnuna allt frá fyrrihluta 18. aldar, sem er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stóri-hundur ("Canis Major"), sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum. Forn-Egyptar tengdu einnig árið við stjörnumerkið Stórahund og kölluðu það "Síríus-ár", en hinn árlegi vöxtur árinnar Níl hófst á þessum tíma. Aftur á móti tengdu Grikkir og Rómverjar hitann við hundastjörnuna og þá aðalega skaðleg áhrif hanns á gróður, menn og skepnur. Þótti til dæmis meiri hætta á hundaæði á þessum tíma. Tímasetning hundadaga. Hjá Íslendingum er hundadaganafnið aðalega tengt minningunni um Jørgen Jørgensen, oftast kallaður Jörundur hundadagakonungur. Bæði hérlendis og erlendis hefur nokkuð verið á reiki hvenær hundadagatímabilið teldist byrja og hve lengi það stæði. Grikkir munu hafa tekið eftir því að Síríus birtist þegar sól gekk í ljónsmerki, og með hliðsjón af því eru hundadagar stundum reiknaðir frá 23. júlí til 23. ágúst. Íslenskar heimildir. Hundadaga er ekki getið í forníslenskum fingrarímfræðum enda sumarhiti ekki sama vandamál svona norðarlega sem og suður við Miðjarðarhaf. Elsta heimildin er í rímtali Arngríms Jónssonar lærða og Guðbrands Þorlákssonar biskups frá 1597 en þar stendur við 16. ágúst: „endast hunda dagar“ en ekki er tekið fram hvenær þeir byrja. 1671 setur Þórður Þorlásson biskup í handbók sína hundadagar við 14. júlí og „hund. endast“ við 14. ágúst. Á 17. öld er í rímhandritum upphaf hundadaga ýmist sett á 11., 12., eða 13. júlí en lok þeirra við 17. eða 18. ágúst. Hvorki eru hundadaga getið í rími Jóns Árnasonar biskups frá 1707 né fingrarími frá 1739. Í almanaki sínu frá 1837 setur Finnur Magnússon upphaf hundadaga við 23. júlí og lok þeirra við 23. ágúst. Þær dagsetningar héldust síðan í Íslandsalmanaki hanns, Jóns Sigurðssonar og Þjóðvinafélagsinns til 1924 en þá var upphaf þeirra fært yfir á 13. júlí, Margrétarmessu. Líku var farið víðasthvar í Evrópu að upphaf og endir hundadaga voru lengi vel á reiki. Hjá Íslendingum er hundadaganafnið helst tengt minningunni um Jörund, Jørgen Jørgensen sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809, en var hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár, en hann hefur almennt verið kallaður Jörundur hundadagakonungur. Flórgoði. Flórgoði (eða sefönd og stöku sinnum flóðskítur) (fræðiheiti: "Podiceps auritus") er fugl af goðaætt. Flórgoðinn er sjaldgæfur varpfugl á Íslandi, en algengastur við Mývatn og þar í grennd. Ekki má rugla honum saman við frænda sinn, sefgoðann. Fullorðnu fuglarnir nærast helst á hornsílum, en ungarnir éta líka vatnaskordýr og krabbadýr. Flórgoðinn er óvenjulegur að því leyti að hann étur töluvert af sínum eigin fjöðrum, trúlega til að eiga auðveldara með að melta fæðuna. Varpstöðvar flórgoðans eru við tjarnir og vötn á láglendi og flýtur hreiðrið á vatnsborðinu innan um sefgróðurinn þar sem hann gerir sér dyngju úr mosa og stráum. Rétt eins og blesöndin. Fjárlög íslenska ríkisins 2011. Fjárlög íslenska ríkisins 2011 skiptast þannig að bróðurparturinn fer til útgjalda tengdum heilbrigðismálum líkt og hefur verið undanfarin ár. Mikil aukning hefur einnig orðið á vaxtaútgjöldum ríkisins en þau eru nýlega tilkomin vegna mikillar skuldsetningar eftir bankahrunið haustið 2008. Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins gerðust þau tíðindi að við atkvæðagreiðslu frumvarpsins sat Lilja Mósesdóttir hjá. Ekki er vitað til þess að slíkt hafi áður gerst, að stjórnarþingmaður styðji ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Við lokaafgreiðslu frumvarpsins sátu samflokksmenn Lilju þeir Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason einni hjá. Krókaflamark. Krókaflamark er það aflamagn sem útgerð krókabáts er heimilt að veiða af tiltekinni tegund nytjastofns á hverju veiðitímabili eða vertíð. Áramótaskaup 2008. "Áramótaskaupið 2008" var frumsýnt 31. desember 2008 um klukkan 22:30 á Ríkissjónvarpinu. Því var leikstýrt af Silju Hauksdóttur en auk hennar voru höfundar þau Hugleikur Dagsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Sigurjón Kjartansson, sem einnig var ritstjóri Skaupsins. Með aðalhlutverk fóru Brynhildur Guðjónsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Jón Gnarr, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Kjartan Guðjónsson og Þorsteinn Bachmann. Áramótaskaup 2009. Áramótaskaupið 2009 var sýnt þann 31. desember 2009, en tökur hófust þann 3. nóvember 2009. Leikstjóri var Gunnar Björn Guðmundsson. Skaupið byrjaði á algerri óreiðu á Bessastöðum og í forsetabústaðnum. Fálkaorðan var á flestum og útrásarvíkingunum er lýst sem algjörum kálfum. Lokastef skaupsins var "Skrúðkrimmar" flutt af Páli Óskari, sem þekja á laginu Smooth Criminal eftir Michael Jackson. Føroysk orðabók. Føroysk orðabók – ("Færeysk orðabók") – er færeysk–færeysk orðabók, sem kom út 1998 í ritstjórn Jóhans Hendrik Winther Poulsen. Þetta er fyrsta færeyska orðabókin með skýringum á færeysku, og hefur að geyma um það bil 65.700 uppflettiorð og um 70.000 notkunardæmi á tæplega 1.500 blaðsíðum. Þar með er færeyska síðasta lifandi norðurgermanska tungumálið sem hefur eignast ítarlega móðurmáls-orðabók. Vinnan við orðabókina stóð yfir í um 40 ár, ef allur undirbúningur er meðtalinn. Orðabókin miðast við ríkjandi færeyska málstefnu, það er vandað færeyskt mál. Þess vegna er erlendum tökuorðum sleppt, ef þau eru ekki með fullri vissu orðin hluti af færeyskum orðaforða. Netútgáfa. Frá árinu 2007 hefur orðabókin verið aðgengileg á netinu. Hægt er að leita að uppflettiorðum, en gæta þarf þess að nota færeysku stafina á, ð, í, ó, ú, ý, æ og ø. Hægt er að fella niður bókstafi í upphafi eða enda orðs með því að nota *. Netútgáfan er í meginatriðum eins og prentaða útgáfan. Titanic II. Titanic II (einnig þekkt sem Endurreisn Titanics) var tillöguuppdráttur að skipi. Tillagan kom frá suður afrískum viðskiptamanni, Sarel Gous, sem stofnaði fyrirtækið RMS Titanic Shipping Holdings með það markmið að byggja nákvæma eftirlíkingu af skemmtiferðaskipinu RMS Titanic. Gous hafði komist yfir upprunalegar teikningar af Titanic og hefði skipið verið smíðað væri það 290 metrar á lengd og 33 metrar á breidd. Orðuveitingar Hinnar íslensku fálkaorðu 2011-2020. 2013. Forseti Íslands sæmdi 10 einstaklinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 2013, 5 karla og 5 konur. 2012. Forseti Íslands sæmdi 26 einstaklinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2012, 14 karla og 12 konur. 2011. Forseti Íslands sæmdi 27 einstaklinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2011, 13 karla og 14 konur. Júnnan. Júnnan er umdæmi í Shandong héraði, Kína. Reykjavík - Rotterdam. "Reykjavík-Rotterdam" er íslensk kvikmynd frá árinu 2008 sem var leikstýrt af Óskari Jónassyni. Óskar skrifaði einnig handritið ásamt glæpasagnahöfundinum Arnaldi Indriðasyni. Í aðalhlutverkum eru Baltasar Kormákur og Ingvar E. Sigurðsson. Myndin var tilnefnd til sex Edduverðlauna árið 2008 og vann fimm, þar á meðal Leikstjóri ársins. Myndin var frumsýnd á Íslandi þann 3. október 2008 og á 13 vikna tímabili tók myndin inn 25 milljónir íslenskra króna og varð átjánda tekjuhæsta mynd ársins á Íslandi. Endurgerð myndarinnar á ensku undir nafninu Contraband kom út þann 13. janúar 2012 og fóru Mark Wahlberg og Kate Beckinsale með aðalhlutverkin í myndinni. Söguþráður. Öryggisvörðurinn og fyrrverandi sjómaðurinn Kristófer sem afplánað hefur fangelsisdóm fyrir áfengissmygl berst við að halda fjölskyldu sinni á floti. Honum finnst hann reyna of mikið á besta vin sinn Steingrím sem gefur honum allt sem honum er fært. Kristófer býðst að fara í einn vel launaðan túr á flutningaskipi milli Reykjavíkur og Rotterdam. Hann slær til í þeirri von að hann geti komið sér á réttan kjöl fjárhagslega en óvæntir atburðir setja strik í reikninginn. Á meðan hann er á sjó stritar eiginkona hans Íris við að halda sér á floti, ásamt sonum þeirra Agli og Skúla. Ofsóknir frá mönnum sem Kristófer hefur í gegnum tíðina barist við fara alveg með hana og hún leitar til Steingríms eftir hjálp. Steingrímur býður þeim að halda til heima hjá sér þangað til Kristófer kemur heim. Það kemur í ljós að hann hefur staðið á bak við allar ofsóknirnar sökum þess að hann er ástfanginn af Írisi. Þá hefst barátta við tímann þegar Kristófer verður að komast heim án þess að vera tekinn með áfengið og bjarga Írisi sem var orðið ljóst hvaða mann Steingrímur hafði að geyma. Í kvikmyndahúsum. Reykjavík-Rotterdam var frumsýnd þann 30. september 2008 í Háskólabíói fyrir troðfullum bíósal, þúsund manns. Áhorfendur voru yfirleitt hrifnir af myndinni. Leikstjóri, leikarar og handritshöfundar voru allir viðstaddir frumsýningu. Svo var slegið til veislu þegar sýningu lauk og stóð hún alla nóttina. Sýningar á myndinni hófust um allt land þann 3. október 2008 og skilaði myndin inn um það bil sex milljónum íslenskra króna fyrstu sýningarhelgina. Hún var tekjuhæsta myndin á landinu þá helgi og einnig helgina á eftir þegar þrjú þúsund manns sáu myndina. Eftir tvær vikur höfðu fjórtán þúsund manns séð myndina. Þriðju helgina datt myndin niður í annað sæti á eftir Max Payne. Myndin gekk í þrettán vikur og á þeim tíma náði Reykjavík-Rotterdam að hala inn rúmar 25 milljónir í kvikmyndahúsum. Verðlaun. Reykjavík-Rotterdam hlaut næstflestar tilnefningar til Edduverðlaunanna 2008, tíu talsins. Kvikmyndin Brúðguminn, sem Baltasar Kormákur, aðalleikari Reykjavíkur-Rotterdams leikstýrði, fékk fjórtán tilnefningar. Reykjavík-Rotterdam vann til fimm verðlauna. Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían valdi Reykjavík-Rotterdam sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokki bestu kvikmyndar á tungumáli öðru en ensku það árið en myndin var ekki tilnefnd til verðlaunanna. Stokkhúsið. Stokkhúsið var fangelsi í Kaupmannahöfn, stofnað 1670 og var aðalfangelsi borgarinnar um langt skeið, eða til ársins 1860. Stokkhúsið var helsta fangelsi Íslendinga frá árinu 1741, en áður hafði Brimarhólmur gegnt því hlutverki. Í Stokkhúsinu unnu margir fanganna undir gæslu og þar þótt ill vist og voru fangar þar oft beittir líkamlegum refsingum og öðru harðræði. Var vistin þar talin verri en í Brimarhólmi. Fjölmargir íslenskir sakamenn voru sendir til afplánunar í Stokkhúsið. Fangelsi þetta var svo nefnt vegna þess að þar voru menn settir í stokk. Santa Catarina (fylki). Santa Catarina er fylki í Suður-Brasilíu. Fylkishöfuðborgin er Florianópolis. Í norður er Parana-fylki, í austur er Atlantshaf, í suður er Rio Grande do Sul og í vestur er Argentína. Dill. Dill eða sólselja (fræðiheiti: "Anethum graveolens") er fjölær kryddjurt. Það er einasta tegund í ættkvíslinni "Anethum". Sem kryddjurt er dill víða notað með fiski og agúrkum, og er aðalefnið í dillsósu. Plantan verður 40–60 cm á hæð, stilkarnir eru hávaxnir og grannir og laufblöðin fínleg og um 10–20 cm að lengd. Laufblöðin á dilli eru svipuð þeim á fennikku. Blómin eru gulhvít í lítlum sveipum 2–9cm að þvermáli. Fræin eru 4–5 mm löng og um 1 mm þykk, svolítið bogin. Dill á rætur að rekja til Austur-Evrópu. Hrognkelsi. Hrognkelsi (eða hrokkelsi) (fræðiheiti: "Cyclopterus lumpus") er nafn á fisktegund sem á íslensku gengur undir kynbundnum nöfnum. Það er rauðmagi eða grásleppa. Rauðmaginn er hrognkelsahængurinn (karlkyn) og grásleppan hrygna hrognkelsis (kvenkyn). Rauðmaginn elur önn fyrir ungum sínum. Íslendingar hafa veitt hvortveggja í net, en grásleppunetin eru nokkru stórriðnari en rauðmaganetin, enda grásleppan stærri. Í "Brekkukotsannál" Halldórs Laxness segir á einum stað: „Þeir sem veiða hrokkelsi eru aldrei nefndir rauðmagakallar, en alltaf grásleppukarlar“. Þjóðsagan. Til er gömul sögn um það hvernig hrognkelsin hafi orðið til og marglyttan. Og sagan er á þá leið að einhverju sinni hafi Jesús Kristur verið á gangi með sjó fram. Þá bar svo við að Kristur hrækti í sjóinn „og af því varð rauðmaginn". Sankti Pétur hafði verið í för með meistara sínum að þessu sinni. Og er hann sá að Kristur hrækti í sjóinn þá gerði hann það líka „og af þvi varð grásleppan“. — Kölski var á flakki um þessar mundir og sá til ferða þeirra Krists og Péturs. Hljóp hann nú niður að sjó og fór i hámót á eftir þeim, því að hann fýsti að vita hvaða erindi þeir ætti niður i fjöru og inn með öllum sjó. Og er hann sá að þeir hræktu í sjóinn, þá gerði hann slíkt hið sama. En af þeim hráka varð marglyttan og vita menn ekki til þess að hún sé til nokkurs nýt. Hjátrú. Ef hrognkelsi kom á öngul manna var það afleitt og táknaði bráða feigð þess er dró. Það þótti einnig vita á ofsaveður ef grásleppa sást vaða í vatnsborðinu. Perceval eða Sagan um gralinn. Perceval eða Sagan um gralinn er frönsk ljóðsaga eftir Chrétien de Troyes, sem var eitt virtasta skáld miðalda og sótti gjarnan yrkisefni til sagna um Arthúr konung og riddara hans. "Perceval" var síðasta verk höfundarins, samið á árabilinu 1180–1191, en hann lést án þess að hafa lokið verkinu. En þrátt fyrir lausa enda er Perceval með bestu riddarasögum miðalda, er raunsærri en flestar þeirra og full góðlátlegrar kímni. Í fyrri hlutanum segir frá Perceval, ungum manni sem yfirgefur móður sína til að verða riddari. Í kastala Fiskikonungsins sér hann gralið og spjótið með oddinum sem blæðir úr. Þá verða straumhvörf í lífi hans. Í síðari hlutanum er fjallað um ævintýri riddarans Gauvains, og vandræði sem hljótast oft af samskiptum hans við konur. "Perceval eða Sagan um gralinn" kom út 2010 í íslenskri þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur, í ritröðinni Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Þar er verkið þýtt eins og það er í frönskum handritum frá fyrri hluta 13. aldar. Parcevals saga. "Perceval eða Sagan um gralinn", er eitt þriggja verka Chrétiens sem þýdd voru á norrænu (íslensku) á 13. öld, og kallast þar "Parcevals saga". Þýðingin er í lausu máli, og talsvert stytt. Síðari hluti verksins kallast þar "Valvers þáttur", eftir riddaranum Valver (Gauvain) sem er þar í aðalhlutverki. Aðgengileg útgáfa af "Parcevals sögu" og "Valvers þætti" er í bókinni: "Með kurt og pí. Riddarasögur handa grunnskólum", Mál og menning, Rvík 1988, bls. 33–137. Baldur Hafstað og Kolbrún Bergþórsdóttir sáu um útgáfuna. Hin verkin sem til eru í 13. aldar þýðingu, eru "Erex saga" og "Ívents saga". Marilyn Manson. Brian Hugh Warner betur þekktur sem Marilyn Manson (fæddur 5. janúar 1969) er bandarískur söngvari. Manson, Marilyn Sunnudagsbókstafur. Sunnudagsbókstafur er einn af stöfunum A, B, C, D, E, F og G. Þessir bókstafir eru settir við dagana 1. til 7. janúar. Sá þeirra sem verður sunnudagur á einhverju tilteknu ári ákvarðar sunnudagsbókstaf ársins. Til dæmis er 2. janúar ársins 2011 sunnudagur og er því sunnudagsbókstafur 2011 B. Hlaupár hafa tvo sunnudagsbókstafi og gildir annar þeirra frá 1. janúar til 28. febrúar en sá síðari frá 29. febrúar til ársloka. Þannig fær árið 2012 tvo sunnudagsbókstafi: A og G. Sunnudagsbókstafur hvers árs ásamt pöktum eru notaðir til að reikna út páska og aðrar hræranlegar hátíðir hvers árs. Innanríkisráðuneyti Íslands. Innanríkisráðuneyti Íslands eða Innanríkisráðuneytið er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður innanríkisráðuneytis er innanríkisráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Ráðuneytið sem varð til með sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneytis tók til starfa 1. janúar 2011. Velferðarráðuneyti Íslands. Velferðarráðuneyti Íslands eða Velferðarráðuneytið er eitt af 10 ráðuneytum Stjórnarráðs Íslands. Æðsti yfirmaður velferðarráðuneytis er velferðarráðherra og æðsti embættismaður þess er ráðuneytisstjóri. Ráðuneytið sem varð til með sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis tók til starfa 1. janúar 2011. Ölkofra þáttur. Ölkofra þáttur er stutt gamansöm frásögn sem telst til Íslendingaþátta. Ölkofra þáttur segir frá Þórhalli sem bjó í Bláskógum á Þórhallsstöðum og var samkvæmt sögunni lítill og ljótur. Hann „hafði þá iðju að gera öl á þingum til fjár“ og hafði jafnan kofra á höfði sem er kollótt húfa. Sökum þess kölluðu þingmenn hann Ölkofra. Þátturinn segir helst frá því þegar Ölkofri (Þórhallur) kveikir fyrir slysni í Goðaskógi og veldur miklu tjóni og öll eftirmál þeirrar gjörðar. Ölkofra þáttur er talinn allforn. Líkindi. Broddi Bjarnason var mágur Þorsteins Síðu-Hallssonar. Hann vildi aðstoða Ölkofra þegar honum reyndist erfitt að fá menn til liðs við sig eftir skógarbrunann. Skipti þeirra Brodda og goðanna eru nauðalík því sem segir í Bandamanna sögu um viðskipti Egils Skúlasonar við þá höfðingjana sem sú saga segir frá, og hefur þátturinn tekið eftir Bandamannasögu, enda þótt þátturinn eigi að gerast um 1025 eða mannsaldri fyrr en Bandamannasaga. Frumefni í flokki 10. Frumefni í flokki 10 í lotukerfinu eru fjórir hliðarmálmar, nikkel, palladín, platína og darmstadtín sem er óstöðugt geislavirkt tilbúið efni. Þrír fyrrnefndu málmarnir eru silfurgljáandi, tæringarþolnir og mótanlegir. Vegna þessara eiginleika er algengt að nota þá í skartgripi. Þeir eru líka notaðir í málmblendi, sem hvatar í efnahvörfum og í rafeindaíhluti. Plöntuefni. Plöntuefnið vanillín er mikið notað sem bragðefni, í ilmvötn og í lyfjaframleiðslu. Plöntuefni eða jurtaefni eru efnasambönd sem koma fyrir náttúrulega í jurtaríkinu. Dæmi um plöntuefni eru betakarótín sem er appelsínugult litarefni og mikilvægt A-próvítamín, og oxalsýra sem kemur fyrir meðal annars í hundasúrum og rabbarbara. Algengast er að nota þetta hugtak um ýmis efni sem eru ekki skilgreind sem nauðsynleg næringarefni en eru samt talin geta haft áhrif á heilsu fólks. Mjög mörg lyf eru plöntuefni eða unnin beint úr þeim. Dæmi um það er hjartalyfið digitalis. Einnig eru ýmis fíkniefni þannig til komin, svo sem ópíum og hass. Díkarboxýlsýra. Díkarboxýlsýrur eru lífræn efnasambönd með tvo karboxýlsýruvirknihópa. Sameindaformúla díkarboxýlsýra er oft rituð sem samhverfa HOOC-R-COOH þar sem R getur verið ýmist alkýl-, alkenýl-, alkýnýl- eða arýl-hópur. Dæmi um díkarboxýlsýrur eru oxalsýra (HOOC-COOH), malónsýra (HOOC-(CH2)-COOH), rafsýra (HOOC-(CH2)2-COOH), glútarsýra (HOOC-(CH2)3-COOH), adipínsýra (HOOC-(CH2)4-COOH) og þalsýra (C6H4(COOH)2). Lífrænt efnasamband. Lífræn efnasambönd eru í lífrænni efnafræði efnasamband kolefnis. Ástæður þess að kolefnissambönd eru kölluð „lífræn“ eru fyrst og fremst sögulegar og stafa af því að þessi efnasambönd var aðeins hægt að fá úr afurðum lífvera en ekki búa þau til á tilraunastofu. Þegar Friedrich Wöhler tókst að búa til þvagefni 1828 varð þessi afmörkun því marklaus. Hugtakið er samt sem áður enn notað til að lýsa efnasamböndum sem innihalda mikið magn kolefnis. Lífræn efnafræði fæst við rannsóknir á lífrænum efnasamböndum, lífrænum efnahvörfum og aðferðum lífrænnar efnasmíði. The Bold and the Beautiful. "The Bold and the Beautiful" er bandarísk sápuópera sem hóf göngu sína árið 1987. Krímgotneska. Krímgotneska er austurgermanskt mál sem þróaðist út frá gotnesku og var talað á Krímskaga (nú hluti af Úkraínu) fram að lokum 17. aldar. Á Krímskaga og viðar í Suður-Rússlandi, milli Dnjepur og Dónár, hafa fundist margar minjar eftir Krímgota í fornum gröfum, einkum frá því um 200 e. Kr. Radziechowy. Radziechowy er þorp í umdæminu Gmina Radziechowy-Wieprz innan Żywiec County, Silesian Voivodship, í Suður-Póllandi. Það liggur um það bil átta kílómetra (5 mílur) suðvestur af Żywiec og 68 kílómetra (42 mílur) suður af höfuðborgarsvæði Katowice. Íbúafjöldinn er um það bil 5.000. Billy Zane. William George Zane, Jr. (fæddur 24. febrúar 1966), betur þekktur sem Billy Zane, er bandarískur leikari, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín sem Cal Hockley í myndinni Titanic frá árinu 1997 og sem draugurinn í myndinni The Phantom. Zane, Billy Zane, Billy Kathy Bates. Kathleen Doyle Bates (fædd þann 28. júní árið 1948) betur þekkt sem Kathy Bates er bandarísk kvikmyndaleikkona og leikstjóri. Hún varð fræg árið 1990 þegar hún vann óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í myndinni Misery sem var byggð á samnefndri bók eftir Stephen King. Hún er einnig þekkt fyrir leik sinn sem Molly Brown í kvikmynd James Camerons Titanic. Hún hefur einnig leikstýrt sjónvarpsþáttum en aldrei stórri kvikmynd. Bates, Kathy Bates, Kathy Frances Fisher. Frances Fisher (fædd þann 11. maí árið 1952) er bandarísk leikkona. Hún er þekkt fyrir leik sinn í kvikmyndum eins og Unforgiven frá árinu 1992 þar sem hún lék Strawberry Alice, höfuðvændiskonu í myndinni sem Clint Eastwood leikstýrði. Hún er líka fræg fyrir leik sinn sem móðir Rose (leikin af Kate Winslet) í myndinni Titanic frá árinu 1997. Báðar þessar kvikmyndir unnu óskarsverðlaun sem besta kvikmynd síns árs. Fisher, Frances Sigurður Bjóla. Sigurður Bjóla Garðarsson (f. 1952) er íslenskt tónskáld og tónlistarmaður. Hann var söngvari og lagasmiður í Spilverki þjóðanna, Hrekkjusvínum og um tíma liðsmaður í Stuðmönnum. Hann samdi textan við lagið Nútíminn eftir Egil Ólafsson í fluttningi Þursaflokksins. Elísabet Ronaldsdóttir. Elísabet Ronaldsdóttir (f. 1965) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður, menntuð í Englandi. Hún hefur starfað innan kvikmynda- og sjónvarpsgeirans í yfir 20 ár, einkum við klippingu.. Hún hlaut Edduverðlaunin 2008 fyrir klippingu kvikmyndarinnar "Reykjavík - Rotterdam". Elísabet klippti einnig Brúðgumann, Bræðrabyltu, Duggholufólkið, Mýrina og Blóðbönd. Elísabet var einn af stofnendum KIKS, Félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi og var formaður fyrstu tvö árin. Hún hefur setið í stjórn SÍK, Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðanda og verið formaður IKSA, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar.. Gloria Stuart. Gloria Stuart (4. júlí 1910 – 26. september 2010) var bandarísk leikkona. Hollywood-ferill hennar entist í yfir áttatíu ár og á því tímaskeiði lék hún á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Helstu hlutverk hennar eru Flora Cranley í The Invisible Man og hin hundrað ára gamla Rose í mynd James Camerons "Titanic" frá árinu 1997. Stuart, Gloria Ripp, Rapp og Rupp. Ripp, Rapp og Rupp eru teiknimyndapersónur og frændur Andrésar Andar í samnefndri teiknmyndaseríu. Ripp er með rauða húfu, Rapp með bláa og Rupp með græna. Bræðurnir þrír eru jafnhæfir í öllu, hvort sem um er að ræða að gáfnafari, leikhæfni í tölvuleikjum, og eru allir jafnir að hæð og þyngd. Þeir eru Grænjaxlar, sem eru einhvers skonar skátaflokkur, og skátaforinginn þeirra er Magnús og hefur viðurnefnið "mikli". Ættfræði. Systir Jóakims Aðalandar, Hortemía Aðalönd, giftist Ragnmusi Önd og þau eignuðust börnin Dellu Önd (systur Andrésar) og Andrés Önd. Svo Giftist Della einhverjum sem hefur hingað til verið ónefndur og eignaðist með honum Ripp, Rapp og Rupp. Karl Ísfeld. Karl Ísfeld (8. nóvember 1906 – 27. september 1960) var blaðamaður, rithöfundur og mikilvirkur þýðandi. Þekktustu þýðingar eru goðsagnakvæðin finnsku, "Kalevala", en auk þess þýddi hann: "Kátir voru karlar" og "Ægisgata" eftir John Steinbeck og "Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni" eftir Jaroslav Hasek. Ljóðabók hans, "Svartar morgunfrúr", kom út árið 1946. Karl Ísfeld var af þingeysku bergi brotinn, fæddur á Sandi í Aðaldal, systursonur skáldanna Sigurjóns og Guðmundar Friðjónssona. Móðir hans var Áslaug Friðjónsdóttir en faðir hans var Níels Lilhendahl, kaupmaður á Akureyri. Karl ólst upp víðar en á einum stað í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði en settist tæplega tvítugur í fyrsta bekk Gagnfræðaskólans á Akureyri, sem varð menntaskóli á námsárum hans. Hann lauk stúdentsprófi frá MA árið 1932. Þá settist hann í norrænudeild háskólans; stundaði nám í þrjú ár, en lauk ekki prófi. Þá voru krepputímar á Íslandi og mörgum þröngur stakkur skorinn. Karl Ísfeld sneri sér þá að blaðamennsku, og varð hún aðalstarf hans upp frá því. Karl Ísfeld var einn mikilvirkasti þýðandi óbundins máls á sínum tíma. Hann þýddi bækur af ýmsu tagi, frá reyfurum og til fremstu verka heimsbókmenntanna. Prentaðar þýðingar hans munu vera að minnsta kosti 30 en auk þess nokkrar óprentaðar. Merkustu ritin, sem fóru gegnum hendur hans til íslenskra lesenda, eru goðsagnakvæðin finnsku, "Kalevala", mesta stórvirkið, sem Karl réðst í, tvö seinni bindin af Önnu Kareninu, "Sagan um San Michele", eftir Axel Munthe (þýdd ásamt Haraldi Sigurðssyni), bækur John Steinbecks, "Kátir voru karlar" og "Ægisgata" og "Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni" eftir Jaroslav Hasek. Akurskóli. Akurskóli er íslenskur grunnskóli, staðsettur í Innri Njarðvík í Reykjanesbæ við Tjarnarbraut 5. Í skólanum eru tæplega 400 nemendur. Jónína Ágústsdóttir var fyrsti skólastjóri Akurskóla (2005-2012). Núverandi skólastjóri Akurskóla er Sigurbjörg Róbertsdóttir (2012-). Þann 9. nóvember 2005 var fyrsti áfangi Akurskóla í Reykjanesbæ vígður. Fyrsta skóflustunga að byggingunni var tekin 20. mars 2004. Jon Landau. Jon Landau (fæddur þann 23. júlí 1960) er bandarískur kvikmyndaframleiðandi. Hann hefur unnið mikið með James Cameron og verið tilnefndur til tveggja óskarsverðlauna. Landau fæddist í New York-borg þeim Edie og Ely A. Landau sem voru einnig í kvikmyndaiðnaðinum. Hann er þekktastur fyrir að hafa framleitt kvikmyndina Titanic sem hann vann óskarsverðlaun fyrir og einnig fyrir Avatar. Landau, Jon MiRNA. microRNA eða miRNA eru stuttar RNA-sameindir sem hafa áhrif á stöðugleika mRNA eða þýðingu þeirra. Þetta gerist með þáttapörun á milli miRNA og svæða innan mRNA sameinda, oftast en ekki alltaf, á 3'-enda umritsins. Fyrsta miRNAið, let-7, var uppgötvað af Andrew Fire og Craig Mello í rannsóknum þeirra á þroskun þráðormsins "Caenorhabditis elegans". Þeir hlutu nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2006 fyrir uppgötvun sína. Fjölklórað díbensódíoxín. a>atóma, "n" og "m", getur verið frá 0 upp í 4. Fjölklórað díbensódíoxín, almennt kallað díoxín, er hópur þrávirkra lífrænna fjölhalógenaðra efnasambanda með grind myndaða úr díbensódíoxíni. Díóxín eru mengunarvaldar í iðvæddum samfélögum, en þau eru fitusækin og safnast því upp í lífverum og geta valdið fæðingargöllum og stökkbreytingum og krabbameini. Díoxínsambönd eru mjög stöðug og brotna hægt eða ekki niður í náttúrunni. Þau eru tregbrennanleg og eru því oft notuð sem eldhemjandi efni. Díoxín myndast sem aukaafurð í framleiðslu lífrænna klóríða, með brennslu efna sem innihalda klóríð eins og til dæmis fjölvínýlklóríðs (PVC), klórdíoxíðs sem notað er við bleikingu á pappír og eins við náttúrlegar aðstæður eins og í eldgosum og skógareldum. Mikið díoxín myndast við brennslu sjúkrahússsorps. Fjölmörg dæmi eru um díoxínmengun af völdum iðnframleiðslu allt frá 19. öld. Rannsóknir sýna að magn díoxíns er hærra í fólki á iðnvæddum svæðum. Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni kveður á um að aðildarríki samningsins geri allt sem hægt er til að draga úr og útrýma uppsprettum slíkra efna. Ísland fullgilti samninginn árið 2002. Þórólfur smjör Þorsteinsson. Þórólfur smjör Þorsteinsson var norskur víkingur sem kom til Íslands með Hrafna-Flóka ásamt Herjólfi. Þeir dvöldust fyrst í Vatnsfirði og bjuggust þar um. Þá var fjörðurinn fullur af fiski og gáðu þeir ekki fyrir veiðum að afla heyja um sumarið, svo að kvikfé þeirra dó um veturinn. Vorið var heldur kalt. Gekk þá Flóki upp á fjall eitt hátt til að skyggnast um. Sá hann norður yfir fjöllin fjörð einn fullan af ísum og kallaði því landið Ísland. Annan vetur var Flóki í Borgarfirði og hélt svo aftur til Noregs. Lét Hrafna-Flóki illa af förinni þegar heim kom til Noregs, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur lofaði mjög landið og kvað þar drjúpa smjör af hverju strái og „því var hann kallaður Þórólfur smjör“. Ætt. Sonur Þórólfs var Auðun „rotinn“ Þórólfsson, landnámsmaður í Saurbæ í Eyjafirði. Faðir Þórólfs var Þorsteinn „skrofa“ Grímsson, sonur Gríms Kamban, fyrsta landnámsmanns Færeyja. Sjávarsalt. Sjávarsalt er borðsalt sem framleitt er með því að láta sjó gufa upp og fella þannig út saltkristallana. Salt er aðallega notað til geymslu matvæla, í matargerð og við framleiðslu snyrtivara. Í sjávarsalti eru önnur steinefni og sölt sem gefa því bragð ólíkt borðsalti, sem er yfirleitt hreint natríumklóríð sem framleitt hefur verið úr steinsalti, sem unnið er úr jörðu. Sjávarsalt er yfirleitt dýrara en borðsalt og er notað til dæmis sem krydd á hágæða kartöfluflögur. Auglýsingastofa. Auglýsingastofa er fyrirtæki sem vinnur að framleiðslu auglýsinga, hönnun einkennismerkja, gerir markaðsáætlanir, og sér jafnvel um almannatengsl, viðburðarstjórnun og ráðgjöf. Auglýsingastofur virka stundum sem stoðdeildir við markaðsdeildir stærri fyrirtækja. Philip K. Dick. Philip Kindred Dick (16. desember 1928 – 2. mars 1982) var bandarískur rithöfundur sem þekktur er fyrir vísindaskáldsögur sínar. Þó nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögum Dicks og má þar á meðal nefna "Blade Runner" sem byggð var á bókinni "Do Androids Dream of Electric Sheep?" og "A Scanner Darkly" sem byggð var á samnefndri bók. Kvikmyndin "Minority Report" var byggð á smásögu eftir Dick. Skáldsögur. Eftirfarandi er listi yfir skáldsögur eftir Dick. Tenglar. Dick, Philip K. Hyndluljóð. Hyndluljóð er gamalt kvæði sem stundum er flokkað sem Eddukvæði. Það er aðeins að finna í heild sinni í Flateyjarbók en sum erindi eru í Snorra-Eddu, en þar eru þau sögð vera hluti af "Völuspá hinni skömmu". Verkið er talið frá 12. öld. Hyndluljóð fjallar um Freyju sem fer að hitta tröllkonuna Hyndlu til að biðja hana um að koma með sér til Valhallar. Þær halda svo þangað. Freyja ríður Hildisvína og Hyndla úlfi. Ástæða ferðarinnar er sú að Freyja vill að Hyndla telji upp niðja Óttars fyrir goðunum svo hann geti komist höndum yfir arf sinn. Helga Bachmann. Helga Bachmann (24. júlí 1931 – 7. janúar 2011) var íslensk leikkona á sviði og í kvikmyndum. Þær kvikmyndir sem hún er þekktust fyrir eru meðal annars "Í skugga hrafnsins" og "Atómstöðin". Helga var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1986. Hún var gift Helga Skúlasyni leikara og áttu þau þrjú börn en fyrir átti Helga eina dóttur. Antósýanefni. Antósýanefni (úr grísku: "ἀνθός" ("anþos") = „blóm“ + "κυανός" ("kyanos") = „blár“) eru flokkur vatnsleysanlegra litarefna sem eru ýmist rauð, vínrauð, fjólublá eða blá eftir sýrustigi. Þau gefa til dæmis rauða litinn í rauðkál og rauðlauk. Antósýanefni eru plöntuefni (flavonóíð) sem myndast í frymisbólum með fenýlprólpanóíðferli. Þau eru að mestu bragð- og lyktarlaus en gefa milda barkandi tilfinningu. Antósýanefni koma fyrir í öllum vefjum háplantna, rótum, laufi, stilkum, blómum og aldinum. Nordalsíshús. Nordalsíshús var fyrsta íshúsið á Íslandi, stofnað árið 1894 og byggt í Reykjavík. Stofnendur þess voru þeir Tryggvi Gunnarsson útgerðarmaður og þáverandi Vestur-Íslendingurinn Jóhannes Nordal. Stofnun Nordalsíshússins kom til fyrir tilverknað samfunda Tryggva og Sigurðar J. Jóhannessonar frá Mánaskál. Þeir voru staddir á mannamóti í Reykjavík árið 1893, en þar var Sigurður vændur um að vera Vesturfaraagent sem þótti skammaryrði. Tryggvi tók þá upp hanskann fyrir hann og bað hann að sanna góðvild sína til Íslendinga með því að senda aftur íslenska menn til að koma til landins og kenna Íslendingum að útbúa íshús til að geyma í beitu og matvæli í frosti. Sigurður hafði þá milligöngu um að Ísak Jónsson og Jóhannes Nordal komu til landsins, en Jóhannes hafði farið til Ameríku árið 1887. Hann vann þar við að byggja íshús og frysta fisk, þar til hann fékk tilboð Sigurðar (að boði Tryggva) að snúa aftur heim og hafði þá með sér verðmæta þekkingu. Úr þessu samkrulli varð fyrirtækið til. Earvin „Magic“ Johnson. Earvin Johnson II (fæddur 14. agust 1959), þekktastur sem Magic Johnson, er bandarískur körfuknattleiksmaður. Johnson, Earvin Magic Frank Herbert. Frank Herbert (8. október 1920 – 11. febrúar 1986) var bandarískur rithöfundur, þekktur fyrir "Dune"-bækurnar sem komu út á árunum 1965 – 1985. Fyrsta bókin "Dune" hlaut bæði Hugo-verðlaunin og Nebula-verðlaunin fyrir bestu skáldsögu. Kvikmyndin Dune, sem byggð er á fyrstu bókinni, kom síðan út árið 1984 í leikstjórn David Lynch. Dýjafjallshnjúkur. Dýjafjallshnjúkur er hæsti hnjúkur í fjallahringnum kring um Svarfaðardal og Skíðadal og jafnframt hæsta fjall á Tröllaskaga norðan Öxnadals, 1456 m hátt. Dýjafjallið, sem hnjúkurinn heitir eftir, er allt fjallið sem liggur að Klængshólsdal að austan og nær yfir Kvarnárdalsöxl, Kvarnárdalshnjúk og Dýjafjallshnjúk. Það er að mestu hlaðið upp úr basaltlögum með setlögum inn á milli. Hnjúkurinn er flatur að ofan eins og margir háhnjúkar á þessum slóðum. Tiltölulega gott er að ganga á hnjúkinn en fjallgangan tekur þó drjúgan tíma. Um ýmsar leiðir er að ræða bæði úr Hörgárdal og Skíðadal en algengasta gönguleiðin er upp frá Klængshóli í Skíðadal. Þar er gengið upp hlíðina og farið inn á Klængshólsdal. Á miðjum dal er síðan haldið á fjallið sjálft upp bratta en torfærulausa hlíð. Af Dýjafjallshnjúk er mikil útsýn yfir Tröllaskaga og Eyjafjörð en einnig sést allt vestur á Strandir og austur um Þingeyjarsýslur og Ódáðahraun. Heimildir. Bjarni Guðleifsson 1990. Óbyggðaleiðir umhverfis Þorvaldsdal og Hörgárdal. Árbók FÍ 1990 bls. 93-121 Ellen Pompeo. Ellen Kathleen Pompeo (fædd 10. nóvember 1969) er bandarísk leikkona, þekktust fyrir tiltilhlutverkið Meredith Grey í læknadramanu "Grey's Anatomy" á ABC. Pompeo, Ellen Jessica Capshaw. Jessica Brooke Capshaw (fædd 9. ágúst 1976) er bandarísk leikkona. Hún er þekkt fyrir hlutverk sitt sem Jamie Stringer í lögfræðidramanu "The Practice" og einnig hlutverk sem Dr. Arizona Robbins í "Grey's Anatomy". Einkalíf. Jessica var fædd í Columbia, Missouri, er dóttir leikkonurnar Kate Capshaw. Hún er stjúpdóttir Steven Spielberg. Tilvísanir. Capshaw, Jessica Yngvi Þ. Eysteinsson. Yngvi Þórir Eysteinsson (fæddur 2. nóvember 1987) er íslenskur útvarpsmaður og plötusnúður. Hann hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 2005. Fyrst á útvarpsstöðinni Flass 104,5 og svo á útvarpsstöðinni FM 957. Páfastóll. Páfastóll (latína: "Sancta Sedes", bókst. „hið heilaga sæti“) er biskupsdæmi innan kaþólsku kirkjunar sem tekur til Rómaborgar, en biskup þess starfar og mælir einnig sem æðsta vald kaþólskra. Biskup hins helga stóls er páfi en ekki má rugla Vatíkaninu saman við páfastól þar eð Vatíkanið er aðskilin stjórnareining. Allir alþjóðasamningar sem gerðir eru við kaþólsku kirkjuna eru gerðir við páfastól, en ekki stjórn Vatíkansins. Páfastóll varð til á fyrstu öldum kristninnar. Vatíkanið aftur á móti varð ekki til sem stjórnareining fyrr en með Lateran-samningnum við stjórn Benitos Mussolinis árið 1929. Sem biskup Rómaborgar starfar þó páfinn einnig sem æðsta vald yfir Vatíkaninu, hinu geistlega borgríki. Svarfaðardalsá. Svarfaðardalsá kemur úr Svarfaðardal og fellur til sjávar við utanverðan Eyjafjörð, rétt innan við Dalvík. Áin er dragá en blönduð jökulvatni frá hinum mörgu smájöklum sem víða eru í afdölum Svarfaðardals og Skíðadals. Fjölmargar ár falla til Svarfaðardalsár. Stærsta þveráin er Skíðadalsá. Innstu upptök árinnar eru á Heljardalsheiði, í inndölum Skíðadals og í Gljúfurárjökli. Rennsli hennar er mjög breytilegt eftir árstíma og tíðarfari eins og títt er um dragár. Í þurrkatíð síðsumars og í löngum frostaköflum á vetrum getur hún orðið vatnslítil en í vætutíð og einkum í vorleysingum verður hún foráttumikil og flæðir þá yfir allan dalbotn Svarfaðardals. Engir fossar eru í Svarfaðardalsá og raunar ekki Skíðadalsá heldur en fallegir fossar eru í nokkrum af þveránum svo sem Goðafoss í Hofsá, Holárfoss og Steindyrafoss í Þverá niður. Nokkrar brýr eru á ánni. Árgerðisbrúin er á veginum til Dalvíkur, Hreiðarsstaðabrúin er nokkru innan við ármótin við Skíðadalsá og þar skammt frá er aðalbrúin á Skíðadalsá sjálfri. Svarfaðardalsá er ekki mikil veiðiá en þó hefur hún verið ræktuð upp á síðari áratugum þannig að lagnir veiðimenn geta haft talsvert upp úr krafsinu. GenBank. GenBank er genabanki sem var opnaður árið 1982 eftir nokkura ára undirbúning. Gagnagrunnurinn inniheldur DNA-raðir, RNA-raðir og prótínraðir. GenBank er haldið úti af Miðstöð um lífupplýsinga við Heilbrigðistofnun Bandaríkjanna (NCBI). Vísindamenn senda inn í bankann upplýsingar um gen sem þeir einangra eða prótín sem þeir skilgreina. Í sumum tilfellum er um vel skilgreind gen að ræða, en einnig er mikið af gögnum úr stórtækari skimunum, t.d. raðgreiningu á öllu cDNA í tiltekinni frumugerð. Vöxtur GenBank hefur verið gríðarlegur. Þann 15. ágúst 2010 voru 122,941,883 gen/raðir í GenBank (útgáfa GenBank 179.0). DNA-raðgreining. DNA-raðgreining er samheiti yfir aðferðir til að komast að því hver basaröð DNA-búts er. Sú aðferð sem hefur hvað mest verið notuð er svokölluð Sanger-raðgreining. Frá árinu 2005 hefur verið kapphlaup um nýja tækni fyrir DNA raðgreiningar, talað er um næstu kynslóð af DNA raðgreiningum "next-generation sequencing". Slíkar DNA raðgreiningar eru einnig kallaðar Háafkasta-raðgreiningar. Sanger raðgreining. Aðferðin byggir á því að DNA fjölliðunarhvarf er sett af stað. Í hvarfinu eru auk venjulegra hvarfefna einnig til staðar breytt núkleótíð, ddNTP. Þegar ddNTP er sett inn í röðina í stað dNTP stöðvast fjölliðunin því á ddNTP-ið vantar OH-hóp sem er nauðsynlegur fyrir hvarfið. Þar sem ddNTP-ið er sett inn á handahófskenndum stöðum fást að lokum allar mögulegar styttri útgáfur af upprunalega bútnum. Raðirnar eru svo aðskildar eftir stærð með rafdrætti. Áður fyrr voru einfaldlega sett af stað 4 mismunandi hvörf, eitt fyrir hvert núkleótíð. Síðan var rafdregið á geli. Nú eru yfirleitt notast við flúrmerkt ddNTP og rafdregið í örpíplum. Hægt er að raðgreina um 1000 basa langa röð með Sanger-raðgreiningu en algengast er að fá 500-700 basa raðir. Úrvinnsla Sanger raðgreininga. Nútildags er algengast að Sanger raðgreiningar séu framkvæmdar í örpíplum og að svokallaðar "trace" skrár séu búnar til. Í þeim er skráður styrkur þeirra fjögurra basa sem notaðir eru við DNA nýmyndun hvers DNA móts (template) fyrir sig. er skrá sem inniheldur mælingar á flúrljómum þegar raðgreint er með nútíma Sanger-raðgreiningu. eða,basa ákvörðun” er þegar DNA röð er ákveðinn út frá flúrmælingum í Sanger raðgreiningu. Flúrmælingin er lesin úr svokallaðri,trace file”. Yfirleitt er notast við sjálfvirka hugbúnað en einnig er hægt að ákvarða röðina handvirkt. Phred er forrit sem les inn flúrmælingar (trace files) og ákvarðar basaröð úr Sanger-raðgreingu. Hver basi fær einnig gæðaeinkunn. Phrap er forrit til að raða saman stöku röðum (reads) í contig í búta raðgreingu (shotgun sequencing). Phrap notast við gæðaeinkunina frá Phred þegar raðað er saman. Þegar frumgögnin hafa verið unnin fæst FASTA röð fyrir hvern raðgreindan DNA bút. Þessar raðir má síðan vinna með, t.d. að raða saman í DNA samfellu (contig), og byggja upp heilstæða mynd af genum og erfðamengjum. Næsta kynslóð DNA raðgreininga (Next generation sequencing). Úrvinnsla gagna úr þessum nýju raðgreiningaaðferðum fer eftir því hvaða tækni er notuð. Úrvinnsla SOLiD gagnanna er t.d. mjög sérstök á meðan raðir úr 454 og Illumina má meðhöndla á svipaðan hátt og FASTA skrár, og byggja úr þeim DNA samfellur. Illumina-raðgreining. Illumina raðgreining var upphaflega nefnt Solexa-raðgreining eftir fyrirtækinu (Solexa) sem fann aðferðina upp. Um er að ræða raðgreiningaraðferð sem tilheyrir þriðju kynslóð (next generation) raðgreiningaraðferða. Fyrst eru stuttar raðir, viðhengi, (adaptors) festar við DNA-bútanna sem skal raðgreina. Þeim er síðan komið fyrir á flögu sem hefur raðir sem geta basaparast við viðhengin, bútarnir festast því á báðum endum og mynda einskonar brú. PCR-hvarf er sett af stað og þar sem DNA-bútarnir komast ekki langt án þess að festast aftur við flöguna myndar hver bútur einskonar kóloníu af samsvarandi bútum (polonies). Raðgreiningin sjálf hefst með því að dNTP með flúrmerki og verndarhóp skellt á flöguna. Siðan er flúrmerkið mælt áður en verndarhópurinn er tekinn af og næsta basi getur bundist. Fyrir hverja poloníu er raðgreint frá báðum endum þar sem búturinn er til staðar í báðum stefnum eftir PCR-hvarfið. Samkvæmt heimasíðu Illumina er þannig hægt að raðgreina allt að 150 bp frá hvorum enda á hverjum DNA bút og fá allt að 640 milljón raðir í einni keyrslu. Hámarkslengd raða og fjöldi í hverri keyrslu er eykst samt stöðugt með framförum í tækni. 454 raðgreining. 454 raðgreining er aðferð sem tilheyrir háafkasta DNA-raðgreiningar aðferðum. Með þessari aðferð eru límdar stuttar raðir, viðhengi, (e. adaptors) á DNA-búta svo þeir bindist með basapörun við örsmáar kúlur. Styrkur kúlanna og DNAsins er hafður þannig að sirka ein DNA-sameind bindist á hverja kúlu. Kúlurnar eru síðan settar í olíudropa og PCR-hvarf sett af stað til að auka magn einstakra DNA-búta. Kúlunum er síðan komið fyrir á plötu með örsmáum holum sem taka einungis eina kúlu stærðar sinnar vegna. Síðan er notast við pyroraðgreiningu (pyro sequencing) til að raðgreina samtímist allar DNA-sameindirnar á plötunni, sem eru fjöldamargar. Pyro-raðgreining byggir á því að við DNA-fjölliðun losnar pyrofosfat (PPi), sulfurylasi umbreytir því svo í ATP sem lúsíferasi notar svo til að framleiða ljós. Aðeins einni gerð af dNTP er hleypt á plötuna í einu og því berst einungis ljós frá þeim holum þar sem tilsvarandi dNTP er bætt við röðina. Styrkur ljósins ræðst svo af fjölda eins núkleotíða í röð. Meðallengd reada er um 400 bp með þessari aðferð en hægt er að raðgreina tæpa milljón reada samtímis samkvæmt heimasíðu framleiðands. Einnig er til prótínraðgreining, en slíkt hefur verið erfiðara í framkvæmd en DNA-raðgreining. Philippus arabi. Marcus Julius Philippus (um 204 – september 249), þekktur sem Philippus arabi eða Filipus arabi, var keisari Rómaveldis frá 244 til 249. Philippus varð yfirmaður í lífvarðasveit Gordianusar 3., keisara, árið 243, en bróðir Philippusar, Priscus, var þá þegar orðinn yfirmaður í lífvarðasveitinni. Gordianus var drepinn árið 244, eftir ósigur í bardaga gegn Pörþum, og er hugsanlegt að bræðurnir hafi átt þátt í morðinu. Philippus var í kjölfarið hylltur sem keisari. Hann samdi fljótlega um frið við Parþa og hélt til Rómar. Priscus, bróðir hans, hafði átt markverðari feril en Philippus en ekki er vitað hvers vegna gengið var framhjá honum varðandi keisaratignina. Philippus skipaði Priscus þó fljótlega sem "rector Orientis" og varð hann þá æðsti yfirmaður í austurhluta heimsveldisins. Philippus þurfti að verjast miklum árásum germana við Dóná, í nokkur ár, þar til hann lýsti loks yfir sigri árið 248, þó að engin endanleg niðurstaða hafi náðst í stríðinu. Sama ár hélt Philippus upp á 1000 ára afmæli Rómarborgar með miklum hátíðarhöldum. Samkvæmt goðsögn hafði Rómúlus stofnað borgina 1000 árum áður. Því hefur verið haldið fram að Philippus hafi verið fyrsti kristni Rómarkeisarinn, en heimildir fyrir því eru þó mjög takmarkaðar og óáreiðanlegar. Herdeildirnar við Dóná voru ekki ánægðar með það hvernig stríðinu gegn germönum hafði lokið og því var stuðningur þeirra við keisarann ótryggur. Philippus sendi Decius, hershöfðingja á svæðið til þess að lægja öldurnar en það skilaði ekki tilætluðum árangri, því árið 249 var Decius hylltur sem keisari af hermönnum á svæðinu. Philippus og Decius mættust í bardaga sama ár og hafði Decius betur. Philippus var annaðhvort felldur í bardaganum eða drepinn af eigin hermönnum. The Silence of the Lambs (kvikmynd). Lömbin þagna eða Silence of the Lambs er bandarísk spennumynd. Leikarin Anthony Hopkins vann verðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni. Ross Cleveland (skip). Ross Cleveland var breskur síðutogari frá Hull sem fórst á Ísafjarðardjúpi 4. febrúar 1968 í aftakaveðri. Einn maður komst lífs af, Harry Eddom. Nítján létust. Ísing gerði það að verkum að skipið lagðist á hliðina og sökk út af Arnarnesi. Safnahúsið á Húsavík. Safnahúsið á Húsavík er hús Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og stendur við Stóragarð 17 á Húsavík. Fyrsta skóflustunga að þeim var tekin árið 1967 og húsið var formlega tekið í notkun 1980. Safnahúsið á Húsavík / Menningarmiðstöð Þingeyinga er sjálfseignarstofnun sem starfar á vegum þingeyskra sveitarfélaga. Byggðasafn Suður-Þingeyinga, sjóminjasafn, Grenjaðarstað — (sumarsýning), Byggðasafn Norður-Þingeyinga, Snartarstöðum — (sumarsýning), Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Ljósmyndasafn Þingeyinga, Náttúrugripasafn Þingeyinga, Myndlistarsafn Þingeyinga, útgáfu Árbók Þingeyinga og önnur útgáfa (Safni, kort, póstkort og fleira). Á aðalhæð Safnahússins er sýningin Mannlíf og Náttúra — 100 ár í Þingeyjarsýslum. Í sýningunni er fléttað saman náttúrugripum og munum úr byggðasafni Þingeyinga svo úr verður einkar athyglisverð sýning þar sem gestir upplifa sterkt samspil manns og náttúru í Þingeyjarsýslum á tímabilinu 1850 til 1950. Árbók Þingeyinga. Árbók Þingeyinga er útbreiddasta átthagarit á Íslandi og hefur verið gefið út árlega síðan 1958. Í bókinni eru birtar greinar á borð við sögur, ljóð og annálar. Hún er heimild um líf og störf fólks í Þingeyjarsýslum. Upphafsmaður bókarinnar var Jóhann Skaptason, þáverandi sýslumaður Þingeyinga. Þingeyjasýslunar báðar og Húsavík stóðu að útgáfu hennar. Bryndís Hlöðversdóttir. Bryndís Hlöðversdóttir er íslenskur lögfræðingur og er núverandi formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Bryndís sat á Alþingi frá 1995 til 2005 fyrir Alþýðubandalagið og síðar Samfylkinguna. Bryndís er stúdent frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Hún útskrifaðist með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 1992. Bryndís hefur gegnt ýmsum skrifstofu-, lögfræðis- og nefndarstörfum auk þess að hafa verið formaður Kvenréttindafélags Íslands árin 1995-1997. 5. janúar 2011 tók Bryndís við af Magnúsi Árna Magnússyni sem rektor Háskólans á Bifröst og gegndi því starfi til 1. ágúst 2013. Þann 16. maí 2013 var hún kjörinn formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Opinber stjórnsýsla. Opinber stjórnsýsla, eða bara stjórnsýsla til hægðarauka, nefnist mótun og framkvæmd stefnu ríkisvaldsins. Í ríkjum þar sem ríkisvaldinu er skipt er átt við störf framkvæmdarvaldsins. Með opinberri stjórnsýslu er þá ekki átt við störf löggjafarvaldsins eða dómsvaldsins. Framkvæmdarvaldið skiptist gjarnan í tvö eða fleiri stjórnsýslustig, eins og ríki og sveitarfélög. Þannig snýst opinber stjórnsýsla að miklu leyti um rekstur og starfsemi opinberra stofnana þar sem opinberir starfsmenn starfa. Sem undigrein lögfræðinnar nefnist stjórnsýsla stjórnsýsluréttur. Meyjarsæti. Meyjarsæti er fell við Þingvallavatn sem er 237 metra hátt. Sunnan við Meyjarsæti er Hofmannaflöt sem er sléttur völlur austan Ármannsfells og norðan Þingvalla. H. P. Lovecraft. Howard Pillips Lovecraft (20. ágúst 1890 – 15. mars 1937) var bandarískur rithöfundur. Lovecraft er þekktur fyrir hryllingssögur sínar sem gerast margar í goðsagnaheimi sem kenndur er við Cthulhu, goðsagnaveru sem gegnir lykilhlutverki í sögum Lovecrafts. Sögur Lovecrafts gerast að stórum hluta til í Nýja Englandi en hann fæddist í Providence í Rhode Island-fylki og bjó þar stóran hluta ævi sinnar. Lovecraft, H. P. Linda Pétursdóttir. Linda Pétursdóttir (f. 27. desember 1969) er íslensk fegurðardrottning, fyrirsæta og eigandi heilsuhúsins Baðhúsið í Reykjavík. Linda varð hvortveggja Ungfrú Ísland og Ungfrú heimur árið 1988. Foreldrar hennar eru Pétur Olgeirsson skipstjóri og Ása Hólmgeirsdóttir. Hún á tvö systkini og er miðbarn. Linda ólst upp á Húsavík til 10 ára aldurs en flutti þaðan til Vopnafjarðar. Árið 2003 kom út ævisaga hennar sem hún reit ásamt Reyni Traustasyni. Bókin bar nafnið "Linda ljós & skuggar" og í henni sagði hún frá lífi sínu, kærustum og baráttunni við bakkus. Númarímur. Númarímur eru rímur eftir Sigurð Breiðfjörð. Þær eru taldar einar bestu rímur hans. Hann skrifaði þær á Grænlandi þegar hann dvaldist þar um skeið. Leirhöfn. Leirhöfn er landnámsjörð á vestanverðri Melrakkasléttu í Norður-Þingeyjarsýslu. Bærinn stendur við samnefnt vatn, Leirhafnarvatn. Í Landnámabók segir: „Reistr son Bjarneyja-Ketils ok Hildar systur Ketils þistils, faðir Arnsteins goða, hann nam land á milli Reistargnúps og Rauðagnúps og bjó í Leirhöfn“. Árið 1935 stofnaði Helgi Kristjánsson húfugerð í Leirhöfn sem rekin var fram yfir miðbik 20. aldar þar sem voru meðal annars saumaðar vetrarhúfur á íslenska lögreglumenn. Einnig voru framleidd axlabönd, bréfaveski, belti, aktygi og þverbakstöskur svo eitthvað sé nefnt. Landbúnaðarbyltingin. a> frá því 3.500 - 3.000 f.Kr. Landbúnaðarbyltingin hófst við lok ísaldar eða fyrir um 10–12 þúsund árum (10.000 - 8.000 f kr.). Hún markar upphaf nýsteinaldar. Þá fóru menn að stunda akuryrkju og húsdýrahald en fram að því höfðu menn stundað veiðimennsku og söfnun. Um þetta leyti fóru menn að framleiða mat í stað veiða og söfnunar. Þetta gerðist líklega fyrst í Austurlöndum nær og á Balkanskaga. Þetta hófst á svipuðum tíma í Asíu, Ameríku og Suðaustur-Evrópu, án þess að nokkur tengsl væru þar á milli. Talið er að útbreiðslan frá þessum meginstöðum hafi orðið með fólksflutningum og verslun. Þarna var mikið plöntulíf og dýralíf sem hægt var að rækta og temja. Orsök landbúnaðarbyltingunnar eru umhverfisbreytingar við lok ísaldar. Gróður- og veðurfar breyttist þegar hlýnaði. Stórum veiðidýrum, s.s. mammútum sem lifðu á ísöld fækkaði og fólk leitaði í fiskveiðar og í jurtaríkið. Menn stunduðu sviðurækt, sem þýðir að skógar voru höggnir og síðan brenndir til að að rækta land, þ.e. síðan er sáð í öskuna og þykir góð uppskera úr henni. Jarðarbúum fjölgaði vegna staðbundinnar búsetu sem leiddi svo aftur af sér hærri fæðingartíðni. Fólk tamdi hjarðdýr sem nýttust einkar vel. Landbúnaður er talinn sjálfsprottinn í Nýju-Gíneu í Kyrrahafi. Síleska karlalandsliðið í handknattleik. Síleska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Síle í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Síle. Bareinska karlalandsliðið í handknattleik. Bareinska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Barein í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Barein, sem verið hefur aðili að Alþjóðahandknattleikssambandinu frá 1978. Besta frammistaða liðsins á Asíuleikum er 2. sæti árið 2010. Tryggði sá árangur liðinu keppnisrétt í úrslitakeppni HM 2011 í fyrsta sinn í sögunni. Japanska karlalandsliðið í handknattleik. Japanska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Japans í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Japans. Matthew Lipman. Matthew Lipman (24. ágúst 1922 – 26. desember 2010) var bandarískur heimspekingur og frumkvöðull í heimspekikennslu barna. Lipman nam heimspeki við Columbia-háskóla í New York-borg og lauk þaðan bæði B.A.-gráðu og doktorsgráðu. Hann kenndi einnig við skólann þar til hann tók við stöðu við Montclair State College árið 1972 en þar kom hann á laggirnar stofnun helgaðri þróun heimspekikennslu barna (Institute for the Advancement of Philosophy for Children). Áhugi Lipmans á heimspekikennslu barna kviknaði í Columbia-háskóla þar sem hann taldi sig verða varan við getuleysi nemenda sinna til þess að færa almennileg rök fyrir máli sínu. Taldi hann að of seint væri að kenna fullorðnu fólki og að kennslan yrði að hefjast snemma til þess að börnin næðu að temja sér gagnrýna hugsun sem fyrst. Lipman samdi bækur til nota í heimspekikennslu barna, meðal annarra "Harry Stottlemeier's Discovery". Tenglar. Lipman, Matthew Lipman, Matthew Bikarkeppni HSÍ (karlar). Bikarkeppni HSÍ í karlaflokki er íslenskt handknattleiksmót sem haldið hefur verið árlega frá 1974. Keppt var um "Breiðholtsbikarinn" sem gefinn var af Byggingarfélaginu Breiðholti. Fimleikafélag Hafnarfjarðar vann Breiðholtsbikarinn til eignar árið 1977 og gaf HSÍ nýjan bikar í hans stað. Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi og hefur úrslitaleikurinn frá upphafi farið fram í Laugardalshöllinni. Í seinni tíð hafa úrslitin í bikarkeppni kvenna farið fram sama dag. Eftirgrennslanadeild. Eftirgrennslanadeild var deild innan íslensku lögreglunnar sem varð vísir að íslenskri leyniþjónustu og hafði það verkefni að fylgjast með fólki á Íslandi sem þáverandi ráðamenn töldu sér óvinveitt. Stofnun hennar árið 1939 varð til fyrir áhyggjur framsóknar- og sjálfstæðismanna af uppgangi nasista og kommúnista, en þegar fram liðu stundir var þó aðallega fylgst með kommúnistum. Leyniskjölin sem safnað var með persónunjósnum og hlerunum enduðu síðar í götóttri olíutunnu fyrir utan Reykjavík þar sem þau voru brennd árið 1976. Stofnun Eftirgrennslanadeildarinnar. Árið 1939, þegar Agnar Kofoed-Hansen var lögreglustjóri í Reykjavík fól Hermann Jónasson forsætisráðherra honum að stofna það sem hann nefndi Eftirgrennslanadeild. Var lögreglustöðin þá við Pósthússtræti. Stofnun deildarinnar kom til vegna uppgöngu nasista og kommúnista á Íslandi og slagurinn við Guttó árið 1932 var líka hvati til að halda saman upplýsingum um ákafamennn á vinstri væng stjórnmálanna. Eftirgrennslanadeildin starfaði innan útlendingaeftirliti lögreglunnar næstu tíu árin en þá beitti Bjarni Benediktsson sér, þáverandi dómsmálaráðherra, fyrir stofnun "strangleynilegrar öryggisþjónustudeildar" hjá lögreglustjóraembættinu í nánum tengslum við dómsmálaráðuneytið. Lokaða herbergið. Árni Sigurjónsson, sem síðar varð yfirmaður Útlendingaeftirlitsins, starfaði þá þegar að öryggismálum og Sigurjón Sigurðsson, sem þá var orðinn lögreglustjóri, valdi auk þess Pétur Kristinsson, fyrrverandi húsgagnasmið, til þessara starfa. Sá Pétur um gagnasöfnun og spjaldskrár en Árni um aðgerðir og eftirlit. Þeir störfuðu í herbergi á lögreglustöðinni sem var kallað „lokaða herbergið“. Upplýsingarnar brenndar. Árið 1976 ætlaði Sigurjón Sigurðsson að sækja um starf hæstaréttardómara og taldi sig fá vilyrði fyrir því embætti. Um leið taldi hann að tími væri kominn til að farga mestum hluta af því skjalasafni sem lögreglan hafði komið sér upp um kommúnista en með þeim hafði aðallega verið fylgst. Trúnaðarmaður Sigurjóns flutti því megnið af safninu, þar á meðal spjaldskrár, upp í sumarbústað sinn í nágrenni Reykjavíkur og brenndi gögnin til ösku í götóttri olíutunnu. Af varð mikill reykur, eins og haft var á orði í þeim fámenna hópi sem vissi um brennuna. Sigurjón hlaut aldrei embætti hæstaréttardómara. Ljósnæm lífvera. Ljósnæm lífvera er lífvera sem er fær um ljóstillífun. Listi yfir kvikmyndir um RMS Titanic. Skipið RMS Titanic hefur komið við sögu í fjölmörgum kvikmyndum, sjónvarpsmyndum og sjónvarpsseríum. Saga Fjárfestingarbanki. Saga Fjárfestingarbanki (áður Saga Capital fjárfestingarbanki) er íslenskur fjárfestingarbanki sem var stofnaður ári 2007 og hafði þá 9,5 miljarða eigið fé. Hann fékk síðan starfsleyfi frá FME árið 2007. Höfuðstöðvar bankans eru á Akureyri en jafnframt er starfstöð í Reykjavík. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur verið forstjóri bankans frá upphafi. Eignarhald bankans dreifist á hóp hlutahafa. Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra þegar lánið var veitt. Kolakraninn. Kolakraninn (eða Hegrinn) var hár krani sem var reistur árið 1927 í Reykjavíkurhöfn. Hann var þá talinn með fullkomnustu slíkum tækjum á Norðurlöndum. Kraninn stóð í tæplega 41 ár eða til 17. febrúar 1968 en þá var hann rifnn. Margaret Brown. Margaret Brown (18. júlí 1867 – 26. október 1932), betur þekkt sem Maggie Brown, Molly Brown og Hin ósökkvanlega Molly Brown, var bandarísk yfirstéttarkona, mannvinur og aðgerðarkona sem að varð fræg eftir að hún var um borð skipsins RMS Titanic og lifði af eftir að skipið sökk. Brown, Margaret Hæringur. Hæringur var verksmiðjuskip sem var keypt af íslensku hlutafélagi frá Bandaríkjunum árið 1948 til síldarvinnslu. Hæringur var stærsta skip sem Íslendingar höfðu eignast fram að því, tæpar 7000 lestir, 117 metrar að lengd og 15,5 metrar að breidd. Saga þess var þó ekki glæsileg. Lá það lengstum við eystri hluta Ægisgarðsins og tók þar upp mestan hluta viðleguplássins, sökum síldarskorts. Hæringur fékkst þó lítillega við karfabræðslu en síðustu tvö árin lá það við mynni Elliðavogs og Grafarvogs. Hafði skipinu verið siglt upp í moldarbakka sem þar var. Á þessum stað stóð skipið þar til það var selt til Noregs í september 1954 og var notað til Kínasiglinga þaðan. Hæringur var smíðaður í Buffalo 1901 og var því 47 ára gamall þegar hann kom til Íslands. Upphaflega var skipið til þess að flytja járngrýti, en síðar tók bandaríski herinn það í sína þjónustu á stríðsárunum. Hinir nýju íslensku eigendur létu breyta því og setja í það vélar til síldarvinnslu. Þetta var þó á þeim árum sem síldarveiðin brást við Íslandsstrendur. Ástralska karlalandsliðið í handknattleik. Ástralska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Ástralíu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Ástralíu. Íslenska efnahagsspilið. Íslenska efnahagsspilið - fjölskylduspil er íslenskt borðspil sem kom út fyrir jólin 1979. Spilið var verk þriggja íslenskra athafnamanna og innihélt mikið af gamansömum athugasemdum um íslenskt efnahagslíf á verðbólgu- og gengisfellingarárunum. Reitir spilsins liggja í ferning sem leikmenn ganga eftir en fjögur „svið“ nefnd eftir atvinnugreinum, einn hringur á hverju horni ferningsins, gefa leikmönnum tækifæri til að taka áhættu og ávaxta fé sitt. Rallýspilið. Rallýspilið er íslenskt borðspil sem gefið var út af fyrirtækinu Spilaborg árið 1978. Árið áður hafði sama fyrirtæki gefið út Útvegsspilið sem naut mikilla vinsælda. Spilið var hannað af Hauki Halldórssyni myndlistarmanni ásamt fleirum. Spilaborðið er Íslandskort með rallýleiðum merktum inn á kortið sem leikmenn, mislitir bílar úr plasti, aka eftir. Egypska karlalandsliðið í handknattleik. Egypska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Egyptalands í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Egyptalands. Háskólinn í Birmingham. Háskólinn í Birmingham (óformlega Birmingham-háskóli) er breskur rannsóknarháskóli í Birmingham í Englandi. Skólinn var stofnaður í Edgbaston árið 1900 og tók við af Mason Science College og á rætur að rekja til Læknaskólans í Birmingham sem stofnaður var árið 1825. Nemendur skólans eru rúmlega 26 þúsund. Átta nóbelsverðlaunahafar hafa stundað nám við skólann. Ríkisháskólinn í Arizona. Ríkisháskólinn í Arizona er stærsti ríkisrekni rannsóknarháskólinn í Bandaríkjunum. Árið 2010 voru nemendur rúmlega 70 þúsund. Skólinn er á fjórum háskólasvæðum á stórborgarsvæði Phoenix. Ríkisháskólinn í Arizona var stofnaður árið 1885 og hét þá Tempe Normal School fyrir Arizona Territory í Tempe, Arizona. Nafni skólans var breytt í Arizona State College árið 1945 og aftur árið 1958 í Ríkisháskólinn í Arizona (Arizona State University). Ríkisháskólinn í Ohio. Ríkisháskólinn í Ohio (oftast nefndur Ohio State eða OSU) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli með aðalháskólasvæði í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum. Skólinn var stofnaður árið 1870. Um 55 þúsund nemendur stunda nám við skólann í Columbus en um 8 þúsund nemendur á öðrum háskólasvæðum. Argentínska karlalandsliðið í handknattleik. Argentínska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Argentínu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Argentínu. Háskólinn í Torontó. „Old Vic“ í Victoria College í Háskólanum í Toronto Háskólinn í Torontó (oft nefndur U of T eða UToronto) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Torontó í Ontario í Kanada. Skólinn var stofnaður árið 1827 og hét þá King's College en nafni skólans var breytt árið 1850 og fékk hann þá sitt núverandi nafn. Um 45 þúsund nemendur stunda nám við skólann. Minnesota-háskóli. Pillsbury Hall er ein elsta bygging háskólans. Minnesota-háskóli (stundum nefndur U of M) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Minneapolis og St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum. Minnesota-háskóli var stofnaður árið 1851. Rúmlega 51 þúsund nemendur stunda nám við skólann. Black Swan. "Black Swan" er sálfræðilegur tryllir frá árinu 2010 sem Darren Aronofsky leikstýrði. Natalie Portman, Vincent Cassel og Mila Kunis fara með aðalhlutverkin. Myndin snýst um uppfærslu af "„Swan Lake“" hjá virtu dansfélagi í New York-borg. Í sýningunni þarf ein ballerína að leika bæði hvíta og svarta svaninn. Listdansarinn Nina (leikin af Portman) er græskulaus alveg eins og hvíti svanurinn og Lily (leikin af Kunis) er nautnafull eins og svarti svanurinn. Þegar að þær tvær byrja að keppast um hlutverkið kemst Nina að því að hún á sér svarta hlið. Framleiðsla myndarinnar hófst í New York-borg árið 2009 eftir að myndverið Fox Searchlight Pictures ákvað að framleiða hana. Ráðstöfunarfé myndarinnar átti upprunalega að vera á milli tíu og tólf milljóna bandaríkjadala en það var að lokum hækkað upp í $13 milljónir bandaríkjadala. Portman og Kunis þurftu báðar að æfa ballet í nokkra mánuði áður en að tökur hófust. Frumsýning myndarinnar átti sér stað á 67. Alþjóðlegu Kvikmyndahátíð Feneyja þann 1. september 2010. Myndin var svo upprunalega gefinn út í örfáum kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum þann 3. desember 2010 en mikil aðsókn leiddi til þess að hún fór í kvikmyndahús út um all land þann 17. desember sama ár. Gagnrýnendur gáfu myndinni almennt mjög góða dóma og var myndin tilnefnd til fjögurra Golden Globe verðlauna þar á meðal sem besta kvikmynd, besta leikkona í aðal- og aukahlutverki. Natalie Portman hlaut verðlaunin sem besta leikkona. Sting. Gordon Matthew Thomas Sumner, CBE (fæddur 2. október 1951), betur þekktur sem Sting er enskur tónlistarmaður, söngvari, lagasmiður, aðgerðasinni, leikari og mannvinur. Áður en hann byrjaði að syngja einn var hann aðallagasmiður, aðalsöngvari og bassaleikari í hljómsveitinni The Police. Tónlistarstíll Sting hefur verið breytilegur í gegnum feril hans og áhrif hafa verið m.a. frá djassi, reggí og klassískri tónlist. Sem sólótónlistarmaður og sem meðlimur í The Police hefur hann unnið sextán Grammy-verðlaun, þar á meðal ein fyrir bestu rokk hljómleikana árið 1981. Auk þeirra hefur hann verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir besta lag í kvikmynd. Hann er meðlimur í bæði Rock and Roll Hall of Fame og Songwriters Hall of Fame. Uppeldisár. Sting fæddist í Wallsend, nálægt Newcastle-upon-Tyne í Norðaustur-Englandi. Hann var sá elsti fjögurra barna og foreldrar hans var Audrey og Ernest Matthew Sumner. Móðir hans var hárgreiðslumaður og faðir hans var mjólkurpóstur og verkfræðingur. Systkin hans heita Philip, Angela og Anita. Sem barn hjálpaði Gordon föður sínum oft með því að bera út mjólk og er talið er að „besti vinur“ hans var gamall spænskur gítar með fimm ryðgöðum strengum sem skilið var eftir af föðurbróður hans. Hann fór í St. Cuthbert's High School í Newcastle-upon-Tyne. Oft tókst honum að komast inn í næturklúbbi eins og Club-A-Go-Go og þar horfði hann á flytjendur eins og Cream og Jimi Hendrix. Síðar höfðu þessir flytjendur áhrif á tónlist hans. Eftir að hann vann sem vagnstjóri, byggingaverkamaður og skattmaður fór hann í Northern Counties College of Education (nú heitir Háskólinn í Norðymbralandi) frá 1971 til 1974. Þar fékk hann kennsluréttindi og þá vann hann sem kennari í St. Paul's Middle School í Cramlington í tvö ár. Í fyrstu spilaði hann tónlist hvar sem hann gæti. Hann spliaði í djasshópum um kvöldin, um helgar og í skólafríi. Hann spilaði í staðbundnum djasstónleikum eins og Phoenix Jazzmen, Newcastle Big Band og Last Exit. Sting fékk gælunafnið sitt á eftir hann spilaði í gullri og svartri peysu á sviði með Phoenix Jazzmen. Aðalmaður hljómsveitarinnar Gordon Solomon hélt að í peysunni liti hann út sem vespa og fór að kalla hann „Sting“. Á blaðamannafundi í kvikmyndinni "Bring on the Night" sagði hann í grini: „Börnin mín kalla mig Sting, móðir mín kallar mig Sting, hver er þessi Gordon?“ The Police. Sting flutti frá Sunderlandi til Lundúna janúar 1977. Strax eftir það stofnaði hann hljómsveitina The Police með Stewart Copeland og Henry Padovani (bráðum eftir það skildi Henry við hljómsveitina og þá varð Andy Summers meðlimur). Árin 1978–1983 gáfu þeir út fimm vinsælar hljómplötur og fengu sex Grammy-verðlaun. Þó að í fyrstu hefði pönk áhrif á tónlistarstíl hljómsveitarinnar byrjaði The Police að spila tónlist með áhrifum frá reggí og popp. Síðasta hljómsplata þeirra, "Synchronicity", var gefin út árið 1983 og á henni var vinsælasta lag hljómsveitarinnar, „Every Breath You Take“. Samkvæmt Sting í heimildamyndinni "Last Play at Shea" ákvað hann að skilja við hljómsveitina á tónleikum 18. ágúst 1983 á Shea Stadium af því honum fannst að spila þar eins og „að fara upp á Everestfjall“. Þó að hljómsveitin skildi ekki opinberlega eftir útgáfu "Synchronicity" komu þeir sér saman að einbeita sér að eigin verkefnum sínum. Meðan árin liðu vísaði hann á bug að hljómsveitin ætlaði að koma aftur saman. Samt sem áður kom hljómsveitin aftur saman árið 2007 og fór á heimstónleikaferð. Sem sólótónlistarmaður. Sting spilaði einn í fyrstu sinn september 1981 á tónleikum fyrir Amnesty International sem hétu The Secret Policeman's Other Ball þegar honum var boðið þangað af framleiðandanum Martin Lewis. Þar söng hann sólóútgafúr laganna „Roxanne“ og „Message in a Bottle“. Hann var líka aðalmaður í hljómsveit sem hét The Secret Police sem söng „I Shall Be Released“ eftir Bob Dylan. Meðal þeirra í hljómsveitinni var Eric Clapton, Jeff Beck, Phil Collins, Bob Geldof og Midge Ure. Allir þeirra nema Beck sungu síðar saman á Live Aid. Flutningur hans Stings var áberandi á hljómsplötu og í kvikmynd tónleikanna og þetta beindi athygli að verkinu hans. Þátttaka hans í The Secret Policeman's Other Ball var byrjun tenglsar hans við stjórnmála- og samfélagshreyfingar. Árið 1982 gaf hann út sólósmáskífuna „Spread a Little Happiness“ sem var notuð í kvikmyndinni "Brimstone and Treacle". Smáskífan var byggð á lagi frá söngleiknum "Mr. Cinders" eftir Vivian Ellis. Níundi áratugurinn. Fyrsta sólóhljómplata Stings, "The Dream of the Blue Turtles", var gefin út árið 1985. Nokkrir djasstónlistarmenn unnu með honum á þessari plötu: Kenny Kirkland, Darryl Jones, Omar Hakim og Branford Marsalis. Plötunni fylgdi vinsæla smaskífan „If You Love Somebody Set Them Free“ og með henni var vinsælt lag „Another Day“. Smellirnar „Fortress Around Your Heart“ og „Love Is the Seventh Wave“ voru einnig á þessari plötu. Auk þeirra var lagið „Russians“ sem var byggt á lagi frá "Liðsforinga Kijé" eftir Sergei Prokofiev. Hljómsplatan seldist mjög vel og innan árs varð platínuplata. Vegna þess var Sting tilkynndur til Grammy-verðlauna fyrir hljómplötu ársins. Í kvikmyndinni "Bring on the Night" sem var leikstjórnað af Michael Apted sagt er frá stofnun djasshljómsveitarinnar og fyrstu tónleikum þeirra í Frakklandi. Sama ár söng hann inngang og viðlag í „Money for Nothing“, brautryðjandi lag eftir Dire Straits. Hann söng lagið saman með Dire Straits á Live Aid á Wembley Stadium. Einnig söng hann lítið í hljómsplötunni "You're Under Arrest" eftir Miles Davis. Hann var bakkrödd í laginu „The Promise“ eftir Arcadia á einustu hljómsplötu þeirra "So Red the Rose", og líka í lögunum „Take Me Home“ og „Long Long Way to Go“ eftir Phil Collins á hljómsplötunni "No Jacket Required". Hann vann líka að útgáfu lagsins „Mack the Knife“ á virðingarplötunni ' sem framkvæmd var af Hal Willner. Árið 1984 söng hann í laginu „Do They Know It's Christmas?“ með Band Aid fyrir lausn á fátækt í Afríku. Sting gaf út "...Nothing Like the Sun" árið 1987 sem innihélt smellina „We'll Be Together“, „Fragile“, „Englishman in New York“ og „Be Still My Beating Heart“ sem var tileinkað móður hans, er var nýdáin. Hún varð 2× platínuplata. Lagið „The Secret Marriage“ á þessari plötu var byggt á melódíu eftir þýska tónskáldið Hanns Eisler, og „Englishman in New York“ fjallar um sérvitra skifarann Quentin Crisp. Heiti hljómplötunnar er tekið frá Sonnettu 130 eftir William Shakespeare. Sting gaf út "Nada como el sol", samsetning fimm laga frá "...Nothing Like the Sun", sem Sting syngur á spænsku og portúgölsku, febrúar 1988. Hann vann líka að tveimur öðrum upptökum á níunda áratugnum, sú fyrsta var með djasstónlistamanninum Gil Evans árið 1987, þar sem tekið var upp hljómplötu af öllum lögum Stings með stórri djasshljómsveit. Önnur upptakan var með Frank Zappa á hljómplötunni hans "Broadway the Hard Way" árið 1988, þar sem Sting syngur „Murder By Numbers“ við melódíu „Stolen Moments“ eftir Oliver Nelson. Lagið var „tileinkað“ bókstafstrúarpredikaranum Jimmy Swaggart. Flutningur af verkinu "Sögu hermannsins" eftir Ígor Stravinskíj var tekinn upp október 1988 með Kent Nagano sem hljómsveitarstjórnandi. Það var með Vanessa Redgrave, Ian McKellen og Sting í hlutverki hermannsins. Tíundi áratugurinn. Árið 1991 gaf Sting út hljómplötuna "The Soul Cages" sem var tileinkuð föður sínum. Á hljómplötunni var smellurinn „All This Time“ sem náði fimmta sæti í popptopplista Bandaríkjanna, og „The Soul Cages“ sem vann Grammy-verðlaun. Með tíð og tíma varð hún platínuplata. Árið eftir giftist hann henni Trudie Styler og honum var veitt heiðursnafnbót í tónlist frá Háskólanum í Norðymbralandi. Árið 1991 söng Sting á hljómplötunni „Two Rooms: Celebrating the Songs of Elton John & Bernie Taupin“ sem var tileinkuð þeim Elton John söngvara og Bernie Taupin lagahöfundi. Fyrir þessa hljómplötu söng hann „Come Down in Time“ og á henni voru nokkur önnur lög eftir John og Taupin sem aðrir flytjendur sungu. Hún var gefin út 22. október 1991 af Polydor. Sama ár var tekið upp upptöku af "Pétri og úlfinum" eftir Prokofiev sem Sting sagði frá. Claudio Abbado og Evrópska kammerhljómsveitin spiliðu hana. Árið 1993 gaf hann út "Ten Summoner's Tales" sem varð 3× platínuplata innan árs. Sama ár var hljómplatan tilkynnd til Mercury-verðlaun og aftur til Grammy-verðlauna fyrir hljómplötu ársins 1994. Titill hljómplötunnuar er orðaleikur um eftirnafn hans „Sumner“ og The Summoner's Tale, ein "Kantaraborgarsaganna". Smáskífan „Fields of Gold“ var alveg vinsæl í útvarpi. Páskahellir. Grýlukerti í Páskahelli um páska 2010. Páskahellir er hellisskúti á Austfjörðum í Fólkvangi Neskaupstaðar, utarlega við Norðfjörð. Skútinn hefur myndast við sjávarrof og er manngengt niður í hann. Á hverjum páskadagsmorgni eru farnar gönguferðir út í Fólkvanginn og að hellinum á vegum Ferðafélags fjarðarmanna. Merkt gönguleið er frá bílaplani yst í Neskaupstað út með ströndinni ofan við sjávarbjörg að hellinum. Þar er stigi niður í grýtta fjöruna. Þaðan má komast í hellinn sjálfan. Þetta er víður skúti sem brimið hefur sorfið inn í björgin. Þau eru gerð úr blágrýtishraunlögum og í þeim má sjá sívalar holur, sem eru eftir trjástofna sem grafist hafa undir hraunin þegar þau runnu þarna fyrir um 12 milljónum ára. Þá hefur stórvaxinn skógur verið á svæðinu. Við hellinn er einnig hægt að skoða fallega bergganga. Á vetrum eru þar oft fagrar ísmyndanir, voldug grýlukerti og svellbunkar. Mikið fuglalíf er við ströndina, fýll, mávar, æðarfugl, svartfuglar, ýmsir spörfuglar og í hellinum sjálfum eiga bjargdúfur sér athvarf. Þeir sem ganga í hellinn þurfa að gæta sín á bjargbrúninni og niðri í fjörunni þarf að hafa gát á sjávaröldunni.Þegar hásjávað er getur brimið auðveldlega náð inn í hellinn. Á vetrum þarf að gæta sín á ís sem getur hrunið úr hellislofti og veggjum. Fólkvangur Neskaupstaðar liggur austan megin í Norðfjarðarnípu, frá fjallsegg að sjó. Norðfjarðarnípa eða Nípa öðru nafni er ysti hluti fjallgarðsins milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar. Útskýringar á nafninu. Nafn hellisins er rakið til sagna um bónda nokkurn á Bakka. Einn páskadagsmorguninn náði hann hami selameyjar sem hann síðan giftist og eignaðist með henni sjö börn. Selameyjan náði síðar ham sínum aftur og hvarf í sæ til barna sinna sjö sem hún hafði eignast áður en hún giftist bóndanum. Einnig er sagt að nafnið kunni að vera til komið vegna þess að á páskadagsmorgun megi frá hellinum sjá sólina dansa á öldunum þegar hún rís úr hafi fyrir mynni Norðfjarðarflóans. Abbie Cornish. Abbie Cornish (fædd 7. ágúst 1982) er áströlsk leikkona. Stofnstærð. Stofnstærð er fjöldi einstaklinga í stofni lífvera. Alsírska karlalandsliðið í handknattleik. Alsírska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Alsír í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Alsír. Brasilíska karlalandsliðið í handknattleik. Brasilíska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Brasilíu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Brasilíu. IFK Göteborg. IFK Göteborg er knattspyrnulið staðsett í Gautaborg í Svíþjóð. Liðið var stofnað 4. október 1904 og leikur í efstu deild í Svíþjóð, Allsvenskan þar sem það endaði síðasta tímabil í 7. sæti. Félagið hefur tvisvar sinnum unnið UEFA bikarinn. Og 17 sinnum oriðið Sænskir meistarar Æðaskurðlækningar. Æðaskurðlækningar eru lækningar sem fela í sér að sjúklingur er skorinn til að komast fyrir hina ýmsu æðasjúkdóma. Áður fyrr fóru æðaskurðlæknngar fram með opnum skurðaðgerðum en núna eru skurðlækningarnar að færast yfir á innæða aðgerðir ("endoluminal") sem eru gerðar með gegnumlýsingu. Fjöldi innæða aðgerða hefur aukist svo mjög á undanförnum árum að sú spurning hefur vaknað hvort að þær séu í þann mund að leysa hefðbundnar æðaskurðlækningar af hólmi. Sjúklingar með sykursýki og tóbakstengda sjúkdóma þurfa oft á lækningum á sviði æðaskurðlækninga að halda. Æðaskurðlækningar eru framkvæmdar af sérhæfðum æðaskurðlækningum og/eða af sérmenntuðum röntgenlæknum. Túniska karlalandsliðið í handknattleik. Túnisíska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Túnis í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Túnis. Bob Marley. Bob Marley (6. febrúar 1945 – 11. maí 1981) var jamaískur söngvari og tónlistarmaður. Hann samdi mörg vinsæl lög þar á meðal „No Woman No Cry“, „I Shot The Sheriff“, „One Love“ og „Jamming“. Einkalíf. Faðir hans, Norval Sainclare Marley var ættaður frá Bretlandi en móðir hans, Cedella Brooker var af afrískum uppruna. Faðir hans var sextugur þegar að hann giftist móður hans en hún var aðeins 18 ára. Eiginkona hans var Rita Marley og hann var ellefu barna faðir (talið er að hann sé líffræðilegur faðir tveggja barna til viðbótar en það hefur ekki verið sannað). Árið 1976 var hann skotinn á heimili sínu við Hope Road í Kingston á Jamaíka en hann jafnaði sig eftir það. Marley var þekktur fyrir Rastafa trúarskoðanir sínar. Rastafa er trúfélag sem var stofnað í kringum 1930 á Jamaíka. Meðlimir í Rastafarar hreyfingunni tilbiðja Haile Selassie I, fyrrum Eþíópíukeisara en hann var af þeim talin vera Kristur endurfæddur. Andlát. Í júlí 1977 greindist hann með krabbamein undir tánögl. Öfugt við sögusagnir þá voru þessi veikindi ekki vegna sárs sem hann hlaut í fótboltaleik fyrr á árinu heldur hafði krabbameinið verið til staðar mun lengur. Gegn vilja lækna neitaði hann að láta fjarlægja tána, berandi við trúarskoðun sinni. Hann hélt þó áfram tónleikaferðalagi sínu en varð að hætt sökum veikinda. A flugi heim til Jamaíka frá Þýskalandi versnaði ástand hanns mjög. Eftir lendingu í Flórída var hann fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Hann dó á Cedars of Lebanon Hospital (núna University of Miami Hospital), að morgni 11. maí 1981, 36 ára að aldri. Dánarorsök voru þau að krabbameinið hafði bæði borist í heila og lungu. Síðustu orð hans á banabeðinu voru til sonar hanns, Ziggy, „Peningar geta ekki keypt líf“ (e."Money can't buy life") Hann var grafinn á kostnað ríkisins, enda litið á hann sem þjóðarhetju á Jamaíka, þann 21. maí 1981. Jarðarförinn var blanda af Eþíópískum kirkju siðum og siðum Rastafara. Hann var grafinn í kapellu nærri fæðingarstað sínum með rauðann Gibson Les Paul (sumir segja þó að það hafi verið Fender Stratocaster). Rúmenska karlalandsliðið í handknattleik. Rúmenska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Rúmeníu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Rúmeníu. Slóvakíska karlalandsliðið í handknattleik. Slóvakíska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Slóvakíu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Slóvakíu. Suðurkóreska karlalandsliðið í handknattleik. Suðurkóreska karlalandsliðið í handknattleik er landslið Suður-Kóreu í handknattleik og er undir stjórn Handknattleikssambands Suður-Kóreu. Naðurvaldi. Naðurvaldi (gríska: Ὀφιοῦχος "Ofíúkos"; latína: "Serpentarius" eða "Anguitenens") er stjörnumerki á miðbaug himins. Það er oft myndgert sem maður sem heldur á slöngunni í stjörnumerkinu Höggorminum. Samkvæmt grískri goðsögn frá tíma Rómaveldis táknar stjörnumerkið gríska lækninn Asklepíos. Naðurvaldi er á sólbaug og sólina ber við hann frá 30. nóvember til 17. desember. Hann er þó ekki talinn með í dýrahring stjörnuspekinnar þótt ýmsir hafi stungið upp á því að gera hann að þrettánda stjörnumerki dýrahringsins. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er háskólastofnun sem tengist læknadeild en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Starfsemin er mjög fjölþætt og aðferðum margra fræðigreina er beitt í grunn- og þjónusturannsóknum, þ.e líffærameinafræði, örverufræði, ónæmisfræði, sníkjudýrafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði. Saga og hlutverk. Tilraunastöðin að Keldum, tók til starfa haustið 1948. Hún heyrir undir mennta- og menningar­mála­ráðuneytið. Fyrsti forstöðumaður tilraunastöðvarinnar var Björn Sigurðsson, læknir. Rockefellersjóðurinn lagði fram styrk til uppbyggingar Tilraunastöðvarinnar að Keldum, en henni var ætlað að bregðast við sauðfjárpestum sem borist höfðu til landsins með innflutningi sauðfjár af svonefndu Karakúlkyni árið 1933. Miðað er við að starfsemin hafi formlega verið hafin þann 15. nóvember 1948. Verkefni stöðvarinnar skyldu fyrst og fremst vera rannsóknir búfjársjúkdóma. Í stjórn Keldna sitja fulltrúar læknadeildar, raunvísindadeildar, landbúnaðarráðuneytis og starfsmanna. Að Keldum starfa að jafnaði 60 manns. Keldur eiga í miklu rannsóknasamstarfi við innlenda og erlenda aðila. Rannsóknaverkefni eru fjármögnuð með innlendum og erlendum styrkjum. Forstöðumaður Keldna er Sigurður Ingvarsson (f. 1956). Fyrrverandi forstöðumenn Keldna eru Björn Sigurðsson (f. 1913, d. 1959), Páll Agnar Pálsson (f. 1919, d. 2003), Guðmundur Georgsson, (f. 1932, d. 2010), Guðmundur Pétursson (f. 1933). Istedljónið. Istedljónið er stór myndastytta eftir danska myndhöggvarannn Herman Wilhelm Bissen. Istedljónið stendur fyrir framan Týhúsið í Kaupmannahöfn ("Tøjhuset") sem áður fyrr var vopnabúr konungs og er staðsett í Søren Kierkegaards Plads. Þar er núna safn (Týhússafnið). Isedljónið stóð upphaflega í kirkjugarðinum í Flensborg, sem þá tilheyrði Danmörku. Styttan var sett þar upp á stöpull árið 1862 til minningar um þá Dani sem féllu í dansk-þýzka stríðinu 1848 – 1850 og aðallega um þá sem féllu í bardaganum við Isted (d. "Slaget på Isted Hede"). Við þann bardaga er ljónið einnig kennt. Árið 1864, þegar Þjóðverjar tóku Flensborg, fluttu þeir ljónið til Berlínar og settu það upp í herskólanum í Gross-Liehter-felde. Danir fengu þó ljónið heim aftur til Danmerkur eftir síðari heimsstyrjöldina. Það var árið 1945 og var gjöf frá Bandaríkjaher. Björn Sigurðsson (f. 1913). Björn Sigurðsson (1913 – 1959) læknir var fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Björn lést um aldur fram og hafði þá aðeins verið rúman áratug í starfi forstöðumanns að Keldum. Á stuttri ævi náði hann ótrúlegum árangri í rannsóknum á sviði meinafræði, bakteríufræði, veirufræði, ónæmisfræði og faraldsfræði. Björn varð heimsþekkur vísindamaður fyrir rannsóknir sínar á hæggengum smitsjúkdómum af völdum veira. Þær nefnast Lentiveirur en nafn þessa veiruhóps var gefið í virðingaskyni við hugmyndir Björns. Joseph Thorson. Joseph Thorarinn Thorson (eða Joseph T. Thorson) (15. mars 1889 – 6. júlí 1978) var vestur-íslenskur lögfræðingur, dómari og ráðherra í stjórn William Lyon Mackenzie Kings á árum seinni heimsstyrjaldar. Hann er sá Vestur-Íslendinga sem náð hefur einna lengst innan kanadíska stjórnkerfisins. Joseph var á efri árum heiðraður með íslensku fálkaorðunni. Bróðir hans var Charles Thorson, teiknimyndahöfundur. Foreldrar Joseph, Stefán Þórðarson (Stephen Thorson) Jónssonar frá Bryggju í Biskupstungum, og Sigríður Þórarinsdóttir frá Ásakoti í Biskupstungum, fluttu til Kanada árið 1887 og þar fæddist hann tveimur árum síðar. Joseph var lögfræðingur að mennt og útskrifaður úr háskólum í Englandi, Kanada og á Íslandi. Hann barðist eftir nám í fyrri heimsstyrjöldinni. Joseph var fyrst kosinn á þing í Kanada fyrir frjálslynda árið 1930 og var síðar ráðherra á seinni heimsstyrjaldarárunum og var skipaður dómsforseti við ríkisdómstól Kanada 1943 og gegndi því starfi til 1960 er hann hætti vegna aldurs. Joseph var sagður dugmikill baráttumaður fyrir þeim málum sem honum þóttu máli skipta, barðist til dæmis á árinu 1972 hatrammlega gegn nýjum tungumálalögum í Kanada. En að þeim lögum stóð sonur hans Donald Thorson, sem var aðstoðardómsmálaráðherra. Skömmu áður en Joseph Thorson lést, höfðu honum verið fluttar fréttir af því að Donald sonur hans hefði verið skipaður í Áfrýjunardómstól Ontarios-fylkis. Joseph lést í sjúkrahúsi í Ottawa, 89 ára gamall. Hafði hann hryggbrotnað í apríl þegar bíll hans rann til og lenti á vegg austurríska sendiráðsins beint á móti heimili hans í Rockcliffe. Í kanadískum dagblöðum stóð að hann, Joseph Thorson, sem 16 árum fyrr hafði sloppið lifandi úr skothríð árásarmanna í Brasilíu, hafi gengið heim til sín áður en hann féll saman. Ichiro Suzuki. Ichiro Suzuki (铃木 一 朗, すずき いちろう) er japanskur hafnaboltaleikmaður sem lék fyrir Seattle Mariners. Hann er sá japanski leikmaður sem hefur náð mestum árangri í Major League Baseball í Bandaríkjunum. Hann er þekktur í Bandaríkjunum sem samuræinn hljóði („the silent samurai“). Hidetoshi Nakata. Hidetoshi Nakata (á japönsku: 中 田 英 寿) (fæddur 22. janúar 1977 í Kofu á Japan) er japanskur fyrrverandi knattspyrnumaður sem spilaði sem miðjumaður við fjölda evrópskra klúbba og Bell Mare Hiratsuka í heimalandi sínu. Sýningar hans hafa aflað honum sess sem einum af bestu japansku leikmönnunum. Nakata var árið 2004 eini japanski leikmaðurinn sem valinn var í FIFA 100 í yfirferð yfir 125 bestu knattspyrnumenn sögunnar. Hann var einnig valinn leikmaður ársins í Asíu bæði 1997 og 1998. Nakata vann 2001 Serie A með AS Roma og árið eftir Coppa Italia með Parma FC. Nakata, Hidetoshi Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2009. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2009 var haldið í Króatíu. Frakkland fór með sigur af hólmi á meðan Króatía lenti í öðru sæti og Pólland hafnaði í því þriðja. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2007. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2007 var haldið í Þýskalandi. Þýskaland fór með sigur af hólmi á meðan Pólland lenti í öðru sæti og Danmörk hafnaði í því þriðja. Flugvallarhótelið í Reykjavík. Flugvallarhótelið í Reykjavík (áður Hótel Ritz, Hótel Winston og Transit Camp) var hótel í Nauthólsvík þar sem nú eru kænudeild Siglingafélags Reykjavíkur, Brokeyjar og geymsla á vegum Svifflugfélags Reykjavíkur. Hótelrekstur var í húsnæðinu í einn áratug, frá því það var reist 1942 til 1951 en frá 1971 hefur Siglingafélag Reykjavíkur haft þar aðstöðu. Hótelið var með aðstöðu fyrir sjósund frá 1949 til 1951 og frá 2004 hefur sjósundfólk notað sturtuaðstöðu í húsnæðinu. Saga hótelsins. Hótelið var reist af breska hernum í tengslum við Reykjavíkurflugvöll og er nokkrir braggar og skemmur sambyggðar. Formlegt heiti þess var einfaldlega "Transit Camp". Sagt er að Winston Churchill hafi heimsótt hótelið þegar hann kom í dagsferð til Reykjavíkur árið 1941 og var það því nefnt Hotel Winston í höfuðið á honum en þetta er líklega flökkusaga enda húsnæðið sem þar er nú byggt ári síðar. Þetta nafn var hins vegar notað þegar flugvallarstjórnin tók við rekstri hótelsins 1946. Hótelið var um stutt skeið leigt til einkaaðila undir hótelrekstur og var þá meðal annars kallað Hótel Ritz. Þetta var eina hótelið við Reykjavíkurflugvöll á 5. áratugnum og var mikið sótt af farþegum í innanlandsferðum auk þess sem það rak matstofu fyrir starfsfólk flugvallarins um tíma. Reksturinn gekk þó erfiðlega enda millilandaflugið komið til Keflavíkurflugvallar þar sem nýtt flugvallarhótel, Hótel Keflavík, tók til starfa 1949. Ferðaskrifstofa ríkisins tók við rekstri hótelsins 1948 sem eftir það var kallað Flugvallarhótelið. Undir lok 5. áratugarins var vinsælt að halda þar dansleiki og aðra mannfagnaði. Eftir að Ferðaskrifstofan tók við rekstri hótelsins var það líka notað sem gististaður fyrir íslenska ríkið þegar með þurfti. Þannig gistu þar til dæmis skipbrotsmenn af þremur skipum 1949 og 1950 og eins landbúnaðarverkafólk frá Þýskalandi sem kom til að vinna á íslenskum bæjum. Eftir að frárennsli frá hótelinu var bætt 1949 varð vinsælt að stunda sjósund í Nauthólsvík. Þá var sett upp búningsklefa- og sturtuaðstaða í hótelinu fyrir sjóbaðsfólkið. Reksturinn var Ferðaskrifstofunni erfiður enda var hún hálfneydd til að taka hann að sér. Árið 1951 baðst hún undan rekstri hótelsins sem hætti skömmu síðar. 1962 var siglingaklúbburinn Siglunes stofnaður af Æskulýðsráði Kópavogs og Æskulýðsráði Reykjavíkur og fékk aðstöðu í einum bragganum. 1967 var reist sérstök 250fm skemma yfir klúbbinn og steyptur rampur til sjósetningar á bátum. Árið 1968 var sjóbaðstaðnum lokað vegna mengunar og sjóböð lögðust af. Siglingafélag Reykjavíkur. Þegar fyrstu siglingafélögin voru stofnuð 1971 í Kópavogi og Reykjavík, fékk annað þeirra, Siglingafélag Reykjavíkur, aðstöðu í hluta gamla hótelsins. Þar sem ströndin var nú lítið notuð gat félagið komið sér upp rennu með spili til að draga litla báta þar á land og upp kambinn að skemmunni þar sem þeir voru geymdir. Frá 1984 til 1993 voru seglbrettaskóli og seglbrettaleiga rekin þar á vegum siglingafélagsins og fleiri aðila. Árið 1997 kom Siglingafélagið upp búningsklefa- og sturtuaðstöðu fyrir keppni í siglingum á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru á Íslandi það ár. Þegar framkvæmdir hófust við Ylströndina í Nauthólsvík árið 1999 missti félagið aðgang að sjó við ströndina og hefur eftir það sjósett við skemmu Sigluness. Í dag er Siglingafélagið með kænustarfsemi sína í húsnæðinu, sumarnámskeið fyrir börn og unglinga og æfingahópa sem keppa í kænusiglingum. Frá 2001 hefur Kayakklúbbur Reykjavíkur auk þess leigt hluta af skemmu Siglingafélagsins undir geymslu fyrir kajaka félagsmanna. Hugmyndir um stríðsminjasafn. Flugmálastjórn Íslands fór með stjórn húsanna, eins og annarra mannvirkja við Reykjavíkurflugvöll, til ársins 2010 en þá tók framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar við þeim. Oft hefur verið rætt um að gera þyrfti upp þær byggingar í Nauthólsvík sem eru frá Síðari heimsstyrjöld og varðveita þær með sómasamlegum hætti enda eru þetta meðal fárra slíkra bygginga sem eftir eru í borgarlandinu. Þannig stakk Helgi M. Sigurðsson, safnvörður í Árbæjarsafni upp á því 1995 að stofnað yrði stríðsminjasafn í einum bragganna í Nauthólsvík. Sama ár var Stríðsárasafn á Reyðarfirði opnað og miklar umræður spunnust um nauðsyn þess að koma upp slíku safni á suðvesturhorni landsins, meðal annars í Nauthólsvík og í Hvalfirði. Ekkert varð þó af þeim áætlunum. Beverly Hills Chihuahua 2. "Beverly Hills Chihuahua 2" er bandarísk kvikmynd frá árinu 2011 og er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Beverly Hills Chihuahua". Myndinni var aðeins dreift á mynddiski. Leikstjóri myndarinnar er Alex Zamm og með aðalhlutverk fara George Lopez, Odette Yustman og Zachary Gordon. Framleiðendur er Mike Callaghan, Sara E. White, David Hoberman, Brad Krevoy og Todd Lieberman. Handritshöfundar er Dannah Feinglass, Danielle Schneider og Jeffrey Bushell. Hlemmavídeó. Hlemmavídeó eru þættir í leikstjórn Styrmis Sigurðssonar sem fjallar um Sigga Hlemm sem Pétur Jóhann Sigfússon leikur. Siggi Hlemm er fráskilinn og rekur gamla vídeóleigu sem hann erfði eftir föður sinn Hermann sem Örn Árnason leikur. Aladdín. "Aladdín" (enska: "Aladdin") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1992. Myndin er byggð á sögu úr þúsund og einni nótt. Fantasía (teiknimynd). "Fantasía" (enska: "Fantasia") er bandarísk teiknimynd frá árinu 1940. Myndin var framleidd af Walt Disney Productions og frumsýnd þann 13. nóvember 1940. Kvikmyndin var þriðja kvikmynd Disney-teiknimyndaversins í fullri lengd. Hún er 125 mínútur að lengd og er lengsta teiknimynd úr Walt Disney Animated Classics seríunni. Myndin skiptist í átta kafla og í hverjum þeirra er leikið þekkt klassísk tónverk undir stjórn Leopold Stokowski. Sjö þeirra eru flutt af Philadelphia Orchestra. Framleiðandinn var Walt Disney. Handritshöfundar voru Joe Grant og Dick Huemer. Árið 1999 var gerð framhaldsmynd, "Fantasía 2000". Háðsádeilur. Árið 1943 gerðu Warner Bros. stuttmynd, "A Corny Concerto", sem var ádeila á "Fantasíu". Árið 1976 gerði ítalski teiknimyndahöfundurinn Bruno Bozzetto teiknimynd í fullri lengd, "Allegro non troppo", sem einnig vísaði beint í "Fantasíu". Lísa í Undralandi (kvikmynd 1951). "Lísa í Undralandi" (enska: "Alice in Wonderland") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1951. Öskubuska (kvikmynd 1950). "Öskubuska" (enska: "Cinderella") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1950. Pétur Pan (kvikmynd 1953). "Pétur Pan" (enska: "Peter Pan") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1953. Þyrnirós (kvikmynd 1959). "Þyrnirós" (enska: "Sleeping Beauty") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1959. Hrói Höttur. "Hrói Höttur" (enska: "Robin Hood") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1973. Ævintýri Bangsímons. "Ævintýri Bangsímons" (enska: "The Many Adventures of Winnie the Pooh") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1977. Svarti ketillinn. "Svarti ketillinn" (enska: "The Black Cauldron") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1985. Leynilöggumúsin Basil. "Leynilöggumúsin Basil" (enska: "The Great Mouse Detective") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1986. Aðalpersónur myndarinnar eru allar mýs og rottur sem búa í London á viktoríutímabilinu. Pócahontas. "Pócahontas" (enska: "Pocahontas") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1995. Herkúles (kvikmynd). "Herkúles" (enska: "Hercules") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1997. Gullplánetan. "Gullplánetan" (enska: "Treasure Planet") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2002. Gauragangur í sveitinni. "Gauragangur í Sveitinni" (enska: "Home on the Range") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2004. Leitin að Nemo. "Leitin að Nemo" (enska: "Finding Nemo") er bandarísk teiknimynd frá árinu 2003 framleidd af Pixar Animation Studios. Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum þann 30. maí 2003 og var fimmta kvikmynd Disney-Pixar í fullri lengd. Aðalpersónur eru Nemo, Marlin, og Dory. Leikstjóri myndarinnar er Andrew Stanton og með aðalhlutverk fara Albert Brooks, Ellen DeGeneres og Alexander Gould. Framleiðandinn voru Graham Walters, John Lasseter og Jinko Gotoh. Handritshöfundar voru Andrew Stanton, Bob Peterson, og David Reynolds. Tónlistin í myndinni er eftir Thomas Newman. Herakles. Herakles var hetja í grískri goðafræði. Hann var sonur Seifs og Alkmenu. Leikfangasaga 2. "Leikfangasaga 2" (enska: "Toy Story 2") er bandarísk teiknimynd frá árinu 1999, þriðja kvikmynd Disney–Pixar og framhaldsmynd kvikmyndarinnar Toy Story. Volapük. Volapuk (framburður: [volaˈpyk]) er alþjóðamál sem var búið til á árunum 1879-1881. Höfundur þess, Johan Martin Schleyer, var rómversk-kaþólskur prestur í heimaborg sinni Baden í Þýskalandi. Sucker Punch (kvikmynd). "Sucker Punch" er væntanleg bandarísk kvikmynd, skrifuð af Steve Shibuya og leikstýrð af Zack Snyder. Myndin fjallar um unga stúlku um miðbik síðustu aldar sem freistir þess að flýja geðspítala þar sem til stendur að hún gangist undir geiraskurð. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2005. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2005 var haldið í Túnis. Spánn fór með sigur af hólmi á meðan Króatía lenti í öðru sæti og Frakkland hafnaði í því þriðja. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2003. Heimsmeistaramót karla í handknattleik 2003 var haldið í Portúgal. Króatía fór með sigur af hólmi á meðan Þýskaland lenti í öðru sæti og Frakkland hafnaði í því þriðja. Léttlestakerfi Björgvinjar. Léttlestakerfi Björgvinjar (norska: "Bybanen") er léttlestakerfi í Björgvin, Noregi. Kerfið var fyrst tekið í notkun þann 22. júní 2010 að viðstaddri Sonju Noregsdrottningu. Hið heilaga gral. Hið heilaga gral – (í fornu máli graull eða gangandi greiði) – er í kristnum helgisögum dykkjarker eða kaleikur, sem Jesús Kristur drakk af í síðustu kvöldmáltíðinni. Leitin að gralinu er endurtekið minni í sögunum um Artúr konung og öðrum miðaldaævintýrum. Orðsifjar. Nokkur óvissa er um ritun orðsins í íslensku. Það getur verið í hvorugkyni: "Gralið", um gralið, frá gralinu, til gralsins. (Beygist eins og "val", sjá t.d. "Íslenska bókmenntasögu" 2, 1993, 198). Aðrir nota orðið í karlkyni: "Gralinn" (eða "grallinn"), um gralinn, frá gralnum, til gralsins. Samkvæmt íslensku beygingakerfi ætti nefnifallið að vera "grall" (eða "gralur"), ef orðið er karlkyns. Orðið "gral" er úr latínu: "gradalis", sem var skál með smáhólfum, sem var notuð þegar margir smáréttir voru bornir fram. Síðar var orðið fyrst og fremst notað um kaleikinn sem Kristur drakk af við síðustu kvöldmáltíðina. Helgisagnir. Í fornum helgisögum segir að Jósef frá Arimateu lét blóð Krists drjúpa í gralið, þegar hann hékk á krossinum, og fékk gralið þá undraverða eiginleika. Jósef tók síðan gralið með sér til Bretlands, þar sem hann stofnaði reglu gæslumanna gralsins. Leitin að gralinu er endurtekið minni í sögunum um Arthúr konung og öðrum miðaldaævintýrum, en heilagt hlutverk konungsins var að finna þennan kaleik. Þessar helgisagnir urðu mikilvægar á Bretlandseyjum, ef til vill af því að þær hafa blandast þar keltneskum sögnum um helga katla sem höfðu töframátt. Í öðrum helgisögnum var gralið komið frá drottningunni af Saba sem gaf það Salómon konungi. Síðan komst Nikódemus yfir það og færði Kristi það að gjöf. Í dómkirkjunni í Valencia á Spáni er mjög gamall kaleikur sem sumir telja vera gralið. Annar kaleikur, í Genova á Ítalíu, var fyrrum talinn vera gralið, en eftir að hann skemmdist við flutning frá París eftir fall Napóleons, kom í ljós að gimsteinn á honum var úr gleri. Hefur hann síðan sjaldan verið nefndur sem mögulegur kaleikur Krists. Sögurnar um Gralið virðast upprunnar í Frakklandi á árabilinu 1180–1250, og voru síðan þýddar á mörg tungumál. Í þessum frönsku sögnum koma fram flestir þeir þættir sem einkenna helgisagnirnar upp frá því. Chrétien de Troyes. Elsta gral-rómansan er hin ófullgerða "Perceval eða Sagan um gralinn" eftir Chrétien frá Troyes. Hann segist nota sem heimild bók, sem Filippus af Flandri gaf honum. Kvæðið var samið milli 1180 og 1191. Gralið hefur þar ekki neinn töframátt, að því er virðist. Riddarinn Perceval sér gralið og spjót með oddi sem blæðir úr, þegar hann snæðir í kastala Fiskikonungsins. Í kvæði Chrétiens virðist gralið vera skál sem er borin inn til föður Fiskikonungsins, sem fær þar alla sína næringu. Nokkrum áratugum eftir að kvæði Chrétiens var samið, var farið að lýsa gralinu sem bikar eða kaleik, fyrir áhrif frá keltneskum sögnum og Nikodemusarguðspjallinu frá 5. öld. Í Parcevals sögu, sem er þýðing frá 13. öld, segir: „Því næst gekk inn ein fögur mær og bar í höndum sér því líkast sem textus [vefnaður?] væri en þeir í völsku [frönsku] máli kalla graull, en vér megum kalla gangandi greiða. Af því skein svo mikið ljós að þegar hvarf birta allra þeirra loga er í voru höllinni sem stjörnubirta fyrir sólarljósi. Það var gert með miklum hagleik af gulli og öllum dýrstum steinum er í voru veröldinni.“ Wolfram frá Eschenbach. Elsta heila frásögnin um gralið, er kvæðið "Parsifal", sem Wolfram frá Eschenbach samdi á miðháþýsku milli 1200 og 1210. Talið er að frásögn hans sé að mestu byggð á kvæði Chrétiens frá Troyes, en Wolfram segist einnig styðjast við Kyot frá Provence, sem er óþekkt skáld. Í kvæði Wolframs er gralið steinn með dularfulla eiginleika, sem getur töfrað fram mat og drykk eins og hver vill og veitt mönnum eilífa æsku. Leit á Kili árið 2008. Sumarið 2008 fékk hópur fræðimanna og áhugafólks, undir stjórn Ítalans Giancarlo Gianazza, leyfi til að leita að helgum gripum og skjölum úr frumkristni við Skipholtskrók á Kili. Töldu þeir sig hafa ráðið af táknmáli, m.a. á málverki Leonardos da Vinci af Síðustu kvöldmáltíðinni, að Musterisriddarar hefðu falið þessa gripi þar í leynihvelfingu, m.a. hinn heilaga kaleik Krists. Það þótti styðja málið að árið 1990 fannst forn hnífur í Skipholtskrók, sem þeir töldu að gæti hafa tilheyrt varðmanni sem gætti leynihvelfingarinnar. Ekkert fannst við leitina. Þórir Ólafsson. Þórir Ólafsson (fæddur 28. nóvember 1979) er íslenskur handknattleiksmaður. Þórir lék með íslenska landsliðinu þegar það keppti á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011. Kári Kristján Kristjánsson. Kári Kristján Kristjánsson (fæddur 23. apríl 1981) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með þýska liðinu Wetzlar. Kári Kristján lék með íslenska landsliðinu þegar það keppti á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011. Sigurbergur Sveinsson. Sigurbergur Sveinsson (fæddur 12. ágúst 1987) er íslenskur handknattleiksmaður. Sigurbergur lék með íslenska landsliðinu þegar það keppti á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011. Børge Lund. Børge Lund (fæddur 13. mars 1979 i Bodø) er norskur handboltamaður sem hefur spilað í Þýskalandi frá árinu 2006, fyrst með HSG Nordhorn, þá THW Kiel og núna Rhein Neckar Löwen. Hann spilaði áður með Bodö HK og AaB Håndbold í Álaborg í Danmörku. Børge hefur skorað 315 mörk í 166 leikjum fyrir landsliðið. Hann spilaði fyrsta landsleikinn á móti Portúgal árið 2000 Lund er menntaður í tölvufræðum Leikfangasaga 3. "Leikfangasaga 3" (Enska: "Toy Story 3") er bandarísk teiknimynd frá árinu 2010. Arlington Road. "Arlington Road" er bandarísk sakamálamynd frá árinu 1999. Jeff Bridges, Tim Robbins, Joan Cusack og Hope Davis fara með aðalhlutverk í myndinni sem að er leikstýrð af Mark Pellington. Handritshöfundur er Ehren Kruger sem að skrifaði það árið 1996 og senti það inn í árlegu handritakeppni Bandarísku kvikmyndaakademíunnar og hlaut fyrstu verðlaun. Myndin fjallar um kennara við George Washington-háskóla sem að hefur nýlega misst konuna sína. Eftir að nýir nágrannar flytja inn á götuna hans fer hann að gruna að þeir séu hryðjuverkamenn og verður fljótt heltekinn því. Söguþráður. Michael Faraday, söguprófessor, býr ásamt tíu ára syni sínum, Grant, í úthverfi höfuðborgarinnar Washington. Tvö ár eru liðin frá því eiginkona Faraday var drepin en hún vann fyrir FBI og leitar þessi atburður mikið á prófessorinn. Af tilviljun vingast hann við nágranna sína sem nýfluttir eru í hverfið, Oliver og Chery Lang. Faraday tekur þessum vinskap með opnum huga enda búinn að einangra sig í langan tíma. Það renna þó fljótt á hann tvær grímur þegar hann kemst að því að ekki er allt satt sem þau segja um líf sitt. Óróleiki Faradays verður að sterkum grun um að Lang-hjónin séu alls ekki það sem þau líta út fyrir að vera, þau hafi eitthvað á prjónunum sem ekki þoli dagsins ljós. Pressa. "Pressa" er íslensk sakamála-sjónvarpsþáttaröð eftir Sigurjón Kjartansson og Óskar Jónasson. Höfundar þáttanna, þeir Óskar Jónasson og Sigurjón Kjartansson, byggja hugmyndina á því uppþoti sem átti sér stað í kringum DV á árunum 2004-2006 og tvinna inn í atburðarrásina sakamáli sem á sér ýmsar hliðstæður í íslenskum raunveruleika. Fyrsta þáttaröð. Þættirnir segja frá Láru (Sara Dögg Ásgeirsdóttir), einstæðri móður, sem ræður sig til reynslu á æsifréttablaðinu Póstinn. Hún rannsakar dularfullt hvarf verkfræðings og fljótlega fer málið að taka óvænta stefnu. Fyrsta sería var framleidd af Saga Film fyrir Stöð 2 og voru þættirnir sýndir vorið 2008. Önnur þáttaröð. Pressa II tekur upp þráðinn 3 árum eftir að fyrstu seríunni lýkur. Lára snýr aftur til vinnu á Póstinum eftir barneignarfrí og það líður ekki á löngu áður en hún er flækt í dularfullt morðmál sem tengist einum ríkasta manni Íslands og fyrrverandi útrásarvíkingi. Lára vinnur fyrir manninn og á meðan hún reynir að hreinsa nafn kemst hún að ýmsu misjöfnu. Eftir að málinu lýkur snýr hún sér að því að afhjúpa erlend glæpasamtök mótórhjólamanna. Sú rannsókn dregur dilk á eftir sér og fjölskylda Láru lendir í bráðri hættu. Bjarne Henriksen úr 'Forbrydelsen' leikur í þremur síðustu þáttunum sem harðskeyttur meðlimur gengisins. Óskar Jónasson leikstýrir og handrit er eftir Sigurjón Kjartansson og Jóhann Ævar Grímsson. Önnur þáttaröð Pressu sló áhorfsmet þegar hún var sýnd á Stöð 2 sem vinsælasta íslenska dramasería sem stöðin hefur hingað til sýnt og hún vann Edduverðlaun sem besta leikna sjónvarpsserían. Þættirnir komu síðan út á DVD mynddisk í desember. Þriðja þáttaröð. Þriðja þáttaröðin um blaðakonuna Láru, fjölskyldu hennar og samstarfsmenn var frumsýnd á Stöð 2 í október 2012.. Harðsvírað glæpagengi reynir að ná yfirráðum í undirheimum Reykjavíkur og baráttan einkennist af kynþáttahatri og ofbeldi. Togstreitan milli blaðamannastarfsins og foreldrahlutverksins er alsráðandi hjá Láru og ekki bætir úr skák þegar Alda, dóttir hennar, tekur upp náin kynni við einn úr glæpagenginu. Um leikstjórn sér Óskar Jónasson og handrit þáttanna er eftir Margréti Örnólfsdóttir og Jóhann Ævar Grímsson. Dýrahringurinn. Dýrahringurinn er ímynduð skipting himinhvolfsins innan stjörnuspekinnar. Almennt er miðað við 12 stjörnumerki, þannig að hver hluti hvelfingarinnar spannar 30°. Sumir vilja kalla Naðurvalda 13. stjörnumerki Dýrahringsins. Skeggþerna. Skeggþerna (fræðiheiti: "Chlidonias hybridus") er sjófugl af þernuætt. Skeggþerna er lík kríu. Hún verpir í Evrópu en vestur-evrópskar skeggþernur eru farfuglar og flestar fara til Vestur-Afríku yfir veturinn og dvelja rétt norðan miðbaugs. Skeggþerna hefur sést á Íslandi en ólíklegt er talið að hún muni verpa hérna en talið er að meðalhiti í júlí þurfi að vera um 20°C eða meiri til þess varp geti tekist. Draugaslóð. "Draugaslóð" er íslensk barna og unglingabók eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttir frá árinu 2007. Bókaútgáfan Mál og Menning gaf bókina út á Íslandi. Bókin fjallar um ungan strák, Eyvind, sem að býr með ömmu sinni ásamt tveimur köttum í gömlum bústað við Elliðavatn þar sem að lífið gengur vanalega sinn vanagang en nú liggur eitthvað í loftinu. Sami magnaði draumurinn sækir Eyvind aftur og aftur og örlogin leiða hann upp á öræfi þar sem hann fetar dularfulla draugaslóð á vettvangi Fjalla Eyvindar, Reynistaðarbræðra og margra aðra. Bókin var tilnefnd til margra verðlauna, þar á meðal til Norrænu og barna og unglingaverðlaun Vestnorræna ráðsins. Árið 2009 seldi Kristín Helga Gunnarsdóttir kvikmyndaréttinn á bókinni til kvikmyndaversins Zik Zak. Söguþráður. Eyvindur Þóruson og amma hans búa ásamt tveimur köttum í gömlum bústað við Elliðavatn. Þar hefur lífið gengið sinn vanagang þau þrettán ár sem Eyvindur hefur lifað en nú liggur eitthvað í loftinu. Sami magnaði draumurinn sækir aftur og aftur að Eyvindi, þar æða trylltir hestar um í þoku, jörðin opnast, hverir gjósa og kofar brotna í spón. Örlögin leiða Eyvind upp á öræfi þar sem hann fetar dularfull draugaslóð á vettvangi Fjalla-Eyvindar, Reynistaðarbræðra og síðast en ekki síst nýliðinna atburða sem hann sogast inn í án þess að fá nokkru um það ráðið. Stepmom. "Stepmom" er bandarísk fjölskyldumynd frá árinu 1998 sem að Chris Columbus leikstýrði og framleiddi. Julia Roberts, Susan Sarandon og Ed Harris fara með aðalhlutverk í myndinni. Myndin fjallar um ósamlynd hjón (Sarandon og Harris) sem að strita við að halda börnunum sínum glöðum eftir að þau skilja. Hlutirnir verða ekkert léttari eftir að Harris trúlofast á ný konu sem að börnin hans neita að hafa samskipti við. Kolþerna. Kolþerna (fræðiheiti "Chlidonias niger") er strandfugl af þernuætt. Fullorðnir fuglar eru 25 sm langir og vænghafið er 61 sm og þyngd 62 gr. Amiina. Amiina er íslensk hljómsveit. Hún var stofnuð í lok 90's og hét þá „Classical String Quartet Anima“, en síðar breyttist nafnið í Amiina, af því að þau voru ekki lengur klassískur strengjakvartett. Hljómsveitarfélagarnir spila á ýmiss hefðbundin hljóðfæri en einnig gler, sá og fleira. Serial Mom. "Serial Mom" (Íslenska: "Fjöldamóðir") er bandarísk kvikmynd frá árinu 1994 í leikstjórn John Waters. Aðalleikarar myndarinnar eru þau Kathleen Turner sem leikur eiginkonuna, Sam Waterston sem leikur eiginmann hennar og Rick Lake og Matthew Lillard leika son þeirra og dóttur. Myndin fjallar um hina fullkomnu amerísku fjölskyldu: hina ráðagóðu húsmóður og föðurinn sem er tannlæknir með góðan rekstur. Dóttur þeirra er í háskóla og á við strákavandamál að stríða og sonurinn er að klára menntaskólann og er snokinn fyrir hryllings- og spennumyndir. Við fyrstu sýn virðist allt vera gott og blessað. Móðirin gerir allt til að vernda fjölskyldu sína og til að tryggja hamingju hennar. Hún er þó ekki öll þar sem hún er séð. Kennari sonarins hverfur allt í einu eftir að hann hafði mælt með sálfræðimeðferð fyrir soninn, kærasti dótturinnar finnst látinn eftir að honum láðist að hringja í hana eins og hann lofaði. Einn af sjúklingum föðurins gleymdi að nota tannþráð og þarf að lokum að gjalda þeirra mistaka... Róbert Sighvatsson. Róbert Sighvatsson er íslenskur fyrrverandi handknattleiksmaður. Róbert var línumaður. Hann lék 160 leiki með íslenska landsliðinu og skoraði 243 mörk. 2002 - 2006 lék hann með þýska liðinu HSG Wetzlar. Oddur Grétarsson. Oddur Gretarsson (fæddur 20. júlí 1990) er íslenskur handknattleiksmaður. Oddur er uppalinn í Þór á Akureyri og spilar stöðu vinstri hornamanns fyrir Akureyri Handboltafélag í N1 deild karla. Oddur fór utan með íslenska landsliðinu þegar það keppti á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011 Oddur var 17. maðurinn og spilaði ekki fyrstu sjö leikina en var kallaður inní hópinn í áttunda leiknum sem var síðasti leikurinn í milliriðlinum vegna meiðsla Ingimundar. Germanska Heiðingjasambandið. Germanska heiðingjasambandið (einnig sam-germanska heiðingjasambandið) eða „Allgermanische Heidnische Front (AHF)“ var alþjóðleg hreyfing sem aðhylltist sérstæða heimspeki sem hún sótti í norræna Ásatrú og það sem hefur verið kallað „þjóðbundin heiðni“. Sambandið kallaði stefnu sína og heimsýn „Óðalshyggju“. Það hefur löngum loðað við sambandið sú trú að meðlimir þess séu „nýnasistar“ og „kynþáttahatarar“, en þessum fullyrðingum hefur verið harðlega andmælt af meðlimum sambandsins. Saga. Árið 1993 var stofnað hið Norska heiðingjasamband (Norsk Hedenske Front), en það þróaðist fljótlega yfir í Germanska heiðingjasambandið eftir því sem það óx of dafnaði og fleiri þjóðbundnir heiðnir „ættbálkar“ eða hópar víðsvegar úr Evrópu vildu taka þátt í sambandinu. Þjóðverjar stofnuðu þýska heiðingjaflokkinn innan sambandsins árið 1998 og hefur því verið haldið fram að alræmdi þýski nýnasistinn Hendrik Möbus hafi verið innvinklaður í hann. Árið 2001 höfðu verið stofnaðir flokkar eða „ættbálkar“ innan sambandsins í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Danmörku, Hollandi, Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi og Flæmingjalandi. Norska heðingjasambandið hefur sætt stöðugum ofsóknum í Noregi af hálfu antífa hópa og Monitor, sem hvað eftir annað hafa haldið því fram að sambandið sé nýnasistahópur og ég sé leiðtogi hans, og þar eftir götum. Norska heiðingjasambandið hefur mörgum sinnum sagt þeim að ég sé ekki leiðtogi sambandsins, en þeir héldu bara áfram að fullyrða að svo væri. Meira að segja leynilögreglan hélt því fram að ég væri leiðtogi sambandsins og yfirheyrðu einn meðlim þess... hann tilkynnti þeim að ég væri ekki leiðtogi sambandsins, en þeir neituðu að hlusta á það og treystu bara á sína heimildarmenn. Germanska heiðingjasambandið lagði niður starfsemi sína (opinberlega allavega) árið 2006. Í dag hafa vefsíður þeirra verið lagðar niður líka. Hugmyndafræði. Germanska heiðingjasambandið var á sínum tíma sakað um „nýnasisma“, „gyðingahatur“ og að aðhyllast hugmyndafræði sem gengur út á „yfirburði hins hvíta kynþáttar“.. Ásakarnirnar komu frá skýrslu sem kom út árið 2001 gefin út af Stephen Roth stofnuninni, stofnun staðsettri í Ísrael og segist sérhæfa sig í rannsóknum á „antísemitisma“ (gyðingaandúð) og „rasisma“ í nútíma samfélagi. Stofnunin lýsir sænska heiðingjaflokknum sem "„myndbirtingu nasistafélags, sem byggist upp á ásatrú og sé andsnúið kristni og gyðingdómnum“". En fjölmargir kaflar á vefsíðum þeirra og hópar innan Germanska heiðingjasambandisns fullyrtu að sambandið hafni öllum útlendingahatri, kynþáttahatri og ofbeldi tengdu slíku. Engu að síður sagðist sambandið vera andsnúið kristni, íslam og gyðingdómnum, á trúarlegum grundvelli, á norrænum slóðum. Sambandið aðhylltist þjóðernissinnuð viðhorf, gegnum „þjóðbundna heiðni“ og sérstaka lífsýn sem kallast óðalshyggja. Uppruni þessarar hugmyndafræði er óljós en Varg Vikernes sagði sjálfur að hann aðhyllist sömu hugmyndafræði. Óðalshyggja, er sérstök trú sem virðist samblanda umhverfisstefnu, þjóðernishyggju og norrænni goðafræði í eina heild. Nafnið er dregið frá germönsku rúninni Oþila. Norræna orðið „óðal“ þýðir í einfaldri skilgreiningu „arfleið“, „ættgöfgi“, „skyldmenni“ eða „föðurland“. Germanska rúnin „Oþila“ á að standa fyrir arfleið og ættgöfga sem gefur til kynna svipaða táknfræði. "„Óðalshyggja táknar virðingu og heilagt samband við móðir náttúru, ást á germönsku guðunum og gyðjunum og tryggð við ætt þína.“" Platonsk ást. Platonsk ást er skírlíf ást, sem skýrir sig með því að elskendurnir tjá ást sína ekki líkamlega eða kynferðislega. Hugmyndina um platonska ást má rekja til rita forngríska heimspekingsins Platons. Platonsk ást í ritum Platons. Kenningar Platons um ástina hafa orðið gríðarlega áhrifamiklar og er hugtakið platonsk ást gjarnan notuð um andleg ástarsambönd tveggja einstaklinga. Hugmyndir Platons sjálfs voru þó örlítið frábrugðnar nútímaskilningi hugtaksins. Platon fjallar um ástina einkum í samræðunum "Samdrykkjunni" og "Fædrosi". Í "Samdrykkjunni" er ástin eða öllu heldur guðinn Eros megin umræðuefnið en hjá Forngrikkjum fól hugtakið ást eða "eros" einkum í sér losta og þrá. Þátttakendur í samdrykkjunni skiptast á að lofa guðinn Eros en þegar röðin er komin að Sókratesi endursegir hann það sem hann kveðst hafa lært af Díótímu, viturri konu frá Mantíneu. Í endursögninni kemur fram að viðfang ástarinnar er hið góða, hið fagra og ódauðleikinn. Fyrst lærir maður að sjá fegurðina í einstökum hlutum eða í einstaklingum, svo í mörgum hlutum. Þá lærir maður að sjá fegurðina í fögrum lifnaðarháttum og síðan fegurðina í vísindum. Að lokum lærir maður að elska fegurðina sjálfa sem er öllum fögrum hlutum sameiginleg. Hún er ekki skynjanleg heldur skiljanleg, enda er hún frummynd. Í "Fædrosi" er ástin sögð vera guðdómleg vitfirring sem kemur yfir mann þegar hann sér fagran hlut og fegurðin sjálf rifjast upp fyrir honum en sálin man eftir fyrri kynnum sínum við fegurðina frá því fyrir jarðlífið. Kjúlli litli. "Kjúlli litli" (enska: "Chicken Little") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 2005. Bílar. "Bílar" (enska: "Cars") er bandarísk teiknimynd og ævintýramynd frá árinu 2006, framleidd af Pixar og útgefin af Disney. Henni var leikstýrt af John Lasseter og Joe Ranft. Hún er sjöunda mynd Disney - Pixar og síðasta mynd Pixar áður en fyrirtækið var keypt af Disney. Myndin gerist í heimi bíla sem hafa mannlega eiginleika og annara faratækja. Hún fjallar um keppnisbílinn Leiftur McQueen sem keppnir í NASCAR keppni um Piston bikarinn. Rauðhetta (2011 kvikmynd). "Rauðhetta" (enska: "Red Riding Hood") er bandarísk hryllingsmynd sem Catherine Hardwicke leikstýrir. Amanda Seyfried, Shiloh Fernandez, Virgina Madsen, Julie Christie og Gary Oldman fara með aðalhlutverk í myndinni sem frumsýnd var þann 11. mars 2011. Myndin fjallar um fallega unga stúlku, Valerie, sem er ástfangin af utangarðsmanni en foreldrar hennar hafa gert ráðstafarnir til þess að hún giftist ríkum manni í þorpinu. Á sama tíma gengur fjöldamorðingi laus í þorpinu sem reynist vera varúlfur og er mennskur að degi til en blóðþyrstur úlfur að nóttu til. Rauðhetta er að hluta til byggð á þjóðsögunni Rauðhetta sem er yfir 700 ára gömul. Hugmyndin að myndinni kom frá Leonardo DiCaprio eftir að "Twilight" var frumsýnd árið 2007 og var hann framleiðandi myndarinnar. Catherine Hardwicke. Catherine Hardwicke (fædd 21. október 1955) er bandarískur leikstjóri. Hún hefur leikstýrt mörgum vinsælum myndum, þar á meðal unglingamyndinni "Thirteen" frá árinu 2003, "The Nativity Story" og vampírumyndinni "Twilight". Opnunarhelgi "Twilights" var tekjuhæsta opnunarhelgi allra tíma fyrir kvenkyns leikstjóra. Næsta mynd Hardwickes heitir "Red Riding Hood" og er ný útgáfa af klassísku þjóðsögunni Rauðhettu. Cameron, James Easy A. "Easy A" er bandarísk unglingamynd frá árinu 2010 sem Will Gluck leikstýrði og framleiddi. Emma Stone, Penn Badgley, Amanda Bynes og Lisa Kudrow fara með aðalhlutverk í myndinni sem er að hluta til byggð á skáldsögunni "The Scarlett Letter" eftir Nathaniel Hawthorne. Myndin var kvikmynduð í myndveri Screen Gems í Ojai í Kaliforníu sem einnig fjármagnaði myndina. Myndin fjallar um Olive Penderghast sem er ung menntaskólastelpa sem byrjar að segja lygasögur af sjálfri sér og lendir í vandræðum út af því. Easy A fékk frábæra dóma gagnrýnenda og margir kölluðu myndina bestu táningamyndina síðan "Clueless". Emma Stone var tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn en hún vann ekki. Myndin gekk vel í kvikmyndahúsum og fékk yfir 80 milljónir Bandaríkjadala í tekjur. Söguþráður. Olive Penderghast lýgur því að vinkonu sinni, Rhiannon, að hún komist ekki með henni í útileigu um helgina af því að hún ætli að fara á stefnumót með eldri strák. Mánudaginn eftir helgina biður Rhiannon hana um að segja sér frá stefnumótinu og Olive segir henni að hún hafi misst meydóminn með stráknum. Lygin kvisast út og líf Olive breytist á þann hátt að það fer að líkjast lífi Hester Prynne's í skáldsögunni "The Scarlett Letter" sem stúlkan er einmitt að lesa í skólanum. Hún ákveður að hagnýta sér umtalið sem þetta hefur í för með sér til að styrkja félagslega og fjárhagslega stöðu sína. Súdetafjöll. Kort af Vestur-, Mið- og Austur-Súdetafjöllum og legu þeirra í Þýskalandi (D),Póllandi(Pl) og Tékklandi(Ch). Súdetafjöll er fjallgarður í Mið-Evrópu. Þau liggja í Þýskalandi, Póllandi og Tékklandi, meðfram norður landamærum Tékklands frá Oderdalnum til Saxelfar. Hlíðar, dalir og fjallsrætur Súdetafjalla eru vaxnar furuskógum. Orrustan við Stångebro. Orrustan við Stångebro var orrusta sem háð var við Stångebro fyrir utan Linköping í Svíþjóð þann 25. september 1598, milli Karls hertoga (síðar "Karl 9.") og Sigmunds 3., konungs Svíþjóðar og Póllands og var þessi orrusta hluti af stríðinu gegn Sigmundi. Í þessari orrustu sigraði tólfþúsund manna her Svía hinn pólska og Sigmundur 3. flúði til Póllands. Margir aðalsmenn sem stóðu með Sigmundi voru handsamaðir og síðar líflátnir í blóðbaðinu í Linköping. X TV. X TV er íslensk netsjónvarpsstöð og vefsamfélag. Morfís 2010 - 2011. Þann 12. Janúar 2011 skrifaði X TV undir samning við stjórn Morfís um sýningar á 16 liða úrslitum 2010 - 2011. Úrslit. Nýtt áhorfsmet X TV var slegið þegar 1463 einstaklingar horfðu á viðureignina. Vefsíða. X TV heldur úti vefsíðunni http://xtv.is og birtir þar sjálfstætt framleidda þætti. Ellert Borgar Þorvaldsson. Ellert Borgar Þorvaldsson (fæddur 12. maí 1945) er íslenskur athafnamaður, kennari, stjórnmálamaður, tónlistarmaður og fyrrverandi skólastjóri Ártúnsskóla. Ellert útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands og starfaði sem kennari í nokkurn tíma áður en hann varð fyrsti skólastjóri Ártúnsskóla árið 1987 en þar vann hann í 19 ár. Árið 2006 hlaut Ártúnsskóli íslensku menntaverðlaunin og hlaut Ellert sérstaka viðurkenningu fyrir stjórnun skólans. Ellert hefur verið í hljómsveitunum Pónik á námsárum sínum í Kennaraháskólanum og seinna í hljómsveitinn Randver sem hann stofnaði ásamt samkennurum sínum í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Árin 2002 til 2004 sat Ellert í stjórn Regnbogabarna. Hann hefur einnig setið í dómnefnd stóru upplestrarkeppni Reykjavíkur sem formaður dómnefndar nokkur ár í röð. Æska. Ellert fæddist þann 12. maí árið 1945 á Eskifirði. Foreldrar hans voru Þorvaldur Friðriksson, sjálflærður harmonikkuspilari og lagasmiður, og Kristín Pétursdóttir og var Ellert næstelstur fjögurra barna þeirra. Fjölskyldan var tónelsk og ólst Ellert upp við tónlistariðkun og fóru bræðurnir snemma að spila í hljómsveitum eystra.Hann söng oft með eldra fólkinu og var farinn að radda 10 ára gamall og fékk þá að vera lengur á fótum en endranær. Unglingsárin. Árið 1960 stofnuðu Ellert og eldri bróðir hans, Haukur Helgi hljómsveit ásamt fjórum öðrum. Hljómsveitin var kölluð Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar. Þeir spiluðu á klarinett, trompet, gítar, píanó, bassa og trommur og héldu tónleika með ýmsum atriðum inn á milli. Ellert spilaði í fleiri hljómsveitum, meðal annars í hljómsveitinni Ómar. Þeir spiluðu alveg þindarlaust á sumrin á síldarböllum allt að fimm til sex kvöld á viku eftir fulla vinnudaga. Kennaraárin. Eftir að Ellert lauk landsprófi þá var hann enn óviss hvað hann ætlaði að vera, „Það kom tvennt til greina, að verða prestur eða kennari.“ Að lokum ákvað Ellert að hefja nám við Kennaraháskóla Íslands og lauk hann kennaraprófi árið 1967 og fór hann þá austur á land og kenndi fyrsta árið eftir það við grunnskólann á Eskifirði og tók síðan við stjórn skólans. Vorið 1972 ákváðu Ellert og konan hans, Erna, að flytjast til Hafnarfjarðar og um haustið það ár hóf hann störf við Öldutúnsskóla þar sem að hann kenndi til ársins 1978. Sama ár varð Ellert varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann tók einnig við starfi skólafulltrúa Hafnarfjarðar. Ellert starfaði á Skólaskrifstofunni til ársins 1987 þegar að hann varð skrifstofustjóri á Fræðsluskrifstofu Reykjanes í nokkra mánuði þangað til að honum gafst kostur á að taka við Ártúnsskóla sem að var þá bara á teikniborðinu. „Starfið sem skólafulltrúi eða skrifstofustjóri gaf mér ekki nóg og mér fannst ég þurfa að vera meira úti á akrinum,“ sagði Ellert í viðtali við Morgunblaðið árið 2006. Á þeim árum var Ellert líka í pólitíkinni en engu að síður langaði honum mikið að vinna með börnum. Randver. Veturinn 1974 stofnuðu Ellert Borgar og fjórir aðrir kennarar úr Öldutúnsskóla hljómsveitina Randver fyrir árshátíð skólans. Ellert Borgar spilaði á bassa og söng en hinir meðlimir hljómsveitarinnar voru Guðmundur Sveinsson, Jón Jónasson, Ragnar Gíslason og Sigurður R. Símonarson. Atriði þeirra sló í gegn og fljótlega voru þeir komnir á kaf í skemmtanabransanum. Nafn sveitarinnar tók nokkrum breytingum fyrst um sinn en að lokum festist nafnið Randver, úr skáldsögunni Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness, við hljómsveitina. Fyrsta plata þeirra, "„Randver“", kom út árið 1975 og var mjög vinsæl. Seinna gáfu þeir út tvær aðrar plötur, "„Aftur og nýbúnir“" frá árinu 1977 og "„Það stendur mikið til“" árið 1978. Eftir að sú plata kom út hætti Ellert að kenna við Öldutúnsskóla og fór hann að vinna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Þá ákváður Randver-menn að taka sér langt hlé en hljómsveitin kom saman aftur árið 1993. Þá fóru þeir að skemmta aftur á nokkrum hátíðum og lengi stóð það til að safna saman vinsælustu lögum sveitarinnar og gefa þau út á geisladisk. Platan, "„Aftur og loksins búnir“", kom út árið 2003 og varð hún sú síðasta sem að hljómsveitin gaf út. Blóðbaðið í Linköping. Blóðbaðið í Linköping var aftaka sem fór fram á skírdegi, þann 20. mars árið 1600, í Linköping í Svíþjóð. Þar voru fimm aðalsmenn líflátnir en þeir voru handsamaðir í orrustunni við Stångebro, árið 1598. Mennirnir voru afhöfðaðir vegna ásakana um föðurlandssvik. Fram til ársins 1936 var talið að aftakan hefði átt sér stað á "Järntorget" rétt fyrir utan Linköpingkastala, en nú er talið að hún hafi farið fram á torginu "Stora torget" sem er 300 metra þaðan. Arnljótur gellini. Arnljótur gellini var norrænn stigamaður sem „[átti kyn] á Jamtalandi og Helsingjalandi“. Hann hjálpaði Þóroddi, syni Snorra goða, á Jamtlandi. Frá honum segir í Heimskringlu. Grímur Thomsen samdi um hann eitt af sínum frægustu kvæðum og heitir það eftir honum. Viðurnefnið. Viðurnefnið "gellini" er talið dregið af bæjarnafninu Gell(v)in sem núna er Gällö á Jamtalandi. Gaukur Trandilsson. Gaukur Trandilsson (líklega uppi á 10. öld) er persóna í glataðri Íslendingasögu, sem kennd var við hann. Í Möðruvallabók er eyða á milli Njáls sögu og Egils sögu og þar eru tvær illæsilegar línur sem Jóni Helgasyni prófessor tókst loks að lesa og segir þar: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að [Herra] Grímur eigi hana.“ Sagan var þó aldrei skrifuð í eyðuna og glataðist. Grímur hefur líklega verið Grímur Þorsteinsson, riddari og hirðstjóri (d. 1350). Fáar heimildir aðrar eru um Gauk en hann er nefndur í 26. kafla Brennu-Njáls sögu og segir þar frá því að hann var fóstbróðir Ásgríms Elliða-Grímssonar og hefði verið fræknastur manna og best að sér ger, en „þar varð illa með þeim Ásgrími því að Ásgrímur varð banamaður Gauks.“ Fengitími. Fengitími er sá tími árs sem dýr eru reiðubúin til mökunar. Fengitíminn er ýmist einu sinni á ári eða oftar en allt fer það eftir dýrategundum. Atferli dýra breytist oft mjög um fengitímann, og jafnvel svo að dýrin taka ekki eftir hættum sem að þeim steðja. Um orðanotkun. Orðið fengitími er haft almennt um riðtímann, en einnig um þann tíma þegar hleypt er til ánna, en það er tímabil sem spannar frá því skömmu fyrir jól fram í janúar. Orðið "hrygningartími" er aðeins haft um fiska enda orðið komið af orðinu hrogn. Stundum er talað um að dýr séu "í bríma" á fengitíma þegar skepnan er viljug til eðlunar. Sumar skepnur eiga sér þó sér orðalag. Kýr verða til dæmis "yxna" eða "beiða". True Grit. "True Grit" er bandarískur vestri frá árinu 2010 sem að Coen bræðurnir leikstýrðu, framleiddu og skrifuðu. Þetta er önnur kvikmyndin sem að er byggð á samnefndri bók Charles Portisar frá árinu 1968. Í aðalhlutverkum eru Jeff Bridges, Matt Damon, Hailee Steinfeld, Josh Brolin og Barry Pepper. True Grit gerist árið 1877 í bænum Fort Smith í Arkansas-fylki í Bandaríkjunum stuttu eftir að faðir hinar 14 ára gömlu Mattie Ross er myrtur. Hún leitar þá til hins gamalreynda og grjótharða lögreglumanns Rooster Cogburn og fylgir honum í leit að morðingja föður hennar. Tökur hófust í mars 2010 og myndin fór í kvikmyndahús í Bandaríkjunum þann 22. desember 2010. Myndin var forsýnd fyrir gagnrýnendur snemma í desember. True Grit var opnunarmynd 61. Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðinni í Berlín þann 10. febrúar 2011. Myndin hefur verið tilnefnd til tíu Óskarsverðlauna og mun athöfnin fara fram þann 27. febrúar 2011. Söguþráður. Sögumaður myndarinnar er hin fjörutíu gamla Mattie Ross sem segir frá hvernig faðir hennar var myrtur árið 1877 í bænum Fort Smith í Arkansas þegar hún var fjórtán ára gömul. Morðingi föður hennar var einn af undirmönnum hans, Tom Chaney (Josh Brolin) og hann flýr af vettvangi með tvo hesta föðursins og gull sem var í eigu hans. Mattie ferðast til Fort Smith til þess að leggja lokahönd á erindi föður hennar í bænum. Hún vill tafarlausa hefnd og leitar til hins gamalreynda og grjótharða lögreglumanns Rooster Cogburn (Jeff Bridges), en hann hafnar umleitunum hennar. Að lokum ákveður hann að fara fyrir hana og hún krefst þess að fylgja honum. Á meðan að þau ferðast um vestrið byrjar Mattie að hafa sífellt minni trú á Cogburn, vegna drykkjusemi og hegðunar hans. Leikurinn tekur nýja stefnu þegar annar lögreglumaður, LaBoeuf (Matt Damon), mætir á svæðið, en hann er einnig á höttunum eftir Chaney. Hann og Rooster taka loks höndum saman til að hafa uppi á Chaney, en þá tekur við hættuleg för. CBEP 24. Póló og Bjarki er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1967. Á henni flytja Póló og Bjarki fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmynd: Ljósmyndastofa Páls. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. Uggi. Uggi er útlimur fiska sem þeir nota oftast til að knýja sig áfram með og til að halda jafnvægi. Lögun og samsetning ugganna er mjög breytileg eftir fisktegundum og á sumum hafa einstaka uggar þróast og orðið að líffærum, til dæmis hið lýsandi agn á höfðinu á kjaftagelgjum og sogskál á kviðnum hjá hrognkelsum. Listi fólksins. Listi fólksins er íslenskur stjórnmálaflokkur sem hefur verið í framboði á Akureyri til bæjarstjórnarkosninga frá árinu 1998. Stofnandi flokksins er Oddur Helgi Halldórsson, og oddviti hans er Geir Kristinn Aðalsteinsson. Listi fólksins er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar. Framboðslisti. Framboðslisti Lista fólksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010 er eftirfarandi. Efstu 6 menn náðu kjöri sem bæjarfulltrúar. GEOK 253. Póló og Erla Stefánsdóttir er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1967. Á henni flytja Póló og Erla Stefánsdóttir fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmyndir tók Ljósmyndastofa Páls. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. STEF 003. Pónik og Einar Júlíusson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1967. Á henni flytja Pónik og Einar Júlíusson fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmyndina tók Ljósmyndastofa Páls. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. T 102. Póló og Bjarki er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1968. Á henni flytja Póló og Bjarki fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmynd og hönnun: Hallgrímur Tryggvason. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. T 103. Kristín Ólafsdóttir er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1968. Á henni flytur Kristín Ólafsdóttir fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun: Pétur Steingrímsson. Ljósmynd: Ljósmyndastofa Páls. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. T 104. Flowers er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1968. Á henni flytur hljómsveitin Flowers fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka fór fram í De Lane LEA STUDIOS London 20. október 1968. Allar útsetningar gerðar af FLOWERS. Stjórnandi upptöku: Barry Ensworth. Myndir tók Gunnar Gunnarsson ljósmyndari Suðurveri. T 105. Erla er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1968. Á henni flytur Erla Stefánsdóttir fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmynd og hönnun: Hallgrímur Tryggvason. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. Agrippina yngri. Julia Agrippina (6. nóvember 15 eða 16 – 23. mars 59), þekkt sem Agrippina yngri, var valdamikil rómversk aðalskona sem var uppi á 1. öld e.Kr. Agrippina var af Julísku-Claudísku ættinni, sem var fyrsta keisaraættin í Rómaveldi, og var hún tengd Ágústusi keisara í báðar ættir; amma hennar í móðurætt var Octavia, systir Ágústusar, og langamma hennar í föðurætt var Livia, eiginkona Ágústusar. Agrippina yngri var dóttir Agrippinu eldri, dóttur Marcusar Antoniusar og Octaviu, og Germanicusar, sem lést þegar Agrippina var ung. Árið 28 giftist Agrippina Gnaeusi Domitiusi Ahenobarbusi og árið 37 átti hún með honum soninn Lucius Domitius Ahenobarbus sem varð síðar þekktur sem keisarinn Neró. Gnaeus Domitius Ahenobarbus lést fáum árum síðar. Árið 37 varð bróðir Agrippinu, Gaius, keisari Rómaveldis. Gaius, sem er betur þekktur undir viðurnefninu Calígúla, var í fyrstu í góðu sambandi við Agrippinu en snerist fljótlega gegn henni og sendi hana í útlegð til Pontísku eyjanna út af strönd Ítalíu. Eftir að Calígúla hafði verið tekinn af lífi, árið 41, fékk Agrippina að snúa aftur til Rómar. Föðurbróðir hennar, Claudíus, var þá orðinn keisari. Claudíus var giftur Valeriu Messalinu þegar hann varð keisari, en hún skildi við hann og giftist öðrum manni. Claudíus lét þetta ekki viðgangast og lét taka Messalinu af lífi. Claudíus fór þá að leita sér að annarri konu og þrátt fyrir skyldleika þeirra Agrippinu tókst henni að koma sér á framfæri sem vænlegt kvonfang fyrir Claudíus. Þau giftu sig árið 49, fljótlega eftir að Claudíus hafði látið breyta lögum um sifjaspell, sem höfðu gert slík hjónabönd ólögleg. Einnig ættleiddi Claudíus Neró, son Agrippinu. Claudíus lést nokkuð skyndilega árið 54 og var Agrippina grunuð um að hafa eitrað fyrir honum, til þess að koma Neró á keisarastólinn. Neró var svo fljótlega hylltur sem keisari af lífvarðasveitinni í Róm. Neró var aðeins 18 ára þegar hann varð keisari og því hafði Agrippína töluverð völd í upphafi valdatíðar hans. Fljótlega komu þó upp deilur á milli mæðginanna og eftir 55 var hún fallin í ónáð hjá syni sínum. Árið 59 var Agrippina svo ráðin af dögum að fyrirskipan Nerós. 83. Óskarsverðlaunin. 83. Óskarsverðlaunin áttu sér stað sunnudaginn 27. febrúar 2011 af Bandarísku kvikmyndaakademíunni. Athöfnin mun vera útvörpuð í Bandaríkjunum af sjónvarpsstöðinni ABC og hún mun fara fram í Kodak leikhúsinu. Kynnir kvöldsins munu vera leikararnir James Franco og Anne Hathaway. Tilnefningarnar voru gerðar opinberar þann 25. janúar 2011. Flestar tilnefningar fengu kvikmyndirnar The King's Speech með tólf og Coen myndin True Grit með tíu. Teiknimyndin Leikfangasaga 3 var tilnefnd bæði sem besta teiknimynd og besta kvikmynd og er það þriðja teiknimyndin til þess að fá tilnefningu í þeim flokki en hinar eru Disney-myndirnar Fríða og Dýrið og Upp. Kynnar. Í nóvember 2010 tilkynnti Bandaríska kvikmyndaakademían að James Franco og Anne Hathaway yrðu kynnarnir. Ákvörðunin var tekin áður en að Franco var tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni 127 Hours og er það í fyrsta skipti síðan árið 1973 sem að kynnir hátíðarinnar hefur verið tilnefndur til verðlauna, en áður hafði það verið leikarinn Michael Caine sem að var tilnefndur fyrir myndina Sleuth. Anne Hathaway hafði einnig verið tilnefnd til Golden Globe verðlauna fyrir leik sinn í myndinni Love and Other Drugs en hún hlaut ekki tilnefningu til Óskarsins. Hathaway, sem að er 28 ára, verður sú yngsta til þess að starfa sem kynnir á verðlaunaathöfninni frá upphafi. Tilnefningar. Tilnefningarnar fyrir 83. Óskarsverðlaunin voru tilkynntar þann 25. janúar 2011 í Samuel Goldwyn leikhúsinu í Beverly Hills, Kaliforníu-fylki, Bandaríkjunum. Tom Sherak, forseti Bandarísku kvikmyndaakademíunnar og leikkonan Mo'Nique tilkynntu tilnefningarnar. T 107. Ragnar Bjarnason og hljómsveit er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1969. Á henni flytur hljómsveit Ragnars Bjarnasonar fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðupptaka: Rikisútvarpið, Pétur Steingrímsson og Guðmundur R. Jónsson. Ljósmynd: Óli Páll. Pressun: PYE. Prentun: Valprent h.f. Akureyri. Anne Hathaway. Anne Hathaway (fædd 12. nóvember 1982) er bandarísk leikkona. Hún hóf leikferil sinn árið 1999 þegar að hún fékk hlutverk í sjónvarpsseríunni Get Real og árið 2001 fékk hún aðalhlutverk í kvikmyndinni The Princess Diaries á móti Julie Andrews. Hathaway fékk stór hlutverk í fleiri myndum þar á meðal Ella Enchanted, Havoc, Brokeback Mountain, Becoming Jane og The Devil Wears Prada. Leikur Önnu í myndinni Rachel Getting Married frá árinu 2008 fékk mikil fagnaðarlæti frá gagnrýnendum og hlaut hún tilnefningu sem besta leikkona á 81.Óskarsverðlaunahátíðinni. Árið 2010 lék Hathaway í myndunum Valentine's Day, Love and Other Drugs og Alice in Wonderland. Í janúar 2011 var hún ráðin til þess að leika kattakonuna í þriðju mynd Christopher Nolans um Leðurblökumanninn, The Dark Knight Rises. Hathaway, Anne Grípisspá. Grípisspá er eitt af yngstu eddukvæðunum, frá seinni hluta 12. aldar eða 13. öld. Það er hálfgert yfirlitskvæði um ævi Sigurðar Fáfnisbana. Giskað hefur verið á að Grípisspá sé ort sem inngangur að kvæðunum um Völsunga og Niflunga og sé verk þess manns sem safnaði þeim í eina heild. Söguþráður. Sigurður Fáfnisbani er ungur og fer til Grípis, móðurbróður síns, að leita frétta um ókomna ævi sína. Grípur er tregur til að segja honum um öll hin þungbæru örlög sem bíða hans en lætur þó undan beiðni hans. En Sigurði er mest í mun að hafa alltaf góðan málstað, hvað sem á dynur. Í kvæðislok er skilnaði þeirra og árnaðaróskum lýst. Sambíóin. Sambíóin er fyrirtæki sem rekur kvikmyndahús. Fyrirtækið var stofnað 1. janúar 1990 af Árna Samúelssyni. Kvikmyndahúskeðja Árna samanstóð af Bíóhöllinni í Álfabakka 8 sem opnaði 2. mars 1982, Bíóborginni sem opnaði 20. maí 1987 og Nýja bíó í Keflavík. Með tilkomu Bíóhallarinnar var í fyrsta skipti hægt að sjá nýjustu stórmyndirnar á sama tíma og þær voru sýndar erlendis. Kvikmyndakeðja Árna Samúelssonar byrjaði að auglýsa undir nafninu 29. nóvember 1991. Sama dag opnuðu Sambíóin kvikmyndahúsið Saga-Bíó í Álfabakka 8. Í október 1993 fóru sambíóin að setja upp sjóðsvélar eftir að ríkiskattstjóri senti Sambíóunum fyrirmæli um að skrá bæði miða- og sælgætissölu. Þá voru sjóðsvélar þegar komnar í kvikmyndahúsið Regnbogann. Rekstur Sambíóana var þó ekki bundinn við kvikmyndahús því í júlí 1994 hófu Sambíóin samstarf við Saga film og Japis við stofnun kapalsjónvarps og í september sama árs stofnuðu Sambíóin útvarpstöðina FM (sem síðar varð FM 957) sem hafði aðstöðu í höfuðstöðvum Sambíóana í mjóddinni. Sambíóin stækkuðu við sig 26. desember 1996 með opnun Sambíóanna í Kringlunni, kaupum þeirra á Nýja bíó í Akureyri árið 2000 og núna síðast opnuðu Sambíóin kvikmyndahús í Egilshöll 4. nóvember 2010. Ketilbjalla. Ketilbjalla eða gyria (rússneska) er lóð sem er notuð talsvert mikið við líkamsrækt. Ketilbjöllur líta út eins og fallbyssukúla með handfangi. Þær eru búnar til úr steypujárni og eru langoftast húðaðar með gúmmí. Ketilbjöllur eru ekki nýjar á nálinni þó stutt sé síðan að þær urðu jafnvinsælar og raunin er í dag. Sögu ketilbjöllunnar má rekja aftur til ársins 1704, og það í Rússlandi, en þær fengu þó ekki almennilega kynningu í vesturlöndunum fyrr en maður að nafni Pavel Tsatsouline kynnti þær í Bandaríkjunum árið 1913. T 108. Hljómsveit Ingimars Eydal - Helena og Þorvaldur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1969. Á henni flytur hljómsveit Ingimars Eydal - Helena og Þorvaldur fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðupptaka: Sjónvarpið, Sigfús Guðmundsson. Ljósmynd: Ljósmyndastofa Páls. Pressun: PYE. Prentun: Valprent h.f. Akureyri. Textabrot af bakhlið plötuumslags um lögin. Lagið er eftir Þorvald Halldórsson, en textinn eftir Birgi Marinósson og Þorvaldur syngur Lag eftir Finn Eydal og hann leikur það á klarínettu. Þetta lag er erlent og heitir upphaflega Boom, bang a bang og er eftir Peter Warne og Alan Moorhouse. Íslenska textann gerði Þorvaldur Halldórsson og Helena syngur. úr svítu nr 3 í D-dúr Textann gerdi Ásta Sigurðardóttir. Einleik á bassa klarínettu leikur Finnur Eydal. T 109. Björgvin Halldórsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1969. Á henni flytur Björgvin Halldórsson tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: City of London Recording Studios og Ríkisútvarpið. Pressun PYE. Ljósmynd: Óli Páll. Hönnun: Baldvin Halldórsson. Prentun: Offsetmyndir sf. T 112. Póló og Bjarki er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1968. Á henni flytur Póló og Bjarki tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið, Pétur Steingrímsson. Pressun: Pye. Ljósmynd: Ljósmyndastofa Páls. Hönnun: Kristinn S. Kristjánsson. Prentun. Valprent hf. 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp. 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp er skáldsaga eftir Hallgrím Helgason sem kom út árið 2008. Bókin fjallar Tomislav Bokšic, kallaður Toxic, sem er leigumorðingi króatísku mafíunnar í New York. Hann neyðist til að flýja Bandaríkin og lendir fyrir tilviljun á Íslandi. T 120. Geirmundur Valtýsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Geirmundur Valtýsson tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Útsetningar og hljómsveitarstjórn Gunnar Þórðarson. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Umslag: hönnun Kristján Kristjánsson FÍT. Prentun:Valprent h.f., Akureyri T 101. Sextett Jóns Sigurðssonar og Stefán er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1968. Á henni flytja Sextett Jóns Sigurðssonar og Stefán fjögur lög. Platan er hljóðrituð í Stereo. Upptöku annaðist Pétur Steingrímsson. Ljósmynd og hönnun: Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. Textabrot af bakhlið plötuumslags um lögin. 1.Góðir vinir - Lagið er eftir 10 ára gamla stúlku á Sauðárkróki, Lailu Angantýsdóttur, en textinn er eftir Margréti Jónsdóttur. 2. Við lindina - Lagið er eftir Reed - Mason, en textann gerði Birgir Marinósson. Lagið er eftir Jón Þorkelsson, en textinn eftir Hólmfríði Jónsdóttir, bæði á Sauðarkróki. Þetta lag er eftir Spector - Greenwich - Barry, en textann við lagið gerði Birgir Marinósson. T 113. Júdas er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1970. Á henni flytur hljómsveitin Júdas tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. T 116. Ævintýri er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1970. Á henni flytur hljómsveitin Ævintýri tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Made in England. T 123. Geirmundur Valtýsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Geirmundur Valtýsson tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Útsetning og hljómsveitarstjórn Gunnar Þórðarson. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Pressun: E M I Danmörk. Ljósmynd: Stefán Pedersen. Prentun: Valprent h.f.Akureyri. GEOK 258. Söngtríóið Þrír háir tónar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1967. Á henni flytur Söngtríóið Þrír háir tónar fjögur lög. Platan er hljóðrituð í Mono. Ljósmynd og hönnun: Matthías Gestsson Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. T 121. Rúnar Gunnarsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Rúnar Gunnarsson tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Prentun: Valprent h.f.Akureyri. Flatbrauð. Einfalt flatbrauð úr hveiti og vatni, bakað á pönnu. Flatbrauð af ýmsu tagi eru elsta og upprunalegasta brauðtegund sem mannkynið fór að gera og er talið að þau hafi verið bökuð í meira en sex þúsund ár. Flatbrauðbakstur virðist hafa þróast á svipaðan hátt víða um heim, raunar alls staðar þar sem kornrækt var tíðkuð, allt frá Mesópótamíu, Persíu, Indlandi og Kína til Evrópu, Mexíkó og Norður- og Suður-Ameríku. Þau eru bökuð úr öllum korntegundum sem ræktaðar eru í einhverjum mæli, svo sem hveiti, maís, höfrum, rúgi, bókhveiti, hrísgrjónum, hirsi og dúrru, svo og úr baunum, linsubaunum og rótargrænmeti eins og kartöflum. Oft eru þau án lyftiefna (ósýrð) en í sum eru notuð lyftiefni, ýmist ger, lyftiduft, matarsódi eða önnur efni. Sum eru steikt á pönnu, önnur bökuð á glóð eða heitum steinhellum eða í ofni. Sum eru næfurþunn, einkum þau sem eru án lyftiefna, önnur nokkurra sentímetra þykk og matarmikil. Flatbrauð hafa ekki síst notið vinsælda þar sem eldsneytisskortur ríkir því þau eru oftast fljótbökuð og því þarf lítið eldsneyti þegar þau eru bökuð. Þetta gilti til dæmis um íslenskar flatkökur, sem áður voru bakaðar á glæðum við hlóðaeld en nú oft á eldavélarhellu í heimahúsum. Af þekktum tegundum flatbrauðs má meðal annars nefna skandinavískt hrökkbrauð, norskar lefsur, ítalskt focaccia og piadina, indverskt chapati, dosai, roti, paratha, naan og pappadum, injera frá Eþíópíu, tyrkneskt pide, arabískt khubz og pítubrauð, persneskt/armenskt lavash og mexíkóskar tortillur. Pizzur eru þó líklega ein þekktasta flatbrauðstegundin. Nicole Kidman. Nicole Mary Kidman (fædd 20. júní 1967) er áströlsk leikkona, forsvarsmaður, og mannvinur. Eftir að hafa leikið í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í Ástralíu þangað til að hún varð að stórstjörnu eftir að hafa leikið í myndinni "Dead Calm". Leikur hennar í myndunum "To Die For", "Moulin Rouge!", "The Others" og "Rabbit Hole" fékk mikið lof gagnrýnenda og var hún tilnend til margra verðlauna þar á meðal til Óskarsverðlauna, Golden Globe og BAFTA-verðlauna. Árið 2003 vann Kidman Óskarsverðlaunin fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni "The Hours". Síðan 2006 hefur Kidman starfað sem sendiherra fyrir kvennaráð Sameinuðu þjóðanna. Völundarkviða. Völundarkviða er eitt eddukvæðanna sem varðveitt er úr Konungsbók frá 1265-1280. Aldur Völundarkviðu er óljós en gert er ráð fyrir að kviðan hafi lengi varðveist í munnlegri geymd. Hún er ort undir hinum órímuðu edduháttum. Kviðan er talin á mörkum hetjukvæða og goðakvæða líkt og Alvíssmál, en sögusvið þeirra brúar bilið milli mannheima og goðheima. Apparat Organ Quartet. Apparat Organ Quartet er íslensk hljómsveit stofnuð árið 1999 af Jóhanni Jóhannssyni, Herði Bragasyni, Músikvatur og Úlfi Eldjárn. Valslöngva. Valslöngva (valslanga eða bliða) er hernaðartæki sem notað var í fornöld. Valslöngvan, sem byggist á vogarafli, var notuð til þess að slöngva grjóti eða öðrum skeytum að virkjum óvinarins. Til eru allavega gerðir slíkar "kastvéla" og í Þiðreks sögu af Bern er talað um möngur (et. manga). Ekki má rugla valslöngvu saman við handslöngvu eða slönguvaði. The King's Speech. "The King's Speech" er bresk kvikmynd frá árinu 2010 sem er leikstýrð af Tom Hooper. Myndin segir sanna sögu Georgs sjötta Bretakonungs, sem tekur við krúnunni eftir að bróðir hans segir af sér, og býr yfir alvarlegum talgalla. Þegar stríð brýst skyndilega út þarf hann að ráða sér talþjálfara til að sigrast á framkomuhræðslunni. Colin Firth, Geoffrey Rush og Helena Bonham Carter fara með aðalhlutverk í myndinni. Tökur hófust í Bretlandi í nóvember árið 2009. Myndin var frumsýnd í örfáum kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum þann 26. nóvember 2010 og varð hún svo vinsæl að henni var stuttu seinna dreift út um allt land. Myndin var frumsýnd á Íslandi þann 28. janúar 2011. The King's Speech fékk 12 tilnefningar á 83. óskarsverðlaununum þar á meðal fyrir bestu kvikmynd, bestu leikstjórn, besta handrit og besta leikara í aðalhlutverki. Söguþráður. Myndin segir sanna sögu Georgs 6. Bretakonungs, föður Elísabetar annarrar drottningar. Georg átti aldrei að verða konungur, því eldri bróðir hans Játvarður 8. var erfingi krúnunnar. Eftir að faðir þeirra Georg 5. lést þann 20. janúar 1936 tók Játvarður við af honum en sagði svo af sér í desember það ár. Eftir það tók Georg með semingi við krúnunni. Georg bjó ekki yfir þeim eiginleikum sem konungur þarf að hafa, því hann þjáist af alvarlegum talgalla og er talinn óhæfur til að verða konungur. Hann deyr þó ekki ráðalaus, heldur ræður hann sér talþjálfarann Lionel Logue til að sigrast á framkomuhræðslunni og talgallanum. Lionel notar mjög óhefðbundnar aðferðir við að hjálpa Georgi en það mun reynast enn mikilvægara fyrir hann að finna sitt innra hugrekki til að leiða þjóð sína þegar Seinni Heimstyrjöldin brýst skyndilega út. Heimildir. King's Speech, The 127 klukkustundir. "127 klukkustundir" (enska: "127 Hours") er sannsöguleg kvikmynd frá árinu 2010 sem er byggð á lífsreynslu fjallgöngumannsins Aron Ralston sem að festi handlegginn sinn í gljúfri í Utah árið 2003 þegar að hnullungur féll á hann og eyddi fimm dögum fastur þar. Myndin er leikstýrð og skrifuð af Danny Boyle og fer James Franco með hlutverk Ralstons. Handritið er byggt á bók Ralstons Between a Rock and a Hard Place. Gagnrýnendur gáfu myndinni góða dóma og var hún tilnefnd til þriggja Golden Globe verðlauna á 68. Golden Globe verðlaunahátíðinni. 127 Hours var líka tilnefnd til sex óskarsverðlauna á 83. Óskarsverðlaunahátíðinni þar á meðal fyrir bestu kvikmynd, besta leikara og bestu leikstjórn. Erlingur skakki. Erlingur skakki Ormsson (1115 – 1179) var norskur jarl á 12. öld. Nafnbótina "skakki" fékk hann í stríði við arabíska hermenn á Sikiley þegar sverði borinn Arabi hjó í hálsinn á honum og hann glataði hluta hreyfigetu. Kona hans var Kristín Sigurðardóttir, dóttir Sigurðar Jórsalafara, og saman áttu þau soninn Magnús Erlingsson konung. The Kids Are All Right. "The Kids Are All Right" er bandarísk fjölskyldumynd frá árinu 2010 sem Lisa Cholodenko leikstýrði og skrifaði. Annette Bening, Julianne Moore og Mark Ruffalo fara með aðalhlutverk í myndinni sem að fjallar um tvö börn sem getin eru með gervifjóvgun og komast að því hver líffræðilegur faðir þeirra er og koma með hann inn á heimilið. Myndin var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í júlí 2010 og varð mjög vinsæl. Í lok mánaðarinns fór hún í kvikmyndahús út um öll Bandaríkin. "The Kids Are All Right" hlaut margar verðlaunatilnefningar þar á meðal fjórar Golden Globe, BAFTA og Óskarsverðlaunatilnefningar. Handslöngva. Handslöngva (eða slöngva'") er áhald sem var notað áður fyrr til veiða eða sem vopn. Henni má ekki rugla saman við valslöngvu. Handslöngvan er oftast samansett þannig að tveim snærum er fest sínu í hvern enda á aflangri pjötlu sem ósjaldan er úr leðri og er ídjúp um miðjuna. Þar er steini ("slöngusteini") eða öðru komið fyrir og handslöngvunni svo sveiflað yfir höfði sér þar til hnykkt er á úlnliðnum og þá þeytist steinninn í þá átt sem höndin stefndi þegar hnykkurinn kom á slöngvuna. Þeir sem notuðu slíka slöngvu voru nefndir "slöngvumenn". Mohamed ElBaradei. Mohamed ElBaradei (f. 17. júní 1942) er handhafi friðarverðlauna Nóbels og fyrrverandi yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. ElBaradei og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin deildu friðarverðlaunum Nóbels árið 2005 „fyrir tilraunir þeirra við að hindra það að kjarnorka væri notuð í hernaðarlegum tilgangi og að tryggja það að kjarnorka til friðsamlegra nota sé notuð á eins öruggan hátt og mögulegt er“. Johan Carl Thuerecht von Castenschiold. Johan Carl Thuerecht von Castenschiold (14. júní 1787 – 30. janúar 1844) var danskur aðalsmaður sem var stiftamtmaður á Íslandi og síðar í Danmörku. Hann var fæddur á Borreby-setrinu í Skælskør í Danmörku, sonur Joachim Melchior Holten Castenschiold og konu hans Elisabeth Gysbertsdatter Behagen. Castenschiold-ættin er komin af langafa hans, Johan Lorentz Carstensen, sem var plantekrueigandi á dönsku Karíbahafseynni St. Thomas. Hann auðgaðist mjög þar og sonur hans, Johan Lorentz Castens, var aðlaður 1745. Johan Carl útskrifaðist sem stúdent úr heimaskóla á Herlufsholm 1803 og hóf nám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla, sem hann lauk 1806. Hann starfaði í Rentukammerinu og varð kammerjúnker 1808. Árið 1810 var hann skipaður amtmaður í Suðuramti á Íslandi og árið 1813 jafnframt stiftamtmaður en fékk lausn að eigin ósk 1819. Hann varð stiftamtmaður í Ribe 1821 og var gerður að kammerherra 1824. Frá 1828 var hann stiftamtmaður í Álaborg og frá 1836 á Fjóni og settist þá að í Óðinsvéum. Árið 1842 fékk hann lausn frá störfum vegna heilsubrests og dó í Óðinsvéum 30. janúar 1844. Í "Dansk biografisk Lexicon" segir að hann hafi þótt sérlega natinn og reglufastur embættismaður og stýrt embætti sínu af festu og áreiðanleika, einnig eftir að heilsa hans tók að bila. Á Íslandi fékk hann þó allt önnur eftirmæli, þótti óreyndur og hrokafullur og átti í deilum við íslenska eimbættismenn; meðal annars reyndi hann að ná Viðey af Magnúsi Stephensen. Árið 1815 var honum vikið frá um stundarsakir og Ísleifur Einarsson settur í hans stað en hann fékk þó embættið aftur árið eftir. Bjarni Thorsteinsson amtmaður sagði um hann: „Var Castenskjöld einhver sá ljelegasti stimptamtmaður, sem verið hefur á Íslandi, veill af ímyndunarveiki, þekkingarlaus og óduglegur til embættisstarfa, fjegjarn og hlutdrægur og heiptrækinn, þegar því var að skifta.“ Bjarni Thorarensen skáld sagði um brotthvarf Castenschiolds að hann hefði verið „leiður á öllu íslensku og alt íslenskt leitt á honum.“ Hann var einhleypur á meðan hann var á Íslandi og fór orð af kvensemi hans, en hann giftist árið 1823 greifynjunni Frederikke Vilhelmine Louise Lüttichau (16. janúar 1797 – 17. maí 1836). Þau eignuðust fjögur börn. Bjarte Myrhol. Bjarte Håkon Myrhol (fæddur 29. maí 1982 í Oslo) er norskur handknattleiksmaður sem leikur fyrir Rhein-Neckar Löwen í Mannheim í Þýskalandi. Myrhol er línumaður. Tenglar. Myrhol, Bjarte Michael Guigou. Michael Guigou (fæddur 28. janúar 1982 í Apt) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir Montpellier HB. Guigou er hornamaður í franska karlalandsliðinu í handknattleik. Með franska landsliðinu vann hann til gullverðlauna á sumarólympíuleikunum í Beijing árið 2008, á heimsmeistaramótinu í handknattleik árið 2009 og á Evrópumeistaramótinu í handknattleik árið 2010. Hann var markahæstur Frakka í úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu árið 2009 með tíu mörk (þar af sjö mörk úr sjö vítaskotum) og var markahæstur Frakka á mótinu með 52 mörk. Guigou, Michael Bertrand Gille. Bertrand Fabien Gille (fæddur 24. mars 1978 í Valence í Drôme) er franskur handknattleiksmaður. Hann er talinn einn af bestu línumönnum heims. Gille lék fyrir Chambéry SH frá 1996 til 2002 en gekk svo til liðs við HSV Hamburg. Gille hefur leikið fyrir franska karlalandsliðið í handknattleik frá árinu 1997. Með franska landsliðinu vann hann til gullverðlauna á sumarólympíuleikunum í Beijing 2008, þar sem hann var valinn besti línumaður mótsins. Hann vann einnig gullverðlaun með franska landsliðinu á Evrópumeistaramóti karla í handknattleik árið 2010. Luc Abalo. Luc Abalo (fæddur 6. september 1984 í Ivry-sur-Seine) er franskur handknattleiksmaður. Hann hefur leikið fyrir franska karlalandsliðið í handknattleik frá árinu 2006. Með franska landsliðinu hefur hann meðal annars unnið til gullverðlauna á sumarólympíuleikunum í Beijing 2008, heimsmeistaramótinu í handknattleik karla árið 2009 og Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla 2010. Abalo er örvhentur og leikur í hægra horni. Abalo, Luc Iker Romero. Iker Romero á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Svíþjóð 2011. Iker Romero Fernández (fæddur 15. júní 1980 í Vitoria, á Spáni) er spænskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir Barcelona og spænska karlalandsliðið í handknattleik. Romero lék fyrir spænska landsliðið þegar það vann til gullverðlauna á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Túnis árið 2005. Romero, Iker Hans Christoph Diederich Victor von Levetzow. Hans Christopher Diderich Victor von Levetzow (9. september 1754 – 28. október 1829) var þýsk-danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi og síðar í Noregi og Danmörku. Hann var sonur Joachim Diederichs von Levetzow, greifa af Madsow, Butzin og Schwiesel í Mecklenburg og konu hans Caroline Louise Wilhelmine Treusch von Butlar. Hann var á Íslandi 1779 – 1780 í fylgd með Þórði Þóroddssyni heyrara til að kynna sér málefni Íslands. Árið 1781 hóf hann störf í Rentukammerinu, þeirri deild sem sinnti málum Íslands, Grænlands og Finnmerkur, og var árið eftir gerður að kammerherra. Haustið 1783 var hann sendur af stað til Íslands ásamt Magnúsi Stephensen til að kanna ástandið þar í kjölfar Skaftárelda en þeir lentu í miklum hrakningum, skipið sem þeir voru á nálgaðist Ísland þrívegis en hraktist alltaf aftur til Noregs og að lokum varð úr að Magnús hafði vetursetu þar en Levetzow hélt til Kaupmannahafnar. Þeir komust þó til Íslands 16. apríl vorið eftir við illan leik og fóru þá austur í Skaftafellssýslu og skoðuðu verksummerki á gosstöðvunum. Þeir sigldu svo utan með fálkaskipinu um haustið. Levetzow varð stiftamtmaður á Íslandi 1785 og var vissulega kunnugri málefnum Íslands en margir fyrirrennarar hans og eftirmenn en þó mun skipan hans hafa mælst misjafnlega fyrir og hann lenti í deilum við ýmsa íslenska embættismenn, þar á maðal Magnús Stephensen, sem þó bar honum heldur vel söguna og sagði hann hjartagóðan, örlyndan og fljótfæran en þó sáttfúsan. Hann þótti yfirlætisfullur og drambsamur, einráður og deilugjarn. Svæsnustu deilurnar voru á milli hans og Hannesar Finnssonar biskups. Levetzow tók við embætti á einhverjum mestu hörmungarárum íslensku þjóðarinnar og átti því við ramman reip að draga. Hann var að mörgu leyti framfara- og umbótasinnaður en mætti oft mótstöðu íslenskra valdsmanna. Eitt af því sem hann gerði var að efla mjög póstþjónustu og koma því til leiðar að ráðnir voru fjórir fastir landpóstar og sinntu þörfum kaupmanna auk embættismanna. Eftir að hann lét af embætti hrakaði póstþjónustunni fljótlega aftur og sinnti hún þá svo til eingöngu þörfum embættismanna og póstarnir hættu að koma við á verslunarstöðum. Levetzow fékk sig fluttan árið 1789 til Kristjánssandsstiftis í Noregi. Hann varð amtmaður í Husum og Bredsted í Danmörku árið 1800. Árið 1817 fékk hann leyndarráðsnafnbót og varð stórriddari af Dannebrog 1826. Fyrri kona hans (gift 23. apríl 1785) var Marta Tillisch, f. 1758, drukknaði ásamt tveimur sonum þeirra í Litlabelti 1801. Seinni kona hans (1802) var Juliane Marie von Krogh (1773 – 1848). Heimildir. Levetzow, Hans Christoph Diederich Victor von Levetzow, Hans Christoph Diederich Victor von Levetzow, Hans Christoph Diederich Victor von Sebastian Preiß. Sebastian Preiß (fæddur 8. febrúar 1981) er þýskur handknattleiksmaður sem leikur fyrir TBV Lemgo og þýska karlalandsliðið í handknattleik. Preiss, Sebastian Christian Gyldencrone. Christian Gyldencrone, Güldencrone eða Gyldenkrone (1676 – 10. mars 1746), á Íslandi stundum nefndur Kristján Gullinkrúna, var danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1728 – 1730 en kom aldrei til landsins. Hann var sonur Vilhelms Marselis, sem var Hollendingur sem kom ungur til Danmerkur, var aðlaður í lok 17. aldar og tók sér þá ættarnafnið Güldencrone, og konu hans Regitse Sophie Vind. Faðir Christians dó þegar hann var barn að aldri og móðir hans giftist aftur hinum þekkta diplómata og embættismanni Jens Juel, sem var einn af áhrifamestu ráðgjöfum Kristjáns 5. Danakonungs. Christian Gyldencrone ferðaðist um Evrópu á árunum 1694 – 1697 og heimsótti þá Holland, Þýskaland, Frakkland, Ítalíu, Pólland og Svíþjóð og er til frásögn af ferðalögum hans. Hann fékk konferensráðstign 1717 og varð stjórnardeildarforstjóri (deputeret) sama ár. Hann var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 2. júlí 1728 og ári síðar var hann gerður að leyndarráði en árið 1730 varð hann stiftamtmaður í Viborg og amtmaður í Halds-amti. Þeim embættum gegndi hann til 1744, þegar sonur hans tók við. Hann lést svo tveimur árum síðar. Kona hans var Margrethe Amalie Moth (1683 – 3. febrúar 1755) og giftust þau 1699. Heimildir. Gyldencrone, Christian Gyldencrone, Christian Henrik Ochsen. Henrik Ochsen (26. apríl 1660 – 9. september 1750) var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður Íslands og Færeyja frá 1730 til dauðadags, eða í tuttugu ár, en kom þó aldrei til landsins. Ocksen var sonur silki- og vefnaðarvörusalans Thomas Ocksen og konu hans Elisabeth Thofall. Hann varð féhirðir "(zahlkasserer)" í fjármálaráðuneytinu árið 1692 og árið 1712 varð hann stjórnardeildarforstjóri í ráðuneytinu en var settur af 1716 og gegndi ekki öðru opinberu embætti fyrr en hann var gerður að stiftamtmanni á Íslandi og í Færeyjum 11. desember 1730. Aldrei fór hann þó til Íslands og ekki Færeyja heldur, en hélt embættinu þar til hann lést 1750, níræður að aldri. Kona hans, gift 1698, var Margrethe Hartvigsdatter. Heimildir. Ochsen, Henrik Ochsen, Henrik Hans Lindberg. Hans Lindberg (fæddur 1. ágúst 1981) er danskur handknattleiksmaður. Hann leikur með danska karlalandsliðinu í handknattleik og varð Evrópumeistari með landsliðinu árið 2008. Lindberg, Hans Lars Christiansen. Lars Roslyng Christiansen (fæddur 18. apríl 1972 í Sønderborg) er danskur handknattleiksmaður. Hann leikur með danska karlalandsliðinu í handknattleik og varð Evrópumeistari með landsliðinu árið 2008. Hann var markahæstur á mótinu ásamt Nikola Karabatic og Ivano Balić. Hann lék einnig með danska landsliðinu þegar það vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2007, silfurverðlauna á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2011 og bronsverðlauna á Evrópumeistaramótunum 2006, 2004 og 2002. Christiansen hefur leikið á fjórða hundrað landsleiki fyrir danska karlalandsliðið í handknatleik og hefur skorað rúmlega fjórtánhundruð mörk. Hann er sem stendur bæði leikreyndastur og markahæstur núverandi leikmamanna danska landsliðsins. Christiansen, Lars Mikkel Hansen. Mikkel Hansen (fæddur 22. október 1987) er danskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir Paris Saint-Germain og danska karlalandsliðið í handknattleik. Hansen leikur stöðu vinstri skyttu. Hann var markahæstur danska liðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2011. Hansen lék með FC Barcelona frá 2008 til 2010. Áður lék hann með GOG Svendborg. Hansen, Mikkel Pascal Hens. Pascal Hens (fæddur 26. mars 1980 í Daun í Þýskalandi) er þýskur handknattleiksmaður. Hann leikur fyrir HSV Handball í þýsku deildinni og er skytta í þýska karlalandsliðinu í handknattleik. Hens vann gull með þýska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2007. Tenglar. Hens, Pascal Marko Vujin. Marko Vujin (Марко Вујин, fæddur 7. desember 1984 í Bačka Palanka) er serbneskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir ungverska liðið MKB Veszprém KC og serbneska karlalandsliðið í handknattleik. Vujin, Marko Håvard Tvedten. Håvard Tvedten (fæddur 29. júní 1978 í Flekkefjord) er norskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir spænska liðið Valladolid. Hann hefur einnig leikið fyrir norska karlalandsliðið í handknattleik frá árinu 2000 og hefur leikið 143 landsleiki og skorað 434 mörk. Tvedten, Håvard Denis Buntić. Denis Buntić (fæddur 13. október 1982 í Ljubuški í fyrrverandi Júgóslavíu) er króatískur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir spænska liðið Ademar León og króatíska karlalandsliðið í handknattleik. Með króatíska landsliðinu hefur hann tvívegis unnið til silfurverðlauna á heimsmeistaramóti karla, fyrst á heimsmeistaramótinu í Túnis 2005 og aftur á heimsmeistaramótinu í Króatíu árið 2009. Buntic, Denis Homininae. Homininae er undirætt af ættinni hominidae, sem telur meðal annars menn, górillur og simpansa auk nokkurra útdauðra tegunda. Otto von Rantzau. Otto Manderup von Rantzau (22. maí 1719 – 2. október 1768) var danskur greifi og embættismaður sem var stiftamtmaður yfir Íslandi frá 1750 til dauðadags en kom þó aldrei til landsins. Rantzau var sonur Christians Rantzau greifa (d. 1771), sem var á sinni tíð einn æðsti embættismaður Danmerkur og meðal annars landstjóri í Noregi um tíma, og konu hans Eleonore Hedevig von Plessen. Hann fékk mjög góða menntun og dvaldist meðal annars í Genf og Göttingen við nám. Hann var skipaður dómari í Hæstarétti Danmerkur 1742, 23 ára að aldri, gegndi því embætti til dauðadags og var nokkrum sinnum dómforseti. Frá 10. september 1750 var hann jafnframt stiftamtmaður Íslands og Færeyja. Hann hlaut kammerherratitil 1743 og varð leyndarráð 1759. Hann var þekktur fyrir áhuga sinn á vísindum og listum, var félagi í danska Vísindafélaginu og hafði mikinn áhuga á leiklist og studdi hana sérstaklega. Fyrirrennari Rantzaus, Henrik Ochsen, hafði embættið á hendi í tuttugu ár án þess að koma til Íslands en þegar Rantzau varð stiftamtmaður að honum látnum var sett það skilyrði fyrir veitingunni að hann flytti til landsins. Hann vildi þó ekki setjast að á Bessastöðum og var þá ákveðið að byggja hús handa honum í Viðey og skyldi Skúli Magnússon landfógeti einnig búa þar. En þegar bygging Viðeyjarstofu hófst 1752 hafði Rantzau fengið sig leystan undan þeirri skyldu að flytja og Skúli fékk því húsið einn til búsetu. Þótt Rantzau kæmi aldrei til landsins hefur hann samt verið talinn einn af hinum hæfari stiftamtmönnum og Íslendingum einkar velviljaður og er í annálum kallaður „sá góði stiftamtmaður“. Hann átti meðal annars stóran þátt í því, með tilstyrk danska Vísindafélagsins, að landlæknisembætti var komið á fót á Íslandi og Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir. Þeim Rantzau og Skúla fógeta var vel til vina og sagði Skúli að í Kaupmannahöfn ættu Íslendingar marga óvini en einnig nokkra vini, og tiltók þá Thott greifa og Rantzau stiftamtmann og sagði að þeir hefðu „sýnt og sannað að þeir væru Íslandsvinir í orði og verki,“ og er Rantzau líklega einn hinna fyrstu sem nefndur var Íslandsvinur. Magnús Ketilsson sýslumaður sagði líka um Rantzau að honum látnum að hann hefði verið „sannur Islands Patron“. Rantzau dó tæplega fimmtugur og mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að Íslendingar skyldu einir bera lík sitt til grafar og sá fyrir fé til þess að þeir gætu drukkið erfi sitt. Kona hans (gift 1754) var Eibe Margrethe von Levetzow (1735 – 1791). Christian von Proeck. Christian Lebrecht von Proeck (Pröck, Prøck, 1718 – 4. september 1780) var þýskur barón sem var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 1768 en gegndi ekki embættinu nema rétt rúmt ár og fór aldrei til Íslands. Proeck var sonur Proecks baróns, leyndarráðs í Bayreuth. Hann fékk danska kammerjúnkaranafnbót árið 1747. Árið 1754 varð hann konferensráð og 1755 var hann gerður að landstjóra í Dönsku Vestur-Indíum, sem Danakonungur hafði þá nýverið yfirtekið frá Vestur-Indía-Gíneu-verslunarfélaginu. Hann var þó settur af 1766 vegna dugleysis og kallaður heim. Þann 1. nóvember 1768 var Proeck skipaður stiftamtmaður yfir Íslandi og Færeyjum eftir lát Otto von Rantzau. Hann fékk fyrirmæli um að fara til Íslands þegar um vorið en mun hafa haft litla löngun til þess, sótti um leyfi til að fresta brottförinni um eitt ár og fékk það. En þsnn 19. desember 1769, ári eftir að Proeck var skipaður í embætti, var hann gerður að amtmanni í Kaupmannahafnaramti og varð því aldrei af Íslandsför. Struensee setti hann af 2. maí 1771 vegna tregðu hans eða slóðaskapar við að framfylgja konunglegum tilskipunum. Hann fékk embættið ekki aftur þegar Struensee var steypt af stóli en 1774 var þó úrskurðað að hann skyldi fá eftirlaun frá þeim degi þegar hann var látinn hætta. Hann dó í Kaupmannahöfn 1780. Heimildir. Proeck, Christian von Proeck, Christian von Didier Dinart. Didier Dinart (fæddur 18. janúar 1977 í Pointe-à-Pitre í Guadeloupe) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir spænska liðið BM Ciudad Real. Hann lék áður fyrir franska liðið Montpellier HB. Dinart hefur einnig leikið í franska karlalandsliðinu í handknattleik frá desember 1996. Dinart, Didier Vedran Zrnić. Vedran Zrnić (fæddur 26. september 1979) er króatískur handknattleiksmaður. Hann varð heimsmeistari í handknattleik karla með króatíska landsliðinu árið 2003 og vann til gullverðlauna á sumarólympíuleikunum 2004. Zrnic, Vedran Albert Rocas. Albert Rocas 12. október 2008. Albert Rocas Comas (fæddur 21. júní 1982 í Palafrugell í Girona) er spænskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir Barcelona. Hann leikur einnig fyrir spænska karlalandsliðið í handknattleik. Rocas vann til bronsverðlauna með spænska landsliðinu á sumarólympíuleikunum í Beijing 2008 og heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Svíþjóð árið 2011. Rocas, Albert Igor Vori. Igor Vori í leik gegn Frakklandi á Evrópumeistaramótinu 2010. Igor Vori (fæddur 20. september 1980 í Zagreb) er króatískur handknattleiksmaður. Hann á króatíska móður og albansk-ættaðan föður frá Kosovo í Serbíu. Vori lék með króatíska karlalandsliðinu í handknattleik þegar það vann til gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla árið 2003 og á sumarólympíuleikunum 2004 og vann til silfurverðlauna með króatíska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla árið 2005 og á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla árið 2008, þar sem hann var valinn besti varnarmaðurinn. Hann vann aftur til silfurverðlauna með króatíska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla árið 2009 og var valinn leikmaður mótsins. Vori, Igor Jérôme Fernandez. Jérôme Fernandez (fæddur 7. mars 1977 í Cenon í Gironde) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir þýska liðið THW Kiel. Hann leikur einnig í franska landsliðinu og hefur unnið með landsliðinu til gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2001, sumarólympíuleikunum í Beijing 2008, heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2009, Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla 2010 og heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2011. Fernandez er vinstri skytta og er 1,99 m á hæð. Fernandez, Jerome Kristian Kjelling. Kristian Cato Walby Kjelling (fæddur 8. september 1980) er norskur handknattleiksmaður, sem leikur fyrir danska liðið AaB Håndbold í Álaborg. Hann leikur einnig í norska karlalandsliðinu Kjelling, Kristian T 01. Pop-Festival 1970 er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1970. Á henni flytja ýmsir tónlistarmenn tólf lög. Platan er hljóðrituð í mónó. Hljóðritun: City of London Recording Studios, P.Y.E. Recording Studios, Ríkisútvarpið Reykjavík. Upptökumenn: Bernard Battimore, Allan Florence, Pétur Steingrímsson og Guðmundur R. Jónsson. Pressun: PYE. Útlit: Baldvin Halldórsson. Ljósmynd á forsíðu (skófir í Berserkjahrauni): Kolbeinn Grímsson. Aðrar ljósmyndir: Sigurgeir Sigurjónsson, Óli Páll, Kristinn Benediktsson o.fl. Prentun kápu: Litbrá hf. Prentun texta og myndaopnu: Hafnarprent hf. Takmörk. Rúnar Júlíusson syngur við undirleik brezkrar hljómsveitar. Lauritz Andreas Thodal. Lauritz Andreas Andersen Thodal (um 1718 – 29. maí 1808) var norskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1770 – 1785 og var almennt talinn einn af hæfustu embættismönnum sem hingað voru sendir. Ferill í Noregi. Thodal var fæddur á Selnæs í Lurø í Noregi og var sonur Anders Christensen, borgara í Þrándheimi, og konu hans Else Larsdatter. Ekkert er vitað um ævi hans fyrr en 1751 en þá varð hann ritari nefndar sem hafði það verkefni að ganga frá landamærum Noregs og Svíþjóðar, mæla þau út og merkja þau. Landamærin eru geysilöng og víðast í óbyggðum og þetta var því mikið verk sem tók meira en fjórtán ár. Thodal virðist hafa verið virkastur nefndarmanna og ávann sér mjög góðan orðstír. Hann var sendur til Stokkhólms og Sankti Pétursborgar árið 1756 í erindum nefndarinnar og fékk þá kansellíráðsnafnbót og fyrirheit um metorð og launað embætti þegar starfi nefndarinnar lyki. Við það var staðið. Stiftamtmaður á Íslandi. Thodal var gerður að jústitsráði 1767, varð amtsskrifari Björgvinjarstiftis 1768 og 23. janúar 1770 var hann skipaður stiftamtmaður á Íslandi og í Færeyjum. Hann hélt skömmu síðar til Íslands og settist að á Bessastöðum, varð fyrsti stiftamtmaðurinn til að hafa búsetu á landinu og raunar sá fyrsti sem kom þangað, nema hvað Peter Raben mun hafa siglt stutta ferð til Íslands 1720 og að minnsta kosti séð landið. Thodal bjó á Bessastöðum í 15 ár þótt upphaflega hefði einungis verið tilskilið að hann dveldi á landinu í 5-6 ár. Hann þótti rækja embætti sitt af miklum dugnaði og var vinsæll meðal landsmanna. Hann var sagður hæglátur, ljúfur og lítillátur, þótti réttlátur og mikill friðsemdarmaður. Samvinna hans við íslenska embættismenn var yfirleitt með ágætum þótt nokkur rígur væri á milli hans og Skúla Magnússonar landfógeta. Hann var mikill búmaður, réðist í ýmsar jarðabætur á Bessastöðum og reyndi ýmsar nýjungar í búskapnum sem þó gáfust misvel. Thodal var jafnframt stiftamtmaður í Færeyjum til 1775 en þá voru þær settar undir stiftamtmann Sjálands. Árið 1784 óskaði Thodal eftir að fá að láta af starfinu vegna heilsubrests, enda var hann þá hátt á sjötugsaldri og sagðist þola illa loftslagið á Íslandi, og var það þegar heimilað en vegna þess hörmungarástands sem ríkti í Móðuharðindunum frestaði hann brottför sinni til næsta árs og lét af embætti 27. apríl 1785. Eftirlaunatími og fjölskylda. Hann bjó eftir það í Kaupmannahöfn og sinnti Íslandsmálum í Rentukammerinu og sat í nefndum um málefni Íslands. Vegna þessa hélt hann fullum stiftamtmannslaunum til dauðadags 1808. Hann var sagður besti talsmaður Íslands í Kaupmannahöfn eftir að Jón Eiríksson dó en þeir voru góðir vinir. Thodal varð forseti Lærdómslistafélagsins eftir fráfall Jóns. Rétt áður en Thodal fór til Íslands giftist hann auðugri norskri kaupmannsekkju, Anna Helene Klow, og fór hún og tvö börn hennar með honum til Íslands en hún dó eftir hálfs árs hjónaband. Börn hennar ólust upp á Bessastöðum en stjúpdóttir Thodals, Anna Wilhelmina Klow, lést þar í janúar 1778, 18 ára að aldri, og fékk það mikið á Thodal, sem kenndi sjálfum sér um, en hann hafði meinað henni að giftast ungum dönskum verslunarstjóra í Hafnarfirði og var sagt að stúlkan hefði tekið það svo nærri sér að hún hefði dáið; Thodal skipti um skoðun þegar hún var orðin fársjúk en þá var það of seint. Heimildir. Thodal, Lauritz Andreas Thodal, Lauritz Andreas Peter Raben. Peter Raben (um 1661 – 29. september 1727) var danskur sjóliðsforingi sem var stiftamtmaður á Íslandi frá 1720 til dauðadags og var eini stiftamtmaðurinn sem nokkru sinni kom til landsins, allt þar til Thodal tók við embættinu árið 1770. Dvöl hans var þó ekki löng. Raben var líklega fæddur í Haderslev í Danmörku. Hann gekk í danska flotann 1681, þjónaði svo í hollenska flotanum og fór eina ferð til Miðjarðarhafs. Um tíma var hann á frönskum kaupskipum en fór síðan aftur í hollenska flotann og tók þátt í ýmsum sjóorrustum. Í árslok 1687 var hann um tíma á spænskum galeiðum í austanverðu Miðjarðarhafi, brá sér svo heim til Danmerkur en var innan tíðar farinn að þjóna í franska flotanum. Hann hafði því aflað sér mikillar reynslu og var gerður að skipstjóra á dönsku vaktskipi á Eyrarsundi 1691. Hann fór sem aðstoðarmaður Ulrik Christian Gyldenløve, hálfbróður Friðriks 4., í námsferð hans til Spánar með franska flotanum og þegar Gyldenløve tók við stjórn danska sjóhersins árið 1700, eftir að Jens Juel yfiraðmíráll veiktist, stóð til að Raben yrði skipstjóri forystuskips hans en hinn dauðvona Juel réði Friðriki 4. konungi frá því og sagði Raben mjög óvinsælan. Fékk hann þá skipstjórn á einu herskipanna og gat sér gott orð í stríðsátökum sem í hönd fóru. Hann var aðlaður í kjölfarið, árið 1701. Næstu ár gegndi hann ýmsum embættum og trúnaðarstörfum og þótti standa sig vel; hann var sagður metnaðargjarn en mjög duglegur og drífandi maður. Seinna er þó sagt að tilhneiging hans til baktjaldamakks hafi yfirskyggt kosti hans. Þegar Norðurlandaófriðurinn mikli hófst fékk Raben nóg að starfa og hækkaði brátt í tign. Hann var gerður að varaaðmírál 1710, stýrði níu skipum á Eystrasalti og hrakti sænsk herskip á flótta. Hann var gerður að aðmírál 1714 og tók við yfirstjórn alls flotans af Gyldenløve en veiktist nokkru síðar og tók Gyldenløve þá aftur við. Raben varð aftur æðsti foringi flotans þegar Gyldenløve lést af sárum sem hann hlaut í sjóorrustu 8. desember 1719 og þann 6. mars 1720 fékk hann embætti stiftamtmanns á Íslandi og í Færeyjum, sem Gyldenløve hafði haft. Hann sigldi til Íslands um vorið á freigátunni "Søridderen" og kom til Hafnarfjarðar en dvöl hans var stutt og hann fór ekki á Alþingi. Hann kynnti sér meðal annars húsakynni á Bessastöðum og þótti lítið til koma og þegar hann kom aftur til Danmerkur skrifaði hann konungi og fór fram á að byggður yrði nýr embættisbústaður þar, sendi teikingu af hinum bágbornu húsakynnum og teikningu af tillögu sinni um úrbætur. Þegar heim var komið hóf Raben líka gerð Íslandskorts. Því verki lauk þó ekki en Raben kom því til leiðar að hafnar voru reglulegar landmælingar á Íslandi og skyldi gert „land- og sjókort hans hátign til ánægju“. Raben kom ekki aftur til Íslands og lést 29. september 1727. Kona hans var Elline Marie Robring (d. 1735). Heimildir. Raben, Peter Raben, Peter Dio. Dio var bandarísk hljómsveit stofnuð árið 1982 af söngvaranum Ronnie James Dio eftir að hann hafði yfirgefið Black Sabbath. Frumburður hljómsveitarinnar var platan "Holy Diver" sem er þekktasta verk sveitarinnar og hefur að geyma tvær smáskífur sem urðu vinsælar; "Holy Diver" og "Rainbow in the dark". Árið 1985 hætti gítarleikarinn Vivian Campbell í bandinu eftir ósætti við Ronnie James Dio. Í kjölfarið varð meira um breytingar á liðskipan bandsins en trommarinn Vinny Appice (sem var með Ronnie James Dio í Black Sabbath) var með bandinu um langa hríð. Gítarleikarinn Craig Goldy tók við árið 1986 en dvaldi skamma stund. Árið 1989 gekk 18 ára, enskur gítarleikari, Rowan Robertsson, til liðs við hljómsveitina eftir að hafa sent demo-upptöku sem Dio hlustaði á. Bandið tók sér hlé árið 1991-1993 þegar Dio vék sér aftur í Black Sabbath en sneri svo aftur með plötuna "Strange Highways" þar sem mikil stílbreyting varð með nýjum gítarleikara Tracy G. Tónlistin varð hrárri og hraðari og viðfangsefnin hurfu frá fantasíum yfir í samfélagsleg mál. Stílbreytingin var umdeild meðal aðdáenda og vinsældir bandsins dvínuðu. Afturhvarf til fyrri stíls kom með plötunni "Magica", árið 2000 og gítarleikarinn Craig Goldy sneri aftur. Árið 2007 fór Ronnie James Dio í tónleikaferðalag með Black Sabbath(eða Heaven & Hell) og hljómsveitin Dio lá í dvala mestmegnis eftir það. Dio vann að framhaldsplötum "Magica" áður en hann lést árið 2010 en auðnaðist aðeins að gefa út smáskífuna "Electra" haustið 2009. Ronnie James Dio. Ronnie James Dio (1942 – 2010) gerði garðinn frægan með Rainbow, Black Sabbath og sveit sinni Dio. Hann var þekktur fyrir kraftmikla rödd sína og fantasíukennda textagerð. Ronald James Padavona fæddist í Portsmouth í New Hampshire í Bandaríkjunum árið 1942 en flutti ungur að árum til New York-fylkis og hefur ævinlega litið á sig sem New York-búa þrátt fyrir að hafa búið í Los Angeles seinni part ævinnar. Hann var af ítölskum ættum og lærði sem barn á trompet (sem hann þakkaði sönghæfileika sína að hluta til). Ferill Dios spannaði meira en 50 ár en hann byrjaði í skólahljómsveitum þar sem hann þandi röddina með trompeti og spilaði bassa ásamt því að syngja. Stóra stökkið kom hins vegar þegar Roger Glover, bassaleikari Deep Purple, sá hann spila á kynningartónleikum með hljómsveit sinni Elf í Bandaríkjunum og bauð þeim að hita upp fyrir Deep Purple þar vestra. Ritchie Blackmore, gítarleikari Deep Purple, sá að mikið efni var í Dio og bauð honum að syngja með sér á smáskífu. Þessi skífa varð að plötu og Blackmore yfirgaf Deep Purple til að einbeita séð að nýju verkefni: Rainbow. Dio átti nokkur mjög góð ár með Rainbow og tók upp þrjár breiðskífur með þeim. Eftir listrænan ágreining við Blackmore ákváð Dio að yfirgefa Rainbow þar sem Blackmore vildi snúa sér að meginstraums rokki. Sama ár og Ozzy Osbourne var rekinn úr Black Sabbath, 1979, stakk Don Arden (faðir Sharon Osbourne) upp á Dio sem söngvara við hljómsveitina. Úr því varð. Dio hjálpaði Sabbath að rísa upp úr öskustónni og platan Heaven and hell varð ein af þeirra vinsælustu stykkjum. Ronnie kom með öðruvísi stílbrigði og notaði óspart fantasíukennda texta og látbragð á tónleikum (djöflahorn). Þó að vel hafi farið með þeim í upphafi myndaðist núningur milli Geezer Butler og Tony Iommi annars vegar og Dio og Vinnie Appice (trommara) hins vegar. Niðurstaðan úr því varð að Dio og Appice hættu og stofnuðu bandið Dio sem starfaði nær óslitið frá 1982. Árin 1991-1993) var endurkoma Dio í Sabbath með plötunni Dehumanizer og svo aftur sem Heaven and Hell 2006 – 2010. Síðasta hljómplata Ronnie James Dio var "The Devil you know" með Heaven and Hell. En þó skildi Dio eftir sig eitt lag með bandinu sínu Dio, Electra hét það og kom á box-setti með endurútgefnu efni. Dio auðnaðist því miður ekki að klára breiðskífurnar Magica II og III sem voru í bígerð. Dio greindist með magakrabbamein í nóvember árið 2009 og lést í maí 2010. Hann lét eftir sig eiginkonuna Wendy (af bresku bergi brotin) en hún var umboðsmaður hans lengi. Ísöld (kvikmynd). "Ísöld" (enska: "Ice Age") er bandarísk teiknimyndir framleidd af Blue Sky Studios. Myndin var frumsýnd þann 15. mars 2002. Leikstjóri myndarinnar er Chris Wedge og með aðalhlutverk fara Ray Romano, John Leguizamo og Denis Leary. T 02. Heims um ból er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1970 (1969). Á henni flytja Kirkjukór Akureyrar og Hljómsveit Ingimars Eydal jólasálma og jólalög. Platan er hljóðrituð í mónó. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Pressun: PYE. Hönnun: Kristján Kristjánsson, FÍT. Prentun: Valprent HF. - Akureyri. Lagalisti. Kirkjukór Akureyrar - Stjórnandi og undirleikari Jakob Tryggvason Hljómsveit Ingimars Eydal. Söngvarar: Helena og Þorvaldur Fjarkönnun. Fjarkönnun er landfræðilegt hugtak um rafseguls mælingu á lofthjúpi og yfirborði jarðar, ásamt myndrænni framsetningu þeirra. BBC One. BBC One er aðalsjónvarpsstöð breska ríkisútvarpsins BBC. Henni var komið á fót 2. nóvember 1936 undir nafninu BBC Television Service og var fyrsta almenningssjónvarpsþjónusta heimsins sem sendi út reglulega dagskrá í háum myndgæðum. Seinna var hún nefnd BBC tv og hélt því nafni þar til systurstöðin BBC2 var stofnuð árið 1964 en þá var nafninu breytt í BBC1. Nafninu var breytt í núverandi mynd árið 1997. Árleg velta stöðvarinnar er rúmlega 1,2 milljarðar breskra punda. Eins og aðrar sjónvarpstöðvar BBC er hún fjármögnuð með sjónvarpsgjaldi sem almenningur greiðir og sendir því ekki út neinar auglýsingar. BBC One er vinsælust allra breskra sjónvarpsstöðva en í öðru stæði er keppinauturinn ITV1. T 26. Ánægjustund er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1983. Á henni flytur Örvar Kristjánsson fjórtán harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Studio Bimbó. Setning og filmuvinna: Dagsprent hf. Pressun: Alfa. Teikningar á umslagi: Hanna J. Sturludóttir. Prentun: Valprent hf. Suðurfirðir Vestfjarða. Suðurfirðir Vestfjarða eru Arnarfjörður, Tálknafjörður og Patreksfjörður. Þar bjuggu um 1100 manns í lok árs 2010. Lorentz Angel Krieger. Lorentz Angel Krieger (10. maí 1797 – 4. maí 1838) var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi og amtmaður í Suðuramti. Krieger var fæddur í Kaupmannahöfn og voru foreldrar hans Johan Cornelius Krieger sjóliðsforingi og kona hans Anne Sophie Rawert. Hann lauk stúdentsprófi úr heimaskóla 1814 og lögfræðiprófi 1819. Sama ár var hann gerður að kammerjúnkara. Hann varð amtmaður í Suðuramti Íslands 17. janúar 1829 og var um leið settur stiftamtmaður í stað Peters Fjeldsted Hoppe en var skipaður í embættið 2. apríl 1831. Krieger var reynslulítill þegar hann tók við störfum á Íslandi en reyndist hæfur embættismaður og áhugasamur um hag Íslands. Hann er sagður hafa verið dugmikill, réttsýnn og viðmótsþýður og notið almennrar virðingar og vinsælda. Hann lét sig málefni Reykjavíkur miklu skipta og vann að endurbótum á stjórn bæjarmála. Hann kom því til leiðar að allar útmælingar á lóðum þurftu samþykki amtmanns og bannaði byggingar á tveimur stöðum, Lækjartorgi og Austurvelli, sem þar með urðu opin svæði. Hann lét endurreisa Skólavörðuna og gera veg að henni á eigin kostnað og var varðan um tíma kölluð "Kriegers-Minde". Einnig kostaði hann veg suður með Læknum og var það upphaf Lækjargötu. Hann vann að því að komið yrði á byggingarnefnd í Reykjavík. Krieger var í Danmörku frá hausti 1834 til vors 1836 og sat þá meðal annars á þingi Dana fyrir hönd Íslands og sat í nefnd sem rannsakaði verslunarlöggjöf sem varðaði Ísland. Þann 24. september 1836 var Krieger skipaður stiftamtmaður í Álaborgarstifti. Hann var þó áfram á Íslandi um veturinn og gegndi embættum sínum en fór til Danmerkur um vorið. Skömmu eftir að hann tók við embætti í Álaborg veiktist hann og lést vorið 1838, fertugur að aldri og ókvæntur. Heimildir. Krieger, Lorentz Angel Krieger, Lorentz Angel Torkil Abraham Hoppe. Torkil Abraham Hoppe (10. apríl 1800 – 7. júní 1871), á Íslandi oftast nefndur Þorkell Hoppe, var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1841-1847. Hann var sonur Johanns Christophers Hoppe sjóliðsforingja og kammerherra og konu hans Johanne Magdalene Fjeldsted, dóttir Þorkels Fjeldsted stiftamtmanns í Noregi. Bróðir hans var Peter Fjeldsted Hoppe, sem var stiftamtmaður á Íslandi 1824-1829. Torkil Hoppe varð stúdent úr heimaskóla 1818, lauk lögfræðiprófi 1824 og starfaði í Rentukammerinu frá 1825. Hann kom fyrst til Íslands 1824 með bróður sínum, þegar hann varð stiftamtmaður. Á árunum 1832-1833 var hann sendur til Íslands á vegum Rentukammersins og átti meðal annars að fara á alla verslunarstaði landsins, sem þá voru 24, og tókst að komast á þá alla nema einn. Í skýrslu sinni tók Hoppe fram að hann teldi að Íslendingar þörfnuðust þess án efa meira en nokkur önnur þjóð að eiga samskipti við aðrar þjóðir. Hann var einnig sendur til Færeyja og Grænlands til upplýsingaöflunar. Í framhaldi af því varð hann ritari nefndar sem skipuð var 1834 til að gera tillögur um breytingar á verslunarlöggjöf Íslands og 1835 var hann skipaður í nefnd sem átti að kanna hvort grundvöllur væri fyrir því að gefa Grænlandsverslun frjálsa. Hann varð kammerjúnkari 1827 og kammerherra 1841. Þann 21. apríl 1841 var Hoppe skipaður stiftamtmaður á Íslandi og jafnframt amtmaður í Suðuramti. Hann fékk misjafnar umsagnir á Íslandi og þótti eftirbátur Bardenfleths fyrirrennara síns. Bjarni Thorsteinsson segir um hann í ævisögu sinni að hann sé „enginn gáfumaður eða röksemdarmaður í embætti, en ekki vantar það, að hann hefir góðan vilja.“ Árið 1847 fékk hann lausn frá störfum að eigin ósk og var á biðlaunum næsta ár en var svo skipaður amtmaður í Sóreyjaramti. Því embætti gegndi hann til dauðadags 1871. Fyrri kona hans (gift 1839) var Juliane Vilhelmine Nielsine Christence Benzon en hún dó 1855. Hann giftist aftur 1860 Christine Caroline Platou. Einn sona Hoppe og fyrri konu hans, Johan Christopher Hoppe, sem fæddur var í Reykjavík 1841, varð skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu og síðar amtmaður í Randersamti. Göteborg (herskip). Göteborg (Giothenborg, Gottenborg) var sænskt herskip sem Danir hertóku í Norðurlandaófriðnum mikla og var það nýtt af danska sjóhernum en hélt nafninu. Það fylgdi dönskum kaupskipum til Íslands vorið 1718 en herskip höfðu fylgt þeim í siglingum til og frá landinu frá árinu 1714 vegna sjórána Svía. Skipið var línuherskip smíðað í Karlskrona og sjósett árið 1696. Það var um 900 tonn á stærð með 44 til 50 fallbyssur og bar 250-300 menn. Herfang. Skipið var eitt þeirra sænsku herskipa sem Danir náðu á sitt vald eftir sigur þeirra í orrustunni við Fehmarn 24. apríl 1715. Íslandsferðin. Skipstjórinn í þessari ferð hét Jochum Friis, en áhöfnin var 190 norskir sjóliðar. Göteborg lá í Hafnarfirði sumarið 1718 og ætlaði herskipið að fylgja kaupskipunum utan um haustið. Skipin héldu af stað 23. október en við Reykjanes skall á aftakaveður. Kaupskipin komust leiðar sinnar en Göteborg ekki, skipið lenti í miklum erfiðleikum og hraktist loks upp í Hafnarskeið við Þorlákshöfn 7. nóvember 1718 (sumir annálar segja 4. nóvember). Um 170 sjóliðar björguðust á land. Þar sem öll kaupskip voru farin frá landinu þurfti að koma skipsbrotsmönnum fyrir víða um sveitir Suðurlands en Friis skipstjóri var á Bessastöðum hjá Cornelius Wulf landfógeta. Landfógeti greiddi bændum þóknun fyrir uppihald sjóliðanna. Einhverjir þeirra skildu eftir sig afkomendur eða eins og séra Jón Halldórsson í Hítardal segir í Viðauka Fitjaannáls: „... nokkrir guldu þjónustulaunin með óþægum barneignum.“ Peter Fjeldsted Hoppe. Peter Fjeldsted Hoppe (14. ágúst 1794 – 23. maí 1848) var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1824-1829. Hann var sonur Johanns Christophers Hoppe sjóliðsforingja og kammerherra og konu hans Johanne Magdalene Fjeldsted, dóttir Þorkels Fjeldsted stiftamtmanns í Noregi. Yngri bróðir hans var Torkil Abraham Hoppe, sem var stiftamtmaður á Íslandi 1841-1847. Hann var skipaður amtmaður í Suðuramti á Íslandi 2. mars 1824 og um leið settur stiftamtmaður en ekki skipaður í það embætti fyrr en 26. apríl 1826. Hann kom þó ekki til landsins fyrr en 2. ágúst 1824 og gegndi Bjarni Thorsteinsson embættunum á meðan, og aftur frá því um haustið 1825 fram í júlí næsta sumar því þá fékk Hoppe leyfi Rentukammersins til að fara til Kaupmannahafnar að gifta sig. Kona hans var Julie von Haffner. Um Hoppe segir Bjarni í ævisögu sinni: „Hann reyndist hér reglusamur og allnýtur embættismaður. En það var eitthvað óviðkunnanlegt í háttum hans og framgöngu, einkum fyrir þá sem ekki þektu hann. I stjórnarráðunum var hann ekki sériega mikils metinn, þvi þar var hald manna a& hann risti ekki djúpt.“ Hoppe þótti þó að mörgu leyti hæfur maður og hann sýndi til dæmis málefnum stiftsbókasafnsins (síðar Landsbókasafnsins) mikinn áhuga og gegndi sjálfur störfum bókavarðar og gaf safninu bækur, húsmuni og fleira. Hann var einnig öflugur stuðningsmaður Lærða skólans. Peter Fjeldsted Hoppe var amtmaður í Vejle-amti til dauðadags 1848. Heimildir. Hoppe, Peter Fjeldsted Hoppe, Peter Fjeldsted Nina Persson. Nina Persson á tónleikum í Stokkhólmi árið 2009. Nina Persson (fædd 6. september 1974 i Örebro) er sænsk söngkona. Persson ólst upp í Bankeryd, Jönköping, er sænsk söngvari, best þekkt sem meðlim í rokkhljómsveitin The Cardigans. Hún er gift með Nathan Larson. Í viðbót við The Cardigans, Persson einnig sóló verkefni A Camp, og hún gaf út plötuna "A Camp" 2001. Hún var einnig einn af helstu tákn í myndinni Om Gud vill frá 2006, beint eftir Amir Chamdin. Persson, Nina Hans Talhoffer. Hans Talhoffer, teikning frá 1467. Mynd númer 25 úr handriti Talhoffers frá 1467. Hún sýnir tvo menn vopnuðum langsverðum í sitt hvorri varðstöðunni. Hans Talhoffer var skylmingameistari frá Suður Þýskalandi á 15. öld. Sjö myndskreytt skylmingahandrit eru kennd við hann. Í þeim er greint frá fjölmörgum bardagaaðferðum: fangbrögðum eður glímu, beitingu rýtninga, langsverða, atgeira og hvernig barist er á hestbaki. Einnig eru í þeim sýndar valslöngvur, brynvarðir stríðsvagnar og aðrar vítisvélar. Hans er samtímamaður skylmingameistarans Paulus Kal, en talið er að rígur hafi verið milli þeirra tveggja. En báðir eru þeir taldir til lærisveina Jóhannes Liechtenhauers helsta skylmingameistara Norður Evrópu á hámiðöldum. Langsverð. a> takast á með því að „hálfverða“ langsverð sín. Riddarinn til hægri ber með efri hjöltum í hjálm hins (svokallað „Morðhögg“), en sá er til vinstri beitir oddi sverðs síns sem spjóti. Svissneskt Langsverð frá 15. eða 16. öld. Langsverð er heiti yfir löng evrópsk sverð frá um 13. öld til um 1550 og voru enn jafnvel í notkun á 17. öld. Saga langsverða. Upphaflega er talið að þessi tegund sverða hafi verið þróuð fyrir riddara til að berjast á hestbaki, en aukin lengd blaðsins auðveldaði mönnum að höggva eða stinga fjandmann sinn af háum hestum. Voru langsverð iðulega notuð í annarri hendi á hestbaki, en lengd meðalkaflans var nægileg til að nota báðar hendur, sem varð reglan þegar barist var á fæti. Einnig var barist með aðra eður báðar hendur á blaði sverðsins, en það var gert þegar menn áttust við vel brynvarða andstæðinga. Sú aðferð var kölluð að „hálfsverða“, en sverðseggin gat ekki skorið brynjur í sundur og varð því að beita oddi sverðsins eins og spjóti eður hjöltum þess sem hamri til þess að stinga sér leið í gegnum hana eða rota fjandmanninn. Þegar komið var fram á 16. öld voru langsverð orðin algeng vopn meðal málaliða í Evrópu, enda var skjöldurinn fallinn úr notkun að miklu leyti. Channel 4. Channel 4 er breskt almannaútvarp sem stofnað var 2. nóvember 1982. Þó að Channel 4 fjármagni sjálft sig er hún í raun í opinberri eigu. Upprunalega var það dótturfyrirtæki Independent Broadcasting Authority (IBA) en nú er það í eigu almannafyrirtækisins Channel Four Television Corporation sem stofnað var árið 1990 og hóf vinnslu árið 1993. Við skiptingu í stafrænt sjónvarp í Wales þann 31. mars 2010 varð Channel 4 sent út um landið allt í fyrsta sinn. Stöðin var stofnuð til þess að keppa við tvær sjónvarpstöðvar ríkisútvarpsins BBC (BBC1 og BBC2), og almannaútvarpið ITV. Hægt er að ná í Channel 4 næstum um landið allt og í öðrum nærliggjandi löndum. Markaðshlutdeild er alveg stór þó að sé keppið mikið við fyrirtækið í kapalsjónvarpi, gervihnattasjónvarpi og stafrænu sjónvarpi. Aðalfréttaþulur stöðvarinnar, Jon Snow, nýtur mikillar virðingar í breskum fjölmiðlaheimi. Stöð 1. Stöð 1 er íslensk sjónvarpsstöð sem fór í loftið 29. október 2010. Herneskja. Herneskja frá 16. öld í gotneskum stíl. Herneskja er brynja vel búins riddara eða stríðsmanns á síðmiðöldum og á tímum endurreisnarinnar. Slíkar brynjur komu fyrst fram á 13. öld, en urðu að láta í minni pokann fyrir langspjótum og byssum á 16. öld og enduðu á henni 17. sem viðhafnarklæði aðalsmanna. Minni herneskjur, eða brynjur, sem ekki klæddu allan líkamann héldu þó enn gildi sínu og sérstaklega þær sem þoldu byssukúlur. Enn þann dag í dag klæðast stríðsmenn brynjum, sem betur eru þekktar sem skotheld vesti. Isaias Afewerki. Isaias Afewerki (fæddur 2. febrúar 1946) er núverandi forseti Eritreu. Matthias Hans Rosenørn. Matthias Hans Rosenørn (24. nóvember 1814 – 30. mars 1902) var danskur embættismaður og stjórnmálamaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1847 – 1849 en þá varð hann innanríkisráðherra Danmerkur. Menntun. Hann var fæddur í Randers á Jótlandi og var sonur Peder Otto Rosenørn, sem hafði yfirumsjón með birgðahaldi og búnaði danska hersins, og konu hans Eleonoru Hellesen. Rosenørn varð stúdent frá skólanum í Sórey 1831 og lauk lagaprófi 1836. Síðan ferðaðist hann til Þýskalands og Frakklands og kynnti sér stjórnsýslu. Þegar heim kom hóf hann störf í danska kansellíinu og bjó þá um tíma hjá P.C. Stemann ráðherra, sem var faðir stjúpmóður hans, og varð fyrir áhrifum af honum en Stemann var mikill íhaldsmaður. Stiftamtmaður og ráðherra. Rosenørn var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 1. ágúst 1847 og jafnframt amtmaður í Suðuramti. Yfirleitt virðist hann hafa fengið gott orð og er í "Lanztíðindum" 1849 sagður afbragðsmaður að vitsmunum og iðjusemi. Þótt vera hans á Íslandi yrði ekki löng setti hann óneitanlega varanlegt mark á Reykjavík því að árið 1848 lét hann gefa öllum götum sem þá voru í bænum nöfn og tölusetja húsin við þau. Flest götunöfnin sem þá voru ákveðin haldast enn. Hann fór til Kaupmannahafnar í embættiserindum haustið 1849 en fáum dögum eftir komuna þangað, þann 21. september, var hann útnefndur innanríkisráðherra og lét þá jafnframt af embættum sínum á Íslandi. Jafnframt sat hann á danska þinginu. Hann þótti fremur hófsamur og reyndi að fara meðalveg í helstu málum. Hann gegndi ráðherraembættinu til 13. júlí 1851 en þá fór ríkisstjórnin frá. Amtmaður á Jótlandi. Rosenørn varð þá ráðuneytisstjóri um tíma og stýrði dönsku hagstofunni í nokkra mánuði en 1854 var hann skipaður amtmaður í Randers og lét þá jafnframt af þingmennsku. Hann gegndi amtmannsembættinu í rúma þrjá áratugi eða til 1885. Hann var einnig formaður stjórnar jósku járnbrautanna frá 1859 og allt til 1901. Hann sat í ríkisráði Dana 1856 – 1861 og 1860 var honum boðið að taka aftur við starfi innanríkisráðherra en afþakkaði það. Hann hafði mikinn áhuga á sagnfræði og ritaði ýmislegt á því sviði, var formaður jóska sagnfræðifélagsins um þrjátíu ára skeið og dansk-norska ættfræðifélagsins 1885-1901. Hann gaf út æviminningar sínar 1888. Rosenørn þótti sinna amtmannsstarfinu af einstökum dugnaði og alúð. Hann lét af embætti 1885, þá um sjötugt. Hann var útnefndur kammerjúnkari 1838, kammerherra 1850 og leyndarráð 1885. Hann var sæmdur stórkrossi Dannebrogsorðunnar 1871. Kona hans (g. 23. nóvember 1844) var Ludovica Emilie Olrik (14. júní 1815 – 25. september 1878). Heimildir. Rosenørn, Mathias Hans Rosenørn, Mathias Hans Lauritz Tygesen Kruse. Lauritz Tygesen Kruse (d. 1609) var danskur embættismaður sem var höfuðsmaður á Íslandi 1588-1591 og bæði á undan og eftir í Noregi. Kruse var sonur Tyge Kruse í Vingegård á Jótlandi og konu hans Berete Munk. Bróðir hans var Enevold Kruse (1554-1621) landstjóri í Noregi (ekki sami Enevold Kruse og var höfuðsmaður á Íslandi 1601-1606). Lauritz Kruse var höfuðsmaður í Vardøhus og Finnmörku 1581-1587, á Íslandi 1588-1591, aftur í Vardøhus 1596-1597, í Björgvin 1596-1606 og að lokum í Dueholm-klaustri til dauðadags, en hann var jarðsettur 2. júní 1609. Á meðan hann var í Noregi var hann tvívegis (1586 og 1598) sendur á landamærafundi með Rússum og þegar Kristján 4. Danakonungur heimsótti Noreg árið 1599 tók Kruse á móti honum í bústað sínum í Björgvin. Heimildir. Kruse, Lauritz Tygesen Benetice (Světlá nad Sázavou). Benetice er bær í Tékklandi. Bærinn þekur 3,81 ferkílómetra stórt svæði. Íbúar Benetice eru um 37 talsins. Bærinn liggur í 555 metra hæð. Grafín. Grafín er efni gert úr kolefnisatómum sem mynda tvívítt net með jafngildum efnatengjum og er aðeins eitt atóm að þykkt. Þannig myndar grafín þunna slikju sem er 200 falt sterkari en stál. Áríð 2010 fengu Andre Geim og Konstantin Novoselov nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir að einangra efnið fyrstir. Grafín er búið til með því t.d. að setja límband á grafít og ná þannig örþunnri flögu af grafíni þegar límbandið er fjarlægt því grafít er ekkert annað en samansafn af grafíni sem loðir saman með veikum kröftum. Hægt er að nota grafín til að búa til kolrör með því að vefja upp grafínið þannig að það myndi rör. Nýsteinöld. a> er meðal frægustu minja nýsteinaldar. Nýsteinöld er síðasti hluti steinaldar og er talin hafa hafist við lok síðasta ísaldarskeiðs fyrir um 12.000 árum síðan. Á nýsteinöld hófst landbúnaður og fyrsta siðmenningin varð til. Nýsteinöld telst ljúka þegar bronsöld eða járnöld hefjast (mismunandi eftir landsvæðum) um 3000 – 3300 f.Kr. Andre Geim. Andre Konstantinovich Geim (f. 1. október 1958) er hollenskur eðlisfræðingur sem fékk nóbelsverðlaunin árið 2010 ásamt Konstantin Novoselov fyrir vinnu þeirra við grafín. Andre er fæddur í Rússlandi en er með hollenskan ríkisborgararétt. Árið 2000 fékk Andre líka Ig nóbelsverðlaunin fyrir að láta frosk svífa í sterku segulsviði. Tilvísanir. Geim, Andre Geim, Andre Grunnskólinn á Hólmavík. Grunnskólinn á Hólmavík er grunnskóli á Hólmavík sem stendur við Skólabraut 20, 510 Hólmavík. Peter Singer. Peter Albert David Singer (fæddur 6. júlí 1946) er ástralskur heimspekingur. Hann er Ira W. DeCamp-prófessor í lífsiðfræði við Princeton-háskóla og Laureate-prófessor við Centre for Applied Philosophy and Public Ethics við Háskólann í Melbourne. Hann sérhæfir sig í hagnýttri siðfræði og er yfirlýstur nytjastefnumaður og guðleysingi Wilson Bentley. Wilson Bentley (9. febrúar 1865 – 23. desember 1931) var bandarískur ljósmyndari sem er frægur fyrir ljósmyndir af snjókornum. Bentley, Wilson Sviptifall. Sviptifall eða ablativus er málfræðilegt fall. Grunnmerking þess er að tákna hreyfinguna frá einhverju. Sviptifall er meðal annars til í latínu og sanskrít en flest indóevrópsk mál hafa glatað sviptifallinu. Hlutlægni. Hlutlægni er heimspekilegt hugtak, andstætt huglægni, og felur í sér að eitthvað, sem er sagt vera hlutlægt, sé óháð skynjunum, viðhorfum og löngunum fólks. Til dæmis veltur það ekki á skynjunum fólks, viðhorfum þeirra eða löngunum hvort Ísland er eyja. Það eru því hlutlæg sannindi að Ísland sé eyja, það eru sannindi sem gilda jafnt fyrir alla menn óháð því hvaða hugmyndir þeir gera sér um Ísland. Oft er litið svo á að fegurð og smekksatriði séu ekki hlutlæg, heldur huglæg. Þannig væru það ekki hlutlæg sannindi að málverkið Mona Lisa sé fallegt, heldur huglæg sannindi sem gilda ekki jafnt fyrir alla menn óháð viðhorfum þeirra. Heimspekingar hafa deilt um hlutlægni smekks og fegurðar. Hugvísindi. a> sem fjallar um hinar sjö frjálsu listir. Hugvísindi eru akademískar fræðigreinar sem beita ekki raunvísindalegum aðferðum, það er að segja eru ekki tilraunavísindi. Hugtakið er óljóst og misjafnt getur verið hvernig fræðigreinar eru flokkaðar. Skiptingin á milli hugvísinda og raunvísinda byggir á þeim aðferðum sem er eða er ekki beitt í viðkomandi fræðigreinum. Í þessum skilningi er stærðfræði hugvísindagrein en er þó yfirleitt flokkuð með raunvísindunum vegna notagildis hennar þar. Hugvísindin fjalla á hinn bóginn að verulegu leyti um manninn og því er stundum greint á milli mannvísinda og náttúruvísinda í stað hug- og raunvísinda. Sú skipting byggir ekki á aðferðum sem beitt er, heldur á viðfangsefni fræðigreinanna. Þá eru félagsvísindi stundum talin til mannvísindanna en stundum ekki en mannvísindi samsvara nokkurn veginn hugvísindum. Dæmigerðar hugvísindagreinar eru heimspeki, sagnfræði, klassísk fræði, bókmenntafræði, málvísindi og tungumálagreinar. Stundum eru trúarbragðafræði, mannfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og hagfræði einnig talin til hugvísinda enda þótt þau séu gjarnan talin til félagsvísinda. Klassísk fræði. Segja má að klassísk fræði eða fornfræði sé undirstöðugrein hugvísindanna en upphaf margra hugvísindagreina má rekja til klassískra fræða. Klassísk fræði fjalla um sögu, menningu og arfleifð klassískrar menningar Grikkja og Rómverja. Viðfangsefni fornfræðinga eru margvísleg og vinnubrögð þeirra einnig. Innan fornfræðinnar vinna fræðimenn ýmist að sagnfræði, heimspeki, bókmenntasögu eða málvísindum að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina. Einkum er það málakunnátta í forngrísku og latínu, sameiginleg þekking á bókmenntum og öðrum heimildum fornaldar og þjálfun í klassískri textafræði sem sameinar ólíka fornfræðinga. Bókmenntafræði. Bókmenntafræði er safnheiti allrar fræðilegrar umfjöllunar um bókmenntir, einkum fagurbókmenntir. Skáldskaparfræði, bókmenntasaga og bókmenntarýni eru helstu undirgreinar bókmenntafræði. Bókmenntafræði á sér djúpar rætur í vestrænni menningu sem teygja sig allt aftur í fornöld en lengi var öll bókmenntafræði hluti af klassískum fræðum. Hún verður ekki til sem sérstök fræðigrein við evrópska háskóla fyrr en á 18. öld. Viðfangsefni bókmenntafræði hafa verið breytileg í gegnum tíðina en mótast þó alltaf af svörum við þremur spurningum, sem ætíð fléttast saman: Hvað eru bókmenntir? Hvað er eftirsóknarvert að vita um þær? Hvaða aðferðum er heppilegast að beita við rannsóknir á þeim? Sagnfræði. Sagnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á sögu fyrirbæra, atburða, einstaklinga, hópa, svæða og samfélaga. Sagnfræðirannsóknir byggja á markvissri og skipulagðri heimildarýni, þar sem heimildum er eftir atvikum skipt í frumheimildir og eftirheimildir. Sagnfræðirannsóknir greinast eftir aðferðafræði og því sjónarhorni sem beitt er en einnig eftir því hvert viðfangsefni rannsóknarinnar er. Tungumál. a> ná yfir margar greinar hugvísindanna, þar á meðal heimspeki, bókmenntir, guðfræði, málfræði og klassísk fræði. Segja má að hinar ýmsu tungumálagreinar séu grunnurinn að hugvísindum nútímans en málvísindi er sú grein hugvísindanna sem fæst við rannsóknir á tungumáli sem slíku. Upphaf málvísinda má rekja til klassískrar textafræði. Heimspeki. Heimspeki er glíma við grundvallarspurningar en heimspekingar reyna meðal annars að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, merkingu þekkingu, eðli, eiginleika, orsök, athöfn, atburð, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást og fegurð. Heimspekilegar bókmenntir einkennast öðru fremur af röksemdafærslum, sem eru notaðar til að setja fram kenningar um viðfangsefni heimspekinnar. Þessar röksemdafærslur fela yfirleitt í sér hugleiðingar um og greiningu á andstæðum eða gagnstæðum viðhorfum og meinta galla á þeim. Upphaflega náði hugtakið "heimspeki" yfir mun víðara svið viðfangsefna en það gerir í dag. Til dæmis veltu forverar Sókratesar fyrir sér spurningum um uppruna og myndun alheimsins, eðli efnisheimsins og uppruna tegundanna. Þessar vangaveltur urðu að endingu að grunni náttúruvísindanna, sem nefndust áður „náttúruheimspeki“ eða „náttúruspeki“. Með tilkomu háskólanna tók heimspekin á sig mynd fræðigreinar en frá og með 20. öld hefur hún einkum þrifist innan veggja háskólanna. Doktorsgráða. Doktorsgráða eða doktorspróf er námsgráða og er æðsta námsgráðan á háskólastigi. Orðið er dregið af latnesku sögninni "docere" sem merkir að kenna en "doctor" er einhver sem kennir; fastráðnir háskólakennarar þurfa víðast hvar að hafa doktorsgráðu. Ýmsar doktorsgráður eru til en algengastar eru dr. phil. og Ph.D. sem eru skammstafanir fyrir "doctor philosophiae" og "philosophiae doctor" tilsvarslega. Í þessu samhengi er orðið „philosophia“ notað um veraldleg fræði, það er að segja akademískar fræðigreinar aðrar en guðfræði, lögfræði og læknisfræði. Í guðfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. theol. ("doctor theologiae") eða Th.D. ("theologiae doctor"). Í lögfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar Dr.iur. ("doctor iuris"), JD ("iuris doctor") og S.J.D. ("scientiae iuridicae doctor"). Í læknisfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. med. ("doctor medicinae") og MD ("medicinae doctor"). En JD-gráða er víðast hvar ekki eiginleg doktorsgráða og sömuleiðis er MD-gráða víðast hvar sú námsgráða sem krafist er fyrir almennt lækningaleyfi og jafngildir ekki doktorsprófi. Því er stundum veitt dr. phil. eða Ph.D.-gráða í lögfræði og læknisfræði ofan á "iuris doctor" og "medicinae doctor"-gráður. D.litt. eða Litt.D.-gráður ("doctor litterarum") eru sums staðar veittar ofan á doktorspróf sem heiðursgráður fyrir vel unnið ævistarf í fræðum (yfirleitt hugvísindum. Gráðan L.H.D. ("Litterarum humanarum doctor") er oftast sambærileg við D.Litt.-gráðuna. D.D. ("Divinitatis Doctor") er stundum veitt guðfræðingum sem sams konar heiðursdoktorsnafnbót. Í lögfræði er LL.D. ("legum doctor") stundum veitt sem heiðursgráða. Í sumum Evrópulöndum hefur einnig tíðkast að veita æðra doktorspróf (dr. habil.) eftir doktorsvörn á töluvert umfangsmeira doktorsverkefni eftir fyrstu doktorsgráðu. Ólíkt doktorsverkefni fyrstu doktorsgráðu er verkefni æðra doktorsprófs ekki unnið undir leiðsögn kennara. Handhafi æðra doktorsprófs getur tekist á hendur leiðsögn doktorsverkefna. Í Norður-Ameríku er ekkert æðra doktorspróf veitt en ferlið er ekki ósvipað fastráðningarferlinu (e. tenure track). Philosophiae Doctor. Philosophiae doctor, venjulega skammstafað PhD, Ph.D., D.Phil. eða Dr. Phil. er æðri námsgráða, sem veitt er við háskóla að loknu doktorsprófi. Orðið „philosophiae“ („heimspeki“) merkir í þessu samhengi sérhverja veraldlega fræðigrein, það er að segja fræðigrein aðra en guðfræði, lögfræði og læknisfræði og ýmsar aðrar verkmenntir. Upphaf þessarar doktorsgráðu má rekja til Humboldt-háskólans í Berlín en flestir bandarískir háskólar hafa tekið hana upp, svo að nú eru rúmlega 90% af doktorsgráðum sem veittar eru í Norður-Ameríku Ph.D.-gráður. Um óskiptanlegar línur. "Um óskiptanlegar línur" ("De Lineis Insecabilibus") er stutt ritgerð sem eignuð er Aristótelesi en er að líkindum samin af einhverjum eftirmanni hans á 2. öld f.Kr. Í ritgerðinni er leitast við að hrekja kenningar Xenokratesar. Um liti. "Um liti" ("De Coloribus") er ritgerð eignuð Aristótelesi en stundum talin vera eftir Þeófrastos eða Straton. Í ritgerðinni er sett fram sú kenning að allir litir verði til við blöndun svarts og hvíts. "Um liti" var áhrifamikið rit fram á 17. öld. Staða vinda. "Staða vinda" ("Ventorum Situs") er rit, sem er stundum eignað Aristótelesi en að líkindum ranglega. Um Melissos, Xenofanes og Gorgías. "Um Melissos, Xenofanes og Gorgías" er stutt ritgerð sem er ranglega eignuð Aristótelesi. Líklega var ritgerðin samin af aristótelískum heimspekingi á 1. öld. Um dyggðir og lesti. "Um dyggðir og lesti" ("De Virtutibus et Vitiis Libellus") er stysta ritið sem eignað er Aristótelesi um siðfræði. Flestir fræðimenn efast nú um að verkið sé réttilega eignað Aristótelesi en sennilega var það samið af aristótelískum heimspekingi. Hagfræðin. "Hagfræðin" ("Oeconomica") er rit í þremur bókum, sem er eignað Aristótelesi en flestir fræðimenn telja einhvern nemenda hans hafa samið það eða einhvern nemenda Þeófrastosar. Um drauma. "Um drauma" (forngríska: Περὶ ἐνυπνίων, latína: "De insomniis") er ein stysta ritgerð Aristótelesar í "Parva Naturalia". Um svefn og vöku. "Um svefn og vöku" ("De somno et vigilia") er ritgerð eftir Aristóteles og er hluti af "Parva Naturalia". Um minni og upprifjun. "Um minni og upprifjun" ("De memoria et reminiscentia") er ritgerð eftir Aristóteles og hluti af "Parva Naturalia". Um öndun. "Um öndun" er stutt ritgerð eftir Aristóteles og er hluti af "Parva Naturalia". "Um öndun" er þriðji hlutinn af verki sem telur einnig "Um æsku og elli" og "Um líf og dauða". Um líf og dauða. "Um líf og dauða" er stutt ritgerð eftir Aristóteles og er hluti af "Parva Naturalia". "Um líf og dauða" er annar hlutinn af verki sem telur einnig "Um æsku og elli" og "Um öndun". Um æsku og elli. "Um æsku og elli" er stutt ritgerð eftir Aristóteles og er hluti af "Parva Naturalia". "Um æsku og elli" er fyrsti hlutinn af verki sem telur einnig "Um líf og dauða" og "Um öndun". Um anda. "Um anda" (forngríska: Περὶ πνεύματος, latína: "De spiritu") er heimspekileg ritgerð sem eignuð er Aristótelesi en venjulega ekki talin ósvikin. Um ævilengd. "Um ævilengd" (forngríska: Περὶ μακροβιότητος καὶ βραχυβιότητος, latína: "De longitudine et brevitate vitae") er ritgerð eftir Aristóteles og er hluti af "Parva Naturalia". Um draumspá. "Um draumspá" (forngríska: Περὶ τῆς καθ᾽ ὕπνον μαντικῆς, latína: "De divinatione per somnum") er ritgerð eftir Aristóteles og er hluti af "Parva Naturalia". Aristóteles útilokar ekki að draumspá geti átt sér stað en er skeptískur um flestar frásagnir. Vélfræðin. "Vélfræðin" ("Mechanica") er rit sem er ranglega eignað Aristótelesi. Talið er að höfundur verksins hafi verið Straton frá Lampsakos. Um kynlega kvitti. "Um kynlega kvitti" ("De mirabilibus auscultationibus") er safn af stuttum frásögnum sem er ranglega eignað Aristótelesi. Um hljóð. "Um hljóð" ("De audibilibus") er ritgerð sem eignuð er Aristótelesi en að líkindum ranglega. Sennilegt þykir að Straton frá Lampsakos sé höfundur hennar. "Um hljóð" fjallaði um eðlisfræði hljóðs. Ritgerðin er illa varðveitt. Um jurtir. "Um jurtir" ("De Plantis") er rit um jurtafræði, sem er eignað Aristótelesi en ranglega. Talið er að Nikolás frá Damaskus sé höfundur ritsins. Svipfræðin. "Svipfræðin" (forngríska: "Φυσιογνωμονικά", latína: "Physiognomonica") er forngrísk ritgerð um svipfræði, sem er ranglega eignuð Aristótelesi. Sennilega var hún samin skömmu eftir andlát Aristótelesar eða á 3. öld f.Kr. T 115. Jónas R. Jónsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Jónas R. Jónsson tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkistúvarpið: Pétur Steingrímsson - PYE Recorcling Studios: Allan Florence. Pressun: Philips. Ljósmyndir: Kjartan Kjartansson. Útlit: Jónas R. Jónsson. Um lögin. Bassi: Guðjón Magnússon. Trommur: Magnús Magnússon. Gítar: Einar Vilberg. Flauta: Jónas R. Jónsson. Píanó: Þorsteinn Þorsteinsson. Raddir: Jónas R. Jónsson, Einar Vilberg. Raddir: Gunnar Þórðarson, Birgir Hrafnsson Kleanþes. Kleanþes (Κλέανθης; 331 f.Kr. – 232 f.Kr.) frá Assos var forngrískur heimspekingur og arftaki Zenons frá Kitíon sem höfuð stóíska skólans í Aþenu. Kleanþes þróaði áfram kenningar Zenons í átt til efnishyggju og algyðistrúar. Kleanþes var kennari Krýsipposar. Línuletur B. Línuletur B varðveitt á leirtöflu. Línuletur B er letur sem notað var til að skrifa forngrísku seint á bronsöld, þó nokkru áður en gríska stafrófið var fundið upp. Það féll í gleymsku með falli Mýkenumenningarinnar. Línuletur B var atkvæðaróf, byggt á eldra myndletri og hefur um 200 tákn. Það var óráðið fram undir miðja 20. öld en á árunum 1951 til 1953 tókst þeim Michael Ventris og John Chadwick að ráða letrið. Línuletur B var þróað úr Línuletri A, sem enn er óráðið en það var ritmál mínóísku menningarinnar á Krít fyrir daga Mýkenumenningarinnar og var ekki notað til að skrifa neina forngríska mállýsku. T 23. Upp á himins bláum boga er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1981. Á henni syngja Jóhann Konráðsson og Kristinn Þorsteinsson íslenzk alþýðulög við undirleik Guðrúnar Kristinsdóttur og Fritz Weisshappel. Samsöngur þeirra Jóhanns og Kristins var hljóðritaður hjá Ríkisútvarpinu 1964. Einsöngur Jóhanns var hins vegar hljóðritaður fyrr, og eru nokkur laganna frá 1947. Og eru tóngæðin þess vegna ekki sambærileg við það sem gerist nú. Platan er pressuð hjá ALFA Hafnarfirði. Ljósmynd á framhlið umslags er frá Akureyri, tekin 1963. Umslagið var offset prentað hjá Valprent h/f Akureyri. Hönnun umslags: Delfi. Lagalisti. Jóhann Konráðsson og Kristinn Þorsteinsson syngja íslenzk alþýðulög við undirleik Guðrúnar Kristinsdóttur. Jóhann Konráðsson syngur íslenzk alþýðulög við undirleik Fritz Weisshappel. Gupta-veldið. Gupta-veldið (गुप्त राजवंश) var fornindverskt ríki sem náði yfir meiri hluta Indlands á árunum 320 til 550. Stofnandi Gupta-veldisins var Maharaja Sri-Gupta. Meðan veldið stóð ríkti friður og velsæld og fræði, bókmenntir og listir blómstruðu. Stundum er tímabilið nefnt gullöld Indlands, enda einkenndist það ekki síður af miklum framförum í vísindum og tækni, stærðfræði og rökfræði og heimspeki. Chandragupta I, Samudragupta og Chandragupta II voru merkustu stjórnendur Gupta-veldisins. Tamning. Tamning er það að venja dýr eða jurt við umsjón mannsins. Yfirleitt kemur ræktun við sögu, þar sem þau dýr eru valin til undaneldis, sem best láta að stjórn. Ástæður tamningar eru margbreytilegar en þar á meðal eru fæðuöryggi og verðmæti afurða, svo sem ullar og skinns, auk þess sem húsdýr gagnast manninum á margvíslegan hátt, þar á meðal í hernaði og í vinnu. Enn fremur hafa menn félagsskap af gæludýrum. London School of Economics. London School of Economics and Political Science (íslenska: "Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólinn í London", yfirleitt London School of Economics eða LSE) er almennur rannsóknarháskóli sérhæfður í félagsvísindum og staddur í London, Bretlandi. Hann er einn níu stærstu háskóla sem tilheyra Háskólanum í London. LSE var stofnaður árið 1895 af þeim Sidney Webb, Beatrice Webb og George Bernard Shaw, allir voru meðlimir í Fabian Society. Árið 1900 varð LSE meðlimur í Háskólanum í London og árið 1902 var byrjað að veita nemendum gráður. Þrátt fyrir að það standi í nafninu að LSE sé hagfræðiskóli er kennt og rannsakað í öllum félagsvísindum, m.a. í bókhaldi og fjármálavísindum, mannfræði, hagfræði, landafræði, sagnfræði, alþjóðatengslum, lögfræði, fjölmiðlafræði, hugfræði, stjórnmálafræði, sálfræði og félagsfræði. LSE er staddur í Westminster í Mið-London á svæðinu milli hverfanna Covent Garden og Holborn. Um 8.700 nemendur eru skráðir í fullu námi og um 1.300 manns starfar í háskólanum. Árið 2008/09 voru tekjur háskólans 203 milljónir breskra punda, úr þeim voru 20,3 milljónir frá rannsóknarstyrkjum. Bókasafn háskólans, British Library of Political and Economic Science, inniheldur rúmlega 1,4 milljónir binda og er heimsins stærsta félags- og stjórnmálavísindabókasafn. Umsóknaaðferð LSE er sérstaklega ströng og hann er ásamt þeirra breskra háskóla sem hleypa fæstu nemendum inn. Nemendur háskólans eru frá mörgum löndum um allan heim og einu sinni voru nemendur frá fleiri löndum en voru í Sameinuðu þjóðunum. Margir merkismenn hafa útskrifast úr LSE í lögfræði, hagfræði, viðskiptafræði, bókmenntafræði og stjórmálafræði. Meðal þeirra sem vinna í háskólanum og þeirra sem hafa útskrifast hafa 16 manns unnið Nóbelsverðlaunin, voru 34 orðnir þjóðarleiðtogar og margir aðrir hafa unnið Pulitzer-verðlaunin og eru meðlimir í British Academy. Birkbeck, University of London. Birkbeck, University of London áður þekktur sem Birkbeck College og stundum skammstafaður sem BBK er einn þeirra skóla sem tilheyra Háskólanum í London. Í grunnnámi er boðið upp á kvöldgráður, áætlaðar fyrir vinnandi fólk. Á framhaldsnámsstigi er boðið upp á meistaragráður í hlutanámi og fullu námi en mest kennsla er um kvöldin. Auk þess er hægt að taka Ph.D. gráður í hlutanámi og fullu námi. Háskólinn serhæfir sig í ensku, sagnfræði, listasögu, hugfræði, spænsku og kristallafræði. Háskólinn var stofnaður árið 1823 sem „London Mechanics Institute“. Hafez. Khwāja Šamsu d-Dīn Muḥammad Hāfez-e Šīrāzī (خواجه شمس‌الدین محمد حافظ شیرازی), þekktastur sem Hāfez (1325/26 – 1389/90) var persneskt lýrískt skáld. Hafez var áhrifamesta skáld Persa á 14. öld. Meðal yrkisefnis hans voru ást, trú og hræsni. Ómar mikli. Ómar mikli (عمر بن الخطاب; fæddur um 586 – 590, dáinn 644) var vinur og aðdáandi Múhameðs spámanns. Hann komst til valda að Múhameð látnum og ríkti í tíu ár. Íslamska veldið breiddist hratt út undir stjórn Ómars og lagði meðal annars undir sig Persaveldi á tveimur árum. Ómar var drepinn af persneskum fanga. Ómar er í hávegum hafður meðal súnní múslima en sjítar telja hann valdaræningja. T 04. Þó líði ár og öld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1971. Á henni flytur Björgvin Halldórsson ellefu dægurlög. Upptaka PYE Recording Studios - Rikisútvarpið Sjónvarpið. Upptöku stjórnuðu: Allan Caddy. Björgvin Halldórsson og Jón Ármannsson. Hljóðtæknimenn: Allan Florence, Pétur Steingrímsson og Jón Þ. Hannesson. Pressun: Philips. Útlit og ljósmyndir: Baldvin Halldórsson. Prentun: Kassagerð Reykjavíkur. Textabrot af bakhlið plötuumslags. Fylgiblað með textum og myndum Chanakya. Chānakya (sanskrít: चाणक्य; tamíl: சாணக்கியன்) (um 350 – 283 f.Kr.) var ráðgjafi fyrsta keisara Maurya-veldisins, Chandragupta (um 340 – 293 f.Kr.) og helsti stuðningsmaður hans. Talið er að Chanakya sé höfundur fornindverska stjórnspekiritsins "Arthaśāstra" (þótt í ritinu sé höfundur nefndur Kautilya og Vishnugupta). Chanakya er talinn frumkvöðull í hagfræði og stjórnmálafræði og er gjarnan borinn saman við Machiavelli, enda þótt Chanakya sé 1800 árum eldri. Rabindranath Tagore. Rabindranath Tagore (bengalska: রবীন্দ্রনাথ ঠাকুর, 7. maí 1861 – 7. ágúst 1941) var bengalskt skáld, rithöfundur, tónlistarmaður og myndlistarmaður sem hafði gríðarlega mikil áhrif á bengalskar bókmenntir og tónlist. Hans frægasta verk var "Gitanjali" og fyrir það hlaut hann bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1913, fyrstur höfunda utan Evrópu. Nokkrar bækur eftir Tagore hafa komið út í íslenskri þýðingu. "Ljóðfórnir" (Gitanjali) kom út 1919 og "Farfuglar" 1922, báðar þýddar af Magnúsi Á. Árnasyni. Árið 1961 kom út bókin "Skáld ástarinnar": endurminningar, ljóð, leikrit, erindi, þýdd af Sveini Víkingi, og árið 1964 kom út ljóðabókin "Móðir og barn" í þýðingu Gunnars Dal. Tagore, Rabindranath Tagore, Rabindranath Tagore, Rabindranath Tagore, Rabindranath Mimar Sinan. Khoja Mimar Sinan Ağa (9. maí 1490 – 8. júní 1588) var aðal arkitekt og verkfræðingur Ottómanveldisins á tímum Suleimans I, Selims II og Murads III. Hann stýrði byggingu yfir þrjú hundruð mannvirkja. Súleiman mikli. Súleiman I (6. nóvember 1494 – 5./6./7. september 1566), þekktastur sem Súleiman mikli var tíundi súltan Ottómanveldisins og sá sem lengst ríkti, frá árinu 1520 til dauðadags árið 1566. Hann er stundum nefndur „löggjafinn“ vegna gríðarlega umfangsmikilla endurbóta sinna á lagakerfi Ottómanveldisins. Hann leiddi einnig heri Ottómanveldisins til sigurs í orrustum á Ródos, við Belgrad og í Ungverjalandi en sigurgöngu hans lauk í umsátrinu um Vínarborg árið 1529. Hann innlimaði einnig í Ottómanveldið stór landsvæði í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Upphafsár. Súleiman fæddist í borginni Trabazon meðfram ströndum Svartahafs, líklegast 6. nóvember 1494. Móðir hans var Aishe Hafsa Sultan, sem dó 1534. Sjö ára gamall var hann sendur til að læra vísindi, sögu, bókmenntir, guðfræði og hernaðartækni í skólum Topkapı hallarinnar í Konstantínópel (sem er nú Istanbúl). Hann vingaðist snemma við Pargalı Ibrahim Pasha, þræl sem síðar varð einn af traustustu ráðgjöfum hans. Frá sautján ára aldri var Súleiman skipaður sem ríkistjóri Kaffa og síðar sem ríkistjóri Sarukhan með stuttri valdatíð í Adrianople (sem er nú Edirne). Þegar faðir hans Selim I dó tók hann við völdum sem tíundi súltan Ottóman veldisins. Sumir sagnfræðingar halda því fram að hann hafi dást að Alexander mikla. Hann var fyrir áhrifum sýnar Alexanders að byggja upp heimsveldi sem næði frá austri til vestri og þetta var drifkrafturinn fyrir hernaðarförum hans í Asíu, Afríku og í Evrópu. Landvinningar í Evrópu. Barátta á milli Tyrkja og Kristinna manna á 16. öld Þegar hann tók við völdum af föður sínum hóf Súleiman röð hernaðarleiðangra sem að lokum bældi niður uppreisn undir forystu ríkistjóra Damaskus 1521. Suleiman undirbjó yfirtöku Belgrad frá konungsríkinu Ungverjalandi. Yfirtaka borgarinnar var nauðsynleg til þess að sigra Ungverja, sem eftir sigra á Serbum, Búlgörum, Austrómverska keisaradæminu og Albaníu var eina veldið sem gat stöðvað landvinninga Ottóman veldisins í Evrópu. Súleiman umkringdi Belgrad og byrjaði stórskotahríð frá eyju í ánni Danube. Með eingöngu 700 menn og engri hjálp frá Ungverjalandi féll Belgrad í ágúst 1521. Vegurinn til Ungverjalands og Austuríkis var opinn en Súleiman beindi athygli sinni til eyjarinnar Ródos í Miðjarðarhafi. Sumarið 1522 sendi hann herflotann sem hann erfði frá föður sínum á meðan hann leiddi herdeild hundrað þúsund manna um Anatólíu. Eftir baráttuna um Ródos eftir fimm mánuði náði hann höfuðborginni og leyfði riddurum Ródos að fara frá eynni. Þeir mynduðu að lokum nýja herstöð á Möltu. Eftir því sem tengslin á milli Ungverjalands og Ottómanveldisins minnkuðu, hélt Súleiman áfram með hernaðarleiðangra sína í Austur-Evrópu og 29. ágúst 1526 sigraði hann Louis II af Ungverjalandi við baráttuna um Mohács. Eftir hana hrundi mótspyrna Ungverjalands og Ottómanveldið varð ráðandi veldi í Austur-Evrópu. Á meðan Súleiman sigraði Ungverjaland gerðu ættbálkar Tyrkja í mið Anatóliu uppreisn undir stjórn Kalender Çelebi. Undir Karli fimmta og Ferdinand fyrsta hernámu Habsborgarar Buda og tóku Ungverjaland. 1529 fór Súleiman aftur um dalinn Danube og tók aftur völd yfir Buda og um næsta haust undirbjó hann yfirtöku Vínar. Það var metnaðsfyllsta herleiðangur Ottóman veldisins og hápunktur hernaðarleiðangur þess til vesturs. Með sextán þúsund hermenn urðu Austuríkismenn til þess að Súleimann átti sinn fyrsta ósigur, sem var upphaf deilna á milli Habsborgara og Ottóman veldisins sem entist til 20 aldarinnar. Seinni tilraun til að sigra Vín misheppnaðist 1532 og Súleiman hörfaði áður en hann náði til borgarinnar. Í báðum tilraunum kom veðrið og of breitt flutningskerfi þeim illa. John Zápolya konungur Ungverjalands með Súleiman 1556. Eftir 1540 spratt deilan í Ungverjalandi aftur upp sem gaf Súleiman tækifæri til að hefna fyrir ósigurinn í Vienna. Sum ungversk göfugmenni stungu upp á því að Ferdinand, sem stjórnaði nágrannanum Austuríki og tengdist fjölskyldu Louis II með hjónabandi, myndi taka við Ungverjalandi ef Louis myndi deyja án arftaka. Hins vegar, stugu önnur göfugmenni upp á því að John Zápolya sem var studdur af Suleiman en óþekktur af kristnum valdhöfum í Evrópu. Barátta Ottóman veldisins um Esztergom. 1541 voru Habsborgarar aftur í deilu við Ottóman veldið með því að reyna að sigra Buda. Eftir að hafa neyðst til að hörfa og fleiri vígi Habsborgara fallið í kjölfarið, neyddust Ferdinand og bróðir hans Karl fimmti að gera niðurlægjandi fimm ára samning við Súleiman. Ferdinand afsalaði kröfu sinni á konungsríkinu Ungverjalandi og neyddist til að borga fasta árlega upphæð til súltansins fyrir þau lönd í Ungverjalandi sem hann réði yfir. Táknrænna var að samningurinn vísaði til Karls fimmta ekki sem „keisara“ heldur sem „konungs Spánar“. Með því að láta aðal andstæðinga sína í Evrópu lúta lægra haldi hafði Suleiman séð til þess að Ottóman veldið hafði stórt hlutverk í stjórnmálum Evrópu. Sun Yat-sen. Sun Yat-sen (12. nóvember 1866 – 12. mars 1925) var kínverskur læknir, byltingarmaður og stjórnmálaleiðtogi. Hann er gjarnan álitinn einn af stofnfeðrum kínverska lýðveldisins. Zhu Xi. Líkneski af Zhu xi í Lushan-fjalli Zhū​Xī eða Chu Hsi (朱熹, 18. október 1130 – 23. apríl 1200) var konfúsískur fræðimaður og spekingur. King's College London. King's College London (óformlega King's eða KCL) er almennur rannsóknarháskóli staddur í London, Bretlandi. Hann er einn níu stærstu háskóla sem tilheyra Háskólanum í London. King's College London segist vera elsti háskólinn á Bretlandi og var stofnaður af Georg 4. og Hertoga af Wellington árið 1829. Skólanum var gefið Royal Charter árið 1836. King's var einn tveggja háskólanna sem stofnuðu Háskólann í London. King's er skiptur í níu deildir á fimm háskólalóðum: fjórar eru í Mið-London og hin í Denmark Hill í Suður-London. Hann er einn stærstu rannsóknarháskóla í grunn- og framhaldsnámi í læknisfræði í Evrópu og starfar í sambandi við sex stöðvar þess Medical Research Council, fleiri en allir aðrir háskólar á Bretlandi. King's er líka stofnandi King's Health Partners rannsóknarseturs í læknisfræði. Um 18.600 nemendur eru skráðir í fullu námi í King's og um 8.030 manns starfar þar, tekjur háskólans árið 2008/09 voru 508 milljónir breskra punda, úr þeim voru 144 milljónir frá rannsóknarstyrkjum Meðal þeirra sem vinna í háskólanum og þeirra sem hafa útskrifast hafa 10 manns unnið Nóbelsverðlaunin. King's er í 63. sæti í Akademískri röðun háskóla og í 77. sæti á lista breska dagblaðsins "The Times". Gula fljót. Gula fljótið rennur meðal annars í gegnum borgina Lanzhou. Gula fljót er næstlengsta fljót í Kína (á eftir Jangtse-fljóti) og sjötta lengsta fljót í heimi. Lengd Gula fljótsins er áætluð 5464 kílómetrar (eða 3395 mílur). Fljótið á upptök sín í Bayan Har-fjöllum í Qinghai-héraði í Kína, það rennur í gegnum níu héruð og út í Bohai-sjó. Fljótið er oft nefnt „vagga kínverskrar menningar“ en kínversk menning á rætur að relja til svæða við árbakka Gula fljótsins. School of Oriental and African Studies. School of Oriental and African Studies (skammstafaður sem SOAS, borinn fram eða, íslenska: "Skóli í austurlenskum og afrískum fræðum") er einn þeirra háskóla sem tilheyra Háskólanum í London sérhæfður í tungumálum, félagsvísindum, hagfræði, lögfræði og stjórnmálafræði varðandi Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum. Sem stendur er boðið upp á rúmlega 300 BA-námskeið og rúmlega 70 meistaragráður. Í hverri deild er líka hægt að fá MPhil- eða PhD-gráður. SOAS var stofnaður árið 1916 og er staddur í Bloomsbury í Mið-London. Hann á ásamt bestu háskóla Bretlands og nokkrir þjóðhöfðingjar, ráðherrar, sendiherrar, hæstiréttardómarar og vinningshafi Friðarverðlaun Nóbels hafa allir útskrifast úr háskólanum. Undanfarin ár hefur háskólinn stækkað mikið, t.d. áttunda áratugnum voru nemendur 1.000 mans og í dag eru þeir rúmlega 4.500 manns. Um það bil helming nemenda eru í framhaldsnámi. Samkvæmt lista breska dagblaðsins "The Times" er SOAS sjöundi besti háskólinn á Bretlandi. UCL School of Slavonic and East European Studies. UCL School of Slavonic and East European Studies (skammstafaður sem SSEES, borinn fram, íslenska: "Skóli í slavneskum og austur-evrópskum fræðum") er skóli í University College London sem sérhæfir sig í mið-evrópskum, austur-evrópskum, suðaustur-evrópskum og rússneskum fræðum. Hann er stærsti skóli sérhæfður í þessum fræðum á Bretlandi. Skólinn var stofnaður árið 1915 af Tomáš Garrigue Masaryk og varð skóli í UCL árið 1999. Um 500 nemendur eru skráður í grunnnámi í skólanum og 150 í framháldsnámi og um 60 manns starfar þar. Háskólinn í Durham. Háskólinn í Durham (enska: "University of Durham" eða "Durham University") er háskóli staddur í Durham, Englandi. Hann var stofnaður árið 1832 með þinglögum og honum var gefið Royal Charter árið 1837. Hann var einn fyrsti háskóli sem opnaði á Englandi í rúmlega fimm hundruð ár og talið er að hann gæti verið þriðji elsti háskóli á Englandi. Háskólinn samanstendur af nokkrum deildum og 16 skólum (e. "colleges"), eins og í Oxford og Cambridge. Deildarnir sjá um kennslu og rannsóknir og skólarnir sjá um heimili og velferð grunnnemenda, framháldsnemenda, PhD-nemenda og nokkurra starfsmanna. Atkvæði. Atkvæði er í málfræði byggingareining orða. Orð getur verið myndað úr einu eða fleiri atkvæðum. Hvert atkvæði inniheldur einn og einungis einn sérhljóða en auk hans stundum einnig einn eða fleiri samhljóða. Til dæmis er orðið „menntun“ tvö atkvæði: mennt/un; en orðið „alfræðirit“ hefur fjögur atkvæði: al/fræð/i/rit. Imperial College London. Imperial College London (opinberlega The Imperial College of Science, Technology and Medicine, óformlega Imperial) er almennur rannsóknarháskóli staddur í London og sérhæfður í viðskiptafræði, verkfræði, læknisfræði og vísindum. Hann var áður skóli innan Háskólans í London en árið 2007 (100 ára afmæli háskólans) varð hann sjálfstandandi háskóli. Háskólinn var stofnaður árið 1907 og honum var gefið Royal Charter sama ár. Aðalháskólalóðin er í South Kensington í Mið-London á milli borgarhlutans Kensington og Chelsea og Westminsterborgar. Aðalinngangur háskólans er við Exhibition Road. Háskólinn á nokkrar aðrar lóðir í Chelsea, Hammersmith og Paddington. Talsins á háskólinn 525.233 fermetrar fasteigna, meiri en allir hinir háskólar á Bretlandi. Um það bil 13.500 nemendur eru skráðir í fullu námi í háskólanum og um 3.330 manns starfa þar í kennslu og rannsóknum. Tekjur háskólans var um 694 milljónir breskra punda árið 2008/09, úr þeim voru 290 milljónir frá rannsóknarstyrkjum. Samkvæmt "Akademiskrí röðun háskóla" er Imperial 26. besti háskólinn í heimi. Meðal þeirra sem vinna í háskólanum og þeirra sem hafa útskrifast hafa 14 manns unnið Nóbelsverðlaunin og tveir Fields-orðuna. Skrautskrift. Skrautskrift er sjónlistargrein. Hún hefur verið skilgreind sem „listin að gefa táknum samstillt form af kunnáttu og á tjáningarríkan máta“. Fullvalda ríki. Fullvalda ríki er ríki, sem hefur yfir að ráða landsvæði, innan hvers fullveldi þess er viðurkennt, auk íbúa, stjórnvalda og sjálfstæðis frá öðrum ríkjum. Fullvalda ríki hefur vald til þess að eiga í misnánum samskiptum við erlend ríki og gera bindandi samninga. Enda þótt samkvæmt skilgreiningu ætti að geta verið til fullvalda ríki sem er ekki viðurkennt af öðrum ríkjum reynist þó flestum ríkjum erfitt að rækja fullveldi sitt án viðurkenningar annarra ríkja á fullveldi þess. Fylki Bandaríkjanna eru oft nefnd "ríki" þó þau séu ekki fullvalda. Eyvindarstaðaheiði. Eyvindarstaðaheiði er heiðaflæmi og afréttarland sem liggur á milli Blöndu í Austur-Húnavatnssýslu og Vestari-Jökulsár í Skagafjarðarsýslu og nær frá Hofsjökli niður að heimalöndum jarða í Skagafirði og Húnavatnssýslu. Eyvindarstaðaheiði er austust heiðanna sem ná yfir hásléttuna norður af Langjökli og Kili og liggur Auðkúluheiði vestan hennar en austan hennar er Hofsafrétt. Heiðin tilheyrði jörðinni Eyvindarstöðum í Blöndudal og dregur nafn af henni. Hún er sameiginlegt upprekstrarland þeirra sveita í Húnavatnssýslu og Skagafirði sem að henni liggja. Landslag á heiðinni vestanverðri er mótað af jöklum og víða hulið þykkum jökulruðningi og setlögum. Þar er heiðin flatlend og sléttlend og víða ágætlega gróin. Þar er hún víðast í 400-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Vesturhluti heiðarinnar liggur norður með Blöndudal og Svartárdal í Húnavatnssýslu og endar í hálsinum sem skilur dalina að. Austurhluti heiðarinnar er hálendur að mestu, grýttur og gróðurlítill, en inn í hann skerast nokkrir dalir. Allmargar ár og lækir renna um heiðina. Austast er Vestari-Jökulsá, sem kemur upp í nokkrum kvíslum við Hofsjökul og rennur í djúpu gili um Goðdaladal niður í Vesturdal. Svartá í Skagafirði kemur upp í Svartárpollum og rennur niður í botn Svartárdals. Svartá í Húnavatnssýslu kemur upp í svonefndum Bugum og heitir ýmsum nöfnum framan af en eftir að hún kemur niður í Svartárdal kallast hún Svartá. Hún fellur í Blöndu þar sem Svartárdalur og Blöndudalur mætast. Á vesturmörkum heiðarinnar er Blanda. Hún kemur upp í mörgum kvíslum og einnig falla í hana margar þverár, svo sem Strangakvísl, Haugakvísl og Galtará. Hluti Eyvindarstaðaheiðar og Auðkúluheiðar fór undir Blöndulón sumarið 1991. Lónið er 57 ferkílómetrar að stærð og er yfirborð þess í 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Um Eyvindarstaðaheiði lágu löngum fjölfarnar leiðir úr Skagafirði, Svartárdal og Blöndudal, bæði suður Kjalveg og vestur Stórasand. Blöndulón á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði er nú eitt stærsta stöðuvatn Íslands. Herfangskerfi. a> á svíni sem gæðir sér á ránsfeng. Neðst stendur „Til minningar um ríkisþjónustuna okkar eins og hún var“. Herfangskerfi (enska: "Spoils system") er hugtak úr bandarískri stjórnmálaumræðu sem lýsir því þegar stjórnmálaflokkar verðlauna stuðningsmenn sína með stöðuveitingum hjá hinu opinbera. Herfangskerfið var við lýði á 19. öld í Bandaríkjunum en Pendleton-lögin sem tóku gildi árið 1883 mörkuðu tímamót í átt að stjórnsýslu þar sem ráðið var í störf eftir verðleikum frekar en eftir hollustu við stjórnmálaflokka. Christoffer Valkendorf. Christoffer Valkendorf. Veggmynd í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn. Christoffer Henningsen Valkendorf eða Walkendorff (1. september 1525 – 17. janúar 1601) var danskur aðalsmaður og embættismaður á 16. öld og einn valdamesti maður Danmerkur á sinni tíð. Hann var meðal annars höfuðsmaður yfir Íslandi skamma hríð. Embættismaður á erfiðum stöðum. Hann var fæddur í Glorup á Fjóni, sonur Henning Valkendorf og konu hans Sidsel Friis. Faðir hans var af þýskri aðalsætt sem hafði flust til Danmerkur. Ekkert er vitað um uppvöxt hans en hann gekk snemma í þjónustu konungs og var orðinn einn af riturum hans árið 1551. Árið 1556 fékk hann að léni Bergenhus, Vardøhus og fleiri lén í Noregi og var í Björgvin næstu árin. Þar tókst hann á við yfirgangssama Hansakaupmenn og hafði betur. Með því ávann hann sér hylli Friðriks konungs 2., sem árið 1561 setti hann sem tilsjónarmann með bróður sínum, Magnúsi hertoga, sem stýrði biskupsdæminu Øsel (nú Saaremaa í Eistlandi) og fleiri lendum í Eystrasaltslöndum. Hann var kallaður heim 1567 og fyrst sendur til ýmissa starfa í Noregi og Þýskalandi en árið 1569 var hann sendur til Íslands og gerður að höfuðsmanni. Það stóð þó ekki lengi og sumarið 1571 fékk Walkendorff Gotland að léni. Það tilheyrði þá Danmörku en var illa farið eftir langvarandi átök Dana og Svía. Honum þótti takast vel til að bæta ástandið þar. Í æðstu stjórn ríkisins. Í ársbyrjun 1574 fékk Valkendorf umbun fyrir að hafa um nær tuttugu ára skeið sinnt störfum á ýmsum útkjálkum ríkisins og var útnefndur rentumeistari eða ríkisféhirðir og var raunar ekki öfundsverður af því embætti þar sem ríkiskassinn var galtómur. Eftir lát Peder Oxe í október 1575 mátti heita að hann stýrði fjármálum ríkisins. Valkendorf sat í danska ríkisráðinu frá 1577, auk þess sem málefni Kaupmannahafnar heyrðu undir hann frá 1579, og í raun má segja að hann hafi að nokkru leyti verið eins konar forsætisráðherra, ásamt Niels Kaas kanslara. Hann efldi mjög varnir Kaupmannahafnar og lét reisa þar ýmsar byggingar, bætti löggæslu og stóð fyrir endurbótum á vatnsveitu og skólpræsum borgarinnar. Hann hafði mikinn áhuga á menntun, studdi fátæka stúdenta til náms og lét reisa stúdentagarðinn sem við hann er enn kenndur, "Valkendorfs Kollegium". Sumar af umbótum sínum framkvæmdi hann á eigin kostnað en hann var vellauðugur og átti ekki erfingja. Fall og endurreisn. Friðrik 2. dó 1588 og Valkendorf var einn ríkisstjóranna sem stýrðu Danaveldi þar til Kristján 4. varð sjálfráða. Hann lenti þó fljótt í deilum við samstarfsmenn sína þar og átti í ýmsum erfiðum málum, einkum vegna þess að hann lét taka færeyska sæfarann og þjóðhetjuna Magnús Heinason af lífi, og varð að víkja úr ríkisstjórastólnum 1590. Hann var fremur lítið áberandi næstu ár en tókst að koma sér vel og þegar Kristján 4. tók við stjórnartaumunum 1596 útnefndi hann Valkendorf ríkishofmeistara, en það embætti hafði verið autt allt frá því að Peder Oxe lést tuttugu árum áður, þótt Valkendorf hefði í raun löngum gegnt hluta embættisverkanna. Hann hélt því embætti allt þar til hann dó í ársbyrjun 1601. Hann var ókvæntur alla tíð. Valkendorf var dugmikill embættismaður, hæfur og umbótasinnaður en oft tillitslaus og ágengur og olli það oft árekstrum við aðra embættismenn og jafnvel konunginn sjálfan. Hann þótti þó varfærnari síðustu árin, eftir að hann komst aftur í valdastöðu. Heimildir. Valkendorf, Christoffer Henningsen Valkendorf, Christoffer Henningsen Valkendorf, Christoffer Henningsen Fedor Emelianenko. Fedor Emelianenko (rússneska: "Фёдор Емельяненко"; f. 28. september 1976) er rússneskur bardagaíþróttamaður. T 05. Í sól og sumaryl er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Hljómsveit Ingimars Eydal tólf dægurlög. Upptaka í stereó: Pétur Steingrímsson. Setning: Prentsmiðja Björns Jónssonar. Myndamót: Litróf h.f. Prentun: Valprent. Hönnun: Myndver Akureyri. Johann Bockholt. Johann Bockholt eða Jóhann Bucholt (d. 1602) var dansk-þýskur aðalsmaður sem var tvívegis hirðstjóri eða höfuðsmaður á Íslandi á 16. öld, fyrst 1570-1587 og aftur 1597-1602. Var hann því lengur hirðstjóri en nokkur annar útlendingur. Bockholt hafði þjónað Friðrik 2. Danakonungi í styrjöldinni við Svía 1563-1570 og staðið sig með ágætum. Varð það að ráði þegar styrjöldinni lauk að hann var sendur til að taka við hirðstjórn á Íslandi en Christoffer Valkendorf, sem gegnt hafði hirðstjórn eitt ár, var settur til annarra starfa. Bockholt kom til Íslands þegar um sumarið, settist að á Bessastöðum og var þar meira og minna alla sína hirðstjóratíð, ólíkt flestum þeim sem gegnt höfðu embættinu áratugina á undan og höfðu staðið stutt við á landinu. Hann kemur því mikið við skjöl á Íslandi á síðustu áratugum 16. aldar. Bockholt stundaði sjálfur verslun og verslaði á öllum höfnum Gullbringusýslu nema Grindavík. Bockholt er sagður hafa verið duglegur en harður og eftirgangssamur stórbokki og lenti í útistöðum við ýmsa íslenska höfðingja. Þeir Guðbrandur Þorláksson biskup voru góðvinir fyrst eftir að Bockholt kom til landsins en fyrr en varði kastaðist í kekki með þeim og Guðbrandur sendi konungi hvað eftir annað bréf og kvartaði yfir höfuðsmanninum. Bockholt gerðist aftur á móti góðvinur Jóns Jónssonar lögmanns, erkifjandmanns Guðbrandar, og stóðu þeir saman gegn biskupi. Bockholt mun hafa verið ágætlega menntaður og á meðan þeir Guðbrandur voru vinir gaf biskupinn honum hnattlíkan sem hann hafði smíðað og sýndi hnattstöðu Íslands. Í bókum stjörnufræðingsins Tycho Brahes er þess getið að Bockholt hafi fylgst með deildarmyrkva á tungli frá Bessastöðum 31. janúar 1580, mælt hann og gefið sér skýrslu. Bockholt þótti óheppilegt að hafa Alþingi á Þingvöllum og vildi hafa það nær Bessastöðum. Það mun því hafa verið að undirlagi hans sem Friðrik 2. gaf út bréf um það 5. apríl 1574 að þingið skyldi framveigs haldið í Kópavogi þar sem það væri betra og hættuminna. Þessum tilmælum var þó ekki sinnt þótt ýmsir fundir væru haldnir þar, svo sem Kópavogsfundurinn alræmdi löngu síðar. Konungur vék Bockholt frá árið 1587 af því að honum þótti hann tregur til að greiða afgjöld sín af Íslandi. Peder Thomassen (Pétur Tómasson) tók þá við í eitt ár en síðan varð Lars Thygesen Kruse höfuðsmaður og eftir hann þeir Henrik Krag og Brostrup Giedde, en árið 1597 varð Bockholt aftur höfuðsmaður og fór til Íslands. Embættinu gegndi hann til dauðadags, 1602, og var því höfuðsmaður/hirðstjóri í samtals 23 ár. Heimildir. Bockholt, Johann Bockholt, Johann Vesúvíus. Vesúvíus (ítalska: "Monte Vesuvio", latína: "Mons Vesuvius") er eldfjall við Napólíflóa á Ítalíu. Vesúvíus er um það bil 9 km austan við Napólí og nálægt ströndinni. Það er eina eldfjallið á meginlandi Evrópu sem hefur gosið síðustu hundrað ár en síðasta umtalsverða eldgos þar var árið 1944. Tvö önnur virk eldfjöll eru á Ítalíu, Etna og Strombólí, en þau eru bæði á eyjum. Vesúvíus er þekktast fyrir eldgosið árið 79 e.Kr. sem eyðilagði rómversku borgarnir Pompeii og Herculaneum. Borgirnir voru aldrei byggðar aftur upp en eftirlifandi íbúar og ræningjar fjarlægðu mikið af verðmætum þaðan eftir gosið. Staðsetning borganna gleymdist allt fram á 18. öld þegar þær voru enduruppgötvaðar fyrir tilviljun. Peder Thomassen. Peder Thomassen eða Pétur Tómasson var erlendur maður, líklega danskur, sem var höfuðsmaður á Íslandi 1588 og tók við þegar Johann Bockholt var settur af en hafði áður verið umboðsmaður hans. Lítið er um hann vitað en hann er sagður hafa verið kapteinn. Hann var aðeins höfuðsmaður í eitt ár en haustið 1588 veitti Kristján 4. Danakonungur Lauritz Tygesen Kruse embættið og tók hann við því næsta vor. Heimildir. Thomassen, Peder Brostrup Giedde. Skjaldarmerki Ove Gjedde, sonar Brostrup, í Tommerup á Skáni. Brostrup Giedde, Gjedde eða Gedde (um 1560 – 18. mars 1614) var danskur aðalsmaður sem var hirðstjóri (höfuðsmaður) á Íslandi 1595-1597. Hann var fæddur í Tommerup á Skáni og var af dönskum háaðli, sonur Knud Giedde, sem dó þegar drengurinn var ungur, og Margarethe Ulfeldt. Móðirin fór að ástunda léttúðugt líferni eftir að hún varð ekkja, var lokuð inni af ættingjum en síðan sleppt en þegar hún lét sér ekki segjast var syninum fyrirskipað árið 1578 að láta múra hana inni í Tommerup fyrir lífstíð („at lade Moderen indemure, selv overvære Indmuringen og befale ham at holde hende indmuret hendes Livstid efter den derom gjorte Skik"). Við þessu varð Giedde og dó móðir hans innimúruð 22 árum síðar, 22. mars árið 1600. Hann var skipaður hirðstjóri á Íslandi 1595, var kominn til Bessastaða 18. júní og var á Alþingi um sumarið. Hann sigldi utan um haustið en kom aftur árið eftir og var þá á Alþingi. Johann Bockholt tók svo við embættinu öðru sinni árið eftir en Giedde varð höfuðsmaður á Gotlandi árið 1608 og gegndi því embætti til dauðadags. Kona Giedde (gift 1585) var Dorthe Pallesdatter Ulfeldt (1564-1600). Einn sonur þeirra, Ove Gjedde, fór fyrir landvinningaleiðangri Dana til Indlands árið 1618 og stofnaði nýlenduna í Trankebar. Hann var síðar gerður að ríkisaðmírál. Heimildir. Giedde, Brostrup Giedde, Brostrup Henrik Krag. Henrik Krag (d. um 1613) var danskur maður sem var tvívegis höfuðsmaður (hirðstjóri) yfir Íslandi á 16. öld. Langur tími leið milli hirðstjóratímabila hans og ekki er alveg öruggt að um sama mann sé að ræða þótt svo sé oftast talið. Hann var hálfbróðir Poul Stigsen Hvide (Páls Stígssonar), sem var höfuðsmaður frá 1560, og var móðir þeirra Else Mogensdatter Stampe af Klarupgaard en faðir Henriks var Niels Eriksen Krag. Henrik Krag var eitthvað á Íslandi með bróður sínum og er kallaður fógeti í Vestfirðingafjórðungi í dómi 1565. Vorið 1566 dó Páll á Bessastöðum og var Henrik samþykktur sem höfuðsmaður á Alþingi um sumarið. Hann fór svo utan um sumarið og kom aftur árið eftir og hafði þá fengið hirðstjórnarvöld hjá konungi. Hann virðist hafa verið fremur vinsæll og vel þokkaður og þótti ekki ganga hart eftir landsmönnum með skatta og aðrar greiðslur sem þeir áttu að gjalda. Hann var heldur ekki lengi í embætti að þessu sinni og Christoffer Valkendorf var skipaður í hans stað 1569. Rúmum tuttugu árum síðar, 28. febrúar 1591, var Henrik Krag aftur skipaður hirðstjóri á Íslandi. Þá lét hann meira til sín taka og kom á ýmsum breytingum sem margar þóttu til bóta. Jón Halldórsson í Hítardal segir í Hirðstjóraannál að Krag hafi verið einn af þeim hinum nytsamlegustu hirðstjórum og Páll Eggert Ólason segir í ritinu "Menn og menntir" að óvíst sé hvort „nokkur höfuðsmaður á þessu tímabili hafi viljað landsmönnum betur bæði í tillögum og verki, það er hann mátti“. Krag dvaldi á Íslandi mestalla seinni hirðstjóratíð sína, fór reyndar utan haustið 1593 en var kominn aftur fyrir Alþingi árið eftir. Hann lét af embætti 1595 en lifði í nærri tvo áratugi eftir það, var enn á lífi 22. október 1612 en dáinn fyrir 29. janúar 1614. Kona Henriks var Kristen Nielsdatter Munk og áttu þau nokkur börn. Heimildir. Krag, Henrik Krag, Henrik T 06. Örvar Kristjánsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Örvar Kristjánsson tólf harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústssom. Prentun: Valprent hf. Poul Stigsen Hvide. Poul Stigsen Hvide eða Páll Stígsson (d. 3. maí 1566) var danskur aðalsmaður sem var höfuðsmaður (hirðstjóri) á Íslandi laust eftir miðja 16. öld og er helst minnst fyrir það að í hans tíð var Stóridómur lögtekinn. Afabróðir Páls var Otti Stígsson, hirðstjóri á Íslandi 1542-1547 og aftur sumarið 1551, og hálfbróðir hans var Henrik Krag, sem tók við hirðstjórn af Páli. Páll virðist árið 1525 hafa verið í þjónustu danska aðalsmannsins Anders Bille og árið 1528 fylgdi hann Danakonungi í utanlandsferð. Árið 1529 var hann kominn í þjónustu Jørgen Friis biskups í Viborg. Páll var orðinn fógeti á Bessastöðum 1554 og gegndi því starfi líklega allan tímann á meðan Knud Stensen var hirðstjóri og tók svo við hirðstjóraembættinu árið 1559, fékk skipunarbréf frá konungi 28. mars 1560 og gegndi embættinu til dauðadags en hafði raunar ári áður fengið embætti í Noregi sem hann var þó ekki búinn að taka við. Hann var að mörgu leyti hæfur stjórnandi en harður, konunghollur og duglegur embættismaður, efldi mjög konungsvaldið á Íslandi og þótti röskur við að innheimta gjöld til konungs en virðist hafa komið vel saman við flesta valdamenn landsins. Hann var líka trúrækinn og siðavandur og er ekki síst minnst fyrir Stóradóm, sem leiddur var í lög í embættistíð hans, þótt hann sé varla einn ábyrgur fyrir honum. Páll reið ofan í keldu (sumir sögðu fjóshaug eða hlandfor) skammt frá Bessastöðum vorið 1566 og drukknaði. Hann var grafinn fyrir framan altarið í Bessastaðakirkju. Á legsteini hans standa orðin „justus, castus, amans religionis“ eða „réttvís, hreinlífur og trúrækinn“. Hann var ókvæntur. Henrik Krag hálfbróðir hans, sem hafði verið hjá honum á Íslandi, tók við hirðstjórastarfinu eftir hann. Heimildir. Stigsen Hvide, Poul Stigsen Hvide, Poul Stigsen Hvide, Poul T 07. Síglaðir söngvarar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1973. Platan er í mónó. Síglaðir söngvarar er barnaleikrit eftir Thorbjörn Egner - Tónlist eftir Thorbjörn Egner o.fl. Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk. Leikstjóri: Klemenz Jónsson. Hljómsveitarstjóri: Carl Billich. Stytting og lagfæring á handriti gerð af leikstjóra. Prentun: Valprent hf. Knud Stensen. Knud Stensen eða Knútur Steinsson var danskur maður sem var hirðstjóri á Íslandi um miðja 16. öld. Hann varð hirðstjóri og kóngsins befalingsmaður yfir allt Ísland, eins og það er orðað í dómi Odds Gottskálkssonar lögmanns, sumarið 1554 og tók við embættinu af Poul Huitfeldt. Hann fór utan um haustið en kom aftur næsta vor og kallaði þá biskupana báða, Ólaf Hjaltason og Martein Einarsson, og lögmennina Odd Gottskálksson og Eggert Hannesson, ásamt fleiri fyrirmönnum, til sín á Bessastaði til að fá svör við ýmsum spurningum konungs um landshagi, klaustureignir, kirkjur og fleira. Hann kom svo á hverju sumri næstu árin. Síðasta sumar hans í embætti, 1559, var hann sendur til Íslands af Friðriki konungi 2., sem þá hafði tekið við eftir lát Kristjáns 3., til að taka hollustueiða af landsmönnum. Hann lét svo af embætti en Páll Stígsson, sem líklega var fógeti alla hirðstjóratíð Knuds, tók við. Heimildir. Stensen, Knud Stensen, Knud Íslensk höfundalög. Íslensk höfundalög eru lög sett af Alþingi, löggjafarsamkundu íslenska ríkisins, sem vernda eignarrétt höfunda að bókmenntaverki eða listaverki sem nefndur er höfundaréttur. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, ákvað árið 2009 að setja af stað þriggja ára endurskoðun á höfundalögum myndi fara fram í þremur skrefum og ljúka 2012. Í lögum eru refsiákvæði sem leyfa fangelsun í allt að tvö ár eða sektir. Saga. Lögin voru upprunalega sett árið 1972. Þá leystu þau af hólmi nokkur lög, meðal annars lög um rithöfundarétt og prentrétt frá 1905. Þeim lögum hafði svo aftur verið breytt nokkrum sinnum, meðal annars árið 1947 til að Ísland gæti orðið aðili að Bernarsambandinu. Breytingar voru fyrst gerðar á höfundalögunum frá 1972 árið 1984 en með frumvarpi til breytingar á löggjöfinni var útskýrt að „tækniframfarir á síðari árum hafa haft í för með sér stórfellda röskun á hagsmunum og réttindum höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa samkvæmt höfundalögum.“ Hér var átt við margvíslega þróun sem hefur verið gefið nafnið hnattvæðing og á meðal annars við um þróun á sviði upplýsingatækni. Nokkrar breytingar voru gerðar á höfundalögunum á tíunda áratugnum eftir að Ísland gekk í Evrópska efnahagssvæðið (EES) til að aðlagast þeim stöðlum og viðmiðunum sem krafist var með útgáfu tilskipana. Endurskoðun höfundalaga. Áhyggjur menntamálaráðherra eru á rökum reistar enda eru dæmi um stórar aðgerðir lögreglunnar á Íslandi vegna gruns um stórfelldra brota á höfundalögum með ólöglegu niðurhali á netinu. Fyrsta skrefinu í endurskoðun höfundalaga var lokið þann 15. júní 2010 þegar Alþingi samþykkti lög um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum. Í ræðu Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra sem flutti frumvarpið kom fram að þar væri helst að finna breytingar í samræmi við tilskipanir Evrópuþingsins og Evrópuráðsins. Ostaskeri. Ostaskeri (sjaldan osthefill) er áhald notað til að skera ost. Norðurmaðurinn og trésmiðurinn Thor Bjørklund frá Lillehammer fékk einkaleyfi á honum árið 1925. Byrjað var að selja þá árið 1927. Hönnunin er byggð á heflinum eins og smiðir nota. Þess konar ostaskeri er helst notaður í Norðurlöndunum, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi og Sviss. Ástæðan á því er að í þessum löndum er ostur skorinn áður en hann er borðaður og þar fást harðir ostar sem henta ostaskerum vel. T 11. Dönsum dátt er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1975. Á henni flytur Örvar Kristjánsson tólf harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Tónaútgáfan. Pressun: EMI A/S Danmörk. Ljósmyndir: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf Akureyri. T 13. Karlakórinn Goði - Goða kvartettinn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1975. Á henni flytur Karlakórinn Goði og Goða kvartettinn tólf dægurlög. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek Inc. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf. Akureyri. Laurentius Mule. Laurentius Mule eða Lauritz Múli var danskur hirðstjóri á Íslandi um miðja 16. öld og er þekktastur fyrir það að Jón Arason Hólabiskup rak hann úr Viðey og hrakti hann úr landi. Mule varð hirðstjóri árið 1547, þegar Kristján konungur 3. leigði valdamönnum Kaupmannahafnar alla tolla og tekjur af Íslandi, en Mule mun hafa verið einn þeirra. Hann kom til landsins sama ár og settist að í Viðey, en Danir höfðu lagt klaustrið undir sig nokkru fyrr. Bæði árið 1549 og 1550 fól Kristján konungur honum bréflega að fanga Jón Arason, sem hann hafði lýst friðlausan og útlægan, og í bréfi sem konungur sendi Daða Guðmundssyni í Snóksdal og Pétri Einarssyni mági hans snemma árs 1550 gaf hann þeim fyrirmæli um að styrkja þar til sinn befalingsmann yfir Íslandi, Lauritz Múla, svo hans kónglega majestet neyddist ekki til að senda hingað sitt stríðsfólk, landinu og almúganum til stórs skaða. Mule hirðstjóri sigldi utan með skipinu sem hann hafði flúið í og kom ekki aftur til Íslands, en umboðsmaður hans var Kristján skrifari. Heimildir. Mule, Laurentius T 16. Jóhann Daníelsson og Eríkur Stefánsson syngja einsöngva og tvísöngva er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1976. Á henni flytja Jóhann Daníelsson og Eríkur Stefánsson einsöngs og tvísöngslög. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: EMI A/S Danmörku. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf. Akureyri. Claus van der Marwitzen. Claus van der Marwitzen eða Kláus von Marwitzen (nafnið er raunar skrifað á ýmsa vegu í heimildum, svo sem Claues van der Merwytze, Claus von Marvitz o.fl) var þýskur eða hollenskur aðalsmaður sem var hirðstjóri á Íslandi á 16. öld. Hirðstjórabréf Marwitzen var gefið út í Haderslev í Danmörku á jóladag 1535. Hann kom til Íslands 1536 og sat næstu tvö ár á Bessastöðum en sigldi héðan vorið 1538 og skildi Diðrik frá Mynden eftir sem fógeta sinn. Marwitzen kom aftur vorið 1539 og hafði þá fengið hjá konungi umboð yfir Viðeyjarklaustri og allar jarðir þess og skyldi setjast þar að en sjá munkunum og ábótanum fyrir viðurværi. Skömmu eftir að hann kom aftur, að morgni hvítasunnudags, fóru hirðstjórinn og fógetinn í Viðeyjarklaustur, brutu þar og brömluðu, hröktu fólk nakið úr rúmum sínum og lögðu klaustrið undir sig. Þetta féll Ögmundi Pálssyni biskupi afar illa sem von var og lét hann um sumarið tylftardóm klerka dæma þá fógeta og hirðstjóra fallna í bann og allar eigur þeirra upptækar til kirkjunnar. Van der Marwitzen var þá farinn aftur til Danmerkur en Diðrik lét sér fátt um finnast og hélt um haustið austur í sveitir til að leggja undir sig eignir klaustranna í Þykkvabæ og Kirkjubæ. En á leið þangað var hann drepinn í Skálholti ásamt mönnum sínum, 10. ágúst 1539. Marwitzen fékk fréttir af þessum atburðum til Kaupmannahafnar og kærði Ögmund biskup fyrir konungi fyrir að hafa hvatt til verksins. Ögmundur sór það af sér á Alþingi og dæmdi lögrétta þá van der Marwitzen rógbera sem hefði fyrirgert hirðstjóratign sinni og skyldi hann sviptur henni. Konungur ætlaði fyrst að senda Marwitzen með herskip til Íslands til að koma lögum yfir morðingja Diðriks en hætti við það og sendi þess í stað Christoffer Huitfeldt til landsins vorið 1541, en Marwitzen var þó í för með honum. Áttu þeir þá fund í Kópavogi við Gissur Einarsson biskup. Christoffer Huitfeldt fór síðan að Hjalla í Ölfusi og handtók Ögmund biskup, sem þar var staddur, en þeir van der Marwitzen og Gissur fóru í Haukadal, þar sem Ögmundur bjó, og leituðu skjala og verðmæta en fundu fátt. Huitfeldt tókst þó síðar að ná öllum eignum Ögmundar af honum. Þeir sigldu svo utan með gamla biskupinn, sem dó að öllum líkindum á leiðinni. Marwitzen var svo sviptur hirðstjóraembættinu og 1542 var hann dæmdur í ævilangt varðhald fyrir ýmsar sakir, þar á meðal rán og manndráp, en var þó náðaður eftir tvö ár. T 19. Örvar Kristjánsson er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1979. Á henni flytur Örvar Kristjánsson tólf harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Hljóðriti hf. Pressun: Soundtek Inc. Ljósmyndir: Norðurmynd. Offset: Valprent hf. Páll Briem. Páll Jakob Briem (19. október 1856 – 17. desember 1904) var íslenskur sýslumaður, amtmaður og alþingismaður sem þótti einhver lögfróðasti maður sinnar samtíðar. Uppruni og nám. Páll var fæddur á Espihóli í Eyjafirði, sonur Eggerts Briem sýslumanns og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur. Hann ólst upp í Eyjafirði og síðan Skagafirði frá árinu 1861, þegar faðir hans varð sýslumaður þar. Á meðal systkina Páls voru alþingismennirnir Eiríkur Briem, Gunnlaugur Briem og Ólafur Briem og tvíburasystir Páls, Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Páll lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1878 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1884. Hann kom þó ekki strax hem til Íslands, heldur var hann fulltrúi hjá yfirréttarmálaflutningsmanni í Kaupmannahöfn í eitt ár og árið 1885 var honum veittur styrkur til rannsókna á íslenskum lögum. Að þeim vann hann 1885-1886. Embættisferill. Hann varð sýslumaður í Dalasýslu 1886 og bjó eitt ár á Staðarfelli en varð svo málaflutningsmaður við landsyfirréttinn. Árið 1890 varð hann sýslumaður í Rangárvallasýslu og bjó í Odda og síðan Árbæ í Holtum. Þann 12. sepember 1894 var hann skipaður amtmaður í norður- og austuramtinu með aðsetri á Akureyri og gengdi því embætti í tíu ár en 1. ágúst 1904 voru amtmannsembættin lögð niður. Páll flutti þá til Reykjavíkur og varð bankastjóri Íslandsbanka en lést fáeinum mánuðum síðar. Hann var alþingismaður Snæfellinga 1887-1892 og var kjörinn alþingismaður Akureyringa 1904 en lést áður en hann náði að setjast á þing. Hann var einnig bæjarfulltrúi á Akureyri um skeið. Hann hafði mikinn áhuga á fræðslumálum, einkum menntun alþýðu, svo og búnaðarmálum og ræktunarmálum og sinnti þeim af áhuga. Fyrri kona Páls (1886) var Kristín Guðmundsdóttir (13. mars 1865 – 24. október 1887). Árið 1895 gekk hann svo að eiga Álfheiði Helgu Helgadóttur (11. nóvember 1868 – 28. september 1962). Eitt og annað. Við Pál amtmann var lengi kennd gata á Akureyri, Páls Briems-gata. Við hana var aðeins eitt hús og var það númer 20. Scottish Society for Northern Studies. Scottish Society for Northern Studies er fræðafélag sem stofnað var árið 1968 sem skosk hliðstæða Víkingafélagsins í London. Félagið helgar sig einkum rannsóknum og kynningu á menningu norðurhluta Skotlands og nálægra eyja á miðöldum, þegar norræn menningaráhrif voru þar mikil frá ríki Orkneyjajarla. Félagið er einnig samfélag fræðimanna og áhugamanna um efnið. Söguágrip. Á fimmta Víkingaþinginu í Þórshöfn árið 1965, kom fram sú hugmynd að stofna skoska deild eða hliðstæðu við Víkingafélagið í London, og varð það að veruleika 1968, þegar félagið var stofnað. Félaginu var ætlað „að rannsaka gagnkvæm tengsl hinna norrænu, keltnesku og skosku menningarsvæða, og verða vettvangur á Skotlandi fyrir sérfræðinga og áhugamenn á mörgum fræðasviðum til að ástunda sín sameiginlegu ‚norrænu‘ áhugamál.“ Hermann Pálsson prófessor í Edinborg var einn af stofnendum félagsins. Hann sat í stjórnarnefnd þess 1968–1982, og var forseti 1970–1971. Hann skrifaði talsvert í rit félagsins, m.a. 9 greinar í tímaritið "Northern Studies". Félagið heldur málstofu eða ráðstefnu einu sinni á ári og gefur út ráðstefnurit í tengslum við það. Útgáfustarfsemi. Á vefsíðu félagsins er listi yfir helstu rit sem félagið hefur gefið út. Félagið gefur út tímaritið "Northern Studies". Það kom fyrst út 1973 og var fyrstu árin lítið fjölritað hefti, en frá og með 21. hefti, 1984, hefur verið lagt meira í það og fékk það þá undirtitilinn "The Journal of Scottish Society for Northern Studies". Það kemur nú út árlega. Á vefsíðu félagsins er leitarvél til að finna greinar í tímaritinu. Eftirmæli um Hermann Pálsson, eftir Arne Kruse, eru í 37. hefti, 2003. Ferðaskrifstofa ríkisins. Ferðaskrifstofa ríkisins (enska: "Statourist", sbr. ferðaskrifstofu Sovétríkjanna Intourist) var íslensk ferðaskrifstofa í eigu íslenska ríkisins sem var stofnuð 1936 á kreppuárunum með einkaleyfi til reksturs ferðaskrifstofu fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi. Á þeim árum færðist mjög í vöxt að erlend skemmtiferðaskip kæmu við á Íslandi og ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein. Ferðaskrifstofan átti að auglýsa þjónustu í boði innanlands, hafa eftirlit með verðlagi þjónustunnar svo ekki væri okrað á ferðamönnum, hafa eftirlit með gæðamálum hjá hótelum og veitingahúsum, sjá um bókanir og markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands erlendis. Ferðaskrifstofan var fjármögnuð með sérstökum skatti á selda farmiða sérleyfishafa áætlanabifreiða. Hún úthlutaði einnig starfsleyfum til annarra ferðaskrifstofa víða um land. Fyrsti forstöðumaður ferðaskrifstofunnar var Eggert P. Briem og voru skrifstofur hennar til húsa við Tryggvagötu. Eini starfsmaður stofnunarinnar í upphafi var Ragnar E. Kvaran með starfsheitið „landkynnir“. 1938 var minjagripasala opnuð í húsnæði Ferðaskrifstofunnar. Ferðaskrifstofan heyrði undir skipulagsnefnd atvinnumála sem Stjórn hinna vinnandi stétta kom á fót til að bregðast við kreppunni. Ferðaskrifstofan var harðlega gagnrýnd af Sjálfstæðismönnum og eftir að ný þjóðstjórn var mynduð í apríl 1939 var hún lögð niður. Eftir Síðari heimsstyrjöld var ákveðið að endurreisa Ferðaskrifstofu ríkisins til að sjá um upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna og orlofsferðir stéttarfélaga. Fljótlega varð Ferðaskrifstofan líka áberandi í hótel- og gistihúsarekstri víða um land. Einkaleyfi Ferðaskrifstofu ríkisins var tekið aftur árið 1964 um leið og Ferðamálaráð var stofnað en Ferðaskrifstofan var áfram áberandi í íslenskri ferðaþjónustu og sá til dæmis um bókanir fyrir ríkisstofnanir auk reksturs hótela. Árið 1988 var henni breytt í hlutafélag og 2/3 hlutanna seldir starfsmönnum undir heiti Ferðaskrifstofu Íslands. Árið 1992 var Ferðaskrifstofan að fullu einkavædd sem hluti af starfi einkavæðingarnefndar og hlutur ríkisins seldur. Ragnar E. Kvaran. Ragnar Einarsson Kvaran (22. febrúar 1894 − 24. ágúst 1939) var íslenskur prestur, rithöfundur, skáld og þýðandi. Hann var sonur Einars Hjörleifssonar Kvaran og Gíslínu Gísladóttur og fæddist í Winnipeg í Kanada þar sem faðir hans starfaði sem ritstjóri. Ári síðar flutti fjölskyldan til Íslands. Ragnar lauk guðfræðiprófi á Íslandi 1917 og var ráðinn prestur Federated Church of Winnipeg 1922. Hann starfaði í Kanada til 1933 þar sem hann var meðal annars formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga. Fljótlega eftir að hann fluttist aftur til Íslands var hann ráðinn skrifstofustjóri nýstofnaðrar skipulagsnefndar atvinnumála. Þegar Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð 1936 var hann ráðinn starfsmaður hennar með starfsheitið „landkynnir“ og þegar Eggert P. Briem hætti sem forstöðumaður ferðaskrifstofunnar tók Ragnar við. Hann gegndi þeirri stöðu til dánardags og fljótlega eftir andlát hans var skrifstofan lögð niður. Bósa saga og Herrauðs. Bósa saga og Herrauðs er fornaldarsaga skrifuð á 14. öld sem fjallar um förunautana Herrauð og Bósa, en hún er einstök í sínum flokki sökum lýsingum á samförum söguhetjunnar Bósa við þær bóndadætur sem hann gistir hjá. Rúna er getið í Bósa sögu en þar er tekið fram að ef sá sem ort er til getur ráðið rúnirnar, þá losni hann undan ákvæðunum. Trúarbragðafræði. Trúarbragðafræði er akademísk fræðigrein og námsgrein í grunn- og framhaldsskólum, sem fjallar um trúarbrögð almennt, inntak þeirra og siði, venjur og hegðun sem tengjast trúarbrögðunum. Trúarbragðafræði ber saman ólík trúarbrögð á kerfisbundinn máta og finnur þvermenningarleg tengsl á milli þeirra. Trúarbragðafræði nálgast því viðfangsefnið ekki frá guðfræðilegu sjónarhorni heldur sagnfræðilegu, mannfræðilegu, félagsfræðilegu og sálfræðilegu sjónarmiði. Andstætt guðfræði, sem reynir að túlka vilja guðs eða guða, rannsakar trúarbragðafræði átrúnað manna frá hlutlausu sjónarhorni. Dópamín. Dópamín er taugaboðefni framleitt í heila. Það á þátt í stjórnun fjölmargra ferla í miðtaugakerfinu og hefur hlutverki að gegna til dæmis í úrvinnslu skynhrifa, sjálfráðri hreyfistjórnun, hugsun, stjórnun á prólaktínframleiðslu og fleiri þáttum. Það er stundum sagt tengjast ástinni, en þegar maður er ástfanginn framleiðir heilinn þetta efni í meira magni en ella. Hjarðhegðun. Hjarðhegðun er sú hegðun nefnd í félagsfræði þegar maður gerir hluti vegna þess að einhver annar eða einhverjir aðrir eru að gera þá. T 20. Geysiskvartettinn er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1978. Á henni flytur Geysiskvartettinn fjórtán sönglög. Upptaka í stereó: Hljóðriti. Pressun: Soundtek Inc. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf. T 21. Þig mun aldrei iðra þess er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1980. Á henni flytur Örvar Kristjánsson tólf harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Hljóðriti. Pressun: Soundtek Inc. Hönnun umslags: Delfi. Prentun: Valprent hf. Shadi Bartsch. Shadi Bartsch (fædd 17. mars 1966) er Ann L. and Lawrence B. Buttenwieser-prófessor í fornfræði við Chicago-háskóla. Hún kenndi áður við Kaliforníuháskóla í Berkeley og Brown-háskóla, þar sem hún gegndi stöðu W. Duncan MacMillan II-prófessors í fornfræði 2008 – 2009. Æviágrip. Bartsch er dóttir hagfræðings sem starfaði fyrir Sameinuðu þjóðirnar og ólst upp í London, Genf, Teheran, Jakarta og á Fídjieyjum. Hún lauk B.A.-gráðu frá Princeton-háskóla árið 1987 and og bæði M.A. og Ph.D.-gráðu frá Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1992 í latínu og fornfræði. Ferill. Bartsch hefur einkum unnið með latneskar bókmenntir og rómverska menningu á tímum júlísk-kládísku ættarinnar, skáldsöguna til forna, rómverska stóuspeki og klassíska arfleifð. Hún hlaut Quantrell-verðlaunin fyrir framúrskarandi kennslu árið 2000 og verðlaun fyrir kennslu á framhaldsstigi við Chicago-háskóla árið 2006. Hún hlaut Guggenheim-styrk árið 2007. Hún var einnig fulltrúi í ritstjórn University of Chicago Press á árunum 2006 – 2008 og aðalritstjóri tímaritsins "Classical Philology" á árunum 2000 – 2004. Ritstjórn. Bartsch, Shadi Hermann Pálsson. Hermann Pálsson (26. maí 1921 – 11. ágúst 2002) var íslenskur fræðimaður og þýðandi, sem var lengst prófessor í íslenskum fræðum við Edinborgarháskóla. Æviágrip. Hermann Pálsson fæddist í Sauðanesi á Ásum, skammt frá Blönduósi í Húnavatnsþingi. Hann lést af völdum slyss í Bourgas í Búlgaríu. Foreldrar hans voru Páll Jónsson (1875–1932) bóndi í Sauðanesi, og kona hans Sesselja Þórðardóttir (1888–1942) frá Steindyrum í Svarfaðardal. Systkini Hermanns voru tólf talsins. Hermann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1943 og cand. mag. prófi við Háskóla Íslands 1947. Hann fór síðan til Írlands og lauk BA-prófi í keltneskum fræðum við Írlandsháskóla í Dyflinni. Frá árinu 1950 kenndi hann íslensk fræði við Edinborgarháskóla, fyrst sem lektor en um árabil sem prófessor. Frá árinu 1982 gat hann að mestu helgað sig fræðistörfum, uns hann fór á eftirlaun 1988. Um tíma var hann gistiprófessor við Toronto-háskóla og Berkeley-háskóla. Hann var vinsæll fyrirlesari og flutti fjölmarga fyrirlesta víða um heim. Hermann var afkastamikill fræðimaður á sviði norrænna fræða. Fjöldi fræðirita kom frá hendi hans, ekki síst eftir að hann fór á eftirlaun 1988, þau síðustu eftir að hann féll frá. Ungur vakti hann athygli fyrir bækurnar "Söngvar frá Suðureyjum" (1955) og "Sagnaskemmtun Íslendinga" (1962). Hann fékkst mikið við rannsóknir á Hrafnkels sögu Freysgoða og leiddi í ljós að ýmsar hugmyndir úr Alexanders sögu hefðu haft áhrif á hana. Síðari rit hans fjalla mörg hver um erlenda menningarstrauma sem höfðu áhrif á íslenskar fornbókmenntir, bæði um keltnesk og samísk áhrif, og ekki síður hina kirkjulegu bókmenningu miðalda. Lengi vel áttu viðhorf Hermanns heldur undir högg að sækja í fræðasamfélaginu hér á Íslandi, e.t.v. af því að hann gekk stundum nokkuð langt til að kanna þanþol hugmynda sinna. Erlendis var hann mjög virtur fræðimaður og búast má við að vegur hans fari vaxandi hér á landi. Þýðingar voru sérstakur kapítuli í ævistarfi Hermanns. Hann þýddi fjölda íslenskra fornrita yfir á ensku, oft í samstarfi við Magnús Magnússon, Denton Fox eða Paul Edwards, og var þar lögð áhersla á að textinn yrði á eðlilegu máli. Hlutu margar þessar þýðingar mikla útbreiðslu m.a. í ritröðinni "Penguin Classics". Hefur verið sagt að á síðari hluta 20. aldar hafi enginn gert meira í að kynna íslensk fornrit í hinum enskumælandi heimi. Fyrsta þýðingin var "Njáls saga" (1960), en alls þýddi Hermann um 40 fornrit af ýmsu tagi. Einnig þýddi hann nokkur rit á íslensku, m.a. "Írskar fornsögur" (1953). Hermann átti frumkvæðið að því að efnt var til alþjóðlegra fornsagnaráðstefna (International Saga Conference). Var hin fyrsta haldin í Edinborg 1971, og ritstýrðu þeir Hermann, Peter Foote og Desmond Slay ráðstefnuritinu. Fornsagnaráðstefnurnar eru nú haldnar á þriggja ára fresti. Einnig var Hermann einn af stofnendum Scottish Society for Northern Studies (1968), sat í stjórnarnefnd þess um árabil og var forseti 1970–1971. Hermann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Árið 1999 hlaut hann heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright, sem eru á vegum Vísindafélags Íslendinga. Kona Hermanns (1953) var Guðrún Þorvarðardóttir (f. 28. mars 1927) stúdent. Þau áttu eina dóttur. Jónas Kristjánsson (f. 1940). Jónas Kristjánsson (fæddur 5. febrúar 1940) er íslenskur blaðamaður og var ritstjóri 1967-2006. Hann er einnig höfundur margra bóka um hross og ferðalög og er ritstjóri gagnabanka á vefnum um ferðalög, hross og reiðleiðir. Hann kenndi blaðamennsku við Háskólann í Reykjavík 2006-2008. Starfssaga hans kom út 2009. Jónas Kristjánsson fæddist í Reykjavík. Foreldrar hans eru Kristján Jónasson (f. 12. maí 1914, d. 27. júlí 1947) læknir og Anna Pétursdóttir (f. 11. júní 1915, d. 24. september 1976) bókari. Kristján var sonur Jónasar Kristjánssonar læknis, alþingismanns og stofnanda Náttúrulækningafélags Íslands. Náms- og starfsferill. Jónas lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1959 og var þar ritstjóri Skólablaðsins í fimmta bekk. Hann stundaði nám í félagsfræði í Vestur-Berlín 1959-1961, lauk BA-prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands 1966. Blaðamaður og fréttastjóri á Tímanum 1961-1964. Ritstörf. Forustugreinar í dagblöðum, rúmlega 4000 greinar allar götur frá 1973, allar endurbirtar á veraldarvefnum (jonas.is). Veitingarýni í blöðum og tímaritum, rúmlega 500 greinar allar götur frá 1980, allar endurbirtar á veraldarvefnum (jonas.is). Gagnabanki um hross á veraldarvefnum (www.hestur.is). 190 fyrirlestrar í blaðamennsku birtir á www.jonas.is Gagnabanki um fornar og nýjar reiðleiðir á veraldarvefnum (www.jonas.is/reiðleiðir). Christian Müller. Christian Müller eða Kristján Möller (1638 – 3. júlí 1720) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi 1688-1718, eða í þrjátíu ár, en á seinni hluta embættisferilsins var embættinu þó gegnt af umboðsmönnum. Hann var sonur Henriks Müller, rentumeistara Friðriks konungs 3., sem var um tíma talinn einn ríkasti maðurinn í Kaupmannahöfn en hafði um það leyti sem sonur hans varð amtmaður tapað mestöllum eignum sínum og bjó við kröpp kjör þegar hann lést. Á velmektardögum föður síns mun Christian hafa ferðast víða, meðal annars til Rómar, og aflað sér menntunar en hann var sagður vel að sér í lögfræði og sagnfræði. Hann var útnefndur amtmaður á Íslandi 21. apríl 1688 og kom til landsins um sumarið. Hann var á Bessastöðum næstu árin með fjölskyldu sinni og sinnti embætti sínu við misjafnan orðstír. Á þeim árum kom upp sérkennilegt mál sem kallað hefur verið Kríumálið. Magnús Hrómundarson sýslumaður í Hnappadalssýslu stefndi séra Jóni Jónssyni í Hítarnesi fyrir hönd amtmanns í ákveðnu máli og afhenti prestinum afrit af stefnunni en hafði þar misritað nafn amtmannsins, skrifaði "Chrían" í staðinn fyrir Christian, og var þetta þegar hent á lofti og mikið grín gert að, bréfið kallað kríubréf og málaferli sem af þessu spunnust Kríumál eða Stokksmál. Margir drógust inn í það og lauk því svo að séra Jón var dæmdur frá kalli og embætti og til fjársekta, Magnús sýslumaður varð einnig að láta af sínu embætti en amtmaður sigldi utan ásamt fjölskyldu sinni 1694 og fékk þungar ákúrur hjá stjórnvöldum. Hann kom þó aftur árið eftir en var þá einn á ferð, stóð stutt við og var „þá og eftir það spakur og óáleitinn við alla“. Næstu árin kom Müller til landsins á hverju sumri en fór yfirleitt aftur á haustin, nema 1696-97 og 1701-1702. Hann setti umboðsmenn til að gegna embættinu á vetrum, fyrstu árin Lauritz Gottrup lögmann, en árið 1701 slettist upp á vinskap þeirra og þegar amtmaður sigldi haustið 1702 setti hann Pál Beyer umboðsmann sinn. Müller kom síðast til Íslands 1707. Þá var hann að verða sjötugur og fékk leyfi til þess hjá konungi að sitja sumar og vetur í Kaupmannahöfn en skipa umboðsmann í sinn stað. Var það Páll Beyer og gegndi hann amtmannsembættinu í raun allt þar til hann fór frá landinu 1717. Þá tók Oddur Sigurðsson við. Müller lét loks af embætti 1718, en hélt þó hálfum amtmnannslaununum. Hann var þá áttræður að aldri. Hann lifði í tvö ár í viðbót og er sagður hafa verið elliær og lagstur í kör þegar hann dó. Müller er svo lýst að hann hafi hvorki haft stóran vöxt né mikið persónuálit, þótti hvorki skarpvitur né örlátur, áhrifagjarn og lét stjórnast af öðrum en laus við dramb og stórlæti. Müller giftist árið 1668 ungri ekkju, Regine Schønbach, en hún dó ári síðar. Árið 1671 gekk hann að eiga Margrethe Bartholin (d. 1711) og var hún með honum á Íslandi fyrstu ár amtmannsferils hans. Lágafellslaug. Lágafellslaug er sundlaug í Mosfellsbæ, byggð árið 2007. Samningar voru gerðir við Nýsi um byggingu og rekstur laugarinnar en eignarhaldið á lauginni breyttist eftir gjaldþrot félagsins. Nýr rekstraraðili var fenginn að sundlauginni. Kalevala. Kalevala er 19. aldar finnskt söguljóð með goðsagnablæ sem textafræðingurinn Elias Lönnrot safnaði saman úr munni kvæðamanna með þrotlausum ferðum sínum um núverandi Finnland og útjaðra landsins. Kalevala er talið vera þjóðargersemi Finna og er eitt af langmikilvægustu bókmenntaverkum á finnskri tungu. Fyrsta útgáfan af Kalevala, sem nefnist "Gamla Kalevala", kom út 28. febrúar árið 1835. Sú útgáfa sem þekktust er nútildags kom út árið 1849 og er 22.795 ljóðlínur sem skipt er í 50 kviður (finnska: "runot"). Kalevala mætti þýða sem "Land Kaleva" eða "Hetjulandið". Íslenska þýðingin. Karl Ísfeld þýddi Kalevala á íslensku, og kom fyrri hlutinn út árið 1957 og sá síðari 1962 eftir að Karl dó. Karl vann að síðari hlutanum helsjúkur og lauk ekki síðustu 7 blaðsíðunum. Þær kláraði Sigurður Einars frá Munaðarnesi. Hrævareldar. Hrævareldar eða mýrarljós eru flöktandi ljós sem sjást að næturlagi yfir mýrum. Yfirleitt er þá metangas að brenna en það myndast við sundrun jurtaleifa í mýrum. A Long Time Listening. A Long Time Listening er fyrsta plata hljómsveitarinnar Agent Fresco í fullri lengd. Platan kom út í lok árs 2010 en hún var tvö ár í vinnslu. Platan inniheldur 17 lög, sem saman segja ákveðna sögu, mynda eina heild. Imbrudagar. Imbrudagar eru þriggja daga föstutímabil fjórum sinnum á ári, og eru eins konar inngangur að árstíðunum fjórum. Imbrudagar eru með elstu helgisiðum kristninnar. Dæmi um þessar föstur má finna í Róm frá því snemma á 3. öld. Líkar föstur eru þekktar í gyðingdómi og tengdust í upphafi ársverkum í akuryrkju. Nafnið Imbrudagar virðist fengið úr fornenskri útgáfu af latnesku heiti þessara daga. Snemma voru þessir dagar einnig kallaðir sæludagar eða sæluvikur. Í kaþólskum sið tíðkaðist á þessum dögum að afhenda fátækum ölmusugjafir. Imbrudagar eru á þessum dögum eftir öskudegi, eftir hvítasunnudegi, eftir krossmessu (14. september) og eftir Lúcíumessu (13. desember). Imbrudagar eru þakkar- og bænadagar á tímamótum árstíðanna en einnig iðrunar- og yfirbótardagar. Okurmálið (1985). Okurmálið var lögreglumál sem kom upp á Íslandi árið 1985 og varðaði ólögleg okurlán Hermans Björgvinssonar. Málið fékk mikla umfjöllun á sínum tíma og í seinni tíð hafa vextir okurlánara oft komið til tals þegar rætt er um vexti nútíma krítarkortafyrirtækja. Einu sinni var.... "Einu sinni var..." (franska: "Il était une fois...") eru franskir teiknimyndaþættir. Þættirnir sem framleiddir eru af Procidis eru hugarsmíð franska teiknimyndagerðarmannsins Alberts Barillé. Albert Barillé. Albert Barillé (14. febrúar 1920 – 5. febrúar 2009) var franskur teiknimyndagerðarmaður sem þekktur er fyrir teiknimyndaþættina Einu sinni var.... Sýanóakrýlat. Límtúpa af hinu upprunalega "Super Glue" (Tonnataki). Sýanóakrýlat er almennt heiti yfir fljótþornandi lím, oft kölluð "tonnatak", skammstafað "CA" á ensku. Límblöndur úr CA eru einnig notaðar í læknisfræðitilgangi til að líma saman sár og eru þær efnablöndur samsetta þannig að þær erta húð minna og eru ekki eitraðar. Þegar CA er blandað saman við matarsóda fæst hart, létt þéttiefni en þessi efnablöndun framkallar hita og gufur. CA er einnig notað í lögreglurannsóknum til að kalla fram ósýnileg fingraför á hlutum úr efnum eins og gleri og plasti. Gufum úr heitu CA er þá beint á yfirborð hluta þar sem þær þéttast ofan í sprungur sem fingraför skildu eftir og hvít fingraför koma fram. Þunnt lag af CA lími er notað til að bæsa tréhluti. Það þornar fljótt og yfirborðið verður glansandi. Það er þá gjarnan blandað saman við línolíu. Einnig er það blandað sagi notað til að gera við sprungur í tré t.d. í viðarhljóðfærum og húsgögnum. Fjallgöngumenn og hljóðfæraleikarar hafa notað CA til að gera við og búa til hlíf á fingurbrodda. CA lím hefur verið notað til að líma saman sár, það var notað við sár særðra hermanna í Víetnamstríðinu til að minnka blæðingu þar til þeir komust á sjúkrahús. CA var fundið upp árið 1942 í efnafræðistofum Kodak í tilraunum þar sem reynt var að búa til gagnsætt sterkt plast sem hentaði til að verjast byssukúlum í hernaði. Mikil hiti og gufur myndast þegar CA er blandað með efnum úr baðmull eða ull og getur hitinn orsakað bruna og jafnvel kviknað í baðmull ef nógu mikið af CA er til staðar. Hannes Pétursson. Hannes Pétursson (f. 14. desember 1931) er íslenskt skáld og rithöfundur sem sent hefur frá sér fjölda ljóðabóka og annarra verka og hlotið fyrir þau ýmsar viðurkenningar. Hannes fæddist á Sauðárkróki og ólst þar upp, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og árið 1955, þegar hann var aðeins 23 ára, kom út fyrsta ljóðabók hans, "Kvæðabók", sem vakti þegar mikla athygli. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1959 og starfaði hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs á árunum 1959-1976. Hannes hefur sent frá sér fjölda bóka, bæði ljóðabækur, fræðibækur, frásagnarþætti, smásögur og ferðasögur, auk nokkurra þýðinga. Hann hefur hlotið viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina "Eldhyl" árið 1993 og þýsku Henrik Steffens-verðlaunin 1975. Hann er heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands og er í heiðurslaunaflokki listamannalauna. Bækur eftir hann hafa verið þýddar á nokkur erlend tungumál og fjórar ljóðabóka hans, "Stund og staðir, Innlönd, Heimkynni við sjó" og "36 ljóð", hafa verið lagðar fram til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Flest ljóð Hannesar eru óbundin en í þeim má finna mikið af tilvísunum í þjóðlegar hefðir, sagnir og menningararf, þjóðkvæði og þjóðtrú. Hindí-úrdú. Hindí-úrdú ("هندی اردو", "हिंदी उर्दू") er tungumál talað á Norður Indlandi og Pakistan. Tvö afbrigði eru til og heita þau hindí og úrdú. Þau eru í raun sama málið en ritvenjur þeirra eru frábrugðnar. Í orðaforða málsins eru tökuorð úr tyrknesku, persnesku og arabísku. Eggert Claessen. Eggert Claessen (16. ágúst 1887 – 21. október 1950) var lögfræðingur og athafnamaður í Reykjavík. Eggert var sonur Jean Valgard Claeesen ríkisféhirðis og Kristínar Briem, sem var dóttir Eggerts Briem sýslumanns. Systur hans voru þær Ingibjörg, kona Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, og María Kristín, móðir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra, en bróðir hans var Gunnlaugur Claessen yfirlæknir. Eggert var einn af stofnendum Eimskipafélags Íslands, sat í stjórn félagsins frá stofnun og til dauðadags og var formaður stjórnarinnar í 25 ár. Hann var einnig aðalbankastjóri Íslandsbanka 1921 – 1930 en stundaði annars lögfræðistörf í Reykjavík. Hann var ásamt Sveini Björnssyni, síðar forseta, helsti hvatamaður að stofnun Lögmannafélags Íslands og var oft formaður þess. Hann gekkst fyrir stofnun Vinnuveitendasambands Íslands 1934 og var formaður þess til dauðadags. Kona Eggerts var Soffía Jónsdóttir (22. júlí 1885 – 20. janúar 1966) húsmæðrakennari. Pendúll. Pendúll er lóð sem hangir frá völtum þannig að það getur sveiflast frjálslega. Þegar pendúllinn er færður úr jafnvægisstað er honum undirorpið krafti sem færir hann aftur á jafnvægisstaðinn. Þessi kraftur, saman með massa pendúlsins, lætur pendúlinn sveiflast til og frá þegar honum er sleppt. Tíminn sem tekinn er að sveiflast einu sinni heitir tíðni. Tíðnin fer aðallega eftir lengd pendúlsins. Síðan þeir voru uppgötvaðir árið 1602 af Galíleó Galílei hefur pendúlar verið notaðir til að mæla tíma. Pendúlar voru nákvæmasta tæki til tímamælingar þangað til fjórða áratugsins. Þeir eru notaðir til að stilla pendúlklukkur og í vísindatækjum eins og hröðunarmælum og jarðskjálftamælum. Áður fyrr voru pendúlar notaðir sem þyngdaraflsmælar og jafnvel til að mæla lengd. Orðið „pendúll“ á rætur að rekja til latínu, það kemur frá orðinu "pendulus" sem þýðir „hangandi“. Eggert Briem. Eggert Ólafur Briem (15. október 1811 – 11. mars 1894) var íslenskur sýslumaður á 19. öld, lengst af í Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslum. Eggert Briem fæddist á Kjarna í Eyjafirði og var sonur Gunnlaugs Briem sýslumanns og Valgerðar Árnadóttur konu hans. Hann lauk stúdentsprófi úr Bessastaðaskóla 1931 og var síðan skrifari hjá föður sínum til 1834 og var það ár settur sýslumaður Eyjafjarðarsýslu um tíma í forföllum föður síns. Hann fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk lögfræðiprófi þaðan 1841. Hann kom til Íslands að loknu prófi og starfaði hjá Hoppe stiftamtmanni í Reykjavík til 1843. Þá var hann skipaður sýslumaður í Rangárvallasýslu en var þar aðeins eitt ár því hann varð sýslumaður Ísfirðinga 1844 og var þar til 1848. Þá fékk hann Eyjafjarðarsýslu og settist að á Espihóli. Hann var þjóðfundarmaður Eyfirðinga 1851 og var settur amtmaður í norður- og austuramti 1852-1852. Árið 1861 var Eggert skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu og bjó fyrst í Viðvík, fluttist svo að Hjaltastöðum en síðan að Reynistað og var þar allt til 1884, þegar hann lét af embætti og fluttist til Reykjavíkur. Kona Eggerts, gift 18. ágúst 1845, var Ingibjörg Eiríksdóttir (16. september 1827 – 15. september 1890) og áttu þau nítján börn en þrettán náðu fullorðinsaldri, þar á meðal alþingismennirnir Eiríkur, Gunnlaugur, Ólafur og Páll amtmaður. Ein dóttir þeirra var Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Í minningargrein í "Fjallkonunni" er Eggert lýst þannig: „Þessi kynsæli höfðingi, faðir hinna mörgu efnisgóðu systkina, hafði jafnan á sér bezta orð sem yfirvald, jafnt fyrir röggsemi sem lipurð. Hann var því mjög vinsæll af alþýðu. Hann mun hafa verið með hinum beztu lagamönnum íslenzkum um sína daga.“ Snúður. Snúður eða snúðvísir er tæki sem notað er til að mæla eða halda afstöðu, byggt á varðveislu hverfiþunga. Vélrænn snúður er í eðli sínu hringsnúandi hjól eða diskur með öxli sem er látinn taka hverja afstöðu sem er. Afstaðan breytist miklu minna í takt við ytri snúningsátak en hún myndi án hverfiþunga vegna snúningar snúðsins. Leníngradfylki. Leníngradfylki (rússneska: Ленингра́дская о́бласть, Leningrádskaja óblast') er fylki (oblast) í Rússlandi. Íbúar voru um 1,6 milljón árið 2009. Geimstöð. Geimstöð er stór gervihnöttur, sem hýst getur geimfara til lengir tíma. Önnur geimför geta lagst að geimstöðvum, til dæmis til að flytja fólk eða aðföng fram og til baka. Geimstöðvar eru ólíkar öðrum geimförum þannig að þær geta ekki knúið sig áfram eða lent og nauðsynlegt er að nota önnur geimför til að komast að þeim. Einasta geimstöðin á sporbaug um Jörðina er Alþjóðlega geimstöðin. Fyrrverandi geimstöðvar eru meðal annars Almas, Saljút, Skylab og Mir. Meðal annars eru geimstöðvar notaðar til að rannsaka áhrif geimsins á mannlíkamanum, auk þess að gefa pláss fyrir fleira og lengra rannsóknir en boðið upp er á í öðrum geimförum. Allar geimstöðvar hafa verið hannaðar til að skipta um starfslið; áætlað er að hver starfsmaður er um borð í geimstöðinni í nokkrar vikur eða mánuði en sjaldan lengra enn eitt ár. Síðan slysið þar sem flogið var til Saljút 1 í Sojús 11 hafa öll mönnuð geimflug verið tákmörkuð. Heimsmethaldari fyrir lengsta geimflugið er Valerij Póljakov sem um borð var í Mir í 437,7 daga frá 1994 til 1995. Frá og með 2009 hafa þrír geimfarar verið í geimnum í lengra en eitt ár, allir voru um borð í Mir. Geimstöðvar hafa verið notaðar í bæði rannsókna- og hernaðartilgöngum. Síðasta geimstöðin sem notuð var í hernaðartilgangi var Saljút 5 sem var hluti í Almas-verkefninu sem framkvæmt var af Sovétríkjunum árin 1976 og 1977. Köld. Köld er breiðskífa með Sólstöfum sem kom út árið 2009. Geimfar. Geimfar eða geimskip er farartæki sem hannað er fyrir geimflug. Geimför eru notuð í mismunandi tilgangi, meðal annars til samskipta, jarðarathugunar, veðurfræði, siglingafræði, reikistjörnukönnunar og flutninga manna og farms. Í undirsporbrautarflugi (e. "sub-orbital flights") fer geimfar út í geiminn og kemur svo aftur til jarðar án þess að fara á sporbraut. Í sporbrautarflugum (e. "orbital flights") fer geimfarið á sporbaug um Jörðina eða önnur stjarnfræðileg fyrirbæri. Geimför notuð til mannaðra geimferða flytja fólk annaðhvort sem starfsmenn eða farþega. Tölvustýrð geimför (e. "robotic spacecraft") eru ómönnuð og er stjórnað á sjálfvirkan hátt frá Jörðinni. Ómönnuð geimför notuð til rannsókna heita könnunarhnettir (e. "space probes"). Nokkur geimför eru á leiðinni út úr sólkerfinu, til dæmis Pioneer 10 og 11, Voyager 1 og 2 og New Horizons. Vinsælt er að ræða um geimför í vísindaskáldskap. Sakalínfylki. Sakalínfylki (rússneska: Сахалинская область, Sahalínskaja óblast') er fylki (oblast) í Rússlandi. Árið 2010 var íbúarfjöldi Sakalínfylkis 510.834. Barcelona World Race. Frá startinu 31. desember 2010. Barcelona World Race er siglingakeppni umhverfis jörðina án áningar fyrir tveggja manna áhafnir. Keppnin hefst og endar í Barselóna og fylgir klipparaleiðinni suður fyrir Afríku, austur eftir Indlandshafi, fyrir Ástralíu og Nýja Sjáland eftir Suður-Kyrrahafi og fyrir Suður-Ameríku. Keppnin var fyrst haldin 2008 og 2009 þar sem níu skútur þreyttu keppni. Sigurvegarar voru franski siglingamaðurinn Jean-Pierre Dick og írski siglingamaðurinn Damian Foxall. Önnur útgáfa keppninnar hófst 31. desember 2010. Hrafnafífa. Hrafnafífa (eða einhneppa) (fræðiheiti: "Eriophorum scheuchzeri") er plöntutegund af hálfgrasaætt. Hún er með breiðum, hvítum hárskúfum á stöngulendum og vex í votlendi. Klófífa. Klófífa (fræðiheiti: "Eriophorum angustifolium") er plöntutegund af hálfgrasaætt. Hún er með hvítum, lútandi hárskúfum nokkrum saman á stöngulendum og vex í votlendi. Beinþynning. Beinþynning (fræðiheiti: "osteoporosis") einkennist af því að beinin tapa kalki, það er beinvefur rýrnar og missir þannig styrk sinn. Við það verða beinin mjög stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak. Hugtakið osteoporosis er komið úr grísku og þýðir „osteo“ bein en „poros“ þýðir smáhola. Beinþynning á Íslandi. Beinþynning er vaxandi vandamál á Íslandi sem og annars staðar í heiminum og helst í hendur við aukinn fjölda aldraðra. Tíðni beinþynningar eykst jafnt og þétt með auknum aldri og er algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómurinn er frekar sjaldgæfur undir 55 ára aldri. Niðurstaða íslenskrar rannsóknar sýndi að önnur hver fimmtug kona og þriðji hver fimmtugur karl megi búast við beinbroti síðar á ævinni. Á Íslandi má rekja árlega um 1200 – 1400 beinbrot til beinþynningar. Algengustu beinbrotin vegna beinþynningu eru samfallsbrot í hryggjarliðum, mjaðmabeini, lærlegg og framhandlegg. Orsök. Bein er lifandi vefur og í stöðugri endurmyndum þar sem flókið samspil á sér stað milli svokallaðra beinbrjóta (osteoclastes) og beinbyggja (osteoblastes). Beinbrjótar brjóta niður beinvefinn en um leið á sér stað uppbygging á nýjum beinvef með hjálp beinbyggja. Erfðir stýra að mestu beinmagni hvers og eins en vitað er að hormónar, næring og regluleg líkamsþjálfun hafa einnig áhrif þar á. Bein líkamans eru samsett af frauðbeini (20%) og skelbeini (80%). Frauðbein er beinvefur sem er að finna í innri hluta beinanna og í endum langra beina. Þau hafa minni styrkleika í samanburði við skelbein sem er tíu sinnum sterkara bein. Frauðbein dregur nafn með réttu. Þau bein sem hafa hátt hlutfall frauðbeins miðað við skelbein er hættara við beinþynningarbrotum eins og til dæmis hryggjarliðir og mjaðmabein. Þó svo að mörg dæmi séu um óútskýrða beinþynningu er vitað að upp úr þrítugu fer beinmassi fólks að minnka og má segja að það sé hluti af eðlilegu öldrunarferli karla og kvenna. Beinþynning er hægfara, langvarandi sjúkdómur í beinum þar sem rýrnun verður á steinefnum og misröðun á innri byggingu beinsins. Við þetta skerðist beinstyrkur sem eykur aftur hættu á beinbrotum. Áhættuþættir. Áhættuþættir beinþynningar má skipta í óbreytanlega þætti og í þætti sem hægt er að hafa áhrif á með forvörnum og lífstílsbreytingum. Einkenni og afleiðingar brota. Beinþynningin sjálf er yfirleitt einkennalaus þar til beinin verða mjög brothætt og brotna. Sumir fá þó verki í bak og lendar áður. Oft stafa beinbrotin af minni háttar áverkum sem nægja almennt ekki til að brjóta heilbrigð bein. Samfallsbrot í hrygg orsakast til dæmis flest af litlum áverkum eins og snöggri hreyfingu, hósta, hnerra, setjast, lyfta upp léttum hlut og jafnvel við það eitt að beygja sig. Mikill sársauki fylgir beinbrotunum eins og gefur að skilja og því samfara fylgir oft mikil færnisskerðing. Oftar en ekki hafa brotin líkamleg, félagsleg og andleg áhrif á einstaklinginn. Samfallsbrot í hrygg geta þó verið dulin og þar af leiðandi misvísandi en mjaðmabrot dylst að öllu jöfnu ekki. Líkamsstaða breytist yfirleitt við samfallsbrot í hrygg, einstaklingurinn lækkar jafnan, stöðugleiki hryggjarbolanna veikist og við endurtekin samfallsbrot getur myndast herðakistill. Langvarandi verkir fylgja jafnan við endurtekin samfallsbrot í hrygg. Hreyfigeta skerðist og hætta er á að hræðslan við að brotna aftur, við það að hreyfa sig, geti dregið enn frekar úr hreyfingu. Þannig getur skapast vítahringur sem dregur enn frekar úr vöðvastyrk og beinstyrk. Jafnframt þessu getur fylgt skert geta til að sinna fyrri störfum og áhugamálum sem aftur getur leitt til félagslegrar einangrunar og til aukinnar vanlíðunar. Greining. Massi beina er mældur í svokallaðri beinþéttnimælingu og fer fram hér á landi á nokkrum stöðum, m.a. á Landspítalanum í Fossvogi. Algengt er að fá tíma í gegnum heimilislækni. Beinþéttnimæling er ákveðin tegund röntgenrannsókna þar sem kalkmagnið í beinum er mælt. Ef beinmassinn er einu staðalfráviki undir viðmiðunarmörkum, miðað við aldur og kyn sjúklings, eru 2 – 3 sinnum meiri líkur á beinbroti hjá honum heldur en hans jafnöldrum. Rannsóknin sjálf tekur uum það bil 10 – 30 mínútur þar sem mældur er beinmassi í lærleggshálsi, hryggjarliðum og mjöðmum. Ekki þarf að fasta fyrir þessa rannsókn. Hægt er að mæla beinþéttni með ómskoðun á hæl (Heel ultrasound). Kosturinn er hve ódýr og einföld sú rannsókn er auk þess að vera áreiðanleg þegar beinþéttni mælist góð. Hins vegar er ókostuinn sá við tækið að einungis um helmingur þeirra sem hafa í raun lág beinþéttnigildi mælast með beinþynningu. Hefðbundin röntgenmæling greinir ekki beinþéttni nema ef beinmassinn hafi minnkað um 30-50%. Röntgenmæling sker úr um hvort um brot sé að ræða, metur gróanda í brotum auk þess að greina önnur vandamál. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett fram skilgreiningu á beinþynningu og er metið út frá svokallaðri DEXA mælitækni. Beinþynning er þegar beinþéttni er meira en 2,5 staðalfrávik fyrir neðan meðalgildi ungs fólks á aldrinum 20 – 30 ára af sama kyni. Beingisnun kallast það svo aftur þegar beinþynningin er 1,0 til 2,5 staðalfrávik fyrir neðan miðgildi sama hóps. Jafnan er talað um T-gildi í þessu samhengi. Fyrirbyggjandi meðferð. Reglubundin hreyfing og líkamsáreynsla er afar mikilvæg forvörn til að draga úr hættu á beinþynningu. Hreyfingin eykur tog á vöðva og bein og eykur þannig beinmassa. Æfingar eins og þungberandi æfingar sem bera uppi líkamsþyngdina, eru taldar vernda beinin. Hollt mataræði hefur áhrif, einkum kalk- og D-vítamínríkt fæði. Kalkið er að mestu að finna í mjólkurmat og kalktöflum. Mælt er með um það bil 1000 mg af kalki á sólarhring. En þess má geta að í einum dl. Af undanrennu eru 118 mg af kalki. Eftir tíðahvörf og fyrir þá sem taka inn barksteralyf, er hins vegar mælt með um 1200 – 1500 mg af kalki á sólarhring. D-vítamín fáum við til dæmis úr fisk, sér í lagi feitum eins og laxi, frá lýsi og frá sólarljósinu. En þess má geta að áhrif sólarljóssins er ekki nóg hér á landi. Einnig er til ráða að gefa konum kvenhormón eftir tíðahvörf. Þar sem beinbrot eldra fólks eru algeng í heimahúsum er rétt að benda á mikilvægi þess að skoða heimili fólks með tilliti til þessa eins og til dæmis snúrur, mottur, lýsingu og skófatnað. Einnig er mikilvægt að skoða þætti eins og lyfjanotkun, vitræna skerðingu, skerta sjón og jafnvægisskyn. Ýmis lyf eru á markaðnum í dag við beinþynningu og eru í stöðugri þróun. Bisfosfónöt eru ein algengustu lyfin í dag og hafa það hlutverki að gegna að hindra niðurbrot beina með því að hægja á virkni beinbrjóta og auka þar af leiðandi beinmassann. Umhverfistækni. Umhverfistækni (eða "græn tækni") er svið innan tæknigeirans sem hefur það að markmiði að hanna og þróa kerfi eða búnað sem stuðlar á einhvern hátt að verndun umhverfisins og náttúruauðlinda, og/eða dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum af mannavöldum. Sjálfbærni er kjarni umhverfistækni. Umhverfistækni á Íslandi. Á Íslandi eru starfrækt samtök fyrirtækja í grænni tækni, Clean Tech Iceland, innan vébanda Samtaka iðnaðarins. Markmið samtakanna er að efla samstarf og deila þekkingu og reynslu milli fyrirtækjanna, koma að norrænu samstarfi og vera stjórnvöldum til stuðnings við stefnumótun. Meðal fyrirtækja eru: Carbon Recyling International, EcoProcess Nord, Greenqloud, Marorka, Prókatín, ReMake Electric, Vistvæn orka ehf. Alþjóðlegu fornsagnaþingin. Alþjóðlegu fornsagnaþingin eða International Saga Conference eru ráðstefnur eða þing um íslenskar og norrænar fornbókmenntir og skyld efni, sem haldnar eru á þriggja ára fresti. Frumkvæðið að fornsagnaþingunum átti Hermann Pálsson prófessor í Edinborg, og skipulagði hann fyrsta þingið sem haldið var þar árið 1971. Það næsta var haldið í Reykjavík tveimur árum síðar, en síðan hafa þingin verið haldin á þriggja ára fresti. Oftast er tekið fyrir eitthvert ákveðið svið fræðanna og sérstaklega fjallað um það. Fornsagnaþingin eru bæði fræðilegur og félagslegur vettvangur fræðimanna í þessum greinum. Ráðstefnurit hafa að jafnaði verið prentuð (það fyrsta er fjölritað). Í þeim var oft aðeins birt úrval fyrirlestra frá viðkomandi ráðstefnu, en aðrir birtust oft síðar, t.d. í tímaritum. Síðari árin hafa ráðstefnuritin verið svokölluð "forprent", þ.e. þau eru gefin út áður en ráðstefnan eða þingið hefst og eru fyrirlestrarnir þar oft í styttri gerð. Musterisriddarar. Þótt regla Musterisriddara yrði stórauðug var hún upphaflega fátæk og riddararnir hétu því að lifa í fátækt og skírlífi. Á innsigli reglunnar er fátæktin táknuð með því að tveir riddarar sitja á einum hesti. Musterisriddarar (latína: "Pauperes commilitones Christi Templique Solomonici") voru ein þekktasta regla kristinna riddara á miðöldum og voru við líði í um tvær aldir. Upphaf. Reglan var upphaflega stofnuð í Jerúsalem 1118 til að veita pílagrímum sem lagt höfðu leið sína til Landsins helga vernd og voru það nokkrir franskir riddarar sem stóðu fyrir því. Þeir fengu bækistöðvar á Musterishæðinni í Jerúsalem, í Al Aqsa-moskunni, sem þeir kölluðu Musteri Salómons, og fengu nafn sitt af þessu. Kaþólska kirkjan viðurkenndi regluna um 1129 og eftir það varð hún fljótt fjölmenn og valdamikil. Frá 1139 voru Musterisriddarar undanþegnir sköttum, höfðu frelsi til að fara yfir öll landamæri og lutu páfanum einum. Hermenn og fjármálamenn. Musterisriddarar voru einhverjir færustu bardagamenn krossferðanna og reistu virki víða um Evrópu og í Landinu helga en þó sinntu tiltölulega fáir þeirra hermennsku, margir meðlimir reglunnar helguðu sig fjármálastarfsemi fremur en hernaði og má segja að hún hafi rekið eins konar alþjóðlegt bankakerfi. Algengt var að aðalsmenn sem héldu af stað í krossferð eða pílagrímsferð fælu reglunni að sjá um eigur sínar á meðan og fengju í heldur skjöl sem þeir gátu notað í Landinu helga til að fá afhent lausafé hjá fulltrúum reglunnar þar. Reglan hafði af þessu mjög góðar tekjur og keypti lönd og eignir víða um Evrópu, stundaði verslun og átti kaupskip. Sagt hefur verið að regla Musterisriddara hafi í raun verið fyrsta alþjóðafyrirtækið. Endalok. Tilvera reglunnar var nátengd krossferðunum og þegar kristnir menn misstu fótfestu í Landinu helga dró úr stuðningi við hana. Musterisriddarar misstu síðustu ítök sín þar árið 1291 og urðu þá að færa sig alfarið til Evrópu. Ýmiss konar orðrómur um launhelgar reglunnar komst á kreik og kveikti tortryggni í hennar garð og það notfærði Filippus 4. Frakkakonungur sér en hann var stórskuldugur við regluna. Árið 1307 hóf hann ofsóknir gegn Musterisriddurum í Frakklandi, lét handtaka þá, pynta og brenna á báli. Ofsóknirnar hófust föstudaginn 13. október og er sagt að þangað sé að leita skýringar á því að föstudagurinn 13. er talinn óheilladagur. Filippus beitti svo Klemens V páfa þrýstingi og fékk hann til að banna regluna árið 1312, enda ágirntust bæði kóngur og páfi hinar miklu eignir reglunnar. Í framhaldi af því voru Musterisriddarar í öðrum löndum Evrópu ýmist handteknir (en fæstir þó dæmdir), teknir inn í aðrar reglur eða settir á eftirlaun. Því hefur þó líka verið haldið fram að hluti reglunnar hafi farið í felur, flúið til Bretlandseyja og starfað þar sem leyniregla sem hafi smám saman orðið að Frímúrarareglunni. Síðasti stórmeistarinn. Æðsti foringi Musterisriddara bar nafnbótina "stórmeistari". Sá sem valinn var til þess embættis gengdi því til æviloka og margir stórmeistarar leiddu menn sína til orrustu og féllu fyrir óvinahendi. Síðasti stórmeistarinn var Jacques de Molay, sem var handtekinn 13. október 1307 og píndur til að játa á sig guðlast en dró játningar sínar síðar til baka. Hann var hafður í haldi næstu árin og brenndur á báli í mars 1314. Hann var þá um sjötugt. Habsborgarar. Habsborgarar eru ein af mikilvægustu konungsættum Evrópu. Habsborgarar ríktu sem keisarar yfir Heilaga rómverska ríkinu frá 1438 til 1740. Auk þess ríktu þeir yfir Austurríska keisaradæminu og Spænska heimsveldinu. Ættin er upprunalega frá Sviss en heimaland þeirra var í Austurríki frá 13. öld til 1918 þegar Austurríska keisaradæmið var lagt niður. Ættin varð heimsveldi á hátindi sínum þegar Karl 1. Spánarkonungur varð keisari hins Heilaga rómverska ríkis 1519. Hann sagði síðar af sér keisaratigninni 1521 en við það klofnaði veldi ættarinnar í lönd spænsku Habsborgara og austurrísku Habsborgara. Á Spáni dó ættin út við lát Karls 2. Spánarkonungs. Árið 1806 var Heilaga rómverska ríkið lagt niður af Napóleon Bónaparte en skömmu áður hafði Frans 2. lýst sig Austurríkiskeisara. Þetta keisaraveldi hrundi við lok Fyrri heimsstyrjaldar en síðasti keisarinn, Karl 1. sagði þó aldrei formlega af sér. Sonur hans Otto von Habsburg hafnaði nauðugur tilkalli sínu til krúnunnar 1961. Prentvél. Prentvél er tæki notað til að flytja blek yfir á yfirborð eins og pappír með aðferðinni sem kallast prentun. Vélin þrýstir prentplötu þar sem blek hefur verið borið á niður á pappír til þess að skapa mynd. Í fyrstu voru prentvélar notaðar aðallega til að prenta texta en í dag eru þær notaðar til alls konar prentunar. Hún er talin einn áhrifamesti uppfinningur annars árþúsunds og í kjölfar hennar fylgdi samskiptabyltingin sem hafði mikil áhríf á skilningi fólks um veröldina. Fyrsta prentvélin var sett saman af Johani Gutenberg árið 1440 og hún var byggð á skrúfuprentvélum sem voru í notkun á þeim tíma. Gutenberg var gullsmiður en þróaði fullkomið prentunarkerfi sem fór fram úr hverju stigi þáverandi prentunaraðferðar. Til þess að gera það bætti hann við þáverandi tækni og fann upp nýja tækni sjálfur. Hann fann upp stafmót sem gerði hægt að framleiða laust letur í fyrsta sinn. Með lausu letri varð prentunaraðferðin miklu styttri og einfaldari og varð hægt að fjöldaframleiða bækur í fyrsta sinn. Á tíma endurreisnar gæti dæmigerð prentvél prentað um 3.600 blaðsíður á degi, miðað við um 2.000 blaðsíður með handprentun en aðeins fáeinar með handskrift. Bækur eftir vinsæla rithöfunda eins og Marteinn Lúther og Desiderius Erasmus fengust í þúsundum eintaka í fyrsta sinn. Gutenberg fann upp prentvélina í Mainz í Þýskalandi og þaðan hafði hún borist til tæplega tveggja hundrað evrópskra borga í tólf löndum innan tveggja áratuga. Fyrir 1500 höfðu yfir tuttugu milljónir binda verið prentuð í Vestur-Evrópu með prentvélum en fyrir 16. öldina hafði prentvélin borist víðar og þá höfðu um 150–200 milljónir binda verið prentuð. Í dag eru nútímalegir prentarar algengir í skólum, vinnustöðum og á heimilum og gera það að verkum að auðvelt er að framleiða fjölfaldað efni. Aron Ralston. Aron Lee Ralston (fæddur 27. október 1975) er bandarískur fjallgöngumaður og fyrirlesari. Hann öðlaðist frægð í maí 2003 þegar hann neyddist til að fjarlægja hendina á sér með vasahníf eftir að hafa fests. Rafskaut. Rafskaut eða skaut (einnig rafpóll eða -nemi) nefnist leiðari sem leiðir straum í eða úr málmlaus efni eins og rafhlöður eða lampa. Mary Elizabeth Winstead. Mary Elizabeth Winstead (fædd 28. nóvember 1984) er bandarísk leikkona. Sundhöll Seyðisfjarðar. Sundhöll Seyðisfjarðar var byggð árið 1948 og var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins. Hún var formlega opnuð 8. júlí 1948. Austurríska erfðastríðið. Orrustan við Fontenoy 1745, ein stærsta orrusta Austurríska erfðastríðsins. Austurríska erfðastríðið var styrjöld eða röð stríða sem háð voru á árunum 1740-1748. Flest lönd Evrópu drógust inn í stríðið en það barst einnig til Norður-Ameríku. Orsakir. Stríðið var sagt háð vegna þess að María Teresa af Austurríki tók við völdum þegar Karl 6. faðir hennar lést, en því var mótmælt af ýmsum á þeirri forsendu að konur ættu ekki erfðarétt í ríkjum Habsborgara. Raunveruleg ástæða stríðsins var þó barátta um yfirráð í Evrópu, þar sem Prússar og Frakkar tóku saman höndum til að hnekkja veldi Habsborgara. Á meðal bandamanna Austurríkismanna voru Bretar og Hollendingar en kjörfurstinn af Bæjaralandi studdi Prússa og Frakka. Stríðinu lauk 1748 með friðarsamningum í Aix-la-Chapelle. Karl 6. dó 1740 og María Teresa varð þá drottning Ungverjalands, Króatíu og Bæheims, erkihertogaynja af Austurríki og hertogaynja af Parma. Í þessum löndum höfðu lengi gilt svonefnd salísk lög, sem kváðu á um að kona gæti ekki erft lendur eða ríki, en Karl 6. hafði gefið út tilskipun árið 1713, þegar hann sá fram á að óvíst væri að honum yrði sonar auðið, þess efnis að kvenkyns afkomendur hans gætu erft ríki hans, og hafði fengið flest þýsku ríkin til að samþykkja þetta. Hins vegar kom aldrei til greina að María Teresa tæki við keisaradæminu af honum. Hugmynd Karls var að eiginmaður henanr, Frans Stefán, yrði kjörinn keisari. Stríðið. Friðrik mikli Prússakonungur rauf samkomulagið með innrás í Slésíu 16. desember 1740 og lagði héraðið undir sig. Hann gerði bandalag við Frakka og kjörfurstann af Bæjaralandi, sem kosinn var keisari sem Karl 7. árið 1742, og herir allra ríkjanna réðust til atlögu við Austurríkismenn. Bretar, Hollendingar og fleiri veittu Maríu Teresu stuðning og næstu árin var barist víða í Mið-Evrópu og veitti ýmsum betur. Karl 7. lést snemma árs 1745 og Maríu Teresu tókst að koma því í kring að eiginmaður hennar var kjörinn keisari sem Frans 1. sama ár en stríðið hélt áfram í Evrópu og barst einnig víða um heim þangað sem hin stríðandi ríki áttu nýlendur, svo sem til Karíbahafs, Norður-Ameríku og Indlands. Endalok. Stríðinu lauk með friðarsamningum 18. október 1748 og tókst Maríu Teresu að mestu að halda því sem hún hafði haft þegar stríðið hófst en varð þó að sætta sig við hernám Prússa á Slésíu og má segja að það hafi að nokkru orðið kveikjan að Sjö ára stríðinu síðar. Jantelögin. Bærinn Jante í "En flyktning krysser sitt spor" er byggður á fæðingarstað Sandemose, Nykøbing Mors á Norður-Jótlandi. Sandemose var þó ekki á þeirri skoðun að Jantelögin einskorðuðust við Nykøbing Mors eða Danmörku, þvert á móti taldi hann Jantelögin ekki einskorðast við smábæi og eiga við hvar sem er í heiminum. Blöndudalur. Séð út eftir Blöndudal. Bærinn Blöndudalshólar lengst t.h. Blöndudalur er dalur í Austur-Húnavatnssýslu, næstaustastur húnvetnsku dalanna, og má segja að hann sé framhald af Langadal og taki við þar sem Svartá sameinast Blöndu úr austri. Áin Blanda rennur eftir Blöndudal. Dalurinn er fremur djúpur og þröngur, þótt engin eiginleg fjöll liggi að honum, og þar er lítið um undirlendi en hann er vel gróinn, víða upp á brúnir. Dalurinn skerst langt inn í heiðarnar og er fremri hluti hans óbyggður og telst til afréttarinnar. Heiðin austan Blöndu kallast Eyvindarstaðaheiði en vestan árinnar er Auðkúluheiði. Fremsta drag dalsins kallast Rugludalur, grunnur og grösugur dalur þar sem áður var bærinn Rugludalur. Hann er nú í eyði en hefur lengi verið í eigu hreppsfélagsins, er afgirtur og hefur verið nýttur af nokkrum bæjum í dölunum. Blöndudalur er veðursæll og þar eru margar góðar bújarðir. Af þeim má nefna Höllustaði, Guðlaugsstaði og Löngumýri. Bollastaðir og Eyvindarstaðir er innstu jarðir austan ár og hafa lengi talist til vildisjarða. Hengibrú er á Blöndu í neðanverðum dalnum. Dalurinn skiptist áður milli tveggja sveitarfélaga, austurhlutinn tilheyrði Bólstaðarhlíðarhreppi en vesturhluti dalsins var í Svínavatnshreppi. Nú er allur dalurinn hluti af Húnavatnshreppi. Kirkjustaður og prestssetur var áður í Blöndudalshólum og áttu bæirnir austan ár og þrír fremstu bæir vestan ár þangað kirkjusókn. Kirkjan var lögð af árið 1880 og prestssetrið fluttist að Bergsstöðum í Svartárdal. Ný norræn matargerð. "Ný norræn matargerð" er stefna í matargerðarlist sem gengur út á að nýta hefðir og hráefni norrænnar matargerðar til að skapa nýjan, hollan og umhverfisvænan mat. Uppruna nýnorræna eldhússins má rekja til sjónvarpsþáttanna "New Scandinavian Cooking" sem voru framleiddir af norska fyrirtækinu Tellus Works og sýndir frá 2003. Þáttastjórnendur voru Tina Nordström frá Svíþjóð, Andreas Viestad frá Noregi og Claus Meyer frá Danmörku. Í þáttunum ferðuðust þau til afskekktra staða á Norðurlöndunum og elduðu mat úr staðbundnum hráefnum, berjum, jurtum, fiski og villibráð. Sama ár stofnuðu Claus Meyer og René Redzepi veitingastaðinn Noma í Kaupmannahöfn sem lagði áherslu á árstíðabundið og staðbundið hráefni. Noma stóð fyrir fjölsóttu málþingi um norræna matargerð þetta ár og við það tækifæri var samin „stefnuyfirlýsing nýnorrænnar matargerðar“. Árið 2005 tók Norræna ráðherranefndin stefnuna upp á sína arma. Í stefnunni er lögð áhersla á ferskt, staðbundið hráefni sem er einkennandi fyrir náttúru Norðurlandanna og sem er aflað á umhverfisvænan hátt. Nýnorræna eldhúsið er undir áhrifum frá Slow Food-hreyfingunni, efnafræðilegri matargerð og hugmyndum um hollustu lítið unnins hráefnis og kosti þess að versla á bændamörkuðum. Bakkatjörn. Bakkatjörn er tjörn á Seltjarnarnesi. Tjörnin var áður sjávarlón. Í nágrenni tjarnarinnar eru hringir í landslagi. Valhúsahæð. Stúlkur efst á Valhúsahæð árið 1910. Valhúsahæð er hæð á Seltjarnarnesi. Hæsti staðurinn er 31 m. Hæðin var friðlýst árið 1998. Á hæðinni er rákað berg eftir ísaldarjökul. Íslensk kjötsúpa. Íslensk kjötsúpa eða bara kjötsúpa er matarmikil súpa úr lambakjöti og grænmeti. Algengast er að í súpunni séu kartöflur, gulrófur, gulrætur og hvítkál en aðrar grænmetistegundir eru einnig notaðar, svo sem laukur og blaðlaukur, og hún er bragðbætt með þurrkuðum súpujurtum og stundum kjötkrafti. Oft eru notuð grjón í súpuna, svo sem hrísgrjón, hafragrjón eða bygggrjón. Fyrr á öldum var kindakjöt sem borðað var nýtt oftast soðið í súpu sem gjarna var bragðbætt með mjólkursýru. Þá var ekkert grænmeti í súpunni en oftast eitthvert kornmeti, framan af yfirleitt bygg en þegar hafragrjón og hrísgrjón fóru að flytjast til landsins voru þau einnig notuð. Sumstaðar var dálítið af súru skyri sett út í súpuna. Innfluttar súpujurtablöndur komu svo til sögunnar seint á 19. öld og um svipað leyti var farið að nota grænmeti í súpuna, einkum kartöflur og rófur. Nýtt lamba- og kindakjöt var ekki eina kjötið sem notað var í súpu. Saltkjöt var oft notað og stundum nauta- og kálfakjöt, svo og hrossakjöt. Yfirleitt er notað kjöt af bóg, framhrygg eða bringu, sagað í fremur stóra bita (súpukjöt). Kjötsúpa var oft sunnudags- eða veislumatur og stundum jólamatur en nú er hún fremur hversdagsmatur og jafnvel hægt að fá pakkasúpu frá Toro sem kallast "Íslensk kjötsúpa". Mörgum finnst súpan vera gott dæmi um hefðbundna íslenska matargerð og þegar Íslendingar erlendis eiga að kynna íslenska matargerð fyrir útlendingum elda þeir oft kjötsúpu. Svipaðar súpur eru þó þekktar víðar, einkum þar sem svipaðar grænmetistegundir eru ræktaðar og sauðfjárrækt er algeng, svo sem í Noregi og Skotlandi og má nefna súpuna "Scotch broth" sem dæmi. Breiðárlón. Breiðárlón er lón við rætur Breiðamerkurjökuls. Lónið rennur í Fjallsárlón við rætur Fjallsjökuls og þaðan með fjallsá til sjávar. Breiðárlón myndaðist eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa. Botnstjörn. Botnstjörn er vatn við enda Ásbyrgis. Við hamfarahlaupin í Jökulsá á Fjöllum myndaðist hylur innst í ásbyrgi og þar er Botnstjörn nú. Tjörnin er árviss varpstaður rauðhöfðaandarinnar og vestan við hana er fýlavarp. Frostastaðavatn. Frostastaðavatn er lón í Landmannafrétti. Það er umkringt af Dómdalshrauni að vestan, Námahrauni að sunnan og Frostaðahrauni að norðan. Stærð vatnsins er 2,6 km² og meðaldýpt þess er fimm metrar. Vatnið tengist tveimur hálendisleiðunum Fjallabaksleið nyrðri (F 208) og Landmannaleið (F 225). Vatnið er vinsæll veiðistaður. Hagavatn. Hagavatn. Við útflæði vatnsins eru leifar brúar. Hagavatn er vatn við rætur Langjökuls. Farvegur úr vatninu er í gegnum Farið, í Sandvatn og áfram um Sandá og Hvítá út í sjó. Brú var byggð við Farið, en í dag má eingöngu sjá leifar hennar. Árið 1939 lækkaði mjög í vatninu og óttast var um það sama árið 1999 við framhlaup Hagafellsjökuls. 14% lands við vatnið er gróið, 7% er moslendi, 4% mólendi og 2% graslendi.Mikið landfok er við vatnið vegna jökulsins sem er á botni vatnsins. Árið 1996 var gefin milljón til stækkunar Hagavatns og árið 2007 var möguleikinn skoðaður með samstarfi nokkra stofnana og fyrirtækja. Orkuveita Reykjavíkur lét kanna hagkvæmni þess að virkja vatnið árið 2007 og gerð var forathugun að virkjun árið 1985. Lambavatn. Lambavatn er vatn í Lambavatnsgígum, rétt norðan við Lakagíga. Lambavatn er innan friðsvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Óvíst er hvenær Lambavatnsgígar gusu og Lambavatn varð til. Jason Voorhees. Jason Voorhees er skálduð persóna sem birtist fyrst í kvikmyndinni Friday the 13th. Eftir það komu fleiri myndir að sama nafni, alls átta. Svo komu myndir eins og Freddy Vs. Jason og Jason X og Jason Goes To Hell.Jason er fjöldamorðingi og hann er að vísu uppvakningur.Hann hefur alltaf hokkígrímu á höfðinu og uppáhaldsvopnið hans er sveðjan hans.Allt samtals þar á meðal teiknimyndblaða og bíómynda eru 49 sögur af honum. Rugludalur. Rugludalur er lítill dalur í Austur-Húnavatnssýslu, í beinu framhaldi af Blöndudal. Nafnið mun dregið af því að ókunnugir rugla honum oft saman við Blöndudal. Við mynni Rugludals beygir Blöndudalur til suðvesturs, og þar kemur áin Blanda fram úr djúpu og hrikalegu gili, Blöndugili. Rugludalur er við vesturjaðar Eyvindarstaðaheiðar. Dalurinn er grunnur og grösugur og í mynni hans var áður bærinn Rugludalur sem er nú í eyði og tilheyrir afréttinni. Þar var áður nægur skógur til kolagerðar, en var mjög eyddur 1708. Eftir Rugludal rennur Rugludalskvísl og vestan dalsins er Rugludalsbunga, 562 m y.s. Vestan hennar er Blöndugilið. Rugludalur er á náttúruminjaskrá, ásamt Blöndugili og Vallgili (svæði 412). Rugludalur tilheyrði áður Bólstaðarhlíðarhreppi en nú er hann hluti af Húnavatnshreppi. Víkingaþing (ráðstefna). Víkingaþing – Viking Congress – eru ráðstefnur eða þing um víkingaöldina og skyld efni, sem eru nú haldnar á fjögurra ára fresti. Hugmyndin að Víkingaþingunum kviknaði meðal starfsmanna Háskólans í Aberdeen um 1946. Var ætlunin að þar gætu fremstu fræðimenn frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum komið saman til að fjalla um rannsóknir á víkingaöldinni. Fyrsta þingið var haldið í Leirvík á Hjaltlandi 1950, og var nafnið "Viking Congress" komið frá Eric Linklater í Orkneyjum. Fulltrúar Íslands á fyrsta þinginu voru Einar Ól. Sveinsson og Jón Helgason. Víkingaþingin eru þverfaglegar ráðstefnur um víkingaöldina. Fjallað er um fornleifafræði, sagnfræði, textafræði, örnefnafræði, rúnafræði og aðrar greinar sem hafa þýðingu fyrir rannsóknir á þessu sviði. Oftast er tekið fyrir eitthvert ákveðið svið fræðanna og sérstaklega fjallað um það. Segja má að íslensk og norræn fræði séu áberandi þáttur Víkingaþinganna. Löndin sem taka þátt í Víkingaþingunum eru: Danmörk, Færeyjar, Ísland, Grænland, Noregur, Svíþjóð, England, Skotland, Írland og Wales. Þingin geta því ekki talist alþjóðlegar ráðstefnur. Ráðstefnurit hafa verið gefin út um öll víkingaþingin. Í þeim hefur oft aðeins verið birt úrval fyrirlestra frá viðkomandi þingi. Víkingaþingin eru með vefsíðu, þar sem fá má nánari upplýsingar. Víkingaöld. a>. Framfarir í skipasmíði voru ein helsta forsenda útrásar víkinga. Víkingaöld er tímabil í sögu Norður-Evrópu sem nær frá árinu 793 til 1066. Tímabilið einkenndist af mikilli útrás sæfara frá Norðurlöndum sem bæði stunduðu verslun og strandhögg (ránsferðir) og síðar landnám í mismiklum mæli. Upphaf víkingaaldar er miðað við fyrstu skjalfestu árás víkinga á England, 793, og henni lauk með ósigri Haraldar harðráða Noregskonungs á Englandi 1066. Víkingar frá því svæði sem síðar varð Danmörk herjuðu mest á strendur Englands, Fríslands og Frakklands, þar sem þeir frá því svæði síðar varð Noregur sigldu mest til Skotlands, Orkneyja, Írlands, Færeyja, Íslands og Grænlands. Sænskir víkingar fóru mest í Austurveg, allt suður til Býsans. Á fyrri hluta þessa tímabils skiptust Norðurlönd í litlar stjórnsýslueiningar undir stjórn höfðingja eða smákonunga. Um 1000 fara að myndast stærri yfirráðasvæði eða ríki sem síðar festu sig í sessi. Víkingaöldin er hluti af miðöldum í Evrópu, en á Norðurlöndum teljast miðaldir hefjast við lok víkingaaldar. Strandhögg. Strandhögg er skyndiárás af sjó á land, yfirleitt til að ræna kvikfé eða öðrum verðmætum og valda usla (tjóni). Strandhögg var áberandi í hernaðartækni víkinga. Reyndu þeir að koma á óvart, ná miklum feng á skömmum tíma og hverfa svo á brott áður en heimamenn næðu að safna liði. Stundum var orðið "strandhögg" notað um ránsfenginn sjálfan, til dæmis kvikfé sem rekið hafði verið til strandar og var yfirleitt slátrað þar, a.m.k. að hluta, og sett um borð í skipin sem vistir fyrir leiðangursmenn. Einnig gat verið um margs konar varning að ræða sem auðvelt var að flytja með sér og koma í verð. Á fyrri hluta víkingaaldar tóku þeir stundum fólk til að selja á þrælamörkuðum, bæði konur og karla. Stirling. Stirling (gelíska: "Sruighlea", skoska: "Stirlin") er borg í Skotlandi. Í miðborg Stirlingar er vígi og gamall bær sem byggður var upp á miðöldum. Hún liggur við ána Forth. Árið 2008 voru íbúar Stirlingar 33.710 manns og íbúar borgarsvæðisins 45.750 manns. Vegna þess er hún smæsta borgin í Skotlandi og meira að segja eru nokkrir bæir í landinu stærri en Stirling. Þegar Konungsríkið Skotland var til var Stirling einn höfuðvíga þess og Davíð 1. Skotlandskonungur gerði hana að konunglegri borg árið 1130. Árið 2002 var Stirling gerð að opinberri borg af Elísabet 2. Stakkholtsgjá. Stakkholtsgjá. Í fjarska má sjá fólk á gangi í gjánni. Stakkholtsgjá er móbergsgjá í Þórsmörk. Hún er um 2 km löng, allt að 100 m djúp og þrengist innst. Innst í gjánni fellur bergvatnsfoss. T 106. Jóhann Konráðsson og Kristinn Þorsteinsson syngja íslensk alþýðulög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1969. Á henni flytja Jóhann Konráðsson og Kristinn Þorsteinsson fimm lög. Undirleik annast Guðrún Kristinsdóttir. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmynd:Gunnlaugur P. Kristinsson. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. Vaglaskógur. Vaglaskógur er skógur í Fnjóskadal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hann er 300 hektarar að stærð og er annar stærsti skógur Íslands. Norðan við hann er Hálskógur sem eyddist mikið á fornöld af beit og skógarhöggi. Skógurinn komst í eigu Skógræktar Ríkisins árið 1908 og var í eigu Danmerkur þar á undan sem bæði lögðu kapp á gróðursetningu skógarins. Í dag er skógurinn frístundasvæði og í einkaeigu. Wormlust. Wormlust er íslensk hljómsveit sem spilar Black metal tónlist. Hljómsveitin var stofnuð snemma árið 2003 undir nafninu Wolfheart og var fyrsta demoið. Ave Nokturnum gefið stuttu eftir það. Eftir nokkurra ára hlé var þögnin síðan rofin með þríleik af útgáfum undir nýju nafni. Fyrst var það demoið Seven Paths sem var gefið út á netinu undir Volkgeist Prod, síðan deiliskífan Oblvio Appositus með írska bandinu Haud mundus á sænska plötufyrirtækinu THR og síðan seinast Svarthol. Blöndugil. Blöndugil er um 18 km langt gil eða gljúfur sem Blanda hefur grafið þar sem hún fellur ofan af heiðum ofan í Blöndudal. Gilið skilur á milli Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar. Blöndugil er víða 50–100 m djúpt, sums staðar með standbjörgum og gróðurblettum. Einna hrikalegast er það hjá svonefndum Tindabjörgum, þar sem það er um 150–200 m djúpt. Gróður er víða mikill í gilinu á klettasillum og í hvömmum, og nálægt svonefndum Hosugeira er skógartorfa sem illfært er í. Grettishlaup er í gilinu, þar eru aðeins um 20 m á milli hamrabrúna. Við norðanvert Blöndugil er þvergil, Vallgil, sem gengur til vesturs. Blöndugil er skammt frá Kjalvegi og er einna styst að suðurhluta þess sunnan við vatnið Galtaból. Gilið er í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu, en áður var það á mörkum tveggja hreppa sem hafa sameinast. Blöndugil er á náttúruminjaskrá, ásamt Vallgili og Rugludal (svæði 412). Lilja Sigurðardóttir. Lilja Sigurðardóttir er íslenskur rithöfundur. Hún er fædd árið 1972 og hefur sent frá sér tvær glæpasögur: "Spor", 2009 og "Fyrirgefning", 2010. Sögur hennar gerast að mestu í miðborg Reykjavíkur og fjalla um röð dularfullra dauðsfalla sem smám saman taka að tengjast. Samskipti fólks, alkóhólismi, trú og eldamennska mynda hliðarsögur í bókunum sem báðar búa að aðalpersónunum Magna og Iðunni. Egypska byltingin 2011. Egypska byltingin 2011 (arabíska:.الثورة المصرية سنة ٢٠١١‎ "al-Thawrah al-Miṣriyyah sanat 2011") hófst í Egyptalandi þann 25. janúar 2011 þegar byrjað var að mótmæla og uppþot urðu í Alexandríu, Kaíró og öðrum stórum borgum. Mótmælin komu í kjölfar mótmæla í Túnis og henni fylgdu mótmæli og uppþot í öðrum löndum í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Milljónir mótmælenda kröfðust afsagnar forsetans Hosni Mubaraks. Þann 11. febrúar sagði Mubarak af sér og við það urðu mikil fagnaðarlæti á götunum. Þann 21. febrúar fór forsætisráðherra Bretlands, David Cameron í heimsókn til Kaíró. Hann var fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn til að heimsækja landið eftir að Mubarak sagði af sér. Myrká (skáldsaga). Myrká er sakamálasaga eftir Arnald Indriðason. Bókin var gefin út árið 2008. Lawrence Lessig. Lawrence Lessig (f. 3. júní 1961) er bandarískur lögfræðingur, heimspekingur og pólitískur aðgerðasinni. Hann er framkvæmdastjóri Siðfræðistofnunar Edmond J. Safra við Harvardháskóla og lagaprófessor sömuleiðis. Lessig er mikill baráttumaður um að létta á hömlum höfundalaga og hefur skrifað nokkrar bækur um það sem hann kallar „frjálsa menningu”. Hann situr í stjórn fjölda samtaka: Creative Commons, Software Freedom Law Center, ráðgefandi stjórnarmeðlimur við Sunlightstofnunina og fyrrverandi stjórnarmeðlimur Electronic Frontier Foundation. Hann hefur sagst vera hættur að vinna að málefnum tengdum höfundarétti og ætla að snúa sér í meiri mæli að spillingu í bandarísum stjórnmálum. Notts County (skip). Notts County var breskur síðutogari sem strandaði á Snæfjallaströnd 4. febrúar 1968 í fárviðri. 18 úr áhöfn skipsins var bjargað af varðskipsmönnum á varðskipinu Óðni. Vertu til er vorið kallar á þig. Vertu til er vorið kallar á þig er íslenskur söngtexti saminn af Tryggva Þorsteinssyni. Lagið er eftir Rússann Matvei Isaakovich Blanter. Íslenskur texti. Vertu til er vorið kallar á þig, vertu til að leggja hönd á plóg. Komdu út því að sólskinið vill sjá þig sveifla haka', og rækta nýjan skóg. Rússneskur texti. Lagið við „Vertu til“ var upprunalega samið árið 1938 af Rússanum Matvei Isaakovich Blanter og rússneskur texti ritaður af Mikhail Isakovsky. Ungar skólastúlkur frumfluttu lagið í Moskvu sem kveðju til rússneskra hermanna á leið til víglíunnar við Þýskaland. Friedrich Wöhler. Friedrich Wöhler (fæddur 31. júlí 1800 í Frankfurt, dáinn 23. september 1882 í Göttingen) var þýskur efnafræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa fyrstur manna búið til þvagefni úr ólífrænum efnasamböndum með efnasmíðaferli sem við hann er kennt ("Wöhler-smíð"), en var einnig þekktur fyrir ýmsar rannsóknir aðrar, svo sem einangrun áls og fleiri frumenfna, rannsóknir á málmoxíðum og merkt samstarf hans og Justusar von Liebig á olíum úr beiskum möndlum. Persónuleikaröskun. Persónuleikaröskun er tegund geðraskana og geðsjúkdóma. Þær eru einkenni í atferli einstaklings sem koma niður á öðrum. Maður með slíka röskun nær illa að laga sig að siðum samfélagsins en er þó í eðlilegum veruleikatengslum og hefur rökræna hugsun. Matsatriði er hvar mörk eru á persónuleikaröskun og venjulegu fólki. Líklega er röskunin öfgakennd einkenni hjá fólki. Þær eru gagnlegar til að skilgreina hegðunarmynstur en ekki muninn á heilbrigði einstaklinga. Persónuleikaraskanir á Íslandi. Tíðni persónuleikaraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu er 11%, samkvæmt rannsókn á 805 manna úrtaki árið 2009. Siðblinda. Siðblinda (e. psychopathy) er alvarleg persónuleikaröskun sem einkennist af skorti á samúð og samlíðan, grunnu tilfinningalífi, sjálfhverfu og blekkingum. Siðblindir einstaklingar (stundum nefndir "síkkópatar") eru gjarnan lygasjúkir, þá skortir samvisku og leiðast gjarnan út í glæpi, jafnt ofbeldisglæpi sem svokallaða hvítflibbaglæpi. Siðblinda er ólæknandi. Einstaklingar með slíka röskun geta ekki átt í eðlilegu sambandi við aðra. Þeir eru kaldlyndir og sýnt hefur verið fram á tengsl á milli siðblindu og ofbeldis. Til að mynda eru 20% fanga siðblindir einstaklingar. Rót siðblindu er er umdeild en stundum talin liggja hjá foreldrum og eiga rætur í uppeldi og mótun siðgæðisvitundar og sjálfsvitundar. Einstaklingur sem verður fyrir ströngum og ósveigjanlegum kröfum þroskar ekki eigin samvisku. Eins nær einstaklingur ekki þroska þar sem veikar fyrirmyndir eru til staðar sem gefa ekki nægilega leiðsögn. Útkoman verður sjálfmiðaður og tillitslaus einstaklingur, sem í flestum tilfelum fellur fyrir þrenns konar hvötum. Þessar hvatir eru kynlíf, peningar og völd. Ha? (sjónvarpsþáttur). Sjónvarpsþátturinn Ha? er spurninga- og skemmtiþáttur sem hóf göngu sína á Skjá einum snemma árs 2011. Þátturinn sker sig nokkuð úr hefðbundnum íslenskum spurningaþáttum í sjónvarpi að því leyti að stig keppenda eru algjört aukaatriði, en höfuðáherslan er á skemmtanaþáttinn. Skipulag þáttarins. "Ha?" er undir sterkum áhrifum frá breskum spurningaþáttum á borð við "Never mind the Buzzcocks", "A Question of Sport", "Have I got News for You?" og "Q.I." Uppbygging allra þessara þátta er keimlík: spyrill og þáttarstjórnandi situr í miðjunni og hefur keppnislið til beggja handa, sem skipuð eru föstum keppanda og einum eða tveimur gestum, sem eru nýir í hverri viku. Afþreyingargildið er í fyrirrúmi og keppast þátttakendur frekar við að slá á létta strengi en að hala inn stig. "Ha?" er ekki fyrsti þáttur þessarar gerðar í íslensku sjónvarpi. Þátturinn "Þetta helst" var sýndur um nokkurra ára skeið á RÚV, en honum svipað mjög til "Have I got News for You?" Hver þáttur af "Ha?" skiptist upp í þrjú hólf. Í fyrsta hólfi eru einkum spurningar og þrautir sem tengjast nýlegum fréttum dagblaðanna og efni sem finna má á samskiptavefnum Facebook. Í öðru hólfi er leitað mjög í smiðju bresku "Q.I."-þáttanna og spurt spurninga um sérviskuleg efni, þar sem oftar en ekki er leitast við að leiðrétta almenn sannindi. Í þriðja hólfi fer mikið fyrir skoplegum myndböndum af YouTube og þáttarstjórnandi og föstu keppendurnir söngla kunn dægurlög í lið sem fenginn er að láni úr "Never mind the Buzzcocks". Stjórnendur og gestir. Jóhann G. Jóhannsson leikari er spyrill og þáttarstjórnandi í "Ha?". Fastagestirnir í fyrstu þáttaröð voru Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona og Sólmundur Hólm Sólmundarson skemmtikraftur. Þegar sýningar á annarri þáttaröð hófust í september 2011 var tilkynnt að Sólmundur myndi einn vera í hlutverki fastagests. Í fjórðu þáttaröðinni, vorið 2013, bættist Gunnar Sigurðarson í hópinn sem fastagestur. Aðalhöfundur spurninga er Stefán Pálsson. T 10. Kór Barnaskóla Akureyrar er 33 snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1974. Á henni flytja Kór Barnaskóla Akureyrar undir stjórn Birgis Helgasonar; Árstíðirnar, söngleik eftir Jóhannes úr Kötlum við tónlist eftir Birgi Helgason og Siggi og Logi sem er saga í ljóðum, samin eftir erlendri fyrirmynd af Margréti Jónsdóttur við tónlist eftir Sigfús Halldórsson. Myndir á framhlið Jóhanna Baldvinsdóttir 12 ára - Gerður Róbertsdóttir 12 ára. Leikstjórn: Jóhann Ögmundsson. Pressun: EMI A/S Danmörku. Ljósmynd: Norðurmynd: Upptaka Tónaútgáfan: Tæknimenn: Ásmundur Kjartansson og Pálmi Stefánsson. Prentun Valprent. Plata þessi er gefin út i tilefni af 75 ára afmæli Barnablaðsins ÆSKUNNAR. Lagalisti. Árstíðirnar - "Lag - texti: Jóhannes úr Kötlum" Undirleik annast Ingimar Eydal og börn úr Barnaskóla Akureyrar. Árstíðirnar komu fyrst út í Unga Íslandi 1930. Ljóða- leikur þessi varð strax vinsæll. Jóhannes var einnig skáld barna sem hinna fullorðnu. Leikurinn hefst á því, að nokkur börn eru að leika sér. En þau eru ekki ánægð með þá leiki, sem þau kunna. Þá dettur þeim í hug, að skapa nýjan leik. Þau velja árstíðirnar; sumar, haust, vetur og vor; gera þær að persónum og leika þær. Fyrst kemur sumarið inn á sviðið í grænum hjúp. Börnin fagna því, og tala við það um unað þess og yndi. Sumarið svarar spurningum þeirra, og uppfyllir óskirnar með góðvild sinni. Þá kemur haust í móleitum klæðum. En þó það boði skugga og kul, á það líka nokkur gæði. Það færir börnunum lömbin þeirra af fjalli; það gefur þeim horn, til að hafa fyrir fé í leik. Næstur er Vetur. Dimmur er hann og kaldur. Einnig hann á nokkuð til ágætis sér. Blessuð jólin, og skíðafannir og skautasvell. En loks kemur vorið, með hjartað fullt af sunnanblæ. Það tjáir gleði sína við endurfundina við börnin, og þau fagna því. Vorinu, sem uppfyllir alla drauma, og vekur lífið af svefni vetrarins. Siggi og Logi - "Lag - texti: Erlent - Margrét Jónsdóttir" Undirleik annast Ingimar Eydal og börn úr Barnaskóla Akureyrar. Hér segir frá Sigga litla, sem liggur stúrinn í rúmi sínu, því hann er með magapínu. Kannske hefur hann einhvern tíma farið ógætilega með eldspýtur. Nema hvað? Honum finnst hann hafa kveikt á einni. Og þá kemur Logi. (Eldurinn er hér persónugerður „Logi"). Og Logi tekur að háma í sig allt, sem inni er. Gluggatjöldin, húsgögnin, bækurnar og síðast húsið. Siggi reynir að biðja hann að hætta, en til hvers er það? Mamma og pabbi eru ekki heima. Siggi er hræddur og sakbitinn. Hann hendir sér síðast út um gluggann og meiðir sig. En húsið brennur. En Guði sé lof. Hann vaknar. Þetta var aðeins vondur draumur. Martröð. Húsið stendur óskemmt með öllu innbúi. Mamma og pabbi koma heim og hugga drenginn sinn. Allt er gott aftur. En Siggi hefur kynnst loga. Hann veit nú, að „hættulegur eldur er". Og hann heitir foreldrum sínum af öllu hjarta: „Loga aldrei leik ég að, lofa skal og efna það". T 03. Lifun er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1971. Á henni flytur hljómsveitin Trúbrot verkið „lifun“. Platan er hljóðrituð í stereó. Upptaka: Morgan Studios, Sound Techniques, London. Upptöku stjórnuðu: Trúbrot og Gerry Boys. Aðstoðarmenn: Peter Flanagan, Ágúst Ágústsson, John Mc Lintock. Bílstjóri: Bualu Kasahiwgu. Útlit: Baldvin Halldórsson. Ljósmynd: Kristján Magnússon. Make. make er hjálparforrit sem smíðar keyranleg forrit og forritasöfn úr frumkóða með því að lesa make-skrár ("makefiles") sem segja til um hvernig unnið er að smíðinni. Þó sjálfvirkri smíði hafi vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum er make enn mikið notað, sér í lagi á Unix og Linux. Þriðji heimurinn. Grænu löndin voru í kalda stríðinu yfirleitt skilgreind sem þriðja heims lönd. Þriðji heimurinn (eða 3. heimurinn) er hugtak, sem er oft notað um fátæk lönd á suðurhveli jarðar. Hugtakið kom upp á Vesturlöndum í kalda stríðinu (1952), þar sem "Fyrsti heimurinn" var Vesturlönd, og "Annar heimurinn" var Austantjaldslöndin. Þriðji heimurinn var þá löndin sem hvorki voru í bandalagi með austri eða vestri í upphafi kalda stríðsins. Franski félagsfræðingurinn Alfred Sauvy (1898–1990) er upphafsmaður hugtaksins. Hann skrifaði greinina „Þrír heimar, ein jörð“ í blaðið "L'Observateur" 14. ágúst 1952, þar sem hann líkti „þriðja heiminum“ við „þriðju stétt“ í samfélaginu. Eftir að járntjaldið féll hafa þessi hugtök að miklu leyti glatað merkingu sinni. "Þriðji heimurinn" er samt enn almennt notað hugtak um fátæku löndin í suðri, þó að upphaflega hafi skilgreiningin verið stjórnmálaleg. Annars er mikill munur á stöðu þessara ríkja og eru sum þeirra á miklu framfaraskeiði. Því orkar tvímælis að setja þau í einn flokk. Í seinni tíð hafa alþjóðastofnanir sem fást við þróunaraðstoð sett allra fátækustu ríkin eða þjóðabrotin í sérstakan flokk, og er hugtakið "Fjórði heimurinn" stundum notað um þau. T 126. Kór Barnaskóla Akureyrar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1973. Á henni flytur Kór Barnaskóla Akureyrar fjögur lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Söngstjóri: Birgir Helgason. Undirleik annast: Ingimar Eydal píanó, Árni Friðriksson trommur, Finnur Eydal klarinett, Pálmi Stefánsson bassa. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Pressun: E M I a/s. Ljósmynd: Ásgrímur. Prentun: Valprent. T 111. Ævintýri er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1969. Á henni flytur hljómsveitin Ævintýri tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið, Pétur Steingrímsson. Útsetning: Ævintýri og Þórir Baldursson. Pressun PYE. Ljósmynd: Óli Páll. Prentun: Litbrá Offset. Eldhúskappræðurnar. Nixon (t.v.) og Krústsjov (t.h.) í Kreml 1959 eftir eldhúskappræðurnar. Eldhúskappræðurnar voru nokkur óundirbúin orðaskipti (gegnum túlka) milli Richard Nixon varaforseta Bandaríkjanna, og Nikita Krústsjov aðalritara Sovéska kommúnistaflokksins við opnun Bandarísku sýningarinnar í Moskvu 24. júlí 1959. Á sýningunni var meðal annars hægt að skoða „bandarískt nútímaheimili“ búið öllum nýjustu heimilistækjum sem Nixon hélt fram í opnunarræðu að allir Bandaríkjamenn hefðu efni á að eignast. Krústsjov svaraði að í Sovétríkjunum væri lögð áhersla á hluti sem skiptu máli fremur en munað. Orðaskiptin fóru fram á ýmsum stöðum á sýningunni en mest þó í sýningareldhúsinu. Báðir reyndu að rökstyðja kosti síns ríkis og urðu á endanum sammála um þörf fyrir opnari samskipti milli risaveldanna. Þetta var fyrsti fundur háttsettra ráðamanna ríkjanna frá leiðtogafundinum í Genf 1955. Kappræðurnar voru sýndar í sjónvarpi bæði í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum. Niðurstaða þeirra var að vinsældir Nixons jukust heima fyrir. Þær áttu þannig sinn þátt í því að hann var valinn forsetaefni Repúblikanaflokksins árið eftir. T 117. Erla Stefánsdóttir er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1971. Á henni flytur Erla Stefánsdóttir fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Ljósmynd og hönnun: Hallgrímur Tryggvason. Prentun umslags: Valprent hf. Akureyri. T 118. Guðmundur Haukur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur Guðmundur Haukur þrjú lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: PYE Recording Studios, Morgan Studios og Sound Techniques, London. Hljóðtæknimenn: Jerry Boys og Allan Florence. T 119. Lítið eitt er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1972. Á henni flytur tríóið Lítið eitt fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið Reykjavík. Hljóðtæknimaður: Pétur Steingrímsson. Stjórn upptöku: Pálmi Stefánsson, Jón Ármannsson og Lítið eitt. Pressun: Philips, London. Ljósmyndir og útlit: Baldvin Halldórsson. T 124. Hljómsveitin Ljósbrá er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1973. Á henni flytur Hljómsveitin Ljósbrá tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Ljósmynd: Ásgrímur. Prentun:Valprent h.f., Akureyri T 125. Erla Stefánsdóttir er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1973. Á henni flytur Erla Stefánsdóttir tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Pressun: EMI a/s. Ljósmynd: Sigurður Þorgeirsson. Prentun:Valprent h.f., Akureyri T 127. Hljómsveit Ingimars Eydal er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1973. Á henni flytur Hljómsveit Ingimars Eydal tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Pétur Steingrímsson. Pressun: EMI a/s. Ljósmynd: Myndver. Prentun: Valprent h.f., Akureyri T 128. Harpa Gunnarsdóttir er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1975. Á henni flytur Harpa Gunnarsdóttir fjögur lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent h.f., Akureyri T 129. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1981. Á henni flytur Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar tvö lög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Hljóðriti. Upptökumaður: Sigurður Bjóla. Pressun: Alfa. Ljósmynd: Stefán Peterson. Prentun: Valprent h.f., Akureyri Filippo Inzaghi. Filippo Inzaghi (fæddur 9. ágúst 1973) er ítalskur knattspyrnumaður sem spilar með AC Milan. Inzaghi, Filippo Hailee Steinfeld. Hailee Steinfeld (fædd 11. desember 1996) er bandarísk leikkona. Hún er frægust fyrir leik sinn í kvikmyndinni True Grit sem að hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki árið 2011. Steinfeld, Hailee Abigail Breslin. Abigail Kathleen Breslin (fædd 14. apríl 1996) er bandarísk leikkona og unglingastjarna. Hún er ein yngsta leikkona sem að hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna. Breslin hóf feril sinn sem leikkona þegar hún var þriggja ára gömul í sjónvarpsauglýsingum. Hún var aðeins fimm ára gömul þegar hún fékk stórt hlutverk í kvikmyndinni Signs. Hún hefur einnig leikið í kvikmyndunum Little Miss Sunshine, Nim's Island, Definitely, Maybe, My Sister's Keeper, og Zombieland. Frasier. "Frasier" er bandarísk sjónvarpssería sem var sýndur á NBC-stöðinni í Bandaríkjunum í ellefu ár, frá 1993 til 2004. Þátturinn var skapaður og framleiddur af David Angell, Peter Casey, og David Lee í samvinnu við Gramnet og Paramount Network Television. Frasier er spin-off af vinsælu sjónvarpsþáttunum Cheers, en Frasier Crane var persóna í þeim þáttum áður en þeir liðu undir lok. Kelsey Grammer fer með aðalhlutverk í þáttunum sem sálfræðingurinn Frasier. David Hyde Pierce, John Mahoney, Jane Leeves, og Peri Gilpin fara einnig með hlutverk. Frasier er einn farsællasti spin-off sería allra tíma. Ódysseifur (skáldsaga). Ódysseifur (enska: "Ulysses") er skáldsaga eftir James Joyce sem kom út að hluta í hinu ameríska tímariti "The Little Review" frá mars 1918 til desember 1920, en í heild sinni og sem bók 1922, í París. Ódysseifur er talinn vera ein helsta skáldsaga 20. aldarinar. Halldór Laxness sagði t.d. að hún „verkar á nútímamenn einsog Fjallið eina“. "Ódysseifur" 1–2 kom út á íslensku 1992–1993 í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, með formála og skýringum. Staðfræði og helstu persónur. Skáldsagan gerist öll á einum fimmtudegi í Dyflinni, þann 16. júní árið 1904. Hún hefst klukkan átta um morguninn þegar Stephen Dedalus, 22 ára, hallar sig út yfir brjóstriðið á Martello-turni, þar sem hann býr, og horfir út á hið „horgræna og punghemjandi haf“. Á sama tíma, eins og kemur fram í fjórða kafla bókarinnar, er auglýsingasmalinn Leopold Bloom, 38 ára, að útbúa sér morgunverð, steikt nýru, að Eccles Street 7. Á hæðinni fyrir ofan hann sefur eiginkona hans, Molly, 34 ára, í rekkju sinni, þar sem hún á seinnipart dags eftir að njóta ásta með elskhuga sínum. Þessar þrjár persónur, sem eru aðalpersónur skáldsögunnar, samsvara Telemakkosi, Ódysseifi og Penelópu í "Ódysseifskviðu" og eru þær sem skáldsagan vefur saman við óteljandi smáatburði eins dags en bókin endar heima hjá Leopold Bloom, milli tvö og þrjú á föstudagsmorgni. Engin þessara persóna birtist þó í öllum köflum skáldsögunnar. Stephen Dedalus er í aðalhlutverki fyrstu þrjá kaflana, og í þeim fimmtán köflum þar sem Leopold Bloom er í aðalhlutverki er Stephen aðeins í aukahlutverki í fjórum þeirra. Molly kemur aðeins fyrir sem brotabrot og hugsanir í fyrstu 17 köflunum en er ein og í aðalhlutverki í 18 kafla, þeim síðasta í bókinni. Sá kafli hneykslaði mjög marga og varð til þess að höfundurinn var ákærður á sínum tíma. Taugaveiki. Útbreiðsla taugaveiki. Rauður táknar háa landlæga sjúkdómstíðni og brúnn táknar miðlungs landlæga sjúkdómstíðni. Taugaveiki (áður fyrr stundum nefnd tyfussótt, fræðiheiti: "febris typhoidea") er hættulegur smitsjúkdómur sem berst með sýklum í vatni og matvælum, einkum í suðlægum löndum. Sýkilinn "salmonella typhi" veldur sýkingunni og hún herjar á meltingarveg líkamans. Veturinn 1906-1907 braust út taugaveikisfaraldur í Skuggahverfinu í Reykjavík. Alls veiktust 98 manns og var orsökin rakin til sýkla í "Móakotslindarbrunni". Útbreiðsla. 17 milljón sýkingartilfelli eru áætluð á hverju ári og mesta útbreiðslan er í Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku. Taugaveiki var nokkuð algengur sjúkdómur á Íslandi á árum áður og voru menn þá stundum settir í einangrun vegna smithættu. T 08. Kvöld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1973. Á henni flytur Bjarki Tryggvason tólf dægurlög. Upptaka í stereó: Pétur Steingrímsson. Pressun: EMI a/s. Stjórn upptöku: Bjarki Tryggvason og Pálmi Stefánsson. Hönnun umslags: Bjarki Tryggvason og Þorsteinn Kjartansson. Rithönd: Þorsteinn Kjartansson. Ljósmyndir: Norðurmynd, Ásgrímur. Prentun: Prentverk Odds Björnssonar h.f. T 22. Gleðihopp er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1981. Á henni flytur Jón Hrólfsson tólf harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Stúdíó Bimbó. Pressun: Alfa. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf. T 09. Goði: Kór - Kvartett - Tríó er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1974. Á henni flytur Karlakórinn Goði tólf lög. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Tæknimaður: Ásmundur Kjartansson. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf Akureyri. Naruto. Naruto. "Naruto" er Anime og manga sería, búin til af Masashi Kishimoto og gefin út af Shonen Jump (tímariti) og hóf göngu sína árið 1999. Upprunalega var sagan smásaga sem var gefin út í Akamaru Jump árið 1997. Hinsvegar Lýsti Kishimoto því yfir að honum líkaði persónan og ákvað að gera hana að aðalpersónu í nýrri seríu sem var til að byrja með gefin út í Shueisha. Þættirnir/Bækurnar byrja þannig að að the Nine Tailed Fox (Djöfla refur með níu hala (Refir með níu hala táknaði að þeir voru ógurlega sterkir)) ræðst á the Konohagakure village (Village hidden in the leaves) sem er staður þar sem ninjur (Shinobi) dvelja í landi eldsins (The land of Fire). Allir eru að fara að gefast upp en þá kemur the Minato Namikaze, eða fourth Hokage (sem er höfðinginn yfir þorpinu á þeim tíma, eða Eldskugginn) og bjargar þeim með því að læsa hann í burtu en í leiðinni gera þá fórn að drepa sjálfan sig (Reaper Death Seal). Hann læsti refinn inn í nýfæddum son sínum sem heitir Uzumaki Naruto sem hefur enga hugmynd um það. Naruto var munaðarlaus og allir hötuðu hann út af refnum en hann vissi það ekki. En hann ætlaði að sýna þeim að hann gæti orðið sterkasti Hokage í söguni. Smám saman byrjar hann að eignast vini sem hjálpa honum. En svo segir Mizuki (Fyrri kennari Narutos sem sveik þorpið og stal mikilvægri skrunu.) honum að hann býr yfir refnum. Þá byrjar sagan um Naruto sem er að berjast fyrir að fá virðingu frá fólkinu í þorpinu. Allar ninjur eru settar í hóp og var naruto settur í hóp með Sakuru Haruno og Sasuke Uchiha,og kennarinn þeirra Kakashi Hatake. Sasuke er líka munaðarlaus því að bróðir hans Itachi Uchiha, snillingurinn í ninja heiminum, drap alla fjölskylduna hans. Sasuke heitir fullu nafni Sasuke Uchiha og Uchiha fólkið gat notað sérstakan mátt, the Sharingan,sem getur greint chakra (Chakra er orkuauðlind ninjunnar) sem kemur þeim að gagni að þeir vita hreyfingar andstæðingsins. Mangekyo Sharingan er augað sem gerir þér kleift að festa andstæðing sinn í martaða-vellinum þar sem þú getur pyntað andstæðing þinn eins og þú vilt sem er kallað Genjutsu (Sjónhverfingar & fleira) Seinna kemur mjög mikil drama á milli Sasuke og Naruto þegar Sasuke strýkur til Orochimaruar sem gefur honum endalausan mátt í skipti fyrir líkama sinn eftir nokkur ár. Orochimaru vildi þess vegna fá að vita leyndarmál Sharingan augans. Sharingan augað er andstæðan with Byakugan frá Hyuga ættinni sem gerir þér kleift að sjá allt í kringum þig. Það er til önnur sería sem heitir Naruto Shippudden (Naruto þrem árum síðar). Margir segja að hún sé betri en sú fyrsta. Þar er Naruto talinn vera miklu gáfaðari og öflugri. T 12. Guðmundur Gauti er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1975. Á henni flytur Guðmundur Gauti tólf lög. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek Inc. New York. Ljósmyndir: Fjölskylduljósmyndir. Prentun: Valprent hf Akureyri. T 14. Karlakór Dalvíkur er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1975. Á henni flytur Karlakór Dalvíkur tólf kórlög. Söngstjóri: Gestur Hjörleifsson. Undirleikari: Guðmundur Jóhannsson. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek Inc. Ljósmynd: Ingólfur Lillendahl. Prentun: Valprent hf. Akureyri. T 15. Karlakór Akureyrar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1975. Á henni flytur Karlakór Akureyrar sex lög og tvær lagasyrpur. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek Inc. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf. Akureyri. Fjórði heimurinn. Bláu löndin hafa verið skilgreind sem "vanþróuð lönd" eða "Fjórða heims lönd". Fjórði heimurinn (eða 4. heimurinn) er hugtak, sem er stundum notað um þjóðir eða þjóðabrot sem búa við mikla fátækt og vanþróað samfélag. Joseph Wresinski, franskur mannréttindafrömuður, mótaði hugtakið árið 1969. Hugtakið "Fjórði heimurinn" getur orkað tvímælis, því að það felur í sér að til séu hugtökin "Fyrsti", "Annar" og "Þriðji heimurinn". Alvíssmál (tímarit). Alvíssmál eru tímarit, sem gefið er út í Berlín í Þýskalandi, og fjallar um rannsóknir á menningu Norðurlanda á miðöldum. Meginhluti efnisins fjallar á einhvern hátt um íslenskar fornbókmenntir og fornmenningu. Fyrsta heftið kom út árið 1992, og hafa nú komið út tólf hefti (2011). Í tímaritinu birtast fræðigreinar, ritdómar og fréttir af ráðstefnum og öðrum atburðum í fræðunum. Flestar greinarnar eru á þýsku, en einnig hafa birst greinar á öðrum tungumálum, svo sem ensku og Norðurlandamálum. Tilraun Luria og Delbrücks. Möguleikarnir tveir sem tilraunin skar úr um. (A) Ef gerilætan í ætinu veldur því að hluti bakteríanna stökkbreytist mun hér um bil sami fjöldi stökkbrigða vaxa upp á hverri skál. (B) Ef stökkbreytingar verða slembiháð við frumuskiptingu áður en þeim er sáð á skálarnar verður hlutmergð þolinna stökkbrigða í sáningunni mjög breytileg. Tilraun Luria og Delbrücks sem Salvador Luria og Max Delbrück framkvæmdu og greindu frá í tímaritinu "Genetics" árið 1943 sýnir að stökkbreytingar verða í bakteríum óháð því hvort þær gagnist í því umhverfi sem bakterían vex í. Tilraunin staðfestir náttúruvalskenningu Darwins og sýnir að stökkbreytingar verða fyrir tilviljun, en ekki vegna áhrifa frá umhverfi bakteríanna. Delbrück og Luria deildu Nóbelsverðlaununum í lífeðlis og læknisfræði með Alfred Hershey árið 1969 fyrir tilraun sína. Tilraunin var framkvæmd þannig að bakteríur ("E. coli") voru ræktaðar í seyði um tiltekinn tíma og síðan sáð á agarskálar sem innihéldu gerilætu í föstu næringaræti. Bakteríurnar eru næmar fyrir veirunni og vaxa því ekki nema til komi stökkbreyting sem gerir þær þolnar gagnvart henni. Delbrück og Luria leiddu út að ef gerlætan hvetur til aðlögunar á formi stökkbreytinga líkt og Félix d'Herelle og fleiri höfðu haldi fram, þá myndi fjöldi þolinna baktería sem vex upp á hverri skál að vera í réttu hlutfalli við heildarfjölda baktería sem sáð var. Gagntilgátan var sú að stökkbreytingarnar væu slembiháðar (það er, yrðu fyrir tilviljun), en þá ætti fjöldi þolinna baktería að vera mjög mismunandi, eftir því hversu margar kynslóðir væru liðnar frá því stökkbreytingin átti sér stað í vökvaræktinni. Niðurstöður Luria og Delbrück sýndu ótvírætt að stökkbreytingar verða slembiháð í bakteríum, en náttúruvalið vinsar úr þær stökkbreytingar sem gagnlegar eru í því umhverfi sem bakterían vex í. Þórkötlustaðanes. Þórkötlustaðanes er nestangi austan við víkina sem Grindavík er kennd við. Það varð til þegar hraun rann til sjávar undan Hagafelli. Aldursgreining bendir til að það hafi runnið fyrir um 8000 árum. Góð hafnarskilyrði í Grindavík eru vegna þessa tanga. Á Þórköltustaðanesi er viti. Proxima Thulé (tímarit). Proxima Thulé – (íslenska: Í grennd við Thule'") – er tímarit um norræn fræði, sem gefið er út í París í Frakklandi. Útgefandinn er Société des études nordiques ("Félag um norræn fræði"), sem tengist Sorbonne háskóla í París. Stofnandi tímaritsins og aðal driffjöðrin er François-Xavier Dillmann prófessor við École pratique des Hautes Études. Meðal þess sem fjallað er um er: víkingaöldin, rúnir, norræn trúarbrögð og bókmenntir, og saga norrænna konunga. Sérstök áhersla er lögð á innrásir víkinga í Frankaríkið og stofnun hertogadæmisins í Normandí. Mikill hluti efnisins tengist á einhvern hátt íslenskum fornbókmenntum og fornmenningu. Fyrsta bindið kom út árið 1994, og hafa nú komið út sex bindi (2011). Í tímaritinu birtast fræðigreinar og yfirlit um það sem er efst á baugi í fræðunum, t.d. fréttir og auglýsingar um ný rit, einkum rit á frönsku. Efni tímaritsins er nær eingöngu á frönsku. T 17. Eitt með öðru er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1976. Á henni flytja ýmsir tónlistarmenn þrettán lög. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek Inc. New York. Hönnun: Örn Ingi. Prentun: Valprent hf Akureyri. Dreypivökvun. Dreypivökvun á vínekru í New Mexico árið 2002 Dreypivökvun er áveitutækni sem felst í því að láta vatn drjúpa hægt að rótum plantna annað hvort á yfirborð jarðvegs eða beint inn í rótarkerfið. Dreypivökvun var þekkt frá fornu fari þannig að leirpottar voru fylltir af vatni og grafnir í jörðu þannig að smám saman seitlaði úr þeim út í gróður umhverfis. Dreypivökvunartækni nútímans er upprunnin í Afganistan en árið 1866 gerðu vísindamenn tilraunir með ræktun þar með því að nota leirpípur sem voru bæði til framræslu og áveitu. Með tilkomu nútíma plastefna urðu miklar framfarir í dreypiræktun. Flest stór dreypiræktunarkerfi nota einhvers konar vatnssíur til að koma í veg fyrir að pípur stíflist af ögnum sem berast með vatni. Ný tækni gerir kleift að lágmarka stíflur í pípum. Þegar vatn úr veitukerfum er endurnýtt í áveitur er það í gegnum dreypivökvun því oftast er bannað í reglugerðum að sprauta með þannig vatni. Áburðargjöf í gegnum dreypiræktun fer oft þannig fram að áburðarefnum er blandað í vatnið. Einnig er illgresiseyði og hreinsiefnum veitt í gegnum dreypivökvun. Áburðargjöf með dreypivökvun nýtir áburð betur en venjulega úðun. Dreypivökvun getur sparar vatnsmagn sem þarf við ræktun. Dreypivökvun er mikið notuð á svæðum þar sem vatnsskortur er og í ræktun á kókóshnetum, trjárækt í pottum. Eins eru tegundir eins og vínber, banani, ber, sítróna, jarðarber, sykurrófa, baðmull, maís og tómatur oft ræktað með dreypiræktun. Kostir dreypivökvunar eru að áburður og vatn nýtist vel, ekki þarf að hafa stalla í ræktun, ræktunarfletir mega vera óreglulegir, möguleiki er að nota endurnota vatn, hægt að halda raka í rótarkerfi eins og landrými leyfir, jarðvegstegund skiptir ekki eins miklu máli, uppblástur í lágmarki, hægt að stýra vatnsgjöf mjög nákvæmt, ekki þarf mikil vinnuafl, hægt að stýra og breyta vatnsmagni, ekki er úðað yfir plöntur og það heldur sjúkdómum í skefjum, oftast þarf minni þrýsting á vatni en við annars konar áveitutækni og þar með minni orkunotkun. Ókostir dreypivökvunar eru m.a. að hún er dýr og stofnkostnaður mikill, vatnspípurnar geta stíflast ef ekki eru notaðar síur til að hreinsa vatnið. Jarðarber. Jarðarber (fræðiheiti: "Fragaria") er undirflokkur lágvaxinna plantna af rósaætt og gefur af sér rauð aldin sem eru æt. Sú jarðarberjategund sem oftast er ræktuð er afbrigði sem kallast "Fragaria × ananassa". Jarðarber eru víða ræktun í tempraða beltinu, en einnig víða við heimahús út um allan heim. Jarðarber eru ekki raunveruleg ber, þau eru svokölluð skinaldin. Kókoshneta. Kókoshneta (fræðiheiti: "Cocos nucifera") er aldin kókóspálma, afar stór hneta með harðri skurn. Kókóspálmi er stórvaxin pálmategund sem verður allt að 30 m með 4–6 m metra laufblöðum með nálum sem verða 60–90 sm langar. Gömul laufblöð brotna af stofninum og bolurinn verður sléttur. Kókóspálmi er ræktaður í hitabeltinu bæði til skrauts og til ýmis konar nytja. Ræktun kókospálma ógna sums staðar vistkerfi t.d. fenjatrjám (mangroves). Í kaldari loftslagsbeltum er svipaður pálmi "Syagrus romanzoffiana" ræktaður til skrauts. Stökkbreyting. Stökkbreyting er hvers kyns arfgeng breyting á röð kirna í erfðaefni lífveru, hvort sem hún er komin til vegna geislunar, efnabreytingar, veira, stökkla eða vegna villna við afritun þess. Lífvera sem tekið hefur stökkbreytingu kallast stökkbrigði. Listi yfir helstu hraun á Íslandi. Þetta er listi yfir helstu hraun á Íslandi, flokkuð eftir stærð. Eau Claire, Wisconsin. Sarge Boyd Bandshell - Owen Park Eau Claire er borg í fylkinu Wisconsin í Bandaríkjunum. Árið 2000 var fjólksfjöldi borgarinnar 61.704. T 18. Blátt oní blátt er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1978. Á henni flytur Óðinn Valdimarsson tólf lög. Upptaka í stereó: Tónaútgáfan. Pressun: Soundtek Inc. New York. Hönnun og ljósmynd: Hallgrímur Tryggvason. Prentun: Valprent hf Akureyri. Línuleg leit. Línuleg leit eða runuleit er hugtak í tölvunarfræði yfir leitunaralgrím þar sem leitað er að staki í lista með því að bera hvert stak í listanum við stakið sem leitað er að þar til stakið er fundið. Það er einfaldast allra leitaralgríma og sértilfelli af jarðýtuleitaralgríminu. Tímaflækja reikniritsins er í versta falli í réttu hlutfalli við fjölda staka (N) í listanum og því að stærðargráðunni O(N) en í besta falli, þegar stakið sem leitað er að er fremst í listanum, er flækjustigið O(1). Dæmi á blendingsmáli. ef það stak jafngildir stakinu sem leitað er að, þá hættum við leit og skilum sætanúmeri staksins á listanum HSH45-1002. Í sveitinni/ Konni flautar er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1959. Á henni flytja Konni og Skafti Ólafsson tvö lög. Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. Öxl. Öxl er líkamshluti sem tengir arm við bol. Í liðamótunum axlar tengjast herðablað og viðbein við upphandlegg í axlarliðnum. Marcus Junius Brutus. Marcus Junius Brutus (85 f.Kr – 23. október 42. f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður, á síðustu árum rómverska lýðveldisins, og einn af morðingjum Júlíusar Caesars. Brutus var sonur Marcusar Juniusar Brutusar eldri og Serviliu Caepionis. Brutus eldri var drepinn af Pompeiusi árið 78 f.Kr og Servilia varð síðar hjákona Caesars. Brutus hlaut menntun hjá móðurbróður sínum, Cato yngri, og bjó síðar með honum í nokkur ár á Kýpur, þar sem hann auðgaðist á lánastarfsemi. Þegar borgarastríð braust út á milli Pompeiusar og Caesars tók Brutus stöðu með íhaldssömum öldungaráðsmönnum á borð við Cato og Cicero sem studdu Pompeius. Brutus tók þátt í orrustunni við Farsalos, þar sem Pompeius og Caesar mættust. Brutus barðist fyrir Pompeius, sem beið lægri hlut, en Caesar fyrirskipaði um að Brutus skyldi ekki drepinn heldur handtekinn ef hann gæfi sig viljandi fram. Brutus gaf sig fram og ákvað Caesar í kjölfarið að fyrirgefa honum andstöðuna við sig og veitti honum ýmis mikilvæg embætti. Þegar í ljós kom að Caesar myndi ekki endurreisa lýðveldið í Rómaveldi snerist Brutus aftur gegn honum og var einn af leiðtogunum í samsærinu um að ráða Caesar af dögum, ásamt vini sínum Cassiusi. Fljótlega eftir morðið á Caesari höfðu Marcus Antonius, einn helsti stuðningsmaður Caesars, og Octavianus, erfingi Caesars, myndað bandalag gegn Brutusi og Cassiusi. Brutus og Cassius flúðu frá Rómaborg og árið 42 f.Kr. mættust fylkingarnar tvær í orrustunni við Filippí í Macedoniu, þar sem Brutus og Cassius biðu ósigur og frömdu í kjölfarið báðir sjálfsmorð. Heimildir. Junius Brutus, Marcus Svansmerkið. Svansmerkið er merki norræns samstarfs og á uppruna að rekja til veggspjalds sem hannað var fyrir "dag Norðurlanda árið" 1936 og vísar til ljóðsins „Svanerne fra Norden“ eftir danska skáldið Hans Hartvig Seedorff Pedersen. Árið 1956 voru gefin út frímerki í norrænu ríkjunum með myndum af fimm svönum. Árið 1985 gerðu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin svaninn að merki sínu. Á svansmerkinu eru átta vængfjaðrir sem tákna norrænu ríkin fimm og sjálfsstjórnarsvæðin þrjú, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Harðskafi. Harðskafi er sakamálasaga eftir Arnald Indriðason sem gefin var út 2007. Aðalpersóna bókarinnar er rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur Sveinsson. Krasnodarfylki. Krasnodarfylki (á rússnesku: Краснодарский край, Krasnodarsky kray) er landshluti (край) innan Rússneska sambandsríkisins og ein 83 eininga þess. Fylkið nær yfir vesturhluta Norður Káksus, á Kuban-Azov sléttunni að Svartahafi. Fylkið er um 76.000 ferkílómetrar. Íbúar eru 5,1 milljónir af ólíku þjóðerni en langstærstur hluti þeirra eru Rússar eða 86,2%. Önnur þjóðarbrot eru: Armenar 5% og Úkraínumenn 2,6%. Grikkir, Hvít-Rússar og Tatarar hafa um 0,5%. Höfuðborg fylkisins er Krasnodar með um 700 þúsund íbúa. Landlýsing. Kortið sýnir legu Krasnodarfylkisins innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis Réttsælis liggja fylkismörk Krasnodar að Svartahafi að sunnan þá að Úkraínu að vestan við Kerchsund og Azovhaf, þá Rostovfylki, Stavrópolfylki og sjálfstjórnarlýðveldið Karatsjaj-Tsjerkessíja ásamt Abkasíu sem hefur verið brotið frá Georgíu. Krasnodarfylki landlykur sjálfstjórnarlýðveldi Adigeu. Við Svartahaf er hin mikilvæga Novorossiyskhöfn og hinn þekkti sumardvalarstaður Sochi. Loftslag. Loftslag er breytilegt eða allt frá tempruðu meginlandsloftslagi til heittempraða beltisins. Meðalhiti í janúar er á bilinu -8 °C í fjöllum (fyrir ofan 2000 metra) og -4 °C á sléttum, til +5 °C á sjávarströndinni. Meðalhiti í júlí er breytileg frá +13 °C í fjöllum, í +23 °C á sléttum og stranda. Úrkoma er á bilinu 400-3200 mm á ári. Stjórnsýsla. Fylkið var formlega stofnaði í núverandi mynd 13. september 1937. Það skiptist í 38 stjórnsýsluhéruð, og hefur 26 borgir og 24 aðra þéttbýlisstaði. Krasnodar sem höfuðborg fylkisins með um 700 þúsund íbúa. Það er átjánda stærsta borg Rússlands. Lýðfræði. Íbúar eru 5,1 milljónir af ólíku þjóðerni. Langstærstur hluti þeirra eru Rússar eða 86,2% eða um 419 þúsund manns. Önnur þjóðarbrot eru: Armenar 5%, Úkraínumenn 2,6%, Grikkir 0,5%, Hvít-Rússar 0,5%, Tatarar 0,5%, Georgíumenn 0,4%, Þjóðverjar 0,4%, Kósakkar 0,3% og svo má lengi telja, listinn er langur. Fylkið er talið fjölmenningarlegust stjórnsýslueininga Rússneska Sambandsríkisins. Alls hafa telja þrjátíu og þrjú þjóðarbrot meira en tvöþúsund manns. Sjálfir telja íbúar sig til 140 þjóðflokka eða þjóðarbrota. Adigea. Lýðveldið Adigea (á rússnesku: Республика Адыгея, Respublika Adygeya) er sjálfstjórnarlýðveldi innan Rússneska sambandsríkisins er landlukt innan Krasnodarfylkis sem er í Suð-Austur Evrópu í Norður héruðum Kákasus. Það er um 7.600 ferkílómetrar að stærð með um 447 þúsund íbúa. Íbúar eru 5,1 milljónir af ólíku þjóðerni en flestir þeirra eru Rússar eða 64,5%. Adyghe þjóðflokkurinn er aðeins um 24,2%. Önnur þjóðarbrot eru: Armenar 3,4% og Úkraínubúar 2,0%, Kúrdar 0,8% og Tatarar 0,7%. Höfuðborg Adygeu er Maykop. Kortið sýnir legu Lýðveldisins Adygeu innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis Huglægni. Huglægni er heimspekilegt hugtak, andstætt hlutlægni, og felur í sér að eitthvað, sem er sagt vera huglægt, sé háð skynjunum, viðhorfum eða löngunum fólks. Jafngildisvensl. Jafngildisvensl er hugtak í stærðfræði sem óformlega mætti segja að lýsi venslum sem mynda skiptingu á mengi svoleiðis að hvert stak er einungis í einu þeirra hlutmengja sem mynda skiptinguna og sammengi þessara hlutmengja er upprunalega mengið. Tvö stök úr menginu eru sögð jafngild ef og aðeins ef þau tilheyra sama menginu. Jafngildisvensl mynda sundurlæga skiptingu á mengi og eru sundurlægu hlutmengin nefnd jafngildisflokkar mengisins með tillit til þeirra jafngildisvensla sem um ræðir. Stök hvers jafngildisflokks eru jafngild hvor öðru og ekkert stak tilheyrir tveimur mismunandi jafngildisflokkum. Um rithátt. Ýmsar leiðir eru til þess að tákna að tvö stök "a" og "b" séu jafngild með tilliti til einhverra vensla "R". Þær algengustu eru "a ~ b" og "a ≡ b" þegar augljóst er um hvaða vensl er að ræða og svo ýmsar svipaðar útfærslur eins og "a" ~"R" "b", "a" ≡"R" "b", eða "aRb". Skilgreining. Jafngildisflokkur "a" með tilliti til venslanna ~ er skilgreindur sem formula_1. Tilraun Meselsons og Stahl. Tilraun Meselsons og Stahl sem Matthew Meselson og Franklin Stahl framkvæmdu og greindu frá í tímaritinu "PNAS" staðfesti tilgátu Watsons og Crick þess efnis að afritun DNA í lífverum væri hálfgeymin, það er, að þræðir DNA-sameindarinnar væru afritaðir hvor fyrir sig. Bakgrunnur. Þegar Watson og Crick leiddu í ljós árið 1953 að byggingu DNA-sameindarinnar svipar til hringstiga þar sem tveir andsamsíða kirnaþræðir vefjast hvor um annan og er haldið saman af vetnistengjum líkt og væru þau rimar stigans, lögðu þeir fram tilgátu sem útskýrt gæti hvernig lífverur fara að því að afrita erfðamengi sitt villulaust á milli kynslóða. Tilgátan, sem þeir nefndu "hálfgeymna afritun" (e. "semiconservative replication"), var á þá leið að við afritun væru þræðirnir tveir raktir hvor frá öðrum og þjónuðu sem sniðmát fyrir eigin afritun sem þá væri hálfgeymin vegna þess að dóttur-tvíþráðungarnir tveir sem myndast við afritunina innihéldu einn „gamlan“ þráð (sniðmátið) og einn „nýjan“ (afritið). En, það mátti hugsa sér fleiri möguleika og árið 1955 birti David P. Bloch tilgátu um "algeymna afritun" (e. "conservative replication") þar sem ákveðin DNA-bindiprótín sem kallast histón aflaga DNA-tvíþráðunginn og rjúfa vetnistengin án þess þó að skilja þræðina hvor frá öðrum, en gera það kleift að afrita báða þræðina samtímis. Þriðji möguleikinn var svokölluð "tvístrandi afritun" (e. "dispersive replication"), en um þá tilgátu fjallaði Max Delbrück árið 1954. Samkvæmt þessari hugmynd væri DNA-sameindin klippt niður í búta og tvíþráðungur smíðaður út frá hverjum bút þannig að út kæmi blendingshringstigi þar sem nýsmíðað og eldra DNA skiptist á. Tilraunin og niðurstöður hennar. Í tilrauninni sem við þá er kennd nýttu Meselson og Stahl sér þá staðreynd, að þó yfirgnæfandi meirihluti köfnunarefnisatóma í DNA sé af samsætunni sem hefur massatölu 14, þá er hægt að skipta köfnunarefninu út fyrir köfnunarefni-15 (15N) án þess að það raski starfsemi þess eða byggingu. Þeir Meselson og Stahl ræktuðu því "E. coli" um sem svarar mörgum kynslóðum í æti sem var mikið auðgað með 15N, en við það verður hlutmergð 15N í DNA bakteríunnar margföld á við það sem annars er. Að ræktun lokinni einangruðu þeir DNA úr frumunum, leystu það upp í dúa sem innihélt CsCl og spunnu það í háhraðaskilvindu, en við það myndar vatnslausn af CsCl eðlisþyngdarstigul og risasameindir á borð við DNA leita á þann stað í skilvinduglasinu þar sem þyngdarkraftur vegna spunans og uppdrifskraftur sameindarinnar núllast út. Nú er DNA sem inniheldur mikið 15N eilítið eðlisþyngra en DNA sem inniheldur lítið 15N og Meselson og Stahl gátu því greint DNA úr auðgaðri rækt frá DNA úr óauðgaðri rækt. Aðferð þeirra var einnig nægilega næm til að þeir gætu greint DNA sem væri að hálfu upprunni í auðgaðri rækt og að hálfu í óauðgaðri. Nú tóku þeir sýni úr auðguðu ræktinni, sáðu í óauðgað æti og ræktuðu áfram. Þeir tóku sýni á 20 mínútna fresti, en kynslóðatími "E. coli" er 20 mínútur við kjöraðstæður, einangruðu DNA greindu hversu mikið af „þungu“, „meðalþungu“ og „léttu“ DNA var í sýnunum. Ef tilgáta Blochs væri rétt og afritun DNA væri algeymin ættu eingöngu að finnast „þungar“ og „léttar“ DNA-sameindir í sýnunum, en Meselson og Stahl greindu einnig „meðalþungar“ sameindir og var raunar allt DNA í fyrstu kynslóð eftir sáninguna á því formi. Þeir gátu því útilokað tilgátu Blochs. Ef tilgáta Delbrücks væri rétt og afritunin væri tvístrandi myndi eðlisþyngd DNA-sameindanna nú stigléttast með hverri kynslóð og nálgast „létt“ DNA smám saman. Ef tilgáta Watsons og Crick væri rétt ætti hins vegar að vera tvenns konar DNA í annarri kynslóð, „meðalþungt“ og „létt“ og ætti að vera hér um bil jafn mikið af hvoru. Síðan myndi hlutmergð þess „meðalþunga“ að fara minnkandi þar til allt mælanlegt DNA er á „létta“ forminu. Niðurstöður Meselsons og Stahl voru í samræmi við líkan Watsons og Crick og staðfestu því að afritun DNA í "E. coli" er hálfgeymin. Afritun DNA. Afritun DNA er ferli sem lifandi frumur nota til að tvöfalda erfðaefni sitt fyrir frumuskiptingu og myndar því grunn að arfbærni upplýsinga. Við afritunina eru kirnaþræðirnir tveir raktir hvor frá öðrum og afritaðir hvor um sig. Pörunarreglur deoxýríbókirna tryggja að nýsmíðaður kirnaþráður sé samsvarandi þeim sem áður var paraður við sniðmátsþráðinn. File:DNA_replication_de.svg| rect 162 170 275 185 Okazaki-Fragment rect 48 53 154 68 DNA-Polymerase rect 206 259 310 272 DNA-Polymerase rect 327 277 384 291 Helicase rect 173 38 246 52 DNA-Ligase rect 263 33 335 46 RNA-Primer rect 305 13 359 28 Primase rect 586 227 684 241 Topoisomerase rect 347 296 466 324 Einzelstrang-bindendes Protein Sporvala. Sporvala, stundum kölluð "ellipsoíða", er þrívíður hlutur þar sem skurðflöturinn við sléttu er sporaskja eða hringur. Hægt er að hugsa sér að sporvala framkallist við það að snúa sporöskju um annað hvort langásinn eða skammásinn. Vaka (sjónvarpsþættir). Vaka var sjónvarpsþáttur sem sýndur var á Rúv árin 1972 til 1974. Rustem Khamitov. Rustem Zakievich Khamitov er forseti sjálfstjórnarlýðveldisins Bashkortostan. Rustem Zakievich Khamitov (á rússnesku: Рустэм Закиевич Хамитов; á baskísku: Рөстəм Зəки улы Хəмитов, fæddur 18. ágúst 1954) er rússneskur stjórnmálamaður og forseti sjálfstjórnarlýðveldisins Basjkortostan í Rússneska sambandsríkinu. Hann fæddist í þorpinu Drachenino í Kemeróvofylki Suð-Vestur Síberíu, þá í Sovétríkjunum. Starfsferill. Rustem Khamitov útskrifaðist frá menntaskóla í Ufaborg árið 1971 og lauk síðan vélaverkfræðinámi árið 1977 frá Tækniháskólanum N E. Bauman Moskvu. Hann starfaði síðan í ýmsum verksmiðjum í Basjkortostan. Við fall Sovétríkjanna hóf Rustem pólitískan feril sinn. Frá 1994 til 1999 starfaði hann sem ráðherra umhverfismála og almannavarna í Basjkortostan. Árið 1999 starfaði hann við ráðuneyti neyðarástands Rússlands í Moskvu. Frá 2000 starfaði hann sem fulltrúi forseta Rússlands í Volgógradfylki. Khamitov sem félagi í Sameinuðu Rússlandi, stjórnmálaflokki Dímítrís Medvedev forseta og Vladimírs Pútín forsætisráðherra, var skipaður 15. júlí 2010 forseti sjálfstjórnarlýðveldisins Basjkortostan. Hann tók formlega við völdum 19. júlí árið 2010 þegar þing lýðveldisins samþykkti skipun Dmitry Medvedevs á honum sem forseta. Einkahagir. Rustem Khamitov er giftur Gulshat Khamitova og eiga þau tvö börn, son sem er verkfræðingur og dóttur sem er starfsmaður í ferðaþjónustufyrirtæki. Bæði búa þau í Moskvu. Auk þess að hafa bashjírsku að móðurmál talar hann reiprennandi í rússnesku og ensku. Hann er súnní múslimi. Áhugamál hans eru bækur, tónlist, skíði og siglingar á ám Basjkortostan. Khamitov er af þjóðarbroti Basjkíra. Faðir hans, Zaki Salimovich Khamitov (1930 – 1993), var prófessor. Móðir hans Raisa Siniyatulovna var stærðfræðikennari en nú komin á eftirlaun. Khamitov starfaði sem verkfræðingur í Basjkortostan. Hann var deildarforseti landbúnaðarvélvæðideildar í Bashkir ríkisháskólanum í Ufa. Hann starfaði einnig við Landbúnaðarháskólann í Ufa á árunum 1973-1980. Yngri bróðir hans, Rashid Khamitov, býr í Ufa og starfar sem bílstjóri. Tenglar. Khamitov, Rustem Zakievich P. Nielsen. Peter Nielsen (fæddur 27. febrúar 1844 í Ringkøbing, dáinn 9. maí 1931 í Reykjavík) var veðurathugunarmaður í Húsinu frá 1880 til 1911 og faktor (verslunarstjóri) við dönsku verslunina á Eyrarbakka. Hann ástundaði náttúrufræðilegar athuganir víðsvegar um Suðurland og var frumkvöðull í fuglavernd á Íslandi. Safn uppstoppaðra íslenskra spörfugla gaf hann barnaskólanum á Eyrarbakka. Jötunheimar. Jötunheimar eru heimkynni jötna í norrænni goðafræði. Yfirtala. Yfirtala er stak, sem er stærra eða jafnt sérhverju staki í tilteknu röðuðu mengi. Setjum að SA sé mengi yfirtalna mengisins A, en þé er lággildi þess minnsta yfirtala A (enska: "Supremum"), táknuð með "Sup A". Þ.e. min SA = Sup A. Ef A er hlutmengi rauntalna, sem er ótakmarkað að ofan, gildir að Sup A = +∞. Tómamengið hefur minnstu yfirtölu -∞. Á samsvarandi hátt er skilgreind undirtala mengis. Undirtala. Undirtala er stak, sem er minna eða jafnt sérhverju staki í tilteknu röðuðu mengi. Setjum að SA sé mengi undirtalna mengisins A, en þé er hágildi þess stærsta undirtala A (enska: "Infirmum"), táknuð með "Inf A". Þ.e. max SA = Inf A. Ef A er hlutmengi rauntalna, sem er ótakmarkað að neðan, gildir að Inf A = -∞. Tómamengið hefur stærstu undirtölu ∞. Á samsvarandi hátt er skilgreind yfirtala mengis. Lampi. Venjulegur skrifborðslampi úti í garði Lampi er heimilistæki sem gefur frá sér ljós. Loftljós er vissulega lampi, en oftast er talað um lampa í merkingunni færanlegur standlampi sem lýsir upp lítið einangrað svæði. Áður en rafmagnið kom til voru samt ljósgjafar sem hengu niður úr lofti einnig nefndir lampar, sbr. að olíulampar sem festir voru við loftið nefndust hengilampar en færanlegir lampar voru þá nefndir ganglampar (eða "skjöktlampar"). Lampar nútímans eru þó flestir með rafmagnssnúru, sem er fest í innstungu, þannig að lítið er hægt að ganga um með slíka lampa. Þannig að þegar talað er um lampa er oftast átt við slíka sem staðið geta á borði ("borðlampi") eða gólfi ("gólflampi"), og er hægt að færa til eins langt og snúran nær. Einnig er algengt að lampar standi á náttborðum og séu notaðir þegar lesin er bók fyrir svefninn ("náttlampi"). Liseberg. Liseberg er skemmtigarður (tívolí) í Gautaborg sem er borg á vesturströnd Svíþjóðar. Liseberg er stærsti skemmtigarður á Norðurlöndunum og opnaði þann 8. maí 1923. Liseberg fékk nafn sitt frá hæðinni sem hann stendur á, en eigandi hennar nefndi hana eftur Lísu, eiginkonu sinni. Balder. Balder er stærsti rússíbani á trégrind á Norðurlöndum og er það tæki garðsins sem dregið hefur að sér flesta gesti. Balder var tekinn í notkun árið 2003. Atmosfear. Atmosfear er stærsti fallturn í Evrópu og var tekinn í notkun þann 24. apríl 2011. Hann er 110 m hár. Fyrr var turninn notaður sem útsýnisturn en þar sem hann laðaði ekki nógu marga gesti að sér var turninum breytt í fallturn. Hnífapar. Hnífapar er haft um hníf og gaffal hvortveggja í sameiningu. Gafflinum er beitt með og gegn hnífi við neyslu matar. Orðið er eins hugsað og krókapar. Hnífurinn er eitt elsta verkfæri mannsins og hefur frá upphafi verið notað til að skera matinn í minni bita. Gaffalinn er öllu yngra amboð, og er notaður til að stinga í matinn og honum þannig lempað upp í munninn án snertingar fingra. Skeið telst ekki til hnífapars, en í munni almennings eru mörg önnur amboð til neyslu matar stundum höfð með undir þessu heiti, þó aðallega skeiðin. Opin námsgögn. Opin námsgögn (OER) eru stafræn gögn sem kennarar, nemendur og fólk í sjálfsnámi getur nálgast ókeypis og í opnum aðgangi til að nota og endurnýta í kennslu, við nám og rannsóknir. Ekki má rugla saman opnum námsgögnum við opinn hugbúnað sem byggir á ókeypis dreifingu og samvinnu við hugbúnaðargerð. MIT háskólinn í Bandaríkjunum var meðal þeirra fyrstu sem ákvað árið 2001 að birta námsefni fjölmargra áfanga, jafnt myndbandsupptökur úr fyrirlestrum sem og verkefni, lausnir og próf. Í kjölfarið hafa fjölmargir háskólar fylgt fordæmi MIT og nú má finna fjöldan allan af vönduðu efni sem hægt er að nálgast endurgjaldslaust. Árið 2007 var sett fram svokölluð Cape Town-yfirlýsing sem hvetur skólafólk um allan heim til að setja kennsluefni á netið endurgjaldslaust. Annar vettvangur þar sem hægt er að nálgast og deila opnum námsgögnum er vefur samtakanna OER commons en þar er að finna mikið magn af opnu námsefni. Bárður Snæfellsás. Bárður er aðalsöguhetja í fornsögunni Bárðar saga Snæfellsáss. Sagan er talin rituð á síðari hluta 14. aldar. Með sögunni hefst ný bókmenntagrein þ.e. fornaldarsögurnar sem áttu sér fornar rætur í munnlegri frásögn. Þær eru fullar af kynjaverum og alls konar ýkjum, margar þeirra eru mjög ævintýralegar. Þessar sögur voru í blóma um aldarlok 13. aldar. Ævi. Bárður er í sögunni sagður sonur Dumbs konungs og Mjallar Snæsdóttur. Dumbur konungur var kominn af risakyni í föðurætt, en tröllum í móðurætt. Í arf hafði Dumbur fengið einkenni beggja. Hann var sterkur og vænn með þægilega skapsmuni. Hann gat því haft samskipti við mennska menn. Þetta hafði hann frá risunum í föðurætt. Úr móðurætt eða frá tröllunum hafði hann það að vera sterkur og stórvirkur, umskiptasamur og illskiptinn, ef honum líkaði ekki eitthvað. Bárður Dumbsson erfði alla þessa eiginleika frá föður sínum en einnig þá mannlegu frá móður sinni. Frá henni erfði hann einnig útlitið, en hann þótti með fegurri mönnum. Aðdragandi þess að Bárður hverfur í jökulinn og fær nafnið Snæfellsás er sá að Helgu dóttur hans rekur frá landinu á ísjaka. Þátt í þessu atviki áttu bróðursynir Bárðar. Hann barðist við bróður sinn og eftir það varð hann bæði þögull og erfiður í umgengni. Bárður gaf síðan jarðir sínar og kvaddi Sigmund vin sinn með þeim orðum að sökum ættar sinnar og stórra harma ætti hann ekki skap með mönnum. Í sögunni er sagt að hann hafi flutt í stóran helli í jöklinum og það hafi verið meira í eðli hans að búa í hellum frekar en húsum. Hollvættur í jöklinum. Í Barðar sögu kemur fram að menn álíti hann hollvætt í jöklinum og ákalli hann sér til hjálpar og hafi fyrir heitguð sinn. Jafnframt segir að hann hafi orðið mörgum á nesinu hinn mesti bjargvættur. Bárður þekktist jafnan, þegar hann sveimaði um landið, á því að hann var í gráum kufli með skinnreipi um sig, klafakerlingu í hendi og fjaðurbrodd langan og digran. Það var ekki aðeins á landi sem Bárður kom mönnum til aðstoðar í nauðum því hann bjargaði mönnum einnig úr sjávarháska. Fram kemur að Bárður hafi kunnað ýmislegt fyrir sér og getað haft stjórn á veðri til að villa um fyrir mönnum ef hann vildi fá þá á sinn fund. Börn Bárðar. Bárður átti dótturina Helgu sem hvarf á ísjaka frá landi eftir leik með frændum sínum. Sagt er að hún hafi verið kvenna vænst en karlgild að afli enda komin af tröllum. Hún lenti á ísjakanum við Grænland og var þar veturlangt. Þegar hún kom til baka til Íslands undi hún ekki hjá föður sínum. Hún festi hvergi við og flæktist um landið. Bárður átti einnig soninn Gest tók kristna trú, til að bjarga sér úr ógöngum, við lítinn fögnuð Bárðar. En nóttina sem Gestur var skírður dreymdi hann að Bárður kæmi til hans og segði hann hafa gert ill að láta trú sína sem forfeður hans hefur haft. Og skyldi hann missa bæði augun fyrir þessa lítilmennsku. Þegar Gestur vaknaði fékk hann mikinn augnverk og sprungu út bæði augu hans. Þjóðtrú tengd Bárðarsögu. Mikið er til af sögum um fjársjóði Bárðar, bæði í Bárðarkistu og í helli hans. Það er sagt um Bárðarkistu að þangað hafi Bárður borið fé og sagt að enginn gæti opnað kistuna og notið auðæfanna er héti eftir sér, hefði sömu trú og gengi undir meri í þrjú ár. Önnur saga segir að þeir einir geti náð auðæfunum sem fæddir eru af sjötugri meykerlingu, ekki hafa nærst á öðru en meramjólk í 12 samfelld ár og ekkert gott hafa lært. Ævintýralegar sögur eru til um helli Bárðar og miklar sagnir hafa orðið til um gull og gersemar í hellinum. í Bárðarsögu hvílir mikill leyndardómur yfir hellinum. Þangað kemst enginn nema í fylgd Bárðar. Alexander Jóhannesson. Alexander Jóhannesson (15. júlí 1888 – 7. júní 1965) var prófessor og doktor í málvísindum og þrívegis rektor Háskóla Íslands. Alexander var fæddur á Gili í Borgarsveit í Skagafirði og var sonur Jóhannesar Davíðs Ólafssonar sýslumanns og konu hans Margrétar Guðmundsdóttur. Þau hjónin voru bræðrabörn og voru feður þeirra báðir bræður Ingibjargar, konu Jóns Sigurðssonar forseta. Alexander varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1907 og stundaði síðan nám í þýsku við Kaupmannahafnarháskóla og lauk meistaraprófi 1913. Þá fór hann til náms í Leipzig og Halle í Þýskalandi og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Halle 1915. Hann kenndi síðan þýsku við Háskóla Íslands og jafnframt íslenska málfræði og germanska samanburðarmálfræði. Hann varð dósent 1926, prófessor 1930 og gegndi rektorsembætti 1932-1935, 1939-1942 og 1948-1954. Dr. Alexander átti mikinn þátt í að móta háskólahverfið sem formaður byggingarnefndar Háskóla Íslands og byggingarnefndar Nýja Garðs, Þjóðminjasafns og Íþróttahúss Háskólans. Hann sat einnig í stjórn Háskólabíós og Happdrættis Háskólans, Hins íslenska bókmenntafélags og Almenna bókafélagsins og var formaður Orðabókarnefndar. Hann var einnig formaður Lýðveldishátíðarnefndarinnar sem annaðist undirbúning lýðveldishátíðarinnar á Þingvöllum 17. júní 1944. Dr. Alexander skrifaði ýmsar bækur, bæði fræðirit og kennslubækur, auk þess sem hann skrifaði um bókmenntir og þýddi ljóð. Einnig skrifaði hann mikið í blöð og tímarit. Hann var mikill áhugamaður um flugmál og aðalhvatamaðurinn að stofnun Flugfélags Íslands (númer tvö) árið 1928 og var framkvæmdastjóri þess. Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók, sem er rétt hjá fæðingarstað Alexanders á Gili, heitir eftir honum. Einnig var einni breiðþotu flugfélagsins Atlanta gefið nafn Alexanders árið 1998. Röðun (mengjafræði). Röðun er aðgerð, sem skipar stökum mengis í innbyrðis röð. Mengi með röðuðum stökum kallast raðað mengi. Skilgreining. kallast mengið "fullraðað", en þá er fyrsta skilyrðið jafnframt óþarft. Punkturinn. Punkturinn er íslenskur sketsaþáttur. Þátturinn gerir grín að auglýsingum, stereotýpum, hversdagslegum hlutum, orðagrín og bara almenna samfélagsrýni. Þættirnir eru vinsælir á Youtube og Facebook en byrjuðu sem litlir þættir fyrir Menntaskólan í Kópavogi. Þættirnir eru 6 talsins og eru til leigu í sjónvarpi Vodafone og Símans. Auk þess er nýtt efni uppfært á Facebook og Youtube. Hlutverk. Guðmundur Heiðar Helgason, Alexander Erlendsson, Daníel Kristjánsson, Bjarki Már Jóhannson, Aðalsteinn Einarsson, Tómas Aquinas Rizzo, Sindri Gretars, Steinar Ársælsson & Bergþóra Þorsteinsdóttir. Handrit. Tómas Aquinas Rizzo, Sindri Gretars, Daníel Kristjánsson, Viktor Aleksander Bogdanski & Guðmundur Heiðar Helgason. Sýnileiki. Punkturinn hefur að mestu leyti verið opinn almenningi á myndavef youtube. Sumarið 2010 var hann einnig sýndur á X TV en sumarið 2011 keyptu xxx eina þáttarröð. Framleiðsla á nýrri þáttarröð hófst svo aftur sumarið 2012 sem var keypt af vefmiðli og hófst sýning í Maí 2013. P.E. Easterling. Patricia Elizabeth Easterling (fædd Patricia Elizabeth Fairfax, 11. mars 1934) er breskur fornfræðingur og sérfræðingur í verkum Sófóklesar. Ævi og störf. Easterling fæddist í Blackburn og gekk í Blackburn High School. Hún brautskráðist frá Newnham College í Cambridge með gráðu í fornfræði árið 1955. Hún kenndi fyrst við Háskólann í Manchester (1957 – 1958) en síðar kenndi hún fornfræði við Newnham College í Cambridge þar til árið 1987 hún tók við stöðu prófessors í forngrísku við University College London. Árið 1994 sneri hún aftur til Cambridge og tók við stöðu Regius-prófessors í grísku. Hún settist í helgan stein árið 2001 og var gerð heiðursfélagi á Newnham College. Árið 1998 var hún gerð að félaga í Bresku akademíunni. Fræðistörf. Easterling hefur einkum unnið á sviði forngrískra bókmennta og sérstaklega leiklistar. Hún hefur einnig rannsakað varðveislu og arfleifð forngrískra leikrita. Easterling var aðalritstjóri bókaraðarinnar "Cambridge Greek and Latin Classics" frá stofnun hennar og hefur gefið út eitt skýringarrit í ritröðinni, "Trakynjur" Sófóklesar (1982). Greinar. Easterling, Patricia Easterling, Patricia Richard L. Hunter. Richard Lawrence Hunter (fæddur 1953) er ástralskur fornfræðingur og frá 2001 Regius-prófessor í forngrísku við Cambridge-háskóla. Menntun og starfsferill. Richard Hunter fæddist og ólst upp í Ástralíu. Þegar hann hafði lokið námi frá Háskólanum í Sydney hóf hann doktorsnám í fornfræði við Cambridge-háskóla. Hann varð síðar kennari og félagi á Pembroke College í Cambridge. Árið 2001 tók hann við stöðu Regius-prófessors í forngrísku við Cambridge-háskóla. Richard Hunter er félagi í Akademíunni í Aþenu, heiðursfélagi við Háskólann í Sydney og hefur heiðursdoktorsnafnbót frá Aristótelesarháskólinn í Þessalóníkí. Tenglar. Hunter, Richard L. Laborde. Laborde er sveitarfélag í suðvestur Frakklandi. Monpezat. Monpezat er sveitarfélag í suðvestur Frakklandi. Fjarstýring. Fjarstýring er tæki sem notað er til að stýra öðru tæki í fjarlægð. Fjarstýringar eru helst notaðar fyrir sjónvarp og tónflutningstæki. Einnig eru til mörg leikföng, sérstaklega bílar sem stýrt er með fjarstýringu. Flestar fjarstýringar nota innrautt ljós til að senda skipanir til móttökutækisins en sumar nota útvarpsmerki. Orkugjafi fjarstýringa er oftast AAA eða AA rafhlöður. Gluggatjöld. Gluggatjöld eða gardínur eru yfirliett taudúkar notaðar til þess að draga úr ljósmagni, sem berst inn í íbúð eða hindra að sjáist inn um glugga. Tilgangurinn er að bjóða upp á friðhelgi eða hjálpa til með svefn. Rimlagardínur eru gardínur sem eru gerðar úr málmi, tré eða plasti og sem maður getur sett niður og snúið. Hefðbundnar gardínur eru oftast úr efni og eru einfaldlega dregnar fyrir gluggan. Gardínur fást í fjölbreyttum litum og stærðum. T 24. Lexía er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1982. Á henni flytur hljómsveitin Lexía tólf lög. Platan er pressuð hjá ALFA Hafnarfirði. Ljósmyndir Oddur Sigurðsson. Prentun: Valprent h/f Akureyri. Hönnun umslags: Marinó Björnsson. T 25. Laugardagskvöld er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1985. Á henni flytur Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar tólf dægurlög. Upptaka í stereó: Stúdíó Bimbó. Hönnun umslags: Delfi. Pressun: Alfa. Ljósmynd: Norðurmynd. Prentun: Valprent hf. Akureyri.Filmugerð: Korpus. T 27. Samspil er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1984. Á henni flytja Jón Hrólfsson og Aðalsteinn Ísfjörð fjórtán harmonikulög. Platan er hljóðrituð í stereo. Upptaka: Stúdíó Bimbó. Pressun: Alfa. Ljósmynd á framhlið: Pálmi Guðmundsson. Ljósmynd á bakhlið: Aðalsteinn Ísfjörð. Setning og filmuvinna: Dagsprent hf. Prentun: Valprent hf. Iðnverkamaðurinn og samyrkjukonan. Frímerki sem sýnir styttuna af iðnverkamanninum og samyrkjukonunni Líkneski iðnverkamannsins og samyrkjukonunnar (rússneska:" Рабо́чий и колхо́зница Rabochiy i Kolkhoznitsa") er 24,5 metra hár skúlptúr úr ryðfríu stáli sem listakonan Vera Mukhina hannaði fyrir Heimssýninguna í París árið 1937 og var síðan flutt til Moskvu. Verkið þykir afar gott dæmi um sósíalískan raunsæisstíl, sem og Art Deco stíl. Verkamaðurinn heldur á lofti hamri og samyrkjukonan á sigð til að mynda tákn Sovétríkjanna. Verkið stendur á 34,5 metra háum stalli. Það vegur um 185 tonn. Saga. Frá Heimssýningunni í París. — Til vinstri sést sýningarhöll Þýskalands Þriðja ríkisins, til hægri er Sovéthöllin. Verkið var upphaflega skapað til að kóróna sýningarskála Sovétríkjanna á Heimssýningunni 1937 í París. Skipuleggjendur sýningarinnar höfðu still á móti hvor öðrum sýningarskála Sovétríkjanna og skála Þýskalands Þriðja ríkisins. Listakonan Mukhina var innblásin af rannsókn hennar á hinum forngrísku klassísk Harmodius og Aristogeiton, Sigri Samothrace og La Marseillaise, sem og skúlptúrmyndum François Rude á Sigurboganum í París. Hún vildi með gerð listaverksins færa hið sósíalíska raunsæi til hjarta Parísar. Táknmynd tveggja einstaklinga sem birtast frá austri til vesturs, líkt og sýningarskáli Sovéthallarinnar fór heldur ekki framhjá áhorfendum. Þó svo að Mukhina hafi sagt skúlptúr henni vera órjúfanlegan hluta af uppbygging sýningarskálans, var verkið síðar flutt til sýningar í Moskvu. Listakonan var sæmd Stalín-orðu fyrir verkið árið 1941. Árið 2003 var verkið fjarlægt til viðgerða en það verk tafðist vegna fjárhagsörðugleika. Það skilaði loks á fyrri stað árið 2009. Það er nú komið á nýjan sýningarskála sem er talsvert hærri en sá upprunalegi eða um 34,5 metrar. Listaverkið hlaut mikla kynningu í Sovétríkjunum þar sem það var valið 1947 til að þjóna sem vörumerki fyrir hið opinbera kvikmyndaver Mosfilm. Rifsber. Rifsber (fræðiheiti: "Ribes rubrum") eru ber af garðaberjaætt, upprunnin í Vestur-Evrópu og einkum ræktuð í norðanverðri álfunni. Talið er að farið hafi verið að rækta þau í görðum í Norður-Frakklandi og Belgíu á 17. öld. Útlit. Berin vaxa á runnum sem geta orðið allt að tveggja metra háir en eru þó yfirleitt 1 - 1,5 metrar. Berin eru yfirleitt rauð að lit en til er ljósbleikt afbrigði sem kallast kirtilrifs eða hvít rifsber og er stundum talið sérstök tegund. Berin sitja í klösum á greinunum, oftast 3 - 10 saman, en einnig eru til afbrigði þar sem berin eru í löngum klösum, oft 10 - 20 saman. Nýting. Berin eru súr-sæt og flest afbrigði er vel hægt að borða eins og þau koma fyrir þótt sum henti betur til þess en önnur. Oftast eru berin þó notuð í sultur og hlaup, saft, ávaxtagrauta og aðra ábætisrétti, kökur og bökur. Rifsber á Íslandi. Rifsber hafa verið ræktuð á Íslandi frá því á síðustu áratugum 19. aldar. Þau þrífast vel í görðum og runnarnir bera yfirleitt ber, allt að 6 - 8 kíló á ári. Zynga. Zynga er fyrirtæki sem hannar tölvuleiki, aðallega fyrir netsíðuna Facebook. Frægasti leikurinn frá Zynga er FarmVille sem er vinsælasti Facebook leikurinn. Beikon. Beikon er saltað svínakjöt, oftast einnig reykt. Kjötið er þurrsaltað, sprautusaltað eða lagt í saltpækil sem inniheldur nítrít og stundum einnig svolítinn sykur eða síróp. Síðan er það yfirleitt reykt, en einnig má þurrka það í nokkrar vikur eða mánuði í köldu lofti, eða sjóða. Beikon verður alltaf að að elda áður en það er snætt. Beikon er unnið úr mismunandi hlutum svínakjöts, ýmist slögum, síðubitum eða hrygg. Beikon úr slögum, eins og algengast er í íslenskum verslunum, er feitt (oft 50% eða meira) og í því skiptast á fitu- og kjötrendur. Það er í Englandi oftast kallað „amerískt beikon“. Síðubitar eru kjötmeiri og fituminni og beikon gert úr hrygg er fitulítið og oft kallað „lúxusbeikon“. Beikon er yfirleitt skorið í þunnar ræmur og steikt á pönnu og borið fram til dæmis með steiktum eða hrærðum eggjum, bökuðum baunum, pönnukökum, ristuðu brauði og ýmsu grænmeti. Það er einnig notað í samlokur, á hamborgara og margt annað, eða skorið í litla bita og sett út í pottrétti, súpur og margt fleira. Í mörgum Evrópulöndum er beikon og annað saltað og/eða reykt svínakjöt fyrst og fremst notað til að bragðbæta ýmsa rétti. Orðið er komið úr ensku "bacon", sem á rætur að rekja til fornfrönsku "bacon", frá fornháþýsku "bacho" sem þýðir „þjór“ eða „læri“ og er raunar sama orðið og „bak“. Franklin Stahl. Franklin William Stahl (fæddur 8. október 1929 í Boston) er bandarískur sameindalíffræðingur og prófessor á eftirlaunum við Oregon háskóla í Eugene. Hann er þekktastur fyrir tilraunina sem kennd er við hann og Matthew Meselson, en hana framkvæmdu þeir árið 1958 og sýndu með henni fram á að afritun DNA er hálfgeymin (það er, að úr einni tvíþráða DNA-sameind verða tvær sem hvor inniheldur einn „gamlan“ þráð og einn nýsmíðaðan). Síðustu áratugina hefur Stahl fengist mest við rannsóknir á endurröðun DNA í gerfrumum. Honum var veitt Thomas Hunt Morgan orðan fyrir framlag sitt til erfðafræðanna árið 1996. John M. Dillon. John Myles Dillon (fæddur 15. september 1939) er írskur fornfræðingur og heimspekingur sem gegndi stöðu Regius-prófessors í forngrísku við Trinity College í Dublin á Írlandii á árunum 1980 til 2006. Áður kenndi hann við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hann var kjörinn félagi við Akademíuna í Aþenu þann 15. júní 2010. Dillon er sérfræðingur um sögu platonisma frá fornöld til endurreisnar og einnig um frumkristni. Fræðastörf. Meðal frægustu fræðirita Dillons eru þýðing hans á "Um launhelgar Egyptanna" eftir Jamblikkos, bók hans um mið-platonistana og nýplatonisma auk þess sem hann ritstýrði þýðingu Stephens McKenna á "Níundunum" eftir Plótínos. Dillon er meðlimur í Hinu alþjóðlega áhugamannafélagi um nýplatónsk fræði (International Society of NeoPlatonic Studies). Fyrsta skáldsaga hans, "The Scent of Eucalyptus", kom út árið 2007. Tenglar. Dillon, John M. Vera Mukhina. Myndhöggvarinn Vera Mukhina á frímerki Sovétríkjanna 1989. Vera Ignatyevna Mukhina (á rússnesku: Вера Игнатьевна Мухина) (f. 1. júlí 1889 í Ríga, d. 6. október 1953 í Moskvu) var áberandi myndhöggvari í Sovétríkjunum. Æviferill. Mukhina var fædd í borginni Ríga inn í auðuga kaupmannsfjölskyldu. Hún flutti síðar til Moskvu til náms í nokkrum einkareknum listaskólum, þar á meðal Konstantin Yuon listaskólanum og Ilya Mashkov listaskólanum. Árið 1912 fór hún til Parísar, þar sem hún nam við Académie de la Grande Chaumière, síðan áfram til Ítalíu til að kanna list og skúlptúra endurreisnartímans. Á árunum 1915 og 1916 starfaði hún sem aðstoðarmaður Aleksandra Ekster við leikhúsið Alexander Tairov í Moskvu. Árið 1918 giftist hún herskurðlækninum Alexei Zamkov. Á þriðja áratugnum reis frægðarsól Mukhinu sem eins þekktasta myndhöggvara Sovétríkjanna. Hún varð leiðandi í hinum þekkta sósíalíska raunsæisstíl sem einkenndi Sovétríki þess tíma, Hún kenndi meðal annars við Vkhutemas ríkislistaskólann á árunum 1926-1927. Hún hlaut alþjóðlega athygli árið 1937 með verki sínu Iðnverkamaðurinn og samyrkjukonan. Hún vann að gerð opinberra minnisvarða og byggingaskúlptúra allt til dauðadags. Að auki gerði hún margvíslegar tilraunir með gler. Hún hlaut hin þekktu Stalín-verðlaun fimm sinnum á árunum 1941 til 1952. Hún var heiðruð með viðurkenningunni „Listamaður fólksins“ í Sovétríkjunum árið 1943. Árið 1953 skrifaði hún bókina „Hugsanir myndhöggvara“. Hún hvílir í kirkjugarðinum í Novodevichy í Moskvu. Matthew Meselson. Matthew Stanley Meselson (fæddur 24. maí 1930 í Denver) er bandarískur sameindalíffræðingur og efnafræðingur. Hann er þekktastur fyrir tilraunina sem kennd er við hann og Franklin Stahl, en hana framkvæmdu þeir árið 1958 og sýndu með henni fram á að afritun DNA er hálfgeymin (það er, að úr einni tvíþráða DNA-sameind verða tvær sem hvor inniheldur einn „gamlan“ þráð og einn nýsmíðaðan). Bandaríska erfðafræðisambandið heiðraði hann árið 1995 með Thomas Hunt Morgan orðunni fyrir framlag hans til erfðafræðanna. Spunahúsið. Spunahúsið var kvennafangelsi og vinnuhæli í Kaupmannahöfn. Það var stofnað árið 1662 og var starfrækt til ársins 1928. Konurnar unnu við að spinna ull og vefa klæði fyrir danska herinn. Margar íslenskar konur voru sendar þangað til að afplána dóm sinn. Rudolf Franz Ferdinand Höss. Rudolf Franz Ferdinand Höss (25. nóvember 1900 – 16. apríl 1947) var yfirmaður í Auschwitz á árunum 1940 – 1943. Hann hafði ætlað sér að verða prestur áður en hann var kvaddur í herinn til að berjast í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið gekk hann í Freikops, einkaher sem var skipulagður af liðsforingjum úr þýska hernum úr stríðinu. Árið 1922 gekk Höss í þýska nasistaflokkinn og síðar í Artamenen sem var félag öfgafullra þjóðernissinna sem fyrirlitu borgarlífið og vildi hverfa aftur til einfaldari tíma bænda, eftir ódæðisverk þar lenti hann í fimm ára fangelsvist árið 1923. Í júnímánuði árið 1934 bauð Heinrich Himmler honum vinnu hjá öryggissveitum nasista, betur þekkt sem SS sveitirnar, og eftir eilítið hik þáði hann það. Seinna sama árs fór hann til Dachau sem voru fyrstu þrælabúðir þriðja ríkisins. Árið 1938 þáði hann stöðu sem búðastjóri í Sachsenhausen sem voru þrælabúðir 34 km norður af Berlín. Þar stjórnaði hann einni aftökusveit þeirra búða. 30. apríl árið 1940 var honum boðið yfirmannastarf í Auschwitz. Saltkjöt. Reuben-samloka með söltuðu nautakjöti (corned beef). Saltkjöt er kjöt sem hefur verið saltað, ýmist með því að leggja það í saltpækil, þurrsalta það eða sprautusalta. Á Íslandi er alltaf átt við lambakjöt þegar talað er um saltkjöt og raunar er samkvæmt reglugerð eingöngu heimilt að nota heitið saltkjöt um saltað lambakjöt en aðrar kjöttegundir þarf að skilgreina nánar, til dæmis sem saltað svínakjöt eða saltað hrossakjöt. Söltunin dregur vökva út úr kjötinu með osmósuþrýstingi og drepur óæskilegar bakteríur, svo að kjötið varðveitist vel. Söltun var allt fram á 19. öld langalgengasta aðferðin til að geyma kjöt langtímum saman; kjöt var einnig reykt eða þurrkað en þá yfirleitt saltað áður. Á Íslandi var söltun aftur á móti lítið notuð sem geymsluaðferð langt fram eftir öldum vegna þess að salt var dýrt. Með tilkomu niðursuðu og frystingar dró mjög úr mikilvægi söltunar sem geymsluaðferðar en saltkjöt var þó verkað áfram og nú bragðsins vegna, enda er saltað kjöt af ýmsu tagi aðalhráefni í mörgum hefðbundnum réttum víða um heim, svo sem íslensku saltkjöti og baunum, þótt sá réttur sé orðið ekki mikið borðaður nema á sprengidag. Einnig má nefna alls konar kjötvörur eins og beikon, skinku, pastrami og alls konar pylsur og annað sem gert er úr söltuðu kjöti. Saltkjöt og baunir. Saltkjöt og baunir er íslenskur réttur sem er á borðum á fjölmörgum íslenskum heimilum á sprengidaginn en er þó alls ekki bundinn við hann eingöngu og var áður algengur allan ársins hring. Rétturinn er súpa úr gulum hálfbaunum og grænmeti, oftast kartöflum, gulrófum og gulrótum, ásamt söltuðu lambakjöti sem ýmist er borðað með súpunni af sérstökum diski eða skorið í bita og borðað í súpunni. Svipaðar súpur eru algengar víðast hvar í Norður-Evrópu, svo og í Bandaríkjunum og Kanada, en yfirleitt er notað saltað svínakjöt í þær. Margir bragðbæta líka íslenska baunasúpu með dálitlu beikoni. Á stórum seglskipum á skútuöld var gulbaunasúpa daglegur matur ásamt skipskexi en saltað kjöt (nauta-, svína- eða kindakjöt) borið fram með súpunni á sunnudögum. Saltkjöt og baunir, túkall. Lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar sprengidagurinn fer að nálgast en er einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið, til dæmis skemmtiatriði. Það mun hafa verið skemmtikrafturinn Baldur Georgs sem var upphafsmaður þessa en lagstúfinn er að finna á plötu með Baldri og Konna frá 1954. Baldur kann að hafa tekið þetta eftir bandarískum rakarakvartettum sem luku oft atriðum sínum með því að söngla "„Shave and a haircut, ten cents“", en lagstúfurinn er mun eldri og algengur í gömlum enskum barnaleikjum. Höskuldur H. Ólafsson. Höskuldur Hrafn Ólafsson (f. 9. febrúar 1959) er bankastjóri Arion banka og hefur verið frá árinu 2010. Laun hans hjá bankanum, sem enn er með ríkisábyrgð, hafa orðið að fréttaefni í kjölfar hrunsins. Auk þess sem fyrirtæki sem hann hafi starfað hjá áður hafi verið rannsökuð af Samkeppnisráði, en Höskuldur hefur sett fram athugasemdir við þær fréttir. Höskuldur starfaði lengstum við margvísleg stjórnunarstörf hjá Eimskip, hér á landi og erlendis. Höskuldur hóf störf hjá Eimskipi árið 1987 og tók við stöðu aðstoðarforstjóra í júní 2004. Hann hætti störfum hjá félaginu sama ár en var eftir það til ráðgjafar í nokkrum verkefnum. Sama ár, 2004, varð Höskuldur forstjóri "Greiðslumiðlunar – Vísa Íslands". Meðan hann starfaði þar hóf Greiðslumiðlunin útrás og skipti um nafn og hét eftir það Valitor – Visa Ísland. Höskuldur var forstjóri fyrirtækisins í fjögur ár áður en hannn var ráðinn til Arion banka — eftir hrun. Höskuldur er viðskiptafræðingur að mennt. Höskuldur er kvæntur Sigríði Ólafsdóttur og eiga þau þrjú börn. Höskuldur Ólafsson (tónlistarmaður). Höskuldur Ólafsson (Hössi) kom saman rapp/hip hop hljómsveitini Quarashi ásamt Ómari Erni Haukssyni (Ómar swarez), Sölva Blöndal, Steinari Orra Fjeldsted (steini) eða (stony). Plötusnúðurinn Dj Dice kom svo í staðin fyrir Dj Magic. Árið 2002 hætti Hössi og í staðinn kom Egill Ólafur Thorarensen (tiny) á plötunni Guerilla Disco 2005.Hössi samdi margar plötur með Sölva eins og Jinx,Quarashi og Xeneizes.Hann gerði nokrar breiðskífur með Sölva til dæmis Switchstance og ein plata sem inni heldur lögum sem komu aldrei út á venjulegri plötu sem heitir Demos & B-sites.Tiny er að gera plötu sem heitir The music zoo og hann er búinn að semja eitt lag sem heitir Devil's own. Samband ungra jafnaðarmanna. Samband ungra jafnaðarmanna (SUJ) var stofnað árið 1929 af Félögum ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Sambandið starfaði innan Alþýðuflokksins. Árið 1930 hafði FUJ-félögum fjölgað mjög um allt land. Á þingi SUJ á Siglufirði í september 1930 náðu kommúnistar meirihluta í sambandinu og í kjölfarið gekk það til liðs við Kommúnistaflokk Íslands sem stofnaður var síðar sama ár. Nafni sambandsins var breytt í Samband ungra kommúnista (SUK). Í kjölfarið klofnaði sambandið og jafnaðarmenn, með FUJ í Reykjavík og Hafnarfirði sem forystufélög, héldu áfram að starfa undir merkjum Sambands ungra jafnaðarmanna sem ungliðahreyfing Alþýðuflokksins. Á sjöunda áratugnum efldist SUJ mjög. Þá gaf sambandið út tímaritið Áfanga. Margir af forystumönnum Alþýðuflokksins 1970-1990 komu úr þeim röðum, svo sem Sigurður Guðmundsson, Karl Steinar Guðnason, Björgvin Guðmundsson, Sighvatur Björgvinsson og Árni Gunnarsson. SUJ varð nokkuð áberandi á árunum 1990-1995. Þá störfuðu innan þess níu félög, í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, Keflavík, Njarðvík og Grindavík, Akranesi, Ísafirði og á Austfjörðum. Á þessum árum markaði SUJ sér sérstöðu innan Alþýðuflokksins. SUJ var fyrst stjórnmálahreyfinga til að taka upp á stefnuskrá sína aðild að Evrópusambandinu árið 1990. John Wilkes Booth. John Wilkes Booth (10. maí 1838 – 26. apríl 1865) var bandarískur leikari sem myrti Abraham Lincoln þegar hann skaut hann til bana þann 15. apríl 1865 í leikhúsinu Ford Theatre, þar sem Lincoln var á leikritinu My American Cousin. John Wilkes Booth stóð með Suðurríkjunum í bandarísku borgarastyrjöldinni eða þrælastríðinu. Booth, John Wilkes Glitský. Glitský (einnig "perlumóðurský", "ísaský" eða "gyllinský") eru marglit ský ofan heiðhvolfs í 15-30 km hæð. Android. Android er stýrikerfi fyrir snjallsíma, töflutölvur og skyld tæki sem byggir á opnum hugbúnaði og er byggt upp á breyttri útgáfu Linux kjarnans. Það samanstendur af stýrikerfinu sjálfu, miðbúnaði og helstu forritum. Google Inc. keypti Android Inc., fyrirtækið sem upphaflega vann að þróun Android stýrikerfisins árið 2005. Greiningarfyrirtækið Canalys, greindi frá því árið 2010 að Android stýrikerfið væri söluhæsta stýrikerfi fyrir snjallsíma og tók þar fram úr Symbian stýrikerfi Nokia farsímarisans sem hefur verið það söluhæsta í tíu ár. Android hefur utan um sig samfélag margra forritara sem hanna forrit fyrir stýrikerfið og auka þar með virkni þess. Nú eru til um 150.000 forrit fyrir Android. Android Market er vefverslun með forrit sem rekin er af Google en einnig er hægt að hlaða niður forritum og viðbótum fyrir Android frá öðrum aðilum. Aðallega er forritað fyrið Android stýrikerfið í forritunarmálinu Java. Android var kynnt þann 5. nóvember 2007 samhliða stofnun Open Handset Alliance samtakanna. Það eru samtök 80 vélbúnaðarframleiðanda, hugbúnaðarframleiðanda og fjarskiptafyrirtækja sem styðja við þróun opinna staðla fyrir farsíma og skyld tæki. Google gaf Android út undir Apache-leyfinu, sem er leyfi fyrir frjálsan og opin hugbúnað. T 110. Heiðursmenn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Tónaútgáfunni árið 1969. Á henni flytja Heiðursmenn fjögur lög. Platan er hljóðrituð í Stereo. Upptöku annaðist Ríkisútvarpið, Pétur Steingrímsson og Guðmundur R. Jónsson. Ljósmynd: Óli Páll. Pressun: PYE. Prentun umslags: Offsetmyndir. Baldur Georgs Takács. Baldur Georgs Takács (22. október 1927 – 26. ágúst 1994) eða Baldur Georgs var töframaður og búktalari sem var vinsæll skemmtikraftur á Íslandi upp úr miðri 20. öld. Hann kom oftast fram með brúðunni Konna og voru þeir þekktir sem „Baldur og Konni“. Baldur var sonur hjónanna Ágústu Thorarensen, píanó- og danskennara, og ungverska tónlistarmannsins Georgs Takács, en ólst upp hjá afa sínum og ömmu. Hann lagði stund á töfrabrögð og sjónhverfingar frá unga aldri og kom í fyrsta sinn fram á opinberri skemmtun 16 ára að aldri og náði þegar miklum vinsældum. Um 1945 kom brúðan Konni til sögunnar og fór Baldur þá að leggja stund á búktal jafnhliða töfrabrögðunum, fyrstur Íslendinga. Þeir Baldur og Konni skemmtu í Tívolíinu í Vatnsmýri á árunum 1947-1960, fóru einnig víða um land og skemmtu og komu fram í Tívolí í Kaupmannahöfn og á Dyrehavsbakken. Einnig gaf Baldur út tvær bækur og fimm hljómplötur byggðar á skemmtiatriðum þeirra. Baldur og Konni komu líka fram í sjónvarpi á fyrstu árum þess. Baldur vann ætíð fulla vinnu jafnhliða því sem hann skemmti fólki og rúmlega þrítugur hóf hann nám utanskóla við Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 33 ára. Eftir það starfaði hann einkum við kennslu en stundaði einnig þýðingar. Baldur hætti að mestu að koma fram upp úr 1970 en sneri þó stöku sinnum aftur á svið eða í sjónvarp og brá meðal annars fyrir í kvikmyndinni Með allt á hreinu. Hann lést árið 1994 en Konni er varðveittur á Þjóðminjasafninu. Kviðristu Kobbi. Frægasti raðmorðingi allra tíma sem drap fimm vændiskonur í austurhluta Lundúnaborgar árið 1888. Hann náðist aldrei og talið útilokað að hann verði nokkru sinni nafngreindur. Upp hefur komið fjöldi kenninga um hver átti í hlut og ein þeirra tengdi jafnvel meðlimi bresku krúnunnar við morðin. Líklegast er talið að þetta hafi verið almúgamaður sem enginn tók eftir í hverfi sem glæpamenn og vændiskonur héldu til í. Engin sönnunargögn hafa varðveist til þessa dags. Hafa ber í huga að tækni til að taka fingraför og lífsýni hafði ekki verið þróuð. Morðin voru sérstaklega óhugnanleg vegna þess hversu lík kvennanna voru illa útleikin. Fyrstu fjórar vændiskonurnar drap morðinginn á götum úti en þá síðustu á heimili hennar. Sökum þess var hún verst farin og talið er að ástæðan sé sú að morðinginn hafði meiri tíma og næði til að svívirða hana en þær fyrri. Hamfarirnar í Japan 2011. Hamfarirnar í Japan 2011 urðu vegna jarðskjálfta upp á 9,0 á Richter. Jarðskjálftinn varð klukkan 14:46 að Japönskum staðartíma á föstudeginum 11. mars 2011. Skjálftamiðja hans var úti á hafi, 130 kílómetrum austur af borginni Sendai. Jarðskjálftinn orsakaði flóðbylgju, allt að 29,6 metra háa, sem lenti á Japan mínútum eftir skjálftann og flæddi allt að 10 km inn af landinu. Jarðskjálftinn orsakaði einnig smærri flóðbylgjur sem lentu á öðrum löndum eftir nokkra klukkutíma. Viðvaranir voru gefnar út fyrir strönd Japans sem liggur að Kyrrahafinu og fyrir í það minnsta 20 önnur lönd, þar á meðal Kyrrahafströnd Norður og Suður Ameríku. Japanska lögreglan hefur opinberlega staðfest 11.828 dána, 2.876 særða og 15.540 manns sem er saknað í 18 héruðum, ásamt 125.000 skemmdum eða eyðilögðum byggingum. Jarðskjálftinn og flóðbylgjan orsakaði miklar mannvirkjaskemmdir í Japan, meðal annars á vegum, járnbrautum og eldsvoðum, ásamt eyðilagðrar stíflu. Í kringum 4,4 milljónir heimila í Japan voru án rafmagns og 1,5 milljónir án vatns. Slökkt var á mörgum raföllum og í það minnsta þrír kjarnaofnar urðu fyrir sprengingum vegna þrýstings vetnis gass sem hafði safnast saman í ytri lokum eftir kerfisbilun. Íbúar innan 20 km radíus í kringum Fushusima 1 kjarnorkuverið og innan 10 km radíus í kringum Fukusima 2 kjarnorkuverið voru brottfluttir. Jarðskjálftinn. Jarðskjálftinn var neðanjarðarskjálfti upp á 9,0 á Richter. Hann varð þann 11. mars 2011 klukkan 14:46 að japönskum staðartíma. Hann varð í vesturhluta Kyrrahafsins á 32 km dýpi, með skjálftamiðju 72 kílómetra frá Oshika skaganum og stóð yfir í rúmlega sex mínútur. Næsta stórborg við skjálftann var Sendai, í Honshu héraði, í 130 km fjarlægð. Jarðskjálftinn varð í 373 km fjarlægð frá höfuðborg Japans, Tókýó. Aðalkippurinn gerðist eftir fjölda fyrirskjálfta og var fylgt eftir af hundruðum eftirskjálfta. Fyrsti stóri fyrirskjálftinn var 7.1 á Richter þann 9. mars, 40 km frá skjálftamiðju aðalkippsins þann 11. mars. Einni mínútu áður en skjálftinn fannst í Tókýó, gaf jarðskjálfta viðvörunarkerfi Japana sem inniheldur 1.000 skjálftamæla í Japan, viðvaranir um sterkan skjálfta til milljóna manna. Þessi viðvörun frá Veðurstofu Japans er talin hafa bjargað mörgum mannslífum. Skjálftinn var upphaflega tilkynntur upp á 7.9 á Richter, uppfærður upp í 8.8, 8.9 og síðan loks upp í 9.0. Jarðskjálftinn gerðist þar sem Kyrrahafs flekinn sígur undir flekann undir Honshu, en þau flekamörk eru gagnrýnd á meðal vísindamanna. Kyrrahafsflekinn sem færist um 8 til 9 cm á ári er sagður síga undir Honshu flekann og gefur þannig frá sér mikið magn af orku. Þessi hreyfing ýtir efri flekanum niður þangað til álagið verður nógu mikið fyrir jarðskjálfta. Brotið vegna álagsins varð til þess að sjávarbotninn hækkaði um nokkra metra. Alvarlegar bilanir í Fúkúshímakjarnorkuverinu. Skömmu eftir flóðbylgjuna komu upp alvarleg vandamál við kælingu kjarnaofna og eldsneytisgeymsla í Fúkúshímakjarnorkuverinu, sem síðar leiddu til sprenginga og losunar geislavirkra efna út í andrúmsloftið. Dagskrárgerð. Dagskrárgerð felst í því að skipuleggja og undirbúa upptöku, úrvinnslu og/eða útsendingu útvarps- eða sjónvarpsefnis. Efnið getur verið ætlað til útsendingar í eitt skipti eða verið hluti af þáttaröð. Efnið getur verið tekið upp og unnið löngu fyrir útsendingu eða verið í beinni útsendingu. Dagskrárgerðarfólk vinnur einstaka þætti eða þáttaraðir í samstarfi við dagskrárstjórn sem skipuleggur dagskrána til lengri tíma í senn. Dagskrárgerðin tekur mið af hefðum sem skapast hafa í dagskrárgerð (t.d. að hafa fréttir nálægt kvöldmatartíma), áhorfendum eða áheyrendum (t.d. dagsjónvarp í sumum löndum sem einkum á að höfða til heimavinnandi kvenna) og dagskrárgerð samkeppnisaðila. Dæmi um dagskrárgerðartækni eru lóðrétt dagskrárgerð, þar sem sams konar þættir eru sendir út hver á eftir öðrum til að halda áhorfendum/áheyrendum; að brúa bilið, þar sem reynt er að koma í veg fyrir að áhorfendur/áheyrendur skipti um stöð milli þátta til dæmis með því að auglýsa næsta þátt um leið og þeim fyrri lýkur; gagnstæð dagskrárgerð þar sem reynt er að draga áhorfendur/áheyrendur frá samkeppnisaðila með því að sýna þætti sem höfða til annars hóps en þættir sem eru á sama tíma á stöð samkeppnisaðilans, til dæmis þætti sem höfða til kvenna á sama tíma og hin stöðin sýnir frá knattspyrnuleik karla. Dagskrárgerð sem tekur mið af samkeppni getur líka verið samsíða, þannig að þættir sem höfða til sama hóps eru sýndir á sama tíma og áhorfendur/áheyrendur neyðast til að velja á milli, eða sitt á hvað. Stundum er vísað til heiðursmannasamkomulags varðandi dagskrárskipulag ákveðins efnis milli samkeppnisaðila eins og til dæmis íslensks leikins sjónvarpsefnis. Sjónvarpsefni. Sjónvarpsefni er allt það efni sem sent er út í sjónvarpi, hvort sem um er að ræða mynd- eða hljóðefni. Abbasídaveldið. Abbasídaveldið þegar það var stærst. Abbasídaveldið (العبّاسيّون) eða Kalífaríkið var þriðja íslamska stórveldið. Því stjórnuðu Abbasídar, sem gerðu Bagdad að höfuðborg sinni eftir að þeir höfðu bolað frá völdum Umayyad-kalífönum alls staðar nema á Al Andalus-svæðinu. Abbasídaveldið var stofnað árið 750 en Bagdad varð höfuðborg þeirra árið 762. Abbasídaveldið stóð í um tvær aldir en fór síðan smám saman hnignandi. Það leið þó ekki endanlega undir lok fyrr en árið 1519, þegar Tyrkjaveldi tók yfir og höfuðborgin var færð til Istanbúl. Þúun. Þúun eða „að þúa einhvern“ er það að ávarpa þann sem maður talar við með 2. persónu eintölu (eða samsvarandi eignarfornafni) en persónufornafnið í 2. persónu eintölu er „þú“ og þaðan er nafnið „þúun“ komið. Þúun er andstæða þess að þéra einhvern. Dæmi um að þúa er að segja: „Þú vilt vel, Sigurður“. Í stað: „Þér viljið vel, Sigurður“. Hér áður fyrr þúuðu menn sína nánustu, vini sína og jafnvel yngri menn og þá sem menn þekktu ágætlega. Þá sem voru hærra settir eða eldri eða ókunnugir voru þéraðir. Það að þúast var nefnt "að vera dús". "Dúsbróðir" eða "þúbróðir" nefndu menn þann mann sem þeir voru það vel kunnugir að þeir þyrftu ekki að þéra hann eða hana. Gangberg. Gangberg myndast þegar bergkvika storknar í sprungum ofarlega í jarðskorpunni. Rob Benedict. Rob Benedict (fæddur Robert Patrick Benedict, 21. september 1970) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "Threshold", "Felicity" og "Supernatural". Einkalíf. Benedict er fæddur og uppalinn í Columbia, Missouri. Stundaði hann nám við Northwestern háskólann þar sem hann útskrifaðist með BA gráðu í Performance Studies. Benedict er meðlimur og gítarleikari hljómsveitarinnar Louden Swain. Ferill. Benedict byrjaði feril sinn í kvikmyndinni "Run a Mile in My Shoes" frá árinu 1995. Síðan þá hefur hann komið fram í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Kvikmyndir sem Benedict hefur meðal annars leikið í: "State of Play", "The Naked Gun", "American Pi" og "Say Goodnight" Sjónvarpsþættir sem Benedict hefur meðal annars leikið í: "Cold Case", Burn Notice, ', "Alias", "Birds of Prey" og "NYPD Blue". Tenglar. Benedict, Rob Lestrarfélag. Lestrarfélag var tegund íslenskra félagasamtaka sem voru fyrst starfrækt undir lok 18. aldar og voru eins konar forverar almenningsbókasafna. Með setningu laga um almenningsbókasöfn árið 1955 dró mjög úr starfsemi lestrarfélaga. Ekki er alltaf gott að gera greinarmun á litlu bókasafni og lestrarfélagi en samskrá yfir bókasöfn og lestrarfélög á Íslandi fyrir tímabilið 1790-1955 telur 431 stykki. Líftími þeirra var misjafn, frá fáeinum árum og í marga áratugi fram á daginn í dag. Nokkuð var um að lestrarfélög klofnuðu eða rynnu saman á þessu tímabili, þá lagðist starfsemi sumra niður á tímabili. Líkt og almenningsbókasöfn í dag voru lestrarfélögin stofnuð í þeim tilgangi að safna saman féi til kaupa á bókum. Í upphafi voru lestrarfélögin fámenn. Félagsmenn voru fyrst og fremst embættis- og menntamenn. Með tímanum settu lestrarfélögin sér starfsreglur og fengu úthlutaða styrki frá hinu opinbera sem sá gagn í menntunarhlutverki lestrarfélaganna. Saga lestrarfélaga. Fyrsta lestrarfélagið var stofnað árið 1790 og hét Hið íslenska bókasafns- og lestrarfélag Suðurlands. Hið norðlenska bóklestrarfélag var stofnað 1792 og fleiri fylgdu í kjölfarið. Í grein sinni um lestrarfélögin skiptir Ingibjörg Sverrisdóttir sögu þeirra í fjögur tímabil. Fyrsta tímabilið, 1790-1840, kallar hún "upphafsskeiðið" en þá hafi tilraunir til rekstrar og starfsemi verið fálmkenndar og starfsemi lestrarfélaga legið niðri að undanskildu Barðastrandarsýslulestrarfélaginu sem var endurreist árið 1817 og starfaði til 1822. Á fjórða áratug nítjándu aldar voru Möllersku lestrarfélögin fyrir geistlega og Bókasafn Flateyjarframfarastofnunar stofnuð. Á þessu tímabili takmörkuðust lestrarfélögin að miklu leyti við embættis- og menntamenn sem orðið höfðu fyrr áhrifum frá Upplýsingastefnunni (sjá Upplýsingin á Íslandi). Næsta tímabil nefnir hún "þróunarskeiðið" sem stóð 1840-1870 en þá voru tæplega 30 lestrarfélög stofnuð. Þessi lestrarfélög breiddust út landfræðilega frá Flatey á Breiðafirði, þar sem bókasafn Flateyjarframfarastofnunar hafði verið stofnað 1833, norður til Vestfjarða, austur eftir Norðurlandi og loks til Austfjarða og suður og allt til Vestmannaeyja, þar sem Lestrarfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1862. Þá víkkaði talsvert sá hópur sem að lestrarfélögunum stóðu, nú tóku prestar og bændur virkan þátt og voru hvatamenn að stofnun þeirra. Þriðja skeiðið er hápunktur almenningslestrarfélaganna á tímabilinu 1870-1937. Áætla má að á bilinu 230-250 lestrarfélög hafi verið stofnun, mörg í kring um margskonar félagastarf; s.s. ungmennafélög eða Lestrarfélag kvenna í Reykjavík sem Laufey Vilhjálmsdóttir stofnaði árið 1911 og starfaði í 35 ár. Þá jókst það talsvert að lestrarfélögin fengu styrki úr sýslu-, bæjar- eða hreppssjóðum. Vitað er með vissu að tíu lestrarfélög voru stofnuð árið 1890. Á lokaskeiðinu 1937-1955 dró úr gildi lestrarfélaga með aukinni þéttbýlismyndun, bættum samgöngum og skipulögðu skyldunámi. Lestrarfélög snerust þá í meiri mæli um afþreyingar- og fagurbókmenntir. Árið 1937 voru sett lög um lestrarfélög og kennslukvikmyndir. Tilgangur laganna var að styrkja menningarstarfsemi í afskekktari byggðum úti á landi. Þetta bar nokkurn árangur fyrst um sinn en það dró úr umsvifum lestrarfélaganna og hætt var að úthluta styrkjum til lestrarfélaga árið 1955 sama ár og sett voru lög um almenningsbókasöfn í fyrsta skiptið sem skiptu landinu í 30 bókasafnshverfi. Gufuaflsvirkjun. Gufuaflsvirkjun er virkjun sem breytir gufuafli í rafmagn. Virkjun gufuafls fer fram með margskonar hætti. Til dæmis í jarðvarmavirkjun er jarðhiti frá háhitasvæði er nýttur í raforkuframleiðslu og hitun á neysluvatni. Gufan getur komið frá vatni sem hefur hitnað við jarðhita, kjarnorku eða kol. Raforkuframleiðsla. Raforka er framleidd með gufuhverfli þar sem varmaorka gufu er breytt í hreyfiorku sem er svo breytt í raforku með rafal. Vatnshitun. Heitt neysluvatn er búið til með því að láta gufu hita hreint vatn í varmaskiptum. Niels Fuhrmann. Níels Fuhrmann (1685 – 10. júní 1733) var norskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1718 til dauðadags. Hann var æðsti embættismaður á landinu um árabil, kom að mörgum málum, fékk yfirleitt gott orð og naut vinsælda meðal landsmanna en er þó helst minnst fyrir svonefnt Hrafnhettumál eða Schwartzkopf-mál. Uppruni og embættistaka. Fuhrmann var frá Björgvin í Noregi. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan prófi en varð síðan ritari Christians Sehested aðmíráls, sem þá var einn helsti valdamaður í Danmörku. Árið 1716 var Fuhrmann svo skipaður aðstoðarmaður Christians Müller, amtmanns á Íslandi, og skyldi fá helming launa hans. Hann fór þó ekki til Íslands fyrr en 1718, þegar Müller hafði látið af embætti, með herskipinu Gottenborg, sem var stærsta herskip sem til landsins hafði siglt, og settist þegar að á Bessastöðum ásamt danskri ráðskonu sinni, Katrínu Holm, og fleira þjónustufólki. Gottenborg strandaði hins vegar við Þorlákshöfn á leið frá Íslandi um haustið en meirihluti áhafnarinnar bjargaðist á land. Embættisár. Fuhrmann var röggsamur framkvæmdamaður sem hafði hug á að gera ýmsar breytingar á stjórnsýslu og eitt af því fyrsta sem hann gerði var að koma því á að farið skyldi eftir norskum lögum við dóma og var þá hætt að nefna sex eða tólf menn í dóma sem skera skyldu úr málum, heldur dæmdi yfirdómari einn í flestum málum. Ennfremur var það lagt af að menn skyldu fá sex eða tólf menn til að sverja með sér eið að sakleysi sínu, heldur skyldu þeir einir sverja eiðinn. Þannig breyttist réttarfar í landinu mikið með embættistöku Fuhrmanns. Eitt þeirra hlutverka sem Fuhrmann var falið var að draga úr deilum embættismanna innbyrðis og tókst honum það að hluta en dróst þó sjálfur inn í miklar deilur við aðra embættismenn. Skömmu eftir komu sína til landsins komst hann í kynni við Guðmund Þorleifsson ríka í Brokey og fór svo vel á með þeim að Guðmundur og kona hans arfleiddu hann að öllum sínum miklu eignum, en þau höfðu misst öll börn sín í Stórubólu. Áður hafði Oddur Sigurðsson lögmaður, sem hafði verið heitbundinn einni dóttur þeirra, átt að erfa þau, en slest hafði upp á vinskapinn og hjónin fengu liðsinni Fuhrmanns til að ná aftur af Oddi eignum sem þau höfðu þegar afhent honum. Margt fleira varð þeim til ósættis, enda var Oddur mjög yfirgangssamur og hafði verið valdamesti maður landsins um alllangt skeið. Meðal annars tók Fuhrmann af Oddi umboð sem hann hafði haldið í heimildarleysi og afhenti Jóhanni Gottrup. Var það upphaf að hatrömmm og langvinnum deilum milli Odds og Jóhanns. Lýsing. Jón Halldórsson í Hítardal lýsir Fuhrmann svo að hann hafi verið „með hærri mönnum á vöxt, fyrirmannlegur, skarpvitur, vel talandi, forfarinn í flestum lærdómslistum og tungumálum, svo ég efast um, hvort hér hafi verið lærðari veraldlegúr yfirmaður, þar með var hann frlðsamur, ljúfur, lítillátur, glaðsinna og veitingasamur. Á alþingi var oftast nær alsetið í kringum hans borð um máltíð af fyrirmönnum landsins og hans góðum vinum, er hann lét til sín kalla. Sótti ekki eftir neins manns falli eður hrösun, stundaði til að halda landinu við frið og landsrétt.“ Hrafnhetta. Fuhrmann þótti glæsimenni og var sagður kvennamaður mikill. Á Kaupmannahafnarárum sínum hafði hann trúlofast stúlku að nafni Appollónía Schwartzkopf, dóttur Daniels Schwartzkopf, norsks gullsmiðs í Kaupmannahöfn. Er hún sögð hafa verið fögur og hrífandi, dökkhærð en hörundsljós. Ást Fuhrmanns entist þó ekki lengi og hann brá heiti við Appollóníu og fór til Íslands. Hún lögsótti hann fyrir heitrof og vann málið bæði fyrir undirrétti og hæstarétti og var Fuhrmann dæmdur til að giftast henni, en þar til af brúðkaupinu yrði skyldi hún fá tvo þriðju embættislauna hans. Hún sigldi til Íslands sumarið 1722, settist upp á Bessastöðum og beið brúðkaupsins. Fuhrmann hafðist við í tjaldi á túninu þar til búið var að afþilja sérstaka íbúð fyrir hann í amtmannsbústaðnum. Gegndi Appollónía að ýmsu leyti húsmóðurstörfum á Bessastöðum næsta árið þótt amtmaður gerði sig ekki líklegan til að efna til brúðkaups. Sumarið 1723 kom til landsins með Grindavíkurskipi stúlka, Karen Holm, dóttir Katrínar ráðskonu á Bessastöðum, og bendir allt til þess að þau Fuhrmann hafi verið kunnug áður. Eftir komu hennar versnaði samkomulag kvennanna á Bessastöðum til mikilla muna. Um veturinn sagði Appollónía Kornelíusi Wulf landfógeta, sem einnig bjó á Bessastöðum, að sig grunaði að verið væri að byrla sér eitur, og hún bjó einnig við illt atlæti, lélegan mat og köld húsakynni. Hún var mikið veik um veturinn og vorið, bæði líkamlega og andlega, og dó 20. júní 1724. Mikið var talað um veikindi hennar og dauða og 1725 fékk bróðir hennar, Franz Schwartzkopf parrukmeistari í Kaupmannahöfn, Friðrik 4. konung til að skipa dóm til að rannsaka málið. Fuhrmann virðist þó aldrei hafa verið grunaður um að eiga aðild að láti heitkonu sinnar, heldur voru Holms-mæðgur sakaðar um að hafa eitrað fyrir hana. Ekkert sannaðist þó og voru þær sýknaðar. Margar tilgátur hafa komið fram um ástæður fyrir dauða Appollóníu en nú telja flestir að þunglyndi ásamt illum aðbúnaði hafi átt þátt í dauða hennar. Ævilok. Fuhrmann bjó áfram á Bessastöðum með Karen Holm en giftist henni aldrei. Hann dó snemmsumars 1733 og var grafinn í kór Bessastaðakirkju. Hann arfleiddi Karenu að öllum eigum sínum meðan hún lifði en eftir lát hennar skyldu þær ganga til lögerfingja hans. Í Bessastaðakirkju eru tveir stórir koparstjakar sem Karen Holm gaf til minningar um amtmann. Heimildir. Fuhrmann, Niels Fuhrmann, Niels Kristofer Heidemann. Kristofer Heidemann (Christoffer Heedemann) (um 1623 – 1703) var danskur embættismaður sem var fyrsti landfógeti Íslands á árunum 1683-1693 og gegndi jafnframt hlutverki amtmanns um fimm ára skeið. Faðir hans var Johannes Heidemann, hafnarstjóri í Kaupmannahöfn og síðar landfógeti í Færeyjum. Heidemann var skipaður landfógeti árið 1683, þegar embættið var stofnað, og fór þá þegar til Íslands og settist að á Bessastöðum með fjölskyldu sína. Jafnframt var stofnað embætti amtmanns en þar sem ekki var skipað í það strax gegndi Heidemann amtmannsembættinu fyrstu árin. Christian Müller var svo skipaður amtmaður á Íslandi 1688 og kom þá til landsins en þar sem hann var ókunnugur öllu og ekki mikill skörungur leituðu bæði hann og aðrir til Heidemanns og réði hann því áfram mjög miklu meðan hann var á landinu. Heidemann stóð fyrir því á Alþingi sumarið 1692 að láta tjalda yfir Lögréttu með vaðmáli en áður hafði rétturinn verið haldinn undir berum himni. Hann endurbætti líka húsakynni á Bessastöðum, bæði embættisbústað og kirkju. Þeir Sigurður Björnsson lögmaður voru miklir vinir og fékk Heidemann meðal annars í gegn að lögmannslaun voru hækkuð. Jón Halldórsson í Hítardal segir um hann í "Hirðstjóraannál" að hann hafi verið „bæði skarpur og stórmannlegur á hvora síðuna sem hann sneri sér“. Hann lýsir honum jafnframt svo að hann hafi verið „fyrirmannleg persóna að ásýnd, orðfæri og skarpleik, glaðlyndur og örlátur við vini sína og fólk sem veittu honum hús og greiða á hans reisum, en hinum þungur eður þeim, er sýndu sig stóra... Hann var gestrisinn og stórveitingasamur og stóðst því vart rausn sína.“ Heidemann þótti sérlega harðdrægur fjáraflamaður og var sagt að hann hefði flutt með sér fjóra hestburði af silfri og öðrum peningum þegar hann fór frá landinu. Hann flutti til Danmerkur með konu sína og börn sumarið 1692 en kom þó aftur sumarið eftir til að afhenda Bessastaði og telst því ekki hafa látið af embætti fyrr en þá. Kona hans var Sophia Amalia Pfeiff, dóttir Daniels Pfeiff prests og guðfræðiprófessors í Kaupmannahöfn. Heidemann varð amtmaður í Nordlandsamti í Noregi 1694 en lenti í miklum deilum og málaferlum sem hann vann að lokum en dó skömmu síðar í Kaupmannahöfn, stórskuldugur, og bjuggu kona hans og börn við örbirgð. Erfðafestuland. Erfðafestuland eða erfðafestublettur er land sem leigt er með óuppsegjanlegum samningi og leigurétti sem erfist eins og aðrar eignir. Algengt var á fyrri hluta 20. aldar að sveitafélög leigðu ræktunarlönd í kringum þéttbýli með þessum kjörum. Í Reykjavík var árið 1859 byrjað að úthluta lóðum til ræktunar nálægt Kvosinni. Árið 1918 var skipuð nefnd til að gera tillögur um að framræsa og þurrka upp mýrlendið austan bæjarins í Laugardal, Kringlumýri, Fossvogi, Vatnsmýri, Sogamýri og í landi Klepps. Á 2. og 3. áratug 20. aldar risu þar mörg smábýli á erfðafestublettum. Blettirnir voru afhentir til eignar gegn árlegri leigu en skylt var að afhenda byggingarlóðir úr landinu ef á þurfti að halda. Erfðafestulöndin voru leigð til ræktunar og ekki mátti reisa á þeim hús nema með leyfi bæjarstjórnar. Reglum um úthlutun á erfðafestulöndum var oft breytt og nú er hætt að úthluta lóðum með erfðafestu. Jón Sigurbjörnsson. Jón Sigurbjörnsson (fæddur 1. nóvember 1922) er íslenskur leikari og söngvari og lék í Dýrunum í hálsaskógi 1967 – 1977. Jón var einn dáðasti leikari, leikstjóri og óperusöngvari á sínum tíma og var kvændur Þóru Friðriksdóttur leikkonu. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Borgarleikhúsinu. Hermanníus E. Johnson. Hermanníus Elías Johnson (17. desember 1825 – 2. apríl 1894) var íslenskur lögfræðingur, sýslumaður Rangæinga og um tíma landfógeti og bæjarfógeti í Reykjavík. Hermanníus var fæddur á Ísafirði, sonur Jóns Jónssonar verslunarstjóra þar og konu hans Guðbjargar Jónsdóttur. Hann skrifaði sig jafnan Johnson. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum 1849 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1856. Árið 1858 varð hann málflutningsmaður við yfirréttinn. Hann var landfógeti og jafnframt bæjarfógeti í Reykjavík frá 1859 til 1861 en þá varð hann sýslumaður í Rangárvallasýslu og gegndi því embætti í 29 ár en fékk lausn árið 1890. Hann bjó allan sinn sýslumannsferil á Velli og dó þar. Hermanníus þótti friðsæll og farsæll í starfi. Kona hans var Ingunn Halldórsdóttir og áttu þau sex börn sem jafnan skrifuðu sig Hermannsbörn. Einn sona þeirra var Halldór Hermannsson, bókavörður við Fiske-bókasafnið við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Sæluhús. Sæluhús er hús eða gistiskýli í óbyggðum, ætlað til gistingar fyrir ferðalanga. Orðið er gamalt í málinu og er sæluhúsa meðal annars getið á átjándu öld. Eitt af markmiðum Fjallvegafélagsins, sem stofnað var 1831, var að láta reisa sæluhús á fjallvegum. Ferðafélag Íslands hefur reist sæluhús víða í óbyggðum og var það fyrsta byggt í Hvítárnesi 1930. Ferðafélagið og einstakar deildir þess eiga nú 38 skála víða um land. Einnig á ferðafélagið Útivist allnokkra skála. Í sumum skálanna eru skálaverðir á sumrin. Vegagerðin reisti einnig lítil sæluhús við ýmsa fjallvegi til notkunar sem neyðarskýli en með bættum samgöngum og GSM-sambandi dró úr þörf fyrir þau og nú hafa þau flest verið lögð af og fjarlægð. Gisti. Gisti er hugtak í tölvuhögun sem vísar til afar hraðvirkra minnishólfa sem geyma ýmis gildi á meðan örgjörvinn vinnur með þau. Gisti eru efst í minnisstigveldinu og eru hraðasta leiðin fyrir miðverkið til að sækja gögn. x86-hönnunin hefur að geyma 8 heiltölugisti. Sparpera. Sparpera er orkusparandi ljósapera gerð úr gleri, kvikasilfri og málmum og í ýmsum formum. Sparperan mun leysa glóperuna af hólmi þar sem reglugerð um bann við notkun glóperunnar hefur verið sett til dæmis hjá Evrópusambandinu, Ástralíu og í Bandaríkjunum. Helsti kostur sparperunnar er 80% orkusparnaður miðað við glóperu, hún endist í 6-10 ár og ekki er hætta á íkveikju vegna ofhitnunar. Hún hefur breiðara úrval ljóslita en aðrar perur. Sem dæmi um mögulegan orkusparnað má hugsa sér að ef öll heimili á landinu, 110 þúsund talsins, skiptu út tíu 60W glóperum fyrir tíu 11W sparperur, þá væri orkan sem sparaðist um 60 milljón kWst á ári miðað við 2,7 klukkustunda meðalnotkun á dag. Það samsvarar árlegri raforkuframleiðslu 18 Elliðaárvirkjana eða heildarraforkunotkun 13.000 íslenskra heimila yfir árið. Evrópusambandið hefur nú sett í reglugerð bann við notkun á glóperum og þeim verði skipt út fyrir sparperur. Í september 2009 tók í gildi fyrsti áfangi sölubanns innan ESB á orkufrekum ljósaperum. Orkufrek ljós eiga að hverfa af Evrópumarkaði í áföngum til september ársins 2012. Bannið hefur ekki tekið gildi á Íslandi. Tegundir. Hægt er að fá margar tegundir sparpera, bæði að lögun, ljósstyrk og lit bæði til innan- og utanhúss notkunar. Gæði. Gæði sparpera eru mismunandi góð og geta farið eftir því hvar þær eru framleiddar. Norsk könnun sem gerð var árið 2007 sýndi að hægt var að fá góðar sparperur sem entust 15-16.000 klst. og einnig slæmar, sem bæði entust í styttri tíma, lýstu illa og innihéldu allt að 10 mg af kvikasilfri sem eru 5 mg umfram reglugerð. Hitaáhrif. Við aðstæður þar sem loftkælingar er þörf til dæmis í heitu loftslagi og víða í ýmsum byggingum, veldur notkun á sparperum minna álagi á kælikerfi, þar sem perurnar gefa frá sér lítinn hita og sparar þar með orku. Hins vegar þar sem þörf er á hitun, eykur notkun á sparperum orkuþörfina fyrir hitakerfið. Umhverfisáhrif. Kvikasilfur er mjög slæmt fyrir umhverfið og brotnar mjög hægt niður. Reglugerð ESB segir að kvikasilfursmagn í sparperu megi vera að hámarki 5 mg. Nauðsynlegt er að meðhöndla sparperur á réttan hátt þegar þeim er fargað. Við endurvinnslu þarf að aðskilja kvikasilfur frá gleri og málmum og koma þannig í veg fyrir að kvikasilfur berist út í jarðveg og grunnvatn. Glersallinn er urðaður og málmarnir endurunnir en kvikasilfrið er sent til sérstakrar meðhöndlunar í Danmörku. Sparpera brotin. Eftirfarandi þarf að hafa í huga ef sparpera brotnar. Forðast skal að anda að sér kvikasilfursögnum sem losna út í umhverfið og skal opna glugga. Hreinsa brotin upp með pappaspjaldi eða blautum eldhúspappír, setja brotin í loftþétt ílát og skila síðan sem spilliefni á enduvinnslu- eða móttökustöð. Flúrljós. Mikil þróun hefur orðið í gerð ljósapera, en um miðja 20. öldina varð flúrljós til, sem er forveri sparperu. Flúrljós aðgreinist frá glóðarperunni á þann hátt að ljósið myndast ekki við hita heldur þegar rafeindir rekast á gassameindir, sem eru undir lágum þrýstingi í ljósgjafanum. Barbara Kruger. Barbara Kruger (fædd 1945) er bandarísk listakona. Kruger, Barbara Ánægja. Ánægja er tilfinning, annaðhvort líkamleg eða andleg vellíðan. Maður finnur oft fyrir henni vegna hormónanna endorfíns og dópamíns. Draumsvefn. Draumsvefn (eða REM-svefn) er þegar maður er sofandi og er að dreyma. Andrés Iversen. Andrés Iversen Rafn (d. 1695) var danskur maður sem gegndi starfi landfógeta á Íslandi í lok 17. aldar en var þó ekki eiginlegur landfógeti, heldur umboðsmaður danskra kaupmanna sem höfðu landið á leigu. Hann tók við af Heidemann landfógeta árið 1693 en starfstíð hans var ekki löng því hann dó á Bessastöðum snemma árs 1695. Jón Halldórsson í Hítardal segir í "Hirðstjóraannál" að hann hafi verið fyrirferðarlítill og fáskiptinn maður. Heimildir. Iversen, Andrés Jens Jörgensen. Jens Jörgensen (f. um 1653) var danskur maður sem gegndi störfum landfógeta á Íslandi frá 1795-1702 en var þó ekki eiginlegur landfógeti. Hann var síðar lengi bóndi í Brautarholti á Kjalarnesi. Hann hafði verið aðstoðarmaður Andrésar Iversen, sem gegndi landfógetastörfum frá 1693. Þegar Iversen dó 1695 var Jens Jörgensen gerður að umboðsmanni eða forpaktara en starfið fólst á þeim árum fyrst og fremst í að hafa umsjón með eignum konungs á Íslandi og veita dönskum kaupmönnum þjónustu. Árið 1698 giftist hann Soffíu Mauritzdóttur, systurdóttur Lárusar Gottrup lögmanns, og fór brúðkaup þeirra fram á Þingeyrum, þar sem Gottrup bjó. Óvild var á milli Gottrups og Kristjáns Müller amtmanns og er sagt að hún hafi orðið til þess að Jens Jörgensen var sviptur umboðsmennskunni 1702. Hann var þó enn talinn til heimilis á Bessastöðum í manntalinu 1703 en fluttist skömmu síðar að Brautarholti á Kjalarnesi og bjó þar embættislaus eftir það. Hann er sagður hafa verið friðsamur hæglætismaður. Stafafellsfjöll. Stafafellsfjöll eru fjöll austur í Lónssveit. Þar er gróður mikill og fagurt er þar um að lítast. Dýralíf er mikið í fjöllunum. Allmargir sumarbústaðir eru þar. Adrianne Palicki. Adrianne Palicki (fædd 6. maí 1983) er bandarísk leikkkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "Friday Night Lights" og Supernatural. Einkalíf. Palicki er fædd og uppalin í Toledo í Ohio. Útskrifaðist frá Whitmer High-menntaskólanum í Toledo árið 2001. Sjónvarp. Fyrsta gestahlutverk hennar í sjónvarpi var árið 2004 í "The Robinsons: Lost in Space" og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: Smallville, "North Shore", Criminal Minds og "Robot Chicken". Palicki var ráðin til þess að leika Jessica Moore, kærustu Sam Winchester í Supernatural árið 2005 og síðan þá endurtekið hlutverkið nokkrum sinnum. Stærsta hlutverk hennar í sjónvarpi hefur verið sem Tyra Collette í "Friday Night Lights" sem hún var hluti af frá 2006-2011. Þann 16. Febrúar, 2011, var tilkynnt að Palicki hafði verið valin til þess að leika Wonder Woman í endurgerð af gömlu þáttunum og myndi vera framleiddur af David E. Kelley fyrir NBC sjónvarpsstöðina. Síðan í maí 2011 þá tilkynnti NBC sjónvarpsstöðin að hún myndi ekki taka Wonder Woman til sýninga tímabilið 2011-2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Palicki var í kvikmyndinni "Getting Rachel Back" frá 2003. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Popstar, Women in Trouble, Red Dawn og. Tenglar. Palicki, Adrianne Vinir vors og blóma. Vinir vors og blóma er íslensk hljómsveit sem byrjaði árið 1993. Það var ákveðið á fyrsta degi að Vinir Vors & blóma væri saman komin til að skemmta öðrum númer eitt og tvö og númer þrjú, ásamt hljómsveitarmeðlimum sjálfum. Því var þessi skilgreining "Píkupopp" eitthvað sem hópurinn gekkst við frá degi eitt. Hljómsveitin Vinir Vors og blóma var stofnuð í Stykkishólmi 6. Febrúar 1993. Sveitin er í rótina Busarnir, en í kjölfarið á því ágæta bernskubreki voru drengnir inn í bandið Birgir Nielsen trommuleikari og Gunnar Þór Eggertsson gítarleikari, úr soul-hljómsveitinni Testemony. Þeir tveir ásamt Þorsteini Gunnari Ólafssyni söngvara, Siggeiri Péturssyni bassaleikara og Njáli Þórðarsyni hljómborðsleikara mynduðu Vini Vors & blóma og starfaði bandið í þeirri mynd til 30 september 1996, þegar VV&b hættu formlega. Yfir þennan stutta tíma voru gefnar út 3 breiðskífur eftir að landað var þriggja platna samningi við Skífuna, sem þótti meiriháttar díll á þeim tíma. Útgáfan gaf út þrjár plötur og greiddi fyrir þær og bandið fékk ekki aur. En það skipti ekki máli, málið var að koma út tónlist sem hægt væri að nálgast og hlusta á. Fyrsta plata hljómsveitarinnar kom út á þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní 1994 og bar það látlausa nafn “ÆÐI”. Platan mokseldist, enda var um einskonar safnplötu að ræða. Þarna voru lögin Gott í kroppinn, Maður með mönnum, Frjáls, Æði, Læt þau dreyma og Bál svo einhver séu nefnd. Öll þessi lög rötuðu í mikla útvarpsspilun sem gerði þessa fyrstu útgáfu svona vinsæla. Önnur plata sveitarinnar var gerð í svolitlum skýjaborgum, þ.e. eftir mikla velgengni var ákveðið að ráðast í stórvirki, Hótel Flúðir voru teknar á leigu, þangað komu útsetjararnir Golli og Sigurður Gröndal úr Loðinni Rottu/Pláhetunni, dregnir voru þjóðkunnir laga og textahöfundar að borðinu (t.a.m. Egill Ólafsson og Bubbi Morthens) og nú átti að gera tímamótaverk, þar sem átti að koma saman fagmannleiki fram í fingurgóma og píkupopp sem átti að gleðja landann upp úr sófum, það tókst ekki, sennilega þar sem þessi tvö atriði mynda kannski ekki samhljóm. Enn “Twisturinn” kom út í júníbyrjun 1995 og í raun og veru það eina sem þessi útgáfa skildi eftir sig af vinsældum var lagið “Losti”. Það kom þó ekki að sök, troðfullt var út úr dyrum þetta annað starfsár VV&b eins og árið áður. Þriðja plata VV&b kom út í júní (eins og hinar tvær)1996, þarna ákvað sveitin að gera “píkupopp-plötu” og var gengið svo langt í því að ná fram rétta andanum að það var ekki samið lag eða hljóðritað nema það væri sól á lofti (til að enginn sem kæmi að verkefninu fyndi fyrir vetrar-doða) einnig voru settir saman rýnihópar (ath þetta er árið 1996, svo markaðsdvergurinn hafði stigið inn með faglegum hætti:-), sem áttu að segja til um hvort þetta væri hresst og “Vina-legt" efni sem þarna væri á borðum. Afraksturinn var svo hljómplatan Plútó, sem gekk vonum framar og fékk frábærar viðtökur. “Ó, ljúfa líf” endurgerð negrasálmsins sem Flosi Ólafsson þýddi eftirminnilega varð meirháttar smellur, á eftir fylgdu lögin “Satúrnus” þar sem Kiddi Bigfoot rappaði á ensku í íslensku lagi, “Faus (eitt skot)”, “10.000 (þúsund feta klúbburinn)” og Dúndrið fengu öll frábærar viðtökur. Fyrstu ár VV&b voru sannkallað ævintýri, sérstaklega fyrir óreynda píkupoppara utan að landi (3 af 5), allt gerðist svo hratt. Lagið “Gott í kroppinn (fyrsta útg. 1993)” rataði á “Lagasafnið 3” safnplötubálkur sem gefin var út af studio Stöðin, eða Axel Einarssyni. Á þessum tíma (1993) vann Arnþór Örlygsson. eða Addi800 eins og hann er vanalega kallaður, í Stöðinni, og hópnum varð honum til vina og fyrir hans þrýsting setti Axel “Gott í kroppinn” á Lagasfnið 3. Á þessum tíma var meira en að segja það að fá útvarpsspilun, en það þýddi ekkert að gefast upp. Allir vinir og vandamenn voru hvattir til að biðja um “Gott í kroppinn” á Rás2, Stjörnunni FM 102.2 og Bylgjunni (sem þá var tiltölulega ný útvarpsstöð sem allt unga fólkið hlustaði á). Viti menn, lagið rataði beint í 21. sæti “Íslenska Listans” á Bylgjunni, og vinsældir lagsins jukust frá þeim tíma og Hansi Bjarna gerði lagið vinsælt á Stjörnunni. Stuttu síðar var VV&b að spila á “Hressó” þangað sem Jón Trausti þáverandi útgáfustjóri í Skífunni kom og vildi ræða við VV&b um plötusamning, mánuði eftir það var bandið byrjað að taka upp plötu (ÆÐI) og spila 3-4 daga í viku á sveita- og skólaböllum. Um Hvítasunnu 1994, var “Gott í kroppinn læf” hljóðritað. Lagið var orðið nokkuð vinsælt og hljómsveitin tók þá miklu áhættu að halda dansleik í Logalandi í Borgarfirði, Hvítasunnudag. Bandið stóð berfætt, á hörklæðum einum fata á Langasandi á Akranesi við myndatöku fyrir fyrstu plötuna. Að því búnu var tætt upp í Logaland, þar sem stóð til að halda alvöru Hvítasunnuball og taka upp “Gott í kroppinn” live. Það sem kom þessum drengjum mest á óvart var að, VV&b komust varla að húsinu, troðningurinn var byrjaður uppúr kvöldfréttum og óhætt að segja að mun færri hafi komist að en vildu. Miðasalan fór fram í Lancer bifreið af ’87 árgerð og ef vel hefði átt að vera þurfti heilsprautun á bílinn eftir þetta eina ball. Stemmingin endurspeglast svo í upptökunni úr Logalandi á “Gott í kroppinn” þar sem troðið varð út úr dyrum, þess má einnig geta að þessi dansleikur var allur hljóðritaður, svo þarna eru sannarlega geymdar gersemar sem gaman væri að gramsa í og setja á veraldarvefinn einn góðan veðurdag. Þetta markaði upphafið að sumrinu 1994 hjá VV&b, það var troðið út úr dyrum allsstaðar sem bandið hélt ball. Meira að segja í Þorlákshöfn varð ágangurinn svo mikill að einn ballgestanna sem ætlaði að smygla sér inn á ballið í gegnum glugga, áttaði sig ekki á því að hann kom bakkandi inn um glugga á sviðinu, fyrir allra augum. Brá svo ógurlega þegar hann sá hvar hann var, svo hann fór sjálfviljugur sömu leið út og stóð í rifnum fatalörfunum fyrir neðan gluggann skömmu síðar. Á þeim forsendum sem bandið var stofnað, þetta átti að vera sérstakt, upplifun, ekki þannig sérstakt að gagnrýnendur og poppspekúlantar myndu illa halda vatni og jafnvel þurfa aðstoð við, heldur eftirminnilega upplifun fyrir þann sem mætir, sér og heyrir. Viðkomandi varð að langa að koma aftur, tala um það og mæta með fleiri. En lykilatriðið var líka að VV&b yrðu að hafa gaman að þessu, annars væri betra heima setið en af stað farið. Lögin sem VV&b spiluðu voru mikið í syrpum og jafnvel bara stuttir bútar úr lögunum, þá þeir bútar sem allir kunnu og allir sungu með. Bil á milli laga var bannað, svo einfalt var það, því var þetta orðið þannig að fyrsta lagið hófst og svo kom óslitið prógramm til enda. Alltaf leikið í búningum af einhverju tagi, grímubúningum, lúðrasveitabúningum, skota-pilsum, Hör-fötum og fleira. Skreytingar á sviði og meira að segja var einusinni gengið svo langt að óska eftir gömlum sjónvörpum í smáauglýsingum DV, til að myndskreyta sviðið. Það var klippt saman 4 tíma myndbrot á VHS spólu, klippur með blikki og lit-effectum úr gamalli SegaMega drive leikjatölvu ásamt frægum video atriðum, svo var eitt videotæki tengt í öll sjónvörpin (sem fylltu lestar hljómsveitarrútunnar sumum til mikilla ama), allt þetta til að aðgreina VV&b frá öðrum böndum á markaðnum. Í mars 1995, léku VV&b á 28 böllum af 31 degi í mars, sem dæmi um geggjunina sem var í gangi. Þessi hópur lék í óbreyttri mynd til loka september 1996 og var svolítið táknrænt að síðasta ballið var í Logalandi, einmitt þar sem má segja að þetta allt hafi byrjað. En sumarið 2004 kom fyrirspurn um að leika á Hótelinu í Stykkishólmi í tilefni Danskra daga. Hópnum var hóað saman á símafund og niðurstaðan var að þetta yrði eingöngu gert á þeim forsendum sem upphaflega voru gerðar fyrir VV&b og að original hópurinn mundi taka þetta eina “come-back”. En þar sem Steini söngvari er búsettur í Luxemburg og hafði ekki tök á að taka þátt að þessu sinni, voru góð ráð dýr. Hvað með Bergsvein Arilíusson, sagði einn? Þetta var rætt í þaula, og ákvörðun tekin um að vanda vel til verka og taka “general prufu” föstudag á NASA við Austurvöll, og svo laugardaginn á Dönskum dögum í Stykkishólmi. Æfingar hófust og hópurinn small svo saman. Troðfullt á NASA, troðfullt á Dönskum dögum og það var ekki hægt annað en að spila nokkur böll til viðbótar með Bergsveini. VV&b spiluðu þónokkuð 2004, enn meira 2005 og 2006. Það sem er fyndið við þetta er að í dag er bandið búið að starfa lengur í “come-back-inu” en það gerði frá 1993 til 1996. Og VV&b eru ennþá að. Ennþá eru skilyrði, það verða allir að komast, má ekki vera of oft og hljómsveitin verður að hafa gaman að þessu, annars er ekki hægt að vera heiðarlegur. Páll Pétursson Beyer. Páll Pétursson Beyer (d. 1717) var norskur maður sem var umboðsmaður og síðan landfógeti á Íslandi snemma á 18. öld og gegndi jafnframt embætti amtmanns þótt ekki bæri hann þann titil. Ætt hans er ókunn en hann kom hingað sem þénari eða smásveinn Christians Müllers amtmanns árið 1688 og var í þjónustu hans um tíma en varð síðan undirkaupmaður í Grundarfirði og Stykkishólmi í nokkur ár. Þegar Jens Jörgensen var bolað úr umboðsmannsstarfinu árið 1702 var Páll Beyer settur í hans stað og starfaði sem landfógeti næstu ár. Árið 1706 sigldi hann til Kaupmannahafnar með jarðabókina og kom aftur vorið eftir og hafði þá fengið landfógetaembættið. Sama sumar yfirgaf Müller amtmaður landið fyrir fullt og allt þótt hann héldi embættti sínu áfram og sinnti Páll einnig störfum amtmanns og stiftamtmanns næsta árið. Oddur Sigurðsson lögmaður fékk þó fljótt umboð stiftamtmanns en Páll gegndi amtmannsembættinu í umboði Müllers. Skiptu þeir Oddur landinu í raun á milli sín, þannig að Oddur réði öllu norðan lands og vestan en Páll sunnan og austan. Næstu níu árin voru þeir valdamestu menn landsins og var það enginn friðsemdartími því báðir voru drykkfelldir og róstusamir uppivöðsluseggir. Í veislu á Alþingi 1708 flugust þeir á í illu og er sagt að nærri hafi legið að þeir stórsköðuðu hvor annan. Séra Jón Halldórsson í Hítardal segir í "Hirðstjóraannál": „Var honum mannlega háttað í mörgu við ekkjur og fátæklinga og aðra, sem fyrir því urðu, þá hann var gáður. Enginn spekingur var hann haldinn og hneigður mjög til drykkjuskapar, og með honum óviti og ofstopasamur, hvert er truflaði hans reikninga, sem mjög voru óklárir eftir hann, mörgum til mæðu og skaða, og kölluðu sumir hans heppni, að hann var frá, áður en til reikninganna kæmi.“ Hér vísar séra Jón til þess að Páll var kallaður utan 1717 þar sem hann hafði ekki staðið skil á afgjöldum af landinu í nokkur ár. Var Kornelíus Wulf sendur til að gegna landfógetaembættinu á meðan Páll væri erlendis að ganga frá sínum málum. Kona Páls og börn sigldu burt með kaupskipi en sjálfur fór hann með herskipi um haustið, veiktist undan Noregsströndum og dó í Stafangri. Pwd. pwd (enska "print working d'"irectory": „prenta þá möppu sem verið er að vinna í“) er skipun í UNIX-legum stýrikerfum sem birtir slóðina að núverandi vinnumöppu. Hún er innbyggð í nokkrum UNIX-skeljum eins og sh og bash og Forritunarmálið C hefur POSIX-föllin getcwd() og getwd() sem gera sama gagn. Richard Speight Jr.. Richard Speight Jr. (fæddur 4. september 1970) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "Band of Brothers", "The Agency", "Jericho" og Supernatural. Einkalíf. Richard er fæddur og uppalinn í Nashville í Tennessee. Hann stundaði nám við University of Southern California School of Theater. Ferill. Fyrsta hlutverk Speight var í sjónvarpsmyndinni "Love Leads the Way: A True Story" frá árinu 1984 og hefur síðan þá komið fram í nokkrum kvikmyndun en er aðallega þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpi. Fyrsta stóra gestahlutverk hans í sjónvarpi var árið 1989 í "Freddy's Nightmares" og hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: "Running the Halls", "ER", "Yes Dear", "Life" og "Alias". Speight var árið 2001 ráðinn til þess að leika Sgt. Warren „Skip“ Muck í sjónvarps míniseríunni "Band of Brothers" sem var framleidd af Steven Spielberg og Tom Hanks. Síðan hefur hann leikið aukahlutverk í sjónvarpsþáttum á borð við "The Agency" sem tölvuhakkarinn Lex, sem Bill í "Jericho" og sem Trickster (erkiengilinn Gabríel) í Supernatural Hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Speed 2: Cruise Control", "Independence Day", "Thank You for Smoking" og "The Last Big Attraction". Tenglar. Speight Jr.,Richard Gróðrarstöðin á Akureyri. Gróðrarstöðin á Akureyri við Eyjafjarðarbraut var stofnuð árið 1903 (aðrar heimildir segja 1904). Hún var stofnsett af Ræktunarfélagi Norðurlands. Skógræktarfélag Eyfirðinga. Skógræktarfélag Eyfirðinga var stofnað 11. maí 1930 en stofnheiti þess var Skógræktarfélag Íslands. Stofnendum þess var ekki kunnugt að stuttu síðar yrði það félag stofnað á Þingvöllum sama sumar, en eftir það breyttu þeir um nafn og tóku upp núverandi heiti félagsins. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Jón Rögnvaldsson, sem var á stofnfundi kjörinn formaður félagsins og gegndi því starfi fyrstu 12 árin. Lystigarður Akureyrar. Lystigarður Akureyrar er skrúðgarður sem stofnaður var árið 1912 að frumkvæði danskrar konu að nafni Anna Katharine Schiöth, og síðan stjórnað af tengdadóttur hennar, Margret Schiöth. Árið 1972 voru í grasagarði Lystigarðsins samtals um 2511 tegundir og afbrigði, þar af 442 íslenskar tegundir og slæðingar. Gúargúmmí. Gúargúmmí er malað duft úr gúarbaunum. Gúarbaunir eru aðallega ræktaðar í Indlandi og Pakistan bæði til fóðurs og manneldis. Yfir 80% af gúar á heimsmarkaði kemur frá Indlandi. Evrópusambandið bannaði árið 2007 innflutning á gúar frá Indlandi vegna gruns um díoxín mengun. Gúar er notað í olíuiðnaði. Þegar gúar er blandað með borax eða kalsíum þá verður það að geli. Gúargúmmí er hentugt þykkingarefni því það hefur næstum átta sinnum meiri þykkingarmöguleika en kornsterkja og það þarf því lítið magn af efninu. Gúargúmmi er mikið notað í matvælaframleiðslu meðal annars sem íbætiefni í deig, til að þykkja mjólk og jógúrt, í kefir og fljótandi ostafurðir og í ísgerð, sem bindiefni í kjötvinnslu, í ýmsar sósur og súpur. Gúargúmmi er notað í textíl- og pappírsiðnaði, í sprengiefnagerð (sem vatnsþéttiefni), í lyfjaiðnaði sem bindiefni í töflum og sem aðalinnihald í hægðalyfjum, í snyrtivöruiðnaði meðal annars sem þykkingarefni í tannkremi og sem hárnæring, við olíu- og gasboranir og í námum, við ræktun og við læknismeðferð til að þykkja vökva. Árni Einarsson Dalskeggur. Árni Einarsson Dalskeggur (d. 1434) var eyfirskur höfðingi á 15. öld sem er þekktastur fyrir það að hafa verið einn af foringjum liðsins sem fór að Jóni Gerrekssyni biskupi í Skálholti 1433 og drekkti honum í Brúará. Árni var líklega fæddur um 1385. Hann var sonur Einars Bjarnasonar á Eyvindarstöðum í Sölvadal en móðir hans hét Vigdís. Hann bjó í Stóradal í Djúpadal í Eyjafirði og er oft aðeins kallaður Dalskeggur eða Árni Dalskeggur í heimildum og stundum sagður Magnússon eða Markússon en fullvíst er að hann var Einarsson. Hann var einn helsti höfðingi Eyfirðinga og reið með Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum og Teiti Gunnlaugssyni í Bjarnanesi suður fjöll skömmu fyrir Þorláksmessu á sumri, 20. júlí 1433. Þá vissu þeir að biskup mundi vera heima því Þorláksmessa var mikill hátíðisdagur í Skálholti og margt fólk samankomið. Þeir komu að Skálholti að kvöldi 19. júlí og tjölduðu þar ásamt öðrum gestum en þegar messan stóð sem hæst daginn eftir gengu þeir í kirkju með fimmtíu vopnaða menn. Sagt er að Dalskeggur hafi gengið fremstur og sagt: Nú er mikið um dýrðir. Síðan tóku þeir biskup og drógu hann úr kirkjunni en drápu þá sveina hans sem í náðist. Biskup var svo settur í poka og honum drekkt í Brúará. Þeir virðast enga refsingu hafa fengið þótt þeir hefðu drepið sjálfan biskupinn og saurgað dómkirkjuna með blóði sveinanna. Árni kemur við ýmis fornbréf en fátt er þó um hann vitað. Hann var líklega tvígiftur. Á meðal barna hans var Einar, faðir Eyjólfs Einarssonar lögmanns. Hann dó ári eftir Skálholtsförina. Duft. Duft eða púður er þurrt kornkennt efni sem samanstendur af mörgum lítlum kornum sem ekki loða saman. Kornin renna laus hvert frá öðru þegar duftið er hrist. Dæmi um duft eru m.a. mjöl, kaffiduft, mjólkurduft, snyrtivörur, byssupúður, sykur, duftkenndur snjór, ryk, aska, prentduft og margs konar lyf. Eagles. Eagles er bandarísk rokkhljómsveit. Hún var stofnuð í Los Angeles árið 1971 af Glenn Fey, Don Henley, Bernie Leadon og Randy Meisner. Þeir hafa unnið Grammy-verðlaunin sex sinnum. Hljómsveitin er í 75. sæti yfir bestu hljómsveitir allra tíma að mati Rolling Stone og á breiðskífu í 37. sæti yfir bestu breiðskífur allra tíma. Þeir eiga jafnframt mest seldu plötu í Bandaríkjunum, Their Greatest Hits 1971-1975. Þeir hættu í júlí 1980, en tóku aftur saman árið 1994 fyrir breiðskífuna "Hell Freezes over". Þeir hafa verið meira eða minna á tónleikaferðalagi síðan þá og komust inn í Rock and Roll Hall of Fame árið 1998. Árið 2007 gáfu þeir út "Long Road out of Eden", fyrstu breiðskífu sína í 28 ár. Anna Vigfúsdóttir á Stóru-Borg. Anna Vigfúsdóttir (d. um 1571), þekktust sem Anna á Stóru-Borg eða Anna frá Stóruborg, var íslensk hefðarkona á 16. öld. Hún er kunn fyrir ástamál sín og samband við Hjalta Magnússon. Um þau skrifaði Jón Trausti þekkta skáldsögu. Ættir. Anna var af einhverjum mestu höfðingjaættum Íslands. Faðir hennar var Vigfús Erlendsson lögmaður og hirðstjóri á Hlíðarenda í Fljótshlíð en Loftur ríki Guttormsson var langafi hans. Móðir hennar var Guðrún, laundóttir Páls Jónssonar sýslumanns á Skarði og því náskyld Birni Guðnasyni í Ögri og fleiri höfðingjum. Bróðir Önnu var Páll Vigfússon lögmaður. Guðríður systir hennar giftist Sæmundi ríka Eiríkssyni á Ási í Holtum, einum ríkasta höfðingja Sunnlendinga, og Kristín varð fylgikona séra Magnúsar á Grenjaðarstað, sonar Jóns biskups Arasonar. Kynni Önnu og Hjalta. Anna, sem sögð er hafa verið stórlát og mikil fyrir sér, reisti aftur á móti bú á Stóru-Borg (Stóruborg) undir Eyjafjöllum, sem hún hafði erft ásamt fleiri eignum eftir föður sinn þegar hann lést 1521, og bjó þar ein stórbúi. Sagt er að margir auðmenn hafi beðið hennar en hún hryggbrotið þá alla. Hjalti Magnússon var af fátæku fólki kominn og er sagt að hann hafi verið smalapiltur á Stóru-Borg. Samkvæmt sögnum kom hann einu sinni kaldur og blautur heim með féð þegar vinnumenn voru að slætti en þeir mönuðu hann þá til að sýna karlmennsku og fara þannig á sig kominn upp í rúm húsfreyjunnar og hétu honum verðlaunum ef hann gerði það. Hann hélt þá heim og sagði Önnu frá öllu saman en hún bauð honum upp í til sín og lét svo kalla á vinnumennina til að sýna þeim og heimtaði að þeir greiddu Hjalta launin. En Hjalti gisti rekkju henar þaðan í frá og varð Anna fljótlega barnshafandi og eignaðist fjölda barna með Hjalta, enda var hann auknefndur Barna-Hjalti. Í skáldsögu sinni lætur Jón Trausti Hjalta vera fimmtán ára ungling en Önnu um þrítugt þegar samband þeirra hefst en ekkert í heimildum bendir til þess að aldursmunur þeirra hafi verið mikill. Stríðið við Pál lögmann. Páll lögmaður, bróðir Önnu, var siðavandur maður og reyndi mikið að vanda um fyrir systur sinni og stía þeim Hjalta í sundur og þegar það tókst ekki reyndi hann að handtaka Hjalta til að taka hann af lífi. Hjalti er sagður hafa verið hraustleikamaður og vel íþróttum búinn, enda veitti ekki af til að sleppa undan krumlu sjálfs lögmannsins. Anna faldi hann fyrst í Skiphellum skammt frá Stóru-Borg og fór hann þangað hvenær sem hætta var talin á komu lögmanns en einu sinni kom Páll óvænt og er þá sagt að Anna hafi falið Hjalta í fatakistu sinni. Að lokum þótti Önnu Skiphellar ekki duga sem felustaður og fékk hún með aðstoð sveitunga sinna bóndann í Fit undir Eyjafjöllum til að fela Hjalta í Fitjarhelli, sem nú heitir Paradísarhellir, og er sagt að hann hafi dvalið þar árum saman en hefur þó án efa oft verið á Stóru-Borg hjá Önnu og börnum þeirra, þegar óhætt þótti. Sættir. Hjalti var fræknleikamaður og sagt er að hann hafi einu sinni bjargað Páli lögmanni þegar hann féll af hesti sínum í Markarfljót í vexti en hlaupið síðan burtu eins og fætur toguðu, áður en lögmaður áttaði sig á hver þar var á ferð. Eftir það er sagt að hugur Páls hafi mildast og einnig er sagt að Anna hafi sent stálpaða syni sína til Páls til að biðja hann að taka þau Hjalta í sátt. Svo mikið er víst að á endanum fór svo að hann sá til þess að þau gátu gengið í hjónaband gegn því að greiða sektir fyrir barneignir sínar, en þau áttu þá átta börn. Ekki er víst hvenær þetta var en það hefur örugglega verið nokkru fyrir lögleiðingu Stóradóms 1568. Anna og Hjalti bjuggu síðar í Teigi í Fljótshlíð; þau voru bæði enn á lífi 1570 en Anna var dáin fyrir 1572. Páll lögmaður dó barnlaus árið 1569 og börn tveggja systra hans, Guðríðar og Önnu, erfðu eignir hans. Árni Gíslason sýslumaður á Hlíðarenda var giftur einkadóttur Guðríðar og véfengdi hann arfsrétt barna Hjalta og Önnu en í dómi á Alþingi 1571 kemur fram að þar sem Páll hafði viðurkennt hjónaband þeirra og sektir þeirra höfðu verið greiddar að fullu skyldu börnin vera arfgeng samkvæmt eldri lögum, sem þau hefðu ekki verið samkvæmt Stóradómi. Miklar ættir eru komnar frá börnum Önnu og Hjalta en þekktastur þeirra var Magnús Hjaltason, lögréttumaður í Teigi, sem oft er getið í dómum og heimildum frá síðasta fjórðungi 16. aldar og fram til 1609. Skáldsaga Jóns Trausta. Árið 1914 sendi rithöfundurinn Jón Trausti frá sér skáldsöguna "Anna frá Stóruborg", sem byggð er á heimildum og sögnum um ævi Önnu og Hjalta, ástir þeirra og átök við Pál lögmann. St. Gallen. St. Gallen er sjöunda stærsta borgin í Sviss og er höfuðborg samnefndrar kantónu. St. Gallen var áður fyrr undir yfirráðum klaustursins þar í borg, en áhrif þess náðu víða um norðanverða Sviss. Klausturríkið var ekki afnumið fyrr en 1796 er Frakkar stofnuðu helvetíska lýðveldið og var St. Gallen innlimað í lýðveldið. Klaustrið og klausturbókasafnið eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega. Borgin St. Gallen er norðaustast í Sviss, rétt sunnan við Bodenvatn og rétt austan við landamærin að Austurríki. Næstu borgir eru Bregenz í Austurríki til austurs (20 km), Konstanz í Þýskalandi til norðvesturs (30 km) og Zürich til vesturs (um 50 km). Borgin liggur á tæplega 700 metra háu hæðardragi og er því ein hæsta borg Sviss. Orðsifjar. St. Gallen heitir eftir írska kristniboðanum og dýrlingum Gallusi sem boðaði kristni í héruðunum í kringum Bodenvatn á 7. öld e.Kr. Eftir dauða hans var stofnað klaustur sem ber nafn hans, St. Gallen (heilagur Gallus). Því ber borgin gjarnan gæluheitið Gallusarborgin ("Gallusstadt"). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svartur björn með gylltar klær, augabrýr og eyru. Varir, tungan og reðurinn eru rauð. Áberandi er gyllta hálsbandið, en það er til marks um helgisögu heilags Gallusar og björninn. Friðrik III konungur veitti borginni leyfi til að bera þetta skjaldarmerki árið 1475 fyrir aðstoð borgarbúa í Búrgúndastríðinu. Merkið hefur haldist sem skjaldarmerki borgarinnar æ síðan. Upphaf. Upphaf borgarinnar má rekja til heilags Gallusar, en hann var írskur kristniboði og hafði verið lærisveinn heilags Columban á Írlandi. Gallus kom til héraðsins sunnan við Bodenvatn í upphafi 7. aldar til að kristna germani. Þjóðsagan segir að hann hafi dottið í þyrnirunna og tekið það sem merki æðri máttarvalda að hér ætti hann að staðnæmast og setjast að. Önnur saga segir að hann hafi mætt skógarbirni sem ógnaði honum. En Gallus hafi setið við varðeld og notið skjóls af honum. Hann gaf birninum brauð og skipaði honum að hverfa á braut. Eftir það hafi björninn farið burt og sást aldrei til hans aftur. Árið 612 stofnaði Gallus einsetuheimili þar sem þessir atburðir áttu sér stað. Á þessum tíma var lítil byggð þar í grennd, enda allt skógi vaxið. En hann og nokkrir lærisveinar hafi ferðast um og kristnað germanska íbúa héraðsins. Gallus læknaði veikt fólk, þar á meðal dóttur hertogans af Sváfalandi. Gallus lést árið 640 að talið er (aðrir telja það hafi verið 620) og varð einsetuheimilið autt og yfirgefið. Greftrunarstaður hans varð að pílagrímsstað og sóttur heim af kristnu fólki. Árið 719 stofnaði germanski presturinn Otmar klaustur yfir gröf Gallusar og kallaði það St. Gallen (heilagur Gallus) honum til heiðurs. Hann sjálfur varð fyrsti ábótinn. Skömmu síðar var Benediktsreglan tekin upp í klaustrinu og hélst það svo allt til endaloka klaustursins árið 1805. Klaustrið liggur á Jakobsleiðinni til Santiago de Compostela á Spáni. Margir lærðir munkar og listamenn, sem flúðu að heiman sökum árása víkinga í strandhéruðum Vestur-Evrópu leituðu ásjár í klaustrinu. Ríkisborgin. Á 9. öld var klaustrið stækkað að mun og myndaðist þá einnig mikil byggð í kringum það. Klaustrið sjálft varð að miðstöð menntunar og lista. Mikið bókasafn myndaðist þar, sem opið var munkum og öðrum sem námu þar ýmis fræði. Árið 926 réðust Ungverjar á bæinn St. Gallen. Íbúar höfðu fengið aðvörun í tæka tíð og yfirgáfu bæinn. Bókasafnið og listaverk voru færð annað til geymslu. Þegar Ungverjar komu þar að var bærinn og klaustrið yfirgefið. Aðeins ein kona, hin trúaða mær Wiborada, óskaði að verða eftir og var hún drepin af Ungverjum. Hún var gerð að dýrlingi eftir það. Þegar Ungverjar hurfu, sneru íbúar og munkar til baka og byggðu staðinn upp að nýju. Árið 937 brann klaustið til kaldra kola. Munkarnir höfðu þá með naumindum tekist að bjarga bókasafninu og öðrum helgigripum og listaverkum. Klaustrið var endurreist og fékk bærinn nú einnig múra og virki til að geta varist óvinum. St. Gallen breyttist þar með í borg, en ekki er ljóst hvenær nákvæmlega bærinn fékk borgarréttindi í þýska ríkinu. Klaustrið átti víðtæk réttindi og var ábótinn samtímis ríkisfursti yfir stórt landsvæði, mjög til ama öðrum veraldlegum furstum í héruðunum í kring. Árið 947 kemur í fyrsta sinn fram hugtakið furstaábóti. 1180 varð St. Gallen að ríkisborg, þ.e. að hún var sett beint undir þýska konunginn eða keisarann. Fulltrúi konungs lenti oft upp á kant við furstaábótann. Næstu aldir einkenndu átök milli íbúa St. Gallen og furstaábótans. Ábótinn vildi auka völd sín, en íbúarnir losna undan yfirráðum hans. 1349 braust svarti dauðinn út í borginni og létust margir úr veikinni. gyðingum í borginni var kennd um þessa óárán og voru þeir í kjölfarið grimmilega ofsóttir. Sumir voru reknir í burtu, aðrir voru brenndir og drepnir. Eignir þeirra voru gerðar upptækar. Gyðingahatrið varð svo rótgróið í íbúunum að fyrsti trúarhópur gyðinga eftir þetta myndaðist ekki í St. Gallen fyrr en árið 1850. 1353 sótti Karl IV konungur borgina heim. Furstaábótinn notaði tækifærið og reyndi að kaupa sér frekari völd hjá honum og gaf konungi höfuðið á Otmar, stofnanda klaustursins og nokkrar líkamsleifar heilags Gallusar. Þetta flutti Karl konungur með sér til Prag, en líkamsleifar þessar týndust í óróa trúarbragðastríðanna næstu alda. Stríð. Í upphafi 15. aldar vildu íbúar héraðsins Appenzell losna undan yfirráðum furstaábótans í St. Gallen. Þeir urðu fyrir áhrifum af hinu nýstofnaða sambandsríki Sviss. Ábótinn vildi ekki sleppa tekjum úr þessu héraði og 1403 dró til orrustu er ábótinn safnaði liði og réðist inn í Appenzell. Borgin Herisau var lögð í rúst, en áður en herinn náði til borgarinnar Appenzell, var hann fyrir fyrirsát og gjörtapaði orrustu gegn bændaher héraðsins. Ábótinn sneri sér síðan til Friðriks IV hertogans af Austurríki. Hann sendi herlið, en það tapaði fyrir sameinuðum her bænda frá ýmsum borgum, þar á meðal borgurum St. Gallen. Appenzell leysti sig þannig frá yfirráðum ábótans og gerði bandalag við Sviss. Klaustrið missti mikil völd og við lá að það var lagt niður. Nýr ábóti, Ulrich Rösch, átti mestan þátt í að endurvekja yfirráð klaustursins, enda mikill atorkumaður. Þetta passaði alls ekki í kramið hjá borgarbúum St. Gallen. Til átaka kom milli borgarbúa og ábóta. Hinn síðarnefndi bað sambandsríkið Sviss um liðsauka, sem kom á vettvang með 8.000 manna lið og sátu í kjölfarið um borgina. Í borginni voru einungis 400 menn vopnum búnir, en liðsauki þeirra frá Appenzell mætti ekki. Fljótt gáfust borgarbúar upp gegn ofureflinu. Borgarstjórinn var brenndur á báli og ábótinn fékk aukin völd. Rætt var um að taka St. Gallen upp sem nýja kantónu í Sviss, en það var látið ógert í það sinnið. Siðaskiptin. St. Gallen árið 1642. Klaustursvæðið er neðst til vinstri, en nýja Karlshliðið sést þar fyrir framan trjágarðinn. 1526 urðu siðaskiptin í borginni að tilstuðlan borgarstjórana og húmanistans Joachim von Watt. Þremur árum seinna sendi borgin fulltrúa á ríkisþingið í Speyer, þar sem þeir mótmæltu yfirráðum Kaþólsku kirkjunnar og ákvörðun keisara að banna nýju trúna. Þegar mótmælendur sneru til baka voru borgarbúar allir staðráðnir að halda nýju trúnni. Þetta skapaði enn frekari vandamál, enda var furstaábótinn vitanlega kaþólskur. Mikillar misklíðar gætti milli klaustursins og borgarinnar. Þetta leystist ekki fyrr en ábótinn fékk að smíða nýtt borgarhlið fyrir sjálfan sig og kaþólikka. Hlið þetta fékk heitið Karlshliðið. Auk þess var reistur múrveggur í kringum klaustrið. Kaþólikkar og mótmælendur urðu því aðgreindir, en friðurinn hélst þó. Með tilkomu siðaskiptanna upphófst mikill blómatími í borginni með vefnaði. St. Gallen varð að einni mestu vefnaðarborg Mið-Evrópu og seldust afurðirnar allt til Parísar, Feneyja og Prag. 30 ára stríðið. 30 ára stríðið hófst 1618. Nú bar svo við að aðalmótherjar stríðsins voru kaþólikkar og mótmælendur. Borginni St. Gallen var því vandi á höndum, þar sem meirihluti borgarbúa voru mótmælendur, en innan klaustursins voru menn kaþólskir. Snemma ákváðu borgarbúar og ábóti að taka ekki þátt í stríðinu, heldur að taka saman höndum og varna því sameiginlega að St. Gallen yrði fyrir skakkaföllum. Því var unnið saman að því að treysta á varnarmúra borgarinnar. Sett voru matarlög sem skömmtuðu öllu fólki mat meðan stríðið geysaði, enda ríkti þá víða hungursneyð. Báðir aðilar buðu fram sameiginlegan her til að styrkja landamæri Sviss og nærliggjandi héraða, þar sem öryggi St. Gallen var betur tryggt ef engir herir kæmu inn í héraðið. Einu sinni, 1635, fékk franskur her þó að gista í borginni á leið til átakasvæða. 1646 hertók sænskur her undir forystu Gustav Wrangel borgina Bregenz við Bodenvatn. Bauð þá borgin St. Gallen upp á sameiginlegan her til að sitja um Bregenz til að hrekja Svía á brott, þrátt fyrir að Svíar væru mótmælendur. En ekki kom til átaka. Yfirmenn sænska hersins sóttu guðsþjónustur í St. Gallen og gáfu borginni hluta af herfangi sínu, áður en þeir hurfu á brott. Þegar samið var í stríðslok 1648 í friðarsamningunum í Vestfalíu, var Sviss opinberlega viðurkennt sjálfstætt ríki. Héraðið St. Gallen var einnig formlega leyst úr sambandi við þýska ríkið og varð sjálfstætt. Fram að tilkomu Frakka í lok 18. aldar var rólegt yfir borginni St. Gallen. Þó réðist 1712 her frá Zürich inn í klaustrið og rændi þaðan verðmætum og listmunum. Flestum þeirra var skilað, en ósætti hefur ríkt milli borganna sökum þessa allt til ársins 2006, þar sem Zürich hefur neitað að skila hinu fræga hnattlíkani ábótanna. Höfuðstaðurinn St. Gallen. 1798 hertóku Frakkar Sviss og stofnuðu helvetíska lýðveldið. Allt svæðið í eigu St. Gallen, ásamt héraðinu Appenzell, var innlimað í lýðveldinu. St. Gallen og Appenzell mynduðu saman kantónuna Säntis. Í fyrstu var borgin Appenzell höfuðborg kantónunnar, en aðeins nokkrum mánuðum seinna var höfuðstaðurinn færður til borgarinnar St. Gallen. Klaustrinu var lokað og munkarnir reknir burt. Furstaábótinn hafði áður flúið til Vínarborgar, með öllu góssi klaustursins. Fyrir St. Gallen markaði þetta endalok ábótaríkisins og upphafið að svissneskri borg. Strax árið 1803 endurskipulagði Napoleon þessa nýju kantónu. Kantónurnar Säntis og Linth voru sameinaðar og fengu heitið St. Gallen. Appenzell var leyst úr kantónunni og varð það að eigin kantónu. Þessi ráðstöfun hefur haldist allt fram á þennan dag. Eftir fyrri ósigur Napoleons 1814 lá við að hin nýja kantóna leystist í sundur, enda mynduðust eigin sjálfstæðishreyfingar í hverju héraði. Þessu tókst þó að afstýra, en enn sem komið er er kantónan sundurslitin og án meginkjarna. Nýrri tímar. Á 19. öld óx vefnaðariðnaðurinn enn. St. Gallen varð að einni mestu vefnaðarborg heims. Í upphafi 20. aldar voru 18% af útflutningsvörum Sviss vefnaðarvörur frá St. Gallen. Tugir þúsunda manna störfuðu í þessum atvinnuvegi og fjölgaði borgarbúum úr 11 þúsund árið 1850 í tæp 38 þúsund árið 1910. 1856 fékk borgin járnbrautartengingu og var þá hægt að koma afurðum fljótar og betur til kaupenda. En í kreppunni miklu á millistríðsárunum hrundi vefnaðariðnaðurinn algjörlega. Tugir þúsunda manna urðu atvinnulausir. Starfsfólk í vefnaði í St. Gallen fækkaði úr 30 þúsund niður í fimm þúsund. Þrettán þúsund manns yfirgaf borgina í leit að nýrri atvinnu. Eftirstríðsárin voru einkennandi fyrir flutning útlendinga til borgarinnar, aðallega Ítali og íbúar fyrrum Júgóslavíu. 27% borgarbúa í dag eru af erlendu bergi brotnir. Þar af eru Júgóslavar langfjölmennastir (33% allra útlendinga), en næstir koma Þjóðverjar og Ítalir. Íþróttir. Knattspyrnufélagið FC St. Gallen er elsta knattspyrnufélagið í Sviss, stofnað 1879. Það hefur tvisvar orðið svissneskur meistari, 1904 og 2000. Auk þess varð félagið bikarmeistari árið 1969 og deildarbikarmeistari 1978. Handboltafélagið TSV St. Otmar St. Gallen er eitt besta handboltafélag Sviss. Það hefur sjö sinnum orðið svissneskur meistari, síðast 2001, og er margfaldur bikarmeistari. Kvennaliðið LC Brühl er besta kvennaliðið í Sviss og hefur 26 sinnum orðið svissneskur meistari og sjö sinnum bikarmeistari. Viðburðir. Íslenska hljómsveitin Mezzoforte árið 2010 Byggingar og kennileiti. Klausturkirkjan er einkennisbygging borgarinnar St. Gallen Akra-Kristín Þorsteinsdóttir. Kristín Þorsteinsdóttir (d. 1490), jafnan nefnd Akra-Kristín og kennd við Stóru-Akra í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem hún bjó, var íslensk hefðarkona á 15. öld. Kristín var einkabarn þeirra Þorsteins Ólafssonar lögmanns á Ökrum og Sigríðar Björnsdóttur, en vottorð um brúðkaup þeirra í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi 16. september 1408 er síðasta ritaða heimildin um búsetu norrænna manna á Grænlandi. Hún erfði mikinn auð eftir foreldra sína. Fyrri maður Kristínar var Helgi Guðnason lögmaður. Hann dó árið 1440 og Kristín giftist þá Torfa Arasyni hirðstjóra. Torfi dó erlendis 1459 en Kristín bjó áfram á Ökrum eftir lát hans og varð háöldruð. Hún var nafntoguð á sinni tíð, enda ein auðugasta kona landsins og gift tveimur stórhöfðingjum. Börn Kristínar og Helga voru Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum og Þorsteinn bóndi á Reyni í Mýrdal. Með Torfa átti Kristín dæturnar Málmfríði, konu Finnboga Jónssonar Maríulausa lögmanns, og Guðrúnu fylgikonu Einars Benediktssonar ábóta á Munkaþverá. Öndverðareyri. Öndverðareyri, Hallbjarnareyri eða bara Eyri er eyðibýli í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, landnámsjörð og gamalt höfuðból. Bærinn stóð undir Eyrarfjalli og kallaðist hann og bæirnir umhverfis hann Eyrarpláss. Landnámsmaðurinn Vestar Þórólfsson, sonur Þórólfs blöðruskalla, nam Eyrarlönd og Kirkjufjörð og bjó á Öndverðareyri að sögn Landnámabókar. Ásgeir sonur hans bjó síðan á Eyri og svo afkomendur hans fram á 12. öld. Sonarsonur Ásgeirs var Steinþór Þorláksson á Eyri, ein helsta sögupersóna Eyrbyggja sögu. Tengdadóttir hans var Þuríður spaka, yngsta dóttir Snorra goða, sem bjó lengi á Eyri með manni sínum og dó þar árið 1112. Hún var einn helsti heimildarmaður Ara fróða sem sagði að hefði verið „margspök og óljúgfróð“. Jörðin komst síðar í eigu Sturlunga og Þórður Sturluson bjó þar um tíma og Sturla Þórðarson sagnaritari í fáein ár og síðan Böðvar bróðir hans um tíma. Staðurinn kom lítið við sögu næstu aldir en árið 1496 var Páll Jónsson, sýslumaður á Skarði, drepinn þar af Eiríki Halldórssyni. Þeir voru svarnir óvinir og höfðu átt í deilum. Páll var á ferð um sveitina og gisti á Öndverðareyri. Eiríkur frétti af því en hann var þá staddur á Helgafelli þar sem faðir hans, Halldór Ormsson, var ábóti. Fór hann þegar að Öndverðareyri með hóp manna og drap Pál. Þetta var talið níðingsverk og var Eiríkur dæmdur útlægur. Hann fór þá í pílagrímsferð til Rómar og dó í þeirri ferð. Kirkja var á Öndverðareyri í kaþólskum sið. Hallbjörn Jónsson varð prestur þar árið 1500 og í tíð hans var bærinn fluttur nær fjallinu og kallaðist eftir það Hallbjarnareyri en gamla bæjarstæðið hét Tóftir. Kirkjan var einnig flutt en hún var lögð af 1563. Frá árinu 1654 var starfræktur holdsveikraspítali á Hallbjarnareyri og gaf konungur jörðina til spítalahaldsins. Var spítalinn þar allt til 1848, þegar hann var formlega lagður niður, en sjúklingar voru alla tíð fáir, yfirleitt 4-5 og stundum færri. Þeir tveir sjúklingar sem voru á spítalanum voru þó um kyrrt og dó sá síðari 1863. Jörðin varð þá eign Læknasjóðs sem síðan rann inn í ríkissjóð. Búskapur hélt þó áfram þar en jörðin fór í eyði 1986. Grammy-verðlaunin. Grammy-verðlaunin (upphaflega "Gramophone awards") eru bandarísk verðlaun Recording Academy sem veitt eru framúrskarandi tónlistarmönnum. Verðlaunin eru samsvarandi Emmy-verðlaununum fyrir sjónvarpsefni og Óskarsverðlaununum fyrir kvikmyndir. Verðlaunin eru ásamt Billboard-tónlistarverðlaununum, American Music Award og Rock and Roll Hall of Fame fremstu tónlistarverðlaun Bandaríkjanna. Fyrsta Grammy-verðlaunahátíðin var haldin 4. maí 1959. Verðlaunin eru veitt fyrir tímabilið 1. október til 30. september. Thongsing Thammavong. Thongsing ThammavongThongsing Thammavong (skrifað á laosku: ທອງສິງ ທຳມະວົງ; fæddur 1944) er laoskur stjórnmálamaður og núverandi forsætisráðherra landsins.Hann hefur setið í miðstjórn Byltingarflokks laoskrar alþýðu frá 1991 og forseti þjóðþings Laos frá 2006 þar til að hann tók við embæti forsætisráðherra 23 desember 2010. Ofurmáni. Í stjörnufræði kallast ofurmáni þegar fullt eða nýtt tungl er næst jörðu. Fjarlægð tunglsins frá jörðu er breytileg eftir því hvar það er statt á sporöskjulagaðri braut sinni, er minnst um 363.000 km, kallað jarðnánd, og mest um 406.000 km, kallað jarðfirð, en að meðaltali er fjarlægðin um 384.000 km. Skilgreining. Árið 1979 skilgreindi stjörnuspekingurinn Richard Nolle ofurmána þannig: „...nýtt eða fullt tungl sem verður þegar tunglið er í eða nálægt (innan 90% frá) minnstu fjarlægð frá jörðu á braut sinni (í jarðnánd). Í stuttu máli: jörð, tungl og sól eru í beinni línu með tunglið í jarðnánd.“ — Orðalagið „innan 90% frá“ er óskýrt, en dæmi á vefsíðu Nolles sýnir að hann á við að tunglið sé innan lægsta tíunda hluta af fjarlægðarbili sínu. Áhrif sólar og tungls á flóð og fjöru eru mest þegar tungl er nýtt eða fullt og mun meiri þegar ofurmáni er þótt ekki muni þar miklu. Tengsl ofurmána við náttúruhamfarir. Margir trúa því að ofurmáni geti valdið ofsaveðrum, stórflóðum og fellibyljum jafnvel eldgosum. Til dæmis létust 71 í fellibyl í bænum Darwin í Ástralíu 1974 þegar ofurmáni var og eins var ofurmáni árið 1992 þegar fellibylurinn Andrew geisaði, en hann olli miklum usla í Flórída, þar sem yfir 200.000 manns misstu heimili sín af hans völdum. Engar sannanir liggja þó fyrir um að hægt sé að tengja ofurmána við hamfarir og tíðni þeirra þessa daga virðist ekki vera meiri en aðra daga. Þótt rannsóknir sýni smá fylgni milli smárra grunnra jarðskjálfta og hreyfingar tunglsins eru engar sannanir fyrir því að tunglið geti haft áhrif á stóra jarðskjálfta. Dagsetningar ofurmána 1950 – 2050. Ofurmáni er að jafnaði fjórum til sex sinnum á ári. Hér er listi yfir þá mestu milli áranna 1950 til 2050. Þeir almestu eru oftast á uþb. 19 ára fresti. Árni Gíslason (sýslumaður). Árni Gíslason (um 1520 – 4. júní 1587) var íslenskur sýslumaður á 16. öld og einn helsti valda- og auðmaður landsins á sinni tíð. Hann bjó lengi á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Árni var sonur Gísla Hákonarsonar lögréttumanns á Hafgrímsstöðum í Tungusveit í Skagafirði og konu hans Ingibjargar Grímsdóttur. Hann var sagður mikill fjáraflamaður, ágjarn, harðlyndur og óbilgjarn. Hann varð klausturhaldari Þingeyraklausturs 1559 og síðan sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og lenti þá í hörðum deilum við Eggert Hannesson út af Vatnsfjarðarmálum. Árni studdi þar erfðarétt Björns Þorleifssonar en Eggert hélt því fram að eignir Þorleifs Björnssonar hirðstjóra og konu hans hefðu átt að falla í hlut Björns Guðnasonar í Ögri, en Eggert var dóttursonur hans. Um þetta var þó gerð sætt á Alþingi 1560 eftir nokkurra ára deilur. Magnús Jónsson prúði fluttist úr Þingeyjarsýslu í Ögur 1564 og varð tengdasonur Eggerts. Var þess ekki langt að bíða að þessum tveimur ráðríku höfðingjum, Magnúsi og Árna, lenti saman. Árið 1567 segir Magnús að Árni hafi „með ofsvæsi riðið að sér um nótt“ þar sem hann var sofandi í tjaldi á Skutulsfjarðareyri og tveimur árum síðar lenti þeim og mönnum þeirra aftur saman í kaupstaðnum á Skutulsfjarðareyri og voru þeir þá drukknir og hnífar á lofti. Magnús stefndi Árna fyrir Alþingi 1570 með ítarlegri stefnu í þrettán liðum þar sem taldar eru upp ýmsar ávirðingar Árna, misalvarlegar. Ekki er þó að sjá að deilur þeirra hafi komið til dóms á Alþingi og er líklegt að einhverjir hafi gengist í að koma á sættum milli þeirra áður en til þess kom. Árni varð sýslumaður Rangæinga og fluttist að Hlíðarenda í Fljótshlíð eftir lát Páls Vigfússonar lögmanns 1669. Hann var giftur Guðrúnu Sæmundsdóttur, sem var einkadóttir Sæmundar ríka Eiríkssonar í Ási í Holtum og Guðríðar Vigfúsdóttur konu hans, systur Páls. Páll var barnlaus og erfðu börn systra hans, Guðríðar og Önnu á Stóru-Borg, eignir hans. Árni véfengdi erfðarétt barna Önnu þar sem þau væru óskilgetin en fyrir dómi var talið að arfleiðslan væri fullgild þar sem Páll hefði samþykkt giftingu Önnu og Hjalta Magnússonar og þau hefðu goldið allar sektir sem þeim bar að greiða. Þau Árni og Guðrún áttu fjölda barna, þar á meðal Gísla sýslumann á Hlíðarenda, Halldóru biskupsfrú á Hólum, konu Guðbrandar Þorlákssonar, Guðrúnu konu Jóns Björnssonar sýslumanns á Holtastöðum og Grund, Hákon sýslumann á Hóli í Bolungarvík, Dyrhólum, Klofa og loks á Reyni í Mýrdal, Ingibjörgu konu Gísla Þórðarsonar lögmanns og Sæmund sýslumann á Hóli í Bolungarvík. Inside Job. Inside Job er heimildamynd frá árinu 2010, sem fjallar um fjármálakreppuna 2007 – 2010. Charles H. Ferguson leikstýrði myndinni, sem hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu heimildamynd árið 2011. Kornelíus Wulf. Kornelíus Wulf eða Cornelius Wulff (d. 1734) var danskur embættismaður sem var landfógeti á Íslandi frá 1717-1727. Hann var upphaflega skipaður landfógeti til bráðabirgða 1717 og skyldi gegna starfinu á meðan Páll Beyer væri utanlands að ganga frá sínum málum en hann var stórskuldugur við konung. Kom Wulf til Íslands sumarið 1717 og tók við búi á Bessastöðum en þá hafði Beyer „rýrt og ruplað til sín hvað hann gat“ og skilið Bessastaði eftir í svo slæmu ástandi að Wulf þurfti um haustið að fá að láni fisk, smjör og aðrar vistir til vetrarins. Beyer dó á leiðinni til Danmerkur og tók Wulf því formlega við embættinu og tók til við að lagfæra ýmislegt sem farið hafið úrskeiðis í tíð Beyers. Wulf lagði mikla áherslu á að koma konungsjörðum á Suðurnesjum í gott ástand og lét færa inn í Alþingisbækur 1720 að hann byði „fjáðum og dugandismönnum í öllum héruðum landsins að taka til ábýlis þær, sem þá girnti, og honum þótti ei vel setnar, og lofaði þeim nokkur ár fríun frá manns láni og annarri aðstoð, svo að það lata og óduganlega fólk mætti útrýmast af Gullbringusýslu, sem þaðan hefði safnast.“ Wulf var á fimmtugsaldri þegar hann kom til landsins, ættsmár og félítill en auðgaðist ágætlega þótt hann stundaði hvorki kaupmennsku eins og sumir forverar hans eða kúgaði fé af almenningi. Hann þótti fremur sanngjarn og réttlátur, kröfuharður en forsjáll. Þeir Wulf og Niels Fuhrmann amtmaður bjuggu saman á Bessastöðum og var samkomulag þeirra stirt. Wulf dróst inn í málið sem spannst af láti Appollóníu Schwartzkopf, unnustu Fuhrmanns, því hún hafði sagt honum að sér væri byrlað eitur, og varð hann eitt helsta vitni ákærandans í málinu. Við það versnaði samkomulag þeirra embættismannanna enn. Sumarið 1727 fór Wulf utan með Stykkishólmsskipi og fékk svo lausn frá embætti en hélt þriðjungi launanna. Hann dó í Kaupmannahöfn 1734. Þorneðla. Þorneðlan (Spinosaurus) er ein grimmúðlegasta risaeðla sem nokkru sinni var uppi. Hún var einnig ein sú tilkomumesta. Eðlan gat náð 18 m lengd og var hugsanlega lengri og örugglega liprari en Grameðla (Tyrannosaurus Rex)og Jötuneðlan (Giganotosaurus) þótt hún væri léttari en þær tennur hennar voru litlar en beittar, sem getur þýtt að hún hefur borðað fisk. Þorneðlan hafði einnig auðkennandi segl á bakinu, formað af skinni og haldið uppi af beinðottum stöngum. Seglið var næstum tveggja metra hátt og var hugsanlega leið til að stjórna líkamshita eða til að laða maka á eðlunartíma. Kristján Luxdorf. Kristján Luxdorf eða Christian Luxdorph (d. 1751) var danskur embættismaður sem var landfógeti á Íslandi 1727-1739 og sat á Bessastöðum. Hann var af ætt sem kom frá Løgstrupgaard norðan við Viborg og kallaðist upphaflega Løgstrup en nafnið er skrifað á ýmsan hátt - Luxdorph, Luxdorf, Lucksdorff, Løxtrup, Løxtorph og Luxtrup. Hann var skipaður landfógeti á Íslandi 17. apríl 1727 og kom til landsins sama sumar. Hann sigldi til Kaupmannahafnar 1735 og fékk leyfi til að láta af embætti og halda þriðjungi launa með því skilyrði að hann útvegaði annan í sinn stað en tókst ekki að finna neinn sem var til í að sætta sig við að fá ekki full laun. Hann var þó í Kaupmannahöfn til 1739 en kom þá til Íslands til að kveðja og afhenda landfógetaembættið Kristjáni Drese, sem kom einnig til landsins um sumarið. Luxdorf var sagður frómur, spakur og hóglyndur og kom sér við alla vel. Hann efnaðist að sögn ágætlega á Íslandsdvölinni. Í "Hirðstjóraannál" segir að hann hafi verið ógiftur en hann hefur líklega verið ekkjumaður þegar hann kom til landsins. Hann átti eina dóttur, Dorethea Sofie, sem giftist Hans Marcussøn Buck, guðfræðingi og útfararstjóra við Maríukirkjuna á Helsingjaeyri. Sonarsonur þeirra var Nikolaj Buch, kaupmaður á Húsavík og síðar bóndi í Þingeyjarsýslu. Kristján Luxdorf dó á Helsingjaeyri 1751 og var jarðsettur 7. október. Kristján Drese. Kristján Drese eða Christian Drese var landfógeti á Íslandi um miðja 18. öld, eða 1739-1749, en var vikið úr embætti vegna drykkjuskapar og óreiðu. Drese tók við landfógetaembættinu af Kristjáni Luxdorf árið 1739. Hann er sagður hafa staðið sig þokkalega fyrst í stað en svo fór að bera á drykkjuskap og öðrum vandamálum, einkum eftir að Lafrentz amtmaður dó 1744. Drese tók þá við amtmansstarfinu um stundarsakir en reyndist óhæfur til þess og fórst það afar illa. Einnig var mikil bókhaldsóreiða hjá honum, hann gaf ekki kvittun fyrir gjöldum sem hann tók við eða neitaði að kannast við kvittanir. Johan K. Pingel kom til landsins árið 1745 og tók við amtmannsembætinu og fékk þegar að heyra margar misjafnar sögur af framferði Drese. Reyndi hann að áminna hann og tala um fyrir honum en Drese brást hinn versti við og ástandið var óbreytt. Þeir Drese og Pingel voru sambýlismenn á Bessastöðum og samkomulagið var vægast sagt stirt. Árið 1749 var þó komið í algjört óefni, Drese var stórskuldugur alls staðar og sjóðþurð í landskassanum en reikningar allir í ólestri. Setti amtmmaður hann þá úr embætti og setti sýslumanninn í Gullbringusýslu, Guðna Sigurðsson, landfógeta til bráðabirgða, en af Drese fer ekki frekari sögum. Sveinn Sölvason lögmaður segir í annál sínum að hann hafi verið „suspenderaður fyrir galinskap og annan ódugnað“. Guðni Sigurðsson. Guðni Sigurðsson (1714 – 6. janúar 1780) var sýslumaður í Gullbringusýslu á 18. öld og var settur landfógeti frá því í ágúst 1749 þar til Skúli Magnússon tók við embættinu 1750. Guðni var fæddur í Sandgerði, sonur Sigurðar Runólfssonar og Margrétar Andrésdóttur. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1733. Árið 1736 fór hann til náms við Kaupmannahafnarháskóla en var þar ekki nema árið og var settur sýslumaður í Gullbringusýslu haustið 1737. Alþingisskrifari varð hann 1743. Árið 1749 setti Pingel amtmaður Kristján Drese landfógeta frá embætti vegna drykkjuskapar og óreiðu og setti Guðna 6. ágúst það ár til að gegna landfógetaembættinu til bráðabirgða. Hann er þó ekki talinn fyrsti íslenski landfógetinn þar sem hann var ekki skipaður í starfið og gegndi því aðeins þar til Skúli Magnússon tók við. Hann sagði af sér sýslumannsembættinu í Gullbringusýslu snemma árs 1750 og fékk veitingu fyrir Kjósarsýslu en sagði henni af sér tveimur árum síðar þar sem hann hafði verið skyldaður til að setjast að í sýslunni en vildi ekki flytja frá jarðeignum sínum á Suðurnesjum. Eftir það var hann bóndi og smiður en hann smíðaði bæði hús og skip og þótti mikill hagleiksmaður. Guðni bjó fyrst í Sandgerði með föður sínum, síðan á Stafnesi en frá 1752 í Kirkjuvogi í Höfnum, þar sem hann smíðaði meðal annars vandaða kirkju. Kona Guðna var Auðbjörg Kortsdóttir (d. 1766) og áttu þau þrjár dætur. Meiðyrði. Meiðyrði er lögfræðilegt hugtak, sem á við meiðandi orð um einskling og er refsivert. Leyniskytta. Leyniskytta kallast sérþjálfaður hermaður, sem liggur fyrir óvinahermönnum og vegur þá úr launsátri. Skrofa. Skrofan er sjófugl af ættbálki pípunefja eða fýlinga og er náskyld fýlnum. Hún eyðir mestum hluta ævinnar á sjó en kemur eingöngu í land til að verpa. Skrofan er íslenskur varpfugl og verpir eingöngu í Vestmannaeyjum. Lýsing. Skrofan er 30-38 cm að lengd. Vænghafið er 76-89 cm. Skrofan er því sem næst svarthvítur fugl. Hún er nær alsvört að ofan. Nefið er einnig svart, sem og ystu blettir á neðri vængjum. Að neðan er fuglinn alhvítur. Litaskiptin milli svarts og hvíts eru mjög skýr. Fæturnir eru bleikir. Kynin eru eins. Fuglarnir skipta ekki um búning eftir árstíðum. Lifnaðarhættir. Skrofur eru miklir flug- og sundfuglar. Þær eyða meginþorra ævi sinnar á sjó og koma nær eingöngu í land til að verpa. Hreiðurstæðið er hola, rétt eins og hjá lundanum og sæsvölunum. Holurnar eru yfirleitt í bjargi, gjarnan á úteyjum. Eggið er aðeins eitt og er hvítt á litinn. Eftir um það bil tvo mánuði, þegar unginn er orðinn stálpaður, yfirgefa foreldrar hans hann og verður unginn þá að steypa sér fram af bjarginu og fljúga út á sjó. Fæða skrofunnar eru smáfiskar, krabbadýr og smokkfiskar. Skrofur eru góðir kafarar og nota vængina til sunds. Flug skrofunnar er líkt og hjá fýlnum. Fuglarnir svífa yfir öldutoppunum og láta vindinn bera sig áfram. Vængjablak er fremur lítið. Fuglarnir fljúga ekki beint áfram, heldur beygja þeir til sitthvorrar hliðar og hringsóla þannig yfir vatninu. Skrofur eru hópfuglar og sjást gjarnan í stórum hópum. Útbreiðsla. Skrofan verpir víða um norðanvert Atlantshafið. Stærstu varpstaðirnir eru á Bretlandseyjum og Írlandi (um 95% stofnsins) en aðrar kólóníur eru í Færeyjum, Bretaníuskaga í Frakklandi, Kanaríeyjum, Madeira, Asóreyjum og Nýfundnalandi. Á Íslandi verpir skrofan eingöngu í Vestmannaeyjum. Erfitt er að áætla stærð íslenska stofnsins en hér mun vera um einhver þúsund pör að ræða. Heimsstofninn er áætlaður um 350-390 þúsund pör. Skrofan er að hluta farfugl. Norðlægari fuglar fljúga þá suður eftir Atlantshafinu alla leið til strandsvæða Brasilíu og Argentínu. Orðsifjar. Heitið skrofa er trúlega komið af hljóði fuglsins en garg skrofunnar er sambland af miklum óhljóðum og ískri. Þýskumælandi sæfarendur hafa gjarnan nefnt tegundina djöflafugl ("Teufelsvogel") sökum hljóðanna. Latneska heitið "puffinus" er dregið af enska og franska orðinu "puffin", sem upphaflega merkti kafari. Enska heitið er "Manx Shearwater". Dýr (og fólk) frá eyjunni Mön í Írlandshafi eru kölluð Manx en skrofan verpir í litlum mæli við syðsta odda eyjarinnar. Bíldudalsvogur. Bíldudalsvogur er stuttur fjörður, sem gengur til vesturs inn úr Arnarfirði og er einn af Suðurfjörðum. Þorpið Bíldudalur liggur við Bíldudalsvog og er eina þéttbýlið í Arnarfirði. Fjörðurinn eru um einn og hálfur kílómeter á lengd og um 700 metrar á breidd. Trostansfjörður. Trostansfjörður er fremur stuttur fjörður, sem gengur til suðausturs inn úr Arnarfirði og er einn af Suðurfjörðum. Fjörðurin er sunnan við Geirþjófsfjörð og austan við Reykjafjörð. Samnefndur bóndabær í firðinum er nú í eyði. Það eru um fjórir kílómetrar frá Ófærunesi þar sem Trostansfjörður mætir Geirþjófsfirði inn í fjarðarbotn, og er fjörðurinn tveir og hálfur kílómeter á breidd. Austanmegin í firðinum er Norðdalur birki vaxinn en þar er einnig áberandi mikið af reyni. Trostansfjörður hefur ævinlega var nefndur "Trosnasfjörður" af seinni tíma Arnfirðingum og er nafnið sennilega af keltneskum uppruna. Chad Lindberg. Chad Lindberg (fæddur Chad Tyler Lindberg, 1. nóvember 1976) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "The Fast and the Furious", og Supernatural. Einkalíf. Lindberg er fæddur og uppalinn í Mount Vernon í Washington. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Lindberg var árið 1997 í ER. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við The X-Files, Vampírubaninn Buffy, Sons of Anarchy, Criminal Minds og NCIS. Lindberg var með stór gestahlutverk í sem Chad Willingham árið 2005 og sem Ash í Supernatural frá 2006-2010. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Lindberg var árið 1995 í Born to Be Wild. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við City of Angels, October Sky, The Rookie, The Last Samurai, Black Velvet og Alex Cross. Lindberg fékk góða dóma á Sundance kvikmyndahátíðinni fyrir hlutverk sitt sem Rory í kvikmyndinni "Black Circle Boys" frá árinu 1997. Árið 2001 lék hann í bílamyndinni The Fast and the Furious sem Jesse, þar sem hann lék á móti Vin Diesel, Paul Walker og Michelle Rodriguez. Tenglar. Lindberg, Chad Dynjandisvogur. Dynjandisvogur er stuttur fjörður, sem gengur inn úr Arnarfirði, norðan við fjörðinn er Borgarfjörður. Sunnan við er Langanes og handan þess Suðurfirðir. Fjörðurinn er um tveir kílómetra á lengd og um einn og hálfur á breidd. Fossinn Dynjandi fellur ofan af Dynjandisheiði í enda fjarðarins. Dynjandisá á upptök í smávörnum á Glámuhálendinu. Í firðinum stóð áður bær sem nefndur var Dynjandi en er nú í eyði. VfB Stuttgart. VfB Stuttgart er þýskt knattspyrnulið. Winnipeg Falcons. Mynd af gullverðlaunahöfunum í Fálkunum 1920 (á myndinni er líka ókenndur starfsmaður skipsins og ónefnd kona) Winnipeg Falcons (eða Falcons) (á íslensku aðeins nefndir Fálkarnir) var ísknattleikslið Vestur-Íslendinga sem var stofnað árið 1908. Stofnendur voru bæði norðan- og sunnanmenn í Winnipeg. Lið Fálkanna fóru á Olympíuleikana í Antwerpen fyrir hönd Kanada árið 1920 og urðu olympíumeistarar það árið. Allir meðlimir í sigurliði Fálkana voru af íslenskum ættum nema einn, en sá hét „Huck“ Woodman, og var varamaður. Af Fálkunum í Olympíuliðinu þótti Frank Fredrickson einna bestur. Mikið var einnig látið af snilld Mike Goodmans. Liðið tvístraðist eftir sigurinn, þar eð sumum var boðið að spila í liðum í Bandaríkjunum. Meðlimir Fálkana olympíuárið. Ráðsmaður flokksins var Hebbie Axford, en þjálfari Fálkanna Guðmundur Sigurjónsson. Gunnhildur Hauksdóttir. Gunnhildur Hauksdóttir (f. Reykjavík 1972) er íslenskur myndlistarmaður. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og fékk þaðan BFA gráðu árið 2001. Þaðan lá leið hennar til Amsterdam í Hollandi en þar tók hún MFA gráðu sína í myndlist árið 2005. Hún hefur búið og starfað í Berlín, Þýskalandi en er nú búsett í Reykjavík og starfar þar að myndlist sinni. Listrænn ferill. Meðal nýlegra einkasýninga hennar eru "Gjöf til þín, yðar hátign" (Listasafn Así, IS 2011), "Audition" (Ace Art Inc CA 2008), en báðar þessar sýningar vann hún í samvinnu við Kristínu Ómarsdóttur rithöfund. Aðrar einkasýningar eru "Skepnan tignuð" (Listasafn Reykjavíkur IS 2008) og "Pelabörn" (Kling og Bang IS 2005). Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og vinnur jöfnum höndum í þrívíða miðla, myndband og hljóð, auk þess sem hún gerir gjörninga og blandar þessum miðlum saman í innsetningar sínar. Störf í þágu lista. Gunnhildur situr í stjórn Nýlistasafnsins og kennir við Listaháskóla Íslands, hún situr í listrænni stjórn Sequences listahátíðarinnar 2011 og hefur umsjón með fyrirlestraröð á vegum hátíðarinar í samvinnu við Listaháskóla Íslands. Hún hefur skipulagt fyrirlestraröð þýska heimspekingsins Marcus Steinweg um samband myndlistar og heimspeki í samvinnu við Félag áhugamanna um heimspeki, Listfræðifélagið, Nýlistasafnið og Listaháskóla Íslands. Hún situr í nefndum, skipuleggur fyrirlestra, málþing, sýningar og gjörninga. Tjaldbúðin. Tjaldbúðin (eða Tjaldbúðarkirkjan) var ein kirkja Vestur-Íslendinga í Winnipeg. Hún var vígð þann 16. desember árið 1894 en byrjað var að reisa hana október sama ár. Kirkjan stóð á horninu á Sargent og Furby-götu. Tjaldbúðin var kirkja Tjaldbúðarsafnaðarins, en fyrsti prestur hennar var Hafsteinn Pétrsson. Þetta var krosskirkja með fjórum stöfnum og litlum turni upp úr miðjunni þar sem krossinn kemur saman. Utanmáls var kirkjan 52 fet á hvorn veg. Árið 1912 tók söfnurðinn þá ákvörðun að selja kirkjuna og reisa nýja. Sú nýja fékk sama nafn, en nefnist núna Fyrsta lúterska kirkjan og er stórt og vandað múrsteinshús. Hárblásari. Hárblásari er áhald til að þurrka hár, hvort sem er á mönnum eða gæludýrum. Oftast er hægt að velja um nokkrar stillingar þ.e.a.s. kaldan eða heitan blástur, og styrkleika á blæstrinum. Immanuel Velikovsky. Immanuel Velikovsky (Иммануил Великовский) (10. júní 1895 – 17. nóvember 1979) var rússneskur sálfræðingur og sálkönnuður og rithöfundur. Hann skrifaði bækur þar sem hann túlkar forna atburði. Á árunum 1921 til 1924 stýrði hann ásamt Alberts Einstein ritverkinu: „Scripta Universitatis atque Bibliothecae Hierosolymitarum“ en það ritverk varð síðar grunnurinn að Hebreska Háskólanum í Jerúsalem. Þrjár af bókum hans komu út á árunum 1950 til 1955. Þær eru "Heimar í árekstri" ("Worlds in Collision"), "Aldir í óreiðu" ("Ages in Chaos") og "Jörð í upplausn" ("Earth in Upheaval"). Í þessum þrem bókum gagnrýnir Velikovsky jafnvægiskenningu Lyells, sem segir að ekkert hafi raskað yfirborði jarðar í milljón ár annað en hægfara niðurbrot. Velikovsky telur að miklar hamfarir hafi riðið yfir jörðina vegna áhrifa utan úr geimnum og styður kenningar sínar með greiningu á frásögnum í ýmsum fornritum og trúar- og goðsögum, uppgötvunum í steingervingafræði og stjörnufræði. Velikovsky telur að margar goðsagnir mismunandi trúarbragða um eyðileggingu, flóð og annað slíkt séu lýsingar á raunverulegum atburðum til dæmis séu frásagnir um að sólin hafi staðið kyrr eða færst afturábak, vegna þess að um leið hafi yfirborð jarðar snúist um möttulinn vegna utanaðkomandi áhrifa. Árið 1939 fór Velikovsky til New York en hann var þá að vinna að bók um Ödípús og faraóinn Akhnaton og kanna hvort verið gæti að faraóinn væri goðsagnapersónan Ödípús. Freud hafði skrifað bókin Moses and Monotheism þar sem hann hélt því fram að Akhenaton væri uppspretta boðorðanna sem Móses kenndi fólki frá Ísrael í eyðimörkinni. Freud hélt þessu fram því psalm 104 í Biblíunni er líkur egýpsku ljóði í grafhýsi Akhenatons Ai í Akhetaten. Velikovsky leitaði í egypskum skjölum að efni sem styddu frásögnina af flóttanum úr Egyptalandi (Exodus). Eitt þeirra skjala var Ipuwer Papyrus sem talið var eldra en bíblíufrásögnin af Exodus. Velikovsky taldi að í Ipuwer Papyrus hefði hann fundið egypska samtímafrásögn af atburðum sem leiddu til flóttans frá Egyptalandi og báðir atburðir lýstu náttúruhamförum. Gunnar Salómonsson. Gunnar Salómonsson (oft nefndur Gunnar Úrsus) (15. júlí 1907 – 3. janúar 1960) var íslenskur aflraunamaður og sýningarmaður aflrauna á Íslandi og víða erlendis. Gunnar var fæddur að Laxárbakka í Miklaholtshreppi. Foreldrar hans voru Lárentsína Lárusdóttir Fjeldsted og Salómon Sigurðsson. Ársgamall missti Gunnar föður sinn og nokkru seinna varð móðir hans að láta hann frá sér í fóstur að Helgafelli í Helgafellssveit, og ólst hann upp með fósturforeldrum þar og síðar á Kóngsbakka í sömu sveit. Innan við tvítugt fór Gunnar að heiman og stundaði ýmis störf til lands og sjávar. Hann mun hafa stundað nám einn vetur við Hvítárbakkaskóla. Gunnar var búsettur í Reykjavík á árunum eftir 1930. Árið 1934 kom til Reykjavíkur þýskur aflraunamaður Jung Atlas, sem hafði hér sýrningar á þrautum sínum og heillaðist Gunnar mjög af afrekum hans og mun hafa hlotið hvatningu frá honum að reyna við aflþrautir. Árið 1936 fór Gunnar til Þýskalands í hópi íþróttamanna og kennara sem þá voru boðnir sem áhorfendur á ólympíuleika sem þá voru haldnir í Berlín. Eftir ólympíuleikina lá leið Gunnars til Kaupmannahafnar og þar réð hann sig til starfa hjá fjölleikaflokki og sýndi þrautir sínar með þeim í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku. Þar hófst hið eiginlega ævistarí Gunnars og að því hafði hann starfað í 23 ár er hann lést. Gunnar sýndi mest í Danmörku, en einnig í Noregi og Þýskalandi fyrir stríðið og gat sér orðstír fyrir þrautir sínar. Sagt er að fáir eða engir gætu leikið allar þrautir hans eftir honum. Eitt sinn tók Gunnar þátt í keppni aflraunamanna í Kaupmannhöfn og fór með sigur af hólmi. Á stríðsárunum 1939 – 1945 tók hann að sýna sjálfstætt og ferðaðist um alla Danmörku og viðar og eftir stríðið sýndi hann mest í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Gunnar átti sjö börn. Síðasta eiginkona hans var Elín Þórarinsdóttir. Ævisaga Elínar nefnist: "Allt önnur Ella" en hana skráði Ingólfur Margeirsson. Akhenaten. Akhenaten var faraó í Egyptalandi. Hann var fyrstu fimm ár sutján ára valdaferils síns þekktur undir nafninu Amenhotep IV. Hann ríkti í 17 ár og er talinn hafa látist árið 1336 f.Kr. eða 1334 f.Kr. Hann reyndi að koma á eingyðistrú í Egyptalandi. Eftir fjögur ár í valdastólik hóf hann að byggja nýja höfuðborg Egyptalands sem helguð var sólguðinum Aten. Eftir andlát hans tóku landsmenn upp fjölgyðistrú. Varðveist hefur óður til sólguðsins Aten frá þessum tíma. Akhenaten var gleymdur þar til grafhýsi hans fannst. DNA-rannsóknir frá 2010 sýna að Tutankhamun var sonur Akhenatens. Lýsislampi. Lýsislampi (grútarlampi eða grottarlampi) var lampi sem notaður var á Íslandi og hafði lýsi til ljósmetis og oftast þurrkaða fífu fyrir kveik. Lýsislampinn var tvöfaldur, meðan kolan var einföld, en hún var oft aðeins holaður steinn eða gerð úr lélegum málmi (þá stundum nefnd "lýsispanna"). Lýsislampinn var því eilítil framför frá kolunni, ljósmagnið öllu meira, og eins og segir í "Horfnum starfsháttum", eftir Guðmund Þorsteinsson frá Lundi: „Á síðustu öldum voru kolur orðnar tvöfaldar, kölluðust þá lampar og þóttu mestu þing og fyrirmyndarljósfæri“. Lýsislampar lögðust almennt niður á Íslandi á árunum 1870-1880 þegar olíulamparnir tóku við. Á 19. öld voru flestir lýsislampar úr kopar. Þeir voru dálítið í laginu eins bókstafurinn J á hlið og eins og Q að ofan séð og voru samansettir úr efri og neðri skál. Ljósmetið var í efri skálinni og sömuleiðis kveikurinn, sem lá í vörinni á lampanum. Ef kveikurinn dró upp úr efri skálinni meira lýsi en brann þá draup afangurinn niður í undirlampann. Þannig var hægt að nýta lýsið „aftur“. Langspil. Langspil er íslenskt strokhljóðfæri sem er aflangur viðarstokkur með 1–6 strengjum, festir við 1-3 skrúfur. Langspilið er haft á borði eða hnjám þegar menn leika á það, og var oft notað á efnaðari bæjunum á Íslandi til skemmtunar. Nýlistasafnið. Nýlistasafnið (eða Nýló) er safn og sýningarstaður fyrir samtímamyndlist. Safnið er til húsa við Skúlagötu 28 í Reykjavík í fyrrverandi húsnæði Kexverksmiðjunnar Frón. Nýló var stofnað árið 1978, upphaflega sem safn eingöngu. Stofnendur safnsins eru um tuttugu myndlistarmen er komu saman á vinnustofu Ólafs Lárussonar, eins af stofnendum. Þeir gerðu drög að skipulagsskrá sem safnið starfar enn eftir. Nýlistasafnið er félagasamtök, listamannarekið safn og sýningavettvangur fyrir tilraunir í myndlist. Sagan. Tilgangur með stofnun Nýlistasafnsins var fyrst og fremst að opna listheiminn á Íslandi fyrir nýjungum, með það að markmiði að gefa fleiri myndlistarmönnum kost á að vinna að list sinni hérlendis. Í fyrstu einsettu stofnendur sér að varðveita og safna myndlist sem varð til í kringum SÚM hópinn en árið 1981 var Gallerí Nýlistasafnsins stofnað og var það í upphafi rekið aðskilið frá söfnunarstarfseminni. Starfsemin varð þannig tvíþætt, með þeim markmiðum; að safna og varðveita samtímamyndlist annarsvegar og að þjóna sem sýningavettvangur framsækinnar myndlistar hinsvegar. Fyrsti formaður stjórnar var Níels Hafstein. Það varð fljótlega eitt lykilhlutverk Nýlistasafnsins að koma íslenskri samtímalist á framfæri erlendis og einnig að kynna það markverðasta í erlendri list fyrir landsmönnum.  Nýlistasafnið varð þannig snemma helsta miðstöð fyrir strauma og tilraunir í myndlist á Íslandi. Margar sýningar í Nýlistasafninu hafa markað tímamót í íslenskri myndlistarsögu og ljóst er að stofnun Nýlistasafnsins ýtti við opinberum söfnum og flýtti fyrir framþróun innan íslenska listheimsins. Í yfir þrjátíu ára sögu Nýlistasafnsins hefur starfsemi þess oft verið umdeild og sýningar og uppákomur hafa á tímum vakið sterk viðbrögð og deilur.  Ætla má að Nýlistasafnið hafi átt mikinn þátt í að opna augu almennings fyrir afstæðri fagurfræði samtímalistar og breyttum viðfangsefnum myndlistarmanna í samtímanum. Í þrjátíu ára sögu stofnunarinnar hafa yfir 2000 listamenn verið tengdir dagskrá safnsins. Öllum myndlistarmönnum er frjálst að sækja um sýningahald í Nýlistasafninu og eru umsóknir teknar fyrir á stjórnarfundum þess.  Skipulag sýningahalds er í höndum stjórnar safnsins sem mótar sýningastefnu hvers tímabils. Nýlistasafnið er styrkt af Íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg, auk einkaaðila. Rýmið. Upprunalega var Nýlistasafnið til húsa í bakhúsi við Vatnsstíg 3b þar sem SÚM hópurinn hafði aðsetur. Starfsemi safnsins var þar til húsa í 24 ár og gaf Alþýðubankinn safninu það húsnæði. Árið 1979 flutti safnið í framhúsið við Vatnstíg 3 en árið 2006 flutti safnið sig svo um set aftur og var til húsa við Laugaveg 26 þar til í lok árs 2009. Núverandi húsakynni Nýlistasafnsins eru að Skúlagötu 28 í Reykjavík. Byggingin hýsti áður kexverksmiðja Frón og telur alls 550 m2 með 4.5 m lofthæð. Öll safneign Nýló og sýningarými þess er þar til húsa. Er það í fyrsta skipti í sögu safnsins frá stofnun að öll starfsemin er undir einu þaki. Félag Nýlistasafnsins. Félag Nýlistasafnsins var stofnað þann 5. janúar 1978. Samkæmt skipulagsskrá sér félagið um rekstur og eignir Nýlistasafnsins. Allir áhugamenn um samtímamyndlist geta gerst félagar í Nýlistasafninu. Árið 2010 voru meðlimir alls 274 og fer félagsaðild vaxandi. Langflestir félagar eru starfandi íslenskir myndlistarmenn auk erlendra myndlistarmanna. Safneignin. Þegar Nýlistasafnið var stofnað var landslag í íslenskum myndlistarheimi einsleitt; opinberir styrkir runnu í þröngan farveg til málara og myndhöggvara sem unnu með hefðbundnari viðfangsefni listarinnar. Listasafn Íslands var eina safnið með markvissa söfnun á íslenskri myndlist en fyrsti formaður stjórnar Nýlistasafnsins, Níels Hafstein, orðaði það svo að á þeim tíma hafi í Listasafni Íslands “ekki verið áhugi fyrir öðru en náttúrustælingum, expressionisma og abstraktlist”.  Dagblöð fjölluðu í gagnrýnum tón um nýsköpun í listum og einn gagnrýnandi hélt því fram að nú væri komið að endalokunum listarinnar og sagði um sýningu í Nýlistasafninu:,Þetta er ekki list... þetta geta allir gert”. Stofnendur Nýlistasafnsins gerðu sér grein fyrir því að opinber listasaga mótast að mestu leyti út frá þeim verkum sem finna má í söfnum. Ákvörðun þeirra að stofna nýtt listasafn þjónaði þannig tvíþættu hlutverki: að forða eigin listaverkum frá glötun og varðveita verk sem annars hefðu glatast eftir áratugs löngu áhugleysi opinberra safna á verkum SÚM hópsins. Nýlistasafnið hefur áfram sinnt þessu hlutverki og fyllt í þau göt sem myndast enn þann dag í dag í safneignum opinberra safna.  Fyrstu 15 árin var söfnunin markviss og bæði innlendir og erlendir listamenn gáfu verk í safneignina.  Það er markmið núverandi stjórnar að hefja aftur skipulagða söfnun verka í safneign Nýlistasafnsins. Í safneign Nýlistasafnsins eru um 2.000 verk, meðal annars eftir:  Magnús Pálsson,  Níels Hafstein, Rúrí, Hrein Friðfinnsson, Hörð Ágústsson, Jón Gunnar Árnason, Kristján Guðmundsson, Magnús Tómasson, Rósku, Sigurð Guðmundsson, Halldór Ásgeirsson, Hannes Lárusson, Ívar Valgarðsson, Steingrím Eyfjörð, Eggert Pétursson, Guðjón Ketilsson, Brynhildi Þorgeirsdóttur, Ingólf Arnarsson, Finnboga Pétursson, Þór Vigfússon, Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur, Ragnar Kjartansson, Gjörningaklúbbinn, Helga Þórsson, Dieter Roth, Joseph Beuys, Richard Hamilton, Dorothy Iannone, Jan Voss, Douwe Jan Bakker, Robert Filliou, Peter Angerman, John Armleder, Jan Knap, Alan Johnston, Peter Mönning, Bengt Adlers, Franz Graf, Matthew Barney, Geoffrey Hendricks, Kees Visser og marga fleiri. Skjalasafnið. Árið 2008 var ráðist í það verkefni að flokka og skrá skjalasafn Nýlistasafnins í samstarfi við Borgarskjalasafnið og fékk verkefnið vinnuheitið: "Haldið til haga". Skjalasafn safnsins inniheldur pappíra sem tengjast safninu, sögu þess og sýningarhaldi. Þar er einnig að finna önnur skjöl sem tengjast íslenskri samtímalistasögu meðal annars frá SÚM hópnun, Gallerí Suðurgötu 7, Gallerí Lóu í Amsterdam og skjöl tengd ýmsum öðrum listamannareknum sýningarrýmum og verkefnum sem listamenn hafa átt frumkvæði að. Það er markmið skjalasafnsins að safna gögnum sem tengjast listamannarekinni starfsemi allt til dagsins í dag. Stór hluti skjalasafnsins var formlega afhentur Borgarskjalasafni þann 15. febrúar 2010, Heimildarsafn um listamannarekin rými. Frá því á sjöunda ártug hefur verið starfræktur mikill fjöldi listmannarekinna sýningarýma, rekin af íslenskum myndlistarmönnum, bæði innanlands og erlendis. Nýlistasafnið er elsta og þekktasta listamannarekna sýningarými á Íslandi.

Ein af skyldum safnsins, samkvæmt skipulagsskrá frá 1978, er að sinna almennum skyldum listasafns um söfnun, varðveislu, skráningu, skrif, upptökur og útgáfur er varða heildarsögu myndlistar á Íslandi frá 1960. Sem liður í því að sinna margþátta hlutverki sínu hefur Nýlistasafnið haldið til haga heimildasafni, þar sem er meðal annars að finna gögn um listamannarekin sýningarými. Árið 2008 var tekin ákvörðun um að koma á fót Arkífi um listamannarekin rými. Nýló hefur tekið saman lista yfir um eitt hundrað sýningarými um land allt og út fyrir landsteinana og sem hluta af þeirri heimildaröflun hefur safnið samband við þá aðila sem ráku rýmin og innkallar efni og heimildir eftir föngum. 

Markmiðið er að safna saman heimildum um listamannarekin sýningarými. Upprunalegum heimildum, boðskortum, plakötum, listum yfir þá sem sýndu í rýmunum og blaðaúrklippum. Ennfremur að taka viðtöl við þá aðila sem ráku rýmin og safna saman munnlegum heimildum um ferlið. Og að lokum að gera heimildirnar aðgengilegar fyrir aðila sem vinna að rannsóknum á íslenskri myndlist og menningarlandslagi Langtímamarkmið verkefnisins er að Nýlistasafnið verði safn heimilda um listamannarekin sýningarými og taki til frambúðar við öllu því efni sem tengist þeirri sögu, haldi því til haga, skrái og varðveiti. Heimildarsafn um gjörninga. Vinna við söfnun á heimildum á gjörningaverkum hófst í byrjun árs 2008 og stendur enn yfir. Afrakstur söfnunarinnar fyrri part árs 2008 var sýnd á Listahátíð og var af því tilefni prentað veglegt upplýsinga-dreifirit með texta og myndum um verkefnið.
Í Safneign Nýlistasafnsins var upphaflega að finna heimildir af 20 gjörningaverkum frá 1978 – 1981. Nú þegar hafa 46 gjörningar eða heilmildir um gjörninga bæst við í safnið.
Söfnun heimilda fer fram í nánu samstarfi við viðkomandi listamenn, sem hafa unnið með gjörningaformið í listsköpun sinni. Fjölmargir listamenn þjóðarinnar hafa fengist við gjörningaformið og þónokkrir gert hann að sínu helsta miðli. Markmiðið verkefnsins er að varðveita heimildir um gjörninga og gjörningatengd verk og að Nýlistasafnið verði grunn-varðveislusafn á gjörningaverkum. Í þessum tilgangi átti Nýlistasafnið frumkvæði að samstarfi við Ríkisútvarpið þar sem listamenn eru beðnir að seigja og lýsa völdum gjörningum. Ríkisútvarpið tekur þessar frásagnir upp á band og útvarpar en upptökurnar verða hluti af heimildasafni Nýlistasafnsins um gjörningalistir. Útgáfa. Nýlistasafnið hefur í gegnum tíðina gefið út fjölda bóka um listamenn og einstaka sýningar í samvinnu við ýmsa aðila, t.a.m. Mál og Menningu, Útúrdúr bókaútgáfu og Skaftfell Menningarmiðstöð svo eitthvað sé nefnt. Árið 2008 gaf safnið út bókina "Nýlistasafnið 1978-2008." Tilefni útgáfunnar var að fagna 30 ára afmæli safnsins, sem var 5. janúar 2008. Tilgangurinn með ritinu er að ná utan um sýningasögu safnsins og vera heimild um merka stofnun í myndlist samtímans. Með þessari útgáfu er skjala- og gagnasafn safnsins opnað og þannig er áhugasömum gefin innsýn í hvernig safnið hefur kynnt sig og starfsemi sína í gegnum tíðina. Í ritinu er að finna grunnupplýsingar um starfsemi og hlutverk safnsins og miðast uppsetning þess fyrst og fremst við að auðvelt sé að leita upplýsinga og hafa ánægju af um leið. Ritið er gagnlegt uppflettirit fyrir alla þá hafa áhuga á samtímamyndlist, menningar- og safnafræði. Ritstjóri er Tinna Guðmundsdóttir og hönnuður bókarinnar er Ármann Agnarsson Myndhöggvarafélagið. Myndhöggvarafélagið í Reykjavík er félagasamtök myndlistamanna við Nýlendugötu 15 í Reykjavík. Félagið var stofnað árið 1972. Það veitir félagsmönnum aðstöðu til að vinna að myndlist sinni í húsnæði félagsins. Í húsinu eru einnig tólf vinnustofur til útleigu. Undanfari (1967-1971). Myndhöggvarafélagið í Reykjavík hefur síðastu áratugina verið mjög virkt og telur nú í kringum 130 félagsmenn. Strax í upphafi var stefnt að því að koma upp sameiginlegri vinnuaðstöðu fyrir félagsmenn og standa að öflugu sýningarstarfi. Félagið hefur allt frá byrjun sameinað mjög breiðan hóp listamanna, unga jafnt sem eldri og þá sem vinna í hefðbundna miðla ekki síður en hina sem fara ótroðnar slóðir. Stofnun Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík á sér aðdraganda í óformlegum útisýningum sem haldnar voru á Skólavörðuholti árin 1967 til 1972, en þær sýningar spönnuðu mikla umbreytingatíma í íslenskri myndlist. Ýmsir komu að þessum sýningum, bæði eldri listamenn og þeir yngri en til dæmis má nefna að á sýningunni 1969 sýndu bæði Magnús Á. Árnason sem fæddur var árið 1894 og Benóný Ægisson, fæddur 1952. Þar var líka að sjá mjög ólíka listamenn saman, Dieter Roth, Ragnar Kjartansson, Sigurjón Ólafsson, Jón Gunnar Árnason, Þorbjörgu Pálsdóttur og Kristján Guðmundsson, svo nokkrir séu nefndir. Fyrsta útisýningin var haldin að hausti 1967 á vegum Skólafélags Myndlistarskólans í Reykjavík, en þar fór fram á kvöldnámskeiðum kennsla í höggmyndalist. Aðalumsjón með sýningunni höfðu þeir Ragnar Kjartansson, sem kenndi við skólann, og Jón Gunnar Árnason, en auk þeirra var Jón B. Jónasson í sýningarnefnd. Alls sýndu þar sautján listamenn. Geir Hallgrímsson borgarstjóri var fenginn til að vera viðstaddur opnunina og sagðist vera ánægður með það hvernig til hefði tekist. Mikið var fjallað um sýninguna í blöðum og margt skrafað í bænum. Fjölmargir lögðu leið sína á holtið til að skoða sýninguna og segir Bragi Ásgeirsson í gagnrýni í Morgunblaðinu að ávallt hafi verið hópur manna kringum verkin. Ekki voru þó allir sáttir við þetta framtak því mörg verkin voru nýstárleg og á mörkum þess sem almenningi þótti viðeigandi að kalla list – voru jafnvel hneykslanleg að því er sumum þótti. Þrándur í Götu, nafnlaus pistlahöfundur Vísis skrifaði: „Það er engin furða, að fólk sé yfirleitt hissa. Það getur verið gaman að svona sýningu einu sinni í ‚gamni‘ en það má engin lifandi sála gera svona í alvöru, þá fer maður að halda að aðstandendur sýningarinnar séu skrýtnir.“ Fleiri tóku til máls á þessum nótum og meðal annars voru ummæli Árelíusar Níelssonar birt í Morgunblaðinu: „Er íslenzk höggmyndalist að komast í sama bylgjudalinn og knattspyrnan? Það mætti halda, að svo væri, þegar litið er á útisýningu unga listafólksins við Ásmundarsal. Hvílík fádæmi!“ Gagnrýnendur lofuðu þó framtakið og þann kraft sem í því birtist, jafnvel þeir sem ekki virtust eiga gott með að ráða í verkin. Gretar Fells skrifaði gagnrýni um sýninguna í Alþýðublaðið í þessum anda, hann hrósar framtakinu en segir: „Margt er þar furðulegt að sjá og erfitt að átta sig á, hvað eigi að tákna..." Bragi Ásgeirsson mun einn hafa skrifað um sýninguna án þess að kippa sér upp við inntak eða framsetningu verkanna. Hann fann hins vegar að uppsetningu þeirra og þótti ekki hafa verið nægilega vandað til, enda fór svo að eitt verkið, Flugdreki eftir Sverri Haraldsson, fauk burt og fleiri verk skemmdust. Þá gjöreyðilögðu skemmdarvargar verk Ragnars Kjartanssonar, Klyfjahestana. Í kjölfar sýningarinnar ákváðu borgaryfirvöld að styrkja tvo myndhöggvara, þá Hallstein Sigurðsson og Jón Gunnar Árnason, og var litið á styrkina sem greiðslu upp í verk sem þeir afhentu borginni seinna. Það er óhætt að segja að þessi fyrsta útisýning á Skólavörðuholtinu hafi markað nokkur tímamót í myndlistarlífinu í Reykjavík og var til marks um þann anda sem ríkti í myndlistinni á þessum tíma. SÚM hafði nýlega verið stofnað utan um starfsemi ungra listamanna sem hneigðust að fluxus og ýmiss konar nýlist, en Jón Gunnar Árnason var þar einna fremstur í flokki líkt og við skipulagningu útisýningarinnar. Það sem líklega var þó einna sérstæðast við útisýninguna var að þar tóku höndum saman yngri listamenn og eldri, þeir sem stunduðu hefðbundna höggmyndalist, fígúratífa eða afstrakt, og hinir sem unnu í anda nýlista. Þessi breiða samstaða hélst meðan útisýningarnar voru haldnar og eftir að Myndhöggvarafélagið í Reykjavík var stofnað, og hefur alla tíð einkennt starfsemi þess. Málaralistin hafði verið nær allsráðandi í íslensku myndlistarlífi frá upphafi tuttugustu aldarinnar. Nokkrir merkir myndhöggvarar höfðu þó komið upp, meðal annarra Einar Jónsson og síðar þau Ásmundur Sveinsson, Sigurjón Ólafsson, Jóhann Eyfells og Gerður Helgadóttir. En þótt þau ynnu mikið og nytu virðingar voru þau greinilega undantekning frá reglunni sem ávallt var málverkið. Lítil endurnýjun var meðal myndhöggvara enda lítil áhersla lögð á höggmyndalist í listnámi hér. Það var síðan upp úr miðjum sjöunda áratugnum að yngri listamenn fóru að leita eftir öðrum tjáningarleiðum en málverkinu og horfðu þá einkum til þeirra fersku strauma sem þá voru farnir að berast til Íslands frá meginlandinu og frá Bandaríkjunum. Fólk var farið að búa til listaverk úr bókstaflega hverju sem var og enginn hlutur var svo ómerkilegur að ekki mætti nýta hann í verk ef hugmyndin að því væri góð. Þetta var frelsandi uppgötvun því nú var hugarflugið ekki lengur bundið af hefð, reglum og samanburði við verk fortíðarinnar og eldri listamanna en í henni fólst einnig mikil ögrun við hið borgaralega samfélag samtímans þar sem allt skyldi vera fágað og slétt og í föstum skorðum, bæði líf fólks og listin. Mikilvægi þessarar ögrunar og uppbrotsins sem því fylgdi má hægast ráða af viðbrögðunum við fyrstu útisýningunni á Skólavörðuholti þar sem íslenskur almenningur stóð í fyrsta sinn frammi fyrir hinni nýju list og var hneykslaður og heillaður í senn af uppátækinu. Útisýningar voru haldnar næstu tvö ár og árið 1970 var sýningin orðin liður í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, og svo var einnig árið 1972. Sýningarnar vöktu athygli og urðu fastur liður í menningarlífinu. Fólk hætti að mestu að hneykslast á verkunum og friður var um sýningarnar þótt sum verkin þættu undarleg. Eitt þeirra sem mjög var rætt um á sýningunni 1970 var verkið Vörðubrot eftir Kristján Guðmundsson en það var hlaðið úr brauði. Verkið var hins vegar fjarlægt af heilbrigðisyfirvöldum þegar brauðin fóru að mygla. Stofnun félagsins. Sumarið 1972 var loks tekin sú ákvörðun að stofna formlegt félag myndhöggvara, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, og var það gert á afmælisdegi Ragnars Kjartanssonar, 17. ágúst. Fyrsti formaður félagsins var Magnús Á. Árnason, Ragnar Kjartansson var ritari og Sigfús Thorarensen tannlæknir var gjaldkeri. Aðrir stofnfélagar voru Þorbjörg Pálsdóttir, Hallsteinn Sigurðsson, Sigrún Guðmundsdóttir, Magnús Tómasson, Jón Gunnar Árnason, Sigurður Steinsson, Jón B. Jónasson, Jón Benediktsson, Guðmundur Benediktsson, Snorri Sveinn Friðriksson og Björgvin Sigurgeir Haraldsson. Eitt brýnasta verkefni félagsins var að finna hentuga aðstöðu og sumarið 1973 leitaði félagið til Reykjavíkurborgar um að fá á leigu húsnæði á Korpúlfsstöðum þar sem myndhöggvarar gætu unnið að verkefnum sínum. Þessari málaleitan var vel tekið og fékk félagið leigusamning til tuttugu ára og „ódýrustu leigu, sem um getur í Íslandssögunni", eins og Ragnar Kjartansson komst að orði í sýningarskrá árið 1974 – leigan var ein króna á ári. En húsnæði þetta var þó illa farið og óhentugt, súrheysturnar og gryfjur, auk tveggja íbúða austast í húsinu sem höfðu skemmst illa í eldi. Þarna var hvorki rafmagn né hiti, engri einangrun var fyrir að fara og húsið allt óþétt, en félagsmenn töldu þó að framfaraspor hefði verið stigið. Þremur árum seinna, árið 1976, tókst svo að skipta á súrheysgeymslunum og hlöðulofti sem lá að íbúðunum tveimur svo hægt var að opna á milli. Þá fengust líka styrkir frá ríki og borg til að gera húsnæðið nothæft og voru reistir veggir, þakið einangrað og lagt í salina rafmagn og hiti. Aðstaðan var formlega opnuð á Listahátíð 1980 og sagði Ragnar Kjartansson þá í blaðaviðtali að þetta væri stærsta og besta vinnustofa fyrir myndhöggvara á öllum Norðurlöndum. Vinna við húsnæðið hélt þó áfram og smátt og smátt var aukið við plássið svo að árið 1988 höfðu félagsmenn til afnota um 1000 fermetra á Korpúlfsstöðum. Þar var þá stór vinnusalur, fjórar vinnustofur sem leigðar voru út, fundaraðstaða og gestaíbúð. Aðstöðumálin hafa alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfi Myndhöggvarafélagsins. Meðlimir lögðu fram mikla vinnu við að koma húsnæðinu á Korpúlfsstöðum í lag og nutu við það góðs samstarfs við borgaryfirvöld allt þar til árið 1989 að farið var að endurskoða hlutverk Korpúlfsstaða, en að því verður komið síðar. Árið 1974 var útisýning á Listahátíð í fyrsta sinn haldin á vegum hins nýstofnaða Myndhöggvarafélags og var hún þá sett upp í Austurstræti í stað Skólavörðuholtsins. Þar með var sýningin komin í hjarta bæjarins og þetta var reynt aftur á Listahátíð 1976. Þá sýndu fimmtán listamenn í Austurstræti og vakti sýningin mikla athygli, en fljótlega fór að bera á skemmdarverkum og vandræðum með verkin. Verk Vignis Jóhannssonar, sex metra hátt járnvirki, hvarf um hábjartan dag og spannst af því nokkurt blaðamál, enda þótti þetta með ólíkindum bíræfinn þjófnaður. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að starfsmenn borgarinnar höfðu fjarlægt verkið þótt ekki fengist skýring á því hvers vegna það var gert. Þá voru skemmdir unnar á átta verkum og eitt verkanna datt ofan á fót á barni sem meiddist nokkuð mikið svo fara þurfti með það á sjúkrahús. Allt þetta gerðist þrátt fyrir að miðbæjarlögreglan segðist hafa verið með gæslu á sýningunni dag og nótt. Árið 1976 hafði fjölgað nokkuð í félaginu og tók þá einn hinna yngri félagsmanna, Níels Hafstein, við formannsstarfinu. Fyrir næstu Listahátíð, 1978, var ákveðið að flytja sýningu Myndhöggvarafélagsins inn í hús. Varð Ásmundarsalur fyrir valinu og sýndu þar tólf félagsmenn en auk þeirra voru á sýningunni verk eftir Sigurjón Ólafsson. „Þessi sýning, eins og flestar sýningar okkar, einkennist öðru fremur af mikilli breidd í vali verka," sagði Ragnar Kjartansson og bætti því við að sýningin væri nú haldin innan dyra vegna skemmdarverkanna sem unnin höfðu verið á sýningunum í Austurstræti. „Með því að halda innisýningu teljum við okkur hafa snúið á skemmdarvargana sem á undanförnum útisýningum hafa herjað á höggmyndir okkar." Á Þessum árum unnu félagsmenn mikið starf við að endurbæta húsnæðið á Korpúlfsstöðum og gera það nothæft en þó var jafnframt því unnið að sýningum og í júlí 1979 hófst sýning Myndhöggvarafélagsins á Kjarvalsstöðum sem liður í dagskránni „Sumar á Kjarvalsstöðum“. Þar voru sýnd verk eftir sextán myndhöggvara og mátti vel sjá hve mikil breidd var í félagsskapnum, sumir sýndu hefðbundin natúralísk verk, aðrir afstraktmyndir og enn aðrir það sem nú væri líklega kallað innsetningar. Við opnun sýningarinnar flutti Rúrí gjörning. Þetta sýndi ekki aðeins þá fjölbreytni sem var í listsköpun heldur var líka til vitnis um hina umburðarlyndu stefnu félagsins, en Ragnar Kjartansson sagði einmitt í blaðaviðtali út af sýningunni að það væri „... eitt af markmiðum okkar í Myndhöggvarafélaginu að forðast allan meting um strauma í listum“. Árið eftir, í júní 1980, opnaði félagið loks sýningu í sínu eigin húsnæði á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum og voru þar verk eftir fimmtán félagsmenn og ellefu gesti. Sigurjón Pétursson, forseti borgarstjórnar, setti sýninguna og margt var á opnuninni enda veður gott og fólk forvitið að skoða aðstöðuna. Sýningin sjálf fékk þó misjafna dóma og skrifaði Valtýr Pétursson í Morgunblaðið að „hún hefði getað verið miklu betri og hún verður að verða miklu betri næst, þegar ýtt verður úr vör“. Hrafnhildur Schram skrifaði um sýninguna í Vísi og segir nokkurn flaustursbrag á henni þótt hún lofi framtakið og óski myndhöggvurum til hamingju með nýju aðstöðuna. En þetta sama sumar var hins vegar sett upp önnur sýning við Korpúlfsstaði, viðamikil útisýning sem fékk yfirskriftina Experimental Environment 1980 og var unnin með styrk frá Menningarsjóði Norðurlanda og menntamálaráðuneytinu. Þar sýndu íslenskir listamenn, margir þeirra meðlimir í Myndhöggvarafélaginu, með listamönnum frá hinum Norðurlandaþjóðunum og teygði sýningin sig um stórt svæði, allt neðan úr fjöru og upp á Úlfarsfellið. Verkin voru af ýmsum toga og þóttu flest nýstárleg, umhverfislistaverk, gjörningar, kvikmyndasýningar og landskúlptúrar. Var þessi sýning bæði frískleg og kröftug og áhorfendur jafnt sem listamennirnir sjálfir nutu þess frjálsræðis sem fólst í því að sýna verkin úti í náttúrunni. Í grein um sýninguna vitnar Bragi Ásgeirsson í einn þátttakendanna sem hafði einfaldlega sagt: „Nú er gaman að vera listamaður á Íslandi!“ 1981-1987. Jón Gunnar Árnason tók við formannsstarfinu af Níels Hafstein árið 1981 og sinnti því til 1983 að Helgi Gíslason varð formaður. Árið 1985 urðu aftur formannsskipti og var þá Steinunn Þórarinsdóttir kjörin. Á þessum árum var hljótt um félagið ef miðað er við það mikla sýningarhald sem það hafði staðið fyrir árin á undan. Mikið átak hafði verið unnið við að koma upp aðstöðu og nú unnu félagar þar og réðu ráðum sínum. Næsta sýning minnti líka rækilega á félagið og það sem unnist hafði í starfinu. Sýning félagsins á Kjarvalsstöðum í apríl og maí 1985 var stór í sniðum og þar voru sýnd 47 verk eftir tuttugu listamenn, unnin í ýmsan efnivið, allt frá steini yfir í myndband. „Við ætlum að sýna stöðuna eins og hún er í dag og kveða endanlega niður þann orðróm að íslensk höggmyndalist sé að líða undir lok,“ sagði Ragnar Kjartansson og bætti við: „Sýningarnar fram til þessa hjá okkur hafa verið mjög frjálsar og engin dómnefnd hefur verið hjá okkur til að velja og hafna verkum. En nú má hins vegar segja að við séum komnir með spariandlitið, vonandi. Sérstök sýningarnefnd hefur valið öll verkin á þessa sýningu.“ Vissulega var sýningin mun samstæðari og betur framsett en áður, þrátt fyrir mikla fjölbreytni, auk þess sem sýningarskráin var vegleg. „Þetta er án efa veglegasta sýning félagsins til þessa,“ skrifaði Halldór Björn Runólfsson í dómi þar sem hann lofar verk félagsmanna mjög og lýkur á þessum orðum: „Ef heldur fram sem horfir, þá má búast við gullöld á sviði höggmyndalistar á komandi árum.“ Valtýr Pétursson tekur í sama streng í Morgunblaðinu og segir það „... sannarlega ánægjulegt að fjör skuli vera í þessari listgrein hér á landi“. Sýningin markaði vissulega eins konar tímamót í sýningarhaldi félagsins. Verkin voru ekki síður fjölbreytt en á fyrri sýningunum en öll framsetning og undirbúningur var með öðrum hætti. Í staðinn fyrir þann óformlega, nánast anarkíska blæ sem verið hafði á sýningum félagsins hafði sýningarnefndin nú leitast við að byggja upp sterka heild og fágaðra yfirbragð, án þess þó að draga úr slagkrafti verkanna. Kjarvalsstaðir voru stærsti og best búni sýningarsalur á landinu og nú höfðu félagsmenn sannað að list þeirra ætti ekki síður heima þar en verk annarra sem unnu eftir hefðbundnari leiðum. Jafnframt má líta á sýninguna sem sönnun þess að það starfsform sem félagarnir höfðu lagt upp með bæri árangur og væri til þess fallið að tengja saman og hvetja hugmyndaríka listamenn til dáða. Aðstaða. Myndhöggvarafélagið hefur sameiginlega aðstöðu á jarðhæð, þar er trésmíðaverkstæði, eldsmíði ofl. Auk þess leigir félagið út vinnustofur til félagsmanna sinna. Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir. Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir er íslensk myndlistarkona búsett í Reykjavík. Hún nam myndlist við fjöltæknideild Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.F.A gráðu árið 2002. Hún hélt utan til frekara náms við Akademie der Bildenden Kunste undir handleiðslu Franz Graf, þaðan sem hún útskrifaðist með M.F.A gráðu í janúar 2006. Níels Hafstein. Níels Hafstein (fæddur 1947 í Reykjavík) er íslenskur myndlistarmaður. Hann er einn af stofnendum Nýlistasafnsins og fyrsti formaður stjórnar þess árið 1978, hann gegndi einnig formennsku Myndhöggvarafélagsins á árunum 1975-1981 og stofnaði og rekur nú Safnasafnið á Svalbarðaströnd ásamt Magnhildi konu sinni. Hann Lauk námi frá skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1973. og var aðstoðarmaður Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara á árunum 1973-1979. Hann hefur setið í fjölda dómnefda og ritnefda, og hefur átt sæti í fulltrúaráði Listahátíðar og í Safnaráði og sinnt miklu starfi í þágu myndlistar á Íslandi. Myndlist. Níels Hafstein hefur haldið þónokkrar einkasýningar, flestar í Nýlistasafninu, hann hefur verið þátttakandi í 50 samsýningum á Íslandi, í Noregi, Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, á Ítalíu og í Bandaríkjunum. Verk eftir hann liggja í eigu Nýlistasafnsins, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Trondhjems Kunstforening í Noregi, Arkitektafélags Íslands og Safnasafnsins. Hann hefur einnig haft umsjón með 76 innlendum og erlendum sýningum, þar á meðal skiptisýningum til Hollands og Noregs fyrir Nýlistasafnið, hefur árlega umsjón með 10-12 sýningum fyrir Safnasafnið. Kom með Seríal-listina (reikningslega möguleika) inn í landið snemma á áttunda áratugnum ásamt Þór Vigfússyni. Var þriðji Íslendingurinn sem vann bókverk (artists books). Hefur gert á annað hundrað slíkra verka í röðum, var einna fyrstur listamanna til að setja upp heildstæða innsetningu (innstallation) á Íslandi. Hefur búið til verk undir áhrifum af alþýðulist, þar á meðal 11x2m útsaumað flauelsklæði. Önnur helstu verk eru myndaraðir um íslensku fjármörkin og tilfinningalíf sauðfjárins, goðfræðileg innsetning um svarta og gyllta hesta og verk í 222 hlutum þar sem ákveðinn formmöguleiki er tæmdur. Auk þess gjörningur um upphaf, jafnvægi og hrörnun sem fluttur var í Sonja Henie & Niels Onstad safninu í Ósló 1981. Ritstörf. Níels Hafstein hefur skrifað á annað hundrað greinar um nútímamyndlist og gagnrýni í Þjóðviljann, Lesbók Morgunblaðsins, Lystræningjann, Svart á hvítu, Tímarit M&M og sýningarskrár Nýlistasafnsins og Safnasafnsins. Skrifaði bókverkið 3001, myndskreytt af Helga Þorgils Friðjónssyni listmálara og hefur unnið töluvert af Bókverkum (Artist Books) svo eitthvað sé nefnt. Haukur Halldórsson. Haukur Halldórsson (f. 1937) er sjálfmenntaður íslenskur myndlistarmaður. Hann er meðlimur í Ásatrúarfélaginu og helstu viðfangsefni hans í myndlist eru Norræn goðafræði og norður-evrópsk goðafræði, keltnesk goðafræði, þjóðsögur og þjóðtrú. Hann notast við ýmsa mismunandi miðla: málar, teiknar og gerir þrívíð verk. Hann vinnur einnnig að handverki s.s. skartgripi. Æviágrip. Haukur byrjaði feril sinn sem auglýsingateiknari en fór fljótlega út í myndlist. Í fyrstunni teiknaði hann með kolum og varð þekktur fyrir teikningar sínar af tröllum. Fyrsta sýning hans var í Djúpinu - Gallerí Djúpið við Hafnarstræti árið 1978, en það var samsýning ásamt Einari Þorsteini Ásgeirssyni. Fyrsta einkasýning hans var árið 1980 í Gallerí Torg sem rekið var af Jóhanni G. Jóhannsyni. Hann hefur síðan sýnt og ferðast víða um Norðurlönd, Evrópu og Bandaríkin. Hann hefur einnig ferðast víða til að kynna sér listir og handverk m.a. til Kína. Í Bandaríkjunum kynntist hann Navajo Indjánum og aðferðum þeirra við að steypa úr sandi ("sand casting") sem hann hefur síðan nýtt sér í list sinni. Leyndarskjalasafn Vatikansins. Leyndarskjalasafn Vatíkansins (ítalska:" Archivio segreto Vaticano"; latína: "Archivum Secretum Apostolicum Vaticanum") er skjalasafn páfa. Safnið varð til í núverandi mynd árið 1612 en er mun eldra að stofni til. Aðeins fá 200 utanaðkomandi fræðimenn á ári leyfi til að stunda rannsóknir á safninu. Nafnið leyndarskjalasafn má einnig finna í Danmörku "(gehejmearkiv)" en það var skjalasafn konungs. HSH45-1004. Konni og Alfreð er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1959. Á henni flytja Konni og Alfreð Clausen tvö lög. Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. HSH45-1007. Leikum og syngjum er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1960. Á henni flytja Barnakór og hljómsveit tíu lög úr bókinni "50 fyrstu söngvar" undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslagið teiknaði Barbara Árnason. HSH45-1020. Lúdó sextett og Stefán er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1964. Á henni flytja Lúdó sextett og Stefán tvö lög. HSH45-1026. Gamanvísur er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1969. Á henni flytja Brynjólfur Jóhannesson og Jan Morávek þrjú lög. Össur hf. Össur hf er alþjóðlegt fyrirtæki í heilbrigðistækniðnaði. Fyrirtækið er framleiðandi á stoðtækjum og var stofnað árið 1971. Stofnandi þess er Össur Kristinsson. Höfuðstöðvar þess eru í Reykjavík en svæðiskrifstofur félagsins eru í Ameríku, Evrópu og Asíu. Fyrirtækið fékk viðurkenningu á Heimsviðskiptaráðstefnuninni í Davos fyrir að vera "Tæknilegur frumkvöðull". Samruni. Össur hefur yfirtekið 16 fyrirtæki sem öll fyrir utan Gibaud Group hafa verið innleidd í móðurfélagið. HSH45-1014. 79 af Stöðinni er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1963. Á henni flytur Elly Vilhjálms ásamt hljómsveitum Jóns Sigurðssonar og Jóns Páls tvö lög. Guðjón Ketilsson. Guðjón Ketilsson (f. 1956) er íslenskur myndlistarmaður. Guðjón hlaut Menningarverðlaun DV árið 2000 og Verðlaun Listasafns Einars Jónssonar árið 2001. Nám. Guðjón útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978 og fór þá í framhaldsnám við Nova Scotia College of Art and Design í Kanada þaðan sem hann lauk námi 1980. Myndlist. Guðjón vinnur að mestu að gerð teikninga og skúlptúra. Í verkum hans er mannslíkaminn í forgrunni, nærvera hans eða fjarvera. Hann hefur og unnið mikið með hversdagsleg tengsl okkar við líkamann, allt frá fötunum sem við klæðumst, hárgreiðslum og skófatnaði, sem breytist og aðlagast stærð, lögun, hitastigi og hreyfingum líkamans. Guðjón hefur einnig unnið talsvert með framlengingu á líkamanum, svo sem verkfæri og sögu verkfæra sem heimild um ástand mannsins. Ferill. Guðjón hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga, heima og erlendis, meðal annars á öllum Norðurlöndunum, Hollandi, Spáni, Bandaríkjunum og Ástralíu. Verk eftir Guðjón eru í eigu allra helstu safna landsins og víða í opinberum söfnum og einkasöfnum erlendis. Einnig hefur hann unnið á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum og verið valinn í fjölda samkeppna um útilistaverk. Útgáfa. Nýlega gaf bókaútgáfan Crymogea út veglega bók um feril Guðjóns Ketilssonar að tilhlutan Listasjóðs Dungal. Crymogea. Crymogea er bókaútgáfa sem stofnuð var árið 2007 af Snæbirni Arngrímssyni og Kristjáni B. Jónassyni, sem jafnframt er útgáfustjóri. Crymogea er til húsa á Barónsstíg 27 og gefur út bækur um ljósmyndun, myndlist og hönnun. Crymogea hefur gefið út bækur eftir ýmsa þekktustu ljósmyndara Íslendinga, svo sem Ragnar Axelsson, Pál Stefánsson og Vigfús Birgisson, og einnig bækur með verkum myndlistarmanna á borð við Eggert Pétursson, Guðrúnu Einarsdóttur og Kristinn E. Hrafnsson. Forlagið gefur út ritröð um íslenska samtíðarlistamenn i samstarfi við Listasjóð Dungal. Nafn útgáfunnar er fengið frá höfuðriti Arngríms Jónssonar lærða (1568-1648), "Crymogaea sive rerum Islandicarum libri III", sem fyrst kom út í Hamborg árið 1609, og er hann verndari útgáfunnar. Í apríl 2011 fékk bókaútgáfan því framgengt að listaverkið "Fallegasta bók í heimi" yrði fjarlægt af sýningunni "KODDU" í Nýlistasafninu. Listaverkið byggir á bókinni Flora Islandica, en bókaútgáfunni þótti listaverkið brjóta á sæmdarrétti höfunda bókarinnar. Listasjóður Dungal. Listasjóður Dungal (áður Listasjóður Pennans) er styrktarsjóður sem einkum er ætlað að styrkja unga myndlistarmenn og eignast verk eftir þá. Sjóðurinn á því safn verka eftir fyrri styrkþega. Gunnar B. Dungal stofnaði sjóðinn árið 1992 í minningu foreldra sinna, Margrétar og Baldvins P. Dungal. Gunnar var þá eigandi Pennans hf. og hét sjóðurinn Listasjóður Pennans. Þegar Penninn var seldur árið 2005 var ákveðið að halda starfsemi sjóðsins áfram en nafni hans var breytt. Mitch Pileggi. Mitch Pileggi (fæddur Mitchell Craig Pileggi, 5. apríl 1952) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum: The X-Files, "Stargate Atlantis", Supernatural og "The Mountain". Einkalíf. Pileggi er fæddur í Portland, Oregon en ólst upp í Oregon, Kaliforníu og Texas. Eyddi mestum hluta unglingsáranna í Tyrklandiog er af ítölskum-amerískum uppruna. Útskrifaðist hann frá Texas háskólanum með gráðu í viðskiptum. Áður en hann fór að vinna sem leikari vann hann sem hernarðar verktaki í Íran með bróður sínum. Þurftu þeir að flýjan þaðan árið 1979 þegar byltingin hófst. Pileggi hefur verið giftur tvisvar sinnum og á eitt barn með núveradi konu sinni. Pileggi byrjaði leiklistarferil sinn í menntaskóla í Tyrklandi. Þegar hann flutti aftur til Austin frá Íran, þá kom hann fram í hverfisleikhúsum og í smáhlutverkum í B-myndum og sjónvarpsþáttum. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshluverk Pileggi var í sjónvarpsmyndinni The Sky´s No Limit árið 1984. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Downtown, Dragnet, Dallas, Pointman, That ´70s Show, The West Wing, Boston Legal, Castle og Medium. Þekktasta hlutverk Pileggi er sem Aðstoðaryfirmaður Alríkislögreglunnar Walter Skinner í The X-Files sem hann lék frá 1994-2002. Lék hann Ofurstann Steven Caldwell í frá 2005-2009. Pileggi hefur leikið stór gestahlutverk í Sons of Anarchy sem Ernest Darby frá 2008-2010, Samuel Campbell í Supernatural frá 2008-2011 og sem Larry Jennings í Grey's Anatomy frá 2007-2012. Nýjasta hlutverk hans er, Harris Ryland, í endurgerðinni af Dallas sem hann hefur leikið síðan 2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Pileggi var árið 1982 í Mongrel. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Three O´Clock High, Return of the Living Dead Part II, Basic Instinct, Man in the Chair og Flash of Genius. Pileggi endurtók hlutverk sitt sem Walter Skinner í báðum The X-Files myndunum. Tenglar. Pileggi, Mitch HSH45-1013. Varðeldasöngvar er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1962. Á henni flytja skátar tvær syrpur af skátasöngvum, svokölluðum "Varðeldasöngvum". Stjórnandi: Pálmi Ólafsson. Upptaka: Jón Sigurðsson. HSH45-1019. Haukur Morthens og hljómsveit er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1964. Á henni flytur Haukur Morthens og hljómsveit tvö lög. Sterling K. Brown. Sterling K. Brown er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum: Supernatural og "Army Wives". Einkalíf. Brown er fæddur í St. Louis, Missouri og hefur stundað leiklist síðan hann var barn. Útskrifaðist frá Stanford háskóla með gráðu í Drama, áður en hann fékk mastersgráðu í fagur listum frá Tisch Scool of the Arts við New York háskólann. Ferill. Brown byrjaði feril sinn í leikhúsum en hefur síðan þá komið fram mörgum sjónvarpsþáttum þar á meðal: "ER", "NYPD Blue", "JAG", "Boston Legal", "Alias" og "Without A Trace". Var með reglulegt gestahlutverk í sjónvarpsþáttunum: Supernatural, "Starved" og "Third Watch". Hefur síðan 2007 leikið eitt af aðalhlutverkunum í "Army Wives". Hefur leikið í nokkrum kvikmyndum á borð við: "Brown Sugar", "Stay" og "Righteous Kill". Tenglar. Brown, Sterling K. HSH45-1025. Rondó Tríó er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1969. Á henni flytja Rondó Tríó fjögur lög. Útsetningar: Sigurður Rúnar Jónsson. Rondó Tríó skipa: Einar Jónsson á trommur, Arthur Moon á bassa og Matthías Karelsson á Codovox og söng. LP-HSH -1022. Hátíð í bæ er 33 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1964. Á henni flytur Haukur Morthens 20 jóla og barnasöngva. Útsetningar: Ólafur Gaukur. Upptaka: Albrechtsen Tonstudio. Pressun: Oslo Emballasjefabrik. Platan er í monó. Ljósmynd: Pétur Ó. Þorsteinsson. Sigursveinn D. Kristinsson. Sigursveinn Davíð Kristinsson (fæddur 24. apríl 1911, dáinn 2. maí 1990) var tónskáld og stofnandi Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Jón Skúlason. Jón Skúlason (11. nóvember 1736 – 10. mars 1789) var varalandfógeti á Íslandi frá 1763 til dauðadags, eða í 23 ár. Jón var sonur Skúla Magnússonar landfógeta og Steinunnar Björnsdóttur konu hans. Hann var elstur barna þeirra og fæddur fyrir hjónaband. Hann útskrifaðist úr Hólaskóla 1753 og fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan með lögfræðipróf 1755. Hann varð síðan aðstoðarmaður föður síns og þann 22. júní 1763 var hann skipaður varalandfógeti og var heitið landfógetaembættinu þegar það losnaði. Hann fékk það hins vegar aldrei því hann dó á undan föður sínum, sem gegndi embættinu allt til 1793. Jón bjó alla tíð hjá Skúla í Viðey og andaðist þar. Hann var nokkuð drykkfelldur og var samband þeirra feðga oft stormasamt. Kona Jóns var Ragnheiður Þórarinsdóttir (d. 29. desember 1819), dóttir Þórarins Jónssonar sýslumanns á Grund. Þau áttu aðeins einn son, Jón Jónsson Vidöe. Hann var um tvítugt og hafði lokið stúdentsprófi þegar faðir hans lést. Afi hans sendi hann til Reykjavíkur ásamt tveimur föngum sem hann hafði hjá sér í gæslu til að sækja veisluföng í erfidrykkjuna en á leiðinni til baka drukknuðu þeir allir á Viðeyjarsundi og er talið að fangarnir hafi verið ölvaðir og orðið ósáttir og því hafi bátnum hvolft. Sagt er að þegar Skúla gamla var sagt frá láti sonarsonarins hafi hann sagt: „Goldið hef ég nú landskuldina af Viðey.“ Bogi Thorarensen. Bogi Bjarnason Thorarensen (18. ágúst 1822 – 3. júlí 1867) var íslenskur sýslumaður og settur amtmaður í Vesturamti 1861-1865. Bogi var sonur Bjarna Thorarensen amtmanns og konu hans Hildar Bogadóttur og hét eftir afa sínum, Boga Benediktssyni í Hrappsey. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 1846 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1853. Hann varð sýslumaður í Snæfellsnessýslu 1854, í Mýra- og Hnappadalssýslu 1855 og Dalasýslu frá 1860. Hann bjó fyrst í Hjarðarholti í Stafholtstungum og síðan á Staðarfelli á Fellsströnd og dó þar. Frá 11. júlí 1861 til 8. maí 1865 var Bogi settur amtmaður í Vesturamtinu. Kona Boga var Jósefína Thorlacius, dóttir Árna Thorlacius umboðsmanns í Stykkishólmi. Sorpkvörn. Sorpkvörn (eða skolpkvörn) er rafmagnstæki sem er fest er undir vaska (oftast eldhúsvaska) á milli niðurfalls (svelgs) og vatnslássins. Sorpkvörnin tætir í sig matarafganga og smáleifar sem setjast í niðurfallið og smættar þá í minni en 2 mm agnir sem þannig komast betur niður í affallsrörið. Sorpkvörnin minnkar líkurnar á að vaskurinn stíflist. Ísleifur Einarsson. Ísleifur Einarsson (21. maí 1765 – 23. júlí 1836) var íslenskur sýslumaður og dómari í landsyfirréttinum og gengdi embætti bæði amtmanns og stiftamtmanns í afleysingum. Ísleifur var fæddur á Ási í Holtum og vara sonur Einars Jónssonar skólameistara í Skálholti og síðar sýslumanns og konu hans Kristínar Einarsdóttur. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1783 og var fyrst skrifari Jóns Jónssonar sýslumanns á Móeiðarhvoli. Hann fór til náms við Kaupmannahafnarháskóla 1787 og lauk lögfræðiprófi 1790. Sama ár varð hann sýslumaður í Húnavatnssýslu og bjó á Geitaskarði. Árið 1800 var hann skipaður assessor í yfirréttinum, varð 1. assessor 1817 og yfirdómari 1834. Hann var etatsráð að nafnbót frá 1817. Ísleifur gegndi embætti amtmanns í Suður- og Vesturamti í fjarveru Stefáns Þórarinssonar 1804-1805 og embætti stiftamtmanns 1815-1816, þegar Castenskjöld stiftamtmaður var settur af um stundarsakir. Eftir að Ísleifur varð dómari bjó hann fyrst í Reykjavík en flutti sig svo að Brekku á Álftanesi og dó þar. Fyrri kona hans var Guðrún Þorláksdóttir (d. 1801) og síðari kona hans Sigríður Gísladóttir Thorarensen, prófasts í Odda. Chur. Chur er höfuðborg svissnesku kantónunnar Graubünden og er jafnframt stærsta borgin í kantónunni með 33 þúsund íbúa. Hún myndaðist við hernám Rómverja í landinu og er því einnig elsta borgin í Sviss. Lega og lýsing. Chur liggur við Rínarfljót norðarlega í kantónunni, rétt sunnan við smáríkið Liechtenstein. Næstu borgir eru St. Gallen til norðurs (60 km), Zürich til norðvesturs (80 km) og Luzern til vesturs (90 km). Chur liggur í dalverpi milli hárra fjalla. Rínarfljótið er enn lítið á þessum stað. Rúmlega helmingur bæjarsvæðisins var þakið skógi árið 1997. Frá Chur liggja akvegir víða um Alpafjöll, til dæmis til skíðasvæðanna austur til Arosa, Davos og St. Moritz. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Chur er svartur geithafur innan í rauðu borgarhliði. Merki þetta hefur verið notað sem stimpilmynd frá 14. öld. Orðsifjar. Borgin hét á latnesku Curia Raetorum. Curia er dregið af orðinu "kora", sem merkir ættflokkur. Söguágrip. Chur í kringum aldamótin 1900 HSH45-1027. Ari Jónsson er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1970. Á henni flytur Ari Jónsson tvö lög. Upptaka í stereó: Pétur Steingrímsson. Umslag: Gylfi Gíslason. Jarðvarmavirkjun. Jarðvarmavirkjun eða jarðgufuvirkjun er gufuaflsvirkjun sem nýtir jarðhita frá háhitasvæði til raforkuframleiðslu og hitunar á neysluvatni. Alls eru framleidd 10.715 MW af rafmagni í 24 löndum í heiminum með jarðvarmavirkjunum. Mesta orku framleiða Bandaríkin, Venesúela og Filippseyjar. Á íslandi eru framleidd 575 MW í uppsettu rafafli í sjö jarðvarmavirkjunum sem framleiða um 30% af raforku landsins. Frumorkunýtni flestra íslenskra jarðvarmavirkjana liggur á bilinu 10-15%. Þar sem hámarks fræðileg frumorkunýtni háhitavökva til raforkuvinnslu liggur á bilinu 30-40% er íðorkunýtnin hinsvegar mun hærri, um 50% fyrir nýjar jarðvarmavirkjanir. Umhverfisáhrif. Virkjun jarðvarma er flokkuð sem endurnýjanleg orka vegna þess að varmatap jarðar er hverfandi lítið miðað við hve varmainnihald jarðar er mikið. Jarðvarmi er eina tegundin af endurnýjanlegri orku sem ekki er uppsprottin frá sólinni heldur frá jörðinni. Þegar boruð er hola á háhitasvæði eru margir þættir sem geta mengað. Þessi mengun er mjög mismunandi eftir eðli bergsins og staðsetningu holunnar. Hávaði er mikill frá borholu sem er að blása, en þegar hún er tekin í notkun í virkjun minnkar hávaðinn verulega og er ekki meiri en í öðrum tegundum af virkjunum. Losun á CO2 er vandamál í jarðvarmavirkjunum en hún er allt að hundraðfalt minni en gasaflstöðvar eða kolaorkuver. Á Íslandi er losun koldíoxíðs á hverja kílóvattsstund 19 sinnum minni en frá venjulegu kolaorkuveri. Unnin hefur verið mikil bragarbót á þessu síðustu ár. Heildarlosun brennisteinsvetnis á Íslandi minnkaði um 9% milli áranna 2008 og 2009 og var 168.293 tonn árið 2009. Eggjalyktin svokallaða á hverasvæðum er þyrnir í augum margra en hún stafar af brennisteinsvetni H2S. í dag eru aðferðir til að koma í veg fyrir mengun af völdum brennisteinsvetnis. Þær eru dýrar en eru samt nauðsynlegar. Brennisteinsvetni veldur meðal annars súru regni, hefur slæm áhrif á gróður og getur haft áhrif á heilsu fólks og mannvirki. Brennisteinsvetni er eðlisþyngra en andrúmsloft og getur því safnast fyrir í lægðum. Þess vegna þarf að fylgjast vel með losun á brennisteinsvetni. Árið 2009 var heildarlosun brennisteinsvetnis á Íslandi 28.069 tonn en minnkaði um 10% frá árinu 2008. Vatnið sem kemur upp úr holunni er mengað af þungmálmum, söltum og ýmsum jónum sem innihalda kísil (Si), kalín (K), og fleiri efnum sem fara eftir eðli bergsins. Vatnið með þessum efnum eru dæld niður í jarðhitakerfið aftur og eru þess vegna lítið vandamál. Landnýting jarðvarmavirkjana er lítil miðað við t.d vatnsaflsvirkjanir. Nokkur slys hafa gerst þar sem eitraðar gufur hafa farið út í andrúmsloftið en þau atvik eru fá. Upphaf raforkuframleiðslu með jarðhita. Í Larderello á Ítalíu var fyrsta jarðvarmavirkjunin í heiminum sett upp 1904 þar sem gufuvél var tengd við rafal. Seinna var sett upp stærri virkjun sem framleiddi 250 kW. Í dag er afl virkjunarinnar um 700 MW og það stendur til að stækka hana í 1200 MW. Raforkuframleiðsla með jarðgufu. Þegar hola er boruð á háhitasvæði gýs upp gufa af miklu afli. Í henni er mikil varmaorka. Gufuþrýstingur úr borholum er mismikill, eftir því hve djúpt er borað. Til eru nokkrar gerðir af jarðvarmavirkjunum eftir aðstæðum og eðli jarðhitans á hverjum stað. Þurrgufuvirkjun. Þurrgufuvirkjun er elsta hönnunin á gufuaflsvirkjun. Hún tekur gufu beint úr háhitaborholu til hverfla. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða gufu með litlu vatnsinnihaldi sem er 180-225°C og 4-8 MPa sem kemur upp á miklum hraða fer í gegnum hverfil sem snýr rafal. Eftir að gufan fer í gegnum túrbínuna er hún gjarnan þéttuð og kæld og vatnið leitt aftur til baka til að mynda undirþrýsting. Þannig má auka afköst virkjunarinnar. Þurrgufuvirkjun skilar litlum afköstum miðað við nýrri gerðir af jarðvarmavirkjunum. Þær skila líka litlu vatni aftur ofan í niðurrennslisholur miðað við virkjanir með gufuskiljum. Eins þrepa gufuvirkjun. Þessar virkjanir taka vatn úr borholum í gufuskiljur og þaðan fer gufan í hverfilinn. Af þessum sökum er gufan kaldari (155-165°C) og gefur minni þrýsting(0,5-0,6 MPa). Aftur á móti er minna af tærandi efnum í gufunni sem skilst frá en í vatninu sem kemur úr borholunni. Eins þrepa virkjun er eins og tveggja þrepa virkjunin nema lágþrýstiþrepinu og hverflum í seinna þrepinu er sleppt. Leiftur þurrgufuvirkjun er nýrri gerð eins þrepa virkjanna. þar er háþrýstivatn úr borholu er dregið í gegnum skilju að tanki með lægri þrýsting og gufan sem skilst (flash steam) er notuð til að knýja hverfla virkjunarinnar. vatnið sem notað er í þessa gerð verður að vera að minnsta kosti 180°C og er yfirleitt heitara. Þessi gerð er sú algengasta sem er í notkun í dag. Tveggja þrepa gufuvirkjun. Í hefðbundinni tveggja þrepa jarðvarmavirkjun er gufan er leidd frá einni eða fleiri borholum að háþrýstiskiljum þar sem vatn og óhreinindi eru skilin frá en hrein gufa með hærri þrýstingi er leidd inn á háþrýstiþrep hverfils. Vatnið sem skilst frá er leitt að lágþrýstiskiljum þar sem það er skilið frá lágþrýstigufu. Vatnið er síðan leitt við lægri þrýsting inn í lágþrýstiþrep hverfilsins eða á sérstakan lágþrýstihverfil. Há og láþrýstigufan sameinast síðan á leið sinni í gegn um hverfilinn. Hverfilhjólið snýr rafalanum sem framleiðir rafmagnið. Úr hverflinum fer gufan í eimsvala þar sem köldu vatni, sem tekið er úr þró undir kæliturni, er sprautað yfir hana svo að hún þéttist. Við það myndast undirþrýstingur í eimsvalanum og hann eykur þrýstifallið fyrir vélina og stóreykur afköst hennar. Við þetta fellur vatnið til botns í eimsvalanum og hitnar. Til þess að ná hitanum úr vatninu er því dælt út í kæliturn þar sem það er látið kólna. Á sama tíma er loft sogað inn með viftum til kælingar. Vatnið fellur síðan til botns niður í þróna þar sem hringrásin endurtekur sig því að vatninu úr kæliturninum og gufuskiljunum er dælt aftur í niðurrennslisholu. Tvívökva gufuaflsvirkjun. Nýjasta gerð virkjana er tvívökva virkjun. Þar er hitinn úr borholunni látinn hita upp annan vökva í varmaskipti sem hefur lægra suðumark en vatn. Þannig er hægt að nýta allt niður í 57°C heitt vatn til að hita vökvann að gufu sem knýr hverfla virkjunarinnar. Aðrar gerðir. Manngert jarðhitakerfi 1 Vatnslón 2 Dælustöð 3 Varmaskiptir 4 Hverfilstöð 5 Heitavatnshola 6 Niðurdælingarhola 7 Heitt neysluvatn 8 Lekt setberglag 9 Rannsóknarhola 10 Kristölluð breglög.Nýstárleg aðferð við að nýta jarðhita er nýting á þurrheitu bergi sem er einskonar manngert jarðhitakerfi. Þá eru boraðar tvær holur í hæfilegri fjarlægð frá hverri annarri. í aðra holuna er dælt niður vatni og úr hinni kemur vatn sem er hitað upp af hitanum í berginu. þar sem vatni er dælt niður í borholu sem eru í þurrum og heitum berglögum, yfirleitt graníti. Til að fá lekt í berginu þarf að búa til sprungur í berginu. Þetta er mjög kostnaðarsamt og er enn á tilraunastigi. Fastbúnaður. Fjarstýring er dæmi um tæki sem notast við fastbúnað. Fastbúnaður eru tölvuforrit og gagnagrindur sem eru prentuð á samrásir í ýmsum tegundum rafeindatækja. Fastbúnaður var upphaflega skilgreindur sem andstæðan við hugbúnað sem hægt er að skipta um án þess að gera breytingar á vélbúnaði tækisins. Venjulega er fastbúnaður geymdur í lesminni og þarf þá að skipta um kubb til að uppfæra hann. Síðustu ár hefur hins vegar orðið algengt að geyma fastbúnað á flash-minni sem hægt er að skrifa yfir í ákveðinn fjölda skipta. Charles Malik Whitfield. Charles Malik Whitfield (fæddur 1. ágúst, 1971) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum Supernatural og "The Guardian". Einkalíf. Malik er fæddur í Bronx, New York. Ferill. Whifield byrjaði feril sinn í sjónvarpsþættinum "One Life to Live" frá árinu 1993. Síðan þá hefur hann komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Var með reglulegt gestahlutverk í sjónvarpsþáttunum: Supernatural og "The Guardian". Hefur leikið í nokkrum kvikmyndum á borð við: "Behind Enemy Lines", "Notorious", "Blue" og "Truly Blessed". Tenglar. Malik Whitfield, Charles Ólafur H. Finsen. Ólafur Hannesson Finsen (22. maí 1793 – 24. febrúar 1836) var íslenskur sýslumaður, dómari í Landsyfirrétti og gegndi störfum landfógeta, bæjarfógeta, amtmanns og stiftamtmanns í afleysingum. Ævi. Hann var fæddur í Skálholti, sonur Hannesar Finnssonar biskups og Valgerðar Jónsdóttur, seinni konu hans, og var aðeins þriggja ára þegar faðir hans dó. Hann varð stúdent úr heimaskóla hjá Steingrími Jónssyni biskupi 1814, hélt þá til náms í Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist með lögfræðipróf haustið 1817. Hann var settur sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1818 og skipaður sýslumaður 1821. Hann varð 2. assessor og dómsmálaritari Landsyfirréttar þegar Magnús Stephensen dó 1833 og var skipaður árið eftir. Ólafur þjónaði landfógetaembættinu og bæjarfógetaembættinu í Reykjavík í fjarveru Ulstrups landfógeta 1831-1832 og stiftamtmannsembættinu og amtmannsembættinu í Suðuramti í fjarveru Kriegers stiftamtmanns 1834-1836 en þá lést Ólafur. Krieger kom þó aftur um vorið og gendi embættinu til vors 1837 þótt hann hefði verið skipaður stiftamtmaður í Álaborgarstifti 1836. Kona Ólafs var María Nikólína Möller (28. ágúst 1803 - 27. nóvember 1886), dóttir Óla Möller, kaupmanns í Reykjavík. Börn þeirra voru Vilhjálmur Finsen hæstaréttardómari í Kaupmannahöfn, Jón Finsen stiftlæknir á Lálandi og Falstri, Hannes Finsen amtmaður í Færeyjum, Óli Finsen póstmeistari í Reykjavík og Valgerður, kona Halldórs Jónssonar prófasts á Hofi í Vopnafirði. Hannes Finsen. Hannes Kristján Steingrímur Finsen (13. maí 1828 – 18. nóvember 1892) var íslenskur lögfræðingur sem var landfógeti og amtmaður í Færeyjum og síðast stiftamtmaður í Ribe-stifti í Danmörku. Hannes fæddist í Reykjavík og var sonur Ólafs H. Finsen assessors og Maríu Nikólínu Möller konu hans. Afi hans var Hannes Finnsson biskup. Hannes varð stúdent úr Lærða skólanum 1848 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1856. Hann vann fyrst í íslensku stjórnarskrifstofunni í Kaupmannahöfn en var skipaður landfógeti í Færeyjum 1858 og gegndi því embætti þar til hann varð amtmaður eyjanna 1871. Hann átti jafnframt sæti á færeyska Lögþinginu, fyrst sem þingmaður Suður-Straumeyjar frá 1869 og frá 1871 fast sæti sem amtmaður. Hannes lét af amtmannsembættinu 1884, flutti til Danmerkur og var skipaður stiftamtmaður í Ribe-stifti. Því embætti gegndi hann til dauðadags. Hann var tvíkvæntur og voru báðar konur hans danskar og raunar náskyldar, Johanne Sofie Caroline Christine Formann og Birgitta Kirstine Formann. Með konum sínum átti Hannes samtals tíu börn sem öll fæddust í Færeyjum. Á meðal þeirra voru Niels Ryberg Finsen, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 1903, Olaf Finsen, bæjarstjóri Þórshafnar og Vilhelm Hannes Finsen, póstmeistari í Kaupmannahöfn. Ludwig Erichsen. Ludwig Erichsen eða Ludvig Erichsen (1766 – 7. maí 1804) var dansk-íslenskur embættismaður sem var amtmaður í Vesturamti Íslands og settur stiftamtmaður og amtmaður í Suðuramti um tíma. Ludvig var sonur Jóns Eiríkssonar konferensráðs og konu hans Christine Marie Lundgaard og var fæddur og uppalinn í Kaupmannahöfn. Hann lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla og gerðist starfsmaður rentukammersins í Kaupmannahöfn. Hann var skipaður í jarðamatsnefndina sem komið var á fót 18. júní 1800 og fór þá til Íslands og ferðaðist mikið um landið með öðrum nefndarmönnum. Ludvig gaf rentukammerinu skýrslu um það 1802 að hann teldi stjórnarfar á Íslandi afar bágborið og talar þar meðal annars um löggæslu í Reykjavík, sem sé lítil sem engin og segir að vaktari bæjarins sé drykkfelldur og hirðulaus og slökkvibúnaður nánast enginn, afbrot séu hvorki kærð né fyrir þau refsað og agaleysi sé ótakmarkað. Í kjölfar skýrslunnar var Ludvig þann 29. desember 1802 skipaður amtmaður í Vesturamti en skyldi jafnframt starfa áfram í jarðamatsnefndinni. Rasmus Frydensberg var skipaður bæjarfógeti í Reykjavík árið eftir og voru þá jafnframt fyrstu lögregluþjónarnir ráðnir til starfa. Þann 10. júní 1803 var Ólafi Stephensen stiftamtmanni og amtmanni í Suðuramti vikið frá embætti um stundarsakir meðan rannsókn fór fram á embættisstörfum hans og var Ludvig settur til að gegna embættum hans á meðan. Hann lést þó tæpu ári síðar og var þá Stefán Þórarinsson amtmaður í norður- og austuramtinu settur til að gegna öllum þeim embættum sem Ludvig Erichsen hafði haft á sinni könnu. Hann gerði þó Ísleif Einarsson yfirdómara að umboðsmanni sínum syðra. Trampe greifi var svo skipaður amtmaður í Vesturamti um haustið og tók við sem stiftamtmaður og amtmaður í Suðuramti þegar Ólafi Stephensen var veitt lausn 1806. Ark Music Factory. Ark Music Factory er bandarískt fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar sínar í Hollywood. Fyrirtækið segir sitt markmið vera að koma ungu (og „hæfileikaríku“) tónlistarfólki á framfæri með því að hjálpa við að semja lagatexta, tónlist og gera myndbönd undir lögin. Fyrirtækið virkar þannig að tónlistarfólkið greiðir fyrirtækinu pening fyrir tónlistarsmíð, myndband og dreifingu og svo fær tónlistarfólkið meirihluta ágóða af sölum. Hingað til hefur Ark Music Factory ekki gefið út mikið af lögum en þau fáu sem eru komin út eru sungin af 13-16 ára stelpum og í hverju einasta lagi kemur fram svartur miðaldra rappari. Lögin frá Ark Music Factory hafa fengið mjög neikvæða gagnrýni en á youtube hafa tæplega 60 milljónir manns séð myndbandið Rebecca Black - Friday þar sem mikið gys er gert af tónlistar- og textasmíð lagsins. Einnig er vert að taka fram að öll lög Ark Music Factory eru um ástarsambönd ungra unglinga (13-16 ára) og í myndböndum kemur oft fram að unglingarnir eru að skemmta sér seint um kvöld sem brýtur líklega á útivistartíma þeirra. Einnig sjást unglingar keyra blæjubíl í myndbandinu „Friday“ á youtube. - Fjalla um ástarsambönd og að skemmta sér - Allar raddir eru mjög tölvubreyttar með Auto-Tune - Svartur rappari birtist í lögunum - Textinn er talinn vera móðgandi vegna þess hversu einfaldur og lélegur hann er, oft ruglingslegur vegna þess að hann er algjörlega úr samhengi Trípólíbíó. Trípólíbíó var kvikmyndahús á Melunum í Reykjavík sem starfrækt var á árunum 1947 til 1962. Árið 1941 reisti ameríski herinn bragga á Melunum sem notaður var til kvikmynda- og leiksýninga. Var húsið nefnt Tripoli-theater. Að heimsstyrjöldinni lokinni stóð húsið tómt um tíma, uns Tónlistarfélag Reykjavíkur fékk heimild til kvikmyndahússreksturs þar árið 1947. Var sú hugmynd ríkjandi á þeim árum að hagnaður af kvikmyndasýningum skyldi styðja við bakið á æðri menningu. Tónlistarfélagið tók í notkun glænýtt kvikmyndahús, Tónabíó í Skipholti árið 1962 og lauk þar með sýningum í Trípólíbragganum. Síðasta kvikmyndin sem þar var frumsýnd, var "The Defiant Ones" með stórleikurunum Tony Curtis og Sidney Potier. Tjarnarbíó. Tjarnarbíó var kvikmyndahús við Tjarnargötu í Reykjavík sem tók til starfa árið 1942. Háskóli Íslands hóf rekstur kvikmyndahúss í gömlu íshúsi við hlið Slökkvistöðvar Reykjavíkur við Tjarnargötu 1942, til að ávaxta fé Sáttmálasjóðs. Húsið tók 396 áhorfendur í sæti. Kvikmyndasýningum var hætt í húsinu árið 1961 þegar Háskólabíó tók til starfa. Það hefur upp frá því verið notað til sýninga minni leikhópa. Fyrsti forstjóri Tjarnarbíós var Pétur Sigurðsson Háskólaritari. Jón Ólafsson (varalögmaður). Jón Ólafsson (1729 – 20. janúar 1778) var íslenskur lögfræðingur sem var varalögmaður (vísilögmaður), fyrst sunnan og austan en síðan norðan og vestan. Jón var fæddur á Eyri í Seyðisfirði, sonur Ólafs Jónssonar lögsagnara þar og konu hans Guðrúnar Árnadóttur. Hún var dóttir Árna Jónssonar prests í Saurbæjarþingum, sem missti prestsskap 1723 fyrir drykkjuskap og illyrði á jólanótt. Jón varð stúdent úr Skálholtsskóla 1748 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1756. Þann 10. mars 1758 var hann skipaður varalögmaður Björns Markússonar, lögmanns sunnan og austan, Með konungsbréfi frá 16. maí 1760 var Jóni boðið að semja frumvarp til nýrrar íslenskrar lögbókar og átti Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum að vera honum innan handar. Jón hafði búið í Miðhúsum í Reykhólasveit en fluttist í Húnavatnssýslu til að vera nær Bjarna og dvaldi hjá honum á Þingeyrum fyrst í stað. Hann giftist svo Þorbjörgu, dóttur Bjarna, og settust þau að í Víðidalstungu. Jón var þó áfram varalögmaður sunnan og austan til 1767 en þá fékk hann sig færðan í umdæmið þar sem hann bjó sjálfur og varð varalögmaður Sveins Sölvasonar, lögmanns norðan og vestan. Því embætti gegndi hann til dauðadags og vann jafnframt að samningu lögbókarinnar, sem hann lauk þó ekki. Jón og Þorbjörg áttu aðeins eina dóttur, Hólmfríði, konu séra Friðriks Þórarinssonar á Breiðabólstað í Vesturhópi, bróður Stefáns amtmanns. Eftir lát Bjarna urðu miklar deilur milli erfingjanna um arf eftir hann og önnur mál og meðal annars lagði Jón bann við því að Halldór mágur hans og afkomendur hans mættu nota ættarnafnið Vídalín þar sem það tilheyrði þeim einum sem byggju í Víðidalstungu. Halldór tók þó ekkert mark á banninu. Jón er sagður hafa verið mikill skapmaður og ofsafenginn en fékk þó fremur gott orð meðal almennings. Þó var hann sagður fjölkunnugur og var sagt að ef hann fékk ekki það sem hann vildi gæti hann náð því með því að senda mönnum draug eða gera þeim galdraveður. Lárus Sveinbjörnsson. Lárus E. Sveinbjörnsson eða Lauritz Edvard Sveinbjörnsson (31. ágúst 1834 – 7. janúar 1910) var íslenskur lögfræðingur, sýslumaður, háyfirdómari, alþingismaður og bankastjóri. Lárus var sonur Kristínar Cathrine Lauritzdóttur Knudsen (27. apríl 1813 – 8. janúar 1874) og Hans Edvard Thomsen (3. júlí 1807 – 27. apríl 1881), verslunarstjóra í Reykjavík og síðar kaupmanns í Vestmannaeyjum, en hann var kvæntur Katrínu systur Kristínar og vakti fæðing drengsins mikið umtal og hneykslun meðal Reykvíkinga. En árið 1840 varð Kristín seinni kona Þórðar Sveinbjörnssonar háyfirdómara, sem var 27 árum eldri en hún, og eignuðust þau saman átta börn, þar á meðal Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld. Þórður gekk Lárusi í föðurstað og ættleiddi hann og var hann því jafnan skrifaður Sveinbjörnsson. Lárus varð stúdent frá Lærða skólanum 1855 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1863. Hann var fyrst kennari hjá Blixen-Finecke barón í Danmörku um hríð en var settur sýslumaður í Árnessýslu 1866 og bjó á Eyrarbakka. Árið 1868 var hann settur sýslumaður í Húnavatnssýslu og bjó þá á Húsavík en 1874 varð hann sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Reykjavík. 1878 varð hann dómari og dómsmálaritari í Landsyfirrétti og árið 1889 varð hann háyfirdómari og hélt því þar til hann lét af störfum 1908. Þegar Landsbankinn var stofnaður 1. júlí 1886 varð Lárus fyrsti bankastjóri hans og gegndi því starfi til 1893. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1882-1888 og konungkjörinn þingmaður 1885-1899. Kona Lárusar var Jörgine Margarethe Sigríður Thorgrimsen (25. apríl 1849 – 6. desember 1915), dóttir Guðmundar Torfasonar Thorgrimsen kaupmanns á Eyrarbakka. Á meðal barna þeirra var Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritari. Matt Cohen. Matt Cohen (fæddur Matthew Joseph Cohen, 28. september 1982) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum "Supernatural" og "South of Nowhere". Einkalíf. Cohen er fæddur í Miami, Flórída. Hann lærði viðskipti við Ríkisháskólann í Flórída ásamt því að taka leiklistartíma en fluttist til Los Angeles í von um að verða leikari. Áhugamál hans eru að keyra mótorhjól og torfæruhjól og hann hefur sagst vera mikill adrenalínfíkíll. Ferill. Cohen byrjaði feril sinn í sjónvarpsmyndinni "Complex" frá árinu 2005. Síðan þá hefur hann komið fram í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Árið 2005 var hann ráðinn til þess að leika eitt af aðalhlutverkunum í unglingaþættinum "South of Nowhere". Tenglar. Cohen, Matt Hlíðaskóli. Hlíðaskóli er skóli sem liggur í Hlíðum í Reykjavík. Hann er heildstæður grunnskóli sem felur í sér alla bekki frá 1. til 10. Þar stunda rúmlega 500 nemendur nám í 25 bekkjardeildum. Skólastarf í Hlíðahverfi hófst árið 1954 með kennslu 7–8 ára barna í húsnæði leikskólans við Eskihlíð, sem þá var útibú frá Austurbæjarskóla. Ári seinna fékk skólinn nafnið Eskihlíðarskóli. Fyrsti skólastjóri hans var Magnús Sigurðsson. Fljótlega var hafist handa við byggingu nýs skólahúsnæðis við Hamrahlíð og flutt í fyrsta áfanga þess árið 1960. Skólinn fékk þá nafnið Hlíðaskóli. Sigvaldi Tordarson arkitekt teiknaði skólann sem átti í upphafi að verða stærsti skóli landsins og rúma 1700–1800 nemendur. Magnús Sigurðsson gegndi störfum fram til ársins 1969 en þá leysti Ásgeir Guðmundsson hann af hólmi. Ásgeir var skólastjóri Hlíðaskóla til ársins 1980 ef frá eru talin árin 1972-74 en þá var Ásgeir í námsleyfi og gegndi Áslaug Friðriksdóttir starfi skólastjóra á meðan. Árni Magnússon var skólastjóri í rúmlega tuttugu ár (1980–2003). Frá og með mars 2011 er skólastjóri Aðalheiður Bragadóttir. Skráardeiling. a> hugbúnaðarrisans á ráðstefnu um „sjóræningjastarfsemi” í hugbúnaði í febrúar 2011. Skráardeiling eða samnýting skráa á við aðgerð sem felst í að dreif stafrænum upplýsingum í formi tölvuskráa eða sú tækni sem gerir slíkt mögulegt. Upplýsingarnar geta verið af margs konar tagi; hugbúnaður, hljóð, tónlist, kvikmyndir, ljósmyndir og texti. Margar aðferðir eru mögulegar við stafræna dreifingu. Til þess að dreifa skrám eru jafnan notaðar nettengdar tölvur en framfarir á sviði upplýsingatækni, sér í lagi tilkoma internetsins, hafa orðið til þess að magn skráa í dreifingu hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Hugbúnaður sem býður upp á dreifingu skráa í gegnum jafningjanet hefur sér í lagi orðið vinsæll. Höfundaréttarvörðu efni er dreift í miklu magni og í því samhengi er rætt um ólöglegt niðurhal. Í rannsókn sem gerð var á Íslandi árið 2010 kom í ljós töluvert hátt hlutfall af ungu fólki (á aldrinum 11-16 ára) á Íslandi sækji sér höfundarréttarvarið efni á netinu og finnist það ekki athugavert. Mark Sheppard. Mark Sheppard (fæddur Mark Andreas Sheppard, 30. maí 1964) er enskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum "Supernatural", "24", "Battlestar Galactica" og "Soldier of Fortune, Inc". Einkalíf. Mark er fæddur í London, Bretlandi og er sonur leikarans W. Morgan Sheppard. Hann er af írsk-þýskum uppruna. Tónlist. Mark byrjaði 15 ára gamall sem trommari í ýmsum hljómsveitum þar á meðal: Robyn Hitchcock, Television Personalitis og írsku hljómsveitinni Light a Big Fire. Leikhús. Sheppard var boðið að taka þátt í bandarísku leikhúsfærslunni "Cock and Bull Story" sem var leikstýrt af Bill Hayes. Hann hlaut mörg verðlaun fyrir hlutverk sitt þar á meðal L.A. Drama Critics Cirlce verðlaunin árið 1992, LA Weekly verðlaunin og Dramalogue verðlaunin. Sjónvarp. Sheppard hefur leikið gestahlutverk í mörgum af vinsælustu sjónvarpsþáttum nútímans: "The X-Files", "Soldier of Fortune, Inc.", "JAG",, Chuck (sjónvarpsþáttur) og "Firefly". Sheppard lék stór gestahlutverk í sjónvarpsþáttum á borð við: 24, Supernatural, "Battlestar Galactica" og "Medium" Sheppard og faðir hans eru meðal fárra leikara sem hafa bæði komið fram í "Star Trek" og "Doctor Who" seríunum. Kvikmyndir. Sheppard hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "In the Name of the Father" með Daniel Day-Lewis og Emma Thompson, "Out of the Cold", "Evil Eyes" og "Broken". Tenglar. Sheppard, Mark A.J. Buckley. A.J. Buckley (fæddur Aaron John Buckley, 9. febrúar 1978) er írskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum "Supernatural", "Ghostfacers" og '. Einkalíf. A.J. fæddist í Dyflinn á Írlandi. Fjölskylda hans fluttist til White Rock, Breska Kólumbía í Kanada frá Írlandi þegar hann var sex ára.. Buckley spilar á trommur í frítíma sínum. Hann er lesblindur. Ferill. Buckley byrjaði feril sinn sem unglingur í sjónvarpsþættinum "The Odyssey".. Árið 2005 þá var honum boðið hlutverk Adam Ross í, sem átti aðeins að vera gestahlutverk en í lok seríu þrjú þá var hann gerður einn af aðalleikurum þáttarins. Lék Ed Zeddmore í Supernatural og internetþættinum "Ghostfacers". Buckley hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "The X-Files", "NYPD Blue", Bones og. Hann hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "Disturbing Behavior", "The In Crowd", "Happy Feet", "You Did What?" og "Skateland". Tenglar. Buckley, A.J. Travis Wester. Travis Wester (fæddur 8. október 1977) er bandrískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum Supernatural, "Ghostfacers" og "Beverly Hills, 90210". Ferill. Wester byrjaði feril sinn sem Austin Sanders í "Beverly Hills, 90210" en er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Jamie í kvikmyndinni "Eurotrip" frá árinu 2004. Wester lék Harry Spangler í Supernatural og internetþættinum "Ghostfacers". Hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "Boston Public", "Dharma & Greg", "Scrubs", "ER", "Bones" og "Justified". Wester hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "Barstow 2008", "Raising Genius" og "Stone & Ed". Tenglar. Wester, Travis Ólafur Jónsson (lögsagnari). Ólafur Jónsson (f. 1687, d. 1761 eða 1762) var lögsagnari og sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson og Guðbjörg Jónsdóttir, sem bjuggu á Skarði í Ögursveit 1703 og síðar í Vigur. Kona Ólafs var Guðrún Árnadóttir. Þau áttu 7 börn og auk þeirra átti Ólafur einn son fyrir hjónaband. Af Ólafi og Guðrúnu eru komnar mjög stórar ættir, ein frá hverju barni þeirra og eru þau í hópi mestu ættforeldra hér á landi. Öll börn þeirra komust til manns og sum til töluverðra áhrifa hérlendis eða erlendis. Elsti sonur Ólafs var Árni Ólafsson, prestur í Gufudal, og varð hann ættfaðir Gufudalsættar. Börn Ólafs og Guðrúnar voru þessi: Þórður stúdent, bóndi í Vigur og ættfaðir Vigurættar; Jón vísilögmaður í Víðidalstungu, ættfaðir Víðidalstunguættar; Sigurður, bóndi og stúdent í Ögri, ættfaðir Ögurættar; Magnús, hreppstjóri og bóndi í Súðavík, ættfaðir Súðavíkurættar; Sólveig, prestsfrú í Holti í Önundarfirði, ættmóðir Holtsættar; Ingibjörg, prestsfrú á Rafnseyri í Arnarfirði, ættmóðir Rafnseyrarættar og Ólafur „Olavius“, heimspekingur og embættismaður í Danmörku, ættfaðir Ólavíusarættar. Traci Dinwiddie. Traci Dinwiddie (fædd 22. desember 1973) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem miðillinn Pamela Barnes í "Supernatural". Einkalíf. Dinwiddie er fædd í Anchorage í Alaska og er af sýrlenskum og Cherokee uppruna. Hún hefur í mörg ár lært Vest-Afrískan trommuleik og hefur oft verið gestaspilari hjá hljómsveitinni Yeh Dede. Hún var áður hluti af hljómsveitinni The Groove Goddesses. Ferill. Fyrsta hlutverk Dinwiddie var í sjónvarpsmyndinni "Target Earth" frá árinu 1998, en hefur síðan þá komið fram í mörgum kvikmyndum og nokkrum sjónvarpsþáttum. Dinwiddie hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "Dawson´s Creek", Supernatural, "Make It or Break It" og "One Tree Hill". Dinwiddie hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "Summer Catch, "The Notebook", "The Brass Tepot", "The Passenger" og "Elena Undone". Verðlaun og tilnefningar. Action on Film International Film Festival Tenglar. Dinwiddie, Traci HSH45-1021. Ómar Ragnarsson og Lúdó Sextett er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1964. Á henni flytja Ómar Ragnarsson ásamt Lúdó sextett fjögur lög. Upptaka: Ríkisútvarpið. Útsetning: Jón Sigurðsson. Stefán Stephensen. Stefán Ólafsson Stephensen (27. desember 1767 – 20. desember 1820) var íslenskur lögfræðingur sem var varalögmaður norðan og vestan frá 1790 og amtmaður í Vesturamti frá 1806 til dauðadags. Stefán var fæddur á Bessastöðum og var sonur Ólafs Stephensen stiftamtmanns og konu hans Sigríðar Magnúsdóttur og bróðir þeirra Magnúsar Stephensen dómstjóra og Björns Stephensen dómsmálaritara. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1875 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla haustið 1788. Með konungsbréfi 4. júní 1790 var hann skipaður varalögmaður hjá Magnúsi bróður sínum og þegar Landsyfirréttur var stofnaður árið 1800 og Magnús varð dómstjóri var Stefán skipaður 1. assessor en var þó launalaus og skyldi ekki sitja í dómnum nema í forföllum bróður síns. Jafnframt var honum falið að semja nýja lögbók. Hann var einn nefndarmannanna í jarðamatsnefndinni sem skipuð var árið 1800. Þann 6. júní 1806 var hann skipaður amtmaður í Vesturamti. Hann bjó á Innra-Hólmi frá 1790, flutti að Hvanneyri 1793 og bjó þar til 1801 en flutti sig þá að Hvítárvöllum og dó þar í árslok 1820. Fyrri kona Stefáns var Marta María Hölter, dóttir Diðriks Hölters kaupmanns. Hún er skráð höfundur fyrstu íslensku matreiðslubókarinnar, sem nefnist "Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur" og kom út árið 1800, en líklega var þó Magnús mágur hennar höfundur bókarinnar að hluta eða öllu. Marta María lést 14. júní 1805. Börn þeirra voru Ólafur, auditör í danska hernum og síðar bæjarfógeti í Danmörku, Sigríður, fyrsta kona Ólafs Stephensen dómsmálaritara, frænda síns, Ragnheiður kona Helga Thordersens biskups, Magnús sýslumaður í Vatnsdal, Pétur prestur á Ólafsvöllum, Hannes prófastur á Ytra-Hólmi, Elín, kona Jóns Thorstenssen landlæknis, Stefán prestur á Reynivöllum og Marta, miðkona Ólafs dómsmálaritara sem áður hafði verið giftur systur hennar. Stefán amtmaður giftist öðru sinni Guðrúnu Oddsdóttur, sem var dóttir Odds Þorvarðarsonar prests á Reynivöllum, en synir þeirra dóu ungir. Jake Abel. Jake Abel (fæddur Jacob Allen Abel, 11. nóvember 1987) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "Supernatural" og '. Einkalíf. Abel er fæddur í Canton, Ohio. Hann fékk Rísandi stjörnu verðlaunin á 16th Hamptons International Kvikmyndahátíðinni í október 2008 fyrir hlutverk sitt í "Flash of Genius". Ferill. Fyrsta hlutverk Abel var í Disney sjónvarpsmyndinni "Go Figure" frá árinu 2005. Abel hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "Supernatural", "ER", ', "Life" og "Cold Case". Abel hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "True Loved", "I Am Number Four", "The Lovely Bones" og "Angel of Death". Tenglar. Abel, Jake Amy Gumenick. Amy Gumenick (fædd Amy Joclyn Gumenick, 17. maí 1986) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "Supernatural" og "Natalee Holloway". Einkalíf. Gumenick er fædd í Hudiksvall í Svíþjóð en er uppalin í Los Angeles í Banaríkjunum. Hún útskrifaðist með BA gráðu í leiklist frá Kalifornía Háskólanum í Santa Barbara og er einnig lærður dansari og söngvari. Hún er meðstofnandi og leikstjóri að ýmsum leikhúsfélögum í Los Angeles og Santa Barbara. Ferill. Fyrsta hlutverk Gumenick var kvikmyndinni "Sayonara Elviko" frá 2005. Lék aðalhlutverkið í sjónvarpsmyndinni "Natalee Holloway" frá árinu 2009. Hún hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "Supernatural", "How I Met Your Mother", "Grey's Anatomy" og "Greek". Hún hefur komið fram í leikritum á borð við: "Pentecost", "Pétri Pan", "Hárinu" og "Woyzeck". Tenglar. Gumenick, Amy Gunpei Yokoi. Gunpei Yokoi (1941 – 1997) var japanskur tölvuleikjahönnuður sem starfaði fyrir tölvuleikjaframleiðandann Nintendo. Yokoi kom bæði að hönnun vélbúnaðar og hugbúnaðar hjá Nintendo en hann hannaði vélbúnaðinn fyrir Game & Watch-leikina ásamt því að hanna Game Boy- og Virtual Boy-leikjatölvurnar. Yokoi vann einnig sem framleiðandi við gerð fjölda tölvuleikja en á meðal þeirra voru "Metroid", "Kid Icarus" og "Super Mario Land". Kornett. Kornett er málmblásturshljóðfæri mjög svipað trompeti. Kornett á rætur að rekja til póstlúðurs og var fundið upp í Frakklandi um árið 1820. Christopher Heyerdahl. Christopher Heyerdahl er kanadískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í "Supernatural", "New Moon" og "Stargate Atlantis". Einkalíf. Heyerdahl er fæddur í Bresku Kólumbíu í Kanada og er af norskum og skorskum uppruna. Ferill. Heyerdahl kom fyrst fram í sjónvarpsþættinum 21 Jump Street. Síðan þá hefur hann komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hefur hann komið fram sem gestaleikari í mörgum af vinsælustu sjónvarpsþáttum nútímans: "Stargate SG-1", "Dead Zone", "Saved", "Smallville", "Caprica" og "Human Target". Hann kefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "Coyote Run", "The Peacekeeper", "Babel", ' og "The Invisible". Tenglar. Heyerdahl, Christopher Koji Kondo. Koji Kondo er japanskt tónskáld sem er þekktastur fyrir tónlist sem hann hefur samið fyrir Mario- og The Legend of Zelda-leikjaraðirnar. Á meðal áhrifavalda Kondos eru Deep Purple, Casiopeia, Chick Corea og Herbie Hancock. Brian Cox (eðlisfræðingur). Brian Cox (fæddur 3. mars 1968) er breskur öreindafræðingur, meðlimur í Royal Society og prófessor við háskólann í Manchester. Hann vinnur að ATLAS-tilrauninni við Stóra sterkeindahraðlinn í CERN í Genf. Hann er þekktastur sem kynnir margra sjónvarpsþátta fyrir BBC þar sem hann er oftast kallaður „Brian Cox prófessor“. Hann var líka frægur í smátíma á tíunda áratugnum sem hljómborðsspilari í hljómsveitinni. Cox, Brian HSH45-1001. Ragnar Bjarnason - Guðbergur Auðunsson og KK Sextettinn er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1959. Á henni flytja Ragnar Bjarnason, Guðbergur Auðunsson og KK Sextettinn fjögur lög. HSH45-1008. Ómar R. syngur er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1960. Á henni flytur Ómar Ragnarsson tvö lög. Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. HSH45-1010. Ómar R. syngur er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1961. Á henni flytur Ómar Ragnarsson ásamt KK sextett tvö lög. Lotta Engberg. Lotta Engberg (fædd 5. mars 1963 í Övertorneå) er sænsk söngkona og spjallþáttastjórnandi. Hún tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1987. Útgefið efni. Engberg, Lotta HSH45-1015. Ómar er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1963. Á henni flytur Ómar Ragnarsson ásamt Hljómsveit Ólafs Gauks tvö lög. HSHEP-1025. Rondó Tríó er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1969. Á henni flytja Rondó Tríó fjögur lög. Útsetningar: Sigurður Rúnar Jónsson. Rondó Tríó skipa: Einar Jónsson á trommur, Arthur Moon á bassa og Matthías Karelsson á Codovox og söng. Aarau. Aarau er borg í Sviss og jafnframt höfuðborg kantónunnar Aargau. Aarau var fyrsta eiginlega höfuðborg Sviss til skamms tíma árið 1798, áður en stjórn helvetíska lýðveldisins var flutt til Luzern. Lega. Aarau liggur við ána Aare vestarlega í kantónunni og liggja vestari borgarmörkin að landamærunum að Solothurn. Næstu borgir eru Basel til norðvesturs (40 km), Zürich til austurs (40 km) og Luzern til suðausturs (40 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Aarau er svartur örn með rauðar klær, nef og tungu á hvítum grunni. Efst er rauður borði. Hér er um orðaleik að ræða, enda merkir "Aar" úr Aarau "örn" á þýsku. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Arowe og er dregin af ánni Aare. Arowe breyttist fljótt í Aarau, en "au" merkir "flæðiland". Það athugist að þýska orðið Aar merkir örn (sbr. Ari á íslensku), en það hefur ekkert með borgarheitið að gera í þessu tilfelli. Söguágrip. Aarau myndaðist sem þorp í upphafi 13. aldar. Árið 1976 fundu fornleifafræðingar leifar af gamalli trébrú yfir ána Aare, þannig að staðurinn hefur verið notaður sem þjóðleið í austur-vestur stefnu nokkru áður. Milli 1240 og 1250 veittu greifarnir af Kyburg Aarau borgarréttindi og stofnuðu borgina formlega. En 1263 dó Kyburg-ættin út og eignaðist þá þýski konungurinn Rúdolf I frá Habsborg borgina. Hann staðfesti borgarréttindi Aarau árið 1283. Á 14. öld fékk Aarau borgarmúra og var hún stækkuð í leiðinni. 1415 réðust hermenn frá Bern á héraðið og sátu um Aarau þegar Habsborgarættin var í ónáð hjá þýska keisaranum. borgin féll eftir skamma vörn og varð Bern þá eigandi hennar næstu aldir. Árið 1528 þrýsti borgarráð Bernar á íbúa Aarau til að taka siðaskiptum og var það gert. Fyrir vikið var borgin Aarau notuð sem aðalfundarstaður fyrir samband reformeraða kantónanna. Við það stækkaði borgin enn og iðnaður þreifst vel. Síðasti fundur reformeraða sambandsins í Aarau fór fram í desember 1797. Aðeins nokkrum mánuðum seinna hertóku Frakkar landið allt. Héraðið í kringum borgina Aarau var innlimað í helvetíska lýðveldinu og var Aarau gerð að höfuðborg lýðveldisins, hinnar fyrstu eiginlegu höfuðborgar Sviss. Alþingið fundaði í ráðhúsi borgarinnar, en ríkistjórnin í stóru einbýlishúsi. Strax kom þó í ljóst að Aarau var of lítil borg til að taka við hlutverki höfuðborgar. Aðeins fjórum mánuðum seinna fluttu þingið og stjórnin því til Luzern, sem tók við því hlutverki. Aarau var þó eftir sem áður höfuðstaður litlu kantónunnar Aargau. Árið 1803 voru þrjár smáar kantónur (Aargau, Fricktal og Baden) sameinaðar í eina stóra kantónu, Aargau, og varð Aarau höfuðborg hennar. Það hefur hún verið síðan. Aarau er í dag frekar lítil borg. Íbúar voru aðeins 2.400 þegar hún var höfuðborg Sviss, 7.800 um aldamótin 1900 og rúmlega 19 þúsund í dag. Íþróttir. Helsta íþróttagrein borgarinnar eru veðreiðar. Á hlaupabrautinni eru árlega haldin ýmis hestamót. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er FC Aarau, sem þrisvar hefur orðið svissneskur meistari (1912, 1914 og 1993). Hitaveita. Orðið „orkuveita“ hefur verið notað í auknu mæli, sem lýsir því betur að flutt er bæði varmi og rafmagn, en orðið „hitaveita“ var tekið inn í mörg önnur tungumál líkt og orðið geysir yfir þetta fyrirbæri: (jarð)hitaveitur. Einkenni varmaorku er að nýta má hana við mishátt hitastig, frá hæsta hita á hverjum stað og allt niður undir umhverfishita. Háhitasvæði geymir hita í jarðhitageymi og hitinn er á bilinu 250 – 350°C og þar er hægt að nota gufuna úr jörðinni til að knýja rafal og framleiða rafmagn, eftir verður þá heitt vatn sem er yfir 100°C heitt og nota mætti það til húshitunar. En eftir það er svo vatnið ekki orðið kalt heldur er við 30-40°C heitt og er nothæft til sundlaugarhitunnar eða snjóbræðslu til dæmis. Ekki er þó oft hægt að nýta varmainnihald vatnsins að fullu niður undir umhverfishita, þó það sé æskilegt markmið. Æskilegt er einnig að dæla afgangsvatninu niður í jarðhitageyminn til að viðhalda þrýstingi í honum. Nýting jarðhita. Í gegnum mannkynssöguna hefur hveravatn verið nýtt til þvotta og baða. Safnað var vatni úr heitum laugum og það kælt að hentugum hita eða blandað köldu vatni, og Snorralaug í Reykholti er þekktasta dæmið hér á landi. Rómverjar eru frægir fyrir sína baðmenningu, byggðu þeir jarðhitaböð þar sem heitar laugar voru og rústir þeirra eru sýnilegar á mörgum stöðum enn í dag. Margar aðrar þjóðir nýttu heitt uppsprettuvatn á sama hátt, til baða og þvotta. Ekki var það þó fyrr en í byrjun tuttugustu aldar að nýting jarðhitans hófst í meira mæli, fyrst smátt en óx með meiri skilningi á orkulindinni. Á Ítalíu voru fyrstu boranir á háhitasvæði í Lardarello í Toscanahéraði gerðar upp úr aldamótunum 1900. Boranir sýndu fram á að hiti jarðgufunnar í jarðhitageyminum var nógu hár til að framleiða mætti rafmagn með henni á hagkvæman hátt. Hitaveita á Íslandi. Miklar framfarir urðu í nýtingu lághita til hitunar þegar pípulagnir gátu veitt vatnið. Ein af fyrstu hitaveitum sem vitað er um, var sett á stofn fyrir aldarmótin 1900 í Idaho í Bandaríkjunum. Vatnið var leitt í tréstokkum frá borholum til íbúðarhúsa. Á svipuðum tíma voru gerðar fyrstu tilraunir hér á landi var að veita vatni í lokuðum ræsum um garðlönd á Draflastöðum í Fnjóskadal. Árið 1907 leiddi Erlendur Gunnarsson á Sturlureykjum gufu í steyptum rörum frá gufuhver til íbúðarhúss sem var sex metrum hærra á landinu en hverinn. Fyrr á öldum var brennt eldsneyti á eldstæðum, ekki þekktist þó að stýra útbreiðslu ylsins um húsin, seinna komu til margar gerðir ofna, og var mikill munur á búnaði í húsum heldri manna og almennings. Eins og áður segir varð mikil framför þegar málmrör voru nýtt til að flytja vatn bæði kalt og heitt. Eitt af fyrstu húsum sem var byggt með lögnum var á Seyðisfirði um 1885. Um 1900 voru miðstöðvareldavélar algengar þar sem var hitað upp meðal annars vatn sem var leitt svo um húsin í lögnum. Þar með má segja að ný húshitunartækni hafi tekið við á Íslandi og var því auðvelt að yfirfæra hana að hitaveitum þegar tækni til vinnslu heita vatnsins úr jörðu kom til. Tæknilegar framfarir á árunum 1900 – 1920 áttu þátt í að koma af stað nýtingu jarðhitans til húshituna og má nefna þrjú atriði: Fyrsta lagi upphitun Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit á íbúðarhúsi með hveravatni árið 1909, sem sannaði fyrir mönnum að slíkt væri hægt, Í öðru lagi hitun íbúðarhúss á Sturlureykjum í Reykholtsdal með gufu frá hver sem stóð neðar í landinu en sjálft húsið. Og í Þriðja lagi með Reykhúsaaðferðinni sem svo var kölluð, sem Sveinbjörn Jónsson, sem var síðar framkvæmdastjóri Ofnasmiðjunnar, notaði til að hita upp íbúðarhús á Reykhúsum í Eyjafirði stutt eftir 1920. Aðferð hans var að veita vatni í lokaðri hringrás frá heitri laug inn í hús. Vatnið úr hringrásinni var hitað í varmaskipti niðri í lauginni. Þessi aðferð kom í veg fyrir tvennt, tæringu á rörum, vegna efnainnihalds vatnsins og með þessu móti mátti hita upp hús sem stóðu hærra í landi en laugarnar án þess að kosta til dælingar á vatninu. Eðlismunur á hitaða og kælda vatninu heldur hringrásinni við. Reykjavík óx á stríðsárunum, og kallaði það á betri nýtingu lauga innan bæjarlandsins. Ofan á það kom svo eldsneytisskortur á styrjaldarárunum frá 1914 – 18. Rafmagnsveita Reykjavíkur hóf borandir við Þvottalaugarnar í júní 1928. Boranir sýndu að ekki var hægt að framleiða rafmagn vegna of lágs hitastigs en vatnið hentaði þó vel til húshitunar. Fljótlega varð ljóst að Laugaveitan myndi aðeins nægja til að hita upp hluta Reykjavíkur og því var farið að athuga víðar. Í Mosfellssveit var borað árið 1933 og í ljós komu miklir virkjana möguleikar en töfðust framkvæmdir vegna þess að heimstyrjöldin síðari braust út. Það var svo árið 1940 voru 2.700 hús tengd við hitaveitu frá Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Utan Reykjavíkur fylgdust sveitafélög grannt með framvindu í hitaveitumálum, á Akureyri fóru fram fyrstu boranir árið 1930, árangur varð þó enginn. Á Ólafsfirði var fyrstu hitaveitu komið á laggirnar árið 1944, vatnið kom úr Skeggjabrekkudal og Ósbrekku. Á Selfossi tók til starfa hitaveita Kaupfélags Árnesinga 1948, vatnið kom frá Laugardælum og síðar frá Þorleifskoti. Hveragerði fékk hitaveitu árið 1952 en þar höfðu áður verið margar einkaveitur. Hitaveita Sauðárkróks tók til starfa 1953, nokkrar litlar hitaveitur bættust við næsta áratug, en fjölgaði mest kringum 1973 og eftir það þegar olíukreppan dundi yfir. Á Íslandi. Jarðhitasvæði hita um 89% af húsum á Íslandi. Stór hluti af hitaveitukerfi Íslands er frá lághitasvæðum, sem eru utan virka eldfjalla svæðisins, mörg þessara hitaveitukerfa hafa starfað í marga áratugi, í flestum tilfellum eru þetta vatn frá borholum en dæmi eru um sjálfrennandi uppsprettur sem enn eru notaðar. Hitaveitukerfi Reykjavíkur er stærsta hitaveitu dreifikerfi sinnar tegundar í heiminum, það byrjaði smátt um 1930 en í dag þjónar það Reykvíkingum og nágrannabyggðum, alls um 58% af íbúum Íslands. Orkuveita Reykjavíkur nýtir 3 lághitasvæði, nokkur vandamál hafa komið upp við virkjun þessara svæða eins og þrýstingsfall vegna ofnýtingar, kaldavatnsinnflæði, og sjóinnflæði. Ekkert hitaveitukerfanna hefur hætt vinnslu, og lausnir hafa fundist á þessum vandamálum. Meðal lausna er bæting á nýtingu hitakerfanna, dýpri og nákvæmari borun, ný borunarmarkmið og ný svæði, og niðurdæling, ásamt tæknilegum lausnum á yfirborði. Þessi langa reynsla gefur mikilvæga þekkingu á sjálfbærri hitaveitu. 22 hitaveitur eru í almennings eða í einkaeign, sem starfa í 62 aðskildum hitaveitukerfum eða veitum. Stærsta hitaveitan er í Reykjavík og þjónar 180.000 íbúum. Heildar orkunotkun árið 2009 er 12 PJ/ á ári. Tvær aðrar hitaveitur þjóna 18.000 – 20.000 íbúum, meðan hinar 59 eru tiltölulega smáar, og veita hita til íbúa nokkur þúsund manna byggða niður í fámenn sveitafélög. Þeirra orkunotkun á ári er frá 5- 500 TJ/á ári (1 TJ = 1012 J). Til viðbótar koma svo einkareknu hitaveiturnar sem eru í strábýli og þjóna oft 10 eða 20 sveitabæjum, þessar einkareknu hitaveitur þjóna um það bil 4000 íbúum. Um víða veröld. thumbÁhugi erlendis hefur síðustu áratugi beinst mest að raforkuvinnslu úr jarðhita, en möguleikar til þess eru aðeins þar sem háhitasvæði er að finna, sem er aðallega löndum þar sem plötuskil liggja um eða við (sjá mynd af plötuskilum). Fyrsta jarðgufuvirkjunin var í Larderello í Toscana á Ítalíu árið 1904. Stærstu virkjanirnar eru á Geysissvæðinu í Kaliforníu, þó hefur verið hröð uppbygging á síðustu árum á Filippseyjum, í Indónesíu og Mexíkó. Flest lönd sem búa yfir jarðhita, eru á breiddargráðum þar sem hlýtt loftslag ríkir, og því ekki bein þörf fyrir hitun húsa, Ísland sker sig út úr að þessu leiti. Og er Ísland í forystu í því að nýta jarðhita til annars en raforkuframleiðslu, og þá er ekki miðað aðeins við höfðatölu, heldur einnig heildarnotkun. Stigi. Stigi (eða tröppur'") er stighækkandi þreparöð sem leiðir þann sem stígur milli þrepa ("riða") frá lægri fleti til hærri flatar. Stigar eru oft í húsum milli hæða, á gönguleiðum eða í ám (sbr. laxastigi eða skipastigi). Sumir gera greinarmun á orðunum stigi og trappa, og kalla stiga, eins og þann sem iðnaðarmenn nota til að leggja upp að vegg, aldrei tröppur. En útfellanlega „stiga“ sem er í laginu eins og bókstafurinn A aðeins tröppur, en aldrei stiga. Í ensku t.d. er gerður mikill grinarmunur á föstum stigum og lausum, sbr. stairway og ladder. Ganga. Ganga eða labb vísar til hægfara hreyfingu manns eða háfættra dýra þar sem fætur þeirra eru settir fram á víxl. Tvífætt dýr hafa alltaf einn fót á jörðinni en ferfætt dýr hafa tvo eða fleiri. Þetta kallast að ganga en einnig labba sem þó er oft talin öllu óvirðulegri sögn. Dýr með litlar fætur eru oft sögð skríða, s.s. skordýr. Johann Georg Hiedler. Johann Georg Hiedler (28. febrúar 1792 – 9. febrúar 1857) var austurrískur malari sem opinberlega hefur verið talinn föðurafi Adolfs Hitler og var kvæntur ömmu hans. Það er þó ekki fullvíst því þau giftust ekki fyrr en fimm árum eftir fæðingu Alois, föður Adolfs. Johann Georg og Maria Anna Schicklgruber gengu í hjónaband 1842 og varð Alois þá stjúpsonur Johanns Georgs og tók ættarnafn hans en hafði áður kallast Alois Schicklgruber. Seinna var fullyrt að Alois væri í raun sonur Johanns Georgs, getinn fyrir hjónaband, og árið 1877 fékk hann lagalega staðfestingu á því. Sagnfræðingar telja að þetta sé ekki ólíklegt en einnig hefur verið nefndur til sem hugsanlegur faðir Johann Nepomunk Hiedler, yngri bróðir Johanns Georgs, sem ól Alois upp að nokkru leyti og arfleiddi hann að vænum hluta eigna sinna. Einnig voru um tíma uppi kenningar um að gyðingur að nafni Leopold Frankenberger hefði barnað Mariu þegar hún var vinnukona á heimili fjölskyldu hans í Graz en sú tilgáta þykir nú ósennileg, meðal annars vegna þess að gyðingar voru á þessum árum útlægir frá Graz. Sænska úrvalsdeildin. Sænska úrvalsdeildin eða "Allsvenskan" er efsta deildin í Svíþjóð. Deildin var stofnuð árið 1924 og fyrir þann tíma var hún kölluð Svenska serien. Árið 2008 var liðum í deildinni fjölgað úr 14 í 16. Sigurvegari deildarinnar eru sænskir meistarar. Keppnin. 16 lið keppa í deildinni. Tímabilið byrjar í mars og endar í október. Hvert lið spilar hvort annað tvísvar, einu sinni með heimaleik og einu sinni með útileik, í 30 leikjum alls. Tvö neðstu lið deildarinnar falla í Superettan og tvö efstu lið úr Superettan koma í þeirra stað. Þriðja neðsta liðið í sænsku úrvalsdeildinni spilar umskipsleik gegn þriðja efsta liði í Superettan. Vigfús Hansson Scheving. Vigfús Hansson Scheving (15. janúar 1735 – 14. desember 1817) var íslenskur sýslumaður á 18. öld, lengst af í Skagafjarðarsýslu, og bjó á Víðivöllum. Vigfús var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal, sonur Hans Scheving, klausturhaldara á Möðruvöllum, og konu hans Guðrúnar Vigfúsdóttur. Hann varð stúdent úr Hólaskóla 1754 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1757. Hann var lengi Hólaráðsmaður en þegar Þórarinn Jónsson sýslumaður á Grund dó 1767 var hann settur sýslumaður Eyjafjarðarsýslu og gegndi því embætti þar til Jón Jakobsson tók við árið eftir. Vigfús varð sýslumaður Skagafjarðarsýslu 21. febrúar 1772. Hann bjó á Víðivöllum í Blönduhlíð. Í hans tíð fór síðasta aftaka í Skagafirði fram á Víðivöllum og var það árið 1789, þegar kona sem hafði fyrirkomið barni sínu og dysjað það var höggvin þar. Vorið 1800 fékk Vigfús lausn frá embætti og flutti þá suður að Innra-Hólmi til Magnúsar Stephensen, tengdasonar síns, var hjá honum eftir það og dó í Viðey. Kona Vigfúsar var Anna Stefánsdóttir, dóttir Stefáns Ólafssonar prests á Höskuldsstöðum og systir Ólafs Stephensen stiftamtmanns. Dætur þeirra voru Ragnheiður, kona Stefáns Þórarinssonar amtmanns, systursonar Önnu, og Guðrún kona Magnúsar Stephensen, bróðursonar Önnu. Synir Vigfúsar voru Jónas sýslumaður á Leirá, sem giftur var Ragnheiði systur Magnúsar, og Stefán umboðshaldari á Ingjaldshóli, en Helga Jónsdóttir kona hans var systurdóttir Vigfúsar og öll börn þeirra hjóna því systkinabörn við maka sína. Lundarháskóli. Aðalbygging skólans í miðbæ Lundar Lundarháskóli (sænska: "Lunds universitet"), stundum kallaður Háskólinn í Lundi, er ríkisháskóli í bænum Lundi í Svíþjóð. Hann er næst-elsti háskóli í Svíþjóð og einnig sá næst-fjölmennasti í stúdentum talið. Konunglegi tækniháskólinn. Konunglegi tækniháskólinn (sænska: "Kungliga Tekniska högskolan") er ríkisháskóli í Stokkhólmi í Svíþjóð. Stokkhólmsháskóli. Stokkhólmsháskóli (sænska: "Stockholms universitet") er ríkisháskóli í Stokkhólmi í Svíþjóð. Hann var stofnaður árið 1878 og er í dag fjölmennasti skóli landsins í stúdentum talið. Yfir 27.550 stúdenta stunda nám við háskólann. Landbúnaðarháskóli Svíþjóðar. Landbúnaðarháskóli Svíþjóðar (sænska: "Sveriges lantbruksuniversitet") er ríkisháskóli skammt frá Uppsölum í Svíþjóð. Gerðardómur. Gerðardómur er úrlausnaraðili, skipaður s.k. "gerðarmönnum", sem, samkvæmt lögum eða samningi, úrskurðar um ágreiningsmál á sviði einkaréttar utan almennra dómstóla. Ákveða má með samkomulagi að skjóta ágreiningi milli aðila í gerð, en niðurstaða slíks gerðardóms er bindandi og verður ekki áfrýjað. Með því að semja um að setja ágreining í gerð afsala málsaðilar sér þeim rétti að leita til almennra dómstóla og skuldbinda sig til þess að hlíta niðurstöðu gerðardómsins. Gerðardómur er einnig haft um dóm þann, sem er kveðinn upp af gerðarmönnum. Í samningi um að leggja mál fyrir gerðardóm kemur iðulega fram hverjir skuli sitja í gerðardómi. Ef svo er ekki og ef ekki næst samkomulag milli aðila um þetta atriði, geta aðilar skotið málinu til héraðsdómara, sem skipar þrjá menn í dóminn, skv. 3. mgr. 4. gr. laga 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Ekki má leggja öll mál fyrir gerðardóm, einungis þau ágreiningsefni, sem aðilar hafa forræði yfir. Því er t.d. ekki heimilt að leggja refsimál á borð við líkamsárás eða þjófnað fyrir gerðardóm. Ólafur Stephensen (dómsmálaritari). Ólafur Magnússon Stephensen (6. september 1791 – 14. apríl 1872) var íslenskur lögfræðingur sem var dómsmálaritari við Landsyfirrétt og bjó lengi í Viðey. Ólafur var fæddur á Leirá, sonur Magnúsar Stephensen konferensráðs og konu hans Guðrúnar Vigfúsdóttur Scheving. Frændi hans og nafni, Ólafur sonur Stefáns Stephensen bróður Magnúsar, fæddist sama ár og er þeim stundum ruglað saman. Hann lærði til stúdentsprófs í heimaskóla hjá Árna Helgasyni biskupi og útskrifaðist árið 1814. Sama haust hóf hann nám við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist með lögfræðipróf 1817. Hann varð varadómsmálaritari við Landsyfirrétt 1826 en það starf var sameinað embætti 2. dómara árið 1834. Hann var sæmdur justitsráðsnafnbót 1862. Ólafur erfði Viðey eftir föður sinn þegar hann lést 1833 og bjó þar til æviloka. Jón Espólín segir að hann hafi verið búmaður, en gáfuminni. Hann var þríkvæntur og voru fyrri konur hans tvær systur og náfrænkur hans, dætur Stefáns Stephensen amtmanns, föðurbróður hans, þær Sigríður (30. ágúst 1792 – 2. nóvember 1827) og Marta (14. júní 1805 – 27. október 1833). Þriðja kona Ólafs var Sigríður Þórðardóttir (1803 – 1879). Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (einnig "Fmos") var stofnaður þann 20. ágúst 2009. Samningur um stofnun Fmos var undirritaður af menntamálaráðherra og bæjarstjóra Mosfellsbæjar 19. febrúar 2008 og byrjaði starfsemi hans strax haustið 2009. Skólinn er núna í elsta skólahúsnæði Mosfellsbæjar að Brúarlandi, en skólinn verður þar þangað til að nýja byggingin mun rísa. Sú bygging mun vera 4000 m2 og gert er ráð fyrir að hún muni vera að Háholti, nærri miðbæ Mosfellsbæjar. Í skólanum er símat. Símatið gengur fyrir sig þannig að mörg verkefni eru lögð fyrir nemendur yfir önnina. Þegar nemendur skila inn verkefnum þá fá þeir mat til baka frá kennara sem sýnir hvað vantar uppá og hvernig verkefnið var unnið að mati þeirra. Skólinn kennir sig við auðlindir og umhverfi og er umhverfisfræði er skylduáfangi í skólanum. Í skólanum er boðið uppá fimm brautir og tvær af þeim eru til stúdentsprófs, en þær eru nátturvísundabraut og félags- og hugvísindabraut. Hinar þrjár brautirnar eru almenn námsbraut, listabraut og loks íþrótta og lýðheilsubraut. Nemendafélagið heitir Nemendafélag Framhaldskólans í Mosfellsbæ (eða nffmos) og rekur það skemmtinefnd, fjölmiðlanefnd og íþróttanefnd. Nemendafélag Fmos tekur þátt í Gettu betur, Söngvakeppni framhaldsskólana og ræðukeppnum. Nemendur Fmos eru fáir miðað við aðra menntaskóla. Jersey Shore. "Jersey Shore" er bandarískur raunveruleikaþáttur sýndur á MTV um sjö unga einstaklinga sem fara til New Jersey til að vinna í stuttermabolaverslun. Þættirnir byrjuðu 9 desember 2009 og eru enn í vinnslu, í annari seríu fóru þau til Miami og unnu í ísbúð á meðan þau voru þar, þriðju seríu fóru þau svo aftur til Jersey og unnu aftur í sömu búðinni. Fjórða sería er núna í tökum og verður hún á Ítalíu og kemur út seinni partinn árið 2011. Þegar þau koma í fyrstu seríu þekkjast þau ekki neitt en þegar tíminn líður verða þau rosa góðir vinir og líta á sig sem fjölskyldu. Það er rosalega mikið um rifrildi, hjá þeim öllum en ná þau alltaf á endanum að laga sambandið og verða enn betri vinir en fyrr og verður spennandi að sjá hvað gerist í næstu seríu. Jersey Shore eru unglingaþættir sem eru mjög vinsælir útum allann heim. Rocky Marciano. Rocky Marciano (fæddur Rocco Francis Marchegiano; 1. september 1923 – 31. ágúst 1969), var bandarískur boxari og var þungavigtameistari heimsins frá 23. september 1952 til 27. apríl 1956. Þegar hann lagði hanskana á hilluna þá var hann eini og er eini þungavigta boxari sem hættir með engin töp. Marciano, Rocky Johnny Depp. John Christopher Depp, þekktastur sem Johnny Depp, (fæddur 9. júní 1963) er bandarískur leikari. Depp fæddist í Owensboro, Kentucky en var alinn upp í Flórída. Hann hætti í skóla í von um að ná frama sem rokkstjarna þegar hann var fimmtán ára. Hann var í mörgum bílskúrsböndum þar á meðal The Kids. Hann byrjaði fyrst að leika eftir heimsókn til L.A með þáverandi konu sinni, Lorian Alison sem kynnti hann fyrir leikaranum Nicolas Cage. Frumraun hans í kvikmyndageiranum var A Nightmare on Elm Street árið 1984. Hann skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann tók við af „Jeff Yagher“ í hlutverkinu sem leynilögreglan Tommy Hanson í vinsælu sjónvarpsþáttunum 21 Jump Street. Þegar hann hitti Tim Burton var hann búinn að leika í nokkrum unglingamyndum en fyrsta myndin sem hann lék í þar sem Tim Burton var leiksstjóri var Edward Scissorhands. Í kjölfar velgengni kvikmyndarinnar fór hann að velja hlutverk sem koma gagnrýnendum og áhorfendum á óvart. Hann hélt áfram að fá góða gagnrýni og auka vinsældir með því að taka aftur þátt í kvikmynd með Tim Burton sem aðalhlutverkið í myndinni Ed Wood það var árið 1994. árið 1997 lék hann leynilögreglumann hjá FBI í myndinni Donnie Brasco sem var byggð á raunverulegum atburðum, hann lék á móti Al Pacino. Árið 1998 lék hann í Fear and Loathing in Las Vegas. Árið 1999 lék hann í vísindaskáldsögu- og hryllingsmyndinni The Astronaut's Wife. Sama ár þá lék hann aftur í mynd sem Tim Burton leiksstýrði myndin hét Sleepy Hollow. Depp lék margar persónur á ferlinum, þar á meðal aðra raunveruleikamynd sem einkaspæarinn Fred Abberline í From Hell. Hann hefur verið tilnefndur til 92 verðlauna en unnið 37 af þeim. þar á meðal hefur hann verið tilnenfndur til óskarsverðlauna þrisvar sinnum. Kvikmyndir. Depp, Johnny Daniel Heatley. Daniel James Heatley (fæddur 21. janúar 1981) Hann er kanadískur atvinnumaður í íshokkí. Hann spilaði fyrir San Jose Sharks þegar hann byrjaði í NHL (National Hockey League). Hann vann Calder Memorial Trophy sem besti nýliði NHL. En eftir að Heatly var ábyrgur fyrir bílslys í september 2003 sem drap liðsfélaga og mjög góðan vin Dan Stryder bað hann um að fá að skifta um lið og fór til Ottowa Senators. Heatley setti met fyrir mörk á einu tímabili sem voru 50 og stig sem voru 105. Heatley er búinn að vera í kanadíska landsliðinu sex sinnum. Hann hefur tekið þátt fyrir land sitt tvisvar sinnum á Ólympíuleikum og einu sinni World Cup of Hockey. Hann hefur einnig verið í unglingaliðunum. Hann tók fram úr aðal markaskorurum og stiga skorunum sem hafa verið í landsliðinu. Svo hann varð stigahæsti maður sem hefur verið hjá Kanada í landsliði. Í enda tímabils 2008-2009 heimtaði heatly skipti frá Senators. Það var búið að gera samning að senda hann til Edmonton oilers 30 júní. Heatly hlustaði ekki á þennan engann skiftingasamning. 12 september fór hann til San Jose Sharks í skipti Milan Michálek, Jonathan Cheechoo. Heatly var fæddur í Þýskalandi Mamma hans og pabbi voru Karin og Murray heatly. Pabbi hans var atvinnumaður í hokkí í þýskalandi þegar pabbi hans hætti í hokkí þá flutti fjölskyldan til Calgary. Heatly var fæddur í þýskalandi og mamma hans var þýsk svo hann er með bæði Þýskan og Kanadískan ríkisborgara rétt en hann spilar fyrir Kanadískalandsliðið. Hann lék í yngri deildum þegar hann var ungur í Alberta Midget Hockey league. hann spilaði fyrir Calgary Buffalos og fékk 81 stig í 36 leikjum 1997-98 og vann sér inn Harry Allen minningar bikar. Hann vann brons með liðinu sínu á mótinu Air Canada Cup 1998. Þar sem hann var markahæstur og kosinn MVP. Hann spilaði háskólahokkí í Bandaríkjunum. hann spilaði fyrir Calgary canucks sem var í Alberta Junior Hockey League. Hann var kosinn Canadian Junior player ársins.Næsta tímabil gerði hann 2 ára samning Háskólann Wincostin Badgers. sem fyrsta árs nemi í háskólanum var hann kosinn í fyrsta All Star lið háskólanna. Hann kaus að hætta þegar hann átti 2 ár eftir og vildi gerast atvinnumaður með Trashers. Heatly byrjaði í Nhl fyrst með Trashers 2001-2002 og rústaði öllum byrjendum í stigum og stoðsendingum og var annar hæstur í mörkum. Hann vann Calder memorial trophy fyrir nýbyrjandi ársins. 2002-2003 var Heatly NHL stjarna. Þegar hann lenti í bílslysinu sem drap liðsfélaga hans og vin þá meiddist hann alvarlega og tímabilið hans byrjaði ekki fyrr en janúar 2004. Heatly er með styrk frá Easton Hockey sem sér um klæðning hans. hann hefur verið kosinn í NHL hokkí leiki í tölvum sem EA Sports sjá um en vegna meiðsla hans eftir bílslys þá gat hann ekki mætt í það. Heatly hefur unnið til margra verðlauna vegna íþróttar sinnar frá því hann byrjaði ungur í hokkí og hefur fengið verðlaun fyrir að leika í NHL og líka minni deildum og einnig hefur hann fengið verðlaun fyrir að leika í landsliðinu sem besti framherji og fleira. Heatley, Daniel Luis Suarez. Luis Alberto Suárez (fæddur 24. janúar 1987) er atvinnumaður í fótbolta frá Úrúgvæ. Hann spilar sem framherji fyrir enska knattspyrnufélagið Liverpool. Suárez spilar einnig fyrir landslið Úrúgvæ.Hann gengur stundum undir nafninu " El pistolero". Luis Suarez byrjarði að spila sem atvinnumaður árið 2005 með Nacional í Úrúgvæ. Hann spilaði eina leiktíð með félaginu og skoraði 11 mörk í 27 leikjum áður en hann var keyptur af hollenska félaginu Groningen árið 2006. Hann sló í gegn hjá groningen þrátt fyrir ungann aldur og skoraði 10 mörk í 29 leikjum. Eftir aðeins eina leiktíð með groningen líkt og hjá Nacional, var hann keyptur af hollenska félaginu Ajax. Ajax borgaði 7,5 milljónir evra fyrir hinn 20 ára Suarez og hann var ekki lengi að stimpla sig inn í liðið. Í sínum fyrsta leik fyrir Ajax fiskaði hann víti á móti Slavia Prague í meistaradeildinni, Klaas Jan Huntelaar tók vítið en skoraði ekki. Í sínum fyrsta leik í hollensku Eredivisie skoraði hann eitt mark, lagði upp þrú og fiskaði eitt víti í 8-1 sigri Ajax gegn nýliðum De Grafschaap. Hann hélt áfram sinni afbragðs byrjun fyrir sitt nýja félag með að skora tvö mörk í fyrsta heimaleik sínum á Amsterdam Arena. Hann skoraði stuttu seinna sína fyrsta þrennu á móti Willem. Hann endaði sína fyrstu leiktíð fyrir Ajax með 20 mörk í 40 leikjum. Suarez hélt uppteknum hætti leiktíðina 2008 – 2009 og skoraði 22 mörk í 31 leikjum. Hann var gagnrýndur fyrir að fá of mikið af gulum spjöldum og í leik á móti Utrecht fékk hann sitt sjöunda gula spjald og var þá dæmdur í leikbann. í fyrsta deildarleiknum leiktíðina 2009 – 2010 skoraði hann þrennu á móti RKC Waalwijk. Hann hélt áfram að skora grimmt í öllum keppnum, hann skoraði fernu í Evrópudeildinni og aðra slíka í hollensku Eredivisie, hann skoraði sex mörk í hollensku bikarkeppninni í 14-1 sigri gegn WHC. Hann endaði leiktíðina með 49 mörk í öllum keppnum og var valinn leikmaður ársins í hollensku Eredivisie. Hann vann einnig hollensku bikarkeppnina eftir úrslitaleik gegn Feynoord, hann skoraði tvennu í þeim leik. í byrjun leiktíðarinnar 2010-2011 skoraði Suarez sitt eitthundraðasta mark fyrir Ajax í 1-1 jafntefli gegn PAOK í undankeppni meistaradeildarinnar. í Nóvember varð Suarez fyrir harðri gagnrýni eftir atvik sem gerðist í leik Ajax og PSV Eindhoven, en þá beit Suarez Otman Bakkal í hálsinn. Hann var dæmdur í 2 leikja bann og sektaður af Ajax, en seinn var banninu framlengt í 7 leiki og hann fékk sekt frá aganefnd Hollensku Eredivisie. Suarez spilaði ekki fleiri deildarleiki fyrir Ajax en spilaði hann sinn síðasta keppnisleik gegn AC Milan í Meistaradeil Evrópu. í byrjun Janúar árið 2011 var Suarez sterklega orðaður við Enska liðið Liverpool eftir að Kenny Dalglish tók við stjórnvöldin af Roy Hodgson. Liverpool bauð í fyrstu 17 milljónir punda fyrir Suarez en stjórn Ajax hafnaði boðinu og sagði að Enska liðið þyrfti að borga mun meira fyrir þjónustu Suarez. Þann 28. janúar tók Ajax við tilboði Liverpool, upphæðin var 23 milljónir punda og var nokkuð ljóst að Suarez var á leiðinni í Ensku deildina. Daginn eftir stóðst Suarez lækniskoðun og skrifaði uppá samning við Liverpool til ársins 2016. Luis Suarez var dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi í tæpar tvær klukkustundir, Liverpool festi kaup á sóknarmanninum hávaxna Andy Carroll stuttu eftir kaupin á Suarez til að leysa af Fernando Torres, Torres bað um sölu frá félaginu stuttu eftir að Ajax tók við tilboðinu frá Liverpool fyrir Suarez. Stuðningsmenn Liverpool voru spenntir fyrir samvinnu Suarez og Torres en beiðni Torres um sölu kom þeim í opna skjöldu. Torres fór til Chelsea fyrir 50 milljónir punda sem er met hjá félaginu og í Enskri knattspyrnu en Liverpool keypti Andy Carroll fyrir 35 milljónir þann sama dag og var hann þá dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi, 12 milljónum dýrari en Suarez. Suarez byrjaði á bekknum gegn Stoke City þann 2. Febrúar 2011, hann var ekki byrjaður að æfa með liðinu en þrátt fyrir það skoraði hann sigurmarkið eftir að hafa komið inná í seinni hálfleik, hann var aðeins búinn að vera á vellinum í nokkrar mínútur. Hann var ekki í leikmannahópnum gegn Chelsea þann 6. Febrúar, Suarez byrjaði sinn fyrsta leik gegn Wigan þann 12. Febrúar. Suarez lagði upp mark fyrir Glen Johnson í 3-1 tapi gegn West Ham. Luis Suarez átti stjörnuleik gegn erkifjendum Liverpool, Manchester United, þann 6. Mars. Hann lagði upp 2 mörk og átti stóran þátt í hinu, þetta vakti mikla hrifningu stuðningsmanna Liverpool og sérstaklega fyrir ótrúlegan einleik inní vítateig Manchester United, þar sem hann snéri sér úr erfiðri stöðu gegn tveim varnamönnum, gabbaði sá þriðja, klobbaði markmanninn og í leiðinni rendi boltanum á Dirk Kuyt þar sem hann skoraði auðveldlega úr mjög stuttu færi. Suarez skoraði sitt annað mark fyrir Liverpool gegn Sunderland í 2-0 útisigri þann 20. Mars. Hann lék þá á varnamann Sunderland og hljóp að markinu með fram endalínunni og skaut í fjærhornið úr þröngu færi. Luis Suarez var valinn í fyrsta sinn í landslið Úrúgvæ þann 8. Febrúar árið 2007 gegn kólumbíu. Hann var rekinn útaf í leiknum eftir að hafa fengið tvö gul spjöld. Hann hefur síðan þá verið mikilvægur hlekkur í liðinu ásamt Diego Forlán. Suarez myndaði sterka sóknarvinnu með Forlán á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu árið 2010 í Suður-Afríku. Suarez skoraði þrjú og Forlán var markahæstur á mótinu með fimm mörk. Suarez var á einu augnarbliki þjóðhetja í Úrúgvæ og á sama tíma einn hataðisti maður í Afríku, eftir leik gegn Gana í 8-liða úrslitum mótsins. Á síðustu augnablikum leiksins var Gana í stórókn og Muslera markvörður Úrúgvæ gerði vel með að verja skot Ganamanna, hann var síðan kominn úr stöðu og Suarez stóð á marklínunni, hann varði eitt skot með löppunum en Dominic Adiyiah fylgdi vel á eftir með skalla en þá varði Suarez boltann með hendinni. Hann var rekinn útaf og Gana fékk vítaspyrnu en Asamoah Gyan skaut í slánna og leikurinn var flautaður af, þá var farið í vítaspyrnukeppni sem Úrúgvæ vann. Úrúgvæ tapaði í undanúrlitum mótsins gegn Hollandi, liðið tapaði einnig leik um þriðja sætið gegn Þýskalandi en liðið var sátt með fjórða sætið og kom það mörgum á óvart að liði skuli hafa komist það langt. Suarez hefur skorað 16 mörk í 38 leikjum. Suarez, Luis Alberto Bragðarefur. Bragðarefur er vinsæll ísréttur sem fæst í flestum ísbúðum víðsvegar um Ísland. Bragðarefurinn er útbúinn þannig að ís er látinn í ílát nammi, ávextum og sósum að eigin vali er blandað saman við ísinn í ákveðinni hrærivél sem til er í flestum ísbúðum og sjoppum nú til dags, svo er ísnum mokað í pappaílát með sleif. Oft er svo látið eithvert nammi eða ávöxtur ofan á ísin til skrauts. Bragðarefinn er hægt að útbúa í mörgum stærðum frá pínulitlum upp í risa stóra. Nú hafa nokkur matvælafyriritæki á Íslandi sett á markað tilbúinn bragðaref. Bragðarefurinn er ekki séríslenskt fyrirbrygði en hann var fundinn upp í Bandaríkjunum árið 1973. Hann er þó alls ekki fáanlegur alls staðar í heiminum. Í Bandaríkjunum heitir bragðarefur mix-in. Hjá McDonald's er hann seldur undir nafninu McFlurry en það eru oftast ekki ávextir og eins mikið úrval af bragðtegundum í þeim ísrétti. Hjá Dairy Queen hefur hann verið seldur undir heitinu Blizzard frá árinu 1985. Frogger. Frogger er tölvuleikur sem Konami setti á markað fyrir spilasali árið 1981. Í leiknum stýrir spilamaðurinn froski upp eftir skjánum framhjá hindrunum. Fyrst þarf froskurinn að komast yfir umferðargötu þar sem hann verður að forðast bíla og síðan yfir fljót þar sem hann stekkur á skjaldbökum og trjádrumbum til að komast í höfn efst á skjánum. Leikurinn var mjög vinsæll á sínum tíma og Konami hefur haldið áfram að gefa út framhaldsútgáfur með fleiri borðum og betri grafík, til dæmis þrívíddarútgáfuna "Frogger Returns" fyrir leikjatölvurnar Wii og PlayStation 3 árið 2009. Donkey Kong (tölvuleikur). Donkey Kong er tölvuleikur sem Nintendo setti á markað fyrir spilasali árið 1981. Leikurinn er pallaleikur þar sem markmiðið er að stýra karlinum Jumpman (sem nú heitir Mario) upp vinnupalla að efstu hæð þar sem górilluapinn Donkey Kong heldur kærustu hans (sem nú heitir Pauline) fanginni. Apinn hendir niður tunnum sem Jumpman verður að hoppa yfir. Leikurinn var frumraun japanska leikjahönnuðarins Shigeru Miyamoto sem notaðist við ýmsar nýjungar eins og sjálfvirk myndskeið milli borða til að skapa framvindu í söguna og ólíkt uppbyggð borð. Hetjan og apinn hafa síðan komið fram í fjölda tölvuleikja frá Nintendo. Hunt the Wumpus. Hunt the Wumpus er tölvuleikur sem bandaríski leikjahönnuðurinn Gregory Yob forritaði sem textaleik í BASIC árið 1972. Leikurinn er feluleikur í völundarhúsi þar sem takmarkið er að drepa óvættina, Wumpus. Leikmaðurinn ferðast um völundarhúsið með skipunum eins og „forward“ („áfram“) og „turn left“ („vinstri snú“) og reynir að sjá út frá vísbendingum hvar óvættina er að finna. Hvert herbergi í völundarhúsinu tengist þremur öðrum herbergjum og kortið er eins og hliðarnar á tólfflötungi (engir botnlangar). Í völundarhúsinu eru leðurblökur sem flytja leikmanninn á annan reit af handahófi, hyldýpi og gullmolar. Út frá vísbendingunum á leikmaðurinn að forðast hyldýpi og reyna að lenda ekki í sama herbergi og óvættin. Þegar leikmaðurinn telur sig vita hvar Wumpus er að finna getur hann skotið ör í þá átt. Ef hann hefur rétt fyrir sér deyr Wumpus og leikurinn er unninn, en ef hann hefur rangt fyrir sér færir Wumpus sig um set. Kóði leiksins birtist fyrst í tímaritinu "People's Computer Company" árið 1973. Árið 1980 kom út svart-hvít myndræn útgáfa af leiknum fyrir 4A-tölvuna. Þar er Wumpus teiknaður sem stórt höfuð með fætur. Jungle Hunt. Jungle Hunt er tölvuleikur sem japanski leikjaframleiðandinn Taito setti á markað fyrir spilakassa árið 1982. Upphaflega hét leikurinn "Jungle Boy" og síðan "Jungle King" þar sem aðalpersónan var maður í lendaskýlu sem líktist Tarsan. Eftir málaferli sem erfingjar Edgar Rice Burroughs unnu breytti fyrirtækið leiknum þannig að aðalpersónan var fullklædd í safaríföt. Um leið var nafni leiksins breytt í Jungle Hunt. Leikurinnn er hliðarskrunsleikur frá hægri til vinstri. Í leiknum eru fjögur ólík borð þar sem aðalpersónan þarf að sveifla sér í trjám, synda í á með krókódílum, hlaupa upp fjallshlíð og stökkva yfir steina sem rúlla niður og að síðustu að bjarga stúlku frá mannætum. Missile Command. Missile Command er tölvuleikur sem Atari setti á markað fyrir spilakassa árið 1980. Í leiknum eru borgir neðst á skjánum. Ofan frá koma síðan sprengjur úr ýmsum áttum. Leikmaður á að reyna að eyða sprengjunum áður en þær ná niður að borgunum með því að hreyfa mið um skjáinn með stýrikúlu og ýta á einn af þremur tökkum. Þá fer gagnflaug af stað frá einum af þremur skotstöðum neðst á skjánum sem springur þar sem miðið var og eyðir sprengjum sem eru innan færis. Leikurinn líkir þannig eftir eldflaugavarnarkerfi í kjarnorkustríði. Höfundur leiksins er bandaríski leikjahönnuðurinn Dave Theurer. Strokleður. Strokleður eru ritföng notuð til að stroka út villur sem skrifaðar voru með blýanti eða penna. Strokleður eru gúmmíkennd og bleik eða hvít á lítinn en í dag fást þau í mörgum litum. Margir blýantar eru með áföstu strokleðri á einum enda. Oftast eru strokleður úr gervigúmmí en dýr eða sérstök strokleður eru einnig gerð úr vinyl, plasti eða öðrum gúmmíkenndum efnum. Oft eru ódýr strokleður gerð úr sojagúmmí. Colossal Cave Adventure. Colossal Cave Adventure er gagnvirkur textaleikur sem forritarinn og hellaáhugamaðurinn Will Crowther bjó til árið 1976. Leikurinn er fyrsti ævintýraleikurinn með textaviðmóti. Crowther byggði leikinn á korti sem hann hafði gert af Mammoth-hellunum í Kentucky í Bandaríkjunum. Leikmaður fer um hellana með einföldum textaskipunum á forminu sagnorð+nafnorð. Í hellunum finnur leikmaðurinn ýmsa hluti úr ævintýrum. Þekktasta útgáfa leiksins er sú sem Don Woods þróaði út frá kóða Crowthers með hans leyfi árið 1977. Woods, sem var aðdáandi Tolkiens, bætti við fleiri ævintýrapersónum eins og álfum og trölli. Í þessari mynd varð leikurinn gríðarlega vinsæll og setningar úr honum eins og „You are in a maze of twisty little passages, all alike“ urðu þekkt minni meðal hakkara og í spunaspilum. Ritföng. Ritföng kallast þeir hlutir sem notaðir eru til að skrifa, efni sem skrifuð er á og tengdir hlutir. Þau eru helst notuð í heimilum, skrifstofum og skólum. Skrifstofa. Skrifstofa getur átt annaðhvort við herbergi eða stærra rými þar sem fólk vinnur. Starfsemi margra fyrirtækja og samtaka fer fram á skrifstofum og mörg fyrirtæki hýsa höfuðstöðvarnar sínar í þeim. Skrifstofur eru hannaðar á ýmsan hátt en nú er algengt að hanna skrifstofur sem opin rými; það er að segja, starfsmenn vinna flestir eða allir við skrifborð í sama herbergi. Á skrifstofum má finna meðal annars skrifborð, skrifborðsstóla, skjalaskápa, síma, tölvur og ljósritunarvélar. Á sumum nútíma skrifstofum eru þægileg húsgögn eins og sófar eða grjónastólar þar sem starfsmenn geta slappað af. Eldri skrifstofur skiptast oftast í lítil einkarými en þetta skipulag er nú ekki eins algengt og áður af því það er talið aðskilja starfsmenn og draga úr félagsanda. K2. K2 er næsthæsta fjall í heimi eftir Everestfjalli. Það er 8.611 metrar að hæð og er í Karakoram-fjallgarðinum á landamærum Kína og Pakistans. Á ensku er fjallið gjarnan nefnt "Savage Mountain" („Villta fjallið“) því það er svo erfitt að klífa það. Fjórði hver maður sem reynt hefur að ná tindinum hefur dáið á fjallinu. Aldrei hefur verið klifið á K2 að vetrarlagi. Nafnið er dregið úr „Karakoram“, heiti fjallgarðsins sem K2 tilheyrir, það er að segja það var annað fjallið sem skráð var í landmælingum Great Trigonometric Survey. Stefnumál Great Trigonometric Survey var það að skyldi nota örnefni hvar sem hægt er en það leit út fyrir að K2 átti ekkert staðbundið nafn, líklega vegna staðsetningar þess. Háskólinn í Manchester. Háskólinn í Manchester (enska: "University of Manchester") er opinber rannsóknaháskóli staðsettur í Manchester í Norður-Englandi. Hann er meðlimur í Russell-hópnum hágæðisháskóla. Háskólinn var stofnaður árið 2004 þegar Victoria University of Manchester (kallaður háskólinn í Manchester í daglegu tali) og UMIST (University of Manchester Institute of Science and Technology) voru leystir upp og einn nýr háskóli var stofnaður í stað þeirra þann 1. október sama ár. Victoria University of Manchester var stofnaður árið 1824. Eftir sameiningu var háskólinn tilnefndur háskóli ársins 2006 af dagblaðinu "The Sunday Times". Hann var líka háskóli ársins 2005 í "Times Higher Education Supplement". Eins og aðrir háskólar í Bretlandi höfðu margar Nóbelsverðlaunahafar stundað nám við háskólann í Manchester, þeir eru 25 samtals. Háskólinn er í fjórða sæti eftir Nóbelsverðlaunahafa, eftir Oxford, Cambridge og London. Árið 2007–08 stunduðu yfir 40.000 stúdentar nám við háskólann í Manchester í 500 námskeiðum. Um það bil 10.000 starfsmenn vinna í háskólanum. Þess vegna er hann sá stærsti háskóli í Bretlandi á einu háskólalóði. Fleiri umsóknir eru sendar til háskólans í Manchester en til allra annarra háskóla í Bretlandi, sama ár voru yfir 60.000 umsóknir um grunnnám sendar inn. Árið 2007 voru tekjur háskólans 637 milljónir breskra punda. Árið 2009 náði háskólinn áttunda sæti í listanum Times Higher World University Rankings yfir bestu háskóla í Evrópu og 26. sæti í listanum yfir bestu háskóla í heimi. Space Invaders. Space Invaders er tölvuleikur eftir Tomohiro Nishikado sem japanska leikjafyrirtækið Taito setti á markað fyrir spilakassa árið 1978. Leikurinn er skotleikur þar sem leikmaður stjórnar byssu neðst á skjánum sem hann getur flutt til hægri og vinstri. Ofar á skjánum eru raðir af geimverum sem færast taktfast til hægri og vinstri og niður um eina línu þegar þær ná út að skjábrún. Geimverurnar skjóta líka skotum og reyna að hitta byssu leikmannsins. Framan við byssuna eru fjögur virki sem smám saman eyðast upp þegar þau verða fyrir skotum geimveranna. Við og við flýtur geimskip yfir skjáinn ofan við geimverurnar sem gefur aukastig. Leikurinn varð strax gríðarlega vinsæll og átti þátt í því að tölvuleikir urðu milljónaiðnaður í stað jaðarfyrirbæris. Sérstakir spilasalir voru settir upp í Japan þar sem Space Invaders var eini leikurinn. Talið er að leikurinn hafi valdið skorti á 100-jena peningum í Japan. Samkvæmt Guinness World Records er þetta vinsælasti og áhrifamesti tölvuleikur allra tíma. Árið 2007 hafði Taito grætt nær 500 milljónir dollara á leiknum. John Mayer. John Clayton Mayer (borið fram sem fæddur 16. október 1977) er bandarískur tónlistarmaður, söngvari-textahöfundur, upptökulistamaður og tónlistarframleiðandi. Fæddur og uppalinn í Connecticut og lærði í Berklee College of Music í Boston áður en hann flutti til Atlanta í Georgíu árið 1997. Fyrstu tvær plöturnar hans, "Room for Squuares" og "Heavier Things" seldust vel og fékk hann platínuplötur fyrir þær. Árið 2003 vann hann Best Male Pop Vocal Performance Grammy-verðlaunin fyrir "Your Body Is a Wonderland". Mayer hóf feril sinn með órafmögnuðu rokki en fór smám saman yfir í blús árið 2005 eftir samstarf með virtum blúslistmönnum á borð við BB King, Buddy Guy og Eric Clapton og til varð Tríó Johns Mayer. Blúsáhrifin má heyra á "Continuum" plötu hans sem var gefin út í september 2006. Á 49. Grammy-verðlaununum árið 2007 vann Mayer Best Pop Vocal Album fyrir Continuum og Best Male Pop Vocal Performance fyrir "Waiting On The World To Change". Hann gaf út fjórðu plötuna sína, "Battle Studies" í nóvember 2009. Á ferli sínum hefur Mayer fengist við uppistand, gamanleik, grafíska hönnun og skrif. Hann hefur skrifað verk fyrir tímarit og er þekktastur fyrir skrif sín í tímaritið "Esquire". Hann tekur einnig þátt í góðgerðarstarfsemi "Back to You". Heftari. Heftari er tæki sem festir pappírsblöð eða annað þunnt efni saman með því að stinga hefti úr málmi í gegnum blöðin og beygja endana á heftinu til að festa það. Heftarar eru notaðir víða, meðal annars í stjórnsýslu, fyrirtækjum, skrifstofum og skólum. Fyrsti heftarinn var fundinn upp á 18. öld í Frakklandi fyrir Loðvík 15. konung. Hvert hefti var skreytt innsigli hallarinnarr. Þegar notkun pappírs jókst til muna var þörf á aðferð til að festa blöð saman á fljótlegan hátt. Árið 1866 var Bandaríkjamanninum George McGill veitt einkaleyfi á lítilli beygjanlegri pappírsfestingu úr látúni sem var forveri nútíma heftis. Árið 1867 fékk hann einkaleyfi á tæki til þess að stinga heftunum í gegnum pappír. Uppfinning hans var kynnt á sýningu í Philadelphia 1876. Hann hélt áfram að vinna að þessari uppfinningu og öðrum á níunda áratug 19. aldar. Adele. Adele Laurie Blue Adkins, betur þekkt sem Adele, (f. 5. maí 1988) er bresk söngkona og lagasmiður. Söngferill hennar hófst þegar hún skrifaði undir samning við "XL Recordings" árið 2006 eftir að hafa notið mikilla vinsælda á vefsíðunni MySpace. Fyrsta sólóplata hennar, "19", kom út árið 2008 við mikil fagnaðarlæti gagnrýnenda og náði toppsætum á vinsældarlistum á heimsvísu, þar á meðal í Bretlandi, Hollandi og Bandaríkjunum. Vinsældir hennar mögnuðust eftir að hún hlaut Grammy-verðlaunin sem "Besti nýliðinn" árið 2009, eitt af fjölmörgum verðlaunum sem hún vann það ár. Adele gaf út aðra hljómplötu sína, "21", í janúar 2011. Eintök af plötunni seldust eins og heitar lummur og braut hún fjölda meta. Hljómplatan seldist í yfir fjórtán milljón eintökum í Bretlandi og er sú tekjuhæsta sem hefur verið gefin út þar á landi á 21. öld. "21" sat í efsta sæti á bandaríska vinsældarlistanum lengur en nokkur önnur plata hafði gert síðan 1993. Hún var tilnefnd til sex Grammy-verðlauna eftir útgáfu plötunnar, og vann þau öll. Uppeldisár. Hún fæddist í Tottenham í London árið 1988. Adele byrjaði að syngja aðeins fjögurra ára gömul og varð fljótt áhugasöm um mismunandi raddir. Þegar hún í fyrsta skipti hélt á hljóðnema, þá fjórtán ára gömul uppgvötvaði hún að tónlist væri það sem hún hefði áhuga á að vinna við. Hún var fljótt farin að semja lög og var hún búin að semja lagið „Hometown Glory“ sem er á plötunni hennar "19" aðeins sextán ára. 2006–09: "19". Það má segja að ferill hennar hafi byrjað á síðunni MySpace þar sem vinkona hennar bjó til síðu handa henni í lok ársins 2004, þar setti hún inn upptökur af lögum sínum. Það var þó ekki fyrr en árið 2006 sem plötufyrirtæki fóru að taka eftir hæfileikum hennar. Á þessu sama ári í maí útskrifaðist hún úr BRIT School sem staðsettur er í Croydon í Suður-London. Þar útskrifaðist hún með söngkonunni Leona Lewis sem einnig hefur vakið mikillar vinsældar bæði í Bretlandi og í öðrum löndum. Adele hefur þakkað skólanum fyrir það að hjálpa henni að læra að beita röddinni. Í september árið 2006 gerði Adele samning við XL Recordings sem staðsett er í London, það er einnig sama plötufyrirtæki og gerði samning við íslensku hljómsveitina Sigur Rós. Fyrsta lag hennar sem heitir „Hometown Glory“ kom út í október 2007 og síðan kom lagið „Chasing Pavements“ út í janúar 2008, bæði lögin uðru mjög vinsæl og eru þau á hennar fyrstu plötu sem heitir "19". Platan varð númer 1 á topp-listanum í Bretlandi. Það var þó erfiðara fyrir hana að ná athygli Bandaríkjamanna og var það ekki fyrr en hún tók þátt sem tónlistaratriði í þættinum "Saturday Night Live" sem hún sló algjörlega í gegn og varð fljótt fræg í Bandaríkjunum. Adele vann heiðurinn „Best New Artist“ og „Best Female Pop Vocal Preformance“ á Grammy-verðlaununum árið 2009. 2010–í dag: "21". Árið 2011 í janúar kom önnur platan hennar út sem heitir "21" og hefur hún algjörlega slegið í gegn. Adele segir á blogginu sínu að hún muni eftir því þegar hún var 15 ára og fór með föður sínum til New York, þar labbaði hún í Times Square og vonaðist til að hún myndi einn daginn eiga plötu í plötubúðum í New York. Henni fannst það þó mjög ólíklegt að það myndi gerast en skjátlaðist henni þó um það. Draumur hennar varð að veruleika og fæst platan hennar um allan heim og þar á meðal í New york. Adele byrjar tónleikaferðalag sitt í apríl 2011 og er það í gegnum Evrópu. Jack Herer. Jack Herer (18. júní 1939 – 15. apríl 2010) var bandarískur kannabisneytandi og höfundur á "The Emperor Wears No Clothes", sem er bók sem hefur verið notuð til að reyna að lögleiða Herer er fyrrverandi Goldwater-Repúblikani og hann vildi lögleiða notkun kannabis og hamp. Hann skrifaði tvær bækur, "The Emperor Wears No Clothes" og "Grass", það verður einnig gerð heimildamynd um líf hans sem heitir "The Emperor of Hemp". Hann taldi að kannabis álverið ætti að vera lögleitt vegna þess að það hefur verið sýnt fram að í plöntunni er endurnýjanleg uppsprettu af eldsneyti, mat og lyf sem hægt er að rækta í nánast öllum hlutum heimsins. Þetta gæti komið jafnvægi á fullt af náttúrulegum hlutum, færri tré yrðu drepin í nýtingu blaða og hampur notaður í staðinn, einnig er hægt að nota jurtina til að framleiða öðruvísi bensín sem mengar minna heldur en venjulegt bensín. Hann fullyrðir enn fremur að bandaríska ríkisstjórnin sé með sönnun fyrir þessu. Uppistand. Uppistand er tegund gamanleiks þar sem gamanleikari (uppistandari) stendur á sviði og grínast fyrir framan áhorfendur. Stundum er flutningurinn tekinn upp og sýndur í sjónvarpi, settur á internetið eða gefinn út á mynddiski. Uppistand fer oftast fram í leikhúsum, á kráum eða pöbbum. Uppistand gengur venjulega út á að viðkomandi uppistandari stendur á sviði með hljóðnema og fer með frumsamið gamanmál. Sumir nota leikmuni eða fremja galdra. Á sumum stöðum er boðið upp á „opinn hljóðnema“ þar sem hver sem er má koma upp á sviðið og fara með sitt eigið uppistand fyrir framan áhorfendur. Margir uppistandarar vinna í mörg ár að atriði sínu og uppfæra þau aftur og aftur og breyta þeim smám saman til að ná fram sem bestum áhrifum. Mjöl. Mjöl er mulið korn, fræ eða rætur. Mjöl er einnig unnið úr fiski í bræðslum. Mjöl er meginuppistaðan í brauði sem er undirstöðumatvæli í mörgum menningarheimum og því hafa framleiðsla og framboð mjöls skipt miklu í aldanna rás. Hveitimjöl er ein mikilvægasta fæðutegund í Evrópu, Norður-Ameríku, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og er aðalefni í brauðum og sætabrauðum þessara svæða. Maísmjöl hefur löngum verið mikilvægt í Mið-Ameríku og er enn þá notað víða í Rómönsku Ameríku. Í kringum 9000 f.Kr. byrjuðu menn að að mala hveitifræ á milli kvarnarsteina til að búa til mjöl. Egyptar fóru að nota ger um 3000 f.Kr. og þá var hægt að fara að baka brauð úr mjölinu í stað þess að gera eingöngu grauta eða flatbrauð. Rómverjar eru taldir hafa verið fyrstir til að nota myllur til að mala korn og fyrsta gufuknúna myllan hóf starfsemi í London árið 1879. Á tímum iðnbyltingarinnar varð geymsla á mjöli að vandamáli, þar sem æ færri rætuðu korn sitt sjálfir og möluðu eftir þörfum. Menn gerðu sér grein fyrir því að það var kímið í mjölinu sem stytti geymsluþolið, það fer smátt og smátt að þrána eftir að það hefur verið malað og kemst í snertingu við súrefni og geymsluþol heilhveitis var því aðeins sex til níu mánuðir. Því var farið að fjarlæga kímið og hýðið áður en hveitið var malað. Á þessum tíma gerðu menn sér ekki grein fyrir því að í kími og hýði væru nauðsynleg bætiefni og steinefni sem líkaminn þarfnaðist. Hveitimjöl sem er búið að fjarlægja hýði og kím úr kallast hvítt hveiti en það fær þó ekki skjannahvítan lit nema það hafi verið meðhöndlað með bleikingarefnum. Þessi aðferð breiddist fyrst út í stórborgum en smám saman varð hvítt hveiti alls staðar algengast og nú á dögum er mestallt það hveitimjöl sem framleitt er hvítt hveiti. Á fjórða áratugnum var byrjað að bæta vítamínum og steinefnum út í mjöl, þar á meðal járn, níasín, tíamín og ríbóflavín. Á tíunda áratug 20. aldar var byrjað að bæta fólínsýru út í mjöl. Í mjöli er margs konar mjölvi, sem er kolvetnategund og kallast einnig fjölsykra. Anthony Giddens. Anthony Giddens (fæddur 18. janúar 1938) er breskur félagsfræðingur. Hann er þekktur fyrir hugtök eins og "úrfelling" (disembedding), "afturblik" (reflexivity) og "einstaklingsvæðing" (individualism). Giddens skiptir samtímanum í þrjú tímabil snemmnútíma sem einkennist af upplausn bændasamfélags, hánútíma sem einkennist af markaðshyggju og svo síðnútíma sem hefst á sjöunda áratug seinustu aldar og einkennist af upplausn. Giddens var prófessor við LSE og ráðgjafi Tonys Blair fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Hann setti fram hugmyndir um þriðju leiðina. Tenglar. Giddens, Anthony Roberta Williams. Roberta Williams er bandarískur tölvuleikjahönnuður og annar stofnandi fyrirtækisins Sierra Entertainment en hún stofnaði fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum Ken undir heitinu On-Line Systems. Á meðal þeirra leikja sem hún hefur hannað eru King's Quest-leikirnir og hryllingsleikurinn "Phantasmagoria". Jane Jensen. Jane Jensen er bandarískur tölvuleikjahönnuður og rithöfundur. Jensen er þekkt fyrir það að hafa hannað Gabriel Knight-leikina en hún hefur einnig skrifað tvær skáldsögur; "Millennium Rising" og "Dante's Equation". Dave Grossman. Dave Grossman er bandarískur tölvuleikjahönnuður. Grossman hóf feril sinn hjá LucasArts (þá Lucasfilm Games) og kom þar að gerð margra leikja en hann vann meðal annars við fyrstu tvo Monkey Island-leikina ásamt því að hanna tölvuleikinn "Day of the Tentacle" ásamt Tim Schafer. Grossman vinnur nú hjá Telltale Games þar sem hann hefur unnið við við leiki eins og "Sam & Max Save the World" og "Strong Bad's Cool Game for Attractive People" ásamt því að leikstýra tölvuleiknum "Tales of Monkey Island". Marta María Stephensen. Marta María Diðriksdóttir Hölter Stephensen (17. nóvember 1770 – 14. júní 1805) var dansk-íslensk húsmóðir og fyrri kona Stefáns Stephensen, síðar amtmanns. Hún er skráð höfundur fyrstu íslensku matreiðslubókarinnar og jafnframt fyrstu bókarinnar sem út kom eftir konu á Íslandi. Marta María var dóttir Diðriks Hölter, kaupmanns í Höfðakaupstað á Skagaströnd og síðar í Stykkishólmi, þar sem hann lést á gamlársdag 1787. Ekki er vitað hver móðir Mörtu Maríu var. Þann 10. júní 1790 giftist hún í Kaupmannahöfn Stefáni Stephensen assessor, sem var sonur Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, og var hjónaband þeirra án vitundar foreldra hans. Þau fóru svo til Íslands og bjuggu á Innra-Hólmi, Hvanneyri og síðast á Hvítárvöllum, þar sem Marta María lést 34 ára að aldri, sama dag og hún ól tíunda barn sitt. Börnin komust öll nema eitt upp. Jón Espólín segir um hana að hún hafi verið góð kona. „Vegna konu minnar ber mjer að afsaka hjer með einni línu, að hún framselur þetta Vasaqver til að leggjast fyrir almenningsaugu, enn þótt þess upphafleg útkast væri henni sjálfri einungis ætlað til minnis. Valda því tilmæli okkar elskulega Bróðurs hra Jústis-Ráðs og Justitiarii M. Stephensens hverjum ekki þótti þessu Vasa-qveri ofaukið, þó findist í nokkuð fleiri heldri manna húsum. Fyrir þess háttar menn en ekki eginlega almúga, er það og ætlað, og eptir fyrirmanna efnum og ýmissu standi lagað, bæði með einfalda en þó velhentandi matreiðslu og aðra vandhæfnari til hátíða og veizlu borðhalds þá viðliggur. — Samt sem áður vonast að almúga fólk gjeti hjer af margt til hagnaðar og velsæmandi tilbúnings hreinlegs og ljúffengs matar numið, og þessvegna ekki yðrist eptir, að ljá hjer sýndri meðferð á mat auga, enn þótt meiri partur qversins sé æðri manna borðhaldi samboðnari. Sjálfur verð ég að biðja velvirðingar á orðfæri og stýl qversins, að því leiti, sem almenningur kann að ætla mjer, að hafa hann nokkuð lagfært fyrir konu mína, áður en blöð þessi gæfust pressunni; því játa má ég mjer um þessháttar efni mjög svo ótamar Ritgjörðir.“ Forvitni. Forvitni er tilfinning sem lœtur mann vilja vita eitthvad Robert Wisdom. Robert Wisdom (fæddur 14. september 1953) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Supernatural, The Wire og Prison Break. Einkalíf. Wisdom er fæddur í Washington D.C. í Bandríkjunum og er af jamaískum uppruna. Hann útskrifaðist frá Columbia-háskólanum í New York-borg. Ferill. Wisdom kom fyrst fram í sjónvarpsþættinum "The Bill". Síðan þá hefur hann komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann hefur hann komið fram sem gestaleikari í mörgum af vinsælustu sjónvarpsþáttum nútímans: ER, Dharma & Greg, NCIS og Burn Notice. Wisdom hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: Volcano, Off, Ray og Freedom Writers. Tenglar. Wisdom, Robert Arduino. Arduino er örtölva sem byggir á opnum hugbúnaði og er á einni prentplötu. Arduino bretti eru hönnuð til að auðvelda notkun rafeindatækni í ýmis konar konar verkefnum. Vélbúnaðurinn er opinn vélbúnaður sem hannaður er fyrir Arduino bretti. Brettin eru forrituð með forritunarmáli sem líkist C++. Brettin má kaupa samsett eða ósamsett til að lóða saman. Arduino verkefnið hófst í Ivrea í Ítalíu árið 2005 sem liður í að búa til ódýr tæki til að búa til frumgerðir fyrir nemendur sem unnu að viðmótshönnunarverkefnum. Hönnuðurnir Massimo Banzi og David Cuartielles skírðu verkefnið Arduino eftir krá í Ivrea. An official Arduino Duemilanove (rev 2009b). Arduino Nano og Arduino samhæfð Bare Bones bretti og Boarduino bretti hafa tengipinna (male header pins) neðan á korti sem kleift að tengja kortin við brauðbretti án þess að nota lóðbolta. Vélbúnaður. Upprunalegur Arduino vélbúnaður er framleiddur af ítalska fyrirtækinu Smart Projects en einnig hafa Arduino bretti verið hönnuð af bandaríska fyrirtækinu SparkFun Electronics. Arduino vélbúnaðarhönnun er dreift með Creative Commons Attribution Share-Alike 2.5 höfundarleyfi. Kóðinn er undir GPLv2 höfundarleyfi. Frumgerðarskjöldur lóðaður á Arduino bretti Arduino og Arduino samhæfð bretti nota skildi sem eru prentplötur sem koma ofan á Arduino og tengjast inn í pinnatengi sem fylgja með kortunum. Skildirnir gegna ýmis konar hlutverki, þeir geta verið stýringar fyrir rafala eða brauðbretti fyrir frumgerðasmíði. Listi fyrir skildi má fá á vefsíðu. Arduino samhæfð bretti. Vélbúnaði og hugbúnaði Arduino má dreifa undir copyleft höfundarleyfum en Arduino er skrásett vörumerki og hönnuðir vilja að bretti og aðrar vörur sem byggja á þessari tækni séu ekki merkt með "Arduino" nema með þeirra leyfi. Hópur Arduino notenda sem vann að Arduino Diecimila hefur framleitt samhæft bretti sem kallað er Freeduino. Freeduino er ekki skrásett vörumerki og það má nota í hvaða tilgangi sem er. Mörg Arduino samhæfð bretti eru selt undir nöfnum sem nota endinguna "-duino". Eftirfarandi bretti eru alveg eða að mestu leyti samhæfð við Arduino vélbúnað og hugbúnað og geta tengst skjöldum. Arduino samhæfð bretti til sérstakra nota. Arduino bretti til sérstakra nota virka eins og Arduino og skjöldur á einu og sama brettinu. Sum slík betti geta tengst skjöldum en önnur ekki. Lóðun. Lítl fígúra búin til með lóðun Lóðun eða tinlóðun er notað um aðferð við að skeyta saman málmhluti með því að bræða sérstakan málm sem nefnist lóðmálmur (einnig lóðtin, brasmálmur) með tiltölulega lágt bræðslumark, sem fyllingarefni yfir samskeytin. Lóðun er gjarnan notuð þegar tengja þarf saman íhluti á prentplötu og einnig í pípulögnum þegar koparrör eru skeytt saman. Lóðuð samskeyti eru vanalega ekki mjög sterk og þar sem lóðun fer oftast fram við lágt hitastig þá er þola lóðaðir hlutir ekki háan hita. Í lóðun eru m.a. notaðar blanda af tini og öðrum málmum t.d. blýi, sinkii, silfri og kadmíni, en af umhverfisástæðum er leitast við að notað efni án blýs. Þegar íhlutir í rafeindatæki eru lóðaðir saman er vanalegt að nota málmblöndu 63% tins og 37 % blýs. Samskeytin eru hituð með lóðbolta og tinvír borinn að, þ.a. að ögn af enda tinvírsins bráðnar í lítinn dropa, sem rennur yfir samskeytin og storkar þar. Mikilvægt er að "lóðningin" sé góð, þ.a. samskeytin leiði vel rafstraum og losni ekki. Lóðning, sem leiðir illa og losnar auðveldlega kallast, "köld lóðning" og ber að forðast. Laugavegur 1. Laugavegur 1 er hús við Laugaveg í Reykjavík sem reist var árið 1848. Var ætlunin að reka þar veitingastofu, en fljótlega var horfið frá því ráði. Jón Pétursson háyfirdómari festi þá kaup á húsinu og bjó þar til dauðadags. Árið 1915 hóf Guðmundur Ásbjörnsson bæjarfulltrúi verslunarrekstur í húsinu í samstarfi við félaga sinn Sigurbjörn Þorkelsson sem kenndur var við verslunina Vísi. Enn í dag er starfrækt í húsinu verslun undir nafninu Vísir. Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsinu í gegnum tíðina. Guðmundur Ásbjörnsson. Guðmundur Ásbjörnsson (11. september 1880 – 15. febrúar 1952) var verslunarmaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík frá 1918 til 1952. Ævi og störf. Guðmundur fæddist á Eyrarbakka og lauk þar sveinsprófi í trésmíðum aldamótaárið 1900. Hann fluttist til Reykjavíkur skömmu síðar og stofnaði vinnustofu og hóf í kjölfarið verslunarrekstur. Árið 1915 stofnaði hann verslunina Vísi að Laugavegi 1 í samstarfi við Sigurbjörn Þorkelsson. Hann var kjörinn í bæjarstjórn árið 1918 og átti þar sæti til dauðadags. Hann var forseti bæjarstjórnar frá 1926 til 1952 og hefur enginn gegnt því embætti jafn lengi. Á þessu tímabili var han margoft settur borgarstjóri í afleysingum. Auk setunnar í bæjarstjórn var Guðmundur virkur í ýmsum félagsmálum. Hann sat í stjórn Trésmíðafélags Reykjavíkur, Verslunarráðs Íslands, formaður stjórnar Árvakurs og stjórnarmaður og síðar stjórnarformaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá stofnun hans 1932 til dauðadags. Rafeindaíhlutur. Rafeindaíhlutur (oftast aðeins íhlutur) eða rásaeining er hlutur, sem leiðir rafstraum og notaður er til að breyta eigninleikum rafrásar. þar sem ofantaldir íhlutir breyta samviðnámi rásar, en aðeins tveir síðarnefndu breyta launviðnámi. Með íhluti er einnig átt við tvista, smára og litar samrásir. Íhlutir eru festir á prentplötur með lóðun. Hvítur (kynþáttur). Kort yfir veröldina eftir húðlit Hvítur maður er maður með ljósa húð. Orðið „hvítur“ á ekki beint við lit húðarinnar en lýsir heldur sérstökum hópi þjóðarbrota og er ein samlíkinganna fyrir kynþátt sem eru notaðar í daglegu tali. Ein skýring á hvítum mönnum er maður sem á rætur að rekja til Evrópu en þessi skýring er breytileg og fer eftir aðstæðunum. Gunnar Nelson. Gunnar (Lúðvík Haraldsson) Nelson (fæddur 28. júlí 1988) er íslenskur bardagaíþróttamaður. Hann keppir meðal annars í blönduðum bardagaíþróttum (MMA) og er ósigraður í slíkri keppni. Gunnar er margfaldur Íslandsmeistari í karate og var landsliðsmaður frá fimmtán ára aldri. Hann var valinn efnilegasti karatemaður Íslands sextán ára gamall og hlaut hæsta nýliðastyrk ÍSÍ. Hann er með svarta beltið í brasilísku jiu jitsu (BBJ), með "Renzo Gracie" sem þjálfara. Hann hefur unnið silfurverðlaun í millivigt með brúnt belti í Heimsmeistaramótinu í BBJ, gullverðlaun í millivigt með brúnt belti á Pan American meistaramótinu og gullverðlaun í svartbelta flokki á Pan American meistaramótinu í uppgjafarglímu (No-Gi). Hann hefur tekið þátt í ellefu atvinnubardögum, unnið tíu og gert jafntefli í einum. Á Íslandsmeistaramótinu í BJJ hefur hann unnið tvisvar, bæði í opnum flokki og 82kg- flokki. Á Opna Mjölnismótinu hefur hann unnið fjórum sinnum í opnum flokki, tvisvar í 88kg- flokki og einu sinni bæði í 81kg- flokki og 74kg- flokki. Faðir Gunnars er ættaður frá Bandaríkjunum í föðurætt sína, en móðirin er íslensk.. Bláskógar. Bláskógar nefnist landsvæðið norðan, vestan og sunnan Þingvallavatns, þ.e. Þingvallaskógur og Þingvallahraun, allur sigdalurinn, skógi og kjarri vaxinn. Bláskógar við Þingvelli eru nefndir í Íslendingabók þar sem kemur fram að maður að nafni Þórir kroppinskeggi sem átti land í Bláskógum hafði orðið sekur um morð á þræl eða leysingja. Talið er líklegt að Þórir hafi búið á þeirri jörð sem síðar varð Þingvöllur. Land hans varð þess vegna allsherjarfé og lagt til alþingis. Sveitarfélagið Bláskógabyggð varð til sem sveitarfélag 9. júní 2002 við sameiningu þriggja sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Steven Williams. Steven Williams (fæddur 7. janúar 1949) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í 21 Jump Street, Supernatural, The X-Files og L.A. Heat. Einkalíf. Williams er fæddur í Memphis í Tennessee í Bandríkjunum en er alinn upp í Chicago. Hann var tilnefndur til Joseph Jefferson-verðlaunana fyrir leikara í aðalhlutverki í söngleiknum Joplin hjá St. Nicholas Theater Company í Chicago árið 1977. Ferill. Williams kom fyrst fram í kvikmyndinni "Cooley High" frá árinu 1975. Síðan þá hefur hann komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann hefur komið fram sem gestaleikari í mörgum vinsælum sjónvarpsþáttum: "The A-Team", "Dallas", "Equalizer", Veronica Mars, Criminals Minds og Cold Case. Hann hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: Corrina, Corrina, Route 666,Halfway Decent og The Fear Chamber. Tenglar. Williams, Steven Noradrenalín. Noradrenalín er efnasamband sem hefur efnaformúluna C8H11NO3. Björn Stephensen. Björn Ólafsson Stephensen (4. júní 1769 – 17. júní 1835) var íslenskur dómsmálaritari (notarius) við Landsyfirrétt. Hann var af ætt Stefánunga og bjó lengst á Esjubergi á Kjalarnesi. Björn giftist árið 1790 Margréti Jónsdóttur (f. 13. janúar 1773), dóttur Jóns Jakobssonar sýslumanns Eyfirðinga og systur Jóns Espólín. Jón átti góð samskipti við mág sinn og lýsir honum þannig: „Björn notarius var mikill vexti, sterkr ok glíminn, búsýslumaðr, nokkuð fégjarn, ærit frjáls ok ósnotr í háttum, tryggr maðr, en vanvirði nálega lærdóma alla.“ Hann segir jafnframt að Björn hafi verið rausnarmaður en stundum látið ósnoturlega og haft á sér fornmannaháttu. Þau Björn og Margrét reistu bú á Hvítárvöllum og þar dó Margrét 22. október árið 1800, skömmu eftir fæðingu þriðja sonar þeirra. Björn flutti sig þá að Lágafelli í Mosfellssveit, enda var hann þá orðinn dómsmálaritari við Landsyfirrétt og þurfti að vera nær Reykjavík, og bjó þar til 1814, en þá flutti hann að Esjubergi og bjó þar til dauðadags. Hann giftist aftur árið 1803 og var seinni kona hans Sigríður Oddsdóttir (17. janúar 1787 – 27. júlí 1869), en faðir hennar var bróðir Ólafs föður Björns og þau því systkinabörn. Sonur þeirra var Oddgeir Stephensen, forstöðumaður íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn um langt skeið. Testósterón. Testósterón er kynhormón sem má finna í spendýrum, skriðdýrum, fuglum og öðrum hryggdýrum. Testósterón hefur efnaformúluna C19H28O2. Í hryggdýrum er testósterón framleitt í eistunum í karldýrum og í eggjastokknum í kvendýrum en lítið testósterón er líka framleitt í nýrnahettunum. Testósterón er aðalkynhormón í karldýrum. Kúpídó. Amor eða Cupido, einnig skrifað Kúpídó, er ástarguðinn í rómverskri goðafræði. Rafleiðni. Rafleiðni (oftast aðeins leiðni) er hæfileiki hlutar til að flytja rafstraum. Leiðni er umhverfa rafmótstöðu. SI-mælieining er símens, táknuð með "S", en 1 S = Ω-1. Fullkominn einangrari hefur leiðnina núll, en ofurleiðari hefur óendanlega (∞) leiðni. Amerískur eskimóahundur. Ameríski eskimóahundurinn er hundategund ættuð frá Þýskalandi. Hún er ekki ólík japönskum spitz, þýskum spitz og samoyed-hundinum. Eskimóahundurinn er með þykkan, tvöfaldan, hvítan feld og er það einnkenni hundsins. Brenton Birmingham. Brenton Birmingham (f. 15. maí 1974) er Íslendingur af bandarískum uppruna, fæddur í New York. Hann er körfuknattleiksmaður og spilar fyrir Njarðvík. Hann á að baki nokkra landsleiki fyrir hönd Íslands. Brenton Birmingham byrjaði þessa leiktíð sem leikmaður Grindavíkur. Brenton Birmingham kom fyrst til landsins árið 1998 og hóf feril sinn hér á landi með Njarðvík. Hann hafði þar áður leikið víða í Evrópu, svo sem Englandi, Finnlandi og Frakklandi. Peak ground acceleration. Peak ground acceleration er mælieining yfir jarðskjálftahröðun á jörðinni. Ólíkt Richterskvarðanum og Moment Magnitude kvarðanum þá er þetta ekki mælieining yfir orku jarðskjálfta, heldur hversu hratt jörðin skelfur á ákveðnu svæði. Jarðskjálftahröðun er jafnframt mæld á Marcalli intensity kvarðanum þar sem skýrslur og mælingar eru notaðar, en PGA notast við mælitæki og er mjög samsvarandi Marcalli kvarðanum. Jarðeðlisfræði. Jarðskjálfti dreifist með bylgjum frá skjálftamiðju, sem orsakar lóðrétta jarðhreyfingu og lárétta. PGA mælir hröðunina á þessum bylgjum þar sem mesta hreyfing jarðarinnar er mesti hraðinn og mesta fjarlægð frá skjálftamiðju er fjarlægðin. PGA er mæld í g (hröðun sem orsakast vegna þyngdarkrafts) annaðhvort sem tugastafur eða prósenta í m/s². Þór Whitehead. Þór Whitehead (fæddur 19. ágúst 1943) er íslenskur sagnfræðingur. Hann er prófesor við Háskóla Íslands. Þór hefur skrifað um sögu Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Faðir hans var breskur hermaður og móðir hans var íslensk. Menntun. Hann lauk BA-námi frá Háskóla Íslands og menntaði sig einnig í heimspeki við Oxford-háskóla. Háskólaferill. Þór starfaði sem kennari við Háskóla Íslands á árunum 1978–1981. Hann hefur verið prófesor í sagnfræði við Háskóla Íslands frá árinu 1981. Þór var félagi í Militärgeschichtliches Forschungsamt der Bundeswehr í Freiburg í Þýskalandi 1996–1997. Nykurtala. Nykurtala er hugtak í línulegri algebru sem stækkar rauntöluásinn með því að bæta við stakinu ε sem er þeim eiginleika gætt að ε2 = 0 — það er ε er núllvalda. Sérhver nykurtala "z" er á forminu "z" = "a" + "b"ε þar sem "a" og "b" eru ótvírætt ákvarðaðar rauntölur. Summa og margfeldi nykurtalna eru svo reiknuð með venjulegum fylkjaaðgerðum þar sem báðar aðgerðir eru víxlnar og tengnar. Afleiður. Nykurtölur má nýta við forritun deildunar þar sem þær eru settar inn í margliðu með rauntölustuðla (raunmargliðu): "P"("x") = "p"0+"p"1"x"+"p"2"x"2+...+"p'n'x'n". Þegar nykurhluta er bætt við inntakið kemur út "P"("a"+"b"ε) = "P"("a")+"bP" ′("a")ε, þar sem "P"′ er afleiða fallsins "P". JO97. Guðmundur Jónsson er 78 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1945. Á henni flytja Guðmundur Jónsson tvö lög. Fritz Weisshappel leikur undir. Jón Sveinsson (landlæknir). Jón Sveinsson (24. maí 1752 – 13. júní 1803) var íslenskur læknir sem var annar í röð landlækna á Íslandi og tók við af Bjarna Pálssyni. Jón var sonur Sveins Sölvasonar lögmanns á Munkaþverá og Málfríðar Jónsdóttur konu hans. Hann útskrifaðist sem stúdent úr heimaskóla 1772 og hélt síðan til Kaupmannahafnar, þar sem hann las læknisfræði en tók þó ekki próf. Hann var skipaður landlæknir 14. júní 1780 en Bjarni Pálsson hafði dáið haustið áður. Hann sótti um að fá að senda læknisfræðiritgerð til Kaupmannahafnarháskóla sem ígildi prófs eða að fá leyfi til að sigla til að taka próf en fékk það svar frá kansellíinu að hann skyldi vera undanþeginn því að taka læknispróf á meðan hann væri á Íslandi því ekki væri gott að þar væri læknislaust á meðan hann væri í Kaupmannahafnarferð til að taka próf og kom því aldrei til þess að Jón lyki prófi. Jón var drykkfelldur „en jafnan spakur“, segir Jón Espólín. Hann bjó á Nesi við Seltjörn og gegndi embættinu þar til hann sótti um lausn 1803 og var veitt hún frá 1. júní, en hann lést tveimur vikum síðar. Kona hans var Guðríður Sigurðardóttir og voru þau barnlaus. Tómas Klog. Tómas Klog (15. apríl 1768 – 31. janúar 1824) var dansk-íslenskur læknir sem var þriðji landlæknir Íslands. Hann var fæddur í Vestmannaeyjum, sonur Hans Klog, kaupmanns þar, og útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1785. Hann tók læknisfræðipróf við Kaupmannahafnarháskóla 1804 og var skipaður landlæknir á Íslandi 25. maí sama ár. Sveinn Pálsson hafði þá gegnt landlæknisembættinu í eitt ár eftir lát Jóns Sveinssonar en Sveinn hafði ekki lokið embættisprófi. Tómas Klog kom til Íslands í lok júní 1804 ásamt danskri konu sinni. Nesstofa var þá í svo lélegu ástandi að hann gat ekki sest þar að strax. Hann átti í miklu stríði við yfirvöld til að fá nauðsynlegar viðgerðir á húsinu og bjó í Reykjavík á meðan. Haustið 1807 var loks búið að gera við Nesstofu og flutti Klog sig þá þangað en húsið hriplak þó enn að sögn. Klog gegndi embætti landlæknis til 1816 en hafði þó fengið lausn ári áður. Hann varð svo stiftslæknir á Lálandi og Falstri og bjó í Nyköbing á Falstri, þar sem hann lést 1824. Jón Thorstensen. Jón Þorsteinsson Thorstenssen (7. júní 1794 – 15. febrúar 1855) var íslenskur læknir sem var landlæknir frá 1820 til dauðadags og alþingismaður um tíma. Jón var fæddur á Kúfustöðum í Svartárdal, sonur Þorsteins Steinþórssonar bónda þar og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 1815, lærði læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist 2. júlí 1819 með hæstu einkunn. Hann var síðan kandídat á Friðriksspítala en fór heim til Íslands vorið eftir og hafði þá verið veitt landlæknisembættið og einnig embætti héraðslæknis í Borgarfjarðar-, Kjósar- og Gullbringusýslum. Oddur Hjaltalín hafði þá verið settur landlæknir frá 1816 en hann hafði ekki lokið embættisprófi. Jón var konungkjörinn alþingismaður 1847 og 1849 og var þingmaður Reykvíkinga 1852 – 1855. Hann sat einnig í bæjarstjórn Reykjavíkur 1836 – 1842 og aftur 1840 – 1855. Honum var veitt jústítsráðsnafnbót 1842, var sæmdur heiðursdoktorstitli af háskólanum í Marburg 1847 og var félagi í mörgum erlendum lærdómsfélögum. Jón skrifaði einnig nokkur rit um sjúkdóma og lækningar. Hann sá um veðurathuganir í Reykjavík 1823 – 1854 fyrir danska vísindafélagið. Jón bjó fyrst í Nesstofu en 1833 fékk hann leyfi til að flytja sig til Reykjavíkur og byggði hann þá hús sem síðan nefndist Doktorshúsið (nú Ránargata 13) og bjó þar síðan. Kona hans var Elín Stephensen (24. desember 1800 – 4. júní 1887), dóttir Stefáns Stephensen amtmanns. Eldhringurinn. Eldhringurinn eða Kyrrahafseldhringurinn er svæði sem nær umhverfis Kyrrahaf þar sem eldgos og jarðskjálftar eru algeng. Eldhringurinn er í raun hálfhringur, 40.000 km langur, þar sem 90% af öllum jarðskjálftum heims og 81% af stærstu jarðskjálftum heims eiga sér stað. Þar eru líka staðsett 452 eldfjöll sem eru meira en 75% af öllum eldfjöllum heims. Eldhringurinn nær frá Nýja Sjálandi, eftir Indónesíu endilangri, að Filippseyjum, eftir endilöngu Japan, Kúrileyjum og Aleuteyjum, niður vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna, eftir Mið-Ameríku og Suður-Ameríku eftir Andesfjöllum. Meðal þekktustu eldfjalla á hringnum eru Krakatá, Pínatúbó og Mount St. Helens. Nýlegar mannskæðar hamfarir á Eldhringnum eru meðal annars jarðskjálftinn í Tōhoku 2011, jarðskjálftinn í Chile 2010 og jarðskjálftinn í Indlandshafi 2004. Jónas Jónassen. Jónas Jónassen (18. ágúst 1840 – 22. nóvember 1910) var íslenskur læknir sem var landlæknir 1895 – 1906. Hann var jafnframt forstöðumaður Læknaskólans, alþingismaður og sat í bæjarstjórn Reykjavíkur. Jónas var fæddur í Reykjavík, sonur Þórðar Jónassen háyfirdómara og stiftamtmanns og konu hans Dorotheu Sophiu Lynge. Hann tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1860 og lauk prófi í læknisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1866. Hann var staðgengill Jóns Hjaltalín landlæknis frá apríl til júní 1867 og var árið 1868 settur aðstoðarmaður hans við læknakennslu og um leið sýslulæknir í Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Sama ár varð hann læknir við sjúkrahúsið í Reykjavík. Árið 1873 varð hann héraðslæknir í Reykjavíkurhéraði og gegndi því embætti allt til 1895. Þegar Jón Hjaltalín var leystur frá embætti 1881 vegna elli og sjóndepru var Jónas settur til að gegna embættinu og áttu flestir von á að hann fengi það, enda þótti hann hæfur læknir og var vinsæll. Hann var líka vel menntaður, fór nokkrum sinnum til Danmerkur til að stunda framhaldsnám og varði doktorsritgerð um sullaveiki á Íslandi við Kaupmannahafnarháskóla 30. júní 1882. Þó fór svo að Daninn Schierbeck var skipaður í embættið 1882 og tók við í nóvember það ár eftir að hafa staðist íslenskupróf sem var skilyrði fyrir embættisveitingunni. Urðu allmiklir flokkadrættir, bæði meðal Reykvíkinga og Íslendinga í Kaupmannahöfn, vegna þessa. Samstarf þeirra Schierbecks og Jónasar var því ekki alltaf sem best og þeir deildu meðal annars töluvert um sjúkrahússbyggingu í Reykjavík en þar urðu sjónarmið Jónasar ofan á. Jónas var jafnframt kennari við Læknaskólann allt frá stofnun hans 1876 og forstöðumaður á meðan hann gegndi landlæknisembættinu, sem hann fékk loks þegar Schierbeck fluttist af landi brott árið 1895. Hann lét af embætti 1906. Hann var kjörinn alþingismaður Reykvíkinga 1886 og sat á þingi til 1892 og varð svo konungkjörinn þingmaður 1899 og sat á þingi til 1905. Hann átti jafnframt sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur frá 1888 til 1900. Hann skrifaði rit og greinar um ýmis efni, þar á meðal "Lækningabók fyrir alþýðu", sem út kom 1884. Kona hans var Þórunn Pétursdóttir Havstein (12. júní 1850 – 18. apríl 1822) og áttu þau eina dóttur. Listi yfir lögmenn Færeyja. Eftirfarandi er listi yfir lögmenn Færeyja frá upphafi til nútímans. Færeyska lögþingið. Færeyska lögþingið (færeyska: "Løgtingið" eða "Føroya løgting") var upprunalega stofnað um 825 og fékk löggjafarvald að nýju með Heimastjórnarlögunum 1948, sem gerir það að einu elsta lögþingi í heiminum. Saga. Upprunalega hafði lögþingið bæði dómsvald og löggjafarvald. Framkvæmdavald var ekki til staðar í landinu. Það tíðkaðist því að þeir sömu settu lögin og dæmdu. Eftir að Færeyjar urðu norskt skattland árið 1035 dró úr völdum þingsins. Það var ekki fyrr en 1300-1400 sem lögþingið var skilið frá dómsvaldinu. Lögmaður, eins og forseti þingsins nefnist, var eftir það tilnefndur af konungi og lögréttumenn eða þingmenn voru tilnefndir af umboðsmanni konungs í Færeyjum. Árið 1380 komust Færeyjar undir sameiginlegt konungsvald Noregs og Danmerkur en með sérstöðu sem gamalt norskt skattland. Þessi skipan var höfð fram að einveldistímanum árið 1660, en þá fyrst var dregið úr völdum þingsins og að lokum var það aflagt að konungsboði árið 1816. Þegar Danir fengu stjórnarskrá 1849 féllu Færeyjar undir hana og misstu þar með þá sérstöðu sem eyjarnar höfðu haft sem norskt land og seinna danskt. Færeyjar urðu nú formlega hluti af danska ríkinu. Í Færeyjum voru margir sem vildu endurreisa Lögþingið, meðal annars til þess að amtmaðurinn væri ekki einn um að veita dönskum stjórnmálamönnum ráðleggingar vegna lagasetningar fyrir Færeyjar. Helsti leiðtogi Færeyinga í sjálfstæðisbaráttunni var Niels Winther. Þann 26. mars 1852 samþykkti danska þingið lög um að lögþing Færeyinga skyldi endurreist. Það fékk þó ekki löggjafarvald heldur var það aðeins ráðgefandi. Endurrreista lögþingið hélt áfram þeim forna sið að halda fyrsta fund sinn ár hvert á Ólafsvökunni, eftir að þingmenn höfðu verið til guðþjónustu í Hafnarkirkju. Ýmsar breytingar hafa orðið á starfsemi Lögþingsins frá 1852 til dagsins í dag. Á endureista lögþinginu var amtmaður forseti þings en árið 1923 var gerð breyting og lögþings formaður valinn af þingmönnum. Árið 1935 fékk lögþingið heimild til að leggja á skatt og í síðari heimsstyrjöld, þegar Færeyjar voru hernumdar af Bretum, hafði þingið í raun löggjafarvald. Heimsstyrjöldinni lauk 1945 og þá var sjálfsstjórn Færeyinga orðin svo styrk í sessi að enginn vildi fara aftur í gamla farið. Eftir langar samningsviðræður á milli Færeyja og Danmerkur og eina þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem naumur meirihluti var fyrir sjálfstæðisyfirlýsingu, voru heimastjórnarlögin sett þann 1. apríl 1948. Með þeim lögum fékk færeyska lögþingið löggjafarvald í flestum málum. Með stjórnarskipunarlögum frá 1995 var þingræði fastsett sem meginregla og þar með var þingið orðið líkt öðrum þingum á Norðurlöndunum. Nú er verið að vinna að því að semja stjórnarskrá fyrir Færeyjar. Lögþingskosningar. Lögþingskosningar eru haldnar á fjögurra ára fresti og þar velja kjósendur fulltrúa sína á þingið. Fulltrúarnir kallast þingmenn (eða þingmenn og þingkonur). Stjórnmálakerfi Færeyinga grundvallast á þingflokkum. Hver flokkur hefur sína stefnu sem hann fylgir eftir á lögþinginu. Kjósandinn velur flokk eða frambjóðenda af lista flokksins og þegar atkvæði hafa verið talin kemur í ljós hverjir hafa verið kjörnir til þingsetu. Þjóðveldisflokkurinn. Þjóðveldisflokkurinn (færeyska: "Tjóðveldi" eða "Tjóðveldisflokkurin") er færeyskur stjórnmálaflokkur, stofnaður þann 23. maí 1948. Flokkurinn var stofnaður vegna þess að ekki varð af því að Færeyjar lýstu yfir sjálfstæði eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna þann 14. september 1946. Markmið flokksins er að lýðræði gildi á öllum sviðum í færeyska samfélaginu. Flokkurinn stefnir að því að Færeyjar taki þátt í alþjóðasamfélaginu sem sjálfstæð þjóð með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Flokkurinn fékk fyrst kjörna þingmenn árið 1950 og hefur átt fulltrúa á þingi síðan. Gary Sinise. Gary Sinise (fæddur Gary Alan Sinise, 17. mars 1955) er bandarískur leikari, leikstjóri, framleiðandi og tónlistarmaður sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Of Mice and Men, og Forrest Gump. Einkalíf. Sinise er fæddur í Blue Island, Illinois í bandríkjunum og er hálf-ítalskur að uppruna. Stundaði nám við Ríkisháskólann í New York í Oneonta, New York. Giftist leikonunni Moira Harris árið 1981 og saman eiga þau þrjú börn. Árið 2003 stofnaði Sinise ásamt Kimora Williams "Lt. Dan Band", hljómsveit sem samanstendur af nokkrum söngvurum, gítarspilurum, trommurum og hljómborðsleikurum. Í heildina þá eru tólf meðlimir í hljómsveitinni. Sinise sjálfur spilar á bassagítar. Nafnið er virðing við persónu hans í kvikmyndinni Forest Gump (1994), Lt. Dan. Stofnaði "Operation Iraqi Children" árið 2004 ásamt Laura Hillenbrand höfundinum að "Seabiscuit: An American Legend". Síðan 2006, þá hefur Sinise verið meðkynnir ásamt Joe Mantegna á "National Memorial Day" tónleikunum í Washington. Þann 8. desember 2008 var Sinise veitt bandaríska forsetaorðan fyrir borgara fyrir stuðning sinn gagnvart Bandaríska hernum og góðgerðarverk fyrir írönsk börn. Leikhús. Árið 1974, þá stofnaði Sinise ásamt tveimur vinum sínum Terry Kinney og Jeff Perry, Steppenwolf Theatre Company. Síðan þá hafa margir frægir leikarar komið fram á borð við: Joan Allen, Kevin Anderson, Gary Cole, Ethan Hawke, Glenne Headly, John Mahoney, John Malkovich, Laurie Metcalf, Martha Plimton, Jim True-Frost og William Petersen. Hjá Steppenwolf þá notar Sinise tækifærið til að skerpa á bæði leikþjálfun sinni og leikstjórn. Vann sem listrænn leikstjóri hjá Steppenwolf Theatre Company í sjö ár. Hefur bæði leikstýrt og leikið í fjölmörgum leikritum á borð við: "Grapes of Wrath", "The Fith of July", "The Indian Wants the Bronx", "Road to Nirvana" og "Waiting for the Parade". Kvikmyndir. Árið 1988 þá leikstýrði Sinise kvikmyndinni "Miles from Home" með Richard Gere en þetta var hans fyrsta kvikmynd sem leikstjóri. Fyrsta kvikmyndahlutverk Sinise var í "A Midnight Clear" frá árinu 1992. Árið 1992 kom út kvikmyndin Of Mice and Men byggð eftir samnefndri bók eftir John Steinbeck en Sinise leikstýrði og lék eitt af aðalhlutverkunum ásamt John Malkovich. Myndin fékk gríðarlegar viðtökur og var Sinise tilnefndur til Palme d´Or verðlaunana á Cannes kvikmyndahátíðinni. Árið 1994 kom út kvikmyndin Forrest Gump með Tom Hanks í aðalhlutverki en Sinise lék Lt. Dan Band í myndinni. Var Sinise tilnefndur bæði til Golden Globe og Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt. Hefur hann síðan komið fram í fjölmörgum kvikmyndum á borð við: Ransom, Mission to Mars, Apollo 13, The Forgotten og The Human Stain. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Sinise í sjónvarpi er frá árinu 1980 í sjónvarpsþættinum "Knots Landing". Þekktastur er hann fyrir hlutverk sitt sem Mac Taylor í. Sinise lék í tveimur sjónvarpsmyndum George Wallace (1997) og Truman (1995) sem gáfu honum Golden Globe, Emmy og Screen Actor verðlaun fyrir hlutverk sitt í báðum myndunum. Kvikmynda og sjónvarps verðlaun. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Character and Morality fyrir verðlaun í skemmtanaiðnaði National Board of Review í Bandaríkjunum Tenglar. Sinise, Gary Sambandsflokkurinn (Færeyjar). Sambandsflokkurinn (færeyska: "Sambandsflokkurin") er færeyskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 1906. Hann er elsti flokkur landsins. Stofndagurinn er ekki þekktur með vissu en þann 18. ágúst 1906 tilkynntu 13 af 22 þingmönnum á Lögþinginu að þeir hefðu myndað með sér þingflokk sem þeir kölluðu „sambandsmenn“. Flokkurinn er íhaldssamur/frjálslyndur borgaralegur flokkur og vill að Færeyjar tilheyri áfram Danmörku. Jafnaðarflokkurinn. Jafnaðarflokkurinn (færeyska: "Javnaðarflokurin") er færeyskur stjórnmálaflokkur, stofnaður þann 25. september 1925. Flokkurinn er sósíaldemókratískur flokkur. Stofnendur hans höfðu áður setið í stjórn sósíalíska ungmennafélagsins og Verkalýðsfélags Þórshafnar. Árið 1928 fékk flokkurinn kjörna tvo fulltrúa á færeyska lögþingið og hefur átt þingmenn þar síðan. Þjóðaratkvæðagreiðslan í Færeyjum 1946. Þjóðaratkvæðagreiðslan 1946 er færeysk þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram 14. september 1946 um framtíð sambandsins við Danmörku í kjölfarið á seinni heimstyrjöldinni. Forsagan. 9. apríl 1940 var Danmörk hernumin af Þjóðverjum. Bretar töldu þá nauðsynlegt að hernema Færeyjar, sem þeir gerðu þann 12. apríl. Á meðan á stríðinu stóð hafði ekki verið pólitískt samband á milli Færeyja og Danmerkur. Færeyingar þurftu að hjálpa sér sjálfum, undir stjórn Breta. 25. apríl viðurkenndu bresk yfirvöld fána Færeyinga og þessu var fylgt eftir 9. maí með því að setja stjórnarskipunarlög sem gáfu Færeyska lögþinginu löggjafarvald og amtmanni framkvæmdarvald. 27. október 1945 birtist fréttatilkynning í færeyska blaðinu Dimmalætting þess efnis að danska stjórnin hefði gert kunnugt að Færeyjum hafi verið stýrt eftir samkomulagi ríkjanna á meðan stríðinu stóð. Í kjölfarið hófust samningaviðræður á milli Lögþingsins og dönsku stjórnarinnar um framtíðarstöðu Færeyja. Eftir mánaðarlangar samningaviðræður var ljóst að Færeyingar mundu ekki ná samkomulagi sín á milli og heldur ekki við dönsku stjórnina. Danir gerðu þó eitt uppkast að heimastjórnarlögum. Þjóðaratkvæðagreiðslan. I. Óskar þú þess að danska stjórnaruppkastið taki gildi? II. Óskar þú þess að aðskilnaður verði á milli Danmerkur og Færeyja? Atkvæðigreiðslan fór fram á þann hátt að kross átti að setja við þann möguleika sem kjósandinn vildi. Eftirmálar. Þegar ljóst var að Færeyingar hefðu samþykkt með mjög naumum meirihluta að slíta sambandi við Danmörku vildi meirihluti Lögþingsins fara að vilja þjóðarinnar og lýsti yfir sjálfstæði eyjanna 18. september 1946. Þingmaðurinn Jákup í Jákupsstofu var rekinn úr Jafnaðarflokknum fyrir að fylgja meirihlutanum að málum. Þann 20. september lýsti danska stjórnin sjálfstæðisyfirlýsinguna ólöglega og þann 23. september tilkynntu Jafnaðarflokkurinn og Sambandsflokkurinn að þeir teldu aðgerðir lögþingsmeirihlutans ólöglegar og þeir mótmæltu með því að ganga af þingfundi. Tveimur dögum síðar tilkynnti amtmaður að konungur hefði ákveðið að rjúfa þing og halda kosningar. Þingfundur átti að vera 27. september en Fólkaflokkurinn mætti ekki eftir tilskipun konungsins og Jákúp í Jákupstofu mætti því einn. Kosningarnar voru haldnar þann 8. nóvember 1946. Úrslit þeirra urðu að gamli stjórnarmeirihlutinn fékk 8 þingmenn en fyrri stjórnarandstæðingar fengu 12 og var þá ljóst að ekkert yrði úr sjálfstæðisyfirlýsingu. Síðan foru fram samningsumleitanir á milli nýja meirihlutans og dönsku stjórnarinnar. Þeim lauk með því að Heimastjórnarlögin tóku gildi 1. apríl 1948. Í mótmælaskyni við lögin var Þjóðveldisflokkurinn stofnaður þann 23. maí. Rupert Grint. Rupert Alexander Lloyd Grint (fæddur 24. ágúst 1988) er enskur leikari. Hann er best þekktur fyrir að leika Ron Weasley í kvikmyndunum um Harry Potter. Magnús Heinason. Hafrannsóknaskip Færeyinga ber nafn Magnúsar Heinasonar. Magnús Heinason (1545/1548 – 18. janúar 1589) eða Mogens Heinesen var norsk-færeyskur sægarpur, ófyrirleitinn ævintýramaður, sjóræningi og þjóðhetja á 16. öld. Uppruni. Magnús var sonur Heina Jónssonar, sem í Færeyjum var jafnan nefndur Heini Hafreki. Hann var norskur og er sagt að þegar hann var ungur námsmaður hafi hann hrakið á bát frá Björgvin til Húsavíkur á Sandey í Færeyjum. Þar settist hann að, giftist dóttur bónda og varð fyrsti lútherski prófastur Færeyja. Af börnum hans eru þekktastir synirnir Jón eða Jógvan Heinason, sem varð lögmaður Færeyja, og Magnús. Móðir hans var seinni kona Heina, Gyðríð Arnbjarnardóttir. Hún var norsk höfðingjadóttir og var Magnús því alnorskur þótt hann væri fæddur og uppalinn í Færeyjum. Magnús vandist sjómennsku frá unga aldri. Þegar hann var innan við tvítugt fékk faðir hans embætti í Björgvin og flutti þangað með fjölskylduna. Ekki leið á löngu þar til Magnús var orðinn skipstjóri á skipi sem sigldi þaðan til Færeyja en í þriðju verslunarferðinni réðust sjóræningjar á skipið. Magnús gafst upp án mótspyrnu en var hæddur fyrir það þegar hann kom aftur til Björgvinjar og sór þess þá að hefna sín. Frami. Magnús hélt til Hollands og var um tíu ára skeið á herskipum Vilhjálms þögla prins af Óraníu og Mórits sonar hans. Hann barðist í uppreisn Hollendinga gegn Spánverjum við góðan orðstír. Árið 1578 hélt hann til Kaupmannahafnar og bauð Friðrik 2. Danakonungi þjónustu sína. Konungur sendi hann fyrst til Færeyja að innheimta skuldir og ári síðar fékk hann einkarétt á verslun við Færeyjar þrátt fyrir mótmæli Christoffers Valkendorf ríkisféhirðis, sem eitt sinn var hirðstjóri á Íslandi. Sjórán og strandhögg voru algeng á Færeyjum og sumarið 1579 kom skoskur maður að nafni Klerck til Þórshafnar og rændi meðal annars öllum vörubirgðum verslunarinnar. Konungur gaf þá út kaprarabréf (leyfisbréf til sjórána) handa Magnúsi og heimilaði honum að ráðast á ensk og hollensk skip á hafinu milli Færeyja og Noregs. Magnúsi tókst að stöðva sjóránin og Færeyingar hylltu hann fyrir vikið. Magnús hóf að reisa virki í Þórshöfn (Skansinn) en á meðan hann var upptekinn við mannvirkjagerð sigldi þýskt skip milli eyjanna og stundaði launverslun. Það varð til þess að Valkendorf tókst að fá Magnús sviptan verslunareinkaleyfinu. Magnús vildi reyna að koma sér aftur í mjúkinn hjá konungi og bauðst til að finna siglingaleið til Grænlands og koma á viðskiptum við Grænlendinga. Hann sigldi upp að ströndum Grænlands en tókst ekki að ganga á land vegna hafíss. Ákærur og aftaka. Árið 1581 var hann sakaður um að hafa nauðgað Margrethe Axeldatter Gyntersberg, eiginkonu norska lögmannsins Peder Hansen, en einnig hafði hann dregið yngri systur hennar, Sophie, á tálar og giftist henni í Bergenshus 1582 að kröfu fjölskyldunnar, eftir að hafa áður lagt eið að því að hafa ekki haft nein mök við eldri systurina. Hann hélt svo til Færeyja en Margarethe hélt fast við ásakanir sínar og var það alvarleg ákæra því það töldust sifjaspell að hafa mök við systur. Jafnframt ásakaði Valkendorf Magnús um að hafa svikið undan fé í Færeyjaversluninni. Vegna ákæranna þurfti Magnús að flýja land. Hann fór þá aftur til Hollands og var í þjónustu prinsins af Óraníu næstu tvö árin en þá tókst honum aftur að ná sáttum við konung og er ekki ljóst hvernig fór með ákærurnar. En Valkendorf var ekki af baki dottinn og bar fram nýjar ákærur. Magnús lagði á flótta að nýju með konu sína og börn en var handtekinn í Noregi. Um svipað leyti féll konungur skyndilega frá og Valkendorf greip tækifærið og lét dæma Magnús til dauða fyrir ýmsar sakir og gaf honum ekki ráðrúm til að áfrýja, heldur var hann hálshöggvinn á Gamlatorgi í Kaupmannahöfn tveimur dögum eftir dóminn, 18. janúar 1589. Sophie, ekkja Magnúsar, og vinur hans fengu mál hans tekið upp að nýju ári síðar og var hann þá sýknaður af öllum ákærum. Lík hans var grafið með viðhöfn og Valkendorf var sviptur öllum embættum. Eftirmæli. Magnús Heinason er enn þjóðhetja í Færeyjum og þar eru sagðar margar frægðarsögur af honum og margar bækur hafa verið skrifaðar um hann. Þó eru til margar heimildir um að hann hafi verið ófyrirleitinn mjög og gert sig sekan um ýmsar lögleysur og dómar sagnfræðinga um hann hafa verið mjög misjafnir. Jógvan Heinason. Jógvan Heinason (1541 – 1602) eða Jón Heinason var lögmaður Færeyja frá 1572 til 1583. Hann var hálfbróðir sægarpsins og sjóræningjans Magnúsar Heinasonar. Jógvan var sonur norska prestsins Heina Hafreka, sem var fyrsti lútherski prófastur Færeyja, og fyrri konu hans, Herborgar frá Húsavík í Færeyjum. Jógvan fæddist í Færeyjum og ólst þar upp. Hann varð lögmaður eyjanna 1572. Nokkrum árum síðar fékk Magnús bróðir hans einkaleyfi á verslun við Færeyjar og má heita að þeir bræður hafi um tíma ráðið þar öllu. Jógvan var bóndi í Lamba á Austurey og var auðugasti landeigandi í Færeyjum. Færeyski fáninn. a>, en þaðan var einn hönnuða hans, Jens Olivur Lisberg, sem jafnframt varð fyrstur til að draga hann að húni. Færeyski fáninn (færeyska: "Merkið") var fyrst notaður árið 1919 en var fyrst viðurkenndur sem þjóðfáni Færeyinga af breska hersetuliðinu í seinni heimstyrjöldinni. Saga. Það voru færeysku stúdentarnir Jens Olivur Lisberg, Janus Øssursson og Pauli Dahl sem hönnuðu fánann og er talið að hann hafi fyrst verið dreginn að húni eftir guðsþjónustu í Fámjins-kirkju 22. júní 1919. Farið var að nota hann á þriðja áratugnum og þó enn frekar á þeim fjórða, þótt hann væri ekki ríkisfáni og ólöglegt væri að flagga honum. Þetta leiddi til fánadeilu í Færeyska lögþinginu og á milli Færeyinga, ekki síst sjómanna, og danskra stjórnvalda. Þann 9. apríl 1940, daginn sem Þjóðverjar hernámu Danmörku, var færeyski fáninn dreginn að húni á skipinu Eysturoggin, enda gátu færeysk skip ekki siglt undir dönskum fána á meðan Danmörk var hersetin af þýska hernum. Að kvöldi 13. apríl 1940 komu tveir vopnaðir breskir togarar og herskipið Suffolk á Havnarvág og ein herdeild var flutt í land. Þar með hófst hernám Breta í Færeyjum. Færeyingar tóku á móti Bretum sem vinum. Lögþingið mótmælti þó hernáminu til málamynda. Þann 25. sama mánaðar viðurkenndu Bretar færeyska fánann sem réttmætan þjóðfána. Margir þýskir kafbátar voru á hafsvæðinu umhverfis Færeyjar og margar þýskar sprengjuflugvélar gerðu árásir á skipalestir Bandamanna frá flugvöllum í Noregi. Bretar gerðu fyrsta og eina flugvöll eyjanna og reistu við hann flugskýli, auk þess sem þeir komu upp sjóflughöfn til að auðvelda varnir eyjanna og komu fyrir loftvarnabyssum og lögðu tundurduflagirðingar í sundum og fjörðum. Hafsvæðið kringum eyjarnar var því mjög hættulegt en færeyskir sjómenn áttu ekki annars kost en að sigla áfram. Skortur var á fiski í Bretlandi og færeysk fiskiskip veiddu á heimamiðum og fluttu einnig fisk frá Íslandi á breska markaðinn. Á þessum siglingum urðu öll færeysk skip að flagga færeyskum fána og hafa orðin "Faroes" "og "Føroyar" máluð á síðuna. Síðan 1947 hefur 25. apríl verið fánadagur í Færeyjum. Í tengslum við að heimastjórnin var sett á stofn 1948 viðurkenndu dönsk yfirvöld fánann sem þjóðfána Færeyinga. Kæliturn. Kæliturn er til að kæla niður vatn sem kemur úr gufuaflsvirkjun eins og jarðvarmavirkjun. Hverfill. Hverfill eða hverfihreyfill, stundum kallaður "túrbína", er hreyfill, sem notar hraðfara gas eða vökva til að knýja hverfilhjólin. T.d. má nýta gufuafl eða vatnsafl til raforkuframleiðslu. Thurgau. Thurgau er tólfta stærsta kantónan í Sviss með 991 km2. Hún liggur nær nyrst í landinu og varð formlega að kantónu 1803. Lega og lýsing. Thurgau liggur nær nyrst í Sviss og er með landamæri að Þýskalandi. Auk þess eru kantónurnar Zürich fyrir vestan og St. Gallen fyrir sunnan. Kantónan Schaffhausen rétt snertir Thurgau í norðvestri. Thurgau liggur með nær allri suðurströnd Bodenvatns. Tvær stórar ár ganga í gegnum kantónuna: Rín og Thur. Kantónan nær ekki að Alpafjöllum en 61% svæðisins er notað fyrir landbúnað. Íbúar eru 244 þúsund, sem gerir Thurgau að tólftu fjölmennustu kantónunni í Sviss. Höfuðborgin er Frauenfeld. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Thurgau eru tvö gul ljón á grænum og hvítum grunni. Tungurnar, augun og reðurnir eru rauðir. Merki þetta er runnið undan rifjum Kyburg-ættarinnar sem ríkti yfir svæðinu til 13. aldar, er Habsborgarættin tók við. Græni liturinn stendur fyrir frelsi en sá hvíti fyrir sakleysi. Orðsifjar. Thurgau er nefnt eftir ánni Thur sem rennur í gegnum kantónuna. Thur er gamalt indóevrópskt orð sem merkir "sá sem flýtir sér" (ef til vill skylt orðinu "þjóta"). Gau merkir landsvæði. Gæluheiti Thurgau er Mostindien. "Most" er þykkur eplasafi, en eplarækt hefur verið stunduð í héraðinu síðan á miðöldum. "Indien" merkir Indland, enda þykir mörgum ásýnd kantónunnar líkjast Indlandi. Söguágrip. Snemma á miðöldum tilheyrði héraðið Thurgau hertogadæminu Sváfalandi ("Schwaben") og var miklu stærra en það er í dag. Á 9. öld var suðurhlutinn splittaður af og varð að héraðinu Zürich. Seinna var enn klipið af héraðinu að austan og við það myndaðist hluti af St. Gallen og Appenzell. Snemma á 10. öld reyndi Rúdolf II frá Búrgúnd að hrifsa til sín héraðið en samtímis gerði Burchard II frá Sváfalandi tilkall til þess. Í orrustunni við Winterthur árið 917 sigraði Burchard og hélst héraðið (ásamt Zürich) því í Sváfalandi. Greifarnir frá Kyburg réðu héraðinu til 1264, en þá tók Habsborgarættin við. Í sjálfstæðisstríði Svisslendinga börðust íbúar Thurgau með Habsborgurum, til dæmis í orrustunni við Morgarten, sem Svissarar sigruðu í. Árið 1415 lenti Habsborgaraættin upp á kant við Sigismund keisara, sem lét hertaka héraðið. Það skiptist á milli nærliggjandi héraða, svo sem Bern og Zürich. 1798 var helvetíska lýðveldið stofnað að tilstuðlan Frakka. Þá var Thurgau innlimað í lýðveldið. Thurgau varð að eigin kantónu 1803 í endurskipulagningu lýðveldisins. Höfuðstaðurinn varð Frauenfeld. Eftir fall Napoleons varð Thurgau að frjálslyndri kantónu. Kantónan hefur margoft endurnýjað stjórnarskrá sína, síðast 1987. Skjaldarmerki Færeyja. Fyrirmyndina að Skjaldarmerki Færeyja má fyrst sjá á frægum útskornum stólum frá Kirkjubæ sem gerðir voru á 15. öld. Sýnir skurðurinn hrút á skildi. Seinna var hrútsmyndin notuð á innsigli lögréttumanna á lögþingi Færeyja. Innsigli lögréttumanna, fyrrverandi skjaldarmerki Færeyja Það var hætt að nota skjaldarmerkið þegar lögþingið var lagt af 1816. Þrátt fyrir endurreisn lögþingsins 1852 var skjaldarmerkið ekki tekið í notkun. Það ver ekki fyrr en að heimastjórnarlögin tóku gildi 1948 sem skjaldarmerkið að nýju tekið í notkun. En ekki af þjóðþinginu, Løgtingið heldur af Landsstjórn Færeyja, Landsstýri. Árið 2004 var ný útgáfa af skjaldarmerkinu tekið í notkun og hefur Kirkjubæjarstólana að fyrirmynd. Litirnir eru dregnir af færeyska fánanum að viðbættum gulum eða gylltum lit. Nýja skjaldarmerkið sýnir hrút í varnarstöðu. Skjaldarmerkið er notað af ráðherrum og sendiráðum en eldri útgáfan er enn í notkun hér og þar. Mörgum þikir nýja skjaldarmerkið stórum of líkt því gotneska. Brandugla. Brandugla (staðbundin nöfn eru: skógarugla og kattugla'") (fræðiheiti:"Asio flammeus") er fugl af ugluætt. Hann er sjaldgæfur varpfugl á Íslandi, en samt sem áður eina uglutegundin sem verpir á Íslandi. Branduglan er 33-40 sm á lengd, 300-500 g á þyngd, og með 90-110 sm vænghaf. Hún er ryðgul eða ljósgulbrún á bol og vængi, með dökkum langrákum á baki og að neðanverðu. Stélið er þverrákótt og snubbótt. Atlantic Airways. Atlantic Airways (færeyska: "Atlantsflog") er flugfélag sem var stofnað þann 10. nóvember 1987 og flaug í fyrsta sinn á milli Færeyja og Danmerkur 28. mars 1988. Forstöðumaður félagsins er Magni Arge. Flugfélagið er með skrifstofur á Kastrup flugvelli og flugvellinum í Vágum. Á fyrsta ársfjórðungi 2008 voru 204 starfsmenn í fullu starfi hjá flugfélaginu. Merki félagsins er fuglinn súla en félagið hefur einnig haft textann 2 A í færeyskum fánalitum sem merki félagsins. Félagið var stofnað til þess að manna færeyska flugþjónustu. Félagið hefur 165 starfsmenn yfir árið, fimm flugvélar og þrjár þyrlur. Félagið er stærsti vinnustaðurinn í Vágum og telst meðal stærstu fyrirtækja Færeyja. Saga. Reglulegar flugferðir til Færeyja voru síðan 1963, frá eyjunum og til Danmerkur. Þrátt fyrir að flugvöllurinn í Vágum hafði verið byggður af breska hernum í seinni heimstyrjöldinni var flugumferð til eyjanna svo gott sem engin á milli brottfarar bretana og byrjun flugþjónustu til Kastrup, Kaupmannahöfn. Á níunda áratugnum voru fyrstu hugmyndir um stofnun færeysks flugfélags. Farþegatölur voru stöðugt á uppleið og Maersk Air var eina flugfélagið sem flaug til eyjanna. Fyrir vikið var Atlantic Airways stofnað árið 1987, upprunalega á milli færeyska ríkisins (51%) og Danska flugfélagsins Cimber Air (49%), þótt Færeyska ríkið tók yfir félagið árið 1989. Flug á milli Vágar og Kastrup hófust þann 28. mars 1988 með flugvél British Areospace BAe 146. Flugskýli var byggt á Vágum af færeysku stjórninni til þess að tryggja að flugvöllurinn haldist sem miðstöð flugs félagsins og að viðgerðarþjónusta sé til staðar á eyjunum. Tilgangur flugfélagsins var að byggja upp færeyska flugþjónustu í atvinnuskyni og tryggja að færeyjar hafi loftbrú við umheiminn. Áhöfn og stjórn félagsins var færeysk. Þrátt fyrir að flugfélagið flutti marga farþega og að þjónusta félagsins væri vinsæl var efnahagur félagsins í upphafi mjög erfiður. Færeyjar lentu í kreppu í byrjun tíunda áratugarins og færeyska ríkið sem eigandi þess borgaði því 75 milljónir danskra króna til aðstoðar. Flugfélagið varð ekki arðsamt fyrr en árið 1995. Félagið byrjaði flug til Reykjavíkur á Íslandi og Narsarsuaq á Grænlandi árið 1995 í samstarfi við Flugfélag Íslands. Á seinni hluta tíunda áratugsins voru Billund í Danmörku og Arberdeen í Bretlandi bætt við sem áfangastaðir félagsins. Með auknum fjölda áfangastaða og farþega, ásamt stöðuleika í fjármálum fyrirtækisins var annari BAe 146 flugvél bætt við flotann árið 2000. Þessi nýja flugvél bætti við London Stansted flugvelli í Bretlandi og Osló í Noregi við áfangastaði félagsins. Aukning í ferðaþjónustu til eyjanna hafa einnig bætt við áfangastaði til Álaborgar, Stavanger, Stord og Edinborgar. Flugfélagið bætti við þriðju flugvél félagsins þann 15. júní 2004 og sama árs fékk flugfélagið verðalunin Ársins átak frá stéttarfélagi færeyja fyrir flug til Stord. Hins vegar, fyrir árið 2006 hefur verið hætt við að fljúga til Stord og í stað Edinborgar er flogi til Shetland eyja. Félagið hóf innanlandsflug innan Bretlands árið 2006 og varð eina flugfélagið sem bauð beint flug á milli Shetland og London, sem það flaug til tvisvar sinnum á viku. Innanlandsflugi innan Bretlands lauk árið 2008. Þyrla af gerðinni Bell 412EP í eigu Atlantic Airways Félagið rekur einnig þyrluþjónustu innan færeyja, sem er í sumum tilfellum nauðsynleg tenging við margar eyjanna sem ekki er hægt að fara til á sjó. Þyrlan hefur verið mikilvæg á eyjunum síðan 1960 þegar að þyrlur frá Dönsku landhelgisgæslunni sem sáu um loftrýmisgæslu, meðal annars tóku að sér að ferja tæki og birgðir á milli eyjanna. Ríkistjórnin keypti þyrlu vegna þessa árið 1978 en árið 1980 var opinber þjónusta í atvinnuskyni sett á laggirnar, með tveimur Bell þyrlum. Í upphafi var þyrluþjónustan sér fyrirtæki, SL Helicopters, en með ákvörðunnini að hafa flugþjónustu færeyja í einu fyrirtæki varð það hluti af Atlantic Airways árið 1994. Þyrlurnar fljúga í hring á milli eyjanna og farþegar geta farið úr á hvaða ey sem þeim lystir. Fyrirtækinu er skylt að hafa að lámarki eina þyrlu, í lagi og tilbúna til að taka þátt í björgunarstarfi. Síðustu fimm ár hefur flugfélagið skilað hagnaði á milli 8 og 13 milljón danskra króna. Eignir félagsins hafa aukist frá 120 milljónum árið 1998 í 520 milljónir danskra króna árið 2006. Félagið var með 177 manns í vinnu í janúar 2007. Flugfélagið hefur verið skráð í Íslensku kauphöllinni síðan 10. desember 2007. Í kjölfarið ákvað færeyska ríkið að einkavæða fyrirtækið og seldi 33% af hlutafé sínu í félaginu. Árið 2008 var áætlað að selja 33% eignarhlut ríkisins en hætt var við þau áform vegna fjármagnskreppunar. Leiguflug. Atlantic Airways flýgur einnig fyrir Flugfélag Íslands á milli Reykjavíkur og Narsuaq á Grænlandi. Þessar ferðir eru farnar með Avro RJ85 flugvél eða BAe 146-200. Flugfélagið flýgur í leiguflugi fyrir danskar ferðaþjónustur, meðal annars til Ítalíu, Króatíu, Frakklands, Skotlands, Noregs og Tékklands frá Kastrupflugvelli og Billund flugvelli. Innanlands flug. Flugfélagið rekur þyrluþjónustu til færeysku eyjanna. Þyrlan fer frá Vágar flugvélli á sunnudögum, mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Flogið er til Þórshafnar, Klakksvíkur, Stóra Dímun, Froðba, Koltur, Skúvoy, Hattarvík, Kirkja, Mykines og Svínoy. SEV. SEV er rafmagnsframleiðandi og dreifingaraðili í Færeyjum. Nafn fyrirtækisins er skammstöfun af eyjunum Straumey, Austurey og Vágar þar sem framleiðsla vatnsaflsvirkjana hófst. Saga. SEV var stofnað 1. október árið 1946. Stofnfundurinn fór fram í Þórshöfn og var sóttur af talsmönnum 19 bæjarfélaga frá Straumey, Austurey og Vágum. Síðan 1963 hafa öll bæjarfélög Færeyja tekið þátt í fyrirtækinu og fært rafmagnsframleiðslu sína til SEV. Starfsemi. 43% af allri nýttri orku Færeyjinga kemur frá vatnsaflsorkuverum. SEV hefur einkarétt á því að framleiða vatnsaflsorkuver og það rekur níu stór og sjö smærri vatnaflsorkuver. Þrátt fyrir að SEV hafi ekki einkarétt á dreifingu raforku, þá er það eina fyrirtækið sem dreifir raforku á Færeyjum. Föroya Bjór. Föroya Bjór er færeyskur drykkjaframleiðandi í Klakksvík. Fyrirtækið er eitt af tveimur elstu fyrirtækjum Færeyja. Fyrirtækið var stofnað af Símun í Vági sem lærði að brugga í Danmörku árið 1883. Við andlát hans skiptist hlutur hans á milli Einar Waag þingmanni og bróður hans Heini Waag. Þeir áttu báðir í fyrirtækinu þangað til í desember 2008, þegar að Heini seldi Einari sinn hlut. Fyrirtækið er með 70% markaðshluteild á færeyska markaðnum fyrir pilsner og 60% markaðshlutdeild fyrir lagerbjór. Starfsmenn fyrirtækisins eru 40. Eik banki. Eik Banki er færeyskt fjármálafyrirtæki sem var einn af stærstu bönkum landsins. Hann var stofnaður árið 1832 og starfrækti útibú í Danmörku. Bankinn var á sviði viðskiptabanka, verðbréfa og fasteignafjárfestinga. Bankinn var þjóðnýttur af Danmörku í október 2010 vegna slæmrar eiginfjárstöðu. Útibú bankans í Danmörku voru seld síðar til Sparekassen Lolland. Saga. Eik var stofnaður árið 1832 sem sparisjóður. Árið 1992 var honum breytt í banka og árið 2002 í hlutafélag. Þann 11. júlí 2007 var fyrirtækið skráð í Íslensku- og Dönsku kauphöllinni sem Eik banki P/F. Í danmörku átti Eik banki dótturfélag, Eik bank Danmark A/S. Árið 2007 tók dótturfyrirtækið yfir útibú Sænska Skandiabankans í Danmörku sem var síðar sameinað fyrirtækinu í desember 2007. Í sama mánuði keypti Eik banki færeyskt útibú Kaupþings banka. Fyrirtækið og danska dótturfyrirtækið voru yfirtekin af Danska fjármálaeftirlitinu í Október 2010 eftir að bankinn hafði ekki uppfyllt reglur um eiginfjárstöðu. Tilkynnt var um stöðvun viðskipta bankans í fréttum og bankinn afskráður úr Íslensku kauphöllinni. Dótturfyrirtæki Eik banka (Eik Bank Danmark A/S) var selt til svæðisbankans Sparekassen Lolland fyrir 336 milljón danskar krónur þann 17. desember 2010. Eftir sölu dótturfyrirtækisins var aðalmarkaður fyrirtækisins á viðskiptabankasviði innan Færeyja og eignarhald á stærsta fasteignafjárfestingafélagi færeyja, Inni P/F. Strandfaraskip Landsins. Strandfaraskip Landsins er færeyskt almenningssamgöngufyrirtæki. Það er í eigu færeysku landstjórnarinnar og er bæði með strandsiglingar og strætisvagnaferðir. Með auknum fjölda neðansjávarganga sem tengja eyjarnar saman hefur ferjuleiðum fækkað. Upphaflega voru fraktflutningar einnig hluti af rekstri félagsins, en þeir voru einkavæddar árið 2005. Sjö ferjur eru í flota fyrirtækisins. Flaggskipið er Smyril og hin sex ferjur félagsins eru: Teistin, Sam, Masin, Sildberin og Ternan. Ternan þjónar sem varaskip, en hún sigldi áður á milli Austureyjar og Borðeyjar annars vegar og Straumeyjar og Vága hins vegar. Eftir tilkomu Norðeyjagangana og Vágargangana var engin þörf á þeim siglingum. Með tilkomu Norðeyjagangana hætti ferjan Dúgvan, sem hafði siglt á milli Borðeyjar og Austureyjar, jafnframt siglingum og var seld til Grænhöfðaeyja. Fyrir utan ferjurnar á félagið mótorbátinn Súluna sem fer á milli Sørvágs og Mykiness. Fyrirtækið rak þyrluþjónustu til ársins 1994, þegar hún var yfirtekin af Atlantic Airways. Einnig hafði félagið á hendi fragtflutninga en sá hluti starfseminnar var einkavæddur árið 2005 og tilheyrir núna Eimskipafélagi Íslands. Rútuferðir. Innan strætisvagnakerfis fyrirtækisins eru 22 leiðir sem ná bæði yfir innanbæjarakstur og rútuferðir milli bæja. Þessar ferðir eru samræmdar ferjusiglingum félagsins. Rósastríðin. Orrustan við Tewkesbury, einn af mörgum bardögum Rósastríðanna. Rósastríðin voru borgarastyrjöld sem háð var í Englandi með hléum á árunum 1455-1485. Þar tókust á tvær greinar ensku konungsættarinnar, York og Lancaster, sem báðar voru afkomendur Játvarðar konungs 3. Báðar ættirnar höfðu rós í skjaldarmerki sínu, Lancaster-ættin rauða og York hvíta. Átökin voru þó ekki kölluð Rósastríð fyrr en síðar. Lancaster-ættin sótti meginstyrk sinn til Norður- og Vestur-Englands en York aðallega til suður- og austurhuta landsins. Fyrst og fremst voru það riddarar og þjónustumenn þeirra sem börðust. Mannfall meðal aðalsmanna var mikið og áttu átökin þátt í að staða aðalsins veiktist en konungsvaldið styrktist, þegar sættir tókust og Tudor-ættin settist að völdum. Forsaga. Ósættið hófst í raun árið 1399 þegar Ríkharði 2. konungi, sem var mjög óvinsæll, var bolað frá völdum af frænda sínum, Hinrik Bolingbroke hertoga af Lancaster, sem settist sjálfur í hásætið og kallaðist Hinrik 4. Í rauninni hefðu þó afkomendur Lionels af Antwerpen, næstelsta sonar Játvarðar 3., átt að taka við því þeir stóðu framar í erfðaröðinni en Hinrik, sem var sonur þriðja sonar Játvarðar. Þeir létu þó kyrrt liggja og einnig að mestu á meðan Hinrik 5., sonur Hinriks 4. sat að völdum en hann var vinsæll og styrkur í sessi. Hinrik 5. varð skammlífur og sonur hans, Hinrik 6., erfði ríkið 1422, þá á fyrsta ári. Englandi var framan af stýrt af ríkisstjórum en þegar konungurinn óx úr grasi kom í ljós að hann var vanhæfur og veikur leiðtogi og ráðgjafar hans voru óvinsælir. Englendingar glötuðu flestum þeim löndum sem þeir höfðu lagt undir sig í Frakklandi og óvinsældir konungs og stjórnar fóru sívaxandi. Árið 1453 var andlegt ástand konungs svo slæmt að skipuð var ráðgjafastjórn undir forystu Ríkharðs Plantagenet, hertoga af York, sem var ríkisstjóri (enska: "Lord Protector"). Hann var valdamikill og vinsæll og fór brátt að gera kröfu til krúnunnar. En 1455 hafði Hinrik 6. náð heilsu að nýju og drottningu hans, Margréti af Anjou, tókst að hrekja Ríkharð frá hirðinni. Hún var sterk og kraftmikil kona og leiddi í raun Lancaster-menn og byggði upp bandalag gegn Ríkharði. Borgarastyrjöld hefst. Deilurnar fóru harðnandi og fyrsta orrusta Rósastríðanna var háð við St. Albans 22. maí 1455. Lancaster-menn töpuðu og margir leiðtoga þeirra féllu. Ýmsir vildu þó ná sáttum og þegar Hinrik konungur veiktist að nýju var Ríkharður aftur gerður að ríkisstjóra. Áfram var þó deilt um hvor skyldi erfa krúnuna eftir Hinrik, Játvarður sonur Hinriks og Margrétar, sem var þá á öðru ári, eða Játvarður jarl af March, elsti sonur Ríkharðs af York, sem var áratug eldri. Margréti tókst að að bola York til hliðarog fékk hann sendan til Írlands en óvinsældir konungshjóna jukust, einkum í London, og bandamanni Ríkharðs, Richard Neville, jarli af Warwick, sem seinna var kallaður „the Kingmaker“ tókst að auka mjög áhrif sín. Hertoginn af York sneri aftur frá Írlandi og vann sigur á Lancaster-mönnum 23. september 1459 á Blore Heath í Staffordshire, en Lancaster-menn unnu sigur í orrustu við Ludford Bridge nokkru síðar og Ríkharður hertogi, Játvarður sonur hans, Warwick og faðir Warwicks, jarlinn af Salisbury, flúðu yfir Ermarsund til Calais. Warwick réðust aftur inn í England 1460 og í orrustunni við Northampton 10. júlí náði hann Hinrik konungi á sitt vald og flutti hann til London. Þangað kom Ríkharður og gerði kröfu til krúnunnar en aðalsmennirnir vildu ekki setja Hinrik af; þess í stað var gert samkomulag þar þsem Ríkharður var útnefndur arftaki Hinriks og Játvarður sonur konungs var gerður arflaus og skyldi fara frá London ásamt móður sinni en Ríkharður hertogi varð í raun stjórnandi ríkisins. Þetta sættu Lancaster-menn sig ekki við og Margrét hélt með son sinn til Norður-Englands og byggði þar upp stóran her. Ríkharður hertogi hélt norður í land til að takast á við Margréti en í orrustunni við Wakefield um jólin 1460 beið hann ósigur og féll í orrustunni en næstelsti sonur hans, Játmundur jarl af Rutland, var höggvinn eftir orrustuna ásamt Salisbury bandamanni þeirra og höfuð þeirra þriggja voru sett á stjaka við borgarhlið York. Játvarður konungur í fyrra sinn. Samkvæmt samkomulaginu sem gert hafði verið varð nú Játvarður, elsti sonur Ríkharðs og nú hertogi af York, erfingi ríkisins en Margrét hélt norður til Skotlands til að afla sér stuðnings og tókst að fá hann gegn afarkostum. Um svipað leyti kom Jasper Tudor, hálfbróðir Hinriks konungs 6., með her frá Wales og réðist gegn Játvarði af York en beið ósigur í orrustunni við Mortimer's Cross í Shropshire. Margrét drottning fór hraðförum að norðan með lið sitt, sem skildi eftir sig sviðna jörð þar sem það fór, og Warwick, sem var til varnar í London, tókst ekki að skrapa saman nægu herliði til að verjast liði drottningar. Herjunum laust saman við St. Albans og Lancaster-menn unnu stórsigur. Menn Warwicks lögðu á flótta og skildu Hinrik konung eftir undir tré. Þegar her Lancaster-manna nálgaðist London greip ótti um sig í borginni og borgarhliðum var lokað en Lancaster-menn rændu og rupluðu í nálægum sveitum. Þeir hörfuðu þó frá borginni áður en Játvarður hertogi sneri aftur með her sinn og leifarnar af her Warwicks og var þeim vel fagnað í London, þar sem York-menn áttu yfirgnæfandi stuðning. Fólk kallaði „Játvarður konungur!“ og þingið tók undir og sagði erfðakröfu York-ættar réttmæta. Játvarður var krýndur óopinberlega í skyndi í Westminster Abbey við mikinn fögnuð en sór þess eið að hann skyldi ekki láta krýna sig opinberlega fyrr en konungshjónin hefðu verið líflátin eða hrakin í útlegð. Þeir Játvarður og Warwick héldu svo norður á bóginn og söfnuðu að sér miklu herliði en við Towton nálægt York mættu þeir stórum her Lancaster-manna og er talið að um 80.000 manns hafi tekið þátt í orrustunni og um 20.000 fallið. Játvarður konungur vann afgerandi sigur; mikið mannfall varð í liði Lancaster-manna og flestir foringjar hersins féllu. Voru höfuð þeirra sett á stjaka við borgarhlið York í stað höfða föður konungs og bróður. Hinrik og Margrét höfðu beðið átekta í York ásamt Játvarði syni sínum en tókst að komast undan. Þau flýðu til Skotlands og leituðu hælis við hirð Jakobs 3. Skotakonungs. Játvarður lét svo krýna sig konung Englands í júní 1461. Hann ríkti nokkurn veginn í friði í áratug en þó var lengi nokkur órói í Norður-Englandi, þar sem stuðningsmenn Lancaster-ættar voru flestir. Hann náði Hinrik konungi á sitt vald 1465 og hélt honum föngnum í Lundúnaturni. Fjandmenn gera bandalag. Samkomulag Játvarðar konungs og Warwicks fór versnandi á árunum 1467-1470 og mátti að hluta rekja það til þess að konungur hafði gengið að eiga Elizabeth Woodville í laumi árið 1464 en Warwick hafði verið búinn að semja um annað kvonfang. Í kjölfarið komst Woodwille-ættin til metorða við hirðina á kostnað Neville-ættar, fjölskyldu Warwicks. Um leið dró úr vinsældum Játvarðar, þar sem hann hafði lagt á háa skatta og hirt lítt um lög og reglu. Warwick gerði því bandalag við George hertoga af Clarence, yngri bróður konungs, og þeir unnu sigur á herliði konungs í orrustu 1469 og hnepptu hann í varðhald og ætluðu að fá hann afsettan og Clarence gerðan að konungi í hans stað. En Ríkharður, yngsti bróðir konungs, kom honum til bjargar ásamt miklu liði. Warwick og Clarence voru lýstir landráðamenn og urðu að flýja til Frakklands. Þar var Margrét af Anjou, fyrrum drottning, fyrir og lagði Loðvík 9. til að þessir fornu fjandmenn gerðu með sér bandalag, sem þau samþykktu að lokum og var samkomulagið innsiglað með hjónabandi Játvarðar af Westminster, sonar Margrétar, og Önnu Neville, dóttur Warwicks. Warwick gerði svo innrás í England haustið 1470 og kom Játvarði að óvörum, svo að hann og Ríkharður neyddust til að flýja land til Hollands og þaðan til Búrgundar. Hinrik 6. var aftur settur í hásætið. Karl djarfi af Búrgund ákvað að liðsinna Játvarði, bæði með hermönnum og fé, svo að hann gat gert innrás í England og vann sigur á Warwick í orrustunni við Barnet. Lokasigurinn vannst svo í orrustunni við Tewkesbury vorið 1471 og þar féll Játvarður af Westminster en faðir hans, Hinrik konungur, var myrtur skömmu síðar. Lokakaflinn. Rósastríðunum er oft talið ljúka þegar Játvarður 4. settist aftur í hásætið 1471 og ríkisár hans voru friðsæl en þegar hann dó skyndilega 1483 fór allt í bál og brand að nýju. Sonur hans og erfingi, Játvarður 5., var aðeins tólf ára og ljóst að móðurfrændur hans af Woodville-ætt myndu öllu ráða næstu árin. Við það voru margir ósáttir og Ríkharður föðurbróðir þeirra greip tækifærið og tókst að ná völdum. Hann rændi konunginum unga og lét setja hann og yngri bróður hans í fangelsi í Lundúnaturni og lýsti þá óskilgetna, þar sem hjónaband foreldranna hefði verið ógilt. Honum tókst að fá þingið á sitt band og var hann lýstur konungur sem Ríkharður 3. Ekkert spurðist síðan til prinsanna ungu og er talið víst að þeir hafi verið myrtir. Foringi Lancaster-manna þegar hér var komið sögu var Hinrik Tudor en faðir hans var óskilgetinn hálfbróðir Hinriks 6. Erfðatilkall hans var þó í gegnum móður hans, lafði Margréti Beaufort, sem var afkomandi Játvarðar 3. Hann safnaði liði og vann sigur á her Ríkharðs í orrustunni við Bosworth Field 1485. Ríkharður féll en Hinrik varð konungur Englands sem Hinrik 7. og styrkti erfðatilkall sitt með því að giftast Elísabetu, dóttur Játvarðar 4., sem stóð næst til erfða af hálfu York-ættar eftir lát bræðra sinna, og lét taka af lífi alla aðra hugsanlega erfingja sem hann kom höndum yfir. Þar með sameinuðust ættirnar tvær og Rósastríðunum lauk endanlega. Hvalbagöngin. Hvalbagöngin (færeyska: "Hvalbiartunnilin") eru færeysk jarðgöng á milli Hvalba og Trongisvágar á Suðurey. Göngin eru samtals 1.450 metrar að lengd og eru einbreið. Þau voru opnuð þann 28. desember 1962 og eru því elstu jarðgöng Færeyja. Árið 2009 fóru að meðaltali 733 bílar á dag um göngin. Gerð var úttekt á öllum jarðgöngum Færeyja árið 2007 og var þá séstök áhersla lögð á Hvalbagöngin vegna aldurs þeirra. Niðurstaða athugunarinnar var að styrkja þyrfti syðri hluta ganganna. Samgöngur í Færeyjum. Samgöngur í Færeyjum byggjast á vegakerfi, ferjusiglingum og þyrluflugi. Samgöngur við önnur lönd byggjast á flugi og siglingum og eru kostnaðarsamar vegna vegalengda, farþegafæðar og óhagstæðs veðurfars, einkum að vetrarlagi. Útflutningur og innflutningur er því fremur dýr. Saga. Sögu færeyskra samgangna má skipta í fjögur megintímabil. Árabátar. Frá miðöldum fram á 20. öld voru árabátar helstu samgöngutækin en annars fóru menn fótgangandi og báru flutninga á bakinu. Vel stætt fólk notaði þó stundum hesta þar sem því varð við komið. Ferjur og bílar. Á seinni hluta 19. aldar hófust regulegar ferjusiglingar milli eyjanna og voru lög þar að lútandi sett árið 1865. Þegar kom fram á 20. öld komu fyrstu bílarnir til sögunnar og þeim fjölgaði töluvert á millistríðsárunum. Þegar síðari heimsstyrjöld lauk var hægt að komast til meirihluta byggða á Færeyjum með ferjum og bílum, oft áætlunarbílum og leigubílum. Bílferjur og flug. Þegar leið á 20. öldina urðu ferjurnar fullkomnari og bílferjur komu til sögunnar. Þá var hægt að aka og flytja bílinn með ferju á milli allra stærri bæjarfélaganna á eyjunum, frá Þórshöfn suður til Vágs og Tvøroyrar á Suðurey, norður til Fuglafjarðar á Austurey og Klakksvíkur á Borðey og vestur til Vágaflugvallar á Vágum. Flugvöllurinn var lagður af Bretum í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir það var lítið sem ekkert notaður fyrr en 1963, þegar hann var endurnýjaður og gerður að alþjóðaflugvelli. Með honum opnuðust möguleikar á millilandaflugi, auk þess sem hann er miðstöð þyrluflugs á milli eyjanna. Fyrstu jarðgöngin á eyjunum, Hvalbagöngin, voru gerð árið 1963 og á næstu árum var gerður fjöldi jarðganga sem komu á vegasambandi við byggðir sem áður höfðu verið afskekktar. Brýr og neðansjávargöng. Á síðustu áratugum 20. aldar hófst ný þróun þegar farið var að tengja eyjarnar innbyrðis algerlega ný þróun. Fyrsta vegtengingin á milli eyja var brú sem byggð var á milli Norðskála á Austurey til Nesvíkur á Straumey. Á Norðureyjum voru Viðey og Karlsey tengdar við Borðey með vegfyllingum. Nýjasta viðbótin við samgöngunet Færeyja eru neðansjávargöng. 2002 voru Vágagöngin á milli Straumeyjar og Vága opnuð og 2006 voru Norðeyjagöngin á milli Austureyjar og Borðeyjar tekin í notkun. Á báðum stöðum er innheimtur vegatollur. Með tilkomu ganganna geta 85% íbúa Færeyja ekið um mestallar eyjarnar. Jarðgöng. Gásadalsgöngin, einnar akreinar göng í Færeyjum. Jarðgöng hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki í vegtengingu færeyskra bæjarfélaga. Hvalbagöngin (opnuð 1963) milli Hvalba og Trongisvágs voru þau fyrstu. Lengstu jarðgöng Færeyja eru Norðeyjagöngin (opnuð 2006) sem tengja Klakksvík á Borðey við Leirvík á Austurey og þaðan áfram við Straumey og Vága. Í dag eru 19 göng í færeyjum en áætlað er að gera Skálafjarðargöng 2013 og Sandeyjargöng 2014. Flugvellir. Aðeins einn flugvöllur er í Færeyjum, Vágaflugvöllur. Verkfræðideild breska hersins lagði flugvöllinn í síðari heimsstyrjöldinni. Flugvöllurinn var afhentur dönsku flugmálastofnuninni að stríðinu loknu og 1963 var hann gerður að alþjóðaflugvelli. Reglubundið áætlunarflug hófst með Maersk Air sem var einráður á markaðnum þangað til Atlantic Airways var stofnað 1987. Í dag er Atlantic Airways eina flugfélagið sem flýgur til flugvallarins og er með samstarfsamning við Flugfélag Íslands um flug til eyjanna. Á árunum 2006 til 2007 voru tvö flugfélög í færeyjum, þegar að FaroeJet veitti Atlantic Airways samkeppni en því lauk með gjaldþroti þess fyrrnefnda 2007. Flugbraut vallarins er eingöngu 1.250 metrar að lengd og því geta aðeins flugvélar sem þurfa tiltölulega stutta flugbraut til flugtaks og lendingar notað brautina, en fyrirhugað er að lengja brautina í 1.799 metra og byggja nýja flugstöð. Rútuferðir. Vegir eru meginsamgönguæð Færeyja. Um þær liggur yfirgripsmikið net áætlunarleiða og skiptist í rauðu strætisvagnana, Bussleiðina, sem aka um Þórshöfn og bláu vagnana, Bygdaleiðir, sem keyra á milli þorpa og eyja. Strandfaraskip Landsins reka Bygdaleiðir. Helsta leiðin er Þórshöfn-Klakksvík, sem fer í gegnum Norðeyjagöngin, en aðrar leiðir þjóna öðrum bæjarfélögum. Rúturnar eru í eigu einstaklinga og smáfyrirtækja en fargjöld, tímatafla og þjónustustig er ákveðið af Strandfaraskipum Landsins og landsstjórninni. Bussleiðin þjónar Þórshöfn og er stýrt af bæjarstjórn Þórshafnar. Síðan 1. janúar 2007 eru ferðir með vögnunum gjaldfrjálsar og er það gert í þeim tilgangi að auka notkun almenningsamgangna í stað bíla. Strætisvagnarnir eru í einkaeigu en eru með leigusamning við Bussleiðina. Ferjur. Færeyska almenningssamgöngufyrirtækið Strandfaraskip Landsins rekur ferjur eyjanna (ásamt rútum). Flaggskip fyrirtækisins er Smyril, sem siglir á milli Þórshafnar og syðri eyjanna Skipið var tekið í notkun 2005. Frá 1980 hefur farþega- og bílaferjan Norræna boðið upp á áætlunarsiglingar til Færeyja frá Seyðisfirði á Íslandi og Hirtshals í Danmörku. Valery Leontiev. Valery Leontiev (fæddur Valery Yakovlevich Leontiev, 19. mars 1949) er rússneskur söngvari. Tenglar. Leontiev, Valery Vágaflugvöllur. Vágaflugvöllur (færeyska: "Vága Floghavn", danska: "Vágar Lufthavn") er eini flugvöllurinn í Færeyjum, um 2 km austan við Sørvág á eynni Vágum. Þar eru höfuðbækistöðvar færeyska flugfélagsins Atlantic Airways, auk þess sem flogið er þaðan með þyrlum til nokkurra áfangastaða innan eyjanna. Verkfræðideild breska hersins lagði flugvöllinn í síðari heimsstyrjöldinni og að stríðinu loknu komst hann í umsjá dönsku flugmálastjórnarinnar. Stóð það til 1. maí 2007 en þá var hann afhentur Færeyingum. Það var þó ekki fyrr en um 1960 sem reglubundið áætlunarflug til Færeyja hófst. Flugbrautin er aðeins 1250 metrar á lengd og geta því aðeins flugvélar sem þurfa tiltölulega stutta braut til flugtaks og lendingar notað hann. Fyrirhugað er að lengja flugbrautina í 1799 metra og reisa nýja flugstöð. Áður sigldi ferja milli Vága og Þórshafnar en árið 2002 voru opnuð jarðgöng yfir til Straumeyjar og er því hægt að aka á milli Þórshafnar og flugvallarins. Áætlunarflug er nú meðal annars til Kaupmannahafnar, Reykjavíkur, Aberdeen, London, Óslóar, Stafangurs og Narsarsuaq á Grænlandi. Flugslys. Þann 26. september 1970 fórst Fokker F27-flugvél Flugfélags Íslands skömmu fyrir lendingu á Vágaflugvelli. Vélin var í áætlunarflugi frá Kaupmannahöfn með millilendingu í Björgvin en veðuraðstæður voru slæmar í Færeyjum og vélin rakst á fjallið Knúk á Mykinesi. Í vélinni voru 34 og átta þeirra fórust, þar á meðal flugstjórinn, Bjarni Jensson. Margir slösuðust illa og þurfti að flytja þá af slysstað á þyrlu við mjög erfiðar aðstæður. Þann 3. ágúst 1996 fórst Gulfstream III-flugvél danska flughersins í aðflugi að Vágaflugvelli í slæmu veðri og lélegu skyggni. Níu manns fórust, þar á meðal danski varnarmálaráðherrann Jørgen Garde og eiginkona hans. Rafall. Rafall eða dínamór eins og hann er stundum kallaður umbreytir vélrænni eða hreyfiorku í raforku við það að hreyfa leiðara í gegnum segulsvið. Frauenfeld. Frauenfeld er höfuðborg svissnesku kantónunnar Thurgau. Hún er jafnframt stærsta borg kantónunnar með tæpa 23 þúsund íbúa. Lega. Frauenfeld liggur við ána Murg vestarlega í kantónunni, rétt austan við landamærin að kantónunni Zürich. Næstu borgir eru Zürich til suðvesturs (25 km), Konstanz í Þýskalandi til norðausturs (20 km) og St. Gallen til austurs (25 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Frauenfeld sýnir rautt ljón sem rauðklædd kona teymir. Grunnurinn er hvítur. Ljónið er tákn Kyburg-ættarinnar en konan er María mey. Það að hún teymir ljónir merkir að örlög borgarinnar eru í hennar höndum. Orðsifjar. Frauenfeld er nefnd eftir Maríu mey. Sléttan þar sem bærinn var reistur var kölluð "Unserer lieben Frauen Feld" ("láglendi okkar góðu ungfrúar"). Úr síðustu tveimur orðunum myndaðist heiti borgarinnar. Söguágrip. Erfitt er að áætla hvenær Frauenfeld myndaðist en bærinn kom fyrst við skjöl 1246. Þá var þar samnefnt kastalavirki. Í skjali frá 1286 kemur fram að Frauenfeld sé komin með borgarréttindi í landi Habsborgara. Það var sú ætt sem réði í borginni næstu aldir. Árið 1531 urðu siðaskiptin í Frauenfeld. Urðu þá kaþólikkar og mótmælendur að deila kirkjunum með sér, þar til ný kirkja mótmælenda var vígð 1645, þremur árum fyrir lok 30 ára stríðsins. Tvisvar sinnum eyddi stórbruni stórum hluta borgarinnar, 1771 og 1788, og eyðilögðust í þeim flest eldri húsin. Núverandi ásýnd miðborgarinnar skapaðist því við lok 18. aldar. 1798 hertóku Frakkar borgina, sem við það var innlimuð í helvetíska lýðveldið. Frauenfeld varð höfuðborg kantónunnar Thurgau við endurskipulagningu lýðveldisins 1803 en þingið hittist til skiptis í Frauenfeld og í Weinfelden (sem er fimmta stærsta borgin í Thurgau). Frekar lítill iðnaður myndaðist í Frauenfeld en borgin fékk þó járnbrautartengingu 1855. Það var ekki fyrr en um miðja 20. öld að iðnaður hélt af alvöru innreið sína í borginni en hann er aðalatvinnuvegurinn í dag. Þrír stærstu atvinnurekendur í Frauenfeld eru iðnfyrirtæki en þar starfa samanlagt rúmlega 5.000 manns. Nákvæmlega fjórðungur íbúanna í dag eru af erlendu bergi brotnir. Viðburðir. Openair Frauenfeld er viðamesta hátíð borgarinnar. Hér er um útitónleika að ræða, þeir stærstu í þýskumælandi Sviss og jafnframt stærsta Hip-Hop útihátið Evrópu. Hún var fyrst haldin 1985 og hefur verið haldin árlega síðan. Á síðustu árum sækja um 150 þúsund manns hátíðina heim. Af þekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum sem þar hafa troðið upp má nefna Rolling Stones, Elton John, The Kelly Family, David Bowie, Deep Purple, Joe Cocker, Rammstein, Eminem, ásamt tugum annarra. Byggingar og kennileiti. Schloss Frauenfeld er gamalt kastalavirki í borginni. Elsti hluti hans er frá síðari hluta 13. aldar og stóð þá innan við borgarmúrana, en aðskilinn frá borginni með síkjum. Þarna sátu fulltrúar Habsborgara sem stjórnuðu borginni út miðaldirnar. Eftir að kantónan Thurgau var mynduð varð kastalinn að aðalskrifstofubyggingu kantónunnar. Sökum niðurníslu átti að rífa kastalann, en Johann Wegelin bjargaði honum með því að kaupa bygginguna. Barnabarn hans gaf kantónunni kastalann aftur og síðan 1960 er í honum sögusafn. Jóannes Patursson. Jóannes Patursson (6. maí 1866 – 2. ágúst 1946) var færeyskur kóngsbóndi, rithöfundur, skáld og lögþingsmaður í Færeyjum, einn öflugasti baráttumaðurinn fyrir sjálfsstjórn eyjanna og einn þeirra sem mest áhrif hefur haft á sögu þeirra. Í Færeyjum var hann oft einfaldlega kallaður "Bóndinn". Ætt og menntun. Jóannes fæddist í Kirkjubæ, stærstu konungsjörð Færeyja, þar sem forfeður hans höfðu búið í margar kynslóðir, allt frá 1537. Þjóðhetjan Nolseyjar-Páll var langafi hans í móðurætt. Systkini hans fimm urðu öll áberandi í færeysku þjóðlífi. Foreldrar hans vildu veita börnum sínum góða menntun og Jóannes gekk í gagnfræðaskóla í Þórshöfn og síðan í bændaskóla í Noregi að ráði Hannesar Finsen amtmanns. Þar hreifst hann af norskri þjóðernisvitund og baráttu Norðmanna gegn dönskum áhrifum á tungumálið. Hann tók við búi í Kirkjubæ 1892 af föður sínum. Hann innleiddi ýmsar nýjungar í færeyskum landbúnaði og aflaði sér framhaldsmenntunar í Noregi og Skotlandi. Hann rak bændaskóla heima hjá sér um nokkurt árabil og útskrifaði þaðan um fjörutíu búfræðinga. Hann gerði líka tilraunir með skógrækt en þær tókust ekki sérlega vel. Þjóðernisvakning. Jóannes og Rasmus Christoffer Effersøe hófu saman baráttu fyrir þjóðernisvakningu í Færeyjum á níunda áratug 19. aldar. Þeir skrifuðu greinar í blaðið Dimmalættingu um samband Færeyja og Danmerkur og nauðsyn þess að varðveita færeyska tungu og stóðu fyrir stofnun Færeyingafélagsins árið 1889. Helstu baráttumál þess voru að hefja færeyska tungu til virðingar og efla samheldni og sjálfsbjargarviðleitni Færeyinga í öllum málum. Þingmennska. Jóannes var kosinn á Lögþingið árið 1901 fyrir Suðurey og sat þar allt til æviloka en en var fulltrúi Suður-Straumeyjarkjördæmis frá 1906, enda var hann búsettur þar. Þingmenn skiptust í upphafi í frjálslynda og íhaldssama arma en engir formlegir flokkar voru til. En árið 1906 var Sambandsflokkurinn stofnaður og síðan Sjálfstjórnarflokkurinn, og varð Jóannes fyrsti formaður hans. Árið 1901 var Jóannes jafnframt kjörinn á danska þingið sem fulltrúi Færeyja en náði ekki endurkjöri 1906. Hann var einnig fulltrúi á danska Landsþinginu 1918-1920 og 1928-1936. Jóannes hafði mikinn áhuga á að koma á heimastjórn að íslenskri fyrirmynd og setti fram uppkast að heimastjórnarlögum 1906 en þau fengu ekki framgang. Sama gilti um frumvörp sem hann reyndi að koma fram með 1920 og 1929. Aftur á móti náði eitt helsta baráttumál hans fram að ganga 13. desember 1938, þegar lög um að kennsla í færeyskum skólum skyldi fara fram á dönsku voru endanlega numin úr gildi. Stofnun Fólkaflokksins. Jóannes Patursson (fremstur) í Ólafsvökuskrúðgöngu 1945. Thorstein Petersen er næstur á eftir honum. Á fjórða áratugnum var hart deilt í Sjálfstjórnarflokknum um nýja löggjöf um búnaðarmál en samkvæmt henni áttu kóngsbændur (bændur á jörðum í opinberri eigu) að láta af hendi hluta af löndum þeim sem þeir nytjuðu. Jóannes var stærsti kóngsbóndi í eyjunum og var ekki sáttur en lenti í minnihluta í flokknum og varð síðan undir í formannskjöri. Hann klauf sig þá úr flokknum og hóf samstarf við Vinnuflokkinn, borgaralegan flokk sem Thorsteinn Petersen hafði stofnað fáeinum árum áður. Þó gekk hann ekki formlega úr Sjálfstjórnarflokknum fyrr en 1940, þegar annar frambjóðandi var valinn í hans stað í kjördæmi hans. Þá stofnaði hann ásamt Vinnuflokknum "Hin føroyska fólkaflokkin", sem fylgdi rótttækri sjálfstæðisstefnu, enda hafði Jóannes sjálfur orðið sífellt róttækari í sjálfstæðismálum með árunum og vildi nú algjört sjálfstæði. Hann var kjörinn fyrsti formaður Fólkaflokksins, sem hlaut gott brautargengi í kosningunum, 24,7% atkvæða og sex fulltrúa á Lögþinginu. Enn betur gekk í kosningunum 1943, þegar flokkurinn fékk 12 fulltrúa af 25, en hinir flokkarnir sameinuðust gegn honum. Þá var Jóannes Patursson raunar búinn að láta leiðtogahlutverkið að mestu í hendur Thorsteins Petersen. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 14. september 1946 samþykktu Færeyingar með mjög naumum meirihluta að lýsa yfir sjálfstæði en Jóannes Patursson lifði það ekki, hann dó 2. ágúst, og Danir höfnuðu sjálfstæðisyfirlýsingu Færeyinga og boðað var til kosninga þar sem andstæðingar sjálfstæðis urðu yfirsterkari. Heimastjórn komst aftur á móti á 1948. Fjölskylda og ritstörf. Jóannes og Guðný í garðinum í Kirkjubæ. Kona Jóannesar var íslensk, Guðný Eiríksdóttir frá Karlsskála í Reyðarfirði. Á meðal barna þeirra voru kóngsbóndinn og rithöfundurinn Páll Patursson og stjórnmálamaðurinn Erlendur Patursson. Ættin býr enn í Kirkjubæ og er núverandi kóngsbóndi, Jóannes Patursson, sá sautjándi í röð af Paturssonarætt. Ljóðskáldið Rói Patursson er afkomandi Jóannesar og Guðnýjar. Jóannes Patursson var afkastamikill rithöfundur og skáld, skrifaði fjölda blaðagreina um stjórnmál, landbúnaðarmál og færeysk þjóðkvæði og dansa og gaf út nokkrar bækur, þar á meðal eina ljóðabók, "Yrkingar" (1922). Hann stóð fyrir útgáfu á fimm binda verki um dansa og kvæði á árunum 1922-1945. Sjálfur orti hann fjölda tækifæriskvæða sem oft eru sungin í Færeyjum, svo og ættjarðarljóð, barnagælur og fleira. Heiðarlón. Heiðarlón er fyrirhugað inntakslón fyrir vatnsaflsvirkjunina Urriðafossvirkjun sem Landsvirkjun hyggst reisa ofan Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár. Kirkjubær (Færeyjum). Kort af Kirkjubæ og nágrenni. Kirkjubær (færeyska: "Kirkjubøur") er lítið þorp á vestanverðri Straumey í Færeyjum, biskupssetur á miðöldum og því helsti sögustaður eyjanna. Þar er jafnframt kóngsjörðin Kirkjubøargarður eða Kirkjubær, þar sem Paturssonarættin hefur búið frá 1557. Kirkjubær og grannþorpið Velbastaður voru áður sérstakt sveitarfélag en runnu saman við Þórshöfn árið 2005. Biskupssetur hefur líklega verið stofnað í Kirkjubæ um 1100 og sátu Færeyjabiskupar þar fram yfir siðaskipti 1538 en eftir að fyrsti og eini lútherski biskupinn, Jens Gregoríusson Riber, var fluttur til Stafangurs 1557 var biskupsdæmið lagt niður og kóngsbændur tóku við búskap á jörðinni. Elsti hluti íbúðarhússins á Kirkjubøargarði, þar sem Paturssonfjölskyldan býr enn, er talinn vera frá 11. öld og eitt elsta timburhús í heimi sem enn er búið í. Af öðrum merkum minjum í Kirkjubæ má nefna elstu kirkju Færeyja sem enn er í notkun, Ólafskirkjuna, sem er frá 12. öld og gengdi hlutverki dómkirkju í kaþólskri tíð en lítið er nú eftir af upphaflegu svipmóti hennar, og Múrinn, en það eru rústirnar af ófullgerðri dómkirkju, Magnúsarkirkjunni, sem byrjað var að reisa um 1300 og átti að helga Magnúsi helga Orkneyjajarli. Veggir kirkjunnar standa enn og eru rústirnar á heimsminjaskrá UNESCO. Sagt er að í Kirkjubæ hafi á miðöldum verið allstórt þorp á þeirra tíma mælikvarða, um 50 hús, en flestum þeirra hafi skolað á haf út í ofviðri á 16. öld. Nú eru 77 íbúar í þorpinu (1. janúar 2010) en árið 1985 voru þeir 55. Margir þekktir einstaklingar hafa búið eða alist upp í Kirkjubæ. Þar á meðal má nefna Sverri Sigurðsson Noregskonung, Erlend biskup, sem skrifaði Sauðabréfið, Jóannes Patursson kóngsbónda og sjálfstæðisbaráttumann, Helenu systur hans, sem var upphafskona kvenréttindabaráttu í Færeyjum, stjórnmálamanninn Erlend Patursson og listamanninn Trónd Patursson. Grímur kamban. Grímur kamban. Frímerki teiknað af Anker Eli Petersen. Meira segir ekki frá Grími. Ekki hefur þetta þó verið á dögum Haraldar hárfagra eins og frásögnin gæti bent til því að Landnámabók er sagt frá því að sonarsonur Gríms, Þórólfur smjör, hafi komið til Íslands með Hrafna-Flóka fyrir 870 og er því líklegra að Grímur hafi numið land í Færeyjum á fyrstu áratugum 9. aldar en á valdatíma Haraldar hárfagra undir lok aldarinnar. Hins vegar má vera að eyjarnar hafi ekki verið fullnumdar fyrr en löngu eftir að Grímur settist þar að. Nafnið Kamban er talið af keltneskum uppruna og gæti bent til þess að Grímur hafi komið úr norrænum byggðum á Bretlandseyjum. Sela Ward. Sela Ward (fæddur Sela Ann Ward, 11. júlí 1956) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í, Once and Again og Sisters. Einkalíf. Ward fæddist í Meridian, Mississippi í Bandríkjunum. Stundaði nám í listum og auglýsingum við Alabamaháskólann. Fluttist til New York eftir nám til að vinna hjá auglýsingastofu en var stuttu seinna uppgvötuð sem fyrirsæta. Ward vann sem fyrirsæta í nokkrum auglýsingum áður en hún fluttist til Los Angeles til að vinna sem leikkona. Ward er meðlimur Chi Omega kvenfélagsins og Phi Beta Kappa heiðursfélaginu. Eftir að hafa hitt tvö fósturbörn árið 1997 í Mississippi, ákvað Ward að víkka sjóndeildarhringinn gagnvart misnotuðum börnum með því að stofna sjóðinn Hope Village for Children sem styður neyðarheimili fyrir börn sem eiga eftir að vera sett á fósturheimili. Heimilið er staðsett í heimabæ Ward í Meridian sem var opnað í janúar árið 2002 og getur tekið 44 börn í einu eða um 200 börn á ári. Ward gaf út sjáflsævisögu sína, "Homesick: A Memoir" árið 2002. Ferill. Fyrsta hlutverk Ward var í kvikmyndinni "The Man Who Love Women" frá árinu 1983 með Burt Reynolds. Síðan þá hefur Ward komið fram í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Fyrst hlutverk Ward í sjónvarpi var í Emerald Point N.A.S. frá 1983. Árið 1991 þá var Ward ráðin til þess að leika í sjónvarpsþættinum Sisters sem Theodora „Teddy“ Reed Margolis Falconer Sorenson sem hún var hluti af til ársins 1996. Árið 1999 þá var Ward ráðin til þess að leika í sjónvarpsþættinum Once and Again sem Lily Manning. Árið 2010 þá var Ward ráðin til þess að leika í sem Jo Danville. Ward var upprunalega boðin hlutverk Megan Donner í og Susan Mayer í Desperate Housewives sem hún afþakkaði í bæði skiptin. Ástæðan er að Ward vildi ekki vera í klukkutíma löngum þætti sem myndi taka tíma frá fjölskyldunni. Ward hefur komið í kvikmyndum á borð við: Steele Justice, The Fugitive, 54, The Day After Tomorrow og The Stepfather. Ward hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: L.A. Law, Double Jeapardy, Frasier og House. Tenglar. Ward, Sela Sigmundur Brestisson. Þessi steinn í kirkjugarðinum á Skúfey er sagður legsteinn Sigmundar Brestissonar. Engin áletrun er á honum en í hann er höggvið krossmark. Sigmundur Brestisson (961 – 1005) var færeyskur bóndi og víkingahöfðingi sem kristnaði Færeyjar um árið 999 að boði Ólafs konungs Tryggvasonar. Sigmundur var fæddur á Skúfey, sonur Brestis Sigmundssonar, sem var ásamt Beini bróður sínum höfðingi yfir hálfum Færeyjum, og Cecilíu konu hans eða frillu. Þegar hann var sjö ára felldi höfðinginn Þrándur í Götu þá bræður og lagði undir sig allar Færeyjar. Hann sendi Sigmund og Þóri son Beinis til Noregs í þeirri von að sjá þá aldrei framar. Þegar þeir frændur voru fullvaxnir gerðust þeir hirðmenn Hákonar Hlaðajarls, sem sendi þá í víkingaferðir til Svíþjóðar og Garðaríkis, þar sem þeir herjuðu og rændu og söfnuðu fé. Þeir sneru svo heim til Færeyja með tvö skip og herlið til að hefna feðra sinna. Þeir drápu Össur Hafgrímsson, fósturson Þrándar, en féllust svo á að láta Hákon jarl dæma í málum sínum. Jarl dæmdi að Þrándur skyldi gjalda þeim stórfé í manngjöld og missa forráð yfir Færeyjum. Sigmundur skyldi ráða hálfum eyjunum en hinn helminginn skyldi jarl sjálfur hafa. Með því að fallast á þetta samþykkti Sigmundur í raun að eyjarnar féllu undir norsk yfirráð. Þrándur neyddist til að samþykkja þetta. Sigmundur settist að á föðurleifð sinni í Skúfey og næstu árin var helsti höfðingi Færeyja. Þegar Ólafur Tryggvason var orðinn konungur í Noregi boðaði hann Sigmund á sinn fund og lagði fyrir hann að taka kristni og fara síðan og kristna Færeyjar. Sigmundur varð við því, lét skírast ásamt mönnum sínum og hélt síðan til Færeyja með presta í föruneyti sínu, stefndi Færeyingum á þing og vildi kristna þá en að ráðum Þrándar tóku þeir því illa og varð honum ekkert ágengt. Vorið eftir (líklega árið 999) fór Sigmundur með menn sína til Austureyjar og umkringdu þeir bæinn í Götu, náðu Þrándi og þvinguðu hann til að taka skírn. Síðan fór Sigmundur um eyjarnar með Þránd og þvingaði menn til að láta skírast en þeir þorðu ekki að neita þegar þeir sáu að Þrándur var fangi Sigmundar. Þrándur hugði á hefndir fyrir meðferðina og árið 1005 kom hann í Skúfey að næturlagi og lagði eld að bæ Sigmundar en hann slapp út um jarðgöng ásamt Þóri frænda sínum og húskarlinum Einari. Þeir voru eltir um eyna en stukku fyrir björg og freistuðu þess að synda til Suðureyjar. Einar og Þórir gáfust upp og króknuðu eða drukknuðu á sundinu. Sigmundur náði landi í Sandvík á Suðurey en þar var hann drepinn af bóndanum Þorgrími illa. Sund þetta er sögufrægt og meðal annars segir frá því í "Sigmundarkvæði yngra", sem öll skólabörn í Færeyjum lesa. Postverk Føroya. Postverk Føroya er færeyskt póstflutningsfyrirtæki og er að öllu leyti í eigu færeyska ríkisins. Fyrirtækið skiptist í frímerkjadeild og póstafgreiðsludeild. Frímerkjadeildin sér um alla framleiðslu, útgáfu og sölu frímerkja. Skjútsskipanin. Fyrir tíma áætlunarsiglinga var sérstakt flutningskerfi notað til þess að fara með fólk og skilaboð á milli eyjanna. Þetta var svokallað „skjúts“ sem mætti kalla skutl. Hver byggð átti að útnefna sérstakan mann eða „skjútsskaffara“ sem hafði það hlutverk að útvega menn til að ferja fólk, bréf eða pakka á milli eyja. Allir verkfærir menn á aldrinum 15-50 ára voru skyldugir til að annast slíka flutninga ef til þeirra var leitað og fengu sekt ef þeir neituðu. Fyrstu lögin um þessar siglingar voru sett árið 1865 og lögþingið ákvarðaði farmgjaldið á fimm ára fresti. Gjaldflokkar farþegaflutninga voru þrír: embættismenn greiddu lægsta gjaldið, prestar greiddu ögn meira og almenningur greiddi hæsta gjaldið. Gjaldið var lágt og ferjumenn fengu lítið í sinn hlut en þetta var þó framför þar sem ekkert hafði verið greitt fyrir siglingarnar á árunum fyrir löggjöfina. Fimm árum síðar, 1. mars 1870 var fyrsta pósthúsið stofnað í Þórshöfn. Annað pósthús eyjanna var stofnað 1. mars 1884 í Tvøroyri og þann 1. maí 1888 bættist það þriðja við í Klakksvík. Í öllum þremur pósthúsanna voru sýslumenn sem stjórnuðu þeim. Farkostirnir sem notaðir voru við skjútsið voru árabátar og gilti þetta fyrirkomulag fram undir fyrri heimsstyrjöld en fjaraði þá út því póstflutningar voru hlutfallslega ódýrari og vélbátar og strandferðaskip voru komin til sögunnar. Þetta fyrirkomulag var því lagt niður. Árið 1927 keypti Samson Joensen vélbátinn Guttaberg. Samson var póstmaður í Klakksvík og silgdi þaðan til Kunoyarbygð og Kalsoynna. Sama árs hóf Ólaf á Stonum siglingar á vélbáti á milli Klakksvíkur, Árnafjarðar og byggðarfélaganna austan Múla. Vélbátavæðing. Frímerki með mynd af nýja pósthúsinu í Þórshöfn. Reglulegir farmflutningar á milli eyjanna hófust árið 1895. Þá var stofnað fyrirtækið "A/S J. Mortensens eftf." á Tvøroyri sem hóf strandferðarsiglingar með skipunu Smirli og sigldi það um allar eyjarnar og annaðist jafnframt póstflutninga. Á næstu árum fjölgaði pósthúsum jafnt og þétt. Árið 1903 voru sjö pósthús reist og 1. desember 1905 flutti pósthúsið í Þórshöfn í nýbyggingu í miðbæ bæjarinns. Nýja pósthúsið í Þórshöfn var það fyrsta sem var sérbyggt sem pósthús, því öll pósthúsin sem höfðu verið stofnuð voru starfrækt í eldri húsum. Strandferðafyrirtækið A/S J. Mortensens fékk þó samkeppni árið 1908 þegar að fyrirtækið "A/S Thorsavn Mælkeforsyning og Margarinefabrik" var stofnað 1. ágúst 1908. Skip þess sigldi á milli Þórshafnar og Hvalvíkur og til Sandeyjar. Fyrirtækið annaðist póstflutninga á milli Þórshafnar og nokkurra byggða í Færeyjum um 70 ára skeið. Pósthúsum snarfjölgaði á næstu 20 árum og var póstafgreiðslustöðvum komið á fót í öllum byggðum landsins. Árið 1918 voru opnaðar 15 nýjar póstafgreiðslur. Mörgum þessara pósthúsa hefur nú verið lokað aftur og þess í stað annast póstafgreiðslumenn póstþjónustu í smærri byggðum. Er það hluti af hagræðingu í færeysku póstþjónustunni á síðustu árum. 5 aura frímerki, yfirstimplað og notað sem 2 aura frímerki. Um og eftir báðar heimsstyrjaldirnar urðu vandræði með frímerki í Færeyjum. Skortur var á frímerkjum með réttu verðgildi og þurfti að nýta þau frímerki sem til voru með yfirstimplunum og öðrum ráðum. Þann 8. desember 1918 fékk póstmiðstöðin í Færeyjum bréf frá Kaupmannahöfn sem var póstlagt þann 16. nóvember 1918. Í bréfinu var boðuð hækkun á gildandi póstgjöldum. Innanlandsburðargjald hækkaði úr 5 aurum í 7 og burðargjald á póstkortum til Danmerkur sömuleiðis úr 4 aurum í 7 aura. Þessi gjaldskrárbreyting tók gildi 1. janúar 1919. Vegna slæms sambands Færeyja við umheiminn var ómögulegt að fá nýju 7 aura frímerkin til Færeyja fyrir gildistöku nýju gjaldskrárinnar. Ekki var nóg til af eins, tveggja, þriggja og fjögurra aura frímerkjum til að mæta eftirspurninni. Póstmiðstöðin í Þórshöfn fékk því leyfi til að klippa 4 aura frímerkin í tvennt og nýta þau þannig sem 2 aura frímerki. Þessi 2 aura frímerki kláruðust svo og Póstmiðstöðin í Þórshöfn fékk þá leyfi til að yfirstimpla 5 aura frímerin svo þau nýttust sem 2 aura frímerki. Aftur komu upp vandræði árið 1940. Vegna hernáms Þjóðverja í Danmörku var ekki unnt að fá frímerki þaðan. Þá var aftur gripið til þess að yfirstimpla frímerki og var það gert þar til unnt var að fá frímerki aftur frá Danmörku. Yfirtaka ríkisins. Árið 1970 var fyrirkomulagi póstmála breytt þannig að póstmiðstöð landsins var í Þórshöfn og pósthús voru í Klakksvík, Tvøroyri, Vági, Vestmanna og Saltangará. Aðrar póstafgreiðslustöðvar hétu „brevsamligssteder“ (bréfhirðingarstöðvar) og „postudvekslingssteder“ (póstdreifingarstöðvar). Í) lögþingskosningum í nóvember 1974 komust jafnaðarflokkurinn, Fólkaflokkurinn og þjóðveldisflokkurinn í meirihluta. Þeir ákváðu að Færeyingar skyldu sjálfir yfirtaka póstafgreiðslu á eyjunum. Árið 1975 voru samráðsfundir haldnir á milli dönsku ríkistjórnarinnar og landsstjórnar Færeyja og var niðurstaða þeirra að heimastjórnin yfirtók póstafgreiðslu þann 1. apríl 1976. Þessi nýja stofnun fékk nafnið Postverk Føroya og merki félagsins er hrútshorn. Um sama leyti, eða 30. janúar 1975 byrjaði danski pósturinn, Post- og Telegrafvæsnet, að prenta færeysk frímerki. Færeyingar höfðu áður notast við dönsk frímerki. Póstafgreiðslan í Færeyjum nýtir sér þessi frímerki til póstsendinga og til sölu til frímerkjasafnara. Rammaáætlun. Rammaáætlun (eða: "áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða") er áætlun sem umhverfis- og auðlindaráðherra leggur fram sem tillögu til Alþingis eigi síðar en á fjögurra ára fresti í samvinnu við þann ráðherra er fer með orkumál. Í rammaáætlun eru hugmyndir um orkunýtingu flokkaðar í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk. Fyrsta rammaáætlunin var samþykkt 14. janúar 2013. Með áætluninni er leitað málamiðlunar milli verndar, annarrar nýtingar náttúrugæða og orkuframkvæmda. Björgúlfur Ólafsson. Björgúlfur Aðalsteinn Ólafsson (1. mars 1882 – 15. febrúar 1973) var íslenskur læknir, rithöfundur og þýðandi. Hann starfaði lengi sem læknir í nýlenduher Hollendinga og bjó við heimkomuna á Bessastöðum í tólf ár. Björgúlfur var herlæknir í nýlenduher Hollendinga í Austur-Indíu 1913 – 1917. Hann kynnti sér hitabeltissjúkdóma á hermannasjúkrahúsi í Tjimahi á Jövu 1913 – 1914, var herdeildarlæknir á Borneó 1914 – 1917. Þá var hann læknir í Singapore 1917 – 1926 en fluttist eftir það til Íslands. Ritstörf. Björgúlfur frumsamdi sex bækur og kom sú fyrsta út árið 1936. Það var: "Frá Malaja-löndum". Þegar hún kom út var Björgúlfur kominn á sextugsaldurinn. Síðan koma bækurnar "Sígræn sólarlönd", tvær bækur i bókaflokknum: "Lönd og lýðir", þ.e. "Indíalönd" og "Ástralía og Suðurhafseyjar". Seinasta frumsamda bókin hans kom út árið 1966, endurminningar frá ýmsum tímum æviskeiðsins og bar titilinn: "Æskufjör og ferðagaman". Björgúlfur þýddi einnig bækur. Þar á meðal: "Þú hefur sigrað, Galilei", eftir Dmítríj Merezhkovskíj og "Leonardo da Vinci", eftir sama höfund. Einnig þýddi hannn: "Rembrandt" eftir Hollendinginn Theun de Vries og einnig "Kamelíufrúnna" eftir Alexandre Dumas "Maríukirkjuna í París" eftir Victor Hugo. Rauða fjöðrin. Merki Rauðrar fjaðrar söfnunar 1999. "Rauða fjöðin" er barmmerki, sem Lionshreyfingin á Íslandi notar í tengslum við fjölmörg sameiginleg verkefni innanlands og á Norðurlöndunum. Alþjóðahreyfing Lionsklúbba hefur allt frá stofnun beitt sér fyrir verkefnum er snúa að sjónvernd auk annarra verkefna sem þörf hefur verið fyrir. Það var Helen Keller sem árið 1925 vakti áhuga félaga í Lionshreyfingunni á málefnum blindra. Til minningar um þennan atburð er fyrsti dagur júnímánaðar dagur Helen Keller innan Lionshreyfingarinnar. Íslenskir Lionsfélagar hafa einnig lagt málefnum blindra lið m.a. með fjárhagslegum stuðningi við fjölmörg verkefni er tengjast blindum. Safnanir. Undir merkjum rauðrar fjaðrar hefur Lionshreyfingin á Íslandi safnað fé til margvíslegra verkefna. Árni beiskur. Árni beiskur (d. 22. október 1253) var Íslendingur sem uppi var á Sturlungaöld. Hann var einn af mönnum Gissurar Þorvaldssonar og var sá sem greiddi Snorra Sturlusyni banahöggið í Reykholti haustið 1241. Ekkert er vitað um ætt og uppruna Árna en hans er fyrst getið í Sturlungu sumarið 1241, þegar hann drap Kol auðga á Kolbeinsstöðum og flúði síðan á náðir Gissurar og var liðsmaður hans þaðan í frá. Hann var með Gissuri þegar hann fór að Snorra um haustið. Hann fór svo utan með Gissuri og fylgdi honum í suðurgöngu til Rómar og hefur því líklega verið einn af tryggustu fylgismönnum hans. Árni virðist svo hafa verið sérlega tryggur Halli syni Gissurar og hljóp með honum út úr Flugumýrarbrennu. Hallur var særður til ólífis en Árni, sem var orðinn roskinn, hrasaði í dyrunum og féll flatur. Brennumenn spurðu hver þar væri á ferð en Árni svaraði: „Árni beiskur er hér og mun ég ekki griða biðja. Sé ég og, að sá liggur hér skammt frá mér, er mér líkar eigi illa að ég hafi slíka för og hann“ - og átti þá við Hall. Kolbeinn grön, frændi Snorra, sem var einn brennumanna, sagði þá: „Man engi nú Snorra Sturluson, ef þú fær grið.“ Síðan var Árni drepinn. Elín Hirst. Elín Stefánsdóttir Hirst (fædd 4. september 1960) er íslenskur þingmaður, áður fréttakona sem hefur verið fréttastjóri bæði á Stöð 2 og Sjónvarpinu og einnig gert nokkrar heimildarmyndir. Var kosin á Alþingi í Alþingiskosningum 2013 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi. Elín fæddist í Reykjavík og voru foreldrar hennar Stefán Hirst lögfræðingur og Valdís Vilhjálmsdóttir. Hún lauk BS-prófi í sjónvarpsfréttamennsku frá University of Florida 1984, og hóf störf við fjölmiðla sama ár og varð fréttastjóri á Stöð 2 og Bylgjunni árið 1993. Þegar hún hætti störfum þar gerði hún heimildarmynd um Þjóðverja sem búsettir voru á Íslandi þegar Bretar hernámu landið 1940 og voru fluttir í fangabúðir á eynni Mön, þar sem þeir dvöldu öll stríðsárin. Einn þeirra var afi Elínar, Karl Hirst, og komst hann ekki aftur til fjölskyldu sinnar á Íslandi fyrr en eftir sjö ára fjarveru. Hún hefur einnig gert heimildarmyndir um önnur efni, svo sem um Íslendinga í Vesturheimi og um spænsku veikina, þar sem hún fór meðal annars til Svalbarða og fylgdist með þegar lík nokkurra manna sem dóu þar úr veikinni 1920 voru grafin úr sífreranum. Elín var svo fréttastjóri á DV um skeið. Hún hóf störf á Sjónvarpinu 2002 og starfaði þar til 2008, lengst af sem fréttastjóri. Hún hefur lokið meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Eiginmaður Elínar er Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjás 1. Nólseyjar-Páll. Nólseyjar-Páll á gömlum færeyskum fimmtíu krónu seðli. Nólseyjar-Páll (11. október 1766 – 1808/1809; hvarf í hafi) eða Poul Poulsen Nolsøe var færeyskur sjómaður, bóndi, skipasmiður, framfarasinni og nú ein helsta þjóðhetja Færeyinga. Sæfari og kaupmaður. Páll var fæddur í Nólsey, sonur Poul Joensen bónda þar og konu hans Súsönnu Djónadóttur frá Velbastað. Hann naut ekki skólagöngu en lærði þó snemma að lesa. Ungur fór hann í siglingar og varð skipstjóri á bandarískum kaupskipum, ferðaðist víða og kom til margra landa. Árið 1798 fékk hann skipstjórn á dönsku kaupskipi sem sigldi milli Færeyja og Danmerkur og bjó þá í Kaupmannahöfn. Hann flutti svo aftur til Færeyja árið 1800. Árið 1804 keypti hann ásamt tveimur bræðrum sínum og tveimur vinum flak af ensku skipi og umbyggði það í fyrsta færeyska þilskipið. Hugðist hann bæði efla fiskveiðar í Færeyjum og nota skipið, sem hlaut nafnið "Royndin fríða", til verslunarferða. Að vísu var einokunarverslun í Færeyjum en þær vörur sem ekki voru beinlínis nefndar í verslunartöxtunum mátti hann flytja inn og út en sækja um leyfi til að versla með aðrar vörur. Páll var ákafur baráttumaður fyrir fríverslun og lenti fljótt í útistöðum við yfirvöld, sem sökuðu hann um smygl. Fuglakvæði. Kvæðið er 229 erindi, auk þess sem viðlagið er sungið á eftir hverju erindi, en það barst hratt um allar eyjarnar og náði gífurlegum vinsældum. Tjaldurinn varð þjóðartákn Færeyinga og afkomandi Páls, Sverre Patursson, kom þvi til leiðar að farið var að halda upp á 12. mars, sem telst vera komudagur tjaldsins til eyjanna. Annað þekktasta kvæði Páls, "Jákup á Mön", er gamankvæði um klaufskan biðil. Barátta gegn einokun. Í ágúst 1806 stóð Páll fyrir fundi í Þórshöfn þar sem samþykkt var að senda nefnd á fund Friðriks krónprins, sem þá var ríkisstjóri, með bón um frjálsa verslun og nýjan verslunartaxta. Páll var formaður nefndarinnar. Friðrik tók erindinu vel en í sama mund hófst stríð milli Englands og Danmerkur og höfðu Danir þá öðru að sinna. Páll komst þó heim á skipi sínu þótt mjög erfitt væri um siglingar til Færeyja vegna stríðsins. Enskir víkingar hertóku skip sem fluttu korn og önnur matvæli þangað og hungursneyð ríkti í eyjunum svo að kornfarmurinn sem Páll kom með bjargaði mörgum. Sumarið 1808 sigldi hann af stað öðru sinni á Royndinni fríðu að sækja matvæli handa hungruðum Færeyingum en missti skip sitt þá í hendur enskra víkinga. Hann fór þá til London og rak erindi Færeyinga af svo miklu kappi við siglingamálayfirvöld þar að þau létu hann hafa nýtt skip og kornfarm til að flytja til Færeyja gegn loforði um að koma aftur með vörur þaðan vorið 1809. Páll lagði svo af stað heim með farminn og sást síðast á siglingu á Thames 17. nóvember 1808. Hann kom aldrei til Færeyja og er ekki vitað hvort skip hans fórst á leiðinni eða hvort því var sökkt af sjóræningjum. Í Færeyjum gengu líka þær sögur að danskir einokunarkaupmenn hefðu látið skjóta skipið í kaf til að losa sig við keppinaut. Nólseyjar-Páll er í miklum metum hjá löndum sínum sem einarður baraáttumaður fyrir framförum og bættum lífskjörum, jafnvel píslarvottur, og einnig sem eitt helsta skáld eyjanna. Hann var tvíkvæntur og á fjölda afkomenda. Einn þekktasti niðji hans kóngsbóndinn og stjórnmálamaðurinn Jóannes Patursson. Stephen Hawking. Stephen William Hawking (fæddur 8. janúar 1942) er enskur eðlisfræðingur og heimsfræðingur. Hann er þekktur fyrir að sýna fram á að tilvist sérstaða í afstæðiskenningunni og að svarthol gefa frá sér geislun. Bók hans Saga tímans ("A Brief History of Time"), sem út kom 1988 varð mjög vinsæl. Hawking er með hreyfitaugungahrörnun og er því bundinn í hjólastól. Sjúkdómurinn veldur einnig því að hann á mjög erfitt með að tala. Hann er með tölvu á stólnum með forritinu "Equalizer", sem gerir honum kleift að velja orð og búa til setningar sem tölvan ber síðan fram. Helstu rit. Hawking, Stephen Hawking, Stephen Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 13/2011. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 13/2011 var haldin laugardaginn 9. apríl 2011. Lögin voru almennt kölluð "Icesave 3" og fjölluðu um heimild fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lámarkstryggingar til innistæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum. Kosið var um endurgreiðslusamning. Samningurinn er í breskum pundum og evrum. Samningurinn er til ársins 2024 en er framlengjanlegur til ársins 2042. Framlengingin virkar þannig að ef heildargreiðslur fara yfir 40 milljarða, hækkar lánstíminn um eitt ár við hverja 10 milljarða aukalega. Vextir af láninu frá október 2009 til 2016 eru 3,3% til Bretlands og 3% til Hollands. Eftir þann tíma er miðað við CIRR vexti, sem eru reiknaðir mánaðarlega. Núverandi CIRR vextir eru 2,27% til Bretlands og 2,32% til Hollands. Í samningnum er jafnframt að finna 5% þak, miðað við tekjur ríkisins, gjaldfellingarákvæði, vanefndarúrræði, fjárhæðaviðmið og greiðslufresti. Komi upp ágreiningur um samninginn fer ágreiningurinn fyrir Alþjóðagerðardómstólinn í Haag. Ticino. Ticino (þýska: Tessin) er fimmta stærsta kantónan í Sviss með 2.812 km2. Hún er sú kantóna sem nær lengst í suður og er jafnframt eina kantónan þar sem ítalska er opinbert tungumál. Höfuðborgin er Bellinzona. Lega og lýsing. Rúmlega helmingur af ummáli Ticino liggur með ítölsku landamærunum, í suðri, austri og vestri. Auk þess eru kantónurnar Wallis og Uri fyrir norðvestan og Graubünden fyrir norðaustan. Alparnir mynda stóran hluta kantónunnar. Hæsta fjallið er Adula (3.402 m). Lægsti punkturinn er yfirborð Lago Maggiore í 193 metra hæð. Ticino er þekkt fyrir Miðjarðarhafsloftslag og mikla ferðamennsku, sérstaklega í heilsubæjunum Locarno, Ascona og Lugano. Íbúar eru 238 þúsund, sem gerir Ticino að þrettándu fjölmennustu kantónu Sviss. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Ticino eru tvær lóðréttar rendur, rauð til vinstri og blá til hægri. Litirnir komu fyrst fram 1803, er Ticino varð opinberlega að kantónu en merking litanna var ekki skjalfest. Núverandi merki var tekið upp 1930. Orðsifjar. Kantónan heitir eftir ánni Ticino, sem rennur um suðurhluta Sviss niður á Pósléttuna. Heitið kemur úr keltnesku og var upphaflega Tesin. Þetta merkir "vatnsflaumur". Kantónan heitir enn Tessin (með tveimur s-um) á þýsku. Söguágrip. Smíði Gotthard-ganganna, sem opnuð voru umferð 1980. Þau eru 17 km að lengd og tengja kantónurnar Uri og Ticino. Á miðöldum var héraðið stjórnað af hertogunum af Mílanó. Á 15. öld hertóku Svisslendingar ýmis svæði í viðleitni þeirra til að stækka landið, sérstaklega kantónan Uri. Árið 1500 hertóku kantónurnar Uri, Schwyz og Nidwalden stórt svæði innan núverandi marka Ticino, sem varð að nokkurs konar leppsvæði Sviss. 1798 hertóku Frakkar héraðið. Í fyrstu var óvíst hvort Napoleon myndi innlima héraðið Langbarðalandi á Ítalíu eða Sviss. Flestir íbúar vildu hins vegar sameinast Sviss og bjuggu þá til móttóið "Liberi e Svizzeri" ("Frelsi og Sviss"). Því varð Ticino formlega að kantónu í helvetíska lýðveldinu 1803. Samtímis hlaut hin nýja kantóna sína fyrstu stjórnarskrá, sem var endurgerð 1814 eftir fall Napoleons. Kantónan fékk ekki neina eiginlega höfuðborg, því stjórnin hélt sín þing til skiptis í borgunum Locarno, Lugano og Bellinzona. Eftir mikinn óróa, sem jaðraði við innanríkisátök, var ákveðið árið 1878 að borgin Bellinzona skyldi vera höfuðborg kantónunnar og skyldu þing eingöngu haldin þar, þrátt fyrir að sú borg væri langt frá því að vera stærst í kantónunni. 1938 heimtaði Benito Mussolini að Ticino yrði innlimuð Ítalíu. Til að tryggja yfirráð Ítalíu yfir kantónunni varð smíðuð innrásaráætlun en ýmsir atburðir á Ítalíu og í Evrópu urðu til þess að ekkert varð úr þessu. Mikið hefur borið á því síðan á 20. öld að íbúar flyttu frá inndölum til borga og bæja, þannig að margir dalir eru orðnir nær mannlausir. Kirkjuvatn. Kirkjuvatn er stöðuvatn í Færeyjum á Suðuroy og er 0,2 km að flatarmáli. Vatnið er staðsett norðan við bæjarfélagið Fámjin sem er á vesturhluta Suðureyjarinnar. Tvö fjöll eru við Kirkjuvatn. Eitt þeirra er norðan við vatnið, heitir Knúkin og er 417 metra hátt en hitt er Mikla sem er austan við vatnið og er 469 metra hátt. Skammt frá til norðurs er hæsta fjall Suðureyjarinnar, Gluggarnir sem er 610 metra hátt. Sørvágsvatn. Sørvágsvatn (einnig "Vatnið" og "Leitisvatn") er færeyskt stöðuvatn á eyjunni Vágar. Vatnið er stærsta vatn Færeyja og er 3,4 ferkílómetrar að flatarmáli. Það liggur á milli bæjarfélaganna Sørvágs, Miðvágs og Vatnsoyrar. Landafræði. Vatnið er 6 kílómetrar að lengd og allt að 800 metrar á breidd. Mesta dýpi er 59 metrar og er það dýpsta stöðuvatn Færeyja. Í suðri fellur Bøsdalaá úr því í fossinum Bøsdalafossi, sem er hæsti foss eyjanna, um 30 metrar, og fellur beint út í Atlantshafið. Þar rétt hjá er Trælanípa (142 m). Sagt er að á víkingatímanum hafi óvinnufærum þrælum verið varpað þaðan í hafið. Við norðurenda vatnsins er þorpið Vatnsoyrar sem er eina bæjarfélag Færeyja sem liggur ekki að sjó. Saga. Við upphaf hernáms Breta í seinni heimsstyrjöld var vatnið notað sem bækistöð sjóflugvéla, þar til lokið var við byggingu Vágaflugvallar. Beinisvørð. Beinisvørð er 469 metra hátt fuglabjarg á Suðurey í Færeyjum. Það er næsthæsta bjarg Færeyja, aðeins Enniberg er hærra. Bjargið er á milli bæjarfélaganna Suma og Lopra. Það er vinsæll varpstaður fugla og íbúar Sumba sigu niður í bergið eftir fuglum og eggjum og síga raunar enn í dag síga í bergið til að veiða lunda. Tvö af frægustu skáldum Færeyja hafa ort um bjargið, þeir Poul F. Joensen (1898-1970) og Janus Djurhuus (1881-1948). Hanus G. Johansen hefur samið lög við ljóð Pouls og þau hafa verið mjög vinsæl meðal allra aldurshópa í Færeyjum. Gamli vegurinn á milli Lopra og Sumba liggur í 50 metra fjarlægð frá bjarginu og er auðvelt að komast af honum fram á bjargbrúnina til að virða fuglabjargið fyrir sér. Vegurinn er mjög brattur niður að Lopru en liggur í jöfnum halla til Sumba. Það kennileiti sem er næst klettinum á veginum er Hestin. Núverandi vegur á milli þessara bæjarfélaga liggur um Sumbiargöngin sem liggja í gegnum bjargið og eru 3.240 metra löng. Þau voru tekin í notkun 1997. Borgarknappur. Borgarknappur er fjall á Suðurey í Færeyjum. Fjallið er 574 metra hátt og er á miðri eynni, vestan við þorpið Hov, suðaustur af Fámjin, suðvestur af Øravík og norður af Vági. Annar tindur, Borgin (570 m) er rétt vestan við Borgarknapp og Hvannafell (558 m) er til suðurs. Áður en vegir voru lagðir á milli þorpanna á Suðurey lágu göngustígar yfir fjöllin. Nokkrir þeirra mættust á Mannaskarði og Laðanfelli (487 m) skammt frá Borgarknappi. Vörður voru reistar meðfram stígunum til að vísa veginn. Nú eru stígrnir aðallega notaðir af útivistarfólki. Gluggarnir. Þorpið Fámjin og Gluggarnir í baksýn. Gluggarnir er fjall á Suðurey í Færeyjum. Það er 610 metra hátt og er hæsta fjall Suðureyjar. Það er á milli Fámjin og Trongisvágar. Sunnan við fjallið er "Herðablaðið" og næsthæsta fjall Suðureyjar, "Eystanfyri Herðablaðið" er austan við Gluggana og er 605 metrar að hæð. Eggjarnar. Leifar af byssuhreiðri breska hersins á Eggjunum. Eggjarnar (einnig "Skúvanes") er 200 metra hátt bjarg á Suðuroy (Suðurey) í Færeyjum. Það er hluti af Vágsbjørgum og er vestan við Vág. Bjargið þykir tilkomumikið og er algengt viðfangsefni ljósmyndara og listamanna. Vegur liggur fram á Eggjarnar frá Vági og heitir Eggjarvegur. Vegurinn endar 25 metrum frá bjargbrúninni og bjargið er þverhnípt niður í Atlantshafinu. Af Eggjunum er frábært útsýni, til Beinisvørð í suðri og Vágseiðis og Gjógvaráfjalls í norðri. Í seinni heimstyrjöldinni byggðu Bandaríkjamenn Loran-C-fjarskiptastöð á Eggjunum og reistu þar fjögur há möstur. Fyrstu fjarskiptaboðin voru send 15. október 1943. Breski herinn, sem hafði hernumið Færeyjar stuttu eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku. notaði fjarskiptarstöðina til að leiðbeina flugvélum og skipum. Starfsemi stöðvarinnar hélt áfram eftir að stríðinu lauk og Danir yfirtóku hana árið 1946. Stöðin var yfirgefin í desember 1977. Uppi á bjarginu má enn sjá rústir stöðvarinnar og annarra mannvirkja. Hvalbiareiði. Hvalbiareiði (einnig "Fiskieiði") er færeyskt eiði á eyjunni Suðuroy. Tvö eiði eru staðsett vestan við bæjarfélagið Hvalba, annað þeirra en Hvalbiareiði og hitt er Norðbergseiði sem er lengra. Grímsfjall skilur að þessi tvö eiði. Há björg eru sunnan og norðan við Hvalbiareiði. Stutt er á milli austur og vesturstrandar eyjarinnar þar sem Hvalba liggur. Áður en vélbátar komu til sögunar í Hvalba var Hvalbiareiði notuð sem höfn til að stytta leiðina á góð mið. Saga. Hvalbiareiði er náttúruhöfn sem hefur verið endurbætt af mannavöldum. Höfnina var erfitt að nýta áður en hún var endurbætt, því að eiðið er bratt og hátt fall er í sjóinn. Þessu var breytt á 20. öld svo að innsiglingin varð virkilega góð. Eiðið var mikilvæg höfn fyrir Hvalba. Vegna þess hversu stutt er á milli austur og vesturstrandar eyjarinnar gátu fiskibátar frá bæjarfélaginu valið á milli vestur eða austurstrandarinnar. Fyrir daga vélbátavæðingarinnar voru allt að 23 bátar í höfninni. Á 19 öld voru gerðar tilraunir til að endurbæta höfnina en þær gáfu ekki góða raun. Árið 1895 var Niels L. Arge fenginn til hjálpar sem hann gerði á þann hátt að útvega 40 tunnur af steypu og 8 tunnur af sandi. Tveimur fiskiskúrum var bætt við á eiðið árið 1915 þar sem fiskur var flakaður og saltaður. Höfnin var endurbætt enn frekar árið 1890 þegar viðarplankar voru lagðir í höfnina sem auðveldaði flutning skipana til og frá sjónum. Plankarnir voru til staðar þangað til 1973 þegar þeir voru fjarlægðir vegna viðhalds, en einungis einum þeirra var komið fyrir á sínum stað. Fyrsti vegurinn til eiðisins var gerður árið 1890 að Skallaportinu. Framkvæmdir að eiðinu sjálfu voru hægfara og framkvæmdir voru enn í gangi árið 1931 þegar fyrsti bíllinn kom til Hvalba. Vegurinn gerði þó flutningana auðveldari, því fiskimenn báru fiskinn alla leið í þorpið áður en hann kom. Hlaupabóla. Hlaupabóla er bráðsmitandi sjúkdómur sem orsakast af vírus sem kallast "Varicella zoster" og er einn af átta mismunandi herpes vírusum. Á ensku nefnist hún Chicken Pox. Vágseiði. Vágseiði er eiði á eyjunni Suðurey í Færeyjum, vestan við þorpið Vág. Brimasamt er við eiðið en þaðan voru þó stundaðir töluverðir útróðrar áður fyrr. Bátalendingin var í Kleivinni. Kleivin er þar sem Eiðisvegur endar í dag. Kleivin er náttúruleg lending sem menn hafa betrumbætt. Árið 1890 setti Dánjal við Misá upp spil til að hífa upp bátana. Hlunnarnir voru festir við stóra steina. Árið 1906 var sett upp dráttarbraut á Vágseiði til að draga bátana á land um Múlagjógv sem er aðeins vestar. Lögþingið hafði samþykkt að greiða 2/3 af kostnaði við dráttarbrautina, en þó í mesta lagi 1.800 danskar krónur. Við Kleivina er klöpp sem kallast Heltnarnar og brýtur oft mjög á henni en þá er sjór lygnari við Múlagjógv. Bátar og veiðin voru síðan dregin á land með dráttarbrautinni, hvort fyrir sig. Þegar dráttarbrautin var tekin í notkun reru 22 bátar frá eiðinu.. Í fyrstu var notað til dráttarins spil sem knúið var með mannafli, menn gengu í kringum það og sneru því þar til báturinn var kominn upp á land en frá 1930 var notað rafknúið spil. Árið 1929 var sprengt úr eiðinu og steypt undirlag undir viðarstokka svo að enn léttara væri að draga báta upp á land. Naust voru á eiðinu, flest þeirra á vesturhluta þess og voru þau notuð eitthvað fram á 20. öld. Þau síðustu eyðilögðust í stormi þann 14. janúar 1989. Þann dag var mikið brim sem skolaði naustunum burtu. Sum þeirra voru þá nýuppgerð. Öllum bátum nema einum var bjargað, en þessi eini bátur brotnaði í tvennt eftir að grafa féll á hann. Grafan mölbraut einnig naust áður en hún fór í sjóinn. Lugano. Lugano er stærsta borgin í kantónunni Ticino í Sviss með 59 þús íbúa og er ört vaxandi. Hún er syðsta stóra borgin í Sviss og hefur á síðustu árum þróast í að vera þriðja stærsta bankakerfi landsins. Lega og lýsing. Lugano liggur við norðanvert Luganovatn, syðst í kantónunni, mitt á milli stóru vatnanna Lago Maggiore og Comovatn. Hún hefur verið flokkuð sem jaðarsvæði ítölsku borgarinnar Mílanó. Næstu borgir eru Locarno til norðvesturs (20 km), Como á Ítalíu til suðausturs (20 km) og Mílanó á Ítalíu til suðurs (80 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Lugano er hvítur kross á rauðum grunni, líkt og danski þjóðfáninn. Bókstafirnir L V G A eru í fjórum hornum merkisins. Þeir eru stytting á borgarheitinu, en bókstafurinn V var áður fyrr notaður fyrir U. Merkið er allar götur frá 12. öld. Orðsifjar. Lugano er dregið af latneska orðinu "lucus", sem merkir "helgur skógur" eða bara "skógur". Söguágrip. Banca del Gottardo er einn af fjölmörgum bönkum í borginni Elstu heimildir um byggð í Lugano eru um langbarðakonunginn Liutprand, sem eignaði sér ýmis verðmæti þar í bæ árið 724 og færði kirkjunni í Como að gjöf. Á næstu öldum var borgin bitbein milli borganna Como og Mílanó. 1335 náði Visconti-ættin eignarhaldi á borginni og hélst það til 1499,en þá réðust Frakkar inn í hertogadæmið Mílanó. Eftir fransk/ítalska stríðið í upphafi 16. aldar hertóku Svisslendingar héraðið og var það, ásamt borginni, að leppríki. Frakkar voru aftur á ferðinni 1798 og var Lugano þá innlimuð helvetíska lýðveldinu. Stofnuð var kantónan Lugano og varð borgin Lugano þá að höfuðborg hennar. Við endurskipulagningu lýðveldisins 1803 voru kantónurnar Lugano og Bellinzona sameinaðar í nýja kantónu, sem hlaut nafnið Ticino. Þá var ákveðið að borgirnar Lugano, Bellinzona og Locarno skyldu vera höfuðborg Ticino til skiptis í sex ár í senn. Lugano var því höfuðborg 1827 – 33, 1845 – 51 og síðast 1863 – 69. Þetta fyrirkomulag hélst til 1878, er þingið settist endanlega að í Bellinzona. Á síðustu árum hefur Lugano vaxið mjög, bæði við samruna nágrannabæja, sem og við tilflutning nýrra íbúa. Margir bankar eru starfræktir þar (rúmlega 100) og er borgin í dag orðin þriðja stærsta bankaborgin í Sviss. 90% vinnufærra manna starfa í þjónustugeiranum. Samhjálp. Samhjálp er báðum aðilum samlífsins til gagns. Ívömb jórturdýra eru fornbakteríur og ýmsar örverur aðrar sem sundra beðmi og hjálpa á annan hátt við meltinguna og þiggja í staðinn hlýju og skjól og tryggt framboð fæðu. Sumar bakteríur í görnum manna mynda ákveðin vítamín, sem nýtast bæði þeim og mönnunum. Heimild: Líffræði, kjarni fyrir framhaldsskóla eftir Örnólf Thorlacius bls. 104. Carmine Giovinazzo. Carmine Giovinazzo(fæddur Camine Dominick Giovinazzo, 24. ágúst 1973) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í sem Danny Messer. Einkalíf. Giovinazzo fæddist í Staten Island, New York í bandaríkjunum og er af ítölskum, norskum og frumbyggja uppruna. Giovinazzo stundaði nám við Wagner-háskólann. Giovinazzo ætlaði að verða atvinnumaður í hafnarbolta en alvarleg bakmeiðsli eyðilögðu möguleika hans en með stuðningi fjölskyldu sinnar þá snéri hans sér að leiklistinni. Giovinazzo spilar á gítar og semur lög og ljóð í frítíma sínum. Hann er aðalsöngvarinn í hljómsveitinni Ceesay. Giovinazzo giftist leikkonunni Vanessa Marcil 11.júlí 2010, í einkaathöfn í New York. Ferill. Fyrsta hlutverk Giovinazzo var í kvikmyndinni Conception (1996), síðan þá hefur hann komið fram í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Fyrsta hlutverk Giovinazzo í sjónvarpi var í Buffy the Vampire Slayer. Árið 1999 var honum boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum Shasta McNasty sem Scott. Árið 2004 var honum boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum sem Danny Messer og hefur verið einn af aðalleikurum þáttarins síðan þá. Giovinazzo hefur verið í kvikmyndum á borð við: For Love of the Game, Black Hawk Down og In Enemy Hands. Hann hefur komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Providence, og The Guardian. Giovinazzo hefur leikið í öllum þrem CSI þáttunum: persóna hans var kynnt í, var gestaleikari í árið 2002, áður en hann var ráðinn í. Tenglar. Giovinazzo, Carmine HSH7. M.A. Kvartettinn er 78 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1952. Á henni flytur M.A. Kvartettinn tvö lög. Útsetningar: Emil Thoroddsen. Píanó: Bjarni Þórðarson. M.A. Kvartettinn skipa: Jakob Hafstein, Jón frá Ljárskógum, Steinþór Gestsson og Þorgeir Gestsson. Anna Belknap. Anna Belknap (fædd Anna C. Belknap, 22. maí 1972) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í ' sem Lindsay Monroe. Einkalíf. Belknap fæddist í Damariscotta, Maine í bandaríkjunum. Útskrifaðist frá Lincoln Academy í Newcastle, Maine. Fékk B.A. gráðu sína frá Middlebury College í Vermont og Masters gráðu í "Leik" frá American Conservatory Theater. Belknap er meðlimur að Rude Mechanicals Theater Co., í New York. Fékk San Diego Theater Critics Circle Craig Noel verðlaunin fyrir Bestan leik sem „Marina“ í Globe Theater-uppfærslunni af "Pericles" eftir Shakespeare. Ferill. Fyrsta hlutverk Belknap var í sjónvarpsþættinum (1996), síðan þá hefur hún verið gestaleikari í mörgum sjónvarpsþáttum á borð við: "Deadline", ' og "Without a Trace". Belknap var árið 2003 boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum "The Handler" sem Lily. Árið 2004 var henni boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum "Medical Investigation" sem Eva Rossi og var hluti af til endaloka seríunnar. Henni var boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum ' árið 2005 sem Lindsay Monroe og hefur verið ein af aðalleikurunum síðan þá. Belknap hefur komið fram í leikhúsum á borð við: Mark Taper Forum, Globe Theater, Huntington Theatre, Westport Country Playhouse og Williamstown Theatre hátíðinni. Tenglar. Belknap, Anna Landafræði Færeyja. Færeyjar er eyjaklasi í evrópu, 1.396 km² að stærð. Eyjarnar eru í Atlantshafinu, 430km suðaustan við Ísland og 575 km vestan við Noreg. Eldfjöll Færeyja eru kulnuð en þó má þar finna jarðhita. Þekktasta jarðhitalind Færeyja er Varmakelda. Eyjurnar eru vogskornar með fjörðum og sundum og eru allir þéttbýlisstaðir landsins staðsettir austurströndinni, fyrir utan Fámjin og Sumba. Helstu þéttbýlistaðir er Þórshöfn á Straumey og Klakksvík á Borðey. Íbúar Sveitarfélagsins Þórshafnar eru 19.284 og innan þess eru þriðju og fjórðu stærstu bæir eyjanna, Hoyvík og Argir. Staðsetning og stærð. Færeyjar liggja í Atlantshafi, milli Noregs, Skotlands og Íslands. Eyjurnar eru 1.396 km² að stærð og er samanlögð strandllengja þeirra 1117 km. Nyrsti tangi eyjana heitir Enniberg (62°29,2´ N) og sá syðsti Sumbiarsteinur (61°21,6´ N). Færeyjar liggja á 62. breiddargráðu. Vestasti oddi eyjana er Gráadrangur (7°40,1´ N) og austasti Stapi (6°21,5´ N). Eyjaklasinn samanstendur af 18 eyjum og 11 hólmum og er 118 kílómetra langur. Stærstu eyjar Færeyja eru Straumey (57,4 km²), Borðey (52,4 km²), Austurey (37,0 km²), Suðurey (30,9 km²) og Nólsey (26,1 km²). Byggð er á öllum þessum eyjum. Jarðfræði. Færeyjar tóku að myndast fyrir um 55 milljónum ára. Kolalög á Suðurey og Mykinesi sýna að á meðan eldvirknin var sem mest á Færeyjum var þar hitabeltisloftslag og fenjagreni og musteristré blómstruðu. Eyjarnar eru myndaðar úr basalti og móbergi. Móbergið kemur frá öskulagi sem kólnaði og þéttist og sést aðeins sem þunnt lag í færeyskum jarðlögum. Helstu ummerki ísaldar á eyjunum eru dalir, firðir og sund. Landslagsþættir. Vesturströnd Færeyja er alsett bröttum björgum og er fuglalíf þar mikið. Meðalhæð fjalla er 300 metra yfir sjávarmáli. Mörg færeysk fjöll enda í þverhníptum björgum út í sjó og flestir fossar eyjanna falla fram af þessum björgum beint í sjó. V Ár og vötn þekja 9 km² eða 0,6% landsins. Stærsta stöðuvatn Færeyja og jafnframt það dýpsta er Sørvágsvatn, 3,4 km² og 59 metrar að dýpt. Vatnið myndaðist þegar farg jökulsins hörfaði á ísöld. Hæsta fjall færeyja, Slættaratindur myndaðist þegar jarðskorpuflekinn reis. Í kringum eyjarnar rísa víða standberg beint úr sjó og hæst þeirra er Kunoyarnakkur, 819 metra hátt. Veðurfar. Í Færeyjum er temprað loftslag. Golfstraumurinn hefur talsverð áhrif á hitastig sjávarins sem skapar kjöraðstæður fyrir fiska. Á eyjunum eru veturnir langir, mildir og vindasamir en sumrin eru svöl og rakt loft kemur úr suðri og vestri. Oftast er skýjað yfir Færeyjum, þoka og vindur er hefðbundinn á eyjunum. Sumstaðar má segja að heimskautaloftslag ríki í fjalllendi eyjanna. Meðalhitastig Þórshafnar yfir árið er 6,7 °C. Dýralíf. Öll landdýr Færeyja hafa verið flutt inn af mönnum. Sauðfé var fyrst flutt til eyjanna á 9. öld og verður 20 kg við kynþroska aldur. Færeyski hesturinn er á milli 115 til 125 cm hár. Á meðal sjávardýra er útselur algengur á skerjum við eyjarnar. Best þekkta hvalategundin við Færeyjar er grindhvalurinn (Globicephala melaena). Í færeyjum eru 110 mismunandi tegundir fugla og síðustu 150 ár hafa 260 tegundir fundist. Algengasti varpfuglinn er fýll (600.000 pör) og lundi er næst algengastur (550.000 pör). Þjóðarfugl Færeyja er tjaldur, því að koma hans 12. mars boðar upphaf vors á eyjunum. Robert Joy. Robert Joy (fæddur 17. ágúst 1951) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í sem réttarlæknirinn Sid Hammerback. Einkalíf. Joy fæddist í Montréal, Québec í Kanada og ólst upp í St.Johns, Nýfundnalandi. Stundaði nám við Corpus Christi College í Oxford á Rhodesstyrki og við Memorial háskólann, Nýfundnalandi. Joy var verðlaunaður Honorable Drama-Logue Critics verðlaunin. Joy er einn af upprunalegum meðlimum Newfoundland Theatre Troupe Codco. Ferill. Fyrstu hlutverk Joy var árið 1974 í kvikmyndinni Cod on a Stick og í sjónvarp míni-seríunni. Hefur síðan þá komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Joy lék kærasta Madonnu í kvikmyndinni Desperately Seeking Susan (1985). Árið 2005 varð Joy boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum sem réttarlæknirinn Sid Hammerback og hefur síðan þá verið einn af aðalleikurunum. Hann hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: Radio Days, Waterworld, Fallen, Resurrection og It´s a Boy Girl Thing. Joy hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Miami Vice, The First Circle, Wings, Nash Bridges, Crossing Jordan og Boston Legal. Tenglar. Joy, Robert Ferðalandfræði. Ferðalandfræði er fræðigreinin sem rannsakar ferðalög og ferðamennsku, sem iðnað og félagslegt og menningarlegt athæfi. Ferðalandfræði nær yfir vítt svið og tekur fyrir málefni líkt og umhverfisáhrif ferðamennsku, landfræði ferðamennsku og frístunda hagfræði, svarar hlutum sem koma að ferðamálaiðnaði og stjórnun, félagsfræði ferðamennsku og staðsetningar ferðamennsku. Ferðalandfræði er sú grein vísinda sem fjallar um fræðin á ferðalögum og áhrif þeirra á staði. Landfræði er mikilvægt fyrir fræðin á ferðamálum, vegna þess að ferðamennska er landfræðileg í eðli sínu. Ferðamennska á sér stað á stöðum og felur í sér hreyfingu og athafnir á milli staða. Ferðamennska er athöfn þar sem bæði einkenni staða og persónuleg sjálf-auðkenni myndast, í gegnum tengslin sem eru sköpuð meðal staða, landslags og fólks. Áþreifanleg landfræði útvegar grundvallar bakgrunn, þar sem ferðastaðir eru skapaðir og umhverfisáhrif er mikið áhyggjuefni sem þarf að hafa í huga þegar kemur að stjórnun á þróun ferðastaða. Nálgunin á fræðunum er mismunandi og fer eftir mismunandi aðstæðum. Mikið af fræðiefni í ferðamálastjórnun er enn aðferðafræðilega meginlegt. Ferðamennska samanstendur af upprunastöðum ferðamannsins (eða sköpunarsvæði ferðamannsins), áfangastöðum ferðamannsins (eða birgðastað ferðamannsins) og sambandið (tengslin) á milli uppruna ferðamannsins og áfangastaðana. Þetta inniheldur samgönguleiðir, viðskiptatengls og hvata ferðamannsins. Nýlegar þróanir í mannvistarlandfræði hafa orðið til í slíkum nálgunum eins og í menningarlandfræði, sem hugar meira að fræðilegum breytileika í nálgunum á ferðamálum, innifelur félagsfræði ferðamennsku, sem nær út fyrir ferðamennsku sem einangrað, óvenguleg athöfn og þegar litið er á hvernig ferðalög passa inní hversdagslíf og hvernig ferðamál er ekki bara neysla á stöðum heldur líka hvernig þau framleiða tilfinningu á stöðum á áfangastaðnum. Hill Harper. Hill Harper (fæddur Frank Harper, 17. maí 1966) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í og The Handler. Einkalíf. Harper fæddist í South Bend, Indiana í bandaríkjunum. Útskrifaðist sem "magna cum laude" frá Brown háskólanum og "J.D., cum laude" frá Harvard háskólanum og með Masters gráðu í opinberri stjórnsýslu frá John F. Kennedy School of Governmennt frá Harvard háskólanum. Harper er meðlimur Bostons Black Folks Theater Company. Harper kynntist núverandi forseta Bandaríkjanna Barack Obama við nám við Harvard. Harper og Obama kynntust á körfuboltavelli og urðu góðir vinir fyrstu ár sín sem lögfræðistúdentar. Eftir að hafa lokið námi vildi Harper frekar flytjast til Los Angeles og verða leikari. Harper var verðlaunaður heiðurs doktorsnafnbót við Westfield State College árið 2009. Rithöfundarferill og Pólitík. Harper tók þátt í Baracks Obama "Yes We Can" stuðningsmyndbandinu. Harper er meðlimur að Obama for America National Finance Committee. Hann stofnaði nýlega vefsíðuna "ForRealSolutions.com" sem ætlað er að finna lausnir gagnvart samfélagsvandanum. Ferill. Harper byrjaði feril sinn árið 1993 í sjónvarpsþáttunum Life Goes On og Married with Children og í kvikmyndinni Confessions of a Dog. Síðan þá hefur hann komið fram í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Harper hefur leikið í kvikmyndum á borð við: In Too Deep, The Skulls, 30 Days og For Colored Girls. Hann hefur komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Walker, Texas Ranger, NYPD Blue, ER, The Sopranos og The 4400. Harper var árið 2004 boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum sem réttarlæknirinn Sheldon Hawkes og hefur síðan þá verið einn af aðalleikurunum. Harper hefur komið fram í leikritum á borð við: "You Handsome Captain", "Freeman", "American Buffalo" og "Dogeaters". Tenglar. Harper, Hill Súpergrúppa. Súpergrúppa eða ofurhljómsveit er hljómsveit þar sem meðlimir hafa áður orðið frægir með öðrum vinsælum hljómsveitum. Oft eru slíkar hljómsveitir settar saman úr „stjörnum“ úr hinum og þessum vinsælum hljómsveitum eftir að vinsældir þeirra síðarnefndu tekur að dala. Fræg dæmi um súpergrúppur eru hljómsveitirnar Cream og Audioslave. Á Íslandi er Trúbrot gjarnan nefnd sem fyrsta súpergrúppan. Síðpönkgrúppan KUKL er annað dæmi. Mannvistarlandfræði. Mannvistarlandfræði er önnur af tveim aðal undirgreinum í landfræði. Mannvistarlandfræði er fræðigreinin sem rannsakar notkun og skilnings mannsins á heiminum, meginmuninn og stofnanir á athöfnum mannsins og tenglsin við áþreyfanlega umverfið. Mannvistarlandfræði greinir sig frá náttúrulandfræði aðallega þar sem áherslan á rannsóknir á athöfnum mannsins er mun meiri og gengur meira út á megindlegar rannsóknaraðferðir. Í raun er mannvistarlandfræði félagsfræðigrein á meðan náttúrlandfræði er jarðvísindagrein. Mannvistarlandfræði er notuð við fræðin á rýmismunstri á tenglsum mannsins við þeirra náttúrulega umhverfi. Ferðamálafræði. Ferðamálafræði er fræðigrein sem fjallar um ferðamennsku sem félagslegt fyrirbæri, þ.e. að skilja orsakir og eðli ferðalaga og áhrif þeirra á samfélög, en einnig um áhrif ferðamennsku á umhverfi og mikilvægi þess að greina og meta slík áhrif. Ferðamálafræði tengir þannig saman félagsvísindi og náttúruvísindi. Grunnnám (BS) í ferðamálafræði er kennt í Háskóla Íslands á líf- og umhverfisdeild og er þriggja ára nám. Námið tengir saman ýmis fræðasvið, þar á meðal náttúru- og umhverfisfræði, skipulagsfræði, viðskiptafræði og menningarfræði. Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og kennslan lifandi. Nemendur tileinka sér gagnrýna hugsun og þjálfast í skipulegum og öguðum vinnubrögðum, sem nýtast vel þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Að loknu námi hafa þeir sterka fræðilega grunnþekkingu og yfirsýn yfir ferðamennsku á heimsvísu, en jafnframt staðgóða þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu. HSH8. Björn R. Einarsson er 78 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1953. Á henni flytur Björn R. Einarsson og hljómsveit tvö lög. Upptaka: Radíó- & raftækjastofan. Hljómsveitina skipa: Björn R. Einarsson básúnu, Ólafur Gaukur gítar, Jón Sigurðsson bassi, Magnús Pétursson píanó og G.R. Einarsson trommur. Eddie Cahill. Eddie Cahill (fæddur Edmund Patrick Cahill, 15. janúar 1978) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í ' og "Friends". Einkalíf. Cahill fæddist í New York-borg, New York í Bandaríkjunum og er af írskum og ítölskum uppruna. Cahill stundaði nám við Skidmore College í Saratoga Springs, New York og Atlantic Theater Acting School sem er hluti af Tisch Scool of the Arts við New York-háskólann. Ferill. Fyrsta hlutverk Cahill var í sjónvarpsþættinum Sex and the City (2000). Árið 2000 var Cahill boðið hlutverk í Friends sem Tag Jones kærasti Rachelar. Árið 2004 var Cahill boðið hlutverk í sem rannsóknarfulltrúinn Don Flack og hefur verið einn af aðalleikurunum síðan þá. Tenglar. Cahill, Eddie Ferðamennska. Ferðamennska er tímabundin hreyfing fólk til áfangastaða utan hins venjubundna heimilis og vinnustaðar ekki skemur en 24 tíma og ekki lengur en eitt ár samfleytt, athafnir fólks meðan á ferðinni stendur, samskipti ferðamanna og heimamanna og sú aðstaða sem komið hefur verið upp á áfangastaðnum til að sinna þörfum ferðamanna. Ferðalög geta verið í frítíma, til afþreyingar eða vegna viðskiptalegum tilgangi. Ferðamennska umlykur allt frá skipulagningar ferðarinnar, ferðalagsins til áfangastaðarins, dvölin sjálf, heimkoman og endurminngar ferðarinnar eftir á. Ferðamennska er orðin vinsæl alheimsafþreying. Árið 2008, þá voru yfir 922 milljónir alþjóðlegra ferðamannakomur, sem er 1,9% aukning frá árinu áður. Alþjóðleg ferðamennska óx upp í 106 þúsund milljarða króna árið 2008. Ferðamennska er mjög mikilvæg fyrir mörg lönd eins og Egyptaland, Grikkland, Líbanon, Spánn, Malasía og Tæland og mörg eylönd eins og Bahamaeyjar, Fijieyjar, Maldíveyjar, Filippseyjar og Seychelles-eyjar. Stafar þetta út af mikilli tekjuöflun vegna sölu á þeirra varning og þjónustu og tækifærin sem skapast í ferðaþjónustuiðnaðinum. Þessi ferðaþjónusta innifelur í sér samgönguþjónustu eins og flugfélög, skemmtiferðaskip og leigubátar, gestrisniþjónustu eins og gisting, hótel og dvalarstaðir, skemmtanaiðnaður til dæmis skemmtigarðar, spilavíti, verslunarmiðstöðvar, tónlistarskemmtanir og leikhús. Uppruni orðsins. Theobald (1994) lagði til að orsifjafræðilega séð væri orðið tour komið úr latínu, „tornare“ og grísku, „tornos“, sem þýðir „rennibekkur eða hringur; hreyfing í kringum miðpunkt eða ás. Saga ferðamennsku. Ríkt fólk hefur alltaf ferðast til fjarlægra staða í heiminum, til þess að sjá miklar byggingar, list, læra ný tungumál, upplifa nýja menningu og smakka mismunandi rétti. Á tímum rómverska ríkisins, voru staðir eins og Baiae mjög vinsælir strandstaðir fyrir þá ríku. Orðið „tourism“ var notað árið 1811 og „tourist“ í kringum 1840. Bættar samgöngur stuðulu að auðveldara var að ferðast auk þess sem að iðnvæðingin skapaði meiri frítíma fyrir fólk og þar af leiðandi fór fólk að ferðast meir. Á þeim tíma voru strandstaðir að byggjast upp við strendur Bretlands eins og í Brighton auk þess sem að baðstaðir líkt og í Bath urðu vinsælir. Thomas Cook byrjaði að bjóða svo upp á skipulagðar ferðir á kirkjumessur og út frá því þróuðust skipulagðar ferðir víða t.d. Alpafjallana. Árið 1936 þá skilgreindi Þjóðbandalagið erlendan ferðamann sem einhvern sem ferðast erlendis í minnsta kosti í 24 tíma. Sameinuðu þjóðirnar aðlöguðu svo skilgreininguna og bættu við hana að hámarksdvöl væri sex mánuðir. Frítíma ferðamennska. Frítíma ferðamennska tengist við iðnbyltinguna á Bretlandi sem varð fyrsta Evrópuþjóðin til þess að útdeila frítíma fyrir sístækkandi iðnaðarsamfélag. Cox & Kings var fyrsta opinbera ferðaþjónustufyrirtækið, stofnað árið 1758. Breskur uppruni á þessum iðnaði endurspeglast í mörgum nöfnum á stöðum. Í Nice í Frakklandi, var einn af fyrstu og best heppnuðu dvalarstöðunum í frönsku ríverunni, er strandlegngja sem er enn þann dag í dag kölluð „Promenade des Anglais“; á mörgum sögulegum dvalarstöðum á meginlandi Evrópu, gömul og vel heppnuð hallarhótel sem bera nöfn eins og Hótel Bristol, Hótel Carlton eða Hótel Majestic endurspegla meirihluta viðskiptavina staðana. Margir frítímasinnaðir ferðamenn ferðast til hitabeltissvæðanna, bæði á sumrin og á veturnar. Slíkir staðir sem eru vinsælir eru: Balí í Indónesíu, Brasilía, Kúba, Dóminíska lýðveldið, Malasía, Mexíkó og ýmsir Pólýnesíksar hitabeltiseyjur, Queensland í Ástralíu, Tæland, Saint-Tropez og Cannes í Frakklandi, Flórída, Havaí og Púertó Ríkó í Bandaríkjunum, Barbados, Sint Maarent, Sankti Kristófer og Nevis, Bahamaeyjar, Angvilla, Antígva, Arúba, Turks- og Caicos eyjar og Bermúda. Vetrarferðamennska. Þrátt fyrir að það er vitað að Svisslendingar voru ekki upphafsmenn að skíðaiðkun þá er það vitað að St. Moritz, Graubünden, var vagga þróunar á vetrarferðamennsku: Frá árinu 1865 í St. Moritz, voru margir hótelstjórar sem tóku þá áhættu að opna hótelin sín á veturnar en það var þó ekki fyrr en á 7. áratug 20. aldarinnar sem að vetrarferðamennska tók yfirhöndina fram yfir sumarferðamennsku á mörgum svissneskum skíðaáfangastöðum. Meira að segja á veturnar þá er allt að einn þriðji af öllum gestum (fer eftir staðsetningu) samanstanda af fólki sem stunda ekki skíði. Helstu skíðaáfangastaðir er aðallega staðsettir í nokkrum Evrópulöndum (t.d. Andorra, Austurríki, Búlgaría, Tékkland, Frakkland, Þýskaland, Ísland, Ítalía, Noregur, Pólland, Serbía, Svíþjóð, Slóvenía, Spánn, Sviss), Kanada, Bandaríkjunum (t.d. Colorado, California, Utah, New York, New Jersey, Michigan, Montana, Vermont, New England), Nýja-Sjálandi, Japan, Suður Kóreu, Chile, Argentínu, Keníu og Tansaníu. Fjöldaferðamennska. Fjöldi hótelblokka líkt og í Benidorm, voru byggð allt um Suður-Evrópu á 7. og 8. áratugnum, til þess að hýsa fjöldaferðamenn sem komu að mestu frá Norður-Evrópu og Bretlandseyjum. Fjödaferðamennska hefði ekki geta þróast án hjálpar frá tækninni, sem gerir kleyft að flytja stóran hóp fólks á stuttum tíma á staði með frístunda tómstundir, svo að hópurinn gæti hafist í að njóta kostina í frítíma sínum. Í Bandaríkjunum voru fyrstu baðstrandar dvalarstaðirnir í evrópskum stíl hjá Atlantic City, New Jersey og Long Island, New York. Á meginlandi Evrópu, voru fyrstu dvalarstaðirnir: Oostende, vinsælt meðal fólks frá Brussel; Boulogne-sur-Mer, Pas-de-Calais og Deauville Calvados fyrir Parísarbúa; og Heiligendamn, stofnað árið 1793 sem varð fyrsta baðströndin við Eystrasaltið. Þolmörk ferðamennsku. Sá fjöldi gesta sem svæði getur tekið á móti áður en neikvæðum áhrifum fer að gæta, hvort heldur áhrif á náttúrulegt umhverfi, viðhorfi heimamanna eða upplifun ferðamanna. Þolmörk ferðamennsku skiptist í félagsleg þolmörk (þolmörk ferðamanna og þolmörk heimamanna) og þolmörk umhverfis (náttúrulegt umhverfi og innviðir). Nýlegar þróanir. Það hefur verið mikil uppsveifla í ferðamennsku seinustu áratugina, sérstaklega í Evrópu, þar sem alþjóðleg ferðalög í stuttan tíma eru algeng. Ferðamenn hafa mun meiri afgangstekjur, meiri frítíma, eru betur menntaðir og hafa margbrotnari smekk. Það er nú eftirspurn eftir betri gæðavörur, sem hefur orðið til að fjöldaferðamennskan á strandstöðum hefur verið skipt niður, fólk vill nú sérhæfðari útgáfur, hljóðlátari dvalarstaði, sérhæfð fjölskyldufrí og sérhæfðari hótel. Tækniþróun og innviðir samgangna, eins og breiðþotur, lággjaldaflugfélög og aðgengilegri flugvellir hafa gert margar gerðir ferðamennsku mögulegar. Þann 28. apríl 2009 þá birtist grein í „The Guardian“ þar sem stóð að WHO reiknar að á hverri stund eru 500 þúsund manns staddir í flugvél. Það hafa líka orðið breytingar á lífstílum, eins og lífeyrisþegar sem halda við ferðaþjónustu allt árið í kring. Nú kaupir fólk vörur ferðaiðnaðarins á netinu. Sumar vefsíður hafa byrjað að bjóða stórtækar pakkaferðir, þar sem ferðir eru sérhannaðar fyrir hvern og einn viðskiptavin. Það hafa orðið nokkrar hindranir í ferðamennsku, eins og hryðjuverkaárásinar 11. september 2001 og hryðjuverkaógnir á áfangastöðum eins og á Balí og nokkrum evrópskum borgum. Auk þess að 26. desember 2004 þá var flóðbylgja í Indlansdhafi sem lennti á nokkrum ferðastöðum m.a. Maldíves og Tælandi. Þúsundir manna dóu þar á meðal margir ferðamenn. Vænleg ferðamennska. Vænleg ferðamennska varð til vegna mikillar hugarfarsbreytingar á 8. áratugnum. Þá var fólk orðið leitt á fjöldaferðamennsku og algengir ferðamannastaðir voru farnir að nálgast þolmörk sín. Ferðamenn fóru að gera kröfu um umhverfis og menningarvæna ferðaþjónustu til mótvægis við fjöldaferðamennsku. Í kjölfar þess varð vænleg ferðamennska til. Hugtakið nær yfir allar aðrar tegundir ferðamennsku en fjöldaferðamennsku t.d. sjálfbær ferðamennsku, visthæfa ferðamennsku og menningartengda ferðamennsku. Sjálfbær ferðamennska. Sjálfbær ferðaþjónusta mætir þörfum ferðamanna og heimamanna en stuðlar um leið að verndun og auknum markaðstækifærum til framtíðar. Þetta felur í sér að auðlindum er stjórnað með þeim hætti að efnahagslegum, félagslegum og fagurfræðilegum þörfum er fullnægt, á sama tíma og viðhaldið er menningu, nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum, líffræðilegri fjölbreytni og nauðsynlegum lífsskilyrðum. Skv. skilgreiningu WTO frá árinu þá á sjálfbær ferðamennska að nýta umhverfisauðlindir sem gegna lykilhlutverki í þróun ferðaþjónustu á sem bestan og hagkvæmastan hátt en viðhalda jafnframt nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum og aðstoða við verndun náttúruarfs og líffræðilegrar fjölbreytni. Virða félags- og menningarlegan upprunaleika samfélaga í heimabyggðum, vernda menningararf þeirra, bæði byggingararf og samtímamenningu, og hefðbundin lífsgildi, og stuðla að skilningi og umburðarlyndi á milli ólíkra menningarhópa. Tryggja lífvænlega, langtíma efnahagslega starfsemi sem veitir öllum hagsmunaaðilum félagslegan og hagrænan ávinning er dreifist á milli þeirra á sanngjarnan hátt, þ.m.t. hvað varðar stöðugleika í möguleikum til atvinnuþátttöku og tekjuöflunar innan samfélags gestgjafanna og sem lið í því að sporna við fátækt. Visthæf ferðamennska. Ferðamennska sem stunduð er í náttúrlegu umhverfi, í sátt við náttúru, menningu og íbúa ferðamannastaða. Visthæfri ferðamennsku er ætlað að vera sjálfbær, hafa lítil áhrif á umhverfið, vera fræðandi og hafa jákvæð hagræn áhrif þar sem hún er stunduð (til að mynda með að njóta þeirra innviða sem heimamaðurinn býður uppá). Visthæf ferðamennska er náttúruferðamennska, fræðandi ferðamennska, byggð upp í samvinnu við heimamenn, skipulögð fyrir litla hópa og minna háð þjónustu og uppbyggingu. Melina Kanakaredes. Melina Kanakaredes (fædd Melina Eleni Kanakaredes, 23. apríl 1967) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í, The Guiding Light og Providence. Einkalíf. Kanakaredes fæddist í Akron, Ohio í Bandaríkjunum og er af grískum uppruna, ásamt því að vera altalandi á grísku. Kanakaredes stundaði nám við Ohio State háskólann í tónlist, dansi og leikhúsi en fluttist síðan yfir til Point Park College. Útskrifaðist hún frá Point Park College í Pittsburg, Pennsylvaníu með B.A. gráðu í leiklistum. Kanakaredes fluttist til New York eftir útskrift þar sem hún reyndi fyrir sér sem leikari í Broadway leikritum. Ferill. Fyrsta hlutverk Kanakaredes var í kvikmyndinni Carts frá árinu 1987. Síðan þá hefur hún leikið í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Fyrsta hlutverk Kanakaredes í sjónvarpi var í sjónvarpsþættinum The Guiding Light sem Eleni Andros Spaulding Cooper frá 1991-1995. Var hún tilnefnd tvisvar sinnum til Emmy verðlauna fyrir hlutverk sitt. Frægustu hlutverk hennar í sjónvarpi er fyrir hlutverk sitt sem Dr. Sydney Hansen í Providence frá 1999-2002 og sem Stella Bonasera í frá 2004-2010. Kanakaredes yfirgaf eftir sex þáttaraðir. Hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: The Long Kiss Goodnight, 15 Minutes og Tenglar. Kanakaredes, Melina Vanessa Ferlito. Vanessa Ferlito (fædd 28. desember 1980) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Death Proof, og 24. Einkalíf. Ferlito fæddist í Brooklyn, New York í Bandaríkjunum og er af ítölskum uppruna. Ferill. Fyrstu hlutverk Ferlito eru síðan 2002 í kvikmyndinni On Line og sjónvarpsþættinum Third Watch. Síðan þá hefur hún leikið í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Fyrsta hlutverk Ferlito í sjónvarpi var í sjónvarpsþættinum 24 sem Claudia. Frægasta hlutverk hennar í sjónvarpi er fyrir hlutverk sitt sem Aiden Burn í frá 2004-2006. Ferlito yfirgaf eftir tvær þáttaraðir. Ferlito hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: Descent, Grindhouse, og 25th Hour. Tenglar. Ferlito, Vanessa Emmanuelle Vaugier. Emmanuelle Vaugier (fædd 23. júní 1976) er kanadísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Two and a Half Men og. Einkalíf. Vaugier fæddist í Vancouver, Bresku Kólumbíu í Kanada og er af frönskum uppruna. Ferill. Fyrsta hlutverk Vaugier var í sjónvarpsmyndinni A Family Divided frá árinu 1995. Síðan þá hefur hún leikið í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Fyrsta stóra hlutverk hennar í sjónvarpi var í sjónvarpsþættinum Madison sem Noella D'Angelo. Árið 2002 var Vaugier boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum Smallville sem Dr. Helen Bryce. Árið 2004 var henni boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum One Tree Hill sem Nicki. Frægustu hlutverk Vaugier í sjónvarpi eru, rannsóknarfulltrúinn Jessica Angell og Mia í Two and a Half Men. Vaugier hefur komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Breaker High, Higher Ground, Charmed, Veronica Mars, Monk og Human Target. Hún hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: Saw II, 40 Days and 40 Nights, Far Cry og Saw IV. Tenglar. Vaugier, Emmanuelle Jarðsaga Færeyja. Jarðsaga Færeyja geymir sögu sem er sambærileg jarðsögu Íslands fyrir utan að eldfjöll færeyja eru löngu kulnuð. Færeyjar mynduðust fyrir um 60 milljón árum síðan. Færeyjar eru staðsettar á Wyville-Thomson beltinu á Norður Atlantshafinu sem teygir sig frá Írlandi og Skotlandi um Færeyjar, Ísland og Grænland að mið-atlantshafs hryggnum. Tertíertímabilið. Mynd af færeyskum jarðlögum. Þau skiptast í þykk basaltlög og þunn móbergslög, rauðbrún að lit. Á tertíertímabilinu (60 - 70 milljón ár síðan) var eldfjallavirkni á Wyville-Thomson beltinu og jörðin reis úr 3.000 metrum í 4.000 metra. Jarðlög Færeyja skiptist síendurtekið í þykk basallög og þunn móbergslög. Móbergslagið kemur frá öskulagi sem kólnaði og þéttist. Á tímabili var eldfjallavirkni mikil og hitabeltisloftlag myndaðist. Kolalög á Suðuroy og Mykines sýna leifar fengjagrenis og musteristrés. Árbotnar hafa fundið sér leið í gegnum sprungur bergsins og mynduðu djúp V-laga árgjúlfur. Jarðskorpuflekinn undir Færeyjum féll lítillega frá norðvestur til suðaustur og flestar ár eyjanna renna í þá átt. Brim atlantshafsins náði að jarðskorpuflekanum og að ströndinni. Mjúku móbergslögin réðu ekki við álagið og þurrkuðust út svo að basaltlögin urðu yfirgnæfandi. Vegna þessa var rof í lámarki á meirihluta jarðskorpuflekans. Það sem stóð eftir voru Suðureyjar, Færeyjar og Ísland. Eldvirkni Íslands byrjaði fyrir 20 miljón árum síðan. Í dag er eldvirkni á færeyjum til samanburðar við Giant´s Causeway á Bretlandseyjum tiltölulega lítil. Til marks um eldfjallavirkni færeyja er jarðhiti eyjanna, 20 gráður á celsíus í Varmakelda í bænum Fuglafjørður á Austurey. Ísöld. Ísaldirnar skipta kvartertímabilinu sem byrjaði fyrir 2,4 milljón árum síðan í tvennt. Jöklar ísaldarinnar sem huldu allt landið, mynduðu leifarnar af jarðskorpuflekanum sem eru Færeyjar í dag. Ísaldarjökullinn fergdi eyjarnar frá suðvestri og myndaði dali. Þessir dalir komu í ljós þegar jökullinn hörfaði, þá flæddi sjór inn í land þar sem jökullinn hafði áður legið og bjuggu til núverandi sund og firði færeyja. Stærsta stöðuvatn færeyja, Sørvágsvatn var dalur sem myndaðist á ísöld, en vatnið er í 10 metra hæð yfir sjávaarmáli og því flæddi ekki sjór í vatnið. Ísaldirnar mótuðu Færeyjar í núverandi form. Það er mjög einkennandi fyrir eyjarnar að í suðaustur eða norðvesturátt eru mörg sund og firðir. Þetta gefur þá sýn fyrir vegfarendur að erfitt er að gera greinarmun á því hvort sé um að ræða fjörð eða eyju á hinum enda sundsins. Landslagsþættir. Þar sem jöklarnir fergdu landið sjást dalir. Oftast eru dalirnir í botni fjarða og stundum með sandstrandir, eins og í Kaldbaksbotnur og Tjørnuvík. Lengsti jökuldalur (U-laga dalur) í Færeyjum er hinn 11 kílómetra langi dalur á milli Saksun og Hvalvík, Saksundalur. Þar og við alla austurströndina er lárétt bjarg þar sem basalt og móbergslagið hefur mótað jökulinn. Dæmi um slíkt bjarrg er Hamrabyrgi. Á milli bjarganna hvorum megin í dalnum eru grösug landsvæði. Ár sem liggja um björgin falla til jarðar sem fossar. Fjallastígur frá austurströndinni og inn til eyjarinnar getur haft mörg björg sem oft eru nógu há að tindur fjallsins sést ekki lengur. Frá 300 metra hæð er öðruvísi landslag og þar tekur við norðurheimskauts alpafjalla landslag. Á hverjum 100 metrum minnkar hitastigið um hálfa gráðu á celsíus. Meirihluti færeyjinga búa við ströndina. Þar eru rík fiskimið en jafnframt skjól fyrir vindum og gott landbúnaðarsvæði. Hálendi færeyja er nær engöngu fyrir þær 70.000 kindur færeyja sem beitiland. Stærstu fjöll eyjanna hafa myndast á jarðskorpuflekanum. Þetta eru oftast flatir stapar. Til dæmis er hæsta fjall færeyja, Slættaratindur eitt þeirra. Brattinn að rætum þess við Atlantshafið er nokkuð jafn og það er eitt hæsta sinnar tegundar, í flokki fjalla sem hafa rætur við sjávarmál. Önnur fjöll eyjanna eru fjallagarðar, sem að móta heilu eyjarnar, eins og Kalsoy og Kunoy. Við enda þeirra eru þeir píramídslaga. Fjöllinn fylgja oft fjallagarði með U-laga dölum á milli þeirra. Ef að dalurinn er fyrir neðan sjávarmál þá er hann í öllum tilvikum fjörður eða sund. Veðurfar Færeyja sér um að fjallstindar færeyja yfir sumartímann eru aldrei huldir þrátt fyrir að snjóhengjur séu til staðar. Björg, drangar og hólmar. Björg færeyja eru á meðal þeirra hæstu í heimi. Þegar haft er í huga hvaða björg færeyja eru hæstir, þarf að hafa í huga hvort þeir séu lóðréttir niður eða bara verulega brattir. Cape Enniberg (754 metra hátt) er nyrsti punktur færeyja og jafnframt hæsti lóðrétti klettur Evrópu. Á meðal kletta sem eru verulega brattir er Kunoyarnakkur (819 metra hár) á norðurhluta Kunoy er á meðal þeirra hæstu í heiminum. Lóðrétt björg á austurströnd færeyja eru fuglabjörg og varpstaður færeyskra fugla. Þessi strandlengja er sífellt sorfin af brimi sem verður allt að 50 metra há og jafnframt stormum yfir veturinn. Í björgunum eru margir hellar sem sjórinn hefur skolað í burtu. Hellarnir myndast þegar að sjórinn flæðir út úr holu í berginu sem skapar loftþrýsting sem að hluta til er orsökin á bak við að holan sprengir út frá sér. Á sama hátt eru drangar meðfram ströndinni, eins og Risinn og Kellingin. Meðfram ströndinni eru jafnframt grasgrónir hólmar og sker. Sker færeyja eru graslaus en eru algeng heimakynni útselsins. Locarno. Locarno er þriðja stærsta borgin í kantónunni Ticino í Sviss með 15 þúsund íbúa. Hún er hlýjasta borgin í Sviss og sú nyrsta þar sem Miðjarðarhafsloftslags gætir. Borgin er þekkt fyrir alþjóðlega kvikmyndahátíð, sem og Locarno-samningana. Lega og lýsing. Locarno liggur nyrst við stöðuvatnið stóra Lago Maggiore um miðbik kantónunnar, en suðurhluti vatnsins tilheyrir Ítalíu. Heilsubærinn Ascona og Locarno eru samvaxnir við strendur Lago Maggiore. Næstu borgir eru Bellinzona til austurs (20 km), Lugano til suðausturs (30 km) og Como á Ítalíu til suðausturs (60 km). Mílanó á Ítalíu er 110 km til suðurs. Sökum milds loftslags og fagurs umhverfis er Locarno mikill ferðamannabær. Þar vex ýmis suðrænn gróður, svo sem pálmatré. Frá Locarno ganga reglulegar skipasiglingar um Lago Maggiore alla leið til Ítalíu. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Locarno er hvítt ljón á bláum grunni. Ljónið er nafngefandi fyrir borgina. Orðsifjar. Locarno heitir "Leocarnum" á latínu en það merkir "hold ljónsins". Viðburðir. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Locarno var hleypt af stokkunum árið 1946 og fer fram árlega í ágúst. Hátíðin fer fram á aðaltorgi borgarinnar en þar rúmast 8 þús manns í sæti. Hátíðin er því tiltölulega lítil miðað við sambærilegar hátíðir í Cannes og Berlín. Sigurmyndin hlýtur verðlaun sem kallast Gullni hlébarðinn ("Pardo d'Oro"). Moon and Stars er popptónlistarhátíð sem haldin er árlega. Þar troða aðallega upp þekktar hljómsveitir. Árið 2011 spiluðu þar meðal annars Sting, Santana, Joe Cocker, Gianna Nannini, Roxette, Bryan Adams og ýmsir fleiri. Lághitasvæði. Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Claire Forlani. Claire Forlani(fædd 1. júlí 1972) er ensk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Mallrats og. Einkalíf. Forlani fæddist í Twickenham, London á Englandi og er af ítölskum og enskum uppruna. Þegar Forlani var ellefu ára hóf hún nám við Arts Educational skólann í London og þar lærði hún leiklist og dans. Forlani giftist leikaranum Dougray Scott í júní 2007 og á með honum tvö stjúpbörn. Ferill. Fyrsta hlutverk Forlanis var í sjónvarpsþættinum Press Gang sem Judy Wellman og kom hún fram í tveim þáttum. Foreldrar Forlanis fluttust til San Francisco árið 1993, svo hún ætti meiri möguleika á hlutverkum í Hollywood kvikmyndum. Fyrsta hlutverk hennar í Bandaríkjunum var í sjónvarps míniseríunni og í kvikmyndinni. Forlani lék í Mallrats kvikmynd Kevin Smiths frá árinu 1995. Síðan lék hún dóttir Sean Connery í spennumyndinni The Rock. Árið 2006 var henni boðið gestahlutverk í sjónvarpsþættinum sem réttarlæknirinn Payton Driscoll. Hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við: Meet Joe Black, Hooligans, Flashbacks of a Fool og The Medallion. Tenglar. Forlani, Claire Jóannes Eidesgaard. Jóhannes Dan Eidesgaard (fæddur 19. apríl 1951) var lögmaður Færeyja frá 3. febrúar 2004 til september 2008, þegar arftaki hans Kaj Leo Johannesen tók við. Sem lögmaður veitti hann Landsstjórn Færeyja forystu. Jóannes fæddist á Tvøroyri. Hann er sonur Jonu og Erling Eidesgaard og er giftur Anítu, dóttur Jonhildar og Bjarna W. Joensen úr Froðba. Jóannes útskrifaðist með kennarapróf árið 1977 og kenndi við Tvøroyrar Skúla þar til í janúar 1991. Frá 1991 til 1993 var hann heilbrigðisráðherra, viðskipta- og iðnaðaráðherra og félagsmálaráðherra. Á þessu tímabili var Jafnaðarflokkurinn í meirihluta ásamt Sjálfstjórnarflokknum og Þjóðveldisflokknum. Árið 1990 var hann fyrst kosinn á lögþingið fyrir Jafnaðarflokkinn, í Suðuroyarkjördæmi og hefur setið þar síðan. Frá september 1994 til júní 1996 var hann sjávarútvegsráðherra og varalögmaður. Á kjörtímabilinu var meirihluti Sambandsflokksins, Jafnaðarflokksins og Verkamannafylkingarinnar við völd. Hann var kosinn formaður Jafnaðarflokksins og formaður þingflokksins árið 1996 en lét af embætti og hætti þátttöku í stjórnmálum snemma árs 2011 og Aksel V. Johannesen var kjörinn formaður í hans stað 6. mars 2011. Hann hefur átt sæti í utanríkisnefnd og Norðurlandaráði. Frá 30. september 2008, þegar Jóannes lét af embætti lögmanns eftir að stjórnarsamstarfið sprakk, var hann fjármálaráðherra í stjórn Jafnaðarflokksins, Fólkaflokksins og Sambandsflokksins undir forystu Kaj Leo Johannesen. Hann lét af því embætti í febrúar 2011. Frá 1996 til 1998 sat hann í utanríkisnefnd Lögþingsins og frá 1998 til 2001 var hann þingmaður á Þjóðþingi Danmerkur. Jóannes var sveitarstjórnarmaður á Tvøroyri frá 1980 til 2000 en var í leyfi frá þeim störfum þegar hann sat sem ráðherra í Landstjórninni. V.U. Hammershaimb. Venceslaus Ulricus Hammershaimb (25. mars 1819 – 8. apríl 1909), oftast nefndur V.U. Hammershaimb eða Venzel Hammershaimb var færeyskur prestur, málvísindamaður og þingmaður sem lagði grundvöllinn að færeysku ritmáli. Hann var fæddur á Steig í Sandavági á Vágum, sonur Jørgen Frantz Hammershaimb, síðasta lögmanns Færeyja áður en lögþingið var lagt niður 1816, og konu hans Armgard Marie Engholm. Hammershaimb-ættin var upphaflega frá Slésvík en langafi V.U. Hammershaimb varð fógeti í Færeyjum 1723 og settist þar að og giftist dóttur Samuel Pedersen Lamhauge lögmanns. Einn af þrettán börnum þeirra var V.U. Hammershaimb fógeti, faðir Jørgen Frantz Hammershaimb, lögmanns. Jørgen Frantz dó þegar sonurinn var á öðru ári. Tólf ára að aldri var Hammershaimb sendur til Kaupmannahafnar í skóla, tók þar stúdentspróf 1839 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1847. Hann sinnti kennslustörfum í Kaupmannahöfn til 1855 en varð þá sóknarprestur á Norður-Straumey. Árið 1862 varð hann prestur á Austurey og jafnframt prófastur Færeyja frá 1867. Þá flutti hann til Danmerkur og gerðist prestur á Sjálandi. Síðustu árin bjó hann í Kaupmannahöfn og lést þar níræður að aldri. Hammershaimb var konungkjörinn fulltrúi á færeyska Lögþinginu frá 1866 til 1878. Fræðistörf. Á Kaupmannahafnarárum sínum hóf hann að semja færeyska málfræði og stafsetningarreglur og studdist þar mjög við fornnorrænu og íslensku en hann var góðvinur Jóns Sigurðssonar og vel kunnugur mörgum Íslendingum og var áratugum saman félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi. Ritmál Hammershaimbs miðaðist því við uppruna en var nokkuð fjarlægt færeyskum framburði. Engu að síður varð það fljótt viðmiðið og er grunnurinn að færeysku ritmáli í dag. Á námsárunum fór hann líka tvær ferðir til Færeyja, ferðaðist um allar eyjarnar og safnaði miklu af kvæðum, sögum, málsháttum, orðatiltækjum, gátum, siðum, leikjum og öðru slíku og skráði niður. Hann skrifaði mikið í ýmis tímarit, einkum um færeysk kvæði og sagnir, svo og um menntamál, sem voru honum mjög hugleikin, en helsta ritverk hans er sýnisbók færeyskra bókmennta, sem út kom 1891. Fólkaflokkurinn. Fólkaflokkurinn (færeyska: "Fólkaflokkurin" eða "Hin føroyski fólkaflokkurin") er færeyskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 1939 undir nafninu "Vinnuflokkurin". Stefna flokksins er frjálslyndisstefna, íhaldsstefna og sjálfstæði færeyja. Flokkurinn er á Færeyska lögþinginu. Flokkurinn er einn af fjóru stóru flokkunum, síðan í kosningunum 2008 þegar að flokkurinn fékk sjö sæti í Lögþinginu. Flokkurinn hefur stutt aukið sjálfstæði Færeyja en árið 1998 samþykktu þeir stefnu um fullt sjálfstæði færeyja í stefnuyfirlýsingu meirihlutans ásamt Þjóðveldisflokkinum og Sjálfstjórnarflokknum. Síðan árið 2004, fyrir utan stutt tímabil árið 2008, hefur flokkurinn verið í meirihlutastjórn Jóannes Eidesgaard og síðar Kaj Leo Johannesen með Sambandsflokkinum og Jafnaðarflokkinum sem vilja halda pólitísku jafnvægi á milli Færeyja og Danmerkur. Þegar að formaðurinn Anfinn Kallsberg ákvað að bjóða sig ekki fram til endurkjörs hófst ný kosningabarátta. Tveir buðu sig fram, Jørgen Niclasen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og Bjarni Djurholm núverandi viðskipta og iðnaðaráðherra. Kosningin 2. ágúst 2007 endaði með meirihlutaatkvæða Jørgen Niclasen sem gerði hann að formanni flokksins. Flokkurinn er meðlimur Alþjóðlega Demókratíska sambandsins. Saga. Flokkurinn var stofnaður árið 1939 sem "Vinnuflokkurinn". Flokkurinn er afsprengi sjálfstjórnarflokksins vegna ósættis um breytingar á lögum um landréttindi. Hinn nýstofnaði flokkur hélt stefnu um hagfræðilega frjálslyndistefnu og félagslegri íhaldstjórn með markhóp á fiskiðnaðinn og einkafyrirtæki. Hagfræðiáætlun flokksins var að nýta auðlindir þjóðarinnar til að minnka þörfina fyrir samvinnu eyjanna við Danmörk. Flokkurinn fékk sitt núverandi nafn árið 1940. Flokkurinn fór í meirihlutasamstarf við Jafnaðarflokkinn árið 1990 sem braut hringrás hægri-miðju og vinstri-miðju meirihluta. Flokkurinn hætti í samstarfinu árið 1993 og var skipt út fyrir vinstri sinnaða flokka. Í kosningunum 1994 tapaði flokkurinn fjórðung atkvæða og var enn í minnihluta. Flokkurinn fór þó aftur í meirihlutastjórn árið 1996 með Sambandsflokknum, Sjálfstjórnarflokknum og Verkamannafylkingingunni. Í kosningunum 1998 komst flokkurinn aftur í sömu stöðu og fyrir árið 1994 og fór í meirihlutastjórn með Þjóðveldisflokkinum og Sjálfstjórnarflokknum, þar sem flokkurinn samþykkti stefnu um að sækjast eftir fullu sjálfstæði. Sjálfstæðisáætlun meirihlutans mistókst árið 2001 þegar Danmörk hótaði að enda öllum fjárstuðningi mun fyrr en búist var við. Í næstu kosningum var flokkurinn enn með 21% atkvæða og var í endurnýjuðum meirihluta þar sem Miðflokkurinn kom nýr inn í stjórnarsamstarfið. Flokkurinn náði sæti í Þjóðþingi Danmerkur árið 2005, en tapaði því aftur í kosningunum árið 2007. Í lögþingskosningunum 2008 vann flokkurinn 20,1% atkvæða og 7 sæti af 33. Jaðrakan. Jaðrakan (fræðiheiti: "Limosa limosa") er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl af snípuætt. Fuglinn er álíka stór og spói eða um 40 – 44 sm. Varpsvæði jaðrakans nær frá Íslandi gegnum Evrópu og svæða í mið-Asíu. Á varptíma er goggur með gul- eða appelsínugulan grunnlit og svart í endann en á veturna er grunnlitur goggs í bleikum tón. Fætur eru dökkgráir, brúnir eða svartir. Kynin líta eins út en á varptíma má þekkja þau á því að bringa, háls og höfuð karlfuglsins er í skærari appelsínugulum lit. Háls og bringa á ungum fuglum er í fölum appelsínugulum lit. Stofnstærð jaðrakana í heiminum er talinn 634.000 til 805.000 fuglar. Fæða jaðrakansins er aðallega ýmis konar ormar og skordýr og aðrir hryggleysingjar sem halda til í votlendi. Á varptíma eru fræ mikilvægur þáttur í fæðu jaðrakans en utan varptíma er hann í fjörum og á leirum og lifir á ormum, sniglum og ýmiss konar krabbadýrum. Á haustin þegar fuglinn þarf að safna orku fyrir flug á vetrarstöðvar étur hann mikið af berjum. Íslenskir jaðrakanar eru sérstök deilitegund (Limosa limosa islandica) sem verpir nær eingöngu á Íslandi og hefur vetursetu á svæðinu frá Bretlandi til Íberíuskagans. Fuglarnir koma til varpstöðva á mánaðartímabili frá miðjum apríl til miðs maí. Pörin koma á svipuðum tíma á varpstöðvar þó þau hittist ekki utan varptímans og séu þá ekki á sömu slóðum. Jaðrakan við hreiður með fjórum eggjum Jaðrakanar eru flestir einkvænisfuglar. Fuglinn verpir þremur til sex eggjum sem eru ólífugræn til dökkbrún. Hann verpir í og við ýmiss konar votlendi eins og flóa, flæðiengi og hallamýrar og er hreiðrið dæld í gróður. Útungun tekur 22 – 24 daga og sitja báðir foreldrar á eggjum. Ungarnir verða fleygir eftir 25 – 30 daga. Varpsvæði jaðrakana á Íslandi hefur breiðst út frá Suður- og Suðvesturlandi og verpa þeir nú í öllum landshlutum. Fjöldi fugla á Íslandi er talinn um 30.000, þar af sjö til tíu þúsund pör. Jaðrakanar. Jaðrakanar (fræðiheiti "Limosa") eru hópur stórra langnefjaðra og háfættra vaðfugla af snípuætt sem flestir eru farfuglar og mynda oft stóra hópa á strand-og vatnasvæðum á veturna. Lappjaðrakan. Lappjaðrakan (fræðiheiti "Limosa lapponica") er stór vaðfugl af snípuætt sem verpir á ströndum heimskautasvæða og túndrum en hefur vetursetu á suðlægri slóðum. Lengsta samfellda flug farfugls sem skráð hefur verið er flug lappjaðrakans frá Alaska til Nýja-Sjálands en það flug var 11680 km. Lappjaðrakan þekkist frá jaðrakan af því að stélið er rákað en ekki eingöngu svart og hann hefur ekki hvíta rák á vængjum. Lappjaðrakan er farfugl í Ástralíu en verpir þar ekki. Hann verpir í Skandínavíu, Norður-Asíu og Alaska. Hreiðrið er grunn dæld sem stundum er fóðrað með gróðri. Karl- og kvenfugl skiptast á að sitja á eggjum og hugsa um unga. Flugleiðir lappjaðrakana sem fylgst var með úr gervitungli norður frá Nýja-Sjálandi Lappjaðrakan flýgur í hópum til strandsvæða í Vestur-Evrópu, Afríku, Suður-Asíu, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Árið 2007 var fylgst með flugi lappjaðrakana frá Nýja-Sjálandi til Gulahafsins í Kína en milli þessara staða eru 9575 km. Einn fuglinn flaug 11026 km í einni lotu og tók flugið níu daga. Að minnsta kosti þrír aðrir lappjaðrakanar fóru þetta flug líka í einni lotu. Einn kvenfugl flaug frá Kína til Alaska og var þar yfir varptímann og þann 29. ágúst 2007 lagði fuglinn af stað frá Avinof skaganum í vesturhluta Alaska til Piako árínnar í Nýja Sjálandi og setti þar með flugmet 11680 km í einu flugi. Gulahafið. Gulahafið er nafn á hafsvæði milli Kína og Kóreuskagans. Nafnið er dregið gullnum blæ hafflatarins, sem stafar af sandkornum, sem eiga uppruna í Góbí eyðimörkinni. Í Kóreu er hafið stundum nefnt "Vesturhafið". Gulahafið er eitt fjögurra hafa, sem eru kennd við liti, hin eru Svarta hafið, Rauðahafið og Hvíta hafið. Góbí eyðimörkin. Góbí eyðimörkin. Mynd tekin í júlí 2000. Sandöldur í Innri-Mongólíu í Kína. Góbí eyðimörkin er stór eyðimörk í Asíu. Hún nær yfir hluta af norður- og norðvestur svæðum Kína og suðurhluta Mongólíu. Eyðimörkin afmarkast af Altai fjöllum og graslöndum og steppum Mongólíu í norðri, af Hexi Corridor and Tíbethásléttunni í suðvestri og af sléttum í norðurhluta Kína í suðaustri. Góbí eyðimörkin er þekkt í mannkynssögunni sem hluti af Mongólaveldinu og vegna þess að í henni eru margar mikilvægar borgir sem lágu við Silkiveginn. Miðgarður (félagsheimili). Félagsheimilið Miðgarður í Varmahlíð hefur verið miðstöð menningarlífs í framanverðum Skagafirði um langa tíð. Félagsheimilið var vígt 15. ágúst 1967. Þar hafa mörg sveitaböll farið fram og oft verið mikið fjölmenni. Í Miðgarði á Karlakórinn Heimir aðsetur sitt. Húsið var einnig notað til kennslu um skeið og þar hafa verið settar upp leiksýningar og haldnar ýmiss konar skemmtanir. Húsið var opnað að nýju eftir gagngerar endurbætur vorið 2009 og heitir nú "Menningarhúsið Miðgarður". Í húsinu er Stefánsstofa, helguð Stefáni Íslandi. Aksel V. Johannesen. Aksel Vilhelmsson Johannesen (f. 8. nóvember 1972) er færeyskur lögfræðingur og stjórmálamaður, formaður færeyska Jafnaðarflokksins frá 2011. Aksel er fæddur í Klakksvík, sonur lögþingsmannsins Vilhelms Johannesen. Hann lauk lögfræðiprófi árið 2004 og hefur stundað lögmannsstörf frá 2007. Hann varð fyrsti varalögþingsmaður Jafnaðarflokksins eftir kosningarnar 2008 og tók oft sæti á Lögþinginu. Þann 16. júlí 2009 varð hann heilbrigðisráðherra og í febrúar 2011 tók hann við starfi fjármálaráðherra þegar Jóannes Eidesgaard lét af embætti og hætti þátttöku í stjórnmálum. Þann 6. mars 2011 var hann kjörinn formaður Jafnaðarflokksins í stað Jóannesar Eidesgaard og skömmu síðar varð hann varalögmaður. Aksel Johannesen lék lengi knattspyrnu með Klaksvíkar Ítróttarfelag og er nú stjórnarformaður liðsins. Karlakórinn Heimir. Karlakórinn Heimir var stofnaður í Skagafirði 28. desember árið 1927. Stofnendur komu flestir úr litlum kór úr framhéraði Skagafjarðar sem hét Bændakórinn og starfaði hann í ellefu ár. Fyrstu árin störfuðu kórfélagar við mjög frumstæðar aðstæður. Söngæfingar voru haldnar á heimilum þar sem hljóðfæri voru til staðar, því ekki voru mörg samkomuhús á þessum tímum. En félagsskapurinn stækkaði og áhuginn var mikill. Menn fóru aðallega gangandi eða ríðandi til æfinga en stundum fóru þeir einnig á skíðum. Fyrsti söngstjóri kórsins var Gísli Magnússon í Eyhildarholti. Pétur Sigurðsson, tónskáld, tók við af honum og þá Jón Björnsson, einnig tónskáld, frá Hafsteinsstöðum sem stjórnaði kórnum í nær 40 ár. Stefán Reynir Gíslason hefur stjórnað kórnum nær óslitið frá árinu 1985, en veturinn 2010 – 2011 tók hann sér hlé og tók Helga Rós Indriðadóttir, óperusöngkona og söngkennari við sprotanum. Undirleikari síðan 1991 er tónmenntakennarinn Thomas Randall Higgerson en hann er með doktorsgráðu frá Illinois-háskóla í Urbana-Campain. Karlakórinn Heimir hefur gefið út plötur og diska sem hafa selst í stórum upplögum. Frægust laga sem kórinn hefur gert vinsæl má telja Fram í heiðanna ró og perluna sígildu Undir bláhimni. Kjarnasamruni. Kjarnasamruni er þegar léttar frumeindir sameinast og mynda stærri kjarna. Til dæmis geta tveir tvívetniskjarnar (2H) bundist og myndað þyngra efni, Helíum-4 (4He). Við samrunan losnar yfirleitt mikið magn orku. Þessi orka kallast kjarnorka. Kjarnorka er aðallega fengin við ferli sem kallast kjarnaklofnun og er notað í kjarnorkuverum í dag. Kjarnaklofnun er andstætt við kjarnasamruna og myndar orku við að skilja frumeindir í sundur. Mun meiri orka fæst við kjarnasamruna, en það þarf mikinn hita (50 – 100 milljón ˚C) og mikinn þrýsting til að framkvæma ferlið. Kjarnasamruni. Hver róteind í kjarna er plús (+) hlaðin og því hrinda kjarnarnir hvor öðrum frá sér. Til þess að kjarnasamruni geti átt sér stað þarf að yfirstíga þennan fráhrindandi rafsegulkraft sem verkar á milli kjarnanna. Þessi kraftur heitir Coulombs-kraftur. Þessi fráhrindandi rafsegulkraftur, sem er vegna jákvæðrar hleðslu þeirra er ástæðan fyrir þessum gríðarlega hita, sem þarf til að framkvæma ferlið. Í kjarna sólarinnar verður kjarnasamruni. Í sólinni er nægur þrýstingur og hiti til að framkvæma ferlið. Mikill hluti orkunnar sem við nýtum hér á jörðinni er þess vegna upphaflega samrunaorka sem varð til í sólinni. Við samruna tveggja léttra vetnisfrumeinda, verður til þyngra efni, helíum. Massi þess efnis sem myndast er ekki nákvæmlega sami massi og var í upprunalegu atómunum. Lítill hluti massans glatast en gríðarleg orka myndast. Þetta er það sem formúla Einsteins, E = mc2 lýsir. Þessi litli massi(m) sem hefur glatast margfaldaður með ljóshraðanum í öðru veldi (c2) gefur mjög stóra tölu (E) og er orkan sem varð til við samrunan. Talið er að sólin breyti um 600 milljón tonnum af vetni í helíum á hverri sekúndu. Kjarnasamruni er ein af bestu leiðunum sem við höfum til að búa til mikið magn af kolefnislausri orku í framtíðinni. Þar sem á jörðinni eru ekki sömu skilyrði og í sólinni þarf að nálgast málið á annan hátt. Vísindamenn og verkfræðingar vinna hörðum höndum við að þróa tækni sem gerir okkur kleyft að nýta þetta ferli í orkuverum framtíðarinnar. Hagnýting kjarnasamruna. Til að ná orku við kjarnasamruna er gas, myndað úr vetni, tvívetni (deuterium) og þrívetni (tritium) hitað upp í allt að 100 milljón gráður, heitara en í kjarna sólarinnar. Í þessu ástandi kallast efnið rafgas eða plasma. Þennan gríðarlega hita þarf til þess að samruni geti átt sér stað. Þegar hitastig efnis er orðið svona hátt haldast atómin ekki lengur saman og verða að stökum rafeindum og atómkjörnum á fleygiferð. Hreyfing atómanna eykst með hækkandi hita. Heita plasmað er mjög þunnt og viðkvæmt og þar með er mjög erfitt að halda vetnisrafgasinu saman í þessu ástandi. Ein leiðin til þess er að beita mjög sterku rafsegulsviði. Með því er komið í veg fyrir að efnið kólni eða mengist við snertingu við annað efni. Mest er verið að þróa og vinna með samrunaofn sem kallast tokamak og notast hann við þessa aðferð. Þá er plasma af léttum atómkjörnum hitað og lokað inn í hringlaga segulröri. Inn í segulrörinu er svo plasmanu stjórnað með sterkum segulkröftum. Þegar vetnið sameinast svo í helíum og háhraða nifteindir, losnar 17,6 MeV af orku við hvert hvarf. Þessi orka sem nifteindirnar bera er miklu meiri en myndast við venjuleg hvörf, sem er svo notuð í kjarnasamruna orkuveri til þess að framleiða rafmagn. Það er svo hægt á nifteindunum með því að láta þær skella á filmu sem umlykur vélina, hitinn sem myndast við það er svo umbreytt í gufu sem keyrir áfram hverfla, sem aftur gefur okkur afl. Kjarnasamruni er enn sem komið er ekki hagnýttur til raforkuframleiðslu nema í tilraunaskyni en miklar vonir standa til að svo geti orðið í framtíðinni eins og segir að neðan. Á hinn bóginn hefur kjarnasamruni verið hagnýttur í hernaði síðan rétt eftir miðja 20. öld með svokölluðum vetnissprengjum. Saga kjarnasamruna rannsókna. Á seinni hluta tuttugustu aldar fóru vísindamenn virkilega að spá í að herma eftir nýtingu sólarinnar á orku. Að framkvæma kjarnasamruna, líkt og sólin, á jörðu niðri. Rannsóknir voru í upphafi, lítil og leynileg verkefni, seinna þróaðist það í alþjóðlegt samstarf eins og við sjáum í dag. Fyrstu kjarnasamruna rannsóknirnar fóru fram á Cavendish rannsóknarstofunni í Cambridge, Englandi í kringum 1930. Þá var talið að þetta væri ómögulegt. En eftir seinni heimsstyrjöldina og gerð fyrstu kjarnorkusprengjunnar, fengu menn aftur áhuga á kjarnorkufræðum. Ekki urðu miklar framfarir í þessum málum fyrr en samstarf hófst um allan heim þegar kalda stríðið rénaði. Alþjóðleg samvinna hófst þegar lönd opinberuðu rannsóknir sínar í Geneve 1958. Þetta leiddi af sér rannsóknarstofu í Culham á Englandi sem seinna varð að höfuðstöðvum JET. Tíu árum síðar tókst Rússum að gera hið fyrsta tokamak. Það náði tíu sinnum hærri hita en, önnur lönd höfðu náð. Þessi sama tækni er enn notuð í dag og er enn verið að fullkomna hana. Rannsóknir. Þó að kjarnasamruna rannsóknir séu á byrjunarstigi, er mikið fjárfest í rannsóknum. Sem dæmi má nefna að ESB lagði um 10 milljarða evra fram til 1990 og einungis nýja verkefnið ITER hefur þegar fengið fjárveitingu uppá 10 milljarða evra. Kjarnasamruna rannsóknir fá um 750 milljón evrur (fyrir utan ITER) á meðan allar aðrar rannsóknir sem ekki tengjast kjarnorku fá um 810 milljón evrur. Nú þegar er búið að sýna að hægt er að vinna orku við kjarnasamruna. Til dæmis hefur heimsins stærsta tokamak, JET (Joint European Torus) þegar framleitt 16 megavött. Aðal verkefnið sem rannsóknarmenn kljást við í dag er að gera þetta arðbært og nógu stórt svo það borgi sig. Rannsóknarmenn vonast til að verða komnir með virkt ver innan 30 ára og ef fjárveitingar halda áfram eru þeir bjartsýnir að ná því. Listi yfir þorp í Færeyjum. Færeyjar eru eyjaklasi á milli Noregshafs og Atlantshafsins, rúmlega hálfa leið á milli Skotlands og Íslands. Færeyjar tilheyra Danmörku, ásamt Grænlandi. Goðsögn. Goðsögn (mýta eða mýþa'") er haft um frásögn sem gerist á forsögulegum tíma og sem fjallar um goð, gyðjur eða allavega dýr og skrímsli. Goðsagan lýsir oft hvernig heimurinn eða hluti heimsins varð til fyrir áorkan yfirnáttúrulegra afla. Merkingarsvið. Í skáldskaparfræðum Aristótelesar er orðið „goðsögn“ ("mýþos") notað um eftirlíkingu atburðarrásar en grunnmerking orðsins „mýþos“ er "orð". Síðar var farið að nota orðið „mýþos“ um andstæðu „logos“, sem merkir einnig í grunninn „orð“ en var snemma haft um rökstudda greinargerð. Í samræðunni "Prótagórasi" eftir Platon býður Prótagóras til að mynda Sókratesi að velja hvort hann vilji heldur frá "mýþos" eða "logos" til útskýringar á tilurð réttlætisins, þ.e. hvort hann vilji heldur að Prótagóras segði sögu eða útskýrði með rökum. Einnig varð er fram liðu stundir munur á notkun orðanna „mýþos“ og „historia“, sem merkir í grunninn "rannsókn" en síðar einkum "rannsókn á liðnum atburðum". Þá var farið að nota orðið „mýþos“ um það sem „ekki hefði raunverulega getað gerst“ og hefur sú verið merking orðsins „mýþos“ eða „gosögn“ æ síðan. Skilin milli goðsögu og þjóðsögu er ekki mjög skörp en þó útskýra goðsögur frekar náttúrufyrirbæri eða félagslegar venjur og siði. Nú til dags er orðið „goðsögn“ einnig haft um nafnkunna menn sem ljómi leikur um: "Hún var goðsögn í lifanda lífi"; en þá er notkun orðsins sambærileg við notkun orðsins „þjóðsaga“ ("legend") á öðrum málum. Silkivegurinn. a>. Landleiðir eru rauðar en sjóleiðir bláar. Silkivegurinn er um 6400 km net af verslunarleiðum sem tengdu Asíu og Evrópu. Allt frá 2. öld f. Kr. fóru úlfaldalestir eftir Silkiveginum. Leiðin byrjaði í Sian í Kína og hlykkjaðist þaðan alla leið að austurhluta Miðjarðarhafsstrandar. Silki var flutt þaðan til Rómar. Þetta var aðal verslunarleiðin fyrir silki allt þar til á 7. öld e. Kr. en frá þeim tíma er sjóleiðin talin fjótlegri og öruggari. Á seinni tímum hefur orðið Silkivegurinn verið notað bæði fyrir landleiðir og sjóleiðir. Fídji-hindí. Lönd þar sem Fiji Hindi er talað Fídji-hindí er indóarískt tungumál sem er móðurmál um 313.000 manna af indverskum uppruna á Fídjieyjum. Málið er mjög frábrugðið venjulegu hindí sem talað er á Indlandi og skyldleiki tungumálanna tveggja er svipaður og skyldleiki hollensku og afrikaans. Tungumálið skiptist í mállýskur (Bhojpuri og Awadhi) sem innihalda fjölda orða úr ensku og fídji-máli. Það er talað með Kyrrahafs-sönglanda (Pacific Twang). Vegna stjórmálaóróa á Fídjieyjum í seinni tíð hefur fjöldi Fídji-Indverja flutt til Ástralíu, Nýja-Sjálands, Bandaríkjanna og Kanada og flutt tungumálið með sér. Kúbudeilan. Kúbudeilan var hápunktur Kalda stríðsins. Deilan var á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Ástæðan var kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið milli þessara tveggja stórríkja. Bæði ríkin vildu vera sem best undirbúin fyrir utanaðkomandi árásum og varð Kúba miðpunktur deilunnar vegna staðsetningar sinnar. Sovétmenn áttu auðvelt með að koma upp kjarnorkuskotpöllum þar fyrir og ógnuðu þannig öryggi Bandaríkjanna. Aldrei áður hafði heimurinn verið jafn nálægt kjarnorkustríði og þá. Bæði ríkin töldu sig hafa unnið deiluna og sambúð þessara tveggja stórríkja batnaði í kjölfarið. Árið 1963 ákváðu kjarnorkuveldin þrjú, Bandaríkin, Sovétríkin og Bretland, að hætta öllum tilraunum með kjarnorkuvopn ofanjarðar. Kalda stríðið. Kalda stríðið byrjaði í raun þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk árið 1945. Í kjölfarið misstu Japanir og Þjóðverjar mikil völd og Bandaríkin og Sovétríkin urðu öflugustu ríki heims, en þó á sitthvorn háttinn. Bandaríkin voru voldugust og réðu yfir meiri vopnum en Sovétríkin voru með fjölmennasta herinn, þrátt fyrir gífurlegt mannfall. Kalda stríðið var pólitísk deila á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og eitt helsta deilumál þeirra var hver örlög Þýskalands myndu verða. Evrópa var í upphafi það sem skipti mesti máli en vegna stöðugleika Evrópu, sóttust risaveldin eftir áhrifum í þriðja heiminum og fyrir vikið varð þriðji heimurinn að hálfgerðum vígvelli veldanna tveggja. Það er þá sem Kúba kemur inn í málið. Vígbúnaðarkapphlaupið. Eftir kjarnorkusprengjuna á Hiroshima og Nagasaki var öllum ljóst að kjarnorka gæti og myndi umbreyta öllum hernaði og hernaðarhugsun, og eftir heimsstyrjöldina voru það Bandaríkjamenn sem réðu einir yfir kjarnorkuvopnum. En það var í júlí 1949 þegar það breyttist, er Sovétmenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju og kjarnorkukapphlaupið hófst þannig á milli risaveldanna. Þessir atburðir settu af stað það sem er kallað „vígbúnaðarkapphlaupið“ en þá lögðu Bandaríkin og Sovétríkin mikla áheyrslu á að framleiða sem mest af kjarnorkusprengjum og hægt væri til að vera „ógnandi“ fyrir hitt veldið og til að tryggja að þeir gætu brugðist við árás. Þessar kjarnorkuflaugar voru þó ekki nógu öflugar til að ná á mili landa og því var mikilvægt að koma upp skotpöllum sem næst yfirráðasvæðum hvors ríkisins. Forsaga Kúbudeilunnar. Kúbudeilan snerist í raun aðeins um þetta vígbúnaðarkapphlaup og pólitískt stolt risaveldanna. Hún hófst upp úr 1961 en þá hafði mikið gengið á á Kúbu síðustu ár. Þá hafði einræðisherranum Fulgencio Batista verið steypt af stóli af byltingarmönnum undir stjórn Fidel Castro árið 1959. Bandarískir auðmenn höfðu það þá gott á Kúbu vegna þess að þar var meira frelsi en í Bandaríkjunum. Kúba varð mjög fljótt staður þar sem hinir auðugu komu til að skemmta sér og græða pening. Bandarísk fyrirtæki réðu yfir um 90% af rafmagni og síma á eyjunni, 50% af járnbrautum og 40% af sykurframleiðslunni og var því Kúba mjög háð Bandaríkjunum, sérstaklega þar sem sykurframleiðslan var og er enn undirstaða efnahags á Kúbu. Vegna nálægðar Kúbu við Bandaríkin sáu Sovétmenn leik á borði til að ógna Bandaríkjunum. Kúbudeilan. Eftir að Bandaríkin settu á viðskiptabann á Kúbu, náðu Sovétmenn að mynda bandalag við Castro. Það gerðu þeir með því að kaupa mikið af sykri af Kúbverjum langt yfir heimsmarkaðsverði til að viðskiptabannið myndi ekki hafa slæm áhrif á eyjuna. En það sem sneri Castro endanlega gegn Bandaríkjamönnum var innrásin þann 17. apríl 1961. Þá sendi John F. Kennedy Bandaríkjaforseti skammlífan innrásarflokk Kúbumanna undir bandarískri stjórn til Kúbu og lentu þeir við Svínaflóa. Hún var byggð á bjartsýnum vonum um uppreisn gegn Castro á Kúbu en þær rættust ekki. Þessi innrás varð til þess að Castro gekk alveg til liðs við Sovétmenn, því að hann var viss um að Bandaríkin myndu gera aðra tilraun til innrásar. Þann 8. október 1962 fékk Nikita Krusjef, leiðtogi Sovétríkjanna, leyfi til að koma fyrir kjarnorkuflaugum á Kúbu. Þessar flaugar voru andsvar Sovétríkjanna við kjarnorkuflaugum sem Bandaríkjamenn höfðu komið fyrir við landamæri Tyrklands. Staðsetning Kúbu var tilvalin af því þar gátu þeir sent flaugarnar til Bandaríkjanna á nokkrum mínútum. Þann 16. október sá Kennedy ljósmyndir úr njósnavél Bandaríkjanna, U2, að skotpallar voru komnir upp á Kúbu. Þessi uppgötvun var áfall fyrir Bandaríkin og bandarískir ráðamenn kröfðust þess auðvitað að flaugarnar yrðu fjarlægðar því þeir töldu að þessar flaugar ógnuðu þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Sovétmenn neituðu þeirri bón og allt stefndi í átök. Kennedy tilkynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar í sjónvarpsútsendingu þann 22. október að hafnabann yrði sett á Kúbu og var það löggilt þann 23. október. Bandaríkjamenn gáfu það út að ef Sovétríkin myndu brjóta hafnbannið myndu þeir gera árás. Þann dag stóð heimurinn á öndinni þegar sovésk flutningaskip nálguðust hafnbannslínuna og allt leit út fyrir að þriðja heimsstyrjöldin væri við það að hefjast, aldrei hafði veröldin staðið nær ógnun kjarnorkstríðs. Á síðustu stundu ákváðu Sovétmenn að stöðva vopnaflutningsskip sín rétt fyrir utan hafnbannslínuna og afstýrðu með því gífurlegum hörmungum. 26. og 27. október fékk síðan Kennedy bréf frá Krusjef þar sem hann ýjar að lausn. Fyrra bréfið var langt og tilfinningaríkt og þar lagði Krusjef til, að ef Bandaríkin lýstu því opinberlega yfir að þeir myndu tryggja öryggi Kúbu og afléttu hafnbanninu, þá yrðu eldflaugarnar og vopnin tekin niður. Í seinna bréfinu var fyrra tilboðið ítrekað og bætt við að Bandaríkjamenn myndu fjarlægja flaugar sínar sem voru staðsettar við landamæri Tyrklands. En Kennedy vildi ekki samþykkja það vegna þess að honum fannst það vera of mikil pólitísk eftirgjöf. Á meðan Kennedy og hans ráðamenn voru að funda um hvað ætti að gera var bandarísk njósnavél, U2, skotin niður. Þegar það gerðist vildu margir að loftvarnarbyssur Sovétmanna yrðu sprengdar upp til að tryggja öryggi Bandaríkjanna. Kennedy vísaði þó þeirri hugmynd á bug því honum fannst að það fæli í sér of mikla styrjaldarhættu. Á endanum ákvað Kennedy að fallast á tilboðið sem Krusjef setti fram í fyrra bréfinu en gaf samt aldrei formlegt loforð um að ráðast ekki á Kúbu. 28. október lýstu Sovétmenn því yfir að þeir ætluðu að fjarlægja flaugarnar á Kúbu en það var samt ekki fyrr en 20. nóvember sem var lokið við að taka eldflaugarnar niður og flytja þær í burtu af eyjunni. Endalok Kúbudeilunnar. Næstu ár, eftir endalok Kúbudeilunnar, einkenndust af vaxandi slökun í samskiptum stórríkjanna tveggja. Deilan jók mikið á hróður Kennedys því hann setti Sovétmönnum úrslitakosti og hafði betur í áróðursstríði. Krusjef hrökklaðist síðan úr embætti 1964 útaf veikri pólitískri stöðu hans, þó að bæði Sovétmenn og Bandaríkjamen höfðu hrósað sigri í deilunni. Með tímanum hættu Sovétmenn að trufla útvarpssendingar Bandaríkjamanna í Evrópu og Kennedy fór til Berlínar og lýsti yfir stuðningi sínum við borgina með orðunum „Ich bin ein Berliner“. Í ágúst 1963 var síðan undirritaður samningur milli Bretlands, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna um að hætta tilraunum með kjarnavopn. Kennedy var síðan myrtur 22. nóvember 1963. Átökin um landsvæði utan Evrópu héldu þrátt fyrir það áfram, þó að minna bæri á hugmyndafræðilegum ágreiningi stórveldana en áður. Páfiðrildi. Páfiðrildi (fræðiheiti: "Inachis io") er litskrúðugt fiðrildi sem finnst í Evrópu, kaldari hlutum Asíu og allt austur til Japans. Það er víðast hvar staðbundið og heldur sig að vetrarlagi oft í byggingum eða trjám og birtist snemma sumars þegar það vaknar af vetrardvala. Vænghaf er 50 til 55 mm. Aðallitur vængja er ryðrauður og bryddingar á vængjum eru svartar, bláar og gular og líta út eins og augu. Neðraborð er dökkbrúnt eða svart. Páfiðrindi er frekar algeng í skógum, ökrum, beitarlöndum og görðum í Evrópu. Fiðrildið leggst í leggst í vetrardvala en snemma vors verpir þar eggjum, allt að 400 í einu á laufblöð. Amelia Earhart. Amelia Earhart (fæddist 24. júlí 1897, tilkynnt látin 5. janúar 1939) var flugmaður sem setti fjölmörg met innan fluggeirans. Hún var fyrst kvenna til að fljúga yfir Atlantshafið og önnur í heiminum til þess að fljúga einsömul yfir það. Hún skrifaði bækur um afrek sín og stofnsetti Samtökin 99 sem voru samtök kvenna með flugmannsréttindi. Hún gerði tilraun til þesss að fljúga fyrst kvenna kringum hnöttinn en hún týndist 2. júlí 1937 nálægt Howlandeyju í Kyrrahafinu ásamt siglingafræðingnum Fred Noonan og ekkert hefur spurst til þeirra síðan. Æska. Amelia Earhart fæddist 24. júlí 1897 í Atchison, Kansas í Bandaríkjunum og ólst þar upp að miklu leiti ásamt systur sinni Muriel. Foreldar þeirra voru Amy og Edwin Earhart. Eftir að Amelia útskrifaðist frá Hyde Park High School árið 1915 fór hún í Ogontz, stúlknaskóla í úthverfi Fíladelfíu. Hún kláraði skólann aldrei því að á öðru árinu ákvað hún fara á námskeið hjá Rauða krossinum og fara að vinna sem sjúkraliði á herspítala í Kanada. Þetta var á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og því var mikið af slösuðum hermönnum sem þurfti að sinna. Ári seinna innritaði Amelia sig í undirbúning fyrir læknanám í Columbia-háskólanum í New York en lítið varð úr náminu því hún ákvað að flytja til foreldra sinna í Kaliforníu. Flugáhuginn. Þegar Amelia Earhart var tíu ára sá hún í fyrsta skipti flugvél. Henni þótti ekki mikið til hennar koma, fannst þetta bara vera drasl úr ryðguðum vírum og spýtum. En áratug síðar fór Amelia með vinkonu sinni á flugsýningu og þá kviknaði áhuginn. Árið 1920 fór hún í sína fyrstu flugferð sem átti gjörsamlega eftir að breyta lífi hennar, frá þessari stundu vissi hún að hún yrði að læra að fljúga. Amelia hóf að taka flugtíma undir leiðsögn flugkonunnar Netu Snook, hún kenndi á „Canuck“ flugvél sem var gömul kanadísk æfingavél. Fljótlega keypti Amelia sína fyrstu flugvél, af gerðinni Kinner Airster. Þetta var tveggja sæta skærgul flugvél sem hún nefndi „Canary“. Þessa flugvél notaði hún til að setja sitt fyrsta met, að vera fyrsta konan til að fara upp í 14.000 fet. Atlantshafsflugið. Árið 1928 fékk Amelia símtal þar sem hún var spurð að því hvernig henni litist á að verða fyrsta konan til þess að fljúga yfir Atlantshafið. Hún þurfti ekki að hugsa sig um, sagði strax já, og fór á fund með flugmanninum Wilmer Stultz og aðstoðarflugmanninum Louis E. Gordon ásamt bókaútgefandanum og blaðamanninum George P. Putnam. Amelia var aðeins farþegi í þessu flugi því hún hafði enga reynslu í blindflugi en var fyrsta konan til að fjúga yfir Atlantshafið engu að síður. Vélin sem hópurinn notaðist við var þriggja mótora Fokker vél sem hét „Friendship“. Fljúga átti frá Halifax til Írlands, en margoft þurfti að fresta brottför vegna veðurskilyrða en 18. júní var lagt af stað þrátt fyrir mikla þoku. Lenda þurfti í Wales vegna þess að bensínið var á þrotum en yfir Atlantshafið komst hópurinn samt sem áður. Amelia fer ein yfir Atlantshafið. George Putnam sá til þess að Amelia var á allra vörum eftir flugið yfir Atlantshafið og hún gaf út bókina "20 tímar og 40 mínútur" sem fjallaði um flugið og hann sá um að markaðssetja hana. Þau urðu mjög náin við þetta mikla samstarf og á endanum skildi Putnam við konu sína og giftist Ameliu. Í sameiningu fóru þau að skipuleggja ferð Ameliu einnar yfir Atlantshafið. Aðeins einum manni, Lindbergh, hafði tekist fimm árum áður að fljúga einum yfir Atlantshafið og Amelia ætlaði sér að endurtaka leikinn. Amelia flaug 20. maí 1932 á Lockheed Vega vél frá Nýfundnalandi og stefnan var tekin á Bretlandseyjar, en hún viltist af leið og lenti nálægt Londonderry í Norður-Írlandi. Samtökin 99. Amelia var alltaf á ferð og flugi og sló fjölmörg met á Lockheed Vega vélinni og hélt fyrirlestra vítt og breitt um Bandaríkin. Amelia setti á fót Samtökin 99 sem eru samtök kvenkyns flugmanna. Hún var fyrsti forseti samtakana og nafnið er dregið af þeim níutíu og níu konum sem skipuðu samtökin í upphafi. Hnattflugið. Ári seinna fór Amelia að huga að sinni síðustu flugferð. Hún ætlaði að fljúga í kringum jörðina og reyna að fylgja miðbaug eftir bestu getu, þ.e. fara eins langa leið og mögulegt væri. Hún fékk einn besta flugleiðsögumann Bandaríkjanna með sér, Fred Noonan. Flugvélin sem þau notuðust við var af gerðinni Lockheed Elektra, tveggja hreyfla silfurlit vél. 17. mars 1935 gerðu þau sína fyrstu tilraun til flugsins en þegar Amelia var að taka á loft frá Luke Field nærri Pearl Harbor, mistókst flugtakið með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á vélinni, undirvagninn féll saman og vélin lenti á maganum. Miklar skemmdir urðu á vélinni en þau sluppu ómeidd. 1. júní 1937 var gerð önnur tilraun, þau höfðu snúið flugáttinni við, þ.e. ákvaðu nú að fljúga í austurátt. Þau lögðu af stað frá Oakland, stefndu austur yfir Bandaríkin til Miami, yfir Brasilíu og Suður-Atlantshaf, þvert yfir Afríku og svo til Karachi, Rangoon, Singapúr, Surabaja, Darwin í Ástralíu og svo Lae í Nýju-Gíneu. Þarna höfðu þau lokið 35.000 km og áttu aðeins 11.000 km eftir en það var allt yfir Kyrrahafið. Síðasta flugferðin. Næsti áfangi var sá erfiðasti ferðarinnar, 4080 km yfir úthafi og enginn hafði reynt það áður. Frá Lae á Nýju-Gíneu til Howlandseyjar sem var pínulítil eyja hálfa gráðu norðan við miðbaug. Hún var aðeins 2,5 km á lengd og tæpur km á breidd og þarna hafði flugvél aldrei lent áður. Þrátt fyrir að vera með einn besta mögulega loftsiglingafræðing yrði ómögulegt að finna eyjuna. Því höfðu þau fengið amerísku strandgæsluna til liðs við sig og þeir höfðu sent snekkjuna Itasca til eyjarinnar, þannig ætluðu þeir að leiðbeina þeim á eyjuna með talstöðvaaðstoð. Allur farangur hafði verið fjarlægður úr vélinni og hún fyllt af bensíni. Í logni myndi flugferðin taka sjötíu klukkustundir. Noonan hafði áætlað að hún tæki 20 stundir en þau höfðu bensín til 24 klukkustunda flugs. Þau lögðu af stað kl. 10 að morgni 2. júlí 1937 frá Nýju-Gíneu. Amelia og Noonan voru í sambandi við Lae á hálftíma fresti í 1900 km, en þá voru þau komin of langt í burtu til að Lae myndi ná skeytunum. Þá urðu þau að reiða sig á hæfni Noonans því margar klukkustundir myndu líða áður en þau næðu sambandi við Itasca. Með nútímatækni væri ekkert mál að fljúga þessa leið, en á þessum tíma var lítil tækni til staðar svo að Noonan þurfti að reiða sig á ýmis kennileiti eins og þorp, fjöll og fljót. Yfir hafinu var þetta enn erfiðara en þá þurfti hann að notast við áttavita, klukku, stjörnurnar og sólina og reikna út frá því sem nákvæmasta staðsetningu. Það má því segja að siglingafræðingar í þá daga hafi aldrei verið alveg vissir um staðsetningu en 10% skekkja þótti ásættanleg. Amelia gaf skýrslu um gengi þeirra á hálftíma fresti alla leiðina og vonaði að Itasca myndi fljótlega heyra skilaboðin. Áætlaður lendingartími þeirra var kl. 8 um morguninn. Undir morgun heyrðu loftskeytamennirnir á Itasca rödd hennar en miklar truflanir vegna rafeindastorma eyddu merkjum frá henni. Klukkan 6:15 heyrðist rödd Ameliu loksins skiljanlega: „Við erum 160 km frá landi. Gerið svo vel að miða okkur og gefa okkur skýrslu eftir hálftíma. Ég mun tala í hljóðnemann“ Eftir þetta yfirtóku truflanir allt og sama hvað loftskeytamennirnir reyndu náðu þeir ekki að miða út vélina. Klukkan 7:47 heyrðist rödd flugkonunnar loksins: „Við hljótum að vera beint yfir ykkur, en sjáum ykkur ekki. Við erum að verða bensínlaus. Höfum ekki getað náð til ykkar með talstöðinni. Við fljúgum nú í 1.000 feta hæð. Gerið svo vel að miða okkur“. Þau sveimuðu í mikilli örvæntingu í leit að lendingarstað, og gátu nokkrum sinnum látið vita af sér. Þau náðu merkjum Itasca en gátu ekki miðað þau út, síðustu skilaboð Ameliu voru að þau flygju í stefnu 157-337 í norður og suður. Þau áttu aðeins hálftíma eldsneyti eftir og sáu ekki í land. Fleira heyrðist ekki frá vélinni. Loftskeytamenn Itasca reyndu hvað þeir gátu til að ná sambandi við vélina en það þótti orðið ljóst að vélin væri ekki lengur á lofti. Strax hófst mikil leit að þeim með skipum og flugvélum en leitin var erfið þar sem það var ekkert vitað um hve mikið þau voru komin af leið. Stormhviður og yfirvofandi hitabeltisskúrir gerðu leitina erfiða og björgunarflugvélar þurftu að hætta leit. 18. júlí var leitinni hætt en þá hafði verið leitað á 600.000 ferkílómetra svæði án árangurs. Nokkur skeyti bárust eftir að vélin fórst, skeyti um staðsetningu þeirra og þar sem var sagt að þau væru alveg að sökkva. En í ljós kom að skeytin voru öll áreiðanlega tilbúningur einhverra óprúttinna aðila sem voru að gabba. Dvali. Dvali er svefn eða afar hæg efnaskipti sumra dýra sem á sér stað þegar lífskjör versna. Dýr eins og birnir liggja í dvala í híði sínu á veturna. Árásin á Perluhöfn. Reykur stígur frá orrustuskipum bandaríska flotans. Árásin á Perluhöfn var skyndiárás sem Japanir gerðu á Perluhöfn, flotastöð bandaríska hersins á Hawaii þann 7. desember 1941. Ágreiningur milli þjóðanna hófst þegar Japanir réðust inn í Kína árið 1937 og Bandaríkjamenn sendu vopn til Kína til að reyna að hjálpa þeim að verjast innrás Japana. Reynt var að semja um frið en þegar samningaviðræður sigldu í strand hófu Japanir að skipuleggja árás á bandaríska flotann því þeir stefndu að því að verða stórveldi við Kyrrahafið. Vopn voru sérútbúin og flugmenn og sjóliðar sérstaklega þjálfaðir fyrir árásina. Í árásinni á Perluhöfn náðu Japanir að eyðileggja 188 flugvélar bandaríska hersins og skemma 159, einnig sökktu þeir eða ollu stórtjóni á 18 herskipum. Afleiðingar árásarinnar voru þær að Bandaríkjamenn voru nú orðnir þátttakendur í seinni heimsstyrjöldinni og hefndu sín á Japönum í orrustunni við Midway og með því að sprengja tvær kjarnorkusprengur yfir japönsku borgunum Hiroshima, þar sem rúmur þriðjungur íbúa lét lífið, og Nagasaki. Aðdragandi. Aðdraganda árásar Japana á Perluhöfn má rekja til ársins 1937, þegar Japanir réðust inn í Kína og stríð braust út, Vesturveldin studdu Kína í stríðinu og sendu þeim vopn sem gerði innrásina miklu erfiðari fyrir Japan. Japanir reyndu að stöðva vopnasendingar Vesturveldanna til Kína með því að leggja undir sig frönsku nýlendurnar í Indókína en núna heita þær Víetnam, Laos og Kambódía. Á sama tíma gengu þeir í bandalag með Öxulveldunum Þýskalandi og Ítalíu. Bandaríkin, Bretland og Holland eða hin svokölluðu Vesturveldi svöruðu með því að banna allan innflutning á olíu til Japans. Í ágúst árið 1941 sendu Japanir beiðni um að halda samningafund með Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna til að reyna leysa þennan ágreining, en svar Roosevelt við fundarbeiðninni var á þann hátt að ef hann skyldi mæta á fund með Japönum þyrftu þeir fara með her sinn burt úr Kína. Japanir tóku það ekki í mál og virtist nú fátt geta stöðvað stríð milli þjóðanna. Það var svo ekki löngu síðar eða í byrjun nóvember er Hirahito Japanskeisari lýsti yfir stríði gegn Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi. Undirbúningur. Japan hafði stefnt að því í einhvern tíma að verða stórveldi við Kyrrahafið og var Bandaríski flotinn mikil ógn við áætlunum þeirra. Þess vegna ákváðu þeir að fyrsta skref stríðs væri að ráðast á Bandaríska flotann. Japanir voru í raun búnir að undirbúa sig fyrir árásina á Perluhöfn áður en samningarviðræður sigldu í strand og lýst var yfir stríði. Allir þátttakendur árásarinnar, flugmenn og sjóliðar, fengu sérstaka þjálfun bara fyrir þessa árás. Einnig voru sérútbúin vopn sem hentuðu vel fyrir aðstæður eins og var í Perluhöfn. Til að vekja sem minnstar grunsemdir fóru öll skipin úr höfn eitt og eitt í einu úr höfn frá Japan, en notaður var stærstur hluti flota Japana í árásinni og samanstóð árásarfloti þeirra af sex flugmóðurskipum, sem alls fluttu 432 flugvélar, tveimur tundurspillum, þremur kafbátum og átta olíuskipum. Kom flotinn sér svo fyrir 1.600 km norðan við Hawaii. Það var þann 1. desember að yfirvöld í Japan komust að þeirri niðurstöðu að árásin yrði að veruleika og var hún dagsett þann 7. desember, á sunnudegi sem þýddi að margir hermenn voru í leyfi og menn áttu síst von á. Árásin. Sprengja springur í vopnageymslu orrustuskipsins Arizona Árás Japanska flotans hófst klukkan 06:00 með því að flugvélar fyrri árásarhrinu hófu flugtak, klukkan var svo um 07:55 þegar fyrstu flugvélarnar komu að höfninni. Þar skiptu hópurinn sem samanstóð af 183 flugvélum sér í tvennt og fór annar hópurinn beint að flugvélum bandaríska hersins til að koma í veg fyrir að þeir gætu varið sig í loft, hinn hópurinn fór beint að skipaflota Bandaríkjamanna. Með seinni árásahrinunni meðtalinni sem saman stóð af 170 flugvélum náðu Japanir á rúmlega einni klukkustund og fjörtíu og fimm mínútum að eyðileggja 188 flugvélar Bandaríska hersins og skemma 159, einnig sökktu þeir eða ollu stórtjóni á 18 herskipum. Í árásunum fórust alls 2.403 Bandaríkjamenn, þar af fórust 1.177 bandarískir sjóliðar þegar sprengja sprakk í vopnageymslu orrustuskipsins "Arizona". Sprengingin var svo öflug að brak úr skipinu dreifðist um höfnina og höggbylgjan fannst í mörg hundruð metra fjarlægð. Hinsvegar misstu Japanir aðeins 29 flugvélar og nokkra kafbáta. Klukkan 11:00 lenti Mitsuo Fuchida flugstjórinn sem stjórnaði fyrstu árásahrinunni á flugmóðurskipinu "Akagi", og vildi hann halda árásinni áfram og senda þriðju árásahrinuna af stað og klára árásina fullkomlega, því enn voru mikilvæg svæði ennþá heil, svo sem slippurinn, eldsneytisbirgðastöðin og rafstöðvar hafnarinnar. Yfirmenn japanska flotans ákváðu hins vegar að láta þar við standa og voru ánægðir með árangur árásarinnar, jafnvel þótt mikilvægustu skip bandaríska flotans hefðu ekki verið í höfn eins og áætlað var. Voru það flugmóðurskip tvö sem áttu eftir að gegna stóru hlutverki í komandi orrustum við Japani. Afleiðingar. Degi eftir árásina á Perluhöfn, þann 8. desember 1941, skrifaði Franklin D. Roosevelt undir stríðsyfirlýsingu gegn Japönum og var strax hafist handa við að skipuleggja árás gegn Japönum og var hún gerð hálfu ári síðar í orrustunni við Midwayeyju. Þó að Bandaríkjamenn hafi stutt Bandamenn í seinni heimstyrjöldinni með hergögnum, má segja að ástæðan fyrir því að þeir tóku þátt í seinni heimstyrjöldinni beint, sé að mestu leyti útaf árásinni á Perluhöfn. Í ágústmánuði árið 1945 sprengdu Bandaríkjamenn tvær kjarnorkusprengjur í Japan, sú fyrri yfir Hiroshima og sú seinni yfir Nagasaki. Rúmur þriðjungur íbúa í Hiroshima létu lífið eða særðust í sprengjunni og til viðbótar komu hinar varanlegu afleiðingar geislavirkninnar. Sama morgun réðust sovéskar hersveitir inn í Mandsjúríu og í kjölfarið gáfust Japanir upp. Al Capone. Alphonso „Al“ Capone (17. janúar 1899 – 25. janúar 1947) var glæpon af ítölskum uppruna sem leiddi glæpasamtök í Chicago í Bandaríkjunum á áfengisbannsárunum, 3. áratug síðustu aldar. Hann fæddist í New York, foreldrar hans voru ítalskir innflytjendur og hann gekk í skóla fram til fermingaraldurs. Hann fór þá að stunda smáglæpi í New York fram til tvítugsaldurs þegar hann fluttist til Chicago til þess að nýta sér áfengisbannið, að græða á sölu og smygli ólöglegs áfengis. Hann reis fljótt hátt í völdum í glæpasamtökum Chicago og um 1925 var hann leiðtogi glæpasamtaka þar í borg. Ásamt áfengisglæpunum mútaði hann yfirvöldum og stóð í blóðugum stríðum við óvinaglæpasamtök ásamt vændi og fjárhættuspilum. Einn alræmdasti glæpur hans mun vera Valentínusardagsmorðin árið 1929 þegar menn hans drápu sjö af óvinaklíkumeðlimum hans. Hann var dæmdur fyrir skattsvik árið 1931 og eyddi átta árum í fangelsi, meðal annars í Alcatraz en var sleppt 1939 af heilsufarsástæðum, en hann var með alvarlegt tilfelli af sárasótt. Hann dó árið 1947 í villu sinni í Flórída. Uppeldisár Krimma. Alphonse „Scarface“ Capone fæddist 17. janúar 1899 í Brooklyn, New York. Foreldrar hans voru ítalskir innflytjendur, og voru ekki á neinn hátt tengd við glæpastarfsemi borgarinnar. Hann gekk í skóla fram á fermingaraldur, hætti þá og lifði eftir það á smáglæpum í New York. Þar var hann meðlimur götuklíkanna James Street Boys Gang og síðar Five Points Gang. Frankie Yale, einn af glæpaforingjum New York, kynnti Al fyrir skipulagðri glæpastarfsemi. Al starfaði þá sem dyravörður og barþjónn á Howard Inn kránni þar sem er talið að hann hafi hlotið sitt stóra ör þvert yfir vinstri kinnina, í stympingum við drykkjurút. Árið 1920 útvegaði Frankie Yale honum vinnu hjá John Torrio í Chicago, en John Torrio var ásamt Big Jim Colosimo með töluverða glæpastarfsemi í borginni. Var hún að mestu í formi ólöglegs innflutnings á áfengi og rekstri hóruhúsa og spilasala. Colosimo var ekki nógu samviskulaus til þess að fara fyrir glæpaflokki í valdabaráttu þessa tíma svo að Torrio losaði sig við hann smátt og smátt, hann lækkaði í tignum og var að lokum drepinn. Talið er að Capone hafi drepið hann. Þetta hleypti Capone hátt í valdastigann, hann var hægri hönd Torrios, foringja stærsta og best skipulagða glæpaflokks Chicago. Hátindur glæpaferils. Árið 1925 fór John Torrio frá Chicago, vegna morðásökunar og tók þá Capone við veldinu. Hann var fyrirmyndarleiðtogi, kom vel fram við bandamenn sína, og hélt út samninga við óvini sína þar til þeir slitu þeim. Hann fékk þá til baka traust flestra og varð það stoð í veldi hans, ekki var auðvelt að fá menn til að svíkja hann í hendur lögreglu. Hann beitti mikilli útsjónarsemi í störfum sínum, morðin úthugsuð og glæpirnir skipulagðir, sem gaf honum forskot á keppinauta sína. Hans helsti galli sem glæpaforingi var hégóminn. Hann var frægur sem glæpamaður og naut þess, vildi einna helst að blaðamenn fjölluðu sem mest um hann í tengslum við glæpi og ríkulegt líferni undirheimanna. Engu að síður var hann glæpahöfðingi Chicago, með ótal ólöglegs áfengis-, fjárhættu- og vændisbúllur vítt um borgina og barðist við önnur gengi um yfirráðasvæði og völd, oft blóðugum baráttum. Dion O'Banion, þáverandi leiðtogi North Side gengisins, vildi græða á kostnað Capone og svo að það mætti verða þurfti að víkja Capone úr vegi. Skipulagt var launmorð á honum, menn Capones sem þóttust vera í blómakaupaerindagjörðum komu inn í Blómabúð O'Banions, tóku í hönd hans og héldu honum á meðan þeir myrtu hann. Þetta skeði 1924. Morð þetta hafði afleiðingar í för með sér, klíkufélagi O'Banion, Hymie Weiss, tók sér sæti í blómabúðinni. Hann sendi svo tólf bíla árás inn í Cicero, úthverfi Chicago sem Capone bjó í á þessum tíma, með skotárásum á alla helstu viðverustaði Capone. Ekki dó Capone en skipulagði í staðinn annað launmorð, í þetta skiptið á Weiss. Þá voru það Joseph Aiello og Bugs Moran sem reyndu næst að ganga frá Capone, með litlum árangri, en svar Capone við því varð sögufrægur undir nafninu Valentínusardagsmorðin. Valentínusardagsmorðin. Eitt af frægustu morðmálum tengd Capone eru Valentínusardagsmorðin. Á valentínusardag 1929 drápu þá menn Capone 6 menn George „Bugs“ Moran og einn almennan borgara á bifvélaverkstæði í North Side hverfi Chicago. Moran réði einmitt yfir North Side og var þetta hluti af yfirtöku Capone á hverfinu. Launmorðið var þaulskipulagt, fimm menn sáu um aftökuna, þrír í lögreglubúningum. Undirmenn Capone höfðu samið um áfengisviðskipti við Moran og áttu þau að fara fram í bifvélaverkstæði í eigu manna Morans. Sjö menn voru á verkstæðinu þegar aftökusveitin mætti. Lögregluklæddu mennirnir gengu inn á verkstæðið, sem kom engum í uppnám, því að lögreglan gerði oft handahófskenndar leitir hjá glæpamönnum þessa tíma, þó það væri bara til að sýnast vera að gera eitthvað í málunum. Þeir voru því áhyggjulausir þegar þeim var stillt upp við vegg og leitað á þeim, en þá rann stundin upp, hinir tveir í aftökusveitinni komu inn með Tommy-Gun byssur og slátruðu mönnum Morans. Eini gallinn við aftökuna var að aðalmaðurinn, Bugs Moran, var ekki á staðnum, og er talið að hann hafi komið seint á kaupafundinn, séð til lögregluleitarinnar og haldið áfram sinnar leiðar. Þetta markaði lok langrar valdabaráttu milli glæpaflokka Chicago og Capone valdameiri en nokkru sinni fyrr. Blóðug átökin vöktu þó mikla athygli og var Capone efstur á lista yfir menn til vandræða við bandarískt samfélag árið 1930. Hann gat mútað og talað til yfirvöld innan Chicago en alríkisyfirvöld voru ekki jafn auðveld viðureignar. Áfengisbannið. Áfengisbannið var ein af höfuðástæðum fyrir að veldi Capones varð jafnstórt og það var orðið um miðjan þriðja áratug síðustu aldar. Það tók gildi í janúar 1920 til að sporna við rísandi samfélagsvanda sem drykkjan var orðin. Í stað þess að bæta samfélagið greiddi bannið leið fyrir glæpamenn að taka yfir áfengisviðskiptin og opnaði fyrir flæði peninga inn í undirheimana þar til að banninu var aflétt 1933. Al Capone var þá á bak við lás og slá, eftir að hafa grætt á tá og fingri á téðu banni. Árið 1927 var talið að sala hans á ólöglegu áfengi fram að því velti um 105 milljónum dala. Endalok glæpahöfðingjans. Hópur lögreglumanna undir stjórn Elliot Ness reyndu að gera út af við Al Capone með því að gera upptæka aðaltekjulind hans, áfengissöluna. Umfangsmiklar aðgerðir minnkuðu tekjur hans, en ekki meira en það. Lítið gekk að tengja Capone við alvarlega glæpi og varð að lokum að leita annara ráða. Skattaskýrslur hans voru vafasamar og þar sem tekjur af glæpum voru skattskyldar var hann kærður fyrir skattsvik. Hann var fundinn sekur um tekjuskattsvindl árið 1931 og dæmdur í ellefu ára fangelsi og þurfti að greiða 80.000 dali í skaðabætur. Var í fangelsi í Atlanta frá maí 1932 en var fluttur í öryggisfangelsið á Alcatraz-eyju 1934. Hann hafði smitast af sárasótt á þriðja áratugnum og varð verulega sjúkur í fangelsinu og var að lokum sleppt út 1939 og færður á spítala í Baltimore. Að lokum flutti hann sig í glæsihús í Flórída sem hann hafði keypt á hátindi valdaferils síns og dó þar 48 ára 25. janúar 1947. Þá átti hann að eiginkonuna Mae og son þeirra, Sonny Capone. Jon Wellner. Jon Wellner (fæddur 11. júlí 1975) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Henry Andrews í. Einkalíf. Wellner fæddist í Evanston í Illinois í Bandaríkjunum. Wellner er með arfgengan augnsjúkdóm sem kallast Retinitis Pigmentosa og hefur hann unnið mikið fyrir samtökin "Foundation Fighting Blindness" sem berjast fyrir lækningu og meðferð gagnvart sjúkdómnum. Ferill. Wellner kom fyrst fram á sjónvarsviðið árið 2001 í sjónvarpsþáttum á borð við: Becker, Gilmore Girls og Thieves. Einnig kom hann fram í kvikmyndinni Brown Eyed Girl sama ár. Árið 2005 var honum boðið gestahlutverk í sjónvarpsþættinum sem Henry Andrews og hefur síðan 2005 verið fastur aukaleikari í þættinum. Tenglar. Wellner, Jon Týr (hljómsveit). Týr er þungarokkshljómsveit frá Færeyjum. Hún var stofnuð í Janúar 1998 af færeyingum sem bjuggu í Kaupmannahöfn. Þeir skrifuðu undir samning við Austuríska dreifingaraðilann Napalm Records 2006. Hljómsveitin tók þátt í þýsku rokk tónlistarhátíðinni Ragnarök 2007 og 2009. Hljómsveitin kom til Íslands þann 3. október 2008 og var með tónleika á Græna hattinum, Nasa og Hellinum. Lag þeirra, "Ormurinn langi" naut mikilla vinsælda 2002 og fyrsta breiðskífan "How far to Asgaard" seldist í 3.000 eintökum hér á landi. Planet Awards. Planet Awards eru færeysk tónlistarverðlaun sem eru veitt frammúrskarandi færeyskum tónlistarmönnum. Miðlahúsið, Sosialurin, Rás2 og Portal.fo standa fyrir verðlaununum. Sigurvegarar tónlistarverðlaunana eru valdir með SMS kosningu í öllum flokkum nema heiðursverðlaunin, sem eru valin af dómnefnd. Listi yfir færeyskar kvikmyndir. Listi yfir færeyskar kvikmyndir telur allar kvikmyndir færeyja, bæði heimildamyndir, stuttmyndir og kvikmyndir í fullri lengd. Kvikmyndasaga Færeyja er ekki löng. Færeyjar eru fámenn þjóð og vegna hás framleiðslukostnaðar kvikmynda er kvikmyndasaga færeyja takmörkuð. Fyrsti leikstjóri Færeyja var Katrin Ottarsdóttir. Fyrsta mynd hennar Atlantic Rapshody var tekin upp í Færeyjum 1989. Fyrstu færeysku kvikmyndirnar í fullri lengd (Rannvá, Heystblómur og Páll fangi) voru teknar upp af spænska leikstjórnanum Miguel M. Hidalgo. Gosefni. Gosefni er hugtak í jarðfræði sem er haft um öll þau efni sem fylgja eldgosi. Gosefnum er oft skipt í loftkennd eða reikul gosefni (gosgufur), laus gosefni (gosmöl) og föst gosefni (hraun). Þriðja heimsstyrjöldin. Kjarnorkuvopn eru tengd hugtakinu þriðja heimsstyrjöldin. Þriðja heimsstyrjöldin er hugsanleg styrjöld sem gæti átt sér stað í framtíðinni. Á fyrri hluta 20. aldarinnar geysuðu fyrri og seinni heimsstyrjöldin þannig að ljóst er að, ef sú þriðja mun nokkru sinni eiga sér stað, þá líður langt á milli. Það einkennir umræðu um þriðju heimsstyrjöldina að talið er að notuð yrðu kjarnorkuvopn í því stríði og að eyðileggingin í kjölfarið yrði mikil eða jafnvel alger. Kjarnorkuvopn hafa aðeins tvisvar verið notuð áður, í bæði skiptin af hendi Bandaríkjahers í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar vígbúnaðarkapphlaup var á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna var talið að opinberunarstríð á milli landanna tveggja hefði verið líklegt. Dómsdagsklukkan hefur verið tákn um þriðju heimsstyrjöldina síðan Truman-kenningin tók gildi árið 1947. Hugsanleg atburðarás er meðal annars venjulegt stríð og eyðilegging jarðarinnar. Mikið hefur verið skrifað um þriðju heimsstyrjöldina í fagurbókmenntum. Til að mynda í bók Tom Clancys Rauður stormur. Vígbúnaðarkapphlaup. Vígbúnaðarkapphlaup kallast sú keppni á milli tveggja hópa fyrir besta vígbúnaðinn. Hvor hópur keppir við annan til að framleiða fleiri vopn, stækka og sterkja herji eða uppgötva nýja hertækni. Í sögu eru mörg dæmi um vígbúnaðarkapphlaup, til dæmis á tímabili 1891 til 1919 var mikil keppni milli Þýskalands, Frakklands, Rússlands og Bretlands. Best þekkta dæmið er það um kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið sem átti sér stað á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á Kalda stríðinu en endaði með Kúbudeilunni árið 1963. G! Festival. G! Festival er tónlistarhátíð haldin er á hverju sumri utan við Gøtu í Færeyjum. Fyrsta hátíðin var haldin árið 2002 með aðeins 1.000 áhorfendum. G! Festival og Summarfestivalurin eru stærstu tónlistarhátíðir færeyja. Hátíðin var stofnuð af Sólarn Solmunde og tónlistarmanninum Jón Tyril. 2005 seldust allir miðar upp á tónlistarhátíðina sem voru 6.000 talsins. Sá fjöldi samsvarar einum áttunda af íbúafjölda færeyja. Hátíðin er í samstarfi við Iceland Airwaves. Á hverju ári skiptast hátíðarnar á einum tónlistarmanni sem leikur á hátíðinni. Á meðal íslenskra hljómsveita og tónlistamanna sem hafa leikið á hátíðinni eru Hjálmar, Mugison og FM Belfast. Rói Patursson. Rói Reynagarð Patursson (fæddur 21. september 1947) er færeyskur rithöfundur, ljóðskáld og heimspekingur og skólastjóri lýðháskólans í Færeyjum. Rói, sem er langafabarn færeyska sjálfstæðisbaráttumannsins Jóannesar Paturssonar, fæddist í Þórshöfn og ólst þar upp. Hann fór í siglingar 16 ára að aldri, meðal annars til Austurlanda, flakkaði svo víða um Evrópu og var í París vorið 1968. Hann settist svo aftur á skólabekk, lauk stúdentsprófi og lagði síðan stund á heimspekinám við Kaupmannahafnarháskóla og lauk meistaraprófi 1985. Frá 1988 hefur hann verið skólastjóri lýðháskólans í Þórshöfn, "Føroya Fólkaháskúla". Hann hefur skrifað smásögur og fleira en er þekktastur fyrir ljóð sín og hefur þó aðeins sent frá sér þrjár ljóðabækur. Sú fyrsta kom út 1969, þegar hann var aðeins 22 ára að aldri og var henni mjög vel tekið. Hún var nafnlaus en hefur seinna verið kölluð "Yrkingar". Fyrir hana hlaut hann meðal annars Bókmenntaverðlaun Færeyja. Árið 1976 kom ljóðasafnið" Á alfaravegi". Árið 1986 hlaut Rói svo Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina "Líkasum" sem út kom árið áður. Honum voru aftur veitt færeysku bókmenntaverðlaunin 1988 sem heiðursverðlaun. Engin bók hefur komið frá honum eftir að hann tók við skólastjórastarfinu. Listasafn Færeyja. Listasafn Færeyja (færeyska: "Listasavn Føroya") er listasafn í Færeyjum sem var stofnað árið 1989 í Þórshöfn. Listasafnið er sjálfseignarstofnun sem er rekin af fjórum fulltrúum sem koma frá Landsstjórn Færeyja, Listafélagi Færeyja, félags myndlistafólks og sveitarfélags Þórshafnar. Listasafnið er staðsett í norðurhluta Viðarlunds garðsins í Þórshöfn, nærri Norðurlandahúsinu. Arkitektar byggingarinnar eru J.P. Gregoriussen og N.F Truelsen. Húsið er 1.600 m² og í húsinu er jafnframt skrifstofa listafélags Færeyja. Listasafnið er lokað á milli 15. desember til 15. janúar ár hvert. Norðurlandahúsið. Norðurlandahúsið er stofnun hýst í samnefndu húsi í Þórshöfn, sem á að stuðla að og efla menningu Færeyja og hinna Norðurlandanna. Byggingin var hönnuð af Ola Steen og Kolbrúnu Ragnarsdóttur, fullbyggð 1983 og opnuð almenningi sama árs. Þar má finna kaffihús, leikhús og sali sem eru leigðir út til listsýninga og menningatburða. Arkitektúr. Innblástur byggingarinnar kemur frá heimkynnum álfa úr þjóðsögunum. Byggingin er með 2000 m² torflagt þak. Inni í byggingunni er stórt andyri klætt flögubergi frá Noregi. Opin svæði hússins er hægt að skipta niður eða sameina með ljósum, hljóðkerfum og veggjum. Öll herbergin eru lýst upp, fyrir utan 800m² salinn. Burðarveggur byggingarinnar er í salnum og er úr steinsteypu. Aðrir veggir byggingarinnar eru úr stáli. Efniviður byggingarinnar kemur frá nokkrum norðurlandanna. Gólf herbergjana eru úr sænskri furu, loftið úr dönskum aski og hurðirnar úr finnsku birki. Summarfestivalurin. Summarfestivalurin er tónlistarhátíð haldin á hverju sumri utan við Klakksvík í Færeyjum. Fyrsta hátíðin var haldin í ágúst 2004 með 3.000 áhorfendur. Sumarfestivalurin og G! Festival eru stærstu tónlistarhátíðir færeyja. Hátíðin var stofnuð af Steinthór Rasmusen. 2010 voru 12.000 miðar seldir inn á hátíðina. Sveitarfélagið Þórshöfn. Sveitarfélagið Þórshöfn er sveitarfélag í Straumeyjarsýslu. Það nær yfir suðurhluta Straumeyjar og aðliggjandi smáeyjar. Þéttbýliskjarnar eru 18 talsins og stærstir þeirra eru Hoyvík, Argir og Þórshöfn. Sveitarfélagið nær að endamörkum Sveitarfélagsins Sunda og Sveitarfélagsins Kvívík í norðri. Íbúafjöldi sveitarfélagsins er 19.919 (2011). Saga. Þórshöfn er gamall staður frá landnámi. Þá var haldið höfuðþing færeyinga á Tinganesi. Þórshöfn liggur í miðju eyjanna og með þingsetunni gerðist Þórshöfn viðskiptamiðstöð færeyja. Á nesinu voru geymsluhús og verkunarhús og hér fór allur vöruflutningur frá Færeyjum til annara landa. Á nesinu og á ströndum Eystaruvág var byggðin. Íbúafjöldinn fór að aukast og var orðinn 850 þegar einokunarverslunin var afnumin 1856. En staðurinn hafði ekki eigið stjórsýsluvald og var ekki bær og heyrði því beint undir danska ríkið þegar lögþingið var aflagt á árunum 1816-1852. Sveitarfélagið var stofnað 16. febrúar 1866, þegar Þórshöfn varð höfuðborg Færeyja. Til hennar tilheyrði syðsti hluti Straumeyjar og eyjarnar Húsagarður og Álaker. Fimm menn eru í bæjarstjórn sveitarfélagsins. Nágrannabæir Þórshafnar, Argir og Hoyvík eru samvaxnir bænum. Sveitarfélögin Hestur, Kirkjubøur og Nólsoy sameinuðust sveitarfélaginu í janúar 2005. Stjórnmál. Sjö nefndir eru í sveitarfélaginu: sjávarútvegsnefnd, félagsmálanefnd, tækninefnd, skipulags- og byggingarnefnd, menntanefnd, heilbrigðisnefnd og hafnamálanefnd. Þingið var fyrst valið af almenningi árið 1908. Síðustu kosningar í sveitarfélaginu voru 11. nóvember 2008. Allir flokkar nema Sjálfstjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn og Grundstykkjalistinn komust inn á þing. Borgarstjóri sveitarfélagsins er Heðin Mortensen fyrir Jafnaðarflokkurinn. Sveitarfélagið Klakksvík. Sveitarfélagið Klakksvík er sveitarfélag í Norðureyjasýslu. Það nær yfir Svínoy, norðurhluta Kalsoy og megninu af Borðey. Þéttbýliskjarnar eru 6 talsins. Á Borðey er Klakksvík, Árnafjörður og Ánir. Á Kalsoy er Mikladalur og Trøllanes. Á Svínoy er samnefnt þorp Svínoy. Sveitarfélagið nær að endamörkum Sveitarfélagsins Hvannasund á Borðey og endamörkum Sveitafélagsins Húsa á Kalsoy. Íbúafjöldi sveitarfélagsins er 4.817 (2011). Saga. 1850 var Færeyjum skipt í 8 sýslur og Klakksvík var saman með hinum Norðuroggjunum. Við konungskipunina 1873 var megnið af sveitarfélögum færeyja stofnuð, öll nema Sveitarfélagið Þórshöfn sem hafði verið stofnað árið 1866. 1860 var íbúafjöldinn 200. Íbúafjöldinn tók að aukast og árið 1908 var íbúafjöldinn orðinn 700. 11. júní 2007 var ákveðið að Svínoy yrði sameinuðuð sveitafélaginu eftir sveitarfélagskosningarnar. Svínoy varð formlega hluti af sveitarfélaginu 1. janúar 2009. Stjórnmál. Síðustu kosningar í sveitarfélaginu voru 11. nóvember 2008. Sjálfstjórnarflokkurinn og Fólkaflokkurinn mynduðu merihluta. Gunvá við Keldu úr Fólkaflokknum er borgarstjóri og varaborgarstjóri er Jógvan Skorheim úr Sjálfstjórnarflokknum. Sveitarfélagið Tvøroyri. Sveitarfélagið Tvøroyri er sveitarfélag í Suðuroysýslu. Það er á austur strönd Suðureyjar fyrir miðju. Þéttbýliskjarnar eru fjórir: Froðba, Tvøroyri, Trongisvágur og Øravík. Sveitarfélagið nær að endamörkum Sveitarfélagsins Hovs og Sveitarfélagsins Porkels til suðurs, Sveitarfélagsins Fámjin til vesturs og Sveitarfélagsins Hvalbiar til norðurs. Stjórnmál. Síðustu sveitarstjórnarkosningar voru haldnar 11. nóvember 2008. Fellelisten var sameiginlegur framboðslisti og samanstóð af Fólkaflokknum, Sambandsflokknum og Þjóðveldisflokknum. Jafnaðarflokkurinn er einn í meirihluta. Borgarstjóri er Kristin Michelsen og varaborgarstjóri er Malla Dam. Þau sita bæði fyrir Jafnaðarflokkinn. Sveitarfélagið Fuglafjörður. Sveitarfélagið Fuglafjörður er sveitarfélag í Austureyjasýslu. Það tegir sig frá Sveitarfélaginu Eystur í suðri til Sveitarfélagsins Runavíkur í norðri. Þéttbýliskjarnar eru Fuglafjörður og Hellur. Sveitafélagið var slitið frá sveitarfélögunum Eystur og Leirvík 1918. Íbúafjöldi sveitarfélagsins er 1.530 (2011). Stjórnmál. Síðustu kosningar í sveitarfélaginu voru 11. nóvember 2008. Sveitarfélagið Nes. Sveitarfélagið Nes er sveitarfélag í Austureyjarsýslu. Það nær yfir syðsta hluta Austureyjar. Þéttbýliskjarnar eru Toftir, Nes og Saltnes. Sveitarfélagið umlykur tvö af svæðum sveitarfélagsins Runavíkur og nær jafnframt að endimörkum sama sveitarfélags í norðri. Sveitarfélagið var skilið frá Sveitarfélaginu Skála árið 1967. Sveitarfélagið er meðal þeirra smæstu að stærð, en er annað þéttasta sveitarfélag færeyja. 1. janúar 2011 voru 1.263 íbúar í sveitarfélaginu. Borgarstjóri sveitarfélagsins er Símun Johannessen. Kröflustöð. Kröflustöð er 60MW jarðgufuvirkjun á háhitasvæðinu við Mývatn á Norðurlandi eystra og er hún jafnframt fyrsta stórvirkjun jarðgufu til rafmagnsframleiðslu á Íslandi en áður var byggð 2,5 MW jarðgufustöð í Bjarnarflagi. Kröflustöð er rekin af Landsvirkjun. Forsaga. Vegna viðvarandi orkuskorts á Norðurlandi á áttunda áratugnum, þar sem víða þurfti að nota díselvélar til rafmagnsframleiðslu með tilheyrandi kostnaði, var lagt mikið kapp á að finna ákjósanlega virkjanakosti fyrir Norðurland.Eftir Laxárdeiluna svonefndu, sem varð til þess að fallið var frá frekari áformum um stækkun Laxárvirkjunar, var Kröflunefnd skipuð af þáverandi Iðnaðarráðherra, Magnúsi Kjartanssyni, 21. júní 1974. Kröflunefnd var ætlað að undirbúa jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall. Tilraunaboranir voru hafnar sama ár og strax sumarið eftir var byrjað að reisa mannvirki, boraðar vinnsluholur og keyptar tvær 30 MW vélasamstæður frá Mitsubishi Heavy Industries í Japan. Þá gerðu áætlanir ráð fyrir að raforkuframleiðsla hæfist fyrir árslok 1976 á annarri vélasamstæðunni en það gekk ekki eftir. Kröflueldar setja strik í reikninginn. Á sama tíma og framkvæmdir voru að hefjast um mitt ár 1975 varð mikil aukning í skjálftavirkni á Kröflusvæðinu sem náði hámarki 20. desember 1975 þegar eldgos hófst við Leirhnjúk, rúmum kílómetra frá þar sem verið var að reisa stöðvarhús Kröfluvirkjunar. Þetta litla hraungos var upphafið af Kröflueldum þar sem kvika streymdi inn í kvikuhólf undir Kröfluöskjunni. Þegar þrýstingur varð nógu mikill í kvikuhólfinu varð kvikuhlaup þar sem hluti kvikunnar hljóp í sprungureinar sem opnuðust. Þetta gerðist um 24 sinnum næstu níu árin og þar af rann hraun ofanjarðar níu sinnum. Á meðan á þessu stóð varð landris og landsig áberandi með tilheyrandi jarðhræringum bæði í Kröfluöskjunni þar sem stöðvarhúsið stendur og í kringum hana, því fóru menn fljótt að velta fyrir sér áhættunni við áframhaldandi framkvæmdir. Í framhaldi af Kröflueldum. Þegar ljóst var að litlar líkur væru á að hraun myndi renna í átt að Kröflustöð var ákveðið að halda áfram þeim framkvæmdum er stuðluðu að verndum og viðhaldi þeirra mannvirkja sem þegar höfðu risið eða voru hálfkláruð gegn jarðskjálftum. Þar má nefna að stöðvarhúsið var þá aðeins fjórir veggir en átti fullklárað að þola jarðskjálfta upp á sjö stig á Richter og þakið að þola tveggja metra þykkt öskulag. Fjölmiðlar einkenndust þó af miklum deilum um hvort rétt væri að verja áfram fjármunum í virkjun á svo hættulegu svæði. Gufuöflun fyrir gangsetningu Kröflustöðvar gekk illa í kjölfar Kröfluelda. Borholur skemmdust vegna jarðhræringa og kvikugass, sem tærði fóðringar og eyðilagði. Það var ekki fyrr en í ágúst 1977 sem fyrri vélasamstæðan var fyrst gangsett en vegna gufuskorts hófst rafmagnsframleiðsla ekki fyrr en í mars 1978 og þá var framleiðslan aðeins um 6-8MW. Það entist þó ekki lengi og var framleiðslan af og á næstu árin. Upp úr 1980 voru nýjar holur boraðar og í lok níunda áratugarins þegar Kröflusvæðið fór að róast voru komnar 24 borholur og framleiðslan búin að ná fullum afköstum á einni vélasamstæðu. Ekki var talin þörf á að setja upp seinni vélasamstæðuna þá þar sem eftirspurn eftir orku hafði dvínað. Á meðan á þessu gekk urðu tvisvar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi virkjunarinnar en 1. janúar 1979 tóku Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK) við rekstrinum af Kröflunefnd og síðan keypti Landsvirkjun loks Kröflustöð 1. janúar 1986. Full afköst. Á árunum 1995 – 1996 jókst eftirspurn eftir rafmagni á ný og Landsvirkjun hóf þá undirbúning að uppsetningu seinni vélasamstæðunnar, sem hafði verið í geymslu í um 20 ár. Þá höfðu tækniframfarir verið miklar og í stað þess að bora beint ofan í jörðina var notast við skáborun, sem bar mikinn árangur við gufuöflun. Þannig voru boraðar nýjar holur og margar eldri holur lagfærðar og fékkst þá næg orka til að keyra báðar vélarnar á fullu afli eða 60 MW eins og var áætlað í upphafi. Einnig var settur upp nýr og betri stjórn- og rafbúnaður og seint í nóvember 1997, var seinni vélasamstæðan gangsett á hálfum afköstum og náði hún fullum afköstum árið 1999. Í framhaldinu stóð síðan til að stækka stöðina enn frekar og bæta við þriðju vélasamstæðunni svo framleiðslan næði allt að 100 MW, en enn hefur ekki orðið að því. Tæknilegar upplýsingar. Kröflustöð er Tveggja þrepa gufuvirkjun, en það þýðir að gufan frá borholunum er hreinsuð og hún skilin að í háþrýsti- og lágþrýstigufu. Háþrýstigufan er leidd að innri blöðum hverfils sem knýr rafal og lágþrýstigufan er leidd að ytri blöðunum en þannig nást mun betri afköst með hverflinum. Fyrir Kröflustöð hafa alls verið boraðar 34 borholur á þremur svæðum, Suðurhlíðum, Hveragili og Leirbotnum. Af 34 borholum eru tólf ónýtar/ónothæfar, sautján háþrýstiborholur sem gefa 110 kg/s af gufu við 7,7 bara þrýsting og fimm lágþrýstiborholur sem gefa 36 kg/s af gufu við 2,2 bara þrýsting. Dýpsta borholan nær 2.222 metra ofan í jörðina. Þessi gufa knýr tvær 30 MW Mitsubishi vélasamstæður sem framleiða um 480GWh á ári en framleiðslan er stöðvuð yfir sumarmánuðina vegna viðhalds. Leslie Mann. Leslie Mann (fædd 26. mars 1972) er bandarísk leikkona. Vestfjarðagöng. Vestfjarðagöng eru þríarma jarðgöng undir Botnsheiði og Breiðadalsheiði milli Ísafjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar á Vestfjörðum. Göngin tengja saman byggð á Ísafirði, Suðureyri og Flateyri. Göngin voru vígð 14. september 1996. Þau eru 9.120 m og voru lengstu jarðgöng á Íslandi þar til Héðinsfjarðargöngin voru opnuð. Tungudalsleggur (sem liggur frá Skutulsfirði) er um 2.000 m langur, Breiðadalsleggur (sem liggur frá Önundarfirði) er um 4.000 m og Botnsdalsleggur (sem liggur frá Súgandafirði) er um 3.000 m. Göngin eru tvíbreið á um 2000 m kafla en annars einbreið með útskotum. Göngin voru byggð á árunum 1991 – 1996. Mikið vatnsmagn kom upp í göngunum og tafði það byggingu ganganna. Vatn í göngunum er nú nýtt af vatnsveitu Ísafjarðarbæjar og afrennslisvatnið í göngunum hefur verið virkjað í Tungudalsvirkjun. Neysluvatn fyrir Ísafjörð og Hnífsdal kemur úr jarðgöngunum og er meðalnotkun um 150 lítrar á sekúndu. Afrennsli ganganna eftir vatnstöku vatnsveitu er á bilinu 500 til 700 lítrar á sekúndu. Breiðadalsheiði. Breiðadalsheiði er heiði milli Önundarfjarðar og Skutulsfjarðar. Yfir heiðina lá einn hæsti fjallvegur Íslands í 610 m hæð og var hann í notkun þangað til Vestfjarðagöngin voru opnuð. Breiðadalsheiði þótti alla tíð erfiður fjallvegur og snjóflóð voru tíð á heiðinni. Deila og drottna. Að deila og drottna (latína: "divide et impera", „deildu og drottnaðu“) er stjórnunaraðferð og hernaðarlist sem byggir á því að sá sem henni beitir reynir að kljúfa andstæðinga sína í hópa og hindra það að hópar andstæðinga hans geti tengst saman og myndað eina heild. Hugtakið er upprunnið hjá Rómverjum sem gerðu það að hornsteini utanríkisstefnu sinnar. Marc Vann. Marc Vann (fæddur 23. ágúst 1954) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Conrad Ecklie í. Einkalíf. Vann er fæddur og uppalinn í Norfolk í Virginíu í bandaríkjunum. Hafði hann lítinn áhuga á leiklist eða leikhúsi fyrr en hann kynntist listinni gegnum látbragðsleik. Vann var framkvæmdastjóri fyrir hið þekkta "Hubbard Street Dance Chicago" í fimm ár. Ferill. Vann byrjaði ferill sinn í leikhúsum áður en hann fluttist til Los Angeles til að byrja feril sinn sem sjónvarpsleikari. Var hann mjög aktívur í svæðisleikhúsum í Chicago eins og: Wisdom Bridge Theatre og Center Theatre. Fyrsta hlutverk hans í sjónvarpi er í Early Edition frá 1996, sem Phil Pritchard. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í mörgum af vinsælustu sjónvarpsþáttum nútímans: JAG, The Shield, Angel, Criminal Minds, Grey's Anatomy og Lost. Hefur síðan 2000 verið reglulegur gestaleikari í sem Conrad Ecklie. Vann hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: Ghost World, Extreme Walking og I Now Pronounce You Chuck & Larry. Tenglar. Vann, Marc HSH9. Gunnar Ormslev - Alfreð Clausen er 78 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1953. Á henni flytja Gunnar Ormslev og Alfreð Clausen með hljómsveit tvö lög. Upptaka: Radíó- & raftækjastofan. Hljómsveitina skipa: Björn R. Einarsson básúna, Gunnar Ormslev tenór sax, Ólafur Gaukur gítar, Jón Sigurðsson bassi, Magnús Pétursson píanó og G.R. Einarsson trommur. Heimastjórnarlögin 1948. Heimastjórnarlögin 1948 er millilandasáttmáli sem var gefin út 31. mars 1948 á milli Færeyja og Danmerkur. Lögin tóku gildi 1. apríl 1948 eftir að Danmörk hafði verið hersetin af Þýskalandi og Færeyjar af Bretum. Lögin voru sett eftir þjóðaratkvæðigreiðslu um lögin sem leiddu af sér þingskosningar 8. nóvember 1946 og samningsumleitanir nýs þingsmeirihluta og dönsku stjórnarinnar. Lögin segja til um hversu mikið löggjafarvald Danmörk hefur í Færeyjum. Með lögunum eru færeyjar sjálfstjórnarhérað í Danska konungsríkinu og heimastjórn færeyja hefur löggjafar- og stjórnunarvald. Færeyjingar kjósa þingmenn færeyska lögþingsins og tvo meðlimi í Þjóðþing Danmerkur. Þjóðerni færeyinga er með lögunum tilgreint í nafnskírtenum og vegabréfum. Færeyingar hafa danskan ríkisborgararétt. Færeyski fáninn er viðurkenndur sem opinber fáni eyjanna og færeyska sem opinbert tungumál eyjanna. Dómarar hæstaréttar eru skipaðir af tveimur fulltrúum ríkisins og tveimur fulltrúum færeyska lögþingsins. Þinganes. Þinganes. Rauðu húsin fremst á myndinni eru öll nýtt af færeysku landsstjórninni. Þinganes (færeyska: "Tinganes") er elsti hluti Þórshafnar í Færeyjum, lítið nes sem gengur út í víkina sem bærinn stendur við og skiptir henni í Eystaravág og Vestaravág. Þar var þing Færeyinga haldið frá fornu fari. Talið er líklegt að það sé eldra en Alþingi Íslendinga þótt engar heimildir séu til um stofnun þess. Aðsetur þingsins er nú annars staðar í bænum en færeyska landsstjórnin hefur aðsetur í Skansapakkhúsinu, sem stendur fremst á nesinu. Aðalaðsetur dönsku einokunarverslunarinnar í Færeyjum var öldum saman á nesinu og mörg húsanna þar voru reist á hennar vegum á 16. og 17. öld. Klængshóll. Klængshóll í Skíðadal, mynd tekin í mars 2008. Klængshóll er innsti bær í Skíðadal. Bærinn stendur austan Skíðadalsár og tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Fyrr á öldum var bærinn oft nefndur Blængshóll. Klængshólsdalur/Holárdalur skerst inn á milli fjallanna sunnan Klængshóls. Eftir honum rennur Holá og í henni er Holárfoss skammt ofan ármótanna við Skíðadalsá. Ofan bæjarins rísa há fjöll. Þar er Kvarnárdalshnjúkur og innan við hann Dýjafjallshnjúkur (1456 m), hæsta fjall í fjallahring Svarfaðardals. Á Klængshóli er rekið ferðaþjónustufyrirtækið Bergmenn, sem sérhæfir sig í fjallaklifri, fjallaskíðamennsku og þyrluskíðamennsku. Einnig er þar boðið er upp á gönguferðir með leiðsögn í hrikalegu umhverfi Tröllaskagans jafnt að sumri og vetri og ýmis námskeið tengd náttúru og heilsu. Aðaleigandi fyrirtækisins er fjallaleiðsögumaðurinn Jökull Bergmann. Anna Dóra Hermannsdóttir, jógakennari og leiðsögumaður og Örn Arngrímsson, höfuðbeina- og spjaldhryggjarþerapisti, eru einnig með starfsemi á Klængshóli. Norðeyjar. Norðeyjar eru eyjarnar sex sem liggja nyrst og austast af Færeyjum. Þetta eru Fugloy, Svínoy, Viðoy, Borðoy, Kunoy og Kalsoy. Viðey, Borðoy og Kunoy er tengdar saman með vegfyllingum yfir mjó og grunn sund og síðan við syðri og vestari eyjar Færeyja með jarðgöngum. Til Fugloyar, Svínoyar og Kalsoyar verður einungis komist með báti eða þyrlu. Á flestum eyjanna eru há og brött fjöll og sjö af tíu hæstu tindum Færeyja er þar að finna. Undirlendi er víðast lítið. Flatarmál Norðeyja er 241 km² og íbúarnir eru tæplega 6.000. Á Borðoy er Klakksvík, næststærsti bær Færeyja, og þar búa um 80% allra íbúa Norðeyja, en flestar aðrar byggðir eru litlar og sumar mjög fámennar. Íbúum hefur farið fækkandi á minni eyjunum og í afskekktari byggðum á síðustu árum. Íbúar Norðeyja tala mállýsku sem er svolítið frábrugðin máli annarra Færeyinga. Eyjarnar eru sérstök sýsla og voru sérstakt kjördæmi til 2008. Lögþingsformaður. Lögþingsformaður stýrir fundum Lögþings Færeyja. Lögþingsformaður er kosinn af Lögþinginu. Hergeir Nielsen er núverandi lögþingsformaður. Hann er þingmaður Þjóðveldisflokksins. Frá stofnun Lögþingsins á 9. eða 10. öld og þar til það var aflagt 1816 var lögsögumaður og síðar lögmaður í þeirri stöðu að stjórna fundum lögþingsins. Eftir að lögþingið var endurreist 1852 stýrði amtmaður fundum þingsins. Amtmaður var fulltrúi konungs. Þetta breyttist 1923 þegar Lögþingið fékk leyfi að kjósa sinn eigin formann. Lögþingsformaður og Landsstjórn Færeyja eru kosin á fjögurra ára fresti, strax eftir lögþingskosningar. Fyrsti lögþingsformaðurinn var Oliver Effersøe fyrir Sambandsflokkinn, kosinn 1924. Elsti kjörni lögþingsformaður var Jørgen Thomsen fyrir Jafnaðarflokkinn sem var 63 ára þegar hann var kjörinn 1990. Allir lögþingsformenn hafa verið fulltrúar einhvers af fjórum stærstu flokka færeyskra stjórnmála, Sambandsflokksins, Sjálfstjórnarflokksins, Jafnaðarflokksins eða Þjóðveldisflokksins. Lögþingskosningar. Úrslit lögþingskosninga 1962-2008. Sýnd eru þau framboð sem náð hafa mönnum á þing tvisvar eða oftar í röð. Lögþingskosningar eru kosningar til færeyska löggjafarþingsins, lögþingsins. Lögþingskosningar fara að jafnaði fram á fjögurra ára fresti nema þing sé rofið áður en kjörtímabili lýkur. Kosningarnar eru listakosningar, fulltrúar eru valdir af framboðslistum í samræmi við fjölda atkvæða. Frá 2008 hefur landið verið eitt kjördæmi. Eftir lögþingskosningar er valinn lögþingsformaður sem er forseti þings og lögmaður sem er forsætisráðherra. Síðustu kosningar. Í lögþingskosningunum 2011 voru 33 þingmenn kjörnir. Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn bættu við sig einum manni. Framsókn bauð fram í fyrsta skipti og fékk 2 þingmenn. Þjóðveldisflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstjórnarflokkurinn töpuðu allir fylgi. Sambandsflokkurinn, Fólkaflokkurinn, Sjálfstjórnarflokkurinn og Miðflokkurinn mynduðu stjórn að kosningum loknum. Meirihlutinn samanstendur af 19 þingmönnum af 33 og lögmaður er Kaj Leo Johanesen úr Sambandsflokknum. Lögþingiskosningar 2008. Í lögþingiskosningunum 2008 voru 33 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Jóannes Eidesgaard og lögþingsformaður Hergeir Nielsen. Jafnaðarflokkurinn tapaði fylgi, Sjálfstjórnarflokkurinn og Miðflokkurinn bættu við sig 1 þingmanni og Fólkaflokkurinn, Sambandsflokkurinn og Þjóðveldisflokkurinn héldu sama fjölda þingmanna frá síðustu kosningum. Jafnaðarflokkurinn, Þjóðveldisflokkurinn og Miðflokkurinn mynduðu stjórn að kosningunum loknum. Meirihlutinn samanstóð af 17 þingmönnum og hann sprakk haustið 2008. Jafnaðarflokkurinn, Fólkaflokkurinn og Sambandsflokkurinn mynduðu nýjan þingmeirihluta sem samanstendur af 20 þingmönnum af 33. Nýr lögmaður er Kaj Leo Johannesen úr Sambandsflokknum. Lögþingiskosningar 2004. Í lögþingiskosningunum 2004 voru 32 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Jóannes Eidesgaard og lögþingsformaður Edmund Joensen. Sambandsflokkurinn tapaði fylgi, Miðflokkurinn bætti við sig 1 þingmanni og aðrir flokkar héldu sama fjölda þingmanna frá síðustu kosningum. Lögþingiskosningar 2002. Í lögþingiskosningunum 2002 voru 32 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Anfinn Kallsberg og lögþingsformaður Edmund Joensen. Fólkaflokkurinn og Sjálfstjórnarflokkurinn töpuðu fylgi, Sambandsflokkurinn og Miðflokkurinn bættu við sig þingmönnum og Jafnaðarflokkurinn og Þjóðveldisflokkurinn héldu sama fjölda þingmanna frá síðustu kosningum. Lögþingiskosningar 1998. Í lögþingiskosningunum 1998 voru 32 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Anfinn Kallsberg og lögþingsformaður Finnbogi Ísakson. Sambandsflokkurinn og Miðflokkurinn tapaði fylgi, Fólkaflokkurinn bætti við sig 2 þingmönnum og Jafnaðarflokkurinn, Sjálfstjórnarflokkurinn, Þjóðveldisflokkurinn hélt sama fjölda þingmanna frá síðustu kosningum. Lögþingiskosningar 1994. Í lögþingiskosningunum 1994 voru 32 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Edmund Joensen og lögþingsformaðurinn Jógvan Ingvard Olsen. Fólkaflokkurinn, Jafnaðarflokkurinn, Sjálfstjórnarflokkurinn og Framburðsflokkurinn töpuðu fylgi, Sambandsflokkurinn og Þjóðveldisflokkurinn bættu við sig þingmönnum. Miðflokkurinn fékk sinn fyrsta þingmann í kosningunum. Lögþingiskosningar 1990. Í lögþingiskosningunum 1990 voru 32 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Atli P. Dam og lögþingsformaður Jorgin Thomsen. Sambandsflokkurinn, Fólkaflokkurinn og E töpuðu fylgi, Jafnaðarflokkurinn og Sjálfstjórnarflokkurinn bættu við sig þingmönnum og Framburðsflokkurinn hélt sama fjölda þingmanna frá síðustu kosningum. Marita Petersen tók við sem lögþingsformaður 18. janúar 1993. Skipt var um lögþingsformann tvisvar, Anfinn Kallsberg tók við 1991 og Lasse Klein árið 1993. Lögþingiskosningar 1988. Í lögþingiskosningunum 1988 voru 32 þingmenn kjörnir. Lögmaður var Jógvan Sundstein og lögþingsformaður Jógvan Sundstein. Jafnaðarflokkurinn tapaði fylgi, Fólkaflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og aðrir flokkar héldu sama fjölda þingmanna frá síðustu kosningum. Skipt var um lögþingsformann tvisvar, Hergeir Nielsen tók við 1989 og Agnar Nielsen árið 1990. Jökulsstaðir. Jökulsstaðir í Vatnsdal, einnig þekkt sem Tunga eða Tunga hinn efri er fornt eyðibýli frá landnámsöld. Samkvæmt Vatnsdælasögu byggði Jökull Ingimundarson, sonur Ingimundar gamla þar bæ sinn. Bærinn liggur upp á meltagli sunnan ofan við bæinn í Þórormstungu og eru þar fornar bæjartóftir. Þaðan er víðsýnt um allan Vatnsdal og út í Þing. Á Jökulsstöðum er að finna tóftaleifar og garðlög í kring sem verið hafa utan um tún á bænum Má ætla að bæjarhóllinn geymi menjar fornbýlis en ljóst er að byggingar frá síðari öldum hafa staðið á hólnum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir um Jökulsstaði að þar sé "fornt eyðiból [sem] hefur um langan aldur aldrei byggt verið. Þar er nú stundum stekkur, stundum fjárhús frá heimajörðinni". Haustið 2004 fór fram minni háttar fornleifakönnun á staðnum þegar snið var tekið í gegnum túngarðinn. Var marmiðið að greina aldur hans út frá gjóskulögum. Virðist vera um tvö byggingarstig að ræða. Í torfi eldra lagsins var að finna hið svokallaða landnámslag frá 871 e.Kr. og er garðurinn því yngri en það. Í torfi yngra byggingarskeiðsins var gosaska úr Heklu frá 1104 e.Kr. og hefur garðurinn því verið gildaður upp eftir það gos. Enga gosösku var að finna ofan við garðinn. Minjarnar voru friðlýstar af þjóðminjaverði árið 1930. Söguskiltið er við veginn sem liggur inn í Kárdalstungu, innst í Vatnsdal. Stutt gönguleið er að rústunum sem eru upp á meltaglinu þar fyrir ofan. Miðflokkurinn. Miðflokkurinn (færeyska: "Miðflokkurin") er færeyskur stjórnmálaflokkur, stofnaður þann 3. maí 1992. Flokkurinn er klofningsframboð úr Kristilega fólkaflokknum. Flokkurinn er miðjuflokkur og sjálfstjórnarflokkur með kristileg gildi. Árið 1994 fékk flokkurinn kjörinn einn mann inn á færeyska lögþingið, engann næsta kjörtímabil á eftir en hefur síðan átt þingmenn þar síðan. Mest hefur flokkurinn fengið þrjá þingmenn, í síðustu kosningum 2008. Grettislaug. Grettislaug er heit laug rétt við sjóinn í landi Reykja á Reykjaströnd, kennd við Gretti Ásmundarson, en sagt er að hann hafi eftir Drangeyjarsund sitt „bakast þar lengi um nóttina, því honum var kalt orðið eftir sundið nokkuð svo“. Allt fram á 20. öld voru laugarnar tvær, önnur hlaðin upp og notuð til þvotta og kallaðist Reykjalaug en hin lítill pollur sem nefndur var Grettislaug. Haustið 1934 gerði mikið óveður á Skagafirði og eyðilögðust laugarnar þá báðar í brimi, því sjávarkamburinn færðist ofar. Heita vatnið kom þá upp sjávarmegin við hann. Árið 1992 var laugin svo endurgerð að undirlagi Jóns Eiríkssonar Drangeyjarjarls, bónda á Fagranesi, hlaðin upp og varnargarður gerður fyrir framan hana. Síðan hefur hún kallast Grettislaug. Laugin er um 4,5 s 3,75 m og um 80 cm djúp. Vatnið er um 42°C heitt. Staðarfjöll. Staðarfjöll er heiti á afréttarlandi í vestanverðum Skagafirði, milli Sæmundarhlíðar í austri og Laxárdalsfjalla í vestri. Meginhluti Staðarfjalla tilheyrði áður Reynistað og er svæðið kennt við hann og stundum kallað Reynistaðarfjöll. Það er nú hluti af Reynistaðarafrétt og er í eigu nokkurra hreppa í vestanverðum Skagafirði. Vestast í Staðarfjöllum er Víðidalur, um 15 kílómtra langur og liggur að mestu frá norðri til suðurs. Norðaustur úr honum er Hryggjadalur og telst fremsti hluti hans til Staðarfjalla. Austan við Víðidal er Háheiði, mikið fjallaflæmi, um 10 km langt, og austan hennar eru minni dalir, Rangali og Miðdalur nyrst, svo Vatnadalur og Valbrandsdalur en syðst Þröngidalur. Þar austur af eru Sæmundarhlíðarfjöll og norður af þeim Staðaröxl, fjallið upp af Reynistað. Í Víðidal virðist hafa verið töluverð byggð á miðöldum en hún er sögð hafa farið í eyði, annaðhvort í Svarta dauða 1402 eða plágunni síðari 1495-1496 og eftir það voru oftast aðeins einn eða tveir bæir byggðir þar. Hryggir á Staðarfjöllum, sem voru í Hryggjadal, fóru í eyði 1913, og Gvendarstaðir, ysti og lengst af eini bær í Víðidal, fór í eyði 1898. Víðidalur á Staðarfjöllum. Víðidalur á Staðarfjöllum er eyðidalur á sýslumörkum Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu og er hluti af Staðarfjöllum, afréttarlandi sem tilheyrði áður Reynistað að mestu. Dalurinn liggur sem næst frá norðri til suðurs og er rúmlega 15 km langur. Hann er að mestu leyti í 250-320 metra hæð yfir sjávarmáli, nokkuð breiður og dalbotninn sumstaðar vel gróinn. Á miðöldum virðist hafa verið nokkur byggð í Víðidal og á einum bænum, Helgastöðum, var kirkja eða að minnsta kosti bænhús. Engar skjalfestar heimildir eru þó til um þessa byggð fyrr en í bréfi frá Birni Jónssyni fræðimanni á Skarðsá frá miðri 17. öld og ekki er víst hvenær byggðin lagðist í eyði; ýmist er sagt að það hafi verið í Svarta dauða eða plágunni síðari. Á síðari öldum var aðeins einn bær í byggð í Víðidal, Gvendarstaðir. Þeir voru nyrst í dalnum og fóru í eyði 1898. Af sumum hinna bæjanna sjást enn einhverjar rústir eða tún en þær eru sagðar hafa verið: Þverá, Svartagil, Rauðagil, Þúfnavellir, Helgastaðir, Hrafnagil og hugsanlega Atlastaðir. Á Þúfnavöllum í Víðidal er nú skáli Ferðafélags Skagfirðinga. Amfetamín. Amfetamín er örvandi efni úr flokki feneþílamína. Efnið eykur athygli og einbeitingu, dregur úr svefnþörf, minnkar matarlyst ásamt því að veita vellíðan og vímu. Efnið er notað sem lyf við ýmsum kvillum þá aðalega undir heitunum Adderall, Dexedrine, Dextrostat, Desoxyn, áður var það nefnt Benzedrine í lækna og lyfjageiranum. Nafnið amfetamín er dregið af efnafræðilega heiti efnisins alpha-methylphenethylamine. Efnið hefur einnig orðið vinsæll og ólöglegur vímugjafi meðal almennings og þekkist þá undir fjölmörgum "götunöfnum" þau þekktustu eru "spítt" og "hraði", nöfn dregin af örvandi hegðun og hugsun sem fylgir notkun efnisins, en það líkt og fleiri vímugjafar hefur einnig áhrif á tímaskyn. Montreux. Montreux er þriðja stærsta borgin í kantónunni Vaud í Sviss. Hún er þekkt fyrir tónlistarviðburði og afar fagurt fjallaumhverfi. Lega og lýsing. Montreux liggur við austurenda Genfarvatns, austarlega í kantónunni. Næstu borgir eru Lausanne til vesturs (30 km), Bern til norðurs (80 km) og Sion til suðausturs (70 km). Um 75% íbúanna eru frönskumælandi. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Montreux er samsett úr bæjunum Châtelard og Les Planches. Kirkjan til hægri er aðalkirkjan í Montreux í dag. Orðsifjar. Heitið Montreux er dregið af orðinu monasterium, sem merkir klaustur. Engifer. Engifer er jarðstöngull jurtarinnar Zingiber officinale sem er notað sem krydd, til lækninga og sem sælgæti. Engiferjurtin er fjölær og vex villt í í suðaustan Asíu og er ræktun á hitbeltissvæðum eins og Jamaíka. Blómin eru fölgræn til fjólublá. Jurtin er meðal annars notuð til að bæta meltingu. Kelsos. Kelsos (Gríska: "Κέλσος") var forngrískur heimspekingur á 2. öld og andstæðingur kristnidómsins. Rit hans "Orð sannleikans" (Λόγος Ἀληθής) er elsta allsherjar árás á hina kristnu trú en kaflar úr því eru varðveittir í riti Origenesar "Gegn Kelsosi". Sjálfur var Kelsos fylgjandi hefðbundinni grískri heiðni. Kelsos sagði að Jesús hefði verið frá þorpi gyðinga á heilaga landinu, móðir Jesú hafi verið fátæk gyðingastelpa og eiginmaður þessarar stelpu, hefði verið smiður sem hefði rekið hana á brott fyrir framhjáhald við rómverskan hermann sem hét Panthera. Hún hafi eignast lausaleikskrógan Jesú í Egyptalandi, þar hafi hann alist upp og lært ýmiss konar kukl og töfrabrögð og þegar hann sneri aftur hafi hann útnefnt sjálfan sig sem guð. Kynþáttur. Kynþáttur er hugtak sem notað er í víðtæku og margbretyilegu samhengi. Hugtakinu er ætlað að lýsa mismunandi erfðafræðilegum þáttum mannhópa sem hafa einangrast við ákveðin svæði í þróunarsögunni. Notkun hugtaksins er umdeild, að stórum hluta vegna félagsfræðilegs og stjórnmálalegs ágreinings um hver skilgreining á kynþáttum skuli vera, einnig hvort hægt sé að skipta mannkyninu niður í ólíka kynþætti yfirhöfuð. Enn fremur byggir kynþáttahyggja á hugtakinu kynþáttur og getur gert umræðu um kynþætti viðkvæma. Færeysk stjórnmál. Færeysk stjórnmmál lúta að almennri opinberri stjórnun sjálfstjórnar Færeyja, í heild sinni eða einstökum sveitarfélögum. Í Færeyjum ríkir fulltrúalýðræði þar sem Landsstjórn Færeyja lýtur forstöðu Konungs Danmerkur sem er leiðtogi eyjanna og Þjóðþings Danmerkur sem rekur utanríkistefnu eyjanna. Í Færeyjum sitja ráðherrar yfirleitt jafnframt á lögþinginu. Færeysk stjórnsýsla er rekin á tveimur stigum, ríkisvalds og sveitarstjórna og er kosið til beggja á fjagra ára fresti. Hefð er fyrir listakosningu til beggja kosninganna og í rúm 40 ár hafa fimm til sex stjórnmálaflokkar boðið fram lista til lögþingskosninga. Hins vegar hafa fjórir flokkar iðulega náð á bilinu 80-90% atkvæða. Konungur Danmerkur. Konungur Danmerkur er þjóðhöfðingi landsins. Hann hlýtur tign sína í arf, en getur jafnframt verið skipaður af Þjóðþingi Danmerkur. Völd hans í færeyjum takmörkuðust nokkuð þegar að að Heimastjórnarlögin 1948 tóku gildi. Þrískipt ríkisvald. Samkvæmt vestrænni hefð sem á rætur sínar að rekja til frönsku byltingarinnar er ríkisvaldinu skipt í þrennt. Þetta er gert til þess að tryggja það að enginn einn aðili fari með of mikil völd. Löggjafarvaldið. Lögþingið er löggjafarsamlunda Færeyja og þar sitja nú 33 þingmenn í einni deild undir forsæti Lögþingsformanns. Kosið er til lögþingsins á fjögurra ára fresti, ef ekki kemur til þingrofs áður en kjörtímabilinu lýkur. Kosið er samkvæmt hlutfallskosningu þar sem landið er eitt kjördæmi. Framkvæmdarvaldið. Þar sem sjaldgæft er að einn flokkur nái meirihluta í lögþingskosningum er nokkra áratuga hefð fyrir myndun samsteypustjórna í Færeyjum. Meirihlutinn skipar ráðherra sem sitja í Landsstjórn Færeyja. Æðsti handhafi framkvæmdarvalds er Lögmaður og hann staðfestir lög með undirskrift sinni. Dómsvaldið. Í færeyjum eru tvö dómstig héraðsdómur og hæstiréttur. Héraðsdómurinn nær yfir færeyjar í heild sinni og stærri málum er skotið til hæstaréttardómstólsins í Danmörku. Héraðsdómarar eru skipaðir af tveimur fulltrúum ríkisins og tveimur fulltrúum lögþingsins. Hegranesþing. Hegranesþing var vorþing Skagfirðinga á þjóðveldisöld og var haldið í landi jarðarinnar Garðs í Hegranesi. Þar voru einnig haldin fjórðungsþing. Sýslan hafði lengi nafn af þinginu og var kölluð Hegranesþing eða Hegranessýsla. Staðurinn er mjög miðsvæðis í héraðinu og liggur vel við samgöngum bæði af landi og sjó, en talið er að sjór hafi áður náð að brekkunni neðan við þingstaðinn. Þingstaðurinn er um 500 metra út og niður frá bænum Garði og má þar greina nokkra tugi tófta sem flestar eru líklega búðarústir frá þingtímanum. Einnig er þar hringlaga garður sem í ljós hefur komið við uppgröft að er kirkjugarður sem virðist hafa verið í notkun á 11. og 12. öld og einnig má finna merki um túngarð býlis sem hefur verið þarna við þingstaðinn. Hegranesþing kemur við sögu í nokkrum fornsögum, þar á meðal Grettis sögu, þar sem segir frá því að útlaginn Grettir mætti dulbúinn til þings og voru voru boðin full grið um þingtímann ef hann vildi glíma við helstu kappa Skagfirðinga. Þekktasti atburðurinn sem gerðist á Hegranesþingi er þó líklega þegar Skagfirðingar gerðu aðsúg að Álfi úr Króki, sendimanni Noregskonungs, árið 1305. Álfur komst undan við illan leik og hraktist til Eyjafjarðar, þar sem hann dó nokkru síðar. Talið er að þinghaldið hafi lagst af á 14. öld. Þingstaðurinn er friðlýstur en hefur lítið verið rannsakaður enn sem komið er. Benny Andersson. Göran Bror Benny Andersson (fæddur 16. desember 1946 í Stokkhólmi) er sænskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann er best þekktur sem meðlimur í ABBA. Hann er nú mest í hljómsveitinni "Benny Anderssons Orkester (BAO)". Hann starfaði lengi með Birni Ulvaeus í hljómsveitinni ABBA. Þeir hafa samið fleiri söngleiki, þar á meðal "Kristina frá Duvemåla" og "Mamma Mia!", sem kvikmynd var gerð eftir. Andersson, Benny Björn Ulvaeus. Björn Kristian Ulvaeus (fæddur 25. apríl 1945) er sænskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann er þekktur fyrir að vera meðlimur í ABBA og fyrir að vera í langt í gangi samstarf með Benny Andersson. Saman hafa þeir skrifað söngleikjum "Kristina frá Duvemåla" og "Mamma Mia!", sem hefur orðið kvikmynd. Ulvaeus, Björn Mamma Mia! (kvikmynd). Mamma Mia! er bresk-bandarísk söngleikja-kvikmynd frá 2008. Hún er gerð eftir sænska söngleiknum Mamma Mia! eftir Benny Andersson og Björn Ulvaeus. Í söngleiknum eru einungis lög eftir sænsku hljómsveitina ABBA. Melodifestivalen. Melodifestivalen er sænska undankeppnin fyrir Eurovision. Á þessu ári réðust úrslitin þann 12. mars og vann Eric Saade með laginu „Popular“, sem verður framlag Svía í Düsseldorf 12. maí. Keldudalur. Keldudalur er bær í Hegranesi í Skagafirði, sunnan til í Nesinu að vestan. Þar hefur á undanförnum árum farið fram merkur fornleifauppgröftur. Um miðja 19. öld bjó í Keldudal Jón Samsonarson, fyrsti alþingismaður Skagfirðinga, í forystu fyrir ýmsum framfaramálum sveitunga sinna og mikill og góður smiður, smíðaði meðal annars Víðimýrarkirkju. Þegar verið var að grafa fyrir ferðaþjónustuhúsi í Keldudal árið 2002 komu í ljós mannabein og var forminjaverði þegar gert viðvart. Fljótt kom í ljós að þarna var kirkjugarður sem enginn hafði vitað af, enda eru engar heimildir til um kirkju í Keldudal. Garðurinn reyndist vera frá fyrstu öldum kristni; fyrstu grafirnar virðast hafa verið teknar um eða upp úr árinu 1000 en garðurinn var aflagður fyrir 1300. Þar fundust 52 heillegar grafir og þykja beinin hafa varðveist frábærlega, einkum þó beinagrindur ungbarna, sem sjaldan hafa fundist vel varðveittar áður. Talið er að samsetning jarðvegarins geri það að verkum að varðveislan hefur orðin svo góð sem raun ber vitni. Undir garðinum fundust svo skýrar minjar af skála frá landnámsöld og skammt frá fannst kumlateigur úr heiðni. Þar voru meðal annars bein úr háfættum mjóhundi (greyhound) sem ekki hafa áður fundist á Íslandi. Leifar ýmissa fornra mannvirkja hafa komið í ljós við framhaldsuppgröft í Keldudal og þykja þær einstaklega vel varðveittar og Keldudalur einhver áhugaverðasti fundarstaður fornleifa á síðari áratugum á Íslandi. Bjarki Árnason (f.1924). Bjarki Árnason (fæddur 3. maí 1924, dáinn 15. janúar 1984). Fæddur Þingeyingur, sjálfmenntaður harmonikkuleikari sem spilaði fyrir dansi í sinni heimasveit. Bjarki flutti til Siglufjarðar 1943 og bjó þar síðan. Hann starfaði fyrst að Hóli í Siglufirði, síðar sem byggingarmeistari og kaupmaður. Að Hóli samdi hann meðal annars Dísir vorsins 1943 og Hólasveinabrag, sem urðu fljótt mjög vinsæl og fóru um allt land sem „húsgangar“ án þess þó að vera nokkurntíman hljóðrituð. Bjarki var vinsæll dansspilar á síldarárunum á Siglufirði og spilaði mikið, oftast undir sínu eigin nafni, einn eða með öðrum, svo sem Þórði Kristinssyni, Sæmundi Jónssyni, Guðmundi og Þórhalli Þorlákssonum (Gautar) og fleirum. Hann var þekktur hagyrðingur og liggur eftir hann mikið magn af gamanvísum og lausavísum, margar landskunanr. Um 1963 fer Bjarki að gera texta við ýmis lög fyrir karlakórinn Vísir til dæmis Okkar glaða söngvamál, Siglufjörður (lag og texti) og fleiri. Guðmundur Þorláksson (Gauti) sló svo í gegn með texta Bjarka, Sem lindin tær, við erlent lag. Það er svo í kringum 1970 að þeir félagar Bjarki og Þórður Kristinsson leiða saman hesta sína að nýju, hefja ballspilamennsku og stofna upp úr því hljómsveitina Miðaldamenn ásamt Magnúsi Guðbrandssyni og Sturlaugi Kristjánssyni. Á þeim árum semur Bjarki marga dægurlagatexta við erelend lög svo sem Mónika, Ævisaga, Vilt'ekki eiga mig, Kysstu mig og svo framvegis. Archie Kao. Archie Kao (fæddur 14. desember 1969) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í ' og "Power Rangers Lost Galaxy". Einkalíf. Kao er fæddur í Washington í Bandaríkjunum. Hann stundaði nám við George Mason-háskólann. Kao var valinn formaður stúdentaráðsins á meðan hann var við nám. Hann ætlaði sér að stunda lögfræðinám og vinna við stjórnmál áður en hann gerðist leikari. Kao bæði talar og skilur mandarín. Ferill. Kao byrjaði ferill sinn í sjónvarpsþættinum "Maybe This Time" frá 1996. Var árið 1999 boðið hlutverk í "Power Rangers Lost Galaxy" sem Kai Chen/Blue. Hann hefur síðan 2000 komið fram sem reglulegur gestaleikari í ' sem tölvutæknimaðurinn Archie Johnson. Kao hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: "The One", "Thank Heaven" og "The Hills Have Eyes II". Tenglar. Kao, Archie Gerald McCullouch. Gerald McCullouch (fæddur 30. mars 1967) er bandarískur leikari, leikstjóri, handritshöfundur og söngvari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í ' sem Bobby Dawson. Einkalíf. McCullouch fæddist í Huntsville, Alabama í Bandaríkjunum og er af írskum og skoskum uppruna. Fyrsta hlutverk hans fékk hann aðeins aðeins 16 ára sem söngvari í vestrarevíu við Six Flags Over Georgia. Hafnaði hann námsstyrk við Savannah College of Art and Design til þess að stunda nám við Ríkisháskólann í Flórída á BFA Musical Theatre-námsbrautinni. Eftir að hafa lifað af alvarlegt bílslys á öðru ári sínu sem skildi hann eftir í dauðadái, þá byrjaði hann feril sinn í Atlanta, Georgíu. McCullouch kom fram sem uppistandari á hinum fræga stað "Improv". McCullouch er samkynheigður og hefur bæði leikstýrt og leikið í mörgum samkynheigðum uppfærslum. Ferill. Fyrsta hlutverk McCullouch var í sjónvarpsþættinum "In the Heat of the Night" frá árinu 1990. Hefur síðan þá komið fram í sjónvarpsþáttum á borð við: "Melrose Place", "NCIS" og '. Hann hefur frá árinu 2000 verið með reglulegt gestahlutverk í ' sem skotvopnasérfræðingurinn Bobby Dawson. McCullouch leikstýrði verðlauna-stuttmyndinni "The Moment After" frá 2002, sem fékk góðar viðtökur og var sýnd á hátíðum um heim allan. Verðlaun og tilnefningar. Fort Worth Gay and Lesbian alþjóðlega kvikmyndahátíðin Tenglar. McCullouch, Gerald Sheeri Rappaport. Sheeri Rappaport (fædd 20. október 1977) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í ' og "NYPD Blue". Einkalíf. Rappaport fæddist í Dallas, Texas í Bandaríkjunum og bjó hjá foreldrum sínum til níu ára aldurs. Fluttist hún til New York til að reyna sig áfram í leiklistinni. Byrjaði hún í leiklistartímum þegar hún var fimm ára og fékk fyrsta umboðsmann sinn sex ára gömul. Ferill. Fyrsta hlutverk Rappaport var í sjónvarpsþættinum "Clarissa Explains It All" frá 1993. Hún hefur síðan þá komið fram í sjónvarpsþáttum á borð við: "Beverly Hill, 90210", ', "Boomtown" og "Strong Medicine". Árið 2000 var henni boðið hlutverk í "NYPD Blue" sem lögreglukonan Mary Franco. Hún hefur síðan 2000 verið með reglulegt gestahlutverk í ' sem fingrafarasérfræðingurinn Mandy Webster. Tenglar. Rappaport, Sheeri Kay Panabaker. Kay Panabaker (fædd Stephanie Kay Panabaker, 2. maí 1990) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í ', "Summerland" og "No Ordinary Family". Einkalíf. Panabaker fæddist í Dallas, Texas í Bandaríkjunum en ólst upp í Atlanta, Fíladelfíu og Chicago. Byrjaði í leiklistarferil sinn í samfélagsleikhúsum þar sem hún bjó. Eldri systir hennar er leikkonan Danielle Panabaker. Ef hún væri ekki leikkona þá myndi hún vera flugfreyja, kennari eða snyrtifræðingur. Útskrifaðist með BA gráðu í sögu frá UCLA þegar hún var sautján ára. Panabaker er StarPower fulltrúi fyrir Starlight Children's Foundation. Ferill. Fyrsta hlutverk Panabaker var í "Monsters, Inc." frá 2001 þar sem hún talaði inn á. Árið 2004 var henni boðið hlutverk í "Summerland" sem Nikki Westerley. Hún hefur leikið Lindsay Willows dóttur Catherine Willows í '. Hún leikur í dag í "No Ordinary Family" sem Daphne Powell. Panabaker hefur komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "ER", "Angel", "Medium", "Boston Legal", "Lie to Me" og "Brothers & Sisters". Tenglar. Panabaker, Kay Ólafur Gústafsson. Ólafur Gústafsson (fæddur 27. mars 1989 í Danmörku) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með þýska úrvalsdeildar liðinu SG Flensburg-Handewitt. Hann er uppalinn í FH og lék þar í efstu deild á Íslandi, N1 deild karla til 21. nóvember er hann skrifaði undir samning við Flensburg sem gildir út yfirstandandi leiktíð. Ólafur, sem er 198 cm. að hæð tók þátt í undankeppni HM 2013. Hann lék þá báða leikina gegn Hollandi. Í seinni leiknum var hann markahæstur og skoraði fimm mörk. Ólafur hefur leikið níu (21. nóv. 2012) A-landsleiki og skorað í þeim tuttugu mörk. Geir Guðmundsson. Geir Guðmundsson (fæddur 23. ágúst 1993) er íslenskur handknattleiksmaður sem leikur með íslenska liðinu Val. Hann er uppalinn í Þór og spilaði með Akureyri. Geir spilar stöðu hægri skyttu í efstu deild á Íslandi, N1 deild karla. Geir spilaði með öllum yngri landsliðum íslands nema u-21 í fótbolta og þótti mikil vonbrigði fyrir íslenskan fótbolta þegar hann valdi handbolta fram yfir fótbolta. Geir á hund sem heitir Blíða. Sigurjón Friðbjörn Björnsson. Sigurjón Friðbjörn Björnsson (fæddur 1. september 1988) er íslenskur handknattleiksmaður sem er uppalinn í ÍR. Hann spilaði með HK 2010 til 2012 og varð íslandsmeistari með þeim. Hann leikur nú með ÍR og varð bikarmeistari með þeim 2013. Hann leikur í stöðu hægra horns. Axlargrind. Axlargrind samanstendur af tveimur viðbeinum og tveimur herðablöðum. Axlargrindin er hluti af limagrind en í henni eru alls 126 bein. Hlutverk limagrindar er að sjá um helstu hreyfingar en beinin í limagrindinni vinna náið með vöðvum líkamans við allar hreyfingar líkamans. Limagrindinni tilheyra bein sem tengja útlimi við við ásgrindina en það er sá hluti beinagrindar sem myndar meginás líkamans og ver líffæri í búk, háls og höfði. Axlagrindin gegnir því meginhlutverki að veita festingu fyrir þá vöðva sem stuðla að hreyfingu axla og olnboga. Hún tengir einnig handleggina við ásgrind en það er sá hluti beinagrindar sem myndar meginás líkamans og ver líffæri í búk, hálsi og höfði. Axlargrindin tengir þar að auki upphandlegg eða proximal enda humerus við axlargrindina. Axlargrind er þó ekki talin fullkomin grind, þar sem einu festingarnar að framan við axlargrindina eru við sternoclavicler joint þar sem viðbeinin tengjast hvort sínum megin á bringubeini. Herðarblaðið tengist síðan við viðbeinin við liðamót, acromioclavicle joint. Axlargrindin tengist hvergi hryggjarsúlunni og helst hún á sínum stað þökk sé flóknum vöðvafestum. Axlargrindin er viðkvæm þegar tekið er tilit til þess að hún ber enga þyngd undir venjulegum kringumstæðum. Vegna skorts á baklægum festingum er hún þó hreyfanleg og getur framkvæmt ýmsar nauðsynlegar hreyfingar fyrir líkama okkar. Þau tvö bein sem mynda axlargrindina eru eins og áður kom fram viðbein og herðablöð. Fjallað verður um þau hvort í sínu lagi. Viðbein. Viðbeinin eru tvö og mynda axlargrindina ásamt herðablöðunum. Annar endi viðbeina er tengdur við bringubeinið en hinn við herðablöðin. Viðbeinin eru staðsett beint fyrir ofan efstu rifbeinin. Þau eru greinileg hjá flestu fólki og sjást þau sérstaklega vel á grannvöxnu fólki því ólíkt öðrum beinum sem eru oft á tíðum bakvið þykkt lag af vöðvum eru viðbeinin af stórum hluta aðeins á bakvið þunnt lag af húð. Viðbeinin eru grönn og löng, S-laga bein, þ.e. með anterior convex beygju medialt sem myndar lið með sternum en þau festa upphandleggina við búkinn og halda axlarliðum út frá líkamanum sem eykur hreyfigetu þeirra. Sternoclavicular articulation eru söðullaga hálaliðir. Söðulliðir einkennast af söðullaga liðskál og hafa ávalt liðhöfuð. Þeir leyfa ýmsar hreyfingar til dæmis hliðarhreyfingar og fram og aftur hreyfingar. Hálaliðir hafa liðhol og eru tengdir saman með liðböndum og liðpoka. Þeir hafa mikla hreyfimöguleika en hreyfimöguleikarnir fara alfarið eftir lögun liðflata. Hlutarnir sem mynda sternoclavicular articulation eru sternal endinn á clavicle og efri lateral endi manubrium sterni auk brjóskhluta efsta rifbeins. Þetta samspil leyfir okkur að framkvæma ýmsar hreyfingar sem annars væru ómögulegar. Lateral-hlutinn viðbeina mynda lið með axlarhyrnu á scapula. Acromioclavicular joint einnig þekktur sem AC-liður er liður efst í öxlinni. Hann er myndar tenginguna á milli axlarhyrnu (acromion) sem er sá hluti herðablaðs sem myndar hæsta punkt axlar og viðbeina. AC liður leyfir okkur að lyfta höndunum á okkur fyrir ofan höfuð. Þessi liður flokkst undir sem gliding synovial joint þrátt fyrir að verka á marga vegu líkt og snúningsliður. Hann hjálpar til við hreyfingar axlarblaða (scapula) með því að láta hendina ná meiri snúningi. AC liðurinn er fastur með þremur sinum eða liðböndum en þau eru acromioclavicular ligament, coracoacromial ligament og coracoclavicular ligament. Neðan á lateral enda er smá hnúður teverculum conoideus sem er festa fyrir ligament. Neðan á medial enda er einnig smá hnúður tuberositas costae sem er einnig festing fyrir ligament. Megin hlutverk viðbeins er að veita festingu fyrir herðarblað (scapula) til þess að það haldist á réttum stað og að handleggirnir geti hangið lausir. Það hefur hringlaga medial enda og flatan lateral enda. Viðbein er flokkað sem langbein þrátt fyrir að hafa ekki neitt merghol líkt og önnur langbein. Endar viðbeina eru úr dæmigerðu svampbeini en síðan er meginhluti þess þétt bein. Viðbeinið er því líkt og önnur langbein sett saman úr leggpípu (diaphysis) sem er úr þéttu beini en ólíkt öðrum langbeinum hefur það ekki merghol. Viðbeinið hefur síðan kast úr frauðbeini sem er með skel úr þéttu beini. Líkt og flest langbein eru þau bogin og virka sem vogarstangir til að bera þunga eða hjálpa til við hreyfingar. Viðbein ("claviculum") dregur nafn sitt úr latínu þar sem claviculum stendur fyrir lítill lykill en það skýrst á því að beinið snýst líkt og lykill þegar öxlin er hreyfð í hringlaga hreyfingu. Slys á viðbeini. Viðbein eru þau bein í líkamanum sem brotna oftast af öllum beinum og eru ýmsar ástæður fyrir því. Þau brotna oftast fyrir miðju, þriðjung lengdar þess en það er veikasti punktur viðbeina. Til dæmis berum við oft fyrir okkur þunga á hendurnar sem enda síðan á viðbeinunum og við mörg slys á hálku geta einstaklingar lent á öxlinni sem veldur því að viðbeinið brotni. Viðbeinin brotna einnig oft við iðkun á íþróttum þá sérstaklega útaf ýmsum höggum á svæðið, en til dæmis er algengt að fólk brjóti viðbeinin á snjóbretti þegar fólk ber fyrir sig hendurnar í falli. Viðbeinið getur einnig brotnað í bílslysum þar sem fólk er í beltum getur valdið skaða á median nerve sem liggur á milli clavicle og annars rifbeins. Algengt er að viðbeinin barna brotni við erfiðar fæðingar en þau brot eru yfirleitt fljót að gróa. Flestir brot á viðbeini gróa frekar auðveldlega án þess að það þurfi að gera nokkuð. Staðsetningin á viðbeininu veldur því þó að brot geta valdið fólki miklum ama og hefur það mikil áhrif á hinar ýmsu hreyfingar fólks. Það getur reynst erfitt að sofa fyrstu næturnar eftir að maður brýtur viðbein þar sem erfitt getur verið að liggja á öxlinni án þess að finna fyrir miklum sársauka. Einkenni viðbeinsbrots eru sársauki og þá sérstaklega við hreyfingar upp á við, líkt og að lyfta höndum upp fyrir haus. Svæðið bólgnar oft upp en þegar bólgan er farin úr svæðinu getur maður oft fundið fyrir brotinu með því að þreifa á viðbeininu. Svæðið í kringum brotið getur verið aumt og það getur komið mikill sársauki þegar hendin er hreyfð. Erfitt er að búa að viðbeinsbroti þar sem nær ómögulegt er að láta viðbeinið í gifs. Í stað gifs er reynt að nota ólar sem strekkja á viðbeininu og láta það haldast á réttum stað og hjálpa til við að minnka sársaukann. Algengast er því að nota ólina og gefa verkjastillandi lyf eftir því sem þarf. Teknar eru röngtenmyndir á nokkra vikna fresti til að fylgjast gróandanum. Meira en 90% af þeim sem viðbeinsbrotna ná sér aftur án þess að það þurfa í aðgerð Tími sem það tekur viðbein að gróa fer eftir ýmsu til dæmis aldri, heilsu og staðsetningu brots. Fullorðnir þurfa yfirleitt að nota ólar í þrjár til fjórar vikur á meðan að unglingar og börn þurfa styttri tíma allt niður í 2 vikur. Það tekur þó töluvert lengri tíma að ná fullum bata. Í rannsóknum sem hafa verið gerðar hafa 85-100% sjúklinga náð sér að fullu eftir níu til tólf mánuði. Herðablað. Líkt og viðbein tilheyrir herðablað limagrind en það myndar margar vöðvafestur og er mikilvægur hlekkur í tengingu handleggja við ásgrind, þ.e. að tengja upphandlegg við viðbein. Herðablaðið liggur upp að öðru til sjöunda rifi aftan á thorax en sá hluti herðablaðs sem snýr að að rifbeinum nefnist rifjaflötur og er mikilvæg vöðvafesta fyrir axlarvöðva sem sjá um að hreyfa handlegginn. Herðablað er flokkað sem flatbein úr þéttu beini með frauðbeini á milli og er nálægt því að vera þríhyrningslaga en herðablaðið mjókkar niður. Efri brún brún herðablaðsins er styðst og þynnst og liggur frá medial angle herðablaðsins að krummahyrnu en hliðlæga brúnin, sem er þykkust brúnanna þriggja, liggur frá neðri hluta axlarliðs og endar í neðra horni. Efri brún beinsins og medial-brún mætast síðan í efra horni, efsta hluta herðablaðsins, en medial brúnin er lengst þeirra þriggja. Í þessar þrjár brúnir festast vöðvar sem halda herðablaðinu á sínum stað. Horn herðablaðsins eru þrjú og eru þau efra horn, neðra horn og miðhorn. Medial hornið er þunnt, slétt og rúnnað og er myndað af mótum superior og medial brúnanna. Neðra horn herðablaðsins er hins vegar þykkt og hrjúft og myndast þar sem medial brúnin og lateral brúnin mætast, eins og áður sagði. Festingar myndast á baklægum hluta þess fyrir Teres major of oft festingar fyrir þræði sem tengjast upphandleggsvöðvanum. Þykkasti hluti beinsins er þá lateral horn herðablaðsins og er oft kallað „höfuð herðablaðsins“ en því horni tengist axlarliðurinn. Úr lateral enda efri brúnar herðablaðs gengur krummahyrna en hún er mikilvæg festing fyrir axlarvöðva. Aftan á herðablaðinu liggur herðablaðskambur þvert yfir herðablaðið ofarlega en ofan og neðan við kambinn má síðan finna ofan- og neðankambsgróf sem mynda einnig mikilvægar vöðvafestur. Herðablaðskamburinn endar lateralt í axlarhyrnu sem er hápunktur axlarinnar. Acromion er stór, þríhyrningslaga en aflangur flötur, flatur frá aftari hluta að þeim fremri. Hlutur beinsins kemur fyrst lateralt út frá herðablaðinu (aftan frá séð) en beygist svo fram og upp, og ver þannig axlarliðinn. Ofan á er axlarhyrnan flöt og yfirborð hennar óreglulegt en þar eru festingar til Pectoralis minor. Neðan á er yfirborð hennar slétt en medial og lateral brúnir hennar eru hrjúfar og gefa festingar fyrir taugar og vöðva. Axlarliðurinn er kúluliður en hann snýr lateralt frá herðablaðinu en í liðholinu situr höfuð upphandlegsbeinsins (caput humerus). Þvermál liðholsins er mest lóðrétt og er liðholið breiðara að neðan en ofan. Brjósk þekur liðholið að innanverðu. Slys á herðablaði. Slys á herðablaði eru óalgeng en mikið er um bæði smá og stórvægileg eymsli eða meiðsli í vöðvum eða sinum sem því tengjast, eða öxlinni í heild. Öxlin sjálf. Eins og fram hefur komið í textanum hér á undan er öxlin (axlarliðurinn) hreyfanlegasti hluti líkamans. Þetta svæði er gríðarlega flókið en þar liggja æðar og taugar niður í handlegg frá axlarsvæðinu. Oft þróast smám saman vandamál tengd vöðvum og öðru sem á axlarsvæði finnast en algengustu meðslin tengjast oft slitnum vöðvaþráðum og bólgum, til dæmis í sinaslíðrum eða liðpokum. Þau eymsli geta verið langvarandi og erfið meðhöndlunar en aðgerðir á öxl eru algengar, sem og meðferðir hjá sjúkraþjálfa til þess að losna við eymslin og minnka áverka meiðsla. Minnkuð hreyfigeta á axlarsvæði getur haft mikil óþægindi í för með sér en flestir eru vanir þeirri miklu hreyfigetu sem liðurinn hefur upp á að bjóða, og eiga því erfitt með ýmis einföld verkefni ef eitthvað kemur upp á. Því er mikilvægt að huga vel að meiðslum á því svæði, fá álit hjá læknum og góða meðhöndlun við meiðslum, eins og fram kom áður. Ef axlargrindin væri ekki eins uppbyggð og hún er í raun, hefðu menn mun minni hreyfigetu og ættu því erfitt með mörg verkefni sem eru mjög einföld í dag. Á þessu svæði er mikið samspil beina, vöðva, sina og æða, auk fleiri þátta en það gerir axlargrindina eins heillandi og hún er. Pavel Ermolinskij. Pavel Ermolinskij (25. janúar 1987) er íslenskur körfuknattleiksmaður af úkraínskum ættum. Hann leikur núna fyrir Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Pavel er fæddur árið 1987 í Kiev. Faðir hans, Alexander, var nokkuð þekktur körfuknattleiksmaður og þá sérstaklega fyrir að leika fyrir Skallagrím og varð meðal annars nokkrum sinnum meistari með félaginu.Pavel hefur mikla leikreynslu og varð til að mynda spænskur bikarmeistari árið 2005 með þáverandi félagi sínu, Unicaja Malaga. Pavel á einnig að baki töluverðan fjölda af landsleikjum fyrir Íslands hönd. Jökull Ingimundarson. Jökull Ingimundarson var sonur Ingimundar gamla er nam land í Vatnsdal. Jökli var úthlutað land í hlíðum Tungumúla í Vatnsdal og byggði þar bæ sinn, Jökulsstaði. Jökli Ingimundarsyni er lýst að hann hafi verið allmikilfenglegur með hvassar sjónir, eigi margra maki og mikill kappi og afreksmaður að vexti og afli. Hann var fálátur, ómjúkur og ódæll, harðúðigur og hraustur um allt, en gat trauðla hamið skap sitt. Ekki var hann skapdeildarmaður en tryggur vinur og gekk á undan í öllum deilum þeirra bræðra. Jökull hlaut sverðið Ættartanga við arfskipti eftir Ingimund gamla. Í Vatnsdæla sögu er sagt frá því að þegar Eyvindur sörkvir frétti að Hrolleifur hinn mikli hefði banað Ingimundi hafi hann fyrirfarið sér með því að láta fallast á sax sitt. Synir Eyvindar voru þeir Hermundur og Hrómundur halti, sem örkumlaðist þegar Jökull Ingimundarson hjó á fót honum. Halldór Hermannsson. Halldór Hermannsson (6. janúar 1878 – 28. ágúst 1958) var íslenskur prófessor, sem var lengst bókavörður við Fiske-safnið í Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Æviágrip. Halldór Hermannsson fæddist á Velli á Rangárvöllum. Foreldrar hans voru Hermanníus E. Johnson (1825–1894) sýslumaður þar, og kona hans Ingunn Halldórsdóttir frá Álfhólum í Landeyjum. Þau áttu sex börn. Halldór lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík 1898. Fór þá til Kaupmannahafnar og varð Cand. phil. 1899. Hóf svo nám í lögfræði, en réðst í desember 1899 í þjónustu Willards Fiske í Flórens á Ítalíu, til þess að sjá um Íslandsdeildina í bókasafni hans. Þegar Fiske dó, 1904, hafði hann ánafnað Cornell-háskóla í Ithaca, New York, bókasafn sitt. Fór Halldór með safnið vestur um haf og varð síðan forstöðumaður þess. Hann varð einnig kennari og síðar prófessor við háskólann uns hann náði aldursmörkum, 1948. Eitt ár, 1925–1926, var hann bókavörður við Árnasafn í Kaupmannahöfn, en fannst þröngt um sig þar undir stjórn Finns Jónssonar og fleiri, og tók aftur við fyrra starfi sínu. Hann var þó áfram í Árnanefnd í mörg ár. Það var að hans frumkvæði að Árnanefnd hóf útgáfu á ritröðinni Bibliotheca Arnamagnæana. Sem bókavörður vann Halldór ötullega að því að efla Fiske-safnið, og hafði árið 1942 aukið það úr 8.600 bindum í tæp 22.000 bindi. Meðal fágætra bóka sem hann útvegaði safninu var íslensk eindæmabók bók frá 16. öld. Undir hans stjórn varð Fiske-safnið helsta upplýsingamiðstöð um íslensk og norræn fræði í Vesturheimi. Árið 1905 hóf Halldór kennslu í Norðurlandamálum við Cornell-háskóla. Hann varð aðstoðarprófessor 1920 og prófessor 1924, uns hann lét af kennslu 1946. Auk tungumálakennslu, flutti hann fyrirlestra um sögu, bókmenntir og menningu Norðurlanda, og ekki síst um forníslensk fræði. Halldór var stórvirkur fræðimaður, einkum um bókfræði og sagnfræði, og gaf út heildarskrár um Fiske-safnið, sem hafa verið mikilvæg bókfræðirit allt til þessa dags. Einnig hóf hann útgáfu á tímaritinu eða ritröðinni "Islandica", þar sem hann birti sagnfræðilegar ritgerðir og ritaskrár um ýmis efni. Þessar sérskrár voru brautryðjandaverk og fjölluðu um ýmsa þætti forníslenskra bókmennta, svo sem Íslendingasögur, konungasögur, fornaldarsögur, Eddukvæði, lögbækur, Vínlandsferðirnar o.s.frv. Hafa þær reynst ómissandi handbækur fræðimanna. Ritskrá Halldórs, eftir Stefán Einarsson, birtist í "Árbók Landsbókasafns Íslands", 1957–1958. Aðgengilegri ritaskrá er í "Islandica" 41. Halldór var heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1930, heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags og Þjóðræknisfélags Íslendinga. Bréfafélagi í Vísindafélagi Íslendinga og í The Medieval Academy of America. Mörg ár í útgáfunefnd American Scandinavian Foundation, fulltrúi þess frá 1943. Hann hlaut fálkaorðuna þrisvar sinnum, þ.e. riddarakross, stórriddarakross og stórriddarakross með stjörnu. Hann var heiðraður með mynd á frímerki, sem kom út á aldarafmæli hans, 1978. Kornsá. Kornsá er bær vestanmegin í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Bærinn var reistur árið 1879 og forsmiður bæjarins var Björn Jóhannesson. Innan lands bæjarins er tjörnin Kattarauga sem var friðlýst 1975. Þórdís Ingimundardóttir, dóttir Ingimundar gamla og fyrsti innfæddi Vatnsdælingurinn og Hallormur bjuggu að Kornsá, þeirra sonur var Þorgrímur er síðar varð Kornsárgoði, frillusonur hans var Þorkell krafla, sá er Þórir hafursþjó fóstraði. Vampire Knight. er japanskt anime og manga eftir Matsuri Hino. Manga sagan hóf göngu sína janúar 2005 í Japan í tölublaði af LaLa magazine. Bækurnar eru gefnar út af Hakusensha en hingað til hafa komið út ellefu. Í júlí 2006 tók bandaríska tímaritið Viz's Shojo Beat til við að gefa út kaflana út, þýdda á ensku og Madman Entertainment að gefa út bækurnar. Tvær Anime-seríur, samtals 26 þátta, komu út frá Apríl 2008 - Desember 2008: Vampire Knight (13 þættir) og Vampire Knight Guilty (13 þættir). Söguþráður. Sagan gerist í einkaskólanum "Cross Academy" þar sem tvennskonar nemendur eru menntaðir: "The Day Class" (Dag-bekkurinn): Venjulegar manneskjur sem nota skólastofurnar á daginn, og "The Night Class" (Nætur bekkurinn): Myndarlegir einstaklingar sem nota skólastofurnar að nóttu til og vekja mikla hrifningu meðal nemenda dagsins. Aðalpersóna sögunnar er Yuuki Cross, fósturdóttir skólameistarans sem er "member of the disciplinary committee" (meðlimur í Aganefndinni) og skólavörður sem sér um það að halda hópunum tveimur aðskildum þar sem allir í "Næturbekknum" eru í raun vampírur. NCIS. "NCIS" ("NCIS: Naval Criminal Investigative Service") er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um rannsóknardeild innan bandaríska sjóhersins. Höfundarnir að þættinum eru Donald P. Bellisario og Don McGill. Fyrstu þættirnir voru sýndir 22. Apríl og 29. Apríl 2002 í tveggja parta söguþráði í JAG. Árið 2009 þá eignaðist NCIS systraþáttinn. Til þess þá hafa verið gerðar níu þáttaraðir og var tíunda þáttaröðin frumsýnd 25. september 2012. Framleiðendur. Þátturinn er framleiddur af Belisarius Productions í samvinnu við Paramount Television (2003-06), CBS Paramount Television (2006-09) og CBS Television Studios (2009-til dags). NCIS var upprunalega kallað Navy NCIS í seríu 1; en "Navy" var tekið úr titlinum þar sem það var talið óþarfi. Tilkynnt var í maí 2007 að Donald Bellisario mynda stíga niður frá þættinum vegna deila við Mark Harmon. Starf Bellisario sem framleiðslustjóri/yfirhöfundur fór til Chas. Floyd Johnson og Shane Brennan. Bellisario hélt samt titlinum sem meðframleiðandi. Tökustaðir. "NCIS" er aðallega tekinn upp í Bandaríkjunum. Innitökur eru teknar upp í Santa Clarita, Kaliforníu. Margar útisenur eru teknar upp meðfram ströndum suður Kaliforníu. Söguþráður. NCIS fylgir eftir liði alríkisfulltrúa innan rannsóknardeildar bandaríska sjóhersins sem staðsett er í Washington. NCIS liðið er stýrt af Leroy Jethro Gibbs (Mark Harmon). Lið Gibbs inniheldur Anthony "Tony" DiNozzo (Michael Weatherly), Timothy McGee (Sean Murray) og fyrrverandi Mossad fulltrúann Ziva David (Cote de Pablo) sem kom í staðinn fyrir Caitlin "Kate" Todd (Sasha Alexander) þegar hún var skotin til bana í enda seríu 2. Aðstoðarmenn liðsins eru yfirréttarlæknirinn Donald "Ducky" Mallard (David McCallum) og aðstoðarmaður hans Jimmy Palmer (Brian Dietzen) sem kom í staðinn fyrir Gerald Jackson (Pancho Demmings) og réttartæknisérfræðingurinn Abigail "Abby" Sciuto (Pauley Perrette). Söguþráðs skipti. "NCIS" var gerður út frá tveimur þáttum í áttundu þáttaröð af JAG titlaðir "Ice Queen" og "Meltdown" sem voru frumsýndir 22-29.apríl 2003. Í þeim þáttum þá kynnumst við Gibbs, Tony, Abby og Ducky. "NCIS" hafði önnur söguþráðs skipti í seríu sex í þáttunum, "Legend (Part 1)" og "Legend (Part 2)" sem voru frumsýndir 28.apríl og 5. Maí 2009. Gibbs og McGee fara til Los Angeles í leit sinni að morðingja. Kynnast þeir nýja NCIS liðinu sem staðsett er í Los Angeles. Inngangs þættir. NCIS og persónur hans voru kynntar í áttundu þáttaröðinni af "JAG" í þáttunum "Ice Queen" og "Meltdown". Persónan Vivian Blackadder kemur ekki fram í seríunni þar sem framleiðandinn Donald Bellisario taldi að leikonan væri "of lin fyrir þetta hlutverk". Þættirnir voru klipptir saman og sýndir sem "Navy NCIS: The Beginning". NCIS liðið er kallað til þess að rannsaka morðið á Liðþjálfanum Loren Singer og er því ætlað að komast að því hver morðingjinn er. Í lok þáttarins þá sést Gibbs lesa réttindin yfir Harmon Rabb sem hinn grunaði í málinu. Harmon Rabb er stefnt fyrir herrétti fyrir morðið á Liðþjálfanum Singer en svo virðist sem hann hafi enga fjarvistarsönnun. Fljótlega þá uppgvötar DiNozzo að málið er einum of einfalt og byrjar að leita að öðrum sökudólgi, einhverjum sem hefur hefnd að hefna gegn Rabb. Á samatíma þá reynir Gibbs að finna upplýsingar um hryðjuverkamanninn Amad Bin Atwa, áður en önnur árás er gerð á bandarísk herskip. DVD útgáfa. Fyrstu átta seríunnar af "NCIS" hafa verið gefnar út sem heilar seríur á svæðum 1, 2 og 4. Í fyrstu seríunni á svæði 1 þá má finna fyrstu þættina í áttundu seríu af JAG. Sigurjón Brink. Sigurjón Brink (einnig "Sjonni Brink") (29. ágúst 1974 – 17. janúar 2011) var íslenskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann er einn af stofnendum Vesturports og er þekktastur fyrir lag sitt "Aftur heim". Hann stofnaði hljómsveitina In bloom 1994. Hljómsveitin gaf út plötuna "In bloom" 1996 og samdi titilag kvikmyndarinnar "Missing Brendan" 2003. Sigurjón kynntist unnustu sinni Þórunni Clausen 2002 við uppsetningu verksins "Le Sing". Hann gekk til liðs við hljómsveitina Flavors 2003. Hljómsveitin gaf út einu plötu sína, "Go your own way" árið 2004. Ári síðar samdi Sigurjón lagið Eldur fyrir Skítamóral sem var gefið út á breiðskífu þeirra "Má ég sjá". Hann lék í söngvaleikjunum "La Sing", "Cuckroos Cabaret", "Footloose" og "Woyzeck". Hann samdi tónlist fyrir leiksýninguna "Brim" árið 2004. Hann tók fyrst þátt í söngvakeppni sjónvarpsins 2006 með laginu Hjartaþrá sem komst í undanúrslit keppnarinnar. Á næsta ári tók hann aftur þátt með lagið "Áfram" með sama árangri. Hann gaf út fyrstu breiðskífu sína "Sjonni Brink" 2008. Tveimur árum síðar mætti hann með tvö lög í söngvakeppnina, "You knocked on my door" eftir Jóhannes Kára Kristinsson og "Waterslide" eftir hann sjálfan. Waterslide komst áfram í úrslitakeppnina. 2011 sendi hann lagið "Aftur heim" í söngvakeppni sjónvarpsins. Enskur texti lagsins og laglínan er eftir hann sjálfan, en íslenski textinn eftir unnustu hans Þórunni Clausen. Á sama tíma lék hann Richie Valens í leiksýningunni Buddy Holly. Hann varð bráðkvaddur 17. janúar 2011 eftir heilablóðfall. Eftir andlát hans var ákveðið að vinir hans flyttu lagið. Leiksýningunni Buddy Holly var aflýst vegna andláts hans. Stofnaður var hvatningarsjóðurinn "Áfram", sem er stjórnað af afkomendum hans. Bogi Th. Melsteð. Bogi Thorarensen Melsteð (f. í Klausturhólum 4. maí 1860, d. 12. nóvember 1929) var íslenskur sagnfræðingur sem samdi greinar og bækur um sögu Íslendinga. Hann var einnig alþingismaður í eitt ár. Bogi var sonur Jóns Melsteð (f. 28. maí 1829, d. 13. febr. 1872) prests í Klausturhólum, sonar Páls Melsteð amtmanns, og konu Jóns, Steinunnar dóttur Bjarna Thorarensen. Bogi lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1882 og magistersprófi í sagnfræði frá Hafnarháskóla 1890. Hann dvaldist í Kaupmannahöfn frá því að hann lauk námi og til æviloka. Hann var aðstoðarmaður í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn 1893—1903 og styrkþegi Árnasafns í yfir 20 ár samtals. Frá árinu 1904 hafði hann styrk í fjárlögum til þess að semja sögu Íslands. Hann var forgöngumaður um stofnun Hins íslenska fræðafélags 1912, formaður þess frá stofnun til æviloka og jafnframt ritstjóri "Ársrits fræðafélagsins" frá 1916. Á meðal þeirra bóka sem hann sendi frá sér voru "Saga Íslendinga" (1903), "Stutt kennslubók í Íslendinga sögu handa byrjendum" (1904) og "Sögukver handa börnum ásamt nokkrum ættjarðarljóðum og kvæðum" (1910). Hann skrifaði einnig fjölda blaða- og tímaritagreina um íslensk málefni, sagnfræði, stjórnmál og fleira. Bogi var alþingismaður Árnesinga 1892 – 1893. Eindæmabók. Eindæmabók, er prentuð bók sem er aðeins þekkt eða varðveitt í einu eintaki. Meðal íslenskra eindæmabóka má nefna "Passio" frá 1559 og "Guðspjallabók" Ólafs Hjaltasonar Hólabiskups, frá 1562, sem báðar voru prentaðar á Breiðabólstað í Vesturhópi. Hvorug þeirra er heil. Bands. Bands er enskur sjónvarpsþáttur stofnaður árið 2000, í honum leika úrvalsleikarar og sló þátturinn rækilega í gegn í mörgum löndum. Þátturinn er byggður á unglingum í enskum framhaldsskóla lífið getur stundum erið erfitt og alls ekki vandræðalaust. meðal leikara eru Aaron Mandel, Gabriel Soften og Lauren song Flaterd Bands hefur aldtei verið síndur á Íslandi en á mörgum útlendum stöðvum er hann enn í gangi þótt sjöunda og síðasta þáttaröðin sé búin. Unglingarnir eru í Framhaldsskóla í London og ákveða að stofna hljómsveit svo gerist margt og mikið. Þættirnir eru gamanþættir með dramatísku ívafi. NCIS (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 23.september 2003 og sýndir voru 23 þættir. Bókfræði. Bókfræði er fræðigrein sem fjallar um bækur sem safngripi eða menningarsögulegt fyrirbrigði. Á erlendum málum er notað orðið "bibliographia", sem er úr grísku (βιβλιογραφία), sem merkir eiginlega bókaskrif eða bókagerð, og er dregið af bókagerð eins og hún var í fornöld, þegar bækur voru skrifaðar. Einnig er til orðið "bibliologia" = bókfræði. Bókfræði snýst yfirleitt ekki mikið um efni eða innihald bóka, heldur um það hvernig þær eru hannaðar, prentaðar, bundnar inn, hvernig þeim er dreift og safnað. Bókfræðin tengist þannig prentlist og varðveislu bókanna, hversu fágætar þær eru eða vel varðveittar, hvert var hlutverk þeirra í samfélaginu o.s.frv. Þessar bókaskrár geta leitast við að vera tæmandi, eða bundnar við valin rit, þar sem einungis eru tilgreind mikilvægustu ritin. Stundum er bætt við stuttri umsögn, þar sem reynt er að meta hversu gagnleg ritin eru. Bókfræðin getur verið "lýsandi", "söguleg" eða "textafræðileg", eftir því hvernig fjallað er um efnið. Skrár opinberra bókasafna eru frábrugðnar að því leyti að þar eru tilgreind öll rit í viðkomandi safni. Mýlildi. Mynd sem sýnir mýlildi uppsöfnun (bleikt) í smágirni Mýlildi (fræðiheiti "amyloid") er útfelling prótína í vefjum, prótein hlaðast upp á óeðlilegan hátt. Á Íslandi er þekkt arfgeng heilablæðing sem stafar af einu geni og kemur fram sem mýlildismein í heilaæðum þannig að tiltekið prótín safnast upp í smáum slagæðum heilans og veldur æðarofi og heilablóðfalli. Óeðlileg uppsöfnun mýlildis í vefjum getur leitt til mýlildissjúkdóma (amyloidosis) og getur átt þátt í taugahrörnunarsjúkdómum. Útfelling próteina í heila sem mýlildi fylgir Alsheimer sjúkdómum og príonsjúkdómum en próteinin eru af mismunandi gerð. Grímur geitskör. Grímur geitskör var fóstbróðir Úlfljóts, fyrsta lögsögumanns Íslands, sem fór til Noregs í því skyni að finna löggjöf sem gæti hentað Íslandi. Í Íslendingabók Ara fróða segir um Grím: „En svá er sagt, at Grímr geitskör væri fóstbróðir hans, sá er kannaði Ísland allt at ráði hans, áðr alþingi væri átt. En honum fekk hverr maðr penning til á landi hér, en hann gaf fé þat síðan til hofa.“ Áður voru orð Ara túlkuð þannig að Grímur hefði farið um landið til að leita að heppilegum þingstað og loks fundið hann þar sem nú eru Þingvellir við Öxará. Nú er talið að hann hafi aðallega farið um til að afla lögunum og hinni nýju stjórnskipan fylgis, en Kjalarnesþingmenn hafi líklega verið búnir að ákveða hinn nýja þingstað á Þingvöllum, enda var Alþingi að nokkru arftaki Kjalarnesþings. Sagt er frá því í Íslendingabók að landið sem lagt var undir Alþingi hafi þá þegar verið komið í almenningseign. Á Þingvöllum kom Alþingi saman í fyrsta sinn sumarið 930. Sebrafinka. Sebrafinka (fræðiheiti: "Taeniopygia guttata") er algengasti spörfugl af ættinni strildi í Mið-Ástralíu og finnst alls staðar í álfunni nema á köldum og rökum svæðum í suðri og hitabeltisvæðum í norðri. Sebrafinkur eru einnig í Indónesíu og Tímor og hafa verið fluttar til Púertó Ríkó, Portúgal, Brasilíu og Bandaríkjanna. Sebrafinkur sem lifa á jörðu niðri verða um 10 sm og lifa á grassfræjum. Sebrafinkur finnast bæði í grasslendi og skógum og eru vanalega nálægt vatni. Ýmis afbrigði af sebrafinkum eru ræktuð til erfðarannsókna og sem gæludýr. Sebrafinkur verpa eftir regntíma en það getur verið á hvaða tíma árs sem er. Búrfuglar geta verpt allt árið. Sebrafinkur verða um 5 ára í náttúrulegu umhverfi en búrfuglar verða venjulega 8 – 10 ára en geta náð hærri aldri. Sebrafinkur halda sig í hópum og eru aldrei einir á ferð í náttúrulegum heimkynnum sínum. Pörin eru mjög samrýmd, gera allt saman nema unga út og halda hita á ungum. Fullorðinn karlfugl í Dundee Wildlife Park, Murray Bridge, Suður-Ástralíu "Taeniopygia guttata guttata" er minni en "Taeniopygia guttata castanotis'. Sebrafinka (karlfugl) Sebrafinkur eru miklir söngfuglar og hver karl hefur eigin söngtón. Synir læra söng af feðrum sínum og syngja nánast eins og þeir. Söngvar geta breyst þangað til fuglar er orðinn kynþroska en eftir það haldast þeir óbreyttir til æviloka fuglsins. Karlfuglar byrja að syngja á kynþroskaskeiði en kvenfuglar geta ekki sungið. Söngurinn er í fyrstu ótengdir tónar en þeir þjálfast og læra að syngja eins og feður þeirra. Á þessum tíma bæta þeir hljóðum frá umhverfinu í eigin söng og nota einnig söng frá karlfuglum í umhverfi sínu sem innblástur í eigin söng. Karlfuglar nota sönginn til að laða að kvenfugla og til að verja yfirráðasvæði sitt. NCIS (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 28.september 2004 og sýndir voru 23 þættir. Nýir aðalleikarar bætast við: Sean Murray sem Timothy McGee og Brian Dietzen sem Jimmy Palmer. Valais. Valais (þýska: "Wallis") er kantóna í suðurhluta Sviss og er umlukin Alpafjöllum. Þar eru margir skíða- og heilsubæir og flest hæstu fjöllin í Sviss. Lega og lýsing. Valais er þriðja stærsta kantónan í Sviss með 5.224 km2. Einungis Graubünden og Bern eru stærri. Valais liggur í suðurhluta Sviss og á landamæri að Ítalíu í suðri og Frakklandi í suðvestri. Auk þess eru kantónurnar Vaud til norðvesturs, Bern til norðurs, Uri til norðausturs og Ticino til austurs. Vestasti endir kantónunnar nemur við Genfarvatn. Valais er dæmigerð fjallakantóna og samanstendur af háfjöllum Alpafjalla, Róndalnum (löngum hádal í austur/vesturátt) og ýmsum hliðardölum, aðallega til suðurs. Þar eru hæstu fjöll Sviss, svo sem Monte Rosa, Matterhorn og fleiri. Áin Rón rennur eftir endilöngum hádalnum, áður en hún mundar í Genfarvatn. Íbúar eru 307 þúsund og er Valais þar með áttunda fjölmennasta kantónan í Sviss. 60% íbúanna eru frönskumælandi, en 30% þýskumælandi. Höfuðborgin er Sion. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Valais er tvær lóðréttar rendur, hvít til vinstri og rauð til hægri. Alls eru þrettán stjörnur í merkinu, ýmist rauðar eða hvítar. Merkið kom fyrst fram (í breyttu formi) 1220, en var formlega tekið upp 1548. Merkið er tákn biskupsstólsins í Sion en stjörnurnar tákna hin þrettán tíundarhéruð kantónunnar. Nafnafræði. Rómverjar nefndu héraðið Vallis Poenina. Vallis merkir "dalur". Héraðið heitir Wallis á þýsku og var kallað Vallais á frönsku allt fram á 18. öld, en breyttist svo í Valais. Kantónan heitir Vallese á ítölsku. Söguágrip. Matterhorn er eitt fjallanna í Valais Í upphafi bjuggu keltar í Róndalnum en Rómverjar hertóku hann 15 f.Kr. Dalurinn varð að skattlandi sem kallaðist Vallis Poenina. Síðla á 5. öld lauk yfirráðum Rómverja í héraðinu. Búrgúndar (frönskumælandi) námu land í vesturhlutanum, en alemannar (þýskumælandi) í austurhlutanum. Í gegnum miðaldirnar var dalurinn að sjálfstæðu biskupadæmi innan þýska ríkisins. Vesturhlutinn tilheyrði hins vegar Savoy. Um miðja 14. öld réðist Amadeus VI frá Savoy inn í Róndalinn og hertók stóran hluta hans. Hrepparnir sameinuðust í hernaðarbandalag, gerðu uppreisn og náðu að hrekja óvininn burt. Í annað sinn þurfti her frá Savoy að hertaka héraðið allt. En þegar greifinn af Savoy lést 1391, hlutu hrepparnir sjálfstæði og kölluðu sig Lýðveldi hinna sjö tíundarhéraða ("Republik der sieben Zenden"). 1413 hófst stríð í lýðveldinu á ný er þýski keisarinn Sigismundur gaf Witschard frá Raron héraðið að léni. Íbúarnir sættu sig ekki við þetta og gerðu uppreisn. Eftir nokkrar orrustur var samið árið 1420 og fékk lýðveldið að standa. Árið 1475 réðist Savoy enn á ný inn í héraðið. Með stuðningi frá Bern tókst lýðveldinu að landa sigri í orrustunni við Planta og hertaka vesturhluta Valais. Árið 1564 átti Bern í trúarstríði við Savoy. Íbúar lýðveldisins, sem ekki tóku siðaskiptum, sendu þá herdeild vestur til Genfarvatns og hertók hún lítið hérað þar. Þannig náði Valais núverandi stærð. Árið 1799 hertóku Frakkar Valais og markar það endalok lýðveldisins í Róndalnum. Napoleon innlimaði það svo Frakklandi 1810. Eftir fall Napoleons samþykkti Vínarfundurinn 1815 að Valais, ásamt Genf og Neuchatel, fengju inngöngu í Sviss. 1865 var frægasta fjall Valais, Matterhorn, í fyrsta sinn klifið. Í kjölfarið varð Valais að ferðamannahéraði. Það er enn mikilvægasta atvinnugrein kantónunnar. Það var svo ekki fyrr en 1970 að konur í Valais fengu kosningarétt. Vesturport. Vesturport er íslenskur leiklistar hópur, stofnaður 18. ágúst 2001. Hópurinn hefur sett upp leikverk í Bandaríkjunum, Evrópu, Asíu, Suður Ameríku, Tasmaníu og Ástralíu. Hópurinn vann evrópsku leiklistarverðlaunin fyrir frumleika, nýsköpun og framlag til leiklistar árið 2011. Á stofndegi hópsins var leikverkið "Discopigs" sett upp. Hópurinn setti á næstu þremur árum upp leikverkin "Lykill um hálsinn", "Titus Andronius" og "Mr. Man". Hópurinn fór þó ekki í útrás fyrr en 2004 með verkið "Rómeo og Júlía". Romeó og Júlía var frumsýnt á Íslandi 20. nóvember 2002 og 18. nóvember 2004 í Playhouse Theatre, London. Í kjölfarið var verkið sýnt í Þýskalandi, Póllandi, Noregi og Finnlandi. 2004 setti félagið upp verkið "Brim" og fékk Jón Atli Jónasson Grímuverðlaunin sama ár sem leikskáld ársins. Síðar var gerð kvikmynd byggð á sama verki sem fékk sex Edduverðlaun fyrir hljóð ársins, leikonu í aðalhlutverki, tónlist ársins, bíómynd ársins, kvikmyndatöku ársins og klippingu ársins. Seinna á árinu, þann 30. apríl 2004 frumsýndi leikfélagið fyrsta leikhúsverk Víkings Kristinssonar "Kringlunni rústað". Á árinu 2008 frumsýndi hópurinn verkin "Kommúnan" og "Love" í Borgarleikhúsinu og "Dubbeldelush" í Leikfélagi Akureyrar. 15. október setti hópurinn upp verkið "Woyzeck" í BAM (Howard Gilman óperuhúsinu), New York, Brooklyn, Bandaríkjunum. Ári síðar var hópurinn kominn til Tasmaníu til að frumsýna Hamskiptin í samstarfi við Breska leikhúsið Lyric Hammersmith. Tónlistarmennirnir Nick Cave og Warren Ellis urðu meðlimir hópsins frá því að þeir tóku að sér tónlistar smíðar fyrir Woyzeck 2005 og aftur fyrir Hamskiptin 2006. Þeir voru aftur kallaðir til leiks til að semja tónlist fyrir leikverkið "Faust" sem var síðar sett upp í London - Ludwigshafen, Germany - St. Petersburg, Russia - S-Korea - BAM, NYU. 2010 fékk hópurinn frábæra gagnrýni í New York Times fyrir leikverkið Hamskiptin, sem auk vinsældir hópsins.Sama ár fékk félagið Evrópsku leiklistarverlaunin fyrir frumleika, nýsköpun og framlag sitt til leiklistar í Evrópu. Samhliða verðlaunaafhendingunni setti félagið upp leiksýningarnar Faust og Hamskiptin. Naomi Watts. Naomi Watts (28. september 1968) er bresk-áströlsk leikkona. Watts, Naomi Arfgeng heilablæðing. Arfgeng heilablæðing (fræðiheiti "Hereditary cystatin C amyloid angiopathy (HCCAA)") er séríslenskur erfðasjúkdómur, sem erfist ókynbundið ríkjandi. Hann stafar af stökkbreytingu sem veldur því að stökkbreytt prótín hleðst upp sem mýlildi (amyloid) í heilaslagæðum arfbera og veldur heilablæðingum í ungu fólki. Þessi genagalli finnst í níu ættum á Íslandi og hefur erfst í að minnsta kosti tíu ættliði eða þrjár aldir og þeir sem hafa fengið sjúkdóminn eru komnir af breiðfirskum eða sunnlenskum ættum. Auddi og Sveppi. Auddi og Sveppi er íslenskur gamanþáttur sem sýndur er á Stöð 2. Þáttastjórnendur eru Auðunn Blöndal og Sverrir Þór Sverrisson. Þátturinn hóf göngu sína í janúar 2009 sem framhald af gamanþættinum "70 mínútur". Innslög þáttarins eru meðal annars hrekkir á milli þáttastjórnendanna og stjórnun Audda og Sveppa. Þessi innslög koma upprunalega frá forvera þáttarins, 70 mínútum. Í stjórnun Audda og Sveppa er gestur fenginn í þáttinn og á fjölförnum stað segja þáttastjórnendur þáttarins honum hvað eigi að gera og hann fær í staðinn gjöf. Hrekkirnir eru á milli þáttastjórnendana en einnig gesta þáttarins þegar þeir félagar fá til liðs með sér þriðja aðila til þess að framkvæma hrekkinn. Þetta innslag þáttarins er mjög umdeilt. Dæmi um það var hrekkur þeirra á Einari Bárðarsyni útvarpsmanni sem varð sár og ósáttur við þá félaga eftir atvikið. Þekktir nemendur Verzlunarskóla Íslands. Þetta er listi yfir þekkta nemendur Verzlunarskóla Íslands Hvítserkur (fjall). Hvítserkur er sérkennilegt fjall á milli Húsavíkur og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu. Annað nafn á fjallinu er Röndólfur. Það er úr ljósu bergi en svartir blágrýtisgangar skerast þvers og kruss um það. Fjallið er ekkert sérstakt að sjá úr Borgarfirði en nýtur sín vel af veginum yfir Húsavíkurheiði. Saurbær (Dalasýslu). Staðarhólsdalur í Saurbæ. Í forgrunni er minnisvarði um skáldin Stein Steinarr, Stefán frá Hvítadal og Sturlu Þórðarson. Saurbær er byggðarlag við innanverðan Breiðafjörð, sunnan við Gilsfjörð. Þar var áður séstakt sveitarfélag, Saurbæjarhreppur, en er síðan 2005 hluti af Dalabyggð. Verslun og þjónustukjarni sveitarinnar er á Skriðulandi í Saurbæ. Vestfjarðavegurinn liggur um sveitina og síðan yfir Gilsfjarðarbrú. Í Landnámabók segir frá því að landnámsmaðurinn Steinólfur lági Hrólfsson í Fagradal „... gekk þar inn á fjallið og sá fyrir innan dal mikinn og vaxinn allan viði. Hann sá eitt rjóður í dal þeim; þar lét hann bæ gera og kallaði Saurbæ, því að þar var mýrlent mjög, og svo kallaði hann allan dalinn.“ Í Saurbæ er kirkjustaðurinn Staðarhóll. Þar bjó Sturla Þórðarson á Sturlungaöld og á 16. öld bjó þar höfðinginn Staðarhóls-Páll. Í Saurbæ er líka Ólafsdalur, þar sem fyrsti bændaskóli landsins starfaði og margvíslegar tilraunir voru gerðar í landbúnaði. Verið er að gera upp húsakynni þar í því skyni að koma þar upp safni. Skáldin Steinn Steinarr og Stefán frá Hvítadal ólust upp í Saurbæ. Staðarhóll. Staðarhóll er kirkjustaður og gamalt höfuðból í Saurbæ í Dalasýslu. Bærinn stendur í mynni Staðarhólsdals, en er nú í eyði. Samkvæmt Landnámabók var það Víga-Sturla, sonur Þjóðreks sonar Sléttu-Bjarnar landnámsmanns í Saurbæ sem fyrstur byggði bæ á Staðarhóli. Höfðinginn Þorgils Oddason, sem segir frá í Þorgils sögu og Hafliða, bjó þar um miðja 12. öld. Á Sturlungaöld bjó þar Sturla Þórðarson sagnaritari en á seinni hluta 16. aldar bjuggu á Staðarhóli Páll Jónsson frá Svalbarði, sem kenndur var við bæinn og kallaður Staðarhóls-Páll, og kona hans Helga Aradóttir, og fer miklum sögum af þeim og skrykkjóttri sambúð þeirra. Niðjar þeirra áttu Staðarhól fram undir aldamótin 1900. Staðarhólskirkja. Kirkja var á Staðarhóli frá fornu fari og eru elstu heimildir um hana frá því skömmu fyrir 1200. Þá var prestur þar Oddi Þorgilsson, sonur Þorgils Oddasonar. Núverandi Staðarhólskirkja var reist á nýjum stað árið 1899, þegar Staðarhólssókn var sameinuð Hvolssókn, og er hún meira miðsvæðis í Saurbæ. Kirkjan var endurbyggð í sömu mynd eftir að hún fauk í óveðri 1981. Við kirkjuna er félagsheimilið Tjarnarlundur. Haukur Clausen. Haukur Clausen (8. nóvember 1928 – 1. maí 2003) var íslenskur tannlæknir sem var á sínum tíma í hópi bestu frjálsíþróttamanna Evrópu ásamt Erni bróður sínum og átti allmörg Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Haukur og Örn, eineggja tvíburabróðir hans, voru fæddir í Reykjavík, synir Arreboe Clausen verslunarmanns og bifreiðarstjóra, sem tók þátt í stofnun Fram á sínum tíma, og konu hans Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen. Haukur lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og prófi í tannlækningum frá Háskóla Íslands 1952. Hann stundaði framhaldsnám við Minnesotaháskóla í Minneapolis í Bandaríkjunum 1952-1953. Hann starfaði við tannlækningar í Reykjavík 1953-1994 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Tannlæknafélag Íslands. Haukur lagði ungur stund á íþróttir ásamt bróður sínum og voru þeir einna fremstir íslenskra íþóttamanna á gullöld íslenskra frjálsíþrótta fyrir og um 1950. Hann varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi 9. september 1947, þá aðeins 18 ára, og hljóp á nýju Íslandsmeti, 21,9 sek. Sumarið 1950 setti hann Norðurlandamet í 200 metra hlaupi, 21,3 sekúndur. Það var besti tími ársins 1950 í Evrópu og stóð Norðurlandametið í mörg ár. Haukur keppti á Ólympíuleikunum í London 1948 og varð þar þrettándi í 100 metra hlaupi og i um tuttugasta sæti í 200 metra hlaupi. Á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brussel 1950 komst hann í úrslit í 100 metra hlaupi og varð í fimmta sæti. Hann átti allmörg Íslandsmet í ýmsum frjálsíþróttagreinum. Haukur tók ekki þátt í Ólympíuleikunum í Helsinki 1952, enda þá nýfarinn til náms í Bandaríkjunum, en á leikunum lenti Örn í útistöðum við forystumenn Frjálsíþróttasambandsins, var dæmdur í keppnisbann og í framhaldi af því hættu þeir bræður báðir keppni. Haukur var fjórkvæntur. Fyrsta kona hans var Þóra Hallgrímsson, sem síðar giftist George Lincoln Rockwell og enn síðar Björgólfi Guðmundssyni. Þau áttu einn son. Önnur kona Hauks var Lillian Sveinsdóttir Johnsson og áttu þau eina dóttur. Þriðja eiginkonan var Halldóra Filippusdóttir og áttu þau einn son. Fjórða kona Hauks var Elín Hrefna Stefánsdóttir Thorarensen og áttu þau tvær dætur. Örn Clausen. Örn Clausen (8. nóvember 1928 – 11. desember 2008) var íslenskur lögfræðingur af dönskum og íslenskum ættum og var á sínum tíma í hópi bestu frjálsíþróttamanna Evrópu ásamt Hauki bróður sínum og átti allmörg Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Örn og Haukur voru eineggja tvíburar. Þeir voru fæddir í Reykjavík, synir Arreboe Clausen verslunarmanns og bifreiðarstjóra og konu hans Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen. Örn lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1953. Hann varð forstjóri Trípolíbíós 1953 og rak það fram á haust 1957 en rak svo eigin lögfræðistofu í Reykjavík frá 1958 og sinnti lögfræðistörfum allt fram til 2007 og var þá elstur starfandi lögfræðinga á landinu. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Lögmannafélag Íslands, Sjálfstæðisflokkinn og ýmsa aðila. Þeir tvíburabræðurnir lögðu stund á íþróttir frá unga aldri, einkum frjálsar íþróttir, og setti Örn samtals tíu Íslandsmet, bæði í grindahlaupum og tugþraut. Hann varð í tólfta sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í London 1948, þá aðeins nítján ára að aldri. Árið 1949 sigraði hann í tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í Stokkhólmi, vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í tugþraut 1950 og setti Norðurlandamet í sömu grein 1951. Það ár átti hann næstbesta tugþrautarárangur í heimi. Miklar vonir voru bundnar við þátttöku hans í tugþrautarkeppni Ólympíuleikanna í Helsinki 1952 en hann meiddist um það leyti sem leikarnir hófust og gat ekki tekið þátt í keppninni þótt hann væri á staðnum en var dæmdur í keppnisbann vegna agabrota og hættu þeir bræður keppni upp úr því. Örn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Anna Þóra Thoroddsen og áttu þau fjóra syni. Síðari kona hans var Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari og áttu þau þrjú börn. Torfi Bryngeirsson. Stangarstökk á árum áður, þegar notuð var ósveigjanleg stálstöng, var nokkuð ólíkt því stangarstökki sem nú er iðkað. Torfi Bryngeirsson (11. nóvember 1926 – 16. júlí 1995) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem var í hópi bestu stangarstökkvara Evrópu um miðja 20. öld og varð Evrópumeistari í langstökki árið 1950. Torfi fæddist í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Hann var farinn að æfa stangarstökk með hrífuskafti á barnsaldri en á uppvaxtarárum hans var keppni í stangarstökki einn af hápunktunum á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga og naut mikilla vinsælda. Torfi setti sitt fyrsta Íslansdsmet í greininni sumarið 1947, 3,70 m. Torfi tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948 og keppti í stangarstökki en var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950 keppti Torfi í stangarstökki og langstökki, sem var aukagrein hans, og komst í úrslit í báðum greinum, en þegar til kom reyndist úrslitakeppni í greinunum fara fram á sama tíma. Hann taldi sigurlíkur sínar meiri í langstökki, hafði líka stokkið risastökk (7,65 m) í undankeppninni en gert hárfínt ógilt, og kaus þá grein með þeim árangri að hann stökk 7,32 metra, 12 cm lengra en næsti maður, og varð Evrópumeistari. Stangarstökkið vannst með 4,30 m og hefði hann því átt sigurmöguleika þar einnig. Þann 29. júní 1951 tóku Íslendingar þátt í þriggja landa frjálsíþróttakeppni í Osló ásamt Dönum og Norðmönnum og baru sigur úr býtum. Torfi sigraði í langstökki og stangarstökki, þar sem hann var hársbreidd frá því að setja Evrópumet, og hljóp endasprettinn þegar íslenska boðhlaupssveitin vann 4x100 metra hlaupið. Sama sumar stökk hann 4,32 metra og var það eitt besta stökkið í heiminum það ár en á þessum árum voru notaðar stálstengur svo að stökkin voru mun lægri en síðar varð. Torfi lenti í erfiðum veikindum veturinn 1951-1952 en keppti þó á Ólympíuleikunum í Helsinki um sumarið. Hann komst í úrslit í stangartökki en gekk illa í aðalkeppninni. Viku síðar stökk hann þó 4,35 metra, sem var Íslandsmet sem stóð í nokkur ár. Síðasta stórmót hans var Evrópumeistaramótið í Bern 1954, þar sem hann komst í aðalkeppnina í stangarstökki en meiddist og varð að hætta keppni. Torfi var víðkunnur fyrir afrek sín og prýddi mynd af honum meðal annars forsíðu breska íþróttablaðsins "World Sports" árið 1951. Torfi starfaði sem lögregluþjónn í Reykjavík til 1955 en flutti þá til Vestmannaeyja og vann þar sem verkstjóri. Hann flutti aftur til Reykjavíkur 1969 og vann ýmis verslunarstörf, lengst af í eigin innflutningsfyrirtæki. Kona hans var Jóhanna Pétursdóttir og áttu þau fjögur börn. Lögbundnir frídagar á Íslandi. Lögbundnir frídagar á Íslandi, samkvæmt lögum um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971, eru „helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní, enn fremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 13“. Helgidagar þjóðkirkjunnar eru taldir upp í lögum nr. 32/1997 um helgidagafrið og er þeim þar skipt í þrjá flokka eftir því hvaða starfsemi er leyfð. Einnig kveða kjarasamningar margra stétta á um að frídagur verslunarmanna skuli vera frídagur, en hann er fyrsti mánudagur í ágústmánuði. Fjöldi frídaga á hverju ári er nokkuð breytilegur af því að sumir þessara daga falla stundum á laugardaga eða sunnudaga, eins geta þeir fallið hver á annan. Til dæmis lenti sumardagurinn fyrsti á skírdag árið 2011 en það getur skeð þar sem báða þessa daga ber alltaf upp á fimmtudag og vegna færanleika páskanna og þess að sumardagurinn fyrsti er innan þess færanlega tímabils, geta þeir oft lent saman. Við talningu þarf einnig að taka tillit til þess að páskadagur og hvítasunnudagur falla alltaf á sunnudag, sem er því í sjálfu sér frídagur hvort eð er. Munurinn er samt sá að samkvæmt þeim þremur skilgreiningum á helgi daga þá er yfir páskadegi og hvítasunnudegi meiri helgi en venjulega sunnudaga. Því eru það tólf frídagar sem ekki geta lent á laugar-eða sunnudegi, þar af sjö sem eru bundnir virkum dögum en fimm sem geta lent á helgum sökum þess að þeir eru bundnir ákveðnum mánaðardögum svo sem 17. júní. Eins eru ekki taldir með í þessum tólf frídögum, aðfangadagur og gamlársdagur, þar sem þeir eru bara frídagar til hálfs, það er frá kl. 13.00. Af þessu leiðir að frá ári til árs geta þessir frídagar rokkað á milli átta til tólf daga. Lögbundnir frídagar í öðrum löndum. Til samanburðar má nefna lögbundna frídaga í nokkrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Í þessum samanburði við önnur lönd er tekið tillit til þess að aðfangadagur og gamlársdagur eru bara frídagar til hálfs hér á landi, það er frá klukkan 13.00 og páskadagur og hvítasunnudagur falla alltaf á sunnudag og eins að frídagur verslunarmanna er ekki frídagur allra. Því er samanburðurinn við þá tólf frídaga sem eftir standa. Í Bretlandi er fyrirkomulagið þannig að uppbótarfrídagur kemur í stað lögboðins frídags sem ber upp á helgi og komið hefur til tals í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðsins að taka upp sambærilegt fyrirkomulag en ekki tekist samstaða um það. Gunnar Huseby. Gunnar Alexander Huseby (4. nóvember 1923 – 28. maí 1995) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem varð tvívegis Evrópumeistari í kúluvarpi, setti fjölda Íslandsmeta í kúluvarpi og kringlukasti og Evrópumet í kúluvarpi og var með mestu afreksmönnum landsins í íþróttum. Unglingsár. Gunnar var kjörsönur hjónanna Matthildar og Kristians M. Huseby en móðir hans hét Helga Bogadóttir. Hann hóf ungur að æfa bæði knattspyrnu og frjálsar íþróttir og var mjög fjölhæfur. Á drengjamóti ÍSÍ sumarið 1940, þegar hann var 16 ára, tók hann til dæmis þátt í 9 greinum af 12 sem keppt var í. Hann sigraði í kringlukasti og 400 metra hlaupi og setti drengjamet í báðum greinum, en bar einnig sigur úr býtum í langstökki, hástökki og kúluvarpi, varð annar í spjótkasti og þriðji í 80 metra hlaupi og þrístökki. Hann var líka orðinn varamaður í meistaraflokki KR þegar hann hætti knattspyrnuiðkun. Fyrsti Evrópumeistarinn. Gunnar varð stór og sterkur og einbeitti sér því að kastgreinum, einkum kúluvarpi og kringlukasti, og setti á næstu árum fjölda Íslandsmeta. Sumarið 1944 kastaði hann kúlu 15,50 m, sem var fjórða lengsta kast í heiminum það árið, en raunar fór lítið fyrir íþróttaiðkunum vegna heimsstyrjaldarinnar. Gunnari gáfust því engin færi á að etja kappi við erlendia íþróttamenn á þessum árum. Það gerðist ekki fyrr en á Evrópumeistaramótinu í Osló 1946. Þar keppti hann í kúluvarpi og sigraði með yfirburðum, kastaði kúlunni 15,56 metra, 30 cm lengra en næsti maður. Fyrr um sumarið hafði hann sett Íslandsmet í bæði kúluvarpi, 15,69 m, og kringlukasti, 45,40 m. Gunnar átti við áfengisvandamál að stríða og varð það til þess að hann fór ekki á Ólympíuleikana í London 1948. Hann hélt þó áfram að vinna afrek á íþróttavellinum - ef hann mætti á annað borð til keppni - og sumarið eftir náði hann sér vel á strik, keppti á fjölda móta í Noregi, náði frábærum árangri og fjórbætti Íslandsmet sitt í kúluvarpi. Á móti í Haugasundi í Noregi 18. júlí setti hann Norðurlandamet, kastaði kúlunni 16,41 metra. Evrópumeistari öðru sinni. Á Evrópumeistaramótinu í Brüssel varði Gunnar titil sinn með glæsibrag, varpaði kúlunni 16,74 metra, sem var nýtt Íslands-, Norðurlanda- og Evrópumet og lengsta kast hans á ferlinum. Sigurkast Gunnars var nær hálfum öðrum metra lengra en kast silfurverðlaunahafans og sagði Gunnar sjálfur á eftir að hann hefði getað staðið fyrir aftan kasthringinn og unnið samt. Kast Gunnars var þriðji besti árangur mótsins samkvæmt þeirri stigatöflu sem þá var notuð og Íslansmetið stóð í 17 ár. Öll köst hans í keppninni nema eitt voru yfir 16 metra. Sama ár setti hann Íslandsmet í kringlukasti, 50,13 m, sem stóð í mörg ár. Gunnar var afar vinsæll, dáður og eftirsóttur íþróttamaður þrátt fyrir bresti sína, ekki bara á Íslandi, heldur einnig á Norðurlöndum og í Evrópu og var víða boðið að keppa á þessum árum, meðal annars á breska meistaramótinu. Fangelsisvist. Áfengisvandmál Gunnars var þó síður en svo úr sögunni og eftir uppákomu í keppnisferð til London 1951 skrifuðu fjórir aðrir frjálsíþróttamenn bréf til Frjálsíþróttasambands Íslands og neituðu að keppa oftar með Gunnari erlendis. Hann keppti þó á ýmsum mótum erlendis um sumarið en svo seig á ógæfuhliðina og í nóvember var hann handtekinn fyrir að hafa slegið og rænt mann á götu í Reykjavík og eytt fengnum í áfengi. Fyrir það var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi. Gunnar keppti því að sjálfsögðu ekki á Ólympíuleikunum í Helsinki sumarið 1952. Hann stundaði æfingar af kappi á Litla-Hrauni og hóf keppni aftur eftir að afplánun lauk. Þá setti hann meðal annars Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss. Um sumarið svipti Frjálsíþróttasambandið hann þó keppnisleyfi eftir að meistaramót Reykjavíkur var hafið. Síðustu ár ferilsins. Gunnar hélt áfram að keppa öðru hverju næstu árin en náði ekki sama árangri og áður, enda æfði hann lítið. En árið 1958 var hann aftur kominn í gott form, varpaði kúlunni yfir 16 metra í fyrsta sinn í mörg ár og ávann sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í Stokkhólmi. Þar komst hann í aðalkeppnina en náði sér ekki á strik. Hann naut þó mikilla vinsælda meðal áhorfenda eins og jafnan áður. Gunnar keppti síðast árið 1962 og varð þá Íslandsmeistari í kúluvarpi í tíunda sinn og kastaði 15,75 metra. Á ferli sínum varð hann líka sex sinnum Íslandsmeistari í kringlukasti og tvisvar í sleggjukasti. Hann var fyrstur Íslendinga til að kasta kúlu yfir bæði 15 og 16 metra og kringlu yfir 50 metra. Þegar hann lagði skóna á hilluna heiðruðu þeir Albert Guðmundsson og Jakob Hafstein hann með bikar fyrir 25 ára keppnisferil. Gunnari tókst um síðir að vinna bug á áfengisfíkn sinni og var eftir það ötull félagi og leiðbeinandi í AA-samtökunum. Hann vann lengst af hjá Reykjavíkurborg, aðallega hjá Vatnsveitunni. Sambýliskona Gunnars lengst af var Rósa Þórðardóttir. Gunnar var að einhverju leyti fyrirmynd drykkfellda afreksmannsins Hreggviðs í "Djöflaeyjunni" eftir Einar Kárason en persónan átti sér þó fleiri fyrirmyndir. Verkakvennafélag Ísafjarðar. Verkakvennafélag Ísafjarðar var stéttarfélag verkakvenna á Ísafirði, stofnað vorið 1917. Um 80 konur stóðu að stofnun félagsins og börðust þær fyrir tíu tíma vinnudegi og 30 aura kaupi á tímann. Til samanburðar var tímakaup verkakarla í Reykjavík 60 aurar um þær mundir. Félagið starfaði í nokkur ár. Ekki er getið um aðrar forystukonur en formann þess, Þóru J. Einarsson, hjúkrunarkonu. KODDU. "KODDU" (einnig skrifað "Koddu") er umdeild listasýning sem upphaflega átti að opna í Listsafni Árnesinga í Hveragerði 4. nóvember 2010, en var loks opnuð í Nýlistasafninu og Allianz húsinu í Reykjavík 16. apríl 2011 og stóð til 15. maí. Efni sýniningarinnar var ímynd þjóðarinnar, m.a. birtingarmyndir og tákngervingar góðærisins, fyrir bankahrunið á Íslandi 2008. Um 30 Íslenskir listarmenn áttu verk á sýnigunni, þ.á m. Hannes Lárusson. Sýningarstjórar voru auk Hannesar þau Ásmundur Ásmundsson og Tinna Grétarsdóttir. Vegna kvartana frá bókaútgáfunni "Crymogea" var listaverkið „"Fallegasta bók í heimi"“ eftir sýningarstjórana fjarlægt af sýningunni. (Nokkur önnur verkanna á sýningunni voru einnig unnin sérstaklega af sýningarstjórn.) Í framhaldinu var sýningunni í Nýlistasafninu lokað ótímabundið. "Fallegasta bók í heimi" var tekin til sýningar í Alliance-húsinu 26. apríl. Daginn eftir barst krafa frá útgáfustjóra Crymogea um að verkið yrði fjarlægt og því eytt. Heiti sýningarinnar er afbökun á upphrópuninni „"Komdu!"“. Sýningin var styrkt af Thyssen-Bornemisza Art Contemporary. Hannes Lárusson. Hannes Lárusson (fæddur í Reykjavík) 1955 er íslenskur listamaður. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann 1975 - 77, The Vancouver School of Art Canada 1977-79, Universita Degli Studi Di Firenze Italy 1981, The Whitney Museum Independent Study Program NewYork 1982-83. Frá 1986 stundaði Hannes nám við Nova Scotia College of Art and Design, Halifax, Canada og lauk þaðan M. F. A. gráðu 1988. Að auki stundaði Hannes nám í heimspeki við Háskóla Íslands og lauk B.A. gráðu 1986 og námi í kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands 1998. Hannes tók þátt í listasýningunni "KODDU" og var jafnframt einn þriggja sýningarstjóra, en verk þeirra þremenninga, "Fallegasta bók í heimi" olli nokkru fjarðrafoki og var fjarlægt tímabundið af sýningunni. Inspired by Iceland. "Inspired by Iceland" var snarpt markaðsátak, sem hleypt var af stokkunum árið 2010 af Iðnaðarráðuneyti Íslands í samstarfi við Icelandair, Reykjavíkurborg, Iceland Express, og Samtök ferðaþjónustunnar (um 70 fyrirtæki). Vegna öskufalls frá eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 og truflana sem urðu vegna þess í alþjóðlegum flugsamgöngum kom upp alvarleg staða í íslenskri ferðaþjónustu. Komum ferðamanna til landsins hafði fækkaði um 22% í apríl og óttast var að þeim myndi fækka enn frekar. Hugmyndin var að markaðsátakið myndi bæta ímynd landsins út á við. Borgalandfræði. Borgalandfræði er fræðigrein sem fjallar um svæði sem einkennast af byggingum, innviðum, efnahag og umhverfisáhrifum þeirra. Þessi svæði hafa oft háan íbúafjölda og eru í daglegu tali kallað borgir. Einnig er hægt að líta á þessa grein sem stór undirgrein mannvistarlandfræði. En hún getur líka verið þverfagleg og farið inn á önnur svið eins og mannfræði og borgarfélagsfræði. Borgalandfræðingar reyna að skilja áhrifavalda á rýmið, hvaða tilgangi þeir þjóna og tengsl þeirra. Borgalandfræðingar líta einnig á þróun landnáms. Þannig að einnig kemur skipulagning borga og umbætur fyrir, einnig reyna þeir að finna sameiginleg einkenni borga og sérkenni, hverngi ólíkir þættir tengjast og gera borg að borg. Borgarlandfræði reynir því að gera grein fyrir áhrifum mannsins og umhverfis á breytingar. Borgarlandfræði leggur áherslu á borgina í samhengi við svæði í gegnum lönd og heimsálfur, þ.e. skoða flæði milli landa og borga og áhrif hvað á annað. Borgalandfræði leggur grunnin að fyrir nokkarar starfsgreinar eins og til dæmis borgarskipulagning, staðsetningarval, fasteignaþróun, greiningar á munstur glæpa og skipulagsgreiningar. Borgarlandfræði hefur verið sérgrein innan landfræðinnar síðan uppúr 1950 og hefur vaxið mikið uppúr 1970. Fallegasta bók í heimi. "Fallegasta bók í heimi" er heiti á umdeildu listaverki, sem unnið var sérstaklega af sýningarstjórn sýningarinnar KODDU og hún skrifuð fyrir því undir heitinu "Koddu". Sýningarstjórnina skipuðu myndlistarmennirnir Hannes Lárusson og Ásmundur Ásmundsson ásamt Tinnu Grétarsdóttur, mannfræðingi, en sýningin var haldin á tvemur stöðum í Reykjavík, í Nýlistasafninu og Alliance-húsinu. Verkið notaðist að hluta til við bókina Flora Islandica, eftir þá Eggert Pétursson og Ágúst H. Bjarnason, sem gefin var út af útgáfufélaginu Crymogea. Útgáfustjórinn, Kristján B. Jónasson, taldi listaverkið brjóta á sæmdarrétti höfunda og óskaði eftir því að það yrði fjarlægt af sýningunni. Stjórn Nýlistasafnsins féllst á rök útgáfustjórans og fjarlægði verkið við kröftug mótmæli sýningarstjórana þriggja. Listaverkið var aftur tekið til sýningar í Alliance-húsinu 26. apríl 2011. Eggert Pétursson sagði „níðingsverk“ hafa verið unnið á bók sinni Flora Islandica með verkinu. Frederick Cook. Frederick Albert Cook (10. júní 1865 – 5. ágúst 1940) var bandarískur könnuður og læknir, þekktur fyrir að hafa verið fyrsti maðurinn til þess að komast á Norðurpólinn þann 21. apríl 1908. Þetta mun hafa verið ári áður en 6. apríl 1909, daginn sem Robert Peary sagðist hafa komist þangað. Tenglar. Cook, Frederick Albert Sæmdarréttur. Sæmdarréttur er hluti höfundaréttar í mörgum löndum. Sæmdarrétturinn er upprunninn í franskri og þýskri löggjöf á 19. öld og varð hluti af Bernarsáttmálanum við endurskoðun hans 1928. Sæmdarréttur leiðir af þeirri hugmynd að verk höfundar sé framlenging á persónu hans. Sæmdarrétturinn er þannig oftast persónubundinn (aðeins höfundurinn sjálfur getur verið málsaðili) og óframseljanlegur, öfugt við hinn meginhluta höfundaréttar, fjárhagslegu réttindin. Þótt þessi réttindi séu varin með höfundalögum þá er í dómaframkvæmd reynt að vega þau og meta gagnvart öðrum réttindum, samningsskyldum og anda laganna. Oft þarf höfundur að sýna fram á mjög ríkar ástæður til að taka verk úr umferð eða stöðva útgáfu verks sem hann hefur áður samið um. Eins vega dómarar sæmdarrétt höfundar út frá tjáningarfrelsisákvæðum sem til dæmis fela í sér ríkan rétt til háðsádeilu með skopstælingu sem aftur getur hæglega skaðað heiður höfundar skopstælda verksins. Algengast er að dæmdar séu bætur fyrir brot á sæmdarrétti vegna ritstuldar þar sem höfundar er ekki getið með réttum hætti. Ekki þarf að sýna fram á fjárhagslegt tjón þegar farið er fram á bætur fyrir brot á sæmdarrétti, líkt og þarf að gera þegar um brot gegn fjárhagslegum réttindum er að ræða. Hilmar Þorbjörnsson. Hilmar Þorbjörnsson (23. október 1934 – 29. janúar 1999) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem var fremsti spretthlaupari landsins á sinni tíð. Hann keppti á tvennum Ólympíuleikum og setti árið 1957 Íslandsmet í 100 metra hlaupi sem enn stendur (2011) og er elsta íslenska frjálsíþróttametið. Hilmar var fæddur í Reykjavík, sonur Þorbjarnar Þórðarsonar málarameistara og konu hans Charlottu Steinþórsdóttur. Hann lauk gagnfræðaprófi og hóf síðan störf í lögreglunni, þar sem hann starfaði lengst af. Hann var yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar í nokkur ár og starfaði síðast hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hann starfaði einnig hjá Sameinuðu þjóðunum í New York á árunum 1963-1964 og í Ísrael 1969-1971. Hann var tvíkvæntur og eignaðist 9 börn. Hilmar var frækinn spretthlaupari og átti á sínum tíma Íslandsmet í 100 metra hlaupi, 200 metra hlaupi, 300 metra hlaupi og í 4 x 400 metra boðhlaupi og stendur met hans í 100 metra hlaupi, 10,3 sekúndur (með þáverandi tímatökutækni) ennþá og hefur ekki verið slegið þótt það hafi verið jafnað nokkrum sinnum. Metið, sem var sett á meistaramóti Íslands sumarið 1957, var á sínum tíma Norðurlandametsjöfnun. Hilmar var annar af aðeins tveimur Íslendingum sem kepptu á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, hinn var Vilhjálmur Einarsson. Hilmar keppti í 100 metra hlaupi og varð í þriðja sæti í sínum riðli í undanrásum en tognaði og gat því ekki keppt í 200 metra hlaupi. Hann keppti einnig í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og varð þar í fjórða sæti í sínum riðli og komst ekki áfram. Hann var skráður til leiks í 200 metra hlaupi en gat ekki tekið þátt vegna veikinda. NCIS (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 20. september 2005 og sýndir voru 24 þættir. Leikkonan Sasha Alexander hættir sem Kate Todd en nýjar leikkonur koma í staðinn, Cote de Pablo sem Ziva David og Lauren Holly sem Jennifer Shepard. Saragossasáttmálinn. Saragossasáttmálinn er friðarsamningur sem var gerður á milli Spánverja og Portúgala 22. apríl 1529. Jóhann 3. konungur Portúgals og Karl 1. Spánarkonungur skrifuðu undir sáttmálann í borginni Zaragoza. Sáttmálinn skilgreindi yfirráðasvæði Spánverja og Portúgala í Asíu til þess að leysa Mólúkkaeyjamálið, þegar bæði konungsríkin kröfðust yfirráða á þessum eyjum, með Tordesillas-sáttmálann frá árinu 1494 til hliðsjónar. Deilurnar byrjuðu árið 1520 þegar könnunarleiðangrar beggja konungsríkjanna komu að Kyrrahafinu, þar sem engin mörk voru sett fyrir austurhvel jarðar. Dagur jarðar. Dagur jarðar er dagur sem er helgaður fræðslu um umhverfismál. Til dagsins var stofnað að undirlagi bandaríska öldungadeildarþingmannsins Gaylord Nelson árið 1970. Hann er haldinn hátíðlegur 22. apríl ár hvert. Árið 2009 gerðu Sameinuðu þjóðirnar þennan dag að Alþjóðlegum degi móður jarðar. NCIS (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 19. september 2006 og sýndir voru 24 þættir. NCIS (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 25.september 2007 og aðeins 19 þættir voru sýndir vegna verkfalls handritshöfunda. Beyblade. Beyblade er kanadískur og japanskur anime sjónvarpsþáttur sem var sýndur á árunum 2002 til 2005. Fjórum árum síðar var framhaldsþátturinn "Beyblade: Metal Fusion" frumsýndur og hefur verið í sýningu síðan. Þættirnir snúast um keppni tveggja hluta. Aðalhluturinn nefnist Beyblade sem er ekki ósvipaður skopparakringlu að útliti, en ólíkt venjulegri skopparakringu hefur Bayblade ýmis tól og tæki til að verjast öðrum og sigra andstæðinginn. Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur. Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eða E"infaldt Matreidslu Vasa-Qver fyrir heldri manna Húss-freyjur, útgefid af frú Assessorinnu Mørtu Maríu Stephensen", var fyrsta matreiðslubók sem út kom á íslensku og var bókin prentuð í Leirárgörðum árið 1800. Bókin er gefin út undir nafni Mörtu Maríu Stephensen, eiginkonu Stefáns Stephensen, síðar amtmanns, og er hún jafnframt fyrsta bók sem út kom á íslensku og kennd var konu. Það var mágur hennar, Magnús Stephensen, sem gaf bókina út og er hann nú oftast talinn höfundur hennar, enda segir hann svo sjálfur í ævisögu sinni, en þó kann að vera að einnig hafi verið bætt við efni frá Mörtu Maríu. Magnús, sem var mikill áhugamaður um mat og hafði oft hvatt til þess að skrifuð yrði íslensk matreiðslubók, segist hafa skrifað uppskriftirnar í Noregi veturinn 1783-1784 og þá væntanlega upp úr uppskriftabók norskrar eiginkonu Þorkels Fjeldsted, sem hann dvaldi hjá. Svo mikið er víst að uppskriftirnar í bókinni eru flestar eða allar erlendar að uppruna - en það hefði væntanlega líka gilt um margar af uppskriftum Mörtu Maríu - og þar eru notuð ýmis hráefni sem ekki hafa verið á hvers manns borði á Íslandi; þar er meðal annars uppskrift að steiktum kalkúna og fleiru slíku, svo að ekki er hægt að segja að bókin gefi mynd af dæmigerðri íslenskri matargerð síns tíma. Hún mun heldur ekki hafa haft mikil áhrif á matargerð Íslendinga. Bókin var endurútgefin árið 1998 af Söguspekingastifti og hefur verið endurprentuð tvisvar. NCIS (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 23.september 2008 og sýndir voru 25 þættir. Söguþráðs skipti verða þegar Gibbs og McGee ferðast til Los Angeles og áhorfendur fá að kynnast nýjasta NCIS liðinu í. Lauren Holly hættir sem Jennifer Shepard en í staðinn kemur Rocky Carroll sem hinn nýi yfirmaður NCIS. NCIS (7. þáttaröð). Sjöunda þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 22. september 2009 og sýndir voru 24 þættir. Pingu. "Pingu" er svissneskur sjónvarpsþáttur fyrir börn sem fjallar um fjölskyldu manngervandi mörgæsa. Þátturinn er leirmynd sem á sér stað á Suðurskautslandinu og aðalpersóna hans er Pingu, sonurinn í fjölskyldunni og nafni þáttarins. Upprunalega voru fjórar þáttaraðir framleiddar: sú fyrsta árið 1986 og síðasta þeirra árið 1998 en þær voru sendar út í Sviss á stöðinni SF DRS. Skapari þáttarins var Otmar Gutmann sem vann í samstarfi með The Pygos Group og Trickfilmstudio. Óskað var eftir fleiri þáttum og tvær nýjar þáttaraðir voru teknar upp árið 2004. Ein ástæða fyrir alþjóðlegum vinsældum þáttanna er sú að persónur þáttanna tala ekki mannlegt mál en það gerir fólki sem talar ólík tungumál kleyft að skilja söguþráðinn. Mark Harmon. Mark Harmon (fæddur Thomas Mark Harmon, 2. september 1951) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í NCIS, Chicago Hope og St. Elsewhere. Einkalíf. Harmon fæddist í Burbank, Kaliforníu í bandaríkjunum. Stundaði nám við Los Angeles Pierce College en skipti yfir í Kaliforníuháskólann í Los Angeles þaðan sem hann útskrifaðist með B.A. gráðu í samskiptum árið 1974. Var valinn fallegasti maður ársins 1986 af People´s tímaritinu. Harmon giftist leikkonunni Pam Dawber árið 1987 og saman eiga þau tvo stráka. Þann 1. október 2012 var Harmon heiðraður með stjörnu á Hollywood Walk of Fame göngugötunni sem er staðsett við 6253 Hollywood Blvd. Fótboltaferill. Spilaði amerískan fótbolta sem leikstjórnandi á meðan hann stundaði nám. Var leikstjórnandi UCLA Bruins liðsins árin 1972 – 1973. Fékk hann National Football Foundation verðlaunin fyrir fjölhæfni sína árið 1973.Þau tvö ár sem hann var leikstjórnandi liðsins þá vann Kaliforníuháskólinn 17 leiki en tapaði aðeins 5. Var árið 2010 gefinn inn í íþróttaheiðurshöll Pierce College skólans. Leikhús. Harmon hefur leikið í nokkrum uppfærslum í Los Angeles og Toronto. Kom fram sem Bobby í Wrestlers og The Wager í The Cast Theatre í Los Angeles. Í lok áttunda áratugsins var hann hluti af uppfærslunni Key Exchange í Kanada. Fékk tækifæri til þess að leika gegn eiginkonu sinni Pam Dawber í uppfærslunni af Love Letters. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpsframkoma hans var í Kellogg's sjónvarpsauglýsingu með föður sínum. Fyrsta hlutverk hans í sjónvarpsþætti var í Ozzie's Girls frá 1973. Sem fylgdi á eftir með gestahlutverkum þáttum á borð við Adam-12, Police Woman, Centennial og 240-Robert. Fyrsta stóra hlutverk hans var í Flamingo Road sem Fielding Carlisle. Serían lifði stutt og eftir hana þá fékk hann hlutverk í St. Elsewhere árið 1983 sem læknirinn Robert Caldwell sem hann lék til ársins 1986. En persóna hans var samkynhneigð og var látin smitast af alnæmisveirunni,varð söguþráðurinn þekktur fyrir að vera fyrsti sinnar tegundar í sjónvarpi þar sem aðalpersóna hlýtur veiruna. Lék rannsóknarlögreglufulltrúann Dickie Cobb í sjónvarpsþættinum Reasonable Doubts frá árunum 1991-1993. Árið 1996 þá var honum boðið hlutverk í Chicago Hope sem læknirinn Jack McNeil. Lék síðan leyniþjónustumanninn Simon Donovan í The West Wing sem lífvörður C.J. Cregg. Hefur síðan 2003 leikið NCIS alríkisfulltrúann Leroy Jethro Gibbs í CBS dramaþættinum NCIS. Kvikmyndir. Harmon lék í fyrstu kvikmynd sinn árið 1978 í Comes a Horseman. Hefur síðan þá komið í kvikmyndum á borð við: The Presidio, Wyatt Earp, Fear and Loathing in Las Vegas og Chasing Liberty. Tenglar. Harmon, Mark Marshall Warren Nirenberg. Marshall Warren Nirenberg (fæddur 10. apríl 1927, dáinn 15. janúar 2010) var bandarískur lífefnafræðingur og erfðafræðingur. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin ílífeðlis- og læknisfræði ásamt Har Gobind Khorana og Robert W. Holley árið 1968 fyrir að hafa ráðið erfðakóðann og lýst því hvernig hann nýtist við prótínsmíð í lífverum. Rannsóknir. Árið 1959, þegar Nirenberg var að ljúka nýdoktorsverkefni sínu hjá Stetten og Jakoby við bandarísku heilbrigðisstofnunina, var það orðinn að heita má viðtekinn sannleikur að erfðaefni lífvera væri DNA. Þetta höfðu til dæmis rannsóknir Avery og félaga, Meselsons og Stahl, Hershey og Chase og Watsons og Crick sýnt fram á. Hins vegar var það enn óráðin gáta hvernig upplýsingar um samsetningu prótína væru kóðaðar í kirnaröð DNA og hvert hlutverk RNA væri í tjáningarferlinu. Nirenberg einsetti sér að greiða úr þessum ráðgátum og fékk til liðs við sig ungan þýskan lífefnafræðing, Heinrich Matthaei. Þeir bjuggu til með efnasmíð pólýúrasíl, það er, RNA-sameindir sem samanstóðu eingöngu af fjölliðu úrasíl kirna. Það settu þeir út í frumufrían vökva sem dreginn hafði verið út úr rækt "Escherichia coli" baktería. Einnig bættu þeir ensími sem brýtur niður DNA út í blönduna, til að tryggja að prótínsmíð myndi ekki eiga sér stað út frá DNA bakteríanna, heldur eingöngu út frá pólýúrasíl sameindinni. Þessu næst var bætt í blönduna hinum 20 náttúrlegu amínósýrum og var ein þeirra merkt með geislavirkri samsætu. Tilraunin var marg-endurtekin og mismunandi amínósýra geislamerkt í hvert sinn. Peptíðunum sem smíðuð voru út frá pólýúrasíl sameindinni var safnað og geislavirkni mæld. Einungis í þeim tilraunum þar sem fenýlalanín var geislamerkt reyndist peptíðafurðin vera geislavirk og þar með var fyrsti tákninn í erfðakóðanum ráðinn: UUU stendur fyrir fenýlalanín. Eftir að kapphlaupinu um ráðningu erfðakóðans lauk, sneri Nirenberg sér að rannsóknum í taugalíffræði og þroskun. Flora Islandica. "Flora Islandica" er bók gefin út af útgáfufélaginu Crymogea árið 2008, sem sýnir 271 flóruteikningar Eggerts Péturssonar í upprunalegri stærð ásamt texta Ágústs H. Bjarnasonar um viðkomandi háplöntu. Bókin er 560 blaðsíður, 301mm x 403mm að stærð og var aðeins gefin út í 500 tölusettum eintökum, árituðum af Eggerti. Bækurnar voru handinnbundnar og í vönduðum línklæddum viðarkassa. „Fallegasta bók í heimi“. Á listasýningunni KODDU í Nýlistasasafninu 2011 var eitt listaverk undir heitinu „"Fallegasta bók í heimi"“ eftir sýningarstjórana. Verkið var að hluta unnið úr Flora Islandicu, en í því liggur bókin útötöð matarleifum á púlti. Vegna kvartana frá útgáfustjóranum Kristjáni B. Jónassyni var listaverkið fjarlægt tímabundið af sýningunni og spunnust af því deilur um tjáningarfrelsi og sæmdarrétt. Heðin Brú. Heðin Brú á færeysku frímerki. Heðin Brú (17. ágúst 1901 – 18. maí 1987), sem hét réttu nafni Hans Jacob Jacobsen, var færeyskur rithöfundur og einn helsti höfundur Færeyinga á 20. öld. Hans Jacob Jacobsen var fæddur í Skálavík í Færeyjum. Hann gekk í lýðháskólann í Þórshöfn 1919–1920 og fór síðan í bændaskóla í Danmörku, vann á dönskum sveitabæjum í nokkur ár og útskrifaðist frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1928. Hann hélt síðan heim til Færeyja, vann þar við búnaðarstörf og varð landbúnaðarráðunautur 1942. Hann hóf ritstörf á námsárunum í Danmörku og sinnti þeim jafnan til hliðar við aðalstarf sitt. Bækur sínar skrifaði hann jafnan undir höfundarnafninu Heðin Brú. Fyrsta skáldsga hans, "Lognbrá", kom út 1930 og framhald hennar, "Fastatøkur", kom út 1935. Þekktasta bók hans, "Feðgar á ferð", kom svo út 1940. Bókin fjallar um þróun færeysks þjóðfélags úr bændasamfélagi í nútíma fiskveiðiþjóð og togstreitu milli kynslóða. Bókin var þýdd á nokkur tungumál og var meðal annars fyrsta færeyska skáldsagan sem þýdd var á ensku. Hún kom út á íslensku þegar árið 1941. Bókin var kjörin skáldsaga 20. aldarinnar í Færeyjum. Síðar sendi Heðin frá sér skáldsögurnar" Leikum fagurt" (1962), "Men livið lær" (1970) og "Tað stóra takið" (1972). Hann sendi einnig frá sér smásagnasöfn og ýmsar þýðingar, þar á meðal á tveimur leikritum Shakespeares og öðrum heimsbókmenntum, og ævintýrasafnið" Ævintýr I-IV". Fyrir hana fékk hann Færeysku barnabókaverðlaunin 1980. Hann hlaut ýmsar aðrar viðurkenningar, þar á meðal færeysku bókmenntaverðlaunin 1964. Heimildir. Brú, Hedin Nýdoktor. Nýdoktor (einnig kallað póstdokk) er starfsheiti vísindamanns í háskóla eða annarri rannsóknastofnun sem lokið hefur doktorsprófi en er ekki fastráðinn akademískur starfsmaður. Nýdoktorsstöður eru algengar í grunnrannsóknum, einkum í náttúruvísindum. Silfurfiskaætt. Silfurfiskaætt (fræðiheiti "Sternoptychidae") eru smávaxnir miðsævisfiskar, oft mjög sérkennilegir í lögun með mjög stór augu. Ljósfæri eru á haus, kvið og neðanverðri stirtlu. Ættin skiptist í tvær undirættir, deplur (Maurolicinae) og axarfiska (Sternoptychinae). Kristján B. Jónasson. Kristján Bjarki Jónasson (f. 23. nóvember 1967) er íslenskur bókaútgefandi og rithöfundur og fyrrverandi formaður Félags íslenskra bókaútgefanda. Hann er útgáfustjóri útgáfufélagsins Crymogea og er kvæntur skáldinu Gerði Kristnýju. Kristján beitti sér fyrir því að listaverkið "Fallegasta bók í heimi" yrði fjarlægt af sýningunni KODDU í apríl 2011, en það var ekki gert. Truntusól. "Truntusól" er skáldsaga, byggð á raunverulegum atburðum, eftir Sigurð Þór Guðjónsson, gefin út af Helgafelli 1973. Í bókinni er fjallað um vist á geðdeild, en nafnið er afbökun á heiti geðlyfsins Tryptizol. Gerhard Schøning. Gerhard Schøning (2. maí 1722 á Lofoten – 18. júlí 1780) var norskur skólamaður og sagnfræðingur, sem síðast var leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn. Æviágrip. Gerhard Schøning fæddist á bænum Skotnesi í Buksnes prestakalli á Lofoten í Norður-Noregi. Foreldrar hans voru Andreas Schøning (um 1680–1740), kaupmaður, og kona hans Martha Ursin. Eftir undirbúningsnám á heimaslóðum fór hann árið 1739 til náms í dómkirkjuskólanum í Þrándheimi. Benjamin Dass rektor skólans gerði sér grein fyrir hæfileikum þessa nemanda og veitti honum sérstaka leiðsögn. Eftir stúdentspróf 1742, fór Schøning í Kaupmannahafnarháskóla og lauk guðfræðiprófi 1744 og meistaraprófi 1748. Árið 1751 varð hann rektor í dómkirkjuskólanum í Þrándheimi, tók við af Benjamin Dass. Með honum þangað fór danski sagnfræðingurinn Peter Frederik Suhm, og voru þeir nánir samverkamenn í sagnfræði næstu árin, ásamt hinum lærða manni Johan Ernst Gunnerus. Þegar Gunnerus var skipaður biskup í Þrándheimi 1758, fékk vísindalegt samstarf þeirra meira vægi, og til að styrkja það enn frekar stofnuðu þeir þrír vísindafélag árið 1760, Þrándheimsfélagið. Árið 1767 var nafni þess breytt í Konunglega norska vísindafélagið, eftir að það fékk formlega viðurkenningu konungs. Félagið hóf útgáfustarfsemi árið 1761, og birti Schøning margar greinar í ritum þess. Þeir Suhm og Schøning skiptu með sér verkum, þannig að sá fyrrnefndi vann að sögu Danmerkur, en Schøning að sögu Noregs. Árið 1765 var Schøning boðið að verða prófessor í sagnfræði og mælskulist (latínu) í Sórey í Danmörku (Sorø akademi). Hann þáði það þó að það fæli í sér launalækkun, því að þar gafst betra næði til fræðistarfa. Þar varð hann samstarfsmaður Jóns Eiríkssonar, sem auðveldaði honum aðgang að fornum íslenskum heimildum. Í ágúst 1775 var Schøning skipaður leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn, sem var vel launað embætti, og gegndi hann því til dauðadags, 1780. Gerhard Schøning var félagi í Konunglega danska vísindafélaginu frá 1758, og hann varð jústitsráð 1774. Í Osló er gata sem ber nafn hans. Gerhard Schøning giftist (1756) Frederikke Hveding (um 1724 – 1788); þau voru barnlaus. Fræðistörf. Schøning hóf sagnfræðirannsóknir í Kaupmannahöfn og gaf út fyrsta rit sitt árið 1750. Á Þrándheimsárunum gaf hann út nokkur fræðileg rit, sem öfluðu honum virðingar í fræðaheiminum. Árið 1762 gaf hann út brautryðjandaverk um Niðarósdómkirkju, þar sem fram kemur mikil þekking höfundarins á fornum heimildum. Lýsingar hans á kirkjunni hafa mikið gildi því þær sýna hvernig hún var fyrir umfangsmiklar breytingar sem gerðar voru á henni á 19. öld. Árið 1769 kom út "Afhandling Om de norskes og en del andre nordiske Folks Oprindelse", sem átti að vera inngangur að sögu Noregs. Fyrsta bindið af Noregs-sögu Schønings kom út 1771: "Norges Riiges Historie". Annað bindið kom tveimur árum seinna og náði það til ársins 961. Þetta var fyrsta tilraun til að skrifa sögu Noregs, þar sem hún er sett í menningarsögulegt samhengi. Hann náði að ljúka þriðja bindinu, sem nær til 995, og kom það út eftir dauða hans, 1781. Noregssaga Schønings er barn síns tíma og telst nú úrelt verk. Árin 1773–75 fékk Schøning konunglegan styrk til að ferðast um Noreg og safna upplýsingum um lífshætti fólks og fornar hefðir. Afraksturinn var einstætt safn af rituðum lýsingum og teikningum, sem hefur verið mikið notað af fræðimönnum, þó að mikill hluti þess lægi lengi óútgefinn í söfnum í Kaupmannahöfn. Tvö hefti af ferðalýsingunum voru prentuð 1778–1782, en þær voru prentaðar í heild í þremur bindum 1910–1926. Þegar Schøning var skipaður leyndarskjalavörður árið 1775, varð hann að hætta rannsóknarferðum sínum um Noreg og snúa aftur til Danmerkur. Helst hefði hann viljað halda áfram verki sínu um sögu Noregs, en honum var nú falið að vinna að viðhafnarútgáfu Heimskringlu, sem þá lá aðeins fyrir í hinni sænsku útgáfu Johans Peringskiölds frá því um 1700. Jón Ólafsson úr Svefneyjum vann með honum að útgáfunni, og komu fyrstu tvö bindin út 1777–1778. Þriðja bindið var hálfnað þegar Schøning dó. Skúli Thorlacius tók þá við verkinu, og kom það út 1783. Þessi útgáfa var með aðalsbrag hvað frágang snertir: í stóru broti, íslenskur texti í vinstri dálki, dönsk þýðing Jóns Ólafssonar í hægri dálki og latínuþýðing Schønings neðst á síðu. Textameðferðin fullnægir þó ekki nútímakröfum. Þessari útgáfu var síðar haldið áfram með útgáfu fleiri konungasagna, og lauk henni árið 1826 með 6. bindi, sem Finnur Magnússon sá um. Þar er mikið skýringarefni, ættarskrár og kort, og er þetta verk með allra glæsilegustu fornritaútgáfum. Schøning var vel heima í íslenskum fornbókmenntum og hafði lengi haft í huga að gefa út Konungsskuggsjá, en þau áform féllu niður þegar hin vandaða útgáfa Hálfdanar Einarssonar (og Jóns Eiríkssonar) kom út í Sórey 1768. Sem leyndarskjalavörður tók Schøning sæti í Árnanefnd, sem hafði umsjón með handritasafni Árna Magnússonar. Gerhard Schøning arfleiddi Konunglega norska vísindafélagið í Þrándheimi að bókasafni sínu, sem var um 11.000 bindi. Bangalore. Bangalore (opinberlega þekkt sem Bengaluru) er borg í suðurhluta Indlands. Hún fimmta fjölmennasta borg á Indlandi. Bangalore er þekkt sem í „Silicon Valley Indlands“ vegna lykilhlutverks síns í upplýsingatækniiðnaði Indlands. Sasha Alexander. Sasha Alexander (fædd Suzana S. Drobnjaković, 17. maí 1973) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "NCIS", "Dawson's Creek" og "Rizzoli & Isles". Einkalíf. Alexander fæddist í Los Angeles, Kaliforníu í Bandaríkjunum og er af serbneskum og ítölskum uppruna. Sasha talar bæði serbnesku og ítölsku mjög vel. "Sasha Alexander" er sviðsnafn hennar en raunverulegt nafn hennar er Suzana (Sasha var gælunafn hennar í æsku) og Alexander er nafn bróður hennar. Alexander giftist kvikmyndaleikstjóranum Edoardo Ponti í janúar 2006 og saman eiga þau tvö börn. Ponti er sonur kvikmyndaframleiðandans Carlo Ponti og leikkonunnar Sophiu Loren. Sasha stundaði nám við Suður-Kaliforníuháskólann. Alexander fékk áhuga á leiklist í grunnskóla þar sem hún kom fram í leikritum sem hún hélt áfram í menntaskóla og háskóla. Fluttist hún til New York til þess að leika í leikhúsum og Shakespeare hátíðum. Ferill. Fyrsta hlutverk hennar var í stuttmyndinni Visceral Matter frá 1997. Fékk hlutverk í sjónvarpsþættinum Wasteland sem Jesse Presser. Lék systur Katie Holmes í Dawson's Greek. Var árið 2003 boðið hlutverk í NCIS sem leyniþjónustukonan Caitlin „Kate“ Todd sem hún lék til ársins 2005. Alexander leikur í dag réttarlæknirinn Maura Isles í sjónvarpsþættinum Rizzoli & Isles sem er gerður eftir metsölubókum Tess Gerritsen. Hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: All Over the Guy, Yes Man og. Tenglar. Alexander, Sasha Michael Weatherly. Michael Weatherly (fæddur Michael Manning Weatherly Jr., 8. júlí 1968) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í NCIS og Dark Angel. Einkalíf. Weatherly fæddist í New York-borg en er alinn upp í Fairfield í Connecticut í Bandaríkjunum. Hann stunaði nám við Boston-háskólann, American University í Washington, American University í París og Menlo University áður en hann ákvað að hætta námi og gerast leikari. Var giftur leikkonunni Amelia Heinle en saman eiga þau einn son. Weatherly var trúlofaður leikkonunni Jessicu Alba frá 2001 – 2003. Giftist Bojönu Jankovic í september 2009. Ferill. Fyrsta hlutverk hans var í sjónvarpsþættinum The Cosby Show frá 1991. Var árið 2000 boðið hlutverk í Dark Angel sem Logan Cale sem hann lék til ársins 2002. Weatherly hefur síðan 2003 leikið NCIS alríkisfulltrúann Anthony DiNozzo í sjónvarpsþættinum NCIS. Leikstýrði NCIS-þættinum "One Last Score" sem var frumsýndur 1. Mars 2011 í áttundu þáttaröðinni. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films verðlaunin Tenglar. Weatherly, Michael Cote de Pablo. Cote de Pablo (fædd María José de Pablo Fernández, 12. nóvember 1979) er sílesk-bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Ziva David í NCIS. Einkalíf. Pablo fæddist í Santíagó í Síle en er alin upp í Miami, Flórída í Bandaríkjunum. Stundaði söngleikús við New World School of the Arts og síðan við Carnegie Mellon háskólann í Pittsburgh, Pennsylvaníu þar sem hún lærði tónlist og leiklist. Pablo hefur komið fram í nokkrum leikritum á borð við: And The World Goes Round, The House of Bernarda Alba, Indiscretions, The Fantasticks og A Little Night Music. Ferill. Fyrsta sjónvarpshlutverk hennar var sem meðkynnnir í sjónvarpsþættinum Control árin 1994 – 1995. Lék í sjónvarpsþættinum The Jury sem Marguerite Cisneros árið 2004, aðeins tíu þættir voru sýndir. Var árið 2005 boðið hlutverk Mossad fulltrúans Ziva David í sjónvarpsþættinum NCIS og hefur verið hluti af honum síðan þá. Tónlist. Pablo söng Tom Waits lagið "Temptation" í NCIS þættinum "Last Man Standing" og má heyra allan flutninginn á NCIS: Official TV geisladiskinum. Pablo söng tvö lög inn á geisladisk Robertos Pitres "Vivo En Vida". Tenglar. Pablo, Cote de Pauley Perrette. Pauley Perrette (fædd 27. mars 1969) er bandarísk leikkona, rithöfundur og talsmaður borgararéttinda, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Abby Sciuto í "NCIS". Einkalíf. Perrette fæddist í New Orleans, Louisiana í Bandaríkjunum og fluttist mikið um þegar hún var yngri vegna vinnu föðurs hennar. Hún stundaði nám við Valdosta State háskólann í Valdosta, Georgíu þar sem hún lærði félagsfræði, sálfræði og afbrotafræði. Perrette styður mörg góðgerðarsamtök, þar á meðal dýrasamtök, Rauða krossinn, borgararéttindi og réttindi samkynhneigða. Perrette var gift leikaranum og tónlistarmanninum Coyote Shivers í þrjú ár. Hún giftist kvikmyndatökumanninn Michael Bosman í febrúar 2009. Tónlist. Perrette er lagahöfundur og söngvari sem hefur spilað í mörgum hljómsveitum og hefur gefið út nokkra geisladiska. Tók hún upp lagið "Fear" meðsamið af Tom Polce undir nafninu "Stop Making Friends". Lagið var gefið út á NCIS: The Official TV geisladisknum sem var gefinn út 10. febrúar 2009. Hún var einnig aðalsöngvari hljómsveitarinnar Lo-Ball sem "Pauley P". Lagið "Can't Get Me Down" eftir hljómsveitina má heyra í kvikmyndinni "Legally Blonde". Perrette kom fram í tónlistasmyndbandinu "The Unnamed Feeling" með Metallicu. Ferill. Perrette hefur komið fram í mörgum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, auglýsingum, tónlistamyndböndum og stuttmyndum gegnum árin. Fyrsta hlutverk hennar var í sjónvarpsþættinum "ABC Afterschool Specials" frá 1994. Hefur kom fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "Frasier", "The Drew Carey Show", "Philly", "24" og '. Perrette hefur síðan 2003 leikið réttarrannsóknarsérfræðinginn Abby Sciuto í sjónvarpsþættinum "NCIS". Tenglar. Perrette, Pauley Dómkirkjan í São Paulo. Dómkirkjan í São Paulo (portúgalska: "Catedral Metropolitana" eða "Catedral da Sé de São Paulo") er dómkirkja í São Paulo í Brasilíu. Kirkjan, sem er að mestu í nýgotneskum stíl var reist á árunum 1913 til 1967 en var vígð árið 1954. Hún er í austanverðri miðborg São Paulo. Kirkjan er 111 metrar á lengd, 46 metrar á breidd og turnarnir tveir eru 96 metrar á hæð. Hósti. Hósti er viðbragð sem hjálpar til með að flytja efni eins og ryk, vökva og örverur úr lungunum og barkanum. Hóstaviðbragðinu skiptist í þrjú stig: innöndun, útöndun meðan á raddbandaglufunni er lokað og skyndilega losun lofts úr lungunum þegar að raddbandaglufan opnast. Þessu fylgir einkennandi hljóð. Hósti getur komið fram bæði viljandi og óviljandi. Tíður hósti getur bent á sjúkdómi en margir gerlar og veirur notfæra sér hósta sem smitunarleið. Oftast kemur hósti fram vegna smitunar í öndunarveginum en getur líka verið vegna meðal annars kæfingar, reykinga, mengunar, asma, lungnakvefs, æxla í lungunum og hjartabilunar. Þorskígildi. Þorskígildi eða þoskígildistonn er það aflamagn eða veiðikvóti af tiltekinni tegund sem telst jafnverðmætt og þorskur. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti Íslands gefur árlega út töflur yfir þorskígildiskvóta og birtir á vefsíðu Fiskistofu. Helgafell (bókaforlag). Helgafell var bókaútgáfa sem starfaði á árunum 1942 – 1985 en sameinaðist þá bókaútgáfunni Vöku í útgáfufyrirtæki sem hlaut nafnið Vaka-Helgafell og er nú hluti af Forlaginu. Helgafell var lengi ein umsvifamesta bókaútgáfa landsins og gaf út verk ýmissa helstu rithöfunda þjóðarinnar, þar á meðal Halldórs Laxness. Ragnar Jónsson í Smára stofnaði ásamt Kristni E. Andréssyni bókaútgáfuna Heimskringlu árið 1934 og stóð Heimskringla að stofnun Máls og menningar 1937 ásamt Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda. Heimskringla hélt þó áfram starfsemi og gaf meðal annars út "Heimsljós" Halldórs laxness í fjórum bindum á árunum 1937 – 1940. Árið 1940 yfirtók Ragnar Heimskringlu og hóf bókaútgáfu á eigin vegum, fyrst undir nafni Víkingsútgáfunnar en árið 1942 stofnaði hann Helgafell í því skyni að gefa út vandaðar bækur. Fyrsta verkefni Helgafells var raunar útgáfa á samnefndu tímariti með áherslu á bókmenntir og listir. Það kom fyrst út 20. mars 1942 og voru ritstjórar þess skáldin Magnús Ásgeirsson og Tómas Guðmundsson. Tímaritið Helgafell þótti mjög vandað og hlaut það góðar móttökur. Það kom út til ársins 1946. Um haustið hóf Helgafell svo bókaútgáfu og voru fyrstu bækurnar heildarútgáfa á verkum Jóns Thoroddsen, viðhafnarútgáfa í skinnbandi. Vandað var til frágangs margra útgáfubóka forlagsins og meðal annars voru gefnar út margar listaverkabækur. Margir af helstu rithöfundum landsins voru gefnir út af Helgafelli, þar á meðal þeir Gunnar Gunnarsson, Þórbergur Þórðarson og Davíð Stefánsson, að ógleymdum Halldóri Laxness, en Ragnar gaf út allar bækur hans sem út komu á eftir Heimsljósi og er Vaka-Helgafell enn útgefandi verka Halldórs. Með stofnun Helgafells urðu ákveðin tímamót í bókaútgáfu á Íslandi þar sem að henni var staðið með meiri myndarskap en áður hafði þekkst, upplög bóka voru stærri og ritlaun sem höfundar fengu greidd mun hærri en áður hafði þekkst. Ragnar sóttist líka eftir að gefa út bækur ungra og efnilegra rithöfunda og styrkti þá oft til ritstarfa. Útgáfan bryddaði líka upp á ýmsum nýjungum, gaf meðal annars út Íslendingasögur með nútímastafsetningu og varð sú útgáfa mjög umdeild. Jafnframt var Helgafell á sjötta og sjöunda áratugnum sú bókaútgafa sem einna best sinnti íslenskum samtímabókmenntum. Úr því dró þó smátt og smátt og þegar Ólafur Ragnarsson í Vöku keypti Helgafell 1985 og sameinaði útgáfurnar í Vöku-Helgafell lá verðmæti Helgafells fyrst og fremst í útgáfurétti á verkum margra virtra höfunda. Xmind. Xmind er hugarkorts forrit sem byggir á opnum hugbúnaði. Hugarkort hefur mikið verið notað í kennslu á síðustu árum. Til eru nokkrar gerðir af hugarkortum. Þau sem hægt er að kaupa eins og MindManager og þau sem er hægt að fá frítt af netinu eins og Xmind sem er fjallað aðallega um hér. Netbundin hugarkort innihalda enn ekki sem komið er ekki nema brot af þeim kostum sem Mindmanager, Inspiration, Xmind, Freemind eða sambærilegur hugbúnaður býr yfir. Njálsgata (stuttmynd). Njálsgata (enska: "Committed") er íslensk stuttmynd frá árinu 2009. Myndin fékk Edduverðlaunin 2010 í flokknum "stuttmynd ársins". Sean Murray. Sean Murray (fæddur Sean Harland Murray 15. nóvember 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Timothy McGee í "NCIS". Einkalíf. Murray fæddist í Bethesda, Maryland í Bandaríkjunum og eyddi æskuárum sínum nálægt Coffs Harbour í Nýju Suður-Wales, Ástralíu. Murray giftist Carrie James í nóvember 2005 og saman eiga þau tvö börn. Fjölskylda. Murray er stjúpsonur framleiðandans Donald Bellisario sem er höfundurinn að "NCIS". Yngri bróðir hans Chad M. Murray er framleiðandi við þáttinn, ásamt því að móðir hans Vivienne lék í fyrstu þáttaröðinni sem hin dularfulla ræðhærða kona sem Gibbs sást með. Hálfsystir hans Troian Bellisario lék systur Murrays, Sarah McGee og hálfbróðir hans Michael Bellisario lék Charles „Chip“ Sterling í þriðju þáttaröðinni. Ferill. Fyrsta hlutverk Murray var í sjónvarpsmyndinni "Backfield in Motion" frá 1991. Lék í galdramyndinni "Hocus Pocus" frá 1993 með Betty Midler og Söru Jessicu Parker. Honum var boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum "Harts of the West" sem Zane Grey Hart og kom fram í 15 þáttum. Murray var gestaleikari í sjónvarpsþættinum "JAG" sem stjúpfaðir hans Bellisario var framleiðandi að. Hefur síðan 2003 leikið NCIS alríkisfulltrúann Timothy McGee í sjónvarpsþættinum "NCIS". Tenglar. Murray, Sean Jafna Schrödingers. Jafna Schrödingers eða Schrödingerjafnan, er mikilvægasta jafna skammtafræðinnar, sem lýsir því hvernig skammtafræðilegt ástand kerfis breytist með tíma. Austurríski eðlisfræðingurinn Erwin Schrödinger setti jöfnuna fram árið 1927. Margaret Mead. Unglingsstúlka á Samóaeyjum árið 1896. Margaret Mead (f. 16. desember 1901, d. 1978) var bandarískur mannfræðingur. Hún var frumkvöðull í mannfræðilegum rannsóknum á barnæsku, uppeldisaðferðum, kynhlutverkum og áhrifum þeirra á menningu og samfélag. Einnig var hún brautryðjandi í notkun ljósmynda og kvikmynda við gagnasöfnun á vettvangi. Hún rannsakaði árið 1925 stúlkur og þroskaferil unglingsára á eyjunni Tau í Samóa eyjaklasanum. Hún taldi að kynþroski stúlkna á Samóaeyjum og yfirfærsla frá ungling yfir í fullorðna konu væri án átaka og tilfinningalegrar spennu. Árin 1928 – 1930 rannsakaði hún fjölskyldulíf og hugmyndir um kynlíf, hjónaband, barnauppeldi og yfirnáttúrlega hluti hjá Manus fólkinu á Admiralty eyum undan ströndum Nýju-Gíneu. Hún lauk doktorsprófi frá Columbia-háskólanum árið 1929. Mead gerði rannsókn 1931 til 1933 er hún dvaldi hjá Tchambuli-, Arapesh- og Mundugumor-fólkinu á Nýju-Gíneu og skoðaði þá meðal annars kynhlutverk. Árið 1936 fór hún til þriggja ára dvalar á Balí með þáverandi eiginmanni og notuðu þau ljósmyndir og kvikmyndir við gagnasöfnun sem þá var nýlunda. Mead var mjög vinsæll fræðimaður og álitsgjafi í fjölmiðlum. Hún var afkastamikil og á árunum 1925 – 1975 birtust eftir hana 1300 ritverk af ýmsu tagi. Tenglar. Mead, Margaret Jóhannes (kvikmynd). "Jóhannes" er íslensk kvikmynd frá árinu 2009. Henni var leikstýrt af Þorsteini Gunnari Bjarnasyni. Hljómsveitin Greifarnir samdi titillag myndarinnar. Umboðsmaður barna. Embætti umboðsmanns barna var stofnað með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1995. Umboðsmaður barna er stjórnvald og heyrir stjórnskipulega undir forsætisráðuneytið. Umboðsmaður barna er sjálfstæður embættismaður, óháður boð- eða skipunarvaldi stjórnvalda, málsvari barna gagnvart stjórnvöldum og einkaaðilum. Hlutverk umboðsmanns barna að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Með börnum er átt við einstaklinga undir 18 ára aldri þannig að umbjóðendahópurinn er stór og margbreytilegur. Umboðsmanni er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum barna almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum. Honum ber að vinna að því að tekið sé tillit til hagsmuna barna við lagasetningu, ákvarðanatöku og skipulagningu í þjóðfélaginu. Umboðsmaður getur komið með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda, er varða börn sérstaklega, og bent á leiðir til úrbóta við framkvæmd þeirra ef þess þarf. Umboðsmanni barna er ætlað að stuðla að því að virtir séu þeir þjóðréttarsamningar sem snerta réttindi og velferð barna og Ísland er aðili að. Umboðsmaður ræður sjálfur hvaða mál hann tekur til umræðu eða meðferðar hverju sinni. Öllum er heimilt að leita til embættisins með erindi sín enda ber umboðsmanni skylda til að leiðbeina þeim er til embættisins leita um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Erindum má beina til umboðsmanns skriflega eða símleiðis og hafa börn sérstakan forgang hjá embættinu. Umboðsmanni barna er ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Stór hluti þeirra erinda sem berast embættinu varða þó einstaklingsmál og geta slík mál leitt til frekari afskipta umboðsmanns hafi þau almenna skírskotun. Umboðsmanni barna er einnig frjálst að taka upp mál að eigin frumkvæði. Málin sem berast umboðsmanni barna varða öll svið samfélagsins. Sem dæmi mál nefna mál sem varða fjölskylduna, barnavernd, skóla- og frístundastarf, heilsu og líðan, vinnu, afbrot, fjármál, neytendavernd, skipulagsmál o.s.frv. Hjá embættinu vinna fjórir starfsmenn að umboðsmanni barna meðtöldum. Lauren Holly. Lauren Holly (fædd Lauren Michael Holly, 28. október 1963) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "NCIS", "Dumb & Dumber" og "Chicago Hope". Einkalíf. Holly fæddist í Bristol í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og ólst upp í Geneva í New York fylki. Hún útskrifaðist frá Sarah Lawrence-háskólanum í New York árið 1985 með gráðu í enskum bókmenntum. Holly hefur verið gift þrisvar sinnum: leikaranum Danny Quinn 1991–1993 syni Anthonys Quinn, leikaranum Jim Carrey 1996–1997 og hefur frá mars 2001 verið gift Francis Greco og saman eiga þau þrjú ættleidd börn. Ferill. Fyrsta hlutverk Holly var í sjónvarpsþættinum "Hill Stree Blues" frá 1984. Holly lék í "All My Children" á árunum 1986-1989 sem Julie Chandler. Henni var boðið hlutverk í kvikmyndinni "Dumb & Dumber" frá 1994, sem ástarefni Lloyd Christmas. Holly lék aðalhlutverkið í sjónvarpsþættinum "Picket Fence" á árunum 1992 – 1996 sem fógetinn Maxine Stewart og lék síðan lækninn Jeremy Hanlon í "Chicago Hope" árin 1999 – 2000. Holly lék í tónlistarmyndbandinum "Goodbye Earl" árið 2000 með Dixie Chicks. Henni var boðið hlutverk yfirmanns NCIS Jenny Shepard í sjónvarpsþættinum "NCIS" sem hún lék frá 2005 – 2008. Holly hefur komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: "Providence", ', "Covert Affairs" og "Flashpoint" og hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: "Any Given Sunday", "What Women Want", "Raising Flagg" og "Final Storm". Tenglar. Holly, Lauren Stefán Hallur Stefánsson. Stefán Hallur Stefánsson (f. 4. október 1977) er íslenskur leikari. Friedwardt Winterberg. Friedwardt Winterberg (fæddur 12. júní 1929 í Berlín) er þýskur eðlisfræðingur og prófessor við háskólann í Nevada. Hann er mikið þekktur fyrir almenna afstæðiskenningu, knýja kjarnorkueldflaug og GPS. Fyrstu æviágrip hans voru áhugaverð fyrir honum árið 1953 þegar hann fékk sína MSc gráðu frá University of Frankfurt háskólanum undir Friedrich Hund, og árið 1955 fékk hann sína PhD gráðu í eðlisfræði frá Max Planck Institute félagssamtökunum í Göttingen sem útskrifandi Werner Heisenberg. Hann fluttist síðar til Bandaríkjanna og varð bandarískur ríkisborgari. Æviágrip. Winterberg er velvirtur fyrir störf sín á sviði kjarnasamruna og hameðlisfræði, og Edward Teller hefur verið tilvitaður um að segja það að hann hafði „kannski ekki fengið sá athygli sem hann átti skilið“ fyrir vinnu sína á samruna. Hann er kjörinn meðlimur af International Academy of Astronautics þar sem hann sat í Committee of Interstellar Space Exploration. Samkvæmt deildarsíðu hans, árið 1954 „gerði hann fyrstu tillögu til að prófa almenna afstæðiskenningu með frumeindar klukkur í jarðgervihnetti“ og hitakjarnorku örsprengingar hugmynd hans var samþykkt eftir British Interplanetary Society stofnunina fyrir Project Daedalus Starship Study verkefnið þeirra. Hans núverandi rannsókn er á „Planck Aether Hypothesis“, skáldsögu kenningunni sem útskýrir bæði skammtafræði og afstæðiskenninguna sem fjarlægð lítillar orku samræmingar, og gefur litróf af ögnum sem vel líkist venjulegu fyrirmyndinni. Hann hefur útgefið mikið af mörgum þáttum eðlisfræðinnar frá 1950 gegnum nútímann. Árið 2008 gagnrýndi Winterberg sviðbandskenninguna og benti á galla almennu afstæðiskenningu Einstein vegna vanhæfis á sættingu hans við skammtafræðina við Physical Interpretations of Relativity Theory ráðstefnunni og birti niðurstöður sínar í "Physics Essays" tímaritinu. Tillaga fyrir beinun á prófi almennu afstæðiskenningunni. Teikning af segulmagnaðri samþjöppun efnahvarfa. Árið 1955 skrifaði Winterberg fyrirhugaða tilraun á almennu afstæðiskenninguna með nákvæmum frumeindar klukkum sem staðsettar eru á sporbraut í gervitunglum. Á þeim tíma sem frumeindar klukkurnar voru ekki krafðar nákvæmni og gervitunglin voru ekki til. Werner Heisenberg skrifaði bréf til Winterberg árið 1957 þar sem hann sagði að hugmyndin hljómaði „mjög áhugaverð“. Þessi hugmynd var síðar tilraunum staðfest af Hafele árið 1971 með því að fljúga frumeinda klukku á viðskiptaþotum. Fræðileg nálgun var sú sama og Winterberg notaði. Í dag eru frumeindar klukkur og afstæðiskenningar leiðréttingar notaðar í GPS og er sagt að GPS hafi ekki verið til án þeirra. Samruna aðgerð. Winterberg hefur birt fjölda greina á sviði aðgerðalausra innilokun samræma. Einkum í Winterberg er hann þekktur fyrir hugmyndina á áhrif samruna og hugmyndina á segulmagnaður einangraður díóði fyrir kynslóðina af megavolt jón geislum í þeim tilgangi að hita ham til hitakjarnorku samruna hitastigs. Hann hugsaði sig yfir kjarnasamruna knýjun kjarnakljúfur fyrir geimferð, sem er kölluð Winterberg/Daedalus class Magnetic Compression Reaction Chamber, sem var síðar þróað sem University of Alabama at Huntsville's Propulsion Research Center (sjá á mynd 2). Nýlega hefur hann hannað risastórt geimfar, dregið frá geimskipi sem rafmagns hlaðinn og segulmögnuð einangruð þétting. Winterberg hefur einnig þróað hugmyndir til námuvinnslu sífellt sjalgæfari iðnvæddari sköpunar þætti á reykistjörnum á borð við tunglið með samruna sprengiefna tæki. Aftur árið 1963 var lagt af Winterberg það að kveikjun á hitakjarnorku örsprengjunni, mætti ná með öflugum öragnar geisla á hraðanum 1000 km/s. Og árið 1968 lagði Winterberg til að nota sterkari rafeinda og jón geisla, myndað með Marx myndun, í sama tilgangi. Nýlega hefur Winterberg lagt til kveikjun á vetnis örsprengjuni, með gígavolt frábæru Marx myndun. Rudolph deilan. Árið 1983 varð Winterberg flæktur í hneyksli sem gaus yfir verkfræðinginn Arthur Rudolph, sem hafði farið erlendis til Bandaríkjana eftir seinni heimsstyrjöldina sem hluti af samstarfinu Operation Paperclip. Það var Rudolph sem þá hannaði veglegu frægu Saturn V eldflaugina sem skaut Neil Amstrong til tunglsins. Snemma árið 1980 þegar Rudolph skráði sem hugsanlega nasista stríðsglæpamenn á Mittelwerk yfirborðið og varð miðstöð af pólitískum deilum eftir að Office of the Specical Investigations samið til að afsala ríkisborgararétt hans, sem faldi í sér nauðung, eftir að hann fór til Þýskalands. Eftir ítarlega rannsókn af þýskum yfirvöldum, var það ákveðið að engar stöðvar væru fyrir ákærur og þýski ríkisborgarréttur hans var endurheimtur. Rudolph stundaði málsókn til að vonast að endurheimta bandaríska ríkisborgararéttinn sinn og var meinað inngöngu til Bandaríkjana árið 1989. Einstein-Hilbert deilan. Winterberg var einnig hlutaður í deilum varðandi sögu almennu afstæðiskenninguna um birtingu hennar á sviði jafnar (bæði Albert Einstein og David Hilbert höfðu birt þá í mjög stuttan tíma). Árið 1997 birtu Leo Corry, Jürgen Renn og John Stachel grein í tímaritinu "Science" „Sein ákvörðun í Hilbert-Einstein forgangs deilu“, með þeim rökum að horfa eftir á upprunarlegu tilraunir á grein Hilbert, sem þeir gáfu til kynna að Hilbert hefði ekki búist við jöfnum Einstein. Tenglar. Winterberg, Friedwardt Eyjan.is. Eyjan.is er íslenskur fréttafjölmiðill á netinu sem býður upp á hina ýmsu bloggara, svo sem Egil Helgason, Illuga Jökullsson og fleiri. Eyjan var stofnuð í júní 2007 af þeim Jóni Garðari Hreiðarssyni, Pétri Gunnarssyni, Andrési Jónssyni og Birgi Erlendssyni. Fyrsti ritstjóri hennar var Pétur Gunnarsson sem lét af störfum ári síðar og hvarf úr eigendahópi hennar. Eigendur Eyjunnar voru síðan auk Jóns Garðars, Rúnar Hreinsson og Birgir Erlendsson. Í apríl, árið 2011 urðu eigandaskipti, en þá keypti Vefpressan, sem er í eigu Björns Inga Hrafnssonar Eyjuna.is, sem fullu nafni nefndist Eyjan Media ehf. Við eigendaskiptin varð Karl Th. Birgisson ráðinn ritstjóri hennar. Karl lét af störfum í janúar 2012. Skömmu síðar var Magnús Geir Eyjólfsson ráðinn ritstjóri. Í maí 2012 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á útliti Eyjunnar. Kauphöll Íslands. Kauphöll Íslands var stofnuð 1985 af íslenskum bönkum og Seðlabanka Íslands. Viðskipti hófust ári síðar á íslenskum ríkisskuldabréfum og viðskipti með hlutabréf hófust 1990. Erlend fyrirtæki sem eru skráð í kauphöllinni eru annaðhvort færeysk eða með starfstöð á Íslandi. Færeysku fyrirtækin Atlantic Airways, Atlantic Petroleum, Eik banki og Føroya Banki eru öll skráð í kauphöllinni og auk þeirra er alþjóðlega álfyrirtækið Century Aluminium einnig skráð. Stærstu fyrirtæki kauphallarinnar eru tvískráð í öðrum kauphöllum. DeCode er skráð í Nasdaq kauphöllinni og Össur er skráður í OMX kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Skráning hefur verið samræmd við norrænar kauphallir frá 2000 þegar að kauphöllinn hóf að nota samnorræna tölvukerfið "SAXESS". 2003 varð Kauphöll Íslands tæknilegur stjórnunaraðili "færeysku kauphallarinnar" og samhliða þeirri breytingu voru færeysk fyrirtæki skráð í kauphöllinni hér á landi. 2006 samþykkti kauphöllin að sameinast OMX Nordic Exchange og sá samruni varð að veruleika 19. september sama árs. Fribourg (kantóna). Fribourg (þýska: Freiburg, ítalska: Friburgo, retórómanska: Friburg) er kantóna í Sviss og er meirihluti íbúa frönskumælandi. Lega og lýsing. Freiburg er áttunda stærsta kantóna Sviss með 1.621 km2. Hún liggur mjög vestarlega í landinu, með austurströnd Neuchatelvatns. Fribourg á eingöngu land að tveimur öðrum kantónum: Bern fyrir norðan og austan og svo Vaud fyrir sunnan og vestan. Auk þess á Fribourg þrjú lítil landsvæði innan Vaud og eitt innan Bern. Norðarlega í kantónunni Freiburg er svo lítið landsvæði sem tilheyrir Bern. Íbúar eru 273 þúsund, sem gerir Freiburg að tíundu fjölmennustu kantónu Sviss. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Fribourg (Freiburg á þýsku). Um 63% íbúanna eru frönskumælandi en 29% þýskumælandi. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki kantónunnar er tvískiptur skjöldur. Fyrir ofan er svart og fyrir neðan er hvítt. Merki þetta kemur fyrst fram á 15. öld. Sagt er að Berthold IV af Zähringer-ætt, stofnandi borgarinnar Freiburg, hafi á leið sinni í gegnum héraðið sofið í skúr. Sökum kulda huldi hann sig með teppum. En þegar hann vaknaði næsta morgun kom í ljós að teppin voru mjöl- og kolasekkir. Því voru klæði hans svört að ofan og hvít að neðan. Söguágrip. Héraðið var lengi vel eign Búrgúnd. Berchtold IV af Zähringer-ætt var hertoginn af Búrgúnd á 12. öld og stofnaði hann fríborgina Freiburg (Fribourg). Þegar Zähringer-ættin dó út 1218, erfðu greifarnir af Kyburg héraðið. Þó var héraðið og borgin tengd Búrgúnd og síðan Savoy allt til 1452. Árið 1477 tók héraðið þátt í Búrgúnd-stríðinu og losaði sig endanlega við erlend yfirráð. Árið 1481 fékk það inngöngu í svissneska sambandið og varð að tíundu kantónunni. Þegar Frakkar réðust inn í Sviss 1798 gafst Fribourg upp bardagalaust. Frakkar hurfu þaðan 1814. Árið 1846 fór trúarstríðið fram í Sviss ("Sonderbundskrieg"). Fribourg gekk til liðs við kaþólikka, enda höfðu siðaskiptin aldrei farið fram í kantónunni. Sambandsher Sviss sigraði í stríðinu, réðust inn í Fribourg og mynduðu nýja stjórn. Öll klaustur voru aflögð og allir jesúítar voru hraktir burt. En nýja stjórnin varaði stutt. 1856 náðu kaþólikkar aftur völdum og umbyltu kantónunni eins og kirkjuvald. Mjög strangar reglur voru lögleiddar. Sökum mikillar íhaldssemi fór iðnvæðingin seint af stað í kantónunni en hún hófst ekki fyrr en upp úr 1870. Rocky Carroll. Rocky Carroll (fæddur Roscoe Carroll, 8. júlí 1963) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "NCIS", ', "Roc", "The Agency" og "Chicago Hope". Einkalíf. Carroll fæddist í Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum. Hann stundaði nám við School for Creative and Performing Arts og útskrifaðist þaðan árið 1981. Carroll var ákveðinn í því að auka þekkingu sína í leiklist og hóf nám við The Conservatory of Theatre Art við Webster-háskólann í St. Louis þaðan sem hann útskrifaðist með B.F.A. gráðu. Eftir útskrift þá fluttist Carroll til New York og þar kynnti hann börnum fyrir verkum Shakespeare með þáttöku í Joe Papps "Shakespeare á Broadway" seríunni. Leikhús. Sem hluti af Joe Papps New York Shakespeare-hátíðinni, þá átti Carroll þátt í að opna dyrnar fyrir lituðum leikurum með því að taka hlutverk sem oftast voru leikin af hvítum leikurum í Shakespeare-leikritunum. Árið 1987 kynntist Carroll verkum Augusts Wilson þegar hann lék í leikritinum "The Piano Lesson". Leikritið hlaut ekki aðeins Pulitzer-verðlaunin fyrir drama, þá var Carroll tilnefndur til Tony og Drama Desk-verðlauna fyrir hlutverk sitt. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Carrolls var árið 1989 í sjónvarpsmyndinni "Money, Power, Murder". Árið 1991 var honum boðið hlutverk í "Roc" sem Joey Emerson, sem hann lék til ársins 1994. Hann hefur verið gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Boston Legal, The West Wing, Law & Order og The Game. Frá 1996-2000 þá lék hann í Chicago Hope sem læknirinn Keith Wilkes. Carroll hefur verið hluti af NCIS síðan 2008 sem Leon Vance hinn nýi yfirmaður NCIS ásamt því að koma fram í. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Carrolls var árið 1989 í Born on the Fourth of July. Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við Crimson Tide, "Best Laid Plans" og "Yes Man". Tenglar. Carroll, Rocky Darri Ingólfsson. Darri Ingólfsson (f. 22. desember 1979) er íslenskur leikari. David McCallum. David McCallum (fæddur David Keith McCallum, 19. september 1933) er skoskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "NCIS", "The Man from U.N.C.L.E.", "The Great Escape", "The Greatest Story Ever Told" og "Sapphire & Steel". Einkalíf. McCallum fæddist í Glasgow, í Skotlandi. Foreldrar hans voru miklir tónlistarmenn en faðir hans var konsertmeistari hjá Royal Philharmonic hljómsveitinni og London Philharmonic hljómsveitinni. McCallum stundaði nám við Royal Academic of Dramatic Art og gerðist aðsoðarsviðstjóri hjá Glyndebourne óperunni árið 1951. McCallum hefur verið giftur tvisvar sinnum: leikkonunni Jill Ireland 1957 – 1967 og saman eiga þau 3 börn, en hefur verið giftur Katherine Carpenter síðan 1967 og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. McCallum hefur komið fram í leikritum á borð við: "Amadeus", "Communicating Doors", "The Hunting of the Shark", "Comedians", "The Lion in Winter" og "Julius Caesar". Lék hann í "Run for Your Wife" frá 1987 – 1988 í Ástralíu. Sjónvarp. Í Bretlandi þá kom McCallum fram í nokkrum sjónvarpsþáttum og sjónvarpsmyndum áður en hann kom fram á sjónarsviðið í bandaríkjunum. Kom hann fram í sjónvarpsþáttum á borð við The Outer Limits og Perry Mason áður en honum var boðið hlutverk í bandaríska sjónvarpsþættinum The Man from U.N.C.L.E. sem hinn dularfulli rússneski fulltrúi Illya Kuryakin árið 1964. Persóna McCallum varð mjög vinsæl í bandaríkjunum en þátturinn var sýndur á þeim tíma sem kalda stríðið var í gangi. Fékk hann ógrynni af aðdáendabréfum og var almennt kallaður "hinn ljóshærði Bítill" og myndaðist oft sannkallað bítlaæði í kringum hann. McCallum fékk tvær tilnefningar til Emmy verðlauna fyrir hlutverk sitt og lék hann í þættinum 1964 – 1968. Endurtók hann hlutverkið í sjónvarpsmyndinni frá 1983. McCallum kom einnig fram í bresku sjónvarpsþáttunum Colditz 1972 – 1974 og Sapphire & Steel frá 1979-1982. Kom hann fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: The A-Team, Matlock, Babylon 5 og Sex and the City. McCallum hefur síðan 2003 leikið réttarlæknirinn Donald "Ducky" Mallard í sjónvarpsþættinum NCIS. Kvikmyndir. McCallum byrjaði ferilinn sem aukaleikari í breskum kvikmyndum á seinni hluta sjötta áratugarins og fyrsta hlutverk hans var í Whom the Gods Love, Die Young. Lék hann síðan í myndum á borð við Violent Playground, Robbery Under Arms og A Night to Remeber. Fyrst hluverk hans í bandarískri kvikmynd var í Freud the Secret Passion árið 1962 sem var leikstýrt af John Huston. Síðan lék hann í Billy Budd eftir Peter Ustinov. McCallum lék í The Great Escape á móti Steve McQueen, James Garner og Richard Attenborough. Einnig lék hann í The Greatest Story Ever Told frá 1965 eftir George Stevens á móti Max Von Sydow og Charlton Heston. Hefur McCallum síðan þá kom í nokkrum kvikmyndum á borð við King Solomon´s Treasure, Hear My Song og Cherry. Tónlist. Á sjöunda áratugnum þá gaf McCallum út fjórar plötur með Capitol Records með framleiðandanum David Axelrod: Music...A Part of Me (1966), Music...A Bit More of Me (1966), Music...It's Happening Now (1967) og McCallum (1968). Þekktast lagið hans er "Eagle" sem Dr.Dre notar síðan sjálfur í "The Next Episode". McCallum söng ekki inn á þessar plötur heldur notaði hann blöndu af óbói, frönsku horni og strengjum með gítar og trommum. Tenglar. McCallum, David Þríhyrningsfylki. Þríhyrningsfylki er tegund af ferningsfylki í línulegri algebru þar sem öll stök fyrir ofan eða neðan aðalhornalínuna hafa gildið núll. Fylki sem eru samoka við þríhyrningsfylki kallast þríhyrningsgerleg. Katrín, hertogaynja af Cambridge. Katrín, hertogaynja af Cambridge (fædd 9. janúar 1982 sem Kate Elizabeth Middleton og þekkt sem Kate) er kona Vilhjálms Bretaprins. Hún ólst upp í Chapel Row í Buckleberry, þorp nálægt Newbury í Berkshire. Hún lærði listasögu (History of Art) við St. Andrews-háskóla í Skotlandi og þar hitti hún Vilhjám árið 2001. Þá hófst samband milli þeirra en þau hættu saman um hríð árið 2007. Þau voru áfram vinir en tóku saman á ný sama ár. Árið 2010 var tilkynnt að þau ætluðu að giftast, og var brúðkaupið haldið þann 29. apríl 2011 í Westminster Abbey. Kristinn Guðbrandsson. Kristinn Guðbrandsson(1922-2000)var einn af stofnendum fyrirtækisins Björgunar ehf sem hóf starfsemi sína á að bjarga skipum af strandstað. Seinna haslaði fyrirtækið með Kristinn í fararbroddi sér völl á sviði dælingar byggingarefnis úr sjó ásamt að sinna hafnardýpkunum. Kristinn var framkvæmdastjóri frá stofnun Björgunar 1952 til 1981, en gerðist þá forstjóri fyrirtækisins til dauðadags. Kristinn var einn af frumkvöðlum í fiskeldi á Íslandi með stofnun fyrirtækjanna Tungulax og seinna Ísnó sem varð mjög umsvifamikið í hafbeit. Leitin að gullskipinu er þó sennilega þekktasta framtak Kristins en hann var forystumaður í hópi manna sem leituðu áratugum saman að hollenska indíafarinu Het Wapen Van Amsterdam. Het Wapen strandaði sem kunnugt er á Skeiðarársandi árið 1667. Hápunktur leitarinnar var árið 1983 þegar gullskipsmenn töldu sig hafa fundið flakið og settu niður mikið stálþil utan um þann stað sem skipið var talið vera. Í ljós kom að um þýskan togara var að ræða. Jaroslav Hašek. Jaroslav Hašek. Myndin er líklega tekin á árunum 1920-1922. Jaroslav Hašek (30. apríl 1883 – 3. janúar 1923) var tékkneskur rithöfundur, blaðamaður og bóhem, þekktastur fyrir skáldsögu sína um "Góða dátann Svejk", sem honum tókst þó ekki að ljúka við. Hašek var fæddur í Prag, sem þá tilheyrði Austurrísk-ungverska keisaradæminu. Foreldrar hans voru fátækir og hann ólst upp við kröpp kjör og rótleysi sem setti mark sitt á líf hans. Faðir hans dó af völdum ofneyslu áfengis þegar hann var þrettán ára og tveimur árum síðar þurfti hann að hætta í skóla en tókst þó síðar að ljúka verslunarprófi. Hann vann um tíma í banka og einnig sem hundasölumaður, sem hann gerði einmitt að starfi Svejks. Hann kaus þó helst að vinna við ritstörf og njóta þess frjálsræðis sem það veitti. Árið 1906 gerðist hann anarkisti og varð ári síðar ritstjóri anarkistatímaritsins "Komuna". Þetta varð til þess að lögreglan fylgdist vandlega með ferli hans og hann var handtekinn hvað eftir annað og hnepptur í fangelsi. Í upphafsköflum Svejks gerir hann einmitt gys að starfsaðferðum lögreglu keisaradæmisins þegar hún reynir að fanga andófsmenn í net sín. Árið 1907 varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Jarmila Mayerová en foreldrum hennar leist ekki á hann sem tengdason og þess vegna dró hann úr rótttækni sinni og reyndi að hafa viðurværi sitt af skriftum. Árið 1909 sendi hann frá sér 64 smásögur og gerðist líka ritstjóri tímarits um dýralíf en var fljótlega rekinn fyrir að birta greinar um ímynduð dýr sem hann hafði spunnið upp. Hann giftist Jarmilu 1910 en sambúð þeirra entist aðeins í þrjú ár. Hašek var kvaddur í herinn eftir að fyrri heimsstyrjöldin hófst og eru margar persónur í Góða dátanum Svejk byggðar á fólki sem hann kynntist í stríðinu. Hann féll í hendur Rússa í september 1915 og var sendur í fangabúðir, þar sem hann var gerður að ritara fangabúðastjórans og sleppt úr haldi 1916 en var áfram í Rússlandi. Eftir októberbyltinguna 1917 gekk hann í flokk bolsévikka, var tekinn í Rauða herinn og varð undirforingi þar. Hann giftist líka öðru sinni (en var þó enn kvæntur Jarmilu). Hann sneri aftur til Prag 1920 en var úthrópaður af sumum sem föðurlandssvikari og tvíkvænismaður. Persónan Svejk hafði fyrst komið fram í smásagnasafni sem Hašek sendi frá sér 1912 en það var ekki fyrr en í stríðinu sem góði dátinn fór að mótast í þá mynd sem síðar varð. Hašek hafði upphaflega ætlað að skrifa sex binda verk um Svejk en hann var farinn að heilsu þegar hann kom aftur heim til Tékklands, hafði fengið berkla í stríðinu og áratuga sukk og óhollt líferni hafði sett mark sitt á hann, hann var veikur og þjáðist af offitu, og undir það síðasta skrifaði henn ekki sjálfur, heldur las texann fyrir. Hann hafðist þá við í þorpinu Lipnice og þar dó hann í ársbyrjun 1923, 39 ára að aldri. Hann náði ekki að ljúka við fjórðu bókina (vinur hans gerði það) og fimmta og sjötta bókin sem hann hafði fyrirhugað voru aldrei skrifaðar. Bækurnar fjórar eru yfirleitt gefnar út í einu lagi undir nafninu "Ævintýri góða dátans Svejk í heimsstyrjöldinni" en oftast er bókin þó bara kölluð "Góði dátinn Svejk". Hún hefur verið þýdd á yfir sextíu tungumál og nýtur stöðugra vinsælda. Hún er ein fyrsta og jafnframt þekktasta skáldsagan sem skrifuð var gegn stríði og hernaðarbrölti en er jafnframt hörð ádeila á þjóðrembu og hrokafulla valdhafa. Hún er langþekktust allra verka Hašeks en auk hennar skrifaði hann meðal annars um 1500 smásögur. Heimildir. Hašek, Jaroslav Jónína Rós Guðmundsdóttir. Jónína Rós Guðmundsdóttir (f. 6. júlí 1958) er íslenskur stjórnmálamaður. Hún er alþingmaður fyrir samfylkinguna og hefur verið í þingmannanefnd EFTA frá árinu 2009. Hún hefur helst barist fyrir að hugmyndir samtaka heimilina verði teknar í nýtt húsnæðislánakerfi. Fyrir setu hennar á alþingi var hún framhaldskólakennari við Menntaskólann á Egilsstöðum. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Sigmundur Ernir Rúnarsson (f. 6. mars 1961) er íslenskur stjórnmálamaður. Hann er alþingismaður fyrir Samfylkinguna og þáttastjórnandi fyrir þættina "Svartar tungur" sem eru sýndir á ÍNN. Fyrir setu sína á alþingi hefur hann unnið á fjölmiðlunum Helgarpóstinum, Ríkisjónvarpinu, DV, Skjá einum og Stöð 2. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (f. 29. maí 1968) er íslenskur hagfræðingur og stjórnmálakona. Hún er hefur setið á Alþingi fyrir Samfylkinguna frá kosningunum 2009. Sigríður Ingibjörg var virk í starfi Kvennalistans undir tilvistar hans, sat í framkvæmdanefnd Reykjavíkuranga hans 1994-1996 og var fulltrúi flokksins í nefnd um endurskoðun kosningalaga 1994-1995. Frá 2007 hefur Sigríður gegnt ýmum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna. Hún var m.a. varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík 2007-2009 og sat í bankaráði Seðlabanka Íslands frá 3. október 2007 þangað til ári síðar þegar hún sagði sig úr ráðinu. Skúli Helgason. Skúli Helgason (f. 15. apríl 1965) er íslenskur stjórnmálamaður. Hann er alþingismaður fyrir Samfylkinguna og fyrrum framkvæmdarstjóri sama flokks 2006-2009. Róbert Marshall. Róbert Marshall (f. 31. maí 1971) er íslenskur stjórnmálamaður. Hann settist inn á Alþingi fyrir Samfylkinguna eftir Alþingiskosningarnar 2009, en bauð sig fram fyrir Bjarta framtíð í Alþingiskosningunum 2013. Róbert starfaði lengi sem fréttamaður og hefur unnið á Vikublaðinu, Mannlífi, Tímanum og Stöð 2. Hann var kosinn formaður Blaðamannafélags Íslands árið 2003 og endurkjörinn árið 2005. Á sama ári hætti hann hjá Stöð 2 sem fréttamaður vegna mistaka í frétt um Íraksstríðið og varð forstöðumaður NFS. Árið 2007 varð Róbert aðstoðarmaður samgönguráðherrans Kristjáns L. Möller. Róbert bauð sig fram og var kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi árið 2009. Í október 2012 sagði hann sig úr þingflokki Samfylkingarinnar en sagðist þó ætla að styðja ríkisstjórnina út kjörtímabilið. Hann bauð sig fram og var endurkjörinn fyrir Bjarta framtíð í Reykjavíkurkjördæmi suður í Alþingiskosningunum 2013. Margrét Tryggvadóttir. Margrét Tryggvadóttir (f. 20. maí 1972) er íslenskur stjórnmálamaður. Magnús Orri Schram. Magnús Orri Schram (f. 23. apríl 1972) er íslenskur stjórnmálamaður. Mike Crang. Dr. Michael A. Crang er fyrirlesari í menningarlandfræði við Durham-háskólann í Bretlandi. Hann útskrifaðist í landfræði frá Cambridge-háskóla og seinna lauk hann PhD gráðu frá háskólanum í Bristol. Helstu rannsóknir Crangs eru innan mannvistarlandfræði og fjallar um félagseinkenni, kenningar um svæði og hlutfall mannsins á svæðinu sem og gagnrýnin hugsun. Crang er meðhöfundur á tveimur akademískum ritum: "Tourist Studies" og "Time & Society". Hann hefur einnig gefið út nokkrar bækur um mannvistarlandfræði, þekktust er "Thinking Space" sem hann skrifaði ásamt Nigel Thrift árið (2000) og "Cultural Geography" (1998). Crang situr nú í stjórn hjá hinu konunglega landfræðifélagi félags og menningar rannsóknarhópi. Tenglar. Crang, Michael Reynir í Mýrdal. Reynir í Mýrdal eða Reynir í Reynishverfi er bær, kirkjustaður og áður prestssetur í Reynishverfi í Mýrdal og er einn af syðstu bæjum á Íslandi. Reynir er landnámsjörð og bjó þar landnámsmaðurinn Reyni-Björn, sem nam land á milli Hafursár og Kerlingadalsár samkvæmt Landnámabók. Reynisfjara, sem kennd er við bæinn, er á milli Dyrhólaeyjar og Reynisfjalls og þykir sérlega falleg og tilkomumikil en brimasöm og hættuleg. Þó var töluvert útræði þaðan á árum áður og á meðal þeirra sem þaðan reru voru séra Jón Steingrímsson, sem var bóndi á Hellnum í Mýrdal um tíma, og Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur. Legstaður Sveins er í Reyniskirkjugarði. Kirkja hefur verið á Reyni frá því skömmu eftir kristnitöku. Um miðja 19. öld var fyrsta timburkirkja í Vestur-Skaftafellssýslu byggð á Reyni en það er votviðrasamt í Mýrdalnum og hún fúnaði fljótt. Önnur kirkja var reist í stað hennar skömmu fyrir aldamótin 1900 en það fór á sömu leið fyrir henni. Árið 1966 var svo steinkirkjan sem nú stendur reist. Prestssetrið var flutt til Víkur í Mýrdal árið 1932. Brian Dietzen. Brian Dietzen (fæddur 14. nóvember 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í "NCIS" sem aðstoðarréttarlæknirinn Jimmy Palmer. Einkalíf. Dietzen fæddist í Colorado, Bandaríkjunum. Útskrifaðist með BFA gráðu í leiklist frá háskólanum í Colorado við Boulder. Leikhús. Dietzen kom fram í leikritun á borð við "All of My Sons", "Equus" og "Waiting for Godot". Kom hann einnig fram í "Death and the Maiden", "Antigone" og "Abingdon Square". Brian gekk til liðs við Colorado Shakespeare hátíðina og kom fram þar í tvö ár. Kom hann fram í "Henry IV hluti I og II", "Henry V" og "Julius Caesar". Sjónvarps. Árið 2002 þá var Dietzen boðið gestahlutverk í "My Guide to Becoming a Rockstar" þar sem hann lék trommarann í hópnum. Dietzen hefur síðan 2004 leikið aðstoðarréttarlæknirinn Jimmy Palmer í "NCIS". Kvikmyndir. Kom hann fram í kvikmyndinni "From Justin to Kelly" árið 2003. Á meðan hann var við upptökur á myndinni í "Miami" þá stofnaði hann skop-grín hópinn "The Norm" með Kevin Rankin og Jill Farley. Hefur hópurinn framleidd lifandi skopþátt og vinsæla netseríu að nafni "Coaching Life". Tenglar. Dietzen, Brian Viðskiptablaðið. "Viðskiptablaðið" er íslenskt tímarit, sem gefið er út á hverjum fimmtudegi og er gefið út af útgáfufélaginu Myllusetri ehf. Blaðið fjallar aðallega um viðskipti og efnahagsmál. Blaðið var stofnað árið 1994 og kom þá út á miðvikudögum. Frá janúar 2004 kom það einnig út á föstudögum og frá febrúar 2007 bættust þriðjudagar og fimmtudagar við og kom blaðið þá út fjórum sinnum í viku. Á þeim tíma var blaðið í eigu dótturfélags Exista. Í desember 2008 skipti blaðið um eigendur og varð aftur vikublað. Núverandi ritstjóri er Björgvin Guðmundsson. Fylgirit blaðsins er "Fiskifréttir", sérblað um sjávarútvegsmál, sem komið hefur út frá 1983 og var áður sjálfstætt blað. Fréttasíða Viðskiptablaðsins er vb.is og síður Fiskifrétta eru fiskifrettir.is og skip.is. Eignarhald. "Viðskiptablaðið" er í eigu Mylluseturs ehf.. Myllusetur er í eigu Péturs Árna Jónssonar sem á 67% hlut í gegnum félagið PÁJ Invest ehf. og Sveins B. Jónssonar sem á 33% hlut í gegn um félagið SBJ Invest.. Garðar í Reynishverfi. Garðar er bær í Reynishverfi í Mýrdal, sunnan og vestan undir Reynisfjalli, og er syðsti bær á Íslandi. Svo hefur þó ekki verið nema í tæp 250 ár því byggð hófst ekki á Görðum fyrr en eftir miðja 18. öld. Austan við bæinn í Görðum er hæð sem heitir Hjallar og má þar ekki hreyfa við neinu, annars er sagt að illa fari. Sunnan við Garða, í suðvestanverðu Reynisfjalli, eru fallegar stuðlabergsmyndanir og hellar. Einn þeirra heitir Hálsanefshellir og þar hélt ljósmyndarinn Rax sýningu árið 2004 í tilefni af útkomu bókar sinnar, "Andlit norðursins". Sýningin stóð þó aðeins skamma stund því brimasamt er við hellisopið. John Urry. John Urry (fæddur 1946) er breskur félagsfræðingur og prófessor við Háskólann í Lancaster. Hann er þekktur fyrir verk sín á sviði félagsfræði ferðamálafræðinnar og hreyfanleika. Hann hefur skrifað margar bækur um margar hliðar nútíma samfélags, þar á meðal umskiptin frá „skipulögðum kapítalisma“, félagsfræði náttúru og umhverfisstefnu, og félagslegar kenningar almennt. John Urry er meðlimur í Hinu konunglega listafélagi, stofnaðili bresku Academy of Learned Societies for the Social Sciences og gestaprófessor bæði hjá landfræðideildum í Bristol og Hróaskeldu. Hann er fæddur í London og menntaður hjá Haberdashers' Aske's drengja skólanum, Urry fékk sína fyrstu gráðu frá Christ's háskólanum í Cambridge árið 1967, bæði B.A. og M.A. í hagfræði, áður en hann fékk svo Ph.D. í félagsfræði frá sömu stofnun árið 1972. Hann kom til félagsfræðideild Lancaster háskólans sem fyrirlestrari árið 1970, varð svo deildarstjóri árið 1983 og prófessor árið 1985. Tenglar. Urry, John Glímufélagið Ármann. Glímufélagið Ármann er reykvískt íþróttafélag, sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1888. Það er því í hópi elstu félagasamtaka á Íslandi. Skipulag. Ármann er fjölgreinaíþróttafélag, en var á sínum tíma stofnað um glímuiðkun. Er sérstaklega tekið fram í lögum félagsins að því beri að standa vörð um íslensku glímuna. Í gegnum tíðina hafa Ármenningar lagt stund á velflestar íþróttagreinar, en í seinni tíð hefur áherslan einkum verið lögð á aðrar greinar en boltaíþróttir. Félagssvæði Ármanns var í Túnunum um áratuga skeið, en flutti síðar í Laugardalinn ásamt Knattspyrnufélaginu Þrótti. Starfa félögin tvö náið saman og skipta á milli sín íþróttagreinum. Skjaldarglíma Ármanns er eitthvert elsta og sögufrægasta íþróttamót landsins. Deildir. Íþróttadeildir Ármanns eru: almenningsíþróttadeild, fimleikadeild, frjálsíþróttadeild, glímudeild, júdódeild, körfuknattleiksdeild, lyftingadeild, sunddeild, skíðadeild og taekwondodeild. Af greinum sem félagið hefur áður keppt í mætti nefna knattspyrnu, handknattleik, kappróður og sundknattleik. Vinir Sjonna. Vinir Sjonna er strákaband sem flytja lagið Aftur heim í virðingarvotti við Sigurjón Brink. Meðlimir hennar eru þekktir fyrir að vera meðlimir íslenskra hljómsveita: Gunnar Ólason í Skítamóral, Vignir Snær Vigfússon var í Írafár, Pálmi Sigurhjartarson í Sniglabandinu, Matthías Matthíasson í Pöpunum, Hreimur Örn Heimisson í Landi og sonum og loks Benedikt Brynleifsson í Todmobile. Vinir Sjonna hafa tvisvar sinnum tekið þátt í söngvakeppni sjónvarpsins. Í fyrsta skiptið fluttu þeir lagið "Waterslide" árið 2009 með Sjonna Brink. Nafnið "vinir Sjonna" festist þó ekki við hópinn fyrr en tilkynnt var af ættingjum og vandamönnum Sigurjóns Brink að sex vinir hans myndu flytja lagið "Aftur heim" fyrir hans hönd árið 2011. Lagið vann keppnina hér á landi og keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva í Dusseldorf, Þýskalandi í maí. Þar hafnaði það í 20. sæti. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2011. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2011 var 56. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Düsseldorf í Þýskalandi vegna þess að Lena Meyer-Landrut vann keppnina árið 2010 með laginu „Satellite“. Úrslit. 2011 Eric Saade. Eric Saade er sænskur söngvari sem keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2011 með lagið „Popular“, en lenti þá í 3.sæti.hann hafði keppt áður í söngvarkeppninni í Svíþjóð árið 2010 með lagið,Manboy" um að fara í eurovision en það tókst ekki að vinna en lenti þó í 3.sæti. Hann er búin að ná góðum árangri í Svíþjóð og allri Evrópu og er búin að gefa út 3 plötur sem heita,masquerade, Saade vol.1 og Saade Vol.2 Casinoleikhúsið. Casinoleikhúsið (kasínóleikhúsið, bara kasínó eða kassinn) var leikhús við Amalíugötu 10 í Kaupmannahöfn. Það var upphaflega byggt árið 1847 af Georg Carstensen sem byggði einnig Tívolíið og Alhambra. Byggingin var teiknuð af arkitektnum H.C. Stilling. Húsið var rifið árið 1960. Upprunalega var það meiningin að byggingin yrði notuð sem eins konar "vetrartívolí" en fljótlega var ákveðið að setja þar upp leiksýningar. Verk eftir H.C. Andersen nutu þar mikilla vinsælda eins og t.d. Óli Lokbrá árið 1850. Þá var tónverk eftir norska tónskáldið Edvard Grieg frumflutt þar árið 1868. a> Danakonungi sem settar voru fram á fundinum. Leikhúsið er þó ekki síst þekkt fyrir að vera sá samkomustaður þangað sem stór hópur safnaðist þann 20. mars árið 1848 og hlýddi á ræðu Orla Lehmanns. Samþykkt var ályktun á fundinum um að Danakonungur skyldi láta af einveldi. Daginn eftir, þann 21. mars, gengu um 10.000 manns til Kristjánsborgarhallar og kröfðust þess að ráðherrar konungs segðu af sér. Friðrik 7. sem hafði aðeins verið við völd sem konungur í um tvo mánuði varð við óskum mótmælenda og setti Marsríkisstjórnina svonefndu sem meðal annars innihélt Orla Lehmann sem ráðherra. Í sögu Danmerkur er miðað við "Casinofundinn" (Kasínófundinn) sem upphaf marsbyltingarinnar, sem leiddi svo aftur til afnám einveldis í Danmörku og setningu stjórnarskrár Danmerkur í júní 1848. Þóra Pétursdóttir var á grímuballi þar fimmtudaginn 12. mars 1874 ásamt hópi af Íslendingum. Krókárgerði. Krókárgerði er eyðibýli undir Öxnadalsheiði, fremst í Norðurárdal í Skagafjarðarsýslu. Var búið þar fram til 1898, en þá var kotið lagt undir Silfrastaðaafrétt. Í eldri heimildum er bærinn stundum nefndur "Krákugerði". „Undirlendi er þar sáralítið og jörð heldur óræstisleg á alla vegu ef heyskapur er hafður í huga. - Fjallið ofan við bratt og ofur hátt, mosagróið og lyngivaxið upp til hlíða, en ekki grösugt,“ segir Rósberg G. Snædal í þættinum „Óðurinn um eyðibýlið“, sem birtist í bókinni "Fólk og fjöll". Þar er hann að fjalla um ljóðið "Krókárgerði" eftir Ólínu Jónasdóttur skáldkonu, en hún átti um tíma heima í Krókárgerði á æskuárum. Kammertónlist. Kammertónlist er afbrigði af klassískri tónlist þar sem aðeins eitt hljóðfæri leikur hverja rödd. Kammertónlist er þannig leikin af litlum hljómsveitum og nafnið vísar til þess að hljómsveitin kemst fyrir í einu herbergi. Á 19. og 20. öld var algengt að kammertónlist væri leikin af áhugafólki í heimahúsum. Endarím. Oft ríma frumlínur saman og síðlínur eru þá hafðar með öðru rími, þessi aðferð kallast víxlrím Stundum eru allar línur ljóðsins látnar ríma saman og er þá talað um samrím Þegar hins vegar fyrri hendingin rímar og síðari hendingin er höfð með öðru rími er ljóðið misrímað Séu ljóðlínur fleiri og tvær og tvær ljóðlínur látnar ríma saman er talað um.runurím Skeið í Svarfaðardal. Skeið í Svarfaðardal er einn af innstu bæjum í Svarfaðardal og stendur undir Skeiðsfjalli sunnan Svarfaðardalsár. Bæjarins er getið í Guðmunar sögu Arasonar en frá Skeiði hélt Guðmundur góði í örlagaríka för á Heljardalsheiði. Innan við Skeið skerst Vatnsdalur inn á milli hárra fjalla. Í dalnum er allstórt vatn Skeiðsvatn. Í því er silungsveiði. Á Skeiði var stundaður blandaður búskapur allt frá öndverðu og langt fram á 20. öld. Nú er þar ferðaþjónusta. Octávio Frias de Oliveira-brúin. Octávio Frias de Oliveira-brúin (portúgalska: "Ponte Octávio Frias de Oliveira") er samsett hengibrú og stagbrú í São Paulo í Brasilíu sem brúar Pinheiros-ána. Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur. Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur er verkalýðsfélag í Bolungarvík. Það var stofnað 27. maí 1931. Formaður var kjörinn Guðjón Bjarnason. Í ársbyrjun 1932 fór félagið í verkfall. Þá var kaup karla í verkamannavinnu 75 aurar og tímakaup kvenna 45 aurar en nætur- og skipavinnukaup 1 króna. Verkfallið stóð aðeins í nokkra daga og þá skrifaði Einar Guðfinnsson undir samninga við félagið og var samið um kaup karla 80 krónur á tímann og 1 króna og 30 aura fyrir nætur og skipavinnu. Atvinnurekendurnir Bjarni Fannberg og Högni Gunnarsson neituðu í maí 1932 að skrifa undir samninga við félagið og tilkynntu kauplækkun og brást félagið við með afgreiðslubanni. Hannibal Valdimarsson kom til Bolungarvíkur 26. júní 1932 í för Karlakórs Ísafjarðar til að kynna sér aðstæður og aðstoða félagið. Á meðal hann var í kaffi í húsi í bænum þá kom að mannþyrping og fyrir henni fór Högni Gunnarsson sem sagði bát bíða eftir Hannibal við öldubrjótinn með tilbúna vél í gangi. Urðu ryskingar og var Hannibal fluttur nauðugur í bátinn. Báturinn bilaði og var Hannibal tekinn og færður í annan bát og farið með hann til Ísafjarðar. Við Norðurtangabryggju kom lögregluþjónn Ísafjarðar í bátinn og tók bátsverja fasta. Þegar fréttist af handtöku Hannibals og nauðaflutningnum stóð yfir fundur í Sjómannafélagi Ísafjarðar. Fjölmenntu félagsmenn niður á bryggju. Síðar um kvöldið héldu 40 Ísfirðingar með Hannibal í broddi fylkingar á báti til Bolungarvíkur og var haldinn fundur í Góðtemplarahúsinu. Á þessum tíma var kaup lægra í Bolungarvík en á Ísafirði. Félagið er aðili að Sjómannasambandi Íslands og Starfsgreinasambandi Íslands. Einar Guðfinnsson. Einar Guðfinnsson (17. maí 1898 – 29. október 1985) var athafnamaður í Bolungarvík og stærsti atvinnurekandi staðarins á sinni tíð. Hann hóf atvinnurekstur í Bolungarvík 1. nóvember 1924. Einar fæddist á Litla-Bæ í Skötufirði en eiginkona hans Elísabet Hjaltadóttir fæddist í Bolungarvík. Dewey-flokkunarkerfið. Titilsíða annarrar útgáfu flokkunarkerfis Deweys sem kom út í Bandaríkjunum árið 1885 Dewey-flokkunarkerfið er flokkunarkerfi fyrir bókasöfn sem byggir á tugakerfinu. Þar af leiðandi takmarkast kerfið við að flokka alla mannlega þekkingu í tíu aðalflokka. Kerfið er upprunalega frá árinu 1876 og er nefnt eftir aðalhöfundi þess Bandaríkjamanninum Melvil Dewey. Kerfið er mjög ráðandi í vestrænum bókasöfnum, um 95% bókasafna í Bandaríkjunum notast við kerfið til uppröðunar. Dewey-flokkunarkerfið er notað í yfir 200.000 bókasöfnum í 135 löndum í dag. Það hefur verið þýtt á yfir 60 tungumál, þar með talið íslensku. Reglulega eru gefnar út endurbættar og breyttar útgáfur af Dewey-flokkunarkerfinu. Flokkunarkerfið er gefið út í tveimur útgáfum, heildarútgáfan fyrir bókasöfn með almennan bókakost sem telur yfir 20 þúsund bækur og stytt útgáfa fyrir smærri söfn. 23. heildarendurútgáfan kom út á árinu 2011 og 15. stytta útgáfan er væntanleg á seinni hluta árs 2011. Hönnun og þróun Dewey-flokkunarkerfisins er í höndum Bókasafns Bandaríkjaþings en þar hefur alþjóðleg nefnd yfirumsjón með verkinu. Bandaríska fyrirtækið Online Computer Library Center, Inc. (OCLC) er svo handhafi dreifingarréttar. Saga. Saga flokkunar á bókasöfnum teygir sig alla leið aftur til vinnu Kallímakkosar við Bókasafnið í Alexandríu í Forn-Egyptalandi á 3. öld f.Kr. Þar vann hann að skrásetningu bókakostsins á leirtöflum sem heita Pinakes. Kallímakkos skipti bókakostinum í (1) retorík, (2) lögfræði, (3) epík, (4) drama, (5) gamanefni, (6) ljóðmál, (7) sögu, (8) læknisfræði, (9) stærðfræði, (10) náttúrvísindi og (11) annað. Dewey hóf að hanna kerfi sitt árið 1873 og fyrstu útgáfuna birti hann 1876. Til grundvallar rannsakaði hann meðal annars flokkunarkerfi Natale Battezzatis ("Nuovo sistema de catalogo bibliografico generale") og skrif William T. Harris. Harris skrifaði mikið um uppeldis- og kennslufræði og hafði fjallað um flokkun Francis Bacons á bókakosti bókasafns almenningsskóla. Skipting Bacons var í þrjá aðalflokka: minni (saga), ímyndunarafl (skáldskapur) og skynsemi (heimspeki). Líklegt er að deildaskipting Amherstháskóla í New York, þar sem Dewey var við nám, hafi verið vísirinn að flokkaskiptingu Deweys. Fyrsta útgáfan taldi 42 blaðsíður. Árið 1885, níu árum seinna gaf hann út aðra útgáfu og taldi hún strax 486 blaðsíður. Önnur útgáfan fannst sumum of löng og ítarleg og þá kom strax út stytt útgáfa. Eitt helsta nýmæli kerfisins, og það sem Dewey sjálfur hampaði einna mest, var atriðisorðaskráin. Kerfið hlaut strax mjög góðar viðtökur og árið 1927 var notast við það í 96% almenningsbókasafna í Bandaríkjunum og 89% háskólabókasafna. Flokkunarkerfið. Sem fyrr segir byggir Dewey-flokkunarkerfið á tugakerfinu og eru aðalflokkarnir listaðir hér fyrir neðan. Hver tala í kerfinu er nefnd "flokkstákn" eða "marktákn". Kerfið er byggt eins og stigveldi. Hver aðalflokkur skiptist í tíu undirdeild og hverri undirdeild er svo aftur skipt í tíu aðaleiningar. Þó eru ekki allar flokkstölur og einingar í notkun, sumum flokkstáknum hefur ekki enn verið úthlutaður flokkur. Sem dæmi má nefna að 600 er aðalflokkur „"Tækni (hagnýtra vísinda)"“. Þá er undirdeildin 620 „"Verkfræði og skyldar greinar"“. Einu stigi lengra má nefna aðaleininguna 627, „"Vatnsvirkjunarverkfræði"“. Útvíkkunarmöguleikar Dewey-flokkunarkerfisins eru tæknilega ótakmarkaðir en takmarkast óhjákvæmilega að stofninum til við tíu aðalflokka. Svo tekið sé annað dæmi er „"Bókmenntir"“ að finna í 800. 810 eru „"Íslenskar bókmenntir"“ og 816 eru „"Sendibréf"“. Oftar en ekki er það svo að hægt er að flokka tiltekna bók í fleiri en einn flokk. Við slíkar aðstæður getur það ráðið úrslitum um það hvaða flokkstákni bókinni er úthlutað hvort að bókasafnið hefur myndað með sér ákveðna stefnu í bókakaupum og flokkun, til dæmis í því augnamiði að þjónusta ákveðinn markhóp. Samsetning flokkstákna. Sérstakar reglur gilda um notkun hjálpartaflnanna, þær eru aldrei notaðar einar og sér heldur sem viðskeyti við flokkstákn. Formgreinar úr töflu 1 eru til þess að marka ytra form gagnanna (orðabók, tímarit, skrá) eða efnislega nálgun, t.d. heimspekileg, nám/kennsla eða söguleg umfjöllun. Sem dæmi má nefna undirdeildina 150 „"Sálfræði"“ og 1 úr töflu 1 sem gerir flokkstáknið 150.1 fyrir bók sem fjallar um sálfræði út frá heimspekilegum sjónarhól. Lands- og svæðistölur eru notaðar úr töflu 2 til þess að afmarka efni við ákveðið svæði eða rúm. Það sem flækir málið hér er að til þess að notast við tölur úr töflu 2 þarf að skjóta inn 09 úr töflu 1. Bók um fiskveiðar við Ísland væri því 639.2 „"Fiskveiðar"“ + 09 fyrir landatölu úr töflu 1 + 491 fyrir Ísland úr töflu 2 = 639.109491. Hjálpartafla 3 er aðeins notuð með 800 aðalflokknum „"Bókmenntir"“ til þess að flokka bókmenntir eftir einhverju af eftirtöldum formum: leikrit, ljóð, skáld- eða smásögur, ritgerðir eða greinar, ræður eða erindi, sendibréf, blandað efni eða skop og ádeilu. Hjálpartafla 4 er aðeins notuð með 400 aðalflokknum „"Tungumál"“ til þess að flokka efni um tungumál nánar eftir rittáknum, hljóðfræði, orðsifjafræði, orðasöfnun, málfræði, sögulega eða landfræðilega umfjöllun eða hefðbundna málnotkun. Fjöruskjögur. Fjöruskjögur er sjúkdómur í sauðfé sem talinn var standa í sambandi við röskun á efnaskiptum kopars í líkamanum eða koparskorti í fóðri. Sjúkdómurinn kom fram í lömbum ef mæður þeirra höfðu verið á beit í fjörum. Miðtaugakerfi, einkum heili lambanna var vanþroskað. Svavar Austmann. Svavar Austmann er íslenskur bassaleikari og meðlimur í þungarokkshljómsveitinni Sólstöfum. Júlíana Jónsdóttir. Júlíana Jónsdóttir (27. mars 1838 – júní 1918) var íslensk skáldkona, fædd á Búrfelli í Hálsasveit í Borgarfirði en fluttist til Kanada og dó þar. Hún gaf út ljóðabók fyrst íslenskra kvenna. Það var bókin Stúlka sem kom út árið 1876. Árið 1916 gaf hún svo út bókina "Hagalagðar", sem kom út í Winnipeg. Núllvalda stak. Stak "x" í baugi "R" kallast núllvalda ef til er náttúruleg tala "n" svo "x'n" = 0; með öðrum orðum verður stakið núll þegar það er hafið í heiltöluveldi. Dæmi um núllvalda stök er nykurtalan ε en εn jafngildir núlli fyrir allar náttúrulegar tölur formula_1. Getur einnig átt við ákveðin ferningsfylki, s.k. núllvalda fylki N'", sem eru þeim eiginleika gædd að til er náttúruleg tala formula_2, þ.a. formula_3 þar sem „0“ táknar núllfylkið. Martin Ingi Sigurðsson. Martin Ingi Sigurðsson (f. 4. maí 1982) er íslenskur læknir. Ferill. Martin Ingi gekk í Álftamýrarskóla og er dúx frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2002 með hæstu einkunn eða 9,34. Martin lagði svo stund á læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk kandidatsprófi árið 2009. Hann lauk kandidatsári á Landspítala 2010 og er í starfi á lyflækningasviði LSH. Martin Ingi hóf doktorsnám við HÍ samhliða læknanámi og verður doktorsvörn í júní 2011. Titill doktorsverkefnisins er Lífupplýsingafræðileg og sameindalíffræðileg greining á eiginleikum DNA metýlunar í erfðamengi mannsins. Hluti verkefnisins var unninn við Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið í Baltimore í Bandaríkjunum. Hann hefur meðal annars fengið styrki úr Vísindasjóði LSH og Háskólasjóði HÍ. Afrek. Martin hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2007, fyrir verkefni sitt um áhrif aldurs á utangenamerki mannsins. Martin vann einnig til verðlauna á alþjóðlegu vísindaþingi hjarta- og brjóstholsskurðlækna, Scandinavian Research in Cardiothoracic Surgery (SSRCTS) í Geilo í Noregi 4.-6. febrúar 2011). Martin Ingi hreppti önnur verðlaun í keppni um besta vísindaerindið á þinginu. Verkefni Martins Inga snýst um bráðan nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerðir og hefur hann unnið að þessum rannsóknum ásamt Sólveigu Helgadóttur kandidat undir handleiðslu Tómasar Guðbjartssonar prófessors. Martin var valin ungur vísindamaður Landspítala 2011. Jimmy Pop. Jimmy Pop (fæddur James Moyer Franks 27. ágúst 1972, Trappe, Pennsylvaníu) er bandarískur tónlistarmaður sem er þekktastur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Bloodhound gang. Victor Urbancic. Victor Urbancic eða Viktor von Urbantschitsch (9. ágúst 1903 – 4. apríl 1958) var austurrískur tónlistarmaður frá Vínarborg sem flúði til Íslands árið 1938 undan nasistum, en kona hans, Melitta, var af gyðingaættum. Var koma hans til Íslands ekki síst fyrir milligöngu félaga frá námsárunum Urbancic, Franz Mixa, annars vel menntaðs Austurríkismanns sem fenginn hafði verið til að aðstoða við undirbúning tónlistaratriða á Alþingishátíðinni 1930. Urbancic dvaldist seinni hluta ævi sinnar á Íslandi og hafði mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf. Hann var og starfaði við tónlistarháskólann í Graz í Austurríki áður en hann kom til Íslands árið 1938. Á Íslandi var hann mikil lyftistöng fyrir íslenskt tónlistarlíf. Hann var meðal annars tónlistarstjóri í Þjóðleikhúsinu. Þar setti hann upp fyrstu óperuna sem flutt var á Íslandi sem var Rigoletto eftir Giuseppe Verdi árið 1951. Hann var kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann var einnig organisti og söngstjóri kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík. Victor lést á föstudaginn langa árið 1958 í Reykjavík, langt fyrir aldur fram. Urbancic, Victor Redd Lights. Redd Lights er pródúserateymi samansett af Inga Má Úlfarssyni og Jóhanni Bjarkasyni. 2010. Friðrik Dór - "Allt sem þú átt" (2010) Blaz Roca - "Velkomin til KópaCabana" (2010) 2011. Emmsjé Gauti - "Bara Ég" (2011) Madiha - "The Invitation" mixtape (2011) Steindinn Okkar - Án djóks samt djók (2011) Fall Srebrenica og Žepa. a> eru á því svæði, sem liggur að Serbíu (september 1994) Fall Srebrenica og Žepa (í 11. júlí og 25. júlí 1995) er einn af afdrifaríkustu atburðum Júgóslavíustíðanna sem notaðir voru sem átylla fyrir hernaðaríhlutun í Bosníu. Átökin um Srebrenica (1992-1995). Naser Orić, herforingi múslima í Srebrenica tók þátt í fjölmörgum árásum á þorp og hverfi Serba á meðan á stríðinu stóð 1992-1995. Bosníu-Serbar segja Oric hafa haldið Serbum í þorpunum í kring um Srebrenica í ógnargreipum árum saman og með því hafi hann stuðlað að falli Srebrenica. Srebrenica var eitt af þeim svæðum í austurhluta Bosníu sem Sameinuðu Þjóðirnar höfðu lýst yfir að væru "örugg svæði". Hin voru Žepa og Goražde. Þetta þýddi að svæðið átti að vera laust við vopnaðar árásir eða annars konar ofbeldisverk. 600 manna léttvopnuðu friðargæsluliði hollenskra hermanna á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem átti að standa vörð um verndarsvæðið, mistókst að koma í veg fyrir morð og illa meðferð á Bosníu-Serbum sem voru í haldi herja Orics. Fall Srebrenica og Žepa. Mynd:Srebrenica massacre map.jpg|thumb|right|200px|Hernaðaraðgerðir Bosníu-Serbum à Srebrenica og Žepa voru óverjandi. Þessi hernaðaraðgerðir var kölluð "Krivaja 95" og " Þann 6. júlí 1995 hóf her Bosníuserba sókn gegn Srebrenica. Fjórum dögum síðar tókst 10.000-20.000 mujahideen og vopnuðum körlum að flýja frá borginni en yfir 2000 manns létu lífið fyrir sprengjum Serba. Serbar neita því að hafa tekið múslima af lífi eftir árásina. Þeir hafa sagt að í gröfum, sem kynnu að finnast, séu aðeins lík hermanna sem féllu við að verja Srebrenica fyrir umsátri. Talið er að flestir af körlum Srebrenica hafi flúið til Tuzla. Bosníuserbar hertóku Srebrenica þann 11. júlí 1995, þrátt fyrir loftárásir Atlantshafsbandalagsins (NATO). Í skelfingu söfnuðust mörg þúsund manns fyrir utan búðir hollensku friðargæsluliðanna í Potočari, rétt fyrir við bæjarmörkin. Ratko Mladić hafði komið með mikinn bílaflota, og múslimunum Embættismenn Sameinuðu þjóðanna var smalað í bílana og ekið til yfirráðasvæðis Bosníustjórnar, um 50 kílómetra í burtu. Um 25.000 múslímakonur og börn voru á brott af svæðinu í rútubílum en Serbar handtóku 750 karla sem þeir náðu í, sögðust ætla að yfirheyra þá vegna "gruns um stríðsglæpi". 25. júlí 1995 höfðu Bosníu-Serbar náð bænum Žepa á sitt vald og 10 þúsund ibúar Žepa, sem vildu yfirgefa bæinn, voru fluttir til Kladanj. Særðir stjórnarhermenn voru fluttir til Sarajevo, höfuðborgar Bosníu. Fjöldamorðunum í Pilica-Branjevo. Þann 29. nóvember 1996 dæmdi stríðsglæpadómstólinn Haag 25 ára Bosníu-Króatann, Dražen Erdemović, í tíu ára fangelsi fyrir að taka þátt í drápum serbneska hersins í Bosníu á 1.200 óvopnuðum múslimum í Pilica-Branjevo. Erdemović sagði að hann hefði drepið 70 múslima frá Srebrenica að fyrirmælum yfirboðara síns í her Bosníu-Serba. Eftirleikurinn. Fall Srebrenica og Žepa olli hneykslan hjá þjóðum heimsins og knúði yfirvöld í Washington til að beina Nató inn á nýja braut. Bandaríkjamenn lögðu til að Nató gripi til harðra loftárása ef Serbar héldu áfram árásum sínum á "griðasvæðinu" Goražde í austurhluta Bosníu. Þannig tók Nató upp gerbreytta stefnu með aukinni íhlutun. Í kjölfar Markale fjöldamorðunum hóf Nató loftárásir á Bosníu-Serba í 30. ágúst 1995. Sú herferð varði í tvær vikur og eyðilagði mörg hernaðarmannvirki Bosníuserba. Þetta auðveldaði hersveitum Króata og múslima að hertaka mörg svæði Bosníuserba sem endaði með því að landið skiptist í nokkuð jafnstóra hluta. Í kjölfarið samþykktu leiðtogar Serbíu, Króatíu og Bosníu, Slobodan Milošević, Franjo Tuđman og Alija Izetbegović að setjast að samningaborði í Dayton, í Ohiofylki í Bandaríkjunum. Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar. Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar (skammstafað VS) er íslenskt félag sem vinnur að eflingu framgangs vélhjólaíþrótta í Skagafirði. Helstu markmið klúbbsins eru að viðhalda góðu æfingasvæði fyrir íþróttina og stuðla að öryggi ökumanna. Ásamt því að njóta góðs félagsskapar og útivistar. Stunda áhugasamir félagsmenn hina fjölbreyttustu afþreyingu innan akstursíþrótta, má þar nefna motocross, enduro og ísakstur. Frá stofnun félagsins hefur félagafjöldi verið á bilinu 40 til 60 manns á ári hverju. Í núverandi stjórn VS árið 2011 eru: Þröstur Ingi Ásgrímsson (formaður), Ásta Birna Jónsdóttir, Helga Eyjólfsdóttir, Jóhannes Friðrik Þórðarson og Grétar Þór Steinþórsson. Saga. Félagið var stofnað 3. apríl árið 2005. Starfsemi félagsins hófst á undirbúningi og síðar fjögurra daga dagsskrá í tilefni af „100 ára afmæli vélhjólsins á Íslandi“. Stóð viðburðurinn yfir í Skagafirði dagana 16.-19. júní og lauk honum með afhjúpun minnisvarða í Varmahlíð, til heiðurs föllnum félögum. Árið 2006 var búin til 1,3 km löng og átta til tíu metra breið. Hefur hún verið lofuð sem fjölbreytt, skemmtileg og tæknilega krefjandi. Að hausti sama ár var byrjað að byggja núverandi, við hliðina á brautinni og er svæðinu öllu vel viðhaldið. Árið 2007 hélt félagið í Motocross í júlí og árið 2008 voru haldin Íslandsmót í motocrossi og enduro. Árið 2009 hélt klúbburinn motocrossmót í tengslum við Landsmót unglinga (UMFÍ). Talað er um að Unglingalandsmótið hafi gengið vel líkt og fyrri mót félagsins. Á úrslitum mótsins sást að félagsmenn VS. voru klúbbnum til sóma, líkt og fyrr hafði tíðkaðst. Var einstaklingur innan félagsins kjörinn í annað sæti í. Þetta sama ár fékk félagið aðstöðu til ísaksturs við Miklavatn. Var félaginu gefinn trukkur og eftir nokkrar breytingar var hann hinn besti í að skafa ísinn á vatninu og mynda góða braut til ísaksturs. Árið 2010 var komið fyrir aðstöðugámi við vatnið þar sem félagar geta hvílt lúin bein og spjallað á milli þess sem þau taka nokkra hringi á ísnum, ef frost og veður leyfir. VS hélt þetta sama ár fyrsta íslandsmótið í og heppnaðist það með ágætum. Félagið hefur einnig staðið fyrir námskeiðum í t.d. viðhaldi á hjólum og tekið þátt í öðrum viðburðum eins og útivistar- og sportsýningunni árið 2010, svo eitthvað sé nefnt. Nú í ár (2011) mun félagið standa fyrir og verður það haldið laugardaginn 4. júní. Einnig er von stjórnar VS að fá lóð hjá Sveitarfélaginu Skagafjörður til að búa til byrjenda- og barnabraut í grennd við motocross braut þeirra á Gránu - Móum. Staðfræði. Staðfræði er fræðigrein sem fjallar um aðstæður á ákveðnu svæði, svo sem landslag, gróðurfar, byggðarmynstur o.fl., og er þannig nátengt landlýsingu og kortagerð. Í Evrópu er oft notuð víð skilgreining, og er þar einnig fjallað um þau einkenni svæðisins sem athafnir mannsins hafa skapað. Þar er m.a. átt við atriði sem tengjast staðbundinni menningu íbúanna og jafnvel héraðssögu. Á erlendum málum kallast fræðigreinin "Topografia", sem komið er úr grísku, "τόπος" – "topos" = staður, og "γράφω" – "graphō" = skrifa eða teikna. Sem dæmi um staðfræðileg rit má nefna "Árbækur Ferðafélags Íslands" og "Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags". Einnig getur lýsing einnar bújarðar fallið í þann flokk. Landslag. Landslag á við sýnilegan hluta af yfirborði jarðar, jafnvel verulegan hluta þess, og mótast af landslagsþáttum, svo sem hafinu, stöðuvötnum, ám, gróðurfari, landbúnaði og mannvirkjum og veðurfari. Allir þessir þættir skapa einkennandi landslag sem mótast hefur í gegnum jarðsöguna. Þegar þessir náttúrulegu þættir eru í nágrenni við heimkynni manna endurspeglar landslagið lífsmunstur fólks og verður mikilvægt þjóðernisvitund. Ásýnd landslags og gæði þess hjálpa til að ákveða ímynd svæðisins. Á Jörðinni er mjög breytilegt landslag eftir svæðum, meðal annars jökulhettur á heimskautasvæðum, hálent landslag, þurrar eyðimerkur, eyjur og strandmyndanir, þéttir skógar, regnskógar og landbúnaðarsvæði í tempruðu hitabelti. Frumlandslag er það landslag sem algjörlega er laust við áhrif mannsins, náttúran sjálf ræður ríkjum. Þannig landslag er varla hægt að finna nema á öræfum og afskekktum stöðum. Þannig landslag er viðkvæmt og hopar sífelt vegna manna verka. Himmelblå. "Himmelblå" (á íslensku: "Himinblámi") er norsk sjónvarpsþáttaröð sem sýnd er á NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð og í Sjónvarpinu. Þættirnir eru byggðir á bresku drama þáttaröðinni "Two Thousand Acres of Sky". Um þættina. Þættirnir fjallar um lítið samfélag á eyjunni Ylvingen í norður Noregi. Skólinn á eyjunni hefur fáa krakka á unglinsaldri og verður lokað ef að ekki fást tveir nemendur í viðbót. Framtíð samfélagsins er ótrygg. Fólkið í eyjunni auglýsir í dagblaði á landsvísu eftir fjölskyldu með tvö börn nógu gömul til að ganga í skólann, þau lofa starfi í ferðamannageiranum ef fjölskylda ákveður að búa á eyjunni. Marit (Line Verndal), einstæð móðir í Ósló, vinnur sem kokkur á kvöldin og finnst henni að hún sjái börnin sín ekki nógu mikið. Besti vinur hennar Kim (Edward Schultheiss) hjálpar henni að sjá um börnin, Robin og Iris, meðan hún vinnur. Kim sýnir Marit auglýsinguna og hún sér þar tækifæri til þess að byrja nýtt líf og reka sitt eigið gistiheimili með morgunmat á eyjunni. Af því að fólkið var að leita að fjölskyldu á eyjuna þykist Kim vera eiginmaður Maritar og eftir viðtal er þeim boðið að vera á eyjunni. Breytingin á því að búa í borg og á eyju langt frá öllu öðru tekur á hjá fjölskyldunni. En þetta er líka stór breyting fyrir eyjaskeggja. Vinsældir. Fyrstu tvær þáttaraðirnar voru teknar upp á 168 dögum árin 2007 til 2008, fyrsta þáttaröðin var frumsýnd 7. september 2008. Þættirnir náðu miklum vinsældum frá upphafi og hefur að meðaltali milljón áhorfendur í hverri viku, það jafngildir fjórðungi íbúa Noregs. Nokkrum mánuðum síðar hófst önnur þáttaröðin, á lokaþáttinn horfðu 1 309 000 manns, sem gerði þættina að mest séðu drama þáttaröð í norskri sjónvarpssögu. Þriðja og jafnframt síðasta þáttaröðin var kláruð í september árið 2009, og var byrjað að sýna hana 7. mars 2010. Síðasti þátturinn var sýndur 25 apríl 2010. Útgáfa. Fyrsta þáttaröðin var gefin út á DVD mynddisk stuttu eftir að sýningum lauk. Eftir aðra þáttaröðina var einnig gefinn út DVD mynddiskur ásamt kassa með báðum þáttaröðum. Ásamt DVD útgáfum er hægt að sjá þættina án gjalds á vefsíðu NRK í Noregi. Leikendur. Marianne Sand Näslund Synnöve Holm 1- Holger Peter Clausen. Holger Peter Clausen (1. ágúst 1831 – 29. maí 1901) var íslenskur kaupmaður og alþingismaður sem fór víða og dvaldist meðal annars um árabil í Ástralíu. Hann var fæddur í Ólafsvík og voru foreldrar hans Hans Arreboe Clausen, etatsráð og stórkaupmaður, sonur Holgers Peter Clausen kaupmanns frá Danmörkuog Valgerðar Pétursdóttur, og kona hans Ása Óladóttir Sandholt. Hann ólst upp á Íslandi til tíu ára aldurs en dvaldist með foreldrum sínum í Kaupmannahöfn frá 1841. Átján ára að aldri hélt hann til Ástralíu og vann þar við gullgröft og fleira til 1853. Hann var síðan við kaupskap í Liverpool til 1859 og í Kaupmannahöfn 1859 – 1862 og fór þá meðal annars kaupferðir til Íslands. Hann fór aftur til Ástralíu 1862 og var þar til 1870 við kaupmennsku en hélt þá til Íslands og gerðist kaupmaður í Ólafsvík og á Búðum. Árið 1879 flutti hann til Stykkishólms og var þar til 1897 en dvaldi síðan í Reykjavík til æviloka. Hann var alþingismaður Snæfellinga frá 1880 til 1885. Hann kvæntist í Ástralíu og hét kona hans Harriott Barbara Cook. Hún lést þar og börn þeirra fjögur ólust öll upp í Ástralíu og settust þar að. Hann giftist öðru sinni 1881 Guðrúnu Þorkelsdóttur, dóttur Þorkels Eyjólfssonar prests á Staðastað og systur Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar. Á meðal barna þeirra voru Oscar Clausen rithöfundur og Arreboe Clausen, faðir Arnar og Hauks Clausen. Þóra Hallgrímsson. Margrét Þóra Hallgrímsson (f. 28. janúar 1930) er eiginkona Björgólfs Guðmundssonar athafnamanns og var ásamt honum áberandi í íslensku menningar- og viðskiptalífi á árunum 2002-2008. Hún er líka fyrirmynd að persónu í skáldsögunni "Sakleysingjarnir" eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Þóra er fædd í Reykjavík, dóttir Hallgríms Fr. Hallgrímssonar, forstjóra Skeljungs og aðalræðismanns Kanada, og konu hans Margrétar Þorbjargar Thors, dóttur Thors Jensen athafnamanns og systur Ólafs Thors forsætisráðherra. Þóra giftist Hauki Clausen, frjálsíþróttakappa og síðar tannlækni, 6. janúar 1951 en þau skildu rúmu ári síðar. Þau áttu saman einn son. Þann 3. október 1953 giftist Þóra George Lincoln Rockwell, foringja í bandaríska hernum og síðar stofnanda Bandaríska nasistaflokksins, og fluttist fljótlega með honum til Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu lengst af við kröpp kjör. Fór svo að Þóra flutti aftur til Íslands með börn þeirra þrjú að áeggjan fjölskyldu sinnar og skildi við Rockwell. Árið 1963 giftist Þóra Björgólfi Guðmundssyni, sem er 11 árum yngri en hún. Þau eiga einn son, Björgólf Thor, en Björgólfur eldri ættleiddi börn Þóru og Rockwells. Dóttursonur Þóru er knattspyrnumaðurinn Björgólfur Takefusa. Árið 2005 kom út bókin "Thorsararnir" eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing, um sögu afkomenda Thors Jensen. Í fyrsta upplagi bókarinnar var kafli um hjónaband Þóru og Rockwells. Bókin kom út hjá Eddu en Björgólfur, sem þá var eigandi útgáfufyrirtækisins, lét farga upplaginu og fékk höfundinn til að breyta textanum. Hann reyndi einnig að kaupa DV, sem hafði fjallað um málið, til að leggja blaðið niður. Mæðradagurinn. Mæðradagurinn er alþjóðlegur dagur mæðra og er hugsaður til að heiðra starf þeirra. Dagurinn á sér þó ekki einn alþjóðlegan mánaðardag eða mánuð en oftast er haldið upp á hann í mars, apríl eða maí. Algengast er að þjóðir láti hann bera upp á annan sunnudag maímánaðar (8 – 14. maí) ár hvert. Þannig er það til dæmis á Íslandi og í Bandaríkjunum. Það er þó ekki algilt. Í Noregi er mæðradagurinn til dæmis haldinn annan sunnudag í febrúar, á Bretlandi og Írlandi er hann fjórði sunnudagur í lönguföstu, í Arabalöndum er hann haldinn á jafndægri á vori (21. mars), á Spáni og í Portúgal er hann fyrsti sunnudagur í maí og í Frakklandi, Svíþjóð og víðar síðasti sunnudagur í maí. Dagar helgaðir mæðrum og dýrkun mæðragyðja eru þekktir frá fornöld og mæðradýrkun tíðkaðist í Litlu-Asíu fyrir þúsundum ára. Þaðan barst hún til Grikklands og þaðan til Rómaveldis. Með kristninni þróaðist mæðradýrkunin yfir í dag til dýrðar Maríu guðsmóður og öðrum mæðrum og var sá dagur fjórði sunnudagur í lönguföstu. Víða komst á sá siður að börn gæfu mæðrum sínum blóm eða gjöf þennan dag. Smátt og smátt dró þó úr því að þessi dagur væri haldinn en hann viðhélst þó að einhverju leyti á Englandi og Írlandi og var svo endurvakinn á 20. öld og rann þá saman við mæðradaginn sem þá hafði komist á í Bandaríkjunum og breiðst út þaðan en Bretar og Írar halda gömlu tímasetningunni á deginum. Dagurinn í nútíðarmynd er upprunninn í Bandaríkjunum árið 1907. Það var Anna Jarvis sem átti hugmyndina og árið 1914 tókst henni að fá opinbera viðurkenningu á deginum. Hann en var fyrst haldinn á Íslandi 1934 á vegum mæðrastyrksnefndar. Fyrst var mæðradagurinn fjórða sunnudag í maí en svo einhvern sunnudag í maí. Að endingu var hann festur við annan sunnudag í maí árið 1980. Visthæf ferðamennska. Visthæf ferðamennska er sú ferðamennska sem er stunduð í náttúrulegu umhverfi, í sátt við náttúru, menningu og samfélag svæðisins sem ferðast er um. Visthæfri ferðamennsku er ætlað að vera sjálfbær, hafa lítil áhrif á umhverfið, vera fræðandi og hafa jákvæð hagræn áhrif þar sem hún er stunduð (til að mynda með að njóta þeirra innviða sem heimamaðurinn býður uppá). Visthæf ferðamennska er náttúruferðamennska, fræðandi ferðamennska, byggð upp í samvinnu við heimamenn, skipulögð fyrir litla hópa og minna háð þjónustu og uppbyggingu. Íbúð. Íbúð er sjálfstætt heimili sem nær yfir hluta byggingar eins og til dæmis fjöleignarhúss eða blokkar. Íbúð getur verið í eigu íbúans eða húsráðanda sem leigir hana einhverjum öðrum. Kostur við að búa í íbúð er að það getur verið öruggara vegna þess að þarf að komast í gegnum tvennar eða fleiri dyr áður en komið er inn í íbúðina. Auk þess þurfa íbúar í íbúðum oftast ekki að halda görðum og sameignarsvæðum við, eigandi byggingarinnar ber þessa ábyrgð. Það eru líka kostir fyrir húsbyggjandann: byggingakostnaður á hverri íbúð í einhverri byggingu er ekki svo mikill miðaður við kostnað á að byggja einbýlishús, og landkostnaði er dreift á milli íbúðanna. Það eru einnig ókostir á íbúðum, til dæmis er orkunotkun þeirra sem búa í blokkum yfirleitt hærri en þeirra sem búa í eigin húsum, meðal annars vegna þess að í háhýsum eru oft lyftur. Íþróttafélagið Þór Vestmannaeyjum. Íþróttafélagið Þór var stofnað í Vestmannaeyjum 9. september 1913 af þrettán stofnfélögum í Þinghúsinu Borg á Heimagötu 3a í Vestmannaeyjum. Félagið notaðist við Hásteinsvöll til ársins 1937 en þá var tekin í notkun völlurinn við Botn við Friðarhöfn. Saga. Bæði Knattspyrnufélag Vestmannaeyja og Ungmennafélag Vestmannaeyja virtust hafa misst mikinn kraft úr starfinu fljótlega í byrjun annars áratugar nítjándu aldar. Guðmundur Sigurjónsson var íþróttakennari frá Reykjavík og kom til Eyja gagngert til að halda námskeið fyrir unga fólkið í hinum ýmsu íþróttum. Guðmundur beitti sér fljótlega fyrir stofnun sérstaks íþróttafélags. Stofnfundur þessa nýja íþróttafélags var 9. september 1913 í Þinghúsinu. Stofnfélagar voru 13 og voru þar á meðal margir nafnkunnir menn í bæjarfélaginu. Markmið Þórs voru í upphafi að auka líkamlegan og andlegan mátt æskulýðs byggðarlagsins, bæði pilta og stúlkna. Á stofnfundinum var félaginu gefið nafnið Þór, en alls komu sjö nafngiftir til greina. Ekki er getið í fundargerðarbókum hverjar hinar tillögurnar eru. Þá voru lög fyrir félagið samþykkt í 10 aðalgreinum. Í 2. gr. laganna segir: „Tilgangur félagsins er að iðka alls konar íþróttir og glæða áhuga manna á þeim.“ Fyrstu stjórn félagsins skipuðu þeir Georg Gíslason, formaður, Haraldur Eiríksson, féhirðir og Sigurður Jónsson, skósmiður í Péturshúsi, var ritari. Tveimur dögum eftir aðalfund félagsins komu stofnfélagar saman til fundar. Á fundinum var tekin ákvörðun um að senda mann til Reykjavíkur til náms. Skyldi hann taka að sér íþróttakennslu félagsins þegar hann kæmi aftur heim. Haraldur Eiríksson, fyrrverandi rafvirkjameistari, var valinn til ferðarinnar. Strax um haustið 1913 byrjuðu íþróttaæfingar félagsins, en fyrsta árið var eingöngu um að ræða íslenska glímu, sem iðkuð var. Fljótlega varð starfsemi félagsins fjölbreyttari og knattspyrna, frjálsar íþróttir, sund og leikfimiæfingar voru einnig iðkaðar. Gefið var út félagsblað á fyrstu árum Þórs og hét það "Mjölnir". Fyrsta tölublaðið var lesið upp á félagsfundi 20. janúar 1919. Þá var stofnuð sérstök kvennadeild í handknattleik 9. desember 1929. Formenn Þórs. Þann 6. maí 1945 var ákveðið að öll félög úr Vestmannaeyjum myndu keppa undir merkjum ÍBV utan héraðs. Frá og með 1996 voru félögin Þór og Týr sameinuð undir merkjum ÍBV. Magnús Guðbrandsson. Magnús Guðbrandsson (4. janúar 1896 – 23. október 1991) var skrifstofumaður og knattspyrnumaður með Val og Fram. Ævi og störf. Magnús fæddist í Reykjavík, sonur Guðbrands Þórðarsonar skósmíðameistara og Katrínar Magnúsdóttur frá Syðra Langholti. Árið 1927 kvæntist hann Júlíönu Oddsdóttur frá Stykkishólmi. Magnús starfaði lengst af sem fulltrúi hjá Olíuverslun Íslands. Magnús hóf að iðka knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Hvat, en það var ásamt Val og Haukum eitt þriggja félaga sem stofnuð voru innan KFUM. Var ætlun séra Friðriks Friðrikssonar að félögin myndu einungis leika innbyrðis, en ekki blanda sér í keppni við önnur knattspyrnufélög. Svo fór að leikmenn Hvats gengu til liðs við Val og varð Magnús snemma einn öflugasti leikmaður liðsins. Árið 1918 var hann kjörinn formaður félagsins og lék með fyrsta úrvalsliði Íslendinga gegn danska liðinu Akademisk Boldklub sumarið 1919. Um þær mundir fór verulega að halla undan fæti hjá Valsmönnum. Liðið dró sig út úr Íslandsmótinu 1919 og tók ekki þátt næstu þrjú árin. Magnús gekk þá til liðs við Framara og varð Íslandsmeistari undir þeirra merkjum árin 1922, 1923 og 1925. Íþróttabandalag Vestmannaeyja. Íþróttabandalag Vestmannaeyja, ÍBV er stærsta íþróttafélagið í Vestmannaeyjum. Heimildir um starfsemi félagsins ná til sumarsins 1903. Fyrst um sinn gekk félagið undir nafninu Knattspyrnufélag Vestmannaeyja, KV. KV var eitt af fyrstu liðunum til að keppa á Íslandsmótinu í knattspyrnu 1912. ÍBV var formlega stofnað 6. maí 1945. Eins og nafn Íþróttabandalags Vestmannaeyja gefur til kynna var það upphaflega bandalag margra íþróttafélaga. Mörg félög höfðu verið í Eyjum bæði fyrir stofnun bandalagsins og einnig hafa mörg félög starfað í gegnum árin samhliða ÍBV. Félögin Þór og Týr höfðu verið starfandi frá öðrum og þriðja áratug 20. aldarinnar og hvatt hvort annað áfram með stöðugri samkeppni. Þessi félög, ásamt öðrum sértækari, höfðu haft með sér félög þegar þau kepptu sameiginlega undir á landsmótum og ber þar helst að nefna Knattspyrnufélag Vestmannaeyja, KV. KV var sameiginlegt lið Þórs og Týs uppi á landi og þegar gesti bar að garði. Einnig kepptu frjálsíþróttamenn og aðrir undir merkjum KV á landsmótum. Árið 1945 var formlega stofnað bandalag íþróttafélaga í Vestmannaeyjum, Íþróttabandalag Vestmannaeyja. Félögin höfðu fram að því keppt í nafni KV upp á meginlandinu fyrir stofnun bandalagsins en frá stofnun félagsins skyldi keppa undir merkjum ÍBV utan héraðs. Árið 1996 voru félögin Þór og Týr svo sameinuð endanlega innan bæjar sem utan í ÍBV. Í framhaldinu var allt yngriflokkastarf félaganna einnig sameinað undir merki ÍBV. Saga. Heimildir um starf félagsins ná aftur til ársins 1903 þegar Björgúlfur Ólafsson læknir kenndi knattspyrnu og sund sumarið 1903. Þá gekk félagið undir nafninu Knattspyrnufélag Vestmannaeyja. Íþróttafélagið Þór var stofnað 1913, og 1921 var Knattspyrnufélagið Týr stofnað. Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (1903-1945). Sameinað lið Þórs og Týs í 2. flokki undir merki KV um 1930. Litlar heimildir hafa fundist um stofnun "Knattspyrnufélags Vestmannaeyja". Vitað er að Björgúlfur Ólafsson læknir bjó í Eyjum sumarið 1903 og kenndi knattspyrnu og sund. Knattspyrnufélag Vestmannaeyja var oftast kallað Fótboltafélag og var fyrsta félagið í Vestmannaeyjum þar sem knattspyrna var iðkuð skipulega. Níu árum síðar lögðu 12 leikmenn liðsins á sig tveggja sólarhringa langt ferðalag til Reykjavíkur til að taka þátt í fyrsta íslandsmótinu 1912. Fyrsta Íslandsmótið. Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu var haldið árið 1912 í Reykjavík og þóttu það mikil tíðindi þá að lið frá Vestmannaeyjum tilkynnti sig og mætti til keppninnar. Á þessu móti, sem markaði upphaf mótahalds knattspyrnuliða á Íslandi, voru aðeins þrjú keppnislið: KR (þá FR), Fram og ÍBV (þá KV). Það tók knattspyrnumenn KV tvo daga að komast til Reykjavíkur. Þeir sigldu með dönsku skipi m/s "Pexvie" til Stokkseyrar og gengu síðan með pjönkur sínar á bakinu sem leið lá til Selfoss þar sem gist var um nóttina í Tryggvaskála. Eftir ferðina köstuðu knattspyrnukapparnir sér til sunds í Ölfusána og þótti heimamönnum það hreystilega gert. Daginn eftir var farið með tveimur póstvögnum til Reykjavíkur en menn urðu þó að ganga upp Kambana. Eyjamenn léku fyrst við KR og töpuðu leiknum 0-3 í geysilega hörðum leik sem tók svo mikinn toll af liði KV að þeir höfðu ekki nægilega marga leikmenn ósára til að geta leikið síðari leikinn sem átti að vera móti Fram. Í samtímaheimildum má á einum stað lesa svo um þennan leik: "Meira var hugsað um að hlaupa á manninn en leika boltanum, sumir voru brenglaðir fyrir leikinn og sumir orðið að ganga úr leik meðan á leik stóð svo að uppi stóðu aðeins sjö leikmenn, svo hætt var við frekari keppni og farið með næsta póstskipi til Eyja." Upphafsmenn félagsins. Leiðin sem leikmenn ÍBV ferðuðust á leið sinni á fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu árið 1912 Að ógleymdum Björgúlfi Ólafssyni lækni sem ótvírætt var einn helsti upphafsmaður íþróttaiðkunar í Vestmannaeyjum. Ungmennafélag Vestmannaeyja (1907-1914). Mikil vakning varð í æskulýðsmálum í Vestmannaeyjum í byrjun fyrsta áratugar 20. aldarinnar. Steinn Sigurðsson skólastjóri Barnaskólans í Vestmannaeyjum beitti sér fyrir hreyfingu ungafólksins í Vestmannaeyjum. Hann kenndi sund, glímu og knattspyrnu. Ungmennafélag Vestmannaeyja er talið hafa verið stofnað árið 1907 að frumkvæði Steins Sigurðssonar. Ungmennafélagið lagði hinsvegar upp laupana árið 1914, en þá flutti Steinn frá Vestmannaeyjum og má leiða að því líkur að með brottflutningi hans hafi félagið lognast út af. Segja má að Íþróttafélagið Þór hafi verið eins konar arftaki Ungmennafélagsins, en íþróttafélagið var stofnað árið 1913. Þá starfaði annað ungmennafélag í Vestmannaeyjum á árunum 1927-1929 og gaf m.a. út félagsblað. Íþróttafélagið Þór (1913-1996). Bæði Knattspyrnufélag Vestmannaeyja og Ungmennafélag Vestmannaeyja virtust hafa misst mikinn kraft úr starfinu fljótlega í byrjun annars áratugar nítjándu aldar. Guðmundur Sigurjónsson var íþróttakennari frá Reykjavík og kom til Eyja gagngert til að halda námskeið fyrir unga fólkið í hinum ýmsu íþróttum. Guðmundur beitti sér fljótlega fyrir stofnun sérstaks íþróttafélags. Stofnfundur þessa nýja íþróttafélags var 9. september 1913 í Þinghúsinu. Stofnfélagar voru 13 og voru þar á meðal margir nafnkunnir menn í bæjarfélaginu. Knattspyrnufélagið Týr (1921-1996). Átta árum eftir stofnun Þórs eða árið 1921, kom Knattspyrnufélagið Týr til sögunnar. Aðdragandinn að stofnun Týs var sá að árið 1920 voru bæði Þór og KV illa stödd fjárhagslega. Nokkrir strákar á 18. og 19. ári sem höfðu takmarkaðan aðgang að tuðrum innan félagana, ákváðu þeir því að fjárfesta nokkrir saman í bolta, þeir höfðu reynt að fá þessu breytt og buðu fram Jóhann Gunnar Ólafsson í stjórn KV. Það gekk ekki og stofnuðu því Tý samhliða fjárfestingu sinni í tuðrunni. Voru stofnendur félagsins 45 talsins og voru nærri því allir innan við tvítugt. Meðal stofenda voru Gunnar Ólafsson kaupmaður og útgerðarmaður, Binni í Gröf, Gísli J. Johnsen, Ísleikur Jónsson á vörubílastöðinni, Einar Sigurðsson (ríki), Friðrik Jesson. Bandalag Þórara og Týrara. Fljótlega eftir stofnun Týs árið 1921 tóku Týrarar höndum saman við leikmenn úr Þór og reyndu fyrir sér undir sameinuðu merki KV, þegar leikið var við lið utan Eyjanna. "KV varð þar með úr sögunni sem sjálfstætt knattspyrnufélag og upp frá því bandalag Þórara og Týrara". Varð það upphafið að gæfuríku samstarfi félaganna í knattspyrnu, þar sem merki þeirra vék fyrir sameiginlegu merki Eyjanna. Féllu liðin mjög vel saman sem heild, þótt barist væri grimmilega innbyrðis á heimavelli og hvergi gefið eftir. Þórarar og Týrarar tóku af og til þátt í kappleikjum á meginlandinu undir merki KV, en fengu einnig heimsóknir til Eyja. Forsvarsmenn félaganna hafa séð að hvorugt félagið væri nægilega öflugt til að geta náð árangri á landsvínu en sameinuð ættu þau alla möguleika á því eins og varð raunin. Fyrsta ferð Þórara og Týrara undir sameinuðu merki KV var farin á Íslandsmót til Reykjavíkur árið 1926, en þá voru liðin 14 ár frá því að Eyjamenn höfðu tekið þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu í fyrsta sinn. Fóru leikmennirnir með mótorbáti til Stokkseyrar, en það var þá eina samgönguleið Eyjamanna við meginlandið. Segja má að þessi tvö félög hafi ekki getað verið hvort án annars, því félögin efldu hvort annað, skerptu keppnisviljann, brýndu fórnarviljann og juku félagsþroska félaga sinna. Sameiginlega réðust félögin í að endurbæta völlinn við Hástein um miðjan þriðja áratuginn, en í nokkur ár hafði ekkert verið gert í vallarmálum. Var völlurinn við Hástein notaður til ársins 1937, er íþróttasvæðið inni við Botn var tekið í notkun. Allmörgum árum síðar var svo aftur farið á svæðið við Hástein þar sem nú er aðalleikvangur knattspyrnunnar. Rígur milli félagana. Alvaran tók við þegar félögin mættust í kappleik, ef marka má skrif í íþróttablaðinu Þjálfa. Þá var hart barist og gengið eins langt og dómarinn leyfði. Íþróttin var ung og þekkingin lítil á reglunum. 1932 stendur í Þjálfa "26. júní fór fram 1. flokks kappleikur um vorbikarinn, og sigraði Þór með 3:1. Þótti leikurinn ljótur, mikið um hrindingar og brögð af hvorum tveggja, enda gerðust leikmenn allreiðir - Dómarinn var mjög reikull í dómum sínum, enda alveg óvanur." Alvara leiksins, þegar heimaliðin mættust í kappleik, var hér í fyrsta sinn dregin fram í dagsljós hins prentaða máls í Vestmannaeyjum. Í fyrsta skipti var minnst á ríg milli félaganna, sem hyrfi reyndar, þegar þau snéru bökum saman gegn andstæðingi utan Eyjanna. "Er mjög gott fyrir okkur hér að fá slíkar heimsóknir öðru hvoru, þó ekki væri nema til þess, að við um stund gleymdum hinum viðbjóðslega ríg milli „Þórs“ og „Týs“ og skipuðum okkur undir merki KV'"". Áratugir dragnótar og síldveiða. Atvinnuhættir Eyjamanna settu KV skorður, sem og öðrum íþróttamönnum í Eyjum á fyrstu áratugunum, þegar knattspyrnan var að festa rætur. Frá upphafi var þó markið sett hátt og heimavettvangurinn einn ekki talinn nægjanlegur fyrir íþróttina. Í vikublaðinu Víði sagði einn Týraranna "Knattspyrnumenn hér í Eyjum, hafa sýnt það á kappmótum í Reykjavík, að þeir eru með bestu knattspyrnumönnum landsins. Þá vantar eigi annað en herslumuninn, og hann er ekki mikill, til þess þeir séu þeir bestu." Þátttakan var þó stopul á æfingar oft á tíðum, og sum árin var KV ekki með á Íslandsmótinu, eins og á árabilinu 1934-1942. Árin 1942 og 1943 hristu leikmenn KV loks af sér slenið með ákaflega litlum árangri. Sigruðu Eyjamenn aðeins í einum leik árið 1942 og lentu í 4. sæti ásamt Víkingur R. í keppni fimm liða. Það bar til tíðinda haustið 1942, að Axel Andrésson kom til Eyja á vegum ÍSÍ og kenndi knattspyrnu um mánaðarbil. Koma mætra leiðbeinenda til Eyja gat hins vegar ekki keppt við atvinnuhætti Eyjaskeggja á 5. áratugnum fremur en áður. Tímabilið, sem hægt var að stunda knattspyrnu, hafði styst með tilkomu dragnótaveiða í maí og síldveiða fyrir norðan frá júní-júlí og fram í september. Ungir Eyjamenn sóttu sjóinn sem fyrr eða voru tengdir honum svo nánum böndum, að knattspyrnuiðkun lagðist að mestu niður á meðan á sjósókn stóð. Júní og september voru því nánast einu keppnismánuðirnir í Eyjum, og á meðan svo var nýttist aukin þekking í knattspyrnunni illa. Var svo komið um miðjan 5. áratuginn, að Eyjamenn náðu ekki í lið í áratug til þess að halda í víking á meginlandið og láta reyna á kunnáttu sína annars staðar en á heimavelli. Íþróttaráð Vestmannaeyja (1929-1945). Árin 1929-1945 var starfandi Íþróttaráð Vestmannaeyja (ÍRV). Það var skipað fulltrúum frá íþróttafélögunum í bænum, Þór og Tý. Tveimur frá hvoru félagi og formaður ráðsins sá fimmti. Tilgangur þess var að halda utan um sameiginlega starfsemi félagana undir merkjum KV. Var það aflagt samhliða KV þegar ÍBV var stofnað árið 1945. Fyrsti formaður ÍRV var Páll Kolka læknir sem gengdi formennsku í ráðinu til ársins 1934. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (1945-). Eftir aukinn samgang milli Þórs og Týs innan KV, var ákveðið að stofna til nýs sambands milli félagana. Stofnfundur ÍBV fór fram 6. maí 1945 og var "ÍRV" og "KV" samhliða þessari ákvörðun lagt niður. Árið 1953 tóku Eyjaskeggjar þátt í landsmóti 1. flokks í knattspyrnu eftir 10 ára hlé og einnig næsta sumar. Var nú í fyrsta sinn keppt undir nýju, sameinuðu merki félaganna í Eyjum, ÍBV, og hafði þátttaka knattspyrnuliða aukist verulega frá því að Eyjamenn tóku seinast þátt í Íslandsmóti 1. flokks. Var félögum nú skipað saman í riðla og lenti lið ÍBV í 2. sæti í sínum riðli fyrra árið með 4 stig. Sýndi liðið góða leiki og var spáð þátttökurétti í meistaraflokki fljótlega. Gullár yngri flokkana. Eftir að strákarnir hans Lolla hófu framfarasókn knattspyrnunnar hjá ÍBV hafi leiðin legið uppá við og næsta 20 ára tímabil var mjög árangursríkt hjá ÍBV. Félagið komst í fremstu röð knattspyrnufélaga á landinu titlarnir tóku að streyma heim til Eyja. Sérstaklega er minnisstætt sigurárið mikla 1970 en það ár færðu knattspyrnumenn Eyjanna heim til Eyja helming þeirra verðlaunagripa sem um var keppt á vegum KSÍ. Það afrek verður ekki auðveldlega endurtekið. ÍBV-Íþróttafélag (1996-). Eftir að Þór og Týr voru aflögð í desember 1996 var ÍBV-Íþróttafélag stofnað. Tilgangur félagsins var að taka yfir yngriflokkastarf knattspyrnu og handknattleiksdeilda félaganna. Í upphafi voru hugmyndir um að láta félagið heita KH-ÍBV, en var að lokum nefnt ÍBV-Íþróttafélag. Í kjölfarið að stofnun ÍBV-Íþróttafélags var starfsemi Þórs og Týs endanlega lögð niður. Þar með var orðið eitt félag um starfsemi knattspyrnu og handknattleiks í Vestmannaeyjum. Voru hugmyndir manna í þá átt að hér væri orðinn grunnur að nýju stórveldi í knattspyrnu og handknattleik á Íslandi. ÍBV hafði hingað til einungis verið sameiginlegt merki félaganna útá við, en hafði haft lítið sem ekkert bakland. Það hafði í raun verið eignalaust og enginn vildi eiga það þegar illa gengi. Það hafi því lennt á fáum aðilum að reka félagið fyrir sameininguna. Einnig hafi verið mikið óhagræði verið að því að reka þrjár einingar með tveimur þjálfurum og framkvæmdastjórum og tvöföldu kerfi á öllu. Því hafi verið mikil skynsemi að sameina rekstur þessara tveggja félaga undir eitt merki, merki ÍBV. Árið 2011 var sett á laggirnar Íþróttaakademía ÍBV-Íþróttafélags í samvinnu við Framhaldskólan í Vestmannaeyjum. Ári síðar bættist Grunnskóli Vestmannaeyja við í samstarfið. Merki og búningar. Þegar Knattspyrnufélag Vestmannaeyja, KV ákvað að taka þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu, 1912, kom félagið sér upp keppnisbúningum. Voru það blá- og hvítröndóttar skyrtur og hvítar buxur. Þessir búningar lágu síðan lítið notaðir um nokkurra ára skeið þar sem lítið fór fyrir starfi félagsins eftir Reykjavíkurförina. Íþróttafélagið Þór var stofnað árið 1913 og árið 1915 fór stjórn Þórs þess á leit við KV að Þór fengi að nota búningana í keppni við lið ofan af landi. Var það auðsótt mál, enda lá starf KV þá nær algerlega niðri. Síðan þá voru bláröndóttu skyrturnar félagsbúningur Þórs. KV hafði legið í dvala eins og áður sagði en varð endurreist á ný árið 1916, mest megnis af gömlum félögum KV og félögum Þórs sem hafði verið vikið úr félaginu fyrir brot á áfengisreglum félagsins. Þá stóð KV frammi fyrir því að þurfa að verða sér úti um nýja búninga, því að sjálfsögðu lét Þór ekki félagsbúning sinn af hendi. Úr varð að félagið fékk nýja búninga, grænar peysur og svartar buxur, sem varð hinn nýi félagsbúningur KV. En dýrðin stóð ekki lengi. Árið 1921 kom upp ósætti í KV, vegna stjórnarkjörs og fleira, og varð til þess að flestir af yngri félagsmönnum klufu sig út úr KV og stofnuðu nýtt félag, Knattspyrnufélagið Tý. Þetta þýddi endalok KV sem sjálfstæðs félags og var samþykkt að félagsbúningurinn skyldi fylgja nýja félaginu. Síðan léku liðsmenn Týs ævinlega í grænum skyrtum. Búningar beggja félaganna Þórs og Týs var því arfleið frá forvera þeirra. Forsvarsmenn beggja félaganna héldu nafni KV á lofti um margra ára skeið, með því að keppa ávallt undir nafni KV þegar um landskeppni var að ræða og félögin mættu sameinuð til keppni. Í knattspyrnunni skiptus félögin þá á um að keppa í bláröndóttum eða grænum búningum en í frjálsum íþróttum var nær ævinlega keppt í hvítum búningum og nafn KV letrað á bolinn. Við stofnun Íþróttabandalags Vestmannaeyja, ÍBV árið 1945 sem arftaka KV og nýs sameiningatákns félaganna úr Vestmannaeyjum verður hvíti liturinn fyrir valinu. Hann hafði einnig verið notaður af félögunum sameiginlega í frjálsumíþróttum undir merkjum KV. Hefur hvítur verið búningur ÍBV æ síðan. Saga íþróttagreina innan ÍBV-Héraðssambands. Nokkur aðildarfélög eru að ÍBV-Héraðssambandi og hefur þeim ýmist fjölgað eða fækkað eftir virkni og ástundun. Þau félög sem virk eru í dag eru ÍBV-Íþróttafélag, Körfuknattleiksfélag ÍBV, Sundfélag ÍBV, Frjálsíþróttafélag ÍBV, Golfklúbbur Vestmannaeyja, Fimleikafélagið Rán, Badmintonfélag Vestmannaeyja, Íþróttafélagið Ægir og Knattspyrnufélagið Framherjar Smástund. Hvert aðildarfélag leggur aðeins stund á eina íþróttagrein, að ÍBV-Íþróttafélagi undanskyldu. Nokkur aðildarfélög hafa lagt upp laupana eða liggja hugsanlega í dvala. Þar má nefna; "Hokkífélagið Jakarnir", "Vélhjólaíþróttafélag Vestmannaeyja" og "Hnefaleikafélag Vestmannaeyja". Íþróttavellir í Eyjum. Margir íþróttavellir hafa verið í Eyjum gegnum tíðina og eru enn talsvert margir. Hásteinsvöllur á öðrum eða þriðja áratug 19. aldar Hásteinsvöllur. Hásteinsvöllur er aðalleikvangur Eyjanna og heimavöllur ÍBV. Sögur af vellinum ná aftur til ársins 1912, en á þeim tíma var hann varla meira en lítt ruddir móar. Völlurinn var endurbættur árið 1922 en þótti aldrei boðlegur sem keppnisvöllur í knattspyrnu né fyrir aðrar íþróttagreinar. Merk tímamót urðu 1960 er Hásteinsvöllurinn var sléttaður og stækkaður í 100x66 metra og sáð í hann grasfræi. Hann var síðan tekinn í notkun að nýju árið 1963 og hefur verið aðalleikvangur Eyjanna síðan. Botn Friðarhafnar. Á kreppuárunum á fjórða tugi þessarar aldar í kringum 1935 var gerður íþróttavöllur úr sandflötunum vestan við innri höfnina í Vestmannaeyjum. Hann var unninn í atvinnubótavinnu á þeim sultar- og hörmungarárum. Þessi íþróttavöllur var notaður þarna aðeins í 7 eða 8 ára. Hann varð að víkja fyrir stœkkun hafnarinnar. Þá misstu margir Eyjabúar þar kálgarða sína, sem þeir höfðu ræktað um árabil, þar sem nú er hin góða og mikilvæga Friðarhöfn og Friðarhafnarbryggja. Helgafellsvöllur. Í einni svipan breytti eldgosið á Heimaey 1973 æðaslætti mannlífsins í Eyjum og rás viðburða tók óvænta stefnu. Nýir straumar léku um bæjarlífið á næstu árum af efnislegum sem óefnislegum toga, sem enginn sá fyrir. Meðal annars varð mjög óvænt til nýr grasvöllur við rætur Helgafells, þegar hlíðar fjallsins voru hreinsaðar af vikri. Árið 1973 var því ákveðið að hlífa Hásteinsvellinum vegna vikurs í grassverðinum. Í stað þess að flytja vikurinn á brott var honum einfaldlega rutt niður á láglendið og sléttað úr honum. Myndaðist á þann hátt mikil flatneskja, sem síðar var tyrfð, og þar með var til orðinn stór grasvöllur, Helgafellsvöllurinn. Þórsvöllur. Þórsvöllurinn stendur við Þórsheimilið, stærð hans er rúmleg stærð á keppnisvelli. Hann er helst notaður á shellmótinu og pæjumótinu, en þá er vellinum skipt í marga vallarfleti. Týsvöllur. Týsvöllurinn er austanmegin við Hásteinsvöll, þar fara flestar æfingar yngriflokka fram á sumrin og líkt og Þórsvöllurinn þá er hann einnig notaður á shell- og pæjumótum. Túnið var áður kennt við sauðfjárbóndann Stebba á Sléttabóli. Við framkvæmdir vallarins sumarið 1987 þurfti að beita stórvirkum vinnuvélum og sprengiefnum til þess að ryðja burt hraungrýti og síðan var slétt úr moldinni. Var að lokum lagt torf yfir síðla sumars 1987 og völlurinn settur á vetur. Völlurinn var vígður sumarið eftir eða árið 1988 Gamli-salurinn. Gamli-salurinn er keppnissalur handknattleiksdeildar ÍBV Íþróttafélags og körfuknattleiksfélags ÍBV. Salurinn er parketlagður og í honum er aðstaða fyrir handbolta, körfubolta, blak, fimleika og badminton. Framkvæmdir við salinn hófust 1975 og voru hluti af uppbyggingarstarfinu eftir Heimaeyjagosið 1973. Framkvæmdir gengu hratt fyrir sig og var salurinn vígður árið 1976. Íþróttasalur Þórs. Við byggingu félagsheimilis Þórs árið 1987 kom í ljós að um 150 fermetra rými yrði undir húsinu með þriggja hæða lofthæð og fannst þá flestum upplagt að nýta þetta rými undir íþróttasal. Íþróttasalurinn var hugsaður fyrir iðkun knattspyrnu og handknattleiks ásamt skalltennis, körfubolta, blaks, badminton o.fl. Íþróttasalurinn sem og félagsheimilið var vígt 28. febrúar 1988. Íþróttasalur Týs. Ákveðið var á aðalfundi Týs, 27. janúar 1990, að reisa íþróttasal við vesturenda nýja félagsheimilisins á félagssvæði Týs undir Fiskhellum og taka hann í notkun á afmælisárinu 1991. Hófst jarðvegsvinna við bygginguna í mars 1990, uppsláttur í júlí og síðan var unnið sleitulaust við húsið fram á næsta ár. Tókst að ljúka verkinu á tilsettum tíma. Á 70 ára afmælisdegi Týs, 1. maí 1991, flykktust Týsfélagar inn á félagssvæði Týs til þess að vera viðstaddir, vígslu nýs íþróttasalar. Salurinn er 15x30metrar að stærð og því löglegur sem körfuknattleikskeppnisvöllur. Nýi-salurinn. Nýi-salurinn er 2.700 fm íþróttasalur sem hægt er að skipta niður í tvo handboltavelli eða tvo körfuboltavelli. Áhorfendarými er í salnum fyrir 800 – 1000 manns, og er gólfdúkur á öllum salnum. Í horni hans er gryfja fyrir fimleika. Framkvæmdir hófust 17. júní árið 2000 með skóflustungu Guðjón Hjörleifsson þáverandi bæjarstjóra. Þann 28. Desember 2001 var húsið síðan tekið í notkun og heildarflatarmál Íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum þá orðið 6.400 fm. Heildarkostnaður framkvæmdarinnar við salinn var áætluð um 300 milljónir króna og var það Vestmannaeyjabær sem stóð að framkvæmd salsins. Eimskipshöllin. Eimskipshöllin er knattspyrnuhús sem er hálfur knattspyrnuvöllur að stærð en húsið er stækkanlegt í heilan völl. Í húsinu er 50 sinnum 60 metra knattspyrnuvöllur með góðu gervigrasi. Þá eru brautir fyrir frjálsar íþróttir lagðar tartanefni. Framkvæmdir við húsið hófust í ársbyrjun 2009 og var húsið vígt 8. janúar 2011. Stuðningsmenn. Íþróttabandalag Vestmannaeyja hefur gríðarlega öfluga stuðningsmenn. Þrátt fyrir fámenni byggðarlagsins má ávallt reikna með 500 manns hið minnsta á leiki karlaliðs ÍBV í knattspyrnu á Hásteinsvöllinn, er það rúmlega 10% af byggðinni. Tímabilið 2010 mættu 882 að meðaltali á leiki liðsins á Hásteinsvöll. Þótt töluverð ferðalög séu á útivelli liðsins, þá á ÍBV eitt að öflugustu stuðningliðum liða á útivelli og má því gera ráð fyrir að brottfluttir Vestmannaeyingar á höfuðborgarsvæðinu sem og aðrir stuðningsmenn liðsins séu í meirihluta þess hóps sem mætir á útileikina. Heimamenn eru þó ekki síður duglegir að gera sér ferð í bæinn til að fylgja liðinu sínu. Knattspyrna er ekki eina áhugamál stuðningsmanna ÍBV, því Gamli salurinn heimavöllur ÍBV í handknattleik er svo gott sem fullur á hverjum heimaleik liðsins og ekki óvanalegt að þar séu á milli 200-300 stuðningsmenn jafnt sem á leikjum karla í 1. deild eða á leikjum kvennaliðs ÍBV í N1-deildinni. Áhorfendamet. KR-völlur 26. september 1998 kl: 13:30 - 0-2 (0-1) "Áhorfendur" 5400 Kópavogsvöllur 16. ágúst 2010 kl: 19:15 - 1-1 (0-1) "Áhorfendur" 3180 Þekktir stuðningsmenn. Meðal þekktra stuðningsmanna ÍBV; Páll Magnússon útvarpsstjóri, Ásgeir Sigurvinsson, Hermann Hreiðarsson, Elliði Vignisson, Árni Johnsen, Heimir Hallgrímsson aðstoðarlandsliðsþjálfari, Geir Jón Þórisson fv. yfirlögregluþjónn Reykjavíkur, Birkir Kristinsson athafnarmaður og fv. landsliðsmarkvörður, Þorsteinn Hallgrímsson golfari, Þorsteinn Gunnarsson fv. íþróttafréttamaður, Sighvatur Jónsson útvarpsmaður, Sveinn Waage skemmtikraftur og Elva Ósk Ólafsdóttir leikkona. Íþróttamenn úr Eyjum. Vestmannaeyjar með ÍBV í farandbroddi hafa alið af sér marga afbragðsgóða íþróttamenn, eins og sjá má í lista yfir íþróttamenn úr Eyjum. Íþróttamaður æskunnar. Ársþing Íþróttabandalags Vestmannaeyja, haldið 8. maí 2003, samþykkti að taka upp sérstaka viðurkenningu, og sá er hana hlyti, fengi nafnbótina Íþróttamaður æskunnar. Skal sama valnefnd og sér um val á Íþróttamanni Vestmannaeyja, sjá um þá viðurkenningu. Skal miða aldur Íþróttamanns æskunnar við 14 ára til og með 18 ára. ÍBV-lagið. Stuðningsmannalag ÍBV heitir „Komum Fagnandi“. Textan af laginu sömdu þeir Leifur Geir Hafsteinsson og Ívar Bjarklind en lagið samdi Leifur Geir Hafsteinsson. Ungmennafélagið Óðinn. Ungmennafélagið Óðinn (UMFÓ) var stofnað 6. mars 1989. Félagið lagði stund á frjálsíþróttir, í september 2012 var nafni félagsins breytt í frjálsíþróttafélag ÍBV. Fyrir þann tíma var félagið eingu að síður hluti af ÍBV-héraðssambandi. Handknattleiksdeild ÍBV. ÍBV á langa sögu innan handboltans á íslandi, í upphafi undir merkjum Þórs og Týs, en frá leikárinu 1986-87 hafa þau leikið saman í Íslandsmóti karla sem ÍBV. Í síðari tíð hefur deildin alið upp ýmsa landsþekkta leikmenn. Þar ber helst að nefna Sigmar Þröst Óskarsson, Birki Ívar Guðmundsson, Sigurð Ara Stefánsson og Kára Kristján Kristjánsson. Pancho Demmings. Pancho Demmings er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í NCIS sem aðstoðarréttarlæknirinn Gerald Jackson. Einkalíf. Demmings stundaði nám við Macalester College við Saint Paul í Minnesota. Ferill. Fyrsta hlutverk Demmings var árið 1992 í kvikmyndinni Equinox og hefur síðan þá komið fram í nokkrum kvikmyndum og sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: The Fresh Prince of Bel-Air, Chicago Hope, The District, 24 og Bones. Var árið 2003 boðið reglulegt gestahlutverk í NCIS sem aðstoðarréttarlæknirinn Gerald Jackson sem hann lék til ársins 2005. Tenglar. Demmings, Pancho Meðgöngutími. Hér er vert að taka eftir því að meðgöngutími hryssu (kapals) er ekki tiltekinn í vísunni að öðru leyti en því að hann er yfir 40 vikur. Þeir sem telja sig hafa vit á, tala um að meðganga hjá hryssum taki um ellefu mánuði, sumir segja 335 +/- 10 dagar. Golfklúbbur Vestmannaeyja. Golfklúbbur Vestmannaeyja stofnaður 4. desember 1938 heldur úti 18 holu völl í Vestmannaeyjum. GV er þriðji elsti golfklúbburinn á landinu. GR er elstur (1934) og GA næstelstur (1935). Sagan. Tildrög þess að hafið var að leika golf í Vestmannaeyjum má rekja til þess er Magnús Magnússon, skipstjóri frá Boston, USA, var á ferð í Eyjum sumarið 1937. Þá hafði hann kennt nokkrum mönnum undirstöðuatriðin í golfíþróttinni og reglur leiksins. Í framhaldinu ákváðu nokkrir af þeim, sem fallið höfðu fyrir íþróttinni, þeir Þórhallur Gunnlaugsson, Axel Halldórsson, Ólafur Halldórsson, Einar Guttormsson, Ágúst Bjarnason og Georg Gíslason, ásamt fleirum að boða til stofnfundar Golfklúbbs Vestmannaeyja. Fundurinn var haldinn þann 4. des 1938 og voru 20 mættir. Í bráðabirgðastjórn og laganefnd voru kosnir Þórhallur Gunnlaugsson, formaður, Georg Gíslason, ritari og Ólafur Halldórsson, gjaldkeri. Framhaldsstofnfundur var haldinn 11. desember og voru þessir sömu menn kosnir í fyrstu stjórnina ásamt meðstjórnendunum Einari Guttormssyni og Viggó Björnssyni Fimleikafélagið Rán. Fimleikafélagið Rán er fimleikafélag frá Vestmannaeyjum og tilheyrir hinu öfluga íþróttastarfi ÍBV í Vestmannaeyjum. Fimleikafélagið Rán var stofnað 29. nóvember 1988. Formaður félagsins er Jóhanna Inga Jónsdóttir Þorleifur Einarsson. Þorleifur Einarsson (29. ágúst 1931 – 22. mars 1999) var íslenskur jarðfræðingur. Hann fæddist í Reykjavík en lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Námsferill. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í MR og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954 – 1956 og Köln 1956 – ­1960, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960 – 1961 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Starfsferill. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961 – 1965, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins 1965 – 19­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands 1969 – 1975. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961 – 19­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963 – 19­69, við Tækniskóla Íslands 1965 – 1970 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­ – 1974. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan. Hann var skorarformaður jarðfræðiskorar 1979 – ­1981, jarð- og landfræðiskorar 1989 – 19­91 og deildarforseti Verkfræði- og Raunvísindadeildar 1983 – 1985. Félagsstörf og íþróttir. Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972 – 1978, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­ – 1972, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966 – 1968 og var formaður þess 1972 – 1974, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980 – 1997, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­ – 1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979 – 1990. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­ – 1960 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Rannsóknarstörf. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis. Einkahagir. Árið 1959 kvæntist Þorleifur Steinunni Dórótheu Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi, en þau skildu síðar. Sambýliskona Þorleifs var Gudrun Bauer lyfjatæknir, f. 27. janúar 1935. Körfuknattleiksfélag ÍBV. Félagið varð til út frá starfsemi Týs. Koma erlends þjálfara til Eyja árið 1947 markaði upphaf nýrrar íþróttar undir merki Týs. Þjálfarinn Edwald Mikson, kom alla leið frá Eistlandi til þess að kenna Eyjaskeggjum íþróttir. Hin nýja íþrótt var körfubolti. Síðar var nafninu breytt í "ÍV" og keppti í fjölda ára undir þeim merkjum. Starfsemi ÍV lagðist niður um miðjan 9 áratugin, en var endurvakin með miklum krafti að nýju árið 1995. Liðið hóf síðan að spila undir merkjum ÍBV árið 2006 þegar nafni félagsins var breytt úr Íþróttafélagi Vestmannaeyja í Körfuknattleiksfélag ÍBV. Mikill uppgangur hefur verið í körfunni undanfarin ár, það hefur mátt sjá á góðum árangri yngri flokka félagsins undanfarin ár. Meistaraflokkur karla. Meistaraflokkur ÍBV karla í körfuknattleik leikur í 2. deild karla. Leikir ÍBV 2012-2013. Blátt merkir Eyjasigur, en rautt tap Eldri tímabil 2012-2013 Gengi meistarflokks karla. ÍBV hefur tvívegis komist upp úr 2. deild karla, fyrst árið 1999 með deildarmeistaratitli. Síðan strax aftur árið 2002 en liðið féll árið á undan, hins vegar var það ákvörðun stjórnar að taka ekki sætið og senda liðið aftur niður í 2. deild. Meistaraflokkur kvenna. Meistaraflokkur kvenna í körfuknattleik hefur ekki verið starfandi meðal ÍBV hingað til. Mannréttindaskrifstofa Íslands. Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð stofnun sem vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. Skrifstofan gegnir einnig ákveðnu eftirlitshlutverki en hún veitir umsagnir um lagafrumvörp og skilar skýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Skrifstofan kemur fram fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi. Guðmundur E. Stephensen. Guðmundur Eggert Stephensen (f.: 29. júní, 1982) er íslenskur borðtennisspilari. Hann varð fyrst íslandsmeistari karla árið 1994, þá aðeins 11 ára gamall. Guðmundur er númer 194 á heimslistanum í borðtennis (7. maí, 2011). Pierre-Auguste Renoir. Pierre-Auguste Renoir (fæddur 25. febrúar 1841, dáinn 3. desember 1919) var franskur myndhöggvari og listmálari, sem lagði mikið af mörkum til þróunar impressjónismans. Hann fæddist í Limoges, Haute-Vienne, Frakklandi. Eitt hans frægasta verk er Le bal au moulin de la Galette. Pierre-Auguste Renoir var faðir leikarans Pierres Renoir og kvikmyndagerðarmannsins Jeans Renoir. 1052. Heilagur Húgó af Grenoble heimsækir karþúsaklaustur. Filippus 6.. Filippus 6. 1293 – 22. ágúst 1350), kallaður "Filippus heppni" (franska: "le Fortuné") var konungur Frakklands frá 1328 til dauðadags, fyrsti konungur landsins af Valois-ætt, sem var hliðargrein Kapet-ættar. Á ríkisstjórnarárum hans hófst Hundrað ára stríðið, en helsta undirrót þess var deilur um erfðatilkall til frönsku krúnunnar. Ríkiserfðir. Filippus var elsti sonur Karls greifa af Valois, sem var sonur Filippusar 3. Frakkakonungs og yngri bróðir Filippusar 4. Móðir hans var fyrsta kona Karls greifa, Margrét af Anjou, og erfði Filippus greifadæmin Valois, Anjou og Maine eftir foreldra sína. Karl greifi var mjög metnaðargjarn og dreymdi alla ævi um að verða konungur einhvers ríkis en það tókst aldrei. Rúmum tveimur árum eftir lát hans varð sonur hans þó konungur Frakklands. Þrír synir Filippusar 4. frænda hans höfðu orðið konungar hver eftir annan en enginn þeirra eignaðist son sem lifði og stúlkur áttu samkvæmt hefð ekki erfðarétt að frönsku krúnunni þótt raunar væru á þeim tíma engin lagaákvæði í gildi þar að lútandi. Þegar sá yngsti, Karl konungur 4., lést 1. febrúar 1328 var drottning hans þó barnshafandi og þurfti Filippus að bíða átekta þar til barnið fæddist tveimur mánuðum síðar, en þegar það reyndist vera stúlka varð hann konungur. Filippus var þó ekki einn um að gera tilkall til krúnunnar, því systir Karls 4., Ísabella Englandsdrottning, hélt fram erfðarétti Játvarðar sonar síns. Franskir aðalsmenn studdu þó Filippus og hann var krýndur í Reims 29. maí 1328. Filippus átti aftur á móti engan erfðarétt að krúnu Navarra, sem Frakkakonungar höfðu haft í 50 ár sem erfingjar Jóhönnu 1. Navarradrottningar, og hún féll í skaut Jóhönnu, dóttur Loðvíks 10., þar sem konur gátu erft ríki í Navarra. Upphaf hundrað ára stríðsins. Fyrstu ríkisár Filippusar var allt með kyrrum kjörum á milli hans og Játvarðar 3. og þeir lögðu á ráðin um að fara saman í krossferð árið 1332 en af því varð þó ekki. Þeir deildu þó um hertogadæmið Akvitaníu, sem var lén Játvarðar en laut Frakkakonungi, og árið 1334 veitti Filippus hinum landflótta Skotakonungi, Davíð 2., hæli og það líkaði Játvarði illa. Upp úr sauð svo 1337 þegar Játvarður veitti Róbert 3. af Artois hæli. Hann hafði áður verið einn helsti ráðgjafi Filippusar en gerðist sekur um skjalafals og slapp naumlega undan refsivendi Filippusar. Játvarður gerði hann að jarli og heiðraði hann á ýmsan hátt og fyrir það lýsti Filippus því yfir 24. maí 1337 að Játvarður hefði fyrirgert rétti sínum til lénsins Akvitaníu. Þar með hófst Hundrað ára stríðið. Filippus stóð vel í upphafi. Frakkland var fjölmennara og auðugra en England og liði Frakka veitti betur í byrjun. Þeir gerðu strandhögg víða á suður- og suðausturströnd Englands, bjuggu sig undir innrás og fóru að safna saman flota við Sluys en í júní 1340 réðust Englendingar á höfnina og hertóku eða eyðilögðu skipin þar. Á landi var aðallega barist í Flæmingjalandi og Niðurlöndum, þar sem Játvarður hafði aflað sér margra bandamanna en hann hafði þröng fjárráð og þurfti tvívegis að láta undan síga og halda heim til Englands til að reyna að afla meiri fjármuna til hernaðar. Árið 1341 hófst erfðastríð í Bretagne á milli Jóhanns de Montfort og Karls af Blois; Játvarður notfærði sér það, studdi de Montfort og kom liði sínu fyrir í Bretagne. Það bætti stöðu hans en Filippus hafði þó enn yfirhöndina og hafnaði boði um friðarsamkomulag 1343. Frakkar fara halloka. Filippus með Jóhönnu, fyrri konu sinni. Árið 1345 unnu Englendingar nokkra sigra en Frakkar gerðu gagnárásir 1346. Játvarður hélt þá öllum að óvörum til Normandí og fór ránshendi um héraðið. Loks kom til mikillar orrustu við Crécy, þar sem herlið Frakka beið mikið afhroð og sjálfur komst Filippus naumlega undan. Englendingar settust svo um Calais, Filippus reyndi að koma borgarbúum til hjálpar sumarið 1346 en það tókst ekki og í ágúst hörfaði hann undan og borgin gafst upp skömmu síðar. Staða Filippusar var nú gjörbreytt og vegna fjárskorts varð hann að láta af áformum um gagnárás og innrás í England. Og árið 1348 barst Svarti dauði til Frakklands og felldi þriðjung íbúanna á næstu árum. Vegna skorts á vinnuafli varð verðbólga í landinu og konungur reyndi að festa verðlag en það gerði illt verra. Ekki bætti úr skák að konungur, sem var nýorðinn ekkjumaður, hreifst af heitmey sonar síns og giftist henni sjálfur. Með því bakaði hann sér óvild sonar síns og margra höfðingja. Fjölskylda og dauði. Filippus giftist fyrri konu sinni, Jóhönnu höltu, í júlí 1313. Hún var dóttir Róberts 2., hertoga af Búrgund, og Agnesar, yngstu dóttur Loðvíks 9. Jóhanna var gáfuð og viljasterk og stýrði landinu af festu þegar maður hennar var fjarri í hernaðarleiðöngrum sínum. Raunar var sagt að hún væri hinn raunverulegi stjórnandi landsins, líka þegar hann væri á staðnum. Af börnum þeirra lifðu tveir synir til fullorðinsára, Jóhann 2. Frakkakonungur og Filippus hertogi af Orléans. Jóhanna dó í Svarta dauða, 12. september 1348. Ári síðar missti Jóhann krónprins konu sína en bað stuttu síðar Blönku af Navarra, dóttur Jóhönnu 2. og Filippusar 3. af Navarra, sem sögð var fegursta prinsessa síns tíma. Af hjónabandi þeirra varð þó ekki því Filippus giftist henni sjálfur 11. janúar 1350. Hún var þá 18 ára en hann 38 árum eldri. Hjónabandið varð þó skammvinnt, konungur dó 22. ágúst sama ár og var sagt að hann hefði ofreynt sig í hjónasænginni. Réttum níu mánuðum eftir lát hans ól Blanka dóttur sem nefnd var Jóhanna, en hún dó um tvítugt á leið í eigið brúðkaup. Pepsideild kvenna 2011. Árið 2011 er Úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu haldin í fertugasta skipti. Deildin er haldin undir merkjum styrktaraðilans Pepsi. Lokastaða deildarinnar. "Útskýringar: L = Leikir spilaðir, U = Leikir sigraðir, J = Leikir sem lauk með jafntefli, T = Tapaðir leikir, Sk = Mörk skorðuð, Fe = Mörk fengin á sig, Mm = Markamunur" Í upphafi tímabils. Upp um deild: 20pxÞróttur, Niður um deild:, 20pxHaukar Í lok tímabils. Upp um deild:, 20pxSelfoss Niður um deild: 20pxÞróttur, 20pxGrindavík Þórarinn Ingi Valdimarsson. Þórarinn Ingi Valdimarsson (fæddur 23. apríl 1990) fæddur í Vestmannaeyjum er leikmaður ÍBV í Pepsideild karla í knattspyrnu. Tryggvi Guðmundsson. Tryggvi Guðmundsson (fæddur 30. júlí 1974 í Vestmannaeyjum), er leikmaður HK í 2. deildinni í knattspyrnu. Hann er markahæsti leikmaður í sögu Íslendinga með 147 mörk. Hann bætti metið miðvikudaginn 29. maí 2012, þegar hann skoraði í leik ÍBV og Stjörnunnar. Sá leikur endaði 4-1. Fjörfiskur. Fjörfiskur er heiti yfir ósjálfráða, síendurtekna samdrætti í vöðvum í augnlokinu, oftast því efra, sem geta staðið í nokkra klukkutíma og allt upp í nokkra daga. Almennt er lítið vitað um orsakir fjörfisks. Þreyta, álag og andleg streita eru þó taldir vera þættir sem geta komið fjörfisknum af stað. Þótt fjörfiskur geti í undantekningartilvikum verið merki um undirliggjandi sjúkdóm er hann nær alltaf skaðlaus. Jóhann 2. Frakkakonungur. Jóhann góði (Jehan roy de France). Jóhann 2. Frakkakonungur (16. apríl 1319 – 8. apríl 1364), kallaður Jóhann góði (franska:" Jean le Bon") var konungur Frakklands frá 1350 til dauðadags. Hann var annar í röð konunga af Valois-ætt. Hann var einnig greifi af Anjou, Maine og Poitiers, hertogi af Normandí frá 1332, hertogi af Akvitaníu frá 1345 og frá 1361 til 1363 hertogi af Búrgund. Hertogi af Normandí. Jóhann var sonur Filippusar konungs 6. og Jóhönnu höltu. Faðir hans varð óvænt konungur Frakklands, eftir að hinn síðasti þriggja sona Filippusar 4. frænda hans lést án þess að láta eftir sig son. Erfðatilkall Filippusar var þó alls ekki óumdeilt og hann ákvað fljótlega að styrkja sig í sessi með því að finna syni sínum hentuga konu. Fyrst hafði hann Elinóru, yngri systur Játvarðar 3. Englandskonungs, í huga en ákvað svo að leita samninga við Jóhann af Lúxemborg, konung Bæheims, um hjúskap við Bonne dóttur hans. Hún var orðin sextán ára og gat því fljótt farið að ala Jóhanni, sem var þrettán ára, erfingja. Þau giftust 28. júlí 1332 og Jóhann var gerður hertogi af Normandí um leið. Nokkur órói var í Normandí og um 1345 voru ýmsir aðalsmenn þar orðnir opinberir stuðningsmenn Játvarðar 3. og yfirráð Frakka í hertogadæminu voru í hættu. Filippus sendi Jóhann til að reyna að leita sátta og vinna aðalsmennina á sitt band og tókst honum fá hluta þeirra á sitt band. Konungur Frakklands. Jóhann tók við ríkjum þegar faðir hans lést sumarið 1350 og var krýndur í Reims. Fyrstu árin naut hann auðs síns og valda en lét misgóða ráðgjafa halda um stjórnartaumana. Með árunum tók hann þó sjálfur meiri þátt í stjórn ríkisins. Hann var heilsuveill og tók lítinn þátt í konunglegum íþróttum eins og burtreiðum og veiðum en var bókamaður og styrkti málara og tónlistarmenn. Hann er sagður hafa verið skapmikill og fljótur til reiði svo að oft kastaðist í kekki milli hans og þeirra sem hann átti í samskiptum við. Árið 1355 blossaði Hundrað ára stríðið upp að nýju og árið eftir fór Svarti prinsinn, sonur Játvarðar 3., herför um Frakkland með tiltölulega fámennt lið. Jóhann veitti honum eftirför og í september kom til bardaga milli herjanna við Poitiers. Jóhann var sigurviss, enda með tvöfalt fjölmennara lið en andstæðingurinn. Frakkar biðu lægri hlut og Jóhann konungur féll í hendur Englendinga eftir frækilega framgöngu. Hann var svo fluttur til Englands. Fangi Englendinga. Í Englandi var honum haldið föngnum á ýmsum stöðum en að lokum var hann fluttur í Lundúnaturn. Hann var þó ekki í ströngu varðhaldi, fékk jafnvel að ferðast um og hafði um sig litla hirð. Bókhald konungs frá þessum tíma hefur varðveist og má þar sjá að hann var að kaupa sér hesta, gæludýr og fatnað á meðan hann var fangi og hafði hjá sér stjörnuspeking og hirðhljómsveit. Fyrsti frankinn var sleginn árið 1360 til að fagna heimkomu Jóhanns konungs úr fangavistinni á Englandi. Í Brétigny-sáttmálanum, sem undirritaður var 1360, var samið um að Frakkar skyldu greiða geysihátt lausnargjald fyrir konung sinn. Honum var heimilað að snúa aftur til Frakklands til að afla fjár fyrir lausnargjaldinu en næstelsti sonur hans, Loðvík af Anjou, varð gísl í hans stað. Jóhanni gekk þó seint að afla fjár og í júlí 1363 bárust þær fregnir að Loðvík hefði sloppið úr haldi Englendinga. Jóhanni fannst þetta svo mikil skömm að hann tilkynnti, þegnum sínum til furðu og skelfingar, að hann ætlaði sjálfur að fara til Englands og gefa sig Englendingum á vald. Ekkert gekk að telja konung af þessu, hann mat heiðurinn meira en frelsið, og sigldi til Englands um veturinn. Honum var vel fagnað í Englandi með veisluhöldum og skrúðgöngum. En nokkrum mánuðum eftir að hann sneri aftur veiktist hann og dó í Savoy-höll um vorið. Lík hans var flutt til Frakklands og grafið þar. Fjölskylda. Jóhann og Bonne drottning eignuðust tíu börn á ellefu árum. Þau sem upp komust voru Karl 5. Frakkakonungur, Loðvík 1. hertogi af Anjou, Jóhann hertogi af Berry, Filippus 2. hertogi af Búrgund, Jóhanna kona Karls 2. Navarrakonungs, María kona Róberts hertoga af Bar og Ísabella, kona Gians Galeazzo 1., hertoga af Mílanó. Bonne lést svo 11. september 1349. Jóhann hugðist þá giftast Blönku af Navarra, frænku sinni, en faðir hans ákvað að giftast henni sjálfur. Hann giftist þá í staðinn Jóhönnu 1. af Auvergne, ekkju Filippusar af Búrgund og móður Filippusar 1. hertoga af Búrgund. Þau eignuðust tvær dætur sem dóu ungar. Nánasti vinur Jóhanns var Charles de la Cerda, sem naut mikillar hylli konungs og hafa sumir talið að þeir hafi átt í ástarsambandi. Náin tengsl þeirra kveiktu afbrýðisemi annarra aðalsmanna og nokkrir þeirra myrtu de la Cerda árið 1354. Konungur syrgði hann ákaft. Vladímír Ashkenazy. Vladímír Ashkenazy (fæddur "Gorkíj", nú Nizhníj Novgorod 6. júlí 1937) er rússnesk-íslenskur einleikspíanisti og hljómsveitarstjórnandi, búsettur í Sviss. Kvæntist 1961 íslenska píanistanum "Þórunni Jóhannsdóttur" og flutti með henni um tíma til Íslands, þar sem hann hlaut íslenskan ríkisborgararétt 1972. Jóhanna halta, Frakklandsdrottning. Jóhanna af Búrgund (24. júní 1293 – 12. september 1348) eða Jóhanna halta (Jeanne la Boiteuse) var drottning Frakklands frá 1328 til dauðadags, fyrri kona Filippusar 6. Frakkakonungs. Hún stýrði ríkinu þegar maður hennar fór í herleiðangra í Hundrað ára stríðinu. Jóhanna var dóttir Róberts 2. hertoga af Búrgund og Agnesar af Frakklandi, yngstu dóttur Loðvíks konungs 9. Eldri systir hennar, Margrét af Búrgund, var fyrsta kona Loðvíks 10. og dó í dýflissu. Bræður hennar voru Húgó 5., hertogi af Búrgund, og Ottó 4., hertogi af Búrgund. Jóhanna giftist Filippusi af Valois í júlí 1313. Hann var af konungsættinni og eftir að allir synir Filippusar 4. voru látnir án þess að láta eftir sig syni varð hann óvænt konungur 1328. Hundrað ára stríðið hófst nokkrum árum eftir að þau hjónin settust í hásæti og Filippus var oft langtímum saman fjarverandi að berjast við heri Játvarðar 3. Englandskonungs. Jóhanna stýrði ríkinu á meðan og reyndist hæfur leiðtogi en þótti hörð í horn að taka og það ásamt fötlun hennar varð til þess að hún var stundum kölluð la male royne boiteuse, „vonda halta drottningin“. Hún var sögð stjórna manni sínum, sem þótti fremur veikur leiðtogi. Hún var mjög bókhneigð og fyrirskipaði þýðingar á ýmsum verkum yfir á frönsku. Jóhanna dó í Svarta dauða, 12. september 1328. Af þeim börnum sem hún ól komust tveir synir upp, Jóhann 2. Frakkakonungur og Filippus af Valois, hertogi af Orléans. Þegar Filippus 1. af Búrgund, sonarsonur Ottós hertoga bróður Jóhönnu, lést ungur að árum 1362 dó karlleggur Búrgundarættar út. Ekki var ljóst hver væri réttmætur erfingi hans og gerðu bæði Jóhann 2., sonur Jóhönnu (og stjúpfaðir Filippusar hertoga), og Karl 2. Navarrakonungur, sem var dóttursonur Margrétar, eldri systur Jóhönnu, kröfu til hertogadæmisins. Jóhann náði sínu fram á þeirri forsendu að hann væri einum lið skyldari Filippusi. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986 var 31. skipti sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin en hún var haldin í Grieghallen í Bergen í Noregi 3. maí árið 1986. Grikkland hefði verið númer 18 á sviðinu með laginu "Wagon-lit" (βάγκον λι) sem var flutt af sönkonuni Polina. Þau hættu við vegna frídags í Grikklandi sem keppnin var haldin á. Ítalía ákvað að taka ekki þátt þetta árið. Úrslit. 1986 Orkudrykkur. Orkudrykkir eru drykkir sem eru markaðssettir undir þeim formerkjum að þeir nái fram örvandi áhrifum. Þeir gefa vellíðunartilfinningu í heilanum, sem hvetur fólk að halda áfram neyslu þeirra, en hafa engin áhrif á vöðva líkamans. Orkudrykkir innihalda jafn mikið magn af sykri og er í sykruðum gosdrykkjum og eins mikið magn af koffíni og er í kaffi. Orkudrykkir hafa verið lítið rannsakaðir og engar samræmdar reglur eru til um hvað drykkirnir megi innihalda. Neysla orkudrykkja er mest á meðal ungs fólks bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Blanda áfengis og orkudrykkja er mjög vafasöm. Blandan hefur veikjandi áhrif á líkamann, getur valdið hjartsláttartruflunum og jafnvel skyndilegum dauða. Scott Ramsey. Scott Ramsey er íslenskur knattspyrnumaður af skoskum ættum. Hann hefur leikið fyrir yngri flokka Glasgow Rangers og með skoskum neðri deildar félögum. Á Íslandi hefur hann spilað með KR, Keflavik ÍF og UMF Grindavík. Ramsey var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar árið 2005 fyrir það að hafa orðið manni að bana á skemmtistað í Keflavík. Hann er giftur íslenskri konu og er með íslenskan ríkisborgararétt. Heimsósómi. Heimsósómi er ádeiluljóð sem talið er hafa verið ort í upphafi 16. aldar af Skáld-Sveini. Um skáldið er lítið sem ekkert vitað. Ljóðið birtist fyrst í Vísnabók Guðbrands árið 1612 og er það þá sagt gamalt. Það er gjarnan talið fyrsta heimsádeilukvæðið sem ort er á íslensku, en í því er lýst ranglætinu sem alþýðan þarf að þola og spillingu ríkismanna. Kvæðið er 16 erindi að lengd, 10 línur hvert. Kristalskjár. Kristalskjár eða LCD (úr ensku: "liquid crystal display") er tegund af skjá sem í eru vökvakristlar til þess að framleiða mynd. Kristalskjáir eru notaðir í tölvuskjám, sjónvörpum og ýmsum raftækjum. Pierre Bourdieu. Pierre Bourdieu (1. ágúst 1930 – 23. janúar 2002) var franskur félagsfræðingur, mannfræðingur og heimspekingur. Pierre hóf rannsóknir sínar í Alsír. Þar kynnti hann sér stöðu kvenna og uppbyggingu menntakerfis. Jacques Derrida var þá þá var barnaskólakennari í Alsír og höfðu þeir mikið samband. Bourdieu setti fram kenningar um ólík form auðmagns sem væru nokkurs konar eign sem menn geta notað sér til framdráttar í efnahags- og félagslegum tilgangi. Hann greindi á milli efnahagslegst auðmagns, félagslegs auðmagns og menningarlegst auðmagns en menningarauðmagn öðlast einstaklingar í félagsmótun í fjölskyldu, jafningjahópum og frá leikfélögum í æsku og gegnum skólagöngu og þennan bakgrunn kallaði Bourdieu „habitus“. Tengill. Bourdieu, Pierre Bourdieu, Pierre Zygmunt Bauman. Zygmunt Bauman (f. 19. nóvember 1925) er pólskur félagsfræðingur sem nú býr í Bretlandi. Hann var prófessor í félagsfræði við Háskólann í Leeds og er þekktur fyrir greiningar sínar á tengslum nútíma og helfararinnar og póstmóderískrar neysluhyggju. Heimur nútímans er fljótandi. Skilin milli miðju og jaðars eru að breytast, þau eru komin á flot Hann gekk í kommúnistaflokk Póllands árið 1946. Hann varð prófessor í félagsfræði við Háskólann í Varsjá en var hrakinn úr stöðu sinni árið 1968 og flutti þá til Ísraels í eitt ár og þaðan til Bretlands. Frægasta bók hans er Modernity and the Holocaust (1989). Ein grein eftir Bauman hefur verið þýdd á íslensku, Lýðræði á tveimur vígstöðvum, og birtist hún í bókinni Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar (2000). Tengill. Bauman, Zygmunt Blanka af Navarra, Frakklandsdrottning. Blanka drottning með eiginmanni sínum og dóttur - sem ekki stenst þó sögulega því Filippus 6. dó níu mánuðum áður en dóttir hans fæddist. Blanka af Navarra (1331 – 5. október 1398) (franska: "Blanche d'Évreux") var drottning Frakklands í skamma hríð um miðja 14. öld sem seinni kona Filippusar 6. og síðan ekkjudrottning í nærri hálfa öld. Hún var dóttir Jóhönnu 2., drottningar Navarra, og Filippusar 3. konungs. Hún var talin fegursta prinsessa sinnar tíðar og var kölluð „Belle Sagesse“ eða Fagra viska. Upphaflega stóð til að hún giftist Pétri, síðar konungi Kastilíu, en úr varð að hún var heitbundin Jóhanni, krónprinsi Frakklands, sem var nýorðinn ekkjumaður. En faðir hans, Filippus 6., hafði einnig misst konu sína í Svarta dauða skömmu fyrr og hann hreifst svo af Blönku að hann giftist henni sjálfur þótt hann væri nærri fjörutíu árum eldri. Hjónabandið var þó skammvinnt, Filippus dó 22. ágúst 1350 og var sagt að hann hefði ofreynt sig í hjónasænginni. Í ljós kom að drottningin var þunguð og eignaðist hún dóttur, Jóhönnu, í maí 1351. Blanka flutti til Neaufles-Saint-Martin í Normandí og settist þar að. Ekki leið á löngu bað Pétur af Kastilíu, sem nú var orðinn konungur, um hönd hennar en hún hafnaði honum og sagði að drottningar Frakklands giftust aldrei aftur. Hún lifði kyrrlátu lífi í Normandí til dauðadags og kom sjaldan til hirðarinnar. Einkadóttir hennar, Jóhanna, var heitbundin Jóhanni, ríkisarfa Aragóníu, en dó á leið í eigið brúðkaup, 16. september 1371. Samfélagsfræði. Samfélagsfræði er kennslugrein í grunnskólum. Davis. Davis er borg í mið-Kalíforníu í Yolo-sýslu. Íbúar voru rúmlega 65 þúsund árið 2010. Símanúmer. Símanúmer er röð tölustafa sem notuð er til þess að hafa samband á milli tveggja síma. Á mörgum löndum finnst listi yfir símanúmer einstaklingra og fyrirtækja í bók sem kallast gular síður. Í sumum löndum þarf að skeyta „svæðanúmer“ framan við símanúmer, sem hringja skal í. Ef hringt er milli landa þarf auk þess að skeyta „landsnúmer“ framan við númerið. Austurríki í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1975-2007). Austurríki Ungverjaland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1994-2009). Ungverjaland Julia Gillard. Julia Gillard (fædd 29. september 1961) er nuverandi forsætisráðherra Ástralíu. Jóhanna 2. Navarradrottning. Jóhnanna 2. (28. janúar 1312 – 6. október 1349) var þjóðhöfðingi Navarra frá 1328 til dauðadags. Hún var dóttir Loðvíks 10., konungs Frakklands og Navarra, og fyrri konu hans, Margrétar af Búrgund, en faðerni hennar hefur þó veri talið vafasamt þar sem móðir hennar var sökuð um framhjáhald og dó í dýflissu. Þegar Loðvík 10. dó 1316 og nýfæddur sonur hans, Jóhann 1., síðar sama ár, var Jóhanna í raun réttur erfingi að krúnu Navarra, því konur áttu erfðarétt þar þótt svo væri ekki í Frakklandi, enda hafði Loðvík erft Navarra eftir móður sína. Þó var gengið framhjá henni og Filippus 5., bróðir Loðvíks, varð konungur beggja ríkjanna. Hann lét þó ekki lýsa Jóhönnu óskilgetna vegna þess að hann þarfnaðist stuðnings móðurbróður hennar, Ottós 4. hertoga af Búrgund. Þegar Filippus dó og þriðji bróðirinn, Karl 4., tók við var aftur gengið framhjá Jóhönnu. Karl dó svo 1328 og átti ekki son og því erfði frændi hans, Filippus 6., frönsku krúnuna. Hann átti hins vegar engan erfðarétt í Navarra og Jóhanna gerði samkomulag við hann um að hann setti sig ekki gegn því að hún yrði drottning en í staðinn afsalaði hún sér öllu erfðatilkalli til frönsku krúnunnar. Jóhanna hafði verið látin giftast frænda sínum, Filippusi greifa af Évreux, sonarsyni Filippusar 3. Frakkakonungs, árið 1318 þegar hún var sex ára en hann tólf. Þau tóku við ríki í Navarra 1329 en áttu einnig miklar eignir í Normandí og víðar í Norður-Frakklandi. Þau eignuðust átta börn og á meðal þeirra voru Karl 2. Navarrakonungur, Blanka Frakklandsdrottning, seinni kona Filippusar 6., og María, sem var fyrsta kona Péturs 4. Aragóníukonungs en dó af barnsförum þegar hún fæddi fjórða barn sitt, átján ára að aldri. Svartfjallaland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðigreiðslu (2007-2009). Svartfjallaland Carpe diem. Carpe diem er orðatiltæki á latínu og þýðir beinlínis „gríptu daginn“. Orðatiltækið er upprunnið úr kvæði eftir rómverska skáldið Hóratíus ("Carmina" I.11). Harry Mulisch. Harry Mulisch (29. júlí 1927 – 30. október 2010) var hollenskur rithöfundur. Móðir hans var gyðingur og faðir hans var austurrískur. Hann er helst þekktur fyrir skáldsögu sína "De ontdecking van de hemel", sem er póstmódernísk skáldsaga. Bækur. Mulisch, Harry Sigurður S. Thoroddsen. Sigurður S. Thoroddsen (24. júlí 1902 – 29. júlí 1983) var íslenskur verkfræðingur, stjórnmálamaður og knattspyrnumaður. Ævi og störf. Sigurður fæddist á Bessastöðum á Álftanesi, sonur stjórnmálamannsins Skúla Thoroddsen og skáldkonunnar Theódóru Thoroddsen. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1919 og útskrifaðist sem byggingarverkfræðingur frá Kaupmannahöfn árið 1927. Fyrstu árin eftir útskrift gegndi hann verkfræðistörfum fyrir ýmsa opinbera aðila og sinnti kennslu. Árið 1931 stofnaði hann eigin verkfræðistofu, fyrstu almennu verkfræðistofuna hér á landi. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen kom að fjölda stórframkvæmda, meðal annars á sviði raforkumála og eru Sigurði eignaðar margar af stærstu og metnaðarfyllstu áætlunum á sviði virkjanamála hérlendis, þótt ekki hafi þær allar komið til framkvæmda. Sigurður var af róttæku fólki kominn og hneigðist snemma til sósíalisma. Hann var kjörinn á Alþingi fyrir Sósíalistaflokkinn árið 1942. Ekki átti þingmennskan þó vel við hann og dró hann sig í hlé eftir eitt kjörtímabil. Systir Sigurðar, Katrín Thoroddsen, sat á þingi sem varamaður um nokkurra vikna skeið árið 1945 og voru þau systkinin því samtíða á þingi. Á yngri árum lagði Sigurður stund á knattspyrnu og varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari með Knattspyrnufélaginu Fram. Meðan á námsdvöl hans í Danmörku stóð, æfði hann um tíma með Akademisk Boldklub, knattspyrnuliði Kaupmannahafnarháskóla. Sigurður átti fjölda barna í tveimur hjónaböndum, þar á meðal ljóðskáldið Dag Sigurðarson og kvikmyndaleikstjórann Ásdísi Thoroddsen. Hann var afi stjórnmálamannsins Katrínar Jakobsdóttur. Árið 1982 kom út endurminningarbók Sigurðar, "Eins og gengur". Skansinn (Vestmannaeyjum). Skansinn var virki sem reist var í Vestmannaeyjum að boði konungs seint á 16. öld til þess að verja eyjarnar og þó einkum eignir konungs þar fyrir enskum kaupmönnum og ræningjum. Skansinn fór að hluta undir hraun í eldgosinu 1973. Friðrik 2. Danakonungur skrifaði bréf 18. apríl 1586 þar sem hann fól Hans Holst skipstjóra að reisa virki á hentugum stað við höfnina í Vestmannaeyjum. Af reikningum umboðsmanns konungs það ár má sjá að þegar hefur verið hafist handa við verkið og „skandters“ reistir en ekki er vel ljóst hvernig mannvirki þetta voru. Þau hafa líklega verið eyðilögð í Tyrkjaráninu 1627 eða ef til vill verið í svo lélegu ástandi að þau hefðu verið gagnslaus ef gripið hefði verið til varna, að minnsta kosti var Skansinn endurbyggður á árunum 1630-1637 að undirlagi Jens Hasselberg, sem þá var umboðsmaður konungs í Vestmannaeyjum og verslunarstjóri þar. Hann lét jafnframt endurbyggja verslunarhús og íbúðarhús Dana, sem ræningjarnir höfðu brennt, og víggirða þau, en þau voru inni í Skansinum. Skansinn var öflugur grjótveggur, um tveggja metra hár og fimm metra þykkur, og var svæðið innan hans um 32 metrar á lengd og 15 metrar á breidd. Þessi mannvirki hafa þótt nokkuð vegleg og séra Jón Daðason (d. 1676) sagði hann vera mesta prýði Sunnlendingafjórðungs. Á hornum Skansins voru fallbyssur og þar átti jafnan að vera maður sem kunni að fara með fallbyssur og hergögn. Um 1640 gegndi Jón Ólafsson Indíafari því embætti um tíma og segir hann í ævisögu sinni að hlutverk hans hafi verið að gæta hergagnanna og æfa eyjarskeggja í vopnaburði vikulega. Embætti þetta hélst lengi fram eftir 17. öld en í lýsingu Vestmannaeyja frá 1749 segir að á Skansinum séu gömul hergögn sem nú séu orðin algjörlega ónothæf. Nígerkongótungumál. Nígerkongó-tungumál eru málaflokkur sem oftast hefur verið skilgreindur sem sjálfstæð ætt en er nú oft greindur sem önnur megingrein níger-kordófan málaættarinnar. 1532 tungumál og mállýskur teljast til þessa málaflokks. Nútímamál sem tilheyra þessari ætt eru til dæmis svahílí, abanjommál og adelska. Orla Lehmann. Orla Lehmann (fæddur 19. maí 1810 í Kaupmannahöfn, dáinn 13. september 1870 í Kaupmannahöfn) var danskur lögfræðingur og stjórnmálamaður. Lehmann var einn af leiðtogum hreyfingarinnar gegn einveldi Danakonungs. Hann mælti á Casinofundinum sem haldinn var í maí 1848 áður en tíu þúsund manns gengu mótmælagöngu að konungshöllinni og kröfðust afnáms einveldis. Lehmann, Orla Nostoc. "Nostoc" er ættkvísl blábaktería sem finna má víða í náttúrunni. Þær einkennast meðal annars af sérstæðu vaxtarformi, þar sem kúlu- eða ellipsulaga frumur mynda langar keðjur í hlaupkenndu slíðri. Slíkar "Nostoc"-trefjar geta orðið all stórar og myndað stórsæjar, slýkenndar breiður. Hana má finna í jörðu, klettum, á botni vatna eða jafnvel í litlum lindum sem geta bæði verið ferskvatn eða saltvatn. Sumar tegundir ættkvíslarinnar eru þekktar að því að lifa í sambýli við aðrar lífverur, einkum fléttur. "Nostoc" getur ljóstillífað líkt og aðrar blábakteríur og einnig bindur hún nitur. Uppgötvaðar hafa verið 334 tegundir af "Nostoc" bakteríum en þó hafa nöfn einungis 55 þeirra verið samþykkt. Sumar þessara tegunda er að finna fléttum þar sem þær þjóna sem innrænir sambýlingar svo erfitt getur verið að einangra og rannsaka þær. Í fléttusambýlinu ljóstillífa þær og binda ólífrænt nitur handa sambýlisfélaganum og fá í staðinn næringarefni og skjól fyrir afráni. Svepphlutinn í fléttunni fær bæði kolefni og nitur frá bakteríunni á meðan plantan fær bara nitur þar sem hún verður sér út um kolefni í gegnum ljóstillífun. Svepphlutinn í fléttu hefur margar bakteríur og þörunga í vinnu hjá sér þar sem hann fær sín næringarefni frá en það getur verið frá ljóstillífun eða jafnvel fengið næringarefni í gegnum bakteríurnar. Þar sem cyanobakteríurnar eru eina tegundin sem er í samlífinu þá er það augljóslega hún sem vinnur að því að gefa sveppinum kolefni í gegnum ljóstillífun ásamt niturbindingu. Þau tilfelli þar sem sveppurinn hefur grænþörunga og cyanobakteríu hjá sér er það grænþörungurinn sem sér mest um að ljóstillífa á meðan bakterían sér um niturbindinguna. Peltigera. "Peltigera" er ættkvísl fléttna af engjaskófarætt. Þær vaxa oftast á grónum jarðvegi og eru af formgerð blaðfléttna. Ættkvíslin er útbreidd um allan heim og inniheldur 66 tegundir. Lífefnafræði fléttnanna er lítt þekkt en þær gefa margar hverjar frá sér lífvirkar annars stigs efnaskiptaafurðir. Meðal nýlegra rannsókna sem stundaðar hafa verið á "Peltigera" fléttum má nefna kennigreiningu ljósbýlinga fléttnanna, en innan ættkvíslarinnar er að finna tegundir sem nýta sér grænþörunga og blágerla til ljóstillífunar. Í ljós hefur komið að ljósbýlingar "Peltigera" eru um margt fráðbrugðnir sömu bakteríu- eða þörungahópum sem lifa sjálfstæðu lífi utan fléttunnar Tegundir. Þær "Peltigera" tegundir sem er að finna hér á landi eru eftirfarandi (latnensk nöfn): Flannaskóf ("P. aphtosa"), engjaskóf ("P. canina"), klettaskóf ("P. collina"), lambaskóf ("P. didactyla"), dældaskóf ("P. kristinssonii"), hosuskóf ("P. lepidophora"), dílaskóf ("P. leucophlebia"), himnuskóf ("P. membranacea"), blikskóf ("P. neckeri"), glitskóf ("P. polydactylon"), giljaskóf ("P. praetextata"), fjallaskóf ("P. rufescens"), þéluskóf ("P. scabrosa") og æðaskóf ("P. venosa"). Flokkunarfræði Peltigera hefur yfirleitt verið byggð upp á plöntulíkum einkennum þalsins á fléttunni en eins og áður segir er hún blaðlaga í útliti. Himnuskóf. Himnuskóf (fræðiheiti: "Peltigera membranacea") er flétta sem algeng er um land allt. Hún vex í skógabotnum, lyngmóum og graslendi og er grá eða grábrún að lit. Lengi vel var himnuskóf ekki aðgreind frá engjaskóf ("P. canina") enda nákyld henni og lík í útliti. Himnuskófin er þó gjarnan stærri og breiðari heldur en engjaskófin, en þalið er um 300 – 500 µm á þykkt. Þó að oft sé auðvelt að greina í sundur "P. canina" og "P. membranacea" þá getur það verið erfitt, einkum ef sýnin eru þurrkuð þanig að hin augljósu einkenni séu ekki eins greinileg Stanfurðubryggja. Núverandi brú yfir ána Derwent, frá árinu 1727. Stanfurðubryggja eða Stafnfurðubryggja (enska: "Stamford Bridge") er þorp á Englandi, um það bil 11 kílómetra frá Jórvík (York). Haraldur 3. harðráði féll í orrustu við Harald Guðinason við Stanfurðubryggju, þann 25. september 1066. Þar er minnismerki um orrustuna, sem var afdrifarík í sögu Englands og Noregs, og markaði endalok víkingaaldar. Þorpið eða bærinn stendur við ána Derwent, sem var farartálmi, en á þessum stað var vað á ánni, og síðar brú. Rómverjar komu upp virki á þessum stað um 70 e.Kr. og byggðist síðar upp þorp á staðnum. Upphaflegt nafn var "Stanford bridge", það er steinvaðsbrú, en breyttist síðar í "Stamford bridge". Ritháttur nafnsins er breytilegur í fornum íslenskum heimildum. Í "Morkinskinnu" stendur „Stanfurðubryggja“, í "Fagurskinnu" „Stannforðebryggja“, í "Heimskringlu" „Stanforðabryggjur“ og í síðari handritum „Stafnfurðo-“ eða „Stafnforðobryggjur“. Rithátturinn "Stanfurðubryggja" virðist því einna elstur. Orrustan við Stanfurðubryggju. a> af orustunni við Stamford bridge. Haraldur harðráði fær ör í hálsinn. Orrustan við Stanfurðubryggju eða Stafnfurðubryggju ("Stamford Bridge") var háð árið 1066. Þar barðist Haraldur 3. harðráði Noregskonungur við Harald 2. Guðinason Englandskonung. Haraldur harðráði lét þar líf sitt og nafni hans hafði sigur. Stanfurðubryggja er ekki langt frá Jórvík. Aðdragandi. Um miðja 11. öldina gerði Vilhjálmur 1. bastarður (einnig nefndur sigursæli), hertogi í Normandí í Frakklandi kröfu til ríkis í Englandi. Ekki fylgdi hann kröfum sínum fast eftir um sinn, en þegar Játvarður góði ("Edward the Confessor") konungur Englendinga andaðist án þess að eiga lögmætan erfingja í ársbyrjun 1066, taldi Vilhjálmur sig sjálfkjörinn eftirmann hans. En Englendingar völdu innlendan höfðingja, Harald Guðinason, til konungs og skeyttu ekki um kröfur Normannahertogans. Vilhjálmur bjó út herleiðangur til Englands, en þrálát norðanátt um sumarið 1066 kom í veg fyrir að hann gæti siglt yfir Ermarsund og beið hann vikum saman eftir byr. Haraldur harðráði. Norðanáttin var aftur á móti hagstæð Haraldi harðráða Noregskonungi, sem þetta sumar fór á stúfana og hugsaði sér að hertaka England. Haraldur gerði bandalag við hinn útlæga bróður Englakonungs, Tósta jarl, og sigldi frá Noregi með mikið lið á þrjú hundruð skipum og gekk á land í Norður-Englandi. Haraldur Guðinason fór með Englendingum gegn nafna sínum frá Noregi og háðu þeir orrustu mikla við Stanfurðubryggju. Englendingar höfðu betur og Haraldur harðráði féll með miklu af liðu sínu þann 25. september. Orrustan við Hastings. Um þetta leyti snerist vindáttin Vilhjálmi hertoga í vil og hélt hann þegar með her sinn yfir Ermarsund og steig á land í Suður-Englandi aðeins þremur dögum eftir orrustuna við Stanfurðubryggju. Var það upphafið að orrustunni við Hastings. Fiskeðlur. Fiskeðlur (fræðiheiti: "Ichthyosauria") voru risavaxin skriðdýr í sjó sem líktust fiskum og höfrungum. Blómatími þeirra var á miðlífsöld og sýna steingervingar að þær komu fram fyrir um 245 milljónum ára og hurfu fyrir um 90 milljónum ára, um 25 milljónum ára áður en risaeðlur urðu útdauðar. Fiskeðlur voru með ugga og hala sem þróuðust í sporð. Þær fæddu lifandi afkvæmi. Augu fiskeðla voru einstök og slík augu finnast ekki í dýrum í dag. Þau voru mjög stór og í þeim var beinhringur. Mjög vel varðveittur steingervingur fiskieðlu fannst á Janusfjalli á Svalbarða í ágúst 2009. Janusfjall. Janusfjall er fjall á Svalbarða. Það var undir yfirborði sjávar fyrir 150 milljónum ára og þar hafa fundist margir steingervingar sjávarskriðdýra svo sem fiskeðla og svaneðla. Ríkharður 1. af Normandí. Ríkharður 1. af Normandí – (f. 28. ágúst 933 í Fécamp í Normandí, d. 20. nóvember 996, í Fécamp) – var hertogi af Normandí frá 942 til 996. Hann er talinn vera sá fyrsti sem í raun bar titilinn hertogi af Normandí. Hann ávann sér viðurnefnið Ríkharður óttalausi. Hann var sonur Vilhjálms 1. af Normandí og frillu hans sem hét Sprota. Faðir hans var myrtur þegar Ríkharður var aðeins 9 ára gamall og því gat hann ekki spornað gegn því að Loðvík 4. Frakkakonungur tók völdin í Normandí og hélt Ríkharði föngnum. Honum tókst að flýja með aðstoð vina sinna og náði að hrekja Loðvík frá Rúðuborg og ná völdum aftur í Normandí árið 947. Eftir það ríkti hann með friðsemd að mestu. Hann var giftur Emmu, sem var systir Hugo Capet, sem varð konungur Frakka 987. Þau eignuðust engin börn, en Ríkharður átti son með hjákonu sinni, sem hét Gunnur (Gonnor) og var af dönskum ættum. Sonur þeirra var Ríkharður 2., greifi af Normandí. Síðar giftist Ríkharður 1. Gunni til þess að börn þeirra hefðu rétt til arfs. Hann endurskipulagði her Normanna og byggði á riddaraliði. Á ríkisárum hans var Normandí endanlega innlimað í Frakkland og kristnað. Um Ríkharð er sagt að hann hafi verið hollari norrænum þegnum sínum en hann var Frökkum. Ríkharður 2. af Normandí. Ríkharður 2. af Normandí – (f. 23. ágúst 970 í Normandí, d. 28. ágúst 1026 í Normandí) – nefndur hinn góði (franska: "Le Bon", enska: "the Good") – var elsti sonur og erfingi Ríkharðs 1. af Normandí og konu hans, sem hét Gunnur eða Gunnþóra (Gonnor, Gunnora). Hann tók við völdum árið 996. Hann gerði bandalag við Capetinga (frönsku konungsættina) og einnig við Brittany með því að gifta systur sína Geoffrey I af Brittany og giftist jafnframt sjálfur systur hans, sem var Júdit af Brittany. Hann reyndi einnig að bæta sambandið við England með hjónabandi Emmu systur sinnar og Aðalráðs konungs, en það gekk illa, því að Englendingum líkaði ekki við hana. Samt sem áður varð þetta samband hans við England grunnur ásamt öðru að kröfum Vilhjálms bastarðar sonarsonar hans, þegar hann barðist fyrir völdum á Englandi. Ríkharður og Júdit áttu 6 börn og var Ríkharður elstur, sem síðar varð Ríkharður 3. af Normandí. Júdit dó 1017 og eftir það giftist hann seinni konu sinni, sem var Poppa af Envermeu og áttu þau tvö börn. Sagnir eru um það að hann hafi gifst þriðju konu sem hafi verið Ástríður Sveinsdóttir, dóttir Sveins tjúguskeggs, konungs í Englandi, Danmörku og Noregi. Það er þó ekki talið fullvíst. Ríkharður 3. af Normandí. Ríkharður 3. af Normandí (997–1027) var elsti sonur Ríkharðs 2. af Normandí. Hann var hertogi í skamma hríð og dó með dularfullum hætti. Jafnvel er talið hugsanlegt að eitrað hafi verið fyrir hann skömmu eftir að faðir hans dó. Hann átti tvö börn með óþekktum konum. Þau hétu Alice (Alix) og Nicolas, sem var ábóti í Rúðuborg. Greifadæmið fluttist til yngri bróður hans, sem var Róbert 1., kallaður hinn stórkostlegi (e. "Robert the Magnificent"). Vilhjálmur 1. af Normandí. Vilhjálmur 1. af Normandí eða Vilhjálmur langasverð – (franska: "Guillaume Longue-Épée", latína: "Willermus Longa Spata", norræna: "Vilhjálmr langaspjót", samkvæmt Snorra Sturlusyni) – (893 – 17. desember 942), hertogi Normanna, var annar hertoginn í Normandí, tók við af föður sínum, Göngu-Hrólfi. Lítið er vitað um ungdómsár hans. Hann fæddist í Bayeux eða Rúðuborg (Rouen). Foreldrar hans voru Göngu-Hrólfur og Poppa, sem var dóttir Berengars af Rennes, en þau feðgin voru bæði kristin. Vilhjálmur tók við af föður sínum um 927 og var strax gerð uppreisn gegn honum af hálfu bæði Normanna og Bretóna en honum tókst að kveða hana niður. Eftir það fór hann herferð á hendur Bretónum og ruplaði lönd þeirra. Árið 935 giftist hann Luitgarde af Vermandois og eignaðist við það allmikil lönd. Árið 939 braust út styrjöld á milli Vilhjálms og Arnulfs I konungs á Flandri. Afleiðing þess varð sú að Vilhjálmur var myrtur 17. desember 942 í Picquigny á friðarráðstefnu. Sonur hans var Ríkharður 1. af Normandí, sem kallaður var hinn óttalausi. Róbert 1. af Normandí. Róbert 1. af Normandí (22. júní 1000 – 3. júlí 1035), eða Róbert hinn stórkostlegi (franska: "le Magnifique", enska: "the Magnificent"), einnig kallaður Róbert djöfullinn (f. "Robert le Diable"), var hertogi af Normandí frá 1027 til dauðadags. Hann er oftast hafður sem Róbert 1. en stöku sinnum þó Róbert 2. en þá er forfaðir hans, Göngu-Hrólfur, kallaður Róbert 1. Róbert 1. var sonur Ríkharðs 2. af Normandí og Júditar frá Bretagne. Hann tók við hertogadæminu þegar Ríkharður 3., eldri bróðir hans, dó skyndilega. Þá var Róbert sterklega grunaður um að hafa drepið hann á eitri og fékk viðurnefnið djöfullinn í tengslum við það. Með hjákonu sinni, Herleifu, (Herleva), eignaðist hann soninn Vilhjálm, sem kallaður var bastarður af því að hann var ekki getinn í hjónabandi. Hann arfleiddi Vilhjálm son sinn áður en hann lagði upp í pílagrímsferð til Jerúsalem. Samkvæmt sagnfræðiritinu "Gesta Normannorum Ducum" fór hann um Konstantínópel, komst til Jerúsalem og var á heimleið, staddur í Níkeu, þegar hann dó, hugsanlega af eitri. Heimildum ber ekki saman um dánardaginn, 1., 2. eða 3. júlí 1035. Sagnfræðingurinn William af Malmesbury segir frá því að Vilhjálmur sigursæli hafi gert sendinefnd út af örkinni til að sækja lík föður síns til Níkeu og skyldi hann jarðsettur í Normandí. Fóru sendiboðar og sóttu líkið og voru á heimleið með það, komnir til Apúlíu á Ítalíu, þegar þeir fréttu að Vilhjálmur sigursæli væri látinn. Jarðsettu þeir þá Róbert 1. á Ítalíu og héldu heim við svo búið. Alessandria (sýsla). Alessandria er austasta sýslan í Fjallalandhéraði á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Alessandria þar sem nánast fjórðungur íbúanna býr. Alessandria. Alessandria er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Alessandria-hluta héraðsins með 94.646 íbúa. Roger Moore. Roger Moore (fæddur 14. október 1927) er enskur leikari og kvikmyndaframleiðandi. Hann er þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk James Bond. Moore, Roger Berghveljur. Steingerðar leifar af graftólítanum Spirographtus spiralis Berghveljur eða graftólítar voru sambýlisdýr sem nú eru útdauð en voru einkennandi á Ordóvisíum jarðsögutímabilinu. Orðið graftólíti er komið úr grísku úr graphtos sem merkir að skrifa og lithos sem merkir berg en graftólítasteingervingar litu stundum út eins og híeróglýfur höggnar í berg. Graftólítar voru dýrasvif og dýrin mynduðu fljótandi nýlendur sem flutu um öll heimsins höf. Graftólítasteingervingar finnast í öllum gerðum sjávarsets og eru algengastir í svörtum skífum frá ordóvisíum og sílúr en kjöraðstæður fyrir steingervinga eru súrefnissnauðar aðstæður þar sem lítið var um lífverur sem átu dauða graftólíta. Graftólítar eru góðir einkennissteingervingar og eru notaðir til að skipta steingervingum frá Ordóvisium og Silúr niður í lífbelti. Bonne af Lúxemborg. Bonne af Lúxemborg (20. maí 1315 – 11. september 1349) eða Bonne af Bæheimi, upphaflega Jutta eða Júdit, var hertogaynja af Normandí og fyrri kona Jóhanns 2. Frakkakonungs. Hún varð þó aldrei drottning Frakklands þar sem hún lést áður en maður hennar varð konungur. Jutta var fædd í Prag og var næstelsta dóttir Jóhanns blinda af Lúxemborg, konungs Bæheims, og fyrri konu hans Elísabetar af Bæheimi. Föðurafi hennar var Hinrik 7. keisari. Yngri bróðir hennar var Karl 4., sem krýndur var keisari hins Heilaga rómverska ríkis sex árum eftir lát hennar. Hún var upphaflega trúlofuð Kasimír 3., konungi Póllands, en ekki varð af þeim ráðahag og 28. júlí 1332 giftist hún Jóhanni, krónprinsi Frakklands. Hún var þá 17 ára en hann 13. Faðir hans gerði hann skömmu síðar að hertoga af Normandí og varð Jutta þá hertogaynja og nefndist Bonne eftir að hún kom til Frakklands. Ein ástæða þess að Filippus 6. valdi Bonne sem konu sonar síns fremur en einhverja barnunga prinsessu var að hann vildi að hún gæti farið að ala erfingja sem fyrst og það gekk eftir, Bonne ól fjóra syni á fjórum árum og tryggði þar með ríkiserfðirnar. Synirnir komust allir upp og voru það þeir Karl 5. Frakkakonungur, Loðvík 1. hertogi af Anjou, Jóhann hertogi af Berry og Filippus 2. hertogi af Búrgund. Þrjár dætur þeirra komust líka upp og voru það Jóhanna kona Karls 2. Navarrakonungs, María kona Róberts hertoga af Bar og Ísabella, kona Gians Galeazzo 1., hertoga af Mílanó. Bonne dó í Svarta dauða, 11. september 1349, í Maubisson í Frakklandi, og er grafin í klaustrinu þar. Jóhann maður hennar giftist seinni konu sinni fáeinum mánuðum síðar. Jóhanna af Auvergne, Frakklandsdrottning. Jóhanna 1. af Auvergne (8. maí 1326 – 29. september 1360) var drottning Frakklands frá 1350, seinni kona Jóhanns 2. Frakkakonungs, sem einnig var seinni maður hennar. Jóhanna var dóttir Vilhjálms greifa af Auvergne og Boulogne og konu hans Marguerite d'Évreux, systur Filippusar 3., konungs Navarra. Hún erfði greifadæmi föður síns og þegar hún giftist fyrri manni sínum, Filippusi syni Ottós 4., hertoga af Búrgund, um árið 1338, tók hann titilinn greifi af Auvergne. Hann dó 1346 þegar hestur sparkaði í höfuð hans. Þau áttu dótturina Jóhönnu og soninn Filippus, sem fæddur var sama ár og faðir hans dó og erfði hertogadæmið Búrgund eftir afa sinn 1350, en bæði létust á unglingsárum. Þann 13. febrúar 1349 gekk Jóhanna að eiga Jóhann krónprins Frakklands, sem hafði misst fyrri konu sína í Svarta dauða nokkrum mánuðum áður. Þau átu saman tvær dætur sem dóu ungar. Jóhanna dó 1360 og erfði Filippus sonur hennar hana en dó sjálfur ári síðar og Jóhann konungur, stjúpfaðir hans, erfði þá hertogadæmið Búrgund eftir hann. Karl 5. Frakkakonungur. Karl 5. (21. janúar 1338 – 16. september 1380), kallaður "Karl vitri", var konungur Frakklands frá 1364 til dauðadags en stýrði þó í raun landinu að mestu frá 1356. Á valdatíma hans nutu Frakkar velgengni í Hundrað ára stríðinu og tókst að vinna aftur mikið af því landi sem þeir höfðu þurft að afsala sér til Englendinga með Brétigny-sáttmálanum. Krónprins og ríkisstjóri. Karl var af Valois-ætt, sonur Jóhanns konungs 2. og fyrri konu hans, Bonne af Lúxemborg. Hann var með föður sínum í bardaganum við Poitiers í september 1356, þar sem Jóhann konungur var tekinn höndum, en[Karl og menn hans hörfuðu undan og flúðu snemma í bardaganum, að því er hann sagði sjálfur að skipan konungs. Hann hélt svo til Parísar, tók við stjórn ríkisins þar sem faðir hans var fangi, og kallaði saman þing til að afla fjár til að styrkja varnir Frakklands. Þegar þingið vildi ekki verða við óskum hans leysti hann það upp og hófst nú mikil barátta um völd. Helsti andstæðingur prinsins var Etienne Marcel, sem var nokkurs konar borgarstjóri Parísar. Karl neyddist til að kalla þingið saman að nýju og láta undan kröfum þess en þegar Jóhanni konungi bárust tíðindi af því þar sem hann var fangi Játvarðar svarta prins í Bordeaux neitaði hann að samþykkja og var síðan fluttur til Englands. Karl prins hraktist frá París en fór um landið sumarið 1357 og aflaði sér stuðnings og síðsumars 1358 náði hann aftur völdum í París og styrkti stöðu sína svo að þegar faðir hans skrifaði undir samning við Englendinga sem var Frökkum ákaflega óhagstæður neitaði Karl að samþykkja hann og hafði til þess stuðning ráðgjafa sinna og þingsins. Játvarður réðist þá aftur inn í Frakkland og sótti að París en varnir borgarinnar höfðu verið styrktar og Karl hélt svo áfram því starfi og lét reisa virkið Bastilluna. Játvarður rændi og ruplaði í sveitunum kringum París en gat ekki fengið Karl til að leggja í stórorrustu og gafst á endanum upp á þófinu og dró úr kröfum sínum. Með Brétigny-sáttmálanum, sem undirritaður var 8. maí 1360, fengu Englendingar þriðjung Vestur-Frakklands, aðallega í Gaskóníu og Akvitaníu, og lausnargjaldið fyrir Jóhann konung var lækkað en var þó enn svimhátt. Konungur var látinn laus í október og Loðvík af Anjou, næstelsti sonur hans, varð gísl í hans stað. En þegar Loðvík slapp úr haldi Englendinga og sneri aftur til Frakklands taldi Jóhann konungur það varða heiður sinn og gaf sig sjálfur Englendingum á vald að nýju í janúar 1364. Hann veiktist skömmu síðar og dó í apríl og Karl erfði ríkið. Konungur Frakklands. Karl var krýndur í Reims 19. maí 1364 og hélt áfram baráttunni við Englendinga. Hann beitti þeirri baráttuaðferð að stunda skæruhernað en forðast stærri orrustur go bar það góðan árangur. Helsti liðsmaður hans var Bretóninn Bertrand du Guesclin, sem var snjall skæruliðaforingi. Þessar skærur bárust meðal annars til Kastilíu, þar sem Pétur konungur grimmi og Hinrik, óskilgetinn hálfbróðir hans, börðust um völdin og studdu Frakkar Hinrik en Englendingar Pétur. Englendingum veitti framan af betur en mannfall var mikið í liði þeirra og eftir að Svarti prinsinn dró sig í hlé, sjúkur af blóðkreppusótt, náðu Frakkar yfirhöndinni og fór svo að Hinrik drap hálfbróður sinn og varð konungur Kastilíu. Styrkur Englendinga hafði veikst til muna í Kastilíustríðinu og það notfærði Karl konungur sér og naut nú stuðnings Kastilíumanna. Floti Frakklands og Kastilíu gjörsigraði enska flotann við La Rochelle 1372 og du Guesclin, sem Hinrik hafði gert að yfirhershöfðingja alls franska hersins, gerði strandhögg víða á Englandsströndum og vann sigur í mörgum smærri orrustum. Flestir foringjar enska hersins féllu og Svarti prinsinn flúði heim til Englands og dó þar 1371. Árið 1374 hafði Karli tekist að vinna aftur allar lendur Englendinga á meginlandinu nema Akvitaníu og Calais. Karl reyndi að gera friðarsamninga við Englendinga til að tryggja varanlegan frið en varð ekki ágengt og óánægja í Frakklandi fór vaxandi vegna hárra skatta sem hann hafði neyðst til að leggja á til að standa undir stríðsrekstrinum. Heilsa hans fór líka versnandi en hún hafði lengi verið slæm, hann var meðal annars með gigt í hægri hendi og graftarkýli á vinstri handlegg sem talið hefur verið hugsanlegt að rekja megi til alvarlegra veikinda (hugsanlega arsenikeitrunar) sem hrjáðu hann 1359 en hann missti þá meðal annars allt hárið og neglur duttu af fingrum hans. Hann dó 16. september 1380 og Karl, tólf ára sonur hans, tók við en föðurbræður hans stýrðu ríkinu fyrstu árin. Karl 5. var bráðvel gefinn, mjög bókhneigður og átti afar gott bókasafn sem hann efldi stöðugt. Hann lét einnig reisa eða endurbæta fjölda bygginga, þar á meðal Louvre-höll og Bastilluna. Hann þótti fámáll, dulur og alvörugefinn en virðist þó hafa verið mjög tilfinninganæmur og syrgði eiginkonu sína opinskátt, svo og þau börn þeirra sem dóu ung. Fjölskylda. Karl giftist frænku sinni Jóhönnu af Bourbon, dóttur Péturs 1. hertoga af Bourbon og Ísabellu af Valois, 8. apríl 1350 þegar þau voru bæði tólf ára að aldri. Hjónaband þeirra er sagt hafa verið sterkt og gott en Jóhanna var tæp á geðsmunum eins og ýmsir ættingjar hennar. Þau eignuðust saman níu börn en aðeins synirnir Karl 6. og Loðvík hertogi af Orléans náðu fullorðinsaldri. Jóhanna af Bourbon, Frakklandsdrottning. Jóhanna af Bourbon (3. febrúar 1338 – 6. febrúar 1378) var drottning Frakklands frá 1364 til dauðadags, eiginkona Karls 5. Frakkakonungs. Hún var af Valois-ætt eins og hann. Jóhanna var fædd í Vincennes, dóttir Péturs 1., hertoga af Bourbon, og konu hans Ísabellu af Valois, sem var yngri hálfsystir Filippusar 6. Frakkakonungs. Bróðir hennar var Loðvík 2., hertogi af Bourbon, en einnig átti hún fimm yngri systur, þar á meðal Blönku, drottningu af Kastilíu, sem var myrt af eiginmanni sínum, Pétri grimma Kastilíukonungi. Jóhanna giftist krónprinsi Frakklands, síðar Karli 5., árið 1350, þegar þau voru bæði tólf ára. Þau voru skyld í annan og þriðja lið þar sem móðir Jóhönnu var afasystir Karls. Í orrustunni við Poitiers 1356 féll faðir Jóhönnu en Jóhann konungur, faðir Karls, var tekinn höndum og eftir það tók Karl í raun við stjórn ríkisins þótt faðir hans sneri aftur um skeið. Hann dó svo 1364 og þá urðu Karl og Jóhanna konungur og drottning. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott en Jóhanna átti við geðræna erfiðleika að stríða eins og faðir hennar, afi og bróðir. Hún brotnaði alveg niður eftir fæðingu sjöunda barns síns. Þegar hún var að því komin að fæða níunda barnin snemma árs 1378 vildi hún fara í bað en læknar hennar réðu henni frá því. Hún lét það þó sem vind um eyru þjóta og tók sér bað en fékk hríðir og dó af barnsförum. Karl konungur syrgði hana ákaft og dó sjálfur tveimur árum síðar. Aðeins tveir synir þeirra komust til fullorðinsára, Karl 6., sem sjálfur var geðveikur, og Loðvík hertogi af Orléans. Yngsta dóttirin, Katrín, lifði foreldra sína en dó tíu ára gömul og hafði þá verið gift í tvö ár. Brenda Starr. Brenda Starr, fréttakona (betur þekkt sem Brenda Starr) var teiknimyndasyrpa um og ævintýraþyrstu fréttakonuna og glamúrgelluna Brendu Starr. Syrpan sem er hugarsmíð bandarísku listakonunnar Dale Messick kom út í fyrsta skiptið árið 1940 í dagblaðinu "Chicago Tribune Syndicate". Síðasta sagan um Brendu Starr kom út 2. janúar 2011. Morgunblaðið birti nokkrar teiknimyndasögur á myndasögublaðsíðu blaðsins á árunum 1998-1999. Asti. Asti er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Asti-hluta héraðsins með 76.534 íbúa. Asti (sýsla). Asti er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Asti. Biella (sýsla). Biella er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Biella. Cuneo (sýsla). Cuneo er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Cuneo. Novara (sýsla). Novara er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Novara. Tórínó (sýsla). Tórínó er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Tórínó. Verbania (sýsla). Verbania ("Verbano-Cusio-Ossola") er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Verbania. Vercelli (sýsla). Kort sem sýnir Vercelli-sýslu í Fjallalandi. Vercelli er sýsla í Fjallalandi á Ítalíu. Höfuðstaður sýslunnar er borgin Vercelli. Íbúar voru 180.163 árið 2008. Sveitarfélög. Vercelli, Borgosesia, Santhià, Gattinara, Crescentino, Trino, Varallo, Serravalle Sesia 2011-2020. Tímabilið 2011–2020 er annar áratugur 21. aldar. Fyrsti áratugur 21. aldar var frá 1. janúar 2001 og endaði 31. desember 2010. Annar áratugur hófst 1. janúar 2011 og endar 31. desember 2020. Cabernet sauvignon. Cabernet sauvignon er ein af þekktustu vínþrúgum heims. Hún er ræktuð í nær öllum rauðvínsgerðarlöndum heims við mjög ólíkar aðstæður, en er þekktust sem uppistaðan í Bordeaux-vínum frá héraðinu Bordeaux í Frakklandi. Þetta var algengasta vínræktarþrúga heims mestan hluta 20. aldar þar til merlot-þrúgan varð algengari á 10. áratug aldarinnar. Cabernet sauvignon er þó fremur nýtilkomin í sögunni. Hún varð til við blöndun tveggja vínþrúga, cabernet franc og sauvignon blanc, á 17. öld. Vinsældir sínar á þrúgan því að þakka hversu auðvelt er að rækta hana þar sem hún er með þykkt hýði og gott viðnám gegn bæði myglu og frosti, og því hve einkennandi bragð hennar heldur sér við ólíkar ræktunaraðstæður og tíðarfar. Feðraveldi. Feðraveldi er félagslegt kerfi sem byggir á yfirráðum föðurins eða karlsins. Uppruni kerfisins er stundum rakinn til forsögulegs tíma, til akuryrkju- og landbúnaðarsamfélaga um 4000 f.Kr., út frá þeirri hugmynd um verkaskiptingu að karlar hafi séð um veiðar en konur alið börn og gætt heimilisins. Þannig megi rekja valdakerfið til líkamlegra yfirburða karlsins. Í eldri samfélögum veiðimanna og safnara virðist feðraveldið á hinn bóginn ekki hafa verið til staðar. Félagsfræðilegar kenningar líta á fyrirbærið sem félagslega smíð og arf. Innan kynjafræði er litið á feðraveldið sem kerfi er hyglir karlmönnum og karlmennsku og skapar konum og kvenleika lægri sess í samfélaginu. Þetta birtist á margan máta, til dæmis í launamismuni kynjanna, ofbeldi gegn konum, lágu hlutfalli kvenna í valdastöðum og takmörkuðum tækifærum kvenna til atvinnutækifæra eða áhugamála á sviðum sem eru talin karlasvið. Litið er á hlutgervingu kvenna sem þátt í valdbeitingu feðraveldisins, ásamt staðalmyndum sem fela í sér hömlur á útlit, klæðaburð, líkamsbeitingu, tjáningu og kynlíf kvenna. Feðraveldið, sem að mati jafnréttissinna er kerfi kúgunar á konum, tengist mörgum öðrum kúgunarkerfum, til dæmis gagnvart samkynhneigðu fólki og öðru fólki sem er ekki gagnkynhneigt (homophobia og heterosexismi), transfólki og öðrum sem líkami og innra kyngervi eða kynvitund passar ekki inn í ríkjandi kerfi (transphobia og cissexismi), fólki með annan litarhátt en meirihlutinn (kynþáttahatur og rasismi). Undir feðraveldi hafa dætur ekki sömu réttindi og synir foreldrar í slíkum samfélögum vilja frekar eignast son en dóttur og stundum eru dæturnar myrtar af þeim ástæðum. Í ákveðnum samfélögum er það hefð að „selja“ dóttur manni sínum þegar hún giftist. Á hinn bóginn er stundum borgaður heimanmundur til að bæta fjárhagslega stöðu eigninkonunnar. Crenarchaeota. Crenarchaeota er ríki eða fylking innan forngerla. Þessir forngerlar hafa kjörhita á bilinu 80 - 100°C en þola allt að 113°C og flestir þurfa meira en 70°C hitastig. Þeir þola sýrustig niður að pH 1-2. Euryarchaeota. Euryarchaeota er fylking innan forngerla. Á meðal þessara örvera eru t.d methanogens sem finnast oft í þörmum manna. Methanogens losa orku með því að tengja koltvísýring og vetni til að mynda metan. Euryarchaeota eru saltkærar og vaxa yfirleitt á söltum stöðum. Pétur Sigurðsson (f. 1896). Pétur Sigurðsson (17. febrúar 1896 – 15. október 1971) var Háskólaritari og íslenskur knattspyrnumaður. Ævi og störf. Pétur fæddist á Ánabrekku í Borgarhreppi á Mýrum, sonur Sigurðar Péturssonar fangavarðar og Guðríðar Gilsdóttur. Hann var elstur sjö barna þeirra. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1914 og stundaði nám í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1914 til 1920, með hléum og Mag. art. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1923. Frá 1925 til 1929 gegndi hann embætti aðstoðarbókavarðar á Landsbókasafninu. Pétur tók við embætti Háskólaritara af Ólafi Rósinkranz árið 1929. Háskólinn var þá til húsa í Alþingishúsinu. Þegar Happdrætti Háskólans var stofnað árið 1933 tók Pétur einnig við forstjórastöðu þess og gegndi til 1963. Þá var hann jafnframt forstjóri Tjarnarbíós frá 1942 til 1947. Voru happdrættið og kvikmyndahússreksturinn mikilvægar fjáröflunarleiðir Háskólans við byggingu aðalbyggingar hans. Hann hlaut heiðursprófessorsnafnbót árið 1954 og gegndi embættum fyrir Vísindafélag Íslendinga. Eftir hann ligga ýmsar bækur og fræðigreinar um bókfræði og bókmenntasögu. Hann gaf út úrval af ljóðum Einars Benediktssonar og þýddi ýmis af ævintýrum H.C. Andersens, svo eitthvað sé nefnt. Pétur var varabæjarfulltrúi í Reykjavík 1930 til 1934 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Íþróttamál. Pétur var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Fram og meðal bestu leikmanna þess fyrstu árin. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í knattspyrnu og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir íþróttahreyfinguna. Hann sat í stjórn ÍSÍ í tæpan áratug, í Knattspyrnuráði Íslands 1919 til 1922, var formaður KRR 1941 til 1943 og KSÍ 1947 til 1948. Þá var hann fyrsti ritstjóri Íþróttablaðsins. Hann var útnefndur heiðursfélagi í Fram á 35 ára afmæli félagsins árið 1943. Stangveiði. Stangveiði er hægt að stunda (eftir landsvæðum) Stjórnin. "Stjórnin" er íslensk hljómsveit sem hóf að spila saman árið 1988. Söngvarar eru Grétar Örvarsson og Sigríður Beinteinsdóttir. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1990 með laginu „Eitt lag enn“. Þau náðu 4. sæti af 22, með 124 stig. Mary Anning. Mary Anning (21. maí 1799 – 9. mars 1847) var breskur steingervingasafnari og steingervingafræðingur. Hún varð heimsþekkt fyrir ýmsa mikilvæga fundi steingervinga í sjávarsetlögum frá júra tímabilinu í Lyme Regis í Dorset. Hún leitaði að steingervingum við ströndina að vetrarlagi sem komu í ljós þegar skriður féllu og áður en sjórinn eyddi þeim. Það var hættulegt og árið 1833 bjargaðist hún naumlega en hundur hennar Troy dó þegar skriða féll. Æviágrip. Hún var tólf ára þegar hún ásamt bróður sínum fann fyrstu tvo steingervinga af svaneðlu sem fundust, fyrstu pterosaur beinagrindina sem fannst utan Þýskalands og nokkra steingervinga af fiskum. Athuganir hennar skiptu miklu máli í uppgötvunum varðandi steingervinga. Hún var af fátæku fólki, faðir hennar var húsgagnasmiður sem dó þegar hún var 11 ára. Faðir hennar drýgði tekjurnar með því að leita að steingervingum í sjávarsetlögum nálægt bænum og selja til ferðamanna. Mary var ein af tíu systkinum en aðeins hún og bróðir hennar Jósep náðu fullorðinsaldri. Hún var skírð í höfuð systur sinnar Mary sem dó fjögurra ára gömul af völdum brunasára. Þegar hún var fimmtán mánaða þá hélt nágrannakona á henni undir álmtré og stóðu tvær aðrar konur við með henni við tréð og voru þær að horfa á skemmtidagskrá. Eldingu laust niður í tréð og létust allar konurnar en áhorfendur hlupu með barnið heim þar sem hún var sett í bað með heitu vatni. Læknirinn á staðnum sagði þetta kraftaverk og fjölskylda hennar sagði að fyrir hefði hún verið veiklulegt barn en eftir að eldingunni laust niður hafi hún dafnað vel. Eftir þetta mun samfélagið hafa útskýrt hvaðan hú hefði forvitni hennar, gáfur og hve athugul og árvökul hún var með því að vísa í þetta atvik úr bernsku hennar. Mary lærði að lesa og skrifa í sunnudagaskóla. Presturinn í sókninni hennar var áhugamaður um sköpunarsöguna og hvatti nemendur til að lesa hina nýju fræðigrein jarðfræði. a>, þar sem sumar af uppgötvunum Anning hjónanna áttu sér stað. Á síðari hluta 19. aldar var Lyme Regis vinsæll strandbær fyrir yfirstéttar- og millistéttarfólk, sérstaklega eftir 1792 eftir að franska stjórnarbyltingin braust út og ferðir til Frakklands urðu hættulegar fyrir breska yfirstétt. Algengt var áður en Mary fæddist að bæjarbúar drýgðu tekjurnar með því að selja baðstrandargestum minjagripi sem þá voru kallaðir „curios“. Það voru steingervingar sem kallaðir voru litríkum og seljandi nöfnum eins og snákasteinar (ammonítar), djöflafingur (belemnites) og verteber (vertebrae) og voru slíkir gripir stundum sagðir hafa lækningamátt og kyngikraft. Steingervingasöfnun var í tísku á seinni hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar og þróaðist úr að vera sögusöfnun í að verða að vísindum þegar skilningur jókst á mikilvægi steingervinga í jarðfræði og líffræði. Steingervingarnir komu úr sjávarklöppum kringum Lyme, jarðfræðimyndun sem þekkt er sem Blue Lias. Þessi jarðfræðimyndun er úr lögum af kalksteini og flögubergi sem hafa lagst niður sem set á grunnum sjávarbotni snemma á júratímabilinu (fyrir um 210–195 milljón árum) og eru einn af þeim stöðum á Bretlandseyjum þar sem steingervingar eru algengastir. Það er sérstaklega að vetrarlagi sem steingervingar koma í ljós þegar hrynur úr klöppunum. Richard faðir Mary og Jóseps fór með þau að leita að steingervingum og þau settu það sem þau fundu á borð fyrir utan heimili sitt og seldu ferðamönnum. Þau tilheyrðu ekki ensku biskupakirkjunni. Þegar faðir þeirra dó þá héldu systkinin áfram að safna steingervingum og selja þá saman á borði þar sem vagnar stoppaði við krá. Fyrsti þekkti steingervingafundur þeirra var 1811 þegar Mary var aðeins tólf ára gömul. Jósep gróf þá upp fjögurra feta flugeðlubein. Mary fann afganginn af beinagrindinni nokkrum mánuðum seinna og lávarðurinn af Colway sem var nálægt Lyme Regis greiddi fjölskyldunni £23 fyrir beinagrindina og seldi áfram til þekkts safnara sem sýndi gripinn í London. Þessi fundur vakti mikla athygli vegna þess að á þessum tíma trúðu flestir sköpunuarsögu Biblíunnar og gengu út frá því að jörðin væri aðeins nokkuð þúsund ára gömul en þessi fundur vakti spurningar um sögu lífsins á jörðu og jörðina sjálfa. Steingervingurinn var seldur fyrir £45 og fimm skildinga á uppboði í maí 1819 sem „steingervingakrókódíll“ til fræðimanns við British Museum sem þá hafði þegar stungið upp á nafninu "Ichthyosaurus". Molly móðir Mary stýrði viðskiptum fjölskyldunnar með steingervinga eftir að Richard lést. Jósep fór til náms hjá húsgagnabólstrara og hafði minni tíma til að safna steingervingum en var þá með þangað til 1825. Einn af viðskiptavinum fjölskyldunnar var efnaður safnari Thomas James Birch að nafni. Honum rann til rifja fátækt fjölskyldunnar sem hafði þrátt fyrir að hafa gert stórkostlegar uppgötvanir í meira en ár var þannig stödd að þau urðu að selja frá sér húsgögn til að borga leigu. Hann ákvað að bjóða upp til að styðja þau fjárhagslega þá steingervinga sem hann hafi keypti af þeim. Uppboðið var haldið í Bullocks í London 15. maí 1820 og það gaf £400. Ekki er ljóst hve mikinn hluta þeirrar upphæðar fór til fjölskyldunnar en þetta uppboð mun þó hafa tryggt fjárhagslega afkomu og einnig aukið hróður þeirra meðal fræðimanna í jarðvísindum, til uppboðsins komu menn bæði frá París og Vín. Mary hélt áfram að safna og selja steingervinga. Aðalbirgðir hennar voru hrygglausir steingervingar eins og ammónítar og belemnite skeljar sem voru algengar á svæðinu og seldust fyrir nokkra skildinga. Steingerð hryggdýr eins og ichthyosaur beinagrindur seldust fyrir miklu meira en voru sjaldgæfar. Þann 10. desember 1823 fann hún fyrsta heila "Plesiosaurus" steingervinginn og árið 1828 fann hún fyrsta eintakið af steingervingi flugskriðdýrs sem British Museum eignaðist og var það kallað "Pterodactylus" en var kallað fljúgandi dreki þegar það var fyrst sýnt á safninu. Hún fann fiskabeinagrind "Squaloraja" árið 1829. Mary las allar vísindagreinar um steingervinga sem hún fékk aðgang að og var oft lengi að afrita og handskrifa upp greinar. Þegar hún var 27 ára árið 1826 þá hafði hún safnað nógu miklu fé til að kaupa heimili með búðargluggum fyrir verslun sína Anning's Fossil Depot. Margir safnarar komu frá meginlandi Evrópu og Ameríku að heimsækja Mary. Þegar tímar liðu fram jókst sjálftraust Mary og trú á eigin þekkingu og árið 1839 skrifaði hún vísindariti þar sem hún efaðist um að nýfundinn steingervingur af fornhákarli væri ný tegund þar sem hún hefði mörgum árum áður fundið hákarlasteingervinga með bæði bognar og beinar tennur. Úrdráttur úr þessu bréfi eru einu skrif Mary sem birtust í vísindatímariti á meðan hún lifði. Mary var kona úr alþýðusétt og fyrir utan fræðasamfélag. Konur höfðu ekki kosningarétt, gátu ekki gengt embættum eða farið í háskóla. Þó að Mary vissi meira um steingervinga en ríku safnaranir sem hún seldi gripi til þá voru það alltaf karlkyns jarðfræðingar sem birtu vísindalegar lýsingar á eintökunum sem hún fann og þeir létu oft hjá líðast að geta hennar. Hún tók það nærri sér og fannst þekking hennar og hæfi hafa verið notuð í annarra þágu þar sem hún lagði til innihaldið en þeir fengu heiðurinn. Margir jarðfræðingar heimsóttu hana til að safna steingervingum og rökræða um líffræðilega byggingu og greiningu. Mary stakk upp á við fræðimanninn Buckland að skrýtnir hlutir sem kallaðir voru bezoar-steinar væri steingerður saur úr ichthyosaurs eða plesiosaurs. Buckland nefndi þessa hluti coprolites. Mary aðstoðaði stundum jarðfræðinginn Thomas Hawkins við að safna ichthyosaur steingervingum í Lyme í kringum 1830. Hún tók vel eftir að hann hafði tilhneigingu til að fegra og laga til það sem hann fann og láta það sýnast meira. Hún segir í bréfi að hann sé svo mikill ákafamaður að hann geri hluti eins og hann ímyndi sér að þeir ættu að vera, ekki eins og þeir fundust. Nokkrum árum seinna varð mikið almennt hneyklismál þegar upp komst að Hawkins þessi hafði bætt inn gervibeinum í ichthyosaur beinagrindur til að þær virtust heillegri og seinna sent til bresku stjórnarinnar sem keypti þær fyrir safn British Museum án þess að geta þessarra „lagfæringa“ sinna. Garðakirkja. Garðakirkja er kirkja á Álftanesi sem tilheyrir Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan stendur í Görðum í Garðabæ og er með elstu kirkjustöðum á Íslandi. Garðakirkju er fyrst getið Vilkins-máldögum árið 1397. Byggðasafn Skagfirðinga. Glaumbæjarsafn, Áshús til vinstri, torfbærinn fyrir miðju og Gilsstofa til hægri. Byggðasafn Skagfirðinga er byggðasafn sem stofnað var árið 1948 og fékk til afnota gamla bæinn í Glaumbæ á Langholti. Þar er miðstöð minjavörlsunnar í Skagafirði. Búið var í torfbænum í Glaumbæ til ársins 1947 en þá tók Þjóðminjasafnið við bænum. Byggðasafn Skagfirðinga sem stofnað var 29. maí 1948 fékk afnot af bænum og opnaði sýningu í honum 15. júní 1952. Á sýningunni í bænum er fjöldi muna sem flestir eru tengdir hemilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Torfbærinn er samstæða þrettán húsa. Sex snúa burstum fram á hlaðið. Bærinn er sérstæður meðal íslenskra torfbæja að því leyti að mjög lítið grjót er notað í hleðslurnar, enda er það varla að finna í Glaumbæjarlandi. Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ. "Áshús" er frá Ási í Hegranesi, byggt 1884-1886 til að hýsa kvennaskóla fyrir Skagfirðinga. Aldrei varð af því og var það notað sem íbúðarhús til 1977, en reist í Glaumbæ 1991. Í húsinu er nú kaffistofa, sýning og geymsla. "Gilsstofa" var upphaflega reist á Espihóli í Eyjafirði 1849. Hún var tekin niður 1861 og flutt til Akureyrar og þaðan með skipi til Kolkuóss, reist aftur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, flutt í Reynistað 1872, að Gili í Borgarsveit 1884, til Sauðárkróks 1891 og stóð þar til 1985 þegar hún var flutt að Kringlumýri í Blönduhlíð. Þar stóð hún þar til hún var flutt að Glaumbæ 1996 og endursmíðuð þar sem næst í upprunalegri mynd en lítið var eftir af upprunalegum viðum eftir alla flutningana. Þar er nú safnbúð og skrifstofa byggðasafnsins og aðstaða fyrir starfsfólk. Árið 1998 fékk safnið Minjahúsið á Sauðárkróki til afnota. Þar er önnur fastasýning safnsins, á gömlum verkstæðum af Króknum, og sérsýningar. Þar eru einnig skrifstofur fyrir starfmenn sem annast rannsóknir, varðveislu og miðlun og þar er aðalgeymsla safnins. Glaumbæjarsafn hefur sett upp fjölda sýninga í Skagafirði, s.s. á Hólum og Hofsósi og gefið út margvíslegt efni um menningu skagfirskra byggða. Bjartmáfur. Bjartmáfur (fræðiheiti: "Larus glaucoides") er stór máfategund sem verpir á heimskautasvæðum Kanada og Grænlandi en ekki á Íslandi, hér hefur fuglinn vetrarsetu. Bjartmáfur er farfugl sem dvelur að vetrarlagi við strendur Norður-Atlantshafsins allt suður til Bretlandseyja og til nyrstu ríkja á austurströnd Bandaríkjanna og einnig inn í landi alveg að Vötnunum miklu. Bjartmáfur er mun sjaldgæfari í Evrópu en hvítmáfur (glaucous gull). Fullorðnir fuglar eru fölgráir að ofan með gulgrænan gogg en ungir fuglar eru mjög fölgráir. Það tekur þá um fjögur ár að verða fullvaxnir. Jean Auguste Dominique Ingres. Jean Auguste Dominique Ingres (29. ágúst 1780 í Montauban – 14. janúar 1867) var franskur listmálari. Valin verk. Ingres, Jean Auguste Dominique Eldgosið í Grímsvötnum 2011. Gervihnattamynd af Grímsvötnum 22. maí 2011. Eldgosið í Grímsvötnum 2011 var eldgos í Grímsvötnum sem hófst síðdegis 21. maí 2011 Strax við upphaf gosins sást gosmökkurinn frá Egilsstöðum og Selfoss. Gosmökkurinn náði hæst 20 km hæð og gjóskan var fínkorna. Fínkorna gjóska er létt og helst á lofti dögum saman. Gjóskan er mestmegnis basaltgler með litlu hlutfalli mengandi efna. Til samanburðar við Eyjafjallagosið 2010 er helmingi minna af fínu efni. Í Eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 kom í ljós að veðursjáin á Keflavíkurflugvelli fylgdist ágætlega með gosmekkinum. Eftir gosið var ákveðið var að setja upp færanlega veðursjá sem yrði staðsett nær eldgosinu. Ratsjá var fengin frá bresku veðurstofunni og staðsett 70 kílómetra frá Grímsvötnum. Hún veitti mikilvægar upplýsingar til flugfélaga og gerði það að verkum að mögulegt var að hefja flug mun fyrr. Röskun flugumferðar. Nokkur röskun varð á flugi á Íslandi vegna gossins. Sama dag og gosið hófst var öllu flugi innanlands á vegum flugfélaganna Flugfélags Íslands og Flugfélagsins Ernis lokað til 26. maí. Flugi frá Reykjavík til Grænlands var þó áfram aflýst á meðan lofthelgi landsins var lokuð. Keflavíkurflugvelli var lokað 22. og 24. maí. Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli, sem eru vara alþjóðaflugvellir Íslands var jafnframt lokað 24. maí. Erlendis var austurhluta loftrýmis Grænlands lokað 23. maí og hefur verið lokað síðan. Skoskum og Norð-Írskum flugvöllum var lokað 24. maí. Lággjaldaflugfélagið Ryanair mótmælti þessari lokun með þeirri fullyrðingu um að þeir hefðu flogið í gegnum svæðið og ekki fundið nein ummerki um gosösku. Forráðamenn flugeftirlits þarlendis fullyrtu hinsvegar að flugfélagið hafði ekki farið inn á gösöskusvæðið. Ákvörðunin um hvort flogið sé í gosmekki í Bretlandi var tekin alfarið af flugfélögunum sjálfum. Sama dag var loftrýmið yfir norðausturhluta Danmerkur lokað ásamt flugvellinum í Landvetter. Lokun loftrýmis Grænlands lengdi leiðina sem flogin er frá Danmörku og Svíþjóð til Norður-Ameríku. Degi síðar voru flugsamgöngur komnar í eðlilegt horf í Skandinavíu. Sama dags var flugvöllum í þýsku borgunum Hamborg, Bremen og Berlín lokað. 26. Maí voru engir flugvellir lokaðir á meginlandi Evrópu. Gosið var í rénun og engar horfur voru á frekari lokun flugvalla í álfunni. Áhrif á búsvæði. Þjóðvegi eitt yfir Skeiðarársand var lokað frá 21. til 24 maí og á sama tíma var gosmökkurinn yfir þjóðveginum. Lélegt skyggni var við opnun vegarins og unnið var að hreinsun sandskafla á veginum. Lokun vegarins lokaði á alla bílumferð til Skaftafells sem var lokað á sama tímabili og opnaði tveimur dögum síðar. Gosið hafði engin teljandi áhrif á afbókanir ferðamanna og tjón ferðaþjónustunnar á Íslandi er lítið. Í Skaftárhreppi drápust níu kindur og margar kindur fengu ösku í augun. Í hreppnum var grunnskóla og leikskóla Kirkjubæjarklausturs lokað til 26. maí. Kennslu í grunnskólum Vestmannaeyja og Hvolsvallar var jafnframt aflýst 23. maí. Harmandir Sahib. Harmandir Sahib eða Darbar Sahib (betur þekkt sem Gullna hofið og stundum einnig sem Gullna musterið) er helgasti helgidómur Shíka í borginni Amritsar í Punjabhéraði á Indlandi. Byggingu þess lauk árið 1604. Edmond Halley. Edmond Halley (8. nóvember 1656 − 14. janúar 1742) var enskur stjörnufræðingur sem er einna þekktastur fyrir að hafa reiknað út sporbaug Halastjörnu Halleys sem nefnd er eftir honum. Á eynni Sankti Helenu gerði hann einnig athuganir á stjörnum á suðurhveli jarðar sem bætti miklu við stjörnukort þess tíma auk þess að gera athuganir á staðvindum og monsúnvindum þar sem hann færði rök fyrir því að hiti sólar hefði áhrif á veðurfar. Eftir að hann sneri aftur til Englands fékkst hann við ýmis viðfangsefni í raunvísindum. Hann kostaði útgáfu höfuðrits Newtons, "Principia Mathematica Philosophiae Naturalis", árið 1687. Árið 1720 var hann skipaður konunglegur stjörnufræðingur og hélt þeirri stöðu til dauðadags. Journal des sçavans. Titilsíða fyrsta tölublaðs "Journal des sçavans". "Journal des sçavans" (um stutt skeið kallað "Journal des savants") var franskt bókmennta- og vísindatímarit sem franski rithöfundurinn Denis de Sallo stofnaði árið 1665. Fyrsta tölublaðið kom út 5. janúar. Tímaritið er þannig elsta vísindatímarit Evrópu en enska vísindatímaritið "Philosophical Transactions of the Royal Society of London" kom fyrst út 6. mars þetta sama ár. Útgáfa tímaritsins lagðist af í Frönsku byltingunni 1792. Um stutt skeið árið 1797 kom það út með nýja titlinum "Journal des savants". Regluleg útgáfa með þeim titli hófst hins vegar ekki fyrr en árið 1816 en þá var tímaritið orðið hreinræktað bókmenntatímarit fremur en vísindatímarit. Ismail Ibn Sharif. Ismaïl Ibn Sharif (1634 eða 1645 − 1727; arabíska: مولاي إسماعيل بن الشريف ابن النصر‎) var annar konungur Marokkó af ætt Alavíta. Hann tók við völdum eftir andlát hálfbróður síns Rashid af Marokkó árið 1672 og ríkti til dauðadags. Hans er minnst sem eins af mikilvægustu konungum sögu Marokkó. Honum tókst að verjast ásælni Tyrkja og sigraði þá í þremur orrustum 1679, 1682 og 1695-6. Hann vann líka aftur hafnarborgir sem Evrópubúar höfðu lagt undir sig: La Mamora af Spánverjum 1681, Tanger af Englendingum 1684 og Larache af Spánverjum 1689. Hann flutti höfuðborgina til Meknes og byggði þar svo íburðarmiklar hallir að Evrópubúar kölluðu borgina Versali Marokkó. Hann átti í miklum viðskiptum við Frakka. Hann var líka þekktur fyrir grimmd sína. Sagt er að hann hafi notað 25.000 þræla til að byggja höfuðborg sína og að hann hafi hengt 10.000 afhöggvin höfuð á borgarmúrana til að hræða burt óvini. Í valdatíð hans tífaldaðist Svarti vörðurinn, lífvarðasveit konungs skipuð hermönnum frá Afríku sunnan Sahara, og taldi 150.000 hermenn þegar mest var. Viking-geimferðaáætlunin. Viking-geimferðaáætlunin á við um tveggja geimflauga verkefni NASA að plánetunni Mars. Geimför áætlunarinnar hétu Viking 1 og Viking 2. Markmið verkefnisins voru að fá myndir af Mars, greina lofthjúp og yfirborð plánetunnar og að leita eftir ummerkjum lífs. Hvort farið um sig var útbúið gervihnetti og lendingarfari. Lendingarfar. Lendingarfar er geimfar sem kemst í snertingu við stjarnfræðilegt fyrirbæri. Laugarnesskóli. Laugarnesskóli er grunnskóli í Reykjavík fyrir nemendur í fyrsta til sjötta bekk. Skólahverfi. Skólahverfi Laugarnesskóla afmarkast af skólahverfi Háteigsskóla í suðri, Austurbæjarskóla í vestri og Langholtsskóla í austri. Skólinn er í útjaðri Laugardalsins og örstutt er í sundlaugarnar, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Grasagarðinn, Laugardalshöll, Laugardalsvöll, skautasvellið og íþróttasvæði Þróttar/Ármanns. Laugarnes- og Laugalækjarskóli mynda saman grunnskóla Laugarneshverfis, annar starfar á barnastigi og hinn á unglingastigi. Saga. Laugarnesskóli er teiknaður af Einari Sveinssyni húsameistara og er einn af elstu skólum Reykjavíkur. Hann tók til starfa 19. október 1935 og fyrsta árið voru tíu kennarar við skólann. Skólann sóttu 214 börn á aldrinum átta til þrettán ára, eitt barn var eldra. Fjöldi nemenda í Laugarnesskóla hefur verið breytilegur á milli ára. Fjölmennastur var skólinn á árunum 1950 og 1954 en þá voru tæplega 1800 nemendur í skólanum. Frá 1969 var hann eingöngu barnaskóli og frá haustinu 2002 fyrir fyrsta til sjötta bekk. Frá því að hann hóf störf hafa ýmsar hefðir orðið til sem eru orðnar fastir liðir í skólastarfinu og margt er það sem skapar honum einstaka sérstöðu meðal grunnskóla Reykjavíkur. Má þar nefna listaverka- og náttúrugripasafn skólans, söng og leiklistarhefðir að ógleymdu Katlagili. Stefna skólans er að viðhalda grónum hefðum og þróa þær með það að leiðarljósi að nemendur skólans þroskist við að taka þátt í þeim. Viking 1. Viking 1 var annað tveggja geimfara sem sent var til Mars sem hluti af Viking geimferðaáætlunin NASA. Farið var samansett af lendingarfari og brautarfari. Markmið Viking verkefnisins voru að taka myndir af Mars í hárri upplausn, leita að ummerkjum lífs og greina lofthjúp og yfirborð plánetunnar. Farið fór á loft þann 20. ágúst 1975, kom til Mars þann 19. júní 1976 og þann 20. júlí sama ár lenti lendingarfar Viking 1 heilu og höldnu á Mars. Þorleifur Árnason. Þorleifur Árnason (um 1370 – 1433) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 14. og 15. öld og bjó á Grenjaðarstað í Aðaldal, á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og í Vatnsfirði. Faðir Þorleifs var Árni Einarsson (um 1340 – 1404), bóndi á Auðbrekku og síðar staðarhaldari á Grenjaðarstað, en alls óvíst er hver var kona hans og móðir Þorleifs þótt þess hafi verið getið til að það kunni að hafa verið Guðný Hákonardóttir frá Víðidalstungu en óvíst er hvort sú kona var yfirleitt til. Hún hefur þá verið systir Jóns Hákonarsonar í Víðidalstungu. Svo mikið er víst að Þorleifur keypti hálfa Víðidalstungu af Guðnýju dóttur Jóns skömmu fyrir 1416 og eignaðist síðar alla jörðina, sem afkomendur hans áttu síðan um langan aldur. Líklega hefur Flateyjarbók, sem Jón Hákonarson hafði látið skrifa, fylgt með í kaupunum því afkomendur Þorleifs áttu hana seinna, allt til 1647. Þorleifur var um tíma staðarhaldari á Grenjaðarstað eins og faðir hans hafði verið og bjó þá þar en árið 1405 giftist hann Vatnsfjarðar-Kristínu Björnsdóttur, sem hafði misst fyrri mann sinn, Jón Guttormsson, í Svarta dauða, og bjuggu þau fyrst í Auðbrekku en síðar í Glaumbæ í Skagafirði og var Þorleifur orðinn sýslumaður í Hegranesþingi fyrir 1415. Þau hjónin voru stórauðug og áttu miklar jarðeignir víða um land. Þorleifur var líka einn helsti höfðingi landsins og var kjörinn af Alþingi til að fara á konungsfund og ganga erinda þingsins, líklega um 1420. Það ár segir "Nýi annáll": „Sigldi héðan Þorleifur Árnason og slóst við enska í hafi; tók hann Noreg með heilbrigðu.“ Þau hjónin bjuggu seinast á föðurleifð Kristínar, Vatnsfirði, og mun Þorleifur þá hafa haft sýslur á Vestfjörðum. Hann dó 1433 en Kristín bjó áfram í Vatnsfirði til hárrar elli. Synir þeirra Kristínar og Þorleifs voru Einar hirðstjóri í Vatnsfirði, Björn ríki hirðstjóri á Skarði, maður Ólafar ríku Loftsdóttur, og Árni, sem giftist Soffíu Loftsdóttur. Dæturnar voru Helga eldri, kona Guðmundar Arasonar ríka á Reykhólum, Solveig húsfreyja í Víðidalstungu og á Breiðabólstað, kona Orms Loftssonar, Helga yngri húsfreyja í Garpsdal, kona Skúla Loftssonar, og Guðný í Auðbrekku, kona Eiríks slógnefs Loftssonar. Kúmbríska. Kúmbríska eða kumbríska (enska: "Cumbric") er dautt keltneskt tungumál sem talað var í Suðvestur-Skotlandi, á því svæði sem kallað er Kúmbría en þaðan fær málið nafn sitt. Það var talað fyrir um eitt þúsund árum. Jafnréttisstefna. Jafnréttisstefna er stefna eða trú að fólk sé jafnt, óháð kynþætti, trúarbrögðum, pólitískum skoðunum eða öðru. CAR og CDR. Þegar cons-hólfið hefur að geyma flóknari stök þá sækir "car" fyrsta stakið og "car" sækir afganginn; því eru aðgerðirnar einatt kallaðar "first" (‚fyrsti hluti‘) og "rest" (‚afgangur‘). No Class. No Class er íslensk hljómsveit, stofnuð árið 2007, sem spilar electro-house með minimal og dubstep ívafi. Hún hefur komið fram á íslensku Northernwave kvikmyndahátíðinni og tók þátt í Músíktilraunum árið 2011. Einnig hefur hljómsveitin spilað á fimmtudagsforleik Hins húsins, Bakkus, Sódóma og Grapevine Grassroots Concerto Electronico Opus 27. Um. Hljómsveitin var stofnuð árið 2007 í Árbæjarskóla eftir að kennari þar efndi til lagakeppni þar sem nemendur fengu það verkefni að semja lag fyrir hugtakabanka í samfélagsfræði. Eftir það héldu þeir áfram að semja lög og byrjaði ferill þeirra fyrir alvöru veturinn 2011 þegar þeir spiluðu á NorthernWave kvikmyndahátíðinni við mikið lof gesta. Útgefið efni. Demoútgáfu er að finna á heimasíðu gogoyoko Háaleitisvegur. Háaleitisvegur var gata í Reykjavík sem var undanfari núverandi Háaleitisbrautar. Gatan lá frá gamla Múlahverfi, um það bil þar sem nú er Fellsmúli, suður yfir Háaleitis- og Bústaðahverfi og niður í Fossvog, þar sem Stóragerði liggur nú. Háaleitisvegur hvarf úr gatnakerfi Reykjavíkur um 1965, þegar Miklabraut var lögð austur frá Grensási. Viking 2. Viking 2 var annað tveggja geimfara sem sent var til Mars sem hluti af Viking geimferðaáætluninni í umsjá NASA. Farið var samansett af lendingarfari og brautarfari. Markmið Viking verkefnisins voru að taka myndir af Mars í hárri upplausn, leita að ummerkjum lífs og greina lofthjúp og yfirborð plánetunnar. Farið starfaði í þrjú ár. Viking 2 var skotið á loft þann 9. september 1975 og fór á sporbaug um Mars þann 7. ágúst 1976. Þann 3. september 1976 lenti lendingarfar Viking 2 á Mars. Lendingin var því önnur heppnaða marslendingin en þá fyrstu átti lendingarfar Viking 1. Slökkt var á brautarfari Viking 2 þann 25. júlí 1978 en lendingarfarið hélt samskiptum áfram fram að 11. apríl 1980. Múlahverfi. Múlahverfi, eða Múlakampur og Herskálakampur, var íbúðarhverfi í Reykjavík, á svæðinu frá Suðurlandsbraut upp að núverandi götustæði Ármúla og Síðumúla. Hverfið reis utan skipulags Reykjavíkurborgar á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld. Hernámsliðið reisti fjölda bragga þarna á stríðsárunum og þegar það hvarf á brott tók fólk í húsnæðishraki sér búsetu þar, enda var mikill húsnæðisskortur í borginni. Fljótlega var farið að byggja við braggana og fólk reisti sér líka lítil timburhús í grennd við þá, oftast af miklum vanefnum, enda byggðu íbúarnir þau oftast sjálfir og fengu engin lán til þeirra. Flest húsin voru reist í óleyfi en sumir gerðu þó samning við borgina um leigulóð til 10 ára og urðu húsin sem þeir reistu að vera úr timbri og ekki stærri en 48 fermetrar á einni hæð, svo unnt væri að flytja þau burt þegar hverfið yrði skipulagt. Ekki fóru þó allir eftir þessu og sum húsin urðu stærri og tvílyft. Þjónusta við íbúana var af mjög skornum skammti, vatnslagnir lélegar, frárennsli ekkert, heldur var skólpi veitt í rotþrær, og götulýsing lítil. Hverfið var mjög þéttbýlt og þar voru margar barnafjölskyldur. Árið 1963 bjuggu þar um 800 manns, þar af 630 í húsum en aðrir í bröggum. Seint á 6. áratugnum hófst uppbygging hverfisins sem iðnaðar- og verslunarhverfis og voru fyrstu húsin reist upp úr 1957. Á næstu árum voru braggarnir og flest íbúðarhúsin rifin en hverfið var þó ekki að fullu uppbyggt fyrr en 1985 og stóðu nokkur íbúðarhús innan um iðnaðar- og skrifstofuhús allt fram undir það. Bíbí Ólafsdóttir spákona ólst upp í Múlakampi og er uppvexti hennar þar og mannlífinu í hverfinu lýst vel í endurminningarbókinni "Bíbí" sem Vigdís Grímsdóttir skrásetti. Geimrannsóknastofnun Indlands. Geimrannsóknastofnun Indlands (enska: "Indian Space Research Organisation" eða "ISRO", hindí: भारतीय अन्तरिक्ष अनुसंधान संगठन, kannada: ಭಾರತೀಯ ಬಾಹ್ಯಾಕಾಶ ಸಂಶೋಧನೆ ಸಂಸ್ಥೆ) er geimferðastofnun sem stofnuð var 15. ágúst 1969. Ríkisstjórn Indlands hefur umsjón með stofnuninni. Cuneo. Cuneo er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Cuneo-hluta héraðsins með 55.714 (2010) íbúa. Biella. Biella er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Biella-hluta héraðsins með 45.756 (2010) íbúa. Novara. Novara er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Novara-hluta héraðsins með 105.024 (2010) íbúa. Verbania. Verbania er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Verbania-hluta héraðsins með 31.115 (2010) íbúa. Vercelli. Vercelli er borg í Piedmont á Ítalíu. Borgin er stærsta borgin í Vercelli-hluta héraðsins með 46.967 (2010) íbúa. Ólafur Briem. Ólafur Briem (28. janúar 1851 – 19. maí 1925) var íslenskur bóndi, alþingismaður og settur sýslumaður í Skagafjarðarsýslu nokkrum sinnum. Ólafur var fæddur á Espihóli í Eyjafirði, sonur Eggerts Briem sýslumanns þar og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur. Hann ólst upp í Eyjafirði og síðan Skagafirði frá árinu 1861, þegar faðir hans varð sýslumaður þar. Á meðal fjölmargra systkina Páls voru alþingismennirnir Eiríkur Briem, Gunnlaugur Briem og Páll Briem amtmaður og ein systra hans var Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Ólafur stundaði nám við Lærða skólann og varð stúdent þaðan árið 1870. Hann var síðan skrifari hjá föður sínum allt til 1884, er Eggert lét af sýslumannsembætti, og var stundum settur sýslumaður í forföllum föður síns, auk þess sem hann veitti búi hans forstöðu. Árið 1885 hóf hann búskap á Frostastöðum í Blönduhlíð en fluttist 1887 að Álfgeirsvöllum á Efribyggð og bjó þar allt til 1920, þegar hann flutti til Reykjavíkur. Þar varð hann aðstoðarmaður í fjármálaráðuneytinu og gegndi því starfi til æviloka. Hann var einnig umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða frá 1888 og þar til hann flutti úr Skagafirði, amtsráðsmaður frá 1881-1907 og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Sambands íslenskra samvinnufélaga frá 1920 til dauðadags. Árið 1886 var Ólafur kjörinn alþingismaður Skagfirðinga og sat á þingi allt til 1919 fyrir ýmsa flokka, seinast fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var forseti sameinaðs þings 1895 og forseti neðri deildar 1914-1919. Kona Ólafs var Halldóra Pétursdóttir. Á meðal barna þeirra voru Þorsteinn Briem, prófastur, alþingismaður og ráðherra, og Ingibjörg, kona Björns Þórðarsonar forsætisráðherra. Eiríkur Briem. Eiríkur Briem (17. júlí 1846 – 27. nóvember 1929) var íslenskur prestur, kennari, kennslubókahöfundur og stjórnmálamaður. Hann var alþingismaður um árabil og forseti Sameinaðs þings um skeið. Eiríkur var fæddur á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp, sonur Eggerts Briem, sem þá var sýslumaður Ísfirðinga, og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur, og var elstur nítján barna þeirra, en þrettán náðu fullorðisaldri. Þar á meðal voru alþingismennirnir Ólafur Briem, Gunnlaugur Briem og Páll Briem amtmaður og ein systra hans var Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Eggert Briem varð sýslumaður Eyfirðinga 1848 og settist þá að á Espihóli og 1861 fékk hann Skagafjarðarsýslu og fluttist fjölskyldan þá að Viðvík. Eiríkur fór í Lærða skólann og lauk stúdentsprófi þaðan 1864. Síðan lagði hann stund á guðfræðinám í Prestaskólanum og útskrifaðist þaðan 1867. Hann varð svo biskupsritari hjá Pétri Péturssyni biskupi og gegndi því starfi til 1874, þegar hann fékk Þingeyraprestakall og settist að í Steinnesi. Hann gegndi prestsembætti þar til 1880 og var prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi frá 1876. Síðasta veturinn var hann þó í framhaldsnámi við Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1880 lét hann af prestsskap en fékk stöðu kennara við Prestaskólann og gegndi henni til 1911. Hann fékk prófessorsnafnbót þegar skólinn var lagður niður við stofnun Háskóla Íslands. Hann kenndi jafnframt við Lærða skólann, bæði guðfræði og stærðfræði. Hann var mikill stærðfræðingur og samdi kennslubækur í reikningi, sem lengi voru notaðar, óg ýmsar aðrar kennslubækur. Eiríkur var alþingismaður Húnvetninga frá 1880 til 1892 og síðan konungkjörinn alþingismaður frá 1901 til 1915. Hann var forseti Sameinaðs þings 1891 og aftur 1901-1907. Bæjarfulltrúi í Reykjavík var hann 1883-1888 og aftur 1894-1900 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var forseti Hins íslenska fornleifafélags 1893-1917 og forseti Bókmenntafélagsins 1900-1904. Kona Eiríks var Guðrún Gísladóttir (28. janúar 1848 – 2. mars 1893) og komust tvö af börnum þeirra upp, Ingibjörg og Eggert. Þorsteinn Briem (f. 1885). Þorsteinn Briem (3. júlí 1885 – 16. ágúst 1949) var íslenskur prestur, stjórnmálamaður, alþingismaður og ráðherra. Hann var formaður Bændaflokksins frá 1935-1942. Þorsteinn var fæddur á Frostastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði, sonur Ólafs Briem alþingismanns og konu hans Halldóru Pétursdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1905 og guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1908. Árið 1909 varð hann aðstoðarprestur í Görðum á Álftanesi en fékk Grundarþing í Eyjafirði 1911 og sat á Hrafnagili. Árið 1918 varð hann prestur á Mosfelli í Grímsnesi en árið 1921 var honum veitt Akranesprestakall og gegndi hann því þar til hann lét af embætti vegna veikinda 1946, nema á meðan hann gegndi ráðherraembætti. Hann var prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi frá 1931. Hann þótti mikill kennimaður og mjög góður ræðumaður. Hann varð atvinnu- og samgöngumálaráðherra og jafnaframt kirkju- og kennslumálaráðherra í ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar 1932 þótt hann ætti þá ekki sæti á þingi en hefði starfað innan Framsóknarflokksins. Hann fékk lausn 16. nóvember 1933, sagði sig úr Framsóknarflokknum og tók þátt í stofnun Bændaflokksins, en gegndi þó ráðherrastörfum áfram til 28. júlí 1934. Þá hafði hann verið kjörinn á þing sem landskjörinn þingmaður í Dalasýslu, einn af þremur þingmönnum Bændaflokksins. Hann tók við formennsku í Bændaflokknum 1935, þegar Tryggvi Þórhallsson lést. Í kosningunum 1937 var Þorsteinn eini þingmaður Bændaflokksins sem náði kjördæmakjöri. Hann var þingmaður til kosninganna 1942. Þorsteinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Valgerður Lárusdóttir (12. október 1885 – 26. apríl 1924), dóttir Lárusar Halldórssonar alþingismanns og Kristínar Pétursdóttur Guðjohnesen, og áttu þau fimm dætur. Seinni kona Þorsteins var Oktavía Emilía Pétursdóttir Guðjohnsen (25. apríl 1886 – 21. maí 1967) og voru þau barnlaus. Klemens Jónsson. Klemens Jónsson (27. ágúst 1862 – 20. júlí 1930) var íslenskur lögfræðingur, sýslumaður, stjórnmálamaður, alþingismaður og ráðherra. Hann var jafnframt rithöfundur og skrifaði bækur og greinar um lögfræðileg og sagnfræðileg efni. Embættismaður og rithöfundur. Klemens fæddist á Akureyri og voru foreldrar hans Jón Borgfirðingur, lögregluþjónn og fræðimaður, og kona hans Anna Guðrún Eiríksdóttir. Hann tók stúdentspróf við Lærða skólann 1883 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1888. Hann var aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn 1889-1891 en var þá skipaður sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri. Hann þótti röggsamt yfirvald og var forgöngumaður í ýmsum umbótum og framkvæmdum, ekki síst í samgöngumálum og skólamálum, auk þess sem hann beitti sér fyrir því að lögð var vatnsveita um bæinn. Hann flutti til Reykjavíkur 1904 og varð landritari og þar með í raun næstvaldamesti maður landsins á eftir ráðherranum og staðgengill hans á ýmsum sviðum. Því embætti gegndi hann þar til það var lagt niður 1917 en eftir það vann hann að ritstörfum og rannsóknum. Hann var í stjórn Sögufélagsins frá 1906 til æviloka og skrifaði ýmis rit um sagnfræði og persónusögu, þar á meðal "Sögu Reykjavíkur I-II", bók um sögu prentlistarinnar og bók um Grund í Eyjafirði. Einnig tók hann saman "Lögfræðingatal" og hóf útgáfu landsyfirréttar- og hæstaréttardóma. Hann skrifaði einnig fjölda greina um sagnfræðileg og lögfræðileg efni í ýmis blöð og tímarit. Bróðir Klemensar var Finnur Jónsson málfræðingur í Kaupmannahöfn. Alþingismaður og ráðherra. Klemens var kjörinn alþingismaður Eyfirðinga 1892 og sat á þingi til 1904, var þó ekki á þinginu 1894 því þá var hann settur amtmaður í norður- og austuramti. Á þinginu beitti hann sér einkum í samgöngumálum og lagði meðal annars til að smíðað yrði gufuskip til strandferða og að sími yrði lagður til Íslands. Hann þótti einn frjálslyndasti þingmaðurinn á Alþingi og fylgdi ekki alltaf eigin flokki, sem hvar Heimastjórnarflokkurinn. Hann lét af þingstörfum þegar hann varð landritari en settist þó nokkrum sinnum á þing sem umboðsmaður ráðherra í forföllum. Hann var forseti neðri deildar 1901-1903. Árið 1922 varð hann atvinnu- og samgöngumálaráðherra og gegndi því embætti til 1924 og var einnig fjármálaráðherra frá 18. apríl 1923, þegar Magnús Jónsson lét af embætti. Hann var kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Rangárvallasýslu 1927. Klemens sat jafnframt í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-1914 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var meðal annars formaður heilsuhælisfélagsins sem stóð fyrir því að reisa Vífilsstaðahæli og var formaður stjórnar holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Hann sat einnig í bankaráði Íslandsbanka 1924-1930. Fjölskylda. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þorbjörg Stefánsdóttir (3. júní 1866 – 30. jan. 1902) og áttu þau þrjú börn, þar á meðal Önnu Guðrúnu, konu Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra. Síðari kona Klemensar var Anna María Jónsson Schiöth (1. júní 1879 – 8. nóv. 1961) og áttu þau tvö börn; sonur þeirra var Agnar Klemens Jónsson sendiherra og ráðuneytisstjóri. Vinnufatabúðin. Vinnufatabúðin er fataverslun við Laugaveg í Reykjavík, stofnuð 1941. Saga. Vinnufatabúðin hóf rekstur að Laugavegi 76 árið 1941 og hefur starfað þar óslitið síðan og meðal elstu starfandi verslana í Reykjavík. Þórarinn Kjartansson opnaði Vinnufatabúðina, en hann hafði um árabil rekið fyrirtækið "Gúmmívinnustofuna" í sama húsi. Eins og nafnið gefur til kynna hefur verslunin alla tíð sérhæft sig í grófgerðum fatnaði og vinnufötum. Hannes Stephensen. Hannes Stephensen (12. október 1799 – 29. september 1856) var íslenskur prestur og alþingismaður. Hann bjó á Innra-Hólmi og síðar Ytra-Hólmi á Akranesi og var prestur í Görðum. Hannes var fæddur á Hvanneyri í Andakíl, sonur Stefáns Ólafssonar Stephensen amtmanns og fyrri konu hans, Mörtu Maríu Diðriksdóttur Hölter. Hann varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1818, sigldi síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk guðfræðiprófi þaðan 1824. Hann varð prestur í Görðum á Akranesi 1825 og gegndi því embætti til æviloka. Prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi var hann frá 1832. Hannes var alþingismaður Borgfirðinga frá 1845-1856 og var forseti Alþingis 1855 og varaforseti 1849 og 1853. Hann var fulltrúi á Þjóðfundinum 1851 og lét þar mikið til sín taka; þær sögur gengu á eftir að dönsku hermönnunum sem Trampe greifi hafði til taks hefði verið sagt að ef fundinum yrði hleypt upp ætti að skjóta þrjá þingmenn fyrst: „Den hvide“ (þ. e. Jón Sigurðsson), „Den halte“ (Jón Guðmundsson) Og „Den tykke“ (séra Hannes Stephensen), og voru það mestu skörungar fundarins. Kona Hannesar var Þórunn, dóttir Magnúsar Stephensen, og voru þau bræðrabörn. Þau áttu þrjú börn. Breiðdalur. Breiðdalur er dalur í Suður-Múlasýslu, upp af Breiðdalsvík, og er landmestur dala á Austfjörðum. Um hann rennur Breiðdalsá, allgóð veiðiá. Dalurinn skiptist um fjallið Kleifarháls í tvo dali, Norðurdal, sem er þrengri, og Suðurdal, en um hann liggur Þjóðvegur 1 upp á Breiðdalsheiði. Umhverfis Breiðdal eru há og tignarleg fjöll og eru þau hæstu yfir 1100 metrar á hæð, mörg litauðug af líparíti, einkum fjöllin sunnan dalsins, milli Berufjarðar og Breiðdals. Breiðdalur er grösug sveit og víða má sjá skógarkjarr. Sauðfjárrækt er einn helsti atvinnuvegur hreppsbúa, auk þess sem fiskvinnsla er stunduð í þorpinu Breiðdalsvík. Þekktasti bærinn í Breiðdal er kirkjustaðurinn Heydalir eða Eydalir. Þekktastur presta þar var Einar Sigurðsson í Eydölum. Stefán Einarsson prófessor fæddist á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Laugavegur 11. Laugavegur 11 er hús við Laugaveg í Reykjavík. Þar var reist timburhús árið 1868, sem komst í eigu bræðranna og athafnamannanna Friðriks og Sturlu Jónssonar árið 1913. Reistu þeir núverandi hús á lóðinni um árið 1920. Þar hefur verið verslunar- og veitingarekstur alla tíð. Má þar nefna veitingastaðinn "Fjallkonuna" og um 1930 var þar kaffihús sem hét Kaffilindin. Á fjórða áratugnum var þar starfrækt veitingastofan "White Star" sem hafði á sér illt orð. Árið 1936, skömmu eftir að White Star var lokað, birtist eftirfarandi lýsing á andrúmsloftinu þar: „Ófínast allra kaffihúsanna þótti White Star... Þangað komu innlendir og útlendir sjóarar sem þykja ófínir hjá betri borguruum. Og þangað komu illa launaðar vinnukonur úr fínu húsunum og formiddagsstúlkur af lakara tagi. Þar dönsuðu þær við sjóara í svælu og reyk, - og gerðu sig ánægðar með lífið...“ Eftir að White Star var lokað var verslunin "Stálhúsgögn" í húsnæðinu um langt skeið en um 1950 var innréttaður þar veitingastaður sem þekktur hefur orðið fyrir það að á 6. áratugnum var þar helsti samkomustaður ungra listamanna, skálda og menntamanna í Reykjavík. Staðurinn hét "Adlon" eins og fleiri veitingastaðir í eigu Silla og Valda en var aldrei kallaður annað en Laugavegur 11. Á meðal fastagesta þar má nefna Ástu Sigurðardóttur, Thor Vilhjálmsson, Geir Kristjánsson, Elías Mar, Alfreð Flóka, Jökul Jakobsson, Dag Sigurðarson, Þorstein frá Hamri og marga fleiri. Veitingastofan hætti störfum upp úr 1960 og vefnaðarvörubúðin Vogue var opnuð í húsnæði hennar. Nokkru síðar, í maí 1963, skemmdist húsið mjög mikið í eldi. Þá voru alls 10 fyrirtæki starfandi í húsinu, þar á meðal Vogue, Skrifstofuvélar (síðar IBM á Íslandi) og ljósmyndastofa Jóns Kaldal, auk þess sem Jóhannes Geir listmálari hafði vinnustofu í húsinu. Í fyrstu var talið að húsið væri jafnvel ónýtt eftir brunann en síðar var ákveðið að endurbyggja það og var verslunin Vogue áfram í húsnæðinu þar sem veitingastaðurinn hafði verið fram eftir áttunda áratugnum. Árið 1976 hófst veitingarekstur að nýju á Laugavegi 11 þegar þar var opnaður hamborgarastaðurinn "Bixið" en árið 1986 breyttist hann í veitingastað sem hét "Greifinn af Monte Cristo". Í ársbyrjun 1988 var svo veitingastaðurinn Ítalía opnaður í húsnæðinu og hefur verið þar síðan. Joe Spano. Joe Spano (fæddur Joseph Peter Spano, 7. júlí 1946) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Hill Street Blues, NCIS, Apollo 13 og Primal Fear. Einkalíf. Spano fæddist í San Francisco í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Stundaði nám við Kaliforníuháskólann í Berkeley. Futtist til Hollywood á seinni hluta áttunda áratugarins. Leikhús. Spano var meðlimur að San Francisco hópnum "The Wing". Kom fram árið 1967 í leikritinum "Rómeó & Júlíu". Var einn af stofnendum Berkeley Repertory leikhúsins árið 1968 og var meðlimur þess næstu 10 árin. Kom aftur til leikhúsins eftir 25 ár þar sem hann lék á móti Sharon Lawrence í "The Guys" árið 2003. Spano kom fram nakinn í San Francisco uppfærslunni af "Oh, Calcutta". Ferill. Fyrsta hlutverk Spano var í kvikmyndinni One Is a Lonely Number frá 1972. Kom hann síðan fram í smáhlutverkum í myndum á borð við American Graffiti, The Enforcer og Northern Lights. Fyrsta hlutverk Spano í sjónvarpi var í The Streets of San Francisco og kom síðan fram í sjónvarpsþáttum á borð við: L.A. Law, The X-Files, JAG, NYPD Blue, Boomtown, The Closer og Shark. Spano var árið 1981 boðið hlutverk í sjónvarpsþættinum Hill Street Blues sem rannsóknarfulltrúinn Henry Goldblume og var hluti af honum til ársins 1987. Hefur verið með reglulegt gestahlutverk í sjónvarpsþættinum NCIS sem alríkisfulltrúinn Tobias Fornell. Spano hefur leikið í kvikmyndum á borð við Apollo 13, Primal Fear, Texas Rangers, Hollywoodland og Nixon. Tenglar. Spano, Joe Gljúfurá (Húnaþingi). Gljúfurá í Húnaþingi er mitt á milli Víðidals og Vatnsdals. Áin er dragá, 28 km. að lengd og fellur í Hópið milli Miðhóps og Hólabaks. Um Gljúfurá eru mörkin milli Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu. Hinrik 4. Englandskonungur. Hinrik 4. (3. apríl 1366 – 20. mars 1413) var konungur Englands frá 1399 til dauðadags. Hann var af Lancaster-grein Plantagenet-ættar og var fyrsti konungur Englands af þeirri grein. Hann var fæddur í Bolingbroke-höll í Lincolnshire og var yfirleitt kenndur við hana áður en hann varð konungur og kallaður Henry (af) Bolingbroke. Uppruni. Faðir hans, John af Gaunt, var þriðji sonur Játvarðar konungs 3. en móðir hans var fyrsta kona Johns, Blanche, dóttir og erfingi hertogans af Lancaster, auðugasta manns Englands. Hertoginn átti ekki son og eldri systir Blanche dó barnlaus svo að titlar og eignir féllu í skaut tengdasonar hertogans. Hinrik átti tvær eldri alsystur; Filippa varð drottning Portúgals, kona Jóhanns 1., en Elísabet giftist hertoganum af Exeter. Katrín hálfsystir hans var drottning Kastilíu, kona Hinriks 3. Með hjákonu sinni, Katherine Swynford, átti John af Gaunt fjögur börn sem voru svo gerð skilgetin þegar hann giftist Katherine eftir lát miðkonu sinnar. Þau báru öll ættarnafnið Beaufort. Henry Bolingbroke. Elsti sonur Játvarðar 3. og bróðir Johns af Gaunt, Játvarður svarti prins, lést árið 1376 og lét eftir sig níu ára son, Ríkharð. Ári síðar dó Játvarður og Ríkharður varð konungur, tíu ára að aldri. John föðurbróðir hans var valdamesti maður landsins næstu árin. Frændurnir Ríkharður og Hinrik voru nær jafnaldrar og voru leikfélagar í æsku en seinna slettist upp á vinskapinn og Hinrik tók þátt í uppreisn gegn konunginum árið 1387. Ríharður lét hann þó ekki gjalda þess. Á árunum 1390-1392 fór Hinrik ásamt hópi riddara í tvær krossferðir til Litháen með Þýsku riddurunum, sem voru að reyna að ná Vilnius á sitt vald, en tókst það ekki. Á árunum 1392-1393 fór Hinrik svo í pílagrímsferð til Jerúsalem. Samband Hinriks og konungsins var áfram ótryggt og árið 1398 skoraði Thomas de Mowbray, hertogi af Norfolk, Hinrik á hólm þar sem hann taldi að orð sem hann hafði látið falla um stjórnarhætti konungs jafngiltu landráðum. Ekki kom þó til einvígis þar sem Ríkharður 2. tók í taumana og rak báða úr landi með samþykki Johns af Gaunt. Ríkharði velt úr sessi. Þegar John af Gaunt dó ári síðar ógilti Ríkharður skjöl sem hefðu gert Hinrik kleift að erfa lendur hans beint og gerði Hinrik ljóst að hann þyrfti að biðja um að fá þær aftur. Eftir nokkra umhugsun gerði Hinrik bandalag við Thomas Arundel, áður erkibiskup af Kantaraborg, sem hafði verið sviptur embætti og rekinn í útlegð fyrir þátttöku í uppreisnininni 1387. Þeir héldu til Englands þegar Ríkharður konungur var í herleiðangri á Írlandi og tókst að afla sér nægs stuðnings til að velta Ríkharði úr sessi og stinga honum í dýflissu, þar sem hann dó nokkru síðar og var sennilega sveltur í hel. Hinrik lýsti svo sjálfan sig konung og var krýndur 13. október 1399. Í raun hefði Edmund Mortimer, jarl af March, átt að taka við ríkinu þegar Ríkharður 2. var þvingaður til að segja af sér þar sem hann var kominn af næstelsta syni Játvarðar 3., Lionel af Antwerpen, en Hinrik og fylgismenn hans lögðu áherslu á að Hinrik væri kominn af Játvarði 3. í beinan karllegg en erfðalína jarlsins af March væri um kvenlegg þar sem hann væri kominn af dóttur Lionels. Auk þess var Edmund aðeins sjö ára en Hinrik átti fjóra syni sem komnir voru á legg og því mátti gera ráð fyrir að hann væri búinn að tryggja ríkiserfðirnar. Þegar erfðadeilurnar sem leiddu til Rósastríðanna hófust síðar voru þær hins vegar ekki við Mortimer-ættina, heldur York-ættina, afkomendur Edmund af Langley, hertoga af York og yngsta sonar Játvarðar 3. Hinrik konungur. Hinrik fékk þó lítinn frið á konungsstóli því að fyrstu tíu árin þurfti hann að kljást við stöðugar uppreisnir og skæruhernað, þar á meðal við Owain Glyndŵr, sem lýsti sig prins af Wales árið 1400, og uppreisn Henry Percy, jarls af Norðymbralandi. Stöðugt gekk orðrómur um að Ríkharður 2. væri enn á lífi og kynti það undir uppreisnunum. Sá sem átti mestan þátt í að bæla niður uppreisnirnar var krónprinsinn, Hinrik, sem reyndist öflugur herforingi og náði í reynd völdunum að mestu af föður sínum síðustu árin. Hinrik var heilsuveill síðustu æviárin, þjáðist bæði af alvarlegum húðsjúkdómi og fékk svo nokkrum sinnum bráð köst af óþekktum sjúkdómi sem drógu hann að lokum til dauða. Fjölskylda. Fyrri kona Hinriks var Mary de Bohun (um 1368 – 4. júní 1394), dóttir jarlsins af Hereford. Þau áttu sex börn: Hinrik 5., Thomas, hertoga af Clarence, John, hertoga af Bedford, Humphrey, hertoga af Gloucester, Blönku, sem giftist Loðvík 3. kjörfursta af Pfalz, og Filippu, sem giftist Eiríki af Pommern og varð drottning Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Íslands. Mary lést 1394 og varð því aldrei drottning. Hinrik var ekkjumaður í níu ár en 7. febrúar 1403 giftist hann að nýju Jóhönnu af Navarra, dóttur Karls 2. af Navarra, sem var þá ekkja eftir Jóhann 5. hertoga af Bretagne, og sjö barna móðir. Þau áttu einn son sem dó ungur. Ágúst Jósefsson. Ágúst Jósefsson (f. á Belgsstöðum í Innri-Akraneshreppi14. ágúst 1874, d. 30. janúar 1968) var íslenskur prentari, heilbrigðisulltrúi, stjórnmálamaður og verkalýðsforingi. Ævi og störf. Ágúst Jósefsson missti föður sinn barnungur og fluttist með móður sinni til Reykjavíkur árið 1880. Hann var lærður prentari og starfaði sem slíkur til 1918. Hann var meðal stofnenda "Alþýðublaðsins" (fyrra) árið 1906 og gegndi ýmsum embættum fyrir hreyfingu jafnaðarmanna. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur frá 1916 til 1922 og aftur 1924 til 1934. Árið 1926 hafði hann forgöngu um stofnun Starfsmannafélags Reykjavíkurbæjar og var fyrsti formaður þess. Hann var jafnframt heilbrigðisfulltrúi bæjarins frá 1918 til 1950. Fever. "Fever" er áttunda breiðskífa áströlsku söngkonunnar Kylie Minogue. Hún var gefin út 1. október 2001. Minogue byrjaði að vinna að plötunni árið 2001 með frægum lagasmiðum og framleiðendum. Upplýsingar á breiðskífan. Breiðskífa náði fyrsta sæti í Ástralíu, Austurríki, Þýskalandi, Írlandi og Bretlandi. Breiðskífa náði fyrsta sæti í heimalandi sínu Ástralíu, og var staðfest sjö sinnum platínu. Breiðskífa náði þriðja sæti á Nýja-Sjálandi, hún var staðfest gull í fyrstu viku og síðan tvisvar platínu. Breiðskífa var einnig árangur annars staðar. Hún náði fyrsta sæti í Bretlandi í tvær vikur. Hún var staðfest fimm sinnum platínu og selt yfir 1,9 milljónir eintaka. Breiðskífa náði þriðja sæti á Billboard 200, og varð frægasta breiðskífa hennar í Bandaríkjunum. Breiðskífa hefur selt 8 milljónir eintaka um allan heim, gerir hún hana mest seldu plötu til þessa. Fyrsta lagið „Can't Get You Out of My Head“ náði fyrsta sæti í fimmtán löndum. Annað lagið „In Your Eyes“ náði fyrsta sæti í Ástralíu og þriðja sæti í Bretlandi. Næsta lagið „Love at First Sight“ náði 23. sæti í Bandaríkjunum, öðru sæti í Bretlandi, og þriðja sæti í Ástralíu. Lokalagið „Come into My World“ náði fjórða sæti í Ástralíu og áttunda sæti í Bretlandi. Nanna Ólafsdóttir. Nanna Ólafsdóttir (28. janúar 1915 – 30. janúar 1992) var íslenskur sagnfræðingur og stjórnmálamaður. Ævi og störf. Nanna fæddist í Reykjavík og útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1934. Árið 1958 lauk hún Mag.art.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands. Lokaritgerð hennar fjallaði um Baldvin Einarsson og árið 1961 gaf hún út ævisögu hans, sem er lykilheimild um sögu þessa frumkvöðuls íslenskrar sjálfstæðishreyfingar. Á löngum fræðaferli ritaði Nanna fjölda greina og var ötul á sviði heimildaútgáfu. Nanna starfaði lengst á handritadeild Landsbókasafns Íslands. Hún var virkur þátttakandi í starfi Sósíalistaflokksins og skrifaði mikið í "Melkorku", tímarit kvenna sem fylgdu Sósíalistum að málum og ritstýrði því um tíma. Fjölluðu skrif hennar einkum um jafnréttismál kynjanna. Nanna átti sæti á framboðslista Sósíalista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík árið 1950. Þegar Sigfús Sigurhjartarson lést tveimur árum síðar varð hún bæjarfulltrúi til loka kjörtímabilsins. Katrín af Valois, Englandsdrottning. Brúðkaup Hinriks 5. og Katrínar af Valois. Katrín af Valois eða Katrín af Frakklandi (27. október 1401 – 3. janúar 1437) var frönsk konungsdóttir sem var drottning Englands frá 1420 til 1422 sem eiginkona Hinriks 5. og móðir Hinriks 6. Englandskonungs. Drottning Englands. Katrín var yngsta dóttir Karls 6. Frakkakonungs og konu hans Ísabellu af Bæjaralandi. Þegar faðir hennar og Hinrik 5. Englandskonungur sömdu frið 1420 var meðal annars samið um að Hinrik fengi Katrínu fyrir konu og þar sem einnig var samið um að Hinrik skyldi erfa krúnu Karls að honum látnum var gert ráð fyrir að Katrín yrði drottning bæði Englands og Frakklands. Hinrik dó hins vegar 31. ágúst 1422, tveimur mánuðum á undan tengdaföður sínum, og þótt Katrín hefði alið son, Hinrik 6., átta mánuðum áður, féll franska krúnan ekki honum í hendur, heldur Karli 7., syni Karls 6. og bróður Katrínar, enda var hann réttborinn erfingi. Hinrik 6. réði þó yfir hluta Frakklands og kallaði sig konung Frakklands og gerði kröfu til krúnunnar allt til 1453. Katrín er sögð hafa verið bráðfalleg og Hinrik 5. varð mjög hrifinn af henni. Hún var átján ára þegar þau giftust en hann 33 ára. Þau giftust í Frakklandi 2. júní 1420 og fóru síðan til Englands, þar sem Katrín var krýnd í Westminster Abbey 23. febrúar 1421. Um sumarið hélt Hinrik til Frakklands í frekari herfarir en Katrín var þá barnshafandi og ól son sinn 6. desember. Hinrik konungur sá aldrei son sinn því hann dó úr blóðkreppusótt um haustið og Hinrik litli varð konungur. Og þegar afi hans dó tveimur mánuðum síðar varð hann einnig konungur yfir þeim hluta Frakklands sem Englendingar réðu. Ekkjudrottning. Bróðir Hinriks 5., Humphrey, hertogi af Gloucester, stýrði Englandi og hafði miklar áhyggjur af því að ekkjudrottningin unga giftist aftur og þá einhverjum sem mundi seilast til valda. Hann lét því þingið setja lög um að ef ekkjudrottningar vildu giftast aftur þyrftu þær samþykki konungsins, ella yrðu allar eignir nýja eiginmannsins gerðar upptækar. Slíkt samþykki gat konungur því aðeins veitt að hann væri lögráða en þegar lögin voru sett var Hinrik 6. aðeins sex ára. Þrátt fyrir þetta hóf Katrín samband við Walesbúann Owen ap Maredudd ap Tudor, eða Owen Tudor. Líklega hafa þau gifst leynilega en þó er það ekki fullvíst. Þau áttu að minnsta kosti fimm börn saman og þau voru seinna talin skilgetin. Það var þó ekki skjalfest fyrr en löngu síðar, þegar þörf var á að styrkja erfðatilkall Tudor-ættar. Synir þeirra, Jasper og Edmund, komust upp auk tveggja dætra. Katrín var veik þegar hún gekk með yngsta barnið, leitaði sér lækninga í Bermondsey-klaustri og dó þar 3. janúar 1437, nokkrum dögum eftir að hún ól barnið. Eftir lát Katrínar lögsóttu óvinir þeirra Owens hann fyrir að brjóta lögin um endurgiftingu drottningar en honum tókst að hreinsa sig af öllum sökum. Þrátt fyrir það var hann handtekinn skömmu síðar, eignir hans gerðar upptækar og hann hafður í haldi í tvö ár. Konungurinn, sem þá var orðinn lögráða, var velviljaður bæði honum og hálfbræðrum sínum og Owen var áfram við hirðina. Lingua Franca Nova. Lingua Franca Nova (skammstafað LFN) er tilbúið tungumál, sem nýtir orðaforða úr frönsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og katalónsku. Höfundur þess er Dr. C. George Boeree, sem var prófessor í sálfræði við Shippensburg University í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Málfræðin er mjög einfölduð og stafsetningin er fónemísk. Tungumálið notar 22 bókstafi, annaðhvort latínustafi eða kýrillíska. Geoffrey 2. hertogi af Bretagne. Geoffrey 2. hertogi af Bretagne. Geoffrey 2. hergtogi af Bretagne (23. september 1158 – 19. ágúst 1186) var jarl af Richmond og síðan hertogi af Bretagne frá 1181 til dauðadags. Geoffrey var fjórði sonur Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu, bróðir konunganna Hinriks unga, Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa og drottninganna Elinóru af Kastilíu og Jóhönnu af Sikiley. Hann átti eins og bræður hans í stöðugri togstreitu við Hinrik konung og tók þátt í uppreisnum gegn honum, ýmist við hlið bræðra sinna eða gegn þeim. Þeir Geoffrey og Filippus 2. Ágústus Frakkakonungur voru mjög góðir vinir og stundum í bandalagi gegn Hinrik. Geoffrey dvaldist langdvölum við hirð Filippusar í París og heimildir benda til þess að þeir hafi verið að leggja á ráðin um nýja uppreisn sumarið 1186. En þá dó Geoffrey óvænt og er ýmist sagður hafa verið traðkaður til bana á burtreiðum eða dáið úr skyndilegri magakveisu. Hinrik hafði samið um giftingu Geoffreys og Konstönsu, einkadóttur og erfingja Conans 4., hertoga af Bretagne. Þau giftust í júlí 1181 og varð Geoffrey þá hertogi af Bretagne við hlið konu sinnar. Þau áttu tvær ungar dætur þegar Geoffrey dó og lifði önnur þeirra til fullorðinsára, Elinóra, mærin fagra af Bretagne. Konstansa var þunguð þegar Geoffrey dó og ól 29. mars 1187 soninn Arthúr, sem varð hertogi af Bretagne. Karl 6. Frakkakonungur. Karl 6. Mynd frá um 1412. Karl 6. (3. desember 1368 – 21. október 1422), kallaður hinn ástkæri (franska: "le Bien-Aimé") og hinn brjálaði (franska: "le Fol" eða "le Fou") var konungur Frakklands frá 1380 til dauðadags. Hann var af Valois-ætt. Hann var líklega geðklofasjúklingur og virðist veikin hafa byrjað að koma fram þegar hann var hálfþrítugur. Það var ein ástæða fyrir slöku gengi Frakka í Hundrað ára stríðinu á stjórnarárum hans og þegar hann lést var mikill hluti Frakklands undir enskri stjórn. Karl var sonur Karls 5. og Jóhönnu af Bourbon. Faðir hans dó árið 1380 og Karl 6. var krýndur konungur í Reims aðeins ellefu ára að aldri. Fram til 1388 stýrði föðurbróðir hans, Filippus djarfi, hertogi af Búrgund, landinu að mestu. Veikindi konungs. Karl 6. gripinn geðveiki á leið til Bretagne. Fyrst er vitað til að borið hafi á geðveiki Karls árið 1392 þegar reynt var að myrða vin hans og ráðgjafa, Olivier de Clisson. Tilræðismaðurinn leitaði athvarfs í Bretagne og er sagt að Karl hafi verið svo æstur að elta hann uppi að hann hafi varla verið mælandi. Hann hélt af stað til Bretagne með herlið en á leiðinni missti hann alveg stjórn á sér og drap nokkra af mönnum sínum af því að hann hélt að þeir væru óvinir. Konungurinn hélt áfram að fá köst það sem hann átti ólifað. Stundum mundi hann ekki nafn sitt eða að hann var konungur og þekkti ekki konu sína, börn eða aðra nákomna. Stundum hljóp hann í æði um ganga hallar sinnar. Stundum var hann sannfærður um að hann væri úr gleri og gerði ýmsar varúðarráðstafanir til að brotna ekki. Þótt geðsýki konungs kæmi í köstum og hann væri hugsanlega fær um að stýra ríkinu inn á milli var ljóst að einhver annar þurfti að halda um stjórnartaumana og upphófst því valdabárátta á milli ættingja hans. Föðurbræður hans, Filippus djarfi hertogi af Búrgund og Jóhann hertogi af Berry, tóku stjórnina og ráku helstu ráðgjafa konungs. Yngri bróðir Karls, Loðvík 1. hertogi af Orléans, vildi líka ráða og var baráttan einkum á milli hans og Filippusar djarfa og síðar Jóhanns óttalausa, sonar Filippusar, eftir að Filippus dó í apríl 1404. Árið 1407 var hertoginn af Orléans myrtur á götu í París að undirlagi Jóhanns óttalausa. Hundrað ára stríðið. Hundrað ára stríðið hélt áfram allan valdatíma Karls þótt lítið væri um bein stríðsátök framan af. Reynt var að skapa frið árið 1396 með hjúskapartengslum þegar Ísabella, elsta dóttir Karls 6., tæplega sjö ára gömul, var látin giftast Ríkharði 2. Englandskonungi, sem var 29 ára. Honum var þó steypt af stóli þremur árum síðar og Ísabella sneri aftur til Frakklands og giftist síðar frænda sínum, Karli hertoga af Orléans, syni Loðvíks 1. hertoga. Hún varð þó skammlíf og Karl giftist árið 1410 Bonne, dóttur Bernharðs greifa af Armagnac. Móðir Karls hertoga hafði látið hann sverja að leita hefnda eftir föður sinn og nú leitaði Karl liðsinnis tengdaföður síns og leiddi það til stríðsátaka á milli Armagnanc og Búrgundar. Þessi og önnur innanlandsátök í Frakklandi leiddu til þess að Hinrik 5. Englandskonungur sá sér leik á borði og gerði innrás árið 1415 og vann stórsigur á Frökkum í orrustunni við Agincourt. Frakkar lögðu undir sig stóran hluta landsins og Jóhann óttalausi ákvað að reyna að ná sættum við konungsfjölskylduna með samkomulagi við Karl krónprins, fimmta og eina eftirlifandi son Karls 6. sem var nær fullvaxta og vildi komast til valda. Þeir hittust á fundi 10. september en þar var Jóhann drepinn af mönnum prinsins. Varð það til þess að sonur Jóhanns og erfingi, Filippus góði hertogi af Búrgund, gekk í lið með Englendingum. Árið 1420 undirritaði Karl konungur Troyes-sáttmálann og viðurkenndi þar Hinrik 5. Englandskonung sem eftirmann sinn, samdi um hjónaband hans og dóttur sinnar, Katrínar af Valois, en svipti Karl krónprins arfi og lýsti því yfir að hann væri óskilgetinn. Krónprinsinn flúði á náðir hinnar valdamiklu Jólöndu drottningar af Aragóníu og giftist dóttur hennar nokkru síðar. Karl 6. dó haustið 1422 en Hinrik 5. varð þó ekki konungur alls Frakklands við lát hans því hann hafði dáið tveimur mánuðum á undan tengdaföður sínum. Sonur Hinriks og Katrínar, Hinrik 6. var lýstur konungur alls Frakklands af Englendingum en Karl 7. lýsti sig einnig konung og nokkrum árum síðar tókst honum, með stuðningi Jóhönnu af Örk, að ná raunverulegu konungsvaldi og láta krýna sig. Síðar kom í ljós að Hinrik 6. hafði að líkindum erft geðsýki afa síns. Fjölskylda. Karl giftist Ísabellu af Bæjaralandi árið 1385, þegar hann var 15 ára. Hún var valdamikil eftir að maður hennar veiktist en hefur ekki gott orð á sér í franskri sögu, einkum vegna mikils orðróms sem gekk um framhjáhöld hennar. Ekki er þó víst að hann eigi við mikil rök að styðjast, enda fóru þær sögur aðallega að heyrast eftir að Troyes-sáttmálinn var gerður 1420 og Englendingum og öðrum andstæðingum Karls 7. var í mun að koma að þeirri skoðun að hann væri óskilgetinn og ætti því ekki rétt til ríkiserfða. Karl 6. og Ísabella eignuðust tólf börn, sjö syni og fimm dætur. Allir synirnir nema Karl 7. dóu fyrir tvítugt; tveir náðu þó að kvænast en áttu ekki börn. Ísabella giftist fyrst Ríkharði 2. Englandskonungi og síðar Karli hertoga af Orléans og dó af barnsförum nítján ára. Jóhanna giftist Jóhanni 6. hertoga af Bretagne, Mikaela giftist Filippusi góða, hertoga af Búrgund, María varð nunna og Katrín giftist fyrst Hinrik 5. Englandskonungi og síðan (líklega) Owen Tudor. Greifadæmið Maine. Greifadæmið Maine, var hérað og áður greifadæmi í norðvesturhluta Frakklands. Helsta borgin þar er Le Mans. Maine liggur að héruðunum Normandí að norðan, og Anjou að sunnan, sem voru fyrrum mun öflugri stjórnsýslusvæði. Ísabella af Bæjaralandi. Ísabella af Bæjaralandi (um 1370 – 24. september 1435) (franska: "Isabeau") var drottning Frakklands frá 1385-1422 sem kona Karls 6. Frakkakonungs og lék töluvert hlutverk í stjórn ríkisins á síðari árum hans á konungsstóli, enda var hann þá löngum ófær um að stjórna vegna geðveiki. Foreldrar Ísabellu voru Stefán 3. af Bæjaralandi-Ingolstadt og Taddea Visconti. Föðurafi hennar var Stefán 2. hertogi af Bæjaralandi, sonur Lúðvíks 4. keisara. Ísabella giftist Karli, konungi Frakklands, árið 1385 þegar bæði voru um 15 ára gömul, og fæddi fyrsta barn sitt ári síðar. Síðan eignaðist hún ellefu börn til viðbótar. Fimm dætur náðu fullorðinsaldri og urðu tvær þeirra, Ísabella og Katrín, drottningar Englands. Þrír synir hennar komust á legg en tveir þeirra dóu innan við tvítugt, kvæntir en barnlausir. Karl, sem var fimmti í röðinni af sonum hennar, var sá eini sem lifði. Upp úr 1420 komust á kreik miklar sögur um lauslæti drottningar og framhjáhöld en líklegt er að þeim hafi verið komið á kreik til að varpa vafa á faðerni Karls eftir að faðir hans svipti hann arfi með Troyes-sáttmálanum 1420 og samþykkti að Hinrik 5. Englandskonungur skyldi erfa frönsku krúnuna. Geðveiki Karls 6. kom fyrst fram þegar hann var hálfþrítugur og eftir það fékk hann tíð köst og var þá ekki mönnum sinnandi og þekkti iðulega ekki konu sína og börn. Hann var þá að sjálfsögðu ófær um að stjórna ríkinu og var hart barist um völdin af ættmennum hans. Ísabella drottning lék þar stórt hlutverk, enda þurfti hún að gæta hagsmuna sinna og sona sinna, en enginn þeirra náði að verða fullveðja nema Karl. Hann varð krónprins fjórtán ára að aldri þegar Jóhann bróðir hans dó 1417. Tveimur árum síðar fékk Karl frænda sinn og einn helsta andstæðing konungsfjölskyldunnar, Jóhann óttalausa, hertoga af Búrgund, til að koma til samningaviðræðna en menn krónprinsins réðust að hertoganum og drápu hann. Sonur Jóhanns, Filippus góði, gekk þá í bandalag við Englendinga en fram að því höfðu Búrgundarmenn verið hlutlausir að mestu. Þetta varð til þess að Karl konungur - eða í raun Ísabella drottning - neyddist til að samþykkja Troyes-sáttmálann árið 1420. Konungshjónin voru líka mjög reið við son sinn vegna valdabrölts hans og morðsins á Búrgundarhertoga og hann hafði óhlýðnast foreldrum sínum og neitað að snúa heim til Parísar, heldur leitaði athvarfs í Suður-Frakklandi hjá Jólöndu Navarradrottningu. Karl 6. dó í október 1422. Ísabella drottning var um kyrrt á yfirráðasvæði Englendinga og hafði engin áhrif á frönsk stjórnmál eftir lát manns síns. Hún dó í París 1435. Júdódeild UMFN. Saga félagsins. Júdódeildin byrjaði að starfa um miðjan janúar 2011. Þjálfarar voru þeir Guðmundur Stefán Gunnarsson og Helgi Rafn Guðmundsson. Guðmundur sá um júdó þjálfun en Helgi um þjálfun á brasílísku jiu-jitsu. Á fyrstu önn deildarinnar unnu iðkenndur hennar, sem tiltölulega fljótt voru orðnir 60 talsins, til fjölmargra verðlauna þar á meðal vann Sæþór Berg Sturluson til silfurverðlauna á Íslandsmeistaramóti unglinga (JSÍ). Dannii Minogue. Danielle Jane Minogue, betur þekktur sem Dannii Minogue (fæddur 20. október 1971) er ástralskur söngvari, lagahöfundur, leikkona, sjónvarp persónuleika, fatahönnuður og módel. Hún er yngri systir Kylie Minogue. Dannii Minogue hóf feril sinn sem söngvari í 1990, og náð snemma árangur við lög eins og „Love and Kisses“ og „This is It“. Eftir að gefa út aðra breiðskífur, vinsældir hennar sem söngvari hafði hafnað, leiðir hennar til að einbeita þér að öðrum sviðum á borð við sjónvarp fram. Árið 1997 gerði hún aftur hana sem söngvari með smáskífur „All I Wanna Do“ og síðar að gefa út breiðskífur "Girl". Hennar breiðskífur "Neon Nights" sem kom út í mars 2003 varð vinsælasta á ferli sínum. Tenglar. Minogue, Dannii Minogue, Dannii Karl hertogi af Orléans. Karl af Valois (24. nóvember 1394 – 5. janúar 1465) var hertogi af Orléans frá 1407 til dauðadags og einnig hertogi af Valois, greifi af Beaumont-sur-Oise og Blois og erfði Asti á Ítalíu eftir móður sína. Hann var jafnframt ljóðskáld og orti flest ljóða sinna á meðan hann var fangi eða gísl í Englandi í nær aldarfjórðung. Barátta við Búrgundarhertoga. Karl var sonur Loðvíks 1. hertoga af Orléans, yngri bróður Karls 6. Frakkakonungs, og konu hans Valentinu Visconti, dóttur Gian Galeazzo Visconti, hertoga af Mílanó. Faðir hans var myrtur á götu í París árið 1407 að undirlagi Jóhanns óttalausa, hertoga af Búrgund, en þeir frændurnir tókust á um völdin í Frakklandi þar sem Karl konungur var sjúkur á geði og oft algjörlega ófær um að stjórna. Valentina hertogaynja tók morð manns síns afar nærri sér og lést ári síðar. Á banasænginni lét hún Karl og yngri bræður hans sverja þess eið að hefna föður síns en Jóhann óttalausi hafði ekki verið látinn sæta neinni refsingu þótt hann játaði fúslega að standa á bak við morðið á Loðvík. Karl hafði verið látinn giftast frænku sinni, Ísabellu af Valois, ekkju Ríkharðs 2. Englandskonungs, 29. júní 1406 þegar hann var aðeins ellefu ára en hún sextán. Ísabella ól hinum unga eiginmanni sínum dóttur 13. september 1409 en dó af barnsförum sama dag. Tæpu ári síðar giftist hinn fimmtán ára ekkjumaður annarri konu sinni, Bonne af Armagnac, dóttur Bernharðs 7. greifa af Armagnac, og í tengdaföður sínum fann hann öflugan bandamann gegn Jóhanni hertoga af Búrgund og Filippusi syni hans og það svo að fylgjendur Karls í innanlandsátökunum í Frakklandi voru kallaðir Armaníakar. Gísl í 24 ár. Karl tók þátt í orrustunni við Agincourt 25. október 1415, særðist þar og var tekinn höndum og fluttur til Englands sem gísl. Þar var hann hafður í haldi á ýmsum stöðum næstu 24 árin en var þó aldrei eiginlegur fangi og gat að mestu lifað því lífi sem hann var vanur. Hann hafði þó aldrei kost á að kaupa sig lausan því að Hinrik 5. Englandskonungur hafði mælt svo fyrir að honum mætti ekki sleppa úr haldi; það var vegna þess að Karl var leiðtogi Armaníaka og var í erfðaröðinni að frönsku krúnunni og því talinn of mikilvægur gísl til að hleypa honum aftur heim. Yngri bróðir hans, Jóhann greifi af Angouléme, var þó enn lengur í haldi því hann var handsamaður 1412 og ekki látinn laus fyrr en 1444. Karl orti mikið á þessum árum og hafa yfir fimm hundruð kvæði hans varðveist. Sum þeirra eru einnig til í enskri þýðingu frá sama tíma og er yfirleitt talið að Karl hafi sjálfur þýtt þau, enda er sagt að þegar hann sneri loks aftur hafi hann talað betri ensku en frönsku. Heimkoma. Árið 1440 tókst fyrrum fjandmönnum Karls, Filippusi góða, hertoga af Búrgund, og konu hans Ísabellu af Portúgal, að fá hann leystan úr haldi og voru mikil hátíðahöld í Orléans þegar hertoginn sneri aftur. Bonne eiginkona hans var þá látin fyrir nokkrum árum og höfðu þau ekki átt barn saman. Dóttirin Jóhanna, sem hann hafði eignast með fyrstu konu sinni, var líka látin og hafði ekki átt barn svo að Karl þurfti að eignast erfingja. Skömmu eftir heimkomuna, 27. nóvember 1440, giftist hann Maríu af Cleves, sem var nýorðin 14 ára og því 32 árum yngri en hann. Hún var dóttir Adolfs 1. hertoga af Cleves og Maríu af Búrgund, systur Filippusar góða. Það liðu þó sautján ár þar til þeim varð barna auðið en alls eignuðust þau þrjú börn, tvær dætur og Loðvík, sem óvænt varð konungur Frakklands árið 1498. Faðir hans var 67 ára þegar einkasonurinn fæddist og dó hálfu þriðja ári síðar. Mercury-geimferðaáætlunin. Mercury-geimferðaáætlunin á við um aðra mönnuðu geimferðaáætlunina og fyrstu mönnuðu geimferðaáætlun NASA. Verkefnið tók fjögur ár og markmið þess var að koma manni á sporbaug um jörðina, koma honum heilu og höldnu til baka og rannsaka áhrif þyngarleysis á mannslíkamann. Verkefnið samanstóð af tuttugu ómönnuðum geimferðum auk sex mannaðra. Neuchatel (fylki). Neuchâtel (þýska: Neuenburg) er kantóna í vesturhluta Sviss. Hún er aðallega frönskumælandi. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Neuchâtel. Lega og lýsing. Neuchâtel liggur í Júrafjöllum, vestarlega í Sviss. Kantónan er því hálend. Aðeins austurröndin er láglend, en þar nemur kantónan við Neuchâtelvatn. Fyrir vestan liggur hún að Frakklandi. Aðrar kantónur sem að Neuchâtel liggja eru Bern fyrir norðan, Fribourg fyrir austan og Vaud fyrir sunnan. Langflestir íbúar eru frönskumælandi, en minnihluti þýskumælandi. Íbúar eru um 170 þús og er Neuchâtel því frekar fámenn. Orðsifjar. Neuchâtel merkir "Nýi kastali". Hann dregur nafn sitt af kastala sem Rúdolf III af Búrgúnd reisti eiginkonu sinni Irmengarde árið 1011 í samnefndri borg. Reyndar hét kastalinn í upphafi Novum Castellum, en merkingin er sú sama. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Neuchâtel er líkt ítalska þjóðfánanum, þ.e. þrjár lóðréttar rendur. Græn til vinstri, hvít fyrir miðju og rauð til hægri. Auk þess er hvítur kross efst í rauðu röndinni. Skjaldarmerkið var tekið upp 1848, er kantónan sagði sig úr lögum frá Prússlandi. Græni liturinn merkir sjálfstæði, en hvíti og rauði liturinn var tekinn úr skjaldarmerki borgarinnar. Hvíti krossinn merkir Sviss. 1954 var ráðgert að yfirtaka skjaldarmerki borgarinnar Neuchâtel, en tillagan var felld í atkvæðagreiðslu íbúanna í kantónunni. Söguágrip. Kastalinn í Neuchâtel er þinghús kantónunnar í dag Héraðið var hluti af þýska ríkinu síðan 1032, en var áður hluti af Búrgúnd. Keisararnir veittu héraðinu hinum ýmsum greifum að léni. 1643 varð Neuchâtel að furstadæmi. Það gerði friðarsamning við Bern, en síðar við Sviss. Árið 1707 erfði Friðrik Prússakonungur héraðið Neuchâtel. Þegar Frakkar hertóku Sviss 1798, létu þeir Neuchâtel í friði, enda ríkti friður milli Frakklands og Prússlands þá. Það var ekki fyrr en 1806 að Prússar eftirlétu Napoleon héraðið, sem varð að frönsku leppríki. Franski landstjórinn þar steig hins vegar aldrei fæti í héraðið og því héldust aðstæður þar eins og áður. Við fall Napoleons 1814 varð Neuchâtel prússneskt furstadæmi á ný, en fékk jafnframt inngöngu í Sviss. Þetta var einstakt meðal svissneskra kantóna að tilheyra tveimur ríkjasamböndum. Á Vínarfundinum 1815 var Neuchâtel viðurkennt bæði sem ‚svissnesk kantóna og sem prússneskt furstadæmi.‘ Þetta tvíríkjasamband gat hins vegar ekki staðið til lengdar. 1831 reyndu íbúar kantónunnar að gera uppreisn, en það var ekki víðtækt og var brotið á bak aftur. En á byltingarárinu 1848 var gerð önnur uppreisn. Íbúaher náði að taka helstu vígi prússneska konungsins og lýsa yfir sambandslitum við Prússland. Prússar, sem þá réðu yfir einum besta her Evrópu á þessum tíma, létu málið hins vegar afskiptalaust og sendu aðeins mótmælaskjal. Samin var ný stjórnarskrá í skyndi og kallaði héraðið sig nú "Lýðveldið og kantónan Neuchâtel". 2. september 1856 gerðu konungssinnar hliðhollir Prússlandi gagnbyltingu og hertóku kastalann í Neuchâtel. Þar flögguðu þeir prússneska svart/hvíta fánanum. 4. september söfnuðu lýðveldissinnar saman her og gerðu árás á kastalann. Konungssinnar voru sigraðir og leiðtogum þeirra varpað í fangelsi. Við þetta gat Prússakonungur ekki sætt sig við og heimtaði að öllum uppreisnarmönnum yrðu gefnar upp sakir. Þegar ekki var orðið við þeirri kröfu, hótaði Friðrik Vilhjálmur IV Prússakonungur stríði á hendur Sviss. Svisslendingar sjálfir undirbjuggu sig fyrir stríð og settu herflokka við Rínarfljót í norðri landsins. Napoleon III frá Frakklandi tókst að sætta andstæðar fylkingar í júní ári síðar. Prússar hættu öllu tilkalli til Neuchâtel, en Svisslendingar slepptu öllum byltingarmönnum úr fangelsi. Frekar lítið bar á iðnbyltingunni í Neuchâtel. Kantónan er mikið landbúnaðarhérað. Gemini geimferðaáætlunin. Nafn verkefnisins "Gemini" vísar til stjörnumerkisins Tvíburanna. Þar er vísað til geimfaranna tveggja sem mönnuðu hverja ferð og stjarnanna Kastor og Pollux sem mynda Tvíburana. Ólífræn efnafræði. Ólífræn efnafræði er sú grein efnafræðinnar sem fjallar um ólífræn efnasambönd, það er öll efnasambönd sem innihalda ekki kolefni og nokkur efni til viðbótar eins og koltvísýring. Nafnið. Áður fyrr var talið að ómögulegt væri að mynda lífræn efnasambönd úr ólífrænum. Því var efnafræði skipt í lífræna og ólífræna efnafræði. Árið 1828 tókst Friedrich Wöhler að búa til þvagefni sem finnst í mörgum lífverum úr ólífræna efninu ammóníumsýanati og kollvarpaði þar með fyrri hugmyndum. Skiptingin er samt sem áður rökrétt þar sem bygging og efnahvörf þessara tveggja flokka eru ólík. Ólífræn efnasambönd. Öll efnasambönd sem innihalda ekki kolefni eru ólífræn. Auk þess eru nokkur sambönd kolefnis sem teljast ólífræn. Þar á meðal eru efnasambönd kolefnis sem innihalda ekki vetni, til dæmis koltvísýringur og kolmónoxíð. Auk þess má nefna kolsýru, karbónöt og karbíð. Blásýra telst til beggja flokka. La Chaux-de-Fonds. La Chaux-de-Fonds er stærsta borgin í kantónunni Neuchatel í Sviss með 37 þúsund íbúa. Hún var lengi vel ein helsta úrsmíðaborgin í Sviss og er úrsmíðahverfið þar í borg á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. La Chaux-de-Fonds liggur í Júrafjöllum rétt vestan við frönsku landamærin, mjög vestarlega í Sviss. Borgin liggur í tæplega 1.000 metra hæð og er því með hæstu borgum Evrópu. 85% íbúanna eru frönskumælandi. Sökum skorts á yfirborðsvatni í og við borgina hefur landbúnaður verið lítt stundaður þar. La Chaux-de-Fonds er fyrst og fremst iðnaðarborg. Orðsifjar. Elsta heiti borgarinnar er Chaz de Fonz. Það er dregið af latnesku orðunum "calvus", sem merkir "ófrjósamur", og "fundus", sem merkir "grund". Þar sem ekkert yfirborðsvatn finnst í La Chaux-de-Fonds, er jörðin þar ekki heppileg fyrir landbúnað. Frægustu börn borgarinnar. Bílasmiðurinn Louis Chevrolet er fæddur í La Chaux-de-Fonds Byggingar og kennileiti. Turnklukkan í Grand Temple var smíðuð 1860 og þjónaði lengi vel sem viðmiðunartími fyrir úrsmíðaverksmiðjurnar í borginni. Turninn og klukkan eru á heimsminjaskrá UNESCO. Stjörnumerki. Stjörnumerki er hugtak innan stjörnufræðinnar sem vísar til afmarkaðra svæða á himinhvelfingunni, þá sérstaklega stjörnuhópa. Dæmi um stjörnumerki eru Gaupan, Naðurvaldi eða Veiðihundarnir. Dýrahringurinn er hópur tólf stjörnumerkja, sem eru notuð til að flokka afmælisdaga eftir tímabilum samkvæmt stjörnuspeki. Geir Björklund. Geir Björklund (f. 20. apríl 1969 í Mo i Rana) er norskur læknaritstjóri og blaðamaður. Hann er meðlimur í Heimssamtökum læknaritstjóra (WAME). Björklund er þekktastur sem talsmaður óhefðbundinna lyfja og kvikasilfurslausra tannlækninga. Margar af greinum hans um áhrif efnisins "amalgam" í tannlækningum hafa fengið umfjöllun í norskum dagblöðum. Björklund er stofnandi og fyrrverandi ritstjóri læknatímaritanna "Tenner & Helse" (tímarit tannverndar Noregs) og "Nordisk Tidsskift for Biologisk Medisin". Hann hefur jafnframt verið ráðgjafi fyrir Lýðheilsustofnun Noregs (Statens helsetilsyn). Júra (fylki). Júra er kantóna í Sviss. Hún er yngsta kantónan og var ekki stofnuð fyrr en 1979 sem afsplittun úr kantónunni Bern. Íbúar eru flestir frönskumælandi. Lega og lýsing. Júra er norðvestasta kantónan í Sviss og er 838 km2 að stærð. Hún liggur í Júrafjöllum og afmarkast öll vesturhliðin að Frakklandi. Auk þess eru kantónurnar Basel-Landschaft fyrir norðaustan, Solothurn fyrir austan og Bern fyrir suðaustan. Íbúar eru aðeins 70 þúsund, sem gerir Júra að mjög fámennri kantónu. Höfuðborgin heitir Delémont. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Júra er tvískiptur. Til vinstri er rauður bagall á hvítum grunni. Til hægri eru sjö rauðar og hvítar rendur. Rendurnar standa fyrir héruðin sjö í Júra fyrr á tímum. Þegar Júra var stofnuð sem kantóna 1979, kusu hins vegar aðeins þrjú þessara héraða að stofna kantónuna. Bagallinn er tákn um yfirráð furstabiskupsins í Basel í héraðinu. Söguágrip. Júra tilheyrði lengi vel furstabiskupunum í Basel. Við siðaskiptin á 16. öld tók suðurhluti Júra við reformeruðu kirkjunni, en norðurhlutinn hélst kaþólskur. 1792 hertóku Frakkar Júra og innlimuðu það Frakklandi. Eftir fall Napoleons úrskurðaði Vínarfundurinn 1815 að Júra skyldi tilheyra kantónunni Bern. Þetta skapaði spennu og óróa hjá íbúunum, bæði trúarlega og menningarlega. Íbúar Júra voru að mestu leyti kaþólskir og töluðu frönsku. Íbúar Bernar voru reformeraðir og töluðu þýsku. Órói þessi hélst óbreyttur inn í 20. öldina. Á 7. og 8. áratugnum kom endurtekið til óeirða og uppþota í Júra. 1978 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sköpun nýrrar kantónu, þar sem 71% sögðu já. Innan héraðsins Júra kaus suðurhlutinn hins vegar að vera áfram í Bern, meðan norðurhlutinn vildi aðskilnað. Nýja kantónan var því mynduð af norðurhlutanum eingöngu og fékk heitið Júra. Hún var formlega stofnuð 1. janúar 1979. Á hinn bóginn var mikil óánægja bæði í nýju kantónunni, sem og í suðurhlutanum (Bernar hlutanum) um aðskilnað héraðsins. Síðan 2004 er verkefni í gangi til að sameina báða hlutana á ný í eina nýja kantónu, en enn sem komið er er verkefnið skammt á veg komið. Hrafnhildur Lúthersdóttir. Hrafnhildur Lúthersdóttir (f. 2. ágúst 1991) er íslensk landsliðskona í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hún hefur sett fjölda meta og á meðal annars átján hafnarfjarðarmet, tíu íslandsmet í 25 metra laug og fimm íslandsmet í 50 metra laug Einnig hefur hún unnið til gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum 2011 sem haldnir voru í Liechtenstein. Hún var valin sundkona ársins 2010 af Sundsamband Íslands og íþróttakona Hafnarfjarðar 2010 en árið 2010 setti hún fjölda meta auk þess að hafna í tólfta sæti í bringusundi á heimsmeistaramótinu í sundi í Dubai. Námsferill. Hrafnhildur er stúdent frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og stundar nú nám við Flórídaháskóla á fullum námsstyrk. Orðuveitingar Hinnar íslensku fálkaorðu 1921-1930. Þetta er listi yfir orðuveitingar Hinnar Íslensku Fálkaorðu 1921-1930 Söngvar sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar. "Söngvar sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar" (enska:"The Songs of Innocence and Experience") eru meðal þekktustu verka enska skáldsins William Blake. "Söngvar sakleysisins" var fyrst gefin út árið 1789 en síðan árið 1794 hafa "Ljóð lífsreynslunnar" oftast verið gefin út samhliða. "Söngvar sakleysisins" samanstendur aðallega af ljóðum sem lýsa sakleysinu og ánægjunni af hinum náttúrulega heimi og berst fyrir frjálsri ást og nánari sambandi við Guð. Ljóðin eru flestöll létt, hressandi og hjarðljóð og eru flestöll skrifuð frá sjónarhorni barna eða um börn. Andstæða þessarar bókar er "Ljóð lífsreynslunnar" sem fjallar um að týna/missa sakleysið eftir að hafa kynnst efnislega heiminum og öllum hans dauðlegu syndum í gegnum fullorðinsárin. Þessi ljóð eru myrkari, einblína meira á pólitík og alvarlegri mál. Í gegnum báðar bækurnar falla mörg ljóðin í pör þannig að sameiginlegar aðstæður eða þemu er hægt að finna í bæði "Söngvum sakleysisins" og "Ljóðum lífsreynslunnar". Mörg ljóðanna í "Söngvum sakleysisins" eiga andstæðu í "Ljóðum lífsreynslunnar" með gagnstæð sjónarhorn af heiminum. Talið er að það sé vegna þess að William missti trú á gæsku mannkynsins í lok frönsku byltingarinnar. Þessi rök útskýra örvæntinguna í verkunum. William gaf vísbendingar í gegnum verk sín sem útskýra trú hans um að börn tapa sakleysi sínu vegna arðráns, menntunar og trúar (sem öll setja trúarkenninguna á undan miskuninni?) Hann hélt þó ekki að börn ættu ekki að öðlast þekkingu. Ljóð hans endurspegla trú hans um að hvert barn ætti að vera frjálst að öðlast þekkingu á sínum eigin forsendum án áhrifa frá eldri kynslóðum. Í þessum verkum og fleirum eftir William hefur hann sýnt að hann trúir að sakleysi og lífsreynsla væru „tvær andstæður mennsku sálarinnar -"the two contrary states of the human soul" “ og að sakleysi verður meira en ekki minna með lífsreynslu. Raumaríki. Saga. Raumaríki er fornt heiti og áður en Noregur var sameinaður ríktu þar smákonungar. Íbúar þess kölluðust "Raumar" og er þeirra getið í ýmsum fornum heimildum, svo sem Bjólfskviðu. Talið er líklegt að nafnið megi rekja til þess að neðri hluti árinnar Glommu hét áður Raumur. Raumaríki er eitt frjósamasta svæði Noregs og í skógunum þar voru einnig góðar veiðilendur, svo að héraðið hefur líklega byggst snemma. Snorri Sturluson nefnir í "Heimskringlu" að Sigurður hringur og Ragnar loðbrók sonur hans hafi verið við völd í Raumaríki og Vestfold allt út til Grenmars. Hálfdan svarti, faðir Haraldar hárfagra, lagði Raumaríki undir sig að sögn Snorra, felldi Sigtrygg konung og hrakti Eystein bróður hans úr ríkinu. Eftir dauða Hálfdanar komst Raumaríki undir Eirík Eymundsson Svíakonung en Haraldur hárfagri náði svo völdum þar að nýju og varð það hluti af sameinuðum Noregi. Lunokhod 1. Lunokhod 1 var sovéskur tunglbíll sem lenti á tunglinu þann 17. nóvember 1970 sem hluta af Lunokhod geimferðaáætlun Sovétríkjanna. Tunglbíllinn virkaði í tíu mánuði eftir komuna til tunglsins en þá rofnaði sambandið við hann. Þegar samband við farið rofnaði týndist tunglfarið og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fannst það ekki aftur fyrr en þann 17. mars 2010 þegar það náðist á mynd sem tekin var af Lunar Reconnaissance Orbiter. Þann 22. apríl 2010 voru gerðar mælingar til þess að segja nákvæmlega til um staðsetningu farsins. Lunokhod 1 safnaði yfir fimmhundruð jarðvegssýnum af tunglinu og greindi þau auk þess að taka þúsundir mynda og ferðast um 11,2 kílómetra. Á þaki tunglbílsins er glitauga sem endurkastar leisergeisla. Karen Knútsdóttir. Karen Knútsdóttir (f. 4. febrúar 1990) er íslensk handknattleikskona sem leikur með Blomberg-Lippe í Þýskalandi. Karen lék með Fram alla yngri flokka og varð snemma einn af lykilmönnum meistaraflokks. Hún var í bikarmeistaraliði Fram árin 2010 og 2011. Hún var jafnframt í íslenska landsliðinu sem keppti í úrslitakeppni Evrópumótsins árið 2010 og á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu 2011. Karen var valin Íþróttamaður Fram árið 2010, þegar sá titill var veittur í þriðja sinn. Karen er dóttir Knúts G Haukssonar formanns HSÍ. Uri. Uri er kantóna í Sviss og er 1.077 km2 að stærð. Þar er vagga Sviss, en á Rütlifjalli í Uri sóru íbúar Uri, Schwyz og Nidwalden eiðinn sem leiddi til stofnunar svissneska ríkjasambandsins. Íbúar Uri eru þýskumælandi. Höfuðstaðurinn heitir Altdorf. Lega og lýsing. Uri liggur miðsvæðis í Sviss og samanstendur mestmegnis af einum fjalladal í Alpafjöllum, sem gengur til suðurs, og fjöllunum þar í kring. Syðst er Gotthardskarðið (og göngin) yfir til kantónunnar Ticino. Fyrir norðan takmarkast Uri af stöðuvatninu Vierwaldstättersee. Aðrar kantónur sem liggja að Uri eru Schwyz fyrir norðan, Glarus fyrir norðaustan, Graubünden fyrir austan, Ticino og Valais fyrir sunnan, Bern fyrir suðvestan og Obwalden og Nidwalden fyrir vestan. Íbúar Uri eru einungis 35 þúsund talsins. Flestir búa í Altdorf, sem einnig er höfuðborg kantónunnar. Uri er þar með þriðja fámennasta kantónan í Sviss á eftir Appenzell Innerrhoden og Obwalden. Skjaldarmerki og orðsifjar. Skjaldarmerki Uri sýnir svart nautshöfuð með rauða tungu og nefhring á gulum grunni. Fyrstu íbúar héraðsins nefndu það Ur. Það er heiti á fornri nautstegund (úri) sem lifði í Mið-Evrópu á þessum tíma. Nafn þetta hefur haldist allar götur síðan. Árið 1243 kom merkið með nautshöfðinu fyrst fram en nefhringurinn kom ekki fram fyrr en síðar. Altdorf (Uri). Altdorf er höfuðstaður kantónunnar Uri í Sviss. Þar átti sögnin um Vilhjálm Tell að hafa gerst síðla á 13. öld. Í Altdorf búa aðeins 8.500 manns. Lega og lýsing. Altdorf liggur mjög norðarlega í kantónunni, rétt sunnan við Vierwaldstättersee, þar sem áin Reuss rennur í vatnið. Íbúar eru aðeins 8.700 talsins. Flestir eru þýskumælandi (88%) og tilheyra kaþólsku kirkjunni (78%). Söguágrip. Sagan segir að í Altdorf hafi sögnin um Vilhjálm Tell átt sér stað. Hinn illi fógeti Gessler, sem var á mála hjá Habsborgurum, hafi verið svo hortugur og hrokafullur að mönnum stóð stuggur af honum. Gessler datt einu sinni í hug að hengja hatt sinn á staur og skipaði öllum að heilsa hattinum er þeir gengu framhjá. Tell neitaði að leggjast svo lágt og gekk framhjá hattinum án þess að virða hann viðlits. Þá lét Gessler handtaka Tell. En sökum þess að Gessler vissi um skotfimi Tells, gaf hann honum tækifæri á því að vinna inn frelsi sitt með því að skjóta epli af höfði syni sínum. Tell tók boðinu og tókst að hitta eplið án þess að sonurinn biði skaða af. Fyrir vikið hlaut hann frelsi sitt. En aðeins einhverjum dögum síðar gerði Tell hinum illa fógeta fyrirsát og skaut hann til bana með lásboga sínum. Þessir atburðir áttu að hafa gerst 1290 eða 1291. Eftirmálinn var sá að fulltrúar héraðanna Uri, Schwyz og Unterwalden hittust leynilega á Rütlifjalli þar skammt frá og sóru eið gegn yfirráðum Habsboggara. Þessi eiður markar upphaf Sviss. Árin 1400, 1693 og 1799 urðu miklir brunar í Altdorf, sem eyddu stórum hluta bæjarins. Árið 1895 var reist mikil bronsstytta af Vilhjálmi Tell og syni hans á ráðhústorginu, þar sem eplaskotið átti sér stað. Árið 1899 var leikhúsið Tellspielhaus stofnað í miðbænum en þar er leikritið Wilhelm Tell eftir Friedrich Schiller sýnt. Jólanda af Dreux. Jólanda af Dreux, Skotadrottning og hertogaynja af Bretagne. Jólanda af Dreux (1263 – 2. ágúst 1330) var frönsk aðalskona sem var drottning Skotlands 1286-1287 sem eiginkona Alexanders 3. Skotakonungs og síðan hertogaynja af Bretagne. Jólanda var af Kapet-ætt, dóttir Róberts 4. greifa af Dreux, sem var afkomandi Loðvíks 6. Frakkakonungs, og konu hans Beatrice af Montfort og erfði hún greifadæmið Montfort eftir móður sína. Þann 15. október 1285 giftist Jólanda Alexander 3. Skotakonungi, sem var 22 árum eldri. Hann var þá ekkjumaður, hafði misst öll þrjú börn sín á árunum 1281-1284 og átti aðeins eftir barnunga dótturdóttur, Margréti Noregsprinsessu, svo að honum lá á að eignast erfingja. En aðeins fimm mánuðum síðar, í mars 1286, lést konungur eftir að hafa fallið af hestbaki. Talið var að Jólanda væri þunguð og voru kosnir fulltrúar til að stýra ríkinu fyrir væntanlegan ríkisarfa en annaðhvort fæddist aldrei neitt barn eða Jólanda missti fóstur eða fæddi andvana barn, um það ber heimildum ekki saman. Jólanda giftist aftur árið 1292, Arthúr 2. hertoga af Bretagne, og átti með honum að minnsta kosti sex börn. Hún var seinni kona Arthúrs og stjúpsonur hennar, Jóhann 3. af Bretagne, var afar ósáttur við stjúpmóður sína og hálfsystkini og eftir dauða Arthúrs reyndi hann mikið til að fá hjónabandið úrskurðað ógilt og hálfsystkini sín óskilgetin en varð ekki ágengt. Elsti sonur Arthúrs og Jólöndu hét einnig Jóhann og varð greifi af Montfort við lát móður sinnar. Þegar Jóhann 3. dó barnlaus árið 1341 gerði Jóhann hálfbróðir hans tilkall til erfða sem Jóhann 4. og það gerði einnig Karl af Blois, eiginmaður Jóhönnu höltu, bróðurdóttur Jóhanns 3. Upphófst þá Bretónska erfðastríðið, sem ekki lauk fyrr en 1364, þegar Karl féll í orrustunni við Auray og Jóhann 5., sonur Jóhanns af Montfort, varð hertogi af Bretagne. Schwyz. Schwyz er kantóna í Sviss og er ein af stofnkantónum landsins. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Schwyz. Kantónan er nafngefandi fyrir sambandsríkið Sviss. Lega og lýsing. Schwyz liggur nokkuð miðsvæðis í Sviss, við norðurjaðar Alpafjalla. Hún takmarkast að norðan við Zürichvatn og að vestan við Vierwaldstättersee. Aðrar kantónur sem að Schwyz liggja eru St. Gallen fyrir norðaustan, Glarus fyrir austan, Uri fyrir sunnan, Luzern og Zug fyrir vestan og Zürich fyrir norðvestan. Mikið af stórum stöðuvötnum er í kantónunni. Íbúar eru 141 þúsund og eru þeir þýskumælandi. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Schwyz er alrauður með litlum, hvítum krossi efst í hægra horninu. Upphaflega var merkið aðeins alrautt og merkir blóð. Hvíti krossinn birtist fyrst 1470 og var léður af páfanum. Ríkisfáni Sviss var tekinn upp eftir merki Schwyz mjög snemma eftir stofnun Sviss árið 1291. Orðsifjar. Ekki er vitað hvaðan heitið Schwyz er komið en víst þykir að það er ekki úr alemönnsku eða latínu. Sagan segir að fyrir daga Rómverja hafi þjóðflokkur að norðan sest þar að. Tveir bræður, Suit og Scheijo, háðu einvígi um það hvor þeirra mætti veita staðnum nafn. Þar drap Suit bróður sinn Scheijo. Ekki er ólíklegt að úr Suit varð Schwyz. Heitið kemur fyrst við skjöl árið 970. Hins vegar var heitið Schwyz snemma notað fyrir landið Sviss í heild, þar sem Schwyz var ein stofnkantóna landsins og herir kantónunnar þóttu afbragðsgóðir. 1386, eftir sigur Svisslendinga í orrustunni við Sempach, var byrjað að notast við heitið Schwyz fyrir allt landið. Vilmundur Þórólfsson. Vilmundur Þórólfsson (d. 1148) var fyrsti ábóti í Þingeyraklaustri, elsta reglulega munkaklaustri Íslands. Hann var sonur Þórólfs Sigmundarsonar bónda á Möðrufelli í Eyjafirði, og konu hans Steinunnar Þorsteinsdóttur, en faðir hennar var Þorsteinn ranglátur Einarsson, bóndi á Grund í Eyjafirði. Vilmundur ólst upp á Hólum í Hjaltadal hjá Jóni Ögmundssyni biskupi og lærði í skóla þeim sem Jón setti upp á Hólum. Hann varð ábóti í Þingeyraklaustri þegar það var sett á stofn árið 1133 og gengdi því starfi til dauðadags. Hann byggði því upp klaustrið á fyrstu starfsárum þess og tókst að auðga það töluvert og efla. Hann var fræðimaður og var Þingeyraklaustur frá upphafi skipað fræðimönnum og bókamönnum. Ásgrímur Vestliðason. Ásgrímur Vestliðason (d. 1161) var ábóti á Þingeyrum, líklega annar í röðinni og hefur tekið við þegar Vilmundur Þórólfsson lést 1148. Ásgríms er þó ekki getið sem ábóta fyrr en þegar greint er frá láti hans og sumar heimildir telja að á milli þeirra Vilmundar hafi verið ábóti að nafni Nikulás Sæmundsson sem á að hafa dáið 1159. Líklega er þó um einhvern rugling að ræða; Nikulás Bergþórsson ábóti á Munkaþverá dó einmitt 1159. Ásgrímur var fræðimaður eins og margir Þingeyramunkar og er hann talinn einn þeirra sem munkarnir Oddur Snorrason og Gunnlaugur Leifsson rituðu eftir sögu Ólafs konungs Tryggvasonar. Ekkert er vitað um ætt hans eða uppruna. Arftaki hans var Hreinn Styrmisson. Hreinn Styrmisson. Hreinn Styrmisson (d. 1171) var íslenskur prestur og síðar ábóti í Þingeyraklaustri, að öllum líkindum hinn þriðji í röðinni, og tók sennilega við þegar Ásgrímur Vestliðason dó 1161. Hreinn var þó ekki vígður fyrr en 1166 en hefur að líkindum verið starfandi ábóti fram að því. Hreinn var af Gilsbakkaætt, sonur Styrmis Hreinssonar goðorðsmanns á Gilsbakka, og hefur Gunnlaugur ormstunga því verið langafabróðir hans. Móðir hans var Guðrún Snorradóttir Halldórssonar Snorrasonar goða. Hreinn ólst upp á Hólum hjá Jóni Ögmundssyni biskupi og hlaut menntun í skóla hans; Gunnlaugur Leifsson munkur getur hans sem eins af þeim lærisveina Jóns sem hann hafi séð með eigin augum. Hreinn fór þó ekki beint í klaustur, heldur tók prestvígslu og kvæntist, eins og prestum var þá heimilt, og var kona hans Hallbera, dóttir Hrafns Úlfhéðinssonar lögsögumanns og systir Halls Hrafnssonar ábóta á Munkaþverá. Dætur þeirra voru Valdís, kona Magnúar Þorlákssonar á Melum og langamma Snorra Markússonar lögmanns, og Þorbjörg, frilla Gissurar Hallssonar, en þau voru of skyld til að mega giftast. Hreinn gekk í Þingeyraklaustur eftir að kona hans lést og varð ábóti þar. Karl Jónsson varð ábóti 1169 og hefur Hreinn því sagt af sér nokkru áður en hann lést. Kári Runólfsson. Kári Runólfsson (d. 1187) var ábóti í Þingeyraklaustri á 12. öld. Hann var sonur Runólfs Ketilssonar skálds og prests á Möðruvöllum í Eyjafirði og síðar munks í Helgafellsklaustri, og sonarsonur Ketils Þorsteinssonar Hólabiskups. Systursonur Kára var Ketill Hermundarson ábóti í Helgafellsklaustri. Kári varð ábóti á Þingeyrum 1181 og tók við af Karli Jónssyni, sem dvaldi þó áfram í klaustrinu en fór til Noregs nokkru síðar. Kári dó 1187. Þá hafði Karl snúið aftur heim og mun hafa tekið við ábótastarfinu að nýju. Englafossar. Englafossar (Englafoss eða Angelfossinn) (spænska: "Salto Ángel"; pekemon: "Kerepakupai vena", sem þýðir „foss dýpsta hylsins“, eða "Parakupa-vena", sem þýðir „fall frá hæsta punkti“) er foss í Venesúela og er hæsti foss í heimi, 979 metrar hár. Fossinn fellur niður af Auyantepui, sem þýðir Djöflafjall og er í La Gran Sabana. Djöflafjall rís upp úr frumskógunum mílli Amazon og Orinoco. Fossinn heitir eftir flugmanninum Jimmie Angel sem flaug fyrstur manna yfir fossinn. Bern (kantóna). Bern er næststærsta kantónan í Sviss með 5.959 km2. Aðeins Graubünden er stærri. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Bern en hún er jafnframt höfuðborg Sviss. Lega og lýsing. Bern er vestarlega í Sviss og er sú kantóna sem á sér flestar nágrannakantónur. Fyrir norðan er Solothurn, fyrir austan eru Luzern, Obwalden, Nidwalden og Uri, fyrir sunnan er Valais, fyrir suðvestan er Vaud, fyrir vestan eru Fribourg og Neuchatel og fyrir norðvestan er Júra. Alls eru þetta tíu nágrannakantónur. Mikil fjallasvæði tilheyra Bern og má þar nefna Berner Oberland. Þar eru tindar eins og Jungfrau, Eiger og margir fleiri. Bern er eina kantónan sem liggur bæði í Alpafjöllum og Júrafjöllum. Íbúar eru 974 þúsund en þar með er Bern næstfjölmennasta kantóna Sviss á eftir Zürich. Íbúarnir eru þýskumælandi. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki kantónunnar er svartur björn með rauðar klær, reður og tungu á gulum fleti en rauður litur er umfram það. Svartur litur bjarnarins táknar varnargeta, guli liturinn hið eðalborna blóð og rauði liturinn blóð feðranna. Björninn sjálfur er táknrænn fyrir heiti kantónunnar. Merki þetta kom fyrst fram 1224 og er notað óbreytt bæði af kantónunni Bern og borginni Bern. Orðsifjar. Kantónan heitir eftir borginni Bern. Bern merkir björn. Sagan segir að stofnandi borgarinnar hafi drepið björn á staðnum þar sem hann byggði borgina. En líklegra þykir að hann hafi nefnt borgina eftir ítölsku borginni Veróna, sem hét Bern á þýsku, eða Wälschbern. Söguágrip. Eftir brotthvarf Rómverja fluttu alemannar og búrgúndar inn á svæðið. 888 varð héraðið Bern hluti af Búrgúnd. 1032 varð héraðið eign þýska ríkisins. 1191 var borgin Bern stofnuð. 1323 keypti Bern bæinn Thun og svæðið í kring. Bern gerir samning við svissneska sambandið í fyrsta sinn. 1331-39 átti Bern í stríði við héraðið Fribourg. 1353 breytti Bern samning sinn við svissneska sambandið, þannig að hann varð varanlegur. Bern verður kantóna í Sviss, sú langstærsta á þeim tíma. 1528 urðu siðaskiptin í Bern. 1536 hertók Bern svæðið Vaud og varð að stærsta borgríki Evrópu norðan Alpa. 1798 réðust Frakkar inn í kantónuna Bern og sigruðu heimamenn í orrustunni við Neuenegg. Frakkar hertaka Bern og splitta Vaud og Aargau burt. 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að Vaud og Aargau skyldu ekki sameinast Bern á ný, en fyrir vikið fékk Bern héraðið Júra, íbúunum þar til mikillar gremju. 1846 fékk Bern nýja stjórnarskrá með auknu lýðræði. 1848 varð Bern höfuðborg Sviss. 1979 splittaði sig Júra frá Bern og varð að eigin kantónu. Marine Le Pen. Marine Le Pen (fædd 5. ágúst 1968 í Neuilly-sur-Seine) er franskur stjórnmálamaður. Hún er yngsta dóttir Jean-Marie Le Pen. Hún er lögfræðingur og tók við af föður sínum sem forseti National Front þann 16. janúar 2011. Hún er þingmaður Evrópuþingsins frá árinu 2004. Tenglar. Le Pen, Marine Þórarinn Sveinsson (ábóti). Þórarinn Sveinsson (d. 1253) var ábóti í Þingeyraklaustri í nærri hálfa öld á 13. öld. Hann tók við þegar Karl Jónsson lét af embætti í annað sinn árið 1207 og gegndi embættinu til dauðadags, sem yfirleitt er talinn hafa verið sumarið 1253 en stundum þó 1255, eða í 46-48 ár. Hann hefur því verið fremur ungur þegar hann tók við embætti. Ekkert er vitað um uppruna hans. Þótt Þórarinn væri svona lengi ábóti fer litlum sögum af embættisferli hans og hann kemur lítið við heimildir, að minnsta kosti þær sem varðveist hafa. Ef til vill hafa munkarnir í Þingeyraklaustri lítið skipt sér af veraldlegu vafstri um hans daga þótt þá væri mikil ófriðaröld á Norðurlandi, en einbeitt sér að fræðimennsku og sagnaritun auk bænahalds, að minnsta kosti voru ýmsir fræðimenn í klaustrinu, svo sem Styrmir fróði Kárason. Þegar Þórarinn dó hafði Vermundur Halldórsson prestur fjárforráð á Þingeyrum og varð hann svo næsti ábóti klaustursins. Vermundur Halldórsson. Vermundur Halldórsson (d. 1279) var ábóti í Þingeyraklaustri á 13. öld. Hann tók við eftir lát Þórarins Sveinssonar ábóta en hafði áður haft fjárforráð klaustursins, enda hefur Þórarinn ábóti verið orðinn aldraður. Ætt Vermundar er óþekkt. Vermundur var prestur áður en hann varð ábóti. Hann er sagður hafa verið friðsemdarmaður og bar sáttaorð á milli Þórðar kakala og Brands Kolbeinssonar fyrir Haugsnesbardaga, þótt hann hefði ekki erindi sem erfiði. Hann hélt skóla á Þingeyrum. Í ábótatíð Vermundar tók Jörundur Þorsteinsson Hólabiskup af klaustrinu hluta af tekjum þess, svonefndar biskupstíundir, fyrir vestan Vatnsdalsá, en lét klaustrið hafa jörðina Hjaltabakka í staðinn. Út af þessu urðu síðar mikil málaferli. Bjarni Ingimundarson. Bjarni Ingimundarson (d. 1299) var ábóti í Þingeyraklaustri frá 1280 til dauðadags. Hann tók við af Vermundi Halldórssyni, sem dó 1279. Hann er sagður hafa verið guðrækinn maður og hreinlífur og er sagt að Lárentíus Kálfsson hafi séð á honum heilags manns yfirbragð. Annars er fátt um hann vitað og ætt hans er ekki þekkt. Bjarni dó 1299 og ábótinn sem þá tók við hét Höskuldur. Höskuldur (ábóti). Höskuldur, föðurnafn óþekkt (d. 1309) var ábóti í Þingeyraklaustri frá 1300 til dauðadags, arftaki Bjarna Ingimundarsonar ábóta sem lést 1299. Fátt er um Höskuld vitað og ætt hans er með öllu óþekkt, nema hvað Guðmundur, sem tók við ábótastöðunni að honum látnum, er sagur hafa verið systursonur hans. Höskuldur ábóti dó vorið 1309, sem kallað hefur verið manndauðavorið, en þá gekk drepsótt um Norðurland að sögn annála. Gangsetningarbúnaður. Gangsetningarbúnaður er vélknúið tæki til að hreyfa eða stýra virkni eða kerfi. Hann er knúinn af orku sem vanalega kemur frá rafstraumi, vökvaþrýstingi eða loftþrýstingi og breytir orku í eitthvað form hreyfingar. Hann getur verið skrúfa eða hjól og öxull. Kolatímabilið. Kolatímabilið er eitt tímabil fornlífsaldar. Því lauk fyrir 290 milljón árum. Miklir fenjaskógar uxu þá á jörðinni sem svo urðu svo að kolalögum. Mjög þykk kolalög hafa fundist frá kolatímabilinu, sérstaklega á austurströnd Bandaríkjanna. Kolatímabilinu er yfirleitt skipt í tvö tímabil: mississippíum og pennsylvaníum. Í upphafi kolatímabilsins voru Evrameríka og Gondvana að renna saman og í lok tímabilsins varð Pangea til. Á fyrri hluta kolatímabilsins var meðalhiti jarðar um 22 gráður og loftslag líktist hitabeltisloftslagi. Steingervingar trjáa frá fyrri hluta kolatímabilsins eru ekki með árhringi og það er talið að litlar árstíðasveiflur hafi verið og stöðugur meðalhiti. Jafnatré þrifust vel í heitu og röku loftslaginu. Jafnar voru mjög áberandi á fyrri hluta kolatímabilsins. Burknar og burknaplöntur voru einnig mjög áberandi sérstaklega á seinni hluta tímabilsins. Einnig voru elftingar áberandi. Á seinni hluta tímabilsins kom fram berfrævingur sem líklega er forfaðir barrtrjáa. Á seinni hluta tímabilsins lækkaði hitastig, jöklar mynduðust og yfirborð sjávar lækkaði, CO2-magn lækkaði gríðarlega og hiti lækkaði úr 22 í 12 gráður. Þetta varð til þess að árið fékk árstíðir og tré fengu árhringi. Skriðuklaustur (klaustur). Fornleifauppgröftur á Skriðuklaustri. Séð yfir klausturrústirnar. Skriðuklaustur var munkaklaustur af Ágústínusarreglu sem starfaði frá 1493 til 1552 og var það síðasta klaustrið sem stofnað var á Íslandi í kaþólskum sið. Talið er að Stefán Jónsson Skálholtsbiskup hafi stofnað klaustrið þegar hann var á ferð um Austurland 1493. Hjónin Hallsteinn Þorsteinsson og Sesselja Þorsteinsdóttir á Víðivöllum í Fljótsdal gáfu klaustrinu jörðina Skriðu í Fljótsdal, þar sem það var síðan starfrækt. Gjafabréfið er undirritað árið 1500 en víst er að klaustrið hafði þá starfað um hríð. Fyrsti príorinn, Narfi Jónsson, var vígður árið 1496 en ári síðar var aðeins einn munkur í klaustrinu. Raunar er talið að munkarnir hafi aldrei orðið fleiri en sex talsins. Við siðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi 1542 voru fjórir munkar í klaustrinu auk príorsins. Konungur gaf út bréf um að haldinn skyldi lestrarskóli í klaustrinu en það bréf var síðan tekið aftur og árið 1552 runnu eignir klaustursins til Danakonungs en klaustrið átti þá um 40 jarðir víða um Austurland. Árni Pálsson. Árni Pálsson (f. 4. janúar 1897, d. 4. október 1970) var íslenskur verkfræðingur. Ævi og störf. Árni fæddist á Geirseyri við Patreksfjörð, sonur Páls Einarssonar hæstaréttardómara og fyrsta borgarstjóra Reykjavíkur. Hann lauk verkfræðiprófi í Kaupmannahöfn 1924 og starfaði sem verkfræðingur hjá Vegagerð ríkisins frá 1927 til 1967, þar af sem yfirverkfræðingur brúargerðar frá 1946. Sem slíkur kom Árni að gerð flestra stórframkvæmda í vegagerð á tímabilinu. Hann sinnti einnig annars konar verkfræðilegum viðfangsefum, s.s. vatnsveitugerð, byggingu síldarverksmiðja og var aðalhönnuður Andakílsárvirkjunar ásamt Jakobi Guðjohnsen. Árni var alla tíð mikill áhugamaður um íslensk fræði og átti fágætt safn bóka og handrita, sem síðar hafa ratað á íslensk söfn. Biel/Bienne. Biel/Bienne (þýska: Biel, franska: Bienne) er svissnesk borg í kantónunni Bern. Hún er stærsta tvítyngda borgin í Sviss. Íbúar eru 50 þúsund. Lega. Biel liggur við norðurenda Bielersee, við rætur Júrafjalla, vestarlega í Sviss. Næstu borgir eru Neuchatel til suðvesturs (25 km), Bern til suðausturs (35 km), Basel til norðurs (90 km) og Lausanne til suðurs (100 km). Frönsku landamærin eru steinsnar til vesturs. Orðsifjar. Borgin er nefnd eftir rómversk/keltnesk goðinu Belenus. Elsta heiti sem varðveist hefur er "„apud belnam“" frá 1142. Biel gæti hins vegar einnig staðið fyrir germanska orðinu "Beil", sem merkir "öxi". Það var því tekið upp sem skjaldarmerki borgarinnar. Á þýsku heitir borgin Biel, á frönsku Bienne. Síðan 2005 er formlegur ritháttur borgarinnar Biel/Bienne. Tungumál. Biel er tvítyngd borg. Af íbúum tala 55% þýsku og 28% frönsku. Afgangurinn eru útlendingar. Bæði tungumálin eru opinber tungumál borgarinnar og eru jafnrétthá. Þó er ekki þar með sagt að allir íbúar séu tvítyngdir. Hins vegar eru allar götumerkingar á báðum tungumálum, öll gögn frá borgarskrifstofum og dómshúsum eru á báðum málum, sem og merkingar fyrir almenningssamgöngur. Í kvikmyndahúsum eru bíómyndir ávallt sýndar með upprunalega máli myndarinnar, en fyrir neðan er texti bæði á þýsku og frönsku. Stórmyndir eru hins vegar oft með aukasýningar sýndar með öðrum hvorum texta fyrir hverja sýningu. Þetta gefur borginni sérstakan sjarma, ekki síst þegar samtöl á götum úti eru þannig að ein manneskja tala frönsku og hin svarar á þýsku, og báðir skilja. Söguágrip. Fornleifafræðingar hafa fundið merki um byggð á staðnum frá tímum Rómverja en lítið er vitað um hana. Biel/Bienne myndaðist ekki sem borg fyrr en á 13. öld, hún hlaut borgarréttindi 1275. Biskuparnir í Basel voru með sterk ítök þar. Snemma gerði borgin þó bandalag við aðrar nálægar borgir, svo sem Solothurn, Bern og Fribourg. Brátt hurfu áhrif biskupanna en tengslin við Bern urðu sterkari. Bern gekk í svissneska sambandið þegar árið 1353 en Biel/Bienne hikaði þó enn. Hún gekk ekki í svissneska sambandið fyrr en 1478. Árið 1528 gengu siðaskiptin í garð í borginni. Árið 1798 hertóku Frakkar borgina og innlimuðu hana Frakklandi. Eftir fall Napoleons 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að borgin skyldi tilheyra kantónunni Bern. Í upphafi 20. aldar stækkaði Biel/Bienne verulega við samruna við nokkra bæi. Árið 1964 náði íbúafjöldi borgarinnar hámarki með 64 þúsund en hefur dalað síðan. Við undirbúning stofnunar kantónunnar Júra 1979 var Biel/Bienne boðið að verða höfuðborg nýju kantónunnar en boðinu var hafnað, enda kusu íbúarnir áframhaldandi veru í kantónunni Bern. Á síðustu árum er verkefni í gangi að stækka Júra, þannig að Biel/Bienne myndi verða hluti af henni, en verkefnið er enn sem komið er skammt á veg komið. Íþróttir. Einn af mörgum brunnum borgarinnar Langvinsælasta íþróttagrein borgarinnar er íshokkí. Félagið EHC Biel er þrefaldur svissneskur meistari. Í Biel/Bienne fer fram elsta 100 km hlaup heims, en það hóf göngu sína 1958. Hlaup fer árlega fram í júní og eru þátttakendur nokkur þúsund hvaðanæva að úr heiminum. Byggingar og kennileiti. Biel var að hluta reist á vatni, þ.e. nyrsta hluta Bielersee. Fyrr á öldum voru síki og skurðir um alla borgina en nú er búið að loka þeim flestum. Þó eru enn mörg húsanna á stultum neðanjarðar, enda flýtur enn mikið vatn undir borginni. 72 brunnar eru í borginni, þeir elstu í miðborginni. Íbúar urðu að sækja sér vatn úr þessum brunnum allt fram á 20. öld. Tvær stórar kirkjur eru í borginni. Stadtkirche þjónar þýskumælandi fólki en Église Pasquart þeim frönskumælandi. Permtímabilið. "Edaphosaurus pogonias" og "Platyhystrix" - Snemma á perm Permtímabilið er síðasta skeið fornlífsaldar. Á permtímabilinu urðu skriðdýr ráðandi á þurrlendi en þríbrotar dóu út og froskdýrategundum fækkaði. Perm er á eftir kolatímabilinu og nær frá 299,0 ± 0,8 til 251,0 ± 0,4 milljónum ára. Það er lengsta tímabil fornlífsaldar og er þekkt fyrir aldauðann í lok perm sem er stærsti þekkti aldauðinn. Atacama Large Millimeter Array. Atacama Large Millimeter/submillimeter Array eða ALMA er alþjóðlegt samstarfsverkefni Evrópu (ESO), Norður Ameríku, austur Asíu og Chile um smíði stærsta stjörnusjónauka heims. ALMA er víxlmælir, röð 66 12 metra og 7 metra útvarpssjónauka sem mæla millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir (0,3 til 9,6 mm). Stjörnustöðin er í smíðum í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor sléttunni í Atacamaeyðimörkinni í norður Chile. Hún er því hæsta stjörnustöð heims. ALMA er ætlað að rannsaka myndun stjarna snemma í sögu alheimsins og ljósmynda myndunarsvæði stjarna og reikistjarna í Vetrarbrautinni okkar. Kostnaður við verkefnið nemur meira en 1 milljarði bandaríkjadala. Fyrstu mælingar með ALMA hófust síðla árs 2011 en sjónaukinn verður tekinn í fulla notkun árið 2013. Aldauðinn í lok Perm. Aldauðinn í lok Perm er útdauði fjölmargra tegunda sem átti sér stað í enda Permtímabilsins en talið er aldauðinn hafi orðið á nokkrum milljónum ára. Margar tilgátur eru um af hverju aldauðinn hafi stafað og má þar nefna lækkun sjávarmáls, uppþornun grunnra hafsvæða, hnattræna hlýnun, aukningu á koltvíoxíði í andrúmslofti, hlýnun vegna gróðuhúsaáhrifa, hækkun á meðalhita og lækkun súrefnismagns í andrúmslofti og breytingar á súrefnismagni í sjó. Einnig urður mikil eldgos urðu í lok Perm í svæði sem nú er Síbería og merki eru um að loftsteinn hafið rekist á jörðina. Ein tilgáta er að árekstur stórra loftsteina á jörðina valdi miklu eldgosi hinu megin á hnettinum. Pólhéri. Pólhéri (fræðiheiti: "Lepus arcticus") er hérategund sem lifir á heimskauta- og fjallasvæðum. Pólhéri var áður talinn ein deilitegund snæhéra en er núna talinn sérstök tegund. Pólhérinn hefur þykkan feld og grefur holur í jörð til að sofa í og halda á sér hita. Hann líkist kanínu en hefur lengri eyru og stendur uppréttari og getur komist af í kaldari svæðum en kanínur. Þeir er oftast einir á ferð og geta hlaupið allt að 40 mílur á klukkustund. Aðal afræningi þeirra er heimskautarefur. Pólhérar eru dreifðir á túndrusvæðum Grænlands og norðurhluta Kanada og Alaska. Vetrarbúningur hérans er hvítur eins og rjúpunnar. Á sumrin verður búkur og höfuð hérans grábrún en fætur halda áfram að vera hvítir. Pólhéri er vanalega 55 - 70 sm langur og vegur 4 - 4,5 kg. Hann lifir á runnum og trjávið en étur einnig lauka, ber, lauf og gras. Hérinn hefur mjög gott lyktarskyn og grefur upp víðitágar úr snjónum. Snemma sumars éta pólhérar vetrarblóm. Guðmundur (ábóti á Þingeyrum). Guðmundur ábóti (d. 1339) var íslenskur munkur sem var ábóti í Þingeyraklaustri frá því að hann var vígður 1310 þar til hann lagði niður embætti árið 1338. Hann var bæði fræðimaður og fjáraflamaður fyrir klaustrið og kemur víða við heimildir. Þó er ætt hans ekki þekkt og ekki einu sinni föðurnafn hans en hann er sagður hafa verið systursonur Höskuldar, sem var ábóti á undan honum. Guðmundur lagði kapp á að mennta sjálfan sig og munka sína og fékk meðal annars mikinn fræðimann, Lárentíus Kálfsson prest og síðar biskup, til að kenna við klaustrið. Árið 1316 vígði Guðmundur ábóti svo Lárentíus til munklífis við klaustrið og með honum tvo aðra fræðimenn, Árna son Lárentíusar, sem sagður var ritari mikill og klerkur góður en gerðist drykkjumaður, og Berg Sokkason, sem seinna varð ábóti á Munkaþverá. Á meðal lærisveina Lárentíusar í klaustrinu var Egill Eyjólfsson, síðar Hólabiskup. Séra Hafliði Steinsson, áður prestur á Breiðabólstað, var próventumaður í klaustrinu og ráðsmaður um tíma. Sonur hans, Einar sagnaritari, skrifaði "Lárentíusar sögu biskups". Guðmundur ábóti deildi við Auðun rauða Hólabiskup vegna fjármála Þingeyraklausturs en forveri Auðunar, Jörundur biskup, hafði tekið hluta biskupstíunda af klaustrinu en látið það hafa jörðina Hjaltabakka í staðinn. Auðunn tók jörðina aftur af klaustrinu en lét ekkert í staðinn. Þetta og fleira sætti Guðmundur sig ekki við og fór Guðmundur til Noregs 1318 til að vinna málstað klaustursins fylgi erkibiskups og var þar í tvo vetur. Á meðan var Björn Þorsteinsson príor á Þingeyrum. Samkvæmt því sem Jón Espólín segir í Árbókum sínum fór Auðun rauði vestur til Þingeyra haustið 1318 en var ekki hleypt inn og söfnuðu munkarnir liði til að verja klaustrið ef á þyrfti að halda. Ekki kom þó til þess og biskup hélt til Noregs og dó þar 1322 en Lárentíus Kálfsson varð Hólabiskup og var vígður 1324. Ekki lauk þó málarekstrinum við það og náðust ekki sættir fyrr en 1329. Guðmundur gaf frá sér ábótadæmið 1338 og gerðist þá munkur í Munkaþverárklaustri. Þar dó hann ári síðar og var lík hans flutt til Þingeyra og jarðsett þar. „Urðu margir merkiligir atburðir í líkfylgju hans, ok hyggja menn hann góðan mann fyrir guði. Lét hann upp smíða framkirkju á Þingeyrum, ok fekk hann til skrúða, bækr ok klukkur ok kenndi mörgum klerkum þeim, sem síðar urðu prestar, ok var inn mesti nytsemdarmaðr,“ segir í annálum. Ábótalaust virðist hafa verið í klaustrinu 1338-1340 en þá tók Björn Þorsteinsson, sem áður hafði leyst Guðmund af, við embættinu. Hann hafði verið ábóti á Munkaþverá frá 1334. Björn Þorsteinsson (ábóti). Björn Þorsteinsson (d. 1341) var príor í Þingeyraklaustri, ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1334 til 1340 en varð þá ábóti í Þingeyraklaustri og gegndi því embætti þar til hann dó ári síðar. „Auðun rauði biskup fór vestur sveitir haustið 1318 og kom til Þingeyra, læstu þá bræður klaustri og kirkju, og gerðu enga processionem í móti honum, og ei náði hann við þá að mæla, var þá Björn príor fyrir klaustrinu, höfðu bræður þar fyrir fjölda bænda að verja klaustrið fyrir biskupi ef hann vildi ásækja, en hann sýndi enginn líkindi af sér, matur var þó hans mönnum til reiðu en eigi öl að drekka.“ Guðmundur kom aftur tveimur árum síðar og tók við stjórn klaustursins að nýju en Auðun biskup var þá farinn til Noregs og lést þar. Björn varð ábóti í Munkaþverárklaustri 1334. Þegar Guðmundur ábóti lét af störfum 1338 fór hann þangað og dó þar ári síðar. Ábótalaust var á Þingeyrum frá því að Guðmundur fór þaðan en 1340 flutti Björn sig aftur til Þingeyra og varð ábóti þar. Hans naut þó ekki lengi við því hann dó ári síðar. Eftir lát hans stýrði Þorgeir príor klaustrinu til 1344 en þá varð Eiríkur bolli ábóti. Eiríkur bolli. Eiríkur bolli var íslenskur prestur og ábóti á 14. öld. Hann var vígður til ábóta í Þingeyraklaustri árið 1344 en þar hafði þá verið ábótalaust síðan Björn Þorsteinsson lést árið 1341. Hann var þó ekki lengi í embætti, því Ormur Ásláksson Hólabiskup, sem var mjög óvinsæll af Íslendingum og átti í illdeilum við marga, svipti hann ábótaembættinu þegar árið 1345 og er ekki meira um Eirík vitað. Jurtalitun. Jurtalitun er forn aðferð til að lita efni, aðallega ull. Sjálf jurtin sem notuð er til litunar nefnast "litgras" eða "litunargras". Jurtalitun tengist að sumu leyti fornri blekgerð, t.d. á Íslandi, en sortulyng var bæði notað til blekgerðar og til að lita ull. Stefán Gunnlaugsson (ábóti). Stefán Gunnlaugsson (d. 1350) var prestur í Saurbæ, ábóti í Munkaþverárklaustri og síðan í Þingeyraklaustri á 14. öld. Þess hefur verið getið til að hann hafi verið sonarsonur Úlfs, sonar Þórðar kakala, en það er þó óvíst. Stefán var prestur í Saurbæ í Eyjafirði um og eftir 1330 en varð ábóti á Munkaþverá eftir að Björn Þorsteinsson fluttist í Þingeyraklaustur árið 1340. Árið 1345 fluttist hann svo sjálfur til Þingeyra, þegar Ormur Ásláksson biskup vék Eiríki bolla úr ábótastarfinu, og var ábóti þar til dauðadags. Eftirmaður hans í Munkaþverárklaustri var Bergur Sokkason, sem áður hafði verið ábóti þar, en Arngrímur Brandsson tók við á Þingeyrum eftir lát Stefáns. Synir Stefáns voru þeir Gunnlaugur bóndi í Núpufelli í Eyjafirði, Úlfur og Ólafur, en ekki er vitað hver móðir þeirra var. Skinka (tískufyrirbrigði). Skinka er slanguryrði frá síðari hluta 20. aldarinnar notað yfir tískufyrirbrigði sem vísar til útlits- og sjálfsdýrkunar kvenna sem ganga lengra en aðrir í fegrunarleiðum og því að ganga í augun á hinu kyninu og nota til þess oftast einhverjar gerfileiðir. Sem dæmi ofbrúnar, þá oftast með hjálp brúnkukrems eða ljósabekkja, ljóshærðar með aflitun hárs, ofmálaðar, klæðast mjög þröngum flegnum fötum, sem dæmi föt sem eru flegin langt niður á brjóst eða svo stutta toppa að kviðurinn verður ber og margar hafa farið í einhverjar lítaaðgerðir eins og brjóstastækkun. Dæmi um slíka konu er til dæmis Paris Hilton. Svipað eða samsvarandi hugtak yfir karlmenn er hnakki, eða "FMhnakki". Orðsifjar. Uppruni orðsins er óljós en nefnt hefur verið skyldleiki við enska orðið "skank", en það hefur ekki nákvæmlega sömu merkingu því það vísar fyrst og fremst til lauslætis, en skinka til útlits. Líklegri skýring er að það atriði sem þykir helst einkenna þær konur sem kallaðar eru skinkur er að vera ofbrúnar af of mikilli ljósabekkja- eða brúnkukremsnotkun og að fólki hafi fundist þær líta út eins og skinka í framan. Arngrímur Brandsson. Arngrímur Brandsson (d. 13. október 1361) var prestur í Odda á Rangárvöllum frá því fyrir 1334. Árið 1350 varð hann ábóti í Þingeyraklaustri eftir lát Stefáns Gunnlaugssonar. Hann var fræðimaður, skáld og tónlistarmaður og smíðaði fyrsta orgel sem heimildir eru um á Íslandi. Arngrímur var sunnlenskur og kann að hafa verið sonur Brands skógs Eyjólfssonar í Skógum undir Eyjafjöllum. Hann var í þjónustu Jóns Halldórssonar Skálholtsbiskups og fór á vegum hans sendiför til Noregs vegna Möðruvallamála árið 1329. Samkvæmt því sem segir í Lárentíusar sögu biskups sinnti hann þó ekki því erindi sem hann var settur til, heldur gekk hann „daglega til eins organmeistara, er var í Þrándheimi, ok lét hann svo kenna sér að gera organum, en aldri flutti hann fyrir erkibiskupi um Möðruvallamál.“ Arngrímur kom svo til landsins með organum sem hann hafði smíðað sjálfur og er það fyrsta orgelið sem sögur fara af á Íslandi. Líklega hefur Arngrímur notað tækifærið og fengið veitingu erkibiskups fyrir Oddastað og þar var hann prestur í nokkur ár en hverfur þá úr sögunni um tíma, nema hann hafi gegnið í klaustur og sé sá Arngrímur kanúki í Þykkvabæ sem barði á Þorláki ábóta ásamt Eysteini Ásgrímssyni og Magnúsi kanúka, en fyrir það voru þeir Eysteinn og Arngrímur settir í járn haustið 1341. Hvort sem Arngrímur var í Þykkvabæjarklaustri eða ekki var hann nokkru síðar kominn norður til Þingeyra og varð þar ábóti 1350. Ormur Ásláksson biskup vígði hann á Lárentíusarmessu, 10. ágúst 1351. Ormur biskup var óvinsæll og átti í deilum við Norðlendinga en virðist hafa haft dálæti á Arngrími og þegar Ormur fór úr landi haustið 1354 gerði hann Arngrím að staðgengli sínum eða officialis. Prestar neituðu þó að hlýða honum „því hann var borinn ljótum málum,“ segir í "Lögmannsannál" 1356 en ekki greinir þó nánar frá ljótu málunum. Var hann settur bæði úr officialis-embætti og ábótadæmi og hafði hann þá fyrirhugað að ganga í prédikaraklaustur í Björgvin. Áður en af því varð settu þó Eysteinn Ásgrímsson og Eyjólfur Brandsson, sem hér voru sem erindrekar erkibiskups, Arngrím þó aftur í ábótastöðuna árið 1357 og gegndi hann henni til dauðadags, 13. október 1361. Eftirmaður hans var Gunnsteinn nokkur. Arngrímur var fræðimaður og rithöfundur og skrifaði meðal annars sögu Guðmundar Arasonar biskups og orti um hann drápu. Hann var sagður söngmaður góður og vegna kunnáttu hans í organsmíði er líklegt að hann hafi átt hljóðfæri til að nota við messur á Þingeyrum. Gunnsteinn (ábóti). Gunnsteinn ábóti (d. 1384) var vígður ábóti í Þingeyraklaustri 1364 en næsti ábóti á undan, Arngrímur Brandsson, hafði dáið 1361 og kann að vera að Gunnsteinn hafi gegnt starfinu frá láti hans. Föðurnafn Gunnsteins er óþekkt og ekkert vitað um ætt hans og uppruna. Gunnsteinn styrkti fjárhagsstöðu klaustursins og á tíð hans eignaðist það meðal annars nokkrar rekafjörur. Hann var ábóti í tuttugu ár, til dauðadags 1384. Eftirmaður hans var Sveinbjörn Sveinsson. Sveinbjörn Sveinsson. Sveinbjörn Sveinsson (d. 1402) var ábóti í Þingeyraklaustri frá 1384 og tók við eftir lát Gunnsteins ábóta. Hann er sagður hafa verið sonur Sveins álfdælska Ólafssonar. Þingeyraklaustur auðgaðist töluvert á dögum Sveinbjarnar, meðal annars með próventusamningum sem auðugir einstaklingar gerðu við klaustrið. Talið er að Sveinbjörn ábóti hafi dáið í Svarta dauða 1402, enda er sagt að aðeins einn munkur hafi lifað af í klaustrinu eftir pláguna. Eftirmaður hans var líklega Ásbjörn Vigfússon. Ásbjörn Vigfússon. Ásbjörn Vigfússon (d. 1439) var ábóti á Þingeyrum frá því snemma á 15. öld og til dauðadags. Hann var líka orðinn prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi fyrir 1431. Sveinbjörn Sveinsson ábóti á Þingeyrum lést að öllum líkindum í Svarta dauða 1402, þegar aðeins lifði eftir einn munkur í Þingeyraklaustri, og Ásbjörn varð líklega ábóti skömmu síðar. Árið 1424 seldi hann Einari bónda Bessasyni jörðina Ytri-Ey á Skagaströnd, sem var í eigu klaustursins, og urðu síðar mikil málaferli út af þeirri ráðstöfun. Annars er fátt að segja af ábótaferli Ásbjarnar þótt hann spannaði hátt á fjórða áratug. Eftirmaður hans var Jón Gamlason. Jón Gamlason. Jón Gamlason (d. 1488) var ábóti í Þingeyraklaustri í nær hálfa öld, frá 1440 til 1488 og hafði áður verið prestur og officialis í Hólabiskupsdæmi. Hann tók við klaustrinu eftir lát Ásbjarnar Vigfússonar ábóta. Jón var af höfðingjaættum, sonur Gamla Marteinssonar bónda í Lögmannshlíð í Eyjafirði og Valgerðar Þorvaldsdóttur konu hans. Bræður hans voru þeir Marteinn Gamlason sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum, faðir Hákarla-Bjarna, og Finnur Gamlason lögréttumaður á Ysta-Mói í Fljótum. Jón komst ungur til metorða, vígðist til prests 1432 og var orðinn ráðsmaður Hólastóls 1435. Hann þótti í fremstu röð presta og varð prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi 1440, sama ár og hann varð ábóti. Það ár sór hann líka eið fyrir Goðsvini Skálholtsbiskupi um að hann væri saklaus af áburði um legorð með Helgu Þorleifsdóttur, konu Skúla Loftssonar ríka og dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar. Eiðurinn hefur dugað til að hreinsa hann af söguburðinum, að minnsta kosti fékk hann ábótastöðuna og gegndi henni í 48 ár. Í ábótatíð hans, 1449, dæmdi Gottskálk Keneksson Hólabiskup klaustrinu aftur jörðina Ytri-Ey, sem Ásbjörn ábóti hafði áður selt, enda var það yfirleitt talið óheimilt að forsvarsmenn klaustra seldu jarðeignir undan klaustrum og voru þær gjarna dæmdar klaustrunum aftur ef það var gert. Jón hefur verið orðinn háaldraður þegar hann dó, á níræðisaldri eða meira. Ásgrímur Jónsson munkur á Þingeyrum tók við ábótastarfinu. Blágerlar. Blágerlar (kallast einnig blábakteríur, blágrænar bakteríur eða blágrænir þörungar) er fylking gerla sem einkennist af súrefnismyndandi ljóstillífun. Þeir finnast víða í náttúrunni, svo sem í sjó og ferskvatni, á klöppum og steinum, þar sem þeir mynda gjarnan sýnilegar breiður sem minna nokkuð á þörungabreiður. Talið er að starfsemi blágerla með tilheyrandi súrefnisfrmleiðslu og koldíoxíðbindingu hafi umbreytt andrúmslofti jarðar fyrir um tveimur og hálfum til þremur milljörðum ára, en fyrir þann tíma var það súrefnissnautt. Stórborgarsvæðið Concepción. Stórborgarsvæðið Concepción (sp. "Gran Concepción") er þéttbýli í suðurhluta Chile. Árið 2002 var íbúafjöldinn 889.725. Glarus. Glarus er fámenn kantóna í Sviss við norðurjaðar Alpafjalla. Íbúar eru aðeins 38 þúsund. Höfuðstaðurinn heitir sömuleiðis Glarus. Lega og lýsing. Glarus liggur í norðaustri Sviss og er nær öll innan um Alpafjöll. Hæsti tindurinn er Tödi (3.614 m). Þannig liggur meginhluti Glarus í tveimur Alpadölum sem ganga til suðurs frá stöðuvatninu Walensee. Aðrar kantónur sem að Glarus liggja eru St. Gallen fyrir norðan og austan, Graubünden fyrir sunnan, Uri fyrir suðvestan og Schwyz fyrir vestan. Íbúar eru aðeins 38 þúsund og skiptast samanlagt í þrjú sveitarfélög. Höfuðstaðurinn Glarus liggur við ána Linth og tilheyrir sveitarfélaginu Glarus. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Glarus er það eina í Sviss (af kantónunum) sem sýnir manneskju. Hér er um heilagan Frídolín að ræða og heldur hann á Biblíunni og göngustaf. Um höfuðið er geislabaugur. Bakgrunnurinn er rauður. Heilagur Frídolín var írskur kristniboði í upphafi 6. aldar sem flutti til Glarus og boðaði kristni. Merki þetta kom fyrst fram í orrustunni við Näfels árið 1388 af íbúum Glarus. Það hefur tekið nokkrum smávægilegum breytingum í gegnum tíðina, síðast 1959. Söguágrip. Eftir tíma Rómverja fluttu alemannar inn í fjalladalina eftir árið 700 og námu landið. Allt frá byrjun var héraðið eign klaustursins Säckingen (Þýskalandsmegin við Rínarfljót). Síðla á 13. öld eignuðust Habsborgarar héraðið. En það varaði stutt, því 1351 hertóku herir frá Bern og öðrum svissneskum kantónum fjalladalina í Glarus. Strax ári síðar reyndu Habsborgarar að endurheimta Glarus, en voru hraktir til baka. Glarus var þá gerð að eigin kantónu og fékk inngöngu í svissneska sambandið 1352. Síðasta tilraun Habsborgara til að endurheimta Glarus var 1388 en í orrustunni við Näfels sigruðu Svisslendingar miklu stærri her Habsborgara. Það var þó ekki fyrr en 1395 sem Glarus keypti sig lausan frá klaustrinu í Säckingen, en greiddu nunnuklaustrinu þar enn árlegt gjald þar til Frakkar hertóku Sviss í lok 18. aldar. Á 16. öld bjó siðaskiptamaðurinn Ulrich Zwingli í Glarus og starfaði sem prestur. Siðaskiptin gengu í garð í Glarus 1530 en þó héldust nokkrir bæir kaþólskir. Þetta orsakaði mikla spennu í kantónunni. Stjórn kantónunnar klofnaði, sem og dómsmálin, hermálin og saltverslunin. Allt var gert í lúterskum sið annars vegar og í kaþólskum sið hins vegar. Meira að segja póstþjónustan klofnaði á þennan hátt. Kaþólikkar tóku upp gregoríska tímatalið (sem er í notkun í heiminum í dag) en siðaskiptamenn héldu fast í júlíska tímatalið. Vandi íbúanna til að virða trú hvers annars leiddi til þess að nornaveiðar héldu áfram þar en síðasta galdraaftaka Evrópu fór fram í Glarus 1782 er Anna Göldi var hálshöggvin. Þessi stórkostlegi tvískiptingur í kantónunni var ekki leystur fyrr en 1836 er Glarus meðtók nýja stjórnarskrá, löngu eftir að Frakkar yfirgáfu landið (1814). Í dag er iðnaður aðalatvinnan í Glarus, enda hefur landbúnaður lengi á erfitt uppdráttar í fjalladölunum. Ferðaþjónusta er enn sem komið er frekar lítil þar. Sveitarfélög. 1. janúar 2011 voru allir bæir í Glarus sameinaðir í þrjú sveitarfélög, þar á meðal höfuðstaðurinn þar sem tæp 6.000 manns búa. Ásgrímur Jónsson (ábóti í Þingeyraklaustri). Ásgrímur Jónsson (d. 1495) var ábóti í Þingeyraklaustri frá 1488. Hann hafði áður verið munkur í klaustrinu en tók við þegar Jón Gamlason ábóti lést háaldraður eftir nærri hálfa öld í embætti. Ásgrímur var sonur Jóns Jónssonar búlands sýslumanns á Móbergi í Langadal en Jóns var Ingigerður Þorsteinsdóttir, sem var dóttir Grundar-Helgu og hálfsystir Björns Jórsalafara, að minnsta kosti samkvæmt dómi, en afkomendur hennar héldu því fram að svo væri ekki, heldur hefði móðir hennar verið fátæk, óþekkt kona. En á þessum skyldleika byggðist málarekstur Gottskálks biskups gegn Jóni Sigmundssyni lögmanni því Björg Þorvaldsdóttir, seinni kona Jóns, var bróðurdóttir Ásgríms. Móðir Ásgríms er óþekkt en systkini hans voru Þorvaldur búland lögréttumaður á Móbergi og Agnes abbadís í Reynistaðarklaustri. Ásgrímur lést 1495 og tók þá bróðursonur hans, Jón Þorvaldsson prestur á Höskuldsstöðum, við umráðum klaustursins en var þó ekki vígður ábóti fyrr en um 1500. Jón Þorvaldsson (ábóti). Jón Þorvaldsson (d. 12. maí 1514) var prestur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd og síðan ábóti í Þingeyraklaustri frá því um 1500 en hafði áður haft umráð yfir klaustrinu frá því að Ásgrímur Jónsson ábóti, föðurbróðir hans, lést 1495. Jón var sonur Þorvalds búlands Jónssonar, lögréttumanns á Móbergi í Langadal. Móðir hans er óþekkt en á meðal systkina hans var Björg Þorvaldsdóttir, seinni kona Jóns Sigmundssonar lögmanns. Hann varð prestur á Höskuldsstöðum 1490 og sat þar uns hann varð ábóti en annaðist jafnframt málefni Þingeyraklausturs frá 1495. Hann var Hólaráðsmaður um tíma og einnig officialis. Jón reyndi mikið að koma á sáttum í deilu Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups og Jóns mágs síns en biskup taldi að Jón og Björg væru of skyld til að hafa mátt giftast og því væri hjónaband þeirra ógilt en skyldleikinn var umdeildur og ættmenn Bjargar andmæltu því að hann væri til staðar. Björg sættist að lokum við kirkju og biskup, sjálfsagt fyrir tilstilli Jóns bróður síns. Jón kemur mikið við skjöl á ábótaárum sínum og virðist hafa verið umsvifamikill. Hann lést í embætti 1514 og varð Eiríkur Sumarliðason þá ábóti á Þingeyrum. Jón er talinn hafa átt eina dóttur, Ólöfu, húsfreyju á Espihóli í Eyjafirði. Eiríkur Sumarliðason. Eiríkur Sumarliðason (f. um 1473, d. 1518) var prestur í Saurbæ í Eyjafirði og síðar ábóti í Þingeyraklaustri eftir lát Jóns Þorvaldssonar ábóta 1514 en kann þó að hafa farið með málefni klaustursins fyrir þann tíma í forföllum Jóns. Eiríkur var af höfðingjaættum, sonur Sumarliða Eiríkssonar á Grund í Eyjafirði, sonar Eiríks slógnefs Loftssonar ríka Guttormssonar og konu Sumarliða, Guðrúnar Árnadóttur. Eiríkur var orðinn prestur í Saurbæ 1497 en var farinn þaðan árið 1507. Það ár var hann í Osló, þar sem hann fékk dæmt sér í vil í erfðadeilu sem hann átti í við Finnboga Jónsson lögmann og skotið hafði verið til konungs. Hann var einnig Hólaráðsmaður um tíma. Eiríkur tók við ábótastarfinu á Þingeyrum eftir að Jón ábóti lést og var vígður á Hólum 28. janúar 1515 í brúðkaupi Kristínar Gottskálksdóttur og Jóns Einarssonar á Geitaskarði. Hann átti líka í jarðadeilum við Gottskálk Nikulásson biskup og hafði þar betur og má því ætla að hann hafi verið málafylgjumaður og mikill fyrir sér. Hann sat hins vegar ekki lengi í embætti því hann dó 1518, sumar heimildir segja jafnvel 1516. Eftirmaður hans var Helgi Höskuldsson, síðasti ábóti Þingeyraklausturs. Solothurn (fylki). Solothurn er kantóna í vesturhluta Sviss með 791 km2. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Solothurn. Lega og lýsing. Solothurn er í norðvesturhluta landsins, nálægt landamærunum að Frakklandi og Þýskalandi. Aðrar kantónur sem að Solothurn liggja eru Basel-Landschaft fyrir norðan, Aargau fyrir austan, Bern fyrir sunnan og Júra fyrir vestan. Solothurn á þrjú svæði innilokuð í öðrum kantónum. Tvær eru fyrir vestan móðurkantónuna og nema við landamærin að Frakklandi, en ein er fyrir austan, innilokuð í kantónunni Bern. Íbúarnir eru 256 þúsund talsins og eru langflestir þeirra þýskumælandi. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Solothurn samanstendur af tveimur láréttum röndum, rauðri að ofan og hvítri að neðan (öfugt við pólska ríkisfánann). Lítil er vitað um tilurð merkisins eða merkingu litanna. En verndardýrlingur kantónunnar (píslarvotturinn Úrsus) bar rauðan fána með litlum hvítum krossi. Helgi Höskuldsson. Helgi Höskuldsson (d. 1561) var síðasti ábóti Þingeyraklausturs, var vígður 1519 og lét af starfi 1549 en tók aftur við haustið 1550 og stýrði klaustrinu til næsta sumars, þegar það var lagt niður. Helgi áóti kom með mikið fjölmenni á Sveinsstaðafund 1521 og gekk þar á milli hinna stríðandi fylkinga en þar tókust á annarsvegar Jón Arason biskupsefni og hins vegar Teitur Þorleifsson ríki, lögmaður í Glaumbæ, og var honum þakkað að mannfall var ekki meira. Jón kunni Helga þó litlar þakkir og stefndi honum til Hóla fyrir dóm Jóns Finnbogasonar officialis og tólf presta fyrir ýmsar sakir en tókst ekki að fá hann dæmdan. Þeir Helgi og biskup sættust þó á endanum og er þess meðal annars getið að Helgi var á meðal gesta í brúðkaupi Þórunnar Jónsdóttur biskups og Ísleifs Sigurðssonar á Grund á Hólum 1533. Helgi þótti góður ábóti en helsti ljóður á ráði hans var kvensemi og átti hann nokkur börn „með meinlausum konum“, segir í "Skarðsárannál". Árið 1539 setti Jón biskup Helga ábóta skriftir fyrir barneign og skikkaði hann til að fara þrívegis í suðurgöngu til Rómar til að fá aflausn og það virðist hann hafa gert. Björn Jónsson á Melstað, sonur biskups, gengdi ábótastarfinu á meðan og var ætlun Jóns biskups að Björn tæki við af Helga. Helgi lét af starfi árið 1549 sakir elli og sjúkleika. Björn Jónsson annaðist stjórn klaustursins, eða var Helga til aðstoðar, en varð þó ekki ábóti. Og þegar hann var líflátinn haustið 1550 tók Helgi aftur við og stýrði klaustrinu til næsta sumars. Þá lagðist klausturlifnaður af með öllu en munkar fengu að vera þar áfram. Helgi lifði áratug til viðbótar og dó fjörgamall 1561. Fasani. Fasani (fræðiheiti "Phasianus colchicus") er hænsnfugl af fasanaætt. Fasanaveiðar eru vinsælar víða um lönd og er fasanar oft aldir sérstaklega til að sleppa á veiðilendur. Fasanar eru skrautlegir og stéllangir fuglar. Haninn hefur rauðleitan búk, dökkgrænan háls og höfuð. Andlitið er fiðurlaust og rautt á litinn. Hænan er brúnleit og ekki eins skrautleg. Heildarlengd fuglsins er 50-90 sm og þar af er stélið 20 - 50 sm. Vænghaf fasana er 70 - 90 sem. Hanar vega 770 - 1990 g og hænur 545 - 1450 g. Fasanar geta flogið en kjósa frekar að hlaupa. Þeir geta mest flogið í einu 5 - 6 km. Fasanar voru fluttir til Evrópu á tímum Rómverja og breiddust út um Vestur- og Mið-Evrópu á árunum 500-800 eftir Krist. Þeir bárust til Bretlands á 11. öld og til Svíþjóðar og Noregs á 18. og 19. öld. Á 19. og 20. öld hefur þeim verið sleppt víða um heim. Nyrstu stofnar fasana eru í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Fasanaungi um 1 klst. eftir að hann kom úr eggi Fuglar sem hafa verið fluttir inn verpa stundum í görðum Fasani var fluttur til Noregs um 1870 og er varpfugl þar við snólétta staði nærri sjó. Norðurmörk heimkynna fasana í Noregi og Svíþjóð eru að mestu sunnan við -5 gráðu jafnhitalínuna fyrir janúar. Í náttúrulegum heimkynnum heldur fasani sig á láglendi, á hásléttum og í undirhlíðum fjalla. Hann forðast kalda staði þar sem snjór hylur jörð. Á veturna sækir hann í skóga eða tjálundi, á næturna er hann upp í tjám en lifir að öðru leyti niðri á jörð. Í Vestur- og Norður-Evrópu er fasani við ræktarlönd og nágrenni þeirra þar sem skiptast á akrar, limgerði, bithagar og trjálundir. Fasani étur fræ, hnetur, ber og ýmis aldin, rætur, græna vaxtarsprota, liðdýr, ánamaðka, snigla og fleira. Hann étur á jörðunni og rótar í yfirborðinu. Fasanar eru sólgnir í korn eins og hveiti, hafra, bygg og maís. Aðalfæða á vorin er gras og hundasúrurætur fyrri part sumars, í júní og júlí grasfræ, ber í ágúst og september, akörn í október og nóvember og grasrætur og hundasúrurætur í desember. Skordýr voru mest étin á sumrin og haustin. Laukar og fræ af súruætt eru fæða á haustin en gras og smári og plönturætur á veturna. Fasanar verða kynþroska ársgamlir. Haninn helgar sér óðal á vorin. Hann er fjölkvænisfugl og er hver óðalshani með á bilinu 1 - 5 hænur. Hanarnir halda tryggð við sama óðal árum meðan þeir lifa. Stærð óðala er vanalega undir 5 hekturum. Hanarnir hætta að verja óðöl sín þegar hænurnar eru búnar að verpa. Hver hæna verpir 10 - 12 eggjum og liggur á í 23 - 28 daga. Ungarnir fylgja móður sinni í 70 - 80 daga. Þeir geta flögrað stuttar vegalengdir tólf daga gamlir. Fasani er staðfugl í náttúrulegum heimkynnum sínum og einnig þar sem honum hefur verið sleppt. Hann fer sjaldnast langt frá þeim stað og króknar því oft ef þar er of kalt. Fasani er vinsæll veiðifugl og er fasanaeldi stundað víða í Evrópu og fuglum sleppt í milljónatali á haustin í upphafi veiðitíma. Þar sem fasönum hefur verið sleppt þá hefur það haft áhrif á akurhænustofna og virðast akurhænur ekki þrífast á sama stað og fasanar. Fasanar á Íslandi. Fasanar finnast víða um heim þar sem þeir verpa ágætlega sem búrfuglar og geta aðlagað sig ýmis konar veðurfari. Talið er líklegt að fasanar geti þrifist á Suðurlandi í nágrenni við kornrækt og bithaga og þar sem eru limgerði og trjálundir en ólíklegt að fasanar geti myndað sjálfbæra villta stofna á Íslandi. Óheimilt er samkvæmt íslenskum lögum að sleppa dýrum út í náttúrna. Ekki hefur þótt skynsamlegt að sleppa fasönum út í íslenska náttúru á Íslandi vegna hættu á að smit berist frá þeim yfir í rjúpur en þær eru náskyldar fasönum. Hins vegar hafa fasanar sést í sumarhúsabyggðum í Grímsnesi og í Þrastaskógi. Þuríður Einarsdóttir stóra. Þuríður Einarsdóttir (d. 1561), kölluð Þuríður stóra, var íslensk kona á 16. öld. Hún er sögð hafa verið óvenju hávaxin og glæsileg kona og varð fylgikona þriggja af helstu prestum og menntamönnum landsins á fyrri hluta aldarinnar. Þórður Einarsson. Þuríður var dóttir Einars Guðmundssonar á Vatnsleysu í Biskupstungum og síðar í Haukadal. Ekki er vitað hver móðir hennar var. Hún varð fyrst fylgikona séra Þórðar Einarssonar, sem var sonur Einars Þórólfssonar hirðstjóraumboðsmanns á Hofsstöðum í Miklaholtshreppi og konu hans Katrínar, dóttur Halldórs Ormssonar ábóta á Helgafelli. Þórður var prestur í Hítardal, sem var eitt besta brauð landsins og veitt af erkibiskupinum í Niðarósi, og má því gera ráð fyrir að hann hafi verið auðugur og átt töluvert undir sér. Þau áttu saman fimm börn og komust tvær dætur þeirra til aldurs, Þórunn kona séra Finnboga Tumasonar á Hofi í Vopnafirði og Jórunn, kona Þórðar Guðmundssonar lögmanns. Þórður lenti í ósætti við Ögmund Pálsson biskup, sem lét dæma hann úr embætti með svokölluðum "Hítardalsdómi" 24. janúar 1530, en þar var séra Þórði meðal annars gefið að sök að hafa átt fimm börn í frillulífi, logið upp á biskup, skemmt timbur sem Skálholtskirkja átti, slegist við annan prest á Barthólómeusarmessu, óhlýðnast biskupi og vanrækt kennimannsstörf sín. Sumar heimildir segja einnig að hann hafi snúist til lúthersku, en Jón bróðir hans, prestur í Odda, var einmitt einna fyrstur presta til að snúast til Lútherstrúar. Ögmundur og prestar hans dæmdu Hítardal fallinn undir erkibiskupsvald en fé Þórðar til kirkjunnar. Þórður sigldi sama sumar til Noregs og hugðist leita sér uppreisnar hjá erkibiskupi, en dó sama ár erlendis. Sigmundur Eyjólfsson. Vorið 1531 bárust fregnir um lát hans til Íslands og þar með að erkibiskup hefði veitt Hítardal Sigmundi Eyjólfssyni presti í Vallanesi, systursyni Ögmundar biskups, og hefur raunar verið sagt að tilgangur Ögmundar með Hítardalsdómi hafi verið að koma Sigmundi þangað. Þuríður var þá enn í Hítardal og hefur Sigmundi litist vel á hana því hann tók hana sér til fylgilags. Þau áttu saman eina dóttur sem upp komst, Katrínu (f. um 1532), sem giftist Agli Einarssyni á Snorrastöðum. Á meðal barna þeirra voru Jón Egilsson prestur og annálaritari, og var Þuríður heimildamaður hans um ýmsa atburði siðaskiptaaldar, og Ólafur Egilsson prestur í Vestmannaeyjum, sem Tyrkir hertóku og fluttu til Alsír en kom aftur heim. Eftir að Sigmundur kom í Hítardal var hann hægri hönd Ögmundar frænda síns og fylgdarmaður hans á ferðalögum. Ögmundur var orðinn hrumur og nær blindur og árið 1536 lét hann kjósa Sigmund eftirmann sinn og sendi hann út til Noregs um haustið að taka biskupsvígslu. Hann var vígður biskup í Niðarósi um veturinn en hafði fengið fótarmein og dó úr því nítján dögum síðar. Prestur sem var með honum, Árni Arnórsson frá Ökrum á Mýrum, fékk einnig mein en enskum bartskera tókst að lækna hann og fór hann til Íslands og varð prestur í Hítardal. Oddur Gottskálksson. Þuríður fluttist nú frá Hítardal og tók skömmu síðar við búi Ögmundar biskups á Reykjum í Ölfusi en Katrín dóttir hennar fór í fóstur til afa síns og ömmu, Eyjólfs Jónssonar og Ásdísar Pálsdóttur á Hjalla í Ölfusi, en þar dvaldi Ögmundur biskup löngum, og var þar þegar Kristófer Hvítfeld og menn hans handtóku biskupinn 1541 og rændu eignum hans og ömmu hennar. Þuríður hafði þá kynnst þriðja sambýlismanni sínum, Oddi Gottskálkssyni, sem var einn lærðasti maður landsins. Þegar hann kom heim frá Danmörku eftir að hafa látið prenta Nýjatestamentisþýðingu sína settist hann að hjá Þuríði á Reykjum og vann þar að fræðistörfum. Þau bjuggu saman ógift í nokkur ár en giftust síðan eftir að hafa átt saman einn son, Pétur, sem fæddist 1543. Hann fluttist uppkominn til Noregs og dó þar. Eftir siðaskipti fékk Oddur veitingu fyrir Reynistaðaklaustursumboði og fluttu þau Þuríður þá norður og settust að á Reynistað. Oddur varð jafnframt lögmaður norðan og vestan 1552. Hann drukknaði í Laxá í Kjós á leið til Alþingis sumarið 1556. Þuríður lifði áfram í fimm ár en dó 1561. Hundasúra. Hundasúra (fræðiheiti Rumex "acetosella") er fjölær jurt af súruætt. Hún er með uppréttan stöngul og er rauðleit á lit og greinist efst og getur náð 0.5 m hæð. Laufblöð eru örvalöguð um 2 sm að lengd. Jurtin blómgast frá mars til nóvember og eru gulgræn (karlblóm) eða rauðleit (kvenblóm) blóm á mismunandi jurtum frá sama jarðstöngli. Aldin eru rauð. Hundasúra er algengt víðast á norðurhveli jarðar og er oft ein fyrsta jurt til að breiðast út í röskuðum svæðum eins og yfirgegnum námasvæðum, sérstaklega ef jarðvegurinn er súr. Jurtin er vel æt en er ekki mjög næringarrík sem beitarjurt og inniheldur oxalsýru sem veldur eitrunaráhrifum ef hún er bitið í miklu magni. Víða er litið á hundasúru sem illgresi sem erfitt er að halda í skefjum. Hundasúra þrífst við sams konar aðstæður og bláber. Bændur líta oft á hundasúrur sem merki um að það þurfi að bera kalk á land. Hundasúra er notuð til að bragðbæta mat og sem grænmeti. Hún er einnig notuð til lækninga m.a. við krabbameini og er ein jurta í jurtablöndunni Essiac. Hún hefur einnig verið notuð sem landgræðslujurt til að binda jarðveg á ofbeittum svæðum. Palestínuríki. Palestínuríki (arabíska: دولة فلسطين‎, "Dawlat Filastin") er ríki sem var stofnað árið 1988 í útlegð af tveimur samtökum Palestínumanna, Frelsissamtökum Palestínu (PLO) og Þjóðarráði Palestínumanna (PNC) með Sjálfstæðisyfirlýsingu Palestínu. Á þeim tíma réði PLO ekki yfir neinu landsvæði í Palestínu. Nú gera samtökin tilkall til Heimastjórnarsvæða Palestínumanna og vilja gera Jerúsalem að höfuðborg. Öll þessi svæði eru í reynd hernumin af Ísraelsher. Flest ríki heims, utan Vesturlanda, hafa viðurkennt Palestínuríki opinberlega. Ísland varð fyrsta land í Norður-Evrópu að viðurkenna Palestínuríki 29. nóvember 2011. Oxalsýra. Oxalsýra er efnasamband með formúlu H2C2O4. Oxalsýra finnst í mörgum jurtum og dýrum. Mikið af oxalsýru er í rababara og spínati. Oxalsýra er notuð sem hreinsiefni og bleikiefni, hún er notuð til að leysa upp ryð og til að gera við gamalt tré og hreinsa óhreint leður. Oxalsýra er nuddað í tilbúna marmarahluti til að loka yfirborðinu og kalla fram gljáa. Leppur (skák). Einnig er verðugt að minnast á "falskan lepp" þar sem maður lítur út fyrir að vera leppaður en er það ekki í raun. Dæmi um falskan lepp er Légal gildran. Katrín (abbadís). Katrín abbadís var fyrsta abbadísin í Reynistaðarklaustri og var kjörin til þess þegar klaustrið hóf starfsemi 1297 en virðist aðeins hafa verið eitt ár í því embætti því hún hvarf úr sögunni ári síðar og Hallbera Þorsteinsdóttir tók við. Á þessu kann þó að vera önnur skýring. Katrín hafði áður verið nunna á Munkaþverá en ekki er víst hvort hún var einsetukona þar eða hvort einhver vísir að nunnuklaustri var þar á meðan þess var beðið að nunnuklaustri væri komið á fót norðanlands. Gissur Þorvaldsson hafði gefið Reynistað til stofnunar nunnuklaustur fyrir dauða sinn 1268 en það dróst að klaustrinu væri komið upp þar til 1297, þegar auðug kona, Hallbera Þorsteinsdóttir, gekk í málið með Jörundi Hólabiskupi. Sagt er að þegar Katrín var sest að á Munkaþverá og hafði tekið hreinlífisbúning hafi hún fengið svo mikinn augnakrankleika að hún gat ekki lesið heilagar bækur og hét hún þá á guð og hinn sæla Þorlák biskup og hélt síðan af stað í ferð suður til Skálholts að vitja heilags Þorláks. Var teymt undir henni til Miðfjarðarár en þá sagðist hún ætla að treysta á guð og Þorlák og reið sem heilbrigð væri í Skálholt og var þar við messu en varð að því búnu heil á báðum augum. Sú tilgáta hefur verið sett fram að Katrín og Hallbera Þorsteinsdóttir séu ein og sama manneskjan, að Hallbera hafi orðið abbadís þegar við stofnun klaustursins og tekið sér nafnið Katrín en algengt var að nunnur skiptu um nafn við vígslu og tækju sér dýrlingsnafn. Þorláks saga segir að Katrín hafi verið abbadís á Reynistað um langan tíma. Guðný Helgadóttir (abbadís). Guðný Helgadóttir (d. um 1368) var abbadís í Reynistaðarklaustri á 14. öld, á eftir Hallberu Þorsteinsdóttur, sem dó 1330. Raunar er ýmislegt óljóst um abbadísir á Reynistað á þessum tíma og einnig eru tilgreind nöfnin "Kristín" og "Katrín" á abbadísum sem sagðar eru hafa tekið við klaustrinu um þetta leyti. Líklegt er að þetta sé allt sama manneskjan og hafi Guðný tekið sér dýrlingsnafn, sennilega Kristín, þegar Egill Eyjólfsson biskup vígði hana 1332. Annars er fátt vitað um Guðnýju. Á hennar tíma hófst deila um rekaítök á Skaga, svonefnda Ólafarparta, sem Benedikt Kolbeinsson á Auðkúlu, systursonur Hallberu abbadísar, hafði gefið klaustrinu með Ingibjörgu dóttur sinni þegar hún gekk í klaustrið. Egill Eyjólfsson biskup hafði gert þennan samning fyrir klaustrið en Björn Þorsteinsson ábóti á Þingeyrum vottað hann. Þó urðu út af þessu málaferli og runnu rekarnir á endanum til Hólastóls. Ekki er alveg víst um dánarár Guðnýjar og eru árin 1367, 1368 og 1369 tilgreind í heimildum. Oddbjörg Jónsdóttir. Oddbjörg Jónsdóttir (d. 1389) var abbadís í Reynistaðarklaustri, vígð árið 1369 af Jóni skalla Eiríkssyni Hólabiskupi, en Guðný Helgadóttir var þá látin. Oddbjörg hafði áður verið nunna í Kirkjubæjarklaustri. Oddbjörg annaðist ekki fjárreiður klaustursins fremur en aðrar abbadísir, en ráðsmenn þess um 1380 voru Brynjólfur Bjarnason hinn ríki á Ökrum og séra Þorleifur Bergþórsson. Árið 1386 var það Jón Þórðarson prestur, einn af höfundum Flateyjarbókar, sem var ráðsmaður í klaustrinu. Á þessum árum eignaðist klaustrið töluvert fé, bæði með próventusamningum við vel stætt fólk og einnig þegar auðugar konur gerðust þar nunnur. Ein þeirra var Ingibjörg Örnólfsdóttir og varð hún abbadís eftir lát Oddbjargar. Ingibjörg Örnólfsdóttir. Ingibjörg Örnólfsdóttir (d. 1402) var abbadís í Reynistaðarklaustri, vígð 1390 eftir lát Oddbjargar Jónsdóttur abbadísar, en dó í Svarta dauða. Ingibjörg var dóttir Örnólfs Jónssonar bónda á Staðarfelli á Fellsströnd og systir Vermundar Örnólfssonar ábóta í Helgafellsklaustri. Faðir hennar var auðugur og lagði með dóttur sinni í klaustrið 40 hundruð, sem var mikið fé. Ráðsmaður í klaustrinu á hennar tíð var Björgólfur prestur Illugason. Vafalaust hafa fáar nunnur á Reynistað lifað af pláguna en Björgólfur lifði og stýrði klaustrinu fyrst í stað en hætti ráðsmennsku vorið 1408. Þá tóku systir Þórunn Ormsdóttir og systir Þuríður Halldórsdóttir við staðarforráðum og varð Þórunn príorinna, en abbadís var ekki skipuð aftur fyrr en 1437. Þórunn Ormsdóttir. Þórunn Ormsdóttir (d. um 1432) var príorinna og stýrði Reynistaðarklaustri ásamt Þuríði Halldórsdóttur frá 1408 til dauðadags en var þó aldrei skipuð abbadís; engin abbadís var í klaustrinu frá því að Ingibjörg Örnólfsdóttir lést í Svarta dauða og til 1437. Björgólfur Illugason ráðsmaður stýrði klaustrinu fyrst eftir pláguna en 1408 tóku þær Þórunn og Þuríður við. Klaustrið auðgaðist á þeirra tíð, ekki síst vegna ættmenna Björgólfs ráðsmanns, en Steinunn dóttir hans og Sigríður Sæmundsdóttir frænka hans gengu í klaustrið 1413 og voru gefin með þeim 50 hundruð og 1427 gerðist Illugi sonur Björgólfs próventumaður í klaustrinu og lagði með sér jörð og Þóra dóttir hans gerðist nunna í klaustrinu. Þann 4. febrúar 1431 vígði Jón Vilhjálmsson biskup átta nunnur til klaustursins og voru það þær Sigríður Sæmundsdóttir, Steinunn Björgólfsdóttir, Þóra Illugadóttir, Þóra Finnsdóttir, Helga Bjarnadóttir, Arndís Einarsdóttir, Agnes Jónsdóttir og Þórdís Finnsdóttir, og hétu þær hreinlífi, hlýðni við yfirboðar og fátækt, en ekki stóðu þær allar við fyrsta hluta heitisins því skömmu síðar fæddi Þóra Illugadóttir barn sem séra Þórður Hróbjartsson (Roðbjartsson) var faðir að en hann var prestur á Hólum í Hjaltadal. Var því ljóst að hún hafði verið orðin þunguð þegar hún var vígð. En ekki nóg með það: Um áramótin næstu ól Þuríður Halldórsdóttir, sem lengi hafði verið í klaustrinu, einnig barn. Faðir þess var Þorlákur Sigurðsson, bryti á Hólum. Jón biskup tók fremur vægt á þessum brotum en Þórður Hróbjartsson var dæmdur í suðurgöngu til Rómar. Þau Þóra munu þó hafa átt annað barn saman síðar. Þetta var auðvitað mikið hneyksli og erfitt fyrir Þórunni príorinnu, en hún virðist raunar hafa dáið skömmu síðar. Þá varð príorinna Þóra Finnsdóttir, ein hinna nývígðu systra. Þóra Finnsdóttir. Þóra Finnsdóttir (1408 – um 1460) var príorinna í Reynistaðarklaustri frá því að Þórunn Ormsdóttir príorinna dó og abbadís frá 25. ágúst 1437, þegar Gozewijn Skálholtsbiskup vígði hana. Til þess þurfti undanþágu því abbadísir áttu að vera orðnar þrítugar en Þóra var aðeins 29 ára. Þóra var komin af auðugu fólki. Foreldrar hennar voru þau Finnur Gamlason lögréttumaður á Ysta-Mói í Fljótum og kona hans Valgerður Vilhjálmsdóttir. Föðurbræður Þóru voru Jón Gamlason ábóti í Þingeyraklaustri og Marteinn Gamlason sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum. Þóra var ein af nunnunum átta sem Jón Vilhjálmsson Craxton vígði á Hólum 4. febrúar 1431. Um það leyti sem hún varð príorinna varð klaustrið fyrir því happi að Margrét Bjarnadóttir, ekkja Hrafns Guðmundssonar lögmanns, gekk í klaustrið og lagði með sér 60 hundruð. Jafnframt gaf hún Hólakirkju jörð til að láta syngja sálumessur fyrir mann sinn en hann hafði dáið í banni. Líklegt er að Þóra hafi tekið sér dýrlingsnafnið Barbara við vígsluna því að í heimildum frá 5. og 6. áratug aldarinnar er talað um Barböru abbadísi en engar heimildir eru um vígslu hennar eða dauða Þóru svo að líklega er þetta sama manneskjan. Raunar er ekki alveg víst hvenær Þórunn/Barbara lést en hún var á lífi 1459 en 1461 var komin ný príorinna. Essiac. Essiac eða essiac-te er jurtablanda sem notað er sem náttúrulyf við krabbameini og öðrum kvillum. Í lyfjablöndunni eru meðal annars hundasúra og króklappa. Vegna áhrifanna sem Essiac var sagt hafa framkvæmdu þrjár bandarískar stofnanir; Bandaríska matvæla og lyfjaeftirlitið, National Cancer Institute og American Cancer Society, rannsóknir á Essiac og komust að því að það hafði enginn áhrif á krabbamein. Króklappa. Króklappa (fræðiheiti "Arctium lappa") er fjölær jurt af körfublómaætt. Hún er ræktuð í görðum og rótin notuð sem grænmeti. Hún er frekar stórvaxin, getur orðið allt að 2 m há. Blómin eru fjólublá. Króklappa vex mjög víða og sérstaklega í röskuðum svæðum þar sem niturinnihald jarðvegs er hátt. Hún er sérstaklega mikið ræktuð í Japan. Króklappa var algeng sem grænmeti á miðöldum en er núna sjaldan notuð til matar utan Japans en þar er hún kölluð "gobō". Króklappa er einnig notuð í náttúrulyf. Bárubúð. Bárubúð, Báruhúsið eða Báran var samkomuhús Sjómannafélagsins Bárunnar í Reykjavík, reist um eða rétt eftir aldamótin 1900 og var það við Vonarstræti, þar sem Ráðhús Reykjavíkur er nú. Það var helsta tónlistarhúsið í Reykjavík á árunum 1904 og þangað til 1921 þegar Nýja Bíó var reist. Þar fór hljómleikahald fram og þar voru einnig haldnir margs konar fundir, fyrirlestrar, dansleikir og samkomur. Árið 1907 stóð Bríet Bjarnhéðinsdóttir fyrir almennum borgarafundi þar um jafnan rétt kynjanna til bæjarstjórnarkosningar. Á fundinum mæltu meðal annars Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri, og Guðmundur Björnsson, landlæknir. Olten. Olten er borg í kantónunni Solothurn í Sviss. Hún er aðeins með 17 þúsund íbúa, en er þrátt fyrir það stærsta borgin í kantónunni. Lega og lýsing. Olten liggur við ána Aare við rætur Júrafjalla, nær norðvestarlega í Sviss. Næstu borgir eru Aarau til norðausturs (15 km), Solothurn til suðvesturs (35 km), Basel til norðvesturs (45 km) og Luzern til suðausturs (55 km). Þýsku landamærin eru aðeins um 30 km til norðurs. Íbúarnir eru þýskumælandi. 26% þeirra eru útlendingar. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar eru þrjú græn greni með rauða boli á hvítum grunni. Innsigli borgarinnar frá 1580 var með þremur lauftrjám en þeim var breytt í greni árið 1800. Trén tákna skógana þrjá sem liggja umhverfis borgina (Hardwald, Säliwald og Bannwald). Söguágrip. Núllsteinn járnbrautarkerfisins í Sviss stendur í Olten Frægustu börn borgarinnar. Gamla göngubrúin og miðborgin í Olten (1899) Paul Hermann Müller, efnafræðingur og Nóbelsverðlaunahafi í læknisfræði 1948 Byggingar og kennileiti. Gamla göngubrúin yfir ána Aare var reist á franska tímanum 1803. Hún tengir járnbrautarstöðina við miðborgina. Brúin er með þaki og geta vegfarendur því gengið yfir ána í skjóli í hvaða veðri sem er. Agnes Jónsdóttir. Agnes Jónsdóttir (d. 1507) var príorissa og síðan abbadís í Reynistaðarklaustri frá 1461 til dauðadags, hin næstsíðasta í röðinni. Hún tók við af Þóru Finnsdóttur/Barböru, sem vígðist með henni sem nunna árið 1431. Agnes var dóttir Jóns Jónssonar búlands, sýslumanns í Húnaþingi, og systir Ásgríms ábóta á Þingeyrum og Þorvaldar á Móbergi, föður Bjargar seinni konu Jóns Sigmundssonar lögmanns. Hún varð príorissa við lát Þóru en ekki er ljóst hvenær hún hlaut abbadísarvígslu. Hún mun ekki hafa viljað sveigja sig alveg undir vilja Hólabiskups, Ólafs Rögnvaldssonar, og reyndi að ráða Þorleif Árnason í Glaumbæ á móti vilja hans, en af því varð þó ekki og fékk hún áminningu biskups fyrir. Ráðsmaður klaustursins varð síðar Jón Þorvaldsson, bróðursonur Agnesar og seinna ábóti á Þingeyrum. Um aldamótin 1500 eru taldar þessar nunnur í klaustrinu, auk Agnesar abbadísar: Guðbjörg Pálsdóttir, Helga Þorkelsdóttir, Steinvör Guðólfsdóttir, Þorgerður Jónsdóttir, Þórdís systurdóttir Agnesar og Solveig Hrafnsdóttir. Agnes dó árið 1507, háöldruð, og tók Solveig við af henni og var síðasta abbadís klaustursins. Listeria monocytogenes. "Listeria monocytogenes" er Gram-jákvæður sjúkdómsvaldandi gerill sem þrífst vel við lágt hitastig. Hann er mjög algengur í náttúrunni og finnst í jarðvegi, plöntum, skólpi og þörmum manna og dýra. Gerillinn er mjög þolinn og getur fjölgað sér á sýrustigi frá 4,1 til 9,6 og getur vaxið í loftfirrðu og loftríku umhverfi (er valfrjálst loftsækinn). Kjörhitastig gerilsins er 30 - 37°C en hann getur fjölgað sér á hitastigsbilinu 1 - 45°C. Hann getur fjölgað sér við 10% saltstyrk og lifað af 30% saltstyrk. Dýr sem eru smituð eru oft einkennalausir smitberar. Gerillinn finnst oft í hráum matvælum en getur einnig fundist í elduðum mat ef orðið hefur krossmengum eftir hitameðhöndlun. Gerillinn veldur sjúkdóm sem kallast listeríusýking (e. "listeriosis") og eru einkenni hans mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Sjúkdómurinn getur einnig valdið heilahimnubólgu í ungbörnum, blóðeitrun og valdið fósturláti. Dánartíðni þeirra sem veikjast er há en það eru aðallega einstaklingar sem eru með skert ónæmiskerfi, gamalmenni, vanfærar konur og nýfædd börn. Á hverju ári sýkjast um 2-10 á hverja 100.000 íbúa í löndum Evrópu og Norður-Ameríku. Teitur (príor í Möðruvallaklaustri). Teitur var íslenskur munkur sem var fyrsti príor í Möðruvallaklaustri en föðurnafn hans er óþekkt og ekki er vitað hvort hann kom úr einhverju öðru klaustri. Hann varð príor ári eftir stofnun klaustursins, 1296 eða líklega þó frekar 1297. Ekki er vitað hve lengi hann var í embætti eða hvenær hann dó og því er ekki ljóst hvort hann var enn príor þegar klaustrið brann ásamt klausturkirkju og öllum skrúða árið 1316 en orsök brunans var sú að munkarnir komu drukknir heim úr kaupstað á Gásum og kveiktu í klaustrinu í ölæði. Klaustrið var ekki byggt upp að svo stöddu, enda taldi Auðunn rauði Hólabiskup sér það ekki skylt þar sem munkarnir hefðu sjálfir brennt ofan af sér. Hann lét þess í stað munkana verða presta í ýmsum sóknum eða tók þá heim til Hóla, en allar tekjur af klaustrinu gengu til Hólastaðar. Ekki er getið um neinn príor á þessu tímabili, hvorki Teit né aðra, og hefur hann líklega verið fallinn frá þegar klaustrið var endurreist 1326 því þá varð Þorgeir nokkur príor. Þorgeir (príor í Möðruvallaklaustri). Þorgeir var munkur í Möðruvallaklaustri á 14. öld og varð príor þar þegar klaustrið var endurreist árið 1328 en príorstími hans varð þó stuttur því Lárentíus biskup vék honum úr embætti árið eftir. Föðurnafn Þorgeirs er óþekkt og ekkert vitað um ætt hans en hann var munkur í klaustrinu 1316, þegar það brann til kaldra kola eftir að munkarnir komu drukknir heim úr kaupstað á Gásum. Næsta áratuginn gegndi hann prestsembætti í Lögmannshlíð. Að boði erkibiskups var klaustrið svo endurbyggt eftir miklar deilur og Þorgeir skipaður príor. Deilunum lauk þó ekki þar með og veturinn eftir fór Þorgeir príor suður í Skálholt til Jóns biskups Halldórssonar, sem var andstæðingur Lárentíusar í deilunum, og þáði af honum gjafir. Þetta mislíkaði Lárentíusi, sem taldi að Þorgeir hefði átt að biðja sig leyfis til fararinnar. Möðruvallabræður þóttu ekki sýna mikla forsjálni í fjárgeymslu klaustursins en söfnuðu að sér liði bænda og þegar Lárentíus biskup kom í eftirlitsferð um vorið var þar fyrir vopnað lið. Tveimur dögum seinna kom biskup þó aftur, tók lykla af munkunum og skipaði ráðsmann yfir klaustrið. Hann hafði Þorgeir príor á brott með sér og setti hann af en skipaði Steindór Sokkason príor. Ekkert er vitað hvað um Þorgeir varð síðar. Um sumarið kom svo sendimaður Lárentíusar með úrskurð erkibiskups, þar sem kom fram að biskup skyldi hafa æðstu forráð klaustursins, og var allt með kyrrum kjörum meðan Lárentíus lifði. Steindór Sokkason. Steindór Sokkason (d. fyrir 1352) var íslenskur munkur sem var príor í Möðruvallaklaustri frá 1328 og var skipaður af Lárentíusi Kálfssyni biskupi þegar Þorgeir príor var settur af eftir miklar deilur biskups og munkanna á Möðruvöllum. Steindór var sonur Sokka Steindórssonar á Munkaþverá og konu hans Þuríðar Einarsdóttur og bróðir hins mikla fræðimanns Bergs Sokkasonar, ábóta á Munkaþverá og vinar Lárentíusar biskups. Sjálfsagt hefur Steindór einnig verið vel menntaður en ekki er þó vitað um nein ritverk hans og engum sögum fer af ábótastörfum hans, nema hvað allt virðist hafa verið með kyrrum kjörum eftir hatrammar deilur áranna á undan, að minnsta kosti framan af. Árið 1342 kom Ormur Ásláksson, þá nýorðinn Hólabiskup, í klaustrið, fangaði þrjá munka, lét járna þá og varpa í myrkrastofu fyrir einhverjar sakir. Eitthvað kann að hafa verið athugavert í klaustrinu en Ormur var líka frægur fyrir deilur og óstjórn. Líklega hefur Steindór enn verið príor þegar þetta var en dánarár hans er óþekkt. Þórður Bergþórsson varð svo príor 1352. Þórður Bergþórsson. Þórður Bergþórsson (d. 1372) var príor í Möðruvallaklaustri frá 1352 til dauðadags og hefur líklega tekið við af Steindóri Sokkasyni. Fátt er vitað um Þórð og fer litlum sem engum sögum af príorstíð hans. Eftirmaður Þórðar var Erlendur Halldórsson. Blálanga. Blálanga (fræðiheiti: "Molva dypterygia") er meðalstór eða stór, langur og mjósleginn þorskfiskur. Hann er vanalega 70 til 110 sm langur en getur orðið 155 sm. Blálanga er djúpsjávarfiskur og finnst á bilinu 130 til 1500 m en er oftast á 350 til 500 m dýpi á leirbotni. Fæða blálöngu er ýmsir fiskar, krabbadýr og botnlægir hryggleysingjar. Hún vex hægt og nær kynþroska við 9 til 11 ára aldur. Blálanga getur orðið 20 ára og 30 kg að þyngd. Snorri (príor í Möðruvallaklaustri). Snorri príor var íslenskur munkur sem var príor í Möðruvallaklaustri frá því um 1380 og tók við af Erlendi Halldórssyni, sem lést 1378 eða 1379. Ekki er víst hve lengi hann var príor; hann kann að hafa dáið í Svarta dauða en gæti líka hafa lifað lengur. Snorra er fyrst getið í bréfi sem skrifað var á Möðruvöllum 23. mars 1380 og var hann þá orðinn príor. Á príorstíð hans bar það til, árið 1394, að danskur sveinn Péturs Nikulássonar Hólabiskups sem var í vísitasíuferð í klaustrinu vó þar annan biskupssvein. Fáar heimildir eru annars um klaustrið og íbúa þess frá síðustu áratugum 14. aldar og fyrstu áratugum þeirra 15. Líklega hefur klaustrið nær eyðst í Svarta dauða, hvort sem Snorri príor hefur dáið þá eða ekki, og klausturlifnaður lagst niður að mestu. Þó er vitað að kirkjan á Möðruvöllum brann árið 1421. Árið 1430 fékk séra Jón Bjarnason Möðruvelli að léni til þriggja ára hjá Jóni Vilhjálmssyni Craxton Hólabiskupi og átti hann meðal annars að fæða og klæða prest og djákna og tvo munka. Sennilega hafa þá ekki verið fleiri munkar í klaustrinu og enginn príor. Á bréfinu má einnig sjá að séra Jón Pálsson Maríuskáld hefur annaðhvort verið ráðsmaður á Möðruvöllum eða haft klaustrið að léni á undan Jóni Bjarnasyni. Nokkrum árum síðar var klausturlifnaður þó efldur og Sigurður Jónsson gerður að príor. Kesha. Kesha Rose Sebert (fædd 1. mars 1987) er bandarískur poppsöngvari og lagahöfundur. Hún fæddist í Los Angeles, ólst upp í Nashville og flutti á unglingsaldri aftur til Los Angeles. 2009 söng hún inn á lögin "This love" með Veronicas, "Lace and Leather" með Britney Spears og "Right Round" með Flo Rida. Ári síðar gaf hún út fyrstu breiðskífu sína Animal. Að duga eða drepast. Að duga eða drepast (enska: "Make it or Break it") er þáttaröð frá 2009 og er til sýningar á sjónvarpstöðinni ABC Family í Bandaríkjunum. Þátturinn er sýndur á Ríkissjónvarpinu og er um fjórar fimleikastelpur sem keppast um að komast á Ólympíuleikana. Sigurður Jónsson (príor). Sigurður Jónsson (f. um 1407, d. 1492) var kirkjuprestur á Hólum og príor í Möðruvallaklaustri frá því um 1439 og til dauðadags og var því í embætti í meira en hálfa öld. Hann var afi Jóns Arasonar biskups. Klausturlifnaður á Möðruvöllum virðist hafa legið meira og minna niðri allt frá því í Svarta dauða og þar til Sigurður varð príor og má því eiginlega segja að hann hafi verið eini príor klaustursins alla 15. öld. Hann var sonur Jóns Ólafssonar, bónda í Hörgárdal. Hann kemur töluvert við ýmiss konar skjöl á síðari hluta 15. aldar, jarðakaupasamninga, dóma og fleira, og mun hafa aukið hag klaustursins umtalsvert eftir niðurlægingartíma. Sigurður átti nokkur börn, þar á meðal Ara bónda á Laugalandi, föður Jóns biskups á Hólum. Ari dó þegar Jón var barn að aldri en þó eftir 1490, eða um svipað leyti og faðir hans. Nikulásar Þormóðssonar, eftirmanns Sigurðar, er ekki getið í embætti fyrr en 1501 en hann hefur annaðhvort orðið príor mun fyrr eða príorslaust hefur verið í klaustrinu um árabil. Listeriaceae. "Listeriaceae" er ætt Gram-jákvæðra baktería sem inniheldur ættkvíslirnar "Listeria" og "Brochothrix". Listeria. Listeria er ættkvísl gerla af "listeriaceae" ætt og finnast annað slagið í matvælum. Kjörhitastig gerilsins eru um 30-37°C en hann getur fjölgað sér við hitastig niður í 0°C. Hann getur því fjölgað sér í kæliskáp, en það gerist að vísu mjög hægt og tvöföldunartíminn er langur. Listeríur eru víða í umhverfinu, oft hefur Listeria verið sögð vera jarðvegsbaktería en hún finnst líka víða í rotnandi plöntum og grænmetisleyfum, í skólpi, vatni, í alifuglum og í unnu kjöti, í hrárri mjólk, osti og í mönnum. Aðallega er hann þó í jarðvegi og í rotnandi plöntuleifum en hún gegnir þar mikilvægu hlutverki við niðurbrot. Listeriur eru staflaga gramjákvæðar, eru loftsæknar og valháðar. Hún breytir því efnaskiptum eftir umhverfinu sem hún er í. Hún myndar ekki gró og er oft í samneiti með öðrum Listeriu bakteríum og myndar oft keðjur. Hann þolir að vera í mikilli seltu, háu sýrustigi og háum hita. Frægasta tegundin er "Listeria monocytogenes" en hún veldur „Listerisosis“ sem er vel þekktur sjúkdómur í sauðfé á Íslandi, var kallaður „votheysveiki“ eða „hvanneyrarveiki“. Fyrst var sjúkdómnum lýst í Danmörku 1929, en fyrstu sýkingu í mönnum á íslandi var lýst 1961, frá árinu 1978 hafa mörg tilfelli greinst. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á landspítalanum á árunum 1978-1994 var nýgengi sjúkdómsins á íslandi um 8,3 á hverja milljón íbúa hérlendis, sem er hærra en í öðrum löndum. Faraldrar voru þó algengir áður, td þegar ógerilsneydd mjólk var notuð í ostagerð í Sviss og felldi fjölda manna árlega. Í Bandaríkjunum var listeriosis rakið til ferskra matvæla eins og salats, gerilsneyddrar mjólkur og mjúkra“mexican style“ osta. Þeir sem fá listeriosis eru í lífshættu og deyja 19-51% sjúklinga. Sérstaklega er alvarlegt ef að ungabörn eða óléttar mæður fái listeriosis. Því að það ungabörn og fóstur eru sérstaklega viðkvæm fyrir því að fá listeriosis. Erfitt hefur reynst að rekja smitleiðir því að meðgöngutími sýkinganna er um 30 dagar og því engin matvæli tiltæk til rannsóknar þegar sýking greinist. Hún er nefnd til heiðurs enska skurðlækninum Joseph Lister. Nikulás Þormóðsson. Nikulás Þormóðsson (um 1440 – 28. október 1521) var íslenskur prestur, kirkjuprestur á Hólum í Hjaltadal og síðar príor í Möðruvallaklaustri frá 1501 eða fyrr og til æviloka. Ætt Nikulásar er óþekkt þótt sumir hafi talið hann son Þormóðs Ólafssonar prests á Helgastöðum í Reykjadal. Hann var kirkjuprestur á Hólum um og eftir 1467 og prestur á Upsum í Svarfaðardal 1480-1491. Hugsanlega hefur hann orðið príor á Möðruvöllum skömmu eftir lát Sigurðar Jónssonar 1492 en hans er þó fyrst getið sem príors 1501. Nikulás tók til sín fátæka stúlku, Þóreyju Jónsdóttur, og hafði hjá sér. Hún taldist þó ekki fylgikona hans og synir tveir sem hún átti, Þorbjörn og Þorsteinn, voru kallaðir Þóreyjarsynir þótt þeir væru almennt taldir synir Nikulásar. Þorsteinn var bóndi á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Sonur hans var séra Sigurður Þorsteinsson, sem átti að fylgikonu Guðrúnu dóttur Finnboga Einarssonar ábóta á Munkaþverá. Þau voru foreldrar Einars Sigurðssonar prests og skálds í Eydölum. Nikulás dó 1521 og var þá um áttrætt. Eftirmaður hans var Jón Finnbogason, síðasti príor á Möðruvöllum. Jón Finnbogason. Jón Finnbogason (d. 1546) var prestur í Múla í Aðaldal en varð príor í Möðruvallaklaustri 1524 og gegndi því embætti til dauðadags. Hann var síðasti príor klaustursins því eftirmaður hans hafði enn ekki verið skipaður þegar siðaskiptin urðu. Jón var af miklum höfðingjaættum, sonur Finnboga Jónssonar Maríulausa, lögmanns og sýslumanns í Ási í Kelduhverfi, og konu hans Málmfríðar, dóttur Torfa Arasonar hirðstjóra og Akra-Kristínar. Guðrún móðursystir hans var fylgikona Einars Benediktssonar ábóta á Munkaþverá. Jóni príor er oft ruglað saman við bróður sinn og alnafna sem var prestur í Laufási við Eyjafjörð. Jón var prestur í Múla 1481-1524 og var einn helsti klerkur norðanlands og kemur við ýmis skjöl. Hann var einnig officialis 1522 og dæmdi þá í málum Jóns Arasonar biskupsefnis og Helga Höskuldssonar ábóta á Þingeyrum. Hann varð svo príor á Möðruvöllum 1524 en Sigurður Jónsson príor hafði látist 1521. Sigurður sonur Jóns, sem kallaður var príorsson, var klausturhaldari á Möðruvöllum. Fylgikona Jóns hét Rannveig Jónsdóttir. Synir þeirra, auk Sigurðar klausturhaldara, voru þeir Arngrímur Jónsson sýslumaður í Vaðlaþingi og síðar bóndi á Gunnsteinsstöðum í Langadal og Torfi prestur í Saurbæ. Með annarri konu átti Jón soninn Erlend, bónda og lögréttumann á Æsustöðum í Langadal. Eftir að Jón dó 1546 var enginn príor á Möðruvöllum en en Jón Arason setti séra Björn Gíslason, kirkjuprest á Hólum og Hólaráðsmann, til að stýra klaustrinu. Stóð það fyrirkomulag til siðaskipta en eftir það, þegar klausturjarðirnar 67 komust í eigu konungs, tók Björn þær á leigu og var umboðsmaður 1554-1560. Kona hans var Málfríður milda Torfadóttir, sonardóttir Jóns príors. Erlendur Halldórsson. Erlendur Halldórsson (d. um 1378) var príor í Möðruvallaklaustri næstur á eftir Þórði Bergþórssyni. Hann var kjörinn príor 1372 og líklega vígður árið eftir. Jón skalli Eiríksson gerði skrá yfir lausafé Hólakirkju árið 1374 og var Erlendur príor á Möðruvöllum þar við. Annars kemur hann lítið við skjöl og er fátt um hann vitað. Hann var ekki mörg ár í embætti því hann er talinn hafa dáið 1378 eða 1379. Arftaki hans var Snorri príor. Tölvuský. Tölvuský á við geymslu gagna í netþjóni í staðinn fyrir á staðartölvu. Átt er við að geyma gögn „í skýinu“. Þegar notandi vill fá aðgang að gögnum sínum eru þeim hlaðið niður í gegnum tölvunet í staðinn fyrir að vera opnuð úr hörðum diski á staðartölvu. Þess vegna þarf staðartölvan minna geymslupláss af því ekki svo mikil gögn eru vistuð beint á tölvuna. Þannig getur litið forrit verið sett upp á tölvunni, kannski aðeins einfalt stýrikerfi og vafri. Helsti kosturinn á að nota tölvuský er sá að einfalt er að setja upp nýja tölvu með notandagögnum ef þeirri gömlu er stolið, týnist eða bilar. Það er líka hægt að ná í gögnin hvar sem er með hvaða tölvu sem er. Galli er sá er að ef samband við tölvuskýið slitnar getur notandinn ekki náð í gögn sín, nokkur kerfi geyma þó takmarkað magn af gögnum á staðartölvunni af þessari ástæðu. Sumir hafa áhyggjur af öryggismálum út af því að notendur hafa ekki beina stjórn á gögnum sínum. Aðra grunar að fyrirtæki ætli að nota gögn þeirra til þess að auglýsa vörur eða selja gögn um þá til annarra fyrirtækja. Saga. Orðið „tölvuský“ er íslenskt nýyrði byggt á enska orðinu "cloud computing". Uppruni þessa hugtaks er óljóst en hugsanlegt er að það eigi við teikningar af stílfærðum skýjum sem notuð eru til þess að tákna tölvunet á tæknilegum skýringarmyndum. Á ensku er orðið "cloud" stundum notað sem myndgerving fyrir internetið en þessi hefð á rætur að rekja til notkunar skýjatákna til þess að tákna net á símkerfisskýringarmyndum. Hélt var áfram að nota ský til þess að tákna net á tölvunetsskýringarmyndum. Fyrir árið 1994 voru skýjatákn notuð til þess að merkja internetið. Hugtakið sem liggur að baki tölvuskýs nær aftur til sjötta áratugarins þegar háskólar og stór fyrirtæki byrjuðu að kaupa móðurtölvur. Aðgangur að móðurtölvunni var í gegnum útstöðvar með litlum krafti. Móðurtölvur voru dýrar og þess vegna var nauðsynlegt að finna leiðir til að nota þær hagkvæmlega. Með útstöðvum var notendum gert kleift að deila aðgangi að móðurtölvunni og örgjörvanum hennar og þannig gátu margir notendur unnið með tölvunni samtímis. Slík notkun var átt við sem samvinnslu (e. "time-sharing"). Tölvufræðingurinn John McCarthy sagði á sjöunda áratugnum að „tölvur gætu einn dag verið skipulagðar sem almenningsþjónusta“. Árið 1966 kom bókin "The Challenge of the Computer Utility" eftir Douglas Parkhill út. Í bókinni voru tölvur bornar saman við rafmagnskerfið, og fjallað var um atriði eins og teygjanleika með framboði, tölvur sem þjónusta og hugmyndina um endalausan forða. Aðrir tölvufræðingar hafa sýnt að tölvuskýið eigi rætur að rekja til sjöunda áratugarins þegar vísindamaðurinn Herb Grosch (sem fann upp Groschs lög) spáði að allur heimurinn myndi nota útstöðvar tengdar við móðurtölvur á ekki fleiri en 15 gagnaverum. Vegna kostnaðar þessara kerfa myndu stór fyrirtæki og aðrir nota þessar tölvur með samvinnslu. Nokkur fyrirtæki, meðal annars GM og IBM, seldu samvinnsluþjónustur til annarra fyrirtækja sem nothæfa lausn. Helstu þættirnir sem leitt hafa til þess að verið sé að taka upp tölvuskýið í verulegum mæli eru hröð tölvunet með stórri afkastagetu, ódýrar tölvur og geymslutæki, uppbygging þjónustubundinna tölvukerfa og svokölluð „sjálfsstjórn“ (e. "Autonomic Computing"), þar sem tölvur stjóra sjálfar auðlindum sínum. Zürich (fylki). Zürich er fjölmennasta kantónan í Sviss með rúma 1,3 milljón íbúa. Höfuðborg hennar, borgin Zürich, er mesta fjármálamiðstöð landsins. Íbúarnir eru þýskumælandi. Lega og lýsing. Zürich er sjöunda stærsta kantóna Sviss með 1.729 km2. Hún liggur nær nyrst í Sviss og nemur norðurhlutinn við þýsku landamærin. Aðeins kantónan Schaffhausen liggur norðar. Kantónur sem að Zürich liggja eru Schaffhausen fyrir norðan, Thurgau fyrir austan, St. Gallen fyrir suðaustan, Schwyz og Zug fyrir sunnan og Aargau fyrir vestan. Zürich er hæðótt en ekki hálend, enda liggur hún fyrir norðan Alpafjöll. Hæsta fjallið, Schnebelhorn, er aðeins 1.293 m hátt. Zürichvatn gengur inn í landið í suðri og klýfur suðurhluta kantónunnar í tvennt. Íbúar eru 1,3 milljónir, sem gerir Zürich að fjölmennustu kantónu Sviss. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Zürich eru tvær rendur á ská. Fyrir ofan til hægri er hvítt en fyrir neðan til vinstri er blátt. Merki þetta kom fram á 15. öld sem dómsinnsigli. Ekki hefur tekist að útskýra tilurð litanna. Í gegnum tíðina hefur ýmislegt skraut verið sett í kringum merkið, svo sem ljón og ríkisörninn. Stundum er það enn notað. Skjaldarmerki kantónunnar Zürich og borgarinnar Zürich eru nákvæmlega eins. Orðsifjar. Kantónan heitir eftir borginni Zürich. Rómverjar nefndu staðinn Turicum, en þar voru þeir með hervirki. Talið er að heitið sé forngermanskt en það hefur ekki verið skýrt enn. Salurinn. Salurinn er sérhannaður tónleikasalur í Tónlistarhúsi Kópavogs sem er staðsett að Hamraborg 6. Tónlistarhús Kópavogs er hluti af Menningarmiðstöð Kópavogs. Salurinn var tekinn í notkun 2.janúar árið 1999 og var fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins. Salurinn tekur 300 manns í sæti, 200 í sal og 100 á svölum og forrými Salarins rúmar einnig 300 manns. Frá opnun hafa að meðaltali verið haldnir 2 til 3 tónleikar á viku í Salnum og einnig hefur hann verið notaður undir fjölda ráðstefna, námskeiða og fleiri viðburða. Arkitektar hússins eru Jakob Líndal og Kristján Ásgeirsson. Við hönnunina var áhersla lögð á að tryggja sem bestan hljómburð og leitað ráðgjafar frá sérfræðingum. Einnig var lögð áhersla á íslenskan efnivið í byggingunni og má meðal annars finna greni úr Skorradal á innveggjum Salarins og malað grjót úr grunni hússins í gólfum. Allt frá opnun 1999 hefur Salurinn gegnt mikilvægu hlutverki í tónlistarlífi landsins. TÍBRÁ er tónleikaröð Salarins og hefur skipað stóran sess í íslensku tónlistarlífi. Fjölmargir erlendir gestir hafa komið fram á vegum TÍBRÁ. Salurinn er leigður út til almenns tónleikahalds og þar eru haldnir mjög fjölbreyttir tónleikar. Salurinn er einnig mjög vel búinn til ráðstefnu-, námskeiðs-, og fundarhalda og hefur hann verið nýttur vel sem slíkur. Barnaskóli Reykjavíkur. Barnaskóli Reykjavíkur var stofnaður í Reykjavík árið 1862 og lærðu börn þar lestur, skrift, reikning, biblíusögur, réttritun, landafræði og dönsku. Á árunum 1883 til 1898 var Barnaskólinn til húsa við Pósthússtræti 3-5. Það hús var byggt sérstaklega til þess að hýsa barnaskólann og var teiknað af F. Bald sem hafði nýlega lokið við smíð Alþingishússins. Áður hafði barnaskólinn verið til húsa í Flensborgarhúsi, gömlu timburhúsi við Hafnarstræti þar sem mikill fúi var og aðstæður bágbrotnar. Árið 1898 var ný timburbygging byggð við Tjörnina til þess að anna eftirspurn. Fyrsta árið voru þar 285 börn. Eftir 1930 var nafni skólans hins vegar breytt í Miðbæjarskólinn. Þá voru einnig teknir til starfa Landakotsskóli, árið 1909 og Barnaskóli Ásgríms Magnússonar ("Fríkirkjuskólinn"), árið 1904. Tónlistarsafn Íslands. Tónlistarsafn Íslands er staðsett að Hábraut 2 í Kópavogi. Safnið var formlega opnað í maí 2009. Því var komið á fór með samningi Kópavogsbæjar og menntamálaráðuneytisins. Tónlistarsafninu er ætlað að vera þjónustu-, fræðslu- og miðlunarsetur fyrir tónlist sem þjónar almenningi, söfnum og stofnunum í landinu með upplýsingum um listgreinina. Molinn. Molinn er ungmennahús Kópavogs staðsett að Hábraut 2. Molinn opnaði í maí 2008 og er ætlaður ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Í Molanum er að finna listagallerí, lítið kaffihús, tónleika- og ráðstefnuaðstöðu og margt fleira. Molinn er opinn þriðjudaga til föstudaga frá 14:00-23:00. Það er ýmislegt um að vera í Molanum til dæmis fjallgöngur, spilakvöld, bíókvöld og ýmsir aðrir atburðir. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Náttúrufræðistofa Kópavogs var opnuð í desember 1983. Til að byrja með var stofnunin til húsa að Digranesvegi 12 en hefur hún verið flutt í Hamraborg 6a, í sama hús og Bókasafn Kópavogs. Hlutverk Náttúrufræðistofunnar er að safna, varðveita og sýna náttúrugripi, ásamt því að standa að fræðslu og rannsóknum í náttúrufræðum og stuðla að náttúru- og umhverfisvernd. Upphaf Náttúrufræðistofu Kópavogs má rekja til kaupa Kópavogsbæjar á skeldýrasafni Jóns Bogasonar. Þetta skeldýrasafn er einn af kjörnunum í náttúrugripasafni Náttúrufræðistofunnar. Einnig myndaðist töluvert fuglasafn á tímum Árna Waag sem var fyrsti forstöðumaður stofunnar. Á síðustu árum hefur svo orðið til gott safn af berg- og steintegundum. Það er Kópavogsbær sem stendur að rekstri stofunnar en hún hefur einnig aflað verulegra sértekna með útseldum verkefnum. Húsnæði Náttúrufræðistofunnar er það fyrsta á landinu sem er hannað fyrir náttúrufræðisafn frá grunni og er því öll aðstaða og þjónusta eins og best verður á kosið. Náttúrufræðistofan sér um ýmsar rannsóknir og eru þær einkum á sviði vatnavistfræði. Unnin hafa verið verkefni af öllum stærðum og gerðum og í samstarfvi við aðrar rannsóknarstofnanir jafnt innanlands og utan. Sum verkefni hafa verið unnin fyrir eigin reikning en önnur hafa hlotið styrki. Einnig hefur verið nokkuð um útseld verkefni. Núverandi forstöðumaður er Hilmar J. Malmquist sem tók við af Árna Waag árið 1992. Salalaug. Sundlaugin Versölum eða Salalaug er ein af tveimur sundlaugum í Kópavogi. Hún er staðsett að Versölum 3. Við sundlaugina er íþróttamiðstöð með 4.095 fermetra íþróttasal með fimleikaðstöðu fyrir Íþróttafélagið Gerplu. Aðalsundlaugin er 25x15 m að stærð og dýptin er frá 1 m – 1,6 m. Hitastigið er um 29°. Iðulaugin er eitt af einkennum Versala-laugarinnar. Þar eru nuddstútar og legubekkir og rúmgott svæði fyrir þá sem vilja slaka á. Hitastigið er um 38°. Innilaugin er 16.67x10 m að stærð og 0,75-0,9 m að dýpt. Hitastigið er 33-34°. Laugin er tilvalin fyrir ungabörn og yngri sungesti og í henni fer fram skólasund yngri barna grunnskólanna. Í sundlauginni Versölum er einnig að finna Rennibraut, tvo heita potta og svokallað vatnsorgel. Hjallakirkja. Hjallakirkja er ein af fjórum kirkjum Kópavogs. Hún er staðsett að Álfaheiði 17. Hjallasókn var stofnuð 25. maí árið 1987. Í ársbyrjun 1988 skipaði sóknarnefnd Hjallasóknar fimm manna byggingarnefnd sem annaðist undirbúning og umsjón framkvæmda við Hjallakirkju. Hróbjartur Hróbjartson arkitekt var ráðinn til að teikna kirkjuna og ýmsir aðrir komu að hönnun hennar. Í maí 1991 var samþykkt að hefja byggingu kirkjunnar og á hvítasunnudag, þann 19.maí 1991 helgaði herra Ólafur Skúlason, þáverandi biskup Íslands lóðina og dr. Theol. Sigurbjörn Einarsson, biskup, tók fyrstu skóflustunguna. Kirkjan var vígð á Páskadag, 11.apríl 1993. Biskup Íslands Biskup Íslands, herra Ólafur Skúlason vígði hana og sóknarprestur, sr. Kristján Einar Þorvarðarson þjónaði fyrir altari. Í ársbyrjun 1998 var tekin ákvörðun um að fá orgel í kirkjuna og fljótlega eftir það var ákveðið að reyna að fá Björgvin Tómasson, orgelsmið, til að smíða orgelið. Í mars 2000 var undirritaður samningur um smíði orgelsins og hófst hún af fullum krafti. Orgelið var síðan vígt 25.febrúar 2001 og var það dr. Sigurbjörn Einarsson biskup, sem vígði orgelið og prédikaði við vígsluguðþjónustuna. Einróma álit er um það að smíðin hafi tekist einstaklega vel og hefur það verið notað mjög mikið við bæði guðsþjónustur og á tónleikum. Séra Kristján Einar Þorvarðarson var fyrsti sóknarprestur Hjallasóknar og starfaði hann frá 1987-1999. Sr. Bryndís Malla Elídóttir var prestur frá 1995-1996. Sr. Íris Kristjánsdóttir starfaði sem prestur frá 1996-1999 og hefur verið sóknarprestur frá árinu 2000. Sr. Magnús Guðjónsson var settur sóknarprestur frá 1999-2000. Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson var prestur á árunum 2000-2002 og Sr. Sigfús Kristjánsson hefur starfað sem brestur frá árinu 2002. Sóknarmörk eru Reykjanesbraut að norðvestan frá mörkum Kópavogs og Garðabæjar, norðaustur Reykjanesbraut að mörkum Kópavogs og Reykjavíkur norð norðvestan Seljahverfis, þaðan eftir mörkum Kópavogs og Reykjavíkur til norðausturs og mörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðausturs og suðvesturs. Þann 1. desember 2010 tilheyrðu um 6200 manns Hjallasöfnuði, af þeim eru um það bil 4700 innan Þjóðkirkjunnar. Lindakirkja. Lindakirkja er nýjasta kirkjan í Kópavogi. Kirkjan er staðsett í Uppsölum 3 í Salahverfinu. Lindasókn var stofnuð í febrúar 2002 og varð að prestakalli 1. júlí sama ár. Árið 2004 var byggingarnefnd Lindakirkju sett á laggirnar og haustið 2006 hófust framkvæmdir við byggingu kirkjunnar. Það voru ASK Arkitektar sem teiknuðu Lindakirkju og ÍSTAK sáu um bygginguna. Þann 14. desember 2008 var fyrsti áfanginn vígður, safnaðarsalur, kennslustofa, eldhús og skrifstofur. Sóknarprestur í Lindakirkju er Guðmundur Karl Brynjarsson og Guðni Már Harðarson er prestur. Við kirkjuna er að finna nýjan grafreit. Mörk Lindasóknar afmarkast í norðri, austri og suðri af bæjarmörkum Kópavogs en til vesturs af Reykjanesbraut. Þórir Haraldsson. Þórir Haraldsson (d. 1323) var ábóti í Munkaþverárklaustri, vígður 1298 og tók við af Ljóti Hallssyni. Hann átti í deilum við Lárentíus Kálfsson Hólabiskup og einnig Auðun rauða, sem setti hann úr embætti árið 1317. Tilefni deilna þeirra Lárentíusar og Þóris ábóta var að Solveig Loftsdóttir húsfreyja í Lönguhlíð (Skriðu) í Hörgárdal, systir Þorláks Loftssonar ábóta í Þykkvabæjarklaustri og bróðurdóttir Árna Helgasonar biskups og Agöthu abbadísar í Kirkjubæjarklaustri, drukknaði í Hörgá árið 1307. Hana hefði átt að grafa á Bægisá en maður hennar, Þorvaldur Geirsson, vildi að hún fengi legstað á Munkaþverá, og gaf klaustrinu mikið fé til að svo mætti vera. Hann var vel stæður, sonur Geirs auðga Þorvaldssonar á Silfrastöðum en Guðmundur dýri Þorvaldsson var langafi hans. Hildibrandur Jónsson prestur á Bægisá kærði þetta til Lárentíusar, sem þá var hér vísitator erkibiskupsins í Niðarósi ásamt munkinum Birni, og gaf hann út bréf þess efnis að Solveigu skyldi jarða á Bægisá og bannaði messusöng í klausturkirkjunni á Þverá meðan ekki væri farið að boði hans. Þórir ábóti, Jörundur Hólabiskup og fleiri fengu þá bróður Björn til að gefa út annað bréf sem gekk þvert á bréf Lárentíusar og heimilaði að Solveig væri grafin á Munkaþverá. Þegar Lárentíus kom í Munkaþverá með fylgdarmönnum og ætlaði að koma sínu fram gripu Þórir ábóti og hans menn bréfið sem Lárentíus hafði gefið út, rifu það og brutu innsigli og vörpuðu svo Lárentíusi og mönnum hans út úr kirkjunni og kirkjugarðinum. Bendir þetta ekki til þess að Þóri hafi verið sýnt um að láta að stjórn yfirboðara sinna. Árið 1312, þegar Lárentíus var fallinn í ónáð Jörundar Hólabiskups, sendi Þórir þó eftir honum og bauð honum að koma til sín og kenna í klaustrinu. Lárentíus þáði það og kenndi í eitt ár á Munkaþverá og er sagt að „margir tóku mikinn þrifnað af hans læring“. Einn af nemendum hans þar var Bergur Sokkason, fræðimaður og síðar ábóti á Munkaþverá. Þeir Lárentíus urðu miklir vinir og vígðust saman í Þingeyraklaustur 1316 ásamt Árna syni Lárentíusar. Samkvæmt annálum var Brandur nokkur vígður ábóti á Munkaþverá 1310 en Þórir var þó áfram ábóti eftir það. Auðunn rauði Þorbergsson Hólabiskup setti hann úr embætti 1317. Hann ætlaði til Noregs 1318 en skipið brotnaði í hafís við Austfirði en menn björguðust. Þórir fór svo utan 1321 og er talið að hann hafi dáið í Noregi 1323. Ef til vill hefur Brandur sá sem áður er nefndur gegnt ábótastarfi fyrst eftir að Þórir vék þaðan en Bergur Sokkason var príor frá 1322 og ábóti frá 1325. Hallveig (ungliðahreyfing). Hallveig - ungir jafnaðarmenn í Reykjavík er félag ungra jafnaðarmanna í Reykjvík og á aðild að Ungum Jafnaðarmönnum og Samfylkinguni Jafnaðarmannaflokki Íslands. Félagið hét áður Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík en var breytt á aðalfundi félagsins árið 2008. Félagið hefur Frelsi, Jafnrétti og Samstöðu að leiðarljósi í öllum ákvörðunum sínum og telur að með jafnaðarstefnunni sé hægt að mynda hið fullkomna samfélag í Reykjvík og á landinu öllu. félagið heldur út heimasíðunni hallveig.is. Saga félagsins. Félagið var stofnað árið 1969 sem félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og var þá aðildarfélag að Alþýðuflokknum. árið 1999 varð félagið aðildarfélag að ungum jafnaðarmönnum og árið 2000 varð það aðildarfélag að Samfylkingunni. Á aðalfundi félagsins 2008 var nafninu breytt í Hallveig Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík. Nafn félagsins. Nafnið hefur félagið frá Hallveigu Fróðadóttir sem var gift Ingólfi Arnarsyni og var hún þar með fyrsta húsfreyja í Reykjavík. Félagaskrá. Í Hallveigu Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík er skráðir um 2000 félagar á aldrinum 16-35.ára og eru enginn félagsgjöld í félaginu. Stjórn. Í stjórn Hallveigar eiga sæti formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og fjórir til níu meðstjórnendur. Hafliði (ábóti í Munkaþverárklaustri). Hafliði (d. 1370) varð ábóti í Munkaþverárklaustri eftir að Bergur Sokkason dó en hann hafði þá verið tvívegis ábóti. Föðurnafn Hafliða þessa er ekki þekkt og nánast ekkert um hann vitað þótt hann væri ábóti í tvo áratugi en hann mun hafa dáið 1370. Arftaki hans var Árni Jónsson skáld. Kjáni (fiskur). Kjáni (fræðiheiti: "Chaunax suttkusi") er tegund djúpsjávarfiska sem lifir við strendur Vestur-Afríku frá Azoreyjum að Angóla og við strendur Ameríku frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum að Brasilíu á 220-1.060 metra dýpi. Kjörhitastig fisksins er frá 6°C - 17°C. Karlfiskurinn verður mest 22,8 sentímetrar og kvenfiskurinn 17,9. Hvorugt kynið er hættulegt mönnum. Kjáni hefur nokkrum sinnum veiðst við Íslandsstrendur, þó alltaf sunnan- eða vestan af landinu. Tvisvar hafa kjánar veiðst sunnan af Vestmannaeyjum og einu sinni á Reykjaneshrygg. Einn kjánanna var gefinn Náttúrugripasafninu í Vestmannaeyjum. Árni Jónsson (ábóti). Árni Jónsson var skáld og ábóti í Munkaþverárklaustri á 14. öld, vígður 1370 eftir lát Hafliða ábóta. Hann fór utan 1379 og er ekkert um hann vitað eftir það; vafalaust hefur hann dáið erlendis skömmu síðar. Þorgils nokkur er sagður orðinn ábóti á Munkaþverá þegar árið 1379 og gæti það bent til þess að Árni hafi annaðhvort sagt af sér embætti áður en hann fór utan eða dáið fljótlega. Þorgils (ábóti í Munkaþverárklaustri 1379-1385). Þorgils var ábóti í Munkaþverárklaustri á 14. öld. Hann varð ábóti 1379 þegar Árni Jónsson skáld og ábóti sigldi til Noregs og átti ekki afturkvæmt. Um Þorgils er annars ekkert vitað nema hvað hann var settur úr embætti 1385 og hefur það verið Jón skalli Eiríksson sem afsetti hann en óvíst er fyrir hvaða sakir. Eftirmaður hans var Hallur, sem verið hafði munkur í Þingeyraklaustri. Hallur (ábóti á Munkaþverá). Hallur var íslenskur munkur sem var ábóti í Munkaþverárklaustri seint á 14. öld. Hann hafði verið munkur í Þingeyraklaustri, vígður ábóti í Munkaþverárklaustri þegar Þorgils ábóti var settur af 1385 og var til 1393 en þá vildi hann að sögn ekki vera lengur ábóti og fór aftur í Þingeyraklaustur. Arftaki hans, sem vígður var 1394, hét einnig Hallur eða einhverju nafni sem byrjaði á Hall-. Hann hefur sennilega dáið í svarta dauða 1402 eða 1403 en engar heimildir eru um það. Hitt er víst að klaustrið fór mjög illa í plágunni, munkarnir hafa sennilega flestir dáið og klausturlífið var mjög lengi að ná sér á strik. Í rauninni er nær ekkert vitað um klaustrið næstu áratugi og þar hefur verið ábótalaust þótt einhverjir munkar væru í klaustrinu. Það næsta sem er vitað er að í janúarlok árið 1429, nóttina eftir fyrsta laugardag í þorra, brann klaustrið ásamt klausturkirkjunni og breiddist eldurinn svo hratt út að fáu tókst að bjarga. Tveir munkar brunnu til bana en sá þriðji, sem Þorgils hét og var þá príor í klaustrinu, brenddist mjög illa, lá í rúminu fram til páska og náði sér aldrei aðfullu. Þorgils var svo vígður ábóti sama ár „og leizt það mörgum eigi misráðið síðan“. Þorgils (d. 1434). Þorgils (d. 1434) var munkur sem var ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1429 til dauðadags og hafði áður verið príor í klaustrinu. Klausturlifnaður virðist ekki hafa náð sér á strik á Munkaþverá í nokkra áratugi eftir Svarta dauða og enginn ábóti var í klaustrinu þótt einhverjir munkar væru þar. Í janúarlok árið 1429, nóttina eftir fyrsta laugardag í þorra, brann klaustrið ásamt klausturkirkjunni og breiddist eldurinn svo hratt út að fáu tókst að bjarga. Tveir munkar brunnu til bana en sá þriðji, Þorgils príor, brenndist mjög illa, lá í rúminu fram til páska og náði sér aldrei að fullu líkamlega. Sama ár var Þorgils vígður ábóti „og leizt það mörgum eigi misráðið síðan“. Hann gegndi því starfi til 1434 og hefur trúlega dáið það ár. Eftirmaður hans, Einar Ísleifsson, var vígður 1435. Einar Ísleifsson. Einar Ísleifsson (d. 1487) var ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1435 til dauðadags, eða í meira en hálfa öld. Á ábótatíð hans blómstraði klausturlíf að nýju eftir að hafa verið í djúpri lægð eftir Svarta dauða og auðgaði Einar klaustrið mikið. Einar var sonur hjónanna Ísleifs beltislausa Ísleifssonar og Elínar Oddnýjardóttur. Systir hans var Þóra brók Ísleifsdóttir en dóttir hennar var Elín bláhosa Magnúsdóttir, móðir Jóns Arasonar biskups, og var Einar því ömmubróðir hans. Hann var orðinn munkur 1434 og hefur varla verið fæddur seinna en 1405, þar sem hann var orðinn ábóti 1435 og hlýtur þá að hafa verið orðinn þrítugur að minnsta kosti. Einar var mikill fjáraflamaður og kemur víða við skjöl á 15. öld, þar sem hann er að kaupa og selja eignir fyrir hönd klaustursins. Á hans tíð eignaðist klaustrið meðal annars Ærlæk í Öxarfirði og var þar síðan rekið bú á vegum klaustursins. Skjalfest var 1484 að undir stjórn Einars hefði klaustrið auðgast um 260 hundruð í jarðeignum og lausafé, og var það geysimikið fé. Og enn bættist við, því árið 1485 fékk klaustrið það sem eftir var af Vaglaskógi. Einar er talinn hafa dáið um áramótin 1487-1488. Eftirmaður hans hét Jón. Jón Arason ólst upp hjá móður sinni í kotbýlinu Grýtu skammt frá Munkaþverá og er oft sagt að þau hafi verið þar í skjóli Einars ábóta en hann dó þó þegar Jón var þriggja ára og á undan Ara föður Jóns. Snjallsími. Snjallsími er þróuð gerð farsíma sem gerir notendum kleift að gera meira en í hefðbundnum farsíma. Snjallsími er einskonar blanda af farsíma og tölvu. Í flestum snjallsímum er hægt að sækja og setja upp ný forrit sem fylgdu honum ekki og geta bætt virkni og notkunargildi símans. Í snjallsíma er fullkomið sérhæft stýrikerfi sem forritarar geta skrifað forrit fyrir. Snjallsími eru með eiginleika bæði myndasíma og lófatölvu. Snjallsímar eru með örgjörvum, minni, myndavél sem getur tekið myndir og myndbönd og eru oft með snertiskjám, stundum fjölsnertiskjám) og skynjurum eins og snúðum, áttavita og GPS. Sumir snjallsímar eru með innbyggðu takkaborði en sumir nota skjályklaborð. Helstu stýrikerfin í snjallsímum eru Android frá Google, iOS frá Apple, Symbian frá Nokia,BlackBerry OS frá BlackBerry, WebOS frá HP og Windows Phone 7 frá Microsoft, sem tók við af Windows Mobile. Einn þekktasti snjallsími dagsins í dag er iPhone. Botnía. Botnía var gufuskip sem sigldi reglulega með farþega og varning á milli Íslands og Danmerkur á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. AT&T. AT&T er bandarískt síma- og breiðbands- og sjónvarpsþjónustufyrirtæki. Frá og með 2010 er AT&T sjöunda stærsta fyrirtæki í Bandaríkjunum eftir tekjur og fjórða stærsta fyrirtæki sem ekki er ólíufyrirtæki (fylgir Walmart, General Electric og Bank of America). Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Dallas í Texas-fylki. Saga fyrirtækisins er löng og flókin og núverandi fyrirtækið var stofnað sem AT&T Inc. árið 2005. Jón Þorkelsson (f. 1822). Jón Þorkelsson (5. nóvember 1822 – 21. janúar 1904), stundum kallaður Jón Þorkelsson eldri eða Jón Þorkelsson rektor til aðgreiningar frá Jóni Þorkelssyni þjóðskjalaverði, var íslenskur málfræðingur og sagnfræðingur sem var lengi kennari við Lærða skólann í Reykjavík og rektor hans frá 1874-1895. Jón var fæddur á Sólheimum í Sæmundarhlíð í Skagafirði og voru foreldrar hans Þorkell Jónsson bóndi þar og kona hans Sigþrúður Árnadóttir. Þau voru fátæk og gátu ekki kostað son sinn til náms en hann vann fyrir sér sjálfur, fékk kennslu hjá Sveini Níelssyni og Sveinbirni Egilssyni, var loks tekinn í Bessastaðaskóla 1845 og varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1848, 25 ára gamall, með fyrstu einkunn. Hann fór svo til náms í Kaupmannahafnarháskóla og lauk embættisprófi í málfræði og sögu 1854. Á námsárunum var hann styrkþegi Árnasafns og vann þar að fræðistörfum. Haustið 1854 varð hann stundakennari við Lærða skólann, var settur fastur kennari 1859 en skipaður í embætti 1862. Árið 1869 varð hann yfirkennari, settur skólameistari 1872 en var veitt embættið 1874 og stýrði skólanum til 1895. Jón var sagður mikill eljumaður að hverju sem hann gekk. Hann var mjög áhugasamur um íslenska tungu og sögu og skrifaði töluvert um þau efni í tímarit. Hann var forseti Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags 1868-1877 og kjörinn heiðursfélagi þess 1885. Hann var jafnframt félagi í hinu danska vísindafélagi og vísindafélaginu í Kristjaníu (Osló). Hann var heiðursdoktor í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla og riddari af Dannebrog. Kona Jóns var Sigríður Jónsdóttir frá Kroppi í Eyjafirði og giftust þau 1854. Þau áttu tvö börn sem dóu í eða rétt eftir fæðingu. Kosningaréttur kvenna. 13 af þeim 19 þingkonum sem kosnar voru á þing í Finnlandi árið 1907 Kosningaréttur kvenna vísar til þeirra réttinda kvenna að geta boðið sig fram og kosið til embættis. Uppruna baráttunnar fyrir kosningarétti kvenna má rekja til 18. aldar í Frakklandi. Hann má einnig tengja baráttunni fyrir afnámi þrælahalds. Alþjóðleg kvenréttindahreyfing. Upphaf hinnar alþjóðlegu kvenréttindahreyfingar er gjarnan rakin til fundar sem haldinn var í Seneca Falls í Bandaríkjunum árið 1848. Árið 1866 lagði John Stuart Mill sem þá sat á þingi í Bretlandi fram undirskriftir 1499 þekktra kvenna þar sem farið var fram á kosningarétt fyrir konur og árið 1868 var lagður fram undirskriftalisti með um 50 þúsund undirskriftum. En ekki var tekið undir kröfurnar. Konur fengu fyrst kosningarétt árið 1893 í Nýja-Sjálandi sem þá var nýlenda Breta. Árið 1895 fengu konur í Suður-Ástralíu einnig kosningarétt og urðu um leið kjörgengar til þings. Í Finnlandi var stofnað kvenréttindafélag árið 1883 upp úr leshring sem nokkrar konur stofnuðu til þess að ræða bókina Kúgun kvenna. Finnland varð því fyrsta Evrópulandið til að leyfa konum að kjósa árið 1907 og voru konur kosnar til þings í fyrsta skiptið þá. Konur í Sviss fengu fyrst að kjósa 1971. Kosningaréttur íslenskra kvenna. Íslenskar konur fengu fyrst takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakosninga árið 1882 sem var víkkaður út árið 1908 og varð kosningaréttur kynjanna til sveitastjórna þá jafn. Árið 1895 stóð Hið íslenska kvenfélag fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings almenns kosningaréttar kvenna. Um 2.348 skrifuðu undir. Árið 1907 hóf Hið íslenska kvenfélag undirskrifasöfnun á ný og skrifuðu 11.381 kona undir, úr nær öllum hreppum landsins, þar af 1.956 úr Reykjavík. Árið 1907 töldust konur 15 ára og eldri vera 28.640 talsins þannig að ljóst er að víðtækur stuðningur fyrir kosningarétti hefur verið meðal kvenna. Árið 1911 samþykkti Alþingi frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum kosningarétti karla og kvenna til Alþingis en dönsk stjórnvöld vildu ekki samþykkja það fremur en önnur frumvörp um breytingar á stjórnskipun Íslands þetta ár. Árið 1913 samþykkti Alþingi nýtt frumvarp um kosningarétt kvenna og vinnumanna en þá var sett inn ákvæði um 40 ára aldurstakmark sem átti svo að lækka smátt og smátt og mun það hafa verið vegna þess að þingmenn töldu að það yrði of mikil röskun að því að fjölga kjósendum í einu vetfangi um tvo þriðju og því væri betra að fjölgunin kæmi í smáskömmtum. Einnig kemur fram bæði í umræðum á Alþingi og í blaðagreinum að sumir óttuðust sérframboð kvenna. Slíkt aldursákvæði var ekki sett í lög í neinu öðru evrópsku landi nema Bretlandi 1918 en þar var miðað við 30 ára aldur. Ný stjórnarskrá með ákvæði um að konur og vinnumenn eldri en 40 ára fengju kosningarétt og kjörgengi til þingkosninga árið 1915. Átti að lækka aldurstakmarkið í skrefum um eitt ár á ári hverju þar til það væri komið niður í 25 ár til jafns við karlmenn. Það takmark hefði náðst árið 1931 að óbreyttri stjórnarskrá. Frá þessu var fallið árið 1920 og kosningaréttur karla og kvenna gerður jafn. Akurgæs. Akurgæs (fræðiheiti "Anser fabalis") er meðalstór til stór gæs sem verpir í Norður-Evrópu og Asíu. Hún er farfugl og vetrarstöðvar hennar eru sunnar í Evrópu og Asíu. Hún er 68 til 90 sm löng og vænghaf hennar er 140 til 174 g og vegur frá 1,7–4 kg. Goggur er svartur á báðum endum og með appelsínugulri rönd í miðjunni, fætur eru einnig skærappelsínugulir. Akurgæs er flækingur á Íslandi. Farfugl. Farfugl er fugl sem flýgur á milli svæða eftir árstíðum. Farfuglar færa sig á milli svæða eftir framboði fæðu, vistkerfi og veðri. Fuglar sem ekki færa sig árlega milli svæða eru kallaðir staðfuglar. Helstu kennileiti farfugla við flug til að rata á varpstöðvar eða vetrarstöðvar eru segulsvið jarðar og staðsetning himintunglanna. Fuglar hafa segulsteind í höfðinu og geta skynjað með henni segulsvið jarðar. Þessi steind veldur því einnig að fuglar ókyrrast fyrir jarðskjálfta þegar breytingar verða á rafsegursviði. Lóuþræll. Lóuþræll (fræðiheiti "Calidris alpina") er lítill vaðfugl af snípuætt. Íslensk nafn sitt dregur hann af því að elta varpsvæði heiðlóunar. Útbreiðsla. Lóuþræll í varpbúningi með sinn áberandi rauðbrúna lit og svartan blettinn á kviðnum Hann verpir á Norðurslóðum og norðlægum slóðum. Fuglar sem verpa í Norður-Evrópu og Asíu eru farfuglar sem fljúga langa leið til vetrarstöðva í Afríku, Suðaustur-Asíu og Miðausturlanda. Fuglar sem verpa í Alaska og Kanada ferðast stutta vegalengt til Kyrrahafs- og Atlantshafsstranda Norður-Ameríku þrátt fyrir að þeir sem verpa í Norður-Alaska séu á veturna í Asíu. Einkenni. Lóuþrællinn er oftast með algengustu vaðfuglum þar sem hann verpir og hefur vetursetu og er því oft notaður til viðmiðunar fyrir aðra vaðfugla. Hann er álíka stór og starri, en gildari og með þykkri gogg. Fullorðin fugl í varpbúningi er með áberandi svartan blett á kviðnum sem engin annar vaðfugl af svipaðri stærð hefur. Þeir eru skellóttir, rauðbrúnar, hvítar og svartar, ofan á höfði niður á bringu, á baki og ofan á vængjum. Hvítir undir vængjum og á maga, utan ánuðurnefndan svartan blett á kviðnum um varptímann. Fæturnir og örlítið niðursveigður goggurinn eru svartir. Stundum má þó sjá einhvern litarmun í rauðbrúna litnum sem og lengd á gogg eftir undirtegundum á hinum ýmsu stöðum þar sem þeir lifa í heiminum. Kynin eru eins nema að kvenfuglarnir hafa lengri gogg en karlfuglarnir. Ungir fuglar eru brúnir með tvö vafflaga hvítar rákir á bakinu. Á vetrum eru þeir oftast litminni, að mestu gráir að ofan en hvítir að neðan. Fæða. Lóuþrælar mynda oftast stóra flokka á vetrarstöðvum sínum á leirum eða sandströndum og má sjá stóra hópa fljúga í samhæfðu flugi milli áningarstaða á leið sinni til vetrarstöðva. Lóuþrællinn notar það sem kalla má „saumavéla“ matvenjur, það er fer um leirur, sem eru hanns kjörlendi, og með randi um þær og stöðugu kroppi í leirinn (eins og saumavél) tínir hann upp smádýr af nokkurnvegin hvaða sort sem hann finnur, hverskonar lindýr, skordýr, skeldýr, orma og krabbadýr. Varp. Hreiður lóuþrælsins er bara grunn laut fóðruð með gróðri sem hann finnur yfirleitt stað innan um þéttan gróður í mýrlendi. Egginn eru oftast fjögur og liggja bæði kynin á þeim. Ungarnir eru fljótt tilbúnir til að yfirgefa hreiðrið þót þeir klekist út tiltölulega snemma og eru orðnir fleygir um þrem vikum seinna. Karlfuglinn sinnir oftast ungunum einn enda yfirgefa kvenfuglarnir hreiðrið strax og jafnvel varpstöðvarnar fljótlega eftir að eggin hafa klaks út. Títur. Títur eru vaðfuglar af snípuætt eins og lóuþrælar, sendlingar og sanderlur. Sanderla. Sanderla (fræðiheiti Calidris Alba) er vaðfugl af snípuætt og títuættkvísl. Sanderla er svipuð lóuþræl. Hún sést oft í hópum. Hún er fargestur á Íslandi vor og haust. Sanderlur verpa á túndrusvæðum norðan við 5 °C jafnhitalínu í júlí. Þær velja varpsvæði á þurrum steinum nærri votlendi frá 60 m til 800 m yfir sjávarmáli. Á veturna og á fartíma halda þær sig á sandströndum og leirum og við bakka vatna og áa. Gunnlaugur Sigmundsson. Gunnlaugur Magnús Sigmundsson (oftast skrifaður Gunnlaugur M. Sigmundsson) (f. 30. júní 1948) er fyrrverandi alþingismaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forstjóri Kögunar. Hann var um tíma stjórnarformaður Icelandair. Gunnlaugur er faðir Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra Íslands sem situr á Alþingi og er jafnframt formaður Framsóknaflokksins. Ævi. Gunnlaugur er fæddur í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ 1974 og lagði stund á nám í opinberri fjármálastjórnun hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í Washington árið 1976. Starfaði í fjármálaráðuneytinu frá 1971 til 1982. Árin 1982-1985 var hann aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Alþjóðabankanum. Árin 1985-1986 var hann forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins og vann í kjölfarið að stofnun og reksturs Þróunarfélags Íslands þar til hann varð forstjóri Kögunar. Gunnlaugur var kjörinn á þing 1995 og sat í eitt kjörtímabil en sneri sér þá alfarið að Kögun. Samferðamenn Gunnlaugs lýsa honum sem harðduglegum, afskaplega framtakssömum manni. Velgengni í rekstri hafi hann skapað sér sjálfur og hann vilji að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig. Gunnlaugur er sagður víkingur og vaskur til verka, Hann er sagður mynda sér sjálfstæðar skoðanir og ekki liggja á þeim, hann sé alls ekki "já-maður" og sumir segja skapmikinn en þægilegur í samskiptum, með mikinn húmor og sýni ekki hörku umfram eðlilega málafylgju. Þá er hann sagður ákaflega metnaðarfullur og vilji ávallt vera fremstur meðal jafningja. Gunnlaugur ásamt Sigríði Sigurbjörnsdóttur, konu sinni, stefndi Teiti Atlasyni bloggara í júní 2011 fyrir meiðyrði. Var annari kröfunni vísað frá vegna formgalla en Teitur sýknaður af hinni í Héraðsdómi 19. september 2012 og Gunnlaugi gert að greiða Teiti 1.5 miljónir í málskostnað. Gunnlaugur áfrýjaði kröfunni sem vísað var frá vegna formgalla til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur föstudaginn. 12. október 2012. Gunnlaugi og Sigríði var einnig gert að greiða Teiti 300 þúsund krónur í kærumálskostnað. Eftir úrskurð Hæstaréttar sendi Gunnlaugur frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttaði að Teitur Atlason hefði upplýst fyrir héraðsdómi að ástæða þess að hann réðst að þeim með staðlausum skrifum sínum hefði verið sú, að hann hafi látið ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknar fara í taugarnar á sér. Ekki ætti að líða það að svo væri gengið fram gegn ættingjum stjórnmálamanna og ætluðu þau hjónin að halda áfram að berjast gegn slíkri þróun. Landakotsspítali. Kapellan í Landakoti, notuð sem sjúkrastofa (um 1900) Landakotsspítali eða Sankti Jósepsspítali í Landakoti er sjúkrahús í Reykjavík. Hann tók formlega til starfa árið 1902 og var aðalspítali Íslands og kennsluspítali Læknaskólans þangað til Landsspítalinn tók til starfa árið 1930. Í lok nítjándu aldar var krafan um sjúkrahús í Reykjavík mjög hávær. Þörfin var mikil. Bæjarstjórn Reykjavíkur var tilbúin að leggja til fé en Alþingi ekki. Árið 1901 kom tilboð frá St. Jósefssystrum í Landakoti um að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu. Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra. Nostocaceae. "Nostocaceae" er ætt blágerla sem einkennist meðal annars af vexti bakteríufrumnanna í löngum samfelldum þráðum sem umluktir eru slíðri með slím- eða hlaupkennda áferð. Meðlimir ættarinnar finnast helst í vatnsumhverfi. Til dæmis eru "Nostoc"-gerlar algengir í ferskvatni, en "Nodularia" er helst að finna í sjó og söltu vatni. Líkt og aðrir blágerlar, þá innihalda meðlimir ættarinnar ljósnæm litarefni til ljóstillífunar og eru því gjarnan blágrænir að lit. Margar tegundir ættarinnar eru færar um að binda köfnunarefni andrúmsloftsins og umbreyta því í lífræn köfnunarefnissambönd. Þær finnast gjarnan í samlífi með ýmsum plöntum sem nýta sér afurðir köfnunarefnisbindingarinnar. Tekíla. 250px Tekíla (spænska: "tequila", stundum ritað svo á íslensku) er mexíkóskur áfengur drykkir sem búinn er til úr plöntunni "Agave tequilana" sem einnig er þekkt undir nafninu "bláa agave plantan". Aðeins er leyfilegt að búa til tekíla í fimm mexíkóskum héruðum. Framleiðsla. Strangar reglur gilda um tekílagerð og aðeins er leyfilegt að framleiða tekíla í fimm héruðum Mexíkó: Jalisco, Nayarit, Tamaulipas, Michoacán og Guanajuato. Eftir að bláa agave plantan hefur vaxið í átta til tíu ár er kjarni plöntunnar fjarlægður og hreinsaður. Kjarninn, sem á spænsku kallast "piña" og getur vegið frá tuttugu upp í fjörtíu kíló, er eldaður í um 26 klukkustundur til þess að kalla fram umbreytingu sterkju í aðrar sykrur. Þessi efnaskipti eru nauðsynleg til myndunar alkóhóls. Safinn er pressaður úr hinum elduðu agaveplöntum og hann settur í tank til gerjunar. Stundum er sykrum bætt út í á milli hitunar- og gerjunarþrepsins. Geri er bætt út í og tankarnir eru hitaðir við lágan styrk í þrjátíu til fjörtíuogátta klukkutíma. Því næst fer blandan í eimingartanka. Eftir eina eimingu er blandan eitruð og því verður að eima hana að minnsta kosti tvisvar. Fínni tequila er eimað þrisvar eða jafnvel fjórum sinnum. Eftir eimingu er drykkurinn tilbúinn og kallast "silfurtekíla". Silfurtekíla er þó gjarnan látið eldast í viðartunnum. Því lengur sem það er látið eldast, því litaðara verður það. Nostocales. "Nostocales" er ættbálkur blágerla. Hann einkennist meðal annars af frumum sem vaxa í slímkenndu slíðri og mynda langa þræði samhangandi frumna. Margir meðlimir ættbálksins eru færir um að binda köfnunarefni andrúmsloftsins. Jón (ábóti í Munkaþverárklaustri). Jón (d. 1496) var ábóti í Munkaþverárklaustri seint á 15. öld, næst á eftir Einari Ísleifssyni, sem dó um áramótin 1487-1488. Hann var vígður 1489 og var ábóti til dauðadags. Fátt er vitað um hann og föðurnafn hans er óþekkt. Eiríkur Einarsson prestur á Grenjaðarstað 1480-1506 sóttist eftir ábótadæmi á Munkaþverá eftir að Einar Ísleifsson dó og lét Ólafur Rögnvaldsson Hólabiskup hann fá yfirráð klaustursins í eitt ár til reynslu en um veturinn næsta á eftir fæddist honum barn og varð það til þess að hann hlaut ekki vígslu sem ábóti. Hann fór svo úr landi, líklega í einhverja yfirbótarferð, en mun hafa komið aftur til Grenjaðarstaðar. Hugsanlegt er að Tómas Eiríksson ábóti á Munkaþverá hafi verið sonur hans en það er þó óvíst. Einar Benediktsson varð ábóti á Munkaþverá eftir lát Jóns ábóta. Einar Benediktsson (ábóti). Einar Benediktsson (d. 1524) var íslenskur prestur og síðan ábóti í Munkaþverárklaustri og rak þar jafnframt skóla. Ætt hans er óþekkt þótt ýmsar tilgátur hafi verið settar fram. Einar var prestur á Hólum 1466. Árið 1471 fékk hann Grenjaðarstað og var þar prestur til 1476 en fluttist þá í Skinnastað og var prestur þar í 20 ár, eða þar til hann varð ábóti á Munkaþverá 1496 eftir lát Jóns ábóta. Jafnframt voru honum veitt prestaköllin Hrafnagil, Kaupangur og Illugastaðir. Einar ábóti var vel menntaður og hélt skóla í klaustrinu. Einn nemenda hans þar var Jón Arason, síðar biskup, sem þá bjó hjá Elínu móður sinni í kotinu Grýtu skammt frá Munkaþverá, og lifði Einar það að sjá þennan lærisvein sinn setjast í biskupsstólinn á Hólum. Fylgikona Einars á meðan hann var prestur var Guðrún Torfadóttir, sem var dóttir Torfa Arasonar hirðstjóra og konu hans Akra-Kristínar Þorsteinsdóttur, sem voru í hópi auðugustu hjóna landsins á sinni tíð. Alsystir Guðrúnar var Málmfríður, kona Finnboga Jónssonar Maríulausa, lögmanns í Ási í Kelduhverfi, og hálfsystir hennar Ingveldur Helgadóttir, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra, svo óhætt er að segja að Einar hafi verið nátengdur helstu höfðingjaættum landsins og hlýtur sjálfur að hafa verið höfðingjasonur. Einar dó 1524 og tók sonur hans, Finnbogi Einarsson, við ábótadæminu á Munkaþverá. Bío-Bío-háskóli. Bío-Bío-háskóli (spænska: "Universidad del Bío-Bío", "UBB") er síleskur háskóli í borginni Concepción í Chile. Skólinn var stofnaður árið 1988. Finnbogi Einarsson (ábóti). Finnbogi Einarsson (d. 1532) var íslenskur prestur og síðar ábóti í Munkaþverárklaustri og tók þar við af föður sínum, Einari Benediktssyni, þegar hann dó 1524, og hafði áður verið aðstoðarmaður hans frá 1517. Hann var vígður ábóti 1525 og gegndi embættinu til 1529 en dó þremur árum síðar. Móðir Finnboga var fylgikona Einars, Guðrún Torfadóttir, sem var dóttir Torfa Arasonar hirðstjóra og Akra-Kristínar konu hans. Hann er nefnur sem prestur 1495. Árið 1502 var hann orðinn prestur á Hólum í Hjaltadal og var þar til 1507, en þá fékk hann Grenjaðarstað eftir að séra Eiríkur Einarsson lést. Hann var prestur þar til 1528 en var þó að mestu á Munkaþverá, var aðstoðarmaður föður síns frá 1517 og hélt þar skóla og varð svo ábóti þegar faðir hans lést. Hann var sagður mjög lærður og góður latínumaður eins og faðir hans. Fylgikona Finnboga var Ingveldur Sigurðardóttir. Þau áttu þrjú börn, Gísla sterka, sem var prestur norðanlands, faðir Guðrúnar barnsmóður Guðbrands Þorlákssonar biskups, Svein prest og Guðrúnu, móður Einars Sigurðssonar skálds og prests í Eydölum. Eftirmaður Finnboga var Pétur Pálsson, sem var vígður 1532 og var næstsíðasti ábóti í Munkaþverárklaustri. Pétur Pálsson (ábóti). Pétur Pálsson (d. 1546) var íslenskur prestur og síðan ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1532, þar sem hann tók við af Finnboga Einarssyni. Pétur var orðinn prestur 1502 og var í þjónustu Gottskálks Nikulássonar biskups, sem meðal annars sendi hann sem fulltrúa sinn á fund erkibiskups í Niðarósi 1517. Hann var jafnframt Hólaráðsmaður og officialis. Þegar Gottskálk biskup dó í desember 1520 var Pétur settur til að hafa umráð yfir Hólastól þar til nýr biskup tæki við. Hann var mikill andstæðingur Jóns Arasonar og er talið að hann hafi sjálfur viljað sækjast eftir biskupsembættinu. Hann var eini presturinn norðanlands sem ekki kaus Jón Arason til biskups 1521 og Ögmundur Skálholtsbiskup sendi hann utan til að reyna að vinna gegn því að erkibiskup vígði Jón. Seinna sendi Ögmundur, sem var mikill vinur Péturs, hann til Hóla til að lesa forboðsbréf yfir Jóni. Pétur var orðinn prestur í Grímstungu í Vatnsdal fyrir 1526 og var prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi 1522. Árið 1532 vígði Jón biskup hann ábóta í Munkaþverárklaustri, þrátt fyrir fyrri erjur þeirra, og gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Jón. Hann dó 1546 og setti Jón Tómas Eiríksson, stjúptengdason sinn, sem eftirmann hans. Fylgikona Péturs var Ólöf Einarsdóttir. Hann átti sjö börn sem hann gerði arfgeng með ættleiðingarbréfi 1525. Einn sonur hans var Þórður tréfótur Pétursson, sem missti fótinn í stríði í Þýskalandi en smíðaði sér sjálfur tréfót og var fimur á honum að sögn. Afkomendur hans nefnast "Tréfótsætt". Tómas Eiríksson. Tómas Eiríksson (d. 1587) var íslenskur prestur og síðar ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1546 og var hann síðasti ábóti klaustursins, lét af embætti 1551 við siðaskiptin. Tómas kann að hafa verið sonur Eiríks Einarssonar, prests á Grenjaðarstað, sem vildi verða ábóti í Munkaþverárklaustri 1487 en fékk ekki vegna barneignar; þar hefur þó vart verið um Tómas að ræða því þá hefði hann orðið 100 ára, en raunar er víst að hann hefur orðið fjörgamall því hann var orðinn kirkjuprestur á Hólum 1520. Hann var Hólaráðsmaður 1526 en um 1530 varð hann prestur á Mælifelli og gegndi því embætti til 1546, þegar hann varð ábóti í Munkaþverárklaustri. Árið 1551 sór hann ásamt öðrum Danakonungi hollustueið á Oddeyri og þar með lauk ábótadæmi hans. Hann varð síðar prestur og var líklega eini ábótinn sem þjónaði sem lútherskur prestur eftir siðaskipti. Klausturlifnaður hefur lagst niður í Munkaþverárklaustri 1551 þótt einhverjir munkar hafi sjálfsagt dvalið þar áfram. Ormur Sturluson lögmaður fékk klaustrið og eignir þess að léni en það átti meðal annars 57 jarðir. Fylgikona Tómasar var Þóra Ólafsdóttir, sem var dóttir Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar, sem ól Þóru upp sem dóttur sína. Þau áttu fjögur börn saman og er frá þeim mikil ætt. Gúrka. Gúrka eða agúrka (fræðiheiti: "Cucumis sativus") er jurt í graskersætt sem er oft ræktuð. Jurtin er klifurjurt sem ber sívalan grænan ávöxt. Jurtin á rætur að rekja til Indlands en er nú ræktuð víða um heiminn. Ræktunarafbrigði ágúrku eru mörg. Rafbók. Rafbók er efni á stafrænu formi sem myndar heild og er ætlað að miðla upplýsingum með texta, táknum og myndum. Hugtakið rafbók nær því yfir mjög vítt svið skjala á tölvutæku formi. Rafbækur geta til dæmis verið textaskrá (txt), ritvinnsluskjal (doc) eða vefsíða. Rafbækur sem gerðar eru með skjálesara í huga eru kallaðar lófabækur. Rafbækur má lesa með meðal annars í tölvu, farsíma, snjalltöflu eða lestölvu. Rafbókum er hægt að hlaða niður frá lófabókaveitum á ýmsum vefsíðum og netverslunum eins og Amazon.com og iBookstore. Oftast eru rafbækur útgáfur prentaðra bóka, en rafbækur eru ekki endilega prentaðar líka. Helstu tæki sem eru notuð til að lesa rafbækur eru Amazon Kindle, Borders Kobo, Sony Reader og iPad. Algengustu gerðir rafbóka til lestrar eru til dæmis PDF, ePub, Kindle format og MobiPocket. Fyrstu rafbækur voru gefnar út árið 1971 í Gutenberg-verkefninu. Verkefnið samanstendur af verkum ekki lengur undir höfundarréttarvörn og gerir notendum kleift að hlaða bækurnar niður ókeypis. Bækurnar frá Gutenburg fást í mismunandi skráarsniðum og þannig er hægt að lesa þær með flestum tækjum. Fyrstu bækur sem skrifaðar voru sérstaklega sem rafbækur voru fáar og snérust um takmörkuð efni fyrir sérstaka hópa, til dæmis voru margar þeirra tæknilegar handbækur sem fjölluðu um tölvunarfræði eða framleiðsluaðferðir. Við þróun internetsins á tíunda áratugnum varð miklu einfaldara að ná í rafbækur. App Store. App Store er netverslun frá Apple þar sem forrit (e. "apps") fyrir iOS eru til sölu. Verslunin gerir notendum kleift að hlaða forrit niður frá iTunes Store. Öll forritin í App Store eru forrituð með iOS SDK frá Apple go eru yfirfarin áður en þau eru sett í verslunina. Sum forrit eru ókeypis en önnur ekki. Hægt er að hlaða þeim niður beint með tæki eins og iPhone, iPod Touch eða iPad, eða í gegnum tölvu með iTunes. 30% af tekjunum fer til Apple og hin 70% til forritarans. Fyrsta App Store-netverslunin var opnuð 10. júlí 2008. 11. júlí sama ár kóm iPhone 3G út með iOS 2.0.1, sem gerði notendum kleift að nota App Store. Fyrir 10. október 2010 voru rúmlega 300.000 forrit til sölu í App Store. Frá og með 18. janúar 2011 hafa 9,9 milljarðar forrit verið hleðin niður frá versluninni. Apple setti 500.000. forritið í App Store maí 2011. Þann 23. júlí 2011 opnaði Apple App Store á Íslandi. IOS. iOS (þekkt sem iPhone OS áður en júní 2010) er stýrikerfi frá Apple fyrir fartæki. iOS kom fyrst út á iPhone en er nú fáanlegt fyrir iPod touch, iPad og Apple TV. Apple gefur ekki leyfi til að nota stýrikerfið á öðrum tækjum. Með netversluninni App Store er hægt að hlaða forritum niður í þessi tæki og frá og með 31. maí 2011 eru rúmlega 500.000 forrit til sölu í versluninni. Frá síðasta ársfjórðungi 2010 hefur markaðsdeild iOS á snjallsímastýrikerfismarkaðnum verið 16%, í þriðja sæti á eftir Android frá Google og Symbian frá Nokia, ef miðað er við sölu á tækjum sem nota stýrikerfin. Notendaviðmót iOS er byggt á beinum samskiptum við fjölsnertiskjá. Notandinn stjórnar tækinu með fingrahreyfingum. Tækið bregst einnig við sé tækinu hallað eða snúið. Sé tækinu, til dæmis, snúið í hring breytist lega skjásins svo hann snúi alltaf eins. iOS er byggt á Mac OS X stýrikerfi fyrir borðtölvur en það er sjálft byggt á Unix. Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli. Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (enska: "European Southern Observatory", skammstafað "ESO"), er stærsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. ESO var stofnað árið 1962 og eru aðildarríkin orðin 15. ESO tryggir stjarnvísindamönnum rannsóknaaðstöðu á heimsmælikvarða á suðurhveli jarðar. Árlega leggja aðildarríki ESO um 163 milljónir evra til starfseminnar. Þar starfa um 700 manns. ESO er þekkt fyrir að smíða og reka nokkra stærstu og þróuðustu stjörnusjónauka heims. Má þar nefna New Technology Telescope (NTT), þar sem virk sjóntæki voru prófuð í fyrsta sinn, og Very Large Telescope (VLT) sem samanstendur af fjórum 8,2 metra breiðum sjónaukum og fjórum 1,8 metra aukasjónaukum. ESO er þátttakandi í þróun og smíði Atacama Large Millimeter Array (ALMA) og European Extremely Large Telescope (E-ELT). ALMA er ein stærsta og hæsta stjörnustöð heims og gerir mælingar á millímetra og hálfsmillímetra sviðinu. Smíði hans er langt komin og gert er ráð fyrir að hann verði tekinn í notkun árið 2012. ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Japans, Norður-Ameríku og Chile. ESO hefur umsjón með evrópska hluta verkefnisins og hýsir jafnframt evrópsku svæðisskrifstofuna. E-ELT er fyrirhugaður 39,3 metra breiður sjónauki sem verður „stærsta auga jarðar“ þegar smíði hans lýkur upp úr 2020. Vonir standa til um að sjónaukinn muni gerbreyta þekkingu okkar í stjarneðlisfræði með nákvæmum rannsóknum á fjarreikistjörnum, fyrstu fyrirbærum alheims, risasvartholum í miðju vetrarbrauta og eðli og dreifingu hulduefnis og hulduorku í alheiminum. Frá árinu 2005 hefur ESO unnið með evrópskum stjarnvísindamönnum við þróun þessa risasjónauka. Margar merkar uppgötvanir í stjarnvísindum hafa verið gerðar með sjónaukum ESO auk þess sem fjölmargar stjörnuskrár hafa verið settar saman. Af nýlegum uppgötvunum má nefna uppgötvun á einum fjarlægasta gammablossa sem sést hefur og sönnunargögn fyrir tilvist svarthols í miðju Vetrarbrautarinnar. Árið 2004 tóku stjörnufræðingar ljósmynd af fjarreikistjörnunni 2M1207b á braut um brúnan dverg í 173 ljósára fjarlægð með Very Large Telescope (VLT). Á 3,6 metra sjónauka ESO er litrófsritinn HARPS (High Accuracy Radial velocity Planet Searcher) sem skilað hefur mestum árangri í leit að fjarreikistjörnum. VLT hefur líka ljósmyndað fjarlægustu vetrarbrautir sem sést hafa í alheiminum hingað til. Saga. Sú hugmynd að evrópskir stjarnvísindamenn skildu leiða saman hesta sína og setja á laggirnar stóra stjörnustöð varð til í Leiden stjörnustöðinni í Hollandi vorið 1953 hjá þeim Walter Baade og Jan Oort. Oort fylgdi fljótt hugmyndinni eftir og hóaði saman hópi stjarnvísindamanna í Leiden þann 21. júní sama ár þar sem hún var rædd. Skömmu seinna var hugmyndin rædd enn frekar á ráðstefnu sem fram fór í Groningen í Hollandi. Þann 24. júní 1954 undirrituðu stjörnufræðingar frá sex evrópulöndum yfirlýsingu þar sem óskað var eftir því að sameiginleg evrópsk stjörnustöð skildi komið á fót á suðurhveli. Ástæða þess stjörnustöðinni var valinn staður á suðurhveli jarðar var sú að suðurhimininn var svo til ókannaður. Á þeim tíma voru allir stórir spegilsjónaukar (stærri en 2 metrar í þvermál) á norðurhveli jarðar. Auk þess voru mörg áhugaverðustu fyrirbærin, eins og miðhlutar Vetrarbrautarinnar og Magellanskýin, best sjáanleg frá suðurhveli jarðar. Upphaflega var ætlunin að setja upp sjónauka í Suður Afríku þar sem nokkrar evrópskar stjörnustöðvar voru staðsettar en síðar kom í ljós (eftir ítarlegar rannsóknir á aðstæðum til stjörnuathugana milli 1955 og 1963) að Andesfjöllin í Suður Ameríku voru ákjósanlegri. Þann 15. nóvember 1963 var ákveðið að stjörnustöð ESO skyldi byggð í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Áður en staðarákvörðunin var tekin undirrituðu fulltrúar Belgíu, Þýskalands, Frakklands, Hollands og Svíþjóð samþykkt um stofnun ESO þann 5. október 1962 og var Otto Heckmann kjörinn fyrsti framkvæmdarstjóri samtakanna. Fyrstu drög að samþykktinni milli stjarnvísindasamtaka í þessum fimm ríkjum var gerð árið 1954. Þótt nokkrar viðbætur hafi ratað í upprunalega skjalið gekk hægt að hrinda samþykktinni í framkvæmd, þar til hún kom til kasta stjórnarinnar á fundi árið 1960. Nýju drögin voru rædd í þaula og vakti einn stjórnarmaðurinn, Bannier að nafni (sem einnig sat í stjórn CERN), athygli á nauðsyn þess að samþykktin væri milli ríkja en ekki aðeins stjarnvísindasamtaka. Kostnaður við rannsóknir á athugunarstöðunum jókst jafnt og þétt sem undirstrikaði þörfina á þátttöku ríkja í ESO. Lokaútgáfa ESO samþykktarinnar árið 1962 byggðist því á CERN samþykktinni venga þess hve samtökin tvö eru lík en líka vegna þess að sumir aðilar að ESO samþykktinni voru líka aðilar að CERN. Árið 1966 voru fyrstu sjónaukar ESO á La Silla teknir í notkun. Árið 1970 var skrifað undir samstarfssamning milli ESO og CERN því fyrrnefndu samtökin leituðu ítrekað til CERN vegna þróunar á öflugum mælitækjum. Nokkrum mánuðum síðar hafði sjónaukadeild ESO hreiðrað um sig í höfuðstöðvum CERN í Genf í Sviss. Árið 1980 flutti ESO í höfuðstöðvar sínar í Garching nærri München í Þýskalandi og hefur verið þar síðan. Stjörnustöðvar. Þetta eru meðal bestu staða á suðurhveli jarðar til rannsókna í stjarnvísindum. Hinn fyrirhugaði European Extremely Large Telescope (E-ELT) er eitt metnaðarfyllsta verkefni sem ESO hefur ráðist í. E-ELT verður 39,3 metra breiður sjónauki sem byggir á nýstárlegri fimm spegla hönnun. Þegar smíði hans er lokið verður E-ELT stærsti sjónauki heims til rannsókna á sýnilegu og innrauðu ljósi. Hönnun sjónaukans hófst snemma árs 2006 og gert er ráð fyrir að hann verði tekinn í notkun snemma næsta áratug. Í apríl 2010 ákvað stjórn ESO að sjónaukinn skyldi reistur á fjórða staðnum, Cerro Armazones. Ár hvert eru lagðar inn um 2000 umsóknir um tíma í sjónaukum ESO, fjórum til fimm sinnum meira en í boði er. Hágæða rannsóknir eru stundaðar með mælitækjum samtakanna sem á hverju ári leiða til fjölmargra ritrýndra vísindagreina. Árið 2010 voru birtar meira en 750 ritrýndar greinar í vísindatímaritum sem byggja á gögnum ESO, meira en frá nokkurri annarri stjörnustöð. Sjónaukar ESO framleiða hratt mjög mikið gagnamagn. Gögnin eru geymd í gagnasafni í höfuðstöðvum ESO í Garching í Þýskalandi. Í heild eru yfir 65 TB af gögnum í gagnasafni ESO en árlega bætast rúmlega 15 TB við. Magnið vex gríðarlega ár hvert eftir að VISTA og VST hafa bæst við. ESO hýsir einnig rannsóknamiðstöð evrópska hluta Hubble geimsjónaukans. Geimsjónaukinn er samstarfsverkefni NASA og ESA. Rannsóknamiðstöðvar eru líka í Santiago, höfuðborgar Chile. Auk þess rekur ESO svæðisstöðvar víðar í landinu. La Silla. La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO, er í suðurhluta Atacamaeyðimerkurinn, um 600 km norður af höfuðborginni Santiago, í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli á einum þurrasta og einangraðasta stað heims. La Silla er fjarri allri ljósmengun líkt og aðrar stjörnustöðvar og býr því við einn dimmasta næturhiminn á jörðinni. Á La Silla rekur ESO þrjá sjónauka: 3,6 metra sjónauka ESO, New Technology Telescope (NTT) og 2,2 metra Max-Planck-ESO sjónaukann. Nýjum mælitækjum er reglulega komið fyrir í stjörnustöðinni til skamms tíma og tekin niður aftur eftir mælingar. Í La Silla stjörnustöðinni eru líka þjóðarsjónaukar eins og svissneski 1,2 metra sjónaukinn og danski 1,5 metra sjónaukinn. Ár hvert birtast nærri 300 ritrýndar vísindagreinar sem byggja á gögnum frá stjörnustöðinni á La Silla. Á La Silla hefur fjöldi uppgötvana verið gerðar. HARPS-litrófsritinn er óumdeilanlegur sigurvegari í leit að massalitlum fjarreikistjörnum. Með HARPS fundu menn sólkerfið umhverfis Gliese 581 sem inniheldur hugsanlega fyrstu bergreikistjörnuna sem finnst í lífbelti stjörnu utan okkar sólkerfis. Nokkrir sjónaukar á La Silla hafa leikið lykilhlutverk í að tengja gammablossa — orkuríkustu sprengingar alheims frá Miklahvelli — við endalok massamikilla stjarna. Frá árinu 1987 hefur La Silla gegnt veigamiklu hlutverki í rannsóknum á nálægustu nýlegu sprengistjörnunni, SN 1987 A. 3,6 metra sjónauki ESO. 3,6 metra sjónauki ESO var tekinn í notkun árið 1977 og var fyrsti sjónauki samtakanna á suðurhveli jarðar sem hafði 3-4 metra ljósop. Sjónaukinn hefur verið uppfærður reglulega, meðal annars með aukaspeglum sem hafa tryggt að sjónaukinn er einn sá afkastamesti í stjarnvísindarannsóknum. Þessi sjónauki var að mestu notaður í innrauðar litrófsmælingar. Á honum er nú HARPS litrófsritinn sem er notaður til að leita að fjarreikistjörnum og til stjarnskjálftamælinga. Með HARPS geta stjörnufræðingar gert Doppler litrófsmælingar (í kringum 1 m/s) yfir langan tíma. New Technology Telescope (NTT). New Technology Telescope (NTT) er 3,58 metra breiður Ritchey-Chrétien spegilsjónauki sem tekinn var í notkun árið 1989. NTT var fyrsti sjónauki heims sem hafði tölvustýrðan safnspegil. Safnspegillinn er sveigjanlegur og er lögun hans lagfærð á meðan mælingar standa yfir sem tryggir bestu mögulegu myndgæði. Auk þess er hægt að beina aukaspeglinum í þrjár áttir. ESO þróaði þessa tækni sem kallast virk sjóntæki en hún er nú notuð í alla sjónauka nútímans, t.d. VLT og í framtíðinni E-ELT. Önnur nýjung var hönnun hússins sem hýsir NTT. Hvolfþakið er lítið en loftræst er með sérstökum flipum svo loft streymir hægt og rólega yfir spegilinn sem dregur úr ókyrrð og leiðir til skarpari mynda. 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn. 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn hefur verið í notkun á La Silla síðan snemma árs 1984. Hann er á ótímabundnu láni til ESO frá Max Planck stofnunni í Þýskalandi. Notkun sjónaukans deilist því milli Max Planck stofnunarinnar og ESO en rekstur og viðhald er í höndum ESO. Á sjónaukanum er meðal annars 67 megapixla myndavél, Wide Field Imager, sem hefur álíka vítt sjónsvið og sem nemur breidd fulls tungls á himinhvolfinu og hefur tekið fjölmargar glæsilegar myndir af fyrirbærum himins. Af öðrum mælitækjum er vert að nefna GROND (Gamma-Ray Burst Optical/Near-Infrared Detector) sem greinir glæður gammablossa og FEROS (Fiber-fed Extended Range Optical Spectrograph) sem er litrófsriti með mikla upplausn og er notaður til að gera nákvæmar litrófsmælingar á stjörnum. Aðrir sjónaukar. Á La Silla eru einnig nokkrir þjóðarsjónaukar og sjónaukar sem tileinkaðir eru sérverkefnum. Þeir eru ekki starfræktir að ESO en eru: Svissneski 1,2 metra sjónaukinn, danski 1,5 metra sjónaukinn, REM og TAROT sjónaukarnir. Euler sjónaukinn er 1,2 metra sjónauki, smíðaður og rekinn af stjörnustöðinni í Genf við Genfarháskóla í Sviss. Hann er notaður til að gera Doppler litrófsmælingar í leit að stórum fjarreikistjörnum. Fyrsta reikistjarnan sem fannst með sjónaukanum var í kringum stjörnuna Gliese 86. Einnig er sjónaukinn notaður til að rannsaka breytistjörnur, stjarnskjálftamælingar, gammablossa, virkum vetrarbrautakjörnum og þyngdarlinsum. Danski 1,54 metra sjónaukinn hefur verið í notkun á La Silla frá árinu 1979. Sjónaukinn er af Ritchey-Chrétien gerð en vegna stæðisins sem hann situr á og hve rými í hvolfinu er takmarkað er ekki hægt að beina sjónaukanum hvert sem er. Rapid Eye Mount Telescope (REM) er lítill sjálfvirkur sjónauki með 60 sentímetra safnspegli á lóðstilltu stæði sem tekinn var í notkun í október 2002. Megintilgangur hans er að fylgjast með glæðum gammablossa sem Swift gervitungl NASA greinir. Paranal. Á tindi Cerro Paranal í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile er Paranal stjörnustöðin. Cerro Paranal er 2.635 metra hátt fjall um 120 km suður af borginni Antofagasta og 12 km frá Kyrrahafsströndinni. Í mars 2008 var Quantum of Solace, 22. myndin í James Bond röðinni, að hluta til tekin upp í Paranal Very Large Telescope. Very Large Telescope er aðalsjónaukinn í Paranal stjörnustöðinni. VLT eru fullkomnustu sjónaukar á jörðinni. Þeir samanstanda af fjórum stórum sjónaukum með 8,2 metra spegilþvermál auk fjögurra færanlegra 1,8 metra breiðra hjálparsjónauka. Hægt er að tengja tvo eða fleiri sjónauka saman og mynda þannig risavaxinn víxlmæli sem gerir stjörnufræðingum kleift að sjá allt að 25 sinnum fínni smáatriði en sjónaukarnir eru færir um að greina stakir. Ljósinu sem sjónaukarnir safna er beint í gegnum flókið kerfi spegla um göng neðanjarðar og sameinað í einn brennipunkt. Bilið milli ljósgeislanna, þegar þeir mætast, verður að vera innan við 1/1000 úr mm yfir 100 metra vegalengd. Með þessari nákvæmni nær VLT víxlmælirinn ljósmyndum með millíbogasekúndna upplausn. Þannig mætti greina sundur bílljós bíls á tunglinu. Fyrsti VLT sjónaukinn tók formlega til starfa 1. apríl 1999. Hinir sjónaukarnir voru teknir í notkun árið 1999 og 2000 en þá varð VLT að starfhæfur. Milli áranna 2004 og 2007 var fjórum færanlegum 1,8 metra hjálparsjónaukum bætt við stjörnustöðina. Árið 2010 voru birtar yfir 500 vísindagreinar sem byggðu á gögnum úr VLT. Með VLT hafa stjörnufræðingar gert margar merkar uppgötvanir, þar á meðal tekið ljósmynd af fjarreikistjörnu, greint færslu stakra stjarna á braut um risasvartholið í miðju Vetrarbrautarinnar og greint daufar glæður eins fjarlægasta gammablossa sem mælst hefur. Sjónaukunum gefin Mapuche nöfn. Það var lengi vel ætlun ESO að nefna VLT sjónaukana fjóra. Í mars 1999, þegar vígsla Paranal fór fram, voru sjónaukarnir fjórir nefndir eftir fjórum fyrirbærum himins á tungumáli Mapuche. Þessi hópur innfæddra býr að mestu sunnan Santiago, höfuðborgar Chile. Efnt var til ritgerðarsamkeppni meðal skólabarna á svæðini í kringum Antofagasta, nálægustu borgina við Paranal. Fjölmargar góðar ritgerðir bárust í keppnina en að lokum varð Jorssy Albanez Castilla, 17 ára stúlka frá Chuquicamata nærri borginni Calama, hlutskörpust. Hún hlaut að launum stjörnusjónauka og voru verðlaunin afhent við vígslu Paranal. Yepun var upphaflega þýtt sem Síríus en þýðir í raun Venus. Kortlagningarsjónaukar. Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA) er stærsti kortlagningarsjónaukinn í Paranal stjörnustöðinni. Hann er hýstur á næsta fjallstindi við VLT og býr þess vegna við sömu frábæru athugunaraðstæður. Safnspegill VISTA er 4,1 metrar í þvermál. Enginn spegill af þessari stærð er jafn mikið sveigður. Smíði hans er mikið afrek. Sjónaukinn var þróaður og smíðaður af samtökum átján háskóla í Bretlandi undir forystu Queen Mary háskóla í London og var hluti af framlagi Breta við inngönguna í ESO en Breska vísinda- og tækniráðið (STFC: Science and Technology Council greiðir fyrir þátttöku þeirra. ESO veitti sjónaukanum formlega viðtöku við athöfn í höfuðstöðvum sínum í Garching í Þýskalandi þann 10. desember 2009. Frá því að sjónaukinn var tekinn í notkun hafa fjölmargar stórglæsilegar myndir verið teknar með honum. VLT Survey Telescope (VST) er nýjasta viðbótin við stjörnustöðina á Paranal. VST er fyrsta flokks 2,6 metra breiður sjónauki útbúinn OmegaCAM sem er 268 megapixla CCD myndavél. Sjónsvið hennar er fjórfalt stærra en sem nemur stærð fulls tungls á himinhvelfingunni. Sjónaukinn er fyrir sýnilegt ljós og starfar því vel með VISTA. VST er afrakstur samstarfs ESO og Capodimonte stjörnustöðvarinnar í Napólí, rannsóknamiðstöð ítölsku stjarneðlisfræðistofnunarinnar (INAF). VST var tekinn í notkun árið 2011. Markmið beggja sjónauka lúta að nokkrum mikilvægustu spurningum stjarneðlisfræðinnar, allt frá eðli hulduorku og hulduefnis til jarðnándarsmástirna. Stórir hópar stjarnvísindamanna í Evrópu halda utan um kortlagningarverkefnin sem eru mjög yfirgripsmikil. Mörg þeirra ná yfir stóran hluta suðurhiminsins en aðrar beinast að smærri svæðum. Ljóst er að bæði VISTA og VST koma til með að safna feikilegu magni af upplýsingum. Ein ljósmynd frá VISTA er 67 megapixlar en 268 megapixlar frá OmegaCAM. Sjónaukarnir tveir safna meiri upplýsingu á hverri nóttu en öll mælitæki VLT samanlagt. Í heildina safna VST og VISTA yfir 100 terabætum af upplýsingum ár hvert. Llano de Chajnantor. Llano de Chajnantor er 5.100 metra há slétta í Atacamaeyðimörkinni í Chile, um 50 kílómetrum austan við San Pedro de Atacama. Sléttan er 750 metrum hærri en stjörnustöðvarnar á Mauna Kea og 2.400 hærri en VLT á Cerro Paranal. Sléttan er skraufþurr — óbyggileg mönnum — en framúrskarandi til hálfsmillímetra stjörnufræði. Vatnssameindir í lofthjúpi jarðar gleypa hálfsmillímetra geislun svo nauðsynlegt er vera á mjög þurrum stað fyrir þessa tegund útvarpsstjörnufræði. APEX og ALMA eru sjónaukar til rannsókna á millímetra- og hálfsmillímetra geislun. Þessi tegund stjörnufræði er svo til óplægður akur og sýnir okkur alheim sem ekki sést í sýnilegu og innrauðu ljósi. Hún er kjörin til að rannsaka hinn „kalda alheim“: Ljós á þessum bylgjulengdum kemur frá stórum köldum skýjum í geimnum, við hitastig sem er aðeins nokkra tugi gráða yfir alkuli. Með þessu ljósi geta stjörnufræðingar rannsakað efna- og eðlisfræðilegar aðstæður í þessum sameindaskýjum — þéttum gas- og ryksvæðum þar sem nýjar stjörnur eru að mynast. Í sýnilegu ljósi eru þessi ský oft dökk og okkur hulin vegna ryks en skína skær á millímetra- og hálfsmillímetra sviði rafsegulrófsins. Þessar bylgjulengdir henta líka vel till rannsókna á elstu og fjarlægustu vetrarbrautum alheimsins en ljós þeirra hefur færst yfir á lengri bylgjulengdir vegna rauðviks. Atacama Pathfinder Experiment (APEX). APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) í Bonn í Þýskalandi, Onsala Space Observatory (OSO) í Onsala í Svíþjóð og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. APEX er 12 metra breiður útvarpssjónauki sem nemur millimetra og hálfsmillimetra bylgjulengdir, á svæðinu milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna í rafsegulrófinu. APEX er undanfari ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array, byltingarkenndrar útvarpssjónaukaröaðar sem ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar setja nú upp á Chajnantor sléttunni. APEX er frumgerð loftnetsins sem smíðað var fyrir ALMA. Hann á að finna fjölmörg fyrirbæri sem ALMA kemur til með að kanna nánar. Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). ALMA er byltingarkennd risaröð 66 loftneta sem mæla geislun með 0,3 til 9,6 mm bylgjulengdir. Af þessum 66 loftnetum mynda 50 tólf metra loftnet víxlmæli. Að auki verða 4 önnur 12 metra lotnet og 12 7 metra loftnet notuð til að fínstilla röðina. Hægt verður að færa öll loftnetin til yfir 150 metra til 16 km breitt svæði. Þannig getur ALMA „súmað“ að þeim fyrirbærum sem verið er að rannsaka. ALMA á að kanna alheiminn í millimetra og hálfsmillimetra bylgjulengdum með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr. Sjónaukaröðin nær allt að tíu sinnum skarpari myndum en Hubblessjónaukinn og verða myndir frá VLT víxlmælinum notaðar til að gera þær enn betri. ALMA er samstarfsverkefni Evrópu (ESO), austur Asíu (Japans og Taívans) Norður-Ameríku (Bandaríkjanna og Kanada) og Chile. Markmið ALMA er að kanna myndun stjarna, vetrarbrauta og reikistjarna með því að rannsaka gas- og rykský og fjarlægar vetrarbrautir við endimörk hins sýnilega alheims. Þann 31. mars 2011 var byrjað að taka við umsóknum um tíma í ALMA en fyrstu mælingar hófust í september 2011. Leitin að fjarreikistjörnum. Leitin að reikistjörnum utan okkar sólkerfis snýst að miklu leyti um leit okkar að svari við einni merkustu spurningu mannkyns: Er líf annars staðar í alheiminum? Í stjörnustöðvum ESO eru einstök mælitæki til að finna, rannsaka og fylgjast með svonefndum fjarreikistjörnum. Með Very Large Telescope tókst stjörnufræðingum í fyrsta sinn að greina ljós reikistjörnu utan okkar sólkerfis og taka í leiðinni fyrstu ljósmyndina af fjarreikistjörnu. Þessi hnöttur er risi, um fimm sinnum massameiri en Júpíter. Þessar athuganir marka fyrsta stóra skrefið í átt að einu mikilvægasta markmiði nútíma stjarnvísinda: Að greina eðliseiginleika og efnasamsetningu risareikistjörnu og að lokum lítilla bergreikistjarna. Með HARPS-litrófsritanum fundu stjörnufræðingar hvorki fleiri né færri en fjórar reikistjörnur á braut um nálæga sólstjörnu. Allar voru þær massaminni en Neptúnus og tvær þeirra álíka massamiklar og jörðin – þær smæstu sem fundist hafa hingað til. Í lífbelti stjörnunnar fannst sjö jarðmassa reikistjarna. Umferðartími hennar um móðurstjörnuna er 66 dagar. Stjörnufræðingar telja að þessi reikistjarna sé þakin hafi. Uppgötvunin markaði tímamót í leit að reikistjörnum sem gætu viðhaldið lífi. Annar sjónauki á La Silla er hluti af neti sjónauka á víð og dreif um jörðina og leitar fjarreikistjarna með örlinsuhrifum. Í þessu samstarfi fannst reikistjarna sem er sennilega líkari jörðinni en nokkur önnur sem fundist hefur hingað til. Hún er aðeins fimm jarðmassar og hringsólar um móðurstjörnuna á um það bil 10 árum. Yfirborð hennar er næsta áreiðanlega úr bergi eða ís. Ákvörðun á aldri alheimsins. Stjörnufræðingar hafa gert einstakar mælingar með Very Large Telescope sem ryður brautina fyrir sjálfstæðri aðferð til ákvörðunnar á aldri alheimsins. Þeim tókst þá í fyrsta sinn að mæla magn geislavirku samsætunnar úraníums-238 í stjörnu sem varð til þegar Vetrarbrautin okkar var enn að myndast. Þessi „úranklukka" getur sagt til um aldur stjörnunnar líkt og kolefni getur sagt til um aldur fornminja í fornleifafræði. Mælingarnar sýna að stjarnan er 12,5 milljarða ára gömul. Stjörnur geta ekki verið eldri en alheimurinn svo hann hlýtur að vera eldri en þetta. Þetta kemur heim og saman við niðurstöður athugana í heimsfræði, sem segja að aldur alheimsins sé um 13,7 milljarðar ára. Stjarnan og Vetrarbrautin okkar hljóta því að hafa myndast tiltölulega skömmu eftir Miklahvell. Önnur niðurstaða, fengin með því að nýta nútímatækni til hins ítrasta, varpar nýju ljósi á upphaf Vetrarbrautarinnar. Með því að mæla magn beryllíums í tveimur stjörnum í kúluþyrpingu rannsökuðu stjörnufræðingar fyrstu stigin í myndun fyrstu stjarna Vetrarbrautarinnar og stjarna kúluþyrpingarinnar. Þeir komust að því að fyrsta kynslóð stjarna í Vetrarbrautinni okkar varð til skömmu eftir lok hinna ~200 milljón ára löngu „myrku alda“ sem fylgdu í kjölfar Miklahvells. Svarthol í miðju Vetrarbrautarinnar. Hvað liggur í miðju Vetrarbrautarinnar? Stjörnufræðinga grunaði lengi að í miðju Vetrarbrautarinnar leyndist svarthol en gátu ekki vitað það fyrir víst. Ótvíræð sönnunargögn fengust ekki fyrr en fylgst hafði verið með hreyfingu stjarna umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar um 15 ára skeið með sjónaukum ESO á La Silla og Paranal. Stjörnur við miðju Vetrarbrautarinnar eru svo þétt saman að sérstaka ljósmyndatækni eins og aðlögunarsjóntækni þarf til að auka upplausn VLT svo hægt sé að greina þær í sundur. Slóðir þeirra sýna, svo ekki verður um villst, að þær eru á braut um gríðarlega massamikið risasvarthol sem er næstum fjórum milljón sinnum massameira en sólin okkar. Athuganir VLT leiða einnig í ljós innrauða ljósblossa sem bárust frá svæðinu með reglulegu millibili. Þótt uppruni blossanna sé óþekktur benda athuganir til að þá megi rekja til hraðs snúnings svartholsins. Hvað svo sem um er að ræða, þykir ljóst að mikið gengur á í miðju Vetrarbrautarinnar. Stjörnufræðingar hafa líka notað VLT til að skyggnast inn að miðju annarra vetrarbrauta. Þar finna þeir líka skýr merki risasvarthola. Í virku vetrarbrautinni NGC 1097 sást flókið net stróka sem vindur sig niður að miðju vetrarbrautarinnar. Þetta sýnir í fyrsta sinn ferlið sem ber efni niður að kjarna vetrarbrautar. Gammablossar. Gammablossar eru hrinur háorkugeislunar sem berast til jarðar utan úr geimnum. Hver hrina er skammlíf og getur varað allt frá sekúndubrotum upp í nokkrar mínútur – í augnablik á tímakvarða alheimsins. Gammablossar eru alla jafna í órafjarlægð frá jörðinni, nálægt endimörkum hins sýnilega alheims. VLT greindi glæður gammablossa sem reyndist fjarlægasta fyrirbæri sem nokkurn tímann hefur sést í alheimi. Rauðvik blossans mældist 8,2 sem þýðir að ljósið frá þessari fjarlægu sprengingu var meira en 13 milljarða ára á leiðinni til okkar. Blossinn varð þegar alheimurinn var innan við 600 milljón ára gamall eða innan við fimm prósent af núverandi aldri. Á nokkrum sekúndum losnaði 300 sinnum meiri orka í blossanum en sólin okkar gefur frá sér á allri 10 milljarða ára ævi sinni. Gammablossar eru þar af leiðandi orkuríkustu sprengingar alheimsins eftir Miklahvell. Stjörnufræðingar hafa lengi reynt að skilja eðli þessara sprenginga. Athuganir sýna að gammablossar eru ýmist stuttir (sekúnda eða skemmri) eða langir (nokkrar sekúndur). Lengi vel var því talið að tvenns konar atburðir yllu þeim. Árið 2003 áttu stjörnufræðingar ESO veigamikinn þátt í að tengja langa gammablossa við sprengingar massamestu risastjarnanna. Stjörnufræðingarnir fylgdust með glæðum gammablossa í heilan mánuð og sáu að ljósið hafði samskonar eiginleika og ljós dæmigerðra sprengistjarna. Árið 2005 greindu stjörnufræðingar með sjónauka ESO í fyrsta sinn sýnilegar glæður stuttra gammablossa. Stjörnufræðingar fylgdust með ljósinu um þriggja vikna skeið og sáu að stuttu blossarnir gátu ekki verið af völdum risasprengistjarna. Þess vegna telja menn að stuttir gammablossar séu af völdum samruna nifteindastjarna eða svarthola. Vísindagagnasafn og stafrænn alheimur. Hjá ESO starfar hópur manna við gagnasafn samtakanna. Þeir taka við gögnum frá sjónaukum ESO og Hubblessjónaukanum og dreifa til vísindamanna. Ár hvert er ríflega 12 terabætum (TB) af gögnum dreift úr gagnasafni ESO í kjölfar meira en 10.000 vefbeiðna. Þessu til viðbótar eru yfir 2.000 geisladiskar og DVD-diskar með gögnum sendir til forystumanna rannsókna víða um heim. Í heild eru yfir 65 TB af gögnum í gagnasafni ESO en árlega bætast rúmlega 15 TB við. Magnið mun fljótlega tífaldast eða svo þegar gögn frá VISTA bætast við, en sjónaukinn framleiðir um 150 TB af gögnum á ári. Gagnaþjónar ESO í Chile og Þýskalandi eru samstilltir. Tæknin og umfangið bak við þá er sambærilegt við stórfyrirtæki eins og alþjóðlega banka. Framfarir síðustu ára í smíði sjónauka og mælitækja og í tölvutækni gerir stjörnufræðingum kleift að afla feikilegs magns upplýsinga. Til eru stór gagnasöfn með myndum af himninum á öllum bylgjulengdum rafsegulrófsins (gammageislum, röntgengeislum, sýnilegu ljósi, innrauðu ljósi og útvarpsbylgjum). Stjörnufræðingar leita stöðugt nýrra leiða til að stunda vísindi og auðvelda aðgang að þessum „stafræna alheimi". Þess vegna hafa tölvunet verið útbúin svo hægt sé að dreifa og deila gögnum í gegnum svonefndar „sýndarstjörnustöðvar". Sýndarstjörnustöð er gagnaveita sem geymir stjarnfræðilegar upplýsingar. Þetta samfélagsverkefni er í stöðugri þróun um heim allan undir forystu International Virtual Observatory Alliance (IVOA) og í Evrópu sem hluti af EURO-VO verkefninu. Sýndarstjörnustöðvar sönnuðu gildi sitt þegar menn fundu 31 dulstirni í gagnasafni GOODS (Great Observatories Origins Deep Survey). Við það fjórfaldaðist fjöldi þekktra dulstirna á leitarsvæði GOODS. Þessi uppgötvun bendir til þess að menn hafi stórlega vanmetið fjölda öflugra risasvarthola í alheiminum. Tíu helstu uppgötvanir ESO. 1. Stjörnur á braut um svartholið í miðju Vetrarbrautarinnar Nokkrir sjónaukar ESO voru notaðir í 16 ára langri rannsókn þar sem mjög nákvæmar myndir voru teknar af nágrenni risasvartholsins í miðju Vetrarbrautarinnar. Tveir sjálfstæðir rannsóknahópar hafa sýnt fram á aukinn útþensluhraða alheimsins. Uppgötvunin er meðal annars byggð á mælingum á sprengistjörnum með sjónaukum á La Silla. Fyrsta myndin af reikistjörnu utan okkar sólkerfis var tekin með VLT. Reikistjarnan er fimm sinnum massameiri en Júpíter á braut um brúnan dverg — misheppnaða stjörnu. Reikistjarnan er 55 sinnum lengra frá brúna dvergnum en jörðin er frá sólinni. 4. Tengsl gammablossa við sprengistjörnur og samruna nifteindastjarna Sjónaukar ESO hafa veitt sannanir fyrir því að langir gammablossar tengist endalokum massamestu stjarna alheims. Með VLT sjónaukanum hafa stjörnufræðingar greint kolmónoxíðsameindir í vetrarbraut í næstum 11 milljarða ljósára fjarlægð. Þetta gerði stjörnufræðingum kleift að gera nákvæmar mælingar á hitastigi alheims svo snemma í sögu hans 6. Elsta þekkta stjarnan í Vetrarbrautinni Með VLT sjónaukanum hafa stjörnufræðingar mælt aldur elstu stjörnu í Vetrarbrautinni okkar. Hún myndaðist á fyrsta skeiði stjörnumyndunar í alheiminum og er 13,2 milljarða ára gömul. 7. Blossar frá risasvartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar Mælingar með VLT og APEX hafa sýnt fram á tilvist mjög öflugra blossa frá risasvartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar. Talið er að rekja megi blossana til efnis sem þandist út þegar það snerist í kringum svartholið 8. Mæling á litrófi fjarreikistjarna og lofthjúpum þeirra Stjarnvísindamönnum tókst í fyrsta sinn tekist að rannsaka lofthjúp risajarðar, sem er tegund fjarreikistjörnu. Til þess notuðu þeir Very Large Telescope ESO. Reikistjarnan heitir GJ 1214b og voru mælingarnar gerðar þegar hún gekk fyrir móðurstjörnuna, svo hluti ljóssins frá stjörnunni barst í gegnum lofthjúp reikistjörnunnar. Stjörnufræðingar hafa með hjálp HARPS litrófsrita ESO fundið sólkerfi að minnsta kosti fimm reikistjarna á braut um stjörnuna HD 10180. Sú stjarna líkist sólinni okkar. Stjörnufræðingarnir fundu að auki vísbendingar um tvær aðrar reikistjörnur. Verði tilvist annarrar þeirrar staðfest yrði hún sú massaminnsta sem fundist hefur hingað til. Eftir meira en 1000 mælingar í La Silla, yfir 15 ára tímabil, hafa stjörnufræðingar mælt færslur meira en 14 000 stjarna í nágrenni sólar. Mælingarnar sýna meiri ókyrrð í Vetrarbrautinni en áður var talið. Miðlun stjarnvísinda til almennings. Hjá ESO sér um miðlun vísinda til almennings. Útbúnar eru fréttatilkynningar og metnaðarfullt myndefni svo mæta megi þörfum ólíkra miðla, svo sem sjónvarps-, prent,- og vefmiðla. ePOD beitir margmiðlunarnálgun á miðlun stjarnvísinda hjá ESO til almennings eins og sjá má í vefvörpum ESO og Hubble (ESOcast og Hubblecast), á Facebook síðum og fleiri stöðum. ePOD framleiðir einnig hágæða prentefni eins og bæklinga, bækur, ársskýrslur, fréttabréf (Messenger, ST-ECF Newsletter, CAPjournal), veggspjöld og svo framvegis. ePOD hafði umsjón með Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 (IYA2009) ásamt Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (IAU) og UNESCO, VLT First Light, Astronomy On-line og sýningum af ýmsum toga. ePOD veitir auk þess stuðning fólki sem miðlar stjarnvísindum til almennings í ýmsum löndum. Vefsíðu ESO, þar með talið upplýsingar um sjónauka og fréttatilkynningar, er hægt að lesa á fjölmörgum tungumálum, þar á meðal. Tengiliður ESO á Íslandi er Sævar Helgi Bragason. Á vef ePOD eru ýmis gagnleg tól og hollráð um. Í er gríðarstórt myndasafn og í eru fjölmörg myndskeið, þar á meðal. ePOD sér einnig um að miðla niðurstöðum frá evrópska hluta Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Á vefsíðunni eru heilmiklar upplýsingar um sjónaukann og uppgötvanir hans. Kynningarstjórn Alþjóðasambands stjarnfræðinga tilheyrir líka ePOD. Fréttatilkynningar og fleira. Í fréttatilkynningum ESO er sagt frá merkilegum uppgötvunum, tækniþróun, fréttum af samtökunum og birtar fallegar ljósmyndir sem stjörnufræðingar hafa tekið með sjónaukum ESO. Markmiðið með fréttatilkynningunum er að deila áhugaverðum uppgötvunum stjarnvísindanna og fegurð alheimsins með almenningi. ESO birtir þrenns konar fréttatilkynningar. Vísindafréttir lýsa nýjustu niðurstöðum rannsókna sem birst hafa í ritrýndum tímaritum og byggja á gögnum ESO. Fréttir af samtökunum ná yfir ýmislegt sem tengist starfsemi ESO, þar á meðal fréttir af stjörnustöðvunum og nýjum mælitækjum. Loks birtast reglulega nýjar og glæsilegar ljósmyndir af viðfangsefnum stjarnvísindamanna sem teknar eru með sjónaukum ESO. Hægt er að nálgast allar fréttatilkynningar ESO aftur til ársins 1985 á vef samtakanna. Einnig eru birtar barnvænar útgáfur af fréttunum, auk þess sem allar fréttir eru þýddar yfir á ýmis tungumál, t.d.. ESO birtir einnig styttri og á vef sínum. ESOcast er vefvarp þar sem sagt er frá nýjustu fréttum og rannsóknum ESO. Þáttarstjórnandi er Dr. J, einnig þekktur sem Dr. Joe Liske, sem er þýskur stjörnufræðingur hjá ESO. Miðbæjarskólinn. Miðbæjarskólinn er bygging í miðbæ Reykjavíkur við Fríkirkjuveg 1 við Tjörnina sem var upphaflega barnaskóli. Til stendur til að leggja húsnæðið undir Kvennaskólann. Á hundrað ára afmæli hússins árið 1998 var það sagt „eitt merkasta hús borgarinnar.“ Miðbæjarskólinn er friðað hús. Miðbæjarskólinn var fullbyggður 1898 en formlega vígður þann 10. október 1908. Á fyrsta starfsári Miðbæjarskólans voru þar 285 börn, 304 árið eftir en eftir að lög um fræðsluskyldu barna tóku gildi 1907 jókst fjöldi nemenda úr 472 og í 772. Árið 1930 var nafni skólans breytt í Miðbæjarskólinn. Upprunalega var byggingin L-laga en seinna var byggð suður-álma og síðan þá hefur húsið verið U-laga. Í portinu þar voru margar samkomur haldnar. Frá og með bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík 1908 var Miðbæjarskólinn aðalkjörstaðurinn til þing- og bæjarstjórnarkosninga og raunar eini kjörstaðurinn um árabil. Reykjavíkurborg hefur fundið ýmis not fyrir Miðbæjarskólann og meðal annars hafa Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Námsflokkar Reykjavíkur verið með skrifstofuaðstöðu þar. Acorn Computers. Acorn Computers Ltd. (síðar nefnt Element 14 Ltd.) var breskt tölvufyrirtæki sem stofnað var í Cambridge árið 1978. Fyrirtækið framleiddi nokkrar vinsælar tölvur sem seldust vel á Bretlandi. Meðal þeirra voru Acorn Electron, BBC Micro og Acorn Archimedes. Tölvan BBC Micro sem fyrirtækið framleiddi í samstarfi við BBC var ein vinsælasta tölva í breskum skólum á níunda og tíunda áratugunum. Fyrirtækinu var skipt í nokkur önnur fyrirtæki árið 1998 og arfur tilveru þess er þróun RISC-tölva. Stýrikerfi fyrirtækisins, RISC OS, er ennþá þróað í tveimur útgáfum af RISCOS Ltd og RISC OS Open. Nokkur dótturfyrirtæki Acorn er enn til í dag, til dæmis ARM Holdings, sem er eitt helsta örgjörvahönnunarfyrirtæki í heimi fyrir farsíma og lófutölvur. Vegna þess að Acorn var mikið nýsköpunarfyritæki er það stundum kallað „breska Apple“. Æðeyjarviti. Æðeyjarviti er viti í Ísafjarðardjúpi. Hann er 12,8 m hár og var byggður árið 1944 og tekinn í notkun árið 1949. Vitinn var lýstur með gasljósi fram til ársins 1988 er hann var rafvæddur. Axel Sveinsson verkfræðingur hannaði vitann. Ólafsviti. Ólafsviti í Patreksfirði er viti sem byggður var árið 1943 og tekinn í notkun árið 1947. Vitinn er 14,4 m hár steinsteyptur turn. Hann er byggður eftir teikningum Axels Sveinssonar verkfræðings. Gasljós var í vitanum til árisns 1978 en þá var hann rafvæddur. Nikulás Bergþórsson. Nikulás Bergþórsson (d. 1159), kallaður Nikulás Bergsson í sumum heimildum, var líklega fyrsti ábóti í Munkaþverárklaustri, víðförull fræðimaður og heimsborgari. Hann var sagður skáld gott og orti "Jónsdrápu" um Jóhannes guðspjallamann og "Kristsdrápu". „Ut við Jórdan, ef maður liggur opinn á sléttum velli ok setr kné sitt ok hnefa á ofan, ok reisir þumalfingr af hnefanum upp, þá er leiðarstjarnan þar fyrir at sjá, jafnhá en eigi hærra.“ Nikulás sneri aftur heim til Íslands 1154. Klaustrið á Munkaþverá, sem var af Benediktsreglu, var stofnað árið 1155 fyrir tilstilli Björns Gilssonar Hólabiskups, Björns bróður hans, sem var prestur á Munkaþverá, og líklega einnig mágs þeirra, Jóns Sigmundssonar á Svínafelli. Í "Stokkhólmsbók" segir að fyrsti ábóti á Munkaþverá hafi heitið Höskuldur og verið skamma hríð en nú er yfirleitt talið að það sé misritun og Nikulás hafi verið fyrsti ábótinn. Þann 15. júní 1158 var Nikulás ábóti við vígslu dómkirkjunnar í Skálholti með Klængi biskupi Þorsteinssyni og Birni biskupi Gilssyni og flutti vígsluprédikunina þar. Hann var ábóti á Munkaþverá í fjögur ár, til dauðadags 1159. Björn Gilsson prestur tók við af honum. Björn Gilsson (ábóti). Björn Gilsson (d. 1181) var prestur á Munkaþverá á 12. öld og síðan ábóti í Munkaþverárklaustri, annar í röðinni á eftir Nikulási Bergþórssyni. Hann var bróðir og alnafni Björns Gilssonar Hólabiskups og stóðu þeir saman að stofnun klaustursins. Þeir bræður voru synir Gils Einarssonar Járnskeggjasonar, Einarssonar Þveræings, og höfðu þeir langfeðgar allir búið á Þverá. Kona Gils og móðir þeirra var Þórunn, dóttir Þorbjarnar Þorfinnssonar karlsefnis. Systir þeirra var Þórný, kona Jóns Sigmundssonar eldri á Svínafelli. Björn var vígður ábóti 1162, sama ár og bróðir hans dó. Björn biskup taldi það styrkja kirkjuna mest að efla munklífi og hafði því gefið eitt hundrað hundraða af fé Hólakirkju til Munkaþverárklausturs. Björn ábóti hefur vafalaust átt stóran þátt í að móta klaustrið og venjur þess því hann var ábóti í nítján ár og hefur raunar líklega stýrt klaustrinu allt frá því að Nikulás ábóti dó 1159. Björn dó árið 1181 og tók Hallur Hrafnsson við af honum. Hallur Hrafnsson. Hallur Hrafnsson (d. 1190) var prestur á Grenjaðarstað á 12. öld og síðan ábóti á Munkaþverá, þar sem hann tók við eftir lát Björns Gilssonar ábóta 1181. Hallur var sonur Hrafns Úlfhéðinssonar lögsögumanns, en faðir Hrafns og afi höfðu einnig verið lögsögumenn, svo og ýmsir frændur hans. Systur Halls hét Hallbera og var kona Hreins Styrmissonar, ábóta í Þingeyraklaustri. Hann var prestur á Grenjaðarstað en var vígður ábóti á Munkaþverá 1184 og gegndi því embætti til dauðadags. Einar Másson tók við af honum. Á meðan Hallur var prestur var hann giftur Valgerði Þorsteinsdóttur, en prestar máttu á þeim árum kvænast. Hún var skagfirsk, af ætt Ásbirninga. Á meðal barna þeirra var Eyjólfur ofláti, prestur á Grenjaðarstað og ábóti í Saurbæjarklaustri 1206-1212. Einar Másson. Einar Másson (d. 1196) var ábóti í Munkaþverárklaustri frá því að Hallur Hrafnsson ábóti lést árið 1190 og til dauðadags. Hann var því hinn fjórði í röðinni af ábótum klaustursins. Fátt er vitað um Einar en þess hefur verið getið til að dóttir hans hafi verið Jórunn Einarsdóttir, sem kann að hafa verið kona Styrmis fróða Kárasonar, sem síðar varð príor í Viðeyjarklaustri. Um það er þó ekkert vitað með vissu. Einar lést 1196 og tók þá Ormur Skeggjason við klaustrinu. Snjóþrúgur. Snjóþrúgur eru fótabúnaður til að ganga í snjó. Þær virka þannig að þyngdin dreifist yfir meira svæði og sekkur fóturinn þá ekki í lausamjöll. Snjóþrúgur voru gerðar úr viði og leðurþvengjum en eru núna gerðar úr léttum málmi eða plastefnum og gerviefnum. Til þess að snjóþrúgur safni ekki í sig snjó er í þeim net eða fléttingar eða göt í gegn og á þeim þarf að vara festibúnaður sem festir þær á fæturna. Snjóþrúgur voru til forna nauðsynlegt verkfæri fyrir veiðimenn, skógarverði og aðra sem þurftu að fara yfir svæði þar sem oft lá yfir djúpur snjór. Núna eru snjóþrúgur fyrst og fremst notaðar af göngufólki og hlaupurum sem vilja komast leiðar sinnar í snjó að vetrarlagi. Auðvelt er að læra að ganga á snjóþrúgum og það er frekar hættulaus og ódýr afþreying. Talið er að snjóþrúgur hafi verið notaðar í 6000 til 8000 ár og merki eru um notkun slíks búnaðar úr Kákasus og Armeníu. Frumbyggjar Norður-Ameríku notuðu ýmis konar snjóþrúgur, hver ættbálkur hafði sína eigin gerð. Inúítar lengst í norðri bjuggu til einföldustu útgáfurnar, þeir gerðu tvær gerðir, önnur var um 46 sm löng og hin gerðin var næstum hringlaga. Snjóþrúgur urðu æ aflangari eftir því sem sunnar dró og þær lengstu voru gerðar af Krí-indjánum en þær voru 1,8 m langar og uppbrettar að framan. Í snjó í skóglendi þar sem snjólagið var þynnra og blautara skipti floteiginleiki snjóþrúgna ekki eins miklu máli. Franskir landnemar í Ameríku tóku snjóþrúgur fyrr í notkun en breskir. Orðið eskimói er talið komið úr „sá sem gerir snjóþrúgur“. Á Íslandi. Snjóþrúgur þekktust á Íslandi fyrr á öldum en voru aldrei algengar. Í frásögn í "Austra" 1887 er þeim lýst þannig: „„Þrúgar“ voru sterk gjörð sem beygð var í hring, fitjað ólum innan í og bundnir upp um ristarnar. Á þeim gengu einstakir menn hér á Austurlandi fram á þessa öld, þegar snjór var mikill og djúpur; en mjög var það ólipurt, þar eð þrúgarnir skögðu alla vega eins langt út undan fótunum eins og þeir voru stórir til, en nokkuð héldu þeir uppi þeim sem á þeim gekk. Og ekki hefur víst verið til þeirra tekið nema í mestu fannfergjum.“ Evrópumeistaramót UEFA 21 árs og yngri 2011. Evrópumeistaramót UEFA 21 árs og yngri 2011 er ellefta Evrópumeistaramót undir 21 árs karla í knattspyrnu og fer fram í Danmörku 11.-25. júní. Átta lið keppa til úrslita: Hvít-Rússar, Tékkar, Danir, Englendingar, Íslendingar, Spánverjar, Svisslendingar og Úkraínumenn. Þetta er í fyrsta skiptið sem Íslendingar taka þátt. Aðeins tvær þjóðir sóttu um að verða mótshaldari mótsins, Danmörk og Ísrael. Mótsnefnd UEFA fór yfir tilboðin og gaf út meðmæli til yfirstjórnar UEFA sem ákvað 10. desember 2008 að Danmörk myndi hýsa keppnina. Undankeppni. Undankeppni fyrir mótið fór fram á milli mars 2009 og október 2010. Undankeppnin var riðlakeppni með 8 landsliðum sem komust áfram. Þessi 8 lið voru dregin 4. febrúar í 10 riðla í aðalkeppninni eftir frammistöðu þeirra í mótinu. Leikvangar. Leikvangar mótsins voru allir staðsettir á Jótlandi í Aarhus, Álaborg, Herning og Viborg. 20. september 2010 var ákveðið að lokaleikur mótsins yrði í Arhus. Röðun í riðla. Liðin voru dregin í riðla 9. nóvember 2010 í Álaborg. Líkt og í fyrri mótum verða leikir í hverjum riðli í tveimur leikvöngum. Lið voru skipt í þrjá potta eftir fjölda stiga og hver riðill hafði eitt lið frá potti eitt og tvö en tvö lið frá potti þrjú. Bráðabani. Í mótinu gilda sömu reglur og í Evrópumeistaramóti undir 21 árs 2009. Ef að tvö eða fleiri lið eru jöfn að stigum í keppnini þá eru eftirfarandi atriði notuð. A-riðill. Í A-riðli varð bráðabani til að skera úr um þriggja punkta jafntefli á milli Hvíta-Rússlands, Danmerkur og Íslands. Hvíta-rússland komst áfram vegna betri markamun í leikjum á milli þessara liða. Natan Ketilsson. Natan Ketilsson (1792 – 14. mars 1828), sem kallaði sig sjálfur Nathan Lyngdahl, var íslenskur skottulæknir sem bjó seinast á Illugastöðum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu og var myrtur þar ásamt öðrum manni. Morðingjar hans voru teknir af lífi og var það síðasta aftaka á Íslandi. Ferill. Hann var fæddur í Hólabæ í Langadal, sonur Ketils Eyjólfssonar og Guðrúnar Hallsdóttur. Faðir hans dó 1802 og ólst Natan upp hjá vandalausum eftir það. Sagt er að hann hafi siglt til útlanda á unga aldri og þóst hafa forframast þar nokkuð og litið stórt á sig eftir heimkomuna. Hann virðist hafa verið vel gefinn og að mörgu leiti hæfileikaríkur, stundaði lækningar og hafði aflað sér nokkurrar þekkingar á því svíði, en þó var sagt að hann læknaði eingöngu ríka menn. Þetta var ekki í eina skiptið sem minnt var á að nafn Natans rímaði við nafn Skrattans og fóru á kreik sögur um að þegar móðir Natans gekk með hann hefði sá illi sjálfur vitjað nafns og heimtað að barnið yrði skírt eftir sér en presturinn hefði neitað og því hefði drengurinn verið látinn heita Natan en ekki Satan. Nafnið var þá nær óþekkt á Íslandi. Natan var fjölþreifinn til kvenna og eignaðist börn víða. Þekktasta ástkona hans var þó Rósa Guðmundsdóttir, Vatnsenda-Rósa, en Natan réðist til hennar og Ólafs manns hennar þegar þau bjuggu á Lækjamóti í Víðidal og var að einhverju leyti viðloðandi heimili þeirra þar og á Vatnsenda um tíma. Almannarómur sagði að Natan ætti börn sem Rósa fæddi 1824 og 1825 en þegar hún fæddi dóttur 1826 var hún skrifuð Natansdóttir og játaði Rósa hjúskaparbrot fyrir rétti. Þau Ólafur bjuggu þó saman í nokkur ár í viðbót. Morðið á Illugastöðum. Natan flutti að Illugastöðum á Vatnsnesi 1826 og fékk kornunga stúlku, Sigríði Guðmundsdóttur, fyrir bústýru og hóf þegar ástarsamband við hana. Um það leyti sendi hann Rósu bréf og sleit sambandi þeirra. Hún tók það mjög nærri sér og svaraði honum með ljóðabréfi þar sem hún lýsir ást sinni þrátt fyrir alla sviksemi hans. Í mars 1828 myrtu þau Sigríður, Agnes Magnúsdóttir, vinnukona á Illugastöðum, og unglingurinn Friðrik Sigurðsson frá Katadal Natan þar sem hann svaf í rúmi sínu og einnig annan mann sem var gestkomandi á bænum, Fjárdráps-Pétur Jónsson. Mun tilgangurinn líklega aðallega hafa verið að komast yfir fjármuni Natans en sagt var að hann ætti töluvert af peningum. Fengurinn mun þó hafa verið minni en morðingjarnir bjuggust við. Þau kveiktu í bænum til að reyna að fela verksummerkin en grunur féll þegar á þau. Voru þau öll dæmd til dauða en Sigríður var þó náðuð og flutt til Kaupmannahafnar til ævilangrar vistar í Spunahúsinu. Agnes og Friðrik voru hálshöggvin 12. janúar 1830 og var böðullinn Guðmundur, bróðir Natans. Á meðal barna Natans var Hans Natansson, skáld og bóndi, seinast á Þóreyjarnúpi. Ormur Skeggjason. Ormur Skeggjason (d. 1212) var ábóti í Munkaþverárklaustri og tók líklega við þegar eftir lát Einars Mássonar ábóta 1196. Ormur var af Svínfellingaætt og frændi Björns Gilssonar ábóta. Hann kom til greina í biskupskjöri á Hólum árið 1201 en Kolbeinn Tumason taldi að Guðmundur prestur Arason yrði ráðþægari, en þar skjátlaðist honum illilega. Guðmundur biskup setti vorið 1204 frænda Orms, Sigurð Ormsson frá Svínafelli, til að rétta við fjárhag staðarins og húsakynni, sem ekki var vanþörf á, og stóð Sigurður sig vel við það verk og byggði upp hús og bætti rekstur klaustursins til muna. Ormur Jónsson frá Svínafelli, faðir Sigurðar, eyddi síðustu æviárunum í klaustrinu og gerðist munkur þar. Það gerði Sigurður raunar sjálfur síðar. Ekki var þó allt með friði í klaustrinu og er sagt frá því í Sturlungu að þeir Sigurður Ormsson og Hallur Kleppjárnsson tóku prest úr klaustrinu, meiddu hann og limlestu. Ekki er getið um viðbrögð Orms ábóta en Guðmundur biskup bannsetti Sigurð og Hall fyrir verknaðinn. Ketill Hallsson var orðinn ábóti á Munkaþverá 1222 en ekki er vitað hvort hann tók við af Ormi eða hvort einhver var á milli þeirra. Ketill Hallsson. Ketill Hallsson (d. 1229) var ábóti í Munkaþverárklaustri á 13. öld. Hann var orðinn ábóti 1222 og kann að hafa orðið það þegar eftir lát Orms Skeggjasonar ábóta 1212 en einnig má vera að einhver hafi verið á milli þeirra. Um Ketil ábóta er annars ekkert vitað og engar heimildir eru um ábótatíð hans. Hann dó 1229 og Árni Hjaltason tók við af honum. Árni Hjaltason. Árni Hjaltason (d. 1252) var ábóti í Munkaþverárklaustri og var vígður 1229, eftir lát Ketils Hallssonar ábóta sama ár. Árni var Eyfirðingur að ætt, sonur Hjalta Klængssonar Hallssonar. Föðurbróðir hans var Kleppjárn Klængsson, faðir Halls Kleppjárnssonar goðorðsmanns, sem Kálfur Guttormsson lét drepa á jólaföstu árið 1212. Í Sturlungu segir frá því að þegar Þórður kakali kom til Gása með skipi 1242 fór Árni ábóti til fundar við hann og ráðlagði honum að hverfa sem fyrst á brott úr Eyjafirði því að honum væri ekki óhætt fyrir Kolbeini unga, og fara fremur suður á land og leita liðsinnis þar, sem Þórður og gerði. Eyjólfur Brandsson tók við sem ábóti eftir lát Árna. Eyjólfur Brandsson. Eyjólfur Brandsson (d. 1293) var ábóti í Munkaþverárklaustri á síðari hluta 13. haldar, hefur líklega fengið forræði klaustursins 1253, en Árni Hjaltason ábóti dó árið áður, og var svo vígður 1254. Eyjólfur var sonur Valla-Brands Eyjólfssonar og var lengi prestur á Völlum í Svarfaðardal. Hans er getið á Munkaþverá veturinn 1253, eftir Flugumýrarbrennu, þar sem hann reyndi að bera sættir á milli Gissurar Þorvaldssonar og brennumanna. Tveimur árum síðar dró til tíðinda í Eyjafirði, þegar laust saman flokki Eyjólfs ofsa Þorsteinssonar, annars foringja brennumanna, og Hrafns Oddssonar annars vegar og Þorgils skarða, Þorvarðar Þórarinssonar og Sturlu Þórðarsonar hins vegar. Þorgils og félagar komu með flokk manna til Eyjafjarðar um sumarið en bændur söfnuðu liði undir forystu Eyjólfs ofsa og Hrafns. Eyjólfur ábóti reyndi að stilla til friðar og fór á milli fylkinganna en það kom fyrir lítið og sló í bardaga á Þveráreyrum, skammt frá klaustrinu. Þar höfðu menn Þorgils skarða og félaga betur, Eyjólfur ofsi féll en Hrafn Oddsson komst undan á flótta. Sumir liðsmenn þeirra leituðu griða í klaustrinu. 16 eða 17 menn féllu og margir særðust og var þeim hjúkrað af ábóta og munkunum, sem sungu svo yfir þeim föllnu. Nokkru síðar reyndi Eyjólfur ábóti að koma á sáttum með Þorgils og Þorvarði og svo Heinreki Kárssyni Hólabiskupi, sem hafði stutt Eyjólf ofsa og Hrafn, og hittust þeir í klaustrinu, en ekkert varð úr sáttum. Þetta sýnir allt að Eyjólfur ábóti hefur verið maður sátta og friðar og iðulega reynt að lægja öldurnar í ófriðarbáli Sturlungaaldar. Þegar Þorgils skarði var drepinn á Hrafnagili 1258 var lík hans flutt til Munkaþverár þar sem Eyjólfur ábóti tók við því og veitti Þorgils sæmandi útför. Eyjólfur var frændi Gissurar Þorvaldssonar. Þess er getið í frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu að þar var staddur Þórólfur munkur og ölgerðarmaður frá Munkaþverá og hefur hann vafalaust verið lánaður til Flugumýrar til að brugga öl fyrir brúðkaupsveisluna. Eyjólfur hverfur úr sögunni 1293 og hefur vafalaust dáið það ár. Eftirmaður hans var Ljótur Hallsson. Ljótur Hallsson. Ljótur Hallsson (d. 1296) var ábóti í Munkaþverárklaustri í lok 13. aldar. Hann tók þar við eftir lát Eyjólfs Brandssonar ábóta 1293 en naut ekki lengi við því hann dó þremur árum síðar og Þórir Haraldsson varð þá ábóti. Ætt Ljóts er óþekkt og um hann er raunar ekkert vitað nema nafnið. Þorkell Skúmsson. Þorkell Skúmsson (d. 1203) var fyrsti ábóti í Saurbæjarklaustri í Eyjafirði, sem líklega var stofnað rétt fyrir aldamótin 1200 að undirlagi Brands Sæmundssonar Hólabiskups, sem dó 1201. Um það leyti bjó Ólafur Þorsteinsson goðorðsmaður í Saurbæ og hefur hann líklega gefið jörðina til klausturstofnunar, varð þar kanúki sjálfur og dó í klaustrinu 1202. Hann var sonur Þorsteins rangláts Einarssonar, bónda á Grund í Eyjafirði. Þorkell ábóti dó líklega 1203 og tók Eyjólfur ofláti Hallsson við klaustrinu nokkru síðar. Eyjólfur Hallsson ofláti. Eyjólfur Hallsson, kallaður ofláti (d. 1212) var ábóti í Saurbæjarklaustri í Eyjafirði, annar í röðinni af þremur ábótum klaustursins, og tók við af Þorkatli Skúmssyni, sem talinn er hafa dáið 1203. Eyjólfur var þó ekki vígður ábóti fyrr en 1206. Eyjólfur var af höfðingjaættum, sonur Halls Hrafnssonar prests á Grenjaðarstað og seinna ábóta í Munkaþverárklaustri, en hann var aftur sonur Hrafns Úlfhéðinssonar lögsögumanns. Móðir hans var Valgerður Þorsteinsdóttir, sem var af ætt Ásbirninga. Eyjólfur varð prestur á Grenjaðarstað eins og faðir hans hafði verið og þótti einn helsti klerkur norðanlands. Þegar Guðmundur góði var kjörinn Hólabiskup 1201 vildi hann færast undan biskupskjörinu og nefndi til nokkra menn sem hann vildi afsala embættinu til. Einn þeirra var Eyjólfur, en hann afþakkaði. Eyjólfur hefur án efa verið einn ábótanna þriggja sem voru með Guðmundi fyrir Víðinesbardaga 1208; hinir hafa verið Þórarinn Sveinsson á Þingeyrum og Ormur Skeggjason á Munkaþverá. Hann lést 1212 og tók Þorsteinn Tumason við af honum. Kona Eyjólfs var Guðrún Ólafsdóttir en Ólafur Þorsteinsson faðir hennar átti Saurbæ áður en þar var klaustur og lauk ævinni sem kanúki þar. Þau áttu tvo syni. Þorsteinn Tumason. Þorsteinn Tumason (d. 1224) var ábóti í Saurbæjarklaustri í Eyjafirði, þriðji og líklega síðastur í röð ábóta þar. Hann tók við eftir að Eyjólfur Hallsson ofláti lést 1212 og gegndi ábótastarfi til dauðadags, en eftir að hann dó er ekki getið um ábóta í Saurbæ og raunar ekkert klausturstarf, svo að líklega hefur klaustrið lagst af eftir lát hans. Þorsteinn var Ásbirningur, launsonur Tuma Kolbeinssonar goðorðsmanns í Ási í Hegranesi og hálfbróðir Kolbeins Tumasonar, Arnórs Tumasonar og Halldóru, konu Sighvats Sturlusonar. Hann átti að minnsta kosti fimm börn og dætur hans, Guðrún og Steinunn, voru fylgikonur Sveinbjarnar og Kráks, sona Hrafns Sveinbjarnarsonar, sem voru höggnir eftir Örlygsstaðabardaga. Listi yfir hin fornu héruð Frakklands. Frakklandi var að fornu skipt í héruð (stjórnsýslusvæði) fram til 4. mars 1790, þegar þau voru lögð af og í staðinn teknar upp „sýslur“ (Département français) við umfangsmiklar stjórnkerfisbreytingar eftir frönsku byltinguna. Með því að leggja niður héruðin ætlaði byltingarstjórnin að ná nokkrum markmiðum. Í fyrsta lagi vildu menn fjarlægja síðustu leifar af lénsskipulaginu, rjúfa gömul hagsmunatengsl ínnan héraðanna og stuðla að tryggð við miðstjórnina í París og uppbyggingu franskrar þjóðerniskenndar. Í öðru lagi vildu menn hafa sýslurnar það litlar að auðvelt væri að stjórna þeim. Í þriðja lagi voru öll gömul sérréttindi, staðbundin lög og stjórnkerfi lögð niður og í staðinn komið á samræmdu stjórnkerfi sem skipulagt var frá höfuðborginni París. Mörg af gömlu héraðanöfnunum lifa áfram sem nöfn á landshlutum Frakklands, og þau eru enn hluti af menningarlegri vitund margra Frakka. Listi yfir hin fornu héruð Frakklands. Héruð Frakklands á fyrri öldum. Hér á eftir fer listi yfir héruð Frakklands fyrir byltinguna. Innan sviga er franska heitið, ef það er annað, ártal fyrir innlimun í franska konungsríkið, og nafn höfuðborgar héraðsins. Nr. 35–39 voru ekki hluti af Frakklandi fyrir byltinguna, en voru sameinuð því síðar. Dave Barry. David Barry eða Dave Barry (f. 3. júlí 1947) er bandarískur rithöfundur sem unnið hefur til Pulitzer verðlaunanna. Hann hefur skrifað nokkrar skopstælingar auk þess að skrifa gamansögur. Barry, David Vladimir Kramnik. Vladimir Borisovich Kramnik (rússneska: Влади́мир Бори́сович Кра́мник) (fæddur: 25. júní 1975) er rússneskur stórmeistari og fyrrum heimsmeistari í skák. Kramnik, Vladimir Ólafur Egilsson. Reisubók Ólafs Egilssonar á dönsku. Ólafur Egilsson (1564 – 1. mars 1639) var íslenskur prestur á Ofanleiti í Vestmannaeyjum sem numinn var á brott í Tyrkjaráninu árið 1627 ásamt um 400 öðrum. Um lífsreynslu sína og ferðalög ritaði Ólafur reisubók og segir hann þar frá svaðilförum sínum sem og háttum fólksins í borg sjóræningjanna, Algeirsborg. Ólafur var sonur Egils Einarssonar lögréttumanns á Snorrastöðum í Laugardal og konu hans Katrínar, dóttur Sigmundar Eyjólfssonar og Þuríðar stóru Einarsdóttur. Bróðir hans var Jón Egilsson, annálaritari og prestur í Hrepphólum. Ólafur var líklega fyrst prestur á Torfastöðum í Biskupstungum en var orðinn prestur í Ofanleiti um 1594. Hann var hertekinn þar 1627 og fluttur til Algeirsborgar ásamt Ástríði (Ástu) Þorsteinsdóttur seinni konu sinni, þremur börnum þeirra og fjölda annarra. Ásta ól barn um borð í skipinu og segir Ólafur frá því í bók sinni að sjóræningjarnir hafi sýnt því hina mestu umhyggju. Þegar til Alsír kom fengu yngstu börnin að fylgja Ástu en elsti sonurinn, ellefu ára, sem kóngurinn valdi handa sjálfum sér en hann átti rétt á áttunda hverjum þræl. Ólafur var svo sendur til Danmerkur til að fá konung til að greiða lausnargjald fyrir Íslendingana. Hann komst til Sardiníu, þaðan til Ítalíu við illan leik og loks til Danmerkur 27. mars 1628 en tókst ekki að fá neina úrlausn hjá konungi. Hann fór þá til Íslands, kom aftur 6. júlí, tæpu ári eftir ránið, og tók 1634 aftur við prestsskap á Ofanleiti en kona hans kom aftur níu árum seinna. Börn þeirra sem herleidd voru með þeim urðu öll eftir í Alsír en ein dóttir hafði orðið eftir á Íslandi og eins dóttir hans af fyrra hjónabandi með Helgu Árnadóttur. "Reisubók Ólafs Egilssonar" þykir merk heimild, bæði um Tyrkjaránið og um sýn norrænna manna á líf og háttu manna í „Barbaríinu“. Þættir Chuck. Chuck er bandarískur hasar- og gamanþáttur sem voru samdir af Josh Schwartz og Chris Fedak. Þættirnir fjalla um tölvunördinn Chuck Bartowski sem fær tölvupóst sem halar niður öllum gagnagrunni ríkisstjórnarinnar í heilann í honum. Njósnarnir Sarah Walker og John Casey eru send til að vernda hann. Fyrsti þátturinn fór í loftið þann 24. september 2007 og var lokaþátturinn sýndur 27. janúar 2012. Alls voru 91 þættir framleiddir ásamt fimm þáttaröðum. Allir þættirnir fylgja nafnamynstrinu "Chuck Versus..." og svo er bætt við einhverjum hlut/einstaklingi sem tengist þættinum, t.d. fyrsti þátturinn heitir "Chuck Versus the Intersect". Ólafur Gaukur Þórhallsson. Ólafur Gaukur Þórhallsson (f. 11. ágúst 1930, d. 12. júní 2011) var íslenskur gítarleikari, lagahöfundur, hljómsveitarstjóri, útsetjari, textahöfundur, plötuútgefandi og kennari. Hann stofnaði Gítarskóla Ólafs Gauks 1975 og rak hann til æviloka. Árið 2006 hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, 2008 var hann kjörinn heiðursfélagi Félags tónskálda og textahöfunda auk þess að fá riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi tónlistar og tónsmíða og 2009 var hann sæmdur Gullnöglinni. Brandönd. Brandönd (fræðiheiti: "Tadorna tadorna") er stórvaxin og skrautleg önd sem minnir á gæs bæði hvað varðar stærð og lögun. Goggur andarinnar er rauðbleikur, fæturnir bleikir og búkurinn hvítur með brúnum og svörtum flekkjum. Höfuðið og hálsinn eru dökkgræn. Kynin eru svipuð í útliti en kvenfuglarnir eru minni. Brandönd er farfugl og fáséð á Íslandi. Sandlóa. Sandlóa (fræðiheiti "Charadrius hiaticula") er smávaxinn vaðfugl af lóuætt. Einkenni. Sandlóan er álíka stór og sendlingur og lóuþræll og um margt lík heiðlóu í vaxtarlagi. Hún er þó töluvert minni en heiðlóan, þybbnari, hálsstutt og frekar kubbslega vaxin en með mikið vænghaf miðað við lengd eða rúmlega tvisvar sinnum lengd sína. Flýgur yfirleitt lágt og hratt sem er svipað og með fótaburð hennar en hún er þekkt fyrir snöggan fótaburð, enda skýst hún svo hratt um að varla að hún sjáist. Svo snar stoppar hún og hverfur inn í umhverfi sitt því litarhaft hennar er ágætis felubúningur, sérstaklega í fjörum. Ljósbrún að ofan, bæði höfði og baki en hvít að neðan. Með svartan og hvítan kraga um hálsinn og hvítt enni og svarta breiða línu á milli augnanna sem einnig eru svört. Hún er með rauðgult nef með svörtum oddi. Fæturnir eru ljósgulir á litinn og stuttir. Útbreiðsla. Sandlóan finnst um alla norðanverða Evrópu og Asíu. Hún er farfugl á Íslandi og kemur venjulega um miðjan apríl og fer suður á bóginn um miðjan september. Þær sem hér verpa halda sig á veturnar á leirum og sandfjörum, mest á Bretlandseyjum, meðfram vesturströnd Frakklands og Spánar og suður til Marokkó. Fæða. Sandlóan leitar sér fæðu á landi og lifir aðallega á smádýrum sem hún nær upp úr jarðveginum, einkum leirum og sandfjörum, með goggi sínum eins og smáar tegundir krabbadýra, snigla og ýmsar tegundir smáorma. Varp. Sandlóan verpir um mest alla norðanverða Evrópu og Asíu og þar á meðal á Íslandi. Einnig á heimskautaeyjum Kanada og á Grænlandi. Á Íslandi verpir um allt land en er algengust í fjörum en utan varptímans dvelur hún mest á leirum og sandströndum. Talið er að um helmingur heimsstofns sandlóa verpi á Íslandi. Hreiðrið er einfalt aðeins lítil dæld í sandi í fjörum eða sjávargrundum nærri fjörum. Hreiðrið er ekkert falið og aðeins fóðrað með spreki eða smásteinum. Eggjum eru oftast um fjögur, ljósbrún alsett fjölmörgum doppum. Varptíminn er frá seinnihluta maí til miðs ágúst. Ungarnir koma úr eggjunum eftir þrjár til fjórar vikur og yfirgefa hreiðrið strax og hlaupa um nágrennið með foreldrum sínum og bjarga sér sjálfir með æti. Hettumáfur. Hettumáfur (fræðiheiti áður "Larus ridibundus", samheiti "Chroicocephalus ridibundus") er smávaxinn máfur sem verpir á flestum stöðum í Evrópu og Asíu og í strandhéruðum Kanada. Stofninn er að mestu leyti farfuglar og eru vetrarstöðvar sunnar en sumir fuglar á veðursælli slóðum Evrópu eru staðfuglar. Hettumáfur er 38 - 44 sm langur með 37 - 41 sm vænghaf. Hettumáfur verpir í ýmis konar gróðurlendi en kýs helst að verpa í votlendi í mýrum eða nálægt vötnum og tjörnum. Hreiðrið er dyngja úr þurrum gróðri. Hann verpir venjulega þremur eggjum og útungun tekur 24 daga. Winterthur. Winterthur er borg í kantónunni Zürich í Sviss. Íbúar eru 100 þúsund og er Winterthur þar með stærsta borg í Sviss sem ekki er kantónuhöfuðborg. Lega og lýsing. Winterthur er norðarlega í Sviss, rétt sunnan við þýsku landamærin. Næstu borgir eru Zürich til suðvesturs (20 km), Schaffhausen til norðurs (30 km), Konstanz í Þýskalandi til norðausturs (40 km) og St. Gallen til austurs (60 km). Þrátt fyrir nálægð við borgina Zürich, er Winterthur utan við stórborgarsvæði hennar. Þó nýtur borgin góðs af alþjóðaflugvellinum Zürich-Kloten, sem er aðeins í 15 km fjarlægð. Íbúar eru nær allir þýskumælandi. Útlendingar eru 23%. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar eru tvö rauð ljón sem rísa til vinstri á hvítum grunni. Auk þess rauð þverrönd sem aðskilur ljónin. Merki þetta var áður fyrr merki Kyburg-ættarinnar og kemur fyrst fram í Winterthur 1252 á innsigli. Upphaf. Gamall steinn með áletrunum frá tímum Rómverja Það voru Rómverjar sem fyrstir manna reistu þorp eða bæ á staðnum og kölluðu hann Vitudurum. Hann varð víggirtur 294 e.Kr. vegna tíðra árása alemanna. Í upphafi 5. aldar yfirgáfu Rómverjar héraðið og lá þá bærinn í eyði. Á 6. eða 7. öld reistu alemannar bæinn á ný um 4 km fyrir vestan gamla rómverska bæinn. Bærinn mun hafa dafnað vel, enda lá hann við góðar samgönguæðar. Árið 919 kemur bærinn fyrst við skjöl og kallast þá Niederwinterthur. Nágrannabærinn hét Oberwinterthur. Á sama ári á sér stað orrustan við Winterthur, þar sem hertogadæmið Sváfaland sigrar heri frá Búrgúnd, en þeir síðarnefndu höfðu reynt að þenja yfirráðasvæði sitt út í austurátt. 1180 eignuðust greifarnir af Kyburg bæinn og héraðið. Skömmu síðar hefur heiti bæjarins breyst í Winterthur. Bærinn verður að aðalaðsetri Kyburg-ættarinnar. Ættin dó hins vegar út 1264 og erfðu þá Habsborgarar bæinn. Þeir veita Winterthur borgarréttindi strax á sama ári. Svissneska sambandið. Winterthur 1642. Mynd eftir Matthäus Merian. Þó að Habsborgarar erfðu bæinn, ásældist Zürich bæinn einnig. Árið 1292 söfnuðu þeir liði og réðust á Winterthur en Habsborgarar náðu að sigra þá í orrustu við borgardyrnar. Á þessum tíma var nýbúið að stofna svissneska sambandið og reyndist það mikill þyrnir í augum Habsborgara. Árið 1351 gekk Zürich í sambandið og lát Winterthur þá hernaðarlega séð á óheppilegum stað. Á 15. öld var borgin umkring landi svissneska sambandsins og stóð þar eins og eyja. Árið 1460 sátu herir frá Zürich enn um borgina en hún stóðst áhlaupið. Á þessum tíma sáu Habsborgarar að borgin yrði þeim ekki mikill happafengur lengur og seldu hana til Zürich 1464. Þar með varð Winterthur orðin svissnesk. Þar bjuggu á þessum tíma ekki nema 2.200 manns. Sem hluti af svissneska sambandinu varð Winterthur að ljá sambandinu hernaðaraðstoð. Íbúarnir undu ekki að láta Zürich stjórna sér, enda gerði borgarráð Zürich ýmislegt til að hindra framþróun í Winterthur. Því reyndu íbúarnir fljótt að slíta sig lausa og mynda eigin kantónu. Þeir reyndu jafnvel að fá keisara þýska ríkisins í lið með sér en Zürich braut allar slíkar tilraunir á bak aftur. Winterthur sætti sig ekki við yfirráð Zürich fyrr en með siðaskiptunum. Frakkar og iðnbylting. Yfirráð Zürich endaði snögglega er Frakkar hertóku svissneska sambandið 1798. 5. maí þrömmuðu Frakkar inn í Winterthur og hertóku borgina. Margir fögnuðu þeim sem frelsurum. Frakkar notuðu Winterthur aðallega sem herstöð og kröfðust þess að borgarbúar sköffuðu sér 12 þúsund pör af herskóm. En áður en langt um leið komu Austurríkismenn á vettvang. Í orrustunni um Winterthur 27. maí 1799 sigruðu Austurríkismenn franska herinn, sem var undir stjórn Massénas. Í kjölfarið settust Austurríkismenn og Rússar að í borginni. En seinna á árinu voru Frakkar komnir aftur og sigruðu í annarri orrustu. Við það flúðu Rússar og Austurríkismenn. Frakkar tóku borgina á nýjan leik. Þeir rifu borgarmúrana niður, bæði til að veikja varnir landsins og til að skapa byggingarpláss fyrir vaxandi borgina. Íbúatalan margfaldaðist. Meðan Frakkar voru enn í borginni var fyrsta spunavélin í Sviss sett upp í Winterthur. Þar með hófst iðnbyltingin í borginni. Eftir brotthvarf Frakka héldu iðnfyrirtæki áfram að setja upp verksmiðjur þar í borg. Árið 1855 fékk borgin svo járnbrautartengingu og enn reyndi borgin að losna undan áhrifum Zürich en án árangurs. Áður en 19. öldin var öll var Winterthur orðin að mikilli iðnaðarborg. 20. öldin. Í upphafi 20. aldar störfuðu 60% íbúanna við vélaiðnað. Árið 1922 sameinuðust fimm bæir Winterthur, sem við það stækkaði að mun. Íbúar urðu 50 þúsund. Kreppan mikla á millistríðsárunum kom hart nirður í Winterthur. Þriðjungur borgarbúa missti vinnuna. Ástandið lagaðist ekki fyrr en með heimstyrjöldinni síðari, en þá snarhækkaði eftirspurnin eftir vélavörum. Á eftirstríðsárunum stækkaði borgin mjög hratt og upplifði mikið blómaskeið. Íbúar fóru upp í 100 þúsund en Winterthur breyttist hægt í verslunar- og þjónustuborg. Árið 1966 var Sulzer-háhýsið reist þar í borg en það var næstu 40 árin hæsta húsið í Sviss. Með Swisscom-turninum fékk Winterthur sitt annað háhýsi árið 1999. Viðburðir. Hljómsveitin Skin spilar á útitónleikum 2005 Albanifest er heiti á stærstu hátíð Evrópu sem haldin er gamalli miðborg ("Altstadt"). Hér er um frelsishátíð að ræða, en haldið er upp á að Winterthur hlaut borgarréttindi 22. júní 1264, á degi heilags Albans. Því er hátíðin haldin síðustu helgina í júní. Árið 1971 var hátíðin sett á laggirnar og er hún sótt af um 100 þúsund gestum. Í upphafi var brauð, ostur og vín gefið borgarbúum endurgjaldslaust en í dag fer hátíðin fram með mörgum útitónleikum, skemmtiatriðum og ýmsu öðru. Öll miðborgin er undirlögð hátíðinni. Í maílok fer fram hátíð sem kallast Afro-Pfingsten ("Afró-hvítasunna"). Hér er um Afríkutengda hátíð að ræða, sú stærsta sinnar tegundar í Sviss, og var sett á laggirnar 1990. Á hátíðinni er boðið upp á afríska tónlist á götunum, afríska götubasari, dans, leiklist og ýmislegt annað sem tengist Afríku. Um 50 þúsund manns sækja þessa hátíð árlega heim. Winterthurer Musikfestwochen er heiti á árlegri útitónleikahátíð. Hún stendur yfir í tvær vikur sitthvoru megin við mánaðamótin ágúst/september. Tónleikarnir fara fram í miðborginni og leika þar ýmsar hljómsveitir. Venjulega kostar inná 2-3 tónleika, en restinn er ókeypis. Meðal hljómsveita sem troðið hafa upp má nefna The Prodigy, Aerosmith, Iron Maiden, Muse, og tugi annarra. Alþjóðlegir stuttmyndadagar fara árlega fram í Winterthur. Þetta er mest sótta stuttmyndahátíðin í Sviss. Um 300 stuttmyndir eru sýndar. Þó eru aðeins 60 þeirra með í keppni um bestu myndina. Þar af mega aðeins fjórðungur vera frá Sviss, helmingur frá Evrópu en afgangurinn er annars staðar frá. Byggingar og kennileiti. Kyburg-kastalinn var lengi vel aðsetur Kyburg-ættarinnar Phongnhakebang-þjóðgarðurinn. Phongnhakebang eða Phong Nha-Kẻ Bàng National Park er þjóðgarður í Víetnam, í héraðinu Quangbinh um 500 km sunnan við Hanoi. Í þjóðgarðinum eru margir hellar. Garðurinn er líka frægur fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Sơn Đoòng. Son Doong er hellir í Phongnhakebang-þjóðgarðinum, Đồng Hới í Víetnam. Hellirinn er stærsti þekkti hellir í heimi. Hann fannst árið 1991 og mældu Bretar stærð hans árið 2009. Lengdin er 6,5 km, hæð 200m og breidd 150m. Í hellinum er neðanjarðará. Stelkur. Stelkur (fræðiheiti: "Tringa totanus") er vaðfugl af snípuætt. Hann er um 28 sm langur, höfuðið er grábrúnt með litlum og fíngerðum ljósum dílum sem fara stækkandi og breytast í rákir þegar kemur niður á háls. Kviður og bringa eru ljósmeð dökkum skellum en bakið er að mestu leiti grábrún. Vængirnir eru brúnleitir, afturfjaðrir eru hvítar, stélið er svart en hvítt aftast á baki. Goggurinn er svartur fremst en appelsínugulur aftast og fætur eru appelsínugulir. Stelkur heldur sig á láglendi og kjörlendi hans er votlendi eins og mýri og tjarnir. Hann verpir oftast fjórum eggjum. Eggið er oft staðsett í þúfu sem er hulinn gróðri. Varptími er í lok maí og fram í júní. Vor og haust sést stelkur oft í fjörum. Flestir stelkir sem hingað koma eru farfuglar en örfáir hafa hér vetursetu. Narfi Jónsson. Narfi Jónsson (d. 1509) var íslenskur prestur sem var kirkjuprestur í Skálholti og síðan fyrsti príor á Skriðuklaustri, frá 1496 til 1506, en þá færði hann sig yfir í Þykkvabæjarklaustur og varð ábóti þar. Faðir Narfa var að öllum líkindum Jón Narfason, sonur Narfa Sveinssonar lögmanns, sem dó í suðurgöngu til Rómar. Narfi prestur er fyrst nefndur í skjölum árið 1488 en árið 1493 var hann orðinn kirkjuprestur í Skálholti og kallaður officialis. Hann virðist hafa verið náinn samstarfsmaður Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups og þess vegna verið valinn forstöðumaður Skriðuklausturs, en biskup taldist sjálfur ábóti þess. Sama ár og Narfi varð príor var vígður kirkjugarður á Skriðu. Narfi stýrði klaustrinu fyrstu tíu árin og hefur án efa mótað klausturlífið. Hann keypti ýmsar jarðir fyrir klaustrið, enda þurfti nýstofnað klaustur að komast yfir jarðeignir til að treysta reksturinn. Einnig voru klaustrinu gefnar margar jarðir og þar á meðal gaf Halldór nokkur Brynjólfsson klaustrinu eitt hundrað hundraða gegn því að þar skyldi ævinlega segjast messa til sáluhjálpar honum, foreldrum hans og og öllum kristnum mönnum, lifandi og dauðum. Var því eignastaða klaustursins góð þegar Narfi lét af embætti þar 1506 og gerðist ábóti í Þykkvabæjarklaustri. Eftirmaður hans í Skriðu var Þorvarður Helgason. Þykkvabæjarklaustur var stærra en Skriðuklaustur og stóð á gömlum merg svo að Narfi færðist upp á við í virðingarstiganum þegar hann tók við embætti þar. Ekki fer sögum af embættisferli hans í Þykkvabæ, enda varð hann ekki langur, Narfi dó 1509. Nokkur ár liðu þar til Árni Steinmóðsson eftirmaður hans var vígður. Þorvarður Helgason (príor). Þorvarður Helgason (d. eftir 1532) var íslenskur prestur sem var í Vallanesi á Völlum frá því fyrir 1490 og síðan prestur á Skriðuklaustri. Hann varð svo príor í klaustrinu þegar Narfi Jónsson fluttist í Þykkvabæjarklaustur 1506. Þorvarður hélt áfram að kaupa jarðir eins og Narfi hafði gert og auðgaði klaustrið töluvert. Árið 1514 gaf Valtýr Sigurðsson klaustrinu jörðina Hvanná á Jökuldal en hann hafði flúið í klaustrið ári áður og leitað þar griða eftir að hafa vegið mann. Sú tilgáta hefur komið fram að í þeim atburði sé kveikjan að þjóðsögunni um Valtý á grænni treyju. Árið 1524 bar það til að einn munkanna í klaustrinu gerði konu barn en Ögmundur biskup tók vægt á brotinu og skyldaði munkinn meðal annars til að kenna í klaustrinu, svo að einhvers konar skólahald hefur verið þar á dögum Þorvarðar. Þorvarður lét af embætti árið 1530 og hefur þá verið orðinn aldurhniginn. Hann var áfram munkur í klaustrinu og var enn á lífi 1532. Jón Markússon tók við af honum. Jón Markússon. Jón Markússon (d. 1534) var íslenskur prestur sem var á Steinsvaði í Hróarstungu frá því fyrir eða um 1504 fram undir 1522 en fluttist þá í Vallanes á Völlum. Árið 1530 varð hann príor í Skriðuklaustri eftir að Þorvarður Helgason lét af embætti og gegndi þeirri stöðu til dauðadags. Ætt Jóns er óviss en hann hefur verið sagður af Skógaætt undir Eyjafjöllum. Hann hefur líklega verið orðinn aldraður þegar hann varð príor og ferill hans varð ekki langur. Eftirmaður hans var Brandur Hrafnsson, síðasti príorinn á Skriðuklaustri. Brandur Hrafnsson. Brandur Hrafnsson (um 1470 – um 1557) eða Brandur Rafnsson var íslenskur prestur sem var á Hofi í Vopnafirði frá því um 1494 til 1534 en varð þá síðasti príor á Skriðuklaustri eftir lát Jóns Markússonar og gegndi því starfi þar til klaustrið var lagt niður við siðaskipti. Hann virðist enn hafa verið á lífi í febrúar 1557 en hefur líklega dáið skömmu síðar, enda kominn á níræðisaldur. Brandur var af miklum höfðingjaættum, sonur Hrafns Brandssonar eldri, lögmanns í Rauðuskriðu og konu hans Margrétar, dóttur Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum. Systir Brands var Solveig, síðasta abbadísin í Reynistaðarklaustri. Hann var prestur á Hofi í Vopnafirði um fjörutíu ára skeið og hefur verið kominn yfir sextugt þegar hann var kjörinn príor. Ekki er ljóst hvort klausturlifnaður var með reglulegum hætti á Skriðuklaustri eftir að kirkjuskipan Kristjáns 3. var samþykkt í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1542 en líklega hafa munkarnir þó verið þar áfram, að minnsta kosti fram yfir 1550. Þá átti klaustrið 25 jarðir, sem má telja mikinn auð miðað við að það hafði aðeins starfað í rúm 50 ár. Ekki er vitað hver fylgikona Brands var en hann átti þrjá syni, Hrafn yngri Brandsson lögmann, Árna bónda á Burstafelli og ættföður Burstafellsættar og Snjólf. Kerfi (eðlisfræði). Í eðlisfræði táknar kerfi einhvern hluta alheimsins sem tekinn er sérstaklega til skoðunar. Kerfi má velja hvernig sem er. Það sem ekki tilheyrir kerfinu er kallað umhverfi. Aðeins áhrif umhverfisins á kerfið eru skoðuð en ekki umhverfið sjálft. Þessi skipting er gerð til þess að einfalda greiningu á eðlisfræðilegum fyrirbærum. Kerfi sem víxlverkar hverfandi lítið við umhverfi sitt kallast einangrað kerfi. Tröllamjöl. Tröllamjöl er köfnunarefnisáburður í landbúnaði sem er notaður gegn arfa og mosa. Hæfilegt magn er um 150-200 grömm af tröllamjöli á 100 fermetra. Sumum þykir tröllamjölið spilla bæði sprettu og gæðum samanborið við illgresisherfinguna, en áhrif þess á illgresið eru áþekk og herfingarinnar þegar vel tekst til. Snarrót má drepa með tíðum árásum á grasbrúskana með búrhníf og bera annað hvort tröllamjöl í rótarsárið eða matarsalt. Stefán Hilmarsson. Stefán Hilmarsson (fæddur 26. júní 1966 í Reykjavík) er íslenskur söngvari og lagahöfundur. Hann hefur sungið með hljómsveitinni Sálin hans Jóns míns frá stofnun hennar, árið 1988. Áður hafði Stefán starfað með hljómsveitinni Sniglabandið, eða frá því að hann lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1986. Hann hefur alls sex sinnum tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir hönd Íslands, tvisvar sem lagahöfundur (1992 og 1994), tvisvar sem aðalsöngvari (1988 og 1991) og tvisvar sem bakraddasöngvari (1995 og 1999). Stefán hefur sungið inn á fjölmargar hljómplötur undir fjölmörgum formerkjum. Hann hefur sent frá sér fimm sólóplötur, en flestar plötur hefur hann hljóðritað með Sálinni, eða 17 plötur (árið 2010). Schaffhausen. Schaffhausen er borg í samnefndri kantónu í Sviss. Hún er jafnframt nyrsta borgin í Sviss. Lega og lýsing. Schaffhausen liggur við norðanvert Rínarfljót, aðeins steinsnar fyrir norðan Rínarfossana frægu. Hún er nyrsta borgin í Sviss, enda er hún hérumbil umlukin Þýskalandi á þrjá vegu. Næstu borgir eru Winterthur fyrir sunnan (25 km), Konstanz í Þýskalandi til austurs (50 km), Zürich til suðausturs (55 km) og Basel til vesturs (100 km). Schaffhausen er næststærsta svissneska borgin við Rínarfljót. Borgin er landbúnaðarborg. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Schaffhausen sýnir svartan sauð sem stekkur úr hvítu borgarhliði. Bakgrunnurinn er gulur, undirstaðan græn. Merki þetta er gengið undan rifjum klaustursins Allerheiligen frá 12. öld, sem stóð þar nálægt. Hugmyndin er hljóðfræðileg tengsl við heiti bæjarins, Schaf ("sauður") og hausen ("bær"). Fram til 1831 voru tveir sauðir á merkinu. En við skiptingu borgarinnar og kantónunnar fengu bæði einingarnar sitthvorn sauðinn. Orðsifjar. Bærinn hét upphaflega Scephusen og er dregið af orðinu "Scehp", sem merkir "skip". Með tímanum breyttist Sceph í Schaff. Heiti borgarinnar hefur því ekkert með kindur að gera ("Schaf" á þýsku). Íþróttir. Árangursríkasta knattspyrnulið borgarinnar er FC Schaffhausen, er féll í aðra deild 2008. Liðið komst tvisvar í úrslit í bikarkeppninni (1988 og 1994). Í handbolta leikur félagið Kadetten Schaffhausen í efstu deild. Liðið hefur þrisvar orðið svissneskur meistari (síðast 2007) og fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 2006). Á leiktíðinni 2007/2008 sameinaðist liðið Grasshoppers frá Zürich til að skapa úrvalslið sem tæki þátt í Evrópukeppninni, en dæmið gekk fjárhagslega ekki upp. Íbúar í Schaffhausen neituðu fjárhagsaðstoð með atkvæðagreiðslu. Kvennablakliðið VC Kanti leikur í efstu deild. Liðið hefur ekki orðið svissneskur meistari, en varð bikarmeistari árin 2000 og 2009. Liðið leikur í Evrópudeild og gerir það gott þar. Smátæki. Smátæki má skilgreina sem lítil raftæki með skjá sem passa í lófa eða vasa, er stjórnað með takkaborði eða snertiskjá og hægt er að stjórna með annarri hendi. Dæmi um smátæki eru lófatölvur (á ensku PDA), farsímar og snjallsímar. Þessi tæki eigað það sameiginlegt að vera lítil með lítinn skjá og passa í lófa. Smátækin eru flest með sérhæfðum stýrikerfum fyrir lítil tæki. Snjalltafla. Snjalltöflur eru skjátöflur með lita og snertiskjám sem keyra á sérsniðnum stýrikerfum og bjóða upp á ýmiskonar hugbúnað. Snjalltöflur eru á vissan hátt stórir snjallsímar þar sem áherslan er á hugbúnað og tengimöguleika frekar en farsímavirkni. Þær eru keimlíkar tölvum, en helsti munur er að snjalltöflur notast að miklu eða öllu leyti við snertiskjái og skjályklaborð í stað takkaborðs eða lyklaborðs. Snjalltöflur geta haft sama sérhæfð stýrikerfi fyrir smátæki, eins og snjallsímarnir en ekki með sambærileg stýrikerfi og hefbundnar tölvur eins og spjaldtölvur. Snjalltöflur eru fyrst og fremst hannaðar til vefskoðunar, tölvupóstnokunar og afþreyingar ýmiskonar en þær henta einnig vel til frístundalesturs. Stærð skjáanna gerir það að verkum að þær henta vel til lesturs og rúma vel hefbundna kiljustærð af blaðsíðum. Hægt er að sækja ýmiskonar hugbúnað og afþreyingu gegnum vefþjónustur. Snjalltöflur hafa innbyggt minni yfirleitt frá 8-64gb og rúma því vel bæði ljósmyndir og myndbönd. Skjáirnir eru baklýstir sambærilegir við tölvu- eða sjónvarpsskjái. Lófatölva. Lófatölva er smátæki sem nýtist sem persónulegur rafrænn skipuleggjari og minnisbók. Lófatölvur hafa oft möguleikann á því að tengjast við internet. Lófatölva er með skjá, snertipenna, minniskortarauf, innrauðu tengi, blátannatengi og þráðlausu neti. Sumar lófatölvur nota snertiskjá, skjályklaborð, takkaborð eða þumalstjórnborð eins og á farsíma og snjallsímum. Hefðbundin lófatölva er með hugbúnað eins og dagbók, fundardagatal, verkefnalista, tengiliðaskrá, vasareikni og minnisbók. Sumar eru hugbúnað fyrir tölvupóst og vefskoðara. Lófatölvur er yfirleitt hægt að samkeyra með stýrikerfi á tölvu til þess að samræma upplýsingar í dagatali, tölvupósti og tengiliðaskrá. Dæmi um lófatölvur eru Palm, Blackberry, iPaq og HTC. Júlíana Sveinsdóttir. Júlíana Sveinsdóttir (f. í Vestmannaeyjum 1889, d. 1966 í Danmörku) var ein fyrsta íslenska myndlistakonan. Júlíana hafði áhuga á myndlist frá unga aldri og sótti kennslustundir til myndlistarmannsins Þórarins B. Þorlákssonar. Hún hóf síðan nám við Hinn konunglega danska listaskóla og ýmsa aðra listaskóla í Kaupmannahöfn áður en hún settist að í Danmörku. Júlíana málaði mest landslagsmyndir og kyrralífsmyndir. Sófabretti. Gælunafn á snjalltöflum sem vísar til helsta notkunarstað snjalltafla hjá einstaklingum. Skjátafla. Skjátafla (eða einfaldlega tafla) er lítið eða meðalstórt handhæg tæki á stærð við skrifblokk eða bók, gjarnan með 4" til 11" tommu skjá sem stjórnað er aðallega af snertiskjá og texti er sleginn inn með skjályklaborði. Skjátöflur eru stærri en snjallsímar og lófatölvur en eiga margt sameiginlegt með þeim. Skjátöflur má flokka í tvo hópa: snjalltöflur og lestölvur. Snjalltöflur eru skjátöflur með lita og snertiskjám sem keyra á sérsniðnum stýrikerfum og bjóða upp á ýmiskonar hugbúnað. Lestölvur eru skjátöflur hannaðar til þess að lesa lófabækur og rafbækur og notast yfirleitt við rafpappír. Auðvelt er að rugla saman hugtökunum spjaldtölva og skjátafla. Villarricavatn. Villarricavatn (spænska: Lago Villarrica) er stöðuvatn í Araucanía-fylki í Suður-Chile. Villarrica er stærsta borgin nálægt vatninu. Villarricavatn er 173 ferkílómetrar. Úr vatninu rennur áin Río Toltén. Rínarfossarnir. Rínarfossarnir séðir frá gestamiðstöðinni. Fyrir ofan má sjá glitta í járnbrauta- og göngubrúna. Rínarfossarnir (þýska: "Rheinfall", svissneskþýska: "Rhyfall") eru meðal mestu fossa Evrópu. Þeir eru í Rínarfljóti og mynda landamærin milli kantónanna Schaffhausen og Zürich í Sviss. Lega og lýsing. Loftmynd af Rínarfossunum og næsta nágrenni. Rínarfossanir eru í Rínarfljóti rétt sunnan við svissnesku borgina Schaffhausen, innan við bæjarmörkin á Neuhausen am Rheinfall, milli Bodenvatns og Basel. Breidd fossanna eru 150 metrar og fallhæðin samtals 23 metrar. Vatnsmagnið sem steypist niður er að meðaltali 373 m3/sek, en getur orðið miklu meira í flóðum. Metið mældist árið 1965, en þá mældist vatnsmagnið 1250 m3/sek. Rínarfossanir eru því vatnsmestu fossar Evrópu. Til samanburðar er Dettifoss með 363 m3/sek en er miklu aflmeiri sökum meiri hæðar. Rínarfossarnir mynduðust í síðasta jökulskeiði ísaldar, er Rín breytti um farveg sökum jökuls. Talið er fossarnir í núverandi mynd hafi myndast fyrir um 14-17 þúsund árum. Nýting. Í upphafi 19. aldar fékk Johann Georg Neher virkjunarrétt í fossunum. Hann reisti litla aflstöð sem knúði litla verksmiðju. 1889 var rafmagnið notað fyrir fyrsta álver Evrópu. 1947 var aflstöðin stækkuð og notar hún um 25 m3/sek af vatnsmagninu í fossunum. Þetta samsvarar til 4,4 megavöttum. Nokkrum km ofar í Rín er önnur virkjun sem framleiðir 25,5 megavött. Strax árið 1887 var sótt um að fá að reisa stærra raforkuver, sem myndi nýta sér nær allt vatnsmagnið úr fossunum og framleiða 75 megavött. Umsókninni var hafnað, sem og allar síðari hugmyndir um nýting vatnsins. Öll áformin hefðu í för með sér gríðarlega umbreytingu á landslaginu. Til samanburðar má geta þess að Dettifoss gæfi af sér 85 megavött. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um að smíða skipastiga við hliðina á fossunum. Síðast höfnuðu íbúar kantónanna Schaffhausen og Zürich slíkum hugmyndum í atkvæðagreiðslu árið 1954. Ferðamál. Kastalarnir tveir við fossana. Wörth er nær en Laufen er fjær og stendur ofan á hæð. Boðið er upp á bátsferðir í miðklettinn. Rínarfossanir eru gríðarlega vinsælir og eru sóttir af hundruðum þúsunda ferðamanna árlega. Fossarnir eru aðgengilegir beggja vegna Rínar. Gestamiðstöðin er Schaffhausen-megin við fossana. Búið er að reisa göngubrú (og járnbrautarbrú) rétt ofan við fossinn, þannig að hægt er að sjá niður í fossana. Tveir kastalar eru hvor sínum megin við ána. Schaffhausen-megin er Schlössli Wörth en Zürich-megin er kastalinn Laufen á hæð og gnæfir kastalinn yfir fossana og svæðið. Wörth var reist á 12. öld og þjónar í dag sem veitingahús. Laufen var reist á 9. öld og er í eigu kantónunnar Zürich í dag. Boðið er upp á bátsferðir í miðklettinn (milli fossanna), þar sem ferðamenn geta prílað upp nokkrar tröppur og staðið milli beljandi vatnsflaumanna. Einnig er boðið upp á bátsferðir milli beggja bakkanna fyrir neðan fossana, þannig að hægt er að fara í gönguferð hringum í kringum alla fossana. Þeir eru lýstir upp eftir að skyggja tekur. Annað markvert. Fossarnir eru ófærir öllum skipum og bátum. Hins vegar reyna ofurhugar stundum að komast niður fossana á sportbátum (kajak). Slíkt er með öllu óheimilt og er refsivert athæfi. Engu að síður birtast á netinu myndir af hinni og þessari svaðilför niður fossana. Rínarfossarnir eru einnig ófærir öllum fiskum, nema álnum. Honum hefur tekist að komast upp fossana með því að skríða á grasinu og grjótinu meðfram fossunum á uppleið. Lestölva. Lestölva er tæki sem hannað er til lesturs á rafrænum bókum svo sem lófabókum og rafbókum. Lestölvur eru sambærilegar í stærð og snjalltöflur og eru handhægar með skjái sem rúma hefðbundna bókablaðsíðu. Lestölvur notast við sérstaka skjátegund sem kölluð er rafeindapappír. Rafeindapappír er tækni til þess að líkja eftir prentuðum pappír. Hann birtir svarthvítan texta og myndir án þess að nota innri lýsingu. Lesa þarf rafeindapappír í birtu alveg eins og venjulegan pappír. Auðvelt og þægilegt er að lesa af rafeindapappírnum í birtu og úti í sólskini ólíkt skjám sem notaðir eru í fartölvum og snjalltöflum. Rafhlöðuending er sérstaklega góð og getur ein hleðsla enst vikum saman við lestur. Lestölvurnar koma með innbyggðum hugbúnaði til rafbókalesturs frá viðkomandi framleiðanda. Lestarhugbúnaður ólíkra framleiðenda styðja mismunandi gerðir lófa- og rafbóka. Yfirleitt hafa þeir beina tengingu við ákveðna netverslun eða lófabókaveitu sem er á vegum framleiðandans en oftast er hægt að flytja aðrar bækur inn á tækið. Sumar lestölvur eru einnig með vefskoðara. Lestölvur eru ekki með litaskjái og bjóða yfirleitt ekki upp á viðbótar hugbúnað eða leiki. Þekktustu lestölvurnar eru Kindle frá Amazon, eReader frá Sony og Nook frá Barns & Nobles en ótrúlega margar aðrar tegundir af lestölvum eru á markaðnum. Lófabókaveita. Lófabókaveita er vefsíða, gagnagrunnur eða netverslun þar sem hægt er að sækja bækur, tímarit eða annarskonar verk til þess að lesa í skjátöflu eða snjalltæki. Lófabækur og rafbækur eru fáanlegar frá ótal stöðum gegnum vefinn. Til eru fjölmargar bókaverslanir bæði stórar og smáar sem selja bækur á tölvutæku formi og þeim fjölgar stöðugt. Þar er yfirleitt að finna úrval ókeypis bóka bæði nýjar og gamlar. Fjölmörg verkefni út um allan heim vinna að því að flytja gamlar bækur sem komnar eru úr höfundarétti yfir á starfrænt form og miðla þeim á stafrænu formi. Einnig eru fjölmörg bókasöfn erlendis farin að lána út bækur rafrænt. Þekktustu Lófabókaveitur eru auðvitað Amazon og iBooks. Of langt mál væri að fjalla um einstaka lófabókaveitur en nefna má sem dæmi: Bookboon, Smaswords, Feedbooks, Gutenberg Project, Google Books, Internet Archive, EBL Ebook library, Overdrive, Ebrary, Elib, Fisher Watkins Library, Lestu.is, World Public Library, Internet Archive, Bokhylla, Runeberg og Hathitrust. Sumar lófabókaveitur eru aðgengilegar beint í gegnum lestrarhugbúnað. Aðrar bjóða upp á niðurhal beint á tækið eða flutning gegnum tölvu. Lófabók. Lófabók er efni á stafrænu formi sem myndar heild, svo sem bók, sem hannað er sérstaklega til aflestrar í lestrartækjum eins og skjálesurum, snjalltöflum, snjallsímum og lófatölvum. Orðið lófabók er þrengri skilgreining á hugtakinu rafbók. Lófabók er oft stafræn eftirmynd af útgefinni prentaðri bók. Lófabók getur einnig verð margmiðlunarbók eða bókahugbúnaður þar sem texti, myndir, myndbönd og hljóð eru sett saman í eitt verk. Lófabækur eru gefnar út í stöðluðum gerðum. Algengustu gerðir rafbóka til lestrar eru til dæmis: ePUB, Kindle, MobiPocket og PDF. Þessar gerðir hafa allar sína kosti og galla og eru ólík eftir því hvernig þau meðhöndla texta, myndir og fleira. Sumar gerðir geta breytt stærð og gerð texta, aðrar innihalda myndir og sumar bjóða upp á margmiðlun og gagnvirkni. Til þess að geta lesið lófabók þarf einhverskonar tæki með lestrarhugbúnaði sem getur lesið viðkomandi gerð af lófabók. Iðnsýningin 1911. Mynd frá iðnsýningunni í Barnaskólanum. Tvær konur á peysufötum sýna handbrögðin í ullarvinnslu Önnur spinnur á fótstiginn rokk hin kembir. Iðnsýningin 1911 var haldin í Miðbæjarskólanum í Reykjavík og var opnuð 17. júní 1911. Sama dag og Háskóli Íslands var stofnaður, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Frumkvæði að því að halda sýninguna kom frá Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur. Áður hafði Iðnsýningin 1883 verið haldin. Á sýningunni 1911 voru um 1.500 munir. Mestu athyglina vöktu beinstóll Stefáns Eiríkssonar og „galdralæsingin“ hans Magnúsar Þórarinssonar á Halldórsstöðum. Munirnir voru tryggðir fyrir 65 þúsund krónur og dýrasti gripurinn, gullbelti, var metinn á sex þúsund krónur. Vörur frá Klæðaverksmiðjunni Iðunni unnu fyrstu verðlaun á iðnsýningunni. Langhalaætt. Langhalaætt (fræðiheiti: "Macrouridae") er ætt djúpsjávarfiska af ættbálki þorskfiska. Theodore M. Andersson. Theodore M. Andersson – (Theodore Murdock Andersson) – (fæddur 1934) er prófessor (á eftirlaunum) í germönskum og íslenskum fræðum, m.a. við Háskólann í Indiana, Bandaríkjunum. Nú búsettur í Berkeley í Kaliforníu. Helstu rit. Theodore M. Andersson hefur ritað fjölmargar greinar og bókakafla um íslenskar bókmenntir og ritmenningu miðalda, sjá skrár Landsbókasafns. Andersson, Theodore M. William Ian Miller. William Ian Miller (f. 1946) er prófessor í lögfræði við Michigan-háskóla, Bandaríkjunum. Hann hefur ritað talsvert um íslenskar fornbókmenntir frá lögfræðilegu sjónarhorni, með hliðsjón af mannfræði og félagsfræði. Helstu rit. William Ian Miller hefur ritað nokkrar greinar og bókakafla um íslenskar miðaldabókmenntir, sjá skrár Landsbókasafns. Tenglar. Miller, William Ian Draupnir (tímarit). Draupnir var bókmenntatímarit, ársrit sem gefið var út af Torfhildi Hólm í tólf ár, frá 1891 til 1908. Það var fyrsta blaðið sem kona ritstýrði á Íslandi. Það var safn af skáldsögum og sönnum sögum, þýddum eða frumsömdum af Torfhildi. Guðmundur Bjálfason. Guðmundur Bjálfason var ábóti í Þykkvabæjarklaustri seint á 12. öld, annar í röðinni, næstur á eftir Þorláki helga Þórhallssyni. Þorlákur vígði eftirmann sinn árið 1178 og gegndi Guðmundur því starfi til 1197, þegar Jón Loftsson tók við. Ekki er víst hvort Guðmundur dó þá eða lét af embætti. Guðmundur er í heimildum sagður hafa verið hinn mætasti maður, „góðr maðr ok rjettlátr, mildr ok metnaðarlauss“. Á hans dögum var skáldið Gamli kanúki í Þykkvabæjarklaustri og orti þar helgikvæðið "Harmsól" og "Jóns drápu postula". Jón Loftsson (ábóti). Jón Loftsson (d. 1224) eða Jón Ljótsson var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri, þriðji í röðinni. Hann tók við eftir að Guðmundur Bjálfason dó eða lét af embætti 1197 og var vígður 1198. Árið sem hann var vígður ábóti var hann á Alþingi og fékk þá kverkamein miið en hét á Þorlák helga biskup og varð fljótlega heill á ný. Hann sagði af sér 1221 og var Hallur Gissurarson lögsögumaður kjörinn eftirmaður hans og vígður sama ár. En þá var ábótalaust í Helgafellsklaustri eftir lát Ketils Hermundarsonar og lét Magnús Gissurarson biskup Hall bróður sinn fara þangað í staðinn sem ábóta en fékk Jón til að halda áfra í Þykkvabæ. Jón dó svo 1224 og árið eftir flutti Hallur sig aftur í Þykkvabæjarklaustur. Arnór Össurarson. Arnór Össurarson (d. um 1247) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri á 13. öld. Hann varð ábóti árið 1332, næstur á eftir Halli Gissurarsyni, sem lést 1230, sagði af sér embætti 1247 og er talinn hafa látist það ár. Um Arnór er annars ekkert vitað. Eftirmaður hans var Brandur Jónsson, síðar biskup. Runólfur Sigmundsson. Runólfur Sigmundsson (d. 1307) var íslenskur rithöfundur, munkur og síðar ábóti í Þykkvabæjarklaustri. Hann var vígður 1264 og tók við af Brandi Jónssyni, sem varð biskup á Hólum 1263, og gegndi embættinu til dauðadags, eða í 43 ár. Runólfur er sagður hafa verið af ætt Svínfellinga, frændi og lærisveinn Brands ábóta, sem hrósaði honum mikið fyrir iðni og sagðist engum hafa kennt „er jafnkostgæfinn var og jafngóðan hug lagði á nám sitt, sem Runólfur". Hann var hægri hönd Árna Þorlákssonar Skálholtsbiskups í staðamálum og kemur mjög mikið við þá sögu. Hann er jafnvel sagður hafa haldið hlut kirkjunnar enn harðar fram gegn leikmönnum en biskup sjálfur og stappaði í hann stálinu þegar hik kom á hann. Þegar Árni biskup fór út 1288 til að reka mál sín fyrir konungi varð Runólfur umboðsmaður hans eða officialis þar til hann kom heim 1291 og þótti þá ganga hart fram í að ná kirkjustöðum af leikmönnum. Hann varð aftur officialis 1299 eftir lát Staða-Árna, þar til Árni Helgason kom heim með biskupsvígslu. Runólfi var stefnt utan 1303 en hefur líklega ekki farið. Hann dó 1307. Runólfur var rithöfundur og skrifaði meðal annars sögu af heilögum Ágústínusi og stóð fyrir ritun annarra bóka. Þess hefur verið getið til að hann kunni að vera höfundur Svínfellinga sögu. Á ábótaárum hans voru munkar í klaustrinu þeir Andrés drengur, sem varð ábóti í Viðey 1305, og Guðmundur Þorvarðarson, sem varð ábóti á Helgafelli sama ár. Sjálfsagt hefur eftirmaður Runólfs, Loðmundur, einnig verið munkur í Þykkvabæjarklaustri. Loðmundur (ábóti). Loðmundur (d. 30. desember 1313) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri snemma á 14. öld. Hann var vígður árið 1307 en Runólfur Sigmundsson ábóti hafði dáið sama ár. Hann var ábóti til 1311 en lét þá af embætti, eða að minnsta kosti sinnti eftirmaður hans ábótastörfum eftir það. Um Loðmund er annars ekkert vitað nema hvað annálar greina frá því að hann hafi dáið á sjötta dag jóla árið 1313. Eftirmaður hans var Þorlákur Loftsson. Skjálesari. Skjálesari er hjálparforrit sem les texta af tölvuskjá upphátt. Skjálesari notar talgervil til að breyta texta í málhljóð. Skjálesarar eru einkum notaðir af blindum og sjónskertum tölvunotendum. Pílatus (fjall). Pílatus liggur við borgina Luzern Pílatus er fjall í Alpafjöllum, aðeins steinsnar fyrir sunnan borgina Luzern í Sviss. Lega og lýsing. Pílatus liggur við samskeytin á kantónunum Luzern, Obwalden og Nidwalden við vesturenda stöðuvatnsins Vierwaldstättersee. Fjallið er í norðurjaðri Alpafjalla og er 2.128 m hátt. Á tindinum er hótel, veitingahús og veðurathugunarstöð. Pílatus er þekkt fyrir hin snöggu veðrabrigði en við tindinn getur fyrirvaralítið myndast stormur og óveður. Orðsifjar. Áður fyrr hét fjallið Mons fractus, sem merkir "brotna fjallið". Tindarnir eru nokkrir og líta út eins og fjallið hafi brotnað. En sökum oddótta tindanna breyttist heitið í Mons pileatus, sem merkir "oddótta fjallið". 1480 er það skráð sem Pylatus, 1555 sem Mons Pilati og loks Pilatusberg eða bara Pilatus. Heitið hefur ekkert með Pílatus að gera sem var landstjóri Rómverja í Palestínu á tímum Jesú. Hins vegar mynduðust alls konar gróusögur um landstjórann eftir að heiti fjallsins breyttist í Pílatus. Til dæmis sögðu sumir að hann hvíli í eða við fjallið. Ferðamennska. Pílatus er auðklifið fjall fyrir vana göngumenn. Auk þess fer kapallyfta upp fjallið vestanmegin og tannhjólalest austanmegin, sem flytja þúsundir ferðamanna upp á tindinn. Tannhjólalestin er sú brattasta í heimi en mesti brattinn er 48% halli. Á tindinum eru hótel og nokkrir veitingastaðir sem taka á móti ferðamönnum. Ægifagurt útsýni til allra átta er á tindinum. Alpafjöllin teygja sig frá vestri til austurs, Vierwaldstättersee liggur fyrir fótum fjallsins og borgin Luzern er eins og lítil spilaborg. Nokkuð er um jaðaríþróttir í fjallinu, svo sem svifdrekaflug, fjallaklifur og fjallahjólreiðar (mountainbiking). Þjóðsögur. Alls konar þjóðsögur hafa spunnist um fjallið Pílatus. Það var tiltrú manna áður fyrr að drekar bjuggu þar, sökum tíðra og snöggra veðrabrigða. Einnig að þar byggju nornir og galdramenn. Þekktust er þjóðsagan um Pontíus Pílatus en sumir trúðu því að hann hafi hlotið vota gröf í einni tjörninni í fjallinu. Aðrar sögur fjalla um drekasteininn, mánamjólkina og leyndarmál Dóminíkusarhellisins. Annað markvert. Ekki er vitað hver eða hvenær Pílatus var fyrst klifinn. En meðal þeirra sem þar hafa komið upp má nefna Viktoríu drottningu og Lenín. Fjallageitur bjuggu í hlíðum Pílatusar en voru útdauðar þar þegar á 17. öld. Árið 1961 voru fjallageitur á ný settar út í þeirri viðleitni að búa til nýjan stofn á fjallinu. Verkefnið virðist hafa heppnast, því 2004 voru 90 dýr talin. Eyjólfur Pálsson. Eyjólfur Pálsson (d. 1377) varð ábóti í Þykkvabæjarklaustri árið 1354, eftir lát Þorláks Loftssonar. Hann hafði áður verið prestur og ráðsmaður í Skálholti. Hann er talinn hafa verið af Svínfellingaætt. Í ábótatíð Eyjólfs, árið 1360, voru bein Þorláks Loftssonar ábóta tekin upp og geymd í klausturkirkjunni í Þykkvabæ, því hann var talinn helgur maður. Eyjólfur dó árið 1377 og varð Runólfur Magnússon eftirmaður hans. Runólfur Magnússon. Runólfur Magnússon (d. 1403) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri og var vígður árið 1378, ári eftir lát Eyjólfs Pálssonar sem þar var ábóti næstur á undan. Ekki er vitað neitt um uppruna Runólfs og fátt um embættistíð hans en hann var ábóti í rúman aldarfjórðung og dó í Svarta dauða 1403 ásamt sex munkum í klaustrinu, en aðrir sex lifðu eftir. Í annálum segir að einungis hafi lifað eftir einn húskarl í klaustrinu. Eftirmaður Runólfs, Jón Hallfreðarson, var vígður tveimur árum síðar. Jón Hallfreðarson. Jón Hallfreðarson (d. 1422) var munkur og ábóti í Þykkvabæjarklaustri frá 1405. Næsti ábóti á undan honum, Runólfur Magnússon, dó í Svarta dauða ásamt helmingi munkanna í klaustrinu. Þess hefur verið getið til að hann hafi verið norskur eða danskur og komið til landsins með Vilkin Skálholtsbiskupi. Jón sigldi til Noregs 1405 með Vilkin biskupi og Birni Jórsalafara og var vígður ábóti í þeirri ferð en Vilkin dó í Björgvin. Jón sneri hinsvegar aftur og reisti Þykkvabæjarklaustur við eftir pláguna. Hann var valdamikill og var að minnsta kosti einu sinni officialis í Hólabiskupsdæmi. Hann sigldi líka oftar en einu sinni til útlanda á ábótatíð sinni. Árið 1422 hafði hann verið erlendis og sigldi til Íslands með hirðstjórunum Hannesi Pálssyni og Balthazar van Damme. Þeir fóru á land í Vestmannaeyjum en Jón ábóti ákvað að sigla áfram með skipinu, sem átti að lenda í Þerneyjarsundi. En til þess spurðist aldrei meir og hefur það farist á leið þangað. Eftirmaður Jóns var Jón Þorfinnsson. Þrífætla. Þrífætla (eða þrífætlingur'") (gríska: τρισκελής: ("triskeles") „þrífættur“) er þrískipt merki samfastra spírala sem snúast um miðpunkt eða þriggja samfastra fótleggja sem minna á pílára í hjóli. Sumir áætla að þrífætlan hafi áður verið fjórfætla og sé skyld hakakrossinum. Þrífætla í brynhosum er merki eyjarinnar Manar á Írlandshafi og er t.d. í fána hennar. Zug. Zug er stærsta borgin í kantónunni Zug í Sviss með 25 þúsund íbúa og er jafnframt höfuðborg kantónunnar. Lega og lýsing. Zug liggur við norðausturodda stöðuvatnsins Zugersee, nokkuð norðarlega í Sviss og rétt norðan við rætur Alpafjalla. Næstu borgir eru Zürich til norðurs (30 km), Luzern til suðvesturs (30 km), Aarau til norðvesturs (55 km) og Vaduz í Liechtenstein til austurs (100 km). Bakkarnir við Zugersee hafa nokkrum sinnum í gegnum söguna gefið sig, þannig að hús og fólk steyptist í vatnið. Skjaldarmerki. Borgin Zug stendur við Zugersee Skjaldarmerki Zug eru þrjár láréttar rendur: Hvítt, blátt, hvítt. Það er eins og skjaldarmerki kantónunnar. En efst er gult borgarvirki sem bætt var við í upphafi 20. aldar til aðgreiningar þessara tveggja merkja. Skjaldarmerkið er runnið undan rifjum Habsborgara en þeir voru eigendur borgarinnar til 1352. Habsborgarborgin. Elsta myndin af Zug er frá 1547 Í upphafi 13. aldar stofnuðu greifarnir frá Kyburg bæinn við norðausturenda Zugersee. Árið 1242 kemur fyrst fram í skjölum að Zug sé smáborg ("oppidum") en 1255 var Zug kölluð castrum ("borgarvirki"). Borgin var hins vegar lítil og þótti ekki merkileg. Þrátt fyrir það keypti Rúdolf frá Habsborg borgina Zug 1273 aðeins örfáum mánuðum áður en hann varð konungur þýska ríkisins. Habsborgarar reistu góða varnarmúra umhverfis borgina og notuðu hana gjarnan sem herstöð. Árið 1315 söfnuðust herir Habsborgara í Zug og skipulögðu sig áður en þeir gengu til orrustu við Svisslendinga í Morgarten en biðu þar mikinn ósigur. Þegar Luzern gekk í svissneska sambandið 1332 og Zürich 1351 var Zug að öllu leyti umkringt löndum sambandsins. Svissneska sambandið. Þegar Zürich gekk í svissneska sambandið, ásældist sambandið lönd Zug. Árið 1352 hertóku Svisslendingar nærsveitir bardagalaust og gerðu síðan umsátur um borgina Zug. Engrar aðstoðar var að vænta frá Habsborgurum og því gáfust borgarbúar upp umyrðalaust. Innganga þeirra í svissneska sambandið fór fram á sama ári. Það var þó meira í orði en á borði, því enn var Zug vilhallt Habsborgurum og lögum þeirra. Þegar hertoginn Albrecht af Habsborg kom til Zug síðar á árinu, var hann þegar í stað viðurkenndur sem eigandi borgarinnar. Áður en hann hvarf á braut setti hann landstjóra sem stjórna átti borginni. Árið 1365 söfnuðu íbúar Schwyz, án aðildar annarra kantóna, herlið og hertóku Zug á nýjan leik. Landstjóri Habsborgara var settur af og Svisslendingur settur á í staðinn. Togstreitan milli Habsborgara og Svisslendinga hélt þó áfram, allt til 1415, en þá veitti Sigismundur konungur Zug ríkisfríðindi. Allar kröfur Habsborgar féllu þar með niður. Zug varð þá loks sjálfstæð eining innan svissneska sambandsins. 1435 átti sér stað einkennilegt atvik. Undirstaðan undir götunni Untergasse gaf sig og féll í Zugersee. Öll gatan hvarf eins og hún lagði sig, ásamt 26 húsum. 60 manns manns biðu bana. Við siðaskiptin í Sviss snemma á 16. öld ákvað Zug að viðhalda kaþólskri trú. Enn í dag er tæplega 60% íbúanna kaþólskur. Franski tíminn. 1798 hertóku Frakkar borgina. Við endurskipulagningu á nokkrum héruðum um miðbik Sviss var ný kantóna sköpuð úr Zug, Schwyz, Uri, Nidwalden og Obwalden. Nýja kantónan fékk heitið Waldstätte og var Schwyz höfuðborg hennar. Áhrif þessara gömlu héraða minnkaði við það, enda fékk Waldstätte ekki að senda nema fjóra fulltrúa á þingið, í stað sextán samanlagt áður. Íbúarnir voru mjög óánægðir með þessa ráðstöfun. Strax 1803 klofnaði nýja kantónan aftur í sínar fyrri kantónur. 1814 hurfu Frakkar úr landinu. Eftir það tóku trúarbragðaerjur við á nýjan leik. Árið 1847 töpuðu kaþólikkar, þar með Zug, í Sonderbund-stríðinu. Herir reformeruðu kirkjunnar hertóku því borgina Zug og varð hún að gjalda háar stríðsskaðabætur. Nýrri tímar. 1887 áttu sér stað svipaðar hamfarir og 1435. Bakkarnir við Zugersee gáfu sig með þeim afleiðingum að 35 hús hrundu í vatnið og eyðilögðust. Önnur stórskemmdust. Ellefu manns biðu bana og 650 manns urðu heimilislausir. Fleiri hörmungar áttu þó eftir að dynja yfir. Árið 2001 var gerð hryðjuverkaárás á þinghúsið í Zug meðan þing stóð yfir. 27. september, aðeins tveimur vikum eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin, ruddist þungvopnaður maður inn í þingsalinn og skaut á fólk. Fjórtán stjórnmálamenn biðu bana og aðrir særðust. Jón Þorfinnsson. Jón Þorfinnsson (d. fyrir 1448) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri á öðrum fjórðungi 15. aldar. Hans er fyrst getið 1427 og hefur hann líklega tekið við eftir að Jón Hallfreðarson ábóti fórst á heimleið frá Noregi 1422 en óvíst er hvenær hann var vígður. Jón var einnig officialis í Hólabiskupsdæmi 1427 og ef til vill oftar því viðvera erlendu biskupanna sem þar voru á fyrri hluta 15. aldar var stopul og einhverjir þeirra komu aldrei til landsins. Jón ábóti kemur nokkrum sinnum við skjöl á árunum 1427-1438. Óvíst er hvenær hann dó eða lét af embætti en Kolbeinn nokkur var orðinn ábóti í Þykkvabæjarklaustri 1448. Kolbeinn (ábóti). Kolbeinn (d. eftir 1455) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri um miðja 15. öld en afar fátt er vitað um hann og ábótatíð hans. Hann var orðinn ábóti 1448 en sá sem nefndur er næstur á undan honum var Jón Þorfinnsson. Hans er seinast getið 1438 og hefur Kolbeinn því tekið við einhverntíma á árunum 1438-1448; mögulegt er þó að einhver hafi verið á milli þeirra en heimildir um þetta tímabil eru afar slitróttar. Hið eina sem vitað er um Kolbein er að árið 1448 fékk hann klaustrinu dæmda hálfa Dyrhólaey til eignar. Hann var enn á lífi 1455 en ekkert er vitað um eftirmann hans eða dánarár. Bárður Auðunsson var orðinn ábóti 1461. Bárður Auðunsson. Bárður Auðunsson eða Auðunarson var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri á síðari hluta 15. aldar. Hann varð ábóti 1461; næsti ábóti sem vitað er um á undan honum hét Kolbeinn og er síðast getið 1455. Bárður kemur við bréf 1470 og 1490 en annars er lítið vitað um ábótatíð hans, fremur en flestra annarra ábóta í Þykkvabæjarklaustri á 15. öld. Hann gegndi embætti til 1492 en Guðmundur Sveinsson varð svo ábóti um 1495. Guðmundur Sveinsson (ábóti). Guðmundur Sveinsson var ábóti í Þykkvabæjarklaustri í lok 15. aldar. Hann var eftirmaður Bárðar Auðunssonar og var vígður 1495 eða hugsanlega þegar árið 1492. Lítið er vitað um Guðmund og hann kemur einungis við skjöl árið 1496, þegar hann átti í deilu við Þorstein nokkurn Arason um óleyfilega hrossatöku. Ekki er víst hvenær hann dó eða lét af embætti en Narfi Jónsson, sem verið hafði príor í Skriðuklaustri, varð ábóti árið 1506. Árni Steinmóðsson. Árni Steinmóðsson (d. 1520) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri á öðrum áratug 16. aldar. Narfi Jónsson ábóti dó árið 1509; Árni var orðinn ábóti 1515 og hefur trúlega tekið við fljótlega eftir lát hans. Árni var sonur Steinmóðs Þorvarðarsonar en Þorvarður var sonur Steinmóðs Bárðarsonar (d. 1481) ábóta í Viðeyjarklaustri. Árni ábóti var á Alþingi 1515 og stuðlaði þá ásamt fleirum að sætt í Möðruvallamáli. Hann var fyrsti kennari Gissurar Einarssonar biskups. Árni dó 1520 og var þá ábótalaust í klaustrinu í þrjú ár, áður en Kollgrímur Koðránsson varð ábóti. Kollgrímur Koðránsson. Kollgrímur Koðránsson (d. eftir 1526) eða Kolgrímur var íslenskur prestur og síðan ábóti í Þykkvabæjarklaustri frá 1523, næstsíðastur í röð ábóta þar. Hann tók við sem ábóti þremur árum eftir lát Árna Steinmóðssonar. Kollgrímur var austfirskur og hefur verið í röð hefðarklerka, varð prestur 1492 og var á Valþjófsstað í Fljótsdal 1502-1514 og síðan í Vallanesi á Völlum til 1523, þegar hann varð ábóti. Hann var mikill vinur Ögmundar Pálssonar biskups og tók Ögmundur son Kollgríms, Eyjólf, að sér og gerði hann að sveini sínum og síðar skipstjóra á skipi biskupsstólsins. Eyjólfur var mikill ofláti og ribbaldi, stór maður og sterkur. Endalok hans eru sögð hafa verið þau að hann var í vísitasíuferð með biskupi en hann og aðrir sveinar voru ölvaðir og sáust lítið fyrir. Eyjólfur sveiflaði í kringum sig stórri lensku en stakk henni fyrir slysni í kvið sinn og varð það bani hans. Kollgrímur ábóti var á prestastefnu 1524 og aftur 1526 og er ekkert vitað um hann eftir það en hann hefur látist eða sagt af sér embætti skömmu síðar því Sigvarður Halldórsson varð ábóti 1527. Sigvarður Halldórsson. Sigvarður Halldórsson (d. 1550) var síðasti ábótinn í Þykkvabæjarklaustri og tók við af Kollgrími Koðráðssyni árið 1527. Hann gegndi embætti til siðaskipta og lést í Danmörku en þangað hafði hann farið til að reyna að fá biskupsvígslu. Sigvarður er sagður hafa verið lítt lærður en vildi bæta úr því og fékk Gissur Einarsson til að kenna sér og munkum sínum. Gissur dvaldi í klaustrinu í tvö ár og Gissur seinna að þar hefði hann átt góða daga því hann hafði nægan tíma til náms og góðan bókakost. Ögmundur Pálsson biskup og Sigvarður áttu í deilum og kærði biskup ábótann fyrir að hafa sett sig á móti valdi kirkjunnar og biskups. Sigvarður hefur því verið sjálfstæður og óhræddur við biskupsvaldið. Þeir sættust þó og árið 1534 fékk Ögmundur Sigvarð til að vígja fyrir sig nýjan príor í Skriðuklaustri. Eftir að Gissur var orðinn Skálholtsbiskup hélt hann prestastefnu í Miðdal í Laugardal. Þar var Sigvarður einn af sex sem báðust undan því að taka upp hinn nýja sið og afsökuðu sig með elli og lasleika. Gissur hafði fengið bréf hjá konungi til Sigvarðar ábóta um að hann skyldi halda lestrarskóla í klaustrinu en það var þá ætlun konungs að stofna skóla í öllum klaustrunum þótt hætt væri við þau áform seinna. Sigvarður var þó áfram í klaustrinu ásamt fimm munkum; þeir hétu Jón Árnason, Jón Oddsson, Jón Grímsson, Magnús og Sæmundur. Eftir að Gissur biskup 1548 lést kusu þeir prestar sem vildu halda í kaþólskuna Sigvarð sem biskup en hinir kusu Martein Einarsson. Þeir fóru báðir til Danmerkur til að reyna að fá vígslu en þar sem lútherskan var allsráðandi þar var það að sjálfsögðu Marteinn sem fékk vígsluna og fór heim sem biskup. Sigvarður varð eftir í Danmörku og dó þar 1550 og er sagt að hann hafi þá verið búinn að taka hinn nýja sið. Sjösofendur. Sjösofendur voru sjö kristnir og grískættaðir unglingar í Efesos sem sváfu í 150 eða 200 ár tíl að losna undan ofsóknum Desíusar keisara um miðja 3. öld. 27. júní er sjösofendadagur. Velættaðir kristnir unglingar leituðu hælis í helli einum í fjallinu Celius vegna trúarofsókna og voru múraðir inni. Guð lét svefn falla á þá og vöknuðu þeir ekki aftur fyrr en eftir nær tvær aldir. Þá var land þeirra orðið kristið og þeir færðu Þeódósíusi keisara sönnun fyrir lífi eftir dauðann, en lögðust siðan aftur til svefns og sofa nú að eilífu. Dagaurinn, sem við þá er kenndur, sjösofendadagurinn, varð mikils metínn á dögum krossferðanna og á 17. öld var byrjað að heita á sjösofendur við svefnleysi og hitasótt. Helgisögninni fylgir veðurtrú á suðlægum slóðum, og á veður að haldast líkt sjö næstu daga eða vikur. Slíkrar þjóðtrúar varð vart á Íslandi á síðari öldum en hún virðist aldrei hafa verið almenn, en ef til vill lífseigust á vesturhluta landsins. Á síðari tímum er "sjösofandi" stundum notað um þann sem sefur fast og lengi eða einhvern sem varast ekki hættu eða gegnir ekki kalli tímans. Litli-Skerjafjörður. Litli-Skerjafjörður er hverfi í Vesturbæ Reykjavíkur sem afmarkast af Reykjavíkurflugvelli í suðri, Njarðargötu í austri, Eggertsgötu í norðri og Þorragötu í vestri. Byggðin í Litla-Skerjafirði var nyrsti hluti samfelldrar byggðar í Skerjafirði, en á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var byggðin klofin í tvennt með austur/vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Mörg húsanna sem þurftu að víkja vegna þessara framkvæmda voru flutt í Laugarneshverfi. Flest húsanna sem rifin voru eða flutt stóðu við Reykjavíkurveg og Hörpugötu og fram yfir 1960 var Hörpugata klofin sundur af flugbrautinni og var bæði í Litla- og Stóra-Skerjafirði, en nú eru húsin í Stóra-Skerjafirði talin til Einarsness. Nafngiftir gatnanna í Litla-Skerjafirði eru fjölbreytilegar. Hörpugata, Þorragata, Góugata og Skerplugata vísa í norræna tímatalið. Fossagata og Þjórsárgata bera nöfn sem vísa til virkjanaáforma Einars Benediktssonar. Þá minnir heiti Reykjavíkurvegar á þá tíð þegar Skildinganes heyrði undir lögsagnarumdæmi Seltjarnarness og þjóðleiðin til Reykjavíkur lá um götuna. Á seinni árum hefur orðið þétting byggðar í Litla-Skerjafirði, meðal annars með aðflutningi gamalla húsa sem orðið hafa að víkja vegna framkvæmda í miðborg Reykjavíkur og sem hafa verið endurbyggð í hverfinu. Halldóra Eyjólfsdóttir. Halldóra Eyjólfsdóttir (d. 1210) var fyrsta abbadís í Kirkjubæjarklaustri. Var hún vigð 1189 en Þorlákur biskup Þórhallsson hafði stofnað nunnuklaustrið árið 1186. Ætt hennar er óþekkt, nema hvað vitað er að hún átti bróður sem hét Sokki. Árið 1195 var Halldóra abbadís á Alþingi og bauð þá Guðmundi Arasyni, síðar Hólabiskupi, að koma í klaustrið og stýra því með sér og féllst hann á þetta. Halldóra sendi menn norður í Svarfaðardal um haustið til að sækja Guðmund og föggur hans og hafði hann bæði fengið leyfi hjá Brandi Sæmundssyni Hólabiskupi til að flytjast úr biskupsdæminu og hjá Páli Jónssyni Skálholtsbiskupi til að flytjast í hans biskupsdæmi. En þegar Svarfdælir vissu að þeir væru að missa Guðmund frá sér héldu þeir fund og fóru svo til Brands biskups og fengu hann til að afturkalla brottfararleyfið og báðu jafnframt Guðmund að vera kyrran nyrðra, og varð það úr. Halldóra dó árið 1210. Eftir lát hennar er ekkert vitað um klausturhald á Kirkjubæ í meira en áttatíu ár, eða þar til Agatha Helgadóttir var vígð abbadís 1293. Í klaustrinu hafa þó án efa verið einhverjar nunnur, hvort sem þar voru einhverjar abbadísir sem engar heimildir voru til um eða eingöngu príorinnur, sem ekkert er vitað um heldur, en klausturhaldarar stýrðu eignum klaustursins og eru þar þekktastir feðgarnir Digur-Helgi Þorsteinsson (d. 1235) og síðan sonur hans, Ögmundur Helgason. Nunavut. Nunavut (Inuítamál: ᓄᓇᕗᑦ) er stærsta og yngsta hérað Kanada. Það var skilið frá Norðvesturhéruðunum þann 1. apríl 1999 og var það fyrsta meiriháttar breytingin á landafræði Kanada frá því að Nýfundnaland var innlimað árið 1949. Nunavut þýðir „land okkar“ á inuítamáli. Nunavut er 1.932.255 ferkílómetrar að stærð og nær yfir stóran hluta meginlands Norður-Kanada og flestar heimskautaeyjarnar þar fyrir norðan, sem gerir það að fimmta stærsta sjálfstjórnarhéraði í heimi. Nunavut er eitt strjálbýlasta landsvæði heims. Íbúarnir eru taldir vera rúmlega 33.000 (2011), flestir inúítar, dreifðir yfir svæði sem er á stærð við Vestur-Evrópu, eða um 0,015 íbúar á ferkílómetra. Í Nunavut er nyrsta varanlega byggða ból í heimi, Alert. Bærinn Iqaluit (áður Frobisher Bay) á Baffinslandi, á austanverðu svæðinu, var kosinn höfuðstaður héraðsins í atkvæðagreiðslu árið 1995. Aðrir helstu þéttbýlisstaðir eru Rankin Inlet og Cambridge Bay. Þrjár af tíu stærstu eyjum í heimi (Baffineyja, Viktoríueyja og Ellesmere-eyja) tilheyra Nunavut að öllu eða mestu leyti, auk fjölda smærri eyja. Hæsti tindurinn er Barbeau Peak (2.616 m) á Ellesmere-eyju. Saga. Inuítar hafa haft aðsetur á svæðinu í að minnsta kosti 4000 ár og fornleifafundir benda til þess að þeir hafi átt samskipti við norræna menn eftir að Grænland byggðist og jafnvel fyrr. Fyrstu rituðu heimildir um Nunavut eru frá 1576, þegar Englendingurinn Martin Frobisher kom þangað í leit að Norðvesturleiðinni. Hudson Bay-verslunarfélagið setti upp verslunarstöðvar á allmörgum stöðum á 19. og 20. öld og eru sumar þeirra enn til sem þorp. Kanadastjórn hvatti inuíta mjög til þess um og upp úr miðri 20. öld að fá sér fasta búsetu og kom þá um leið upp ýmiss konar þjónustu í byggðakjörnum. Nú er byggðin í Nunavut að mestu bundin við bæi og þorp. Stærstu bæirnir, auk Iqaluit, eru Rankin Inlet og Arviat, báðir með rúmlega 2000 íbúa. Hugmyndir um að inuítar fengju hluta af Norðvesturhéruðunum sem sérstakt sjálfstjórnarhérað kviknuðu árið 1976 og árið 1982 var stofnun slíks héraðs samþykkt í atkvæðagreiðslu þar. Nunavut hlaut svo formlega sjálfstjórn 1. apríl 1999. Á þingi Nunavut sitja 19 þingmenn sem kosnir eru einstaklingskosningu því engir flokkar eru þar starfandi. Þingið kýs forsætisráðherra og nú (2011) gegnir Eva Artak því embætti. Íbúar Nunavut kjósa einn fulltrúa á Kanadaþing og er héraðið því víðáttumesta kjördæmi í heimi. Vesturfrísnesku eyjarnar. Vesturfrísnesku eyjarnar (hollenska: Waddeneilanden) eru eyjaklasi í Vaðhafinu undan norðurströnd Hollands og tilheyra Hollandi. Aðaleyjarnar eru fimm og eru þær allar í byggð. Eyjarnar mynda beina línu við Austurfrísnesku eyjarnar, sem tilheyra Þýskalandi. Auk þeirra eru einnig til Norðurfrísnesku eyjarnar sem tilheyra Þýskalandi og Danmörku. Jarðfræði. Eyjarnar mynduðust við hreyfingar sjávar, þannig að sandrif hlóðust upp í Vaðhafinu. Þessi rif stækkuðu með tímanum og náði gróður að skjóta þar rótum. Því liggja eyjarnar í beinni línu, nema Texel sem liggur frá norðaustri til suðvesturs. Sökum hafstrauma hreyfast eyjarnar smátt og smátt í austurátt, þ.e. það brotnar af þeim að vestan og hleðst á austurendann. Slíkar hreyfingar taka hins vegar langan tíma. Norðurströnd eyjanna er að mestu úr sandi, en suðurströndin úr leir. Þegar fjarar út koma víðáttumiklar leirur í ljós, þannig að hægt er að ganga marga kílómetra til suðurs, jafnvel allt til meginlandsins. Þar er boðið upp á gönguferð til eyjarinnar Schiermonnikoog með vönum leiðsögumanni. Á milli eyjanna eru sterkir straumar þar sem sjór þrýstist ýmist til norðurs þegar fjarar út, eða til suðurs þegar flæðir að. Eyjarnar. Megineyjarnar eru fimm að tölu og eru allar í byggð. Auk þeirra eru smærri eyjar og rif sem flestar eru friðaðar vegna náttúrunnar. Þar verpa fuglar í stórum stíl og í mörgum þeirra kæpa selir. Eyjarnar tilheyra flestar héraðinu Fríslandi, nema Texel sem tilheyrir Norður-Hollandi. Principia Mathematica. "Principia Mathematica" er þriggja binda rit um undirstöður stærðfræðinnar eftir Alfred North Whitehead og Bertrand Russell sem var gefin út árið 1910, 1912 og 1913. Víðerfðmengjafræði. Viðerfðamengjafræði miðar að því að beita verkfærum og nálgunum erfðamengjafræðinnar til að rannsaka eiginleika lífverusamfélaga. Áherslan hefur verið mest á smásæjar og óræktanlegar örverur, veirur, sveppi og frumdýr. Aðferðirnar hafa nýst við rannsóknir á samlífislífverum, iðra- og húðbakteríusamfélögum, innanfrumusníklum og fleiri samfélögum. Fræðigreinin hefur haslað sér völl á undanförnum áratug. Dæmi um öflugan hóp á þessu sviði er hópur Peer Bork við EMBL í Heidelberg. Georg Guðni Hauksson. Georg Guðni Hauksson (1. janúar 1961 – 18. júní 2011) var íslenskur listmálari sem lyfti landslagsmálverkinu í nýjar hæðir og fékk margvíslegar viðurkenningar fyrir. Georg Guðni tók þátt í ótal sýningum og verk hans prýða mörg listasöfn í Evrópu. Störf. „Fyrsta einkasýning hans í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 1985 vakti mikla athygli, enda birtist þar sérstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans og markaði upphaf að ferli hans sem frumkvöðuls í endurreisn landslagsmálverksins með nýstárlegri túlkun formrænt og hugmyndalega.“ Georg Guðni hlaut verðlaun DV árið 1988. Hann var í stjórn Richard Serra sjóðsins á Íslandi árin 1993-1995 og í stjórn Listasafns Íslands árin 1997-2001. Menntun. Georg Guðni stundaði nám við Listaháskóla Íslands frá 1980 til 1985. Frá 1985 til 1987 nam hann við Jan Van Eyck Akademie í Maastricht, Hollandi. Stokksnes. Stokksnes undir Vestra-Horni, Eystra-Horn í baksýn. Stokksnes er nes skammt frá Höfn í Hornafirði. Þar er ratsjárstöð sem rekin er af Ratsjárstofnun. Á árum kalda stríðsins rak bandaríski herinn stóra ratsjárstöð á Stokksnesi og voru þar þá að jafnaði á annað hundrað hermenn. Stöðin hóf starfsemi árið 1955 og þar voru allmikil mannvirki sem nú hafa flest verið rifin. Franska vísindaakademían. Colbert kynnir félaga vísindaakademíunnar fyrir Loðvík 14. árið 1667. Franska vísindaakademían (franska: "Académie des sciences") er vísindaakademía sem var stofnuð af Loðvík 14. árið 1666 samkvæmt tillögu fjármálaráðherrans Jean-Baptiste Colbert. Colbert valdi upphaflega lítinn hóp vísindamanna sem funduðu tvisvar í viku í bókasafni konungs. Andstætt Bresku vísindaakademíunni sem var frá upphafi hugsuð sem félagasamtök, var Frönsku vísindaakademíunni ætlað að vera opinber stofnun. Akademían var lögð niður í Frönsku byltingunni 1793, ásamt öðrum slíkum stofnunum, en endurreist sem sjálfstæð stofnun af Napoléon Bonaparte árið 1816. Konum var meinaður aðgangur að akademíunni til ársins 1962. Fyrsta konan sem varð fullgildur félagi var eðlisfræðingurinn Yvonne Choquet-Bruhat árið 1979. Akademían er nú ein af fimm akademíum sem mynda Institut de France. Alert. Alert er byggð nyrst í Nunavut-sjálfstjórnarhéraðinu í Kanada sem talin er nyrsta byggða ból í heimi með varanlega búsetu. Staðurinn er 817 kílómetra frá Norðurpólnum og tólf kílómetra frá norðausturodda Ellesmere-eyjar. Næsti kaupstaður er Iqaluit, höfuðstaður Nunavut, sem er í 2.092 km fjarlægð. Samkvæmt manntali sem tekið var í Kanada 2006 voru þá fimm manns með fasta búsetu í Alert. Fleiri hafa þó aðsetur þar um stundarsakir því þar er ratsjárstöð á vegum Kanadahers, veðurathugunarstöð og rannsóknarstöð sem sinnir loftslagsrannsóknum. Þar er einnig flugvöllur. Meðalhiti í Alert í júlí er aðeins 3,3°C en í febrúar -29,8°C. Heimskautanótt ríkir í Alert frá því í október fram í febrúarbyrjun og sést sólin þá ekki, en miðnætursólar nýtur frá því í byrjun apríl fram í septemberbyrjun. Skógarmítill. Skógarmítill (fræðiheiti:"Ixodes ricinus") einnig kallaður "blóðmítill" er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum. Útbreiðsla. Skógarmítill er útbreiddur um alla Evrópu milli 39° og 65°N, frá ströndum Portúgals og Írlands austur til Volgu í Rússlandi og þaðan suður til Miðjarðarhafsstrandar Norður-Afríku. Einnig finnst hann í Færeyjum og koma hans til Íslands var staðfest árið 1967. Þá var veiddur í Surtsey þúfutittlingur nýkomin til landsins, sem skógarmítill fannst á og því ljóst að hann getur borist milli landa með fuglum. Hann virðist vera komin til að vera því síðan þá hefur hann fundist um allt land, þó mest sunnanlands, frá því snemma sumars og fram eftir hausti. Lífsferli. Skógarmítill er áttfætla, skyldur köngulóm og öðrum mítlum. Lífsferli þeirra skiptist í þrennt, lirfu, ungviði og fullorðið dýr og þarfnast þeir blóðs á hverju stigi þess og alltaf stærri og stærri dýra eftir því sem þeir vaxa. Eftir að hann klekst úr eggi verður hann sexfætt lirfa sem liggur í dvala yfir veturinn. Að vori skríður lirfan svo upp og sætir færis á að ná til hýsils til að sjúga blóð. Síðsumars skiptir hún um ham og verður mítillinn þá áttfætt ungviði sem aftur leggst í dvala yfir veturinn. Næsta vor skríður hann aftur upp og breytist í fullorðinn mítil ef honum tekst að finna góðan hýsil til að sjúga blóð úr. Að lokum leggst hann í dvala enn einn veturinn og endurtekur leikinn að vori. Karldýrið drepst svo en kvendýrið verpir eggjum áður en það drepst. Fullorðnir eru mítlar milli 0,5–1,1 cm að lengd en ungviðið er mikið mun smærra. Á flestum stöðum nær þetta þrískipta lífsferli þeirra yfir 2-3 ár þó er það háð bæði loftslagi og þeirri fæðu sem í boði er. Sem lirfa leggjast þeir einkum á smá dýr eins og fugla og mýs en geta einnig fundist í stærri dýrum eins og hundum og köttum. Fullorðnir skógarmítlar lifa nær eingöngu á stórum spendýrum eins og hjartardýrum og sauðfé en á Íslandi hafa þeir fundist í hundum, köttum, sauðfé, hestum og mönnum. Sjúkdómar. Skógarmítillinn getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín og því verið mjög hættulegur. Til dæmis bakteríuna "Borrelia burgdorferi" sem veldur svokölluðum "Lyme-sjúkdómi" meðal manna og getur valdið meðal annars alvarlegum skaða á taugakerfi. Þekkt er önnur tegund mítla hér á landi, svokölluð Lundalús ("Ixodes uriae"). Lundalúsin finnst í sjófuglum og hefur verið sýnt fram á að í þeim finnast bakteríur af ættinni "Borrelia". Ekki hefur þó verið sýnt fram á að lundaveiðimenn hafi sýkst af völdum Borrelia þótt þeir hafi verið bitnir af lundalús. Iqaluit. Iqaluit (áður Frobisher Bay) er höfuðstaður og stærsti þéttbýlisstaður sjálfstjórnarhéraðsins Nunavut í Kanada. Bærinn er á suðurströnd Baffinslands, við Frobisher-flóa. Íbúatala samkvæmt manntali 2006 var 6.184 og hafði íbúum fjölgað um 18,1% frá 2001. Bærinn varð til sem bandarísk herstöð árið 1942 og var þar gerður flugvöllur til að orrustuflugvélar á leið til vígvallanna í Evrópu gætu komið þar við og tekið eldsneyti. Þar hafði þó áður lengi verið viðkomustaður og veiðistöð inuíta, sem kölluðu staðinn Iqaluit, „stað hinna mörgu fiska“, en bandaríska herstöðin var kölluð Frobisher Bay og hélt staðurinn því nafni fram til 1987. Inúítar fóru fljótlega að setjast að í kringum herstöðina og í lok sjötta áratugarins komu kanadísk yfirvöld þar á fót ýmiss konar þjónustu, svo sem læknisþjónustu, skóla og félagsþjónustu. Bandaríkjaher yfirgaf staðinn árið 1963 en þá voru þar nokkur hundruð fastir íbúar og bærinn hélt áfram að stækka þótt herinn færi. Í desember 1995 var ákveðið með kosningum að Iqaluit yrði höfuðstaður sjálfstjórnarhéraðsins Nunavut, sem var svo komið á laggirnar 1999. Árið 2001 fékk Iqaluit stöðu borgar og er langminnsta borgin í Kanada. Um 60% íbúanna eru inuítar. Iqaluit er á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík en loftslag er þar mun kaldara. Meðalhiti ársins er -9,8 °C; meðalhiti í júlí er 7,7 °C en í febrúar -28 °C. Ellesmere-eyja. Ellesmere-eyja er tíunda stærsta eyja í heimi, 196.235 ferkílómetrar. Hún tilheyrir Kanada og er hluti af sjálfstjórnarhéraðinu Nunavut. Norðausturendi eyjarinnar er nyrsti oddi Kanada og Nunavut. Eyjan er hálend og fjöllótt og þar er hæsta fjall Nunavut, Barbeau Peak (2.616 m) og á norðaustanverðri eynni er Challenger-fjallgarður, nyrsti fjallgarður heims. Stór hluti eyjarinnar er hulinn jöklum en jöklarnir hafa þó minnkað mikið á síðustu árum. Fyrsti Evrópubúinn sem leit Ellesmere-eyju augum á síðari öldum var William Baffin árið 1616 en hún hlaut ekki nafn fyrr en 1852 og var þá nefnd eftir jarlinum af Ellesmere, sem þá var forseti Konunglega breska landafræðifélagsins. Samkvæmt manntali 2006 voru íbúar eyjarinnar samtals 146, þar af 141 í Grise Fiord og fimm í Alert, nyrsta byggða bóli heims. Þriðja byggðin, Eureka, var þá í eyði. Þórsfjall. Þórsfjall (enska: "Mount Thor" eða "Thor Peak") er fjall á Baffinslandi sem tilheyrir sjálfstjórnarhéraðinu Nunavut í Kanada. Það er hluti af Baffinfjöllunum á norðanverðri eynni og er í Auyuittuq-þjóðgarðinum. Fjallið er 1675 m hátt og þar er hæsta þverhnípta standberg heims, 1250 metrar. Þangað er því töluvert sótt af fjallgöngumönnum þótt fjallið sé afskekkt. Það var fyrst klifið árið 1953. Viktoríueyja (Kanada). Viktoríueyja er næststærsta eyja Kanada og áttunda stærsta eyja heims, 217.291 ferkílómetrar. Vestasti þriðjungur hennar tilheyrir Norðvesturhéruðunum en afgangurinn er hluti af sjálfstjórnarhéraðinu Nunavut. Fyrsti hvíti maðurinn sem leit eyjuna augum var John Richardson árið 1826. Hún er nefnd eftir Viktoríu Bretadrottningu. Eyjan er fremur láglend og hæsti tindurinn er 655 metrar. Norðvesturleiðin, siglingaleiðin norður fyrir Kanada, greinist í þrennt um eyna og liggur ein leiðin sunnan við hana, um sundin milli hennar og meginlandsins, önnur fyrir norðan eyna og um sundið milli hennar og Bankseyjar og sú þriðja norður fyrir bæði Viktoríueyju og Bankseyju. Samkvæmt manntali í Kanada 2006 voru þá 1875 íbúar á eynni, þar af 1477 á þeim hluta hennar sem tilheyrir Nunavut. Þar er hið stærra af tveimur þorpum á eynni, Cambridge Bay. Ulukhakto er á vesturströndinni og tilheyrir Norðvesturhéruðunum. Devoneyja. Devoneyja er eyja sem tilheyrir Nunavut-sjálfstjórnarhéraðinu í Kanada og er stærsta óbyggða eyja heims og sjötta stærsta eyja Kanada, 55.247 ferkílómetrar að stærð. Hún liggur á milli Baffinslands og Ellesmere-eyjar. Verslunarstöð var reist í Dundas Harbour árið 1924 og árið 1934 voru 53 inuítafjölskyldur fluttar þangað frá Baffinslandi til að reyna að koma upp byggð á eynni en sú tilraun mistókst, enda er loftslag þar mun kaldara en á Baffinslandi og eyjan mun vindasamari svo að fólkið yfirgaf eyna tveimur árum síðar. Önnur tilraun var gerð til að koma eynni í byggð nokkru síðar en hún fór endanlega í eyði 1951. Sumarið á Devoneyju er aðeins 40-50 dagar, vetrarfrostið getur farið niður í 50 gráður og úrkoma er mjög lítil. Eyjan hefur verið notuð sem æfingastöð til að búa menn undir hugsanlega landgöngu á reikistjörnunni Mars. Gelderland. Gelderland er stærsta fylki Hollands með rúmlega fimm þúsund km2. Höfuðborgin heitir Arnhem. Lega og lýsing. Gelderland liggur austarlega um miðbik landsins og er allur austurhluti Gelderlands við þýsku landamærin. Fyrir norðan er Overijssel, fyrir norðvestan er Flevoland, fyrir vestan er Utrecht, fyrir suðvestan er Suður-Holland, fyrir sunnan er Norður-Brabant og fyrir suðaustan er Limburg. Fylkinu má skipta í þrennt. Nyrst er svæðið Veluwe, en það er mesta skógarsvæði Hollands. Í austri er Achterhoek, sem er austurhornið. Þar er nokkur landbúnaður stundaður. Í suðri er svæðið Betuwe, sem þekkt er fyrir ávaxtarækt. Sumir telja stórborgarsvæðið Nijmegen-Arnhem sem fjórða svæðið. Þótt Gelderland sé stærsta fylki Hollands, er það þó aðeins fjórða fjölmennasta með tvær milljónir íbúa. Höfuðborgin er Arnhem. Landslagið einkennist af mörgum ám, til að mynda Lek, Waal og Ijssel. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Gelderlands samanstendur af þremur láréttum röndum, blárri, gulri og svartri. Litirnir eru komnir úr skjaldarmerki Gelderlands. Blái liturinn er kominn frá hertogadæminu Geldern en svarti liturinn frá greifadæminu Gulik. Guli liturinn var í merki beggja fylkja. Fáninn var ekki tekinn upp fyrr en 1953. Skjaldarmerki Gelderlands eru tvö ljón sem snúa andspænis hvort öðru. Utan við skjöldinn eru önnur tvö ljón og efst er kóróna. Gula ljónið var áður fyrr tákn hertogans af Geldern. Á 14. öld var svarta ljóninu bætt við en það var tákn greifans af Gulik. Ytri ljónin eru tákn Hollands og gullkórónan táknar konungsríkið. Orðsifjar. Gelderland er nefnt eftir hertogadæminu Geldern, en eystri hluti þess er nú innan þýsku landamæranna. Orðið merkir gulur eða gulllitaður. Liturinn vísar sennilega til ásýndar landslagsins. Villa d'Adda. Villa d'Adda er bær í Langbarðalandi á Norður-Ítalíu. Í janúar 2011 voru íbúar 4.729 talsins. Kuummiit. Kuummiit er þorp á Austur-Grænlandi, um 40 kílómetrum norðaustan við Tasiilaq (áður Angmassalik) og 34 kílómetrum norðan við Kulusuk. Þar var 361 íbúi árið 2010. Upphaf byggðar í Kuummiit var að þar var reist trúboðsstöð árið 1915. Höfnin í Kuummiit er mjög oft íslaus og því er hægt að stunda þaðan fiskveiðar mestan hluta ársins. Í Kuummiit býr Sigurður Pétursson, sem venjulega er kallaður "Ísmaðurinn". Reynir Traustason ritstjóri hefur gert heimildarmynd um Sigurð. Ágúst George. Séra Ágúst George (5. apríl 1928 – 16. júní 2008), fæddur "Augustinus George" en oftast kallaður "séra Georg", var hollenskur prestur við kaþólsku dómkirkjuna á Íslandi, Kristskirkju og skólastjóri Landakotsskóla frá 1962 til 1998. Séra Georg fæddist í þorpinu Wijlre í Hollandi. Tólf ára gamall hóf hann nám í drengjaskóla Montfortreglunnar í Schimmer sem er hin sama Montfortregla og hefur starfað á Íslandi síðan 1903. Eftir reynsluár sín í Meerseen í Limburg vann séra Georg fyrstu heit sín hinn 8. september 1950 og hóf nám í heimspeki og guðfræði í Oirschot, en því lauk með prestsvígslu 11. mars 1956. Árið 1962 var séra George beðinn að taka að sér stjórn Landakotsskóla og stýrði skólanum í 36 ár. Hann var staðgengill biskups frá 1969 og gegndi tvívegis biskupsstörfum um skeið, eftir lát Hinriks Frehen 1986 og eftir lát Alfreds Jolson 1994. Hlaut hann hina íslensku fálkaorðu fyrir störf sín árið 1994. Ágúst George hvílir í Landakotskirkjugarði. Árið 1991 gerði Sigmar B. Hauksson hálftíma heimildarmynd um séra Ágúst George sem nefndist "Perla í Vesturbænum. Árið 2011 komu upp á yfirborðið sögusagnir sem lengi höfðu kraumað undir niðri um níðingsskap séra Georges í garð barna í Landakotsskóla og í sumarbúðum kaþólsku kirkjunnar í Rifstúni. Jafnframt kom á daginn að Margrét Müller, þýskættaður kennari við skólann, hafði einnig svívirt og niðurlægt börn með vitneskju og oft þátttöku séra Georges. Kaþólska kirkjan skipaði rannsóknarnefnd sem gaf út 2. nóvember 2012 skýrslu þar sem ásakanir um viðurstyggilegt athæfi þeirra í garð barna komu fram. Jafnframt var upplýst að yfirmönnum kaþólsku kirkjunnar (þar á meðal Alfred Jolson biskupi), nunnum í Landakoti og kaþólskum prestum hefði oft verið sagt frá hátterni séra Georges, en enginn gert neitt í málinu. Þýsku riddararnir. Þýsku riddararnir (latína: "Ordo domus Sanctæ Mariæ Theutonicorum Hierosolymitanorum", þýska: "Orden der Brüder vom Deutschen Haus St. Mariens in Jerusalem" eða "Der Deutsche Orden") var þýsk riddararegla sem enn er við líði en nú sem kaþólsk trúarregla. Reglan var stofnuð til að aðstoða kristna menn í pílagrímsferðum til Landsins helga og einnig til að koma á fót sjúkrahúsum og hælum til að annast særða og sjúka. Meðlimir reglurnar voru yfirleitt kallaðir Þýsku riddararnir eða tevtónsku riddararnir. Reglan var alltaf tiltölulega fámenn en var styrkt með sjálfboðaliðum eða málaliðum þegar á þurfti að halda. Saga. Reglan var stofnuð í borginni Akkó í Landinu helga í lok miðalda og gegndi mikilvægu hlutverki í ríkjum krossfaranna um skeið. Eftir að kristnir menn hröktust frá Miðausturlöndum fluttist reglan til Transylvaníu árið 1211 og aðstoðaði þar Ungverja við að verjast árásum úr austri. Þaðan var hún þó rekin með valdi árið 1225, að sögn vegna þess að riddararnir vildu eingöngu lúta valdi páfa en ekki Ungverja. Ríki Þýsku riddaranna á hátindi sínum árið 1410. Eftir það einbeittu Þýsku riddararnir sér að baltnesku Prússunum, sem bjuggu við suðaustanvert Eystrasalt. Þeir voru enn heiðnir og það voru Eystrasaltslöndin einnig að hluta. Þýsku riddararnir fóru í krossferð, lögðu land baltnesku Prússanna undir sig og stofnuðu þar eigin ríki, sem var kallað "Deutschordensland" eða einfaldlega Prússland. Sverðbræðrareglan, sem réði yfir hluta Líflands, sameinaðist Þýsku riddurunum árið 1237 og reglan lagði svo allt Lífland undir sig. Þann 1. nóvember 1346 keypti reglan hertogadæmið Eistland af Valdimar atterdag Dankonungi. Þá náði ríki Þýsku riddaranna yfir alla austanverða strönd Eystrasalts, frá Prússlandi norður til Eistlands. Oft kom þó til uppreisna gegn þeim og þeir áttu í skærum við konunga Póllands og stórhertogadæmið Litháen. Eftir að Litháar, síðasta heiðna þjóð Evrópu, tóku kristni 1387 má segja að tilgangi reglunnar hafi verið náð og hún hafði ekki lengur fyrir neinu að berjast. Hún hélt þó áfram starfsemi, réði yfir víðáttumiklum löndum og var stórauðug. Pólverjar og Litháar gengu í bandalag gengn Þýsku riddurunum og sigruðu þá í orrustunni við Grünwald árið 1410, sem var einn fjölmennasti bardagi miðalda í Evrópu. Flestir leiðtogar riddaranna féllu eða voru teknir til fanga og þótt reglan héldi löndum sínum að mestu í friðarsamningunum eftir bardagann varð hernaðarmáttur hennar aldrei sá sami og fjárhagurinn fór líka versnandi svo að riddararnir höfðu ekki efni á að leigja sér málaliða í sama mæli og áður. Árið 1454 gerðu nokkrar prússneskar borgir uppreisn gegn yfirráðum Þýsku riddaranna og leiddi það til Þrettán ára stríðsins, þar sem borgirnar í bandalagi við Póllandskonung börðust gegn riddurunum. Því lauk 1466 með friðarsamningum þar sem vesturhluti ríkisins var innlimaður í Pólland. Hningun. Síðasti stórmeistari reglunnar, Albert af Brandenburg, sagði af sér árið 1525, tók lútherstrú og var gerður að hertoga af Prússlandi og lénsmanni Póllandskonungs. Ekki löngu síðar missti reglan yfirráðasvæði sín í Líflandi og eignir sínar í mótmælendahluta Þýskalands. Hún var þó engan veginn liðin undir lok og hélt umtalsverðum eignum sínum í kaþólska hluta Þýskalands til 1809, þegar Napóleon Bónaparte fyrirskipaði að hún skyldi lögð niður og eignir hennar gerðar upptækar. Reglan starfaði þó áfram sem góðgerðasamtök. Hitler bannaði hana árið 1938 en hún var endurreist 1945 og vinnur nú aðallega að góðgerðamálum í Mið-Evrópu. Nú eru í henni um þúsund félagar, flestir munkar eða nunnur. Marienburg. Frá 1308 til 1456 voru höfuðstöðvar Þýsku riddaranna í Marienburg-kastala í Prússlandi (nú Malbork í Póllandi), stærsta kastala Evrópu að flatarmáli, þar sem eitt sinn gátu dvalist þrjú þúsund riddarar. Is It True? „Is It True?“ er lag sem íslenska söngkonan Jóhanna Guðrún flutti og var framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2009 sem haldin var í Moskvu, Rússlandi. Lagið var samið af Óskari Páli Sveinssyni og náði öðru sæti í keppninni. Lagið komst í fyrsta sæti á íslenska vinsældalistanum og komst líka á topp 10 listana í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Grikklandi og Sviss. Lisa Gerrard. Lisa Gerrard (fædd 12. apríl 1961) er ástralskur tónlistarmaður, söngkona og tónskáld. Hún varð þekkt á tíunda áratugnum þegar hún var forsprakki hljómsveitarinnar Dead Can Dance ásamt Brendan Perry. Gerrard, Lisa Nijmegen. Nijmegen er stærsta borgin í héraðinu Gelderland í Hollandi með 164 þúsund íbúa. Hún er þó ekki höfuðborg héraðsins. Borgin er gömul hansaborg og gerir tilkall til að vera elsta borg Hollands. Lega og lýsing. Nijmegen liggur við fljótið Waal, sem er syðri aðalarmur Rínarfljóts, aðeins steinsnar fyrir vestan við þýsku landamærin. Næstu borgir eru Arnhem til norðurs (15 km), Kleve í Þýskalandi til austurs (20 km), Hertogenbosch til suðvesturs (50 km) og Eindhoven til suðurs (70 km). Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Nijmegen sýnir tvíhöfða svartan örn á gylltum grunni. Örninn stendur fyrir þýska ríkið. Fyrir framan er minni skjöldur með gylltu ljóni á bláum grunni. Tvö ljón eru hvort sínum megin, annað svart, hitt gyllt, en þau merkja þau tvö héruð sem Nijmegen tilheyrði áður fyrr. Efst er kóróna, sem merkir konungsríkið Holland. Orðsifjar. Á tímum Rómverja var borgin kölluð Noviomagus. Novio merkir "nýr". Magus merkir "staður" eða "markaður". Á tímum Karlamagnúsar var búið að afbaka heitið í Numaga. Úr því varð Nieumeghen og Nimmegen, og loks Nijmegen. Á latínu heitir borgin enn Noviomagus. Hins vegar segja Frakkar Nimègue og Þjóðverjar Nimwegen. Upphaf. Nijmegen er elsta borg Hollands. Hún var stofnuð af Rómverjum árið 5 e.Kr. að talið er. Ártalið er viðurkennt í dag og voru mikil hátíðarhöld í borginni árið 2005 til að fagna 2000 ára afmælinu. Á hinn bóginn gerir Maastricht einnig tilkall sem elstu borg Hollands. Rómverjar reistu virki á staðnum og notuðu Noviomagus sem herstöð. Þegar þeir hurfu af svæðinu í upphafi 5. aldar, settust germanir að í virkinu. Karlamagnús styrkti virkið og notaði bæinn sem útstöð gegn söxum og frísum. En árið 880 sigldu normannar upp Rín og eyddu virkinu. Miðaldir. Máritz af Óraníu gerir árás á Nijmegen 1591 og frelsar hana úr höndum Spánverja. Eftir að normannar lögðu Nijmegen í rúst lá staðurinn niðri í fleiri ár. Hann var ekki byggður upp á ný fyrr en í kringum 1000 og tilheyrði þýska ríkinu. Nokkrir konungar og keisarar ríkisins sóttu Nijmegen heim og héldu þar þing, svo sem Ottó III. 1150 breytti keisarinn Friðrik Barbarossa staðnum í fyrirferðamikið kastalavirki, eiginlega smáborg. Virkið kallaðist Valkhof, en það er að mestu horfið í dag. Sonur Friðriks, Hinrik IV, fæddist í Valkhof 1165. 1247 léði Hinrik VII greifanum Otto II. frá Geldern borgina að léni sem nokkurs konar tryggingu, en Ottó hafði lánað konungi fjármuni. Hinrik tókst hins vegar aldrei að leysa trygginguna og því hélst borgin í eigu ættmenna Geldern. Það voru greifarnir frá Geldern sem reistu hina víðáttumikla borgarmúra umhverfis Nijmegen til varnar óvinum. Árið 1402 gekk borgin í Hansasambandið og átti í verslunarsamskiptum við Englendinga og borgir við Eystrasalt. Á þeim tíma voru borgarbúar um 10 þúsund. Frelsisstríð. Nijmegen árið 1651. Í forgrunni er Waal, syðri armur Rínarfljóts. Málverk eftir Jan van Goyen. 1543 hrifsaði Karl V. keisari héraðið Geldern undan hertoganum Vilhjálmi V. Ástæðan var sú að Vilhjálmur hafði tekið siðaskiptum en keisari hafði megnustu óbeit á nýju trúnni. Þetta markaði endalok hertogadæmisins. Nijmegen varð því hluti af Habsborg, þ.e. spænsku Niðurlöndum, og var stjórnað af spænskum landstjóra sem sat í Brussel, enda var Karl sjálfur Habsborgari. Reyndar tóku borgarbúar vel við siðaskiptunum og tóku margir kalvínstrú. Þetta varð til þess að Spánverjar sátu nokkrum sinnum um borgina og féll hún loks 1585 í hendur Alexander Farnese, spænska landstjórans. Hann hóf strax handa við að ofsækja kalvínista. En Máritz prins, bróðir Vilhjálms af Óraníu, tókst að hertaka og frelsa borgina úr höndum Spánverja 1591. Eftir það var borgin í höndum Hollendinga þar til Holland var viðurkennt ríki 1648. Skömmu síðar, 1655, var háskóli stofnaður í borginni. Hann var þó skammlífur. Í pestinni 1665 fækkaði stúdentum en þegar stríð hófst að nýju 1672 lognaðist hann út af. Stríðið var háð milli Hollendinga og Englendinga. Frakkar og þýska ríkið blönduðust í átökin en friður var samin milli allra stríðsðila í Nijmegen og kallast Nijmegen-samningarnir. Samningar þessir bundu eiginlega endi á Holland sem stórveldi í siglingum. Eftir þetta kom Nijmegen lítið við sögu næstu aldir. 20. öldin. Nijmegen í rústum eftir loftárásir 1944 Skriðdrekar bandamanna á brúnni í Nijmegen 1923 var háskóli á ný stofnaður í Nijmegen, Radboud University Nijmegen. Að þessu sinni var hann kaþólskur, sem er mjög óvenjulegt fyrir Holland. Í maí 1940 var Nijwegen fyrsta hollenska borgin sem Þjóðverjar hertóku í heimstyrjöldinni síðari, enda liggur hún steinsnar frá þýsku landamærunum. 22. febrúar 1944 var flugsveit bandamanna að fljúga til þýsku borgarinnar Gotha til að gera loftárásir á Messerschmitt verksmiðjurnar. En hætt var við þetta verkefni, þannig að á heimflugi var litið eftir öðru skotmarki. Þannig tóku flugmenn bandamanna borgina Nijmegen í misgripum fyrir þýsku borgina Kleve og vörpuðu hundruðum sprengja á borgina. Í eldhafinu nær gjöreyðilagðist miðborgin. Í september á sama ári réðust bandamenn með landher inn í Niðurlönd. Til stóð að bandaríkjamenn ættu að fara til Nijmegen og tryggja yfirráð yfir tveimur brúm yfir Waal, meðan Bretar sóttu inn í Arnhem. Í nokkra daga geysuðu harðir götubardagar í báðum borgum. Meðan Bretar urðu að hörfa frá Arnhem, náðu Bandaríkjamenn að komast yfir á norðurbakka Waal og hrekja Þjóðverja burt. Þeir héldu borginni það sem eftir lifði stríðs og lá nýja framlínan milli stríðsaðila við norðurmörk Nijmegen. Í dag er Nijmegen með skipahöfn við Waal-Maas-skipaskurðinn en hann liggur um vesturhluta borgarinnar. Mikill iðnaður er í borginni. Viðburðir. Sonisphere Festival er rokkhátíð sem hleypt var af stokkunum í Nijmegen 2009. Á hverju ári fer hátíðin fram í hinum og þessum borgum í Evrópu. Síðan 1909 hefur gangan Nijmegenmarsch farið fram í og við Nijmegen. Þessi alþjóðlega ganga rúmlega 200 km löng og er gengið 30-50 km daglega. Þátttakendur eru 47 þús (ekki fleiri leyfðir) og er ganga þessi því sú stærsta sinnar tegundar í heimi. Í upphafi voru það bara hermenn (karl- og kvenkyns) sem þreyttu gönguna en fljótt fóru almennir borgarar að taka þátt. Árið 1932 voru þeir orðnir fjölmennari en hermennirnir. Utan göngumanna og kvenna mæta um 1,5 milljónir manna til Nijmegen til að horfa á. Í þá fjóra daga sem gangan stendur yfir er nokkurs konar þjóðhátíðarandi í borginni. Kristín Svava Tómasdóttir. Kristín Svava Tómasdóttir (20. nóvember 1985) er íslenskt ljóðskáld. Ljóðabókin "Blótgælur" (2007) var hennar fyrsta útgefna verk. Seinni ljóðabókin, "Skrælingjasýningin", kom út 2011. Ríkharður 2. Englandskonungur. Ríkharður 2. Mynd frá síðasta áratug 14. aldar. Ríkharður 2. (6. janúar 1367 – um 14. febrúar 1400) var konungur Englands, sá síðasti af aðalgrein Plantagenet-ættar, frá því að afi hans, Játvarður 3., dó árið 1377 og þar til hann var settur af 1399. Heimildum ber saman um að Ríkharður hafi þótt óvenju fríður maður, hávaxinn, íþróttamannslegur, vel gefinn og vel menntaður. Hann var enginn stríðsmaður eins og faðir hans og afi höfðu verið og kaus friðarsaminga við Frakka fremur en stríð. Fyrri tíma fræðimenn töldu sumir að hann hefði verið sjúkur á geði en heimildir þykja þó frekar bera merki um að hann hafi þjáðst af ákveðnum persónuleikabrestum, einkum síðustu árin. Uppvöxtur. Ríkharður var sonur Játvarðar svarta prins, elsta sonar Játvarðar 3., og konu hans Jóhönnu af Kent. Svarti prinsinn dó 1376 og Ríkharður varð þá ríkisarfi þar sem eldri bróðir hans hafði dáið 1372. Hann var tíu ára gamall þegar hann varð konungur. Fyrstu árin voru völdin í höndum ríkisráðs en föðurbróðir konungs, John af Gaunt, hertogi af Lancaster, var þó mjög valdamikill. Ríkharður 2. fylgist með drápi bændaleiðtogans. Aukin skattheimta leiddi til mikillar óánægju landsmanna og bændur gerðu uppreisn árið 1381 og kröfðust þess að bændaánauð yrði lögð af. Ríkharður, sem var aðeins fjórtán ára, hélt ásamt ráðgjöfum sínum á fund leiðtoga uppreisnarmanna, sem höfðu safnast saman fyrir utan London, og reyndi að semja við þá. Hann samþykkti kröfur þeirra en þeir færðu sig þá upp á skaftið og settu fram fleiri kröfur og fór svo að átök brutust út og borgarstjóri Lundúnaborgar drap foringja bændanna. Konunginum unga tókst að róa múginn og koma í veg fyrir að átök yrðu. Borgarstjórinn safnaði liði sem umkringdi bændaherinn en konungurinn gaf uppreisnarmönnum grið og leyfði þeim að snúa heim til sín. Konungurinn gekk þó á bak orða sinna og þegar óeirðir brutust út annars staðar fór hann með lið og kæfði þær niður. Hann þótti sýna mikið hugrekki og dirfsku þrátt fyrir ungan aldur. Sumir hafa þó haldið því fram að þetta hafi allt verið sjónarspil, sett á svið af ráðgjöfum konungs til að upphefja hann. Stuttu síðar, 20. janúar 1382, giftist Ríkharður Önnu af Bæheimi, dóttur Karls 4. keisara. Hjúskapurinn átti að afla Englendingum bandamanna á meginlandi Evrópu. Það var ráðgjafinn Michael de la Pole sem stóð að baki samkomulaginu um hjónabandið en margir aðalsmenn voru mótfallnir því og töldu ávinninginn engan, sem reyndist rétt. Samband þeirra Ríkharðs mun hins vegar hafa verið gott og hann var harmi sleginn þegar hún dó 1394, eftir tólf ára hjónaband. Þau áttu engin börn. Uppreisn aðalsmanna. Ríkharður tók að hluta við stjórnartaumunum 1383 en var mjög háður nánustu ráðgjöfum sínum, einkum Michael de la Pole, sem hann gerði að kanslara (fjármálaráðherra) sínum og síðar jarli af Suffolk, og Robert de Vere, jarli af Oxford, sem gerður var hertogi af Írlandi. Það var ekki síst stríðið í Frakklandi sem olli deilum. Konungur og ráðgjafar hans vildu ganga til samninga en föðurbræður konungs, John af Gaunt og Thomas hertogi af Gloucester, vildu leggja í hernað til að verja lendur Englendinga í Frakklandi. Næstu ár einkenndust af togstreitu og deilum og samkomulag konungsins og föðurbræðra hans fór síversnandi. Á meðan jókst stöðugt hættan á að Frakkar gerðu innrás í England. Michael de la Pole vildi fá að leggja á háan skatt til að efla varnir ríkisins en þingið neitaði að samþykkja það og krafðist þess á móti að de la Pole yrði látinn víkja. Konungur neyddist til að láta undan og nefnd var komið á fót sem átti að stýra fjármálum konungs næsta árið. Ríkharður fyrtist mjög við þetta. Hann gerði de Vere að kanslara og fór að reyna að styrkja stöðu sína. John af Gaunt var kominn til Kastilíu, þar sem hann var að reyna að komast að hásætinu, en Gloucester og fleiri aðalsmannanna kröfðust þess að de la Pole, de Vere og fleiri ráðgjafar konungs yrðu ákærðir fyrir landráð. De Vere reyndi að safna liði en var yfirbugaður 20. desember 1387 og neyddist til að flýja land. De la Pole fór einnig úr landi. Ríkharður átti þá ekki annan kost en að láta undan kröfum aðalsmannanna og nokkrir ráðgjafar hans og vinir voru teknir af lífi. Á næstu mánuðum tókst honum þó að styrkja völd sín að nýju, meðal annars vegna þess að John af Gaunt var nú kominn aftur og gegndi stöðu sáttasemjara í enskum stjórnmálum. Ríkharður var líka orðinn fullmyndugur og tók að fullu við stjórninni 3. maí 1389. Ríkharður ríkti í friði næstu átta árin en þó var ólga undir niðri. Hann fór að reyna að semja um varanlegan frið við Frakka en á endanum var samið um 28 ára vopnahlé árið 1396. Hluti af samkomulaginu var að Ríkharður, sem orðinn var ekkjumaður, skyldi ganga að eiga Ísabellu, dóttur Karls 6. Frakkakonungs. Ekki leist þó öllum vel á þá ráðstöfun þar sem brúðurin var aðeins sex ára að aldri og ljóst að langt yrði í að hún gæti séð Englandi fyrir ríkiserfingja. Harðstjórnin. Árið 1397 hófst tímabilið sem kallað hefur verið harðstjórn Ríkharðs 2. Hann lét þá handtaka frænda sinn, jarlinn af Gloucester, og fleiri aðalsmenn sem höfðu staðið gegn honum á árunum 1386-1388, og taka suma þeirra af lífi, en Gloucester lést áður en hann var leiddur fyrir rétt, hugsanlega drepinn í fangelsi að skipan Ríkharðs. John af Gaunt gerði ekkert til að koma í veg fyrir þetta og kann að hafa stutt konung. Hann var þó, ásamt syni sínum, Henry Bolingbroke, helsta ógnunin við Ríkharð, enda var Lancaster-fjölskyldan auðugasta fjölskylda Englands og mjög valdamikil. Í desember lenti Bolingbroke í deilum við annan aðalsmann, Thomas de Mowbray, hertoga af Norfolk, og þeir ætluðu að heyja einvígi en konungurinn gerði þá þess í stað báða útlæga. Afsögn og dauði. John af Gaunt dó 3. febrúar 1399 en Ríkharður leyfði syni hans ekki að snúa heim, heldur gerði hann arflausan. Ríkharður hefur líklega ekki talið frænda sinn, sem var í París, neina ógnun og hélt í herleiðangur til Írlands í maí. En Bolingbroke sneri aftur til Englands í júnílok og menn flykktust þegar til hans, enda var Ríkharður orðinn mjög óvinsæll. Hann hélt því fyrst í stað fram að hann væri aðeins að vitja föðurarfs síns og tókst að styrkja stöðu sína svo að þegar Ríkharður sneri aftur frá Írlandi réði Bolingbroke lögum og lofum. Hann reyndi að semja við frænda sinn en gafst upp 19. ágúst og hét því að segja af sér ef hann fengi að halda lífi. Hann var svo hafður í haldi í Lundúnaturni. Bolingbroke hafði nú einsett sér að verða konungur og hélt því fram að Ríkharður hefði fyrirgert rétti sínum til krúnunnar með harðstjórn sinni og óstjórn. Ríkharður sagði af sér 29. september, sennilega þvingaður til þess, og Hinrik 6. var krýndur 13. október. Örlög Ríkharðs eftir það eru ekki vel ljós. Hann var fluttur í Pontefract-kastala fyrir áramót. Skömmu síðar kom í ljós að nokkrir stuðningsmenn hans höfðu lagt á ráðin um að myrða Hinrik og koma Ríkharði aftur til valda. Þar með var Hinrik ljóst að hann gat ekki hætt á að leyfa honum að lifa. Talið er að Ríkharður hafi verið sveltur til bana og dáið 14. febrúar 1400 eða þar um bil. Orðrómur um að hann væri enn á lífi fór öðru hverju á kreik næstu árin. Ísabella drottning, hin tíu ára gamla ekkja Ríkharðs, sneri aftur heim til Frakklands nokkru eftir lát hans. Anna af Bæheimi, Englandsdrottning. Anna drottning. Mynd frá 14. öld. Anna af Bæheimi (11. maí 1366 – 7. júní 1394), kölluð "Góða drottningin Anna", var drottning Englands frá 1382 til dauðadags, fyrri kona Ríkharðs 2. Englandskonungs. Anna var elsta dóttir Karls 4. keisara hins Heilaga rómverska ríkis og Elísabetar af Pommern. Einn bræðra hennar var Sigmundur keisari. Faðir Önnu var voldugasti þjóðhöfðingi Evrópu á þeim tíma. Ríkharði hafði staðið til boða að giftast Katarínu Visconti, dóttur Bernabò Visconti í Mílanó, og fá með henni geysimikinn heimanmund, en ráðgjafar hans kusu fremur að semja við keisarann til að reyna að afla Englendingum bandamanna gegn Frökkum í Hundrað ára stríðinu, þótt enginn heimanmundur fylgdi Önnu - þvert á móti, Englendingar urðu að gjalda bróður hennar háa fjárhæð. Þessi ráðstöfun varð óvinsæl, ekki síst eftir að ljóst varð að Englendingar myndu lítið græða á tengslunum við keisarann. Mörgum aðalsmönnum líkaði því hjónabandið illa. Anna kom til Englands 15 ára gömul, í desember 1381, og var illa tekið fyrst í stað en hún giftist þó Ríkharði konungi, sem var ári yngri, í Westminster Abbey 22. janúar 1382. Það var síðasta konunglega brúðkaupið í kirkjunni í 537 ár. Anna virðist með tímanum hafa aflað sér vinsælda, einkum meðal almennings, enda er hún sögð hafa verið einstaklega góðlynd og hjartagóð og reyndi stöðugt að biðja um miskunn fyrir menn sem maður hennar hafði dæmt til dauða og aðra. Hún er líka kölluð Góða drottningin Anna í ýmsum heimildum. Anna eignaðist engin börn og virðist aldrei hafa orðið þunguð þótt þau Ríkharður væru gift í tólf ár. Hún dó úr plágu 1394 og syrgði Ríkharður hana mjög, enda virðist samband þeirra hafa verið gott. Gröf hennar í Westminster Abbey var opnuð árið 1871 og kom þá í ljós að mörgum af beinum hennar hafði verið stolið gegnum gat á hlið kistunnar. Apeldoorn. Apeldoorn er næststærsta borgin í héraðinu Gelderland í Hollandi með 156 þúsund íbúa. Verið er að reisa tvö ný hverfi, þannig að íbúatalan á eftir að hækka mikið. Lega og lýsing. Apeldoorn liggur við hollenska skipaskurðinn, sem liggur í norður/suðurstefnu í austurhluta Hollands. Veluwe, stærsta skógarsvæði Hollands liggur við vesturenda borgarinnar. Næstu borgir eru Arnhem til suðurs (30 km), Ede til suðvesturs (40 km), Zwolle til norðurs (40 km) og Utrecht til vesturs (65 km). Apeldorn er ákaflega græn borg, með fáum háhýsum. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Apeldoorn sýnir rauðan örn, með bláar klær og nef, og lykil fyrir framan. Örninn er tákn um gamla þýska ríkið. Lykillinn er tákn borgarinnar. Orðsifjar. Apeldoorn merkir eplatré á gamalli hollensku. Apel = "epli" (sbr. "Apfel" á þýsku). Doorn er notað um ýmsa runna. Söguágrip. Apeldoorn á 17. öld var einungis bændaþorp. Teikning eftir Jacob van Ruisdael. Viðburðir. Jazz in the woods er árleg tónlistarhátíð í miðborg Apeldoorn í maílok. Spilað er jazz, en einnig popp og blús. Aðgangur er ókeypis. Um 60-80 þúsund manns sækja hátíð þessa heim. Midwinter-Marathon er árlegt Maraþonhlaup í borginni. Það hefur verið haldið í janúarmánuði síðan 1974 og er næstelsta Maraþonhlaupið í Hollandi Byggingar og kennileiti. Het Loo kastalinn er í eigu Óraníuættarinnar Evrópumeistaramót undir 21 árs karla í knattspyrnu. Evrópumeistaramót undir 21 árs karla í knattspyrnu er fótboltakeppni skipulögð af Knattspyrnusambandi Evrópu. Mótið er haldið á tveggja ára fresti og hefur verið til í núverandi mynd frá 1978. Fyrir stofnun þess var útsláttarkeppni undir 23 ára frá 1967 til 1970 og meistaramót undir 23 ára frá 1972 til 1976. Aldurstakmark mótsins var lækkað niður í 21 ár fyrir meistaramótið 1978. Til þess að vera gildur leikmaður í mótinu þurfa leikmenn að vera á 21 aldursári eða yngri, en fyrir árið 2009 var leyft að leikmenn mættu vera á milli 21 árs og 23 ára í riðlakeppni mótsins. Mótherjar liða í mótinu eru frá sama landi og landsliðið keppir við. Undantekning á þessari reglu var árið 2006-2007 þegar keppnin var í styttra lagi. Mótið er bæði talið vera og er markaðsett á þann hátt að leikmenn liðana verði stjörnur landsliðsins. Leikmenn eins og Mesut Özil, Klaas Jan Huntelaar, Luís Figo og Petr Čech hófu allir landsliðsframa sinn í þessu móti. Þjóðverjar eru núverandi meistarar, eftir að hafa sigrað Englendinga 4-0 árið 2009. Næsta mót fer fram í Danmörku árið 2011. Knattspyrnusamband Evrópu. Knattspyrnusamband Evrópu (franska: "Union des Associations Européennes de Football", skammstöfun: "UEFA") er yfirumsjónaraðili knattspyrnu, futsal og strandfótbolta í Evrópu. Aðildarfélög sambandsins eru 53 talsins og eru flest á meginlandi Evrópu. Knattspyrnusambönd í löndum sem liggja bæði í Evrópu og Asíu eru aðildarfélög í sambandinu ásamt Azerbaijan, Georgíu, Armeníu og Ísrael sem hafa öll stjórnmálaleg tengsl við Evrópu. Innan samtakana eru Færeyjar, England, Skotland, Wales og Norður-Írland allt meðlimir sem eru ekki sjálfstæð ríki. Af þeim evrópuþjóðum sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum er Mónakó það eina sem er ekki aðili að UEFA. Af sex aðildarfélögum FIFA er UEFA með bestu fjárhagstöðuna og mestu áhrifin á knattspyrnufélög. Í Englandi, Spáni, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi eru knattspyrnufélög á meðal þeirra ríkustu í heiminum. Af þeim 32 sætum sem FIFA veitti fyrir heimsmeistaramót karla 2011 voru 13 veitt til aðildarfélaga UEFA og 9 af efstu 20 ríkjum FIFA eru aðildafélög sambandsins. Í kvennaflokki fékk sambandið úthlutað fimm af sextán sætum FIFA á heimsmeistarakeppnina. Sambandið var stofnað 15. júní 1954 í Basel, Sviss. Stofnfélagar voru knattspyrnusambönd Frakklands, Ítalíu og Belgíu. Höfuðstöðvar félagsins eru í Bern. Núverandi forseti sambandsins er frakkinn Michel Platini. Karlalandslið aðildarríkja UEFA hafa unnið 10 heimsmeistaramót FIFA og í kvennaflokki hafa landsliðin unnið þrjú heimsmeistaramót FIFA og ein gullverðlaun á Ólymíuleikunum. UEFA, sem fulltrúi knattspyrnusamtakana, hefur átt í deilum við Evrópusambandsráðið. Á tíunda áratug 20 aldar urðu meiriháttar breytingar á sjónvarpsréttindum og alþjóðlegum viðskiptum (Bosman-dómurinn). Keppnir landsliða. Árið 1958 hóf UEFA að halda Meistarakeppni evrópskra landsliða í knattspyrnu. Lið eru dregin út frá styrkleikalista og með mótinu ná landslið keppnisrétti í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Sambærilegar keppnir eru haldar fyrir Undir 21 árs landsliðið, Undir 19 ára landslið, undir 17 ára landslið og bæði kynin. Keppnir félagsliða. UEFA heldur þrjár keppnir fyrir félagslið í Evrópu. Samtökin halda úti styrkleikalista yfir gengi liða í deildum Evrópu. Þær deildir í Evrópu sem hafa náð mestum árangri taka þátt í Meistaradeild Evrópu. 32 lið taka þátt í meistaradeildinni. Þau lið sem hafa náð góðum árangri en fá ekki keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu keppa í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu. Haldinn er úrslitaleikur Evrópukeppni bikarhafa á milli sigurvegara þessara tveggja keppna. Futsal. Futsal er fimm manna fótbolti sem er spilaður innandyra og á smærri völlum en tíðkast í knattspyrnu. Keppni hefur verið haldin í Futsal frá árinu 1984, en hún hefur aldrei verið viðurkennd af UEFA. Sambandið hóf Evrópumeistarakeppni karla í futsal 1991 og mótið tók við af forvera þess. Knattspyrnusamband Asíu. Knattspyrnusamband Asíu (skammstöfun: "AFC") er yfirumsjónaraðili knattspyrnu í Asíu. Aðildarfélög sambandsins eru 46 talsins og eru flest á meginlandi Asíu. Knattspyrnusambönd í löndum sem liggja bæði í Evrópu og Asíu eru í Knattspyrnusambandi Evrópu ásamt Azerbaijan, Georgíu, Armeníu og Ísrael sem hafa öll stjórnmálaleg tengsl við Evrópu. Eyjaálfuríkin Ástralía, Gvam og Norður-Maríanaeyjar eru aðildarfélög að Knattspyrnusambandi Asíu. Sambandið var stofnað 8. maí 1954 í Manila, Filippseyjum og er eitt af sex álfusamböndum Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Höfuðstöðvar félagsins eru í Bukit Jalil, Kúala Lúmpúr, Malasíu. Núverandi forseti sambandsins er kínverjinn Zhang Jiong. Keppnir. Fremsta mót sambandsins er Asíumeistaramótið sem er haldið á fjögurra ára fresti. Sigurvegari mótsins er titlaður sem meistari Asíu. Sambandið heldur undankeppnir fyrir heimsmeistaramótið og Ólympíuleikana. Önnur mót sambandsins eru skipt niður eftir styrkleikaflokkum og atvinnudeildum landana. Lægstu 3 styrkleikaflokkar Asíu keppa í áskorunarmóti sem haldið er á tveggja ára fresti. Efstu 32 félagslið álfunnar keppna í meistarakeppni og lönd með atvinnudeild keppa í árlegri forsetakeppni. Svæðisdeildir sambandsins eru ASEAN knattspyrnusambandið, Austur Asíu knattspyrnusambandið, Mið- og Suður Asíu knattspyrnusambandið og Vestur Asíu knattspyrnusambandið. Öll þessi sambönd auk Arabalandanna halda svæðisbundnar keppnir. TwoTricky. "TwoTricky" var íslensk hljómsveit sem hóf að spila saman árið 2000. Söngvarar voru Kristján Gíslason og Gunnar Ólason. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2001 með laginu „Angel“. Þau náðu 23-24. sæti af 24, með 3 stig. Lenka Ptácníková. Lenka Ptáčníková (fædd 16. janúar 1976 í Tékkóslavakíu) er íslenskur skákmeistari. Hún hlaut íslenskan ríkisborgararétt 28. maí 2004. Hún vann titillinn Norðurlandameistari kvenna í skák 2005 og 2007. Hún varð íslandsmeistari í fyrsta sinn 2006. Arnhem. Arnhem er höfuðborg héraðsins Gelderland í Hollandi. Hún er þó aðeins þriðja stærsta borgin í héraðinu með 148 þús íbúa. Hart var barist um borgina í heimstyrjöldinni síðari, er bandamenn reyndu að ná brúnni yfir Rín á sitt vald. Lega og lýsing. Arnhem liggur við ána Rín austarlega í Hollandi, en þetta er nyrðri Rínararmurinn og kallast Neder-Rijn (Neðrarín). Aðeins 15 km eru til þýsku landamæranna. Næstu borgir eru Nijmegen til suðurs (15 km), Apeldoorn til norðurs (25 km), Kleve í Þýskalandi til suðausturs (35 km) og Utrecht til vesturs (60 km). Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Arnhem er hvítur tvíhöfða örn á ljósbláum grunni. Örninn er tákn um þýska ríkið, en einnig merki um heiti borgarinnar (Arnarborgin). Ljónin sitthvoru megin eru tákn hertogadæmið Gelders, sem Arnhem tilheyrði áður fyrr. Kórónan efst vísar til konungsríkis Hollands. Fáninn er með sama tvíhöfða örn og sömu liti. Orðsifjar. Á tímum Rómverja hét borgin Arenacum, sem merkir "arnarstaður". Arenacum breyttist í Arentheem, svo í Arneym og loks í Arnhem. Þess má geta að "örn" á hollensku er enn "arend". Upphaf. Upphaf Arnhem má rekja til rómverskrar herstöðvar, en staðurinn var landamærastöð að Germaníu. Virkið í herstöðinni hét Castra Herculis ("Herkúlesarvirkið"), en staðinn kölluðu Rómverjar Arenacum ("Arnarstaðinn"). Áður fyrr var mikið um erni á svæðinu. Rómverjar hurfu af svæðinu og tóku frankar við búsetu þar. Eftir tíma Rómverja kom Arnhem fyrst við skjöl árið 893 í registur Prüm-klaustursins í Þýskalandi. Bærinn stóð þá nálægt ánni Ijssel, ekki við Rín eins og í dag. Á 13. öld voru greifarnir af Geldern eigendur bæjarins. 1233 veitti Ottó greifi Arnhem borgarréttindi, sem við það dafnaði vel. 1364 var mikill bruni í borginni, sem eyðilagði nær alla miðborgina. Það var þó ekki fyrr en á 15. öld sem Arnhem fékk borgarmúra og varnarturna. Íbúar voru þá orðnir um 4.000. 1433 gekk borgin í Hansasambandið. Borgin verslaði aðallega með bjór, en í Arnhem var mikið framleitt af þeirri vöru. Frelsisstríð. 1473 keypti Karl hinn djarfi frá Búrgúnd borgina og allt héraðið Geldern, þar sem hann hafði stutt Arnold greifa af Geldern í uppreisn þar. En aðeins fjórum árum seinna féll Karl í orrustu gegn Svisslendingum og urðu því Niðurlönd öll eign Habsborgar. Austurrískt setulið var sent til Arnhem, en borgin þurfti að sjá því fyrir húsaskjól og vistum. Síðasti erfingi Geldern, Karl frá Egmond, hóf hins vegar einkastríð gegn Habsborg. 1514 réðist hann á Arnhem og hrakti þaðan alla Austurríkismenn. Hann reyndi að frelsa aðrar borgir, en lést í Arnhem 1538. Á þessum árum, 1530-36 var árfarvegi nyrðri Rínararmsins (Nederrijn) breytt og færður örlítið norðar. Þar með sleikti fljótið syðri borgarmörk Arnhem. Þetta gerði það að verkum að útflutningur verslunarvara varð einfaldari og borgin efldist. 1543 erfði Karl V keisari Niðurlönd, sem eftirlét Filippus syni sínum þau. Filippus var einnig konungur Spánar og sendi hertogan af Alba til Niðurlanda, en hann stjórnaði þeim með harðri hendi. Norðurhéruð Niðurlanda gerðu því uppreisn. Arnhem var stofnfélagi í Utrecht-sambandinu 1579 gegn Spánverjum. Í frelsisstríðinu náðu Spánverjar aldrei að taka Arnhem. Þar var enskur her til aðstoðar í nokkur ár. Márits af Óraníu, arftaki ríkisstjórans Vilhjálms, sat í Arnhem 1619-23 og lét styrkja borgarmúrana verulega. En ekki var ráðist á Arnhem frekar í þessu stíði. Eftir að friður var saminn 1648, voru varnir borgarinnar vanræktar. Þegar þriðja verslunarstríð Hollendinga og Englendinga hófst 1672, réðust Frakkar á Arnhem og hertóku hana. Þeir yfirgáfu borgina aftur eftir tvö ár. Við tók friður og uppgangur í borginni. Frakkar og 19. öldin. Franskur byltingarher hertók Holland 1795 og stofnaði Batavíu-lýðveldið. 17. janúar birtust Frakkar við borgardyr Arnhem, sem ekki gat varið sig. Vilhjálmur V af Óraníu flúði til Englands. Frakkar stjórnuðu borginni næstu árin. Við endurskipulagningu landsins varð Arnhem höfuðborg sýslunnar (département) Yssel-Supérieur. Eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi sóttu bandamenn til vesturs. Prússar frelsuðu borgina um sumarið 1813, sem aftur varð hollensk. Lítill iðnaður var í Arnhem á tímum iðnbyltingarinnar. 1850 bjuggu þar aðeins 9.000 manns. En borgin var vinsæl sem dvalarstaður fyrir hefðarfólk frá vesturhéruðunum (t.d. frá Amsterdam og Haag). Því mynduðust þar margar villur og stórir almenningsgarðar. Enn í dag kalla margir Hollendingar borgina ‚Parkstad,‘ sem merkir "garðaborg". Einnig varð borgin vinsæl ráðstefnuborg, sem og viðkomustaður ferðamanna. Orrustan um Arnhem. Brúin í Arnheim eftir að Bretar hörfuðu þaðan. Til hægri má sjá ónýtar byggingar. Sama brúin í dag. Í forgrunni er minnisvarði um bardagann. Síðan 1603 hefur aðeins flotbrú verið yfir Rín við Arnhem. Þegar kom fram á 20. öld jókst þörfin fyrir nýrri og betri brú, sökum aukinna samgangna. Núverandi brúin yfir Rín var smíðuð 1932-35 og þótti mikil samgöngubót. En aðeins fimm árum eftir víglsuna réðust Þjóðverjar inn í Holland. Þá tóku hollenskir verkfræðingar það til bragðs að sprengja miðskipið á brúnni til að gera nasistum erfiðara fyrir að komast um landið. Engu að síður náðu Þjóðverjar að hertaka borgina nær átakalaust. Fyrir hernaðinn settu þeir niður flotbrú yfir Rín og létu gera við stálbrúna. Smíðinni lauk ekki fyrr en í ágúst 1944. Aðeins mánuð síðar réðust bandamenn inn í Holland í þeirri viðleitni að frelsa landið og sækja lengra austur til Þýskalands. Verkefni þetta kallaðist Market Garden. Fyrsta skrefið var ná yfirráðum yfir öllum brúm yfir Maas og Rínararmana. Þetta gekk eftir í nokkrum borgum. Fámennur breskur her (740 manns) undir stjórn John Frost var sendur til Arnhem til að taka brúna. En þar mættu þeir mikilli andspyrnu Þjóðverja. Í fjóra daga héldu Bretarnir út gegn ofureflinu og var hart barist nær allan tímann. Þjóðverjar rýmdu borgina og sendu Hollendinga burt, en þar bjuggu þá 95 þús manns. Engin önnur hollensk borg lenti í harðari skotbardaga og ollu þeir talsverðum skemmdum. Að lokum létu Bretar undan síga og var bjargað af bandamönnum nálægt bænum Oosterbeek. Brúin sjálf skemmdist lítið við þessi átök, en 7. október sama ár sprengdu bandamenn brúna til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu notað hana fyrir hergagnaflutninga. Eftir stríð var gert við brúna. Það voru síðan kanadískar hersveitir sem frelsuðu borgina úr höndum nasista á vormánuðum 1945. Eftir stríð. Skömmu eftir stríð hóf Arnhem að nota strætisvagna með rafkerfi (vírkerfi) fyrir ofan vagnana, eina borgin í Hollandi sem það gerir. Því nefna gárungar borgina oft Trolleystad, en Trolley kallast rafvagnarnir. Borgin dafnaði vel. Í dag eru uppi áætlanir um að reisa fleiri hverfi og er reiknað með að íbúafjöldinn fari yfir 160 þús á næstu árum. Viðburðir. Ekki er allt sem sýnist. Þessi stytta er lifandi manneskja. World Statues Festival er árleg keppni í lifandi myndastyttum í borginni. Keppninni var hleypt af stokkunum 1996 og voru keppendur þá eingöngu Hollendingar. En með árunum fóru erlendir keppendur að taka þátt, þannig að eftir 2004 er talað um óopinbera HM í lifandi myndastyttum. Keppendur skreyta sig og klæða í ýmis gervi og stilla sér út sem myndastyttur. Keppnin fer fram síðustu helgina í ágúst. Á laugardegi fá krakkar að spreyta sig, en á sunnudeginum er keppni fullorðinna. Um 350 þús manns sækja borgina heim til að fylgjast með. Á uppstigningardegi ár hvert er haldin Harley Davidson hátíð í Arnhem. Hún er skipulögð af Harley Davidson klúbbnum í Hollandi. Rio aan de Rijn ("Ríó við Rín") er heitið á sumarkarnevalinu í Arnhem. Hátíðin stendur yfir í miðborginni í þrjá daga og dregur hún að sér um 150 þús gesti. Á köldum dögum á veturna er íshátíðin Warme Winter Weken haldin í borginni. Á hátíðinni er keppt í íshöggvi (icecarving), sett er upp ísbraut, settar eru upp leiksýningar og tónleikar, og ýmislega fleira. Viðurkenningar. Á síðustu árum hefur Arnhem hlotið ýmsar viðurkenningar. John Frost-brúin. John Frost-brúin í dag ásamt minnisvarða John Frost-brúin er heitið á brúnni frægu yfir Rín í borginni Arnhem í Hollandi. Árið 1944 börðust Bretar og Þjóðverjar um yfirráðin á brúnni í stuttum en snörpum bardaga, áður en Bretar urðu að hörfa. Forsaga. Síðan 1603 hefur aðeins flotbrú verið yfir Rín við Arnhem. Þegar kom fram á 20. öld jókst þörfin fyrir nýrri og betri brú, sökum aukinna samgangna. Núverandi brú yfir Rín var smíðuð 1932-35 og þótti mikil samgöngubót. En aðeins fimm árum eftir víglsuna réðust Þjóðverjar inn í Holland og hernámu landið snemma í heimstyrjöldinni síðari. Við innrás þeirra tóku hollenskir verkfræðingar það til bragðs að sprengja miðskipið á brúnni til að gera nasistum erfiðara fyrir að komast um landið. Það kom þó ekki í veg fyrir að Þjóðverjar næðu borginni Arnhem á sitt vald. Þeir settu strax upp flotbrú yfir Rín ("Ponton-brú") fyrir her sinn og hergögn, ásamt því sem þeir létu gera við brúna. Smíðinni lauk ekki fyrr en í ágúst 1944. Operation Market Garden. Í júní 1944 réðust bandamenn inn í Normandí og frelsuðu Norður-Frakkland og Belgíu sem Þjóðverjar höfðu hernumið 1940. Um haustið réðust bandamenn inn í Holland með það að markmiði að frelsa landið og sækja lengra austur til Þýskalands. Verkefni þetta kallaðist Operation Market Garden. Fyrsta skrefið var ná yfirráðum yfir öllum brúm yfir Maas og Rínararmana (Neder-Rijn, Lek og Waal). Árnar voru svo miklar að ekki þótti ráðlegt að ráðast inn í landið án þess að stjórna brúnum. Áætlanir gerðu ráð fyrir að bandamenn, aðallega Bretar, flygju yfir árnar með fallhlífasveitir, sem stukku út hér og þar og tækju brýrnar. Þannig voru nokkrar mikilvægar brýr teknar, svo sem í Antwerpen, Nijmegen, Eindhoven og víðar. Orrustan um Arnhem. Loftmynd af Rínarbrúnni í Arnhem, tekin 19. september 1944. Uppi á myndinni má sjá ónýta þýska hervagna sem Bretar höfðu grandað. 17. september náði bresk fallhlífasveit að brúnni í Arnhem og tók nyrðri brúarsporðinn. Sveitin var fámenn, en hún samanstóð aðeins af 740 manns. Henni var stjórnað af John Frost höfuðsmanni ("lieutenant"). Þrátt fyrir að innrásin hafi komið Þjóðverjum á óvart, náðu þeir að halda syðri brúarsporðinum. Við tóku miklir landbardagar um brúna. Þjóðverjar höfðu áður komið fyrir sprengjum undir miðskipinu, ef ske skyldi að þeir yrðu að sprengja brúna í neyð. Bretum tókst þó að aftengja þær. Allan næsta dag var barist um brúna. Þjóðverjar fengu liðsstyrk frá eystri svæðum og voru brátt komnir með álitlegt herlið að brúnni. Í raun áttu Bretarnir við ofurefli að etja. Áætlunin var sú að senda fleiri fallhlífasveitir með vopn og vistum þennan dag, en sökum veðurs var það ekki hægt og ekki næstu daga heldur. Því voru Bretar í vondum málum, enda var ekki reiknað með svo mikilli andspyrnu hjá Þjóðverjum. Meðan vistir Bretanna þraut, fengu Þjóðverjar daglega nýjan liðsstyrk. Í sjö daga börðust aðilar og tók að fækka í liði Breta, þrátt fyrir að Þjóðverjar kæmust ekki yfir brúna. Bandamenn sömdu því nýja áætlun, kölluð Operation Berlin, sem fólst í því að bjarga Bretunum í Arnhem. Það var gert við erfiðar aðstæður 25. september er annar herflokkur, breskur og pólskur, kom landleiðina og á bátum. Þjóðverjar skutu látlaust meðan á björgunaraðgerðum stóð. 95 menn féllu í þessari aðgerð. Eftirmáli. John Frost höfuðsmaður var leiðtogi Breta á brúnni og ber hún nú nafn hans Sigurinn í Arnhem var síðasti stóri sigur Þjóðverja í stríðinu. Hann varð þess valdandi að innrás bandamanna í Holland og vesturhluta Þýskalands tafðist í nokkra mánuði. Brúin sjálf skemmdist lítið við þessi átök en 7. október 1944 sprengdu bandamenn brúna í loftárásum til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu notað hana fyrir hergagnaflutninga. Eftir stríð notuðu bandamenn flotbrú á ný. Hún reyndist hins vegar óheppileg vegna þess hve lág hún var. Þarmeð stöðvuðust skipaferðir um Rín. Næst var hærri flotbrú reist þar til upphaflega stálbrúin var tekin í notkun á ný 1948. Þann 17. desember 1977 var heiti brúarinnar formlega breytt í John Frost brú, eftir breska höfuðsmanninum sem var æðsti yfirmaður bresku herdeildarinnar í orrustunni á brúnni. 8. maí 1995 var tónlistarhátíðin World Liberty Concert haldin á brúnni í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá hinni frækilegu orrustu. Þetta voru stærstu útitónleikar sem haldnir hafa verið í Hollandi. Kvikmynd. Árið 1977 var gerð kvikmynd um orrustuna um Arnhem og hét hún "A Bridge Too Far". Leikstjóri myndarinnar var Richard Attenborough, en meðal leikara má nefna Sean Connery, Michael Caine, Ryan O'Neil, Gene Hackman, Anthony Hopkins, James Caan, Laurence Olivier, Robert Redford og Hardy Krüger. Upptökur fóru hins vegar ekki fram á John Frost brúnni í Arnhem, heldur á Ijsselbrúnni í borginni Deventer. Ástæðan fyrir því var sú að byggingarnar sitthvoru megin við brúna í Arnhem voru orðnar of nýtískulegar. Lítið ungt stöfunarbarn. Lítið ungt stöfunarbarn eða "Lijtið ungt Støfunar Barn, þó ei illa Stautandi, frá Hiardarhollti í Breidafiardar Daulum, audrum sijnum Jafningium sitt Støfunar Kver synandi, sem eptir fylgir", er íslenskt stafrófskver, hið fyrsta sem ekki var jafnframt kristindómskennslubók, heldur hafði þann megintilgang að auðvelda börnum lestrarnám. Höfundur þess var skáldið og fræðimaðurinn séra Gunnar Pálsson í Hjarðarholti og var kverið prentað í Hrappsey árið 1782. Séra Gunnar þótti góður kennari eins og margir ættmenn hans og var skólameistari í Hólaskóla 1742-1753. Hann mun einnig hafa kennt fjölda barna lestur og í bréfi sem hann skrifaði tuttugu árum áður en kverið kom út talar hann nýjar aðferðir við lestrarkennslu, sem hann sé að gera tilraunir með. Hann taldi eldri stafrófskver ekki duga nægilega vel en fyrsta íslenska stafrófskverið, "Eitt lítið stafrófskver fyrir börn og ungmenni", hafði komið út 1695 og einnig komu út stafrófskver 1745, 1773 og 1776, en þau voru öll jafnframt trúfræðikennslubækur. Uppbygging kversins er mjög ólík eldri stafrófskverum og mun nútímalegri. Þar eru stafirnir meðal annars flokkaðir eftir því hvar og hvernig hljóð þeirra myndast, sem var algjör nýjung, og áhersla er lögð á að æfa helstu stafasambönd kerfisbundið. Auk venjulegra lesæfinga eru í kverinu málshættir, gátur og nokkrar vísur, þar á meðal "Hani, krummi, hundur, svín". A, B, C, D, E, F, G H, I, K, L hygg ég sé, M, N, O, P og svo Q R, S, T, U, (V) sjáðu, X, Y, Z, Þ, Æ þú Árstíðir. "Árstíðir" er íslensk hljómsveit sem hóf að spila saman árið 2008. Tónlistarmenn eru Hallgrímur Jónas Jensson ("selló"), Karl Aldinsteinn Pestka ("fiðla"), Gunnar Már Jakobsson ("gítar"), Ragnar Ólafsson ("söngvari"), Daníel Auðunsson og Jón Elísson ("píanó"). Jón Steinsson Bergmann. Jón Steinsson Bergmann (1696 – 4. febrúar 1719) eða Jón Bergmann Steinsson var íslenskur stúdent, einn hinna fyrstu sem lögðu stund á læknisfræði og er oft kallaður læknir þótt hann lyki ekki prófi, skáldmæltur og sagður mikill gáfu- og hæfileikamaður, en varð mjög skammlífur. Hann tók sér nafnið Bergmann þegar hann var við nám í Kaupmannahöfn eftir Setbergi á Snæfellsnesi, þar sem hann ólst upp að mestu. Jón var fæddur í Hítarnesi á Mýrum, elsti sonur Steins Jónssonar prests þar og konu hans Valgerðar Jónsdóttur en fluttist fárra ára gamall að Setbergi, þegar faðir hans varð þar prestur. Líklega hefur Steinn kennt honum heima að mestu en árið 1712 fluttist fjölskyldan að Hólum í Hjaltadal, þar sem Steinn var þá orðinn biskup, og var Jón útskrifaður stúdent af Þorleifi Halldórssyni skólameistara vorið 1713. Um haustið varð Jón heyrari (kennari) við skólann, aðeins um 17 ára að aldri. Vorið 1714 eignaðist Jón dóttur með hálffertugri vinnukonu á biskupssetrinu. Var þá ákveðið að senda hann til Kaupmannahafnar til náms, enda mun hann sjálfur hafa haft mikinn hug á að læra læknisfræði. Hann fór út um sumarið en mun hafa verið tepptur í Noregi mestallan veturinn og var skráður í Kaupmannahafnarháskóla 23. maí 1715. Hann mun hafa stundað læknanámið af elju framan af en lauk þó ekki prófi, enda lenti hann í óreglu og safnaði skuldum. Hann hvarf því aftur heim til Íslands vorið 1718. Áður en Jón sigldi hafði hann að sögn beðið Guðrúnar Aradóttur, sem kölluð var sól og var sögð allra kvenna fríðust og best að sér í hannyrðum. Hún var dóttir Ara Jónssonar á Sökku í Svarfaðardal, sonar séra Jóns Arasonar í Vatnsfirði. Jón er sagður hafa fengið hryggbrot, enda átti Guðrún sér marga vonbiðla. Þegar hann kom aftur vildi hann enn giftast Guðrúnu og var hún þá til í það, enda gekk hún þá með barn annars manns, sem Jón er sagður hafa verið tilbúinn að gangast við, en biskupshjónin og þó einkum Valgerður munu hafa verið því algjörlega mótfallin og talið hneyksli. Barnið var því kennt öðrum manni en Guðrún giftist seinna manni sem kallaður er „lítilsháttar“ í heimildum. Af þessu öllu varð Jón mjög þunglyndur, eins og hann átti raunar kyn til, og fór svo að lokum að hann tók inn eitur og dó af því í kjallarabaðstofunni á Hólum 4. febrúar 1719. Jón var sagður mjög efnilegur læknir og gengu ýmsar sögur um lækningaafrek hans eftir lát hans, sumar allýkjukenndar. Meðal annars var sagt að hann hefði grætt bóg af hvítum sauð á svartan. Hann var vel skáldmæltur og hafa fáein kvæði og vísur eftir hann varðveist. Gunnar Pálsson taldi að hann hafi ort vísuna "Hani, krummi, hundur, svín", en hún hefur raunar einnig verið eignuð öðrum. Hann lét líka eftir sig gamansamar langlokur í Skraparotspredikunarstíl, Æfisögu Polycarpusar og (líklega) sögu af Memnbranaceo hertoga. Málverk sem talið er vera af Jóni er í Þjóðminjasafni Íslands. Sonarsonur Sigríðar, laundóttur Jóns, var Jón Árnason þjóðsagnasafnari. Norður-Brabant. Norður-Brabant er nærstærsta fylki Hollands með 4.938 km2. Höfuðborgin er Hertogenbosch. Lega og lýsing. Norður-Brabant liggur í suðurhluta Hollands og nokkurn vegin miðsvæðis þar. Allur suðurhluti fylkisins nemur við belgísku landamærin, nánar tiltekið við fylkið Antwerpen. Áður fyrr voru þau eitt fylki, en það klofnaði í tvennt þegar Holland varð að sjálfstæðu ríki 1648. Önnur hollensk héruð sem að Norður-Brabant liggja eru Sjáland ("Zeeland") fyrir vestan, Suður-Holland fyrir norðvestan, Gelderland fyrir norðan og Limburg fyrir austan. Íbúafjöldinn er 2,4 milljónir og er Norður-Brabant því þriðja fjölmennasta fylkið í Hollandi Fáni og skjaldarmerki. Fáni Norður-Brabants samanstendur af 24 rauðum og hvítum skákborðsreitum (4x6). Litirnir eiga uppruna sinn á miðöldum og koma frá greifadæminu Leuven. Þar með er fáninn elsti fylkisfáni Niðurlanda. Hann var þó ekki formlega tekinn upp í fylkinu fyrr en 1959. Skjaldarmerkið sýnir gyllt ljón sem snýr til vinstri á svörtum grunni. Til sitthvorrar hliðar eru önnur tvö gyllt ljón. Efst er kóróna. Merkið á uppruna sinn frá Godfried hinum skeggjaða, greifa af Leuven, en Leuven merkir "ljón". Ljónið var komið í notkun 1106 en hefur breyst nokkuð í gegnum tíðina. Fram að 1815 var skjaldarmerki þetta notað fyrir allt fylkið Brabant. Það klofnaði hins vegar í þrennt (Norður-Brabant, Antwerpen og Suður-Brabant) og breyttist merki þetta örlítið í öllum þessum héruðum. Í Norður-Brabant var hliðarljónunum bætt við 1920 Orðsifjar. Brabant er dregið af orðunum bra, sem upphaflega merkir "auður" (sbr. "brach" á þýsku) og bant, sem merkir "fylki" (eins og band eða samband). Söguágrip. Brabant var lengi vel greifadæmi í þýska ríkinu og var þá miklu stærra en það er nú. Stærsti hluti þess var þá innan núverandi landamæri Belgíu og náði nær alveg suður til frönsku landamæranna. Árið 1430 varð Brabant eign Búrgúnd og 1477 Habsborgar. Brabant var höfuðsvæði spænsku Niðurlanda en borgin Brussel var í miðju fylkinu. Hins vegar gekk Brabant til liðs við sameinuðu héröð Niðurlanda í sjálfstæðisstríðinu gegn Spánverjum. Í kjölfarið voru margar orrustur háðar í fylkinu. Þegar friðarsamningarnir voru gerðir um endalok sjálfstæðisstríðs Hollands 1648 var Brabant skipt í tvennt. Norðurhlutinn (mótmælendur) varð hluti af sjálfstæðu Hollandi, en suðurhlutinn (kaþólskur) var áfram í spænskri Belgíu. Frakkar hertóku Brabant í lok 18. aldar en 1797 var Brabant að öllu leyti innlimað Frakklandi. Eftir burtför Frakka 1813 voru Niðurlönd sameinuð, en Brabant var skipt í þrjú héruð: Norður-Brabant, Antwerpen og Suður-Brabant. 1830 lýsti Belgía yfir sjálfstæði og urðu urðu Antwerpen og Suður Brabant (með Brussel) belgísk, meðan Norður-Brabant varð hollenskt fylki þrátt fyrir að 90% íbúanna voru kaþólskir. Í dag eru aðeins rétt rúmlega helmingur íbúa Norður-Brabant kaþólskur. Skraparotspredikun. Skraparotspredikun var einn þáttur Herranætur í Skálholtsskóla til forna, ræða sem er skopstæling á stólræðum presta. Hún er til í mörgum afskriftum og hefur verið vinsæl. Um aldur hennar er ekki vitað en elstu handrit sem varðveist hafa eru talin frá miðri 18. öld. Skopfærðar stólræður af svipuðu tagi "(sermons joyeux)" eru vel þekkktar frá öðrum löndum á miðöldum og er hugsanlegt að einhver hefð hafi lifað eftir frá kaþólskum sið. Ekkert er vitað um hver Skraparot á að hafa verið eða uppruna nafnsins en hann réði fyrir tóbaki og kertum, sem hvorttveggja var skólapiltum mjög nauðsynlegt. Þess hefur verið getið til að Skraparot hafi verið einhvers konar leikbrúða sem skólapiltar hafi borið í skrúðgöngu og síðan hafi „biskupinn“, það er að segja einn skólasveina, haldið predikunina. Textinn sem lagt er út af í predikuninni er: „Hver sem misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann mun ei sjá mína dýrð á páskunum, en hver sem ei misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann skal sjá mína dýrð á páskunum.“ Dæturnar voru tóbaksstubbur og kertisskar. Halldór Laxness notar bút úr Skraparotspredikun í "Íslandsklukkunni". Skraparotspredikun lagðist af þegar skólinn flutti til Reykjavíkur en þess í stað voru fluttir leikþættir eða leikrit á Herranótt í Hólavallarskóla. Sigurður Vigfússon Íslandströll. Sigurður Vigfússon (16. október 1691 – 20. nóvember 1752), kallaður Íslandströll, var skólameistari í Hólaskóla og síðar sýslumaður í Dalasýslu. Hann var stórvaxinn og sterkur og eru til margar þjóðsögur um aflraunir hans. Sigurður var fæddur í Bjarnarhafnarsókn á Snæfellsnesi, sonur Vigfúsar Árnasonar sýslumanns í Hnappadalssýslu og konu hans Helgu Sigurðardóttur. Hann fór til Kaupmannahafnar að loknu stúdentsprófi og var þar fjóra vetur viðnám en þótti þó hvorki sérlega skarpur né vel lærður. Hann varð þó skólameistari í Hólaskóla árið 1724 og gegndi því starfi lengur en flestir aðrir þótt hann skorti hæfileika til þess. Hann var hins vegar vinsæll og vel liðinn, seinþreyttur til vandræða og gerðu skólapiltar sér því dælt við hann og agi var enginn. Þegar Ludvig Harboe kom til Íslands í eftirlitsferð sína þótti honum ekki gott ástand í Hólaskóla og skólameistarinn með öllu óhæfur vegna vanþekkingar og skilningsleysis á skólamálum. Harboe fékk Sigurð því með lagni til að segja af sér og var séra Gunnar Pálsson fenginn til að stýra skólanum í staðinn. Sigurður fékk þá embætti sýslumanns í Dalasýslu og gegndi því til dauðadags, Hann bjó í Þykkvaskógi í Miðdölum. Kona Sigurðar var Karítas Guðmundsdóttir og var hún dóttir séra Guðmundar Jónssonar á Helgafelli, bróður Valgerðar konu Steins Jónssonar biskups. Sigurður var stórvaxinn og kraftalegur, rammur að afli og var því kallaður Sigurður sterki eða Sigurður Íslandströll. Hann var af sumum talinn sterkastur Íslendinga um sína daga og var sagður hafa snúið niður naut og barist við útilegumenn og jafnvel tröll. Má víða finna sagnir um aflraunir Sigurðar Íslandströlls. Snorri Jónsson (prestur á Helgafelli). Snorri Jónsson (janúar 1683 – 29. janúar 1756) var skólameistari í Hólaskóla og síðan prestur á Helgafelli á Snæfellsnesi og prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi. Snorri var sonur Jóns Magnússonar, prests í Hjarðarholti og síðar sýslumanns í Dalasýslu, og var hann því bróðursonur Árna Magnússonar prófessors. Hann var launsonur Jóns og var móðir hans vinnukona, Katrín Snorradóttir. Hann ólst upp með föður sínum en fór í Skálholtsskóla 19 ára að aldri og lauk þaðan prófi 1708. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en kom svo heim og varð konrektor á Hólum 1711. Skólameistari Hólaskóla varð hann haustið 1713 eftir lát Þorleifs Halldórssonar og gegndi því starfi til 1720. Það ár var hann vígður prestur að Helgafelli og gegndi því embætti allt til 1753. Hann var prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi frá 1720-1738. Hann þótti vel lærður, var latínuskáld og stundaði lækningar. Kona Snorra var Kristín Þorláksdóttir (1683-1752), dóttir Þorláks Ólafssonar prests á Miklabæ í Blönduhlíð. Þau áttu fjölda barna, þar á meðal Jón Snorrason sýslumann í Hegranesþingi, Gísla Snorrason prófast í Odda og Gunnlaug Snorrason prest og skáld á Helgafelli. Hallgrímur Jónsson Thorlacius. Hallgrímur Jónsson Thorlacius (1680 – október 1736) var skólameistari í Hólaskóla og síðan sýslumaður í Suður-Múlasýslu og bjó í Berunesi. Foreldrar Hallgríms voru Jón Þorláksson, sýslumaður í Múlasýslum, sonur Þorláks Skúlasonar biskups, og kona hans Sesselja Hallgrímsdóttir. Hallgrímur stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en kom heim 1708 og varð þá skólameistari á Hólum. Því starfi gegndi hann til 1711, en þá fór hann austur á land og lét faðir hans honum eftir Suður-Múlasýslu. Þar var hann sýslumaður til dauðadags. Kona Hallgríms var Gróa Árnadóttir (d. 1737), dóttir Árna Árnasonar prests í Heydölum, og áttu þau nokkur börn. Guðmundur Bergmann Steinsson. Guðmundur Bergmann Steinsson (1698 – 9. maí 1723) eða Guðmundur Steinsson Bergmann var skólameistari í Hólaskóla, sonur Steins Jónssonar biskups á Hólum og konu hans Valgerðar Jónsdóttur. Hann tók sér nafnið Bergmann eins og bræður hans og kenndu þeir sig við Setberg í Eyrarsveit, þar sem þeir ólust upp. Guðmundur varð stúdent úr Hólaskóla og sigldi síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kom heim árið 1720 og varð þá skólameistari á Hólum. Hann var vel lærður en drykkfelldur eins og Jón bróðir hans. Hann giftist Margréti Einarsdóttur, ekkju Benedikts Magnússonar Bech, sýslumanns á Sjávarborg, og var hún um 16 árum eldri en hann. Þau bjuggu á Sjávarborg en Guðmundur gegndi þó áfram skólameistarastarfinu. Í maí 1723 átti Guðmundur erindi út í Sævarlandsvík að sækja bát og fóru þrír menn með honum, þar á meðal Sigfús bróðir hans, um átján ára og að því kominn að útskrifast úr Hólaskóla. Þeir komu við á Fagranesi á Reykjaströnd og voru þar við messu en sagt var að Guðmundi hefði legið svo á að komast heim í Sjávarborg að hann hefði rekið á eftir prestinum að flýta messunni. Presturinn, Þorkell Þorsteinsson, ákvað að fá far með þeim því hann átti erindi í Sjávarborgarsókn. Logn var og gott veður en þó hvolfdi bátnum og allir sem á honum voru drukknuðu. Hafði þá Steinn biskup misst alla syni sína voveiflega því sá elsti, Jón Bergmann, fyrirfór sér fáeinum árum áður. Erlendur Magnússon. Erlendur Magnússon (1695 – 24. desember 1724) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan einn vetur í Hólaskóla en vígðist þá prestur í Odda á Rangárvöllum. Erlendur var sonur Magnúsar Jónssonar og Jóreiðar Jónsdóttur á Vatnabúðum í Eyrarsveit. Hann var kominn af bændafólki en var góðum gáfum gæddur og komst til mennta, varð stúdent og stundaði síðan nám við Kaupmannahafnarháskóla einn vetur. Hann kom svo heim og varð skólameistari í Skálholti, þar sem hann var í fimm vetur og þótti góður kennari. Hann var svo skólameistari í Hólaskóla einn vetur, 1723-1724, eftir að Guðmundur Bergmann Steinsson, sonur Steins biskups, drukknaði. Um haustið 1724 fékk hann Odda á Rangárvöllum en var þar ekki prestur nema í fáeinar vikur því hann dó á aðfangadag sama ár. Hann var ókvæntur og barnlaus. Jón Gissurarson. Jón Gissurarson (d. 2. júní 1660) var skólameistari í Skálholti og á Hólum og síðar prestur í Múla í Aðaldal og prófastur í Þingeyjaprófastsdæmi. Hann var sonur Gissurar Gamalíelssonar (Gamlasonar) prests á Staðarbakka í Miðfirði og kou hans Emerentíönu Jónsdóttur. Jón var við nám erlendis eftir stúdentspróf, stundaði vísindi við Kaupmannahafnarháskóla og nam lögfræði í Hamborg. Eftir að hann kom heim varð hann fyrst heyrari (kennari) í Hólaskóla en síðan skólameistari í Skálholti 1622-1630. Þá skipti hann á embættum við Vigfús Gíslason, skólameistara á Hólum, og var þar í tvo vetur. Árið 1633 var Jón vígður prestur í Múla í Aðaldal og gegndi því embætti til dauðadags. Frá 1636 var hann jafnframt prófastur í Þingeyjaprófastsdæmi. Kona séra Jóns var Margrét Ólafsdóttir, dóttir séra Ólafs Einarssonar í Kirkjubæ, hálfbróður Odds Einarssonar biskups. Synir þeirra voru Gísli prestur á Helgstöðum og Jón stúdent. Jón átti líka launson sem Grímur hét og varð prestur en missti hempuna. Pappírstætari. Pappírstætari er skrifstofutæki sem sker eða tætir pappírskjöl til að gera þau ólæsileg. Margaret Clunies Ross. Margaret Clunies Ross (fædd 1942) er McCaughey-prófessor í ensku og fornenskum bókmenntum við Háskólann í Sydney, Ástralíu. Hún veitir forstöðu "Centre for Medieval Studies" við sama skóla. Æviágrip. Margaret Clunies Ross hefur einkum fengist við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum, og sögu þeirra fræða. Frá 1997 hefur hún verið einn af ritstjórum hinnar nýju heildarútgáfu íslenskra og norskra dróttkvæða, Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages. Hún hefur einnig ritað greinar um menningu frumbyggja Ástralíu, gefið út kvæði þeirra og unnið með mannfræðingum og þjóðfræðingum við að rannsaka hvernig þau voru flutt. Þá hefur hún fegnist við fornensk fræði og lagt fram efni í "Oxford Dictionary of National Biography". Clunies Ross varð heiðursdoktor við Háskólann í Gautaborg og er félagi í Kungliga Gustav Adolfs Akademien för svensk folkkultur í Uppsölum. Tenglar. Ross, Margaret Clunies Ross, Margaret Clunies Sigurður Jónsson (skólameistari). Sigurður Jónsson halti (d. eftir 1598) var skólameistari í Skálholti og á Hólum á seinni hluta 16. aldar. Ætt hans er ekki þekkt nema hvað hann er talinn hafa verið norðlenskur og bjó seinast á Hóli í Köldukinn. Sigurður var bæklaður á fæti og því haltur alla æfi og er kallaður Sigurður halti í heimildum. Hann var vel menntaður og hafði lært erlendis, bæði í Kaupmannahöfn og Rostock, og er sagður hafa verið fyrstur Íslendinga til að læra hebreska tungu. Guðbrandur Þorláksson fékk hann til að stýra Hólaskóla á fyrstu biskupsárum sínum, 1573-1576, og mun hann hafa þótt kröfuharður og strangur en jafnframt vel lærður og fróður. Sigurður varð svo skólameistari í Skálholtsskóla og var þar 1579-1583 en þá var hann orðinn sjúkur af holdsveiki og varð að láta af störfum. Hann flutti sig þá að Hóli í Köldukinn, sem var eignarjörð hans, og bjó þar og var enn á lífi 27. desember 1598 því þá seldi hann Hól ásamt Garðshorni. Kona Sigurðar var Katrín Nikulásdóttir, dóttir Nikulásar Þorsteinssonar sýslumanns og klausturhaldara á Munkaþverá. Seinni maður hennar var Kolbeinn klakkur Jónsson bóndi á Einarslóni, launsonur Jóns Magnússonar ríka á Svalbarði. Bjarni Gamalíelsson. Bjarni Gamalíelsson (d. 1635) eða Bjarni Gamlason, því nafn föður hans er oft stytt í heimildum, var skólameistari í Hólaskóla og síðan prestur á Grenjaðarstað í um hálfa öld. Faðir Bjarna var séra Gamalíel Hallgrímsson á Stað í Hrútafirði, föðurbróðir Guðbrands Þorlákssonar biskups. Ekki er vitað um menntun Bjarna eða hvort hann hafði verið erlendis við nám. Hann varð skólameistari hjá frænda sínum á Hólum árið 1576 og gegndi því embætti í tíu ár. Jafnframt var hann heimilisprestur Guðbrands biskups. Árið 1586 varð hann prestur að Grenjaðarstað í Aðaldal og var það til æviloka, eða í 49 ár, og hefur orðið háaldraður. Hann var sagður merkisklerkur. Kona Bjarna var Þuríður Guðmundsdóttir frá Djúpadal í Blönduhlíð. Þau eignuðust að sögn 16 eða 17 börn og urðu afar kynsæl. Ein dóttir þeirra var Sigríður, seinni kona Arngríms lærða Jónssonar og amma Páls Vídalín. Ólafur Jónsson (prestur á Miklabæ). Ólafur Jónsson (1570 – 3. apríl 1658) var skólameistari í Hólaskóla tvisvar, kirkjuprestur á Hólum og síðan prestur á Melstað í Miðfirði og prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi og síðast prestur á Miklabæ í Blönduhlíð og prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi. Ólafur var fæddur í Grímstungu í Vatnsdal, sonur séra Jóns Bjarnarsonar siðamanns, prests þar, og konu hans Filippíu Sigurðardóttur. Hann lærði við Kaupmannahafnarháskóla og varð svo skólameistari á Hólum einn vetur, 1594-1595. Hann var vígður dómkirkjuprestur á Hólum árið 1600 og frá 1604 var hann jafnframt skólameistari í Hólaskóla og gegndi báðum störfunum þar til hann tók við prestsembættinu á Melstað af Arngrími Jónssyni lærða 1611. Þar var hann fram til um 1630, þegar hann varð prestur á Miklabæ í Blönduhlíð, þar sem hann var til dauðadags 1658 og hafði þá verið prestur 58 ár þótt hann tæki ekki vígslu fyrr en þrítugur. Kona Ólafs var Guðrún Þórðardóttir frá Marðarnúpi, bróðurdóttir Guðbrands biskups. Steinar Þór Guðgeirsson. Steinar Þór Guðgeirsson (19. ágúst 1971) er íslenskur lögfræðingur, knattspyrnumaður, knattspyrnuþjálfari og fyrrverandi formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Steinar lauk prófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1997. Hann hóf þegar störf við lögmennsku og varð hæstaréttarlögmaður árið 2004. Hann hefur verið meðeigandi í Lögfræðistofu Reykjavíkur frá 2001. Steinar var skipaður í skilanefnd Kaupþings banka og tók við formennsku í henni síðla árs 2008. Knattspyrnuferill. Steinar lék knattspyrnu með yngri flokkum Knattspyrnufélagsins Fram. Fyrstu leikir hans í meistaraflokki voru sumarið 1989 og kom hann við sögu í sigri Framara í úrslitum bikarkeppni KSÍ sama ár. Árið eftir varð hann Íslandsmeistari með Framliðinu. Árið 1992 til 1993 lék Steinar með belgíska liðinu KFC Heultje. Að því loknu sneri hann aftur til Fram og lék þar uns hann lagði skóna á hilluna haustið 2000, ef undan er skilið sumarið 1998 þegar hann var í herbúðum Íslandsmeistaraliðs ÍBV. Steinar Guðgeirsson lék fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands og einn A-landsleik, í 5:1 sigri á Tyrkjum sumarið 1991. Sumarið 2003 var Steinar ráðinn þjálfari meistaraflokksliðs Fram, sem sat á botninum eftir fjórar umferðir. Undir hans stjórn bjargaði liðið sér frá falli í lokaumferð mótsins. Eru þetta einu afskipti hans af þjálfun meistaraflokks. Árið 2007 var Steinar kjörinn formaður Knattspyrnufélagsins Fram og gegndi stöðunni að nafninu til til ársins 2010, en hafði þó í raun dregið sig í hlé á miðju ári 2009 vegna anna. Stella Sigurðardóttir. Stella Sigurðardóttir (f. 30. mars 1990) er íslensk handknattleikskona sem leikur með Fram. Stella lék með Fram alla yngri flokka og varð snemma einn af lykilmönnum meistaraflokks. Hún var í bikarmeistaraliði Fram árin 2010 og 2011, auk þess að verða Íslandsmeistari með Framliðinu leiktíðina 2012-13. Hún var í íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins árið 2010, en gat ekki leikið þegar til kom vegna meiðsla. Hún var einnig í leikmannahópi Íslands á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2011. Stella var valin Íþróttamaður Fram árið 2009, þegar sá titill var veittur í annað sinn. Hún hlaut titilinn að nýju árið fyrir árið 2012. Guðmundur Einarsson (prestur á Staðarstað). Guðmundur Einarsson (um 1568 – 1647) var skólameistari í Hólaskóla og síðan prestur á Staðarstað í rúmlega 40 ár og prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi frá 1624. Guðmundur var sonur Einars Hallgrímssonar prests á Útskálum, föðurbróður Guðbrands Þorlákssonar biskups, og konu hans Þóru Eyvindardóttur. Guðmundur stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla í tvo vetur en hélt þá heim til Íslands og varð skólameistari Hólaskóla 1595. Árið 1603 fór hann til Kaupmannahafnar að nýju en Páll, sonur Guðbrands biskups, tók við skólameistarastarfinu. Gumundur kom svo aftur og varð prestur á Staðarstað á Snæfellsnesi árið 1605 og sat þar til dauðadags. Hann var prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi frá 1624. Kona Guðmundar var Elín Sigurðardóttir, dóttir Sigurðar Jónssonar sýslumanns og klausturhaldara á Reynistað. Þau áttu fjórar dætur sem upp komust. Vigfús Árnason (prestur á Hofi). Vigfús Árnason (1600 – 1673) var dómkirkjuprestur í Skálholti, síðan skólameistari við Hólaskóla og síðast prestur á Hofi í Vopnafirði og prófastur í Múlaprófastsdæmi. Vigfús var sonur Árna Magnússonar sýslumanns á Eiðum og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Hann var dómkirkjuprstur í Skálholti 1630-1632 en varð þá skólameistari á Hólum og var þar í sex vetur. Árið 1638 varð hann prestur á Hofi í Vopnafirði og var þar til dauðadags, eða í 35 ár. Hann var prófastur í Múlaprófastsdæmi frá 1652-1671. Kona Vigfúsar var Valgerður Skúladóttir, systir Þorláks Skúlasonar biskups og dótturdóttir Guðbrands Þorlákssonar. Þau áttu fjölda barna. Erasmus Villadtsson. Erasmus Villadtsson (um 1520 – 1591), einnig nefndur "Willardsson" og "Vilhjálmsson", var jóskur maður af þýskum ættum sem settist að á Íslandi, var fyrst skólameistari í Skálholti og síðan prestur, seinast á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Faðir Erasmusar er sagður hafa heitið Villadt Símonsson og verið fæddur í Þýskalandi en móðir hans Elsa Jensdóttir. Hálfbróðir hans, Kristján Villadtsson, settist einnig að á Íslandi. Erasmus mun hafa komið til Íslands 1561 og orðið skólameistari í Skálholti. Því embætti gegndi hann til 1564 en varð þá prestur í Görðum á Álftanesi. Ári síðar giftist hann fyrri konu sinni, Helgu dóttur Gísla Jónssonar biskups, og varð prestur í Odda. Árið 1576 fékk hann svo Breiðabólstað í Fljótshlíð og var þar prestur til dauðadags. Hann var í röð helstu klerka, var officialis og gegndi biskupsstörfum frá því að Gísli Jónsson lést þar til Oddur Einarsson tók við. Seinni kona hans var Þórunn Þórólfsdóttir. Hann átti fjölda barna með konum sínum og er frá honum mikil ætt. Erasmus var góður söngmaður og hefur því oft verið haldið fram að hann hafi fyrstur manna flutt tvísöng til Íslands en það stenst ekki því til er handrit með íslenskum tvísöng frá 1473, auk þess sem talað er um tvísöng í Lárentíusar sögu Kálfssonar. Kristján Villadtsson. Kristján Villadtsson (d. 1600) eða "Willardsson" var jóskur maður af þýskum ættum sem settist að á Íslandi, var skólameistari í Skálholti og síðan prestur á Helgafelli og í Bjarnarhöfn. Kristján var hálfbróðir séra Erasmusar Villadtssonar og er faðir þeirra sagður hafa heitir Villadt Símonsson og verið þýskur. Hann tók við skólameistarastarfi í Skálholti af Guðbrandi Þorlákssyni 1567 og var skólameistari til 1571 en tók þá prestvígslu og gerðist prestur á Helgafelli á Snæfellsnesi. Hann er sagður hafa verið mjög lærður, góður læknir og skrifaði lækningabók. Sjálfur var hann hins vegar ekki heilsuhraustur og hætti því prestsskap á Helgafelli 1592, flutti að Bjarnarhöfn og þjónaði kirkjunni þar. Kristján er sagður hafa verið tvígiftur en ekki er vitað hverjar konur hans voru og börn hans eru sögð hafa verið „fátækt atkvæðalaust fólk“. Stefán Gunnarsson (Skálholtsráðsmaður). Stefán Gunnarsson (um 1550 – eftir 1624) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan ráðsmaður Skálholtsstaðar í um 40 ár. Stefán var launsonur Gunnars Gíslasonar, klausturhaldara á Víðivöllum í Blönduhlíð og Hólaráðsmanns, og hálfbróðir Sólveigar kvennablóma, konu Arngríms Jónssonar lærða. Hann var skólameisatri í Skálholti 1575-1579 en varð síðan Skálholtsráðsmaður og gegndi því starfi allt til 1619. Hann tók við ráðsmannsstöðunni af Gísla Sveinssyni og giftist ekkju hans, Guðrúnu, dóttur Gísla Jónssonar biskups. Þau áttu tvö börn en einnig átti Stefán soninn Jón, sem var prestur á Mosfelli. Gísli Guðbrandsson. Gísli Guðbrandsson (1565 – 14. apríl 1620) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur í Hvammi í Hvammssveit. Hann var sagður góður málari. Gísli var sonur Guðbrands Bjarnasonar, bónda á Fellsenda, og konu hans Guðrúnar, sem var meingetin, dóttir Gísla Eyjólfssonar frá Haga á Barðaströnd og Kristínar systur hans. Gísli eignaðist börn með tveimur systrum sínum, Kristínu og Þórdísi og flúðu þau öll í Skálholt á náðir Ögmundar Pálssonar biskups. Gísli Eyjólfsson komst úr landi og hlaut því enga refsingu og systur hans ekki heldur. Kristín giftist svo Gísla Jónssyni biskupi. Gísli Guðbrandsson ólst upp í Skálholti og stundaði nám erlendis. Hann var skólameistari í tvö ár, 1583-1585, hjá Gísla stjúpafa sínum, en vígðist síðan prestur og fékk Hvamm í Dölum. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Ráðhildur Guðmundsdóttir en hin seinni Ragnhildur Egilsdóttir frá Geitaskarði og var hann seinni maður hennar. Þórður Þorkelsson Vídalín. Þórður Þorkelsson Vídalín (1661 – 14. janúar 1742) var skólameistari í Skálholti og síðan bóndi og umboðsmaður í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu og lagði stund á lækningar. Hann stundaði einnig vísindarannsóknir, var fyrsti Íslendingurinn sem gaf sig að jöklarannsóknum og skrifaði fræðirit um jökla. Þórðarhyrna (1659 m) í Vatnajökli er nefnd eftir honum. Þórður var sonur Þorkels Arngrímssonar prests í Görðum á Álftanesi, sonar Arngríms lærða, og konu hans Margrétar Þorsteinsdóttur. Bræður hans voru Jón Vídalín Skálholtsbiskup og Arngrímur Vídalín, skólameistari í Nakskov í Danmörku. Þórður þótti geysilega góður námsmaður. Hann var í þrjú ár í Skálholtsskóla og varð stúdent sextán ára gamall. Næstu tvö árin lærði hann áfram hérlendis hjá föður sínum og hjá Oddi Eyjólfssyni presti í Holti og áður skólameistara. Hann fór svo til Kaupmannahafnar og lauk guðfræðiprófi frá háskólanum með góðum orðstír en stundaði einnig nám í læknisfræði. Þorkell faðir hans hafði á sínum tíma orðið fyrstur Íslendinga til að nema læknisfræði við háskóla. Fyrst eftir heimkomuna var Þórður í tvö ár á Bessastöðum sem aðstoðarmaður Heidemanns fógeta en 1686 var hann fenginn til að kenna við Skálholtsskóla og varð svo skólameistari 1688. Hann gegndi starfinu í tvö ár en sagði þá af sér, flutti austur í Lón og bjó þar embættislaus til æviloka en hafði umboð konungsjarða. Hann stundaði lækningar og ýmsar vísindarannsóknir, skrifaði lækningabók og einnig eitt elsta vísindarit sem til er í heiminum um jökla. Ritið var á latínu, skrifað 1695, kom út á þýsku 1754 en ekki þýtt á íslensku fyrr en 1965. Þórður byggði ritið einkum á rannsóknum sínum á Lambatungnajökli í Lóni. Hann var talinn einn lærðasti og gáfaðasti maður landsins en meðal almennings hafði hann á sér galdraorð og eru til ýmsar þjóðsögur um fjökynngi hans. Þórður var drykkfelldur og talinn ógæfumaður. Hann giftist ekki en átti nokkur lausaleiksbörn og ein barnsmóðir hans, Helga Magnúsdóttir vinnukona í Lóni, fargaði barni því sem hún ól honum. Fyrir það var henni drekkt 19. júlí 1709. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1956. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1956 var fyrsta söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hún var haldin 24. maí í Lugano, Sviss. Reglur. Eingöngu einleikarar máttu taka þátt í keppninni. Hópar voru bannaðir - sú regla varð ekki afnumin fyrr en 1970. Hvert land þurfti að halda úrslitarkeppni til að velja sigurlagið. EBU mælti sterklega með því að löndin héldu forkeppni. EBU hafnaði lögum Austuríkis, Danmerkur og Bretlands því þau höfðu skráð lögin eftir lokafrest keppninnar. Hvert land sendi inn tvö lög til þáttöku. Þáttakendur. 1956 Grýlurnar. Grýlurnar voru íslensk hljómsveit sem starfrækt var á níunda áratugnum. Grýlurnar eru stundum taldar fyrsta íslenska kvennahljómsveitin en tónlist hennar einkenndist af pönki og framsæknu rokki. Ragnhildur Gísladóttir hætti í Brimkló snemma árs 1981 og tilkynnti að hún hyggðist stofna sína eigin kvennahljómsveit. Þann 1. apríl var sveitin svo formlega stofnuð af Ragnhildi, sem söng og lék á hljómborð ásamt Herdísi Hallvarðsdóttur, sem á þeim tíma var nemi á fagott og óbó, Ingu Rúni Pálmarsdóttur, sem spilaði á gítar og Lindu Björk Hreiðarsdóttur sem spilaði á trommur. Árið 1982 voru Grýlurnar fengnar til þess að leika í kvikmynd Stuðmanna, Með allt á hreinu, undir nafninu Gærurnar. Myndin vakti mikla lukku og komu Grýlurnar m.a. fram á samnefndri plötu með lögum úr myndinni. Í kjölfar myndarinnar beið sveitarinnar þónokkur frægð og gáfu þær út sína fyrstu og einu breiðskífu, Mávastellið árið 1983. Á stuttri starfsævi sveitarinnar afrekaði hún að fara í tónleikaferðalag til Skandinavíu og Bandaríkjanna þótt ekki væru allir sveitarmeðlimir sammála um að sækja ætti á erlend mið. Þegar Herdís og Linda Björk drógu sig í hlé frá hljómsveitinni vegna heilsufarsástæðna árið 1983 byrjaði að flosna uppúr samstarfinu. Þrátt fyrir miklar tilraunir meðlima var öllum orðið ljóst í árslok 1984 að dagar Grýlanna voru taldir. Cameron Diaz. Cameron Diaz (fædd 30. ágúst 1972) er bandarísk leikkona og fyrrverandi fyrirsæta. Hún öðlaðist fyrst frægð sextán ára gömul seint á níunda áratug 20. aldar sem fyrirsæta eftir að hafa setið fyrir í auglýsingum margra þekktra fyrirtækja og prýtt forsíður tímarita. Diaz skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún hlaut eitt aðalhlutverka kvikmyndarinnar "The Mask" árið 1994 sem varð ein vinsælasta mynd ársins og hlaut hún einnig mikið lof fyrir framkomu í vinsælum myndum á borð við "My Best Friend's Wedding" og "She's the One". Við upphaf 21. aldar varð Diaz að einu helsta kyntákni tíma síns eftir leik sinn í stórsmellunum "Það er eitthvað við Mary", "Charlie's Angels", og "Shrek". Hún varð einnig tekjuhæsta leikkonan í Hollywood um árabil. Diaz hefur hlotið fjórar tilnefningar til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn í myndunum "Það er eitthvað við Mary", "Being John Malkovich", "Vanilla Sky" og "Gangs of New York". Æska. Cameron Michelle Diaz fæddist þann 30. ágúst 1972 í borginni San Diego í Kaliforníu. Hún var annað barn foreldra sinna en hún á eina eldri systur. Fyrir fæðingu hennar ákváðu foreldrar hennar að ef þau eignuðust stelpu ætti hún að heita Cameron en ef þau eignuðust strák ætti hann að heita annað hvort Menachem El Genio eða Sebastian Emilio. Faðir hennar var mælingamaður hjá olíufyrirtækjum í meira en tuttugu ár áður en hann fór á eftirlaun árið 1998. Föðurforeldrar hennar voru Kúbverjar sem fluttust til Bandaríkjanna stuttu eftir að faðir hennar fæddist. Móðir hennar var komin af Englendingum, Þjóðverjum og Indíánum. Þó faðir hennar hafi verið spænskumælandi ólst Diaz upp talandi ensku og lærði aldrei tungumálið af alvöru. Diaz ólst upp í nágrenni við margar mexíkóskar fjölskyldur og hún fann fyrir miklum menningarlegum mun á þeim og Kúbverjum. Áður en hún byrjaði í grunnskóla flutti fjölskyldan frá San Diego til Long Beach. Hún þótti góður nemandi en eyddi mestöllum tíma sínum í það að spila ruðning og að stympast við strákana. Hún hafði verið mikill aðdándi íþróttarinnar alveg frá barnæsku en faðir hennar hafði látið dætur sínar horfa á leiki til þess að kenna þeim mikilvægi samvinnu. Þegar Diaz var fjórtán ára hóf hún nám við gagnfræðaskólann Long Beach Polytechnic High School. Í skólanum stundaði meðal annars Snoop Dogg nám og Diaz keypti einu sinni kannabis af honum. Sem táningur hlustaði hún mikið á þungarokk og var oft erfiður unglingur. Hún kom seinna heim á kvöldin en foreldrar hennar höfðu leyft henni og einu sinni kom hún drukkin frá balli „Ég skemmti mér mikið sem unglingur“ sagði Diaz í viðtali þegar hún lýsti æsku sinni, „Ég fór mikið á tónleika, út á lífið, drakk mjög mikið af áfengi og keyrði mótorhjól. Þetta var allt mjög gaman“. Á meðan hún var í gagnfræðaskóla eyddi hún miklum tíma með sama fólkinu og sagði að þau hefðu verið eins og fjölskylda: „Strákarnir sem ég var með pössuðu mikið uppá mig af því þeir voru mikið eldri og ég var eins og litla systir þeirra. Þeir hefðu drepið hvern þann sem reyndi við mig“. Fyrirsætustörf. Diaz hóf feril sinn sem fyrirsæta aðeins sextán ára gömul þegar tískuljósmyndarinn Jeff Dunas sá hana dansa í teiti í Hollywood og gaf henni nafnspjald sitt. Hún hafði áður fengið mörg tilboð frá svokölluðum útsendurum sem sögðust ætla að breyta Diaz í fyrirsætu en það var þó ekki fyrr en Dunas rétti henni nafnspjald og vildi hitta foreldra hennar að hún ákvað að fara í prufu. Faðir hennar tók sér frídag úr vinnunni til þess að hitta Dunas til þess að læra eins mikið um fyrirsætuiðnaðinn sem hann gat áður en hann gat fallist á það að dóttir hans mætti samþykkja boð hans. Viku seinna skrifaði hún undir samning við Elite Model Management, sem á þeim tíma var eitt helsta umboðsfyrirtækið í bransanum. Foreldrar hennar sýndu henni mikinn stuðning á þessum tíma en kröfðust þess að hún kláraði gagnfræðiskólann, sem hún gerði. Eftir útskrift frá Long Beach Polytechnic High School, flaug Diaz til Japan og hitti þar myndbandsleikstjórann Carlos de la Torre. Torre leikstýrði auglýsingu sem hún lék í fyrir L.A Gear og féll hún strax fyrir honum. Þau hófu sambúð ári síðar. Á næstu fimm árum ferðaðist hún víða um Evrópu, Mexíkó, Ástralíu, Afríku, og Asíu vegna fyrirsætustarfa fyrir stórfyrirtæki á borð við Calvin Klein, Levi's, Coca-Cola og Nivea þar sem hún vann sér inn allt að 2000 bandaríkjadollara á dag. Hún sat einnig fyrir á forsíðu tímaritsins "Seventeen" í júlí 1990 rétt áður en hún varð átján ára gömul. Ári síðar var hún flutt til Parísar. Aðeins tveimur árum síðar birtist hún í klámmynd sem kölluð var "She's No Angel" og varð síðar fræg undir nafninu "She's No Angel: Cameron Diaz". Þegar hún var 21 árs gömul sá Hollywood-umboðsmaður nokkrar myndir af henni og bað um passamyndir af henni frá Elite Model Management sem hann sendi í kvikmyndaver. Hann bauð henni svo til Los Angeles og fékk hana til að skrifa undir samning við umboðsskrifstofu. Upphaf leikferilsins: 1994-96. Þó Cameron hefði aðeins unnið sem fyrirsæta áður þá þráði hún að verða kvikmyndaleikkona. Sumarið 1993 var hafinn undirbúningur fyrir nýja gamanmynd. Búið var að ráða hinn efnilega grínista Jim Carrey í aðalhlutverk myndarinnar sem hét "The Mask" en enn átti eftir að velja leikkonu í hlutverk aðalkynbombu myndarinnar, Tinu Carlyle. Upprennandi fyrirsætu, Anna Nicole Smith, sem var best þekkt fyrir að hafa setið fyrir í "Playboy" ári áður, hafði verið boðið hlutverkið og vildu framleiðendur helst fá hana til að leika Tinu. Einnig var Vanessu Williams boðið hlutverkið. Framleiðendur myndarinnar auglýstu smáhlutverk í myndinni og sótti Diaz um. Hún var ráðin í hlutverk þar sem hún fékk tvær línur í myndinni en var mjög ákveðin í því að næla sér í hlutverk Tinu Carlyle. Eftir fyrstu prufu hennar með Carrey var leikstjóri myndarinnar Chuck Russell sannfærður að hún væri sú rétta fyrir hlutverkið en framleiðendur myndarinnar voru ekki jafn vissir og töldu hana ekki vera nógu reynda sem leikkonu til þess að taka svona stórt hlutverk að sér. Diaz fór tólf sinnum í áheyrnarprufu og Russell hótaði að hætta í myndinni til þess hún fengi hlutverkið sjö dögum áður en tökur hófust. Diaz sagði í viðtali að hún hefði verið svo taugaveikluð á meðan hún beið eftir fréttum um hlutverkið; að hún hefði hvorki getað borðað né sofið og fengið magasár. Fyrsti tökudagurinn var einnig mjög erfiður fyrir hana þar sem henni var óglatt og hélt hún myndi valda vonbrigðum og verða rekin eins og skot. Stuttu eftir hún var ráðin fór Diaz að sækja leiklistartíma og réð til sín einkaþjálfarann John Kirby. Hún sótti tíma til hans tvisvar á viku í klukkutíma þar sem hann hjálpaði henni með framkomu og aðferð. Eftir að tökum á "The Mask" lauk hóf Diaz leit að fleiri verkefnum í von um að fá fleiri hlutverk. Hún fór í prufu fyrir myndina "Things to Do in Denver When You're Dead" í mars 1994 en var hafnað. Þann 27. júlí það ár kom "The Mask" út í bíóhúsum í Bandaríkjunum og fékk frábærar viðtökur hjá áhorfendum. Diaz hlaut mikið lof gagnrýnenda. Myndin, sem kostaði rúmar 23 milljónir bandaríkjadala í framleiðslu, græddi rúmlega fimm sinnum það í Bandaríkjunum og voru heildarekjur hennar yfir $350 milljónir. Seinna það ár lauk fimm ára ástarsambandi hennar og Carlos de la Torre en samkvæmt Diaz skildu þau á jákvæðum nótum. „Hann er ein mikilvægasta manneskjan í lífi mínu en það var nauðsynlegt fyrir mig að flytja út og komast að því hver ég er.“ Stuttu eftir að "The Mask" kom út hlaut hún hlutverk Sonyu Blade í kvikmyndinni "Mortal Kombat" sem byggð var á samnefndri tölvuleikjaseríu og þurfti hún að sækja tíma í bardagalist fyrir atriði í myndinni. Stuttu áður en tökur hófust þurfti Diaz að hætta við eftir hún úlnliðsbrotnaði á karateæfingu. Stuttu seinna var hún þó komin með nýtt hlutverk í lítilli kvikmynd að nafni "The Last Supper" sem var leikstýrt og framleidd af upprennandi leikstjóra að nafni Stacy Title. Diaz var ráðin í hlutverk Jude sem í myndinni er ein sex frjálslyndra háskólnema sem ákveða að bjóða öfgafullum hægrisinnum í kvöldmat og myrða þá. Myndin, sem var auglýst sem svört kómedía, hlaut litla athygli í kvikmyndahúsum vegna þess hún var aðeins gefin út í takmarkaðan tíma. Eftir "Last Supper" fylgdu nokkrar aðrar litlar kvikmyndir eins og "She's the One" þar sem Cameron lék fyrrverandi vændiskonu sem snýr aftur í líf tveggja bræðra sem hún hafði áður verið með en voru nú báðir komnir í sambönd. Í myndinni verða þeir báðir ástfangnir af henni en þegar Diaz las handritið fannst henni persónan ekki nógu viðkunnaleg til þess að vinna hjörtu þeirra beggja og stakk upp á því að persónan yrði endurskrifuð. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar Edward Burns samþykkti og voru víðtækar breytingar gerðar á handritinu fyrir hana. Diaz sagði að hún vildi leika hlutverkið af því hún hefði áhuga á persónum í kvikmyndum sem gerðu slæma hluti af því hún vorkenndi þeim á einhvern hátt. „Mér finnst áhugavert að finna manngæskuna í persónum eins og henni og að reyna að breyta þeim í alvöru manneskjur“. Sama ár birtist hún í þremur öðrum litlum kvikmyndum: "Svartnætti", "Höfuð upp úr vatni", og "Ást og slagsmál í Minnesota". Í þeirri síðarnefndu lék Diaz á móti leikaranum Keanu Reeves sem á þeim tíma var ein stærsta stjarnan í kvikmyndaheiminum. Áður en myndin kom út sagði Reeves í viðtali að hún væri mjög hæfileikarík og hún „[gæti] farið mjög djúpt inn í hlutverk sitt til þess að lífga næstum því persónuna sína“. Hann sagði einnig að „ef nokkur önnur leikkona hefði leikið hlutverk hennar, þá hefði Freddie (persónu Diazar í myndinni) ekki verið jafn áhugaverð. Hún er sjaldgæf blanda af fegurð og hæfileikum og gerir það mjög létt og skemmtilegt að vinna með henni.“ Í sama viðtali útskýrði hún óhefðbundið val sitt á hlutverkum með því að segja, „Ég veit það er algjör klisja, en ég vil þurfa að reyna á mig í hlutverkum mínum. Það er ekkert mál að leika þessa týpísku kynbombu í venjulegri Hollywoodmynd. Maður fær enga sérstaka reynslu af því og lærir ekki neitt á því sem leikari. Ég stefndi beint í þá átt um tíma en ég vildi það ekki“. Engin af myndum Diazar sem komu út árið 1996 hlaut mikla athygli áhorfenda eða gagnrýnenda og seinna sagði hún í viðtali að hún hafði ekki gert myndirnar í von um að þær fengju miklar tekjur heldur frekar fyrir reynsluna en á þeim tíma var hún komin með tvær aðrar myndir sem hún þurfti að vinna að. Upprennandi stjarna: 1997-98. Haustið 1996 hóf Diaz vinnu við næstu kvikmynd, "My Best Friend's Wedding". Í myndinni lék Diaz aukahlutverk en með aðalhlutverkið fór leikkonan Julia Roberts sem á þeim tíma var ein stærsta kvenstjarnan í kvikmyndaiðnaðinum en það var hún sem valdi Diaz í hlutverkið. Myndin var hennar fyrsta stórmynd síðan hún þreytti frumraun sína í "The Mask" tveimur árum áður. Meðan á tökum stóð myndaðist mikil vinátta á milli leikkvennanna og lýsti Diaz því svo í viðtali: „Við höfðum það svo gaman á meðan að tökum stóð. Ég var agndofa yfir Juliu. Ég eyddi mikið meiri tíma í því að fylgjast með henni leika heldur en að leika sjálf“. Roberts sýndi henni mikinn stuðning og sagði Diaz hana alltaf hafa verið til staðar þegar hún þurfti á henni að halda. Myndin kom út í kvikmyndahúsum þann 20. júní 1997, fór beint í annað sætið í Bandaríkjunum og tók inn rúmar 22 milljónir bandaríkjadala fyrstu helgina. Sú síðari af tveimur myndum hennar það ár hét "A Life Less Ordinary" sem hinn breski Danny Boyle leikstýrði. Þar lék hún á móti Ewan McGregor sem var einnig upprennandi stjarna í kvikmyndabransanum. Myndin var gefin út þann 24. október 1997 í Bandaríkjunum og Bretlandi en fékk litla athygli frá áhorfendum og var aðeins tvær vikur í kvikmyndahúsum þar. Diaz fullyrti samt að hún teldi myndina vera eina af þeim bestu sem hún hafði gert fram að því. „Ég held það sé langt þangað til litið verður á mig sem alvöru leikkonu“ sagði Diaz í viðtali eftir að myndin kom út þegar hún útskýrði af hverju henni hefði ekki verið boðin meiri vinna það ár. Hún kom einnig fram í cameo-hlutverki sem ljóshærð sjónvarpskona í myndinni "Fear and Loathing in Las Vegas". Velgengni hennar árið 1998 gat af sér mikla athygli fjölmiðla og var mikið umtal um hana, ekki bara í blöðum heldur líka á internetinu þar sem hún átti marga aðdáendur. Sama ár var hún einnig útnefnd ein af tíu best klæddu stjörnum ársins af slúðurtímaritinu "People" þar sem hún var kölluð „nýjasta ást Bandaríkjanna“ og hafði auk þess verið nefnd ein af fimmtíu fallegustu manneskjum ársins nokkrum mánuðum áður. Það er eitthvað við Mary. Í lok ársins 1997 hóf Diaz vinnu við næstu mynd hennar sem hét "Það er eitthvað við Mary". Myndin, sem var í leikstjórn Farrelly-bræðra, skartaði mörgum af helstu upprennandi leikurum í kvikmyndageiranum, þar á meðal Ben Stiller og þáverandi kærasta Diaz, Matt Dillon. Myndin fjallar um mann sem ræður til sín einkaspæjara til þess að hafa uppi á æskuástinni sinni, Mary, sem leikin er af Diaz. Annar leikstjóri myndarinnar, Bobby Farrelly, sagði það hefði verið sjálfsögð ákvörðun að velja hana í hlutverkið af því hún væri svo „sérstök blanda af fegurð, óttaleysi, og frábæru skopskyni. Eins og Grace Kelly“. Myndin kom út í Bandaríkjunum þann 17. júlí 1998, tók inn rúmar 13 milljónir bandaríkjadala fyrstu helgina sína og lenti í fjórða sæti. Mjög jákvætt umtal í blöðum, sjónvarpi og á veraldarvefnum varð til þess að myndinni fór að ganga mjög vel í kvikmyndahúsum og eftir átta vikur komst hún í fyrsta sætið. Myndin var sýnd í kvikmyndahúsum í heilar tuttugu og fjórar vikur og aflaði yfir 300 milljóna bandaríkjadala á heimsvísu. Af öllum leikurum í myndinni hlaut Diaz mestu athyglina og sagði einn gagnrýnandi hún hafi verið „meira ljómandi en nokkru sinni fyrr“. Hún var einnig tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir bestu leikkonu í gamanmynd. Þetta voru fyrstu virtu verðlaunin sem hún hafði þá verið tilnefnd til og taldi hún það mikinn heiður þótt hún hafi ekki unnið. Þó flestir gagnrýnendur og áhorfendur voru yfir sig hrifnir af myndinni þótti mörgum húmorinn vera aðeins of grófur og hneykslandi, þar á meðal fyrir bróður Mary sem er fatlaður og var uppspretta að mörgum bröndurum í myndinni. Diaz varði myndina í viðtali, „[Húmorinn í myndinni] er ekki illgjarn eða neitt þannig. Við erum ekki að gera grín að neinum sem á það ekki skilið. Við erum heldur ekki að gera grín að fötluðu fólki. Við erum að gera grín að fólkinu sem gerir grín að þeim“. Gagnrýnendur: 1999-2002. Eftir árangur hennar árið 1998 tóku hlutverkin að streyma til hennar. Næst fór hún að vinna að nýjustu mynd Oliver Stones, "Any Given Sunday". Í myndinni lék hún á móti leikurum á borð við Al Pacino, Jamie Foxx, LL Cool J og Charlton Heston og sagði hún reynsluna hafa ekki bara verið spennandi heldur líka ógnvekjandi. Hún fór með hlutverk Christinu Pagniacci, eiganda Amerísks fótboltaliðs sem myndin fjallar um og er litið á hana sem hálfgerðann skúrk myndarinnar. Mikið af atriðum í myndinni voru mjög krefjandi fyrir hana þar á meðal eitt þar sem hún hélt ræðu í búningsklefa fullum af allsberum körlum. „Það var eitt af þessum atriðum þar sem þú ferð bara þarna inn og sinnir starfi þínu“ sagði Diaz í viðtali eftir að myndin kom út „Ég er viss um að Oliver var bara að reyna að taka þetta eins langt og hann gat. Ég hafði ekki neitt á móti þessu. Ég gat gert þetta“. Hún sagði það engu líkt að hafa unnið með Pacino og Stone og sagðist hafa liðið eins og tólf ára stúlku með spangir á meðan hún var að leika í myndinni, „Þarna eru Al Pacino og Oliver Stone og þeir bjóða mér að vera með þeim í myndinni. Það er eiginlega ekki hægt að segja nei við því“. Myndin kom út í desember 1999 og aflaði rúmra 100 milljóna bandaríkjadala út um allan heim en fékk mjög misjafna dóma meðal gagnrýnenda. Næsta hlutverk hennar í "Being John Malkovich" varð til þess að hún fékk mikið hrós frá gagnrýnendum. Myndin, sem er svört kómedía, fjallaði um leikbrúðustjórnanda sem finnur holu sem leiðir hann inn í huga John Malkovich en Diaz fór með hluverk eiginkonu leikbrúðustjórnandans. Í myndinni var mikið af farða sett á hana og hún þurfti að lita hárið á sér brúnt og krulla það fyrir hlutverkið svo mörgum fannst hún óþekkjanleg í hlutverki sínu. Eftir að hún skipti um útlit fyrir myndina tók hún eftir því að allt öðruvísi fólk byrjaði að tala við hana úti á götu heldur en þegar hún var ljóshærð. "Being John Malkovich" hlaut mikið lof gagnrýnenda og meðal annars var Diaz heiðruð fyrir að hafa „horfið inn í persónu sína og orðið einhver önnur manneskja heldur en hún sjálf“. Fyrir myndina fékk Diaz tilnefningar til Golden Globe-verðlauna fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki og BAFTA-verðlauna og var mikið talað um að hún ætti að vera tilnefnd til Óskarsverðlauna það ár en ekki varð úr því. Sama ár tók hún að sér hlutverk í þremur öðrum myndum, "The Invisible Circus", "Things You Can Tell Just by Looking at Her", og "Man Woman Film" þar sem hún birtist í cameo-hlutverki. Árið 2000 birtist hún í kvikmyndaútgáfu af vinsælu sjónvarpsseríunni "Charlie's Angels" frá 8. áratug 20. aldar á móti Drew Barrymore og Lucy Liu. Það var eina myndin sem hún gerði árið 2000 og hún lék ekki aftur fyrr en árið eftir þegar hún talaði fyrir Fíónu prinsessu í teiknimyndinni "Shrek" sem varð 22 tekjuhæsta mynd allra tíma þegar hún kom fyrst út Síðari mynd hennar árið 2001 hét "Vanilla Sky" og fór hún með eitt af þremur aðalhlutverkum í myndinni á móti Tom Cruise og Penélope Cruz. Diaz var tilnefnd til níu verðlauna fyrir leik sinn í myndinni þar á meðal ein tilnefning til Golden Globe verðlauna fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki. Leonardo DiCaprio, Martin Scorsese og Diaz við frumsýningu "Gangs of New York" Heilu ári síðar hlaut hún sína fjórðu tilnefningu til Golden Globe-verðlauna fyrir myndina "Gangs of New York" í leikstjórn Martin Scorsese. Diaz lék vasaþjóf að nafni Jenny sem á í ástarsambandi við persónu sem Leonardo DiCaprio leikur, en Daniel Day-Lewis fer einnig með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni. Til þess að kenna henni að stela úr vösum var frægur ítalskur maður sem hafði starfað sem vasaþjófur í yfir 30 ár fenginn til þess að kenna henni. Tökur á myndinni áttu sér stað í Rómarborg á Ítalíu frá ágúst 2000 fram í apríl árið eftir og var áætlað að gefa myndina út um jólin 2001 en útgáfu myndarinna var seinkað um heilt ár eftir hryðjuverkin 11. september 2001. Þegar myndin kom loksins út fékk hún frábæra dóma. Hún var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna og aflaði rúmra 200 milljóna bandaríkjadala. Diaz var meðal annars tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir hlutverk sitt en vann ekki. Áframhaldandi frægð: 2003-08. Árið 2002 hófst vinna við framhald "Charlie's Angels" og komst það fljótt í fréttirnar að Cameron Diaz myndi verða ein af aðeins tveimur leikkonum til þess að fá 20 milljónir bandaríkjadala fyrir eina mynd en Julia Roberts sem hafði leikið með henni í "My Best Friend's Wedding" sex árum áður var þá eina leikkonan sem hafði fengið svo mikið greitt fyrir eitt hlutverk. Diaz hafði fengið mikið slæmt umtal í blöðum stuttu fyrir útgáfu myndarinnar eftir hún kom fram í spjallþætti Jay Leno í mjög stuttum kjól og án brjóstahaldara og benti á hversu gegnsær kjóllinn hennar væri með því að benda á geirvörturnar sínar. ' kom út í kvikmyndahús í júlí 2003 en gekk ekki jafn vel og sú fyrri og flestum gagnrýnendum þótti hún ekki vel heppnuð. Diaz sagði samt í viðtali að henni væri sama hvernig myndinni gengi í kvikmyndahúsum af því hún hafði skemmt sér svo mikið við það að búa hana til. Árið 2003 vann hún svo við framhald "Shrek", "Shrek 2", og átti næst að að leika aftur á móti Jim Carrey í myndinni "Fun With Dick and Jane". Það hefði verið í fyrsta skipti sem þau kæmu saman fram í mynd frá því þau léku á móti hvort öðru í "The Mask" tíu árum áður, en þegar upptökuáætluninni var seinkað til haustsins 2004 þurfti hún að hætta við þar sem hún var þegar bókuð þann tíma. Vorið 2004 lék Diaz í næstu mynd, "In Her Shoes", sem var byggð á samnefndri bók frá árinu 2002. Höfundur bókarinnar var ekki ánægð með að Diaz skyldi vera ráðin af því hún taldi hana ekki líta út fyrir að vera gyðingur eins og persóna hennar var. Framleiðendur myndarinnar leystu þetta með því að hafa persónuna aðeins hálfan gyðing. Myndin kom ekki út fyrr en haustið 2005 og þrátt fyrir góða dóma gekk henni ekki sérstaklega vel í kvikmyndahúsum. "Shrek 2" kom út 23. júní 2004, græddi næstum því einn milljarð bandaríkjadala um allan heim og varð fimmta tekjuhæsta mynd allra tíma fram til þess. Vinsældir myndarinnar urðu til þess að gerðar voru áætlanir um þriðju og fjórðu Shrek-teiknimyndirnar rétt eftir útgáfu hennar. Skömmu eftir að "In Her Shoes" kom út fór Diaz því strax aftur að vinna að þriðju Shrek-myndinni og tók jafnframt að sér hlutverk í mynd að nafni "The Holiday" sem var skrifuð af og í leikstjórn Nancy Meyers. Tökur á myndinni hófust snemma á árinu 2006 og lék hún á móti mörgum frægum leikurum eins og Kate Winslet, Jack Black, og Jude Law. Myndin fjallaði um tvær konur (eina í Bandaríkjunum og Bretlandi) sem eru báðar um það leyti að gefast upp á ástinni og ákveða að skiptast á húsum yfir jólin. Diaz lék eina af konunum tveimur og skrifaði Meyers hlutverkið með hana í huga. Diaz sagði í viðtali að hún hefði tekið við þessu hlutverki af því henni fannst svo létt að finna persónuna sína í sér af því „allir hafa átt í svona ástarsamböndum sem slitna. En ég elskaði hvernig hún sýndi hugrekki. Hún hefur horfið frá þessu örugga ástandi og farið á brott alveg ein á báti. Með því að gera það finnur hún út hver hún er“. Hún sagði einnig að þetta hefði verið hlutverkið sem reyndi mest á hana líkamlega vegna þess hún þurfti að hlaupa mikið á háum hælum. "The Holiday" kom út í kvikmyndahúsum í desember 2006 og varð ekki mjög vinsæl í Bandaríkjunum en aflaði meira en 200 milljóna bandaríkjadala á heimsvísu. Næsta mynd hennar í kvikmyndahúsum var þriðja myndin í Shrek-myndaröðinni, "Shrek the Third", sem kom út sumarið 2007. Allra augu voru nú á Cameron og Justin Timberlake en Diaz hafði útvegað honum hlutverk í myndinni. Þau höfðu hætt saman stuttu eftir vinnu við myndina lauk. Diaz og Timberlake sannfærðu fjölmiðla á rauða dreglinum um að þau væru ennþá vinir og föðmuðust og kysstu hvort annað á kinnarnar. Helgina sem myndin var frumsýnd skilaði hún 120 milljónum bandaríkjadala í kassann sem var þá þriðja tekjuhæsta opnunarhelgi allra tíma, en í heildina fékk myndin lægri tekjur en sú fyrri. Auk þess var þetta fyrsta myndin í röðinni sem fékk almennt slæma dóma frá gagnrýnendum. Stuttu áður en "Shrek the Third" kom út tók Cameron Diaz við hlutverki í rómantískri gamanmynd að nafni "What Happens in Vegas" þar sem hún lék á móti Ashton Kutcher. Myndin fjallaði um bláókunnugt fólk sem vaknar einn morgun saman í Las Vegas, kemst að því að þau eru gift og hafa unnið pottinn í spilavíti sem hvorugt þeirra langar að deila með hinu. Vinna við myndina hófst haustið 2007 og fór fram bæði í Las Vegas og New York-borg. Við útgáfu myndarinnar vakti "What Happens in Vegas" litla athygli aðallega út af harðri samkeppni við stórar myndir eins og "Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull" og "Iron Man". Hún olli því vonbrigðum þrátt fyrir að hafa meira en tvöfaldað ráðstöfunarfé sitt bara í Bandaríkjunum. Sama ár var Diaz skráð tekjuhæsta leikkonan í Hollywood með 50 milljónir bandaríkjadala í laun fyrir aðeins tvær myndir ("What Happens in Vegas" og "Shrek the Third") en hún var með átján milljónum hærri laun heldur en næsta leikkona fyrir neðan, Keira Knightley. Fjölbreyttari hlutverk: 2009-dagsins í dag. Diaz, Sofia Vassilieva og Abigail Breslin úr "My Sister's Keeper" á kvimyndaverðlaunum MTV 2009 Árið 2009 kom Cameron Diaz fram í tveimur hlutverkum mjög ólíkum þeim sem hún hafði leikið í áður. Hið fyrra af þessum tveimur hlutverkum var sem fyrrverandi lögfræðingur sem snýr aftur í réttarsalinn þegar 13 ára dóttir hennar fer í mál svo hún þurfi ekki að gefa deyjandi systur sinni nýra. Myndin heitir "My Sister's Keeper" og var byggð á vinsælli bók eftir Jodie Picoult. Diaz undirbjó sig mikið fyrir hlutverkið og eyddi miklum tíma með mæðrum veikra barna. Þegar hún var spurð að því af hverju hún ákvað að taka við hlutverkinu sagði hún: „Mér finnst þetta vera mjög raunveruleg saga sem mjög margar geta sett sig í samband við“. Við útgáfu myndarinna fengu Diaz og meðleikarar hennar í myndinni mikið lof fyrir leik þeirra í myndinni en almennt hlaut myndin slæma dóma fyrir leikstjórn Nick Cassavetes. Þann 22. júní 2009 var Cameron Diaz heiðruð með stjörnu á hinu fræga Walk of Fame í Hollywood en hundruðir aðdáenda hennar mættu í athöfnina ásamt fjölskyldu hennar og vinum. Í ræðu sinni þakkaði hún sérstaklega fjölskyldu sinni og sagði, „[Stuðningur þeirra] er það sem hefur veitt hér styrkinn og hugrekkið til þess að lifa þessu óhefðbundna lífi og það er það sem knýir áfram logann sem brennur í brjósti mér“. Hið seinna af tveimur hlutverkum Diaz þetta ár var í þriðju mynd Richard Kelly, "The Box", sem hafði verið kvikmynduð tveimur árum áður og geymd þangað til ákveðið var að gefa hana út í mars 2009. Útgáfu var svo seinkað fram í september og stuttu seinna aftur til nóvember. Myndin fékk litla athygli vegna þess lítið hafði verið gert til þess að auglýsa hana. Diaz hafði lengi verið mikill aðdáandi Kelly eftir að hafa séð mynd hans "Donnie Darko" og strax gripið tækifærið til þess að leika í mynd hans: „Hann er svo einstakur kvikmyndagerðamaður og getur tjáð hugmyndir sínar á svo sérkennilegann hátt“. Hún birtist síðan ekki aftur á hvíta tjaldinu fyrr en árið eftir þegar fjórða og síðasta "Shrek"-myndin ' kom út þar sem Diaz sneri aftur sem Fíóna prinsessa. Önnur mynd hennar kom út sumarið 2010 en það var njósnamynd með rómantísku ívafi sem Diaz hafði verið að vinna að í meira en ár. Hún hafði lesið handritið og stungið upp á því að hún, vinur hennar og fyrrverandi mótleikari í "Vanilla Sky" myndu leika saman í henni sem þá hét "Wichita" og seinna "Trouble Man". Vorið 2009 fóru þær fréttir að berast að Cruise og Diaz myndu sameinast á ný í myndinni og sagði Diaz frá í viðtölum hversu mikið hana hlakkaði til, „Ég er rosa spennt. Þetta er hasarmynd og ég get ekki beðið eftir því að vinna með [Cruise]“. Tökur á myndinni, sem þá var búið að nefna "Knight and Day" hófust haustið 2009 og sagði Diaz reynsluna hafa verið ólík öllu því sem hún hafði gert áður af því hún ferðaðist svo mikið fyrir myndina en hún var tekin upp í Illinois, Massachusetts, Kaliforníu, Austurríki, Spáni, og Jamaíka. „Þetta var ótrúlega gaman. Ég elska að geta gert bardaga atriði og þarna var alveg heil vika af marblettum, sárum, tognum og brákun á hálsi. Ég þurfti að fara á Golden Globe verðlaunin og ég var með marbletti og kúlur upp hendurnar og fæturnar á mér“. Árið 2011 birtist Diaz í tveimur kvikmyndum: Sú fyrri hét "Græna vespan" sem varð byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum frá sjöunda áratug 21. aldar. Hin seinni hét "Bad Teacher" og var hlutverk hennar þar ólíkt nokkru sem hún hafði leikið áður. Persóna hennar var kennari að nafni Elizabeth Halsey sem er alveg sama um alla nemendur sína, bölvar þeim, dettur í það og reykir gras á skólatíma. Hún hyggst kvænast nýjum varakennara við skólann, Scott Delacorte, sem er bæði ríkur og myndalegur en hún telur sig líklegri til þess að vinna hylli hans með því að fara í brjóstaaðgerð. „Þegar ég las handritið fyrst hugsaði ég það er engin leið að ég geti leikið hana. Mér líkar ekki við hana. Þá var ég aðeins búin að lesa tíu blaðsíður en síðan þegar ég var búin með 20 blaðsíður fannst mér Elizabeth vera mjög fyndin. Og síðan las ég aðrar tíu blaðsíður og ég gat ekki látið handritið frá mér. Þegar ég var búin var ég staðráðin í því að leika hlutverkið“. Það vakti mikla athygli að fyrrverandi kærasti Diaz, Justin Timberlake, færi með hlutverk Scotts og fullyrtu þau bæði í viðtölum að þau væru enn góðir vinir. „Justin er svo fyndinn og svo hæfileikaríkur. Það var alveg upplagt að fá hann í þetta hlutverk, hann er sá eini sanni í það“ sagði Diaz í viðtali og bætti við að „það besta við þessa mynd eru leikararnir. Það er svo hæfileikaríkur hópur sem kemur hérna fram og við skemmtum okkur öll“. Ástarsambönd. Árið 1990, þegar Diaz var sautján ára, lék hún í auglýsingu fyrir L.A. Gear og varð um leið ástfangin af myndbandsframleiðandanum, Carlos de la Torre, sem var tíu árum eldri en hún. Hún eyddi öllum deginum að reyna að fá hann til þess að tala við sig. „Ég gaf henni engan gaum“ sagði de la Torre í viðtali, „Það er tabú að reyna við fyrirsæturnar þegar þú vinnir fyrir fyrirtækið sem sér um þær“. Hann hringdi í hana daginn eftir og um ári seinna höfðu þau keypt sér íbúð saman í Hollywood. Þegar Diaz var 22 ára, eftir fimm ár með de la Torre, ákvað hún að hætta með honum og sagði hún í viðtali: „Hann er frábær og við erum ennþá vinir, ég elska hann. Hann er mjög mikilvæg manneskja í lífi mínu en ég þurfti að flytja út og finna út hver ég væri“. Árið 1996, á meðan Diaz var við tökur á myndinni "Feeling Minnesota" í Minnesota-fylki, Bandaríkjunum hitti hún leikarann Matt Dillon sem var líka að taka um mynd þar. „Við höfum þroskast svo mikið saman og ég elska hann mjög mikið“ sagði hún í viðtali þegar aðspurð um sambandið. Þegar tökum á myndinni lauk héldu þau áfram sambandinu þrátt fyrir að þau byggju á sitthvorri strönd Bandaríkjanna, hún í Los Angeles og hann í New York. Samband þeirra vakti mikla athygli fjölmiðla og sást til þeirra kyssast á götuhorni í Manhattan og á veitingastöðum. Hún fullyrti samt við fjölmiðla að hún væri ekki tilbúin að gifta sig, „Ég vil eignast fjölskyldu, en það er ekki eitthvað sem ég hugsa um núna“. Parið kom fram saman í myndinni "Það er eitthvað við Mary" sem varð ein vinsælasta mynd ársins 1998 en þau hættu saman stuttu eftir að tökum lauk. Dillon sagðist ekki hafa verið tilbúinn að gerast ráðsettur og eignast fjölskyldu. Í viðtali árið 2006 sagðist Dillon sjá eftir skilnaðinum og hann hafi tapað einni af stærstu ástum lífs síns, „Ég varð ástfanginn. Það er mjög kraftmikil tilfinning þegar manni líður þannig í garð einhvers. Cameron var menntagyðja mín. Þangað til hafði ég ekki verið í neinum hjartnænum ástarsamböndum áður“. Í mars 1999 fór Diaz að eiga í sambandi með leikaranum Jared Leto. Hvorugt þeirra talaði um sambandið við fjölmiðla og sagði hún í viðtali að oft hefði hún komið heim eftir viðtöl og skammað sjálfa sig fyrir að segja of mikið í staðinn fyrir að segja: „Veistu hvað, mig langar ekki til þess að svara þessarri spurningu“ og þess vegna hafði hún ákveðið að svara ekki spurningum um einkalíf sitt. Sumarið 2000 bárust þær fregnir að parið hefði hætt saman en Diaz þverneitaði öllum orðrómum og sagði, „Þessi orðrómu særir Jared meira en mig. Ég er vön þessu. Við erum mjög hamingjusöm“. Margar fréttir birtust um þau tvö á næstu árum og vakti það mikla athygli þegar sást til Leto úti á lífinu ásamt Paris Hilton og Diaz með Leonardo DiCaprio. Í janúar 2003 sást til Diaz með dýran demantshring á baugfingri og var það þá sem parið opinberaði trúlofun sína, en hún hafði þá staðið í næstum því þrjú ár. Það kom þess vegna mikið á óvart þegar þau slitu sambandinu í apríl það ár eftir fjögur ár saman. Diaz átti í þriggja ára löngu ástarsambandi við tónlistarmanninn Justin Timberlake 2003 til 2006 og vakti það samband mikla athygli fjölmiðla. Síðar átti hún í sambandi við hafnaboltaleikmanninn Alex Rodriguez frá júlí 2010 til september 2011. Fjölskylda. Diaz hefur allt sitt líf átt í mjög nánu sambandi við systur sína og segist tala við hana á hverjum degi. Þann 15. apríl 2008 dó faðir hennar, Emilio, úr lungnabólgu. Diaz, sem var þá önnum kafin við tökur á myndinni "My Sister's Keeper", tók sér frí frá allri vinnu og flaug heim til fjölskyldu sinnar. Viku eftir fráfall Emilios hélt fjölskyldan minningarathöfn þar sem yfir 400 manns mættu, þar á meðal fyrrverandi kærasti Diazar Justin Timberlake. Diaz sagði í yfirlýsingu fyrir fjölmiðla: „Hann var örlátur vinur, góður afi, framúrskarandi faðir og heiðvirður eiginmaður“. Pólitík og umhverfismál. Diaz studdi Al Gore í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 og var meðal annars klædd í bol sem á stóð „Ég kýs ekki soninn hans Bush!“ ("I Won't Vote For a Son of a Bush!"). Fjórum árum síðar, í næstu forsetakosningum, vakti hún mikla athygli fyrir ummæli í spjallþætti Opruh Winfrey: „[Konur] eru með rödd núna og við erum ekki að nota hana og konur hafa svo miklu að tapa. Ég meina, við gætum tapað réttinum yfir líkömum okkar. Ef þér finnst að nauðgun ætti að vera lögleg þá skalt þú ekki kjósa. En ef þér finnst að þú eigir rétt á þínum eigin líkama og þú hafir rétt til að ákveða hvað gerist fyrir þig, þá skalt þú kjósa“. Diaz var á móti því að George W. Bush yrði endurkjörinn sem forseti og þótti hún meina með þessari athugasemd að ef fólk myndi kjósa Bush væri það að lögleiða nauðgun. Hún hefur einnig verið mjög áberandi sem umhverfissinni og árið 2005 var hún með sinn eigin umhverfissjónvarpsþátt að nafni "Trippin'" á MTV-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum. Í þáttunum ferðuðust Diaz, nánir vinir hennar og þáverandi kærasti hennar Justin Timberlake, til afskekktra staða í heiminum og ræddu um hvernig ætti að „vernda jörðina, varðveita orku, koma í veg fyrir gróðurhúsaáhrif og hjálpa ættflokkum í frumskógum að halda áfram að lifa lífi sínu eins og þeir gera“. Þátturinn dróg að sér mikið af neikvæðri gagnrýni, sérstaklega frá bandaríska bloggaranum Maddox sem á vefsíðu sinni dæmdi Diaz fyrir að gagnrýna hversu „heimurinn sem við byggjum í hefði farið úr böndunum“ á meðan hún væri að fá tuttugu milljónir bandaríkjadala fyrir hvera einustu mynd sem hún léki í, æki Lexus-bíl og byggi í þriggja hæða höll, eins og hann orðaði það. Gagnrýni. Sumarið 2007, þegar Diaz var í fríi í Perú vakti hún mikla athygli fyrir að vera með handtösku sem á stóð „Þjónið almúganum“ með rauðri stjörnu á. Orðtakið var slagorð Mao Zedongs, fyrrum leiðtoga Kína, en „Sendero Luminoso“-samtökin voru hópur maóista í Perú sem drap næstum því 70.000 manns á 9. og 10. áratug 20. aldar. Því urðu margir Perúmenn móðgaðir. „Þetta orðtak vísar óbeint í hlut sem skaðaði Perú svo mikið“ sagði Pablo Rojas, mannréttinda-aðgerðasinni í Perú. Diaz baðst afsökunar í yfirlýsingu sem hún gaf út skömmu eftir að ferð hennar lauk. „Ég keypti töskuna í Kína og áttaði mig ekki á því hvernig hún gæti sært ákveðna aðila“. Heimildir. Diaz, Cameron Diaz, Cameron Johann Friedrich Struensee. Johann Friedrich Struensee (5. ágúst 1737 – 28. apríl 1772) var þýskur læknir sem varð líflæknir hins geðsjúka Kristjáns 7. Danakonungs og síðan ráðherra í dönsku stjórninni og hinn raunverulegi stjórnandi ríkisins um tíma og reyndi að koma á ýmsum umbótum. Hann átti í ástarsambandi við drottninguna og var að lokum handtekinn, dæmdur og tekinn af lífi. Líflæknir. Struensee var prestssonur frá Halle í Þýskalandi. Hann hóf nám í læknisfræði við háskólann í Halle í ágúst 1752, þá fimmtán ára að aldri, og útskrifaðist sem læknir 12. desember 1757. Hann flutti svo til Altona, var þar vinsæll læknir meðal yfirstéttarfólks og vingaðist meðal annars við hóp danskra aðalsmanna sem höfðu verið gerðir brottrækir frá dönsku hirðinni, þar á meðal Enevold Brandt. Kristján 7., sem líklega var haldinn geðklofa, kom við í Altona þegar hann var að leggja af stað í ferðalag um Evrópu 1768 og tókst þessum hópi tókst að útvega Struensee stöðu sem læknir konungs á ferðalaginu í þeirri von að hann gæti greitt fyrir því að þeir fengju að snúa aftur til hirðarinnar. Struensee fór með konungi til Hannover, Parísar og London og stóð ferðin frá 6. maí 1768 til 12. janúar 1769. Á þeim tíma urðu þeir konungur mjög nánir og ráðgjafar konungs töldu Struensee hafa jákvæð áhrif á hann og studdu útnefningu hans sem líflæknis konungs þegar þeir komu aftur til Kaupmannahafnar. Einvaldur og elskhugi. Hin unga drottning, Karólína Matthildur, tók Struensee illa fyrst í stað. Hún var einmana og óhamingjusöm og Struensee var einn fárra sem sinnti henni og reyndi að bæta hag hennar. Smátt og smátt breyttist samband þeirra, ekki síst eftir að hann sannfærði hana um að láta bólusetja krónprinsinn (síðar Friðrik 6.), eftir að bólusóttarfaraldur kom upp í Kaupmannahöfn, og vorið 1770 voru þau orðin elskendur. Um leið náði hann stöðugt meira valdi yfir konunginum, sem gerði Struensee að helsta ráðgjafa sínum í september um haustið. Næstu sextán mánuðir hafa verið kallaðir Struensee-tímabilið. Geðheilsa konungs fór versnandi og Struensee varð allsráðandi. Fyrst í stað reyndi hann að láta lítið á sér bera en í desember leysti hann ríkisráðið upp, rak fjölda embættismanna og einangraði konung svo að nær enginn annar en hann og Enevold Brandt vinur hans höfðu aðgang að honum. Struensee var upplýsingarmaður og kom á margívslegum umbótum, afnam meðal annars dauðarefsingar fyrir þjófnað og bannaði notkun pyntinga í yfirheyrslum. Hann kom líka á prentfrelsi. Alls gaf hann út 1069 tilskipanir á tíu mánaða tímabili frá 20. mars 1771. Endalok. Það háði Struensee að hann talaði ekki dönsku og virti ekki danskar siðvenjur. Hann rak fjölda reyndra embættismanna og setti reynslulitla menn í staðinn. Þó voru umbætur hans framan af vinsælar hjá millistéttinni. Hins vegar kunnu Danir ekki að meta hvernig konunginum var ýtt gjörsamlega til hliðar, enda gerðu fæstir utan hirðarinnar sér grein fyrir því hve veikur hann var, töldu hann aðeins áhrifagjarnan og veiklundaðan. Samband Struensee við drottninguna vakti líka mikla hneykslun, þegar það komst í hámæli. Þann 7. júlí 1771 fæddi drottningin dóttur, Lovísu Ágústu, sem allir vissu að Struensee átti þótt hún væri kennd konunginum. Seint um haustið tók svo hópur manna, í nafni Júlíönu Maríu ekkjudrottningar, stjúpmóður konungs, sig saman um að bylta Struensee af stóli. Látið var tilskarar skríða að afloknum grímudansleik sem haldinn var 16. janúar 1772. Snemma morguninn eftir voru Struensee, Brandt og Karólina Mtthildur handtekin. Konungurinn var settur upp í gylltan vagn og ekið með hann um götur Kaupmannahafnar til að sýna að hann hefði verið „frelsaður“ við mikinn fögnuð. Aðalákæran gegn Struensee var að hann hefði tekið sér vald konungs. Hann varði sig sjálfur fimlega en það kom fyrir ekki, þann 27. eða 28. apríl voru þeir Brandt báðir dæmdir til að missa fyrst hægri hönd sína og svo höfuðið, en líkamar þeirra skyldu settir á hjól og steglu. Dómunum var framfylgt 28. apríl. Hjónabandi konungs og drottningar var slitið með skilnaði og Karólína Matthildur send í útlegð. Hún sá börn sín aldrei aftur og dó þremur árum síðar. Josef Mengele. Josef Rudolf Mengele (16. mars 1911 – 7. febrúar 1979), einnig þekktur sem Engill dauðans (á þýsku: Todesengel), var þýskur foringi í SS sveitum nasista og læknir í útrýmingarbúðunum í Auschwitz í seinni heimstyrjöldinni. Hann hafði doktorspróf í mannfræði frá Háskólanum í München og próf í læknisfræði frá Háskólanum í Frankfurt. Hann er alræmdur fyrir viðurstyggilegar tilraunir sínar á föngum í útrýmingarbúðunum Auschwitz, einkum á tvíburum. Fæstir þeirra sem Mengele gerði tilraunir á lifðu það af, en þar á meðal voru börn. Að stríðinu loknu lifði Mengele um hríð í Þýskalandi og fór huldu höfði en flúði síðan til Suður-Ameríku. Þrátt fyrir að vera eftirlýstur stríðsglæpamaður og þrátt fyrir mikla leit komst Mengele undan. Talið er að hann hafi búið í Argentínu þegar Adolf Eichmann var handsamaður þar árið 1960 og samneyti var á milli þeirra. Mengele lést árið 1979 í Úrúgvæ. Tenglar. Mengele, Josef Rudolf Morkinskinna. Morkinskinna er konungasaga, sem fjallar um sögu Noregskonunga frá því um 1025 til 1157. Sagan var samin á Íslandi um 1220, og er varðveitt í handriti frá því um 1275. Handritið. Nafnið "Morkinskinna" var upphaflega notað um skinnhandritið sem sagan er varðveitt í, GKS 1009 fol., sem er í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið í „Gammel Kongeling Samling“ (GKS). Þormóður Torfason fékk handritið hjá Brynjólfi Sveinssyni biskupi í Skálholti sumarið 1662, og fór með það til Kaupmannahafnar, þar sem það var afhent bókasafni konungs (Friðriks 3.). Þormóður gaf handritinu nafnið "Morkinskinna", af því að í því (eða í bandinu) voru meiri rakaskemmdir en í öðrum handritum sem hann notaði. Síðar var farið að nota nafnið "Morkinskinna" um þá sérstöku gerð konungasagna sem í handritinu er. Handritið er ekki heilt, nú eru í því 37 blöð en þau hafa líklega verið 53 í upphafi. Eyður í fyrri hluta sögunnar er hægt að fylla með efni úr öðrum handritum, einkum Flateyjarbók, sem hefur að geyma náskyldan texta. Nokkrar vísur vantar þar og nokkra þætti, og aðrir eru þar í breyttri mynd. Niðurlag sögunnar er glatað, en efnið hefur líklega verið hliðstætt Heimskringlu. Tvær rithendur eru á bókinni. Sagan. Sagan hefst um 1025 og endar í miðri setningu árið 1157, eftir dauða Sigurðar 2. Haraldssonar. Upphaflega hefur sagan verið lengri, og líklega náð til 1177, eins og "Fagurskinna" og "Heimskringla", sem nota "Morkinskinnu" sem heimild. Í sögunni eru nú um 328 vísur, eða fleiri en í flestum öðrum fornritum, en eflaust hafa vísurnar verið fleiri þegar sagan var heil. Vísurnar eru flestar undir dróttkvæðum hætti, hrynhendum hætti og fornyrðislagi. Ein helsta prýði Morkinskinnu eru hinir svokölluðu "Íslendingaþættir", sem margir hverjir eru meðal meistaraverka íslenskra bókmennta, svo sem Auðunar þáttur vestfirska. Áður fyrr voru þættirnir taldir seinni tíma innskot, en Ármann Jakobsson hefur fært rök fyrir því að þeir gegni mikilvægu hutverki í sögunni. Þættirnir eru flestir í sögu Haralds harðráða. Íslendingaþættirnir hafa oft verið gefnir út sérstakir. Í Morkinskinnu sameinast þrír straumar í einu riti: Hirðmenning sunnan úr álfu, norræn skáldskaparhefð dróttkvæðaskálda og áhrif frá eldri konungasögum. Ólafur Ólafsson lærði karl. Ólafur Ólafsson (d. 29. nóvember 1666 í Viðvík í Skagafirði), sem kallaður var lærði karl, var skólameistari á Hólum og síðar prestur í Grímstungu í Vatnsdal en missti prestsskap 1638. Ólafur var sonur Ólafs Þorkelssonar bónda í Krossnesi í Kræklingahlíð og konu hans Þuríðar Eiríksdóttur. Hann var fóstraður af Guðbrandi Þorlákssyni biskupi, sem setti hann í Hólaskóla og sendi hann síðan til náms í Kaupmannahöfn í því skyni að hann tæki svo að sér skólameistaraembættið á Hólum. Tveir bræður Ólafs stunduðu einnig nám við Hafnarháskóla en létust báðir erlendis. Ólafur innritaðist í háskólann 1605 og virðist hafa staðið sig þokkalega þar, að minnsta kosti fékk kann góðan vitnisburð kennara. Hann kom svo heim og mun hafa tekið við embætti skólameistara 1611. Það orð komst þó fljótt á að skólameistarinn væri fákunnandi og á engan hátt fær um að stýra skólanum. Var það meðal annars tekið sem dæmi að hann hefði kennt skólapiltum að stigbreyta latneska orðið "parvus" rangt og orti Þorlákur Skúlason, sem þá var heyrari við skólann, vísu um þetta þar sem meðal annars var vikið að lágum vexti skólameistarans, en Ólafur var nær dvergur á vöxt. Vegna sögusagna sem bárust til Kaupmannahafnar um vankunnáttu skólameistarans og að Guðbrandur biskup drægi kaup hans undir sig var nýskipuðum höfuðsmanni, Frederik Friis, falið að rannsaka málið. Hann kom til landsins 1619 en veiktist á leiðinni og dó þremur dögum eftir komuna. Hann hafði þó áður sett mann til að reka málið fyrir sig og var Guðbrandi stefnt til Alþingis. Hann kom þangað ásamt Ólafi skólameistara, sem bar vitni um að hann hefði fullt skólameistarakaup og sýndi jafnframt vitnisburð frá Kaupmannahafnarháskóla um kunnáttu sína og bauðst til að svara hverjum þeim sem þreyta vildi lærdóm við hann. Enginn gaf sig fram og varð ekki meira úr málinu. En sannleikurinn um kaupgjaldið mun hafa verið sá að Guðbrandur hafði kostað Ólaf til náms en skólameistarakaupið var svo látið ganga upp í námskostnaðinn. Það varð þó úr að Ólafur hrökklaðist frá skólanum en Þorlákur Skúlason, dóttursonur biskups, tók við. Ólafur varð prestur í Grímstungu í Vatnsdal en missti embættið árið 1638, sumar heimildir segja vegna barneignar en aðrar að það hafi verið vegna þess að han kærði séra Jón Pálsson á Ríp fyrir að hafa borið sér blóð í kaleiknum í kvöldmáltíðarsakramentinu. Séra Jón sagði að Ólafur hefði spýtt sjálfur blóði í kaleikinn en fyrir það sór Ólafur með tylftareið. En fyrir þetta er sagt að Þorlákur Skúlason, sem þá var orðinn biskup, hafi sett þá báða af. Sigfús Egilsson. Sigfús Egilsson (3. maí 1600 – 1673) var kennari og síðan skólameistari í Hólaskóla, prestur í Hofsþingum og síðast dómkirkjuprestur á Hólum í Hjaltadal. Sigfús var sonur Egils Ólafssonar, prests á Bægisá, í Hofsþingum og síðast á Tjörn í Svarfaðardal, og fyrri konu hans Oddnýjar Sigfúsdóttur. Hann var heyrari á Hólum frá 1631 til 1638 en varð þá skólameistari og gegndi því starfi til 1644. Það ár var hann vígður prestur að Hofi á Höfðaströnd og þjónaði Hofsþingum til 1660. Þá fór hann aftur að Hólum, varð þar dómkirkjuprestur og gegndi því embætti til dauðadags. Fyrri kona Sigfúsar var Vilborg Erlendsdóttir en hún dó af barnsförum 1644 og áttu þau ekki barn sem lifði. Sigfús giftist aftur Ólöfu Sigfúsdóttur og voru börn þeirra séra Egill í Glaumbæ, sem var skólameistari á Hólum um tíma, séra Jón á Ríp og Oddný, kona Gísla Eiríkssonar lögréttumanns á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Runólfur Jónsson (skólameistari). Runólfur Jónsson (um 1619 – 1654) var skólameistari á Hólum og í Danmörku, fornfræðingur og fékk meistaranafnbót fyrir lærdóm sinn. Runólfur var fæddur á Skeggjastöðum á Langanesströnd, sonur séra Jóns Runólfssonar prests þar og síðar á Svalbarði í Þistilfirði og Munkaþverá, sem dó 1682 og var þá sagður 102 ára gamall, og miðkonu hans Sigríðar Einarsdóttur, Nikulássonar klausturhaldara á Munkaþverá. Runólfur þótti mikill gáfumaður. Hann lærði í Hólaskóla, var um tíma við nám í Kaupmannahöfn en kom svo heim og var skólameistari á Hólum frá 1643 til 1649. Á meðan hann var þar er hann sagður hafa mælt hnattstöðu Hóla. Þegar hann lét af embætti fór hann til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Þar lagði hann stund á fornfræði, skrifaði á latínu rit málfræðilegs eðlis, meðal annars fyrstu íslensku málmyndalýsinguna, og vann að latnesk-íslenskri orðabók. Runólfur var sæmdur meistaranafnbót 1650 fyrir lærdóm sinn. Sagt var að hann stefndi á að verða biskup á Hólum á eftir Þorláki Skúlasyni. Hann varð skólameistari í Christiansstad á Skáni en dó þar 1654 úr skæðri pest sem gekk þá um Danmörku og lagði meðal annars nokkra íslenska námsmenn að velli. Hann var ókvæntur og barnlaus. Þorsteinn Illugason. Þorsteinn Illugason (1618 – 11. september 1705) var skólameistari í Hólaskóla í fjóra vetur og síðan aðstoðarprestur á Hólum, prestur á Völlum í Svarfaðardal í 40 ár og prófastur í Vaðlaþingi í rúma þrjá áratugi. Þorsteinn var sonur Illuga Jónssonar Hólaráðsmanns og konu hans Halldóru Skúladóttur, systur Þorláks biskups og dótturdóttur Guðbrands Þorlákssonar. Hann varð skólameistari á Hólum 1649 og gegndi því starfi í fjóra vetur en þá tók hann prestsvígslu og varð aðstoðardómkirkjuprestur á Hólum. Árið 1658 fékk hann Velli í Svarfaðardal og var prestur þar allt til 1698 og jafnframt prófastur í Vaðlaþingi frá 1667. Hann lét af embætti áttræður að aldri en var þó áfram á Völlum og átti þar heima þegar manntalið var tekið 1703. Hann dó tveimur árum síðar, hátt á níræðisaldri, annaðhvort á Völlum eða á Sökku í sömu sveit hjá dóttur sinni. Kona séra Þorsteins, gift 11. október 1667, var Steinvör Jónsdóttir frá Skeggjastöðum, alsystir Runólfs, sem var skólameistari næstur á undan Þorsteini. Þau áttu þrjár dætur, Sigríði konu séra Hjalta Þorsteinssonar prests og listmálara í Vatnsfirði, Gróu konu séra Gísla Jónssonar á Útskálum og Kristrúnu konu Ara Jónssonar bónda á Sökku í Svarfaðardal, sonar Jóns Arasonar prófasts í Vatnsfirði. Ein dóttir þeirra var Guðrún sól, sem þótti kvenna fegurst og heillaði marga unga menn, þar á meðal Jón Steinsson Bergmann, son Steins biskups, svo mjög að hún var sögð ástæða þess að hann fyrirfór sér. Önnur dóttir þeirra, Hólmfríður, var langamma Bertels Thorvaldsen myndhöggvara. Skúli Þorláksson. Skúli Þorláksson (1635 – 14. september 1704) var skólameistari á Hólum í eitt ár en síðan prestur á Grenjaðarstað og prófastur í Þingeyjarþingi frá 1660 til dauðadags. Skúli var næstelsti sonur Þorláks Skúlasonar Hólabiskups og Kristínar Gísladóttur konu hans. Á meðal systkina hans voru þeir Gísli Þorláksson Hólabiskup og Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup. Skúli sigldi ungur, stundaði skólanám í Kaupmannahöfn og fór síðar í Hafnarháskóla. Hann kom svo til Íslands og varð skólameistari á Hólum í eitt ár en 1660 var hann vígður prestur á Grenjaðarstað og varð um leið prófastur. Hann er sagður hafa verið stórauðugur. Fyrri kona Skúla var Guðrún Benediktsdóttir, dóttir Benedikts Halldórssonar sýslumanns í Skagafjarðarsýslu. Þau voru barnlaus. Eftir lát hennar giftist Skúli Elínu Sigurðardóttur, sem var dóttir Sigurðar Magnússonar sýslumanns á Skútustöðum og systir Magnúsar í Bræðratungu. Þau áttu fjölda barna en flest þeirra dóu í Stórubólu 1707, uppkomin en barnlaus. Yngsta dóttirin, Jórunn, lifði þó og giftist frænda sínum, Brynjólfi Thorlacius Þórðarsyni sýslumanni, syni Þórðar biskups. Ágeas. Ágeas var í grískri goðafræði konungur í Elís og faðir Epíköstu. Fimmta þraut Heraklesar var að þrífa fjós Ágeasar. Var það óvinnandi verk einum manni og veitti Herakles því fljótunum Alfeios og Peneios um fjósin. Í mörgum tungumálum, sem og á íslensku, er það "að þrífa/hreinsa Ágeasarfjósið" haft um það að vinna næsta ómögulegt verk, klára eitthvað sem er einstaklega erfitt eða næsta ómögulegt nema með róttækum aðferðum. Gísli Vigfússon. Gísli Vigfússon (1637 – 6. janúar 1673) var skólameistari í Hólaskóla, meistari í heimspeki og síðar bóndi á Hofi á Höfðaströnd. Gísli var sonur Vigfúsar Gíslasonar sýslumanns, sem einnig hafði verið skólameistari á Hólum, og konu hans Katrínar Erlendsdóttur. Bróðir hans var Bauka-Jón Vigfússon Hólabiskups. Gísli fór utan til háskólanáms um 1658 og ferðaðist síðan um Þýskaland, Belgíu og England og var fjögur ár í þeirri ferð. Hann kom svo heim 1663 og varð skólameistari á Hólum. Því embætti gegndi hann í fjögur ár. Árið 1667 fór hann svo aftur til Kaupmannahafnar til náms og vísindaiðkana, var þar í tvö ár og varð meistari í heimspeki. Hann kom aftur til Íslands árið 1669. Árið eftir giftist hann Guðríði, dóttur Gunnars Björnssonar prests á Hofi á Höfðaströnd, sem hann hafði trúlofast áður en hann sigldi, og bjuggu þau þar, en Gísli dó árið 1673. Þau áttu einn son, Vigfús Gíslason bónda á Hofi. Þegar Gísli var erlendis í seinna skiptið orti hann þrjár vísur til unnustu sinnar. Fyrsta vísan er talin ein elsta heimild um flekaveiðar við Drangey. Jón Bjarnason (prestur á Staðarbakka). Jón Bjarnason (d. 8. september 1705) var kennari og skólameistari í Hólaskóla og síðar prestur á Staðarbakka í Miðfirði. Jón var sonur séra Bjarna Jónssonar prests í Miklagarði í Eyjafirði og síðar á Þönglabakka í Fjörðum og konu hans Margrétar Gamalíelsdóttur. Um séra Bjarna segir Jón Espólín: „Var klagaður fyrir allra handa embættisafglöp og heimsku, en var ríkur og kunni vel til laga, gat því varið sig.“ Jón var skólameistari á Hólum 1667-1673 og á meðan hann var þar átti hann barn í frillulífi. Hann var sagður allvel lærður, skáld og mælskumaður. Árið 1673 var hann vígður prestur að Staðarbakka og var þar til dauðadags, eða í 32 ár. Í annálum segir að hann hafi ekki viljað deyja inni í bæ, heldur í kirkjunni, og hafi gengið þangað en hnigið niður við stein á miðri leið og dáið þar. Fyrri kona hans var Sigríður Hákonardóttir en sú síðari Sigríður Þorgilsdóttir. Þorsteinn Geirsson. Þorsteinn Geirsson (4. maí 1638 – 16. apríl 1689) var kennari og síðar skólameistari í Hólaskóla og seinna prestur í Laufási við Eyjafjörð. Hann var sagður mikill gáfumaður og vel lærður. Þorsteinn var sonur séra Geirs Markússonar prests í Mývatnsþingum og síðar á Helgastöðum í Reykjadal og konu hans Steinunnar Jónsdóttur, einn úr stórum systkinahópi. Hann var heyrari á Hólum í nokkur ár en fór síðan utan og lærði við Kaupmannahafnarháskóla í fimm ár. Þá fór hann aftur til Íslands og varð skólameistari á Hólum árið 1673. Því starfi gegndi hann til 1683. Þá lést Markús bróðir hans, sem var prestur í Laufási, og var Þorsteinn vígður þangað. Egill Sigfússon (sem seinna átti barn með Sigríði yngstu, systur Þorsteins) tók við skólameistarastarfinu af honum. Þorsteinn var þó ekki langlífur í embætti, dó sex árum síðar. Kona hans var Helga Jónsdóttir (1638–1718), dóttir séra Jóns Arasonar í Vatnsfirði. Hún hafði áður verið gift Teiti Torfasyni Skálholtsráðsmanni. Hún var barnlaus með báðum mönnum sínum. Í Þjóðminjasafni er minningartafla úr Laufáskirkju með mynd af þeim hjónum, Þorsteini og Helgu, líklega eftir séra Jón Guðmundsson á Felli í Sléttuhlíð. Egill Sigfússon. Egill Sigfússon (1650 – 1723) var kennari og skólameistari í Hólaskóla og síðan prestur í Glaumbæ á Langholti. Hann var gott latínuskáld og sagður mikill gáfumaður. Egill var sonur séra Sigfúsar Egilssonar dómkirkjuprests á Hólum og áður skólameistara og seinni konu hans Ólafar Sigfúsdóttur. Hann útskrifaðist úr Hólaskóla og hélt síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Hann sneri aftur til íslands 1678 og árið 1683 varð hann skólameistari í Hólaskóla og gengdi því starfi í tólf ár, eða til 1695. Þá var hann vígður prestur í Glaumbæ en missti prestsskap tveimur árum síðar af því að hann hafði eignast son í lausaleik með Sigríði Geirsdóttur, systur Þorsteins Geirssonar sem var skólameistari næstur á undan honum. Hann fékk þó embættið aftur aðeins einu ári síðar en þurfti að borga 50 dali fyrir. Kona Egils var Þuríður, dóttir Jóns Bjarnasonar bónda í Stafni í Svartárdal. Þau áttu tvær dætur. Bad Teacher. "Bad Teacher" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2011. Myndin er leikstýrð af Jake Kasdan og handritið er skrifað af Lee Eisenberg og Gene Stupnitsky. Cameron Diaz, Justin Timberlake, og Jason Segel fara með aðalhlutverk í myndinni sem frumsýnd var þann 22. júní á Íslandi og þann 24. júní í Bandaríkjunum. Söguþráður. Elizabeth Halsey er kennari sem er bara alveg sama. Hún er orðljót, óforskömmuð og óviðeigandi fyrir allan peninginn. Á skólatíma bölvar hún á nemendu sína, dettur í það og reykir gras. Hún ætlar að giftast ríkum unnusta sínum en þegar hann lætur hana róa reynir hún að næla sér í nýja varakennarann við skólann, Scott Delacorte, sem er ríkur og myndalegur. Helstu keppinautar hennar eru annar kennari, Amy og hugmyndin um fyrrverandi kærustu Scott, sem var í meira lagi brjóstgóð. Hún telur sig líklegri til að vinna hylli Scott með því að fara í brjóstaaðgerð og til þess að afla fjár fyrir henni þarf hún, versti kennari skólans, að fá nemendur sína til að ná hæstu einkunnum í skólanum. Auk þess þarf hún að losna við óþolandi leikfimikennarann Russell sem er ástfanginn af henni, keppinautinn Amy, og sína eigin slæmu siði. Kvenréttindi. Kvenréttindi eru þau efnahagslegu og stjórnmálalegu réttindi sem konur í mjög margvíslegum aðstæðum hafa gert tilkall til og gera enn í dag. Þau réttindi sem nefna má eru kosningaréttur í lýðræðisríkjum, réttur til jafnra launa kynjanna fyrir sömu störf, til sjálfræðis, fjárræðis, til þess að ganga í her, gegna opinberum embættum, o.fl. Jafnrétti er víðast hvar talsvert mikið á Vesturlöndum, og þá sérstaklega í Skandinavíu. Í einveldisríkjum eins og t.d. Sádi-Arabíu eru réttindi kvenna af skornum skammti, þar mega þær hvorki aka farartæki né heldur kjósa til ráðgefandi þings (a. "Majlis as-Shura"). Baráttuna fyrir kosningarétti kvenna má rekja til skrifa breska femínistans Mary Wollstonecraft í byrjun 19. aldar. Konur fengu fyrst kosningarétt árið 1893 í Nýja-Sjálandi sem þá var nýlenda Breta. Íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingiskosninga árið 1915, þó með nokkrum takmörkunum. Svissneskar konur fengu ekki kosningarétt fyrr en 1971. Þórarinn E. Tulinius. Þórarinn Erlendur Tulinius eða Thor E. Tulinius (f. á Eskifirði 1860, d. 1932) stórkaupmaður var mjög umsvifamikill á Ísland um og við aldamótin 1900. Hann rak meðal annars eimskipafélagið Thore, sem hann stofnaði 1903. Eindhoven. Eindhoven er stærsta borgin í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi með 216 þúsund íbúa og er jafnframt fimmta stærsta borg Hollands. Eindhoven er mikil iðnaðarborg. Þar eru DAF-bílaverksmiðjurnar og Philips-iðnrisinn til húsa. Lega og lýsing. Eindhoven liggur við ána Dommel í suðausturhluta Hollands, aðeins steinsnar fyrir norðan belgísku landamærin. Næstu borgir eru Tilburg til norðvesturs (35 km), Hertogenbosch til norðurs (35 km), Nijmegen til norðausturs (60 km) og Turnhout í Belgíu til suðvesturs (45 km). Fáni og skjaldarmerki. Fáni Eindhoven sýnir fimm láréttar rendur, þrjár rauðar og tvær hvítar, ásamt tveimur lóðréttum röndum til vinstri, ein hvít og ein rauð. Láréttu rendurnar merkja bæina fimm sem sameinaðir voru í Eindhoven 1920, meðan lóðréttu rendurnar merkja borgina sjálfa. Fáninn var hannaður af arkítektinum Louis Kooken eftir sameiningu bæjanna. Skjaldarmerki borgarinnar er tvískipt. Til hægri er þrjú silfurhorn á rauðum grunni. Hornin eru merki Van Horne ættarinnar. Til vinstri er rautt ljón á silfurgrunni. Ljónið var merki hertoganna í Brabant. Efst er kóróna, sem stendur fyrir konungsríkið Holland. Elstu hlutar skjaldarmerkisins eru frá 1355 en núverandi merki var samþykkt 1923. Orðsifjar. Óvíst er um tilurð heitisins. Sumir vilja meina að "ein" merkir "endir" og hoven "bóndabær", þ.e. að upphaflega hafi verið bóndabýli á við endamörk Woensel, sem var fyrrum bær, en er nú horfinn. Allmargir bæir í Hollandi hafa endinguna "–hoven". Upphaf. Bærinn myndaðist við samflæði ánna Dommel og Gender á verslunarleið sem lá frá Hollandi (sem hérað) til Brabant. Árið 1232 veitti Hinrik I af Brabant Eindhoven borgarréttindi. Þá var borgin ekki með nema um 170 hús innan um varnarveggi, en utan þeirra var lítið kastalavirki. Mikill rígur var milli Eindhoven og greifadæmisins Geldern. Þannig var borgin rænd og lögð í eyði af herjum Geldern 1486. Aðeins sex hús stóðu eftir uppi. Árið 1493 var lítill her frá Geldern aftur á ferðinni til að ræna og rupla. Þetta endurtók sig 1505 og 1508. Hins vegar var þá búið að reisa betri varnarmúra, þannig að borgin slapp við eyðileggingu en nærsveitir urðu illa úti. Enn voru herir Geldern á ferðinni 1528 en sökum betri varna borgarinnar urðu þeir frá að hverfa. Sjálfstæisstríð. Spánverjar sitja um og hertaka Eindhoven 1583 1543 hertók Maarten van Rossum borgina Eindhoven, en hann var á mála hjá Karli V. keisara. Brabant var þá orðið eign Habsborgar. Þegar Vilhjálmur af Óraníu nálgaðist með her, dró Maarten sig til baka. Enn syrti í álinn 1554 er stórbruni eyddi þrjá fjórðu hluta borgarinnar. Hún var endurreist með aðstoð Vilhjálms. Siðaskiptin urðu 1566 í Eindhoven og átti það eftir að draga dilk á eftir sér. Í sjálfstæðisstríði Hollands var Eindhoven hertekin af Spánverjum, sem ofsóttu kalvínista. Árið 1577 náði Vilhjálmur af Óraníu að frelsa borgina en féll Spánverjum aftur í hendur nokkru seinna. Þannig var borgin hernumin nokkru sinnum, ýmist af Hollendingum eða Spánverjum. Þegar Spánverjar tóku borgina í síðasta sinn 1583, eftir þriggja mánaða umsátur, rifu þeir niður alla borgarmúra. Eindhoven var ekki endanlega hluti Hollands fyrr 1629. Iðnbylting. DAF-bílarnir eru smíðaðir í Eindhoven Þegar Frakkar hertóku Holland 1795 varð Eindhoven enn fyrir skemmdum og eyðilögðust mörg hús af völdum Frakka. Á tímum iðnbyltingarinnar um miðja 19. öld óx borgin mjög. Grafnir voru skipaskurðir sem tengdust við Eindhoven 1843. Borgin fékk járnbrautartengingu 1866-70. Fyrsti stóri iðnaðurinn hófst er Gerard og Anton Philips stofnuðu ljósaperufyrirtæki í borginni 1891 en það varð brátt að iðnrisanum Philips. Íbúafjöldinn jókst verulega. 1815 voru íbúar aðeins 2.300. Árið 1920 voru þeir orðnir tæplega 48 þúsund, 1925 tæplega 64 þúsund og 1935 hafði þeim fjölgað í yfir 100 þúsund. Til að gera borginni mögulegt að stækka svona mikið voru fimm bæir sameinaðir Eindhoven (Woensel, Tongelre, Stratum, Gestel en Blaarthem og Strijp). Við það fékkst mikið byggingaland. 1928 var bílaverksmiðjan DAF stofnuð í Eindhoven og er það enn stærsta bílaframleiðandi Hollands. Nýrri tímar. Íbúar Eindhoven við götuna Stratumseind fagna bandamönnum, sem nýbúnir eru að frelsa borgina. Myndin er tekin 19. september 1944. Eindhoven var hernumin af Þjóðverjum 1940, eins og landið allt. 18. september 1944 varð borgin fyrir loftárásum bandamanna, en þá réðust bandamenn inn í borgina til að tryggja yfirráð yfir brúm sem þar voru. Loftárásirnar skemmdu stóran hluta borgarinnar. Aðgerðin kallaðist Operation Market Garden. Aðgerðin heppnaðist ekki að fullu, því bandamenn voru stöðvaðir við borgina Arnhem. Á hinn bóginn var Eindhoven frelsuð í aðgerðinni, því Þjóðverjar voru endanlega hraktir burt þaðan. Við enduruppbyggingu í miðborginni eftir stríð voru mörg gömul hús fjarlægð, þannig að Eindhoven er mjög nýtískuleg á að líta. Sökum mikils iðnaðar óx borgin enn og varð að fimmtu stærstu borg Hollands á áttunda og níunda áratugnum. Enn er verið að bæta við íbúðahverfum á nýrri öld, er gamli flugvöllurinn Welshap var færður til að rýma fyrir nýju svæði til uppbyggingar. Viðburðir. Frá bílasýningunni Pole Position Eindhoven Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er PSV Eindhoven sem 21 sinni hefur orðið hollenskur meistari (síðast 2008), 8 sinnum bikarmeistari (síðast 2005), einu sinni Evrópubikarmeistari 1978 og einu sinni sigrað Meistaradeild Evrópu 1988 (sigraði þá Benfica Lissabon í vítaspyrnukeppni). Af fyrrverandi þekktum leikmönnum félagsins má nefna Ruud Gullit, Romário, Ronaldo og Ruud van Nistelrooy. Eiður Smári Guðjohnsen lék með félaginu tímabilið 1995-96. PSV er einnig með úrvalslið í sundi og sundknattleik. Hinn margfaldi heims- og ólympíumeistari í sundi, Pieter van den Hoogenband, er uppruninn í sundliðinu. Eindhoven Marathon er Maraþonhlaupið í borginni. Það hefur verið haldið árlega síðan 1990. Síðan 1999 hefur sigurvegarinn í karlaflokki ávallt verið frá Kenía. Í Eindhoven er stærsti hjólabrettagarður Evrópu, kallaður Area 51 (Skatepark), enda þrífst lífleg hjólbrettamenning í borginni. HM í borðtennis var haldið í Eindhoven 1999. Byggingar og kennileiti. Lítið er um gamlar byggingar vegna loftárása seinna stríðs. Nær öll miðborgin hefur verið endurnýjuð í nýtísku stíl. My Sister's Keeper (kvikmynd). "My Sister's Keeper" er bandarísk kvikmynd frá árinu 2009 sem leikstýrð er af Nick Cassavetes og fara Cameron Diaz, Abigail Breslin, Sovia Vassileva, og Alec Baldwin með aðalhlutverk í myndinni sem byggð er á samnefndri bók eftir Jodi Picoult. Myndin, sem frumsýnd var þann 8. júlí 2009 á Íslandi, segir sögu ungrar stúlku sem fer í mál við foreldra sína svo hún geti sjálf tekið ákvörðun um hvort hún eigi að gefa nýra til að bjarga lífi eldri systur sinnar. The Trooper. The Trooper er lag með Iron Maiden. Lagið kom út á breiðskífunni Piece of Mind 16. maí 1983 og sem smáskífa í júní sama árs. Lagið er samið af Steve Harris og er um Orrustuna við Balaclava í Krímstríðinu. Ásgarður (Þorgrímsstaðadal). Ásgarður er fornt eyðibýli í Þorgrímsstaðadal í Vatnsnesfjalli í Vestur-Húnavatnssýslu. Þjóðsögur segja að Ásgarður hafi eitt sinn verið kirkjustaður og heil kirkjusókn hafi verið í dalnum en þeir bæir eru komnir í auðn. Bæjarins er getið í landamerkjalýsingu á milli Tungu og Ásbjarnarstaða 21. nóvember 1485 og er þar sagt að Tjarnarkirkja eigi land fram að Seljagili á móti Ásgarði (sjá Íslenskt fornbréfasafn VI). Úlfur Karlsson. Úlfur Karlsson (fæddur 13. október 1988) er íslenskur Listamaður og kvikmyndagerðarmaður. Úlfur hóf feril sinn með gerð stuttmynda og heimildarmynda,árið 2003 komst Úlfur á kvikmynda hátíð í New York,með stuttmyndina "Pirovat".2008 lauk hann námi við Kvikmyndaskóla Íslands.Hann hefur gert tvær stuttmyndir síðan hann gerði Pirovat."Tvísögu" árið 2006,og "Einskonar Alaska" árið 2008,sem byggt var á útvarpsleikriti Harold Pinter.2009 hóf Úlfur nám við listaháskóla í Gautaborg.Þar hefur hann haldið margar sýningar á málverkum sínum.Í Abstrakt expressíónistískum málverkum sínum er hann undir áhrifum frá Basquiat og Jackson Pollock. References. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=264100&pageId=3715667&lang=is&q=%DAlfur%20Karlsson Óevklíðsk rúmfræði. Óevklíðsk rúmfræði er rúmfræði sem þar sem frumsendum Evklíðs er ekki öllum fullnægt. Svalur og Valur. "Svalur og Valur" (franska: "Spirou et Fantasio") er heiti á vinsælum belgískum teiknimyndasögum sem segja frá ævintýrum vinanna og blaðamannanna Svals og Vals. Ýmsir höfundar hafa spreytt sig á sagnaflokknum, en André Franquin er almennt talinn hafa haft mest áhrif á þróun hans. Á árunum 1977 til 1992 komu fjölmargar Svals og Vals-bækur út á íslensku á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar. Sagan. Upphafið má rekja til ársins 1938, þegar Dupuis-forlagið hóf útgáfu teiknimyndablaðsins Svals (Spirou). Í því birtust sögur ýmissa höfunda, en titlpersónan var Svalur sem var hugarsmíð franska teiknarans Robert Velter eða Rob-Vel, eins og hann kallaði sig. Svalur var táningspiltur sem starfaði sem lyftuvörður á hóteli og komst oft í hann krappann ásamt gæluíkornanum sínum, Pésa. Árið 1943 keypti Dupuis-forlagið höfundaréttinn að persónunni af Rob-Vel, sem þá hafði raunar ekki getað sinnt sögunum um hríð vegna þátttöku sinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Belginn Joseph Gillain eða Jijé tók við pennanum. Hann kynnti til sögunnar spjátrunginn Val. Saman lentu þeir félagarnir í ýmsum ævintýrum. Sögurnar voru þó stuttar og gengu fyrst og fremst út á ærslakenndan húmor. Gullöld Svals og Vals. a> var aðalteiknari og höfundur bókaflokksins á áttunda áratugnum. Árið 1946 var ungum Belga, André Franquin, falin umsjón með ævintýrum Svals og Vals. Í hans meðförum urðu miklar breytingar á sögunum. Söguþráðurinn varð flóknari, ævintýrin lengdust til muna og var farið að gefa þau út á bókarformi eftir að þau höfðu birst sem framhaldssögur í Svals-blaðinu. Árið 1948 kom fyrsta slíka bókin á markað og hafði hún að geyma fjórar sögur. Önnur fylgdi í kjölfarið árið 1950, Quatre aventures de Spirou et Fantasio og er hefð fyrir að telja hana fyrstu Svals og Vals-bókina. Síðar hafa komið út söfn með eldri sögum eftir Rob-Vel, Jijé og Franquin, teljast þau ekki hluti af hinum eiginlega bókaflokki frekar en bókin frá 1948. Franquin kynnti einnig til sögunnar ýmsar aukapersónur sem áttu eftir að hafa mikil áhrif. Má þar nefna Sveppagreifann og kynjaskepnuna gormdýrið. Þá hóf Viggó viðutan göngu sína sem aukapersóna í Sval og Val áður en hann öðlaðist sjálfstæða tilveru í eigin sögum. Meðan sagnaflokkurinn var í umsjón Franquins, naut hann aðstoðar ýmissa manna sem ýmist komu að því að semja sögurnar, teikna bakgrunnsmyndir eða lita þær. Má þar nefna listamenn á borð við Peyo og Jean Roba. Frakkinn Jean-Claude Fournier tók við Sval og Val árið 1969. Franquin vildi þó ekki sleppa hendinni af gormdýrinu og heimilaði ekki notkun þess í fleiri Svals og Vals-bókum. Fournier sveigði söguþráðinn meira í átt að hefðbundnum spennusögum, þar sem félagarnir áttu oft í höggi við alþjóðlegu glæpasamtökin Þríhyrninginn, sem svipar mjög til SPECTRE-samtakanna úr kvikmyndunum um James Bond. Af minnisstæðum aukapersónum Fourniers má nefna japanska töframanninn Ító Kata. Örar mannabreytingar. Belgíski teiknarinn Janry áritar verk sín á bókamessu í Gautaborg 2008. Árið 1979 hætti Fournier skyndilega störfum hjá Dupuis. Í kjölfarið voru tvö teymi teiknara og höfunda fengin til að spreyta sig á sögunum og birtust þær á víxl í Svals-blaðinu. Annars vegar voru það teiknarinn Nic og höfundurinn Cauvin, sem er kunnastur fyrir sögur sínar um harðjaxlana "Samma og Kobba" og hins vegar þeir Tome og Janry. Hinir fyrrnefndu þóttu ekki ná sér vel á strik og eru bækurnar þeirra þrjár ekki í hávegum hafðar hjá hörðum aðdáendum. Tome og Janry nutu hins vegar mikilla vinsælda frá upphafi og sendu frá sér fjórtán bækur í allt, ein þeirra, "Furðulegar uppljóstranir", segir frá æskuárum Svals og markaði hún í raun upphafið að sjálfstæðum bókaflokki þeirra félaga um strákpjakkinn Sval. Síðasta bók þeirra, "Machine qui rêve" frá 1998, markaði tímamót í bókaflokknum. Útliti persónanna var gjörbreytt og þær gerðar raunsæislegri. Stokkið var fram og aftur í tíma í frásögninni og minnir sagan fremur á hefðbundnar nútímateiknimyndasögur en hinar gömlu Svals og Vals-bækur. Svalur og Valur á 21. öld. Þessi tilraun til nútímavæðingar bókaflokksins hélt áram hjá næstu höfundum, Morvan og Munuera. Þeir sendu frá sér fjórar bækur sem sóttu mjög í smiðju japanskrar Manga-hefðar í teiknimyndasagnagerð. Annað einkenni á verkum þeirra er hversu mikið er um vísanir í fyrri bækur ritraðarinnar og gamlar aukapersónur óspart kynntar til sögunnar. Þessar sögulegu vísanir eru ekki síður fyrirferðarmiklar í bókinni "Alerte aux Zorkons" eftir þá Yoann og Wehlmann, sem tóku við keflinu árið 2010. Bókin telst sú 51. í röðinni. Áður höfðu Yoann og Wehlmann átt sögur í nýjum bókaflokki Dupuis, þar sem einstakir listamenn eru fengnir til að gera Sval og Val skil á sinn hátt. Sex slíkar bækur komu út á árabilinu 2006 til 2010, en áætlað er að eftirleiðis verði gefin út bók í þeirri ritröð annað hvort ár, en hitt árið komi út Svals og Vals-bók í hinum opinbera bókaflokki. Svalur. Svalur (franska: "Spirou") var kynntur til sögunnar á forsíðu fyrsta heftis teiknimyndablaðsins Svals árið 1938. Hann var hugarsmíð teiknarans Rob-Vel, sem kaus að gera persónuna að lyftudreng á hóteli. Sjálfur hafði Rob-Vel haft þann starfa með höndum á táningsaldri. Þótt lyftuvarðarferill Svals yrði ekki langur og hann gerðist fljótlega blaðamaður, hélt hann tryggð við rauða lyftuvarðargallann og kaskeytið. Í seinni tíð hafa teiknarar bókaflokksins reynt að færa Sval í annars konar klæðnað eða gera hann minna áberandi, t.d. með því að sleppa kaskeytinu eða láta búninginn minna á rauðan íþróttagalla. Í samskiptum þeirra Svals og Vals er Svalur yfirleitt rödd skynseminnar. Meðan Valur er mikið upp á kvenhöndina, hefur Svalur lítið haft sig í frammi í samskiptum við hitt kynið. Á því hefur þó orðið nokkur breyting í seinni tíð eða allt frá bókunum "Luna fatale" og "Machine qui rêve", tveimur síðustu bókunum eftir Tome og Janry. Í bókinni "Aux sources du Z" gengur Svalur meira að segja í hjónaband og snýr baki við æsilegum ævintýrum. Bókaflokkurinn "Litli-Svalur" eftir Tome og Janry segir frá ævintýrum Svals og vina hans á barnsaldri, með talsverðri áherslu á hvolpavitið. Valur. Valur (franska: "Fantasio") er besti vinur Svals og félagi frá því að teiknarinn Jijé kynnti hann til sögunnar árið 1944. Í fyrstu var Valur nálega tvöfalt hærri en Svalur en sá hæðarmunur minnkaði jafnt og þétt með tímanum. Valur var upphaflega hvatvís draumóramaður sem hugsaði fyrst og fremst um að skemmta sér eða lét sig dreyma um að auðgast hratt. Þá hefur hann alla tíð haft tæknidellu. Þótt persóna Vals hafi með tímanum orðið skynsamari og yfirvegaðri, er hann ennþá hrifnæmari þeirra félaga og fljótur að skipta skapi. Í teiknimyndunum um Viggó viðutan kemur Valur fyrir sem aukapersóna, en þar er hann fyrst og fremst ábyrgur skrifstofumaður sem verður ítrekað fyrir barðinu á uppátækjum Viggós. Pési. Pési (franska: "Spip") er gæluíkorni Svals, með mannlega hugsun og eiginleika. Hann birtist fyrst í sögu sem Rob-Vel og Jijé unnu í sameiningu. Pési fylgir félögunum eftir, en mismunandi er eftir höfundum hversu beinan þátt hann tekur í framvindu atburðarásarinnar, þannig dró nokkuð úr vægi hans með tilkomu gormdýrsins hjá Franquin. Í mörgum bókanna, einkum í tíð Fourniers og í fyrri bókum Tome og Janry, tjáir Pési sig óspart með hugsanablöðrum og þá yfirleitt á kaldhæðinn hátt, auk þess að ávarpa stundum lesandann beint. Í nýrri sögunum hefur þáttur Pésa heldur farið minnkandi á nýjan leik. Sveppagreifinn. Sveppagreifinn (franska: "Le Comte de Champignac") er sérvitur aðalsmaður og vísindamaður sem Svalur og Valur komast í kynni við strax í annarri bókinni, "Il y a un sorcier à Champignac". Greifinn býr á setri sínu fyrir utan Sveppaborg og valda ýmsar af tilraunum hans uppnámi í borginni. Þótt greifinn sé alhliða vísindamaður er sérgrein hans þó sveppir og notkun þeirra. Þáttur Sveppagreifans fór minnkandi eftir að Franquin sagði skilið við ritun Svals og Vals-bókanna. Gormdýrið. Gormdýrið (franska: "Marsupilami") eða Gormur er skringileg frumskógarskepna með ofurkrafta sem Valur finnur og tekur að sér í "Baráttunni um arfinn", fjórðu Svals og Vals-bók Franquins. Í næstu bókum komu í sífellu fram nýir hæfileikar dýrsins, s.s. hæfileiki þess til að synda á miklu dýpi og endurtaka setningar á mannamáli. Franquin hafði miklar mætur á Gormdýrinu og heimilaði eftirmönnum sínum ekki að nota það í fleiri Svals og Vals-ævintýrum, ef frá er talin fyrsta Fournier-bókin, "Gullgerðarmaðurinn", þar sem Franquin sá sjálfur um að teikna Gorm. Síðar hóf Franquin ritun sjálfstæðra bóka um gormdýrsfjölskyldu í frumskógum Rómönsku Ameríku. Svals og Vals-bókin Gormahreiðrið fjallaði nær einvörðungu um atferli þessarar skepnu. Zorglúbb. Zorglúbb (franska: "Zorglub") kemur fyrir í fjölda Svals og Vals-bóka og er einhver flóknasta persóna bókaflokksins. Í bókunum "Z fyrir Zorglúbb" og "Með kveðju frá Z" er Zorglúbb kynntur til sögunnar sem hrokafullur vísindamaður með mikilmennskubrjálæði. Hann er gamall skólafélagi Sveppagreifans og virðast áform hans um heimsyfirráð öðrum þræði tengjast minnimáttarkennd hans í garð síns gamla félaga. Í seinni ævintýrum er Zorglúbb fremur í hlutverki aðstoðarmanns Sveppagreifans, þótt stórmennskudraumarnir láti alltaf öðru hvoru á sér kræla. Í "Aux sources du Z" er upplýst að Sveppagreifinn og Zorglúbb hafi á háskólaárum sínum barist um ástir sömu konunnar, sem kunni að skýra margt í samskiptum þeirra. Hvergi í sagnaflokknum kemur fram hvort Zorglúbb sé fornafn eða eftirnafn persónunnar. Sammi frændi. Sammi (franska: "Zantafio") er siðblindur frændi Vals, sem komið hefur við sögu í átta Svals og Vals-bókum, einatt í hlutverki illmennis. Hann er kynntur til sögunnar í "Baráttunni um arfinn" og beitir þar ýmsum bellibrögðum í keppni við Val. Síðar gerist hann m.a. einræðisherra í Mið-Ameríkulandi, leiðtogi alþjóðaglæpasamtakanna "Þríhyrningsins" og reynir að ræna völdum í Rússlandi. Don Vito Cortizone. Don Vito Cortizone, einnig kallaður "Lucky", er fádæma óheppinn og hjátrúarfullur leiðtogi ítölsku mafíunnar í New York. Hann er kynntur til sögunnar í bókinni "Svalur í New York", þar sem hann þvingar Sval og Val til að aðstoða sig í baráttu við kínversku mafíuna í borginni. Hann kemur við sögu í þremur öðrum bóka Tome og Janry: "Seinheppnum syndasel", "Le rayon noir" og "Luna fatale". Borgarstjóri Sveppaborgar. Borgarstjórinn í Sveppaborg var kynntur til sögunnar í "Il y a un sorcier à Champignac" og er því einhver lífseigasta persóna bókaflokksins. Hann er dramblátur stjórnmálamaður með harðkúluhatt, sem kennir Sveppagreifanum um flest sem aflaga fer í bæ sínum og það ekki alltaf að ósekju. Borgarstjórinn notar hvert tækifæri til að flytja ávörp, sem oftar en ekki eru löng og ruglingsleg. Í allnokkrum bókanna afhjúpar hann styttu af sjálfri sér, sem endar þó einatt á að styttan eyðileggst með einhverjum hætti. Í "Vélmenni í veiðihug" á frummálinu, er upplýst að rétt nafn borgarstjórans sé "Gustave Labarbe", en það heiti kemur þó ekki fyrir í íslenskri þýðingu bókarinnar. Bitla. Bitla (franska: "Seccotine") er ein af örfáum kvenpersónum í hinni karllægu veröld Svals og Vals. Hún er tápmikill blaðamaður sem kemur þeim félögum oft til hjálpar í ævintýrum sínum. Þau Valur starfa á sama blaði og bítast því um fréttir og vinsældir ritstjórans. Val er því meinilla við Bitlu, en Svalur kann betur að meta hana. Milli þeirra hefur meira að segja myndast nokkur kynferðisleg spenna í seinni tíð, s.s. í "Machine qui rêve" og "Aux sources du Z". Bitla er sögumaður í "Gormahreiðrinu" og upplýsir þar um lifnaðarhætti gormdýrsins í sínu náttúrulega umhverfi. Í "Machine qui rêve" er upplýst að Bitla sé gælunafn eða uppnefni persónunnar, sem heiti í raun "Sophie". Órórea. Órórea (franska: "Ororéa") er blaðakona frá Pólýnesíu og vinkona Svals og Vals. Fournier kærði sig ekki um að nota persónuna Bitlu í bókum sínum og skóp í staðinn hina gullfallegu Óróreu sem flestir karlar eru bálskotnir í, þar á meðal Valur. Órórea kemur fyrir í fjórum af bókum Fourniers, en ekki hjá öðrum höfundum. Ító Kata. Ító Kata (franska: "Itoh Kata") er japanskur vinur þeirra Svals og Vals. Hann er snjall sjónhverfinga- og töframaður og koma þeir hæfileikar oft að góðum notum í baráttu við glæpamenn. Fournier skapaði persónu Ító Kata og notaði í þremur bóka sinna: "Sprengisveppnum", "Dularfulla klaustrinu" og "Móra". Morvan og Munuera endurvöktu töframanninn eftir langt hlé í bók sinni "Spirou et Fantasio à Tokyo". Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn – eða Fræðafélagið – var stofnað árið 1912 af nokkrum Íslendingum sem búsettir voru í Kaupmannahöfn. Félagið er enn starfandi. Markmið félagsins var að „styðja og styrkja íslensk vísindi og bókmenntir með útgáfu gamalla og nýrra rita, er snerta sögu landsins og náttúru, íslenskar bókmenntir og þjóðfræði“. Hið íslenska fræðafélag verður 100 ára vorið 2012. Stofnun félagsins og starfsemi til 1960. Árið 1906 hófst barátta fyrir því að flytja Kaupmannahafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags heim til Íslands; niðurstaðan varð sú að Hafnardeildin var lögð niður árið 1911. Kaupmannahafnardeildin hafði lengst af verið mun öflugri en Reykjavíkurdeildin, enda hafði miðstöð íslenskrar fræðastarfsemi verið þar ytra. Þetta varð til þess að sú hugmynd kviknaði meðal Hafnar-Íslendinga að stofna sjálfstætt íslenskt bókmenntafélag í Kaupmannahöfn til þess að gefa út rit sem sérstaklega voru ætluð Íslendingum. Bogi Th. Melsteð lét þessa hugmynd fyrst í ljósi opinberlega. Félagið hóf strax öfluga starfsemi og komu fyrstu bækurnar út haustið 1912. Var starfsemi félagsins nokkuð samfelld fram yfir 1960, en þá kom hlé. Félagið hefur þó gefið út bækur eða styrkt útgáfu rita fram til þessa dags. Bogi Th. Melsteð var vakinn og sofinn yfir starfsemi félagsins meðan hans naut við, og var útsjónarsamur að afla styrkja til starfseminnar. Einnig má geta þess að Kristian Kaalund arfleiddi Fræðafélagið að öllum eigum sínum (1919), og Þorvaldur Thoroddsen gaf félaginu upplagið af "Ferðabók" sinni, 1–4, sem hann kostaði sjálfur útgáfu á. Varð fjárhagur félagsins með tímanum allgóður. Á árunum 1916–1930 kom út "Ársrit Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn", alls 11 árgangar. Í því voru læsilegar og fróðlegar greinar. Í 25 ára afmælisriti félagsins er yfirlit um útgáfustarfsemina á því tímabili, en félagið hafði þá gefið út 44 bækur. Nefna má ritraðirnar: "Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga", sem varð 14 bindi, og "Íslensk rit síðari alda", sem varð 7+2 bindi. Félagið hefur gefið út fjölda áhugaverðra bóka, má t.d. nefna "Árferði á Íslandi í þúsund ár", eftir Þorvald Thoroddsen (1916–17), og "Ævisögu Árna Magnússonar" eftir Finn Jónsson (1930). Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Langstærsta verkefni félagsins fyrstu áratugina var útgáfan á "Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns", sem kom út í 11 bindum á árunum 1913–1943. Þetta var metnaðarfull útgáfa á merku heimildarriti. Jarðabókin nær ekki yfir allt landið, því að jarðabókin yfir Múlasýslur og Skaftafellssýslur brann í Kaupmannahöfn 1728. Nær allt upplagið af 10. bindinu brann í Kaupmannahöfn 1943, en bókin var ljósprentuð tveimur árum síðar. Starfsemi síðustu árin. Á síðustu árum hefur Pétur M. Jónasson líffræðingur verið í forsvari fyrir félagið, og hefur útgáfan að mestu leyti snúist um Jarðabókina og náttúru Íslands (Mývatn og Þingvallavatn). Jón Bjarnason (prestur í Fellsmúla). Jón Bjarnason (d. 1628) var skólameistari í Skálholtsskóla, síðan prestur þar og loks prestur í Fellsmúla í Rangárþingi frá 1612 til dauðadags. Jón var sonur Bjarna Helgasonar bónda á Skammbeinsstöðum í Holtum, bróður Margrétar móður Odds Einarssonar biskups, og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Hann lærði í Skálholtsskóla, sigldi ekki til Kaupmannahafnar en þótti þó vel lærður maður. Hann var skólameistari í Skálholti 1608-1610, var kirkjuprestur í Skálholti 1611 en árið 1612 varð hann prestur í Fellsmúla. Kona Jóns var Margrét, dóttir Stefáns Gunnarssonar Skálholtsráðsmanns og áður skólameistara, og áttu þau fjóra syni. Jón Sigurðsson (prestur á Breiðabólstað). Jón Sigurðsson (um 1588 – 1640) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan aðstoðarprestur og svo prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Jón var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal, sonur Sigurðar Einarssonar prests þar og síðar á Breiðabólstað, bróður Odds Einarssonar biskups, og konu hans Ingunnar Jónsdóttur. Hann lærði í Skálholtsskóla og síðan í Kaupmannahafnarháskóla og er talinn hafa innritast þar 1604. Hann varð skólameistari í Skálholti 1610 og hafði til þess leyfi Gísla Þórðarsonar lögmanns, en Steindór sonur Gísla, sem var við nám í Kaupmannahöfn, hafði fengið konungsbréf fyrir skólameistarastöðunni en kom ekki til Íslands fyrr en 1613 og varð aldrei skólameistari. Árið 1612 varð Jón svo aðstoðarprestur hjá föður sínum á Breiðabólstað og varð svo prestur þar þegar séra Sigurður lét af embætti 1626 og gegndi því starfi til dauðadags. Séra Jón var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Guðrún Gísladóttir, dóttir Gísla Árnasonar sýslumanns á Hlíðarenda. Önnur kona hans var Kristín, dóttir séra Teits Halldórssonar og sú þriðja Guðrún Snorradóttir. Torfi Finnsson. Torfi Finnsson (d. 22. júní 1637) var kennari og skólameistari í Skálholtsskóla um árabil og síðan prestur í Hvammi í Dölum. Hann var vel lærður og orðlagður kennari. Torfi var sonur Finns Jónssonar bónda í Flatey, sonarsonarsyni Þorleifs Björnssonar hirðstjóra, og konu hans Ragnhildar Torfadóttur. Bróðir hans var Jón Finnsson í Flatey, sem gaf Brynjólfi biskupi Flateyjarbók. Torfi innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla árið 1606 og kom aftur til Íslands 1612. Ári síðar varð hann heyrari við Skálholtsskóla og tveimur árum síðar skólameistari. Einn af nemendum hans var Brynjólfur Sveinsson, síðar biskup, sem hrósaði kennslu hanns mikið. Torfi varð prestur í Hvammi í Dölum árið 1621 og gegndi því embætti til dauðadags. Kona hans var Guðríður Jónsdóttir, dóttir Jóns Björnssonar á Holtastöðum í Langadal og systir Helgu biskupsfrúar, konu Odds Einarssonar. Börn þeirra voru Jón Torfason í Flatey og Guðrún, kona Bjarna Péturssonar sýslumanns á Staðarhóli. Hjarta hafsins. Hjarta hafsins (franska: „Le Cœur de la Mer“) er heiti yfir bláa demantinn í kvikmyndinni Titanic frá árinu 1997. Demanturinn, sem er uppspuni handritshöfundar, er byggður á fræga bláa Hope demantinum sem geymdur er í Smithsonian-safninu. Einnig er talið að útlit demantsins sé byggt á svipuðu safírmeni sem Titanic farþeginn Kate Florence Phillips átti. Í myndinni. Í kvikmynd James Cameron Titanic fer fornleifafræðingurinn Brock Lovett í leit að hálsmeninu sem hann telur að sé grafið á botni Atlantshafsins í flaki RMS Titanics. Teymi hans tekur peningaskáp farþega fyrsta farrýmisskipsins, Caledon Hockleys, upp á yfirborðið og er grunur hans staðfestur er hann finnur teikningu af nakinni konu með hálsmenið í skápnum sem teiknið var kvöldið sem skipið sökk. Demanturinn hafði eitt sinn verið í eigu Loðvíks 16. en hafi horfið stuttu eftir aftöku hans árið 1793 og mótaður í hjartalagað hálsmen. Minnst er á að Hope demanturinn sé minna virði en Hjartað en í raun og veru var sá demantur í eigu Loðvíks 16. Konan í teikningunni, Rose Calvert (áður DeWitt Bukater) hefur samband við Lovett til þess að segja honum sögu hennar um borð skipsins. Rose var talin hafa glatast í sjóslysinu þegar skipið sökk en var hún unglingsstúlka á fyrsta farrými sem trúlofuð var Caledon Hockley. Hann hafði keypt menið fyrir hana í von um að hún myndi elska hann. Um borð skipsins hafði Rose kynnst ungum manni, Jack Dawson, sem var listamaður á þriðja farrými og var orðin ástfangin af honum. Dawson var sá sem teiknað hafði myndina af henni án þess að Hockley vissi af því. Þegar að skipið byrjar að sökkva telur Caledon sig eiga hærri líkur að lifa af heldur en Dawson og þykist hafa áhyggjur af Rose. Hann setur þá jakkann sinn utan um hana en hann man ekki þá að í vasanum á þeim jakka er hálsmenið. Rose flýr stuttu síðar ásamt Jack á meðan skipið sekkur og fer hún ofan í sjóinn með skipinu. Hún og Jack synda í burtu og finna þau flak af skipinu en það bar ekki þau bæði og fór Rose upp á en Jack var eftir í ísköldu vatninu. Þegar björgunarbátar sigla til þeirra sem fóru ofan í vatnið var Rose bjargað en hafði Jack frosið til dauða. Þegar Rose fer um borð skipsins „RMS Carpathia“ sem bjargaði öllum þeim í björgunarbátunum kemst hún að því að demanturinn er í vasa hennar. Allt hennar líf geymdi Rose demantinn en hvorki notaði né seldi hann fyrir peninga. Í enda myndarinnar fer hin aldraða Rose á skut skips Lovetts og hendir demantinum ofan í vatnið. Uppruni. Um borð alvöru skipsins RMS Titanic var blár safír um borð. Farþeginn Kate Florence Phillips fékk það að gjöf frá nýgiftum eiginmanni sínur, Samuel Morley, á skipinu. Þau voru að flýja til Bandaríkjanna í leit að betra lífi en Morley fórst með skipinu. Saga þeirra er talin hafa veitt James Cameron innblástur þegar hann skrifaði handrit myndarinnar Titanic. Dóttir hjónanna, Ellen Walker, var getin um borð skipsins. Í kvikmyndinni Titanic frá árinu 1943 kemur blár demantur einnig við sögu í ástarsambandi þar sem honum er stolið. Þuríður Sigurðardóttir. Þuríður í gættinni á Röðli 1966 eða 1967. Þuríður Sigurðardóttir (f. 23. janúar 1949) í Reykjavík er íslensk söngkona og myndlistarmaður. Æviágrip. Þuríður Svala Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Sigurður Ólafsson söngvari (f. 4. desember 1916, d. 13. júlí 1993) og Inga Valfríður Einarsdóttir, kölluð Snúlla (f. 10. nóvember 1918). Þuríður ólst upp ásamt fimm systkinum við söng og hestamennsku í Laugarnesinu í Laugarnesbænum, sem stóð á móts við þar sem nú eru gatnamót Sæbrautar og Laugarnesvegar. Tónlistarferill. Árið 1965 sagði söngurinn til sín og Þuríður hóf upp raust sína á skemmtistaðnum Lídó. Hún sló í gegn og var drifin í stúdíó þar sem hún söng með hljómsveitinni Lúdó og Stefáni lagið "„Elskaðu mig“" inn á plötu. Lagið varð geysivinsælt og framtíðin brosti við hinni sextán ára gömlu söngkonu. Í framhaldinu hóf hún að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og varð það að fimm ára farsælu samstarfi. Hljómsveitin lék einkum á skemmtistaðnum Röðli (við Brautarholt) sem var opinn alla daga vikunnar. Ásamt Þuríði söng Vilhjálmur Vilhjálmsson með hljómsveitinni. Árið 1969 kom út fyrsta tveggja laga sólóplata Þuríðar með lögunum, "„Ég ann þér enn“" og "„Ég á mig sjálf“". Platan og söngurinn hlutu lof gagnrýnenda og í vinsældakosningum var hún valin "„vinsælasta söngkona ársins“" og platan "„hljómplata ársins“". Eftir árin með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar söng Þuríður með ýmsum hljómsveitum og listamönnum svo sem: Ragnari Bjarnasyni, Gunnari Þórðarsyni, Jóni Páli Bjarnasyni, Tríó Hjörleifs Valssonar, hljómsveitinni Vanir menn og Pálma Gunnarssyni í hljómsveitinni Íslandía. Þuríður og Pálmi felldu hugi saman og rugluðu reitum. Saman gáfu þau út tvær hljómplötur: Þuríður og Pálmi syngja lög eftir Gunnar Þórðarson sem kom út hjá SG hljómplötum 1972 og Þuríður og Pálmi sem kom út hjá Fálkanum 1973. Feðgin syngja saman. Árið 1971 kom út á vegum SG hljómplatna tólf laga platan Feðginin Sigurður Ólafsson og Þuríður Sigurðardóttir syngja saman, SG 042. Um tilurð þeirrar plötu sagði útgefandinn. Oddur Stefánsson. Oddur Stefánsson (d. 3. desember 1641) var skólameistari í Skálholtsskóla tvívegis, prestur í Skálholti og síðan í Hraungerði og Gaulverjabæ í Flóa og prófastur í Árnesprófastsdæmi. Oddur var sonur séra Stefáns Gíslasonar í Odda, sonar Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups, og konu hans Þorgerðar Oddsdóttur. Oddur fór ungur utan og nam við Kaupmannahafnarháskóla. Hann var skólameistari í Skálholti frá 1591-1594 en varð þá kirkjuprestur í Skálholti. Sigurður bróðir hans varð þá skólameistari en drukknaði eftir fáeinar vikur í starfi og er ekki ólíklegt að Oddur hafi að einhverju eða öllu leyti stýrt skólanum út skólaárið. Árið 1595 varð Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, skólameistari en þótti óhæfur og var aðeins í eitt ár. Var þá Oddur fenginn til að gegna skólameistarastarfinu að nýju jafnhliða prestsstarfinu og sinnti því til 1600. Þótti honum farnast skólastjórnin mjög vel. Hann varð svo prestur í Hraungerði í Flóa árið 1600 og í Gaulverjabæ árið 1606. Prófastur í Árnesprófastsdæmi var hann frá 1630. Hann þótti einn hinn helsti klerkur í Skálholtsbiskupsdæmi, var officialis og sinnti biskupsstörfum eftir lát Odds biskups. Til greina kom að hann yrði sjálfur biskup en hann þótti þó of gamall og var Gísli sonur Odds biskups þá valinn. Fyrri kona Odds var Ingibjörg Eyjólfsdóttir frá Eyvindarmúla og áttu þau nokkur börn. Seinni kona séra Odds var Anna Þorláksdóttir, ekkja eftir séra Guðmund Gíslason, forvera Odds í embætti í Gaulverjabæ. Sigurður Stefánsson (skólameistari). Sigurður Stefánsson (d. 1594) var skólameistari í Skálholti í lok 16. aldar en drukknaði eftir fáeinar vikur í starfi. Hann var skáldmæltur og listfengur og sagður mikill lærdómsmaður. Sigurður var sonur séra Stefáns Gíslasonar í Odda, sonar Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups, og konu hans Þorgerðar Oddsdóttur. Hann fór til náms erlendis og var í Kaupmannahafnarháskóla 1593 en kom líklega heim ári síðar og tók þá við stöðu skólameistara í Skálholti af Oddi bróður sínum. Hann var sagður vel lærður og mjög fjölhæfur, latínuskáld, góður söngmaður og málari. Hann orti ljóð á latínu upp úr Samúelsbókum og orti einnig latínukvæði til Arngríms lærða. Hann skrifaði árið 1591 bók um álfa, drauga, svipi, vættir og forynjur, skrifaði um íslenska réttritun, lýsingu Íslands og gerði kort af norðurhöfum. Fráfall Sigurðar bar aðmeð þeim hætti að hann fór frá Mosfelli og ætlaði til Skálholts ásamt öðrum manni en þegar þeir komu að ferjustaðnum á Brúará kom ferjumaðurinn ekki strax þegar þeir kölluðu og sofnuðu þeir á árbakkanum. Sigurður valt í ána og drukknaði. Lík hans fannst og var hann grafinn í forkirkjunni í Skálholti. Hann var ókvæntur og barnlaus. Gísli Einarsson (prestur í Vatnsfirði). Gísli Einarsson (um 1571 – 1660) var skólameistari í Skálholti eitt ár og síðan prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp í fjörutíu ár og síðast prestur á Stað á Reykjanesi. Gísli var sonur séra Einars Sigurðssonar í Eydölum og seinni konu hans Ólafar Þórarinsdóttur og því hálfbróðir Odds Einarssonar biskups. Gísli stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en kom svo heim og varð skólameistari í Skálholti 1595. Hann þótti þó nær óhæfur til starfsins og lenti það á Oddi biskupi að hafa stöðugt eftirlit með skólanum. Hann var þó ekki skólameistari nema eitt ár. Oddur dæmdi séra Jón Loftsson í Vatnsfirði, sem eitt sinn hafði verið skólameistari í Skálholti skamman tíma, úr starfi fyrir embættisafglöp og vígði þá Gísla bróður sinn i brauðið 1596, en Oddur Stefánsson varð skólameistari. Sagt var að séra Jón hefði beðið þeim sem við Vatnsfirði tæki bölbæna og búnaðist séra Gísla ávallt illa þar þótt hann væri þar í fjóra áratugi, enda bjó hann við mikla ómegð. Á endanum flutti hann sig að Stað á Reykjanesi en séra Jón Arason tók við Vatnsfirði. Gísli var prestur á Stað til um 1653. Þá tók tengasonur hans við prestsembætti þar en Gísli var þar áfram og dó þar fjörgamall 1660. Gísli var giftur Þórnýju Narfadóttur, sem var dóttir Narfa Ormssonar, sýslumanns og síðasta sjálfseignarbónda í Reykjavík. Hann þótti hafa tekið niður fyrir sig með ráðahagnum: „Þótti sú gipting af rasanda tihlaupi sjálfs hans, reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti á Víkurseli, smalamaður reið heim um nóttina og sagði bónda gestakomuna, hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar, en von átti á, sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði — hún var siðan sótt frá Skálholti til að læra sóma og siðu; veitti tregt þvi tamur er barnsvani.“ Gísli og Þórný áttu fjölda barna og Gísli átti líka eina laundóttur. Jón Guðmundsson í Hítardal. Jón Guðmundsson (1558 – 7. febrúar 1634) var skólameistari í Skálholti og síðan prestur í Hítardal frá árinu 1590 til dauðadags, eða í 44 ár. Foreldrar Jóns voru Guðmundur Jónsson, bóndi og lögréttumaður á Hvoli í Saurbæ, og kona hans Þórunn Sigurðardóttir. Hann sigldi til Brimaborgarar sextán ára að aldri og var þar í skóla í þrjú ár en síðan í Kaupmannahafnarháskóla í fimm ár. Þá kom hann til Íslands og varð sveinn Gísla Jónssonar biskups en síðan skólameistari 1585 og gegndi því starfi til 1589. Árið 1590 varð hann prestur í Hítardal. Hann var sagður einn lærðasti maður landsins, röggsamlegur og mikilmenni, „hataði ekki kvenfólk“. Hann var í biskupskjöri á móti Oddi Einarssyni en sagt er að það hafi unnið á móti honum að hann hafi verið grunaður um að hafa orðið fyrir áhrifum af kalvínisma þegar hann var í námi í Brimum. Hann var prófastur í Mýrasýslu í 38 ár en sagði af sér 1625 vegna sjónleysis og elli. Hann var blindur seinustu árin. Kona séra Jóns var Guðríður Gísladóttir og giftust þaðu 1595. Hún var dóttir Gísla Þórðarsonar lögmanns. Guðríður varð líkþrá og dó árið 1620, 43 ára að aldri. Einn sonur þeirra var Þórður Jónsson, prestur og fræðimaður í Hítardal. Annar sonur þeirra, Gísli, var stúdent en var dæmdur til lífláts fyrir þjófnað. Hann var þó náðaður árið 1632 gegn greiðslu fébóta. Jón Einarsson (skólameistari). Jón Einarsson (d. skömmu eftir 1594) var skólameistari í Skálholti og síðan á Hólum seint á 16. öld. Hann var sonur séra Einars Eiríkssonar á Hvanneyri og Bergljótar Hallsdóttur konu hans. Jón varð skólameistari Skálholtsskóla 1589 og var þar í tvö ár en þá stóð svo á að Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup sendi Arngrím Jónsson lærða, sem þá var skólameistari á Hólum, utanlands í erindum sínum, en taldi sig ekki hafa neinn sem gæti leyst hann af. Leitaði hann þá til Odds Einarssonar Skálholtsbiskups, sem sendi honum Jón Einarsson en setti Odd Stefánsson í stað hans. Jón var skólameistari á Hólum til 1594 en kvæntist þá Salvöru (Sólvöru) Stefánsdóttur, sem var dóttir séra Stefáns Gíslasonar í Gaulverjabæ og systir skólameistaranna Odds og Sigurðar Stefánssona, og flutti sig að Álftártungu á Mýrum. Þar mun hann hafa dáið skömmu síðar en Salvör giftist aftur Erlendi Ásmundssyni sýslumanni á Stórólfshvoli. Jón og Salvör voru barnlaus. Hrakfallaferð til Feluborgar. Hrakfallaferð til Feluborgar (franska: "Les pirates du silence") eftir höfundinn og teiknarann Franquin er tíunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Bókin kom út árið 1958, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1955-56. Árið 1977 varð hún fyrsta Svals og Vals-bókin sem gefin var út á íslensku. Söguþráður. Í aðalsögu bókarinnar segir frá ferð félaganna Svals og Vals til Feluborgar, þar sem milljónamæringar og kvikmyndastjörnur lifa í munaði, laus við hnýsna blaðamenn og ágenga ljósmyndara. Valur er í leynilegum erindagjörðum og hyggst skrifa frétt um hið skringilega samfélag. Ljósmyndavélar eru bannaðar í Feluborg, en Valur felur örsmáar myndavélar í pípunni sinni og úrinu. Áður en lagt er af stað birtist gormdýrið óvænt heima hjá þeim félögum og virðist hafa strokið frá Sveppagreifanum. Svalur og Valur taka gormdýrið og íkornann Pésa með sér í ferðalagið, óafvitandi um að Sveppagreifanum hefur verið rænt. Á leiðinni rekast þeir á auðkýfinginn hr. Jón Kurteiz (Juan Corto dos Orejas y Rabo), sem kemur þeim undarlega fyrir sjónir. Í ljós kemur að Jón Kurteiz er leiðtogi í glæpaflokki sem rænt hefur Sveppagreifanum og þvingað hann til að búa til gas sem svæfir íbúa Feluborgar. Svalur og Valur frelsa greifann og stöðva bíræfið bankarán glæpamannanna. Þrátt fyrir hetjudáðina verða þeir að yfirgefa bæinn í skyndi með lögregluna á hælunum þegar gormdýrið ljóstrar upp um földu myndavélarnar. Aukasaga bókarinnar nefnist "Valur á tryllitækinu" (franska: "La Quick super"). Þar fá Svalur og Valur það verkefni að prófa glæsikerru, en nokkrum bílum sömu gerðar hafði verið stolið við dularfullar kringumstæður. Svalur flettir ofan af þjófnum sem reynist vera dvergur. Íslensk útgáfa. Hrakfallaferð til Feluborgar var gefin út af Iðunni árið 1977 í íslenskri þýðingu Geirlaugar Þorsteinsdóttur. Þetta var fyrsta íslenska Svals og Valsbókin og má segja að lesendum hafi verið hent út í dúpu laugina með því að byrja í miðjum bókaflokki og án sérstakrar kynningar á persónunum. Gróustaðir. Gróustaðir Á býli þessu virðist að búskapur hafi haldist all-langt aftur í tíma, þó jarðabækur ekki geti þess. Túnmál er þar glöggt, girðingar og rústaleifar. Fornbýli þetta er talið landnámsbýli; sagnir úr Vatnsdælu. Engimýri. Engimýri er innsti byggði bær í Öxnadal. Þar er rekin ferðaþjónusta og gisting. Gullgerðarmaðurinn. Gullgerðarmaðurinn (franska: "Le faiseur d'or") er tuttugasta bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1970. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Fournier og var þetta fyrsta bók hans eftir að Franquin hætti ritun sagnanna. Hún var gefin út á íslensku árið 1979 og telst sjötta í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Sveppagreifinn ljóstrar því upp í sjónvarpsviðtali að hann lumi á bók hins kunna gullgerðarmanns Nikulásar gráa (Nicolas Flamel). Svalur og Valur óttast að þessar upplýsingar kunni að freista glæpamanna og flýta sér til seturs Sveppagreifans. Í ljós kemur að greifanum hefur verið rænt en Zorglúbb, sem varð vitni að ráninu ber kennsl á Samma, hinn illa frænda Vals, sem leiðtoga mannræningjanna. Skúrkunum tekst að klófesta bókina og koma upp aðstöðu til gullgerðar í yfirgefnum kastala. Svalur og Valur hafa upp á þeim og endurheimta bók gullgerðarmannsins eftir æsileg átök. Meðan á hamagangnum stendur gangsetur gormdýrið gullgerðarvélina fyrir slysni og tekst óvart að framleiða gull. Sveppagreifinn tekur að lokum vélina í sína umsjá og ætlar að rannsaka hana vísindalega. Aukasaga bókarinnar er stutt jólasaga um einmanna son efnafólks sem fagnar jólunum með fátækum eldri manni og hittir þá Sval og Val. Íslensk útgáfa. Gullgerðarmaðurinn var gefinn út af Iðunni árið 1979 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var sjötta bókin í íslensku ritröðinni. Furðugripasafn. Furðugripasafn (furðugripastofa eða kúnstagripasafn) var alfræðiblandað samansafn af allavega forvitnilegum hlutum, en slík söfn voru til víða um Evrópu á endurreisnartímabilinu. Oft voru þessi söfn í einu herbergi eða í skáp, enda nefnd á þýsku "Wunderkammer" - undraherbergi. Söfnin vor oftast í einkaeigu og lituðust því algjörlega af eigendum sínum. Það er því ekki til nein ein skilgreining á slíku safni, en í furðugripasafni mátti oft sjá ýmis náttúruundur, listaverk og furðulega smíðisgripi. Söfnin voru oft nokkuð grótesk og lygileg í eðli sínu því þar voru stundum sýndir hlutir sem aðeins eru til í heimi goðsagna, s.s. drekablóð og einhyrningshorn. Þessi söfn voru undanfari náttúrugripasafna og þróuðust sum hver í þá átt síðar. Sigtryggur Baldursson. Sigtryggur Baldursson (2. október 1962) er íslenskur tónlistarmaður, trommuleikari og upphafsmaður hljómsveitarinnar Bogomil Font og Miljónamæringarnir. Sigtryggur var bæði í hljómsveitunum Þey, Kukl og Sykurmolum ásamt því að spila með fleiri hljómsveitum. Fluttist búferlum til Madison í Wisconsin fylki Bandaríkjanna árið 1993 og vann þar og í Chicago við upptökustjórn og hljóðfæraleik ásamt því að gera hljóðritanir til notkunar í tölvutónlist (sampling diska) og einnig eigin upptökur (Bogomil Font syngur Kurt Weill-1995 og DIP ásamt Jóhanni Jóhannssyni 1998) Hann fluttist til Íslands aftur árið 2003. Var framkvæmdastjóri musiktilrauna 2004 og tónlistarstjóri hjá sumaróperunni sumarið 2004. Hann hefur unnið mikið með Emiliönu Torrini frá árinu 1998 ásamt því að vinna tónlist við leihús og kvikmyndir o gheimildarmyndir og leikið inná fjölda hljómplatna sem trommu og slagverksleikari ásamt því að gera upptökur undir listamannsnafninu Bogomil Font. Hann vann útvarpsþætti fyrir RUV um heimstónlist á sumrin 2005 og 2006. Lék með Raghildi Gisladóttur og Stomu Yamashta á Heimssyningunni í Japan 2005. Hann hefur setið í stjórn hjá FTT og ÚTÓN frá árinu 2006 ásamt því að sitja í stjórn Tónlistarráðs (sem úthlutar úr tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins) árið 2011. Hann hefur frá árinu 2011 einnig unnið sjónvarpsþætti um tónlist bæði fyrir INN (Kolgeitin) og RUV (Hljómskálinn, ásamt Guðmundi Kristinni Jónssyni og Braga Valdimar Skúlasyni). Hann tók við stöðu sem framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar Tónlistar í febrúar árið 2012. Þorlákur Thorlacius Þórðarson. Þorlákur Thorlacius Þórðarson (2. maí 1675 – 4. nóvember 1697) var skólameistari í Skálholti í lok 17. aldar en veiktist eftir skamman tíma í starfi og drógu veikindin hann til dauða 22 ára að aldri. Þorlákur var sonur Þórðar Þorlákssonar Skálholtsbiskups og konu hans Guðríðar Gísladóttur. Hann var settur til náms og var í 2 1/2 ár hjá séra Oddi Eyjólfssyni í Holti, áður skólameistara. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1689, aðeins 14 ára að aldri, en hélt svo áfram námi hjá séra Oddi og fleirum. Árið 1692 sigldi hann til náms við Kaupmannahafnarháskóla og var þar til 1692, kom þá heim en sigldi aftur árið eftir og var þá veitt skólameistaraembættið í Skálholti, sem hann þjónaði frá hausti 1696. Hans naut þó ekki lengi við því strax í nóvember sama ár veiktist hann og fékk mikla verki í mjöðm. Hann þjáðist óskaplega í heilt ár og var rúmliggjandi mestallan tímann en dó 4. nóvember 1697. Á meðan hann var veikur gegndi Jón Einarsson skólameistarastarfinu en varð svo heyrari við skólann þegar Þórður Jónsson tók við. Jón Einarsson (d. 1707). Jón Einarsson (d. 11. september 1707) var skólameistari í afleysingum í Skálholtsskóla og síðan heyrari þar, var svo skipaður skólameistari í Hólaskóla en dó áður en hann náði að taka við embætti. Jón var sonur Einars Skúlasonar prests í Garði í Kelduhverfi og fyrri konu hans Guðrúnar Hallgrímsdóttur og var því föðurbróðir Skúla Magnússonar fógeta. Hann gegndi skólameistaraembættinu í Skálholti í veikindum Þorláks Þórðarsonar frá því fyrir jól 1696 fram á haust 1697. Á meðan hann gengdi því starfi voru tveir skólapiltar hýddir fyrir galdrakukl og reknir úr skóla. Þegar Þórður Jónsson tók við eftir lát Þorláks varð Jón heyrari (kennari) við skólann og síðar við Hólaskóla. Hann var sagður gáfaður maður, málsnjall og gott skáld. Árið 1707 fékk Jón stöðu skólameistara Hólaskóla. Þá var Stórabóla að ganga um landið og á leið sinni að taka við stöðunni lagðist Jón veikur á Möðruvöllum í Hörgárdal og dó þar úr bólunni 11. september. Hann var ókvæntur og barnlaus. Kamsjatka. Kamsjatka (eða Kamsjatkaskaginn) (rússneska: "полуо́стров Камча́тка - poluostrov Kamsjatka") er 1250 kílómetra langur og fisklaga skagi norður af austasta hlusta Rússlands og er 472,300 ferkílómetra að flatarmáli. Skaginn er á milli Kyrrahafsins til austurs og Okhotskhafsins til vesturs. Hljómsveitin Varsjárbandalagið. Hljómsveitin Varsjárbandalagið var stofuð í febrúar árið 2009 af Sigríði Ástu Árnadóttur, Magnúsi Pálssyni, Halli Guðmundssyni og Karli Pestka. Jón Torfi Arason og Steingrímur Guðmundsson komu síðar inn í sveitina. Þann 9. júní 2011 kom úr fyrsta plata sveitarinnar, "Russian Bride". Á plötunni er að finna útsetningar Varsjárbandalagsins á bæði þjóðlögum frá Austur-Evrópu og Gyðingaheiminum. Enn fremur eru á disknum lög eftir meðlim sveitarinnar sem og útsetningar á íslenskum lögum. Hljómsveitin hefur komð fram á Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Græna Hattinum á Akureyri, Café Rósenberg í Reykjavík, Bæjarbíói í Hafnarfirði og fjölmörgum öðrum stöðum. Þórður Jónsson (prestur á Staðastað). Þórður Jónsson (1672 – 21. ágúst 1720) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur á Staðarstað og prófastur í Snæfellsprófastsdæmi. Hann var vel lærður maður og ágætlega að sér í læknisfræði og stundaði lækningar. Þórður var sonur Bauka-Jóns Vigfússonar biskups á Hólum og konu hans Guðríðar Þórðardóttur. Hann fór utan til háskólansáms 1688, sextán ára að aldri, og var í Kaupmannahafnarháskóla í fimm ár. Jón faðir hans lést vorið 1690 en á Alþingi um sumarið féll þó á hann þungur dómur fyrir óleyfilega verslun. Þórður fékk málið tekið upp fyrir hæstarétti í Kaupmannahöfn og rak það þar svo vel að hann fékk dómnum hnekkt 1693. Þótti það afrek af tvítugum manni og hlaut Þórður mikla frægð af þessu. Þó var sagt að hann hefði ofmetnast af þessu því að árið 1697, eftir að Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup dó, sigldi Þórður og ætlaði sér að reyna að fá biskupsembættið, en það tókst ekki og varð Jón Vídalín, sem skömmu síðar giftist Sigríði systur Þórðar, fyrir valinu. Þórður varð hins vegar skólameistari í Skálholti sama ár og gegndi því embætti til 1702, þegar hann varð aðstoðarprestur og skömmu síðar prestur á Staðarstað á Snæfellsnesi og prófastur í Snæfellsprófastsdæmi. Hann sóttist eftir biskupsembættinu á Hólum þegar Björn Þorleifsson dó 1710 en lagði ekki í að sigla vegna ófriðar sem þá var milli Danmerkur og Svíþjóðar. Steinn Jónsson tók aftur á móti áhættuna, sigldi og varð biskup. Þórður dó á Staðarstað 1720 og Jón Vídalín mágur hans andaðist á leið í útför hans en sagt var að þeir hefðu lofað hvor öðrum að sá sem lengur lifði skyldi halda líkræðu yfir hinum. Kona séra Þórðar var Margrét Sæmundsdóttir, Oddssonar prests í Hítardal. Móðir hennar var Sólvör (Salvör) Vigfúsdóttir, systir Jóns biskups, og voru þau því systkinabörn og þurftu konungsleyfi til að giftast. Þau áttu sex börn sem upp komust. Magnús Jónsson (skólameistari). Magnús Jónsson (d. 22. september 1702) varð skólameistari í Skálholtsskóla árið 1702 en ferill hans varð ekki langur því að hann drukknaði við Reykjavíkurgranda um haustið. Magnús var sonur Jóns Vigfússonar (Bauka-Jón) Hólabiskups og konu hans Guðríðar Þórðardóttur, og bróðir Þórðar Jónssonar, sem var skólameistari á undan honum. Hann tók við þegar Þórður varð prestur. Magnús var í Hólmskaupstað og voru hestur hans og þénari í Reykjavík um nóttina en Magnús gisti í tjaldi í hólmanum og var við drykkju í kaupmannsbúðunum fram undir morgun. Talið var að hann hefði farið úr tjaldi sínu og ætlað að ganga grandann á fjöru um nóttina en hann drukknaði á leiðinni og fannst lík hans um morguninn. Hann var ókvæntur og barnlaus. Magnús Markússon. Magnús Markússon (1671 – 22. nóvember 1733) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur á Grenjaðarstað í Aðaldal frá 1708 til dauðadags. Hann var sagður guðhræddur maður, vitur og alvörugefinn. Magnús var sonur Markúsar Geirssonar prests í Laufási og konu hans Elínar Jónsdóttur. Hann lærði við Kaupmannahafnarháskóla í tvö ár en kom síðan til Íslands og varð heyrari í Skálholti. Haustið 1702 drukknaði Magnús Jónsson skólameistari og tók Magnús þá við skólameistarastarfinu og gegndi því þar til hann var vígður prestur að Grenjaðarstað árið 1708. Hann er sagður hafa gegnt starfinu af mikilli röggsemi og þótti skólinn batna undir stjórn hans. Síðasta veturinn var skólastarfið þó í lægð vegna Stórubólu; skólinn hófst ekki fyrr en um jól og voru aðeins 20 piltar í skólanum til vors. Magnús var hagmæltur og er sagður hafa komið töluvert að uppskriftum á fornum skjölum fyrir Árna Magnússon prófessor á meðan hann var í Skálholti. Kona Magnúsar (gift 24. ágúst 1710) var Guðrún Oddsdóttir, dóttir Odds digra Jónssonar klausturhaldara á Reynistað, sonar Jóns Arasonar í Vatnsfirði. Þau áttu þrjú börn sem upp komust. Þorleifur Arason (prestur á Breiðabólstað). Þorleifur Arason (1687 – 12. janúar 1727) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð og prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi. Þorleifur var sonur Ara Þorkelssonar sýslumanns í Barðastrandarsýslu og bónda í Haga og konu hans Ástríðar Þorleifsdóttur. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla, var við nám í Kaupmannahafnarháskóla í tvö ár en kom síðan til Íslands 1710 og sóttist eftir skólameistaraembættinu í Skálholti, sem séra Jón Halldórsson í Hítardal hafði verið fenginn til að gegna um stundarsakir vegna skorts á lærðum mönnum eftir Stórubólu. Jón biskup Vídalín var tregur til að veita honum embættið nema hann gengist undir próf til að kanna hvort hann væri nægilega lærður. Þorleifur samþykkti það, gekkst undir prófið og fékk skólameistarastarfið og hélt því í átta ár en þótti þó ekki jafnoki fyrirrennara sinna, séra Jóns og Magnúsar Markússonar, hvað lærdóm varðaði. Þorleifur var vígður prestur til Breiðabólstaðar í Fljótshlíð 1718 og varð prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi 1721. Eftir lát Jóns biskups Vídalín fór hann utan til að freista þess að fá skipun í biskupsembættið og sótti að sögn fast eftir því en hafði ekki erindi sem erfiði. Sagt var að honum létu betur veraldlegar sýslanir en predikanir. Þorleifur drukknaði í Markarfljóti 12. janúar 1727, reið út í það ófært í náttmyrkri. Fylgdarmanni hans tókst að svamla vestur yfir fljótið og halda lífi. Állinn sem séra Þorleifur drukknaði í var eftir það kallaður Prófastsáll. Þorleifur var ókvæntur og barnlaus. Ketill Jörundarson. Ketill Jörundarson (1603 – júlí 1670) var heyrari í Skálholtsskóla, skólameistari í þrjá mánuði 1635 en varð að víkja fyrir lærðari manni. Hann var svo prestur í Hvammi í Hvamssveit um þrjátíu ára skeið. Hann var sagður vel lærður og að öllu ágætismaður. Ketill var sonur Jörundar Hálfdanarsonar bryta í Skálholti og bónda í Efstadal og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Hann fór í Skálholtsskóla tólf ára að aldri og útskrifaðist þaðan 1620. Hann varð svo heyrari við skólann 17 ára að aldri en fór utan 1622 og var eitt ár í Kaupmannahafnarháskóla. Hann kom aftur heim 1623 með mjög góðan vitnisburð frá kennurum sínum, varð aftur heyrari til 1631. Þá fór hann utan með Gísla Oddsyni, þegar hann fór til Kaupmannahafnar að fá biskupsvígslu, en kom ári síðar og tók aftur við heyrarastarfinu. Þegar Jón Arason lét af skólameistarastarfi 1635 varð Ketill skólameistari en aðeins þremur mánuðum síðar kom Björn Snæbjörnsson og gerði tilkall til starfsins. Gísli biskup vildi halda Katli en varð að láta Björn fá skólameistarastöðuna þar sem hann hafði lokið háskólaprófi, sem Ketill hafði ekki gert. Hann varð þá enn einu sinni heyrari við skólann. Árið 1638 var Ketill vígður prestur að Hvammi í Hvammssveit og gegndi því starfi til 1668. Hann varð prófastur 1656 en sagði því af sér vegna veikinda 1667. Kona hans var Guðlaug Pálsdóttir Erasmussonar Villadtssonar. Börn þeirra voru Guðrún móðir Árna Magnússonar prófessors, Halldóra og séra Páll prestur í Hvammi og á Staðarstað. Svalur í New York. Svalur í New York (franska: "Spirou à New-York") er 39. Svals og Vals-bókin og sú sjöunda úr penna Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1987 en í íslenskri þýðingu ári síðar. Söguþráður. Ítalska mafían í New York, undir stjórn Don Vito Cortizone, á í vök að verjast í baráttunni við kínversku mafíuna í borginni, sem hefur á sínum snærum galdramann sem kallar ógæfu yfir andstæðingana. Mafíósarnir blekkja Sval og Val til New York í þeirri von að þeim fylgi gæfa. Skömmu eftir komuna er íkornanum Pésa rænt af Kínverjunum og dragast félagarnir því inn í átök glæpaflokkanna. Svalur og Valur fallast á að brjótast inn í höfðustöðvar kínversku mafíunnar með hjálp loftbelgs í von um að endurheimta Pésa. Eftir æsileg átök sleppa Svalur, Valur og Pési, en loftbelgurinn springur í loft upp með Don Cortizone og "Mandaríninn", leiðtoga Kínverjanna, innanborðs. Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1988. Þetta var 25. bókin í íslensku ritröðinni. Björn Snæbjörnsson. Björn Snæbjörnsson (um 1606 – júní 1679) var skólameistari í Skálholti um ellefu ára skeið og síðan prestur á Staðarstað og prófestur í Snæfellsprófastsdæmi. Hann var sagður frómur maður í lundarfari og hátterni en heldur tortrygginn. Björn var sonur séra Snæbjarnar Torfasonar á Kirkjubóli í Langadal og konu hans Þóru, dóttur Jóns Björnssonar á Holtastöðum. Hann fór utan 1624 og var lengi við nám við Kaupmannahafnarháskóla, þótti mjög ástundunarsamur og iðinn en ekki fljótnæmur. Hann fékk hjá konungi vonarbréf fyrir prestsembætti á Staðarstað eða skólameistaraembætti í Skálholti, eftir því hvort losnaði fyrr. Þegar hann kom til Íslands hafði Jón Arason nýverið látið af skólameistarastarfi í Skálholti en Ketill Jörundarson heyrari verið settur í embættið. Hann var hins vegar ekki með háskólapróf eins og Björn og gerði Björn því kröfu til embættisins og naut stuðnings Pros Mund höfuðsmanns, og varð Ketill því að víkja þótt Gísli Oddsson biskup vildi hafa hann áfram. Björn fékk þá embættið og gegndi því til 1648, en varð þá prestur á Staðarstað. Því embætti gegndi hann til dauðadags og var prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi 1662-1681. Kona Björns var Þórunn Jónsdóttir, dóttir Jón Sveinssonar prests í Holti í Önundarfirði og áttu þau nokkur börn. Þorleifur Jónsson (prestur í Odda). Þorleifur Jónsson (1619 – 29. október 1690) var skólameistari í Skálholti í þrjú og hálft ár um miðja 17. öld og síðan prestur í Odda og prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi um 37 ára skeið. Þorleifur var sonur Jóns Sigurðssonar sýslumanns í Einarsnesi og konu hans Ragnheiðar Hannesdóttur frá Snóksdal. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla og varð skólameistari 1647. Árið 1650 urðu 30 skólapiltar uppvísir að galdrakukli. Brynjólfur Sveinsson biskup tók á málinu af festu og rak marga þeirra í skóla en tók þá inn aftur árið eftir. Þorleifur vígðist prestur að Odda í ársbyrjun 1651 en skömmu síðar brann skólahúsið í Skálholti af því að skólapiltar fóru óvarlega með eld. Þorleifur var prestur í Odda til dauðadags og jafnframt prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi. Hann var sagður skýr maður, einlægur og fordildarlaus og naut mikillar virðingar. Sama ár og hann vígðist prestur giftist hann Sigríði Björnsdóttur frá Bæ á Rauðasandi, dóttur Björns Magnússonar sýslumanns, sonar Magnúsar prúða, og seinni konu hans Helgu, dóttur Arngríms lærða. Einkasonur þeirra var Björn Þorleifsson Hólabiskup. Oddur Eyjólfsson. Oddur Eyjólfsson (um 1632 – 1702) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur í Holti undir Eyjafjöllum frá 1668 til dauðadags og prófastur í Rangárþingi frá 1692. Oddur var sonur Eyjólfs Narfasonar bónda á Hurðarbaki og Þorláksstöðum í Kjós og konu hans Ragnheiðar Oddsdóttur, dóttur séra Odds Oddssonar á Reynivöllum, og hét Oddur eftir honum. Foreldrar hans voru ekki auðug og áttu mörg börn en synir þeirra komust þó sumir til mennta. Einn þeirra var Jón Eyjólfsson varalögmaður. Brynjólfur Sveinsson biskup lét Odd njóta nafnsins, veitti honum ölmusu í skóla, tók hann í sína þjónustu og kostaði hann til náms við Kaupmannahafnarháskóla í tvo vetur. Þegar Svíar sátu um Kaupmannahöfn 1659-1660 gekk Oddur í herþjónustu og gat sér gott orð. Fékk hann síðan konungsbréf um að hann ætti annaðhvort að fá gott prestsembætti þegar það losnaði eða skólameistaraembættið í Skálholti. Árið 1661 var skólameistaraembættið í Skálholti laust eftir að Gísli Einarsson var orðinn prestur á Helgafelli. Þrír menn vildu fá embættið, Oddur, Einar Torfason, síðar prestur á Stað í Steingrímsfirði, sem hafði konungsbréf um að hann yrði skipaður skólameistari þegar embættið losnaði og hafði einnig verið í herþjónustu, og Ólafur Jónsson, heyrari við skólann og síðar skólameistari. Hann var heldur yngri en hinir tveir en þó ekki minna lærður og hætti hann við að sækja um embættið. Brynjólfur biskup ákvað að hinir tveir skyldu keppa um hvor þeirra væri lærðari en Einar hætti við, líklega þó frekar af því að hann vissi að Brynjólfur kaus helst að fá Odd í starfið. Varð Oddur því skólameistari og gegndi því starfi til 1667, en þá varð hann prestur í Holti og gegndi því starfi til dauðadags 1702. Hann var mikils metinn prestur, orðlagður lærdómsmaður og vel að sér í stjörnufræði og sönglist. Hann var hraustmenni mikið. Fyrri kona séra Odds var Hildur þorsteinsdóttir, dóttir séra Þorsteins jónssonar í Holti, sonar séra Jóns píslarvotts í Vestmannaeyjum, sem drepinn var í Tyrkjaráninu 1727. Þrír synir þeirra urðu prestar en önnur börn þeirra dóu í Stórubólu. Seinni kona Odds var Margrét Halldórsdóttir frá Hruna og voru þau barnlaus. Oddur var þriðji maður Margrétar. Ólafur Jónsson (skólameistari). Ólafur Jónsson (1637 – 24. september 1688) var kennari og síðan skólameistari í Skálholtsskóla um þrjátíu ára skeið og síðan prestur í Hítardal og prófastur í Mýraprófastsdæmi en dó eftir nokkra mánuði í embætti. Ólafur var sonur séra Jóns Böðvarssonar í Reykholti og höfðu faðir Ólafs, afi og langafi allir verið þar prestar, hver af öðrum og síðan tók bróðir hans og svo bróðursonur við. Kona séra Jóns og móðir Ólafs var Sesselja Torfadóttir. Ólafur lærði í þrjú ár við Kaupmannahafnarháskóla en kom svo til íslands og varð heyrari við Skálholtsskóla 1659. Hann sóttist eftir skólameistarembættinu 1661 en dró sig til baka og Oddur Eyjólfsson varð skólameistari. Þegar hann lét af störfum 1667 varð Ólafur skólamestari. En þegar hann var nýtekinn við kom maður að nafni Kort Ámundason, frá Skógum undir Eyjafjöllum, og sagðist eiga forgang til embættisins þar sem hann væri meira lærður og hefði lokið háskólaprófi. Hann hélt kröfu sinni svo stíft fram að Brynjólfur biskup sá þann kost vænstan að láta þá Ólaf ganga undir próf til að kanna hvor þeirra væri lærðari. En þá tilkynnti Teitur Torfason, ráðsmaður í Skálholti, að hann ætti þá forgang fram yfir Kort því hann væri einnig með háskólapróf og hefði einnig barist hraustlega gegn Svíum. Þegar Kort heyrði þetta hætti hann við að keppa um skólameistarastöðuna en gerðist heyrari við skólann og Ólafur fékk stöðuna. En Kort og Teitur voru báðir látnir innan tveggja ára. Ólafur gegndi skólameistaraembættinu í rúm tuttugu ár, eða allt til vors 1688,en hafði þó verið vígður prestur í Hítardal haustið 1667. Hann fór svo í prestakall sitt um en hafði ekki setið þarn nema fjóra mánuði þegar hann dó. Hann var sagður góður kennari, siðavandur og vel lærður, ekki síst í grísku og latínu, og þótti ástandið í skólanum gott um hans daga. Kona Ólafs var Hólmfríður Sigurðardóttir, dóttir Sigurðar Oddssonar prests í Stafholti, sonar Odds biskups Einarssonar. Þau áttu tvo syni, Sigurð og Vigfús. Sigurður var við nám í Kaupmannahöfn og dó þar úr bólusótt 1707 en Vigfús féll útbyrðis og drukknaði á leið til Kaupmannahafnar í skóla 1703. Landsbankafarganið. Höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur voru reistar um aldamótin 1900. Landsbankafarganið er nafn á deilum sem stóðu aðallega á milli tveggja manna, Björns Jónssonar og Tryggva Gunnarssonar á árunum 1909-1911 á Heimastjórnartímabilinu. Björn og Tryggvi höfðu áður fyrr verið hvorum innan handar og góðir vinir en urðu ósammála um ýmiss mikilvæg álitaefni eftir að þeir komust til valda og metorða. Veturinn 1909, var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri Landsbanka Íslands og Björn var skipaður ráðherra Íslands 31. mars. Fljótlega eftir að hafa sest í ráðherrastól skipaði Björn þriggja manna nefnd til athugunar á hag Landsbankans. Byggt á niðurstöðum nefndarinnar vék Björn bankastjórn Landsbankans frá störfum í nóvember 1909 „sökum margvíslegrar, megnrar og óafsakanlegrar óreglu í starfsemi yðar í stjórn bankans og frámunarlega lélegs eftirlits með honum.“. Þann 20. febrúar 1911, þegar þing kom aftur saman, voru bornar fram vantrauststillögur gegn Birni í báðum deildum Alþingis. Auk þess að víkja bankastjórninni hafði Björn vikið þingkosnum gæslustjórum Landsbankans sem hann hafði ekki heimild til, en einnig var fundið að því hversu harkalega hann gekk fram í stjórnarathöfnum sínum. Eftir að vantrauststillaga gegn Birni hafði verið samþykkt, voru skipaðar tvær fimm manna þingmannanefndir, ein í hvorri deild Alþingis til þess að rannsaka "Bankafarganið" svonefnda. Nefnd efri deildarinnar lauk rannsókn sinni 8. maí 1911 og hafði þá víkkað nokkuð út viðfangsefni sitt og skipt því niður í fimm mál tengd „afskiftum fyrverandi ráðherra Björns Jónssonar“. Fyrst og fremst var það talið lögbrot að Björn skyldi hafa vikið gæslustjórum Landsbankans sem voru þingkjörnir ("bankamálið"). Í niðurstöðunum var vísað í nefndarálit frá 7. mars um að Björn skyldi innsetja gæslustjórana á ný sem hann hafði vikið frá. Því til viðbótar var til skoðunar trúnaðarbrestur varðandi símskeyti danskra skoðunarmanna Landsbankans ("símamálið"), hvers vegna landssjóður tók ekki til sín hluta af andvirði sölu námaréttinda til erlends banka ("Silfurbergsmálið"), hvernig viðskiptaráðunautur fékk ríflega greitt fyrir aðstoð sína ("viðskiptaráðunauturinn") og loks samningur Thore-félagsins, sem sá um póstflutning, við ríkið. Rannsóknarnefndin hélt 22 fundi alls, þar af 11 fyrst og fremst um bankamálið. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar var í sem stystu máli sú að „tjón það er hann hefir bakað landinu með afskiftum sínum― nemi í það minnsta kr. 35.894.“ Þegar rannsóknarnefndin lauk störfum hafði Björn Jónsson þegar sagt sig frá ráðherraembætti vegna vantrauststillagna. Afleiðingar skýrslu rannsóknarinnar voru því ekki aðrar en þær að á hinum opinbera, pólitíska vettvangi var kné látið fylgja kviði. Lárus H. Bjarnason sem var formaður rannsóknarnefndar efri deildar var pólitískur andstæðingur Björns. Að sögn var hann af mörgum þeim sem hann mætti á förnum vegi beðinn um að vera „ekki svona vondur við gamla manninn.“ BÍ/Bolungarvík. BÍ/Bolungarvík er sameinað lið BÍ og Bolungarvíkur sem var stofnað árið 2006. Liðið teflir fram meistaraflokkum í bæði karla- og kvennaflokki og leika bæði lið í 1. deild sumarið 2012. Aventure en Australie. Aventure en Australie (íslenska: "Ævintýri í Ástralíu") er 34. Svals og Vals-bókin og önnur bók þeirra Tome og Janry. Hún kom út á frönsku árið 1985, en hefur ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Bókin hefst í óbyggðum Ástralíu þar sem Sveppagreifinn er staddur ásamt ungum áströlskum aðstoðarmanni á slóðum ópal-leitarmanna. Hálfgerð ringulreið ríkir á svæðinu þar sem til árekstra kemur milli ófyrirleitinna námumanna og frumbyggja svæðisins sem vilja vernda helga staði sína. Bitla, samstarfskona Vals, ber Sval og Val þær fréttir að Sveppagreifinn þarfnist þeirra í skyndi. Þau halda þrjú í langt ferðalag í leit að greifanum. Þegar komið er á áfangastað fá þau þær fréttir að Sveppagreifinn hafi verið myrtur. Hann reynist hins vegar vera fangi glæpamanna. Eftir bardaga við glæpalýð hafa félagarnir betur og njóta til þess aðstoðar nokkurra frumbyggja. Foringi glæpamannanna ferst í nítróglusserínsprengingu sem hann hafði ætlað Sval og Val. Sveppagreifinn og aðstoðarmaður hans segja frá uppgötvun sinni, sem er ógnarstórt trúartákn á miðju ópal-námusvæðinu. Þar með telst landið eign frumbyggjanna sem ná samkomulagi við námamenn um heiðarlega skiptingu arðsins, en okrurum og ofbeldismönnum er úthýst. VIð komuna heim uppgötvar Valur sér til mikillar gremju að Bitla hefur skotið honum ref fyrir rass og skúbbað fréttinni af atburðunum. Ólafur Halldórsson (prestur á Stað). Ólafur Halldórsson (d. 1614) var skólameistari í Skálholtsskóla í eitt eða tvö ár um aldamótin 1600 en ekki er þó fullvíst hvenær. Hann varð svo prestur á Stað í Steingrímsfirði. Ólafur var sonur Halldórs Sigurðssonar á Eyrarlandi í Eyjafirði og seinni konu hans, Sesselju Þorgrímsdóttur. Hann tók líklega við skólameistarastarfinu af Oddi Stefánssyni árið 1600 eða 1601 og gegndi því til 1602, þegar hann varð prestur á Stað. Aðrar heimildir segja þó að Oddur Einarsson hafi verið skólameistari frá 1600. Ólafur var prestur á Stað til dauðadags. Kona Ólafs var Guðrún Jónsdóttir, dóttir Jóns Egilssonar lögréttumanns á Geitaskarði. Börn þeirra voru Sesselja, kona séra Gottskálks Jónssonar á Fagranesi, Þorleifur sem var smiður og smíðaði stofu á Bessastöðum fyrir höfuðsmanninn Pros Mund, og Guðrún, sem giftist Hermanni Pálssyni skyttu. Jón Loftsson (prestur í Vatnsfirði). Jón Loftsson (d. um 1606) var prestur á Mosfelli í Grímsnesi, Útskálum í Garði, Görðum á Álftanesi og seinast í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp um þrjátíu ára skeið en var þá settur af fyrir embættisafglöp. Hann var prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi og Strandaprófastsdæmi. Hann var einnig skólameistari í Skálholti um tíma. Faðir Jóns var Loftur Jónsson, sunnlenskur bóndi, móðurbróðir Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups, en móðir hans er óþekkt. Jón var orðinn prestur á Mosfelli í Grímsnesi 1555. Hann var talinn einn helsti prestur sunnanlands og þegar Ólafur danski, fyrsti skólameistari í Skálholti, drukknaði í Brúará var Jón settur til að gegna starfinu og var því fyrsti íslenski skólameistarinn. Hann þótti þó ekki nógu lærður til að gegna því embætti og var því fenginn skólameistari frá Danmörku, Hans Lollich. Jón varð svo prestur á Útskálum 1560 en var þar aðeins í tvö ár og fór að Görðum á Álftanesi 1562. Þar var hann líka aðeins tvö ár og varð þá prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var jafnframt prófastur í bæði Ísafjarðarprófastsdæmi og Strandaprófastsdæmi og árið 1566 sendi hann öllum prestum á Vestfjörðum alvarlegt áminningarbréf. Séra Jón þótti nokkuð sérkennilegur í háttum á efri árum og „upp á fornan sið“. Hann gaf sig sjálfur saman í hjónaband við þriðju og seinustu konu sína, Guðrúnu Sigurðardóttur, um 1593. Fyrir það var hann settur úr embætti 1595 og þurfti að víkja sárnauðugur frá Vatnsfirði fyrir Gísla Einarssyni, bróður Odds biskups, og var talið að bölbænir hans hefðu orðið að áhrínsorðum því séra Gísla búnaðist illa í Vatnsfirði. Jón lifði í rúman áratug í viðbót, var hjá syni sínum í Þernuvík og dó þar, líklega 1606. Hann var þríkvæntur sem fyrr segir og var fyrsta kona hans Guðríður Jónsdóttir, önnur Sigríður Grímsdóttir en sú þriðja Guðrún Sigurðardóttir áður nefnd. Edward Robert Harrison. Edward Robert Harrison (fæddur 6. janúar 1919, dáinn 29. janúar 2007) var breskur heimsfræðingur og stjarnfræðingur. Hann fann fyrstur manna lausn á þverstæðu Olvers en samkvæmt henni ætti himininn að vera jafnskær nótt sem dag vegna þess að bein sjónlína frá jörðinni hlyti í öllum tilfellum að enda á yfirborði stjörnu. Harrison, Edward Robert Harrison, Edward Robert Vélmenni í veiðihug. Vélmenni í veiðihug (franska: "Qui arrêtera Cyanure?") er 35. Svals og Vals-bókin og þriðja bók þeirra Tome og Janry. Hún kom út á frönsku árið 1985 og á íslensku síðar sama ár. Söguþráður. Óprúttinn sölumaður prangar inn á Val ljósmyndavél sem einnig er nokkurs konar vélmenni. Vélin leggur á flótta og elta þeir Svalur og Valur hana alla leið til "Sveppaborgar" og inn á skringilegt verkstæði. Þar sjá þeir myndarlega stúlku keflaða og bundna við stól, þeir losa hana en hún gengur berserksgang og hleypur á braut. Stúlkan reynist vera vélmennið "Vélrún" (franska: "Cyanure") sem fyrrum lestarstarfsmaður bjó til í frístundum. Undanfarna daga hafði vélmennið gert margvíslegan óskunda í borginni. Freista þeir félagarnir þess að handsama Vélrúnu, en í ljós kemur að hún getur stýrt öllum raftækjum og snúið þeim gegn fólki. Í grennd við Sveppaborg hefur nýlega risið hátækniverksmiðja með fjölda vélmenna. Lokauppgjörið á sér stað í verksmiðjunni þar sem Vélrún beitir vélmennunum fyrir sig, en Svalur og Valur hafa fengið börnin í Sveppaborg með sér í lið. Íslensk útgáfa. Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1985 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún er númer tuttugu í íslensku ritröðinni. Billy Bob Thornton. Billy Bob Thornton í San Francisco 5. september 2007. William Robert „Billy Bob“ Thornton (fæddur 4. ágúst 1955) er bandarískur leikari. Hann hefur leikið í kvikmyndum á borð við "Tombstone", "U Turn", "Armageddon", "Primary Colors", "The Man Who Wasn't There", "Love Actually" og "Eagle Eye" Thornton, Billy Bob Ólafur danski. Ólafur danski (d. 1555) var fyrsti skólameistari Skálholtsskóla í lútherskri tíð. Þegar ákveðið var að stofna skóla á biskupssetrunum 1552 strandaði á því að menntaðir skólastjórar fengust ekki því engir Íslendingar þóttu hæfir til starfsins. Páll Hvítfeld höfuðsmaður kom því með danskan mann með sér til að stýra Skálholtsskóla og Ólafur Hjaltason Hólabiskup flutti sömuleiðis með sér danskan mann til að stýra Hólaskóla. Vera má að Ólafur skólameistari hafi verið sami Ólafur og sá sem var sveinn Kristófers Hvítfelds árið 1541 og var látinn þjóna biskupi og lesa guðsorð. Ólafur var skólameistar í Skálholti í tvö ár en drukknaði í Brúará 1555. Líið fannst skömmu síðar og var Ólafur jarðaður í Skálholtskirkju, á milli Gissurar biskups Einarssonar og Odds Gottskálkssonar. Ólafur hafði með sér danskan heyrara sem Jakob hét og hafði áður komið í Skálholt því hann var þar tólf ára með Diðrik frá Minden þegar hann var drepinn þar 1539. Hans Lollich. Hans Lollich var danskur maður sem varð skólameistari í Skálholti 1557 og tók líklega við af Jóni Loftssyni. Hann er sagður hafa verið ágætlega lærður en undarlegur í skapi. Lollich hafði skólameistaraembættið í fjögur ár, eða til 1561. Hann fór þá aftur til Danmerkur og er ekki meira um hann vitað. Erasmus Villadtsson kom þá og tók við skólameistaraembættinu. Pawel Bartoszek. Pawel Bartoszek (fæddur 25. september 1980) er íslenskur stærðfræðingur og var fulltrúi í Stjórnlagaráði. Menntun. Sem barn gekk Pawel í Melaskóla, síðar Hagaskóla og kláraði stúdentspróf af eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2000. Hann lauk svo meistaragráðu í stærðfræði við Háskóla Íslands 2005. Stjórnmál. Pawel bauð sig fram til borgarstjórnar í sveitarstjórnarkosningunum 2010 á lista Sjálfstæðisflokksins þar sem hann var í átjánda sæti. Verðlaun og viðurkenningar. Pawel kom fyrstur í mark í Árbæjarhlaupinu árið 2013, í 10km flokki 17 - 34 ára. Lárentíus (skólameistari á Hólum). Lárentíus var danskur maður sem var fyrsti skólameistari í Hólaskóla. Hann kom til landsins með Ólafi Hjaltasyni, fyrsta lúterska biskupinum, árið 1552, og var skólameistari í allmörg ár en þó er ekki vitað hve lengi. Árið 1553 lagði Kristján 3. konungur nokkrar jarðir til uppihalds skólameistaranum og voru það Krossanes, Hóll, Ásláksstaðir, Steinsstaðir, Engimýri, Efstaland og Myrkárdalur. Lárentíus var skólameistari að minnsta kosti fram yfir 1560. Á meðal þeirra nemenda sem hann útskrifaði var Guðbrandur Þorláksson, síðar biskup, og var hann heyrari hjá Lárentíusi áður en hann fór til háskólanáms í Kaupmannahöfn. Marteinn (skólameistari á Hólum). Marteinn var danskur maður sem var skólameistari í Hólaskóla á 7. áratug 16. aldar. Ekki er vitað hvort hann tók við af Lárentíusi, fyrsta skólameistaranum, eða hvort einhver kom á milli þeirra. Vitað er að Marteinn var skólameistari í Hólaskóla veturinn 1568-1569 því að sumarið 1569 sleppti hann skólameistaraembættinu af því að honum þótti það of illa launað og hélt síðan til Danmerkur. Annað er ekki um hann vitað. Guðbrandur Þorláksson tók við af honum og stýrði skólanum næsta árið. Jóhannes Gyllebrún. Jóhannes Gyllebrún eða Hans Gillebrun var danskur maður sem var skólameistari á Hólum 1570-1573. Friðrik 2. Danakonungur skipaði Jóhannes skólameistara 1570 en Marteinn, danskur maður sem áður hafði verið þar, hafði sagt upp störfum af því að honum þótti starfið illa launað og hafði Guðbrandur Þorláksson gegnt skólameistarastöðunni veturinn 1569-1570. Hann var svo boðaður til Danmerkur af konungi til að taka biskupsvígslu en Jóhannes skipaður í hans stað. Hann var skólameistari í þrjá vetur en þá tók Sigurður Jónsson við. Lenínskólinn. Lenínskólinn var einn af leynilegum byltingarskólum sem Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, rak í Moskvu. Hann var stofnaður 1926 í framhaldi af samþykkt Kominterns um aukinn aga og öflugri byltingaranda í einstökum aðildarflokkum sambandsins. Frá 1926 til 1938 fengu um þrjú þúsund kommúnistar þjálfun í þessum skóla og tveimur öðrum, Austurskólanum, sem ætlaður var byltingarmönnum frá Kína og öðrum austlægum löndum, og Vesturskólanum, sem hafði svipað hlutverk og Lenínskólinn. Á meðal nemenda í Lenínskólanum, sem síðar urðu kunnir, voru Wladyslaw Gomulka frá Póllandi, Erich Honecker, Heinz Hoffmann og Erich Mielke frá Austur-Þýskalandi og David Alfaro Siquero frá Mexíkó. Kommúnistaflokkurinn íslenski, sem var deild í Komintern, sendi um tuttugu Íslendinga í Lenínskólann og Vesturskólann. Þar á meðal voru Benjamín H. J. Eiríksson, síðar bankastjóri, og Hallgrímur Hallgrímsson, sem tók þátt í spænska borgarastríðinu. Ýmsir nemendur úr skólunum sátu í miðstjórn Kommúnistaflokksins og síðar Sósíalistaflokksins, Dýrleif Árnadóttir, Eggert Þorbjarnarson, Stefán Pjetursson, Hjalti Árnason, Ásgeir Blöndal Magnússon og Þóroddur Guðmundsson. Tveir nemendur í þessum byltingarskóla sátu á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn, Steingrímur Aðalsteinsson og Þóroddur Guðmundsson. Nemendur lærðu sögu Sovétríkjanna, marxísk fræði og hagfræði, en hlutu einnig þjálfun í vopnaburði og skipulagningu óeirða. Einn kennari þeirra var finnski kommúnistinn Tuure Lehén, sem var herforingi í Rauða hernum og innanríkisráðherra í finnsku leppstjórninni, sem Stalín myndaði eftir innrásina í Finnland 1939. Lenínskólinn var lagður niður í hreinsunum Stalíns 1938, og var síðasti íslenski nemandinn í honum Ásgeir Blöndal Magnússon 1937–1938. Vesturskólinn. Vesturskólinn var einn af leynilegum byltingarskólum, sem alþjóðasamband kommúnista, Komintern, rak í Moskvu. Hann hét á rússnesku Коммунистический Университет Национальных Меньшинств Запада sem skammstafað var Кунмз eða KÚNMZ. Hann var stofnaður 28. nóvember 1921 og lagður niður 8. maí 1936. Hann starfaði jafnhliða Lenínskólanum, og var tilgangur beggja skóla að þjálfa byltingarmenn fyrir kommúnistaflokka Vesturlanda. Einnig starfaði í Moskvu Austurskólinn, sem átti að þjálfa byltingarmenn fyrir austlægari lönd, svo sem Kína. Kommúnistaflokkur Íslands, sem var deild í Komintern, sendi um tuttugu Íslendinga í þjálfun í Vesturskólanum og Lenínskólanum. Fyrsti íslenski nemandinn þar var "Jens Figved", sem hlaut þjálfun þar 1929–1931, en hinn síðasti Benjamín H. J. Eiríksson, sem hlaut þar þjálfun 1935–1936. Á meðal nemenda í Vesturskólanum, sem síðar störfuðu í hinni alþjóðlegu kommúnistahreyfingu, voru Ante Ciliga og Josip Broz Tito frá Króatíu (Júgóslavíu), Peder Furubotn og Arvid G. Hansen frá Noregi og Edvard Kardelj frá Slóveníu (Júgóslavíu). Harðivetur. Harðivetur var heiti sem haft var um mikinn harðindavetur á Íslandi árið 1552. Samkvæmt því sem annálar segja hófust vetrarhörkurnar á Magnúsmessu fyrir jól (13. desember 1551) og stóðu allt fram á páskadag, 13. apríl. Mikið af kvikfénaði drapst. Einkum varð biskupsstóllinn í Skálholti fyrir fjárskaða og varð biskupinn að selja eina af jörðum biskupsstólsins, Vatnmúla í Flóa, fyrir kvikfé. Eymuni hinn mikli. Eymuni hinn mikli var heiti sem haft var um mikinn harðindavetur sem kom á Íslandi veturinn 1291 (sumar heimildir nefna þó ártölin 1290 eða 1293). „Þá var sótt mannskæð, hvergi sá jörð að sumri og hafísar fyrir norðan land allt sumar, nær 15 alna þykkir.“ Annálar tala um mikinn snjóvetur, jökulvetur og fellivetur. Hrossafallsvetur. Hrossafallsvetur var heiti sem haft var um harðindavetur sem var á Íslandi árið 1313. Þá var hallæri og fjárfellir um allt land og miklar frosthörkur, svo að „fraus fætur undan nautum og hestum, þó fullfeitir væri að holdum“. Snjóþungt var um allt land og "Gottskálksannáll" segir að fjárfellir hafi verið svo mikill á Íslandi að víða um sveitir urðu menn snauðir að kvikfé og mest þó hrossum. Hvalavetur. Hvalavetur var heiti sem haft var um harðindavetur sem var á Íslandi árið 1375. Veturinn og vorið voru svo hörð að sagt var að enginn myndi slíkt. Grasspretta var mjög léleg um sumarið og hafís var við landið fram til 24. ágúst. Í "Lögmannsannál" segir: „Féllu fátækir menn af harðrétti um allt Ísland svo að mörgum hundruðum sætti.“ Nafnið sem vetrinum var gefið bendir þó til þess að mikið hafi verið um hvalreka sem hefur vafalaust bjargað mörgum, en hval rak oft á hafísárum því hann hraktist undan ísnum. Kynjavetur. Kynjavetur var heiti sem haft var um harðindavetur sem var á Íslandi árið 1424 (sumar heimildir segja 1423). Þennan vetur gekk einnig krefðusótt (mislingar) og ýmsar kynjasóttir að því er segir í annálum. Í "Nýja annál" segir að veturinn hafi verið langur og harður fyrir veðráttu sakir og víða hafi orðið fellir á hrossum og sauðfé. „Tuttugu vetrum seinna en Kvæða-Anna var merkt, kom svo mikið hallæri á Íslandi, að hún lánaði Þingeyraklaustri sex vættir smjörs.“ Ekkert er nú vitað um Kvæða-Önnu, fyrir hvað hún hafði verið brennimerkt eða hvernig hún hafði auðgast svo að hún gat lánað Þingeyraklaustri á þriðja hundrað kílóa af smjöri í hallærinu. Nautadauðavetur. Nautadauðavetur eða Nautadauðsvetur var heiti sem haft var um harðindavetur sem var á Íslandi árið 1187 (1185 samkvæmt "Resensannál"). Að því er segir í Prestssögu Guðmundar Arasonar var veturinn kallaður fellivetur og sumarið var svo grasleysissumar og ekkert skip kom frá Noregi til Íslands. Sandvetur. Sandvetur var heiti sem haft var um harðindavetur sem var á Íslandi árið 1227 samkvæmt Sturlungu og sumum annálum en einhverjir annálar segja þó að þetta hafi verið 1226. Eldgos var úti fyrir Reykjanesi sem hófst 1226 og var öskufall svo mikið að sumstaðar var sagt hafa verið myrkur um miðjan dag. Af því hefur veturinn fengið nafn. Fjöldi búfjár féll um veturinn og Snorri Sturluson missti til dæmis hundrað naut sem hann átti í Svignaskarði. Jómsvíkinga saga. Jómsvíkinga saga er íslensk fornsaga sem segir frá víkingum sem stofnuðu virkið Jómsborg, og komu þar á bræðralagi hermanna sem voru kallaðir Jómsvíkingar. Gerðir sögunnar. Jómsvíkingasaga var samin á Íslandi um 1200 og er til í nokkrum handritum, sem eru talsvert ólík hvert öðru, og hefur samband þeirra valdið fræðimönnum heilabrotum. Yfirleitt er talað um fimm gerðir sögunnar. Sagan er oftast prentuð eftir elsta handritinu, AM 291 4to. Flateyjarbók hefur náskyldan texta. Handritin AM 510 4to, og Sthlm. perg. 4to nr. 7 eru um sumt frábrugðin, og sama er að segja um latneska þýðingu sem Arngrímur lærði gerði eftir handriti sem nú er glatað. Jómsvíkinga saga var einnig notuð í Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk og Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu. Allar þessar gerðir má rekja til sama frumtexta. Í Fagurskinnu og Heimskringlu er stuðst við gerð sem virðist hafa verið talsvert frábrugðin þeim sem nú eru varðveittar. Um söguna. Þó að Jómsvíkingasaga sé ekki talin traust söguleg heimild, hefur hún sögulegan kjarna. Skipta má sögunni í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum er sagt frá nokkrum Danakonungum fram til Haraldar Gormssonar. Þessi hluti er ítarlegastur í AM 291, hann vantar í AM 510, og er talsvert frábrugðinn í öðrum handritum. Í miðhlutanum er sagt frá nokkrum höfðingjum frá Fjóni í Danmörku. Koma þar mest við sögu Vagn Ákason og Pálnatóki, en sá síðarnefndi stofnaði víkingaborgina Jómsborg á suðurströnd Eystrasalts. Þriðji hlutinn segir frá því að Sveinn tjúguskegg Danakonungur býður Jómsvíkingum í veislu og vélar þá til að fara í herför til Noregs, til að setja Hákon jarl af. Þar bíða þeir ósigur í orrustunni í Hjörungavogi, og eru flestir drepnir (um 986). Helsti foringi þeirra þar var Sigvaldi jarl. Sú gerð sögunnar sem varðveitt er í AM 291 4to hefur sérstöðu vegna þess hvað viðhorf höfundarins til Danakonunga er meinlegt. Ólafur Halldórsson segir að höfuðeinkenni sögunnar sé „frásagnargleðin, sem kalla má að hver setning sé mótuð af“ (54). „Höfundur Jómsvíkinga sögu lítur á mannlíf það sem hann segir frá með prakkaralegu glotti“ (51). Hetjuskapur Jómsvíkinga og óttaleysi þeirra gagnvart dauðanum, minnir nokkuð á forn hetjukvæði. Erfitt er að skipa sögunni í flokk. Hún er stundum flokkuð með konungasögum, því að efnislega tengist hún Danakonungum, en hún er sem bókmenntir skyldari fornaldarsögum eða Íslendingasögum. Andreas Heusler. Andreas Heusler (10. ágúst 1865 í Basel – 28. febrúar 1940 í Basel) var svissneskur miðaldafræðingur, sem sérhæfði sig í germönskum og norrænum fræðum. Æviágrip. Andreas Heusler fæddist inn í fjölskyldu virðulegra borgara í Basel, þriðji í röð feðga sem báru sama nafn. Faðir hans var Andreas Heusler (1834–1921) og afi Andreas Heusler (1802–1868), sem báðir höfðu fengist við lögfræði, réttarsögu og stjórnmál. Hann átti glæsilegan námsferil í Basel, Freiburg og Berlin og brautskráðist 1887 í Freiburg með doktorsritgerðinni: „Beitrag zum Consonantismus der Mundart von Baselstadt“. Þegar Heusler var 25 ára gamall, 1890, hóf hann háskólakennslu í Berlín og var settur prófessor þar í norrænni textafræði frá 1894 til 1913. Hann sökkti sér niður í rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum, einkum Eddukvæðum og Íslendingasögum, þýddi mörg verk á þýsku og ferðaðist tvisvar til Íslands. Frá 1914 til 1919 var Heusler prófessor í germanskri textafræði í Háskólanum í Berlín. Eftir að hann fluttist aftur til Sviss bjó hann frá 1920 í Arlesheim við Basel; þá hafði verið stofnuð staða fyrir hann við Háskólann í Basel, sem hann sinnti uns hann náði aldursmörkum 1936. Meðal áberandi eðlisþátta í persónuleika Heuslers voru ást hans á tónlist (hann spilaði á fiðlu), sinnaskipti úr því að vera sannkristinn í að vera sannfærður guðleysingi (um 1889) og þó einkum hrifning af germanskri og norrænni menningu. Nokkuð er deilt um hver afstaða Heuslers var síðustu árin til þjóðernisstefnunnar í Þýskalandi. Hann mun í fyrstu hafa verið hallur undir hana, en talið er að hann hafi orðið fráhverfur Adolf Hitler um 1938. Góða innsýn í hugarheim hans gefa 400 sendibréf til Wilhelm Ranisch, sem hann skrifaði á árabilinu 1890–1940. Andreas Heusler giftist (1893) söngkonunni "Auguste Hohenschild", sem var fjórtán árum eldri en hann. Hún var frá Hessen. Hjónabandið var misheppnað og þau skildu 1922, en höfðu ekki búið saman frá 1901. Heusler dó í Basel árið 1940 eftir stutta sjúkdómslegu. Áhrif. Andreas Heusler var meðal áhrifamestu manna í germönskum fræðum á fyrri hluta 20. aldar, og setti mark sitt á kenningar og hugtök sem hafa haft áhrif til þessa dags. Hann lagði einnig sitt af mörkum við að kynna íslenskar fornbókmenntir á hinu þýskumælandi svæði, með því að þýða Brennu-Njáls sögu, Hænsa-Þóris sögu og Grágás. Hraungambri. Grámosinn er oft fyrsti landneminn í hraunum en víkur síðar fyrir öðrum gróðri Hraungambri, grámosi eða gamburmosi (fræðiheiti "Racomitrium lanuginosum") er mosi sem myndar mjúkar, samfelldar breiður. Hann er einn algengasti mosinn í íslenskum hraunum og fyrsti landneminn og myndar breiður í 100 ára gömlum hraunum eða eldri. Á snjóléttum svæðum þá verður hann ráðandi í gróðurfari. Hraungambri vex hægt, aðeins um 5 - 15 mm á ári. Hann vex best þar sem úrkoma er mikil eða mikill raki í lofti og lofthiti frá 8-10 gráðum Celsíus. Hraungambri vex í endann en deyr jafnframt að neðan. Þótt mosaplantan sé 20 cm löng eru aðeins um fimm cm fremst á sprotanum lifandi. Hraungambri lengist um 1 sm á ári og það eru því um 5 ár frá því sprotahluti verður til þangað til hann hættir starfsemi og deyr. Ef hliðarsprotar hafa myndast verða þeir að nýjum plöntum þegar hlutinn fyrir neðan visnar. La ceinture du grand froid. La ceinture du grand froid (íslenska: "Kuldakastið") er þrítugasta Svals og Vals-bókin og sú fyrsta eftir Nic og Cauvin. Hún kom út á frönsku árið 1983 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Svalur og Valur eru í sumarfríi á sólarströnd ásamt Pésa þegar Valur ákveður að verja ferðasjóðnum í að kaupa fúadall og leggja í siglingu. Skyndilega sigla þeir inn í heimskautakulda. Þetta furðulega veðurfyrirbæri er verk þriggja vísindamanna sem heita "Jefferson", "Boris" og "Karl". Þeir undirbúa geimferð í leit að annarri plánetu þar sem þeir geti haldið áfram vísindastörfum sínum án þess að vera neyddir til að þróa vopn fyrir stjórnvöld. Með því að framkalla þoku og jökulkulda reyna þeir að halda óboðnum gestum í burtu fram að geimskoti. Vísindamennirnir vingast við Sval og Val, en saman uppgötva þeir að hópur óþokka undir stjórn glæpaforingjans "Alexanders" og aðstoðarmanns hans "Kalloway" koma aðvífandi á kafbáti. Svalur og Valur taka að sér að tefja árásarliðið og nota til þess veðravélina og uppfinningu sem gerir þeim kleift að ganga á vatni. Það tekst naumlega og í lok bókarinnar fá félagarnir skilaboð frá vísindamönnunum um að þeir hafi fundið sér hentuga plánetu. Tildurmosi. Tildurmosi fræðiheiti ("Hylocomium splendens") er fjölær mosi sem vex á norðlægum slóðum nálægt heimskautasvæðum, oftast í þurru mólendi, kjarri og skógarbotnum. Hann er olífugrænn, gulleitur eða rauðleitur með rauðleitum stilk og greinum. Hann myndar tví- til þrífjaðraða sprota og vaxa nýir sprotar upp frá miðjum eldri sprotum. Þetta vaxtaform lætur mosann líkjast fjöðrum og gerir mosanum kleift að vaxa yfir aðra mosa og jarðveg. Tildurmosi er notaður við blómaskreytingar og til að fóðra box til að flytja í grænmeti og ávexti. Hann var áður notaður sem yfirlag yfir moldargólf og í Alaska og Norður-Kanada var hann notaður til að þétta bjálkakofa. Hann inniheldur bakteríudrepandi efni Tildurmosi er algeng mosategund á Íslandi. Þar sem hann vex víða í breiðum og myndar afmarkaða árssprota er hann mjög heppilegur til mælinga á þungmálmum. og mengunarmælinga. Þjálfarar meistaraflokks KR í knattspyrnu karla. Þjálfarar meistaraflokks KR í knattspyrnu karla hafa verið margir í gegnum tíðina. Fyrst um sinn var enginn þjálfari, heldur skipuðu leikmenn sjálfir í stöðu og spiluðu. Fyrstur manna til að vera formlega kallaður þjálfari Knattspyrnufélags Reykjavíkur var Guðmundur Ólafsson. Á fyrstu árunum var þó ekki mikið um formlega þjálfun eða æfingar en þjálfunin fór að taka á sig mynd þá sem þekkist í dag þegar leið á síðustu öld. Núverandi þjálfari KR er Rúnar Kristinsson. Íþróttavöllurinn á Melunum. Gamli Íþróttavöllurinn á Melunum var fyrsti fullgerði knattspyrnuvöllurinn á Íslandi. Hann var vígður árið 1911 en hætt var að leika á honum í efstu deild eftir keppnistímabilið 1925 og var hann lagður niður árið 1942. Saga vallarins. Íþróttavöllurinn við Melana var vígður 11. júní árið 1911, í tilefni 100 ára afmælis Jóns Sigurðssonar 17. júní, 1911, en Íþróttasamband Reykjavíkur stóð að framkvæmdunum. Fyrsta mótið sem var haldið þar var vikulangt íþróttamót Ungmennafélags Íslands, einmitt í tilefni af hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Hið sama ár fór fram leikur milli Fram og KR til þess að kynna knattspyrnuíþróttina fyrir þjóðinni, en það var fyrsti opinberi leikurinn sem fór fram á Íslandi. Í kringum völlin stóð tveggja metra há bárujárnsgirðing. Norðanmegin við völlin voru áhorfendapallar en engin sæti voru við völlin í fyrstu. Fyrstu endurbæturnar á vellinum voru gerðar árið 1919 þegar danska liðið AB kom í heimsókn. Sæti voru síðan loks byggð við völlinn þegar Hjalti Jónsson fékk leyfi til þess að reisa turn sem rúmaði hann og hans nánustu, eða rúmlega 10 mans. Hjalti gaf vellinum turninn seinna meir og varð hann einhverkonar heiðursstúka forystumanna íþróttasamtakanna í Reykjavík. Leikið var á vellinum leiktímabilin 1912 - 1925, en vellinum hrakaði mikið seinustu árin. Snemma árs 1925 fauk stór hluti þeirrar girðingar sem stóð umhverfis völlinn í ofsaveðri. Völlurinn þótti hvorki íþróttamönnum né áhorfendum boðlegur og vallarstjórnin treysti sér ekki að leggja í þann kostnað sem þyrfti til, ætti völlurinn að vera nothæfur til knattspyrnuiðkunar aftur þannig að samþykkt var að flytja völlinn brott. Í kjölfarið á þessu var hafist handa að reisa nýjan völl, Melavöllinn, við hlið þess gamla. Völlurinn var lagður niður 1942 eftir að hafa verið notaður í nokkurn tíma fyrir yngri flokka. Staðsetning. Völlurinn náði í norður þar sem nú eru gatnamót Furumels og Hringbrautar, í suður þar sem gatnamót Birkimelar og Hringbrautar eru nú og í austur lág hann alveg upp við Hólavallakirkjugarð, örlítið norðar en Melavöllurinn stóð og Þjóðarbókhlaðan stendur nú. Samsetning falla. Samsetning falla eða samskeyting falla er stærðfræðileg aðgerð sem beytir falli á niðurstöðu annars falls. Hægt væri að setja föllin "f": "X" → "Y" og "g": "Y" → "Z" saman með því að reikna útkomu fallsins "g" fyrir "f"("x") frekar en "x". Þannig fæst samsetta fallið "g" ∘ "f": frá "X" → "Z" skilgreint sem ("g" ∘ "f")("x") = "g"("f"("x")) fyrir öll "x" í menginu "X". Rithátturinn "g" ∘ "f" skal lesinn ‚"g" bolla "f"‘ og merkir það sama og "g"("f"("x")) sem er lesið ‚"g" af "f" af "x"‘. Samsetning falla er alltaf tengin (þ.e. "f" ∘ ("g" ∘ "h") = ("f" ∘ "g") ∘ "h" fyrir föllin "f", "g" og "h" með viðeigandi bak- og formengi). Föllin "f" og "g" eru víxlanleg hvort við annað ef "g" ∘ "f" = "f" ∘ "g". Thiên Đường. Thien Duong-hellir (eða Paradísarhellir) er hellir í Phongnhakebang-þjóðgarðinum, Đồng Hới í Víetnam, það er lengsta hellinum í Asíu Hann fannst árið 1991 og mældu Bretar stærð hans árið 2009. Lengdin er 6,5 km, hæð 200m og breidd 150m. Í hellinum er neðanjarðará. Engjaskraut. Engjaskraut (fræðiheiti "rhytidiadelphus squarrosus") er mosategund sem útbreidd er í Evrasíu og Norður-Ameríku og hefur einnig breiðst út á suðurhveli jarðar. Sprotar eru allt að 15 sm langir og á þeim blöð sem eru 2–2,5 mm og eru þau baksveigð og áberandi útstæð og minna á stjörnu þegar horft er beint ofan á sprotann. Engjaskraut myndar sjaldan gróhirslur og fjölgar sér því með kynlausri æxlun. Jurtin finnst helst í manngerðu umhverfi eins og grasflötum og golfvöllum. Engjaskraut þolir ýmiss konar jarðveg allt frá kalkríku graslendi til súrra heiðarlanda. Engjaskraut er ein algengasta mosategund í grasflötum. Engjaskraut er algengt í þurru mólendi og kjarri á láglendi á Íslandi. Rudolf Simek. Rudolf Simek (f. 21. febrúar 1954 í Eisenstadt) er austurrískur textafræðingur og miðaldafræðingur, sem hefur m.a. fengist við germönsk og norræn fræði, og trúarbragðasögu. Rudolf Simek nam þýskar bókmenntir, heimspeki og kaþólska guðfræði í Háskólanum í Vínarborg, og varð síðan bókvörður og dósent þar. Hann hefur kennt við háskólana í Edinborg, Tromsø og Sydney. Frá 1995 hefur hann verið prófessor í germönskum fræðum við Háskólann í Bonn. Ritverk (úrval). Rudolf Simek er aðalritstjóri bókaflokksins "Studia Medievalia Septentrionalia" – ("Rannsóknir í norrænum miðaldafræðum") – sem gefinn er út í Vínarborg. Hann var (ásamt öðrum) ritstjóri tveggja afmælisrita Hermanns Pálssonar, en þeir störfuðu um tíma saman í Edinborg. News of the World. "News of the World" var breskt sunnudagsblað sem gefið var út af News Corporation. Dagblaðið var stofnað árið 1843 en útgáfu blaðsins var hætt 10. júní 2011 vegna þess að blaðið hafði stundað víðtækar símhleranir. Engar auglýsingar voru í síðustu útgáfu en góðgerðarsamtökum var boðið að auglýsa þeim að kostnaðarlausu. Systurblað "News of the World" er "The Sun". Greinar í blaðinu snérust oft um hneykslismál og stjörnur og það er talið slúðurblað. Il y a un sorcier à Champignac. Il y a un sorcier à Champignac (íslenska: "Greifinn í Sveppaborg") er önnur Svals og Vals-bókin og fyrsta sagan í fullri lengd. Höfundur hennar var Franquin. Sagan birtist í teiknimyndablaðinu Sval 1950-51 en kom út á bókarformi árið 1951 og hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Svalur og Valur bregða sér í útilegu í námunda við hina friðsælu "Sveppaborg". Þegar þangað er komið uppgötva þeir að undarlegir hlutir eru á seyði: skepnur bænda hríðhorast eða vaxa með ógnarhraða og fólk fellur í fastasvefn. Oftar en ekki finnast torkennilegir sveppir á vettvangi. Reiði bæjarbúa beinist að sígauna nokkrum, sem er sakaður um að vera göldróttur. Svalur og Valur efast þó um sekt hans. Í námunda við bæinn er dularfullt setur sérviturs greifa. Greifinn rænir Val og framkvæmir á honum tilraunir. Valur öðlast tímabundna ofurkrafta og frelsar sígaunann úr klóm reiðs múgsins. Sveppagreifinn biðst afsökunar á ónæðinu sem tilraunir hans hafa valdið og lofar að bæta skaðann. Skömmu síðar lesa Svalur og Valur um aldraðan íþróttamann sem sigri í hverju mótinu á fætur öðru. Grunur þeirra er fljótlega staðfestur: greifinn hefur þróað sveppalyf sem gefur honum ofurkrafta. Með því að keppa á íþróttamótum hyggst hann safna peningum til að standa undir rannsóknum sínum. Smáglæpamaður kemst á snoðir um töfralyfið. Hann stelur því og gerist stórtækur ræningi með ofurkrafta. Að lokum dvína þó áhrif lyfsins og Svalur og Valur koma honum í hendur lögreglu. Örfirisey (landslagsþáttur). Örfirisey er eyja sem breytist í tanga á fjöru en sýnist á flóði vera eyja - það er að grandinn fer undir á flóði og sést ekki. Gott dæmi um örfirisey er Grótta á Seltjarnarnesi. Örfirisey í Reykjavík var fyrir landfyllingu um miðja 20. öld ágætt dæmi um slíkt hið sama, og heitir þess vegna svo. Thorvaldsensfélagið. Thorvaldsensfélagið er elsta íslenska kvenfélagið í Reykjavík, stofnað 19. nóvember 1875. Það hefur frá stofnun verið virkt í góðgerðarstarfsemi ýmiskonar. Saga. Margar þeirra ungu kvenna sem komu að stofnun félagsins voru vel menntaðar, komu úr efnuðum bakgrunni. Árið 1877 var Handavinnuskóli Thorvaldsensfélagsins stofnaður og þar kenndu félagskonur í sjálfboðavinnu stúlkum á aldrinum 7-14 ára að sauma og prjóna. Þessi skóli var starfræktur allt til ársins 1904 er farið var að kenna þessar greinar í Barnaskóla Reykjavíkur. Einnig ráku félagskonur í tvö ár skóla á sunnudögum, en hann var ætlaður eldri stúlkum og þar voru kenndar bóklegar greinar. Á síðari hluta 20. aldar hefur félagið meðal annars stutt barnadeildina sem var á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi til tækjakaupa. Litadýpt. Litadýpt er hugtak innan tölvuteiknunar sem vísar til þess hve margir bitar eru notaðir til að tákna lit díls í punktamynd (mynd sett fram með punktafylki). Því hærri sem litadýptin er því fleiri ólíkir litir. Vísilitur. Þegar litadýptin er lág og grófgerð eru litagildið vanalega ekki látið tákna litinn sjálfan heldur látið "vísa" í ákveðinn vísi á litakorti eða litavali. Ungmennafélagið Vísir (Suðursveit). Ungmennafélagið Vísir var stofnað í Suðursveit árið 1912. Fyrsti formaður félagsins var Steinþór Þórðarson frá Hala, en hann var bróðir Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar. Steinþór gegndi formennskunni í um 30 ár. Benedikt, bróðir þeirra Þórbergs og Steinþórs, var meðal helstu hvatamanna að stofnun félagsins og var hann gerður að heiðursfélaga þess. Sonur Steinþórs, Torfi Steinþórsson gegndi formennsku í Vísi um tuttugu ára skeið, frá 1946 til 1966. Vonarstræti (skáldsaga). Vonarstræti er söguleg skáldsaga eftir Ármann Jakobsson, sem kom út á vegum Forlagsins árið 2008. Bókin segir frá ferð Skúla Thoroddsen og Theódóru Thoroddsen konu hans til Kaupmannahafnar árið 1907 sem hluti af nefnd til viðræðna um Uppkastið. Vonarstræti er einnig heiti á götu í miðbæ Reykjavíkur og heitir bókin í höfuðið á henni, þar eð Skúli og Theódóra fluttu þangað árið 1908 frá Bessastöðum. Time. "Time" eða "TIME" er bandarískt fréttatímarit. Tímartitið var fyrst gefið út 3. mars 1923 af Henry Luce og Briton Hadden. Höfuðstöðvar tímaritsins eru í New York-borg en einnig eru gefnar út evrópsk-, suður-kyrrahöfsk- og asísk útgáfa tímaritsins. Síðan 1999 hefur tímaritið gefið út árlegan lista yfir hundrað áhrifamestu einstaklinga heimsins. Suður-Súdan. Suður-Súdan (opinberlega Lýðveldið Suður-Súdan) er landlukt land í Mið-Afríku. Suður-Súdan á landamæri að Eþíópíu í austri, Keníu, Úganda og Austur-Kongó í suðri, Mið-Afríkulýðveldinu í vestri og Súdan í norðri. Höfuðborg landsins er Juba. Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki við aðskilnað frá Súdan þann 9. júlí 2011. Suður-Súdan gerðist meðlimur að Sameinuðu þjóðunum 14. júlí 2011 og Afríkubandalaginu 28. júlí 2011. Suður-Súdan er þróunarland og eitt af fátækustu löndum heims. Ríki. Landið skiptist í 3 landshluta, Bahr el Ghazal, Equatoria og Greater Upper Nile, sem skiptast niður í 10 ríki. Bahr el Ghazal Greater Upper Nile Ríkin 10 skiptast svo niður í 86 héruð. Höfuðborg landsins, Juba, er staðsett í Central Equatoria. Hljóðnemi. Hljóðnemi, oft kallaður míkrófónn, er tæki sem notað er til að taka upp hljóð með því að breyta því í rafmerki. Fyrsti hljóðneminn var smíðaður árið 1876 af Emile Berliner en hann var notaður í símtæki. Í dag eru hljóðnemar notaðir í mörgum ólíkum tækjum, meðal annars símum, segulbandstækjum, karaókítækjum, heyrnartækjum, labbrabbtækjum og tölvum. Hljóðnemar breyta hljóði í rafmerki með spani, breytingum í rafrýmd eða þrýstirafmagni. Peugeot. Peugeot (borið fram) er franskur bílaframleiðandi í eigu fyrirtækisins PSA Peugeot Citroën, sem er annar stærsti bílaframleiðandi í Evrópu. Undanfari fyrirtækisins var stofnaður árið 1810. Sótt var um að nota mynd af ljóni sem vörumerki árið 1858. Vegna fjölskyldudeilu stofnaði Armand Peugeot fyrirtækið "Société des Automobiles Peugeot" árið 1896. Í fyrstu framleiddi Peugeot kaffikvarnir og reiðhjól en árið 1891 framleiddi fyrirtækið fyrsta bílinn sinn. Fyrirtækið og fjölskyldan sem stofnaði það eru frá Sochaux í Frakklandi. Enn er stór bílaverksmiðja í eigu fyrirtækisins þar, auk minjasafnsins Musée de l'Aventure Peugeot. Peugeot er stuðningsaðili knattspyrnuliðsins í Sochaux, sem var stofnað árið 1928 af fjölskyldunni Peugeot. Kuðungsferill. Kuðungsferill, spírall, vefja, kuðungslína, kuðungur, snigill eða vafningur er ferill, sem hringast í tvívíðri sléttu eins og gormur, sífellt fjær upphafspunki. Þekktasti kuðungsferillinn er kenndur við Arkímedes. Karaókí. Dæmi um karaókítexta á japönsku Karaókí eða karíókí (úr japönsku カラオケ kara 空 „tómt“ og ōkesutora オーケストラ „hljómsveit“) er skemmtunarform þar sem maður syngur með tónlist með hljóðnema. Sú tónlist, sem sungið er með, er oftast popptónlist án aðalsöngs. Texti lagsins er sýndur á skjá, með tákni sem fylgir eftir textanum til að hjálpa söngvaranum. Í sumum löndum heitir karaókítæki KTV. Skammstöfun þessi getur líka átt við útgáfu lags án aðalsöngs. Gormferill. Gormferill er heiti ferils, sem hringar sig eins og gormur. Baráttan um arfinn. Baráttan um arfinn (franska: "Spirou et les héritiers") er fjórða bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1951-52 og kom út á bókarformi árið 1952. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst níunda í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Í upphafi sögunnar fær Valur þær fregnir að hann þurfi að etja kappi við Samma frænda sinn um arf eftir lítt kunnan ættingja. Keppnin felst í þremur þrautum. Sú fyrsta gengur út á að finna upp frumlegt og nytsamlegt tæki. Þar sigrar Valur með því að búa til hentugt farartæki, sem er eins konar bakpoki með þyrluspaða. Önnur þrautin gengur út á að komast í eitt af efstu sætunum í kappaksturskeppni, en þar sigrar Sammi frændi með bellibrögðum. Lokaþrautin felst í að finna hina goðsagnakenndu veru, gormdýrið, í skógum "Palombíu". Svalur og Valur finna gormdýrið og eru á leið með það til byggða þegar hópur indíána ræðst á þá. Á síðustu stundu kemmur Sammi þeim félögum til bjargar. Hann játar sig sigraðan, segist sjá á eftir misgjörðum sínum og ákveður að setjast að í Palombíu. Þegar heim er komið fær Valur að vita að frændinn dularfulli skildi í raun ekki eftir sig nein verðmæti, en efndi til keppninnar í þeirri von að ónytjungarnir Valur og Sammi mættu komast til nokkurs þroska. Þrátt fyrir þessi málalok unir Valur glaður við sitt, en harmar þó að gormdýrið hafi verið svipt frelsi sínu og lokað inni í dýragarði. Íslensk útgáfa. Baráttan um arfinn – eða Svalur finnur Gorm var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var níunda bókin í íslensku ritröðinni. Les voleurs du Marsupilami. Les voleurs du Marsupilami (íslenska: "Gormdýrinu rænt") er fimmta Svals og Vals-bókin. Höfundur hennar var Franquin. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1952 og kom út á bókarformi árið 1954. Hún hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Bókin er beint framhald af Baráttunni um arfinn og hefst á því að Svalur og Valur fá bakþanka yfir að hafa látið loka gormdýrið inni í dýragarði. Dýrinu er rænt og kemst þjófurinn undan þeim félögum á flótta eftir æsilegan eltingaleik í dýragarðinum. Í ljós kemur að þjófurinn er snjall knattspyrnumaður, "Valentin Mollet", sem var þvingaður til ódæðisins af fyrrum yfirmanni sínum, forstjóra í "fjölleikahúsi Sabaglíónís". Svalur og Valur dulbúast sem starfsmenn fjölleikahússins, en eru stöðvaðir áður en þeim tekst að hafa upp á gormdýrinu, sem slær þegar í gegn hjá áhorfendum. Félagarnir vita ekki sitt rjúkandi ráð, en rekast þá fyrir tilviljun á Sveppagreifann. Hann útbýr fyrir þá töfraseyði sem gerir mönnum kleyft að skipta litum. Svalur og Valur eru snarlega ráðnir í fjölleikahúsið sem undrabræðurnir "Cam & Leon". Áður en Sval og Val tekst að endurheimta gormdýrið eru þeir handsamaðir af stjórnanda fjölleikahússins og þrjótum hans. Knattspyrnukappinn Valentin kemur til bjargar á síðustu stundu og með dyggri aðstoð gormdýrsins og Pésa tekst þeim að yfirbuga skúrkana. Kristján Albertsson. Kristján Albertsson (9. júlí 1897 – 31. janúar 1989) var íslenskur rithöfundur, fræðimaður og ævisagnaritari sem starfaði lengi í íslensku utanríkisþjónustunni. Ef til vill er hann nú best þekktur fyrir frægan ritdóm sem hann skrifaði um "Vefarann mikla frá Kasmír" eftir Halldór Laxness, sem hófst á orðunum: „Loksins, loksins.“ Kristján varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917 og gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1916. Hann las síðan bókmenntasögu við Kaupmannahafnarháskóla 1917-1921 og stundaði svo nám í Frakklandi og Þýskalandi. Þegar heim kom varð Kristján ritstjóri tímaritanna Varðar 1924-1927 og Vöku 1927-1929 og var áberandi í menningarlífi Reykjavíkur, meðal annars formaður Leikfélags Reykjavíkur, leikstjóri um skeið og skrifaði leikrit sem sett voru á svið. Árið 1935 varð hann lektor í íslensku við háskólann í Berlín og gegndi því starfi til 1943. Árið 1946 gekk hann í utanríkisþjónustuna og var sendifulltrúi, lengst af í París en einnig á allsherjarþingi SÞ í New York um tíma. Kristján skrifaði fjölda bóka, meðal annars ævisögu Hannesar Hafstein í þremur bindum, tvær skáldsögur, tvö leikrit og fjölda ritgerða og greina sem gefnar voru út á bókum. Hann sá einnig um útgáfu á ýmsum bókum og ritsöfnum. Ævisaga hans, "Margs er að minnast", kom út árið 1985. Kristján var á unglingsárum einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Fram árið 1908. Hann barðist fyrir því að nafni félagsins yrði breytt í "Fram" en upphaflega hafði því verið gefið heitið "Kári". Vanilla Ice. Robert Van Winkle (fæddur 31. október 1967) er bandarískur rappari og leikari sem gengur undir listamannsnafninu Vanilla Ice. Hann var fyrsti rapparinn sem komst á Bandaríska Billboard 100 listann og var í fyrsta sæti í 18 vikur með Ice Ice Baby árið 1990. Raunveruleikaþátturinn "The Vanilla Ice Project" fylgir eftir starfi hans sem fasteignasali. Vanilla Ice keyrir á mótorhjóli sem atvinnukeppandi og hefur gert það síðan 1985. Nýjasta hlutverk hans sem leikari er í Adam Sandler myndinni "That's My Boy" sem kemur út í lok Júlí.. Samband ungra kommúnista. Samband ungra kommúnista var stofnað snemma árs 1924 en áður höfðu nokkur félög ungra kommúnista verið stofnuð. Fyrsti formaður Sambandsins var Hendrik Siemsen Ottósson. Brynjólfur Bjarnason var varaformaður, Ársæll Sigurðsson ritari, en meðstjórnendur voru Haukur Siegfried Björnsson og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson. Málgagn Sambandsins var "Rauði fáninn", sem kom út 1924–1927. Samband ungra kommúnista gekk í Alþjóðasamband ungra kommúnista, sem rekið var í samstarfi við Komintern í Moskvu. Haustið 1930 náðu ungir kommúnistar meirihluta á þingi Sambands ungra jafnaðarmanna og nefndu þeir þá Sambandið upp og kölluðu það Samband ungra kommúnista. Fyrsti formaður þessa nýja Sambands var Haukur Siegfried Björnsson. Áki Jakobsson var formaður 1931–1936 og Eðvarð Sigurðsson 1936–1938. Sambandið var lagt niður um leið og Kommúnistaflokkurinn en þess í stað var Æskulýðsfylkingin stofnuð. Ryan Dunn. Ryan Dunn (11. júní 1977 – 20. júní 2011) var áhættuleikari úr þáttunum Jackass og CKY-myndunum. Dunn var með aðalhlutverk í Jackass-þríleiknum sem voru sýnd í kvikmyndahúsum. Þekktur sem Random Hero, Ryan Dunn var mikill Íslandsvinur og kom oft í heimsókn til þess að taka upp áhættuatriði. Besti vinur hans var Bam Margera. Leikari. Dunn, Ryan Alþjóðaknattspyrnusambandið. Alþjóðaknattspyrnusambandið (franska: "Fédération Internationale de Football Assoiciation", skammstöfun: "FIFA") er alþjóðlegur yfirumsjónaraðili knattspyrnu, futsal og strandfótbolta. Aðilar að sambandinu eru sex knattspyrnusambönd í öllum álfum heimsins. FIFA skipuleggur alþjóðlegar knattspyrnukeppnir, þar á meðal Heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Heimsmeistaramótið var fyrst haldið 1930 og verður haldið í tuttugasta skipti í Brasilíu 2014. Sambandið var stofnað 21. maí 1904 í París. Stofnfélagar voru knattspyrnusambönd Belgíu, Danmerkur, Frakklands, Hollands, Spánar, Svíþjóðar og Sviss. Höfuðstöðvar félagsins eru í Zürich, Sviss. 1908 varð Knattspyrnusamband Suður-Afríku fyrsta sambandið utan Evrópu sem sóttist eftir aðild. Núverandi forseti sambandsins er Sepp Blatter. Húsið á sléttunni (sjónvarpsþættir). Húsið á sléttunni voru bandarískir sjónvarpsþættir sem fjalla um líf landnema á sléttum Norður-Ameríku. Þættirnir voru byggðir á samnefndri röð barnabóka eftir Laura Ingalls Wilder sem komu út á árunum 1932-1943 og einnig eftir andlát höfundarins, sú síðasta árið 2006. Sjónvarpsþættirnir nutu mikilla vinsælda á Íslandi á áttunda áratugnum. Svalur og górilluaparnir. Svalur og górilluaparnir (franska: "Le gorille a bonne mine") er ellefta bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1959. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var gefin út á íslensku árið 1978 og telst fjórða í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Svalur og Valur halda í leiðangur til Afríku til þess að taka myndir af fjallagórillum í sínu náttúrulega umhverfi. Auk ljósmyndabúnaðar, hefur Valur í fórum sínum dularfullan pakka, en fæst ekki til að upplýsa um innihald hans. Í námaþorpinu Molomonga hitta félagarnir hóp hjátrúarfullra svertingja, sem segja stóra apa ræna sínum mönnum, en einnig vestræna starfsmenn gullnámafyrirtækisins. Forstjórinn hr. Badman tekur þeim vel en verkfræðingarnir Góðdalín og Hvítalín sjá öll tormerki á ferðinni og þræta fyrir að nokkrar górillur sé þar að finna. Fram kemur að fáeinum mánuðum fyrr hafi læknirinn dr. Zwart horfið sporlaust á svæðinu. Þrátt fyrir dularfull spellvirki halda Svalur og Valur inn í frumskóginn. Þar rekast þeir á þjóð innfæddra stríðsmanna sem reynist hafa rænt fjölda manna að undirlagi hins illa dr. Zwart. Eru hinir ánauðugu menn látnir starfa í gullnámu sem læknirinn og þeir Góðdalín og Hvítalín starfrækja á laun. Svalur og Valur hundsa gylliboð dr. Zwarts og ákveða að tilkynna yfirvöldum um athæfi hans. Að lokum komast félagarnir á górilluslóðir og ná frábærum myndum, ekki hvað síst vegna hins dularfulla pakka Vals, sem reynist innihalda fullkomið górillugervi. Aukasagan, "Viðburðarlítið sumarleyfi" (franska: "Vacances sans histories"), segir frá því þegar Svalur og Valur eru á leið í sumarfrí á sportbíl þess síðarnefnda. Vellríkur arabískur olíufursti, Ibn Maksúd, tekur bílinn í misgripum og klessukeyrir hann. Furstinn er alræmdur sem versti ökumaður í heimi, en bætir félögunum tjónið með því að gefa þeim lúxusbíl sinn, Túrbó 2, sem átti eftir að koma við sögu í fleiri bókum. Íslensk útgáfa. Bókin Svalur og Górilluaparnir var gefin út af Iðunni árið 1978 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var fjórða bókin í íslensku ritröðinni. Vefarinn mikli frá Kasmír. Vefarinn mikli frá Kasmír er skáldsaga eftir Halldór Laxness sem kom út árið 1927. Þema verksins er hugarvíl ungs manns og leit að sannleika, trú og ást og val hans milli ástar og trúar. Vefarinn mikli frá Kasmír er um margt nútímalegri skáldsaga en tíðkaðist á þeim tíma. Um skáldsöguna voru ritaðir tveir mjög frægir ritdómar. Annar þeirra var eftir Kristján Albertsson, hinn eftir Guðmund Finnbogason. Ritdómar um Vefarann. Þó er dómur Kristjáns ekki allur á eina lund og segir hann verkið einnig vera "ekkert meistaraverk", "sumstaðar tilgerðarlegt, falskt, forskrúfað, líkingar bragðlausar eða ófagrar" en eftir stendur að: "Þróun tímaborins íslenzks sögustíls tekur hálfrar aldar stökk með þessari bók H.K.L." Smámæli. Smámæli er talgalli og er haft um það þegar einstaklingur á erfitt með að bera fram blísturshljóð eins og hljóðið [s] sem millitannhljóð eins og [θ] eða þ. Það er kallað að vera "smámæltur" eða "blæstur í máli". Í fornu máli var talað um að vera "hæpilegur". Það er eitthvað við Mary. "Það er eitthvað við Mary" (enska: "There's Something About Mary") er bandarísk gamanmynd frá árinu 1998 sem Farrelly-bræðurnir leikstýrðu. Cameron Diaz og Ben Stiller fara með aðalhlutverkin. Sagan er um Ted Strohmann sem ræður til sín einkaspæjara til að hafa uppá æskuástinni henni Mary. Þegar einkaspæjarinn finnur hana, fellur hann sjálfur kylliflatur fyrir henni. Eitt leiðir af öðru og upphefst brjálæðisleg samkeppni milli þeirra til þess að vinna ástir Mary. Skáneyjar-Lassi. Skáneyjar-Lassi (um 1490 – fyrir 1570) eða Lassarus Matthíasson, Lazarus Matheusson, var þýskur bartskeri sem kom til Íslands til að lækna sárasótt, ílentist á landinu og eignaðist afkomendur. „... vér höfum gjört svoddan kaupskap og skilmála við Lazarus Barskera að hann skal græða og heila og um trútt búa fyrir oss tíutigi menn af sárasótt, það sem oss líkar, og fulla borgun hafa. Skal hann kaupa smyrslin sjálfur til það besta hann kann. Enn vér skulum bítala helftina fyrir þau. Hér í móti höfum vér fengið greindum Lazarus barskera til fullrar eignar og frjáls forræðis jörðina alla Skáney er liggur í Reykholts kirkju sókn...“ Lassi mun einkum hafa notað kvikasilfurssmyrsl við lækningar sínar. Sagt er að hann hafi einungis læknað 50 menn og því aðeins átt að fá hálfa Skáney en hann mun þó hafa haldið jörðinni allri og afkomendur hans bjuggu þar. Hvort sem það var lækningum Lassa og eftirmanna hans að þakka eða það var af öðrum ástæðum, þá lognaðist sárasóttarfaraldurinn á Íslandi út á næstu árum og áratugum og kom ekki upp annar faraldur fyrr en á 18. öld og þá tengdur Innréttingunum. Þann 24. nóvember 1528 giftist Lassi Guðrúnu eldri Ólafsdóttur, sem var ein af fjömörgum börnum Ólafs Eiríkssonar bónda á Hóli í Bolungarvík og Brigitar Jónsdóttur konu hans. Þau bjuggu í Skáney og eignuðust að minnsta kosti þrjú börn. "Lars Mattheusson" er persóna í leikritinu "Skollaleik" eftir Böðvar Guðmundsson sem er að nokkru leyti byggð á Lassa þótt örlög hans séu ólík ævi Skáneyjar-Lassa. Ritdómur. Ritdómur er texti, gjarnan stuttur, í dagblaði eða tímariti þar sem sett er fram greining, túlkun og mat á ritverki. Ritdómur (eða gagnrýni) aðgreinist frá bókmenntarýni að því leyti að ritdómur er ekki nauðsynlega fræðilegur heldur tjáir viðbrögð og mat ritdómarans á verkinu. Ritdómar eiga sér mun styttri sögu en bókmenntarýni, eða aftur til nítjándu aldar. Einn helsti frumkvöðull greinarinnar var bandaríski rithöfundurinn og ljóðskáldið Edgar Allan Poe. Af íslenskum ritdómurum má nefna Ólaf Jónsson og Árna Bergmann. Meðal þeirra ritdóma sem fleygir hafa orðið á Íslandi má nefna ritdóm Jónasar Hallgrímssonar um rímur Sigurðar Breiðfjörð. Ants Oras. Ants Oras (f. í Tallinn 8. desember 1900, d. í Gainesville, Florída, 21. desember 1982) var eistneskur rithöfundur. Hann lauk prófi í heimspeki frá háskólanum í Tartu og í bókmenntum frá Oxford-háskóla. Hann fékkst við þýðingar og kenndi bókmenntir við háskólana í Helsinki og Tartu til 1943, þegar hann flýði undan kommúnistum til Svíþjóðar. Síðar fluttist hann til Bandaríkjanna og varð prófessor í Florída-háskóla í Gainesville. Hann skrifaði fjölda bóka, þar á meðal "Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum", sem kom út á íslensku 1955 í þýðingu séra Sigurðar Einarssonar í Holti. Lýsir hún undirokun Eystrasaltsþjóðanna eftir hernám Moskvustjórnarinnar 1940, en í griðasáttmálanum 23. ágúst 1939 höfðu Stalín og Hitler skipt með sér Mið- og Austur-Evrópu og Eystrasaltsríkin fallið í hlut Stalíns. August Rei. August Rei (f. í Pilistvere 22. mars 1886, d. í Stokkhólmi 29. mars 1963) var eistneskur stjórnmálamaður. Hann stundaði nám í lögum við Háskólann í Pétursborg, enda var Eistland þá hluti rússneska keisaradæmisins. Hann gerðist jafnaðarmaður og sat í fyrstu bráðabirgðaríkisstjórn Eistlands 1918 – 1919. Hann var forseti stjórnlagaþings Eistlands 1919–1920 og gegndi eftir það ýmsum embættum. Hann var forseti landsins 1928 – 1929, utanríkisráðherra 1932 – 1933 og sendiherra í Sovétríkjunum 1938 – 1940. Eftir að Sovétstjórnin lagði Eistland undir sig með hervaldi, flýði Rei til Svíþjóðar. Hann var utanríkisráðherra í útlagastjórn Eistlands 1944–1945 og forsætisráðherra (og um leið forseti) hennar frá 1945 til dánardags. Hann kom í heimsókn til Íslands 1957 og ræddi þá við Ásgeir Ásgeirsson forseta og Guðmund Í. Guðmundsson utanríkisráðherra. Tenglar. Rei, August Mart Laar. Mart Laar (f. í Viljandi 22. apríl 1960) er eistneskur stjórnmálamaður. Hann lauk sagnfræðiprófi frá háskólanum í Tartu 1983. Eftir að Eistland varð sjálfstætt ríki á ný, gerðist hann leiðtogi Föðurlandsflokksins (Pro Patria), sem var hægrisinnaður. Hann var forsætisráðherra Eistlands 1992 – 1994 og beitti sér þá fyrir hraðstígum breytingum í átt til frjálsara og opnara hagkerfis. Hann lauk meistaraprófi í sagnfræði frá háskólanum í Tartu 1995. Hann var aftur forsætisráðherra 1999 – 2002. Hann lauk doktorsprófi í sagnfræði frá háskólanu í Tartu 2005 og hefur skrifað nokkrar bækur um sögu Eistlands, þar á meðal andspyrnuhreyfinguna gegn kommúnistum eftir undirokun landsins 1940. Hann hóf aftur þátttöku í stjórnmálum haustið 2006 og varð varnarmálaráðherra 2011. Laar hélt erindi á ráðstefnu Mont Pelerin Society á Íslandi 2005. Laar, Mart Laar, Mart Emanuel Swedenborg. Emanuel Swedenborg (fæddur Swedberg, (29. janúar 1688 – 29. mars 1772) var sænskur vísindamaður, guðspekingur og heimspekingur. Swedenborg átti sérlega fjölbreyttan feril og varla hafa margir menn í veraldarsögunni komið víðar við. Hann var uppfinningamaður, bókbindari, eðlisfræðingur, stjörnufræðingur (hann smíðaði eigin sjóngler, stjörnukíki og smásjá), ævisagnaritari, ljóðskáld, ritstjóri, sálfræðingur, heimspekingur, stærðfræðingur, landafræðingur, málmfræðingur, garðyrkjufræðingur, flugverkfræðingur, teiknari, organisti, vélfræðingur, trésmiður, námuverkfræðingur, heimsfræðingur, dulspekingur, guðspekingur og mikill ferðalangur. Áhrifa hans gætir í íslenskri menningu, svo sem á Einar Jónsson myndhöggvara. Swedenborg var sonur Jespers Swedborg (1653–1735), kennara og biskups í Skara í Svíþjóð, sem var mikilsvirtur í röðum kirkjunnar manna. Fyrri hluta ævi sinnar helgaði Emanuel Swedenborg sig vísindarannsóknum og ferðalögum. Hann sendi frá sér margar bækur í ýmsum fræðigreinum, bækur sem sumar hverjar eru enn notaðar í dag og þykja langt á undan samtíð sinni. Hann teiknaði flugvél og kafbát og rannsakaði starfsemi heilans og gerði merkilegar rannsóknir á blóðrás mannsins og á tengslum hjarta- og lungnastarfsemi. Eftir miðjan aldur hætti hann öllum vísindarannsóknum og helgaði sig guðspeki, sálfræði og heimspeki í leit að röklegum tilvistargrunni mannsins. Við andlát hans árið 1772 lágu eftir hann meira en hundrað bækur. Swedenborg, Emanuel Ungmennafélagið Vorboðinn. Ungmennafélagið Vorboðinn var stofnað 3. janúar 1915 og er félagssvæði þess Engihlíðarhreppur hinn forni í Austur-Húnavatnssýslu. Félagið er aðili að USAH Skrifstofa félagsins er í Bakkakoti. Nágrannar þeirra úr Hvöt léku heimaleiki sína í knattspyrnu á Bakkakotsvelli upp úr 1980. Núverandi formaður er Aðalbjörg Valdimarsdóttir. Héraðssamband Strandamanna. Héraðssamband Strandamanna eða HSS var stofnað 19. nóvember 1944. Núverandi formaður er Vignir Örn Pálsson. Handknattleiksárið 1976-77. Handknattleiksárið 1976-77 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1976 og lauk vorið 1977. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í b-keppni í Austurríki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Þjálfari Vals var Hilmar Björnsson. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Grótta féll niður um deild. Þróttur fór í umspil við næstefsta lið 2. deildar. Markakóngur var Hörður Sigmarsson, Haukum, með 111 mörk. Björgvin Björgvinsson, Víkingi, var valinn leikmaður ársins af íþróttafréttamönnum. 2. deild. Ármenningar sigruðu í 2. deild og færðust upp í þá fyrstu. KR hafnaði í öðru sæti og komst í umspil. Á hinum endanum féll Keflavík niður um deild en Leiknir fór í umspil. Keppt var í 8 liða deild með tvöfaldri umferð. KR og Þróttur léku tvo umspilsleiki um sæti í 1. deild og sigraði KR í þeim báðum, 15:14. 3. deild. HK sigraði í 3. deild og tók sæti Keflvíkinga í 2. deild. Axel Axelsson var þjálfari HK. Keppt var í tveimur riðlum með tvöfaldri umferð. HK sigraði í suðurriðli en Dalvíkingar í Norðurriðli. Fjögur lið kepptu í norðurriðli. Dalvík fór með sigur af hólmi. Dalvík og Leiknir mættust í umspilsleik um sæti í 2. deild og sigruðu Leiknismenn 26:21. Bikarkeppni HSÍ. FH-ingar sigruðu í bikarkeppninni þriðja árið í röð eftir úrslitaleik gegn Þrótti. Evrópukeppni meistaraliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í 16-liða úrslit. Evrópukeppni bikarhafa. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og komust í 16-liða úrslit. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Þjálfari Fram var Guðjón Jónsson. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Fram og Valur mættust í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni, en honum lauk með stórsigri Fram, 13:5. Breiðablik féll niður um deild. Víkingur fór í umspil við næstefsta lið 2. deildar. Kolbrún Jóhannsdóttir, Fram, var valin handknatleiksstúlka ársins. 2. deild. Haukar sigruðu í 2. deild. Grindvík hafnaði í öðru sæti og fór í umspil um sæti í 1. deild. Átta lið tóku þátt, fimm í A-riðli og þrjú í B-riðli. Leikin var tvöföld umferð. "Umspilsleikur um sæti í 1. deild:" Bikarkeppni HSÍ. KR-stúlkur sigruðu í bikarkeppninni í fyrsta og eina sinn eftir tvo úrslitaleiki gegn Ármanni. Evrópukeppni meistaraliða. Framstúlkur kepptu í Evrópukeppni meistaraliða. Þær sátu hjá í fyrstu umferð en féllu úr keppni í 16-liða úrslitum. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var B-keppni í Austurríki. Íslenska liðið komst upp úr forriðli, hafnaði í öðru sæti í milliriðli og lék að lokum um bronsverðlaunin. Sex efstu liðin tryggðu sér sæti á HM í Danmörku sem haldin var 1978. Sophus Bugge. Sophus Bugge – fullu nafni Elseus Sophus Bugge – (5. janúar 1833 – 8. júlí 1907) var norskur málvísindamaður, textafræðingur og þjóðfræðingur. Æviágrip. Sophus Bugge fæddist í Larvik. Foreldrar: Alexander Bugge (1790–1854) timburkaupmaður og Maren Kirstine Sartz (1798–1836). Sophus Bugge varð stúdent í Kristjaníu 1848 og tók embættispróf í textafræði 1857. Meðal kennara hans voru P. A. Munch og Rudolf Keyser. Næstu ár fékk hann styrk til námsdvalar erlendis. Árið 1860 varð hann styrkþegi í samanburðarmálfræði og sanskrít, 1864 lektor og 1866 prófessor í indóevrópskum málvísindum og fornnorsku við Háskólann í Kristjaníu. Meginframlag Bugges er á svið norrænna málvísinda og menningarþróunar, en frá hendi hans komu einnig markverð verk í samanburðarmálvísindum, einkum í latneskri textafræði, fornítölsku, etrúsku, armensku, rómanskri orðsifjafræði og sígaunamáli. Árið 1852 birti Sophus Bugge fyrstu vísindagrein sína: "Om Consonant-Overgange i det norske Folkesprog". Á stúdentsárunum fór hann til Þelamerkur til þess að safna fornkvæðum. Hann átti umtalsverðan hlut í útgáfuverkinu "Danmarks gamle Folkeviser", sem Svend Grundtvig hóf að gefa út 1853. Þetta verk er mikilvægasta safn norrænna þjóðkvæða; lokabindið (XII. bindi) kom út 1976. Sophus Bugge gaf sjálfur út "Gamle norske Folkeviser" (1858) sem var talin góð fyrirmynd um vísindalega útgáfu. Þó að bindin yrðu ekki fleiri, er Bugge án efa sá einstaklingur sem safnað hefur flestum norskum fornkvæðum. Bugge vann mikið að rannsóknum á norrænum rúnaristum, og gaf út "Norges indskrifter med de ældre runer". Árið 1865 gaf hann út stutta grein (sem var aðeins 23 línur) um rúnirnar á gullhornunum dönsku. Þar lagði hann fram nýja túlkun á áletruninni, með þýðingu á gotnesku, norrænu og fornensku. Bugge vildi bíða með að rökstyðja túlkunina, en með því að birta þýðingarnar sýnir hann fram á, án þess að segja það beint, að áletrunin er ekki á gotnesku, eins og P. A. Munch og fleiri höfðu haldið fram, og þar með var eðlilegt að líta svo á að málið á henni væri frumnorræna, það er undanfari norrænu málanna. Sem textafræðingur er hann kunnastur fyrir útgáfu sína á "Eddukvæðum" (1867). Önnur kunn verk hans eru "Studier over de nordiske Gude- og Heltesagns Oprindelse" (1881–1889) og rit á sviði rúnafræði. Sophus Bugge var fremsti textafræðingur og málvísindamaður Norðmanna um sína daga. Hann var einnig góður kennari, og mikill persónuleiki sem hafði áhrif á samtíð sína. Hann var tekinn í Vísindafélagið í Kristjaníu 1858, og Konunglega norska vísindafélagið 1865, auk þess sem hann var í mörgum erlendum vísindafélögum. Hann varð heiðursdoktor í Uppsala-háskóla á 400 ára afmæli hans 1877, og riddari af St. Ólafs-orðunni 1877, stórriddari 1890 og stórkross 1896. Kona Sophusar Bugges (gift 6.7.1869 í Kristjaníu) var Karen Sophie Schreiner (25.4.1835–3.7.1897). Sonur þeirra var Alexander Bugge (1870–1929) prófessor í sagnfræði. Dóttir Bugges, Johanna Bugge Berge, giftist Rikard Berge, og myndskreytti tvær útgáfur þeirra Bugges og Berges af norskum ævintýrum. Jómsvíkingar. Jómsvíkingar voru víkingar, sem á 10. öld létu að sér kveða við sunnanvert Eystrasalt og kenndu sig við Jómsborg, sem þeir stofnuðu. Þeir voru málaliðar, sem börðust fyrir hvern þann sem var reiðubúinn að borga, jafnvel kristna konunga, þó að þeir væru sjálfir heiðnir. Helsta heimildin um þá er "Jómsvíkinga saga", en þeirra er einnig getið í fleiri íslenskum sögum, sem ritaðar voru á 12. og 13. öld. Heimildir um þá eru frekar þjóðsagnakenndar, en talið er að í þeim sé samt sögulegur kjarni. Aðsetur þeirra, Jómsborg, er talið hafa verið við sunnanvert Eystrasalt, en sagnfræðingar deila um hvar nákvæmlega. Talið er nokkuð öruggt að borgin hafi verið á eynni Wolin eða Wollin við norðurströnd Póllands. Þá eyju kölluðu norrænir menn Jóm, sem mun vera sama og Jumne og Julin, sem nefnd er í fornum latínuritum. Einna helst er talið að Jómsborg gæti hafa verið við borgina Wolin. Þar hafa fundist rústir af þorpi eða borg frá víkingaöld. Skálar. Skálar var þorp á Langanesi þar sem um tíma var blómlegt fiskimannasamfélag. Þar var löggiltur verslunarstaður árið 1912.Þorsteinn Jónsson kom að Skálum 1910 og stofnaði útgerð með bóndanum á Skálum, smíðaði hús sumarið 1911 og kom á fót verslun. Þegar fjölmennast var þar á þriðja áratug 20. aldar bjuggu í þorpinu um 120 manns en helmingi fleiri á sumrin, þegar vertíð stóð yfir. Árabátaeigendur koma þangað með báta sína og algengt var að Færeyingar stunduðu veiðar þar. Færeyingar seldu lifur í land og keyptu ís til beitugeymslu og kindur á haustin af bændum. Erfið lending var á Skálum, aðeins örmjó ræma undir 10 - 12 m háum lóðréttum hömrum og þurfti að bera allan afla upp á bakka þar og mjög brimasamt. Árið 1929 var reynt að bæta lendingaraðstöðu en það mistókst og varð til að gamla lendingaraðstaðan varð nánast ónýt. Útgerð með vélbátum var líka að aukast en ekki var mögulegt að gera út vélbáta á Skálum. Auk þess skall á heimskreppa árið 1931. Einnig var erfitt að vera þar með útgerð vegna samgangna og samskiptaleysis en enginn sími var þar og tók 2-3 daga að fara á næstu símstöð á Þórshöfn. Nú eru Skálar í eyði. Íbúum fór að fækka árið 1930 og um 1945 fluttu allir íbúarnir burt en ein fjölskylda flutti þó aftur þangað og bjó þar til 1954, þegar Skálar fóru endanlega í eyði. Enn má sjá þar grunna sumra húsanna, gamla bryggju og ýmsar aðrar minjar. Margar af húsarústunum hafa verið merktar. Nokkur húsanna urðu fyrir skemmdum af sprengingum vegna tundurdufla sem Bretar lögðu í seinni heimsstyrjöldinni til varnar gegn þýskum kafbátum og er það ein af ástæðum þess að þorpið lagðist í eyði en aðalástæðurnar voru þó breyttir útgerðarhættir, hafnleysi og samgönguleysi en enginn vegur hafði verið lagður að Skálum þegar þorpið fór í eyði. Þrjú tundurdufl sprungu í fjörunni á Skálum. Fyrsta tundurduflið sprakk 26. nóvember 1941 og annað í janúar árið 1942, en ekki eru heimildir um hvenær þriðja duflið sprakk. Rafmagn var aldrei lagt að Skálum. Masiela Lusha. Masiela Lusha (fædd 23. október 1985) er bandarísk leikkona, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hún varð heimsfræg á 1. áratugnum þegar hún lék Carmen Lopez í vinsæla gamanþættinum "George Lopez". Lusha hefur átt farsælan kvikmyndaferil en hún hefur leikið í mörgum Hollywood kvikmyndum. Hún fékk mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína í "Time of the Comet" (2007), "Blood: The Last Vampire" (2008) og "Ballad of Broken Angeles" (2008) og "Of Silence" (2009). Vinsælustu kvikmyndirnar hennar eru gamanmyndirnar "Signed in Blood" (2010) og "Tough Business" (2011). Höll Ho-konungsættarinnar. Virki eða Höll Ho-konungsættarinnar (víetnamska: "Thành nhà Hồ"; einnig "Tây Đô höllin" eða "Tây Giai höllin") er þjóðgarður í Víetnam, í héraðinu Thanh Hoa, um 150 km sunnan við Hanoi. Hún var reist árið 1395 til að verja Dai Viet fyrir innrás af hálfu Ming-keisaraættarinnar í Kína. Þann 27. júní 2011 var hún sett á heimsminjaskrá UNESCO. Jómsvíkingadrápa. Jómsvikingadrápa er dróttkvæði eftir Bjarna Kolbeinsson (d. 1222), biskup í Orkneyjum, til að minnast Jómsvíkinga sem féllu í orrustunni í Hjörungavogi. Drápan er varðveitt í Konungsbók Snorra-Eddu, en er ekki heil. Í henni eru nú 40 vísur, en eitthvað vantar aftan á, e.t.v. 4 vísur. Efnið er sótt í Jómsvíkinga sögu en samsvarar ekki fyllilega varðveittum gerðum hennar. Stefið í drápunni er svokallað klofastef, og hljóðar svo: „Ein drepur fyr mér allri /... /... / íturmanns kona teiti“. Orðið "teiti" er þarna kvenkynsorð, hún teitin = gleðin. Merkingin er: ein íturmanns kona sviptir mig allri gleði. Þetta tregafulla stef í stíl trúbadúra er talið nýmæli í norrænum kveðskap, og fyrsti vísir að hinum svokölluðu mansöngvum sem síðar komu til sögu í íslenskum rímum. Íturmaður eða íturmenni er í þessu tilviki ættstór eða voldugur maður, frekar en fjallmyndarlegur maður. Þetta er öðrum þræði ástarljóð til giftrar konu, „og er óbiskupslega kveðið“ (Ó.H.). Orðið "teiti" í nútímamáli er hvorugkynsorð: það teitið, um teitið, frá teitinu til teitisins, og merkir samkvæmi, gleðskapur. Karlmannsnafnið Teitur, merkir „hinn káti, glaðlyndi“. Jómsvíkíngadrápa hefur nokkrum sinnum verið gefin út, til dæmis af Theodor Wisén í "Carmina norroena" (1880), og af Finni Jónssyni í "Den Norsk-Islandske Skjaldedigtning". Theodor Wisén. Theodor Wisén, (31. mars 1835 – 15. febrúar 1892), var prófessor í norrænum málum við Háskólann í Lundi og rektor skólans 1876–1877 og 1885–1891. Hann átti sæti í Sænsku akademíunni 1878–1892 (sæti 5). Wisén var nokkur frumkvöðull í norrænni textafræði. Hann lagði sérstaka stund á íslenska tungu og benti á nauðsyn þess að hafa góða þekkingu á norrænu og sögu norrænna mála til að fá fullan skilning á nútíma sænsku. Sem fulltrúi í Sænsku akademíunni átti Wisén frumkvæði að því að koma aftur af stað vinnu við Orðabók Sænsku akademíunnar, sem legið hafði niðri um hríð, og átti hann hlut að því að ritstjórn hennar var flutt til Lundar. Þó að mikill fengur væri að útgáfu Wiséns á Íslensku hómilíubókinni, 1872, leiddi hún af sér ritdeilu við Ludvig Larsson, sem gagnrýndi hana fyrir skort á nákvæmni. Síðari rannsóknir hafa staðfest það, sjá t.d. formála Andreu van Arkel de Leeuw van Weenen fyrir ljósprentun bókarinnar, Reykjavík 1993. Miklabæjar-Solveig. Miklabæjar-Solveig (d. 11. apríl 1778) var íslensk kona á síðari hluta 18. aldar sem hefur orðið þekktust fyrir dauðdaga sinn, en hún féll fyrir eigin hendi, og sögur sem fóru á kreik um að hún gengi aftur og hefði orðið völd að hvarfi séra Odds Gíslasonar prests á Miklabæ í Skagafirði árið 1786. Fátt er vitað um Solveigu og föðurnafn hennar er óþekkt; hún kann að hafa verið Þorleifsdóttir og ættuð úr Hrolleifsdal en það er þó með öllu óvíst. Hún er sögð hafa verið ráðskona eða vinnukona hjá séra Oddi á Miklabæ áður en hann kvæntist og varð þá ástfangin af honum eða var ástkona hans. Um það leyti sem Oddur gekk að eiga Guðrúnu Jónsdóttur árið 1777 varð Solveig sinnisveik og reyndi hvað eftir annað að fyrirfara sér. Fólk var látið vakta hana svo að hún yrði sér ekki að voða en hún slapp úr gæslu vorið 1778 og skar sig á háls. Hún var jarðsett utan kirkjugarðs - rétt norðan við hann - eins og þá var gert við þá sem förguðu sér sjálfir, og var dauði hennar því ekki skráður í kirkjubókina. Virðast fljótt hafa farið á kreik sögur um að Solveig lægi ekki kyrr í gröfinni. Átta árum seinna, 1. október 1786, fór séra Oddur fór og messaði á Silfrastöðum en skilaði sér aldrei aftur úr þeirri ferð. Hann kom við á Víðivöllum hjá Vigfúsi Scheving sýslumanni, en þaðan er aðeins rúmur kílómetri að Miklabæ, reið þaðan einn í myrkri seint um kvöld og mun hafa verið nokkuð ölvaður. Sögur segja að heimilisfólki á Miklabæ hafi heyrst einhver koma á glugga og að ungur sonur prests hafi verið sendur fram að opna fyrir föður sínum en hann annaðhvort engan séð eða ekki þorað að opna. En þegar komið var út um morguninn stóð hestur prestsins skammt frá bænum en hann sást hvergi. Tugir manna leituðu prests dögum saman en hann fannst ekki. Miklar þjóðsögur urðu til um hvarf séra Odds og var sagt að Solveig hefði dregið hann (og í sumum útgáfum sögunnar jafnvel hestinn einnig) ofan í gröf sína. En í bréfi sem Ragnheiður Þórarinsdóttir, kona Jóns Skúlasonar aðstoðarlandfógeta, sem var náskyld konu Vigfúsar sýslumanns, skrifaði árið 1789 kemur fram að lík séra Odds hafði fundist þá um vorið í læknum Gegni fyrir neðan bæinn. Hið sama kemur fram í "Vatnsfjarðarannál yngsta". Líkfundurinn virðist þó, ef rétt er hermt, hafa farið fremur leynt, ef til vill til vegna þess að allt benti til að prestur hefði fyrirfarið sér, sem þýddi að hann átti ekki rétt á legstað í kirkjugarði og eignir hans skyldu falla til konungs. Þess hefur einnig verið getið til að þegar Oddur hvarf hafi margir verið þess fullvissir að hann hefði fargað sér og því hafi hans í raun ekki verið vandlega leitað (eða jafnvel að hann hafi fljótlega fundist en því verið haldið leyndu), heldur hafi kapp verið lagt á að ýta undir sögusagnir um að Solveig væri völd að hvarfi prestsins. Þegar líkið fannst hafi það svo verið jarðsett með leynd, ef til vill í Héraðsdal, en þangað var skammt að fara. Svo mikið er víst að nokkrum áratugum síðar voru flestir Skagfirðingar sannfærðir um að líkið hefði aldrei fundist og hlyti að liggja í gröfinni hjá Solveigu. Þrátt fyrir það var hún sögð ekki liggja kyrr í gröfinni og einhverjir þóttust sjá hana á ferli með blóðspýjuna út úr hálsinum. Til dæmis var sagt að Hannes Bjarnason, síðar prestur á Ríp, var sagður hafa mætt henni fyrir framan bæinn í Djúpadal þar sem hún hindraði hann hvað eftir annað í að komast upp bæjarhólinn og tókst það ekki fyrr en einhverjir komu honum til hjálpar. Lítið heyrðst þó af Solveigu þegar líða tók á 19. öld. Árið 1910 var kirkjugarðurinn á Miklabæ stækkaður til norðurs og lenti meintur legstaður Solveigar þá innangarðs. Þegar gröf var tekin þar í árslok 1914 var komið niður á kistu sem lá út og suður, öfugt við það sem venja er, og var talið fullvíst að það væri kista Solveigar. Kistan liðaðist í sundur þegar hreyft var við henni en beinin sem hún geymdi voru lögð í holrúm eftir hana, við hlið nýja legstaðarins. Ekkert óeðlilegt mun hafa fundist í kistunni. Árið 1937 voru svo bein Solveigar grafin upp að nýju og þann 11. júlí voru þau flutt í Glaumbæ og grafin þar í kirkjugarðinum. Einar Benediktsson skáld orti kvæðið "Hvarf séra Odds á Miklabæ" út frá þjóðsögunni um Odd og Miklabæjar-Solveigu. Anne Holtsmark. Anne Holtsmark – fullu nafni Anne Elisabeth Holtsmark – (21. júní 1896 – 19. maí 1974 i Osló) var fyrsta konan sem varð prófessor í norrænni textafræði við Háskólann í Osló. Æviágrip. Anne Holtsmark fæddist í Kristjaníu og ólst þar upp að mestu, næst elst fimm systkina. Foreldrar hennar voru Gabriel Gabrielsen Holtsmark (1867–1954), dr. phil., forstjóri, og Margrete Weisse (1871–1933). Eftir nám í iðnskóla og verslunarskóla, og starf í banka 1913–15, ákvað hún að afla sér háskólamenntunar. Eftir stúdentspróf 1917 og háskólanám varð hún cand.philol. 1924 með norsku sem aðalgrein og frönsku og sagnfræði sem aukagreinar. Til þess að framfleyta sér vann hún við tímakennslu og skrifstofustörf samhliða náminu. Eftir embættisprófið starfaði Anne Holtsmark sem aðstoðarmaður við Háskólabókasafnið í Osló til 1928 og síðan sem fastur starfsmaður til 1930, nema árið 1925–26 þegar hún var dósent í norsku við Háskólann í Hamborg. Hún varð dósent í norrænni textafræði við Háskólann í Osló 1931, og 1949 tók hún við af Magnúsi Olsen sem prófessor í þeirri grein. Skömmu eftir 1950 greindist hún með MS-sjúkdóm, en hún hélt samt áfram störfum þrátt fyrir að vera í hjólastól. Hún sagði starfi sínu lausu í ársbyrjun 1961, nokkru áður en aldursmörkum var náð, en hélt þó áfram rannsóknum og fræðistörfum fram undir sitt síðasta. Árið 1936 tók hún doktorspróf með ritgerðinni "En islandsk scholasticus fra det 12. århundrede", sem fjallar um höfund fyrstu málfræðiritgerðarinnar. Holtsmark samdi margar greinar og ritgerðir, einkum á sviði norrænnar textafræði. Bók hennar "Norrøn mytologi. Tru og mytar i vikingtida", Oslo 1970, hefur komið í nokkrum útgáfum og einnig verið þýdd á önnur mál. Bókin heldur enn gildi sínu sem gott yfirlitsrit um heimsmynd og trúarbrögð norrænna manna í fornöld. Hún er byggð á íslenskum heimildum, en einnig stuðst við forna myndlist, rannsóknir í fornleifafræði, rúnaristur og örnefni. Hún þýddi mörg íslensk fornrit yfir á norsku, svo sem Snorra-Eddu, Helgisögu Ólafs helga, Heimskringlu, Sverris sögu, Hákonar sögu og Orkneyinga sögu. Hún samdi fjölda greina um norræn fræði í Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder. Árið 1941 var Anne Holtsmark tekin í Norsku vísindaakademíuna, hún hlaut St. Ólafs-orðuna 1958, og var útnefnd heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1961. Wolin. Eyjan Wolin, og borgin Wolin. Wolin (þýska: "Wollin") er eyja við suðurströnd Eystrasalts, við norðvesturhorn Póllands. Hún er norðan við Stettiner Haff, um 60 km norðan við borgina Stettin. Hún afmarkast að vestan af ánni eða sundinu Swine (pólska: "Świna"), og að austan af ánni Dziwnu. Hún er um 265 km² og nær hæst um 116 m yfir sjávarmál. Wolin er hluti af því svæði sem norrænir menn kölluðu Vindland (á víkingaöld). Þar bjuggu þá vestur-slavneskar þjóðir. Í Jómsvíkinga sögu er sagt að "Jóm" sé hérað á Vindlandi, og er talið að átt sé við eyjuna Wolin. ("Jóm" er hvorugkynsorð, Jóm, um Jóm, frá Jómi til Jóms). Þetta mun vera sama nafn og "Jumne" sem kemur fyrir í latínuritum frá miðöldum (Adam frá Brimum). Á Wolin er einnig borgin Wolin, þar sem hafa fundist miklar minjar frá víkingaöld. Margir fræðimenn telja að þar hafi verið Jómsborg, sem getið er um í Jómsvíkinga sögu. Þar höfðu Jómsvíkingar aðstöðu. Ekki eru þó full vissa fyrir því að Wolin sé Jómsborg. Þjóðsagnaborgin "Vineta" er talin hafa verið á Wolin. Saga eyjarinnar. Á víkingaöld var borgin Wolin mikilvægur verslunarstaður. Hafa fornleifarannsóknir sýnt að þar var blönduð byggð norrænna og slavneskra íbúa. Á tímum Mieszko 1., eða árið 972, komst eyjan undir stjórn pólska ríkisins, en það missti yfirráðin um 1007. Næstu öldina réðu danskir víkingar mestu á eyjunni og fóru þeir ránsferðir um nálæg lönd. Voru þeir kallaðir Jómsvíkingar. Magnús góði Danakonungur herjaði þar árið 1043 til að refsa þeim. Um 1121 vann Boleslaw 3. konungur eyjuna undir Pólland á ný. Skömmu síðar var íbúunum snúið til kristni, og var biskupsstóll stofnaður í borginni Wolin árið 1140. Árið 1535 var íbúum Wolin snúið til Lútherstrúar. Í Þrjátíu ára stríðinu, eða um 1630, lögðu Svíar Wolin undir sig. Árið 1720 varð hún prússnesk, og við ríkissameiningu Þýskalands 1871 varð hún hluti af þýska ríkinu. Í lok seinni heimsstyrjaldar, 1945, hertók Rauði herinn eyjuna, og eftir stríð var Þjóðverjum gert að yfirgefa hana og hófst þá pólskt landnám þar á ný. Eyjan tilheyrir nú Póllandi, eða frá 1945. Eyjan er í Pommern. Þar eru fjölsóttar baðstrendur. The Last Supper. "The Last Supper" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1995 sem Stacy Title leikstýrði. Cameron Diaz, Ron Eldard, Annabeth Gish, Jonathan Penner og Courtney B. Vance sem fimm frjálslyndir háskólanemar sem bjóða öfgafullum hægri-sinnum í kvöldmat til þess að myrða þá. She's the One. "She's the One" er bandarísk gamanmynd frá árinu 1996 sem Edward Burns leikstýrði og skrifaði. Burns fer einnig með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni ásamt Jennifer Aniston og Cameron Diaz. Línakradalur. Línakradalur er grunnur, mýrlendur dalslakki sunnan við Vatnsnesfjall í Vestur-Húnavatnssýslu en fyrir sunnan dalinn er Miðfjarðarháls. Dalurinn er sviplítill og þar skiptast á mýrasund og lág holt en hann er grösugur og gott sauðaland og þar eru nokkrir bæir. Þjóðvegur 1 liggur um Línakradal milli Miðfjarðar og Víðidals. Nafnið hefur verið talið benda til línræktar en margir telja þó sennilegra að það sé komið af því að í mýrunum í dalslakkanum óx mikið af fífu, sem hafi minnt Skinna-Björn, landnámsmann í Miðfirði og Línakradal, eða aðra frumbyggja á línakra í heimalöndum sínum. Skáldkonan Nína Björk Árnadóttir var fædd á Þóreyjarnúpi í Línakradal en flutti þaðan um eins árs aldur. Förumaðurinn Jóhann Bjarnason beri var frá Vigdísarstöðum í Línakradal. Ættarnafnið Líndal er dregið af heiti Línakradals en að minnsta kosti þrjár ótengdar ættir munu hafa tekið það upp. My Best Friend's Wedding. "My Best Friend's Wedding" er rómantísk gamanmynd frá árinu 1997 sem P.J. Hogan leikstýrði. Julia Roberts, Cameron Diaz og Dermot Mulroney fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um konu sem kemst að því hún sé ástfangin af besta vini sínum rétt áður en hann giftist kærustu sinni. Strákar (fjall). Strákar eða Strákafjall er fjall yst á Tröllaskaga, á milli Úlfsdala og Siglufjarðar. Nafnið mun vera afbökun úr "Strókafjall" eða "Hvanneyrarstrókar" en bergstrýtur uppi á norðurenda fjallsins munu vera hinir eiginlegu Strákar eða Strókar. Nyrsti tindurinn kallast Strákahyrna (Strókahyrna). Hátindur fjallsins heitir Skrámuhyrna en syðst er Hvanneyrarhyrna. Upphaflega mun fjallið þó hafa kallast Fljótahorn en þegar sýslumörkum var breytt þannig að þau lágu ekki lengur um fjallið hvarf það nafn. Snjóflóð féll úr Strákafjalli á bæinn Engidal í Úlfsdölum í apríl 1919 og fórust allir heimilismenn, sjö manns. Siglufjarðarvegur liggur neðarlega í fjallinu að vestan og í gegnum það um Strákagöng, jarðgöng sem opnuð voru árið 1967. Úlfsdalir. Úlfsdalir eða Dalir er lítil eyðibyggð yst á Tröllaskaga vestanverðum, í tveimur litlum dalverpum sem ganga inn í Úlfsdalafjöll, fjallgarðinn frá Strákum inn til Siglufjarðarskarðs. Byggð þessi tilheyrði Skagafjarðarsýslu og taldist til Fljóta fram til 1827 en þá var sýslumörkum breytt og Úlfsdalir lagðir til Eyjafjarðarsýslu. Dalirnir eru sagðir kenndir við Úlf víking, sem þar á að hafa numið land. Þrír bæir voru í Úlfsdölum. Yst, undir Strákafjalli, var Engidalur í samnefndu dalverpi. Fjallið á milli dalanna heitir Dalseti en sunnan við það er Mánárdalur (áður stundum Daladalur) og þar eru Dalabær og Máná. Um tíma var þar einnig hjáleigan Dalabæjarkot. Vestan við Úlfdali er Mánárfjall og þar taka Almenningar við. Þar voru sýslumörkin áður. Fjöllin ganga öll í sjó fram og eru brött og skriðurunninn, svo að samgöngur voru torveldar. Dalabær var helsta býlið og stundum voru hinir bæirnir í eyði og lágu undir Dalabæ, sem þá var oft kallaður Úlfsdalir. Á Dalabæ bjó Dala-Rafn Guðmundsson á 17. öld. Hann var sagður göldróttur. Rafn fórst við selveiðar 1636. Eftir það varð vart við skrímsli í sjónum og var það talið Rafn afturgenginn og kallað "Dala-Rafn". Varð þess oft vart síðan. Bæirnir eru allir löngu komnir í eyði. Snjóflóð féll á Engidalsbæinn í apríl 1919 og fórst allt heimilisfólkið, sjö manns, en enginn vissi af flóðinu fyrr en um viku síðar. Bærinn byggðist að vísu upp aftur en fór svo í eyði 1927. Nokkru síðar var þó Sauðanesviti byggður í landi jarðarinnar ásamt vitavarðarbústað og hefur vitavörður búið þar síðan. Gödel, Escher, Bach. "Gödel, Escher, Bach: An Eternal Golden Braid" (stytt sem "GEB") er bók eftir Douglas Hofstadter sem ræðir hliðstæður á milli rökfræðingsins Kurts Gödel, listamannsins M. C. Escher og tónskáldsins Johanns Sebastians Bach og hvernig tengingar á milli stærðfræði og greindar og listar með mikilli áherslu á sjálfvísanir, endurkvæmni og hugsun. Handknattleiksárið 1975-76. Handknattleiksárið 1975-76 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1975 og lauk vorið 1976. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleikana 1976, en komst ekki áfram. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Ármann féll niður um deild. Markakóngur var Friðrik Friðriksson, Þrótti, með 86 mörk. 2. deild. ÍR-ingar sigruðu í 2. deild og færðust upp í þá fyrstu. Breiðablik féll niður í 3. deild. Keppt var í 8 liða deild með tvöfaldri umferð. 3. deild. Stjarnan sigraði í 3. deild. Þjálfari Stjörnunnar var Sigurður Einarsson. Keppt var í tveimur riðlum, Suðurlandsriðli og Norðurlandsriðli og leikin tvöföld umferð. Bikarkeppni HSÍ. FH-ingar sigruðu í bikarkeppninni annað árið í röð eftir úrslitaleik gegn Val. 22 lið tóku þátt. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og féllu út í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og féllu út í 16-liða úrslitum. Þetta var í fyrsta sinn sem keppnin var haldin. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Þjálfari Fram var Guðjón Jónsson. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Ármannsstúlkur sigruðu í bikarkeppninni sem haldin var í fyrsta sinn. Fjórtán lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Valsstúlkur kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og féllu út í 1. umferð. Liðið lék báða leiki sína í Kaupmannahöfn. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var forkeppni Ólympíuleikanna 1976. Íslenska liðið var í riðli með Lúxemborg og Ólympíumeisturum Júgóslava. Ísland hafnaði í öðru sæti í riðlinum og komst ekki áfram. Brennt vín. Brennt vín er samheiti yfir áfenga drykki, sem unnir eru með eimingu úr gerjuðu korni, ávöxtum eða grænmeti. Alkohólgufan er þéttuð aftur með sérstöðum tækjum. Með þessum hætti er hægt að vinna allt að 96% hreinan vínanda (spíritus). Lögurinn, sem þannig fæst er síðan hreinsaður og og síaður með ýmsum aðferðum og blandaður vatni þar til æskilegum styrkleika er náð. Hráefnið ræður oft miklu um bragð drykkjarins en oft eru ýmis bragðefni sett í löginn og fara þau eftir því hvaða drykk á að búa til. Lögurinn, eða hinn brenndi drykkur, er síðan geymdur í ámum í víngeymslum árum eða áratugum saman. Drykkurinn öðlast því meiri þroska í mýkt, ilmi og bragðfyllingu sem hann er eldri og spírakeimurinn sem er af nýbrenndum leginum hverfur. Dæmi um brennd vín eru vodka, romm, viskí, gin og íslenskt brennivín. Materiali e discussioni per l'analisi dei testi classici. "Materiali e discussioni per l'analisi dei testi classici", oft nefnt "Materiali e discussioni" eða "MD" er ítalskt fornfræðitímarit helgað klassískri textafræði, sem var stofnað árið 1978. "Materiali e discussioni" er ritrýnt tímarit Tímaritið er meðal annars vettvangur skoðanaskipta um aðferðafræði og fræðilegar nálganir í rannsóknum á klassískum bókmenntum. Ítalski fornfræðingurinn Gian Biagio Conte stofnaði "Materiali e discussioni" í Pisa árið 1978 ásamt nokkrum samstarfsfélögum en Conte var einnig fyrsti ritstjóri tímaritsins. Í ritstjórnarnefnd eru fræðimenn frá ýmsum löndum, meðal annarra Alessandro Barchiesi, Maurizio Bettini, Maria Grazia Bonnanno, Mario Citroni, Marco Fantuzzi, R. Elaine Fantham, Rolando Ferri, Philip Hardie, Richard L. Hunter, Mario Labate, Glenn W. Most, Michael D. Reeve, Gianpiero Rosati, Luigi Enrico Rossi og Richard J. Tarrant. "Materiali e discussioni" kemur út tvisar á árið hjá forlaginu Fabrizio Serra í Pisa (ISSN 0392-6338). Frá og með 49da tölublaði árið 2002 er það einnig aðgengilegt í rafrænu formi (ISSN elettronico 1724-1693). Árið 2009 kom út bindi sem innihélt atriðisorðaskrá fyrir tölublöð 1-60 (1978-2008). Í tengslum við tímaritið er gefin út bókaröðin "Biblioteca di ‘Materiali e discussioni per l'analisi dei testi classici’" sem Maurizio Bettini og Gian Biagio Conte ritstýra. Í bókaröðinni eru gefin út fræðirit um klassíska textafræði, sem er ætlað að efla gagnrýna nálgun í rannsóknum á klassískum bókmenntum. Á þriðja tug titla hafa komið út. Benedetto Croce. Benedetto Croce (25. febrúar 1866 – 20. nóvember 1952) var ítalskur fagurfræðingur, heimspekingur og gagnrýnandi. Hugðarefni rita hans eru af ýmsu tagi, svo sem heimspeki, saga, aðferðafræði söguritunar og ekki síst fagurfræði. Hann fjallaði einnig um stjórnmál og tók þátt í þeim um hríð. Croce aðhylltist frjálslyndisstefnu en var andstæðingur óhamins viðskiptalífs. Hann hafði áhrif á menntamenn úr ýmsum áttum, jafnt marxista sem fasista. Meðal verka Croce má telja "Breviario di estetica" ("Kjarni fagurfræðinnar"), lítið rit um fagurfræði þar sem listin er sett skör hærra en vísindi og frumspeki þar sem listin er það eina sem uppfræðir manninn. Allt sem maðurinn veit má smætta niður í rökræna og skapandi þekkingu. Listin sprettur af því síðarnefnda og að hluta byggir öll hugsun á henni. Croce, Benedetto Croce, Benedetto Croce, Benedetto Handknattleiksárið 1974-75. Handknattleiksárið 1974-75 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1974 og lauk vorið 1975. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valsstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók á Norðurlandamóti í handknattleik en árangurinn olli vonbrigðum. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. ÍR féll niður um deild. Markakóngur var Hörður Sigmarsson, Haukum, með 125 mörk sem var markamet. 2. deild. Þróttarar sigruðu í 2. deild og færðust upp í þá fyrstu, þjálfari þeirra var Bjarni Jónsson. Stjarnan féll niður í 3. deild. Keppt var í 8 liða deild með tvöfaldri umferð. 3. deild. Leiknir sigraði í 3. deild og tók sæti Stjörnunnar í 2. deild. Þjálfari Leiknis var Hermann Gunnarsson. Leiknismenn sigruðu í Suðurriðlinum. Fjögur lið tóku þátt og léku tvöfalda umferð. Leiftur Ólafsfirði sigraði í Norðurriðlinum. Tvö lið tóku þátt. Huginn Seyðisfirði sigraði í Austurriðlinum. Leikin var tvöföld umferð. Bikarkeppni HSÍ. FH-ingar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Fram. 3. deildarlið Leiknis komst alla leið í undanúrslitin. Evrópukeppni. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í 8-liða úrslit, þar sem þeir töpuðu fyrir ASK Vorwärts Frankfurt, sem varð að lokum Evrópumeistari. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Úrslitaleikur mótsins var jafntefli Vals og Fram, 11:11. Þór Akureyri féll niður um deild. 2. deild. ÍBK sigraði í 2. deild og tók sæti Þórs Akureyri. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var þátttaka á Norðurlandamóti í handknattleik. Íslendingar lentu í riðli með Dönum, Svíum og Færeyingum og höfnuðu í fjórða sæti á mótinu. Völsungur gaf þrjá síðustu leiki sína í móti. 2. deild. Grótta sigraði í 2. deild eftir úrslitaleik gegn Þrótti og færðist upp í þá fyrstu. Völsungur féll niður í 3. deild. Keppt var í 8 liða deild með tvöfaldri umferð. + Úrslit vantar í leikjunum KA - Breiðablik og ÍBK - Fylkir 3. deild. Stjarnan sigraði í 3. deild eftir úrslitaleik gegn Þrótti Neskaupstað og færðist upp um deild. Þjálfari Stjörnunnar var Viðar Símonarson. Keppt var í tveimur fjögurra liða riðlum, Suðurlandsriðli og Austurlandsriðli, með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Valsmenn sigruðu í bikarkeppninni sem haldin var í fyrsta sinn. Sextán lið tóku þátt í mótinu sem leikið var að Íslandsmótinu loknu. Evrópukeppni. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða en féllu út í 1. umferð fyrir VfL Gummersbach, sem varð að lokum Evrópumeistari. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í sjö liða deild með tvöfaldri umferð. Þór Ak. hafnaði í neðsta sæti. Vegna fjölgunar í 1. deild kvenna léku Þór og Völsungur, sem hafnaði í 2. sæti í 2. deild, aukaleik sem lauk með sigri Þórs. 2. deild. Breiðablik sigraði í 2. deild eftir úrslitaleik gegn Völsungi og vann sér sæti í 1. deild. Völsungur tók þátt í umspili við Þór Akureyri um laust sæti í 1. deild. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var HM í Austur-Þýskalandi. Liðið var í riðli með Tékkóslóvakíu, Vestur-Þýskalandi og Danmörku. Undirbúningsleikir gengu vel og voru vonir bundnar við góðan árangur. Eftir að til Þýskalands var komið braust hins vegar flensufaraldur út í herbúðum liðsins og það tapaði öllum leikjum sínum. Pólitískur rétttrúnaður. Pólitískur rétttrúnaður (e. "political correctness", gjarnan skammstafað "PC") er notað sem skammaryrði um skinhelgi og hræsnisfullar skoðanir þar sem hugur fylgir ekki máli heldur tillit til viðtekinna sanninda. Gjarnan er talað um pólitískan rétttrúnað í tengslum við tungutak um minnihlutahópa og átt við ofurvarfærni gagnvart niðrandi orðfæri, svo sem um kynþætti, konur, meðlimi trúarhópa, fatlaða, samkynhneigða og svo framvegis. Þó á hugtakið ekki aðeins við um tungutak heldur einnig gjörðir, pólitísk stefnumál, hugmyndafræði og hegðun, alla afvegaleidda viðleitni til að lágmarka móðganir og mismunun gagnvart hópum sem eiga undir högg að sækja. Í ensku má finna hugtakið allt aftur á átjándu öld en í íslensku er það nýtt. Ásakanir um pólitískan rétttrúnað eru á báða bóga í stjórnmálum en algengara er þó að þær komi frá hægrimönnum. Stundum hefur orðalagið pólitískur rétttrúnaður verið notað í jákvæðri merkingu, svo sem af meðlimum New left upp úr 1970 sem höfðu það að sjálfslýsingu. Helgur dómur. Helgir dómar eru líkamshlutar heilagra manna eða gripir sem með einum eða öðrum hætti hafa komist í snertingu við dýrlinga. Helgir dómar eru sumstaðar ennþá hafðir til tilbeiðslu í kirkjum og hofum. Þeir eru mikilvægur þáttur kaþólskunnar og einnig búddisma, hindúisma og fleiri trúarbragða. Í kaþólsku eru helgir dómar til dæmis að taka: flísar úr krossi Krists, snifsi úr klæðum dýrlinga eða bein þeirra. Helgir dómar þessir eru varðveittir í ótal kirkjum í Evrópu og voru og eru taldir hafa yfirnáttúrulega krafta og lækningamátt. Á Íslandi voru ýmsir helgir dómar í kaþólsku, svo sem tennur, og voru þeir gjarnan geymdir í skrínum í ýmsum kirkjum landsins. ISO 8859-1. ISO 8859-1 eða óformlega Latin-1 (formlega ISO/IEC 8859-1:1998) er ASCII-staðall fyrir stafakóðun sem var fyrst birt árið 1987 og er hluti af IEC 8859-seríunni. Tengt efni. ISO 8859-01 Hvanndalir. Hvanndalir eru eyðibýli yst á Tröllaskaga austanverðum, á nesinu milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Þar var talið afskekktasta byggt ból á Íslandi, umgirt háum og brötum fjöllum; sunnan þeirra gengur hið hrikalega Hvanndalabjarg fram í sjó og er þar með öllu ófært en norðan og vestan við þá eru Hvanndalaskriður. Fyrir þær var oftast fært en þó við illan leik. Hvanndalir eru tvær dalskorur sem skerast inn í nesið og nefnist hinn nyrðri og stærri Hvanndalur en hinn syðri Sýrdalur. Bærinn stóð í mynni nyrðri dalsins og þykir þar fallegt bæjarstæði. Einnig mun einhvern tíma hafa verið hjáleiga í dalnum. Hvanndalir þóttu að sumu leyti góð bújörð fyrrum því þar er nokkuð gróðursælt á sumrin og snjóléttara en í nálægum fjörðum, túnstæðið stórt og slétt og engjalönd á dalnum. En lendingin er erfið og brimasöm og ofan hennar eru háir sjávarbakkar. Lítið er vitað um byggð í Hvanndölum fyrr á öldum en hún kann að hafa verið stopul. Snemma á 17. öld bjó þar Tómas nokkur Gunnlaugsson en synir hans, Bjarni, Jón og Einar, voru hinir frægu Hvanndalabræður, miklir sjósóknarnar sem Guðbrandur biskup Þorláksson fékk til að fara í rannsóknarleiðangur til Kolbeinseyjar árið 1616 og kanna þau hlunnindi sem af eynni mætti hafa. Jörðin mun svo hafa verið í byggð til 1680. Þá fór hún í eyði og byggðist ekki aftur fyrr en 1807. Þá var búið í Hvanndölum til 1896 en þá keypti sveitarstjórn Hvanneyrarhrepps jörðina til þess að leggja hana í eyði, vegna þess hve afskekkt hún var og erfitt að komast þangað. Handknattleiksárið 1977-78. Handknattleiksárið 1977-78 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1977 og lauk vorið 1978. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt á HM í Danmörku en stóð sig ekki sem skyldi. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla, eftir 14:13 sigur á Víkingum í lokaleik mótsins. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Ármann féll niður um deild. KR missti niður sex marka forskot úr fyrri viðureign sinni gegn Fram og lenti því í umspili við næstefsta lið 2. deildar. Markakóngur var Björn Jóhannesson, Ármanni, með 86 mörk. 2. deild. Fylkismenn sigruðu í 2. deild og tóku sæti Ármenninga í 1. deild. HK hafnaði í öðru sæti, eftir úrslitaleiki við Þrótt og komst þar með í umspil. Á hinum endanum féll Grótta niður um deild, Leiknir og Þór Ak. mættust í aukaleikjum um 6. sætið, en tapliðið fór í umspil gegn næstefsta liði 3. deildar. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" KR-ingar töpuðu niður sjö marka forystu úr fyrri leiknum og misstu sæti sitt í 1. deild til HK, sem þjálfað var af Axel Axelssyni. 3. deild. Þór Vestmannaeyjum sigraði í 3. deild og tók sæti Gróttu í 2. deild. Breiðablik hafnaði í öðru sæti og komst í umspil gegn næstneðsta liði 2. deildar. Keppt var í 8 liða deild með tvöfaldri umferð. + Dalvík gaf fjóra síðustu leiki sína. "Úrslitaleikir um sæti í 2. deild" Bikarkeppni HSÍ. Víkingar sigruðu í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn FH. Evrópukeppni meistaraliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í 16-liða úrslit. Evrópukeppni bikarhafa. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og komust í 16-liða úrslit. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna, eftir úrslitaleiki gegn FH. Þjálfari Fram var Guðjón Jónsson. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Leika þurfti aukaleiki um toppsætið og til að ráða niðurröðum þriggja neðstu liðanna. Ármenningar mættu ekki með fullskipað lið til fyrsta leiks, liðinu var því vísað úr keppni og féll niður í 2. deild. Haukar héldu sæti sínu í deildinni. Víkingar fóru í umspil við næstefsta lið 2. deildar. 2. deild. Breiðabliksstúlkur sigruðu í 2. deild og tóku sæti Ármenninga. Keflavíkurstúlkur höfnuðu í 2. sæti og léku í umspili við næstneðsta lið 1. deildar. Sjö lið hófu keppni, en KA dró sig til baka í miðju móti og voru úrslit þeirra ógilt. Leikin var tvöföld umferð. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn FH. 14 lið tóku þátt. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var HM í Danmörku snemma árs 1978. Liðið var í riðli með Sovétríkjunum, Danmörk og Spáni. Allir leikirnir töpuðust, þrátt fyrir miklar væntingar. Glenn W. Most. Glenn Warren Most (fæddur 1952) er bandarískur fornfræðingur. Most hóf nám í fornfræði við Harvard-háskóla árið 1968 og brautskráðist þaðan með B.A.-gráðu í fornfræði Classics árið 1972. Hann hlaut M.A.-gráðu frá Corpus Christi College í Oxford-háskóla á Englandi árið 1973 og M.Phil.-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Yale-háskóla í Connecticut í Bandaríkjunum árið 1978. Tveimur árum síðar hlaut hann doktorsgráðu fyrir ritgerðina |„The Bait of Falsehood: Studies in the Rhetorical Strategy of Poetic Truth in the Romantic Period“. Leiðbeinandi Most í doktorsverkefninu var Paul de Man. Á sama tíma, eða frá 1976 til 1978, nam Most fornfræði við Philologisches Seminar í Háskólinn í Tübingen í Þýskalandi og hlaut D.Phil.-gráðu fyrir ritgerð sína „Pindar's Truth: Unity and Occasionality in the Epinician Ode“. Leiðbeinandi Most í Tübingen var Richard Kannicht. Árið 1980 var Most skipaður Andrew W. Mellon Assistant Professor í fornfræði við Princeton-háskóla og gegndi þeirri stöðu til ársins 1985. Næsta ár kenndi hann við Università degli Studi di Siena og var síðan gistiprófessor við Michigan-háskóla. Árið 1987 flutti hann sig yfir til Universität Innsbruck, þar sem hann kenndi klassíska textafræði og fornfræði. Árið 1991 varð Most prófessor í forngrísku og forngrískum bókmenntum við Ruprecht-Karls-Universität Heidelberg, þar sem hann kenndi til ársins 2001. Árið 1994 varð Most fyrstur fornfræðinga til að hljóta verðlaunin Leibniz-Preis frá Deutsche Forschungsgemeinschaft. Frá 2001 hefur hann kennt forngrísku við Scuola Normale í Pisa. Most fæst við bókmenntir og heimspeki Forngrikkja og Rómverja, aðferðafræði og arfleifð klassískra fræða. Hann fæst ekki síst við tengsl nútímans og klassíska heimsins. Most, Glenn W. Most, Glenn W. Jacques Derrida. Jacques Derrida (15. júlí 1930 – 9. október 2004) var franskur heimspekingur sem fæddist í Alsír. Hann mótaði aðferðafræði sem kennd er við afbyggingu og verk hans eru jafnan talin til póststrúktúralisma og tengd póstmódernískum fræðum. Derrida kemur víða við í bókum sínum sem eru yfir 40 talsins ásamt ritgerðum og ræðum og hefur haft varanleg áhrif á hugvísindi, einkum heimspeki og bókmenntafræði. Sú setning er oft er vísað til úr verkum Derrida er: „það er ekkert utan textans“ (franska: „il n'y a pas de hors-texte“) sem birtist í ritgerð um Rousseau og merkir þar að ekkert sé án samhengis. Gagnrýnendur Derrida hafa vitnað óspart í setninguna og sett fram sem eins konar slagorð í því skyni að sýna meinta villu afbyggingar í hnotskurn og gera hana tortryggilega. Afbygging er tilraun til að vekja athygli á mótsögnum tiltekins texta og ganga gegn tvíhyggjunni sem hann hvílir á, nota andstæðupör hans til að grafa undan textanum og rekja upp raunverulega merkingu hans. Aðferð Derrida felur í sér að draga fram sögulegar rætur heimspekihugmynda og vefengja svokallaða "frumspeki nærverunnar" sem hann leit svo á að hefði drottnað yfir heimspekinni frá dögum Forn-Grikkja. Enda þótt afbygging hafi reynst þekktasta hugtak Derrida meðal almennings fer því fjarri að það hafi yfirgnæfandi stöðu umfram önnur innan heildarverks Derrida sjálfs. Verk Derrida hafa skírskotanir til ótal sviða, svo sem bókmennta, arkitektúrs, félagsfræði og menningarfræði. Á síðari hluta ferils síns fékkst hann einkum við siðferðisleg og pólitísk efni og hafði áhrif á stjórnmálahópa. Hann var umdeildur í lifanda lífi og er enn. Litið er á verk hans sem áskorun gagnvart óvefengdum frumforsendum vestrænnar heimspekihefðar og hefða vestrænnar menningar í heild sinni. Ævi. Derrida fæddist í úthverfi í Alsír inn í gyðingafjölskyldu af millistétt sem varð fyrir barðinu á Vichy-stjórninni. Hann var rekinn úr skóla í október árið 1942 af rasískum ástæðum. Þetta hafði hann í minnum ævilangt og brottreksturinn hafði mótandi áhrif á persónuleika hans. Hinn ungi Derrida tók þátt í ýmsum íþróttakeppnum í uppbótarskyni og dreymdi um að verða atvinnumaður í fótbolta. En þá þegar hafði hann uppgötvað og var tekinn að lesa af ástríðu ekki aðeins klassíska skáldsagnahöfunda heldur einnig heimspekinga og rithöfunda á borð við Albert Camus, Antonin Artaud, Paul Valéry, Rousseau, Nietzsche og André Gide. Derrida, Jacques Derrida, Jacques Derrida, Jacques Íslandsmót karla í íshokkí. Íslandsmót karla í íshokkí er efsta deild í íshokkí á Íslandi. Sex lið keppa í deildinni. Saga. Íshokkí á Íslandi var upprunalega leikið á tjörnum og ám. Veðrið gerði erfitt fyrir að spila og gerðu aðstæður mjög krefjandi. 1987 var fyrsta skautasvellið byggt og fyrsta skautahöllin var byggð 1997. Fyrsta deildin í íshokkí var stofnuð 1991 með þremur liðum. Deildin byrjar í október og lýkur í mars eða apríl. Alajärvi. Alajärvi er bær í Finnlandi. Lappeenranta. Lappeenranta (Villmanstrand á sænsku) er bær í Finnlandi. Peps Persson. __NOTOC__ Peps Persson (fæddur "Per-Åke Tommy Persson") (20. desember 1946 í Helsingjaborg, Svíþjóð) er sænskur blús- og reggítónlistarmaður frá Tjörnarp, Skáni. Peps syngur aðallega á sænsku og er þekktur fyrir að syngja með skánskum hreim. Í upphafi ferils síns gaf hann samt út nokkrar plötur á ensku. Peps er þekktur fyrir að hafa leikið ábreiður af þekktum blús- og reggílögum eftir listamenn eins og Muddy Waters, Elmore James og Bob Marley. Handknattleiksárið 1978-79. Handknattleiksárið 1978-79 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1978 og lauk vorið 1979. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í B-keppni á Spáni og hafnaði í fjórða sæti. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Fylkir féll niður um deild. HK fór í umspil við næstefsta lið 2. deildar. Markakóngur var Geir Hallsteinsson, FH, með 95 mörk. 2. deild. KR sigraði í 2. deild og tók sæti Fylkis í 1. deild. Þór Vestmannaeyjum hafnaði í öðru sæti og fór í umspilsleiki við næstneðsta lið 1. deildar. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Leiknir féll í 3. deild. Stjarnan fór í umspil við næstefsta lið 3. deildar. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" 3. deild. Týr Vestmannaeyjum sigraði í 3. deild og færðist upp um deild. Afturelding hafnaði í öðru sæti og komst í umspil við næstneðsta lið 2. deildar. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. "Úrslitaleikir um sæti í 2. deild" "Oddaleikur um sæti í 2. deild" Bikarkeppni HSÍ. Víkingar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn ÍR. 21 lið tók þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í 16-liða úrslit. Evrópukeppni bikarhafa. Víkingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og komust í 16-liða úrslit. 1. deild. Fram sigraði í 1. deild. Breiðablik hafnaði í neðsta sæti og féll í 2. deild. Víkingur varð í næstneðsta sæti og átti að leika í umspili við næstefsta lið 2. deildar. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. Grindavík sigraði í 2. deild eftir úrslitaleiki við ÍBK. Grindvíkingar færðust upp í 1. deild en Keflvíkingar áttu að leika í umspili við næstneðsta lið 1. deildar. Sjö lið kepptu í deildinni og léku þau tvöfalda umferð. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn KR. 13 lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var B-keppni á Spáni snemma árs 1979. Markmið íslenska liðsins var að hafna í öðru tveggja efstu sætanna og komast þannig á Ólympíuleikana 1980. Handknattleiksárið 1979-80. Handknattleiksárið 1979-80 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1979 og lauk vorið 1980. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. Valsmenn náðu þeim árangri að leika til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða, einir íslenskra liða. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á keppnistímabilinu. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla á fullu húsi stiga. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. HK féll niður um deild. ÍR fór í umspil við næstefsta lið 2. deildar. 2. deild. Fylkir sigraði í 2. deild og tók sæti HK í 1. deild. Þróttur og KA léku aukaleiki um réttinn til að fara í umspil við næstneðsta lið 1. deildar. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Þór Vestmannaeyjum féll í 3. deild. Þór Akureyri fór í umspil við næstefsta lið 3. deildar. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" 3. deild. Breiðablk sigraði í 3. deild og tók sæti Þórs Ve. í 2. deild, þjálfari liðsins var Sigfús Guðmundsson. Akranes hafnaði í öðru sæti og komst í umspil gegn næstneðsta liði 2. deildar. Keppt var í 8 liða deild með tvöfaldri umferð. "Úrslitaleikir um sæti í 2. deild" Bikarkeppni HSÍ. Haukar sigruðu í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleiki gegn KR. 18 lið tóku þátt í keppninni. Evrópukeppni meistaraliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust alla leið í úrslit. Evrópukeppni bikarhafa. Víkingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa. Liðið sat hjá í fyrstu umferð, en tapaði fyrir sænsku liði í 16-liða úrslitum. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Grindavík féll niður um deild. Þór Ak. fór í umspil við næstefsta lið 2. deildar. Guðríður Guðjónsdóttir, Fram, varð markadrottning með 112 mörk. 2. deild. Akranes sigraði í 2. deild eftir úrslitaleiki gegn Ármanni. Ármannsstúlkur töpuðu í umspili gegn næstneðsta liði 1. deildar og komust því ekki upp um deild. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" Þór Ak. sigraði Ármann í tveggja leikja úrslitaeinvígi. Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni í eftir úrslitaleik á Akureyri gegn Þórsurum. Fimmtán lið tóku þátt í keppninni. Landslið. Karlalandsliðið bjó sig undir B-keppni sem halda skyldi í Frakklandi árið 1981. Jóhann Ingi Gunnarsson sagði skyndilega af sér starfi landsliðsþjálfara, en Hilmar Björnsson tók við starfi hans. Handknattleiksárið 1980-81. Handknattleiksárið 1980-81 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1980 og lauk vorið 1981. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og FH-stúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í B-keppni í Frakklandi og hafnaði í áttunda sæti. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla, gerðu eitt jafntefli og töpuðu ekki leik. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Sigurður Sveinsson, Þrótti, varð markakóngur með 106 mörk. Fylkir hafnaði í neðsta sæti og féll niður í 2. deild. Haukar, Fram og KR fóru í þriggja liða keppni með tvöfaldri umferð um hvert þeirra fylgdi Fylkismönnum niður. 2. deild. KA sigraði í 2. deild eftir úrslitaleik gegn HK. Þjálfari KA var Bigir Björnsson. Bæði lið færðust upp í 1. deild. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Ármann og Þór Akureyri féllu niður í 3. deild. 3. deild. Stjarnan sigraði í 3. deild og fór upp í 2. deild ásamt Þór Ve. Keppt var í sjö liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Þróttur sigraði í bikarkeppninni í fyrsta og eina sinn eftir úrslitaleik gegn Víkingi. 21 lið tók þátt í keppninni. IHF-forkeppni. Evrópska handknattleikssambandið ákvað að bæta við þriðju félagsliðakeppninni í karlaflokki, IHF-bikarnum eða Evrópukeppni félagsliða. Skyldi hún hefjast á leiktíðinni 1981-82. Í stað þess að úthluta sætinu til liðsins sem hafnaði í 2. sæti í 1. deild, líkt og flestar aðrar þjóðir, ákvað HSÍ að bjóða öllum liðunum í 1. deildarkeppninni að taka þátt í sérstakri keppni að loknu Íslandsmóti. Þróttarar neituðu að taka þátt, en hin liðin sjö léku einfalda umferð í móti sem tók rétt rúma viku. FH sigraði á fullu húsi stiga og öðlaðist því þátttökurétt í fyrsta IHF-bikarnum. Ef úthlutun Evrópusæta hefði verið með sama hætti hér og erlendis, hefði sætið komið í hlut Valsmanna. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í 8-liða úrslit. Evrópukeppni bikarhafa. Haukar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og komust í 16-liða úrslit. Þar féllu þeir úr keppni fyrir vestur-þýska liðinu Nettelstedt, sem varð að lokum Evrópumeistari. 1. deild. FH sigraði í 1. deild kvenna. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Lið Hauka og Þórs Akureyri féllu úr 1. deild. 2. deild. ÍR sigraði í 2. deild eftir sigur á Þrótti í úrslitaleik. Bæði lið færðust upp í 1. deild. Ellefu lið kepptu í tveimur riðlum. Bikarkeppni HSÍ. FH-stúlkur sigruðu í bikarkeppninni í eftir úrslitaleik gegn Víkingi. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á keppnistímabilinu var B-keppni í Frakklandi snemma árs 1981. Markmið íslenska liðsins var að hafna í einu af fimm efstu sætunum og komast þannig á HM í Vestur-Þýskalandi árið 1982. Árangur íslenska liðsins olli miklum vonbrigðum. Handknattleiksárið 1981-82. Handknattleiksárið 1981-82 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1981 og lauk vorið 1982. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og FH-stúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á keppnistímabilinu. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla, eftir sigur á FH-ingum í lokaleik mótsins. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. KA og HK féllu niður um deild. Markakóngur var Alfreð Gíslason, KR, með 109 mörk. 2. deild. Stjarnan sigraði í 2. deild. Þjálfari liðsins var Gunnar Einarssonar. Auk Stjörnumanna fór ÍR upp í 1. deild. Fylkir og Týr Vestmannaeyjum féllu niður um deild. 3. deild. Ármann sigraði í 3. deild, en þjálfari liðsins var Bogdan Kowalcsyk. Grótta fylgdi Ármenningum upp í 2. deild. Keppt var í 10 liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. KR sigraði í bikarkeppninni í fyrsta og eina sinn eftir úrslitaleik gegn FH. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða. Þeir hófu keppni í 16-liða úrslitum en töpuðu fyrir Atlético Madrid. Evrópukeppni bikarhafa. Þróttarar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og fóru í undanúrslit. Evrópukeppni félagsliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða, sem haldin var í fyrsta sinn og féll út í fyrstu umferð. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Lið Þróttar og Akraness féllu úr 1. deild. 2. deild. Haukar sigruðu í 2. deild. Þór Ak. hafnaði í öðru sæti og færðust bæði lið upp um deild. Leikin var tvöföld umferð í tveimur riðlum. Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn ÍR. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á keppnistímabilinu, en bjó sig undir B-keppni sem halda skyldi í Hollandi árið 1983. Handknattleiksárið 1982-83. Handknattleiksárið 1982-83 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1982 og lauk vorið 1983. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valsstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í B-keppni í Hollandi. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Notast var við nýtt mótafyrirkomulag. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Sigurliðið í deildarkeppninni hlaut að launum sæti í Evrópukeppni félagsliða. Því næst fóru fjögur efstu liðin í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn þar sem leikin var fjórföld umferð og hófu öll liðin keppni án stiga. Fjögur neðstu liðin fóru í sérstaka keppni um fall með fjórfaldri umferð, en þau tóki með sér stigin sín úr aðalkeppninni. 2. deild. KA-menn urðu meistarar í 2. deild og fóru upp um deild ásamt Haukum. Notast var við sama keppnisfyrirkomulag og í 1. deild karla. + Breiðablik notaði ólöglegan leikmann gegn KA og var KA því dæmdur sigur í leiknum, sem réði úrslitum í mótinu. 3. deild. Fylkir og Reynir S. færðust upp í 2. deild. Keppt var í níu liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Víkingur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn KR. Tuttugu lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða. Þeir féllu úr keppni í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. KR-ingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa. Þeir sátu hjá í fyrstu umferð og féllu úr keppni í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni félagsliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða. Þeir sátu hjá í fyrstu umferð og féllu úr keppni í 16-liða úrslitum. 1. deild. Valsstúlkur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Lið Hauka og Þórs Akureyri féllu úr 1. deild. 2. deild. Akranes sigraði í 2. deild. Fylkir varð í 2. sæti og tóku liðin sæti Þórs Ak. og Hauka í 1. deild. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. ÍR-stúlkur sigruðu í bikarkeppninni í fyrsta og eina sinn. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Stærsta verkefni karlalandsliðsins á leikárinu var B-keppni í Hollandi. Tvö efstu liðin í hverjum forriðli fóru í úrslitakeppni um tvö laus sæti á Ólympíuleikunum 1984, en liðin í neðri sætunum kepptu um að halda sæti sínu meðal B-þjóða. Íslenska liðið hafnaði í sjöunda sæti. Handknattleiksárið 1983-84. Handknattleiksárið 1983-84 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1983 og lauk vorið 1984. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á keppnistímabilinu. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Því næst fóru fjögur efstu liðin í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn þar sem leikin var fjórföld umferð og hófu öll liðin keppni án stiga. Fjögur neðstu liðin fóru í sérstaka keppni um fall með fjórfaldri umferð, en þau tóku með sér stigin sín úr aðalkeppninni. 2. deild. Þór Vestmannaeyjum sigraði í 2. deild og fór upp um deild ásamt Breiðabliki. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Að því loknu skiptist deildin upp í efri hluta og neðri hluta, þar sem fjögur efstu liðin léku tvöfalda umferð um sæti í 1. deild og fjögur neðstu um fall í 3. deild. Tóku liðin með sér stigin úr forkeppninni. ÍR og Reynir Sandgerði féllu í 3. deild. 3. deild. Ármenningar sigruðu í 3. deild og færðust upp í 2. deild ásamt Þór frá Akureyri. Keppt var í níu liða deild með tvöfaldri umferð. Fjögur efstu liðin fóru í úrslitakeppni með tvöfaldri umferð og tóku þau með sér stigin úr forkeppninni. "Úrslitakeppni um sæti í 2. deild" Bikarkeppni HSÍ. Víkingar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Störnunni. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og féllu út í 1. umferð á færri mörkum skoruðum á útivelli. Evrópukeppni bikarhafa. KR-ingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og féllu út í 8-liða úrslitum. Evrópukeppni félagsliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða, IHF-bikarnum og féllu út í 8-liða úrslitum. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Víkingur og Fylkir féllu niður um deild. Fylkir og KR höfðu jafn mörg stig en KR-ingar hagstæðara markahlutfall í innbyrðisleikjum. 2. deild. Þór Ak. sigraði í 2. deild og fór upp ásamt ÍBV, en liðin höfðu nokkra yfirburði í keppni vetrarins. Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn ÍR. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Landslið. Karlalandsliðið bjó sig undir B-keppni sem halda skyldi í Noregi árið 1985. Síðla árs 1983 var Pólverjinn Bogdan Kowalcsyk ráðinn landsliðsþjálfari. Timbuktu (tónlistarmaður). "Jason" Michael Robinson Diakité (fæddur 11. janúar 1975 í Lundi, Svíþjóð) er sænskur rappari og reggítónlistarmaður sem gengur undir listamannsnafninu Timbuktu. Ævi. Timbuktu ólst upp í Lundi í Svíþjóð. Hann rappar aðallega sænsku með skánskum hreim, en stundum líka á ensku. Fyrsta smáskifan hans kom út árið 1996 og síðan stofnaði hann hljómsveitina "Excel" ásamt dönskum rappara og gaf út plötuna "Bright Lights, Big City" árið 1999. Nokkrum mánuðum síðar gaf hann út fyrstu einleiks plötuna sína: "The Conspiracy". Á árunum 2003–2004 kom út platan "The Botten is Nådd". Í kjölfar hennar fór hann á hljómleikaferð ásamt DJ Amato, Chords og Damn!. Á þessum tíma hlaut hann Grammis, sem eru sænsku Grammy-verðlaunin, samdi tónlist fyrir sjónvarpsþáttinn "Kniven i hjärtat" og lék í kvikmyndinni "Babylonsjukan". Sumarið árið 2004 gaf hann út plötu ásamt Helt Off og Chords og árið 2005 kom platan "Alla vill till himmelen men ingen vill dö" ("Allir vilja til himna en enginn vill deyja") sem var vel þokkuð bæði í Svíþjóð og í Noregi. Árið 2008 gaf Timbktu út plötuna "En High 5 & 1 Falafel". Á henni sér íslenska hljómsveitin Hjálmar um undirleik í laginu: "Dom hinner aldrig ifatt". Þann 8. júní 2011 kom "Sagolandet" ("Sögulandið") út sem er áttunda plata Timbuktu. Tákn. Tákn, teikn eða merki er eitthvað sem skírskotar til hugmyndar, veru, fyrirbæris eða ferlis sem er aðgreint frá tákninu sjálfu. Dæmi um tákn eru íslenski fáninn sem táknar Ísland, orðið „hestur“ sem táknar tiltekið hófdýr, reykur sem merki um eld og útréttur vísifingur sem er tákn sem vísar til þess sem hann bendir á. Tákn getur verið hvað sem er svo fremi sem einhver eða eitthvað túlki það sem tilvísun til einhvers annars. Tengslin milli táknsins og þess sem það vísar til geta verið af ýmsum toga. Milli reyks og elds er til dæmis orsakasamhengi en reykur verður aðeins merki um eld fyrir einhverjum sem sér reykinn (en ekki eldinn). Í menningu eru til mörg táknkerfi þar sem tengsl táknmyndar og táknmiðs eru hefðbundin eða stafa af reglu. Dæmi um slík tákn eru tölustafir sem tákna tölur og orð sem merkja tiltekin hugtök. Tákn getur líka verið einfölduð mynd með ákveðna merkingu sem notuð er til að tjá hugtak, hugarástand, eiginleika eða til að koma upplýsingum á framfæri, svo sem eins og mynd af tjaldi á korti sem gefur til kynna tjaldstæði. Tákn eru viðfangsefni ýmissa fræðigreina eins og til dæmis málspeki, málfræði, táknfræði, trúarbragðafræði og listfræði. Hryðjuverkin í Noregi 2011. Hryðjuverkin í Noregi 2011 áttu sér stað 22. júlí þegar sprengja sprakk í miðborg Óslóar í grennd við húsasamstæðu sem hýsir norsk ráðuneyti. Skömmu síðar hóf maður skotárás á sumardvalarstað ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins á Útey (n. "Utøya") í sveitarfélaginu Hole í Buskerud. Tilefni. Skömmu áður en hann framkvæmdi árásirnar hafði Breivik dreift ítarlegri skýrslu og tilvitnanasafni en átt var við hana í fjölmiðlunum sem „stefnuyfirlýsingu Breiviks“. Í henni skrifaði hann margt um pólitísk sjónarmið sín og skoðanir á Vestur-Evrópu. Fjöldamorðið í Útey. Skömmu eftir sprenginguna hóf maður dulbúinn sem lögregluþjónn skotárás á eyjunni Útey í Buskerud. Í fyrstu taldi norska ríkissjónvarpið NRK að fjórir hefðu orðið fyrir skotum, en síðar kom í ljós að allt að 91 manns gætu verið látnir. Á heimasíðu Morgunblaðsins er talið að 77 hafa látist, 68 í Útey og 9 í sprengingunni. Talið er að allt að 700 manns hafi verið á eyjunni, en eyjan er í eigu ungaliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins. Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs hafði áætlað að heimsækja eyjuna daginn eftir að skotárásin átti sér stað. Lögreglan handtók mann að nafni Anders Behring Breivik, sem talið er að hafi komið að bæði skotárásinni og sprengingunni. Hann er talinn kristilegur öfgahægrimaður. Ekki er vitað til þess að Breivik hafi unnið voðaverk sín í samvinnu við nein skipulögð samtök. Hann hefur játað fjöldamorðin. Að sögn lögreglunnar er Breivik samvinnugóður og áfram um að greina frá tilgangi sínum með óhæfuverkunum sem hann telur pólitískan gjörning. Sjálfhverfni. Sjálfhverf vensl kallast tvíundarvensl, þar sem sérhvert stak er venslað sjálfu sér. Jafngildisvensl „~“ á mengið S kallast "sjálfhverf" ef "a" ~ "a" gildir fyrir öll "a" í S. Latibær. Latibær er íslenskur barnaþáttur sem var frumsýndur á Nickelodeon. Þátturinn er sýndur á íslensku sjónvarpstöðinni Ríkissjónvarpið. Þátturinn var búinn til af Magnúsi Scheving, meistara í þolfimi. Þátturinn er mjög vinsæll og hefur verið sýndur í yfir 100 löndum á meira en tylft tungumála. Forsaga. 1995 hafði Magnús Scheving áhyggjur af því að Íslendingar væru komnar á lista yfir 10 feitustu þjóðir heims. Sama ár gaf hann út fyrstu Latabæjar bókina "Áfram Latibær". Bókin fjallar um bæjarbúa sem eru óskaplega latir, borða óhollustu og eyða tíma sínum fyrir framan sjónvarpið eða í tölvuleikjum. Þetta á allt að breytast þegar forsetinn sendir bæjarstjóranum bréf um að halda eigi íþróttahátíð í öllum bæjum landsins. Bæjarstjórinn hittir síðar íþróttaálfinn sem kennir bæjarbúum breyttan hugsunarhátt og undirbýr þá fyrir mótið. Ári síðar kom út framhald bókarinnar, "Latibær á Ólympíuleikunum". 1997 var búið til leikrit úr fyrstu bókinni sem var sýnt í Loftkastalanum og Leikfélagi Vestmannaeyja. Á milli 4.000 tl 6.000 manns sáu leiksýningarnar í hverri viku. Á sama tímabili var Latibær í rannsóknarvinnu þar sem leitað var til þúsunda foreldra um allan heim um hvaða persónueiginleikum börn ættu að búa yfir. Niðurstaðan varð sú að sjö persónueinkenni einkenna í dag persónur Latarbæjar. Þættirnir. Eftir 10 ára rannsóknarvinnu fundaði samstarfsfólk Magnúsar Schevings með sjónvarpsstöðinni Nickelodeon. Forsvarsmenn sjónvarpstöðvarinnar samþykktu að þátturinn yrði framleiddur í Garðabæ. Í desember 2002 höfðu persónurnar í bókunum fengið erlend nöfn þar sem Solla Stirða varð Stephanie, Goggi mega varð Pixel, Glanni glæpur varð Robbie Rotten og Íþróttaálfurinn varð Sportacus. Breska fyrirtækið Artem bjó til brúður af Gogga mega og Sigga sæta. Fyrirtækið Latibær bjó til kynningarþátt og sendi til barnasjónvarpstöðva í Bandaríkjunum og Bretlandi. Á næstu árum hófu barnasjónvarpstöðvar sýningar á þættinum. Þættirnir urðu frumsýndir í Kanada af YTV 6. desember 2004, í Bandaríkjunum af Nick Junior 15. ágúst 2005 og í Bretlandi af CBeebies og CBBC 3. október 2005. 2006 hlaut Latibær þýsku verðlaunin EMIL fyrir besta barnaefnið og verðlaun Bresku kvikmynda og sjónvarpsakademíunnar BAFTA fyrir besta alþjóðlega barnaefnið. Sama árs komst lokalag þáttarinns "Big Bang (Time to dance)" í 4. sæti Breska smáskífulistans. 2011 tók Latibær þátt í heimsýningunni í Kína og skrifaði í kjölfarið undir samning við Kínversku sjónvarpstöðina CCTV um að sýna þættina á barnastöð sinni CCTV Kids og sem yrðu talsettir á kínversku. Stöðin nær til 360 milljón barna í Kína. Við útgáfu þáttana urðu þeir fyrsta barnaefnið sem hefur verið útgefið á DVD-disk fyrir háskerpusjónvörp. Markaðsetning. Í fjögur ár frá 2002 til 2006 stafrækti Latibær í samvinnu við Glitni hagkerfi með Latóseðlum sem voru gjaldgengir í sundlaugar, Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn og strætó á höfuðborgarsvæðinu. 2009 fór Latibær í átak í Bretlandi og Íslandi á neyslu grænmetis og ávöxtum. Fyrirtækið gerði samstarsamning við bresku verslunarkeðjuna ASDA um að setja nafn þáttarins við holl matvæli undir vörumerkinu Great Stuff. Á meðan átakinu á Íslandi stóð voru seldar gulrætur í kvikmyndahúsum. Átakið leiddi til 22% aukningu í sölu á grænmeti og ávöxtum. Ári síðar gerðu Latibær, mexíkanska heilbrigðisráðuneytið og bandaríska stofnunin USDA herferð í öllum stórmörkuðum Mexíkó með þeim árangri að neysla á grænmeti og ávöxtum jókst um 29 prósent. Einnig rekur Latibær fjölskylduvæna útvarpsstöð, Útvarp Latibær, sem áður hét Barnarásin, á tíðnisviðinu 102,2. Stöðin er án auglýsinga en styrkt af ýmsum fyrirtækjum. Íþróttaálfurinn. "Íþróttaálfurinn" er leikinn af Magnúsi Scheving. Hann er hetja þáttarins, kemur frá eyju í norðursjó (tilvísun í Ísland) og er aðalpersóna þáttarins. Hann hvetur börn Latabæjar að borða "íþróttanammi" (hugtak yfir grænmeti og ávexti) og leika sér úti í stað þess að sitja inni spilandi tölvuleiki eða borðandi ruslfæði. Hann vill að íbúar Latabæjar séu ánægðir og veit að þeir þurfa að vera heilbrigðir og í formi til þess. Íþróttaálfurinn er sífellt á ferð og flugi og gerir jafnvel leikfimisæfingar við það eitt að fara á milli staða. Hann er bjargvættur bæjarins og kristall á bringu hans lætur hann vita þegar einhver er í vanda. Persónan er þolinmóð og skilningsrík. Veikleiki hans er sykur og ef hann innbyrðir sykur fær hann sykurfall sem að verður til þess að hann missir alla orku þangað til hann borðar eitthvað hollt. Solla. "Solla" er leikin af Julíönnu Rose Mauriello og talsett á íslensku af Ólöfu Kristínu Þorsteinsdóttur. Hún elskar allt bleikt og að vera virk í leik og starfi. Hún smitar þessari leikgleði út frá sér til bæjarbúa. Solla kom til bæjarins í heimsókn til bæjarstjórans og fékk í lið með sér íþróttaálfinn til þess að gera bæinn að besta staðnum til að búa á. Þar sem hún er aðflutt glímir hún ekki við sömu heilsufarslegu vandamálin eins og önnur börn þáttarins. Í stað þess reynir hún að fylgja eftir eigin innsæi og fara eftir sínum eigin einkunnarorðum, "það er allt hægt". Glanni. "Glanni" er leikinn af Stefáni Karli Stefánssyni. Hann er skúrkur þáttarins. Hann reynir alltaf að fá börn bæjarins til að borða ruslfæði, vera löt og hafa hljótt svo hann geti unnið í friði en þannig var bærinn fyrir komu Sollu stirðu og íþróttaálfsins. Glanni býr til ráðagerðir sem færa hann mjög nálægt takmarki sínu en er alltaf sigraður af íþróttaálfinum með hjálp Sollu og vina hennar. Sú fyrirhöfn sem hann leggur í ráðagerðir sínar til að leggjast í leti eru kaldhæðnislegar, því þær gera hann eflaust að virkustu persónu þáttarins. Þrátt fyrir að gjörðir hans eru öll skemmdarverk skilgreinir hann sjálfan sig sem "einfalt letidýr sem er miskilinn". Hann býr í neðanjarðarbyrgi sem hann notar til að njósna um börn Latabæjar í gegnum kíki. Brúður. Siggi elskar að éta sælgæti og þá sérstaklega sleikjubrjóstsykur. Hann er yngstur af bæjarbúum latabæjar, saklaus og ævintýragjarn en verður aðveldlega annars hugar, sérstaklega þegar sælgæti er í boði. Takmark hans er að verða hetja og íþróttaálfurinn er fyrirmynd hans. Hann er talsettur á ensku og íslensku af brúðumeistaranum Guðmundi Þór Kárasyni. Nenni er eigingjarn. Hann leikur með öðrum börnum bæjarins en hugsar mjög vel um allt sem hann á og eignar sér allt í Latabæ. Uppáhalds frasinn hans er "ég á þetta" og uppáhalds vinur hans er sparibaukurinn. Halla er góður stjórnandi með lélega hæfileika í samskiptum. Henni finnst gaman að leika við önnur börn bæjarins, hugsar út fyrir rammann, er hrekkjagjörn og óþolinmóð. Goggi er sérfræðingur á tölvur. Sá tími sem hann hefur eytt í tölvur nýtist honum illa í heimi óröktréttra og óstjórnanlegra atburða sem verða til í samskiptum við aðra. Hann tekur alltaf fjarstýringu með sér og verður oft að velja á milli þess að reyna sitt besta í samskiptum við aðra eða hverfa aftur í heim tækninnar. Hann er talsettur á íslensku af Rúnari Frey Gíslasyni. Bæjarstjórinn er fullorðinn einstaklingur. Hann er ein taugahrúga sem er skotinn í Stínu símalínu og elskar frænku sína Sollu stirðu. Ef að Solla er niðurdregin kallar hann á íþróttaálfinn til að hjálpa til. Uppáhalds frasinn hans er "Ó guð", sem hann segir alltaf ef eitthvað fer úrskeiðis. Hann er talsettur á íslensku af Magnúsi Ólafssyni. Stína er fullorðinn einstaklingur. Hún reynir sitt besta til að koma í móðurstað barnanna en virkar stundum yfirlætisfull. Hún reynir að fylgjast með slúðri bæjarins og nýjustu tísku. Hún sést mjög oft talandi í símann. Amy Winehouse. Amy Jade Winehouse (14. september 1983 – 23. júlí 2011) var ensk söngkona og lagahöfundur. Hún var þekkt fyrir tónlistarstíl sinn sem var blanda af ryþmablús, sálartónlist og djassi, en varð síðar einnig umtöluð vegn fíkniefnanotkunar og hrakandi geðheilsu. Hún fannst látin í íbúð sinni í London en dánarorsök var áfengiseitrun. Fyrsta hljómplata hennar hét "Frank" og var gefin út arið 2003. Hljómplatan hlaut lof gagnrýnenda á Bretlandi og var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna. Önnur hljómplata hennar var "Back to Black", útgefin 2006. Platan var tilnefnd til sex Grammy-verðlauna en vann fimm sem var met fyrir söngkonu. Amy var líka fyrsta söngkonan sem hefur unnið fimm Grammy-verðlaun (verðlaunin eru veitt í Bandaríkjunum). Auk þess hlaut hún Bresku tónlistarverðlaunin 14. febrúar 2007 sem besta breska söngkonan og fyrir bestu bresku breiðskífuna. Hún vann líka Ivor Novello-verðlaunin þrívegis, 2004, 2007 og 2010, fyrir lögin „Stronger Than Me“, „Rehab“ og „Love Is a Losing Game“. Hljómsplatan "Back to Black" var þriðja söluhæsta plata fyrsta áratugs 21. aldarinnar í Bretlandi. Amy má þakka vaxandi vinsældir söngkvenna og sálartónlistar auk vaxandi áhuga á breskri tónlist. Einstakur stíll hennar gerði hana að gyðju tískuhönnuða eins og Karls Lagerfelds. Á seinni árum var æ oftar rætt um baráttu hennar við fíkniefni og áfengi í breskum dagblöðum. Hún átti í lagaþrætum við fyrrverandi eiginmann, "Blake Fielder-Civil", sem sat um tíma í fangelsi. Frá árinu 2008 átti Amy við heilsufarsvandamál að stríða, sem ollu því að listamannsferill hennar var brokkgengur síðustu árim. Pro Tools. Pro Tools er hljóðupptöku- og hljóðvinnsluforrit frá Avid. Forritið er notað víða fyrir hljóðvinnslu í tónlistarframleiðslu, kvikmyndatónlistarframleiðslu og sjónvarpsþáttaframleiðslu. Pro Tools er fáanlegt fyrir bæði Mac OS X og Windows. Öfgahægristefna. Öfgahægristefna (stundum talað um öfgahægrið) er pólitískt hugtak sem er haft er um pólitík sem iðkuð er yst á hægri væng stjórnmála. Hugtakið kom fram á áttunda og níunda áratug 20. aldar til samsvörunar við þá stefnu á vinstri væng stjórnmála sem nefnd hefur verið öfgavinstristefna og fram kom í byrjun áttunda áratugarins og var til dæmis fylgifiskur ýmissa hryðjuverkasamtaka á þeim árum. Öfgahægristefna hefur verið notað af stjórnmálaskýrendum til að útskýra pólitískt landslag, stundum á nokkuð óvísindlegan hátt. Öfgahægristefnu er jafnan spyrnt saman við forgangshyggju, sem er sú trú að það verði alltaf til forréttindahópar sem koma til vegna andlegrar getu, skólagöngu og/eða ríkidæma. Öfgahægristefna er jafnan hlynnt aðskilnaði að einhverju leyti og að meirimáttar hafi alltaf vinninginn yfir minnimáttar. Öfgahægristefnur hafa oft sterk tengsl við valdboðshyggju, fæðingarrétt, kynþáttahyggju og útlendingahatur í einhverri mynd. Þær stefnur sem oftast er spyrnt saman við öfgahægristefnur eru fasismi, nasismi og öfgaþjóðernisstefna, öfgastefnur trúarbragða og pólitísk fortíðarþrá. Duggals leiðsla. Duggals leiðsla er norræn þýðing frá 13. öld á einu þekktasta riti úr flokki leiðslubókmennta. Duggals leiðsla var sennilega rituð í Regensburg í Þýskalandi af írskum munki að nafni Marcus. Dugglas leiðsla er norræn þýðing frá 13. öld á latnesku riti, "Visio Tnugdali", einu kunnasta og útbreiddasta verki leiðslubókmennta frá miðöldum, en svo kallast þær bókmenntir sem lýsa því sem ber fyrir menn í leiðslu eða draumsýn - einkum í öðrum heimi. Sagt er að írskur munkur, Marcus að nafni, sett það saman um miðja 12. öld. Á annað hundrað handrit hafa varðveist af Visio Tnugdali og að auki eru til þýðingar á miðensku, flæmsku og írsku svo nokkrar séu nefndar. Duggals leiðsla hefur það einkum sér til ágætis að vera elst þýðinga á þjóðtungu, hefur sennilega verið snúið á ríkisstjórnarárum Hákonar gamla og líklega að forsögn hans. Mörg handrit eru til af Duggals leiðslu og öll íslensk. Skautafélag Akureyrar. Skautafélag Akureyrar er íslenskt skautafélag. Félagið var stofnað 1. janúar 1937. Íshokkílið félagsins leikur í rauðum búningum og spilar heimaleiki sína í Skautahöllinni á Akureyri. Félagið leikur í íslandsmóti karla í íshokki og er fjórtánfaldur sigurvegari í þeirri keppni eftir að hafa unnið 1992, 1993, 1994, 1995, 1996, 1997, 1998, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005 og 2008. Skautafélagið Björninn. Skautafélagið Björninn er íslenskt skautafélag. Félagið var stofnað 22. nóvember 1990. Íshokkílið félagsins leikur í hvítum búningum og spila heimaleiki sína á Skautasvellinu í Egilshöll. Félagið leikur í íslandsmóti karla í íshokkí. Egilshöll. Egilshöll er 24.000 fermetra íþrótta-, tónleika- og kvikmyndahöll í Grafarvogi, Reykjavík. Hún geymir 10.800 fermetra knattspyrnusal, auk skautahallar og skotævingarsvæðis. Skautahöll hennar er heimavöllur Ísknattleiksfélagsins Bjarnarins. Fyrstu tónleikar í Egilshöll voru með Metallica 4. júlí 2004. 18 þúsund miðar seldust á tónleikana og upphitunarhljómsveitir voru Brain Police og Mínus. Sumarið 2005 var knattspyrnusalur Egilshallarinnar nýttur í fimm stórtónleika; Placido Domingo 14. mars, Iron Maiden 7. júní með 10.000 áhorfendur og loks tónlistarhátíðin Reykjavík Rocks. Reykjavík Rocks samanstóð af tónleikum Duran Duran 30. júní með 12 þúsund gestum og tónleikum Foo Fighters og Queens of the Stone Age 5. júlí. Í mars 2010 gerðu Sambíóin samning um leigu á kvikmyndarhúsi Egilshallarinnar til 30 ára. Anders Behring Breivik. Anders Behring Breivik (fæddur 13. febrúar 1979 í Ósló) er norskur hryðjuverkamaður og fjöldamorðingi, sem stóð fyrir hinum tvískiptu hryðjuverkaárásum í Noregi 22. júlí 2011. Talið er að hann hafi staðið einn að árásunum. Fjölskylda og menntun. Anders Behring Breivik er sonur Jens Breivik, hagfræðings og síðar efnahagsráðgjafa í norska sendiráðinu í London og París og Wenche (fædd Behring), sem starfaði áður sem hjúkrunarkona. Þau skildu þegar hann var eins árs. Anders ólst upp í Ósló, gekk í Smestad-barnaskólann, Ris-gagnfræðaskólann og útskrifaðist úr verslunarskóla Óslóar ("Oslo Handelsgymnasium"). Árásirnar. Hryðjuverkaárásir Anders Breiviks voru tvíþættar. Í fyrsta lagi sprenging í miðborg Óslóar og svo fjöldamorð með skotvopni á eyjunni Útey í Buskerud. Í árásunum báðum létu samtals 77 manns lífið, átta í sprengingunni og 69 í skotárásunum á Útey. Lögreglan segir að hann hafi staðið einn að tilræðinu en getur ekki fullyrt að hann hafi ekki átt sér vitorðsmann eða fleiri. Stefnuyfirlýsingar og greiningar. Breivik gaf út 1500 blaðsíðna stefnuyfirlýsingu sem hann nefndi: „2083 - A European Declearance of Independence“ (2083 - Sjálfstæðisyfirlýsing Evrópu) ásamt tólf mínútna löngu myndbandi sem hann setti á vefsíðuna Youtube. Í yfirlýsingunni lýsir hann pólitískum skoðunum sínum, andstöðu sinni gegn fjölmenningarstefnu og því sem hann kallar „menningar-marxisma“ ásamt „íslamsvæðingu“ sem hann telur vera að leggja vestræna siðmenningu undir sig. Meðlimir vefsíðunnar Document.no, sem Breivik sjálfur var virkur á, bentu seinna á að hlutar af stefnulýsingunni væru breyttur texti úr stefnulýsingu bandaríska hryðjuverkamannsins og „græna anarkistans“ Theodores Kaczynski, þar má nefna skilgreiningar Kaczynskis á því sem hann kallaði „fjöldasálfræði vinstrisinna“. Breivik telur ekki unnt að snúa við íslamsvæðingu Vesturlanda nema með því að fjarlægja stjórnmálaöflin sem heimila hana. Hann sendi stefnuyfirlýsinguna á persónuleg tölvupóstföng vina sinna og skoðanabræðra en nú hefur hún komist í almenna dreifingu á netinu. Anders Breivik hefur verið lýst sem „öfgahægrimanni“, „kristnum bókstafstrúarmanni“ og „nýnasista“ af lögreglu og fjölmiðlum. Sjálfur segist hann vera hófsamlega kristinn, hafa óbeit á nasistum og Hitler, sé á móti þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku eins og hún var. Krossferð. Í stefnulýsingunni segist Breivik vera hluti af pólitískri leynireglu sem stofnuð hafi verið í London árið 2002. Stofnendurnir séu margir og eru fulltrúar hennar frá Englandi, Grikklandi, Rússlandi, Svíþjóð og fleiri löndum Evrópu. Markmið reglunar sé að endurverkja hina fornu reglu Musterisriddara sem börðust gegn innrásum múslíma í Evrópu á miðöldum. Dómurinn. Föstudaginn 24. ágúst 2012 var kveðinn upp dómur í máli Breiviks. Hann var metinn sakhæfur þar sem ekki þótti sýnt fram á geðrof og hann dæmdur í 21 árs fangelsi, sem er lengsti mögulegi fangelsisdómur í Noregi. Dómurinn vakti undrun víða um heim og þótti vægur, en þá var ekki tekið með í reikninginn að eftir 21 ár má framlengja dvöl fangans um 5 ár í einu ítrekað og má dómurinn því teljast lífstíðardómur. Tætifall. Hakkafall eða tætifall er reiknirit sem breytir gögnum (sem nefnast lyklar) af mismunandi stærðum og gerðum í gildi sem nefnist tætigildi þar sem hver gögn skila alltaf sama gildi — nefnist þetta ferli tæting. Almennt vandamál er árekstur þar sem tveir lyklar skila sama tætigildinu. Fordómur. Fordómur (oftast í ft. fordómar) er sú skoðun sem hver og einn kemur með að tilteknu máli án þess að hafa kynnt sér það til hlítar, framlag fólks, jákvætt eða neikvætt, eða hugmyndir sem það gerir sér um einhvern hlut að óreyndu eða lítt reyndu. Samsetning íslenska orðsins skýrir merkingu þess, for- og -dómur (á latínu: praejudicium, ‚fyrirfram dæmt‘) og má einnig nefna fordóma "ótímabærar hugmyndir". Fordómahugtakið felur gjarnan í sér neikvæðar skírskotanir, það er að segja neikvæðan dóm á mönnum eða málefnum sem byggir á takmarkaðri þekkingu eða reynslu á því sem dæmt er um og er þar af leiðandi ónákvæmur eða rangur. Neikvæðir fordóma eru fyrirbæri sem sjá má á öllum sviðum samfélagsins, hjá öllum hópum þess og hjá fólki á öllum aldri, og fela þeir í sér hugsunarferli sem kann að leiða til mismununar, til dæmis á grundvelli kyns, kynþáttar, aldurs, fötlunar eða annars slíks. Jákvæðir fordómar eru jákvæðar hugmyndir sem fólk gefur sér fyrirfram um annað fólk eða fyrirbæri og kunna að reynast jafn rangar (eða réttar) og neikvæðir fordómar. Hugmyndir nútímans um fordóma hvíla á stoðum kenninga upplýsingastefnunnar, svo sem hugmynda prússneska heimspekingsins Immanuels Kant um upplýsingu og um mennska dómgreind. Forvirkar rannsóknarheimildir. „Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur rætt um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu án þess að þær eigi að snúa að hópum af pólitískum toga. Undir þá skilgreiningu falla umhverfis- og náttúruverndarsinnar og ýmsir hryðjuverkahópar. Þá segist ódæðismaðurinn í Ósló og Útey vinna að pólitísku markmiði með fjöldamorðinu. Ef fylgst hefði verið með vefsíðu hans hefði kannski mátt greina hvað fyrir honum vakti. Hann hafði hins vegar aldrei komist í kast við lögin og lá ekki undir grun þrátt fyrir öfgafullar skoðanir.“ Þann fjórtánda febrúar 2011 lagði hópur níu þingmanna fram þingsályktunartillögu um að innanríkisráðherra legði fram frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir. Ökuskírteini. Ökuskírteini er skírteini sem er staðfesting á því að einstaklingur megi keyra vélknúið ökutæki eins og mótorhjól, bíl, vörubíl eða áætlunarbifreið á opinberum vegi. Lög um hverjir fá ökuskírteni eru mismunandi eftir löndum. Í sumum löndum er ökuskírteni gefið út eftir að viðkomandi hefur náð ökuprófi á meðan í öðrum löndum þarf viðkomandi ökuskírteni áður en hann hefur akstur. Saga. Fyrsta ökuskírtenið var útgefið til frumkvöðuls nútímabílsins, Karl Benz. Vegna þess hávaða og mengunar sem sjálfrennireið hans olli í þýsku borginni Mannheim óskaði Benz eftir og fékk skírteni frá yfirvöldum að hann mætti keyra bílinn á opinberum vegum. Fyrsta landið sem gerði kröfu um ökuskírteni var Prússland 29. september 1903. Sambandið Dampfkesselüberwachungsverein var yfirumsjónaraðili prófanna sem gengu megnmegnis út á vélfræðilega þekkingu. 1910 setti Þýska ríkistjórnin upp ökuréttinda kerfi sem varð síðar fyrirmynd annara landa. Önnur lönd Evrópu innleiddu ökupróf á tuttugustu öldinni fram til 1977 þegar Belgar voru síðastir evrópuþjóða að innleiða slíkt kerfi. Í Bandaríkjunum var New York fyrsta borgin til að innleiða ökuréttndi fyrir atvinnubílstjóra 1. ágúst 1910. Þremur árum síðar varð New Jersey fyrsta fylki Bandaríkjanna sem innleiddi ökupróf fyrir alla ökumenn. Ökuréttindi. Í fjölda landa þurfa atvinnuökumenn sérstök ökuskírteni. Í Bandaríkjum, Nýja Sjálandi og sumum ríkjum Kanada eru sérstök skírteni fyrir leigubílstjóra. Í Indlandi er atvinnu ökuskírteni gilt í 5 ár á meðan almennt ökuskírteni gildir í 20 ár. Í Bretlandi þarf sérstakt ökuskírteni fyrir að keyra bíl með sæti fyrir fleiri en 8 manns eða sem er þyngri en 3.500 kíló. Í Evrópusambandinu og EES-löndum (þar með talið Íslandi) eru ökuskírtenum skipt í grunnflokka eftir gerð ökutækis. Mótorhjól eru í A-flokki, bílar í B-flokki, vörubílar í C-flokki og áætlunarbifreiðar í D-flokki. Undir þessum flokkum eru undirflokkar eftir afli, sætafjölda og þyngd ökutækjanna. Evrópuvegur. Evrópuvegur er vegakerfi sem tengir lönd Evrópu saman. Veghaldari þeirra er Efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðana í Evrópu (UNECE). Vegirnir eru númeraðir frá E 1 og uppeftir. Í flestum löndum eru vegirnir merktir með grænum vegvísum. Undantekningin er Bretland þar sem vegirnir eru merktir sem M-vegir. Veganúmer. Vegirnir eru merktir með fernhyrndu skilti með grænum bakgrunn, hvítum ramma og texta. Misjafnt er eftir löndum hvort vegirnir séu merktir sem þjóðvegir og evrópuvegir eða aðeins evrópuvegir. Vegnúmer aðalvega hafa tvö tölustafi og tengibrautir hafa þrjá tölustafi. Ísland. Ísland hefur ekki gerst aðili að vegakerfinu og því er enga Evrópuvegi að finna á Íslandi. Hinsvegar hefur Evrópusambandið skilgreint sitt eigið kerfi af Evrópuvegum sem kallast Trans-European road network (TERN) og Ísland hefur fengið aðild að því. Dóri Jónsson. Páll Theodór Sveinsson, þekktur sem Dóri Jónsson, (9. nóvember 1901 – 11. febrúar 1962) var íslenskur rithöfundur, sem skrifaði nokkrar bækur ætlaðar börnum og unglingum. Páll Theodór Sveinsson fæddist 9. nóvember árið 1901 á Kirkjubóli í Önundarfirði. Hann lauk kennaraprófi 1929 og varð sama ár kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar, síðar Lækjarskóla. Hann var yfirkennari við skólann frá árinu 1955. Hann skrifaði nokkrar sögur ætlaðar börnum og unglingum og kaus að gefa þær út undir höfundarnafninu „Dóri Jónsson“. Þekktust bóka hans er líklegast "Hafið hugann dregur" sem kom út árið 1954. Páll var kvæntur Þórunni Helgadóttur frá Melshúsum í Hafnarfirði (17. september 1903 – 3. ágúst 1965). Helstu ritverk. Páll samdi fjórar frumsamdar barna- og unglingabækur auk ýmissa greina og sagna í blöðum. Ökupróf. Ökupróf er próf sem notað er til að prófa í hæfni einhvers að keyra vélknúið ökutæki. Ökupróf eru ólík í mismunandi löndum en oft þarf að ná prófinu áður en manni er gefið ökuskírteini. Í flestum löndum samstendur ökupróf af tveimur hlutum: bóklegt próf og verklegt próf. Á Íslandi þarf að taka bóklega prófið fyrst. Það skiptist í tvo hluta sem hafa 15 spurningar hvor um sig. Til þess að ná prófinu þarf að hafa í mesta lagi 7 röng og ósvöruð svör. Í verklegu prófi er akstursmat og lagt mat á þekkingu ökumanns á búnaði bílsins. Ammóníumnítrat. Ammóníumnítrat er salt úr ammóníaki og saltpéturssýru, með efnaformúluna NH4NO3. Efnið er uppistaðan í áburðinum "Kjarna". Efnið er eld- og sprenigfimt og flokkast sums staðar sem „sprengiefni“. Hellismannasaga. Hellismannasaga er þjóðsögn um útilegumenn sem höfðust við í Surtshelli. Jón Árnason, þjóðsagnasafnari, færði söguna í letur. Sagan á að líkindum rætur í sögn Landnámabókar um drap átján Hellismanna á Hellisfitjum við Norðlingafljót. Önnur Hellismannasaga er til og var hún gefin út í fornritaútgáfu Guðna Jónssonar. Sagan er þó ekki fornsaga í venjulegum skilningi þess orðs, því Gísli Konráðsson, sagnaritari, samdi hana á fyrra helmingi 19. aldar. Sögu sína byggir hann á fornritunum, einkum Landnámu og þjóðsögu hliðstæðri þeirri sem Jón Árnason skráði síðar. Gunnar Smári Egilsson. Gunnar Smári Egilsson er formaður SÁÁ, fyrrverandi ritstjóri "Fréttablaðsins" og fyrrum forstjóri Dagsbrúnar hf. Útey. Útey (mörkuð með rauðum hring). Útey og afstaða til Ósló Útey (norska: "Utøya") er eyja í Tyrifjarðarvatni ("Tyrifjorden") í suðurhluta Noregs, nánar tiltekið í Buskerudfylki ("Biskupsruð"). Útey er skógivaxin eyja, 10,6 hektarar að stærð og er í um 500 hundruð metra fjarlægð frá meginlandinu þar sem styðst er í land. Eyjan er í eigu Æskulýðsfélags Verkamannaflokksins í Noregi ("Arbeidaranes Ungdomsfylking"). Á eynni eru nokkur stór rjóður sem sum hafa verið notuð sem tjaldstæði gesta eða sem svæði til íþróttaiðkana. Þann 22. júlí árið 2011 voru 68 manns, aðallega unglingar, skotnir til bana á eynni í hryðjuverkaárás hægriöfgamannsins Anders Behring Breivik, sem var dulbúinn sem lögreglumaður. Benjamín H. J. Eiríksson. Benjamín H. J. Eiríksson (fæddur 19. október 1910, dáinn 23. júlí 2000) var íslenskur hagfræðingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1932 og stundaði nám í "Friðriks-Vilhjálms-háskólanum" í Berlín 1932–1933, þar sem hann varð vitni að valdatöku nasista. Hann stundaði síðan nám í Uppsölum í Svíþjóð 1933–1935 og í leynilegum flokksskóla, "Vesturskólanum" í Moskvu 1935–1936. Hann lauk hagfræðiprófi frá Stokkhólmsháskóla 1938, þar sem einn kennari hans var Gunnar Myrdal. Benjamín starfaði næstu ár á Íslandi. Hann hafði gengið í kommúnistaflokkinn og síðan í Sósíalistaflokkinn, en sagði sig úr honum 1939 til að mótmæla fylgispekt flokksins við Ráðstjórnarríkin undir stjórn Stalíns. Benjamín stundaði framhaldsnám í hagfræði í Minnesota-háskóla í Minneapolis 1942–1944, þar sem einn kennari hans var George Stigler, og Harvard-háskóla í Cambridge, Massachusetts 1944–1946, þar sem einn kennari hans var Joseph Schumpeter. Eftir doktorspróf frá Harvard-háskóla gerðist hann starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en sneri til Íslands 1951 og gerðist ráðunautur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hann var bankastjóri "Framkvæmdabanka Íslands" 1953–1965, þegar hann dró sig í hlé af heilsufarsástæðum. Eftir Benjamín liggja margar greinar, ritgerðir og álitsgerðum, og var nokkrum þeirra safnað saman í "Rit 1938–1965", sem kom út á áttræðisafmæli hans 1990. Prófessor Hannes H. Gissurarson skrifaði ævisögu hans, sem kom út 1996. Heimildir. Benjamín H. J. Eiríksson, 1990. "Rit 1938–1965." Reykjavík: Stofnun Jóns Þorlákssonar. Hannes H. Gissurarson, 1996. "Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða." Reykjavík: Bókafélagið. Háskólinn í Basel. Gamla aðalbygging Háskólans í Basel Háskólinn í Basel (þýska: "Universität Basel") er opinber rannsóknarháskóli í Basel í Sviss og er talinn meðal bestu háskóla landsins. Skólinn var stofnaður árið 1460. Á tólfta þúsund nemendur stunda nám við skólann. Háskólinn í Zürich. Suðurhlið Aðalbyggingar Háskólans í Zürich. Háskólinn í Zürich (þýska: Universität Zürich), oft nefndur UZH, er rannsóknaháskóli í Zürich í Sviss og stærsti háskóli landsins með yfir 25 þúsund nemendur. Skólinn var stofnaður árið 1833 með sameiningu guðfræði-, laga- og læknaskóla en um leið var stofnuð heimspekideild við skólann. Í dag eru deildir skólans flokkaðar í hugvísindasvið, hagfræðisvið, náttúruvísindasvið, læknaskóla, lagaskóla, guðfræðiskóla og dýralækningaskóla. Á fjórða þúsund kennarar og sérfræðingar starfa við skólann og á nítjánda þúsund nemendur stunda þar nám, þar af rúmlega sex þúsund framhaldsnemar. Persaveldi. Persía hin forna (sem í dag heitir Fars) Persaveldi, einnig nefnt Akkamenídaríkið (persneska: هخامنشیان, unipers: "Haxâmanešiyan", IPA: [haχɒmaneʃijɒn]) var veldi Akkamenída, sem réðu ríkjum frá um 559 f.Kr. til um 330 f.Kr. Það var fyrsta persneska stórveldið, arftaki Medaveldisins og náði yfir mestan hluta Stór-Íranssvæðisins, frá Indusdal í austri til Þrakíu og Makedóníu við norðausturmörk Grikklands í vestri, þegar það var stærst. Á hátindi sínum náði ríkið yfir Íran, Írak, Sýrland, Jórdaníu, Palestínu, Egyptaland, Lýdíu, Litlu-Asíu, Anatólíu (Tyrkland) Þrakíu og yfir svæði, sem í dag eru Pakistan og Afganistan allt að Aralvatni og Kaspíahafi í norðri. Um 1 milljón manna bjó innan marka þess þegar það var fjölmennast. Trúarbrögð og siður Persa höfðu mikil áhrif langt út fyrir endimörk Persaveldis og má greina meðal annars hjá Grikkjum og Kínverjum. Persaveldi leystist upp árið 330 f.Kr. í kjölfar ósigra Persa gegn Alexander mikla. Saga. Persar áttu uppruna sinn í suðvesturhluta írönsku hásléttanna, austur af Tígris-fljóti og norðan Persaflóa. Þeir nefndu sig "Parsa" og upphaflegt yfirráðasvæði sitt "Parsua" en í dag heitir það Fars. Frá þessu svæði kom Kýros mikli, sem sigraði Meda, Lýdíuveldið og Babýlóna og greiddi þannig götuna fyrir frekari landvinninga í Egyptalandi og Litlu Asíu. Hann stofnaði ríkið árið 550 f.Kr. Persar komust í kynni við Grikki undir lok 6. aldar f.Kr. þegar þeir sigruðu Lýdíuríki og náðu í kjölfarið yfirráðum yfir grískum borgríkjum í Jóníu við strönd Eyjahafs. Grísku borgríkin gerðu uppreisn árið 499 f.Kr. Stuðningur grískra borgríkja á meginlandi Grikklands við uppreisnarríkin í Jóníu leiddi til Persastríðanna, sem stöðvuðu útþenslu Persa í vestri. Árið 490 f.Kr. gerði Dareios Persakonungur tilraun til að leggja meginland Grikklands undir sig en beið ósigur fyrir töluvert fámennara liði Grikkja í orrustunni við Maraþon. Tíu árum síðar reyndi Xerxes sonur hans, sem tekið hafði við ríki Persa að föður sínum látnum, að gera öflugri innrás á meginland Grikklands. Lítill flokkur spartverskra hermanna auk annarra Grikkja tafði framsókn Persa suður við Laugaskörð en beið á endanum ósigur. Persar biðu hins vegar mikinn ósigur í sjóorrustu við Salamis árið 480 f.Kr. og aftur á landi í orrustunni við Plataju ári síðar. Þar með var tilraun Xerxesar til landvinninga í Grikklandi hrundið. Staðfestir. Snemma á valdatíð Artaxerxess II (árið 399 f.Kr.) misstu Persar yfirráðin yfir Egyptalandi en náðu aftur yfirráðunum 57 árum síðar — árið 342 f.Kr. — þegar Artaxerxes III sigrar Egypta. Lambda-reikningur. Lambda-reikningur (einnig ritað λ-reikningur) er formlegt kerfi innan stærðfræðilegrar rökfræði og tölvunarfræði sem skilgreinir fallaskilgreiningar, fallabeytingu og endurkvæmni. Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk. Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk er íslensk konungasaga, sem Oddur Snorrason munkur á Þingeyrum samdi á latínu um 1200, en er varðveitt í íslenskri þýðingu sem gerð var skömmu síðar. Latneska gerðin er glötuð, og er erfitt að meta hversu nákvæm íslenska þýðingin er. Oddur notaði helgisögur sem fyrirmynd, og lýsir Ólafi sem postula Norðmanna. Sagan er varðveitt í tveimur heillegum handritum, og broti af því þriðja, og virðist sagan nánast heil ef þau eru lögð saman. Oddur notaði ritaðar heimildir, svo sem eftir Sæmund fróða og Ara fróða, einnig "Acta sanctorum in Selio" ("Þátt af Seljumönnum") og hugsanlega "Historia de Antiquitate Regum Norwagiensium", en hann bætir við miklu efni. Í formála lýsir Oddur markmiðum sínum með ritun sögunnar. Snorri Sturluson notaði Ólafs sögu Odds, þegar hann samdi "Heimskringlu", og það gerði einnig höfundur "Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu". Margt bendir til að Ólafs saga Odds hafi markað nokkur tímamót í íslenskum bókmenntum að því leyti, að hún hafi verið ein fyrsta ítarlega sagan sem fjallaði um einn Noregskonung. Sólgleraugu. Sólgleraugu eru gleraugu með lituðu gleri, notuð til að deyfa birtu frá sterku sólarljósi. Þau eru einnig notuð sem tískuskart eða til að hylja augu og í sumum tilfellum jafnvel glóðaraugu fyrir öðrum. Sum sólgleraugu vernda augun gegn útfjólublárri geislun sem getur skaðað sjónhimnuna. Akstur. Akstur kallast það að keyra vélknúið ökutæki eins og bifreið, vörubíl eða strætisvagn. Í mörgum löndum þurfa þau sem vilja keyra ökuskírteini sem er gefið þegar ökumaður hefur náð ökuprófi. Í flestum löndum eru öllum með góða sjón heimilt að taka ökupróf og keyra á opinberum vegum ef því er náð, en í Sádí-Arabíu er konum ekki heimilt að keyra á opinberum vegum. Ökumenn eiga að hlýða ýmislegum aksturslögum. Aksturshegðun á við mismunandi akstursaðferðir og hvernig ökumenn fylgja aksturslögum. Í flestum löndum er nauðsynlegt að kaupa bifreiðatryggingu áður en má keyra á opinberum vegum og eigandi ökutækis á líka að fara með það í bifreiðaskoðun hvert ár. Þungaskattskerfi er líka til í sumum löndum. Auk þess eru til lög um notkun áfengis og fíkniefnis meðan á akstur stendur. Ólafs saga Þórhallasonar. Ólafs saga Þórhallasonar er íslensk skáldsaga frá átjándu öld sem byggir á aðferðum og minnum þjóðsagna. Hún er samin af Eiríki Laxdal Eiríkssyni (1743–1816). Verkið hefur verið sagt fyrsta íslenska skáldsagan. Um þá staðhæfingu má efast, enda telja aðrir Íslendingasögurnar fyrstu skáldsögur Evrópu og enn aðrir telja "Pilt og stúlku" eftir Jón Thoroddsen marka upphaf íslenskrar skáldsagnagerðar. Eftir að Ólafs saga Þórhallasonar var gefin út þótti ástæða til að efast um báðar staðhæfingar. Sögusvið Ólafssögu er jafnt heimur álfa sem hversdagsheimur alþýðu í kaþólskri tíð á Íslandi og þykir þar fara um margt einstök blanda fantasíu og raunsæis í íslenskum skáldskap. Ólafs saga lá óprentuð í tæp 200 ár, hún var samin í um aldamótin 1800, en ekki gefin út fyrr en í Reykjavík árið 1986. Fíkniefni. Fíkniefni kallast vímuefni, sem eru notuð til afþreyingar og hafa vanabindandi áhrif. Fíkniefni hafa áhrif á hegðun og skynjun þeirra sem nota þau og er neysla þeirra ólögleg í mörgum ríkjum. Meðal fíkniefna teljast áfengi, tóbak (notkun þeirra er víðast hvar lögleg), kannabis, kókaín, heróín, ketamín, morfín, ópíum og MDMA, svo að nokkur séu nefnd. Ólögleg fíkniefni kölluðust áður eiturlyf. Koffín er talið vanabindandi, en telst ekki til fíkniefna. Bollakaka. Bollakökur eru litlar, sætar kökur, nú oftast bakaðar í þar til gerðum formum úr pappír, sílikoni eða málmi, yfirleitt ríkulega skreyttar með kremi, kökuskrauti og öðru. Þær eru áþekkar múffum og mörkin eru ekki ljós en múffur eru þó yfirleitt ekki skreyttar og oft ekki eins sætar og bollakökur; þær innihalda líka gjarnan ávexti, hnetur og fleira en bollakökur yfirleitt ekki. Uppruni. Kökurnar eru upprunnar í Bandaríkjunum og má fyrst finna þeirra getið í matreiðslubók sem Amelia Simmons gaf út 1796 en þar gefur hún uppskrift að „léttum kökum bökuðum í litlum bollum“. Heitið "cupcake" finnst þó ekki notað í á prenti fyrr en 1828. Sérstök form fyrir litlar kökur voru sjaldséð á þessum tíma og voru þær því oftast bakaðar í litlum leirbollum eða formum og fengu nafn af þeim, sem festist svo við þær; í Bandaríkjunum táknar heitið "cupcake" í víðustu merkingu „lítil formkaka á stærð við tebolla“. Enskar "fairy cakes" eða álfakökur eru yfirleitt minni og sjaldan mikið skreyttar. Dæmi um bollakökur þar sem skreytingin ber kökurnar ofurliði. Önnur ástæða fyrir nafninu var sú að hráefnið í kökurnar var mælt í bollum, eins og nú er almennt gert í Bandaríkjunum en fyrr á tímum var það yfirleitt vigtað. Það var hins vegar fljótlegra að mæla í bollum en vigta og mun fljótlegra að baka kökurnar í litlum bollum eða ílátum en í stórum formum. Bakstur á stórum kökum gat tekið mjög langan tíma þegar bakað var við opinn eld og það þufti að fylgjast vel með þeim svo þær brynnu ekki. Þessar bollakökur voru yfirleitt mjög einfaldar og innihéldu ekki ávexti eða krydd. Þegar ofnar urðu algengari og sérstök form til að baka bollakökur og múffur urðu almenningseign var að mestu hætt að baka kökurnar í bollum en þær héldu þó nafninu og hafa alltaf verið nokkuð vinsælar í Bandaríkjunum. Bollakökur í nútímanum. Laust fyrir aldamótin 2000 kom upp bollaköku-tískubylgja í Bandaríkjunum, sem oft hefur verið tengd við sjónvarpsþáttinn "Beðmál í borginni", og í kjölfarið jukust vinsældir þeirra víða um heim. Nú á tímum eru bollakökur oft mjög mikið skreyttar og skreytingin verður oft aðalatriðið, fremur en kakan sjálf. Pixar. Pixar er hugbúnaðar- og kvikmyndafyrirtæki í Emryville, Kaliforníu. Fyrsta kvikmynd fyrirtækisins Leikfangasaga var útgefin 1995 og hún er fyrsta tölvuteiknaða kvikmynd sögunnar. Síðan þá hafa fimm fyrstu kvikmyndir Pixar skilað 2,5 milljörðum bandaríkjadala í miðasölum kvikmyndahúsa. Saga. Pixar var byggt á grunni tölvudeildar Lucasfilm sem nefndist Graphics Labs. Graphics Labs var Lucasfilm innan handar við gerð Star Wars kvikmyndana og bjó síðar til stuttmyndina André & Wally B. Eftir að fyrirtækið varð sjálfstætt þróaði það hugbúnað á borð við RenderFarm sem er notaður við gerð teiknaðra kvik- og stuttmynda. Við þróun RenderFarm var myndatökuvélin og aðferðir myndatökumannsins teknar til fyrirmyndar. Forritið hermir eftir þeim eiginleika myndatökuvélarinnar að helmingur myndarinnar er skarpur og hinn í þoku, en sá eiginleiki á rætur sínar í lokunarbúnaði myndatökuvélarinnar. Render Farm hefur verið notað í öllum þeim kvikmyndum sem Pixar hefur framleitt en auk þess í kvikmyndum á borð við, Harry Potter og Árásin á Perluhöfn. 1986 gaf Pixar út stuttmyndina "Luxo Jr". Aðalpersóna stuttmyndarinnar er lampinn Luxo Jr. sem varð síðar að lukkudýri félagsins sem má oft sjá í einkennismerki þess. Stuttmyndin fékk óskarsverðlaun í teiknimyndaflokki. Ári síðar var gefin út stuttmyndin Red´s Dream og í kjölfarið "Tin Toy" sem að var í fyrsta skipti sem að hendur og fætur manns sjást í þrívídd. 1989 kom út Fyrsta mynd Pixar sem var að fullu í þrívídd bar nafnið "Kick Knack". Fyrsta kvikmynd Pixar "Leikfangasaga" kom út 1995 og var dreift af Disney. Á undan kvikmyndinni var sýnd stuttmyndin Tin Toy, sem hafði áður verið framleidd og þetta markaði einnig upphafið af þeirri hefð hjá Pixar að stuttmyndir eru sýndar á undan kvikmyndum félagsins í kvikmyndahúsum. Á sama ári gaf Pixar út skuldabréfaútboð til að fjármagna næstu myndir félagsins. Þremur árum síðar kom út kvikmyndin "Pöddulíf". Samhliða henni var sýnd stuttmyndin Geri´s Game sem hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu teiknimyndina. Ári síðar kom út framhaldsmyndin "Leikfangasaga 2". "Skrímsli hf." var útgefin 2001 og setti met í miðasölu. Kvikmyndin var fimm ár í framleiðslu og tvö ár tók að þróa forrit fyrirtækisins til þess að feldur skrímslanna gæti komist á hvíta tjaldið. "Leitin að Nemo" og "Hinir ótrúlegu" komu út á næstu tveimur árum og kvikmyndin "Bílar" fylgdi í kjölfarið 2006. Á milli Disney og Pixar var í gildi samstarfsamningur þar sem Disney fékk greitt 12,5% dreifingargjald og allur kostnaður og ágóði af myndunum var skipt til helminga á milli félagana. Þar að auki hefur Disney rétt til að dreifa sjö kvikmyndum Pixar, fá ágóða af þeim og gera framhaldsmyndir af þeim kvikmyndum, velji Pixar að taka ekki þátt í því verkefni. 2004 var eitt ár var eftir af þessum samningi þegar að ágreiningur myndaðist á milli þáverandi stjórnenda Disney Michael Eisner og Pixar Steve Jobs um samstarfssamninginn. Sá síðarnefndi gerði Disney ljóst að þeirra sé ekki lengur þörf og að "mikið hafi breyst til frambúðar í heimi fjölskylduskemmtunar". Í framhaldinu byggði Disney kvikmyndaver í Glendale, Kaliforníu sem myndi aðalega framleiða framhaldsmyndir kvikmynda Disney-Pixar. Kvikmyndaverið býr yfir sama tækjabúnaði og aðalteiknimyndaver Disney. Líkur voru á að Disney myndi framleiða Leikfangasögu 3 í þessu kvikmyndaveri sem yrði útgefin 2008. 2006 tilkynnti nýr forseti Disney, Robert Iger, kaup á Pixar fyrir 7,4 milljarða bandaríkjadala. Kaupin voru greidd alfarið með skuldabréfum í Disney. Við kaupin varð Steve Jobs stjórnarmaður í Disney og John Lassiter, einn af stofnendum Pixar, varð yfirmaður Pixar og teiknimynda kvikmyndafyrirtækis Disney ásamt því að vera hugmyndafræðilegur ráðgjafi þemagarða Disney. 2007 var "Ratatouille" gefin út. 9. október sama árs hafði ágóði af miðasölu myndarinnar náð 19,7 milljón bandaríkjadollara um allan heim sem gerði hana að ágóðamestu kvikmynd vikunnar. Myndin er sú fyrsta sem Pixar á fullan eignarrétt yfir. Ári síðar kom "Wall-E" út sem var valin sem besta teiknimyndin á óskarsverðlaununum sama árs. Í kjölfarið fengu leikstjórar Pixar æviverðlaunum á Feneyjarverðlaununum. Næsta útgefna kvikmynd Pixar var Up. Hún varð opnunarmynd kvikmyndarhátíðarinnar i Cannes 2009, en það er í fyrsta skipti sem teiknimynd opnar hátíðina. Ári síðar fékk myndin verðlaun sem besta teiknimynd óskarsins. 2010 var Leikfangasaga 3 frumsýnd. Hún fékk bestu gagnrýni rottentomatoes.com, 100% fersk og hæstu sölutölur í miðasölu kvikmyndahúsa. Kvikmyndin er á hvítum lista yfir kvikmyndir sem koma til greina fyrir óskarsverðlaunin 2011. Framleiðsla. Kvikmyndir Pixar eru alltaf klipptar fyrst út frá handriti. Mjög dýrt er að teikna og gæða atriði lífi sem síðan á endanum enda eingöngu í ruslafötunni. Handritshöfundar sem hafa komið að kvikmyndum Pixar eru á borð við Joss Whedon handritshöfund vampírubanans Buffy sem vann að Leikfangasögu, leikara The Wire Tom McCarthy sem vann að Up og loks handritshöfund Little miss sunshine Michael Arndt sem vann að Leikfangasögu 1-3. Með hverri kvikmynd sem Pixar hefur gefið út hefur hugbúnaðardeild þeirra búið til tækninýjung. Í Bílunum var það endurspeglun á bílum og rúðum, í Skrímsli hf. var það feldurinn og í Leitin að Nemo var það getan að búa til teiknimynd neðansjávar. Pixar hefur einnig lært af Disney og notað stórstjörnur til að talsetja kvikmyndir sínar. Tom Hanks talsetti Leikfangasögu 1-3, Holly Hunter Hina ótrúlegu og William Dafoe Leitina að Nemo. Í kvikmyndum og stuttmyndum fyrirtæksins eru tilvísanir í hluti eða persónur úr stuttmyndum fyrirtækisins og í Leikfangasögu 3 er að finna tilvísun í japönsku kvikmyndina My Neighbour Tontoro sem var framleidd af japanska teiknimyndaframleiðandanum Studio Ghibli. Pixar hefur jafnframt breytt markhópi teiknimynda og í dag kjósa stærstu kvikmyndagerðamenn heims að vinna við myndir sem töldust áður eingöngu fyrir börn. Snillingur. Snillingur (á latínu: "genius") er manneskja með óvenjulega andlega hæfileika og gáfur, svokallaða snilligáfu. Engin vísindaleg skilgreining er til á hugtakinu, sem á sér rætur aftur í fornöld, og deilt er um merkingu þess en eigi að síður er snillingshugtakið mikið notað í margháttuðu samhengi, ekki síst síðan á nítjándu öld. Ruth Barcan Marcus. Ruth Barcan Marcus (fædd 2. ágúst 1921 í Bronx í New York-borg, dáin 19. febrúar 2012) var bandarískur heimspekingur og rökfræðingur, sem Barcan-formúlan er kennd við. Hún var frumkvöðull í háttarökfræði og málspeki. Hún ritaði einnig áhrifamiklar greinar um eðlishyggju, skoðanir og siðferðilegan ágreining. Starfsferill. Marcus hlaut B.A.-gráðu í heimspeki frá New York University árið 1941. Þaðan hélt hún til Yale-háskóla í framhaldsnám og hlaut M.A.-gráðu þaðan árið 1942 og doktorsgráðu árið 1946. Marcus gegndi stöðu prófessors og deildarforseta við heimspekideild Illinois-háskóla í Chicago á árunum 1962 – 1970. Hún var prófessor í heimspeki við Northwestern-háskóla 1970 – 1973 og Halleck-prófessor í heimspeki við Yale-háskóla 1973 – 1991. Frá 1992 var hún prófessor "emerita" og sérfræðingur við Yale-háskóla. Hún var einnig reglulegur gistiprófessor í heimspeki við Kaliforníuháskóla í Irvine. Marcus sat í framkvæmdarnefnd Samtaka bandarískra heimspekinga (1976 – 83), var forseti samtakanna Association for Symbolic Logic (1983 – 86) og forseti og heiðursforseti Alþjóðlegu heimspekistofnunarinnar (1989 – 92). Smjörkrem. Bollakökur sem lituðu smjörkremi hefur verið sprautað á. Smjörkrem er kökukrem sem notað er til að þekja kökur og einnig á milli laga í lagkökum, auk þess sem það er haft til að skreyta ýmsar kökur og tertur, bollakökur og fleira. Aðalefnin í smjörkremi eru vanalega smjör eða smjörlíki og flórsykur og oft einnig eggjarauður eða egg. Það er svo bragðbætt á ýmsan hátt, til dæmis með kakódufti eða súkkulaði, vanillu og öðrum bragðefnum, og litað með matarlit. Þegar einfalt smjörkrem er gert er flórsykri einfaldlega hrært saman við lint smjör og kremið svo bragðbætt en stundum er dálitlu vatni blandað saman við sykurinn, lögurinn soðinn og honum síðan hrært sjóðheitum saman við kremið. Kreminu er ýmist smurt eða sprautað á kökurnar. Isaiah Berlin. Sir Isaiah Berlin (6. júní 1909 – 5. nóvember 1997) var breskur heimspekingur og heimspekisagnfræðingur af rússneskum gyðingaættum og er gjarnan talinn meðal helstu stjórnspekinga 20. aldar. Rit Berlins um frelsi og fjölhyggju hafa haft gríðarleg áhrif sem og greinarmunur hans á jákvæðu og neikvæðu frelsi. Berlin hlaut verðlaunastyrk til starfa við All Souls College við Oxford-háskóla árið 1932, þá 23 ára gamall. Á árunum 1957 til 1967 gegndi hann stöðu Chichele-prófessors í félagslegri heimspeki og stjórnspeki við Oxford-háskóla. Hann var forseti Aristotelian Society 1963 til 1964. Árið 1966 átti hann þátt í stofnun Wolfson College í Oxford og varð fyrsti forseti hans. Hann var aðlaður árið 1957. Berlin var forseti Bresku akademíunnar frá 1974 til 1978. Hann hlaut Jerúsalem-verðlaunin árið 1979 fyrir skrif sín um frelsi einstaklingsins. "Isaiah Berlin-fyrirlestrarnir" eru haldnir árlega við Hampstead-synagóguna og bæði Wolfson College og Bresku akademíuna á hverju sumri. Helstu ritverk. Berlin, Isaiah Berlin, Isaiah Vonarstræti. Vonarstræti er gata í miðborg Reykjavíkur skammt frá Tjörninni. Við Vonarstræti eru Iðnó og Ráðhús Reykjavíkur. Þjóðríki. Þjóðríki er ríki sem þjóð byggir, alla jafna á afmörkuðu landsvæði. Í þjóðríki er að meira eða minna leyti sátt um einingu þjóðar sem landið byggir, þar er yfirvald sem tekið er gilt, burtséð frá því hvernig stjórnarfari er háttað, og ríki sem fer með og er vettvangur fyrir ýmis sameiginleg mál þjóðarinnar. Þjóðríkishugtakið. Þjóðríkishugtakið á sér gullöld á nítjándu öld og þá áttu flestar sjálfstæðisbaráttur þjóða sér stað. Deilt er um hvort rætur þjóðríkisins séu í rómantík og þjóðernishyggju átjándu og nítjándu aldar, þegar hugmyndalegum stoðum var óumdeilanlega rennt undir þjóðríkishugtakið, eða aftur í ættbálkasamfélagi fyrri alda og eldri gerðum ríkja en þjóðríki skildi ekki rugla saman við borgríki. Þjóðríki birtast í samtímanum sem stöðugar einingar sem hafa verið óbreyttar um langa hríð en eigi að síður eru stærri þjóðríki, svo sem Spánn og Frakkland, jafnan byggð á sameiningu margra smáríkja frá eldri tíð. Gagnrýnir umfjallendur þjóðríkishugtaksins álíta þjóðríkið menningarlegan tilbúning eða hugsmíð og telja hverfult en þjóðríkið hangir þó ekki eingöngu saman á hugmyndalegum grundvelli, svo sem á sameiningartáknum eða þjóðernishyggju, heldur eru í því auk þjóðarhefða stjórnsýslulegar og pólitískar stofnanir, lagaumgjörð, stjórnmálakerfi og yfirvöld og fáir telja þjóðríkið munu líða undir lok alveg í bráð. Ríkislausar þjóðir. Þjóðríki er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur þjóða því fjöldi þjóða er án ríkis. Þar nægir að nefna flökkuþjóðir á borð við sígauna og að einhverju leyti gyðinga (fyrir tilkomu Ísraelsríkis) og einnig Skota á Bretlandi og Katalóna á Spáni. Sumar þessara þjóða uppfylla skilgreiningu á þjóð, svo sem sameiginlegt tungumál og menningararfleifð, og sum berjast fyrir aukinni sjálfstjórn eða stofnun sjálfstæðs ríkis, svo sem Kúrdar. Aðrar þjóðir sækjast ekki eftir stofnun þjóðríkis, hvort sem er af efnahagsástæðum eða stjórnmálalegum. Fullveldi. Grundvallaratrið í allri umræðu um þjóðríkið er fullveldi og sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Með tilkomu yfirþjóðlegra eininga á borð við Evrópusambandið afsala þjóðir sér hluta af fullveldi sínu eða að minnsta kosti sjálfstæði sínu, það er að segja þær samþykkja meðvitað að framselja hluta af ákvörðunarvaldi sínu í hendur stærri heildar. Heimildir. Guðmundur Hálfdanarson, "Íslenska þjóðríkið: uppruni og endimörk" (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, ReykjavíkurAkademían, 2001). No borders. No Borders er alþjóðlegt net sjálfstæðra samtaka sem berjast gegn brottvísun flóttamanna. No Borders-samtök eru starfrækt á Íslandi. Cameo-hlutverk. Kameo eða kameo-hlutverk kallast stutt framkoma frægrar manneskju í kvikmynd, leikriti, tölvuleik, eða í sjónvarpi. Oftast kemur frægur leikari, leikstjóri, stjórnmálamaður, íþróttamaður, eða dægurstjarna fram sem hann sjálfur/hún sjálf eða sem skálduð persóna. Tékknesk króna. Tékknesk króna eða tékknesk koruna (tékkneska: "Koruna česká", ISO 4217 kóði: CZK, tákn: Kč) er gjaldmiðill Tékklands. Ein tékknesk króna skiptist í 100 „"haléřů"“ (eintala: „"haléř"“). Tékknesk króna hefur verið notuð sem gjaldmiðill Tékklands frá árinu 1993, þegar Tékkóslóvakía skiptist upp í tvö ríki, Tékkland og Slóvakíu. Áður voru einnig gildir seðlarnir 20 kč og 50 kč og myntirnar 10 haléřů, 20 haléřů og 50 haléřů. Hætt var að nota 20 kč seðla 31. ágúst 2008 og 50 kč 1. apríl 2011. Hætt var að nota 10 haléřů og 20 haléřů myntirnar 31. október 2003. 50 haléřů myntin var tekin úr notkun 31. ágúst 2008. Til stóð að Tékkland tæki upp evruna árið 2012 en þeim áætlunum hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma vegna andstöðu tékknesks almennings við upptöku evru. David Dayan Fisher. David Dayan Fisher (fæddur 6. júní 1967) er enskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í NCIS, og National Treasure. Einkalíf. Fisher fæddist í London, Englandi. Árið 2009 þá var Fisher með sýningu á listaverkum sínum í Los Angeles Ferill. Fyrsta hlutverk Fisher var í ensku sjónvarpsseríunni The Bill þar sem hann kom fram í tveim þáttum árið 1998. Síðan þá hefur hann komið fram í þáttum á borð við: Robbery Homicide Division, 24, Numb3rs og Medium. Hefur síðan 2008 leikið leyniþjónustumanninn Trent Kort í NCIS og. Fisher hefur leikið í kvikmyndum á borð við: The Diplomat, America Brown, National Treasure, Tony 5 og Infernum. Tenglar. Fisher, David Dayan Vasílíj Mítrokhín. Vasílíj Níkítín Mítrokhín (á rússnesku Василий Никитич Митрохин) (fæddur 3. mars 1922, dáinn 23. janúar 2004) var major í öryggislögreglu Ráðstjórnarríkjanna, KGB, og sinnti aðallega skjalavörslu. Hann flýði 1992 með fjöldann allan af gögnum öryggislögreglunnar til Bretlands og hafa þau komið út í tveimur stórum bindum, "The Mitrokhin Files". Meðhöfundur hans að bókunum er Andrew Young. Mitrokhin var einhvern tíma á Íslandi á fyrra helmingi sjöunda áratugar en ekki er vitað undir hvaða nafni hann duldist né hvaða verkefnum hann sinnti. Mítrokhín, Vasílíj Níkítín Mítrokhín, Vasílíj Níkítín Karl djarfi. Karl djarfi (franska: "Charles le Téméraire") (10. nóvember 1433 – 5. janúar 1477 var hertogi af Búrgund frá 1467 til dauðadags. Hann var síðasti Búrgundarhertoginn af Valois-ætt og þar sem hann eignaðist ekki son upphófust eftir lát hans deildur um hin víðfeðmu lönd Búrgundara sem áttu eftir að hafa áhrif á sögu Evrópu í meira en tvær aldir. Uppvöxtur. Karl var sonur Filippusar góða Búrgundarhertoga og konu hans Ísabellu af Portúgal. Á meðan faðir hans lifði bar hann titilinn greifi af Charolais en þegar Filippus dó 1467 erfði Karl alla titla hans. Hann ólst upp við hirð föður síns, sem ekki hafði eina meginbækistöð, heldur fluttist á milli hinna ýmsu halla Búrgundara, einkum þó í Belgíu og Norður-Frakklandi. Hirðlífið þótti hið glæstasta í Evrópu á þeim tíma og hirð Filippusar var miðstöð lista og viðskipta. Karl var snemma efnilegur og þótti góður námsmaður. Sjö ára að aldri var hann látinn giftast Katrínu, dóttur Karls 7. Frakkakonungs. Hún var fimm árum eldri en brúðguminn en dó árið 1446, átján ára að aldri. Árið 1454 giftist Karl öðru sinni. Sjálfur vildi hann giftast annarrihvorri af tveimur yngri dætrum Ríkharðs hertoga af York en Karli Frakkakonungi hafði tekist að fá inn í Arras-sáttmálann, sem gerður var 1435, ákvæði um að hann mætti aðeins giftast stúlku af frönsku konungsættinni. Filippus góði valdi þá systurdóttur sína, Ísabellu af Bourbon, sem brúði sonar síns. Þau áttu eina dóttur, Maríu, og var hún eina barn Karls sem lifði. Barátta við Loðvík 11.. Ríki Búrgundara á valdatíma Karls djarfa. Fyrrverandi mágur Karls, Loðvík krónprins, átti í illdeilum við föður sinn og leitaði hælis við hirð Búrgundarhertoga 1456 og var þar uns faðir hans dó og hann varð konungur 1461. Þá fór vel á með þeim Karli en eftir að Loðvík 11. varð konungur urðu þeir ósáttir og þótti Karli Loðvík sýna sér yfirgang, enda lagði konungur undir sig lönd sem Karl átti tilkall til. Þeir áttu jafnan í deilum eftir það og Karl varð helsti leiðtogi andstöðunnar við konung á næstu árum. Karl tók við stjórn hertogadæmisins vorið 1465; faðir hans var þá enn lifandi en lagði völdin í hendur sonar síns vegna heilsuleysis. Hann gekk í bandalag við hóp annarra voldugra aðalsmanna gegn Loðvík konungi og hófu þeir stríð við konung um sumarið undir forystu Karls. Þeir báru sigurorð af konungsmönnum í bardaganum við Montlhéry 13. júlí, þar sem Karl særðist, en tókst þó ekki að brjóta konunginn á bak aftur og um haustið voru gerðir friðarsamningar þar sem Karl náði aftur nokkrum landsvæðum sem konungur hafði tekið undir sig. Á meðan samningar stóðu yfir dó Ísabella kona Karls skyndilega. Þá sá Loðvík færi á að styrkja sambandið við Búrgund með mægðum og bauð Karli elstu dóttur sína, Önnu, sem þó var ekki orðin fimm ára. En Karl taldi sig ekki lengur bundinn af Arras-sáttmálanum og frjálsan að leita þess kvonfangs sem hann hafði áður ætlað sér og hóf því samninga við Játvarð 4. Englandskonung um hjúskap við systur hans, Margréti af York, sem þá var tæplega tvítug. Samningarnir gengu hægt af ýmsum ástæðum og Loðvík gerði líka allt sem hann gat að koma í veg fyrir giftinguna en það kom fyrir ekki og þau giftust sumarið 1468. Þau voru barnlaus en Margrét gekk Maríu stjúpdóttur sinni í móðurstað. Hún var eina eiginkona Karl sem bar titilinn hertogaynjaf af Búrgund, því fyrri konur hans tvær dóu áður en hann varð hertogi. Árið 1471 ásakaði konungur Karl um landráð, skipaði honum að koma fyrir þingið og hertók nokkra bæi sem honum tilheyrðu. Karl réðist þá inn í Frakkland með fjölmennan her og fór með ránshendi um hluta Norður-Frakklands. Hann þurfti þó að hverfa frá, meðal annars til að sinna málum heima fyrir og styrkja innviði hertogadæmisins, stækka ríki sitt og auka eigin völd. Hann náði sínu fram með hörku og hefur stundum verið kallaður Karl hræðilegi vegna þess hve hersveitir hans gengu á stundum hart fram. Karl var þegar hér var komi sögu orðinn einn auðugasti og valdamesti aðalsmaður Evrópu og yfirráðasvæði hans var stærra en mörg konungsríki. Heimildir sýna að hann hafði í hyggju að rjúfa öll tengsl við Frakkland og vera ekki lengur lénsherra Frakkakonungs, heldur láta krýna sjálfan sig konung. Síðustu æviár. Á næstu árum hallaði þó undan fæti, Karl tók ýmsar vafasamar ákvarðanir og hafa sumir talið að hann hafi líklega átt við einhverjar geðtruflanir að stríða. Hann lenti í ýmsum deilum og átökum, meðal annars við Sigmund erkihertoga af Austurríki, Svisslendinga og René 2. hertoga af Lorraine. Loðvík 11. veitti andstæðingum hans stuðning og þeir tóku saman höndum gegn honum. Karl beið lægri hlut fyrir andstæðingum sínum í orrustunni við Grandson 2. mars 1476 og var hrakinn á flótta. Honum tókst að safna liði á nýju en tapaði í öðrum bardaga 22. júní og missti þá þriðjung herliðs sín; flestir drukknuðu þegar þeir hröktust út í stöðuvatn. Karl gafst þó ekki upp, safnaði enn liði og settist um Nancy, sem hann hafði náð af René af Lorraine en hann hafði tekið að nýju. Þetta var um miðjan vetur og það var mjög kalt í veðri svo að margir manna hans króknuðu. Hann hafði því aðeins nokkur þúsund manna lið í orrustunni við Nancy, 5. janúar 1477. Þar féll hann sjálfur og fannst nakið og illa leikið lík hans nokkrum dögum síðar í ísilagðri á. Erfingi Búrgundar. Erfingi Karls var nítján ára dóttir hans, María af Búrgund, sem enn var ógift og því ákaflega eftirsóknarvert kvonfang. Elstu synir bæði Loðvíks 11. og Friðriks 3. keisara voru ókvæntir. Loðvík gerði hins vegar þau mistök að leggja þegar undir sig ýmsar lendur á mörkum Frakklands og Búrgundar og varð það til þess að þreifingum hans um að María giftist Karli krónprinsi, sem raunar var aðeins sjö ára, var illa tekið í Búrgund. Friðrik keisari var því fljótur til og bað Maríu til handa átján ára syni sínum, Maxímilían, og naut til þess stuðnings Margrétar stjúpmóður hennar. Nútría. Nútría er stórt nagdýr, skylt bjór, eini meðlimur ættarinnar "Myocastoridae", og lifir að töluverðu leyti í vatni. Nútríur eru upprunar í hitabeltislöndum Suður-Ameríku en hafa síðan verið fluttar til flestra heimsálfa, einkum til loðdýraræktar, og var ræktun þeirra um eitt skeið reynd á Íslandi. Nútríur eru með stærri nagdýum. Fullorðin dýr eru 5-9 kíló að þyngd og allt að 60 cm löng, auk þess sem halinn er 30-45 cm. Þeim er stundum ruglað saman við bísamrottur en þær eru þó minni og halinn flatari. Feldurinn er dökkbrúnn, ytri hárin gróf en þau innri mjúk. Spenar kvendýra eru hátt á síðunum en ekki neðan á kviðnum og geta ungarnir því sogið þótt móðirin sé í vatni. Framtennur nútríunnar eru áberandi rauðar. Þótt feldur þeirra sé verðmætur eru þær taldar plága þar sem þær lifa villtar. Þær lifa einkum á grasi og jurtum sem vaxa í vatni og við vatnsbakka en þykja nýta mat sinn illa því þær naga aðeins stönglana neðst og geta því valdið gróðureyðingu, auk þess sem þær grafa sundur ár- og vatnsbakka. Nytjar. Á seinni hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar var töluvert reynt að rækta nútríur á loðdýrabúum og voru þær þá fluttar til margra landa. Ræktunin þótti þó ekki sérlega ábatasöm og þegar eftirspurn eftir loðfeldum minnkaði lögðu mörg bú upp laupana og var nútríunum þá jafnvel sleppt lausum. Þær hafa því víða orðið plága, lagt árbakka í auðn og valdið röskun á lífkerfinu. Víða í Bandaríkjunum hefur því verið lagt fé til höfuðs þeim. Í Austur-Anglíu í Bretlandi var þeim útrýmt með átaki árið 1989. Kjöt nútríunnar er vel ætt, fitulítið og kólesterólsnautt, og hefur því oft verið reynt að markaðssetja það til manneldis en það hefur ekki tekist á Vesturlöndum að minnsta kosti. Rauðar framtennur nútríunnar hafa verið notaðar í skartgripi. Nútríur á Íslandi. Nútríurækt var reynd á Íslandi á 4. áratug 20. aldar. Í maí 1932 voru flutt til landsins sex dýr frá Þýskalandi og fóru fimm þeirra að tveimur bæjum í Grímsnesi en eitt varð eftir í Reykjavík. Nokkru síðar voru einnig flutt inn dýr frá Noregi. Ræktunartilraunir héldu áfram á Miðengi í Grímsnesi í nokkur ár en aldrei tókst þó að koma loðdýrabúi á rekspöl. Eitthvað var um að dýr slyppu en þau lifðu ekki af í íslenskri náttúru, enda þola dýrin kalda vetur illa og þar sem stofnar hafa komist upp á Norðurlöndum hrynja þeir oft niður á hörðum vetrum. Mun nútríuræktinni hérlendis hafa lokið um eða fyrir 1940. Árið 1985 lagði Búnaðarsamband Austfirðinga fram hugmyndir um að flytja inn nútríur og hefja loðdýrarækt hérlendis en ekkert varð þó úr framkvæmd þeirra. Rena Sofer. Rena Sofer (fædd Rena Sherel Sofer, 2. desember 1968) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í NCIS, General Hospital, 24 og Melrose Place. Einkalíf. Sofer fæddist í Arcadia, Kaliforníu en fluttist síðan til Pittsburgh, Pennsylvaníu þegar foreldrar hennar skildu. Sofer hefur verið gift tvisvar sinnum og á tvö börn með seinni eiginmanni sínum framleiðandanum Sanford Bookstaver. Ferill. Fyrsta hlutverk Sofer var í sjónvarsseríunni Another World árið 1987. Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Seinfeld, Ellen, Spin City, Monk, Bones og Criminal Minds. Sofer var boðið gestahlutverk í læknadramanu General Hospital þar sem hún lék Lois Cerullo í sjö þátta söguþráði. Síðan bauðst henni hlutverk Eve Cleary í Melrose Place sem hún lék frá 1998-1999. Sofer hefur einnig leikið stór gestahlutverk í Ed, Oh, Grow Up, Just Shoot Me, 24 og NCIS. Sofer hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: A Stranger Among Us, Traffic og Sarah. Tenglar. Sofer, Rena PL/SQL. PL/SQL er forritunarmál sem er fylgir Oracle gagnagrunnum. PL/SQL er það forritunarmál sem er notað í gagngrunns triggerum, og stefjum sem vistaðar eru í gagnagrunninum. Reyndar er líka hægt að vista Java forrit í grunninum í sama tilgangi, en PL/SQL er það sem er oftast notað. Einnig er hægt að keyra PL/SQL forrit án þess að vista þau sem stefjur eða föll í grunninum. Slík forrit eru kölluð ónefndar (e.Anonymous) blokkir til aðgreiningar frá einingum sem eru vistuð undir nafni í grunninum sem fall, stefja, pakki eða trigger. Hér er skilgreind breyta af gerðinni date, og síðan byrjar blokk sem sækir daginn í dag (sysdate), sleppir tíma partinum (trunc) og setur niðurstöðuna í breytuna sem var skilgreind. dags_skraningar date not null create or replace trigger skraning_bfins before insert on skraning for each row if:new.dags_skraningar > sysdate raise_application_error(20001,'Skráningardagur má ekki vera fram í tímann!'); elsif sysdate -:new.dags_skraningar > 30 raise_application_error(20001,'Skráningardagur má ekki vera eldri en 30 daga'); Þessi trigger setur takmarkanir á uppfærslur og innlestur á töfluna sjálfa þannig að það komast ekki inn færslur nema þær sem eru leyfilegar. Ferill. Ferill er í stærðfræði haft um rúmfræðilegt fyribæri sem samsvarar beinni línu en þarf þó ekki að vera "bein". Ferill getur verið "opinn" og hefur þá upphafs- og endapunkt eða "lokaður" og hefur þá hvorugt. Reikna má ferillengd, sem alltaf er stærri en núll, en getur þó verið óendanleg. Sýna má feril falls, eða ofanvarpið á tvívíða sléttu, eða í tvinnsléttunni, með línuriti (grafi). Keilusnið eru dæmi um algenga ferla. Eðlisfræðin fjallar mikið um hluti, sem hreyfast í ýmsum sviðum og lýsa ferlar staðsetningu hlutarins í sviðinu á sérhverjum tímapunkti. Ferilheildi eru heildi reiknuð eftir ákveðnum ferli, sem getur verið opinn eða lokaður. Logo (forritunarmál). Forrit sem teiknar einfaldan stól. Logo er forritunarmál fyrir fallaforritun sem byggist á Lisp. Það var hannað af Wally Feurzeig og Seymour Papert árið 1967 til nota við kennslu í anda hugsmíðahyggju. Í dag er forritunarmálið aðallega þekkt fyrir tátuteiknun þar sem bendill teiknar form á striga samkvæmt skipunum. Það er notað til að kenna forritun og rúmfræði. Til er fjöldinn allur af útfærslum og mállýskum Logo. Ekki nota þó öll tátuteiknunarforrit Logo og mörg þeirra útfæra aðeins lítinn hluta málsins. Ekkert staðlað Logo er til en útgáfan UCBLogo er almennt talin með þeim betri sem nú eru í notkun. Alan Dale. Alan Dale (fæddur Alan Hugh Dale, 6. maí 1947) er nýsjálenskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Nágrönnum, The O.C., Ugly Betty og Lost. Fjölskylda. Dale fæddist í Dunedin, á Nýja-Sjálandi. Dale fann ástríðu í leiklist og lék í skólaleikriti þegar hann var þrettán ára þar sem hann lék grínistann Shelley Berman. Foreldrar hans ráku áhugamannaleikhús í Auckland sem kallaðist The Little Dolphin Theatre. Dale sá oft um sviðstækin baksviðs. Árið 1968 þá giftist Dale kærustu sinni Claire og saman áttu þau tvö börn en þau skildu árið 1979. Árið 1990 giftist Dale fyrrum ungfrú Ástralíu, Tracey Pearson, og saman eiga þau tvö börn.. Fyrri störf. Lítið var um leiklistarstörf á Nýja-Sjálandi, þannig að Dale vann hin ýmsu störf þar á meðal sem karlfyrirsæta, bílasölumaður og fasteignasali. Þegar Dale var að vinna sem mjólkurmaður þá heyrði hann í útvarpinu að þulurinn sagði upp og fór hann því á útvarpsstöðina og sagðist geta gert vinnuna betur. Fékk hann tímabundna reynslu og var síðan boðið starf sem stjórnandi síðdegisþáttarins sem leiddi til þess að hann fékk fyrsta hlutverk sitt í sjónvarpi. Dale ákvað að gerast atvinnuleikari þegar hann var aðeins 27 ára gamall. Nýja-Sjáland. Fyrsta hlutverk Dales sem leikari var sem indíáni í leikritinu "The Royal Hunt of the Sun" í Grafton Theatre í Aucklandi en fyrsta hlutverk hann á skjánum var í nýjsjálenska dramaþættinum "Radio Waves".. Ástralía. Á seinni hluta áttunda áratugarins fluttist Dale til Ástralíu þar sem lítið var um leikaravinnu á Nýja-Sjálandi. Sótti hann um nám við National Institut of Dramatic Art í Sydney en komst ekki inn þar sem hann var miklu eldri en aðrir í hópnum.. Fljótlega þá fékk Dale hlutverk sem Dr. John Forrest í áströlsku sápuóperunni The Young Doctors sem hann lék frá 1979-1983. Árið 1985 var Dale boðið hlutverk í annarri þekktri sápuóperu sem kallaðist Nágrannar þar sem hann lék Jim Robinson. Það hlutverk setti Dale á kortið og varð mjög þekktur víðsvegar. Var hann hluti af Nágrönnum í átta ár þangað til persóna hans var látin deyja. Eftir Nágranna átti Dale mjög erfitt að fá hlutverk í Ástralíu því honum var alltaf líkt við persónu hans í Nágrönnum. Aðalvinna hans voru talsetningar og útgáfa tímarita um Nágranna. Bandaríkin. Árið 1999 var Dale boðið hlutverk í bandarískri sjónvarpsmynd sem var tekin upp í Ástralíu. Eftir að hafa uppgvötað að hann gæti leikið vel með bandarískum hreim, þá fluttist Dale með fjölskylduna sína til Bandaríkjanna árið 2000. Fyrsta hlutverk Dales í Bandaríkjunum var sjónvarpsserían Sign of Life sem fjallaði um rokkhljómsveit sem ekkert varð úr á endanum. Dale fékk aðeins nokkrar prufur á fyrsta árinu sínu en fékk síðan hlutverk sem hinn suður-afríski Al Patterson í fjögurra þátta söguþráði í ER. Síðan þá hefur Dale fengið hvert hlutverkið á eftir öðru í sjónvarpsþáttum á borð við: JAG, The West Wing, Torchwood, NCIS, The X-Files, 24 og The Practice. Árið 2003 var Dale boðið hlutverk í unglingadramanu The O.C. þar sem hann lék Caleb Nichol til ársins 2010. Árið 2006 fékk hann hlutverk í Ugly Betty sem Bradford Meade eftir að annar leikari hafði verið rekinn. Var persóna Dales drepin í byrjun annarrar þáttaraðar.. Dale var síðan boðið stórt gestahlutverk í vísindaseríunni Lost þar sem hann lék Charles Widmore og var hluti af seríunni frá 2006-2010. Dale fannst hlutverkið mjög spennandi en honum fannst erfitt að vita hvar persóna hans stæði í söguþræðinum. Leikhús. Árið 2008 kom Dale í staðinn fyrir Peter Davison í aðalhlutverkinu sem King Arthur við London West End framleiðsluna af Monty Python-leikritinu Spamelot við Palace-leikhúsið. Dale þáði boðið því hann var mikill aðdáendi Monty Pythons hópsins og taldi að „lífið væri of stutt“ fyrir hann að afþakka hlutverk hjá West End-leikhúsi. Þó að Dale hafði séð allar sýningar og kvikmyndir hópsins þá hafði hann ekki séð Monty Python and the Holy Grail sem Spamelot er gert eftir og keypti Dale því eintak til þess að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Kvikmyndaferill. Dale byrjaði kvikmyndaferil sinn árið 1982 í The Applicant sem var áströlsk kvikmynd. Næsta mynd sem hann lék í var árið 2002 þegar Dale fékk hlutverk í sem Praetor Hiren eftir að upprunalega leikari varð veikur Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við: Hollywood Homicide, After the Sunset, Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull, Happy New Year og Priest. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. Dale, Alan Aatami Kuortti. Aatami Kuortti (f. 15. desember 1903, Korkankylä, d. 15. apríl 1997, Helsinki) var finnskumælandi prestur á Ingermanlandi, sem flýði til Finnlands 1930. Kuortti þjónaði frá 1927 evangelísk-lúterskum söfnuðum innan Ráðstjórnarríkjanna, þ.á m. í Lempaala, og lenti í árekstrum við leyniþjónustu ráðstjórnarinnar, sem þá nefndist GPÚ (síðar NKVD og enn síðar KGB). Þegar hann neitaði að njósna fyrir GPÚ var hann hnepptur í fangelsi og dæmdur til dauða í ársbyrjun 1930 en dauðadómnum var breytt í tíu ára þrælkunarvist. Kuortti var vistaður í þrælabúðum við Hvítahaf. Hann byrjaði þegar að skipuleggja flótta sinn og tókst honum að flýja sumarið 1930. Gekk hann í tólf daga í átt að finnsku landamærunum og komst yfir þau til Finnlands. Kuortti skrifaði bók um reynslu sína, sem kom út í íslenskri þýðingu haustið 1938 undir heitinu "Þjónusta. Þrælkun. Flótti". Eftir flóttann settist hann að í Finnlandi og var þar prestur. Hann var eftir fall kommúnismans viðstaddur endurvígslu kirknanna í Ingermanlandi, þar sem hann hafði þjónað. Verk. Kuortti, Aatami Þóra Pétursdóttir. Þóra Pétursdóttir (f. 3. október 1847, d. 22. mars 1917) var dóttir Péturs Péturssonar biskups Íslands 1866-1899 og eins auðugasta manns landsins. Hún giftist Þorvaldi Thoroddsen, náttúrufræðingi árið 1887 og þau eignuðust eina dóttur ári seinna sem dó aðeins fjórtán ára gömul. Þóra Pétursdóttir var ein af fyrstu íslensku konunum sem fengust við myndlist. Þóra var einnig mikil áhugamanneskja um íslenskar hannyrðir og vann að bók um þær. Hún fékk greinar birtar víða, meðal annars í Kvennablaðinu sem ritstýrt var af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Ævisaga Þóru, "Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar" eftir Sigrúnu Pálsdóttur, sagnfræðing, kom út 2010. Bókin er meðal annars byggð á dagbókum og bréfa- og skjalasöfnum Þóru. Bókin fékk mjög góða dóma og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Kolbrún Jónsdóttir. Kolbrún Jónsdóttir (12. september 1923 – 22. júlí 1971) var íslenskur myndhöggvari. Hún fæddist á Hólum í Hornafirði, á ættaróðali feðra sinna og flutti tæplega ársgömul til Kaupmannahafnar með foreldrum sínum. Þar voru þau búsett til 1929 er þau fluttu til Reykjavíkur. Hún var dóttir Jóns Þorleifssonar listmálara (1891-1961) og Rakelar Ólafar Pétursdóttur, ljósmóður og línræktarkonu í Blátúni (1897-1954). Kolbrún var kjörin fegurðardrottning Reykjavíkur 1950. Hún nam höggmyndalist við Mills College, Oakland Kaliforníu á árunum 1943 - 1948. Hún hlaut fyrstu verðlaun í myndhöggvaralist er skólinn veitti árið 1945. Kolbrún sýndi teikningar í Listamannaskálanum ásamt Jóni Þorleifssyni árið 11. - 23. nóvember 1948. Heiman eg fór. Heiman eg fór (undirtitill: "sjálfsmynd æskumanns") er endurminningabók eða skáldævisaga eftir Halldór Laxness og kom út árið 1952. Bókin var að mestum hluta skrifuð árið 1924 og byggð að hluta á á köflum úr Rauða kverinu. Rauða kverið var aldrei gefið út, en það skrifaði Laxness að mestu í Þýskalandi á árunum 1921-1922. Kraftlyftingafélag Akraness. Kraftlyftingafélag Akraness (KRAK) er aðildarfélag að Íþróttabandalagi Akraness og Kraftlyftingasambandi Íslands. Félagið var stofnað 24. nóvember 2009. Saga. Eftir að samþykkt var að Kraftlyftingasamband Íslands (KRAFT) mundi sækja um aðild að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) í desember árið 2008 hófst stofnun kraftlyftingafélaga á Íslandi. Fljótlega barst til tals að stofna félag á Akranesi innan vébanda Íþróttabandalags Akraness (ÍA) en lítið gerðist í þeim málum. Fyrir íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu 2009, sem haldið var á Selfossi 22. nóvember það ár, hugðist Kári Rafn Karlsson skrá sig í Kraftlyftingadeild Breiðabliks til að geta keppt á því móti. Guðjón Hafliðason, þáverandi formaður Kraftlyftingadeildar Breiðabliks og varaformaður í stjórn KRAFT, reið þá á vaðið og hafði samband við vel valda aðila upp á Skaga um stofnun félags og hjólin fóru loks að snúast. Kári varð fyrstur til að keppa undir merkjum Kraftlyftingafélags Akraness, þó að félagið væri ekki formlega stofnað en stofnfundurinn sjálfur var haldinn tveimur dögum síðar (24. nóvember 2009). Handknattleiksárið 1972-73. Handknattleiksárið 1972-73 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1972 og lauk vorið 1973. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt á Ólympíuleikunum í München og tryggði sér sæti á HM í Austur-Þýskalandi. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. KR féll niður um deild. Markakóngur var Einar Magnússon, Víkingi, með 100 mörk. 2. deild. Þór Ak. sigraði í 2. deild og færðist upp um deild. Leikið var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Stjarnan endaði í neðsta sæti og féll niður í 3. deild. 3. deild. Keppt var í 3. deild í fyrsta sinn. Fjögur lið tóku þátt í keppninni og sigraði lið Völsungs á fullu húsi stiga og færðist upp í 2. deild. Evrópukeppni. Fram keppti í Evrópukeppni meistaraliða. Framarar hófu keppni í 1. umferð en töpuðu fyrir danska liðinu IF Stadion. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna eftir úrslitaleik gegn Fram. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. Breiðablik féll í 2. deild. Erla Sverrisdóttir, Ármanni, varð markadrottning með 55 mörk. 2. deild. Þór Ak. sigraði í 2. deild eftr úrslitaleiki við FH og færðist upp í 1. deild. Að keppnistímabili loknu var ákveðið að fjölga upp í sjö lið í 1. deild kvenna og mættust þar næstefsta lið 2. deildar, FH og botnlið 1. deildar. "Aukaleikir vegna fjölgunar í 1. deild" Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Bruninn mikli í Reykjavík 1915. Loftmynd af Reykjavík frá 1919, fjórum árum eftir brunann. Bruninn mikli í Reykjavík 1915 var stórbruni sem varð í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt 25. apríl 1915. Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti, Pósthússtræti og Hafnarstræti brunnu. Tveir menn fórust. Árið 1915 bjuggu um 15 þúsund manns í Reykjavík. Stórstígar framfarir höfðu orðið í Reykjavík á Heimastjórnartímabilinu, vélvæðing fiskiskipaflotans hófst. Eftir aldmótin 1900 stækkaði Reykjavíkurbær hratt. Vatnsveitu Reykjavíkur var komið á laggirnar 1909, Gasstöð Reykjavíkur var tilbúin 1910 og smíði Reykjavíkurhafnar stóð yfir. Íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingis árið 1915. Í Evrópu geysaði fyrri heimsstyrjöldin. Atburðarrás. Laugardaginn 24. apríl 1915 var haldin brúðkaupsveisla Jósefínu Zoéga og Hr. Hobbs fiskkaupmanns á Hótel Reykjavík, sem var timburhús, tvær hæðir og ris. Eigandi hótelsins var Margrét Zoéga, systir Helga, föður Jósefínu. Slökkvistöðin var þá við Tjörnina þar sem Tjarnarbíó er í dag. Samkvæmt frásögn Helga fóru flestir gestir úr veislunni um klukkan tvö um nóttina og brúðhjónin um hálf þrjú. Þá voru enn eftir í húsinu Margrét, Helgi, tvö barnabörn Margrétar, Guðjón Jónsson, dyravörður, „Englendingur nokkur er þar bjó og nokkrar þjónustustúlkur.“ Þá vildi svo til að Eggert Briem bóndi í Viðey sem bjó í Ingólfshvoli á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis fylgdi kvöldgestum sínum Guðjóni Sigurðssyni úrsmið, Ólafi Björnssyni ritstjóra og Hannesi Hafstein út og sá hvar kviknað var í á annarri hæð Hótel Reykjavíkur. „Hljóp Eggert þegar af stað sem fætur toguðu og kallaði um leið: „Eldur! Eldur!".“ Hann hljóp meðal annars annars fram hjá Þórði Geirssyni næturverði. Eggert hljóp inn í hótelið og kallaði yfir mannskapinn sem enn var þar að það væri kviknað í. Honum var ekki almennilega trúað og fylgdu flestir í humátt á eftir honum upp að athuga herbergin. Fyrst var herbergi Margrétar, nr. 29 opnað og var þar allt með felldu. Því næst reyndu þau að opna herbergi 28. en það var læst. Guðjón dyravörður kom þá með lykil og þegar hurðin var opnuð sáu þau strax að herbergið var alelda og magnaðist eldurinn mjög við að hurðin var opnuð. Þá ætlaði Margrét að sækja muni inn í herbergi sitt en Guðjón varnaði henni það og hlupu þau öll út. Þá kváðu við sprengingar og barst eldurinn hratt út. Vinnustúlkur komust út úr kjallaranum í gegnum glugga. Guðjón dyravörður þurfti að brjótast inn í kjallarann til þess að skrúfa fyrir gas. Eggert hljóp svo að Alþingishúsinu og braut þar brunaboða. Þórður hafði þá þegar gert aðvart og höfðu því tvö boð borist til slökkvistöðvarinnar. Í slökkvistöðinni voru Gísli Halldórsson varðmaður ásamt öðrum manni. Þegar Eggert kom að slökkvistöðinni voru þeir að leggja af stað með slönguvagn. Þá fór Gísli að vekja Guðmund Olsen kaupmann og slökkviliðsstjóra og Pétur Ingimundarson varaslökkviliðsstjóra. Eggert og Kolbeinn Þorsteinsson, trésmíðameistari, sem var í slökkviliðinu, tóku við slönguvagninum. Þá var klukkan rétt rúmlega þrjú, Guðmundur segir að hringt hafi verið til sín klukkan 3:15 og hann hafi verið mættur 8 mínútum síðar. Jet Black Joe (breiðskífa). Árið 1992 kom út frumburður hljómsveitarinnar Jet Black joe.Strax það árið 1992 náði samnefnt hljómplata(CD)Jet Black Joe að seljast í gull eða ca 10.000 eintök í það heila. Lagið Rain af þessara fyrstu plötu Jet Black Joe fór strax á topp tíunda sæti flestra útvarpsstöðva á íslandi. Einnig fékk lagið Rain af þessari fyrstu plötu Jet Black Joe að sitja á top 10 lista í nokkrar vikur á heildar úttekt útvarpstöðva á Manilla Fillipseyjum árið 1994. Jet Black Joe fékk einnig strax góðar móttökur víða um Evrópu og var þessi hljómplata þeirra til í flestum stærri hljómplötuverslunum norður Evrópu. Hljómsveitin spilaði líka víða um Evrópu, bæði á smærri stöðum og stærri hljómlistarhátíðum eins og Mydfin festival í Danmörku og hituðu upp fyrir hljómsveitir eins og Motorhead í Belgíu, Lenny Kravitz, Robert Plant, Jet Black Joe tókst líka að fylla út að dyrum frægan tónleikastað eins og Melkweg (Amsterdam). Einnig náði jet Black Joe að ná athygli fjölmiðla sérstaklega í Benelux löndunum og Þýskalandi og Skandinaviu.Hljómsveitin kom fram á erlendum sjónvarpsstöðum og útvarpstöðum erlendis bæði í viðtöl og spiluðu Live bæði í Sjónvarpi og á útvarpi og heyrðist tónlist Jet Black Joe víða samhliða útgáfu frumburði hljómsveitarinnar. Útgafu fyrirtæki Jet Black Joe erlendis voru ZYX music(Germany)CNR(Holland-Belgium) og Indisc Scandinavia. Dig Dug. Dig Dug (japanska: ディグダグ) er tölvuleikur sem japanska leikjafyrirtækið Namco gaf fyrst út fyrir spilakassa árið 1982. Í leiknum grefur leikmaðurinn göng um skjáinn og reynir að drepa skrímsli með því að dæla í þau lofti þar til þau springa eða með því að láta steina falla á þau. Skrímslin eru af tvennu tagi: rauðir tómatar með skíðagleraugu sem geta svifið gegnum jarðveginn milli ganga, og grænir drekar sem spúa eldi. Tíkallakassi. Tíkallakassi (finnska: pajatso eða jasso, úr þýsku "bajazzo"; þangað úr ítölsku "pagliaccio", „trúður“) eru spilakassar fyrir fjárhættuspil sem urðu til í Finnlandi á 3. áratug 20. aldar. Þeir þróuðust út frá þýskum spilakössum sem gengu út á að hitta kúlu ofan í hatt trúðsfígúru og losa þannig peninga niður í skúffuna neðst. Vélunum svipaði til bandarískra allwin-véla og japanskra pachinko-bretta. Í finnsku útgáfunni eru átta til tíu samsíða lóðréttar rennur sem geyma peninga bak við gler. Peningur af sömu tegund (íslenskur tíu króna peningur var notaður á Íslandi sem dæmi) er settur í rauf á hlið kassans og síðan er honum skotið til hliðar með því að slá með fingri á málmhring sem stendur út úr hliðinni og reynt að hitta ofan í einhverja rennuna og losa þannig peninga ofan í skúffuna neðst. Miserfitt er að hitta ofaní rennurnar. Efst eru grannir listar sem beina peningnum í einhverja átt og gera það að verkum að líklegra er að hitta milli rennanna (og tapa þannig peningnum) en ofan í þær. Með sérstakri lagni er samt hægt að „sigra vélina“. Tíkallakassar voru framleiddir af finnska ríkisfyrirtækinu Raha-automaattiyhdistys sem hafði einkaleyfi á þeim frá 1938. Fyrstu útgáfur tíkallakassa voru vélrænar en rafrænar útgáfur komu á markað árið 1982. Tíkallakassar voru reknir af Rauða krossinum á Norðurlöndunum í fjáröflunarskyni frá því á 4. áratugnum. Á Íslandi fékk Rauði krossinn leyfi fyrir þessum spilum árið 1972 sem var upphafið að spilakassarekstri samtakanna. CN-turninn. CN-turninn (enska: "CN Tower") er sjónvarps- og samskiptamastur í miðborg Torontó í Ontaríó, Kanada. Turninn sem var eitt sinn hæsti turn veraldar er 553,33 metrar að hæð. Byggingu hans var lokið árið 1976. Umboðsmaður. Umboðsmaður er milligöngumaður sem hefur verið falið það hlutverk að gæta hagsmuna almennra borgara gagnvart stjórnvöldum eða öðrum hópum. Yfirleitt er umboðsmaður opinber starfsmaður ráðinn til starfa ríkisstjórnar eða þings sem tekur á móti kvörtunum sem almenningur hefur lagt fram. Umboðsmaður má reyna að finna lausn á kvörtun sem gerir báðum hópum til geðs. Á Íslandi er ráðinn til starfs umboðsmaður Alþingis sem gætir þess að réttindi borgaranna gagnvart stjórnsýslunni séu virt og að jafnræðisreglan sé höfð í heiðri. Í öðrum löndum starfa umboðsmenn í svipuðum hlutverkum hjá ríkisstjórnum. Á mörgum tungumálum er orðið "ombudsman" notað sem á rætur að rekja til dönsku, norsku og sænsku, sem á sjálft rætur að rekja til fornnorræna orðsins "umboðsmaðr". Á íslensku getur orðið á líka við einfaldlega „aðila“ eða „stjóra“. Heimska. Heimska er skortur á þekkingu, vitsmunum, skilningsgáfu, rökviti eða ályktunarhæfileikum. Íslenska orðið "heimska" er skylt orðinu "heima" og felur í sér að vera ósigldur, hafa ekki farið að heiman, samanber orðatiltækið: Heimskur er heimaalinn hundur. Í mörgum indóevrópskum tungumálum er sambærilegt orð dregið af latnesku sögninni "stupere" sem höfð er um sljóleika eða deyfð. Ekki ríkir einhugur um hvort heimska sé þrálátt ástand eða hvort megi laga hana með menntun. Desiderius Erasmus skrifaði bókina "Lof heimskunnar" á sextándu öld en í verkinu fær heimskan mál og tiltekur ýmislegt sér til ágætis. Hópur. Hópur er fjöldi hluta eða fólks sem á eitthvað sameiginlegt. Handknattleiksárið 1971-72. Handknattleiksárið 1971-72 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1971 og lauk vorið 1972. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum í München eftir forkeppni á Spáni. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í sjö liða deild með tvöfaldri umferð. Haukar höfnuðu í neðsta sæti og áttu að færast niður um deild. Haustið 1972 var ákveðið að fjölga í 1. deild og var þá efnt til aukakeppni milli Hauka og næstefsta liðs 2. deildar. 2. deild. Ármenningar sigruðu í 2. deild eftir úrslitaleik gegn Gróttu og tryggðu sér þar með sæti í 1. deild. Keppt var í tveimur riðlum með tvöfaldri umferð. "Úrslitaleikir um sigur í 2. deild" "Aukaleikir vegna fjölgunar í 2. deild" 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. KR sigraði í 2. deild og færðist upp í 1. deild. Keppt var í fimm liða deild og leikin tvöföld umferð. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Teitur Bersason. Teitur Bersason (d. 1214) var íslenskur prestur og biskupsefni á 13. öld. Hann var kjörinn arftaki Páls Jónssonar Skálholtsbiskups, sem lést síðla árs 1211, og sigldi til Noregs 1213 til að taka vígslu en dó ytra áður en hann var vígður og er því ekki talinn með biskupum í Skálholti. Teitur var sonur Bersa Halldórssonar Mýramannagoða og konu hans Halldóru, dóttur Gissurar Hallssonar og hálfsystur Þorvaldar Gissurarsonar, Halls Gissurarsonar, Þuríðar Gissurardóttur og Magnúsar Gissurarsonar, sem var svo kjörinn biskup þegar lát systursonar hans fréttist til Íslands. Herstöð. Herstöð er stöð rekin af her og er í eigu hans. Herstöð er notuð til geymslu herbúnaðar, sem bústaður fyrir hermenn og fyrir þjálfun þeirra. Aðgerðir eru líka skipulagðar á herstöð og þar má meðal annars finna stjórnstöð, heræfingasvæði og tilraunasvæði. Í flestum tilfellum reiðir rekstur herstöðvar sig á hjálp utan frá en á sumum herstöðvum eru vistir áætlaðir að endast í nokkra mánuða á meðan stöðin er undir umsátri. Oftast eru herstöðvar utan almennrar lögsögu einkamálaréttur gildir ekki. Robert Audi. Robert Audi (fæddur í nóvember 1941) er bandarískur heimspekingur, sem fæst einkum við þekkingarfræði og siðfræði, einkum innsæishyggju í siðfræði og athafnafræði. Hann er O'Brien-prófessir í heimspeki við Notre Dame-háskóla en var áður deildarforseti í viðskiptaskóla háskólans. Í bók sinni frá 2005, "The Good in the Right", ver hann nýja útgáfu af innsæishyggju W. D. Ross og leggur grunn að þekkingarfræði siðfræðinnar. Hann hefur einnig skrifað um stjórnspeki, einkum um tengsl ríkis og trúfélaga. Starfsferill. Audi lauk B.A.-gráðu frá Colgate-háskóla í New York-ríki og M.A.- og Ph.D. gráður frá Michigan-háskóla. Hann kenndi um skeið við Texas-háskóla í Austin og árum saman sem Charles J. Mach-háskólaprófessor í heimspeki við Nebraska-háskóla í Lincoln áður en hann flutti sig yfir til Notre Dame-háskóla. Hann var ritstjóri fyrstu og annarrar útgáfu "The Cambridge Dictionary of Philosophy" (1995, 1999). Hann var einnig ritstjóri ritraðanna Modern Readings in Epistemology og Modern readings in Metaphysics. Þekkingarfræði. Audi er málsvari kenningar sem hann nefnir brigðgenga bjarghyggju (e. fallibilistic foundationalism). Hann telur að bjarghyggja sé eina raunhæfa andsvarið gegn þekkingarfræðilegum vítarunurökum. Samkvæmt vítarunurökunum eru fjórar leiðir opnar ef sérhver skoðun þarf að vera réttlætt: vítaruna, vítahringur, grundvöllur fundinn í skoðun sem telst ekki þekking eða grundvöllur fundinn í skoðun sem er sjálfréttlætt. Audi telur að bjarghyggja sé venjulega álitin óbrigðul. Það er að segja, hún felur venjulega í sér að þekking byggist á grundvallarskoðunum sem eru frumsendur og nauðsynlega sannar og að öll önnur þekking sé leidd af þeim. En Audi telur að bjarghyggja geti verið brigðul í þeim skilningi að skoðanirnar sem rísa á grunninum séu fengnar með tilleiðslu út frá grunnskoðununum og geti því reynst rangar. Hann heldur einnig að grundvallarskoðanir þurfi ekki að vera nauðsynleg sannindi. Fagurskinna. Fagurskinna eða Noregs konunga tal er konungasaga sem fjallar um Noregskonunga frá Hálfdani svarta (um 850) fram til 1177, þegar Sverrir Sigurðarson kom til sögunnar. Sagan er talin skrifuð á árabilinu 1220–1230. "Fagurskinna" var varðveitt í tveimur skinnhandritum í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, sem brunnu 1728. Textinn er þó varðveittur því að þrjú eftirrit höfðu verið gerð eftir hvoru handriti. Skinnhandritin voru að vísu bæði óheil, og þó að þau séu lögð saman eru tvær eyður í sögunni. Hún er því ekki varðveitt í heild. Þormóður Torfason sagnaritari konungs, fékk handritin lánuð til Noregs um 1680 og notaði þau við ritun Noregs-sögu sinnar. Honum þótti annað handritið (A-handritið) svo fallegt eða í svo fögru bandi, að hann gaf því nafnið "Fagurskinna". Það nafn hefur svo færst yfir á sögutextann sem í því var. Þetta handrit mun hafa verið frá því um 1325–1350. Hitt handritið (B-handritið) var frá því um 1250, og svo vel vill til að í Ríkisskjalasafni Noregs fannst um 1845 blaðhluti úr því, sem gefur góða hugmynd um aldur og útlit bókarinnar. Bjarni Aðalbjarnarson (1937, 235) telur ekki fullvíst að Snorri Sturluson hafi notað "Fagurskinnu" þegar hann samdi "Heimskringlu", en vísbendingar eru um það. Bæði ritin fjalla um svipað tímabil í sögu Noregs, frá því um 850 til 1177. Þau eru mun ítarlegri en "Ágrip af Noregskonunga sögum", sem er eldra rit. Fagurskinna vitnar mikið til dróttkvæða og notar þau sem heimild. Sumar vísurnar eru ekki varðveittar annars staðar og væru því glataðar ef sagan væri ekki til, svo sem vísur úr "Haraldskvæði" og "Eiríksmálum". Fagurskinna fer frekar hratt yfir sögu, en leggur áherslu á mikilvægar orrustur, svo sem orrustuna í Hjörungavogi, þar sem Hákon jarl kom í veg fyrir að danskur innrásarfloti næði að leggja undir sig Noreg, og Svoldrarorrustu, þar sem Ólafur Tryggvason féll í sjóorrustu við Svein tjúguskegg Danakonung, sem naut stuðnings Eiríks Hákonarsonar jarls og Ólafs sænska Svíakonungs. Fræðimenn telja að "Fagurskinna" hafi verið skrifuð í Noregi, líklega í Niðarósi, en óvíst er hvort Íslendingur eða Norðmaður var að verki. Bókin gæti hafa verið tekin saman fyrir Hákon Hákonarson, því að hún er mjög konungholl og sleppir flestu því sem varpað gæti skugga á konungana. Þegar Hákon lá fyrir dauðanum í Orkneyjum haustið 1263 lét hann lesa fyrir sig latínubækur, en entist ekki til að hlutsta á þær. Þá voru lesnar fyrir hann heilagra manna sögur á norrænu, síðan "Noregs konunga tal" ("Fagurskinna"), og loks "Sverris saga", og lést hann um það bil sem sögunni var lokið. Arnór Helgason. Arnór Helgason (d. 1249) eða Arnór Digur-Helgason var fyrsti ábóti Viðeyjarklausturs. Hann tók við þegar Styrmir Kárason hinn fróði lést en hann hafði verið príor klaustursins eins og forverar hans, Þorvaldur Gissurarson og líklega Leggur Torfason, sem kallaður er príor í heimildum. Styrmir dó 20. febrúar 1245 en Arnór vaqr vígður 1247. Arnór var sonur Digur-Helga Þorsteinssonar, staðarhaldara Kirkjubæjarklausturs, og bróðir Ögmundar Helgasonar staðarhaldara í Kirkjubæ. Hálfsystir hans var Helga Digur-Helgadóttir, móðir þeirra Þorvarðar og Odds Þórarinssona. Þegar Arnór tók við sem ábóti fékk hann fullt forræði yfir klaustrinu og eignum þess en áður hafði Skálholtsbiskup haft yfirráðin þótt príorarnir sæju um daglega stjórn. Arnór var þó ekki lengi ábóti því hann lést árið 1249. Runólfur (ábóti í Viðeyjarklaustri). Runólfur (d. 1299) var prestur og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri, tók við forráðum þar 1250 eftir lát Arnórs Helgasonar, fyrsta ábóta klaustursins, en var ekki vígður fyrr en 1256. Hann átti lengstan embættisferil allra ábóta í Viðeyjarklaustri. Ekki er ljóst hvers son Runólfur var; hann hefur verið sagður Ólafsson, ef til vill sonur Ólafs Jónssonar á Hofi á Kjalarnesi, en jafnframt er hann sagður hafa verið bróðir Hafurbjarnar Styrkárssonar í Nesi á Seltjarnarnesi, auðugs höfðingja. Kann að vera að þeir hafi verið hálfbræður, sammæðra. Þeir Runólfur og Hafurbjörn voru í liði Þorleifs Þórðarsonar í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og særðust þar báðir. Þeir voru einnig heimilismenn Þorleifs um tíma. Runólfur virðist hafa auðgað klaustrið og haldið vel á fjármálum þess. Hann er getið í ýmsum heimildum og meðal annars er vitað að hann var ásamt fleiri helstu fyrirmönnum landsins í brúðkaupsveislu á Möðruvöllum í Eyjafirði, þar sem Sigurður seltjörn Sighvatsson, stjúpsonur Hafurbjarnar bróður Runólfs, giftist Valgerði Hallsdóttur frá Möðruvöllum, systur Þórðar riddara þar. Runólfur stýrði klaustrinu til dauðadags og hefur ofðið háaldraður, sennilega fæddur um eða skömmu eftir 1210. Ábóti næstur á eftir honum var Andrés drengur en hann var þó ekki vígður fyrr en 1305. Andrés drengur. Andrés drengur var munkur í Þykkvabæjarklaustri og síðan ábóti í Viðeyjarklaustri frá 1305 til 1325 en þá var hann sviptur ábótadæmi fyrir einhverjar sakir. Ætt Andrésar er ekki þekkt en sumir hafa þó talið hann Ormsson og hefur þess verið getið til að hann hafi annaðhvort verið sonur Orms Klængssonar bónda í Tungu og Haukadal, Teitssonar Þorvaldssonar og því af ætt Gissurar jarls, eða Orms Þorlákssonar kanúka, bróður Staða-Árna. Allt er það þó óvíst. Andrés var kanúki í Þykkvabæjarklaustri en árið 1305 vígði Árni Helgason biskup hann ábóta í Viðeyjarklaustri í stað Runólfs ábóta, sem þá var látinn fyrir nokkrum árum. Lítið er vitað um ábótaferil Andrésar en þó er til máldagi klaustursins frá 1313 og kemur þar fram að klaustrið átti þá fjórtán jarðir. Andrés var settur af sem ábóti 1325 og Helgi Sigurðsson tók við. Ekki er vitað af hverju Andrés var látinn hætta. Ingibjörg Stefánsdóttir. Ingibjörg Stefánsdóttir (eða Inga; fædd 31. ágúst 1972) er íslensk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1993 með laginu „Þá veistu svarið“. Hún náðu 13. sæti af 25, með 42 stig. Knight and Day. "Knight and Day" er bandarísk gamanmynd með rómantísku ívafi frá árinu 2010 sem James Mangold leikstýrði. Tom Cruise og Cameron Diaz fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um unga konu sem lendir í slagtogi með leyniþjónustumanni sem hefur komist að þeim bitra sannleika að hann muni líklega ekki lifa af sitt síðasta verkefni. Þeirra markmið er þó það að reyna að halda lífi og þau uppgötva að það eina sem þau geta stólað á er hvort annað. Myndin kom út þann í 23. júní 2010 í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum og þann 8. júlí á Íslandi. Helgi Sigurðsson (ábóti). Helgi Sigurðsson (d. 21. desember 1343) var ábóti í Viðeyjarklaustri frá 1325 til dauðadags. Ætt hans er óþekkt. Hann hafði verið kanúki í Þykkvabæjarklaustri en þegar Andrés drengur, ábóti í Viðey, var settur af árið 1325 var Helgi gerður ábóti í hans stað og vígður sama ár. Árið 1342 dvaldi Þorlákur Loftsson ábóti í Þykkvabæjarklaustri í Viðey hjá Helga ábóta um tíma, eftir að hann hafði verið hrakinn á brott úr eigin klaustri. Eftir lát Helga ábóta breytti Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup klaustrinu úr Ágústínusarklaustri í Benediktínaklaustur og skipaði Sigmund Einarsson príor. Klausturhaldi var þó breytt aftur til fyrra horfs 1352. Susanna Thompson. Susanna Thompson (fædd, 27. janúar 1958) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Once and Again, NCIS og Kings. Einkalíf. Thompson fæddist í San Diego, Kaliforníu og útskrifaðist frá San Diego State háskólanum með gráðu í leiklist. Ferill. Thompson byrjaði feril sinn í sjónvarpsþættinum "Silk Stalkings" frá árinu 1991. Síðan þá hefur hún komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: The X-Files, L.A. Law, NYPD Blue, og. Árið 1999 þá var Thompson boðið gestahlutverk í sem Borg Qeen sem hún var hluti af frá 1999-2002. Sama ár þá bauðst henni annað gestahlutverk sem Karen Sammler í Once and Again sem hún lék frá 1999-2002. Thompson bauðst gestahlutverk sem undirofurstinn Hollis Mann í NCIS þar sem hún lék hugarefni Jethro Gibbs í seríu 4-5. Thompson hefur komið í kvikmyndum á borð við: Little Giants, Random Hearts, The Balla of Jack and Rose og American Pastime. Tenglar. Thompson, Susanna Shrek. "Shrek" er bandarísk teiknimynd frá árinu 2001 sem Andrew Adamson og Vicky Jenson leikstýrðu. Mike Myers, Eddie Murphy, Cameron Diaz, og John Lithgow fara með aðalhlutverk í myndinni sem er lauslega byggð á samnefndri ævintýrabók frá árinu 1990. Myndin fjallar um Shrek (sem Mike Myers talar fyrir) sem er stórann og sterkann tröllkall sem elskar að lifa einn þangað til hann hittir hina fallegu en herskáu Fíónu prinsessu (Diaz) sem hann hefur verið sendur til þess að ná í fyrir Lord Farquaad (Lithgow) sem hyggst giftast hennar. Scottie Thompson. Scottie Thompson (fædd Susan Scott Thompson, 9. nóvember 1981) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "Brotherhood", "NCIS" og "Trauma". Einkalíf. Thompson fæddist í Richmond, Virginíu. Thompson útskrifaðist frá Harvard-háskóla árið 2005 með gráðu í "Performance Studies" og bókmenntum, með áherslu á frönsku og "Postcolonial" vinnu. Thompson kynntist leiklistinni við nám og kom fram í nokkrum leikritum á borð við: Macbeth (2002), Marisol (2003) og The Oresteia (2005). Eftir útskrift þá fluttist Thompson til New York-borgar til að fylgja eftir leiklistarferli sínum. Ferill. Fyrsta hlutverk Thompson var í kvikmyndinni Center Stage sem aukaleikari árið 2000. Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við: Star Trek, Skyline og Pornstar. Árið 2006 þá fékk Thompson gestahlutverk sem Shannon McCarthy í Brotherhood og á sama tíma þá fékk hún stórt gestahlutverk sem Jeanne Benoit í NCIS þar sem hún lék kærustu Tony Dinozzos. Árið 2009 þá var Thompson með gestahlutverk í Trauma sem hún lék frá 2009-2010. Thompson hefur einnig komið fram sem gestaleikari í öðrum þáttum á borð við:, Ugly Betty, Eli Stone, Bones, The Closer og Rizzoli & Isles. Tenglar. Thompson, Scottie Gangs of New York. "Gangs of New York" er sannsöguleg bandarísk glæpamynd frá árinu 2002 sem Martin Scorsese leikstýrði. Leonardo DiCaprio, Daniel Day-Lewis og Cameron Diaz fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um ungann mann að nafni Amsterdam sem sýnr aftur til New York borgar eftir sextán ára fjarveru og ætlar sér að ná hefndum gegn William „Bill the Butcher“ Cutting sem drap föður hans í blóðugu klíkustríði. Myndin kom út í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum þann 20. desember 2002 og þann 21. febrúar 2003 á Íslandi og var tilnefnd til tíu óskarsverðlauna þar á meðal sem „besta kvikmynd“ og „besti leikstjóri“. Being John Malkovich. "Being John Malkovich" er bandarísk svört komedía frá árinu 1999 sem Spike Jonze leikstýrði og Charlie Kaufman skrifaði. John Cusack, Cameron Diaz, Catherine Keener og John Malkovich fara með aðalhlutverk sem fjallar um Craig Schwartz leikbrúðustjórnanda sem finnur gátt sem leiðir í huga John Malkovich. Lockerbie. Lockerbie er íslensk hljómsveit sem spilar melódískt popp-rokk í bland við kraftmikið post-rokk. Hún var valin ein af sigursveitum í Sumarkeppni Rásar 2 og Stúdíó Sýrlands. Hljómsveitin er fjögurra manna og gaf út sína fyrstu plötu, "Ólgusjó" 7. júní 2011. Platan fékk 4 af 5 stjörnum í gagnrýni Fréttablaðsins og var valin plata vikunnar á Rás 2. Hljómsveitin er með útgáfusamning við Record Records á Íslandi og Rallye Label í Japan. Sahlgrenska Universitetssjukhuset. Sahlgrenska Universitetssjukhuset er stærsti spítali Norður-Evrópu og er staðsettur í Gautaborg Karólínska sjúkrahúsið. Karólínska sjúkrahúsið (Karolinska Universitetssjukhuset) er sænskur spítali í Stokkhólmi. Hann var stofnaður 1. janúar 2004. Það var á þeim spítala sem fyrsti gervibarkinn var græddur í mann. Sigmundur Einarsson (príor). Sigmundur Einarsson var officialis í Skálholtsbiskupsdæmi um 1340 og príor í Viðeyjarklaustri frá 1344 til 1352, eða þann tíma sem Viðeyjarklaustur var benediktínaklaustur. Óvíst er um ætt Sigmundar en hann var officialis á Valþjófsstað um 1340. Helgi Sigurðsson ábóti í Viðeyjarklaustri dó í árslok 1343 en á Benediktsmessu árið eftir, 31. mars, tók Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup af Ágústínusarreglu í Viðey, sem þar hafði verið frá stofnun klaustursins, og setti þess í stað Benediktsreglu. Um leið skipaði hann Sigmund príor í klaustrinu. Ekki er víst hvort hann hafði fengið páfaleyfi fyrir breytingunni eins og hefði átt að þurfa. Sigmundur var príor í Viðey í átta ár en árið 1352 breytti Gyrðir Ívarsson biskup klausturhaldi í Viðey aftur til fyrra horfs, setti Ágústínusarreglu þar að nýju og vígði Björn Auðunarson sem ábóta. Ekki er víst hvað um Sigmund varð eða hvort hann var þá látinn. Björn Auðunarson. Björn Auðunarson (d. 1364) var ábóti í Viðeyjarklaustri frá 1352 til dauðadags. Um leið og hann tók við var breytt um regluhald í klaustrinu og Ágústínusarregla sett þar að nýju en þá hafði klaustrið tilheyrt Benediktsreglu í átta ár. Björn var að líkindum sonur Auðunar Krákssonar, prests í Selárdal, og því af ætt Seldæla. Lítið er vitað um ábótatíð Björns en hann gegndi embættinu til dauðadags 1364. Þá tók Jón nokkur við ábótadæminu. Einar Ágúst & Telma. "Einar Ágúst & Telma" (eða "August & Telma") var íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 2000. Söngvarar eru Einar Ágúst Víðisson og Telma Ágústsdóttir. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2000 með laginu „Tell Me!“. Þau náðu 12. sæti af 24, með 45 stig. In The Ghetto. In The Ghetto er lag sem Elvis Presley samdi og flutti. Lagið er um konu sem fæðir strák sem verður mikið til vandræða í ghettoinu sem þýðir fátakrahverfi. „In The Ghetto“ þýðir á beinni þýðingu „í fátækrahverfinu“. Anna Mjöll Ólafsdóttir. Anna Mjöll Ólafsdóttir (fædd 1970) er íslensk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1996 með laginu „Sjúbídú“. Hún náði þrettánda sæti af 23, með 51 stig. Óeirðirnar í London 2011. a> sem brann til grunna í óeirðunum Óeirðirnar í London 2011 hófust með ránum og íkveikjum þann 6. ágúst 2011 í hverfinu Tottenham í Norður-London. Óeirðirnar brotust út vegna dauða Mark Duggan sem var skotinn til bana af lögreglunni. Óeirðirnar urðu líka í öðrum hverfum borgarinnar, þar á meðal Brixton, Clapham, Croydon, Enfield, Ealing, Hackney, Lewisham og Peckham. Þann 8. ágúst kom forsætisráðherra Bretlands David Cameron heim úr fríi á Ítalíu vegna óeirðanna og fundaði með COBR (e. "Cabinet Office Briefing Room"). Cameron tilkynnti 9. ágúst að Breska þingið hefði verið kallað saman úr sumarfríi til að ræða óeirðirnar og að 16.000 lögreglumenn yrðu á götum borgarinnar þann daginn. Daginn áður voru aðeins 6.000 lögreglumenn á götunum. Óeirðir brutust líka út í Birmingham, Bristol, Liverpool og Manchester í kjölfar óeirðanna í London. Að minnsta kosti 563 hafa verið handteknir vegna óeirðanna og 105 hafa verið kærðir. Croydon. Croydon er bær í Suður-London í borgarhlutanum Croydon. Hann liggur 9,5 km suðan við Charing Cross og bærinn er á leið frá London til suðurstrandar Bretlands. Íbúar Croydon eru 330.587 manns. Croydon var upprunalega í sýslunni Surrey og á tíma landvinninga Normanna var að finna kirkju og myllu í bænum, þar sem 365 manns bjuggu (samkvæmt Dómsdagsbókinni sem gefin var út árið 1086). Á miðöldum varð Croydon mikilvægur verslunarbær og markaður var byggður þar. Bærinn varð miðstöð fyrir framleiðslu viðarkols og leðurs, og bruggun. Á 19. öldinni var járnbraut byggð frá Croydon til Wandsworth og á 20. öldinni fluttu margir vinnuferðalangar til bæjarins. Fyrir byrjun 20. aldarinnar var Croydon orðinn mikilvægur bær og var þekktur fyrir bílframleiðslu, málmvinnslu og flugvöllinn sinn. Síðar á 20. öld varð smásala aðalatvinnugreinin í Croydon við byggingu verslunarmiðstöðvar á sjöunda áratugnum. Árið 1965 varð Croydon hluti Stór-Lundúnasvæðisins. Þegar óeirðirnar í London 2011 urðu var mikið rænt og margar íkveikjur urðu í bænum. Dima Bilan. Dima Bilan (rús.: Дима Билан; fæddur 24. desember 1981) er rússneskur söngvari sem meðal annars hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í tvígang. Í fyrra skiptið, árið 2006, flutti hann lagið „Never Let You Go“, sem hafnaði í öðru sæti. Hann keppti öðru sinni árið 2008 og flutti þá lagið „Believe Me“ og náði fyrsta sæti af 25 með 272 stig. Þar með náði hann besta árangri Rússlands í keppninni. Tenglar. Bilan, Dima Michael Nouri. Michael Nouri (fæddur 9. desember 1945) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Flashdance, NCIS, Damages og All My Children. Einkalíf. Nouri fæddist í Washington borg, District of Columbiu og er af írskum og írönskum uppruna. Nouri hefur verið giftur tvisvar sinnum og á tvær dætur. Nouri er sendiherra fyrir "National Multiple Sclerosis Society" en fyrrverandi eiginkona hans er með MS. Leikhús. Á árunum 1968-1970 lék Nouri í "Forty Carats" á móti Julie Harris sem King Marchan við Morosco leikhúsið. Síðan árið 1995-1997 þá lék Nouri í "Victor/Victoria" á móti Julie Andrews sem Pat við Marquis leikhúsið. Önnur leikrit sem Nouri hefur leikið í eru: "Can Can", "South Pacific" og "Funny Girl". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Nouri var árið 1974 í "Somerset". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Bay City Blues", "Downtown", The West Wing, og Without a Trace. Árin 2004-2005 lék Nouri í The Young and the Restless sem Elliot Hampton. Á sama tíma þá lék hann í unglingadramanu The O.C. sem Dr. Neil Roberts. Nouri hefur verið með stór gestahlutverk í: NCIS sem Eli Davi Yfirmaður Mossad og faðir Zivu David; og Damages sem Phil Grey. Síðan 2010 þá hefur Nouri leikið Caleb Cortlandt í sápuóperunni All My Children. Kvikmyndir. Fyrsta hlutverk Nouri var árið 1969 í kvikmyndinni "Goodbye, Columbus" sem Don Farber. Síðan árið 1983 þá var honum boðið hlutverk í Flashdance sem Nick Hurley þar sem hann lék á móti Jennifer Beals og síðan þá hefur Nouri komið fram í kvikmyndum á borð við Fatal Sky, Fortunes of War, Picture This, The Terminal, The Proposal og Sinatra Club. Verðlaun og Tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. Nouri, Michael Chuck (sjónvarpsþáttur) (1. þáttaröð). Chuck er bandarískur hasar- og gamanþáttur. Sýningar á fyrstu þáttaröðinni þáttaröðinni hófst þann 24. september 2007 og þeim lauk 21. janúar 2008. Þættirnir voru 13 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Upphaflega átti að framleiða fleiri þætti en rithöfundaverkfallið í Bandaríkjunum 2007-2008 stöðvaði framleiðslu hinna þáttanna. Chuck (sjónvarpsþáttur) (2. þáttaröð). Chuck er bandarískur hasar- og gamanþáttur. Sýningar á annari þáttaröðinni þáttaröðinni hófst þann 29. september 2008 og þeim lauk 27. apríl 2009. Þættirnir voru 22 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Fíflalús. Fíflalús (fræðiheiti "Uroleucon Taraxaci") er lús af yfirætt blaðlúsa sem lifir á túnfíflum. Útbreiðsla. Fíflalúsin lifir um allt norðurhvel jarðar, frá Norður-Skandinavíu suður Evrópu og á Bretlandseyjum. Norður, Mið og Austur-Asíu og Norður-Ameríku og finnst aðalega á grasflötum og óræktar görðum þar sem mikið er um túnfífla. Fíflalús er nýlegur landnemi á Íslandi og fannst fyrst í Reykjavík 2007. Síðan þá hefur hún fundist á öllu höfuðborgarsvæðið frá Hafnarfirði upp á Kjalarnes, einnig í Grindavík, á Akranesi og Höfn í Hornafirði. Einkenni. Hún er með stærstu blaðlúsum, óvenju dökk á lit og ekki græn eins þær flestar. Hún er aðallega á neðra borði laufblaða og við blaðgrunn. Síðsumars frá miðjum ágúst og fram eftir september fjölgar henni afar mikið og skríður þá upp í ýmsan annan gróður en fífla og þá einnig meðal annars upp húsveggi og fer þá stundum inn um opna glugga fólki til mikils ama. Úrslitaleikur Valitor-bikars karla 2011. Úrslitaleikur Valitorbikars karla 2011 var leikinn þann 13. ágúst 2011 á Laugadalssvelli. KR-ingar kepptu á móti Þórsurum. Þórsarar komust í bikarúrslitin eftir að hafa m.a. lagt Víking, ÍBV og Grindavík að velli. KR-ingar fóru erfiða leið einnig og lögðu Stjörnuna, Keflvíkinga og ríkjandi bikarmeistara FH að velli. KR vann leikinn 2-0 með marki frá Baldri Sigurðssyni og sjálfsmarki frá Gunnari Má Gunnarssyni. Valitor bikar karla 2011. Árið 2011 var bikarkeppni karla í knattspyrnu, Valitorbikarinn, haldinn í 52. skiptið. Fyrstu leikir keppninnar hófust laugardaginn 30. apríl og lauk henni með úrslitaleik KR og Þórs þann 13. ágúst. Shrek 2. "Shrek 2" er bandarísk teiknimynd frá árinu 2004 sem Andrew Adamson, Kelly Asbury og Conrad Vernon leikstýrðu. Myndin er beint framhald af "Shrek" frá árinu 2001 og fara Mike Myers, Eddie Murphy, Cameron Diaz, Antonio Banderas, Julie Andrews, John Cleese og Jennifer Saunders með aðalhlutverkin. "Shrek 2" kom út sumarið 2004 og varð tekjuhæsta teiknimynd allra tíma í sex ár þangað til Leikfangasaga 3 kom út sumarið 2010 og tók fram úr. Vanilla Sky. "Vanilla Sky" er bandarísk spennumynd frá árinu 2001 sem Cameron Crowe framleiddi, skrifaði og leikstýrði. Myndin er endurgerð af spænsku myndinni "Abre los ojos" (Opnaðu augun þín) frá árinu 1997. Tom Cruise, Cameron Diaz og Penélope Cruz fara með aðalhlutverkin í myndinni. Myndin kom út í kvikmyndahúsum í desember 2001 og var lagið "Vanilla Sky" sem Paul McCartney hafði skrifað fyrir myndina tilnefnt til margra verðlauna þar á meðal til Óskarsverðlauna og Golden Globe verðlauna en Cameron Diaz var einnig tilnefnd til Golden Globe fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki. Gambit (2012 kvikmynd). "Gambit" er bandarísk gamanmynd sem Michael Hoffman leikstýrir og verður gefin út einhvern tímann árið 2012. Myndin er endurgerð af samnefndri kvikmynd árið 1966 og munu Colin Firth, Cameron Diaz, Alan Rickman og Stanley Tucci fara með aðalhlutverkin í henni. Handrit myndarinnar er skrifað af Coen bræðrunum. Framleiðsla. Endurgerð af 1966 kvikmyndinni hefur verið í undirbúningi í mörg ár. Coen bræðurnir skrifuðu handrið sem átti að kvikmynda árið 2009. Orðrómar höfðu lengi gengið um að Colin Firth myndi koma fram sem Harry Dean en hann sagði í viðtali í september 2008: „Nei! Það er algjör lygi. Þetta hefur bara verið sett þarna á IMDB“. Hann sagði einnig: „Coen bræðurnir hafa skrifað frábært handrit“. Margir aðrir frægir leikarar komu til greina þar á meðal Hugh Grant, Ben Kingsley, Sandra Bullock og Jennifer Aniston. Tökur á myndinni hófust í maí 2011. Halla Margrét Árnadóttir. Halla Margrét Árnadóttir (fædd 1964) er íslensk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1987 með laginu „Hægt og hljótt“. Hún varð í sextánda sæti af 22 og hlaut 28 stig. Grétar Örvarsson. Grétar Örvarsson (fæddur 11. júlí 1959) er söngvari Stjórnarinnar. Hann hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í tvígang (sem hluti af Stjórninni og Heart2Heart). Jessica Steen. Jessica Steen (fædd 19. desember 1965) er kanadísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Armageddon, Homefront, NCIS og Flashpoint. Einkalíf. Steen fæddist í Toronto í Ontario í Kanada. Jessica var aðeins átta ára þegar hún kom fyrst fram í sjónvarpi í kanadíska barnaþættinum The Sunrunners. Ferill. Fyrsta hlutverk Steen var í kvikmyndinni Threshold frá 1981, þar sem hún lék dóttur persónu Donalds Sutherland. Árið 1998 þá var Steen boðið hlutverk í hamfaramyndinni Armageddon þar sem hún lék flugmanninn Jennifer Watts. Steen hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: A Judgment in Stone, Sing, Judgment og Chaos. Fyrsta hlutverk Steen í sjónvarpi var árið 1983 í Hangin'In. Lék hún á móti Keanu Reeves í sjónvarpsmyndinni "Young Again" frá 1986. Frá 1987-1989 þá lék Steen í Captain Power and the Soldiers of the Future sem undirliðsforingjann Jennifer Chase. Síðan árið 1991 þá var henni boðið hlutverk Lindu Metcalf í Homefront sem hún lék til ársins 1993. Steen var með stórt gestahutverk í NCIS sem NCIS fulltrúinn Paula Cassidy sem hún lék frá 2003-2007. Hefur hún einnig verið með stór gestahlutverk í Heartland sem Lisa Stillman og í Flashpoint sem Donna Sabine. Aðrir sjónvarpsþættir sem Steen hefur komið fram í sem gestaleikari: Street Legal, ER, The Practice, Starget SG-1, Supernatural og. Tenglar. Steen, Jessica Rússland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Rússland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur tekið þátt 15 sinnum síðan að frumraun landsins í keppninni átti sér stað árið 1994. Rússland tók ekki þátt í keppninni árin 1996, 1998 og 1999 eftir að hafa fallið úr keppni ári fyrr. Niðurstöður. Rússland Breda. Breda er borg í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi og er með 170 þúsund íbúa. Lega og lýsing. Breda liggur mjög sunnarlega í Hollandi og aðeins steinsnar fyrir norðan belgísku landamærin. Næstu borgir eru Tilburg til austurs (20 km), Rotterdam til norðurs (50 km) og Antwerpen í Belgíu til suðvesturs (55 km). Fáni og skjaldarmerki. Fáni Breda samanstendur af þremur hvítum krossum á rauðum grunni. Hér er um Andrésarkrossa að ræða en borgin tók merkin upp frá belgísku borginni Schoten á 12. öld. Fáninn var þó ekki formlega tekinn upp fyrr en 1952. Skjaldarmerki Breda sýnir fánann með Andrésarkrossana en þeir eru elstu hlutar merkisins. Ljónin, engillinn og borgin eru síðari tíma viðbætur. Orðsifjar. Breda stendur við samflæði ánna Aa og Mark, og er Aa ívið breiðari. Breda merkir "hin breiða Aa" (bred = breiður, a = Aa). Upphaf. 1125 kom borgin Breda fyrst við skjöl og var þá bær. Á 11. öld var Breda lén þýska ríkisins, en hlaut borgarréttindi 1252. Eftir það var hafist handa við að reisa varnarmúra umhverfis borgina, enda var borgin á mikilvægum verslunarleiðum. Í upphafi 15. aldar komst borgin í eigu Nassau-ættarinnar. Því varð það svo að greifinn frá Breda var jafnframt landstjóri Hollands, Sjálands og Utrecht, sem og leiðtogi hollensku uppreisnarinnar gegn Spáni. Frelsisstríðið. Uppgjöf Breda 1625. Til hægri tekur Spinola við uppgjafaskjalinu. Málverk eftir Diego Velázquez. 1534 braust út eldur í borginni sem varð að miklum borgarbruna. Um 90% allra húsa í Breda eyðilögðust, þar á meðal kirkjur og ráðhúsið, en þar voru tæplega 1300 hús. Aðeins 150 hús stóðu eftir uppi. 16. febrúar 1566 undirrituðu 16 greifar og heldri menn í borginni Breda bænaskjal til Filippusar II Spánarkonungs um meira trúfrelsi og afnám rannsóknarréttarins. Skjal þetta markar upphafið að sjálfstæðisstríði Niðurlanda gegn Spáni. 1575 var undirritaður friðarsamningur milli Niðurlanda og Spánar í Breda. Samningur þessi hélt aðeins í nokkur ár en 1581 hertóku Spánverjar borgina eftir stutt umsátur. Borgarráð samþykkti að gefast upp með því skilyrði að borgarbúum yrði hlíft. Þrátt fyrir að Spánverjar samþykktu þetta, gaf fyrirliðið þeirra, Claude de Berlaymont, herliði sínu leyfi til að ræna og rupla í borginni. Þegar uppi var staðið var búið að drepa 500 íbúa og borgarbúar rændir eigum sínum. Máritz frá Óraníu náði að endurheimta borgina úr höndum Spánverja árið 1590. Til þess notaði hann þá aðferð að fela 70 hermenn í báti, hlaðinn torfi, en undir því földust mennirnir. Báturinn flaut niður ána Aa og inn í borgina. Þar spruttu mennirnir fram og opnuðu borgarhliðin fyrir meginherinn. 1625 sátu Spánverjar undir stjórn Ambrosio Spinola aftur um borgina í 30 ára stríðinu. Umsátur þetta stóð yfir í níu mánuði, en borgin féll 2. júní. Friðrik frá Óraníu endurheimti borgina 1637 eftir ellefu vikna umsátur. Þar með varð Breda endanlega hollensk. Borg Karls II. Breda árið 1653. Fyrir miðju má sjá í ána Aa sem rennur í gegnum borgina. Á sjötta áratug 17. aldar var var enski konungurinn Karl II í útlegð í Breda. Hann og faðir hans höfðu flúið undan Oliver Cromwell, sem lést 1658. Árið 1660 samdi Karl II yfirlýsingu, kölluð Breda-yfirlýsingin, en þar setti hann fram þau skilyrði fyrir endurkomu sína til Englands en þangað fór hann á sama ári. Í kjölfarið hófst sjó- og verslunarstríð milli Englands og Hollands, sem lauk með friðarsamningunum í Breda 1667. Árið 1746 fóru fram friðarumleitanir Hollendinga, Frakka og Englendinga meðan austurríska erfðastríðið geysaði. Þær báru þó lítinn árangur, friður var ekki saminn fyrr en 1748 í Frakklandi. Frakkar. 1793 hertók franski byltingarherinn borgina í nokkra mánuði. Franski herinn var undir stjórn Dumouriez og gafst borgin upp nær átakalaust 25. febrúar. Frakkar voru þó aðeins í tæpan mánuð í borginni, því þeir yfirgáfu hana aftur 18. mars. Árið 1795 hertóku Frakkar allt héraðið Brabant, þar með talið borgina Breda. 1809 sótti konungur Niðurlanda, Loðvík Bonaparte (bróðir Napoleons), borgina Breda heim. Napoleon setti bróður sinn af ári síðar og innlimaði Niðurlönd. Breda var hersetin allt til 1813 en í desember það ár nálgaðist rússnesk hersveit eftir ósigur Napoleons í Rússlandi. Frakkar fóru út borginni til að berjast við Rússa á sléttunum fyrir utan, en þetta notfærðu sér borgarbúar. Þeir lokuðu borgarhliðunum og tóku alla Frakka sem eftir voru innan borgarinnar höndum. 20. og 21. desember reyndi franski herinn að taka borgina aftur en árangurslaust. 20. öldin. 10. maí 1940 réðust Þjóðverjar inn í Holland. Franskur her undir stjórn Henri Giraud fór til Breda til að hjálpa til við varnir borgarinnar, en allt kom fyrir ekki. Breda féll strax sama dag og var hersetin næstu fjögur árin. 29. október 1944 náði pólsk skriðdrekasveit að frelsa borgina úr höndum nasista og voru allir meðlimir sveitarinnar gerðir að heiðursborgurum Breda í kjölfarið. Strax í stríðslok var eina stríðsglæpafangelsi Hollands sett upp í Breda. Þar voru fjórir fangar vistaðir (allt Þjóðverjar) og voru tveir síðustu þeirra látnir lausir 1989 eftir 40 ára vist. Viðburðir. Rauðhært fólk streymir til Breda í september ár hvert Hátíð hinna rauðhærðu (Roodharigendag) er haldin í Breda fyrstu helgina í september ár hvert. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 2005 í bænum Asten með 150 rauðhærðu fólki, en hefur verið haldin árlega í Breda síðan. Í dag er viðburðurinn orðinn alþjóðlegur. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er NAC Breda, sem varð hollenskur meistari 1921 og bikarmeistari 1973. Frjálsíþróttafélagið A.V. Sprint frá Breda er stærsta slíka í Hollandi. Aðrar íþróttir sem stundaðar eru í borginni eru hokkí, sund, blak, golf og hestaíþróttir. Jón (ábóti í Viðeyjarklaustri). Jón ábóti (d. 1369) í Viðeyjarklaustri upp úr miðri 14. öld hafði áður verið kanúki í Þykkvabæjarklaustri en varð ábóti í Viðey 1364, eftir lát Björns Auðunarsonar ábóta þar sama ár. Föðurnafn hans er óþekkt og ekkert vitað um hann, nema hvað í hans tíð var gerður máldagi Viðeyjarklausturs þar sem taldir eru upp kirkjugripir og bústofn í eigu klaustursins. Jón ábóti dó 1369 og tók Jón Guðmundsson við eftir lát hans. Jón Guðmundsson (ábóti). Jón Guðmundsson (d. 1379) var ábóti í Viðeyjarklaustri og tók við árið 1369 eftir lát annars Jóns, sem þar hafði verið ábóti frá 1364. Ætt hans er ekki þekkt. Fátt er um hann vitað en hann var um tíma officialis í Vestfirðingafjórðungi. Jón dó 1379 (hugsanlega þó 1378) og tók Gísli Magnússon þá við en varð skammlífur og gegndi embættinu aðeins fáeina mánuði. Gísli Magnússon (ábóti). Gísli Magnússon (d. 1379) var ábóti í Viðeyjarklaustri skamma hríð árið 1379. Hann tók við eftir lát Jóns Guðmundssonar ábóta en dó eftir fáeina mánuði í embætti. Páll, sem kallaður var kjarni, tók við ábótadæminu eftir lát Gísla og gegndi því allt þar til hann lést í Svarta dauða. Páll kjarni. Páll kjarni (d. 1403) var ábóti í Viðeyjarklaustri á síðasta fjórðungi 14. aldar og hefur verið talinn einn merkasti ábótinn þar. Hann tók við eftir lát Gísla Magnússonar 1379 (eða 1378) en Gísli hafði aðeins gegnt embættinu í fáeina mánuði. Páll var mikill fjáraflamaður fyrir hönd klaustursins og í ábótatíð hans eignaðist það sextán jarðir til viðbótar þeim sem það átti fyrir. Hann var einnig skólamaður og hafði skóla í klaustrinu og í Vilkinsmáldaga 1397 eru taldar upp allmargar skólabækur í eigu klaustursins. Páll dó í Svarta dauða árið 1403 og var ábótalaust í Viðey í tvö ár eftir lát hans, allt þar til Bjarni Andrésson tók við. Bjarni Andrésson. Bjarni Andrésson (d. 1428) var ábóti í Viðeyjarklaustri á fyrsta fjórðungi 15. aldar. Hann var vígður 1405, tveimur árum eftir að Páll kjarni lést í Svarta dauða, og var ábóti í klaustrinu til dauðadags. Bjarni var sonur Andrésar Gíslasonar úr Mörk, hirðstjóra tvívegis á 7. áratug 14. aldar. Hann hefur trúlega verið í ættartengslum eða vináttu við ýmsa helstu höfðingja landsins. Sama ár og hann vígðist ábóti var haldin mikil brúðkaupsveisla í Viðey, þar sem Björn Einarsson Jórsalafari gifti dóttur sína, Vatnsfjarðar-Kristínu, Þorleifi Árnasyni í Auðbrekku og var þar margt stórmenni. Bjarni ábóti dó 1428 og eftir lát hans var ábótalaust í Viðey og klaustrið þá undir valdi leikmanna, allt þar til Steinmóður Bárðarson varð ábóti 1444 eða þar um bil. Þó er til páfabréf, gefið út í Flórens af Evgeníusi IV 28. október 1441, þar sem hann staðfestir veitingu ábótadæmis í Viðey til Gerreks Lundikin, sem var þýskættaður prestur frá Björgvin, en hann kom þó að öllum líkindum aldrei til Íslands. Rosalyn Sussman Yalow. Rosalyn Sussman Yalow (fædd 19. júlí 1921, dáin 30. maí 2011) var bandarískur kjarneðlisfræðingur. Hún er þekktust fyrir að hafa þróað tækni til geislaónæmismælingar (e. "radioimmunoassay") á peptíðhormónum, en fyrir það hlaut hún þriðjung af Nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði árið 1977 (ásamt þeim Andrew Schally og Roger Guillemin). Geislaónæmismælingin sem Yalow og Solomon Berson þróuðu er afar næm aðferð til magnmælingar á insúlíni eða öðrum mótefnavaka sem byggir á geislarakningu. Þekktu magni af insúlíni sem merkt hefur verið með geislavirkri samsætu af joði er blandað saman við þekkt magn af insúlínbindandi mótefni. Sýninu sem mæla á insúlínmagnið í er svo bætt út í. Ómerkta insúlínið í sýninu keppir nú við geislamerkta insúlínið um bindingu við mótefnið. Bundin mótefni eru þvínæst botnfelld og geislavirkni í flotinu sem eftir verður er mæld í geislamæli. Með samanburði við staðalkúrvu má sjá hversu mikið insúlín var í sýninu. Aðferð þeirra Yalow og Berson olli byltingu í rannsóknum í innkirtlafræði og ónæmisfræði. Þeim gekk þó illa að fá uppgötvun sína á insúlínbindandi mótefni birtar í viðurkenndum tímaritum því ónæmisfræðingar þess tíma töldu ósennilegt að mótefni gætu bundið svo smá peptíð sem insúlín. Það kom þó fljótt í ljós hve öflug aðferð þeirra Yalow og Berson var, en fram til þess tíma höfðu magnmælingar á insúlíni eingöngu verið óbeinar og skorti mjög á næmni þeirra og áreiðanleik. Hertogenbosch. Hertogenbosch (hollenska: "‘s-Hertogenbosch" eða bara "Den Bosch") er höfuðborg héraðsins Norður-Brabant í Hollandi og er með 140 þúsund íbúa. Lega og lýsing. Hertogenbosch er hafnarborg við Maas nyrst í héraðinu Norður-Brabant og frekar sunnarlega í Hollandi. Næstu borgir eru Breda til suðvesturs (40 km), Eindhoven til suðurs (30 km) og Nijmegen til norðausturs (45 km). Fyrir utan fljótið Maas, renna árnar Aa og Dommel einnig um borgarsvæðið. Fáni og skjaldarmerki. Fáni borgarinnar samanstendur af fimm láréttum röndum, þremur rauðum og tveimur hvítum. Rendur þessar vísa til Habsborgara, sem réðu yfir Niðurlöndum fram á 16. öld. Auk þess er svartur ferningur efst í vinstra horninu með gulu tré. Tréð er einkennismerki borgarinnar og hefur verið síðan á 13. öld. Það vísar til skóganna í kring (sjá einnig Orðsifjar). Skjaldarmerki borgarinnar er gulllitað tré með hvítum og rauðum ljónum og tvíhöfða svörtum erni á gulum grunni. Elstu hlutarnir eru frá Hinrik I. frá Brabant allar götur frá 12. öld. Örninn bættist síðar við, en hann er merki Habsborgaranna. 1978 var skjaldarmerkið endanlegt, nema hvað bærinn Rosmalen var innlimaður 1996 og var merkinu þá breytt lítilsháttar. Orðsifjar. Hertogenbosch er hollenska og merkir "skógur hertogans" (bosch = "skógur" eða "buskur"). Rétt hollensk stafsetning er 's-Hertogenbosch, en litla s-ið á undan er ákveðinn greinir (eða það sem eftir er af honum). Borgin gengur einnig undir alþýðuheitinu Den Bosch, sem merkir "skógurinn". Hún heitir Herzogenbusch á þýsku og Bois-le-Duc á frönsku. Merkingin er alltaf sú sama. Upphaf. 1185 fékk Hertogenbosch borgarréttindi af Hinrik I af Brabant. Borgin stóð á sandhrygg, sem umkringdur var mýrlendi og þótti hernaðarlega mikilvæg, enda taldist hún óvinnanleg. Verslað var með vín frá Köln, sandstein frá Liege og fisk frá Eystrasalti. Borgin stóð í miklum blóma fram á miðja 16. öld. Frelsisstríð. Þegar frelsisstríð Hollendinga hófst á miðri 16. öld gekk borgin í lið með Habsborgurum (Spánverjum) og var þá næststærsta borgin í norðurhéruðum Niðurlanda á eftir Utrecht. Því gerði Máritz af Óraníu nokkrum sinnum umsátur um borgina, en Claude de Berlaymont, aðalhöfuðsmaður Spánverja í borginni, náði ávallt að verja hana. Það var ekki fyrr en 1629 sem borgin féll en þá gerði Friðrik af Óraníu áhlaup á hana. Hann breytti farvegi ánna Aa og Dommel, lagði 40 km langan vatnagarð og þurrkaði þannig upp mýrarnar í kringum borgina. Eftir það sat hann í þrjá mánuði um borgina og gáfust Spánverjar þá upp. Frelsun Hertogenbosch var mikið reiðarslag fyrir Spánverja í stríðinu. Við fall borgarinnar varð hún endanlega hollensk. Frakkar. Frakkar skjóta á Hertogenbosch 1794 og hertaka hana í kjölfarið Á hamfaraárinu 1672 (rampjaar) biðu Hollendingar ósigur í verslunarstríði við Englendinga. Loðvík XIV Frakklandskonungur notfærði sér veikar varnir Hollendinga og réðist inn í landið. Hann sat um Hertogenbosch, en borgin stóðst áhlaup hans. Að lokum urðu Frakkar frá að hverfa. Frakkar mættu aftur til leiks 1794 er byltingarher hertóku Niðurlönd. Herforinginn Charles Pichegru hertók Hertogenbosch án teljandi bardaga. Það voru Prússar sem frelsuðu borgina 1814, er Frakkar voru endanlega hraktir úr Niðurlöndum. Eftir brotthvarf þeirra voru varnir borgarinnar enn styrktar og jafnframt harðbannað að byggja utan borgarmúranna. Þetta leiddi til mikilla þrengsla í Hertogenbosch, en á þeim árum var ungbarnadauði meiri þar en í öðrum hollenskum borgum. Nýrri tímar. 1815 rauf Belgía sig frá konungdæmi Niðurlanda. Það með splittaðist héraðið Brabant í norður- og suðurhluta. Norður-Brabant varð að héraði í Hollandi og var Hertogenbosch valin sem höfuðborg hins nýja héraðs. Nasistar hertóku Hertogenbosch 1940. Ein af fáum útrýmingarbúðum nasista í vesturhluta Evrópu var sett upp við borgarmörkin. Þar voru 30 þúsund manns haldið föngum, þar af 12 þúsund gyðingum. Árið 1943 voru öll börn í búðunum tekin burt og flutt til útrýmingarbúðanna Sobibor í Póllandi, þar sem þau voru öll myrt. Það var hersveit frá Wales sem frelsaði Hertogenbosch 24. – 27. október 1944 og hrakti nasista burt. Viðburðir. Jazz in Duketown er stærsta jazzhátíð utandyra í Hollandi. Hún er haldin á tíu sviðum víðs vegar í miðborginni. Bourgondisch ‘s-Hertogenbosch er árleg matarhátíð, þar sem ýmislegt matarkyns frá Búrgúnd er á borðstólum. Ekki er hægt að greiða með evrum, heldur með sérstakri mynd sem kallast "Gerritje". Einn slíkur samsvarar 1,10 evru. Hátíðin er haldin í september. Mikið er haldið upp á Karneval í borginni, en þar heitir hátíðin "Oeteldonk". Þar í borg er einnig eina karnevalssafnið í Hollandi. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er FC Den Bosch sem varð hollenskur meistari 1948. Félagið rokkar í dag á milli 1. og 2. deildar. Þekktasti knattspyrnumaður félagsins er eflaustRuud van Nistelrooy. Í körfubolta er félagið EiffelTowers árangursríkt. Það hefur nokkrum sinnum orðið hollenskur meistari og komst í úrslit í Evrópubikarkeppninni 1979 og 1982. Í íshokkí er félagið Red Eagles ‘s-Hertogenbosch í efstu deild og spilar í Evrópukeppni. Hertogenbosch var ráspunktur fyrir hjólreiðakeppnina Tour de France 1996 og Ronde van Nederland árið 2000. Ordina Open er alþjóðlegt tennismót sem haldið er í borginni árlega. Keppt er á grasi. Frægustu börn borgarinnar. Málverkið Lostagarðurinn eftir Hieronymus Bosch Sigríður Beinteinsdóttir. Sigríður Beinteinsdóttir eða Sigga Beinteins‎ (fædd 24. júlí 1962) er söngkona Stjórnarinnar. Hún keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1994 með laginu „Nætur“. Hún náði 12. sæti af 25 og hlaut 49 stig. Meðal annars hún hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í tvígang (sem hluti af Stjórninni og Heart2Heart). Græna vespan (kvikmynd). "Græna Vespan" eða "The Green Hornet" eins og hún heitir á móðurmálinu er bandarísk ofurhetjumynd frá árinu 2011 sem Michel Gondry leikstýrði. Seth Rogen, Jay Chou, Christopher Waltz og Cameron Diaz fara með aðalhlutverk í myndinni sem er byggð á samnefndum útvarpsþáttum, sjónvarpsþáttum og myndasögum. Söguþráður. Britt Reid er sonur hins vellauðuga fjölmiðlaútgefanda James Reid en hefur lítinn áhuga á að feta í fótspor föður síns en eyðir þess í stað öllum stundum í partístand og villt líferni. Þegar faðir hans er myrtur einn daginn ákveður Britt þó að snúa lífi sínu við og gera eitthvað af viti við það. Hann kynnist fyrrum aðstoðarmanni hans, Kato, og saman ákveða þeir að gerast réttlætisriddarar og berjast gegn illmennum borgarinnar, á milli þess sem Britt lærir að stjórna fjölmiðlaveldi sínu. Ritari hans þar, hin fagra Lenore Case, hjálpar honum að komast að því að dularfullur maður að nafni Chudnofsky er höfuðpaur stærstu glæpasamtaka borgarinnar og ákveður Britt að hafa hendur í hári hans og nota til þess gervi sitt sem Græna vespan (The Green Hornet). Things You Can Tell Just by Looking at Her. "Things You Can Tell Just by Looking at Her" er bandarísk kvikmynd sem Rodrigo García Barcha leikstýrði og skrifaði með Cameron Diaz, Glenn Close, Calista Flockhart, Amy Brenneman og Holly Hunter í aðalhlutverkum. Myndin var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2000 og hlaut "Un Certain Regard" verðlaunin. Holly Hunter var tilnefnd till Emmy verðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir myndina. The Box. "The Box" er bandarísk hryllingsmynd frá árinu 2009 sem Richard Kelly leikstýrði og skrifaði. Cameron Diaz og James Marsden fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um hjón sem fá kassa frá dularfullum manni sem býður þeim eina milljón bandaríkjadala ef þau ýta á takka sem er innan í honum. Söguþráður. Norma og Arthur Lewis eru hjón sem búa í úthverfi ásamt ungu barni sínu og fá gefins einfaldan trékassa frá dularfullum manni sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Maðurinn segir þeim að kassinn muni færa eiganda sínum eina milljón bandaríkjadala ef ýtt er á einn hnapp. En þegar ýtt er á hnappinn muni samstundis ein manneskja einhvers staðar í heiminum deyja; einhver sem þau þekki ekki. Þau fá að hafa kassann í aðeins 24 klukkutíma og á þeim tíma þurfa þau Norma og Arthur að gera upp við sig hvað þau vilja gera. Steinmóður Bárðarson. Steinmóður Bárðarson (d. 1481) var prestur í Hólabiskupsdæmi og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri í hátt í fjörutíu ár á 15. öld og er talinn í hópi merkustu ábóta klaustursins. Steinmóður hefur verið talinn sonur Bárðar Njálssonar prests á Kálfafelli Bárðarsonar. Hann kemur við heimildir sem djákn og síðan prestur í þjónustu Jóns Vilhjálmssonar Craxton, biskups á Hólum og síðar í Skálholtsbiskupsdæmi. Hann var orðinn ábóti í Viðeyjarklaustri 1444 en þá hafði verið ábótalaust þar allt frá því að Bjarni Andrésson lést 1428. Í ábótatíð sinni var hann oft officialis, enda var biskupslaust í Skálholti langtímum saman og Marcellus, sem þar var biskup í meira en áratug, kom aldrei til landsins. Einnig mun hann hafa verið officialis í Hólabiskupsdæmi eftir Gottskálk Keniksson. Steinmóður kemur oftsinnis við skjöl á 15. öld og meðal annars er til páfabréf sem Nikulás V skrifaði honum 3. febrúar 1451 og gefur honum þar fyrirmælium að setja Jón Þorkelsson ábóta í Helgafellsklaustri. Hann var umsvifamikill í fjármálum klaustursins og er talinn hafa átt í deilum og jafnvel vopnuðum átökum við Englendinga í Hafnarfirði. Sonur Steinmóðs var líklega Þorvarður Steinmóðsson lögréttumaður í Reykjavík en fleiri hafa verið nefndir, þar á meðal Snjólfur, sem féll í bardaga við Englendinga í Hafnarfirði. Snjólfur lést 1481. Jón Árnason var orðinn ábóti 1490 og hefur líklega tekið við af honum. Jón Árnason (ábóti). Jón Árnason (d. 1494) var ábóti í Viðeyjarklaustri seint á 15. öld. Hans er fyrst getið í Píningsdómi árið 1490. Jón hefur líklega tekið við eftir að Steinmóður Bárðarson ábóti lést 1481 þótt vera megi að einhver ábóti hafi verið á milli þeirra. Samkvæmt "Árbókum Espólíns" barðist ábótinn ásamt þrjátíu manna liði við hundrað Englendinga í fjörunni í Hafnarfirði en Englendingarnir höfðu rænt miklu af fiski sem klaustrið átti, og „... gengu svo hart fram, að ekki hélt við áhlaupinu, komst ábóti á kné og var nær fallinn, en maður hans nokkur hjálpaði honum og gaf honum jörð síðan, flúðu þar hinir ensku og féllu margir, en einn maður ábóta, Snjólfur sonur hans.“ Frásögn þessi er ekki staðfest af neinum samtímaheimildum. Líklega hafa þó einhver átök átt sér stað en það hefur líklega fremur gerst í ábótatíð Steinmóðs. Jón ábóti dó í plágunni síðari 1494 og tók Árni Snæbjarnarson við sama ár. Árni Snæbjarnarson. Árni Snæbjarnarson (d. 1515) var prestur í Hruna, Skálholtsráðsmaður, officialis og síðan ábóti í Viðeyjarklaustri frá 1494 til dauðadags. Hann tók við þegar Jón Árnason ábóti lést í plágunni síðari. Árni var orðinn prestur í Hruna fyrir 1481. Hann er sagður hafa verið mikill fésýslumaður og í tíð hans eignaðist klaustrið allmargar jarðir. Snemma á ábótatíð hans (fyrir 1497) eyðilagðist Viðeyjarkirkja og var endurbyggð. Börn Árna voru Ingunn Árnadóttir, kona Halldórs Brynjólfssonar ríka í Tungufelli í Hrunamannahreppi, og Jón Árnason sýslumaður í Reykjavík. Frá þeim báðum komu miklar ættir. Árni lést 1515 og tók þá Ögmundur Pálsson, síðar biskup, við ábótadæmi í Viðey. The Holiday. "The Holiday" er bandarísk rómantísk-gamanmynd frá árinu 2006 sem Nancy Meyers leikstýrði, skrifaði og framleiddi. Cameron Diaz, Jude Law, Kate Winslet og Jack Black fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um tvær ókunnugar konur, eina í Bandaríkjunum og eina í Bretlandi, sem eru báðar í ástarsorg og ákveða að skiptast á húsum yfir jólin. Leikendur. Dustin Hoffman kemur fram í cameo hlutverki í myndinni í vídeóleigu. Lindsay Lohan, sem hafði leikið í myndinni "The Parent Trap" sem Meyers leikstýrði og James Franco koma einnig fram í stiklunni sem Amanda vinnur að sem heitir "Deception". The Sweetest Thing. "The Sweetest Thing" er bandarísk gamanmynd með rómantísku ívafi frá árinu 2002 sem Roger Kumble leikstýrði. Söguþráður. Christina Walters og Courtney Rockcliffe, tvær af heitustu partíljónunum í San Francisco, reyna að hugga herbergisfélaga þeirra Jane Burns sem er í ástarsorg með því að taka hana með þeim út á lífið. Christina hittir Peter Donahue um kvöldið og verður yfir sig ástfangin af honum um leið. Peter er trúlofaður en Christina misskilur hann og heldur að það sé bróðir hans sem ætlar að fara að gifta sig. Eftir kvöldið er liðið ákveður Courtney að hjálpa Christinu að finna Peter aftur með því að fara í ferð frá San Francisco til Somersets, þar sem brúðkaupið á að eiga sér stað. Þegar þær mæta á áfangastað komast þær að því að Peter er í raun brúðguminn. Á meðan athöfnin á sér stað játa Peter og unnusta hans að þau elski hvorugt hvort annað og ættu ekki að giftast. Nokkrum mánuðum seinna er Christina enn í ástarsorg eftir að hafa tapað Peter þó að Courtney og Jane séu báðar komnar í ný ástarsambönd. Eitt kvöld, þegar stelpurnar koma heim eftir að hafa verið á djamminu finna þær Peter sofandi fyrir framan dyrnar hjá þeim. Hann segir Christinu að hætt hafði verið við brúðkaupið og þau hefja samband og giftast síðan. Bergen op Zoom. Bergen op Zoom er borg í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi og er með 66 þúsund íbúa. Borgin er þekkt fyrir miðaldablæ sinn sem varðveist hefur í gegnum aldirnar. Lega og lýsing. Bergen op Zoom liggur við árbakka Schelde (Oosterschelde) nær vestast í Norður-Brabant, alveg við héraðið Sjáland og aðeins steinsnar frá belgísku landamærunum. Næstu borgir eru Antwerpen í Belgíu til suðurs (40 km), Breda til norðausturs (40 km) og Dordrecht til norðurs (50 km). Fáni og skjaldarmerki. Fáni borgarinnar eru þrjár láréttar rendur. Mjó rauð rönd, breið hvít og mjó rauð. Til hægri í hvítu röndinni kemur skjaldarmerkið fyrir. Litirnir eru borgarlitir Bergen op Zoom. Fáninn var tekinn í notkun í kringum 1870. Skjaldarmerkið sýnir þrjá silfurlitaða Andrésarkrossa á rauðum grunni. Í forgrunni eru þrjár grænar hæðir, sem merkja árbakka Schelde og koma fyrir í heiti borgarinnar. Risarnir og kórónan eru síðari tíma viðbætur. Orðsifjar. Bergen er ekki nefnd eftir fjöllum (eins og hið norska Bergen), heldur því að borgin stendur við bakka Schelde. Hér þýðir Bergen því "árbakki". Zoom merkir "rönd" (sbr. "Saum" á þýsku). Söguágrip. Módel af Bergen op Zoom frá fyrri árum. Geirþrúðarkirkjan er mest áberandi. Bergen op Zoom myndaðist við samruna þriggja bæja á miðöldum. Bærinn var víggirtur 1330 og hlaut borgarréttindi 1347. Á miðöldum var borgin með höfn við Schelde og var þá samkeppnisaðili Antwerpen, sem liggur aðeins sunnar. En með framburði lokaðist höfnin smátt og smátt. Þegar frelsisstríð Hollendinga var í gangi á 16. öld var Bergen eitt sterkasta vígi Hollendinga gegn Spánverjum. Fjórum sinnum sátu Spánverjar um borgina, 1581, 1588, 1605 og 1622, en í öll skiptin héldu varnir hennar og urðu Spánverjar frá að hverfa. Á hinn bóginn orsakaði stríðið mikla niðursveiflu í atvinnulífi borgarinnar og lauk blómaskeiði hennar um miðja 17. öld. Hins vegar féll borgin í hendur Frökkum 1747 eftir 70 daga umsátur í austurríska erfðastríðinu, en þeim var gert að skila henni ári síðar í friðarsamningunum í Aachen. Frakkar tóku borgina aftur 1795 og héldu henni þar til Vínarfundurinn skipaði þeim að skila henni 1814. Árið 2007 var Bergen op Zoom kjörin besta innanlandsborgin í Hollandi (í kategoríunni meðalstórar borgir). Popptónlist. Popptónlist (e. "pop music", stytting úr "popular music") er hugtak sem notað er yfir ákveðnar stefnur af vinsælli tónlist. Saga popptónlistar er nátengd tækniþróun nýrra miðla, upptökutækni og fjölmiðlun. Upprunalega var popptónlistin fyrst og fremst tengd ungu fólki en með árunum varð meiri breidd í aldri. Á sama tíma breiddist popptónlistin út og skaut til dæmis rótum í Japan og Afríku. Uppruni. Samkvæmt Grove Music Online á hugtakið popptónlist upptök sín í Bandaríkjunum og Bretlandi upp úr miðri síðustu öld. Upprunalega var átt við tónlist sem þróaðist á þessum árum út frá rokk og ról tónlistinni sem kom fram á þessum tíma. Orðið "pop music" virðist hafa þróast út frá hugtökunum popplist (e. "pop art") og poppmenningu (e. "pop culture") sem skömmu áður höfðu komið fram og tengdust ýmiss konar nýrri, oft bandarískri, listmiðlun. Einkenni. Frá upphafi hefur popptónlist verið skilgreind sem tónlist og tónlistarstefnur sem höfða til sem flestra áheyrenda. Það er að segja sú tónlist sem selst mest og best, sem hljóðrit (plötur, diskar), fær flesta áheyrendur á tónleika og mesta hlustun á útvarpsstöðvum. Sönglagið hefur alltaf verið kjarni popptónlistarinnar. Grunnform þess er vers og endurtekið viðlag. Algeng lengd laganna er 2 ½ til 5 og ½ mínúta. Sameiginleg einkenni poppsins er ákveðinn einfaldleiki, grípandi taktur, einfaldar laglínur og auðlærður texti. Popplögin höfða ekki til samfélagslegrar meðvitundar, pólitískra skoðana og uppreisnar eins og rokk og ról sem aðgreindi til dæmis kynslóð ungs uppreisnargjarns fólks frá kynslóð foreldranna. Fulltrúar poppsins settu fram allt aðra og sléttari ímynd. Ólíkt öðrum tónlistarstefnum, sem eru skýrt afmarkaðar í formi og flutningi (sbr. stefnur í klassískri tónlist) hefur poppið þróast og heldur áfram að breiðast út sem tilviljanakennd blanda hvað varðar stíl. Tónlistin er gjarnan bræðingur sem fær að láni og aðlagar frumþætti og hugmyndir úr ólíkum tónlistarstefnum. Þar má nefna sem dæmi áhrif frá rokki, kántrí-, diskó- og pönktónlist, ryþmablúsi, hipp hoppi og á síðari árum einnig suður-amerískri tónlist. En þrátt fyrir þennan suðupott þá er einn armur popptónlistarinnar sem af mörgum er talinn vera hið eina og sanna popp og er það kallað "pure pop" eða "power pop". Þetta eru sönglög, yfirleitt ekki lengri en 3 ½ mínúta, spiluð á rafmagnsgítar, bassa og trommur með auðlærðu viðlagi. Meginmarkmiðið er yfirleitt að hljóma þægilega frekar en að leitast sé við einhverri listrænni dýpt. Almennt má segja að popptónlist sé hugsuð sem tónlistarstefna sem hljóðrituð geti náð til fjöldans. Þáttur viðskiptalífsins hefur alltaf verið áberandi í poppinu. Framleiðendur byrjuðu snemma að stofna poppgrúppur, þeir völdu einstaklinga eftir útliti, danshæfileikum og öðrum ytri eiginleikum sem þeir töldu að aðdáendum myndi líka, frekar en tónlistarhæfileikum viðkomandi. Hljómsveitarmeðlimum var sagt hvernig þeir ættu að haga sér og þeim var markvisst komið á framfæri á tónleikum, sjónvarpi og kvikmyndum. Þarna var verið að framleiða popp sem vöru og var undanfari þess sem seinna birtist sem drengja- og stúlknabönd. Sjötti áratugurinn. Popptónlistin kom fram í Bandaríkjunum í kjölfar rokk og ról tónlistarstefnunnar sem réði ríkjum á síðari hluta sjötta áratugarins. Rokk og ról er gjarnan tengt nafni sveitasöngvarans Bill Haley sem byrjaði á árinu 1953 að blanda saman áhrifum frá sveitatónlist og ryþmablúsi. Hann komst árið 1955 í efsta sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum með laginu „Rock Around the Clock“. Lagið var vor og sumar smellur sem hélt fyrsta sætinu í átta vikur. Fyrstu sönglög sem báru merki poppsstefnunnar voru stílblöndur hefðbundinna dægurlaga. Þannig var sveitatónlistinni breytt með því að leggja minni áherslu á hljóðfærasóló en meira lagt í sönginn, oft styrkt með strengjahópum og viðlagi fluttu af söngvurum. Sjöundi áratugurinn. Þessi ár komu fram með stíl sem enn í dag er hljóðritaður. Það er svokallaður „novelty song“ sem byggir á fyndnum textum sem oft eru eftirherma. Melódíurnar eru einfaldar, grípandi og þess vegna auðlærðar. Á miðjum áratugnum kom fram svokallað brimbrettapopp (e. "surf pop") upprunnið í Kaliforníu þar sem þessi íþrótt var og er enn mjög vinsæl. Textarnir fjalla um líf unga fólksins, sólarlíf á ströndinni. Þarna er að finna meðal annarrs lög hljómsveitarinnar Beach Boys — „Surfin' USA“ frá árinu 1963 og „Good Vibrations“ frá 1966. Áttundi áratugurinn. Á seinni hluta áratugarinns hefur diskóið mikil áhrif á poppið. Hugtakið diskó kemur frá orðinu diskótek sem náði yfir næturklúbba sem voru vinsælir á sjöunda og áttunda áratugnum. Diskó er danstónlist sem meðal annars var spiluð í kvikmyndum. Myndir eins og "Saturday Night Live" gerðu þessa tónlist vinsælli en ella. Rafhljóðfæri urðu meira áberandi en áður. Þarna kom líka ný tíska fram. Fatnaður tónlistarmanna varð skrautlegri, til dæmis voru fyrirferðamiklir glansgallar vinsælir. Á þessu tímabili var sungið í hárri tónhæð og bergmálstækni notuð til að breyta „sándi“ radda og hljóðfæra. Í tónlistinni var sterkt, stöðugt „beat“ og sterkari rytmatilfærslur (sýnkópur) í rafmagnsbassanum. Um 1973 kemur sveitatónlist (kántrí) aftur inn í poppið og afró-amerískir ryþmar héldu áfram að vera áberandi á vinsældalistanum. Sænska hljómsveitin ABBA (stofnuð 1972) var mjög vinsæl á áratugnum og breski tónlistarmaðurinn Elton John varð stórstjarna. Níundi áratugurinn. Á níunda áratugnum urðu lög úr kvikmyndum oft ofarlega á vinsældarlistum. Þar má nefna „Eye of the Tiger“ úr "Rocky III" (1982), „Flashdance“ og „What a Feeling“ úr "Flashdance" (1983). Poppið breiddist mjög mikið út á áratugnum og oft voru það popplög sem voru í fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Þar má nefna hljómsveitina Wham! með lagið „Wake Me Up Before You Go-Go“ sem kom út árið 1984. Svo má nefna það að rokkhljómsveitir fóru að blanda sér inní poppið og gáfu margar slíkar hljómsveitir út róleg popplög þar má nefna hljómsveitina The Police sem gaf út lagið „Every Breath You Take“ árið 1983. Á þessum tíma fóru popptónlistar menn að nota tónlistina sína til að safna peningum til góðgerðarmála, það voru haldnir styrktartónleikar og lög gefin út með mörgum vinsælum tónlistarmönnum til að safna peningum sem gengu síðan til góðra verkefna. Þar má nefna lögin „Do They Know It's Christmas?“ og „We Are the World“. Michael Jackson var vinsælasti popptónlistamaðurinn á þessum tíma. Níundi áratugurinn er yfirleitt tengdur því að nota hljóðgervla og önnur rafhljóðfæri. Út frá því kom fram synthpop og aðrar rafstefnur svo sem elektró, teknó og freestyle. Á þessum áratug naut einnig mikilla vinsælda ryþmablús, hipp hopp og rapp. Tíundi áratugurinn. Fullyrða má að tíundi áratugurinn sé tími popplistakvenna. Þar nægir að nefna Sinead O'Connor með „Nothing Compares 2 U“ (1990), „Vogue“ með Madonna (1990), „Wannabe“ sem Spice Girls komu með 1996 og „Baby One More Time“ sem Britney Spears kom fram með árið 1999. Þetta tímabil sýnir einnig hvað poppið er orðið alþjóðlegt, á vinsældalistum eru lög frá Þýskalandi, Bretlandi, Spáni, Ítalíu, Hollandi og Ástralíu. Þessi þróun heldur áfram á tuttugustu og fyrstu öldinni og segja má að popptónlistin sé í dag ein sterkasta tónlistarstefnan í unglingamenningunni. Popp á Íslandi. Á Íslandi hafa tvær bækur verið skrifaðar um rokksögu Íslands. Það er annars vegar "Rokksaga Íslands - frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990" eftir Gest Guðmundsson félagsfræðing og hins vegar "Eru ekki allir í stuði? - Rokk á Íslandi á síðustu öld" eftir tónlistarmanninn, tónlistarrýninn og Popplands-stjórnandann Gunnar Lárus Hjálmarsson sem þekktur er undir nafninu Dr. Gunni. Í báðum þessum bókum er umfjöllun um íslenskt popp, þó ekki í samfelldu máli sem tónlistarstefnu. Yfirleitt er talað um poppið sem frekar ómerkilega tónlist sem menn spiluðu á böllum og sumarhátíðum til þess að vinna sér inn pening. Dr. Gunni skrifar í bók sinni að vorið 1973 væru tónlistarmenn „að láta undan fyrir innantómu ballharki – því sem „fólkið vildi“. Tilraunir sumra poppara til að ala ballgesti upp á framúrstefnurokki höfðu reynst árangurslitlar.“ Á níunda áratugnum kom fram hugtakið gleðipopp sem í byrjun þótti ekki merkilegt en á seinni hluta áratugarins rofaði til þegar það þróaðist í kraftmeira gleðirokk. Í "Rokksögu Íslands" er gerð tilraun til að skipta íslenskri dægurtónlist í tvo flokka, það er listarokk og popp. Höfundur segir þó að innan þessara meginflokka sé margs konar munur. Hluti hinna vinsælu poppara komu úr tilraunakenndu rokki (dæmi: Stuðmenn og Síðan skein sól) aftur á móti eigi hljómsveit eins og Stjórnin rætur sínar að rekja til gleðipopps og dansleikjatónlistar. Eitt hefur alla tíð verið áberandi að popptónlist hefur átt auðveldari aðgang að útgefendum tónlistar og þar ráða viðskiptahættir mestu, poppið er tónlist fjöldans og því er meira upp úr því að hafa en annarri tónlist sem á sér færri aðdáendur. Helgi Jónsson (ábóti). Helgi Jónsson (d. um 1528) var prestur í Hvammi í Norðurárdal og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri og var eftirmaður Ögmundar Pálssonar þar. Ætt Helga er óþekkt en hann hefur líklega verið af höfðingjaættum því hann var stórauðugur. Hann kemur fyrst við skjöl árið 1491 og var þá orðinn prestur, óvíst hvar, en um 1500 var hann orðinn prestur í Hvammi og hafði það embætti þar til hann tók við Viðeyjarklaustri 1521. Hann var vígður ábóti á Lúkasarmessu árið eftir og gegndi því starfi til dauðadags. Þegar Helgi varð ábóti gaf hann miklar gjafir, bæði Ögmundi biskupi og Skálholtskirkju, en Ögmundur hefur áreiðanlega ráðið því að hann fékk ábótadæmið. Einnig gaf hann Viðeyjarklaustri stórgjöf, svo og sonarsonum sínum tveimur, systrum sínum þremur og fleirum. Hann hefur verið orðinn nokkuð aldraður þegar hann varð ábóti og lést um 1528. Sér til aðstoðar hafði hann munk eða prest sem Gísli hét og varð sá eftirmaður hans í í ábótaembættinu. Hringaríki. Hringaríki er sveitarfélag í Buskerudfylki í Noregi. Höfuðstaður sveitarfélagsins er bærinn Hønefoss. Handknattleiksárið 1947-48. Handknattleiksárið 1947-48 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1947 og lauk sumarið 1948. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármann í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar á fullu húsi stiga. Níu lið tóku þátt í Íslandsmóti karla og léku þau einfalda umferð í einni deild. 1. deild. Ármannsstúlkur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna eftir úrslitaleik gegn KR. Sjö lið tóku þátt í Íslandsmóti kvenna og léku þau einfalda umferð í tveimur þriggja og fjögurra liða riðlum. Íslandsmótið utanhúss. Íslandsmótið í handknattleik utanhúss var haldið sumarið 1948. Þrjú félög tóku þátt í karlaflokki og fóru Ármenningar með sigur af hólmi. Átta lið tóku þátt í kvennaflokki og urðu Framarar Íslandsmeistarar eftir sigur á Þór Ve. í framlengdum úrslitaleik, 2:1. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Danskur handknattleiksflokkur skipaður leikmönnum úr Kaupmannahafnarliðunum HG og Ajax heimsótti Ísland vorið 1948 og lék m.a. tvo leiki við úrvalslið íslenskra handknattleiksmanna og vann þá báða. A Life Less Ordinary. "A Life Less Ordinary" er bresk gamanmynd frá árinu 1997 sem Danny Boyle leikstýrði og John Hughes skrifaði. Ewan McGregor, Cameron Diaz og Holly Hunter fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um skúringarmann sem rænir dóttur yfirmanns síns eftir hann er rekinn og milli þeirra myndast ást. Shrek the Third. "Shrek the Third" er bandarísk teiknimynd frá árinu 2007 sem Chris Miller og Raman Hui leikstýrðu. Myndin er sú þriðja í Shrek seríunni og fara Mike Myers, Eddie Murphy, Cameron Diaz, Antonio Banderas, Julie Andrews og Justin Timberlake með aðalhlutverkin. In Her Shoes (kvikmynd). "In Her Shoes" er bandarísk dramamynd frá árinu 2005 sem er byggð á samnefndri bók eftir Jennifer Weiner. Myndin er í leikstjórn Curtis Hansons og skrifaði Susannah Grant handritið. Cameron Diaz, Toni Collette og Shirley MacLaine fara með aðalhlutverk í myndinni sem fjallar um samband tveggja systra og ömmu þeirra. Gísli (ábóti í Viðeyjarklaustri 1528). Gísli nokkur var aðstoðarábóti og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri frá 1528 og fram yfir 1530. Þess hefur verið getið til að hann sé sami maður og Gísli eða Þorgils Nikulásson, sem var prestur og prófastur í Holti í Önundarfirði upp úr 1530 og að minnsta kosti til 1536 og síðan prestur og prófastur í Kaldaðarnesi í Árnessýslu frá því um 1540. Helgi Jónsson ábóti í Viðey hafði aðstoðarmann sem Gísli hét og stýrði sá klaustrinu eftir að Helgi dó um 1528 og er kallaður ábóti í Oddadómi 1528, þegar Ögmundur Pálsson biskup lét dæma sér veitingarvald yfir Oddastað, sem hafði verið erkibiskupslén. Gísli þessi mun hafa sagt af sér og ef þetta var Gísli Nikulásson hefur hann svo farið vestur í Önundarfjörð og orðið þar prestur. Eftirmaður Gísla í klaustrinu var Alexíus Pálsson, sem var vígður 1533. ICY. ICY var íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1986. Söngvarar eru Pálmi Gunnarsson, Helga Möller og Eiríkur Hauksson. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986 með laginu „Gleðibankinn“. Þau náðu 16. sæti af 20, með 19 stig. Handknattleiksárið 1961-62. Handknattleiksárið 1961-62 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1961 og lauk sumarið 1962. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla eftir sigur á FH í lokaleik. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. KR og Valur léku aukaleik um fall í 2. deild. 2. deild. Þróttarar sigruðu í 2. deild á fullu húsi stiga og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. 1. deild. Valskonur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna eftir jafntefli gegn FH í lokaleik mótsins. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Framarar höfnuðu í neðsta sæti og áttu að falla niður í 2. deild. Vegna þátttökuleysis var aðeins leikið í einni deild leiktíðina 1962-63 og hélt liðið því sæti sínu. 2. deild. Keppt var í 2. deild kvenna í fyrsta sinn. Breiðablik sigraði og tryggði sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í þriggja liða deild. Landslið. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Leeuwarden. Leeuwarden (frísneska: "Ljouwert") er höfuðborg héraðsins Frísland í Hollandi og er jafnframt. stærsta borg þess héraðs með 96 þúsund íbúa. Leeuwarden er eina héraðshöfuðborg Hollands þar sem frísneska er opinbert tungumál, ásamt hollensku. Lega og lýsing. Leeuwarden liggur norðvestarlega í Hollandi, skammt sunnan strandlengjunnar að Vaðhafinu og rétt austan við Ijsselmeer. Næstu borgir eru Drachten til suðausturs (25 km), Heerenveen til suðurs (30 km) og Groningen til austurs (65 km). Leeuwarden er hjarta Fríslands og mesta þjónustuborg fyrir héraðið allt. Þar er til að mynda stærsti nautgripamarkaður Hollands. Fáni og skjaldarmerki. Fáni borgarinnar eru fjórar láréttar rendur, blá og gul til skiptis. Litirnir eru borgarlitir Leeuwarden og koma þeir einnig fyrir í skjaldarmerkinu. Skjaldarmerkið sýnir gyllt ljón á bláum grunni. Ljónið er upprunnið annaðhvort frá greifunum af Hollandi eða biskupunum frá Utrecht en báðir áttu ítök í Fríslandi áður fyrr. Kórónan efst vísar til konungsríkisins Hollands. Orðsifjar. Heitið Leeuwarden birtist fyrst snemma á 9. öld. Hins vegar eru skiptar skoðanir um uppruna þess. Warden er nafn yfir smáhæð með vatni í kringum, þar sem frísar reistu hús á þurru. En Leeu getur bæði merkt "hlé" (sbr. leeward á ensku = "hlémegin") sem og "ljón" (sbr. Löwe eða Leu á þýsku). Söguágrip. Borgarbúar fagna kanadískri hersveit sem frelsaði Leeuwarden úr höndum Þjóðverja 15. apríl 1945 Í upphafi myndaðist byggð á þremur hæðum sem stóðu upp úr firðinum Middelzee, sem gekk suður af Vaðhafinu, en er horfinn í dag. Á hverri hæð var lítið þorp og uxu þau saman á 14. og 15. öld. 1435 hlaut Leeuwarden borgarréttindi. Borgin var mikil verslunarmiðstöð við Middelzee fram á 15. öld en þá minnkaði fjörðurinn og lokaðist af framburði. Eftir það minnkaði vægi Leeuwarden talsvert og varð að landbúnaðarmiðstöð. Árið 1504 varð Leeuwarden að höfuðborg Fríslands, sem í stuttan tíma var sjálfstætt land. Borgin varð þó endanlega hollensk eftir sjálfstæðisstríð þeirra gegn Spánverjum. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku nasistar borgina. Hún var frelsuð af kanadískri herdeild 15. apríl 1945. Viðburðir. Elfstedentocht er líklega eitt þekktasta skautahlaup heims. Það var áður þjóðaríþrótt fríslendinga og Hollendinga að skauta á milli ellefu borga í Fríslandi. Vegalengdin er 200 km og er byrjað og endað í Leeuwarden. Skautað er á frosnum síkjum og lækjum. Í dag getur keppnin ekki farið fram árlega sökum þess að síkin frjósa ekki öll ár eins og áður. Síðasta hlaupið fór fram 1997. Domino Day er árleg tilraun til að bæta metið í að fella uppraðaða dómínósteina. Domino Day var haldið í Leeuwarden 1998 og svo árlega siðan 2002. Árið 2009 voru steinarnir orðnir 4,8 milljónir talsins og vógu samtals 33 tonn. Viðburðurinn er sjónvarpaður og hefur vakið mikla eftirtekt. Maraþonhlaupið í Leeuwarden er þreytt árlega síðan 2007. Frægustu börn borgarinnar. Mata Hari er fædd og uppalin í Leeuwarden (1876) Mata Hari danskona og njósnari Beathoven. Beathoven var íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1987. Tónlistarmenn eru Stefán Hilmarsson (söngvari) og Sverrir Stormsker (píanó). Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1988 með laginu „Þú og þeir (Sókrates)“. Þeir náðu 16. sæti af 21, með 20 stig. IPod touch. Fyrsta kynslóð iPod touch í tengikví iPod touch (stundum kallaður iTouch) er tónlistarspilari, lófatölva, leikjatölva og nettæki sem hannaður var af Apple. iPod touch er eina iPodtækið sem er með fjölsnertiskjá eins og þeim sem er í iPhone. Það er líka fyrsti iPod með Wi-Fi og innbyggðum aðgangi að netverslununum iTunes Store og App Store. Þetta gerir notendum kleift að niðurhala tónlist og forrit beint í tækið án þess að tengja það við tölvu. Frá og með mars 2011 hefur Apple selt yfir 60 milljónir tæki. iPod touch keyrir iOS stýrikerfið sem tækin iPhone og iPad keyra líka. Með iPod touch er hægt að lesa rafbækur frá iBookstore og halda FaceTime-vídeósamtöl. Fjölsnertiskjár. Fjölsnertiskjár er snertiskjár sem getur greint tvær eða fleiri snertingar í einu. Notendur geta gefið flóknar skipanir með bendingum og banki á fjölsnertiskjáinn til þess að stjórna tækinu. Má finna fjölsnertiskjái í snjallsímum, lófa- og töflutölvum. Overijssel. Overijssel er fylki í Hollandi, það fjórða stærsta þar í landi og er 3.337 km2 að stærð. Höfuðborgin heitir Zwolle. Lega og lýsing. Overijssel liggur austarlega í Hollandi og nemur við þýsku landamærin (Neðra-Saxland og Norðurrín-Vestfalía. Önnur héruð sem að Overijssel liggja eru Drenthe og Frísland að norðan, Flevoland að vestan og Gelderland að sunnan. Íbúar eru 1,1 milljón talsins og er Overijssel því sjöunda fjölmennasta fylki Hollands ásamt Limburg. Fylkið er láglent en er þó eitt fárra fylkja Hollands sem ekki fer niður fyrir sjávarmál. Lægsti punktur fylkisins er í 2 metra yfir sjávarmáli. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Overijssel samanstendur af fimm láréttum röndum. Rauðri, gulri, blátti, gulri og rauðri. Guli liturinn er þó breiðastur. Litirnir tengja fylkið við fylkið Holland, en rauður og gulur eru litir þess. Bláa röndin vísar til árinnar Ijssel, sem er nafngefandi fyrir þetta fylki. Fáninn var formlega tekinn í notkun 21. júlí 1948. Skjaldarmerkið er líkt en í því vantar rauða litinn á bakgrunninum. Þó er ljónið fremst rautt og vísar til Karls V keisara þýska ríkisins, sem hlaut fylkið að gjöf á 16. öld. Merkið er því upprunnið á þeim tíma en endanlega útgáfan er frá 1950. Ljónberarnir og kórónan eru síðari tíma viðbætur. Kórónan vísar til konungsríkisins Hollands. Orðsifjar. Í upphafi hét fylkið Oversticht (eða bara Sticht). En þegar biskupinn í Utrecht gaf Karli V keisara fylkið, veitti keisari sjálfum sér nafnbótina Herr von Overijssel. Þetta var nafngefandi fyrir fylkið. Merkingin er "svæðið hinummegin við ána IJssel (séð frá Utrecht)". Söguágrip. Á miðöldum var fylkið, saman með Drenthe, undir yfirráðum biskupanna í Utrecht. 1528 gaf biskupinn, sem þá var Hinrik frá Bæjaralandi, Karli V keisara þýska ríkisins fylkið en Karl var Habsborgari. Aðrir hlutar Niðurlanda voru undir yfirráðum spænsku Habsborgar-ættarinnar. Þegar sjálfstæðisstríð Niðurlanda hófst á 16. öld, gekk fylkið til liðs við uppreisnarmenn og skrifuðu undir Utrecht-yfirlýsinguna gegn Spánverjum. Við sjálfstæði Niðurlanda varð Overijssel að hollensku fylki. Sjá eftir það sögu Hollands. Ferillengd. Ferillengd er lengd ferils og er alltaf stærri en núll, en getur verið óendaleg. Skilgreining. þar sem ds táknar „óendanlega lítinn bút“ af ferlinum og ferilheildið er reiknað eftir ferlinum. Dæmi. Setjum að lýsa megi ferli í tvívíðri sléttu í með tvenndunum ("x", "y"), þar sem "x" og "y" eru samfelld og deildanleg föll. en neikvæða rótin kemur vitaskuld ekki til greina, því ferillengd er alltaf stærri en núll. þar sem yfirsettu punktarnir tákna fyrstu afleiður fallanna. formula_5 þar sem notuð var stikunin x:= "t" og y:= f("t"), en táknið ' merki fyrstu afleiðu fallsins f og ferillinn afmarkast af bilinu ["a", "b"], þ.e. a ≤ t ≤ b. Klængskirkja. Klængskirkja var vegleg miðaldakirkja í Skálholti, sem Klængur Þorsteinsson biskup lét reisa skömmu eftir að hann tók við embætti Skálhlolsbikups 1152. Kirkjan var smíðuð úr tveimur skipsförmum af tilhöggnu timbri frá Noregi og kostaði sem samsvarar 1600 kúgildum. Kirkjan brann til grunna árið 1309 eftir að eldingu laust niður í hana. Róttækni. Róttækni merkir ýmiss konar viðhorf í samfélagsmálum sem miða að því að rífa upp samfélagslegar meinsemdir með rótum. Róttæklingar vilja gagngera breytingu á samfélaginu, gjarnan með byltingu, eiginlegri eða óeiginlegri. Frálshyggjumenn nota hugtakið yfir hugmyndir frjálshyggjunnar. Talað er um róttæka íslamista og er þá yfirleitt átt við öfgamenn enda þótt róttækni þurfi ekki að fara saman með pólitískum öfgum. En hugtakið róttækni hefur þó oftast verið notað yfir vinstrimenn. Ingólfur Sigurðsson. Ingólfur Sigurðsson (fæddur 12. febrúar 1993) er íslenskur knattspyrnumaður sem leikur með knattspyrnuliði Vals. Hann lék áður með unglingaflokki og meistaraflokki KR. Þegar hann var 15 ára fór hann á reynslu til heereven og var þar eitt tímabil. Plank. Plank er stelling sem varð heimsvinsæl í byrjun árs 2011. Uppruninn er umdeildur en athæfið vakti fyrst athygli fjölmiðla í september 2009 þegar sjö læknum og hjúkrunarfræðingum á Great Western Hospital í Swindon í Englandi var vikið úr starfi fyrir að planka á vakt. Stellingin er þannig að maður liggur á maganum og reynir að vera eins beinn og maður getur. Andlitið á að vita beint niður og handleggirnir liggja beinir meðfram líkamanum. Síðan er tekin ljósmynd sem yfirleitt er dreift á samskiptasíðum á netinu. Í júlí 2011 kom fram á samskiptasíðum önnur stelling sem kölluð var „að ugla“. Þeir sem ugla setjast á hækjur sér, láta handleggi lafa niður með líkamanum og horfa út í loftið. Fleiri áþekk „æði“ hafa verið að koma fram á sjónarsviðið. Enschede. Enschede er borg í Hollandi. Hún er stærsta borgin í héraðinu Overijssel með 157 þúsund íbúa. Þrátt fyrir það er hún ekki höfuðborg héraðsins. Lega og lýsing. Enschede liggur nær austast í Hollandi, alveg upp við þýsku landamærin. Næstu borgir eru Hengelo til norðvesturs (10 km) og Gronau í Þýskalandi til austurs (15 km). Þrátt fyrir að vera langt inni í landi er Enschede hafnarborg en skipaskurðurinn Twentekanaal liggur að borginni. Orðsifjar. Enschede merkir líklega "við aðgreininguna" (sbr. "an der Scheide" á þýsku). Meint er aðgreining hollensku héraðanna frá þýska ríkinu, en borgin stendur við landamærin að Þýskalandi. Söguágrip. Enschede á korti frá 1570 Mynd af sprengingunni í flugeldaverksmiðjunni árið 2000 Enschede myndaðist á miðöldum sem þýskt þorp við verslunarleiðina til Deventer. Héraðið allt var undir yfirráðum biskupanna frá Utrecht á síðmiðöldum. Það var Jan van Diest biskup sem veitti Enschede borgarréttindi 1325. Í kjölfarið voru reistir varnarmúrar umhverfis borgina. Þeir voru þó ekki gerðir úr grjóti, sem var of dýrt, heldur úr moldargörðum, viðargörðum og síkjum. Þeir voru því viðkvæmir gagnvart eldi, enda brann borgin 1517 í stórbruna. Eftir að Niðurlönd hlutu sjálfstæði frá Spáni, mynduðust ný landamæri að þýska ríkinu. Enschede varð því hollensk borg og gengu landamærin meðfram eystri borgarmörkum. Borgin brann á ný 1750 og aftur 1862. Seinni bruninn nær gjöreyðilagði borgina og fengu íbúarnir þá uppnefnið "Brandstichters" (brennuvargar). Þegar iðnvæðingin var í gangi á miðri 19. öld flutti Bretinn Thomas Ainsworth til Enschede og hóf að byggja upp vefnað þar í borg. Hráefnið var flutt inn frá Hollensku Vestur-Indíum (Indónesíu) og voru allt að 75 vefnaðarverksmiðjur starfandi á blómaskeiði borgarinnar. Vefnaðurinn hvarf með öllu þegar Indónesía hlaut sjálfstæði 1947. Í heimstyrjöldinni síðari var Enschede fyrsta hollenska borgin sem Þjóðverjar hertóku er þeir réðust inn í Holland 10. maí 1940. Andspyrnumenn hófust þegar handa við að bjarga gyðingum úr borginni. Af 1.300 gyðingum í Enschede í stríðsbyrjun tókst þeim að bjarga rúmlega 500 en það er hæsta hlutfall allra borga í Hollandi. Enschede varð oft fyrir loftárásum bandamanna, þar sem borgin lá við þýsku landamærin. Það var kanadísk hersveit sem frelsaði Enschede úr höndum nasista 1. apríl 1945. Í maí árið 2000 varð gífurleg sprenging í flugeldaverksmiðju í Enschede. 23 biðu bana og hverfið Roombeek gjöreyðilagðist. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er FC Twente Enschede sem varð hollenskur meistari 1926 og 2010, auk þess þrisvar bikarmeistari (1977, 2001 og 2011) Maraþonhlaupið í Enschede er næstelsta slíka hlaup í Evrópu. Það hefur farið fram á tveggja ára fresti í borginni síðan 1947 en á hverju ári síðan 1992. Hlaupið er bæði innanbæjar, sem og í nærsveitir og yfir til Þýskalands. Skautahöllin í Enschede var opnuð árið 2008. Hún er næststærsta 400m skautahöll Hollands. Aðeins skautahöllin Thialf í Heerenveen er stærri. Þjóðvegur 61. Þjóðvegur 61 eða Djúpvegur er vegur sem liggur frá Vestfjarðavegi (Þjóðvegi 60) vestan Geiradalsár, inn Gautsdal, fram Arnkötludal (um Þröskulda) og inn með Steingrímsfirði og þar fyrir ofan Hólmavík um Staðardal, yfir Steingrímsfjarðarheiði og Lágadal, fyrir Ísafjörð, um Reykjanes og Vatnsfjörð og yfir Mjóafjörð um Hrútey, um Ögur, fyrir Skötufjörð, Hestfjörð, Seyðisfjörð og Álftafjörð og um Súðavík, Ísafjörð og í gegnum Bolungarvíkurgöng og um Aðalstræti og Brimbrjótsgötu í Bolungarvík að höfninni þar. Handknattleiksárið 1946-47. Handknattleiksárið 1946-47 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1946 og lauk sumarið 1947. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármann í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar etir úrslitaleik gegn ÍR. Átta lið tóku þátt í Íslandsmóti karla og léku þau einfalda umferð í tveimur fjögurra liða riðlum. 1. deild. Ármannsstúlkur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna eftir úrslitaleik gegn FH. Sjö lið tóku þátt í Íslandsmóti kvenna og léku þau einfalda umferð í tveimur þriggja og fjögurra liða riðlum. Íslandsmótið utanhúss. Íslandsmótið í handknattleik kvenna utanhúss var haldið sumarið 1947. Fimm félög tóku þátt og fóru Ármannsstúlkur með sigur af hólmi, unnu alla sína leiki. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Sænska liðið IFK Kristianstad heimsótti Ísland vorið 1947 og lék þrjá leiki gegn íslensku úrvalsliði og einn gegn Ármenningum. Svíarnir sigruðu í öllum leikjunum með miklum mun. Handknattleiksárið 1959-60. Handknattleiksárið 1959-60 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1959 og lauk sumarið 1960. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármannsstúlkur í kvennaflokki. Íslenska kvennalandsliðið tók þátt í Norðurlandamóti í Svíþjóð. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla á fullu húsi stiga. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. Framarar sigruðu í 2. deild á fullu húsi stiga og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í fjögura liða deild, auk gestaliðs Reykvíska íþróttafélagið Skandinavisk boldklub tók þátt í mótinu sem gestalið og voru leikir þess ekki taldir með í lokastöðu. Það tapaði leikjum sínum gegn Fram, Víkingi og Þrótti með miklum mun. Lið ÍA mætti ekki til leiks gegn Skandinavian boldklub. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Leikin var einföld umferð í sjö liða deild. Landslið. Kvennalandsliðið tók þátt í Norðurlandamóti í Västerås og hafnaði í 2. sæti. Engir karlalandsleikir fóru fram á tímabilinu. Víkingur Kristjánsson. Víkingur Kristjánsson (f. 26. mars 1972) er íslenskur leikari. Janet Jackson. Janet Damita Jo Jackson (f. 16. maí 1966) er yngst af níu börnum Joseph Jackson og Katherine Jackson. Systkyni hennar eru Rebbie, Jackie, Tito, Jermaine, La Toya, Marlon, Michael og Randy. Bræður hennar mynda hljómsveitina Jackson 5 sem seinna var nefnd The Jacksons. Janet kom fyrst fram sem leikkona ung að árum í þáttunum Good Times og Different Strokes. Handknattleiksárið 1949-50. Handknattleiksárið 1949-50 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1949 og lauk sumarið 1950. Framarar urðu í fyrsta sinn Íslandsmeistarar í karlaflokki og kvennaflokki. Íslendingar léku á tímabilinu sína fyrstu karlalandsleiki. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn. Átta lið tóku þátt í Íslandsmóti karla og léku þau einfalda umferð í einni deild. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn. Sigurður Magnússon var þjálfari liðsins. Leikin var einföld umferð í fimm liða deild, auk gestaliðs. Reykvíska íþróttafélagið Skandinavisk boldklub tók þátt í mótinu sem gestalið. Liðið tapaði öllum leikjum sínum, en viðureignir þess voru ekki taldir með í lokastöðu. Landslið. Til stóð að halda heimsmeistaramót karla í handknattleik í Svíþjóð snemma árs 1950 og ákváðu Íslendingar að senda lið til keppni. Vegna þátttökuleysis var fallið frá því að halda þetta fyrsta HM, en ákveðið var að fara engu að síður í keppnisför. Ísland lék tvo formlega landsleiki í förinni, gegn Svíum og Dönum, þá fyrstu í sögunni. Síðar á árinu 1950 kom finnska landsliðið í heimsókn til Reykjavíkur. Það lék nokkra leiki í íþróttahúsinu Hálogalandi, en það var ekki löglegur völlur. Eini formlegi landsleikurinn í förinni var því leikinn utanhúss, á Melavelli. Háttarsögn. Háttarsögn í íslensku er sagnorð sem gefur til kynna svipaða aðgreiningu og persónuhættir. Í íslensku teljast "geta", "mega", "munu", "skulu", "vilja", "eiga", "hljóta", "kunna", "verða", "þurfa", og "ætla" til háttarsagna. Háttarsagnir hafa tvöfalda merkingu í íslensku; grunnmerkingu og möguleikamerkingu. Grunnmerking háttarsagnar þýðir að mælandi segi að frumlagið hafi skyldu, ábyrgð, leyfi eða getu til að gera það sem nafnháttarsetningin segir. Möguleikamerking háttarsagnar þýðir að fullyrðing í nafnháttarsetningu sé hugsanleg, líkleg eða nauðsynleg. Zwolle. Zwolle er höfuðborg héraðsins Overijssel í Hollandi en er ekki nema næststærsta borgin í héraðinu með 120 þúsund íbúa. Í Zwolle var Hansasambandið hið nýja stofnað árið 1980. Lega og lýsing. Zwolle liggur við ána Ijssel nánast miðsvæðis í Hollandi, rétt austan við Ijsselmeer og vestast í héraðinu Overijssel. Næstu borgir eru Kampen til vesturs (15 km), Apeldoorn til suðurs (40 km) og Almelo til suðausturs (45 km). Í Zwolle mundar áin Vecht í Ijssel. Borgin er því skipgeng alla leið til Norðursjávar. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Zwolle er hvítur kross á bláum grunni (öfugt við finnska fánann). Merkið er kross heilags Mikjáls erkiengils en hann er verndardýrlingur borgarinnar. Skjaldarmerkið er eins, nema hvað það er borið af tveimur ljónum og efst er kóróna. Hún táknar keisara þýska ríkisins (ekki hollenska konungdæmið), því Zwolle var áður fyrr hluti af þýska ríkinu. Það var Friðrik III keisari sem léði borginni fyrsta skjaldarmerkið 1488. Núverandi skjaldarmerki var formlega tekið upp 1974. Orðsifjar. Borgin myndaðist á lítilli sandhæð milli ánna Ijssel, Vecht, Aa og Zwarte Water. Slík hæð kallaðist suol eða suolle á hollensku (sbr. "geschwollen" á þýsku). Á korti frá 1543 er borgin merkt sem Suol. Það breyttist svo í Zwolle með tímanum. Blómaskeið. Hollenskt landakort frá 1543, en þar er heiti Zwolle ennþá ritað Suol. Zwolle var stofnuð í kringum árið 800 af frísneskum verslunarmönnum og uppgjafahermönnum Karlamagnúsar. Bærinn kom þó ekki við skjöl fyrr en 1040 en í því kom fram að kirkja í bænum hafi verið vígð heilögum Mikjál. Bærinn var undir yfirráðum biskupanna í Utrecht og það voru þeir sem veittu Zwolle borgarréttindi 1230. Árið 1294 gekk borgin í Hansasambandið og barðist með því gegn Valdimar IV Danakonungi 1361. Gullaldarár Zwolle voru á 15. öld, er viðskipti voru enn blómleg. Á þessum tíma voru náin samskipti við borgirnar Deventer og Kampen en þær gáfu til að mynda út sameiginlega mynt. Efnahagslegt hrun varð í borginni í sjálfstæðisstríði Hollendinga og kom borgin lítt eða ekki við sögu næstu aldir. Heimstyrjöldin síðari. Zwolle var hertekin af Þjóðverjum 10. maí 1940 og héldu þeir borginni til apríl 1945. Kanadískur hermaður, Leo Major, vann það þrekvirki að frelsa borgina úr höndum nasista einsamall. Kanadísk hersveit var við borgarmörkin, tilbúin að gera ásás. Major var sendur leynilega inn í borgina, við annan mann, til að kanna varnir Þjóðverja. Þegar félagi Majors var drepinn, tók Major það til bragðs að skjóta á götum borgarinnar og henda handsprengjum út um allt. Þjóðverjar héldu að bandamenn hefðu gert árás og voru ringlaðir. Þá uppgötvaði Major aðalstöðvar SS-sveitanna í borginni. Hann lagði eld að þeim, drap nokkra yfirmenn nasista í skotbardaga og hélt áfram að vera með læti. Þetta endaði með því að Þjóðverjar drógu sig til baka frá borginni en Major labbaði til kanadísku sveitar sinnar með tugi stríðsfanga. Jafnskjótt gátu Kanadamenn þrammað inn í Zwolle án frekari vandræða. Fyrir vikið hlaut Leo Major orðu fyrir. Hansaborg á ný. Árið 1980 söfnuðust fulltrúar ýmissa gamalla Hansaborga saman á ráðstefnu í Zwolle og stofnuðu Hansasambandið hið nýja. Samband þetta er meira menningarlegs en viðskipta- eða verslunarlegs eðlis. Markmið sambandsins er að auka ferðamennsku í viðkomandi borgum. Aðeins borgir sem áður fyrr voru meðlimir Hansasambandsins eru gjaldgengar í nýja sambandið. Í dag eru tugir borga í nýja sambandinu, þar á meðal Hafnarfjörður. Bláfingur. Íbúar Zwolle kalla sig gjarnan Blauwvingers ("Bláfingur"). Á miðöldum var mikill rígur milli nágrannaborganna Zwolle og Kampen. Íbúar Zwolle uppnefndu fólkið frá Kampen Kampersteuren ("Styrjurnar frá Kampen") en styrjur voru þá enn til í fljótum Hollands. Eitt sinn, eftir borgarbruna í Zwolle, eyðilagðist klukknaspil í kirkjuturni nokkrum. Borgarráðið ákvað að selja klukkurnar sem heilar voru og vildu íbúar Kampen gjarnan kaupa þær. Þeir sendu vagna hlaðna gamalli mynt. Þegar fulltrúar Zwolle töldu myntirnar, fengu þeir bláa fingur (málmfingur). Því voru þeir uppnefndir Bláfingur. Þetta heiti hefur verið endurnýjað, en með jákvæðum blæ þó. Handknattleiksárið 1950-51. Handknattleiksárið 1950-51 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1950 og lauk sumarið 1951. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki en Fram sigraði kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar á fullu húsi stiga eftir sigur á Ármanni í lokaleik, 12:7. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. Tekin var upp keppni í 2. deild. KR fór með sigur af hólmi og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna annað árið í röð. Leikin var einföld umferð í fimm liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Handknattleiksárið 1951-52. Handknattleiksárið 1951-52 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1951 og lauk sumarið 1952. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki en Fram sigraði kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar, þrátt fyrir tap gegn Valsmönnum í lokaleik. Liðin hlutu jafn mörg stig en Ármenningar unnu titilinn á markatölu. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. Afturelding fór með sigur af hólmi og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna þriðja árið í röð. Leikin var einföld umferð í fjögurra liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Guðfinna Þorsteinsdóttir. Guðfinna Þorsteinsdóttir (1891 – 1972) var íslensk skáldkona sem gaf út ljóð og frásöguþætti undir skáldanafninu Erla skáldkona. Guðfinna fæddist á Skjögrastöðum á Völlum. Foreldrar hennar voru Rannveig Sigfúsdóttir (1869-1952) frá Skjögrastöðum og Þorsteinn Eiríksson (1860-1929) frá Gröf í Eiðaþinghá. Átta ára gömul var Guðfinna send í fóstur til Krossavíkur í Vopnafirði. Árið 1917 giftist Guðfinna Pétri Valdimari Jóhannessyni (1893-1953) frá Syðri-Vík. Þau hófu búskap sinn á heiðarbýlinu Brunahvammi í Fossdal í Vopnafirði. Guðfinna og Valdimar fluttust nokkrum sinnum búferlum í hjúskapartíð sinni. Í Brunahvammi voru þau frá 1917-1922, þaðan fluttust þau til Hróaldsstaða, árið 1924 flutti svo fjölskyldan að Felli þar sem þau bjuggu í þrjú ár. Árið 1927 fluttu þau svo í Teig þar sem fjölskyldan bjó til ársins 1954. Guðfinna og Valdimar eignuðust níu börn. Guðfinna, undir skáldanafninu Erla, gaf út bækurnar "Hélublóm" (1937), "Fífulogar" (1945), "Slagur vindhörpunnar" (þýðing) (1956), "Völuskjóða" (1957), "Æfintýri dagsins" (1958) og "Vogrek" (1959). Tölvumiðlun. Tölvumiðlun er hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað árið 1985 og er eitt af elstu hugbúnaðarfyrirtækjum landsins. Tölvumiðlun státar sig af því að vera með fullkomið launakerfi ásamt mannauðskerfi, ráðningarkerfi og fjárhagskerfi. Hjá fyrirtækinu starfa um 30 manns. Tölvumiðlun var stofnað árið 1985 og er eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins. Tölvumiðlun er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við fyrirtæki og stofnanir. Einn af hornsteinum Tölvumiðlunar var samningur við Tölvuþjónustu sveitarfélaga um samræmt bókhaldskerfi fyrir sveitarfélög til notkunar á einkatölvum. Frá því haustið 1985 hafa yfir fjölmörg sveitarfélög og fyrirtæki notað SFS fjárhagskerfið. Árið 1987 keypti Tölvumiðlun fyrirtækið Huga hf. og viðskiptasambönd þess. Helsta söluvara Huga hf. var launakerfi og þjónustusamningar því tengdir. Þróun launakerfisins skilaði mjög góðum árangri og árið 1990 gerði Tölvumiðlun samning við 24 sjúkrahús um nýja gerð launakerfis sem síðar varð að útbreiddasta launakerfi landsins, H-laun. H-laun (H3 Laun) ásamt hliðarkerfum er í notkun hjá á annað þúsund launagreiðendum. Á árinu 1988 setti Tölvumiðlun upp upplýsingakerfi fyrir sjúkrahús ásamt skrifstofukerfi fyrir ritara. Í framhaldi af uppsetningu upplýsingakerfa sjúkrahúsa hóf Tölvumiðlun markaðssetningu á hinum ýmsu hugbúnaðarkerfum fyrir sjúkrahús. Kerfin voru kynnt undir heitinu HUS (Heildar Upplýsingakerfi Sjúkrahúsa). Um var að ræða göngudeildarkerfi fyrir hinar ýmsu deildir sjúkrahúsa ásamt leguskráningarkerfi. Tölvumiðlun hefur átt mikið og gott samstarf við Sjúkrahús Reykjavíkur, nú Landsspítalann Háskólasjúkrahús, sem hefur allt frá 1995 notað LEGU legudeildarkerfi og HUS-RIS bókunarkerfi fyrir röntgendeildir. Þjónusta tengd heilbrigðisgeiranum var færð að mestu yfir í annað félag, eMR hugbúnað og sameinað starfsemi Gagnalindar hf. og heilbrigðissviðs Hugvits hf. Árið 2003 var eMR selt TM Software. Skömmu eftir 1990 hófst samvinna við Fasteignamat Ríkisins þar sem ýmis kerfi voru unnin í samvinnu við tölvudeild fasteignamatsins. Þessi kerfi halda utan um allt fasteignamat, skráningu á þeim, lýsingu í smáatriðum á húsnæði ásamt ýmsum uppflettimöguleikum fyrir fasteignasala og aðra notendur þessara gagna. Ýmist með sérkerfum eða í gegnum internetið. Í framhaldi af þessari vinnu hefur Tölvumiðlun unnið þinglýsingarkerfi fasteigna í samvinnu við Dómsmálaráðuneytið. Þetta kerfi heldur utan um allar þinglýsingar og skráningar á fasteignum og lausafé. Kerfið hefur verið sett upp hjá sýslumönnum um land allt. Eigendur Tölvumiðlunar eru Brynjar Gunnlaugsson, Daði Friðriksson og Gissur Ísleifsson, sem allir hafa starfað hjá félaginu um árabil. Helstu viðfangsefni Tölvumiðlunar eru á sviði launavinnslu og mannauðsmála en þekktustu afurðir félagsins eru H-Laun launakerfið og H3 sem er stöðluð heildarlausn í mannauðsmálum. Tölvumiðlun annast einnig sérsmíði hugbúnaðar fyrir fyrirtæki og stofnanir, auk þess að annast rekstur tölvukerfa, neta og vinnustöðva fyrir ýmsa aðila með rekstrarþjónustu. Flest sveitarfélög landsins nota SFS Fjárhagskerfi Tölvumiðlunar sem sérsniðið er að þörfum þeirra. Félagið er sölu- og þjónustuaðili á myndgreiningarkerfum frá Carestream Health (áður Eastman Kodak) sem notað er á röntgendeildum stærstu sjúkrahúsa landsins. Við lítum framtíðina björtum augum. Hjá Tölvumiðlun starfa í dag um 30 manns og fyrirtækið vex hægt en örugglega. Lausnaframboð Tölvumiðlunar verður sífellt stærra og gæði kerfanna aukast með hverju ári. Rekstrarstaða fyrirtækisins er traust. Bambara. Bambara (Bamanankan) er tungumál sem talað er á Malí af 10 milljón manns, þar af er mikill minnihluti af ættbálki Bambara sem hefur málið að móðurmáli og er því bambara annað tungumál langflestra. Ritmálið hefur í gegnum tíðina stuðst við ólík stafróf og tekið miklum breytingum. Bandalag íslenskra skáta. Bandalag íslenskra skáta (stofnað 6. júní 1924) er landssamband skáta á Íslandi. Sambandið varð meðlimur í alþjóðlegu skátahreyfingunni 29. ágúst 1924. Sambandið rekur skátamiðstöð að Úlfljótsvatni sem hefur hýst landsmót skáta, sumarmót og sumarbúðir. Innan skátamiðstöðvarinnar er 5000 manna tjaldstæði og 10 metra klifurturn. Saga. Skátastarf á Íslandi hófst 1911 þegar Ingvar Ólafsson, skáti í Danmörku, undirbjó stofnun skátafélags sem varð að veruleika ári síðar undir nafninu Skátafélag Íslands. Í kjölfarið var skátafélag stofnað 23. apríl 1913 í Reykjavík, 22. maí 1917 á Akureyri og 1920 á Eyrarbakka. Tveimur árum síðar, 7. júlí var fyrsta kvenskátafélag íslands Kvenskátafélag Reykjavíkur stofnað. 6. júní 1924 var landsamband karlskáta stofnað undir nafninu Bandalag íslenskra skáta og fékk inngöngu í skátahreyfinguna sama árs. Fyrsti skátahöfðingi hennar var Axel W. Tulinus. Landsamband kvenskáta var stofnað meira en áratug síðar 23. mars 1938 undir nafninu Kvenskátasamband Íslands. Þremur árum síðar fær landsamband karlskáta jarðréttindi yfir Úlfljótsvatni. 1944 gengu skátafélög kvenskáta inn í Bandalag skáta og urðu þar með fyrsta landsamband kven- og karlskáta í heiminum. Lýtingur Arnbjarnarson. Lýtingur Arnbjarnarson landnámsmaður nam Vopnafjarðarströnd eystri, Böðvarsdal og Fagradal. Hann bjó í Krossavík. Fagridalur í Vopnafirði. Fagridalur í Vopnafirði er norðan undir Hellisheiði Eystri. Böðvarsdalur í Vopnafirði. Böðvarsdalur í Vopnafirði er stærsti dalurinn sem skerst inn í fjalllendið á milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs og liggur vestan við Hellisheiði eystri. Nú liggur vegur úr dalnum upp á heiðina en ráðgert hefur verið að gera jarðgöng, Vopnafjarðargöng, úr Böðvarsdal til Héraðs. Í Böðvarsdal er bærinn Eyvindarstaðir. Samkvæmt Vopnfirðinga sögu fór Eyvindastaðabardagi þar fram. Eyvindur bóndi á Eyvindarstöðum stöðvaði bardagann með setstokk sínum. Í dalnum var einnig bærinn Böðvarsdalur, sem nú er í eyði, sagður kenndur við Böðvar nokkurn sem þar bjó á landnámsöld, og á að hafa verið til söguþáttur af honum. Krossavík í Vopnafirði. Krossavík í Vopnafirðier landnámsbær sunnan til í firðinum. Landnámsmaður í Krossavík var Lýtingur Arnbjarnarson. Hann nam Fagradal, Böðvarsdal og bjó í Krossavík. Einnig nam Eyvindur vopni land á Vopnafirði. Hann nam Vesturárdal allan og bjó í „Krossavík hinni iðri“, eins og stendur í Landnámu, en sá bær heitir nú Syðri-Vík. Syðri-Vík (Vopnafirði). Syðri-Vík í Vopnafirði er landnámsbær Eyvindar vopna og stendur undir Krossvíkurfjöllum. Upphaflega hét bærinn Krossavík hin iðri (þ.e. innri). Í fjörunni fyrir neðan bæinn er Skipaklettur, þar sem Eyvindur er sagður hafa bundið skip sitt. Vogrek. Vogrek er önnur bók Guðfinnu Þorsteinsdóttur eða Erlu skáldkonu sem hefur að geyma frásagnarþætti ýmiss konar af þjóðlegum toga. Vogrek var gefin út af Bókaútgáfunni Iðunni árið 1959 og prentuð af Prentsmiðjunni Odda í Reykjavík. Oswald Spengler. Oswald Manuel Arnold Gottfried Spengler (29. maí 1880 – 8. maí 1936) var þýskur sagnfræðingur og heimspekingur. Hann er þekktastur fyrir rit sitt "Hnignun Vesturlanda" ("Der Untergang des Abendlandes") sem kom út árið 1918. Romelu Lukaku. Romelu Lukaku (fæddur 13. maí 1993) er belgískur knattspyrnumaður sem spilar með Chelsea í efstu deild á Englandi. Hann spilaði áður með Anderlect í Belgíu. Er sagður arftaki Didier Drogba samherja sínum. Hann spilar í treyju númer 18 sem Yuri Zhirkov spilaði í áður en hann var seldur til Rússlands. Magnús Kristjánsson. Magnús Júlíus Kristjánsson (18. apríl 1862 – 8. desember 1928) var íslenskur athafna- og stjórnmálamaður, alþingismaður í rúma tvo áratugi og fjármáðaráðherra 1927 – 1928. Magnús var fæddur á Akureyri, sonur Kristjáns Magnússonar húsmanns þar og konu hans Kristínar Bjarnadóttur. Hann lærði beykisiðn og lauk prófi í þeirri iðngrein í Kaupmannahöfn 1882. Hann vann síðan að verslunarstörfum á Akureyri og rak eigin útgerð og verslun þar frá 1893 til 1917. Árið 1918 varð hann forstjóri Landsverslunarinnar og gegndi því starfi til 1927. Hann var alþingismaður Akureyringa 1905-1908 og aftur frá 1913-1922 og síðan landskjörinn þingmaður frá 1926 til dauðadags. Hann átti einnig lengi sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Framan af sat Magnús á þingi fyrir Heimastjórnarflokkinn en gekk í Framsóknarflokkinn þegar hann var stofnaður og varð einn af forystumönnum hans. Hann var formaður miðstjórnar flokksins frá 1926. Þann 28. ágúst 1927 tók hann við starfi fjármaálaráðherra í ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar. Hann dó í Kaupmannahöfn í desember 1928 eftir að hafa verið skorinn upp við innvortismeini og tók Tryggvi sjálfur við embætti fjármálaráðherra til bráðabirgða en síðar Einar Árnason. Verðbætur. Verðbætur eru heiti á sérstökum, breytilegum vöxtum, sem notaðir eru til að tryggja verðgildi fjárskuldbindinga, bankainnistæða, lána o.s.frv. með viðmiðun við ákveðna vísitölu. Verðtrygging láns felst í að reikna verðbætur á afborganir eða höfuðstól lánsins. Liza Lapira. Liza Lapira (fædd 3. desember 1981) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í NCIS og Huff. Einkalíf. Lapira fæddist í Queens í New York-borg í Bandaríkjunum. Ferill. Fyrsta hlutverk Lapira var í kvikmyndinni Autumn in New York árið 2000. Hún lék á móti Paul Walker í Fast & Furious frá 2009. Lapira hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: Brown Sugar, Cloverfield, Repo Men og Crazy, Stupid, Love. Lapira byrjaði sjónvarpsferil sinn árið 2001 í Law & Order. Árið 2004 þá var Lapiru boðið hlutverk í Huff þar sem hún lék Maggie Del Rosario til ársins 2006. Árið 2006 var henni boðið gestahlutverk í NCIS sem NCIS fulltrúinn Michelle Lee sem hún lék til ársins 2008. Lapira hefur einnig komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Sex and the City, The Sopranos, Monk, Dollhouse og ER. Tenglar. Lapira, Liza Muse Watson. Muse Watson (fæddur, 20. júlí 1948) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í NCIS, Prison Break og I Know What You Did Last Summer. Einkalíf. Watson er fæddur og uppalinn í Alexandria, Louisiana. Watson stundaði nám við Louisiana Tech háskólann á tónlistarstyrk en skipti um skóla og færði sig yfir til Berea College í Berea, Kentucky. Þar kom hann fyrst fram á leiksviði sem "Petruchio" í Shakespeare uppfærslunni af "The Taming of the Shrew". Meðfram náminu þá kom Watson fram í útileikhúsum, kvöldleikhúsum og litlum leikhúsum. Leikhús. Watson kom fram í Man of LaMancha og Humbug and Holly sem voru leikstýrð af Jay Hugeley sem átti eftir að framleiða Magnum P.I. Einnig kom hann fram í Cat on a Hot Tin Roof sem Brick við Summer Arena Theater og sem Stanley í A Streetcar Named Desire á sviði Berea College. Önnur leikrit sem Watson hefur leikið í eru: Wizard of Oz, Romeo & Julia, Guys & Dolls, Hamlet, Lonestar og Fiddler on the Roof. Sjónvarp. Watson kom fyrst fram í sjónvarpi árið 1990 í sjónvarpsmyndinni "Blind Vengeance". Hann endurtók hlutverk sitt sem Benjamin Willis á móti Jennifer Love Hewitt í Saturday Night Live árið 1998. Árið 2005 var Watson boðið gestahlutverk í Prison Break sem Charles Westmoreland sem hann lék til ársins 2008. Watson lék einnig gestahlutverk í NCIS sem Mike Franks frá 2006-2011. Hefur Watson komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Matlock, Criminal Minds, The Mentalist og Castle. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Watson var árið 1989 í "Black Rainbow". Lék á móti Jennifer Love Hewitt, Sarah Michelle Gellar, Ryan Phillippe og Freddie Prinze Jr. í I Know What You Did Last Summer sem illmennið Benjamin Willis frá árinu 1997. Endurtók hann síðan hlutverkið í I Still Know What You Did Last Summer síðan 1998. Aðrar kvikmyndir sem Watson hefur leikið í eru: Lolita, Rosewood, American Outlaws, House of Grimm, The Steamroom og A Christmas Snow. Tenglar. Watson, Muse Beðið eftir barni. "What to Expect When You're Expecting" er bandarísk kvikmynd sem Kirk Jones leikstýrir en handritið er skrifað af Shauna Cross. Cross byggði handritið lauslega á samnefndri meðgönguhandbók eftir Heidi Murkoff, sem selst hefur í 16 milljónum eintaka í Bandaríkjunum og hefur komið út í íslenskri þýðingu undir nafninu "Beðið eftir barni" (2010). Í myndinni fléttast saman sögur fjögurra para sem öll eiga von á sínu fyrsta barni og er því lýst hvernig líf þeirra breytist við meðgöngu og fæðingu. Á meðal leikara eru Elizabeth Banks, Anna Kendrick, Chris Rock, Jennifer Lopez, Cameron Diaz og Chace Crawford í þeim hópi. Myndin verður frumsýnd þann 11. maí 2012 í Bandaríkjunum. How Clean Is Your House? How Clean Is Your House? var breskur gaman- og lífstílsþáttur sem var á dagskrá Skjás Eins 2007. Þátturinn gengur út á það að kynnarnir Kim Woodburn og Aggie MacKenzie fara heim til fólks þar sem umgengni og hreinlæti er verulega ábótavant. Selfossprestakall. Í Selfossprestakalli eru fjórar sóknir: Hraungerðissókn, Laugardælasókn, Selfosssókn og Villingaholtssókn. The Glee Project. "The Glee Project" er bandarískur raunveruleikaþáttur sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Oxygen. Þættirnir eru áheyrnarprufur fyrir eitt sjö þátta gestahlutverk á "Glee". Þættirnir áttu upprunalega að hefja sýningu seint í maí 2011 en voru seinkaðir um mánuð og hófu sýningu þann 12. júní 2011. Framleiðendur "Glee", Ryan Murphy og Dante Di Loreto, eru einnig framleiðendur þessa þátta, og forstjóri leikaravals á "Glee", Robert Ulrich, valdi þáttakendurna. Ferli. Í hverjum þætti af "The Glee Project" er eitt af svokölluðum kjarnaefnum sem leikararnir í "Glee" þurfa að hafa kennt þáttakendum og eiga þeir að reyna að ná tökum á því í þeirri viku. Í byrjun vikunnar fá þáttakendur „heimavinnu“ þar sem þeir þurfa að læra ákveðið lag sem er alltaf tengt þema vikunnar. Í byrjun hvers þáttar flytja þáttakendur þeirra hluta af laginu fyrir framan einhvern leikara úr "Glee". Sá sem dómaranum lýst best á fær einkatíma hjá dómaranum sem hjálpar honum eða henni með kjarnaefni vikunnar og hlýtur einnig aðalhlutverkið í tónlistarmyndbandi vikunnar. Þáttakendur búa svo til tónlistarmyndband með einhverju lagi sem flutt hefur verið á "Glee". Í undirbúningi fyrir myndbandið þá eru þáttakendur sendir í hljóðver þar sem söngkennarinn Nikki Anders hjálpar þeim. Þau læra svo danssporin sín með Zach Woodlee eða Brook Lipton og fylgist Robert Ulrich strangt með öllu ferlinu. Eftir að myndbandinu er lokið velja Robert Ulrich og Zach Woodlee þá þrjá keppendur sem stóðu sig verst í vikunni og er hverjum keppanda úthlutað lag sem þeir þurfa að flytja fyrir Ryan Murphy og mun hann ákveða, með hjálp frá Ulrich og Woodlee, hvaða keppandi verður sendur heim. Eftir flutning fara þáttakendur aftur inn í húsið þeirra og bíða þess að listinn sem segir hvaða keppandi hefur verið sendur heim er birtur. Sá keppandi sem er sendur heim fær svo að syngja lag Avril Lavignes "Keep Holding On" í lok þáttsins. Eyrarvinna. Eyrarvinna eða að ganga á eyrinni nefndist vinna við að ferma og afferma skip á Íslandi við hafnir stærri þéttbýlisstaða á seinni hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar. Eyrarvinnan var mikil erfiðisvinna en hún fólst í burði til og frá skipunum og pakkhúsum eða geymslum á landi. Vinnuna unnu konur til jafns við karla almennt sem tíðkaðist ekki á öðrum Norðurlöndum á sama tíma. Þessi vinna var stopul og óstöðug og því hún var háð því hvaða skip lágu að höfn hverju sinni. Í mörgum tilvikum var borið með börum einhvers konar en oft á baki. Handknattleiksárið 1953-54. Handknattleiksárið 1953-54 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1953 og lauk sumarið 1954. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki en Fram sigraði kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. Víkingur féll í 2. deild á markatölu. 2. deild. Þróttur fór með sigur af hólmi og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð, auk gestaliðs. Góðtemplarastúkan Sóley frá Reykjavík tók þátt í mótinu sem gestur. Liðið tapaði öllum leikjum sínum, en úrslitin voru ekki talin með við lokaniðurröðun. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna fimmta árið í röð. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Handknattleiksárið 1944-45. Handknattleiksárið 1944-45 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1944 og lauk sumarið 1945. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Haukar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar á fullu húsi stiga. Keppt var í átta liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. Haukar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn eftir sigur á Ármenningum í lokaleik, 7:6. Keppt var í fimm liða deild með einfaldri umferð. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Magnús Ólafsson (ljósmyndari). Ljósmynd eftir Magnús. Tvær stúlkur á Valhúsahæð. Í baksýn eru Mýrarhús og Reykjavík. Magnús Ólafsson (10. maí 1862 að Hvoli í Saurbæ, Dalasýslu – 26. september 1937 í Reykjavík) var íslenskur ljósmyndari sem var virkur um og upp úr aldamótunum 1900. Hann tók myndir af sögulegum atburðum á borð við brunann mikla í Reykjavík 1915 og heimsókn Graf Zeppelins til Reykjavíkur árið 1930. Flestar ljósmyndirnar hans eru úr höfundarétti samkvæmt íslenskum höfundalögum. Ljósmyndasafn Reykjavíkur hefur að geyma 1.449 myndir eftir Magnús sem mynda kjölfestuna í safneign safnsins. Steinbryggjan. a> Apríl, Marz og Maí, Gullfoss bak við þá. Steinbryggjan var lítil bryggja hlaðin úr steini sem nú liggur undir Tryggvagötu og bílastæðinu við hliðina á Tollhúsinu skammt innan við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn. Hún gekk fram af Pósthússtræti skammt frá húsi Eimskipafélags Íslands. Steinbryggjan var vel sýnileg fram að seinni heimsstyrjöld. Steinbryggjan var upphaflega reist af bæjarsjóði Reykjavíkur árið 1884 og var þá mjög dýr en þótti framför miðað við litlu trébryggjurnar út af fjörukambinum í Reykjavík sem voru í einkaeigu kaupmanna. Níu árum seinna, árið 1893, skemmdist bryggjan í ofsaveðri og var Tryggvi Gunnarsson fenginn til að vinna að viðgerðum. Eftir það var bryggjan oft kölluð "Tryggvasker". Steinbryggjan var fyrsti viðkomustaður þeirra sem til landsins komu eftir hún var byggð og í upphafi 20. aldar. Þegar Friðrik 8. kom til landsins 1907 gekk hann til lands á Steinbryggjunni. Þrettán árum seinna þegar Kristján 10. konungur Íslands og Danmerkur og Alexandrina drottning komu í heimsókn árið 1921 gengu þau til lands á rauðum dregli eftir Steinbryggjunni. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2012. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2012 var 57. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Bakú í Aserbaídsjan eftir að Ell og Nikki unnu keppnina árið 2011 með laginu „Running Scared“. Undankeppnirnar tvær verða haldnar þann 22. maí og 24. maí 2012, og aðalkeppnin verður haldin þann 26. maí 2012. Tíu lönd frá hvorri undankeppni munu komast áfram í aðalkeppnina ásamt Aserbaídsjan, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, og Spáni. Fjörutíu og tvö lönd munu taka þátt í keppninni, þar á meðal mun Svartfjallaland snúa aftur, en Pólland og Armenía draga sig í hlé. Vettvangur. Samband evrópskra sjónvarpsstöðva tilkynnti þann 16. maí 2011 byggingu tónlistarhúss fyrir söngvakeppnina í Bakú. Húsið var nefnt „Kristalshöllin“ og átti að halda 23.000 manns. Þann 4. ágúst 2011 hófst vinna á húsinu, íþróttavöllurinn Tofiq Bahramov í Bakú, sem var þá lokaður vegna viðgerða, var sagður vera varamöguleiki fyrir keppnina. Þann 8. september 2011 var síðan loksins staðfest að kristalshöllin yrði notuð fyrir keppnina. Þó að rúmtak salsins hússins sé í heildina 23.000 manns, munu aðeins 16.000 geta keypt sér miða á hverja keppni sem er töluvert færra en hefur verið á síðustu árum. Ýmis mannréttindasamtök, þar á meðal Mannréttindavaktin og Amnesty International, hafa gagnrýnt stjórnvöld Aserbaídsjans fyrir að flytja íbúa í húsum nálægt tónlistarhússins burt með valdi svo að hægt verði að rífa niður íbúðir og byggja í kringum höllina. Fram kom í yfirlýsingu BBC að engin niðurrif hefðu verið nauðsynleg fyrir byggingu hallarinnar og að ekki hafi þurft að flytja neinn í burtu vegna byggingu hennar. Fyrri undankeppnin. Aserbaídsjan, Ítalía og Spánn munu kjósa í fyrri undankeppninni. Seinni undankeppnin. Frakkland, Þýskaland og Bretland munu kjósa í seinni undankeppninni. Heimildir. 2012 Chris Sprinker. Chris Sprinker (fæddur 1988) er bandarískur körfuknattleiksmaður sem spilar stöðu miðherja. Hann er 206 cm hár og leikur með Ungmennafélagi Njarðvíkur. Hann stundaði nám við Central Washington University skólann í þrjú ár. Þar setti hann met í vörðum skotum 25. febrúar 2011 með 136 skot. Sprinker er einnig góður í troðslum og þykir skrímsli inni í teignum. Á sama tímabli skoraði Sprinker 13,2 stig, tók 5,1 frákast og varði 2,0 skot að jafnaði í leik. Sprinker er góður vinur Isiah Thomas, sem leikur með Sacramento Kings í NBA deildinni. Sprinkler, Chris Handknattleiksárið 1964-65. Handknattleiksárið 1964-65 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1964 og lauk sumarið 1965. FH urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á tímabilinu. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla á fullu húsi stiga. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. Valsmenn sigruðu í 2. deild á fullu húsi stiga og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var tvöföld umferð í fimm liða deild. Evrópukeppni. Framarar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða í annað sinn. Þeir hófu keppni í 16-liða úrslitum og töpuðu fyrir sænska liðinu Redbergslids IK. 1. deild. Valskonur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna eftir úrslitaleik gegn FH. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Landslið. Karlalandsliðið lék tvo vináttulandsleiki gegn Spáni á tímabilinu. Það voru síðustu landsleikirnir sem fram fóru í íþróttahúsi hersins á Miðnesheiði áður en Laugardalshöllin var tekin í gagnið. Heart2Heart. Heart2Heart var íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1992. Söngvarar eru Grétar Örvarsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Sigrún Eva Ármannsdóttir og Friðrik Karlsson. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992 með laginu „Nei eða já“. Þau lentu í 7. sæti af 23 með 80 stig. Daníel Ágúst Haraldsson. Daníel Ágúst Haraldsson (fæddur 26. ágúst 1969) er íslenskur söngvari. Hann er söngvari hljómsveitarinnar GusGus. Hann söng lagið „Það sem enginn sér“ í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1989 og lenti í síðasta sæti (0 stig). Ljóskastari. Ljóskastari eða kastljós er lampi sem kastar frá sér ljósi í eina átt og eru speglar eða aðrir endurvarpsfletir notaðir til að magna ljósið upp og beina því þangað sem því er ætlað að lýsa. Ljóskastarar voru fyrst notaðir af breska sjóhernum árið 1882. Elsta heimild um notkun orðsins á íslensku er úr Ægi frá 1913. Ægir (tímarit). Ægir er íslenskt tímarit um fiskveiðar og sjávarútvegsmál sem hefur verið gefið út óslitið frá 1905. Fullt heiti tímaritsins var upphaflega Ægir. Mánaðarrit um fiskiveiðar og farmennsku. Ægir var lengst af gefinn út af Fiskifélag Íslands í Reykjavík en núverandi útgefandi er Athygli og kemur bladið nú út á Akureyri. Diego. Diego nafnið er afbrigði af nafninu Duguo eða Dugas. Uppruni ættarnafnsins á Íslandi. Á Íslandi má rekja nafnið til Hjálmars Diego Jónssonar sem fæddur var á Þingeyri 1891. Faðir hans var Jean Baptiste Dugas, amerískur skipstjóri er sigldi reglulega til Íslands til lúðuveiða á árunum 1884 – 1897. Hvernig ætarnafnið varð til er ekki fullljóst, en það kemur þó fram bæði í íslenskum og amerískum verslunargögnum tengdum Gramsverslun á Þingeyri við Dýrafjörð. Dugas er franskt nafn og fellur ekki endilega vel að enskri tungu. Ýmsar útfærslur voru reyndar. Dago var ein þeirra og hélt um skeið. Um það leyti sem hann var að fá ríkisborgararéttinn breyttist það endanlega í Duguo og segir nánar frá því í bókinni Undir miðnætursól. Hjálmar Diego Jónsson giftist Halldóru Friðgerði Sigurðardóttur, sem þá bjó í föðurhúsum í Bolungarvík. Hún var fædd á Steinhólum í Grunnavík 16. maí 1893, dáin í Reykjavík 27. janúar 1951. Árið 1913 eignuðust þau Halldóra og Hjálmar frumburð sinn, Friðrik Aðalsteinn Diggo. 31. maí 1916 fæddist þeim annar sonur og var hann skírður Þorkell Guðmunds Diggó. Rithátturinn skiptir ekki máli. John Baptiste Duguo. John Baptiste Duguo fæddist í Nova Scotia í Kanada. Hann var ekki af spænskum ættum heldur voru forfeður hans komnir af frönskum landnemum sem voru á meðal fyrstu Evrópumanna er settust að í Norður-Ameríku á því svæði sem kallað er Acadia. Jean Baptiste Dugas fæddist á Isl. Madam við Bretoskaga í Nova Scotia árið 1840. Hann fluttist síðar til Gloucester í Massachusetts þar sem hann varð bandarískur ríkisborgari árið 1868 en þá breytti hann einnig nafni sínu í John Baptiste Duguo. Erlendur uppruni. Sá fyrsti sem vitað er um sem bar nafnið Dugas var Abraham Dugas sem fæddist kringum árið 1616 í Toulouse í Frakklandi, giftur Marguerite Louise Judith Doucet. Hann flutti til Port Royal, Acadia sem gerði hann að þeim fyrstu sem settust að þessarri nýlendu sem heitir Kanada í dag. Abraham Dugas vann sem vopnasmiður Frakklandskonungs "(Armorer to the King)" Jonathan LaPaglia. Jonathan LaPaglia (fæddur, 31. ágúst 1969) er ástralskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í New York Undercover, Seven Days, The District og Cold Case. Einkalíf. LaPaglia er fæddur og uppalinn í Adelaide í Suður-Ástralíu og er af hollenskum og ítölskum uppruna. LaPaglia giftist leikkonunni Ursula Brooks árið 1998 og saman eiga þau eina dóttur. Eldri bróðir hans er leikarinn Anthony LaPaglia. LaPaglia stundaði læknisnám við Háskólann í Adelaide og vann í þrjú ár sem bráðalæknir í Adelaide, Sydney og London. LaPaglia vildi fylgja bróður sínum eftir í leiklistina og fluttist því til New York árið 1994 og stundaði nám við "Circle in the Square Theatre School". Ferill. Fyrsta hlutverk LaPaglia var árið 1996 í sjónvarpsseríunni New York Undercover þar sem hann lék rannsóknarfulltrúann Tommy McNamara til ársins 1997. Síðan var honum boðið hlutverk í Seven Days sem Lt. Frank Parker sem hann lék til ársins 2001. LaPaglia var síðan boðið eitt af aðalhlutverkunum í lögregluþættinum The District þar sem hann lék Rannsóknarfulltrúann Kevin Debreno frá 2001-2004. LaPaglia hefur einnig komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: Law & Order, The Sopranos, NCIS, Burn Notice og Cold Case. LaPaglia hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: Origin of the Species, Jack Rio og The Hit List. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. LaPaglia, Jonathan Lifun. Lifun er breiðskífa sem íslenska hljómsveitin Trúbrot sendi frá sér árið 1971 Listi yfir Vina-þætti. Hér fyrir neðan er listi yfir alla þætti úr sjónvarpsþáttaröðinni "Vinum" eða "Friends" eins og það heitir á móðurmálinu. Þættirnir fjalla um sex vinir sem búa og vinna í New York borg: Rachel Green, Monica Geller, Phoebe Buffay, Joey Tribbiani, Chandler Bing og Ross Geller en þau Jennifer Aniston, Courteney Cox, Lisa Kudrow, Matt LeBlanc, Matthew Perry og David Schwimmer fara með hlutverk þeirra. Framleiddar voru 10 seríur af "Vinum" og innihéldu þær samanlagt 236 þætti sem hófu göngu sína árið 1994 og tóku enda tíu árum síðar árið 2004. Þáttaröðun var búin til af þeim David Crane og Mörtu Kauffman og var framleidd af Bright/Kauffman/Crane fyrirtækinu í samstarfi við Warner Bros. Hver þáttur er um það bil 22 mínútur í lengd og ásamt auglýsingum voru þeir sýndir í hálftíma á NBC sjónvarpsstöðinni þó að í sjöundu seríu voru framleiddir nokkrir „ofur-langir“ þættir sem með viðbættum auglýsingum voru sýndir í 40 mínútur til þess að keppa við sjónvarpsþáttinn "Survivor" sem sýndur var á sama tíma. Allir þættirnir voru teknir upp í tökuverum Warner Bros í Kaliforníu þó að þeir gerist í New York borg en lokaþáttur fjórðu seríu, "Þessi með brúðkaupinu hans Ross", var tekinn upp í London þar sem hann á sér stað. Allar seríurnar hafa verið gefnar út á mynddiski. Breiðablik gaf tvær viðureign. 2. deild. KR-ingar sigruðu í 2. deild eftir úrslitaleik gegn Ármanni og tryggðu sér þar með sæti í 1. deild. Keppt var í sjö liða deild með tvöfaldri umferð. + Úrslit vantar í annarri viðureign Þórs og KA Síðla árs 1971 var ákveðið að fjölga í 1. deild og léku þá næstefsta lið 2. deildar og botnlið 1. deildar um lausa sætið. Víkingar sigruðu og héldu sæti sínu. "Leikir um sæti í 1. deild" Evrópukeppni. FH keppti í Evrópukeppni meistaraliða og komst í 8-liða úrslit. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. KR féll í 2. deild eftir úrslitaleiki við Breiðablik. 2. deild. Völsungur sigraði í 2. deild eftir úrslitaleik gegn Breiðablik og tryggði sér sæti í 1. deild. Þegar til kom treysti liðið sér ekki til þátttöku vegna ferðakostnaðar og léku þá Breiðablik og KR um lausa sætið. "Leikir um sæti í 1. deild" Evrópukeppni. Fram keppti í Evrópukeppni meistaraliða og komst í 2. umferð. Stefán Vagn Stefánsson. Stefán Vagn Stefánsson (fæddur 17. janúar 1972) - sonur Hrafnhildar Stefánsdóttur frá Hjaltastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og Stefáns Guðmundssonar fyrrverandi alþingismanns frá Saðuárkróki. Stefán hóf störf í lögreglunni á Sauðárkróki 1997 og starfaði þar til ársins 1998 er hann hóf störf í lögreglunni í Reykjavík. Hóf nám í lögregluskóla ríkisins árið 1998 og að skóla loknum hóf Stefán störf hjá lögreglunni í Reykjavík. Árið 2001 hóf hann störf í sérsveit ríkislögreglustjóra og starfaði þar til ársins 2007. Hóf störf í greiningardeild ríkislögreglustjóra árið 2007 til 2008 þegar hann hóf störf sem yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Stefán starfaði samhliða lögreglustarfinu hjá utanríkisráðuneytinu og fór til Afganistan sem friðargæsluliði 2006 til 2007. Stefán var kjörinn til setu í sveitastjórn sveitafélagsins Skagafjarðar 2010 en hann var oddviti lista framsóknarflokksins. eftir sveitastjórnarkosningarnar 2010 var hann kjörinn formaður byggðarráðs sveitafélagsins. Stefán á tvö börn og eina uppeldisdóttur. Stefán & Eyfi. Stefán & Eyfi var íslensk söngdúett sem var stofnaður árið 1991. Söngvarar voru Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson. Dúettinn keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1991 með laginu „Draumur um Nínu“. Þeir lentu í 15. sæti af 22 með 26 stig. Eitt lag enn (breiðskífa). Eitt lag enn er fyrsta breiðskífa Stjórnarinnar. SSHFS. SSHFS (dregið af enska "SSH Files'"ystem", „SSH-skráakerfi“) er skráakerfisforrit sem tengir og meðhöndlar möppur og tölvuskrár sem eru á fjartengdum þjóni, en til þess notar það SSH-skráaflutningsreglurnar (SFTP). Núverandi útgáfa SSHFS notast við FUSE til þess meðhöndla skráakerfið án þess að breyta kóða stýrikerfiskjarnans. Tilraun. Tilraun er aðferð til að prófa veruleikann í þeim tilgangi að skýra einhverja þætti hans. Tilraunir geta verið óformlegar, eins og þegar barn lærir á umhverfi sitt, eða formlegar sem hluti af vísindastarfsemi. Í vísindum eru tilraunir framkvæmdar til að sannreyna gildi tilgátu. Claude Perrault. Claude Perrault (25. september 1613 — 9. október 1688) var franskur arkitekt sem er einna þekktastur fyrir að hafa hannað austurvæng Louvre-hallar í París sem hafði gríðarleg áhrif á byggingarlist nýklassíska tímans. Hann var bróðir rithöfundarins Charles Perrault sem samdi eða endursagði mörg af þekktustu ævintýrum heims. Alexander Pope. Alexander Pope (21. maí 1688 — 30. maí 1744) var enskt skáld sem er einkum þekktur fyrir ádeilukvæði og Hómersþýðingar sínar. Hann var þekktasta skáld sinnar tíðar og er enn með frægustu skáldum á enska tungu. Meðal kunnustu verka hans eru "An Essay on Criticism" frá 1711 sem hóf ensku tvíhenduna til vinsælda, háðsádeilan "The Dunciad" og heimspekilega kvæðið "An Essay on Man" sem Jón Þorláksson sneri á íslensku sem "Tilraun um manninn". Pope var úr kaþólskri fjölskyldu og gekk í kaþólskan skóla þótt slíkir skólar væru þá formlega bannaðir. Meðal almennings í Englandi var þá ríkjandi mikil andúð á kaþólskum og fjölskylda hans þurfti að flytja til Berkshire þegar hann var tólf ára vegna laga sem bönnuðu kaþólikkum að búa innan 10 mílna geisla frá London eða Westminster. Um sama leyti fékk hann berkla sem ollu afmyndun beina. Vegna sjúkdómsins náði hann aðeins 1,37 metra hæð. Berklarnir ollu líka öndunarerfiðleikum og verkjum sem Pope þjáðist af alla ævi. Tvö líf. Tvö líf er önnur breiðskífa Stjórnarinnar. Lokki. Lokki er 754 metra hátt fjall á Borðey í Færeyjum. The Mask. "The Mask" er bandarísk grínmynd frá árinu 1994 sem Chuck Russell leikstýrði. Myndin er byggð á samnefndum myndasögum og er framleidd af New Line Cinema. Jim Carrey fer með aðalhlutverkið í myndinni sem Stanley Ipkiss og Cameron Diaz leikur kynbombu myndarinnar, Tinu Carlyle, sem stelur hjarta Stanleys. Carrey var tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir hlutverk sitt í myndinni og myndin sjálf var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu tæknibrellurnar. Union Oil Company of California. Union Oil Company of California eða Unocal var bandarískt fyrirtæki sem var stórfelldur jarðolíu-könnuður frá 19. öld fram í byrjun 21. aldar. Höfuðstöðvar þeirra voru í El Segundo, Kaliforníu. Þann 10. ágúst 2005 sameinaðist Unocal, Chevron Corporation og varð Unocal að dótturfélagi þess. Unocal hefur hætt störfum sem sjálfstætt fyrirtæki enn starfar enn starfar enn sem Union Oil Company of California, Chevron félag. Long Beach. Long Beach er borg í Los Angeles sýslu í Suður Kaliforníu í Bandaríkjunum. Borgin er sú 36. stærsta í landinu og sjöunda stærsta í Kaliforníu. Árið 2010 voru íbúar borgarinnar 462.257. Handknattleiksárið 1939-40. Handknattleiksárið 1939-40 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1939 og lauk sumarið 1940. Íslandsmótið í handknattleik var haldið í fyrsta sinn. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármenningar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu fyrstu Íslandsmeistarar karla í handknattleik. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. Leikið var í Íþróttahúsi Jón Þorsteinssonar. 1. deild. Ármenningar urðu fyrstu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Handknattleiksárið 1945-46. Handknattleiksárið 1945-46 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1945 og lauk sumarið 1946. ÍR-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Haukar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. ÍR-ingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Haukum. Átta lið tóku þátt í Íslandsmóti karla og léku þau einfalda umferð í tveimur fjögurra liða riðlum. 1. deild. Haukar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Handknattleiksárið 1967-68. Handknattleiksárið 1967-68 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1967 og lauk sumarið 1968. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á tímabilinu. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. ÍR-ingar sigruðu í 2. deild. Keppt var í fimm liða deild með tvöfaldri umferð. ÍBV hætti keppni og töldust úrslit í leikjum þess dauð og ómerk. Evrópukeppni. Fram keppti í Evrópukeppni meistaraliða. Framarar hófu keppni í 1. umferð en töpuðu fyrir júgóslavneska liðinu Partizan Bjelovar. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Keppt var í sjö liða deild með einfaldri umferð. ÍBV hætti keppni og töldust úrslit í leikjum þess dauð og ómerk. FH sendi ekki lið til keppni, þrátt fyrir að hafa verið í fremstu röð árið áður. Landslið. Karlalandsliðið lék nokkra vináttulandsleiki á tímabilinu. Þar á meðal var haldið í tvær keppnisferðir, aðra til Rúmeníu og Vestur-Þýskalands en hina til Spánar. Mesta athygli vakti þó sigur á Dönum í Reykjavík vorið 1969. Handknattleiksárið 1952-53. Handknattleiksárið 1952-53 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1952 og lauk sumarið 1953. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki en Fram sigraði kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar á markatölu. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. KR fór með sigur af hólmi og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Sjö lið tóku þátt í mótinu og kepptu þau í tveimur riðlum með einfaldri umferð. Ármann sigraði í A-riðli, Valsstúlkur höfnuðu í öðru sæti. Fjögur lið kepptu í riðlinum. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. École nationale de l'aviation civile. École nationale de l'aviation civile (skammstafað ENAC) er franskur háskóli sem sérhæfir sig í flugvélaiðnaði. Hann var stofnaður árið 1949. Nám í skólanum tekur þrjú ár og lýkur með franskri verkfræðigráðu, "Diplôme d'Ingénieur", sem viðurkennd er í Bandaríkjunum og jafngildir grunnstigi í verkfræði. Þetta er stærsti skóli flugmála í Evrópu. Institut polytechnique des sciences avancées. Institut polytechnique des sciences avancées (skammstafað IPSA) er franskur háskóli sem sérhæfir sig í flugvélaiðnaði. Hann var stofnaður árið 1961. Nám í skólanum tekur fimm ár og að námi loknu hljóta nemendur titilinn, "Ingénieur diplômé de l'IPSA". Prófgráðan er viðurkennd í Bandaríkjunum og jafngildir grunnstigi í verkfræði. Skólinn er hluti af IONIS Education Group. Handknattleiksárið 1943-44. Handknattleiksárið 1943-44 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1943 og lauk sumarið 1944. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármenningar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar. Átta lið tóku þátt í mótinu og keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Keppt var í fimm liða deild með einfaldri umferð. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Harstad. Harstad er önnur stærsta borg og bæjarfélag miðað við fólksfjölda, í Troms héraði í Noregi. Borgin er einnig sú þriðja stærsta í Norður-Noregi en hún er staðsett um 250 km norðan við Heimskautsbaug. Borgin fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 2004. Landafræði. Bæjarfélagið er staðsett á tveimur eyjum í sunnanverðu Troms héraði og er stærsti hluti þess staðsettur á Hinnøya sem er stærsta eyja við strendur Noregs (þrjár eyjar á Svalbarða eyjaklasanum eru stærri). Norðurhluti bæjarfélagsins er staðsettur á suðurhluta Grytøya sem er 53 ferkílómetrar að stærð. Harstad liggur að Bjarkøy bæjarfélaginu í norðri, Kvæfjord í vestri og Tjeldsund (í Nordland héraði) í suðri. Í suðaustri tengir Tjeldsund brúin Hinnøya við Skånland og við meginlandið yfir Tjeldsunded. Í norðaustri er Vågsfjorden þar sem Harstad deilir vatnasvæði með Ibestad. Borgin sjálf er staðsett á norðaustanverðri Hinnøya. Hún er eina borgin á eyjunni og er gjarnan þekkt sem Vågsfjordens perle (eða perla Vogsfjarðar). Bæjarfélagið samanstendur af nokkrum smáeyjum eins og Arnøya, Gressholman, Kjeøya, Kjotta, Kjottakalven, Maga, Rogla, Lille Rogla og Akerøya. Hæsta fjall á svæðinu er Sætertinden sem er 1095 metra yfir sjávarmáli. Hann er staðsettur nálægt Sandtorg á Hinnoya. Nupen fjall sem er 412 m hátt er staðsett í norðvestanverðu bæjarfélaginu á bæjamörkum við Kvæfjord. Olíuiðnaðurinn í Norður-Noregi er staðsettur í Harstad, en skipasmíðaiðnaður og annar iðnaður er einnig til staðar í borginni og er mikilvægur fyrir hagkerfið. Harstad og aðliggjandi svæði hafa venjulega verið á meðal blómlegustu landbúnaðarhéraða Norður-Noregs en þar er jarðvegur frjór og hentar vel til landbúnaðar. Loftslag og birta. Þrátt fyrir að vera staðsett norðan við heimskautsbaug, er loftslag í Harstad milt heimskautaloftslag, þar sem sumur eru svöl en vetur mildir. Í Harstad verða veturnir ekki jafn harðir og á öðrum svæðum norðan heimskautsbaugs. Vetur eru þvert á móti mildari heldur en í öðrum helstu borgum sem eru staðsettar 25-30 gráðum sunnar á norðuhveli jarðar, eins og Beijing, Chicago og Toronto. Sumur í Harstad eru köld og hitastig fer sjaldnast yfir 22 °C. Meðalhiti ársins er 3,9 °C (1961-90) og meðalúrkoma ársins er 850 mm. Hæðarkerfi valda því að hitastig að vetri getur farið niður í -15 °C og sumarhiti getur orðið 27 °C. Fjallið Toppen í bæjarfélaginu Harstad Miðnætursólin baðar borgina í ljósi yfir sumarmánuðina frá 22. maí – 18. júlí. Ljósaskipti eiga sér stað á nokkurra klukkustunda tímabili þegar sólin fer rétt undir sjóndeildarhringinn, þannig að ekkert myrkur er frá því snemma í maí og fram í byrjun ágúst. Heimskautanóttin, þegar sólin er alltaf undir sjóndeildarhringnum stendur frá 30. nóvember til 12. janúar. Um þetta leyti eru nokkrar klukkustundir af dagsbirtu í kringum hádegið og verður himinn þá oft litríkur í suðri. Í lok janúar lengir daginn sífellt og verður tólf tímar í mars og átján tímar í apríl. Harstad er staðsett í miðju norðurljósabeltinu og sjást norðurljósin oft á heiðskírum nóttum en þó ekki að sumri vegna birtunnar. Trausti Laufdal. Trausti Laufdal Aðalsteinsson (f. 1. maí 1983) í Reykjavík er íslenskur tónlistarmaður. Hann er söngvari og gítarleikari hljómsveitanna Lokbrá og Pontiak Pilatus. Hann er sonur hjónanna Aðalsteins Péturssonar úr Laxárdal í Þingeyjarsýslu og Hafdísar Laufdal Jónsdóttur úr Vestmannaeyjum. Hann byrjaði ferilinn 14 ára í hljómsveinni Kamikazee sem var sett saman í Hólabrekkuskóla fyrir hæfileikakeppni Grunnskólanna Skrekk árið 1997. Þar spilaði hann á gítar og söng en hljómsveitin breytti fljótt um nafn eftir keppnina og hlaut nafnið Moðhaus. Aðrir meðlimir Moðhauss voru þeir Arnar Ingi Viðarsson trymbill, Magnús Kjartan Eyjólfsson gítarleikari og söngvari og Þorsteinn Kr. Haraldsson bassaleikari. Moðhaus var undir miklum áhrifum frá hljómsveitum eins og Maus, Botnleðju, Ensími, 200.000 naglbítum, Green Day og svo framvegis. Hljómsveitin tók þátt í Rokkstokk hljómsveitakeppninni í Keflavík árið 1998 og síðan ári seinna í Músíktilraunum þar sem hljómsveitin komst í úrslit og vakti mikla athygli þrátt fyrir ungan aldur. Moðhaus varð mjög vinsæl unglingahljómsveit og spilaði mikið í félagsmiðstöðvum, skólum og skemmtistöðum í Reykjavík þar til hún lagði upp laupana um aldarmótin. Í kringum 2000 gekk Trausti til liðs við menningartímaritið Sánd og starfaði þar í ritstjórn og sem penni í til ársins 2003 samhliða sem hann sá um tónlistarumfjöllun í unglingatímaritinu Smellur. Á þessum árum vann Trausti einnig sem rótari hjá hljómsveitinni Maus, sem og hann stundaði nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Á árunum 2000-2002 var Trausti lauslegur meðlimur í hljómsveitinni XXX Rottweilerhundar en var svo ráðinn sem söngvari og gítarleikari af þeim Baldvini Albertssyni og Óskari Þór Arngrímssyni í nýstofnuðu hljómsveitina Lokbrá. Eftir einhverjar mannabreytingar var hljómsveitin Lokbrá loks fullskipuð þegar Oddur Ingi Þórsson (fyrrverandi meðlimur Oblivion og Rými) gekk til liðs við bandið sem bassaleikari og söngvari. Lokbrá byrjaði ferilinn í sundlauginni í Mosfellsbæ sem vinahljómsveit þeirra Sigur Rós hafði þá nýverið fjárfest en fór síðan fljótt eftir í tónleikaferðalag með hljómsveitinni Radiohead og því hafði hljómsveitin þessa fullkomnu aðstöðu útaf fyrir sig í nokkra mánuði. Þarna þróaði hljómsveitin sitt sánd og fór fljótlega að vekja mikla athygli fyrir spilagleði, brjálaða sviðsframkomu og endalausa spilamennsku út um allt landið. Tónlistarmaðurinn Birgir Örn Steinarsson tók svo hljómsveitina upp á sína arma 2003 og hóf af pródúsera og taka upp fyrstu plötu sveitarinnar Army Of Soundwaves. Fyrsta lagið sem kom út af plötunni var „Nosirrah Egroeg“, óður til hljómlistamannsins George Harrison sem þá var nýlátinn. Long Beach Polytechnic High School. Long Beach Polytechnic High School (oft kallaður Long Beach Poly eða bara Poly) er gagnfræðiskóli í borginni Long Beach, Kaliforníu-fylki, Bandaríkjunum sem var stofnaður árið 1895. Skólinn er flaggskip-skóli Sameinaða Skólahverfinu í Long Beach og er stór þéttbýlisskóli með rétt yfir fimm þúsund nemendur. Poly er virtur bæði fyrir akademísku og íþróttamannslegu hliðar skólans. Árið 2005 var skólinn nefndur „íþróttaskóli aldarinnar“ af íþróttablaðinu "Sports Illustrated" og er honum þar hrósað fyrir hversu margar íþróttir þei kenna en þar á meðal eru badminton, körfubolti, amerískur fótbolti og frjálsar íþróttir. Tónlistardeild þeirra hefur einnig hlotið mörg verðlaun þar á meðal sex Grammy-verðlaun. Poly er einnig með metið að hafa sent flesta af sínum ameríska fótbolta-köppum í NFL-deildina af öllum gagnfræðiskólum í Bandaríkjunum en þeir eru 60 talsins. Snoop Dogg. Calvin Cordozar Broadus, Jr. (fæddur 20. október 1971), betur þekktur sem Snoop Dogg, er bandarískur rappari, kannabis aðgerðasinni, leikari og skemmtikraftur. Hann gekk í gagnfræðiskólann Long Beach Polytechnic High School og var meðlimur í glæpagengi í Kaliforníu og stuttu eftir útskrift hans var hann handtekinn fyrir eign á kókaíni og eyddi sex mánuðum í fangelsi. Tónlistarferill hans hófst árið 1992 eftir hann var uppgötvaður af Dr. Dre. Hann þeytti frumraun sína sem listamaður með plötunni Doggystyle sem fór beint á topinn í Bandaríkjunum. Hann hefur síðan gefið út tíu aðrar plötur sem hafa allar notið mikilla vinsælda, verið tilnefndur til þrettán Grammy-verðlauna og komið fram í 34 kvikmyndum. Jeff Dunas. Jeff Dunas (fæddur 1954 í Los Angeles, Kaliforníu) er bandarískur ljósmyndari sem er helst þekktur fyrir myndir sínar af þekktum tónlistarmönnum, leikurum og skemmtikröftum. Hann er einnig útgefandi á nokkrum ljósmyndatímaritum og er faðir leikonunnar Alexa Davalos. Calvin Klein. Calvin Klein, Inc. er bandarískt fatamerki sem var stofnaði árið 1968 af fatahönnuðinum Calvin Klein. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Manhattan í New York og eru í dag í eigu Phillips-Van Heusen. Eins og mörg önnur fatamerki er Calvin Klein með nafndráttinn cK. Levi Strauss & Co.. Levi Strauss & Co (LS&CO) er bandarískt fatafyrirtæki þekkt á heimsvísu fyrir gallabuxna-merkið sitt Levi's. Fyrirtækið var stofnað af Levi Strauss árið 1869 og hefur síðan orðið mjög vinsælt og í dag eru þeir með 470 verslanir út um allan heim og yfir ellefu þúsund starfsmenn. Nivea. Nivea er alþjóðlegt húð- og líkamsverndar fyrirtæki í eigu þýska fyrirtækisins Beiersdorf. Fyrirtækið var stofnað 28. mars 1882 af apótekaranum Carl Paul Beiersdorf. Nivea kemur frá latneska orðinu niveus/nivea/niveum sem þýðir „Mjallhvít“. Á fjórða áratug 20. aldar fór fyrirtækið að gefa út vörur eins og brúnkukrem, rakakrem og hárþvottalögur. Á níunda áratug 20. aldar urðu Nivea vörur mjög vinsælar og varð fyrirtækið heimsfrægt. Handknattleiksárið 1955-56. Handknattleiksárið 1955-56 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1955 og lauk sumarið 1956. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki en Ármann sigraði kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar á markatölu. Keppt var í níu liða deild með einfaldri umferð. Ekki var keppt í 2. deild. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Handknattleiksárið 1954-55. Handknattleiksárið 1954-55 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1954 og lauk sumarið 1955. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki en KR sigraði kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. ÍR-ingar höfnuðu í neðsta sæti og hefðu átt að falla. Árið eftir var hins vegar ákveðið að keppa í einni níu liða deild svo þeir héldu sæti sínu. 2. deild. Afturelding fór með sigur af hólmi og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Siligo. Siligo er borg í héraðinu Sardiníu á Ítalíu. Einar Ágúst Víðisson. Einar Ágúst Víðisson (fæddur 13. ágúst 1973) er íslenskur söngvari og útvarpsmaður. Hann varð þekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Skítamórall (Skímó). Hann tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2000 sem annar helmingur dúettsins Einar Ágúst & Telma. Dúettinn keppti fyrir hönd Íslands með laginu „Tell Me!“. Þau lentu í 12. sæti af 24 með 45 stig. Einar Ágúst hefur stórt húðflúr á hægri handlegg og hálsi ásamt mörgum öðrum minni. Rigg. Rigg er fjórða breiðskífa Stjórnarinnar. Telma Ágústsdóttir. Telma Ágústsdóttir (fædd 27. janúar 1977) er íslensk söngkona. Hún tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2000 sem annar helmingur dúettsins Einar Ágúst & Telma. Dúettinn keppti fyrir hönd Íslands með lagið „Tell Me!“. Þau lentu í 12. sæti af 24 með 45 stig. Handknattleiksárið 1962-63. Handknattleiksárið 1962-63 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1962 og lauk sumarið 1963. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármann í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á tímabilinu. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. "Úrslitaleikur um fall í 2. deild" 2. deild. Ármenningar sigruðu í 2. deild á fullu húsi stiga og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. + ÍA gaf þrjá leikja sinna. Evrópukeppni. Framarar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, fyrstir íslenskra liða. Þeir féllu út í 1. umferð fyrir danska liðinu Skovbakken. 1. deild. Ármannskonur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Vegna þátttökuleysis var ekki keppt í 2. deild. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hélt í keppnisferð til Frakklands og Spánar, lék sitthvorn æfingarleikinn en tapaði þeim báðum. Handknattleiksárið 1940-41. Handknattleiksárið 1940-41 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1940 og lauk sumarið 1941. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármenningar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu fyrstu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla í handknattleik. Níu lið tóku þátt í mótinu, þar af bæði a-lið og b-lið Vals. Leikið var með nýju keppnisfyrirkomulagi, þar sem það lið féll úr keppni sem tapaði tveimur leikjum. Fyrirkomulag þetta hefur ekki verið notað síðar á Íslandsmóti í handknattleik karla. 1. deild. Ármannsstúlkur urðu Íslandsmeistarar í kvennaflokki. Einungis tvö lið tóku þátt í mótinu, a-lið og b-lið Ármanns. Handknattleiksárið 1941-42. Handknattleiksárið 1941-42 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1941 og lauk sumarið 1942. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármenningar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar á fullu húsi stiga. Einungis fjögur félög sendu lið til keppni í meistaraflokki, en önnur félög tóku þátt í keppni 1. flokks. Leikin var einföld umferð. 1. deild. Ármannsstúlkur urðu Íslandsmeistarar í kvennaflokki eftir sigur á Haukum. Þrjú lið voru skráð til keppni en Víkingar gáfu leiki sína. Því fór aðeins einn leikur fram í mótinu. Handknattleiksárið 1942-43. Handknattleiksárið 1942-43 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1942 og lauk sumarið 1943. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Ármenningar í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Haukar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Valsmönnum. Níu lið tóku þátt í mótinu. Keppt var í tveimur riðlum og léku sigurliðin til úrslita. Tappi tíkarrass. Tappi tíkarrass var íslensk pönk/popphljómsveit sem var stofnuð árið 1981. Stofnmeðlimir hennar voru Eyþór Arnalds (söngur), Jakob Smári Magnússon (bassi), Eyólfur Jóhannsson (gítar), og Oddur F. Sigurbjörnsson (trommur) og síðar Björk Guðmundsdóttir (söngur) og Gunnar F. Sigurbjörnsson (trommur). Nafnið kom að sögn til þannig að faðir Jakobs sagði um tónlist hljómsveitarinnar: „Þetta smellur eins og tappi í tíkarrass hjá ykkur.“ Tappi tíkarrass var ein hljómsveitanna sem fram komu í kvikmyndinni "Rokk í Reykjavík". Sveitin gaf út eina stuttskífu og eina breiðskífu en hætti nokkru eftir að breiðskífan Miranda kom út í desember 1983. Handknattleiksárið 1963-64. Handknattleiksárið 1963-64 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1963 og lauk sumarið 1964. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valsstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í HM í Tékkóslóvakíu og hafnaði í 9. sæti af 12 þjóðum. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. "Úrslitaleikur um fall í 2. deild" 2. deild. Haukar sigruðu í 2. deild og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Evrópukeppni. Evrópukeppni félagsliða féll niður þetta ár vegna HM í handknattleik. 1. deild. Valur varð Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Leikin var einföld umferð í sjö liða deild. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tók þátt í HM í Tékkóslóvakíu. Þrátt fyrir tvo sigra, gegn Egyptum og Svíum, mistókst liðinu að komast upp úr forriðli á markatölu og taldist hafna í 9. sæti. Fyrir heimsmeistarakeppnina lék Ísland tvo æfingarleiki gegn Bandaríkjunum í íþróttahússi hersins á Keflavíkurflugvelli og vann þá báða. Voru þetta fyrstu formlegu landsleikir Íslands innanhúss hér á landi. Handknattleiksárið 1965-66. Handknattleiksárið 1965-66 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1965 og lauk sumarið 1966. FH urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í forkeppni HM, en komst ekki í úrslitakeppnina. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla eftir aukaúrslitaleik gegn Fram. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. Víkingar sigruðu í 2. deild eftir úrslitakeppni þriggja liða og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var tvöföld umferð í fimm liða deild. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" Evrópukeppni. FH keppti í Evrópukeppni meistaraliða, annað íslenskra liða. FH-ingar sigruðu norska liðið Fredensborg en töpuðu fyrir Dukla Prag frá Tékkóslóvakíu. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. KR sigraði í 2. deild og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í þriggja liða deild með einfaldri umferð. Evrópukeppni. Valur keppti í Evrópukeppni meistaraliða, fyrst íslenskra kvennaliða. Valsstúlkur sigruðu norska liðið Skogn IL en töpuðu fyrir SC Leipzig frá Austur-Þýskalandi í 8-liða úrslitum. Þýska liðið varð síðar Evrópumeistari. Landslið. Karlalandsliðið lék tvo vináttulandsleiki gegn Sovétríkjunum í lok árs 1965, sem báðir töpuðust. Það voru fyrstu landsleikirnir sem fram fóru í Laugardalshöllinni. Ísland tók þátt í forkeppni fyrir HM í Svíþjóð. Liðið var í riðli með Dönum og Pólverjum. Tvö lið komust áfram, en Íslendingar höfnuðu í botnsætinu. Handknattleiksárið 1966-67. Handknattleiksárið 1966-67 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1966 og lauk sumarið 1967. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á tímabilinu. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla eftir aukaúrslitaleik gegn FH. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. KR-ingar sigruðu í 2. deild og tryggðu sér sæti í 1. deild í stað Ármanns. Leikin var tvöföld umferð í fimm liða deild. Evrópukeppni. FH keppti í Evrópukeppni meistaraliða. FH-ingar hófu keppni í 16-liða úrslitum en töpuðu fyrir ungverska liðinu Honved Búdapest. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. Breiðablik sigraði í 2. deild og tryggði sér sæti í 1. deild. Keppt var í fjögurra liða deild með einfaldri umferð. Landslið. Karlalandsliðið lék nokkra vináttulandsleiki á tímabilinu. Þar bar hæst leiki gegn Svíum, sem léku í fyrsta sinn hér á landi. Ísland gerði jafntefli í fyrri leiknum en tapaði þeim síðari með einu marki. Handknattleiksárið 1957-58. Handknattleiksárið 1957-58 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1957 og lauk sumarið 1958. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki í fyrsta og eina skipti og Ármannsstúlkur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í HM í Austur-Þýskalandi. 1. deild. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar á markatölu. Keppt var í níu liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Leikin var einföld umferð í fjögurra liða deild. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik lék sína fyrstu leiki frá árinu 1950 þegar það tók þátt í HM í Austur-Þýskalandi snemma árs 1958. Liðið lék enga æfingaleiki við aðrar þjóðir og lenti í erfiðum riðli. Það sigraði Rúmena en tapaði fyrir liðum Tékkóslóvakíu og Ungverjalands og komst ekki í milliriðil. Bitið fast í vitið. Bitið fast í vitið er fyrsta hljómplata pönkhljómsveitarinnar Tappa tíkarrass. Þetta er stuttskífa (EP-plata) og hefur að geyma fimm lög. Miranda. Miranda er önnur plata hljómsveitarinnar Tappa tíkarrass og eina breiðskífan sem sveitin sendi frá sér. Hún kom út í desember 1983, skömmu áður en sveitin hætti. Desember (breiðskífa). Desember er fyrsta breiðskífa Siggu Beinteins. Ralph Waite. Ralph Waite (fæddur 22. júní 1928) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Waltons, Carnivàle, NCIS og Days of Our Lives. Einkalíf. Waite er fæddur og uppalinn í White Plains, New York. Stundaði nám við Bucknell-háskóla í Lewisburg, Pennsylvaníu. Waite var meðlimur bandaríska sjóhersins frá 1946-1948. Waite stundaði mastersnám við Guðfræðideild Yale-háskóla og vann sem ritstjóri hjá Harper & Row í New York áður en hann gerðist leikari. Waite hefur verið giftur þrisvar sinnum og á hann þrjár dætur en ein þeirra lést þegar hún var níu ára. Waite bauð sig fram til þrisvar sinnum til þings í Kaliforníu sem Demókrati en náði aldrei inn. Leikhús. Waite byrjaði að koma fram í leikhúsum árið 1963 þegar hann lék í "Marathon 33" sem prestur við ANTA Playhouse leikhúsið. Árið 1964 þá kom hann fram í "Blues for Mister Charlie" og "Traveller Without Luggage". Önnur leikrit sem Waite hefur komið fram í eru: "Lake Hollywood", "Twelfth Night", "Hamlet" og "Hogan´s Goat". Sjónvarp. Waite er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpi, en fyrsta hlutverk hans var í sjónvarpsmyndinni "The Borgia Stick" frá 1967. Wait kom fram sem gestaleikari í N.Y.P.D. og Roots. Árið 1972 þá var Waite boðið hlutverk í The Waltons sem John Walton Sr. Sem hann lék til ársins 1981. Eftir það þá lék hann í nokkrum sjónvarpsmyndum og síðan árið 1996 þá lék hann Malcolm Dietrich í Murder One. Árið 2003 þá var Waite boðið hlutverk í Carnivàle sem presturinn Norman Balthus sem hann lék til ársins 2005. Waite hefur síðan 2008 verið með stór gestahlutverk í NCIS sem Jackson Gibbs, faðir Jethro Gibbs og í Days of Our Lives sem presturinn Matt frá 2009-2010. Waite hefur einnig komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Time Trax, All My Children, Cold Case, Grey's Anatomy, Bones og Off the Map. Kvikmyndir. Fyrsta hlutverk Waite var árið 1967 í kvikmyndinni Cool Hand Luke og hefur hann síðan leikið í kvikmyndum á borð við: "Five Easy Pieces", The Mangificent Seven Ride, The Bodyguard, Sunshine State og Letters to God. Tenglar. Waite, Ralph Handknattleiksárið 1956-57. Handknattleiksárið 1956-57 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1956 og lauk sumarið 1957. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Þróttarar í kvennaflokki. Íslendingar léku enga landsleiki á tímabilinu. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar á fullu húsi stiga. Keppt var í níu liða deild með einfaldri umferð. 1. deild. Þróttarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á markatölu í fyrsta og eina sinn. Leikin var einföld umferð í fimm liða deild. Landslið. Engir formlegir landsleikir fóru fram á tímabilinu. Splean. Splean (rús.: "Сплин") er rússnesk rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1994. Meðlimir hennar eru "Alexander Vasilyev" (söngvari), "Vadim Sergeyev" (gítar), "Dmitriy Kunin" (bassagítar), "Nikolay Rostovsky" (hljómborð) og "Alexey Mesherekov" (trommur). „Splean“ er ein frægasta rokkhljómsveit Rússlands. Jonathan Mangum. Jonathan Mangum (fæddur 16. janúar 1971) er bandarískur leikari og grínisti sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Strip Mall, The Drew Carey Show og sem kynnirinn í Let´s Make a Deal. Einkalíf. Mangum er fæddur í Charleston, Suður-Karólínu en ólst upp í Mobile, Alabama. Fluttist til Flórída þegar hann var tvítugur og tók B.Sc.-gráðu í sálfræði, ásamt því að koma fram sem aukaleikari hjá Wayne Brady við SAK Theatre Comedy Lab. Mangum fluttist ásamt hópi grínista til Los Angeles árið 1995, þar sem þeir komu fram sem "Houseful of Honkeys". Mangum er giftur og á tvö börn. Ferill. Mangum kom fyrst fram í sjónvarpsþættinum "Clarissa Explains It All" árið 1993. Kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: Roseanne, Clueless og Just Shoot Me. Árið 2000 þá var Mangum boðið hlutverk í Strip Mall sem Josh MacIntosh sem hann lék til ársins 2001. Mangum kom fram í The Wayne Brady Show í ýmsum hlutverkum. Mangum fékk síðan gestahlutverk í The Drew Carey Show sem Scott sem hann lék frá 2002-2004. Mangum hefur sem hann sjálfur komið fram í Drew Carey's Improv-A-Ganza, Fast and Loose og sem kynnirinn í Let's Make a Deal. Tenglar. Mangum, Jonathan Handknattleiksárið 1969-70. Handknattleiksárið 1969-70 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1969 og lauk sumarið 1970. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og einnig í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í HM í Frakklandi og hafnaði í 11. sæti af 16 þjóðum. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. KR féll í 2. deild eftir aukaleik við Víking. 2. deild. ÍR sigraði í 2. deild og tók sæti KR í 1. deild. Keppt var í tveimur riðlum, Suðurlandsriðli og Norðurlandsriðli. Evrópukeppni. FH keppti í Evrópukeppni meistaraliða. FH-ingar hófu keppni í 16-liða úrslitum en töpuðu fyrir ungverska liðinu Honved Búdapest. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna, eftir 11:9 sigur á Valsstúlkum í lokaleik. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. Njarðvík sigraði í 2. deild. Keppt var í þriggja liða deild með tvöfaldri umferð. Fallið var frá því að halda úti sérstökum Norðurlandsriðli í 2. deild, en liðin þess í stað skráð til keppni í Íslandsmóti 1. flokks. Völsungur frá Húsavík varð Íslandsmeistari í 1. flokki með talsverðum yfirburðum, sigraði t.d. Val 8:2 í úrslitum í Laugardalshöll. Hefði liðið því væntanlega orðið sigurstranglegt í 2. deild. Evrópukeppni. Valur keppti í Evrópukeppni meistaraliða. Valsstúlkur hófu keppni í 16-liða úrslitum en töpuðu fyrir pólska liðinu AZS AWF Wrocław. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik komst á HM í Frakklandi með því að vinna sigur á Austurríkismönnum í forkeppni. HM í Frakklandi hófst í lok febrúar 1970. Ísland var í riðli með Dönum, Pólverjum og Ungverjum. Ísland hafnaði í þriðja sæti í riðlinum og lék um 9.-12. sæti. Handknattleiksárið 1968-69. Handknattleiksárið 1968-69 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1968 og lauk sumarið 1969. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók ekki þátt í stórmóti á tímabilinu. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. Víkingar sigruðu í 2. deild á fullu húsi stiga og tryggðu sér sæti í 1. deild. Keppt var í fimm liða deild með tvöfaldri umferð. Evrópukeppni. Keppni í Evrópukeppni félagsliða féll niður þetta leikárið. 1. deild. Valsarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Keppt var í sjö liða deild með einfaldri umferð. Landslið. Karlalandsliðið lék nokkra vináttulandsleiki á tímabilinu. Þar á meðal var haldið í keppnisferð til Svíþjóðar og Danmerkur. Leikurinn gegn Svíum tapaðist naumlega en viðureignin við Dani tapaðist stórt. Seventeen. Seventeen er bandarískt unglingatímarit. Fyrsta tölublaðið kom út í september 1944 og var gefið út af Triangle Publications. News Corporation keypti Triangle árið 1988 og seldi blaðið fyrirtækinu Primedia þremur árum seinna. Það var síðan aftur selt fyrirtækinu Hearst árið 2003. Blaðið er mjög vinsælt og er eitt vinsælasta tímarit meðal unglingsstúlkna á aldrinum tólf til nítján ára og er eitt af fimmtíu vinsælustu tímaritunum í Bandaríkjunum. Handknattleiksárið 1948-49. Handknattleiksárið 1948-49 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1948 og lauk sumarið 1949. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og einnig í kvennaflokki. Engir landsleikir fóru fram á tímabilinu. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í annað sinn. Sjö lið tóku þátt í Íslandsmóti karla og léku þau einfalda umferð í einni deild. 1. deild. Ármenningar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna og Framarar höfnuðu í 2. sæti. Önnur keppnislið voru ÍR, KR og ÍBH. Leikin var einföld umferð í fimm liða deild. L.A Gear. L.A. Gear er bandarískt skófyrirtæki sem var stofnað árið 1979 af Robert Y. Greenberg. Höfuðstöðvar þess eru í Los Angeles, Kaliforníu og það er í eigu ACI International. Handknattleiksárið 1958-59. Handknattleiksárið 1958-59 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1958 og lauk sumarið 1959. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og KR-stúlkur í kvennaflokki. Karlalandslið Íslands lék nokkra æfingaleiki á tímabilinu. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla á fullu húsi stiga. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. Afturelding sigraði í 2. deild á fullu húsi stiga og tryggði sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í fimm liða deild. 1. deild. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Leikin var einföld umferð í sex liða deild. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hélt í keppnisferð um Norðurlönd. Liðið tapaði fyrir Norðmönnum og Svíum, en vann góðan sigur á Dönum, 16:23 í Slagelse. Var sigrinum fagnað gríðarlega á Íslandi. Handknattleiksárið 1960-61. Handknattleiksárið 1960-61 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1960 og lauk sumarið 1961. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og einnig í kvennaflokki. Karlalandsliðið tók þátt í HM í Vestur-Þýskalandi og hafnaði í 6. sæti. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla eftir 18:16 sigur á Fram í lokaleik. Keppt var í sex liða deild með einfaldri umferð. 2. deild. Víkingar sigruðu í 2. deild og tryggðu sér sæti í 1. deild. Leikin var einföld umferð í fjögurra liða deild. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn. Leikin var einföld umferð í sjö liða deild. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik lék sína fyrstu leiki frá árinu 1959 þegar það tók þátt í HM í Vestur-Þýskalandi snemma árs 1961. Liðið náði öðru sæti í forriðli og komst í milliriðil. Þar hafnaði það í þriðja sæti og tapaði að lokum gegn Dönum í leik um 5. sæti. Playboy. "Playboy" er bandarískt tímarit fyrir karlmenn sem inniheldur nektarmyndir af konum, smásögur og fréttagreinar. Blaðið var stofnað í Chicago árið 1953 af Hugh Hefner og samstarfsmönnum hans með fjármagn frá móður Hefners upp á 1.000 Bandaríkjadollara. Vinsældir tímaritsins leiddu til stofnun Playboy Enterprises, Inc. sem gefur út einnig út sjónvarpsþætti, kvikmyndir og bækur. Tímaritið er einnig vel þekkt fyrir að hafa gefið út smásögur eftir skáldsagnahöfunda á borð við Arthur C. Clarke, Ian Fleming og Margaret Atwood. Í blaðinu eru mánaðarleg viðtöl við þekktar manneskjur eins og listamenn, hagfræðinga, skáld, leikstjóra, blaðamenn og rithöfunda og einnig eru birtar fréttagreinar en eru oft dæmdar fyrir að styrkja frjálslyndisstefnu og vera þar með hlutdrægar. Chuck Russell. Chuck Russell (fæddur 6. ágúst 1952) er bandarískur leikstjóri, framleiðandi og leikari. Hann er best þekktur fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndina "The Mask" frá árinu 1994 með Jim Carrey og Cameron Diaz í aðalhlutverki. Things to Do in Denver When You're Dead. "Things to Do in Denver When You're Dead" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1995 sem Gary Fleder leikstýrði og er skrifuð af Scott Rosenberg. Í myndinni fara Andy García, Christopher Lloyd, Steve Buscemi og Christopher Walken með aðalhlutverkin. Titill myndarinnar er tekinn frá lagi eftir Warren Sevon frá árinu 1991. Kvikmyndin var fyrst sýnd á Kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1995. Mortal Kombat (kvikmynd). "Mortal Kombat" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1995 sem Paul Anderson leikstýrði og er byggð á" Mortal Kombat"-tölvuleikjaseríunni. Kvikmyndin fjallar um stríðsmannin Liu Kang og lögreglukonuna Sonyu Blade og ferð þeirra til þess að berjast við illa galdramanninn Shang Tsung og stríðsmenn hans til þess að bjarga jörðinni. Innblásturinn fyrir myndina var fyrsti tölvuleikurinn í "Mortal Kombat" seríunni þó að persónur og kraftar frá "Mortal Kombat II" hafi komið við sögu. Myndin var tekin upp í Los Angeles og í Taílandi. Kvikmyndin kom út þann 18. ágúst 1995 í Bandaríkjunum og var mjög vinsæl meðal aðdáenda leikjanna þrátt fyrir að fá mjög mismunandi dóma frá gagnrýnendum. Framhald myndarinnar ' kom út árið 1997. Stacy Title. Stacy Title er bandarísk leikkona, leikstjóri, og framleiðandi. Hún er þekktust fyrir að hafa leikstýrt myndunum "The Last Supper", "Let the Devil Wear Black" og "Down on the Waterfront". Hún er eiginkona leikarans Jonathan Penner og hefur leikstýrt honum í nokkrum myndum. Saman eiga þau tvö börn, Cooper (fæddur 1996) og Avu (fædda 1999). Title, Stacy Title, Stacy Edward Burns. Edward Fitzgerald Burns (fæddur 29. janúar 1968) er bandarískur leikari, framleiðandi, handritshöfundur og kvikmyndaleikstjóri. Hann er best þekktur fyrir að hafa leikið í, skrifað og leikstýrt myndinni She's the One. Burns, Edward Burns, Edward Sigga (breiðskífa). Tónlistarmaður=Sigga Beinteins| Síðasta breiðskífa="Desember" (1993)| Sigga er önnur einleiks breiðskífa Siggu Beinteins Samsteypa (leturfræði). Í leturfræði á samsteypa við samtengingu tveggja eða fleiri bókstafa. Samsteypur eru notaðar í stað fyrir einstaka bókstafa til þess að koma í veg fyrir óviljandi skörun milli heila. Samsteypur eru orðnar úr bókstöfum sem skrifaðir voru saman í handritum, annaðhvort til að láta skrifarann skrifa hraðara eða til útlits. Sumar samsteypur eru komnar af skammstöfunum sem skrifarar bjuggu til sjálfir. Svona skammstafanir voru notaðar mjög víða á tíma handritagerðar. Tegundir. Einn algengasti bókstafur sem er gerður að samsteypu með öðrum bókstöfum er f, til dæmis fi. Meðal annarra samsteypna með f eru fj, fl (fl), ff (ff), ffi (ffi) og ffl (ffl). Notkun þessara samsteypna fer samkvæmt stíl, en sumar samsteypur verð að nota í sumum tungumálum, og þær mega vera talnar bókstafir. Dæmi um þetta er þýska samsteypan ß (þ. "esszett"), sem er samtengingu „langs S“ ſ og s eða z. Þessi samsteypa er víða notuð í Þýskalandi og Austurríki í stað fyrir að skrifa "ss", en ekki í öllum tilfellum, og hún er aldrei notuð í Sviss. Í hástöfum er hún ekki notuð og skrifað er aðeins "SS". Uppruni. Sumir heilar sem eru talnir bókstafir eiga rætur að rekja til samsteypna. Til dæmis voru þýsku bókstafirnir "ä", "ö" og "ü" upprunnulega samsteypur af "ae", "oe" og "ue", þar sem e-ið var skrifað fyrir ofan hinum bókstöfum ("aͤ", "oͤ", "uͤ"). Bókstafurinn Å á svipaðan uppruna: hann varð til úr samsteypu af "a" og "o". Hann er nú á dögum talinn bókstafur og á eigin pláss í stafrófinu. Þetta er ólíkt þýsku bókstöfunum, sem eru ekki talnir sjálfstandandi bókstafir heldur afbrigði af "a", "o" og "u". Hvort samsteypa er talin bókstafur eða afbrigði af öðrum bókstafi er mismunandi eftir tungumáli. Til dæmis á íslensku er æ talinn bókstafur og á eigin hljóð, en á til dæmis ensku er hann talinn samsteypa af "a" og "e", hljóðið er sama hvort sé skrifað "æ" eða "ae". Ein algengasta samsteypa sem er í daglegri notkun er táknið & (e. "ampersand"). Samsteypa þessi var upprunlega blanda af bókstöfunum E og t ("et" þýðir „og“ á latínu). "&" er notað víða á ensku og frönsku en ekki svo mikið á öðrum tungumálum. Þannig að hún er notuð svo víða er hún ekki lengur talin samsteypa heldur tákn, en hún hefur verið talin bókstafur í fortíðinni. Annað dæmi um tákn sem varð til úr samsteypu er dalartakníð $ sem gæti verið skammstöfun á pesó. Rauðalækur. Rauðalækur er lítill þéttbýliskjarni staðsett við Þjóðveg eitt, um fimm kílómetra vestan við Hellu, í Rangárþingi Ytra, fyrrum Holta og Landssveit. Upphaf byggðar við Rauðalæk má rekja til þess að árið 1902 var byggður Rjómabússkáli á vesturbakka Rauðalækjar, rétt fyrir ofan Rauðalækjarfoss. Árið 1930 var svo stofnað kaupfélag við Rauðalæk (Kaupfélag Holtamanna). Nú er þar stafrækt Bílaverkstæði, Þvottahús og Söðlasmiðja, í Rjómabússkálanum. Þann 1. janúar 2011 voru íbúar Rauðalækjar 43. Handrit. Handrit er skrifaður texti, ritaður með höndunum en ekki prentaður eða fjölfaldaður á annan hátt. Dæmi um handrit er handskrifað bréf. Heitið handrit getur átt við hvaða skrifaðan texta sem er, ekki aðeins skáldverk, upplýsingar eða annan samhangandi texta, heldur einnig til dæmis töflur, útreikningar og aðrar tölulegar upplýsingar, landakort, skýringarmyndir og teikningar. Upphaflega voru handrit alltaf handskrifuð eins og nafnið bendir til en þegar ritvélar komu til sögunnar var orðið einnig látið ná yfir vélritaða texta og nú eru flest handrit skrifuð í tölvum með ritvinnsluforriti. Í bókaútgáfu er orðið „handrit“ notað um texta sem sendur er til forlags til lesturs eða undirbúnings útgáfu. Form handrita er mismunandi, ýmist bók, rolla eða laus blöð. Vorlyng. Vorlyng (fræðiheiti "Erica carnea") er jurt af lyngætt sem upprunnið er úr fjallahéruðum Mið- og Suður-Evrópu í austurhluta Alpafjalla þar sem það vex í barrskógum og við kletta. Vorlyng er 10-25 sm hátt með sígræn nálarlaga laufblöð sem eru 4-8 mm löng. Vorlyng blómstrar að vetrarlagi og er víða ræktað sem skrautjurt. Víðir (ættkvísl). Víðir (fræðiheiti "Salix") er ættkvísl um 400 tegunda trjáa og runna af víðisætt. Þær vaxa aðallega í rökum jarðvegi á köldum og tempruðum svæðum á Norðurhveli. Auðvelt er að fjölga flestum víðitegundum með græðlingum. Víðir er oft gróðursettur á árbökkum til að verja bakkana fyrir vatnsrofi. Oft eru rætur víðis miklu lengri en stofninn. Rætur víðis eru mjög umfangsmiklar og aðgangsharðar varðandi vatn og geta stíflað framræslu- og holræsakerfi. Hinrik 6. Englandskonungur. Hinrik 6. Málverk frá um 1450. Hinrik 6. (6. desember 1421 – 21./22. maí 1471) var konungur Englands frá 1422 til 1461 og aftur frá 1470 til 1471 og taldi sig einnig konung Frakklands frá 1422 til 1453. Hann er sagður hafa verið friðsamur og trúrækinn en lítill skörungur. Landinu var stýrt af ríkisstjórum til 1437 og seinna tók Margrét drottning, kona Hinriks, við valdataumunum þegar henni þótti konungurinn of linur. Hann var síðasti konungurinn af Lancaster-ætt. Bernska. Hinrik var einkasonur Hinriks 5. og varð konungur níu mánaða gamall, 31. ágúst 1422, þegar faðir hans dó í Frakklandi. Hann er sá yngsti sem sest hefur á konungsstól í Englandi. Tveimur mánuðum síðar, 21. október, dó móðurafi hans, Karl 6. Frakkakonungur, og erfði Hinrik frönsku krúnuna í samræmi við Troyes-sáttmálann, sem gerður hafði verið árið 1420, en Karl 7., sonur Karls 6., lýsti sig einnig konung og tókst nokkrum árum síðar með aðstoð Jóhönnu af Örk að ná yfirráðum yfir mestöllu Frakklandi og láta krýna sig konung. Helstu ráðamenn Englands voru tveir föðurbræður konungs, hertoginn af Bedford og hertoginn af Gloucester. Móðir Hinriks, Katrín af Valois, var aðeins tvítug þegar hún varð ekkja og var henni ekki leyft að taka fullan þátt í uppeldi sonar síns, enda óttuðust frændur hans að hún giftist aftur og nýr maður hennar gæti þá farið að seilast til valda. Því voru sett lög um að ef ekkjudrottningar vildu giftast aftur þyrftu þær samþykki konungsins, en það gat konungur því aðeins veitt að hann væri lögráða. Það kom þó ekki í veg fyrir að drottningin tæki sér elskhuga, Owen Tudor, og eignaðist með honum börn, þar á meðal synina Edmund og Jasper, sem seinna fengu báðir jarlsnafnbót. Edmund var faðir Hinriks, sem síðar varð Hinrik 7. Englandskonungur. Hjónaband. Hinrik var krýndur konungur Englands í Westminster Abbey 6. nóvember 1429 og konungur Frakklands í Notre Dame í París 16. desember 1431. Hann fékk þó engin völd fyrr en hann varð 16 ára, í desember 1437, skömmu eftir lát móður sinnar. Konungurinn var þó enginn skörungur og aðalsmenn réðu mestu og deildu hart um hvaða leiðir skyldi fara í Frakklandi en Englendingar höfðu farið halloka í Hundrað ára stríðinu eftir sigra Karls 7. og Jóhönnu af Örk. Konungur var friðsamur og hallaði sér því að Beaufort kardínála, hálfbróður Hinriks 4. afa hans, og William de la Pole, jarli af Suffolk, sem vildu frið, en hertoginn af Gloucester, föðurbróðir konungs, og Ríkharður hertogi af York vildu halda stríðinu áfram. Beaufort kardínála og jarlinum af Suffolk tókst að koma á samningum um hjúskap Hinriks og Margrétar af Anjou, sem var bróðurdóttir Maríu Frakklandsdrottningar, konu Karls 7., og átti hjónabandið að efla frið milli landanna. Karl konungur féllst á hjónabandið með því skilyrði að hann þyrfti ekki að leggja fram heimanmund með Margréti; þvert á móti skyldi hann fá Maine og Anjou, sem verið höfðu lén Englandskonungs. Á þetta var fallist en samningunum haldið leyndum fyrir enska þinginu og almenningi. Brúðkaup Hinriks og Margrétar var haldið 23. apríl 1445. Ári síðar var leyndinni svipt af samkomulaginu en reiði almennings beindist að jarlinum af Suffolk. Konungur og drottning studdu hann og annar helsti andstæðingur þeirra, hertoginn af Gloucester, var handtekinn og dó í varðhaldi. Ríkharður hertogi af Jórvík var rekinn frá hirðinni og sendur til að stýra Írlandi. Óvinsældir konungs. Konungsvaldið veiktist og konungurinn varð mjög óvinsæll vegna spillingar og lögleysu sem viðgekkst í landinu, bágs efnahagsástands og stöðugra ósigra Englendinga í Frakklandi. Árið 1450 var Hinrik neyddur til að senda Suffolk í útlegð í Frakklandi en ráðist var á skip hans á leiðinni yfir Ermarsund og hann drepinn. Eftir það var helsti ráðgjafi konungs Edmund Beaufort, hertogi af Somerset, bróðursonur Beauforts kardínála. Árið 1452 sneri Ríkharður hertogi af York aftur frá Írlandi í þeim tilgangi að krefjast aftur fyrri stöðu sinnar við hirðina og bæta stjórnarhætti. Hann var brátt kominn með her manna í lið með sér og mætti her konungs sunnan London. Ekki kom þó til bardaga en Ríkharður hertogi krafðist handtöku Edmunds Beaufort. Konungur féllst á það í fyrstu en drottningin greip í taumana, kom í veg fyrir handtöku hans og styrkti stöðu sína, ekki síst eftir að í ljós kom að hún átti von á erfingja. Stríðsátök héldu áfram í Frakklandi en Englendingar fóru stöðugt halloka og sumarið 1453 misstu þeir Bordeaux og var þá Calais eini staðurinn á meginlandinu sem Englendingar héldu enn. Þegar fregnir af þessu bárust til Englands varð Hinrik konungi svo mikið um að hann fékk taugaáfall og var sinnulaus um allt og alla í meira en ár, sýndi meira að segja engin viðbrögð við fæðingu sonar síns og ríkiserfingja, Játvarðs af Westminster. Hugsanlegt er talið að Hinrik hafi erft geðveilu Karls 6. afa síns. Hertoginn af York var gerður að ríkisstjóra í veikindum konungs, drottningin svipt öllum völdum og Edmund Beaufort hafður í haldi í Lundúnaturni. Rósastríðin. En á jóladag 1454 kom konungur aftur til sjálfs sín og tók aftur við ríkisstjórn. Þá var þó óánægjan orðin svo mikil að margir voldugir aðalsmenn studdu hertogann af York þegar hann gerði tilkall til ríkisstjórnarvalds og síðan til krúnunnar sjálfrar. Það leiddi til Rósastríðanna. Í þeim átökum var þó Margrét drottning mun meira áberandi en Hinrik konungur og það var í raun hún sem leiddi Lancaster-menn gegn Ríkharði hertoga og bandamönnum hans, en þeirra helstur var Richard Neville, jarl af Warwick, sem seinna var kallaður „the Kingmaker“. Næstu ár var tekist harkalega á og margar mannskæðar orrustur háðar. Í orrustunni við Northampton 10. júlí 1460 náði Warwick Hinrik konungi á sitt vald og flutti hann til London. Þangað kom Ríkharður og gerði kröfu til krúnunnar en aðalsmennirnir vildu ekki setja Hinrik af; þess í stað var gert samkomulag þar þsem Ríkharður var útnefndur arftaki Hinriks og Játvarður sonur konungs var gerður arflaus og skyldi fara frá London ásamt móður sinni en Ríkharður hertogi varð í raun stjórnandi ríkisins. Margrét drottning og aðrir leiðtogar Lancaster-manna sættu sig ekki við þetta og Margrét hélt með son sinn til Norður-Englands, byggði þar upp stóran her og í orrustunni við Wakefield um jólin 1460 beið Ríkharður hertogi ósigur og féll. York-menn voru þó ekki brotnir á bak aftur og Játvarður hertogi af York, elsti sonur Ríkharðs, náði brátt völdum og þan 4. mars 1461 fékk hann Hinrik frænda sinn settan af og varð sjálfur konungur sem Játvarður 4. Sagt er að Hinrik hafi á þeim tíma verið í geðveikikasti og hlegið og sungið þegar barist var í kringum hann. Honum tókst þó að flýja til Skotlands ásamt Margrét drottningu og syni þeirra. Þar og í Norður-Englandi var hann í felum næstu árin á meðan Margrét og nokkrir dyggir stuðningsmenn hennar héldu áfram baráttu gegn Játvarði í Norður-Englandi og Wales. En árið 1465 tókst Játvarði að ná honum á sitt vald og setja hann í varðhald í Lundúnaturni. Aftur í hásætið. Nokkrum árum síðar lenti Játvarður konungur í deilum við tvo helstu stuðningsmenn sína, Warwick og bróður sinn, hertogann af Clarence. Þeir gerðu þá að undirlagi Loðvíks 11. Frakkakonungs bandalag við Margréti drottningu, sem komin var til Frakklands, og fólst meðal annars í því að Játvarður af Westminster gekk að eiga dóttur Warwicks. Warwixk hélt svo til Englands og tókst að velta Játvarði úrsessi, fá hann settan af og Hinrik 6. varð konungur að nýju 30. október 1470. Raunveruleg völd voru þó í höndum Warwicks og hertogans af Clarence. Hinrik var ekki konungur nema í tæplega hálft ár að þessu sinni, Játvarður náði vopnum sínum að nýju og vann sigur í orrustunni við Tewkesbury 4. maí 1471. Þar féll Játvarður af Westminster, prins af Wales. Hinrik dó í Lundúnaturni aðfaranótt 22. maí og var sagt að hann hefði dáið úr harmi eftir að hafa frétt af falli einkasonar síns en sterkur grunur leikur á að Játvarður hafi látið fyrirkoma honum. Lyngplöntur. Lyngplöntur (fræðiheiti "Erica") eða lyng er ættkvísl um 860 tegunda blómplantna af lyngætt. Yfir 600 tegundir lyngplantna eru upprunnar í Suður-Afríku. Flestar tegundir lyngs eru litlir sígrænir runnar 0,2 -1,5 m háir með nálarlaga laufblöðum sem eru 2–15 mm löng. Fræin eru mjög lítil og geta í sumum tegundum verið í jarðvegi áratugum saman. Lyng vex í súrum jarðvegi. Stjórnin (breiðskífa). Stjórnin er þriðja breiðskífa Stjórnarinnar. Roðalyng. Roðalyng (fræðiheiti "Erica cinerea") er lyngplanta af lyngætt sem upprunnin er í Vestur- og Mið-Evrópu. Roðalyng er lágvaxinn runni sem verður 15 til 60 sm hár með fíngerðum nálarlaga laufblöðum sem verða 4 – 8 mm löng. Blómin eru 4 – 7 mm löng, klukkulaga og fjólublá (sjaldan hvít) á lit. Roðalyng er vinsæl skrautjurt. Það þolir vel þurrka og vex á sólríkum stöðum í framræstum jarðvegi. Fjallavíðir. Fjallavíðir eða grávíðir (fræðiheiti "Salix arctica") er lágvaxinn, oftast jarðlægur og mjög harðgerður víðir af víðisætt. Fjallavíðir er aðlagaður lífi á Norðurslóðum og er sá runni sem þrífst nyrst á jörðinni en hann finnst langt fyrir ofan trjálínu og á norðurströnd Grænlands. Fjallavíðir vex mjög hægt á heimskautasvæðum en getur orðið mjög gamall. Fundist hefur planta á Austur-Grænlandi sem er 236 ára gömul. Hreindýr, heimskautahérar og læmingjar éta börk og greinar og rjúpa blómhnappa Fjallavíðir er algengur um allt Ísland, einkum til fjalla og á hálendinu. Fjallavíðir hefur fundist á jarðhitasvæði í Öskju í 1200 m hæð yfir sjávarmáli. Fellibylurinn Írena (2011). Fellibylurinn Írena er níundi stormurinn á Norður-Atlantshafi sem hlotið hefur nafn á árinu 2011 en fyrsta fárviðrið. Írena myndaðist við Puerto Rico þann 22. ágúst 2011. Þrír aðrir fellibyljir hafa borið sama nafn áður, 1981, 1999 og 2005. Fellibylurinn Írena í ágúst 2011 hefur valdið miklu tjóni í Bandaríkjunum og kostað níu manns lífið. Hinrik 6.. Hinrik 6. getur átt við um Hertogadæmi. Hertogadæmi er lén sem heyrir undir hertoga. Í Evrópu eru til dæmi um hertogadæmi sem nutu mikils sjálfræðis, til dæmis á Ítalíu og í Þýskalandi þar sem þau heyrðu undir keisara að nafninu til, en í öðrum tilvikum heyrðu hertogadæmi undir konung sem réði því hverjir héldu þau að léni. Stórhertogadæmi nutu enn meira sjálfstæðis, líkt og stórfurstadæmi, og voru í reynd fullvalda ríki. Eina stórhertogadæmið sem eftir er er Lúxemborg. Alþjóðasamband flugfélaga. Alþjóðasamband flugfélaga (enska: "International Air Transport Association" - IATA) er atvinnugreinasamtök um 230 flugfélaga með höfuðstöðvar í Montréal í Kanada líkt og Alþjóðaflugmálastofnunin. Framkvæmdaskrifstofa samtakanna er á Genfarflugvelli í Sviss. Amerigo Vespucci. Stytta af Vespucci fyrir utan Uffizi-safnið í Flórens. Amerigo Vespucci (9. mars 1454 – 22. febrúar 1512) var ítalskur landkönnuður og kortagerðarmaður frá Flórens. Talið er að heimsálfan Ameríka dragi nafn sitt af honum. Vespucci tók þátt í nokkrum portúgölskum leiðöngrum til Suður-Ameríku á árunum 1499 til 1502. Nokkrar frásagnir af þessum leiðöngrum sem voru eignaðar honum komu út á prenti milli 1502 og 1504 og leiddu til þess að þýski kortagerðarmaðurinn Martin Waldseemüller kaus að nefna álfuna eftir honum, án þess að Vespucci sjálfur hefði hugmynd um það. Chris Evans. Christopher Robert „Chris“ Evans (fæddur 13. júní 1981) er bandarískur leikari. hann er best þekktur fyrir að hafa leikið aðalhlutverk í myndum á borð við "Not Another Teen Movie", "Fantastic Four" og '. Hann lék einnig hlutverk í "The Nanny Diaries" og "Scott Pilgrim vs. The World". Næstu hlutverk hans eru í myndunum "The Avengers" og "What's Your Number?". Evans, Chris What's Your Number? "What's Your Number?" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2011 með Önnu Faris og Chris Evans í aðalhlutverkum. Myndin er byggð á bók eftir Karyn Bosnak að nafni 20 Times a Lady. Myndin átti upprunalega að koma út 30. apríl 2011 en var seinkað til 30. september 2011. Merik Tadros. Merik Tadros (fæddur 15. apríl 1983) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í NCIS. Einkalíf. Tadros er fæddur í Chicago í Illinois. Stundaði nám í leikhúsfræðum og kvikmyndum við Iowa-háskólann en aðeins eina önn. Fluttist Tadros til Los Angeles og stundaði nám við The Stellar Adler Conservatory of Acting. Ferill. Tadros kom fyrst fram kvikmyndinni Jardhead árið 2005 og hefur síðan komið fram í kvikmyndum á borð við: Touch, The Kingdom, Crossing Over og Public Relations. Árið 2007 þá leikstýrði og framleiddi Tadros kvikmyndina The Bardo sem hann skrifaði handritið að ásamt því að leika í henni. Árið 2008 þá var Tadros boðið gestahlutverk í NCIS sem Mossad fulltrúinn Michael Rivkin sem hann lék til ársins 2009. Hefur hann einnig komið fram í þáttum á borð við: E-Ring, 24 og. Tenglar. Tadros, Merik Pogost (þorp). Pogost er þorp í Vologdafylki, Rússlandi. Þar búa 104 manns (2002). Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1987. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1987 var sú 32. og var haldin 9. maí 1987 í Brussel, Belgíu eftir að Sandra Kim hafði unnið keppnina árið áður. Viktor Lazlo var kynnir kvöldsins og Johnny Logan, keppandi Írlands, bar sigur úr býtum með lagið "Hold Me Now". Logan hafði áður unnið keppnina árið 1980 og varð hann fyrsti keppandi til þess að vinna keppnina tvisvar. 22 lönd tóku þátt í kepninni og var það nýtt met, en Mónakó, Malta og Marokkó voru einu löndin sem höfðu áður tekið þátt sem voru ekki með það ár. Mikill ágreiningur varð í Ísrael yfir lagi þeirra það ár, "Shir Habatlanim", sem var sungið af grínistum. Menningarráðherra þeirra hótaði að segja af sér ef lagið yrði sungið í Brussel þó ekkert hafi orðið úr því þegar lagið var sent í keppnina. Lagið, sem er betur þekkt sem "Hoopa Hoole", varð seinna mjög vinsælt á Íslandi. 1987 Martha Nussbaum. Martha Craven Nussbaum (fædd 6. maí 1947) er bandarískur heimspekingur, prófessor í lögfræði og siðfræði við University of Chicago og höfundur fjölmargra bóka og ritgerða um stjórnspeki og siðfræði. Hún er ásamt Amartya Sen annar helsti kenningasmiður færninálguninnar. Heimild. Nussbaum, Martha Nussbaum, Martha Nussbaum, Martha Skolkovo. Skolkovo er lítið þorp í grennd við Moskvu í Rússlandi. Þar búa 365 manns (2005). Deventer. Deventer er borg í héraðinu Overijssel í Hollandi og er með 98 þúsund íbúa. Deventer er iðnaðarborg en gjarnan kölluð kökuborgin, enda eru kökurnar þaðan þekktar víða um landið. Lega og lýsing. Deventer er hafnarborg við ána Ijssel um miðbik Hollands. Næstu borgir eru Apeldoorn til vesturs (20 km), Zwolle til norðurs (35 km), Arnhem til suðvesturs (40 km) og Almelo til norðausturs (40 km). Deventer er staðsett við austurbakka Ijssel en nokkrir smábæir fyrir vestan tilheyra sveitarfélaginu. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerkið sýnir svartan örn á gylltum grunni. Borgin var áður fyrr meðlimur Hansasambandsins og leyfðist því að nota þýska ríkisörninn sem merki. Örninn kom fyrst fram í borginni á miðri 15. öld en hefur breyst nokkuð með tímanum. Kórónan efst er tákn þýska ríkisins. Núverandi skjaldarmerki (með hermenn sem skjaldbera) var formlega tekið upp 13. júlí 1921. Fáninn er sömuleiðis með svarta ríkisörninn. Hann er að öðru leyti eins og fáni Póllands, hvít rönd að ofan og rauð að neðan. Orðsifjar. Uppruni heitisins Deventer er ekki að fullu skýrður. Leiða má þó líkum að því að borgin beri nafn ensku borgarinnar Daventry í Northamptonskíri, enda var kristniboðinn Lebúínus þaðan og reisti fyrstu kirkjuna í Deventer. Upphaf. Húsið Proosdij í Deventer er elsta steinhús Hollands sem enn er búið í, en það var reist 1130 Deventer var stofnuð af enska kristniboðanum Lebúínusi árið 768 eða 769 en hann reisti kirkju við árbakka Ijssel. Rúmlega öld síðar, 882, gerðu víkingar víða strandhögg á svæðinu og lögðu Deventer í rúst. Þegar bærinn var endurbyggður, fékk hann jafnframt varnargarða. Hann varð brátt mikilvæg siglinga- og verslunarbær við Ijssel. Biskuparnir í Utrecht settust þar að á 9. og 10. öld, en fluttu þó aftur til Utrecht. Þeir veittu Deventer borgarréttindi 956. Mynt frá Deventer frá þessum tíma fannst í uppgreftri á Sandi í Færeyjum 1863. Deventer gekk í Hansasambandið á 13. eða 14. öld. Kaupmenn þaðan versluðu mikið með norskan þurrkaðan fisk (ýsu og þorsk), og fengu borgarbúar þannig auknefnið Deventer Stokvis ("Deventer þurrfiskur"). Auknefnið er enn notað í dag. Menningarborgin. Á síðmiðöldum stofnaði Geert Groote bræðralagið "Sameinaða lífið" í Deventer, en það var kaþólskur skóli sem var mjög vinsæll áður en siðaskiptin fóru fram. Einn þekktasti nemandi skólans var Erasmus frá Rotterdam en hann stundaði nám þar 1475-84. Í Deventer var fyrsta prentvél Hollands komið upp (ásamt vélinni í Haarlem) en hún var smíðuð þar 1477. Í kjölfarið upphófst mikil bókaútgáfa í borginni. Til að mynda var þar mesta húmanístíska bókaútgáfa í Norður-Evrópu. Eftir sjálfstæðisstíð Hollendinga breyttist verslun í héraðinu og minnkaði þá vægi borgarinnar. Auk þess grynnkaði í ánni Ijssel, þannig að stór skip komust ekki lengur upp ána. Þetta olli miklum búsifjum í borginni og náði hún sér aldrei á strik eftir þetta. Nýrri tímar. Á miðri 19. öld, þegar iðnbyltingin hófst, varð Deventer að iðnaðarborg. Þar var járn unnið úr jörðu, en einnig var þar matvælaframleiðsla og vefnaður. Sökum þessa varð borgin fyrir loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari, enda höfðu Þjóðverjar þá hertekið borgina. Sprengjurnar eyðilögðu mikið af iðnaðinum og höfnina en gamla miðborgin slapp að mestu. Á 8. áratugnum var járniðnaðinum hætt í borginni. Árið 1977 var stórmyndin "A Bridge Too Far" kvikmynduð í Deventer. Sögusviðið er Arnhem og stríðsátökin um brúna yfir Rín en byggingarnar í Arnhem voru orðnar of nýtískulegar fyrir myndina. Viðburðir. Bækur til sölu í Deventer Deventer Boekenmarkt er stærsti bókamarkaður Evrópu. Hann er haldinn fyrsta sunnudag í ágúst og sækja hann um 120 þúsund manns. Þar má finna mörg hundruð þúsund titla í samtals 875 búðum. Hér er einnig um tímarit að ræða. Búðirnar mynds alls 6 km langa verslunarröð. Dickens-hátíðin er helguð skáldsagnapersónum úr verkum Charles Dickens. Hún var innleidd 1990 og stendur yfir í tvo daga helgina fyrir jól. Í miðborginni eru leikin atriði úr verkum Dickens og koma þar fyrir ýmis gervi úr sögum hans. Um 150 þúsund manns sækja hátíðina heim árlega. Íþróttir. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er "Go Ahead Eagles", sem fjórum sinnum hefur orðið hollenskur meistari (síðast 1933). Meðal þekktra fyrrum leikmanna félagsins má nefna landsliðsmennina Jan Jongbloed og Marc Overmars. Krikketfélagið "Koninglijke UD" er elsta krikketfélag Hollands en það var stofnað 1875. Liðið hefur þó ekki orðið hollenskur meistari nema einu sinni, 1990. Byggingar og kennileiti. Lebúínuskirkjan er helsta kennileitið í Deventer Suður-Holland. Suður-Holland er fylki í Hollandi. Þar eru nokkrar af stærstu borgum landsins og er fylkið bæði það fjölmennasta og þéttbýlasta í Hollandi. Það liggur nær allt neðan sjávarmáls. Lega og lýsing. Suður-Holland liggur við Norðursjó nær vestast í Hollandi. Stóru árnar Lek, Waal (aðalkvíslar Rínarfljóts) og Maas renna þar til sjávar. Önnur héruð sem að Suður-Hollandi liggja eru Norður-Holland fyrir norðan, Utrecht fyrir norðaustan, Gelderland fyrir austan, Norður-Brabant fyrir suðaustan og Sjáland fyrir sunnan. Íbúar eru 3,4 milljónir talsins og er Suður-Holland þar með fjölmennasta fylkið í Hollandi. Þar eru stórborgir eins og Rotterdam og Haag. Sú síðarnefnda er höfuðborg fylkisins. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Suður-Hollands sýnir rautt ljón með bláar klær og tungu á gulum grunni. Ljónið hefur verið merki greifanna af Hollandi síðan á 12. öld. Fylkið Holland skiptist í norður og suður 1840. Það var þó ekki fyrr en 30. desember 1959 að Júlíana drottning veitti fylkinu nýtt skjaldarmerki. Fáninn var ekki tekinn upp fyrr en 1. janúar 1986 og er sniðinn eftir fyrirmynd skjaldarmerkisins. Orðsifjar. Holland hét upphaflega Holtland (eða Holtlant), sem merkir "skógarland". Það var ekki fyrr en 1840 að fylkið Holland skiptist í tvennt, þ.e. í Norður-Holland og Suður-Holland, og voru heitin smíðuð á því ári. Söguágrip. Í gegnum aldirnar var fylkið Holland eitt fremsta og auðugasta fylki Niðurlanda og var stjórnað af greifunum af Hollandi. Í sjálfstæðisbaráttu landsins á 16. og 17. öld hafði fylkið sig hvað mest frammi. Það var að sama skapi stærsta fylki landsins þegar Holland varð að sjálfstæðu ríki. Þetta varð til þess að heiti fylkisins var gjarnan notað fyrir landið allt. Þegar Frakkar hertóku Holland 1795, skiptu þeir fylkinu í fimm einingar (département). En 1807 var þessum einingum breytt í tvö svæði. Norðurhlutinn kallaðist Amstelland og suðurhlutinn Maasland. Þegar Frakkar hurfu úr Niðurlöndum 1813 voru hlutarnir sameinaðir aftur en yfir þá voru settir tveir ríkisstjórar, einn fyrir norðursvæðið og hinn fyrir suðursvæðið. Þegar stjórnarskrá landsins var endurnýjuð 1840 var ákveðið að aðgreina svæðin varanlega. Þannig mynduðust Norður-Holland með Haarlem að höfuðborg og Suður-Holland með Haag að höfuðborg. Robert Wagner. Robert Wagner (fæddur Robert John Wagner, 10. febrúar 1930) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í It Takes a Thief, "Switch", Hart to Hart og sem Nr. 2 í Austin Powers myndunum. Einkalíf. Wagner er fæddur í Detroit, Michigan en fjölskylda hans fluttist til Los Angeles þegar hann var sjö ára. Wagner vildi alltaf verða leikari og vann hann ýmis störf þar á meðal sem bílstjóri fyrir Clark Gable í leit sinni að draumastarfinu. Wagner var uppgvötaður á veitingastað með foreldrum sínum. Fékk hann samning hjá 20th Century-Fox þar sem hann lék ýmis hlutverk næstu árin. Wagner gaf út sjálfsævisögu sína "Pieces of My Heart: A Life" sem var skrifuð af Scott Eyman og gefin út 23.september 2008. Fjölskylda. Wagner hefur verið giftur fjórum sinnum. Þegar hann var 27 ára þá kynntist hann unglingsstjörnunni Natalie Wood sem hann giftist árið 1957 en skildu síðan árið 1962. Eftir skilnaðinn þá fluttist Wagner til Evrópu og þar hitti hann leikkonuna Marion Marshall og saman fluttust þau til bandaríkjanna árið 1963. Wagner og Marion giftust árið 1963 og saman áttu þau eina dóttur Katie Wagner. Skildu þau árið 1970 eftir níu ára hjónaband. Wagner hélt alltaf sambandi við Natalie Wood og giftust þau aftur árið 1972 og saman áttu þau eina dóttur Courtney Wagner. Þann 29. Nóvember 1981, þá drukknaði Wood nálægt snekkju þeirra fyrir utan Catalina Island, með um borð var Wagner og Christopher Walken sem var samleikari Wood í Brainstorm. Wagner varð forræðismaður yfir dóttur Wood Natasha Gregson. Árið 1982 þá byrjaði Wagner með leikkonunni Jill St. John og eftir átta ára samband þá giftust þau árið 1990. Kvikmyndir. Fyrsta hlutverk Wagners var í kvikmyndinni The Happy Years síðan 1950, lék hann síðan smáhlutverk í nokkrum hermyndum þangað til honum varð boðið hlutverk í With a Song in My Heart frá 1952, sem lamaður hermaður. Lék hann á móti Susan Hayward en þetta hlutverk gaf honum samning hjá 20th Century Fox. Wagner lék síðan í kvikmyndum á borð við: White Feather, The Mountain, In Love and War, The Pink Pather og "Titanic". Árið 1972 þá framleiddi hann og lék í á móti Bette Davis í smyndinni Madame Sin sem var gefin út á erlendan markað. Árið 1974 þá lék Wagner á móti Steve McQueen, Paul Newman og Faye Dunaway í kvikmyndinni The Towering Inferno. Síðan þá hefur Wagner komið fram í kvikmyndum á borð við: Midway á móti Charlton Heston, Henry Fonda og James Coburn, Crazy in Alabama, Austin Powers in Goldmember, Little Victim og Man in the Chair. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Wagners í sjónvarpi var í þáttum fyrir 20th Century Fox árin 1955-1956. Árið 1968 þá var honum boðið hlutverk í It Takes a Thief sem Alexander Mundy, þar lék hann á móti Fred Astaire sem lék föður hans. Astaire og Wagner voru góðir vinir áður en þeir léku saman í þættinum en Wagner hafði stundað nám með syni Astaires. Wagner lék í þættinum til ársins 1970. Kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við The Red Skelton Show, Colditz og The Streets of San Francisco.. Árið 1975 þá var Wagner boðið hlutverk Pete T. Ryan í "Switch" sem hann lék til ársins 1978. Árið 1979 þá bauðs Wagner aðalhlutverk í Hart to Hart sem Jonathan Hart, þáttur sem hann lék í til ársins 1984. Síðan þá hefur Wagner komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum á borð við: Julie, Cybill, "Las Vegas", NCIS, Boston Legal og Two and a Half Men. Bækur. Wagner, Robert One Day. "One Day" er bresk- og bandarísk kvikmynd frá árinu 2011 sem Lone Scherfig leikstýrði og David Nicholls skrifaði. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók frá árinu 2009 og fara Anne Hathaway og Jim Sturgess með aðalhlutverkin. Myndin var gefin út í kvikmyndahús í ágúst 2011. Söguþráður. Eftir að hafa eytt einum degi saman þann 15. júlí 1988, daginn sem þau útskrifuðust úr Edinborgarháskóla, hefja Emma Morley og Dexter Mayhew vináttusamband sem mun endast þeim ævina. Hún er vinnusöm stúlka af alþýðuætt með sterka siðferðiskennd og háleit markmið í lífinu, en ekkert minna en það að bæta heiminn með verkum sínum mun duga henni. Hann er hinsvegar vellríkur sjarmör sem dreymir helst um daginn þegar veröldin verður leikvöllur hans. Næstu tvö áratugina fyljgumst við með miklvægum atburðum á ævi þeirra með því að skyggnast inn í líf þeirra fimmtánda júlí ár hvert. Hvort sem þau eru saman eða í sundur verðum við vitni að vináttu þeirra og vinslitum, vonum og brostnum draumum, hlátri og sorg og umfram allt vináttu þeirra til hvers annars, hversu áberandi sem hún er í lífi þeirra hverju sinni. Hvað eiga þau þessum eina degi að þakka í lífi sínu? Marglínuleg vörpun. Í línulegri algebru er marglínuleg vörpun vörpun af fleiri en einni breytistærð, sem er línuleg í sérhverri breytistærð. Skilgreining. Marglínuleg vörpun af "n" breytistærðum er vörpun þar sem formula_2 og formula_3 eru vigurrúm og þar sem "c" er tala. Þetta má einnig orða þannig að ef öllum breytistæðum nema einni er haldið föstum þá er vörpunin línuleg með tilliti til þeirrar sem er ekki haldið fastri. Ef formula_6 er talað um tvílínulega vörpun, ef formula_7 um þrílínulega o.s.frv. Dæmi. (1) Setja má margföldun í rauntölunum fram sem tvílínulega vörpun, þ.e. Vel þekkt er að formula_9 og formula_10 svo að margföldun er tvílínuleg. (2) Ákveður fylkja má setja fram sem marglínulega vörpun af línuvigrum eða dálkvigrum ferningsfylkis. Húshjálpin (kvikmynd). Húshjálpin eða "The Help" er bandarísk kvikmynd frá árinu 2011 sem er byggð á samnefndri metsölubók eftir Kathryn Stockett frá árinu 2009. Myndin fjallar um líf auðugra hvítra kvenna í Mississippi og þeldökka þjóna þeirra. Myndin gerist í borginni Jackson í Mississippi-fylki, Bandaríkjunum og fara Emma Stone, Viola Davis, Bryce Dallas Howard, Jessica Chastain, Sissy Spacek, Mike Vogel og Allison Janney með aðalhlutverkin. Söguþráður. Myndin fjallar um unga hvíta konu að nafni Euginia „Skeeter“ Phelan og samband hennar við þvær svartar þernur á 7. áratug 20. aldar. Skeeter er blaðakona og ákveður að skrifa bók sem verður mjög umdeild vegna þess hún fjallar um líf þernanna og sýnir rasismann sem þær þurfa að þola þegar þær vinna fyrir hvítar fjölskyldur. Leikendur. Help, The EN 13537. EN 13537 er evrópskur staðall, sem ætlað er að samræma mælingar á kuldaþoli svefnpoka, sem framleiddir eru og/eða seldir í Evrópu. Staðallinn fékk fullgildingu 1. janúar 2005 hjá Staðlaráði Evrópu og nota framleiðendur staðalinn til þess að prófa svefnpoka og birta upplýsingar um kuldaþol þeirra. Merking svefnpoka. Formlega nefnist staðallinn „EN 13537:2002 Requirements for Sleeping Bags“. Hann nær til allra svefnpoka nema þeirra sem ætlaðar eru til notkunar af hermönnum og svefnpoka með þægindamörk fyrir neðan -25° C. Staðallinn hefur fengið fullgildingu í flestum löndum Evrópu og er einnig notaður af fjölmörgum framleiðendum annars staðar í heiminum. Alla svefnpoka sem merktir eru samkvæmt staðlinum þarf að prófa með samræmdum aðferðum á rannsóknastofu. Þetta þýðir að svefnpokar frá mismunandi framleiðendum hafa allir sambærilegar hitatölur séu þeir prófaðir samkvæmt staðlinum EN 13537. Prófanir. Mælingar samkvæmt staðlinum EN 13537 eru gerðar með mælitækjum sem birta fjórar mismunandi niðurstöður. Efri mörk, þægindamörk, lægri mörk og ystu mörk. Tölurnar eiga að lýsa upplifun venjulegra notenda af hitastigi í svefnpokum við ýmsar aðstæður. Niðurstöðurnar fjórar eru túlkaðar með eftirfarandi hætti. Í þessum mælingum er miðað við að "venjulegur karlmaður" sé 25 ára gamall, 1,73 m hár og vegi 73 kg. „Venjuleg kona“ er 25 ára gömul, 1,60 m að hæð og 60 kg þung. Friends with Benefits. "Friends with Benefits" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2011 sem Will Gluck leikstýrði. Justin Timberlake og Mila Kunis fara með aðalhlutverkin en Woody Harrelson, Emma Stone og Patricia Clarkson koma einnig fram í myndinni. Tökur hófust 13. júlí 2010 í New York og luku í september það ár í Los Angeles. Leikendur. Jason Segel, Shaun White ogRashida Jones koma fram í myndinni í cameo hlutverkum. Söguþráður. Dylan og Jamie halda að það sé ekkert mál að bæta kynlífi við vinskapinn, þrátt fyrir annan boðskap í ótal rómantískum gamanmyndum frá Hollywood. Þau komast hins vegar fljótt að því að það er engin lygi; kynlíf flækir málin alltaf allverulega. Diane Neal. Diane Neal (fædd 17. nóvember 1975) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Aðstoðarsaksóknarinn Casey Novak í. Einkalíf. Neal er fædd í Alexandriu í Virginíu en fluttist til Littleton í Colorado þegar hún var yngri. Stundaði læknanám í háskóla en ákvað að hætta til þess að vinna sem módel þegar hún var 18 ára. Árið 1999 þá hætti hún að vinna sem módel og fór að læra fornleifafræði í Egyptalandi og Ísrael. Lærði leiklist við Atlantic Theater Company Acting School í New York. Neal giftist Marcus Fitzgerald árið 2005. Ferill. Fyrsta hlutverk Neal var í sjónvarpsþættinum Fling síðan þá hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: The American Embassy, 30 Rock, White Collar og NCIS. Árið 2001 þá var Neal boðið hlutverk aðstoðarsaksóknarans Casey Novak í sem hún lék til ársins 2011. Neal hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við: Second Born, After og Santorini Blue. Tenglar. Neal, Diane Ketildyngja. Ketildyngja er eldfjall í Ódáðahrauni. Nafnið Ketildyngja sést fyrst hjá Þorvaldi Thoroddsen og er sennilega frá honum runnið. Dyngjukeilan er lág en efst er allmikill sporöskjulagaður gígur sem nefnist Ketill. Þar er jarðhiti, hluti af háhitasvæði sem nefnist Fremri-Námur. Þar var numinn brennisteinn til útflutnings í aldaraðir. Norður af gígnum eru Ketilhyrnur, hnjúkar úr eldra bergi sem standa upp úr hrauninu. Norður og norðvestur af þeim eru Skjaldbaka og Skuggadyngja, gamlir dyngjugígar sem rísa upp úr hrauninu. Aðalhraunflæðið frá Ketildyngju leitaði til norðvesturs um Heilagsdal og fann sér svo leið um Selhjallagil niður í Mývatnssveit. Þar breiddi það úr sér og þakti stóran hluta sveitarinnar. Það myndar meginhluta Grænavatnsbruna milli Mývatns og Bláfells. Það flæddi niður farveg Laxár og hefur hugsanlega myndað fyrsta forvera Mývatns þegar það stíflaði árgilið. Það rann síðan niður Laxárdal og Aðaldal og hugsanlega allt út á móts við norðurenda Fljótsheiðar. Þetta hraun nefnist Laxárhraun eldra. Allt ofan frá Grænavatnsbruna er hraunið að mestu hulið Laxárhrauninu yngra. Aðrir hraunstraumar flæddu frá Ketildyngju til norðurs í átt að Búrfelli og til suðurs og vesturs að Sellandafjalli. Hraunið frá Ketildyngju er með stærstu hraunum Íslands. Flatarmál þess er um 390 km2 og aldur þess er um 7000 ár. Handknattleiksárið 1984-85. Handknattleiksárið 1984-85 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1984 og lauk vorið 1985. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Því næst fóru fjögur efstu liðin í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn þar sem leikin var fjórföld umferð, auk þess sem liðin tóku með stigin úr innbyrðisviðureignum sínum. Fjögur neðstu liðin fóru í sérstaka keppni um fall með fjórfaldri umferð, en þau tóku með sér stigin sín úr aðalkeppninni. 2. deild. KA sigraði í 2. deild og fór upp um deild ásamt Fram. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Að því loknu skiptist deildin upp í efri hluta og neðri hluta, þar sem fjögur efstu liðin léku tvöfalda umferð um sæti í 1. deild og fjögur neðstu um fall í 3. deild. Tóku liðin með sér stigin úr forkeppninni. "Úrslitaleikir um sæti í 1. deild" Fylkir og Þór Ak. féllu í 3. deild. 3. deild. Afturelding sigraði í 3. deild og tryggði sér sæti í 2. deild ásamt ÍR-ingum. Keppt var í tveimur sex liða riðlum með tvöfaldri umferð. Tvö efstu lið úr hvorum riðli léku svo tvöfalda umferð í einni fjögurra liða deild. "Úrslitakeppni um sæti í 2. deild" Bikarkeppni HSÍ. Víkingur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn FH. 25 lið voru skráð til keppni. Evrópukeppni meistaraliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í undanúrslit. Evrópukeppni bikarhafa. Víkingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða og komust í undanúrslit. Evrópukeppni félagsliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni félagsliða og féllu út í 1. umferð. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. ÍA og ÍBV féllu í 2. deild. 2. deild. Haukar sigruðu í 2. deild. Bikarkeppni HSÍ. Fram sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Val. Tíu lið tóku þátt í keppninni. Evrópukeppni meistaraliða. Framstúlkur kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu út í fyrstu umferð. Handknattleiksárið 1985-86. Handknattleiksárið 1985-86 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1985 og lauk vorið 1986. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Mótinu lauk um miðjan janúar vegna þátttöku landsliðsins á HM. Egill Jóhannesson, Fram, varð markakóngur með 100 mörk. KR og Þróttur höfnuðu í tveimur neðstu sætunum, en þar sem ákveðið var að fjölga um tvö lið í fyrstu deild var efnt til keppni tveggja neðstu liðanna úr 1. deild og liðanna í 3. og 4. sæti í 2. deild. Leikin var tvöföld umferð í fjögurra liða deild. 2. deild. Breiðablik varð meistari í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Ármanni. Vegna fyrirhugaðrar fjölgunar í 1. deild fóru liðin í 3. og 4. sæti í úrslitakeppni um laus sæti og ljóst að ekkert lið myndi falla niður úr deildinni. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Ekkert lið féll úr 2. deild. 3. deild. ÍBK sigraði í 3. deild. Í öðru sæti var Týr Ve.. Þrettán lið kepptu í 3. deild og léku þau tvöfalda umferð. Vegna fyrirhugaðrar fjölgunar í 1. og 2. deild varð snemma talið ljóst að liðin í 3. og 4. sæti kæmust upp um deild, þótt ekki væri formlega gengið rá því fyrr en á ársþingi HSÍ að móti loknu. Þór Ve. og Týr Ve. ákváðu að senda sameiginlegt lið til keppni handknattleiksárið 1986-87 undir merkjum ÍBV. Liðið í 5. sæti í 3. deild, Reynir Sandgerði, hlaut því sæti í 2. deild. Knattspyrnufélagið Þróttur, sem féll í 2. deild, lagði niður meistaraflokk sinn að tímabilinu loknu. Þess í stað hlutu Fylkismenn sæti í 2. deild, en þeir höfnuðu í 6. sæti í 3.deild. Bikarkeppni HSÍ. Víkingur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. 29 lið voru skráð til keppni. Evrópukeppni meistaraliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða. Liðið sat hjá í 1. umferð og hóf keppni í 16-liða úrslitum þar sem það féll út. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna á fullu húsi stiga. Keppa átti í átta liða deild, en lið Þórs Ak. dró sig úr keppni og fengust önnur lið ekki til að taka sætið. Var því leikin tvöföld umferð í sjö liða deild. 2. deild. ÍBV sigraði í 2. deild og tryggði sér sæti í 1. deild ásamt Ármanni. Keppt var í sex liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Fram sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Níu lið tóku þátt í keppninni. Evrópukeppni bikarhafa. Valsstúlkur kepptu í Evrópukeppni bikarhafa. Handknattleiksárið 1986-87. Handknattleiksárið 1986-87 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1986 og lauk vorið 1987. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. ÍR-ingar urðu meistarar í 2. deild og fóru upp í 1. deild ásamt Þór Akureyri. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. ÍBK og ÍA féllu úr 2. deild. 3. deild. Selfoss og Njarðvík urðu efst í 3. deild og tryggðu sér sæti í 2. deild. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnumenn sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Fram. 28 lið voru skráð til leiks. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í 8-liða úrslit. Evrópukeppni bikarhafa. Stjörnumenn kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og komust í 2. umferð. Evrópukeppni félagsliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni félagsliða, IHF-bikarnum og féllu út í 1. umferð. 1. deild. Fram sigraði í 1. deild. ÍBV og Ármann féllu. Leikin var þreföld umferð í átta liða deild. 2. deild. Haukar og | Þróttur fóru upp í 1. deild og tóku sæti Ármanns og ÍBV. Leikin var þreföld umferð í sex liða deild. Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn FH. 13 lið skráðu sig til keppni. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Handknattleiksárið 1987-88. Handknattleiksárið 1987-88 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1987 og lauk vorið 1988. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla án þess að tapa leik. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. ÍBV sigraði í 2. deild og færðist upp í 1. deild ásamt Gróttu. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. Fylkir og Afturelding höfnuðu í tveimur neðstu sætunum og áttu því að falla niður í 3. deild. Reynir Sandgerði sendi hins vegar ekki lið til keppni veturinn eftir og tók Afturelding sæti liðsins. 3. deild. ÍBK sigraði í 3. deild og færðist upp í 2. deild ásamt ÍH. Keppt var í átta liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Valur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Breiðabliki. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu út í 8-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. Stjarnan keppti í Evrópukeppni bikarhafa og komst í aðra umferð. Evrópukeppni félagsliða. Breiðablik keppti í Evrópukeppni félagsliða og féll út í fyrstu umferð. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. KR og Þróttur féllu niður um deild. 2. deild. ÍBV og Þór Ak. tryggðu sér sæti í 1. deild. Önnur lið í deildinni voru Grótta, ÍBK, Breiðablik, Afturelding og HK. Bikarkeppni HSÍ. Valsstúlkur sigruðu í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt kvennalið tók þátt í Evrópukeppni þetta árið. Handknattleiksárið 1988-89. Handknattleiksárið 1988-89 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1988 og lauk vorið 1989. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. HK sigraði í 2. deild og færðist upp í 1. deild ásamt ÍR. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. Afturelding og ÍH féllu í 3. deild. 3. deild. FH b-lið sigraði í 3. deild eftir úrslitaleik gegn b-liði Vals. Bæði lið tryggðu sér sæti í 2. deild. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnumenn sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn FH. 29 lið skráðu sig til leiks. Evrópukeppni meistaraliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða. Þeir komust í 8-liða úrslit, en féllu þar út á mörkum skoruðum á útivelli. Evrópukeppni bikarhafa. Stjörnumenn kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og féllu út í 1. umferð. Evrópukeppni félagsliða. FH-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða og komust í 8-liða úrslit. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. ÍBV og Þór Ak. féllu niður um deild. Erla Rafnsdóttir, Stjörnunni, varð markadrottning með 157 mörk. 2. deild. Grótta sigraði í 2. deild og tryggði sér sæti í 1. deild ásamt KR-ingum. Leikin var tvöföld umferð í níu liða deild. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnustúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn FH. 16 lið tóku þátt. Handknattleiksárið 1989-90. Handknattleiksárið 1989-90 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1989 og lauk vorið 1990. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Framstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. 2. deild. Fram sigraði í 2. deild og færðist upp í 1. deild ásamt Selfyssingum. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. 3. deild. Völsungur sigraði í 3. deild og færðist upp í 2. deild ásamt B-liði Víkings. Keppt var í tveimur riðlum með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Valsarar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Víkingum. 31 lið skráði sig til leiks. Evrópukeppni meistaraliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. Stjörnumenn kepptu í Evrópukeppni bikarhafa og féllu út í fyrstu umferð. Evrópukeppni félagsliða. KR-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða og féllu út í fyrstu umferð. 1. deild. Framarar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. KR og Haukar féllu niður um deild. 2. deild. Selfoss sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt ÍBV. Leikin var þreföld umferð í sjö liða deild. Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Evrópukeppni meistaraliða. Framstúlkur kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu út í fyrstu umferð. Íslandsmót kvenna í handknattleik. Íslandsmót kvenna í handknattleik er árleg keppni í meistaraflokki kvenna um "Íslandsmeistaratitilinn". Handknattleikssamband Íslands stendur fyrir mótinu, sem fram hefur farið á hverju ári frá 1940. Ýmist hefur verið keppt í einni eða tveimur deildum, eftir fjölda þátttökuliða. Á seinni árum hefur keppnin borið heiti ýmissa stuðningsaðila, nú síðast olíufyrirtækisins N1. Paleógentímabilið. Paleógentímabilið eða forna tímabilið er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 65,5 milljónum ára og lauk fyrir 23,03 milljónum ára. Það nær yfir fyrsta hluta nýlífsaldar og markast upphaf þess af fjöldaútdauða jurta og dýra, meðal annars risaeðlanna, sem batt endi á krítartímabilið. Paleógentímabilið einkenndist af þróun spendýra sem urðu stærri og ríkjandi tegundir. Fuglar þróuðust líka í tegundir sem líkjast nútímafuglum. Loftslag kólnaði og innhöf hurfu frá Norður-Ameríku. Paleógentímabilið skiptist í paleósentímabilið, eósentímabilið og ólígósentímabilið. Jared Leto. Jared Joseph Leto (fæddur 26. desember 1971) er bandarískur leikari, kvikmyndaleikstjóri, framleiðandi og tónlistarmaður. Hann varð frægur fyrir að leika hjartaknúsarann Jordan Catalano í vinsælu sjónvarpsþáttaröðinni „My So-Called Life“ sem gerði hann að stjörnu. Hann hefur síðan þá leikið í mörgum vinsælum kvikmyndum þar á meðal „The Thin Red Line“, „Girl, Interrupted“, „Urban Legend“ og „Requiem for a Dream“. Leto hefur unnið með leikstjóranum David Fincher í myndunum „Fight Club“ og „Panic Room“. Leto er einnig aðalsöngvari hljómsveitarinnar "30 Seconds to Mars". Hann og eldri bróðir hans stofnuðu hljómsveitina árið 1998 og hafa þeir síðan gefið út þrjár plötur. Leto, Jared Leto, Jared Leto, Jared Sighvatur Magnús Helgason. Sighvatur Magnús Helgason (fæddur 5. maí 1992) er íslenskur glímukappi sem æfir brasilískt jiu jitsu með Mjölni. Hann er talinn einn af efnilegustu glímuköppum landsins. Hann varð Íslandsmeistari þann 6. nóvember 2011, eftir mót sem haldið var í Laugardalnum. Ferilheildi. Ferilheildi er heildi, sem reiknað er eftir ákveðnum ferli, sem getur ýmist verið "opinn" eða "lokaður". Ferilheildi reiknað eftir lokuðum ferli kallast "hringheildi". Ferillengd er skilgreind sem ferilheildið af "ds", sem er „óendnanlega skammur bútur“ ferilsins, reiknað eftir ferlinum. Ferilheildi í tvinnsléttunni gegna mikilvægu hlutverki í tvinnfallagreiningu. Mjölnir (íþróttafélag). Mjölnir er íþróttafélag sem var stofnað 2005 og sérhæfir sig í bardagaíþróttum. Félagið notaðist við sal við Mýrargötu 2-8 til ársins 2011 en þá vék hann fyrir hóteli og félagið flutti á Seljaveg 2. Félagið heldur árlega bardagaíþróttamótið Mjölnir Open og árið 2009 unnu félagsmenn Mjölnis til flestra verðlauna á Íslandsmótinu í brasilísku jiu-jitsu. Kasarar. Kort sem sýnir þróun ríkis kasara Kasarar voru tyrknesk þjóð sem stofnaði stórt lénsveldi norðan Kákasusfjalla á 7. öld. Á hátindi sínum á 9. öld náði þetta ríki yfir stóran hluta af því sem nú eru Evrópuhluti Rússlands, austurhluti Úkraínu (þar með talinn Krímskagi), vesturhluti Kasakstans, Aserbaídsjan, hluti Georgíu og norðausturhluti Tyrklands. Ríki kasara var arftaki Vesturtyrkneska kanatsins sem var á sömu slóðum frá 6. öld til 7. aldar. Lítið er vitað um uppruna kasara sjálfra. Sumir fræðimenn vilja rekja þá til úígúra, aðrir til húna og enn aðrir til miðasískra þjóðflokka austan Kaspíahafs. Kasarska virðist hafa verið oghúrískt mál, svipað því sem hinir fornu búlgarar töluðu. Nánast engar ritheimildir á kasörsku hafa varðveist og mest af því sem vitað er um kasara kemur frá nágrannaþjóðum þeirra. Eitt af fáum dæmum um frumheimildir frá ríki Kasara eru bréfaskipti milli Jósefs ben Aron, kasarakans, og spænska fræðimannsins Hasdai ibn Shaprut, sem var utanríkisráðherra kalífans í Córdoba. Ríki kasara var fjölmenningarsamfélag þar sem fjöldi tungumála og trúarbragða fékk að dafna í friði. Kasarar virðast hafa gert bandalag við Austrómverska ríkið. Þeir mynduðu eins konar stuðpúða milli kristnu ríkjanna í Evrópu og íslömsku ríkjanna í Suðvestur-Asíu sem á þeim tíma voru í mikilli sókn. Hugsanlega var það ástæða þess að kasarska yfirstéttin snerist til gyðingdóms á 9. öld. Endalok ríkis kasara urðu vegna uppgangs Kænugarðs. Herfarir Svjatoslavs 1. konungs Kænugarðsrússa í austurveg, gerðu út af við borgir kasara eina af annarri og að lokum féll höfuðborg þeirra, Atil, í hendur honum 968 eða 969. Á 19. öld varð sú kenning til meðal kynþáttafræðinga að askenasígyðingar ættu rætur sínar að rekja til kasara. Þeir væru þannig í raun ekki afkomendur hinna fornu hebrea og ættu því ekkert sérstakt tilkall til Ísraelsríkis. Gagnrýnendur hafa hins vegar bent á að engar heimildir séu til sem gefa ástæðu til að ætla slíka tengingu. Harry Potter (kvikmyndaröð). Harry Potter-kvikmyndaröðin er röð framhaldsmynda sem byggjast á skáldsögunum um Harry Potter eftir J.K Rowling. Myndaröðin er átta kvikmyndir þar sem sú fyrsta er Harry Potter og viskusteinninn og sú síðasta Harry Potter og Dauðadjásnin - 2. hluti. Allar kvikmyndir í röðinni voru framleiddar af David Heyman og dreift af Warner Brothers. Með aðalhlutverk fara Daniel Radcliffe sem Harry Potter, Rupert Grint sem Ron Weasley og Emma Watson sem Hermione Granger. Fjórir leikstjórar hafa leikstýrt myndunum; Chris Columbus, Alfonso Cuáron, Mike Newell og David Yates. Harry Potter-kvikmyndaröðin er tekjuhæsta kvikmyndaröð allra tíma, með samtals 7,6 milljarða bandaríkjadala í tekjur. Allar átta kvikmyndirnar í röðinni öfluðu meira en 790 milljóna bandaríkjadala í tekjur. Grasslétta. Grasslétta er graslendi þar sem stutt tré vaxa. Vegna þess að laufþykkni í grassléttu sé mjög þunn er gert ljósi kleift að ná í jörðina og svo vexur gras. Grassléttur liggja oft á milli skóga og eyðimarka. Mjölnir. Sænskt hálsmen frá miðöldum sem gæti hafa átt að tákna Mjölni Mjölnir er í norrænni goðafræði hamar Þórs og hans helsta einkenni. Hamarinn var vopn sem guðinn notaði til að berjast við jötna. Samkvæmt "Snorra-Eddu" kom hamarinn fljúgandi aftur til Þórs eftir að honum var kastað (líkt og búmerang). Eddukvæðið "Þrymskviða" fjallar um það hvernig jötuninn Þrymur stelur Mjölni og krefst gyðjunnar Freyju í lausnargjald. The Woman in Black (kvikmynd). "The Woman in Black" er bresk kvikmynd sem James Watkins leikstýrir og er byggð á samnefndri bók eftir Susan Hill sem varð vinsæl eftir að leikritið var frumsýnt í London árið 1987. Daniel Radcliffe fer með aðalhlutverkið í myndinni sem lögfræðingurinn Arthur Kipps. Myndin átti upprunalega að vera tekin upp í þrívídd en stuttu áður en tökur hófust ákváðu framleiðendur myndarinnar að skjóta hana á hefðbundinn hátt. Myndin kemur út í kvikmyndahús í febrúar 2012. Heimildir. Woman in Black, The Björgvin Gíslason. Öræfarokk - Björgvin Gíslason 1977. Öræfarokk - Björgvin Gíslason 1977 - Bakhlið. Glettur - Björgvin Gíslason 1981. Glettur - Björgvin Gíslason 1981 - Bakhlið. Örugglega - Björgvin Gíslason 1983. Örugglega - Björgvin Gíslason 1983 - Bakhlið. Meðlimir fjórðu útgáfu Náttúru 1972 - Sigurður Árnason, Björgvin Gíslason, Shady Owens, Ólafur Garðarsson og Karl Sighvatsson. Magic Key - Náttúra 1972 - Textablað. Magic Key kemur út - Náttúra 1972 Náttúra 1969 - Sigurður Árnason, Jónas R. Jónsson, Björgvin Gíslason og Rafn Haraldsson Náttúra 1970 - 1971 - Pétur Kristjánsson, Björgvin Gíslason, Sigurður Árnason, Sigurður Rúnar Jónsson og Rafn Haraldsson Björgvin Gíslason (f. 4. september 1951) í Reykjavík er íslenskur tónlistarmaður. Æviágrip. Björgvin er sjálflærður að mestu og spilar á allskonar hjóðfæri þó aðallega gítar. Á unglingsárum var hann í hljómsveitum eins og Flamingo, Falcon, Zoo og Opus 4. Tónlistarferill. Árið 1967 gekk hann til liðs við hljómsveitina Pops með þeim Pétri Kristjánssyni, Birgi Hrafnssyni og Ólafi Sigurðssyni. Pops varð þokkalega vinsæl og komu út á einni lítilli plötu sem undirleikarar hjá Flosa Ólafssyni. Náttúra. Það var svo árið 1969 sem hljómsveitin Náttúra var stofnuð af þeim; Sigurði Árnasyni bassaleikara, Jónasi R. Jónssyni söngvara og þverflautuleikara, Rafni Haraldssyni trommuleikara og Björgvini Gíslasyni sóló gítarleikara. Hljómsveitin varð strax óhemju vinsæl á skemmtistöðum enda með réttu blönduna af rokki og róli sem féll vel í æskuna. Þessi útgáfa af hljómsveitinni lifði á annað ár en þá urðu breytingar sem enduðu í alls fjórum útgáfum af Náttúru og 1972 kom stóra platan „Magic Key“ út. Kjölfestan í þessari fjórskiptu hljómsveit voru alla tíð þeir Björgvin og Sigurður bassaleikari en þau sem komu og fóru þessi fjögur ár voru; Sigurður Rúnar Jónsson hljómborðs og fiðluleikari, Pétur Kristjánsson söngvari, Áskell Másson slagverksleikari, Jóhann G. Jóhannsson söngvari og gítarleikari, Shady Owens söngkona, Ólafur Garðarsson trommuleikari, og Karl Sighvatsson hljómborðsleikari. Hljómplötugagnrýnandi Morgunblaðsins, Haukur Ingibergsson skrifaði svo um plötuna „Magic Key“ í desember 1972. Pelican. Vorið 1973 byrjaði nýtt rokkband Péturs Kristjánssonar, Pelican með (auk Péturs); Ásgeiri Óskarssyni, Ómari Óskarssyni, Jóni Ólafssyni og Björgvini. Hljómsveitin varð fljótt eitt heitasta band landsins og Pétur poppari tryllti ungdóminn. Til að fylgja eftir frægðinni var farið í spilamennsku til Ameríku og platan „Uppteknir“ tekin upp. Platan sú jók enn vinsældir heima fyrir svo aftur var haldið í víking og önnur stór plata „Lítil fluga“ var hraðsoðin í U.S.A. Flug hennar varð endasleppt og hljómsveitin leið undir lok. Í lok ágúst 1974 hélt hljómsveitin Pelican eftirminnilega tónleika í Austurbæjarbíó. Blaðamaður Tímans, Gunnar Salvarsson skrifaði þetta um tónleikana. Paradís. Hljómsveitin Paradís var stofnuð á rústum Pelican árið 1976 af Pétri W. Kristjánssyni ásamt Björgvini, Ásgeiri Óskarssyni, Gunnari Hermannssyni, Nikulási Róbertssyni og Pétri Hjaltested. Þessi hljómsveit varð strax geysivinsæl meðal táninga. Þegar stóra plata Paradísar kom út 1976, skrifaði blaðamaður Dagblaðsins Ásgeir Tómasson þetta um plötuna. Öræfarokk og blús. Fyrsta "sóló" plata Björgvins, "Öræfarokk" kom út hjá SG hljómplötum árið 1977. Platan fékk góða dóma hjá gagnrýnendum en seldist ekki sem skyldi. Hljómplötugagnrýnandi Þjóðviljans, Jens Guðmundsson, skrifaði um plötuna í ágúst 1977. Glettur. Önnur "sóló" plata Björgvins, "Glettur" kom út hjá Steinar útgáfunni 1981. Hljómplötugagnrýnandi Þjóðviljans Andrea Jónsdóttir skrifaði gagnrýni um plötuna í nóvember 1981. Örugglega. Þriðja "sóló" plata Björgvins, "Örugglega" kom út hjá Steinar útgáfunni 1983. Hljómplötugagnrýnandi DV TT skrifaði gagnrýni um plötuna í apríl 1983. Björgvin hér og Björgvin þar. Hljómsveitin Paradís og síðar hljómsveitin Póker breyttust í kúlutyggjóbönd sem áttu að meika það í Ameríku en Björgvin hætti og fór að spila blús með blúsgoðsögninni Clarence "Gatemouth" Brown fram til ársins 1981. Síðan þá má telja dvöl í ýmsum hljómsveitum svo sem; Íslensk kjötsúpa, Das Kapital, Deild eitt, Frakkar, Friðryk, Þrír á palli, Aukinn þrýstingur, Mannakorn, Leikhúsband í Síldin kemur, síldin fer, Band með Megasi, Gömlu brýnin, KK Band, Hljómsveit Stefáns P., Blái fiðringurinn, Strákarnir og dúettinn VIÐ. Afmælistónleikar. Björgvin Gíslason varð sextugur þann 4. september 2011. Að því tilefni hélt hann hátíðartónleika í Austurbæ -(jarbíó) sama dag. Tónlistarspekúlant Fréttablaðsins Trausti Júlíusson var á staðnum og sagði meðal annars þetta um tónleikana. Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri. Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA) eru hagsmunafélag allra nemenda við Háskólann á Akureyri. The Avengers (2012 kvikmynd). "The Avengers" er bandarísk ofurhetjumynd sem framleidd er af Marvel og er gefin út af Walt Disney-fyrirtækinu. Myndin er leikstýrð af Joss Whedon og er byggð á samnefndum myndasögum þar sem margar ofurhetjur hittast og berjast hlið við hlið. Í myndinni fer samleikshópur með aðalhlutverkin í myndinni en þar á meðal eru Robert Downey, Jr., Chris Evans, Chris Hemsworth, Tom Hiddleston, Samuel L. Jackson, Scarlett Johansson, Jeremy Renner, Mark Ruffalo og Cobie Smulders. Myndin segir frá Nick Fury, forstjóra friðarsveitarinnar SKJALDAR sem skráir ofurhetjur í lið til þess að bjarga jörðinni frá tortímingu. Undirbúningur á myndinni hófst í apríl árið 2005 og átti upprunalega að vera frumsýnd í júlí 2011. Ákveðið var að framleiða myndir fyrir aðalpersónur myndarinnar til þess að kynna áhorfendum fyrir þeim og voru þess vegna kvikmyndirnar Iron Man, Iron Man 2, The Incredible Hulk, og Thor framleiddar. Í mars 2009 samþykkti Scarlett Johansson að fara með hlutverk Svörtu ekkjunnar og var frumsýningu myndarinnar seinkað til ársins 2012. Tökur hófust í Albuquerque í apríl 2011 og luku í byrjun september. Söguþráður. Þegar leynistofnunin SKJÖLDUR er að vinna með Ofurteninginn opnar hann víddarhlið sem hleypir guðinum Loka til Jarðar. Loki tekur teninginn og tekst að flýja. Nick Fury, forstjóri SKJALDAR neyðist til að endurvirkja Hefnendaverkefnið sem á mynda ofurhetjulið sem samanstendur af Járnmanninum, Kafteini Ameríku, Jötninum og Þór. En egó og vantraust meðlimana þýðir að þeir eru ekki allir tilbúnir að vinna saman. Hefnendurnir eru falla á tíma því Loki ætlar að nota Teninginn til að flytja geimveruherliðið Chitauri til Jarðar. Heimildir. Avengers, The Arfgerð. Arfgerð (einnig erfðafar eða erfðagervi) í erfðafræði eru eiginleikar sem lífvera hefur erft og mun skila til niðja sinna, en eiginleikarnir koma ekki endilega fram í hjá einstaklinginum sjálfum. Arfgerðin kemur fram í svipfarinu en saman móta arfgerð og umhverfi svipfarið. Svipfar. Svipfar (einnig svipgerð) eru greinanleg eða sýnileg einkenni lífveru og er í raun birting arfgerðar. Inngangur að erfðafræði. Erfðafræði kallast rannsókn erfðavísa (gena) og eiginleika þeirra. Erfðavísar stjórna því hvernig lífverur erfa einkenni frá forfeðrum sínum, en börn líkjast foreldrum sínum vegna þess að þau erfðu erfðavísa foreldra sinna. Einleikeikar lífveru — eins og augnlitur, hæð eða blóðtegund — kallast einkenni sem er afleiðing flókins samspils erfðavísa og umhverfis. Þau einkenni sem orsakast eingöngu af erfðum nefnast arfgerð en einkenni eru sem samspil umhverfis og erfðavísa nefnast svipfar. Erfðavísar samanstanda af löngum sameindum sem nefnast DNA (deoxýríbósakjarnsýra) en DNA er búið til úr einföldum bútum sem raðast í ákveðna röð innan sameindarinnar, en þessi röð hefur að geyma „erfða-skilaboð“a> á sama hátt og röð bókstafa gefur geymt skilaboð en tungumálið nefnist erfðalykill eða erfðakóði sem inniheldur upplýsingar um uppbyggingu lífverunnar. Mismunandi afbrigði af sama Erfðavísi nefnast genasamsæta. Stökkbreyting er breyting í genamengi lífveru sem getur búið til nýjar genasamsætir (sjá inngang að þróun). Basapar. Basapar er í sameindalíffræði og erfðafræði tveir mótstæðir basar í DNA-gorminum sem tengjast saman með vetnistengjum, þar sem adenín (A) tengist týmín (T) og sýtósín (C) tengist gúanín (G). Innröð. Innröð eða intróna er kirnabútur sem er ekki umritaður í mótandi RKS heldur klipptur burt. Gasgríma. Gasgríma er andlitsgríma notuð til varnar loftmengunarefna og eiturgufa. Binnenhof. Binnenhof er heiti á kastalaklasa í borginni Haag í Hollandi og er aðsetur hollenska þingsins. Í Riddarasalnum, sem er tengibygging, er opinbert hásæti þjóðhöfðingja Hollands. Saga. Binnenhof er orðin gömul bygging. Ekki liggur alveg fyrir hversu gamall elsti hlutinn er en fundist hafa múrveggir frá 12. eða 13. öld. Öryggt þykir þó að Vilhjálmur II greifi af Hollandi reisti sér kastala árið 1250 en entist ekki æfin til ljúka verkinu. Sonur hans, Floris V, hélt verkinu áfram og gerði kastalann að aðalaðsetri sínu að honum fullloknum 1291. Kastali þessi stækkaði nokkuð á næstu öldum er nýrri álmur voru reistar. Seint á 16. öld varð kastalinn aðsetur uppreisnarstjórnar Hollands gegn Spánverjum í sjálfstæðisstríðinu. Segja má að þetta hafi verið upphafið að stjórn Hollands í byggingunni. Á þeim tíma voru síki allt í kringum kastalann. Þau eru að mestu horfin í dag, fyrir utan lítið lokað síki. 1815 urðu Haag og Brussel höfuðborgir konungsríkisins Niðurlanda. Þingað var í sitthvorri borginni á tveggja ára fresti. Á þeim tíma sat þingið í Binnenhof í tvö ár í senn. Þegar Belgía sagði skilið við konungsríkið, varð Haag að stjórnarsetri Hollands. Binnenhof varð að þinghúsi og stjórnarráði. Svo er enn í dag. Í byggingunni eru báðar deildir hollenska þingsins til húsa. Neðrideildin fundar í Ballsalnum svokallaða allt frá 1790 til 1992. Á því ári var nýbygging tekin í notkun þar sem þingið er til húsa í gluggalausum græn/bláum sal. Ekkert sólarljóst kemst þar inn. Ridderzaal. Opinbert hásæti Beatrix drottningar í Riddarasalnum Einn merkasti hluti kastalans er Riddarasalurinn. Hann líkist helst lítilli kirkju að utan, með tvo turna sitthvoru megin við innganginn. Riddarasalurinn var reistur af Floris V og lauk verkinu 1280. Salurinn var móttöku- og fundarsalur greifanna af Hollandi. Þó að salurinn hafi þjónað sem nokkurs konar miðpunktur stjórnarfars í Hollandi í gegnum aldirnar, ákvað Loðvík Napoleon, konungur Niðurlanda, að færa formlegt aðsetur sitt til Amsterdam. Riddarasalurinn missti því pólitískt gildi sitt og var notaður sem hesthús, herspítali og annað meðan Frakkar réðu landinu í upphafi 19. aldar. Þegar Frakkar hurfu úr landi, fékk Riddarasalurinn andlitslyftingu. Síðan 1904 hafa þjóðhöfðingjar Hollands haldið stefnuræðu konungs/drottingar í salnum. Þar er enn í dag opinbert hásæti þjóðhöfðingjans að finna. Ræða drottningar fer fram á Prinjesdag ("prinsadeginum"). Viðstaddir ræðuna eru konungsfjölskyldan, forsætisráðherra, ríkistjórnin, meðlimir efri og neðri deildar hollenska þingsins, sérstakir heiðursgestir og fjölmiðlar. Árið 1907 var önnur friðarráðstefnan í Haag haldin í Riddarasalnum, en hún var undanfari stofnunar Alþjóðadómstólsins. Efri deild hollenska þingsins notaði salinn 1994-95, þar sem salarkynni þess var í endurbyggingu. Riddarasalurinn var friðaður 2003 sem Rijksmonument ("ríkistákn"). Friðarhöllin. Friðarhöllin er mikil bygging í hallarlíki í borginni Haag í Hollandi. Hún hýsir ýmsar alþjóðastofnanir, þar á meðal Alþjóðadómstólinn. Saga. Hugmynd að friðarhöllinni vaknaði á samræðu rússneska diplómatsins Friedrich Martens og bandaríska diplómatsins Andrew White árið 1900, en þeir ræddu um nýtt aðsetur fyrir alþjóðlegan dómstól til að stilla til friðar í milliríkjadeilum. Nokkrar friðarráðstefnur höfðu farið fram í Haag fram að þessu, sú fyrsta 1899. Góðvinur Whites, bandaríski auðjöfurinn Andrew Carnegie, ákvað að leggja fram 1,5 milljónir dala (40 milljónir á núvirði) í verkefnið, sem og fyrir bókasafn um alþjóðalög. Í þeim tilgangi var Carniegie-stofnunin sett á laggirnar 1903 til að sjá um framkvæmdina og rekstur slíks friðarhúss. Byggingin. Framkvæmdir við friðarhöllina hófust 1907 og lauk þeim 1913. Teikningarnar voru gerðar af franska arkítektanum Louis M. Cordonnier. Mikið er um súlnagöng að utan. Þar er einnig 80 metra hár turn, sem er eitt af einkennistáknum Haag. Mörg lönd heims gáfu efni til byggingarinnar, sérstaklega innréttingar og innanhúsmuni. Til dæmis má nefna að marmarinn á gólfinu og tröppunum er frá Ítalíu, viðurinn á veggjunum er frá Brasilíu, Bandaríkjunum og Indónesíu, stálgrindverkið utan um bygginguna er frá Þýskalandi, dyrnar eru frá Belgíu, vatnsbrunnur frá Danmörku, veggteppi frá Japan, turnklukkan frá Sviss og teppi frá Íran. Vasi, sem vegur 3,2 tonn, er gjöf frá Rússlandi. Á göngum og í sölum eru styttur og brjóstmyndir af þekktum frumkvöðlum friðarmála í heiminum. Höllin var síðan formlega opnuð 28. ágúst 1913 í viðurvist Carnegies og hollensku konungsfjölskyldunnar. Stofnanir. Nokkrar stofnanir hafa fengið inni í friðarhöllinni. Friðarloginn. Í júlí 1999 voru sjö logar frá fimm heimsálfum sameinaðir til að skapa heimsfriðarlogann 196 þjóðir sameinuðust í verki og samstöðu til að skapa heimsfriðargöngustíginn Gjörðu svo vel að biðja fyrir friði þegar þú gengur hér um Þjóðhátíðardagur. Þjóðhátíðardagur er hátíðisdagur þar sem fagnað er sérstökum áfanga í sögu þjóðar, ríkis eða þjóðarbrots. Þjóðhátíðardagur getur verið haldinn á afmæli sjálfstæðis, stofnun lýðveldis, á messudegi verndardýrlings eða afmæli konungs. Þjóðhátíðardagar eru oftast frídagar. Brynja. Brynja er herklæði til hlífðar búknum. Hún er gerð úr málmi eða öðru hörðu efni. Á 14. öld komst brynjan í notkun riddara sem notuðu þær yfirleitt þegar þeir fóru í bardaga. Andrés Iniesta. Andrés Iniesta Lujan (fæddur 11. maí 1984) er spænskur knattspyrnumaður. Hann spilar sem miðjumaður fyrir FC Barcelona og landslið Spánar. Uppeldisfélag hans er akademía Barcelona "La Masia". 2002 lék hann fyrsta leik sinn með aðalliðinu, 18 ára að aldri. Hann hefur spilað reglulega með liðinu frá 2004. Hann hefur spilað fyrir unglinga landslið spánar undir 16 ára, undir 19 ára og undir 21 árs, áður en hann lék sinn fyrsta leik með A-landsliðinu 2006. Hann var valinn á heimsmeistaramótið 2006 og 2010. Á heimsmeistaramótinu 2010 var hann valinn maður leiksins í úrslitaleik landsliðsins gegn Hollandi, hann skoraði sigurmarkið. Tilvísanir. Iniesta, Andrés Heracross. Heracross er pokémon sem breytist ekki neitt. Hann er bæði padda og árásar pókemon. Hann er einn af pókemonum Ash Ketchum og hann kemur ekki mikið fyrir í anime þáttaröðinni. Heracross lifir á safa af Bulbasaur sem er einn af fyrstu pókemonum sem birtust í anime þáttaröðinni. Riolu. Riolu er lítill Pokémon hundur. Fætur og búkur hans eru svartir og skottið blátt með gulum kraga. Á handarbaki hans eru kringlóttir hringir sem gætu verið byrjunin á oddum hans. Hann er með svarta „grímu“ og rauð augu. Hann stendur oft á tánum, eins og Lucario. Asking Alexandria. Asking Alexandria er bresk Metalcore hljómsveit frá York, North Yorkshire. Hún var stofnuð 2008 þegar Ben Bruce (gítarleikari) hafði samband við gamla vini, eftir að hafa búið í Dúbæ. Hljómsveitin er skipuð Ben Bruce (gítarleikara), Danny Worsnop (söngvara), Cameron Liddell (gítarleikara, Sam Bettley (bassaleikara og James Cassels (trommuleikara). Upphaf og fyrsta breiðskífa (2008-2009). Hljómsveitin hefur rætur í Dúbæ, í Sameinuðu Arabísku fustadæmunum, þar sem Ben Bruce stofnaði hljómsveit og gaf út plötuna "The Irony of Your Perfection" í fullri lengd með hópnum undir nafninu Asking Alexandria. Stuttu síðar hætti hljómsveitin og Bruce gaf út yfirlýsingu að hljómsveitin Asking Alexandria frá Dúbæ hefði aðeins verið virk í einn mánuð og hafi aldrei haldið tónleika. 2008 flutti Bruce aftur til Englands og skildi eftir fyrrum hljómsveitarmeðlimi. Hann hafði engin áform um að setja tónlistarferil sinn á bið og stofnaði nýja hljómsveit undir sama nafni. Hann heldur því fram að hann sjálfur hafi skapað nafn hljómsveitarinnar og hann vildi nota nafnið og merkingu þess áfram. Hann lagði áherslu á í yfirlýsingu sinni að núverandi hljómsveit Asking Alexandria sé ekki sama hljómsveitin og skrifaði The Irony of Your Perfection, hafi ekki sömu tónlistarstefnu, hafi aðra meðlimi og hljómsveitirnar tvær séu mjög mismunandi, þrátt fyrir tengsl þeirra. Áhersla hefur verið á þessi atriði í viðtölum við núverandi hljómsveit og tengsl þessara tveggja hljómsveita er enn ruglandi fyrir marga aðdáendur. Frá stofnun hljómsveitarinnar 2008 urðu breytingar á meðlimum hljómsveitarinnar. Þar á meðal fækkaði meðlimum hennar úr sex í fimm með brottför Ryan Binns. Auk þess var í janúar 2009 bassaleikaranum Sam Bettley skipt út fyrir Joe Lancaster. Síðustu tónleikar Lancaster með hljómsveitinni voru á Fibers í York 4. janúar. Degi síðar fór hljómsveitinn til Bandaríkjanna til að koma fram á tónleikum og undirbúa sig fyrir uptöku næstu plötu sveitarinnar. Eftir að hljómsveitin hafði verið á tónleikaferðalagi 2008 og á fyrstu mánuðum 2009, hljóðritaði hljómsvein breiðskífu 19. maí til 16. júní 2009 í The Foundation Recording Studios í Connersville, Indiana, Bandaríkjunum. Þeir skrifuðu undir samning við útgáfufyrirtækið Summerian Records stuttu eftir að upptökum lauk og gáfu út breiðskífuna "Stand up and scream" undir merkjum útgáfufyrirtækisins 15. september 2009. Í kjölfarið var lögð áhrersla að ná vinsældum í Bandaríkjunum í tónleikaferðalagi með hljómsveitunum Alesana, Enter Shikari og The Bled og Evergreen Terrace. Friðrik 3. af Saxlandi. Friðrik 3. af Saxlandi (eða Friðrik kjörfursti af Saxlandi) (17. janúar 1463 – 5. maí 1525) var kjörfursti í Saxlandi. Hann varð einna frægastur fyrir að vera einn helsti verjandi Marteins Lúthers, Lúthersku og siðaskipta. Charles Lindbergh. Charles Augustus Lindbergh (4. febrúar 1902 – 26. ágúst 1974) (stundum kallaður „Slim“, „Lucky Lindy“ og „The Lone Eagle“) var bandarískur flugmaður, rithöfundur, uppfinningamaður, könnuður og stjórnmálafrömuður. Lindbergh flaug fyrstur manna yfir Atlantshafið einn síns liðs á tvíþekju. Ásamt Ameliu Earhart var Lindbergh brautryðjandi í sögu flugsins. Lindbergh hlaut mikla viðurkenningu í Bandaríkjunum fyrir afrek sín og annað starf í þágu flokksins. Hann var á tímabili orðaður við framboð til forseta Bandaríkjanna. Lindbergh var áberandi meðal Bandaríkjamanna sem voru andvígir þátttöku í stríðinu. Franklin D. Roosevelt forseti leit stjórnmálaafskipti Lindberghs ekki vinsamlegum augum en sá síðarnefndi, sem var undir nokkrum áhrifum frá hugsuðum á borð við Oswald Spengler, viðraði meðal annars áhyggjur af framgöngu gyðinga í Bandaríkjunum, hugmyndir um æðri kynstofn og samúð í garð nasisma, en Lindbergh varð sæmdur einni æðstu orðu þriðja ríkisins, arnarkrossinum, árið 1938. Lindbergh, Charles Augustus Lindbergh, Charles Augustus Lindbergh, Charles Augustus Mauritshuis. Mauritshuis stendur við hliðina á Binnenhof Mauritshuis er lítill kastali í borginni Haag í Hollandi, nefndur eftir Márits herforingja í sjálfstæðisstríði Hollendinga. Húsið er málverkasafn í dag en þar eru málverk til sýnis eftir Jan Vermeer, Rembrandt, Rubens, Frans Hals, Jan Brueghel og ýmsa fleiri. Saga hússins. "Stúlka með perlueyrnahringi" eftir Jan Vermeer Það var Márits af Nassau sem lét reisa húsið 1633 við hliðina á kastalann Binnenhof og var það ætlað sem heimili hans. Á meðan húsið var í byggingu, þjónaði Máritz sem landstjóri hollensku nýlendnanna í Suður-Ameríku. Þegar hann kom heim 1644 var húsið fullbúið. Kastalinn er í hollenskum-klassískum stíl, með snert af ítalskri endurreisn. Innviðið eyðilagðist í eldi 1704 og var þá allt smíðað upp á nýtt. 1820 keypti hollenska ríkið kastalann sem safnahús fyrir konunglega málverkasafnið. Húsið er enn málverkasafn í dag, eitt hið merkasta í Hollandi. Kastalinn er friðaður. Málverkin. Elstu málverkin voru áður í eigu Vilhjálms V landstjóra (1748-1806). Sonur hans, Vilhjálmur I konungur Hollands, gaf hollenska ríkinu safnið allt árið 1816. Síðan þá hafa mörg fleiri málverk bæst við. 1822 voru 200 málverk í safninu, en í dag eru þau um 800. Konungsfjölskyldan hafði reynt að fá verk eftir hollenska og belgíska meistara frá gullna tímabilinu (17. og 18. öld). Auk þess hafa ríkir einstaklingar fært safninu ýmis málverk að gjöf. Af gömlu meisturunum má nefna Rembrandt van Rijn, en í Mauritshuis eru tíu af málverkum hans til sýnis. Þar með er Mauritshuis eitt mikilvægasta safn hins fræga málara. Öll hafa málverkin verið hreinsuð síðustu áratugi og eru þau í góðu ástandi. Gestir í Mauritshuis eru um 250 þús árlega. Byggðasaga. Byggðasaga eða byggðarsaga er sagnfræðirit (eða fræðastarfsemi), sem fjallar um sögu byggðaþróunar á ákveðnu svæði, svo sem í sveitarfélagi eða sýslu. Héraðssaga er náskylt hugtak, en hefur víðari merkingu og fjallar almennt um sögu ákveðins svæðis. Saga Kaupfélags Skagfirðinga getur verið hluti af héraðssögu, en er tæplega byggðasaga. Oft geta skilin þarna á milli verið óljós og rit verið blönduð að efni, þar sem til dæmis er blandað saman byggðasögu og persónusögu. Flestar sýslur hér á landi hafa látið semja einhvers konar byggðasögurit, en misjafnt er hvaða tökum menn hafa tekið efnið. Eitt metnaðarfyllsta ritið er "Byggðasaga Skagafjarðar", sem enn er í vinnslu. Þar er saga hverrar jarðar rakin eins langt aftur og heimildir greina. Í sumum öðrum ritum er tekin önnur stefna, þar sem fyrst og fremst er fjallað um nútímann; ein síða er um hverja jörð, með myndum af húsum og ábúendum. Stundum eru slík rit gefin út á um það bil 20 ára fresti, þannig að hægt er að fylgjast með breytingum sem verða (sjá til dæmis Suður-Þingeyjarsýslu). Oftast eru yfirlitskaflar í slíkum ritum, svo sem um sögu búnaðarsamtaka. Fjöldi rita hefur komið út um íslenska byggðasögu, bæði um einstök svæði og um einstaka þætti byggðasögunnar, svo sem um eyðibýli, seljabúskap og fleira. Ólafur Lárusson prófessor var frumkvöðull í byggðasögurannsóknum á Íslandi, sjá til dæmis ritgerðasafn hans: "Byggð og saga" (Reykjavík, 1944). Skagfirðingabók. Skagfirðingabók er tímarit um héraðssögu sem gefið er út af Sögufélagi Skagfirðinga. Skagfirðingabók kom fyrst út 1966 og hafa nú (2011) komið út 33 bindi á 45 árum. Stofnendur "Skagfirðingabókar" voru: Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg, Hannes Pétursson skáld og Sigurjón Björnsson prófessor. Upphaflegt nafn var "Skagfirðingabók, Ársrit Sögufélags Skagfirðinga", en frá og með 7. bindi, 1975, varð titillinn: "Skagfirðingabók, Rit Sögufélags Skagfirðinga". "Skagfirðingabók" hefur eingöngu birt sögulegt eða sagnfræðilegt efni en ekki ljóð, fréttaannál úr héraði eða æviágrip látinna einstaklinga, eins og sum héraðsrit hafa gert. Í tímaritinu hefur birst gríðarmikið efni um skagfirska sögu. "Skagfirðingabók" kom út með sama sniði til ársins 2005 og höfðu þá komið út 30 bindi, með nafnaskrám í þriðja hverju bindi. Með 31. bindi, árið 2008, var brot bókarinnar stækkað lítillega, myndefni aukið og bókin bundin í harðspjöld. Á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga er yfirlit um greinar sem birst hafa í "Skagfirðingabók". Þórðar saga hreðu. Þórðar saga hreðu er með yngstu Íslendingasögum, talin rituð um eða eftir 1350. Hún gerist að mestu í Miðfirði í Húnaþingi og í Skagafirði. Aðalpersónan er Þórður hreða, sem var mikill kappi og jafnframt mikill timburmeistari. Sagnir greina frá því að hann hafi smíðað skála í Flatatungu í Skagafirði og fleiri nafnkunn hús. Kaldi (bjór). Kaldi er íslenskur pilsnerbjór sem framleiddur er af Bruggsmiðjunni Árskógssandi. Bjórinn er bruggaður eftir tékkneskri hefð. Áfengismagn Kalda er 5% og hann er aðeins framleiddur í 330 millilítra glerflöskum. Hver flaska kostar 342 krónur (11. september 2011). Mjöður ehf.. Mjöður ehf. er íslenskt brugghús á Stykkishólmi sem stofnað var árið 2007. Helstu framleiðsluvörur Mjaðar eru bjórarnir Jökull og Skriðjökull. Sex starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu, Huang Nubo. Huang Nubo (kínverska: 黄怒波) er kínverskur auðkýfingur og ljóðskáld. Nubo hefur ýmisleg tengsl við Ísland. Hann hefur komið á fót kínversk-íslenskri ljóðahátíð sem haldin hefur verið einu sinni og mun verða framhald á. Nubo hefur lýst áhuga á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, 300 ferkílómetra land, í því skyni að koma þar á laggirnar túristamiðstöð. Dordrecht. Dordrecht er borg í Hollandi. Hún er með 118 þúsund íbúa og er staðsett í héraðinu Suður-Holland. Dordrecht státar sig af því að vera elsta borgin í Hollandi. Lega og lýsing. Dordrecht liggur vestarlega í Hollandi, um 40 km fyrir norðan belgísku landamærin. Borgin er við Rínararminn Benede-Merwede og við Oude Maas (Gamla Maas). Auk þess liggur áin Dordtse Kil við vesturjaðar borgarinnar og skipaskurðurinn Kanal Nord við austurjaðar hennar. Næstu borgir eru Rotterdam til norðvesturs (15 km), Breda til suðurs (30 km) og Hertogenbosch til austurs (65 km). Í Dordrecht er stór höfn við Dordtse Kil, þrátt fyrir að vera aðeins steinsnar frá Rotterdam þar sem stærsta höfn Evrópu liggur. Orðsifjar. Upprunalegt heiti borgarinnar er Thuredrith, en það merkir" vaðið í gegnum ána Thure". Thure er löngu horfin núna. Úr Thure varð Dor með tímanum. Drith varð að –drecht. Ýmsir bæir í Hollandi enda á –drecht. Íbúar borgarinnar nefna hana gjarnan bara Dordt. Upphaf. Dordrecht 1652. Árnar Maas (Maes) og Merwede (Merwe) eru merktar inn á myndina. Dordrecht kom fyrst við skjöl 1120 í árbókinni Egmondse Annalen. Árið 1220 hafði bærinn stækkað svo að Vilhjálmur I greifi af Holland veitti honum borgarréttindi. Þar með er Dordrecht annar hollenski bærinn til að hljóta þau réttindi, á eftir Geertruidenberg, sem í dag er ekki borg lengur. Því er Dordrecht elsta núverandi borg Hollands. Borgin var mikilvæg verslunarborg, enda með mikilvæga höfn. Verslað var með vín, timbur og korn. 1253 var latínuskóli stofnaður í borginni. Hann er enn til í dag (Johan de Witt gymnasium) og er elsti framhaldsskóli Hollands í dag. Árið 1421 varð Dordrecht illa úti í öðru Elísabetarflóðinu, sem var stormflóð mikið við strendur Norðursjávar. Varnargarðar brustu og fóru 72 þorp á kaf í vatn. Allt að 10 þús manns biðu bana. Flóðið reif mikil landsvæði við Dordrecht sundur, þannig að borgin stóð eftir á eyju. Við flóðið breyttist bakland borgarinnar talsvert. Til dæmis myndaðist fenjasvæðið de Biesbosch, sem í dag er þjóðgarður. 80 ára stríðið. 15./16. júlí 1572 hittust fulltrúar flestra borga á Niðurlöndum í Dordrecht til að skipuleggja uppreisnina gegn spænsku yfirstjórninni. Fulltrúarnir hittust í gamla klaustrinu Het Hof. Þar kusu þeir Vilhjálm af Óraníu sem foringja uppreisnarinnar og lýstu yfir sjálfstæði frá Spáni. Þetta breytti uppreisn Hollendinga gegn Spánverjum í sjálfstæðisstríð. Samtímis var gefin út yfirlýsing um stjórnarhætti sem túlka má sem fyrsta mannréttindaskjal Hollands. 1618-19 fór annar mikilvægur fundur fram í Dordrecht. Hann kallast Synode van Dordrecht (kirkjuþingið í Dordrecht) og snerist hann um trúmál. Þar hittust fulltrúar kalvínista og reformeruðu kirkjunnar. Trúarleiðtogum frá Englandi, Skotlandi, Þýskalandi og Sviss var boðið á ráðstefnuna. Engum kaþólikka var hins vegar boðið. Rætt var um ýmsar kenningar mótmælenda en einnig um fyrstu hollensku Biblíuþýðinguna. Önnur trúarráðstefna fór fram í Dordrecht á þessum árum er hollenskir mennonítar funduðu 1632 og bjuggu til nýja trúarjátningu. Mennónítar dreifðust á þessum árum víða um Evrópu og Ameríku. Nýrri tímar. Á árunum 1780-87 var Dordrecht miðstöð lýðveldissinna sem stóðu að því að uppræta landstjóraembættið í landinu, þar sem landið var jú lýðveldi. Þetta endaði með því að landstjórinn Vilhjálmur V af Óraníu –Nassau ættinni flúði land. En tengdabróðir hans, Friðrik Vilhjálmur II Prússakonungur, réðist inn í landið og sat um Dordrecht. Þann 18. september 1787 féll borgin og voru leiðtogar lýðveldisinna handteknir. Í framhaldi minnkaði borgin að vægi fyrir Rotterdam, sem sífellt stækkaði hafnaraðstöðu sína. Þrátt fyrir það var mikilvæg herstöð í Dordrecht allt fram á tíma heimstyrjaldarinnar síðari. Mikil skipasmíði var í höfninni í Dordrecht. Árið 1865 var stærsta orrustuskip sögunnar úr timbri smíðað í borginni. Það var japanska herskipið Kaiyo Maru. Það gekk bæði fyrir gufu og seglum. Skipið var þó bara tvö ár í siglingum áður en það sökk í stormi við Japan. Þann 10. maí 1940 var Dordrecht hertekin af nasistum. Borgin var milli elda milli bandamanna og Þjóðverja veturinn 1944-45 en var loks frelsuð af kanadískri hersveit. Viðburðir. Dordt in Stoom (Gufa í Dordrecht) er þriggja daga hátíð í maí í miðborg Dordrecht. Á hátíðinni snýst allt um gufuvélar en þangað koma gufuskip og gufujárnbrautarlestir. Einnig má finnar gamlar gufuhringekjur, gufubifreiðar og ýmislegt annað. Hátíðin er haldin annað hvert ár, á sléttri ártölu, og er stærsta hátíð Evrópu sem snýst um gufu. Wantijfestival er tónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 1995. Hún er haldin í Wantij-garðinum (þaðan er heitið komið) og er popptónlistin viðamest. Einnig má sjá þar útileikhús, dans og ýmsa loftfimleika. Alþjóðleg brúðuhátíð hefur verið haldin síðan 2006. Það troða upp brúðuleikarar frá ýmsum löndum á mörgum sviðum í borginni. Byggingar og kennileiti. Grote Kerk er með ófullgerða turna Gula. Gula eða gulusótt er ástand sem einkennist af gulum lit sem dreifist um líkamann sem stafar af gallrauða í blóði. Kraki (óvættur). Kraki (eða krakinn) er þjóðsögulegt sjávarskrímsli sem gamlar sögur segja að hafi verið á sveimi við strendur Noregs og Íslands. Í "Riti hins íslenska Lærdómslistafélags" á ofanverðri 18. öld segir svo frá krakanum: „Krakinn er [..] sæ-dýr, svo stórt at eigi skal finnaz þess líki“. Orðið kraki er skylt sögninni að "krækja" (í e-ð) og nafnorðinu krókur. Mjög líklega hafa menn áður fyrr ímyndað sér að krakinn væri risavaxinn og ekki svo mjög frábrugðinn kolkrabbanum sem er með renglulega útlimi og á auðvelt með að krækja í hluti. Markaðsvæðing. Markaðsvæðing er það ferli þegar samfélag tekur á öllum sviðum að lúta lögmálum markaðarins, svo sem með einkavæðingu, minnkandi ríkisbúskap eða breyttum aðferðum. Frá sjónarhóli fyrirtækis og fyrirtækjamenningar er markaðsvæðing viðskiptafræðileg nálgun sem fyrirtæki nota til að skilgreina og uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina. Þessar þarfir og væntingar geta verið augljósar eða faldar. Í markaðsvæddu fyrirtæki taka allir starfsmenn þátt í því að bjóða viðskiptavinum ávallt það besta með einum eða öðrum hætti. Öll tækifæri eru nýtt til þess að finna leiðir til að betrumbæta vörur og þjónustu. Markaðsvæðing á sér stað þegar fyrirtæki skapar markaðsvitund í stefnumótun sinni sem er innleidd í öllum deildum fyrirtækisins. Allt starfsfólk vinnur að sameiginlegu markmiði og viðskiptavinir upplifa það í gegnum þjónustuna. Fylgismenn markaðsvæðingar segja fylgni á milli árangurs í markaðsvæðingu og fjárhagslegrar afkomu fyrirtækisins en andstæðingarnir gagnrýna markaðsvæðingu á hugmyndafræðilegum forsendum og er einkavæðing ríkisbanka þar nærtækt dæmi. Skrökva. Skrökva - félag flokksbundinna framapotara, sem í daglegu tali er kölluð Skrökva, var hreyfing stúdenta við Háskóla Íslands, sem bauð fram lista til Stúdentaráðs HÍ árin 2010 og 2011. Skrökva er sem stendur með tvo fulltrúa í Stúdentaráði. Núverandi oddviti Skrökvu í Stúdentaráði er Kolbrún Þorfinnsdóttir. Kjörorð Skrökvu voru "Alveg eins og hinir - bara betri." Saga. Skrökva var stofnuð í janúar árið 2010 til þess að bjóða fram lista gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta og Röskvu, samtökum félagshyggjufólks við HÍ. Skrökva var hugarfóstur nokurra stjórnmálafræðinema sem leiddist starfsemi ráðandi fylkinga og þótti skipulag Stúdentaráðs ábótavant. Fljótega vatt hugmyndin upp á sig og að endingu var ákveðið að bjóða fram lista til Stúdentaráðs. Nafnið Skrökva er vísun í nöfn hinna fylkinganna, Vöku og Röskvu, auk þess að vera háðsleg skírskotun í lygaeðli stjórnmála. Fyrsti formaður félagsins var Gunnar Hörður Garðarsson. Skrökva náði aldrei meirihluta í Stúdentaráði en í bæði skiptin sem félagið bauð fram náði það tveimur mönnum inn í ráðið. Í fyrra skiptið sem Skrökva bauð fram tókst henni að raska meirihlutanum í Stúdentaráði, en fram að því höfðu Röskva og Vaka skiptst á að vera í algjörum meirihluta. Fulltrúar Skrökvu neituðu að mynda meirihluta með fulltrúum Röskvu eða Vöku, svo fyrsta sinn í langan tíma var því enginn raunverulegur meirihluti í Stúdentaráði. Skiptar skoðanir hafa verið um ágæti meirihlutaleysisins, en fullvíst má telja að það hafi breytt landslaginu í háskólapólitík Háskóla Íslands. Einkennislitur Skrökvu var appelsínugulur, sem var valinn til þess að vera mitt á milli gula lit vöku og rauða lit Röskvu. Merki Skrökvu var snákur sem hringar sig utan um nafn félagsins, og er augljós vísun í táknfræði snáka og lyga. Haustið 2011 samþykktu allar fylkingar í Stúdentaráði ný lög fyrir Stúdentaráð sem taka gildi árið 2013. Samkvæmt lögunum verður kosið innan sviða ásamt því að einstaklingum og smærri listum gefst kostur á að bjóða sig fram og kjósendur geta kosið þvert á lista. Í kjölfar breytinganna var Skrökva lögð niður á þriðja aðalfundi félagsins þann 20. janúar 2012. Stefna. Skrökva skilgreindi sig ekki eftir sömu aðferðum og Vaka og Röskva, þar sem helsta baráttumál Skrökvu var að útrýma flokkakerfinu í SHÍ, og þar með sjálfri sér. Félagið var háðsádeila sem beitti húmor og sandkassapólitík (eins og meðlimir hreyfingarinnar orðuðu það sjálf) til jafns við alvörugefna ádeilu á stjórnskipun Stúdentaráðs. Félagið gaf út tvöfalda stefnuskrá. Önnur bar heitið "Mikilvægasta manifestó í heiminum" og í henni bar Skrökva upp fráleitar kröfur á borð við "ókeypis ömmur sem hugga stúdenta á prófatímum" og "Stúdentaráð verði hjásvæfa stúdenta." Hin stefnuskráin hafði ekkert heiti og var öllu alvörugefnari, en með henni vildi Skrökva leggja áherslu á þau skaðlegu áhrif sem hún taldi flokkakerfi hafa á réttindabaráttu stúdenta. Skrökva hefur kallaði eftir breiðari þátttöku stúdenta í háskólapólitík og upptöku einstaklingskjörs innan deilda háskólans. Með því taldi Skrökva að hagsmunabarátta stúdenta yrði markvissari og áhrifaríkari. Skipulag. Skrökva á tvo fulltrúa í Stúdentaráði HÍ, en taldi hreyfingin ekki nauðsynlegt að bjóða fram lista til háskólaþings. Æðsta vald Skrökvu var árlegur aðalfundur, sem kallaður var heimsyfirráð. Þess á milli stýrði æðsta ráð starfsemi Skrökvu og boðaði til reglulegra umræðu- og stefnunmótunarfunda sem eru opnir öllum áhugasömum og nefnast baktjaldamakk. Aukaaðalfundir Skrökvu nefndust Leifturstríð og spjallsvæði félagsins á vefnum nefnist Reykfyllta bakherbergið. Seinasti formaður Skrökvu var Þórarinn Snorri Sigurgeirsson. Snákaorða Skrökvu. Reglulega veitti formaður Skrökvu vel völdum einstaklingum Snákaorðuna sem er æðsta heiðursorða innan Skrökvu. Þeir sem gátu hlotið orðuna eru einstaklingar sem höfðu unnið stefnu Skrökvu brautargengi með einum eða öðrum hætti. Orðunni fylgdi titillinn Hinn háæverðurgi stórbarónn og erkiframapotari Skrökvu. Fyrsti orðuhafi Snákaorðunnar var Arnór Bjarki Svarfdal. Orðuhafar Snákaorðunnar. "Arnór Bjarki Svarfdal" - Fyrir öfluga upplýsingamiðlun í þágu Skrökvu Myrká (hljómsveit). Myrká er íslensk hljómsveit sem stofnuð var á Akureyri árið 2009. Nafnið Myrká kemur frá bænum Myrká í Hörgárdal en meðlimir hljómsveitarinnar búa og starfa ekki langt þar frá á Akureyri. Nafnið lýsir vel andrúmsloftinu í tónlistinni og sköpuninni sem á sér stað í tónlistarflutningnum. Einnig er sagt að djákninn sjálfur sé fimmti meðlimur sveitarinnar og komi þar inn með andlegan kraft úr öðrum heimi. Myrká flytur drungalegt og dramatískt rokk sem flokka mætti sem „gothic“ rokk. Tónlistin er þó samsett úr mörgum áttum svo sem metal, jazz, rokk frá 8. áratugnum og fleira. Meðlimir Myrká kjósa að kalla þessa tegund tónlistar „dauðapopp“. Plötur. Myrká sendi frá sér sinn fyrsta geisladisk í apríl 2010 sem markaði þáttarskil í ferli hljómsveitarinnar. Diskurinn "13" var tekinn upp í Tanknum á Flateyri sumarið 2009 og samanstendur af þrettán frumsömdum lögum sem innihalda hráan gítarleik, kröftugt Hammond orgel, fallegar melódíur og dramatíska texta ásamt frábærum þungum trommuleik. Önundur Pálsson (Önni) hafði stjórn með upptökum en útgáfufélagið Töfrahellirinn gaf diskinn út. „Góð og áheyrileg tónlist og eiga að mínu viti sannarlega erindi og framtíðina fyrir sér“ „A pagan’s delight and one that reminds us that the unknown can provide a glimpse of beauty that is every bit as rewarding as any of the more traditional sounds we are more familiar with.“ Buzz Aldrin. Buzz Aldrin (fæddur 20. janúar 1930 sem Edwin Aldrin) er fyrrverandi bandarískur geimfari og orrustuflugmaður. Hann er frægastur fyrir að hafa verið annar maðurinn til að stíga fæti á tunglið á eftir Neil Armstrong. Það gerði hann í annarri og síðustu geimferð sinni, með Apollo 11 þann 20. júlí 1969. Hann varði, ásamt Armstrong tveimur og hálfri klukkustund á yfirborði tunglsins á meðan Michael Collins var á sporbraut fyrir ofan. Hann breytti nafni sínu formlega í Buzz árið 1988. Tenglar. Aldrin, Edwin Michael Collins (geimfari). Michael Collins (fæddur 31. október 1930) er fyrrverandi bandarískur geimfari og tilraunaflugmaður. Hann er frægastur fyrir að hafa verið í áhöfn Apollo 11 ásam Buzz Aldrin og Neil Armstrong. Tenglar. Collins, Michael Fullstytt brot. Fullstytt brot á við almennt brot þar sem teljarinn og nefnarinn eru ósamþátta (þ.e. eiga engan samdeili). Fullstytt brot eru á sínu einfaldasta formi og því er leitast við að fullstytta almenn brot. Það að fullstytta almennt brot formula_1 er að rita það sem formula_2 þar sem engin tala gengur upp í bæði "p" og "q". Undirstöðusetning reikningslistarinnar gefur að stytta megi fullstytta með því að frumþátta teljarann og nefnarann og stytta almenna brotið með stærsta samdeili þeirra. Dæmi. þar sem engin tala gengur upp í bæði "7" og "5" — þær eru því ósamþátta og almenna brotið formula_7 talið fullstytt. Leiden. Leiden er borg í hollenska héraðinu Suður-Hollandi með 117 þúsund íbúa. Borgin er þekkt fyrir gömlu miðborgina, elsta háskóla Hollands og fyrir að vera fæðingarstaður málarans Rembrandts. Lega og lýsing. Leiden liggur við ána Oude Rijn (Gamla Rín) nær vestast í Hollandi, aðeins steinsnar frá Norðursjó. Næstu borgir eru Haag til suðvesturs (10 km), Alphen an den Rijn til austurs (10 km) og Zoetermeer til suðurs (10 km). Schiphol-flugvöllur er 25 km til norðausturs. Mikið er um ár og síki í Leiden, þar sem Oude Rijn og Nieuwe Rijn sameinast, ásamt smærri ám. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Leiden samanstendur af tveimur rauðum lyklum í kross á hvítum grunni. Lyklarnir eru tákn Péturs postula, en hann er verndardýrlingur borgarinnar. Merkið kom mjög snemma fram. Núverandi merki með ljón í bakgrunni var tekið formlega upp 25. janúar 1950. Ljónið er aðalsmerki héraðsins Suður-Hollands. Fáninn var sniðinn eftir skjaldarmerkinu. Rendurnar þrjár (rauð, hvít og rauð) eru litirnir úr skjaldarmerkinu. Lyklarnir eru sömuleiðis teknir úr skjaldarmerkinu. Orðsifjar. Borgin hét upphaflega Leithon, sem merkir "að líða" eða "að þjást" á hollensku ("lijden"). Heitið er þó ef til vill dregið af rómversku þorpi í grennd sem hét Lugdunum Batavorum. Gamli rithátturinn er Leyden, en á síðustu öld hefur það breyst í Leiden. Borgin er gjarnan kölluð Sleutelstad, sem merkir "lyklaborgin" (vegna lyklanna í skjaldarmerkinu). Upphaf. Leiden myndaðist sem bær á 11. öld í grennd við rómverskan bæ. Rómverski bærinn lá þó nær ströndinni, en fundist hafa leifar af rómversku virki innan borgarmarkanna. Leiden kom fyrst við skjöl árið 860 en var sennilega aðeins lítið þorp þá, við samflæði Oude Rijn og Nieuwe Rijn (tveir Rínararmar). Nokkur verslun var í borginni og var aðallega verlsað með ull til Englands og Flandurs (Belgíu). Á 13. öld hafði Leiden stækkað svo að Floris V, greifi af Hollandi, veitti honum borgarréttindi 1266. Sjálfstæðisstríð. Íbúar í Leiden fá loks að borða eftir umsátrið mikla 1574 Þegar Hollendingar hófu uppreisn sína gegn Spánverjum á 16. öld, var Leiden í fyrstu hlutlaus, það er að segja hún studdi hvorugan aðilann. En 1572 gekk hún til liðs við uppreisnarmenn. Alba, spænski landstjórinn, var að hertaka borgina Haarlem í þann mund og sneri sér að Leiden í október 1573. Hann lét gera umsátur um borgina til að neyða borgarbúa til uppgjafar. Lúðvík frá Nassau, herforingi uppreisnarmanna, nálgaðist með her í apríl 1574 til aðstoðar borginnni. Þá léttu Spánverjar á umsátrinu og réðust á hollenska herinn. Spánverjar sigruðu í orrustunni við Mookerheide en það veitti borgarbúum ráðrúm til að afla vista og skemma spænsku umsáturstækin. Í maí voru Spánverjar aftur komnir til Leiden og hófu umsátrið að nýju undir stjórn Francisco de Valdez. Það stóð yfir í allt sumar og létust allt að 6000 manns (þriðjungur borgarbúa). Þá safnaði Vilhjálmur af Óraníu saman liði. 3. október eyðilögðu Hollendingar nokkra vatnagarða og hleyptu vatni inn í umsátursliðið og samfara því í borgina líka. Umsátursliðið varð að hörfa og hætta við áform sín um að hertaka Leiden. Síðan þá er enn í dag haldin mikil hátíð þann 3. október. Vilhjálmur þótti svo mikið um hugrekki borgarbúa, að hann veitti þeim leyfi til að stofna háskóla. Hann var stofnaður ári síðar, 1575, og er elsti háskóli Hollands. Eftir þetta flúðu margir siðaskiptamenn frá kaþólsku Niðurlöndum til Leiden, þannig að borgin varð nokkrum sinnum á tímabilinu 1575-1650 að útvíkka borgarmúrana. Hún var þá næststærsta borg Hollands, á eftir Amsterdam. Í hönd fór blómaskeið borgarinnar, bæði efnahags- og menningarlega. Á þessum tíma starfaði vísindamaðurinn Antoni van Leeuwenhoek í borginni, sem og málarinn Rembrandt ásamt nemendum sínum. Sprengingin mikla. Loðvík Bonaparte skoðar verksumerki eftir sprenginguna miklu 1807 Frakkar hertóku Leiden, eins og aðrar hollenskar borgin í lok 18. aldar. 12. janúar 1807 varð gífurleg sprenging í skipi sem flutti rúmlega 17 tonn af fallbyssupúðri frá Haarlem til Delft. Sprengingin varð þegar skipið var statt á einu síkinu í Leiden. Í sprengingunni létust 151 maður og 2000 slösuðust. Um það bil 220 hús jöfnuðust við jörðu eða skemmdust það mikið að þau voru óíbúðarhæf. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist alla leið til Haag, sem er í um 10 km fjarlægð. Loðvík Bonaparte, konungur Niðurlanda, heimsótti Leiden samdægurs til að kynna sér eyðilegginguna. Hann skipaði frönskum hermönnum að hjálpa til við uppbygginguna og létti á skattgreiðslum borgarbúa í tíu ár. Einnig lét hann breyta lítinn kastala í spítala til að annast hina sáru. Eftir þetta var alls staðar í Hollandi talað um "Loðvík hin góða". Nýrri tímar. Árið 1842 fékk Leiden járnbrautartengingu er lína var lögð norður til Haarlem. Þremur árum fyrr var línan til Amsterdam lögð frá Haarlem, en það var fyrsta járnbrautin í Hollandi. Árið 1848 samdi Johan Rudolf Thorbecke fyrstu hollensku stjórnarskrána í Leiden. Árið 1883 skók sú frétt bæði Leiden og allt Holland að Goeie Mie (Maria Swanenburg) hefði drepið 27 manneskur í borginni með eitri. Það er enn í dag eitt mesta fjöldamorð í hollenskri sögu. Í vísindum tókst Heike Kamerlingh Onnes að gera helíum fljótandi árið 1908 og seinna að frysta efni eina gráðu fyrir ofan alkul. Fyrir þetta hlaut hann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1913. Albert Einstein var um skamma hríð í háskólanum í Leiden snemma á ferli sínum. Í heimstyrjöldinni síðari varð Leiden fyrir talsverðum loftárásum bandamanna áður en þeir náðu að hrekja Þjóðverja úr landi. Viðburðir. Málarinn Rembrandt er þekktasta barn borgarinnar Leiden. Hin árlega Rembrandt-hátíð þar í borg er helguð honum. Byggingar og kennileiti. Burcht van Leiden er gamalt virki Hásteinsvöllur. Hásteinsvöllur er aðalleikvangur Eyjanna og heimavöllur ÍBV. Sögur af vellinum ná aftur til ársins 1912, en á þeim tíma var hann varla meira en lítt ruddir móar. Völlurinn var endurbættur árið 1922 en þótti aldrei boðlegur sem keppnisvöllur í knattspyrnu né fyrir aðrar íþróttagreinar. Árið 1935 var gerður nýr leikvangur í Botni Friðarhafnar, var þar mjög slétt flöt og ákjósanleg aðstæða, en hann var einungis notaður í 7 eða 8 ára. Merk tímamót urðu 1960 er Hásteinsvöllurinn var sléttaður og stækkaður í 100x66 metra og sáð í hann grasfræi. Hann var síðan tekinn í notkun að nýju árið 1963 og hefur verið aðalleikvangur Eyjanna síðan. Árið 1973 var ákveðið að hlífa Hásteinsvellinum vegna vikurs í grassverðinum, var þá brugðið á það ráð að ryðja niður vikri úr vesturhlíðum Helgafells og búa til knattspyrnuvöllinn Helgafellsvöll í Helgafellsdal. Fyrir leik ÍBV og Vals 1. júlí 2001 var 534 manna stúka vígð á vellinum. Áhorf. Hásteinsvöllur er gríðarlega vel sóttur miðað við íbúafjölda svæðisins, meðaltal áhorfendafjöldans á tímabili hefur ávallt verið yfir 10% af heildarfjölda íbúa á svæðinu. Meðalfjöldi áhorfenda og beinar útsendingar. Meðalfjöldi áhorfenda fyrir hvert tímabil á Hásteinsvelli hefur farið vaxandi undanfarin ár. Þrátt fyrir það hefur lítið verið um að rétthafar á sýningu deildarkeppninar hafi lagt það á sig að sýna frá leikjum á Hásteinsvelli þrátt fyrir gott gengi liðsins og hefur fjöldi sýndra leikja á Hásteinsvelli ekki farið yfir 1 sjónvarpaðan leik á tímabili. Tölfræðin nær aðeins til leikja í deildarkeppni karla í knattspyrnu. Leikir karla í beinni. Mest hefur einn leikur verið sýndur í beinni útsendingu á tímabili í úrvalsdeild, á Hásteinsvelli. Mátreikningur. Mátreikningur er tegund reikningslistar í stærðfræði þar sem heiltölur mátað við ákveðinn leifastofn eru samleifa. Afar. Afar (afarska: Qafár) eru þjóðflokkur í Afríku, einkum Eþíópíu. Afar hafa sitt eigið tungumál og sérstaka menningu. Fjöldi Afa er um 1,2 milljónir. Fátækt er mikil og ólæsi útbreitt en einungis 1-3 prósent Afa eru læsir. Apollo-geimferðaáætlunin. Apollo-geimferðaáætlunin var þriðja mannað geimferðaáætlun NASA og er þekktust fyrir að hafa komið mönnuðum geimförum á tunglið. Upphaf Apollo-áætlunarinnar var þann 25. maí 1961 þegar John F. Kennedy, þáverandi forseti Bandaríkjanna, setti það markmið að senda mann til tunglsins og koma honum heilum að höldnu aftur til jarðar. Orrustan við Naseby. „Skyttur konungs“ í sviðsetningu á orrustunni við Naseby. Orrustan við Naseby nálægt Naseby í Northamptonshire á Englandi 14. júní 1645 var lykilorrusta í Ensku borgarastyrjöldinni. Hinn nýskipaði enski þingher, New Model Army, undir stjórn Thomas Fairfax með riddaralið undir stjórn Olivers Cromwell, gersigraði her konungssinna undir stjórn Karls 1. með riddaralið undir stjórn Róberts Rínarfursta. Vegna mistaka tókst þinghernum að ná báðum hliðum konungshersins og umkringja þannig fótgönguliðið sem var kjarninn í hernum. Konungur missti þarna meginher sinn, fallbyssur, vistir og jafnvel persónulegan farangur með bréfasafni sínu. Eftir ósigurinn við Naseby tókst honum aldrei að mynda nægilega stóran her til að standa gegn þinginu. Delft. Delft er borg í hollenska héraðinu Suður-Hollandi og er með 97 þúsund íbúa. Delft hefur þróast í að vera næstvinsælasta ferðamannaborgin í Hollandi á eftir Amsterdam, enda er miðborgin ægifögur. Kirkjan Nieuwe Kerk er aðalgreftrunarstaður hollensku konungsfjölskyldunnar. Lega og lýsing. Delft liggur sunnarlega í Hollandi, mitt á milli borganna Haag og Rotterdam. Til Haag eru 5 km og til Rotterdam 10 km. Til Norðursjávar eru 15 km. Borgin er allt að fjórum metrum fyrir neðan sjávarmáli og eru vindmyllur notaðar til að dæla umframvatninu burt. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Delft er hvítur skjöldur með svartri lóðréttri rönd. Svarta röndin merkir síki ("delf" á hollensku) og vísar til heitis borgarinnar. Merkið allt var tekið í notkun 1816, skömmu eftir að Frakkar höfðu yfirgefið landið á Napoleonstímanum. Fáninn er eins og skjaldarmerkið, nema hvað búið er að snúa röndunum lárétt. Merkingin er sú sama. Fáninn var tekinn í notkun 1996. Orðsifjar. Borgin er nefnd eftir læknum Gantel sem þurrkaður var upp við stofnun bæjarins en lækir eru kallaðir "delf" á hollensku. Landið í kring heitir Delfland. Upphaf. Delft eftir brunann mikla 1536. Ljósa svæðið eru hrunin og ónýt hús. Dökka svæðið eru heil hús. Bærinn Delft var stofnaður af Gottfried greifa af Lorraine um 1071 en hann hóf að grafa skurð fyrir farveg árinnar Gantel sem var við það að þorna upp. Bærinn þróaðist að vera umskipunarbær fyrir alls konar vörur og óx hratt. Vilhjálmur greifi af Hollandi veitti Delft borgarréttindi 1246. Borgin hlaut þó ekki borgarmúra fyrr en við aldamótin 1500. Verslunarvörur í bænum takmörkuðust fyrst við búafurðir en brátt kom vefnaður einnig til, sem og bjór. Til að þurfa ekki að fara með vörur í gegnum Rotterdam (og þaðan til sjávar), enda þurfti að greiða tolla fyrir vörurnar, hófu borgarbúar Delft að grafa skipaskurðinn Delfshavense Schie seint á 14. öld en hann tengdi Nieuwe Maas við Oude Rijn. Við það upplifði borgin mikið blómaskeið í verslun. Í kjörfarið varð Delft að þriðju stærstu borg héraðsins Hollands á eftir Dordrecht og Haarlem. Amsterdam fór þó fram úr þessum borgum árið 1560. Árið 1536 laust eldingu niður í Nieuwe Kerk, sem við það brann. Eldurinn læsti sig í nærliggjandi byggingar og fyrr en varði var hann óviðráðanlegur. Þann dag brunnu 2.300 hús, tveir þriðju allra húsa í borginni, og olli gífurlegri eyðileggingu. Stríð og annar blómatími. Postulínið frá Delft var víðfrægt í Evrópu. Það kallast Delfts Blauw. Í sjálfstæðisstríði Hollendinga leið borgin mjög efnahagslega. Fyrir stríð voru 140 bruggverksmiðjur í Delft en voru aðeins 25 í stríðslok. Sömu sögu er að segja um vefnaðinn. Hins vegar varð borgin að nokkurs konar miðstöð andspyrnunnar gegn Spánverjum í stríðinu. 1572 gerði Vilhjálmur af Óraníu Delft að aðalaðsetri sínu. Hann bjó í klaustrinu Agathaklooster og var myrtur þar 1584. Hann liggur grafinn í Nieuwe Kerk, ásamt tugum ættmenna síðari tíma. Á 17. öld rann annar blómatími borgarinnar upp er hollenska Austur-Indíafélagið setti upp stórt útibú þar. Mikið magn af austurlenskum vörum voru fluttar til Delft og þaðan til annarra borga. Á þessum árum fæddist málarinn Jan Vermeer, einn þekktasti málari Hollendinga, og málaði myndir af borginni og borgarlífinu. Meðal þeirra vara sem bárust til Delft var postulín frá Kína. Síðla á 17. öld hófu fyrirtæki í Delft að framleiða eigið postulín. Það veitti því kínverska svo mikla samkeppni að postulínið frá Delft var dreift um alla Evrópu og varð víðfrægt. Delftse donderslag. Delft eftir púðursprenginguna miklu 1654. Málverk eftir Egbert van der Poel. Á miðri 17. öld var mikið vopnabúr sett upp í borginni. Borgarbúar vissu ekki um vopnageymsluna, enda var hún að hluta til neðanjarðar. Þeir fáu sem um hans vissu töluðu um leyndarmál Hollands ("Secreet van Holland"). Rúmlega 40 tonn af byssupúðri var geymt í tunnum í vopnabúrinu mitt í borginni. Kl. 10:15 þann 12. október 1654 varð gríðarleg sprenging í vopnabúrinu af ókunnum orsökum. Vitað er þó að vopnavörðurinn var niðri í geymslunni að taka prufur af púðrinu. Í sprengingunni létust þó aðeins 1.200 manns, því margir voru úti á markaði og sömuleiðis voru margir að versla í nágrannaborginni Haag. Fjórðungur borgarinnar eyðilagðist, fyrst af sprengingunni sjálfri og svo af völdum bruna. Kirkjurnar stóru stóðu eftir en allar gömlu rúðurnar í þeim brotnuðu af höggbylgjunni. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist alla leið til eyjarinnar Texel sem er í 120 km fjarlægð. Nýrri tímar. Á tíma iðnbyltingarinnar var Delft ekki í stakk búið að keppa við nágrannaborgirnar Haag og Rotterdam og myndaðist því lítill iðnaður þar. En í borginni var stofnaður tækniskóli 1842, sem seinna var breytt í háskóla. Það var ekki fyrr en með tilkomu járnbrautarinnar 1847 að nokkur iðnaður myndaðist í borginni, aðallega efnaiðnaður. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku Þjóðverjar Delft 10. maí 1940. Við það notuðu Þjóðverjar flugvöllinn við borgarmörkin. Borgarbúar veittu Þjóðverjum nokkra mótspyrnu og týndu um 100 þeirra lífið í bardögum við nasista. 25. nóvember 1940 hófu stúdentar við háskólann mótmæli gegn hersetu nasista og sértaklega að gamlir kennarar við háskólann voru reknir, meðan aðrir, sem voru hliðhallir Þjóðverjum, voru settir í stöðurnar. 190 stúdentar létu lífið allt í allt. Borgin slapp hins vegar við allar loftárásir meðan stríðið geysaði. Á síðustu áratugum hefur borgin stækkað ört. Borgin er mjög vinsæl meðal ferðamanna og er nú svo komið að þangað koma fleiri ferðamenn en til nokkurrar annarrar borgar í Hollandi, fyrir utan Amsterdam. Viðburðir. Westerpop er tveggja daga popptónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan 1989. Ýmsir popptónleikar eru þá í borginni og eru þeir allir ókeypis. Taptoe Delft er herskrúðganga með lúðrasveitum sem haldin er í september ár hvert. Gangan hefur verið haldin síðan 1954 og taka hermenn frá ýmsum löndum þátt í henni. Jazz Festival Delft er jazzhátíð sem haldin er á ýmsum stöðum í miðborginni. Car Art festival er bíla- og listasýning sem haldin er aðra helgi í september. Byggingar og kennileiti. Nieuwe Kerk er næsthæsta kirkja Hollands Minecraft. Minecraft er sjálfstæður leikur frá Markus Persson sem gengur út á að byggja mannvirki úr kubbum í þrívíðri veröld. Full útgáfa leiksins var komin út 11. nóvember 2011. Hann selst í 12.000 eintökum á dag. 2009 kom leikurinn út í alpha útgáfu. Ári síðar var fyrirtækið Mojang stofnað í kringum leikinn. 2011 hafði leikurinn selst í meira en 3.000.000 eintaka og áætlað er að leikurinn hafi skilað 23 milljónir Evra í tekjur. Dired. Dired (enska: "directory ed'"itor", gamalt orð yfir ‚skráastjóra‘) er öflugur skráastjóri fyrir Emacs-ritilinn. Feeling Minnesota. "Ást og slagsmál í Minnesota" (enska: "Feeling Minnesota") er bandarísk kvikmynd frá árinu 1996 með Keanu Reeves, Vincent D'Onfrio, Cameron Diaz, Tuesday Weld og Courtney Love í aðalhlutverkum. Steven Baigleman skrifaði bæði handritið og leikstýrði myndinni sem kom út í kvikmyndahús í Bandaríkjunum 13. september 1996. Head Above Water. "Höfuð upp úr vatni" (enska: "Head Above Water") er bandarísk spennumynd frá árinu 1996 sem Jim Wilson leikstýrði. Cameron Diaz fer með aðalhlutverkið í myndinni sem hin unga og fjöruga Nathalie og Harvey Keitel og Billy Zane fara einnig með hlutverk í myndinni. Myndin er endurgerð af norsku myndinni "Hodet over vannet" eftir Nils Gaup frá 1993. Keys to Tulsa. "Svartnætti" (enska: "Keys to Tulsa") er bandarísk kvikmynd frá árinu 1997 sem Leslie Greif leiksýrði og er byggð á samnefndri bók eftir Bryan Fair Berkey. Eric Stolts og James Spader fara með aðalhlutverkin. Sundfélag ÍBV. Sundfélag ÍBV er hluti af héraðssambandi ÍBV. Sundið er ein af tveimur elstu íþróttagreinum Vestmannaeyja. Heimildir um sund og knattspyrnukennslu Björgúlfs Ólafssonar læknis ná aftur til ársins 1903. Sundfélag ÍBV var stofnað árið 1977. Formaður félagsins er Anna Lilja Sigurðardóttir. Þjálfari. Þjálfari Sundfélags ÍBV er Karítas Þórarinsdóttir. Viðburðir. Árlega um mánaðarmótin mars-apríl heldur félagið Grallaramótið, sem er sundmót haldið fyrir 14 ára og yngri. Very Bad Things. "Very Bad Things" er bandarísk glæpamynd frá árinu 1999 sem Peter Berg leikstýrði og skrifaði. Jon Favreau, Cameron Diaz, Christian Slater, Jeremy Piven, Daniel Stern og Leland Orser fara með aðalhlutverkin í myndinni. Sabrina Lloyd. Sabrina Lloyd (fædd, 20. nóvember 1970) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "Sliders", "Sports Night" og "Numb3rs". Einkalíf. Lloyd er fædd í Fairfax í Virginíu en er alin upp í Eustis á Flórída. Hún byrjaði að leika tólf ára í uppfærslunni af "Annie" sem Pepper og kom hún síðan fram í hverfisleikhúsum á borð við: Baystreet Players í Eustis og Ice House Theater í Mt. Dora. Þegar Lloyd var fimmtán ára þá fór hún sem skiptinemi til Brisbane í Ástralíu þar sem hún bjó í ár. Þar fékk hún leiklistarþjálfun við Brisbane Royal Theatre Company. Lloyd fluttist til New York þegar hún var átján ára til að koma sér áfram sem leikkona. Ferill. Fyrsta hlutverk Lloyd var í sjónvarpsþættinu Superboy árið 1988. Síðan þá hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: Law and Order og Ed. Árið 1995 þá var Lloyd boðið hlutverk í Sliders sem Wade Welles sem hún lék til ársins 1999. Síðan árið 1998 þá var henni boðið hlutverk í Sports Night sem Natalie Hurley sem hún lék til ársins 2000. Lloyd lék FBI atferlisfræðinginn Terry Lake í fyrstu þáttaröðinni af Numb3rs. Hefur Lloyd komið fram í kvikmyndum á borð við: That Night, On Edge, Something for Henry, The Girl from Monday og Universal Signs. Tenglar. Lloyd, Sabrina The Invisible Circus. "The Invisible Circus" er bandarísk kvikmynd frá árinu 2001 sem Adam Brooks leikstýrði og skrifaði. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók eftir Jennifer Egan og fara Cameron Diaz, Jordana Brewster, Christopher Eccleston og Blythe Danner með aðalhlutverkin. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíð árið 1999 en kom ekki út í kvikmyndahús fyrr en tveimur árum seinna. Any Given Sunday. "Any Given Sunday" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1999 sem Oliver Stone leikstýrði og fjallar um skáldskapað lið sem keppir í amerískum fótbolta. Samleikshópur fer með aðalhlutverkin í myndinni og eru þar á meðal Al Pacino, Cameron Diaz, Dennis Quaid, Jamie Foxx, James Wood, LL Cool J, Matthew Modine, Charlton Heston, Aaron Eckhart og Elizabeth Berkley ásamt öðrum. Margir frægi fagmenn í íþróttinni komu fram í cameo hlutverkum í myndinni þar á meðal Dick Butkus, Warren Moon, Johnny Unitas, Ricky Watters og Emmett Smith. Saturday Night Live. "Saturday Night Live" (betur þekkt sem "SNL") er bandarískur grínþáttur sem sýndur er í beinni útsendingu í Bandaríkjunum á laugardögum. Þátturinn hóf göngu sína þann 11. október 1975 og hefur verið gríðarlega vinsæll síðan. Skopatriðin í þættinum eru oft paródía af bandarískri pólitík. Í hverri viku er utanaðkomandi kynnir ráðinn til þess að vera með einræðu og leika í skopatriðum ásamt venjulegu leikurunum. Einnig er tónlistarmaður oft fenginn til þess að flytja lag í þættinum. Þau 36 ár sem þættirnir hafa verið sýndir hafa þeir fengið mörg verðlaun þar á meðal 21 Emmy-verðlaun, Peabody-verðlaun og þrjú Writer's Guild of America-verðlaun. TV Guide nefndi þáttinn tíunda besta sjónvarpsþátt allra tíma. Trippin'. "Trippin er umhverfisþáttur frá árinu 2005 sem sýndur var á MTV-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum og var stjórnaður og framleiddur af Cameron Diaz. Fleiri frægir aðilar eins og Drew Barrymore, Jessica Alba, Eva Mendes og Justin Timberlake komu einnig fram í þættinum þar sem stjörnur heimsækja marga umhverfisvæna staði í heiminum, sérstaklega afskipta staði. Sesame Street. "Sesame Street" er bandarískur barnaþáttur sem Joan Ganz Cooney og Lloyd Morrisett sköpuðu. Þátturinn er þekktur fyrir fræðsluefni og sköpunargáfu sem er miðlað áfram í gegnum brúður Jim Henson´s, hreyfimyndir, stuttmyndir, fyndni og menningarlegar vísanir. Þættirnir hófu göngu sína þann 10. nóvember 1969 og hafa notið gríðarlegra vinsælda síðan. Saga. Hugmyndin að "Sesame street" varð til 1966 í umræðum á milli sjónvarps framleiðandans Joan Ganz Cooney og varaforseta Carnegie Foundation, Lloyd Morrisett. Takmark þeirra var að búa til barnaþátt sem myndu "ná vanabindandi gæðum sjónvarps og gera eitthvað gott við þau", eins og að hjálpa börnum við undirbúning fyrir skólann. Eftir tveggja ára rannsóknarvinnu fékk hin nýstofnaða Children's Television Workshop (CTW) styrk að andvirði 8 milljón bandarískra dala (50 milljónir dala að núvirði) frá Carnegie Foundation, Ford Foundation og ríkistjórn bandaríkjanna, til þess að búa til og framleiða nýjan barnaþátt. Þátturinn var frumsýndur 10. nóvember 1969. Á fertugusta afmæli þáttarins, 2009, hafði Sesame street verið sjónvarpað í 120 löndum og 20 útgáfur af þættinum höfðu verið búnar til, víðsvegar um heiminn. Velgengni þáttarinns hélt áfram á níunda áratungnum. 1981 þegar ríkistjórnin dró til baka styrk sinn, markaðsetti CTW þáttinn með útgáfu tímarita, höfundarlaunum af bókum, vöruleyfi og innkomu vegna útsendinga erlendis. Námskrá Sesame Street hefur aukist til að innihalda tilfinningaleg efni eins og sambönd, siðfræði og tilfinningar. Margir söguþræðir þáttana voru teknir frá reynslu starfsfólksins, einkum dauða Will Lee 1982 - sem lék Mr. Hooper—og gifting Luis og Maria 1988. Á síðustu árum hefur Sesame street staðið frammi fyrir félagslegum og efnahagslegum áskorunum, þar á meðal breytingum hvernig börn horfa á sjónvarpsefni, samkeppni frá öðrum þáttum, þróun kapalsjónvarpsins og minnkandi áhorf. Eftir aldarmótin 2000, voru skipulagsbreytingar gerðar á Sesame Street. Til dæmis, frá 2002 varð þátturinn meira í frásagnarformi og innihélt áframhaldandi söguþræði. Eftir þrítugasta afmæli þáttarins 1999 og vegna vinsælda Elmo í prúðuleikurunum, innihélt þáturinn einnig vinsælt skot sem var þekkt sem "Veröld Elmo". Eftir fertugasta afmæli þáttarins, fékk þátturinn heiðursverðlaun Emmy. Fear and Loathing in Las Vegas. "Fear and Loathing in Las Vegas" er bandarísk kvikmynd frá árinu 1998 sem Terry Gilliam leikstýrði. Johnny Deep og Benicio del Toro fara með aðalhlutverkin í myndinni sem er byggð á samnefndri bók eftir Hunter S. Thompson frá árinu 1971. Dragóni. Dragónar voru upphaflega fótgönguliðar sem fengið höfðu þjálfun í reiðmennsku og notuðust við hesta til að ferðast milli orrusta en börðust annars á fæti. Dragónar voru algengir í herjum Evrópu frá 17. öld til 19. aldar. Á 18. öld breyttust dragónar í léttvopnað riddaralið. Í dag koma dragónar aðallega fyrir sem heiðursvörður. Seguljárnsteinn. Seguljárnsteinn er frumsteind sem finnst í basísku bergi. Seguljárnsteinn er svartur að lit og næstalgengasta frumsteindin á eftir sílíkati. Ortóklas. Ortóklas er kalífeldspat frumsteind sem finnst í súru bergi. Lýsing. Oftast nær gráhvítt eða ljósrautt í graníti en glært í líparíti. Útbreiðsla. Stórir kristallar finnast í göngum umhverfis graníthleifa þar sem kristöllun hefur átt sér stað í kvikugufum eða kvikuvessum sem granítkvikan gaf frá sér þegar hún var að kólna. Notkun. "Ortóklas" hefur verið unnið með úr námum og notað í glergerð, postulín og leirkeragerð. Jakob 2. Englandskonungur. Jakob 2. Englandskonungur (14. október 1633 – 16. september 1701) var konungur Englands, Írlands og Skotlands frá 6. febrúar 1685 þar til hann hrökklaðist frá völdum í Dýrlegu byltingunni 23. desember 1688. Hann var síðasti kaþólski konungur Englands. Hann tók við völdum eftir lát bróður síns, Karls 2., með stuðningi íhaldsmanna þrátt fyrir almenna andstöðu við kaþólikka í landinu. Uppreisn Monmouths sem óskilgetinn sonur Karls 2. leiddi gegn honum var barin niður. Hann ofsótti róttæka mótmælendur, einkum sáttmálamenn í Skotlandi, en reyndi jafnframt að aflétta takmörkunum á kaþólskri trú og banni við því að kaþólikkar gegndu opinberum stöðum. Hann reyndi jafnframt að styrkja stöðu sína með því að stækka fastaherinn og skipa kaþólska stuðningsmenn sína í lykilstöður innan hans. Þessi stefna hans varð til þess að margir íhaldssamir stuðningsmenn hans innan ensku biskupakirkjunnar snerust gegn honum. Þegar tengdasonur hans, Vilhjálmur Óraníufursti, ákvað að gera innrás og ræna völdum í Englandi (meðal annars til að koma í veg fyrir bandalag Englands og Frakklands gegn Hollandi) snerust enn fleiri gegn honum. Jakob reyndi ekki að beita her sínum gegn innrásarhernum og flúði til Frakklands þar sem hann fékk hæli við hirð Loðvíks 14.. Árið eftir reyndi hann að gera innrás á Írlandi sem mistókst. Stuðningsmenn hans sem eftir voru voru kallaðir jakobítar. Sonur hans, James Francis Edward Stuart, og sonarsonur, Charles Edward Stuart, leiddu tvær uppreisnir jakobíta 1715 og 1745 frá Skotlandi sem báðar mistókust. Faktorshús. Faktorshúsið í hæstakaupstað var byggt árið 1788 af norskum kaupmönnum. Húsið var í upphafi íbúðarhús verslunarstjóra en kaupmenn frá Noregi komu til Ísafjarðar eftir að einokunarverslun var lögð niður og reistu nokkur hús og starfræktu verslanir á eyrinni seint á 18. öld og snemma á þeirri 19. Á þessum tíma voru byggð þarna 8 hús og er faktorshúsið hið eina sem enn stendur uppi. Nú er rekið þar veitingahús og gistiheimili. Húsið. Faktorshúsið er á tveimur hæðum með risi og fjórum kvistum. Hægt er að ganga inn í húsið á tveimur stöðum, á vestur– og austurhlið. Gluggar eru á öllum hliðum hússins en bíslag (skúr) er við inngang vesturhliðar. Húsið er af svokallaðri „bolhúsagerð“, það er að segja upprunalega stærðin, sem er um það bil 75% af því sem nú er. Árið 1830 var húsið lengt um 25% og var það gert með „dönskum stíl“ sem er eins konar múrsteinshleðsla í trégrind. Í gegnum tíðina hefur húsinu verið haldið við, meðal annars hefur það verið klætt með timburklæðningu og þakið tjargað. Í byrjun 20. aldar var húsið klætt með sléttu járni og þakið með bárujárni. Eftir að verslun lagðist af á þessu svæði eyrarinnar eignaðist Ísafjarðarkaupstaður, sem nú heitir Ísafjarðarbær, húsið og því var breytt í fjölbýlishús og leigt út. Húsið stóð tómt í nokkur ár eftir að útleigu var hætt sökum slæms ástands. Endurbætur á húsinu voru gerðar á timabilinu 1998 – 2001 í samráði við húsafriðunarnefnd þannig að upruni þess fékk að njóta sín. Í húsinu er, eins og áður hefur komið fram, gistiheimili og veitingahús. Húsið er eitt af elstu timburhúsum á Íslandi sem enn stendur. Staðsetningin. Faktorshúsið stendur á miðri eyrinni sem oft var kölluð Skutulsfjarðareyri en fjörðurinn sem Ísafrjörður, eyrin, stendur við heitir Skutulsfjörður og er ysti fjörður Ísafjarðardjúps. Staðsetningin var einnig kölluð hæðstikaupstaður. Sennilega er það vegna þess að á þessum stað rís eyrinn hæðst en ástæðan getur líka verið sú að nest á eyrinni voru byggð hús, á undan þeim sem reist voru um leið og Faktorshúsið, á stað sem kallast neðstikaupstaður. Þessir tveir staðir tengdust með járnbrautateinum sem flutti burðarvagna á milli staðanna. Í neðstakaupstað var fiskverkun en höfnin var í hæðstakaupstað. Hráefnið sem unnið var nest á eyrinni var flutt með þessum teinum, upp eftir eyrinni, að hæðstakaupstað og í skipin sem þar lágu við höfnina og í verslanirnar sem þar voru. Húsaþyrpingin sem Norðmennirnir reistu í hæðstakaupstað taldi um átta hús. Þetta voru bæði verslunar, geymslu –og íbúðarhús. Öll voru húsin úr timbri og stóðu nokkuð þétt. Bryggja var reist við hæðstakaupstað og þar lágu skip kaupmannanna. Sagan. Faktorshúsið var fyrst um sinn íbúðarhús fyrir norskan verslunarstjóra eftir tíma einokunnarverslunar. Verslunarstjórar sem unnu á eyrinni bjuggu til skiptis í húsinu og voru kallaðir faktorar, þeir voru nokkrir talsins þangað til verslunin lagðist af með upprunalegum hætti. Allt fram til ársins 1930 gegndi húsið hlutverki íbúðarhúss sem hluti af verslunarþyrpingu en þá fór verslun í hæðstakauptað að minnka og síðasta búðin á svæðinu var útibú frá Nathan O. Olsen. Eftir lokun verslunar á svæðinu voru Rafveita Ísafjarðar og Sjúkrasamlagið með skrifstofur í húsinu um stutt skeið en árið 1940 var húsið innréttað sem íbúðarhús og breytt þannig að í því rúmuðust þrjár íbúðir. Rafveita Ísafjarðar átti íbúðirnar og leigði til starfsmanna sinna sem bjuggu þar með fjölskyldur sínar, jafnvel stórfjölskyldur og því þröngt á þingi oft á tíðum í húsinu. Ísafjarðarbær eignaðist svo húsið sem stóð tómt eftir að íbúar fluttu þaðan. Húsið var orðið gamalt og þarfnaðist viðhalds þannig að ekki var unnt að búa þar lengur. Í nokkur ár var húsið nýtt í ýmsa félagsstarfsemi líkt og AA-samtökin og fleiri en árið 1993 keiptu hjón nokkur húsið og gerðu á því miklar endurbætur og komu húsinu í upprunalegt horf með aðstoð húsafriðunarnefndar en húsið var friðað árið 1975. Lokaorð. Árið 2001 var veitingahúsið Faktorshúsið opnað á neðri hæð hússins en gistiheilmili og lítill samkomusalur er á efri hæðinni. Á sumrin er mikið líf í húsinu og það vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem og gamalla Ísfirðinga sem eflaust muna eftir húsinu frá æsku sinni. Faktorshúsið á Ísafirði er eitt af elstu húsum á Íslandi. Það hefur að varðveitir sögur af liðnum tíma, mikilvægar sögur sem gefa lífinu gagn og gaman og því nauðsynlegt að halda því við og varðveita. Nieuwe Kerk (Delft). Nýja kirkjan er næsthæsta kirkja Hollands Nieuwe Kerk (Nýja kirkja) er kirkja í borginni Delft í Hollandi. Hún er næsthæsta kirkja Hollands uppá 109 metra. Í grafhvelfingunni er helsti greftrunarstaður konungsættarinnar í Hollandi. Saga. Grafhýsi Vilhjálms af Óraníu í Nieuwe Kerk Nieuwe Kerk var stofnuð 1351 og reist úr viði. Hún var helguð Maríu mey og heilagri Úrsúlu. Kirkja þessi var seinni kirkja miðborgarinnar. Fyrir var Oude Kerk (Gamla kirkja) og hlaut nýja kirkjan því heitið Nieuwe Kerk (Nýja kirkja). 1396 var byrjað að reisa þverskip fyrir framan viðarkirkjuna. Jafnskjótt og það var fullreist var viðarkirkjan rifin og fjarlægð. Kirkjusmíðinni var haldið áfram með langskipi og kór, en verkinu lauk 1496 með turninum mikla og hafði kirkjan þá verið í byggingu í nákvæmlega 100 ár. Turninn var lægri þá en hann er nú. 3. maí 1536 sló eldingu niður í turninum og olli því að kirkjan brann. Eldurinn læsti sig í nærliggjandi byggingar og fyrr en varði var hann óviðráðanlegur. Þann dag brunnu 2.300 hús, tveir þriðju allra húsa í borginni, og olli gífurlegri eyðileggingu. Eftir lagfæringar næstu árin skullu siðaskiptin á. 1566 ruddist múgur siðaskiptamanna inn í kirkjuna og eyðilagði kaþólskar helgimyndir og listaverk. 1572 voru kaþólikkar endanlega reknir úr kirkjunni, sem við það varð eign reformeruðu kirkjunnar. Tólf árum síðar var Vilhjálmur af Óraníu, leiðtogi uppreisnarinnar gegn Spánverjum, myrtur á heimili sínu í Delft. Hann var lagður í steinkistu í Nieuwe Kerk. Gríðarmikið grafhýsi var reist inni í kirkjunni og var kistu hans komið þar fyrir. Eftir það hlutu 45 aðrir meðlimir Óraníuættarinnar hinsta hvíldarstað í kirkjunni. Kirkjan skemmdist enn töluvert þegar púðursprengingin mikla átti sér stað 1654. Við höggbylgjuna brotnuðu allir gluggar hennar, sem flestir voru listaverk. Nýju gluggarnir voru einfaldir og einlita. 1872 laust enn niður eldingu í turninum og brann hann niður. Þegar hann var endurreistur hlaut hann núverandi hæð, 109 metrar. Þar með er kirkjan næsthæsta kirkja Hollands. Aðeins dómkirkjan í Utrecht er hærri (112 metrar). Turninn er með 36 bjöllur og voru flestar gerðar 1660. Núverandi litagluggar voru settir í kirkjuna 1927-36. Grafir. Vilhjálmur af Óraníu var fyrsti einstaklingur sem lagður var til hinstu hvílu í kirkjunni. Hann var myrtur 1584 og lagður í steinkistu í kirkjunni 3. ágúst. Síðan þá hafa á fimmta tug ættmenna hans, þ.e. hollenska konungsættin, verið lagðir í grafhvelfingu kirkjunnar. Nöfn sem eru feitletruð eru þjóðhöfðingjar (landstjórar, konungar, drottningar). Það athugist að ekki hvíla allir þjóðhöfðingjar Hollands í kirkjunni. Keanu Reeves. Keanu Charles Reeves (fæddur 2. september 1964) er kanadískur leikari. Hann er best þekktur fyrir leik sinn í myndunum "Bill & Ted's Excellent Adventure", "Speed", "Point Break" og "Fylkinu". Hann hefur einnig leikið í leikhúsi þar á meðal í Hamlet. Þann 31. janúar 2005 hlaut Reeves stjörnuna sína á Walk of Fame í Hollywood og árið 2006 var hann nefndur einn af „Uppáhalds leikurum Bandaríkjanna“. Reeves, Keanu Danny Boyle. Daniel „Danny“ Boyle (fæddur 20. október 1956) er enskur kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi. Hann er best þekktur fyrir að hafa leikstýrt myndum á borð við "Slumdog Millionaire", "127 klukkustundir", "Trainspotting" og "A Life Less Ordinary". Fyrir "Slumdog Millionaire" hlaut Boyle mörg verðlaun þar á meðal Óskarsverðlaunin fyrir besta leikstjóra. Þann 17. júní 2010 var tilkynnt að Boyle myndi verða listrænn leikstjóri Ólympíuleikanna 2012. Boyle, Danny Will.I.Am. Wil.i.am er meðilmur í the The Black Eyed Peas hann er mest frægur fyrir að vera í hljómsveitini en hann hefur gert nokkur lög með öðrum söngvurum árið 2011 lékk hann í bíomyndini rio. Psych. Psych er bandarískur gamanþáttur sem var frumsýndur á USA Network 7. júlí 2006. Þátturinn er sýndur á íslensku sjónvarpstöðinni SjáEinum. Þátturinn er skrifaður af Steve Franks. Þátturinn snýst um tvo vini, Shawn Spencer sem leikinn ef af James Roday og Burton „Gus“ Guster sem leikinn er af Dulé Hill. Þeir vinna með lögreglunni í Santa Barbara sem ráðgjafar. Shawn hefur þjálfað með sér einkar gott sjónminni og athygli fyrir smáatriðum. Með þessari færni hefur hann talið fólki trú um að hann búi yfir skyggnigáfu. Guffi. Guffi er teiknimyndapersóna sem Walt Disney skapaði og er einn af bestu vinum Mikka Mús og Andrésar Andar. Hann kom fyrst fram í teiknimyndinni "Mickey´s Revue" 1932. Hann er hávaxinn hundur sem er oftast í rúllukragapeysu og vesti, með buxum, skóm og auðvitað hvítum hönskum og hatt. Hann er klaufalegur og virðist vera frekar heimskur en hann er klár og mjög góðhjartaður, hann er bara frekar óheppinn. Guffi kom fyrst fram í teiknimyndinni Mickey's Revue árið 1932 og var eftir það í aukahlutverki í myndum um Mikka og Andrés. En við byrjun ársins 1939 fékk Guffi að vera aðalhlutverkið og fékk nokkrar stuttar teiknimyndaseríur sem urðu mjög vinsælar. Guffi var aðeins í sjónvarpi og teiknimyndasögum. Árið 1983 fékk Guffi að vera í fyrsta skipti teiknimynd í fullri lengd, Mickey's Christmas Carol. Árið 1995 fékk Guffi sína eigin kvikmynd, A Goofy Movie (Guffagrín). Guffi hefur verið mikið í sjónvarpsþáttum, eins og Goof Troop (1992-1993), House of Mouse (2001-2003) og Mickey Mouse Clubhouse (2006-?). Guffi á son sem heitir Max. Max hefur var með honum í sjónvarpsþáttunum Goof Troops, A Goffy Movie og An Extremely Goofy Movie. Guffi notar skóstærð númer 48 og hálft. Í dag er persónan best þekkt sem Guffi, en áður en það nafn var hann þekktur sem Dippy Dawg og í kringum 1950 var hann kallaður George Geef, eða G.G, að gefa í skyn að Guffi væri bara gælunafn. Flikk-flakk. Flikk-flakk er þriðja breiðskífa Siggu Beinteins. BAFTA. The British Academy of Film and Television Arts betur þekkt sem BAFTA (eða Breska Kvikmynda og Sjónvarpsþátta-akademían) er góðgerðarstofnun í Bretlandi sem heldur árlega verðlaunahátíð sem veitir verðlaun fyrir árangur í kvikmyndum, sjónvarpi, teiknimyndum og tölvuleikjum. Akademían var stofnuð árið 1947 af David Lean, Alexander Korda, Carol Reed, Laurence Olivier, Michael Powell, Emeric Pressburger, Roger Manvell og öðrum frægum aðilum í breska kvikmyndaiðnaðinum. Árið 1958 sameinaðist hún Samtökum Sjónvarpsframleiðenda og Leikstjóra. Verðlaunin eru löguð eins og leikhúsgríma sem var hönnuð af bandaríska myndhöggvaranum Mitzi Cunliffe. Screen Actors Guild-verðlaun. Screen Actors Guild verðlaun (skammstafað sem SAG verðlaun) er viðurkenning gefin af Screen Actors Guild til þess að bera kennsli á framúrskarandi frammistöður í kvikmyndum og sjónvarpi. Verðlaunagripurinn er stytta af nöktum manni sem heldur á tveimur grímum. Styttan er fjörutíu sentimetrar og er fimm kíló og steypt í bronsi. SAG verðlaunin hafa verið ein af stærstu verðlaunahátíðum í Hollywood síðan þau hófu göngu sína árið 1995. Tilnefningar koma frá 4200 meðlimum Screen Actors Guild sem valdir eru af handahófi en allir 120.000 meðlimir mega kjósa sigurvegara. AFI-verðlaunin. AFI-verðlaunin eru verðlaun veitt árlega af bandarísku kvikmynda-akademíunni vegna framlags tíu framúrskarandi kvikmynda, sjónvarpsþátta, leikara og leikkvenna til samfélagsins. Tveir kviðdómar 13 meðlimum sem innihalda listamenn og gagnrýnendu velja sigurvegarana. Handknattleiksárið 1990-91. Handknattleiksárið 1990-91 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1990 og lauk vorið 1991. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var með nýju keppnisfyrirkomulagi í tólf liða deild með tvöfaldri umferð. Að því loknu var haldin úrslitakeppni sex efstu og sex neðstu liðana um meistaratitil og fall, einnig með tvöfaldri umferð. 2. deild. HK sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Breiðabliki. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. Sex efstu lið fóru í úrslitakeppni með tvöfaldri umferð. Úrslitakeppni 2. deildar. Sex efstu liðin tóku þátt í úrslitakeppni. HK hóf keppni með 4 stig, Þór Ak. 2 stig og Breiðablik 1 stig. Leikin var tvöföld umferð. 3. deild. Þrjú lið tóku þátt í 3. deildarkeppninni og léku fjórfalda umferð. Fjölnir sigraði og tryggði sér sæti í 2. deild, en árið eftir féll keppni í 3. deild niður og tóku Fjölnir og Ögri því sæti í 2. deild. Bikarkeppni HSÍ. ÍBV sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Víkingi. Evrópukeppni meistaraliða. FH keppti í Evrópukeppni meistaraliða, en féll óvænt úr leik í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni bikarhafa, en féllu strax úr leik. Evrópukeppni félagsliða. Stjörnumenn kepptu í Evrópukeppni félagsliða og féllu út í fyrstu umferð. 1. deild. Stjarnan varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn. Keppt var í átta liða deild með fjórfaldri umferð. ÍBV og Selfoss höfnuðu í fallsætunum. Handknattleiksárið 1991-92 var hins vegar felld niður keppni í 2. deild, heldur keppt í einni deild með ellefu liðum. 2. deild. KR sigraði í 2. deild og ÍBK hafnaði í öðru sæti, en tvö efstu sætin gáfu keppnisrétt í 1. deild að ári. Leikin var fjórföld umferð í sex liða deild. Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Evrópukeppni meistaraliða. Framarar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 16-liða úrslitum. Handknattleiksárið 1991-92. Handknattleiksárið 1991-92 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1991 og lauk vorið 1992. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Víkingsstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Notast var við nýtt keppnisfyrirkomulag. Keppt var í einni tólf liða deild með tvöfaldri umferð. Átta efstu liðin fóru í úrslitakeppni með útsláttarfyrirkomulagi. 2. deild. Þór Ak. sigraði í 2. deild og færðist upp í 1. deild ásamt ÍR-ingum. Keppt var í tíu liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. FH sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Val. 1. deild. Víkingur varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn. Íslandsmótið fór fram í einni 11 liða deild með tvöfaldri umferð og léku átta efstu liðin um meistaratitilinn með útsláttarfyrirkomulagi. Bikarkeppni HSÍ. Víkingur sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn FH. Evrópukeppni meistaraliða. Stjörnustúlkur kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni bikarhafa. Framstúlkur kepptu í Evrópukeppni bikarhafa, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni félagsliða. Víkingsstúlkur kepptu í Evrópukeppni félagsliða, en féllu úr leik í forkeppni. Handknattleiksárið 1992-93. Handknattleiksárið 1992-93 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1992 og lauk vorið 1993. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Víkingsstúlkur í kvennaflokki. 2. deild. Afturelding sigraði í 2. deild og tryggði sér sæti í 1. deild ásamt KR. Keppt var í 6 liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Valur sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Selfossi. Bikarkeppni HSÍ. Valur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingur keppti í Evrópukeppni meistaraliða, en féll úr leik í 1. umferð. Handknattleiksárið 1993-94. Handknattleiksárið 1993-94 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1993 og lauk vorið 1994. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Víkingsstúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í einni tólf liða deild með tvöfaldri umferð. Átta efstu liðin fóru í úrslitakeppni með útsláttarfyrirkomulagi. ÍBV og Þór Ak. féllu í 2. deild. 2. deild. HK sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt ÍH. Keppt var í einni tíu liða deild með tvöfaldri umferð. Sex efstu liðin fóru í úrslitakeppni. Úrslitakeppni 2. deildar. Sex efstu liðin tóku þátt í úrslitakeppni. HK hóf keppni með 4 stig, Grótta 2 stig og ÍH 1 stig. Leikin var tvöföld umferð. Bikarkeppni HSÍ. FH sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn KA. 32 lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Valsmenn kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu út í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. Selfyssingar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa, en féllu út í 8-liða úrslitum. Evrópukeppni félagsliða. ÍR-ingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða, en féllu út í 16-liða úrslitum. Borgakeppni Evrópu. FH keppti í borgakeppni Evrópu, en féll úr leik í 16-liða úrslitum. 1. deild. Víkingur varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna. Keppt var í ellefu liða deild með tvöfaldri umferð og úrslitakeppni átta efstu liða. Bikarkeppni HSÍ. Víkingur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn ÍBV. Ellefu lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni bikarhafa. Valur keppti í Evrópukeppni bikarhafa, en féll úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni félagsliða. ÍBV keppti í Evrópukeppni félagsliða, en féll úr leik í 1. umferð. Borgakeppni Evrópu. Stjarnan keppti í borgakeppni Evrópu, en féll úr leik í 1. umferð. Handknattleiksárið 1994-95. Handknattleiksárið 1994-95 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1994 og lauk vorið 1995. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í einni tólf liða deild með tvöfaldri umferð. Átta efstu liðin fóru í úrslitakeppni með útsláttarfyrirkomulagi. HK og ÍH féllu í 2. deild. 2. deild. ÍBV sigraði í 2. deild og fór upp um deild ásamt Gróttu. Leikin var tvöföld umferð í níu liða deild og úrslitakeppni sex efstu liða. Bikarkeppni HSÍ. KA sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Val. Evrópukeppni meistaraliða. Valsarar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni bikarhafa. FH keppti í Evrópukeppni bikarhafa og komst í 8-liða úrslit. Evrópukeppni félagsliða. Selfyssingar kepptu í Evrópukeppni félagsliða, en féllu úr leik í 1. umferð. Borgakeppni Evrópu. Haukar kepptu í borgakeppni Evrópu og komust í 8-liða úrslit. 1. deild. Stjarnan varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna. Keppt var í níu liða deild með tvöfaldri umferð og úrslitakeppni átta efstu liða. Bikarkeppni HSÍ. Fram sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Tólf lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Víkingsstúlkur kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni bikarhafa. Eyjastúlkur kepptu í Evrópukeppni bikarhafa, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni félagsliða. Framarar kepptu í Evrópukeppni félagsliða, en féllu úr leik í 16-liða úrslitum. Borgakeppni Evrópu. Stjarnan keppti í borgakeppni Evrópu, en féll úr leik í 1. umferð. Handknattleiksárið 1995-96. Handknattleiksárið 1995-96 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1995 og lauk vorið 1996. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Haukastúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í einni tólf liða deild með tvöfaldri umferð. Átta efstu liðin fóru í úrslitakeppni með útsláttarfyrirkomulagi. KR og Víkingur féllu í 2. deild. 2. deild. HK sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Fram Keppt var í einni níu liða deild með tvöfaldri umferð. Sex efstu liðin fóru í úrslitakeppni. Úrslitakeppni 2. deildar. Sex efstu liðin tóku þátt í úrslitakeppni án stiga. Leikin var tvöföld umferð. Bikarkeppni HSÍ. KA sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Víkingum. 37 lið tóku þátt í mótinu. Evrópukeppni meistaraliða. Valur keppti í Evrópukeppni meistaraliða, en féll úr leik í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni bikarhafa. KA keppti í Evrópukeppni bikarhafa, en féll úr leik í 16-liða úrslitum. Evrópukeppni félagsliða. Víkingur keppti í Evrópukeppni félagsliða, en féll úr leik í 1. umferð. Borgakeppni Evrópu. Afturelding keppti í borgakeppni Evrópu og komst í 8-liða úrslit. 1. deild. Haukar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í einni tíu liða deild með tvöfaldri umferð. Átta efstu liðin fóru í úrslitakeppni með útsláttarfyrirkomulagi. Bikarkeppni HSÍ. Stjarnan sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Fram. Evrópukeppni meistaraliða. Stjarnan keppti í Evrópukeppni meistaraliða, en féll úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni bikarhafa. Fram keppti í Evrópukeppni meistaraliða, en féll úr leik í 2. umferð. Handknattleiksárið 1996-97. Handknattleiksárið 1996-97 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1996 og lauk vorið 1997. KA-menn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Haukastúlkur í kvennaflokki. 2. deild. Víkingar sigruðu í 2. deild og fóru upp ásamt Breiðabliki. Leikið var í ellefu liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Haukar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn KA. Evrópukeppni meistaraliða. Valsarar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða, en féllu úr leik í 1. umferð. Evrópukeppni bikarhafa. KA keppti í Evrópukeppni bikarhafa og komst í 8-liða úrslit. Evrópukeppni félagsliða. Stjarnan keppti í Evrópukeppni félagsliða og komst í 8-liða úrslit. Borgakeppni Evrópu. Haukar kepptu í borgakeppni Evrópu og komust í 16-liða úrslit. 1. deild. Haukar urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í einni níu liða deild með tvöfaldri umferð. Átta efstu liðin fóru í úrslitakeppni með útsláttarfyrirkomulagi. Bikarkeppni HSÍ. Haukar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Val. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki þetta árið. Handknattleiksárið 1997-98. Handknattleiksárið 1997-98 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1997 og lauk vorið 1998. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. 2. deild. Selfoss sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Gróttu/KR. Keppt var í einni níu liða deild með tvöfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Valsmenn sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Fram. Evrópukeppni. Tvö íslensk félagslið tóku þátt í Evrópukeppni: KA og Afturelding. Evrópukeppni meistaraliða. KA keppti í Evrópukeppni meistaraliða, en féll út eftir riðlakeppni sextán liða. Keppt var í fjórum fjögurra liða riðlum, með tvöfaldri umferð. Borgakeppni Evrópu. Afturelding keppti í borgakeppni Evrópu og komst í 8-liða úrslit. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnustúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Víkingum. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki þetta árið. Handknattleiksárið 1998-99. Handknattleiksárið 1998-99 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1998 og lauk vorið 1999. Afturelding varð Íslandsmeistari í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. 2. deild. Víkingur sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Fylki. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Afturelding sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn FH. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í karlaflokki þetta ár Bikarkeppni HSÍ. Framstúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Haukum. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki þetta ár Handknattleiksárið 1999-00. Handknattleiksárið 1999-00 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 1999 og lauk vorið 2000. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og ÍBV í kvennaflokki. 2. deild. Grótta/KR sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Breiðabliki. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Fram sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Stjörnunni. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í karlaflokki þetta ár Bikarkeppni HSÍ. Valur sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Gróttu/KR. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki þetta ár Handknattleiksárið 2000-01. Handknattleiksárið 2000-01 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2000 og lauk vorið 2001. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og einnig í kvennaflokki. 2. deild. Selfoss sigraði í 2. deild og fór upp í 1. deild ásamt Þór Ak. Keppt var í sex liða deild með fjórfaldri umferð, sjötta liðið í deildinni var ÍR b-lið og reiknuðust úrslit þess ekki með í töfluröð. Bikarkeppni HSÍ. Haukar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn HK. Evrópukeppni. Aðeins eitt íslenskt félag sendi lið til þátttöku í Evrópukeppni í karlaflokki, Haukar tóku þátt í bæði Evrópukeppni meistaraliða og Evrópukeppni félagsliða. Evrópukeppni meistaraliða. Haukar tóku þáttu í Evrópukeppni meistaraleiða en féllu út í 2. umferð. Evrópukeppni félagsliða. Eftir að hafa fallið úr Evrópukeppni meistaraliða hóu Haukar leik í 3. umferð Evrópukeppni félagsliða og komust í undanúrslit. Haukar - RK Metkovic Jambo, Króatíu 20:22 RK Metkovic Jambo – Haukar 29:25 Bikarkeppni HSÍ. ÍBV sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Haukum. Evrópukeppni. Aðeins eitt íslenskt félag sendi lið til þátttöku í Evrópukeppni í kvennaflokki. Evrópukeppni félagsliða. ÍBV keppti í Evrópukeppni félagsliða, en féll úr leik í 32-liða úrslitum. Handknattleiksárið 2001-02. Handknattleiksárið 2001-02 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2001 og lauk vorið 2002. KA-menn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Haukar í kvennaflokki. Bikarkeppni HSÍ. Haukar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Fram. Evrópukeppni. Þrjú íslensk félagslið tóku þátt í Evrópukeppni: HK, Haukar og Fram. Evrópukeppni bikarhafa. HK keppti í Evrópukeppni bikarhafa, hóf keppni í 32-liða úrslitum en féll þar úr leik. Evrópukeppni félagsliða. Haukar kepptu í Evrópukeppni félagsliða, en féllu úr leik í 32-liða úrslitum. Áskorendakeppni Evrópu. Fram keppti í Áskorendakeppni Evrópu, fyrst íslenskra liða. Fram hóf keppni í 32-liða úrslitum en féll þar úr leik. Bikarkeppni HSÍ. ÍBV sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Gróttu/KR. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki þetta ár. Handknattleiksárið 2002-03. Handknattleiksárið 2002-03 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2002 og lauk vorið 2003. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og ÍBV í kvennaflokki. Bikarkeppni HSÍ. HK sigraði í bikarkeppninni í fyrsta sinn eftir úrslitaleik gegn Aftureldingu. Evrópukeppni. Tvö íslensk félagslið tóku þátt í Evrópukeppni: Haukar og Grótta/KR. Evrópukeppni bikarhafa. Haukar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa, hófu keppni í 2. umferð og komust í 16-liða úrslit. Áskorendakeppni Evrópu. Grótta/KR keppti í Áskorendakeppni Evrópu, hóf keppni í 2. umferð og komst í 8-liða úrslit. Bikarkeppni HSÍ. Haukar sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn ÍBV. Evrópukeppni. Ekkert íslenskt félag tók þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki þetta ár. Handknattleiksárið 2003-04. Handknattleiksárið 2003-04 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2003 og lauk vorið 2004. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og ÍBV í kvennaflokki. Evrópukeppni. Tvö íslensk félagslið tóku þátt í Evrópukeppni: Haukar og HK. Evrópukeppni bikarhafa. Haukar kepptu í Evrópukeppni meistaraliða og komust í riðlakeppni 32 liða. Keppt var í átta fjögurra liða riðlum, með tvöfaldri umferð. Evrópukeppni bikarhafa. HK keppti í Evrópukeppni bikarhafa, hóf keppni í 2. umferð og komst í 16-liða úrslit. Bikarkeppni HSÍ. ÍBV sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Haukum. Evrópukeppni. Aðeins eitt íslenskt félag sendi lið til þátttöku í Evrópukeppni í kvennaflokki. Áskorendakeppni Evrópu. ÍBV keppti í áskorendakeppni Evrópu. Liðið komst í undanúrslit en tapaði þar fyrir Nürnberg sem síðar varð Evrópumeistari. Handknattleiksárið 2004-05. Handknattleiksárið 2004-05 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2004 og lauk vorið 2005. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og kvennaflokki. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnustúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Gróttu/KR. Evrópukeppni. Tvö íslenskt félög sendu lið til þátttöku í Evrópukeppni í kvennaflokki, Valur og Stjarnan. Evrópukeppni félagsliða. Valsstúlkur kepptu í Evrópukeppni félagsliða en féllu út í fyrstu umferð. Áskorendakeppni Evrópu. Stjarnan keppti í áskorendakeppni Evrópu. Liðið komst upp úr riðlakeppni en tapaði í 16-liða úrslitum. Keppt var í fjórum 3-4 liða riðlum, með einfaldri umferð. Tvö lið úr hverjum riðli fóru í 16-liða úrslit. Riðill Stjörnunnar fór fram í Garðabæ. Handknattleiksárið 2005-06. Handknattleiksárið 2005-06 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2005 og lauk vorið 2006. Framarar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og ÍBV í kvennaflokki. Bikarkeppni HSÍ. Haukastúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn ÍBV. Ellefu lið skráðu sig til leiks. Evrópukeppni. Þrjú íslenskt félög sendu lið til þátttöku í Evrópukeppni í kvennaflokki: Stjarnan, Haukar og Valur. Evrópukeppni bikarhafa. Stjarnan keppti í Evrópukeppni bikarhafa, en féll út í fyrstu umferð. Evrópukeppni félagsliða. Haukastúlkur kepptu í Evrópukeppni félagsliða og komust í 32-liða úrslit. Áskorendakeppni Evrópu. Valsstúlkur kepptu í Áskorendakeppni Evrópu, hófu keppni í 16-liða úrslitum og komust í undanúrslit. Handknattleiksárið 2006-07. Handknattleiksárið 2006-07 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2006 og lauk vorið 2007. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. Úrvalsdeild. Valsmenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. Fylkir og ÍR féllu niður um deild. 1. deild. Afturelding sigraði í 1. deild og fór upp í úrvalsdeild ásamt ÍBV. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Haukastúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Gróttu. Tólf lið tóku þátt í mótinu Evrópukeppni. Eitt íslenskt félag sendi lið til þátttöku í Evrópukeppni í kvennaflokki, Haukar. Evrópukeppni bikarhafa. Haukar kepptu í Evrópukeppni bikarhafa, en félul út í fyrstu umferð. Handknattleiksárið 2007-08. Handknattleiksárið 2007-08 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2007 og lauk vorið 2008. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. 1. deild. FH sigraði í 1. deild og fór upp í úrvalsdeild ásamt Víkingum. Keppt var í sjö liða deild með fjórfaldri umferð. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnustúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Fylki. Tólf lið tóku þátt í mótinu Handknattleiksárið 2008-09. Handknattleiksárið 2008-09 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2008 og lauk vorið 2009. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Stjörnustúlkur í kvennaflokki. 1. deild. Grótta sigraði í 1. deild og fór upp í úrvalsdeild. Liðin í öðru til fjórða sæti fóru í úrslitakeppni ásamt næstneðsta liði úrvalsdeildar um laust sæti. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. Úrslitakeppni um úrvalsdeildarsæti. Stjarnan sigraði í úrslitakeppni um laust sæti í úrvaldseild. Úrvalsdeild. Stjörnustúlkur urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki kvenna. Keppt var í átta liða deild með þrefaldri umferð. Því næst tók við úrslitakeppni fjögurra efstu liða. Bikarkeppni HSÍ. Stjörnustúlkur sigruðu í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn FH. Þrettán lið tóku þátt í mótinu Evrópukeppni. Eitt íslenskt félag sendi lið til þátttöku í Evrópukeppni í kvennaflokki, Fram. Áskorendakeppni Evrópu. Framstúlkur kepptu í Áskorendakeppni Evrópu, en féllu út í fyrstu umferð. Handknattleiksárið 2009-10. Handknattleiksárið 2009-10 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2009 og lauk vorið 2010. Haukar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valsstúlkur í kvennaflokki. Bikarkeppni HSÍ. Fram sigraði í bikarkeppninni eftir úrslitaleik gegn Val. Handknattleiksárið 2010-11. Handknattleiksárið 2010-11 var keppnistímabilið í íslenskum handknattleik sem hófst haustið 2010 og lauk vorið 2011. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valskonur í kvennaflokki. Ewan McGregor. Ewan McGregor á 66. kvikmyndahátíðinni í Feneyjum Ewan McGregor (fæddur 31. mars 1971) er skoskur leikari. Hann er best þekktur sem heróín-fíkillinn Mark Renton í mynd Danny Boyles "Trainspotting", Obi-Wan Kenobi í þremur Star Wars myndum og sem skáldið Christian í söngleiknum Moulin Rouge! McGregor hlaut mikla hylli gagnrýnenda þegar hann fór með aðalhlutverk í söngleiknum Gæjar og Píur í London frá 2005 til 2007. McGregor, Ewan People. "People" (upprunalega kallað "People Weekly") er bandarískt slúðurblað sem gefið er út vikulega af Time Inc. Um það bil helmingur blaðsins eru greinar um frægt fólk og hinn helmingurinn inniheldur áhugaverðar sögur af venjulegu fólki. Vefsíða blaðsins (People.com) fjallar bara um sögur af stjörnum. Blaðið ku vera best þekkt fyrir árlegu tölublöð sín sem útnefna „Fallegasta fólk í heimi“, „Best klæddu stjörnurnar“ og „Kynþokkafyllsti maður á lífi“. Fyrsta tölublaðið var gefið út þann 4. mars 1974 og voru þá viðtöl við Miu Farrow, Gloriu Vanderbilt, Alexandr Solzhenitzyn og eiginkonur týndra hermanna í Víetnamstríðinu. NCIS (8. þáttaröð). Áttunda þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 21. september 2010 og sýndir voru 24 þættir. Farrelly-bræðurnir. Peter John Farrelly (fæddur 17. desember 1956) og Robert Leo „Bobby“ Farrelly, Jr. (fæddur 17. júní 1958), betur þekktir sem Farrelly-bræðurnir, eru bandarískir handritshöfundar og leikstjórar sem hafa framleitt tíu myndir saman, þar á meðal "There's Something About Mary", "Dumb and Dumber", "Me, Myself & Irene" og "Hall Pass". Bræðurnir eru frá Cumberland í Rhode Island og flestar myndir þeirra gerast í því fylki eða annars staðar í Nýja Englandi. Íþróttir koma mikið við sögu í mörgum myndum þeirra og ráða þeir oft fræga íþróttamenn í cameo-hlutverk. Þeir hafa fengið bæði gagnrýni og hrós fyrir notkun sína á fötluðum einstaklingum í sumum myndanna. Oft eru fötluðu persónurnar þeirra bráðklárar á meðan að þeir hraustu eru heimskir. Í þremur af myndum þeirra, ("There's Something About Mary", "Dumb and Dumber" og "Shallow Hal"), hefur aðalkvenpersónan kallast Mary en móðir bræðranna heitir Mariann. Næsta mynd þeirra er "Skytturnar þrjár" og mun koma út árið 2012. Farrelly, Peter John Farrelly, Bobby Dieter Roth. Dieter Roth (21. apríl 1930 – 5. júní 1998) var myndlistarmaður af þýskum og svissneskum ættum. Roth var búsettur á Íslandi um árabil. Hann er þekktur fyrir bókverk sín og myndverk gerð úr rotnandi mat. Eymundur Jónsson. Eymundur Jónsson (22. desember 1840 á Hofi í Öræfasveit – 1. apríl 1927 í Haga á Höfn í Hornafirði) var járnsmiður og bóndi. Eymundur var þekktur fyrir margt en þó einna helst smiðshæfileika og hagmælsku. Hann þótti óvenju afkastamikill og hugmyndaríkur smiður. Uppruni og uppeldi. Eymundur var nefndur Meyvant og bar það fram að 38 ára aldri (1878). Hann kastaði þessu nafni, sem mun vera úr lágþýsku, ættað úr riddarasögunum og tók upp nafnið Eymundur og auglýsti í dagblöðunum. Þetta gerði hann í samráði við Jón prófast Jónsson á Stafarfelli, sem lagði mikið upp úr því að menn bæru sanníslensk nöfn og neitaði oft af þeim sökum að skýra börn nöfnum, sem foreldrarnir höfðu valið. Foreldrar Eymundar voru úr Vestur-Skaftafellssýslu þau Sigríður Jónsdóttir og Jón "Landeyingur" Höskuldsson. Þau slitu samvistum, sem ekki var algengt á þessum árum og fór þá Sigríður með Eymund og settst að á Skálafelli í Suðursveit (Austurland). Sigríður var dugnaðarforkur og átti nóg af eignum til að geta gerst próventukona hjá Stefáni Eiríkssyni í Árnanesi, þegar hún brá búi. Eymundur fylgdi henni þangað. Um 1856 fluttist hann að Árnanesi með Sigríði móður sinni (sem gerðist þá próventukona), til Stefáns alþm. Eiríkssonar. Starfsferill og búskapur. Auk þess að vera bóndi og afkastamikill smiður þótti Eymundur góður læknir á þeirra tíma mælikvarða og tók á móti fjölda barna og frægt var þegar hann tók á móti barni (sagt vera Þorleifi í Hólum síðar alþingismanni) og fæðingin gekk eitthvað illa. Þá hljóp Eymundur út í smiðju, smíðaði fæðingatangir og tók á móti barninu með þeim. Allir komu heilir frá þessu og þótti mikið afrek. Eymundur tók að sér að leiðbeina skipum inn um Hornafjarðarós er siglingar hófust þangað og kom hafnsögumannsstarfið til með að vera í höndum afkomenda hans í tæp 100 ár óslitið upp frá því. Eins og áður sagði kvæntist hann 6. október 1866, Halldóru Stefánsdóttur, f. 26. ágúst 1844 í Árnanesi, d. 25. jan. 1925 í Dilksnesi. „...fríðleiks og atgerviskona hin mesta, og mun E. hafa þóst veiða vel upp úr, umkomulaus og fátækur vinnupiltur, að ná ástum hennar, er mun hafa þótt einna bestur kvenkostur hjer um slóðir. Enda hefur Eymundur borið hana á höndum sér og hefur hjónaband þeirra verið mjög ástúðlegt, og þau afar samhent.“ Foreldara hennar voru Stefán Eiríksson alþingismaður og bóndi í Árnanesi og Guðrún Einarsdóttir frá Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum. a) Sigríður, f. 28. des. 1865, b) Stefán, f. 10. apríl 1867, c) Guðrún, f. 23. júlí 1868, d) Björn, f. 13. mars 1871, e) Björn, f. 16. nóv. 1872, f) Lovísa, f. 19. mars 1874, g) Sigurbergur, f. 26. ágúst 1875, h) Karl, f. 4. sept. 1876, i) Ingvar, f. 25. nóv. 1877, j) Ásmundur, f. 28. des. 1878, k) Jóhann, f. 7. maí 1880, l) Margrét, f. 4. júlí 1881, m) Margrét, f. 6. júní 1883, n) Stefán, f. 8. sept. 1884, o) Höskuldur, f. 1. júní 1886, p) Sigurður, f. 18. okt. 1888. Eins og áður sagði skipti Eymundur um nafn þegar hann var orðinn 38 ára ára gamall. Halldóra kona hans felldi sig aldrei við Eymundar nafnið og kallaði hann ávalt Meyvant. Í Vesturheimi byggði Eymundur sér bæ sem hann kallaði Skóga í Pine Valley á landamærum Kanada og Bandaríkjanna. Sagt var að þegar hann bjó í Ameríku hafi hann bæði tekið á móti fjölda barna af ýmsu þjóðerni og skírt þau líka, sama hverrar trúar foreldrarnir voru. Hann var oft fenginn til að halda predíkanir og ræður við hátíðleg tækifæri meðan hann bjó þar. Þau hjón og börn þeirra að undanskildum Stefáni fluttu svo heim aftur árið 1907. Halldór Laxness var kennari á heimili Lovísu dóttur Eymundar nokkrum árum síðar og segir í bók sinni Grikklandsárið frá samskiptum sínum við Eymund. Meðal annars segir hann: „Hann og kona hans og börn og alt hans ráð var efni í ódauðlegar bækur sem verða aldrei skrifaðar.“ Í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar fylgdi Eymundur þeim sem lengst vildu ganga. Hann hafði mikinn áhuga fyrir því, að ísland mætti losna með öllu undan erlendum yfirráðum. Hann fagnaði sáttmálanum frá 1918, sem síðasta sporinu að því marki, en illa leist honum á að Island færi langt á skuldabrautinni við útlönd. Hann var þjóðlegur mjög, og vildi að íslendingar legðu meiri rækt við merkisstaði sína en þeir gera. — Eitt af því síðasta sem hann ræddi við sveitunga sinn Þorleif í Hólum veturinn áður en hann lést var um færslu þingsins til Þingvalla, lagði hann mikla áherslu á að flytja það burt úr Reykjavík. Kveðskapur. Nokkuð hefur varðveist af ljóðabréfum og öðrum kveðskap eftir Eymund og má af því ráða nokkuð um lífsviðhorf og ævistarf hans. Eymundur, var ásamt konu sinni í hópi þeirra, sem yfirgáfu ættir og óðöl árið 1902 og fluttu til Kanada þá 62 ára gamall. Til er ljóðabréf, sem Eymundur hefur ort i umróti þessa aldarfars, og lýsir það nokkuð viðhorfum hans til Afstaða hans átti þó eftir að breytast og þau fluttu heim aftur haustið 1907. Þingið burt úr Vík með vald Á Þingvöllum skal þingið háð — eins og Geitskór gaf til ráð, Þegar Eymundur var orðinn sjötugur var hann fenginn til að stjórna borvél og hnoða saum við gerð Laxárbrúar í Nesjum. Smiðjan var handknúinn belgsmiðja og var Þorbergur Þórðarson frá Hala í Suðursveit sem síðar varð rithöfundur fenginn til að blása, sem hann gerði af mikilli þrautsegju að sagt var. Brúarsmíðinn lauk með vígsluhátíð og var Eymundur fenginn til að semja vígsluljóð 11. október 1910 að því tilefni. Lag: Gnoð úr hafi skrautleg skreið. það er brún breið og há, sem byggð er yfir þessa á. Hún er traust og harla góð, um það vitni ber nú bezt, Með brú að tengja land við land, leggja vegi um fjöll og sand, það skulu börn vor taka í arf að tengja saman hug og hönd Ó, þið fögru Eyjafjöll, afbragðssveitin bezta, Þar er fossinn feikna hár með firna þrótt í beinum, steypist niður öld og ár, ymur hátt i steinum. Geymir orku, auð og gagn inst í sínum bárum; ríki hans er rafurmagn; reynt mun það með árum að hann færir engi og tún í önnur betri klæði, yzt frá strönd á efstu brún iðgrænt verður svæði. Gefur hita, lif og ljós, leiðir það í bæinn, fyrðum með hann fer til sjós, flytur skip um sæinn; vagn á teinum veit eg senn með vélum fer að ganga, flytur hann þá fé og menn um framtíð afar-langa. Þú munt, fagra fossaval, fara til að starfa bæði fyrir hrund og hal, harla margt til þarfa; fyrst af öllu hugvitshönd hlýtur þig að beizla. Þá mun bregða' á lýð og lönd lífs og frægðar geisla. Þrasakista auðug er enn í þinum bárum; hana losa hljótum vér, hvað sem sker með árum. Hugur manns og hagleiksmagn hefir nóg að vinna, sem að veitir gleði og gagn, garpar ef því sinna. Skíni á þig, Skógafoss, skærust frægðarsunna, þú ert sannnefnt sveitarhnoss, sem að flestir unna. Færðu manndáð, afl og auð inn í Þrasalendur svo ei skorti björg né brauð, bygðin meðan stendur. Og þið, fríðu Eyjafjöll, eignist framtíð bjarta. Ykkur lukkan vissan völl vígði í landsins hjarta. Ykkar fögru fossadrög frjóvgi viðar lendur, heyrist þeirra hjartaslög, heimur meðan stendur. Eg stend hér hátt og sé nú fjörðinn fríða við fætur mína rétt að kalla má, sem ótal nes og æðarhólmar prýða og fjöllin blá sig hefja upp til hæða. Hvarfla eg viða hvarma minna ljósum, eins og glitvef bláum, söndum á; hæsti jöfur*) lengst í vestri skín; skriðjöklar með skitin kaun og sprungur skæla sig og glotta beint til mín. er blikar skærst sem fágað brúðarlin. Ferðast hefi eg hálfan hnöttinn yfir, en hvergi leit eg slíkan sjónarhríng. Þessi útsjón mann af manni lifir og mun ei reynast neinum sjónhverfing. Þessi kvæði lýsa vel lífsviðhorfi og framkvæmdahug Eymundar, en jafnframt dálæti og virðingu fyrir náttúrunni. Að lokum má geta þess að ýmsa smíðagripi og smiðju Eymundar (sem reyndar er merkt MJ) má finna á byggðasafni Austur-Skaftafellssýslu. Vetrarferðin. Vetrarferðin (Vetrarferðin (Winterreise) er ljóðaflokkur eftir Franz Schubert við ljóð Wilhelms Müller. Vetrarferðin er í tveimur hlutum, með tólf kvæðum í hvorum hluta og segir sögu af ungum manni, óendurgoldinni ást hans og ferðalagi hans að vetri. Mikhail Bakunin. Mikhail Bakunin (30. maí 1814 – 1. júlí 1876) var rússneskur stjórnleysingi. Skömmtunarárin. Skömmtunarárin eða haftaárin var tímabil um miðja 20. öldina í íslenskri sögu, eftir seinni heimsstyrjöldina sem einkenndist af höftum og takmörkunum á inn- og útflutningi á vörum vegna mikils erlends gjaldeyrisskorts. Mjög dró úr höftunum á tímabili Viðreisnarstjórnarinnar, langs ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins frá 1959-71. Kí-kvaðratsdreifing. kí-í-öðru-dreifing eða "χ"²-dreifing) er í tölfræði og líkindafræði dreifing ferningasummu óháðra hendinga með staðlaða normaldreifingu. Wikitravel. Wikitravel er ókeypis ferðahandbók á netinu. Wikitravel, systurverkefni Wikipediu, er til á ýmsum tungumálum en þó ekki íslensku. Þyrnirós. Þyrnirós (þýska: "Dornröschen", franska: "La Belle au bois dormant") er ævintýri sem fyrst kom út á prenti undir heitinu "Sól, tungl og Talía" í þjóðsagnasafninu "Lo cunto de li cunti overo lo trattenemiento de peccerille" ("Fimmdægra") eftir Giambattista Basile árið 1636. Charles Perrault endursagði söguna og gaf út í "Contes de ma Mère l'Oye" árið 1697. Vilmundur Jónsson. Vilmundur Jónsson (1889 – 1972) var landlæknir Íslands á árunum 1931 – 1959. Vilmundur lauk læknisnámi árið 1916 og starfaði á sjúkrahúsum í Svíþjóð og Danmörku í nokkur ár eftir það. Hann var héraðslæknir á Ísafirði 1919 – 1931. Vilmundur sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn í tvígang, 1931 – 1934 og 1937 – 1941. Hann fékkst við nýyrðasmíð og ritstörf og eftir hann liggja ýmis skrif, einkum um heilbrigðismál, en einnig æviminningar. Úrval úr verkum Vilmundar, "Með hug og orði", kom út árið 1985. Vilmundur var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1959. Bustarfell. Bustarfell er friðlýstur torfbær í Hofsárdal, Vopnafirði. Hann er frá 16. öld og hýsir minjasafn. Brunahvammur. Brunahvammur var heiðarbýli undir Brunahvammshálsi í Vopnafirði. Brunahvammur er í 340 metra hæð yfir sjávarmáli. Bærinn stóð fremst í þurrlendum hvammi drjúgan spöl frá Hofsá nokkru utan við Hölkná. Brunahvammur mun hafa verið hjáleiga frá Bustarfelli og lengst af í eigu Bustarfellsbænda. Jörðin þótti góð til búskapar að fornu lagi en nokkuð mannfrek til heyskapar og fjárgæslu. Þá þótti torfrista léleg og mór var enginn. Brunahvammur lagðist í eyði 1945. Erla skáldkona bjó á Brunahvammi og sonur hennar Þorsteinn Valdimarsson sem einnig var skáld, fæddist þar 1918. Hofsá (Vopnafirði). Hofsá er laxá í Hofsárdal í Vopnafirði. Hún er 85 kílómetra löng. SÍA. Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) eru samtök sjö af stærstu auglýsingastofum landsins auk einnar birtingastofu. SÍA starfar sem málsvari og fulltrúi þessara fyrirtækja í öllum helstu sameiginlegu hagsmunamálum þeirra. Gouda. Gouda er borg í Hollandi og er með 71 þúsund íbúa. Borgin er heimsþekkt fyrir ostana (Gouda-ost), sem gjarnan eru boðnir upp á markaðstorgunum. Lega og lýsing. Gouda liggur við samflæði ánna Hollandse Ijssel og Gouwe suðvestarlega í Hollandi og tilheyrir héraðinu Suður-Hollandi. Næstu borgir eru Rotterdam til suðvesturs (15 km), Haag til vesturs (20 km), Utrecht til austurs (35 km) og Amsterdam til norðurs (50 km). Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Gouda eru þrjár lóðréttar rendur, rauð, hvít og rauð. Í sitthvorri rauðu röndinni eru þrjár gullnar tíuarma stjörnur. Merki þetta á sinn uppruna með van der Goude ættinni á 14. öld. Það varð að borgarmerki og komu stjörnurnar fram á ýmsum innréttingum. Textinn fyrir neðan er: "Per aspera ad astra", sem merkir "í gegnum raunir til stjarnanna". Hann er frá 1691. Ljónin og kórónan eru síðari tíma viðbætur. Ljón er aðalsmerki héraðsins Hollands. Fáninn er svipaður, nema hvað búið er að snúa röndunum þannig að þær eru láréttar. Orðsifjar. Gouda hefur í gegnum tíðina verið kölluð Golde, Die Goude, Ter Goude og Tergouw. Öll þessi heiti eiga sér uppruna sinn í ánni Gouwe sem rennur í gegnum borgina. Heitið Gouwe kemur fyrst við skjöl 1139 en mismunandi kenningar eru uppi um merkingu þess. Söguágrip. Í upphafi 12. aldar var borgarstæði Gouda einn stór mýrarfláki. Íbúar nærliggjandi svæða fóru gjarnan þangað til að vinna mó. Bærinn Gouda kom fyrst við skjöl 1143 og var þá undir yfirráðum biskupanna í Utrecht. Árið 1225 var áin Gouwe, sem bærinn var nefndur eftir, tengd Oude Rijn með skurði. Þar með fékk Gouda aðgengi að skipasamgöngum og verslunarleiðum. Árið 1272 veitti Floris V, greifi af Holland, Gouda borgarréttindi. Nokkrir stórbrunar geysuðu í borginni, sérstaklega 1361 og 1438. Í sjálfstæðisstríðinu var Gouda hertekin af hollenskum uppreisnarmönnum 1572, sem skemmdu hana talsvert og brenndu mörg hús niður. Gouda naut velgengni á gullaldarárum Hollendinga á 17. öld, en það breyttist mjög við sjóstríðin við England. Þá hrundi verslunin og borgin var ein sú fátækasta í Hollandi fram á 19. öld. Hugtakið Gouwenaar (íbúi Gouda) var samnefnari fyrir betlara. Við iðnbyltinguna á 19. öld fór efnahagurinn aftur að batna. Borgarmúrarnir voru rifnir niður og borgarhliðin fjarlægð til að skapa iðnaðarpláss. Árið 1855 var járnbraut lögð frá Utrecht til Gouda og borgin óx sem aldrei fyrr. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. Í þeim eyðilagðist til að mynda járnbrautarstöðin, enda var reynt að eyðileggja allar samgöngur nasista í Hollandi. Byggingar og kennileiti. Loftmynd af miðborg Gouda. Jóhannesarkirkjan er til hægri. Gamla ráðhúsið stendur eitt og sér á markaðstorginu. Persaflóastríðið (1991). Persaflóastríðið var stríð háð á milli bandalags sambandsþjóða sameinuðu þjóðanna með Bandaríkin í fararbroddi og Íraks sem stóð frá 2. ágúst 1990 til 28. febrúar 1991. Stríðið var háð sem svar við innrás Íraks í Kúveit. Flóabardagi var háður í Kúveit og Írak í janúar og febrúar 1991. Upphaf þessa skamma stríðs var innrás Íraka í Kúveit undir stjórn Saddams Hussein á þeim forsendum að Kúveit væri sögulegur hluti Íraks og Kúveitar væru að stela olíu af umdeildu olíusvæði við landamærin. Tilgangurinn var augljóslega að ná valdi yfir olíubirgðum Kúveit. Herafli Kúveit stóðst Írökum ekki snúning og landið var sett undir harðhenta setuliðsstjórn. Írak innlimaði Kúveit opinberlega 8. ágúst. Á tímabilinu ágúst til nóvember samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjölda ályktana, sem náðu hámarki í kröfunni um brottför Íraka frá Kúveit fyrir 15. janúar 1991. Fjölþjóðlegur her á vegum Sameinuðu þjóðanna, alls 500 þúsund manna land-, sjó- og flugher var kvaddur saman gegn 540 þúsund manna her Íraka. Fjölþjóðlegi herinn var aðallega frá Bandaríkjunum, Sádi-Arabíu, Bretlandi, Egyptalandi, Sýrlandi og Frakklandi. Hernaðaraðgerðin var kölluð „Eyðimerkurskjöldur“ og var ætlað að hindra frekari árásir á Sádi-Arabíu. Zhengzhou. Zhengzhou er höfuðborg héraðsins Henan í Kína. Fiseind. Fiseind er öreind sem ferðast nálægt ljóshraða og víxlverkar mjög lítið við annað efni. Norður-Holland. Norður-Holland er fylki í Hollandi, staðsett í kringum Amsterdam. Ásamt Suður-Hollandi hefur það lengi verið kjarnasvæði Hollands. Lega og lýsing. Norður-Holland liggur að meginhluta milli Norðursjávar og Ijsselmeer, norður og vestur af höfuðborginni Amsterdam. Eyjan Texel, stærst Vesturfrísnesku eyjanna, tilheyrir fylkinu. Stórir hlutar fylkisins eru fyrir neðan sjavarmál. Aðeins tvö önnur fylki liggja að Norður-Hollandi, Utrecht fyrir suðaustan og Suður-Holland fyrir sunnan. Mikill sjávarvarnargarður þvert yfir mynni Ijsselmeer tengið fylkið við Frísland. Önnur bílabrú tengir fylkið við Flevoland. Íbúar eru 2,6 milljónir talsins, sem gerir Norður-Holland að næstfjölmennasta fylki Hollands. Aðeins Suður-Holland er fjölmennara. Höfuðborgin er Haarlem. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Norður-Hollands er tvískiptur. Til vinstri er rauða ljónið sem greifarnir af Hollandi höfðu notað allt frá 13. öld. Til hægri eru tvö gyllt ljón, en þau eru merki Vestur-Fríslands, sem í dag er nyrsti hluti Norður-Hollands. Fáninn samanstendur af þremur láréttum röndum: Gulri, rauðri og blárri. Hann var ekki tekinn upp fyrr en 22. október 1958. Litirnir voru teknir upp úr skjaldarmerkinu. Guli liturinn er gylltur í skjaldarmerkinu. Orðsifjar. Holland hét upphaflega Holtland (eða Holtlant), sem merkir skógarland. Það var ekki fyrr en 1840 að fylkið Holland skiptist í tvennt, þ.e. í Norður-Holland og Suður-Holland, og voru heitin smíðuð á því ári. Söguágrip. Í gegnum aldirnar var fylkið Holland eitt fremsta og auðugasta fylki Niðurlanda og var stjórnað af greifunum af Hollandi. Í sjálfstæðisbaráttu landsins á 16. og 17. öld hafði fylkið sig hvað mest frammi. Það var að sama skapi stærsta fylki landsins þegar Holland varð að sjálfstæðu ríki. Þetta varð til þess að heiti fylkisins var gjarnan notað fyrir landið allt. Þegar Frakkar hertóku Holland 1795, skiptu þeir fylkinu í fimm einingar (département). En 1807 var þessum einingum breytt í tvö svæði. Norðurhlutinn kallaðist Amstelland og suðurhlutinn Maasland. Þegar Frakkar hurfu úr Niðurlöndum 1813 voru hlutarnir sameinaðir aftur en yfir þá voru settir tveir ríkisstjórar, einn fyrir norðursvæðið og hinn fyrir suðursvæðið. Þegar stjórnarskrá landsins var endurnýjuð 1840 var ákveðið að aðgreina svæðin varanlega. Þannig mynduðust Norður-Holland með Haarlem að höfuðborg og Suður-Holland með Haag að höfuðborg. Sameignarfélag. Sameignarfélag (sf.) er tegund fyrirtækis, sambærileg hlutafélagi (hf.). Þegar um sameignarfélag er að ræða á hópur fólks fyrirtækið saman, til dæmis starfsfólk þess. Þessi tegund fyrirtækja var algeng á Íslandi á tímum Samvinnuhreyfingarinnar. HD 85512 b. HD 85512 b er risajörð, 3,6 sinnum massameiri en jörðin.. Laurence Sterne. Laurence Sterne (24. nóvember 1713 – 18. mars 1768) var ensk-írskur skáldsagnahöfundur. Hann er þekktastur fyrir skáldsögu sína "The Life and Opinions of Tristram Shandy", oftast nefnd "Tristram Shandy", sem kom út í mörgum hlutum á tíu ára tímabili og þykir ein merkasta skáldsaga átjándu aldar. Sterne var klerkur og birti einnig stólræður og ævisögu, auk þess sem hann tók þátt í sjórnmálum. Sterne dó í London úr berklum. Sterne, Laurence Sterne, Laurence Hofsá (Vesturdal). Hofsá er á sem rennur um Vesturdal í Skagafirði og sameinast Vestari-Jökulsá þar sem hún fellur fram úr Hofsdal við Bjarnastaðahlíð, spölkorn innan við kirkjustaðnum Goðdali. Áin er bergvatnsá að mestu og kemur úr lækjum og vötnum uppi undir Hofsjökli. Hún er þó jökullituð eftir að Fossá, sem kemur úr Hofsjökli, fellur í hana nokkru innan við eyðibýlið Þorljótsstaði, en ofan við ármótin er hún tær. Þar kallast fjallshlíðin austan árinnar á löngum kafla Runa eða Þorljótsstaðaruna og áin tekur nafn af henni og kallast þar Runukvísl. Þar er ágætt silungsveiðisvæði, allt inn að Runufossi. Máfar. Máfar (fræðiheiti "Laridae") eru meðalstórir eða stórir strandfuglar, oftast gráir eða hvítir með svört svæði á höfði og vængjum. Þeir lifa helst á fiski en éta einnig skordýr, fuglsunga, egg og ýmis konar úrgang. Folafluga. Folafluga (fræðiheiti "Tipula paludosa") er tegund af hrossaflugu. Hún er nýr landnemi á Íslandi, sást fyrst í Hveragerði og hafði borist yfir Hellisheiði til Kollafjarðar árið 2005 og til Reykjavíkur 2010. Lirfur folaflugu geta skaðað garðagróður, þær halda sig afst í sverði og naga rótarhálsa plantna. Tvívængjur. Tvívængjur (fræðiheiti "Diptera") eða flugur er ættbálkur skordýra. Orðið er komið úr grísku "di" = tveir og "ptera" = vængir. Hrossafluga. Hrossafluga (fræðiheiti "Tipula rufina") er fluga af ætt hrossaflugna (Tipulidae). Hrossafluga hefur fjögur lífsstig (egg, lirfa, púpa, fluga) og spanna þessi stig um eitt ár. Hrossaflugur eru algengastar við sunnanvert Ísland. Lirfur hrossaflugu eru rándýr og lifa á ormum og öðrum smádýrum. Steini sterki. Steini sterki (franska: Benoît Brisefer) er teiknimyndasöguhetja úr smiðju Peyo. Hann er geðugur og kurteis lítill drengur með ofurkrafta. Sá er þó galli á gjöf Njarðar, að Steini litli missir ofurkraftana þegar hann fær kvef, sem gerist furðu oft á ögurstundu. Ævintýri Steina sterka birtust fyrst sem framhaldssögur í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi. Peyo lést 1992 en síðan þá hafa komið út fleiri sögur um Steina sterka eftir son Peyo, Thierry Culliford. Peyo. Pierre Culliford (25. júní 1928 – 24. desember 1992), þekktur sem Peyo, var belgískur teiknari, líklega best þekktur fyrir að hafa skapað Strumpana. Rijksmuseum. Ríkissafnið í Amsterdam stendur við Museumplein Rijksmuseum er ríkissafn Hollands í Amsterdam. Það hefur að geyma talsvert af málverkum hollensku meistaranna, þar á meðal eftir Rembrandt, Jan Vermeer, Jan Steen og fleiri. Saga. Safnið var stofnað árið 1800 í borginni Haag til að halda utan um málverkasafn landstjóranna í Hollandi. Á þessum tíma voru Frakkar við völd í landinu. 1808 ákvað Loðvík Bonaparte að flytja safnið til Amsterdam, þar sem hann sat sem konungur. Samtímis því voru málverk í eigu borgarinnar tekinn inn í safnið, til dæmis "Næturvaktin" eftir Rembrandt. Árið 1863 var haldin samkeppni um nýtt safnahús í borginni sem hýsa ætti málverkin. Framkvæmdir við nýtt hús hófust þó ekki fyrr en 1876 og var byggingin formlega vígð 13. júlí 1885. Safnið stendur við torgið Museumplein, en þar standa fleiri söfn, svo sem Van Gogh safnið og tónlistarhúsið ("Concertgebouw"). 1890 var byggingin stækkuð, en efniviðurinn var tekinn úr sögulegum byggingum sem voru rifin á svipuðum tíma. Síðustu lagfæringar og endurbætur fóru fram 2003. Bókasafn. Í ríkissafninu er bókasafn, Rijksmuseum Research Library. Það er stærsta opinbera bókasafn um listasögu í Hollandi. Þar er að finna um 140 þúsund verk, 3.200 fagtímarit og ýmislegt annað. Í upphafi var bókasafnið í aðalbyggingunni, en við endurbæturnar 2003 var það flutt í annað hús. Jan Vermeer. "Kona með mjólkurkrús" eftir Jan Vermeer Aðrir meistarar. Aðrir meistarar safnsins eru Cornelis van Haarlem, Melchior d‘Hondecoeter, Pieter de Hooch, Meindert Hobbema, Geertgen tot Sint Jans, Bartholomeus van der Helst, Gabriël Metsu, Dirck van Baburen, Jan Asselijn, Frans Hals, Jan Corneliszoon, Jakob van Ruysdael og Jan van Scorel. Schiphol. Ríkissafnið er með lítil útibú á flugvellinum í Schiphol. Það var opnað 9. desember 2002 af Willem Alexander, krónprinsi í Hollandi. Sýning þessi er breytileg, þar sem sífellt er verið að skipta um málverk. Þar með er Schiphol flugvöllur sá fyrsti í heimi með útibú málverkasafns. Versalaháskóli. Versalaháskóli (Université de Versailles-Saint-Quentin-en-Yvelines) er franskur háskóli í akademíu Versala, Frakklandi. Hann var stofnaður 1991.. Hús Önnu Frank. Hús Önnu Frank stendur við Prinsengracht 263 Hús Önnu Frank (Anne Frank huis) er verksmiðjuhúsið í Amsterdam þar sem fjölskylda Önnu Frank ásamt nokkrum einstaklingum földu sig í tvö ár fyrir nasistum 1942-44 í heimstyrjöldinni síðari, þar til þau uppgötvuðust og voru send í útrýmingarbúðir. 1960 var húsinu breytt í safn sem er gríðarlega vinsælt. Hlutverk hússins. Húsið stendur við Prinsengracht 263 ("gracht" merkir "síki"). Það var reist 1635 og stendur framhliðin við síki. Framhliðin var hins vegar reist 1739. Húsið var lengi vel í einkaeigu sem íbúðarhús, en var svo breytt í iðnaðarhús. Þar voru framleiddar ýmsar iðnaðarvörur fram á 20. öld. Frank fjölskyldan. Til að komast í fylgsni Frank fjölskyldunnar þurfti að fara á bak við þennan bókaskáp og ganga upp tröppur Þjóðverjar hertóku Holland 10. maí 1940 og hófu brátt handa við að senda gyðinga úr landi. 1. desember 1940 flutti Otto Frank í húsið við Prinsengracht, en hann var eigandi fyrirtækjanna Opekta og Pectacon. Fyrirtækin hans voru starfrækt á jarðhæð, en á 2. hæð voru skrifstofur. Þegar nasistar hófu að safna gyðingum saman og senda úr landi, ákvað Otto Frank að útbúa leyniaðstöðu á 3. hæð hússins. Þar fór hann inn 1942, ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum. Anna Frank var sú yngri, en Margot hét sú eldri. Auk þeirra leyndust þar fjórir aðrir gyðingar (van Pels fjölskyldan og Fritz Pfeffer). Þessar átta persónur deildu með sér um 50 m2 rými í tvö ár. Til að komast í rýmið á 3. hæð varð að fara á bak við bókaskáp og upp tröppur. Samstarfsmenn Otto Franks heimsóttu fólkið reglulega og færðu þeim mat og aðrar nauðsynjavörur. Dagbók Önnu Frank. Fólkið faldist í húsinu í tvö heil ár og fór aldrei út. Oftast sváfu þau á daginn, enda var enn unnið í verksmiðjunni. Á kvöldin var þeim færður matur. Ekki gátu þau kveikt á ljósum nema með því að setja vel fyrir glugga. Forðast þurfti allan hávaða. Yngri dóttir Ottos, Anna Frank, hélt dagbók um veru þeirra í fylgsninu, en þar er greinargóð lýsing á daglegu lífi þessa óvenjulega fólks. Síðasta færsla dagbókarinnar var 1. ágúst 1944. Aðeins þremur dögum síðar voru þau svikin. Eftir ábendingar ókunnugs aðila símleiðis ruddust Gestapo-menn inn í fylgsnið 4. ágúst og handtóku Önnu og öll hin. Þau voru send í útrýmingarbúðir hingað og þangað. Anna sjálf var send til Auschwitz, ásamt systur sinni, en síðar til Bergen-Belsen, þar sem báðar létust í mars 1945. Ritari Otto Franks, Miep Gies, sem fært hafði gyðingunum mat, fann dagbókarskrif Önnu og hélt þeim til haga í því skyni að skila þeim til Önnu þegar hún kæmi til baka. Það gerðist þó ekki, því Otto Frank var eini aðilinn í fylgsninu sem lifði helförina af. Hann ákvað að prenta dagbókina sem í dag hefur verið gefin út á 55 málum. Dagbókin er á heimsminjaskrá UNESCO. Hús Önnu Frank. Skömmu eftir fyrstu útgáfu Dagbókar Önnu Frank hóf fólk að fara til Prinsengrachten til að virða fyrir sér húsið. 1955 var fyrirtækið selt og átti þá að rífa húsið, ásamt hliðarhúsunum. Þessu var ákaft mótmælt af fólki sem vildi halda húsinu til minningar um Önnu og fjölskyldu hennar. Til að koma í veg fyrir niðurrifið stilltu mótmælendur sér upp fyrir framan húsið og vörnuðu vélunum aðgangs. Samtímis var sett lögbann á niðurrifið. 1957 var Stofnun Önnu Frank sett á laggirnar, en hún safnaði fé til að kaupa húsið við Prinsengracht 263 og reyndar einnig 265. 1960 var svo safn stofnað í húsi Önnu Frank sem sýndi ýmislegt um hvernig nasistar eltu og þjáðu gyðinga. 1970 og 1999 var safnið stækkað. Safnið hefur verið innréttað eins og húsið var á tímum Önnu Frank. Þar má jafnvel sjá nokkra persónulega muni Önnu og fólksins sem faldi sig fyrir nasistum. Í dag er Hús Önnu Frank eitt mest sótta safn í Amsterdam, en árið 2007 komu rúmlega milljón manns í húsið. Magnús Gylfason. Magnús Gylfason (fæddur 20. júlí 1967) í Ólafsvík Sjónvarp. Magnús Gylfason var einn af álitsgjöfum í markaþætti Stöðvar 2 Sport á árunum 2008-2010 þar til hann hóf að þjálfa Hauka árið 2011. Árangur. Magnús Gylfason var nálægt því að gera ÍBV að Íslandsmeisturum árið 2004 en ÍBV endaði í 2. sæti það árið. Magnús Gylfason tók við ÍBV haustið 2011, í janúar byrjun 2012 varð ÍBV íslandsmeistari í Futsal Deilur. Magnús Gylfason átti í launadeilu eftir að honum var sagt upp sem þjálfara KR árið 2005 á miðju tímabili. ÍBV (2012). Þegar 3. leikir voru eftir að tímabilinu 2012 komust ÍBV og Magnús Gylfason að samkomulagi um að hann myndi segja skilið við þjálfun liðsins. Árangur hafði verið þokkalegur og stóð ÍBV í öðrusæti deildarinnar, en var þó mjótt á munum liða alveg niður í 7.sæti. Samkvæmt pislti á 443.is sagði að stjórnin væri ósátt með Magnús, hann hefði tapað klefanum sem þjálfari. Stjórnin hafi ætlað að rifta samningi félagsins við hann og höfðu þær upplýsingar lekið til hans. Magnús mun þá hafa tekið þá ákvörðun að hætta sem þjálfari liðsins. Heimir Hallgrímsson. Heimir Hallgrímsson (f. 10. júní 1967) í Vestmannaeyjum er fyrrum þjálfari ÍBV í knattspyrnu og núverandi aðstoðarþjálfari íslenska A-landsliðs karla í knattspyrnu. Jafnframt er Heimir sjálfstætt starfandi tannlæknir í Vestmannaeyjum og hefur rekið eigin stofu frá árinu 1994. Guðlaugur Baldursson. Guðlaugur Baldursson (fæddur 8. júlí 1972) ÍBV. Guðlaugur Baldursson þjálfaði ÍBV árið 2006, honum var sagt upp störfum rétt undir lok tímabils. ÍBV féll það árið niður í 1. deild. ÍR. Guðlaugur var ráðinn þjálfari 1. deildarliðsins ÍR árið 2008. 2011 var liðið í fallbaráttu og endaði í 9. sæti. 27. september sama ár tilkynnti Guðlaugur að hann væri hættur sem þjálfari liðsins. Bjarni Jóhannsson. Bjarni Jóhannsson (fæddur 1. janúar 1958) á Neskaupstað er þjálfari KA í 1. deild karla í knattspyrnu. Bylgjulögun. Bylgjuform eða bylgjulögun er lögun bylgju sem ferðast í gegnum efni. Sólfar. Höfundur: Jón Gunnar Árnason (f.1931 d.1989). Staðsetning: við Sæbraut í miðborg Reykjavíkur, 1990. Efni: stál. Stærð: 900 x 1800 x 700 cm. Sólfarið er óður til sólarinnar og felur í sér fyrirheit um ónumið land, von, leit, framþróun og frelsi. Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 efndu íbúasamtök Vesturbæjar til samkeppni um útilistaverk. "Sólfarið" varð fyrir valinu og var frummyndin (álskúlptúr, 42,5 x 88 x 36 cm.) gefin Reykjavíkurborg til stækkunar. "Sólfarið" var sett niður við Sæbraut í fullri stærð og afhjúpað á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst 1990. Verkið er unnið úr hágæða ryðfríu stáli og stendur á graníthellum með svokallaðri ráðhússteypu í stétt umhverfis hellurnar. Verkið er smíðað eftir máti af fríhendisteikningum Jóns Gunnars af verkinu í stækkaðri mynd. Aðstoð við frumvinnu og eftirfylgni veitti Kristinn E. Hrafnsson, myndlistarmaður. Sigurjón Yngvason, tæknifræðingur, sá meðal annars um gerð verklýsingar í náinni samvinnu við Jón Gunnar og hafði eftirlit með smíði og uppsetningu verksins. Reynir Hjálmtýsson hafði yfirumsjón með smíði verksins í Vélsmiðjunni Orra í Mosfellssveit. Hugmyndafræði og tilurð. Í viðtali í Þjóðviljanum, 11. júlí 1987, segir Jón Gunnar eftirfarandi um tilurð Sólfarsins: „Hópur norrænna listamanna kom saman [úti í eyju í finnska skerjagarðinum í maí 1985] í eins konar hópefli og vann óundirbúin verk. Þar upplifði ég söguna um uppruna Íslendinga, sem einnig er sagt frá á sýningunni í Norræna húsinu [heimildaverkið Sól (Saari-vala), Sól Hnífar Skip, Norræna húsið, 1987]: ég fann að ég hafði haft viðdvöl á þessari eyju á ferð minni frá Mongólíu til Íslands fyrir mörg hundruð árum. Eins og þú veist eru til hugmyndir um að Íslendingar séu upprunnir frá Mongólíu. Og ég hef uppgötvað sögu þeirra þjóðflutninga sem er á þessa leið: Fyrir mörgum öldum bjó voldugur herkonungur, segjum að það hafi verið Alexander mikli, miðsvæðis í hinum þekkta heimi. Hann sendi úrvalslið sinna vöskustu hermanna ásamt með nokkrum konum, skrifurum og öðru fylgdarliði í könnunarleiðangra í 4 höfuðáttir til þess að vinna ný og áður óþekkt lönd. Þeir sem fóru í austur gengu stöðugt í átt til rísandi sólar, þar til þeir komu á gresjur Mongólíu, þar sem þeir gleymdu sér í góðum viðurgjörningi. Skrifararnir sem fylgt höfðu flokknum áttu að skrásetja það sem fyrir bar, konungnum til upplýsingar. Þegar menn nokkrum öldum síðar tóku að rýna í hin gleymdu blöð skrifaranna komst þetta fólk að því að það átti sér annað föðurland í vestri, og það ákvað því að taka saman föggur sínar og halda til baka til vesturs í átt til hnígandi sólar. Við héldum í sólarátt svo dögum og árum skipti, ýmist gangandi, ríðandi eða siglandi á skipum. Við uxum að reynslu og þrótti á leið okkar og skráðum niður allt sem á daga okkar dreif. Ég minnist endalausra furuskóga, fjalla og fallvatna, vatna, eyja, og sjávarsunda, þar til við loksins komum að opnu úthafi. Við smíðuðum stór farskip og sigldum vestur í sólsetursátt. Flest okkar höfnuðu á eyju úti í miðju úthafinu, en sumir héldu enn áfram í átt til hnígandi sólar... Þar sem ég upplifði þátttöku mína í þessum leiðangri svo sterkt úti í eyjunni Bockholm í finnska skerjagarðinum hjó ég mynd af sólarskipi á granítstein í flæðarmálinu... sólarskipið felur í sér fyrirheit um ónumið land, og ég hef það líka á þessari sýningu í Norræna húsinu, unnið í ál.“ Staðarval. Sitt sýnist hverjum um staðsetningu Sólfarsins við Sæbraut og setja menn helst fyrir sig að skipið snúi ekki stefninu í vestur, í sólsetursátt, samkvæmt hugmyndafræðinni á bak við verkið. Staðarval Sólfarsins einskorðaðist í upphafi við vesturbæ Reykjavíkur af augljósum ástæðum. Samkvæmt fyrstu tillögum Jóns Gunnars var gert ráð fyrir að Sólfarið stæði á Landakotstúni og stefnið vísaði til miðborgarinnar en skutur að Landakotskirkju. Einnig kom til greina að skipið stæði í Reykjavíkurhöfn á þar til gerðum stöpli. Ánanaust var hins vegar sá staður sem hugnaðist Jóni Gunnari best en áætlanir um breytt skipulag Reykjavíkurborgar komu í veg fyrir það. Endanleg ákvörðun var tekin í samráði við Jón Gunnar um staðsetningu Sólfarsins við Sæbraut á litlu nesi, sem hann kallaði Jónsnes í gríni. Hann vissi vel að þótt Sólfarið yrði niðurnjörvað með stefnið í norður þá skipti það ekki máli. Sólfarið var smíðað eftir fríhendisteikningum Jóns Gunnars og óreglulegt form þess, síbylgjandi línur og ljóðræn hreyfing, sem einkenna svo mörg listaverka hans, gera það að verkum að það er eins og skipið svífi í lausu lofti. Það teygir sig út í rýmið þannig að hafið, himinninn og hugur áhorfandans verður hluti af verkinu. Fyrir vikið er Sólfarið gætt þeim einstaka eiginleika að geta flutt hvern og einn þangað sem hugur hans leitar. Fæst verka Jóns Gunnars eru augljós enda sagði hann sjálfur að öll list ætti að hafa merkingu eða boðskap sem vísaði út fyrir hana sjálfa — áhorfandinn ber alltaf ábyrgð á að túlka verkin á sinn hátt og gerist þannig þátttakandi í mótun listaverksins. Verk Jóns Gunnars gera iðulega slíka kröfu til áhorfandans og veita honum þannig tækifæri til að uppgötva nýjan sannleika með þátttöku sinni. Það er algengur misskilningur að Sólfarið sé víkingaskip og ekkert óeðlilegt að erlendir ferðamenn haldi það — enda eru víkingarnir þeim oft ofarlega í huga þegar þeir heimsækja og skoða Ísland. Jón Gunnar var orðinn mjög veikur þegar hafist var handa við stækkun og smíði Sólfarsins og lést hann í apríl 1989. Sá sem ekki veit betur heldur að verkið hafi orðið til á þessu tímabili og ímyndar sér að það tengist hugleiðingum Jóns Gunnars um dauðann — að Sólfarið flytji sálir í ríki dauðans en það er alrangt. Hugsunin er falleg út af fyrir sig en hún er ekki í samræmi við hugmyndafræði Jóns Gunnars. Sólfarið er draumbátur, óður til sólarinnar og felur í sér von og birtu. "Galdur" (1988) er hins vegar tillaga að útilistaverki við aðalinngang Borgarspítalans í Fossvogi sem Jóni Gunnari var falið að gera á þessu tímabili, þ.e.a.s. eftir að hann veiktist. Verkið vann hann á vinnustofu sem hann kom sér upp í ófullgerðri álmu á spítalanum og útfærði það með teikningum og módeli. Í viðtali í Morgunblaðinu 4.desember 1988 segir Jón Gunnar eftirfarandi um verkið: „Munstrið er græðandi galdratákn. [...] Þríforkur er sóltákn hvar sem er í heiminum og sóltákn er í öllum galdri. [...] Það verður spegilslípað stál í verkinu þannig að endurkast sólarinnar myndast allt í kringum það og sendir geisla inn um glugga sjúkrahússins.“ "Galdur", síðasta verk Jóns Gunnars, felur í sér von og heilun, ekki endalok og dauða — ekkert frekar en "Sólfarið". Hannah Arendt. Hannah Arendt (14. október 1906 – 4. desember 1975) var þýsk-bandarískur stjórnmálahugsuður. Henni er gjarnan lýst sem heimspekingi en hún afneitaði þeim merkimiða sjálf á þeim forsendum að heimspeki fengist við „manninn í eintölu.“ Þess í stað vildi hún bendla hugmyndir sínar við stjórnmálaspeki, þar sem verk hennar snerust um þá staðreynd að „menn en ekki maður“ lifi á jörðinni og búi í heiminum. Hún er einn áhrifamesti hugsuður tuttugustu aldar. Arendt var gyðingur og henni voru hugleiknar ofsóknirnar á hendur gyðingum í Þýskalandi eftir 1933, en það ár sat hún skamma hríð í fangelsi. Arendt flúði land og var svipt ríkisborgararétti árið 1937 og var hún landlaus þar til henni var veittur bandarískur ríkisborgararéttur árið 1951. Hún sá sér farborða meðal annars með blaðamennsku og kennslu og birti jöfnum höndum mikilvæg verk í stjórnmálaheimspeki. Prjónastofan Iðunn. Prjónastofan Iðunn var prjónastofa og verksmiðja sem starfaði frá árinu 1934 til 1988. Viktoría Bjarnadóttir ættuð frá Barðastrandasýslu eignaðist fyrstu prjónavélina árið 1929 og þegar hún fluttist til Reykjavíkur þá vann hún fyrir sér með því að prjóna fyrir fólk og kom sér upp prjónastofu í Lækjargötu og hafði í upphafi eina stúlku í þjónustu sinni en tvær prjónavélar. Hún fluttist svo á Hverfisgötu 4 og síðar á Laugaveg 7. Þegar prjónastofan var fimm ára hafði Viktoría 9 stúlkur í sinni þjónustu og hafði einnig stofnað gólfdreglagerð. Krzeszowice. Krzeszowice er bær í Suður-Póllandi þar sem 10.050 manns búa (2008). Bærinn er staðsettur í Małopolskie-sýslu. Hún er við ána Krzeszówka. Pepsideild karla í knattspyrnu 2012. Árið 2012 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 101. skipti, en 100 ár voru þá frá því að fyrst var keppt á Íslandsmótinu (fyrsti leikurinn var haldinn þann 28. júní 1912). Skagamenn komu aftur upp eftir fjögurra ára fjarveru ásamt Selfyssingum, en þeir hafa aðeins einu sinni áður leikið í efstu deild, árið 2010. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í 6. sinn. Degnepoll. Degnepoll eða Deknepollen er þorp í sveitarfélaginu Vågsøy í Sogn og Firðafylki í Noregi. Kyrrahafshvítrækja. Kyrrahafshvítrækja (fræðiheiti: "Litopenaeus vannamei" áður "Penaeus vannamei") er hvítfætt rækjutegund sem lifir í Kyrrahafi. Útbreiðsla. Kyrrahafshvítrækjan finnst villt við vesturströnd Suður-Ameríku, frá Sonora-fylki í Mexíkó við Kaliforníuflóa niður til Tumbles sem er nyrsta fylki Perú. Almennt lifir rækjan á svæðum þar sem hitastig er meira en 20°C allt árið. Hún hrygnir úti á opnu hafi en lirfurnar fara upp að ströndinni og þegar rækjan er að stækka fer hún jafnvel inn í sjávarlón og inn á fenjaskóga. Svo heldur hún aftur út á haf til að hrygna sex til sjö mánuðum eftir að hún klekst út. Þá er rækjan orðin 30 - 45 grömm og 18 – 23 sentimetrar. Hún lifir bæði í sjó og ísöltu vatni frá 0,15 til 25 ppm seltu. Kjörhitastigið er 25°C – 30°C Byrjað var að ala rækjuna í Suður-Ameríku árið 1969 eða tókst þá að klekja henni út og ala 10 tonn. Svo jókst eldið jafnt og þétt en 1980, voru alin 8000 tonn. Nú er hún komin í eldi út um allan heim, aðallega í Asíu og Suður-Ameríku. Árið 2010 var hún orðin algengasta rækjutegundin í eldi í heiminum og framleiðslan var um 2,3 milljónir tonna 2007 og 2008. Veiðar og eldi. Veiðin hefur verið nokkuð stöðug síðustu ár um 1200-1600 tonn.. Mikilvægi hennar felst hinsvegar í því að þessi tegund ber höfuð, búk og herðar yfir aðrar rækjutegundir í eldi. Árin 2007 og 2008 voru framleidd um 2,3 milljónir tonna af rækjunni, sem er meira en helmingi meira en af öðrum tegundum í eldi í heiminum. Tegundin er því sú algengasta sem er í eldi í heiminum í dag. (FAO, Global Aquaculture Production 1950-2008) Eldi. Eldisstofn sem valinn hefur verið úr náttúrunni er haldið við í seiðaeldisstöð. Þar er hrygnir rækjan og eggin eru frjóvguð í tank yfir nótt og svo eru þau færð í útungunartank í 12-18 tíma. Þaðan fara lirfurnar í grunna bakka þar sem lirfurnar eru aldar á smæstu gerð af þörungum (microalgae) og artemíu í mánuð. Þaðan eru þær fluttar í tjarnir 0,7 – 1,2 metra djúpar og settar daglega á þurrfóður sem sekkur á botninn, rækjurnar nærast á fóðrinu af botninum í tjörnunum og fjóra til sex mánuði. Þá er lífmassinn í tjörninni orðinn frá 500 kg á ha/Tjarnar þar sem menn velja að hafa rúmt um rækjuna í (extensive) eldi, með lægri fóðurstuðul 1,2 á móti 1 kg af rækju og 2 uppskerur á ári og enga loftun eða dælingu. Allt upp í 50-60 tonn á hektara í (super intensive) eldi. Þar er fóðurstuðullinn frá 1,6 upp í 2,6 á móti 1 kg af rækju. Það þarf dælingu á vatni og mikla loftun, um 63% var alin í íssöltu vatni, 11% í vatni og 26% í sjó árið 2008. Tjarnirnar eru tæmdar og rækjurnar eru síaðar í net þegar vatnið rennur úr tjörnunum. Rækjurnar eru settar í kör og ísaðar og annað hvort settar á markað eða í verksmiðjur sem heilfrysta rækjuna eða pakka henni í neytendapakkningar. Tjarnirnar eru svo hreinsaðar og þurrkaðar áður en nýr eldisstofn er settur í tjarnirnar. Til að hindra að rányrkja sé stunduð af öðrum dýrum og til að stemma stigu við utanaðkomandi sjúkdómum verður að girða tjarnirnar af og á sumum stöðum setja net yfir tjarnir til að halda fuglum frá. Framleiðslukostnaður er frá 2,5 til 3 dollarar á kíló, en það fer allt eftir hvaða leið er valin. Eldiskostnaðurinn er lægstur þar sem tjarnirnar eru með minnstum þéttleika en verður meiri þegar það er meiri þéttleiki í tjörnunum og þörf á loftun verður meiri. Fóður. Lítil próteinþörf Kyrrahafshvítrækjunnar er ein helsta ástæðan fyrir því að hún sé svona útbreidd í eldi. Fóðurkostnaður er minni fyrir hana vegna þess að prótein í fóðri er einungis 18-35% á móti 36-42% fyrir aðrar rækjutegundir til dæmis P. Monodon sem er næst algengasta tegundin í eldi. Fóðrið samanstendur af fiskimjöli, soyabaunamjöli,hveiti, lýsi, maísdufti, samsettum vítamínum. Samsettum næringarefnum. Bjórger, rækjuskelja lecitíni, fosfórsalti, kalki og choline klóríði. Fóðurverðið er frá $0,6 – 1,1 á kg, lægst í Suður-Ameríku og hæst í Asíu. Fóðurstuðlar frá 1,2 – 1,8 eru algengastir til að framleiða eitt kg af rækju. Markaðir. Rækjur eru ein vinsælasta sjávarafurðin á markaði í heiminum. Rækjur þykja góður matur á hvers manns disk og eru þær borðaðar hráar og eldaðar af öllum kynstofnum og trúarhópum. Stærstu markaðir fyrir rækju eru í Bandaríkjunum, Japan og á meginlandi Evrópu. Í Bandaríkjunum er ársneysla í kringum 1,9 kg á mann. Bandaríkjamenn flytja inn um hálfa milljón tonna árlega, um það bil 80% eldisrækju. Af heildarinnflutningnum eru 30% flutt inn pillað. Síðustu ár hefur flætt inn á markaðinn ódýr rækja frá Kína, þess er ekki getið hvað verðið á þeirri rækju. Hins vegar eru gögn um verð á rækjunni í Ástralíu á 5,5 - 6,5 aud/ cif (1000 - 1170 kr íslenskar) á hafnarbakkanum í Ástralíu. Hún fæst á 9 - 14 aud (1650 – 2500 kr.) úti í búð. (R.Gillet, 2008) Er þetta væn eldistegund á íslandi? Það sem þarf til er í megin atriðum: 25°C – 30°C ísalt vatn eða sjór sem blandaður hefur verið með hitaveituvatni. Tjarnir 1 – 1,2 metra djúpar. Samkvæmt upplýsingum frá fóðurverksmiðjunni Laxá væri fóðurverðið um 140 kr á kg. Dýrt er á íslandi að lækka próteinhlutfallið niður fyrir 40 % í fóðrinu. Þá þarf að kaupa hveiti frá útlöndum sem uppfyllingarefni í fóðrið. Spænskur makríll. Spænskur makríll (fræðiheiti: "Scomber japonicus") er uppsjávarfiskur af makrílætt. Hvar lifir Makríllinn og sögulegur bakgrunnur hans. Spænskur makríll er mjög líkur Atlantshafs makrílnum ("scomber scombrus") hann er eilítið samanreknari og þykkari um miðbolinn og liturinn er grænn á baki með um 30 hlykkjóttum dökkum skárákum eftir endilöngu bakinu. Hliðarnar eru silfurgljáandi. Kviðurinn er silfurgljáandi. Spænskur makríllnn er aðallega strandfiskur, uppsjávarfiskur og stundum miðsævisfiskur sem er oftast torfufiskur. Hans hefur orðið vart frá yfirborði niður á 250-300 metra dýpi. Með hækkandi hita sjávar er fiskurinn að færast norðar á sumrin á norðurhveli jarðar og sunnar á veturna á suðurhveli jarðar. Fiskurinn hrygnir við 15 °C – 20 °C sem þýðir að hrygningartíminn er breytilegur eftir heimsálfum og hafsvæðum. Til dæmis undan ströndum Perú hrygnir hann frá janúar – maí og í september. Við Japan frá apríl til ágúst, þó mest í maí. Hrygning við Kaliforníuskagann er frá mars til október með hátindi í apríl og ágúst. Spænskur makríllnn étur krabbaflær, önnur smákrabbadýr, smáfiska og smokkfisk. Spænskur makríllnn getur orðið allt að 50 cm, algengastur um 30 cm (47,5 cm fiskur vigtaði 1,1 kg). Hann finnst mjög víða við strendur heimsins. Hann finnst í Kyrrahafi við strendur Ameríku og Suður-Ameríku og frá Japan suður til Indónesíu. Í Atlantshafi frá Biskajaflóa suður með til Suður-Afríku og að Mósambík. Hann er líka í Miðjarðarhafi og nær alla leið inn í Svartahaf. Hann er einnig í við Atlanshafsströnd Ameríku niður í Karíbahaf og svo við strendur Brasilíu og Argentínu svo er hann líka í Rauðahafinu og í Adenflóa við Sómalíu og Yemen. Veiðar. Það er þónokkuð veitt af spænskum makríl í heiminum. Veiðarnar náðu hámarki árið 1978 þá voru veiddar 3,5 milljónir tonna. Síðan þá hefur veiðin verið minni og náði lágmarki 1991 tæp milljón tonn. Síðan þá hefur veiðin verið rokkandi frá 1,4-2 milljónum tonna og hefur verið nokkuð stöðug síðustu tíu ár. Mest er veitt á Svæði 61 (Pacific North West) en það svæði er með lungað úr veiðinni árið 2008 eða um 72%. Á svæði 87 (Pacific South East) sem nær frá Kólumbíu og suðurúr til Argentínu var veiðin um 13,3 heildarveiðinnar 2008. Næst þar á eftir var á svæði 34 (Atlantic Eastern Central) frá Gíbraltarsundi suður til Kamerún. Með um 10,6% veiðinnar árið 2008. Japanir hafa verið að veiða mest af þessarri tegund í gegnum tíðina en nú á síðustu árum hafa Kínverjar verið að sigla fram úr þeim í veiðum og eru núna stærsta veiðiþjóðin með um 600 þúsund tonn og Japan 514 þúsund tonn og Suður-Kórea með um 188 þúsund tonn. Chile, Perú og Marokkó eru einnig stórir og bera uppi veiðina á hinum svæðunum. Þess má geta hér að Íslendingar eru með skráðan afla á sig árið 1997 heil 28 tonn. Aðalveiðiaðferðin er með nót og nótin er almennt mest notuð meðal allra þjóða. Þó eru aðrar aðferðir notaðar ýmsar gerðir af netum og svo náttúrulega flottroll en það er ekki mikið notað. Hann er yfirleitt veiddur að nóttu til og er hann þá laðaður í netið með ljósi, og þá með dragnót svokallaðri. Dragnót samanstendur af pokalaga belg úr neti og út frá honum liggja stórir vængir. Frá vængjunum liggja dragstrengir. Dragstrengirnir liggja utanum við fiskinn og smala honum í netið. Einnig er notast við reknet. Reknet flýtur frjálst þar sem baujur eru festar efst svo netið fljóti og þungi hafur að neðan þannig að netið haldist lóðrétt í sjónum. Botnvarpa er notuð og er það net sem er eins og poki sem látið er liggja í botninum og dregið svo eftir skipinu. Þegar áhveðið tog hefur náð á netið er það dregið inn. Hægt er að veiða Chub makríllinn allan ársins hring en er mest veiddur frá júní til nóvember. Markaðir. Makríll er alls staðar vinsæll og elskaður matfiskur. Verðið á honum er þokkalega hátt verðin fyrir frosinn spænskan makríl eru frá $550-600 á tonn FOB fyrir heilann frosinn fisk. Mest af makríl á markaði í dag er heill (e. "Whole Round") frosinn í 10 kg öskjur. Oftast er fiskinum raðað í öskjur og frystur í lágréttum frystum. Svo sér maður líka makríl frystan í lóðréttum plötufrystum pokaður. Einnig er á markaði flök fryst í 10 kg, framleiðendur eru Spánverjar og Kóreumenn Stærsti markaðurinn er í Japan, þeir eru einnig atkvæðamiklir í veiðum. Svo er Kína gríðarlega stór markaður fyrir makríl. Einnig Nígería, Holland og Þýskaland. Næringargildi. Kjötið á Chub er með mjög hátt prótein og fituinnihald er breytilegt eftir stærð og æxlun tímabils. Fita er með hátt hlutfall af omega-3 fitusýrum, sem mynda 26% af öllum fitusýrum. 100gr af litum hluta af Chub er ríkur af vítamín A, B1m C og D og er talið að um 116 kcal séu í 100gr. Kjötið verður að vera fast í sér, augun skýr og kúpt og litirnir bjartir. Mýkra kjöt er örlítið feitara og er hann eins bragðgóður og annar makríll. Oftast er hann borðaður ferskur en einnig er hægt að finna hann frosinn eða pæklaður. Þráttarefnishyggja. Þráttarefnishyggja eða díalektísk efnishyggja er marxískt afbrigði af kenningum heimspekingsins Hegels um díalektík, það er samspil gagnvirkra krafta, ásamt efnishyggjukenningu Feuerbachs. Marx tók — að eigin sögn — díalektíkina frá Hegel en hafnaði hughyggju hans, og setti í staðinn efnishyggju Feuerbachs en hafnaði metafýsíkinni sem Feuerbach aðhylltist. Þannig leit Marx svo á að (a) hið efnislega væri undirstaða hins andlega eða hið hlutlæga undirstaða hins huglæga og (b) að alla hluti bæri að skoða í samhengi við hvern annan en ekki að skoða þá sem félagslega, sögulega eða á annan hátt einangraða frá öðru. Að mati margra er þráttarefnishyggja kjarninn í kenningum Karls Marx. Samkvæmt henni, og söguspekilegri hlið hannar, sögulegri efnishyggju, vex hvert efnahagskerfi upp í hámarks skilvirkni en þegar henni er náð skapast innri þversagnir og veikleikar sem draga það til falls, og nýtt og þróaðra hagkerfi þjóðfélagsstig tekur við af því. Þráttarefnishyggja felur í sér að eðli átaka andstæðra stétta í ólíkum samfélögum er alltaf það sama, barátta hinna kúguðu og fulltrúa þróaðra efnahagslífs gegn forréttindastéttum, þar sem afstaða stéttanna hverrar gagnvart annarri fer eftir eðli hagkerfisins sem þær búa við. Þorpið (bók). Fyrsta verk Jóns sem var gefið út var kvæðið „Sumardagur í þorpinu við sjóinn“ sem birtist í blaðinu Rauðir Pennar árið 1935. Þetta kvæði birtist svo seinna í hans fyrstu bók „Ég ber að dyrum“ sem kom út 1937. Þessi bók seldist í 400 eintökum og var henni mjög vel tekið. Næsta bók Jóns var „Stund milli stríða“ sem kom út árið 1942. Þegar Jón fluttist til Svíþjóðar gat hann gefið sér tíma til að skrifa. Þar orti hann sína þekktustu ljóðabók sem var bókin Þorpið. (http://www.gopfrettir.net/gopfrett/hofundar/JonUrVor/Sigurros2010.htm) Þorpið var fyrsta formbyltingarverk íslenskrar ljóðlistar sem kom út árið 1946. Þar þverbrítur Jón hið hefðbunda form ljóða. Hann hefur enga reglu í ríminu, ljóðstafasetnignu og hrynjanda þar sem það finnst í ljóðum hans. Þetta er fyrsta safn óbundinna ljóða, sem á sínum tíma voru kölluð "atómljóð" og ollu miklu fjaðrafoki. Hann er því frumherji þessa ljóðstíls sem er orðinn rókjandi í íslenskum ljóskap Í Þorpinu er einum flokki ljóða gefinn mest athygli en í honum eru ljóð ort frá sjónhorni lítils stráks sem ólst upp hjá fósturforeldrum. Í kennslubókinni „Tíminn er eins og vatnið“ segir frá því að Jón hafi gefið það út að hann hafi verið strákurinn í hlutverki ljóðmælanda. „Bók þessi fjallar um uppvaxtarár mín og æsku, lífið og lífsbaráttuna í þorpinu, vegavinnusumar fjarri átthögum, um venzlafólk mitt og aðra, sem vour með á einhvern hátt nákomnir... allsstaðar er farið frjálslega með staðreydnir, enda þótt hvergi sé í aðalatriðum hvikað frá hinu rétta.“ Þorpið er einhver þekktasta og markverðasta ljóðabók sem gefin hefur verið út á Íslandi og hefur notið fádæma vinsælda allt frá því hún kom fyrst út Loftur Ólafsson. Loftur Ólafsson (fæddur 1953) er íslenskur kylfingur. Hann vann Íslendsmeistaratitilinn í golfi 1972. Of Monsters and Men. Of Monsters and Men er íslensk hljómsveit sem spilar þjóðlagapopp. Árið 2010 vann bandið Músíktilraunir, sem er árleg keppni hljómsveita á Íslandi. Meðlimir hljómsveitarinnar koma úr Keflavík og Garðabæ eru Nanna Bryndís Hilmarsdóttir (söngur/gítar), Ragnar „Raggi“ Þórhallsson (söngur/gítar), Brynjar Leifsson (gítar), Arnar Rósenkranz Hilmarsson (trommur), Árni Guðjónsson (píanó/harmonika), Páll Kristjánsson (bassi). Hljómsveitin byrjaði 13. mars 2012 í Norður-Ameríku túr og var uppselt á alla 20 tónleika þeirra þar. Hljómsveitin tók stutt stopp í apríl en byrjaði aftur að túra 23. apríl í Evrópu og fara svo aftur til Bandaríkjanna 5. maí þar sem hljómsveitin er með bókanir um sumarið. Saga hljómsveitarinnar. Hljómsveitin var byggð upp úr mismunandi sóló verkefnum, upphafið var þegar Nanna Bryndís ákvað að bæta við sitt sóló verkefni Songbird. Hljómsveitin spilaði á Músíktilraunum með fjóra meðlimi, Nönnu Bryndísi, Ragga, Brynjari og Arnari. Eftir Músíktilraunir bættu þau við Árna og Kristjáni og byrjuðu að spila á tónleikum og vinna að nýjum lögum. Að spila á Iceland Airwaves var hluti af verðlaunum frá Músíktilraunum og það var þar sem bandaríska útvarpsstöðin frá Seattle KEXP tók upp lagið Little Talks frá stofutónleikum Of Monsters and Men. My Head Is An Animal. My Head Is An Animal er fyrsta plata bandsins og kom út í september 2011 á Íslandi undir plötufyrirtækinu Record Records og í apríl 2012 í Bandaríkjunum undir Universal. Platan hefur farið í gullsölu á Íslandi og fékk hljómsveitin gullplöturnar afhentar um jólin 2011 frá Record Records. Platan fór beint í sjötta sæti bandaríska Billboard-listans og seldi hljómsveitin 55 þúsund eintök í fyrstu viku í sölu í Bandaríkjunum. Engin íslensk hljómsveit hefur náð svona hátt áður en sala á iTunes telur mikið. Íslenska útgáfan. Öll lög samin af Of Monsters and Men Bandaríska útgáfan. Öll lög samin af Of Monsters and Men Into the Woods (2011). Þann 20. desember 2011 gaf bandið út smáskífuna Into The Woods sem innihélt fjögur ný lög með sveitinni. Þessi lög enduðuð svo á bandarísku útgáfu My Head Is An Animal. Tímaritið "Rolling Stone" hafði orð á því eftir útgáfu plötunnar að Of monsters and men væri hið nýja Arcade Fire og Mumford & Sons Íslands. Into the Woods hefur selst í yfir 50.000 eintökum síðan hún kom út í desember í Bandaríkjunum. Little Talks — Myndband. Bandið gaf út myndband við lagið Little Talks snemma árs 2012 og var myndbandinu stýrt af Mihai Wilson. Nanna Bryndís segir um lagið að það sé ástríkt samtal á milli tveggja einstaklinga, sem þó virðast ekki ná að tala saman almennilega. Það má hugsa sér gamalt hús með sál. Fólkið hafði lifað lífinu sínu þar saman en konan er ný fallin frá. Lagið er samtal en það má segja að önnur persónan sé ekki að heyra í hinni. Myndbandið er í takt við þetta, það er dularfullt og tekur mann inn í skemmtilegt undraland og mynnir allra mest á stuttmynd og mynnir áhorfendan á það að það á alltaf að skilja eftir smá pláss fyrir ímyndunaraflið. Brotahöfuð. "Brotahöfuð" er skáldsaga eftir Þórarin Eldjárn. Í henni er rakin saga Guðmundar Andréssonar, lærdómsmanns og samviskufanga á 17. öld. Guðmundur er þekktastur fyrir að hafa dottið út um glugga á Bláturni, einu rammgerðasta fangelsi Dana, og lent á hallarþaki konungs. Brotahöfuð líkist sjálfsævisögum í byggingu en saga Guðmundar eins og hún er rakin í Brotahöfði á sér einnig samsvörun í ævisögu séra Jóns Steingrímssonar eldklerks. Dælustöðin að Reykjum. Dælustöðin að Reykjum (einnig "Dælustöð Mosfellsbæjar") er dælustöð í Reykjadal, Mosfellsbæ. Hún var reist 1940 og tekin í notkun 1. desember ári síðar þegar að vatni var fyrst dælt frá stöðinni. 15 kílómetra langur stokkur var lagður frá dælustöðinni í hitaveitutanka Öskjuhlíðar.Höskuldur Ágústsson fæddur 7. nóvember 1905 látinn 24. nóvember 1996 var yfirvélstjóri stöðvarinnar og Hitaveitu Reykjavíkur 1. desember 1943 – 11. ágúst 1975. byrjað var að dæla fyrst frá stöðinni 1. desember 1943 en fyrst voru fengir Bormenn Íslands til að bora eftir vatninu. Höskuldur lét planta trjám í kringum svæðið svo var hús fyrir ofan stöðina sem þeir bjuggu í því þeir þurftu að vera sem næst stöðinni ef eitthvað bilaði. Bayern München. Bayern München (fullt nafn: Fussball-Club Bayern München e.V.) er íþrótta- og knattspyrnufélag frá þýsku borginni München í Bæjaralandi. Knattspyrnudeild karla hefur oftar orðið þýskur meistari og bikarmeistari en nokkurt annað félag. Á alþjóðlegum vettvangi er Bayern München einnig meðal sigursælastu liðum Evrópu, en það er eitt fjögurra liða sem unnið hefur alla þrjá Evróputitla sem í boði eru (ásamt FC Barcelona, Juventus og Ajax Amsterdam). Stofnun og fyrstu árin. Fyrsti deildarleikurinn fór fram gegn Nürnberg árið 1901 27. febrúar 1900 fór fram fundur knattspyrnufélagsins MTV München á veitingastað nokkrum í München. Menn voru ósáttir um framhald félagsins, enda var það nýbúið að fá neitum um inngöngu í knattspyrnusambandið. 11 fundarmenn yfirgáfu fundinn og settust saman á veitingastaðnum Gisela. Þar stofnuðu þeir nýtt knattspyrnufélag sem hlaut heitið Bayern München. Fyrsti formaður hins nýja félags varð Franz John. Félagslitirnir urðu blár og hvítur. Mikið verk var framundan við að hóa saman knattspyrnumenn og mynda starfhæft félag. Liðið fékk æfingaaðstöðu á vellinum við Schyrenplatz, sem enn er til í dag. Fyrsti leikur Bayern München fór fram í mars 1900, en þá var leikið við 1. Münchener FC 1896 (sem ekki er til lengur í dag). Bæjarar unnu leikinn 5:2. 1906 var ákveðið að sameinast öðru liði, Münchener Sport-Club. Nýja félagið hlaut heitið F.A. Bayern im München SC. Búningar breyttust við það í hvítar treyjur og rauðar buxur. Frá þessum tíma kom hugtakið ‚die Roten,‘ sem merkir "hinir rauðu". Í framhaldið varð liðið besta knattspyrnulið borgarinnar, en í suðurhluta Þýskalands voru ýmis önnur lið talsvert betri. Ekki var til nein samhæfð deild á þessum tíma. 1907 flutti liðið á nýjan stað við Leopoldstrasse í München. 1910 komst liðið í fyrsta sinn í úrslitakeppni í suðurþýskum fótbolta og varð í öðru sæti á eftir Karlsruhe. Á sama ári var fyrsti bæjarinn, Max Bablonsky, valinn í landsliðið. Fyrsti titillinn. Meðan heimstyrjöldin fyrri geysaði var ekki keppt í knattspyrnu. Næstu ár á eftir voru keppnir haldnar óreglulega. Bayern München skildi við Münchener SC og sameinaðist öðru liði, en skildi einnig við það 1924. Frá og með þeim tíma var félagið nógu burðugt til að standa eitt og sér sem FC Bayern München. Ráðinn var skoskur þjálfari, Jim McPherson. Bæjarar urðu á þessum tíma sterkt félag og voru taldir með betri liðum í Bæjaralandi, á eftir félögum eins og Nürnberg og Fürth. 1926 spiluðu Bæjarar í fyrsta sinn um suðurþýska meistaratitilinn gegn Fürth, en síðarnefnda félagið var það besta í Þýskalandi á þessum tíma. FC Bayern München vann í dramatískum leik 4:3 og var leiknum í München lýst beint í útvarpinu. Þetta var fyrsti bikar Bæjara. Þeir voru hins vegar slegnir út í þýsku keppninni, en þá var í gangi útsláttarkeppni milli félaga. 1928 urðu Bæjarar á ný suðurþýskir meistarar og komust í fyrsta sinn í úrslit í þýsku keppninni. Úrslitaleiknum töpuðu Bæjarar hins vegar fyrir HSV 2:8. Þýska meistaratilitill náðu Bæjarar ekki fyrr en 1932, en þá unnu þeir Eintracht Frankfurt í úrslitaleiknum 2:0. Stríð. Strax árið eftir komust nasistar til valda í Þýskalandi. Sökum þess að forseti og þjálfari Bayern München voru báðir af gyðingaættum, urðu þeir að yfirgefa félagið, sem litið var hornauga af nasistum. Í kjölfarið átti félagið erfitt uppdráttar. Deildunum í Þýskalandi var skipt í minni einingar til að félögin þyrftu ekki að ferðast langar leiðir. Bæjarar lentu í suðurbærísku deildinni og við lá að þeir féllu í enn minni deild. Á hinn bóginn var félagið flutt til aðstöðu við Grünwalder Strasse, þar sem það var til húsa fram að Ólympíuleikunum 1972. Völlurinn eyðilagðist í loftárásum 1943 og var ekki leikfær fyrr en eftir stríð. Eftirstríðsárin. Franz Beckenbauer í þýsku landsliðstreyjunni 1974 Við lok heimstyrjaldarinnar voru öll knattspyrnufélög í Þýskalandi leyst upp og urðu þau að sækja um leyfi til að fá að starfa á ný. Leikmenn Bayern München voru kallaðir saman og fyrsti leikur félagsins var vináttuleikur við FC Wacker München 24. júní 1945. Erfiðleikar voru margir. Nær árlega var skipt um þjálfara og velgengnin lét á sér standa. Félagið lék í Oberliga Süd (sem samsvarar þriðju deild) og féll loks í neðri deild 1955. Þar með hafði félagið náð botninum. Bæjarar náðu hins vegar að komast upp í Oberliga strax næstu leiktíð. Hápunktur sjötta áratugarins náðist 1957 er félagið varð bikarmeistari. Eftir fallið var ákveðið að taka ekki þátt í bikarkeppninni, en þjálfaranum, Willibald Hahn, tókst að sannfæra stjórnina um ágæti keppninar. Bæjarar unnu hvern andstæðinginn á fætur öðrum. Í undanúrslitunum sigruðu þeir Saarbrücken 3:1 og fengu Fortuna Düsseldorf í úrslitunum. Sú viðureign fór fram 29. desember 1957 í Ágsborg. Á 78. mínútu tókst Rudi Jobst að skora fyrir Bæjara og reyndist það eina mark leiksins. Fyrsti bikarinn var í höfn. En ekki tókst að láta kné fylgja kviði, því Bæjarar enduðu um ofanverða Oberliga næstu árin. Tímabilið 1962-63 tók Bayern München í fyrsta sinn þátt í alþjóðlegri keppni, Messestadt-Pokal (bikarkeppni sýningarborga). Félaginu tókst að komast í fjórðungsúrslit, en tapaði þar fyrir Dinamo Zagreb. Þetta leikár fór hins vegar í því að komast í nýja deild sem átti að stofna 1964, Bundesliguna. Aðeins bestu félögin áttu þátttökurétt í henni. Bæjarar náðu sér aðeins í tvo nýja leikmenn til styrkingar. Annar þeirra var 18 ára markvörður, Sepp Maier, sem átti eftir að leika með félaginu og í landsliðinu áratugum saman. Þegar uppi var staðið lentu Bæjarar í þriðja sæti í Oberliga og dugði það ekki til. Þýska Bundesligan var stofnuð 1964 og var Bayern München ekki með. Þeir voru í nýstofnaðri Regionalliga Süd (sem samsvarar þriðju deild). Bundesligan. Í upphafi leikárs 1964 var stefnan tekin á Bundesliguna. Til liðs við félagið kom ungur 18 ára piltur að nafni Franz Beckenbauer. Hann skoraði strax í fyrsta leik sínum fyrir félagið, sem sigraði St. Pauli frá Hamborg 4:0. En allt kom fyrir ekki. Í lok leiktíðar 1965 vantaði Bayern München aðeins eitt stig til að komast í Bundesliguna. Því var ákveðið að reyna á ný. Til að fá góðan markaskorara var ákveðið að fá ungan pilt sem þegar hafði látið að sér kveða, Gerhard Müller (jafnan kallaður Gerd Müller). Hann þótti stuttur í loftinu og svolítið feitlaginn. Fæstir trúðu því að hann yrði félaginu til framdráttar og var jafnvel kallaður 'kleines dickes Müller' ("litli feiti Müller"). Í fyrsta leik sínum 18. október 1964 skoraði hann gegn Freiburger FC. Og hann hélt áfram að skora. Í lok leiktíðar 1965 var Bayern München sigurvegari Regionalliga Süd. Markahlutfall félagsins var einstakt, 146:32. Gerd Müller skoraði 33 mörk í aðeins 26 leikjum. Með sigrinum hlutu Bæjarar þátttökurétt í útsláttarkeppni um tilverurétt í Bundesligunni. Þeir unnu Tennis Borussia Berlin 8:0 og stigu upp. Bayern München var loks komið í deild hinna bestu og átti eftir að halda sæti sínu í Bundesligunni um ókomin ár. Fyrsti leikur félagsins í deild hinna bestu tapaðist gegn 1860 München 0:1. En menn bitu á jaxlinn og eftir fjórar umferðir voru Bæjarar komnir í fyrsta sætið, í fyrsta sinn í sögunni. Í lokin varð félagið í þriðja sæti og mátti vel við una. En Bæjarar voru komnir á bragðið. Í bikarkeppninni tókst þeim að landa sínum öðrum bikar með sigri á Meidericher SV (Duisburg í dag) í úrslitaleik 4:2. 1967 spiluðu Bæjarar því í Evrópukeppni bikarhara, þar sem félaginu tókst að komast í úrslit, öllum að óvörum. Þar mættu þeir Glasgow Rangers frá Skotlandi og náðu að knýja fram sigur með marki í framlengingu, 1:0. Fyrsti Evrópubikarinn var í höfn. Í deildinni náði félagið hins vegar aðeins sjötta sæti, en sigraði þó í bikarkeppninni í annað sinn í röð með sigri á HSV 4:0 í úrslitaleik. Þetta var þriðji bikar félagsins á 12 mánuðum. Í kjölfarið var Franz Beckenbauer kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. Í leiktíðinni 1967-68 var Bayern München slegið út í Evrópukeppninni af AC Milan í undanúrslitum. Í deildinni náði félagið ekki nema fimmta sætið. Stórveldið Bayern München. Allianz Arena er heimavöllur Bayern München Í leiktíðinni 1968-69 varð Bayern München í fyrsta sinn þýskur meistari í Bundesligunni. Sömuleiðis vann félagið bikarkeppnina með sigri á Schalke 04 í úrslit 2:1. Þetta var í fyrsta sinn sem sama félagið landaði ‚tvennunni‘ síðan Schalke gerði það 1937. Í mars 1970 tók Udo Lattek við sem þjálfari félagsins. Undir hans stjórn áttu Bæjarar mikilli velgengni að fagna. Af nýjum liðsmönnum Bæjara má nefna Uli Höness og Paul Breitner. 1970 lentu Bæjarar í öðru sæti í deildinni, 1971 urðu þeir bikarmeistarar á ný og lönduðu öðru sæti í deildinni. Þeir spiluðu 14 leiki í röð án taps, sem þá var einstakt. Af 101 marki skoraði Gerd Müller 40. Einn mesti sigur í Bundesligunni vannst gegn Borussia Dortmund, en Bæjarar sigruðu 11:1. 1972-74 urðu Bæjarar þýskir meistarar þrjú ár í röð. Á þessum árum stemplaði félagið sig rækilega inn sem eitt besta félag Þýskalands, ásamt Borussia Mönchengladbach. Þessi tvö félög voru á þessum árum í mikilli baráttu um nær alla titla. 1972 flutti Bayern München í Ólympíuleikvanginn, en það ár hafði borgin München haldið Ólympíuleikana. 1974 urðu Bæjarar í fyrsta sinn Evrópumeistarar er þeir sigruðu Atletico Madrid í úrslitaleik. 1975 vörðu þeir titil sinn með sigri á Leeds United. Þá var nýgenginn til liðs við Bæjara ungur piltur að nafni Karl-Heinz Rummenigge sem reyndist mikill markaskorari. 1976 sigruðu Bæjarar enn í Evrópukeppninni, að þessu sinni gegn Saint-Étienne í úrslitum (eftir að hafa sigrað Real Madrid í undanúrslitum). Þetta var þriðji Evrópumeistaratitill Bæjara. Aðeins tvö önnur félög höfðu sigrað keppnina þrisvar fram að þessu: Real Madrid og Ajax Amsterdam. Næstu tvö árin voru mögur í sögu Bæjara. 1978 lentu þeir til dæmis aðeins í 12. sæti í deildinni, sem er versti árangur félagsins í Bundesligunni. Nokkrir þekktir leikmenn yfirgáfu félagið. Franz Beckenbauer fór til Bandaríkjanna, Gerd Müller sömuleiðis og Uli Höness fór til Nürnberg. Höness sneri aftur til Bæjara 1979, en þá sem framkvæmdarstjóri, aðeins 27 ára gamall. Í júlí 1979 slasaðist auk þess markmaðurinn Sepp Maier svo illa í bílslysi að hann neiddist til að hætta allri knattspyrnu. Rummenigge og Breitner héldu þó áfram að skora og voru ein marksælasta tvenna í þýskum fótbolta. Árangurinn sneri aftur 1980 með þýska meistaratitlinum. Á níunda áratugnum varð Bayern München sex sinnum þýskur meistari, á tíunda áratugnum fimm sinnum og á fyrsta áratug 21. aldar urðu Bæjarar aftur sex sinnum meistari. Lélegasti árangur félagsins í þessi 30 ár var fjórða sætið, með tveimur undantekningum (10. sætið 1992 og 6. sætið 1995). Bayern München er því langsigursælasta félagslið Þýskalands frá upphafi. Sömu 30 ár voru hins mögur í alþjóðlegri knattspurnu. Bayern München léku nær öll ár í Meistaradeildinni eða öðrum alþjóðlegum keppnum, en tókst ekki að landa nema tveimur bikurum á þessum árum. Þeir sigruðu Meistaradeildina 2001 eftir sigur á FC Valencia, og þeir sigruðu heimsbikarinn á sama ári með sigri á Boca Juniors frá Argentínu. Einkennandi fyrir félagið voru hin tíðu þjálfaraskipti. Margir þekktir landsliðsmenn léku með félaginu eftir umbrotin 1979. Þar má nefna Lothar Mattäus, Andreas Brehme, Michael Ballack, Mario Basler, Jürgen Klinsmann, Stefan Effenberg og Oliver Kahn. Einn Íslendingur hefur leikið með félaginu, Ásgeir Sigurvinsson 1981-82. 1991 sneri Franz Beckenbauer ftur til félagsins og var forseti þess í tvo áratugi. Innanlands. Árið 1983 var keppnin ekki stofnuð sem slík, en haldin var óopinber keppni sem Bayern München sigraði. Alþjóðlegir. Í fjögur skipti til viðbótar komst Bayern München í úrslit. Kvennaliðið. Kvennalið Bayern München var stofnað 1970 og var strax meðal bestu liða. 1976 urðu konurnar þýskir meistarar. Fram að 1990 urðu þær 19 sinnum í röð bærískir meistarar. 1990 var kvennadeild Bundesligunnar stofnuð. Þar stóðu konurnar sig ekki nógu vel og féllu í neðri deild, þar sem þær spiluðu í átta ár. Árið 2000 komust þær aftur í Bundesliguna, en hafa ekki náð að sigra deildina. Besti árangur er fjórða sætið 2002, 2005 og 2007, sem og annað sætið 2009. Aðrar íþróttir. Bayern München starfrækir einnig lið í öðrum íþróttagreinum en knattspyrnu. Þar má nefna körfubolta, handbolta, skák, borðtennis, fimleika og íshokkí. Sundhöll Hafnarfjarðar. Sundhöll Hafnarfjarðar er yfirbyggð 25 m sundlaug í Hafnarfirði á því svæði sem nefnt er Krosseyrarmalir. Bygging sundlaugarinnar hófst árið 1940 en verkið tafðist vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Byggingu hennar var lokið árið 1943 og var sundlaugin formlega opnuð sunnudaginn 29. ágúst 1943. Þá hét hún einfaldlega Sundlaug Hafnarfjarðar. Sundlaugin var þá sjósundlaug, sjónum var dælt úr hafinu með rafmagnsdælu, hann hitaður með kolabrennslu og hreinsaður í hreinsitækjum áður en honum var dælt í laugina. Hafist var handa við að byggja yfir sundlaugina árið 1947 og lauk því verki 1953. Þá var hætt að nota sjó sem upphitaður var með kolum og þess í stað vatn notað sem var hitað með rafmagnsmótorum. Tomas Tranströmer. Tomas Gösta Tranströmer (f. 15. apríl 1931, Stokkhólmi) er sænskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Ljóð hans hafa verið þýdd á yfir sextíu tungumál, þar á meðal íslensku. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2011 og segir í áliti dómnefndar að „þétt, hálfgagnsætt myndmál hans gefi okkur ferska sýn á veruleikann“. Tranströmer, Tomas Gösta Tranströmer, Tomas Gösta Tranströmer, Tomas Gösta Ajax Amsterdam. Ajax Amsterdam (fullt nafn: Amsterdamsche Football Club Ajax, eða AFC Ajax) er hollenskt knattspyrnulið frá Amsterdam. Félagið hefur oftar orðið hollenskur meistari en nokkurt annað félag og er sigursælasta knattspyrnulið Hollands, ásamt PSV Eindhoven og Feyenoord Rotterdam. Liðið er auk þess eitt þriggja liða sem unnið hefur öll þrjú stórmót Evrópu (ásamt Juventus, FC Barcelona og Bayern München). Upphaf. Félagið var fyrst stofnað af stúdentum við framhaldsskólann Hogere Burgerschool 1883 og hlaut það heitið Union. 1894 var heitinu breytt í Foot-Ball Club Ajax og var það nefnt eftir grísku hetjunni Ajax. Eftir mikið ósætti í stjórninni var félagið hins vegar lagt niður. Það var endurstofnað 18. mars 1900. Fyrstu árin voru mögur, en félagið komst í efstu deild 1911. Fram að þessu höfðu leikmenn notað treyjur félagsins Sparta frá Rotterdam. En í efstu deild urðu þeir að leika í nýjum treyjum. Ákveðið var að nota rauð/hvítar treyjur og hvítar buxur (eins og enn er gert í dag). Eftir þrjú ár í efstu deild féll Ajax um deild, en náðu að komst í efstu deild strax ári síðar 1915. Það leikár urðu þeir í fyrsta sinn hollenskir meistarar. Leikárið var hins vegar dæmt ógilt sökum heimstyrjaldarinnar fyrri. Því varð Ajax ekki opinberlega hollenskur meistari fyrr en 1918. Á næsta leikári setti félagið met er það sigraði deildina án þess að tapa leik, afrek sem hélst í hollensku deildinni í 76 ár. Gullaldarárin. Liðið sem varð hollenskur meistari 1937 Eftir þetta gekk félaginu heldur brösuglega næstu 10 árin. 1928 voru Ólympíuleikarnir haldnir í Amsterdam. Eftir leikana fékk Ajax afnotarétt á leikvanginum til stórleika. Að öðru jöfnuðu lék félagið á De Meer Stadion rétt utan borgar. Á fjórða áratugnum varð Ajax að einu sigursælasta liði Hollands. Hollenski meistaratitillinn vannst fimm sinnum fram að heimstyrjöldinni síðari. Margir kölluðu þessi ár gullaldarár Ajax og vísuðu þar með til gullaldarára Hollendinga á 17. öld. Stríðið breytti ýmsu. Miklar tilfærslur leikmanna og stjórnarmanna hafði sín áhrif. Ajax varð bikarmeistari 1943 og meistari 1947, en að öðru leyti var árangur lítill næstu árin. Eredevisie. 1955 var fyrsta atvinnumannadeildin formlega stofnuð, Eredevisie. Strax fyrsta leikárið lenti Ajax í öðru sæti með jafnmörg stig og meistararnir. Þeir urðu hins vegar meistarar 1957 og fjórum sinnum í viðbót næsta áratuginn. 1964 gekk til liðs við félagið 17 ára unglingur að nafni Johan Cruyff. Með tilkomu hans sem miðjumanns og þjálfarans Rinus Michels varð félagið mjög sigursælt. Michels réði til sín marga þekkta leikmenn og umbreytti liðinu. Ajax varð hollenskur meistari í þrjú ár í röð, 1966-68 og aftur 1970. Á toppnum í Evrópu. Áttundi áratugurinn var ævintýri líkastur. Ajax varð fimm sinnum hollenskur meistari og fjórum sinnum bikarmeistari. Félagið hafði á liðnum árum tekið þátt í Evrópukeppni meistaraliða með misgóðum árangri. 1970 breyttist það er félagið varð í sinn fyrsta Evrópumeistari eftir 2-0 sigur á Panathinaikos Aþenu. 1971 sigraði Ajax í sömu keppni eftir 2-0 sigur á Inter Milan. Strax árið eftir sigraði Ajax keppnina í þriðja sinn í röð eftir 1-0 sigur á Juventus. Þar með var Ajax annað liðið í Evrópu sem sigraði keppnina þrisvar í röð, en áður hafði Real Madrid afrekað það (reyndar fimm sinnum í röð). Bayern München er eina liðið sem sigrað hefur keppnina þrisvar í röð eftir það. Á sömu þremur árum varð Ajax auk þess tvisvar hollenskur meistari og tvisvar bikarmeistari. Þessu til viðbótar sigraði Ajax Super Cup keppnina í Evrópu 1972 og 1973. 1972 var Ajax einnig heimsbikarmeistari eftir sigur á Indenpendiente frá Argentínu. Með þessum sigrum hafði félagið rækilega stemplað sig inn sem eitt allra besta knattspyrnufélag Evrópu þess tíma. Ajax í dag. Frank de Boer, fyrrum leikmaður Ajax, er núverandi þjálfari liðsins Níundi áratugurinn einkenndist af fjölda bikurum í Hollandi, en aðeins einum á alþjóðavettvangi. Liðið varð fjórum sinnum hollenskur meistari og þrefaldur bikarmeistari. Eini titillinn sem vannst í Evrópu var sigur í Evrópukeppni bikarhafa 1987 er liðið sigraði Lokomotive Leipzig frá Austur-Þýskalandi 1-0. Á þessum tíma spiluðu margir þekktir knattspyrnumenn með félaginu, eins og Ronald Coeman, Frank de Boer, Gerald Vanenburg, Marco van Basten og Dennis Bergkamp. Á tíunda áratugnum hélt sigurganga Ajax áfram. Liðið varð fimm sinnum hollenskur meistari og þrefaldur bikarmeistari. 1995 var auk þess eitt allra gjöfulasta ár félagsins. Þá sigraði það í Meistaradeild Evrópu eftir 1-0 sigur á AC Milan, í Super Cup í Evrópu eftir sigur á Real Saragossa og í heimsbikarkeppninni eftir sigur á Grêmio Porto Alegre frá Brasilíu. Með hollenska meistaratitlinum skilaði árið 1995 því fjórum stórum bikurum í safnið. Ajax er eitt af fjórum liðum sem þar með hefur unnið öll þrjú stórmót í knattspyrnu í Evrópu. Á þessum tíma léku þekktir knattspyrnumenn eins og Marc Overmars, Edgar Davids, Michael Laudrup, Patrick Kluivert, Jari Litmanen, Clarence Seedorf og markmaðurinn Edwin van der Sar með félaginu. Árið 1996 fékk Ajax nýjan og glæsilegan leikvang, er Amsterdam ArenA var fullbúinn fyrir félagið. Leikvangurinn kostaði 96 milljónir evra og tekur tæplega 53 þús manns í sæti. Á fyrstu árum 21. aldar hélt félagið áfram sigurgöngu sinni. Fram að 2011 varð Ajax þrefaldur hollenskur meistari og fjórfaldur bikarmeistari. Hins vegar hefur enginn alþjóðlegur titill unnist síðan sögufræga árið 1995. Af nýjum þekktum leikmönnum má nefna Wesley Snijder, Rafael van der Vaart og Zlatan Ibrahimović. Einn Íslendingur leikur með liðinu, Kolbeinn Sigþórsson. Markaskorarar. Eftirfarandi leikmenn hafa skorað flest mörk fyrir Ajax. Enginn þeirra leikur lengur fyrir liðið. Katrín af Aragóníu. Katrín af Aragóníu (spænska: "Catalina de Aragón") (16. desember 1485 – 7. janúar 1536) var fyrsta eiginkona Hinkriks VIII, konungs Englands, og var hún þar af leiðandi drottning Englands. Ted Danson. Ted Danson (fæddur Edward Bridge Danson III, 29. desember 1947) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum Cheers og Becker, ásamt kvikmyndunum Three Men and a Baby og Three Men and a Little Lady. Einkalíf. Danson fæddist í San Diego, Kaliforníu en ólst upp í Flagstaff, Arizona. Stundaði nám við Stanford-háskólann áður en hann flutti sig yfir til Carnegie Mellon háskólann í Pittsburgh, Pennsylvaníu þaðan sem hann útskrifaðist með BA-gráðu í drama árið 1973. Árið 1999 fékk Danson stjörnu á "Hollywood Walk of Fame". Þann 27. September 2007 þá upplýsti Danson í viðtali við Conan O'Brien að hann væri grænmetisæta og borðaði stundum hann. Fjölskylda. Þegar Danson og Coates eignuðust sitt fyrsta barn þá varð hún fyrir slagi og sá Danson um hana í mörg ár á meðan hún jafnaði sig. Seinna meir þá ættleiddu þau stelpu. Danson hélt framhjá Coates með Whoppi Goldberg sem leiddi til skilnaðar þeirra, sem varð einn dýrasti skilnaður Hollywoods á sínum tíma en Danson þurfti að borga Coates 30 milljónir dollara. Umhverfisstefna. Áhugi Danson á umhverfinu byrjaði þegar hann var 12 ára, þegar Bill Breed, minjavörður við Museum of Northern Arizona kynnti Danson og vin hans Marc Gaede fyrir leik sem hann kallar "billboarding". Með öxi og sög í hönd, þá eyðilögðu Breed, Danson og Gaede yfir 500 skilti og ólögleg fuglahús. Áhugi hans jókst með árunum og byrjaði Danson að hafa áhyggjur af menguninni í sjónum. Um miðjan níunda áratuginn þá stofnaði hann "American Oceans Campaigns", sem sameinaðist síðan "Oceana" árið 2001, þar sem Danson er stjórnarmeðlimur. Í mars 2011, þá gaf Danson út fyrstu bók sína, "Oceana: Our Endangered Oceans And What We Can Do To Save Them", sem er skrifuð með blaðamanninum Michael D'Orso. Stjórnmál. Danson er vinur fyrrverandi forseta bandaríkjanna Bill Clinton en svo náinn er vinskapur Danson við Clinton hjónin að hann var viðstaddur brúðkaup dóttur þeirra Chelsea þann 31.júlí 2010. Danson hefur gefið í kringum 85,000 dollara til Demókrata frambjóðandanna Al Gore, John Edwards, Barbara Boxer, Bill Clinton, Al Franken, og John Kerry. Einnig hefur Danson gefið í Demókrataflokkinn í Arkansas og Demókrata öldungarþings herferðarnefndina. Danson og Steenburgen aðstoðuðu Hillary Clinton við forsetaframboð hennar árið 2008. Sjónvarp. Danson byrjaði sjónvarpsferil sinn í sápu óperunni Somerset þar sem hann lék Tom Conway frá 1975-1976. Eftir það kom hann fram í þáttum á borð við: "Mrs. Columbo", "Trapper John, M.D.", Magnum, P.I. og Taxi. Árið 1982 þá var Danson boðið hlutverk í nýjum sjónvarpsþætti sem kallaðist Cheers, lék hann Sam Malone, fyrrverandi hafnarboltastjörnu og bareiganda. Lék hann Malone alveg til ársins 1993. Danson var tilnefndur ellefu sinnum til Emmy verðlaunanna sem hann vann tvisvar sinnum, ásamt því að vera tilnefndur níu sinnum til Golden Globe verðlaunanna sem hann vann tvisvar sinnum. Danson kom einnig fram sem Sam Malone í Frasier, The Jim Henson Hour og The Simpsons. Eftir Cheers þá kom Danson fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: "Pearl", "Ink" og "Grosse Pointe". Árið 1998 þá var honum boðið hlutverk í Becker sem læknirinn Dr. John Becker sem hann lék til ársins 2004. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í Heist, King of the Hill, Curb Your Enthusiasm sem hann sjálfur og Damages. Í júlí 2010 tilkynnti CBS sjónvarpsstöðin að Ted Danson hafði verið ráðinn sem D.B. Russell hinn nýji yfirmaður næturvaktarinnar í. Höfðu Tony Shaloub, Robin Williams og John Lithgow einnig verið skoðaðir fyrir hlutverkið. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Danson er í The Onion Field frá 1979. Kom síðan fram í kvikmyndum á borð við: Creepshow, Little Treasure og A Fine Mess. Árið 1987 þá lék hann á móti Tom Selleck og Steve Guttenberg í Three Men and a Baby og framhaldsmyndinni Three Men and a Little Lady frá 1990. Síðan þá hefur hann komið fram í Loch Ness, Saving Private Ryan, Mad Money og The Open Road. Tenglar. Danson, Ted Skólablaðið Muninn. Muninn er skólablað skólafélagsins Hugins í Menntaskólanum á Akureyri og hefur komið út allt frá 27. október 1927, þá undir ritstjórn Karls Ísfelds, og er því í hópi elstu skólablaða landsins. Blaðið hefur komið út í ótal myndum og tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Fyrstu árin var um að ræða lítið og þunnt blað, yfirleitt um fjórar blaðsíður, sem kom út nokkurn veginn mánaðarlega en undanfarinn áratug eða svo hefur venjan verið að gefa út tvo vegleg skólablöð; eitt fyrir hvora önn skólaársins. Skammt er síðan ráðist var í það gríðarlega metnaðarfulla verkefni að birta öll eintök Munins frá upphafi á og eru þau þar, öllum aðgengileg. Ritstjórn blaðsins er kosin af nemendum og vinnur allt blaðið í sjálboðastarfi en blaðið er fjármagnað með auglýsingum í því. Ýmsir frámámenn hafa ritstýrt blaðinu, til að mynda Halldór Blöndal, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ármann Kr. Ólafsson, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Logi Már Einarsson, Þorgrímur Daníelsson og margir fleiri. Max Euwe. Machgielis Euwe (eða oftast Max Euwe) (20. maí 1901 í Amsterdam – 26. nóvember 1981 í Amsterdam) var hollenskur skákmeistari og fimmti heimsmeistari sögunnar í skák. Hann var einnig forseti alþjóða skáksambandsins (FIDE). Skámeistari og stærðfræðingur. Max Euwe fæddist 1910 í Amsterdam í Hollandi. Aðeins tólf ára gamall gekk hann í Skákfélag Amsterdam, sem er elsta skákfélag Hollands. Það var þó ekki fyrr en eftir heimstyrjöldina fyrri sem styrkur hans kom í ljós. 1919 tók hann fyrst þátt í hollensku meistarakeppninni og sigraði í henni 1921. Fram að 1955 var hann tólf sinnum hollenskur meistari, þar af sex sinnum í röð. Euwe stundaði nám í stærðfræði við háskólann í Amsterdam og útskrifaðist þaðan 1926. Hann notaði gjarnan stærðfræðina í skákunum og gaf út bók þess efnis. 1928 var Euwe heimsmeistari áhugamanna. Hann sigraði í ýmsum alþjóðlegum skákmótum, en átti erfitt með þátttöku í mörgum sökum anna í starfi. Heimsmeistari. Max Euwe (sitjandi) árið 1935 1935 varð Euwe áskorandi í heimsmeistaraeinvíginu gegn ríkjandi heimsmeistaranum Alexander Aljekín. Rússinn var atvinnumaður í skák, en Euwe áhugamaður, auk þess að vera fjölskyldumaður og í fullu starfi. Einvígið var haldið í Hollandi, en ekki á einum stað, heldur í 13 mismuandi borgum á 80 daga tímabili. Euwe og Aljekín tefldu alls 30 skákir og staðan að þeim loknum var 15 ½ - 14 ½ Euwe í vil. Ýmsir aðilar töldu að áfengisdrykkja Aljekíns hefði verið um að kenna, en seinni tíma heimsmeistarar sem stúderað höfðu skákirnar eru á einu máli um það að sigur Euwes hefði verið verðskuldaður. Sigur Euwes leysti mikinn skákáhuga úr læðingi í Hollandi, en fáir höfðu búist við því að hann gæti sigrað Rússann. Sigur í skákmóti í Nottingham á Englandi 1936 sýndi það að Euwe var einn snjallasti skákmaður heims. Á móti 8 bestu skákmanna heims í Hollandi 1937 lenti Euwe aðeins í fjórða sæti með jafnmörg stig og Aljekín. Næsta heimsmeistaraeinvígi í skák var haldið 1937, einnig í Hollandi. Það áttust Euwe og Aljeín við á nýjan leik. Þar hallaði heldur á Euwe. Eftir 25 skákir stóð Aljekín uppi sem sigurvegari (15 ½ - 9 ½), sem endurheimti þar með heimsmeistaratitilinn. Euwe sjálfur hafði verið heimsmeistari í tvö ár og stóð á hátindi ferils síns. Síðustu mótin. Alexander Aljekín tapaði heimsmeistaratitlinum til Max Euwe 1935, en vann hann aftur 1937 Euwe og Aljekín tefldu ekki framar. 1939 skall heimstyrjöldin síðari á og Aljekín lést 1946. Við fráfall hans vildu ýmsir meina að Euwe væri réttnefndur heimsmeistari, en hann hafnaði slíkum hugmyndum. Því var brugðið á það ráð að halda mót með fimm bestu skákmönnum heims árið 1948. Það voru Max Euwe, Vassili Smyslov, Paul Keres, Mikhail Botvinnik og Samuel Reshevsky. Teflt var fyrst í Haag í Hollandi, en síðan í Moskvu í Rússlandi. Niðurstaðan var sú að Botvinnik sigraði með 14 vinninga og varð næsti heimsmeistari, en Euwe var langneðstur með aðeins 4 vinninga. Benda má á að Euwe var 47 ára á þessum tíma, miklu eldri en hinir, og hafði misst mikið af skerpu sinni. Samhliða starfi sínu sem stærðfræðikennari samdi Euwe nokkrar skákbækur og ritaði greinar í ýmis blöð. Rit hans hafa verið þýtt á fjölda tungumála. Síðasta stórmótið hans var áskorendamótið í Zürich 1953, en þar endaði hann í næstneðsta sæti. Hann tók þó þátt í nokkrum minni mótum eftir það, en síðasta mótið hans var í Varna í Búlgaríu 1962. Árið 1957 tefldi Euwe tvær skákir við 14 ára bandarískan ungling að nafni Robert (Bobby) Fischer. Euwe vann fyrri viðureignina, en sú síðari endaði með jafntefli. FIDE. Árið 1970 var Max Euwe kjörinn forseti alþjóða skáksambandsins (FIDE) og var þá orðinn 69 ára gamall. Hann var þriðji forseti sambandsins og þjónaði í átta ár, til 1978. Þessi átta ár voru erfið fyrir Euwe, enda oft mikill atgangur í skákheiminum. Sovétmenn voru oftar en ekki með erfiðar kröfur, enda var fjárhagslegt framlag þeirra til FIDE einna mest og sovéskir skákmenn í flestum efstu sætum á heimslistanum. En eldskírnina hlaut Euwe með heimsmeistaraeinvíginu í Reykjavík 1972 milli Fischers og Spasskys. Þar fór Fischer mikinn og varð að lokum fyrsti bandaríski heimsmeistarinn síðan Steinitz í lok 19. aldar. Ekki kom til annars einvígis með Fischer, því hann mætti ekki til leiks. Euwe lýsti þá Anatoli Karpov sem nýjum heimsmeistara 1975. Af ágreiningi við Rússa má nefna mál rússneska stórmeistarans Viktors Kortnojs, en hann sótti um pólitískt hæli í Hollandi 1976. Sovétmenn voru æfir og kröfðust þess hann fengi ekki að heyja einvígi við heimsmeistara Karpov. Í því máli hafði Euwe betur og tefldi Kortnoj við Karpov 1978, þar sem Karpov varði titil sinn. Ísraelsmálið var einnig mikið hitamál, en FIDE ákvað að halda Ólympíuskákmótið 1976 í Ísrael. Sovétmenn viðurkenndu ekki tilverurétt landsins. Euwe hélt sínu fram, mótið var haldið í Haífa í Ísreal, en Sovétmenn mættu ekki til leiks í mótmælaskyni. Eftirmæli. Max Euwe lét af embætti 1978 eftir átta ára þrautagöngu. Nýr forseti FIDE varð Friðrik Ólafsson, sem sat í fjögur ár. Euwe lést 1981, átttugur að aldri. Flestir skákmenn víða um heim báru honum góða söguna. Anatoli Karpov sagði að Euwe hafði verið góður forseti, en gagnrýndi hann fyrir að opna skáksambandið of fljótt fyrir ríki þriðja heimsins. Viktor Kortnoj sagði Euwe hafa verið síðasta heiðarlega forseta FIDE. Yuri Averbakh, sovéskur skákfrömuður og stórmeistari, sagði Euwe hafa án efa verið besti forsetinn sem FIDE hefði haft. Elisabeth Harnois. Elisabeth Harnois (fædd Elisabeth Rose Harnois, 26. maí 1979) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum One Tree Hill, Miami Medical og. Einkalíf. Harnois fæddist í Detroit, Michigan en ólst upp í Los Angeles. Hefur hún stundað leiklist síðan hún var þriggja ára og kom fram í tveimur kvikmyndum þegar hún var fimm ára, "Where are the Children?" og "One Magic Christmas". Stundaði nám við Wesleyan-háskólann í Middletown, Connecticut þaðan sem hún útskrifaðist með gráðu í kvikmyndafræðum árið 2001. Harnois var tilnefnd til Young Artist verðlaunanna árið 1987 fyrir hlutverk sitt í "One Magic Christmas" og aftur árið 1988 fyrir gestahlutverk sitt í "Highway to Heaven". Vann hún verðlaunin árið 1993 fyrir hlutverk sitt sem Alice í "Adeventures in Wonderland". Ferill. Fyrsta hlutverk Harnois var árið 1985 í kvikmyndinni "One Magic Christmas". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við: "Facade", "Strangers with Candy", "Ten Inch Hero", "A Single Man" og "Mars Needs Moms". Fyrst hlutverk Harnois í sjónvarpi var í "Highway to Heaven" árið 1987. Kom hún síðan fram s í sjónvarpsþáttum á borð við: "Till We Meet Again", "Timeless Tales from Hallmark" og "Potsworth & Co." Árið 1991 þá var henni boðið hlutverk í Adventures in Wonderland sem Alice sem hún lék með hléum til ársins 1995. Harnois kom fram sem gestaleikari í Point Pleasant, One Tree Hill og Miami Medical. Var síðan árið 2011 boðið hlutverk í sem Morgan Brody, nýjasti meðlimur CSI liðsins frá Los Angeles. Tenglar. Harnois, Elisabeth Spánarkerfill. Spánarkerfill (fræðiheiti: "Myrrhis odorata") er stórvaxin garðplanta af sveipjurtaætt, margskipt stór blöðin eru stundum notuð sem krydd en þau eru með anísbragði. Kerfill. Kerfill (fræðiheiti: "Anthriscus cerefolium") einnig nefndur "garðakerfill" er garðplöntutegund af sveipjurtaætt. Bragðið af blöðunum minnir á anís og eru þau notuð sem krydd. Chris O'Donnell. Chris O'Donnell (fæddur Christopher Eugene O'Donnell, 26. júní 1970) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í, Batman Forever og Batman & Robin. Einkalíf. O'Donnell fæddist í Winnetka, Illinois og er af írskum og þýskum ættum. Hann er yngstur af sjö systkinum og var alinn upp í kaþólskri trú. Stundaði nám við Boston College og útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í markaðsfræði. O'Donnell byrjaði sem módel aðeins þrettán ára og kom fram í auglýsingum fyrir McDonalds og á móti Michael Jordan. O'Donnell giftist Caroline Fentress árið 1997 og saman eiga þau fimm börn. Leikhús. O'Donnell lék í tveimur leikritum árið 2002, "The Man Who Had All the Luck" og "Short Talks on the Universe". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk O'Donnell var árið 1986 í "Jack and Mike". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við: The Practice, Two and a Half Men og Grey's Anatomy. Árið 2009 þá var O'Donnell boðið aðalhlutverkið í sem NCIS alríkisfulltrúinn G. Callen. Kvikmyndir. Þegar O'Donnell var 17 ára þá var honum boðið hlutverkið í Men Don't Leave, þar sem hann lék son Jessicu Lange. Lék hann síðan í kvikmyndum á borð við Fried Green Tomatoes, School Ties og Scent of a Woman á móti Al Pacino. O'Donnell lék D'Artagnan í The Three Musketeers árið 1993, á móti Kiefer Sutherland, Oliver Platt og Charlie Sheen. Árið 1995 þá var hann boðið hlutverk Robin í Batman Forever sem hann endurtók í Batman & Robin. Síðan þá hefur komið fram í kvikmyndum á borð við: The Bachelor, Vertical Limit, The Sisters og Max Payne. Tenglar. O'Donnell, Chris Johan Cruyff. Johan Cruyff (fæddur 25. apríl 1947 í Amsterdam sem Hendrik Johannes Cruijff) var hollenskur knattspurnumaður og þjálfari, sem lék aðallega með Ajax Amsterdam og Barcelona. Hjá báðum félögum var hann síðar meir þjálfari. Cruyff hefur löngum þótt með snjallasti miðvörðum. Þrisvar var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu og einnig knattspyrnumaður aldarinnar. Með landsliði Hollands komst Cruyff í úrslit á HM 1974. Unglingsárin. Johann Cruyff fæddist og ólst upp í austurhluta Amsterdam, aðeins steinsnar frá heimavelli félagsins Ajax (sem þá var Stadion De Meer). Aðeins sjö ára gamall hóf hann að æfa með Ajax og var fastráðinn að gerast knattspyrnumaður. Cruyff var tólf ára gamall þegar faðir hans lést, þannig að móðir hans hóf að starfa í ræstingu og eldhúsi vallarins. Þetta þýddi að Cruyff var öllum stundum á vellinum eftir skólatíma, kynntist fólki og knattspyrnumenningunni. Til að verja meiri tíma í æfingar ákvað hann að hætta í menntaskóla og komst brátt í unglingalið Ajax. Ajax. 1964 fékk Cruyff að leika sinn fyrsta leik í Eredivisie (hollensku 1. deildinni), er liðið lék gegn FC Groningen. Leikurinn tapaðist 1-3 en Cruyff skoraði þar sitt fyrsta mark. Fyrir leiktíðina 1965-66 fékk Cruyff samning og varð þar með loks atvinnumaður. Þegar nýr þjálfari, Rinus Michels, var ráðinn til liðsins í janúar 1965 breyttist allt. Michels trúði á Cruyff og lét hann byggja upp vöðva með sér æfingum, ásamt daglegu skógarhlaupi. Samfara þessu breytti Michels gjörvallri skipulagningu liðsins. Cruyff var settur á miðjuna og varð leikstjórnandi. Árangurinn lét ekki á sér standa. 1966 varð Ajax hollenskur meistari. Þau ár sem Cruyff lék með félaginu (1965-1973), varð Ajax ávallt hollenskur meistari (sex sinnum), nema einu sinni. Auk þess varð hann á þessum tíma fjórum sinnum bikarmeistari með liðinu. Johan Cruyff varð skjótt að einum mesta knattspyrnusnillingi Hollendinga, þrátt fyrir að þjóðin hafi ávallt átt úrvals knattspyrnumönnum að skipa. Af öðrum þekktum knattspyrnumönnum í liðinu má nefna, Johan Neeskens, Arie Haan, Ruud Krol og Johnny Rep. Öll ár Cruyffs með Ajax var leikið í Evrópukeppni. 1969 komst félagið í úrslit, en tapaði þar fyrir AC Milan. En þetta var aðeins byrjunin. 1971, 1972 og 1973 náði Ajax þeim ótrúlega árangri að verða Evrópumeistar í þrjú skipti í röð. 1971 sigraði liðið Panathinaikos Aþenu 2-0. 1972 sigraði það Inter Milan 2-0. Í þeim leik skoraði Cruyff bæði mörk Ajax. 1973 sigraði liðið Juventus 1-0. Auk þess varð Ajax heimsbikarmeistari 1972 með sigri á Independiente frá Argentínu. Þessi tími hefur verið kallaður gullaldarár Ajax, en félagið var orðið eitt allra besta félagslið heims. Johan Cruyff var leikstjórnandi liðsins og var valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1971 og 1973. Strax á fyrsta atvinnumannaárinu hjá Ajax var Cruyff kallaður í landslið Hollands. Fyrsti leikur hans var 7. september 1966. Leikið var í forkeppni EM gegn Rúmeníu og lyktaði leiknum með 2-2 jafntefli. Í öðrum leik sínum fékk Cruyff að líta rauða spjaldið og varð því fyrsti Hollendingurinn í sögunni sem vísað var af velli í landsleik. Í kjölfarið setti hollenska knattspurnusambandið Cruyff í ársbann fyrir landsleiki. Cruyff var alla tíð mjög gagnrýnin á knattspyrnusambandið og það pirraði hann mjög að Holland skyldi ekki hafa komist í úrslitakeppni HM síðan 1938. Á HM 1970 í Mexíkó var Holland einnig fjarri góðu gamni. Barcelona. Þjálfarinn Rinus Michels hafði tekið að sér að þjálfa Barcelona og var áfjáður í að fá til sín fyrrum nemanda sinn Cruyff. Undir lok síðasta keppnistímabils síns í Ajax hafði Cruyff verið ósáttur. Þegar Michels falaðist eftir honum, sló hann til. Barcelona keypti Cruyff á metfé og varð hann til skamms tíma dýrasti knattspyrnumaður heims. Fyrsti leikur hans fyrir Barcelona var í október 1973 og skoraði hann strax tvö mörk í 4-0 sigri á Granada. Cruyff smellpassaði í liðið. Það spilaði 24 leiki í röð án taps og niðurlægði Real Madrid með 5-0 sigri á Bernabéu. Cruyff varð spænskur meistari strax á fyrstu leiktíð með Börsungum. Mikil stemning varð í kringum hann og hlaut hann viðurnefnið "El Salvador" ("Lausnarinn"). Auk þess varð Cruyff valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1974. Sama ár komst Holland í fyrsta sinn í langan tíma í úrslitakeppni HM í Þýskalandi. Í milliriðli sigruðu Hollendingar meðal annars Argentínu og Brasilíu og komust í úrslit. Þar lentu þeir í harðri rimmu við Þjóðverja. Það fór enda svo að Þjóðverjar sigruðu leikinn 2-1. Cruyff varð því aldrei heimsmeistari en stóð með silfrinu á hátindi ferils síns. Cruyff spilaði með Börsungum til 1978 en náði ekki að sigra deildina aftur. Hins vegar varð hann bikarmeistari með liðinu á síðasta árinu. Eftir sigurinn lýsti hann því óvænt yfir að hann sé nú hættur að spila knattspyrnu. 28. maí 1978 var haldinn kveðjuleikur fyrir hann á Camp Nou þar sem Barcelona lék gegn Ajax. Cruyff lék einn hálfleikinn með hvoru liði fyrir sig. Hann tók ekki þátt í HM í Argentínu þetta árið. Bandaríkin. Öllum að óvörum dúkkaði Cruyff upp í Bandaríkjunum í upphafi árs 1979 og hóf að spila með Los Angeles Aztecs. Áður höfðu menn á borð við Franz Beckenbauer, Gerd Müller og George Best spilað með bandarískum liðum. Eftir fyrsta árið í Los Angeles var Cruyff kjörinn knattspurnumaður ársins í Bandaríkjunum. Síðara árið lék hann með Washington Diplomats. Þegar félagið komst í fjárhagsvandræði yfirgaf Cruyff liðið og fór heim til Evrópu. Levante. Cruyff var í viðræðum við enska liðið Leicester City. Samningar tókust hins vegar ekki og því byrjaði hann að leika með spænska félaginu Levante árið 1981 en það lék þá í 2. deild. En sökum tíðra meiðsla og ósætti við stjórnina lék hann einungis tíu leiki. Levante náði ekki að komast í 1. deild og því yfirgaf Cruyff félagið eftir tímabilið. Ajax í annað sinn. Allt útlit var fyrir því að Cruyff væri hættur að leika knattspyrnu. Í nóvember 1981 var hann hins vegar ráðinn sem íþróttaráðunautur þjálfarans Leo Beenhakkers. 6. desember reimdi hann á sig skóna og lék sjálfur fyrir félagið í annað sinn á ferlinum. Liðið spilaði gegn FC Haarlem. Cruyff skoraði tvö mörk í 4-1 sigri. Sem leikstjórnandi tókst honum að verða hollenskur meistari á ný 1982. Árið 1983 gerði liðið gott um betur og varð bæði meistari og bikarmeistari. Þrátt fyrir það ákvað stjórnin hins vegar að endurnýja ekki samning sinn við Cruyff í lok keppnistímabilsins 1983. Hundfúll yfirgaf hann félagið og réði sig hjá erkifjendunum í Feyenoord. Feyenoord. Með Feyenoord spilaði Cruyff einungis eitt keppnistímabil, 1983-84. Hann var orðinn 37 ára gamall en enn í fantaformi. Hann var potturinn og pannan í leik liðsins, sem fyrir vikið varð bæði hollenskur meistari og bikarmeistari. Í lok tímabilsins var Cruyff á ný kjörinn knattspyrnumaður ársins í Hollandi. Síðasti leikur hans sem knattspyrnumaður var gegn Zwolle 13. maí 1984. Í Feyenoord kynntist Cruyff hinum kornunga Ruud Gullit, sem seinna meir kvæntist Estelle Cruyff, frænku Johans. Þjálfari. Johan Cruyff sneri enn á ný til Ajax sumarið 1985 en að þessu sinni sem eftirmaður þjálfarans og lærimeistara síns Rinus Michels. Cruyff notaði kerfið sem Michels hafði komið á með Ajax og þróaði það enn frekar. Í þau þrjú ár sem hann þjálfaði liðið missti hann ætíð naumlega af meistaratitlinum en varð þó tvisvar bikarmeistari. 1987 varð Ajax meira að segja Evrópumeistari bikarhafa með 1-0 sigri á Lokomotive Leipzig. Í liðinu þjálfaði hann marga unga menn sem seinna voru kallaðir í hollenska landsliðið. Má þar nefna leikmenn eins og Marco van Basten, Frank Rijkaard og Dennis Bergkamp. 1988 sneri El Salvador aftur til Barcelona sem þjálfari. Í stað þess að nota stjörnur eins Bernd Schuster og Gary Lineker, ákvað Cruyff að setja traust sitt á leikmenn á borð við Guardiola, Ferrer og son sinn Jordi Cruyff. Einnig náði hann í nýja leikmenn, eins og Hristo Stoitchkov, Ronald Koeman og Michael Laudrup. Árangurinn var frábær. 1989 varð Barcelona Evrópumeistari bikarhafa eftir 2-0 sigur á Sampdoria Genua í úrslitaleik. 1991-94 varð Barcelona fjórum sinnum spænskur meistari í röð, 1990 bikarmeistari, 1992 Evrópumeistari (síðasta árið áður en meistaradeildin var stofuð) og sama ár sigruðu Börsungar Super Cup keppnina í Evrópu með sigri á Borussia Dortmund í tveimur úrslitaleikjum. Johan Cruyff er því sigursælasti knattspyrnuþjálfari sem Barcelona hefur átt. Vendipunkturinn kom í úrslitaleik meistaradeildarinnar 1994, er Börsungar steinlágu fyrir AC Milan 0-4. Liðið náði ekki að vinna neina titla í tvö ár. Cruyff reyndi að endurnýja mannskapinn en lenti í ósætti við stjórnina. Honum var sagt upp störfum 18. maí 1996. 1999 sneri Cruyff sér aftur að þjálfun, er knattspyrnusamband Katalóníu (héraðið í kringum Barcelona) réði hann sem landsliðsþjálfara. Katalónía er þó eingöngu með óopinbert lið (enda ekki sjálfstætt ríki) og leikur eingöngu vináttuleiki. Sama ár, 1999, var Johan Cruyff kjörinn knattspyrnumaður aldarinnar í Evrópu, eini maðurinn sem hlotið hefur slíkan heiður. Frekari störf. 2008 tók Cruyff að sér að byggja upp nýtt lið með Ajax. Fyrsta verk hans var að ráða Marco van Basten sem þjálfara. Árið 2010 tilkynnti stjórn félagsins Barcelona að Cruyff hefði verið valinn heiðursforseti félagsins. Hins vegar var Sandro Rosell ráðinn sem forseta, sem afturkallaði val Cruyffs. Heimildir. Cruyff, Johan Veðrahvolf. Veðrarahvolf er sá hluti gufuhvolfsins sem er næstur jörðinni, í um 10 – 17 km hæð. Fyrir ofan veðrahvolf tekur heiðhvolf við, en mörk hvolfanna kallast "veðrahvörf". Teikna. Það að teikna er alveg eins og að skapa eitthvað nýtt. Teikning er áhugamál sem mjög margir hafa í höndunum. Það eru til mjög margar og frægar teikningar alls staðar í heiminum, og í bókum, á blöðum, á strigum, og meira að segja þá eru til teikningar á veggjum og borðum í öllum húsum örugglega í heiminum. Teikningar eru mjög mikilvægar, eins og að ef þú ættlar að byggja þér hús eða skip, þá verður þú að byrja á því að teikna upp útlitið eins og þú villt hafa húsið, eða það sem að þú ættlar að búa til. Í heiminum þá eru líka til listarmenn, það eru til listarmenn sem að eiga bara verkin útaf fyrir sig, og eru bara með þau heima hjá sér, en svo eru líka sumir sem að vilja sýna öllum í heiminum það sem þeir hafa verið að gera. Það eru allir í heiminum sem að geta teiknað, en bara mis vel, þú getur látið nýfætt barn teikna, ef að þú hefur bar þolinmæðina í það, eða bar að hjálpa því með að halda í hendina á því og sýna því blað. Oft þá yrja krakkar að teikna á veggi og þess háttar þegar að þeir eru frá aldrinum hálfs árs til eins árs, og myndirnar eru oftast bara krass, en það vita ekki margir að frægustu listamenn í heiminum þeir eru að teikna myndir eins og þeir gerðu sem fyrstu myndina sína. Þau listaverk eru bara krass, en þessi listaverk geta leynt einthverja mynd innra með sér, bara ef að þú horfir vel og lengi á myndirnar. Þessi listaverke geta kostað frá þúsundum upp í nokkrar milljónir, og margir kaupa verk eftir þá því að þau eru svo flott. Teikningar er einn hlutur sem að allir í heiminum gera, enda er hægt að teikna þær með blýöntum, í sand og fleira. Kraftlyftingafélag Akureyrar. Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) er aðildarfélag að Íþróttabandalagi Akureyrar og Kraftlyftingasambandi Íslands. Kraftlyftingadeild Glímufélagsins Ármanns. Kraftlyftingadeild Ármanns er aðili að Kraftlyftingasambandi Íslands. Deildin var stofnuð 25. mars 2009. Kraftlyftingadeild Breiðabliks. Kraftlyftingadeild Breiðabliks er aðili að Kraftlyftingasambandi Íslands. Kraftlyftingafélag Garðabæjar - Heiðrún. Kraftlyftingafélag Garðabæjar - Heiðrún er aðildarfélag að Kraftlyftingasambandi Íslands. Félagið var stofnað 30. janúar 2011. Kraftlyftingadeild UMFN - Massi. UMFN Massi er aðildarfélag að Ungmennafélagi Njarðvíkur og Kraftlyftingasambandi Íslands. Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar. Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar er aðildarfélag að Kraftlyftingasambandi Íslands. Kraftlyftingadeild UMF Selfoss. Kraftlyftingadeild UMF Selfoss er aðildarfélag að Ungmennafélagi Selfoss og Kraftlyftingasambandi Íslands. Kraftlyftingadeild UMF Sindra. Kraftlyftingadeild UMF Sindra er aðildarfélag að Kraftlyftingasambandi Íslands. Kraftlyftingafélag Seltjarnarness - Zetorar. Kraftlyftingafélag Seltjarnarness - Zetorar er aðildarfélag að Kraftlyftingasambandi Íslands. AkureyrarAkademían. AkureyrarAkademían er samfélag fólks á Norðurlandi sem lokið hefur háskólaprófi og/eða sinnir fræði- eða ritstörfum. AkureyrarAkademían er daglegt heiti Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi, sem stofnað var vorið 2006. AkureyrarAkademían stendur reglulega fyrir fundum, fyrirlestrum, málþingum og uppákomum, þar sem félagar og gestir miðla af þekkingu sinni og sköpunargleði. Hægt er að leigja sér vinnuaðstöðu í húsnæði AkureyrarAkademíunnar, gamla Húsmæðraskólanum, Þórunnarstræti 99 á Akureyri. Saga félagsins. Fyrirmyndin að AkureyrarAkademíunni er sótt til ReykjavíkurAkademíunnar, en sú síðarnefnda hefur verið starfrækt í höfuðborginni í rúman áratug með góðum árangri. Markmiðið með stofnun AkureyrarAkademíunnar var að nýta betur þekkingu fræðafólks á Norðurlandi, skapa þeim vettvang til miðlunar og umræðu inn á við sem og til samfélagsins. Þá knúði á þörf þessa hóps fyrir starfsaðstöðu til rannsókna, og þörf samfélagsins fyrir setur fræða, þangað sem stofnanir og fyrirtæki geta einnig leitað eftir sérþekkingu á ákveðnum sviðum. Félagar stunda rannsóknir og grúsk á víðu vísindasviði. AkureyrarAkademían er í samvinnu við aðrar stofnanir og fræðasetur í landinu, svo sem ReykavíkurAkademíuna og háskólana, auk ýmissa félagasamtaka á Norðurlandi, svo sem Sagnfræðingafélagið, Heimspekifélagið og fleiri. AkureyrarAkademían hefur fengið afnot af hæð í gamla Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti á Akureyri og þar fer öll starfsemi hennar fram. Þar eru haldnir fundir, fyrirlestrar, sýningar og málþing og þar getur fræðifólk leigt sér vinnuaðstöðu og notið samvista og faglegs samstarfs við fólk úr ólíkum fræðigreinum. Skrifborð og nettenging er til staðar, auk matar- og kaffiaðstöðu og möguleika til fundahalda. Lögð er áhersla á góðan vinnuanda, næði til rannsókna og að unnið sé að sameiginlegum verkefnum með fólki úr ýmsum áttum. Sameiginleg starfsemi AkureyrarAkademíunnar er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Akureyrarbæ, KEA og fleiri aðilum, en einstaklingarnir sem þar hafa vinnuaðstöðu standa undir þeim kostnaði sem fellur til vegna hennar. Chuck (sjónvarpsþáttur) (3. þáttaröð). Chuck er bandarískur hasar- og gamanþáttur. Sýningar á þriðju þáttaröðinni þáttaröðinni hófst þann 10. janúar 2010 og þeim lauk 24. maí 2010. Þættirnir voru 19 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Chuck (sjónvarpsþáttur) (4. þáttaröð). Chuck er bandarískur hasar- og gamanþáttur. Sýningar á fjórðu þáttaröðinni þáttaröðinni hófst þann 20. september 2010 og þeim lauk 16. maí 2011. Þættirnir voru 24 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Chuck (sjónvarpsþáttur) (5. þáttaröð). Chuck er bandarískur hasar- og gamanþáttur. Sýningar á fimmtu þáttaröðinni hófust þann 28. október 2011 og lauk 27. janúar 2012. Þættirnir eru 13 og er hver þeirra um 42 mín. að lengd. Fimmta þáttaröðin er síðasta þáttaröðin af "Chuck". Knattspyrnufélag ÍA. Knattspyrnufélag Íþróttabandalags Akraness eða KFÍA er knattspyrnufélag sem starfrækt er á Akranesi. Knattspyrnulið ÍA er eitt það sigursælasta í íslenskri knattspyrnusögu en það hefur unnið Íslandsbikarinn átján sinnum frá árinu 1951. Að auki hefur ÍA sigrað níu sinnum í bikarkeppni KSÍ, síðast 2003, eftir 1:0 sigur á FH í úrslitaleiknum. Leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu. ÍA Hinrik og Hagbarður. Hinrik og Hagbarður (franska: " Johan et Pirlouit") er teiknimyndasería sköpuð af hinum belgíska Peyo. Hinrik er ungur skjaldsveinn sem lendir í ævintýrum, og í þriðju bókinni bætist honum liðsauki sem er Hagbarður, hrekkjóttur dvergur. Ævintýri þeirra Hinriks og Hagbarðs birtust fyrst sem framhaldssögur í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi. Serían kynnir til sögu Strumpana sem liðsinna Hinriki og Hagbarði í nokkrum bókanna. Haarlem. Haarlem er næststærsta borgin í hollenska héraðinu Norður-Hollandi með 150 þúsund íbúa. Aðeins Amsterdam er stærri. Haarlem er miðstöð túlípanahéraðsins í Hollandi. Lega og lýsing. Haarlem liggur á sandhrygg vestarlega í Hollandi, en hryggurinn teygir sig frá Alkmaar til Leiden. Aðeins 5 km er til strandarinnar við Norðursjó. Næstu borgir eru Amsterdam til austurs (10 km), Ijmuiden til norðurs (10 km) og Leiden til suðurs (15 km). Schiphol-flugvöllur er aðeins í 5 km fjarlægð til suðausturs. Við vestri borgarmörkin er þjóðgarðurinn Zuid-Kennemerland. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Haarlems sýnir sverð, fjórar hvítar stjörnur og hvítan kross á rauðum grunni. Krossinn og sverðið merkja að riddarar frá Haarlem tóku þátt í 5. krossferðinni snemma á 13. öld. Ljónin sitthvoru megin við, gullkórónan og tréð fyrir aftan eru síðari tíma viðbætur. Fyrir neðan er borði með áletruninni: "Vicit vim Virtus", sem merkir "dyggð sigrast á valdi". Fáninn var tekinn í notkun á 20. öld og er eins og skjöldurinn, nema hvað formið er öðruvísi. Orðsifjar. Upphaflegt heiti staðarins er Haarloheim. Haar merkir "hæð" (sbr. "Har"danger á norsku), lo merkir "skógur" (sbr. Waterloo = "vatnaskógur") og heim merkir "bær". Merkingin er því "bærinn á skógarhæðinni". Hollendingar fluttu heitið út til Nýju Amsterdam í Ameríku á 17. öld er þeir nefndu eitt þorpið á Manhattan Nieuw Haarlem. Þegar Bretar hertóku Nýja Amsterdam fékk Nieuw Haarlem fékk að haldast og er borgarhverfið Harlem í New York í dag. Haarlem er gjarnan kölluð Bloemenstadt ("Blómaborgin") í Hollandi, vegna mikillar blómaræktunar. Upphaf. Haarlem myndaðist sem þorp á sandhrygg við ána Spaarne og varð að mikilvægum viðkomustað á norður-suður leiðinni vestast í Hollandi. Fyrir austan var stórt stöðuvatn (Haarlemmermeer, sem í dag er nánast horfið), fyrir vestan var og er Norðursjór. Bærinn varð snemma að aðsetri greifanna af Hollandi. 1217 lagði stór hópur manna og riddara frá Haarlem af stað í krossferð undir stjórn Vilhjálms I greifa. Farið var til Damiette í Egyptalandi og mislukkaðist algjörlega. Fáir sneru heim aftur, en ferðin gekk í sögubækurnar sem 5. krossferðin. Sonur Vilhjálms, Vilhjálmur II, veitti Haarlem borgarréttindi 1245. Aðalatvinnuvegir hinnar ungu borgar var vefnaður, skipasmíði og bjórbrugg. Á 14. öld var Haarlem næststærsta borg Hollands á eftir Dordrecht. Hún var stærri þá en borgir eins og Amsterdam, Leiden og Rotterdam. Þetta breyttist 1381 er svarti dauðinn herjaði á Haarlem, en hann drap helming borgarbúa. Umsátrið um Haarlem. Við uppreisn Niðurlendinga gegn Spánverjum stóð nágrannaborgin Amsterdam í fyrstu með Spánverjum. Haarlem var í fyrstu hlutlaus aðili en kaus síðan að standa með Hollendingum. Í desember 1572 mætti Don Fadrique (sonur hertogans af Alba) á svæðið og sat með her sínum um borgina. Íbúar smáborganna Zutphen og Naarden voru brytjaðir niður af Spánverjum og því lokuðu íbúar Haarlem sig inni. Umsátrið stóð yfir í hálft ár. Fréttir frá Amsterdam þess eðlis að hægt væri að semja við Spánverja leiddu til þess að borgarráðið sendi fjóra fulltrúa til Amsterdam. En meðan þeir voru í burtu var gerð bylting í Haarlem. Skipt var um borgarráð og ákveðið að semja ekki við Spánverja, sem biðu hinir rólegustu fyrir utan borgarmúrana. Fyrir austan borgina var stöðuvatnið Haarlemmermeer og með skipaferðum yfir það fengu borgarbúar mat. En þegar Amsterdam, sem enn var á bandi Spánverja, blokkaði skipaleiðirnar, fór að syrta í álinn fyrir Haarlem. Maturinn kláraðist og hungrið tók við. Borgarbúum sveið umsátrið og 27. maí 1573 ruddust þeir inn í fangaklefana og myrtu alla fanga þar sem voru á bandi Spánverja. Vilhjálmur af Óraníu safnaði 5000 manna liði nálægt borginni Leiden og arkaði af stað til að bjarga Haarlem. En spænskur her gerði þeim fyrirsát og sigraði þá í orrustu. Eftir sjö mánaða umsátur gafst borgin lokst upp 13. júlí 1573, eftir að hafa fengið vilyrði fyrir því að borgarbúum yrði hlíft gegn greiðslu. Spánverjar stóðu við gefin loforð er þeir fengu 240 þúsund gyllini en allir hermenn í borginni voru teknir af lífi, þar á meðal hermenn frá Englandi og Frakklandi. Aðeins þýskir hermenn fengu að fara óáreittir. 40 almennir borgarar voru einnig teknir af lífi vegna svika. Eftir blóðbaðið efndi Don Fadrique til þakkarguðsþjónustu í aðalkirkju borgarinnar. Gullaldarárin. Haarlem 1652. Efst sér í ána Spaarne, en á markaðstoginu er kirkjan Grote Kerk áberandi Eftir fall Haarlems sat spænskur her í borginni, enda geysaði sjálfstæðisstríð Niðurlendinga enn í héraðinu í kring. 22. október 1576 kveiktu nokkrir þýskir kaupmenn varðeld um kvöldið. Eldurinn læsti sig hins vegar í nærliggjandi byggingar og varð brátt að stórbruna. Spænsku hermennirnir réðu ekki við neitt og áður en yfir lauk höfðu 500 hús brunnið til kaldra kola. Spánverjar yfirgáfu Haarlem 1577 eftir að borgarráð hafði undirritað samning þess efnið að allir kaþólikkar skyldu vera jafnréttháir og meðlimir annarra kirkna. Samkomulag þetta var stóð ekki lengi, en strax á næsta ári var kaþólikkum mismunað á ný. Þangað fluttu þá margir húgenottar og íbúar frá Flæmingjalandi sem ekki þoldu yfirráð Spánverja þar. 1621 voru rúmlega helmingur íbúa Haarlem flæmskir. Þessir nýbúar voru í mörgum tilfellum vefnaðarmenn, sem efldu þessa atvinnugrein til muna í Haarlem, ásamt silkivefnaði. 1632 var skipaskurður grafinn milli Haarlem og Amsterdam. Með vaxandi velgengni óx Haarlem út fyrir borgarmúrana. Því voru nýir múrar reistir og tveir nýir skipaskurðir grafnir til að tengja nýju hverfin við samgönguæðarnar. 1656 hófst í Haarlem útgáfa á elsta dagblaði Hollands sem enn er gefið út (heitir í dag Haarlems Dagblad). Borgin var einnig vettvangur listamanna eins og málaranna Jan Steen, Jacob van Ruisdael og Frans Hals. Frakkar og iðnbylting. Á 18. öld fóru atvinnuvegir dvínandi sökum þess hve Amsterdam hafði stækkað mikið. Haarlem varð því að nokkurs konar útjaðri hennar. Margir af efnaðri íbúum Amsterdam áttu sumarhús í Haarlem og dvöldu gjarnan þar til að komast burt úr stórborginni. 18. janúar 1795 réðust Frakkar inn í Holland. Margir áhrifamenn söfnuðust þá saman í Haarlem og gerðu byltingu í borginni án blóðsúthellinga. Þeir ráku borgarráðið og settu inn nýja menn sem voru vilhallir Frökkum. Tveimur dögum seinna þrömmuðu franskir hermenn inn í borgina og tóku við stjórn hennar. Í kjölfar voru borgarmúrarnir rifnir niður og borgarhliðin fjarlægð. Með tilveru Frakka í borginni versnaði efnahagurinn, vegna hafnbann Englendinga. Eftir að Frakkar hurfu úr landi 1813 var meirihluti íbúa Haarlem fátækur. Á hinn bóginn varð Haarlem höfuðborg nýstofnaðs héraðs Norður-Hollands 1840. Árið á undan, 20. september 1839, ók fyrsta járnbrautarlest Hollands milli Amsterdam og Haarlem. Þótt hún æki ekki nema á 40 km hraða, stytti það leiðina milli borganna niður í 30 mínútur (var áður 2 klst. á hestvögnum). Nýrri tímar. Við iðnbyltinguna óx borgin hratt. Á 30 árum (1879-1909) tvöfaldaðist íbúafjöldinn og fór upp í tæp 70 þúsund. Til að skapa meira rými fyrir ný hverfi kom upp sú tillaga að sameinast nokkrum sveitarfélögum. Þeirri tillögu var hafnað af viðkomandi sveitarfélögum til að byrja með. 1911 flaug Hollendingurinn Anthony Fokker heimasmíðaða flugvél hringinn í kringum Haarlem en það var fyrsta flugvél sem Hollendingur hafði smíðað. 1927 voru bæirnir Schoten, Spaarndam, Bloemendaal og Heemstede loks sameinaðir Haarlem, sem við það hlaut mikið athafnasvæði og óx íbúafjöldinn um rúmlega 31 þúsund. Þjóðverjar hertóku Haarlem 10. maí 1940. Þrátt fyrir öflugt starf andspyrnunnar voru langflestir gyðingar í borginni handsamaðir og sendir í útrýmingarbúðir. 17. september 1944 ráku nasistar alla íbúa í norðurhluta borgarinnar út á gaddinn til að búa til varnarlínu gegn bandamönnum. Mörg hús voru rifin, þar á meðal knattspyrnuvöllurinn. Veturinn 1944-45 ríkti hungursneyð í Haarlem. Þjóðverjar stöðvuðu alla flutninga eftir að bandamenn réðust inn í landið. Margir sultu til bana. Aðrir tórðu með því að borða túlípanalauka sem ætlaðir voru til sáninga næsta vor. 22. september var skrúfað fyrir gasið, þannig að það var eingöngu tiltækt í tvo tíma á dag. 9. október lokuðu þeir svo fyrir rafmagið. Það var því mikill fögnuður meðal borgarbúa er bandamenn frelsuðu Haarlem í maí 1945. Viðburðir. "Bloemencorso Bollenstreek" er blómaskrúðganga sem gengin er frá bænum Noordwijk til Haarlem. Á svæðinu í kringum Haarlem er enda mikil túlípanarækt. Gangan er farin árlega í apríl, þegar nytjablóm þekja akrana. "Bevrijdingspop" er tónlistarhátíð í Haarlem í tilefni af frelsun borgarinnar úr höndum nasista. Því er hún haldin í maí ár hvert. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1980 en í henni er popptónlistin áberandi. Bevrijdingspop er stærsta frelsunarhátíð Hollands. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er (eða var) HFC Haarlem, sem varð hollenskur meistari 1946 og tvisvar bikarmeistari (1902 og 1912). Félagið lék í efstu deild (Eredivisie) fram til 1990 en 2010 varð það gjaldþrota. Einn kunnasti leikmaður félagsins var Ruud Gullit. Knattspyrnufélagið Koninklijke HFC úr sömu borg er elsta knattspyrnufélag Hollands, en það var stofnað 1879. Haarlem séð frá nærsveit. Málverk eftir Jacob van Ruisdael. Kenamju er félag sem stundar bardagaíþróttir í Haarlem. Það var stofnað 1948 og æfðu félagsmenn í upphafi aðeins júdó, en síðar bættust aðrar bardagaíþróttir við, svo sem karate og jiu jitsu. Alls eru 20 mismunandi íþróttir æfðar í dag. Félagið er mjög þekkt víðast hvar. 1998 urðu bæði karla- og kvennaliðin Evrópumeistarar í sínum greinum. Haarlemse Honkbalweek er alþjóðlegt hafnaboltamót sem haldið er á tveggja ára fresti í Haarlem. Mótið var fyrst haldið 1961 (óreglulega) en á sléttum árum síðan 1972. Núverandi meistarar er landslið Hollands en Bandaríkin hafa oftast unnið, eða þrettán sinnum alls. Haarlemmermeer. Gamalt kort af stöðuvatninu Haarlemmermeer. Amsterdam er að ofan fyrir miðju. Að ofan til vinstri er Haarlem. Fyrir sunnan stöðuvatnið er Leiden. Haarlemmermeer er sveitarfélag í hollenska héraðinu Norður-Hollandi og er með 143 þúsund íbúa. Það er staðsett rétt suðvestan við Amsterdam og rétt suðaustan við Haarlem. Áður fyrr lá stórt stöðuvatn á svæðinu sem hét sama nafni. Haarlemmermeer merkir "stöðuvatnið við Haarlem". En 1848-1852 unnu Hollendingar að því að þurrka vatnið upp og búa til ræktarland. Þar af leiðandi er meginhluti sveitarfélagsins fyrir neðan sjávarmál. Sveitarfélagið er samsett úr nokkrum sveitaþorpum. Þeirra helst er Hoofddorp. 1917 var herflugvöllur lagður við austurjaðar Hoofddorp, sem í dag er Schiphol-flugvöllur. Alkmaar. Alkmaar er borg í hollenska héraðinu Norður-Hollandi og er með 94 þúsund íbúa. Alkmaar er þekkt ostaborg. Lega og lýsing. Alkmaar liggur vestarlega í Hollandi, á landsvæðinu milli Norðursjávar og Ijsselmeer. Næstu borgir eru Hoorn til austurs (20 km), Amsterdam til suðausturs (40 km) og Den Helder til norðurs (40 km). Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Alkmaar sýnir gráan turn á rauðum grunni. Turninn er sennilega gamalt virki, Torenburg, sem nú er horfið. Til sitthvorrar handar eru rauð ljón. Efst trónir lárviðarsveigur. Neðst er borði með áletruninni: Alcmaria victrix, sem merkir "hin sigursæla Alkmaar". Þessi einkunnarorð hlaut borgin fyrir frækilega framgöngu sína gegn Spánverjum í frelsisstríðinu á 16. öld. Merkið sjálft er orðið gamalt, en var formlega tekið upp 28. desember 1956. Fáninn samanstendur af sex láréttum röndum, þremur hvítum og þremur rauðum. Efst til vinstri er sami grái turninn og í skjaldarmerkinu. Ostur. Ostamarkaðurinn í Alkmaar er gríðarlega vinsæll Í Alkmaar snýst margt um ostagerð og ostasölu. Ostamarkaðurinn var stofnaður 1622 og er í dag haldinn alla föstudaga frá páskum og fram á haust. Osturinn er seldur í stykkjum eða á þar til gerðum sleðum ef um mikið magn er að ræða. Um 300 þús manns sækja ostamarkaðinn heim árlega og seld eru tugir tonna á hverjum föstudegi. Metið var slegið 1916 en þá seldust 300 tonn á einum degi. Markaðurinn hefst á því að torgið er pússað og osturinn borinn þangað á sleðum. Klukkan 10 hringir bjalla og þá byrja lætin, enda er prúttið um ostaverðið órjúfanlegur hluti af kaupunum. Í Alkmaar er ostafélag sem samanstendur af fjórum hópum. Hver hópur samanstendur aftur af sjö burðarmönnum en hópana má þekkja í sundur af litnum á höttum þeirra (rauða, græna, bláa og gula). Yfirmaður hópanna er ostafaðirinn ("Kaasvader"), en hann þekkist á svörtum staf með silfurlituðum hnúð. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er AZ Alkmaar, sem varð hollenskur meistari 1981 og 2009 (lenti í öðru sæti 1980 og 2006). Liðið hefur auk þess þrisvar orðið bikarmeistari (1978, 1981 og 1982) og einu sinni unnið Johan Cruyff bikarinn (2007). Í Evrópukeppni komst AZ Alkmaar í úrslit árið 1981 en tapaði leiknum fyrir Ipswich Town. Tveir Íslendingar leika (eða hafa leikið með félaginu): Jóhann Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson (sem skipti yfir til Ajax 2011). Í Alkmaar er skautabraut í fullri stærð (400 m) sem tekin var í notkun 1972. Brautin er að hálfu leyti opin og er vindur látin blása stöðugt í brautinni. Þar í borg er einnig stór reiðhjólahöll, kölluð Sportpaleis Alkmaar. Ríkjafræði. Ríkjafræði er grein innan stærðfræðinnar sem kannar eiginleika stærðfræðilegra hugtaka með því að setja þau upp sem "hluti" og "örvar" sem nefnast mótanir. Daniela Ruah. Daniela Ruah (fædd Daniela Sofia Kornn Ruah, 2. desember 1983) er bandarísk og portúgölsks leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í og portúgölsku sápuóperunni Jardins Proibidos. Einkalíf. Ruah fæddist í Boston í Massachusetts en ólst upp í Portúgal frá fimm ára aldri. Hún er af bandarískum og portúgölskum uppruna. Ruah stundaði nám við London Metropolitan-háskólann þaðan sem hún útskrifaðist með B.A.-gráðu í leiklist.. Fluttist hún aftur til Portúgals til að stunda leiklistaferil sinn. Ruah tók þátt í "Dança Comigo" sem er portúgalska útgáfan af "Dancing with the Stars" sem hún vann árið 2007. Sama ár þá fluttist hún til New York og stundaði leiklistarnám við Lee Strasberg Theatre and Film Institute. Sjónvarp. Ruah byrjaði feril sinn í portúgalska sjónvarpinu. Þegar hún var sextán ára þá fékk hún hlutverk í sápuóperunni Jardins Proibidos sem Sara sem hún lék frá 2000-2001. Kom hún síðan fram í sápuóperunum Filha do Mar, Dei-te Quase Tudo og Tu e Eu. Ruah hefur einnig komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttunum Elsa, uma Mulher Assim, Inspector Max og The Guiding Light. Hefur hún síðan 2009 leikið eitt af aðalhlutverkunum í sem NCIS alríkisfulltrúinn Kensi Blye. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Ruah var árið 2006 í "Canaviais" og hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Midnight Passion", "Safe Haven" og Red Tails. Tenglar. Ruah, Daniela Ruah, Daniela Hoorn. Hoorn er er sögufræg hafnarborg í hollenska héraðinu Norður-Hollandi og er með 68 þúsund íbúa. Hoorn var áður fyrr heimaborg Hollenska Austur-Indíafélagsins en liggur í dag ekki lengur að sjó. Hornhöfði (Kap Hoorn), syðsti höfði Ameríku, er nefndur eftir borginni. Lega og lýsing. Hoorn liggur við Markermeer (syðsti hluti Ijsselmeer) vestarlega í Hollandi. Næstu borgir eru Alkmaar til vesturs (20 km), Enkhuizen til norðausturs (20 km), Amsterdam til suðurs (40 km) og Den Helder til norðvesturs (50 km). Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Hoorn sýnir rautt-gult gjallarhorn með bláum borða á hvítum grunni. Hornið er til tákn um uxa sem hljópst á brott frá bænum Monnickendam og missti eitt hornið þar sem í dag er borgin Hoorn. Áður fyrr var María mey höfð með á merkinu en 1538 var María tekin út í stað einhyrningsins, sem var einkennismerki biskupsins í Utrecht. Fáninn er eins og austurríski fáninn, það er að segja þrjár rendur (rauð, hvít og rauð). Merkingin er óljós en litirnar komu fyrst fram á 17. öld. Opinberlega var fáninn þó ekki tekinn í notkun fyrr en 13. febrúar 1979. Orðsifjar. Hoorn merkir horn. Hins vegar eru til margar kenningar uppi um tilurð heitisins, allar úr mítum og gömlum sögnum. Ein kenningin gerir þó ráð fyrir að heitið sé dregið af horni í Zuiderzee (Ijsselmeer í dag), enda stendur borgin við vík. Söguágrip. Hoorn séð frá Zuiderzee. Málverk eftir Hendrick Cornelisz Vroom 1622. Samkvæmt frísneskum sögum var Hoorn þegar til sem bær á 8. öld og varð brátt að mikilvægum siglingabæ. Bærinn lá þá við fjörðinn Zuiderzee, sem í dag er stöðuvatnið Ijsselmeer. 1357 hlaut Hoorn borgarréttindi. 1603 var Hoorn ein af stofnborgum Hollenska Austur-Indíafélagsins og sigldu skip þaðan til Asíu og annarra heimsálfa. Verslunarvörur þaðan seldust víða, aðallega krydd. Jan Pieterszoon Coen, fæddur í Hoorn, stofnaði nýlenduna Batavíu, sem í dag er Jakarta í Indónesíu. Árið 1616 sigldi sæfarinn Willem Schouten frá Hoorn fyrstur manna suður fyrir Ameríku og nefndi suðuroddann þar Kap Hoorn (Hornhöfða) eftir heimaborg sinni. Á 18. öld minnkaði vægi hafnarinnar talsvert, þannig að Hoorn varð að nokkurs konar miðstöð landbúnaðarsvæðisins í kring. 1932 var mikill sjávarvarnargarður lagður fyrir minni Zuiderzee, þannig að til varð stöðuvatnið Ijsselmeer. Hoorn var þannig klippt frá aðgangi til sjávar en er engu að síður með allstóra smábátahöfn. Gufuskip. Gufuskip (stundum eimskip) er skip sem knúið er áfram með gufuvél. Gufuvélin snýr skipsskrúfu eða spaðahjóli sem knýr skipið áfram í vatninu. Gufuskip voru fyrsta stig vélvæðingar skipa og tóku við af seglskipum. Þau áttu sitt blómaskeið á síðari hluta 19. aldar og fyrstu áratugum þeirrar 20. þar til dísilvélar tóku við sem ríkjandi aflgjafi um borð í skipum. Drýsill. Drýsill var íslensk þungarokkshljómsveit sem starfrækt var frá árinu 1984 til ársins 1986. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru Eiríkur Hauksson, Sigurgeir Sigmundsson, Sigurður Reynisson, Jón Ólafsson og Einar Jónsson. Hljómsveitin er aðallega þekkt fyrir framsækna rokktónlist og þungarokk. Hljómsveitin gaf aðeins út eina plötu, "Welcome To the Show" árið 1985, en hún var aðeins gefin út í 1000 eintökum. Hljómsveitin kom út saman til þess að hita upp á tónleikum á Nasa, árið 2005, fyrir bandarísku þungarokkshljómsveitina Megadeath. Peter Máté. Peter Máté (f. 1962) er píanóleikari frá Slóvaíku. Hann hefur meðal annars verið hluti af Tríói Reykjavíkur ásamt Gunnari Kvaran og Guðnýju Guðmundsdóttur. ICIUM. Útsýni úr Kínamúrs-rennibrautinni yfir Dómkirkjuna í Helsinki í ICIUM veturinn 2010-2011. ICIUM Wonderworld of Ice er vetrargarður í Levi, Finnlandi úr snjó og ís. Garðurinn opnaði fyrst 18. desember 2010. ICIUM sýnir bæði íshöggmyndir og snjólistaverk á svæði sem þekur um einn hektara. Framkvæmdir. Framkvæmdir á aðaljárbrautarstöðinni í Helsinki desember 2010. ICIUM er byggt af kínverskum íshögglistamönnum frá Harbin borg, þar sem Alþjóðlega ís- og snjóhöggmyndahátíðin hefur verið haldin árlega frá því 1963. Yfir 10.000 rúmmetrar af snjó voru notaðir í framkvæmdirnar árið 2010. Ennfremur var yfir 600 rúmmetum af ís lyft úr Ounasjoki ánni fyrir gerð höggmyndanna. Kínverskir alþýðulistamenn. Alþýðulistamenn frá Beijing voru einnig í ICIUM til að kynna hefðbundna kínverska alþýðulist, líkt og strávefnað, málun tóbaksflaskna og höggmyndagerð úr deigi. ICIUM lukkudýrið. Pandahúnninn Mingming er lukkudýr ICIUM. Í sínu fyrsta ævintýri reynir Mingming að bjarga heimili sínu frá vondum dreka með hjálp afans og hreindýrsins Niila, hreindýrakálfinum Nina og jólasveininum. Brennisteinsoxíð. Brennisteinsoxíð er sameind samansett úr einni súlfíðfrumeind og tveimur súrefnisfrumeindum og hefur efnaformúluna SO2. Það er fljótandi við -72 °C og suðumark þess er -10  °C við 100 kPa þrýsting. Eldfjöll og iðnaður losa brennisteinsoxíð. Pálmi Haraldsson (athafnamaður). Pálmi Haraldsson (22. janúar 1960), oft kallaður Pálmi í Fons, er íslenskur athafnamaður, sem komst til efna á veltiárum Íslands eftir aldamótin 2000 - 2001, en hefur verið mjög umdeildur eftir bankahrunið þegar viðskiptafléttur hans komust í fréttirnar. Hann er helst þekktur fyrir að vera eigandi lágflugfargjaldafélagsins Iceland Express og hafa átt í viðskiptum með Sterling-flugfélagið. Pálmi hefur verið náinn viðskiptasamherji Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og hafa fjárfestingar þeirra skarast víða. Ævi. Pálmi er sonur Haraldar Guðmundssonar rafvirkja og Auðar Stefánsdóttur starfsmanns á gæsluvöllum Reykjavíkur. Pálmi nam rekstrarhagfræði við Háskólann í Gautaborg og lauk meistaranámi við Verslunarháskólann í Gautaborg 1991. Hann hvarf frá fyrirætlunum um doktorsnám til þess að geta tekið við starfi framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna. Pálmi á barn úr fyrri sambúð og tvo syni og stjúpson með núverandi eiginkonu. Viðskipti. Pálmi starfaði upphaflega hjá Sölufélagi garðyrkjumanna þar sem hann gætti hagsmuna þeirra bænda og framleiðenda sem lögðu inn í Sölufélagið. Árið 2001 komst Samkeppniseftirlitið (þá Samkeppnisstofnun) að þeirri niðurstöðu að „á árinu 1995 hafi Sölufélag garðyrkjumanna (og tengd fyrirtæki), ásamt Ágæti og Mata tekið upp víðtækt ólögmætt verðsamráð og markaðsskiptingu varðandi viðskipti með grænmeti.” Hann rak seinna einkahlutafélagið Fons sem á m.a. fjórðungshlut í 365 miðlum, stærsta fjölmiðlafyrirtækinu á Íslandi en Pálmi á sjálfur rúmlega 40% hlut. Pálmi hefur einnig komið að rekstri lágflugfargjaldafélaginu Sterling. Pálmi á einnig eignarhaldsfélögin Feng og Nupur Holding S.A.. Málsókn Glitnis banka. Þann 11. maí 2010 var málsókn Glitnis banka á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur þingfest fyrir rétti í New York-fylki, þar sem þau eru ákærð fyrir það að „...hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemur meira en tveimur milljörðum dala...“. Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers er einnig ákært fyrir að „...greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau sviksamlegu viðskipti sem Jón Ásgeir og félagar komu í kring og sem að endingu leiddu til falls bankans í október 2008.“ Formleg veldaröð. Formleg veldaröð er algebrísk lýsing eða almenn útfærsla á margliðum, þar sem litið er á þær sem "formlegt stærðtákn", það er breytistærðir hennar eru almenn tákn en ekki takmarkaðar við ákveðið svið og liðir hennar geta verið óendanlega margir. Formleg veldaröð er þannig ólík hefðbundnum veldaröðum sem geta skilgreint ákveðið fall eða tölu ef veldaröðin er samleitin. Formlegar veldaraðir hafa mikið notagildi í algebrískri fléttufræði, þær eru notaðar til þess að finna lokaða yrðingu útfrá gefnum rakningarvenslum eða runum (svo sem fyrir Fibonacci tölurnar) eða sambönd milli rakningarvensla eða runa, þetta kallast að finna framleiðandi fall útfrá runu eða rakningarvenslum. Formleg lýsing. Stig formlegrar veldaraðar er skilgreint líkt og stig margliðu: formula_5 og stærðin formula_6 nefnist raðstig "S". Willem Schouten. Willem Schouten (um 1580 í Hoorn – 1625 í Baie d‘Antongil á Madagaskar) var hollenskur sæfari. Hann var fyrsti maðurinn til að sigla suður fyrir Hornhöfða í Ameríku. Sæfarinn. Lítið er vitað um æsku Schoutens. Hann varð sjómaður á unga aldri og sigldi um öll þau höf sem þá voru kunn. Einnig sigldi hann til norðurs og var meðal fyrstu manna til að sigla til rússnesku eyjanna Novaja Semlja. Á þessum tíma var Hollenska Austur-Indíafélagið með nokkrar nýlendur í Austur-Asíu (Indónesía í dag). Þangað sigldi Schouten einnig þrisvar meðan hann var ungur. Ávallt var siglt suður fyrir Góðrarvonarhöfða í Afríku og yfir Indlandshaf. Isaac Le Maire. Isaac Le Maire var ungur sæfari. Faðir hans var einn meðstofnandi Austur-Indíafélagsins en yfirgaf það 1605 eftir mikið ósætti. Hann stofnaði sitt eigið félag og fól Isaac syni sínum að sigla til Kryddeyjanna. Isaac réði Willem Schouten og undirbjuggu þeir tvö skip í heimaborg þeirra, Hoorn í Hollandi. Vandamál þeirra var að Austur-Indíafélagið meinaði þeim að sigla um Góðrarvonarhöfða. Sömuleiðis var Magellansund í Suður-Ameríku lokað fyrir þeim. Því urðu þeir að finna nýja siglingaleið til Austur-Asíu. Heimssigling. Siglingaleið Schoutens og Le Maire 14. júní 1615 lögðu Schouten og Le Maire af stað frá Hoorn á tveimur skipum. Í desember komust þeir klakklaust til Patagóníu og urðu að lagfæra skipin þar. Meðan á því stóð kveiknaði í öðru skipinu og eyðilagðist það. Því urðu þeir að halda áfram á einu skipi, sem hét Eendracht ("Samlyndi"). Þeir sigldu suður en í stað þess að sigla inn um Magellansund héldu þeir áfram í von um að finna annað sund. Á þessum tíma var ekkert vitað um landmassann fyrir sunnan Magellansundið. Eftir nokkra daga uppgötvuðu þeir suðurodda Suður-Ameríku og sigldu fyrir syðstu eyjuna þar. Hún hlaut heitið Kaap Hoorn ("Hornhöfði"), eftir heimaborg þeirra beggja. Sundið milli Hornhöfða og meginlandsins hlaut hins vegar heitið Straat van Le Maire ("Le Maire sund"). Í Kyrrahafi uppgötvuðu Schouten og Le Maire nokkrar nýjar eyjar í Vináttueyjaklasanum og við Nýju-Gíneu. Þar á meðal uppgötvuðu þeir Nýja-Írland. Þegar þeir náðu til Kryddeyja (Molukkaeyja) var Willem Schouten búinn að sigla umhverfis heiminn, þar sem hann hafði áður komið þangað. Hann varð því tíundi einstaklingurinn (skipstjóri/leiðangursstjóri) sem það afrekaði. Fangi og hetja. Á Kryddeyjum var þeim vel tekið af hollenskum nýlendumönnum. Þeir keyptu krydd og hlóðu skipið sitt. Heim ætluðu þeir að sigla yfir Indlandshaf. Þegar þeir komu til eyjarinnar Jövu voru þeir hins vegar handteknir og settir í hlekki. Austur-Indíafélagið sakaði þá um að rjúfa einokun þeirra á verslun með kryddi, enda trúði enginn sögu þeirra um nýja siglingaleið. Í höfninni í Batavíu var hollenski sæfarinn Joris van Spielbergen, sem aðeins nokkrum mánuðum áður hafði siglt um heiminn (og var níundi sæfarinn sem það afrekaði). Austur-Indíafélagið fékk van Spielbergen til að sigla með Schouten og Le Maire föngnum heim til Hollands, ásamt tíu áhafnarmeðlimum Schoutens. Á leiðinni lést Le Marie, aðeins 31s árs gamall. Í Hollandi var réttað yfir Schouten, en þar tókst honum að færa sönnur á nýju siglingaleið sinni. Í kjölfarið var hann látinn laus og var jafnvel heiðraður. Á 16 mánaða hnattsiglingu sinni hafði Schouten haft 86 menn í áhöfn sinni. Aðeins þrír af þeim létust á leiðinni, sem verður að teljast merkilegt, enda voru sjúkdómar eins og skyrbjúgur meðal sæfarenda á þessum tíma mjög algengir. Willem Schouten hélt áfram siglingum á vegum Austur-Indíafélagsins. Hann lést í einni slíkri á Madagaskar aðeins 45 ára gamall. Heimildir. Schouten, Willem Radíanar. Radíanar eru hornmælieining sem er 1/2π úr hring. Þ.e. einn hringur er 2π sem svarar til 360° í hefðbundnum gráðum. Í stærðfræði eru radíanar meira notaðir en gráður. Notkun radíana hefur ýmsa kosti í för með sér í stærðfræði sökum tengsla hrings við töluna π. Vikan mín með Marilyn. Vikan mín með Marilyn (enska: "My Week with Marilyn") er bresk kvikmynd sem leikstýrð er af Simon Curtis og skrifuð af Adrian Hodges. Michelle Williams, Kenneth Branagh, Eddie Remayne, Dougray Scott, Emma Watson og Judi Dench fara með aðalhlutverkin í myndinni sem er byggð á tveimur bókum eftir Colin Clark. Myndin fjallar um gerð kvikmyndarinnar "The Prince and the Showgirl" þar sem Marilyn Monroe og Laurence Olivier fóru með aðalhlutverkin og vikuna sem hún eyddi með Colin Clark í Bretlandi eftir að eiginmaður hennar Arthur Miller fór úr landi. Forsýning myndarinnar átti sér stað á kvikmyndahátíðinni í New York þann 9. október 2011 og var frumsýnd í Bandaríkjunum þann 4. nóvember 2011 og 30. desember á Íslandi. Söguþráður. Sumarið 1953 fylgist hinn 23. ára gamli Colin Clark með og skrásetur spennuna sem ríkir á milli Laurence Olivier og Marilyn Monroe á meðan að framleiðslu myndarinnar "The Prince and the Showgirl" stendur á. Sagan er byggð á tveimur dagbókum Colin Clarks sem þá var nýskriðinn úr Oxfordháskólanum og hafði tekist að fá vinnu sem aðstoðarmaður við gerð myndarinnar eftir mikla þrautsegju. Það upphófst mikið fjölmiðlafár í Bretlandi þegar Marilyn kom til London til að leika í myndinni í leikstjórn sjálfs Sir Laurence Olivier, konungs enskra leikara á þeim tíma. Með í för var eiginmaður Marilyn, rithöfundurinn frægi Arthur Miller, en þau voru þá nýgift og í raun var ferðin til Englands hluti af brúðkaupsferð þeirra. Þegar Arthur ákveður að fara heim til Bandaríkjanna til að hitta börnin sín á undan Marilyn varð hún bæði óörugg og einmana og leitaði til Colins sem var að sjálfsögðu meira en fús til að gera hvað sem er fyrir þessa fegurstu og frægustu kvikmyndastjörnu heims. Á meðan varð Sir Laurence Olivier sífellt stirðari í skapi yfir óstundvísi og sérlundi Marilyn sem tafði tökur og ljóst að eitthvað varð að láta undan. Borgakeppni Evrópu (handknattleikur). Borgakeppni Evrópu (EHF City Cup) var Evrópukeppni fyrir félagslið karla og kvenna sem haldin var um nokkurra ára skeið á tíunda áratug tuttugustu aldar. áskorendakeppni Evrópu var stofnuð á grunni hennar árið 2000. Borgakeppnin var fjórða Evrópukeppnin fyrir félagslið ásamt Evrópukeppni meistaraliða, Evrópukeppni bikarhafa og Evrópukeppni félagsliða og jafnframt sú sem lægst var skrifuð. Mótið var fyrst haldið veturinn 1993-94 og síðast veturinn 1999-2000. Eftir að öflugri handknattleiksþjóðir álfunnar fengu að senda fleiri en eitt lið í Evrópukeppni meistaraliða (Meistaradeildina) var Borgakeppnin lögð niður. Áskorendakeppni Evrópu tók við hlutverki hennar, en stekari lönd á borð við Þýskaland og Spán taka ekki þátt í henni. Þjóðverjar áttu lið í úrslitum Borgakeppninnar í karlaflokki öll sjö skiptin sem hún var haldin og sigurðu sex sinnum. Norska liðið Drammen sigraði veturinn 1995-96.Í kvennaflokki var dreifingin jafnari, þar sem lið frá fimm þjóðum skiptu með sér titlunum sjö. Erlendur Sveinsson. Erlendur Sveinsson er aðalpersónan í bókum Arnalds Indriðasonar. Nýfundinn hafstraumur "The North Icelandic Jet". Nýfundinn Hafstraumur við Ísland „The North Icelandic jet“. Frá árinu 2000 hafa vísindamenn frá Íslandi Bandaríkjunum, Noregi og Hollandi verið að rannsaka áður óþekktan hafstaum norðan og vestan við Ísland. Áður fyrr voru straumar mældir út frá dreyfingu hita og seltu, þá var hægt að reikna út eðlisþynd sjávarins og út frá því var búið til þrýstingskort, sambærilegt veðurkorti með þrýstilínum. Út frá þessu var hægt að búa til straumakort sem notuð eru enn í dag. Með nýrri tækni, sérhæfðum straumsíritamælum og með notkun ADCP straumsjáa má mæla hafstrauma með áður óþekktri nákvæmni. Þegar Árni Friðriksson kom nýr árið 2000 var í honum ný gerð af straummæli sem er festur við botninn og mælir sjávarstrauma á meðan skipið siglir. Þegar skipið var að vinna verkefni á Hornbanka var tækifærið notað til að straummæla, það kom í ljós að straumurinn var til vesturs. Í áttina að Grænlandssundi. Í þveröfuga átt við það sem haldið hafði verið. Straumurinn var mældur á Hornbanka í 4-5 ár og alltaf fékkst sama niðurstaðan, það var settur út síriti í eitt ár sem sýndi að straumurinn var stöðugur til vesturs. Hafrómönnum og vísindamönnum frá Bandaríkjunum hefur nú tekist að rekja strauminn austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. Um uppruna straumsins er ekki vitað. Sumir vildu halda því fram að þetta væri austur grænlandsstraumurinn sem sveigði til íslands þegar hann nálgaðist grænlandssundið. Fram til þessa hafði verið talið að irmingerstraumurinn væri eini straumurinn vestan íslands en hann flytur heitan sjó norðurfyrir land. Hinn nýfundni straumur hefur ekki enn fengið íslenskt nafn en hann er kallaður „The North Icelandic Jet“ af Bandaríkjamönnunum. Nýji straumurinn er kaldur um 0°C og jafnvel undir því. Hann gæti verið hluti af heita sjónum sem kemur með irmingerstraumnum norður fyrir landið þegar sjórinn kólnar þegar hann sleppir varmanum út í andrúmsloftið verður sjórinn eðlisþyngri og sekkur í djúpin og streymir í djúplögunum í í Norður Atlantshaf á ný. Þetta er hringrás sem hefur verið kölluð hita seltu hringrásin, heitur sjór kemur hingað, kólnar og sekkur og streymir svo aftur út í djúpið suður af landinu. Þetta er oft kallað færibandið, þegar sjórinn kólnar og sekkur verður eitthvað að koma í staðinn fyrir þann sjó og því dregur hann heitan sjó norður fyrir landið. Þessi nýji straumur gefur til kynna að minni hætta er talin á að golfstraumurinn stöðvist og kuldaskeið taki við í Norður-Atlantshafi. Það má því segja að Irmingerstraumurinn fari yfir landgrunn íslands vestan og norðan við landið, sleppi varmanum út í andrúmsloftið fyrir norðan og sökkvi þegar eðlisþyngd sjávarins eykst við minna hitastig. Svo streymir hann til baka í vestur út í djúpin niður á 3000 metra dýpi og er þar með hluti af seltu hita hringrás jarðarinnar. Drenthe. Drenthe er fylki í Hollandi. Þar er mikill landbúnaður stundaður og er fylkið mjög fámennt. Lega og lýsing. Drenthe er nær austast í Hollandi og liggur að þýsku landamærunum. Fyrir norðan er Groningen, fyrir vestan er Frísland og fyrir sunnan er Overijssel. Í Drenthe búa aðeins 491 þús manns og er fylkið því það þriðja fámennasta í Hollandi á eftir Sjálandi og Flevoland. Það er hins vegar strjálbýlast allra fylkja. Höfuðborgin er Assen en stærsta borgin er Emmen. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Drenthe sýnir Maríu mey með Jesúbarnið sitjandi vinstra megin á kjöltunni. Bakgrunnurinn er gullin. Merkið er upprunnið úr klaustrinu í Assen, en var fyrst notað 1830, áður en Drenthe var formlega gert að fylki. Þó var merkið ekki formlega tekið upp fyrr en 19. ágúst 1972. Fáninn er með fimm láréttar rendur, hvítar og rauðar. Litirnir eru teknir úr merkjum biskupsins í Utrecht. Í miðröndinni eru sex rauðar stjörnur en þær merkja hreppana sex sem fylkið er samsett úr. Svarta virkið fyrir miðju er Coevorden-virkið, en þar bjó fulltrúi biskupanna í Utrecht. Fáninn var opinberlega tekinn í notkun 19. febrúar 1947 og er þar með elsti fylkisfáni Hollands. Orðsifjar. Á 9. öld hét fylkið Pago Treanth, sem merkir "land hinna þriggja svæða". Hér er átt við landsvæðin Noordenveld, Westenveld og Zuidenveld (Norður-, Vestur- og Suðurmörk). Treanth umbreyttist með tímanum í Drenthe. Söguágrip. 820 kemur nafnið Drenthe fyrst við skjöl og kallast þá Pago Treanth. Fylkið var greifadæmi í þýska ríkinu, en 1046 gaf Hinrik III keisari biskupunum í Utrecht yfirráð yfir svæðinu. Þegar Hollendingar hófu uppreisn og sjálfstæðisstríð gegn Spáni var Drenthe og Overijssel eitt svæði. Það var ekki fyrr en 1839 sem fylkin voru splittuð og Drenthe myndaðist sem eigið fylki. Borgir. Í Drenthe eru aðeins tvær teljandi borgir. Illumina-raðgreining. Illumina-raðgreining var upphaflega nefnt Solexa-raðgreining eftir fyrirtækinu Solexa sem fann aðferðina upp. Um er að ræða DNA-raðgreiningaraðferð sem tilheyrir þriðju kynslóð (next generation) raðgreiningaraðferða. Fyrst eru stuttar raðir, viðhengi, (adaptors) festar við DNA-bútanna sem skal raðgreina. Þeim er síðan komið fyrir á flögu sem hefur raðir sem geta basaparast við viðhengin, bútarnir festast því á báðum endum og mynda einskonar brú. PCR-hvarf er sett af stað og þar sem DNA-bútarnir komast ekki langt án þess að festast aftur við flöguna myndar hver bútur einskonar kóloníu af samsvarandi bútum (polonies). Raðgreiningin sjálf hefst með því að dNTP með flúrmerki og verndarhóp skellt á flöguna. Siðan er flúrmerkið mælt áður en verndarhópurinn er tekinn af og næsta basi getur bundist. Fyrir hverja poloníu er raðgreint frá báðum endum þar sem búturinn er til staðar í báðum stefnum eftir PCR-hvarfið. Samkvæmt heimasíðu Illumina er þannig hægt að raðgreina allt að 150 bp frá hvorum enda á hverjum DNA bút og fá allt að 640 milljón raðir í einni keyrslu. Hámarkslengd raða og fjöldi í hverri keyrslu er eykst samt stöðugt með framförum í tækni. 454 raðgreining. 454 raðgreining er aðferð sem tilheyrir háafkasta DNA-raðgreiningar aðferðum. Með þessari aðferð eru límdar stuttar raðir, viðhengi, (e. "adaptors") á DNA-búta svo þeir bindist með basapörun við örsmáar kúlur. Styrkur kúlanna og DNAsins er hafður þannig að sirka ein DNA-sameind bindist á hverja kúlu. Kúlurnar eru síðan settar í olíudropa og PCR-hvarf sett af stað til að auka magn einstakra DNA-búta. Kúlunum er síðan komið fyrir á plötu með örsmáum holum sem taka einungis eina kúlu stærðar sinnar vegna. Síðan er notast við pyroraðgreiningu (pyro sequencing) til að raðgreina samtímist allar DNA-sameindirnar á plötunni, sem eru fjöldamargar. Pyro-raðgreining byggir á því að við DNA-fjölliðun losnar pyrofosfat (PPi), sulfurylasi umbreytir því svo í ATP sem lúsíferasi notar svo til að framleiða ljós. Aðeins einni gerð af dNTP er hleypt á plötuna í einu og því berst einungis ljós frá þeim holum þar sem tilsvarandi dNTP er bætt við röðina. Styrkur ljósins ræðst svo af fjölda eins núkleotíða í röð. Meðallengd reada er um 400 bp með þessari aðferð en hægt er að raðgreina tæpa milljón reada samtímis samkvæmt heimasíðu framleiðands. Þeyr (hljómsveit). Þeyr var íslensk hljómsveit sem kom fyrst saman árið 1980. Sveitin spilaði framsækið rokk og pönk og er talin hafa sett strik í íslenska tónlistarsögu. Þeyr gaf út fjórar breiðskífur og fjórar smáskífur en mestann ferilinn samanstóð hún af Magnúsi Guðmundssyni (söngur), Guðlaugi Kristni Óttarssyni (gítar), Þorsteini Magnússyni, Hilmari Erni Agnarssyni (bassi) og Sigtryggi Baldurssyni (trommur), þó fleiri hafi komið fram með sveitinni. Eftir að platan "The Fourth Reich" kom út dvínuðu vinsældir sveitarinnar sem lagði í kjölfarið upp laupanna vorið 1983. Sveitin virtist hafða mikinn áhuga á fornspeki, norrænni goðafræði, dulspeki og fleiru því fram eftir götum. Vakti hún oft á tíðum mikið umtal og jafnvel deilur fyrir verk sín og framsetningu, þá sérstaklega fyrir notkun þeirra á hakakrossum, tengsl við nasisma og fasisma. Sjálf hélt sveitin því fram að notkun þeirra á hinum ýmsu merkjum og táknum væri túlkun þeirra á and-fasisma. Tölvuskrá. Tölvuskrá eða einfaldlega skrá (sjaldnar tökuorðið fæll frá enska orðinu "file") er gagnaeining í tölvu sem ber ákveðið heiti (skráarheiti) sem tölvuforrit geta notað til að nálgast og vinna með skránna. Skrár geta verið staðsettar í möppum sem geta innihaldið margar skrár eða skráartengi sem vísa á skrár. Assen. Assen er höfuðborgin í hollenska héraðinu Drenthe. Þar búa 67 þúsund manns og er hún þó ekki nema næststærsta borgin í héraðinu (á eftir Emmen). Lega og lýsing. Assen liggur norðaustarlega í Hollandi. Næstu borgir eru Groningen til norðurs (25 km), Emmen til suðausturs (35 km), Leeuwarden til norðvesturs (65 km) og Zwolle til suðvesturs (75 km). Assen liggur á sandhrygg og því er lítið um vatn þar. Aðeins nokkur síki eru í borginni. Skipaskurður tengir Assen við aðalskipaleiðir í Hollandi. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir mynd af Maríu mey með Jesúbarnið á bláum grunni. Það er fengið að láni úr merki klaustursins Maria de Campe, nema hvað Jesús situr á hægra hné Maríu (öfugt í klaustrinu). Merkið var formlega tekið upp 19. september 1821. Fáninn var tekinn upp 1959 og myndar bláa og hvíta láréttar rendur. Litirnir voru teknir úr skjaldarmerkinu. Söguágrip. Mótorhjólabrautin í Assen er ein sú þekktasta í Evrópu 1285 var klaustrið Sancta Maria de Campe reist á staðnum þar sem í dag er Assen. Klaustrið var varið með síkjum og múrum, en umhverfis það myndaðist byggð. 1602 hurfu Spánverjar úr héraðinu og var klaustrinu þá lokað og breytt í skóla. Bærinn Assen myndaðist þó ekki fyrr en seinna á 17. öld. Bærinn var lítill í fyrstu og náði ekki að vaxa utan klausturmúrana fyrr en á 18. öld. Árið 1807 ákvað konungurinn Loðvík Bonaparte að sameina Assen og nokkra bæi í nærsveitum. Sameiningin tókst svo vel og varð svæðinu svo mikil lyftistöng, að hann veitti Assen borgarréttindi tveimur árum síðar. 1814 hurfu Frakkar úr héraðinu og varð Assen þá að höfuðstað svæðisins Drenthe. Assen varð síðan að höfuðborg héraðsins þegar það var splittað frá Overjissel 1839. Þann 13. mars 1978 ruddist flokkur manna frá Molúkkaeyjum (Indónesíu) inn í stjórnarbyggingu í Assen og tóku 70 manns í gíslingu. Sérsveit lögreglunnar ruddist inn í bygginguna daginn eftir og náði að frelsa gíslana. Aðeins einn þeirra lét lífið. Íþróttir. Við Assen er hin kunna mótórhjólabraut TT Circuit Assen, en þar er keppt í Grand Prix Nederlande. 2009 var stærsta hjólreiðakeppni Spánar með rásmark í Assen. Hjólaður var einn hringur á kappakstursbrautinni áður en öll hersingin hjólaði í suðurátt. Groningen (fylki). Groningen er nyrsta fylki Hollands. Lega og lýsing. Groningen nær yfir norðvestasta svæði meginlands Hollands. Nokkrar af austustu eyjum Vesturfrísnesku eyjanna tilheyra fylkinu. Ein þeirra, Rottumerplaat, er nyrsti oddi Hollands. Önnur fylki sem að Groningen liggja eru Drenthe fyrir sunnan og Frísland fyrir vestan. Auk þess liggur Groningen að Þýskalandi fyrir austan. Fyrir norðan er Vaðhafið, sem er hluti Norðursjávar. Fylkið er mjög láglent og eru sum svæðin fyrir neðan sjávarmál. Hæsta hæðin nær aðeins 30 metra hæð. Íbúarnir eru 579 þúsund talsins. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Groningen. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Groningen er fjórskipt. Uppi til vinstri og niðri til hægri er svartur tvíhöfða örn. Örninn er bæði tákn þýska ríkisins, sem og borgarinnar Groningen. Innan í örnunum er hvít/grænt merki en það er borgarmerki Groningen. Uppi til hægri og niðri til vinstri er gamalt merki Ommelanden en þannig hét áður fyrr meginsvæði þess sem Groningen er í dag. Þetta er enn í dag fáni Fríslands. Ljónin sem skjaldberar og kórónan efst eru síðari tíma viðbætur. Skjaldarmerkið í núverandi mynd var tekið upp 1947. Fáninn er líkur að formi og íslenski fáninn. Grænn kross innan um hvítan kross. Hornin eru ýmist blá eða rauð. Litirnir voru teknir úr fána borgarinnar Groningen og Ommelanden. Fáni þessi var opinberlega tekinn upp 1913. Orðsifjar. Fylkið heitir eftir borginni Groningen. Gamli rithátturinn er Groeningen. Merkingin er óljós, en talið er að liturinn grænn sé stofn heitisins (groen eða gruen = grænn). Á mállýsku innfæddra er heitið Grunn, sem einnig merkir "grænn". Nokkrar þjóðsögur eru til um heitið borgarinnar og eru þær allar í þá áttina að persóna að nafni Gruno hafi stofnað hana. Söguágrip. Groningen var í margar aldir hluti af þýska ríkinu. Þegar Niðurlönd hófu uppreisn gegn Spáni, stóð Groningen í fyrstu utan við. Árið 1594 gengu íbúar þó til liðs við Vilhjálm af Óraníu og börðust með honum gegn Spánverjum. Þegar Frakkar yfirgáfu Niðurlönd 1814 kom til tals að sameina Groningen Þýskalandi á ný. En íbúar vildu halda tengsl við Holland. Vínarfundurinn úrskurðaði því 1815 að Groningen skyldi tilheyra sameinuðum Niðurlöndum og varð það því að fullgildu fylki. Borgir. Groningen er eina teljandi borgin í fylkinu. Eric Christian Olsen. Eric Christian Olsen (fæddur 31. maí 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í, Not Another Teen Movie og. Einkalíf. Olsen fæddist í Eugene í Oregon en ólst upp í Bettendorf í Iowa. Olsen fékk áhuga á leiklist í grunnskóla og kom fram í leikritum og söngleikjum í menntaskóla. Olsen lærði hjá "ComedySportz Quad Citie"s og varð síðan meir einn af meðlimum hópsins. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Olsen var í sjónvarpsauglýsingu fyrir Whitey ísfyrirtækið. Árið 1997 þá kom Olsen fram í sjónvarpsþættinum "Beyond Belief: Fact or Fiction" sem var fyrsta hlutverk hans í sjónvarpi. Síðan þá hefur hann komið fram í þáttum á borð við: ER, Smallville, 24, Tru Calling og Brothers & Sisters. Árið 1999 þá var honum boðið hlutverk í "Get Real" sem Cameron Green sem hann lék til ársins 2002. Lék hann síðan gestahlutverk í Community og Hero Factory. Hefur hann síðan 2010 leikið eitt af aðalhlutverkunum í sem LAPD lögreglumaðurinn Marty Deeks. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Olsen var árið 2001 í "Mean People Suck". Kom hann síðan fram í kvikmyndum á borð við Pearl Harbor, Not Another Teen Movie og Local Boys. Árið 2003 þá var honum boðið eitt af aðalhlutverkunum í sem Lloyd Christmas. Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við: Beerfest, License to Wed, Eagle Eye, The Back-up Plan og The Thing. Tenglar. Olsen, Eric Christian DNA samfella. DNA samfella (eða samfella) er basaröð litingabúts og röðin fæst þegar stökum DNAröðum, til dæmis úr bútaraðgreiningu á erfðamengi er raðað saman í lengri raðir. Þessar raðir brúa til dæmis heilt gen eða genasvæði. Í sýninu er fjöldi eintaka er af hverjum litning eða litningahluta þannig að einstakir bútar eru raðgreindir oftar en einu sinni. DNA-ið er einnig brotið niður handahófskennt. Þetta tvennt veldur því að einstakar DNA raðir hafa samsvörun sín á milli, og saman þekja þær erfðamengið (eða svæðið sem verið er að raðgreina). DNA grind (scaffold). Þegar samfellum úr bútaraðgreiningu er raðað saman út frá öðrum upplýsingum en basaröð myndast grind (e. scaffold eða supercontig). Notast er við genakort, raðgreind mRNA og aðrar tiltækar upplýsingar til að raða samfellum í rétta röð og í réttri stefnu í stærri grind sem samsvarar oft heilum litningum eða litningsörmum. Í grindinni eru göt milli samfella sem hægt er að reyna að fylla upp í ef vilji og fjármagn er fyrir hendi. Hægt að staðsetja grindur á litninga til dæmis með litningalitun. Þegar erfðamengi telst raðgreint að fullu á ein genagrind að mynda einn litning eða litningsarm. Slíkt er sjaldgæft. Inngangur að skammtafræði. Skammtafræði er lýsing á hegðun smæstu hluta sem þekkjast: frum- og öreinda. Fyrir aldamótin 1900 var ljóst að hin sígilda eðlisfræði var ófær um að útskýra ákveðna hluti sem varð til þróunar skammtafræði. Ljósbrot. Þegar ljós fer í gegnum þrístrending eða prisma brotnar það niður í litróf ljóssins. Ljósbrot er hugtak í eðlisfræði sem er haft um það þegar hvítt ljós fer í gegnum vatn eða gler og brotnar. Hvítt sólarljós sem fer í gegnum glæran þrístrending eða prisma brotnar niður í litróf ljóssins sem er rauður, gulur og blár, eftir réttri röð. Aðrir litir eru bara samsetning eða blanda af Grunnlitir ljóssins|grunnlitunum, svo sem grænn, fjólublár, appelsínugulur og fleiri sérstæðari litir. Regnbogi sem dæmi myndast við ljósbrot. Regnbogi myndast þegar staðbundið skúraveður og sólskin fara saman. Ljósgeislarnir frá sólinni fara í regndropana sem endurkastar eða speglar þeim síðan aftur úr dropunum. Rautt og blátt ljós endurkastast, rautt 42° en blátt 40°, og mynda boga. Regnbogi sést ekki nema sólin sé í bakinu á okkur og stendur bara á meðan regnið er eða fossúðinn. Borgaralaun. Borgaralaun er hugmynd að samtryggingarkerfi þar sem hverjum borgara er tryggð ákveðin lágmarkslaun. Borgaralaun eru hugsuð til lífsnauðsynja og hugsuð þannig að greiðslur renni til einstaklinga, ekki heimila eða ákveðinna hópa. Saga. Á 1960 - og 1970, nokkrir tilraunir í Bandaríkjunum og Kanada. Áhættusamfélag. Áhættusamfélag er hugtak sem varð til upp úr 1990 til að lýsa hvernig nútímasamfélag er skipulagt miðað við áhættu, hugtakið er tengt verkum félagsfræðinganna Anthony Giddens og Ulrich Beck. Samkvæmt félagsfræðingnum Anthony Giddens er áhættusamfélag samfélag sem er sífellt meira upptekið af framtíðinni og öryggi sem býr til áhættu en Ulrich Beck skilgreinir áhættusamfélag sem kerfisbundna leið til að kljást við hættur og óöryggi sem tengist nútíma. Þessir höfundar benda á að mannkyn hafi alltaf búið við áhættu t.d. vegna náttúruhamfara en venjulega hafi verið litið á slíka áhættu þannig að hún stafaði ekki af manna völdum. Nútímasamfélögum sé hins vegar hætta búin vegna mengunaer, nýuppgötvaða sjúkdóma og glæpa sem stafi af nútímavæðingunni sjálfri. Giddens skilgreinir tvenns konar áhættu, ytri áhættu og tilbúna áhættu (manufacted risks) sem stafar af breytni manna sem framleiða og dreifa slíkri áhættu. Þar sem tilbúin áhætta er manngerð þá halda Giddens og Beck því fram að það sé mögulegt fyrir samfélog að meta þá áhættu sem er búin til eða sem er að verða til. Þessi tegund af afturbliki geti svo breytt hinni áætluðu starfsemi. Þannig hafi t.d. í Chernobyl slysinu minnkað traust almennings og leitt til aukins regluverks um kjarnorkuver og orðið til að hætt var við sumar áætlanir um ný kjarnorkuver og þannig breytt nútímavæðingunni. Þessi aukna gagnrýni á iðnvæðingu nútímans hafi valdið afturbliki nútímavæðingar (reflexive modernization) skýrt með hugtökum eins og sjálfbærni og varfærni með því að leggja áherslu á fyrirbyggjandi mælingar í því augnamiði að minnka áhættu. Ólík viðhorf eru til þess á hvern hátt áhættusamfélag tengist félagslegri lagskiptingu og stéttaskiptingu en flestir telja að félagsleg tengsl breytist við tilkomu tilbúinnar áhættu og afturbliks nútímavæðingar. Áhætta sé eins og auður dreift ójafnt um samfélagið og hafi áhrif á lífsgæði. Ulrich Beck bendir á að eldri form stéttaskiptingar sem hafi byggst að mestu á samsöfnun auðs þar sem fólk skipast í valdastöður sem fengust með því að forðast áhættu. Hann bendir á að útbreidd áhætta hafi boomerang áhrif og að einstaklingar sem búa til áhættu muni einnig verða fyrir þeirri sömu áhættu. Þannig muni auðugir einstaklingar sem eiga fjármagn í rekstri sem býr til mengun einnig verða fyrir henni t.d. ef grunnvatn mengast. Mie-dreifing. Mie-dreifing eða Mie-sundrun er dreifing rafsegulgeislunar í ótilgreindu hvolfi ("hveli"), t.d. himinhvolfinu. Hún heitir eftir þýska eðlisfræðingnum Gustav Mie. Alexander Vasilyev. Alexander Vasilyev (rúss.: "Александр Васильев"; fæddur 15. júlí 1969) er söngvari Splean. Vasilyev, Alexander Eyjólfur Kristjánsson. Eyjólfur Kristjánsson (eða "Eyfi") (fæddur 17. apríl 1961) er íslenskur söngvari. Hann tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1991 sem annar helmingur dúettsins Stefán & Eyfi. Dúettinn keppti fyrir hönd Íslands með laginu „Draumur um Nínu“. Þau lentu í 15. sæti af 22 með 26 stig. Gagnamálfræði. Gagnamálfræði er aðferð til að rannsaka tungumál sem byggist á athugun gagnasafna eða textaheilda. Gagnamálfræði byrjar ólíkt fræðilegum málvísindum á því að skoða texta vandlega til dæmis tíðni orða og orðasambanda og setja fram lýsingu á þeim. Í dag er texti oft greindur á sjálfvirkan hátt. Limburg (Holland). Limburg er fylki í Hollandi. Það er næstyngsta fylki landsins (aðeins Flevoland er yngra) og myndar syðsta hluta Hollands. Sökum þess að Limburg kom svo seint til Hollands og sökum þess að íbúar svæðisins tala eigið tungumál (limburgísku), líta margir Hollendingar á svæðið sem ekki-hollenskt. Auk þess eru flestir íbúarnir kaþólskir, ólíkt langflestum Hollendingum. Stjórnmálaflokkurinn Limburg Belang hefur það á stefnuskrá sinni að lýsa yfir sjálfstæði fyrir Limburg og kljúfa sig frá Hollandi (ásamt belgíska Limburg). Lega og lýsing. Limburg er langsyðsti hluti Hollands og á löng landamæri að Þýskalandi og Belgíu. Auk þess á fylkið landamæri að Norður-Brabant og nyrsti hlutinn nemur við Gelderland. Limburg er aðeins 2.167 km2 að stærð og er því fjórða minnsta fylki Hollands. Áin Maas rennur í gegnum allt fylkið frá suðri til norðurs og myndar mesta náttúrulega einkenni fylkisins. Íbúar eru 1,1 milljón talsins. Höfuðborgin heitir Maastricht. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki Limburg er með fimm minni skildi. Allir sýna þeir ljón, tvö rauð, eitt gult og eitt svart. Fimmti skjöldurinn sýnir þrjú pósthorn. Uppi til vinstri er merki Valkenburg (nálægt Maastricht). Uppi til hægri er merki Gulik-ættarinnar. Hornin eru tákn greifadæmisins Horn (fyrir norðan Maastricht). Niðri til hægri er merki hertogadæmisins Gelre (Gelderland). Fyrir miðju er merki hertogadæmisins Limburg. Allt voru þetta helstu yfirráðasvæði Limburg þar til Frakkar hertóku landið 1794. Fáninn samanstendur af þremur láréttum röndum, hvítri, blárri (mjórri en hinar) og gulri. Til vinstri er rautt ljón, sem er tákn Limburg. Bláa röndin táknar fljótið Maas sem rennur gegnum endilangt fylkið. Fáninn var formlega tekinn í notkun 27. desember 1886. Orðsifjar. Fylkið Limburg heitir eftir kastalavirkið Limbourgh, sem áður fyrr var aðsetur greifanna á þessu svæði. Limbourgh er í Belgíu í dag, en fylkið Limburg var bæði í Hollandi og Belgíu allt til 1830 er Belgía splittaði sig frá Hollandi. Talið er að orðið Lim- merkir lind eða lindardreka, samkvæmt þjóðsögum. Söguágrip. Limburg var öldum saman greifadæmi og miklu stærra en í dag. Eftir að Frakkar yfirgáfu Niðurlönd 1814 myndaðist Limburg sem fylki sameinaðra Niðurlanda. Talað var um að nefna fylkið Maastricht eða Maasdal eða Opper Gelder. En Vilhjálmur I konungur ákvað að kalla fylkið Limburg. 1830 klauf Belgía sig hins vegar frá Hollandi og stofnaði eigið konungsríki. Því voru héruð eins og Brabant og Limburg skipt. Meginhlutinn tilheyrði þýska sambandinu sem greifadæmið Limburg (reyndar undir hollenskri konungsstjórn) en suðurhlutinn tilheyrði Belgíu (og gerir enn í dag). Þegar Bismarck hóf kröfu þess efnis 1867 að innlima Limburg algjörlega í prússneska ríkið, mótmæltu íbúarnir kröftuglega. Úr varð að Limburg sagði sig úr þýska sambandinu og fékk fullgilda inngöngu í konungsríkið Holland. Það er þar með yngsta fylkið í landinu (fyrir utan Flevoland). Þrátt fyrir það eru íbúar Limburg nokkuð frábrugðnir öðrum íbúum Hollands. Flestir eru til dæmis kaþólskir og flestir tala eigið tungumál, limburgísku (skylt flæmsku eða hollensku). Vildarréttur. Vildarréttur eða settur réttur er vinsæl stefna í réttarheimspeki sem var meðal annars þróuð af nítjándu-aldar lögspekingunum Jeremy Bentham og John Austin. Engu að síður er það H.L.A. Hart sem að er mest áberandi í sögu vildarréttarins en rit hans, "The Concept of Law", varð til mikillar endurskoðunar á stefnunni og sambandi hennar við aðrar grundvallarstefnur lögfræðinnar. Síðastliðna öld hefur vildarstefnan verið afar vinsæl en á seinni árum hefur hún þó meðal annars sætt mikilli gagnrýni frá Ronald Dworkin Þessar fullyrðingar hafa þó ekki allar komið fram frá upphafi notkunar á hugtakinu. John Austin hélt til dæmis einungis fram fullyrðingum 1., 2. og 3. en ekki fullyrðingum 4. og 5. Kómódódreki. Kómódódreki eða eyjafrýna (fræðiheiti: "Varanus komodoensis") er tegund í eðluættinni frýnur. Hann er til á eyjunum Kómódó, Rinca, Flores, Gili Motang og Gili Dasami í Mið-Indónesíu og er núlifandi stærsta eðla heims. Norskur svartmálmur. Norskt drungarokk er tónlistarstefna og undirtegund drungarokksins. Stefnan hófst í byrjun tíunda áratugarins. Einkenni stefnunar voru gítargripin sem voru þróuð af Blacktorn (Snorre Ruch) í hljómsveitinni Thorns/Stigma Diabolcum og Euronymous (Øystein Aarseth) í hljómsveitinni Mayhem auk svart-hvítrar líkmálingar sem aðgreindu hjómsveitirnar frá öðrum hljómsveitum þungarokks. Norska drungarokkið steig út úr leikrænni sviðsetningu þungarokksins og tók ofbeldisfullt skref inn í veruleikann, tónlistin varð listræn málpípa fyrir hóp ungra manna sem gerðu uppreisn gegn samfélaginu, aðhylltust tilvistarlega heimspeki, róttæka heiðni og sýndu öfgafulla andspyrnu gegn ítökum gyðing-kristninar á norðurlöndum. Mayhem ásamt fleiri hljómsveitum (og þar má helst nefna hljómsveitina Burzum) áttu þátt í því að skapa hið alræmda orðspor sem fer af drungarokksstefnunni í dag, tónlistarstefnu sem almenningur tengir oftast við „djöfladýrkun“, kirkjubrennur og manndráp. Fríða og dýrið. "Fríða og dýrið" (enska: "Beauty and the Beast") er ævintýri eftir franska 18. aldar rithöfundinn Jeanne Marie Le Prince de Beaumont. 70 mínútur. 70 Mínútur var íslenskur skemmtiþáttur sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni "Popp Tíví" á árunum 2000 til 2005. Þátturinn byggðist upp af spjalli og hinum ýmsu innskotum eins og til dæmis: áskorun, ógeðisdrykkur, falin myndavél, fríkað úti - ásamt öðrum uppátækjum. Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson voru fyrstu umsjónarmenn þáttarins en seinna tóku Auðun Blöndal og Sverri Þór Sverrison við þættinum. Moshchena. Moshchena (úkraínska: "Мощена", rússneska: "Мощёная") er þorp í Volyn-héraði í Vestur-Úkraínu. Íbúar voru 581 árið 2010. Sólvindur. Sólvindur er straumur hlaðinna agna frá sólu. Samanstendur að mestu leyti af rafeindum og róteindum með orku á milli 1,5 og 10 keV. Vegna mikils hita lithvolfs sólar fá agnirnar það mikla hreyfiorku að þær komast yfir lausnarhraða sólar. Sólvindurinn myndar segulljós þegar hann skellur á andrúmslofti jarðar og hann myndar einnig rykhala halastjarna. Hlaðin ögn. Hlaðin ögn kallast ögn sem hefur rafhleðslu. Hún getur annað hvort verið ögn sem setur saman kjarneindar og frumeindar, eða jón. Hópur hlaðinna agna, eða gas sem inniheldur hlaðnar agnir, heitir rafgas eða plasmi. Sen. Sen (eða zen) er form af búddisma, sem leggur megináherslu á hugleiðslu umfram dýrkun guðdóms, helgirita og regluverks. Í raun er það andstætt sen (zen) að það sé skilgreint, því hugmyndafræðin gengur út á að ekkert er í föstu formi. Allt er háð breytingum og það sem við höldum að sé veruleikinn er í raun okkar eigin túlkun samkvæmt hugmyndum zen. Sen varð til í Kína á 7. öld en breiddist þaðan til Víetnam, Kóreu og Japans. Japanski rithátturinn er "zen" en sá kínverski er "chan" (禪) en kínverska orðið er komið af orðinu dhyāna í sanskrít, sem merkir „hugleiðsla“. Sen (zen) hugleiðsla, kölluð zazen gengur í stuttu máli út á að leyfa hugsunum að koma og fara og ekki dæma það sem kemur upp heldur einungis leyfa því að vera og taka eftir því. Þannig er ætlunin að hafa hugann í nútíð og draga úr egóisma með því að gera ekki tilkall til neinnar útkomu. Eðlisþáttur. Eðlisþáttur er einkenni sem hægt er að mæla þar sem magn hans lýsir stöðu eðlisfræðilega kerfis. Breytingar á eðlisþáttum kerfis geta verið notaðar til þess að útskýra þróanir úr einni stöðu í aðra. Eðlisþættir eru oft bornir saman við efnaþætti sem skipta máli í efnahvörfum. Það er oft erfitt að greina hvort eðlisþáttur sé eðlislegur eða ekki, t.d. er hægt að „sjá“ lit en það sem við skynjum sem litur er í alvöru túlkun á endurvarpi yfirborðs. Hernaðarlistin. "Hernaðarlistin" eða "Stríðslistin" er rit um hernað og stríðsrekstur eignuð kínverska herforingjanum Sun Tzu. Það er eitt áhrifamesta rit kínverskra bókmennta og jafnframt eitt áhrifamesta rit sinnar tegundar. "Hernaðarlistin" var samin seint á 6. eða snemma á 5. öld f.Kr. og jafnvel ekki fyrr en á 4. öld f.Kr. Geimflug. Bandaríska geimskutlan Challenger árið 1983 Geimflug er flug utan við lofthjúp Jarðar. Flaugar sem notaðar eru til geimflugs geta ýmist verið mannaðar eða ómannaðar, þar á meðal gervitungl á braut um Jörðu. Geimflug er flogið bæði í vísindalegum tilgangi til könnunar á geimnum og til viðhalds á gervitunglum og geimstöðvum á braut um Jörðu. Í upphafi 21. aldar var einnig hafinn undirbúningur að geimtúrisma fyrir almenning. Molinicos. Molinicos er borg á Spáni. Borgin liggur Kastilía-La Mancha og Albacete-héraðs. Borgin liggur á sléttu við ána Mundo. Íbúar borgarinnar voru 1.060 árið 2010. Flug. Flug kallast aðferðin sem er sú að hlutur flytjist í gegnum lofthjúpinn (oftast í gegnum loftið) eða fyrir handan hans (t.d. geimflug) annaðhvort með lyftikrafti (e. "lift") eða spyrnu (e. "thrust") eða flotkrafti (eins og loftskip og loftbelgar gera). Fræðigreinin sem fjallar um flug heitir loftsiglingafræði og sú sem fjallar um flug fyrir utan andrúmsloftið heitir geimvísindi. Flug dýra. Ýmis dýr, helst fuglar, skordýr og leðurblökur, geta flogið með vængjum. Sumar risaeðlur gátu líka flogið. Vængirnir á þessum dýrum hafa allir þróast hverir fyrir sig. Til dæmis eiga vængirnir á hryggdýrum rætur að rekja til framlima en þeir á hryggleysingjum til þess sem breyttist í tálkn í flestum liðdýrum. Leðurblökur eru einasta spendýr sem getur flogið á láréttan hátt en til eru nokkur dýr sem geta svifið á milli trjáa og sum þeirra geta flogið í nokkuð hundruð metra á þann hátt án þess að detta niður. Flugfroskar og flugeðlur fljúga svona. Hins vegar eru flugfiskar sem fljúga með uggum sem gegna hlutverki vængja. Flestir fuglar kunna að fljúga en það eru nokkrar undantekningar. Stærstu fuglarnir, strútar og emúar, geta ekki flogið. Mörgæsir nota vængina til að synda í sjónum og til þess nota þær sömu hreyfingar og flestir fuglar nota í flugi. Langflestir litlir fuglar sem fljúga ekki lifa á smáeyjum þar sem það að geta flogið skiptir ekki miklu máli. Mannflug. Menn geta flogið með því að nota loftfar eins og flugvél, svifflugu, þyrlu, sjálfsveifluvél, loftskip, loftbelg eða geimfar. Skýstrókur (kvikmynd). "Skýstrókur" eða "Twister" eins og hún heitir á móðurmálinu er bandarísk stórslysamynd sem Jan de Bont leikstýrði. Helen Hunt og Bill Paxton fara með aðalhlutverkin í myndinni sem vísindamenn sem elta upp hvirfilbyli. Myndin var önnur tekjuhæsta mynd ársins 1996 og voru um það bil 55 miljón miðar á hana seldir í Bandaríkjunum. Myndin fjallar um hóp af vísindamönnum sem reyna að fullkomna gagnasöfnunarvél sem er hönnuð til þess að fara upp í hvirfilbyli til þess að finna út hvað gerist innan í þeim. Innblástur að myndinni kom frá alvöru vísindaverkefnum eins og VORTEX. Skýstrókur var fyrsta bandaríska kvikmyndin í fullri lengd til þess að vera gefin út á DVD. Hún var einnig tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna fyrir „Bestu tæknibrellurnar” og „Besta hljóð.” Gljúfur. Gljúfur er djúpt gil með þverhníptum hamarveggjum. Casanova (aðgreining). Casanova á oftast við kvennabósann Giacomo Casanova en getur einnig átt við eftirfarandi. Uppdrif. Sérhver hlutur sem sökkt er að hluta til eða alveg í vökva léttist sem nemur þyngd þess vökva sem hann ryður frá sér. "Léttist" = fær lyftikraft eða uppdrifskraft. Giacomo Casanova. Giacomo Girolamo Casanova de Seingalt (2. apríl 1725 – 4. júní 1798) var feneyskur ævintýramaður og flagari. Ævisaga hans, "Histoire de ma vie" ("Saga lífs míns") er talin vera ein af áreiðanlegustu heimildum að siðvenjum á 18. öld í Evrópu. Casanova var svo frægur kvennabósi að til dagsins í dag er nafn hans notað til þess að lýsa kvennabósa. Hann umgekkst konunga, heimspekinga, páfa og kardinála á borð við Voltaire, Goethe og Mozart. Hann eyddi lokaárum ævi sinnar sem bókavörður í kastala Waldstein greifa. Töflualgebra. Töflualgebra and venslaalgebra er algebra innan tölvunarfræðinnar sem vinnur með töflur. NGC 4414. NGC 4414 er stjörnuþoka sem er í 62 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Þokan er í stjörnumerkinu Bernikuhaddur. Grétar Ólafur Hjartarson. Grétar Ólafur Hjartarson (fæddur 26. nóvember 1977 í Sandgerði) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann leikur með ÍBK. NGC 4449. NGC 4449 er stjörnuþoka sem er í 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Þokan er í stjörnumerkinu Veiðihundarnir. Melhólmur. Melhólmur er eyja á Breiðafirði og er ein af Hróaldseyjarhólmum, sem tilheyra Skáleyjum. Í hólmanum vaxa krækiber og er það eini staðurinn i öllum Vestureyjum þar sem þau finnast. Lublin (hérað). Lublin (pólska: "województwo lubelskie") er hérað í Suðaustur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkra eldri héraða. Héraðið dregur nafn sitt af stærstu borg sinni, Lublin. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 2.175.251 samtals. Flatarmál heraðsins er 25.155 ferkílómetrar. Héruð í Póllandi. Þetta er listi yfir héruð í Póllandi. Pólland skiptist í 16 héruð (pólska: "województwo") og þessi voru stofnuð árið 1998 við sameiningu margra gamalla héraða. Áður voru þau 49 samtals og höfðu verið þannig síðan 1975. Flest héruð sem til eru í Póllandi í dag draga nöfn sín af landafræðilegum svæðum en þau nöfn sem voru í notkun áður en 1998 áttu rætur að rekja til borganna sem lágu í miðjum héruðum. Karpatafjöll. Karpatafjöll (stundum Karpatíufjöll) er fjallgarður sem teygir sig frá Mið-Evrópu til Austur-Evrópu. Fjallgarðurinn er sá annar lengsti í Evrópu á eftir Skandinavíufjöllum. Karpatafjallagarðurinn er um það bil 1.500 km að lengd. Meðal dýra sem lifa í fjöllunum eru brúnbirnir, úlfar, geitir og gaupur. Flest þeirra lifa á svæðinu sem fer yfir Rúmeníu. Á fjöllunum er líka að finna um það bil þriðjung af öllum plöntutegundum í Evrópu. Auk þess eru hverir og lindir algeng í fjallgarðinum. Karpatafjöll samanstanda af fjallgarði sem fer yfir Tékkland (3%), Slóvakíu (17%), Pólland (10%), Ungverjaland (4%), Úkraínu (11%) og Rúmeníu (53%) og þá austur yfir Dóná til Serbíu (2%). Hæstu fjöllin í fjallgarðinum eru Tatrafjöll sem standa á landamærum Póllands og Slóvakíu og eru allt að 2.600 m að hæð. Önnur stærstu fjöllin eru Austur-Karpatafjöll í Rúmeníu sem eru rúmlega 2.500 m há. Fjallgaðurinn skiptist í þrjá hluta: Vestur-Karpatafjöll, Mið-Karpatafjöll og Austur-Karpatafjöll. Nokkrar borgar liggja við fjöllin, meðal annars Bratislava og Košice í Slóvakíu; Kraká í Póllandi; Cluj-Napoca, Sibiu, Alba Iulia og Braşov í Rúmeníu og Miskolc í Ungverjalandi. Paltoga. Paltoga (rúss.: "Палтога") er þorp í Vologdafylki, Rússlandi. Þar búa 295 manns (2002). John Bardeen. John Bardeen (1908 — 1991) var tvöfaldur nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði. Hið fullkomna morð. "Hið fullkomna morð" (enska: "A Perfect Murder") er bandarísk spennumynd frá árinu 1998 sem Andrew Davis leikstýrði. Gwyneth Paltrow, Michael Douglas og Viggo Mortensen fara með aðallhlutverkin í myndinni sem er lauslega byggðs á kvikmynd Alfred Hitchcocks "Sláðu inn M fyrir Morð". Myndin fjallar um milljónamæringinn og iðnjöfurinn Steven Taylor, mann sem á allt sem að hugann girnist nema það sem hann langar mest í: ást og tryggð konu sinnar. Taylor nýtur mikillar velgengni í fjármálalífi New York borgar en telur þó það að hafa náð í eiginkonuna sé hans mesta afrek í lífinu. En hún hefur þörf fyrir meira en vera einhver fín frú fyrir eiginmanninn. Hún er sjálf bráðsnjöll og vinnur hjá Sameinuðu þjóðunum og á í sambandi við myndlistarmann sem uppfyllir hennar tilfinningalegu þarfir. Þegar eiginmaðurinn uppgötvar að hún sé að halda framhjá honum ákveður hann að fremja hið fullkomna morð og komast einnig um leið yfir digra sjóði sem konan á. Bjarg (stúlknaheimli). Bjarg (eða Stúlknaheimilið Bjarg) var heimili fyrir stúlkur að Melabraut 10 á Seltjarnarnesi. Heimilið var rekið af Hjálpræðishernum og starfaði á árunum 1965 til 1967. Margar stelpur sem voru vistmenn að Bjargi hafa lýst því yfir að illskan hafi ráðið lögum og lofum innan heimilisins. Einn vistmaður sagði að sumar stúkurnar hefðu selt sig út úr neyð og það virtum mönnum í samfélaginu. Flestir starfsmenn Bjargs voru norskar Hjálpræðisherskonur. En einnig Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Hún var spurð að því árið 1965, árið sem heimilið opnaði, hvernig stofnun þetta yrði, og sagði þá: „Í alla staði verður leitast við að hér verði um heimili en ekki stofnun að ræða, heimili, sem veitir stúlkunum kærleiksríkan og góðan aga.“ Víðir (norræn goðafræði). Víðir er sonur Óðins og hefnir hans eftir að Óðinn er veginn af Fenrisúlfi í Ragnarökum. Guðmundur Pétursson. Guðmundur Pétursson (fæddur 24. nóvember 1986 í Reykjavík) er íslenskur knattspyrnumaður hjá Breiðablik UBK. Keira Knightley. Keira Knightley (fædd 26. mars 1985) er ensk leikkona. Kirsten Dunst. Kirsten Dunst (fædd 30. apríl 1982) er bandarísk leikkona, söngkona og fyrirsæta. Faðir hennar var þýskur og móðir af þýskum og sænskum ættum. Hún fékk þýskan ríkisborgararétt 2011. Hún er nú í sambandi með leikaranum Garrett Hedlund. Móðir hennar ýtti heni í leiklistina þegar hún var ung og Dunst átti erfitt með það. Þegar hún var 12 ára fékk hún stórt hlutverk í myndinni Interview with the Vampire. Fyrir leik sinn í henni fékk hún tilnefningu til Golden Globe verðlauna. Hún er sennilega hvað frægust fyrir hlutverk sitt í Melancholia. Dunst, Kirsten Sienna Miller. Sienna Rose Miller (fædd 28. desember 1981) er bresk/bandarísk leikkona. Hún er þekktust fyrir hltutverk sín í "Layer Cake", "Alfie", "Factory Girl", "The Edge of Love" og '. Uppeldi. Sienna fæddist í New York en flutti svo með fjölskyldunni til London þegar hún var eins árs. Faðir hennar Edwin Miller er fyrrverandi bandarískur bankastjóri en nú selur hann kínversk listaverk. Sienna á systur sem heitir Savannah, og tvo hálfbræður, Charles og Stephen. Hún fór í Heathfield St Mary's School heimavistarskóla í Ascot í Berkshire og stundaði svo nám við Stofnun Lee Strasbergs í New York. Hún er með bæði breskt og bandarískt vegabréf en náði ökuprófi í Bandarísku Jómfrúreyjum út af því að þetta gefur henni leyfi að keyra bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Módelstörf. Áður en Sienna hóf feril sinn sem leikkona starfaði hún sem módel. Hún gerði samning við Tandy Anderson starfsmann hjá fulltrúafyrirtækinu Select Model Management í London og sat fyrir meðal annars Coca-Cola og ítölsku útgáfu af tískutímaritinu "Vogue". Stíll Siennu hefur verið kallaður „boho chic“ og miðaður við Kates Moss stíl. Miller undirskrifaði tveggja ára samning við Pepe Jeans London og fyrsta gallabuxnaauglýsingin með hennar birtist í tímaritum árið 2006. Árið 2009 tilkynnti Hugo Boss að Sienna væri nýi fulltrúi kvennailmvatnsins "BOSS Orange". Leiklist. Árið 2001 lék hun fyrsta hlutverk sitt í kvikmynd í "South Kensington" með Rupert Everett og Elle Macpherson. Síðar fékk hún títt hlutverk í sjónvarpsþættinum "Keen Eddie". Árið 2004 fékk hún aukahlutverk í kvikmyndunum "Alfie", með Jude Law, og "Layer Cake". Síðan árið 2005 lék hún á móti Heath Ledger í aðalkvenhlutverki í gamandramamyndinni "Casanova". Svo lék hún persónuna Edie Sedgwick í "Factory Girl", yfirstéttarkonu á sjöunda áratugnum og menntagyðju Andy Warhols. Sienna lék smáhlutverk í "Stardust" eftir Matthew Vaughn árið 2007 og líka í "Interview" eftir Steve Buscemi. Í lok sama árs lék hún hlutverk sem óðauð brúður í "Camille" á móti James Franco. Miller, Sienna Miller, Sienna Edda Björgvinsdóttir. Edda Björgvinsdóttir (fædd 1952) er íslensk leikkona. Hún lék í Stellu í orlofi. Saxófónn. Saxófónn er blásturshljóðfæri sem oftast er úr messing. Munnstykkið er með bambusblaði sem framkallar tóninn og þess vegna flokkast saxófónninn sem tréblásturshljóðfæri. Upphafsmaður hljóðfærisins var Belgíumaðurinn Adolphe Sax og fékk hann einkaleyfi á uppfinningu sinni í Frakklandi árið 1846. Hugmynd hans var að búa til hljóðfæri sem tengdi saman tréblásturs- og málmblásturshljóðfæri. Saxófónn hefur mest verið notaður í jazztónlist sem og í klassík og hefur mikið verið skrifað fyrir hljóðfærið. 2. deild karla í knattspyrnu 1955. Keppni hófst í fyrsta skipti í 2. deild karla í knattspyrnu árið 1955. Fjögur lið tóku þátt í þessu fyrsta móti í 2. deild, lið frá Akureyri (ÍBA), Ísafirði (ÍBÍ), Vestmannaeyjum (ÍBV) og Suðurnesjum (Reynir) en hið síðast nefnda var skipað leikmönnum úr Sandgerði og starfsmönnum Keflavíkurflugvallar. ÍBA vann þetta fyrsta mót eftir úrslitaleik við Reyni, en leikið var í tveimur riðlum Noruðurriðill. Í Norðurlandsriðlinum léku lið ÍBA og ÍBÍ. Suðurriðill. Í Suðurlandsriðlinum léku lið ÍBV og Reynis, en Reynisliðið var samsett af leikmönnum úr Sandgerði og af Keflavíkurflugvelli. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn hinn 23. ágúst 1955 á milli Suðurnesjaliðsins Reynis og ÍBA. Akureyringar unnu leiknin 2-1 með mörkum frá Ragnari Sigtryggssyni og Baldri Árnasyni, en Vilberg Árnason skoraði fyrir Suðurnesjamenn. Linda Hunt. Linda Hunt (fædd Lydia Susanna Hunter, 2. apríl 1945) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín sem dvergurinn Billy Kwan í "The Year of Living Dangerously" og Hetty Lange í '. Einkalíf. Hunt fæddist í Morristown í New Jersey en ólst upp í Westport í Connecticut. Hún stundaði nám við Interlochen Arts Academy og við Goodman School of Drama í Chicago (nú sem DePaul háskólinn í Chicago). Hunt er samkynhneigð og hefur búið með Karen Kline í 22 ár í Los Angeles. Leikhús. Hunt byrjaði leikhúsferil sinn við Long Wharf Theatre í New Haven í Connecitcut og þar kom hún fram í leikritum eftir Shakespeare, Strindberg og Tennessee Williams. Var tilnend til Tony-verðlaunanna fyrir hlutverk sitt í "End of the World" og til Obie-verðlaunanna fyrir "Top Girls" og "A Metamorphsis in Miniature". Kvikmyndir. Fyrsta hlutverk Hunt í kvikmynd var árið 1980 í Popeye. Árið 1982 var henni boðið hlutverk dvergsins Billy Kwan í "The Year of Living Dangerously", sem hún fékk óskarsverðlaunin fyrir sem besta leikkona í aukahlutverki árið 1983. Síðan þá hefur komið fram í kvikmyndum á borð við Dune, Kindergarten Cop, Maverick, Dragonfly og Once Upon a Tide. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Hunt í sjónvarpi var árið 1976 í "Great Performances" og síðan þá hefur komið fram í þáttum á borð við: "Nightmare Classics", Carnivàle, Without a Trace og The Unit. Árið 1997 þá var henni boðið gestahlutverk í The Practice sem dómarinn Zoey Hiller sem hún lék til ársins 2002. Hunt hefur síðan 2009 leikið eitt af aðalhlutverkunum í sem yfirmaður Los Angeles-deildarinnar Henrietta „Hetty“ Lange. Verðlaun og tilnefningar. Boston Society of Film Critics verðlaunin Kansas City Film Critics Circle verðlaunin Los Angeles Film Critics Association verðlaunin New York Film Critics Circle verðlaunin Tenglar. Hunt, Linda Sólblóm. Sólblóm ("Helianthus annuus") er blómategund sem er innfædd í Norður-Ameríku en er nú líka að finna í Evrópu. Hausinn á henni er stór og gulur og þaðan kemur nafn hennar. Stilkurinn er ósléttur og loðinn en laufblöðin eru breið og gróf. Hausinn samanstendur af 1.000–2.000 einstökum blómum sem eru tengd saman. Jurtinni var komið til Evrópu á 16. öldinni og þá urðu hún og olía hennar vinsælar í matreiðlsu. 2. deild karla í knattspyrnu 1956. Í annað skiptið var leikið í 2. deild karla í knattspyrnu árið 1956. ÍBH vann þetta mót eftir úrslitaleik við ÍBÍ, en leikið var í tveimur riðlum. Norðurriðill. Í Norðurlandsriðli lék einungis eitt lið, ÍBÍ, og vann því án keppni. Reiknað var með liðum frá Eyjafirði, Skagafirði, Húsavík, Siglufirði og jafnvel víðar en ekki varð af því. Suðurriðill. Í Suðurlandsriðlinum léku 5 lið, ÍBV, Keflavík, ÍBH, Þróttur og Reynir en Reynisliðið var samsett af leikmönnum úr Sandgerði og af Keflavíkurflugvelli. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli ÍBH og ÍBÍ. Albert Guðmundsson skoraði tvisvar fyrir Hafnfirðinga og skaut þeim upp í efstu deild. 2. deild karla í knattspyrnu 1957. Í þriðja skiptið var leikið í 2. deild karla í knattspyrnu, árið 1957. Keflavík vann mótið að þessu sinni, en það var eftir langt kærumál gegn ÍBÍ. Norðurriðill. Í Norðurlandsriðli lék einungis eitt lið, ÍBÍ, og vann því án keppni. Reiknað var með liðum frá Eyjafirði, Skagafirði, Húsavík, Siglufirði og jafnvel víðar en ekki varð af því, UÍA (Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands) skráði sig til leiks en hætti svo við. Suðurriðill. Í Suðurlandsriðlinum léku 6 lið, ÍBV, Keflavík, Breiðablik, Þróttur, Víkingur og Reynir en Reynisliðið var samsett af leikmönnum úr Sandgerði og af Keflavíkurflugvelli. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Keflavíkur og ÍBÍ. Leikurinn endaði 1-1 og fól KSÍ Ísfirðingum að sjá um nýjan leik. Þeir gerðu það og settu leikinn á hinn 15. september. Keflvíkingum fannst fyrirvarinn of stuttur og einnig fannst þeim það ósanngjarnt að þurfa að spila á Ísafirði og mættu fyrir vikið ekki til leiks, ekki frekar en dómararnir. Stjórn ÍBÍ skipaði því dómara, sem gekk inn á völlinn til að flauta leikinn á og svo af og ÍBÍ var dæmdur sigur því Keflvíkingar mættu ekki á tilsettum tíma, en það var héraðsdómstóll ÍBÍ sem dæmdi. Keflvíkingar áfrýjuðu til KSÍ sem ógilti dóm héraðsdómstóls ÍBÍ og gáfu þá útskýringu að láðst hafði að fá staðsetningu leikstaðar og leikdags hjá ÍSÍ, sem ber að gera samkvæmt lögum. Keflvíkingar voru því úrskurðaðir sigurvegar 2. deildar. Þeim fannst þó leiðinlegt hvernig málið hafði þróast og sendu bréf til KSÍ þar sem félagið afsalaði sér rétti sínum til að leika í 1. deild karla árið 1958, en KSÍ varð ekki að ósk þeirra. Atli Sigurjónsson. Atli Sigurjónsson (f. 1. júlí 1991) er íslenskur knattspyrnumaður. Hann spilar með fótboltaliðinu Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Hans sterkasta hlið á vellinum er miðjan og hefur hann líka spilað nokkra leiki með U21-árs landsliði Íslands. 2. deild karla í knattspyrnu 1958. Í fjórða skiptið var leikið í 2. deild karla í knattspyrnu, árið 1958. Þróttur vann þetta mót eftir úrslitaleik við ÍBÍ, en leikið var í tveimur riðlum. Norðurriðill. Í Norðurlandsriðli léku fjögur lið: ÍBÍ, HSÞ, ÍBA og lið frá Skagafirði. Lið KS frá Siglufirði skráði sig til keppni en dró sig síðan úr keppni þegar á hólminn var komið. Suðurriðill. Í Suðurlandsriðlinum léku 5 lið: ÍBV, Víkingur, ÍFK, Þróttur og Reynir. Lið ÍFK var samansett úr leikmönnum af Keflavíkurflugvelli og svæðinu þar. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Þróttar og ÍBÍ. Þróttur vann með mörkum frá Ómari Magnússyni, William Shireffs og Helga Árnasyni. Erling Sigurlaugsson komst á blað fyrir Ísfirðinga. Suðurhafsljósáta. Suðurhafsljósáta (fræðiheiti: "Euphausia superba"), einnig nefnd kríli er lítið krabbadýr, um 6 sentimetra langt og allt að 2 grömm að þyngd, sem heldur sig í efstu lögum sjávar. Ljósátan er ein mikilvægasta fæða margra tegunda fiska og sérstaklega skíðishvala. Bragliður. Bragliður eða kveða er bragfræðileg eining. Dobra. Dobra er lítið þorp í miðhluta Póllands. Íbúar voru 359 árið 2009. Christian Dior. Christian Dior (1905 – 1957) var franskur fatahönnuður. Pablo Escobar. Pablo Emilio Escobar Gaviria (1. desember 1949 – 2. desember 1993) var kólumbískur eiturlyfjabarón. Pablo Escobar má telja í hópi atkvæðamestu glæpamanna 20. aldar. Um tíma var hann mjög fyrirferðarmikill í kókaínviðskiptum, auðgaðist gríðarlega og fjöldi mannrána og morða skrifast á hans reikning. Æskuár. Pablo Emilio Escobar Gaviria fæddist í þorpinu Rionegro, sem er í stjórnsýsluumdæminu Antioquia í Kólumbíu, en hann ólst upp í Envigado sem er útborg borgarinnar Medellín. Faðir hans hafði verið bóndi en starfaði við öryggisgæslu eftir að hann flutti úr sveitinni. Móðirin var kennari. Skólaganga Escobars varð endaslepp. Hann var vart af barnsaldri þegar hann fór að selja tollsviknar sígarettur og falsaða lottómiða á götum Medellín. Sagt var að Escobar hefði stolið legsteinum af leiðum, slípað þá og selt síðan meðal annars smyglurum frá Panama. Þetta mun vera óstaðfest og móðir hans þverneitaði þessu. Brátt komst hann í tæri við þjófa, sem fengust aðallega við að stela bílum. Escobar sýndi þá strax skipulagshæfileika, varð aðalmaðurinn í þjófagenginu og breytti starfsaðferðum þess frá tilviljanakenndum þjófnuðum í markvissa glæpi þar sem ránin voru framin samkvæmt fyrirframgerðum áætlunum, réttum aðilum var mútað og þýfinu komið í verð á kerfisbundinn hátt. Áttundi áratugurinn. Um tvítugt eða þar um bil komst Escobar í tæri við kókaínviðskipti. Hann varð brátt umsvifamikill á þeim vettvangi og byggði upp slíkt veldi að um tíma var hann án efa valdamesti maður Kólumbíu. Sagt er að Escobar hafi byrjað ferilinn sem kókaínsali á því að fara til Perú, kaupa þar kókaíndeig fyrir 30 dollara, flytja það til Kólumbíu, hreinsa það þar og selja síðan. Árið 1975 var helsti kókaínbarón Medellín myrtur og Escobar tók brátt við hlutverki hans og varð foringi samtaka sem kölluðust Medellínhringurinn (Medellín Cartel). Samtök þessi fengust við margvíslega ólöglega starfsemi þar sem eiturlyfjaverslun var þungamiðjan. Þessi umsvif jukust síðan með ævintýralegum hraða en árið 1989 taldi "Forbes Magazine" Escobar sjöunda ríkasta mann í heimi og áætlaði eignir hans jafnvirði 24 milljarða dollara. Í maí 1976 var Escobar handtekinn þegar hann ætlaði að smygla kókaíni frá Ekvador til Kólumbíu en efnið var falið í varadekki. Escobar bauð mútur, sem ekki voru þegnar en lögfræðingum hans tókst að fá málið fellt niður og hann var látinn laus eftir nokkra mánuði í haldi. Lögreglumennirnir sem handtóku Escobar voru myrtir 1977, lögreglustjórinn var myrtur 1981 og dómari, sem gaf út handtökuskipun á hendur Escobar vegna morða lögreglumannanna, var felldur í skotárás 1986. Hér eftir setti Escobar áhrifamönnum gjarnan tvo kosti: plata o plomo (bókstafleg merking: silfur eða blý) þ.e. þiggja mútur eða verða drepinn. Níundi áratugurinn. Um og laust eftir 1980 má segja að Medellínhringurinn undir stjórn Escobar hafi verið orðinn nær allsráðandi í útflutningi eiturlyfja frá Suður–Ameríku og um það bil 80% allra eiturlyfja á bandarískum markaði voru þangað komin fyir tilverknað Escobar og félaga hans. Escobar beitti skefjalaust mútum og hótunum og ruddi öllum hindrunum úr vegi með góðu eða illu. Á velmektardögum Escobars var stjórnkerfi Kólumbíu gegnsýrt af spillingu en það hentaði honum prýðilega. Talið er að Escobar hafi staðið fyrir fjölda hryðjuverka, meðal annars morðum þriggja forsetaframbjóðanda og árás á Hæstarétt Kólumbíu þar sem um það bil helmingur dómaranna féll. Erfitt er að staðfesta margt af þessu tagi meðal annars vegna þess að vinstri sinnuð skæruliðasamtök, kölluð M – 19, unnu hryðjuverk og sama er að segja um Calihringinn, sem fór að ryðja sér til rúms nokkru fyrir 1990 og varð keppinautur Medellínhringsins í eiturlyfjabransanum. Escobar naut mikils velvilja meðal fátækra íbúa Medellín enda hrutu ýmsir molar af borðum hans til þessa fólks en hann útvegaði mörgum fátæklingum vinnu, matvæli og læknishjálp, lét byggja íbúðarhús og samkomusali og kom jafnvel dýragarði á laggirnar. Hann hafði mikinn áhuga á fótbolta og lét gera flóðlýsta knattspyrnuvelli og greiddi ýmsan kostnað fótboltaliða svo sem búninga og fleira. Escobar kom sér upp víðlendum búgarði við Magdalenafljót. Hann kallaði búgarðinn Nápoles en hann var þá kominn í samband við ítölsku mafíuna. Á búgarði þessum var flest eins gerist í ævintýrum. Ekkert var til sparað í innanstokks- og skrautmunum og ekki var skortur á farartækjum, svo sem þyrlum og flugvélum af ýmsum gerðum. Sagt var að hann ætti tvo fjarstýrða kafbáta sem hann notaði til kókaínflutninga. Frá Nápoles stjórnaði Escobar viðskiptaveldi sínu og þar tók hann á móti gestum. Staðfest er að á árinu 1983 kom einræðisherra Panama, Manuel Noriega, í heimsókn en Noriega þáði rausnarlegar greiðslur fyrir að láta afskiptalausan flutning á kókaíni sem flutt var til Panama og þaðan til Bandaríkjanna. Tíundi áratugurinn. Um og eftir miðjan níunda áratuginn fóru stjórnvöld í Kólumbíu að láta undan þrýstingi Bandaríkjamanna hvað varðaði framsal kókaínbaróna til Bandaríkjanna þar sem réttað var í málum þeirra. Escobar reyndi í fyrstu að beita áhrifum sínum við kólumbíska ráðamenn en þegar honum varð ljóst að það dygði ekki til bauðst hann til að fara í fangelsi í Kólumbíu gegn loforði um að hann yrði ekki framseldur. Boðinu var tekið. Escobar fór í fangelsi árið 1991 og leist illa á aðbúnað í fangelsinu. Hann hófst því handa um breytingar og brátt urðu vistarverur hans líkari höll en fangelsi og Escobar lifði við munað. Fangelsið var rammlega víggirt til þess að óboðnir gestir gengju ekki í bæinn. Aftur á móti tók hann á móti fjölda gesta meðal annars viðskiptafélögum og vændiskonum. Sumir komu nauðugir eins og til dæmis tveir fyrrum viðskiptafélagar, sem hugðust ryðja sér til rúms meðan Escobar væri fjarri góðu gamni. Þessir tveir fóru ekki út úr fangelsinu að heimsókn lokinni, að minnsta kosti ekki lifandi, enda stjórnaði Escobar kókaínhringnum úr þessu svokallaða fangelsi. Hann brá sér líka hindrunarlaust af bæ ef honum bauð svo við að horfa meðal annars til að fylgjast með kappleikjum í knattspyrnu. Víða um heim var gert gys að stjórnvöldum í Kólumbíu sem létu þetta sjónarspil viðgangast. Í júlí árið 1992 var ákveðið að flytja Escobar í tryggara fangelsi og koma í veg fyrir að hann gæti haldið áfram sinni fyrri iðju. Hann komst á snoðir um þessar fyrirætlanir og flúði í tæka tíð. Víðtæk leit var gerð að honum og lögðu Bandaríkjamenn þar hönd á plóg og félagar í Calihringnum voru líka hjálplegir en þeir sáu fram á að losna við skæðan keppinaut. Leitin að Escobar stóð í sextán mánuði og kostaði mörg mannslíf bæði lögreglumanna og skósveina Escobars. Á afmæli sínu 1. desember 1993 hringdi hann í fjölskyldu sína en hafði samtölin svo stutt að þeir, sem hleruðu, gátu ekki rakið símtölin. Daginn eftir urðu honum á þau mistök að tala of lengi við konu sína, aðsetur hans fannst og sautján manna árásarsveit var send á vettvang. Escobar fór út á þak og hugðist flýja en til hann sást og hnitmiðuð skothríð varð honum að bana á húsþaki í Medellín. Escobar var kvæntur og átti einn son og eina dóttur. Umfjöllun. Ýmsir hafa fjallað um ævi Escobars í máli og myndum. Meðal annarra ritaði bróðir hans bók um ævi hans. Bókin heitir "The Accountants Story". Demi Moore. Demi Moore (f. 1962) er bandarísk leikkona. Moore, Demi Nolan North. Nolan Ramsey North (fæddur 31. október 1970) er bandarískur leikari og raddleikari. Hann þekktastur fyrir að raddsetja Nathan Drake í Uncharted-tölvuleikjunum og Desmond Miles í Assassins Creed-tölvuleikjunum. North, Nolan 2. deild karla í knattspyrnu 1959. Í fimmta skiptið var leikið í 2. deild karla í knattspyrnu, árið 1959. Norðurriðill. Í Norðurlandsriðli léku tvö lið: ÍBÍ og ÍBA. Suðurriðill. Suðurlandsriðlinum var deilt niður í tvo smærri riðla. Sigurvegarar þeirra mættust svo í úrslitaleik. Riðill 1. Í Suðurlandsriðli 1 léku 2 lið: ÍBV og Víkingur. Lið ÍFK hætti keppni. Riðill 2. Í riðli 2 léku Reynir, ÍBH, UMF Skarphéðinn, úr Árnessýslu, og Afturelding. Leikið var í Hafnarfirði. Þar sem Reynir og ÍBH voru efst og jöfn að stigum eftir að öllum leikjunum var lokið þurfti að leika til þrautar. Úrslitaleikur Suðurlands. Tveir sigurvegarar riðlanna á Suðurlandi, Reynir og ÍBV, mættust í úrslitaleik um hvort liðið myndi mæta ÍBA í úrslitaleik 2. deildar. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli ÍBV og ÍBA. 2. deild karla í knattspyrnu 1960. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í sjötta skiptið árið 1960. Horfið var frá fyrri skiptingu riðla eftir landhlutum og var skipt upp í A og B riðla. A riðill. Í A riðli léku þrjú lið: ÍBÍ, Víkingur og Þróttur. B riðill. Í B riðli léku Reynir, Breiðablik, ÍBV og ÍBH. ÍBH lék í Hafnarfirði gegn Reyni og Breiðablik, ÍBV lék í Eyjum gegn ÍBH og Reynir lék í Sandgerði gegn Breiðablik. Reynir - ÍBV og Breiðablik - ÍBV fóru fram á Melavellinum. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli ÍBH og ÍBÍ. Hafnfirðingar sigruðu með tveimur mörkum, frá Henning Þorvaldssyni og Sigurjóni Gíslasyni 2. deild karla í knattspyrnu 1961. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 7. skiptið árið 1961. Í fyrsta skipti var leikin tvöföld umferð í 2. deild, en sú skipting hafði verið tekin upp árið 1959 í efstu deild. ÍBÍ og Keflvíkingar léku til úrslita í markaleik, ÍBÍ vann 7-3 A riðill. Í A riðli léku lið: ÍBÍ, Víkingur, Breiðablik. B riðill. Í B riðli léku Reynir, Þróttur og Keflavík Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Keflavíkur og ÍBÍ. Ísfirðingar skoruðu 7 mörk, Elvar Ingason, Erling Sigurlaugsson og Kristmann Krismannsson skoruðu 2 mörk hver og Jón Ólafur Jónsson eitt. Jón Jóhannsson skoraði tvö og Högni Gunnlaugsson eitt fyrir Keflavík. WOW air. WOW air er íslensk ferðaskrifstofa sem stofnuð var árið 2011. Skúla Mogensens fjárfestir stofnaði félagið en það er að mestu í eigu fjárfestingafélagsins Títan. Baldur Baldursson var framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hætti í ágúst 2012. Ólíkt öðrum íslenskum flugfélögum krefst WOW air að allir sem ætla að sækja um flugþjónustustörf séu fæddir árið 1992 eða fyrr. 23. nóvember 2011 gerði félagið samkomulag um leigu tveggja 168 sæta Airbus 320 flugvéla af lettneska flugfélaginu Avion Express sem voru teknar í notkun sumarið 2012. 23. október 2012 yfirtók WOW air aelsta samkeppnisaðila sinn á Íslandi, Iceland Express. Við yfirtökuna tók félagið yfir leiðarkerfi, vörumerki og viðskiptavild Iceland Express. 30. október sama ár sagði svo WOW air öllum starfsmönnum Iceland Express upp störfum ásamt því að rifta samningum við flugrekanda Iceland Express, Holidays Czech Airlines. Wow Air sótti um eigið flugrekstrarleyfi í apríl 2013. Áfangastaðir. "Áætlað var að flogið yrði til þessara áfangastaða þegar starfsemi hófst 1. júní 2012" 2. deild karla í knattspyrnu 1962. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 8. skiptið árið 1962. Í fyrsta skiptið léku öll liðin saman í einni deild, en það var þó skammvirkt því það kerfi var ekki aftur notað fyrr en 1970. Sex lið tóku þátt þetta árið. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Keflavíkur og Þróttar. Fyrir Keflavík skoruðu Jón Jóhannsson 2 mörk og Hólmbert Friðjónsson 1. Jens Karlsson skoraði fyrir Þrótt. Peter Cambor. Peter Cambor (fæddur Peter Alexander Cambor, 28. september 1978) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í og Notes from the Underbelly. Einkalíf. Cambor fæddist í Houston, Texas. Hann stundaði nám við Wesleyan-háskólann í Middletown í Connecticut og útskrifaðist þaðan árið 2001 með B.A. gráðu í ensku. Kom hann fram í leikritum með fram námi. Cambor útskrifaðist árið 2005 með MFA í leiklist frá "American Repertory Theater Institute for Advanced Theater Training" við Harvard-háskólann í Cambridge í Massachusetts. Leikhús. Cambor kom fram í "The Cherry Orchard" á móti Annette Bening og Alfred Molina. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutvark Cambor var árið 2007 í Numb3rs. Árið 2007 þá var honum boðið hlutverk í "Notes from the Underbelly" sem Andrew Stone, sem hann lék til ársins 2010. Hefur hann síðan 2009 verið með gestahlutverk í sem Nate Getz. Kvikmyndir. Cambor hefur komið fram í tveim kvikmyndum "Up to the Roof" og "Alice Jacobs Is Dead". Tenglar. Cambor, Peter 2. deild karla í knattspyrnu 1963. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 9. skiptið árið 1963. Horfið var aftur til tvöfaldrar riðlaskiptingar eins og hafði verið árin áður, þó var þeim ekki skipt eftir landshlutum. Þróttur og Breiðablik léku til úrslita í markaleik, en hann endaði 9-0 fyrir Þrótt. A riðill. Í A riðli léku lið: ÍBV og Breiðablik. Reynir Sandgerði og Dímon úr Landeyjum hættu keppni eftir að hafa gefið leiki sína gegn ÍBV (Reynir) og Breiðablik (Dímon). Dímon hafði tapað 11-3 fyrir Reyni og Reynir keppt tvo leiki við Breiðablik og tapað báðum með samanlagðri markatölu 2-5. B riðill. Í B riðli léku ÍBH, Þróttur, KS og ÍBÍ Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Þróttar og Breiðabliks. Þróttarar sigruðu 9-0, sigur sem hefði hæglega getað orðið stærri. Haukur Þorvaldsson skoraði þrjú mörk, Ómar Magnússon og Axel Axelsson tvö mörk hvor og Jens Karlsson og Þorvarður Björnsson skoruðu sitt markið hvor. Adam Jamal Craig. Adam Jamal Craig (fæddur 3. september) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dominic Vail í. Einkalíf. Craig fæddist í Olathe, Kansas. Craig stundaði nám við Webster háskólann í St. Louis og útskrifaðist þaðan með B.A. í fjölmiðlasamskiptum. Ferill. Fyrsta hlutverk Craig var í kvikmyndinni "Lenexa, 1 Mile" frá 2006. Hefur hann síðan komið fram í kvikmyndum á borð við: "The Time Machine: A Chad, Matt & Rob Interactive Adventure" og "In Time". Craig hefur komið fram í sjónvarpsþáttum á borð við: The O.C., "Las Vegas", Crossing Jordan, Heroes og The Office. Árið 2009 þá var Craig boðið hlutverk í sem Dominic Vail sem hann lék til ársins 2010. Tenglar. Craig, Adam Jamal 2. deild karla í knattspyrnu 1964. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 10. sinn árið 1964. Leikið var í tveimur landsbyggðarskiptum riðlum. Suðurriðill. Í Suðurlandsriðli léku lið: ÍBV, Breiðablik, FH, Haukar og Víkingar. Norðurriðill. Í Norðurlandsriðli riðli léku ÍBA, KS og ÍBÍ Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli ÍBA og ÍBV, liðanna sem höfðu bæði unnið riðilinn sinn með fullt hús stiga. 2. deild karla í knattspyrnu 1965. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 11. sinn árið 1965. Leikið var í tveimur riðlum. A riðill. Í A riðli léku lið Þróttar, KS, Hauka og Reynis. B riðill. Í B riðli riðli léku ÍBV, ÍBÍ, Breiðablik, FH og Víkingur Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Þróttar og ÍBV. Leikurinn fór 7-3 fyrir Þrótt eftir framlengingu. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 3-3. 2. deild karla í knattspyrnu 1966. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 12. sinn árið 1966. Leikið var í tveimur riðlum. Þetta var í síðasta skipti sem ekkert lið féll niður um deild í 2. deild, en 3. deildin var stofnuð þetta ár. A riðill. Í A riðli léku lið Fram, ÍBV, Víkings, Hauka og ÍBS. B riðill. Í B riðli riðli léku Breiðablik, KS, FH og ÍBÍ Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli Fram og Breiðabliks. Leikurinn fór 3-0 fyrir Fram 2. deild karla í knattspyrnu 1967. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 13. sinn árið 1967. Leikið var í tveimur riðlum. Þetta ár var í fyrsta skiptið sem liðin áttu það á hættu að falla úr B-deild niður í C-deild, sem hafði verið stofnuð ári áður. A riðill. Í A riðli léku lið Þróttur, Selfoss, Breiðabliks og KS. B riðill. Í B riðli riðli léku ÍBV, Víkingar, Haukar og ÍBÍ ÍBV og Víkingur þurftu að leika úrslitaleik því báðum leikjum þeirra lauk með jafntefli. Fallleikur. Leiknir voru samtals 3 leikir um fall þetta ár, allir á milli KS og ÍBÍ. Fyrsta leiknum lauk með 1-1 jafnteli eftir framlengingu, en leikar stóðu 0-0 eftir venjulegan leiktíma. Annar leikur var settur á, en hann tafðist vegna kærumála og var fyrst spilaður sumarið eftir, og fór hann einnig 1-1. Leika þurfti því þriðja leikinn. Ísfirðingar unnu þá 5-1 1. leikur. 1. leikurinn fór fram strax eftir tímabilið 1967 2. leikur. Vegna jafnteflisins var settur á annar leikur. Framkvæmd hans tafðist þó vegna kærumála en var loksins leikinn hinn 22. maí 1968. 3. leikur. Enn gerðu liðin jafntefli og því var ekki annað í stöðunni en að skipuleggja næsta leik, sem var leikinn 14. júní 1968. Úrslitaleikur. Úrslitaleikurinn var leikinn á milli ÍBV og Þróttar. Leikurinn fór 3-0 fyrir ÍBV. 2. deild karla í knattspyrnu 1968. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 14. sinn árið 1968. Leikið var í tveimur riðlum. A riðill. Í A riðli léku: Þróttur, Haukar, FH og Víkingur. B riðill. Í B riðli riðli léku ÍA, Breiðablik, Selfoss og ÍBÍ Fallleikur. Víkingur og ÍBÍ léku um fallið í 3. deild. Fyrsta leiknum lauk með 1-1 jafntefli, en í seinni leiknum vann Víkingur 3-0 Úrslitariðill. Nýtt fyrirkomulag var þetta árið vegna stækkunar á efstu deild. Tvö efstu liðin í 2. deild og neðsta liðið úr úrvalsdeildinni léku um tvö laus sæti í efstu deildinni að ári. Antonio Banderas. Antonio Banderas (f. 10. ágúst 1960) er spænskur leikari. 2. deild karla í knattspyrnu 1969. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 15. sinn árið 1969. Leikið var í tveimur riðlum. A riðill. Í A riðli léku: Víkingur, Selfoss, Haukar og Þróttur. B riðill. Í B riðli riðli léku Breiðablik, FH, Völsungur og HSH Fallleikur. Nýtt snið var á fallbaráttunni þetta ár. Neðstu liðin léku innbyrðis um hvort liðið myndi leika úrslitaleik um laust sæti í 2. deild við liðið sem lenti í 2. sæti í C-deild. Þróttur og HSH léku þann leik. Þróttarar unnu nokkuð auðveldlega 9-1 Fallleikur. Lið ÍBÍ lenti í 2. sæti úrslitariðils 3. deildar þetta ár og léku umspilsleik við HSH sem var neðsta liðið í 2. deild. Úrslitaleikur. Tvö efstu liðin léku sín á milli um laust sæti í efstu deild. Ekki var öll nótt úti fyrir tapliðið því það fékk síðan leik gegn neðsta liðinu í efstu deild um annað laust sæti. Leikur um úrvalsdeildarsæti. ÍBA og Breiðablik léku um laust úrvalsdeildarsæti. Breiðablik tapaði 3-2 annan leikinn í röð. Faina Ranevskaya. Faina Ranevskaya (1896 – 1984) var rússnesk leikkona. Diego Maradona. Diego Armando Maradona (f. 30. október 1960) er argentínskur knattspyrnumaður. 2. deild karla í knattspyrnu 1970. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 16. sinn árið 1970. Tekið var aftur upp deildarkerfi og léku öll liðin nú í sömu deild, en ekki tveimur riðlum eins og áður. 2. deild karla í knattspyrnu 1971. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 17. sinn árið 1971. 2. deild karla í knattspyrnu 1972. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 18. sinn árið 1972. 2. deild karla í knattspyrnu 1973. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 19. sinn árið 1973. Ibn al-Nafis. Titilsíða á handriti eftir Ibn al-Nafis Ala-al-din abu Al-Hassan Ali ibn Abi-Hazm al-Qarshi al-Dimashqi (arabíska: علاء الدين أبو الحسن عليّ بن أبي حزم القرشي الدمشقي), betur þekktur sem Ibn al-Nafis ("arabíska": ابن النفيس), var arabískur miðaldalæknir (fæddur 1213, dáinn 1288), þekktastur fyrir rannsóknir sínar á hringrás blóðsins í mannslíkamanum. Æviágrip. Ibn al-Nafis fæddist í Damaskus árið 1213, eða þar um bil. Hann lærði læknisfræði við Bimaristan al Noori spítalann þar í borg. Á þessum tíma var Damaskus ein helsta höfuðborg mennta og vísinda í heiminum. Ibn al-Nafis varð vitni að miklum erfiðleikum sem tengdust krossferðunum og innrásum Mongóla í Bagdad. Eyðileggingin sem þetta hafði á allt starf fræðimanna á þessum tíma var gríðarleg og reyndu Ibn al-Nafis og samtíðarmenn hans að endurreisa þann ljóma sem hafði verið yfir íslömsku gullöldinni og tókst það þegar upp var staðið. Þegar Ibn al-Nafis var 23 ára fluttist hann til Kaíró og hóf störf á Al-Nassri sjúkrahúsinu en svo seinna meir á Al-Mausouri sjúkrahúsinu þar sem að hann varð síðar yfirlæknir. Hann naut lífsins í Kaíró, varð ríkur og naut þess að umgangast yfirstéttina sem og ráðandi lækna og aðra meðlimi fræðasamfélagsins. Hann var svo gerður að líflækni Baybars sóldáns. Fræðastörf og arfleifð. Á íslömsku gullöldinni komu fram fræðimenn, vísindamenn og kennarar úr arabaheiminum sem færðu ferska strauma í vísindasöguna. Þeir véfengdu margar af kenningum Grikkja og Rómverja og kynntu til sögunnar margar þeirra kenninga sem lögðu grunninn að nútíma vísindum Ibn al-Nafis var aðeins 29 ára gamall þegar hann gaf úr sitt mikilvægasta rit, "Athugasemdir við líffærafræði í Kanónu Avicenna", sem innihélt byltingarkenndar skoðanir á lungnahringrásinni og hjartanu. Fræðimenn höfðu allt frá annarri öld haldið því fram að blóðið færi frá vinstri hjartaslegli til þess hægri í gegnum ósýnileg göng sem væru á hjartaskiptinni, skilrúminu sem aðskilur hjartahólfin, og blandaðist þar lofti sem byggi til anda sem dreifðist þaðan út um líkamann. Ibn al-Nafis rengir þetta í bók sinni og segir að skiptin sem aðskilur vinstri og hægri hjartaslegla væri ekki hol og þar af leiðandi gæti blóð ekki flust þar á milli. Þar sem það er enginn samgangur milli hægri og vinstri hjartaslegla, og það eru engin ósýnileg göng þar á milli, þá fer blóðið frá hægra hólfi niður með slagæðinni niður í lungun dreifist þar um lungun og blandast lofti. Blóðið fer svo aftur til vinstri hjartahólfsins þar sem því er dreift út í líkamann. Ibn al-Nafis sagði einnig að það hlyti að vera samgangur á milli lungnaslagæðar og lungnaæða Meðal annarra ritverka Ibn al-Nafis má nefna mjög yfirgripsmikla alfræðibók um læknisfræði sem var stærsta bók síns tíma og er enn þann dag í dag álitin stórverk. Ibn al-Nafis er ekki síst markverður fyrir það að hann brúar í raun stórt bil í læknisfræði milli þess sem átti sér stað á annarri öldinni og þess sem var svo farið að rannsaka á sextándu öld. Ibn al-Nafis skrifaði ekki bara læknisfræðirit, hann skrifaði einnig bækur um lög, heimspeki, félagsfræði og stjörnufræði. Auk þess skrifaði hann fyrstu arabísku skáldsöguna sem fjallaði um lítið barn sem var alið upp á einangraðri eyðieyju en komst að lokum í samband við umheiminn. Það er svo skemmtilegt aukaatriði að Ibn al-Nafis komst ekki til vitundar vesturlandabúa fyrr en snemma á 20. öld þegar að ungur Egypti sem var að vinna að doktorsritgerð sinni á bókasafni í Berlín fann handritið að bók Ibn al-Nafis um blóðrásina fyrir tilviljun. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort að Michael Servetus sem gaf út bók sína árið 1553 og fjallaði um svipað efni, hafi vitað af Ibn al-Nafis og hvort hann hafi eignað sér eitthvað af því sem Ibn al-Nafis hafði uppgötvað 300 árum áður. 2. deild karla í knattspyrnu 1974. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 20. sinn árið 1974'". Var þetta í síðasta skipti sem einungis eitt lið fór upp um deild. 2. deild karla í knattspyrnu 1975. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 21. sinn árið 1975'". Í fyrsta skipti komust tvö lið upp um deild. Lokastaðan. Liðið sem lenti í neðsta sæti Úrvalsdeildarinnar spilaði leik gegn liðinu sem lenti í 2. sæti í 2. deild um það hvort liðið spilaði í Úrvalsdeild á næsta ári. Það voru Þróttur úr 2. deild og ÍBV sem spiluðu um það sæti. 20px Þróttur 2 - 0 ÍBV 20px 2. deild karla í knattspyrnu 1976. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 22. sinn árið 1976. Í fyrsta skipti komust tvö lið upp um deild. Lokastaðan. Liðið sem lenti í neðsta sæti Úrvalsdeildarinnar spilaði leik gegn liðinu sem lenti í 2. sæti í 2. deild um það hvort liðið spilaði í Úrvalsdeild á næsta ári. Það voru Þór úr 2. deild og Þróttur sem spiluðu um það sæti. 20px Þór 2 - 0 Þróttur 20px Brúðarmeyjarnar mínar. "Brúðarmeyjarnar mínar" eða "Bridesmaids" er bandarísk gamanmynd sem Paul Feig leikstýrði og Kristen Wiig og Annie Mumolo skrifuðu. Kristen Wiig, Maya Rudolph, Rose Byrne, Melissa McCarthy, Wendi McLendon-Covey, Ellie Kemper, Chris O'Dowd og Jill Clayburgh fara með aðalhlutverkin í myndinni. Myndin er sú síðasta sem Jill Clayburgh kemur fram í en hún dó stuttu áður en hún kom út. Myndin hlaut mikið lof gagnrýnenda og varð að einni tekjuhæstu mynd ársins 2011. Haustmót áhalda I FSÍ 2011. Haustmót áhalda I - í frjálsum, 1. og 2. þrepi karla og kvenna var haldið 22. október 2011 í íþróttamiðstöðinni Björk. Veitt voru verðlaun fyrir 3 fyrstu sætin á hverju áhaldi í hverjum flokki. Rósroði. Svæði á andlitinu þar sem rósroði kemur fyrir Rósroði (lat. "rosacea") er bólgusjúkdómur í andlitinu sem byrjar venjulega á miðjum aldri og einkennist af háræðaútvíkkun, roða, nöbbum og graftarbólum sem eru gjarnan miðju andliti, á kinnar, nef, höku og enni. Til er afbrigði sem er afmarkað við nefið og sem leiðir stundum til stækkunar á því en þetta ástand var kallað “brennivínsnef” eða hnúskanef. Flestir sem fá rósroða eru ljósir yfirlitum. Einkenni rósroða líkjast oft rauðum úlfum. Ástæður sjúkdómsins eru óþekktar en þættir sem framkalla oft roðann eru líkamlegt eða andlegt álag, veðrabrigði, hiti, kuldi, sól, kryddaður matur og vín. Haustmót FSÍ í hópfimleikum 2011. var haldið í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi 28. - 30. október n.k. var í umsjón Fimleikafélags Akraness. Keppt var í öllum flokkum úrvals- og 1. deildar. Verðlaun voru veitt fyrir samanlögð stig í öllum flokkum Kalli kanína. Kalli kanína (enska: "Bugs Bunny") er bandarísk teiknimyndapersóna sem birtist oft í Looney Tunes og Merrie Melodies. Vestur-Íslendingurinn Karl Gústaf Stefánsson (Charles Thorson) teiknaði Kalla kanínu og af þeim sökum var Kalli kanína nefndur svo á íslensku, það er í höfuðið á Karli. Enska heitið þýðir aftur á móti: "Klikkaða kanína". Sagt er að hugmyndin að Kalla kanínu sé fengin úr bíómyndinni "It Happened One Night", úr atriði þar sem persónan, sem Clark Gable leikur, situr á girðingu og borðar gulrætur í gríð og erg. Drusluganga. Frá fyrstu druslugöngunni í Toronto, 3. apríl. 2001 Drusluganga er mótmælaganga sem hefur það markmið að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og ástand þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi og vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi. Fyrsta druslugangan var farin 3. apríl 2011 í Toronto í Kanada en slíkar göngur hafa verið farnar víða um heim. Fyrsta drusluganga var farin í Reykjavík 23. júlí 2011. Barrett Foa. Barrett Foa (fæddur 18. september 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Eric Beale í. Einkalíf. Foa er fæddur og uppalinn í Manhattan í New York-borg. Foa stundaði nám við Interlochen Arts Camp í Michigan á sumrin þegar hann var í menntaskóla. Foa útskrifaðist frá Michigan-háskólanum með B.A. gráðu í söngleikhúsi (Musical Theatre). Leikhúsferill. Foa kom fram í "Avenue Q" og "The 25th Annual Putnam County Spelling Bee" á Broadway, ásamt því að vera hluti af leikaraliðinu í "Mamma Mia". Ásamt söngleikjum þá hefur Foa komið fram í leikritum og gamanleikjum við "The Public Theatre", "The Bay Street Theatre" og "The Shakespeare Theatre" en þar lék hann Claudio í "Much Ado About Nothing".. Sjónvarpsferill. Fyrsta hlutverk Foa var í sjónvarpsþættinum "Six Degress" árið 2007. Síðan þá hefur hann komið fram í þáttum á borð við: Numb3rs, The Closer og Entourage. Árið 2009 þá var Foa boðið hlutverk í þar sem hann leikur Eric Beale. Leikhús. Winter Garden Theatre, Cadillac Winter Garden Theatre Tenglar. Foa, Barrett 2. deild karla í knattspyrnu 1977. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 23. sinn árið 1977. Deildin tók loksins sig það form sem hún átti eftir að halda allt til ársins 2008 þegar hún var stækkuð. 2. deild karla í knattspyrnu 1978. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 24. sinn árið 1978. KR lék í fyrsta og, hingað til, eina skiptið í B deild. 2. deild karla í knattspyrnu 1979. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 25. sinn árið 1979. 2. deild karla í knattspyrnu 1980. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 26. sinn árið 1980. 2. deild karla í knattspyrnu 1981. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 27. sinn árið 1981. 2. deild karla í knattspyrnu 1982. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 28. sinn árið 1982. 2. deild karla í knattspyrnu 1983. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 29. sinn árið 1983. 2. deild karla í knattspyrnu 1984. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 30. sinn árið 1984. Þriggja stiga reglan var tekin upp þetta ár 2. deild karla í knattspyrnu 1985. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 31. sinn árið 1985. 2. deild karla í knattspyrnu 1986. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 32. sinn árið 1986. 2. deild karla í knattspyrnu 1987. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 33. sinn árið 1987. 2. deild karla í knattspyrnu 1988. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 34. sinn árið 1988. 2. deild karla í knattspyrnu 1989. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 35. sinn árið 1989. 2. deild karla í knattspyrnu 1990. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 36. sinn árið 1990. 2. deild karla í knattspyrnu 1991. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 37. sinn árið 1991. Þetta var í síðasta skiptið sem B-deildin var kölluð 2. deild karla, allt frá 1992 hefur hún gengið undir nafninu 1. deild. Renée Felice Smith. Renée Felice Smith er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Nell Jones í. Einkalíf. Smith er af ítölskum og írskum uppruna. Smith stundaði nám við Tisch School of the Arts við New York-háskólann. Ferill. Fyrsta hlutverk Smith í sjónvarpi var í auglýsingu fyrir "Dannon Yogurt" þegar hún var sex ára. Árið 2008 þá kom Smith fram í "Viralcom" og síðan árið 2010 þá var henni boðið hlutverk í sem Nell Jones. Tenglar. Smith, Renée Felice 2. deild karla í knattspyrnu 1992. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 38. sinn árið 1992. 2. deild karla í knattspyrnu 1993. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 39. sinn árið 1993. 2. deild karla í knattspyrnu 1994. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 40. sinn árið 1994. 2. deild karla í knattspyrnu 1995. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 41. sinn árið 1995. 2. deild karla í knattspyrnu 1996. Leikar í 2. deild karla í knattspyrnu hófust í 42. sinn árið 1996. 1. deild karla í knattspyrnu 1997. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 43. sinn árið 1997. 1. deild karla í knattspyrnu 1998. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 44. sinn árið 1998. 1. deild karla í knattspyrnu 1999. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 45. sinn árið 1999. 1. deild karla í knattspyrnu 2000. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 46. sinn árið 2000. 1. deild karla í knattspyrnu 2001. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 47. sinn árið 2001. 1. deild karla í knattspyrnu 2002. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 48. sinn árið 2002. 1. deild karla í knattspyrnu 2003. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 49. sinn árið 2003. 1. deild karla í knattspyrnu 2009. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 55. sinn árið 2009. 1. deild karla í knattspyrnu 2010. Leikar í 1. deild karla í knattspyrnu hófust í 56. sinn árið 2010. Gamlárskvöld (kvikmynd). "Gamlárskvöld" (enska: "New Year's Eve") er væntanleg bandarísk gamanmynd með rómantísku ívafi sem Garry Marshall leikstýrir. Myndin fjallar um líf nokkura para sem skarast á gamlárskvöldi. Í aðalhlutverkum eru Robert De Niro, Michelle Pfeiffer, Jon Bon Jovi, Zac Efron, Ashton Kutcher, Hillary Swank, Abigail Breslin, Halle Berry, Katherine Heigl, Sarah Jessica Parker, Jessica Biel, Lea Michele og Josh Duhamel. Peter Weiss. Peter Ulrich Weiss (1916 – 1982) var þýskur rithöfundur og listmálari. Weiss, Peter Weiss, Peter Antonio Salieri. Antonio Salieri (18. ágúst 1750 – 7. maí 1825) var ítalskt tónskáld og kapellumeistari í Vín í dómi Jósefs 2. Habsborgarar. Salieri, Antonio Türk Telekom Arena. Türk Telekom Arena er heimavöllur tyrkneska knattspyrnuliðsins Galatasaray. Pláss er fyrir allt að 52,652 áhorfendur í sæti, sem gerir hann að næst stærsta knattspyrnuvelli Tyrklandi. Türk Telekom Arena hefur verið heimavöllur Galatasaray allt frá árinu 2011, en hann var fyrst tekinn í notkunn þann 15. febrúar. Honoré de Balzac. Honoré de Balzac (1799 – 1850) var franskur rithöfundur. Balzac, Honoré de Marie Tussaud. Madame Anna Marie Tussaud (1761 – 1850) var frönsk vaxmyndagerðarkona. Guy de Maupassant. Henry-René-Albert-Guy de Maupassant (1850 – 1893) var franskur rithöfundur. Maupassant, Guy de Ferdinand Brunetière. Ferdinand Brunetière (1849 – 1906) var franskur rithöfundur. Brunetière, Ferdinand Nostradamus. Michel de Nostredame eða Nostradamus (1503 – 1566) var franskur læknir og spámaður. Davíð (Michelangelo). Davíð er höggmynd eftir Michelangelo í ítölsku borginni Flórens. Bruno Mars. Peter Gene Hernandez, betur þekktur undir nafninu Bruno Mars (fæddur 8. október 1985 á Hawaii) er bandarískur leikari og tónlistarmaður. Mars, Bruno Mars, Bruno Buttercup. Buttercup var íslensk hljómsveit stofnuð árið 1996. Upprunalegu meðlimir hennar voru, Heiðar Kristinsson, Davíð Þór Hlinason, Símon Jakobsson og Valur Heiðar Sævarsson. Árið 1999 bættist svo við Írisi Kristinsdóttir. Jonathan Swift. Jonathan Swift (1667 – 1745) var írskur satíruhöfundur, ritgerðarsmiður og pólitískur bæklingahöfundur (fyrst fyrir Viggmenn ("Whigs"), þá fyrir Torymenn ("Tories")), skáld og klerkur og síðar prófastur við Dómkirkju heilgs Patreks í Dublin. Hann er þekktastur fyrir Reisubók Gúllívers ("Gulliver's Travels") sem út kom 1726 og í lagfærðri útgáfu 1735. Bókin kom út í heild sinni í íslenskri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar árið 2011. Swift, Jonathan Alexandra Marinina. Alexandra Marinina (fædd 16. júní 1957) er rússneskur rithöfundur. Marinina, Alexandra James Brown. James Joseph Brown (1933 – 2006) var bandarískur söngvari. Brown, James Saksóknari Alþingis. Saksóknari Alþingis var kosinn af Alþingi þann 12. október 2010 til þess að sækja af hendi Alþingis mál sem þingið höfðar fyrir Landsdómi á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Geir er ákærður fyrir "„...brot framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi í embættisfærslu hans sem forsætisráðherra á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár...“". Aðdragandi málsins er sá að í kjölfar bankahrunsins 2008 var skipuð rannsóknarnefnd til þess að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna. Þann 30. desember 2009 kaus Alþingi síðan þingmannanefnd til þess að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum þingsins við niðurstöðum skýrslunar. Rannsóknarnefndin skilaði skýrslu þann 12. apríl 2010 og þingmannanefndin skilaði síðan sinni skýrslu 11. september 2010. Meirihluti þingmannanefndarinnar lagði síðan fram þingsályktunartillögu þess efnis að mál yrði höfðað gegn Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni vegna "„vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslu sinni á árinu 2008“". Kosið var um tillöguna og niðurstaðan varð síðan sú að Alþingi ályktaði að höfða ætti mál á hendur Geir H. Haarde. Málið var þingfest þann 7. júní 2011 í bóksal Þjóðmenningarhússins. Sundlaugin á Suðureyri. Sundlaugin á Suðureyri er meðal elstu nútíma sundlauga á Íslandi. Hún var byggð árið 1859 og var það enginn annar bæjarfógetinn Skarphéðinn Þórðarson sem var fyrstur til að taka sundsprett. Olga Færseth. Olga Færseth (f. 6. október 1975) er íslensk knattspyrnu- og körfuknattleikskona. Hún hóf íþróttaferill sinn í körfubolta með Keflavík. Í körfuboltanum varð hún Íslandsmeistari fjórum sinnum (1992, 1993, 1994 og 1995), spilaði 16 landsleiki og setti stigamet í lokaúrslitunum 1994 fyrir Keflavík, þar sem hún skoraði 111 stig í 5 leikjum. Knattspyrnuferill hennar byrjaði með Breiðablik þar sem hún varð Íslandsmeistari tvisvar sinnum (1992 og 1994). 1995 gekk hún til liðs við Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Með KR varð hún Íslandsmeistari fjórum sinnum í röð (1997, 1998, 1999 og 2000). Á knattspyrnuferli sínum hefur hún skorað 262 mörk í 202 leikjum og er langmarkahæsta knattspyrnukona landsins. Hún leikur nú með Ungmennafélaginu Selfoss. Mata Hari. Margaretha Geertruida Zelle, betur þekkt sem Mata Hari (7. ágúst 1876 – 15. október 1917) var hollensk nektardansmær og njósnari. Hún var dæmd til dauða sökuð um njósnir í þágu Þjóðverja. Hún var leidd fyrir aftökusveit í Frakklandi og skotin. Póststrúktúralismi. Póststrúktúralismi er heimspekileg hreyfing sem á upptök í Frakklandi á síðari hluta 20. aldar og er framhald og svar við strúktúralisma (formgerðarstefnu). Póststrúktúralistar tileinka sér hugmyndir strúktúralista um formgerð en hafna að formgerð heimsins sé lokað kerfi á þeirri forsendu að það feli í sér hugmynd um handanveru og sýna fram á opnun, ofgnótt og óstöðugleika merkingarkerfa með því að skýra uppruna og þróun formgerða. Póststrúktúralismi er nátengdur meginlandsheimspeki. Hugtakið póststrúktúralismi var smíðað í bandarískum akademíum. Tígurköttur. Tígurköttur (eða tígrisköttur) (fræðiheiti: "Leopardus pardalis") er villiköttur sem er að finna í Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og Mexíkó, og hefur einnig látið á sér kræla í Texas, Trínidad og karabísku eyjunum. Skinnið af tígurkettinum hefur mikið verið notað í feldi og aðrar skinnvörur. Alfons 5.. Alfons 5. (994 – 1028) var konungur af León og Galisíu. Nestor sagnaritari. Nestor sagnaritari (1056 – 1114) var slavneskur (rússneskur) krónikuhöfundur og rithöfundur. Nestor sagnaritari Loftur Sæmundsson. Loftur Sæmundsson (? – 1163) var prestur í Odda á Rangárvöllum. Haustmót áhalda II FSÍ 2011. Haustmót áhalda II - í 3., 4. og 5. þrep kvenna og karla var haldið 5-6. nóvember 2011 af Fimleikafélagi Akureyrar í Giljaskóla á Akureyri. Veitt voru verðlaun fyrir 3 fyrstu sætin í fjölþraut í hverjum flokki. Bab-el-Mandeb. Bab-el-Mandeb (sem merkir Sorgarhlið og er stundum kallað Tárahlið) er sund fyrir mynni Rauðahafs og skilur það af frá Adenflóa. Sundið, sem er á milli Jemens og Djíbútí, er 25 km breitt og hefur reynst hættulegt vegna strauma. Eldfjallaeyjan Perimey er þar skammt undan landi, Arabíumegin. Sveigakot. Sveigakot er um 6 kílómetra suður af Mývatni í landi Grænavatns, í Skútustaðahreppi. Þar hófust fornleifarannsóknir 1998 og ári síðar fornleifauppgröftur. Umhverfi. Nafnið Sveigakot kemur fyrir í örnefnalýsingu Grænavatns og vísar til rústa þar sem talið er að bær hefði verið áður. Staðurinn er á rýru landi rétt austan við Kraká, en graslendi er nokkuð í kring og myndar sveiga í landslaginu. Talið að staðurinn dragi nafn sitt af þessum sveigum og þar sem gróður á þessu svæði hefur minnkað mjög frá landnámi er nafnið Sveigakot ekki endilega nafnið á þeim bæ sem þarna stóð, enda er nafnið ekki þekkt úr neinum eldri heimildum. Grænavatns er hinsvegar getið í Landnámabók sem eins af fyrstu býlum á þessu svæði við landnám og þar bjó landnámsmaðurinn Þorkell hávi. Rannsóknir og uppgröftur. Athuganir hófust á svæðinu árið 1998, þá var safnað saman dýrabeinum sem sýnileg voru á yfirborðinu og komið höfðu í ljós vegna jarðvegseyðingar. Árið eftir var grafið á þeim stað sem beinin fundust og þar reyndist öskuhaugur undir. Sama ár var einnig grafið þar sem virtust vera rústir bæjarhúsa. Við þessar rannsóknir kom í ljós að minjarnar væru frá víkingaöld. Verkefninu lauk árið 2006 þegar allar minjar á svæðinu höfðu verið kannaðar. Alls voru um 700 m2 grafnir upp í Sveigakoti. Ályktanir. Það sem gerir Sveigakot að sérstökum fornleifauppgreftri er að þar er öskulag sem líklega hefur fallið um 950. Þetta gerir að verkum að hægt er að tímasetja fyrstu byggingarnar í Sveigakoti með meiri vissu en annarsstaðar til fyrstu áratuga landáms hér á landi. Elstu útihúsin voru fjós 11x4 metrar að stærð en mannabústaður frá þessum tíma var einungis niðurgrafið hús 5x4 metrar að stærð. Fjósið er talið það elsta sem fundist hefur á Íslandi. Þeir gripir og mannvistarleifar sem fundist hafa í Sveigakoti gefa til kynna venjulegt heimilishald þess tíma. En þó er óvenjulegt hversu lengi heimilisfólk virðist hafa búið í jarðhúsum, það er smáum niðurgröfnum húsum. Það er ekki fyrr en á síðari hluta tíundu aldar sem byggður var skáli eins og algengastur var á tíma fyrstu byggðar á Íslandi. Seinni íverustaðir eru meðal annnars skáli sem hefur verið í notkun eitthvað fram á 12. öld, en þá virðist búskapur leggjast af í Sveigakoti og fólkið flytjast á brott. Set Fire to the Rain. „Set Fire to the Rain“ (íslenska: "Kveikti í rigningunni") er lag eftir bresku söngkonuna Adele. Lagið var gefið út á annarri hljómplötu hennar "21". Fraser T. Smith sá um upptökustjórn og skrifaði lagið í samstarfi með Adele. Lagið er kraftballaða og var önnur smáskífa plötunnar "21" í Evrópu. Á Bretlandi var það gefið út sem þriðja smáskífa plötunnar. Þar náði lagið 11. sæti á topplistanum. Í Belgíu, Hollandi og Póllandi náði lagið fyrsta sæti á topplistum þessarra landa. Í Austurríki, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Írlandi, á Ítálíu, í Noregi, Nýja-Sjálandi, Sviss og Þýskalandi hefur lagið verið meðal tíu efstu laga topplistans. Rita Hayworth. Rita Hayworth (fædd "Margarita Carmen Cansino"; 17. október 1918 – 14. maí 1987) var bandarísk leikkona. Á ferlinum lék hún í 60 kvikmyndum og hún er þekttust fyrir helstu hlutverk sitt í "Gilda". Tenglar. Hayworth, Rita Scary Movie 4. Scary Movie 4 er kvikmynd frá árinu 2007. Myndin opnast með Shaquille O'Neal og Dr Phil að vakna til að finna ökkla sínum handjárnaða í baðherbergi. Þeir hafa einungis tvær mínútur til að flýja eins og gestgjafi þeirra, Billy the Puppet, leiðir í ljós að herbergi er að fylla upp með gas taug. Phil áttar sig þeir verða að skera í gegnum eigin ökkla, en tilviljun sagir af röngum fæti, óvart fara bæði menn að deyja, því að bein þeirra sjást síðar í myndinni. Í New York, Cindy Campbell (Anna Faris) heimsóknir fyrrverandi bróður-í-lög Tom Logan hennar (Charlie Sheen). Þar sem fyrri myndinni, eiginmaður George hennar dó og bróðursonur Cody hennar hefur verið sendur til hersins í skóla, þannig henni brotinn og einmana kona. Tom, jafn þunglyndur þrátt fyrir að vera í sambandi við þrjár stelpur, reynir að fremja sjálfsmorð eftir ofskömmtun á svefntöflur. Hins ingests hann ranglega Viagra, sem leiðir til sársaukafull dauða þegar hann fellur á balustrade og lendir á absurdly typpið hans. Distraught, Cindy tekur starfið umhyggju fyrir óhæfur gamla konan, frú Norris (Cloris Leachman), sem býr í hrollvekjandi og augljóslega reimt hús sem Tom hafði áður mælt með henni. Á sama tíma nýja nágranna Cindy er, Tom Ryan (Craig Bierko), keyrir á gamla vini George, Mahalik (Anthony Anderson) og CJ (Kevin Hart), sem óviljandi í ljós að þeir höfðu samkynhneigðar eina nótt standa síðan að taka ferð til fjalla, mikið að disgust Tom og skömm CJ er. Tom heim, þar sem fyrrverandi eiginkona Marilyn hans (Molly Shannon) hefur bara komin með börnum sínum, Robbie (Beau Mirchoff) og Rachel (Conchita Campbell), báðir sent föður sínum. Næsta morgun, Cindy confides með Tom, sem leiðir til samræðum um fortíð sambönd þeirra. Cindy man því miður hörmulega dauða eiginmanns George Logan hennar (Simon Rex) á síðasta leik í hnefaleikum starfsferli sínum gegn dimwitted Tiffany Stone. Þegar Stone snéri að taka upp nikkel, Cindy reynir að sveifla á hana en missir og missir jafnvægi hennar. George fyrirvörum sem hún er um það bil að lenda á stól, og hann stökk á leiðinni til að bjarga henni en hann drepur óvart sjálfur sem leiðir til keðjuverkun af margfeldi fólk brjóta háls og deyja. Eins og tveir átta sig á ást sína til hvors annars og kyssa, himininn reynslu skyndilega Freak stormur. A risa mótmæla kallaður þrífótur kemur úr jörðu til að spila "Karma Chameleon" - áður en að skipta yfir í "Destroy Humanity", umbreyta inn í a hreyfanlegur vopnið ​​sem vaporizes fólk inn ryki og ösku. Cindy keyrir heim og fundur heimilisfastur Ghost hússins, Toshio. The Japani Drengurinn í ljós að svarið við innrás liggur í persónu föður síns. Tom kýs að hluta leiðir með Cindy og flýr með börnunum sínum til ótilgreindur stað. Þó að heimsækja Edna R. Penhall Elementary School, forseti Baxter Harris (Leslie Nielsen) fær fréttir af framandi árás. Því miður, Harris er meiri áhuga með að lesa um "Gæludýr Duck mín" og nær ekki að bregðast á viðeigandi hátt. Ástandið versnar bara þegar aðstoðarmaður hans segir að önd deyr, sem lýkur í ofbeldisfullum uppþot með börnunum. Síðar, í neyðartilvikum fundi Sameinuðu þjóðanna, Harris segir að umferð móðgandi brandari með afhjúpun vopn sem ætlað er að berjast gegn útlendingum. Vísindamenn hafa breytt hita Ray í að hafa öfug áhrif að eyðileggja föt. SÞ fær óvænt og alveg unwelcome kynningu þegar Harris unwittingly veldur því að Ray að veita öllum áþreifanleg nakinn, fyrst við sjálfan sig. Cindy reunites með gömlu vini Brenda Meeks hennar (Regina Hall), nú á staðnum blaðamaður þrátt fyrir að hafa dáið í fyrri myndinni. The par tekst að finna síðasta virka bílinn og fylgið leiðbeiningum vinstri við Toshio. Bráðum, uppgötva þeir dularfulla þorpi sem líkist gervi-Amish samfélag. Því miður eru þeir handtaka og taka dómi að hafa örlög þeirra ákveðin af þorpinu leiðtogi Henry Hale (Bill Pullman). Á prufa, blinda dóttur Hale er, Holly (Carmen Electra), hrasar í courtroom hugsa hún er ein hún lengjur og hefur mikið hægðir fyrir framan alla. Til skelfing sem fjölmennur courtroom, Hale reglum sem Cindy og Brenda getur dvalið í þorpinu, en aldrei fara. Í nágrenninu sviði strá með rauðu illgresi, Tom og börn hans hlaupa í bardaga milli bandaríska hersins og tripods. Robbie ákveður að taka þátt í baráttunni, spennt eftir myndina ofbeldi. Þó Tom reynir að ráða hann, Michael Jackson reynir að sannfæra Rakel að koma með - en Tom tekst að stöðva hana í tíma, þannig að söngvarinn verði endurtekið sundrað þar aðeins nefið enn. Tom og Rachel flýja inn í hús varin af brjálæðingur Oliver (Michael Madsen), en frestur þeirra er skammvinn þegar faðir og dóttir eru tekin með þrífót. Til baka í þorpinu, fær Henry stunginn með andlega áskorun Esekíel (Chris Elliott). A deyja Henry útskýrir að Cindy og Brenda að hann er faðir Toshio, sem var drepinn á massa slys á box leik Cindy er. Hins vegar conspire ýmsum atburðum á móti Henry sýna alla söguna, loksins náði hámarki í Cindy og Brenda vera caught við the Stjórn þrífót. Helstu persónur vakna í sama baðherbergi frá opnun. Cindy og Brenda finna sig þreytandi "Venus Fly gildrur" og Tom þreytandi að fráleitt tæki sem ætlað er að skjóta stöng upp á bak hans. Þá birtist Billy á skjá og segir þeim Cindy hefur 60 sekúndur til að sækja lykilinn. Eftir mikið vekur, Cindy sér grein fyrir að hún verði að sækja helstu aftan auga hennar - sem hún gerir án vandræði, þar sem helstu voru á bak við gler auga hún fékk eftir "slæmur bar berjast í '96". Þá bæði Rakel og Robbie koma niður úr loftinu, að vera sneið í sundur nema Tom heldur á reipi þeirra, þannig hann opinn til annars, á endanum hættulegri pyndingum tækið þar sem börn hans væru vistuð en hann vildi þjást hræðilega dauða. Augnablik áður en yfirvofandi dauða hans, Cindy finnur myndir í salerni á Billy með konu Henry og Toshio. Realising að Billy var líffræðilegum föður drengsins og öllu innrásina er hefnd fyrir dauða sonar síns, Cindy pleads hann að kalla á innrás. Eftir að hafa séð hversu langt Tom vildi fara að bjarga lífi barna hans á kostnað eigin hans, Billy herförinni líf þeirra og grudgingly afsökunar fyrir að drepa milljónir manna og leyfa þeim að fara. Í Eftirmáli sett níu mánuðum síðar, Brenda gefur fæðingu til barn Zoltar bróður Billy er, CJ og Mahalik halda áfram sambandi þeirra, og forseti Harris sést að sofa með önd. James Earl Jones narrates sigur mannkynsins í gegnum ást - áður en að hlaupa yfir við brottför strætó. Á meðan, Tom birtist á Oprah, brjálaður um athygli. Á endanum, eftir ýmsar æ eyðileggjandi antics, Tom kastar manically Cindy af stigi og hleypur í átt að myndavélinni og á skjánum fer svartur. Thomas Funck. Thomas Funck (26. október 1919 – 30. desember 2010) var sænskur rithöfundur. Funck, Thomas Pési rófulausi. "Pési rófulausi" (sænska: "Pelle Svanslös") er sænsk teiknimynd frá 1981. Myndin fjallar um köttinn Pésa sem missir rófuna þegar rotta bítur hana af. Hann fæðist á búgarði í Svíþjóð en eigandi búgarðsins er gráðugur og vill drekkja honum. Íbúi á svæðinu felur Pésa í bíl fjölskyldu sem er í sumarbústað á svæðinu. Fjölskyldan býr í Uppsölum og tekur köttinn að sér. Ducati 748. Ducati 748 er mótorhjól sem framleitt var af ítalska fyrirtækinu Ducati frá 1994 til 2002. Ducati 749 tók við af því. Skylmingaþræll. Skylmingaþræll var þræll til forna sem látinn var berjast við dýr og aðra þræla öðru fólki til skemmtunar. Siðurinn átti uppruna sinn hjá Etrúrum og tóku Rómverjar hann síðan upp eftir þeim. Sýningar sem þessar voru upphaflega til þess ætlaðar að heiðra minningu látinna manna en fljótlega þróuðust þær þó yfir í að vera skemmtiefni fyrir alþýðuna, líkt og hnefaleikar nútímans. Guido frá Ravenna. Guido frá Ravenna (? – 1169) var ítalskur kortagerðarmaður. Snorri Kálfsson. Snorri Kálfsson var goðorðsmaður á Mel í Miðfirði. Borgríki (kvikmynd). "Borgríki" er íslensk spennumynd frá árinu 2011 sem Ólafur Jóhannesson leikstýrði og skrifaði ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Ingvar Eggert Sigurðsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Sigurður Sigurjónsson fara með aðalhlutverk myndarinnar. Myndin fjallar um serbneskan bifvélavirkja sem sækir hefnd sína gegn meðlimum íslensks glæpahrings eftir að þeir réðust inn á heimili hans og urðu ófæddu barni hans að bana. Í hefndaraðgerðum sínum gegn þeim tvinnast örlög hans saman við lögreglukonu sem ýtt er út á ystu nöf, spilltan yfirmann hennar í fíkniefnadeild lögreglunnar og glæpakóng sem er að missa tökin á veldi sínu. "Borgríki" fékk engan styrk frá kvikmyndamiðstöð Íslands og þurfti þá að fara óhefðbundna leið til þess að afla fjármagni myndarinnar. Aðstandendur myndarinnar unnu þá fyrir mjög lá eða engin laun. Myndin hefur hlotið mikið hrós gagnrýnenda síðan hún var frumsýnd þann 14. október og var meðal annars valin íslenska mynd ársins af Fréttablaðinu. Einnig hafa vinsældir myndarinnar leitt til þess að bæði framhald og bandarísk endurgerð eru í vinnslu. Söguþráður. Myndin fjallar um serbneska bifvélavirkjann Sergej sem tekur að sér að geyma fíkniefni fyrir íslenska glæpakónginn Gunnar Gunnarsson en verður fyrir því óláni að dóphaus brýst inn á bifvélaverkstæði hans og stelur því. Gunnar sendir þá skósvein sinn Ingólf til þess að tuska Sergej og fjölskyldu hans til með þeim afleiðingum að ófætt barn hans deyr. Hann kallar þá á sitt fólk til þess að taka yfir glæpaheim Reykjavíkur. Mitt í þessu öllu fylgist lögreglan með Ingólfi og Gunnari (sem er með yfirmann þar í vasanum) og þegar ráðist er á tvo lögreglumenn, þau Andreu og Rúnar, leita þau einnig til hefnda með sínu fólki. Framleiðsla. Fyrstu drög að handriti myndarinnar áttu sér stað stuttu eftir bankahrunið á Íslandi árið 2008 og að sögn Ólafs vildu hann og Hrafnkell sleppa frá allri umfjöllun um hrunið og eyddu þeir næstu fjóru mánuðunum í skrift á handriti "Borgríkis". Tökur á myndinni hófust í maí 2010 og lauk í júní hið sama ár. Í undirbúningi fyrir hlutverk sitt sem lögreglukona stundaði Ágústa Eva Erlendsdóttir bardagaíþróttir af kappi hjá Mjölni í sjö mánuði áður en tökur hófust. Hún hafði einnig kynnt sér störf lögreglunnar og farið á vakt með lögreglumönnum. Lögreglumenn voru fengnir til þess að leiðbeina aðstandendum myndarinnar í bardagaatrðiðum en Ólafur talaði einnig við glæpamenn og lögfræðinga. Í viðtali við Ísland í dag sagði Ólafur að „maður er bara að reyna að forðast það að þeir sem þekkja þennan heim ranghvolfi augunum í bíó.” Fjármögnun. Eftir niðurskurð í starfsemi kvikmyndamiðstöðvar Íslands um rúm þrjátíu prósent fékkst enginn styrkur fyrir tökur á myndinni. Í lok janúar árið 2010 sagði leikstjóri Ólafur Jóhannesson að sennilega yrði myndin aldrei framleidd en í maí það ár bárust fréttir af því að tökur hefðu hafist og þeir Jonathan Pryce og Philip Jackson bæst í leikarahópin. "Borgríki" var þess vegna alfarið unnin með sjálfboðavinnu og frjálsum fjárframlögum þó að hún hafi síðar fengið eftirvinnslustyrk frá kvikmyndamiðstöðinni. Farið var af stað í tökur þrátt fyrir að helming fjármögnunar hafi vantað og sett var upp síða þar sem fólk gat hjálpað við söfnun fjármagns en af þeim 80 milljónum króna sem óskað var eftir söfnuðust aðeins rúmar 50.000 krónur. Stikla. Þann 9. september 2011 var stikla myndarinnar opinberuð á vefsíðunni YouTube ásamt stuttum myndböndum um gerð myndarinnar. Tónlistarmaðurinn Zack Hemsey samdi tónlistina í stikluna en Ólafur hafði sett sig í samband við hann eftir að hafa hlustað á tónlistina sem hann samdi fyrir stiklur á borð við þá fyrir "Hugljómun". „Ég fann náungann á netinu og talaði við hann. Hann vildi fyrst fá ógurlegar formúur fyrir verkið, svo benti ég honum á að ég væri á Íslandi, sem væri eins og lítið Disneyland - mjög lítill markaður. Þá fékk ég þetta frekar ódýrt. Hann gaf afslátt út á Ísland, það er bara málið.” Útgáfa. Myndin var frumsýnd miðvikudaginn 12. október 2011 í Háskólabíói og áhorfendur klöppuðu vel og lengi fyrir öllu tökuliðinu. Rúmlega þrjú þúsund manns sóttu myndina um opnunarhelgina en hún lenti í öðru sæti þá helgi fyrir aftan "Hetjur Valhallar - Þór" sem frumsýnd var sömu helgi. Einnig var sett upp sérstök sýning fyrir Mjölnismenn og önnur fyrir Lögregluna í Reykjavík sem höfðu hjálpað töluvert við framleiðslu myndarinnar. Tekjur myndarinnar voru rúmar þrjár milljónir króna fyrstu helgina og aðrar þrjár helgina á eftir. Eftir átta vikur í kvikmyndahúsum var "Borgríki" tekin úr sýningu þann 8. desember 2011 og voru heildartekjur myndarinnar rúmar nítján milljónir íslenskra króna, með yfir sextán þúsund áhorfendur, og var í tuttugusta sæti yfir tekjuhæstu mynd ársins. Ritdómar. Myndin hefur hlotið mikið hrós gagnrýnenda allstaðar að. Aðalsteinn Kjartansson, gagnrýnandi fyrir DV gaf myndinni fjórar stjörnur af fimm og lýsti henni sem „næstum því besta undirheimamynd sem ég hef séð í langan tíman.” Aðalsteinn gagnrýndi þó myndatökuna en myndin var tekin upp af myndavél sem haldið er á og sagðist hann ekki hafa kunnað að meta hvernig myndavélin væri á stöðugri hreyfingu nær alla myndina. Kristinn Ingvason hjá Pressunni gaf myndinni þrjár stjörnur af fimm. Hann lýsti fyrri hluta myndarinnar sem ruglingslegum en „eftir hlé fannst mér myndin ná sér á flug og verða vel spennandi og skemmtileg. Það er brútalt ofbeldi í myndinni sem er vel útfært.” Haukur Viðar Alfreðsson hjá Fréttablaðinu gagnrýndi þó handrit myndarinnar og sagði það vera of stórt í sniðum. „Myndin gefur sér lítinn tíma til að skapa tengsl við áhorfandann og steypir sér þess í stað beint í hasarinn, en sökkullinn er veikbyggður og myndin fellur því undan eigin þunga. Þetta er mikil synd því að djúpt í iðrum "Borgríkis" leynist saga sem ég hefði gaman af því að sjá og heyra.” Sigurður Sigurjónsson fékk mikil fagnaðarlæti sem spillti lögreglumaðurinn Margeir og Zlakto Krickic fékk einróma lof fyrir leik sinn í hlutverki Sergejs. „Sá sem á myndina er Zlatko Krickic sem leikur Sergej. Leikurinn hjá honum er galla laus og Zlakto á myndina fyrir allan peninginn.” Skiptar skoðanir hafa verið um persónurnar í myndinni en Hauki þótti þær vanþroskaðar á köflum og Magnús Michelsen sagði þær væru „heilsteyptar og þau þær hafi sínar myrku hliðar þá vorkennum við þeim öllum og styðjum á sama tíma, þökk sé góðu handriti.” Verðlaun. Í lok ársins 2011 var "Borgríki" valin besta innlenda mynd ársins af álitsgjöfum Fréttablaðsins af þrettán íslenskum kvikmyndum sem höfðu verið frumsýndar á árinu. Endurgerð. Þann 17. október 2011, lýsti James Mangold yfir því að hann hefði áhuga á því að endurgera myndina og hafði fyrirtæki hans "Three Line Films" þegar keypt kvikmyndaréttindin að myndinni. Mangold var þá í leit að handritshöfundi til þess að skrifa handritið á ensku en þar myndi hún heita "City State" og munu tökur á myndinni hefjast í lok ársins 2012. Framhald. Þann 29. október 2011 tilkynnti Ólafur Jóhannesson að hann og Hrafnkell Stefánsson væru þegar byrjaðir að skrifa handrit fyrir framhald af myndinni. „Þegar við skrifuðum um þennan heim byrjuðum við á því að byggja hann ítarlega upp með því að tala við lögreglu, bankamenn, lögfræðinga og fleira fólk,“ sagði Ólafur í viðtali við Fréttablaðið. „Það kom ansi safaríkur heimur upp úr þessari vinnu okkar og sögurnar í Borgríki voru þær fyrstu sem okkur datt í hug. Við vorum með hugmyndir um framhald en við vildum auðvitað sjá hvort almenningur hefði áhuga á þessu.“ Ólafur greindi frá því að sami vinnuhópur muni líklega koma að myndinni. Hann vonaði einnig að vegna mikilla vinsælda myndarinnar og mögulegrar endurgerðar í Bandaríkjunum væri hægt að fara hina hefðbundnu leið í fjármögnun myndarinnar. Wembley. Wembley er hverfi í Norðvestur-London sem liggur í borgarhlutanum Brent. Í hverfinu eru frægu íþróttamannvirkin Wembley-leikvangur og Wembley Arena. Áður fyrr var hverfið í sýslunni Middlesex. Torfæruhjól. Torfæruhjól eða skellinaðra er gerð af mótorhjóli með tvígengisvél eða fjórgengisvél og er notað á malarvegum og vegleysum. Torfæruhjól eru notuð í torfærukeppnum. Fjórhjól. Fjórhjól er vélknúið farartæki. Esbern Snare. Esbern Snare (1127 – 1204) var danskur höfðingi og stríðsmaður. Alexander Nevskíj. Alexander Nevskíj (1220 – 1263) var rússnesk þjóðhetja og dýrlingur. Jón Haraldsson. Jón Haraldsson var síðasti norski Orkneyjajarlinn. Tesco. Tesco plc () er bresk mat- og heimilisvöruverslun sem rekur starfsemi um heim allan. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Cheshunt í Englandi. Tesco er þriðji stærsti smásalinn í heiminum eftir tekjum (eftir Wal-Mart og Carrefour) og annar stærsti eftir ágóða (eftir Wal-Mart). Tesco rekur verslanir í 14 löndum í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku og er stærsta matvöruverslun í Bretlandi (þar hefur fyrirtækið 30% markaðshlutdeild), Malasíu, Írlandi og Tælandi. Tesco var stofnað árið 1919 af Sir Jack Cohen og var í upphafi hópur sex sölubása. Nafnið Tesco var fyrst notað árið 1924 eftir að Cohen keypti kassa af tei frá "T. E. Stockwell" og sett upphafsstafi þessa nafns saman með fyrsta tvo stafi nafns síns og fékk "Tesco". Fyrsta verslun undir þessu nafni var opnuð árið 1929 í Burnt Oak, Edgware í sýslunni Middlesex. Fyrirtækið stækkaði talsvert eftir það og frá og með árinu 1939 voru yfir 100 Tesco-verslanir í rekstri um landið allt. Tesco var upprunalega matvöruverslun en í dag selja þeir bækur, föt, heimilistæki, húsgögn, bensín, hugbúnað, fjármálaþjónustu, fjarskiptaþjónustu, DVD-leigu og tónlistarniðurhöl. Verslað er með hluta í Tesco í kauphöllini í London og fyrirtækið er ásamt þeim á hlutabréfavísitölunni FTSE 100. Matvöruverslun. Matvöruverslun er verslun sem selur mat. Stór matvöruverslun sem selur til dæmis heimilsvörur og föt auk matvara heitir stórmarkaður. Lítil matvöruverslun sem hefur ekki eins mikið vöruval og stórmarkaður heitir hverfisverslun eða dagvöruverslun. Matvöruverslun sem selur sér- eða lúxusmatvörur heitir sælkeraverslun. Í dag eru flestar matvöruverslanir keðjur en sjálfstæðar matvöruverslanir eru ennþá að finna. Ásamt íslenskum matvöruverslunum eru Bónus, Hagkaup, Krónan, Samkaup og Nettó. Dæmi um íslenska hverfisverslun er 10-11. Verslunarkeðja. Verslunarkeðja er hópur smásöluverslana sem rekinn er undir einu merki. Verslanir í keðju eru reknar á staðlaðan hátt og hópur stjórnanda í aðalskrifstofu sér um þetta. Slíkar verslanir má vera reknar undir sérleyfi eða vera í eigu fyrirtækisins sem á merkið. Stærsta verslunarkeðjan í heimi er bandaríska mat- og heimilsvöruverslun Wal-Mart. Verslunarkeðjur er að finna í mörgum smásölumörkuðum, nokkur dæmi um þær eru Bónus, Hagkaup, Byko, Blómaval og alþjóðleg fyirtæki eins og Pizza Hut og Body Shop. Abbadís. Abbadís er kona sem veitir nunnum forstöðu, oftast í nunnuklaustri. Lýsing. Í kaþólsku kirkjunni eru abbadísir kosnar á sama hátt og hafa sömu réttindi eins og ábótar. Abbadísir eru valdar með leynilegri kosningu. Eftir að abbadís hefur verið samþykkt af páfastóli, er hún vígð í embættið af biskupi. Sérleyfi. Sérleyfi er hugtak í viðskiptum þar sem fyrirtæki notar farsælt viðskiptamódel annars fyrirtækis. Fyrirtæki sem gefur sérleyfi heitir "sérleyfisgjafi" og gerir það í stað þess að byggja upp sína eigin verslunarkeðju í því skyni að dreifa og selja vörur. Með því að gefa sérleyfi forðast fyrirtæki ábyrgð fyrir verslanirnar. Fyrirtæki sem skrifar undir sérleyfissamning við sérleyfisgjafa heitir "sérleyfishafi". Oft skrifar undir sérleyfisgjafi samninga við marga sérleyfishafa til að byggja upp sérleyfisnet. Velgengni sérleyfisgjafa ræðst af velgengni sérleyfishafa. Sérleyfisnet má samanstanda af nokkrum öðrum fyrirtækjum sem gefa smærri fyrirtækjum sérleyfi. Dæmi um alþjóðleg fyrirtæki sem notar sérleyfismódel eru Subway og McDonald's. Yfirlit. Í flestum tilfellum sér sérleyfisgjafinn um merki fyrirtækis og markaðssetningu. Hann getur meðal annars gefið sérleyfishöfum fjármagn til að hjálpa með að opna nýja verslun, kaupa tækjabúnað og svo framvegis. Oft eru sérleyfiskeðjur skyndibitastaðir, veitingahús eða smásöluverslanir. Sérleyfisgjafi má gefa sérleyfishafa frelsi til að sniða vörur eða þjónustur fyrirtækis að þörfum fólks á ákveðnu svæði eða hann má ákveða strangar reglur um reksturinn. Skrifað er undir sérleyfissamning milli sérleyfisgjafa og sérleyfishafa, sem gildir í ákveðinn tíma. Einn sérleyfishafi má reka nokkrar verslanir á einu svæði fyrir hönd sérleyfisgjafans. Sérleyfisgjafi rukkar sérleyfishalda fyrir leyfi að nota merkið og að veita þjálfun, þessi gjöld eru oftast prósentur af sölum eða tekjum. Subway. Subway er bandarískur skyndibitastaður sem selur kafbáta og salöt. Fyrirtækið er í eigu Doctor's Associates, Inc og notar sérleyfismódel. Staðir Subway eru 35.519 samtals í yfir 98 löndum og fyrirtækið er stærsta skyndibitakeðja í heiminum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Milford í Connecticut-fylki. Subway á líka skrifstofur í Amsterdam, Brisbane og Miami, og í Lebanon, Singapúr og Indlandi. Veitingarstaðir Subway á Íslandi eru 22 en sá fyrsti var opnaður þar árið 1994 í Faxafeni. At-merki. At-merki, á-merki, hjá-merki eða vistmerki (@) er greinarmerki sem áður var notað um verð í þýðingunni "á", til dæmis „10 stk. @ 100 kr. = 1000 kr.“ Undanfarin ár hefur notkunin breyst og núna er merkið mest notað í netföngum (þá má það vera kallað "at-" eða "hjá-merkið"; „at“ þýðir "hjá" á ensku). Táknið er líka notað á vefsíðum eins og Twitter til að vísa til notandanafns einhvers. Á flestum lyklaborðum er táknið að finna á 2-lyklinum. Thunderbolt (tengi). Thunderbolt (áður fyrr nefnt Light Peak) er tengi til að tengja jaðartæki við tölvu. Tengið getur annaðhvort notað koparsnúru eða ljósleiðara. Örgjörvafyrirtækið Intel þróaði Thunderbolt-tengið í samstarfi við Apple. Fyrsta tölvan með innbyggðu Thunderbolt-tengi var MacBook Pro frá Apple sem sett var á markað 24. febrúar 2011. Tengið lítur alveg eins út og Mini DisplayPort sem var innbyggt í Apple-tölvum áður en Thunderbolt var kynnt til sögunnar. Apple skrásetti vörumerkið en Intel á einkaleyfi á tenginu og þess vegna var vörumerkið afhent Intel. Nafnið „Thunderbolt“ þýðir þrumufleygur. Thunderbolt er samsetning af PCI Express og DisplayPort í nýju serialtengi sem getur flutt gögn lengra og í gegnum ódýrari snúrur. Vegna þess að margar tölvur eru með PCI Express tengi innbyggðu er einfalt að bæta Thunderbolt-tengi við þær. Kubbarnir sem keyra Thunderbolt-tengi setja saman gögn frá þessum tveimur tengjum og skipta þau aftur í tvennt fyrir notkun í tækjum. Þetta þýðir að hægt er að nota Thunderbolt-tengið með DisplayPort-tækjum. Ætlað var að Thunderbolt gæti flutt gögn í gegnum ljósleiðara og þess vegna var þessi tækni nefnd Light Peak. Hins vegar kom það í ljós að hægt var að nota koparsnúrur með sömu bandbreiddinni (10 Gbit/s) á ódýrari verði. Ætlað er að kynna Thunderbolt-tengi sem notar ljósleiðara í framtíðinni. Hægt er að tengja allt að sjö tæki í gegnum eitt tengi með Thunderbolt og mega tvö þeirra vera háskerpuskjáir. Apple selur millistykki sem breyta Thunderbolt-tengi í DVI, VGA og HDMI, þannig er hægt að nota það með mörgum núverandi tækjum. Arnolfo di Cambio. Arnolfo di Cambio (1232 – 1310) var ítalskur myndhöggvari. di Cambio, Arnolfo Sigrún Eva Ármannsdóttir (fyrirsæta). Sigrún Eva Ármannsdóttir (f. 1993 á Akranesi) er íslensk fyrirsæta. Sigrún Eva varð Ungfrú Ísland árið 2011. Magnús Guðmundsson (allsherjargoði). Magnús Guðmundsson (? – 1234) var allsherjargoði. Sjáland (Holland). Sjáland ("Zeeland" á hollensku) er þriðja minnsta og næstfámennasta hérað Hollands. Það liggur við Norðursjó og var áður fyrr háð sjávargangi og flóðum. Á Sjálandi eru flestir hinna víðáttumiklu sjávarvarnargarða Hollands. Lega og lýsing. Sjáland er 1.792 km2 að stærð og er því þriðja minnsta fylki Hollands. Aðeins Flevoland og Utrecht eru minni. Héraðið er suðvestast í Hollandi, meðfram ströndum Norðursjávar. Fyrir norðan er Suður-Holland, fyrir austan er Norður-Brabant og fyrir sunnan er Belgía (Flæmingjaland). Sjáland er einstakt fylki þar eð það samanstendur nær eingöngu af eyjum (eða fyrrverandi eyjum) og skögum, sem jafnframt voru mestu hamfarasvæði Hollands áður fyrr hvað hamfaraflóð varðaði. Miklir flóðavarnargarðar halda sjónum úti fyrir og tröllauknar vatndsælur dæla nær öllu vatni frá fljótunum Maas og Schelde í Norðursjóinn. Þetta er einstakt afrek í heiminum. Aðeins syðsti hluti Sjálands er almennilega landfastur og er eins og útskot norður af Belgíu. Íbúafjöldinn er aðeins 381 þúsund talsins, sem gerir Sjáland að næstfámennasta fylki Hollands. Aðeins Flevoland er fámennara. Höfuðborgin er Middelburg. Fáni og skjáldarmerki. Skjaldarmerki Sjálands er tvískiptur skjöldur. Fyrir ofan er hálft rautt ljón á appelsínugulum grunni. Fyrir neðan eru bláar og hvítar bylgjur. Bylgjurnar merkja fljótin Maas og Schelde. Ljónið er merki Hollands (sem fylki). Kórónan efst vísa til konungsríkisins. Skjaldarmerkið var tekið í notkun 4. desember 1948. Fáni Sjálands samanstendur af bláum og hvítum bylgjum, en þær vísa til ánna Maas og Schelde. Fyrir miðju er skjaldarmerkið. Fáninn var tekinn í notkun 14. janúar 1949. Orðsifjar. Héraðið heitir Zeeland á hollensku, en það merkir bókstaflega sjáland, þ.e. landið við sjóinn. Það hefur því nákvæmlega sama heiti og Sjáland í Danmörku (Sjælland). Nýja-Sjáland í Kyrrahafi var nefnt eftir héraðinu. Söguágrip. Rómverjar munu hafa verið í héraðinu, en þeir hurfu þaðan á 4. öld. Eftir það fór landið að minnka við ágang sjávar og flóða. Á 7. öld nam Pípin II svæðið, sem þar með varð frankneskt. Í kjölfarið komst kristni á í landinu að tilstuðlan heilags Willibrords. Á 9. öld gerðu víkingar hér og þar strandhögg. Árið 841 leyfði Lóþar, konungur Lóþaringíu, víkingum að setjast að á svæðinu Walcheren til að hindra fleiri strandhögg, með misjöfnum árangri. Hjá frísum mynduðust því nokkur strandvirki gegn víkingum, til dæmis Vlissingen og Middelburg. Á miðöldum var nær allt Sjáland-svæðið undir sjávarmáli, en íbúum tókst að vinna land með landvinningum og uppfyllingum, þannig að margar litlar eyjar urðu að stærri eyjum. Þó urðu stormflóð enn mörgum að bana. Síðla á 19. öld voru eyjarnar Zuid-Beveland og Walcheren tengdar með járnbrautarlínum og sjógörðum við meginlandið. 1953 banaði enn eitt stormflóð 1.800 manns. Þá var hafist handa við að reisa hina tröllauknu sjávarvarnargarða og vatnsdælur. Verkefni þetta kallast Deltawerk og er einstakt í heiminum. Allar eyjarnar tengdust miklum görðum með akvegum. Þetta verkefni hefur gjörbylt samgöngum og atvinnuvegum í héraðinu. Borgir og bæir. Á Sjálandi er eingin stærri borg, en talsvert af landbúnaðar- og hafnarbæjum. Aleg. Aleg er borg í suðvesturhluta Máritaníu. Mannfjöldi var um það bil 12 þúsund árið 2000. Criminal Minds. "Criminal Minds" (ísl. "Glæpahneigð") er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um lið alríkisfulltrúa sem tilheyra Atferlisgreiningardeild (AGD) Bandarísku Alríkislögreglunnar sem staðsett er í Quantico, Virginíu. Höfundurinn að þættinum er Jeff Davis. Fyrsti þátturinn var sýndur 22. september 2005 og síðan þá hafa sjö þáttaraðir verið sýndar. Þann 14. mars, 2012, tilkynnti CBS að "Criminal Minds" hafi verið endurnýjaður fyrir áttundu þáttaröðinni, sem var frumsýndur 26. september, 2012. Tökustaðir. Helstu tökustaðir "Glæpahneigðar" eru í Kaliforníu þar á meðal Altadena, Glendale, Long Beach og Santa Clarita. Þátturinn hefur einnig verið tekinn upp í Vancouver, Kanada. Framleiðslufyrirtæki. Þátturinn er framleiddur af The Mark Gordon Company í samvinnu við CBS Television Studios (2009-til dags) og ABC Studios (2007-til dags). Leikaraskipti. Árið 2006 yfirgaf leikkonan Lola Glaudini þáttinn eftir aðeins sex þætti í seríu 2 og í stað hennar kom leikkonan Paget Brewster sem kom fyrst fram í þætti níu. Í byrjun seríu 3 yfirgefur Mandy Patinkin þáttinn, en ástæða brotthvarfs hans var mismunandi áherslur á söguefnið. Var honum skipt út fyrir leikarann Joe Mantegna. Þann 25. júní 2010 birtust fréttir um að leikkonurnar A.J. Cook og Paget Brewster myndu yfirgefa þáttinn. A.J. Cook myndi koma fram í tveimur þáttum, á meðan Paget Brewster myndi yfirgefa þáttinn um mitt tímabilið. Þessi ákvörðun CBS kom ekki vel fyrir sjónir aðdáenda og voru undirskriftunarlistar settir af stað til að halda leikkonunum inni. Þann 29. september 2010 var tilkynnt að leikkonan Rachel Nichols myndi bætast í hópinn og að hún kæmi í staðinn fyrir A.J. Cook. Tilkynnt var þann 16. apríl 2011 að A.J. Cook myndi koma aftur í þáttinn eftir að hafa gert tveggja ára samning. Paget Brewster mun einnig snúa aftur þar sem ekkert varð úr nýja þættinum hennar "My Life as an Experiment". Leikkonan Rachel Nichols var ekki boðinn nýr samningur eftir enda seríu 6. Í tilkynningu sem Paget Brewster sendi frá sér þann 15. febrúar 2012, kemur fram að hún mundi yfirgefa Criminal Minds í þeim tilgangi að halda áfram með feril sinn í gaman sjónvarpi. Þann 14. júní 2012 tilkynnti CBS að leikkonan Jeanne Tripplehorn myndi leika nýjasta meðlim hópsins, Alex Blake. Söguþráður. Glæpahneigð fylgir eftir liði alríkisfulltrúa innan Atferlisgreiningardeildar (AGD) Bandarísku Alríkislögreglunnar sem staðsett er í Quantico, Virginíu. Deildin sérhæfir sig atferlisgreiningum þar sem þau greina huga og atferli raðmorðingja, hryðjuverkamanna og verstu morðingja Bandaríkjanna. Söguþráðs skipti. Glæpahneigð hafði söguþráðs skipti við í þættinum "The Fight" sem sýndur var 7. apríl 2010. Verðlaun og tilnefningar. ASCAP Film and Television Music verðlaunin Utrecht (fylki). Utrecht er minnsta hérað Hollands með aðeins 1.356 km2. Það var í margar aldir stjórnað af furstabiskupum úr borginni Utrecht. Rætt er á hollenska þinginu um að leysa héraðið upp og sameina það Norður-Hollandi og Flevoland í eitt stórt hérað. Lega og lýsing. Utrecht er nokkuð miðsvæðis í Hollandi. Fyrir norðvestan er Norður-Holland, fyrir suðvestan er Suður-Holland, en fyrir sunnan og austan er Gelderland. Nyrsti hluti Utrecht nemur við stöðuvatnið Eemmeer, sem tengist Ijsselmeer. Syðst er Rínarfljót (bæði Lek og Oude Rijn). Mikill skipaskurður gengur mitt í gegnum héraðið (og borgina Utrecht), sem tengir Rín við Amsterdam. Héraðið er aðeins 1.356 km2 að stærð og er þar með minnsta hérað Hollands. Íbúar eru 1,2 milljónir. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Utrecht. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerki Utrecht er mjög flókið. Skjöldurinn er fimmskiptur. Tvisvar kemur rauða ljón Hollands fyrir og tvisvar kemur hvíti krossinn á rauðum grunni fyrir, en það var merki furstabiskupanna af Utrecht. Fyrir miðju er skjöldur borgarinnar Utrecht. Öll merkin eru þegar til á fyrri öldum en skjaldarmerkið eins og það lítur út í dag var tekið upp 14. apríl 1858. Fáninn er líkur fána Póllands, það er að segja hvít rönd að ofan og rauð rönd að neðan. En efst til vinstri er hvíti kross biskupanna af Utrecht. Litirnir eru teknir úr skjaldarmerkinu. Fáninn var tekinn upp 15. janúar 1952. Orðsifjar. Héraðið heitir eftir borginni Utrecht, en hún hét Traiectum ad Rhenum á tímum Rómverja. Það merkir "ferjustaður" eða "vað yfir Rín". Úr Traiectum verður seinna Uit Trekt ("frá Trekt") og loks Utrecht. Söguágrip. Í borginni Utrecht var biskupssetur stofnað árið 722 af heilögum Willibrord. Í gegnum miðaldirnar var svæðinu í kringum Utrecht stjórnað af biskupum, sem fóru með völd fyrir keisara þýska ríkisins. Völd þeirra spönnuðu stærra svæði, en megnið af héraðunum Overijssel og Drenthe voru á yfirráðasvæði þeirra. Árið 1527 seldu biskuparnir Karli V keisara yfirráðin, en hann var af Habsborgarætt. Þegar Hollendingar hófu uppreisn sína gegn Spáni (spænsku Habsborgaralínunni), gengu íbúar Utrecht til liðs við Hollendinga 1579 og hrundu af sér erlendu yfirráðin. Utrecht var stofnhérað í sjálfstæðu Hollandi og hefur ætíð verið minnsta héraðið. Eftir heimstyrjöldina síðari hefur Utrecht verið stækkað örlítið á kostnað svæða í Suður-Hollandi. Uppi eru hugmyndir um það að sameina Utrecht, Norður-Holland og Flevoland í eitt stórt hérað, sem fengi heitið Randstad. Thomas Gibson. Thomas Gibson (fæddur Thomas Ellis Gibson, 3. júlí 1962) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Chicago Hope, Dharma & Greg og Criminal Minds. Einkalíf. Gibson er fæddur og uppalinn í Charleston í Suður-Karólínu. Leiklistarferill Gibsons byrjaði þegar hann var níu ára í "Little Theater School" áður en hann gerðist meðlimur "Young Charleston Theater Company" og "The Footlight Players". Gibson stundaði nám við Charleston háskólann, ásamt því að vera nemi við "Alabama Shakespeare Festival". Gibson yfirgaf háskólann eftir aðeins hálft annað ár, eftir að hafa fengið skólastyrk til þess að stunda nám við Julliard skólann og útskrifaðist þaðan með B.A.-gráðu árið 1985. Gibson giftist Christine Gibson árið 1993 og saman eiga þau þrjú börn en þau búa í San Antonio í Texas. Leikhús. Gibson kom fyrst fram í leikritinu "A Map of the World" hjá New York Shakespeare Festival. Gibson kom einnig fram í hlutverkum við "Circle in the Square" og Joseph Papps "Shakespeare in the Park". Kom hann fram á Broadway með hléum næstu tíu árin í mismunandi hlutverkum. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Gibsons í sjónvarpi var árið 1987 í þættinum "Leg Work". Kom hann síðan fram í litlum hlutverkum í sjónvarpsþáttum á borð við "As the World Turns", "Caroline in the City", "The Real Adventures of Johnny Quest" og "A Will of Their Own". Árið 1994 þá var Gibson boðið hlutverk í Chicago Hope sem Dr. Daniel Nyland sem hann lék til ársins 1998. Síðan árið 1997 þá fékk hann aðalhlutverkið í Dharma & Greg sem Greg Montgomery sem hann lék til ársins 2002. Gibson hefur síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem Aaron Hotchner. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmynd Gibsons var í Far and Away á móti Tom Cruise og Nicole Kidman árið 1992. Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Barcelona", Men of War, Eyes Wide Shut þar sem hann lék aftur á móti Tom Cruise og Nicole Kidman, The Flinstones in Viva Rock Vegas, Jack the Dog og Come Away Home. Tenglar. Gibson, Thomas Lehman Brothers. Lehman Brothers var bandarískur fjárfestingabanki sem varð gjaldþrota 15. september 2008. Þetta var stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna en útistandandi skuld fyrirtækisins nam 613 milljörðum Bandaríkjadölum. Stuttu áður var Lehman Brothers talinn fjórði stærsti fjárfestingarbankinn í Bandaríkjunum á eftir Goldman Sachs, Morgan Stanley og Merrill Lynch. Fall Lehman Brothers setti af stað atburðarás sem leiddi til bankahruns á Íslandi. Stjórnendur íslenska bankans Glitnis sáu sig nauðbeygða til þess að falast eftir neyðarláni hjá Seðlabanka Íslands, sem ákvað að láta Glitni fara í þrot, tveimur vikum eftir fall Lehman Brothers. Lagahyggja. Lagahyggja er hugtak sem notast er við í lögfræði og samfélagslegri umræðu. Hugtakið felur í sér ákveðna afstöðu eða viðhorf til laga og hefur áhrif bæði á það hvernig lög eru skrifuð og hvernig þau eru túlkuð og beitt í framkvæmd. Með lagahyggju er einblínt á lagabókstafinn og hann túlkaður afar þröngt þannig að lítið eða ekkert tillit er tekið til tilgangs lagasetningarinnar og heildarsýnin um það hverju lagasetningin átti að ná fram tapast eða skerðist verulega. Oft er talið að þröng lagahyggja bjóði upp á að lög séu slitin úr tengslum við þann raunveruleika sem þeim er ætlað að hafa áhrif á. Utrecht. Utrecht (á íslensku stundum nefnd Trekt) er borg í Hollandi og jafnframt höfuðborg héraðsins Utrecht. Hún var áður fyrr aðsetur furstabiskupanna sem ríktu yfir stóru svæði síðla á miðöldum. Með 311 þúsund íbúa er Utrecht fjórða stærsta borg Hollands og er ört stækkandi. Lega og lýsing. Utrecht liggur nokkuð miðsvæðis í Hollandi, sunnan við Ijsselmeer og suðaustur af Amsterdam. Næstu borgir eru Hilversum til norðurs (15 km), Amersfoort til austurs (20 km), Amsterdam til norðvesturs (25 km) og Rotterdam til suðvesturs (30 km). Mikill skipaskurður, Amsterdam-Rijnkanaal, fer þvert í gegnum borgina. Vestan við skurðinn er stærsta byggingasvæði Hollands, Leidsche Rijn, en á 20 km2 svæði rís nýtt íbúðahverfi fyrir 100 þúsund manns. Orðsifjar. Borgin hét Traiectum ad Rhenum á tímum Rómverja en það merkir "ferjustaður" eða "vað yfir Rín". Úr Traiectum verður seinna Uit Trekt ("frá Trekt") og loks Utrecht. Furstabiskupar. Skjalið frá Hinrik V keisara þar sem hann veitir Utrecht borgarréttindi. Það er dagsett 2. júní 1122. Upphaf borgarinnar má rekja til Rómverja, en þeir reistu þar virki í kringum 50 e.Kr. Í kringum virkið myndaðist byggð og var hún ein nyrsta rómverska byggðin á meginlandi Evrópu. Byggðin var þó ávallt í hættu af innrásum germana og var Utrecht loks yfirgefin árið 275. Eftir það bjuggu frísar á svæðinu. Kristniboð hófst í Utrecht á miðri 7. öld af enskum og írskum munkum. Willibrordus varð fyrsti biskupinn á staðnum 695. Síðan þá hefur biskupsstóllinn þar verið ein mesta miðstöð kaþólsku kirkjunnar á Niðurlöndum. Árið 1024 voru biskuparnir gerðir að furstum í þýska ríkinu en yfirráðasvæði þeirra var í borginni og umhverfis hana en einnig á stóru landsvæði sem í dag spannar héruðin Overijssel og Drenthe. Þó hlaut Utrecht ekki borgarréttindi fyrr en 1122 af Hinrik V keisara. Á þessum tíma var Utrecht mikilvægasta borg norðurhluta Niðurlanda. Furstabiskuparnir ríktu allt til 1528. Biskuparnir voru svo valdamiklir í gegnum aldirnar að Adriaan Florenszoon Boeyens, sem fæddist í Utrecht, var valin páfi 1522 (Hadríanus VI) en hann reyndist síðasti páfinn sem ekki var Ítali þar til Jóhannes Páll páfi II hlaut páfakjör 1978. Sjálfstæðisstríð. 1528 seldi síðasti furstabiskupinn yfirráð sín til Karls V keisara en hann var af Habsborgarætt. Eitt fyrsta verk hans var að reisa gríðarlegt virki í Utrecht til að viðhalda völdum sínum þar en borgarbúar voru honum andsnúnir. Þegar hertoginn af Alba, landstjóri Spánverja á Niðurlöndum, stjórnaði svæðinu með harðri hendi, hófst uppreisn Hollendinga, sem varð að sjálfstæðisstríði þeirra. 23. janúar 1579 hittust aðilar ýmissa héraða og borga í Utrecht og gerðu með sér bandalag um stofnun sjálfstæðs ríkis. Undir samninginn rituðu héruðin Holland, Sjáland, Utrecht, Gelderland, Groningen, en seinna bættust við Overijssel, Frísland, Drenthe og nokkrar borgir (Gent, Brugge, Ypern, Antwerpen, Breda og Lier). Utrecht-sambandið kallaðist "Lýðveldi hinna sjö sameinuðu Niðurlanda" og markar upphafið að sjálfstæðu Hollandi. Eitt fyrsta verk hins nýja lýðveldis var að útiloka kaþólsku kirkjuna og leggja niður erkibiskupsdæmið í Utrecht. Þetta reyndist borginni dýrkeypt, því enn voru 40% íbúanna kaþólskir og borgin hálfvegis utanveltu í hinu nýja lýðveldi. Verslun dróst saman og íbúum fækkaði. 1617 réði borgin til sín leiguliða til að koma ýmsum málum sínum á framfæri gegn vilja lýðveldisins. Þá safnaði Márits af Óraníu herliði og hertók borgina í einu hendingskasti. Borgarstjórinn og uppreisnarmenn voru handteknir og ný borgarstjórn sett í embætti. Fleiri stríð. Vandræðabarnið Utrecht var til friðs næstu aldir. 1636 var háskólinn Universiteit Utrecht stofnaður, en hann er einn elsti háskóli landsins. Eftir miðja 17. öldina háðu Hollendingar verslunarstríð við Englendinga. Loðvík XIV Frakklandskonungur blandaði sér í leikinn og réðist inn í Holland. 13. júní 1762 hertóku Frakkar Utrecht, en aðeins fáum dögum síðar kom Loðvík konungur sjálfur til borgarinnar. Frakkar sátu í borginni til nóvembers 1673, en hurfu þá þaðan eftir að hafa fengið 450 þús gyllini að greiðslu. Á næsta ári gerði hvirfilbil í Utrecht, en við það eyðilagðist aðalkirkja borgarinnar. Í upphafi 18. aldar geysaði spænska erfðastríðið. Því lauk 1713 með friðarsamkomulaginu í Utrecht. Í samkomulaginu var kveðið á um að Filippus V, af hinni frönsku Búrbon-ætt, mætti ríkja sem konungur Spánar, en Frakkland og Spánn mættu aldrei sameinast undir einum konungi. Auk þess var spænska veldinu skipt upp í smærri einingar og Englendingar fengu lönd Frakka í Norður-Ameríku. Nýrri tímar. Arthur Seyss-Inquart var landstjóri nasista í Hollandi og hafði aðsetur í Utrecht. Utrecht var hertekin af Frökkum 1795, eins og landið allt. Þá voru borgarmúrarnir rifnir niður, en við það myndaðist mikið byggingapláss. Iðnvæðingin hófst þó ekki fyrr en eftir brotthvarf Frakka. 1843 fékk borgin járnbrautartengingu til Amsterdam og varð að miðstöð járnbrautanna í Hollandi. 1853 var Utrecht biskupssetur á ný, eftir tæplega 300 ára hlé. 10. maí 1940 hertóku Þjóðverjar Utrecht í heimstyrjöldinni síðari. 21. júní kom Arthur Seyss-Inquart til Utrecht, en Hitler hafði tilnefnt hann sem ríkisstjóra nasista í Hollandi. Hann hafði aðsetur í Utrecht meðan Þjóðverjar réðu í Hollandi. Gyðingum var smalað saman og sendir í útrýmingarbúðir. Af þeim 1.200 gyðingum sem bjuggu í Utrecht létust 900. Nasistar héldu borginni allt þar til Þjóðverjar gáfust upp 5. maí 1945. Tveimur dögum seinna þrömmuðu kanadískar sveitir inn í Utrecht og hernámu borgina. Eftir stríð hélt Utrecht áfram að vaxa og þenjast hratt út. Ný hverfi risu og enn eru ný hverfi í bígerð. Þar á meðal Leidsche Rijn en þar rís nýtt hverfi fyrir 100 þúsund manns á 20 km2 svæði. Viðburðir. Blásarar leika listir sínar á gömul hljóðfæri í Festival Oude Muziek Utrecht Festival aan de Werf er listahátíð borgarinnar sem haldin er í maí. Hún var fyrst haldin 1986 til minningar um háskólann, en hann varð 350 ára þetta ár. Hátíðin stendur yfir í fleiri daga og er boðið upp á tónlist, myndlist og gjörninga. Festival Oude Muziek Utrecht er tíu daga tónlistarhátíð í borginni þar sem eingöngu notuð eru gömul og söguleg hljóðfæri frá miðöldum og fram til 1750. Hátíðin var fyrst haldin 1982 og fer fram á ýmsum sögulegum stöðum í miðborg Utrecht. Le Guess Who? er nýleg tónlistarhátíð sem haldin er í Utrecht síðan 2007. Hér er um jaðartónlistarstefnur að ræða, svo sem noise rock, indí og IDM. Tónleikar eru víða í borginni Nederlands Film Festival er tónlistarhátíð Hollands sem haldin er árlega í Utrecht í september og október. Á hátíðinni eru allar hollenskar myndir sýndar frá liðnu ári, þar á meðal stuttmyndir og fræðslumyndir. Veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina, bestu leikstjórnina, besta leikarana, en verðlaunin heita Gullni kálfurinn. Summer Darkness Festival er stærsta tónlistarhátíð Hollands þar sem jaðartónlist (svo sem goth) er spiluð. Tugir hljómsveita troða upp á annarri helgi í ágúst. Íþróttir. Utrecht Marathon er Maraþonhlaup borgarinnar. Það var fyrst hlaupið árið 2000, en samfara því er hlaupið hálfmaraþon, 10km og 5km. Síðustu ár hafa hlauparar frá Kenía náð bestum árangri í hlaupinu. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Utrecht FC, sem varð hollenskur meistari 1958 og er að auki þrefaldur bikarmeistari (1985, 2003 og 2004). Frægustu börn borgarinnar. Knattspyrnumaðurinn Marco van Basten er eitt þekktasta barn Utrecht Byggingar og kennileiti. Dómkirkjan í Utrecht er hæsta kirkja Hollands IF Elfsborg. IF Elfsborg er knattspyrnulið staðsett í Borås í Svíþjóð. Liðið var stofnað 26. júní 1904 og leikur í efstu deild í Svíþjóð, Allsvenskan. Dómkirkjan í Utrecht. Dómkirkjan í Utrecht er er hæsta kirkja Hollands með 112 metra og er einkennisbygging borgarinnar Utrecht. Kirkjan var í margar aldir aðalkirkja furstabiskupanna þar í borg. Fyrirrennarar. Árið 630 reistu kristniboðar fyrstu kirkjuna úr viði í borginni. Áður en öldin var liðin var búið að rífa hana og reisa kirkju úr grjóti í staðinn. Sú kirkja var eyðilögð af víkingum árið 857. Snemma á 10. öld var hafist handa við að reisa stóra kirkju á reitnum. Smíðin brann 1017, en engu að síður tókst að ljúka framkvæmdum 1023. Kirkjan var þá vígð og helguð heilögum Marteini frá Tours. Enn brann kirkjan 1131 og 1148, þannig að eftir miklar endurbætur var kirkjan endurvígð 1173. Sú kirkja brann niður 1253. Hæsta bygging Hollands. Núverandi bygging var reist 1254 og var kórinn tilbúinn 1295. Fyrirmynd hans var dómkirkjan í Köln. Dómkirkjan var aðalkirkja furstabiskupanna í Utrecht, en völd þeirra náðu langt út fyrir borgarmörkin. Meðan framkvæmdir stóðu yfir á skipinu, var turninn reistur 1321-1382. Sá turn varð 109 metra hár og var þá (og er enn) hæsti kirkjuturn Hollands og fjórði hæsti turn Evrópu á þeim tíma. Sökum fjárhagsvandræða var hætt við frekari framkvæmdir, þannig að ekki tókst að ljúka framkvæmdum við meginskipið. 1440 var aftur hafist handa við smíðina, en skipið var ekki reist eins veglega og til stóð í upphafi. 1521 var öllum framkvæmdum hætt. Stormar. Kirkjuskipið í rústum eftir storminn 1674. Teikning eftir Herman Saftleven. Þegar Utrecht-sambandið var stofnað 1579, upphafið að sjálfstæðu Hollandi, var kaþólska kirkjan í borginni bönnuð, þrátt fyrir að 40% íbúanna væru enn kaþólskir. Biskupsstóllinn var lagður niður og dómkirkjunni breytt í kirkju mótmælenda. Fólk stormaði inn í kirkjuna og braut helgimyndir og ölturu. Allt sem minnti á kaþólsku var fjarlægt. Ýmsar skemmdir voru unnar á innviðinu. 1674 brast á annars konar stormur í Utrecht er illviðri gekk yfir borgina. Í honum hrundi þakið á kirkjuskipinu og gjöreyðilagðist bæði þakið og skipið. Kórinn og turninn sluppu. Við hrunið myndaði bil á milli kórsins og turnsins og var því lokað með vegg til bráðabirgða, en engar áætlanir voru uppi um að reisa nýtt skip. Það voru rústir einar og látnar standa óhreyfðar í rúm 150 ár. Breytingar. Kirkjan byrjaði að grotna niður sökum lélegs viðhalds. 1826 var byrjað að fjarlægja rústir kirkjuskipsins. Kórinn og tuninn voru þannig ekki lengur tengdir, þannig að þar sem kirkjurústirnar voru myndaðist veglegt torg. Þannig er það enn í dag. Torgið er þó sett lituðum steinum sem sýna hvar skipið eitt sinn stóð. 1836 skemmdist efsta hæðin í turninum talsvert í miklum stormi. Uppi voru hugmyndir um að rífa turninn, enda ekki lengur tengdur kórnum. Slíkar áætlanir voru hins vegar saltaðar. 1850 hófust viðamiklar viðgerðir á kórnum. Önnur viðgerð var framkvæmd 1921 og 1979-88. Turninn fékk viðgerð 1901-1931. Í henni var efsti hlutinn fjarlægður og nýr smíðaður í staðinn. Við það hækkaði turninn úr 109 metrum í 112 metra. Hann er enn hæsti kirkjuturn Hollands og meðal hæstu kirkna Evrópu. Jafnframt er turninn hæsta mannvirkið í Utrecht. Á 20. öld hefur margsinnis komið til tals að endurreisa kirkjuskipið, en aldrei hefur orðið af því. Klukkur. 14 kirkjuklukkur eru í turninum. Flestar voru gerðar 1505 af Gerhardus de Wou, en á þeim tíma var klukknaverkið eitt his mesta í Evrópu. 1979 var nokkrum klukkum skipt út fyrir nýrri klukkur. Stærsta klukkan heitir Salvator ("Frelsarinn") og vegur 8,2 tonn. Alls vegur klukknaverkið um 32 tonn. Allar klukkur eru handsnúnar (ekki rafrænar). Salvatorklukkunni er þó aðeins hringt á sérstökum hátíðisdögum, bæði trúarlegum og þjóðlegum. Grafhvelfing. Nokkuð er um að heldri persónur hvíli í kirkjunni. Má þar nefna nokkra furstabiskupa. Keisararnir Konráður II og Hinrik V létust báðir í Utrecht (1039 og 1125). Innyfli þeirra voru teknir úr þeim og sett í geymslu í dómkirkjunni. Að öðru leyti voru þeir jarðsettir annars staðar. Tvær steinhellur í gólfinu í kórnum, keisarasteinarnir ("Keizerssteentjes"), minna á þá. Marteinshamarinn. Dómkirkjan á veglegan hamar sem kallast Marteinshamarinn, kenndur við heilagan Martein. Hér um forsögulegt verkfæri að ræða. Hamarinn er talinn vera frá 1000 f.Kr. og gerður úr graníti. Þjóðsagan segir að heilagur Marteinn frá Tours hafi átt hamarinn og notað hann til að berja á kölska. Önnur saga segir að hann hafi notað hamarinn til að eyðaleggja heiðin hof. Allar götur síðan hefur hamarinn verið geymdur sem dýrgripur í dómkirkjunni. Á 13. öld var hann silfursleginn. Hamarinn er eign dómkirkjunnar, en er í dag geymdur í Katrínarklaustrinu í Utrecht. Lögbækur. Tvær forláta lögbækur (codices) eftir furstabiskupana Ansfried og Bernold eru eign dómkirkjunnar. Bækurnar eru frá 11. öld og eru bundar með gullplötum og eðalsteinum. Bókunum tókst að bjarga þegar siðaskiptin urðu í borginni, en eru geymdar í Katrínarklaustrinu í Utrecht í dag. Notkun. Dómkirkjan er ekki lengur kaþólsk síðan siðaskiptin fóru fram á síðari hluta 16. aldar. Hún þjónar söfnuði mótmælenda. Turninn er með eigin gestamiðstöð sem stendur á torginu milli turnsins og kórsins. Almenningur á kost á að skoða turninn með leiðsögumanni. Til að komast alla leið upp þarf að príla 465 þrep. Þaðan er á góðum dögum hægt að greina stórborgirnar Amsterdam og Rotterdam. Turninn er einnig vinsæll giftingarstaður fyrir brúðhjón. Shemar Moore. Shemar Moore (fæddur Shemar Franklin Moore, 20. apríl 1970) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Young and the Restless og Criminal Minds. Einkalíf. Moore fæddist í Oakland, Kaliforníu og er af írskum og frönskum-kanadískum uppruna gegnum móður sína. Moore ólst upp í Bahrain og Danmörku þar sem móðir hans vann sem kennari. Fjölskylda Moore fluttist aftur til Bandaríkjanna árið 1977 til Chico í Kaliforníu. Síðan fluttust þau til Palo Alto, Kaliforníu. Moore stundaði nám við Santa Clara-háskólann. Árið 1998 þá var móðir Moores greind með MS sjúkdóminn. Hefur Moore ásamt meðleikurum sínum í "Criminal Minds" staðið fyrir nokkrum styrktarviðburðum í því skyni að safna peningum fyrir MS rannsóknum. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Moore var árið 1995 í "Living Single". Kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Arli$$", Chicago Hope, "Malcolm & Eddie" og "Half & Half". Árið 1997 þá var honum boðið hlutverk í sápuóperunni The Young and the Restless sem Malcolm Winters sem hann lék til ársins 2005. Kvikmyndir. Moore hefur síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem Derek Morgan. Moore hefur komið fram í kvikmyndum á borð við "Butter", The Brothers og Diary of a Mad Black Woman. Tenglar. Moore, Shemar Muammar Gaddafi. Muammar Muhammad Abu Minyar al-Gaddafi (arabíska: مُعَمَّر القَذَّافِي‎ "Muʿammar al-Qaḏḏāfī", 7. júní 1942 – 20. október 2011), þekktur sem Muammar Gaddafi (stundum skrifað Gaddafí á íslensku) var forseti Líbýu frá 1969 til 2011. Hann var þjóðhöfðingi Líbýu frá 1969 til ársins 1977. Eftir það sagðist hann vera tákngerfingur landsins. Hann var fangaður í orrustunni við Sirte og var þá drepinn. Matthew Gray Gubler. Matthew Gray Gubler (fæddur 9. mars 1980) er bandarískur leikari og leikstjóri sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Criminal Minds og Alvin and the Chipmunks kvikmyndunum. Einkalíf. Gubler er fæddur og uppalinn í Las Vegas í Nevada. Sem menntaskólanemi þá stundaði Gubler nám við "Las Vegas Academy of International Studies, Performing and Visual Arts" þar sem hann lærði leiklist, þrátt fyrir að skólinn kenndi ekki kvikmyndagerð sem er aðaláhugamál Gublers. Gubler stundaði nám við "Tisch School of the Arts" við New-York-háskólann í kvikmyndaleikstjórn. Gubler vann sem módel fyrir Tommy Hilfiger, Burberry, Louis Vuitton og Marc Jacobs á meðan hann var við nám í New York. Var boðið starfsnám hjá leikstjóranum Wes Anderson, sem sagði Gubler að fara í áheyrnarpróf fyrir hlutverk í myndinni The Life Aquatic with Steve Zissou sem Gubler fékk. Leikstjóri. Gubler leikstýrði stuttmyndunum og The Cactus That Looked Just Like a Man. Gubler leikstýrði og skrifaði handritið að grínstuttmyndunum og The Authorized Documentary sem hann gerði á tökustað Criminal Minds. Gubler hefur leikstýrt tveim þáttum af Criminal Minds. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Gublers í sjónvarpi var í Arrested Development. Gubler hefur síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem Dr. Spencer Reid. Kvikmyndir. Fyrsta hlutverk Gublers í kvikmyndum var í The Life Aquatic with Steve Zissou síðan 2004. Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við Alvin and the Chipmunks, How to Be a Serial Killer, (500) Days of Summer og Pornstar. Tenglar. Gubler, Matthew Gray A.J. Cook. A.J. Cook (fædd Andrea Joy Cook, 22. júlí 1978) er kanadísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, Higher Ground og Tru Calling. Einkalíf. Cook er fædd og uppalin í Oshawa í Ontario í Kanada. Cook byrjaði dansnám fjögra ára gömul þar sem hún læði jazz-,stepp-og ballettdans. Þegar Cook var sextán ára þá ákvað hún að prufa leiklistina í staðinn fyrir dansinn. Cook er meðlimur "Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu" sem er stærsta mormónakirkja Bandaríkjanna. Cook giftist Nathan Andersen árið 2001 og saman eiga þau einn son. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Cooks var í auglýsingu árið 1997 fyrir McDonald's. Kom hún síðan fram í þáttum á borð við "Goosebumps" og "PSI Factor: Chronicles of the Paranormal". Árið 2000 var Cook boðið hlutverk í nýjum unglingaþætti sem kallaðist Higher Ground þar sem hún lék á móti Hayden Christensen. Síðan var henni boðið hlutverk í Tru Calling sem Lindsay Walker sem hún lék frá 2003-2004. Cook hefur síðan 2005 leikið eitt af aðahlutverkunum í Criminal Minds sem Jennifer "JJ" Jareau. Þann 14. júní, 2010, var tilkynnt að Cook myndi ekki koma fram í seríu 6 af "Criminal Minds", en hún myndi koma fram í tveim þættum sem myndu útskýra brotthvarf hennar. Kom hún síðan fram í seinasta þætti Paget Brewster í seríu 6. Tilkynnt var þann 16. apríl 2011 að Cook hafi skrifað undir tveggja ára samning við þáttinn. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Cooks var í "Laserhawk" árið 1997. Árið 1999 þá var Cook boðið eitt af aðalhlutverkunum í The Virgin Suicides þar sem hún lék á móti James Woods, Kathleen Turner og Kirsten Dunst. Lék Cook, Mary Lisbon eina af systrunum í myndinni. Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Out Cold", "Final Destination 2" og "Mother's Day". Tenglar. Cook, AJ Lars Lagerbäck. Lars Edvin „Lalli“ Lagerbäck (f. 16. júlí 1948 í Katrineholm í Svíþjóð) er landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Hann er frægastur fyrir afrek sín sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar í knattspyrnu. Hann þjálfaði landslið Svía frá 1998 til 2009. Ferill. Sem unglingur spilaði Lagerbäck fyrir Alby FF þegar hann var 13 ára gamall. Árið 1970 hóf hann að spila með Gimonäs CK undir stjórn Calle Lindelöf. Þar lék hann allt til ársins 1974. Árið 1974 hóf hann nám í íþrótta háskólanum Gymnastik- och Idrotts Högskolan (GIH). Þremur árum síðar, 1977–1982 þjálfaði hann Kilafors IF og 1983–1985 Arbrå BK, áður en hann tók til starfa hjá sænska knattsyrnusambandinu. Árið 1996 hóf Lagerbäck störf sem þjálfari sænska B-landsliðsins, þangað til 1997 þegar hann sagði sjálfur upp stöfum. Hann var ráðinn aðstoðarþjálfari Tommy Söderberg hjá sænska landsliðinu 1998. Milli ára 2000–2004 voru þeir síðan saman þjálfarateymi sænska landsliðsins. Saman komu þeir sænska landsliðinu á Evrópumótið 2000. Eftir að Söderberg hætti réð Lagerbäck Roland Andersson sem aðstoðarmann sinn. 2006 tókst Lagerback fjórða skiptið í röð að koma sænska landsliðinu á stórmót og 2009 var hann ráðinn þjálfari Nígeríu. Hann stýrði liðinu á HM 2010 en gekk ekki sem skyldi. Hann var síðan ráðinn þjálfari íslenska landliðsins árið 2011 fyrir undankeppni Heimsmeistaramótsins í Brasilíu árið 2014. Hann byrjaði þjálfaraferil sinn með Ísland á því að tapa fjórum æfingaleikjum á útivelli gegn Japan, Svartfjallalandi, Frakklandi og Svíþjóð áður en hans fyrsti sigur með liðið vannst 2-0 gegn Færeyjum í ágúst 2012. Í september sama ár unnu Íslendingar Noreg í fyrsta skipti í langan tíma, en biðu svo lægri hlut fyrir Kýpur á heimavelli þar ytra, 1-0 síðar í mánuðinum. Lagerbäck sagði í viðtali við fjölmiðla eftir þann leik að íslenska liðið hafi nálgast leikinn með of mikla bjartsýni í huga, sérstaklega þegar kom að varnarleik liðsins. Kirsten Vangsness. Kirsten Vangsness (fædd Kirsten Simone Vangsness, 7. júlí 1972) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Criminal Minds og sem Penelope Garcia. Einkalíf. Vangsness fæddist í Pasadena í Kaliforníu og er af norskum uppruna. Vangsness er samkynhneigð og hefur verið í sambandi með Melanie Goldstein síðan 2006. Leikhús. Vangsness byrjaði feril sinn í leikhúsi og hefur hún unnið til nokkurra verðlauna þar á meðal "15 Mintues of Female of Best Actress verðlaunin", "Los Angeles Drama Critics verðlaunin" sem "Upprennandi grínleikkona" og "Golden Betty verðlaunin". Vangsness hefur komið fram í leikritum á borð við "A Mulholland Christmas Carol", "Fan Maroo" og "Steaming City". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Vangsness var árið 2004 í "Phil of the Future". Vangsness hefur síðan 2005 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem Penelope Garcia. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Vangsness var árið 1998 í "Sometimes Santa´s Gotta Get Whacked". Síðan þá hefur Vangsness komið fram í kvikmyndum á borð við "Tranny McGuyver", "In My Sleep" og "A-List". Tenglar. Vangsness, Kirsten Blágóma. Blágóma (fræðiheiti "Anarhichas denticulatus") er steinbítstegund sem er svipuð að stærð og hlýri. Útlit. Hún er gildvaxinn og allhár fiskur og með sérkennilega breitt enni og stóran haus, frekar lítinn munn sem er aðeins á ská. Hún er sótrauð, dökkrauðblá eða blágrænleit á lit með oddhvassar og litlar tennur. Hún er lausholda og kvapmikil. Blágóman er kaldsjávarfiskur og finnst á 60 – 1200 metra dýpi og getur orðið allt að 144 cm löng. Fæðan er slöngustjörnur, skrápdýr, hveljur og fiskar. Matreiðsla. Almenn trú hefur verið á því að blágóma hyrfi við suðu og væri því ekki nothæfur matfiskur en mælingar sjávarútvegsfræðinema við Háskólann á Akureyri vorið 2013 sýna að fiskurinn rýrnar við eldun aðeins um 30%. Blágóma reyndist því vænsti fiskur til matar, mjög lík hlýranum á bragðið. Sjávarútvegsfræðingar bjuggu til dæmis til plokkfisk úr blágómunni sem var settur á brauð, eins konar blágómu tartar. Oft er blágóman þó mjög stór og of stór til að það sé hægt að búa til úr henni hefðbundna sjávarrétti þar sem flökin eru mjög þykk. Blágóman er feitur fiskur eins og hlýri og steinbítur eða í kringum 4 – 5% fituinnihald. Því er hægt að skoða uppskriftir af hlýra og steinbít og heimfæra þær uppskriftir yfir á blágómuna. Stofnstærð. Sjómenn hafa almennt hent blágómunni aftur í hafið vegna þess misskilnings að blágóman væri óæt og því hefur aldrei tekist að mæla hversu mikið magn af henni hverfur aftur í hafinu kringum Ísland. Umtalsvert af blágómu kemur sem meðafli sérstaklega í djúpsjávarveiðum. Frystitogararnir hjá Brimi og Granda hafa gert tilraunir með að landa hausaðri Blágómu og aflinn hefur verið allt að fimm tonn á ári. Verð á Blágómu. Verð fyrir frosna hausaða blágómu er um 1,1 bandaríkjadollara á kíló eða í kringum 140 ísl. krónur á kíló. Blágóman fer á markað í Austur-Evrópu. Skrápdýr. Skrápdýr (fræðiheiti "Echinodermata") eru fylking sjávardýra. Skrápdýr finnast á öllu dýpi sjávar frá fjöruborði til djúpsjávar. Innan fylkingarinnar eru um 7000 núlifandi tegundir t.d. krossfiskar, ígulker, slöngustjörnur, sæbjúgu og sæliljur. Skrápdýr draga nafn sitt af kalkflögum í húð þeirra. Þessar kalkflögur geta myndað samfellda skel eins og hjá ígulkerum eða verið litlar lausar flögur eins og hjá sæbjúgum og þá er líkami þeirra mjúkur. Ríkey (listamaður). Ríkey Ingimundardóttir (fædd 1. júní 1942) er íslenskur myndlistarmaður. Ríkey hefur fengist við margs konar listsköpun þar á meðal grafík, leirlist, leirmótun, skúlptúr, vatnslitamálun, postulín og olíumálverk. Hún hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og víðar. Sigursteinn Másson. Sigursteinn Róbert Másson (fæddur 11. ágúst 1967) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður. Sigursteinn hefur fengist við kvikmyndagerð meðal annars sem handritshöfundur og má þar helst nefna heimildarmyndina "Aðför að lögum", og þáttaraðirnar "Sex í Reykjavík" og "Sönn íslensk sakamál" sem sýnt hefur verið í íslensku sjónvarpi. "Sönn íslensk sakamál" fékk Edduverðlaun á Edduhátíðinni árið 1999 sem besta heimildarmyndin en þeir Björn Brynjúlfur Björnsson og Viðar Garðarson voru framleiðendur að þeim þáttum en Sigursteinn handritshöfundur. Þar áður var hann framleiðandi og annar tveggja handritshöfunda að "Aðför að lögum" um hin svokölluðu Geirfinns- og Guðmundarmál. Frá árinu 1989 starfaði Sigursteinn sem fréttamaður á Bylgjunni og einnig á Stöð 2 frá 1991 til 1996. Sigursteinn starfaði sem formaður Geðhjálpar frá árinu 2001 til 2007. 2006 var hann kjörinn formaður Öryrkjabandalags Íslands og að nýju formaður Geðhjálpar frá 2009 til 2011. 2008 sagði Sigursteinn af sér formennsku í ÖBÍ vegna ágreinings um breytingar á hússjóði Öryrkjabandalagsins, sem Sigursteinn taldi nauðsynlegt að ráðast í, en varð einu atkvæði undir í atkvæðagreiðslu Aðalstjórnar ÖBÍ. Frá árinu 2003 til 2006 og frá 2008 hefur hann starfað að dýraverndunarmálum með Alþjóðadýraverndunarsjóðnum IFAW og frá 2012 setið í stjórn Dýraverndarsambands Íslands. Frá 2007 hefur Sigursteinn verið í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins. Frá 2009 hefur Sigursteinn unnið ásamt Luciano Dutra að heimildarmyndagerð um "Brasilíufarana", hóp Íslendínga sem flutti búferlum til Suður Brasilíu á ofanverðri 19. öld, Bjúgormar. Bjúgormar (fræðiheiti: "Priapulida") eru ætt orma. Eingöngu hafa fundist 16 tegundir í heiminum. Þeir eru 0,5 cm til 20 cm að stærð. Stærri bjúgormar eru mest á kaldari svæðum bæði á norður- og suðurhveli jarðar frá 6 m niður á 7500 m dýpi. Smærri ormarnir í bálknum halda sig á heitari svæðum. Þeir bora sig í drullu og sand á sjávarbotninum, sem næg fæða er sem þeir geta nært sig á. Allar þekktar tegundir bjúgorma eiga heima í sjó og eru botnlægar tegundir sem þýðir að þær búi á botninum. Ormarnir geta búið á svæðum þar sem er lítil selta alveg niður í 6‰ í Eystrasalti og á svæðum þar sem lítið súrefnismagn er í sjó niður í 2 mL/L. Helsta fæða bjúgorma eru hægfara lífverur sem eru á sama búsvæði og bjúgormarnir, oft smærri ormar eins og burstormar (fræðiheiti: "Polychatete"). Bjúgormar finnast víða við Ísland og eru algengir á leir og sandbotni. Lýsing. Á fremri hluta búksins er útsetjanlegur munnur og getur ormurinn einnig notað þennan hluta til að ýta sér áfram og bora sig ofan í leðjuna eða sandinn. Um öndun er lítið vitað en ætla má að fálmararnir sem standa aftur úr séu notaðir til þess. Þessir fálmarar hafa mikið yfirborð. Búkurinn er umlukinn hrjúfu smáu hreistri og undir því eru þykir vöðvar sem umlykja líkamsholið. Munnholið nær svo inn í þetta vöðvahol. En í því eru næringarefni úr fæðunni tekin upp og að lokum fer fæðan út um endaþarminn. Bjúgormar hafa enga blóðrás eða neitt hringrásarkerfi að nokkrum toga. Taugakerfið er einfalt, taugaenda hringur við munnopið og svo er taug sem nær aftur í endann á orminum þar sem endaþarmurinn er. Fjölgun. Bjúgormar eru af tveimur kynjum: karldýr og kvendýr. Kynfæri þeirra eru nálægt endaþarmsopi og opnast á annarri hlið dýrsins. Frjóvgun á sér stað þegar að sáðfrumur karldýrsins frjóvga egg kvendýrsins útvortis hjá flestum tegundum í fylkingunni. Hrygningartímabilið er talið vera í desember til janúar í Eystrasalti, þó hefur tekist að rækta ormana á rannsóknarstofu frá október til apríl, þá hafa rannsóknir á ormum sem komnir eru að hrygningu að karldýrið sleppir sæðinu fyrst og svo hrygndu kvendýrin eggjum á eftir. Dýrin gerðu þetta aðeins þegar komið var rökkur eða nótt. Eggin klekjast eftir um það bil 100 daggráður eða eftir tíu daga við 10°C. Þá klekjast lirfurnar og það tekur þær sjö mánuði að verða að ormi. Hlýri. Hlýri (fræðiheiti "Anarhichas minor")er steinbítstegund, töluvert stærri en steinbítur og er við kynþroska 70 - 90 sm og 4-8 kg. Hann getur orðið allt að 180 sm og 26 kg. Hlýri er gulbrúnn og flekkóttur. Roð hlýra er sterkara en á steinbít og hentar því betur til skinngerðar. Fæða hlýra er aðallega skrápdýr. Hlýri er talinn ofveiddur en hefur ekki verið settur á alþjóðlega lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Hlýri finnst á úthafssvæðum í köldu djúpsævi, vanalega undir 5°C og á 50-800 m dýpi en finnst líka í allt að 25 m dýpi á norðlægum slóðum í Kanada. Kjörlendi þeirra er grófur sandur þar sem nálægt eru klettasvæði þar sem er skjól og staðir sem henta fyrir hreiður. Hrygningartími er á sumri fram á vetur og geta eggin verið 54,600. Konungsríkið Sukhothai. Konungsríkið Sukhothai er merkt appelsínugulu Konungsríkið Sukhothai (tælenska: ราชอาณาจักรสุโขทัย) var ríki í Norður-Tælandi. Í miðju ríkinu var borgin Sukhothai. Sem ríki var Sukhothai til frá árinu 1238 til 1438. Flevoland. Flevoland er næstminnsta hérað Hollands með 2.412 km2. Aðeins Utrecht er minna. Flevoland er einstakt að því leyti að nær allt héraðið er gert úr uppþurrkuðu landi úr Ijsselmeer. Flevoland varð ekki fylki fyrr en 1986 og er íbúafjöldinn því að sama skapi lítill. Höfuðborgin er Lelystad, en stærsta borgin er Almere. Flevoland er gríðarlega mikilvægt landbúnaðarsvæði. Lega og lýsing. Flevoland er landfylling við Ijsselmeer og skiptist í tvo hluta. Norðurhlutinn er landfastur og heitir Noordoostpolder. Hann var áður hluti af Overijssel og Fríslandi meðan uppþurrkunin átti sér stað. Suðurhlutinn er eyja (stærsta manngerða eyja heims) og er talsvert yngra land. Ijsselmeer og Markermeer liggja að vesturströndinni, en fyrir sunnan liggja stöðuvötnin Gooimeer og Eemmer, fyrir austan er Veluwemeer og fyrir norðan er Ketelmeer. Mýmargar brýr tengja eyjuna við aðra hluta Hollands. Þar á meðal brúin Houtribdijk sem jafnframt er flóðagarður og skiptir Ijsselmeer og Markermeer í tvö stöðuvötn. Flevoland er langfámennasta hérað Hollands með aðeins 391 þúsund íbúa. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Flevoland samanstendur af þremur láréttum röndum. Efst er blátt, sem merkir Ijsselmeeer og Markermeer, fyrir miðju er gult, sem merkir repjurækt, og neðst er grænt, sem merkir græna landið. Til vinstri í bláa hlutanum er hvítt liljublað sem táknar verkfræðinginn Cornelius Lely en hann var maðurinn á bak við flóðgarðana miklu sem lokuðu Ijsselmeer. Fáninn var tekinn í notkun 9. janúar 1986. Skjaldarmerkið er tvískipt. Að ofan er efri hluti ljóns á bláum grunni, en að neðan er langur fisksporður á hvítum grunni. Ljónið heldur á hvítu liljublaði. Merkið var tekið upp 10. febrúar 1987. Orðsifjar. Flevoland heitir eftir gamla rómverska nafninu á Zuiderzee, Lacus Flevo. Zuiderzee hét fjörðurinn áður en flóðavarnargarður lokaði Ijsselmeer og Markermeer af. Söguágrip. Eftir mikið stormflóð 1916 var ákveðið að leggja sjávarvarnargarð fyrir mynni Zuiderzee og loka því af. Verkefni þessu lauk 1932. Úr því varð stöðuvatnið Ijsselmeer. Því næst var hafist handa við að þurrka upp austurhluta vatnsins. Sá hluti heitir Noordoostpolder og var hluti af Overijssel og Fríslandi. 1957-1968 var syðsti hluti Ijsselmeer þurrkaður upp og mynduð eyja. Skömmu síðar hófst landnám á eyjunni en meginhluti hennar er undirlagður hátækni landbúnaði. 1985 fór fram atkvæðagreiðsla íbúanna um að stofna nýtt hérað. Tillagan var samþykkt og var héraðið stofnað 1. janúar 1986. Flevoland er því langyngsta hérað Hollands og einstakt í heiminum að því leyti að það samanstendur nær eingöngu af uppþurrkuðu landi. Síðan 2011 eru uppi hugmyndir um að sameina héruðin Flevoland, Utrecht og Norður-Holland í eitt stórt hérað, sem fengi heitið Randstad. Ammoníti. a> frá 1904 "Kunstformen der Natur". Forn ammonítasteingervingur á sýningu í safni í New York. Steingervingurinn er 2,5 fet í þvermál. "Jeletzkytes", ammoníti frá krítartímabilinu frá USA. a>, ammoníti frá júratímabilinu frá Englandi. Ammonítar (fræðiheiti: "Ammonoidea") eða ammonshorn eru nú útdauður undirflokkur sælindýra af flokki kolkrabba. Þeir hafa klefaskipta ytri skel sem oft er kuðungslaga. Ammónítar eru mikilvægir einkennissteingervingar og er oft hægt að tengja jarðvegslög sem þeir finnast í við ákveðin jarðsögutímabil. Þeir dóu út á mörkum krítar- og tertíertímabila fyrir 65 milljón árum. Ólíklegt er að ammónítar finnist við Ísland vegna þess að elstu jarðlög eru aðeins 15-16 milljóna ára gömul en setklumpar með ammónítum gætu borist út í sundið milli Grænlands og Íslands. Fræðiheitið þýðir ammonshorn og er það vegna þess að steingervingarnir líkjast hrútshornum en egypski guðinn Ammon var vanalega sýndur með hrútshorn. Lelystad. Stytta af Cornelius Lely í Lelystad Lelystad er höfuðborg héraðsins Flevoland í Hollandi. Hún var stofnuð 1967, skömmu eftir að landnám hófst á Flevoland, og nefnd eftir Cornelis Lely, verkfræðingnum sem átti heiðurinn að flóðagarðinum mikla fyrir mynni Ijsselmeer. Borgin er enn mjög ung. Þar búa ekki nema um 75 þúsund íbúa en borgin er ört stækkandi. Lelystad liggur við samskeytin á Ijsselmeer og Markermeer. Þaðan liggur akvegur yfir varnargarð alla leið til Enkhuizen í Norður-Hollandi. Enn í dag liggur Lelystad fimm metrum fyrir neðan sjávarmál. Paget Brewster. Paget Brewster (fædd Paget Valerie Brewster, 10. mars 1969) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, Huff og Friends. Einkalíf. Brewster er fædd og uppalin í Massachusetts og stundaði nám við "Parsons School of Design" í New York í eitt ár. Brewster hefur unnið sem ljósmyndari fyrir módelsíðuna "SuicideGirls.com". Leikhús. Brewster hefur komið fram í leikritum á borð við "Four Dogs and a Bone", "Chapter Two" og "Tartuffe". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Brewster var árið 1997 í Friends sem kærasta Joyes, Kathy og seinna meir kærasta Chandlers. Kom hún síðan fram í þáttum á borð við "The Expert", "Love & Money", "The Trouble with Normal" og "Raising Dad". Árið 2002 var Brewster boðið hlutverk í Andy Richter Controls the Universe þar sem hún lék Jessicu Green, sem hún lék til ársins 2004. Árið 2004 var henni boðið hlutverk í Huff þar sem hún lék Beth Huffstodt, sem hún lék til ársins 2006. Brewster lék eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem Emily Prentiss, frá 2006-2012. Í júní 2010 var tilkynnt að hlutverk hennar í "Criminal Minds" yrði minnkað í seríu 6. Í mars 2010 yfirgaf Brewster seríuna. Tilkynnt var 28. maí 2011 að Brewster myndi snúa aftur sem Emily Prentiss í "Criminal Minds" sem ein af aðalleikurunum. Þann 15. febrúar 2012, var tilkynnt að Brewster myndi yfirgefa "Criminal Minds" í lok sjöundu þáttaraðarinnar í þeim tilgangi að eltast við feril í gaman sjónvarpi. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Brewster var árið 1998 í "Let´s Talk About Sex". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "The Specials", "Hollywood Palms", "Eulogy", "My Big Fat Independent Movie" og "The Big Bad Swim". Tenglar. Brewster, Paget Einkennissteingervingur. Einkennissteingervingur er steingervingur sem er notaður til að greina ákveðið jarðsögutímabil eða gróðurtímabil. Ammonítar eru oft notaðir sem einkennissteingervingar. Joe Mantegna. Joe Mantegna (fæddur Joseph Anthony Mantegna, Jr., 13. nóvember 1947) er bandarískur leikari, kvikmyndaframleiðandi, leikstjóri og handritshöfundur sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, The Godfather Part III og Simpsonfjölskyldunni. Einkalíf. Mantegna er fæddur og uppalinn í Chicago í Illinois og er af ítölskum uppruna. Útskrifaðist með gráðu í leiklist frá "Goodman School of Drama (the Theatre School við DePaul háskólann)" árið 1979. Mantegna hefur verið giftur Arlene Vrhel síðan 1975 og saman eiga þau tvö börn. Síðan 2006, hefur Mantegna verið meðkynnir ásamt Gary Sinise á "National Memorial Day" tónleikunum í Washington. Þann 29. apríl, 2011 fékk Mantenga stjörnu á "Hollywood Walk of Fame" göngugötuna. Leikhús. Fyrsta hlutverk Mantegna í leikhúsi var árið 1969 í Hárinu og kom fyrst fram á Broadway árið 1978 í "Working". Mantegna var meðhöfundur að verðlunaleikritinu "Bleacher Bums" sem var fyrst sýnt í "Organic Theater Company" í Chicago, þar sem Mantegna var einn af leikurunum. Árið 1984 fékk Mantegna bæði "Tony verðlaunin" og "Joseph Jefferson verðlaunin" fyrir hlutverk sitt sem Richard Roma í leikritinu "Glengarry Glen Ross" eftir "Pulitzer Prize" verðlaunahafann David Mamet. Mantegna hefur einnig komið fram í leikritum á borð við "The Wonderful Ice Cream Suit", "Speed the Plow" og "A Life in the Theater", ásamt því að leikstýra "Lakeboat" eftir David Mamet með Ed O'Neil og George Wendt í aðalhlutverkum. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Mantegna var árið 1979 í "Elvis" og sama ár lék hann í sjónvarpsmyndinni "Bleacher Bums" sem var gerð eftir samnefndu leikriti sem hann var meðhöfundur að. Kom hann síðan fram í þáttum á borð við "Soap", "Open All Night", "Comedy Zone", The Twilight Zone og Frasier. Árið 2003 var honum boðið hlutverk í Joan of Arcadia sem Will Girardi, sem hann lék til ársins 2005. Mantegna hefur síðan 1993 ljáð persónunni "Fat Tony" rödd sína í Simpsonfjölskyldunni. Hefur síðan 2007 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem David Rossi. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Mantegna var árið 1976 í "Medusa Challenger" og kom síðan fram í kvikmyndum á borð við "A Steady Rain", "Second Thoughts", "The Money Pit", Three Amigos og "Suspect". Árið 1990 var Mantegna boðið hlutverk í The Godfather Part III sem Joey Zaza. Mantegna hefur síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Up Close & Personal", "Thinner", "Celebrity", "Liberty Heights", "Off Key", "Stateside", The Simpsons Movie, "Lonely Street" og Cars 2. Tenglar. Mantegna, Joe Veiðibjallan. Veiðibjallan NK-16 var trébátur smíðaður á Borgarfirði eystri 1974 úr eik og furu, Yfirsmiður var Hörður Björnsson. Í bátnum er Marna dísilvél 28 hestöfl frá Mandals Motorfabrik í Noregi. Báturinn var gerður út frá Norðfirði til ársins 1992 en þá var hann seldur vestur á Barðaströnd og nafninu ekki breytt en skráningarnúmerið var NK-63. Báturinn var smíðaður fyrir Halldór og Ásmund Þorsteinssyni í Neskaupstað. Miðhvolf. Miðhvolf kallast hluti gufuhvolfsins, sem tekur við af heiðhvolfi og nær upp að hitahvolfi. Neðri mörk miðhvolfs eru í um 50-80 km hæð, en þar tekur hiti að falla með hæð. Mörk heið- og miðhvolfs kallas "heihvörf". Ísabella I af Kastilíu. Isabella I af Kastiliu (22. april 1451 - 26. november 1504) varð drottning Spánar fra 1474 þegar hún giftist Ferdinand af Aragon og með því er hún þekktust fyrir að sameina ríkin tvö Castilíu og Aragon í einn, Spán. Þrátt fyrir hjónabandið var hún samt eiginlega ein ráðandi yfir ríki sínu. Hún gerði margar endurbætur á ríkinu. Hún endurskipulagði stjórnkerfið, minnkaði glæpi niður í það lægsta sem það hefur verið í mörg ár og kom ríkinu úr skuldavandanum sem bróðir hennar hafði sett það í. IJsselmeer. IJsselmeer er stærsta stöðuvatn Hollands og jafnframt eitt stærsta manngerða stöðuvatn heims með 1.850 km2. Það var áður fyrr fjörður sem hét Zuiderzee. Fjörðurinn náði djúpt inn í landið en var lokaður af með sjávarvarnargarði 1932. Landafræði. Zuiderzee var nokkuð langur fjörður sem gekk til suður inn með norðurhluta Niðurlanda. Mynni hans lá við norðurodda héraðsins Hollands annars vegar og við Frísland hins vegar. Við mynnið var fjörðurinn mjög grunnur, enda komið í hollenska vaðhafið. Utar liggja Vesturfrísnesku eyjarnar. Fjörðurinn náði miklu lengra inn með landið en IJsselmeer gerir í dag. IJsselmeer skiptist í nokkur stöðuvötn. Þau helstu eru Markermeer, IJmeer, Gooimeer og Ketelmeer. Héraðið Flevoland var myndað með landþurrkun en við það minnkaði Ijsselmeer um tæplega helming. Helstu hafnarborgir við Ijsselmeer eru Amsterdam, Volendam, Lelystad, Hoorn, Enkhuizen og Lemmer. Orðsifjar. Zuiderzee merkir "suðursjór" en meint er að fjörðurinn gamli gekk inn í landið til suðurs. IJsselmeer merkir "vatnið þar sem áin Ijssel mundar" en IJssel er nyrsti og austasti Rínararmurinn. Á hollensku er Ijsselmeer ritað IJsselmeer, þar sem fyrstu tveir bókstafirnir eru ritaðir með stórum staf. Hollenska orðið –meer merkir "stöðuvatn", ekki sjó. Zuiderzee. Í upphafi var IJsselmeer lokað stöðuvatn sem Rómverjar kölluðu Lacus Flevus. En í gegnum aldirnar hafa gríðarleg stormflóð riðið yfir landið, bæði við vestur- og norðurströnd Hollands. Zuiderzee myndaðist við stormflóð á 12. og 13. öld er hafið braust inn í landið. Í stað stöðuvatnsins myndaðist langur fjörður til suðurs og klauf Holland nær því í tvennt. Íbúar svæðanna voru í stöðugri hættu vegna sjávargangs og flóða. Þúsundir létust í flóðunum. Lengin hafa menn því velt fyrir sér hvernig stjórna mætti náttúruöflunum. Afsluitdijk. Sjávarvarnargarðurinn mikli, Afsluitdijk, er 32 km langur. Á honum er hraðbraut sem tengir Norður-Holland við Frísland. Í lok 19. aldar hóf verkfræðingurinn Cornelius Lely að kanna möguleikann á því að loka Zuiderzee af með varnargarði og komst að því að slíkt væri bæði mögulegt og hagkvæmt. Hins vegar var ekkert gert í nokkra áratugi. En eftir flóðið mikla 1916, sem kostaði mörg mannslíf, voru áætlanir hans teknar fram aftur og smíðaðar raunhæfar framkvamdaráætlanir. Vinnan við garðinn hófst 1927 og stóð yfir í fimm ár. Í vestri hófst garðurinn við borgina Den Oever í Norður-Hollandi og gekk í nær beinni línu til norðausturs til Fríslands. 28. maí 1932 klukkan 13:02 var síðasta hleðslan í garðinum sett í með viðhöfn og þar með lokaðist Zuiderzee af frá sjónum. Garðurinn var þá orðinn 32 km langur og hlaut nafnið Afsluitdijk. Garðurinn var síðan hækkaður og breikkaður í 90 metra. Lagt var á hann hraðbraut. 20. september á sama ári var heitinu formlega breytt úr Zuiderzee í IJsselmeer. Þar með hafði myndast eitt stærsta manngerða stöðuvatn heims sem ekki er uppistöðulón í virkjun. Ýmsar sögufrægar hafnarborgir, eins og Amsterdam og Hoorn, lágu þar með ekki lengur við sjó. Við Afsluitdijk er þó skipalyfta, þannig að skip og bátar geta siglt til hafs. Uppþurrkanir. Þannig voru upphaflegu áætlanirnar um uppþurrkun IJsselmeers. Suðvesturhlutinn, sem í dag er Markermeer, varð hins vegar aldrei að veruleika. Samfara myndun IJsselmeers voru strax í upphafi uppi áætlanir um að þurrka stóran hluta þess upp fyrir nýmyndun lands. Vinnan við það hófst skömmu eftir að Ijsselmeer var myndað og 1942 var Noordoostpolder tilbúið til landnáms. Hann er í dag landfasti hluti Flevolands. Á sjötta áratugnum var hafist handa við að þurrka upp syðsta hluta IJsselmeers upp. Við það myndaðist stærsta manngerða eyja heims, aðalhluti Flevolands. Eyjan og Noordoostpolder voru gerð að nýjasta héraði Hollands 1986. Slíkt er einsdæmi í heiminum að heilt hérað samanstandi af nýmyndun lands. Árið 1976 var annar garður, ásamt akvegi, lagður þvert yfir IJsselmeer og náði hann frá Lelystad í austri til Enkhuizen í vestri. Garður þessi heitir Houtribdijk og var gerður til þess að hægt væri að þurrka upp suðurhluta IJsselmeer, sem heitir Markermeer, fyrir nýsköpun lands. En sökum þess að engin bráð eftirspurn var á nýju landi í Hollandi voru áætlanirnar um uppþurrkunina frestaðar. Auk þess er Markermeer orðin að stöðugu vistkerfi og vinsælu siglingasvæði fyrir seglbáta. Því er með öllu óljóst hvort þar verður nokkurn tímann þurrkað upp. Ijsselmeer er því tvískipt í dag. Margir Hollendingar líta þó svo á að Markermeer og önnur stöðuvötn í kringum Flevoland séu einungis hluti af IJsselmeer. IJsselmeer í dag. IJsselmeer og Markermeer eru mikið notaðar fyrir siglingar, bæði í fraktflutningum og dægursiglingum. Margar hafnir eru við vatnið, sérstaklega smábátahafnir. Skip sigla frá Markermeer um skipatrekt við Lelystad yfir í IJsselmeer. Við Afslutdijk nyrst í IJsselmeer er svo skipastigi, þaðan sem siglt er inn í Vafhafið. Bæði Markermeer og IJsselmeer eru að meðaltali um 20-40 cm fyrir neðan sjávarmál. Munurinn er þó miklu meiri á flóði. Stór úthafsskip sigla hins vegar í vestur frá Amsterdam eftir skipaskurði og til Norðursjávar við IJmuiden. Mörg náttúruverndarsvæði eru við IJsselmeer. Það helsta er Oostvaardersplassen á Flevoland. Svæðið er kjörið fyrir vað- og strandfugla. Billings. Billings er borg í Montana í Bandaríkjunum. Bragi Þorfinnsson. Bragi Þorfinnsson (fæddur: 10. apríl 1981) er íslenskur skákmaður sem hlaut nafnbótina Alþjólegur meistari í skák árið 2003. Sem hvítur teflir Bragi yfirleitt drottningarpeðsbyrjun en sem svartur teflir hann yfirleitt sikileyjarvörn, sérstaklega Najdorf afbrigiðið, gegn kóngapeðsbyrjun en drottningarindverska- eða nimzóindverska vörn gegn drottningarpeðsbyrjun. Lisp. Lisp er fjölskylda listavinnsluforritunarmála sem notar málskipan sem einkennist af svigum sem nefnast S-segðir. Lisp var fyrst tilgreint árið 1958 og er elsta hámál enn í notkun á eftir Fortran. Margar Lisp-mállýskur í notkun í dag eins og Common Lisp, Scheme og nýlega Clojure. Lisp var upprunalega byggt á lambda-reikningi og var mikið notað innan gervigreindarfræði fyrst um bil. Mörg hugtök innan tölvunarfræði komu fyrst fram í Lisp, eins og tré, ruslasöfnun, kvikleg tögun og sjálfhýstur þýðandi. Orðið LISP er dregið af enska hugtakinu "list p'"rocessing" („listavinnsla“) enda eru keðjulistar ein aðalgagnagrind Lisp-mála sem er einnig notuð til að tákna frumþulu og er málið því sammynda (eða samtákna, samtáknandi) og því er hægt að meðhöndla Lisp-kóða eins og venjuleg gögn — þetta er mikið nýtt við fjölvagerð sem gerir forriturum kleyft að breyta málskipun málsins og að skrifa forrit sem búa til önnur, jafnvel flóknari, forrit. Kattavinafélag Íslands. Við stofnun Kattavinafélagsins 1976 hófst sú starfsemi Kattavinafélagsins, að taka til geymslu heimilislausa óskilaketti, sem fundist höfðu á förnum vegi, og færðir voru heim til Svanlaugar þáverandi formanns félagsins, sem veitti þeim þannig mat, umönnun og húsaskjól í sérstöku herbergi. Ef eigandi gaf sig fram innan hæfilegs tímabils komst kötturinn til síns heima, en ella reyndi Svanlaug að koma honum á gott heimili. Ef það tókst ekki var dýralæknir fenginn til að svæfa köttinn á kostnað Kattavinafélagsins. Þar naut félagið vinsemdar Brynjólfs Sandholt dýralæknis, sem frá upphafl var ráðgjafi félagsins og veitti oft umbeðna aðstoð án greiðslu. Fljótlega kom svo í ljós að þörf var fyrir þessa kattageymslu félagsins þegar kattaeigendur fóru í sumarfrí, eða urðu að fara á sjúkrahús vegna veikinda. Þá tók Svanlaug að sér að geyma heimilisköttinn á meðan. Þannig hófst í smáum stíl sú starfsemi, sem nú er rekin í húsi félagsins, Kattholti, að Stangarhyl 2 í Reykjavík. Íðusdagur. Íðusdagur (eða íðus) (latína: "Idūs") var dagur í Róm til forna sem kom upp á 15. degi mars, maí, júlí og október en var 13. dagur annarra mánaða ársins. Íðusdagur marsmánaðar 44 árum f.Kr. var sá dagur sem Júlíus Caesar var myrtur. Mandy Patinkin. Mandy Patinkin (fæddur Mandel Bruce Patinkin, 30. nóvember 1952) er bandarískur leikari og söngvari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, Chicago Hope, Dead Like Me og The Princess Bride. Einkalíf. Patinkin er fæddur og uppalinn í Chicago í Illinois og er af rússneskum og pólskum uppruna. Patinkin stundaði nám við Kansas-háskóla og Julliard skólann. Patinkin giftist leikonunni og rithöfundnum Kathryn Grody árið 1980 og saman eiga þau tvö börn. Patinkin hefur haldið tónleika fyrir Doctors Without Borders og "PAX" sem er stuðningshópur fyrir sterkari byssulögum í Bandaríkjunum. Leikhús. Patinkin byrjaði leiklistarferil sinn ungur og kom fram í söngleikjum á borð við "West Side Story" og "Carousel". Þegar Patinkin var við nám í Kansas kom hann fram í fjölmörgum söngleikjum og leikritum áður en hann fluttist til New York til að stunda nám við Julliard þar sem hann var í eitt og hálft ár. Stuttu eftir að hann yfirgaf "Julliard" kom Patinkin fram hjá "Baltimore Theatre Group" í barnaleikritum. Árið 1979 var Patinkin boðið hlutverk Che Guevara í söngleiknum Evita á Broadway. Patinkin vann "Tony verðlaunin" sem besti leikari í söngleik árið 1980 fyrir hlutverk sitt í "Evitu". Síðan þá hefur Patinkin komið fram í leikritum á borð við "Follies in Concert", "The Winter´s Tale", "The Secret Garden" og "Mamaloshen". Tónlist. Patinkin er mikill tónlistarmaður og hefur gefið út geisladiska byggt á verkum bæði eftir hann sjálfan og aðra. Árið 1989 gaf Patinkin út fyrstu plötuna "Mandy Patinkin" sem innihélt fræg lög á borð við "Over the Rainbow", "Pretty Lady", "Me and My Shadow" og "Sonny Boy". Síðan þá hefur hann gefið plötur á borð við "Mamaloshen" og "Kidults". Patinkin hefur einnig sungið inn á plötur tengdar söngleikjum sem hann hefur leikið í "Evita", "Secret Garden" og "The Wild Party". Patinkin hefur ásamt Patti Lupone ferðast um Bandaríkin og haldið tónleika síðan í byrjun ársins 2010. Sjónvarp. Patinkin byrjaði sjónvarpsferil sinn í auglýsingu fyrir "7-Up" árið 1970 þar sem hann lék draug. Kom hann einnig fram í fyrstu auglýsingunni fyrir Kellogg´s "Frosted Mini-Wheats". Fyrsta hlutverk hans í sjónvarpsþætti var árið 1978 í Taxi og kom hann síðan fram í "Picket Fences", Simpsonfjölskyldan og. Árið 1994 var Patinkin boðið hlutverk Dr. Jeffrey Geiger í Chicago Hope sem hann lék til ársins 2000. Síðan árið 2003 var honum boðið hlutverk Rube Sofer í Dead Like Me sem hann lék til ársins 2004. Patinkin lék atferlisfræðinginn Jason Gideon í Criminal Minds frá 2005-2007. Árið 2011 var Patinkin boðið hlutverk Saul Berenson í nýjum sálfræði-drama þætti Homeland sem fjallar um starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar og yfirvofandi hryðjuverkaárásir. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Patinkins var árið 1978 í "The Big Fix" og kom hann síðan fram í kvikmyndum á borð við "French Postcards", "Ragtime", The Princess Bride sem Inigo Montoya og "Alien Nation". Árið 1990 þá lék Patinkin í Dick Tracy á móti Warren Beatty og Madonnu. Síðan árið 1991 lék Patinkin í True Colors á móti John Cusack og James Spader. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Music of Chance", "Men with Guns", "The Adventurs of Elmo in Grouchland" og "Everyone´s Hero". Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horro Films, USA Friends of the New England Holocaus Memorial Joseph Papp New York Shakespeare Festival Tenglar. Patinkin, Mandy Crailsheim. Crailsheim er borg í Baden-Württemberg, Þýskalandi. Þar búa 32.856 manns (2002). Nokia 6131. Nokia 6131 er farsími sem framleiddur var af Nokia. Hann kom á markaðinn febrúar 2006. NGC 1316. NGC 1316 (eða "Fornax A") er vetrarbraut sem er í 70 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. NGC 4359. NGC 4359 er stjörnuþoka sem er í 13 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Umferðarljós. Til eru líka umferðaljós fyrir sérstök farartæki, eins og strætisvagna og sporvagna. Þessi ljós mega vera með perum ólíkum þeim í venjulegum umferðarljósum svo að sé skýrt að þau eru ekki ætluð venjulegum farartækjum. Til dæmis á Íslandi er svona ljós að finna við Hlemm, í þessu tilfelli skiptast þau á hvítu „S“ merki og hvítu láréttu bandstriki; „S“ merkið þýðir að strætisvagnar mega keyra áfram. Egils Gull. Egils Gull er íslenskur lagerbjór, framleiddur af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Egils Gull kom á markað þann 1. mars 1989. Auk Íslands hefur Egils Gull verið seldur í Kanada. Egils Gull vann World Beer Cup árið 2008 og World Beer Awards 2011. Heri Joensen. Heri Joensen (f. 1973) er gítarleikari í færeysku þungarokksveitinni Týr. Wine. Wine er ókeypis hugbúnaður sem gerir manni kleift að keyra Microsoft Windows forrit á Unix-byggðum stýrikerfum t.d. Linux, Mac OS X. Common Lisp. Common Lisp er mállýska af Lisp-forritunarmálinu búin til að staðla mismunandi Lisp-afbrygði sem til voru á þeim tíma. Common Lisp er sammynda og hefur öflugt fjölvakerfi sem gerir forriturum kleyft að breyta málskipun málsins og að skrifa forrit sem búa til önnur, jafnvel flóknari, forrit. Málskipan. Common Lisp er Lisp-mállýska og notar sem slík S-segðir til að tákna kóða og gagnagrindir. Falla- og fjölvaköll eru rituð sem listar þar sem nafn fallsins eða fjölvans er ritað fyrst. Hér táknar örin ⇒ GILDI að síðasta aðgerð skili GILDI. ⇒ (1 4 9 16 25) ⇒ (1 4 9 16 25) þar sem #'tvíveldi er stytting á (function tvíveldi). Föll. ⇒ (6 5 4 3 2 1) ⇒ (1 2 3 4 5 6) ⇒ ((3 B) (4 C) (9 A)) Clojure. Clojure (samhljóma enska orðinu "closure", „lokun“) er nýleg Lisp-mállýska búin til af Rich Hickey sem hvetur til fallaforritunar og einfaldar fjölþráðavinnslu. Clojure keyrir á Java-sýndarvélinni. Clojure er sammynda og hefur öflugt fjölvakerfi sem gerir forriturum kleyft að breyta málskipun málsins og að skrifa forrit sem búa til önnur, jafnvel flóknari, forrit. Lola Glaudini. Lola Glaudini (fædd 24. nóvember 1971) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, NYPD Blue, Persons Unknow og The Handler. Einkalíf. Glaudini er fædd og uppalinn í New York-borg. Hún er gift Stuart England, sem er skartgripahönnuður, og á með honum tvö börn. Leikhús. Glaudini hefur bæði komið fram á Broadway og í leikhúsum í Los Angeles. Hún kom fram í "The Poison Tree" sem faðir hennar Robert Glaudini skrifaði. Einnig hefur hún komið fram í leikritum á borð við "Demonology", "Barrow", "Teenage Wedding" og "Blue Danube". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Glaudini var árið 1997 í "The Visitor". Árið 1996 þá var henni boðið hlutverk í NYPD Blue sem Dolores Mayo, sem hún lék til ársins 1999. Hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Secret Agent Man", The King of Queens, Monk og Crossing Jordan. Árið 2005 var henni boðið eitt af aðalhlutverkunum í Criminal Minds sem Elle Greenaway, sem hún lék til ársins 2006. Glaudini lék í Persons Unknown sem Kat Damatto árið 2010. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Glaudini var árið 1996 í "Without a Map". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Down to You", "Blow", "Consequence", "The Diviner" og "Certain Prey". Tenglar. Glaudini, Lola Fáni Tenerífe. Fáni Tenerífe samanstendur af hvítum Burgundy krossi á bláum bakgrunni. Blái liturinn táknar sjó og hvíti liturinn táknar snjóþakið Teide um vetur. Fáninn er mjög álíkur fána Skotlands. Eini munurinn á þeim er að blái liturinn í fána Tenerife er dekkri. Rachel Nichols. Rachel Nichols (fædd Rachel Emily Nichols, 8. janúar 1980) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, Alias og The Inside. Einkalíf. Nichols fæddist í Augusta í Maine. Nichols hóf nám við Columbia-háskóla í New York árið 1998 þar sem hún ætlaði sér að verða verðbréfamiðlari á Wall Street. Hún hóf módelstörf meðan hún var við nám og notaði launin til að borga námið. Nichols kom fram sem módel fyrir Abercrombie & Fitch, Guess? og L'Oreal; ásamt því að hafa verið kynnir hjá MTV sjónvarpsstöðinni. Nichols stundaði nám í hagfræði og sálfræði, ásamt drama. Nichols útskrifaðist árið 2003 frá Columbia-háskóla með gráðu í stærðfæði og hagfræði. Nichols giftist kvikmyndaframleiðandanum Scott Stuber árið 2008 en skildu í febrúar 2009. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Nichols árið 2002 var í Sex and the City sem Alexa. Árið 2005 þá var henni boðið hlutverk í The Inside sem alríkisfulltrúinn Rebecca Locke. Nichols lék Rachel Gibson í Alias frá 2005-2006. Síðan árið 2010 þá var henni boðið hlutverk í Criminal Minds sem Ashley Seaver sem hún lék til loka seríu 6. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Nichols var árið 2000 í Autumn in New York. Síðan þá hefur komið fram í kvikmyndum á borð við, The Amityville Horror, "The Woods", Star Trek, og Conan the Barbarian. Tenglar. Nichols, Rachel Piparrót. Piparrót (fræðiheiti: "Armoracia rusticana") er fjölær jurt af krossblómaætt með löngum blöðum og sívölum rótarhýðum með sterkt bragð og lykt. Piparrót inniheldur þrisvar sinnum meira C-vítamín en sítrónur. Hún er notuð sem krydd í mat. Á miðöldum var piparrót notuð við skyrbjúg. Whoopi Goldberg. Whoopi Goldberg (f. 13. nóvember 1955 sem Caryn Elaine Johnson) er bandarísk leikkona. Goldberg, Whoopi Rauðrófa. Rauðrófa eða rauðbeða (fræðiheiti: "beta vulgaris" ssp. vulgaris v. conditiva (v. rubra)) er rótargrænmeti, rautt á lit. Rauðrófa er náskyld sykurrófu og beðju. Hún er tvíær, fyrra árið myndast rótarávöxtur en seinna árið myndast fræ. Rauðrófa er núna nytjaplanta sem vex hvergi villt en fyrr á öldum þá var villt afbrigði strandrófu notað sem lækningajurt en það óx villt meðfram ströndum í Evrópu. Villta afbrigðið myndaði ekki forðarót. Fyrsta afbrigðið af rauðbeðu sem líkist nútíma rauðbeðu er er afbrigði af rómverskri rófu (beta romana) sem fjallað er um árið 1587 í bókinni "Historia Generalis Plantarum". Rómverska afbrigðið barst til Þýskalands árið 1558 og barst þaðan endurbætt til fleiri ríkja. Í mið- og Austur-Evrópu varð rauðrófa mikilvægt grænmeti og uppistaða í súpu eins og borsjtj og í Skandinavíu var rauðrófa notuð í síldarsalat og rauðbeðusalat. Hún var síðar þróuð í fóðurrófu og sykurrófu og fyrsta sykurrófuverksmiðjan var stofnsett árið 1802 í Slesíu. Rauðrófur hafa fremur hátt sykurmagn (sykur er um 9 g á hver 100 g). Rauðrófur innihalda litarefnið betanin. Það er unnið úr rauðrófum sem rautt litarefni með númerið E-162. Rauðbeður má borða hráar (t.d. rifnar í salat), niðursoðnar eða heilar eða ofnbakaðar. Sykurrófa. Sykurrófa (fræðiheiti: "Beta vulgaris var. altissima") er en hvítt kúlulaga rótargrænmeti. Byrjað var að framleiða sykur úr sykurrófum í Þýskalandi árið 1802 og barst aðferðin um Evrópu en vegna Napóleonsstyrjaldanna árið 1807 þá var ekki hægt að flytja inn vörur eins og sykur til meginlands Evrópu. France Gall. France Gall (f. 1947 sem Isabelle Geneviève Marie Anne Gall) er frönsk söngkona. Hún sigraði Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1965. Gall, France Dawn Martin. Dawn Martin (f. 1976) er írsk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Írlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1998 með laginu „Is Always Over Now?“. Hún náði 9. sæti, með 64 stig. Rótargrænmeti. Rótargrænmeti á við grænmeti, sem eru jurtarætur ræktaðar til manneldis. Ræturnar eru í flestum tilfellum næringarforðabúr jurtarinnar og innihalda mikið magn kovetna, en auk þess fjörefni ("vítamín"), steinefni og trefjar. Rótargrænmeti er gjarnan soðið eða ofnbakað, en stundum steikt, en það er einnig neytt hrátt. Jayne Atkinson. Jayne Atkinson (fædd 18. febrúar 1959) er ensk-bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Criminal Minds og 24. Einkalíf. Atkinson er fædd í Bournemouth í Dorset en fluttist níu ára gömul til Bandaríkjanna þar sem hún ólst upp í Hollywood í Flórída. Atkinson útskrifaðist með BA gráðu í samskiptum við Northwestern-háskólann árið 1981, áður en hún stundaði nám við "Yale School of Drama". Atkinson er gift leikaranum Michael Gill og saman eiga þau einn son. Leikhús. Fyrsta leikhúshlutverk Atkinson var árið 1985 í Pride & Prejudice sem Charlotte Lucas. Hefur hún síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Bloody Poetry", "The Last Good Moment of Lily Baker", "As You Like It", "Sight Unseen", "The Striker", "Ivanov" og "The Rainmaker". Árið 2003 þá vann Atkinson "Outer Critics Circle verðlaunin" fyrir hlutverk sitt í "Enchanted April". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Atkinson var árið 1986 í sjónvarpsmyndinni "Between Two Women". Kom hún síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "A Year in the Life", "Beauty and the Beast", "Parenthood", The X-Files og Joan of Arcadia. Árið 2006 var Atkinson boðið hlutverk í 24 sem Karen Hayes sem hún lék til ársins 2007. Atkinson hefur verið með stórt gestahlutverk sem Erin Strauss í Criminal Minds síðan 2007. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Atkinson var árið 1993 í Free Willy. Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við, The Village, Syriana og "The Getaway". Tenglar. Atkinson, Jayne Chuck Norris. Chuck Norris (f. 1940) er bandarískur leikari. Norris, Chuck Al Pacino. Alfredo James Pacino eða Al Pacino (f. 1940) er bandarískur leikari. Pacino, Al Neville Chamberlain. Arthur Neville Chamberlain (18. mars 1869 – 9. nóvember 1940) var breskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Bretlands frá maí 1937 til maí 1940. Chamberlain, Neville Pelé. Edison Arantes do Nascimento eða Pelé (f. 1940) er brasilískur knattspyrnumaður. Downingstræti 10. Downingstræti 10 (enska: 10 Downing Street eða í stuttu máli Number 10) er hús í Mið-London sem er höfuðstöðvar ríkisstjórnar Bretlands og opinbert heimili forsætisráðherrans. Húsið stendur við Downingstræti í Westminsterborg og er eitt þekktasta heimili Bretlands og heimsins. Húsið er næstum 300 ára gamalt og í því eru rúmlega eitt hundrað herbergi. Á þriðju hæð er einkaheimili og eldhús í kjallaranum. Á hinum hæðum eru skrifstofur, fundarsalir, setustofur og borðstofur þar sem forsætisráðherran vinnur og tekur gestum og öðrum ráðherrum á móti. Húsagarður liggur á miðri byggingunni og á bak við hana er verönd og garður sem er 2.000 m² að flatarmáli. Húsið var upprunalega þrjú stök hús. Árið 1732 gaf Georg 2. konungur fyrsta ráðherra Bretlands Robert Walpole húsin að gjöf. Walpole samþykkti gjöfina í þeim skilningi að húsin yrðu í eigu embættis forsætisráðherrans og ekki hans. Walpole lét William Kent arkitekt tengja húsin þrjú saman. Það er þetta hús sem er þekkt í dag sem "Downingstræti 10". Þó að húsið væri stórt og nálægt þinghúsinu bjuggu fáir forsætisráðherrar þar í fyrstu. Það kostaði mikið að halda húsinu við og svo varð það niðurnítt. Stakk var nokkrum sinnum upp á að húsið skyldi vera rifið niður. Þrátt fyrir þetta stóðst húsið og varð mjög frægt. Margir mikilvægir atburðir í sögu Bretlands hafa átt sér stað í húsinu. Árið 1985 sagði Margrét Thatcher að húsið væri orðið „einn dýrmætasti gimsteinninn í þjóðararfinum.“ Josh Stewart. Josh Stewart (fæddur Joshua Regnall Stewart, 6. febrúar 1977) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Criminal Minds, Third Watch og Dirt. Einkalíf. Stewart fæddist í Diana, Vestur-Virginíu. Stewart stundaði nám við "West Virginia Wesleyan College" í eitt ár áður en hann flutti sig yfir til "West Virginia" háskólann, en þaðan útskrifaðist hann með gráðu í markaðsfræði. Stewart lærði leiklist við "T. Schreiber Studio" í New York-borg, ásamt því að vera meðlimur að "13th Street Repertory Theatre". Hélt hann áfram að koma fram í leikhúsum í Los Angeles, þar sem hann lék á móti Robert Forster og Brooke Shields í "Beacon". Stewart er giftur Deanna Brigidi og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta hlutverk Stewart var sem aukaleikari í þættinum "To Green, With Love" í Dawson's Creek. Árið 2004 þá fékk hann hlutverk sem lögreglumaðurinn Brendan Finney í Third Watch sem hann lék til ársins 2005. Frá 2007-2008 þá lék hann á móti Courteney Cox Arquette í Dirt. Kom Stewart síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við ER, The Mentalist og Ghost Whisperer. Hefur síðan 2007 verið með stórt gestahlutverk í Criminal Minds sem William LaMontagne Jr., sem barnsfaðir og kærasti Jennifer Jareau. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Stewart var árið 2006 í "Lenexa, 1 Mile". Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Jekyll", The Curious Case of Benjamin Button, Law Abiding Citizen og "Rehab". Tenglar. Stewart, Josh Glóbrystingur. Glóbrystingur ("Erithacus rubecula") er fugl í grípaættinni. Ron Jeremy. Ronald Jeremy Hyatt (fæddur 12. mars 1953) er bandarískur klámmyndaleikari. Heveningham. Heveningham er þorp í Suffolk, Bretlandi. Þar búa 120 manns (2005). Hoeksteen (Barneveld). Hoeksteen er kirkja í Barneveld í Hollandi. Í henni er pípuorgel og kirkjubekkirnir rúma 2500 manns í sæti. Borgarastríðið í Rúanda. Borgarastríðið í Rúanda hófst árið 1990 og það stóð alveg til 1993. Við dauða Juvénal Habyarimana byrjaði þjóðarmorð í landinu. Golfklúbbur Norðfjarðar. Það var hinn 1.maí 1965 að Gissur Ó. Elingsson þá póst-og símstjóri í Neskaupstað, kallaði saman tíu menn í þeim tilgangi að hefja undirbúning að stofnun golfklúbbs í bænum. En Gissur hafði kynnst golfíþróttinni í Vestmannaeyjum og var að því best er vitað einn af stofnendum Golfklúbbs Vestmannaeyja.Til fundarins voru komnir Gissur Ó Erlingsson, Sigfús Guðmundsson, Kristján Lundberg, Stefán Þorleifsson, Jón L Baldursson, Stefán Pálmason, Björn Björsson, Steinar Björnsson og Kristinn Jóhannsson. Á fundinum var kosin þriggja manna undirbúningsnefnd undir forystu Gissurar, í nefndinn voru einnig Sigfús Guðmundsson og Kristinn Jóhannsson. Hlutverk nefndarinnar var að undirbúa stofnun golfklúbbs í Norðfirði, sem fyrst. Að loknum fundi fór hópurinn í skoðunarferð um Norðfjarðarsveit, í leit að vallarsvæði. Golfklúbbur Norðfjarðar var svo stofnaður viku síðar eða hinn 8.maí 1965. Stofnfélagar voru fimmtán og var Gissur Ó. Erlingsson kjörin fyrsti formaður klúbbsins. Klúbburinn var í upphafi nefndur Golfklúbbur Neskaupstaðar, skammstafað GN. Nafni klúbbsins var breytt í Golfklúbb Norðfjarðar á aðalfundi árið 1980. Lög klúbbsins voru smíðuð upp úr reglum Golfklúbbs Reykjavíkur sem var þá stærsti golfklúbbur landsins. Haustið 1965 gengur klúbburinn í ÚÍA og í framhaldi af því telst klúbburinn vera fullgildur aðili að Golfsambandi Íslands og ÍSÍ. Strax á fyrstu dögum klúbbsins tókst að fá land undir golfvöll, að vísu var það einungis á leigu og það bara frá ári til árs. Golfklúbburinn samdi fljótlega til langs tíma við bændur á Skorrastað um leiguna og bæjarfélagið hefur eignast landið að hluta, þannig að framtíð klúbbsins á Grænanesbökkum er tryggð. Vallarsvæðið var á Grænanesbökkum gengt Grænanesi og var völlurinn í fyrstu nefndur Grænanesbakkavöllur, síðar var farið að kalla völlinn Grænanesvöll, enda var það orðin almenn málvenja hjá klúbbfélögum. Húsnæðismál eru eilífðarmál í golfklúbbum, það þarf því ekki að undra að á fyrstu árum klúbbsins er farið að huga að þeim málum. Umræðan er þegar farin í gang í nóvember 1965. Stjórnin hefur þá þegar falast eftir geymsluskúr frá olíufélaginu BP. Það er síðan 1967 að hafist er handa við að koma upp litlu skýli sem flutt var utan úr bæ. Sennilega er það þessi geymsluskúr frá olíufélaginu. Plata var steypt undir hann þá um sumarið. Geymsluskúrinn var staðsettur við núverandi fyrsta teig, hann stóð í nokkur ár en fauk í óveðri einn veturinn. Þegar klúbburinn var endurreistur 1980 var húsið horfið, þá var notast við sendiferðabíl þegar mótahald var. Það er síðan í júní 1985 sem Stefán Þorleifsson og Viðar Hannes Sveinsson fara á Reyðarfjörð og skoða vegavinnuskúr sem er til sölu. Stjórnin samþykkir í framhaldinu að bjóða í húsið. Vegagerðin tók ekki tilboði klúbbsins, en í annarri tilraun fékk klúbburinn húsið og var það sett niður á bakkann gengt Grænanesbænum, þar var stutt í rafmagn. Vegavinnuskúrinn þjónað klúbbnum síðan til vors 1991, þegar nýr kafli í húsnæðissögunni hófst. Það er síðan í febrúar 1990 sem Stefán Þorleifsson segir frá samtali sínu við fulltrúa flugmálastjórnar, þar kom fram að klúbburinn geti fengið gamla flugskýlið ókeypis ef klúbburinn fjarlægi það. Flugskýli var reist rétt eftir 1960 og var teiknað og byggt af Sigurði Guðjónssyni byggingarmeistara. Það er í ágúst byrjun 1990 sem klúbburinn fær endanlegt vilyrði fyrir húsinu.Veturinn 1990 - 1991 er húsið síðan flutt á golfvöllinn og staðsett austast á vellinum við gamla vaðið að Grænanesi. Húsið er síðan lagfært og málað, pallur smíðaður norðan og vestan við húsið. Golfskálinn er síðan vígður formlega 9. júní 1991. Þessi golfskáli bætti aðstöðu klúbbsins verulega, hleypti nýju lífi í félagsstarfið og gerði alvöru mótahald mögulegt. Eftir að fyrri golfskálinn hafði verið notaður 4 - 5 ár fóru félagsmenn að velta fyrir sér að færa golfskálann í norðvestur hornið á vellinum. Umferð var mikil í gegnum völlinn með tilheyrandi ryki, skálinn var þegar orðinn of lítill, stækkunarmöguleikar við hann þröngir og Hannes Þorsteinsson golfvallahönnuður hafði verið beðinn um að skipuleggja völlinn þannig að skálinn og æfingasvæði væru í norðvestur horninu. Til að byrja með var kannað hvort fýsilegt væri að flytja golfskála og stækka. Húsnæðismálin eru oft rædd, en á fundi í október 1997 tekur stjórnin ákvörðun um að biðja Ingþór Sveinsson húsasmið um að meta, hvort betra sé að byggja nýjan skála, eða flytja þann gamla og stækka.Stjórn klúbbsins ræðir í framhaldinu um niðurstöður Ingþórs. Það er síðan á stjórnarfundi 15.apríl 1998 sem stjórnin ákveður að stefnt skuli að því að byggja nýjan 108 fermetra golfskála. Stjórnarfundurinn var haldinn í nýja flugskýlinu á Norðfjarðarflugvelli. Ingþór Sveinsson var þar mættur til að gefa góð ráð. Ingþóri var falið að teikna húsið og ræða við fulltrúa frá Límtré h.f. Ingþóri er síðan falið að gera grunn skálans og reisa hann hugsanlega í framhaldinu. Skálabyggingin er síðan kynnt á almennum fundi 8.maí 1998. Þar var endanlega ákveðið að byggja nýjan skála og hefja verkið sem fyrst. Húsið yrði byggt samkvæmt tilllögum Ingþórs Sveinssonar sem sæi um að reísa skálann. Jón Grétar Guðgeirsson sæi um að grafa grunninn og Stefán Þorleifsson yrði allherjarreddari. Um mitt sumar 1998, nánar til tekið í lok júlí skilar Ingþór Sveinsson húsinu fokheldu og flytur af landi brott. Árni Guðjónsson tekur nú við verkinu, enda mikil vinna eftir við innréttingar, einangrun og frágang. Árni stjórnaði síðan verkinu þar til verkinu lauk í byrjun maí 1999. Eiríkur Þór Magnússon hafði umsjón með rafmagni.Hjörvar Jensson var kjörinn formaður klúbbsins á aðalfundi 1999 og tekur hann að sér að klára húsbygginguna. Það er síðan 24.maí sem formleg víxla hússins fer fram að viðstöddu fjölmenni. Nýi golfskálinn bætti aðstöðu félagsmanna til mikilla muna. Húsið var með góðum sal með sjónvarpi, snyrtingum, eldhúsi, skrifstofuðastöðu með góðri tölvu aðstöðu og geymslum fyrir kerrur og golfpoka félagsmanna. Húsið hefur reynst einstaklega vel og um vorið 2009 var reistur vandaður sólpallur við húsið undir styrkri stjórn Árna Guðjónssonar. Fyrstu teikningu að níu holu velli gerði Þorvaldur Ásgeirsson þá golfkennari, en fyrst var notast við sex holur, þar sem gerð stærri valar krafðist mikilla framkvæmda. Vellinum var oft breytt á árunum 1983 - 1993 og hann spilaðar á ýmsa vegu. Brautir voru lengdar, flatir færðar og brautum snúið við. Tvær brautir eru því sem næst eins og í upphafi, fyrsta brautin sem var upphaflega fyrsta brautin og sjöunda brautin. Þessar framkvæmdir voru hannaðar af starfsmönnum og öðrum félagsmönnum. Það var síðan í maí 1992 sem Hannes Þorsteinsson golfvallarhönnuður kom til Norðfjarðar og tók að sér að skipuleggja völlinn upp á nýtt.Grænanesvöllur er nú 9 holu golfvöllur eftir teikningu Hannesar Þorsteinssonar golfvallahönnuðar og þykir skemmtilegur og hefur verið í mjög góðri hirðu. Mjög rólegt var yfir klúbbstarfinu eftir brottflutning Gissurar árið 1970, og var það mjög lítið fram undir 1980, þegar Stefán Þorleifsson var kosinn formaður klúbbsins. Öll árin var þó spilað golf en umhirða vallarins var mjög lítil. Það var svo á 9. áratugnum undir forystu Stefáns Þorleifssonar og margra ungra manna sem hafist var handa um þá uppbyggingu sem enn stendur. Mikið þrekvirki var unnið á árunum 1982 - 1993, starfsmenn og félagsmenn náðu að koma upp vel hirtum 9 holu velli. Stórir áfangar voru kláraðir á árunum 1998 og 1999, þegar tvær nýjar brautir voru teknar í notkun ásamt nýjum og glæsilegum golfskála. Fyrsti launaði starfsmaður klúbbsins var Friðrik Jón Sigurðsson. Hann var ráðinn til að sinna framkvæmdum sumurin 1967 og 1968. Hann vann hluta af sumri við fyrstu umhirðu og framkvæmdir. Ólafur Sveinbjörnsson var síðan ráðinn sumarið 1982. Viðar Hannes Sveinsson starfaði hjá klúbbnum sumrin 1983 - 1993 og Helgi Hansson ásamt Viðari 1990 og 1991. Á þessum árum varð völlurinn að alvöru níu holu velli, þrátt fyrir fátæklegan tækjakost. En árið 1994 tók Jón Grétar Guðgeirsson við af Viðari og var starfsmaður og vallarstjóri á Grænanesvelli til ársins 2005 að Arnaldur Freyr Birgisson var ráðinn til starfa sem vallarstjóri og starfsmaður klúbbsins það sumar. Ásamt og með Jóni Grétari og Arnaldi hafa Guðgeir Jónsson, Daníel Geir Hjörvarsson og Björgúlfur Bóasson starfað hjá klúbbnum, Guðgeir í nokkur sumur en þeir hinir sitt sumarið hvor. Þá hefur Guðni Þór Steindórsson verið í vallarnefnd með Jóni Grétari og leyst hann af þegar þörf hefur veri á því. Eins og fram kom áður varð Stefán Þorleifsson formaður klúbbsins 1980 og gegndi starfinu út starfsárið 1998. En á aðalfundi haustið 1998 tók Hjörvar O. Jensson við stjórnartaumunum af Stefáni og gegndi starfinu til aðalfundar 2007 en þá tók Viðar Hannes Sveinsson við og starfaði sem formaður í eitt ár. Óskar Sverrisson tók við af Viðari og starfaði sem formaður í tvö ár eða til aðalfundar í febrúar 2010, en þá tók Gunnar Ásgeir Karlsson við stjórnartaumunum. Auk stjórnar er stór hópur fólks sem kemur með einum eða öðrum hætti að stjórn og rekstri klúbbsins og eru starfsnefndir mjög vel virkar og skila góðu verki. Jane Lynch. Jane Marie Lynch (fædd 14. júlí 1960) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Glee, Two and a Half Men, Criminal Minds og The L Word. Einkalíf. Lynch er fædd og uppalin í Dolton í Illinois og er af írskum og sænskum uppruna. Lynch útskrifaðist með B.A. gráðu í leiklist frá "Ríkisháskólanum í Illinois" og síðan frá Cornell-háskóla með MFA gráðu í leiklist. Lynch skrifaði ævisögu sína "Happy Accidents" sem var gefin út haustið 2011 af "Hyperion Voice". Hefur verið kynnir á "Do Something" verðlaunahátíðinni sem er stærsta verðlaunahátíðin í Bandaríkjunum sem heiðrar fólk sem hafa látið gott að sér leiða fyrir samfélagið.. Lynch er samkynhneigð og giftist Lara Embry árið 2010. Leikhús. Lynch byrjaði leiklistarferill sinn hjá "Steppenwolf Theatre Company" og grínfarandleikhópnum "The Second City" og var aðeins ein af tveim konum sem komust inn í hópinn. Lynch hélt áfram að þróa grínhæfileika sína við Annoyance Theater, þar sem hún lék Carol Brady í "The Real Live Brady Bunch". Lynch skrifaði og lék í verðlaunaleikritinu "Oh Sister, My Sister". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Lynch var árið 1992 í sjónvarpsmyndinni "In the Best Interest of the Children". Lynch hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Party of Five, "NewsRadio", 3rd Rock from the Sun, Frasier, JAG, Gilmore Girls, The West Wing, Boston Public, Friends, Monk, Weeds og Desperate Housewives. Lynch var með stór gestahlutverk í The L Word, Criminal Minds og Two and a Half Men. Hefur síðan 2009 leikið eitt af aðalhlutverkunum í söngþættinum Glee sem Sue Sylvester. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Lynch var árið 1988 í Taxi Killer og hefur síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Straight Talk", The Fugitive, "Best in Show", Collateral Damage, "Sleepover", The 40 Year Old Virgin, Alvin and the Chipmunks, "Tru Love" og Shrek Forever After. Tenglar. Lynch, Jane Eðjustraumar. Eðjustraumar eru tegund af gjósku sem myndast í súru gosi, þegar vatssgufan í gosmökk þéttist snögglega og veldur regni blönduðu ösku. Úrkoman getur valdið eðjustraumamyndun í hlíðum eldfjalla. Það getur einnig gerst við blöndun vatns og gjósku við gos undir jökli. Peter Molyneux. Peter Molyneux er breskur tölvuleikjahönnuður. Molyneux var annar stofnanda tölvuleikjafyrirtækisins Bullfrog Productions þegar það var stofnað árið 1987 en hjá Bullfrog vann hann að leikjum eins og "Populous", "Syndicate", "Theme Park" og "Dungeon Keeper". Molyneux hætti síðan störfum hjá Bullfrog árið 1997 til þess að stofna annað fyrirtæki, Lionhead Studios en á meðal þeirra leikja sem hann hefur unnið að þar eru "Black & White" og Fable-leikirnir. Aphrodite. "Aphrodite" er ellefta breiðskífa áströlsku söngkonunnar Kylie Minogue. Hún var gefin út um allan heim í júlí 2010 og var á undan frysta lagið „All the Lovers“. Breiðskífan hefur fengið mestu jákvæða dóma frá gagnrýnendum tónlist á gefa út. Breiðskífan náði fyrsta sæti í Bretlandi, eins og fyrstu breiðskífu hennar "Kylie". Hún var fimmta breiðskífa hana til að ná fyrsta sæti í Bretlandi, og náði einnig Top 10 í yfir fimmtán Evrópulöndum. Hún varð annað hæsta breiðskífa hana á breiðskífalisti í Bandaríkjunum og náði nítján á Billboard 200. Breiðskífan náði öðru sæti í Ástralíu, þriðja sæti í Þýskalandi og Frakklandi, og ellefta sæti á Nýja-Sjálandi á fyrstu viku. Preston North End F.C.. Preston North End F.C. eða Preston er lið sem vann sinn fyrsta sigur 1921. Publius Quinctilius Varus. Publius Quinctilius Varus (46 f.Kr. – 9) var rómverskur herforingi, sem þekktur er fyrir að hafa tapaði þremur herdeildum í átökum við Barbara í Germaníu. Í kjölfarið svipti hann sig lífi. Strabon. Strabon ("Στράβων"; 63 f.Kr. – 24) var forngrískur landfræðingur. Heródes Antípas. Heródes Antípas (20 f.Kr. – 39) var fjórðungshöfðingi Galíleu og Pereu. Kai Lun. Kai Lun ("蔡倫"; 50 – 121) var Kínverji sem fann upp pappír. Anne Francis. Anne Lloyd Francis (1930 – 2011) var bandarísk leikkona. Francis, Anne Gerry Rafferty. Gerald Rafferty (1947 – 2011) var skoskur tónlistarmaður. Kristsfræði. Kristsfræði eru þau fræði nefnd sem tekur til kenninga eða kennisetninga sem fjalla um persónu Krists, einkum og sér í lagi samruna mannlegs og guðlegs eðlis hans. Sjötíumannaþýðingin. Sjötíumannaþýðingin (Septuaginta) er grísk þýðing Hebresku biblíunnar, gerði í Alexandríu í Egyptalandi á 2. öld f.Kr. Hún inniheldur einnig rit sem ekki teljast til helgirita í gyðingdómi sem og rit sem innan kristindóms teljast apókrýf og önnur sem ekki teljast til reglurita þótt þau hafi helgigildi. Sjötíumannaþýðingin er Gamla testamenti grísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Meta Golding. Meta Golding er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Dark Blue, Day Break og Criminal Minds. Einkalíf. Golding er af haítískum uppruna og ólst upp í Bandaríkjunum, Indlandi, Frakklandi, Ítalíu og Haítí. Golding útskrifaðist frá Cornell-háskóla með gráðu í leikhúsfræðum og alþjóðlegumsamskiptum. Golding talar ensku, frönsku og ítölsku. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Golding var árið 1995 í "Loving". Síðan þá hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Malcolm & Eddie", Ally McBeal, Crossing Jordan, Cold Case og JAG. Árið 2006 þá var henni boðið hlutverk í Day Break sem Jennifer Mathis, sem hún lék til ársins 2007. Frá 2008-2009, þá var Golding sérstakur gestaleikari í Criminal Minds sem Jordan Todd. Golding lék í Dark Blue frá 2009-2010, sem Melissa Curtis. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Golding var árið 1995 í "Converstations". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við Kiss the Girls, On Edge, Surrogates og The Carrier. Tenglar. Golding, Meta Nicholas Brendon. Nicholas Brendon (fæddur Nicholas Brendon Schultz, 12. apríl 1971) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Vampírubananum Buffy, Kitchen Confidential og Criminal Minds. Einkalíf. Brendon er fæddur og uppalinn í Los Angeles í Kaliforníu. Brendon spilaði hafnarbolta og ætlaði sér að verða atvinnumaður fyrir L.A. Dodgers en þurfti að hætta við þegar hann meiddist á handlegg. Brendon tók upp leiklistina um tvítugt til þess að komast yfir stamið sem hann var með. Brendon hætti sem leikari eftir aðeins tvö ár "því hann þoldi ekki pólitíkina í Hollywood". Ákvað Brendon að fara í nám og læra læknisfræði, sem gekk ekki upp, prófaði hann síðan hin ýmsu störf á borð við aðstoðarmaður pípara, leikskólakennari, þjónn og sem aðstoðarmaður framleiðslustjóra við "Dave's World" sjónvarpsþáttinn. Brendon hefur unnið mikið fyrir "Stuttering Foundation of America" samtökin og var fyrsta perónan til þess að vera heiðursmaður við "Stuttering Foundation of America's Stuttering Awareness vikuna" þrjú ár í röð, frá 2000-2003. Brendon á eineggjatvíbura bróður, Kelly Donovan sem einnig er leikari. Brendon giftist leikkonunni Tressa DiFiglia árið 2001 en þau skildu síðan árið 2006. Ferill. Fyrsta hlutverk Brendons var árið 1993 í "Married with Children". Árið 1996 þá var Brendon boðið hlutverk í Vampírubaninn Buffy sem Xander Harris, sem hann lék til ársins 2003. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Without a Trace, Private Practice og Criminal Minds. Brendon hefur komið fram í kvikmyndum á borð við Demon Island, Blood on the Highway og The Portal. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films Tenglar. Brendon, Nicholas Tschanigraben. Tschanigraben er þorp í Burgenland, Austurríki. Þar búa 68 manns (2011). Meredith Monroe. Meredith Monroe (fædd Meredith Leigh Monroe, 30. desember 1968) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í "Dawson's Creek" og "Criminal Minds". Einkalíf. Monroe fæddist í Houston, Texas en aldist upp í Hinsdale, Illinois. Monroe kom fram í auglýsingum áður en hún tók upp leiklistina. Monroe stundaði nám við "Millikin háskólann". Monroe giftist Steven Kavovit árið 1999. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Monroe var árið 1997 í "Dangerous Minds". Síðan þá hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Sunset Beach, Cracker, Joan of Arcadia, House, Cold Case, Bones, Shark og Private Practice. Árið 1998 þá var Monroe boðið eitt af aðalhlutverkunum í unglingadramanu Dawson´s Creek sem Andie McPhee, sem hún lék til ársins 2003. Monroe hafði stórt gestahlutverk í Criminal Minds sem Haley Hotchner en persóna hennar var drepin í 100 þætti seríunnar. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Monroe var árið 1997 í "Norille and Trudy". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við Minority Report, "Manhood", "Wake" og "The Lift". Tenglar. Monroe, Meredith Criminal Minds (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 22. september 2005 og sýndir voru 22 þættir. Markov ákvarðanaferli. Markov ákvarðanaferli er stærðfræðilegt líkan nefnt eftir Andrey Markov sem líkir eftir ákvarðanatöku þegar útkomur aðgerða eru að hluta til slembnar. Þriggja hringja sleppikerfi. Þriggja hringja sleppikerfi er íhlutur fyrir fallhlíf sem gerir fallhlífastökkvara kleift að losa aðalfallhlíf frá. Cantino-himinfletjan. Cantino-himinfletjan er landakort. Kortið heitir í höfuðið á Alberto Cantino sem smyglaði kortinu frá Portúgal til Ítalíu árið 1502. Bernd Eichinger. Bernd Eichinger (1949 – 2011) var þýskur leikstjóri. Wangari Maathai. Wangari Muta Mary Jo Maathai (1940 – 2011) var kenískur líffræðingur og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Maathai, Wangari Patrick Swayze. Patrick Wayne Swayze (18. ágúst 1952 – 14. september 2009) var bandarískur leikari, dansari, laga- og textahöfundur. Hann var þekktastur fyrir hlutverk sín sem „kaldi gæinn“ í kvikmyndunum "Dirty dancing" og "Ghost". Ferill hans í kvikmyndum og sjónvarpi spannaði 30 ára tímabil og árið 1991 tilnefndi People magazine hann „kynþokkafyllsta karlmanninn“. Í janúar 2008 greindist hann með langt gengið krabbamein í briskirtli. Heilsu hans hrakaði í sífellu eftir það og sjúkdómurinn leiddi hann til dauða þann 14. september 2009. Síðasta hlutverk hans var í sjónvarpsþáttaröð sem hét The Beast sem var frumsýnd í janúar 2009. Hann gat ekki tekið þátt í auglýsingaherferð fyrir þættina vegna heilsuleysis og var sýningu þáttanna hætt í júní 2009. Swayze, Patrick Christian Slater. Christian Michael Leonard Slater (f. 1969) er bandarískur leikari. Slater, Christian Tom Cruise. Thomas Cruise Mapother IV (fæddur 3. júlí 1962) er bandarískur leikari. Hann hefur verið tilnefndur til þrennra Óskarsverðlauna og hefur unnið þrenn Golden Globe-verðlaun. Fyrsta kvikmynd sem Cruise lék í var "The Outsiders" (1983) eftir Francis Ford Coppola leikstjóra en fyrsta kvikmynd þar sem hann lék aðalhlutverk var "Risky Business", sem kom út ágúst sama árið. Hann lék hetjulegan sjóliðsflugmann í "Top Gun" (1986), sem var vinsæl og fjárhagslega farsæl mynd. Hann lék slíkt hlutverk í '-myndunum sem komu út á tíunda áratugnum og fyrsta áratug 21. aldarinnar. Auk þessara mynda hefur hann leikið í öðrum farsælum kvikmyndum eins og "Rain Man" (1986), "Days of Thunder" (1990), "A Few Good Men" (1992), "Jerry Maguire" (1996), "Magnolia" (1999), "Vanilla Sky" (2001), "Minority Report" (2002), "The Last Samurai" (2003), "Collateral" (2004) and "War of the Worlds" (2005) ' (2012). Cruise er giftur Katie Holmes leikkonu síðan 2006 en áður var giftur Nicole Kidman frá 1990 til 2001. Fyrir það var hann giftur Mimi Rogers leikkonu. Cruise er meðlimur í Vísindakirkjunni. Tom Cruise kom til Íslands í júní 2012 og hafði aðsetur að Hrafnabjörgum í Eyjafjarðarsveit. Hann ferðaðist milli tökustaðar og Eyjafjarðar í þyrlu. Hann hélt vöku fyrir íbúum Reykjadals allan tíman. Hann flaug yfir á þyrlu sinni oft klukkan 00:00 um nóttina. Meðan á dvöl hans á Íslandi stóð kom Katie Holmes í heimsókn og var ein síðasta myndin af þeim tveimur saman tekin á Laugarveginum, því fyrir enda mánaðarins voru þau skilin. Til hafði staðið að hann héldi upp á 50 ára afmælið sitt á Íslandi en þess í stað fór hann af landi brott með syni sínum. Cruise, Tom Katie Holmes. Katie Holmes (f. 18. desember 1978) er bandarísk leikkona. Holmes, Katie Edward Norton. Edward Harrison Norton (fæddur 18. ágúst 1969) er frægur bandarískur leikari sem hefur leikið í mörgum bíómyndum. Hann Edward Norton ólst upp í Kólumbíu með faðir sínum Edward Mower Norton og móður sinni Lydia Robinson. Edward Norton hóf leik feril sinn árið 1996 þegar hann lék í myndinni Primal Fear, þar sem hann fékk sína fyrstu Óskars-tilnefningu og var það eina Óskars-tilnefningin sem myndin Primal Fear fékk. Edward Norton er samt þektastur í myndunum American History X sem kom út árið 1998 og Fight Club sem kom út árið 1999. Önnur Óskars-tilnefningin sem hann fékk var fyrir leik sinn í myndinni American History X og var það sú mynd sem koma honum verulega á kortið. Eftir myndina Fight Club hefur hann ekki leikið í brjálaðslega góðum myndum en hann á sínar ágætis mynda safn. Myndirnar sem hann hefur leikið í sem eru taldar vera ágætis myndir eru: Red Dragon (2002), 25th Hour (2002), The Italian Job (2003), Kingdom of Heaven (2005), The Illusionist (2006) og The Painted Veil (2006). Norton, Edward Brad Pitt. William Bradley Pitt (f. 18. desember 1963) er bandarískur leikari. Pitt, Brad Sigurður Pálsson (skáld). Sigurður Pálsson (fæddur 1948) er íslenskt ljóðskáld, sem einnig hefur skrifað skáldsögur og leikrit. Sigurður gaf m.a. út 4 ljóðabókasyrpur á árunum 1980 – 2003. Sumarlandið. Sumarlandið er íslensk kvikmynd frá árinu 2010. Vísindakirkjan. Tákn Vísindakirkjunnar er kross með átta stöfum Vísindakirkjan (enska: "Scientology") er trúarhreyfing sem stofnuð var af L. Ron Hubbard vísindaskáldsagnahöfundi. Vísindakirkjan kom í kjölfar Dianetics sjálfbetrunartæknarinnar sem Hubbard hafði áður skrifað bók um. Kenningar Vísindakirkjunnar hafa lengi verið umdeildanleg „trúarbrögð“. Hubbard stofnaði Vísindakirkjuna í Camden í New Jersey árið 1953. Vísindakirkjan kennir að menn séu ódauðlegar verur sem hafa gleymt eðli sínu. Markmið trúarinnar er að losa mann við slæmar minningar og atburði þannig að maður geti starfað eftir fullri getu. Þessi aðferð heitir "auditing" má þýða sem „endurskoðun líkamans“. Átrúendur geta keypt lesefni og fara á endurskoðunarnámskeið til að framkvæma þessa aðferð. Kenningar Vísindakirkjunnar eru viðurkennd trúarbrögð í Bandaríkjunum og sumum öðrum löndum. En víða, til dæmis í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, eru þær ekki viðurkennd trúarbrögð. Dæmi um deilumál í kringum trúna er félagakostnaðurinn. Átrúendur verða að borga fyrir allt lesefni og öll námskeið, auk 200 bandaríkjadala árgjalds. Í hvert sinn sem látið er endurskoða mann þarf að borga 10.000 dali. Annað umdeilt mál er að sumir átrúendur trúa að geðlækningar séu vondar og það verði að leggja þær af. Bescheid. Bescheid er þorp í Rínarland-Pfalz, Þýskalandi. Þar búa 411 manns (2006). Rauðhetta. Rauðhetta (þýska: "Rotkäppchen", franska: "Le Petit Chaperon rouge") er ævintýri sem fyrst kom út á prenti í þjóðsagnasafninu "Contes de ma mère l'Oye" eftir Charles Perrault árið 1697. Grigno. Grigno er borg í Trentínó-Suður-Týról, Ítalíu. Þar búa 2.303 manns (2006). Púsluspil. Púsluspil (eða púsl, stundum raðspil eða raðþraut) er spil þar sem smáir bitar eru settir saman, hver með hluta af stærri mynd. Bitarnir læsast saman með flipum og þegar allir þeirra hafa verið settir saman myndast fullkomin mynd. Spilið á rætur að rekja til Englands, þar sem það var notað sem kennsutæki í ýmsum fögum á 19. öld. Púsluspil urðu mjög vinsæl á 20. öld, sértaklega um tíma kreppunar á fjórða áratugnum. Orðið "púsluspil" hefur danskan uppruna og er smiðað eftir orðinu "puslespil". Þetta orð er dregið af orðtakinu "at pusle med noget", sem þýðir „að dunda sér“. Dómínóspil. Dómínóspil er spil leikið með kubbum með fjölda punkta á báðum endum. Flestir dómínókubbar eru ekki með fleiri en sex punktum á öðrum enda, en þeir geta stundum verið með fleiri. Dómínókubbar geta verið notaðir í mörgum ólíkum spilum, en tilgangur í dómínóspilinu sjálfu er að setja saman kubba með sama fjölda punkta á annaðhvort öðrum endanum eða hinum. Sá sem nota alla kubbana sína fyrst vinnur. Kubbar. Dómínokubbar eru ílangir og tvisvar sinnum lengri en þeir eru breiðir. Á miðjum hverjum kubbi er lína sem skiptir honum í tvennt og virði hvers enda fer eftir fjölda punkta. Dómínókubbar fást í settum. Kubbarnir eru nefndir eftir virði punktanna á þeim, t.d. gæti 2-5 eða 5-2 á við um kubb sem er með fjölda tveggja punkta á öðrum enda og fimm punkta á hinum. Kubbar sem eru með sama fjölda punkta á báðum endum heita „tvöfaldir“ kubbar. Hver kubbur tilheyrir röð, t.d. 0–3 kubbur tilheyrir bæði 0-röðinni og 3-röðinni. Undantekning frá þessu er tvöfaldir kubbar, sem tilheyra sérhópi. Reglur. Þarf að minnsta kosti tvær manneskjur í dómínóspili. Body Language. "Body Language" er níunda breiðskífa áströlsku söngkonunnar Kylie Minogue. Hún kom út 20. nóvember 2003 og var tekin upp sumarið 2003 í Bretlandi, Írlandi og á Spáni. Kylie Minogue vann á breiðskífunni með fyrri samstarfsaðilum, þeim Richard Stannard, Julian Gallagher, Cathy Dennis, Johnny Douglas, Karen Poole, Emilíönu Torrini og Dan Carey. Henni var fylgt eftir með tónleikum 15. nóvember 2003 í London. Minogue flutti á tónleikunum sjö ný lög, ásamt nokkrum eldri lögum hennar. Tónleikarnir voru gefnir út á DVD í júlí 2004. Breiðskífan náði 42. sæti á Billboard 200 vinsældarlistanum og hefur selst í 177,000 eintökum til þessa. Bragi Kristjónsson. Bragi Kristjónsson (f. 17. júlí 1938) er eigandi fornbókaverslunarinnar "Bókarinnar" á horni Hverfisgötu og Klapparstígs í miðbæ Reykjavíkur. Bragi hefur birst reglulega í bókmenntaþættinum "Kiljunni" og lagt til fróðleiksmola um eitt og annað því sem lýtur að bókmenntum Íslendinga. Árið 2011 sendi Bragi frá sér bókina "Sómamenn og fleira fólk" sem inniheldur mannlýsingar og minningabrot. Bókinni fylgir DVD diskur. Foreldrar Braga voru Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir, húsmóðir og gjaldkeri, (18.september 1910-16.nóvember 2001) á Sauðárkróki, og Kristjón Kristjónsson forstjóri, (8.október 1908-6.janúar 1984). Meg Ryan. Margaret Mary Emily Anne Hyra (f. 1961) er bandarísk leikkona. Ryan, Meg Gianni Versace. Gianni Versace (1946 – 1998) var ítalskur tískuhönnuður. Dennis Hopper. Dennis Hopper (1936 – 2010) var bandarískur leikari. Hann varð frægur fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni "Apocalypse Now" árið 1979. Hopper, Dennis Baku Crystal Hall. Baku Crystal Hall er leikvangur í Bakú (Aserbaídsjan). Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Efnahags- og viðskiptanefnd er ein af átta fastanefndum Alþingis. Nefndin fjallar almennt um efnahagsmál eins og þau mál er varða viðskipti, skatta og tolla. Infocom. Infocom var bandarískt tölvuleikjafyrirtæki sem var einkum þekkt fyrir textaleiki (gagnvirk ævintýri) á borð við Zork, Leather Goddesses of Phobos og Hitchhiker's Guide to the Galaxy. Fyrirtækið var stofnað árið 1979 í Cambridge, Massachusetts af nokkrum starfsmönnum og nemendum við MIT. 1986 keypti Activision Infocom og lagði það niður sem sérstaka deild árið 1989. Id Software. id Software er bandarískur tölvuleikjaframleiðandi sem er þekktastur fyrir fyrstu persónu skotleiki á borð við Wolfenstein, Doom og Quake. Fyrirtækið var stofnað árið 1991 af fjórum starfsmönnum tölvufyrirtækisins Softdisk. Það er nú með höfuðstöðvar í Richardson, Texas. Sjósvala. Sjósvala (fræðiheiti: "Oceanodroma leucorhoa") er sjófugl sem tilheyrir ættbálki pípunefja. Hún er dökk með hvítan bakhluta og klofið stél. Nefið er stutt og svart. Sjósvalan er um 22 cm löng og vegur á milli 40-50 g. Vænghaf hennar er 48 cm. Sjósvalan nærist á dýrasvifi, smákrabbadýrum og seiðum. Sjósvalan er alger sjófugl og kemur bara á land til þess að verpa en hún verpir í háum björgum eða klettum. Sjósvalan er náttfugl og sést sjaldan á sjó og hún sést aldrei nema augnablik í senn. Á varptíma er sjósvalan mjög félagslynd, hún verpir í mjög þéttum byggðum oft innan um aðra fugla. Hjúskapur sjósvölunnar er ævilangt einkvæni, makar endurnýja hjúskapinn árlega og kemur lyktarskyn hennar að góðum notum til að finna réttan maka. Varptími sjósvölu er um miðjan maí og verpir fuglinn einu eggi og tekur útungunin um sex vikur, eða um 42 daga. Eggjaskurnið er hvítt og eru stundum smá fjólubláar yrjur á því. Fyrstu fimm dagana eftir að unginn skríður úr eggi er honum sinnt allan sólarhringinn, en þegar hann er að stálpast er honum einungis sinnt á nóttunni. Þegar unginn nálgast það að vera fleygur minnkar matargjöfin og foreldrarnir koma ekki við á hverju kvöldi, en þó er unginn aldrei yfirgefinn fyrr en hann er floginn úr hreiðrinu. Lego. Lego er danskur leikfangaframleiðandi í eigu fjölskyldu, með höfuðstöðvar í Billund. Upprunalega framleiddi fyrirtækið hágæðaleikföng úr tré en síðustu fjörutíu ár hefur það framleitt plastkubba. Fyrirtækið var stofnað árið 1932. Nafnið „Lego“ er stytting á dönsku orðunum „LEg GO'"dt“ ("leikið vel"). Það þýðir líka „ég vel“ (eða „ég safna“ eða „ég les“) á latínu. Þessar víðari þýðingar fengu fyrst merkingu þegar fyrirtækið byrjaði að framleiða plastkubba með tökkum, sem hægt var að setja saman. Evrasíusambandið. Evrasíusambandið (rússneska: "Евразийский Союз") er fyrirhuguð samtök ríkja sem áður voru í Sovétríkjunum. Meðal hugsanlegra aðildarríkja eru Hvíta-Rússland, Kasakstan, Kirgisistan, Rússland og Tadsjikistan. Hugmyndin er byggt á Evrópusambandinu og er hugarfóstur forsætisráðherra Rússlands Vladimir Putins. Uppástungur að hugmyndinni voru lagðar fram af forseta Kasakstans Nursultan Nazarbayev árið 1994, á fundi í Moskvu. Þann 18. nóvember 2011 skrifuðu forsetar Hvíta-Rússlands, Kasakstans og Rússlands undir samning varðandi stofnun Evrasíusambandsins fyrir árið 2015. Við undirritun samningsins var Framkvæmdastjórn Evrasíusambandsins stofnuð (byggt á Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins), og Evrasíska efnahagsvæðið. Báðar þessar stofnanir hefja störf 1. janúar 2012. Eddie Murphy. Edward Regan Murphy (f. 1961) er bandarískur leikari og uppistandari. Murphy, Eddie Murphy, Eddie Nifteindastjörnur. Nifteindastjörnur eru undraverðar stjörnur sem eru að stærstum hluta úr nifteindum. Þær verða til þegar gríðarstórar stjörnur springa og falla saman í miðju. Úr þessari miðju verða nifteindastjörnurnar til. Talið er að finna megi 100.000 nifteindastjörnur í Vetrarbrautinni okkar en nú til dags eru um 2.000 þekktar nifteindastjörnur í Vetrarbrautinni og Magellanskýjunum og um 1.000 þekktar tifstjörnur sem eru nifteindastjörnur með útgeislunarstraum sem lendir á jörðinni. Þessar stjörnur hafa bæði gríðarsterkt segulsvið, snúast mjög hratt og eru einstaklega heitar. Þær eru gríðarlega eðlisþungar að auki vegna þess hve þétt efnið í þeim er en engir fráhrindikraftar verka milli nifteinda. Uppgötvun. Aðeins ári eftir að nifteindir voru uppgötvaðar af James Chadwick settu Walter Baade og Fritz Zwicky fram hugmyndina um nifteindastjörnur. Töldu þeir að þær mynduðust í miðju sprengistjarna við það að þær féllu saman og róteindirnar og rafeindirnar rynnu saman. Þrýstingurinn frá nifteindunum sjálfum töldu þeir að hindraði frekari samþjöppun. Flestir vísindamenn leiddu þessar hugmyndir hjá sér því að nifteindastjörnur eru mjög ótrúleg fyrirbæri. Einnig var hugmyndin á þeim tíma að allar stjörnur myndu losa nógu mikið efni frá sér til að verða aðeins að hvítum dvergum. Árið 1930 reiknaði Chandrasekhar að ef massi stjörnu væri meira en um það bil 1,4 sólmassar myndi hún falla saman og vegna þess að rafeindirnar myndu ekki standast þann þrýsting. Oppenheimer og hans nemendur birtu hins vegar árið 1934 ítarlega útreikninga og settu fram tilgátu um að stjörnur með þennan úr stjörnum með þennan massa myndi myndast klumpur af nifteinum þar sem róteindirnar og rafeindirnar myndu renna saman. Það var hinsvegar árið 1967 sem doktorsneminn Jocelyn Bell fann útvarpsbylgjur sem tifuðu með reglulegu millibili og voru þessi fyrirbæri kölluð tifstjörnur. Þessar bylgjur voru með hærri tíðni en nokkuð fyrirbæri í geimnum sem fyrr hafði fundist. Töldu vísindamenn jafnvel fyrst að þær væru sendingar frá geimverum. Þeirri kenningu var þó hafnað nokkrum mánuðum seinna þegar önnur slík fyrirbæri fundust. Þegar tifstjarnan í Krabbaþokunni fannst hafði hún minnsta snúningstíma þekktra tifstjarna, 0,033 sekúndur. Sú uppgötvun útilokaði það að tifstjörnur væru hvítir dvergar sem snerust hratt þar sem þeir myndu ekki þola svo hraðan snúning og rifna í sundur. Því hlutu tifstjörnur að vera mun þéttari í sér en hvítir dvergar. Það var eftir það sem nifteindastjörnumódelið var samþykkt af vísindasamfélaginu. Myndun. Nifteindastjörnur myndast í sprengistjörnum af gerð Ib, Ic eða II. Þegar stjarna með massa á milli 8 og 25 sólmassar fellur saman verður þyngdarkrafturinn svo mikill að hann yfirvinnur rafeindaþrýstinginn og róteindir og rafeindir stjörnunnar renna saman og mynda nifteindir. Út frá samfalli svo massamikillar stjörnu koma miklir blossar af gammageislum. Þessir gammageislablossar eru svo öflugir að ef þeir myndi lenda á jörðinni myndu þeir ef til vill valda fjöldategundadauða. Við þetta allt saman minnkar rúmmál efnisins gríðarlega þar sem að venjuleg frumeind er að mestu tómarúm vegna fráhrindikrafta milli róteinda og nifteinda. Þess vegna er venjuleg nifteindastjarna aðeins um 30 km í þvermál. Af þessu leiðir að stjarnan hefur gríðarlegan eðlismassa, uum það bil 4x1017 kg/m3 og þrátt fyrir smæð sína er hún gríðarlega þung. Hluti á stærð við sykurmola úr nifteindastjörnu myndi vega 400 milljarða tonna.. Vegna þessa gríðarlega massa er þyngdarkrafturinn við yfirborðið 1012 g og lausnarhraðinn er um 150.000 km/s. Við það að stjarnan falli saman eykst snúningshraðinn vegna varðveislu hverfiþungans. Þessu má líkja við listdansara á skautum sem dregur að sér hand- og fótleggi og snýst því hraðar fyrir vikið. Þar sem upprunalega stjarnan er mun stærri en nifteindastjarnan snýst hún gríðarlega hratt. Hraðasta tifstjarnan sem vitað er um, PSR J1748-2446ad, snýst 716 sinnum á sekúndu. Þar sem útgeislun þeirra kostar orku hægist smám saman á nifteindastjörnum og þess vegna snúast gamlar stjörnur oftast hægar er nýjar. Til dæmis hægir nifteindastjarnan í Krabbaþokunni á sér um 3,0 x 1010 sek á dag. Hinsvegar stöðvast þær aldrei alveg þar sem að útgeislunin minnkar þegar snúningshraðinn minnkar, það er að sífellt hægist á hægjuninni. Segulflæði stjörnu varðveitist þegar hún fellur saman. Fyrir vikið eru nifteindastjörnur með gríðarsterkt segulsvið þar sem að upprunalega segulsviðið dreifist á mun minna. Út frá segulpólum nifteindastjarna koma sterkir straumar af útgeislun. Útgeislunin stafar af refeindum sem segulsviðið hefur komið á mikinn hraða. Þar sem segulpólarnir eru ekki á sama stað og snúningspólarnir mynda straumarnir eins konar keiluform á snúningi sínum. Ef svo vill til að straumurinn lendi á jörðinni mælum við hann sem tifstjörnu og tíðnin ræðst af snúningstíma stjörnunnar. Þegar nifteindastjörnur myndast eru þær mjög heitar en upphafshiti getur verið um 1011K. Þetta stafar af því að nifteindastjörnur eru kjarninn úr stórum stjörnum. Þær kólna upphaflega mjög hratt, strax fyrsta daginn getur nifteindastjarnan kólnað niður í 109 K. Þetta gerist með URCA-ferli, það er að nifteindir breytast í róteindir og róteindirnar aftur í nifteindir. Þegar þetta gerist losna fiseindir í burtu og taka með sér orku. Með þessu ferli kólnar stjarnan í um þúsund ár eða þar til yfirborðshitinn er um 100 milljón K. Þá tekur ljósgeislun við og kólnar stjarnan nú hægar en áður. Stjarnan geislar aðallega röntgengeislum vegna hás yfirborðshitastigs en vegna þess að yfirborðsflatarmálið er lítið er heildarútgeislun ekki mikil. Eftir um tíu þúsund ár er hitinn því um milljón gráður. Bygging. Talið er að á yfirborði nifteindastjarna sé skorpa og er hún um 1 km þykk. Hún er marglaga, yst er lag úr járnfrumeindum, næst koma nifteindaríkir frumeindakjarnar og rafeindir, þá klasar af nifteindum og stakar nifteindir og rafeindir. Tilvist skorpunnar er studd með því að snúningshraði þeirra eykst stundum lítillega og snöggt, á í mesta lagi nokkrum dögum, og er það talið stafa vegna þess að skorpan gangi aðeins til. Þetta er kallað „glitch“. Fyrir innan skorpuna er talið að nifteindirnar séu á formi ofurflæðandi nifteindavökva. Samspil nifteindavökvans og skorpunnar gæti verið orsök breytinga í snúningi tifstjarna. Auk þess að hægja í sífellu á sér eykst snúningshraði nifteindastjarna stundum. Talið er að laugar af nifteindavökva haldi áfram að snúast á sama hraða þótt skorpan hægi á sér og að einhver hluti þeirra „límist“ á skorpuna innanverða. Að lokum kemur að því að skorpan er að snúast hægar en laugarnar og þá kippa laugarnar í skorpuna og hraða snúningnum snögglega. Að lokum er jafnvel talið að innst finnist hið fimmta ástand efnis, kvarka-límeinda-rafgas þar sem kvarkarnir og límeindirnar sem venjulega mynda róteindir og nifteindir losna í sundur og verða að agnavökva. Einnig er að finna einhverjar rót- og rafeindir í nifteindastjörnum því án þeirra myndu stjörnurnar missa segulsvið sitt mjög hratt. Lofthjúpur nifteindastjarna er um 1 m þykkur og er ef til vill úr kolefni. Kjarnar. Á suman hátt eru nifteindastjörnur eins og risastórir frumeindakjarnar. Til dæmis hafa þeir mjög svipaðan eðlismassa og frumeindakjarnar, um 1018 kg/m3, sem og að kjarnarnir eru gerðir úr nifteindum. Hins vegar er reginmunur á kröftunum sem halda saman nifteindastjörnum og frumeindakjörnum. Það er þyngdarkrafturinn sem heldur saman stjörnunum en sterki kjarnakrafturinn varnar því að kjarnarnir splúndrist. Tvístirnakerfi og millisekúndutifstjörnur. Árið 1982 fundu stjörnufræðingar tifstjörnu sem snýst 642 sinnum á hverri sekúndu, þeir kölluðu hana PSR 1937+21. Eftir því sem nifteindastjörnur eldast þá hægist á snúning þeirra. Þar af leiðir að PSR 1937+21 ætti að vera mjög ung vegna þess hversu hratt hún snýst. Samt sem áður ætti einnig að hægjast á snúning hennar mjög hratt vegna þess að því hraðar sem stjarna snýst því meiri orkulosun verður og því meira hægist á snúningnum. Þetta átti ekki við PSR 1937+21 heldur hægðist minna á snúning hennar sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Nú hafa fleiri stjörnur eins og PSR 1937+21 fundist og eru þær kallaðar millísekúndu tifstjörnur og snúast á bilinu 100 til 1000 sinnum á sekúndu. Millisekúndu tifstjörnur eru flestar í tvístirni og í mjög lítilli fjarlægð frá nágrana stjörnu sinni. Því styttri tími sem stjörnurnar eru að fara í kringum hvor aðra því minni er fjarlægðin á milli þeirra. Þetta getur leyft okkur að sjá hvernig millisekúndu tifstjörnur hafa fengið þennan gríðarlega hraða snúning. Ef við ímyndum okkur tvístirni sem saman stendur af einni hámassastjörnu og einni lágmassastjörnu. Við vitum að hámassastjarnan þróast hraðar en sú massaminni og verður að sprengistjörnu af gerð II og nifteindastjarna myndast sem snýst mjög hratt. Með tímanum eða eftir marga milljarða ára hægist á snúningi nifteindastjörnunnar vegna allrar orkulosunarinnar út í geiminn. Þá hefur massaminni stjarnan þróast hægt og rólega og verður að rauðum risa og fyllir síðan á endanum út í Roche mörkin. Þegar það gerist flæðir gas inn fyrir Lagrangian punktinn og á nifteindastjörnuna. Lagrangian punkturinn er þar sem Roche mörk stjarnanna mætast. Gasið rekst á yfirborð nifteindastjörnunnar á gríðarlegum hraða og við ákveðið horn sem lætur stjörnuna snúast hraðar. Undið er upp á gömlu hægu nifteindastjörnunna með massa færslu frá uppblásnu nágranna stjörnunni. Til eru nifteindastjörnur eins og stjarnan PSR 1937+21 sem ekki eru í tvístirni. Talið er að nifteindastjörnurnar hafi eytt nágrannastjörnu sinni með orkuháu ögnunum sem nifteindastjarnan hefur gefið frá sér eftir að undið hafði verið upp á hana. Eins og tekið var fram áður þá gefa allar tifstjörnur frá sér útvarpsbylgjur. En tifstjörnur í tvístirni með sólstjörnu gefa frá sér röntgenbylgjur. Þetta gerist þegar gasið úr sólstjörnunni hefur lent á yfirborði nifteindastjörnunnar og er stýrt eftir segulásnum þar sem það hitnar mjög hratt og geislar frá sér röntgengeislum sem brjótast út um segulásinn. Þessar tifstjörnur eru enn mikil ráðgáta og mikið rannsóknarefni. Segulstirni. Segulstirni eru nifteindastjörnur með gríðarsterkt segulsvið, sterkara en annarra nifteindastjarna. Eru þau segulmögnuðustu hlutir sem fundist hafa og úr 1000 km fjarlægð myndi segulsviðið geta drepið lífverur með því að hafa áhrif á skautun vatns. Þegar þetta segulsvið brotnar niður verður mikil útgeislum á rafsegulbylgjum, einna helst röntgen- og gammageislum. Þetta niðurbrot er mjög hratt og endist segulsvið þessara nifteindastjarna aðeins í um 10.000 ár. Stjörnuskjálftar geta valdið óregulu í segulsviðinu sem veldur enn fremur mjög sterkri gammageislun sem hefur mælst hér á jörðu á árunum 1979, 1998 og 2004. Einnig snúast segulstirni hægar en flestar aðrar nifteindastjörnur, á um 10 sekúndum í stað <1 sekúndu. Eru segulstirni talin líklegasta útskýringin á SGR, sem senda frá sér röntgen- og gammageislun með óreglulegu millibili, en einnig AXP, sem eru tifstjörnur sem einnkennast af sterku segulsviði og hægum snúningstíma eða allt að 2-12 sekúndur. Í Apríl 2011 voru aðeins 21 segulstirni þekkt. Þær myndast þegar snúningur, hiti og segulsviðsstyrkur móðurstjörnu lenda á réttu bili. Þá breytast hiti og snúningsorka í segulorku. Við þetta styrkist segulsviðið sem fyrr var gríðarsterkt upp í allt að 1011 tesla. Talið er að í eitt af hverjum tíu skiptum sem venjuleg nifteindastjarna myndi myndast úr sprengistjörnu myndist segulstirni. Frægar nifteindastjörnur. J1614-2230 er stærsta nifteindastjarnan sem hefur fundist. Nifteindastjörnuna er að finna í átt að sporðdrekastjörnumerkinu sem er í um 3000 ljósára fjarlægð. Vísindamenn höfðu ekki hugmynd um að nifteindastjörnur gætu orðið svona stórar en J1614-2230 sem er um tvisvar sinnum massameiri en sólin. Það var vísindamaðurinn Paul Demorest sem fann nifteindastjörnuna. Upprunalega stjarna nifteindastjörnunnar var um 20 sinnum stærri en sólin. Nifteindastjarnan snýst hratt en hún snýst 317 sinnum á sekúndu. Í sporbrautinni þar sem nifteindastjarnan er er einnig að finna hvítan dverg sem hefur áhrif á snúningshraða tifstjörnunnar. Ein fræg nifteindastjarnan er tifstjarnan í Krabbaþokunni. Hún myndaðist þegar sprengistjarna sprakk árið 1054 og sást sá atburður vel frá jörðinni. Hún var uppgötvuð árið 1968 og var fyrsta nifteindastjarnan sem var tengd sprengistjörnu. Þessi tifstjarna hefur snúningstímann 33 millisekúndur sem þýðir að hún snýst um 30 sinnum um sjálfa sig á sekúndu. Þvermál hennar er um 25 km. Ef til vill gengur um hana reikistjarna í 0,3 AU fjarlægð sem er rúmlega þrisvar sinnum massameiri en jörðin en það myndi útskýra breytingar í snúningstíma hennar. Eins og áður var nefnt snýst hraðasta nifteindastjarnan, PSR J1748-2446ad, 716 sinnum á sekúndu. Hún var uppgötvuð árið 2004 af Jason W. T. Hessels. Hún er um ekki stærri en 16 km í þvermál þar sem efnið í henni myndi hendast út í geiminn ef hún væri stærri vegna gríðarlegs snúnings hennar. Hún er í um 18.000 ljósára fjarlægð frá okkur í stjörnumerkinu Bogmanninum. Hún er hluti af tvístirnakerfi. Frumkvöðull. Frumkvöðull er kallast sá sem hrindir í framkvæmd nýstárlegri hugmynd, t.d. á sviði viðskipta. Frumkvöðullfyrirtæki kallast "sprotafyrirtækis". Flokkunarkerfi Aarne-Thompson. Antti Aarne sem fyrstur samdi flokkunarkerfið. Flokkunarkerfi Aarne-Thompson er flokkunarkerfi fyrir þjóðsögur, ævintýri og sagnir byggt á söguefnum og minnum sem koma fyrir aftur og aftur. Flokkunarkerfið var upphaflega búið til af finnska þjóðfræðingnum Antti Aarne og kom út í litlu kveri árið 1910. Síðar var það þróað áfram af bandaríska þjóðfræðingnum Stith Thompson sem gaf út hina miklu gerðaskrá sína árið 1961 með upptalningu á yfir 2500 númeruðum sagngerðum. Númerakerfið er oft notað til að flokka þjóðsögur og sagnir. Vladimír Propp gagnrýndi þessa flokkunaraðferð á 3. áratug 20. aldar fyrir að líta framhjá virkni söguefnisins. Árið 2004 gaf þýski þjóðsagnafræðingurinn Hans-Jörg Uther út uppfærða og alþjóðavædda útgáfu af flokkunarkerfinu. Sagngerðir og dæmi um flokkun. Sögur um heimsku risa, trölla eða púka EasyJet. EasyJet er breskt lággjaldaflugfélag með höfuðstöðvar á London Luton-flugvelli. EasyJet er næststærsta lággjaldaflugfélag í Evrópu eftir Ryanair en árið 2004 flugu yfir 24 milljónir ferðamanna með þeim. EasyJet flýgur til fleiri en 100 áfangastaða í Evrópu. EasyJet var stofnað árið 1995 af breska frumkvöðlinum Stelios Haji-Ioannou (yfirleitt þekktur sem „Stelios“). Síðar stofnaði Stelios önnur fyrirtæki undir nafninu „easy“, til dæmis EasyMobile og EasyCar. EasyJet aðgreinir sig frá Ryanair með því að fljúga til stórra flugvalla, þar sem Ryanair flýgur til smærri flugvalla sem eru kannski ekki svo nálægt áfangstaðnum. Þar að auki eru takmarkanir á farangi hjá EasyJet minni en hjá Ryanair og nokkrum öðrum lággjaldaflugfélögum. Árið 2011 tilkynnti EasyJet að flogið yrði til Íslands frá London frá 27. mars 2012. Flugfélagið hafði ekki flogið til Íslands áður. Oddur Björnsson. Oddur Björnsson (25. október 1932 – 21. nóvember 2011) var íslenskt leikritaskáld og einn helsti módernistinn í íslenskri leikritun. Hann er hvað þekktastur fyrir verk sitt "13. krossferðin" sem frumsýnt var 1993. Oddur fékk menningarverðlaun DV árið 1981 fyrir leikstjórn á "Beðið eftir Godot" og heiðursverðlaun Grímunnar í júní 2011 fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslenskra sviðslista. Aðfararveð. Aðfararveð eru þau veðréttindi sem stofnast fyrir atbeina handhafa opinbers valds, sem liður í fullnustugerðum skuldheimtumanna. Salvatore Quasimodo. Salvatore Quasimodo (1901 – 1968) var ítalskur rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi. Quasimodo, Salvatore Rudolf Mössbauer. Rudolf Mössbauer (1929 – 2011) var þýskur eðlisfræðingur og nóbelsverðlaunahafi. Mössbauer, Rudolf Darya Dontsova. Agrippina Arkadievna Dontsova eða Darya Dontsova (f. 1952) er rússneskur rithöfundur. Dontsova, Darya Tatiana Ustinova. Tatiana Vitalievna Ustinova (f. 1968) er rússneskur rithöfundur. Ustinova, Tatiana Colin McRae. Colin Steele McRae (5. ágúst 1968 – 15. september 2007) var skoskur fyrrverandi heimsmeistari í kappakstri. Hann lést í flugslysi þegar þyrlan hans brotlenti við bæinn Lanark í Skotlandi. Sidney Sheldon. Sidney Sheldon (11. febrúar, 1917 – 30. janúar, 2007) var bandarískur rithöfundur, handritshöfundur og leikstjóri. Hann er þekktastur sem rithöfundur en hann hóf að skrifa skáldsögur um fimmtugt. Bækur hans seldust svo vel að hann var kallaður „mister Bestseller“. Hann er talinn vera í sjötta sæti yfir þá rithöfunda á enska tungu sem mest hafa selt í heiminum. Meðal þekktustu verka hans eru "Í tvísýnum leik" ("Master of the Game", 1982), "Fram yfir miðnætti" ("The Other Side of Midnight", 1973) og "Verndarenglar" ("The Rage of Angels", 1980). Sheldon, Sidney Dósóþeus Tímóteusson. Dósóþeus Tímóteusson (f. 9. september 1910] - 13. mars 2003) var skáld, búfræðingur, fagurkeri og lífsspekingur. Hann var áberandi á meðal skálda fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld í hópi þeirra Steins Steinars og rithöfundanna sem stunduðu Hressingarskálann á þeim árum. Dósóþeus stundaði nám á Núpi í Dýrafirði og lauk búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1929. Að námi loknu starfaði hann við kaupavinnu í Borgarfirði og á Korpúlfsstöðum hjá Thor Jensen. Einnig vann hann í fjölmörg ár hjá Landsímanum við línulagnir víða um landið. Síðustu árin dvaldi Dósóþeus í Arnarholti á Kjalarnesi. Mh kvennó dagurinn. MH-Kvennó dagurinn er árlegur viðburður sem á sér stað á haustin þegar Menntaskólinn við Hamrahlíð og Kvennaskólinn í Reykjavík keppa saman í vináttukeppni. Keppt er í ýmsum íþróttaviðburðum á Klambratúni og endar dagurinn með ræðukeppni í hátíðarsal MH. Þvag. Þvag er sæfður (ef ekki kemur til sjúkdómur) vökvi sem myndast í nýrunum. Því er þá þveitt í gegnum þvagrásina en þetta ferli heitir þvaglát. Yfirleitt er þvag gult á lit en ýmislegt getur haft áhrif á litinn, til dæmis hversu mikið maður drekkur og borðar. Sumar matvörur geta líka haft áhrif á litinn, til dæmis ef mikils af rauðrófu er neytt þá getur þvagið orðið rautt. Ef blóð er í þvaginu getur það bent á sjúkdóma eins og nýrnasteina eða nýrnabólgu. Þvag samanstendur af vatni (yfir 95 %), þvagefni 9,3 g/L, klóríði 1,87 g/L, natríni 1,17 g/L, kalíni 0,750 g/L, kreatíni 0,670 g/L og öðrum uppleystum jónum, ólífrænum og lífrænum efnasamböndum. Veldissproti Ottókars konungs. Veldissproti Ottókars konungs er áttunda bókin í ritröðinni um Ævintýri Tinna Svaðilför í Surtsey. Svaðilför í Surtsey er sjöunda bókin í bókaflokknum um Ævintýri Tinna. Söguþráður. Tinni sér á gönguferð sinni um hinar belgísku sveitir flugvél nauðlenda. Hann fer til þess aðstoða og veitir því eftirtekt að flugvélin hefur ekki neitt skrásetningarnúmer. Þegar hann nálgast flugvélina er hann skotinn af flugmanninum. Eftir að hafa náð bata á sjúkrahúsi greina lögreglumennirnir Skafti og Skapti Tinna frá því að önnur álíka flugvél hafi nauðlent á engi í Sussex á Englandi. Tinni ákveður að rannsaka þetta mál sjálfur. Tinni tekur lest frá Brussel í áttina að ströndinni til Oostende og síðan ferju í áttina Dover á Englandi. Á meðan á siglingunni stendur er Tinni sakaður um árás og rán á samferðamanni sínum (sem er í raun meðlimur í glæpagenginu sem Tinni er kominn í kast við). Skafti og Skapti handtaka Tinna, en hann nær að flýja með því að handjárna þá báða við hvorn annan á meðan þeir eru sofandi. Eftir komuna til Englands er Tinna rænt af glæpagenginu sem komu sökinni á hann. Þeir halda með hann að klettabrún, þar sem þeir ætla henda honum fyrir björg, en Tinna tekst að sleppa úr klóm þeirra með hjálp Tobba. Smátt og smátt berast böndin í rannsókninni að Dr. J.W. Müller sem, ásamt bílstjóra sínum, Ivan, er hluti af hópi peningafalsara. Leiðtogi þess hóps er Puschov, hið meinta fórnarlamb Tinna á ferjunni. Eltingarleikur Tinna við Müller og Ivan endar í flughrapi í afskekktri byggð í Skotlandi, þar sem vingjarnlegur bóndi gefur Tinna pils til að klæðast. Hann heimsækir krá eina í strandbænum Kiltoch, þar sem honum eru sagðar skuggalegar sögur af Surtsey. Þar á að hafast við grimmilegt skrímsli sem ræðst á og drepur fólk. Tinni kaupir bát frá þorpsbúa einum og heldur í átt til eyjarinnar. Þar er hann næstum drepinn af górillunni Ranko og bátnum stolið. Hann er því strandaður á eyjunni, en uppgötvar að hún er felustaður peningafalsarahóps þeirra Puschovs og Müllers. Tinna tekst tímabundið að koma böndum á hópinn (sem tekst þó að losna um síðir) og hringir í lögregluna með loftskeytatæki falsaranna, eftir að hafa horft á Skafta og Skapta óafvitandi vinna verðlaun í flugsýningarkeppni. Eftir mikið umsátur (þar sem Ranko handleggsbrotnar), næst að handsama peningafalsarana, og Tinni heldur aftur til lands þar sem górillan Ranko vekur athygli blaðamanna. Peningafölsurunum er komið fyrir í steininum en Ranko, sem er öllu friðsælli nú en áður, fær vist í dýragarði í Glasgow. Tinni ákveður að halda heim á leið í flugvél, en Skafti og Skapti, sem hafa nú sæst við Tinna, eru enn skelkaðir eftir síðustu flugferð og ákveða að fara heldur landleiðina. Lilja Nótt Þórarinsdóttir. Lilja Nótt Þórarinsdóttir (6. júní 1979) er íslensk leikkona. Hún útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2009. Demore Barnes. Demore Barnes (fæddur 26. febrúar 1976) er kandadískur leikari, sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Associates, The Unit og Supernatural. Einkalíf. Barnes er fæddur og uppalinn í Toronto, Kanada. Ferill. Barnes byrjaði feril sinn í kanadíska skopgrínþættinum "Squawk Box". Fyrsta sjónvarpshluverk hans var árið 1998 í sjónvarpsmyndinni "White Lies". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Relic Hunter", "Doc", Fringe, Supernatural og "Being Erica". Árið 2001 þá var Barnes boðið hlutverk í The Associates sem Benjamin Hardaway sem hann lék til ársins 2002. Síðan árið 2006 þá var Barnes boðið hlutverk í The Unit sem Hector Williams sem hann lék til ársins 2009. Tenglar. Barnes, Demore Naima Mora. Naima Mora (fædd 1984) er bandarísk fyrirsæta. Mora, Naima Avatar. Avatar er bandarísk kvikmynd frá árinu 2009. Hoffell. Hoffell er lítið þorp á Íslandi. Colin Ford. Colin Ford (fæddur 12. september 1996) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Supernatural, "Jake and the Neverland Pirates" og "Can You Teach My Alligator Manners". Einkalíf. Ford fæddist í Nashville í Tennessee. Þegar Ford var fjögra ára þá kom hann fram í auglýsingum. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Ford var árið 2005 í Smallville. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Close to Home", og Family Guy. Árið 2008 þá lék hann gestahlutverk í "Can You Teach My Alligator Manners" sem Mickey. Ford hefur verið með stórt gestahlutverk í Supernatural sem ungur Sam Winchester sem hann hefur leikið með hléum frá 2007. Árið 2011 þá lék hann aðalhlutverkið í "Jake and the Neveraland Pirates" sem Jake. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Ford var árið 2002 í Sweet Home Alabama. Lék fimm ára gamlan Lloyd í árið 2003. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Wokd and the Glory", "In the Name of the King: A Dungeon Siege Tale" á móti Jason Statham, "Dog Days of Summer", "Lake City" og "Push". Tenglar. Ford, Colin Úthafsloftslag. Úthafsloftslag er tegund af loftslagi sem einkennist af miklu regni og frekar köldum vetrum. En ekki nema um 20° C meðalhita á sumrin. Julian Richings. Julian Richings (fæddur 8. september 1955) er enskur leikari sem hefur komið fram í yfir 50 kanadískum kvikmyndum og um 20 sjónvarpsseríum. Einkalíf. Richings fæddist í Oxford, Englandi. Útskrifaðist frá "Exeter háskólanum" með gráðu í dramaleiklist.Richings ferðaðist með bresku leikfélagi um N-Ameríku. Richings fluttist til Toronto, Kanada árið 1984 og hefur búið þar síðan með fjölskyldu sinni. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Richings var árið 1989 í "War of the Worlds" sem Ardix. Kom hann fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Katts and Dog", "Street Legal", "RoboCop" og "Due South". Árið 1997 þá var honum boðið gestahlutverk í "Once a Thief" sem hann lék til ársins 1998. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Amazon", "MythQuest", "A Nero Wolfe Mystery", "Kingdom Hospital", "Heartland". Árið 2010 þá var honum boðið stórt gestahlutverk í Supernatural sem Dauðinn, sem hann hefur leikið með hléum síðan þá. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Richings var árið 1987 í "Love at Stake". Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Giant Steps", "Love Child", "Mimic", "Urban Legend", "Washed Up", "Wrong Turn", "Open Range", "Black Widow", "Saw IV" og "Animal Control". Tenglar. Richings, Julian Geislasverð. Geislasverð er skáldað handvopn í Stjörnustríðsheiminum. Það er sívalningur úr málmi sem inniheldur litaðan kristal sem sendir frá sér um 1,33 metra löngum geisla. Geislinn er hvítur með rönd í sama lit og kristallinn. Geislasverðið hefbundið og mest notaða vopn Jediriddara og Sith. Geislar í geislasverðum Sith geta verið rauðir (til dæmis geislasverð Svarthöfða) og appelsínugulir (til dæmis Darth Revan) en geislar í geislasverðum Jediriddara meðal annars bláir (til dæmis Obi Wan Kenobi), grænir (til dæmis Logi geimgengill), gulir og fjólubláir (til dæmis Mace Windu). Sjónræn. Hreyfimyndafræðingur að nafni Nelson Shin var beðinn um að hanna geislasverðið. Hann teiknaði geislasverðið með hvítum geisla með litaðri rönd. Til að sýna geislann á þennan hátt í myndunum þurfti að fara yfir hvern ramma filmunnar með tæki (en. "Rotoscope") sem stækkar mynd svo hægt sé að teikna yfir hana. Nelson kom með þá hugmynd að hafa geislann ljósan í einum ramma og dimmari í þeim næsta, til að geislinn virðist titra. Hann ráðlagði líka notkun á afsegulmagnara til að búa til hljóð geislasverðsins. Nelson kom með þessar hugmyndir á einni viku og var farið eftir þeim. Í síðari Stjörnustríðsmyndunum (I-III) voru notaðar tölvur til að teikna geislasverðið inn á myndina. Hljóðræn. Hljóðhönnuðurinn Ben Burtt þróaði hljóð geislasverðsins með því að nota suð mótora frá gömlum skjávarpa og klofnunarhljóð sem kom þegar hljóðnemi tók bylgjur frá sjónvarpsútsendingu. Þetta er grunnhljóð geislasverðsins. Breytingar á tónhæð voru gerðar með því að spila hljóðið í hátölurum og taka það upp með hljóðnema á hreyfingu, og skapa þannig dopplerhrif. Líkamleg. Geislasverð Loga Geimgengils og Svarthöfða sem notuð voru í Nýrri von voru búin til úr skafti sem hélt uppi þríhyrningslaga stöng húðað með blikkljósi. Ljós vorru sett sett á hlið myndavélar sem stangirnar endurspegluðu. Fyrir Loga var haldið úr Graflex myndavél og fyrir Svarthöfða var það úr Micro Precision Products myndavél. Á þessum tíma var skaft Obi-Wan Kenobi flóknasta, þar sem það var búið til úr meirihluta breskra handsprengju frá fyrri heimstyrjöldinni -- miðjuhluta Graflex skafts eins og var notað hjá Loga -- linsu úr Texas Instruments "Exactra" reiknivél -- og hluta af vatnskrana. Blöð sverðanna voru fyrir "Nýja von" og "The Empire Strikes Back" voru búin til úr þríhyningslaga stöngum hulin endurskinsmerkjum sem mótor í hjaltinu sneri í hringi. Þetta bjó til þau áhrif að geislasverðið glæi. Hinsvegar voru blöðin á þennan hátt mjög viðkvæm og þurftu að skipta út oft, og endurskinið virkaði ekki þegar hliðar geislasverðs hölluðu svo myndavélin sá þær ekki. Þarmeð var hugmyndin yfirgefin þegar framleið varð þriðja myndin, "The Return of the Jedi", og í stað þess var ákveðið að nota kolefnisrör fyrir blaðið. Þetta var sterkara, en of veikt aftur til að standast brot. Í fyrstu tveim myndum seinni þríleiks myndanna — "The Phantom Menace" og "Attack of the Clones" — voru notuð blöð úr áli og stáli, sem voru mun endingarbetri, en beygðust samt þó nokkuð, og þurftu þarmeð líka útskiptanir. Í síðustu "Star Wars"-mynd sem hefur komið út, "Revenge of the Sith", voru notuð kolvetnistrefjarör notuð fyrir blöðin. Nú voru þau mjög endanleg og beygðust ekki, sem þó varð til þess að leikararnir fengu marbletti og ör. Piparkaka. Piparkaka er smákaka bökuð úr dökku deigi, sem kryddað er með kanil, kardemómu, engifer o.fl. Piparkökuhús er gert út stórum piparkökuskífum, sem límar eru saman með glassúr og stundum skreytt með sælgæti. Piparkökuhús er oftast hluti af jólaskreytingum og jólabakstri. Demi Lovato. Demetria Devonne Lovato, betur þekkt sem Demi Lovato (fædd 20. ágúst 1992), er bandarísk söngkona sem er fræg fyrir myndirnar "Camp Rock", 'Camp Rock 2: The Final Jam' og þættina "Sonny with a Chance" þar sem að hún lék Sonny Munroe, en hún er samt fræg líka fyrir að vera alveg stórkosleg söngkona. lögin hennar eru meðal annars Skyscraper, Give Your Heart A Break, Shadows, Who Will I Be, Our Time Is Here, We Rock, Believe In Me, Stay With Me, og mörg fleiri. Demi fór í gegnum mjör hart einelti í sjöunda bekk og hún sagði í viðtali við eitthvað tímarit í UK "Þau kölluðu mig hóru og sögðu að ég væri feit og ljót. Ég hefði ekki átt að hlustað á þau, en ég tók þetta nærri mér og það særði. I hélt að kanski ætti ég ekki vini vegna þess að ég var of feit" man hún. Svo hæun hætti að borða, og ef að hún borðaði eitthvað, þá kastaði hún því strax aftur upp. Eftir sex mánuði hafði hún misst mjög mikla þyngd og var orðin hættulega létt. "Ég kastaði upp upp í sex sinnum á dag" segir hún "Mamma mín var áhyggjufull, en af því að ég var að fara í gegnum kynþroskann og var að stækka hélt hún að það væri ástæðan yfir því að ég var grennri." Demi segir að eineltið hennar var orðið svo slæmt að einn daginn spurði húm mömmu sína hvort að hún gæti fengið heimakennslu. Demi fékk það og í apríl 2009 útskrifaðist hún úr heimakennslunni. Seinna sagði Demi frá eineltinu í hóp sem er kallaður PACER og hún birtist í America's Next Top Model og CNN til að tala á móti eineltinu. Lovato, Demi Þorgrímur Þráinsson. Þorgrímur Þráinsson (1959) er íslenskur rithöfundur barna- og unglingabóka og fyrrum knattspyrnumaður. Sebastian Roché. Sebastian Roché (fæddur 4. ágúst 1964) er franskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í General Hospital, Fringe og Supernatural. Einkalíf. Roché fæddist í París, Frakklandi. Stundaði nám við hinn virta "Conservatoire National Superieur d'Art Dramatique" skóla í París. Þegar Roché var unglingur þá ferðaðist hann með fjölskyldu sinni í sex ár á skútu til Miðjarðarhafs, Afríku, Suður-Ameríku og Karíbahafs. Roché talar fjögur tungumál, frönsku, ítölsku, ensku og spænsku. Roché var giftur leikkonunni Vera Farmiga frá 1997-2005. Leikhús. Roché hefur komið fram í leikritum á borð við "Salome" með Al Pacino, "Macbeth", "The Green Bird" og "Trainspotting". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Roché var í "American Masters" og kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Counterstrike", "The Hitchhiker", "Runaway Bay", "South Beach" og "New York Undercover". Árið 1997 var Roché boðið gestahlutverk í "Roar" sem Longinus, þar sem hann lék á móti Heath Ledger. Hefur hann síðan verið með stór gestahlutverk í þáttum á borð við "Odyssey 5", 24, Fringe, Supernatural og Criminal Minds. Árið 2007 var Roché boðið hlutverk í sápuóperunni General Hospital sem Jerry Jacks, sem hann lék til ársins 2010. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Roché var árið 1988 í "Adieu je t'aime". Síðan þá hefur Roché leikið í kvikmyndum á borð við "The Last of the Mohicans", "The Peacemaker", "Seagull", "Beowulf" og "The Adventures of Tintin". Tenglar. Roché, Sebastian Lífsferilsgreining. Lífsferilsgreining er magnbundin greining á umhverfisþáttum vöru eða þjónustu á lífsferli hennar. Slík greining felur í sér heildstæða athugun á helstu umhverfisþáttum á lífsferli vöru eða þjónustu, á hverju stigi fyrir sig. Lífsferilsgreining er stundum einnig kölluð lífsferilsmat eða vistferilsgreining. Lífsferill er ferill vöru eða þjónustu frá vöggu til grafar, svo sem hönnun, hráefnisval, framleiðsla, dreifing, notkun, endurnýting og förgun. Lífsferill skiptist í nokkur tengd stig. Dæmi: Á lífsferli bensínbifreiðar eru umhverfisáhrifin mest á notkunarstiginu. Niðurstöður lífsferilsgreininga eru notaðar við samanburð á valkostum. Dæmi: Í lífsferilsgreiningu á veiðiaðferðum kom í ljós að þorskveiðar með botnvörpu hafa mun meiri neikvæð áhrif á umhverfið en þorskveiðar með línu. Eldfjall (kvikmynd). "Eldfjall" er íslensk dramamynd frá árinu 2011 sem Rúnar Rúnarsson leikstýrði og skrifaði. Benedikt Erlingsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Theódór Júlíusson, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með aðalhlutverkin í myndinni. Myndin er þroskasaga manns sem þarf að horfast í augu við val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð. Myndin kom út í kvikmyndahúsum þann 30. september 2011 og hefur síðan verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum, þar á meðal í Cannes þar sem hún var tilnefnd til "Caméra d'Or" verðlauna. Söguþráður. Hannes er kominn á eftirlaun eftir 37 ára starf sem húsvörður í skóla þar sem nemendum stóð ætíð stuggur af honum. Hann veltir því nú fyrir sér hvað hann eigi að taka sér fyrir hendur og efst á listanum er að gera upp gamlan bát sem hann á. Annað sem Hannes myndi gjarnan vilja laga er samband hans við tvö uppkomin börn sín, en það samband er ekki upp á marga fiska. Eina ástæðan fyrir því að hann hittir þau endrum og sinnum er að þau koma stundum að heimsækja móður sína, Önnu. Við föður sinn hafa þau hins vegar lítið að tala og enn minni áhuga á því. Kvöld eitt þegar þau Hannes og Anna eru að snæða kvöldverð fær Anna heilablóðfall. Eftir að hún er flutt á sjúkrahús og rannsökuð kemur í ljós að hún mun sennilega aldrei komast til heilsu á ný. Í stað þess að skilja Önnu eftir í höndum lækna og hjúkrunarfólks ákveður Hannes að fara með hana heim þar sem hann tekur til við að hjúkra henni og sjá henni fyrir því sem hún þarf. Um leið fær hann sjálfur nægan tíma til að skoða sjálfan sig og eigið líf og kemst að því að það er aldrei of seint að taka út þroska og laga það sem aflaga hefur farið. Framleiðsla. Tökur á myndinni hófust þann 24. september 2010 í Reykjavík og Kópavogi og stuttu síðar var farið til Vestmannaeyja til þess að taka upp atriði þar. Fjármögnun myndarinnar kom frá danska kvikmyndasjóðnum sem gaf 104 milljónir íslenskra króna í verkefnið sem þótti óvenjulegt vegna þess að myndin var alfarið tekin upp á íslensku. Innifalið í fjárhæðinni var sjónvarpssala til dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2. "Eldfjall" hlaut einnig styrk frá kvikmyndamiðstöð Íslands, Nordic Film & TV Fond og iðnaðarráðuneytinu. Útgáfa. "Eldfjall" var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes þann 13. maí 2011 og var þar tilnefnd til bæði "Caméra d'Or" sem eru veitt fyrir bestu fyrstu kvikmynd leikstjóra og "Director's Fortnight" verðlauna. Myndin var einnig sýnd og margverðlaunuð á kvikmyndahátíðunum í Reykjavík, São Paulo, Denver, Chicago, Kænugarði, Montréal, Cluj-Napoca og Valladolid. "Eldfjall" hóf síðan göngu sína í kvikmyndahúsum á Íslandi þann 30. september 2011. Söngfuglar. Söngfuglar eru fuglar sem tilheyra undirætbálknum Passeri. Biskupsdæmi. Biskupsdæmi er kirkjuleg stjórnsýslueining þar sem biskup starfar og sér um allar kirkjurnar á svæðinu. Biskupsdæmi er hugtak sem er notað í kaþólsku kirkjunni, biskupakirkjunni og lúthersku kirkjunni. Gamalt orð sem er haft um biskupsdæmi er "stifti". Biskupsdæmi skiptast í sóknir. Tjóðrun. Tjóðrun (e. "tethering") kallast það að deila nettengingu farsíma með öðrum tækjum, oftast tölvu. Tengingunni getur verið deilt í gegnum Wi-Fi, Bluetooth eða snúru (til dæmis USB-snúru). Síminn gegnir hlutverki flytjanlegs beinis. Í mörgum farsímum eru stýrikerfi sem styðja tjóðrun, til dæmis Windows Phone, Android og iOS. Oft er notkun á tjóðrunarþjónustu ekki innifalin í áskriftum og þarf að borga meira til að nota hana. Annað íslenskt nýyrði yfir tjóðrun er "Hlekkjun". Windows Phone. Windows Phone er stýrikerfi fyrir farsíma frá Microsoft og leysti Windows Mobile af hólmi, þó að sé ekki hægt að nota þau saman. Það er ólíkt forveranum sínum í sambandi við markhópinn: Windows Phone er ætlað neytendum þar sem Windows Mobile var ætlað fyrirtækjum. Það kom á markaðinn í Evrópu, Singapúr, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó í haust 2010 og í Asíu í 2011. Notendaumhverfið er byggt á hönnunkerfi sem heitir Metro. Windows Phone samlagast öðrum þjónustum frá Microsoft eins og Xbox Live. Viðskiptavinur. Viðskiptavinur (einnig viðskiptamaður eða kúnni, úr dönsku "kunde") er sá sem kaupir eða ætlar að kaupa vörur eða þjónustu frá samtökum, þau mega vera dreifingaraðili, seljandi eða smásali. Viðskiptavinur getur líka átt við um einvhern sem skoðar vörur eða þjónustur sem síðan ákveður að hætta við. Miðlað er til viðskiptavina í gegnum auglýsingar, markaðssetningu og aðrar samskiptaleiðir. Viðskiptaþjónusta kallast það að aðstoða viðskiptavin, þ.e. hjálpa honum með að finna viðeigandi vörur og þjónustur og veita honum aðstoð eftir söluna. Viðskiptatryggð á við hversu mikið viðskiptavinur notar þjónustur fyrirtækis og hversu líklegt það er að hann mælir með fyrirtækinu. Samtök. Samtök eru hópur tveggja eða fleiri manneskja sem vinna saman í því að framkvæma verkefni til þess að ná einhverju sérstöku marki. Samtök gera meðlimunum sínum kleift að afreka mörk, framleiða vörur og/eða þjónustur og byggja sambönd við önnur samtök. Til eru mismunandi gerðir af samtökum, til dæmis fyrirtæki, góðgerðarstofnanir, alþjóðasamtök, sameignarfélög, stjórnmálaflokkar og háskólar. Samtök eru til innan samfélags. Samtök eru oft formleg og eru ólík óformlegum hópum eins og fjölskyldum, ættflokkum, vinahópum og nágrennum. Sala. Sala kallast það að afhenda vöru eða þjónustu gegn greiðslu og flyst þá eignarréttur til nýs eiganda. Sá sem selur heitir "seljandi" og sá sem kaupir nefnist "kaupandi". Verslun og viðskipti eru orð sem höfð eru um sölu og kaup. Þó að kaupandinn taki þátt í sölu framkvæmir seljandinn hana, þetta heitir færsla. Í sumum tilvikum er eignarrétturinn ekki færður á milli aðila, það er að segja greitt er aðeins fyrir "afnot" af vöru eða þjónustu og nefnist það leiga. Sala á oftast við um afhendingu vöru í skiptum fyrir peninga. Það að afhenda vöru eða þjónustu í skiptum fyrir eitthvað annað en peninga heitir vöruskipti. Oft á sala sér stað í verslunum en hún getur líka farið fram eftir öðrum leiðum, til dæmis í gegnum netið. Sölumaður er einhver sem hefur sölu að atvinnu. Munur er á heildsölu og smásölu; í heildsölu selur eitt fyrirtæki vörur til annars fyrirtækis sem ætlar þær til endursölu, oftast í miklu magni, en í smásölu eru þær seldar neytendum, oftast í litlu magni. Shutter Island (kvikmynd). "Shutter Island" er sálfræðitryllir, sem kom út árið 2010 og er byggður á samnefndri bók eftir Dennis Lehane frá árinu 2003. Martin Scorsese leikstýrði og Leonardo DiCaprio fer með aðalhlutverkið. Í myndinni alríkislögreglumaðurinn Edward „Teddy“ Daniels sem rannsakar geðsjúkrahús á eyjunni sem nafn myndarinnar vísar í. Svaneðlur. Svaneðlusteingervingur á safni í Stuttgart Teikning af svaneðlu upp á landi eftir Heinrich Harder Svaneðlur (fræðiheiti "Plesiosauria") voru stór, höfuðsmátt sjávarskriðdýr með fjögur bægsli. Steingervingasafnarinn Mary Anning (1799–1847) fann fyrsta steingerving svaneðlu. Árið 1982 fannst mjög stór svaneðla í fylkinu Nuevo León í Mexíkó, um 15 m að lengd. Árið 2004 fann sjómaður í Somerset í Bretlandi unga svaneðlu. Sú kenning hefur verið sett fram að minni svaneðlur hafi skriðið upp á ströndina til að verpa eggjum en nú er talið að svaneðlur hafi átt lifandi unga. Steingervingar svaneðla benda til þess að þær hafi gengið með og fætt einn unga og hafa sennilega annast afkvæmin eins og nútíma hvalir. Hin fjögur bægsli eða sundhreifar eru ólíkir nútímadýrum (sæskjaldbökur nútímans synda eingöngu með framhreifum) og eru getgátur um hvernig sundtækni svaneðla var háttað. Theódór Júlíusson. Theódór Júlíusson (fæddur 21. ágúst 1949) er íslenskur leikari. Hann er með diplómu í leiklist frá "The Drama Studio" í Lundúnum. Hann var fastráðinn leikari hjá leikfélagi Akureyrar frá 1978 til 1989. Theódór lék sitt fyrsta hlutverk hjá leikfélagi Reykjavíkur sem gestaleikari árið 1987 en kom síðan aftur til starfa hjá félaginu við opnun Borgarleikhúss árið 1989 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur þrisvar verið tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir hlutverk sín í "Puntilla og Matta", "Söngleiknum Ást" og "Fjölskyldunni". Theódór hefur leikstýrt fjölda sýninga hjá áhugaleikfélögum og einnig hjá leikfélagi Akureyrar. Hann hefur leikið í ótal útvarpsleikritum, sjónvarps- og kvikmyndum þar á meðal "Englum alheimsins", "Hafinu", Mýrinni, Reykjavík-Rotterdam og Eldfjalli en fyrir hlutverk sitt þar hlaut hann fjölmörg verðlaun. Margrét Helga Jóhannsdóttir. Margrét Helga Jóhannsdóttir (fæddur 4. maí 1940) er íslensk leikkona. Hún útskrifaðist úr leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1967. Hún lék fyrst nokkur hlutverk hjá Þjóðleikhúsinu. Árið 1972 fór hún yfir til LR í Iðnó. Margrét hefur leikið í fjórum verkum Kjartans Ragnarssonar sem öll voru sýnd oftar en 200 sinnum. Í Borgarleikhúsinu hefur hún leikið í fjöldra sýninga þar á meðal í "Sigrún Ástrós" og "Chicago". Hún hefur leikið í ótal útvarpsleikritum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Margrét fékk Edduna fyrir hlutverk sitt í Englum alheimsins, tilnefningu fyrir Börn og var útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2004. Jólaglögg. Jólaglögg er dökkrauður og kryddaður áfengur drykkur, sem borinn er fram hitaður. Þess er einkum neytt á aðventunni, t.d. í jólaboðum. Johan Absalonsen. Johan Absalonsen (fæddur 16. september 1985) er danskur knattspyrnumaður sem spilar með FC Copenhagen í dönsku úrvalsdeildinni. Absalonsen, Johan Míósen. Míósen er jarðsögutímabil sem nær frá um 23,03 til 5,332 milljónum ára. Talið er að Ísland hafi orðið til sem eyja í upphafi Míósentímabilsins. Victoria Silvstedt. Karin Victoria Silvstedt (fædd 19. september 1974) er sænsk fyrirsæta, leikkona, söngkona og sjónvarpskona. Ferill. Silvstedt þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Svíþjóð og hún var valin sem fulltrúi Svíþjóðar í Ungfrú heimur árið 1993. Silvstedt hóf þá feril sem fyrirsæta í París og vann þar fyrir ýmis virt tískuhús, þar á meðal Chanel, Christian Dior, Giorgio Armani, Givenchy, Loris Azzaro og Valentino. Hún kom fram bæði í auglýsingum og á tískusýningum. Silvstedt hefur haldið áfram að starfa sem fyrirsæta á um allan heim og myndir af henni birtast reglulega í fjölmörgum tímaritum eins og "FHM", "Glamour", "GQ", "Maxim" og "Vanity Fair". Silvstedt hóf feril sinn sem leikkona í sjónvarpsþáttum framleiddum í Hollywood eins og "Melrose Place". Síðan þá hefur Silvstedt leikið í nokkrum Hollywood-gamanmyndum. Silvstedt hefur einnig leikið í kvikmyndum og sjónvarpi í ýmsum Evrópulöndum, einkum á Ítalíu. Silvstedt gaf út plötuna "Girl on the Run" árið 1999. Smáskífurnar „Hello Hey“, „Rocksteady Love“ og „Party Line“, komu líka út. Árið 2010 gaf Silvstedt út fjórðu smáskífu sína, „Saturday Night“. Silvstedt hefur sagst elska að syngja, en bara sem áhugamál. Silvstedt hefur komið fram sem sjónvarpskynnir um allan heim. Hún kynnti þáttinn "Wheel of Fortune" í Frakklandi og á Ítalíu frá árinu 2006, og flakkar á milli Parísar og Rómar. Silvstedt kynnti eigin sjónvarpsþátt árið 2010, "Sport by Victoria", á Eurosport fyrir Vetrarólympíuleikana 2010 þar sem hún kynnti bæði á ensku og frönsku. Silvstedt hóf framleiðslu á eigin raunveruleikasjónvarpsþáttum "Victoria Silvstedt: My Perfect My Life" árið 2008. Þættirnir hafa síðan verið sýndir um allan heim. Í fyrstu þáttaröðinni er fylgst með Silvstedt í vinnu og einkalífi í París, Róm, London, Helsinki, Stokkhólmi, Los Angeles og New York. Victoria Silvstedt talar reiprennandi sænsku, ensku, frönsku og ítölsku. Tenglar. Silvstedt, Victoria Silvstedt, Victoria Selevkídaveldið. Veldi díadókanna um 303 f.Kr. Selevkídaveldið var geysistórt ríki sem Selevkos stofnaði 312 f.Kr. en hann var einn af hershöfðingjum Alexander mikla. Á hátindi sínum náði ríkið frá miðhluta Litlu-Asíu austur að Balúkistan þar sem nú er Pakistan. Ríkið veiktist vegna átaka um ríkiserfðir. Parþar náðu austurhluta þess á sitt vald og gyðingar í Júdeu gerðu uppreisn undir forystu makkabea. Þegar Rómverjar hófu útþenslu sína til austurs réðu Selevkídar aðeins yfir nokkrum borgum í Sýrlandi. Ríkið leið undir lok 63 f.Kr. þegar Pompeius ákvað að gera Sýrland að rómversku skattlandi. Ævintýri Indiana Jones. "Ævintýri Indiana Jones" (enska:"The Young Indiana Jones Chronicles") eru bandarískir sjónvarpsþættir sem fjalla um æskuár sögupersónunnar Indiana Jones. Tvær þáttaraðir voru sýndar á árunum 1992–1993 áður en þáttunum var á endanum aflýst. Í kjölfarið á því voru síðan sýndar fjórar sjónvarpsmyndir á árunum 1994–1996. Þættirnir gerast að stórum hluta til í heimsreisu sem Jones fer í ungur að aldri ásamt föður sínum, móður og kennaranum frú Helen Seymour og í fyrri heimstyrjöld þar sem Jones skráir sig í belgíska herinn ásamt vini sínum Remy Baudouin. Í þáttunum heimsækir Jones fjölmörg lönd, þar á meðal Mexíkó, Egyptaland, Kína og fjölda Evrópulanda og kynnist fjöldanum öllum af þekktum persónum úr mannkynssögunni en þeirra á meðal eru Theodore Roosevelt, Pablo Picasso, Sigmund Freud og Charles de Gaulle. Síðjökultími. Síðjökultími eða Ísaldarlokin er tímabilið frá 14.000 til 10.000 árum þegar jökla var að leysa. Fyrir 14.000 árum fór að hlýna verulega og stóru ísaldarjöklarnir tóku að dragast saman og sjávarborð að hækka. Á Íslandi lá mikill jökull sem þrýsti landinu niður og sjávarborð var þá hærra. Hæst virðist sjávarborðið hafa verið fyrir um 12.000 árum. Víða má sjá ummerki um að sjávarborð hafi verið hærra sérstaklega við ár en þar eru víða malarhjallar sem koma fram í þeirri hæð sem sjávarborð var. Þessir malarhjallar eru fornir óshólmar sem ár mynduðu með framburði sínum þegar sjávarstaða var hærri. Síðjökultími er síðasti tími Pleistósen tímabilsins. Síðan tók nútíminn (Hólósen) við. Anís. Anís (fræðiheiti "Pimpinella anisum") er blómplanta af sveipjurtaætt sem upprunnin er í austurhluta Miðjarðarhafsstranda og Suðaustur-. Bragð anís minnir á lakkrís, fennikku og tarragon. Bökunarplata. Bakari tekur út ofni bökunarplötu með brauðbollum. Plata klædd álpappír til að auðvelda þrif. Bökunarplata eru flöt málmplata sem notuð er í ofni til að baka flata hluti eins og smákökur. Slíkar plötur eru oftast úr áli eða stáli. Stundum eru plöturnar húðaðar til að matur festist síður við þær. Stundum er bakað beint á plötu sem er smurð með smjörlíki eða annarri feiti en oft er bökunarplata klædd með smjörpappír, vaxpappír eða álpappír. Smákaka. Stór smákaka skreytt eins og kaka. Smákaka er lítil, flöt ofnbökuð kaka sem oftast inniheldur hveiti, egg og sykur. Einnig er oft bætt við bragðefnum, súkkulaði, smjöri, hnetusmjöri eða þurrkuðum ávöxtum. Algeng bragðefni eru möndlur og hnetur, vanillusykur, kókos, kanill, hafragrjón, kakó og sýróp. Smákökur eru venjulega bakaðar þangað til þær eru stökkar eða nógu lengi til að vera mjúkar en sumar tegundir eru þó ekki bakaðar. Smákökur eru þéttari í sér en kökur bakaðar í formi sem kemur af því að í smákökum er lítið vatn en oft feiti eða egg. Smákökur eru sennilega upprunnar á 8. öld í Persíu eftir að sykur varð algengur þar. Kanill. Kanill (fræðiheiti: "Cinnamomum verum") er krydd sem er fengið af innri birki trjáa af ættbálknum Cinnamonum. Ræktun. Kanill er framleiddur með því að rækta plöntuna í tvö ár áður hún er höggvin niður. Á næsta ári myndast um tylft sprota. Ytri börkur greinarinnar er skrapaður af og greinin síðan slegin með hamri til að losa um innri börkinn. Innri börkurinn er tekinn í löngum ræmum. Eingöngu þynnsti hluti hans er notaður og lagður í bleyti. Á meðan börkurinn er enn blautur er hann skorinn niður í 5-10 sentímetra langar ræmur og unninn. Þegar búið er að vinna börkinn er hann látinn þorna í fjórar til sex klukkustundur í vel loftræstu og nokkuð heitu umhverfi. Kanill kemur upprunalega frá Sri Lanka og Suður-Indlandi. Um 80-90% af heimsframleiðslu kanils kemur frá Sri Lanka. Tréð er einnig ræktað til markaðsölu í Indlandi, Bangladess, Jövu, Súmötru, Vestur Indíum, Brasilíu, Víetnam, Madagaskar, Sansibar og Egyptalandi. HS Orka. HS Orka er orkufyrirtæki í Reykjanesbæ sem annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Það var áður hluti af Hitaveitu Suðurnesja. Í maí 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Samkvæmt lögunum bar Hitaveitu Suðurnesja hf. að aðskilja formlega í sérstökum félögum einkaleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi. Hitaveitu Suðurnesja hf var skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Veitur hf sem annast dreifingu á rafmagni, hitaveitu og ferskvatni og HS Orka hf annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Lögformlegur aðskilnaður HS Orku hf. og HS Veitna hf. miðast við 1. júlí 2008 en stjórnunarlegur og bókhaldslegur aðskilnaður varð síðar um árið. Á hluthafafundi Hitaveitu Suðurnesja 1. desember 2008 var fyrirtækinu skipt upp þannig að HS orka taldist 73 % en HS veitur 27 % af virði Hitaveitu Suðurnesja. Skipuð var sérstjórn um HS Orku og var Ásgeir Margeirsson stjórnarformaður. Einungis Reykjanesbær og Geysir Green Energy sem áttu 67 % hlutafjárs samþykktu skiptinguna. (Morgunblaðið, 2.des. 2008, bls 4 og 8) Reykjanesbær átti 34%, Geysir Green Energy 32%, Orkuveita Reykjavíkur 16%, Hafnarfjarðarbær 15 % og Grindavík, Garður og Vogar innan við 1 % hvert. Vorið 2007 var 15,2 % hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja auglýstur til sölu. Hitaveita Suðurnesja hafði allt frá árinu 1998 óskað eftir viðræðum um kaup á hlut ríkisins (Viðskiptablaðið 19.1.2007 Líklegt að forkaupsréttur verði nýttur). Sveitafélögum gaft hins vegar ekki kostur á að kaupa þann hlut því tekið var fram af einkavæðinganefnd fjármálaráðuneytis að sá hlutur yrði aðeins seldur til einkaaðila. Orkuveita Reykjavíkur hafði keypt hlut Grindavíkur í Hitaveitu Suðurnesja og ætlaði að kaupa hlut Hafnarfjarðarbæjar en Samkeppniseftirlit hafði úrskurðað að Orkuveitan mætti einungis eiga 10 % hlut. (Mbl. 21. des. 2008 bls. 6) Í maí 2007 var hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja seldur til Geysis Green Energy fyrir 7,6 milljarða króna. Saga orkuveitu á Suðurnesjum. Árin 1971 og 1972 voru boraðar tvær holur um 5 km norðan Grindavíkur, skammt frá Svartsengi í þeim tilgangi að finna heitt vatn sem nota mætti til húshitunar í Grindavík. Holurnar voru 240 og 403 m djúpar og kom í ljós að þarna var háhitasvæði þar sem hiti var yfir 200° C á undir 1.000 m dýpi og vatnið sem kom úr borholunum var salt með um 2/3 af seltu sjávar. Ekki var því hægt að nýta vatnið beint til húshitunar heldur yrði að koma til varmaskiptistöðvar. Árið 1973 var Svartsengissvæðið rannsakað frekar og boraðar tvær holur 1713 og 1519 m djúpar og gerðar mælingar sem gáfu til kynna að umfang heita vatnsins þarna á um 600 m dýpi væri um 400 ha. „Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja jarðhita í Svartsengi við Grindavík eða annars staðar á Reykjanesi ef hagkvæmt þykir, reisa þar varmaskiptastöðvar og leggja aðveituæðar til þéttbýliskjarna á Suðurnesjum, leggja dreifikerfi og annast sölu á heitu vatni til notenda. Hitaveita Suðurnesja skal reisa kyndistöðvar teljist slíkt nauðsynlegt vegna rekstraröryggis.“ Eignarhlutar í Hitaveitu Suðurnesja skiptust við stofnun þannig að ríkissjóður átti 40% og sveitarfélögin sjö sem þá voru á Suðurnesjum áttu 60% sem skiptust í samræmi við íbúafjölda þann 1. desember 1974. Raforkulög tóku gildi um áramót 2005-6 þar sem raforkusala var gefin frjáls. Í janúar 2006 fékk Hitaveita Suðurnesja ásamt sex öðrum veitufyrirtækjum (Norðurorku, Orkubúi Vestfjarða, Orkuveitu Húsavíkur, OR, RARIK og Rafveitu Reyðarfjarðar) leyfi iðnaðarráðherra til að stunda raforkuviðskipti óháð dreifisvæði. Anggun. Angunn Cipta Sasmi (f. 1974) er frönsk söngkona. Criminal Minds (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 20. september 2006 og sýndir voru 23 þættir. Leikaraskipti. Leikkonan Lola Glaudini yfirgaf þáttinn eftir sex þætti og var skipt út fyrir Paget Brewster. Kirsten Vangsness var gerð að aðalleikara. RARIK. RARIK ohf (áður Rafmagnsveitur ríkisins) er opinbert orkufyrirtæki. Rafmagnsveitur ríkisins hófu starfsemi 1. janúar 1947. Á fyrstu árum RARIK var hafist handa við nokkrar virkjanir og árið 1954 var lögfest rafvæðingaráætlun (10 ára áætlun) og var þá gert átak í rafvæðingu dreifbýlis. RARIK reisti m.a. Lagarfossvirkjun og Mjólkárvirkjun II sem báðar voru teknar í notkun 1975. RARIK tók við rekstri Kröfluvirkjunar í ársbyrjun 1979 og sá um uppbyggingu og rekstur hennar þar til Landsvirkjun tók við þeim rekstri. Landsvirkjun var stofnuð 1965 og árið 1967 voru raforkulög endurskoðuð og breytt í orkulög en með þeim lögum voru RARIK og Héraðsrafmagnsveiturnar sameinaðar í eitt fyrirtæki sem heyrði undir þann ráðherra sem fór með orkumál. Árið 1972 hófust framkvæmdir við fyrsta hluta byggðalínu em með henni var ætlað að hringtengja raforkukerfi landsins og sameina raforkukerfi einstakra landshluta. RARIK sá um það verkefni en Landsvirkjun tók svo yfir byggðalínuna 1983 og var þá samið um að RARIK lyki við byggingu Suðurlínu frá Hornafirði til Sigölduvirkjunar. Þessari hringtengingu raforku var lokið 1984 og var þá búið að tengja alla þéttbýlisstaði saman í hringveg raforku sem var 1.057 km. Orkubú Vestfjarða (OV) var stofnað 1978 og tók það við starfsemi RARIK á Vestfjörðum. Árið 1985 keypti Hitaveita Suðurnesja flutningskerfi og markað RARIK á Reykjanesi og þar með markað Varnarliðsins á Miðnesheiði. RARIK keypti árið 1991 Hitaveitu Hafnar í Hornafirði, Skeiðfossvirkjun og Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar og hóf þá í fyrsta skipti rekstur jarðhitaveitu. RARIK keypti Hitaveitu Seyðisfjarðar 1992, Dreifikerfi Rafveitu Borgarness og Rafveitu Hvanneyrar árið 1995, Rafveitu Hveragerðis árið 2000, Rafveitu Sauðárkróks árið 2001, Hitaveitu Dalabyggðar 2003 og Hitaveitu Blönduóss 2005. RARIK á og rekur dreifikerfi á 43 þéttbýlisstöðum. Meirihluti af dreifikerfum í sveitum eða um 90 % eru í umsjá RARIK og undanfarin ár hefur verið gert átak í að endurnýja dreifikerfið með því að leggja jarðstrengi í stað loftlína. Í byrjun árs 2005 urðu breytingar á raforkuviðskiptum en þá voru samþykkt raforkulög þar sem stærstu raforkukaupendur gátu valið raforkusala og í ársbyrjun 2006 voru öll viðskipti með raforku gefin frjáls. Landsnet hf tók til starfa 1. janúar 2005 en því er ætlað að sinna meginflutningi rafmagns í landinu. Með stofnun Landsnets lauk þætti RARIK í heildsölu rafmagns og stundar fyrirtækið nú eingöngu smásöluviðskipti. Meirihluti stofnlínukerfis RARIK var seldur til Landsnets og var helmingur söluverðs greiddur sem hlutafé í Landsneti en RARIK á tæpan fjórðung í Landsneti. 3. apríl 2006 voru samþykkt lög þar sem Rafmagnsveitum ríkisins var breytt í opinbert hlutafélag og tók RARIK ohf við öllum rekstrinum. Í árslok 2006 færðust eignarhlutir í fyrirtækinu frá Iðnaðarráðuneyti til Fjármálaráðuneytis. Orkusalan ehf var stofnuð 10. mars 2006 og er í fullri eigu RARIK ohf. Criminal Minds (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 27. september 2007 og sýndir voru 20 þættir. Upprunalega átti að sýna 25 þætti en vegna verkfalls handritshöfunda þá voru aðeins þrettán þættir sýndir fyrir verkfallið og sjö þættir bættust við eftir það. Leikaraskipti. Mandy Patinkin vildi yfirgefa þáttinn, þar sem honum líkaði ekki ofbeldið í honum. Var honum skipt út fyrir Joe Mantegna sem kom fyrst fram í þætti sex. Set (guð). Set (fornegypska: St "Set", Stẖ "Setek", Swtḫ "Sútek"; forngríska: Σήθ "Seþ") var eyðimerkurguð og stormguð í fornegypskum trúarbrögðum. Hann varð síðar einnig guð myrkurs og óreiðu. Hann er sýndur sem maður með höfuð óþekktrar skepnu, með langt trýni og köntuð eyru sem er kölluð setdýrið og ýmsir telja að kunni að hafa verið til. Set leikur lykilhlutverk í goðsögninni um Ósíris og Ísisi sem hinn illi bróðir sem ásælist hásæti Ósíriss. Vísað er til þessarar goðsagnar í fjölda rita allt frá tímum Gamla ríkisins. Sonur Ósíriss, Hórus, er þannig erkióvinur Sets. Báðir guðir voru dýrkaðir í Efra Egyptalandi og því hefur verið stungið upp á því að goðsögnin endurspegli átök milli tveggja hópa um yfirráð yfir landinu. Í einni goðsögu um Ra tekur Set þátt í að sigrast á snáknum Apep en í öðrum heimildum hefur Set runnið saman við Apep og tekið yfir hlutverk hans sem guð hins illa. Silfursmiður. Silfursmiður er handverksmaður sem býr hluti til úr silfri eða gulli. Svipuð verkfæri og handverk er notað í silfursmíði og gullsmíði og voru gildi oftast þau sömu. Hórus. Hórus leiðir hinn látna, mynd úr papýrushandriti. Hórus (fornegypska: Ḥr "Her"; koptíska: ϩⲱⲣ "Hôr"; forngríska: Ὥρος "Hóros") er himinguð og einn af elstu og mikilvægustu guðunum í trúarbrögðum Forn-Egypta. Hann var dýrkaður að minnsta komsti frá því fyrir konungsættirnar og fram á tíma yfirráða Rómaveldis. Hann er venjulega sýndur sem fálki eða maður með fálkahöfuð og kórónu sameinaðs Egyptalands. Upphaflega virðist hafa verið litið á faraó sem holdgervingu Hórusar á jörðu meðan hann lifði, en sem holdgervingu Ósíriss eftir að hann dó, en frá fimmtu konungsættinni var tekið að líta á faraó sem holdgervingu Ra fremur en Hórusar. Sem himinguð flýgur Hórus yfir jörðina og augu hans eru sólin annars vegar og tunglið hins vegar. Skýringu á því af hverju sólin skín skærar en tunglið er að finna í goðsögunni um átök Hórusar og Sets þar sem Set rífur annað augað úr Hórusi en Hórus geldir Set (sem líka skýrir af hverju eyðimörkin, einkenni Sets, er ófrjó). Auga Hórusar, stílfærð mynd af mannsauga, er algengt fornegypskt verndartákn. Gildi. Gildi er samtök handverksmanna á ákveðnu sviði. Upprunalega voru gildi skipulögð eins og leynifélag. Tilvera þeirra byggðist oft á starfsleyfi eða einokunarleyfi sem var sérstaklega veitt af yfirvaldi (konungi) þar sem félagar höfðu leyfi til að starfa og versla og eiga verkfæri og hráefni til iðnaðar. Háskólar í Bologna, París og Oxford eru upprunnir úr gildum um 1200. Haþor. Haþor (fornegypska: Ḥwt Ḥr "Hút Her" „höfuðból Hórusar“) var fornegypsk móðurgyðja. Hún var gyðja ástar, fegurðar, tónlistar og frjósemi. Hún er sýnd sem kona með horn á höfði sem bera uppi sólskífu sem slanga hringar sig um, eða sem kýr með sams konar höfuðbúnað og auga Hórusar. Síðar varð hún líka gyðja trjánna. Hún tengist kýrgyðjunni Bat og tók alveg yfir hlutverk hennar á tímum Miðríkisins. Í einni gamalli goðsögu er Haþor dóttir Ra og ber auga hans, en í nýrri goðsögum er hún móðir Ra (sem sköpunargyðjan Mht wrt „flóðið mikla“) og ber hann milli horna sér. Hún var móðir apisnautanna sem voru heilög dýr, og tengist líka hinum heilögu hringlum og brjóstskildinum menat sem var borinn sem verndargripur. Criminal Minds (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 24. september 2008 og sýndir voru 26 þættir. Leikaraskipti. Leikkonan Meta Golding kom fram sem gestaleikari sem fjölmiðlatengiliðurinn Jordan Todd, kom hún í staðinn fyrir persónu A.J. Cook á meðan hún fór í fæðingarorlof í þáttunum. Fornegypsk trúarbrögð. Fornegypsk trúarbrögð eru flókin og marglaga fjölgyðistrú sem var mikilvægur þáttur í samfélagi Forn-Egypta. Egyptar til forna trúðu á fjöldann allan af guðum, gyðjum og öðrum goðmögnum sem tengdust náttúrunni með ýmsum hætti. Goðsögur um þessa guði tengjast gjarnan tilteknum náttúrufyrirbærum sem þeim er ætlað að skýra. Konungar Forn-Egypta, faraóarnir, voru af guðlegum uppruna og dýrkaðir sem guðir bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Opinber trúarbrögð landsins snerust mikið um dýrkun konungsins sem var milliliður milli heima manna og guða. Faraó færði guðunum fórnir til að viðhalda jafnvægi náttúrunnar. Opinberar trúarathafnir fóru fram í íburðarmiklum musterum. Stórfenglegar musterisbyggingar, pýramídarnir og heimildir um trúarathafnir sýna að gríðarmikið hefur verið lagt í framkvæmd opinberra trúarbragða svo að á tímabilum virðist líf almennings og yfirstéttarinnar vart hafa getað snúist um nokkuð annað. Utan við opinberu trúarbrögðin var síðan alþýðutrú þar sem almenningur átti sín samskipti við guðina. Hinir flóknu fornegypsku grafsiðir eru áberandi einkenni fornegypskra trúarbragða. Forn-Egyptar lögðu mikið upp úr því að varðveita fimm hluta sálarinnar svo hún kæmist til undirheima. Upphaflega voru lík grafin beint í sandinn og þornuðu þannig náttúrulega, en þegar tekið var upp á því að setja látna höfðingja í grafhýsi, fundu Forn-Egyptar upp aðferðir við að smyrja líkið og búa til múmíur. Hinn látni var síðan dýrkaður og fórnarathafnir haldnar við grafhýsið í nokkurn tíma eftir andlátið. Saga. Guðir Forn-Egypta eiga sér uppruna í dýraguðum sem voru verndarguðir héraða og bæja á forsögulegum tíma. Þegar elstu konungsættirnar náðu að skapa stórt miðstýrt ríki varð átrúnaður á suma þessa guði að ríkistrú með eigin stofnunum og prestum. Höfuðguðir, miðstöðvar átrúnaðar og völd presta breyttust eftir því hvernig stjórn landsins var háttað í þau þrjú árþúsund sem trúin var við lýði. Þegar öflugir nágrannar tóku að leggja Egyptaland eða hluta þess undir sig 1. árþúsundið f.Kr. veiktust opinberu trúarbrögðin þar sem þau snerust einkum um dýrkun konungsins. Ptólemajarnir sem ríktu yfir Egyptalandi eftir sigra Alexanders mikla og gerðu helleníska menningu að menningu yfirstéttarinnar, héldu hinum forna átrúnaði við og ýttu undir konungsdýrkunina. Á þeim tíma runnu ýmsir egypskir guðir saman við gríska guði. Þegar Rómverjar lögðu landið undir sig 30 f.Kr. breiddist átrúnaður á ákveðna guði eins og Ísisi út um heiminn. Koptíska kirkjan var stofnuð í Alexandríu af Markúsi guðspjallamanni árið 42 og kristni breiddist smám saman út þaðan um leið og hinum hefðbundnu trúarbrögðum hnignaði. Þegar kristni varð ríkistrú í Rómaveldi á 4. öld var síðustu leifum hinna fornu opinberu trúarbragða hent. Alþýðutrúin lifði þó áfram nokkurt skeið eftir það. Tunnumál. Tunnumál er mælieining sem var notuð við viðskipti á vörum. Steinkolatunna er 176 pottar eða 8 skeffur á 22 pottar. Korntunna er 144 pottar eða 8 skeffur á 18 potta og eftir henni var mælt korn, aldin, salt, krít, kalk og fleira. Öltunnna er 136 pottar. Eftir henni var mælt öl, mjöl, smjör, olía, lýsi, tólg, kjöt, fiskur, sápa og fleira. Brennivínstunna er 120 potta. Eftir henni var mælt brennivín og tjara. Síldartunna er 120 pottar. Tunna af smjöri og annarri feiti á að vega 224 a. Weil am Rhein. Weil am Rhein er borg í Baden-Württemberg, Þýskalandi. Þar búa 29.918 manns (2010). Þriggja landa brúin. Þriggja landa brúin (þýska: "Dreiländerbrücke", franska: "Passerelle des Trois Pays") er brú sem brúar Rín á landamærum Þýskalands og Frakklands. Brúin dregur nafn sitt af landamærum Þýskalands, Frakklands og Sviss sem eru í grennd við brúna. Kalkúnn. Kalkúnn (fræðiheiti: "Meleagris gallopavo") er fugl upprunninn frá Norður-Ameríku. Þeir eru alætur. Benjamin Franklin vildi gera kalkúninn að þjóðarfulgi Bandaríkjanna en náði ekki að sannfæra aðra um ágæti hugmyndar sinnar. Criminal Minds (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 23. september 2009 og sýndir voru 23 þættir. Söguþráðs skipti. Í þættinum "The Fight", sem sýndur var 7. apríl 2010, hefur Criminal Minds söguþráðasskipti við. Leikstjórn. Leikarinn Matthew Gray Gubler leikstýrði þættinum "Mosley Lane". Listi yfir söfn, setur og sýningar á Íslandi. Þetta er listi yfir söfn, setur og sýningar á Íslandi. Le Petit Vingtième. "Le Petit Vingtième" var vikulegt fylgirit belgíska dagblaðsins "Le Vingtième Siècle" á árunum 1928 – 1940. Teiknimyndasögur Hergés um Tinna og Palla og Togga birtust fyrst í þessu riti. Það hætti útgáfu við innrás Þjóðverja í Belgíu. Blaðið var prentað í svart-hvítu. Í tengslum við dagblaðið var stofnuð bókaútgáfa, "Les éditions du Petit Vingtième", sem gaf út fyrstu þrjár Tinnabækurnar og tvær bækur um "Palla og Togga" en hætti síðan starfsemi og seldi útgáfuréttinn til Casterman árið 1934. Ákvæðisorð. Ákvæðisorð eru í málfræði orð sem standa með öðrum orðum og kveða nánar um einkenni þeirra eða segja nánar til um hvað er átt. Personal Humour. Personal Humour er fyrsta plata hljómsveitarinnar Lada Sport, kom hún út í september árið 2004 og var gefin út af hljómsveitinni sjálfri. Platan var tekin upp meira og minna af trommara Lada Sport, Haraldi Leví Gunnarssyni sumarið 2004. Þar sem hljómsveitin var mjög iðin við spilamennsku sama ár seldust öll 200 eintökin sem framleidd voru af plötunni. Blái Lótusinn. Blái lótusinn er fimmta bókin í ritröðinni um Ævintýri Tinna. Hún kom fyrst út í íslenskri þýðingu hjá Fjölva-útgáfunni árið 1977. Flugrás 714 til Sydney. "Flugrás 714 til Sidney" (franska: "Vol 714 pour Sydney") er 22. myndasagan í bókaflokknum "Ævintýri Tinna" eftir belgíska myndasöguhöfundinn Hergé. Hún kom fyrst út árið 1968. Love Is Something I Believe In. Love Is Something I Believe In er þriðja plata hljómsveitarinnar Lada Sport, og var útgefin 16. júní árið 2010 hjá Record Records. Platan var tekin upp í Orgelsmiðjunni í mars 2010, upptökustjóri hennar var Aron Þór Arnarsson. Platan var masteruð af Styrmi Haukssyni og umslagið var hannað af Jóni Helga Hólmgeirssyni. Urbana (Illinois). Urbana er borg í Illinois í Bandaríkjunum. Þar búa 41.250 manns (2010). Íslensku safnaverðlaunin. Íslensku safnaverðlaunin eru verðlaun sem Félag íslenskra safna og safnmanna og Íslandsdeild ICOM hafa veitt frá árinu 2000 (annað hvert ár frá 2006). Urbana (Indiana). Urbana er þorp í Indiana í Bandaríkjunum. Urbanna. Urbanna er borg í Virginíu í Bandaríkjunum. Þar búa 543 manns (2000). Nautið (stjörnumerki). Nautið (Taurus) er eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Nautið er stórt og áberandi stjörnumerki á vetrarhimninum milli Hrútsins í vestri og Tvíburanna í austri. Bjartasta stjarna merkisins er Aldebaran rauðleit að lit. Urbana (Ohio). Urbana er borg í Ohio í Bandaríkjunum. Þar búa 11.613 manns (2000). Nada Surf. Nada Surf er bandarísk rokk-hljómsveit, sem leikur öðruvísi rokk. Hún er stofnuð árið 1992 í New York og samanstendur af Matthew Caws á gítar og söng, Ira Elliot á trommum og Daniel Lorca á bassa. Þekktust er hljómsveitin fyrir lag sitt Popular frá árinu 1996, sem og plötuna Let Go frá 2003. Dinosaur Jr.. Dinosaur Jr. er bandarísk rokk-hljómsveit, sem leikur jaðarrokk, stofnuð í Amherst í Massachusetts árið 1984. Upprunarlega hét hljómsveitin Dinosaur, en þurfti að breyta nafni sínu til að koma í veg fyrir málshöfðun. Hljómsveitin hætti störfum árið 1997 en kom aftur saman árið 2005. Gítarleikarinn J Mascis, bassaleikarinn Lou Barlow, og trommarinn Murph voru og eru einu enn þann dag í dag einu þrír meðlimir hljómsveitarinnar. The Flaming Lips. "The Flaming Lips" er bandarísk rokk-hljómsveit, sem leikur öðruvísi rokk, stofnuð í Oklahoma City, Oklahoma árið 1983. Hljómsveitin náði talsverðum vinsældum á tíunda áratug síðustu aldar og hefur haldið stöðugum vinsældum fyrir framsækið rokk sem og mikilfenglega sviðsframkomu. Grunnmeðlimir hljómsveitarinnar eru "Wayne Coyne", "Michael Ivins" og "Steve Drozd". Föðurlandsvinalögin. Föðurlandsvinalögin eru bandarísk hryðjuverkalög sem sett voru í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 og framlengd af Barack Obama. X (breiðskífa). "X" er tíunda breiðskífa með ástralska söngkona Kylie Minogue. Hún er fyrsta breiðskífa hennar síðan "Ultimate Kylie" (2004) og "Body Language" (2003). Breiðskífa var á undan honum smáskífur „2 Hearts“ og var gefin út um allan heim í nóvember 2007. Platan var gefin út í Bandaríkjunum í apríl 2008, á eftir smáskífur „All I See“. Endanleg smáskífur af breiðskífa var „The One“ sem kom út í Ástralíu í júlí 2008. Breiðskífa náð fyrsta sæti í Ástralíu með sölu á 70.000 eintökum. Hins vegar platan náði aðeins 38. sæti á Nýja-Sjálandi. Breiðskífa náði fram sæti í Bretlandi og var staðfest platínu með sölu á 462.000 eintökum. Í Bandaríkjunum plötunni náð 139. sæti á Billboard 200 við sölu á 38.000 eintökum í aðaleinkunn. Platan var einnig árangur á meginlandi Evrópu, og náð topp lista í Sviss, Austurríki, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Írlandi, Belgíu, Hollandi, Spáni og Svíþjóð. Umhverfissiðfræði. Umhverfissiðfræði er undirgrein hagnýttrar siðfræði um viðhorf manna til náttúrunnar og gildi hennar. Virki. "Virki" er varnarveggur eða varnarhús. Virki voru mikið notuð á miðaldartímanum fyrir Rómverja og stríðsmenn. Oft er líka talað um snjóvirki, þ.e. virki úr snjó til að verja snjóárás. Dæmi um virki er Colosseum en það var upprunalega hringleikahús. Síðar var það notað fyrir virki gegn rómverskum stríðsmönnum eða á stríðsárunum gegn öðrum löndum. Urbana (Iowa). Urbana er borg í Iowa í Bandaríkjunum. Þar búa 1.019 manns (2000). Foringjarnir. Foringjarnir var íslensk rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1986. Meðlimir hennar voru "Þórður Bogason" (söngvari), "Einar Jónsson" (gítar), "Steingrímur Erlingsson" (bassagítar), "Jósep Sigurðsson" (hljómborð) og "Oddur F. Sigurbjörnsson" (trommur). Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu "Komdu í partý" 30. júlí 1987 og á sama ári var lagið "Komdu í partý" vinsælt. Foringjarnir hituðu upp fyrir hljómsveitina Kiss sem kom til Íslands 1988, þeir tónleikar voru í Reiðhöllinni í Víðidal. Oddur F. Sigurbjörnsson var trommuleikari Tappa Tíkarrass. Já. Já er íslenskt þjónustufyrirtæki sem býr til símaskrána fyrir Ísland og rekur símaþjónustuverið „Já 118“ og leitarvefinn Já.is. Kiss. Kiss er bandarísk þungarokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1973. Meðlimir hennar eru "Paul Stanley" (söngvari), "Gene Simmons" (gítar), "Tommy Thayer" (bassagítar) og "Eric Singer" (trommur). Pamela Anderson. Pamela Anderson (f. 1967) er bandarísk leikkona, söngkona og þúsundþjalasmiður. Hún er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttaröðunum Baywatch. Hún hefur unnið mikið fyrir Playboy sem fyrirsæta og leikkona. Hún er grænmetisæta og styður dýraverndunarsamtökin Peta. Hún hefur verið gift þrisvar og hafa öll hjónaböndin verið ófarsæl. Fyrsta var við Tommy Lee. Það stóð yfir í um þrjú ár eða frá 1995-1998. Hin tvö entust bæði í eitt ár eða frá 2006-2007 og 2007-2008. Anderson, Pamela Anderson, Pamela Urbana (Venetó). Urbana er borg í Venetó í Ítalíu. Þar búa 2.335 manns (2010). Verslun (búð). Verslun eða búð er staður þar sem vörur og þjónustur eru seldar eða leigðar. Flestar verslanir eru smásalar en til eru líka heildsöluverslanir fyrir fyrirtæki. Verslanir er að finna í mörgum tegundum og stærðum, til dæmis er stórmarkaður stór verslun sem býður upp á mikið úrval af matvörum og heimilisvörum, oftast á lágu verði. Annað dæmi er deildaverslun, það er verslun sem skiptist í deildir og selur meðal annars föt, húsgögn og heimilistæki. Oftast eru verslanir flokkaðar eftir vörunum sem eru seldar þar, til dæmis apótek, blómabúð, bókabúð eða matvöruverslun. Sumar verslanir eru sambland af veitingahúsum eða kaffihúsum og búðum, til dæmis bakarí, þar sem hægt er að kaupa brauðvörur að taka með eða borða á staðnum. Í mörgum löndum eru verslanir staddar við verslunargötur í miðjum bæjum og borgum, dæmi um íslenska verslunargötu er Laugavegur. Samt sem áður er vinsælla í dag að byggja verslunarmiðstöðvar sem eru oftast ekki í miðbæ en skapa innanhússumhverfi þar sem versla má er í hverju veðri sem er. Vinsældir verslunarmiðstöðva hafa haft þannig áhrif að það sé minnkuð umferð um verslunargötur og sumar verslunarkeðjur vilja ekki opna útibú við þær. Sóbek. Sóbek (fornegypska: sbk "Sebek"; forngríska: Σοῦχος "Súkos") var Nílarguð í fornegypskum trúarbrögðum. Hann var bæði sköpunarguð (sem sá fyrsti sem skreið upp úr frumvötnunum við sköpun heimsins) og frjósemisguð. Hann er sýndur sem krókódíll eða maður með krókódílshöfuð. Dýrkun Sóbeks var mest áberandi í borginni Krókódílópólis í Neðra Egyptalandi þar sem nú er borgin Fajúm suðvestur af hinni fornu Memfis. Ynglingasaga. Ynglingasaga: Skrifuð af Snorra Sturlusyni og hún er að finna í bókini Heimskringlu. Ynglingssaga er um konungsætt í svíðþjóð Criminal Minds (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 22. september 2010 og sýndir voru 24 þættir. Leikaraskipti. Þann 25. júní 2010 birtust fréttir um að leikkonurnar A.J. Cook og Paget Brewster myndu yfirgefa þáttinn. A.J. Cook myndi koma fram í tveimur þáttum, á meðan Paget Brewster myndi yfirgefa þáttinn um mitt tímabilið. Þessi ákvörðun CBS kom ekki vel fyrir sjónir aðdáenda þar sem undirskriftunarlistar voru settir af stað til að halda leikkonunum inni. Þann 29. september 2010 var tilkynnt að leikkonan Rachel Nichols myndi bætast í hópinn og að hún kæmi í staðinn fyrir A.J. Cook. Leikstjórn. Leikarinn Matthew Gray Gubler leikstýrði þættinum "Lauren" sem var lokaþáttur Paget Brewster í þáttaröðinni. Times Square. Times Square eru vegamót í Manhattan í miðri New York þar sem göturnar Broadway og 7. breiðstræti renna saman. Vegamótin hétu upprunalega Longacre Square en þeim var gefið nýtt nafn árið 1904 þegar dagblaðið "New York Times" opnaði höfuðstöðvarnar sínar þar í Times Building, sem nú heitir One Times Square. Á byggingunum á Times Square eru margir auglýsingaskjáir og neonljósaskilti, og á gamlárskvöldi er hátíð haldin þar. René Goscinny. René Goscinny (1926 – 1977) var franskur myndasöguhöfundur. Goscinny er þekktastur fyrir skrif sín í myndasögunum um Ástrík gallvaska sem hann skapaði ásamt teiknaranum Albert Uderzo. Goscinny skrifaði einnig fyrir aðrar myndasögur og á meðal þeirra voru "Lukku Láki" (myndskreytt af Morris), "Fláráður" (sem hann skapaði ásamt teiknaranum Jean Tabary) og "Litli Lási" (sem hann skapaði ásamt teiknaranum Sempé). Tenglar. Goscinny, René Martinus Thomsen. Martinus Thomsen, gengur undir dulnefninu Martinus (f. 11. ágúst, 1890 – d. 8. mars, 1981), var danskur rithöfundur og dulhyggjumaður. Martinus fæddist inn í fátæka fjölskyldu og ólst hann upp hjá frænda sínum og frænku. Enginn veit föðurætt hans. Sökum bágra efnislegra aðstæðna hlaut hann aðeins hefðbundna grunnskólagöngu. Hann var lengi starfsmaður í mjólkurbúi. Árið 1921, þegar Martinus var um þrítugt, segist hann hafa orðið fyrir öflugri andlegri vakningu sem veitti honum innblástur til þess að feta andlega leið. Sú leið fól í sér að skapa alheimsvísindi (d. kosmologi) sem hann lýsir í fjölda bóka. Meginverk hans nefnist Livets Bog (Bók lífsins), sem hefur einnig verið vísað til sem Þriðja Testamentið. Alheimsvísindi Martinusar er sýn á lífið og tilveruna. Alheimsvísindin innihalda tilvísanir í Jesú Krist en er frábrugðin hefðbundinni kristinni trú. Eitt af því sem einkennir verk hans eru úthugsaðar táknmyndir eða symbólískar teikningar sem finna má í bókum hand með nákvæmum útskýringum á þýðingu hverrar um sig. Sjónþing. Sjónþing eru málþing um einstaka myndlistarmenn sem haldin hafa verið frá árinu 1996 í menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík. Þeim er ætlað að gefa innsýn í íslenska samtímalist og kynna viðhorf, áhrifavalda og lífshlaup listamanna í máli og myndum. Sjónþingin eru skipulögð þannig að listamaður situr fyrir svörum um líf sitt og list. Gefin hafa verið út rit eftir hvert sjónþing og eru þau frá 2003 gefin út á rafrænu formi. Haldin hafa verið sjónþing um eftirfarandi listamenn Steina Vasulka. Steina (til hægri) og Woody Vasulka Steina Vasulka (fædd Steinunn Briem Bjarnadóttir árið 1940) er íslenskur vídeólistamaður. Hún fæddist í Reykjavík og lærði klassíska tónlist og fékk námstyrk til að fara á listaskóla í Prag árið 1959. Þar kynntist hún manni sínum Woody Vasulka en hann er af tékkneskum ættum og nam fyrst verkfræði og síðar sjónvarps- og kvikmyndagerð. Steina og Woody fluttu til New York borgar árið 1965 og voru þar brautryðjendur í vídeólist sem þau sýndi í Whitney safninu og þau stofnuðu The Kitchen árið 1971. Frá árinu 1980 hafa þau búið í Santa Fe í New Mexico. Santa Fe (Nýju Mexíkó). Santa Fe er höfuðborg fylkisins Nýju Mexíkó í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hún er fjórða stærsta borg fylkisins og höfuðstaður samnefndrar sýslu. Íbúar borgarinnar voru 67.947 árið 2010. Þar sem borgin stendur voru áður nokkur þorp púeblóindíána, stofnuð í kringum árið 1000. Santa Fe-áin rann þá allt árið um kring en er nú árstíðabundið vatnsfall. Héraðið var hluti af Nýja Spáni og landstjórinn Juan de Oñate stofnaði héraðið Santa Fé de Nuevo México árið 1598 með höfuðstað í San Juan de los Caballeros norðan við núverandi borg. Annar landstjóri Nýju Mexíkó, Pedro de Peralta, stofnaði núverandi borg árið 1610 og gerði hana að höfuðborg. Púeblóindíánar ráku Spánverja úr borginni í Púeblóuppreisninni 1680-92. Þegar Mexíkó fékk sjálfstæði var Santa Fe áfram fylkishöfuðborg og 1848 varð hún hluti af Bandaríkjunum ásamt allri Nýju Mexíkó. Kepler-22b. Kepler-22b er fyrsta fjarreikistjarnan sem Kepler-geimsjónauki NASA hefur fundið í lífbelti stjörnu sem líkist sólinni okkar. Ekki er vitað hvort þar þrífist líf. Steinunn Sigurðardóttir (fatahönnuður). Steinunn Sigurðardóttir er íslenskur fatahönnuður. Hún stundaði nám við listaháskóla í París og New York og lauk prófi frá Parson School of Design. Hún starfaði um árabil við tísku- og fatahönnun hjá erlendum tískuhönnuðum en stofnaði árið 2000 fyrirtækið STEiNUNNI og opnaði verslun við Laugaveg í Reykjavík. Steinunn hlaut hönnunarverðlaun Torsten och Wanja Söderberg-verðlaunin árið 2008. Hún var borgarlistamaður Reykjavíkur 2009. Útmánuðir. Útmánuðir eru síðustu þrír vetrarmánuðir að íslensku tímatali: þorri, góa og einmánuður. Tímabilið samsvarar 19.–25. janúar til 20.–26. mars. Janeane Garofalo. Janeane Garofalo (fædd Jane Anne Garofalo, 28. september 1964) er bandarísk leikkona og uppistandari sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Larry Sanders Show, Felicity, The West Wing, The Truth About Cats & Dogs og Ratatouille. Einkalíf. Garofalo fæddist í Newton, New Jersey og er af ítölskum og írskum uppruna. Ólst hún upp í Ontario, Kaliforníu, Madison og New Jersey. Garofalo stundaði nám í sögu við "Providence College" í Providence, Rhode Island. Garofalo vann grínhæfileikakeppnina "Funniest Person in Rhode Island" sem var styrkt af "Showtime" sjónvarpstöðinni. Dreymdi Garofalo um að vera handritshöfundur hjá "Late Night With David Letterman" og ákvað hún að gerast atvinnu uppistandari eftir að hafa útskrifast með gráðu í sögu og amerískum fræðum. Þann 4. apríl 2000, þá kom út bókin "Feel This Book: An Essential Guide to Self-Empowerment, Spiritual Supremacy, and Sexual Satisfaction" sem var skrifuð af Garofalo og Ben Stiller. Leikhús. Garofalo hefur komið fram í leikritunum "Russian Transport" og "Love, Loss and What I Wore". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Garofalo var árið 1991 í sjónvarpsmyndinni "Passion". Frá 1992-1993 þá kom Garofalo fram í "The Ben Stiller Show" í ýmsum hlutverkum. Garofalo kom fram í Saturday Night Live frá 1994-1995. Árið 1992 þá var Garofalo boðið hlutverk í The Larry Sanders Show sem Paula, sem hún lék til ársins 1997. Frá 1998-2000 þá lék Garofalo hlutverk Sally Reardon í Felicity. Garofalo hefur síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við The West Wing, Two and a Half Men og 24. Árið 2010 þá var Garofalo boðið hlutverk í sem Beth Griffith, en aðeins 13 þættir voru framleiddir. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Garofalo var árið 1989 í "Majo no takkyûbin". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "That´s What Women Want", "Coldblooded", The Truth About Cats & Dogs, "The Cable Guy", "Cop Land", "200 Cigarettes", "Titan A.E. ", "Manhood", "Wonderland" og Ratatouille. Verðlaun og tilnefningar. Montréal Comedy Festival ‚Just for Laughs‘-verðlaunin Tenglar. Garofalo, Janeane Goðakvæði. Goðakvæðin eru hluti af Eddukvæðunum, en þau skiptast í goðakvæði og hetjukvæði. Talið er að goðakvæðin séu samin á síðustu öldum heiðni á Íslandi sem og öðrum byggðum norrænna manna en hafi síðan lifað og mótast í munnlegri geymd eftir kristnitöku. Goðakvæðin eru ein aðalheimild okkar um heiðna trú. Þau eru hvorki bænir né lofsöngur til goðanna heldur eru flest þeirra frásagnir af atvikum úr lífi þeirra og heimsmynd. Oft er dregin upp mannleg mynd af goðunum og það kemur fyrir að gert sé grín af þeim þegar þau sýna af sér mannlega breyskleika. Af spássíumerkingum í handriti Konungsbókar, sem geymir flest þessarra kvæða, hafa menn ráðið að mögulega hafi sum þessarra kvæða verið skrifuð með það í huga að flytja þau í leikrænum flutningi á miðöldum. Til dæmis gætu þau hafa tengst tónlist á þann hátt að hægt er að nýta sér hljómræna þætti einsog hrynjanda og stuðlasetningu við flutning. Jérôme Lejeune. Jérôme Jean Louis Marie Lejeune (fæddur 13. júní 1926 í Montrouge, dáinn 3. apríl 1994) var franskur erfðafræðingur og barnalæknir. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á erfðagöllum í mönnum, einkum fyrir að hafa uppgötvað orsök Downs-heilkennis. Æviágrip. Jérôme Lejeune lærði barnalækningar og lagði hann stund á þær af mikilli kostgæfni. Snemma sýndi hann þó mikinn áhuga á erfðafræðilegum viðfangsefnum og helgaði mestan hluta starfsævi sinnar rannsóknum á því sviði. Árið 1951 gekk Lejeune til liðs við rannsóknateymi Raymonds Turpin þar sem sjónum var beint að því að finna orsök „mongolisma“ (Downs-heilkennis). Að afloknu herþjónustuhléi í hverju hann kynntist og kvæntist ungri danskri konu að nafni Birthe Bringsted sneri hann aftur til liðs við teymi Turpins að herþjónustu lokinni og vann hann þá náið með ungri konu að nafni Marthe Gautier. Það samstarf átti eftir að skila miklum framförum í rannsóknum hans á Downs heilkenni, en dr. Gautier kynnti honum nýja tækni til ræktunar bandvefsfrumna sem hún hafði kynnst við nám í Bandaríkjunum. Það var þessi samvinna sem varð til þess að árið 1959 birtust fyrstu greinar Lejeune um uppgvötun hans um þrístæði litnings 21 Þessa uppgvötun sína hafði hann gert þegar hann var með ungan dreng til meðferðar við Downs heilkenni árið 1958. Trúin og skoðanir. Jérôme Lejeune var alinn upp í kaþólskri trú og átti sú trú eftir að fylgja honum allt hans líf og móta skoðanir hans á hinum ýmsu málefnum. Til að mynda var hann mjög mótfallinn því að leyfa notkun getnaðarvarnarlyfja, en lög þess efnis tóku gildi í Fraklandi árið 1967. Honum þótti slík lyfjanotkun ganga í bága við kristið siðferði, og þegar umræða um lögleiðingu fóstureyðinga, meðal annars á fóstrum með Downs heilkenni, hófst upp úr 1970 stóð hann fyrir undirskriftasöfnun gegn henni. Hann taldi Jóhannes Pál páfa II meðal persónulegra vina sinna og útnefndi sá síðarnefndi hann til setu í Vísindaakademíu Páfagarðs ("Pontificia Academia Scientiarum") Mímisbrunnur. Mímisbrunnur var viskubrunnur sem í norrænni goðafræði stendur undir einni af rótum heimstrésins, Asks Yggdrasils í Jötunheimum. Mímir gætir brunnsins og heitir hann eftir honum. Sá sem drekkur vatn úr brunninum verður margs vísari í hvert sinn. Mímir drekkur af honum dag hvern og er þess vegna afar fróður. Aðrir verða að gjalda dýru verði fyrir sopann. Þannig þurfti Óðinn að gefa annað auga sitt fyrir og liggur það á botni Mímisbrunns. Dunganon. Dunganon eða Karl Einarsson Dunganon (skírður Karl Kjerúlf Einarsson) (6. maí 1897 – 24. febrúar 1972) var listmálari, skáld og landshornaflakkari. Dunganon þóttist frá miðjum aldri vera hertoginn af St. Kildu. Fullur titill var: „Cormorant XII Imperator av Atlantis, Hertogi af Sankta Kilda“. Karl Kjerúlf Einarsson fæddist á Vestdalseyri við Seyðisfirði Foreldrar hans voru Magnús Einarsson kaupmaður og kona hans Kristjana Guðmundsdóttir á Vestdalseyri. Hann fluttist ungur að árum með foreldrum sínum til Færeyja. Þar tók hann upp nafnið Dunganon. Auk þess gekk hann undir mörgum öðrum nöfnum, svo sem Carolus Africanus gandakallur og próf. Emarson. Liðlega tvítugur strauk hann frá verslunarnámi til Spánar. Þar hóf hann landshornaflakk sem stóð yfir mest alla ævi hans. Hann bjó þó lengst af í Friðriksborg í Danmörku. Dunganon dó í Kaupmannahöfn og arfleiddi Íslenska ríkið að öllum eigum sínum og listaverkum. Níðhöggur. Níðhöggur heitir ormurinn (eða drekinn) sem nagar rætur Yggdrasils í norrænni goðafræði. Samkvæmt Völuspá drekkur hann blóð dauðra og étur nái. Milli hans og arnarins sem situr í greinum asksins ber íkorninn Ratatoskur ófriðarorð. Snorri Sturluson segir frá því að Níðhöggur kvelji hina dauðu í brunninum Hvergelmi, og er þar með orðinn þáttur í refsivist í víti eins og í kristnum leiðslubókmenntum. Nafnið merkir væntanlega „hinn hatursfulli sem heggur“. Níðhöggur ber nái í fjöðrum sér. Michael Kelly. Michael Kelly (fæddur Michael Joseph Kelly, 22. maí 1969) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Kojak og. Einkalíf. Kelly fæddist í Philadelphia í Pennsylvaníu en ólst upp í Lawrenceville í Georgíu. Kelly ætlaði sér að stunda lögfræði við "Coastal í Carolina háskólann" í Suður-Karólínu en eftir að hafa tekið námskeið í leiklist þá skipti hann um fag. Leikhús. Kelly hefur kom fram í leikritunum "Major Crimes" og "Miss Julie". Kom hann einnig fram í "In Search of Strindberg" í Stokkhólmi, Svíþjóð. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Kelly var árið 1994 í "Lifestories: Families in Crisis". Árið 2000 þá var Kelly boðið hlutverk í "Level 9" sem Wilbert 'Tibbs' Thibodeaux, en aðeins 12 þættir voru framleiddir. Kelly lék rannsóknarfulltrúann Bobby Crocker í Kojak árið 2005. Hefur kom fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Fringe, The Sopranos, Law & Order og The Good Wife. Árið 2010 þá var Kelly boðið hlutverk í sem Jonathan 'Prophet' Simms en aðeins 13 þættir voru framleiddir. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Kelly var árið 1998 í "Origin of the Species". Hefur hann síðan þá kom fram í kvikmyndum á borð við Man on the Moon, Dawn of the Dead, "Broken English", Changeling, "Law Abiding Citizen" og "The Adjustment Bureau". Tenglar. Kelly, Michael Île-de-France. Kort sem sýnir héraðið Île-de-France í Frakklandi. Île-de-France er hérað í Frakklandi. Höfuðborg héraðsins er París. Beau Garrett. Beau Garrett (fædd Beau Jesse Garrett, 28. desember 1982) er bandarísk leikkona og módel sem er þekktust fyrir hlutverk sín í og. Einkalíf. Garrett fæddist í Beverly Hills, Kaliforníu en ólst upp í Topanga Canyon í Kaliforníu. Garrett byrjaði módelferil sinn hjá Guess á seinni hluta níunda áratugsins og er talsmaður fyrir Revlon. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Kelly var árið 2004 í "North Shore" og komið síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Entourage, "Wildfire" og House. Árið 2010 þá var Garrett boðið hlutverk í sem Gina LaSalle, en aðeins 13 þættir voru framleiddir. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Garrett var árið 2006 í "Turistas". Hefur hún síðan þá kom fram í kvikmyndum á borð við "4: Rise of the Silver Surfer", "Poolside" og "Tron: Legacy". Tenglar. Garrett, Beau Matt Ryan. Matt Ryan (fæddur Matthew Ryan, 11. apríl 1981) er welskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í. Einkalíf. Ryan fæddist í Swansea, Wales og stundaði nám við "Bristol Old Vic Theatre School" í Bristol, Englandi. Ryan gerðist meðlimur Royal Shakespeare Company árið 2004. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Ryan var árið 2000 í "Nuts and Bolts". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "The Tudors", "Torchwood" og "Collision". Árið 2010 þá var Ryan boðið hlutverk í sem Mick Rowson en aðeins þrettán þættir voru framleiddir. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Ryan var árið 2002 í "Pocket Money". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Miss Pettigrew Lives for a Day", "Layer Cake" og "Flypaper". Tenglar. Ryan, Matt Karmelfjall. Karmelfjall (stundum kallað Fjall Drottins) er fjallgarður í Norður-Ísrael sem teygir sig frá Miðjarðarhafinu til suðausturs. San Teódóros. San Teódóros er skáldað Mið-Ameríkuland sem kemur fyrir í nokkrum Tinnabókum eftir Hergé. Ekkert eitt land er fyrirmynd San Teódóros en í því má finna vísanir í Bólivíu, El Salvador og Mexíkó. Landinu var fyrst lýst í myndasögunni "Skurðgoðið með skarð í eyra" sem birtist sem framhaldssaga í "Le Petit Vingtième" frá 1935 til 1937. San Teódóros er sagt stofnað af José Olivaro hershöfðingja (hugsanleg vísun í Simón Bolívar og José de San Martín). Landið er bananalýðveldi undir herforingjastjórn þar sem ólíkar herforingjaklíkur fremja regluleg valdarán ýmist undir forystu vinar Tinna Alkasars eða Tapíóka, erkióvinar hans. Ævintýri Tinna (sjónvarpsþættir). "Ævintýri Tinna" eru fransk-kanadískir teiknimyndaþættir fyrir sjónvarp sem byggja á bókaflokknum "Ævintýri Tinna" eftir Hergé. Þættirnir voru frumsýndir árin 1991 og 1992. Þeir byggja náið á bókunum og nota jafnvel óbreytta myndaramma beint úr sögunum, en eldri sjónvarpsþættir byggðir á Tinnabókunum sem belgíska fyrirtækið Belvision gerði á 6. áratugnum, byggðu mjög lauslega á sögum Hergés. 3. þáttaröð. Bókunum "Tinni í Sovétríkjunum", "Tinni í Kongó" og "Tinni og hákarlavatnið" var sleppt af ýmsum ástæðum. Ísland. Þættirnir voru þýddir af Ólöfu Pétursdóttur og raddsettir af Felix Bergssyni og Þorsteini Bachmann. Þeir voru sýndir í Ríkissjónvarpinu frá 1993 til 1996. Árið 2006 voru þættirnir endurútgefnir á DVD af fyrirtækinu Bergvík. Lifrarbræðsla. Lifrarbræðsla er staður þar sem lifur úr fiski er brædd í lýsi. Úrgangur við lifrarbræðslu er grotti eða grútur. Lifrarbræðsla fór oft fram í skúrum og húsum í eigu útgerðarmanna og var staðsett nálægt sjó. Mengun þótti af stafa af bræðslunni. Árið 1915 voru þrjár lifrarbræðslur starfræktar í Reykjavík en sú fjórða fékk ekki starfsleyfi nema í Fossvogi: „Þorst. Jónsson vildi fá leyfi til að hafa lifrarbræðslu í Austurkoti í Kaplaskjóli, en fasteignanefnd þótti sem þá færi helst til mikið að kreppa að Reykjavíkurbæ, ef grútnum ætti að veita að honum úr öllum höfuðáttum, en nú er lifrarbræðsla í norðri, austri og suðri og því varla andandi í bænum nema í vestanátt, lagði nefndin því til, að beiðni þessari yrði synjað.“ Bæjaryfirvöld reyndu að koma öllum bræðslum fyrir saman í Fossvogi en það gekk ekki eftir því ekki mátti úthluta landi þar til einstakra manna. Grútarbræðslur voru þá í Örfirisey, á Þormóðsstöðum og inni í Vatnagörðum. Lifrarsamlag var stofnað í Vestmanneyjum árið 1932 og tók yfir starfsemi þeirra sex bræðslna sem þar voru starfræktar. Óskar Halldórsson hóf árið 1916 lifrarbræðslu í Herdísarvík og Selvogi og eftir 2 ár voru lifrarbræðslur hans 12 víðs vegar um Ísland. Haustið 1916 var Óskar Halldórsson með lifrarbræðslu á Naustum við Ísafjörð. Að lokinni vertíð fyrir vestan, fylgdi Óskar Ísafjarðarbátunum til Sandgerðis og á vertíðinni þar keypti hann lifur af þeim. Aðstöðu hafði Óskar á Borgarkletti við Sandgerði, sem er eyja í Bæjarskerseyri og syðst í Sandgerðishverfi. Þormóðsstaðir. Þormóðsstaðir var býli sem byggt var úr landi Skildinganess. Það var nálægt Lambhól og Görðunum. Fiskveiðifélagið Alliance átti Þormóðsstaði. Þar var rekið kúabú og á 2. og 3. áratug 20. aldar var rekin þar fiskverkun og lifrarbræðsla. Lifur var seinna brædd út á sjó í togurum Alliance og lifrarbræðslan í landi lagðist af en saltfiskverkun var rekin áfram. Þormóðsstaðir tilheyrðu Seltjarnarneshreppi til 1932 en voru þá ásamt Skildinganesi lagðir undir Reykjavík. Lifrarbræðslumaður Alliance byggði hús á Þormóðsstöðum árið 1925 en það er húsið Túnsberg sem nú stendur nú við Starhaga 5. Það var skráð á Þormóðsstaðaveg alveg til ársins 1994. Seltjarnarneshreppur. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði frá Gróttu, sem þá var breitt nes en ekki eyja, að Elliðaám og austur með þeim til fjalla. Hreppurinn náði þvert yfir nesið, frá Kollafirði suður í Skerjafjörð. Jörðin Kópavogur var í Seltjarnarneshreppi og það var Reykjavík vitaskuld einnig. Nú eru bæjarmörk Seltjarnarness og Reykjavíkur um Eiðisvík að norðan og Lambastaðamýri að sunnan. Skuldakreppan í Evrópu. Skuldakreppan í Evrópu á við yfirstandandi efnahagskreppu í Evrópu sem hófst í byrjun ársins 2010. Kreppan varð til þegar Grikkland, Írland og Portúgal fóru í björgunaraðgerð og verulega var dregið úr greiðslugetu þessara landa. Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins skrifuðu undir 750 milljarða evra björgunarsamning þann 9. maí 2010 og stofnuðu björgunarsjóð Evrópu (e. "EFSF"). Annar björgunarsamningur var samþykktur október 2011 til að hindra fall hagkerfa aðila Evrópusambandsins. Í þessum samningi var samþykkt að sleppa helmingi skulda Grikklands og björgunarsjóðurinn var stækkaður upp í níu milljarða evra. Stungið var upp á að ríkisfjárlagasamband yrði stofnað á milli landa á evrusvæðinu. Evrusvæðið. Evrusvæðið á við hóp sautján evrópskra landa sem eru í efnahags- og gjaldmiðilssambandi. Öll löndin eru í Evrópusambandinu og nota evruna (€) sem gjaldmiðill. Eins og er samstendur evrusvæðið af Austurríki, Belgíu, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Kýpur, Lúxemborg, Möltu, Portúgal, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni og Þýskalandi. Flest aðildarríki Evrópusambandsins eru skuldbinduð til að taka upp evruna sem gjaldmiðill í framtíðinni. Aldrei hefur ríki gengið úr evrusvæðinu og það er engin leið að framkvæma þetta. Seðlabanki Evrópu sér um peningamálastefnu svæðisins en honum er stjórnað af stjórnarformanni og nokkrum nefndum, sem samanstanda af seðlabankastjórum aðildarríkjanna. Evrusvæðið er ekki ríkisfjárlagasamband en efnt er til þess að stofna slíkt samband í ljósi skuldakreppunar. Nokkur lönd sem ekki eru í Evrópusambandinu nota evruna sem gjaldmiðill, t.d. San Marínó, sem hefur gert samning við evrusvæðið um notkun gjaldmiðilsins og gefur út sínar eigin myntir. Önnur lönd, eins og Svartfjallaland, hafa tekið upp evruna en gefa ekki út sínar eigin myntir. Þessi lönd eru ekki aðildarríki evrusvæðisins og hafa ekkert umboð hjá Seðlabanka Evrópu. Michael Bublé. Michael Steven Bublé (fæddur 9. september 1975), oftast nefndur Michael Bublé, er kanadískur söngvari og leikari. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal þrenna Grammy-verðlauna. Fyrsta platan hans, "It's Time", náði topp tíu í bæði Kanada og Bretlandi. Platan kom út 2005 og naut mikilla vinsælda um allann heim. Önnur plata hans, "Call Me Irresponsible" kom út 2007 og naut hún enn meiri velgengi. Hún náði topp sætinu á flestum stærstu plötulistum heims. Michael Bublé hefur selt meira en 30 milljónir plötur um allan heim. Saga. Michael Bublé fæddist í Burnaby, Bresku Kólumbíu, Kanada. Foreldrar hans Lewis og Amber Bublé eignuðust tvær dætur auk Michael, þær Crystal og Brandee. Í viðtali við Oprah er haft eftir Michael segja að hann hafi dreymt um að verða frægur söngvari síðan hann var tveggja ára. Tónlistarferill. Bublé var að spila í fyrirtækjapartíi þegar Michael McSweeney, aðstoðarmaður Brian Mulroney, fyrrum forsetisráðherra Kanada, sá Bublé syngja og fékk eintak af disk Bublé. McSweeney sýndi forsetisráðherranum diskinn og var Bublé boðið að syngja í brúðkaupi dóttur forsetisráðherrans. Í brúðkaupinu var Bublé kynntur fyrir David Foster, margverðlaunuðum Grammy verðlauna hafa. Foster starfar sem útgefandi og hefur unnið með tónlistarmönnum á borð við Madonna, Whitney Houston, Michael Jackson, Kenny G, Josh Groban, Andrea Bocelli, Céline Dion, Cher og Barbra Streisand. Bublé, Michael Bublé, Michael Röst. Röst er úrelt rússnesk mælieining fyrir fjarlægð sem jafngildir 1,0668 kílómetrum. Versalahöll. Versalahöll er kastali í Versölum, Frakklandi. Urbana (Missouri). Urbana er þorp í Missouri í Bandaríkjunum. Þar búa 428 manns (2009). Kodak Theatre. Dolby Theatre er kvikmyndahús í Hollywood í Bandaríkjunum. Hollywoodskiltið. Hollywoodskiltið er frægt kennileiti í Hollywood-hæðum sem er hverfi í Los Angeles. Hæðirnar eru hluti af hlíðum Lee-fjalls ("Mount Lee") sem er hluti af Santa Monica-fjallgarðinum. Sérhver stafur er 14 metra hár og lengd skiltisins í heild sinni er um 110 metrar. Mynt. Mynt er skífa úr málmi sem hefur fjárhagslegt virði, þannig að hægt er að nota hana sem greiðslumáta. Fyrstu myntirnar voru gerðar úr náttúrulegri blöndu af gulli og silfri sem heitir elektrum. Virði myntar réðst af þyngdinni á henni en hún hafði líka svokallað raunvirði, það er virði á efninu sem hún var gerð úr. Síðar voru myntir gerðar úr hreinu gulli eða silfri. Í dag hafa myntir ekki talsvert raunvirði en eru þess í stað tákn á virðinu. Sumir hafa áhuga á að safna myntum en fræðigreinin sem fjallar um myntir heitir myntfræði. Goddastaðir. Goddastaðir er sveitabær í Laxárdal í Dalasýslu sem kemur við sögu í Laxdælu. Þórður goddi bjó á Goddastöðum. Hann fóstraði Ólaf páa Höskuldsson frá sjö ára aldri og bjó Ólafur þar uns hann flutti í Hjarðarholt. Bærinn er enn í byggð og er þar rekið sauðfjárbú. Jóhannes úr Kötlum fæddist einnig á Goddastöðum. Katlarnir sem hann hann kenndi sig við eru þarna fyrir vestan. Til er orðtækið „Nú er stand á Goddastöðum!“, haft um það þegar mikið gengur á eða mörg óhöpp ríða yfir samtímis, og er það sagt þannig til komið að húsfreyjan á bænum hafi eitt sinn heilsað gesti með orðunum: „Það er stand á Goddastöðum núna; drepinn eldurinn, kolyst í pottinum, og Loftur dauður inni í rúmi!" Riddaraþokan. Riddaraþokan (Hesthöfuðþokan, Barnard 33 eða IC 434'") er skuggaþoka ("gleypiþoka") í stjörnumerkinu Óríon og er í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Richard Schiff. Richard Schiff (fæddur 27. maí 1955) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Toby Ziegler í The West Wing. Einkalíf. Schiff fæddist í Bethesda, Maryland. Schiff byrjaði háskólanám við City College of New York (CCNY) árið 1973 en hætti vegna áhugaleysis. Fluttist hann til Colorado þar sem hann bjó í tvö ár áður en hann fluttist aftur til New York og hóf nám við City College of New York (CCNY) í leiklistardeildinni. Schiff líkaði ekki leikaranámið og lærði leikstjórn í staðinn. Hann tók upp leiklistina um miðjan áttunda áratuginn eftir að hafa komist yfir sviðsskrekkinn. Schiff giftist leikkonunni Sheila Kelly árið 1996 og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Schiff leikstýrði leikritinu "Antígónu" árið 1983 með hinni nýútskrifuðu Angelu Bassett. Í byrjun ársins 2006 þá kom Schiff fram í leikritinu "Underneath the Lintel" eftir Glen Berger við George Street Playhouse í New Brunswick, New Jersey. Í febrúar 2007 kom hann fram í West End uppfærslunni af "Underneath the Lintel" við Duchess Theatre í London, Englandi. Schiff lék í útvarpsútgáfunni af "Underneath the Lintel" sem var útvarpað á BBC Radio 4 þann 5. janúar 2008. Schiff lék í leikritinu "Talley's Folly" við "McCarter Theatre Center" í Princeton, New Jersey haustið 2008. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Schiff var árið 1989 í sjónvarpsmyndinni "Trenchcoat in Paradise" og hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "L.A. Law", "Murphy Brown", Chicago Hope, NYPD Blue, Ally McBeal, Burn Notice, Monk, White Collar og "Up All Night". Árið 1999 þá var Schiff boðið eitt af aðalhlutverkunum í The West Wing sem Toby Ziegler, sem hann lék til ársins 2006. Schiff kom fram sem gestaleikari í sem Jack Fickler yfirmaður alríkislögreglunnar en aðeins þrettán þættir voru framleiddir. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Schiff var árið 1987 í "Arena Brains". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Young Guns II", "Malcolm X", "Speed", "Se7en", "Volcano", "Deep Impact", "I am Sam", Ray og "Johnny English Reborn". Tenglar. Schiff, Richard Víkurskarð. a> sést í Víkurskarð hægra megin á myndinni. Víkurskarð er kafli á þjóðvegi 1 á milli Akureyrar og Húsavíkur sem liggur í um 325 m. hæð yfir sjávarmáli. Oft er ófært um Víkurskarð þegar snjóar mikið. Til stendur að grafa jarðgöng, Vaðlaheiðargöng, sem myndi þýða að ekki þyrfti að keyra Víkurskarð til þess að ferðast í austurátt frá Akureyri. Vegurinn um Víkurskarð var tekinn í notkun 1983 þótt vegagerðinni væri ekki að fullu lokið fyrr en 1986. Hann leysti af hólmi veginn yfir Vaðlaheiði, sem þekktur var fyrir fjölmargar beygjur og sveigjur og lá hæst í um 520 metra hæð. Þótti því Víkurskarðsvegurinn mikil samgöngubót á sínum tíma. Lacuna Coil. Lacuna Coil er ítalísk þungarokkhljómsveit stofnuð í Mílanó árið 1994. Meðlimir hennar eru "Cristina Scabbia" (söngkona), "Andrea Ferro" (söngvari), "Cristiano Migliore" (bassagítar), "Marco Biazzi" (gítar), "Marco Coti Zelati" (bassagítar) og Cristiano Mozzati (trommur). „Lacuna Coil“ er ein frægasta þungarokkhljómsveit Ítalíu. Truro. Truro (IPA:, kornbreska: "Truru") er borg í sýslunni Cornwall á Englandi. Borgin er miðstöð sveitarstjórnar, þjónustu og verslunar í Cornwall en íbúarnir voru 17.431 árið 2001. Með úthverfunum voru íbúar 20.920 manns árið 2001. Truro er einasta borgin í sýslunni og er syðsta borg Bretlands. Á ensku heitir fólk frá borginni "Truronians". Truro hefur löngu verið mikilvæg miðstöð verslunar í Cornwall og borgin óx úr höfninni sinni. Síðan varð borgin þekkt fyrir tinnámuna sína. Dómkirkjan í Truro er líka vel þekkt en henni var lokið árið 1910. Margar götur í borginni eru lagðar brústeinum og það eru mörg opin svæði og dæmi um georgískan arkitektúr. Konunglega minjasafnið í Cornwall er staðsett í Truro. Georgískur arkitektúr. Georgískur arkitektúr er á Bretlandi og í öðrum enskumælandi löndum nafn á byggingarstíl sem vinsæll var á tímabilinu 1720 til 1830, það er að segja á ríkisárum konunganna Georg 1. til Georg 4. Stíllinn fylgdi enska barokkinu. Hugtakið felur í raun í sér nokkur tímabil í röð, eins og palladíanskan arkitektúr, rókokó og nýklassík. Georgískur arkitektúr einkennist af hlutföllum og jafnvægi; sambandinu á milli hæðar og breiddar á byggingarhlutum, sem réðst af ákveðnum stærðfræðilegum hlutföllum, og áhersla er lögð á samhverfu og farið er eftir klassískum reglum. Raðir af húsum voru byggðar með svipuðum framhliðum sem snúast að götunni. Georgískur arkitektúr tilheyrir klassíska stílnum og felur í sér skreytingaþætti frá Grikklandi hinu forna og Rómaveldinu. Cristina Scabbia. Cristina Adriana Chiara Scabbia (f. 1972) er söngkona Lacuna Coil. Scabbia, Cristina Century Media. Century Media Records er þýsk tónlistarútgáfa. Hollywood-hæðir. Hollywood-hæðir er hverfi í Hollywood í Los Angeles. Urbana (New York-fylki). Urbana er borg í New York-fylki. Þar búa 2.546 manns (2000). Urbana (Maryland). Urbana er borg í Maryland í Bandaríkjunum. Þar búa 9.175 manns (2010). Þvottavél. Þvottavél er heimilistæki notað til að þvo föt og aðrar vefnaðarvörur, eins og handklæði og sængurfatnað. Í sjálfvirkri þvottavél er tromla, annaðhvort lárétt eða lóðrétt, og er þvotturinn settur inn í hana. Í eldri þvottavélum voru lóðréttar tromlur algengari og er þá þvotturinn settur í tromluna um lúgu sem er ofan á vélinni en ekki á framhliðinni eins og nú er algengast. Þegar lúgunni er lokað og vélin sett í gang hálffyllist tromlan af vatni, ásamt þvottaefni sem sett hefur verið í þar til gert hólf, og snýst fram og tilbaka. Vatnið hitnar upp í það hitastig sem stillt hefur verið á stjórnborðinu. Eftir nokkra stund dælir vélin vatninu úr tromlunni og fyllir hana svo á ný af vatni, án þvottaefnis, og skolast þá þvottaefnið sem situr eftir í tauinu í burtu. Oftast skolar vélin þvottinn nokkrum sinnum í röð og í síðustu skolun er stundum bætt mýkingarefni í vatnið. Að lokum dælir vélin öllu vatni úr tromlunni og fer að vinda þvottinn samkvæmt stillingunum. Tromlan snýst mjög hratt til að þrýsta vatninu úr tauinu. James King fann upp fyrstu þvottavélina með tromlu sem snýr þvottinum árið 1851. Árið 1858 fann Hamilton Smith upp þvottavél sem hringsnerist. William Blackstone uppfinningamaður fann upp eina fyrstu þvottavélina sem einföld var í notkun árið 1874 en fyrsta rafmagnsþvottavélin var sett á markaðinn árið 1908. Dasít. Dasít er ísúr bergtegund og er sjaldgæf á Íslandi. Lýsing. Dulkornótt og dökk eða gráleit á litinn. Kísilmagnið er á bilinu 52-67%. Dílar fáir en þó aðallega feldspatar. Grunnmassi er glerkenndur með smásæjum kristöllum Útbreiðsla. Dasít er mjög sjaldgæft á Íslandi en hefur fundist með öðru djúpbergi í Lýsuhóli á Snæfellsnesi. Finnst í miklu magni í rótum fellingafjalla í Skotlandi, Mið-Evrópu og Noregi. Koparkís. Koparkís (kalkópýrít) frá Camp Bird námunni í Colorado Kopakís eða kalkópýrít tilheyrir hópi málmsteina. Lýsing. Gulleitur að lit og myndar áttflötunga. Myndun og útbreiðsla. Myndast úr kvikuvessum og finnst aðallega í æðum nærri jöðrum innskota og hefur helst fundist við Össurá í Lóni. Zinkblendi. Zinkblendi er algengasta tegund zinksteinda og tilheyrir hópi málmsteina. Lýsing. Myndar gulleitar og brúnar hálfgegnsæjar flögur. Hefur fitu-eða málmgljáa og er zinkblendi algengast á bilinu 0,5-1 cm á stærð. Myndun og útbreiðsla. Myndast úr kvikuvessum og finnst aðallega í stórum innskotum. Blýglans. Blýglans er algengasta tegund blýsteinda og tilheyrir hópi málmsteina. Lýsing. Er blýgrár á litinn, glansandi og myndar teningslaga kristala. Blýglans er ógegnsær og með sterkan málmgljáa. Þyngsta steindin sem hefur fundist á Íslandi. Myndun og útbreiðsla. Myndast úr kvikuvessum og finnst í æðum stórra innskota. Covellít. Lýsing. Kristalar eru þunnir, plötulaga og málmgljáandi. Litur er blár eða fjólublár en það hafa einnig funist ljósbláir og svarbláir. Myndun og útbreiðsla. Algenasta koarsúlfíðsteindin sem myndast við veðrun á öðrum koparsúlfíðum. Finnst þar sem koparkís er nærri innskotum og einnig sem útfelling úr gosgufum á eldstöðvum og á hverasvæðum. Malakít. Malakít tilheyrir hópi málmsteina og er kopar-hydroxíð karbónat. Lýsing. Fagurgrænt hrúður eða skán á koparkís. Kristallar lögóttir og þráðóttir, er ógegnsætt með daufan glergljáa. Myndun og útbreiðsla. Myndast við veðrun á koparsteindum og finnst með koparkís. Rosasít. Rosasít tilheyrir hópi málmsteina og er kopar-, zink- og karbónat steind. Lýsing. Blágræn á lit og kemur fyrir sem skán eða hnúður og er þráðótt í brotsári. Hálfgengsætt og með glergljáa. Myndun og útbreiðsla. Finnst með koparkís og zinkblendi og þá á jöðrum stórra innskota. Epidót. Lýsing. Kristalar oftast smáir og finnst sem gulgræn eða græn slikja í holu-og sprunguveggjum. Glergljái og er hálf-eða ógegnsætt. Myndun og útbreiðsla. Myndast bæði í basískum og súrum bergtegundum við um og yfir 230°C hita. Finnst aðallega í rofnum og útkulnuðum megineldstöðvum og fornum háhitasvæðum. Prehnít. Lýsing. Myndar smáar hnöttóttar, glerljáandi kristalþyrpingar. Fjölgræn, hvít eða gráleit á lit. Myndun og útbreiðsla. Finnst í basísku bergi í megineldstöðvum eða rofnum háhitasvæðum. Byrjar að myndast við 250°C hita og finnst neðarlega í háhitabeltinu. Granat. Granat er háhitasteind og er flokkur steinda með mismunandi efnasamsetningu. Lýsing. Myndar smáa glergljáandi margflötunga. Rauðbrúnn eða brúnleitur á lit. Er harðasta steintegund landsins. Myndun og útbreiðsla. Finnst í mjög ummynduðu bergi við innskot og hefur líka fundist í úrkulnuðum jarðhitasvæðum, djúpt við rætur megineldstöðva þá með epidóti og í sprungum nálægt innskotum. Byrjar að myndast við 300°C hita. Á Íslandi finnast aðallega járnríkt granat (andradrít), kalsíumríkt granat (grossular) og eina tegundin sem inniheldur bundið vatn (hydrogrossular). Helstu fundarstaðir á Íslandi eru Setbergseldstöðin, Hvalfjarðareldstöðin, nálægt innskotum á Suðausturlandi, við Geitafell, Vestrahorn og Slaufrudal. Aktínólít. Aktínólít er háhitasteind og tilheyrir amfibólflokknum. Lýsing. Kristallarnir eru fíngerðir þræðir og oftast geislóttir með glergljáa. Grænleitt, hvítt eða gráleitt á lit. Myndun og úbreiðsla. Byrjar að myndast við 300°C hita nálægt innskotum og rótum háhitasvæða. Hefur fundist við Hafragil í Lóni. Hedenbergít. Hedenbergít er háhitasteind og er afbrigði af pýroxeni. Lýsing. Grannir glergljáandi, dökkgrænir stönglar. Kristalar geta verið allt að 0,5 cm langir. Myndun og útbreiðsla. Byrjar að myndast sem holufylling við 400°C hita og hefur fundist við jaðra djúpbergsinnskota á Suðausturlandi. Jonathan Wolff. Jonathan Wolff (fæddur 1959) er enskur heimspekingur sem kennir við University College London. Heimildir. Wolff, Jonatha Wolff, Jonathan Leirsteindir. Leirsteindir er hópur steinda með fjölbreytta samsetningu en er einnig fínkornótt bergmylsna leirsteinn. Lýsing. Inniheldur vatn en efnasamsetning er breytileg. Kristallar eru blaðlaga með góða kleyfni. Þær draga í sig vatn í röku umhverfi og losnar um það þegar þær þorna. Myndun og útbreiðsla. Á Íslandi þá myndast leir við ummyndun bergs á jarðhitasvæðum þá bæði á yfirborði og djúpt í jarðlagastaflanum. Myndast við veðrun þá í hlýlju röku loftslagi. Hveraleir er límkenndur, mjúkur og bláleitur. Smektít. Smektít (montmorillonít) tilheyrir hópi leirsteinda sem innihalda mismikið vatn. Lýsing. Brúnleitt eð grænleitt á lit. Dregur í sig vatn auðveldlega og þenst út við það. Myndun og útbreiðsla. Myndast á jarðhitasvæðum, bæði djúpt í jörðu og á yfirborði. Algeng við vatnshveri og er sú ummyndunarsteind sem mest er af á Íslandi. Verður til við ummyndum af ólivíni, pýroxeni, kalsíumríku feldspati, basaltgleri eða súrri ösku frá lágum hita upp í 170°C. Klórít. Lýsing. Grænleitt en getur orðið brúnt á lit. Flögótt og flögurnar oft sveigjanlegar. Myndun og útbreiðsla. Myndast á nokkru dýpi á jarðhitasvæðum við 200°C hita. Algeng sem ummyndum í frumsteindum og sem holufylling. Seladónít. Seladónít eða illít tilheyrir hópi leirsteinda og er skyldast hópi steinda að nafni illít. Er millistig á milli smektíts og glimmers. Lýsing. Leirkennt og blágrænt á lit. Kristallar sjást ekki með berum augum. Myndun og útbreiðsla. Algeng hér á landi og finnst sem skán utan á holufyllingum. Mosar. Mosar eru lífverur þar sem kynliður er ríkjandi lífsskeið. Þeir skiptast í soppmosa (Marchantiophyta), hornmosa (Anthocerotophyta) og baukmosa (Bryophyta). left Lífsferill mosa Fáni Taílands. Fáni Taílands er þjóðfáni Taílands. The Unit. "The Unit" er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um lið leynilegrar Delta Force sérsveitar innan Bandaríska hersins. Höfundurinn að þættinum er David Mamet. Framleiddar voru fjórar þáttaraðir og var fyrsti þátturinn frumsýndur 7. mars 2006. Framleiðsla. The Unit er byggður á bók Eric L. Haneys "Inside Delta Force: The Story of America's Elite Counter terrorist Unit" (ISBN 0-440-23733-5). Þátturinn var hannaður af framleiðendunum David Mamet og Shawn Ryan. Þátturinn var framleiddur af The Barn Productions Inc., David Mamet Entertainment, Fire Ants Films í samvinnu við 20th Century Fox Television. Tökustaðir. The Unit var aðallega tekinn upp í Santa Clarita, Kaliforníu og í "Southwest Marine Studio" við Terminal Island, Wilmington í Los Angeles, Kaliforníu. Söguþráður. The Unit fylgir eftir daglegu lífi meðlima leynilegrar Delta Force sérsveitar (kallað "The Unit" í þættinum) og fjölskyldum þeirra. DVD útgáfa. Allar fjórar þáttaraðir af "The Unit" hafa verið gefnar út á svæðum 1,2, og 4. Aalter. Aalter er sveitarfélag í Belgíu. Þar búa 18.887 manns (2007). Poeke-kastali. Poeke-kastali er kastali í Aalter í Belgíu. Santa Monica-fjallgarðurinn. Santa Monica-fjallgarðurinn er fjallgarður í Bandaríkjunum. Miðborg Miami. Miðborg Miami er hverfi í Miami í Bandaríkjunum. App. App er stytting á enska orðinu "application", sem þýðir forrit, og á við um forrit sem notað er í farsíma eða spjaldtölvu. Svona forrit fást í gegnum netverslanir reknar af fyrirtækjunum sem gefa út stýrikerfið sem forritin verða keyrð á. Dæmi um svona verslanir eru App Store frá Apple, Android Market og BlackBerry App World. Sum forrit eru ókeypis en fyrir önnur þarf að borga. Orðið "app" hefur verið notað af ýmsum fyrirtækjum á íslensku og jafnvel sem sagnorð, t.d. fór auglýsingaherferð N1 af stað með slagorðinu „Appaðu þig í gang!“ en þetta var mjög umdeilt. Nokkrar uppástungur á íslensku orðu fyrir þetta hugtak hafa birtist, meðal þeirra "smáforrit" og "notra". Konrad Gesner. Konrad Gesner (Conrad Gessner, Konrad Gessner, Conrad Geßner, Conrad von Gesner, Conradus Gesnerus, Conrad Gesner; f. 26. mars 1516 – 13. desember 1565) var svissneskur náttúrufræðingur og bókasafnsfræðingur. Fimm binda verk hans "Historiae animalium" eða "Rannsóknir á dýrum" (1551–1558) er talið marka upphaf dýrafræðinnar á nýöld. Dulfrævinga-ættkvíslin "Gesneria" er nefnd í höfuðið á honum. Árið 1546 gaf hann út bókina "Bibliotheca Universalis", alþjóðlega bókaskrá yfir öll útgefin verk eftir gríska, latneska og hebreska höfunda sem Gesner komst á snoðir um. Anthony Panizzi. Sir Antonio Genesio Maria Panizzi (16. september 1797 – 8. apríl 1879), var ítalskur lögfræðingur og bókavörður sem flúði sem pólitískur flóttamaður til Bretlands frá Ítalíu með viðkomu í Sviss á árunum 1822-3. Eftir að Panizzi kom til Bretlands fékk hann fljótlega stöðu prófessors í ítölsku við Lundúnaháskóla. Seinna fékk hann starf hjá bókasafni Þjóðminjasafns Bretlands og varð þjóðbókavörður (1856-66). Árið 1869 var hann aðlaður af Viktoríu Bretadrottningu. Panizzi varð umtalaður meðal annars fyrir útistöður sem hann átti við hinn þekkta sagnfræðing, Thomas Carlyle. Carlyle var mjög þekktur í Bretlandi og vék að lélegri þjónustu ónafngreinds bókavarðar í skrifum sínum. Panizzi sármóðgaðist og neitaði Carlyle eftir á um vinnuaðstöðu í safninu. Eitt af verkum Panizzi var að skrásetja safnkost bókasafnsins. Það gerði hann með því að nýta sér "Ninety-One Cataloguing Rules" (1841), bók með 91 reglum fyrir skráningu bóka sem hann lét semja ásamt aðstoðarmönnum sínum. Þessar reglur mynda undirstöður skráningarreglna sem enn eru við lýði í dag, s.s. ISBD-staðlana og Dublin Core. Panizzi kom einnig að gerð höfundarréttarlaganna sem sett voru í Bretlandi árið 1842 þar sem fyrst var kveðið á um skylduskil útgefanda á einu eintaki af hverju útgefnu verki til Þjóðbókasafnsins. Getty Center. Getty Center eða Getty-miðstöðin er menningarstofnun í Brentwood, Los Angeles í Kaliforníu. Hún hýsir Safn J. Paul Getty, Getty-rannsóknarstofnunina í sjónlistum og Getty-forvörslustofnunina. Upprunalega var Getty-safnið sýnt á heimili iðnjöfursins J. Paul Getty í Pacific Palisades í Los Angeles en 1996 flutti hluti þess í núverandi húsnæði. Forngripasöfnin með umdeildum forngripum frá Egyptalandi, Ítalíu og Grikklandi eru áfram hýst í Getty Villa í Pacific Palisades. Museum of Modern Art. Museum of Modern Art (skst. MoMA) eða Nýlistasafn New York er listasafn á Manhattan í New York-borg. Safnið var stofnað árið 1929 og hýsir að margra mati yfirgripsmesta safn evrópskrar og bandarískrar nútímalistar í heiminum. Safnið kom upp deild sem tileinkuð var byggingarlist og hönnun árið 1932. Paul Lazarsfeld. Paul Felix Lazarsfeld (13. febrúar 1901 – 30. ágúst 1976) var austurrískur félagsfræðingur sem varð einn af áhrifamestu félagsfræðingum Bandaríkjanna á 20. öld. Hann stofnaði félagsvísindastofnun Columbia-háskóla, Bureau of Applied Social Research. Hann kom að félagsvísindum úr stærðfræði og var frumkvöðull á sviði fjölmiðlarannsókna og í stærðfræðilegri félagsfræði með megindlegum rannsóknaraðferðum, einkum tölfræðikönnunum, sem snerust um skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla. Fjölmiðlakenningar Lazarsfelds falla í hóp kenninga um veik skammtímaáhrif fjölmiðla. Rannsóknir hans á 5. áratugnum á áhrifum fjölmiðla á kosningahegðun leiddu í ljós að fjölmiðlar höfðu ekki mælanleg áhrif í þá veru að breyta skoðun ákveðinna kjósenda og lítil áhrif á óákveðna kjósendur. Mestu áhrifin fólust í að styrkja ákveðna kjósendur í ákvörðun sinni. Hann er þekktastur fyrir fjölþrepakenningu sína um að áhrif fjölmiðla á skoðanir almennings séu óbein og fari í gegnum skoðanaleiðtoga sem almenningur lítur upp til, til dæmis álitsgjafa, menningarvita, áhrifamikla stjórnmálamenn eða jafnvel fólk sem við erum í persónulegum tengslum við. Slíkir skoðanaleiðtogar virka sem nokkurs konar skoðanaskiljur milli fjölmiðla og almennings. Hann var forseti Bandarísku félagsfræðisamtakanna árið 1962. Fermiorkustig. Fermiorkustig er hugtak í storkufræði og haft um hæsta orkustig rafeinda í kaldri storku. Harold Lasswell. Harold Dwight Lasswell (13. febrúar 1902 – 18. desember 1978) var bandarískur stjórnmálafræðingur sem er þekktastur fyrir kenningar sínar um fjölmiðla og áróður. Hann lærði við Chicago-háskóla og var hluti af Chicago-skólanum sem var undir áhrifum frá gagnhyggju félagsvísindamanna á borð við George Herbert Mead. Kenningar hans um áróður byggja á rannsóknum á áróðurskvikmyndum nasista í Þýskalandi. Áróðurskenningar hans voru undir áhrifum frá kenningum Freuds um dulvitundina. Samkvæmt kenningu Lasswells nýtir áróður sér tákn sem virkja hluta dulvitundarinnar til að beina hugrænni orku í ákveðna ferla og hafa áhrif á væntingar viðtakenda. Mikilvægi kenningarinnar felst meðal annars í því að líta á viðtakendur áróðurs sem fyrirfram mótaða (af gildum og væntingum) og þannig virka viðtakendur, en ekki óskrifað blað sem áróður hefur bein áhrif á. Hann er þekktur fyrir skilgreiningu sína á samskiptum sem „hver segir hvað við hvern eftir hvaða leið með hvaða afleiðingum“ („Who says what to whom in what channel with what effect“), og skilgreiningu sína á stjórnmálum sem „hver fær hvað, hvenær og hvernig“ („Who gets what, when, and how“). Tarnobrzeg. Tarnobrzeg er borg í Póllandi. Íbúar voru 48.837 árið 2010. Flatarmál: 85,4 km². Uffizi-safnið. Uffizi-höllin með útsýni út að Arnófljóti Uffizi-safnið (ítalska: "Galleria degli Uffizi") er listasafn í Flórens á Ítalíu sem geymir mikið safn listaverka eftir helstu listamenn Endurreisnarinnar. Höllin sem hýsir safnið var upphaflega teiknuð af Giorgio Vasari árið 1560 sem skrifstofubygging (þaðan kemur nafnið "Uffizi", „skrifstofur“) fyrir Cosimo 1. de' Medici, erkihertoga af Toskana. Höllin hýsti stjórnsýslu hertogadæmisins. Höllin er ílöng og stendur á milli stjórnarhallarinnar, Palazzo Vecchio, og bakka Arnófljóts. Vasari teiknaði líka göng, Vasarigöngin, sem liggja frá stjórnarhöllinni, um Uffizi-höllina, meðfram ánni og yfir hana við Ponte Vecchio, eftir röð húsa hinum megin við ána þar til hún endar í hertogahöllinni Palazzo Pitti. Síðasti erfingi Medici-ættarinnar, Anna María Lovísa de' Medici, arfleiddi borgina að listaverkasafni fjölskyldunnar með sérstökum "Patto di famiglia". Árið 1765 opnaði safnið í Uffizi-höllinni. Vegna hins gríðarmikla umfangs safnsins hafa hlutar þess verið fluttir í Bargello (höggmyndir) og Fornminjasafn Flórensborgar ("Museo archeologico nazionale di Firenze" - fornminjar frá tímum Etrúra og Rómverja). Málverk frá 18. og 19. öld eru sýnd í Palazzo Pitti. Vasarigöngin geyma svo safn sjálfsmynda eftir ýmsa listamenn. In a Reverie. In a Reverie er fyrsta breiðskífa Lacuna Coil. Petit Piton. Petit Piton er fjall á eyjunni Sankti Lúsíu í Karíbahafi. Gros Piton. Gros Piton er fjall á eyjunni Sankti Lúsíu í Karíbahafi. Bjarni Jónsson (listmálari). Bjarni Jónsson (1934 – 2008) var íslenskur listmálari. Bjarni Jónsson (stærðfræðingur). Bjarni Jónsson (f. 1920) er íslenskur stærðfræðingur. Kaldaklofsfjöll. Kaldaklofsfjöll á gönguleiðinni inn til Landmannalauga Kaldaklofsfjöll eða Kaldaklofsjökull er fjalllendi fyrir vestan Torfajökul. Þar eru ljósgrýtisfjöll og auðir tindar standa upp úr jöklinum. Hæsti tindurinn er Háskerðingur sem er 1278 m. Í þessu fjalllendi er mikill jarðhiti og íshvelfingar undir jökli. Dravidísk tungumál. Dravidísk tungumál eru ætt 25 tungumála, sem eru töluð af 180 milljónum manna. Þau skiptast í fjóra flokka: suður-, miðsuður-, mið- og norður-dravidísk tungumál. Til norður dravídamála teljast kúrúkí, brahúí og malítí. Til mið-flokksins teljast kolamí, nakí, parídí, olarí og gadaba. Til mið-suður flokksins teljast telúgú, savara, gondí, konídí, penígí, mandí, kúí og kúví. Til suðurflokksins teljast tamílíska, malæjalam, irúla, kodagí, kótí, tódí, badaga, kanídí og túlú. Fjögur dravidísk mál hafa opinbera stöðu samkvæmt grunnlögum Indlands: tamilíska, malæjalam, kanídí og telúgú. Listi yfir rit í ritöðinni Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Þetta er listi yfir rit í ritöðinni Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Bertha Pappenheim. Bertha Pappenheim (27. febrúar 1859 – 28. maí 1936) var feministi og stofanði félagið Jüdischer Frauenbund sem barðist fyrir kvenréttindum. Hún fæddist í Vínarborg í Austurríki. Hún er líka þekkt fyrir að vera sjúklingur læknisins og lífeðlisfræðingsins Josef Breuer og geðlækninn og taugafræðinginn Sigmunds Freud. Í skrifum Breuers er hún kölluð Anna O. Fjarreikistjarna. Fjarreikistjarna er reikistjarna utan sólkerfisins. Ísafjarðarflugvöllur. Ísafjarðarflugvöllur (IATA: IFJ, ICAO: BIIS) er flugvöllur á Skipeyri við Skutulsfjörð. Þar er aðalflugvöllur á Vestfjörðum. Fram til ársins 1960 voru flugsamgöngur við Ísafjörð með sjóflugvélum en 2. október 1960 var flugvöllur fyrir landflugvélar tekinn í notkun á Skipeyri og var flugbrautin 1100 m. löng en hún var síðar lengd. Flugfélag Íslands er með áætlunarflug milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og er flugtíminn um 40 mínútur. Robin Hunicke. Robin Hunicke (f. 1973) er tölvuleikjahönnuður og framleiðandi sem starfar hjá tölvuleikjafyrirtækinu thatgamecompany. Hunicke starfaði áður hjá Electronic Arts þar sem hún vann meðal annars við leikina "MySims" og "Boom Blox". Sixtínska kapellan. Sixtínska kapellan er listasafn í Vatíkaninu. Thomas More. Thomas More (7. febrúar 1478 – 6. júlí 1535) var enskur stjórnmálamaður. Hann var einnig lögfræðingur, félagsfræðingur og hugvísindamaður. Hann var mikilvægur ráðgjafi Hinriks 8. en varð að lokum alveg ósammála honum. Hann var kaþólskur og var mikill andstæðingur Marteins Lúthers og Williams Tyndales. More er höfundur orðsins "utopia" en það var heiti á ímynduðu eylandi sem hann skrifaði um í bók sinni Utopia sem kom út 1516. Hann var andstæðingur aðskilnaðar breska konungsvaldsins frá kaþólsku kirkjunni og neitaði að viðurkenna konunginn sem höfuð biskupakirkjunnar sem stofnuð var í kjölfarið. Hann neitaði einnig að samþykkja lög sem ógiltu vald páfans og bundu endi á hjónaband Hinriks 8. og Katrínar af Aragon. Hann var handtekinn og sakaður um landráð, dæmdur sekur og hálshöggvinn. Hann er dýrlingur í kaþólsku kirkjunni. Ingólfur Margeirsson. Ingólfur Örn Margeirsson (1948 – 2011) var íslenskur blaðamaður og rithöfundur. Hringrás kolefnis. Skýringarmynd af hringrás kolefnios. Svörtu tölurnar segja til um hvað mikið kolefni er í hverju hvolfi í billjónum tonna. Dökkbláu tölurnar segja til um hreyfingunni sem verður á milli hvolfa á hverju ári. Skýringarmynd af losun kolefnis frá verksmiðju Hringrás kolefnis er hreyfing kolefnis í umhverfi okkar milli gufuhvolfs, vatnshvolfs, berghvolfs og lífhvolfs. Hringrás kolefnis er flókin og margbreytileg en hægt er að lýsa hringrásinni þannig að koltvíoxíð (CO2) er numið úr andrúmslofti við ljóstillífun en skilar sér til baka við öndun og rotnun. Gervihnattarmynd. Gervihnattarmynd er mynd sem er tekin úr gervihnetti. Frjáls fjölmiðlun. Frjáls fjölmiðlun hf. var íslenskt fjölmiðlafyrirtæki og bókaforlag sem var áberandi á 10. áratug 20. aldar. Fyrirtækið var stofnað utan um útgáfu dagblaðsins "DV" árið 1981. Eigendur "Dagblaðsins" og "Vîsis" eignuðust hvorir um sig helming í nýja félaginu en stjórnarformaður var Sveinn R. Eyjólfsson. Auk þess að gefa út "DV" fékkst fyrirtækið við útgáfu á kiljum og gaf út tímaritin "Vikuna" og "Úrval" ("Reader's Digest") um tíma. Á 10. áratugnum eignaðist það smám saman leifar gömlu flokksblaðanna, "Tímans", "Alþýðublaðsins" og "Vikublaðsins" (arftaka "Þjóðviljans") auk "Dags" á Akureyri. 1997 voru þessi blöð „sameinuð“ í eitt dagblað, "Dag-Tímann" sem ári síðar var breytt í "Dag". "Dagur" kom út til ársins 2001. Árið 2001 ákvað Frjáls fjölmiðlun hf. að hefja útgáfu nýs dagblaðs, "Fréttablaðsins", sem dreift yrði ókeypis í hús á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndin að blaðinu kom frá norrænum metróblöðum sem er dreift ókeypis og liggja frammi á lestarstöðvum. Munurinn var hins vegar sá að Frjáls fjölmiðlun ætlaði að bera blaðið í hús. Þetta viðskiptalíkan reyndist kostnaðarsamt og félagið varð gjaldþrota árið 2002. "Fréttablaðið" var selt til Fréttar ehf. (í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar m.m.) en "DV" til félagsins ESÓB ehf. sem var hópur fjárfesta með Óla Birni Kárasyni, ritstjóra blaðsins. Geirangur. Geirangur (norska: "Geiranger") er þorp á Sunnmæri í fylkinu Mæri og Raumsdal í Noregi. Geirangur liggur í Geirangursfirði sem gengur inn úr Stórfirði. Næsta borg þorpinu er Álasund. Geirangur er skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Fossinn Sjö systur er nálægt Geirangri í vestri. Það er mikil hætta á því að fjallið Me-Åkernes hrynji niður í fjarðarbotninn og valdi flóðbylgju sem eyðileggi Geirangur og önnur þorp í nágrenninu. 69. Golden Globe-verðlaunin. 69. Golden Globe-verðlaunahátíðin var haldin þann 15. janúar 2012 í Beverly Hills-hótelinu í Beverly Hills, Kaliforníu. Ricky Gervais var kynnir á hátíðinni. Tilnefningarnar voru opinberaðar þann 15. desember 2011. Miðnætti í París. "Miðnætti í París" er rómantísk gamanmynd frá árinu 2011 sem Woody Allen leikstýrði og skrifaði. Kvikmyndin fjallar um hóp Bandaríkjamanna sem heimsækja Parísarborg yfir sumarið. Hetja myndarinnar er handritshöfundur sem verður ástfanginn af borginni eftir fjölmörg undarleg ævintýri um miðnætti. Helstu þemu myndarinnar eru fortíðarfíkn og nútímaviðhorf. Owen Wilson, Rachel McAdams, Marion Cotillard, Kathy Bates, Carla Bruni, Adrien Brody og Michael Sheen fara með aðalhlutverkin í myndinni. Forsýning myndarinnar átti sér stað á kvikmyndahátíðinni í Cannes og fór í almenna sýningu í Bandaríkjunum í maí 2011 þar sem hún hóf sigurgöngu sína yfir hnöttinn. Söguþráður. Gil og Inez fara í ferðalag til Parísar, ásamt foreldrum Inez sem eru að fara þangað í viðskiptaerindum. Gil er rithöfundur sem gengur ekki alltof vel, en verður ástfanginn af borginni og leggur til að þau Inez flytji þangað þegar þau eru búin að gifta sig. Inez er ekki eins hrifin af borginni, né heldur tekur hún undir þá skoðun Gil að þriðji áratugur síðustu aldar hafi verið gullöld. Þegar Inez fer út á lífið með vinum sínum, þá fer Gil í göngutúr og uppgötvar eitthvað sem gæti orðið hinn fullkomni innblástur fyrir skrifin hans. Miðnæturgöngutúrar Gil í París gætu tengt hann og borgina nánari böndum, en á sama tíma gætu göngutúrarnir gert það að verkum að hann fjarlægðist konuna sem hann ætlar að kvænast. Sprengisveppurinn. Sprengisveppurinn (franska: "Du glucose pour Noémie") er 21. bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1971. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Fournier. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst sjöunda í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Svalur og Valur halda til Tókýó í Japan, eftir að hafa fengið boð frá hinum dularfulla Ító Kata, sem er slyngur töframaður. Ító Kata segist hafa fundið hinn þjóðsagnakennda svepp "Kókó Sjómón " og biður þá um að færa Sveppagreifanum til rannsóknar. Ferðin verði þó ekki hættulaus, þar sem alþjóðlegu glæpasamtökin "Þríhyrningurinn" muni eflaust ásælast sveppinn. Við tekur æsilegur eltingaleikur í Japan, þar sem útsendarar Þríhyrningsins (sem bera ekki eigin nöfn heldur raðtölur: númer 1, númer 2 o.s.frv.) reyna að klófesta sveppinn dýrmæta. Í ljós kemur að Ító Kata lék á alla með því að senda Sval og Val af stað með tóman kassa, en freistaði þess á sama tíma að halda sjálfur á fund greifans. Þegar til Frakklands er komið hafa liðsmenn Þríhyrningsins þó hendur í hári Ító Kata. Þeir hyggjast taka hann af lífi með afar flóknum hætti: koma honum fyrir í stjórnlausri eimreið sem æðir um götur borgarinnar ásamt fjarstýrðri sprengju. Svalur og Valur koma til skjalanna á síðustu stundu og tekst að stöðva lestina áður en hún veldur stórslysi. Í misgripum taka þeir sprengjuna með sér og halda á fund Sveppagreifans með Ító Kata og sveppinn fágæta. Greifinn og Japaninn uppgötva þann eiginleika sveppsins að framleiða gríðarlega orku úr venjulegum strásykri. Þeim tekst að knýja gamlan bílskrjóð með sveppnum og gera hann að kraftmiklum sportbíl, en ákveða að þegja um uppgötvun sína til að sveppurinn verði ekki notaður í hernaðarlegum tilgangi. Illu heilli heyrir einn útsendara Þríhyrningsins þetta. Hann stelur bílnum og ekur á fund félaga sinna. Í ofsakæti yfir að hafa eignast sveppinn verðmæta ákveða þeir að sprengja fjarstýrðu sprengjuna. Fyrir runu tilviljana hafði hún hins vegar lent undir höfuðstöðvum glæpasamtakanna og skúrkarnir sprengja því sjálfa sig í loft upp. Íslensk útgáfa. Sprengisveppurinn var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var sjöunda bókin í íslensku ritröðinni. Járnfrúin (kvikmynd). "Járnfrúin" er væntanleg bresk kvikmynd um ævi fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands Margaret Thatcher. Meryl Streep fer með hlutverk Thatchers en Jim Broadbent og Geoffrey Howe fara einnig með aðalhlutverk í myndinni. Myndin á sér stað á þeim sautján dögum áður en Falklandseyjastríðið hófst árið 1982. Alerte aux Zorkons. Alerte aux Zorkons er 51. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú fyrsta eftir höfundanna Yoann og Fabien Wehlmann. Hún var gefin út á bókarformi á frönsku árið 2010 eftir að hafa birst sama ár í teiknimyndablaðinu Sval en hefur ekki komið út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á því að Zorglúbb brýst inn í rannsóknarstofu Sveppagreifans í óljósum erindagjörðum og dáleiðir greifann með hjálp geislatækis síns. Hálfum mánuði síðar berst Sval og Val neyðarkall frá Sveppagreifanum. Þeir halda strax til Sveppaborgar en komast að því að bærinn hefur verið settur í sóttkví af hernum. Félagarnir sleppa fram hjá gæslumönnunum en við þeim blasir furðuleg náttúra með tröllauknum sveppum og háskalegum furðuskepnum. Þeir hitta Sveppagreifann sem hefur komið sér fyrir ásamt Lenu og Astrid, ungum sænskum vísindakonum. Greifinn útskýrir að einhverra hluta vegna sé lífríki svæðisins farið að þróast á margföldum hraða, þar sem dýra- og plöntutegundir stökkbreytist á fáeinum klukkustundum. Þau komast að þeirri niðurstöðu að hér hljóti Zorglúbb að vera að verki, en frétta þá sér til skelfingar að stjórnendur hersins ætli að varpa kjarnorkusprengju á Sveppaborg. Hópurinn verður fyrir árás skaðræðisskepna sem eru árásargjarnar, en tröllheimskar enda án heila. Þeim tekst að flýja og nota sem farskjóta risaeðlu þá sem búsett er við höll Sveppagreifans og fjallað var um í bók þrettán, "Le voyageur du Mésozoïque". Skaðræðisskepnurnar, Zorkónarnir, sem bókin dregur nafn sitt af, ráðast á hópinn en Zorglúbb kemur aðvífandi á farartæki sínu og bjargar þeim. Í sameiningu tekst þeim að afstýra kjarnorkuárásinni. Í ljós kemur að Zorglúbb hafði komið af stað stökkbreytingunum þegar hann missti tilraunaglös í gólfið á tilraunastofu greifans. Saman tekst þeim að uppræta furðulífverurnar með því að dreifa móteitri. Áður en Sval og Val tekst að krefja Zorglúbb svara við því hvert erindi hans hefði verið í tilraunastofunni stingur hann af ásamt Lenu og Astrid og heldur til Tunglsins, þar sem næsti hluti sögunnar mun eiga sér stað. La boîte noire. La boîte noire (íslenska: "Svarti kassinn") er 31. Svals og Vals-bókin og sú önnur eftir Nic og Cauvin. Hún kom út á frönsku árið 1983 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst í beinu framhaldi af "La ceinture du grand froid". Glæpamennirnir úr fyrri bókinni rekast á Sval fyrir tilviljun og uppgötva þá að félagarnir eru enn á lífi. Á sama tíma rannsakar Valur "Svarta kassann" sem vinir þeirra vísindamennirnir skildu eftir á Jörðinni. Hann reynist innihalda míkrófilmur með ótal uppfinningum sem nota mætti til góðs eða ills. Valur útbýr fljúgandi farartæki og fjarskiptabúnað sem gerir þeim unnt að ræða við vísindamennina sem hafa tekið sér bólfestu á fjarlægri plánetu. Glæpamennirnir ræna Val og fá Svarta kassann í lausnargjald. Þeir geyma hann í herstöð í Sahara-eyðimörkinni. Svalur og Valur fljúga þangað í loftfarinu og ná með klækjum og snarræði að endurheimta kassann. Glæpagengið telur ranglega að Svalur og Valur hafi farist í eftirförinni og Svarti kassinn eyðilagst. Seinheppinn syndaselur. Seinheppinn syndaselur (franska: "Vito la Déveine") er 43. Svals og Vals-bókin og sú ellefta eftir þá Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1991 en í íslenskri þýðingu ári síðar. Söguþráður. Sagan hefst um borð í einkaflugvél. Don Vito Cortizone, úr bókinni um "Sval í New York" lendir í deilum við flugmann sinn "Von Schnabbel" og varpar honum loks frá borði. Flugvélin hrapar í lóni á mannlausu kóralrifi. Don Cortizone verður strandaglópur, hefst við í yfirgefnu hóteli safnar skeggi og hríðhorast. Svalur og Valur eru á siglingu í Suðurhöfum. Valur er í djúpri ástarsorg og vart mönnum sinnandi. Skúta þeirra nær landi við kóralrifið eftir óveður. Félagarnir bera ekki kennsl á Don Cortizone sem fær þá til að hjálpa sér við að kafa eftir farmi flugvélarinnar, sem reynist hafa að geyma gripi sem boða ógæfu. Gripunum hafði hann stolið frá kínversku mafíunni. Þegar ólánsgripirnir eru allir komnir af hafsbotni, hyggst Don Cortizone skilja félagana eftir á kóralrifinu en ræna skútu þeirra. Á síðustu stundu kemur hins vegar aðvífandi skip með ribböldum úr kínversku mafíunni og Von Schnabbel. Kínverjarnir binda þremenninga og slá upp veislu í hótelinu. Von Schnabbel situr hins vegar á svikráðum og sprengir það í loft upp. Svalur og Valur komast undan á skútu sinni en skilja Von Schnabbel og Don Cortizone eftir. Í næstu höfn verður Valur ástfanginn á ný og gleymir öllu þunglyndi. Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1992. Þetta var 29. bókin í íslensku ritröðinni og síðasta til þessa dags. Ryan Gosling. Ryan Gosling (fæddur 12. nóvember 1980) er kanadískur leikari og tónlistarmaður. Hann varð fyrst þekktur sem barnastjarna í Klúbb Mikka Músar frá 1993 til 1995. Hann hefur síðar leikið í kvikmyndum á borð við Murder by Numbers, The Slaughter Rule og The United States of Leland. Gosling, Ryan Gosling, Ryan Le voyageur du Mésozoïque. Le voyageur du Mésozoïque (íslenska: "Eggið úr fortíðinni") er þrettánda Svals og Vals-bókin. Höfundur hennar var Franquin. Bókin kom út á frönsku árið 1960 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á Suðurskautslandinu þar sem Sveppagreifinn finnur risaeðluegg sem varðveist hefur ferskt í ísnum í milljónir ára. Hann fær Sval og Val til að aðstoða sig við að flytja eggið og kallar til hóp vísindamanna til að hjálpa til við að klekja því út. Risaeðluungi kemur úr egginu, en Gormdýrið hellir óvart hraðvaxtarblöndu út í matarskammt hans. Risaeðlan verður fullvaxta á einni nóttu og gengur berserksgang í Sveppaborg. Herinn er kallaður til leiks og hyggst uppræta skepnuna, en áður en til þess kemur tekst Gormdýrinu að rota hana. Risaeðlunni er komið fyrir á klettahöfða á lóð Sveppagreifans. Borgarstjóri Sveppaborgar tekur gleði sína á ný, enda reynist risaeðlan hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Með frönsku útgáfunni fylgdi aukasaga: "La Peur au bout du fil". Þar drekkur Sveppagreifinn efnablöndu sem breytir honum í illmenni. Hann fer um Sveppaborg og lemur mann og annan með lurk, uns Svalur og Valur grípa í taumana. Pavel E. Smid. Pavel E. Smid (fæddur 30. maí 1979) er íslenskt tónskáld og píanóleikari. Pavel lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1999 og stundaði eftir það BA-nám við Berklee College of Music þar sem hann útskrifaðist sem kvikmyndatónskáld og píanóleikari árið 2004. Eftir það stundaði hann nám við Boston-háskóla þar sem hann útskrifaðist með MA-próf í tónsmíðum og tónlistarkennslu árið 2007. Íslenska útvarpsfélagið. Íslenska útvarpsfélagið er íslenskt fjölmiðlafyrirtæki sem var stofnað utanum rekstur "Bylgjunnar" árið 1984. Það eignaðist síðan fjölda einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva næstu árin og myndaði að lokum einn hluta stóru fjölmiðlasamsteypunnar Norðurljósa. Að lokum rann félagið saman við Frétt ehf og varð þá einn hluti 365 miðla. Saga. Íslenska útvarpsfélagið var stofnað árið 1984 þegar fyrir lá að útvarpslögum yrði breytt og rekstur einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva heimilaður. Í stjórn félagsins voru þeir Jón Ólafsson í Skífunni og Magnús Axelsson fasteignasali. Eftir nokkra leit að hentugu húsnæði kom félagið sér fyrir á efri hæð gömlu Osta- og smjörsölunnar við Snorrabraut. Útvarpsstöðin "Bylgjan" hóf síðan útsendingar 28. ágúst 1986 og í nóvember árið eftir fór "Ljósvakinn" í loftið. Vorið 1989 hóf Íslenska útvarpsfélagið viðræður um sameiningu við "Stjörnuna" sem var í eigu Hljóðvarps ehf., en meðal eigenda þess félags var Ólafur Laufdal. Sameiningarviðræður sigldu í strand eftir nokkra mánuði, að sögn vegna þess að skuldir "Stjörnunnar" væru meiri en Íslenska útvarpsfélagið hafði áður gert sér grein fyrir. Í kjölfarið fór Hljóðvarp ehf. í gjaldþrot og Íslenska útvarpsfélagið keypti upp þrotabúið í september 1989. Í upphafi árs 1990 var nýtt hlutafé fengið inn í rekstur Íslenska sjónvarpsfélagsins sem rak "Stöð 2". Í febrúar sama ár var hlutafé í Íslenska útvarpsfélaginu aukið til að fjármagna kaup á hlutabréfum í fyrrnefnda félaginu. 4. maí sameinaðist fyrirtækið svo Íslenska sjónvarpsfélaginu og til varð ein fjölmiðlasamsteypa með tvær útvarpsstöðvar og eina sjónvarpsstöð. Sama ár var samþykkt sala á 7% hlut til Sigurjóns Sighvatssonar, en þeir Jón Ólafsson voru þá stærstu einstöku hluthafarnir. 1993 var Fjölvarpinu hleypt af stokkunum með endurvarpi átta erlendra gervihnattastöðva. 1994 fór af stað rannsókn vegna ásakana minnihluta eigenda félagsins um ólögleg viðskipti Jóns Ólafssonar við félagið. Við það tækifæri tóku stærstu eigendur Íslenska útvarpsfélagsins sig saman og stofnuðu hlutafélagið Útherja hf. um sína eign í félaginu. 1995 keypti félagið þriðjung hlutafjár í Frjálsri fjölmiðlun skömmu áður en "Sýn" hóf útsendingar. Sameining "Stöðvar 2" og "Sýnar" hafði raunar staðið til frá 1990 en eigendur "DV" höfðu þá sett sig upp á móti því. Árið 1995 birti "Helgarpósturinn" frétt um að Jón Ólafsson hefði látið fyrirtæki sitt, Skífuna, yfirtaka skuldir R-listans við Íslenska útvarpsfélagið. Síðar sama ár endurfjármagnaði félagið skuldir sínar með samningi við Chase Manhattan Bank. Þetta tengdist fléttu sem snerist um að útvarpsréttarnefnd gæfi "Sýn" útsendingaleyfi með því skilyrði að hún væri ekki í meirihlutaeigu Íslenska útvarpsfélagsins. "Sýn" hóf útsendingar í nóvember sama ár. Fljótlega kom þó í ljós að Sýn var í reynd aðeins deild í Íslenska útvarpsfélaginu með alla sömu stærstu eigendur. Árið 1995 leit út fyrir að "Stöð 2" fengi samkeppni þegar "Stöð 3" hóf útsendingar. Eigendur "Stöðvar 3" voru meðal annars Nýherji, Sambíóin og Árvakur. Eftir langan og erfiðan hallarekstur og vandræði með myndlykla og örbylgjuloftnet varð niðurstaðan sú að Íslenska útvarpsfélagið keypti öll hlutabréf í "Stöð 3" árið 1997. Sama ár hóf félagið rekstur tveggja nýrra útvarpsstöðva, "Stjörnunnar" og "X-ins" og keypti tvo netþjónustuaðila, Islandia og Treknet, sem voru sameinaðir í fyrirtækið Islandia Internet. 1998 keypti Íslenska útvarpsfélagið þriðjungshlut í nýstofnuðu farsímafyrirtæki, Tali. Sumarið 1999 voru síðan eignarhlutirnir í Íslenska útvarpsfélaginu, Sýn, Tali og Skífunni, sameinaðir í nýja fjölmiðlasamsteypu, Norðurljós. Skuldir Íslenska útvarpsfélagsins fóru inn í nýja félagið og reyndust því þung í skauti, sérstaklega eftir hrun á íslenskum hlutabréfamarkaði árið 2002. Á endanum sameinuðust Norðurljós Frétt ehf.. Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson áttu saman meirihluta í nýja félaginu sem fékk nafnið 365 miðlar. Le rayon noir. Le Rayon noir (íslenska: "Blökkugeislinn") er 44. Svals og Vals-bókin og sú tólfta eftir þá Tome og Janry. Hún hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á að Sveppagreifinn fær sendan fágætan svepp frá Afríku. Hann útbýr tæki sem framkallar geisla sem á að breyta litarafti tilraunamúsar úr hvítu í svart. Tilraunin mistekst og greifinn leggur af stað í ferðalag. Svalur skoðar uppfinninguna sem hrekkur í gang og hann breytist í blökkumann. Lögreglumenn Sveppaborgar handtaka Sval, sem er orðinn óþekkjanlegur, fyrir að bera stolin skilríki. Í fangelsi bæjarins rekst hann á gamlan fjandmann, Don Vito Cortizone. Hann heyrir sólarsöguna og vill ólmur komast í tækið og verða þeldökkur til að geta hafið nýjan glæpaferil. Meðan á þessu stendur hefur Svalur einnig lent í vélinni. Hann er handtekinn af lögreglunni sem færir hann og tækjabúnaðinn til Sveppaborgar, þar sem bæjarhátíð stendur yfir. Don Cortizone sleppur laus og reynir að koma höndum yfir tækið, en ekki tekst betur til en svo að helmingur bæjarbúa verður fyrir blökkugeislanum. Fljótlega fer allt upp í loft hjá íbúum Sveppaborgar þar sem hvítir og svartir fara í hár saman. Að lokum ákveða þeir þó að beina reiði sinni að Sveppagreifanum, en þegar æstur múgurinn er kominn að höll hans kemur í ljós að virkni geislans er búin og allir hafa fengið sinn eðlilega húðlit. Don Cortizone er sendur í fangelsi til Bandaríkjanna. Egypska forngripasafnið í Kaíró. Egypska forngripasafnið í Kaíró eða einfaldlega Egypska safnið er forngripasafn í Kaíró í Egyptalandi sem geymir stórt safn fornminja frá Egyptalandi hinu forna, þar á meðal gripi sem fundust í gröf Tútankamons. Í safninu eru líka margar múmíur af frægum konungum. Þar á meðal eru múmíur Ramsesar 3., Seneferu og Hatsjepsút drottningar. Í egypsku byltingunni 2011 var brotist inn í safnið og tvær múmíur eyðilagðar að sögn. Tate Modern. Tate Modern eða Tate-nýlistasafnið er listasafn í London, Bretlandi. Það er hluti af Tate-stofnuninni ásamt Tate Britain, Tate Liverpool, Tate St Ives og Tate Online. Það er staðsett í gamalli rafstöð við bakka Thames, Bankside Power Station, í hverfinu Bankside í Mið-London. Þekktasti sýningarsalur Tate Modern er 3400 fermetra og fimm hæða hár túrbínusalurinn þar sem settar eru upp tímabundnar sýningar eftir samtímalistamenn. Julie Kavner. Julie Kavner (fædd 7. september 1950) er bandarísk leikkona og skemmtikraftur sem er þekktust fyrir að tala fyrir Marge Simpson í The Simpsons-teiknimyndaþáttunum og hefur meðal annars hlotið Emmy-verðlaunin fyrir það. Hún talaði einnig fyrir mömmu Tímons í Tímon og Púmba og fleira. Hún hefur einnig leikið í mörgum af kvikmyndum Woody Allen. Kavner, Julie Númeraplata. Númeraplata eða skráningarmerki er skilti með runu bókstafa og tölustafa sem fest er á ökutæki til að einkenna það. Tómastrengur. Tómastrengur eða tómi strengurinn er hugtak í tölvunarfræði og formlegum málum sem vísar til strengs sem ekkert stak er í. Viola Davis. Viola Davis (fædd 11. ágúst 1965) er bandarísk leikkona. Hún er best þekkt fyrir að leika á sviði en hefur einnig komið fram í kvikmyndum á borð við "Solaris", "Efasemd" og "Húshjálpin". Blóðbað (kvikmynd). "Blóðbað" er spænsk/þýsk/frönsk/pólsk gamanmynd frá árinu 2011 sem skrifuð er og leikstýrð af Roman Polanski. Kate Winslet, Jodie Foster, John C. Reilly og Christoph Waltz fara með aðalhlutverking í myndinni sem byggð er á franska leikritinu "Guð blóðbaðsins". Táningsbækur (kvikmynd). "Táningsbækur" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2011 sem Jason Reitman leikstýrði. Handrit myndarinnar er skrifað af Diablo Cody sem vann áður með Reitman á mynd hans Júnó frá árinu 2006. Charlize Theron fer með aðalhlutverkið í myndinni sem vinsæll skáldsagnahöfundur sem snýr aftur til heimabæjar síns stuttu eftir skilnað hennar til þess að endurvekja ástarævintýri með fyrrverandi kærasta sínum. Myndin kom út í Bandaríkjunum þann 9. desember 2011 og hlaut mikil fagnaðarlæti gagnrýnenda. Charlize Theron var tilnefnd sem besta leikkona í gamanmynd á 69. Golden Globe-verðlaunahátíðinni. Söguþráður. Skömmu eftir skilnað sinn, þá snýr skáldsagnahöfundur aftur heim til sín í litla bæinn í Minnesota, og reynir að endurvekja ástarævintýri með gömlum kærasta, sem nú er giftur og á börn. Little Miss Sunshine. Little Miss Sunshine er bandarísk kvikmynd frá árinu 2006. Svamlað í söltum sjó. Svamlað í söltum sjó (franska: "Le repaire de la murène") eftir höfundinn og teiknarann Franquin er níunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Bókin kom út árið 1957, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1954-55. Árið 1983 var hún gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á því að vellríkur skipakóngur Xenófón Hamadrías efnir til samkeppni um hönnun farartækis sem geri mönnum kleift að kafa niður á 200 metra dýpi og sinna þar verkefnum. Tilgangurinn er að grafast fyrir um hvers vegna skip úr flota hans sökk skyndilega skammt frá landi með skipstjórann innanborðs. Sveppagreifinn hefst handa við að þróa köfunarbúnað, en skemmdarvargar reyna ítrekað að stöðva vinnuna. Félagana grunar að skýringarinnar sé að leita í skipsflakinu og ákveða að rannsaka málið sjálfir. Í ljós kemur að skipstjórinn, "Jón Harkan" (franska: "John Helena"), sem kallar sig "Múrenuna" er sprelllifandi og hefur breytt skipsflakinu í neðansjávarmiðstöð fyrir smyglstarfsemi á Miðjarðarhafi. Múrenan heldur Sval föngnum og ætlar að taka hann af lífi. Fyrst ákveður hann þó að prófa köfunarbúnaðinn. Þrjóturinn veit ekki að skaðlaus aukaverkun búnaðarins er sú að þeir sem hann nota verða blá- og hvítflekkóttir nema þeir fái mótefni. Svalur telur glæpamanninum trú um að þetta séu lífshættuleg sjúkdómseinkenni og hann ákveður að gefa sig fram. Síðar kemur í ljós að skipakóngurinn hafði sjálfur staðið í smygli og eru leynilegar farangursgeymslur skipsins fullar af gulli. John Helena og Hamadrías eru báðir settir í fangelsi. Íslensk útgáfa. Svamlað í söltum sjó var gefin út af Iðunni árið 1983 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Þetta var sautjánda bókin í íslensku ritröðinni Laxárdalsheiði. Laxárdalsheiði eða Laxárdalsvegur nr. 59 er fjallvegur og heiði milli Búðardals og Borðeyrar. Heiðin er hæst um 150 m. og flatlend og þar er mikið af vötnum. Stærsta vatnið á heiðinni er Laxárvatn. Tvær Laxár falla af heiðinni, önnur í Hvammsfjörð og hin í Hrútafjörð. Gamall heiðarvegur, Sölvamannagötur lá upp á heiðina frá botni Hrútafjarðar. Munkaþverá. Kirkjan á Munkaþverá, reist árið 1844. Munkaþverá, áður Þverá, er bær og kirkjustaður í Eyjafjarðarsveit og eitt helsta stórbýli héraðsins. Þar var munkaklaustur um fjögurra alda skeið í kaþólskum sið. Bærinn hét Þverá eða Efri-Þverá á söguöld og fram eftir öldum og þar sátu höfðingjar. Fyrstur bjó þar Ingjaldur, sonur Helga magra, og er sagt að hann hafi reist þar stórt hof. Sonarsonur hans, ójafnaðarmaðurinn Víga-Glúmur, bjó seinna á Þverá. Þekktastur bænda á Þverá á fyrstu öldum byggðar er þó líklega Einar Þveræingur, sem kemur við sögu í ýmsum fornsögum. Hann var einnig afkomandi Helga magra og bróðir Guðmundar Eyjólfssonar ríka á Möðruvöllum. Sagt er að hann hafi reist fyrstu kirkjuna á Þverá. Munkaþverárklaustur var stofnað árið 1155 af Birni Gilssyni Hólabiskupi og stóð fram um siðaskipti. Þá var klaustrið lagt af og eignir þess féllu undir konung en lögmenn og ýmsir höfðingjar og stórbændur bjuggu þar oftast. Á meðal þeirra má nefna Björn Benediktsson ríka sýslumann, son hans Magnús Björnsson lögmann, sem talinn var auðugastur Íslendinga á sinni tíð, og Svein Sölvason lögmann. Núverandi kirkja á Munkaþverá var reist af Þorsteini Daníelssyni á Skipalóni árið 1844 og er sérstætt klukknaport framan við hana. Sunnan við kirkjugarðinn er minnismerki um Jón biskup Arason, sem ólst upp á staðnum að nokkru leyti undir handarjaðri Einars Ísleifssonar ábóta, sem var ömmubróðir hans. Í kirkjugarðinum er reitur sem kallast "Sturlungareitur" og er sagt að þar hafi verið grafnir þeir Sturlungar sem féllu í Örlygsstaðabardaga árið 1238, svo og einhverjir sem féllu í bardaganum á Þveráreyrum 1255. SP Fjármögnun. Sp Fjármögnun er hluti af landsbankanum og er sameinað nýju sviði innan bankans bíla og tækjafjármögnun landsbankans Veiran. Veiran (franska: "Virus") er 33. Svals og Vals-bókin og sú fyrsta eftir höfundana Tome og Janry. Sagan birtist í tímaritinu Spirou á árinu 1982 en kom út á bókarformi á frummálinu árið 1984 og í íslenskri þýðingu sama ár. Söguþráður. Valur rannsakar komu dularfulls skips sem sett var í sóttkví við komuna frá Suðurskautslandinu. Þar rekst hann á "Jón Harkan" (skúrkinn úr "Svamlað í söltum sjó" og "Sjávarborginni") sem flúið hefur frá borði. Hann er fárveikur eftir slys í háleynilegri veirurannsóknarstofu á Suðurpólnum og vill komast á fund Sveppagreifans. Greifinn þróar mótefni, sem þó muni aðeins virka ef því er blandað við efni sem geymd eru í veirurannsóknarstofunni. Svalur og Valur halda því suður eftir, með Jón Harkan fársjúkan í för. Eftir viðkomu í annarri rannsóknarstöð á pólnum leggja félagarnir af stað til rannsóknarstofunnar ásamt fylgdarmönnum. Hópur glæpamanna reynir að stöðva för þeirra með öllum ráðum. Í ljós kemur að þeir starfa á vegum stórfyrirtækis sem vill leyna því að rannsóknarstofan hefur á laun unnið að þróun á sýklavopnum. Svalur og Valur ná á síðustu stundu að bjarga fárveikum starfsmönnum rannsóknarstöðvarinnar og yfirbuga glæpamennina, nema foringjann sem sleppur. Í sögulok gerist Jón Harkan leiðsögumaður ferðamanna á slóðum atburðanna og snýr þar með endanlega baki við glæpafortíð sinni. Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1984. Þetta var 19. bókin í íslensku ritröðinni. Þorleifur Grímsson. Þorleifur Grímsson ríki (um 1490 – 1560) var íslenskur sýslumaður á 16. öld, einn ríkasti maður landsins um sína daga. Hann bjó lengst af á Möðruvöllum í Eyjafirði. Þorleifur var sonur Gríms Pálssonar sýslumanns á Möðruvöllum og konu hans Helgu Narfadóttur frá Narfeyri. Grímur var launsonur Páls Brandssonar á Möðruvöllum, sonar Brands Jónssonar lögmanns, en móðir hans er óþekkt. Páll Brandsson var auðugur og giftur stórríkri konu, Ingibjörgu dóttur Þorvarðar Loftssonar, og áttu þau tvo syni. Í plágunni síðari 1494 dó Ingibjörg og erfðu synirnir auðævi hennar. Þeir dóu einnig í plágunni og erfði faðir þeirra þá en dó svo sjálfur. Grímur átti engan erfðarétt eftir föður sinn þar sem hann var óskilgetinn, en samkvæmt Jónsbókarlögum áttu skilgetin börn óskilgetinna barna erfðarétt og féll allur arfurinn því til tveggja sona Gríms sem þá voru fæddir, Þorleifs og Benedikts. Grimur flutti þá að Möðruvöllum og ólst Þorleifur þar upp. Um arfinn spunnust miklar deilur sem stóðu í rúm tuttugu ár því Þorvarður Erlendsson lögmaður, systursonur Ingibjargar Þorvarðardóttur, gerði tilkall til hans. Grímur þurfti að fara frá Möðruvöllum 1511 eftir konungsúrskurð, svonefnda "Möðruvallaréttarbót", en náði þeim aftur eftir dauða Þorvarðar og sættist endanlega við systkini hans á Alþingi 1515. Þar með lauk Möðruvallamálum, sem svo voru kölluð. Þorleifur giftist ungur Sigríði Sturludóttur og átti með henni tvær dætur, Halldóru konu Ara Jónssonar lögmanns og Þorbjörgu konu Orms Sturlusonar lögmanns. Sigríður dó ung og eftir lát hennar sigldi Þorleifur árið 1519 og dvaldi erlendis í sjö ár. Hann kom heim 1526, sama ár og faðir hans dó, tók við búi á Möðruvöllum og fékk sýsluvöld í Eyjafirði. Síðari kona hans var Sólveig Hallsdóttir. Börn þeirra voru Þuríður, sem fyrst var gift Árna Péturssyni í Stóradal og svo Eirík Snjólfssyni lögsagnara á Ási í Fellum, Grímur sýslumaður, sem dó af slysförum, og Hallótta kona Brands Ormssonar á Silfrastöðum. Sagt er að hann hafi verið mjög kvensamur. Hann átti að minnsta kosti þrjú launbörn en sagt er að þau hafi verið mun fleiri. Eftir að Ari lögmaður, tengdasonur Þorleifs, var tekinn af lífi 1550 varð Þorleifur forráðamaður dætra hans, Helgu og Þóru. Nokkrum árum síðar leitaði Staðarhóls-Páll Jónsson ráðahags við Helgu. Þorleifi var það mjög á móti skapi þótt hann neyddist á endanum til að gefa samþykki sitt og var hann ekki viðstaddur brúðkaupið; raunar mun hann um það leyti hafa flutt sig suður að Strönd í Selvogi og þar dó hann 1560. Miklar deilur spunnust um arfinn eftir hann. Þóttu Ormur tengdasonur hans og Páll maður Helgu ganga freklega um búið á Möðruvöllum og hröktu þeir Sólveigu ekkju Þorleifs þaðan. Spirou et Fantasio à Tokyo. Spirou et Fantasio à Tokyo (íslenska: "Svalur og Valur í Tókýó") er 49. Svals og Vals-bókin og sú þriðja eftir þá Morvan og Munuera. Hún kom út á bókarformi árið 2006 eftir að hafa birst sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Svalur og Valur eru staddir í Tókýó fyrir orð vinar síns galdrameistarans Ító Kata án þess að vita eiginlegt erindi sitt. Þeir mæta á blaðamannafund vegna opnunar gríðarstórs skemmtigarðs sem helgaður er Jedótímabilinu í sögu Japans. Garðurinn var reistur á undraskjótum tíma á landi sem áður var afdrep heimilisleysingja í borginni. Forstöðumaður skemmtigarðsins, töframaðurinn "Garo" flytur setningarræðu með barnungan pilt sér við hlið. Lítil stúlka stekkur fram og skipar honum að láta bróður sinn af hendi. Við tekur mikill eltingaleikur þar sem öryggisverðir garðsins, sem reynast félagar í japönsku mafíunni, eltast við stúlkuna en Svalur og Valur koma henni til hjálpar. Í eltingaleiknum koma fram magnaðir dulrænir hæfileikar barnsins, sem getur leyst mikla krafta úr læðingi með hugarorkunni. Stúlkan leitar skjóls á hótelherbergi þeirra félaga, ásamt fjölda vina sinna úr röðum heimilisleysingja borgarinnar. Mafíósarnir ráðast til atlögu en Svalur, Valur og stúlkan sleppa og ná fundi Ító Kata. Með honum eru galdramennirnir "Alkasar", "Cappucino" og "Atana". Þeir upplýsa að stúlkan og tvíburabróðir hennar búi yfir gríðarlegri hugarorku, en Garo hafi rænt börnunum, haldið þeim föngnum með dáleiðslu og látið þau reisa skemmtigarðinn á örskotsstundu. Stúlkunni hafi hins vegar tekist að strjúka. Við tekur æsilegt uppgjör þar sem Svalur, Valur, hersveit heimilisleysingja og stúlkan með yfirskilvitlegu hæfeileikana berjast við mafíuna sem nýtir sér krafta drengsins dáleidda. Svalur og félagar sigra og glæpamennirnir fá makleg málagjöld. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Auk þess tilheyrir Langanesprestakall að hluta til prófastsdæminu. Skrifstofa prófastsdæmisins er á Sigurhæðum við Akureyrarkirkju. Þar starfar m.a. héraðsprestur sem sinnir ýmsum verkefnum í prófastsdæminu og leysir aðra presta af. Torre Picasso. 300px Torre Picasso er skýjakljúfur í Madrid, höfuðborg Spánar. Turninn er 157 metra hár og 51 hæð og var teiknaður af Minoru Yamakasi. Framkvæmdir við turninn hófust 1982 og var hann svo opnaður 1988. Þann 29. febrúar 2011 var Torre Picasso seldur á 400 milljónir evra. Bryce Canyon-þjóðgarðurinn. Bryce Canyon er þjóðgarður í Utah, Bandaríkjunum. Teach-In. Teach-In var vinsæl hollensk popphljómsveit, sem starfaði frá 1969 til 1980. Hljómsveitin varð fræg er hún vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva keppnina árið 1975, með laginu „Ding-a-dong“. Herreys. Herreys var vinsæl sænsk popphljómsveit. Hljómsveitin varð fræg er hún vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva keppnina árið 1983, með laginu „Diggi-Loo Diggi-Ley“. Unleashed Memories. Unleashed Memories er breiðskífa Lacuna Coil. Linda Maria Baros. Linda Maria Baros (fædd 6. ágúst 1981) er franskt skáld, rithöfundur og þýðandi. Hún er fædd í Búkarest en er búsett í París, Frakklandi. Hún stundaði nám í bókmenntafræði við Sorbonne háskóla (Université de Paris -Sorbonne, Paris IV, 2000 - 2003) og lauk maîtrise-gráðu, D.E.A. 2005 og doktorsgráðu 2011. Hún hefur gefið út fimm ljóðabækur og hlaut Guillaume Apollinaire-verðlaunin í bókmenntum 2007 (Frakklandi). Ljóð hennar hafa verið þýdd á 25 tungumál. Ljóðabækur. Ljóð hans hafa verið birt í kennslubókum fyrir menntaskóla. Ljóðabækur eftir Linda Maria Baros - Þýðingar. "Bārdasnažu asmeņu nams", þýðing eftir Dagnija Dreika, Daugava, Riga, Lettland 2011 "Къща от бръснарски ножчета", þýðing eftir Aksinia Mihailova, Sófía, Búlgaría, 2010 "Casa din lame de ras", Búkarest, Rúmenía, 2006 Þýðingar. Hún þýddi einnig verk eftir Henri Michaux, Boris Vian, Guy Goffette, Alphonse Daudet, José-Luis Reina Palazón, Maria-Antonia Ortega, James Oliver Curwood, Johanna Spyri, Nichita Stănescu og fleiri. Tenglar. Baros, Linda Maria Baros, Linda Maria Baros, Linda Maria Baros, Linda Maria Óskar Guðmundsson. Óskar Guðmundsson (f. 25. ágúst 1950) er íslenskur rithöfundur sem hefur ritað fjölda sagnfræðilegra verka, einkum í miðaldasögu; meðal annars skrifaði hann sjö bækur um fyrstu aldir Íslandssögunnar í Alda-bókaflokknum og ævisögu Snorra Sturlusonar. Óskar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1971. Hann lagði stund á nám í sagnfræði, bókmenntum og þjóðfélagsfræði í háskólum í Reykjavík, Bremen í Þýskalandi og í Kaupmannahöfn á áttunda áratugnum. Á árum áður starfaði hann m.a. sem kennari, var ritstjóri Stúdentablaðsins, ritstjóri vikublaðsins Norðurland á Akureyri, en á árunum 1981–1992 var hann blaðamaður, fréttastjóri og ritstjórnarfulltrúi á Þjóðviljanum og loks ritstjóri fréttatímaritsins Þjóðlífs. Frá árinu 1994 hefur Óskar unnið sem sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur og hefur komið að útgáfu fjölda bóka og rita sem ritstjóri og höfundur. Almannavalsfræði. Almannavalsfræði er þverfaglegt svið þar sem notast er við kenningar stjórnmálafræðinnar og hagfræðinnar til að skýra hegðun fólks byggt á efnislegum hagsmunum þess. Sér í lagi er leitast við að skýra hegðun stjórnmálamanna og ríkisstjórna sem leikenda sem leitast við að hámarka eigin hag innan þess ramma sem settur er í formi stjórnarskrár eða annarra laga og reglugerða. Meðal aðferðafræðilegra nálgana má nefna leikjakenningu, nytjahyggju og ákvarðanafræði. Smithsonian-stofnunin. Flugvélar í National Air and Space-safninu. Smithsonian-stofnunin (eða Smithson-stofnunin) er menntastofnun, rannsóknarstofnun og söfn í eigu ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Stofnunin er að mestu staðsett í Washington, D.C.. Hún rekur nítján söfn af ýmsu tagi, níu rannsóknarstofnanir og dýragarð, gefur út tvö tímarit og rekur sína eigin öryggisþjónustu. Mannfræðisafnið í Mexíkó. Mannfræðisafnið í Mexíkó (spænska: "Museo Nacional de Antropología") er þjóðminjasafn í Mexíkóborg, Mexíkó, sem geymir mikið af minjum frá því fyrir landnám Spánverja í Nýja heiminum. Meðal helstu dýrgripa safnsins eru Sólarsteinninn, steindagatal frá astekum og stytta af astekaguðnum Xochipilli frá 16. öld. Ólsen ólsen. Ólsen ólsen er spil, spilað með venjulegum fimtíu og tveggja spila spilastokki. Markmiðið með leiknum er að losa sig við öll spil á hendi og sá sem gerir það fyrstur vinnur. Hvernig er spilað. Leikendum eru gefin fimm spil hverjum og síðan bunkinn settur á mitt borðið við hliðina á einu spili sem snýr upp. Sá byrjar sem er á vinstri hönd þess sem gefur og spilað er réttsælis. Sá sem byrjar verður að setja niður spil af sömu sort og snýr upp og aðeins eitt í einu. Tvær leiðir eru til að skipta um sort. Það má breyta með áttu eða ef maður á tvö eða fleiri spil að sömu hæð (til dæmis tvær tíur eða þrjá gosa) má setja þau öll út og verður þá það spil sem er efst nýa sortin. Ef leikandi getur ekkert gert dregur hann allt að þrisvar og ef hann getur ennþá ekkert gert eftir það, segir hann pass og þá á hinn að gera. Enn fremur verður að segja „ólsen“ þegar maður getur lokað, annað hvort þegar maður er aðeins með eitt spil eftir á hendi eða til dæmis tvö eins (tvær tíur sem dæmi) og „Ólsen ólsen“ þegar maður leggur niður síðasta spilið (eða spilin) og sigrar. Alla Pugachova. Alla Borisovna Pugachova (rúss.: "Алла Борисовна Пугачёва"; f. 1949) er rússnesk söngkona. Hún leikur djass og popp. Hún keppti fyrir hönd Rússlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1997 með laginu „Primadonna“. Hún náði 15. sæti af 25, með 33 stig. Tenglar. Pugachova, Alla Orlando Bloom. Orlando Jonathan Blanchard Bloom (f. 1977) er enskur leikari. Bloom, Orlando Matt Dillon. Matthew Raymond Dillon (f. 1964) er bandarískur leikari. Dillon, Matt Dark Adrenaline. Dark Adrenaline er 6. breiðskífa Lacuna Coil. The Fame. The Fame er fyrsta breiðskífa Lady Gaga. Skálavík. Skálavík er vík yst í Ísafjarðardjúpi, skammt vestan við Bolungarvík, stutt og breið vík fyrir opnu hafi. Þar er brimasamt og erfið lending. Grösugur dalur er upp af víkinni umlyktur fjöllum og hömrum. Nokkrir bæir voru við ströndina. Skálavík er nú í eyði en landið er nýtt á sumrin og húsið notuð sem sumarhús. Mjög snjóþungt er í Skálavík og samgöngur voru erfiðar. Snjóflóð eru tíð. Snjóflóð féll á bæinn Breiðaból árið 1910 og fórust fjórir en fimm björguðust eftir að hafa legið 40 klukkustundir í snjónum. Skálavík var í Hólshreppi og telst nú til sveitarfélagsins Bolungarvíkur. Vegur liggur frá Bolungarvík til Skálavíkur yfir Skálavíkurheiði. Þar varð banaslys árið 1994 við Mánafellsskál. Eyrnaslapi. Tuskudýr Christophers Robins Milne, sonar A.A. Milne, sem urðu fyrirmyndir að helstu persónum í sögunum um Bangsímon. Eyrnaslapi er til hægri. Eyrnaslapi (e. "Eeyore") er persóna úr sögunum um "Bangsímon" eftir breska rithöfundinn A.A. Milne. Eyrnaslapi er svartsýnn, þunglyndur og gamall grár asni. Taglið á Eyrnaslapa dettur oft af en það er fest á hann með teiknibólu. Lundarreykjadalur. Lundarreykjadalur, sem áður nefndist Reykjadalur syðri, er einn af Borgarfjarðardölum og er á milli Skorradals og Flókadals. Dalurinn er um 25 kílómetra langur og liggur frá vestri til austurs á milli tveggja brattra hálsa. Grímsá rennur um dalinn. Dalurinn er kenndur við kirkjustaðinn Lund, sem er neðan við miðjan dal, norðan ár. Allmargir bæir eru í dalnum og var hann áður sérstakur hreppur, Lundarreykjadalshreppur, en sameinaðist þremur öðrum hreppum í Borgarfjarðarsveit árið 1998 og er nú hluti af Borgarbyggð. Í landi jarðarinnar Brautartungu er samnefnt félagsheimili og þar er sundlaug. Beinakerling. Beinakerling er varða úr grjóti sem ferðamenn stungu áður í miðum sem á voru skrifaðar vísur, svonefndar "beinakerlingarvísur". Beinakerlingar voru hlaðnar við alfaraleið, oftast á fjallvegum, og var miðunum með vísunum stungið í sauðarlegg eða stórgripalegg sem síðan var komið fyrir í vörðunni og þess vegna voru vörðurnar nefndar beinakerlingar. Ekki er víst hve gamall þessi siður er en elstu varðveittar beinakerlingarvísur eru frá 17. öld. Þessar vísur eru líklega annaðhvort úr beinakerlingunni á Kaldadal eða Stórasandi en þær voru þekktastar allra beinakerlinga. Vatnsdalsfjall. Vatnsdalsfjall er fjall í Austur-Húnavatnssýslu, austan við Vatnsdal, og myndar austurhlíð dalsins. Það er 1018 m hátt. Þar sem fjallið rís hæst kallast Jörundarfell. Skriðuföll eru algeng úr Vatnsdalsfjalli og hafa oft valdið mannskaða. Til dæmis eyddi Skíðastaðaskriða bænum Skíðastöðum árið 1545 og Bjarnastaðaskriða hljóp árið 1720. Vatnsdalshólar eru taldir vera berghlaupsurð sem fallið hefur úr Vatnsdalsfjalli og ofan í Vatnsdal. Espólín (forrit). Espólín-forritið er íslenskt ættfræðiforrit, kennt við ættfræðinginn Jón Espólín sýslumann. Höfundur forritsins er Friðrik Skúlason sem hóf að skrá ættfræðilegar upplýsingar í forritið 1988. Espólín er DOS forrit sem er ekki lengur í þróun. Erfiðleikum er bundið að keyra það í nýrri stjórnkerfum vegna íslenska stafasettsins. Í grunninn voru um 3000 einstaklingar skráðir frá fyrri öldum en síðan var notendum kleyft að bæta við sínum skráningum ásamt því að bræða saman skráarsöfn frá öðrum. Espolín er grunnurinn að Íslendingabók. Áramótaskaup 2010. Áramótaskaupið 2010 var sýnt þann 31. desember 2010, en tökur hófust í nóvember. Sama handritshöfundateymi var við gerð skaupsins og frá fyrra ári, þau Anna Svava Knútsdóttir, Ari Eldjárn, Halldór E. Högurður, Ottó Geir Borg og Sævar Sigurgeirsson. Leikstjóri var Gunnar Björn Guðmundsson. Áramótaskaup 2011. Áramótaskaupið 2011 var sýnt þann 31. desember 2011, en tökur hófust 10. nóvember. Leikstjóri var Gunnar Björn Guðmundsson. Handritshöfundar voru Anna Svava Knútsdóttir, Sævar Sigurgeirsson, Hjálmar Hjálmarsson, Örn Úlfar Sævarsson og Baldvin Z. Þjóðvegur F88. Þjóðvegur 88 eða Öskjuleið er vegur sem liggur á Austurland‎i og liggur af hringveginum (Þjóðvegi 1) suður til Askja. Samgöngusamningur. Samgöngusamningar eru samningar sem vinnustaðir gera við starfsmenn sína, og snúast ofast um að hvetja til notkunar á samgöngumátum sem ekki krefjast bílastæðis í nálægð við vinnustaðnum. Starfsmenn sem skrifa undir samgöngusamning fá gjarnan fjárstyrk sem samsvarar til dæmis kostnaði við afsláttarkorti í Strætó bs. Útfærslur á Íslandi virðast oftast fela í sér að fólk skuldbindur sig til að mæta mun sjaldnar á bíl og nota sjaldan bílastæði við vinnustaðinn. Í staðinn er gengið til vinnu, farið á strætó, reiðhjóli, skokkað eða notast við aðrar virka ferðamáta. Samningar geta til dæmis miðað við að starfsmaður mæti á bíl í vinnuna að hámarki 1 eða 2 daga vikunnar. Meðal þeirra á Íslandi sem hafa hvatt til þess að samgöngusamningar verða teknar upp víðar eru Samtök um bíllausan lífsstíl, Landssamtök hjólreiðamanna, Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og Strætó bs Rök. Nokkur mismunandi rök eru nefnd fyrir því að taka upp samgöngusamninga. Samgöngusamningar án fulls stuðnings við hjólreiðar, göngu og almenningssamgöngur til vinnu. Borgað fyrir ferðir á hjóli og strætó í þágu vinnuveitenda Hafa gert samning við Strætó um samgöngukort og eru mögulega einnig að styrkja aðra samgöngumáta Forræðishyggja. Forræðishyggja eða forsjárhyggja er það þegar yfirvöld taka fram fyrir hendurnar á almennum borgurum og setja á einn eða annan hátt skorður á frjálsar athafnir borgaranna, annað hvort með beinum eða óbeinum hætti, t.d. með valdboði, svo sem lögum eða reglum. Meginhugsunin í forræðishyggju er sú að almennir borgarar séu almennt ekki færir um að hugsa skynsamlega eða rökrétt, þess vegna þurfi að stjórna og stýra athöfnum þeirra með valdboði til að tryggja það að þeir fari sér ekki að voða eða geri ekki eitthvað sem yrði þeim að til skaða eða öðrum samborgurum. Hugtakið "forræðishyggja" er gjarnan notað um stjórnmálastefnur sem vilja hafa ríkisvaldið sterkt, lagaboð mörg og athafnafrelsi einstaklinga takmarkað meðan ríkisvaldið tekur ákvarðanir fyrir fólkið og stendur í framkvæmdum. Hugtakið er þannig notað um ýmsar stjórnmálastefnur bæði til hægri (t.d. íhaldsstefnu og fasisma), fyrir miðju (t.d. kristilega demókrata) og vinstri (t.d. sósíalisma). Einnig eru jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum taldir vera mikið fyrir forræðishyggju vegna þess að að þeir vilja tryggja að allir fái sem jafnastan hluta af gæðum samfélagsins. Þá er hugtakið einnig notað utan stjórnmálanna í þeim almenna skilningi að einstaklingur sem aðhyllist forræðishyggju leitast við að hugsa fyrir annað fólk, enda á þeirri skoðun að fólk sé almennt ekki fært um það. Friedrich Louis Dobermann. Friedrich Louis Dobermann (fæddur 2. janúar 1834, dáinn 9. júní 1894) var þýskur skattheimtumaður og hundaræktandi, sem er þekktur fyrir að hafa fyrstur ræktað dobermann hundakynið. Gagnahirðir. Gagnahirðir er sá sem meðhöndlar gögn; til dæmis í rannsóknarverkefnum, við kvikmyndagerð eða fyrir gagnasöfn. Traðarhyrna. Traðarhyrna er fjall í Bolungarvík. Þorpið er í samnefndri vík undir hlíðum Traðarhyrnu en að austan eru Óshyrna, Hádegisfjall, Mærðarhorn og Heiðnafjall og fjallið Ernir stendur fyrir miðri víkinni. Traðarhyrna er 640 m hátt fjall, úr tertíer blágrýti, girt klettum að ofan en skriðurunnin að neðan. Ysti hluti fjallsins er nefndur Traðarhorn og er byggðin að mestu fyrir neðan það. Talin er snjóflóðahætta frá Traðarhyrnu og hefur verið byggður snjóflóðavarnargarður. Á hliðinni sem snýr að sjó eru stallar efst í skriðunum og nefnast þeir Upsir. Ernir (Bolungarvík). Ernir er fjall í Bolungarvík. Fjallið Ernir stendur fyrir miðri víkinni og skiptir henni í tvennt. Sunnan við hana er Syðridalur, en norðan við eru Tungudalur og Hlíðardalur, aðskildir af Tunguhorni. Undir fjallinu yst í Syðridal er hesthúsahverfi og aðveitustöð. Þar fyrir ofan er gil sem talin er töluverð snjóflóðahætta af. Snjóflóð sem féll árið 1995 olli tjóni á þremur hesthúsum og drápust fimm hestar. Tunguhorn. Tunguhorn er fjall í Bolungarvík fyrir miðjum Tungudal og skiptir fjallið dalnum í tvo hluta, Hlíðardal að norðan og Tungudal sem heldur áfram sunnan megin við Tunguhorn. Arnes Pálsson. Arnes Pálsson (fæddur 1719) var útilegumaður og tugthúslimur. Hann komst fyrst undir manna hendur árið 1765. Hann er fæddur á Seltjarnarnesi og alinn upp á Kjalarnesi. Hann var útilegumaður í 9 ár en átti athvarf á bæjum. Hann fór til Vestfjarða en kom aftur og hafðist við í Akrafjalli en bændur í nágrenni fjallsins söfnuðu liði til að fanga hann. Arnes komst undan með að laumast meðal leitarmanna. Sútarabúðir. Sútarabúðir er eyðibýli í Grunnavík. Það var fyrrum nefnt Svörtubúðir. Það er íbúðarhús og rekin ferðaþjónusta á sumrin. Það er árið 1397 í eigu Staðarkirkju. Búið var í Sútarabúðum til ársins 1962. Staðarkirkja (Aðalvík). Staðarkirkja í Aðalvík í Sléttuhreppi er kirkja sem byggð var árið 1904. Áður stóð þar torfkirkja sem byggð var milli 1850-1860 og talið er að kirkja hafi verið í Aðalvík frá miðöldum. Í máldaga kirkjunnar frá 1282 var jörðin í eigu Vatnsfjarðar-Kristínar. Árið 1678 var prestur í Staðarkirkju, Árni Loftsson kærður fyrir galdra en sakir voru felldar niður. Um miðja 18. öld var Snorri Björnsson prestur á Stað í 16 ár. Eftir Snorra var Vigfús Benediktsson prestur á Stað og var hann nefndur Galdra-Fúsi. Straumnesfjall. Straumnesfjall er fjall upp af Aðalvík í Sléttuhreppi. Þar var radarstöð sem byggð var 1953-1956 og var lagður vegur upp á fjallið og flugbraut á sandinum innan við þorpið Látra í Aðalvík. Radarstöðin var starfrækt í tæpan áratug. Nes í Grunnavík. Nes er eyðibýli í Grunnavík á Jökulfjörðum. Á jörðinni er steinhús byggt um 1930. Nes og nærliggjandi jörð Naust var talið 16 hundruð að fornu mati. Nes og Naust eru kallaðar Nesjarðir. Næsta jörð við Nes að suðaustan er Sútarabúðir. Þjóðvegur 570. Þjóðvegur 570 eða Jökulhálsleið er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 574. Þjóðvegur 574 eða Útnesvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 54. Þjóðvegur 54 eða Snæfellsnesvegur er 229,37 kílómetra langur vegur í Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsbæ, Grundarfirði, Helgafellssveit og Dalabyggð. Hann liggur frá Hringveginum við Borgarnes, um Mýrar, Vegamót og Fróðárheiði, um norðanvert Snæfellsnes í gegnum Grundarfjörð, til Vestfjarðarvegar við Stóraskóg. Þjóðvegur 612. Þjóðvegur 612 eða Örlygshafnarvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 63. Þjóðvegur 63 eða Bíldudalsvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 62. Þjóðvegur 62 eða Barðastrandarvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 60. Þjóðvegur 60 eða Vestfjarðavegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 518. Þjóðvegur 518 eða Hálsasveitarvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 425. Þjóðvegur 425 eða Nesvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 864. Þjóðvegur 864 eða Hólsfjallavegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 87. Þjóðvegur 87 eða Kísilvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 901. Þjóðvegur 901 eða Möðrudalsleið er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 85. Þjóðvegur 85 eða Norðausturvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 862. Þjóðvegur 862 eða Dettifossvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur 711. Þjóðvegur 711 eða Vatnsnesvegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur F903. Þjóðvegur F903 eða Hvannalindavegur er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur F905. Þjóðvegur F905 eða Arnardalsleið er hálendisvegur á Austurlandi og liggur af Möðrudalsleið austan Möðrudals og á Austurleið vestan við Ytramynni. Þjóðvegur F902. Þjóðvegur F902 eða Kverkfjallaleið er vegur sem liggur um Ísland. Þjóðvegur F910. Þjóðvegur F910 eða Austurleið er vegur sem liggur um Ísland. Landssamtök hjólreiðamanna. Landssamtök hjólreiðamanna voru stofnuð 1995 sem regnhlífasamtök hjólreiðasamtaka og klúbba. Innan samtakanna rúmast hjólreiða sem samgöngumáta, sem ferðamennska og frístundaiðkun og sem keppnisíþrótt. Þjóðvegur 427. Þjóðvegur 427 eða Suðurstrandarvegur er vegur á Suðvesturlandi Íslands og liggur á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar. Núverandi vegur var lagður á árunum 2009-2011 og styttist þá leiðin um 14 kílómetra. Jigoro Kano. Saga Júdo er óaðskiljanleg frá upphafsmanni þess, kennaranum og fræðimanninum Jigoro Kano. Hann fæddist inn í frekar auðuga fjölskyldu. Faðir hans, Jirosaku, var næst elsti sonur yfir prestst í Shinto Hiysohi-musterinu í Shiga-héraði. Hann kvæntist Sadako Kano, dóttur eiganda Kiku-Masamune sake bruggverksmiðjunar og var tekinn inn í fjölskylduna. Hann breytti nafni sínu í Kano og varð á endanum ráðherra í Bakufu-stjórninni. Kynni Kanos af jiu-jitsu. Jigoro Kano var alinn upp við menntun. Frá sjö ára aldri lagði hann stund á Shodo nám (japönsk skratskrift) og Shiso (fjórir rit Konfúsíusar). Þegar hann var fjórtán ára, byrjaði Kano í enskum fjölmiðlaskóla. Ikuei-Gijukun Shiba í Tókíó. Eineltismenningin í þessum skóla varð til þess að Kano leitaði uppi jujutsu dojo (æfingaaðstaða) til að æfa sig. Fyrstu tilraunir Kanos við að finna einhvern til að kenna sér jujutsu skiluðu litlum árangri. Við fall Tokugawa foringjastjórnarinnar árið 1868 var jujutsu dottið úr tísku við aukna vestræna menningastrauma. Þeir sem höfðu áður kennt jujutsu höfðu verið hraktir frá kennslu eða voru orðnir svo vonsviknir með það að þeir höfðu einfaldlega gefist upp. Nakai Umenari, félagi föður Kanos og fyrrverandi hermaður, samdi um að kenna Kano kata en ekki nokkuð annað. Húsvörður í öðru húsi föður Kanos, Katagiri Ryuji, kunni einnig jujutsu en vildi ekki kenna honum það vegna þess að hann taldi að það nýttist ekki lengur. Annar daglegur gestur í húsi föður Kanos, Imai Genshiro sem var kennari í Kyushin-ryu jujutsu skólanum neitaði einnig. Það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna sem Kano fann loks kennara sem var til í að kenna honum jūjutsu. 1877, þegar Kano var að nema við Tokyo-Kasei skólan, áttaði hann sig á því að margir jujutsu kennarar hefðu orðið að velja sér nýjan starfsvetfang, oftast opnuðu þeir Seikotsu-in (hefðbundnar Osteopata stofur). Eftir að hafa spurst fyrir á nokum svona stofum. Var honum vísað á Fukuda Hachinosuke, kennara í Tenjin shin'yo-ryu jujutsu, sem rak lítið níu dýnu dojo (æfingasvæði) þar sem hann kenndi fimm nemendum. Fukuda er sagður hafa lagt áherslu á tækni ofar almennri þjálfun. Þar sáði hann fræum í huga Kanos þar sem hann átti eftir að leggja áherslu á randori í júdo. Á dánardeigi Fukuda í ágúst 1879 var Kano sem var orðinn viljugasti og besti nemandi hans bæði í randori og kata (fyrirfram ákveðnar æfingar), afhent denso (bókrullur) af Fukuda dojoinu. Kano valdi að halda námi sínu áfram í öðru Tenjin Shin-ryu skóla, sem var stýrt af Iso Masatomo. Iso lagði meiri áherslu á æfingu í kata og fól aðstoðarmönnum kennsluna í randori, aðalega Kano. Iso dó í júní 1881 og Kano hóf nám í Iikubo Tsunetosh í kito-ryu. Eins og Fukuda, Lagði Iikubo miklu meiri áherslu á randori, Við það að byrja í Kito-ryu var miklu meiri fókus á nage-wasa (kastbrögð). Þjóðvegur F208. Þjóðvegur F208 eða Fjallabaksleið nyrðri er hálendisvegur sem liggur frá Þjóðvegi 1 í Vestur-Skaftafellssýslu að Hrauneyjum. Leiðin var áður kölluð Landmannaleið og það heiti er enn oft notað en þó er nokkuð á reiki hvað nákvæmlega skuli teljast til þeirrar leiðar. Oft er Dómadalsleið (Þjóðvegur F225) talin hluti af Landmannaleið. Þjóðvegur F225. Þjóðvegur F225 eða Dómadalsleið er íslenskur hálendisvegur, nyrsti hluti gömlu Landmannaleiðar, sem nú er yfirleitt kölluð Fjallabaksvegur nyrðri. Stundum er talað um Dómadalsleið sem hluta af Fjallabaksvegi nyrðri. Dómadalsleið liggur frá Landvegi til austurs að vegamótum norðan við Frostastaðavatn. Narfi (leikrit). Narfi eða "Sá narraktugi biðill" er leikrit eftir Sigurð Pétursson og eru leikrit Sigurðar, Narfi og "Hrólfur" oftast talin fyrstu íslenska leikverkin sem kallast geta fullþroska. Verkin voru bæði sýnd af skólapiltum í Hólavallarskóla, Hrólfur var sýndur 1796 en Narfi 28. janúar 1799. Narfi er í þremur þáttum og segir frá uppskafningnum Narfa, sem kemur á heimili Guttorms lögréttumanns undir fölsku flaggi, talar brogaða dönsku og reynir að ganga í augun á dóttur lögréttumannsins en þarf að lúta í lægra haldi fyrir Nikulási vinnumanni, sem nær ástum stúlkunnar. Höfundur deilir í verkinu á þá sem telja allt það sem útlent er betra en hefðbundin íslensk verðmæti, tungu og menningu. Sagt var að fyrirmyndir að Narfa væru að nokkru leyti feðgar tveir sem skólapiltar þekktu vel til, þeim Jóni skjallara og Jóni sora syni hans. Dennis Haysbert. Dennis Haysbert (fæddur Dennis Dexter Haysbert, 2. júní 1954) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í 24, The Unit og "Major League" þríleiknum. Einkalíf. Haysbert fæddist í San Mateo í Kaliforníu. Stundaði nám við "American Academy of Dramatic Arts (AADA)". Haysbert hefur verið giftur tvisvar sinnum: Elena Simms (1980-1984) og Lynn Griffith (1989-2001) en saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Árið 2010 lék Haysbert í "Race" sem Harry Brown við "Ethel Barrymore Theatre". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Haysbert var árið 1978 í "Lou Grant". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "The Incredible Hulk", "Code Red", "Off the Rack", "The Young and the Restless", "Just the Ten of Us", "American Playhouse", "Now and Again" og "Static Shock". Árið 2001 var Haysbert boðið hlutverk í 24 sem Forsetinn David Palmer, sem hann lék til ársins 2006. Haysbert var árið 2006 boðið hlutverk í The Unit sem Jonas Blane, sem hann lék til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Haysbert var árið 1979 í "Scoring". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Major League" myndunum, "Love Field", "Insomnia", "Heat" á móti Robert De Niro, Val Kilmer og Al Pacino, "Standoff", "Jarhead" og "Kung Fu Panda 2". Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films verðlaunin Washington DC Area Film Critics Association verðlaunin Tenglar. Haysbert, Dennis Þvottaefni. Þvottaefni er hreinsiefni sem notað er til að þvo þvott. Oftast fæst þvottaefni í duftformi en það er líka fáanlegt sem vökvi. Þvottaefni er yfirleitt sett inn í þvottavél ásamt mýkingarefni en má líka nota það til að þvo með höndunum. Innihald. Í flestum nútímaþvottaefnum eru nokkur ólík efni. Helstu þrjú efnin eru vatnsmýkingarefni (allt að 50 % af magni), yfirborðsvirk efni (15 %) og bleikiefni (7 %). Vatnsmýkingarefni. Þvottaefni inniheldur vatnsmýkingarefni sem fjarlægir kalsínjón í gegnum ýmsar aðferðir. Dæmi um vatsnmýkingarefni eru þvottasódi, sápa og geislasteinn, en eitt helsta þeirra er natríumþrífosfat. Bleikiefni. Bleikiefni fjarlægir jurtaefni eins og blaðgrænu, jurtabláma (antósýanín), sútunarsýrur (tannín) og önnur efni. Oftast er það bleikiefni sem er að finna í þvottaefni oxunarefni, eins og natríumperbórat og natríumhýpóklórít. Stundum er bætt við efnum sem hjálpa með að virkja bleikiefnið. Ensím. Mörg þvottaefni innihalda ensím, allt að 2 % af heildarmagninu í sumum vörum. Þessi ensím brjóta niður bletti sem samanstanda af prótín, fitum og kolvetni en fyrir hvern blett þarf ólíkt ensím, það er próteasa fyrir prótín, lípasa fyrir fitur og amýlasa fyrir kolvetni. Ísleifur Sesselíus Konráðsson. Ísleifur Sesselíus Konráðsson (5. febrúar 1889 – 1972) var íslenskur myndlistarmaður og næfisti. Ísleifur var fæddur á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði, sonur ógiftra vinnuhjúa þar. Hann flutti eins árs gamall að Hafnarhólmi með fóstru sinni, fór seinna í vinnumennsku á næsta bæ Gautshamar og síðar á Drangsnes í sjómennsku. Hann fluttist nítján ára til Reykjavíkur og fór þaðan til Kaupmannahafnar. Hann vann um tíma á millilandaskipi sem sigldi til New York en síðar við pússa silfrið á aðaljárnbrautastöðinni í Kaupmannahöfn. Hann kom aftur til Íslands og vann við uppskipun skipa þar til hann varð sjötugur. Hann var ókvæntur og barnlaus og hafði engin samskipti við fjölskyldu sína. Jóhannes S. Kjarval hvatti hann til að fara að mála. Ísleifur hélt átta málverkasýningar og var sú fyrsta á daginn fyrir 73 ára afmæli hans. Björn Th. Björnsson kom list Ísleifs á framfæri. Óríonþokan. Óríonþokan eða Sverðþokan (einnig þekkt sem NGC 1976) er geimþoka. Marbella. Marbella er bær í Andalúsíu á Spáni. Bærinn liggur við strönd Miðjarðarhafsins í sveitinni Málaga, nálægt fjallinu La Concha. Árið 2011 voru íbúarnir 138.662. Marbella og nærliggjandi bærinn Puerto Banús eru mikilvægir ferðamannabæir við Costa del Sol. Marbella er vinsæll orlofsstaður hjá ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Norður-Evrópu (ásamt Bretlandi, Írlandi og Þýskalandi), Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Sádi-Arabíu. Marbella er þekktur fyrir ríkt og frægt fólk og margar dægurstjörnur fara þangað í orlof. Mörg skemmtiferðaskip og lystisnekkjur leggjast að bryggjunni í Marbella. Bærinn er líka vinsæll hjá ferðamönnum fyrir golfvellina sína og smábátahafnir. Á svæðinu sem umkringir bæinn eru mörg hótel og lúxushús. Frá Marbella er auðvelt að komast að öðrum stöðum eins og Málaga, Estepona, Torremolinos, Fuengirola eða Gíbraltar með strætisvagni. Hraðbrautin A7 rennur framhjá bænum en næsti flugvöllurinn er Málaga-Costa del Sol. Game Boy Color. Game Boy Color í rauðfjólubláu Game Boy Color (japanska: ゲームボーイカラー "Gēmu Bōi Karā") er handleikjatölva sem kom út 23. nóvember 1998 í Evrópu og naut gríðalegra vinsælda. en hún hafði þann eiginleika að geta spilað leiki í lit og hún spilaði tvenns konar leiki: Game Boy og Game Boy Color leiki sem meðal annars Pokémon. Handleikjatölva. Handleikjatölva er leikjatölva sem ætluð er að ferðast með. Hún er lítið, létt tæki með skjá, stýribúnaði, hátölurum og umskiptanlegum eða endurhlaðanlegum rafhlöðum. Handleikjatölvur eru ólíkar öðrum leikjatölvum þar sem stýribúnaðurinn, skjárinn og hátalararnir eru öll í einu tæki. Fyrsta handleikjatækið kom á markaðinn árið 1977 við útgáfu "Auto Race" frá Mattel. Seinna framleiddu nokkur önnur fyrirtæki — þar á meðal Coleco og Milton Bradley — sín eigin létt leikjatæki en þessum var ætlað að ferðast með eða nota á borði. Með þessum tækjum var hægt að spila eingöngu einn leik. Elsta handleikjatækið þar sem hægt var að skipta um hylki var Microvision frá Miltion Bradley sem kom út árið 1979. Talið er að Nintendo hafi gert handleikatölvur vinsælar með útgáfu Game Boy árið 1989. Frá og með 2011 er Nintendo enn einn stærsti framleiðandi handleikjatölva með Nintendo DS og DSi línunum. Nýjasta handleikjatölvan frá fyrirtækinu heitir Nintendo 3DS sem gefur frá sér þrívíddarmyndir en leikendur þurfa ekki að nota gleraugu til að sjá þær. Dæmi um tæki frá öðrum framleiðendum sem eru handleikatölvur eða hægt er að nota sem handleikjatölvu eru PSP og Playstation Vita frá Sony og iPod touch frá Apple. Steinn Guðmundsson. Steinn Guðmundsson (f. 13. nóvember 1932, d. 28. desember 2011) var íslenskur iðnmeistari, knattspyrnumaður og fyrrverand formaður Knattspyrnufélagsins Fram. Ævi og störf. Steinn fæddist í Reykjavík. Hann lauk sveinsprófi í ketil- og plötusmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1954, lauk síðar meistararéttindum og var skipaður kennari við skólann árið 1963. Hann var virkur jafnt í félagsmálum sem í faglegu starfi málmiðnaðarmanna. Var meðal stofnenda Málmsuðufélags Íslands og formaður þess um skeið. Steinn átti fjögur börn ásamt konu sinni, Önnu Guðbjörgu Þorvaldsdóttur. Þar á meðal knattspyrnumanninn Guðmund Steinsson. Íþróttamál. Steinn gekk ungur til liðs við Knattspyrnufélagið Fram. Hann lék með öllum yngri flokkum félagsins upp í meistaraflokk, líkt og bræður hans: Guðmundur Valur Guðmundsson og Karl Guðmundsson, síðar landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Eftir að leikmannsferlinum lauk, sneri Steinn sér að þjálfun yngri flokka hjá Fram og síðar meistaraflokks hjá Ármanni. Hann tók dómarapróf og var um nokkurra ára skeið í hópi kunnustu knattspyrnudómara landsins. Steinn gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Fram. Var formaður félagsins 1976-78 og varaformaður um árabil. Þá var hann fyrsti formaður Skíðadeildar Fram. Fyrir þessi störf var hann útnefndur heiðursfélagi Fram. Hátalari. Dæmigerður hátalari eins og finna má í útvarpi Hátalari eða gellir er tæki sem tekur við upplýsingum á formi rafbyglna og gefa þær frá sér sem hljóðbygljur. Þeir eru andstæða hljóðnema, sem breytir hljóðbylgjum í rafbylgjur. Háltalarar túlka rafbylgjurnar aftur í hljóðbylgjur þannig að maður getur heyrt þær með eyrunum. Hátalara er að finna í mörgum tækjum eins og sjónvörpum, útvörpum og tónlistarspilurum en þeir eru líka oft bara sjálfstæðir. Myndun hljóðs. Þegar rafstraumurinn í vírlykkju sem liggur í hátalara breytist myndast breytilegt segulsvið, þessar breytingar eru á stefnu. Þessi rafstraumur eða rafmerki er látið ferðast í marga hringi innan hátalarans og þannig myndast segulsviðið. Við lykkjuna er segull en þegar hann kemur fyrir segulsviðið verkar hann á vírlykkjuna. Þá sveiflast lykkjan til og þetta orsakar titringi í loftinu sem er í kringum hana. Titringur þessi hefur sömu tíðni og sveiflur og straumurinn. Uppbygging. Flestir hátalarar samanstanda af keilu úr pappír, plasti eða málmi sem tengd er ramma með fjöðrun, eins og sjá má í skýringarmyndinni. Keiluna þarf að gera úr stífu og léttu efni svo að bylgjurnar myndist. Keilan er fest í rammanum þannig að hún getur eingöngu ferðast í tvær áttir, það eru fram og til baka. Vírlykkjan heitir að öðru nafni hljóðspóla og hún er föst við keiluna. Rafstramurinn rennur frá tengjunum í gegnum vírana að hljóðspólunni. Þessi hljóðspóla er föst við keiluna til að senda út titringinn sem sterkast. Hrólfur (leikrit). Hrólfur eða Slaður og trúgirni er leikrit eftir Sigurð Pétursson, sem kallaður hefur verið faðir íslenskrar leikritunar. Verk Sigurðar, Hrólfur og Narfi, voru fyrstu íslensku leikritin sem víst er að voru flutt fyrir áhorfendur en þau voru bæði sett upp á Herranótt af skólapiltum í Hólavallarskóla. Hrólfur er gamanleikrit undir áhrifum frá verkum Ludvigs Holberg. Það var fyrst sýnt 1796 og skrifaði Sigurður verkið fyrir þá og leikstýrði þeim sjálfur. Leikritið var fyrst prentað 1819 á vegum Rasmus Rask og kallaðist þá "Auðunn lögréttumaður" en yfirleitt er það kallað Hrólfur. Leikritið hefst á því að landshornaflakkari og oflátungur að nafni Hrólfur kemur á heimili Auðuns lögréttumanns, sem er trúgjarn einfeldningur sem gleypir við öllu sem Hrólfur segir honum og kaupir af honum glingur fyrir hátt verð. Auðuni líst svo vel á Hrólf að hann vill gifta honum Önnu dóttur sína, en hún er ekki sátt við það, enda ástfangin af fátækum bóndasyni. Fleygmál. Fleygmál, klofningsmál, sundrungarmál (enska: "wedge issue") er umdeilt eða óvinsælt málefni, sem haldið er á lofti af andstæðingum stjórnmálaflokks til þess að skapa sundrungu á meðal stuðningsmanna hans og fá þá til þess að hætta stuðningi sínum við flokkinn. Hugtakið er lítt þekkt á Íslandi, en er mikið notað í bandarískum stjórnmálum og sem dæmi um svokallað fleygmál má nefna skotvopnaeign, hjónaband samkynhneigðra, fóstureyðingar, innflytjendur og stofnfrumurannsóknir. Paula Fernandes. Paula Fernandes de Souza (fædd 28. ágúst 1984) er brasilísk söngkona og lagasmiður og gítarleikari. Útgefið efni. Fenandes, Paula Karíbahafseyjar. Karíbahafseyjar eru hálfmánalaga, um 3.200 km langur klasi yfir 7.000 eyja, hólma og sandrifja sem skilur Mexíkóflóa og Karíbahafið frá Atlantshafinu. Púðursykur. Púðursykur er sykur sem unninn er úr sykurreyr og inniheldur dálítið af melassa. Melassi er aukaafurð sem fellur til við vinnslu strásykurs úr sykurreyr. Oftast er púðursykur gerður með því að blanda melassa og öðrum efnum eins og til dæmis karamellu út í hreinsaðan strásykur. Melassinn gefur sykrinum brúnan lit og raka, þar sem hann inniheldur dálítið af vatni. Ljós púðursykur inniheldur um 3,5% melassa en dökkur púðursykur yfir 6%. Hrásykur eru sykurkristallar sem líka innihalda nokkuð af melassa og öðrum efnum sem gefa honum brúnan lit. Muscovado-sykur er sömuleiðis lítið hreinsaður brúnn hrásykur sem er með minni sykurkristalla en venjulegur strásykur. Dulmálsfræði. Dulmálsfræði eða dulritunarfræði kallast sú fræðigrein sem snýst um samskipti á laun. Texti sem þarf að senda leynilega er dulritaður eða dulkóðaður, það er að segja að textanum er breytt þannig að hann verði óráðanlegur þeim sem búa ekki yfir ákveðnu leyndarmáli. Hægt er að breyta textanum með málvísindalegum eða stærðfræðilegum aðferðum, þessar aðferðir heita dulritunaraðferðir. Við notum upplýsingar sem hafa verið dulritaðar í daglegu lífi, til dæmis debet- og kreditkortsupplýsingar og aðgangsorð fyrir tölvur og tölvunet. Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar. Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar er valinn árlega af Íþrótta- og æskulýðsráði Dalvíkurbyggðar ásamt íþróttafélögum í Dalvíkurbyggð. Valið fór fyrst fram árið 1996. Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2011 er Sigurður Ingvi Rögnvaldsson fyrir golf. Ian Fleming. Ian Fleming (28. maí 1908 – 12. ágúst 1964) var breskur rithöfundur, blaðamaður og starfsmaður leyniþjónustu breska flotans. Hann er best þekktur sem höfundur sagnanna um njósnarann James Bond en hann skrifaði tólf skáldsögur og níu smásögur um Bond. Einnig skrifaði hann barnabókina "Chitty Chitty Bang Bang", sem hefur verið kvikmynduð. Fyrsta skáldsagan um Bond, "Casino Royale", kom út í Bretlandi 13. apríl 1953 en tvær síðustu bækurnar, "The Man with the Golden Gun" og "Octopussy" / "The Living Daylights" (smásögur) komu út eftir lát Flemmings. Alls hafa bækurnar um Bond selst í meira en 100 milljónum eintaka og kvikmyndir gerðar eftir þeim hafa notið mikilla vinsælda. Fleming, Ian Regina Taylor. Regina Taylor (fædd, 22. ágúst 1960) er bandarísk leikkkona og leikritahöfundur sem er þekktust fyrir hlutverk sín í I'll Fly Away, The Unit og The Negotiator. Einkalíf. Taylor er fædd og uppalin í Dallas, Texas en ólst einnig upp í Muskogee, Oklahoma. Stundaði nám við "Southern Methodist háskólann" þaðan sem hún útskrifaðist árið 1981. Leikritahöfundur. Taylor er "Distinguished Artistic Associate" hjá "Goodman Theater" í Chicago og hefur framleitt og skrifað leikrit á borð við "Crowns", "A Night in Tunisia", "Oo-Bla-Dee" og "Mudtracks". Taylor hefur einnig skrifað leikrit byggt á "The Seagull" og "The Cherry Orchard" eftir Anton Chekhov. Leikhús. Taylor var fyrsta svarta leikkonan til þess að leika Júlíu í "Rómeo og Júlíu" eftir William Shakespeare. Hefur hún einnig komið fram í leikritum á borð við "Macbeth", "The Illusion", "Jar the Floor" og "As You Like It" Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Taylor var árið 1980 í "Nurse". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "American Playhouse", "Law & Order" og Grey's Anatomy. Árið 1991 þá var Taylor boðið hlutverk í I´ll Fly Away sem Lilly Harper, sem hún lék til ársins 1993. Taylor lék eitt af aðahlutverkunum í The Unit sem Molly Blane, frá 2006-2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Taylor var árið 1989 í Lean on Me og hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Clockers", "Courage Under Fire" og The Negotiator. Tenglar. Taylor, Regina Taylor, Regina Time Warner. Time Warner (áður AOL Time Warner) er bandarísk fjölmiðlasamsteypa sem varð til við samruna Warner Communications og Time Inc. árið 1989. Fyrirtækið rekur sjónvarpsstöðvar, kvikmyndaframleiðslufyrirtæki og útgáfufyrirtæki. Meðal dótturfyrirtækja Time Warner eru New Line Cinema, Time Inc., HBO, Turner Broadcasting System, The CW Television Network, TheWB.com, Warner Bros., Kids' WB, Cartoon Network, Boomerang, Adult Swim, CNN, DC Comics, Warner Bros. Animation, Cartoon Network Studios og Castle Rock Entertainment. Stjórnarformaður er Jeffrey Bewkes. 1996 sameinaðist Time Warner fyrirtæki Ted Turner, Turner Broadcasting System (sem átti meðal annars bæði CNN og Cartoon Network) og Ted Turner varð varaformaður stjórnar sameinaðs fyrirtækis. Fyrirtækið átti aðild að stærsta fyrirtækjasamruna sögunnar árið 2000 þegar það sameinaðist netþjónustufyrirtækinu America Online. Einn stofnenda AOL, Steve Case, varð stjórnarformaður hins nýja fyrirtækis. Samruninn leiddi þó ekki til væntra samlegðaráhrifa. Þegar netbólan sprakk hrundi hlutabréfaverð í fyrirtækinu. Eftir stjórnarskipti árið 2003 var „AOL“ tekið út úr nafni fyrirtækisins. Árið 2009 var America Online síðan skilið frá samsteypunni. Time Inc.. Time Inc. er bandarískt fjölmiðlafyritæki sem gefur út 130 tímarit, þar á meðal "Time", "Life", "Sports Illustrated", "People" og "Fortune". Fyrirtækið var stofnað 28. nóvember árið 1922. Árið 1989 sameinaðist fyrirtækið Warner Communications. Síðan þá hefur Time Inc. verið dótturfyrirtæki fjölmiðlasamsteypunnar Time Warner. Warner Communications. Warner Communications er bandarískt fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtæki sem varð til árið 1971 þegar fyrirtækjasamsteypan Kinney National Company skildi frá þá hluta sem snerust ekki um afþreyingu, í kjölfar hneykslismála sem tengdust bílastæðarekstri fyrirtækisins og breytti um leið um nafn. 1989 sameinaðist fyrirtækið Time Inc. og myndaði Time Warner. Þá átti það meðal annars kvikmyndafyrirtækið Warner Bros. Pictures, tónlistarútgefandann Warner Music Group og tímaritaforlögin DC Comics og MAD. Síðar eignaðist það tölvuframleiðandann Atari, Inc. Netbólan. Netbólan var efnahagsbóla sem stóð frá 1995 til 2000 eða þar um bil og náði hámarki 10. mars 2000 þegar hlutabréfavísitala NASDAQ-hlutabréfamarkaðarins náði 5132,52 stigum. Bólan stafaði af ofmati á vaxtarmöguleikum Internetgeirans. Megineinkenni bólunnar var að fjárfestar viku til hliðar arðsemiskröfu til tæknifyrirtækja vegna væntinga um hraðan vöxt og hækkun hlutabréfaverðs í kjölfarið. Næstu mánuðina eftir að hámarkinu var náð fór síðan allt loft úr bólunni og hlutabréfaverð tæknifyrirtækja lækkaði hratt. Hrunið átti sér þó ekki stað á einu bretti heldur stóð yfir frá 2000 til 2002. Hryðjuverkin 11. september 2001 bættu enn á vandræði hlutabréfamarkaða um allan heim. Youddiph. Youddiph (f. 23. janúar 1973 sem Maria Lvovna Katz) er rússnesk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Rússlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1994 með laginu „Vechniy strannik“. Hún náði 9. sæti af 25, með 70 stig. Frances Ruffelle. Frances Ruffelle (f. 29. ágúst 1965) er ensk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Bretlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1994 með laginu „Lonely Symphony“. Hún náði 10. sæti af 25, með 63 stig. Ruffelle, Frances Þjóðvegur 93. Þjóðvegur 93 eða Seyðisfjarðarvegur er vegur sem liggur um Ísland. Sveinn skotti. Sveinn Björnsson, kallaður Sveinn skotti (um 1596 – 1648) var íslenskur flakkari og afbrotamaður sem þekktur hefur orðið í þjóðsögum. Hann var að lokum hengdur á Barðaströnd fyrir nauðgunartilraun. Sveinn var sonur raðmorðingjans Axlar-Bjarnar Péturssonar og Þórdísar Ólafsdóttur konu hans. Þjóðsagan segir að þegar Björn var líflátinn hafi kona hans verið þunguð og því sloppið við refsingu fyrir vitorð með honum. Hún hafi þá farið norður að Skottastöðum í Svartárdal og þar hafi Sveinn fæðst og alist upp og sé kenndur við bæinn. Þetta er þó afar ólíklegt því mál Þórdísar var tekið fyrir á Alþingi bæði 1596 og 1597 og er ólíklegt að hún hafi mátt fara af Snæfellsnesi fyrr en það var til lykta leitt. Fátt er vitað um feril Sveins en hann er sagður hafa farið til Vestfjarða og lært þar galdur. Síðan flakkaði hann víða um og hafði á sér mjög illt orð fyrir galdur, þjófnað og áreitni við konur og var að minnsta kosti tvisvar hýddur fyrir nauðganir og fleira. Varðveist hefur bréf sem Brynjólfur Sveinsson biskup skrifaði árið 1646 þar sem hann kærir Svein fyrir að forsmá guðs orð og sakramenti og segir hann hafa iðkað íþróttir djöfulsins. Sama ár var Sveinn kaghýddur á Alþingi og skorið af honum annað eyrað, auk þess sem hann var dæmdur réttdræpur ef hann bryti af sér á ný. Tveimur árum síðar kom hann að Rauðsdal á Barðaströnd. Bóndinn var ekki heima en Sveinn ætlaði þá að nauðga húsfreyjunni. Henni tókst að koma á hann böndum og var hann síðan hengdur. Sveinn er talinn hafa átt tvo syni, Gísla, sem kallaður var hrókur, er sagður hafa verið þjófur og illmenni og var hengdur í Dyrhólum, og Halldór (f. 1643), bónda í Syðra-Tjarnakoti í Eyjafirði. Listi yfir leikjatölvur. Þetta er listi yfir leikjatölvur. Listanum er raðað eftir kynslóð og felur í sér bæði heimaleikjatölvur og handleikjatölvur. Önnur kynslóð (1979–1984). Þessar vélar eru kassettu- eða 8-bita leikjatölvur. Fimmta kynslóð (1993–1999). Þessar vélar eru 32- og 64-bita leikjatölvur. Natalia Tena. Nat Tena, fullu nafni Natalia Gastian Tena er bresk leikkona og tónlistarkona. Hún fæddist þann 1. nóvember árið 1984 í Surrey. Hún á spænska foreldra sem heita María og Jesús og þar af leiðandi talar Nat reiprennandi spænsku. Hún syngur og spilar á Harmonikku með hljómsveitinni Molotov Jukebox. Fyrsta bíómyndin sem Nat lék í var myndin About a boy sem að kom út árið 2002. Í myndinni leikur hún skólasystur aðalstráksins Marcusar og Nat er aðeins 18 ára þegar hún landar þessu hlutverki. Nat hefur leikið á sviði, í sjónvarpsþáttum og í bíómyndum. Hún er frægust fyrir hlutverk sitt í Harry Potter bíómyndunum og þar lék hún Nymphadoru Tonks. Nymphadora Tonks, ávallt kölluð Tonks, er ung norn sem að kynnist Harry þegar hann er á 5. ári í Hogwartsskóla. Tonks er nýbúin að læra að vera skyggnir og er gengin í Fönixregluna. Tonks er hamskiptingur og getur breytt um útlit og hárlit að vild, en stundum breytist hárlitur hennar líka eftir skapi. Faðir Tonks er muggi en móðir hennar er norn, Andromeda Tonks fyrrum Black. Tonks fæddist árið 1973 og fór í Hogwartsskóla árið 1984 og útskrifaðist þaðan árið 1991, árið sem að Harry hóf skólagöngu sína. Tonks er algjör klaufi og sagði Nat í viðtali að hún hefði ákveðið í skyndi að fara í prufurnar og þegar hún kom á prufustaðinn, aðeins of seint þá byrjaði hún á því að hrasa um borð sem var þarna og fljúga á hausinn. Nat fékk hlutverkið og var hæstánægð, þrátt fyrir að hlutverkið væri lítið. Natalia lék Tonks í fjórum Harry Potter myndum en í seinustu myndinni voru klippt út setningarnar hennar svo hún sást ekki í nema 10 sekúndur alla myndina. Á síðasta ári var frumsýnd skosk mynd sem heitir You Instead og þar lék Nat annað aðalhlutverkið. Á þessu ári kemur út myndin Bel Ami með Robert Pattinson í aðalhlutverki og þar leikur hún Rachel. 1. ^ Births, Marriages & Deaths Index of England & Wales, 1916-2005.; at ancestry.com 2. ^ "NATALIA TENA EL EMBRUJO DEL FÉNIX" Nuevo Herald - 13 July 2007 3. ^ "Spanish actress lands role in 'Potter' film" 14 July 2007, Telegram.com 4. ^ "Trailing Tonks" (2007), a featurette on the DVD release of Harry Potter & the Order of the Phoenix 5. ^ George R.R. Martin's blog Nel Noddings. Nel Noddings (fædd 1929) er bandarískur femínisti, heimspekingur og menntunarfræðingur. Hún starfaði sem stærðfræðikennari í grunn- og framhaldsskólum 1949-1972. Hún lauk doktorsprófi árið 1975 og er prófessor við Stanford-háskóla í menntaheimspeki. Hún er þekktust fyrir hugmyndir og rannsóknir varðandi umhyggju sem ganga út á að umhyggja sé grundvallarforsenda mannlífsins og allir óski að um þá sé hugsað af alúð og nærgætni. Noddings greinir umhyggjusiðferði og fjallar um hlutverki þess í skólum samtímans í mörgum verkum sínum. Hún fjallar um umhyggju út frá sammannlegri reynslu af því að þiggja og veita umhyggju og greinir milli þess að bera umhyggju fyrir einhverju og veita umhyggju. Noddings telur umhyggju í skóla forsendu þess að menntun eigi sér stað. Hugtakið umhyggjusiðferði er upphaflega frá Carol Gilligan en Noddings þróar það hugtak áfram og tengir við kennslu. Noddings greinir á milli náttúrulegrar umhyggju sem fólk sýnir sínum nánustu og siðferðilegrar umhyggju sem kennarar og annað fagfólk sýnir í starfi og lýsir henni sem ákveðinni stöðu, stöðu kennara sem er fólgin í tengslum við nemendur en ekki kennslu. Hún telur að tengja eigi menntun og siðvit saman og vinna með námsgreinar með hliðsjón af því. Tenglar. Noddings, Nel Noddings, Nel Noddings, Nel Carol Gilligan. Carol Gilligan (fædd 28. nóvember 1936) er bandarískur femínisti, siðfræðingur og sálfræðingur. Hún er þekktust fyrir verk sín með og á móti Lawrence Kohlberg um siðfræðileg efni. Hún er núna prófessor við New York-háskóla og gestakennari við Cambridge-háskóla. Gilligan er þekktust fyrir bók sína "In a Different Voice" frá árinu 1982. Tenglar. Gilligan, Carol Gilligan, Carol Lawrence Kohlberg. Lawrence Kohlberg (1927 – 1987) var bandarískur sálfræðingur, heimspekingur og menntunarfræðingur. Hann er þekktur fyrir að skoða siðferðisvitund í víðu samhengi með hliðsjón af sálfræðirannsóknum á siðferðisþroska og með reynslu sinni á framkvæmd slíkra fræðikenninga í skólastarfi Kohlberg skoðar siðferðisþroska einstaklinga út frá þroskakenningum Jeans Piaget og heimspeki Immanuels Kant. Kohlberg setti fram kenningu um stigaskiptingu siðferðisþroskans þar sem hann skiptir siðferðisþroska einstaklinga í sex stig. Síðasta stigið „algild siðalögmál“ er mjög umdeilt. Kolhberg athugaði siðferðisvitund fólks með hliðsjón af hvert er viðhorf fólks til þess að varðveita líf, skyldurækni í sambændum og viðhorf til laga og refsinga. Hann notaði klípusögur í rannsóknum sínum svo sem sögur þar sem einstaklingur þarf að velja milli tveggja siðareglna eins og eignarétti og virðingu fyrir lífi. Heimildir. Kohlberg, Lawrence Kohlberg, Lawrence Kohlberg, Lawrence Lahore. a>, byggt á tíma Breska Indlands Lahore (úrdú: لاہور, púndjabí: لہور) er höfuðborg pakistanska héraðsins Punjab og er önnur stærsta borg landsins en sá stærsta er Karachi. Lahore er 34. stærsta borg í heimi og er meðal heimsins þéttbyggðustu borga. Borgin var stofnuð árþúsundi síðan en hún er ein helsta menningarborg Pakistans. Hún var höfuðborg Punjab-fylkisins í Breska Indlandi á 19. og 20. öldum. Árið 2010 voru íbúarnir 8.590.000 samkvæmt mati frá pakistönsku ríkisstjórninni. Úrdú. Úrdú (اردو,) er mállýska, af indóevrópska tungumálinu hindí, töluð af múslimum í Suður-Asíu. Úrdú er ríkismál Pakistan ásamt ensku. Úrdú er líka talað víða á Indlandi og er opinbert tungumál í fimm fylkjum. Úrdú á rætur að rekja til mállýskunnar kariboli, afbrigði af hindí sem varð til í Delí. Úrdú hefur orðið fyrir áhrifum frá m.a. persnesku, arabísku og tyrkneskum tungumálum í að minnsta kosti 900 ár. Ættjörð úrdú er í Uttar Pradesh í Norður-Indlandi en þar þróaðist tungumálið á tíma konungsríkisins Delí (1206–1527) og Mógulveldisins (1526–1858). Úrdú er skiljanlegt hindímælendum í Indlandi. Tungumálin hafa sameiginlegan uppruna og hljóð- og málfræði þeirra eru svo svipuð að þau eru oft flokkuð sem eitt tungumál. Munirnir á tungumálunum eru ekki miklir og snúast aðallega um ritkerfi og orðaforða: persneska stafrófið er notað til að skrifa úrdú og tæknileg orð eru oftast úr persnesku eða arabísku þar sem á hindí er devanagari notað og tækniorð eru að mestu leyti úr sanskrít. Samt sem áður eru mörg orð úr arabísku, persnesku og sanskrít í báðum tungumálunum og flestir málfræðingar telja þau tvö staðalform af sama tungumálinu. Vegna trúarlegrar þjóðernisstefnu telja mælendur úrdú og hindí tungumálin fullkomlega aðgreind tungumál þó að sú sé ekki raunin. Keðjuverkun (hjólreiðar). Keðjuverkun eða þyrping (e. "critical mass") er hjólreiðatengdur viðburður, þar sem fólk sem hjóla til samgangna eða hafa áhuga á hjólreiðum til samgangna, hjólar saman um borgargötur. Atburðurinn ber oft keim af götuhátið, og er félagslegur gjörningur, ætlaður að vekja athygli á réttindi hjólreiðamanna. Aðalreglan í flestum löndum er að borgargötur séu sá staður sem hjólreiðamenn sem hjóla til samgangna er ætlað að vera. En margir sem vilja hjóla finnst bílaumferðin ógnandi og fyrir þeim. Hagsaga. Hagsaga er tiltölulega ung fræðigrein þar sem sagnfræði og hagfræði er spyrt saman til þess að rannsaka söguleg fyrirbæri með aðferðum hagfræðinnar. Undirgrein hagsögunnar þar sem megindlegum aðferðum er mikið beitt er nefnd klíómetría. Lila Downs. Ana Lila Downs Sánchez þekkt sem Lila Downs (f. 19. september 1968 í Oaxáká, Mexíkó) er mexíkósk söngkona og dansari. Yanka Kupala. Bernskuheimili Yanka Kupala í Minsk Yanka Kupala í Pétursborg árið 1909 Yanka Kupala (hvítrússneska:Янка Купала, Іван Дамінікавіч Луцэвіч; 1882 – 1942) var rithöfundur og ljóðskáld frá Hvíta-Rússlandi. Kupala var af bændaættum. Hann flutti frá Hvíta-Rússlandi til Vilnius árið 1908. Ljóðasafn hans "Жалейка" var gert upptækt af stjórnvöldum. Hann fór til Pétursborgar árið 1909 en sneri aftur til Vilnius árið 1913. Hann varð fyrir áhrifum frá rússneskum rithöfundum eins og Maxim Gorky. Verk Kupala breyttust eftir Októberbyltinguna 1917. Þegar Hvíta-Rússland var hernumið af Nasistum árið 1941 flutti hann til Moskvu og síðan til Tatarstan. Hann dó árið 1942 þegar hann féll úr stiga í Hótel Moskvu. Kupala varð tákn um menningu Hvít-Rússa á Sovéttímanum. Tenglar. Kupala, Yanka Großer Widderstein. Großer Widderstein er fjall í Vorarlberg í Austurríki. Panathinaikos. Panathinaikos eða Panathinaikos Athlitikos Omilos er grískt knattspyrnufélag frá Aþenu. Félagið er það næstsigursælasta í grísku knattspyrnunni og hefur náð bestum árangri grískra félagsliða á alþjóðavettvangi. Saga. Panathinaikos var stofnað árið 1908 þegar hópur knattspyrnumanna gekk úr íþróttafélaginu Panellinios G.S., einu elsta íþróttafélagi Grikklands, til að mótmæla þeirri ákvörðun þess að leggja niður knattspyrnuæfingar. Hið nýja félag skipti nokkrum sinnum um nafn, en tók upp heitið Panathinaikos árið 1924. Áður hafði það tekið upp merki sitt, mynd af grænum þriggja laufa smára, fyrir tilstuðlan ensks þjálfara sem kom félaginu í fremstu röð á öðrum áratugnum. Keppni um Grikklandsmeistaratitilinn hófst árið 1927. Panathinkaikos fór með sigur af hólmi árið 1930, en síðan ekki aftur fyrr en árið 1960. Þá rann upp gullöld félagsins sem varð átta sinnum Grikklandsmeistari á árunum 1960-72. Undir lok þessa tímabils var liðið undir stjórn hinnar kunnu ungversku knattspyrnukempu Ferenc Puskás, en undir hans stjórn komst Panathinaikos alla leið í úrslit Evrópukeppni meistaraliða, þar sem það tapaði 2:0 gegn Ajax á Wembley. Á seinni hluta níunda áratugarins hófst nýtt blómaskeið hjá Panathinaikos. Liðið varð fjórum sinnum grískur meistari frá 1990 til 1996. Síðastnefnda árið komst liðið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, en tapaði fyrir Ajax. Panathinaikos varð síðast grískur meistari árið 2010. Það var tuttugasti meistaratitill liðsins, Erkifjendur liðsins, Olympiacos, geta þó státað af nærri tvöfalt fleiri titlum. Tengsl við Ísland. Panathinaikos mætti Frömurum í fyrstu umferð Evrópukeppni meistaraliða árið 1991, eftir tvö jafntefli. Íslenski landsliðsmaðurinn Helgi Sigurðsson lék með Panathinaikos á árunum 1999-2001. Hann lék 32 leiki með aðalliðinu og skoraði í þeim tíu mörk. Arabíska vorið. Arabíska vorið (arabíska: الربيع العربي‎ "ar-Rabīʻ al-ʻArabiyy") er yfirstandandi bylgja mótmæla og uppþota sem á sér stað í Mið-Austurlöndum og hófst laugardaginn 18. desember 2010. Hingað til hafa byltingar verið í Túnis og Egyptalandi; borgarastríð í Líbýu og fall ríkisstjórnar landsins í kjölfar þess; uppreisnir í Barein, Sýrlandi og Jemen, en eftir þær sagði jemenski forsætisráðherran af sér; talsverð mótmæli í Alsír, Írak, Jórdaníu, Kúveit, Marokkó og Óman; og lítil mótmæli voru í Líbanon, Máritaníu, Sádí-Arabíu, Súdan og Vestur-Sahara. Átök voru líka við landamæri Ísraels í kjölfar Arabíska vorsins. Mýrar (Dýrafirði). Mýrar í Dýrafirði er bær og kirkjustaður í Dýrafirði. Þar er eitt stærsta æðarvarp landsins. Kirkja hefur verið á Mýrum að minnsta kosti frá því á 12. öld og var hún helguð Jóhannesi skírara í kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1897. Mýra er getið nokkrum sinnum í Sturlungu og meðal annars fór Þórdís Snorradóttir þangað þegar Órækja bróðir hennar hrakti hana frá Vatnsfirði og settist þar að. Neðan við túnið er Gvendarbrunnur sem minnst er á í Guðmundar sögu Arasonar. Kaupfélag Dýrfirðinga var stofnað á Mýrum 8. júní 1919. Karsi. Karsi ("Lepidiumus sativum") er matjurt sem er skyld vætukarsa og sinnepi og hefur svipað brátt bragð og lykt. Karsi getur vaxið allt að 60 cm hátt með margar greinar á efsta hlut jurtarinnar. Blómin eru hvít/bleik, aðeins 2 mm breidd og vaxa í lítil svokölluð smáöx. Karsi tilheyrir krossblómaættinni. Karsi er ræktur til sölu í Englandi, Frakklandi, Hollandi og Skandinavíu. Hægt er að rækta karsa jarðvegslaust og hann vex best í basísku vatni. Karsafræ eru fáanleg víða í Evrópu til heimaræktunar. Oft eru sprotarnir borðaðir eftir tvær vikur í ræktun en þá eru þeir 5–13 cm háir. Auðkúla (Svínadal). Auðkúla er bær, kirkjustaður og áður prestssetur í Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu, sunnan við Svínavatn. Samkvæmt Landnámabók hét bærinn upphaflega Auðkúlustaðir og þar bjó landnámsmaðurinn Eyvindur auðkúla, sem nam Svínadal. Síðar bjuggu þar ýmsir veraldlegir höfðingjar, þar á meðal Kolbeinn Bjarnason Auðkýlingur, sem hlaut jarlstign um 1300, og seinna Einar Þorleifsson hirðstjóri. Á árunum 1575-1650 voru feðgarnir Eiríkur Magnússon og Magnús Eiríksson prestar á Auðkúlu. Á meðal barna Magnúsar voru þeir séra Jón Magnússon skáld í Laufási og séra Jón Magnússon þumlungur á Eyri í Skutulsfirði, höfundur "Píslarsögu séra Jóns Magnússonar". Seinna var Jón Jónsson (1772-1817), tengdasonur séra Odds á Miklabæ, prestur á Auðkúlu. Hann drukknaði þegar hann féll í vök á Svínavatni og var sagður ganga aftur. Kirkjan á Auðkúlu var helguð Jóhannesi skírara í kaþólskum sið. Núverandi kirkja, sem er áttstend að lögun, var vígð árið 1894. Á Auðkúlu er nú rekið lítið bakarí þar sem aðallega er bakað hefðbundið brauðmeti eins og flatkökur, seydd rúgbrauð og kleinur, og leitast við að nota íslenskt og lífrænt ræktað hráefni eins og kostur er. 1860 (hljómsveit). 1860 er íslensk hljómsveit. Hljómsveitin gaf út plöturnar "Sagan" í september 2011 og "Artificial Daylight" í ágúst 2013. Lögin "Snæfellesnes", "Orðsending að austan" og "For you Forever" hafa öll komist á vinsældarlista á Rás 2, X-inu 977 og Bylgjunni. Erlend útgáfa. Sumarið 2011 fóru meðlimir til New York til að funda með útgáfufyrirtækinu "Gravitation" sem meðal annars gefur út sænska tónlistarmanninn The Tallest Man on Earth.. Stefnt er að útgáfu stuttskífu undir merkjum fyrirtækisins árið 2012. Stuttskífan var þó ekki gefin út fyrr en 14. maí 2013 1860 gefa út stuttskífu og nýtt lag, skoðað 23. júlí 2013. Meðlimir og hljóðfæraskipan. Þrátt fyrir að hljómsveitin njóti aðstoðar fjölda tónlistarmanna er sveitin einnig þekkt fyrir snerpu í hljóðfæraskiptum á miðjum tónleikum Aðrir hljóðfæraleikarar sem hafa spilað með hljómsveitinni eru meðal annars Óskar Þormarsson á trommum, Ingibjörg Andrea Hallgrímsdóttir á þverflautu, Helga Þórarins á víólu, Eyþór Rúnar Eiríksson, Heiður Hallgríms, Jóhannes Þorleiksson og fleira. Lensuriddari. Lensuriddari er riddaraliðsmaður sem ber spjót eða lensu. Slíkir hermenn hafa tilheyrt bæði þung- og léttvopnuðu riddaraliði frá því í fornöld. Lensuriddarasveitir eru enn til í nútímaherjum þótt þær haldi ekki lengur til orrustu á hestbaki með spjót. Brynriddari. Brynriddari er riddaraliðsmaður í brynju með hjálm á höfði sem berst á hestbaki með skotvopni og korða. Slíkir hermenn komu fyrst fram á sjónarsviðið í Evrópu á 15. öld. Brynriddarar tilheyrðu þungvopnuðu riddaraliði og voru arftakar riddara miðalda. Þeir eru nú einungis til sem heiðursvörður í nokkrum löndum. Húsari. Húsari er nafn á riddaraliðsmönnum í léttvopnuðu riddaraliði sem á uppruna sinn að rekja til Ungverjalands á 15. öld. Þar voru húsarar upphaflega serbneskir hermenn sem flúðu til Ungverjalands eftir innrás Tyrkjaveldis í Serbíu á 14. öld. Hersveitir húsara voru notaðar sem landamærasveitir með ránsleyfi, svipað og kósakkar í Rússlandi, við landamærin að Tyrkjaveldi. Í Pólsk-litháíska samveldinu tóku pólskir húsarar við af þungvopnuðu riddaraliði sem kjarninn í riddaraliðinu á 16. öld við mikinn orðstír. Húsarasveitir breiddust einkum út í Evrópu á 18. öld. Þannig notaði Friðrik mikli húsara mikið í Austurríska erfðastríðinu og jafnvel Rússar komu sér upp húsarasveitum fyrir Sjö ára stríðið 1756. Geimskutluáætlunin. Geimskutluáætlunin, opinberlega kallað Geimsamgöngukerfið (STS), eru núverandi mönnuð geimskip fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna. Geimskutlu sporbrautin er ræst lóðrétt, yfirleitt flutt með 5 til 7 geimfara um borð (þótt 8 hafa verið fluttir) og getur borið allt að 22.700 kg. farm inn í nærbraut jarðar. Þegar verkefninu er lokið getur skutlan sjálfkrafa farið út úr sporbraut jarðar með því að nota eldflaugar stjórnkerfið (það nær að átta sig á viðeigandi hátt og losar sig við megin vél OMS, þar sem það hægir skutluna niður) sem er látið falla niður í gufuhvolf jarðar og brennur þar upp til agna. Meðan á lendingu stendur, virkar hluturinn sem endurkomu farartæki, með því að nota OMS kerfi og flug fleti til að gera breytingar. Skutlan er eina fleygða mannaða geimflaug til að ná sporbraut og landi, og eina margnota geimfarartæki sem hefur náð mörgum ferðum inn í sporbraut jarðar. Þetta verkefni felur í sér flutning mikils farms til ýmissa sporbrauta (þar á meðal hluta í bætingu við Alþjóðlegu Geimstöðina) sem veitir áhöfn víxlun fyrir Alþjóðlegu Geimstöðina og framkvæma þjónustu verkefni. Skutlan hefur einnig endurheimt gervihnetti og meiri farm frá sporbraut og komið þeim aftur til jarðar, en notkun í þeirri flutningsgetu var sjalgæft. Hins vegar hefur skutlan verið notuð til að koma farmi aftur til jarðar frá Alþjóðlegu Geimstöðinni (ISS), þar sem rússneska geimskipið Soyuz hefur takmarkað flutningsgetu farms til jarðar. Hvert farartæki var hannað með áætlaðan líftíma af 100 flaugum, eða 10 ára starfstíma. Áætlunin hófst í lok 1960 og hefur verið ráðandi yfir mannaðar starfsemir NASA frá því um miðjan 1970. Samkvæmt Framtíðarsýn fyrir Geimkannanir (VSE), var notkun geimskutlunar áhersluð á að ljúka samkomu fyrir Alþjóðlegu Geimstöðina árið 2010, eftir að það er látið störfum. NASA fyrirhugaði skiptingu á skutlu fyrir Orion geimflaugina, en fjármögnun niðurskurðar hafði komið þróun Orion skutluna í vafa. Mótun og þróun. Áður en Apollo 11 lenti á tunglinu árið 1969, hóf NASA snemma rannsókn á hönnun geimskutlu. Árið 1969 myndaði forsetinn, Richard Nixon geim verkefnahóp, undir forystu varaforsetans Spiro T. Agnew. Þessi hópur lagði mat á skutlu rannsóknum hingað til, ráðlagði að innanlands geimstefnum, þar á meðal að smíða geimskutlu. Markmiðið, eins og kynnt var af NASA á þing, var að veita mun ódýrari leið til að fá aðgang að geiminum sem verður notað af NASA, Varnarmálaráðuneitis, og annara viðskipta- og vísindalegum notendum. Meðan á fyrstu árum þróunnar á geimskutlu stóð, var frábær umræða um hagkvæmustu hönnun skutlu með bestu hæfni jafnvægis, uppbyggingarkostnaði og rekstrarkostnaði. Á endanum var núverandi hönnun valin, með endurnýtanlega fleygða flaug, endurnýtanlegt þétt eldflaugar útblástursrör og nýtanlegan utanaðkomandi geymi. Geimskutluáætlunin var formlega hleypt af stokkkunum 5. Janúar árið 1972, þegar Nixon forseti tilkynnti að NASA yrði áfram með endurnýtanlegt geimskutlu kerfi. Síðasta hönnunin var ódýrari að smíða og síður tæknilega metnaðafyllri en fyrri fullkomna endurnýtanlega hönnunin. Upphaflega breytingin á hönnunni var með stærri utanaðkomandi eldsneytisgeymi, sem hefði verið sendur út í sporbraut, þar sem það gæti verið notað sem hluti af geimstöðinni, en þessi hugmynd var felld niður vegna fjármagns og pólitískum forsendum. Helsti verktaki áætlunarinnar var Flugmálastofnun Norður Ameríku (síðar Alþjóðlega Rockwell, nú Boeing) sama fyrirtækið og ber ábyrgð á að smíða Apollo Yfirstjórn/Þjónustu Máti (CSM). Verktakinn fyrir Geimskutlu þétt eldflaugar útblástursrörið var Morton Thiokol (nú hluti af Alliant Techsystems), fyrir utanaðkomandi geymi, Martin Marietta (nú Lockheed Martin) og Geimskutlu megin vélina, Rocketdyne (nú Pratt & Whitney Rocketdyne, hluti af Sameinuðu Tæknilegu Hlutafélugunum (sjá á mynd 3). Fyrsta geimflaugin átti upphaflega að vera nefnd Constitution, en gríðarleg innritunar herferð frá aðdáendum Star Trek sjónvarpsþáttunum sannfærði Hvíta Húsið um að breyta nafninu í Enterprise. Meðan á fagnaðalátum stóð, var Enterprise (tilnefnt Ov-101) velt út þann 17. september 1976, og síðar gert að árangursríkum myndaröðum svif aðferða og lendingar prufun sem var fyrsta alvöru mat á hönnun. Saga áætlunarinnar. Fyrsta fullkomlega hagnýta geimfarið var Kólumbía (tilnefnt Ov-102) smíðað í Palmdale, Kalíforníu. Það var afhent Kennedy Geimvísinda Miðstöðinni (KSC) þann 25. mars 1979, og var fyrst heypt af stokkunum þann 12. apríl 1981, 20 ár frá flugi Yuri Gagarin í geiminn, meðal tveggja manna áhöfn. Challenger (Ov-099) var afhent KSC í júlí 1982, Discovery (Ov-103) í nóvember 1983 og Atlantis (Ov-104) í apríl 1985. Challenger var upphaflega smíðuð og notað sem Skipulags Reynslugrein (STA-099) en var breytt til þess að ljúka skutlum þegar það reyndist ódýrara heldur en að umreikna Enterprise úr prufun aðferða og lendingar uppsetningu, samkvæmt NASA. Challenger varð eytt vegna hækkunar á bilun O-hringar á hægri þétt eldflaugar útblástursrörinu (SRB) þann 28. janúar 1986, með tap á öllum 7 geimförunum um borð (sjá á mynd 4). Endeavour (Ov-105) var smíðuð til að koma í stað Challenger (með því að nota burðarvirkni varahluta og átti uppphaflega að vera fyrir aðra geimflaugar) og var samþykkt í maí 1991, það var fyrst skotið á loft ári seinna. Sautján ár eftir Challenger, brotnaði Kólumbía upp í endurskoti, það drap alla 7 um borð í áhöfninni, 1. febrúar 2003, og hefur ekki enn verið skipt út. Af þessum 5 fullkomlega hagnýttu skultum sem voru smíðaðar, voru þrjár flaugar eftir (í nútímanum er aðeins ein eftir). Enterprise, sem var notuð fyrir flug í andrúmsloftinu en er ekki ætluð til flugs í svigrúmi, hafði víða verið tekin út til notkunar á öðrum geimflaugum. Það var síðar myndrænt endurreist og er til sýnis í Loftslags- og Geimvísinda Safni Steven F. Udvar-Hazy miðstöðvarinnar. NASA viðheldur jafnframt víðtæk vöruhúsaða bæklinga af varðveitta búta frá tveimur eyðilögðum geimskipum. Auðkúla (Arnarfirði). Auðkúla er bær í Arnarfirði í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Á árum áður var margbýlt á Auðkúlu og töluverð útgerð þaðan og var byggðin kölluð Auðkúluþorp eða Kúluþorpið. Til þess töldust bæirnir Auðkúla I, II og III, Mýrarhús, Tunga, Árbær og Lónseyri. Á Auðkúlu var um tíma verslun sem var útibú frá Kaupfélagi Arnfirðinga á Bíldudal. Álftamýri (Arnarfirði). Álftamýri er eyðibýli og áður kirkjustaður og prestssetur við norðanverðan Arnarfjörð í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Bærinn fór í eyði upp úr 1950 eins og margir aðrir bæir í Arnarfirði. Kirkjan á Álftamýri var helguð Jóhannesi skírara og Maríu guðsmóður í kaþólskri tíð. Prestssetur var á Álftamýri til 1880 en þá var Álftamýrarsókn færð undir Hrafnseyrarprest. Síðasta kirkja á Álftamýri var reist 1896 en skemmdist í óveðri 1966. Nokkru síðar var hún rifin og sóknin sameinuð Hrafnseyrarsókn. Í Þjóðminjasafninu er róðukross úr Álftamýrarkirkju, íslensk smíð og talinn vera frá 14. öld. Guðmundur Andri Thorsson. Guðmundur Andri Thorsson (fæddur 31. desember 1957) er rithöfundur og ritstjóri, sonur Thors Vilhjálmssonar rithöfundar og konu hans Margrétar Indriðadóttur fréttastjóra. Hann skrifar reglulega pistla í Fréttablaðið. Guðmundur Andri lauk stúdentsprófi frá MS árið 1978 og BA-prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1983. Á árunum 1983-1985 stundaði hann nám til cand.mag.-prófs í íslenskum bókmenntum við HÍ. Guðmundur Andri hefur starfað sem blaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og þáttagerðarmaður. Hann er nú ritstjóri bóka hjá Forlaginu og ritstýrir jafnframt Tímariti Máls og menningar. Hann er söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Spaða. Fyrsta skáldsaga hans, "Mín káta angist", kom út árið 1988 og síðan hefur hann sent frá sér nokkrar skáldsögur og hlotið fyrir þær ýmsar viðurkenningar. Meðal annars var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir "Íslenska drauminn" 1991 og "Íslandsförina" 1996 og hlaut menningarverðlaun DV fyrir Íslenska drauminn. Hann hefur einnig þýtt allmargar bækur, skrifað formála og annast ritstjórn ýmissa bóka. Árið 2008 hlaut hann barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu sína á Bangsímon eftir A.A. Milne. Sága. Sága er ásynja í norrænu goðafræðinni hún býr á Sökkvabekk. Kim Rhodes. Kim Rhodes (fædd Kimberly Rhodes, 7. júní 1969) er bandarísk leikkkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Suite Life of Zack and Cody og Supernatural. Einkalíf. Rhodes er fædd og uppalin í Portland, Oregon. Stundaði nám við "Southern Oregon State College" og útskrifaðist með B.F.A. í leiklist. Rhodes útskrifaðist með M.F.A frá "Temple háskólanum" í Philadelphiu, Pennsylvaníu. Rhodes giftist Travis Hodges árið 2006 og saman eiga þau eitt barn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Rhodes var árið 1999 í "Another World". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við, "Titus", "Strong Medicine", "Boomtown", og House. Árið 2005 þá var Rhodes boðið hlutverk í "The Suite Life of Zack and Cody" sem Carey Martin, sem hún lék til ársins 2008. Rhodes hefur verið með stórt gestahlutverk í Supernatural sem Fógetinn Jody Mills síðan 2010. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Rhodes var árið 2004 í "Christmas with the Kranks" og hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "A Funeral for Grandpa Harry", "Cyrus" og "The Death of Toys". Tenglar. Rhodes, Kim Fósturfita. Nýfætt barn hulið fósturfitu að hluta Fósturfita (fræðiheiti: "Vernix caseosa") er hvít hula á húð margra nýfæddra barna. Fósturfitan er talin virka sem nokkurs konar varnarkrem fyrir húðina. Felgubolti. Felguboltar eru skrúfur sem notaðar eru til að festa felguna (og hjólið) við hjólastoðirnar. Stundum eru felguboltarnir festir með herslumæli. Steinunn Refsdóttir. Steinunn Refsdóttir var íslensk skáldkona undir lok 10. aldar. Hún er einkum þekkt fyrir að hafa reynt að boða Þangbrandi, sendimanni Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs, heiðni þegar hann reyndi að kristna Íslendinga og er sagt frá því í Njálu. Steinunn var dóttir Refs mikla, sem Landnáma segir að hafi búið í Brynjudal, og konu hans Finnu Skaftadóttur, sonardóttur landnámsmannsins Þórðar gnúpu. Maður Steinunnar var Gestur Björnsson, Helgasonar Hrólfssonar goða í Hofgörðum, sonar Hrólfs digra Eyvindarsonar landnámsmanns. Sonur þeirra var Hofgarða-Refur eða Skáld-Refur Gestsson. Þegar trúboðinn Þangbrandur var á ferð um Vesturland kom Steinunn á móti honum, boðaði honum heiðni og talaði lengi yfir honum en hann tók svo til andsvara og „sneri því öllu er hún hafði mælt í villu“. Steinunn spurði hvort hann hefði heyrt að Þór hefði skorað Krist á hólm en Kristur ekki þorað að berjast. Þangbrandur svaraði að hann hefði heyrt að Þór væri ekki nema mold og aska. Steinunn spurði hvort Þangbrandur vissi hver brotið hefði skip hans og fór síðan með tvær vísur þar sem hún sagði Þór hafa valdið skipbrotinu. Eftir það skildu þau og fór Þangbrandur vestur á Barðaströnd með fylgdarliði sínu. Vísur Steinunnar eru nær eina dæmið um kveðskap heiðinnar konu sem varðveist hefur. Háskólinn í Greenwich. Háskólinn í Greenwich er háskóli í borgarhlutanum Greenwich í London. Aðalháskólalóðin heitir Maritime Greenwich og liggur á suðurbakka Thamesár í miðjum Greenwich, nálægt Canary Wharf, fjármálastöð borgarinnar. Háskólinn er staðsettur á gömlu lóð skólans Old Royal Naval College sem hefur langa sögu um menntun sjóhermanna. Byggingin var hönnuð á 17. öld og var á þeim tíma sjúkrahús fyrir sjómenn. Arkitekinn var Christopher Wren. Nú er þessi bygging ásamt lóðinni á heimsminjaskrá UNESCO. Aðrar lóðir í eigu háskólans eru staðsettar í Medway og Eltham í suðausturhluta London. Háskólinn á rætur sínar að rekja til ársins 1890 þegar Tækniskólinn í Woolwich var stofnaður. Árið 1970 sameinaðist hann nokkrum öðrum háskólum og bar svo nafnið Thames Polytechnic. Á næstu árum sameinuðust Dartford College (1976), Avery Hill College (1985), Garnett College (1987), og nokkrar deildir Goldsmith College og City of London College (1988) skólanum og svo fjölgaði námskeiðum hans. Árið 1992 var skólanum veitt háskólastöðu frá Bresku ríkisstjórninni og fá fékk hann nafnið „Háskólinn í Greenwich“. Dyrehavsbakken. Úr Dyrehavsbanen. Rutchebanen til vinstri. Dyrehavsbakken, í daglegu tali Bakken er skemmtigarður í Danmörku, norðan við Kaupmannahöfn, og er elsti skemmtigarður í heimi sem enn er starfandi. Gestir garðsins eru um 2,5 milljónir árlega. Upphafið má rekja til þess að árið 1583 var komið á fót markaði við hinn konunglega dýragarð og varð þar brátt vinsæll áfangastaður Kaupmannahafnarbúa. Á sumrin slógu trúðar og leikarar upp tjöldum við markaðinn og skemmtu fólki. Vinsældir Bakken jukust smátt og smátt og á seinni hluta 19. aldar fóru hús að koma í stað tjaldanna. Á Bakken er nú fjöldi leiktækja, þar á meðal fimm rússibanar. Sá þekktasti heitir einfaldlega "Rutchebanen" og var tekinn í notkun árið 1932. Einkennismerki Bakken er trúðurinn Pierrot og hefur hann komið fram í garðinum frá árinu 1800. Rússíbani. Rússíbani er leiktæki í skemmtigörðum; vagn eða vagnar sem renna hratt eftir brautum eða lestarteinum með kröppum beygjum og dýfum. Orðið er einnig notað um ýmislegt sem er mjög sveiflukennt eða breytist mjög hratt. Talið er að rússíbanar eigi rætur að rekja til „rússneskra fjalla“, klakahæða sem útbúnar voru á vetrum umhverfis Sankti Pétursborg þar sem hægt var að renna sér niður brattar brekkur á miklum hraða. Umdeilt er hvort fyrsti eiginlegi rússíbaninn var reistur í Oranienbaum-görðunum í Sankti Pétursborg árið 1784 eða hvort það hafi frekar verið "Rússnesku fjöllin í Belleville", rússíbani sem byggður var í París árið 1812. Á mörgum tungumálum bera rússíbanar enn heiti sem þýðir rússnesk fjöll. Íslenska heitið er aftur á móti tökuorð úr dönsku, "rutschebane", og er komið úr þýsku, "Rutchbahn", sem þýðir rennibraut. Rússíbanar eru afar misjafnir að gerð, allt frá litlum fjölskyldutækjum sem hvorki fara mjög hratt né bratt, til mikilla mannvirkja þar sem mikill hraði er á vagninum, brautin fer mjög bratt í um eða yfir 100 metra hæð og stundum í heila hringi þannig að farþegar snúa höfðinu snöggvast niður. Hæsti rússíbani í heimi er nú Kingda Ka-rússíbaninn i Six Flags Great Adventure-skemmtigarðinum í New Jersey í Bandaríkjunum, sem er 139 m hár. Riddarar hringstigans. Riddarar hringstigans er fyrsta skáldsaga Einars Más Guðmundssonar og kom út árið 1982. Höfundurinn vann fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins með skáldsögunni og fylgdi henni eftir með tveimur framhaldsbókum, "Vængjaslætti í þakrennunum" (1983) og "Eftirmálum regndropanna" (1986). Sögurnar gerast í hálfbyggðu úthverfi Reykjavíkur. Sögurnar þrjár voru gefnar út í einni bók undir heitinu "Goðheimar bernskunnar" árið 2005. Látrar (Aðalvík). Látrar eru eyðibyggð í Aðalvík á Hornströndum og voru nyrsta byggðin í víkinni. Staðurinn mun draga nafn af sellátrum á skerjum út af Látranesi. Þar utan við er há og sjóbrött hlíð, Straumneshlíð, sem endar í Straumnesi norðan við Aðalvík. Þar var reistur viti, Straumnesviti, árið 1922, en þar skammt frá strandaði Goðafoss, fyrsta skip Eimskipafélags Íslands, árið 1916 og má enn sjá flakið þar. Upprunalega stóð Látrabærinn innar en var fluttur út á Látranes 1878 eftir að skriður féllu nærri gamla bæjarstæðinu. Sæmileg lending var á Látrum nema í vestanáttum og þaðan voru löngum stundaðir róðrar. Hafnaraðstaða var þó engin og þurfti að draga báta á land þegar illa viðraði. Snemma á 20. öld myndaðist á Látrum vísir að sjávarþorpi og varð staðurinn löggiltur verslunarstaður árið 1905. Um 1920 bjuggu þar átján fjölskyldur. Á Látrum var barnaskóli frá því um 1900 en Látramenn sóttu kirkju að Stað, inn af víkinni. Þegar flest var, á fyrri hluta fjórða áratugsins, bjuggu í Látraþorpinu 120-130 manns sem lifðu af sjósókn og landbúnaði. Íbúum fækkaði mjög á fimmta áratugnum og síðasti ábúandinn flutti frá Látrum 1952. Dúkskot. Sumarið 1925, Vesturgata 13, Dúkskot. Dúkskot eða Vesturgata 13 var torfbær og tómthúsbýli reist í landi Hlíðarhúsa um 1800. Bærinn var nefndur Dúkskot eftir fyrsta ábúanda hans, Jóni Jónssyni, en hann var frá Dúki í Staðarhreppi í Skagafirði. Dúkskot var við Hlíðarhúsastíg (Vesturgötu) og stóð í núverandi götustæði Garðastrætis. a> var af Dúkskoti og var hluti af frétt um morðið. Árið 1913 bjó annar Jón Jónsson í Dúkskoti. Systir hans, Júlíana, drap hann með eitri. Morðið í Dúkskoti var eitt fyrsta æsifréttaefni dagblaða í Reykjavík. Júlíana var dæmd til lífláts árið 1914 en refsingin var milduð. Dúkskot var rifið um 1920. Stakkholt. Reykjavík 1910 þar sem Stakkholt er núna, húsið á myndinni er á svipuðum slóðum og Heyrnleysingjaskólinn Stakkholt er gata í Reykjavík sem liggur þvert á Mjölnisholt. Við Stakkholt 3 stendur gamli Heyrnleysingjaskólinn. Við Stakkholt 2 – 4 er verksmiðjuhús Hampiðjunnar en elsti hluti þess var byggður 1934. Þar var hampspuni og netagerð. Heyrnleysingjaskólinn. Reykjavík 1910 þar sem Stakkholt er núna, húsið á myndinni er á svipuðum slóðum og Heyrnleysingjaskólinn Kennslustund í heyrnleysingjaskóla í Boston árið 1893 Heyrnleysingjaskólinn í Reykjavík, áður Málleysingjaskólinn var sérskóli fyrir heyrnarskert og heyrnarlaus börn og unglinga. Skólinn starfaði sem sérskóli 1909 til 2002. Upphaf skólahalds. Skipulagt skólahald fyrir heyrnarlausa hófst á Íslandi 1867 og skólaskylda heyrnarlausra 1872 en frá árinu 1820 höfðu heyrnarlausir á Íslandi getað sótt nám í Danmörku. Árið 1857 kom út kennslubók, ritið Fingramálsstafróf. Upphaflega fór kennsla heyrnarlausra fram á heimilum kennara, fyrst á heimili Páls Pálssonar en 1892 hóf Ólafur Helgason að kenna heyrnarlausum nemendum að Gaulverjabæ en hann var þar sóknarprestur. Árið 1893 varð hann sóknarprestur á Stokkseyri og þá hafði hann skóla heima hjá sér að Stóra-Hrauni í Ölfusi. Sá skóli lagðist niður 1908. Árið 1909 tók skóli til starfa í Reykjavík og var hann kallaður Málleysingjaskólinn. Áður hafði kennsla heyrnarlausra verið í höndum einstaklinga sem fengu styrk en frá þeim tíma var skólinn rekinn af ríkinu. Forstöðumaður skólans frá stofnun til 1944 var Margrét Theodóra Bjarnadóttir Rasmus en frá 1944-1982 Brandur Jónsson. Guðlaug Snorradóttir stýrði skólanum frá 1981-1986 og Gunnar Salvarsson tók við stjórn skólans 1986 og svo Berglind Stefánsdóttir árið 1996. Kennslustefna. Í fyrstu var kennslustefna við skólann að nota fingra- og bendingarmál en árið 1922 var tekin upp kennsluaðferð þar sem nemendum var kennt að tala með rödd og gera merki með fingrum fyrir hljóð sem erfiðast voru í varalestri. 1944 var tekin upp talmálsstefna og farið að taka börn inn í skólann þegar þau voru fjögurra ára gömul. Nafni skólans var einnig breytt úr Málleysingjaskólanum í Heyrnleysingjaskólinn.Síðan var stefnan alhliða boðskipti og horfið frá áherslu á talmál. Nafni skólans var breytt árið 1995 í Vesturhlíðarskóli og var skólinn sameinaður Hlíðarskóla 1. september 2002. Nemendahópur. Á árunum 1909 til 1921 voru að jafnaði 9 til 12 börn við skólann.Nemendum fækkaði 1981-1992 en árið 1982 voru nemendur 84 en áratug síðar 23. Fyrstu árin voru við skólann einnig nemendur með þroskahömlun. Húsnæði skólans. Skólinn var í fyrstu staðsettur á Laugavegi 17 en fyrsta veturinn í Iðnskólanum í Vonarstræti. Nemendur vistuðust í fyrstu á einkaheimilum í Reykjavík. Skólinn fluttist svo á Spítalastíg 9 og var þar starfrækt heimavist við skólann, börnin sváfu í kjallaranum og kennt var á hæðinni. Árið 1917 fluttist skólinn að Stakkholti 3 og starfaði þar til ársins 1971 en var þá fluttur í húsnæði í Öskjuhlíð sem sérstaklega var byggt fyrir starfsemi skólans. Húsnæði skólans í Stakkholti var fyrst timburhús með skáþaki sem var byggt 1905 og rifið 1953. Austan megin við húsið var fjós, hænsnahús og salerni. Nýtt skólahús var byggt við austurenda eldra hússins árið 1927 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Árið 1953 var reist ný viðbygging við húsið frá 1927 en sú viðbygging var þrjár hæðir með skáþaki byggt úr steinsteypu með svölum. Árin 1963 til 1964 gekk faraldur rauðra hunda og 30 heyrnarskert og heyrnarlaus börn fæddust og var því byggður nýr skóli en 1971 skólinn fluttur í nýbyggingu sunnan í Öskjuhlíð milli Bústaðavegar og ÖSkjuhlíðar. Heimavistarhús voru reist þar 1973. Heimavistin var lögð niður 1991. Goðafossstrandið 1916. Goðafossstrandið 1916 var skipstrand á Straumnesi við Aðalvík. Þann 30. nóvember 1916 strandaði gufuskip Eimskipafélagsins, Goðafoss, á Straumnesi. Farþegar og áhöfn björguðust eftir meira en tveggja sólarhringa vist í skipinu í ofsaveðri en skipið brotnaði í fjörunni. Skipið strandaði klukkan 3 um nótt og var hópur skipverja sendur í birtingu til Aðalvíkur eftir aðstoð. Voru þá 60 manns í skipinu. Þegar veður lægði komu vélbátar frá Aðalvík og björguðu fólkinu. Jökull Jakobsson samdi leikritið Hart í bak um það skipsstrand. Fáskrúðsfjarðarkirkja. Búðahreppur á Fáskrúðsfirði varð til árið 1907, árið 1913 ákváðu íbúar hreppsins að stofna nýjan söfnuð og byggja kirkju. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt, þáverandi húsameistari ríkisins teiknaði kirkjuna, sem er dæmigerð krosskirkja. Hún var vígð á uppstigningadag árið 1915. Árið 1998 var reist safnaðarheimili við austurenda hennar. Þar er skrifstofa sóknarprests, salur til fundahalda auk geymslulofts. Altaristafla kirkjunnar (Jesú blessar börnin) er máluð af Guðmundi Einarssyni frá Miðdal. Pípuorgel frá 1989, smíðað af Björgvin Tómassyni. Skírnarfonturinn er skorinn út af Wilhelm Beckmann 1942. Minnisvarði um látna sjómenn er á lóð kirkjunnar. Fáskrúðsfjarðarsókn og Kolfreyjustaðarsókn hafa verið sameinaðar og nefnist í dag Kolfreyjustaðarprestakall. Templarinn. Nokkru fyrir aldamótin 1900 lét góðtemplarastúkan Elding á Fáskrúðsfirði byggja húsið. Templarinn var sannkallað menningarhús, hýsti m.a. samkomur bindindisfélags, leik- og söngstarfsemi, íþróttasýningar, þingmálafundi, veitingasamkomur, jólatrésskemmtanir og kvikmyndasýningar hófust hér fyrir 1930. Í nokkur ár var messað í Templaranum á meðan Fáskrúðsfjarðarkirkja var í byggingu. Um tíma var í húsinu skóvinnustofa. Enn eru ótaldir allir dansleikirnir, en á vormánuðum 1926 var í Templaranum eftirminnilegt ball sem ræðismaður Frakka stóð fyrir. Hann bauð stúlkum bæjarins til dansleiks sem og áhöfn af frönsku herskipi sem var inni á firðinum. Íslensku piltarnir voru ekki ánægðir með slíka framkomu, ruddust inn á ballið og upphófust mikil slagsmál. Templarinn var félagsheimili til ársins 1963, þegar Félagsheimilið Skrúður var tekið í notkun. Franski grafreiturinn á Fáskrúðsfirði. Í garðinum eru þekktar grafir 49 sjómanna. Þrátt fyrir mótmæli sóknarprestsins á Fáskrúðsfirði, jarðsettu sjómennirnir vini sína í melnum utan við þorpið, sem síðan er nefnt Á krossum. Á leiðin settu Fransmennirnir trékrossa og fallega perlukransa. Allnokkru eftir að veiðum Frakka lauk við Ísland var grafreiturinn sléttaður og róðukross settur upp. Á stöplinum er ljóð eftir A. Cantel og nöfn þeirra sjómanna sem þekkt eru í grafreitnum. Akapúlkó. Akapúlkó (spænska: "Acapulco de Juarez") er hafnarborg á Kyrrahafsströnd Mexíkó. Akapúlkó er stærsta borg fylkisins Guerrero. Borgin er þekktust sem elsta sólarströnd Mexíkó og varð vinsæl meðal bandarískra auðmanna og kvikmyndastjarna á 6. áratug 20. aldar. Abiskó. Abiskó (norðursamíska: "Ábeskovvu") er þorp í Lapplandi Norður-Svíþjóð nálægt Abiskóþjóðgarðinum. Íbúar eru 85 talsins. Scrabble. Scrabble, krossgátuspilið eða skrafl er borðspil sem tveir til fjórir geta spilað í einu. Leikmenn eiga að mynda orð úr stöfum sem þeir draga af handahófi á leikborð sem skipt er í 15x15 reiti. Hver reitur gefur mismörg stig og hver stafur einnig. Hver leikmaður verður að tengja orðið við þá stafi sem búið er að leggja á borðið. Sá vinnur sem fær flest stig. Bandaríski arkitektinn Alfred Mosher Butts bjó spilið til árið 1938 sem afbrigði af Lexiko, spili sem hann hafði áður hannað. Stafagildin byggðu á hans eigin tíðnigreiningu stafa í dagblaðinu "The New York Times". Hann kallaði nýja spilið Criss-Crosswords. Scrabble-nafnið kom frá James Brunot sem keypti réttinn til að framleiða spilið árið 1948. Nú er spilið framleitt af Hasbro. Reglugerðarhertaka. Reglugerðarhertaka (enska: "regulatory capture") er kenning sem lýsir því þegar eftirlitsstofnun sem á að þjóna hagsmunum almennings fer þess í stað að þjóna sérhagsmunum aðila í þeim geira sem hún á að hafa eftirlit með. Bandaríkjamaðurinn Richard A. Posner er upphafsmaður kenningarinnar. Á meðal þeirra stofnana sem hafa verið sagðar „herteknar“ með þessum hætti eru Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna og japanska kjarnorkueftirlitið. Peningaþvætti. Peningaþvætti á við það að hylja uppruna illa fenginna peninga svo að þeir virðast stafa af löglegri starfsemi. Tilgangur peningaþvættis er að hindra það að finna út af því hvort einhver á peninga af ólöglegum uppruna svo að hann geti notað þá. Talað er um að "þvo" eða "þvætta" peninga. Ýmsar tæknir eru notaðar til að þvo peninga, til dæmis er stórri upphæð skipt upp í smærri upphæðir sem eru svo lagðar inn á nokkra bankareikninga. Þvegnir peningar eru oft afrakstur glæpa eins og þjófnaðar, fíkniefnasölu eða vændis. Oft eru slíkir peningar lagðir inn á t.d. erlenda bankareikninga í skattaskjólum eða löndum þar sem peningaþvættislög eru ekki svo ströng. Samkvæmt lögum nr. 80 frá 1993 er peningaþvætti ólöglegt á Íslandi. Útstreymiskenning. Útstreymiskenning er í heimsmynd ýmissa trúarbragða eða lífsspeki sú hugmynd að allir hlutir streymi frá fullkomnum uppruna og verði smám saman ófullkomnari eftir því sem þeir fjarlægjast hann. Útstreymiskenning er þannig bæði í andstöðu við sköpunarkenningar og efnishyggju. Oft er hluti af útstreymiskenningunni einhvers konar aðferð til afturhvarfs til upprunans, aukins fullkomleika og samruna við guð. Útstreymiskenning kemur fyrir í heimspeki og ýmsum trúarbrögðum og er best lýst í verkum upphafsmanns nýplatonismans, Plótínosar. 1. árþúsundið f.Kr.. 1. árþúsundið f.Kr. er í gregoríska tímatalinu tímabilið sem hófst við upphaf ársins 1000 f.Kr. og stóð til loka ársins 1 f.Kr.. Leigjandinn. "Leigjandinn" er fyrsta skáldsaga Svövu Jakobsdóttur. Hún kom út árið 1969, áður hafði Svava gefið út smásagnasöfnin Tólf konur og Veizla undir grjótvegg. Leigjandinn hefur verið túlkuð sem táknsaga um veru Bandaríkjahers á Miðnesheiði. Kampavínssósíalisti. Kampavínssósíalisti (enska: "champagne socialist") er orð af breskum uppruna haft um manneskju sem hefur sósíalískar skoðanir sem stangast á við millistéttarstöðu hennar. Orðið á rætur að rekja til þeirrar hugmyndar að skálað er í kampavíni fyrir frægum sósíalistum. Önnur orð eru höfð um svipuð hugtök í öðrum löndum og á öðrum tungumálum, þar á meðal "limousine liberal" í Bandaríkjunum, "gauche caviar" í Frakklandi og "rödvinsvänster" í Svíþjóð. Kampavín. Kampavín (franska: "Champagne", borið fram) er hvítt freyðivín frá héraðinu Champagne í norðurhluta Frakklands. Heiti kampavíns er verndað samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins um upprunamerkingar á matvælum og þess vegna er ekta kampavín eingöngu framleitt í Champagne. Um allan heim er kampavín talið vera hátíðardrykkur og munaðarvara, þar sem það er oft dýrara en önnur hvítvín. Stundum eru önnur freyðivín frá öðrum héruðum kölluð kampavín en það er byggt á misskilningi. Helstu kampavínsþrúgurnar eru pinot noir, Chardonnay og Pinot Meunier. Í flestum tilfellum er kampavín ljósgult eða grænt á lit en til eru rósakampavín. Roðinn í rósategundum kemur frá rauðvíni sem er blandað kampavíninu þegar það er næstum tilbúið. Þetta er ólíkt rósavíni þar sem liturinn kemur frá hrati en það inniheldur líka hýði blárra vínberja. Landgræðsla ríkisins. Landgræðsla ríkisins er íslensk ríkisstofnun, sem heyrir undir umhverfisráðuneytið og vinnur samkvæmt lögum um landgræðslu að stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar, gróðureftirliti og gróðurvernd. Enn fremur að fræðslu, leiðbeiningum, rannsóknum og þróunarstarfi á þessu sviði. Landgræðslan hét áður Sandgræðsla Íslands og var stofnuð árið 1907. Hlutverk. Landgræðsla ríkisins er þekkingar- og þjónustustofnun. Markmið hennar eru verndun gróðurs og jarðvegs og bætt landgæði. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. og lögum um varnir gegn landbroti nr.. Árið 2011 opnaði Sagnagarður Landgræðslunnar þar sem rakin er 100 ára saga landgræðslustarfs á Íslandi. Sagnagarður. Í Sagnagarði, sem var opnaður 2011, er sögu gróður- og jarðvegseyðingar á Íslandi gerð skil í máli og myndum. Sagt er frá baráttu almennings við eldgosin og náttúruöflin og sögð saga frumherjanna og baráttu þeirra við eyðingaröflin. Rifjuð eru upp viðhorf og vantrú almennings til landgræðslu á árum áður og rakin 100 ára saga landgræðslustarfs á Íslandi. Jafnframt er lýst landgræðslustarfi nútímans og sagt frá helstu verkefnum í endurheimt landgæða og vistkerfa, í gróðurvernd og alþjóðlegu samstarfi. Krabbaþokan. Krabbaþokan er gasþoka í nautsmerkinu. Hún er leifar sprengistjörnu sem talin er samsvara fyrirbæri sem arabískar, kínverskar og japanskar heimildir geta um árið 1054. Fyrstur til að lýsa þokunni var John Bevis árið 1731. Í miðri þokunni er Krabbatifstjarnan, nifteindastjarna 28-30 km í þvermál, sem gefur frá sér geislabylgur sem spanna allt frá útvarpsgeislum að gammageislum. Hún snýst 30,2 sinnum á sekúndu. Knäred. Knäred (danska: Knærød) er bær í sveitarfélaginu Laholm í Hallandi í Svíþjóð. Íbúar eru um 1100 talsins. Bærinn er aðallega þekktur fyrir friðarsamningana í Knærød sem bundu endi á Kalmarófriðinn milli Svíþjóðar og Danmerkur. Skilyrði samningsins voru Dönum mjög í hag. Ivar Lo-Johansson. Ivar Lo-Johansson (23. febrúar 1901, Ösmo – 11. apríl 1990, Stokkhólmi) var sænskur rithöfundur. Hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1979. Hann er einna þekktastur á Íslandi fyrir að vera höfundur smásögunnar sem Hrafn Gunnlaugsson notað sem grunn fyrir mynd sína: "Böðullinn og skækjan". Tenglar. Lo-Johansson, Ivar Hælavíkurbjarg. Hornvík milli Hælavíkurbjargs og Hornbjargs Hælavíkurbjarg er þverhníptur hamraveggur og fuglabjarg á Hornströndum sem nær frá Hælavík að Hvannadal. Hamraveggurinn rís í 258 m. hæð. Fyrir framan bjargið er klettur sem heitir Hæll. Við hlið hans er annar drangur sem heitir Göltur. Í Hælavíkurbjargi er urð sem nefnd er Heljarurð en þjóðsaga er um að hún hafi fallið á 18 Englendinga sem stolist höfðu til að nytja bjargið. Spegillinn. "Spegillinn" var íslenskt háðsádeilutímarit sem kom út með nokkrum hléum frá 1926 til 1983, lengst af mánaðarlega. Margir frægustu skopmyndateiknarar Íslands; svo sem Tryggvi Magnússon, Halldór Pétursson, Ragnar Lár, Haraldur Guðbergsson og Brian Pilkington, teiknuðu myndir í blaðið. "Spegillinn" lagði endanlega upp laupana í kjölfar Spegilsmálsins þar sem ritstjórinn, Úlfar Þormóðsson, var dæmdur fyrir guðlast og allt upplagið gert upptækt af lögreglu. Saga Spegilsins. "Spegillinn" var stofnaður af Tryggva Magnússyni, Páli Skúlasyni og Sigurði Guðmundssyni árið 1926. Uppistaðan í tímaritinu voru textar með háðsádeilu eða skopstælingu og skopmyndir eftir Tryggva. Tryggvi teiknaði auk þess hluta þeirra auglýsinga sem birtust í tímaritinu. Tímaritið kom út einu sinni til tvisvar í mánuði. Það var prentað í Ísafoldarprentsmiðju. Upphaflega var undirtitill blaðsins „Samviska þjóðarinnar, góð eða slæm eftir atvikum“ en frá 1933 „Samviskubit þjóðarinnar“. Frá 1933 var Páll Skúlason einn titlaður ritstjóri en Tryggvi var áfram myndhöfundur blaðsins. Árið 1947 var tölublöðum fækkað í tólf á ári. Sama ár hóf Halldór Pétursson að teikna fyrir blaðið ásamt Tryggva og var einn titlaður myndhöfundur frá 1950. 1952 var undirtitillinn felldur brott af forsíðu blaðsins. Þannig kom blaðið út til ársloka 1960 þegar það hætti útgáfu. Árið 1965 var "Spegillinn" endurreistur og að þessu sinni prentaður í Prentsmiðju Þjóðviljans. Að nýja mánaðarritinu stóðu Jón Kr. Gunnarsson, Böðvar Guðlaugsson og Ragnar Jóhannesson, og myndhöfundarnir Bjarni Jónsson og Halldór Pétursson. Hlutur Bjarna í skopmyndum blaðsins jókst eftir því sem á leið. Árið 1968 tók nýr ritstjóri, Ási í Bæ, við "Speglinum" en aðstoðarritstjóri var Jón Hjartarson. Undir hans stjórn kom fjöldi teiknara að myndum í blaðinu, þar á meðal Ragnar Lár, Þórdís Tryggvadóttir, Haraldur Guðbergsson, Birgir Bragason, Bjarni Jónsson og Pétur Bjarnason. Síðustu tvö tölublöðin voru fjölrituð fremur en prentuð og eftir þetta eina ár lagði "Spegillinn" aftur upp laupana. Árið 1970 endurreisti Jón Hjartarson blaðið á ný með Pétri Bjarnasyni og Ragnari Lár og lét prenta í Hilmi. Þannig kom blaðið út til 1972. Eftir ritstjórnartíð Jóns Hjartarsonar tók við ellefu ára hlé þar til "Spegillinn" birtist að nýju. Að þessu sinni voru ritstjórar Hjörleifur Sveinbjörnsson og Úlfar Þormóðsson. Margir myndhöfundar komu að blaðinu, þar á meðal Brian Pilkington, Ólafur Pétursson, Pétur Halldórsson, Anna Gunnlaugsdóttir og Birgir Björnsson. Út af fyrstu tveimur tölublöðum tímaritsins hófust málaferli út af skopstælingu þar sem efnið var meintar dagbókarfærslur Ragnhildar Helgadóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins. 4. júní óskaði Ríkissaksóknari eftir því að allt upplag þessara tveggja tölublaða yrði gert upptækt. Ritstjórar voru í kjölfarið kærðir fyrir guðlast og klám. 1. desember kvað Sakadómur Reykjavíkur upp dóm þar sem Úlfar Þormóðsson var dæmdur til sektar og í 20 daga varðhald. Í Hæstarétti var sakfelling fyrir klám felld niður en guðlastsdómurinn staðfestur. Ragnar Lár. Ragnar Lárusson (13. desember 1935 – 31. desember 2007), þekktur sem Ragnar Lár, var íslenskur myndlistarmaður, bókaskreytingarmaður og auglýsingahönnuður. Hann er þekktastur fyrir skopmyndir sínar sem birtust í "Þjóðviljanum" („Láki og lífið“), "Vísi" og "Dagblaðinu" („Boggi blaðamaður“) og mánaðarritinu "Speglinum", og myndskreyttar barnabækur eins og "Mola litla". Hann myndskreytti einnig fjölda bóka eftir aðra höfunda. Sædýrasafnið í Hafnarfirði. Sædýrasafnið í Hafnarfirði var dýragarður sem opnaði 8. maí 1969. Það var staðsett í Hafnarfirði sunnan við Hvaleyrarholt gegnt þeim stað þar sem Krýsuvíkuvegur mætir Reykjanesbraut. Upphaflega þróaðist það út frá sýningum á sjávardýrum í sérsmíðuðum fiskabúrum sem Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði stóð fyrir. Brátt bættust við selir, háhyrningar, ísbjörn, ljón og apar, auk íslenskra húsdýra. Jón Kr. Gunnarsson skipstjóri og ritstjóri, var aðalhvatamaður að stofnun safnsins og forstöðumaður þess frá upphafi til enda. Safnið var fjármagnað með aðgangseyri auk tekna sem fengust fyrir að fanga háhyrninga fyrir sædýrasöfn víða um heim. Háhyrningarnir voru þá geymdir í laug í sædýrasafninu áður en þeir voru fluttir erlendis. Þannig var til dæmis háhyrningurinn Keikó fangaður árið 1979. Þessi verslun lagðist af vegna vaxandi gagnrýni hvalaverndunarsamtaka. Safnið var starfrækt til 1987 en lagðist þá af vegna fjárhagsörðugleika. Síðustu dýrin sem þar voru geymd (kengúrur) voru felld árið 1988. Ingjaldssandur. Ingjaldssandur er dalur við Önundarfjörð milli Barða og Hrafnaskálanúps. Þar nam Ingjaldur Brúnason land, langafi Ljóts hins spaka. Ljótur á að hafa búið í Álfadal á Ingjaldssandi en lenti í illdeilum við nágranna og var veginn. Vegur liggur til Ingjaldssands út með Dýrafirði hjá Núpi fram hjá Gerðhamradal og um Sandheiði. Frá Núpi að bænum Sæbóli á Ingjaldssandi eru 23 km. Sæból á Ingjaldssandi var kirkjustaður og þar eru ýmsir munir frá fyrri tíð svo sem ljósahjálmur frá 1649 og forn kaleikur og patína frá 18. öld. Guðjón Samúelsson teiknaði núverandi kirkju og var hún vígð 1928. Skírnarfontur í kirkjunni er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Jón Kr. Gunnarsson. Jón Kristinn Gunnarsson (1. október 1929 – 26. maí 2000) var íslenskur skipstjóri, blaðamaður, ritstjóri og forstöðumaður Sædýrasafnsins í Hafnarfirði. Hann endurreisti tímaritið "Spegilinn" 1965 ásamt fleirum og ritstýrði því til 1968. Þá átti hann frumkvæði að stofnun Sædýrasafnsins 1969 og veitti því forstöðu þar til það var lagt niður árið 1987. Á þeim tíma fékkst hann meðal annars við að fanga háhyrninga til að selja til sædýrasafna víða um heim og fékk safnið af því tekjur. Hann stofnaði líka bókaforlagið Rauðskinnu. Haraldur Guðbergsson. Haraldur Guðbergsson (26. október 1930 - 30. janúar 2013) er íslenskur myndlistarmaður og myndasöguhöfundur sem er þekktastur fyrir myndasögur og myndskreytingar sem byggja á "Snorra-Eddu". Hann lærði við Myndlistar- og handíðaskólann og er stundum talinn fyrsti menntaði íslenski myndlistarmaðurinn sem tekst á við myndasöguformið. Myndasaga hans "Ævintýri Ása-Þórs" birtist í "Lesbók Morgunblaðsins" 1964-1965. Árið eftir birtist í "Fálkanum" myndasagan "Sæmundur fróði" og sama ár hóf "Gylfaginning" göngu sína í "Lesbókinni" og síðan "Þrymskviða". 1968 hóf Haraldur að teikna fyrir "Spegilinn" undir ritstjórn Ása í Bæ en blaðið lagði upp laupana eftir aðeins eitt ár. 1974 hannaði Haraldur sviðsmynd fyrir óperu Jóns Ásgeirssonar, "Þrymskviðu". Á sama tíma myndskreytti hann fjölda barna- og námsbóka. 1980 komu út bækurnar "Baldursdraumur" og "Þrymskviða". Example. Elliot John Gleave (fæddur 20. júní 1982), betur þekktur sem Example, er breskur söngvari og rappari. Nafnið hans er komið af því af upphafsstöfunum hans E.G. sem er stytting á latneska orðtakinu "exempli gratia" („til dæmis“ eða „for example“ á ensku). Fyrsta breiðskífa Example "What We Made" kom út árið 2007 en fyrsta farsæla breiðskífan hans "Won't Go Quietly" var gefin út árið 2010. Þriðja breiðskífan hans "Playing in the Shadows" kom út september 2011. Uppeldisár. Elliot Gleave fæddist á pöbb í Hammersmith í Vestur-London og er elstur tveggja barna. Hann fór í skólann All Saints Primary School í Fulham og svo í menntaskólann Ashcroft Technology Academy í Wandsworth. Elliot hefur sagt í viðtölum að ástæðan fyrir því að hann gerðist rappari sé sú að hann kynnti sér hipp hopp með því að keypa plötur með Wu-Tang Clan og Snoop Dogg. Hann keypti þá seinni plötu af því að honum fannst kápan góð. Árið 2000 byrjaði Elliot í háskólanum Royal Holloway College og lærði kvikmyndastjórn. Á meðan hann var í háskóla vann hann sem garage-skemmtanastjóri í hlutastarfi til að græða peninga. Á þeim tíma hitti hann Joseph Gardner upptökustjóra, einnig þekktan sem Rusher, sem hann vann með seinna. Elliot og Joseph tóku upp hugmyndaplötu á tónveri háskólans. Þessi plata var seinna gefin út sem breiðskífu og hét „A Pointless Song“. Vestur-London. Vestur-London á við vesturhluta London í Englandi, fyrir norðan Thames-ána. Vestur-London skiptist í borgarhlutana Brent, Ealing, Hammersmith og Fulham, Harrow, Hillingdon, Hounslow, Kensington og Chelsea. Íbúar voru 1,6 milljónir árið 2008. London Heathrow-flugvöllur er staðsettur í Vestur-London. The Tallest Man on Earth. Kristian Matsson (fæddur 30.apríl, 1983) er tónlistarmaður frá Dalarna í Svíþjóð. Kristian kemur fram undir nafninu The Tallest Man on Earth. Hann er þekktur fyrir að taka upp lögin sín í heimahúsi og segist ekki vilja taka gítarinn upp sér og sönginn sér því að röddin hans og gítarinn vinna sem eitt. Hann er einnig þekktur fyrir góða sviðsframkomu og mikla persónutöfra. Kristian er giftur sænsku tónlistarkonunni Amanda Bergman, sem kemur fram undir nafninu Idiot Wind. Hjónin hafa haldið fjölda tónleika saman en hann hefur einnig verið á tónleikaferðalagi með bandaríska tónlistarmanninum Bon Iver. Gagnrýnendur líkja The Tallest Man on Earth gjarnan við Bob Dylan. Bæði vegna tónlistarstíls og söngstíls. Þegar kemur að lagatextum segist Kristian Matsson hafa kynnst mikið af gömlum, góðum amerískum lagahöfundum í gegnum Bob Dylan. Þegar hann hlustaði á Bob Dylan fimmtán ára gamall pældi hann mikið í áhrifavöldum Bob Dylans og fór í kjölfarið að hlusta á Pete Seeger og Woody Guthrie. Aðalmerki The Tallest man on earth er gítarleikurinn. Þegar kemur að tækni notast hann sérstaklega við strengjastillingar sem mynda opna hljóma og þar af leiðandi síður hefðbundna strengjastillingu. Hann lærði á klassískan gítar sem barn, en segist "ekki hafa verið með athyglina á tónlistarnáminu" og í lok gagnfræðiskóla "fékk hann leið á að læra á gítar því það var engu frábrugðnar en að læra stærðfræði." Það var ekki fyrr en hann var um tvítugt að hann fór aftur að spila á gítar. Það var vegna þess að hann kynntist opnum strengjastillingum í gegnum tónlistarmanninn Nick Drake. Hann varð hrifin af þeim stíl því þá gat hann einbeitt sér að söng samhliða því að gera flóknar gítarlínur. CNRS. Centre national de la recherche scientifique (CNRS) er stærsta rannsóknarfélag Frakklands og jafnframt Evrópu á sviði grunnrannsókna og er rekið af franska rannsóknaráðuneytinu. Rannsóknir félagsins eru á sviði náttúruvísinda, verkfræði, hugvísinda, félagsvísinda og tækni. Árið 2004 voru starfsmenn félagsins 26000, þaraf 11600 vísindamenn, og hlaut félagið 2,2 milljarða evra (ca. 350 milljarða króna) til að sinna hlutverki sínu. Efteling. Efteling er skemmtigarður í Kaatsheuvel, Norður-Brabant í Hollandi. Efteling er stærsti skemmtigarður á Benelúxlöndinunum og opnaði þann 31. maí 1952. Gestir garðsins eru um 4 milljónir árlega. Á Efteling er nú fjöldi leiktækja, þar á meðal fimm rússibanar. Reykjavik International Games hópfimleikar 2012. Reykjavik International Games hópfimleikar 2012 var haldið í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ þann 21. janúar 2012. Mótið var í umsjón fimleikadeildar Ármanns. Keppt var í Úrvalsdeild og fyrstudeild. Þjóðvegur 72. Þjóðvegur 72 eða Hvammstangavegur er vegur sem liggur frá þjóðvegi 1 til Hvammstanga í Miðfirði í Húnavatnssýslu og áfram norður eftir vestanverðu Vatnsnesi. Félag leikmynda- og búningahöfunda. Félag Leikmynda- og búningahöfunda var stofnað 18. maí 1994 í því skyni að vernda höfundaréttarhagsmuni leikmynda- og búningahöfunda í atvinnuleikhúsum, kvikmyndum og sjónvarpi og til að efla kynningu á verkum leikmynda- og búningahöfunda. Félagið er opið öllum sem eiga höfundarverk á vettvangi leikmynda- og búningahönnunar í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum. Hlutverk félagsins er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og hefur frá stofnun átt aðild að Myndstefi. Það á einnig fulltrúa í stjórn Bandalags íslenskra listamanna. Félagið var frumkvöðull að stofnun leikminjasafns á vordögum 2003. Rebekka A. Ingimundardóttir formaður, Þorvaldur Böðvar Jónsson ritari, Úlfur Grönvold gjaldkeri, Varamenn: Gunnar H. Baldursson og Þórunn María Jónsdóttir. One Direction. One Direction er bresk-írsk strákahljómsveit stofnuð í London árið 2010. Meðlimir hennar eru Niall Horan, Liam Payne, Harry Styles, Zayn Malik og Louis Tomlinson. Þeir gerðu útgáfusamning við útgáfufyrirtæki Simon Cowell, Syco Records, eftir að hafa lent í þriðja sæti í sjöundu seríunni af breska X-Factor. Í framhaldi af því gerðu þeir samning við Columbia Records í Bandaríkjunum. Þeir vöktu mikla alþjóðlega athygli með útgáfu fyrstu plötu sinnar "Up All Night" sem kom út í byrjun árs 2012 og fór fyrsta smáskífu þeirra, "What Makes You Beautiful" á topp vinsældarlista um víða veröld. "Up All Night" náði þeim merka árangri að verða fyrsta frumraun breskrar hljómsveitar til að komast í toppsæti Bandaríska "Billboard 200" listans. Fyrir það voru þeir skráðir í Heimsmetabók Guinness. Í enda ársins 2012 gerðu plötuna "Take Me Home". Stuttu seinna kom smáskífan "Little Things" einnig út. Nýlega eru þeir búnir að endurgera lag eftir Blondie sem heitir One Way Or Another. Núna árið 2013 stendur yfir "Take Me Home Tour" sem byrjaði 23. febrúar í London og endar 3. nóvember í Japan. Húðflúr. Húðflúr er varanleg teikning sem er gerð með því að setja litarefni undir húðina á manneskju eða dýri. Húðflúr er nokkurs konar líkamsbreyting sem er á manneskju talið líkamsskreyting en á dýri er notað til staðfestingar og þá kallað brennimark. Í daglegu tali er oft átt við húðflúr sem "tattú" eða sjaldnar "tattóvering" (sbr. dönsku: "tatovering"), þessi orð eiga rætur að rekja til ensku "tattoo" sem er upphaflega komið úr tahítísku "tatu" eða "tatau" sem þýðir „að merkja eða teikna“. Lausavísa. Lausavísa eða staka er í skáldskap erindi sem er stakt og ekki hluti af lengra ljóði eða vísnaflokki, þótt raunar séu ýmsar þekktar lausavísur upphaflega hluti af rímu eða lengra kvæði en hafa öðlast sjálfstætt líf úr tengslum við upprunalega kvæðið. Flestar lausavísur eru tvær til fjórar línur en elstu lausavísurnar, frá fyrstu öldum Íslandssögunnar, eru þó oftast lengri og ortar undir dróttkvæðum háttum eða eddukvæðaháttum og síðar danskvæðaháttum. Þegar kom fram um siðaskipti voru rímnahættir orðnir allsráðandi. Margar lausavísur eru knappar og meitlaðar lýsingar á atvikum, mönnum eða bregða upp augnabliksmyndum eða stemmningu sem bundin er í rím og stuðla. Slíkar vísur gátu orðið landfleygar og á allra vörum löngu eftir að tilefni þeirra var tekið að falla í gleymsku og stundum eru lausavísur jafnvel eina heimildin um löngu liðna atburði. Oft glataðist líka nafn skáldsins og ýmsar alþekktar stökur hafa verið eignaðar mörgum höfundum og eru til í mörgum útgáfum, enda geymdust vísurnar fyrst og fremst í minni manna þótt til séu stór lausavísnasöfn, prentuð og óprentuð. Útsending Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Í þessari grein er fjallað um lönd sem senda keppnina en taka ekki þátt. Sumir myndu kannski ekki kalla þetta efni í grein;en þetta er gert til gamans og er áhugavert. Við skoðum hvert einasta ár fyrir sig og skoðum hvort og hvaða lönd fengu að sjá keppnina ef einhver eru. Ekki öll árin koma þó fyrir. 1956- Keppnin var sýnd í 10 löndum en 7 tóku þátt með 2 lög hvert land. Austurríki,Danmörk og Bretland sáu keppnina en löndin áttu það sameginlegt að þau ætluðu að taka þátt í þessari keppni en voru of sein að skrá sig. 1957 - Svíþjóð sá keppnina í beinni útsendingu 1959 - Lúxemborg sá keppnina í fyrsta og eina skiptið í beinni útsendinu ekki með lag. 1960 - Finnland sá keppnina í beinni og henni var sjónvarpað til 14 landa, að Finnlandi meðtöldu. 1966 - Keppnin var sýnd í 7 löndum sem ekki tóku þátt og nokkur af þeim myndu seinna taka þátt,þar af eitt land sem er "frægt" fyrir þáttöku sína, Marokkó. Keppnin var líka sýnd í Ungverjalandi, Rúmeníu, Póllandi, Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskalandi 1968 - 250 milljónir sáu keppnina í þáttökulöndunum auðvitað og nokkrum öðrum löndum sem voru,Búlgaría, Ungverjaland, Pólland, Túnis, Sovétríkin, Tékkóslóvakía og Austur-Þýskaland 1969 - Keppnin var sýnd í mörgum öðrum löndum sem voru ekki með.Þau voru Rúmenía, Ungverjaland, Tékkóslóvakía, Sovétríkin, Brasilía, Túnis, Síle, Marokkó og Púertó Ríkó. Þetta var fyrsta keppnin sem var sýnd í Brasilíu og Chile. Austuríki sá keppnina líka í beinni útsendingu en þau drógu sig úr keppni af pólitískum ástæðum. 1970 - Þetta árið fengum við Íslendingar að fá að sjá keppnina en ekki í beinni útsendingu. Keppnin var sýnd tveimur vikum seinna á Íslandi. Sovétríkin, Ungverjaland, Tékkóslóvakía, Noregur, Austurríki og Portúgal sáu keppnina í beinni og líka Brasilía og Chile sáu keppnina í gegnum gervihnött. Keppnin var líka sýnd ekki í beinni útsendingu í Rúmeníu, Grikklandi, Búlgaríu, Ísrael, Póllandi og Túnis. 1972 Keppnin var sýnd í fyrsta sinn í beinni til Asíu meða áhorfendum í Japan, Hong Kong, Taílandi, Filippseyjum og Taívan. Keppnin var líka sýnd í beinni í Grikklandi og Brasilíu. 1978 Keppnin var sýnd í í fyrsta skipti beint til Dúbæ. Auk þess voru líka áhorfendur í Júgóslavíu, Túnis, Alsír, Jórdaníu, Japan, Sovétríkjunum, Marokkó, Póllandi, Ungverjalandi, Austur-Þýskalandi og Tékkóslóvakíu. Meðan að Ísrael söng var útsendingin rofin í Arabaríkjum og í Jórdaníu voru settar myndir af blómum í staðin fyrir sigurlagið(Ísrael vann þetta ár). Í atkvæðagreiðsluni voru svo aftur settar myndir af blómum en daginn eftir var sagt í sjónvarpi og dagblöðum að þetta væri útaf tæknilegum vandamálum og að Belgía hafði unnið en Belgía lendi í raun í öðru sæti. 1983 - Ástralía sá keppnina í beinni í fyrsta sinn með þul Bretlands. Írland sá keppnina líka með sama þul en RTÉ var í verkfalli á þeim tíma. Ísland sá keppnina í beinni útsendingu í fyrsta sinn. Haskell (forritunarmál). Haskell er staðlað og hreint fallaforritunarmál sem notast við kyrrlega tögun og rammtögun. Forritunarmálið var nefnt í höfuðið á rökfræðinginum Haskell Curry. Haskell-föll eru fyrsta flokks og mikilvægur hluti Haskells. Dæmi. aðfeldi n | n > 0 = n * aðfeldi (n - 1) þar sem aðfeldi 6 skilar 720. Notkun tagskýringar er valfrjáls, en hún (aðfeldi:: Integer -> Integer) segir að fallið aðfaldi tekur inn eina heiltölufæribreytu(Integer) og skilar einu heiltölugildi (Integer). Bjúgnefja. Bjúgnefja ("Recurvirostra avosetta") er fugl í grípaættinni. Oosterend. Oosterend er bær á eyjunni Texel í Hollandi. Þar búa 1.200 manns (2002). PS&CO. PS&CO (eða Pjetur Stefánsson & félagar) er íslensk rokkhljómsveit sem starfar í kring um hljóðritanir á verkum Pjeturs Stefánssonar. Honum til aðstoðar að jafnaði og fremstir meðal jafningja eru Tryggvi Hübner og Sigurður Bjóla ásamt valinkunnum spilurum. Þekktasta lag PS&CO er „Ung og rík“ en í byrjun ágúst 1985 hafði lagið verið í sjöunda sæti á vinsældarlista rásar 2 í tvær vikur. Margir þekktir íslenskir tónlistarmenn hafa lagt PS&CO lið. Pjetur Stefánsson (fæddur 1953) er myndlistarmaður, tónskáld og textahöfundur. Pjetur Stefánsson útsetti og gaf út í samvinnu við Megas plötur Megasar „Til hamingju með fallið" 1996 og „Fláa veröld" 1998. auk efnis sem er óútgefið en gengið hefur undir heitinu „Keflavíkurteipin". Tvöfalt siðgæði. 24 rása upptökuvélin í Hljóðrita. "Tvöfalt siðgæði" er fyrsta breiðskífa Pjeturs Stefánssonar og kom út árið 1983. Útgefandi: „Austurstræti 8“. Hljómsveitin kom nokkrum sinnum opinberlega fram og spilaði meðal annars á Óðali. Þar var hljómsveitin skipuð þeim Sigurði Hannessyni trommur, Halldóri Bragasyni bassa, Björgvini Gíslasyni gítar og Pjetri Stefánssyni á gítar. Á útitónleikunum Melarokk á Melavellinum kom Tryggvi Hubner inn fyrir Björgvin Gíslason. Hljómsveitirnar sem komu fram á tónleikunum voru Reflex, Tappi tíkarrass, KOS, Grýlurnar, Hin konunglega flugeldarokksveit, Stockfield Big Nose Band, Q4U, Vonbrigði, Fræbbblarnir, Þrumuvagninn, Pungó og Daisy, Lola, Bandóðir, BARA-flokkurinn og Purrkur Pillnikk. Um tíma hafði Big Nós Band aðstöðu til æfinga í húsi sem kallað var Sögin. Þar var fyrir hljómsveitin Friðryk. Pjetur starfaði sumarið 1980 sem rótari og ljósmyndari með Friðryk á ferð þeirra um Ísland. Hljómsveitin Friðryk var skipuð: Sigurður Karlsson trommur, Pálmi Gunnarsson bassi, Pétur Hjaltested hljómborð og Tryggvi Hübner gítar, seinna bættist Björgvin Gíslason gítarleikari í hópinn. „Big Nós Band“ (sem stundum kallað „Stockfield Big Nose Band“) var aukasjálf Pjeturs þegar hann stundaði nám á þessum árum við MHÍ, Myndlista- og Handíðaskóla Íslands sem heitir í dag Listaháskóli Íslands. Nokkrar hljómsveitir áttu óformlegt heimilisfang í MHÍ á þessum árum, þar voru til dæmis: Bruni BB, Tónabræður og Oxmá. Í frumútgáfu „Big Nós Bands“ voru auk Pjeturs Stefánssonar á gítar, Halldór Bragason á bassa, Sigurður Hannesson trommur, Björgvin Gíslason gítar og Tryggvi Hübner á gítar. Platan „Tvöfalt siðgæði“ kom út eftir miklar mannabreytingar og tilraunir í lagasmíðum. Hún var tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði og var notuð 8 rása „Studer“ upptökuvél við verkið. Þessi „Studer“ vél var um árabil í Hljóðrita en SG Hljómplötur áttu hana áður. „Tvöfalt siðgæði“ var unnin á árunum 1981-1983 og varð hluti af grafísku verkefni í MHÍ. Tengingin við grafíkina liggur í því hvernig plötur eru þrykktar í pressum eftir þar tilgerðum masterum sem í eru rásir eða rúnir sem mynda hljóð plötunnar. Þessu svipar mjög til ætingar eða þurrnálar. Hver kóver (umslag) er einstakt og unnið sér af höfundi. Í léttum dúr. Í léttum dúr - PS&CO 1985 Pjetur Stefánsson í Hljóðrita Hafnarfirði við upptökur á plötunni „Í léttum dúr" í apríl 1984. Tryggvi Hubner á gítar - Hljóðriti apríl 1984 Framhlið kasettunnar „Í léttum dúr" Ung og rík. "Í léttum dúr" er önnur breiðskífa Pjeturs Stefánssonar og kom út árið 1985. Hljóðritun plötunnar hófst í apríl 1984 og í vinnsluferlinu urðu miklar breytingar, meðal annars var Flowers laginu „Slappaðu af“ bætt við til heiðurs Tónum og (Flowers)og þá sérstaklega Gunnari Jökli (Gunnar Jökull Hákonarson) trommuleikara sem var í mörgum hljómsveitunum sem allar voru góðar Tónar, Syn (sem var undanfari hljómsveitarinnar Yes), Flowers, Trúbrot og Mánar. Platan er óður til íslenskrar beat og rokkmenningar. Platan kom fyrst út á kasettu árið 1984 og síðan á vínyl á árinu 1985. Umslagið á fyrstu kasettu útgáfunni var þrykkt í grafík í litlu upplagi. Umslag annarrar útgáfu (grænu kassettuna) fjölritaði Sigurjón Þorbergsson sem rak fjölritunarstofuna Letur. Myndina á plötuumslaginu tók Atli Arason ljósmyndari. Umslag plötunnar prentaði Jóhann Þórir Jónsson en höfundur setti það saman og náði í plötuna úr plötupressun við Hafnarfjarðarveg. Hljómplötugagnrýnandi Morgunblaðsins Sigurður Sverrisson skrifaði um plötuna Í léttum dúr í Morgunblaðið 1985. Góðir hlutir gerast hægt. Sigurður Bjóla við stjórnborðið í Hljóðrita í apríl 1984 "Góðir hlutir gerast hægt" PS&Bjóla er þriðja breiðskífa Pjeturs Stefánssonar í samvinnu við Sigurð Bjólu (Spilverk þjóðanna, Stuðmenn). Platan kom út árið 1987 og voru flestir grunnar laganna teknir í samvinnu við hljómsveitina Strákarnir sem Pjetur starfaði með veturinn 1985 – 1986. Björgvin Gíslason á eitt lag á plötunni „Stutt og lagó“ við texta Pjeturs. Hljómsveitina „Strákarnir“ skipuðu Björgvin Gíslason gítar, Þorleifur J. Guðjónsson bassi, Pjetur Stefánsson gítar og söngur, Guðmundur Gunnarsson trommur, Sigfús Örn Óttarsson trommur og Jens Hansson saxofón. „Strákarnir“ spiluðu víða á sveitaböllum og í Reykjavík. Þeir Björgvin, Jens og Pjetur ásamt Haraldi Þorsteinssyni bassaleikara höfðu þann 9. nóvember 1985 spilað með Megas á hljómleikum sem haldnir voru í Austurbæjarbíó. Seinna þróaðist blues sveitin Vinir Dóra út frá þessum mannskap. Grunnarnir að lögum Pjeturs sem „Strákarnir“ tóku upp voru unnir áfram, lögin kláruð og nýju efni bætt við í anda Pjeturs og Sigurðar Bjólu. Þetta ár um vorið kom þýska hljómsveitin Einstürzende Neubauten hingað til lands og spilaði á skemmtistaðnum Roxy og var Pjetur þá aðstoðamaður þeirra og sérstaklega Blixa Bargeld. Önnur bönd auk Strákanna sem spiluðu í Roxy á þessum tíma voru til dæmis Kukl, Frakkarnir og SH draumur með dr. Gunna. Þetta er grunnurinn og andrúmsloftið sem „Góðir hlutir gerast hægt“ er sprottin úr. Platan var gefin út af PS&Bjólu og Taktur annaðist dreifingu. Útgáfudagur var 19. júní 1987. Blaðamaður Helgarpóstsins hitti þá félaga Pjétur Stefánsson og Sigurð Bjólu vegna útkomu plötunnar „Góðir hlutir gerast hægt“ og átti við þá spjall. Öfgar göfga. Umslögin um "Öfgar göfga" voru sér unnin af Pjetri og er ekkert þeirra eins. Umslögin um "Öfgar göfga" voru sér unnin af Pjetri og er ekkert þeirra eins. "Öfgar göfga" PS&CO er fjórða breiðskífa Pjeturs Stefánssonar sem kom út árið 1988. Platan var gefin út í aðeins 350 eintökum og var umslag hverrar plötu unnið sérstaklega af Pjetri. Upptaka þessarar plötu tók stuttan tíma og var platan nánast spiluð inn í einni hljóðritun. Platan var gefin út af Pjetri Stefánssyni. Erkitýpur streitarar og frík. "Erkitýpur, streitarar og frík" PS&CO er fimmta breiðskífa Pjeturs Stefánssonar sem kom út árið 1993. Platan var gefin út af Pjetri Stefánssyni og dreift af Japis. Hamingjuvélin. "Hamingjuvélin" PS&CO er sjötta breiðskífa Pjeturs Stefánssonar og kom út árið 2007. Platan var gefin út af Pjetri Stefánssyni. Oostende. Oostende (franska: "Ostende") er hafnarborg við Norðursjó í Vestur-Flæmingjalandi í Belgíu. Hún er jafnframt stærsta strandborgin í landinu með tæplega 70 þús íbúa. Höfnin þar er þriðja stærst í Belgíu (á eftir Antwerpen og Zeebrugge). Lega og lýsing. Oostende liggur við Norðursjó, nokkurn veginn mitt á milli Hollands og Frakklands. Til Hollands eru 30 km, en til Frakklands 25 km. Næstu stærri borgir eru Brugge til austurs (25 km) og Dunkerque í Frakklandi til suðvesturs (50 km). Til Brussel eru 110 km. Í Oostende er höfn, sú þriðja stærsta í Belgíu. Ólíkt Zeebrugge er höfnin ekki á uppfyllingu, heldur í gamalli vík fyrir innan strandlengjuna. Þaðan liggur skipaskurður til borgarinnar Brugge. Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið sýnir svart öfugt v (bókstafurinn vaff) og þrír svartir lyklar á gulum grunni. Lyklarnir eru komnir frá Býsans, en Margrét af Býsans giftist greifanum af Flandri 1267. Lyklarnir eru tákn Péturs postula, sem síðan þá er verndardýrðlingur borgarinnar. Merking bókstafsins er óljós. Skjaldarmerki þetta var fyrst veitt 1819. Skjaldarberunum var bætt við 1838, en það eru hafmeyja og marbendill, ásamt öðrum táknum hafsins. Þau tákna mikilvægi hafsins í efnahagi borgarinnar. Kórónan vísar til konungsdómsins í Belgíu. Síðustu breytingar voru gerðar 1974. Orðsifjar. Oostende merkir "austurendir". Hér er ekki verið að tala um Austur-Belgíu (eða Niðurlönd), enda liggur borgin nær vestast í landinu. Á miðöldum lá þorpið Oostende austast á eyju sem hét Testerep. Aðrir staðir á eyjunni hétu Westende (Vesturendir) og Middelkerk (Miðkirkja). Eyjan er löngu horfin í dag. Upphaf. Kort af eyjunni Testerep. Oostende er lengst til hægri á kortinu. Oostende myndaðist á 12. öld sem þorp og sjávarpláss á eyjunni Testerep nálægt mynni árinnar Yser. Það var á sömu öld sem farið var að tengja eyjuna við meginlandið, enda skildi aðeins smálæna á milli. Skömmu síðar var lænan fyllt upp og Testerep hvarf sem eyja. Þegar Margrét af Býsans giftist greifanum af Flandri, flutti hún til Niðurlanda. Hún varð greifaynja af Flæmingjalandi 1244. Þremur árum síðar, 1247, veitti hún Oostende borgarréttindi. Þeim fylgdu markaðsréttindi. Í kjölfarið varð Oostende leiðandi markaðsborg vestast í Flæmingjalandi. Náttúruöflin voru þó tíðum óblíð. Stormar og flóð brutu oft á landinu við ströndina og eyðilögðu byggingar og ræktarland. 1372 varð varnargarður úr viði lagður í milli borgar og sjávar, henni til varnar gegn vindum og vatni. Oft varð að fylla í sjávarbrotin með nýjum sandi. 1445 veitti Filippus hinn góði, greifi af Flæmingjalandi, borginni rétt til að byggja stóra höfn. En aðeins tveimur árum síðar braut stormflóð á landinu. Borgin fór í kaf og skemmdist talsvert. Engu að síður reis höfnin og Oostende varð að mikilvægri hafnarborg á Niðurlöndum. Orrustan um Oostende. Umsátrið um Oostende. Málverk eftir Pieter Snayers Þegar Hollendingar gerðu uppreisn gegn spænskum yfirráðum á Niðurlöndum á 16. öld, sóttu Spánverjar inn í Flæmingjaland og tókst að hrekja uppreisnarmenn burt. Spánverjar hertóku ýmsar flæmskar borgir 1590. Oostende hélst þó áfram í höndum uppreisnarmanna og var eins og eyja innan um óvininn. Hertoginn af Parma, leiðtogi Spánverja, ákvað að herja um Oostende, enda var höfnin þar mikilvæg fyrir uppreisnarmenn. Umsátrið hófst 5. júlí 1601 með 12 þús manna her. Árin áður höfðu borgarbúar reist sterk varnarvirki. Þó voru aðeins 7 þús manns undir vopnum í borginni. Bardagar drógust á langinn, enda náðu Spánverjar ekki að vinna borgina. Síðsumars 1603 kom Spinola hershöfðingi með nýtt lið til borgarinnar og var haldið áfram að herja á uppreisnarmenn. 22. ágúst 1604 gripu náttúruöflin inn í atburðarrásina. Mikið stormflóð brast á og eyðilagði það stóran hluta af varnarvirkjum borgarinnar. Strax og lægði hóf Daníel de Hertaing, foringi Niðurlendinga, að semja við Spánverja. Á meðan lét hann hundruðir af hollenskum hermönnum, Kalvínistum og spænska liðhlaupa yfirgefa borgina í gegnum höfnina. Samningar tókust 20. september. Spánverjar leyfðu þeim hermönnum sem eftir voru að yfirgefa Oostende landleiðina, og hertóku síðan borgina 22. september. Þau þrjú ár sem orrustan um Oostende stóð yfir var sú mannsskæðasta á nútíma, allt þar til Napoelon kom til sögunnar á 19. öld. Talið er að um 40 þús manns hafi fallið hjá Spánverjum. Tölur fallina í borginni eru ekki til, en trúlega féllu einnig um 40 þús þar. Fall Oostende varð þess valdandi að Spánverjar misstu allan mátt í viðleitni sinni við að endurheimta lönd uppreisnarmanna. Í kjölfarið var samið um vopnahlé, en það var upphafið að friðarsamningunum þessara aðila í frelsisstríði Hollands. Habsborg. Oostende á 17. öld. Höfnin er til hægri við borgina (Port de Mer). Sjávarvarnargarðarnir sjást greinilega við ströndina. 1698 var fyrsta skipafélag borgarinnar, sem verslaði við Indland, stofnað. Eftir að Spánverjar töpuðu í orrustunni við Ramillies í Brabant 1706 í spænska erfðastríðinu, drógu þeir herlið sitt til Oostende. Englendingar sigldu flota sínum þangað og skutu þvílíkt á borgina að hún lagðist nær því í rúst. Spánverjar gáfust upp og 6. júlí 1706 eftirlétu þeir keisara Austurríkis borgina. Í tæplega heila öld var Oostende í höndum Habsborgar. Þegar Hollendingar lokuðu firðinum Westerschelde, þannig að höfnin í Antwerpen lokaðist, varð Oostende eina hafnarborg Habsborgarlanda á Niðurlöndum (höfnin í Brugge var enn ekki til). Hún varð að mikilvægri verslunarborg. Skip þaðan sigldu til Asíu og Ameríku, og stofnuðu nýlendur. Þetta leiddi til verslunarstríðs við aðrar siglingaþjóðir. 1727 neyddu Hollendingar og Englendingar borgina til að loka Oostendse Compagnie verslunarfélaginu sem Karl IV keisari í Austurríki hafði stofnað til nokkru áður. Á síðari hluta 18. aldar var höfnin stækkuð og endurbætt. 1781 stofnaði Jósef II keisari Austurríkis fríhöfn í Oostende til að stuðla að meiri verslun. Franski tíminn. Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd byrjaði hafnaraðstaðan í Oostende að grotna niður. Frakkar neituðu að viðhalda mannvirkjunum, enda spiluðu þeir uppá aðrar hafnir á Niðurlöndum. Í staðinn byggðu þeir borgina upp sem herstöð. 1802 réðust Bretar á Oostende og sátu um borgina, en fengu ekki unnið hana. Napoleon, sem var tíður gestur í borginni, lét reisa tvö ný virki til varnar innrásum. Þau hlutu heitin Fort Napoleon og Fort Royal. Eftir fall Napoleons 1815 var síðara virkið að mestu rifið niður. Fort Napoleon stendur hins vegar enn. 19. öldin. 1815 varð Oostende hluti af konungsríki Niðurlanda og 1830 hluti af konungsríki Belgíu. Borgin var þá eina hafnaborg landsins við Norðursjó, ásamt Antwerpen þegar Hollendingar opnuðu fyrir siglingar á Westerschelde á ný. Oostende óx og dafnaði, ekki síst er samgöngur á landi bötnuðu. Þegar borgin fékk járnbrautartengingu 1838 var hægt að flytja vörur frá höfninni miklu fljótar og í miklu meira magni en áður. 1846 hófust farþegasiglingar til Englands, en í marga áratugi sigldu ferjur til Dover og Ramsgate. Mikill uppgangur varð einnig er konungarnir Leópold I og Leópold II hófu að eyða tíma sínum á ströndinni við Oostende um miðja 19. öldina. Þar með hófust vinsældir borgarinnar sem baðstaður. Þetta átti eftir að haldast alla 20. öldina. 1865 var byrjað á að rífa niður öll varnarvirkin í borginni. Þetta skapaði gríðarlega mikið pláss og borgin óx langt út fyrir fyrri mörk sín. Jafnframt jókust fiskiveiðar í Norðursjó. 1884 kom fyrsta gufufiskiskipið í höfn og þegar heimstyrjöldin fyrri hófst 1914 voru þau orðin 29. Nýrri tímar. 1914 hertóku Þjóðverjar Oostende. Höfnina notuðu þeir fyrir kafbáta, sem fóru út á Atlantshaf til að skjóta niður skip bandamanna. Undir lok heimstyrjaldarinnar ráðgerðu Bretar að ráðast á hafnirnar í Oostende og Zeebrugge, en sú síðari var talsvert stærri. En veður hamlaði aðgerðum í tvígang. Þegar til kasta kom réðust Bretar þó aðeins á Zeebrugge vegna veðurs. Oostende slapp því við skemmdir stríðsins í það sinnið. Aðeins tveimur árum eftir stríð, 1920, voru Ólympíuleikarnir haldnir í Antwerpen. Nær allar siglingagreinarnar, sem og keppni í póló, voru þó haldnar í Oostende, sem þarmeð er Ólympíuborg. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku Þjóðverjar borgina á nýjan leik. Í þetta sinn reistu þeir fjöldamörg varnarmannvirki á sandströndinni sem sneru að sjónum. Þetta var hluti af varnarkerfi Atlantshafs (Atlanticwall) til varnar erlendri innrás, sérílagi frá Englandi. Bandamenn gerðu tíðar loftárásir á Oostende, frá 1940 til 1945. Í þeim skemmdist borgin talsvert, sérstaklega höfnin og hverfin við ströndina. Eftir stríð hélt innrás ferðamanna og baðgesta áfram. Í dag eru vinsældirnar orðnar svo miklar að Oostende er kölluð "Drottning belgískra sjávarbaðstaða". Árið 2010 var Oostende kjörin menningarborg Flæmingjalands (Kultuurstad Vlaanderen). Viðburðir. Pálshátíðin (Paulusfeesten) er stærsta borgarhátín í Oostende. Henni var hleypt af stokkunum 1972 stendur yfir í heila viku. Á þessum tíma fara fram ýmsir tónleikar, afþreyging fyrir börn og aðrir viðburðir. Í dag er hátíðin svo vinsæl að miðborgin öll er hertekin af fólki, með viðeigandi vandamálum. Í september ár hvert er haldin kvikmyndahátíð í borginni (Filmfestival Oostende) sem endar á því að veitt eru flæmsku kvikmyndaverðlaunin. Kvikmyndirnar koma hvaðanæva að. Sýndar eru kvikmyndir og seríur. Sara Bergmark Elfgren. Sara Bergmark Elfgren (13. mars 1980) er sænskur rithöfundur. Árið 2011 kom út fyrsta skáldsaga hennar, "Cirkeln", sem hún skrifaði ásamt Mats Strandberg. Heimildir. Bergmark Elfgren, Sara Open Season. "Open Season" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2006. Open Season 2. "Open Season 2" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2008. Open Season 3. "Open Season 3" er bandarísk gamanmynd frá árinu 2010. Rítalín. Rítalín eða meþílfenídat er örvandi lyf sem er leyft til notkunar gegn athyglisbresti, hjartsláttartruflunum og drómasýki. Það er enn fremur stundum notað í meðferð við óheilbrigðri þreytu, þunglyndi, miðtaugakerfisáverka og offitu. Meþílfenídat tilheyrir „piperidine“-flokki efna og eykur magn dópamíns og nórepínefríns í heilanum gegnum endurupptökublokkun. Meþílfenídat er efnafæðilega líkt amfetamíni en þess lyfjafræðilegu eiginleikar eru líkari kókaíni. Þjóðvegur 52. Þjóðvegur 52 eða Uxahryggjavegur er 37,49 kílómetra langur vegur í Borgarbyggð og Bláskógum. Hann liggur frá Borgarfjarðarbraut til Kaldadalsvegar. Þjóðvegur 55. Þjóðvegur 55 eða Heydalsvegur er 26,41 kílómetra langur vegur í Borgarbyggð og Dalabyggð. Hann liggur frá Snæfellsvegi við Kolbeinsstaði, í gegnum Hnappadal og Heydal, til Snæfellsvegs við Bíldhól. Þjóðvegur 56. Þjóðvegur 56 eða Vatnaleið er 16,4 kílómetra langur vegur í Eyja- og Miklaholtshreppi og Helgafellssveit. Hann liggur frá Snæfellsvegi við Vegamót, um Dufgusdal meðfram Baulárvallavatni og Selvallavatni, til Snæfellsvegs á Kóngsbakkahæðum. Ungmennafélag Bolungarvíkur. Ungmennafélag Bolungarvíkur, UMFB, er íþróttafélag í Bolungarvík. Körfuknattleiksdeild UMFB. Körfuknattleiksdeild UMFB er deild innan Ungmennafélags Bolungarvíkur. Meistaraflokkur karla tók þátt í 2. deild karla og bikarkeppni KKÍ veturinn 2011-2012. Þorsteinn Thorarensen. Þorsteinn Thorarensen (26. ágúst 1926 – 26. október 2006) var íslenskur blaðamaður, bókaútgefandi og þýðandi. Hann stofnaði bókaútgáfuna Fjölva árið 1966. Fjölvi er einkum þekktur fyrir að hafa fyrstur hafið skipulega útgáfu á myndasögum í bókarformi á íslensku þegar fyrsta bókin í bókaflokknum Ævintýri Tinna kom út árið 1971. Þorsteinn var afkastamikill þýðandi og má sjá sterk höfundareinkenni á þýðingum hans. Sérstaka athygli vakti húmorinn í Ástríksbókunum sem hann þýddi og gaf út og var stundum sagt að þær væru fyndnari á íslensku en á frummálinu. Búi Kristjánsson. Búi Kristjánsson (f. 29. júlí 1961) er íslenskur myndlistarmaður, myndasöguhöfundur og myndskreytir. Hann er þekktastur fyrir myndskreytingar sínar sem birst hafa í fjölda bóka, meðal annars í skáldsögum Iðunnar Steinsdóttur, og fyrir myndasögur byggðar á "Laxdælu" og "Egils sögu" sem birtust upphaflega í "Lesbók Morgunblaðsins" á 10. áratug 20. aldar. Sammi og Kobbi. Sammi og Kobbi eða Sammabækurnar (franska: "Sammy") eru belgískar teiknimyndasögur eftir höfundinn Raoul Cauvin, en listamaðurinn Berck teiknaði flestar þeirra. Sögurnar fjalla á gamansaman hátt um félagana Samma og Kobba og ævintýri þeirra í Chicago á bannárunum á þriðja áratugnum. Ævintýri þeirra Samma og Kobba birtust fyrst sem framhaldssögur í teiknimyndablaðinu Sval en voru jafnóðum gefnar út á bókaformi. Bækurnar urðu fjörutíu talsins og komu út á árunum 1970 til 2009. Ellefu þeirra hafa komið út í íslenskri þýðingu. Sögurnar. "Kobbi" ("Jack Attaway") er stjórnandi lítillar lífvarðastofu. Hann er skapbráður en hrifnæmur og lætur auðveldlega plata sig út í hvers kyns svaðilfarir ef von er á gróða. Vinur hans og aðstoðarmaður "Sammi" ("Sammy Day") er rödd skynseminnar í bókunum og reynir að tala um fyrir félaga sínum og vara hann við aðsteðjandi hættum. Sögusvið bókanna fer út um víðan völl og til fjarlægra landa. Stundum koma jafnvel við sögu yfirnáttúrulegar verur, s.s. draugar og lifandi múmíur. Oftast nær fjalla sögurnar þó um skipulagða glæpastarfsemi í Chicago á tímum bannáranna. Raunverulegar sögulegar persónur eru kynntar til sögunnar, s.s. glæpaforinginn Al Capone og löggæslumaðurinn Elliot Ness. Kastalavirkið í Graz. Kastalavirkið í borginni Graz í Austurríki liggur á 123ja metra hárri hæð í miðborginni. Uhrturm (Klukkuturninn) sem þar stendur er einkennismerki borgarinnar. Virkið gildir sem óvinnandi og er skráð í heimsmetabók Guinnes sem sterkasta virki heims. Samstæðan öll er á heimsminjaskrá UNESCO. Þjóðsaga. Til er þjóðsaga um tilurð hæðarinnar sem virkið stendur á. Íbúarnir í bænum báðu kölska um að búa til stóra klettahæð sem þeir gætu reist virki á. Kölski samþykkti en krafðist fyrir vikið sálina úr fyrsta manninum sem stigi upp hæðina. Þetta samþykktu íbúarnir. Þegar í stað fór kölski af stað og sótti gríðarstóran klett. En þegar hann kom til bæjarins á ný, tók hann eftir helgigöngu, enda var páskadagur. Á þeim degi hafði kölski engan mátt yfir mönnum. Í reiði sinni þeytti hann klettinum í átt að bænum. En kletturinn sprakk í tvennt. Stærri hlutinn varð að klettahæðinni þar sem nú stendur virkið. Minni hlutinn varð að smærri hæð sem í dag heitir Kalvaríuhæð. Saga virkisins. Árið 1125 var reist lítið virki á klettahæðinni og hlaut það nafnið Gradec á slóvensku, en af því er heitið Graz dregið. Eftir þetta var sífellt bætt við virkið og því umbreytt. Friðrik III keisari flutti í kastalavirkið um miðja 15. öld og varð Graz því höfuðborg þýska ríkisins í nokkur ár. Virkið tengdist borgarmúrum Graz og þótti óvinnanlegt. 1480 réðust Tyrkir (osmanir) á Graz, en fengu hvorki unnið borgina né virkið. 1532 var soldáninn Súleiman I aftur á ferð við Graz en náði heldur ekki að vinna borgina þá. Eftir þetta var virkið lagfært og umbreytt á ný. 1809 hertóku Frakkar Graz. Þeir náðu hins vegar ekki virkinu, því þar voru Austurríkismenn til varnar undir forystu ofurstans Franz Xaver Hackher zu Hart. Það var ekki fyrr en Frakkar hótuðu að eyðileggja Vín að Austurríkismenn ákváðu að opna virkið fyrir Frökkum. Þegar hinir síðastnefndu hugðust sprengja það, báðu íbúar Graz um að fá að bjarga tveimur turnum úr virkinu og var það leyft gegn háu gjaldi. Virkið var síðan sprengt. 1839 var almenningsgarður lagður í kringum rústirnar. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði voru neðanjarðarbirgi grafin undir rústunum en í þeim var rými fyrir 40 þúsund manns. Árið 1999 var kastalavirkið og allt sem tilheyrði því sett á heimsminjaskrá UNESCO. Virkið er einnig skráð í heimsmetabók Guinnes sem sterkasta virki heims. Aðgangur. Enginn akvegur liggur upp hæðina, en þangað má komast með ýmsu öðru móti. Járnbraut. 1894 var lögð járnbraut upp hæðina. Lengdin var einungis 212 metrar, en hæðarmunurinn var tæpir 109 metrar. Brattinn var því tæp 60%. Venjulegar járnbrautir réðu ekki við slíkan bratta, enda er hér um tannhjólabraut að ræða. Fyrstu vagnarnir, sem voru tveir, voru með sextán sæti og sextán stæði. Járnbraut þessi gekk fram til 1960 en þá var kerfið allt endurnýjað. Árið 2004 var járnbrautin endurnýjuð aftur og eru afar nýtískulegir. Tröppur. 1914 til 1918, meðan heimstyrjöldin fyrri geysaði, voru sérstakar tröppur höggnar í bergið upp í virkið. Í fyrstu unnu austurrískir hermenn að verkinu en seinni partinn voru rússneskir stríðsfangar notaðir í vinnuna. Því hlutu tröppurnar í fyrstu heitið Rússatröppur en heitinu var síðar breytt í Stríðströppur. Á árunum 1924-28 voru aðrar tröppur lagðar upp hæðina í tilefni af 800 ára afmæli borgarinnar Graz. Lyfta. Árið 2000 var mikið gat borað í klettinn og í það sett lyfta upp í virkið. Lyfturnar eru reyndar tvær og ganga þær upp 77 metra lóðrétt upp. Þær geta borið fimmtán manns í einu og tekur ferðin um 30 sekúndur. Klukkuturninn (með úri). Klukkuturninn er 28 metra hár turn við virkið og er einkennisbygging borgarinnar Graz. Hann var sennilega reistur á 13. öld (ekki nákvæmlega vitað) og kom fyrst við skjöl 1265. 1560 hlaut hann núverandi ásýnd. Á turninum er klukka á öllum fjórum hliðum. Núverandi vísar eru frá 1712 og eru vísihringarnir rúmlega fimm metrar í þvermáli. Utan um klukkurnar er yfirbyggður gangur allt í hring en frá honum var fylgst með eldhættu í miðborginni. Þegar Frakkar hertóku borgina ætluðu þeir að sprengja virkið og turninn með. En íbúar Graz báðu turninum griða og fengu að kaupa hann frían fyrir tæp 3.000 gyllini. Því stendur turninn enn. Í honum eru þrjár bjöllur. Stundabjallan glymur á klukkutíma fresti, en hún er frá 1382. Önnur er brunabjalla frá 1645 og átti að vara við eldsvoða. Þriðja klukkan var syndaklukkan frá því um 1450 en henni var hringt við aftökur. Á 19. öld var aftökum hætt en þá var bjallan notuð til að tilkynna lokunartíma á ölkelduhús í borginni. Turninn fékk ærlega andlitslyftingu árið 2008-2011. Fyrir neðan turninn er steinstytta af hundi. Þjóðsagan segir að geltandi hundur hafi bjargað Kunigunde, dóttir keisarans Friðriks III, frá því að verða handsömuð af ungverskum hermönnum. Í þakklætisskyni lét keisari gera þessa styttu. Klukkuturninn (með bjöllum). Í klukkuturninum er þriðja stærsta bjalla Steiermark Við virkið er annar turn, að þessu sinni með bjöllum. Hann var reistur 1588 af erkihertoganum Karli II og er 34 metra hár. Í turninum er þriðja stærsta bjalla Steiermark. Hún vegur 4,6 tonn og heitir Liesl (stytting af kvennafninu Elísabet). Bjalla þessi slær daglega 101 sinni kl. 7, 12 og 19. Siður þessi komst á sökum þess að bjallan var sögð gerð úr 101 fallbyssukúlu Tyrkja á 16. öld. Það er þó ekki sennilegt, því að bjallan er gerð úr bronsi. Klukkuturninn átti að falla er Frakkar sprengdu virkið en íbúar Graz fengu að bjarga honum gegn háu gjaldi. Í kjallaranum er dýflissa. Tómasarkapellan. Á 12. öld var lítil kapella reist á hæðinni, um það leyti sem virkið sjálft varð til. Kapellan var helguð Tómasi postula og var hringlaga. Hún var ekki sprengd er Frakkar eyddu virkinu, en þeir tóku hins vegar þakið af kapellunni, enda var það gert úr kopar. Veggirnir hrundu svo með tímanum og grjótið var oft borið burt og notað annars staðar. Í dag er eingöngu grunnurinn eftir. Fallbyssuhúsið. Fallbyssuhúsið var reist um miðja 16. öld og var í upphafi hluti af virkinu. Í húsinu voru fjórar fallbyssur sem hlutu gælunafnið "Guðspjallamennirnir fjórir". Frakkar tóku fallbyssurnar 1809 sem herfang og sprengdu síðan virkið. Fallbyssuhúsið nær gjöreyðilagðist við það. 1978-79 var húsið endurreist. Þar eru í dag tvær stórar og tvær litlar fallbyssur sem smíðaðar voru í París. Í húsinu er hermannasafn opið almenningi. Starcke-húsið. Starcke-húsið. Í forgrunni er Tyrkjabrunnurinn. 1575 var reist mikið vopnabúr við virkið. 1809 sprengdu Frakkar húsið ásamt virkinu öllu. Á rústum hússins reisti dr. Bonaventura Hödl víngerðarhús 1820 og bjó til víngarð í hlíðinni fyrir neðan húsið. Vínviður vex þar enn en húsinu var breytt um aldamótin 1900. Þar bjó þá konunglegi leikarinn Gustav Starcke til 1921 og samdi ljóð. Í dag er veitingahús í Starcke-húsinu, en þaðan er gott útsýni yfir vesturhluta borgarinnar Graz. Tyrkjabrunnurinn. Brunnurinn var grafinn 1554-58 og gengur 94 metra niður að grunnvatni árinnar Mur. Núverandi heiti hlaut brunnurinn ekki fyrr en á 19. öld þar sem tyrkneskir fangar voru fengnir til að grafa fyrir honum. Brunnurinn sjálfur skemmdist ekki við sprengingu virkisins, en öll aðstaða til að ná í vatnið eyðilagðist 1934. Regnker. 1544-47 var gríðarstórt ker höggvið í grjótið og átti að safna regnvatni. Vatn þetta átti að koma til góðs ef ske kynni að gert væri umsátur um Graz og virkið einangrað. Kerið er sextán metra djúpt og tekur 900 þúsund lítra af vatni. Vatnið var síðan síað og leitt burt. Á rigningarlausum dögum var sett fagurlega skreytt lok á keropið. Vatnið er í dag notað fyrir slökkviliðið ef kvikna skyldi í í virkinu. Sæmundur Hólm. Sæmundur Magnússon Hólm (1749 – 1821) var prestur og skáld og fræðimaður. Hann var prestur á Helgafelli í Helgafellssveit árin 1789-1819. Hann skrifaði mikið um náttúru Íslands, m.a. um Skaftárelda og var drátthagur maður, gerði kort af landi og myndir af samtíðarmönnum. Joe Sakic. Joseph Steven Sakic (f. 7. júlí 1969) er kanadískur fyrrum íshokkíleikmaður. Hann lék með Quebec Nordiques og Colorado Avalanche 1988 til 2009 og vann tvívegis Stanleybikarinn, 1996 og 2001. Sakic, Joe Lýðfræðilega umbreytingin. Lýðfræðilega umbreytingin (e. "the demographic transition") er það þróunarferli í tilteknu landi þegar að bæði fæðingar- og dánartíðni er fer úr því að vera há og í að vera lág. Slík þróun hefur verið tengd við iðnvæðingu. Lýðfræðileg gögn aftur í tímann sýna að í kjölfar Iðnbyltingarinnar lækkaði bæði fæðingar- og dánartíðni í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Plastíð. Plastíð eru aflöng korn, jafnan nokkru stærri en hvatberar og gegna ýmsum hlutverkum í plöntufrumum. Litkorn eða litplastíð geyma ýmis litarefni sem koma beint eða óbeint við sögu ljóstillífunar. Önnur plastíð eru litlaus, svonefnd ("hvítplastíð"). Mörg hvítplastíð geyma forðanæringu, svo sem mjölva. Kyrrahafsansjósa. Kyrrahafsansjósan "(Cetengraulis mysticetus)" er uppsjávarfiskur sem finnst í Kyrrahafi við strendur Mið- og Suður-Ameríku, allt frá landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og suður til landamæra Ekvador og Perú. 144 tegundir ansjósa eru þekktar og finnast þær í Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi. Þær þjóðir sem eru með skráðar veiðar á kyrrahafsansjósu eru Panama, Mexíkó, Ekvador og Kólumbía, frá 1950 hefur Panama alltaf verið með mestan afla að undanskildum árunum 1981 og 1997 þegar Ekvador veiddu mest. Raunar voru Panama menn einir um veiðarnar fram til ársins 1970 þegar Kólumbía hóf að skrá einhverjar minniháttar veiðar. Veiðar og afli. Árlegur heildarafli hefur sveiflast frá um það bil 75 þúsund tonnum og upp fyrir 200 þúsund tonn á milli ára frá því að veiðar urðu nokkuð stórtækar um árið 1976. Meðal skráður heildarafli á árunum 1980 til 2009 var rúm 136 þúsund tonn. Talið er að stofninn sé fullnýttur og á hann er sett árlegt heildaraflamark, hann er ekki talinn vera ofveiddur. Stærstur hluti kyrrahafsansjósuafla er bræddur í fiskimjöl en einnig er stór hluti hennar notaður í beitu, hún er til dæmis mikilvæg beita við veiðar á túnfiski. Algeng stærð kyrrahafsansjósunnar er 12 cm en þær geta orðið allt að 18 cm að lengd og eins og aðrir síldfiskar er æviskeið þeirra stutt, en þær verða aðeins þriggja ára. Þær halda sig mjög nálægt ströndinni og fara yfirleitt ekki niður fyrir 9 metra dýpi, helst finnast þær þar sem er leðjubotn en síður þar sem sand- eða steinbotn. Hrygningartíminn er frá október fram í janúar þar sem toppurinn er í nóvember og desember, á þeim tíma er hrygningarstoppi beitt til þess að vernda stofninn. Mikilvægasta fæða tegundarinnar eru kísilþörungar, en einnig finnst ætíð mikil leðja og eitthvað af smáum krabbadýrum í mögum fullorðinna fiska. Þrjár gerðir veiðarfæra er beitt við veiðar á kyrrahafsansjósu. Eins og áður hefur komið fram er hún veidd í kastnet, það er afkastalítið veiðarfæri sem kastað er með höndum á litlar torfur. Það opnast í loftinu og myndar hring sem síðan lokast þegar dregið er inn, þetta er til dæmis gert á ströndum og af bryggjum. Þessar veiðar eru yfirleitt til einkanota og fiskurinn yfirleitt borðaður eða notaður í beitu, þá oftast við tómstundaveiðar. Önnur veiðiaðferð er hringnót, þó á mun minni skala en þær sem við þekkjum á Íslandsmiðum enda er kyrrahafsansjósan sjaldan veidd á meira en níu metra dýpi. Sá fiskur sem veiddur er á þennan hátt fer að stærstu leiti í bræðslu. Þessar veiðar fara nær einvörðungu fram á nóttunni. Þriðja gerð veiðarfæra sem notað er við veiðar á kyrrahafsansjósu eru svokölluð lampara nets, það er veiðarfæri sem þróað var í Miðjarðarhafinu og er beitt á torfufiska nálægt yfirborðinu þar sem grunnt er til botns. Þessu veiðarfæri svipar til hringnótar en þó er grundvallarmunur á, því er lokað með því að draga það á eftir skipinu. Annar endi netsins er festur við búu eða annan bát, síðan er siglt í kringum torfuna sem á að veiða líkt og með hringnót. Endinn á búunni er svo festur við skipið og siglt, stærri möskvar eru nær skipinu en smáir á pokanum. Þetta eru mjög handvirkar veiðar og krefjast mikils mannskaps miðað við að þetta eru yfirleitt fremur lítil skip, 9 til 18 metrar, fisknum er svo skóflað úr netinu í körfum sem gjarnan eru dregnar upp af handafli. Aflinn sem fæst með þessari aðferð er mestmegnis notaður í beitu, til dæmis við túnfiskveiðar, sverðfiskveiðar, styrjuveiðar og fleira. Dularfulla klaustrið. Dularfulla klaustrið (franska: "L'abbaye truquée") er 22. bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1972. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Fournier. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst áttunda í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Töframaðurinn Ító Kata frá Japan er í heimsókn hjá Sval og Val þegar útsendarar "Þríhyrningsins" berja að dyrum. Þeir freista þess að fá Sval og Val til að ganga til liðs við glæpasamtökin, en þegar það gengur ekki svæfa þeir þá með karamellum sem sprautaðar voru með svefnlyfi. Þeir ræna Ító Kata í því skyni að kúga félagana til samstarfs. Svalur og Valur komast skjótt á sporið og finna aðsetur glæpamannanna í rústum yfirgefins klausturs. Reynast þrjótarnir hafa fullt í fangi við að halda Ító Kata í prísundinni, þaðan sem hann sleppur í sífellu. Eftir að Svalur og Valur mæta á svæðið ákveður höfuðpaurinn að flýja og sprengja klaustrið í loft upp. Íkorninn Pési gerir sprengjuna óvirka. Þeir hafa hendur í hári þrjótsins, en hann sleppur frá þeim á nýjan leik og sagan endar á að Svalur, Valur og Ító Kata sofna úti í móa eftir að hafa í ógáti gleypt meira af eitruðu karamellunum. Íslensk útgáfa. Dularfulla klaustrið var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var áttunda bókin í íslensku ritröðinni. Lugo. Lugo er hafnarborg í Galisíu á Norðvestur-Spáni. Íbúar borgarinnar voru 97.635 árið 2010 en um 125.000 búa á stórborgarsvæðinu. Malaga er fjórða stærsta borg Galisíar. Gullfiskur. Gullfiskur ("Carassius auratus auratus") er ferskvatns fiskur af vatnakarpaætt. Þeir eru upprunalega frá Austur-Asíu og geta orðið allt að 20 ára gamlir. Scott Foley. Scott Foley (fæddur Scott Kellerman Foley, 15. júlí 1972) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Felicity, Scrubs, The Unit og Grey's Anatomy. Einkalíf. Foley er fæddur og uppalinn í Kansas City, Kansas. Foley giftist leikkonunni Jennifer Garner árið 2000 en skildu svo árið 2004. Foley er núna giftur leikkonunni Marika Dominczyk, sem hann giftist árið 2007 og saman eiga þau eitt barn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Foley var árið 1995 í "Sweet Valley High". Árið 1998 var Foley boðið hlutverk í Felicity sem Noel Crane, sem hann lék til ársins 2002. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Jack & Bobby", House, Cougar Town og True Blood. Lék eitt af aðalhlutverkunum í The Unit sem Bob Brown frá 2006-2009. Hann hefur síðan 2010 verið með stórt gestahlutverk í Grey's Anatomy sem Henry Burton. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Foley var árið 2000 í "Self Storage" og hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Scream 3" og "Below". Tenglar. Foley, Scott Töfrafestin frá Senegal. Töfrafestin frá Senegal (franska: "Le gri-gri du Niokolo-Koba") er 25. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú fimmta eftir listamanninn Fournier. Hún kom út á frummálinu árið 1974, en gefin út á íslensku 1982 og telst fjórtánda í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Sagan hefst í þjóðgarði í Senegal. Glæpamaður brýst inn á heimili öldungsins "Massa Mússa" og krefst þess að hann láti sig fá töfrafesti nokkra. Gamla manninum tekst að grípa til kólí-demants, sem hefur þá náttúru að geta látið menn hverfa tímabundið. Massa Mússa felur ungum frænda sínum að koma töfrafestinni undan og flýgur hann með hana til Evrópu. Þrjótarnir snúa aftur og ræna Massa Mússa og demöntunum. Í París lendir ungi frændinn í eltingaleik við glæpamennina. Hann hittir Sval og Val og felur þeim að varðveita töfrafestina andartaki áður en þrjótarnir láta hann hverfa með hjálp demantanna. Svalur og Valur halda til Senegal til að koma festinni til skila. Í þjóðgarðinum ríkir uppnám þar sem fjöldi dýra virðist hafa gufað upp. Nokkrar persónur eru kynntar til sögunnar sem gætu borið ábyrgð á dýrahvarfinu, s.s. þjóðgarðsforstjórinn, stjórnandi ferðaþjónustufyrirtækis og "Pluchon Park", breskur majór sem falast hafði eftir þjóðgarðinum. Blaðakonan Órórea gefur sig fram, með sannanir fyrir því að dýrin hafi verið látin hverfa með hjálp kóli-demanta. Svalur og Valur uppgötva hvar Massa Mússa er í haldi og tekst að yfirbuga breska majórinn sem stóð á bak við ráðabruggið. Skýringin var sú að hann uppgötvaði að leyndar demantanámur væri að finna í þjóðgarðinum og að kort af þeim væri falið í töfrafestinni. Vonaðist hann til þess að með brotthvarfi dýranna gæti hann eignast garðinn fyrir lítið fé. Íslensk útgáfa. Töfrafestin frá Senegal var gefinn út af Iðunni árið 1982, en ekki er getið um þýðanda hennar. Þetta var fjórtánda bókin í íslensku ritröðinni. Arfbótastefna. Arfbætur (einnig kynbætur, mannbætur eða mannakynbætur) (enska: "eugenics") nutu töluverðra vinsælda á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Fyrsta alþjóðlega þing arfbótasinna var haldið 1921 og var sótt og stutt af mörgum þekktum mönnum svo sem; Leonard Darwin, syni Charles Darwin, sem var forseti þingsins, heiðursvaraforseta þess Winston Churchill, Alexander Graham Bell ásamt fjölda annara. Arfbótastefna Þriðja ríkisins einblíndi nokkuð á viðhorf Eugen Fischer og hugmyndir hans um þroskunarerfðafræði. Endanleg markmið stefnunar eru að gera fólk skarpara, hraustara og fegurra með stjórnun erfðaeiginleika. Tenczynek. Tenczynek er þorp í Krzeszowice-fylki, Póllandi. Það er stærsta þorp sveitarfélagsins og er staðsett 25 kílómetra vestur af Kraká. Þar búa 3436 manns. Í þorpinu eru meðal annars Söfnuður Votta Jehóva, skóli og íþróttavöllur. Gjögurflugvöllur. Gjögurflugvöllur er á Víganesi, austan við byggðarkjarnann Gjögur. Flugfélagið Ernir er með reglulegt áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Gjögurs. Yfir árið 2011 fóru 269 farþegar og 22,37 tonna fragt um völlinn. Vestmannaeyjaflugvöllur. Vestmannaeyjaflugvöllur er tveggja brauta flugvöllur á Heimaey, austan við Ofanleiti. Hann er fyrsti flugvöllurinn sem Íslendingar byggðu sjálfir án aðkomu annarra ríkja. Flugfélagið Ernir er með áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Saga vallarins. Framkvæmdir við lagningu vallarins hófust 11. nóvember 1945 þegar varðskipið Ægir kom með stórvirkar vinnuvélar. Næsta sumar var byrjað að flytja rauðamöl úr Helgafelli í yfirborð brautarinnar. Fyrsta landflugvélin lenti um sumarið 14. ágúst 1946 og flugbrautin var opnuð 13. nóvember sama árs. Áætlunarflug á flugvellinum hófst á vegum Loftleiða 12. október 1946 til Reykjavíkur. 1971 hófust framkvæmdir við norður-suður braut flugvallarins. Í klandri hjá kúrekum. Í klandri hjá kúrekum (franska: "Les chapeaux noirs") er þriðja bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1952 og innihélt sögur sem birst höfðu í "teiknimyndablaðinu Sval" á árunum 1949 til 1950. Höfundar sagnanna í upphaflegu útgáfunni voru listamennirnir Jije og Franquin, en þegar bókin var gefin út á Norðurlöndunum var sögunum eftir Jije sleppt. Hún var gefin út á íslensku árið 1986 og telst 22. í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Titilsagan "Í klandri hjá kúrekum" ("Les chapeaux noirs") segir frá ferð Svals og Vals til Bandaríkjanna til að kynna sér lífið í Villta vestrinu og skrifa um það blaðagrein. Þegar þangað er komið minnir fátt á hina æsilegu kúrekatíma. Ríkmannlegur maður hvetu þá til að fara til Tombstone, þar sem gömlu kúrekagildin lifa góðu lífi. Í ljós kemur að bærinn er nákvæmlega eins og staðalmyndir Villta vestursins með byssubófum og einvígum. Félagarnir hika við að beita byssunum en virðast þó alltaf hitta í mark. Að lokum kemur sá ríkmannlegi og upplýsir að þorpið sé leikmynd fyrir kvikmynd, að púðurskot hafi verið í byssunum en meistaraskytta fylgt þeim á eftir og hitt í mark á laun. Allir skemmta sér vel yfir þessu, en bregður í brún þegar uppgötvast að vopnin voru í raun hlaðin raunverulegum kúlum. "Eins og fluga á vegg" ("Comme une mouche au plafond") eftir Jije segir frá því þegar Svalur vaknar með veröldina á hvolfi, þar sem hann gengur á loftinu. Í ljós kemur að illkvittinn töframaður "Abdaka Abraka" ber ábyrgð á þessu óheppilega ástandi. "Froskmennirnir" ("Les hommes grenouilles") eftir Jije segir frá heimsókn Svals til frönsku Rívierunnar, þar sem Valur hefur stofnsett þjónustu fyrir ferðamenn, en glæpamenn í froskmannabúningum setja strik í reikninginn. "Laumuspil við landamærin" ("Mystère à la frontière") segir frá viðureign Svals og Vals við hugmyndaríkara smyglara á landamærum Belgíu og Frakklands. Smyglararnir hafa komið miklu magni af skringilegu en hættulitlu eiturlyfi milli landanna. Félagarnir verða ekki síður að eyða tímanum í að þræta við hrokafullan lögreglustjóra sem vill ekkert hafa með aðstoð þeirra að gera. Íslensk útgáfa. Í klandri hjá kúrekum var gefin út af Iðunni árið 1986 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Þetta var 22. bókin í íslensku ritröðinni. Mexíkóflóa meinhaddur. Mexíkóflóa meinhaddur (fræðiheiti: "Brevoortia Patronus") er smár uppsjávarfiskur af síldarætt. Hann veiðist einungis í Mexíkóflóa helst á grunnslóðum að undanskildu í austur Yucatan og hjá vestur Kúbu. Meinhaddurinn er nánast einungis veiddur til bræðslu, eða 98%, 2% fer í beitu. Samkvæmt DNA rannsóknum sýna þær að Mexikóflóa meinhaddurinn sé skyldur Atlantshafs meinhaddinum. Báðar þessar tegundir eru mjög mikilvægar fisktegundir fyrir mjöl og lýsis framleiðslu. Mexikóflóa meinhaddur er einungis veiddur af Bandaríkjamönnum. Hann stendur í öðru sæti hjá Bandaríkjunum yfir mest magn veitt á eftir Alaska ufsa. Mexikóflóa meinhaddur er uppsjávarfiskur sem heldur sig í torfum. Á sumrin heldur hann sig á grunnslóð en til eru dæmi um Meinhadda sem fara í október á djúpsjávarsvæði við Missisippi. Hann síar sjóinn líkt og síld og nærist á svifi. Fullorðins meinhaddur getur síað allt að 28 lítra af sjó á einni mínútu. Meinhaddurinn hryggnir að vetri til, hann getur fjölgað sér gífurlega hratt, allt að tvöföldun stofnstærð á undir fimmtán mánuðum. Meinhaddar ná kynþroska á öðru aldursári en lifa aðeins til þriggja ára aldurs. Algeng stærð á Mexikóflóa meinhaddi er 20-23 cm, svipað og loðna. Veiðar og veiðiaðferðir. Mexikóflóa meinhadda veiðar eru stundaðar af 40 veiðiskipum, sem innihalda 2 nótabáta, og 2 brunbátum. Brunbátarnir sækja fisk frá veiðiskipunum og koma með afla að landi, sem gerir veiðiskipunum kleyft að vera lengur á miðunum. Áhafnirnar skipa fjórtán manns (skipstjóra, bátsmann, stýrimann, yfirvélstjóra, annan vélstjóra, kokk og átta háseta). Veiðiskipin leggja í hann árla morguns og ná á miðin rétt fyrir sólarupprás. Á venjulegum degi kasta þeir nótinni fjórum til fimm sinnum. Skipin gætu náð nokkrum túrum á hverri viku. Þegar skipstjórinn hefur fundið lóðningar frá torfu gerir áhöfnin sig klára. Þeir undirbúa tvo nótabáta sem eru á skut skipsins. Hver bátur inniheldur hálfa nót sem þeir henda út í kringum torfurnar. Þegar bátarnir hittast og loka hringnum byrjar þeir að þrengja nótina um borð í litlu bátunum. Veiðiskipið kemur að nótabátunum og tekur á móti nótinni á bakborða. Nú eru fiskarnir hýfðir nær yfirborði sjávar þar sem nótinni er lyft með krana. Aflanum er síðan dælt með miðflóttaraflssugu yfir skiljur ofan í kældar lestar. Algengt er að nótin sem notuð er til veiða á Mexikóflóa meinhöddum sé 360 m að lengd og 10-12 faðma á dýpt. Skipin endurtaka leik sinn þegar þeir finna aðra torfu eða sigla með aflan að landi í átt að bræðslu. Þaðan er aflanum dælt upp úr lestum og bræddur. Stærð á meinhadda torfu getur verið frá þremur tonnum allt að hundrað tonnum, algengast um 17-22 tonn. Vinnsla og landanir. Síðan árið 2000 hafa fjórar fiskimjölsverksmiðjur starfað við bræðslu á Mexikóflóa meinhaddi. Ein í Missisippi (Moss Point) og þrjár í Louisiana (Empire, Abbeville og Cameron). Meðafli, afli annar en Mexikóflóa meinhaddur, er mjög lítill miðað við annars konar veiðar. Rannsóknir sýna að meðafli sé aðeins um 0,04% í Mexikóflóa meinhadda nótaveiðum. Það eru ákveðin tímabil sem veiðar á Mexikóflóa meinhadda fara fram. Tímabilið byrjar þriðja mánudag í apríl og endar 1. nóvember hvert ár, um það bil 140 dagar á ári. Mikið hefur verið fylgst með veiðum á Mexikóflóa meinhöddum og til eru gögn frá árinu 1964 þar sem fylgst hefur verið daglegum löndunum. Meinhaddaveiðar eru ein af elstu og mest verðmætustu veiðum Bandaríkjamanna. Mestu var landað árið 1984 eða 985.000 tonn. Árið 2010 voru veidd 379.727 tonn af Mexikóflóa meinhadda, 17% minna en árið áður. Þetta er 15% minni afli en meðalafli síðustu fimm ára. Hvergi er að finna tölur fyrir árið 2011 en veiðispáin reiknaði með 437.000t afla. Á hverju ári er gefin út veiðispá, svipuð og ársskýrsla Hafrannsóknarstofnarinnar en þar meta þeir hversu vel gekk að veiða fiskinn árið áður „Catch-per-unit-effort, CPUE“. Því betur sem gengur að veiða fiskinn því meira er til af honum, svipar til rallsins hjá Hafró. Þeir viðurkenna þó að miklar nótaveiðar séu ekki góður mælikvarði á stofnstærð. Árið 2012 verður fertugasta árið sem Bandaríkjamenn hafa byggt veiði sína á veiðispám. Árið 2010. Veiðitimabilið byrjaði 19. apríl. Daginn eftir sprakk olíubor pallur hjá British Petroleum í Mexíkó flóa. Við þetta breyttust ferlar skipanna og beyttu stjórnvöld lokunum á svæðum sem mengast höfðu af olíu. Það gekk þokkalega vel að veiða Mexikóflóa meinhadda út apríl. Skipin eltust við að veiða á þeim svæðum sem voru opin. En 27. júní lokaðist á svæði fyrir utan Moss Point og láu þau skip við bryggju allan júlí mánuð. Um miðjan júlí hafði National Marine Fisheries Service lokað nánast öllum flóanum. Til að bæta gráu ofan á svart þá kom yfir fiskimiðin hvirfilbylurinn Alex og hitabeltisstormurinn Bonnie í júlí og truflu veiðar enn frekar. Fiskimiðin voru opnuð aftur í byrjun ágúst. Verðmæti Mexíkóflóa meinhadda. Frá 1990 hefur 80% af mjöl og fiskiolíu útflutningi BNA manna verið Meinhaddar, Mexikóflóa eða Atlantshafs. Jarðskjálftar í Chile og fleira sem valdið hafa skemmdum á fiskimjölsverksmiðjum hafa leitt til samdráttar í framboði á fiskimjöli og hefur því mjölverð náð óþekktum hæðum. Mjölverð fór árið 2010 í 1.937 dollara á tonnið, sem er 85% hækkun miðað við árið áður. Það eru Norðmenn sem flytja mest inn af fiskiolíu frá Bandaríkjunum og líklegt þykir að það sé vegna þess að olían er notuð sem orkugjafi í fiskeldi. William Morris. William Morris, 53. ára gamall William Morris (24. mars 1834 – 3. október 1896) var breskur textílhönnuður, listamaður, rithöfundur og hugsjónamaður. Hann skrifaði og gaf út ljóð, skáldsögur og þýðingar á fornritum og miðaldatextum. Málverk eftir Morris "La belle Iseult" sem einnig hefur verið kallað "Queen Guinevere". Þetta verk er núna í Tate listasafninu. Morris lagði áherslu á varðveita umhverfi fyrir áhrifum af mengun frá iðnaði. Hann hafði mikinn áhuga á germönskum og norrænum fræðum og þýddi ásamt Eiríki Magnússyni margar Íslendingasögur yfir á ensku og endursagði í verkum sínum. Morris hitti Eirík Magnússon árið 1868 og Eiríkur kenndi honum íslensku. Morris gaf út Gunnlaugs sögu Ormstungu og Grettissögu út árið 1869 og Völsungasögu út árið 1870. Morris samdi mikið af ævintýrasögum sem höfðu áhrif marga breska ævintýrasagnahöfunda eins og Tolkien, C.S. Lewis og James Joyce. Cabbage and vine tapestry, 1879 Morris lærði útsaum og þjálfaði konu sína og systur hennar í að sauma út verk sem hann hannaði. Endurtekið mynstur kemur fyrst fyrir í veggfóðri frá Morris árið 1862 en það var ekki framleitt fyrr en 1864. Árið 1868 hannaði hann fyrstu mynstur sín sérstaklega fyrir efni. Morris hannaði tvær leturgerðir sem byggðar voru á fyrirmyndum frá miðöldum. Safnið William Morris Gallery í Walthamstow í England er helgað ævi og verkum og áhrifum Morris. Tenglar. Morris, William Völsunga saga. Ramsund rúnir frá Svíþjóð frá 12. öld fjalla um hvernig Sigurður Fáfnisbani lærði fuglamál Völsunga saga er fremur löng lausamálssaga sem oftast er talin rituð fyrir eða um 1270. Hún hefur varðveist í einu skinnhandriti frá miðöldum en mörgum pappírshandritum. Í Völsungasögur eru um 30 vísur sem fjalla um Sigurð Fáfnisbana og forfeður hans. Meginefni sögunnar er saga Sigurðar Fáfnisbana sem drap drekann Fáfni. Völsunga saga er yfirleitt talin til fornaldarsagna Norðurlanda. Breski rithöfundurinn Tolkien varð fyrir áhrifum af Völsunga sögu og má greina þau í Hringadrottinssögu og fleiri verkum Tolkiens. Robert Patrick. Robert Patrick (fæddur Robert Hammond Patrick Jr., 5. nóvember 1958) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The X-Files, The Unit og. Einkalíf. Patrick fæddist í Georgíu en ólst upp í Ohio. Stundaði nám við "Bowling Green State háskólann" í Ohio en hætti í námi eftir að hafa taka leiklistarnámskeið. Patrick giftist Barbara Patrick árið 1990 og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Patrick var árið 1992 í "Tales from the Crypt". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í "The Outer Limits", "The Real Adventures of Jonny Quest", The Sopranos, Lost, "American Dad", Psych og Burn Notice. Árið 2000 þá var honum boðið hlutverk í The X-Files sem John Doggett, sem hann lék til ársins 2002. Lék eitt af aðalhlutverkunum í The Unit sem Tom Ryan frá 2006-2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Patrick var árið 1986 í "Future Hunters" og kom hann síðan fram í kvikmyndum á borð við "Killer Instinct", "Equalizer 2000" og Die Hard 2. Árið 1991 þá var honum boðið hlutverk í sem T-1000. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Last Action Hero, "The Cool Surface", "Last Gasp", "Stripstease", "Cop Land" á móti Robert De Niro, Sylvester Stallone og Harvey Keitel, "D-Tox", Ladder 49 og Flags of Our Fathers. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films verðlaunin Tenglar. Patrick, Robert Twitter. Twitter er örbloggskerfi og netsamfélag. Hægt er að senda inn 140 stafa færslur. Twitter er svokallaður „samfélagsmiðill“ og var fundið upp í mars 2006 af Jack Dorsey. Upphaflega hugmyndin var að notendur gætu bloggað á Twitter með smáskilaboðum (SMS-skilaboðum) úr farsímum. Jack Dorsey. Jack Dorsey (fæddur 1976) er bandarískur hugbúnaðarsmiður og viðskiptafrömuður sem stofnaði Twitter í mars 2006. Furðulegar uppljóstranir. Furðulegar uppljóstranir (franska: "La jeunesse de Spirou") er 38. Svals og Vals-bókin og sú sjötta eftir félagana Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu og í íslenskri þýðingu árið 1987. Söguþráður. Bókin skiptist upp í nokkrar stuttar sögur. Sú fyrsta er einungis átta síður og segir frá æskuárum Svals. Varð hún upphafið að sjálfstæðri ritröð um ævintýri Litla-Svals. "Fláráði falsarinn" segir frá eltingaleik Svals og Vals við falsara sem býður til sölu fimmtu Viggó-bókina (en fimmta heftið kom aldrei út í franska bókaflokknum). "Einkaþjónn forsetans" lýsir vandræðum Svals á Þorláksmessukvöldi þegar hann er tekinn í misgripum fyrir lyftuþjón og hefur svo hlutverkaskipti við Bandaríkjaforseta. "Hið óttalega burp" segir frá tilraun Sveppagreifans sem breytir bæjarfyllibyttunni í Sveppaborg í herfilegt skrímsli. Inn í atburðarásina fléttast misheppnað póstrán. "Villandi ljósmynd" segir frá samkomu vísindamanna á setri Sveppagreifans. Í hópnum leynast tveir svikahrappar en Svalur og Valur afhjúpa þá með aðstoð gamallar ljósmyndar. Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1987. Þetta var 24. bókin í íslensku ritröðinni. Rob-Vel. Rob-Vel eða François Robert Velter (9. febrúar 1909 – 27. apríl 1991) var franskur teiknimyndasagnahöfundur. Hann er kunnastur fyrir að hafa skapað teiknimyndasagnahetjuna Sval Höfundur Svals. Árið 1938 hóf belgíski útgefandinn Dupuis útgáfu á nýju teiknimyndablaði og fól hann Rob-Vel að búa til titilpersónu. Rob-Vel, sem hafði á táningsárum starfað sem lyftuvörður á hóteli, skapaði tápmikla hótelstarfsmanninn Sval. Síðar bjó hann til gæluíkornann Pésa, sem fylgt hefur Sval líkt og lyftuvarðarbúningurinn í bókaflokknum um Sval og Val. Þegar Síðari heimsstyrjöldin braust út var Rob-Vel kvaddur í herinn og særðist. Eiginkona hans Davine tók þá við ritun sagnanna um tíma. Vegna stríðsins reyndist örðugt að senda teiknimyndasögur frá París til útgefandans í Brussel. Ákvað Rob-Vel því að selja höfundarréttinn að persónunni til Dupuis, sem fól teiknaranum Jijé að halda verkinu áfram. Hal Foster. Harold Rudolf Foster (18. ágúst, 1892 – 25. júlí, 1982), þekktur sem Hal Foster var kanadískur myndasöguhöfundur. Hann lærði við Chicago Academy of Fine Arts. Hann hóf fyrstur að teikna myndasöguna "Tarzan" sem byggist á skáldsögum Edgar Rice Burroughs árið 1929 og teiknaði hana til 1937 þegar Burne Hogarth tók við. Foster hóf þá að vinna við Prins Valíant sem hann teiknaði til 1971 þegar John Cullen Murphy tók við sögunni. Foster hélt þó áfram að gera handrit og sögur sem Murphy teiknaði þar til hann varð of langt leiddur af alzheimer til að vinna. Þrepamót FSÍ áhaldafimleikar 2012. Þrepamót FSÍ var haldið í Íþróttamiðstöð Ármanns dagana 28-29 janúar 2012. Veitt voru verðlaun fyrir 3 fyrstu sætin á hverju áhaldi í hverjum flokki. Túlípanaæðið. Vatnslitamynd af Semper Augustus, máluð af óþekktum listamanni Túlipanaæðið var tímabil í hollensku gullöldinni þar sem verð túlipanalauka var afar hátt en hrundi skyndilega. Þegar verðið var sem hæst í febrúar 1637 seldist einn túlipanalaukur fyrir tíföld árslaun handverksmanns. Túlipanaæðið er talin ein fyrsta hagbóla sem skráð er. Túlipanaæði er nú oft notað til að vísa til stórra hagbólna þar sem verðmyndun byggir á innra gildi. Koma túlipana til Evrópu og þróun viðskipta í Hollandi. Túlipanar komu til Evrópu með sendingu frá Tyrkjaveldi til Vínar árið 1554. Árið 1593 var farið að rækta lauka á landsvæði þar sem nú eru Niðurlönd. Túlipanar voru á þessum tíma frábrugðnir öllum öðrum blómum sem þá þekktust með sínum skærlitu blómum og urðu stöðutákn og tákn hinna nýríku landsvæða sem græddu um þessar mundir mikið á Austur-Indíuviðskiptum. Viðskiptin voru svo gróðavænleg að einstök skipsferð gat skilað 400% gróða. Ríkir kaupmenn sýndu ríkidæmi sitt með stórum fasteignum sem umkringdar voru blómagörðum og í þeim var aðaldjásnið túlipanar í ýmsum afbrigðum. Það tekur vanalega sjö til tólf ár að rækta túlipanalauk upp frá fræi. Túlipanar blómgast í apríl og maí í um það bil viku. Á tímabilinu júní til september voru laukar grafnir upp og fluttir til og það er á því tímabili þar sem raunveruleg vöruviðskipti eiga sér stað. En á öðrum tímum ársins þá var verslað með túlipana með pappírum, þá undirrituðu túlipanakaupmenn saminga um að kaupa túlipana í lok tímabilsins. Spurn eftir túlipönum hélt áfram að aukast á ógnarhraða og svo virtist sem ekkert annað þætti eins eftirsóknarvert í augum Hollendinga á þessum tíma. Þetta þýddi að verslun með túlípana gæti komið til með að skila fólki miklum hagnaði. Eftirsóknarverðasti túlipaninn á markaðinum var Semper Augustus. Einn laukur kostaði um 5.500 gyllini. Það sem var sérstakt við Semper Augustus var að hann var sérlega fágætur og talinn virkilega fallegur, sérstaklega vegna litadýrðarinnar. Verð túlipana hækkaði og ræktendur fengu sífellt hærra verð fyrir. Árið 1634 fóru spákaupmenn að taka þátt í túlipanaviðskiptum og veðja á síhækkandi verð túlipana. Túlipanaæðið náði hámarki veturinn 1636-7 og þann vetur voru sumir laukar keyptir og seldir tíu sinnum á dag. Engir laukar voru þó fluttir til, þetta voru eingöngu pappírssamningar. Peningar flæddu inná túlípanamarkaðinn en á sama tíma hætti eftirspurn eftir fágætu og dýru túlípönunum að vaxa sem olli verðhækkun. Árið 1636 var kauphöllin undir hlutabréfaviðskiptin orðin of lítil til að hýsa allt fólkið sem tók þátt. Það neyddist á endanum til þess að færa viðskiptin inn á kaffihús og krár í Amsterdam. Veturinn 1636-7 hækkuðu verð upp úr öllu valdi en samt sem áður hélt fólk áfram að gera næstum hvað sem er til þess að halda áfram í túlípanabraskinu, meðal annars seldi það eigur sínar og veðsetti húsin sín. Á þessum tíma voru það ekki bara fágætu túlípanalaukarnir sem hækkuðu í verði, heldur líka þeir venjulegu. Túlipanamarkaðurinn hrundi í febrúar 1637. Hrunið hófst í Haarlem þar sem kaupendur neituðu að mæta á hefðbundið laukauppboð. Á þessum tíma braust út mannskæð bólusótt og mikil skelfing greip um sig. Verð túlipana féll niður í einn hundraðasta af fyrra verði. Dæmi um það var verðið á Semper Augustus. Árið 1635 höfðu 40 laukar verið seldir fyrir 100.000 hollensk gyllini á sama tíma og tonn af smjöri kostaði 100 gyllini og átta feit svín kostuðu 240 gyllini. Túlipanaæðið: Ýkjusaga eða hvað? Breski blaðamaðurinn Charles Mackay skrifaði árið 1841 bókina "Extraordinary Popular Delusions and the Madness of Crowds" um túlipanaæðið. Mackay segir frá því að fimm hektarar lands hafi á tímabili verið boðnir í skiptum fyrir einn lauk af gerðinni Semper Augustus og margir fjárfestar orðið gjaldþrota og mikil niðursveifla orðið í viðskiptum í Hollandi. Erfitt er að rannsaka Túlipanaæðið vegna takmarkaðra gagna frá þessum tíma. Fræðimenn greinir á um hvort að túlipanaæðið hafi verið efnahagsbóla eða ekki. Rannsóknir Mackay um túlipanaæðið höfðu allt þar til árið 1980 verið óskoðaðar og þarf af leiðandi óvéfengdar. Þó að Mackay hafi talið að túlípanabólan hafi sprungið hafa nútímafræðimenn bent á að hann hafi ekki verið með nægilega haldbærar upplýsingar í höndunum. Mackay byggir rök sín á þremur áróðursbæklingum sem voru skrifaðir stuttu eftir túlípanaæðið af mönnum sem voru á móti slíku braski. (garber) Að undirlagi ríkisins hafi þeir framleitt bæklingana, en ríkið vildi stjórna fjármálamörkuðum. - Verðhreyfingar á laukum á tímum túlipanaæðisins eru dæmigerðar fyrir hvaða markað sem er með fágæta vöru með tilliti til grunnstoða markaðarins – hagstæð markaðsverð - Engar vísbendingar um að efnahagslegur skaði hafi hlotist af túlipanaæðinu. - Tölfræðin sem Mackay notaði er vafasöm og hann nýttist við verð á túlipanalaukum 60 til 200 árum eftir túlípanaæðið til þess að bera saman við verðin strax eftir hrunið af því að það eru ekki til neinar heimildir um verðin Því mætti segja að allt tal um efnahagsbólu byggi á sögusögnum. Túlipani. Túlipani er fjölær laukjurt af liljuætt og ættkvíslinni "Tulipa". Alls eru til 109 tegundir af túlipönum. Helga Margrét Þorsteinsdóttir. Helga Margrét Þorsteinsdóttir keppir í Tékklandi 2011 Helga Margrét Þorsteinsdóttir (fædd 15. nóvember 1991) er sjöþrautarkona og Íslandsmethafi í sjöþraut kvenna. Núverandi met hennar eru 4.298 stig. Hún á fjölda meta í yngri flokkum frjálsíþrótta. Sósíalíski vinstriflokkurinn. Sósjalíski Vinstriflokkurinn (SF) er norskur stjórnmálaflokkur sem samkvæmt stefnuskrá sinni er "Sósjalískur, umhverfissinnaður, friðarsinnaður og gegn kynþáttahyggju. Flokkurinn var stofnaður 1975, en á rætur í Sósjalíska Fólkaflokknum sem var stofnaður 1961. Bakgrunnur þes að SF og seinna SV var sett á laggirnar var óánægja með hversu sósjaldemókrataflokkurinn var vinsamlegur vesturlöndum undir kalda stríðinu. Frá 1960 til 1980 einkendist utanríkisstefna flokksins af sambandi við austantjaldslöndin og mótstöðu við NATO aðild Noregs. Undir formannstíð Erik Solheim og Kristin Halvorsen síðan 1987, hevur flokkurinn lagt meiri áherslu á innanríkismál. Flokkurinn kom nærri því að klofna þegar flokksforystan og stórþingsmeðlimirnir studdu hernaðaraðgerðir gegn Júgóslavíu 1999. Frá 2005 hefur flokkurinn stutt ríkisstjórnina sem er leidd af Sósjaldemókrataflokknum og Jens Stoltenberg. I alþingiskosningum 2009 fekk flokkurinn 6,2% atkvæða sem gaf 11 sæti í stórþinginu. Í sveitarstjórnarkosningum 2011 fekk flokkurin 4,1 % atkvæða. Kristín Halvorsen hefur verið formaður flokksins frá 1997. Flokkurin telst til vinstri við Verkamannaflokkinn en til hægri við Rødt og NKP. Livorno. Livorno er hafnarborg á vesturströnd Ítalíu og er í Toskanahéraði. Hún er höfuðstaður Livorno-sýslu og árið 2010 voru íbúar hennar um 161.000. Saga. Livorno var skilgreind sem „fyrirmyndarbær“ á ítalska endurreisnartímanum. Sögu borgarinnar má skynja í gegnum uppbyggingu hverfa hennar, síki sem um þau liggja, borgarmúra og bugðótt stræti, sem marka borgarhluta Livorno, frá turnum Medici-hafnarinnar og borgarvirkjum að miðbænum. Borgin var hönnuð af arkitekinum Bernardo Buontalenti í lok 16. aldar. Í lok 17. aldar hafði borgin þanist út og kallaði það á miklar breytingar. Nálægt varnarvirkjum gömlu borgarmúranna voru byggð ný borgarvirki ásamt borgarmúrum og síkjum. Eftir að árframburður fyllti höfnina í Pisa svo að sú borg hafði ekki lengur aðgang að sjó varð Livorno aðalhafnarborg Toskanahéraðs. Í lok ársins 1580 lýsti Ferdínand 1. de' Medici, stórhertogi af Toskana, Livorno fríhöfn (Porto Franco). Livorno-lögin, "Leggi Livornine", voru lög sem giltu frá 1590 til 1603. Þessi lög efldu verslunarviðskipti, trúfrelsi og veittu hæli ýmsum sem ekki áttu annars staðar griðastað. Vegna þessa laga varð Livorno alþjóðaborg og ein af mikilvægustu hafnarborgum á öllu Miðjarðarhafssvæðinu. Margir útlendingar fluttu til Livorno; Frakkar, Hollendingar, Englendingar, Grikkir og Gyðingar, flestir komnir til að stunda þar viðskipti. Miklu síðar eða á 18. öld fluttu múslimskir Spánverjar sem neyddir höfðu verið til að taka kristni (Moriscos) til Livorno. Þann 19. mars 1606 sæmdi Ferdínand 1. Livorno formlega borgarnafnbót. Í Napóleonsstyrjöldunum voru viðskipti við Breta bönnuð og hafði það bann mjög slæm áhrif á efnahag borgarinnar. Þegar Livorno varð hluti af hinu nýja konungsríki Ítalíu árið 1868 missti hún stöðu sína sem fríhafnarborg og mikilvægi hennar minnkaði. Livorno varð fyrir miklum skaða í seinni heimsstyrjöldinni, þar á meðal voru miklar skemmdir á mörgum söglegum minjum, svo sem dómkirkjunni og samkunduhúsi gyðinga og er borgin þess vegna frekar nútímaleg miðað við aðrar borgir á Ítalíu. Þar sem dregið hefur úr mikilvægi borgarinnar sem hafnarborgar hefur efnahagur farið versnandi og er Livorno ein fátækasta borg Norður-Ítalíu í dag. Athyglisverðir staðir. Mikið af upprunalegu borgarskipulagi og byggingarlist heldur sér í svokölluðu Feneyjahverfi í Livorno, svo sem brýr, þröngar götur, hús aðalsmanna og þétt net síkja, sem eitt sinn tengdu vöruskemmur við höfnina. Á blómatíma Livorno á 18. og 19. öld var hún lifandi borg með nýklassískum byggingum, almenningsgörðum, mörkuðum, merkum söfnum og menningarstofnunum og einbýlishúsum með útsýni að hafi. Í Mascagnano-safninu er að finna skjöl og handrit að óperum hins mikla tónskálds Pietro Mascagni. Á hverju ári eru nokkrar af óperum hans fluttar á tónlistarhátíð sem skipulögð er af leikhúsi borgarinnar. Einnig er göngustígur við sjóinn nefndur eftir Pietro Mascagni. Í hæðunum við Livorno er helgidómurinn Montenero, sem tileinkaður er Maríu mey, sem er verndardýrlingur Toskanahéraðs. Þessi staður er einn af föstum áfangastöðum pílagríma. Aðliggjandi safn geymir listaverk sem eru aðallega tengd kraftaverkum á sjó. Einn áhugaverðasti minnisvarði í Livorno, Monumento dei Quattro Mori (minnisvarði fjögurra Mára), er tileinkaður stórhertoganum Ferdínand 1. de´Medici og sigur hans á sjóræningjum frá Barbaríinu. Á torginu Piazza della Repubblica er að finna tvær styttur af merkum ítölskum stjórnmálamönnum. Torgið er einnig brú en undir því liggur stórt síki. Annað merkilegur minnisvarði er borgarvirkið Fortezza Nuova sem byggt er úr rauðum múrsteinum á tímum Medici-ættarinnar. Borgarvirkið var byggt til verjast sjóræningjum. Þrjú virkisútskot þess eru nefnd „Capitana“, „Ampolletta“ og „Canaviglia“. Upprunalega virkið var byggt fyrir endurreisnartímann. Í lok 16. aldar var annað virki reist. Í Livorno er foringjaskóli ítalska sjóhersins og þar eru einnig smærri háskólar. Eitt og annað. Séra Ólafur Egilsson, sem rænt var í Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu en sendur til Danmerkur að afla lausnargjalds fyrir herteknu Íslendingana, kom til Livorno, sem hann kallar Legor, 11. október 1627 og var það fyrsti viðkomustaður hans frá því að hann yfirgaf Barbaríið. Hann dvaldist þar í nokkra daga og lýsir ýmsu í Reisubók sinni, meðal annars virkinu við höfnina og síkjunum, glæsilegum klæðaburði íbúanna og fleiru. Hann sá líka Monumento dei Quattro Mori, aðeins ári eftir að lokið var við að reisa minnismerkið, og segir um það: „Þessu framar sá eg þar það meistaraverk, sem eg sá hvergi slíkt, hvað að voru iiij (4) mannsmyndir steyptar af eiri, sem að svo sátu við einn stólpa af hvítum marmarasteini. Þær myndir voru í fjötrum af eiri. Stólpinn var ferskeyttur, og sat sinn við hvern flöt, og sáu því nær út sem lifandi menn, eftirmynd eins Tyrkja og þriggja hans sona, hverir eð kristninni höfðu stóran skaða gert, þeir er voru að vexti sem risar, en sá hertogi sem þann stað byggði, vann þá í stríði, og lét svo steypa þeirra myndir til minningar, og hans mynd stendur upp yfir þeim með stóru sverði í hendi.“ Kóraþang. Kóralþang er kalkkenndur rauðþörungur. Það er oftast 3 til 8 cm langt en getur orðið 12 cm. Plantan vex upp af skorpulaga festu sem hefur óreglulega lögun og getur verið allt að 7 cm í þvermál. Armenskt dram. Armenskt dram er gjaldmiðill ríkisins Armeníu frá 1993 og leysti af hólmi rúbluna, sem var gjaldmiðill á Sovéttímanum. Í einu drami voru 100 "luma" en vegna óðaverðbólgu er sú eining ekki notuð lengur. Orðið dram þýðir peningar og er skylt gríska myntheitinu "drakma" og arabíska heitinu "dírham". Soluna Samay. Soluna Samay Kettel (f. 27. ágúst 1990) er dönsk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Danmerkur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2012 með laginu „Should've Known Better“. Hún náðu 23. sæti af 26, með 21 stig. Reisubók Ólafs Egilssonar. Reisubók séra Ólafs Egilssonar var skrifuð af séra Ólafi Egilssyni, presti í Ofanleitissókn í Vestmannaeyjum. Ólafur var numinn af landi brott og fluttur til Alsír í Tyrkjaráninu þann 16. júlí 1627 ásamt seinni eiginkonu sinni, Ástu Þorsteinsdóttur, börnum þeirra tveimur (það þriðja fæddist á leiðinni til Alsír) og hátt á fjórða hundrað annarra Íslendinga. Séra Ólafur kom aftur heim til Íslands 6. júlí 1628 og hóf fljótlega að skrifa ferðasöguna meðan þessi lífreynsla var enn í fersku minni. Þegar hann kom heim var búið að vígja annan prest í Ofanleitissókn svo hann fékk ekki embætti þar aftur fyrr en 1636. Þar þjónaði hann til dauðadags 1639. Ásta kom heim árið 1637 ásamt fleiri löndum sínum. Útsýni frá Ofanleiti í Vestmannaeyjum að vetri. Bókin. Ólafur var 64 ára gamall þegar hann hóf að skrifa söguna árið 1628. Í bókinni rekur Ólafur ferðasöguna frá því fyrst sást til Tyrkjanna við Vestmannaeyjar þar til hann kom aftur heim til Íslands ári síðar. Þá hafði hann verið marga mánuði á ferðalagi um Evrópu en hann var sendur á fund Danakonungs til að freista þess að fá Íslendingana leysta úr ánauðinni. Það gekk ekki og frá Danmörku kom hann heim til Íslands. Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrifa bók um líf og lífshætti fólks í „barbaríinu“ en svo voru lönd íslams í Norður-Afríku kölluð. Hann var allt í einu kominn inn í nýstárlegan heim sem var gjörólíkur öllu sem hann hafði áður kynnst. Hann sá til dæmis glerglugga í Genúa í fyrsta sinn á ævinni. Veðráttan, umhverfið, maturinn, fólkið, tungumálið og klæðnaðurinn, allt var nýtt fyrir honum og allt vakti þetta athygli hans og hann tók vel eftir öllum hlutum og þykir lýsa þeim vel í bókinni. Einnig eru staðhættir í bókinni álitnir vera nokkuð réttir en þó var eitthvað um að fólk reyndi að villa um fyrir honum og gabba hann. Meðan Ólafur skrifaði bókina voru kona hans og börnin þrjú enn í ánauðinni. Íbúarnir í Alsír voru múslímar og Ólafur var hræddur um að ástvinir hans létu turnast, eins og það var kallað að skipta um trú. Því má gera ráð fyrir að Ólafur hafi hugsað allt annað en hlýtt til illvirkjanna meðan á skrifum bókarinnar stóð en það vekur athygli að í bókinni lætur hann þá njóta sannmælis. Frásögn hans þykir gædd ótrúlega hlutlægum blæ, er ýkjulaus og án ofstækis. Hann talar ekki bara um það slæma sem „Tyrkirnir“ gerðu heldur getur hann líka þess sem þeir gerðu vel við fólkið og segir til dæmis frá því að þegar yngsti sonur hans fæddist á hafi úti á leiðinni til Alsír þá hafi þeir gefið barninu gamlar skyrtur utan um sig. Útgáfan. Fjórir Márar í borginni Livorno á Ítalíu (Monumento dei Quattro Mori). Í bókinni eru 27 kaflar og flestir þeirra eru mjög stuttir. Margir þeirra enda á orðunum: „Vér erum drottins“ og í þeim felst það trúnaðartraust og sú vissa að allir kristnir menn séu undir handleiðslu drottins. Myndin hér til hliðar er af forsíðu bókarinnar á dönsku en talið er að Ólafur hafi skrifað bókina á dönsku. Árið 1852 gáfu þeir „Hallvarður Hængsson“ og „Hrærekur Hrólfsson“ (en á bak við þessi dulnefni leyndust þeir Gísli Magnússon kennari og Magnús Grímsson prestur og þjóðsagnasafnari) út Reisubókina undir titlinum: árið 1627. Þessi útgáfa var gerð eftir handriti frá 19. öld. Seinna gaf Sögufélagið Reisubókina út, eftir að hafa lagt í mikla vinnu við handritasamanburð í heimildasafni um Tyrkjaránið á Íslandi 1627 og kom bókin út á árunum 1906 – 1909. Sú bók sem getið er í heimildaskrá þessarar greinar var prentuð eftir þeirri útgáfu. Sjálft handritið er í Thottssafni í Kaupmannahöfn, nr 514 en upprunalega handritið er glatað. Í útgáfu Reisubókarinnar frá árinu 1969 sem Almenna bókafélagið gaf út eru auk frásagnar Ólafs skrif Kláusar Eyjólfssonar lögréttumanns um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum. Ennfremur eru tvö bréf sem skrifuð voru af íslenskum föngum í Alsír og voru send heim til Íslands og hafa varðveist. Annars vegar bréf Jóns Jónssonar frá Grindavík sem hann skrifaði til foreldra sinna árið 1630 og hins vegar bréf Guttorms Hallssonar sent til Íslands 1631. Síðast í bókinni er svo stutt umfjöllun um þau teikn sem höfundur telur sig vita að hafi sést dagana og mánuðina áður en Tyrkjaránið var framið. Samtíminn. Bókin byrjar á löngum inngangi þar sem fjallað er m.a. um ásandið í heiminum þegar Tyrkjaránið átti sér stað. Þar er fjallað um samskipti Íslendinga og Dana áratugina á undan Tyrkjaráninu en einokunarverslun Dana hafði verið í gildi frá árinu 1602. Þess er einnig getið að Guðbrandsbiblía hafi komið út á prenti um 20 árum eftir að séra Ólafur fæddist eða árið 1584. Siðaskiptin voru nokkru áður eða milli 1540 og 1550. Tyrkjaránið gerist á Lærdómsöld, þ.e. á milli siðaskiptanna og upplýsingaraldar og á þessum tíma ruddi fornmenntastefnan sér til rúms en með henni fór fólk að hafa meiri áhuga á að skrá atburði líðandi stundar í annála og fyrsta Íslandssagan var skrifuð um þetta leyti. Sjóræningjar frá Barbaríinu. a>, sjóræningi og aðmírall í Ottómanaveldinu. Sjóræningjar frá Barbaríinu, stundum kallaðir Ottómanaræningjar "(Corsairs)", voru sjóræningjar og strandhöggsmenn sem höfðu bækistöðvar í Norður-Afríku, en þó aðallega í hafnarbæjum í Túnis, Trípólí og Alsír. Þetta svæði var þekkt í Evrópu sem Sjóræningjaströndin eða Barbaríið, en íbúar svæðisins voru Berbar. Athafnasvæði. Sjórán sjóræningja frá Barbaríinu náðu allt til Miðjarðarhafsins, suður meðfram Atlantshafsströnd Vestur-Afríku, um Atlantshafið allt að Suður-Ameríku og norður til Íslands. Athafnasvæði þeirra var þó fyrst og fremst í vesturhluta Miðjarðarhafsins. Þeir réðust þar á og hertóku skip og gerðu einnig strandhðgg í þorpum og bæjum við strendur Evrópu, aðallega á Ítalíu, í Frakklandi, Spáni og Portúgal en þó líka í Englandi, Skotlandi, Hollandi, Írlandi og allt til Íslands. Aðaltilgangur ránsferðanna var að útvega kristna þræla fyrir íslamska markaði í Norður-Afríku og Miðausturlöndum. Þó að slíkar ránsferðir hefðu viðgengst frá því að skömmu eftir að múslimar lögðu norðurströnd Afríku undir sig er heitið Barbaríusjóræningi yfirleitt haft um ræningja frá 16. öldinni og upp úr. Þá fjölgaði ránunum og svæðið sem þau náðu yfir stækkaði og Alsír, Túnis og Trípólí komust undir Ottómanaveldið, annaðhvort sem landsvæði undir beinni stjórn þess eða sjálfstjórnarsvæði þekkt sem Barbaríið. Svipaðar ránsferðir voru farnar frá Bou Regreg, Salé og öðrum höfnum í Marokkó en Marokkó var ekki undir stjórn Ottómanaveldisins og varð ekki eitt af sjóræningjaríkjunum. Ræningjarnir réðust á og hertóku þúsundir skipa og gerðu víða strandhögg, svo að mörg strandhéruð á Spáni og Ítalíu voru næstum því í auðn allt fram á 19. öld. Frá sextándu öld til þeirrar nítjándu er talið að sjóræningjarnir hafi hertekið á bilinu 800.000 til 1.250.000 manns og selt í þrældóm. Sumir ræningjanna voru evrópskir útlagar eins og til dæmis John Ward, Zymen Danseker og Henry Mainwaring. Hayreddin Barbarossa og Oruç Reis, betur þekktir sem Barbarossa-bræðurnir, sem tóku að sér stjórn Alsír fyrir hönd Ottómanaveldisins snemma á 16. öld urðu líka frægir ræningjar. Evrópsku sjóræningjarnir komu með nýjustu tæknina í búnaði og skipasmíði til Barbarísins um 1600, sem gerði ræningjunum kleift að færa út kvíarnar allt til Atlantshafsins. Sjóránin náðu hámarki á fyrri helmingi 17. aldar. Sagan. Sjórán múslima í Miðjarðarhafslöndum höfðu viðgengist síðan á 9. öld, á tímum hins skammlífa furstadæmis á Krít. Þrátt fyrir andúð í garð kristinna manna vegna krossferðanna voru sjóránin þó fremur fátíð framan af. Á 13. og 14. öld voru það frekar kristnir sjóræningjar, einkum frá Katalóníu, sem voru stöðug ógn fyrir kaupmenn. Það var ekki fyrr en seint á 14. öld sem sjóræningjar frá Túnis þóttu næg ógn til að Frakkar og Genúumenn réðust á þá í Mahdia árið 1390 og hefur það verið kallað sem sjóræningjakrossferðin. Márar sem hraktir höfðu verið frá Spáni þegar og sjóræningjar frá öðrum löndum Norður-Afríku komu svo til Túnis og bættust við tölu sjóræningjanna þar en það var ekki fyrr en Ottómanaveldið stækkaði og kaparinn Kemal Reis aðmíráll kom til Barbarísins árið 1487 sem sjóræningjarnir þar urðu raunveruleg ógn við siglingar kristinna manna. 16. öldin. Spænsku márarnir og ævintýragjarnir múslimar frá Mið-Austurlöndum, en þeirra þekktastir voru bræðurnir Hızır og Oruç frá borginni Mitylene, juku tíðni ránsferðanna í kringum aldamótin 1500. Spánverjar brugðust við með því að ráðast á og vinna borgirnar Oran, Algeirsborg og Túnis. En eftir að Oruç var drepinn í orrustu við Spánverja árið 1518, biðlaði bróðir hans, Hızır, til Selims 1., sem var soldán Ottómanaveldisins um að senda honum hersveitir sem hann gerði. Árið 1529 rak Hızır Spánverjana frá lítilli, víggirtri klettaeyju fyrir utan Algeirsborg, þar sem þeir höfðu komið sér fyrir, og lagði borgina og nágrenni hennar undir Ottómanaveldið. Frá 1518 allt til dauða Uluch Ali árið 1587 var Algeirsborg aðalaðsetur lénsmanna Ottómanaveldisins í Norður-Afríku, sem réðu yfir Trípólí, Túnis og Algeirsborg. Frá 1587 til 1659 var svæðinu stýrt af útsendurum Ottómanaveldisins, eða pasja eins og þeir voru kallaðir, sem voru sendir frá Konstantínópel til að stjórna í þrjú ár. Árið 1659 gerði herliðið í Algeirsborg uppreisn og pasjarnir misstu öll völd. Eftir það töldust borgirnar að vísu til Ottómanaveldisins en voru í raun lýðveldi með herstjórn, sem völdu sér eigin leiðtoga og lifðu af ránsfeng sem hertekinn var frá Spánverjum og Portúgölum. Á fyrra tímabilinu (1518-1587) voru herrarnir aðmírálar soldánsins, þeir stjórnuðu stórum flotum og stunduðu hernaðarlegar aðgerðir í pólitískum tilgangi. Þeir eltu uppi þræla og aðgerðir þeirra voru grimmar. Eftir 1587 voru hlutverk arftaka þeirra að ræna og rupla, á landi og á sjó. Sjóaðgerðirnar voru stundaðar af kafteinum eða (reises) sem mynduðu hópa eða jafnvel hlutafélög. Fley þeirra voru útbúin af fjárfestum og stjórnuð af þessum reises. Tíu prósent af ágóðanum voru greidd til pashans eða arftaka hans, sem báru titlana agha, dey eða bey. Árið 1544 hertók Hayreddin eyjuna Ischia ásamt 4.000 föngum og seldi 9.000 íbúa Lipari í þrældóm, sem var nánast allir íbúar eyjunnar. Árið 1551 seldi Turgut Reis alla íbúa maltnesku eyjarinnar Gozo í þrældóm til Líbíu, þeir voru um 5-6.000 manns. Árið 1554 rændu sjóræningjarnir borgina Vieste á suður Ítalíu og tóku um 7.000 þræla. Árið 1555 rændi Turgut Reis Bastíu í Korsíku og tók um 6.000 þræla. Árið 1558 náðu sjóræningjarnir borginni Ciutadella (Minorca) og eyðilögðu hana, þeir slátruðu íbúunum og tóku 3.000 af þeim sem eftir lifðu til Istanbúl og seldu sem þræla. Árið 1563 lenti Turgut Reis á ströndum Granada á Spáni og hertók landnemabyggðirnar á svæðinu eins og Almuñécar ásamt 4.000 föngum. Sjóræningjarnir réðust ítrekað á Baleareyjar og sem svar þá risu upp margir varðturnar meðfram ströndunum ásamt víggirtum kirkjum. Ógning var svo mikil að eyjan Formentera varð óbyggð. Jafnvel á þessu stigi reyndu Evrópsku ríkin að berjast á móti. Minnismerki Livorno sem kallast Quattro Mori (fjórir márar) fagnar sigrum á sjóræningjum 16. aldarinnar af riddurum Möltu og reglu heilags Stefáns, en stórhertoginn, Ferdinando I de' Medici var stórmeistari innan þeirrar reglu. Annað svar var smíði upprunalegu freigátanna sem voru léttar, hraðskreiðar og auðveldar að stýra. Þær voru hannaðar til að ná sjóræningjunum á sjó sem voru að flýgja með góssið sitt. Aðrar varnaraðferðir voru meðal annars eftirlitsturnar á ströndum til að vara fólk við og láta þau vita þegar þau yrðu að koma sér fyrir á víggirtum svæðum ásamt því að kalla saman lið til að berjast á móti sjóræningjunum. Þó var það sérstaklega erfitt að safna liði til að berjast þar sem sjóræningjarnir náðu oft að koma fólki á óvart og ráðast án viðvörunar inn á strendur Evrópska Miðjarðarhafsins vegna lengd strandanna og auðvelds aðgengis frá búðum sjóræningjanna frá Norður- Afríku. Svo fóru sjóræningjarnir einnig mjög varlega í að undirbúa ránsferðir sínar. 17. öldin. Á fyrri hluta 17. aldar var árás sjóræningja frá Barbaríinu (e. Barbary) í hámarki. Þetta voru mest hollenskir „opinberir“ sjóræningjar (það er kallað hér opinberir sjóræningjar þegar stjórnvöld eru með í spilinu), einkum Zymen Danseker (Simon de Danser), sem notuðu Barbaríhöfn sem bækistöðvar til að ráðast á spænsku skipin á meðan Hollendingar gerðu uppreisn. Þeir unnu með ræningjum sem voru þarna fyrir á Barbaríhafnarsvæðinu og kynntu þeim nýjan hollenskan siglingarútbúnað, sem gerði þeim kleift að mæta Atlantshafinu. Sumir þessara hollensku opinberu sjóræningja játuðu Íslam og settust endanlega að í Norður-Afríku. Má þar nefna Süleyman Reis, "De Veenboer", sem varð flotaforingi í sjóræningjaflota í Alsír 1617 og varðbátsstjóri hans Murat Reis, en hans fæðingarnafn var Jan Janszoon. Báðir unnu fyrir alræmdan, hollenskan opinberan sjóræningja Zymen Danseker. Möltubúar voru búnir að fá nóg og gefin var út fyrirskipun þaðan árið 1607 um árás með fjörutíu og fimm orustuskip til að handtaka og ræna borgina Bona í Alsír. Þessum sigri er minnst með röð veggmynda sem Bernardino Poccetti málaði. Árásir þessara „opinberu“ Barbarí sjóræningja voru algengar í suðurhluta Portúgal, suður og austur Spáni, Baleareyjum, Kanaríeyjum, Sardiníu og Korsíku, Elbu, Ítalíuskaganum, Sikiley og Möltu. Þeir komu einnig á Atlantshaf norðvesturströnd Iberian Peninsula. Árið 1617 gerðu afrískir sjóræningjar árás á svæðinu þegar þeir eyddu og herjuðu á Bouzas, Cangas (þrjú sveitarfélög á Spáni) og kirkjur í Moana og Darbo. Árásir Barbarí sjóræningjanna teygðu sig lengra og var m.a. árás háð á Íslandi árið 1627. Jan Janszoon, (Murat Reis yngri) er sagður hafa tekið 400 fanga, 242 af þeim herleiddir og voru síðan seldir í þrældóm á Barbaríströndina. Þeir tóku aðeins ungt fólk og þá sem voru í góðu líkamlegu ástandi. Gamla fólkið safnaðist saman í kirkju sem þeir brenndu og allir þeir sem sýndu mótspyrnu voru drepnir. Meðal þessara fanga var Ólafur Egilsson, sem var leystur úr haldi næsta ár 1628 og fór aftur til Íslands eftir að hafa komið við í Danmörku til að reyna að fá konu sína leysta út og skrifaði hann frásögn um reynslu sína. Írland var fyrir svipuðum árásum og í júní 1631 kom Murat Reis með sjóræningja frá Alsír og vopnuðum liðsauka frá Tyrkjaveldi og strunsaði á land við litla höfn í þorpinu Baltimore, County Cork. Þeir tóku nánast alla þorpsbúa í þrælahald og fóru með til Norður-Afríku. Fangarnir urðu fyrir misslæmri meðferð - sumir lifðu daginn af hlekkjaðir við árarnar sem skipsþrælar, á meðan aðrir eyddu árum saman í einangrun eða innan veggja hallar sóldáns. Aðeins tveir af þessum herteknu sáu Írland aftur. Mjög margir herleiddir þurftu að sæta fangavistar í Alsír eða meira en 20.000. Þeim ríku var oft hægt að bjarga út með lausnargjaldi, en hinir voru dæmdir í þrældóm. Húsbóndar þeirra leyfðu þeim stundum að fá frelsi ef þeir játuðu íslam. Margt af þessu fólki var með góða þjóðfélagsstöðu, ekki aðeins Ítalir eða Spánverjar, einnig þýskir eða enskir ferðamenn í suðri, sem voru herleiddir. Þó að æðstu fórnarlömb væru íbúar frá ströndum Sikileyjar, Napólí og Spánar, voru allir kaupmenn þeirra þjóða sem ekki greiddu skatt fyrir friðhelgi eða herafla Barbaríríkis til að láta þá vera, líkleg til að vera herteknir á sjónum. Mörg lönd héldu eftir háum upphæðum í þeim tilgangi að leysa fanga úr haldi. Evrópsk yfirvöld aðstoðuðu við áframhaldandi sjóræningjastarfsemi. Frakkland hvatti sjóræningja gegn Spáni og síðar studdu Bretland og Holland þá gegn Frakklandi. Á seinni hluta 17. aldar var meirihluti evrópska flotaveldisins það burðugt að geta rekið þá burtu og fengið Barbaríríkin til að gera friðarsamning. Hins vegar var mikill viðskipta áhugi þessara ríkja vegna ágóða af árásum á keppinauta sína og þar af leiðandi lítill áhugi á að hætta sjóræningjastarfsemi. Þau kristnu ríki sem náðu bestum tökum á að fást við ógnun sjóræningja var England. Frá 1630 hafði England undirritað friðarsamninga við Barbaríríkin um ýmis málefni, en ávallt voru samningarnir brotnir sem leiddi til harðari átaka. Englendingar ásamt öðrum erlendum skipum sátu fyrir sjóræningjunum til að koma í veg fyrir árás. Enska flotanum óx hins vegar enn fiskur um hrygg og þessi viðvarandi starfsemi gegn sjóræningjum reyndist sífellt dýrari fyrir Barbaríríkin. Á valdatíma Charles II fóru Englendingar í marga leiðangrar og unnu sigur á herflota þeirra og árásir á heimahafnir þeirra sem batt endi á Barbaríógnina við ensku skipin. Royal Navy Squadron sem var undir stjórn Sir John Narborough samdi árið 1675 varanlegan frið við Túnis, eftir að hafa varpað sprengjum á borgina til að telja þá á að láta undan Tripolí. Friður komst þó á árið 1676. Algeirsborg sem var öflugust af Barbaríríkjunum fór aftur í stríð næsta ár og braut sáttmálann sem var gerður árið 1671. Algeirsborg neyddist til að sættast aftur vegna sigra enska flotans undir stjórn Arthur Herbert árið 1682 og átti sá samningur að vera til ársins 1816. Frakkland sem hafði þá nýlega komið fram sem leiðandi sjóliðsflotans, náði sambærilegum árangri skömmu síðar með árásum á Alsír árið 1682, 1683 og 1688 í að tryggja varanlegan frið og var Tripoli á svipaðann hátt neytt til samninga árið 1686. Tengsl sjóræningja við Snæfellsnes. a> hefur skartað sínu fegursta fyrir sjóræningjana sem höfðust við Undir Jökli. Þó Tyrkjaránið sé þekktasta ránið sem framið var af sjóræningjum hér á landi voru fleiri hópar en Tyrkir sem gerðu strandhögg á Íslandi. Sjórán voru mjög algeng við Atlantshaf á 16. og 17. öld eins og áður hefur komið fram. Enskir menn gátu keypt leyfisbréf hjá stjórnvöldum sem veittu þeim leyfi til að ráðast á spænsk skip en þetta var talin góð leið til að valda Spánverjum tjóni. Þeir sem höfðu slíkt leyfi voru kallaðir fríbýttarar eða kaparar á íslensku. Enskir sjómenn höfðu um árabil stundað veiðar við Ísland og öðlast þar mikla reynslu og færni í siglingum. Englendingar urðu þekktir sem sjóræningjaþjóðin. Sumir þeirra stunduðu veiðar og viðskipti hér á landi. Þeir stunduðu einnig kaupsiglingar til meginlandsins og við Miðjarðarhaf. Margir þrautreyndir sjómenn sem siglt höfðu hingað til lands voru í enska flotanum árið 1588 þegar hann sigraði þann spænska í mikilli sjóorrustu í Ermasundi. Þeir voru í senn sjómenn við Ísland, hermenn og sjóræningjar. Víða urðu átök hér á landi á milli Englendinga og Dana s.s. í Vestmannaeyjum. Leiða má að því líkum að þeir Englendingar sem stunduðu sjómennsku og verslun á Íslandi hafi ekki allir verið miklir friðsemdarmenn og vanir átökum. Þrátt fyrir það var ekki mikið um árekstra á milli Englendinga og Íslendinga. Sá atburður varð þó árið 1605 að í brýnu sló á milli þriggja enskra manna og Íslendings. Fór svo að Íslendingurinn varð einum Englendinganna að bana. Tilræðið dæmdist vera nauðvörn en Englendingarnir höfðu áreitt Íslendinginn í heilan dag svo að upp úr sauð. Þetta gerðist á Hellissandi. Í lok 16. aldar var verslun Englendinga við Ísland orðin mjög lítil eftir erjur við Þjóðverja og Dani. Um 1560 voru ensk verslunarskip horfin frá landinu en fiskiskip héldu áfram komu sinni og á sumum þeirra var einnig verslað. Englendingar héldu sig fjarri kaupstöðum þar sem Danir réðu lögum og lofum. Englendingar komu sér upp búðum annars staðar í landi og virðast aðalbækistöðvarnar hafa verið í Beruvík/Bervík, yst á Snæfellsnesi. Beruvík er nú innan marka Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Endalok. Á seinni hluta sautjándu aldarinnar dró úr sjóránum, þar sem öflug evrópsk sjóveldi beittu í auknum mæli flota sínum til að halda frið og þvinga sjóræningjana til að að hætta að ráðast á kaupskip. Samt sem áður héldu skip og strendur kristinna ríkja sem ekki nutu slíkrar verndar áfram að verða fyrir sjóránum þar til snemma á 19. öldinni. Í framhaldi af lokum Napóleonsstyrjaldanna og Vínarfundinum á árunum 1814-1815, sammæltust Evrópuríkin um nauðsyn þess að kveða algjörlega niður sjóránin. Upp úr því hvarf ógnin að mestu þótt einstök tilvik héldu áfram að eiga sér stað allt þar til Frakkar lögðu Alsír undir sig árið 1830. Reykjavíkurmótið í knattspyrnu. Reykjavíkurmótið í knattspyrnu er knattspyrnukeppni í karla- og kvennaflokki milli félagsliðanna í Reykjavík á vegum Knattspyrnuráðs Reykjavíkur. Stofnað var til mótsins af Knattspyrnufélagi Reykjavíkur árið 1915. Vegur þess hefur minnkað mikið í gegnum tíðina og er það í dag fyrst og fremst æfingarmót sem leikið er innanhúss í byrjun árs. KR-ingar hafa oftast farið með sigur af hólmi í karlaflokki (38 sinnum) en ríkjandi meistarar eru Leiknismenn í karlaflokki en Valsstúlkur í kvennaflokki. Saga. Knattspyrnufélagið Fram stofnaði til Fyrsta Íslandsmótsins í knattspyrnu árið 1912, keypti bikar og hirti ágóðann. Þetta mæltist illa fyrir hjá KR-ingum sem sniðgengu Íslandsmótið í mótmælaskyni árin 1913 og 1914 vegna deilna um þessi mál og fleiri. Sú málamiðlun náðist að KR-ingar efndu til eigin knattspyrnukeppni. Þeir létu útbúa verðlaunagripinn "Reykjavíkurhornið" og var keppt um hann í fyrsta sinn árið 1915. Lauk keppninni með sigri Fram. Eftir nokkur ár tók "Knattspyrnuráð Reykjavíkur" yfir rekstur allra mótanna og urðu þau þá sameiginlegt verkefni reykvískra knattspyrnumanna í stað þess að vera í einkaeigu einstakra félaga. Þar sem landsbyggðarlið tóku sjaldnast þátt í Íslandsmótinu, voru yfirleitt sömu þátttökulið í báðum mótunum, fóru þau bæði fram á Íþróttavellinum á Melunum og síðar Melavellinum og var stutt á milli þeirra. Ekki er því að undra þótt mótin hafi verið í álíka miklum metum hjá knattspyrnuáhugamönnum og umföllun um þau í dagblöðum svipuð. Með tímanum styrktist þó staða Íslandsmótsins gagnvart Reykjavíkurmótinu. Árið 1935 var t.a.m. felld niður keppni í mótinu vegna þess að knattspyrnumenn voru uppteknir við önnur verkefni. Tilkoma Skagamanna sem stórliðs í íslenskri knattspyrnu um og eftir 1950 varð enn frekar til að minnka veg Reykjavíkurmótsins. Tilkoma bikarkeppni KSÍ árið 1960 og vígsla Laugardalsvallar árið 1957 varð enn frekar til að skerpa skilin, þar sem leikir Íslandsmótsins fluttust á Laugardalsvöll en Reykjavíkurmótið hélt áfram á mölinni. Með tilkomu gervigrasvallarins í Laugardal árið 1984 færðust leikir Reykjavíkurmótsins þangað af Melavellinum. Eftir að Egilshöll var tekin í notkun árið 2002 hafa leikir Reykjavíkurmótsins farið fram þar. Fyrir vikið hefur mótið færst enn framar á árið og fer nú að mestu fram í janúar og febrúar, áður en Deildarbikarkeppni KSÍ hefst. Titlar eftir félögum. Þessi lið hafa unnið Reykjavíkurmót karla í knattspyrnu frá 1915 til 2012. Max Martini. Max Martini (fæddur Maximilian Carlo Martini, 11. desember 1969) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Saving Private Ryan, Level 9, The Great Raid og The Unit. Einkalíf. Martini fæddist í Woodstock, New York-fylkinu en ólst upp í Bandaríkjunum, Kanada og Ítalíu. Martini er með ríkisborgararétt í öllum þremur löndunum. Martini byrjaði leiklistarferil sinn í "Neighborhood Playhouse" ásamt því að nema leiklist við Michael Howard Studio í Manhattan, New York. Martini tók sér hlé frá leiklistinni og stundaði nám við "School of Visual Arts" í Manhattan, þaðan sem hann útskrifaðist með BFA í málun og höggmyndalist. Martini er meðstofnandi að "Theatre North Collaborative" í New York, sem er leikfélag og var stofnað af bandarískum og kanadískum leikurum. Hlutverk leikfélagsins er að sýna ný leikverk frá Bandaríkjunum og Kanada. Martini giftist Kim Restell árið 1997 og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Martini var árið 1981 í "Bret Maverick". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "High Incident", "Nash Bridges", "Harsh Realm", "Taken", Without a Trace, 24, Burn Notice, Lie to Me, Hawaii Five-0 og. Árið 2000 þá var honum boðið hlutverk í "Level 9" sem Jack Wiley, sem hann lék til ársins 2001. Martini lék eitt af aðalhlutverkunum í The Unit sem Mack Gerhardt frá 2006-2009. Árið 2011 þá var hann með gestahlutverk í nýja dramaþættinum "Revenge" sem Frank Stevens. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Martini var árið 1988 í "Paramedics". Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Contact", "Cement", Saving Private Ryan á móti Tom Hanks og Matt Damon, "Desert Son" og "The Great Raid". Leikstjórn og handritshöfundur. Martini leikstýrði kvikmyndinni "Desert Son" sem kom út árið 1999 og skrifaði hann einnig handritið að myndinni. Tenglar. Martini, Max Páll Baldvin Baldvinsson. Páll Baldvin Baldvinsson er íslenskur blaðamaður, bókmenntafræðingur, gagnrýnandi og fyrrum ritstjóri DV. Páll Baldvin er menntaður í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og leikhúsfræði frá Goldsmith Collega í London. Hann hefur verið með menningarumfjöllun í fjölmiðlum frá 1969 og starfað sem gagnrýnandi með hléum hjá Ríkisútvarpinu, Stöð 2, DV, Þjóðviljanum, Helgarblaðinu, Fréttablaðinu og Fréttatímanum. Páll hefur gagnrýnt bæði bókmenntir og leikhús. Hann var listrænn ráðunautur hjá Borgarleikhúsinu 1991-1995 og formaður Leikfélags Reykjavíkur 1996-2001. Árið 2006 var Páll Baldvin ráðinn ritstjóri DV ásamt Björgvini Guðmundssyni, en Páll hafði áður verið menningarritstjóri blaðsins. Hann fór frá DV yfir á Fréttablaðið, þar sem hann var fulltrúi ritstjóra og menningarritstjóri til ársins 2010. Páll Baldvin hefur verið með bókmenntagagnrýni ásamt Kolbrúnu Bergþórsdóttur í bókmenntaþætti Egils Helgasonar hjá Ríkissjónvarpinu, Kiljunni, frá því að þátturinn hóf göngu sína árið 2007. Árið 2011 varð hann jafnframt deildarforseti handrits- og leikstjórnardeildar Kvikmyndaskóla Íslands og tók sæti í stjórn skólans. Páll Baldvin hefur verið gagnrýndur fyrir störf sín, bæði fyrir einstaka dóma og einnig fyrir að vera orðinn of valdamikill í íslenskri menningarumfjöllun. Annar bókmenntagagnrýnandi, Kristjón K. Guðjónsson, sagði í bókadómi í vefritinu Pressunni fyrir jólin 2011 um Pál Baldvin að „of mikil áhrif eins manns í örsmáum bókmenntaheimi“ væru „bæði óholl og fáránleg.“ Þá sendi lögmaður Akranesbæjar Páli Baldvini bréf þar sem krafist var leiðréttingar og afsökunarbeiðni vegna bókadóms hans um fyrsta bindi Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum 8. júlí 2011. Páll Baldvin neitaði að biðjast afsökunar og sagði kröfubréfið vera alvarlega atlögu að tjáningar- og ritfrelsi sínu. Luna fatale. Luna fatale (íslenska: "Svalur og sveindómurinn") er 45. Svals og Vals-bókin og sú þrettánda eftir þá Tome og Janry. Hún kom út á frummálinu árið 1995 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst í New York. Mafíuforinginn Don Vito Cortizone er kominn á kreik enn á ný og á í harðri baráttu við kínversku mafíuna. Liðsmenn hans týna hratt tölunni, því þeir virðast hver af öðrum vera sturlaðir af ást og því auðveldlega leiddir í gildru. Mafíósarnir ákveða að fá Sval sér til aðstoðar, enda hafi hann aldrei verið við konu kenndur og virðist áhugalaus um ástarbrall. Dóttir Don Cortizone, hin tvítuga og gullfallega "Luna" er send út af örkinni og rænir þeim Sval og Val. Mafíuforinginn skipar Sval að komast að leyndarmálinu á bak við ástargaldur Kínverjanna og setur tímasprengju um háls Vals til að leggja áherslu á kröfur sínar. Við tekur eltingaleikur um undirheima Kínahverfisins, þar sem Svalur og Luna taka saman höndum. Þau uppgötva að skýringin felst í því að átt hefur verið við sólgleraugu manna Don Cortizone með þeim afleiðingum að þeir verða bálskotnir í forystukonu Kínverjanna. Sú er í hefndarhug, þar sem hún ber andlitslýti frá fornu fari sem Don Cortizone ber ábyrgð á. Svalur, Valur og Luna sleppa undan Kínverjunum í loftbelg ásamt Don Cortizone. Hann er hins vegar handtekinn af lögreglunni og á yfir höfði sér langa fangelsisvist. Í lokin er þó gefið í skyn að Luna nái að frelsa hann úr prísundinni. Ívan grimmi. Ívan 4. Vasilíjevitsj (25. ágúst 1530 – 28. mars 1584), var prins af Moskvu frá 1533 og fyrsti keisari Rússlands frá 26. janúar 1547 til dauðadags. Á langri valdatíð hans lögðu Rússar undir sig kanötin Kazan, Astrakhan og Síberíu og við það breyttist Rússland í fjölþjóðlegt ríki sem náði yfir rúmar fjórar milljónir ferkílómetra. Á tíma Ívans urðu miklar breytingar á landinu og það breyttist úr miðaldaríki í stórveldi sem hafði vaxandi áhrif í sínum heimshluta. Sagnfræðiheimildir gefa ólíkar myndir af flóknum persónuleika Ívans: honum hefur verið lýst sem skörpum og trúföstum manni sem hætti til skapofsakasta og geðveilu. Í einu bræðikastinu varð hann valdur að dauða sonar síns og erfingja, Ívans Ívanovitsj. Það varð til þess að eftir lát Ívans fór keisarakórónan til yngri sonar hans, Fjodors 1., sem var heilsuveill og veikur stjórnandi og samkvæmt sumum heimildum andlega fatlaður. Greta Salóme Stefánsdóttir. Greta Salóme Stefánsdóttir (f. 11. nóvember 1986) er íslensk söngkona, fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónskáld og textahöfundur. Lag hennar, Mundu eftir mér, var valið sem framlag Íslands til Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva í Bakú árið 2012. Framlag Grétu í Eurovision 2012 endaði í 19-20 sæti í lokakeppninni í Bakú í Aserbaidjan. Valhúsaskóli. Valhúsaskóli er skóli á Seltjarnarnesi, hluti af Grunnskóla Seltjarnarness og eru þar nemendur úr 7.-10. bekk. Hann var stofnaður árið 1974 sem gagnfræðaskóli en var sameinaður Mýrarhúsaskóla 2004. Núverandi skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness er Guðlaug Sturlaugsdóttir. Skólinn er aðallega þekktur fyrir góðan húmor og fallegt fólk. Félagslífið þar er mjög virkt og í Félagsmiðstöð Seltjarnarness, "Selinu", eru mismunandi klúbbar, þ.a.m. Málfundafélagið Jóhann, kvikmyndaklúbbur og Harry Potter-klúbbur þar sem horft er á Harry Potter myndir og rætt um þær eftir á. Í Valhúsaskóla geta nemendur valið valfög fyrir hverja önn, meðal annars badminton, söng og leiklist, myndmennt, sauma, stærðfræði fyrir lengra komna og ýmis tungumál. Henrik Larsson. Henrik Larsson, einnig þekktur sem Henke, (fæddur 20. september 1971) er sænskur knattspyrnustjóri og fyrrverandi leikmaður. Hann er núverandi knattspyrnustjóri sænska félagsliðsins Landskrona BOIS og hefur verið þar við stjórnvöld í rúm þrjú ár. Henrik er gjarnan þekktur fyrir síða hárið sitt og stórhættulega skalla en þekktasta afrek hanns hlýtur þó að teljast þegar að honum tókst að vinna Meistaradeild Evrópu árið 2006 með þáverandi félagi sínu Barcelona. Faðir hanns heitir Francisco Rocha og kemur frá Grænhöfðaeyjum en eftirnafn sitt erfir hann þó frá móður sinni, því hún heitir Eva Larsson. Ástæða þess að hann hlaut eftirnafn móður sinnar var sú að það yrði auðveldara fyrir hann að bera Larsson nafnið í Svíþjóð heldur enn Rocha nafnið. Larsson, Henrik Glasgow Celtic. Celtic Football Club er skoskt félag, sem að spilar heimaleiki sína í Parkhead hverfinu í Glasgow, félagið leikur í Skosku úrvalsdeildinni. Félagið var stofnað árið 1887 og lék sinn fyrsta opinbera knattleik árið 1888. Celtic hefur orðið skotlands meistari 42 sinnum síðast árið 2008. Heimavöllur Keltanna heitir Celtic Park og er stærsti knattspyrnu leikvangur Skotlands og tekur um það bil 60 þúsund áhofendur í sæti.Þekkt kennileiti Glasgow borgar er rígur Glasgow Rangers og Celtic. Eftir að hafa komist í úrslitaleik evrópukeppni bikarhafa árið 1967, tókst félaginu einnig að verða fyrsta breska félagið til að ná þeim árangri. Árið 2003 komst félagið í úrslitaleik UEFA bikarsins þar sem þeir töuðu fyrir portúgalska félaginu FC Porto leikurinn var spilaður í Sevilla á Spáni og rúmlega 80 þúsund manns mættu til að styðja sína menn. Nokkrir Íslendingar hafa leikið með félaginu, Jóhannes Eðvaldsson er þeirra þekktastur. Landskrona BoIS. Landskrona Bois er sænskt knattspyrnufélag sem spilar í borginni Landskorna á skáni í Suður-Svíþjóð.Landskrona er í sænsku fyrstudeildinni sem heitir Superettan Félagið hefur næstum því unnið Sænsku úrvalsdeildina einu sinni 1938 þegar félagið lenti í öðru sæti deildarinnar. Liðið vann bikarkeppnina árið 1972. Með hjartað í buxunum. Með hjartað í buxunum (franska: "La frousse aux trousses") er 40. Svals og Vals-bókin og sú áttunda eftir þá Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1988 en í íslenskri þýðingu ári síðar. Hún er fyrri hlutinn af tveimur, en seinni hlutinn nefnist Dalur útlaganna. Söguþráður. Svalur og Valur undirbúa ferðalag til "Túbútt-Sjan" við landamæri Nepals. Tilgangurinn er að grennslast fyrir um afdrif vísindaleiðangurs Frakkans "Adriens Maginot" og Þjóðverjans "Günters Siegfried", sem hurfu sporlaust árið 1938 í leit að hinum goðsagnakennda "Dal útlaganna", en samkvæmt fornum sögnum höfðu sveitir Mongólaleiðtogans Gengis Kans rekið uppreisnargjarnan þjóðflokk til útlegðar í dalnum mörgum öldum fyrr. Í dag er Túbútt-Sjan hins vegar hernumið land og óaðgengilegt blaðamönnum. Félagarnir eiga í stökustu vandræðum með að fjármagna leiðangurinn. Svalur reynir að afla fjár með fyrirlestrarhaldi, en sögur hans reynast of æsilegar fyrir áheyrendur sem leggja á flótta eða hníga í yfirlið. Sálfræðingurinn "Doktor Plasíbó" fær snjalla hugmynd. Meðal sjúklinga hans eru einstaklingar sem þjást af krónískum hiksta og vonast sálfræðingurinn til að þeir geti læknast af kvillanum með hjálp ótta. Doktor Plasíbó býðst til að fjármagna leiðangurinn gegn því að sjúklingarnir fái að slást í hópinn. Það reynist kyndugur samtíningur, þar á meðal leigumorðingi, olíufursti og skógarbjörn í dulargervi. Þrátt fyrir að vera með alla hersinguna í eftirdragi tekst Sval og Val að laumast inn í landið og forðast árásir hermanna jafnt sem skæruliða. Munar þar mikið um "Greppa", smávaxinn sherpa sem gerist leiðsögumaður þeirra félaganna. Í lok bókarinnar bjarga Svalur og Valur lífi hermanns sem veitt hafði þeim eftirför, en hrapa í leiðinni niður í beljandi stórfljót. Ferðalangar þeirra fylgjast skelfingu lostnir með. Þeir læknast af hikstanum, en vita ekki frekar en lesandinn í bókarlok hvort Svalur og Valur séu lífs eða liðnir… Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1989. Þetta var 26. bókin í íslensku ritröðinni. Abby Brammell. Abby Brammell (fædd 19. mars 1979) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Unit, The Shield og Enterprise. Einkalíf. Brammell fæddist í Kentucky en ólst upp í San Antonio, Texas. Hún stundaði nám við leiklistarskóla Carnegie Mellon-háskólans þaðan sem hún útskrifaðist árið 2001. Brammell var gift Jake La Botz frá 2006-2008. Leikhús. Brammell lék í "The Talking Cure" eftir Chrisopher Hampton sem var sýnt við "Mark Taper Forum" í Los Angeles. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Brammell var árið 2002 í "Glory Days". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Birds of Prey", The Shield, Crossing Jordan, Lie to Me, og Criminal Minds. Árið 2006 þá var henni boðið hlutverk í The Unit sem Tiffy Gerhardt, sem hún lék til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Brammell var árið 2004 í "Sawtooth". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Like Dandelion Dust" og "Life Happens". Tenglar. Brammell, Abby Brokk. Brokk er tvítakta skástæð gangtegund, tveir fætur koma niður samtímis. Brokk er svifgangtegund, hesturinn spyrnir til dæmis með vinstri afturfæti og hægri framfæti og lendir á hægri afturfæti og vinstri framfæti og svo framvegis. Brokkið er léttasta gangtegundin, fyrir utan fet, og að flestir hestar kjósa sér það á ósléttu landi. Stökk. Stökk er þrítakta gangtegund með svifi. Gott er að slá þremur puttum í borð til að heyra taktinn. Hesturinn getur ýmist stokkið upp á hægri eða vinstri fót og er mikilvægt að þjálfa það jafnt, sérstaklega hjá alhliða hestum því það er lykillinn að skeiðinu. Stuttir hraðir sprettir geta haft örvandi áhrif á lata hesta og allir hestar verða að kunna að hreyfa sig kröftuglega. Michael Irby. Michael Irby (fæddur Michael Clinton Irby, 16. nóvember 1972) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Unit, Fast Five og Line of Fire. Einkalíf. Irby fæddist í Palm Springs, Kaliforníu en ólst upp í Cabazon, Kaliforníu. Hann stundaði nám við American Academy of Dramatic Arts í New York. Irby spilaði fótbolta í Evrópu sem meðlimur "Team USA" áður en hann þurfti að hætta vegna meiðsla. Irby er giftur Susan Matus og saman eiga þau eitt barn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Irby var árið 1997 í Law & Order. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við, 24, "Chase", og Bones. Árið 2003 þá var honum boðið hlutverk í "Line of Fire" sem Amiel Macarthur, sem hann lék til ársins 2004. Lék síðan eitt af aðalhlutverkunum í The Unit sem Charles Grey frá 2006-2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Irby var árið 1997 í "Silent Prey". Síðan þá hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Piñero", "Flightplan", "Law Abiding Citizen", "Faster" og Fast Five. Tenglar. Irby, Michael Litla kaffistofan. Litla kaffistofan er bensínstöð og sjoppa á þjóðvegi 1, Suðurlandsveginum, í Svínahrauni. Litla kaffistofan er í eigu Olís, eins stærsta olíufélagsins á Íslandi. Litla kaffistofan var upphaflega stofnuð 4. júní 1960 og hefur verið rekin óslitið síðan. Litla kaffistofan er vinsæll áningarstaður þeirra sem ferðast til og frá Reykjavík, höfuðborginni, og ýmissa áfangastaða á Suður- og Austurlandi, s.s. Hveragerðis, Selfossi, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri, o.fl. Skammt frá Litlu kaffistofunni er Hellisheiðarvirkjun. Mundu eftir mér. Never Forget eða Mundu eftir mér er framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2012. Lag og texti er eftir Grétu Salóme Stefánsdóttur fiðluleikara en hún flutti lagið sjálf ásamt Jóni Jósep Snæbjörnssyni. Lagið vann keppnina út á úrskurð dómnefndar en annað lag fékk 700 atkvæðum meira í símaatkvæðagreiðslunni. AIK. AIK eða "Allmänna Idrottsklubben" eins og þeir heita fullu nafni er sænskt Knattspyrnufélag frá Stokkhólmi liðið leikur heimaleiki sína á landsliðs leikvangi svía Råsunda,sem einnig er stærsti völlur svíþjóðar,félagið er eitt af þremur mest studdu félögum Svíþjóðar, ásamt Djurgårdens IF og IFK Göteborg. Þeir hafa unnið deildina ellefu sinnum síðast árið 2009. Þeir hafa spilað í Meistaradeild Evrópu nokkrum sinnum síðast leiktíðina 99-2000 þar sem þeir lenntu í gríðarlega erfiðum riðli með meðal annars FC Barcelona í riðli. Saga Félagsins. AIK var stofnað formlega árið1891 af Isidor Behrens í Stokkhólmi. Það hefur frá byrjun verið miðbæjar félag,enn hefur síðustu ár leikið í Solna-hverfinu í Stokkhólmi. Félagið heitir fullu nafni Allmänna Idrottsklubben, sem í íslenskri þýðingu væri Hið Almenna íþróttafélag. Nafnið kom til þannig að félagið ætti að vera opið fyrir öllum sem að vildu fyrir það starfa eða spila. Sterkast var félagið þó án efa leiktíðina 99-2000 en eftir árið missti liðið sína sterkustu leikmenn meðal annarra Olof Mellberg, sem var seldur til Racing Santander á Spáni og Andreas Andersson sem að Newcastle United F.C. keypti fyrir tvær milljónir evra en það var sænskt met á þeim tíma. Þessa leiktíð hélt markvörður liðsins Mattias Asper hreinu marki í 19 tíma og 17 mínútur. AIK virtist ætla að sigra Sænsku úrvalsdeildina annað árið í röð en Helsingborg tókst að koma í veg fyrir það. Það var ekki fyrr enn árið 2009 sem félagið hafði aftur ástæðu til að fagna þegar þeir unnu tvöfalt, deild og bikar. Meistaradeild. AIK gat ekki verið óheppnara með riðiðil veturinn 1999-2000. Liðið lenti í riðli með Arsenal, Barcelona og Fiorentina. Í fyrsta leiknum tókst liðinu á ná forystu gegn Barcelona á nou camp en eftir umdeilt atvik, þar sem sipting var í gangi hjá AIK á meðan á hornspyrnu stóð, tókst FC Barcelona að pota inn marki. Þessu mótmælti þáverandi þjálfari AIK, Englendingurinn Stuart Baxter, en hafði ekki erindi sem erfiði og ákvörðun dómarans stóð. Eftir þetta atvik óx börsungum fiskur um hrigg og að lokum höfðu þeir sigur á niðurlútum leikmönnum sænska liðsins. Hinir leikirnir voru öllu ójafnari en síðan þessa einu leiktíð hefur engu sænsku félagsliði tekist að vinna sér inn sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Merki AIK. Merki AIK er dökkblátt (ekki svart eins og búningurinn), gult og gulllitað. Merki félagsins er undir áhrifum frá art nouveau, sem var mjög vinsæl stefna á þeim árum sem félagið var stofnað. Vísað er í Turn, sem á að vera tákn fyrir turn Krists, í merkinu, sem fengið að láni frá skjaldarmerki Saint Erik, verndara Santa Stockholm. Saint Eriks-merkið hefur fimm turna, sem tákna múrana fimm í kringum Stokkhólm, og þá að verja heiður borgarinnar, hugsanlega frá árásum óvina herja. Audrey Marie Anderson. Audrey Marie Anderson (fædd 7. mars 1975) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Unit og Once and Again. Einkalíf. Anderson er fædd og uppalin í Fort Worth í Texas. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Anderson var árið 1994 í 90210 og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Going to California", "Still Life", Without a Trace, og House. Frá 2000 til 2001 þá var Anderson með stórt gestahlutverk í Once and Again sem Carla Aldrich. Árið 2006 þá var henni boðið hlutverk í The Unit sem Kim Brown, sem hún lék til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Anderson var árið 2002 í "The Badge". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Larceny", "Drop Dead Sexy" og "Beerfest". Tenglar. Anderson, Audrey Marie Real Madrid. Real Madrid er Spænskt, Knattspyrnufélag, Handbolta og Körfuknattleiksfélag staðsett í Madrid. Jón Benjamínsson. Jón Benjamínsson (1774 - 21. júlí 1843) var fyrsti íslenski lögregluþjónninn. Þegar bæjarfógeti var fyrst ráðinn í Reykjavík árið 1803 varð hann jafnframt lögreglustjóri og fékk sér til aðstoðar tvo danska lögregluþjóna, áður undirforingja úr danska hernum. Þeir hétu Ole Biörn og Vilhelm Nolte. Nolte var þó vikið úr starfi vegna drykkjuskapar ári síðar og annar Dani fenginn í hans stað. Dönsku lögreglumennirnir voru yfirleitt jafnframt iðnaðarmenn því launin sem þeir fengu fyrir löggæsluna dugðu þeim ekki til framfærslu. Það var ekki fyrr en 1814 sem Jón tók við öðru lögregluþjónsstarfinu, fyrstur Íslendinga, og gegndi því í eitt ár. Ekki var aftur ráðinn íslenskur lögregluþjónn fyrr en 1826. Það var Magnús Jónsson og starfaði hann til 1839. Síðasti danski lögreglumaðurinn í Reykjavík lét af störfum árið 1859. Þemafundur Norðurlandaráðs. Fánar Norðurlandanna og fáni opinbers samstarfs Norðurlandanna. Þemafundur Norðurlandaráðs er árlegur fundur Norðurlandaráðs sem haldinn var í fyrsta sinn í Reykjavík í mars 2012. Aðalumfjöllunarefni fundarins 2012 voru málefni tengd Norðurskautssvæðinu. Rosenborg. Rosenborg er norskt knattspyrnulið með aðsetur í Trondheim. Liðið var stofnað 19. maí 1917 og leikur í efstu deild í Noregi, sem heitir Tippeligaen þar sem það endaði síðasta tímabil í 3. sæti. Rosenborg hefur 22 sinnum orðið norskir meirstarar. Og marg oft komist mjög langt í Meistaradeild Evrópu. Rebecca Pidgeon. Rebecca Pidgeon (fædd 10. október 1965) er ensk leikkona, söngvari og lagahöfundur sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Unit og Red. Einkalíf. Pidgeon fæddist í Cambridge, Massachusetts en ólst upp í Edinborg, Skotlandi. Stundaði nám við "Royal Academy of Dramatic Arts" í London. Pidgeon giftist handritshöfundinum og leikstjóranum David Mamet árið 1991 og saman eiga þau tvö börn. Tónlist. Pidgeon var meðlimur hljómsveitarinnar "Ruby Blue" frá 1986-1990. Fyrsta sólóplata hennar "Raven" kom út árið 1994 og hefur hún síðan þá gefið út fimm sólóplötur. Pidgeon samdi tónlistina við kvikmyndinna "Oleanna" sem kom út árið 1994, ásamt því þá hefur hún samið lag við kvikmyndirnar "The Misadventures of Margaret" og "Redbelt". Leikhús. Pidgeon kom fyrst fram í leikhúsi árið 1992 í "Oleanna" sem var samið af eiginmanni hennar David Mamet og var sýnt við "Orpheum Theater" í New York. Hefur hún síðan þá komið fram í leikritunum "Dangerous Corner" og "The Old Neighborhood". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Pidgeon var árið 1987 í "Bust" og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Screen One", The Shield og "Glenn Martin DDS". Árið 2006 var henni boðið stórt gestahlutverk í The Unit sem Charlotte Ryan, eiginkona Tom Ryan, sem hún lék til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Pidgeon var árið 1988 í "The Dawning". Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "The Spanish Prisoner", "State and Main", "Shopgirl" og Red. Tenglar. Pidgeon, Rebecca Sam Tillen. Samuel Lee „Sam“ Tillen (fæddur 16. apríl 1985 í Reading á Englandi) er enskur knattspyrnumaður sem leikur með FH en lék áður með Fram. Tillen hóf ferill sinn með yngriflokkum Chelsea en fékk ekki tækifæri með aðalliði félagsins og skipti því yfir í Brentford árið 2005. Árið 2008 varð hann samningslaus og var þá uppgötvaður af Þorvaldi Örlygssyni sem þá var á ferðalagi um England í leit að leikmanni til að stykja leikmannahóp sinn fyrir komandi átök í Pepsideild karla. Úr varð að Sam kom til Íslands. Fyrsti leikur hans var tapleikur gegn Fylki 3-0. Tillen gekk svo til liðs við FH snemma árs 2013. Bróðir hans, Joe Tillen, leikur um þessar mundir með Selfossi en lék þar áður í nokkur ár með Fram. Gottskálk Jónsson. Gottskálk Jónsson (um 1524 – 1590) var prestur, sýslumaður og sagnaritari í Glaumbæ í Skagafirði. Hann skrifaði meðal annars "Gottskálksannál" og "Sópdyngju" eða "Syrpu Gottskálks í Glaumbæ", samsafn af alls konar fróðleik og afskriftum af gömlum bréfum og skjölum af ýmsu tagi. Gottskálk var sonur Jóns Einarssonar, sýslumanns á Geitaskarði, og Kristínar Gottskálksdóttur konu hans og því dóttursonur Gottskálks Nikulássonar biskups. Hann er sagður hafa verið bráðþroska og efnilegur og þegar hann var aðeins sjö ára gaf Jón Arason biskup honum jörð. Hann var nefdur í dóm tvítugur að aldri og varð skömmu síðar lögréttumaður. Árið 1546 var hann settur sýslumaður Skagfirðinga. Hann var bóndi í Vík í Sæmundarhlíð en um 1550 var hann orðin prestur. Hann þjónaði Melstað í Miðfirði eftir aftöku séra Björns Jónssonar 1551 en árið 1554 var hann kominn í Glaumbæ og var þar prestur til æviloka og lengst af prófastur. „Kallast einn af þeim rex. Það þýðist yfirvalds konungur síns undirgefins fólks. Ánnar kallast regina, það er drottning; þriðji miles, það er sem einn riddari vaskur; fjórði alfinus, það þýðir einn biskup á vora tungu; fimmti rokus, það svo gott sem rösklegur hrókur; pedinus, það er sem ein peðsnydda hafandi minnst yfirlát af öllum þessum mönnum. En þessi leiksháttur er svo felldur að hver grípur af öðrum og stríðir upp á annan og drepast burt af borðinu þar til leikurinn er endaður.“ Fiskhellar. Fiskhellar eru hellar sem eru sunnan og vestan megin í Hánni, þar sem hún er þverhnípt. Undir miðja hæð klettanna að austanverðu sjást manngerðar hleðslur sem eru forn fiskabyrgi. Áður fyrr var fiskur geymdur þar og var þetta ákjósanlegur staður vegna þess að fiskurinn blotnaði ekki, vindur lék um hann og engar flugur komust að honum þar sem hann var staðsettur 10 m upp í berginu. Fiskabyrgin eru með merkustu fornminjar hér á landi og eru sennilega frá 13. öld. Áreiðanlegar heimildir frá árinu 1294 segja frá útflutning á skreið frá Íslandi. Hver jörð átti sitt fiskabyrgi í Fiskhellum. Í Tyrkjaráninu földu heimamenn sig í hellum og skútum í Fiskhellum og má enn sjá ummerki þessara byrgja utan í klettaveggnum. Post-turninn. Post-turninn er skýjakljúfur í Bonn í Þýskalandi. Há. Háin er fjall sem stendur austan við Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Háin er þverhnípt að vestan en hægt er að ganga upp á fjallið að austan. Efsti punktur á Hánni heitir Moldi. Viðbein. Viðbein eða clavicula tengir herðablað og bringubein. Tekur þátt í myndun axlarliðs. Fremur lítið bein. Myndar mjúka S-línu. Herðablað. Þríhyrnt bein, flatt að hluta. Herðakampur er skörp brún sem liggur skáhallteftir þveru herðablaðinu. Axlarhyrna styður við liðhöfuð upphandleggjarbeinsins. Krummahyrna er tengisvæði fyrir marga vöðva upphandleggjar. Liðskál er liðskál fyrir liðhöfuð upphandleggjarbeins. Bre Blair. Bre Blair (fædd Sarah Brianne, 29. apríl 1980) er kanadísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Unit, The Baby-Sitters Club og What About Brian. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Blair var árið 1992 í "Intruders" og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Judging Amy, Without a Trace, Charmed, Monk, Psych, Criminal Minds, "Castle" og. Blair var með stórt gestahlutverk í What About Brian og The Unit. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Blair var árið 1995 í The Baby-Sitters Club. Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Down Dog", "Carjacking", "Ball Don´t Lie" og "Mercy". Tenglar. Blair, Bre Kavita Patil. Kavita Patil er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í The Unit. Einkalíf. Patil fæddist í Brooklyn, New York. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Patil var árið 2001 í Angel og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Bones, "Life", Lost og Dexter. Patil var með stórt gestahlutverk í The Unit sem Kayla Medawar. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Patil var árið 2004 í "The Bathroom Agreement" og hefur síðan þá komið fram í "Rising Shores" og "Cornered". Tenglar. Patil, Kavita Skreið. Skreið er þurrkaður, afhausaður fiskur, oftast þorskur. Þurrkun er gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks sem einkum er notuð á Íslandi og í Noregi. Skreið hefur verið flutt út frá þessum löndum í meira en þúsund ár og í Egils sögu er til dæmis sagt frá því að Þórólfur Kveldúlfsson flutti skreiðfisk frá Noregi til Englands. Helstu markaðir fyrir skreið nú á tímum eru Ítalía og nokkur lönd í vestanverðri Mið-Afríku. Íslendingar hafa þurrkað fisk frá landnámsöld og skreið var um aldaraðir helsta útflutningsvara landsmanna. Átök við útlendinga á miðöldum og erjur erlendra manna við Ísland tengdust fyrst og fremst baráttu um skreiðarverslun og útflutning. Íslendingar borðuðu sjálfir mikið af skreið en í nútímanum má segja að hér á landi sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar, það er að segja harðfiskur. Öll önnur skreið er framleidd til útflutnings. Áður var skreiðin öll þurrkuð úti, annaðhvort í þar til gerðum fiskhjöllum eða á trönum, og voru þá fiskarnir slægðir og hausaðir og spyrtir saman tveir og tveir, hengdir upp og sól og vindur látin sjá um þurrkunina. Þetta er enn gert en einnig er fiskurinn þurrkaður inni og er þá jarðhiti gjarnan nýttur til verkunarinnar. Porte des Allemands. Porte des Allemands eða Þýska hliðið er borgarhlið í Frakklandi. Metz. Metz er borg í Lorraine í Frakklandi. Þar búa 389.609 manns (2009). Prjón. Prjón (eða prjónaskapur) er aðferð til að framleiða vefnað eða voð með garni. Prjónað efni samanstendur af lykkjum sem dregnar hafa verið gegnum aðrar lykkjur. Lykkjurnar liggja á prjóninum þar til nýjar lykkjur eru dregnar í gegn með garninu sem notað er og fer lykkjufjöldinn á prjónunum eftir stærð flíkurinnar (verksins) sem verið er að prjóna. Einfaldast er að byrja og enda með sama fjölda af lykkjum en það er einnig mögulegt að bæta við (útaukning) eða fækka lykkjum (fella af lykkjur|fella af) meðan á vinnunni stendur. Margar aðferðir við prjónaskap eru til og mögulegt er að handprjóna og vélprjóna flíkur. Uppruni prjóns á Íslandi. Elstu ritaðar heimildir um handverkshefðina prjónaskap hér á landi má finna í Bréfabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups frá seinni hluta 16. aldar en á þeim tíma voru landskuldir greiddar í prjónasaumi. Ennig má lesa í fornbréfi frá 1560 um prjónapreysur sem greiða mátti með landskuldir á bæ á norðurlandi. Talið er að prjón hafi borist til Íslands á fyrri hluta 16. aldar með þýskum, enskum eða hollenskum kaupmönnum og náði það fljótt mikilli útbreiðslu um landið. Auðvelt var fyrir landsmenn að framleiða ullarvarning með þessu nýja verklagi bæði til sölu og eigin nota og er það talin vera ástæða þess að prjón náði fljótt svo mikilli útbreiðslu. Elstu prjónauppskriftir, sem vitað er um hér á landi eru frá árunum 1760-1770 og eignaðar Skúla Magnússyni fógeta. Eru það uppskriftir af karlmanns- og kvenmannspeysu ásamt uppskriftir að karlmannssokkum, kvensokkum, nærbuxum og húfu. Elstu dæmi um prjón á Íslandi. Talið er að elsta prjónaða flík sem fundist hefur á Íslandi sé sléttprjónaður belgvettlingur frá 16. öld sem fannst við uppgröft að Stóru Borg árið 1981. Einnig hefur á sama stað fundist háleistur og sléttprjónaður smábarnasokkur sem talið er vera frá 1650-1750. Þessir sokkar eru þeir einu hér á landi sem varðveist hafa nokkurn veginn heilir. Árið 1927 fannst við fornleifauppgröft á Bergþórshvoli leifar af prjónlesi sem talið er vera frá fyrri hluta 17. aldar. Það heillegasta úr þeim fundi var belgvettlingur með einum þumli og sokkbol. Hann var ólíkur þeim belgvettlingi sem fannt á Stóru Borg bæði hvað varðar lögun þumalsins og úrtöku. Í Kaupmannahöfn hafa fundist nokkrir sléttprjónaðir belgvettlingar sem taldir eru vera af íslenskum uppruna. Prjónar og prjónastærðir. Ýmsar tegundir eru til af prjónum, þannig að oft getur verið erfitt að velja hvað á að nota. Hægt er að kaupa prjóna úr mismunandi málmi, málmblöndum, plasti, akrýl, bambus, birki rósavið svo eitthvað sé nefnt. Einnig er hægt að fá prjóna með mismunandi oddi, þ.e. "venjulegum oddi" eða oddhvassa sem sumum finnst betra að nota við prjón á gatamunstri. Hér áður fyrr var algengast að nota svo kallaða bandprjóna, stundum kallaðir peysuprjónar en það eru tveir langir (oftast 35sm) prjónar með haus á öðrum endanum. Hausinn á endanum á þeim kemur í veg fyrir að lykkjurnar detti út af prjóninum meðan verið er að prjóna. Þeir eru notaðir tveir saman þegar verið er að prjóna margar lykkjur fram og til baka, þá er ekki hægt að nota til að prjóna í hring. Síðar leystu hringprjónar, með áfastri snúru á milli tveggja prjónaodda (sjá mynd) bandprjónanna af. Enda eru þetta mjög hentugir prjónar sem hægt er að nota til að prjóna í hring eða fram og til baka allt eftir því hvað fólk vill. Núna er til mjög mikið úrval af prjónum, hægt er að fá prjóna sem eru með lausrr snúru sem er þá annað hvort skrúfuð eða smellt á prjónana, en auðvita er einnig hægt að fá hringprjóna með áfastri snúru. Til að prjóna t.d. sokka eða vettlinga eru notaðir 5 prjónar sem einnig er hægt að fá í ýmsum stærðum og gerðum. þeir eru stuttir með oddum báðum megin ýmist úr málmi eða tré. Einnig er að nota þá þegar verið er að prjóna litla hluti og eru þá notaðir tveir prjónar í einu og prjónað fram og til baka. Það er mismunandi mælikvarði á prjónastærð eftir því hvort miðaða er við evrópu eða USA. Dæmi um það má sjá í töflunni. Hægt er að kaupa prjónar í stærðum 2 til 30 miðað við evrópskar prjónastærðir. Að lesa prjónauppskriftir. Prjónauppskriftir eru mjög misjafnar og oft er erfitt fyrir byrjanda að lesa allar þessar skammstafanir. Uppskriftinar eru misjafnlega nákvæmar, og sumar gera ráð fyrir því að nokkur prjónareynsla sé til staðar. En aðra eru mjög ítarlegar og góðar fyrir byrjendur. Talað er um að best er að lesa alla uppskriftina yfir áður en byrjað er að prjóna til að fá yfirsýn yfir verkið. Í prjónauppskriftum er mikið um skammstafanir og því miður er ekki alltaf samræmi milli prjónauppskrifta hvað þessar skammstafanir þýða. Í eftirfarndi töflu má sjá dæmi um nokkra skammstafanir úr íslenskum uppskriftum. Á vefsíðu Storksins er að finna mjög gagnlega upplýsingar, þýðingar á skammstöfum úr ensku í íslensku. Prjónafesta. Þegar prjónað er eftir uppskrift og viðeigandi stærð hefur verið valin, þarf að finna út prjónafestu. Rétt prjónafesta getur skipt öllu máli og verið lykillinn að vel heppnuðu verki. Prjónfesta (stundum kallað prjónþensla) er þá fjöldi lykkja mældur yfir t.d. 10 cm á breiddina á sléttu prjóni og fjöldi umferða mældar yfir 10 cm á hæðina á sléttu prjóni. Yfirleitt má ganga út frá því að prjónfesta sé mæld á slétt prjón og þannig er það gefið upp. Stundum er prjónfestan gefin upp í mynsturprjóni í uppskriftum. Þá getur verið mikilvægt að prjóna prufu af mynstrinu til að sannreyna prjónfestuna. Hvernig fólk prjónar er einstaklingsbundið. Sumir prjóna fast meðan aðrir prjóna laust. þess vegna getur verið mikilvægt að gera fyrst prjónfestuprufu, þegar verið er að byrja prjónaskap er gott að prjóna sýnishorn 15x15 sm og mæla svo 10x10 sm bút og gá hvort réttur lykkjufjöldi sé innan 10 sm markanna og eins hvort umferðarfjöldinn sé réttur miðað við 10 sm. Ef lykkjurnar eru of margar er prjónað of fast og þarf því að fá sér grófari prjóna, ef lykkjurnar eru of fáar er prjónað of laust og þarf því fínni prjóna. Margar tegundir prjóna eru til og getur það haft áhrif á prjónafestu hvað prjóna er verið að vinna með. Prjónar geta verið missleipir eða stamir. Best er að nota sams konar prjóna í alla flíkina, t.d ekki nota bambusprjóna í ermarnar og álprjóna í bolinn eða öfugt. Það fer reyndar eftir garni sem notað er hversu áberandi munurinn getur orðið ef notaðar eru margar tegundir af prjónum í sömu flík. Lopaprjón. Fram á 20. öld var ullarvinna eitt helsta vetrarstarf Íslendinga. Ullina fengu bændur með eð því að rífa ullina af sauðfénu með höndum áður en hún datt alveg af, það var ekki fyrr en komið var fram á 19. öld að sauðfé var rúið með klippum og skærum. Eftir rúningu er ullin þvegin upp úr keytu í potti úti við læk en keyta er geymt hland sem notað var til þvotta fyrr á öldum. Síðan var ullin skoluð í læknum og lögð á þurrkvöll, sem þurfti helst að vera grasbrekka á móti suðri, til þurrkunar. Íslensk ull er samsett úr tveimur hárgerðum, þeli og togi, þelið er fín, mjúk hár sem einangra sérstaklega vel. Togið er löng slétt hár sem hrinda frá sér vatni. Þessar tvær einstöku hárgerðir gera íslensku ullina léttari en flestar ullartegundir. Ullin hrindir frá sér vatn og heldur húðinni þurri með því að hleypa í gegn útgufun frá líkamanum. Þegar ull er unninn hér á árum aður var byrjað að draga togið úr þelinu. Síðan var ullin kembd, þelið í þelkömbum en togið í togkömbum. Ullin var síðan dregin úr kömbunum í kembu og var það undirbúningur fyrir spuna sem einmitt var næsta verk. Úr þelinu var spunninn fínn þráður en úr toginu grófur. Fyrr á tímum var spunnið á halasnældu sem var ævafornt áhald en halasnældan var ómissandi í tóvinnu fyrri alda, bæði við að spinna úr ullinni svo og að tvinna þráð. Spunarokkar urðu ekki algengir á Íslandi fyrr en á 19. öld Orðið lopi táknaði ull sem hafði verið kembd í kömbum og teygð út í lausan streng til undirbúnings því að spinna ullina í halasnældu og rokk þar til ullarverksmiðjur urðu til. Eftir það var einnig farið að nota orðið lopi um ullarstrengi sem voru á vinnslustingi á milli vélkembingar og vélspuna. Handprjón úr lopa hófst þó ekki fyrr en um 1930. Á árunum eftir 1940 urðu handprjónaðar lopapeysur vinsælar. Voru þær prjónaðar á hringprjón. Íslenska lopapeysan er prjónuð með hringlaga mynstri og fara ýmsar sögur af hvaða sú fyrirmynd er, ýmist er talið að það sé komið frá Grænlandi eða Svíþjóð. Hafi íslenskar lopapeysur orðið til fyrir áhrif frá þessum löndum hefur þurft mikla hugkvæmni til að aðlaga snið, úrtökur og munstur. Telja verður því íslensku lopapeysuna frumhönnun. Ekki er óhugsandi að enn eigi eftir að koma á daginn hver hinn raunverulegi höfundur hennar var. Íslenskar lopategundir. Hjá Ístex eru framleiddar sex tegundir handprjónabands úr íslenskri ull. Álafosslopi, Bulkylopi, Léttlopi, Plötulopi, Hosuband og Einband. Álafosslopi er þykkur en léttur og einstaklega hlýr, hann hentar því vel í útipeysur Bulkylopi er enn þykkari en Álafosslopinn og hentar vel í grófar flíkur Léttlopi er helmingi þynnri en Álafosslopinn og hentar því vel í peysur sem notaðar eru jafnt inni sem úti. Plötulopi er óspunninn og laus í sér. Hann hentar vel í ýmsar gerðir lopaprjóns, hann er oft notaður tvöfaldur eða ef prjóna á mjög létta og þunna flík er hann notaðaur einfaldur með einbandi sem gerir hann mun sterkari en ef hann notaður einfaldur. Hosuband er bland af loða og nælonið sem gerir það einstaklega slitsterkt. Bandið vel í sokka. Einband er fíngert og létt band sem gott er að nota í sjöl og léttar flíkur. Íslenski lopinn er framleiddur í mörgum litum og má sjá litaúralið á heimasíðu Nokkrar prjónaaðferðir. Myndbönd með eftirfarndi efni er að finna í tenglasafninu hér fyrir neðan. Að fitja upp - gamla góða aðferðin Að fitja upp með því að nota aðeins einn þráð Prjóna slétt og brugðið (íslenskar leiðbeiningar) Prjóna tvo hluti á einn hringprjón Prjóna slétt prjón fram og til baka Þrepamót FSÍ áhaldafimleikar 5.þrep kvk 2012. Þrepamót FSÍ í áhaldafimleikum fyrir 5.þrep kvk var haldið í Ásgarði Stjörnunni 4. febrúar 2012. La Défense. La Défense er hverfi í París í Frakklandi. Tour Défense 2000. Tour Défense 2000 er skýjakljúfur í La Défense í París. Íslandsmót unglinga í hópfimleikum 2012. Fór fram íþróttahúsi Vallaskóla v/Sólvelli á Selfossi. þann 11-12 febrúar 2012. Mótið var í umsjón Fimleikadeildar UMSI. Laugardaginn 11.febrúar var keppt í 1,2 og 5 flokki. Á sunnudeginum 12. febrúar var keppt í 3 og 4 flokki. Jakob 1. Skotakonungur. Jakob 1. (júlí 1394 – 21. febrúar 1437) var konungur Skotlands frá 4. apríl 1406 til dauðadags. Fyrstu átján ár valdatíma síns var konungurinn þó fangi eða gísl Englandskonungs. Konungur í útlegð. Jakob var sonur hins valdalausa konungs Róberts 3. og konu hans Annabellu Drummond, en alla ríkisstjórnartíð Róberts voru völdin að mestu í höndum bróður hans, hertogans af Albany. Eldri bróðir Jakobs, Davíð hertogi af Rothesey, reyndi að styrkja stöðu sína gegn föðurbróðurnum en Albany hneppti hann þá í varðhald og þar dó hann 1402 og er sagt að hann hafi verið sveltur til bana eða verið myrtur. Arabella drottning var þá látin og Róbert konungur óttaðist um líf yngri sonar síns. Árið 1406 hugðist hann senda drenginn til Frakklands og láta hann alast þar upp. En enskir sjóræningjar hertóku skipið og fluttu Jakob til Hinriks 4. Englandskonungs. Nokkrum dögum síðar dó Róbert og Jakob varð konungur að nafninu til. Hertoginn af Albany var landstjóri í Skotlandi, réði þar öllu og talaði jafnan um Jakob sem „son konungsins heitins“ en ekki sem konung, enda hafði hann sjálfur augastað á krúnunni. Þegar hann lést tók Murdoch sonur hans við hertogadæminu og landstjórninni. Jakob naut góðrar meðferðar í fangavistinni í Lundúnaturni og Windsor-kastala og fékk ágæta menntun. Eftir 1419 var hann meðhöndlaður fremur eins og gestur við hirðina en gísl og á árunum 1420-1422 barðist hann með Hinrik 5. og enska hernum í Frakklandi, meðal annars gegn Skotum, sem studdu Frakka. Þegar Hinrik dó í Frakklandi 1422 sneri Jakob aftur til Englands. Hinrik 6. var ekki orðinn árs gamall og forráðamenn hans höfðu lítinn áhuga á að halda Jakob lengur í Englandi en vildu koma honum í skoska hásætið. Einnig höfðu tekist ástir með honum og Jóhönnu Beaufort, dóttur hertogans af Somerset og frænku Hinriks konungs, og þótti ættingjum hennar mikilsvert að þau gætu gifst og hún yrði drottning. Þótt hertoginn af Albany væri tregur að sleppa völdum átti Jakob öfluga bandamenn í Skotlandi, en þar á meðal var annar föðurbróðir hans, jarlinn af Atholl. Á endanum var samið um lausnargjald fyrir konunginn - en heimanmundur Jóhönnu gekk upp í það að hluta — og hann gat gifst og snúið heim. Heimkoma. Konungshjónin komu til Skotlands í apríl 1424. Komu þeirra var ekki fagnað mikið því margir treystu ekki konunginum vegna stuðnings hans við Englendinga í Hundrað ára stríðinu, auk þess sem lausnargjaldið sem greitt var fyrir hann jók skattbyrði manna. Konungurinn þótti þó koma vel fyrir, enda var hann mikill íþróttamaður, kunni að meta bókmenntir og tónlist og var raunar sjálfur fær tónlistarmaður og ljóðskáld. Hann var að ýmsu leyti umbótasinni og leitaðist við að styrkja völd konungs og þings gegn aðalsmönnum, sem lengi höfðu farið sínu fram eins og smákóngar í Skotlandi, þar sem konungsvaldið hafði verið mjög veikt um áratuga skeið. Vegna þessa átti Jakob í átökum við ýmsa aðalsmenn, fyrstu árin einkum hertogann af Albany og ættmenn hans, en árið 1425 hafði hann styrkt stöðu sína svo mjög að hann lét handtaka Albany og tvo af þremur sonum hans snemma í mars 1425 og taka þá af lífi fyrir landráð skömmu síðar. Konungsmorð. Jakob átti áfram í erjum við ýmsa skoska aðalsmenn og aflaði sér óvina, auk þess sem vopnahléssamningur við Englendinga rann út 1436 og Jakob hóf umsátur um Roxburgh-kastala, sem Englendingar höfðu á sínu valdi. Hann varð þó að hörfa þaðan og þótti hafa fengið háðuglega útreið. Frændi hans, jarlinn af Atholl, hafði nú snúist gegn honum og sonarsonur hans, Robert Stewart, fór fyrir hópi manna sem réðist að konungi þar sem hann dvaldist í klaustri í útjaðri Perth og drap hann. Drottningin særðist en komst undan og gat komið boðum til Edinborgar, þar sem ríkisarfinn, Jakob 2., var og komið honum í öruggt skjól. Samsæri óvina konungs fór út um þúfur og jarlinn af Atholl, sonarsonur hans og fleiri voru handteknir og síðan teknir af lífi. Jakob 2. var eini sonur konungshjónanna sem upp komst en á meðal margra dætra þeirra voru Margrét, sem giftist Loðvík krónprinsi Frakka, síðar Loðvík 11., Ísabella, sem giftist Frans 1. hertoga af Bretagne, og Elinóra, sem giftist Sigismund erkihertoga af Austurríki. Mikumi-þjóðgarðurinn. Mikumi-þjóðgarðurinn er þjóðgarður í Tansaníu. Mikumi-þjóðgarðurinn er um 3.230 km² að stærð. Hann var stofnaður 1964. Gíraffi. Gíraffi (fræðiheiti: "Giraffa camelopardalis") er spendýr sem tilheyrir ættinni "Giraffidae". Til eru nokkrar gerðir af gíröffum og eru ekki mörg dýr skyld þeim en það er þó eitt dýr sem heitir ókapi. Gíraffinn fékk latneska nafnið sitt byggt á útliti þess. "Camelo-" kemur útaf útlitið á gíraffanum og grunnliturinn minnir mann á kameldýr og svo "-paradalis" vegna flekkina sem eru á gíraffanum. Gíraffar eru klaufdýr. Heimkynni. Gíraffinn lifir aðalega í suðurhluta Afríku. Þeir þrifðust í þurrum gresjum þar sem Sahara eyðimörkin er nú í dag, þar sem tré voru að finna. Þar sem þessi svæði hafa minnkar gríðalega vegna stækkun Sahara eyðimerkurinnar, þá hafa búsvæði fækkað einnig. Í dag þá þrífast þeir aðalega þar sem það er gisið skóglendi í austurhluta Afríku, og svo í norður héruðum Suður-Afríku þar sem þeir eru varðir af alþjóðlegum dýragörðum. Líkamsbygging. Gíraffi er hæðsta dýr á jörðinni. Karlkyns gíraffinn getur orðið allt að 5,5 metrar og kvenkynið allt að 4,3 metrar. Gíraffakálfar fæðast um 1,8 metra háir og stækka allt að 2,54 sentímetra á dag. Við fæðingu þá stendur móðirin og kálfurinn dettur niður um 1,8 metra með höfuðið fyrst og bregður við fallið svo það tekur djúpan andardrátt. Það skellir á höfuðuð en það skaðast ekki. Kálfinum tekur tvo tíma frá fæðingu í að geta labbað og svo tíu tíma frá fæðinu þar til þeir geta hlupið með móður sinni. Þeir verða allt að 25 ára gamlir þegar þeir eru villtir, en geta náð hærri aldri ef þeir eru haldnir í svokölluðum dýragörðum. Mataræði. Líkt og fingraför eru einstök á mönnum, þá er feldurinn á gíröffum sérstakur á sinn hátt. Formin og útlitið á flekkunum á þeim er mjög fjölbreytilegt og liturinn á feldinum breytist eftir fæðunni sem gíraffinn borðar. Gíraffar eru jurtætur og borða laufblöð og greinar frá mimosu og acasíu trjám. Hæð þeirra hjálpar mikið við að nát til matarins þar sem laufblöðin eru hátt upp í tránum og geta þeir notið matarins í næði þar sem engin önnur jarðdýr ná upp í tréin. Uppáhalds maturinn þeirra er acasíu laufblöð því þau innihalda mikin vökva. Líkt og kameldýr þá geta gíraffar einnig lifað af í langan tíma án þess að drekka vatn því þeir geta safnað saman vökva í líkamanum og nýtt hann svo hægt og rólega. Þeir reyna, þegar þeir eru að drekka vatn, að hópast vel saman og skiptast á að drekka til þess að verkjast ógnum af öðrum dýrum því þeir þurfa að beyja sig langt niður til þess að ná til vatnsins. Paul Stanley. Paul Stanley (f. 20. janúar 1952 sem Stanley Harvey Eisen) er söngvari og gítarleikari Kiss. Stanley, Paul Aldursfordómar. Aldursfordómar eða aldurstengd mismunun er tegund af staðalímynd eða mismunun gagnvart einstaklingum eða hópum fyrir aldurs sakir. Aldursfordómar byggja á ákveðnum neikvæðum viðhorfum og gildum sem notuð eru til að réttlæta mismunun og lítillækkun gagnvart fólki eftir aldri, annaðhvort hjá einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum. Aldursfordómar geta verið handahófskenndir eða kerfisbundnir. Hugtakið var búið til árið 1968 til að lýsa mismunun gagnvart eldra fólki, sambærilegu athæfi og kynþáttafordómar og kynjafordómar, en hefur síðan einnig verið notað um mismunun gagnvart ungu fólki og börnum, svo sem að skella skollaeyrum við skoðunum barna þar sem þau séu of ung eða gera ráð fyrir að þau hegði sér á ákveðinn hátt vegna æsku sinnar. Aldursfordómar í víðum skilningi og aldursrannsóknir vísa yfirleitt til neikvæðrar mismununar gagnvart eldra fólki, fólk á miðjum aldri, unglingum og börnum. Til eru ólíkar gerðir aldurstengdra fordóma. Ein tegundin hyglir fullorðnum á kostnað barna og allra ungmenna sem ekki er litið svo á að tilheyri fullorðnu fólki. Ellifordómar eða elliníð er mismunun gagnvart gömlu fólki hinum ungu í hag. Það á til dæmis við um starfsumsóknir þar sem hinir ungu eru teknir fram yfir þá gömlu vegna meintrar lífsorku þeirra og útlitsfegurðar en hin meinta reynsla, þekking og vitsmunir hinna eldri eru ekki metnir. Elliræði er sú tegund einræðis þar sem einstaklingur sem er mun eldri en aðrir í sama hópi, fyrirtæki eða samfélagi drottnar yfir hinum í krafti hugmyndar um þroska. Machine qui rêve. Machine qui rêve (íslenska: "Draumavélin") er 46. Svals og Vals-bókin og sú fjórtánda eftir þá Tome og Janry. Hún kom út á frummálinu árið 1998 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Blaðakonan Bitla kemur til fundar við Val og biður hann um aðstoð við að rannsaka dularfulla starfsemi líftæknifyrirtækis. Valur er á leið til Balí og verður því úr að Svalur kemur til aðstoðar. Hann dulbýr sig og gerist sjálfboðaliði í rannsókn hjá fyrirtækinu. Flóttaleg aðstoðarkona laumar til hans skilaboðum um að flýja, rituð aftan á aðgangskort. Svalur læðist inn á rannsóknarstofu og bregður sýnilega. Næst rankar Svalur við sér minnislaus í polli úti á götu. Hann staulast heim til sín við illan leik, en þar bíða skuggalegir menn sem reyna að skjóta hann. Svalur flýr á fund Bitlu, en aftur er honum veitt fyrirsát. Andlit hans birtist í öllum fjölmiðlum, þar sem hann er sagður háskalegur hryðjuverkamaður á flótta. Smátt og smátt öðlast Svalur minnið aftur og áttar sig á að lausn gátunnar sé að finna í líftæknifyrirtækinu, þangað sem hann snýr aftur. Í ljós kemur að fyrirtækið hefur á laun stundað það að klóna menn og að flóttamaðurinn í sögunni hafi í raun ekki verið Svalur heldur eftirmynd hans. Hinn raunverulegi Svalur, Bitla, Valur og fulltrúar yfirvalda handtaka forsprakka fyrirtækisins, en aðstoðarkonan flóttalega reynist löggæslumaður í dulargervi. Rannsóknarstofan er sprengd í loft upp, en Svalur og Bitla hjálpa fyrst hinum klónaða Sval að flýja án þess að nokkur viti. Sögunni lýkur þar sem Bitla og klónaði Svalur eru saman um borð í flutningaskipi á leið í burtu og virðast býsna náin. Magnús Kjartansson (ráðherra). Magnús Kjartansson (fæddur á Stokkseyri 25. febrúar 1919, dáinn 28. júlí 1981) var íslenskur stjórnmálamaður, heilbrigðis- og tryggingarmála- og iðnaðarráðherra fyrir Alþýðubandalagsins, ritstjóri Þjóðviljans í 24 ár, 1947-71, og rithöfundur. Hann skrifaði einnig í tímaritið Réttur. Ráðhús Reykjavíkur. Ráðhús Reykjavíkur er bygging í miðborg Reykjavíkur við Tjörnina. Þar hefur borgarstjóri Reykjavíkur skrifstofu og æðstu embættismenn sveitarfélagsins Reykjavíkur. Fornleifarannsóknir í Reykjavík. Fornleifarannsóknir í miðborg Reykjavíkur hafa ætíð verið torveldar og einungis verið unnið að þeim í tengslum við margskonar framkvæmdir, svo sem vega- og byggingaframkvæmdir. Þó hafa verið gerðar nokkuð margar og umfangsmiklar rannsóknir í miðborginni. Má þá fyrst nefna uppgröftinn við Aðalstræti og Suðurgötu í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1971–1975. Honum var stjórnað af Else Nordahl og grafið var á þremur svæðum. Við þann uppgröft kom í ljós undirstöður húsa frá 19. öld, og leifar Innréttingana frá 18. öld. Einnig komu fram bæjarrústir frá miðöldum en elstu leifar sem fundust var veggur í Grjótagötu sem reyndist vera eldri en landnámslagið. Það varð til við ösku- og hraungos í Vatnaöldum um 871 +/- 2 ár og við það jarðlag miða fornleifafræðingar við þegar þeir glíma við það vandamál að tímasetja atburði í sínum uppgröftum. Fornleifauppgröftur á Arnarhóli. Árið 1993 var grafið í Arnarhól vegna fyrirhugaðra framkvæmda þar og flokkaðist þessi uppgröftur sem björgunaruppgröftur. Ragnar Edvardsson stjórnaði þeim uppgreftri og var það jafnt fyrsti uppgröfturinn sem hann stjórnaði. Fyrstu skýrslur um býli á Arnahóli er frá 16. öld, það var síðan gefið klaustrinu í Viðey árið 1534. Síðan þá hefur verið rekið fangelsi og sveitabær til ársin 1828 þegar gamli sveitabærinn var rifinn. Styttan af Ingólfi Arnarsyni var síðan sett upp 1923. Í uppgreftrinum var komið niður á bæ frá 17. öld sem talin er vera rústir af Arnarhólsbýlinu en öruggt er talið að undir þeim rústum séu leifar af eldri byggingum því að við fyrri framkvæmdir fannst hluti af vegg og var öskulag sem er talið vera frá 1220 ofan við vegginn. Við uppgröftinn fannst einnig rómverskur peningur sem er svo sem ekkert óeðlilegt því að það voru slegnar óhemju margar myntir á tímum rómverja og hafa þessir peningar gengið kaupum og sölum í gegnum tíðina og geta því leynst víða, einnig á Íslandi. Fornleifauppgröftur í Viðey. Í tengslum við framkvæmdir við endurbyggingu húsanna í Viðey var gerð fornleifarannsókn við Viðeyjarstofu og hófst uppgröftur 1987 og honum lauk árið 1995. Þetta var fyrsti uppgröftur á Íslandi sem fram fór á klausturstað. Margrét Hallgrímsdóttir fornleifafræðingur hafði yfirumsjón með uppgreftrinum en aðrir sem komu að honum voru Sigurður Bergsteinsson, Mjöll Snæsdóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Steinunn Kristjánsdóttir en um 15 manns unnu við uppgröftinn, sænskir, enskir og danskir sérfræðingar. Ýmislegt óvænt kom í ljós við uppgröft beinagrinda frá tímum Viðeyjarklausturs 1226–1550. Þótti athyglisvert að yngri grafirnar snúa í austur og vestur en ekki norður-suður eins og venja er. Það er vegna þess að þegar Skúli fógeti leit reisa Viðeyjarstofu sneri hann framhlið hennar mót suðri og þótti síðan fallegra að snúa kirkjunni eins og þar af leiðandi gröfunum. Ýmis sjúkdómseinkenni hafa verið greind á beinunum, til dæmis voru tennurnar óvenjulega mikið slitnar og skemmdar. Einn merkasti fundurinn voru vaxtöflur og er það merkilegt fyrir þær sakir að það er mjög sjaldgæft að vax geymist svona lengi, en við nánari athugun komu í ljós að á þær voru skrifuð latnesk orð. Einnig fannst mikið af vaðsteinum, krítarpípum, dýrabeinum, myntum, koparhnöppum og vínstaupum. Innsigli Skúla Magnússonar landfógeta fannst einnig við Viðeyjarstofu. Það er yfir 200 ára gamalt þar sem Skúli lést í Viðey árið 1794. Björgunaruppgröftur við Hafnarstræti. Veturinn 2006-2007 var unnið að björgunaruppgrefti við vesturenda Hafnarstrætis í Reykjavík. Við uppgröftinn komu í ljós hafnarmannvirki frá 19. öld en einnig vandaður grjóthlaðinn hafnarbakki frá fyrri hluta 19. aldar sem var í einstaklega góðu ástandi. Fornleifauppgröftur á Alþingisreitnum. Umsjón með verkefninu hafði Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur. Uppgreftri á Alþingisreitnum hófst snemma árs 2008 og lauk í október 2009. Þar fundust margir áhugaverðir gripir, þar á meðal leifar af skreyttum snældusnúð með rúnaletri. Einnig fannst þar stór kolagröf, sem gerð hefur verið rétt eftir árið 871 eins og ráða má af landnámsgjóskunni sem þar er, og einnig járnbræðsluofnar og leifar af stíg gerðum úr viði. Komið var niður á leifar af torfveggjum frá 9. og 10. öld og einnig fannst töluvert af leðri og textíl. Talið er að ýmiss konar vinnsla hafi verið á svæðinu, svo sem fiskverkun og járnbræðsla. Svæðið afmarkast að austan af bílakjallara Alþingishússins, að sunnan af Vonarstræti, að vestan af Tjarnargötu og að norðan af Kirkjustræti. Fornleifauppgröftur á Landspítalalóðinni (Grænaborg). Vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Landspítalalóðinni var óskað að Fornleifavernd ríkisins mundi kanna fornleifar á svæðinu með forrannsókn svo tók við fyrirtækið Antikva ehf. við að grafa sjálfan uppgröftin. Uppgröfturinn hófst í byrjun sumars 2011 og var honum lokið í október 2011, umsjón með verkefninu hafði síðan Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur. Grænaborg var tómthúsbýli sem Gísli Gíslason og Sigríður Hinriksdóttir byggðu um árið 1830 og talið hafa farið í eyði um 1918. Grænaborg var talin hafa staðið suðvestur af Gamla Landspítalanum þar sem nú er garður. Bæjarstæðið fannst svo suðvestan af Gamla Landspítalanum eins og talið var að hann væri og hefur bærinn verið burstabær eða svo er talið. Talið er að bærinn sé byggður á eldri rústum en miðað við gjóskulög sem eru þar er ekki talið að eldri bær sé mikið eldri. Í uppgreftrunum fannst nokkuð úrval gripa þar á meðal mikið af flöskum af öllum stærðum og gerðum, lyfjaglös, nokkuð af leirtaui og einnig korði sem er týpa af skrautsverði. Jakob 2. Skotakonungur. Jakob 2. (16. október 1430 – 3. ágúst 1460) var konungur Skotlands frá því að faðir hans var myrtur 21. febrúar 1437 og til dauðadags. Hann var barn að aldri þegar hann tók við krúnunni og þegar hann lést skildi hann eftir sig ríkiserfingja á barnsaldri. Sömu sögu var að segja um fimm Skotakonunga í röð sem báru Jakobsnafn, frá Jakobi 1. til Jakobs 5.; allir settust í hásætið á barnsaldri og enginn þeirra náði að sjá arftaka sinn verða fullveðja. Jakob 2. var sonur Jakobs 1. og Jóhönnu Beaufort. Hann var tvíburi en eldri bróðir hans, Alexander, lést skömmu eftir fæðingu. Hann var fæddur með áberandi valbrá í andliti og var því oft kallaður „Fiery Face“ (Eldfés). Hann tók við konungdæminu sex ára að aldri og voru völdin framan af í höndum frænda hans Archibalds, fimmta jarlsins af Douglas, en eftir lát hans 1539 var enginn skoskur aðalsmaður nógu öflugur til að halda einn um stjórnartaumana og nokkrir aðalsmenn skiptu með sér völdum eftir að hafa látið myrða syni jarlsins af Douglas í „svarta kvöldverðinum“ í Edinborgarkastala. William, áttunda jarlinum af Douglas, tókst að efla gengi Douglasættarinnar að nýju og árið 1445 tók hann við stjórn landsins og stýrði því þar til Jakob konungur varð myndugur 1449. Fátt breyttist þó við það því Douglas og William Crichton lávarður höfðu öll raunveruleg völd og konungurinn fékk litlu ráðið. Hann sætti sig þó ekki við það, heldur reyndi að ná valdataumunum úr höndum þeirra og fór svo að konungur og menn hans myrtu Douglas í Stirling-kastala 22. febrúar 1452. Þar með var átökunum þó ekki lokið því Douglas-ættin (Svörtu Douglasarnir) var áfram valdamikil. Jakob konungur reyndi að gera lendur þeirra upptækar en var þvingaður til að skila þeim til níunda jarlsins. Þó fór svo að lokum að konungur og bandamenn hans unnu sigur á Douglas-mönnum í orrustunni við Arkonholm. Eignir þeirra voru gerðar upptækar og jarlinn flúði til Englands. Eftir þetta var konungsvaldið í Skotlandi mun sterkara en það hafði lengst af verið. Næstu árin hélt Jakob um stjórnartaumana af festu og sýndi mikinn áhuga á málefnum ríkisins, ferðaðist um land sitt og kom á ýmsum nýjungum. Árið 1460 settist hann með her sínum um Roxburgh-kastala, sem Englendingar héldu. Hann hafði mikinn áhuga á notkun fallbyssna í hernaði og keypti fjölmargar slíkar frá Flæmingjalandi. Þann 3. ágúst, þegar hann var sjálfur að fást við að hleypa skoti úr einni fallbyssunni, sprakk hún og konungur lést. Skotar héldu umsátrinu áfram og kastalinn féll í hendur þeirra fáum dögum síðar. Kona Jakobs 2., gift 3. júlí 1449, var María af Guilders. Þrír synir þeirra og tvær dætur komust til fullorðinsára; elstur sonanna var Jakob 3., sem var átta eða níu ára þegar faðir hans lést. Móðir hans var ríkisstjóri fyrstu árin en dó 1463. Hnetusmjör. Hnetusmjör er smurálegg sem gert er úr ristuðum jarðhnetum en við þær er bætt olíu, sykri og salti svo að blandan verði að mauki. Hnetusmjör er yfirleitt smurt á samlokur en stundum ásamt sultu. Helstu framleiðslulönd hnetusmjörs eru Bandaríkin og Kína en þess er neytt oftast í Norður-Ameríku, Bretlandi, Hollandi og sumsstaðar í Asíu, sérstaklega á Filippseyjum og í Indónesíu. Hnetusmjör fæst í tveimur aðaltegundum: sléttu og grófu. Í tilbúnu hnetusmjöri er jurtaolía stundum notuð í stað fyrir jarðhnetuolíu vegna kostnaðar. Hnetusmjör er notað í meðal annars vestur-afrískri matreiðslu út í pottrétti og súpur til að gefa þeim sérstakt bragð. Nutella. Nutella er smurálegg úr heslihnetum framleitt af ítalska matvörufyrirtækinu Ferrero. Nutella kom fyrst á markaðinn árið 1963 og var byggt á öðru súkkulaðiáleggi sem fyrirtækið setti á markað árið 1944. Nutella samanstendur af sykri, jurtaolíu, ristuðum heslihnetum, kakódufti, mjólkurdufti, bindiefni og vanillu. Nutella er mjög vinsælt í Evrópu en töluvert minna í Norður-Ameríka. Í dag fæst það í yfir 75 löndum. Nutella er oft smurt á ristað brauð sem morgunverður eða borið fram með pönnukökum. Í sumum löndum eru skyndibitastaðir sem selja aðeins mat byggðan á Nutella, til dæmis ís og pítsu með Nutella. Angel M. Wainwright. Angel M. Wainright er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Unit og General Hospital. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Wainright var árið 1994 í og hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við The Wire og Strong Medicine. Árið 2007 þá var henni boðið hlutverk í General Hospital sem Regina Thompson, sem hún lék til ársins 2008. Wainright var með stórt gestahlutverk í The Unit sem Betsy Blane, sem hún lék frá 2006-2009. Tenglar. Wainright, Angel M. Nicole Steinwedell. Nicole Steinwedell er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í The Unit. Einkalíf. Steinwedell fæddist í Pensecola, Flórída en ólst upp í San Diego, Kaliforníu. Stundaði nám í sögu og leikhúsi við Northwestern-háskólann í Evanston, Illinois. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Steinwedell var árið 2003 í Dawson´s Creek. Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Modern Men", "White Collar" og Two and a Half Men. Árið 2008 þá var henni boðið hlutverk í The Unit sem Bridget Sullivan, sem hún lék til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Steinwedell var árið 2006 í "Escape" og hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "He´s Just Not That Into You", "Paris Connections" og "A Single Man". Tenglar. Steinwedell, Nicole Vatnsdeig. Vatnsdeig er létt deig sem notað er í ýmsar kökur og bollur, oftast sætar. Deigið inniheldur yfirleitt aðeins smjör, vatn, hveiti og egg og stundum örlítið af salti og/eða sykri. Engin lyftiefni eru í deiginu þótt það sem er bakað úr því lyfti sér yfirleitt mjög vel. Lyftingin verður vegna þess að þegar deigið, sem hefur hátt vökvainnihald, er sett í heitan ofn myndast gufa inni í því sem þenur það út svo að það lyftist. Á Íslandi er deigið oftast notað í vatnsdeigsbollur sem einkum eru bakaðar á bolludaginn en það er einnig notað í ýmsar klassískar franskar kökur og smákökur eins og "croquembouches" og "éclairs", svo og í ósætar bollur eins og "gougères", sem stundum eru fylltar með ostakremi eða öðru ósætu áleggi en einnig borðaðar einar sér, til dæmis með víni. Sætar vatnsdeigsbollur eru alltaf fylltar, til dæmis með sultu og þeyttum rjóma eða einhverju kremi eða ís. Oft eru þær einnig þaktar með súkkulaði eða glassúr. Algengast er að baka vatnsdeigsbollur og annað sem gert er úr vatnsdeigi í ofni en einnig má djúpsteikja það, til dæmis "churros", sem eru vatnsdeigslengjur sem sprautað er úr kökusprautu með stjörnustút og síðan steiktar í olíu og bornar fram með heitum súkkulaðidrykk eða kaffi. Sagt er að ítalskur bakari að nafni Panterelli, búsettur í París, hafi fundið upp vatnsdeigsbakstur árið 1540. Svo mikið er víst að kökur og bollur úr vatnsdeigi hafa löngum verið vinsælar í Frakklandi og þar urðu til ýmsar klassískar vatnsdeigskökur. Grandaskóli. Grandaskóli er grunnskóli í vesturbæ Reykjavíkur við Keilugranda. Skólinn var opnaður haustið 1986. Hann hefur að geyma ýmsa tengla um allt milli himins og jarðar en þó engan um hinn dagfarsprúða en grallaralega Bert. Vefbankinn hefur reynst hundruðum nemenda Grandaskóla mikið þarfaþing og er löngu orðið ljóst að þrátt fyrir þær tækniframfarir sem verða örari og svakalegri með hverjum deginum sem líður að þá mun vefbanki valla ávallt vera í hávegum hafður í Grandaskóla. Vinsamlegast ekki fjarlæga þennan texta. Það var lagður mikill metnaður í hann og í textanum er ekkert sem er vitlaust. Tembó Tabú. Tembó Tabú (franska: "Tembo Tabou") er 24. bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin í samvinnu við Jean Roba. Hún kom út á frummálinu árið 1974, en gefin út á íslensku 1978 og er þriðja í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Svalur og Valur eru á ferð um myrkviði Afríku til fundar við bandaríska rithöfundinn "Gurgling Thirstywell", þegar þeir sjá sér til mikillar undrunar rauða fíla. Fílarnir hafa traðkað niður búðir rithöfundarins, sem sjálfur er á bak og burt. Í ljós kemur að fílarnir hafa verið málaðir, líklega til að flæma burt ferðamenn. Félagarnir komast í kynni við vinalega en einfalda svarta skógardverga. Þrjótar, þeir hinir sömu og máluðu fílana rauðar, þvinga þjóðflokkinn til að leita að gulli fyrir sig. Svalur og Valur sannfæra skógardvergana um að veita þeim mótspyrnu. Þrjótarnir fanga þá félagana og gormdýrið og hyggjast nota þá sem fóður fyrir kjötætuplöntur sem þeir rækta til að hræða dvergana til hlýðni. Vinirnir sleppa og finna Thirstywell sem hafði verið haldið föngnum. Skógardvergarnir grípa til vopna og skúrkarnir eru yfirbugaðir. Íslensk útgáfa. Tembó Tabú var gefin út af Iðunni árið 1978 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var þriðja íslenska Svals og Valsbókin. Síldarmannagarðar. Síldarmannagarðar voru garðar í Grafarvogi sem hlaðnir voru út í voginn. Milli þeirra var þröngt op og hlið. Þegar síldargöngur voru gekk síldin inn fyrir garðana á flóði og var þá opinu lokað með hliði og síldin hirt. Borgarbókasafn Reykjavíkur. Borgarbókasafn Reykjavíkur er almenningsbókasafn Reykvíkinga. Safnið var stofnað árið 1919 en hóf starfsemi 1923. Í safninu eru um 500.000 bækur og tímarit auk geisladiska, myndbanda og margmiðlunarefnis. Aðalsafnið er í Grófarhúsinu í Tryggvagötu en þar eru einnig til húsa Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Útlánsstaðir safnsins eru sex en auk þess rekur safnið bókabíl sem ferðast um hverfi Reykjavíkur og sögubíl sem heimsækir leikskóla. Safnið rekur vefinn bókmenntir.is Jakobínar. Jakobínar voru frönsk róttæk stjórnmálahreyfing sem leiddi frönsku byltinguna og var einráð í Frakklandi 1793-94. Meðal leiðtoga jakobína voru Jean-Paul Marat, Georges-Jacques Danton, Camille Desmoulins og Maximilien Robespierre. Gírondistar. Gírondistar voru hópur franskra byltingarmanna sem tóku þátt í frönsku byltingunni og byltingarstjórninni og tóku þátt í lögjafarþingi. Gírondistar voru nefndir eftir héraðinu Gironde í Frakklandi. Þeir hittust í fundarsal hjá Madame Roland en einn fremsti leiðtogi þeirra var Jacques Pierre Brissot og eru gírondistar oft kenndir við hann og kallaðir brissotínar. Í byltingarstjórninni misstu þeir völdin til Montagnards. Árið 1793 voru margir foringjar þeirra teknir af lífi. Kvennagangan til Versala. Kvennagangan til Versala eða Brauðgangan er einn af fyrstu atburðum frönsku byltingarinnar. Gangan hófst meðal kvenna á mörkuðum Parísar en að morgni 5. október 1789 lá við uppþotum í borginni vegna hækkandi verðlags og skorts á nauðsynjum eins og brauði. Seðlabanki. Seðlabanki er banki sem stjórnar gjaldmiðli og peningamálastefnu ríkis eða hóps ríkja sem eru í myntbandalagi. Seðlabankar sjá líka um bankakerfi ríkisins og hafa einkarétt á að prenta peningaseðla. Sem dæmi má nefna Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu, sá síðarnefndi sér um peningamálastefnu evrusvæðisins. Seðlabanki stjórnar peningamálastefnu með því að breyta stýrivöxtum eða gegna hlutverki lánveitanda til þrautavara, það er að segja seðlabankinn veitir banka lán á meðan kreppa stendur eða ef bankinn er að verða gjaldþrota. Sumir seðalbankar hafa líka efirlitsvöld til að koma í veg fyrir að bankar og aðrar fjármálastofnanir hagi sér á kærulausan eða kolrangan hátt. Í flestum þróuðum löndum vinna seðlabankar utan við stjórnmál. Seðlabanki Svíþjóðar er elsti seðlabankinn í heimi en hann var stofnaður árið 1668. Annar elsti er Englandsbanki sem stofnaður var árið 1694. Tracktor Bowling. Tracktor Bowling er rússnesk þungarokkhljómsveit stofnuð í Moskvu árið 1996. Meðlimir hennar eru "Lusine Gevorkyan" (söngkona), "Alexander Kondratiev" (gítarleikari og söngvari), "Andrei Ponasutkin" (bassagítar), "Vitaly Demidenko" (bassagítar) og "Alexei Nasarchuk" (trommur). Fyrsta plata hennar, "Naprolom", kom út 2002. Þessi hljómsveit er ein frægasta þungarokkhljómsveit Rússlands. Lusine Gevorkyan. Lusine Gevorkyan (f. 21. febrúar 1983, rússneska: "Лусинэ Геворкян", armenska: "Լուսինե Գեւորգյան") er söngkona Tracktor Bowling og Louna. Gevorkyan, Lusine Gene Simmons. Gene Simmons (f. 25. ágúst 1949 sem Chaim Weitz) er bassaleikari Kiss. Paricutín. Paricutín er eldfjall í Mexíkó. Peningaseðill. Peningaseðill er greiðslumáti. Seðlar eru, ásamt myntum, taldir reiðufé. Þetta þýðir að þeir geta meðal annars verið notaðir við kaup og sölu án þess að vera innleystir fyrst og að þeir eru ópersónulegir. Upprunalega réðst gildi peninga af efninu sem þeir voru gerðir úr, fyrst og fremst gulli eða silfri, og svo magninu af því. Vegna þess að bæði var óþægilegt og óöruggt að fara með eðalmálm alls staðar og vegna þess að stundum var skortur á eðalmálmi til myntsláttar voru ábyrgðarbréf notuð í stað mynta, sem var oftast loforð fyrir hönd skuldarans að útborga ákveðið magn af eðalmálmi sem geymdur var á ákveðnum stað. Elstu þekktu peningaseðlarnir voru gefnir út í Kína á 7. öld. Fyrir þetta voru ábyrgðarbréf líka notuð, en þessi voru persónuleg en það ekki var alltaf hægt að nota þau sem beinan greiðlsumáta. Síðar urðu peningaseðlar ópersónulegir þannig að þeir gætu notast sem greiðslumáti á ákveðnu svæði eða hjá ákveðnum banka. Bæði einkabankar og opinberir bankar geta gefið út peningaseðla samkvæmt ákveðnum reglum. Samt sem áður eru peningaseðlar oftast gefnir út af seðlabönkum eins og Seðlabanka Íslands og Englandsbanka en seðlarnir sjálfir gilda hjá öllum bönkum og fyrirtækjum í landinu. Stundum eru peningaseðlar ekki prentaðir í landinu þar sem þeir eru notaðir, til dæmis eru íslenskir peningaseðlar prentaðir á Bretlandi. Á flestum peningaseðlum eru ýmsir öryggisþættir eins og vatnsmerki og útfjólublátt blek, sem ætlaðir eru að forðast fölsun. Greiðslumáti. Greiðslumáti eða greiðsluaðferð á við þá aðferð sem notuð er til að millifæra ákveðna upphæð peninga frá einum aðila til annars. Helstu greiðslumátar í dag eru reiðufé, það er að segja peningaseðlar og myntir, og greiðslukort, annaðhvort debet- eða kreditkort. Í sumum löndum eru ávísanir enn þá víða í notkun, sem dæmi má nefna Bandaríkjum og Frakklandi. Önnur dæmi um greiðslumáta eru verðbréf, skuldabréf, framleiðsluaðferðir (t.d. framleiðsuvélar, verksmiðjur, skip), fasteignir (byggingar og lóðir), hráefni, eðalsteinar eins og demantar og eðalmálmar eins og gull og silfur. Mílanó meistaramót FSÍ 2011. Mílanó meistaramót í áhaldafimleikum var haldið 26.mars 2011 af Glímufélaginu Ármann í laugarbóli laugardal. Keppt var til verðlauna í fjölþraut og á einstökum áhöldum í frjálsum æfingum. Ræningjaflöt. Ræningjaflöt er í botni Lyngfellisdals. þar segja sumir að sjóræningjarnir í Tyrkjaráninu 16. júní 1627, hafi þurrkað vopn sín og klæði, áður en haldið var til byggða. Flötin var mikið notuð til knattspyrnu- og handknattleiksæfinga á síðustu öld, áður en hinir eiginlegu grasvellir komu til sögunnar. Lyngfellisdalur. Lyngfellisdalur er dalur í sunnanverðu Sæfjalli rétt norður af Kervíkurfjalli á Heimaey í Vestmannaeyjum. Dalurinn liggur hátt ofan sjávarmáls. Barbarístríðin. Barbarístríðin svokölluðu voru stríðsátök á milli Bandaríkjanna og sjóræningja í Barbaríinu í Norður-Afríku snemma á 19. öld. Á þeim tíma skiptist Barbaríið í Trípólí (Líbýu) og Alsír, sem voru í raun sjálfstæð furstadæmi þótt þau tilheyrðu Ottómanaveldinu að nafninu til, og soldánsdæmið Marokkó. Ástæðan fyrir stríðsátökunum var að sjóræningjarnir vildu að kaupskipin borguðu þeim skatt þegar þau sigldu um Miðjarðarhafið. Ef þau greiddu ekki skattinn réðust sjóræningjarnir á skipin og tóku vörur í staðinn og oft tóku þeir áhöfnina til fanga fyrir lausnargjald. Bandaríski sjóherinn réðust á víggirtar borgir sjóræningjanna og heimtuðu að reglur þeirra um greiðslur yrðu dregnar til baka. Saga. Barbarísjóræningjar höfðu um langt skeið, allt síðan snemma á 17. öld, ráðist á bresk og önnur evrópsk kaupskip á siglingu meðfram austurströnd Afríku. Þeir tóku fjölda manns til fanga og þurftu fjölskyldur þeirra og söfnuðir iðulega að efna til samskota til að greiða lausnargjald þeirra. Furstadæmin í Barbaríinu kröfðu kaupskip um eins konar verndargjald til að tryggja að ekki yrði ráðist yrði á þau. Sjóræningjar réðust á bandarísk skip á meðan frelsisstríð Bandaríkjanna stóð yfir en þann 20. desember 1777, tilkynnti marokkóski soldáninn Mohammed 3. að bandarísk kaupskip yrðu undir vernd soldánsins og gætu því notið þess að sigla óáreitt um Miðjarðarhafið og meðfram ströndinni. Þessi marokkósk-bandaríski vináttusamningur er elsta milliríkjasamkomulag Bandaríkjanna sem enn er órofið. Öðru máli gegndi um sjóræningja frá Alsír og Trípóli, þeir hertóku bandarísk skip og fór svo að Bandaríkjamenn neyddust til að gera samkomulag í mars 1785 um greiðslu hárrar upphæðar í verndargjald og lausnargjald fyrir bandaríska fanga sem teknir höfðu verið. Þegar Thomas Jefferson varð forseti Bandaríkjanna 1801 krafðist pasjann í Trípólí þess að nýja stjórnin greiddi 225 þúsund dollara í verndargjald. Jefferson neitaði og pasjann sagði Bandaríkjunum stríð á hendur 10. maí 1801. Jefferson sendi herskip til Miðjarðarhafsins og setti hafnbann á Trípólí. Til átaka kom á sjó nokkrum sinnum og í apríl 1805 lögðu fáeinir bandarískir landgönguliðar ásamt 500 egypskum málaliðum bæinn Darna í Líbíu undir sig. Það var í fyrsta sinn sem hermenn reistu bandarískan fána á erlendri grund. Til þess atburðar má rekja það að í baráttusöng bandaríska landgönguliðsins er sungið um strendur Trípólí. Fljótlega eftir það var samið um frið og greiddu Bandaríkjamenn fjárupphæð fyrir nokkra landa sína sem voru í haldi Trípólímanna. Nokkrum árum síðar fóru Barbarísjóræningjar aftur að láta á sér kræla og ræna bandarísk kaupskip en það var ekki fyrr en 1815 sem Bandaríkjamenn sendu herskip á vettvang og hófst þá seinna Barbarístríðið. Það stóð stutt; bandarísku skipin gersigruðu flota Barbarísins og skrifað var undir vopnahléssamning 3. júlí 1815. Daniel Bruun. Daniel Bruun (27. janúar 1856 í Viborg í Danmörku – 22. september 1931 í Kaupmannahöfn) var liðsforingi í danska hernum, fornleifafræðingur og höfundur. Þjóðfræðirannsóknir. Daniel Bruun var í danska hernum frá 1879 til 1910 og stundaði bæði þjóðfræðilegar- og fornleifafræðirannsóknir meðfram herþjónustunni. Árið 1910 hætti hann í hernum en gekk í varalið hersins. Bruun hafði mikla löngun til að ferðast og árið 1881-82 bauð hann sig fram til að taka þátt í franskri herferð í Alsír og hann snéri þangað aftur bæði 1893 og 1911. Hann gerði rannsóknir á lítt þekktum svæðum í Túnis og safnaði þar heilmiklum þjóðfræðilegum gögnum sem hann færði til danska Þjóðminjasafnsins. Bruun skrifaði einnig bækur um ferðalög sín í Túnis og Alsír og árið 1893 kom út bókin "Algier og Sahara" og "Huleboerne i Syd-Tunis" (1895) sem var um þjóðfræðilegar rannsóknir á Berbum í suðurhluta Túnis. Stríðsfréttaritari. Daniel Bruun gegndi einnig starfi stríðsfréttaritara Berlingske Tidende í stríði Rússa og Japana árið 1904 og skrifaði bókina "Med Russerne i Mantschuriet" (1905) um þá lífsreynslu en áhugi Bruun á stríðsögu má einnig sjá í bókum hans "Krig gennem Aartusinder I-V" (1908-1911). Fornleifafræði. Áhugi Bruun á fornleifafræði byrjaði snemma og var hann afkastamikill fornleifafræðingur. Meðfram og eftir herþjónustuna vann Bruun fyrir danska Þjóðminjasafnið og eftir þá reynslu skrifaði hann ritið "Danmark, Land og Folk" (1919-1923) sem kom út í fjórum bindum. Bruun stóð fyrir mörgum fornleifauppgröftum og þá aðallega í Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Grænlandsrannsóknir. Daniel Bruun gerði kerfisbundna kortlagningu á byggðum norrænna manna á Grænlandi í ferðum sínum þar árin 1894 og 1903 og lagði með því grunninn að vísindalegum rannsóknum á þeim. Bruun benti á að það væru tengsl á milli byggingaaðferða í byggðum norrænna manna á Grænlandi og gamalla byggingaaðferða á Íslandi. Niðurstöður Bruun voru birtar í vísindaritinu "Meddelelelser om Grønland" og einnig gaf hann út bækurnar "Mellem Fangere og Jægere" (1897) og "Erik den Røde og Nordbokolonierne i Grønland" (1915) eftir rannsóknir sínar í Grænlandi. Íslandsrannsóknir. Daniel Bruun var afkastamesti fornleifafræðingurinn á Íslandi og Grænlandi á árunum 1894-1910 og þó sérstaklega á Íslandi. Hann var upphafsmaður etnógrafískrar (þjóðfræðilegrar) fornleifafræði á Íslandi og hafa fáir safnað eins miklum upplýsingum um íslenska þjóðmenningu eins og hann. Þegar Bruun kom fyrst til Íslands árið 1896 var það í þeim tilgangi að dýpka skilning sinn á þeim norrænu eyðibyggðum sem hann hafði verið að rannsaka á Grænlandi. Það þróaðist þó þannig að hann sá hve mikil fróðleiksnáma hin íslenska sveitamenning var og endaði það með því að hann kom hingað til lands 14 sinnum en hætti Grænlandsrannsóknum sínum. Með komu Bruun til landsins varð bylting í kumlarannsóknum, hann hunsaði að mestu sögulegar heimildir og notaðist þess í stað við vísindaleg vinnubrögð sem voru á heimsmælikvarða. Hann gerði afstöðukort af kumlastaðnum, teiknaði kumlin og sýndi hvar bein og gripir voru staðsettir. Einnig lét hann kyn- og aldursgreina mannabein. Á Dalvík rannsakaði Bruun kumlateig með 14 kumlum en þar á meðal var fyrsta bátkumlið sem fannst á Íslandi. Hann rannskaði fleiri kuml og gerði uppgrefti m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit og á Gásum í Eyjafirði. Í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn eru skissur og myndir í hundraða tali frá ferðalögum hans um Ísland. Daniel Bruun rannsakaði fornnorræna húsagerð, búskaparhætti, reiðtygi, leiðir, matargerð og klæðnað og fleira úr daglegu lífi fólksins í sveitum landsins og skráði þetta hjá sér og hafa því mikilvægar upplýsingar varðveist sem annars hefðu glatast. Heimildir. Bruun, Daniel Bruun, Daniel Þorbjörg Ágústsdóttir. Þorbjörg Ágústsdóttir (f. 14. mars 1981) er íslensk skylmingakona og jarðeðlisfræðingur sem keppir fyrir Skylmingafélag Reykjavíkur. Þorbjörg keppir í skylmingum með höggsverði og hefur sjö sinnum orðið Norðurlandameistari kvenna í þeirri grein. Hún er einnig margfaldur Íslandsmeistari í íþrótt sinni og hefur náð góðum árangri á mörgum sterkum skylmingamótum víða um heim. Chichester. Chichester er borg í Vestur-Sussex í Suðaustur-Englandi. Í borginni búa um 24.000 manns og þar er dómkirkja. Borgin var stofnuð á tímum Rómverja og á sér því langa sögu. Hún varð mikilvæg síðar þegar Engilsaxar höfðu stjórn yfir landinu. Dómkirkjan var byggð á 12. öld og í borginni eru nokkrar elstu kirkjur og byggingar í Stóra-Bretlandi. James D. Watson. James D. Watson (fæddur 6. apríl 1928) er bandarískur sameindalíffræðingur, erfðafræðingur og dýrafræðingur. Hann er frægastur fyrir að hafa uppgötvað byggingu DNA-sameindarinnar árið 1953 ásamt Francis Crick og Rosalind Franklin. Þau hlutu Nóbelsverðlaunin árið 1962 „fyrir uppgötvanir þeirra varðandi sameindagerð kjarnsýra og merkingu þeirra í millifærslu upplýsinga í lifandi efnum“. Eftir rannsóknir við Háskólann í Chicago og Háskólann í Indiana vann hann í Cavendish-rannsóknarstofunni við Cambridge-háskóla. Þar kynntist hann Francis Crick samstarfsmanninum sínum. Árið 1956 varð hann rannsóknarmaður í líffræðideildinni við Harvard-háskóla en þar vann hann til 1976 í rannsóknum á sameindalíffræði. Frá 1988 til 1992 vann Watson í samstarfi við National Institutes of Health og tók þátt í stofnun Human Genome Project. Watson hefur skrifað margar vísindabækur, þar á meðal "The Molecular Biology of the Gene" (1965) og vinsælu bókina "The Double Helix" (1968) um uppgötvun byggingu DNA. Frá árinu 1968 var hann stjóri rannsóknarstofnunar Cold Spring Harbor Laboratory (CSHL) í Long Island í New York-fylki þar sem hann jók fjármögnun hennar og rannsóknir. Þar einbeitti hann sér að rannsóknum á krabbameini. Árið 1994 varð hann formaður stofnunarinnar og gerði það í tíu ár. Hann varð síðar heiðursrektor hjá stofnuninni en sagði af sér árið 2007 vegna umdeilds viðtals. Heimildir. Watson, James Watson, James Stephen Harper. Stephen Joseph Harper (fæddur: 30. apríl 1959) er forsætisráðherra Kanada og formaður Íhaldsflokksins. Hann varð forsætisráðherra eftir að flokkur hans myndaði minnihlutastjórn eftir þingskosningarnar 2006. Harper fæddist í Toronto og er elstur þriggja systkina. Hann skráði sig í háskólanám við Háskólann í Torronto en hætti eftir tvo mánuði. Síðar flutti hann til borgarinnar Edmonton í fylkinu Alberta og hélt háskólanámi sínu áfram við Háskólann í Calgary þar sem hann lauk bachelors-gráðu og útskrifaðist 1993 með mastersgráðu. Hann bauð sig fyrst fram til þingsetu á kanadíska þinginu í þingkosningunum 1988 þegar hann bauð sig fram í kjördæminu Vestur Calgary en náði ekki kjöri. Hann komst fyrst á þing 1993. Tilvísanir. Harper, Stephen Íslenska sauðkindin. thumb Íslenska sauðkindin er sauðfé af stuttrófukyni með skandinavískan uppruna. Víkingar fluttu með sér meðal annars skandinavískt sauðfé þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en 1000 árum síðan. Íslenska sauðkindin hefur stutta fætur miðað við önnur sauðkyn og er laus við ull á fótum og andliti. Stofninn náði hámarki 1978 og nú eru rúmlega 480.000 kindur á Íslandi. Á 19. öld vaknaði áhugi á ræktun og kynbótum á Íslandi. Það leiddi til sjúkdóma sem íslensku kindurnar eru afar næmar fyrir. Í dag er innflutningur á sauðfé til landsins bannaður vegna sóttvarna. Erfðafræðilega er nútímasauðfé á Íslandi það sama og það var í upphafi byggðar. Guðmundur Arason ríki. Guðmundur Arason (um 1395 – (líklega) 1448), oftast kallaður Guðmundur ríki, var íslenskur höfðingi og sýslumaður á fyrri hluta 15. aldar. Hann var ríkasti maður landsins á sinni tíð og líklega einn af auðugustu Íslendingum fyrr og síðar. Hann bjó á Reykhólum og er oftast kenndur við þann bæ. Uppgangur og auður. Guðmundur var sonur Ara Guðmundssonar sýslumanns á Reykhólum og fyrri konu hans Ólafar Þórðardóttur. Hann erfði mikinn auð eftir föður sinn, þar á meðal höfuðbólin Reykhóla, Núp í Dýrafirði og Brjánslæk á Barðaströnd. Hann kvæntist 5. október 1423 Helgu Þorleifsdóttur, elstu dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar, og fékk með henni mikið fé, þar á meðal Saurbæ á Rauðasandi. Þessum höfuðbólum og öðrum sem Guðmundur eignaðist síðar fylgdi fjöldi annarra jarða á Vestfjörðum og víðar og hefur verið reiknað út að Guðmundur hafi átt um 3,7% allra jarðeigna á landinu. Hann var einnig mjög auðugur að lausafé og í skýrslu um eignir hans frá 1446 segir meðal annars um innanstokksmuni á Reykhólum að þar voru til: Sængur 33, flestar nýjar með áklæðum og rekkjuvoðum, 6 manna línlök og 5 glituð línhægindi, 2 mundlaugar stórar og 5 litlar. Tinföt 32 smá og stór, 90 tréföt, 12 stórkönnur, 11 hálfkönnur, 13 smátintir, 68 vínstaup og 18 stór drykkjarhorn, sum búin með silfur, og meir en 100 borðdiskar útlenskir. Dómurinn yfir Guðmundi. Guðmundur verslaði mikið við Englendinga sem þá voru farnir að veiða fisk við Vestfirði og kaupa af íslenskum útvegsbændum, og græddi á því mikið fé. Talið er að þessi viðskipti hafi orðið til þess að Guðmundur bakaði sér óvild Kristófers Danakonungs, sem vildi leitast við að draga úr áhrifum Englendinga á Íslandi. Einar Þorleifsson í Vatnsfirði, mágur Guðmundar, dvaldist í Danmörku 1444-1445 og kom heim með hirðstjóratign norðan lands og vestan. Þann 9. maí 1446 kvaddi hann saman þing á Sveinsstöðum í Vatnsdal og leiddi þar fram vitni um svokallaða Norðurreið Guðmundar, þegar hann fór um Húnaþing með yfirgangi og ofríki nítján árum fyrr, en þá var hann þar sýslumaður. Einar kvað svo sjálfur upp dóm í málinu daginn eftir: „... og lýsti ég Guðmund Arason útlægan og óheilagan, hvar hann kann takast utan griðastaða og því fyrirbýð ég hverjum manni héðan í frá hann að hýsa eða heima halda eða hafa, styðja eða styrkja eða nokkra björg veita í móti kóngsins rétti og landsins lögum undir slíka sekt sem lögbók vottar...“ Framgangur Einars á þinginu, þar sem hann var í raun bæði ákærandi og dómari, og það að hann skyldi dæma Guðmund útlægan að honum fjarstöddum, án þess að hann gæti borið hönd fyrir höfuð sér, og allar eignir hans til konungs og erfingja, þykir benda til þess að hann hafi gengið erinda konungs í þessu máli. Eignir Guðmundar komust í umsjá Einars og síðar Björns ríka bróður hans og hirtu þeir af þeim tekjur en erfingjar fengu ekki það sem þeim bar og hófust seinna af því málaferli sem stóðu með hléum fram yfir aldamótin 1500. Eftirmál. Guðmundur fór til Englands 1448 en hverfur við það úr sögunni og hefur líklega látist fljótlega eða jafnvel farist í hafi. Eina barn þeirra Helgu sem upp komst var Solveig Guðmundsdóttir, sem átti í löngum erfðadeilum við móðurbróður sína og frændur. Maður hennar var Bjarni Þorleifsson á Brjánslæk, sem kallaður var Bjarni „góði maður“ en var ofstopamaður og var drepinn af mönnum Einars Björnssonar jungkæra, sonar Björns ríka, árið 1481. Andrés Guðmundsson, óskilgetinn sonur Guðmundar, átti einnig í deilum við Vatnsfirðinga og haustið 1482 kom hann til Reykhóla mð lið, lagði undir sig virki sem Þorleifur Björnsson hafði látið gera þar, hafði þar erlenda byssumenn að sögn og hélt virkinu til 4. janúar 1483 en þá kom Þorleifur með lið til Reykhóla. Eftir nokkur átök og skothríð var Andrés tekinn höndum og hafður í hald til vors en þá sættust þeir Þorleifur. Um þessa atburði skrifaði Björn Th. Björnsson skáldsöguna "Virkisvetur". Light Years. "Light Years" er sjöundi breiðskífa af ástralska söngkona Kylie Minogue. Hún var gefin út þann 25. september 2000 með Parlophone. Breiðskífa náði fyrsta sæti í Ástralíu og var staðfest fjórum sinnum platínu. Breiðskífa náði áttunda sæti í Nýja Sjálandi og öðru sæti í Bretlandi. Noemi. Veronica Scopelliti (fædd 25. janúar 1982 í Róm), þekktust sem Noemi, er ítölsk söngkona. Jan Janszoon. Jan Janszoon van Haarlem þekktur undir nafninu Murat Reis yngri (um 1570 – 1641?) var fyrsti forseti og aðmíráll í lýðveldinu Salé og landstjóri yfir Oualidia, báðir þessir staðir eru í Marokkó. Einnig var hann hollenskur sjóræningi, einn af alræmdustu Barbarísjóræningjunum frá 17. öld, frægastur „Salé Rovers“ sjóræningjanna. Ævi. Jan Janszoon var fæddur í Haarlem í Hollandi árið 1575. Lítið er vitað um fyrstu æviár hans en vitað er að hann kvæntist ungur og eignaðist dóttur, Lysbeth Janszoon. Sjóræningjaferill. Árið 1600 hóf Jan Janszoon feril sinn sem sjóræningi. Hann byrjaði sem hollenskur kapari sem sigldi frá heimaborg sinni Haarlem. Vann hann fyrir hollenska ríkið og var markmiðið að hrella spænsk skip í áttatíu ára stríðinu. Sjórán fyrir hollenska ríkið voru að Janszoons mati ekki nægilega arðbær þannig að hann fór líka að sigla undir flaggi sjóræningja úr Barbaríinu. Þegar hann réðist á spænsk skip var það í nafni hollensku stjórnarinnar en þegar hann réðist á skip annarra ríkja gerðist hann skipstjóri Ottomans og flaggaði rauða hálfmána Tyrkjanna eða fána annarra Afríkuþjóða við Miðjarðarhafið. Á þessu tímabili hafði hann yfirgefið sína hollensku fjölskyldu. Handtekinn af Tyrkjum. Janszoon var handtekinn árið 1618 á eyjunni Lanzarote, sem er ein af Kanaríeyjum, af sjóræningjum úr Barbaríinu og fluttur til Algeirsborgar sem fangi. Þar skipti hann um trú og gerðist múslimi. Því er haldið fram að hann hafi verið neyddur til þessara trúskipta. Ottomanar viðhéldu áhrifum sínum fyrir hönd keisara síns með því að hvetja Mára opinberlega til að fara ránshendi gegn evrópskum ríkjum, sem börðust gegn Ottomanveldinu. Eftir að Janszoon snerist til íslams sigldi hann með hinum fræga sjóræningja Sulayman Rais (Slemen Reis), Hollendingi sem hét áður De Veenboer og Janszoon hafði þekkt. Sulayman hafði eins og Janszoon skipt um trú. En vegna þess að Algeirsborg hafði samið um frið við nokkrar Evrópuþjóðir, var ekki lengur hægt að selja þaðan góss, svo sem skip og skipsfarma. Eftir að Sulayman Rais var drepinn af fallbyssukúlu árið 1619 flutti Janszoon til hafnarborgarinnar Salé og byrjaði að gera þaðan út sem Barbarísjóræningi. Ísland. Árið 1627 réð Janszoon danskan þræl til að vísa sér leið til Íslands. Við strendur Færeyja rændi hann fiskibáti. Skip hans sigldi til Grindavíkur og kom þangað 20. júní. Þar rændu þeir fé og fólki, tólf Íslendingum og þremur Dönum og drápu tvo menn. Á útleið hertóku þeir tvö dönsk skip og fönguðu áhafnir þeirra. Þeir sigldu síðan áleiðis til Bessastaða en þar steytti skip Janszoons á skeri en losnaði þó aftur. Hann sigldi við svo búið frá landinu 24. júní, hélt heim til Salé og seldi fanga sína þar í ánauð. Annað skip, sem var frá Algeirsborg en kann að hafa verið í einhverju samfloti við skip Janszoons, kom til Austfjarða 5. júlí og rændi þar næstu daga, aðallega í Berufirði og Breiðdal, og tók þar um 110 manns herfangi. Skipið hélt síðan til Vestmannaeyja, en þar hafði annað skip slegist í lið með þeim. Ræningjarnir gengu á land í Vestmannaeyjum um miðjan júlí, fóru þar ránshendi, hertóku á þriðja hundrað manns en drápu 34, að því er talið er. Þetta fólk var flutt til Algeirsborgar og selt þar. Baltimore á Írlandi. Eftir að hafa siglt um höfin í tvo mánuði, án þess að hafa náð góssi, náði Janszoon upplýsingum frá fanga að nafni John Hackett hvar best væri að ráðast að landi og bera sem mest úr býtum. Hackett sagði honum frá smábæ á Írlandi sem hét West Cork. Hann leiðbeindi Janszoon þangað og tókst með því að hindra að ráðist yrði á sinn heimabæ. Janszoon réðist til atlögu 20. júní 1631 og náði þar 108 manneskjum sem hann seldi sem þræla í Norður-Afríku. Janszoo hafði engann áhuga á Keltunum, sleppti þeim en tók aðeins Englendinga. Stuttu eftir árásina var Hackett handtekinn og hengdur fyrir glæp sinn. Aðeins tveir af þeim fjölda sem voru hnepptir í ánauð snéru aftur til síns heimalands. Miðjarðarhaf. Jan Janszoon hagnaðist mikið af að stunda rán á eyjunum í Miðjarðarhafinu og urðu Baleariseyjarnar, Korsíka, Sardinía og suðurströnd Sikileyjar fyrir barðinu á honum og hans áhöfn. Oftast seldi hann ránsfenginn í Túnis þar sem hann var góður vinur þeirra sem þar réðu ríkjum. Janszoon sigldi um Miðjarðarhafið og barðist einnig á ströndum Krítar og Kýpur. Í áhöfn hans voru menn frá Hollandi, Marokkó, Arabíu og Tyrklandi. GAIS. GAIS er sænskt knattspyrnufélag frá Gautaborg. Félagið er gjarnan kallað „Makrillarna“ sem þýðir Makrílarnir á íslensku og vísar það búnínga félagsins, sem þykja minna á liti fisksins sem líka er með grænar og svartar rendur. Gröf í Öræfum. Gröf í Öræfum er nafn á býli sem lagðist í eyði af völdum eldsumbrota í Öræfajökli 1362 sem þá hét "Knappafellsjökull". Gröf í Öræfum er skammt norðan við bæinn Hof á milli Skeiðarársands og Breiðamerkursands. Elsta heimild um gangabæ. Elstu íveruhús á Íslandi eru skálar með sveigðum langveggjum og eldstæði á miðju gólfi. Fljótlega var farið að bæta viðbyggingum við sjálfan aðalskálann en bæjarrústin á Gröf er sú elsta dæmið um gangabæ. Í gangabæ er inngangurinn í miðju og skiptir bænum í tvennt og er gengið í öll aðalherbergi hússin úr göngunum. Eldstæðið er ekki lengur í skálanum eins og áður og í Gröf voru eldhús og skemma við sitthvorn enda bæjarins. Talið hefur verið að kólnandi veðurfar og skortur á eldiviði eigi þátt í þessari þróun. Blómleg sveit í Litlahéraði. Öræfasveit kallaðist áður Litlahérað til aðgreiningar frá Fljótsdalshéraði en af heimamönnum var sveitin einfaldlega nefnd Hérað. Svo virðist sem byggð í Litlahéraði hafi verið blómleg. Samkvæmt máldögum voru guðshús þar sautján: tvær hálfkirkjur, ellefu bænhús og fjórar sóknarkirkjur ásamt öðrum bæjum og er fjöldi bæja áætlaður að minnsta kosti 30. Ásamt hefðbundnum bústörfum sinntu sveitungar í Litlahéraði kornrækt, einkum ræktun á byggi. Við uppgröft sem þar fór fram 1955 – 1957 var grafið upp sofnhús (hús þar sem korn var þurrkað í sérstökum ofni, sofni) og fannst þar einnig kolað bygg. Smæð byggkjarnanna benti til lélegra vaxtarskilyrða. Kristján Eldjárn gerði rannsóknir á sofnhúsinu 1957. Eldsumbrotin 1362. Öræfajökulsgosið 1362 var geysiöflugt gjóskugos og því fylgdi hrikalegt jökulhlaup sem lagði ekki einungis Gröf í Öræfum í eyði, heldur urðu að minnsta kosti 20 bæir hamförunum að bráð þannig að þeir byggðust ekki aftur. Sumir sópuðust burtu í jökulhlaupinu og aðrir urðu undir aur ásamt því að vikur færði mörg bæjarstæði í kaf enda eru gjóskulögin eftir þetta hamfaragos 20 – 40 cm á þykkt. Rannsóknir á þessu svæði hafa gefið vísbendingar um ákveðna tegund af gjóskuflóði eða svokallað gusthlaup. Gusthlaupið gæti hafa grandað bæjum í Litlahéraði. Gusthlaup fara með gríðarlegum hraða, allt að 300 km á klukkustund. Þau draga til sín allt súrefni og það ásamt miklum hita sem er í þeim er grandar öllu lífi sem fyrir verður. Forrannsóknir benda til þess að býlið Bær sem ekki er langt frá Gröf gæti hafa orðið fyrir gusthlaupi en fleiri rannsókna er þörf. Elstu heimildir um eldsumbrotin 1362. Stuttu eftir gosið er ritað í Skálholtsannál: "„Eldar uppi í þrem stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum, að eyddi allt Litlahérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi, svo að eyddi fimm þingmannaleiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó, þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur, að þar urðu síðan sléttir sandar. Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu, en rak saman í skafla, svo að varla sá húsin.“" Fyrsta heimild um að aftur sé komið fólk í Öræfi, er máldagi Hofskirkju frá 1387 sem talinn er ritaður af Mikael Skálholtsbiskup eða skrifurum hans. Fornleifarannsóknir og uppgreftir á 20. öld. Að sumu leyti er hægt að líkja atburðum 1362 við atburðina í Pompeii árið 79, þó ekki sé hægt að fullyrða hvort menn og dýr hafi farist í hamförunum á Litlahéraði. Í seinni tíð hafa verið gerðar grunnrannsóknir til að fá enn meiri vitneskju um þetta mjög svo spennandi svæði sem án efa geymir vitneskju um forna tíma. Smithsonian-dýragarðurinn. Smithsonian-dýragarðurinn (eða Smithson-dýragarðurinn) er dýragarður í Washington í Bandaríkjunum. Dýragarðurinn tilheyrir Smithsonian-stofnuninni. Tierpark Hagenbeck. Tierpark Hagenbeck (eða Dýragarður Hagenbecks) er dýragarður í Hamborg í Þýskalandi, frá upphafi 20. aldar. Fáni Rússlands. Fáni Rússlands er þjóðfáni Rússlands, hans er fyrst getið 1688 á skipaflota Rússa en varð opinber fáni 1896 við krýningu Nikulásar annars. George Weasley. Er einn tvíbura Arthur's Weasley í Harry Potter bókunum eftir J.K Rowling. Ræningjatangi. Ræningjatangi er tangi á Heimaey í Vestmannaeyjum. Tanginn er nefndur eftir sjóræningjum sem komu til eyjanna í Tyrkjaráninu 1627 en talið er að ræningjarnir hafi þar komið á land. Þeir munu ekki hafa siglt inn á höfnina því að þar voru mannaðar fallbyssur á Skansinum. Ólafur Egilsson segir í "Reisubók" sinni að íslenskur maður að nafni Þorsteinn, sem verið hafi á enskri duggu sem ræningjarnir hertóku á leið sinni frá Austfjörðum, hafi vísað þeim til landgöngu á Ræningjatanga. Búgínska. Búgínska er ástrónesíkt tungumál talað af 3 – 4 milljónum á Súlavesí í Indónesíu. Málið er ritað bæði með latínuletri og sérstöku búgínsku stafrófi af indverskum uppruna. Búrjatíska. Búrjatíska er mongólskt tunqumál sem er talað af um 350.000 manns í Búrjat í Suður-Síberíu, austur, suður og vestur af Bajkalvatni. Það er ritað með kýrillísku stafrófi. Estella Svíaprinsessa. Estella, fullu nafni Estelle Silvia Ewa Mary, (fædd 23. febrúar 2012 á Karólínska sjúkrahúsinu í Solna í Svíþjóð) er sænsk erfðaprinsessa og hertogaynja af Austur-Gautlandi. Hún er dóttir Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins. Estella er fyrsta barn þeirra og er önnur í erfðaröðinni að sænsku krúnunni, á eftir móður sinni. Borgarskipulagning. a> verkfræðings. Línurnar tákna nýjar götur sem urðu til í í kjölfar umbreytingarinnar. Borgarskipulagning á við miðvitaða stjórn á útþenslu borgar eða þéttbýlis. Slík borgarskipulagning spannar allt frá hönnun torga og gatna til skipulagningar heillar borgar. Hún felur í sér meðal annars arkitektúr, uppbyggingu samgöngu- og fjarskiptakerfa, greiningu umhverfis, loftslags og landslags, og mannlega þætti. Viktoría krónprinsessa. Brúðkaup Viktoríu prinsessu og Daníels Westling. Viktoría (Victoria Ingrid Alice Desirée), hertogaynja af Vestur-Gautlandi (f. 14. júlí 1977) er krónprinsessa Svíþjóðar, dóttir Karls 16. Gústafs Svíakonungs og Silvíu drottningar. Þegar hún fæddist voru lög um ríkiserfðir með þeim hætti í Svíþjóð að synir gengu fyrir dætrum, óháð aldri, og því varð bróðir hennar, Karl Filippus, krónprins við fæðingu 1979. Þann 1. janúar 1980 var lögunum breytt þannig að elsta barn erfir ríkið, óháð kyni, og varð Viktoría þá krónprinsessa. Viktoría giftist Daniel Westling 19. júní 2010 eftir langt tilhugalíf en þau kynntust þegar hann var einkaþjálfari hennar. Hann hlaut við giftinguna titilinn Daníel prins og var gerður hertogi af Vestur-Gautlandi. Fyrsta barn þeirra fæddist 23. febrúar 2012 og hlaut nafnið Estelle. Gústaf 5.. Gústaf 5. (Oscar Gustaf Adolf, fæddur 16. júní 1858, dáinn 29. október 1950) var konungur Svíþjóðar frá 8. desember 1907 til dauðadags. Hann var af Bernadotte-ætt, sonur Óskars 2. Svíakonungs og Soffíu af Nassau. Hann var 92 ára þegar hann lést og er sá konungur Svíþjóðar sem langlífastur hefur orðið og ríkti næstlengst, á eftir Magnúsi Eiríkssyni smek. Faðir hans tók við ríkjum árið 1872 og varð Gústaf þá krónprins Svíþjóðar og Noregs en Noregur fékk sjálfstæði tveimur árum áður en hann tók við krúnunni og varð hann því aldrei Noregskonungur. Hann var íhaldssamur í skoðunum og vildi halda fast í völd krúnunnar. Árið 1914 þvingaði hann ríkisstjórn Frjálslynda flokksins til að segja af sér og skipaði sjálfur menn í utanþingsstjórn en eftir kosningarnar 1917 neyddist hann til að fela formanni Frjálslynda flokksins stjórnarmyndun og láta af tilraunum til að hafa áhrif á stjórnun ríkisins. Hann var talinn hallur undir nasista og Þýskaland á fjórða áratugnum en reyndi að fá Hitler til að draga úr Gyðingaofsóknum. Silvía Svíadrottning. Silvía (fædd Silvia Renate Sommerlath 23. desember 1943 í Heidelberg í Baden-Württemberg í Þýskalandi) er drottning Svíþjóðar, kona Karls 16. Gústafs Svíakonungs. Foreldrar Silvíu voru Walther Sommerlath, Þjóðverji fæddur í Brasilíu, og kona hans Alice Soares de Toledo, sem var brasilísk. Fjölskyldan bjó í São Paulo í Brasilíu 1947 – 1957. en flutti þá aftur til Heidelberg. Silvía lagði stund á tungumála- og túlkanám og auk sænsku og þýsku talar hún frönsku, spænsku, portúgölsku, ensku og sænskt táknmál. Hún kynntist Karli Gústaf á Ólympíuleikunum í München 1972, þar sem hún var túlkur. Þau gengu í hjónaband 19. júní 1976 og eiga börnin Viktoríu, Karl Filippus og Magdalenu. Halldór Jónsson hertekni. Halldór Jónsson (1586 – 9. mars 1648), kallaður Halldór hertekni, var íslenskur bóndi og lögréttumaður sem hertekinn var í Tyrkjaráninu og fluttur til Marokkó en sneri aftur heim og var í röð merkari bænda á sinni tíð. Halldór var sonur séra Jóns Jónssonar prests á Stað í Grindavík og konu hans Guðrúnar Hjálmsdóttur. Hann var hertekinn af sjóræningjum úr Barbaríinu undir stjórn Murat Reis á Járngerðarstöðum í Grindavík 20. júní 1627. Á Járngerðarstöðum bjó einnig systir Halldórs, Guðrún Jónsdóttir, ásamt manni sínum Jóni Guðlaugssyni og tveimur sonum þeirra, Jóni stúdent og Helga. Þau voru öll tekin en Jón bóndi var var skilinn eftir í fjörunni því hann var orðinn aldraður og ræningjunum þótti ekki taka því að hafa hann með. Einnig voru tveir bræður þeirra Halldórs og Guðrúnar teknir. Fjölskyldan var flutt til Salé í Marokkó ásamt öðrum sem teknir voru í Grindavík en það voru alls tólf Íslendingar og þrír Danir, og þar voru þau seld í ánauð. Halldór og Guðrún systir hans voru ekki lengi í Barbaríinu og er sagt að hollenskur maður hafi greitt lausnargjald fyrir þau. Systkinin komust til Danmerkur 1628 og komu heim til Íslands með vorskipum sama ár, en bræður þeirra og synir Guðrúnar urðu eftir. Bræðurnir Helgi og Jón skrifuðu foreldrum sínum bréf 1630 og voru þá þrælar. Helgi var keyptur laus 1636 og sneri heim en Jón kom ekki aftur. Halldór hertekni, sem var að sögn fatlaður eftir misþyrmingar ræningjanna, skrifaði frásögn af ráninu og herleiðingunni. Hún var í fórum Árna Magnússonar og brann í eldinum í Kaupmannahöfn 1728 en áður hafði Björn Jónsson á Skarðsá notað hana í frásögn sinni af Tyrkjaráninu og er því efni hennar varðveitt. Halldór kvæntist Guðbjörgu Oddsdóttur og bjuggu þau á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Hann var mektarbóndi, var orðinn lögréttumaður árið 1637 og gegndi því embætti til dauðadags. Frá þeim hjónum eru komnar miklar ættir. Legsteinn Halldórs hertekna er í Garðakirkjugarði á Álftanesi og hljóðar grafskriftin svo: „Hjer under hvíler greptraður erlegur, krossreindur og rjett-trúaðurr maður, Halldór Jónsson, samtt hans sonarson. Ifirunnu i Christo, eru sigursins hluttakande orðner og deia ekki meir. Vegferðardagar 62 ár. Sofnaðe í guðe anno 1648, 9. Marci.“ Beruvík. Í Beruvík, eða Bervík eins og sagt er þar um slóðir, var áður fyrr útræði en lendingin var hættuleg. Oft er brimasamt í Beruvík og sæta varð sjávarföllum þegar róið var um sker og grynningar. Mikið útfiri er við Beruvík. Búið var á fjórum bæjum fram á miðja 20. öld. Bæirnir hétu Nýjabúð, Hella, Helludalur og Garðar. Enn má sjá rústir eftir búsetuna s.s. hlaðna garða, steypta veggi og fjárbað. Í Beruvík er hlaðin fjárrétt við klettinn Klofning. Ofan þjóðvegarins eru friðlýstar fornleifar af bæjarrúst og túngirðingu. Sagt er að þar hafi landnámsbær Beru verið sem víkin er kennd við. Suður af Beruvík eru minjar kotbýlisins Litlalóns og nokkru sunnar bæjarins Hólahóla en sá bær átti Dritvík. Útgerðarmaðurinn og rithöfundurinn Karvel Ögmundsson ólst upp í Beruvík. Hann skrifaði bækurnar Sjómannsævi 1-3 og er í fyrsta bindinu sagt frá uppvexti hans. Það er besta heimildin sem til er um lífið í Beruvík í upphafi 20. aldar. Í lok mars árið 2012 rak búrhval á land í Beruvík. Hvalurinn var heillegur og allar tennur í honum. Daginn eftir að fréttist af hvalnum var búið að saga fremri hluta kjálkans af og síðar sama dag var búið að taka allan kjálkann. Svalur í Moskvu. Svalur í Moskvu (franska: "Spirou à Moscou") er 42. Svals og Vals-bókin og sú tíunda eftir þá Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1990 en í íslenskri þýðingu ári síðar. Söguþráður. Svalur og Valur eru á leið til sólarlanda þegar franska leyniþjónustan rænir þeim á flugvellinum og flýgur með þá til Moskvu. Þar er þeim ætlað að hjálpa sovésku leyniþjónustunni KGB í baráttu sinni við hinn dularfulla glæpaforingja "Tanaziof", sem KGB telur að Svalur og Valur hafi áður átt í höggi við. Þjónusta félaganna er hugsuð í skiptum fyrir tvö vestræn ungmenni sem handtekin voru fyrir að smygla sér til Sovétríkjanna. Þeir Svalur og Valur hafa engan áhuga á verkefninu og halda í franska sendiráðið, þar verða þeir vitni að ránsferð "Tanaziofs" og manna hans. "Tanaziof" reynist vera Sammi, frændi Vals. Hann þykist vera rússneskur prins sem boðar valdarán og hótar að ræna múmíu Leníns. Svalur, Valur og "Lafidmerev" fulltrúi KGB hyggjast sitja fyrir Samma og þrjótum hans, en með hjálp leyniganga tekst skúrkunum þó að stela múmíu Leníns og krefjast lausnargjalds. Þeir gera sér ekki grein fyrir að múmían í sýningarskápnum er ekki hinn raunverulegi Lenín heldur tvífari hans og mörg önnur eintök sé að finna. Eftir æsilegan eltingaleik kemst Sammi undan en Svalur og Valur eru sendir aftur til Frakklands og hylltir sem hetjur fyrir framlag sitt til Sovétríkjanna. Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1991. Þetta var 28. bókin í íslensku ritröðinni. Gústaf Adólf erfðaprins. Erfðaprinsinn og fjölskylda hans við skírn Karls Gústafs. Gústaf Adólf ("Gustaf Adolf Oscar Fredrik Arthur Edmund Bernadotte", 22. apríl 1906 – 26. janúar 1947) var erfðaprins Svíþjóðar og hertogi af Vesturbotni, faðir Karls 16. Gústafs Svíakonungs. Hann fórst í flugslysi við Kastrupflugvöll á heimleið frá Amsterdam; flugvél sem hann var farþegi í steyptist til jarðar í flugtaki og allir sem um borð voru, 22 talsins, létu lífið. Gústaf Adólf var elsti sonur Gústafs 6. Adólfs og fyrri konu hans, Margrétar. Hann varð aldrei krónprins þar sem afi hans, Gústaf 5., var enn á lífi er hann lést. Kona Gústafs Adólfs erfðaprins var Sibylla af Sachsen-Coburg-Gotha. Þau eignuðust fjórar dætur, Margréti (f. 1934), Birgittu (f. 1937), Désirée (f. 1938) og Kristínu (f. 1943) en einkasonurinn, Karl Gústaf, var aðeins níu mánaða er faðir hans fórst. Óskar 2. Svíakonungur. Óskar 2., konungur Svíþjóðar og Noregs. Óskar 2. (Oscar Fredric, 21. janúar 1829 – 8. desember 1907) var konungur Svíþjóðar frá 1872 til dauðadags, konungur Noregs frá 1872 til 1905 og hertogi af Austur-Gautlandi. Óskar var þriðji sonur Óskars 1. Svíakonungs og konu hans Jósefínu af Leuchtenberg. Hann var því ekki alinn upp til ríkiserfða, heldur gekk hann í sjóherinn og varð sjóliðsforingi og skrifaði bækur um sjóhernað, auk þess sem hann samdi ljóð og gaf út ljóðabók og fleiri rit. Hann stundaði einnig nám í stærðfræði við Uppsalaháskóla og var heiðursfélagi í sænsku vísindaakademíunni. Þegar Óskar 1. dó 8. júlí 1859 og Karl 15., elsti sonur hans, tók við varð Óskar ríkisarfi því bróðir hans átti ekki son á lífi. Hann átti að vísu eina dóttur, Lovísu, en konur áttu ekki erfðarétt í Svíþjóð samkvæmt stjórnarskránni frá 1809. Næstelsti bróðir þeirra, Gústaf prins, hafði dáið barnlaus. Óskar átti sjálfur son og ríkiserfðirnar voru þvi tryggðar, svo að ekkert varð úr hugmyndum um að breyta stjórnarskránni og gera Lovísu arfgenga. Óskar 2. tók því við ríkjum þegar bróðir hans lést 18. september 1872. Hann hafði mikinn áhuga á utanríkismálum og var mikill aðdáandi Otto von Bismarck Þýskalandskanslara. Hann reyndi að koma á bandalagi Skandinavíu, Þýskalands og Ítalíu og hugsanlega einnig Bretlands. Stærsti ósigur hans var sambandsslitin við Noreg 1905 en hann reyndi mikið til að viðhalda konungssambandinu, heimsótti Noreg árlega eða oft á ári og talaði norsku reiprennandi. Karl 15. Svíakonungur. Karl 15. ("Carl Ludvig Eugen", 3. maí 1826 – 18. september 1872) var konungur Svíþjóðar og Noregs frá 8. júlí 1859 til dauðadags en hafði verið ríkisstjóri frá 25. september 1857 vegna veikinda föður síns. Karl var elsti sonur Óskars 1. Svíakonungs og Jósefínu drottningar. Hann hafði mikinn áhuga á norrænni samvinnu og samstarfi og var náinn vinur Friðriks 7. Danakonungs. Hann var mjög umbótasinnaður og studdi margvísleg framfaramál, meðal annars á sviði stjórnmála, trúfrelsis, refsilöggjafar og samgangna. Á stjórnartíð hans fengu konur kosningarétt til sveitastjórna og árið 1858 stóð hann að lagasetningu sem veitti ógiftum, fullorðnum konum fullt sjálfræði, þó fyrst í stað aðeins ef þær sóttu um það. Systir hans, Evgenía prinsessa, varð að líkindum fyrst sænskra kvenna til að njóta þeirra réttinda. Karl var mikill áhugamaður um bókmenntir og listir, orti sjálfur ljóð og gaf út ljóðabækur. Einnig var hann listmálari og voru verk hans sýnd á sýningum sænsku listaakademíunnar. Hann var mjög skapmikill og þótti oft hryssingslegur í framkomu, kærulaus og raupsamur, en var þrátt fyrir það mjög vinsæll meðal þegna sinna. Fjölskylda. Eftir fæðingu Karls prins var ljóst að Lovísa krónprinsessa gæti ekki alið fleiri börn og þegar prinsinn dó á öðru ári reyndi Karl konungur mikið að fá þingið til að breyta stjórnarskránni þannig að konur gætu erft ríkið en það tókst ekki. Þegar hann dó var það því Óskar bróðir hans sem tók við völdum. Tveir dóttursynir hans urðu þó konungar, þeir Kristján 10. Danakonungur og Hákon 5. Noregskonungur. Fornminjar í Reykholti. Fornleifauppgröftur í Reykholti hefur fyrst og fremst verið í tengslum við Snorra Sturluson og Snorralaug, sem var ein af fyrstu friðlýstu fornminjum á Íslandi. Uppgröftur hófst 1987 með fjárstyrk frá menntamálaráðuneytinu, en fjármagnið var af skornum skammti og þeim rannsóknum þurfti að hætta 1989 vegna fjárskorts. Árið 1998 hófust svo rannsóknir í framhaldi af þeim sem áður voru gerðar, en þá á vegum Þjóðminjasafns Íslands. En aðal markmið með þessum rannsóknum var að finna þeim sögufræga stað sem Reykholt er nýtt hlutverk, því þá var Héraðsskólinn í Reykholti ný aflagður og því engin starfsemi á staðnum en mikið af lausu húsnæði. Þá var tekin sú ákvörðun að koma af stað menningarsetri í tengslum við þær miðaldarannsóknir sem þar fóru fram, í þeim tilgangi hafði Snorrastofa verið stofnuð. Flestar þær mannvistarleifar sem voru skoðaðar virtust allskýrar og heillegar. Snorralaug. Snorralaug var ein af tíu fyrstu friðlýstu fornminjum á Íslandi. Aðeins sögusagnir benda til að hún hafi verið í eigu Snorra Sturlusonar, en frá henni hafa legið göng að bæjarhúsinu. Fundist hafa tvær leiðslur frá hvernum Skriflu sem liggja að lauginni, annar er eldri en hinn. Laugin er líklegast frá 13. öld, en henni hefur verið haldið við á síðari ödum. Bæjarstæði. Fyrsti uppgröfturinn sem var gerður á bæjarstæði í Reykholti fór fram 1988-1989, þá átti að skoða meintan bústað Snorra Sturlusonar. Uppgröftur á sama stað var svo gerður aftur á árunum 1998-2002 á vegum Þjóðminjasafns Íslands, en þá var áherslan líka lögð á Snorragöng sem liggja frá íbúðarhúsnæðinu að Snorralaug. Við uppgröft á bæjarstæðinu kom í ljós að líklega hafi mismunandi hlutar hússins verið notaðir á mismunandi hátt, en það má t.d. ætla út frá því að í vesturenda grunnsins fanst gólflag en ekki í austurendanum, þar var hinsvegar mikið af móösku. Ekki var hægt að sjá hvernig jarðgöngin hafa tengst byggingunni, en sjá mátti að veggir hússins höfðu verið reystir ofaná jarðgöngin. Aðeins norðar var annað mannvirki, eldra, þar mátti finna gólflög og veggjaleifar. Þar fannst líka útskorinn trégripur sem var tímasettur á 10. eða 11. öld. Einnig hefur verið grafinn upp gangnabær frá 17. - 19.öld, en grafnir voru upp um 22 metrar af þeim göngum. Engir munir fundust til að aldursgreina, en notast var við jarðlagagreiningu. Snorragöng. Jarðgöng þessi sem liggja frá Snorralaug að bæjarstæðinu eru all löng og sveigja til norð-austurs og koma inn í suðurenda bæjarins. Þau voru að fullu uppgrafinn á síðustu árum 20.aldar og í göngunum er að finna mjög vel gerð þrep. Viðarkol fundust í göngunum og var viðurinn greindur víðir og aldursgreindur á 13. - 15.öld. og áður höfðu fundist í fyllingu ganganna viðarkol sem aldursgreind höfðu verið á 11.- 13.öld. Í göngunum fundust engir gripir nema ein vaðmálspjatla. Kirkjustæði. Sumarið 2002 hófust kannanir á fornum kirkjurústum í Reykholti og þeim var svo haldið áfram næstu ár á eftir. Talið er líklegt að kirkjan hafi staðið á sama stað frá upphafi til um 1886, en þá var hún færð. Fimm byggingarstig fundust á kirkjustæðinu, en það er allavega ljóst að leifar af mörgum stigum kirkjunnar eru á þessum stað. Yngri kirkjurnar voru ferhyrndar með langveggi úr torfi, miðaldarkirkjurnar voru hinsvegar timburkirkjur. Kirkjuskipið í miðaldarkirkjunum var breiðara en kórinn, langvegginir voru þannig gerðir að skurður var grafinn sem var fylltur af möl og steinum, á þetta kom svo timbrið. Kirkjan sem síðast stóð á þessum stað var byggð árið 1835, hún var rannsökuð árið 2003 og þá kom í ljós að hún var 10,9 metrar á lengd og 4,7 metrar á breidd. Langveggirnir voru úr torfi og grjóti, en timbur var í báðum þiljum, kór og tveimru stafgólfum, annarsstaðar var moldargólf. Inni í kirkjunni fundust nokkrar grafir, sumar yngri en kirkjan en aðrar eldri. Út úr suðurvegg kirkjunnar má finna gang sem hefur tilheyrt einhverju af þessum kirkju tímabilum. Ekki er vitað hvort þessi gangur hefur verið einhverskonar afdrep fyrir prestinn eða hluti af enn stærra mannvirki. Rannsóknin á kirkjunstaðnum er samvinnuverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifastofnunar Íslands en hún er styrkt af Kristnihátíðarsjóði. Gripir. Flestir gripirnir sem fundust í kirkjunum fundust í gólfinu. Gripir fundust í öllum gólfum í öllum stigum kirkjunnar, mest þó í kórnum. Meðal gripa sem fundust við rannsóknir á kirkjunum eru: Gullhringur, brot úr ljósakrónu og veggörmum, bókarspensl, perlur, brot úr postulínspípu með upphleyptri mynd af Kristjáni IX Danakonunig, koparhnappur, gler úr skreyttum ílátum, brot úr leirílátum t.d. steinleirskönnum, perlur m.a. úr rafi, bókarspensl úr kopar, hengiskraut úr dýrum málmi, tangir og skæri úr járni, kertastjakar og pípur úr kopar. Reykholtskirkja. Þegar kirkjustæðið í Reykholti var fært árið 1886 var reist þar kirkja sem enn stendur og gengur í daglegu tali undir nafninu gamla Reykholtskirkja, en hún er elsta húsið í Reykholti og er hún nú friðuð og í vörlslu Þjóðminjasafns Íslands. Gamla kirkjan var gerð upp á árunum 2001-2006 en þá var tekið mið af upprunalegu útliti kirkjunnar. Þá var kirkjunni lyft af grunninum til að grafa fyrir steinsteyptum undirstöðum, en þá kom í ljós forn smiðja undir kirkjugólfinu. Predikunarstóllinn í kirkjunni er jafngamall henni og orgelið var keypt í Reykholt 1901. Smiðja. Smiðjan sem fannst undir kirkjugólfinu var rannsökuð af Fornleifavernd ríkisins en þar fannst heillegt eldstæði og óvenjudjúp steinþró. Úr eldstæðinu voru tekin kolasýni til aldursgreiningar og þær gáfu til kynna að smiðja þessi hafi verið frá tímabilinu 1030-1260. Það var ákveðið að eiga sem minnst við smiðjuna og er hægt að sjá hana undir gólfinu vinstramegin við innaginn í gömlu kirkjunni. Seljarannsóknir. Sel tengd Reykholti hafa verið rannsökuð. Tvö hafa verið skoðuð á Kjarardal, eitt í Faxadal, auk þess hefur landnýting á landi Reykholts í Geitlandi verið kannað, en óvíst er hvort þar hafi verið sel, en þar var allavega mikilvægt beitiland. Við uppgröft í Kjarardal á fyrsta staðnum var komið niður á hellur í nokkrum lögum í norðurhjara svæðisins, sem líktust þakhellum og torf og líklegt vegghleðslugrjót í suðurendanum. Allhá bung var þar sem skurður var grafinn þvert í gegnum hann, í austurenda skurðarins var komið niður á grófa möl mjög fljótlega, en hún er talin hafa borist þangað með læknum þegar hann hefur skiptu um farveg. Þegar neðar dró urðu veggjasteinar skýrari, en ofaná þeim var allt uppí 16 cm lag af kola- og móösku. Engin óyggjandi veggjalög fundust þvert á skurðinn, en þó fanst torflag vestast og syðst í skurðinum sem gæti hafa verið veggjalag. Einu gripirnir sem fundust á svæði eitt voru tveir naglar, og tekið var sýni af koluðum viði sem lá yfir vegghleðslu. Á seinna svæðinu, þar sem áður hafði verið aldursgreint, ekkert benti þó til að kolin sem voru aldursgreind hefðu verið úr gólflagi, en óyggjandi mannvistaleifar fundust þó á þessu svæði. Þarna fundust einnig tveir naglar. Rétt norðan við svæði tvö var svo opnað þriðja svæðið, en þar fannst greinileg grjóthleðsla sem þarf að rannsaka betur. Wes Chatham. Wes Chatham (fæddur John Wesley Chatham) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Unit og Barbershop. Einkalíf. Chatham fæddist í Atlanta, Georgíu en ólst upp fyrstu tíu árin í Savannah borg, Georgíu. Þegar Chatham var 17 ára þá skráði hann sig í bandaríska sjóherinn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Chatham var árið 2005 í Barbershop. Árið 2009 þá var honum boðið stórt gestahlutverk í The Unit sem Sam McBride í loka þáttaröðinni. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Chatham var árið 2003 í "The Fighting Temptations" og hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "W", "Husk" og The Help. Tenglar. Chatham, Wes Goth-metallinn. Goth-metall, (e. "gothic metal") er ein af undirstefnum þungarokks og er talið hafa orðið vinsælt árið 1991 þegar „Paradise Lost“ gaf út plötuna sína „Gothic“. Goth-metallinn er stefna skyld hefðbundinni gothtónlist og einkennist af thrashmetali, doommetali og þungarokki. Efnið sem notast er við í gothmetali er oftast trúarbrögð, goðsagnir, hrollvekja, sársauki og vonleysi, dauði og þunglyndi. Samt einkennast þessi þemu stundum af rómantík og tilfinningaríkri ást. Sigurður Vigfússon (fornfræðingur). Sigurður Vigfússon (8. september 1828 – 8. júlí 1892) forngripavörður, oft kallaður Sigurður fornfræðingur eða Sigurður forni var einn af frumkvöðlum í fornleifafræði á Íslandi. Með nákvæmum vinnubrögðum og óþrjótandi áhuga á gildi þess að varðveita fornminjar á Íslandi lagði hann grunn að rannsóknarhefð sem enn er notuð í dag. Uppvöxtur og menntun. Sigurður var fæddur í Fagradal í Dalasýslu 8. september 1828. Hann var bóndasonur en þegar foreldrar hans brugðu búi um 1846 fór hann til Reykjavíkur og síðar til Kaupmannahafnar að læra gullsmíði. Í æsku fékk hann ekki mikla menntun og talinn ólæs fjórtán ára af sóknarprestinum. Bróðir Sigurðar var Guðbrandur (1827 – 1889) prófessor í Oxford. Sigurður giftist 1858 Ólínu Maríu Kristínu, dóttur I. J. Bonnesen sýslumanns í Rangárvallasýslu. Þau eignuðust ekki börn. Sigurður Vigfússon lést úr lungnabólgu 8. Júlí 1892. Ævistarf. Eftir dvölina í Kaupmannahöfn starfaði hann sem gullsmiður í Reykjavík og vann meðal annars að smíði skarts við íslenska búninginn sem Sigurður málari Guðmundsson endurvakti. Kynni hans af Sigurði málara áttu eftir að marka störf hans meirihluta ævinnar. Við stofnun Forngripasafnsins 1863 (síðar Þjóðminjasafns Íslands) var byrjað að halda utan um og skrá fornminjar á Íslandi. Sigurður Vigfússon var fenginn til að starfa við Forngripasafnið við andlát Sigurðar málara 1874. Þar vann hann launalaust við hlið Jóns Árnasonar. Hann tók við sem forstöðumaður safnsins 1878. Hann var duglegur í söfnun og varðveislu forngripa og fór í rannsóknarferðir um landið. Hann var mjög nákvæmur maður og skrifaði ítarlegar lýsingar á hverjum hlut í safninu. Hann var einn aðalhvatamaður að því að Hið íslenska fornleifafélag var stofnað 1879. Árbók hins íslenska fornleifafélags hefur komið út frá árinu 1880 til dagsins í dag og skrifaði Sigurður í hverja einustu þar til hans lést 1892. Rannsóknir. Sigurður sem var sjálfmenntaður fornleifafræðingur gerði margar rannsóknir á fornminjum. Hann gerði nákvæmari og skilmerkari rannsóknir og skýrslur en áður þekktist hér á landi. Fyrsta rannsóknin á vegum hins íslenska fornleifafélags var á Þingvöllum 1878. Skýrsla eftir Sigurð um hana birtist í fyrstu árbókinni 1880-1881. Sigurður rannsakaði sannleiksgildi Íslendingasagna. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1883 er algjörlega helguð Gísla sögu Súrssonar og rannsókn Sigurðar á söguslóðum hennar. Einnig gróf hann í meintar tóftir hofa, þingstaða, hauga og bæja víðsvegar um landið. Hvíldarstaður. Legsteinn Sigurðar og Ólínu í Hólavallakirkjugarði Í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu var reistur bautasteinn á leiði hans árið 1917. Í ræðu sem Matthías Þórðarson þjóðminjavörður flutti í 50 ára afmæli sínu 1913 sagði hann tíma til kominn að sýna Sigurði þá virðingu að reisa minnisstein á leiði hans í Hólavallakirkjugarði. Safnað var fé til þess og steinn sóttur í Öskjuhlíð og grafið í með rúnaletri: "Reykvíkingar reistu stein þennan yfir Sigurð son Vigfúsar, forstöðumann Forngripasafnsins, og Ólínu eiginkonu hans." Síð-pönk. Síð-pönk (e. "post-punk") er rokktónlistarstefna sem átti upptök sín á seinni hluta áttunda áratugar tuttugustu aldar. Hún var ein af þeim mörgu tónlistargreinum sem spruttu út frá pönkbyltingunni árið 1977. Fyrstu síð-pönk hljómsveitirnar sóttu innblástur sinn í hráa hljóm pönksins en í stað þess að reyna að herma eftir honum fóru þær að skapa tilraunakenndari hljóm, oft með áhrifum frá raftónlist, krátrokki, fönki, dubtónlist og tilraunakenndu rokki. Greinin var ólík hliðstæðu sinni, svokallaðri nýbylgjutónlist, á þann hátt að síð-pönkið fjallaði oftar um alvarlegri málefni og var ekki eins „poppvænt“. Síð-pönkið varð síðan með helstu forverum öðruvísi rokks á níunda áratugnum. Klassísk dæmi um flytjendur síð-pönk tónlistar eru Joy Division, New Order, The Cure, Talking Heads, Public Image Ltd., Echo & the Bunnymen og tónlistarmaðurinn Nick Cave. Stíleinkenni. Síð-pönkið var listrænna og dulúðlegra heldur en pönkið og er almennt talið tónlistarlega séð flóknara og margvíslegra. Stefnan hafði minna að gera með rokk og ról heldur stóð í þakkarskuld við tilraunakennda tónlist sjöunda áratugarins. Í heildina séð var bandarískt síð-pönk listrænt sjálfsmeðvitaðra og vitsmunalegra heldur en breska hliðstæða þess, sú var þó ekki síður listræn nema hvað tónlistin var yfirleitt drungalegri og tilfinningaríkari. Fyrsta bylgja breska síð-pönksins bar með sér sveitirnar Gang of Four, Siouxsie & the Banshees og Joy Division sem voru allar stofnaðar vegna innblásturs frá pönksveitum á borð við Sex Pistols. En í stað þess að líkja eftir uppreisnargjarni reiði þeirra þá tóku þær hana til sín og sköpuðu innhverfari og þungbúnari hljóma sem voru fullir af spennu og kvíða. Siouxsie & the Banshees gáfu út plötur sem einkenndust af hrjáróma hljómborðum og fluttu tilgerðarmikla tónleika sem minntu alla helst á pönkið. Joy Division voru ekki talin eins listsnobbuð hljómsveit og tónlist þeirra var enn innhverfari. Plötur þeirra "Unknown Pleasures" og "Closer" lögðu hornstein fyrir gotneskt rokk, undirstefnu sem The Cure og Bauhaus urðu seinna þekktar fyrir. The Cure spilaði upprunalega nokkuð hrjúfa og grípandi tónlist en þegar leið á ferilinn hægðist á töktum þeirra og notkun hljóðgervla varð meira áberandi. Svo átti vinstri sinnuð pólitík og fönktaktar Gang of Four eftir að hafa mikil áhrif á komandi tónlist þrátt fyrir að hafa ekki náð mikilli útbreiðslu í byrjun. Síð-pönkið lagði grundvöllinn fyrir öðruvísi rokk með því að víkka svið pönktónlistar. Innblástur var sóttur frá krátrokkinu og varð til þess að notkun hljóðgervla varð mjög vinsæl innan greinarinnar. Áhersla var lögð á hrá eða drungaleg hljóð, samtvinnuð með áhrifum frá fönki, avant-garde og dubtónlist. Nýsýrurokkið var einnig algengur áhrifavaldur og með helstu frumkvöðlum á því sviði má nefna Echo & the Bunnymen, The Teardrop Explodes og Spacemen 3. Sumar sveitir eins og Orange Juice nálguðust þessa tónlist á aðeins öðruvísi hátt, áhersla var lögð á léttari gítarhljóð en þrátt fyrir það kollvörpuðu lögin oft hefðbundinni byggingu popp/rokktónlistar með dýpri og dimmari lagatextum. Einnig mátti heyra áhrif djasstónlistar hjá nokkrum þessara sveita og voru The Monochrome Set fylgismenn Cantenburysenunnar. Saga. Á meðan fyrsta bylgja pönksins stóð yfir, frá um 1975-1977, fóru hljómsveitir eins og Sex Pistols, The Clash og Ramones að ögra ríkjandi stílvenjum rokktónlistar með áherslum á hraðari takta og árásargjarnari hljóma. Með pólítískum eða uppreisnagjörnum lagatextum breiddist þessi hugmyndafræði svo um heiminn, en náði mestu fylgi í enskumælandi löndum eins og Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu en líkt og víðar myndaðist einnig áberandi pönksena á Íslandi. Breska pönkið var síðan dregið inn í klofin stjórnmál samfélagsins og það mætti segja að um 1979 hafði það eytt sjálfu sér með því að skiptast í nýjungagjarnari stefnur. Áhrifum pönks hefur þó verið að gæta í tónlistariðnaðinum allar götur síðan, til dæmis með útbreiðslu sjálfstæðra plötufyrirtækja sem setti einmitt svip sinn á framvindu síð-pönksins. Það að söngvari Sex Pistols, John Lydon, var orðinn leiður á sviðspersónu sinni "Johnny Rotten" ásamt því að hafa orðið fyrir vonbrigðum með framþróun pönksins, varð til þess að sveitin hætti störfum árið 1978. Lydon stofnaði þá nýrri og nokkuð fágaðari hljómsveit, Public Image Ltd., sem opnaði gáttir fyrir tilraunastarfsemi síð-pönksins. Fyrir marga tónlistarmenn markaði pönkbyltingin hvarf frá tónlistarlegum hefðum og takmörkunum og tíðarandinn var þannig að hver sem er gat skapað tónlist ef viljinn var fyrir hendi. Margir nýttu sér þá tækifærið til þess að vera ögrandi og þar með var lagður grundvöllur fyrir harðkjarnapönkið. Aðrir túlkuðu þessa byltingu sem leið til þess að láta reyna á takmörk tónlistargerðar, síð-pönkið kom fram á sjónarsviðið. Upphaflega voru flytjendur þess flokkaðir sem hluti nýbylgjunnar en það kom fljótt í ljós að um tvær mismunandi stefnur væri að ræða. Síð-pönksveitirnar voru yfirleitt nýjungagjarnari og meira ögrandi. Svo náðu þær heldur sjaldan eins mikilli útbreiðslu og nýbylgjusveitirnar þar sem þær þóttu ekki nógu „poppvænar“ og einblíndu ekki aðeins á velgengni. Jafnvel þó þær hafi almennt fengið minni umfjöllun í fjölmiðlum, þá hlutu plötur þeirra oft meiri lof gagnrýnenda. Tvær bandarískar sveitir höfðuðu þó til stærri áheyrendahópa. Önnur var Talking Heads sem spilaði bæði síð-pönk og nýbylgjutónlist en jók fjölbreytileika sinn enn frekar með hjálp plötuframleiðandans Brian Eno, hin var Devo sem náði til tónlistarstöðvarinnar MTV með grípandi hljóðgervla pönki og áhugaverðum sjónrænum stíl sínum. Margar síð-pönksveitir voru stuttlífar, þær sem þraukuðu áttu eftir að þróast mikið tónlistarlega séð en sumar héldu áfram í nýjum búningi. Árið 1980 kaus Ian Curtis, söngvari Joy Division, að enda líf sitt aðeins 23 ára að aldri eftir að hafa glímt við síversnandi flogaveiki. Hljómsveitarmeðlimir höfðu verið miklir frumkvöðlar stefnunnar vegna tilrauna sinna með hljóðgervla og raftrommur. Eftirlifandi meðlimir komu síðan saman undir nýju nafni, New Order, og byrjuðu enn frekar að prófa sig áfram í notkun hljóðgervla og sköpuðu með þeim dansvænni tónlist. Á þessum tíma byrjuðu flestar upprunalegu síð-pönksveitirnar að þróast í burtu frá hráum og dulúðlegum hljómum í átt að hreinni tónum. Til dæmis varð ástralska sveitin The Birthday Party að hinni mun stílhreinnari Nick Cave & the Bad Seeds. Svo þegar fylgi skosku sveitarinnar The Wake fór dvíandi gafst hún upp á drungalegu síð-pönkinu og fór að beita hljóðgervlum sínum á poppaðari hátt. Þannig fjaraði síð-pönkið hægt og bítandi út úr aðal tónlistarsenunni. Síð-pönk á Íslandi. Í byrjun níunda áratugarins fór að bera á síð-pönk tónlist á Íslandi. Fyrirbærið var einnig kallað depró-pönk og var í mörgum tilfellum erfitt að greina það frá tónlist nýbylgjunnar en sú síðarnefnda náði meiri vinsældum hér á landi. Hljómsveitin Þeyr spilaði þó tónlist í dimmari kantinum og sótti innblástur frá síð-pönksveitum á borð við Joy Division. Þeyr tældu áheyrendur ekki fram á dansgólfið, heldur var dulúðleg stemning sköpuð með sterkum trommuleik Sigtryggs Baldurssonar, skerandi gítarhljóðum og andstuttum söngstíl Magnúsar Guðmundssonar. Tónlistin átti það til að láta næmt fólk finna fyrir einskonar hugleiðslu og minnti að því leyti á sýrurokkið, þótt stemningin væri drungalegri og magnaðari. Í sumum lögum af plötu þeirra "Mjötviður Mær", sem kom út árið 1981, var fjallað um nasisma og notkun meðlima á hakakrossum varð til þess að orð fór af Þeysurum sem nýfasistum, þó að sveitin héldi því sjálf fram að slíkt væri túlkun þeirra á and-fasisma. Vinátta meðlima við ensku síð-pönk sveitina Killing Joke spratt upp orðrómi um einhverskonar samruna hljómsveitanna beggja, en eftir stutta utanlandsför hættu Þeyr störfum. Þeyr var ekki eina síð-pönkhljómsveitin á Íslandi. Taugadeildin kom fram vorið 1981. Hún var undir síð-pönk áhrifum frá sveitum eins og Joy Division, Wire, Gang of Four og fleirum. Taugadeildin sendi frá sér eina fjögurra laga EP-plötu haustið 1981, en hafði þá þegar lagt upp laupana. Önnur hljómsveit sem upphaflega var nánast hrein pönkhljómsveit en þróaðist í átt að síð-pönki var Q4U. Q4U gaf út sína fyrstu plötu vorið 1983, og á þeirri plötu lék trommuheili og synthesiserar stórt hlutverk. Á geisladiski frá 1996 er meira efni í þessum anda, og hefur tónlist Q4U frá þessu tímabili vakið athygli erlendra tónlistarpælara, sem telja að hér sé á ferðinni svokölluð minimal-wave tónlist, ákveðin tegund af síð-pönki. Í júlí 2011 kom út í Brasilíu geisladiskur með Q4U, Best of Q4U. Í apríl 2013 kom síðan út LP-vínylplata með 16 lögum hljómsveitarinnar í San Fransisco, hjá hljómplötufyrirtækinu Dark Entries. Hún nefnist Q1 Deluxe Edition 1980-1983. Síð-pönk senan var byrjuð að ná svo mikilli útbreiðslu í Reykjavík í byrjun níunda áratugarins að tala mætti um byltingu. Einn frumkvöðla hennar var söngkonan Björk Guðmundsdóttir sem, á unglingsárum sínum, stofnaði síð-pönksveitirnar Exodus og Tappa Tíkarrass. Á sama tíma fékk Purrkur Pillnikk þann heiður að hita upp fyrir síð-pönksveitina The Fall á tónleikaferðalagi hennar um Ísland. Á plötu sinni "Hex Enduction Hour", sem var að hluta til tekin upp á Íslandi, tileinkaði The Fall landinu lagið "Iceland". Einar Örn Benediktsson var söngvarinn í Purrkur Pillnikk og einn stofnenda Grammsins, plötufyrirtæki sem fékk ýmsa erlenda tónlistarmenn til Íslands á þessum árum og þar á meðal var síð-pönkarinn Nick Cave. Þegar ferill Purrkur Pillnikk var á enda komu Einar Örn, Björk og Sigtryggur Baldursson, fyrrverandi trommuleikari Þeys, saman og stofnuðu til nýrrar hljómsveitar árið 1984 sem hlaut nafnið Kukl. Sú sveit spilaði nokkuð gotneskt síð-pönk, hljómurinn var undirokaður af tréblásturshljóðfærum og bjöllum og lagatextarnir þóttu óhugnarlegir. Hljómsveitin þróaðist svo yfir í Sykurmolana árið 1986 en hún hélt svo í tónleikaferð með New Order og Public Image Ltd. sem skapaði þeim frekari orðstír á erlenda grundu. Arfleið. Síð-pönksenan dó aldrei út, þó svo að vinsældum hennar hafi farið dvínandi á miðjum níunda áratugnum. Upprunalegu hreyfingunni lauk þó þegar flytjendur hennar fóru að beita sér á sviðum annarra tónlistarstefna, rétt eins og þeir sjálfir höfðu upprunalega horfið frá pönkinu til þess að skapa nýja hljóma. Sem dæmi um flytjendur sem fengu innblástur frá síð-pönkinu en þróuðu með sér afleiddar tónlistargreinar mætti nefna skóglápsrokkarana í My Bloody Valentine og The Jesus And Mary Chain, ásamt Sonic Youth sem spilaði svokallaða No Wave tónlist, einskonar mótsvar neðanjarðarsenu New York við nýbylgjunni. Á meðan þessar sveitir voru starfandi nutu nokkrir forfeðra þeirra enn mikilla vinsælda. The Cure, New Order, Siouxsie & the Banshees, Nick Cave og The Fall voru áfram virkar þó að tónlist þeirra hefði glatað upprunalega heillandi hljóm sínum. Þó er mögulegt að finna fyrir áhrifum síð-pönksins í gegnum nútíma tónlist hjá hljómsveitum á borð við Radiohead, The Horrors, Interpol, Franz Ferdinand og The Strokes. Þessar sveitir áttu það sameiginlegt að spila tónlist undir áhrifum síð-pönks og nýbylgjutónlistar og talið er að þetta hafi markað einskonar endurreisn slíkrar tónlistar. Líkt og með síð-pönksveitir áttunda og níunda áratugarins, þá var mikil fjölbreytni í því hvernig þessar hljómsveitir nálguðust tónlistina, allt frá hráu pönki til grípandi popps. Talið er að endurreisnin hafi byrjað seint á tíunda áratugnum en áhrifa hennar gætir enn í dag meðal sveita eins og S.C.U.M og nýju bresku sveitinni TOY, en báðar spila þær einskonar samblöndu af sýrurokki, krátrokki og síð-pönki. Óskar 1. Svíakonungur. Óskar Svíakonungur; málverk frá 1821, þegar hann var krónprins. Óskar 1. ("Joseph François Oscar Bernadotte", á sænsku "Josef Frans Oskar", 4. júlí 1799 – 8. júlí 1859) var konungur Svíþjóðar og Noregs frá 1844 til dauðadags. Hann var franskur að uppruna en varð erfðaprins þegar faðir hans var valinn krónprins Svíþjóðar í ágúst 1810. Óskar var fæddur í París, sonur Jean-Baptiste Bernadotte marskálks og konu hans Desirée Clary. Hún hafði áður verið trúlofuð Napóleon Bonaparte og var hann guðfaðir Óskars. Óskar og móðir hans komu til Svíþjóðar nokkru eftir að Jean-Baptiste var valinn arftaki Karls 13. og tók sér nafnið Karl Jóhann. Stokkhólmur varð heimkynni Óskars upp frá því en Desirée hélst ekki við þar, sneri aftur til Parísar 1811 og kom ekki aftur fyrr en eftir tólf ár. Óskar var fljótur að læra sænsku og um það leyti sem hann varð krónprins, þegar Karl 13. dó 1818, var hann orðinn mjög vinsæll í Svíþjóð. Hann var vel gefinn og fékk góða menntun. Hann var tónskáld og samdi nokkur tónverk. Hann var áhugasamur um stjórnmál og framfarasinnaður og mjög andsnúinn íhaldssömum viðhorfum föður síns þótt hann snerist aldrei opinberlega gegn honum. Þegar hann tók sjálfur við völdum 1844 reyndist hann þó ekki eins frjálslyndur og stjórnarandstaðan hafði vonast eftir og vildi til dæmis ekki gera róttækar breytingar á stjórnarskránni frá 1809. Eitt af fyrstu verkum hans var þó að koma á prentfrelsi og árið 1845 kom hann á lögum sem tryggðu dætrum jafnan erfðarétt á við syni. Hann var mjög áhugasamur um samstarf Norðurlanda. Fjölskylda. Óskar var mikill kvennamaður, átti hjákonur og gekkst við þremur lausaleiksbörnum sínum. Hjónaband hans og Jósefínu er sagt hafa verið hamingjusamt framan af en eftir að hún uppgötvaði framhjáhaldið gat hún ekki fyrirgefið honum og samband þeirra var því stirt. Óskar var heilsuveill, einkum síðustu árin sem hann lifði, og 1857 var hann svo illa haldinn að í samráði við lækna sína lagði hann af allar konungsskyldur og Karl krónprins varð ríkisstjóri. Óskar 1. lést tveimur árum síðar, nokkrum dögum eftir sextugsafmæli sitt. Jón Gentleman. Jón Gentleman eða Jón Gentilmaður (d. 1617), sem hét réttu nafni James Gentleman og var frá Southwold í Englandi, var sjóræningi og ribbaldi sem rændi ásamt félaga sínum William Clark í Vestmannaeyjum sumarið 1614. Í júnímánuði kom til Vestmannaeyja stórt og vígbúið sjóræningjaskip undir stjórn tveggja Englendinga, þeirra Gentlemans og Clarks. Þeir settust upp í Heimaey, rændu þar og rupluðu í 28 daga skv. kvæði séra Jóns Þorsteinssonar píslavottar, völsuðu um og ógnuðu fólki með hnífum og byssum. Meðal þess sem þeir stálu var kirkjuklukkan í Landakirkju. Örlög sjóræningjanna urðu þau að þeir voru teknir höndum í Englandi nokkru síðar, dregnir fyrir dóm og hengdir, meðal annars fyrir ránið í Vestmannaeyjum, en Danakonungur hafði skrifað Jakob 1. Englandskonungi kvörtunarbréf vegna ránanna. Eyjamenn endurheimtu þó kirkjuklukkuna því Jakob 1. lét senda hana til baka, en áletrun á klukkunni gaf til kynna hvaðan hún var. Séra Jón Þorsteinsson píslarvottur, sem drepinn var í Tyrkjaráninu, hélt því fram að Vestmannaeyingar hefðu kallað ránin yfir sig sjálfir með óguðlegu líferni og orti kvæði um atburðina. Jón Þorsteinsson píslarvottur. Jón Þorsteinsson (um 1570 – 17. júlí 1627), sem kallaður var Jón píslarvottur eftir að hann var veginn í Tyrkjaráninu, var íslenskur prestur og skáld á 16. og 17. öld. Seinustu tuttugu árin var hann prestur í Vestmannaeyjum. Prestur og skáld. Jón var sonur Þorsteins Sighvatssonar lögréttumanns í Höfn í Melasveit og Ástríðar (Ástu) Eiríksdóttur konu hans. Faðir hans var tvíkvæntur og átti að minnsta kosti nítján börn, þar af mörg launbörn. Jón gekk í skóla og tók prestvígslu 1598. Sama ár varð hann prestur á Húsafelli í Borgarfirði en varð að víkja þaðan tveimur árum síðar því annar prestur, sem var stjúpsonur prófastsins og tengdasonur sýslumannsins, vildi fá brauðið. Árið 1601 fékk séra Jón svo Torfastaði í Biskupstungum og var þar til haust 1607 eða vors 1608, en þá fékk hann Kirkjubæ í Vestmannaeyjum eftir að fyrri prestur hafði verið sviptur embætti og flutist þangað. Píslarvættisdauði Jóns. Þegar sjóræningjar óðu um Vestmannaeyjar í Tyrkjaráninu faldi séra Jón sig ásamt fjölskyldu og heimilisfólki í Rauðhelli, skammt frá Kirkjubæ, en ræningjarnir urðu þeirra varir vegna þess að gamall karl sem var heimilsmaður hjá prestinum gat ekki verið kyrr og var að stjákla utan við hellinn. Þeir komu þá og fundu fólkið, en tvær konur höfðu falið sig í sprungu og ræningjarnir sáu þær ekki en þær fylgdust með því sem gerðist. Þær sögðu að presturinn hefði gengið á móti ræningjunum, sem hefðu höggvið hann þrisvar í höfuðið en hann mælti guðsorð við hvert högg. „Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: „Það er nóg, herra Jesú! Meðtak þú minn anda.“ Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt,“ segir í "Tyrkjaránssögu". Frásögnin er reyndar með nokkrum ólíkindablæ en stuðlaði að því að séra Jón fékk píslarvottsnafnið. Fjölskylda. Kona séra Jóns, gift 10. október 1596, var Margrét Jónsdóttir frá Hæli í Flókadal. Hún var flutt til Algeirsborgar ásamt tveimur börnum þeirra, Margréti og Jóni yngra, sem kallaði sig seinna Jón Vestmann. Prestfrúin mun hafa dáið innan fárra ára, Margrét var sögð hafa verið seld spænskum eða frönskum kaupmanni sem giftist henni, en Jón, sem var 15 ára þegar honum var rænt, kastaði trúnni, gerðist múslimi og komst til einhverra metorða. Honum tókst að lokum að komast til Kaupmannahafnar og þar settist hann að, giftist og átti dóttur og dó þar 29. mars 1651. Hann skrifaði nokkur bréf heim, bæði úr Barbaríinu og frá Kaupmannahöfn, en þau eru nú glötuð. Tveir eldri synir þeirra hjóna voru ekki í Vestmannaeyjum þegar Tyrkjaránið var framið, þeir séra Jón Jónsson prestur og skáld á Melum í Melasveit og séra Þorsteinn Jónsson prestur í Holti undir Eyjafjöllum. Birtíngur útgáfufélag. Birtíngur útgáfufélag er íslenskt útgáfufélag sem gefur út tímarit. Stærstu eigendur Birtíngs eru Hjálmur ehf. sem á 62,65% hlut (Hreinn Loftsson á 52,71% hlut í Hjálmi i gegn um félögin SMD ehf. og Austursel ehf. og 365 miðlar eiga 47,29% hlut) og Hreinn Loftsson sem á 35,73% hlut i gegn um félögin SMD ehf. og Austursel ehf.. Vefpressan. Vefpressan er íslenskt fyrirtæki sem á vefmiðlana pressan.is, eyjan.is og bleikt.is. Stærstu eigendur Vefpressunar eru Björn Ingi Hrafnsson sem á 18,58% hlut, Vátryggingafélag Íslands sem á 18,39% hlut, Arnar Ægisson sem á 14,21% hlut, AB 10 ehf. sem á 13,92% hlut, Salt Investments ehf. sem á 12,97% hlut og AB 11 ehf. sem á 14,44% hlut. AMX. AMX er íslenskur vefmiðill. AMX er í eigu Vefmiðlunar ehf. en Vefmiðlun ehf. er í eigu Friðbjörns Orra Ketilssonar sem á 50% og Arthúrs Ólafssonar sem á 50%. Magnús Agnar Magnússon. Magnús Agnar Magnússon (f. 5. mars 1974) er umboðsmaður knattspyrnumanna. Hann var áður handknattleiksmaður. Hann var uppalinn í KR og spilaði stöðu línuvarðar. Þegar Grótta/KR féll úr 1. deild 1999 lánaði félagið hann til KA. Ári síðar sneri hann aftur til Gróttu/KR og framlengdi samning sinn við félagið, sem var sigurvegari í 2. deild. 2004 gerði hann eins árs samning við Team Helsinge á norðurhluta Sjálands þar sem hann var varalínuvörður félagsins. Í september 2007 stóðst hann umboðsmannapróf Knattspyrnusambands Íslands. 2011 stofnaði hann umboðskrifstofuna Total Football ásamt Arnari Gunnlaugssyni, Arnóri Guðjohnsen og Bjarka Gunnlaugssyni. Porteröl. Porteröl (enska: "porter") er þungur og dökkur bjórstíll, uppruninn á 18. öld í London. Nafnið kemur til vegna vinsælda bjórsins meðal burðarmanna ("porters") við fljót og á götum Englands. Lithvolf. Lithvolf er glóandi gashjúpur milli ljóshvolfs (yfirborðs) sólar og sólkórónu. Orðið er einnig haft um samsvarandi hjúp annarra stjarna. Dillon lávarður. Ditchley House um það leyti sem Arthur Dillon tók við lávarðstigninni. Arthur Edmund Denis Dillon-Lee lávarður (10. apríl 1812 – 12. janúar 1892) eða Dillon lávarður var írsk-enskur aðalsmaður sem kom til Íslands sumarið 1834 og dvaldist í Reykjavík til hausts næsta ár. Hann skrifaði síðar bók um Íslandsför sína. Hann lét reisa Dillonshús, sem nú er í Árbæjarsafni. Dillonsættin er írsk og eiga því lávarðarnir ekki sæti í bresku lávarðadeildinni, en ættin fluttist til Englands um miðja 17. öld og hefur að mestu búið þar síðan. Lávarðarnir bjuggu lengi á óðalssetrinu "Ditchley House" og þar ólst Arthur upp. Foreldrar hans voru þau Henry Augustus Dillon-Lee, 13. lávarður af Dillon, og Henrietta Browne. Dillon á Íslandi. Arthur Dillon átti tvo eldri bræður og gat ekki búist við að taka við titlinum en lagði stund á ferðalög eftir að hann erfði auð fjár við lát föður síns 1832. Hann kom til Íslands sumarið 1834 með danska herskipinu Najaden, þá 22 ára að aldri, og hafði áður ferðast um Lappland. Hugðist hann skrifa bók um ferðalög sín. Í Reykjavík kynntist hann konu að nafni Sire Ottesen, sem réttu nafni hét Sigríður Elísa Þorkelsdóttir Bergmann. Hún var fædd 1799 og því þrettán árum eldri en lávarðurinn, fráskilin og hafði eignast tvö börn í lausaleik. Hún stóð fyrir veitingum í Klúbbnum þar sem lávarðurinn var í fæði. Með þeim tókust heitar ástir og í júní 1835 fæddist þeim dóttir sem látin var heita Henrietta eftir móður Dillons. Lávarðurinn hafði í hyggju að kvænast Sire og setjast hér að. Hann fékk lóð í nafni Sire og lét reisa hús á svokölluðu Ullarstofutúni (Suðurgötu 2) og fluttu þau inn sumarið 1835, þegar húsið var enn ekki fullbyggt. En Dillon, sem var kaþólskur, þurfti að sækja um giftingarleyfi til danska kansellísins, enda var þá ekki trúfrelsi á Íslandi og hann eini kaþólski maðurinn í öllu landinu. Þar munu ættingjar hans hafa gripið í taumana og var giftingarleyfinu hafnað með bréfi 28. apríl 1835. Constantine bróðir hans kom til Reykjavíkur til að telja bróður sínum hughvarf. Fór svo að aðalsmaðurinn ungi gafst upp og fór úr landi um haustið, en hafði áður gefið barnsmóður sinni húsið, sem jafnan er kennt við hann og kallað Dillonshús. Sire Ottesen bjó áfram í Dillonshúsi og rak þar lengi veitingasölu, skemmtistað og gististað og leigði Jónas Hallgrímsson húsnæði hjá henni veturinn 1841-1842. Eftir að hún hætti áfengissölu og dansleikjahaldi hafði hún ýmsa leigjendur í húsinu, þar á meðal Ágústu og Þóru Johnson, dætur Gríms Jónssonar amtmanns, sem ráku þar fyrsta kvennaskóla landsins 1851-1853. Hann var undanfari Kvennaskólans í Reykjavík, sem Þóra stofnaði síðar. Dillonshús var flutt í Árbæjarsafn 1961. Afkomendur Dillons. Harold Dillon lávarður, sonur Arthurs Dillon. Dillon gerði erfðaskrá áður en hann fór frá Íslandi og arfleiddi þar meðal annars Sire Ottesen og Henriettu dóttur sína að samtals 2.200 sterlingspundum, sem var geysimikið fé, því heildarupphæð útsvara allra Reykvíkinga sama ár svaraði til 72 sterlingspunda. Þær fengu þó aldrei þessa peninga, enda týndist erfðaskráin og fannst ekki aftur fyrr en eftir heila öld í gömlum skjalaskáp í fjármálaráðuneytinu. Auk þess létust þær báðar á undan Dillon og líklegt er að hann hafi gert aðrar erfðaskrár síðar sem ógiltu þessa, þótt hún hefði verið tiltæk. Dillon fór heim til Englands og skrifaði fimm árum síðar bók um ferðir sínar sem hann kallaði "A Winter in Iceland and Lapland". Þar minntist hann ekkert á ástkonu sína og dóttur en hann gekkst þó fúslega við Henriettu og hélt sambandi við hana. Hún fór tvívegis til Bretlands, fyrst 1871 og aftur 1874-1875, og mun hafa heimsótt fjölskylduna. Í Þjóðminjasafninu er silfurkanna sem á er grafið: "To Henriette Livinsen. The Gift Of Her Father 1871" og hefur Henrietta vafalítið eignast könnuna í fyrri ferðinni. Einnig er vitað að faðir hennar sendi henni peninga. Henrietta giftist dönskum kaupmanni í Hafnarfirði og Keflavík, Peter Ludvig Levinsen að nafni, og eignuðust þau dóttur sem ekki er vitað meira um en kann að hafa alist upp í Danmörku og son, Pétur Arthur (f. 1869), sem fyldgi móður sinni í seinni ferð hennar til Englands. þá 5 ára. Levinsen lést 1873 og Henrietta dó 28. september 1885. Levinsen var gjaldþrota er hann lést og mun Dillon lávarður hafa greitt skuldir hans. Pétur Arthur ólst að mestu upp hjá ættingjum sínum í Danmörku eftir lát föður síns. Hann kom til Íslands haustið 1885 með legstein á gröf föður síns en þegar hann kom var nýbúið að jarða móður hans. Hann fór úr landi 1886, líklega til Danmerkur en einnig hefur því verið haldið fram að hann hafi farið til Englands þar sem afi hans hafi kostað hann í herskóla og hann hafi síðan verið í breska hernum á Indlandi. Allt er því óvíst um örlög hans. Dillon giftist Ellen Adderly 1843 og átti með henni tvo syni. Tveir eldri bræður hans, 14. og 15. lávarðurinn, dóu án þess að láta eftir sig syni og þegar sá yngri dó 1879 tók Arthur við titlinum og varð 16. lávarðurinn. Eldri sonur hans, Harold, 17. lávarðurinn (1844-1932) var þekktur fornfræðingur með sérstakan áhuga á herklæðum, skjaldarmerkjum og klæðnaði á miðöldum og var forseti breska fornleifafélagsins 1892-1898 og safnstjóri vopnasafnsins í Tower of London 1892-1913. Hann var einn af stofnmeðlimum Bresku akademíunnar 1902. Núverandi lávarður er Henry Benedict Charles Dillon (f. 1973) og kom hann til Íslands 1988 í tengslum við markaðssetningu á Dillons-gini, sem ÁTVR framleiddi. Hinsegin kórinn. Hinsegin kórinn er kór hinsegin fólks í Reykjavík og nágrenni. Saga. Kórar hinsegin fólks, kórar homma og kórar lesbía starfa um heim allan og hafa gert um árabil. Hinsegin kórinn (Reykjavik Queer Choir) var stofnaður að erlendri fyrirmynd sumarið 2011 og hefur vaxið og dafnað frá þeim tíma. Tilgangur. Tilgangur kórins er að vera fordómalaus vettvangur fyrir hinsegin fólk að hittast og njóta söngs saman. Þá vill kórinn vinna að þátttöku hinsegin fólks í menningarlífinu, vera jákvæð fyrirmynd og stuðla að sýnileika hinsegin fólks. Hinsegin kórinn á aðild að Legato, samtökum hinsegin kóra um allan heim. Hinsegin kórinn er öllum opinn, hinsegin eða svona, að undangengnum raddprófum. Stjórnandi kórsins er söngkonan Helga Margrét Marzellíusardóttir. Nánari upplýsingar. Nánari upplýsingar um Hinsegin kórinn má finna á Eiríksstaðir í Haukadal. Eiríksstaðir eru fornar rústir í landi Stóra-Vatnshorns í Haukadal í Dalasýslu. Samkvæmt Landnámu og Eiríks sögu rauða bjuggu Eiríkur rauði Þorvaldsson og kona hans Þjóðhildur Jörundardóttir að Eiríksstöðum og hafa verið leiddar að því líkur að það sé sami staður og þekktur er sem Eiríksstaðir í dag þó það hafi ekki verið sannað með óyggjandi hætti. Rústir Eiríksstaða eru friðlýstar fornleifar. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir sem leiddu í ljós skála og jarðhús frá víkingaöld. Á Eiríksstöðum hefur verið reistur tilgátubær sem byggir á rannsókn skálans. Búseta Eiríks rauða á Eiríksstöðum. Í Eiríks sögu rauða segir að Eiríkur rauði hafi búið á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni en vegna vígaferla hafi hann hrökklast þaðan burt. Þrælar hans felldu skriðu á bæ Valþjófs á Valþjófsstöðum, sem varð til þess að Eyjólfur saur, frændi Valþjófs drap þrælana. Eiríkur hefndi þrælanna og drap Eyjólf og frænda hans, Hólmgöngu-Hrafn. Eftir þetta var Eiríkur rekinn á brott úr Haukadal. Fornleifarannsóknir. Það hafa verið gerðar nokkrar fornleifarannsóknir á Eiríksstöðum í gegnum tíðina. Sá sem fyrstur varð til að rannsaka staðinn svo vitað sé, var Brynjúlfur Jónsson en hann kom á Eiríksstaði árið 1894 og gerði uppdrátt af tóftinni. Árið eftir, 1895 kom Þorsteinn Erlingsson og gróf rústirnar upp. Daniel Bruun kannaði staðinn árið 1896. Árið 1938 gróf svo Matthías Þórðarson þáverandi þjóðminjavörður í rústina. Í þessum rannsóknum fannst skáli með langeldi í miðju hússins.. Árið 1997 hóf Þjóðminjasafn Íslands uppgröft á rústinni að ósk Eiríksstaðanefndar. Rannsóknin var undir stjórn Guðmundar Ólafssonar og lauk henni árið 2002. Skáli. Þegar Þorsteinn Erlingsson gróf upp rústina taldi hann að þarna hefðu verið tvö sambyggð hús, skáli og bakhús. Mattías Þórðarson komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ekkert hús væri fyrir aftan skálann heldur væri þar náttúruleg skriða. Rannsóknin 1997 stafesti niðurstöðu Matthíasar. Rannsóknin árið 1997 leiddi einnig í ljós að skálinn er um 50m² að flatarmáli og 4m að breidd. Fyrir miðju er langeldur á gólfinu og leifar af steinaröðum bentu til þess að set hafi verið meðfram veggnum. Veggirnir voru um 1-1,5m þykkir og hlaðnir úr torfi með undirstöður úr grjóti. Steinar í suðurvegg benda til þess að hann hafi verið lagfærður. Byggingin er einföld að gerð og eru vísbendingar um að þar hafi ekki verið búið lengi. C-14 aldursgreining á viðarkolum úr óröskuðu mannvistarlagi fyrir utan tóftina, bendir til þess að minjarnar séu frá 9. eða 10. öld. Jarðhús. Árið 2000 var grafið upp jarðhús rétt við skálann. Í gólfi þess fannst meðal annars snældusnúður úr innfluttum tálgusteini. Guðmundur Ólafsson telur að þar hafi verið dyngja, vinnuhús kvenna. Þorsteinn Erlingsson taldi á sínum tíma að þetta hefði verið baðhús en Matthíasi Þórðarsyni fannst líklegra að húsið væri soðhús eða reykhús. Tilgátubær. Rannsóknin 1997 var gerð að tilstuðlan Eiríksstaðanefndar. Ætlunin var að fá sem réttasta mynd af rústinni vegna endurgerðar á skálanum sem bæ Eiríks rauða. Ráðist var í gerð tilgátubæjarins árið 1999. Hann var svo vígður árið 2000 í tilefni þess að 1000 ár voru frá landafundum Leifs heppa. Tilgátubærinn er um 100 m frá rústum Eiríksstaða. Sire Ottesen. Sire Ottesen (1799 – 7. febrúar 1878) eða "Sigríður Elísa Þorkelsdóttir Bergmann" var íslensk kona sem stundaði veitingarekstur í Reykjavík um miðbik 19. aldar og er þekktust fyrir samband sitt við Arthur Dillon, síðar lávarð. Hún þótti sérlega glæsileg kona og var af mörgum talin ein fegursta kona landsins á sinni tíð. Hjónaband og skilnaður. Sire var dóttir Þorkels Guðmundssonar Bergmann, sem var annar fyrsti kaupmaður í Reykjavík og um skeið forstjóri Innréttinganna, og Sigríðar Þorsteinsdóttur. Hún fæddist í Kaupmannahöfn og ólst þar upp að mestu, enda þótti málfar hennar ætíð mjög dönskublandið og sérkennilegt. Hún hafði ekki náð fimmtán ára aldri þegar hún giftist Lárusi Ottesen kaupmanni árið 1814. Hann var bróðursonur Sigurðar Stefánssonar Hólabiskups og Ólafs Stephensen stiftamtmanns. Sama ár eignaðist hún soninn Þorkel Valdimar Ottesen, síðar verslunarmann, og ári síðar fæddist annar sonur, Pétur Oddur Ottesen, bóndi og dannebrogsmaður á Ytra-Hólmi, afi Péturs Ottesen alþingismanns. Sire og Lárus skildu að borði og sæng 1819, þegar hún var aðeins tvítug, og fór hún þá að vinna fyrir sér sem stofustúlka eða vinnukona. Nokkru síðar eignaðist hún son með ungum skólapilti og síðan annan með Petersen faktor, en hún var þá ráðskona hans. Báðir þessir drengir dóu á fyrsta ári. Þá var manni hennar nóg boðið og fékk hann lögskilnað við hana en hún var dæmd fyrir hórdóm. Dillon lávarður. Um 1830 var Sire Ottesen farin að sjá um Klúbbinn, sem var helsti skemmtistaður Reykvíkinga á þeim tíma, og var þar oft stíft drukkið og svallað. Sumarið 1834, þegar hún var 35 ára, kom til landsins 22 ára enskur aðalsmaður, Arthur Dillon, sem hugðist skrifa bók um ferðalag sitt. Hann fékk leigt herbergi í Reykjavík en var í fæði í Klúbbnum. Herbergið var óupphitað og þegar kólna fór í veðri sóttist hann mjög eftir hlýjunni í Klúbbnum, sem líklega hefur verið mest í faðmi veitingakonunnar, því ekki leið á löngu þar til hann var fluttur þangað og hún átti von á barni. Sire fékk úthlutað lóð undir hús og matjurtagarð um veturinn og hóf þegar að láta reisa hús, sem Dillon kostaði. Þau fluttu þar inn áður en það var fullbyggt. Þann 13. júní 1835 fæddi Sire dóttur sem fékk nafnið Henrietta eftir móður Dillons. Hann hafði í hyggju að kvænast henni en þar voru ljón í veginum, annars vegar að Dillon var kaþólskur og þurfti undanþágu til að mega giftast og hins vegar að hann þurfti svaramenn sem gætu tekið ábyrgð á því að hjónabandið væri meinbugalaust. Þau Sire sóttu um hjúskaparleyfi til stiftsyfirvalda, sem vísuðu málinu til kansellísins í Kaupmannahöfn, en það synjaði um þær undanþágur sem til þurfti og varð ekkert af hjúskapnum. Fjölskyldu Dillons mun ekki hafa litist á blikuna þegar þau fréttu af væntanlegum ráðahag og kom eldri bróðir hans til Reykjavíkur að telja honum hughvarf. Vera má að ástin hafi eitthvað verið tekin að dofna en svo mikið er víst að Dillon ákvað að snúa heim til Englands. Hann skildi þó Sire ekki eftir slyppa og snauða, heldur gaf henni húsið, sem jafnan var nefnt Dillonshús, og gerði auk þess erfðaskrá þar sem hann ánafnaði Henriettu 1500 sterlingspundum og Sire 700 pundum, sem var geysimikið fé. Þennan arf fengu þær þó aldrei, enda voru þær báðar látnar á undan Dillon, auk þess sem erfðaskráin týndist og var glötuð í heila öld, en fannst þá að nýju. Veitingasali og húsmóðir. Sire Ottesen bjó áfram í Dillonshúsi og rak þar lengi veitingasölu, hélt dansleiki og leigði út gistiherbergi. Á meðal leigjenda hjá henni var Jónas Hallgrímsson, sem bjó í Dillonshúsi veturinn 1841-1842, síðasta vetur sinn á Íslandi. Sire hætti dansleikjahaldi og vínsölu þegar dóttir hennar komst á unglingsár, að sögn vegna þess að hún vildi ekki að hún yrði fyrir áhrifum af svallinu, og hafði eftir það ýmsa leigjendur í húsinu, þar á meðal Ágústu og Þóru Johnson, dætur Gríms Jónssonar amtmanns, sem ráku þar fyrsta kvennaskóla alndsins 1851-1853. Hann var undanfari Kvennaskólans í Reykjavík, sem Þóra stofnaði síðar. Henríetta ólst upp með móður sinni og giftist árið 1862 dönskum kaupmanni að nafni Levinsen. Sire var lengi í skjóli dóttur sinnar en síðustu árin dvaldi hún hjá syni sínum, Pétri Ottesen á Ytra-Hólmi. Þar dó hún 78 ára árið 1878. Haugfé. Haugfé á við gripi, sem grafnir voru með mönnum í heiðnum sið á Norðurlöndum; oftast hversdagslegir munir eins og hnífar, nælur, brýni og spjót. Í heiðni trúðu menn á líf eftir dauðan þ.e. framhaldslíf. Þeir trúðu því að erfitt líf biði þeirra sem yrðu sóttdauðir og að gaman og leikur biði þeirra sem ekki yrðu sóttdauðir. Sá sem er grafinn í haugnum lifði áfram þar. Þess vegna fannst þeim ekkert eðlilegra en að grafa með þeim látna þá hluti sem hann þurfti að taka með sér í framhaldslífið. Höfðingjar og stórbændur voru grafnir í haug með sínum uppáhalds vopnum, klæddir í skartklæði og oft með þeim hlutum sem þeir höfðu notað mest á í sínu lífsskeiði. Einnig eru til dæmi um það að eftirlætis dýr og jafnvel þrælar væru grafnir með þeim látna. Haugfé er eitt helsta kennimark heiðins kumls. Eitt af aðalkennimerkjum þess hvort kuml sé frá heiðni er haugféð. Ef að bein hesta og hunda, vopn, skartgripir, búsáhöld o.fl. þess háttar finnast með mannabeinum er það nefnt haugfé. Haugfé í íslenskum kumlum. Það er mjög algengt að íslenskt haugfé sé með 10. aldar stíl. Liststílar og smíðatækni sýna fram á það að mikill meirihluti gripanna sem finnast í íslenskum kumlum séu af norskum uppruna eða gerðir af norskri fyrirmynd. Flestir hlutir úr daglegu lífi voru nothæfir sem haugfé svo lengi sem þeir gátu komist fyrir í kumlinu. Sumar tegundir hluta eru þó greinilega algengari en aðrar í íslenskum kumlum. Tölfræði. Listinn hér fyrir neðan er úr annarri útgáfu af "Kuml og haugfé" eftir Kristján Eldjárn. Kyngreining. Hægt er að sjá á sumum haugfjártegundum hvort þær tilheyri karli eða konu. Síðan eru hlutir sem gætu bæði tilheyrt körlum og konum. Í kumlatalinu í 2. Útgáfu af Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn eru 165 kuml sem kyngreind verða ýmist af haugfé eða beinarannsókn. Af þessum kumlum eru 100 karlkuml og 65 kvennkuml. Vopn eru talin tilheyra karlkumlum og flestir skartgripir eru taldir tilheyra kvennkumlum. Svona er hægt að nota haugfé til þess að kyngreina kuml en það verður samt að hafa varan á því ekki er hægt að útiloka það að vopn finnist í kvennkumli og skartgripir eða snældusnúður finnist í karlkumli. Staðsetning haugfjárs. Vopn voru yfirleitt lögð við hlið þess látna. Á spjótunum var mjög líklega skaft og oddurinn finnst oftast við fætur líksins. Hnífur finnst oft í beltisstað og annað smádót líka. Sörvistölur eru nær hálsi og skartgripir kvenna á brjótsti. Þetta sýnir að hinn látni hefur verið grafin með hversdagsgripum sínum og mjög líklega venjulegum klæðum. Ef skjöldur finnst í kumli hefur hann oftast verið lagður yfir höfuð líksins. Rúandíska. Rúandíska ("Ikinyarwanda") er bantúmál talað af 15 milljónum í Rúanda, Búrúndí, Kongó, Úganda og Tansaníu. Það er ritað með latínuletri og er stærsta bantúmálið. Í nafnhætti hefjast allar sagnir á gu, ku eða kw þegar eftir kemur sérhljóði. Nafnháttsforskeytið er síðan fjarlægt og annað sett í staðinn í öðrum háttum. Skáli. Skáli getur átt við um allstórt skýli, lítið hús, skemmu eða kofa, s.s. ferðamannaskála, fjallskála og svefnskála. Einnig bráðabirgðahús, s.s. herskála. Þá getur það átt við um eldaskála, elstu gerð torfbæja á Íslandi, en er líka heiti á húsi í íslenska gangabænum. Í skálum gangabæjanna var ekki eldstæði en í þeim var sofið þar til baðstofan tók við því hlutverki. Hrísbrú. Hrísbrú er býli í Mosfellsdal í Mosfellsbæ. Fornleifauppgröftur. Fornleifauppgröftur hefur verið staðið yfir á Hrísbrú frá árinu 1995 á vegum verkefnisins MAP, The Mosfell Archaeological Project. MAP er alþjóðlegt þverfaglegt rannsóknarverkefni þar sem stuðst er við fornleifafræði, sagnfræði, mannfræði, erfðafræði og náttúruvísindi. Samvinna er við Þjóðminjasafn Íslands og Mosfellsbæ. Jesse L. Byock prófessor er framkvæmdastjóri verkefnisins en Davidi Zori, fornleifafræðingur hefur umsjón með uppgreftinum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á líf íbúa Mosfellsdals og á svæðinu þar í kring við upphaf landnáms og næstu aldir þar á eftir. Uppgröftur hófst á tveimur hólum með könnunarskurðum en þeir kallast Kirkjuhóll og Hulduhóll. Þessi örnefni eru forn en einnig höfðu munnmælasögur gengið mann fram að manni að á Kirkjuhóli hafi verið kirkja og að í Hulduhóli væri álfabyggð. Þessu greindi Ólafur Ingimundarson bóndi á Hrísbrú frá en þessar sagnir eru skýring þess að ekki hafði verið hreyft við þessum hólum áður en uppgröftur hófst. Kirkjuhóll - kirkja og kirkjugarður. Á Kirkjuhóli var komið niður á leifar byggingar sem talið er geta verið af fjárhúsi. Undir því fannst kirkja og í kring um hana voru grafir. Aldursgreiningar og gjóskulagarannsóknir benda til þess að kirkjan sé frá 10.-11. öld. Undir kirkjunni fannst öskuhaugur og laskaðir torfveggir. Þau lög gætu verið frá þvi um 900 en bíða frekari rannsókna. Við uppgröftinn kom í ljós steinhlaðinn grunnur kirkjunnar. Kórinn hefur verið 2,5 m á lengd og breidd og fannst óvenju stór tóm gröf undir honum. Kirkjuskipið var 3,2m á breidd og 4,3m á lengd og dyrnar snéru í vestur. Fótstykki kórsins (aursylla) hefur setið á grjótundirstöðu og möl. Litlir steinar voru notaðir til að skorða fótstykkið. Í mölinni fundust leifar af timbri, líklega úr fótstykkinu en það reyndist vera úr síberíulerki ("Larix siberica") og þá er það væntanlega rekaviður. Líklega er þarna um stafkirkju að ræða.. Í kirkjugarðinum reyndust sumar grafirnar hafa verið tæmdar. Það bendir til að beinin hafi verið flutt en frá því er sagt í Egils sögu að bein hafi verið flutt frá kirkju á Hrísrú til nýrrar kirkju á Mosfelli í byrjun 12. aldar. Ákvæði um beinaflutning frá aflögðum kirkjum eru einnig í Grágás Við vesturgafl kirkjunnar fundust 9 grafir með beinagrindum í. Þar fundust átta fullorðnir, sex karlmenn og ein kona, auk þess ein beinagrind sem ekki var hægt að kyngreina. Einnig var þar beinagrind af barni, illa varðveitt. Norðan við kirkjuna voru 5 grafir, allt karlar. Í gröfunum fundust kistuleifar og líkkistunaglar. Í einni gröfinni fannst útskorið hvalbein og ein beinagrindin virðist hafa haldið um staf. Einnig fundust viðarleifar og brot af járnpotti. Í heiðnum sið var algengt að grafa muni með líkum og hefur þetta verið túlkað þannig að þarna skarist áhrif heiðni og kristni. Hulduhóll. Hulduhóll virðist að hluta til vera manngerður. Í hólnum fundust leifar í 5 cm jarðvegslagi og hefur það verið túlkað sem líkbrennslustaður frá víkingaöld. Þarna var lag af viðarkolum, öskulag og brennd bein úr hauskúpu manns. Einnig voru þarna beinbrot og leifar af bronsplötu og járnplötu. Höfuðkúpubrotin voru öll úr sama einstaklingi, dreifð á 2,5m svæði og ummynduð í kalk. Það gerist við 800°C hita í alllangan tíma. Kolefnisgreiningar á kolaðri trjágrein ú rlaginu benda til að það hafi myndast í kringum kristnitöku. Höfuðkúpubrotin voru greind í Læknaháskólanum í Osló og niðurstaðan var að þau væru öll úr sama einstaklingi sem var líklega á fertugsaldri, en ekki var hægt að ávarða kyn. Brunakuml eru óþekkt á Íslandi og ef þessi túlkun reynist rétt er þetta það fyrsta sinnar tegundar á landinu. Skáli. Skáli er tíu metrum norður af kirkjunni. Húsið er dæmigerður víkingaaldarskáli með bogadregnum hliðum, byggður úr torfi og grjóti og með þeim stærri sem fundist hafa á Íslandi, 25x5m að innanmáli. Langeldur var í miðju húsinu og bekkir til hliðanna. Skálinn er talinn hafa verið þiljaður að innan og einnig var timburgólf í vesturhlutanum. Í skálanum fundust meðal annars 30 perlur, ásamt mörgum fleiri gripum. Rannsóknir á torfi í veggjum skálans leiddi í ljós að það var ekki tekið úr túninu nærri skálanum, heldur úr mýrinni nærri Hrísbrú. Beinarannsóknir. Rannsókn á beinagrind frá 11.öld bendir til að um 28% af fæðu einstaklingsins hafi verið sjávarfang. Mælingar á strontium samsættum úr glerungi tanna þriggja einstaklinga í kirkjugarðinum sýna að allir voru fæddir og uppaldir á Íslandi. Líkamshæð fólks á Hrísbrú er talin vera lægri en almennt gerðist á Íslandi á sama tíma og gæti bent til að það hafi búið við óblíð kjör. Beinagrindurnar báru merki um slitgigt, sem gæti stafað af vinnuálagi, næringarskort og sjúkdóma. Merki um berkla fundust á tveimur beingrindum. Einnig voru merki um ofbeldi en sjá mátti greinilegt far eftir beitt eggvopn á hauskúpu. Langhús. Hugtakið langhús er notað um hverskyns aflangar byggingar. Það er notað jafnt um híbýli manna sem um önnur hús og þekkist t.d. sem nafn á fjárhúsum á Íslandi. Langhús er notað í sértækari merkingu um þá húsagerð sem var ráðandi í Norður Evrópu frá bronsöld og fram á miðaldir. Langhús er stundum notað í enn þrengri merkingu til að gera greinarmun á þeim húsum sem höfðu fjós undir sama þaki og hinum sem höfðu það ekki og eru þau síðarnefndu þá fremur kölluð skáli eða eldaskáli. Hljóðgap. Hljóðgap (fræðiheiti: "hiatus") er orð í hljóðfræði sem haft er um þegar tvö sérhljóð mynda framburðartóm í orði, samanber til dæmis í orðinu herstöðvaandstæðingar. Hljóðgap í íslensku getur líka myndast ef sérhljóði mætir -h + sérhljóða, samanber Miklaholt. Einnig er talað um hljóðgap í braglínu ef endasérhljóð orðs er hið sama og upphafssérhljóð næsta orðs á eftir. Það getur truflað hryjanda í bundnu ljóði og er þá orðinn hrynbrjótur. Benedikt Pálsson. Benedikt Pálsson (um 1608 – 1664) var íslenskur bartskeri, Hólaráðsmaður og klausturhaldari. Hann var sonur Páls Guðbrandssonar sýslumanns á Þingeyrum og konu hans Sigríðar Björnsdóttur og var Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup afi hans. Benedikt fór til Hamborgar 1628 og lærði þar til bartskera en í því fólst á þeim tíma bæði rakaraiðn og sáralækningar. Þegar hann var á leið heim til Íslands með þýsku skipi árið 1633 réðust sjóræningjar frá Barbaríinu á skipið og hertóku það. Benedikt var fluttur til Algeirsborgar og seldur í ánauð og í erfiljóði eftir hann segir að hann hafi verið galeiðuþræll á Miðjarðarhafi. Þegar Íslendingar sem herteknir höfðu verið í Tyrkjaráninu voru keyptir lausir árið 1636 var Benedikt í þeim hópi og komst því heim eftir þriggja ára vist í Barbaríinu. Hann varð ráðsmaður Hólastóls við heimkomuna en Þorlákur Skúlason frændi hans var þá biskup. Því starfi gegndi hann til 1638. Árið 1639 varð hann klausturhaldari á Möðruvöllum og hélt því til æviloka. Jón Espólín segir að hann hafi verið góðlyndis- og listamaður. Fyrri kona Benedikts var Hólmfríður Einarsdóttir, sem var dóttir Einars Hakonarsonar sýslumanns á Ási í Holtum og Ragnheiðar konu hans, dóttur Magnúsar prúða. Þau voru þremenningar og þurftu konungsleyfi til að giftast. Hún dó 1645 og voru þau barnlaus. Benedikt giftist árið 1649 Sigríði Magnúsdóttur stórráðu, sem var dóttir Magnúsar Jónssonar lögréttumanns og skálds á Sjávarborg. Hún var sögð allra kvenna fríðust en afar ráðrík og skapmikil og jafnvel talin fjölkunnug. Segir Espólín að hún hafi verið Benedikt ill og flýtt fyrir dauða hans. Hún giftist svo Jóni Eggertssyni frá Ökrum, eftirmanni Benedikts. Á meðal barna þeirra Benedikts og Sigríðar var Magnús Benediktsson bóndi á Hólum í Eyjafirði, sem Espólín segir hafa verið nafnkunnugt illmenni, enda var hann dæmdur til Brimarhólmsvistar eftir langan málarekstur fyrir hrottalegt morð á þungaðri barnsmóður sinni. Sonur hans var Nikulás Magnússon sýslumaður. Sýrurokk. Sýrurokk (e. "psychedelic rock", einnig sækadelía) er tónlistarstefna sem kom fram um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar. Ekki má rugla sýrurokki við ensku stefnuna acid rock sem var ein af undirstefnum sýrurokks. Nátengdar stefnur eru sýrupopp, sýrufólktónlist og sýrusálartónlist. Tónlistin átti að líkja eftir áhrifum ofskynjunarlyfja og virkaði sem einhversskonar þematónlist svokallaðra dóp 'trippa' og hippamenningarinnar. Mikið var notast við alls kyns rafmagnseffekta og nýstárlega upptökutækni auk þess sem tónlistin sótti áhrif í djass og austurlenska tónlist. Rafmagnsgítar og hljómborð eða hljóðgervlar af ýmsu tagi voru áberandi einkenni þessarar tónlistarstefnu. Sýrurokk var ákaflega vinsælt í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum en einhver munur var á stefnunum sitthvoru megin við Atlantshafið. Þekktar hljómsveitir sem spiluðu einhverntíma svona tónlist eru meðal annars Bítlarnir, The Rolling Stones, Pink Floyd, og Soft Machine. Þrátt fyrir að sýrurokksenan hafið verið mest áberandi í Bretlandi og Bandaríkjunum náði hún líka til Íslands og hafði áhrif á tónlistarlífið hér. Sýrurokk lifði stutt og fjaraði að mestu út á mótum sjöunda og áttunda áratugarins og flestar sýrurokksveitir sneru sér að öðrum stefnum. Það var svo í lok áttunda áratugarins sem síð-pönk sveitir tóku að tvinna sækadelíu saman við tónlist sína og þar með hófts nýsækadelía sem er enn við lýði í dag. Tónlistarstíll. Sækadelía sótti mikinn innblástur í austulenska tónlist og hljóðfæri. Oft mátti heyra í sítar eða ásláttarhljóðfærinu tabla bregða fyrir í tónlistinni. Til dæmis notaði hljómsveitin The Rolling Stones sítar í lagi sínu „Paint It, Black“. Sækadelískir tónlistarmenn sóttu einnig í áhrif frá djasstónlist, meðal annars löngu spuna „djömm“ (e. "jam sessions") sem höfðu verið stunduð af djasstónlistarmönnum áður fyrr. Allskyns nýir rafmagnseffektar voru notaðir bæði á meðan á upptökum stóð og eftir á til að breyta og bjaga hinu ýmsu hljóð en þó aðallega gítar og söng. Algengir effektar fyrir gítara voru fuzzbox, wah wah og afturverkun (e. "feedback"), algengt var að fuzzboxið og wah wah pedalinn væru sameinuð í eitt tæki og kallaðist sá hljóðeffekt fuzz wah. Aðrir effektar voru til dæmis öfugar upptökur (e. "backmasking" eða "backward tapes") þar sem upptakan er spiluð afturábak. Mikil áherlsa var lögð á hljómborð af einhverju tagi til dæmis orgel, mellotron og frumstæða hljóðgervla þessa tíma. Textagerðin tók einnig að breytast í þessari nýju rokktegund. Textar fóru að fjalla meira um málefni líðandi stundar og lýsingar á eiturlyfja „trippum“ og hurfu frá þeim vana að skrifa um ást og rómantík. Einhver munur var líka á tónlistinni í Bandaríkjunum annarsvegar og Bretlandi hinsvegar. Breskir textar voru oft frekar súrrealískir og það var algengt að þeir væru skrifaðir eins og frá sjónarhorni barns eða jafnvel á ævintýraformi. Þá var mellotron mun meira áberandi í bresku greininni en þeirri bandarísku. Saga. Það var um miðjan sjöunda áratug sem pólitísk fólktónlist með Bob Dylan í fararbroddi, uppreinsarrokk The Rolling Stones og félaga og áhyggjulaust popp-rokk bítlanna og þeirra líka fór að renna saman í eina allsherjar hippatónlistarstefnu: sýrurokk (eða sækadelíu). Tónlistarmenn fóru að bregða út fyrir settar dægurlagaformúlur þegar kom að tónsmíðum og þetta var tími miklillar tilraunastarfsemi. Ómissandi partur í þessari þróun voru ofskynjunarlyf og var sýruokkið einmitt ætlað sem nokkurskonar undirspil fyrir eiturlyfjatripp sem áttu að opna fyrir manni áður ókönnuð svæði sjálfsins. Tónlistinni var ætlað að hafa sömu skynörvandi áhrif á mann og LSD. Tónsmíðar tóku stakkakiptum, lögin lengdust og spunar og „djömm“, ættuð frá djass tónlist, urðu áberandi. Oft á tíðum var það einfaldlega þannig að hljómsveitir höfðu of lítið efni eða kunnu ekki nógu vel á hljóðfæri sín til að fylla upp í langa dagskrá og lausnin var að skeyta löngum samspilum og sólóum inn í lögin til að lengja prógrammið. Beggja vegna Atlantshafsins voru hljómsveitir byrjaðar að gera tilraunir með LSD. Í Bandaríkjunum byrjuðu hljómsveitir hvaðanæva að, að spila tónlist sem féll undir þennan flokk rokktónlistar. Í San Francisco myndaðist stór sýrurokk sena með hljómsveitir á borð við the Grateful Dead og the 13th Floor Elevators, sem í raun voru frá Texas, í fararbroddi. The Grateful Dead voru á meðal hljómsveita sem spiluðu á sérstökum sýrukvöldum (e."acid tests"), samkomum þar sem fólk tók LSD við undirspil sýrutónlistar. Í Bretlandi áttu svipaðir hlutir sér stað. Pink Floyd, The Move, the Soft Machine, uppreisnarseggirnir í The Rolling Stones og jafnvel góðu drengirnir í Bítlunum, allir tóku þátt. En þetta snerist ekki bara um eiturlyf, hljómsveitir vildu ganga lengra og fara nýjar leiðir í tónlist sinni. Auk áhrifa úr jassi sótti tónlistin líka innblástur frá austrænni tónlist og notuðust við hljóðfæri eins sítara og tabla trommur en líka í klassísk hljófæri eins og sembala. Sumarið 1967 náði sýrurokk hátindi sínum. Bítlarnir gáfu út plötuna Sgt. Pepper's Lonely Heartsclub sem skartaði dreymnum textum með skýrskotanir í eiturlyfjaneyslu, sítarleik og fleiru einkennandi fyrir sýrurokk. Ári síðar var haldin hin þekkta hippatónlistarhátíð Woodstock í Bandaríkjunum, þar sem mörg stærstu nöfn sýrurokks komu fram, þar á meðal Jimi Hendrix, Jefferson Airplane, the Grateful Dead og Country Joe and the Fish. Upp frá því fóru vinsældir sýrurokks hinsvegar dvínandi og þegar áttundi áratugurinn gekk í garð við voru flestar rokkhljómsveitir annaðhvort hættar eða höfðu aftur snúið sér að hefðbundnara rokki. En sýrurokk átti líka þátt í þróun nýrra tónlistarstefna, framsækið rokk í tilviki Pink Floyd og the Soft Machine svo og þungarokk sveita eins og Led Zeppelin. Sýrurokk á Íslandi. Sækadelían var lengi að taka við sér á Íslandi. Það var ekki fyrr en flestar erlendu hljómsveitirnar höfðu gefist upp og snúið sér aftur að hefðbundnara rokki eða leyft tónlistinni að þróast áfram yfir í t.d. framsækið rokk sem hljómsveitirnar hér heima fóru að spila sýrurokk. Fram að 1969-1970 höfðu íslensku hljómsveitirnar verið tregar til að til að tileinka sér framúrstefnulega tilraunasterfsemi vinsælla hljómsveita á borð við Pink Floyd, Procol Harum, The Doors og gítarkónginn Jimi Hendrix. En loks í bláenda sjöunda áratugarins tóku íslendingarnir við sér og fóru að spila tónlistina sem áður hafði bara fengið að heyrast spiluð af plötum hérlendis. Lítið var um frumsamda tónlist á Íslandi á þessum tíma og algengara var að íslensku hljómsveitirnar spreyttu sig á erlendum slögurum en þó ekki algilt. En með innkomu sýrutónlistar á íslandi fóru hljómsveitir að leggja meira upp úr því að semja sjálfar og oftast var lagður mikill metnaður í tónsmíðarnar. Tónlistin sneri ekki lengur um að skapa möguleka til að dansa við hitt kynið. Þess í stað var algengara að fólk héldi kyrru fyrir í sætum sínum, jafnvel með lokuð augun, og leyfðu sér að týnast í tónlistinni. Ef ske kynni að dansað væri voru það ekki lengur fyrirfram æfð dansspor sem réðu ríkjum á dansgólfinu. Við tóku hægar hreyfingar, hver og einn fór sínar leiðir eftir eigin skynjun á tónlistinni. Ekki var óalgengt að þessi skynjun væri aukin með hjálp ofskynjunarlyfja af einhverju tagi, til dæmis LSD eða hassi. Meðal þekktustu sýrurokksveita landsins voru Trúbrot, Óðmenn og Tilvera, allar stofnaðar árið 1969. Hljómsveitin Trúbrot var stofnuð af vel völdum meðlimum úr Hljómum og Flowers og átti hún að vera sannkölluð súpergrúppa. Upprunaleg uppröðun hljómsveitarinnar var Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og söngkonan Shady Owens úr Hljómum en frá Flowers komu Karl Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson. Gunnar Jökull hafði þá spilað á trommur með ensku sýrurokkhljómsveitinni The Syn sem síðar var að framsæknu rokkhljómsveitinni Yes. Yfir starfsferilinn tók hljómsveitin hinsvegar miklum mannbreytingum. Trúbrot gaf út frumsamið efni, sýrurokk og hippatónlist, og var þekkt fyrir mikinn metnað í tónsmíðum. Þrátt fyrir það spilaði sveitin lítið af eigin efni á böllum og tónleikum heldur tóku þau vinsælustu lög erlendu hljómsveitanna t.d. Led Zeppelin og Jefferson Airplane. Trúbrot er oft sögð forystuhljómsveit íslensk rokks þrátt fyrir að hafa ekki endilega verið með stærsta aðdáendahópinn. Óðmenn spiluðu sýrurokk með blúsívafi í anda bresku hljómsveitarinnar Cream. Þeir voru ekki jafn vinsæl ballsveit og til að mynda Trúbrot vegna þess hve þung og ódanshæf tónlist þeirra var. Fram til ársins 1971, þegar hljómsveitin hætti störfum, gáfu Óðmenn út nokkrar plötur og voru fyrsta hljómsveitin til að gefa út tvöfalda plötu árið 1970. Þeir öðluðust ekki einungis vinsældir í heimalandinu heldur einnig á Norðurlöndum. Tilvera spilaði líkt og Óðmenn blúsað sýrurokk. Hljómsveitin vakti mikla athygli fyrir tónsmíðar gítarleikarans Axels Einarssonar sem þóttu líkjast meðal annars verkum Pink Floyd. Árið 1971 gaf Tilvera út tveggja laga smáskífu með lögunum Lífið og Hell Road með þungum gítar og orgelleik auk þess sem textinn við Hell Road er nokkurskonar áróðurslag gegn stríði. Nýsýrurokk. Í lok áttunda áratugarins tóku síð-pönksveitir, þar á meðal Echo & the Bunnymen og The Teardrop Explodes, að endurlífga sýrurokkið með því að innleiða stíl þess í tónlist sína og úr varð ný stefna: Nýsýrurokk. Tónlistin sótti áhrif til sýrutónlistar sjöunda áratugarins, hvort sem það var súrrealísk eða pólitísk textagerðin, bjagað gítarhljóð eða jafnvel djassaður spuni. Nýsýrutónlist (e. "neo-psychedelia") er jafn fjölbreytt og hljómsveitirnar sem spilað það í gegnum árin eru margar. Algengast er að indí og alternative hljómsveitir tilheyri stefnunni. Dæmi um starfandi nýsýrurokkhljómsveitir eru ástralska sveitin Tame Impala, Ariel Pink's Haunted Graffiti, Animal Collective og breska sveitin Toy, en tónlist hennar er samblanda sýrurokks, síð-pönks og krátrokks. Vala Flosadóttir. Vala Flosadóttir (fædd í Reykjavík 16. febrúar 1978) er íslensk frjálsíþróttakona og keppti í stangarstökki. Árið 2000 varð hún í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Sydney með stökki upp á 4,5 metra, sem jafnframt er persónulegt met. Árið 1998 setti Vala tvívegis heimsmet í stangarstökki innanhúss og hún setti einnig fimm unglingaheimsmet á árunum 1995-1997. Hún varð Evrópumeistari í stangarstökki innanhúss 1996, en það var í fyrsta skipti sem keppt var í stangarstökki kvenna á stórmóti, og hafnaði í þriðja sæti á Evrópumeistaramótinu árið 1998. Hún vann Evrópumeistaramót 22 ára og yngri 1999 og varð önnur á evrópska unglingameistaramótinu 1997. Vala hætti keppni árið 2004. Sjávarborgin. Sjávarborgin (franska: "Spirou et les hommes-bulles") eftir höfundinn og teiknarann Franquin í samvinnu við Jean Roba er sautjánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val og inniheldur tvær sögur: "Sjávarborgina" sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Svamlað í söltum sjó og "Dularfulla líkneskið". Sögur þessar voru ritaðar árið 1958 en komu ekki út á bók fyrr en 1964. Árið 1983 var hún gefin út á íslensku. Söguþráður. "Sjávarborgin" hefst á að "Jón Harkan", glæpamaður úr Svamlað í söltum sjó flýr úr fangelsi. Skömmu síðar berast fregnir af því að kafbáti Sveppagreifans hafi verið rænt. Félagarnir álykta að Jón Harkan sé enn á ný á höttunum eftir gullfarminum á hafsbotni. Svalur, Valur og greifinn halda með annan kafbát til frönsku Rivíerunnar til að elta "Jón Harkan". Þar kynnast þeir "Herra Una" (franska: "Monsieur D'Oup"), heldri manni sem telur fátt dýrmætara í lífinu en ró og næði. Ýmis spellvirki eru unnin til að stöðva leiðangur þeirra félaganna, en Svalur kemst þó á mikið dýpi í köfunarhylkinu, þar sem hann telur sig sjá kýr á beit og ljós frá dularfullum neðansjávarfarartækjum. Vinir hans kenna ofskynjunum vegna köfunarveiki um. "Jón Harkan" finnst í bát í höfninni, nær dauða en lífi, með gullforðann innanborðs. Lögreglan telur þá að málið sé leyst og engin þörf á frekari leit. "Herra Uni" tekur í sama streng. Félagarnir láta sér ekki segjast og þrátt fyrir frekari skemmdarverk uppgötva þeir leyndarmálið: "Herra Uni" hefur ásamt félögum sínum komið upp neðansjávarborg fjarri skarkala heimsins og beitt öllum brögðum til að halda henni leyndri, þar á meðal sveit manna í litlum kafbátum. Svalur og Valur lofa að þegja yfir leyndarmálinu. "Dularfulla líkneskið" (franska: "Les petits format") er seinni saga bókarinnar og álíka mikil að vöxtum. Svalur og Valur eru staddir í "Sveppaborg". Valur bregður sér í ljósmyndavöruverslun til að kaupa filmur, en hverfur sporlaust. Síðar finna Svalur og Gormdýrið örsmátt líkneski sem er nákvæm eftirmynd Vals. Svalur telur að vinur sinn hafi verið minnkaður og berast böndin að skringilegum doktor sem státar af miklu safni smálíkneskja. Sveppagreifinn kemur til sögunnar og saman uppgötva þeir hvernig í málinu liggur. Eigandi ljósmyndavöruverslunarinnar hefur þróað nýja tegund ljósmyndunar sem framkallar þrívíðar eftirmyndir, en aukaverkun hennar er sú að sá ljósmyndaði missir minni og rænu. Eftir mikla leit finnst Valur ráfandi um götur nálægs bæjar og endurheimtir minnið með hjálp greifans. Íslensk útgáfa. "Sjávarborgin" var gefin út af Iðunni árið 1983 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Þetta var átjánda bókin í íslensku ritröðinni Ásgeir Þór Davíðsson. Ásgeir Þór Davíðsson, oftast kallaður Geiri á Goldfinger (f. 25. janúar 1950, d. 20. apríl 2012) var íslenskur athafnamaður sem þekktastur er fyrir að hafa rekið skemmtistaðinn "Goldfinger" í Kópavogi. "Goldfinger" var fyrrum nektardansstaður en eftir að nektardans var bannaður á Íslandi 2010 var staðnum breytt í veitingastað. Ásgeir lést aðfaranótt 20 apríl 2012 úr hjartaáfalli á heimili sínu. Ásgeir Þór rak áður skemmtistaðinn "Maxim's" í Hafnarstræti í Reykjavík. Aeroflot. Aeroflot (rússneska: "Аэрофлот") er rússneskt flugfélag og stærsta flugfélag Rússlands. Höfuðstöðvar flugfélagsins eru staddar á alþjóðlega flugvellinum í Sheremetyevo og þaðan er flogið til 97 borga í 48 löndum. Aeroflot er eitt elsta flugfélag í heimi en það var stofnað árið 1923. Aeroflot var þjóðarflugfélag Sovétríkjanna og var á þeim tíma stærsta flugfélag í heimi. Við upplausn Sovétríkjanna hefur Aeroflot breyst úr ríkisreknu fyrirtæki í hálfeinkavætt flugfélag sem er meðal þeirra arðbærustu í heimi. Rússneska ríkisstjórnin á 51 % af fyrirtækinu frá og með 2011. Fjármálalæsi. Fjármálalæsi er getan til að fjalla um peninga og meðferð þeirra án vandræða, skilja helstu atriði eigin fjármála og hvernig er hægt að hafa áhrif á þau. Alþjóðlegi flugvöllurinn í Sheremetyevo. Alþjóðlegi flugvöllurinn í Sheremetyevo ("Международный аэропорт Шереметьево") eða Sheremetyevo er flugvöllur í Moskvu í Rússlandi. Airbus A330. Airbus A330 er farþegaflugvél framleidd af Airbus. Varanleg gagnaskipan. Varanleg gagnagrind eða varanleg gagnaskipan er gagnagrind sem heldur utan um fyrri útgáfur af sjálfri sér. Kuml. Kuml er orð notað yfir gröf þess er jarðaður var að heiðnum sið. Helsta einkenni kumla er haugfé. Haugfé er það sem lagt var í gröfina með þeim sem jarðaður var. Haugfé gat verið áhöld, skart, vopn, hestar og hundar og svo framvegis. Á Íslandi hafa kuml fundist á meira en 160 stöðum en heildarfjöldi kumla sem fundist hafa eru fleiri en 320. Engar íslenskar ritaðar heimildir eru til um heiðna greftrunarsiði frá þeim tíma er heiðni var við lýði. Því eru fornleifafræðilegar rannsóknir á kumlum einu heimildirnar sem hægt er að styðjast við. Kuml eru oft fleiri en eitt á sama stað og kallast þá sá staður kumlateigur. Flest kuml eru frá tímum fyrstu byggðar á Íslandi þegar heiðni var enn við lýði og þar til heiðinn siður lagðist af með kristnum sið. Kristján Eldjárn var einn helsti brautryðjandi á sviði kumlarannsókna á Íslandi. Hann stundaði vettvangsrannsóknir á kumlum um árabil og varði doktorsritgerð sína frá Háskóla Íslands "Kuml og haugfé" árið 1956. Það rit var umfangsmesta fræðirit á sviði kumlarannsókna sem komið hafði út á Íslandi. Haugfé. Haugfé er það sem lagt var í gröfina með þeim sem jarðaður var. Haugfé gat verið áhöld eins og met, brýni, eldtinnur, klömbur, önglar, járnkrókar, mannbroddar, sigðar og fleira. Skart gat til dæmis verið hringar, hnappar, nælur, sölvistölur og fleira. Helstu gerðir vopna voru axir, spjót, sverð og hnífar. Hnífar geta þó talist til áhalda. Hestar voru stundum heigðir með eða án reiðtygis. Það kom einnig fyrir að hundar voru heigðir. Stundum finnst lítið eða ekkert haugfé í kumlum þar sem mörg kuml hafa verið rænd fyrr á tímum eða þar sem litlar leifar kumlsins eru eftir til dæmis vegna uppblásturs, landbrots eða framkvæmda. Kumlateigur. Kuml eru oft fleiri en eitt á sama stað og kallast sá staður þá kumlateigur. Á Íslandi hafa kuml fundist á meira en 160 stöðum en heildar fjöldi kumla sem fundist hafa eru fleiri en 320 talsins. „Um þriðjungur fundarstaða eru grafreitir með fleiri en einu kumli“. Flest kuml sem fundist hafa á Íslandi hafa fundist við uppblástur, landbrot eða við hverslags framkvæmdir sem rjúfa jörð. Kristján Eldjárn. Árið 1956 lauk Kristján Eldjárn doktorsprófi frá Háskóla Íslands með doktorsritgerðinni "Kuml og haugfé". Í ritgerðinni notar hann orðið kuml yfir „legstað heiðins manns yfirleitt hvort sem nokkur haugur einkennir hann eða ekki“. Orðið „kuml“ hafði lítið verið notað frá því í öndverðu er það var notað yfir hauga, bautasteina, minnisvarða og allar sjánlegar leifar legstaðar ofanjarðar. Eftir að ritið "Kuml og haugfé" kom út var orðið kuml almennt meira notað. Í endurskoðaðri útgáfu af bókinni "Kuml og haugfé" sem kom út árið 2000 í ritstjórn Adolfs Friðrikssonar var safnað saman öllum kumlfundum sem vitað var að hefðu fundist á Íslandi til ársins 1999. Bókin er því umfangsmesta rit sem komið hefur út um kuml hérlendis og þótt víðar væri leitað. Elena Berkova. Elena Sergeyevna Berkova (f. 1. apríl 1985 í Murmansk) er rússnesk klámmyndleikkona og söngkona. Berkova, Elena Anne Brontë. Anne Brontë (borði fram /ˈbrɒnti/); (17. janúar 1820 – 28. maí 1849) var enskur skáldsagnahöfundur og ljóðskáld. Hún fæddist í Thornton næri Scarborough í Yorkshire. Frægasta verk hennar er "The Tenant of Wildfell Hall" sem kom fyrst út 1848 sem er klassískt verk enskra bókmennta. Hún var yngst Brontë-systra. Hún notaðist við höfundarnafnið Acton Bell. Yorkshire. Gamla sýslan Yorkshire innan Englands Yorkshire (stundum átt við sem Jórvíkurskíri) er gömul sýsla á Norðaustur-Englandi og er stærsta svokölluðu „hefðbundu sýslna“. Flatarmál sýslunnar er 15.000 km² en þar búa yfir fimm milljónir manns. Hún skiptist í þrjú svæði, sem hétu "ridings" (af fornnorræna orðinu "þriðingr", „þriðjungur“ eða „hreppur“) á ensku, það er að segja West, North og East Riding. Meginhuti svæðisins sem tilheyrði heðfbendu sýsluna Yorkshire er nú á svæðinu Yorkshire og Humber, sem er einn af níu embættislegu landshlutum á Englandi. Sýslan sjálf skiptist í dag í þrjár smærri sýslur sem bera heiti gömlu hreppanna: Austur-Yorkshire, Norður-Yorkshire og Vestur-Yorkshire. Tákn sýslunnar er hvíta rósin sem tilheyrir York-ættinni. Í sýslunni er haldið upp á "Yorkshire Day", staðbundinn hátíðardag sem er haldinn 1. ágúst, þar sem allir borgarstjórar og bæjarstjórar koma saman og fagna deginum. Fagnaðurinn felur í sér nokkra staðbundna siði sem eru ekki til annarsstaðar á Englandi, eins og til dæmis Long Sword Dance ("Langsverðadansinn"). Mállýskan sem töluð er í Yorkshire er stundum kölluð „þykk“ en þetta orð er líka notað sem gælunafn á fólki frá sýslunni. Löngu hafa skandinavísk áhrif sett svip sinn á sýslunni og tungumálinu sem er notað þar. Refhvörf. Refhvörf eru stílbragð sem snýr að því þegar orðum gagnstæðrar merkingar er skotið saman, bæði í bundu máli og óbundnu. Það er til dæmis talað um refhvörf í bundnu máli þegar svartur rímar við bjartur. En annars — og auðvitað einnig í bundnu máli — eru refhvörf það þegar sagt er: "heitur snjór" eða "vinnuglaður letingi". Skor. Skor er eyðibýli við Breiðafjörð, undir Stálfjalli austan við Rauðasand. Þar var búið fram á 18. öld og var þar einn afskekktasti bær landsins. Næsti bær við Skor var Sjöundá á Rauðasandi. Stálfjall er víðast sæbratt og skriðurunnið og þar er óvíða undirlendi nema dálítil ræma í Skor, þar sem gengur fram lítið nes og þar er grösugt. Skorarviti, sem reistur var árið 1953, er þar á nesinu. Fjallshlíðin inn að Siglunesi kallast Skorarhlíðar og var þar torfarin leið og hættuleg. Í Skor var eini lendingarstaðurinn á langri strandlengju, og voru því stundaðir þaðan útróðrar frá nágrannabæjunum og stundum siglt þaðan yfir Breiðafjörð. Skorarhlíðar. Skorarhlíðar eru brattar, klettóttar og skriðurunnar suðurhlíðar Stálfjalls, sem er austan við Rauðasand, en austan þeirra taka Sigluneshlíðar við. Um hlíðarnar var áður torfær og hættuleg gönguleið milli Rauðasands og Barðastrandar og er ýmist gengið í snarbröttum hlíðum eða stórgrýti í fjörunni, yfir tuttugu kílómetra leið. Hættulegasti hluti leiðarinnar kallast Geirlaugarskriður, snarbrattar fram á brún hengiflugs. Í Stálvík austast í Skorarhlíðum er gömulsurtarbrandsnáma, Stálfjallsnáma, og voru þar unnin brúnkol á árunum 1915-1917. Þar unnu um 50 manns þegar mest var en vinnslan borgaði sig ekki, enda aðstæður mjög erfiðar. Stálfjallsnáma. Stálfjallsnáma er gömul surtarbrandsnáma í Stálfjalli á Barðaströnd og var stundaður þar námugröftur á árunum 1916-1918 en aðstæður voru mjög erfiðar og kolin misjöfn og var vinnslunni því hætt. Náman er í Stálvík austan undir Skorarhlíðum. Þar eru mikil surtarbrandslög og þegar eldsneytisskortur var mikill á árum fyrri heimsstyrjaldar var ákveðið að hefja vinnslu í Stálfjalli til að afla kola. Farið var af stað með nokkrum stórhug þótt aðstæður væru afar erfiðar. Staðurinn er mjög afskekktur og vart hægt að komast þangað landveg nema eftir einstigi um hamra og skriður og ekki nokkur leið að leggja þangað veg, en fjaran er stórgrýtt og brimasöm og ekki hægt að lenda þar bátum nema við bestu aðstæður. Þó voru reist þar tvö íveruhús fyrir námamenn og unnið á vöktum við námagröftinn um tíma og voru þarna um 40 manns þegar mest var. Byrjað var á tilraunagrefti sumarið 1915 og sumarið eftir voru grafin þrenn tilraunagöng, gufuvél keypt til að knýja bora og járnbrautarteinar lagðir í námagöngunum, sem alls urðu fimm og allt upp í 80 metra löng. Margir munu hafa látið sig dreyma stóra drauma um námavinnslu í Stálfjalli þótt enginn viti í raun hve mikinn surtarbrand er þar að finna. Meðal annars litu Danir hýru auga til kolanna í Stálfjalli því mikill eldsneytisskortur var í Danmörku á styrjaldarárunum. Eiginlegur námagröftur komst þó varla af stað og lítið af kolunum sem unnið var komst á markað, enda reyndist vinnslan mun erfiðari og kostnaðarsamari en ráð hafði verið fyrir gert og gæði kolanna voru heldur ekki jafnmikil og búist var við. Varð námafélagið brátt gjaldþrota og vinnslan lagðist þá af og húsin voru seld til niðurrifs. Enn má þó sjá námagöngin þótt sum þeirra séu hálfhrunin eða lokuð. Stálfjall. Stálfjall er fjall (650 m.y.s.) við norðanverðan Breiðafjörð, á milli Barðastrandar og Rauðasands. Það er bratt, klettótt og skriðurunnið í sjó fram og víðast lítið sem ekkert undirlendi. Suðurhlíðar þess kallast Skorarhlíðar Rauðasandsmegin og Sigluneshlíðar Barðastrandarmegin og var þar áður gönguleið milli byggðanna, erfið og hættuleg. Mikil surtarbrandslög eru í Stálfjalli og þar var kolanáma, Stálfjallsnáma, á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri. Antonio Gramsci. Antonio Gramsci (22. janúar 1891 – 27. apríl 1937) var ítalskur stjórnmálamaður, rithöfundur og heimspekingur. Hann var meðal stofnenda Kommúnistaflokks Ítalíu. Ævi. Eftir nám við Tórínóháskóla varð hann blaðamaður og stofnaði ásamt Palmiro Togliatti árið 1919 blaðið "L'Ordine Nuovo" sem var hallt undir bolsévisma. Hópurinn í kringum blaðið átti þátt í stofnun kommúnistaflokksins 1921 og Gramsci sat í miðstjórn flokksins frá upphafi. 9. nóvember 1926 var hann handtekinn af stjórn ítalska fasistaflokksins á grundvelli neyðarlaga þrátt fyrir að hann nyti þinghelgi. Honum var haldið í ýmsum fangelsum næstu átta árin og heilsu hans hrakaði mikið á meðan. 1934 var hann látinn laus á skilorði og gat þá sjálfur leitað sér lækninga. Hann lést á rómversku sjúkrahúsi árið 1937. Kenningar. Ritum Gramscis má skipta í þrjá flokka: blaðagreinar sem hann skrifaði sem blaðamaður og ritstjóri ýmissa sósíalískra og kommúnískra málgagna, bréf sem hann sendi meðan á fangavist stóð, og um þrjátíu handskrifaðar stílabækur sem hann færði í fangavistinni. Það er einkum í stílabókunum sem hann setur fram þekktustu kenningar sínar um menningarlegt forræði (hegemóníu) og hlutverk menntamanna. Nokia 3310. Nokia 3310 sími í bláu Nokia 3310 er GSM farsími sem framleiddur var af finnska farsímaframleiðandanum Nokia. Síminn kom á markaðinn árið 2000 og seldist mjög vel, yfir 120 milljónir eintök voru seld samtals. Nokkrar útgáfur 3310 voru seldar: Nokia 3315, 3320, 3330, 3350, 3360, 3390 og 3395. Hönnun. 3310-síminn er smár en þungur (133 g) með 88 × 48 svarthvítum skjá. Það er líka til léttari tegund sem vegur 115 g en sú tegund hefur ekki svo marga eiginleika. Síminn er ávalur en ferkantaður kassi sem er oft hafður í lófanum og tökkunum er stýrt með þumalfingri. Blái takkinn er aðaltakkinn og notaður til að velja valkosti en „C“ takkinn er notaður til að fara til baka eða framkalla aðgerð. Svo eru „upp“ og „niður“ takkar sem notaðir eru til að fara upp og niður í valmyndum. Slökkt er á símanum með stífum takka sem er að finna ofan á honum. Eiginleikar. 3310-síminn er vel þekktur fyrir eiginleika sína. Meðal þeirra eru reiknivél, skeiðklukka og áminningarforrit. Honum fylgja fjórir leikir: "Snake II", "Pairs II", "Space Impact" og "Bantumi". Hann var vinsæll fyrir smáskilaboð þar sem hann gerði notendum kleift að senda skilaboð sem voru þrisvar sinnum lengri en venjuleg smáskilaboð eða 459 stafir. Hann var líka með möguleika að flokka smáskilaboð eftir sendara í samtölum. Með honum er líka hægt að hringja í einhvern með að segja nafn hans. Sérsníðing. Hægt er að sérsníða Nokia 3310-símann með umskiptanlegum hlífum og þúsundir hlífa hafa verið framleiddar af mörgum fyrirtækjum. Hann er með 35 hringitónum innbyggðum og hægt er að bæta við allt að sjö hringitónum í viðbót. Það er annaðhvort hægt að sækja þá í tölvu eða búa þá til í símanum með forriti. Það er hægt að breyta uppsetningu símans hratt með því að vista stillingar í svökölluðu „prófílum“. Til dæmis er hægt að slökkva á öllum hljóðum með að skipta um prófíl. Það er hægt að nota mynd sem móttekin var í smáskilaboðum sem skjámynd. Síminn getur líka verið stilltur þannig að áminning birtist á skjánum þegar kveikt er á honum. Ferdínand 1. de' Medici. Ferdínand 1. de' Medici (30. júlí 1549 – 17. febrúar 1609) var stórhertogi Toskana frá 1587 til dauðadags. Hann var fimmti sonur Cosimo 1. de' Medici og Elinóru di Toledo og tók við stórhertogadæminu af bróður sínum, Frans 1. Ferdínand var gerður að kardinála fjórtán ára að aldri þótt hann tæki aldrei prestsvígslu og hélt hann því embætti eftir að hann varð stórhertogi og þar til hann giftist Kristínu af Lorraine 1589. Sem kardínáli dvaldist hann langdvölum í Róm, lét reisa Villa Medici þar og safnaði sér fjölda listaverka sem hann flutti til Flórens. Hann var að mörgu leyti andstæða bróður síns og fyrirrennara, stýrði ríki sínu mildilega, bætti réttarkerfið og var umhugað um velferð þegnanna. Á valdatíma hans rétti Toskana við og öðlaðist aftur það sjálfstæði sem hertogadæmið hafði glatað á valdaskeiði Frans stórhertoga. Ferdínand efldi viðskipti og jók auð sinn gífurlega gegnum Medici-bankaveldið, sem hafði útibú í öllum helstu borgum Evrópu. Hann var umburðarlyndur gagnvart gyðingum og trúvillingum og Livorno varð griðastaður fyrir gyðinga sem gerðir höfðu verið brottrækir frá Spáni 1492 og einnig aðra ofsótta útlendinga. Hann reyndi að losa Toskana undan áhrifavaldi Spánverja og eftir að Hinrik 3. Frakkakonungur var myrtur 1589 studdi hann Hinrik 4. í baráttu hans gegn Kaþólska bandalaginu, lánaði honum fé og hvatti hann til að taka kaþólska trú, sem Hinrik gerði svo og kvæntist bróðurdóttur Ferdínands, Maríu de' Medici. Ferdínand styrkti sjóher Toskana og vann hann sigra á sjóræningjum við strönd Barbarísins 1607 og aftur á stærri flota Tyrkja ári síðar. Til að minnast þeirra sigra var reistur mikill minnisvarði í Livorno, Monumento dei Quattro Mori. Á meðal barna Ferdínands og Kristínar stórhertogaynju voru Cosimo 2., sem tók við stórhertogadæminu eftir föður sinn, og Kládía, sem giftist Leópold 5., erkihertoga af Austurríki. Tagskiptur lambda-reikningur. Tagskiptur lambda-reikningur er tagskipt formhyggja sem notar lambda-táknið (formula_1) til að tákna nafnlaus föll svipað og ótagskipti lambda-reikningurinn. Tagskiptir lambdareikningar eru undirstaða margra fallaforritunarmála eins og ML og Haskell. Písa. Útsýni yfir Pisa úr Skakka turninum. Pisa er borg í Toskanahéraði á Ítalíu og er höfuðstaður Pisa-sýslu. Borgin stendur við mynni árinnar Arno þar sem hún rennur í Miðjarðarhafið. Íbúar borgarinnar eru um 88.000 (2010). Pisa er þekktust fyrir Skakka turninn, klukkuturn dómkirkju borgarinnar. Þar er einnig Háskólinn í Pisa, en saga hans nær aftur á 12. öld. Pisa var áður mikilvæg hafnarborg og helsta verslunarhöfn Toskanahéraðs en á 15. og 16. öld hafði árfraburður fyllt höfnina svo mikið að hafskip gátu ekki lagst þar að lengur og Livorno tók við hlutverki Pisa sem hafnarborgar. Þetta hafði mikil áhrif á framþróun og íbúatala Pisa hefur staðið meira og minna í stað frá því á miðöldum. Monumento dei Quattro Mori. Monumento dei Quattro Mori (fjórir Márar) er minnisvarðinn sem er eitt helsta kennileiti Livorno-borgar á Ítalíu og stendur á torgi við gömlu Medici-höfnina. Minnisvarðinn var reistur til að minnast sigra Ferdínands 1. stórhertoga á sjóræningjum við strönd Barbarísins og síðar stórum flota Tyrkja. Efri hluti minnisvarðans, marmarastytta af Ferdínand 1., var unnin á árunum 1595-1599 í Carrara af Giovanni Bandini og var flutt til Livorno sjóleiðina árið 1601. Neðri hluta minnisvarðans sem er bronsstyttur af fjórum Márum, var bætt við á árunum 1623–1626. Myndhöggvarinn Pietro Tacca notaði tvo þræla sem fyrirmyndir og sagt er að eftir fyrirsætustörf sín í nokkra mánuði hafi þeir fengið frelsi. Bronsstytturnar þykja sýna einstaklega vel líkamsbyggingu mannsins. Ólafur Egilsson sá þetta minnismerki í för sinni til Livorno árið 1627 og lýsir því í Reisubók Ólafs Egilssonar. Margrét af Valois. Margrét af Valois, nítján ára að aldri. Margrét af Valois (14. maí 1553 – 27. mars 1615) eða Marguerite de Valois var drottning Navarra og Frakklands seint á 16. öld, fyrri kona Hinriks 4. Frakkakonungs. Margrét var næstyngsta barn Hinriks 2. Frakkakonungs og Katrínar af Medici og því systir Frakkakonunganna Frans 2., Karls 9., og Hinriks 3. og Elísabetar Spánardrottningar. Hún var eina barn Hinriks og Katrínar sem var heilsuhraust og lifði mun lengur en nokkurt systkina hennar. Margrét var annáluð fegurðardís, mikil tískudrós og hafði áhrif á tísku og klæðaburð við konungshirðir um alla Evrópu. Hún var líka skáld og rithöfundur. Hún vakti hneykslun með líferni sínu og átti sér marga elskhuga, bæði á meðan hún var gift og eftir að hjónabandinu lauk. Sagt er að í æsku hafi hún verið ástfangin af Hinrik hertoga af Guise en móðir hennar ekki viljað samþykkja þann ráðahag því hún vildi ekki að Guise-ættin yrði of valdamikil. Katrín reyndi að semja um hjónaband Margrétar og ýmissa evrópskra prinsa en ekkert varð úr þeim áformum. Að lokum var Margrét neydd til að giftast Hinriki 3., konungi Navarra og átti með því að bæta samband kaþólikka og húgenotta, en Hinrik var einn af leiðtogum þeirra. Þau giftust 18. ágúst 1572 í Notre Dame-kirkjunni í París en þar sem brúðguminn var húgenotti mátti hann ekki koma inn í kirkjuna og varð að standa fyrir utan meðan athöfnin fór fram. Á Bartólómeusarmessu, sex dögum eftir brúðkaupið, hófust Barthólómeusarvígin, þar sem fjölda húgenotta í París var slátrað. Margrét er sögð hafa bjargað lífi nokkurra leiðtoga húgenotta með því að fela þá í herbergjum sínum. Hinrik neyddist til að játa kaþólska trú þegar morðunum slotaði en var í hálfgerðu stofufangelsi við hirðina. Árið 1576 tókst honum að sleppa og var þá fljótur að varpa kaþólskunni fyrir róða. Margrét varð eftir við hirðina. Hún fór þó seinna til eiginmanns síns í Navarra en samkomulag þeirra var slæmt og bæði áttu í opinberum ástarsamböndum við aðra. Hún sneri aftur til Parísar 1582 en bróðir hennar, Hinrik 3., varð brátt hneykslaður á hegðun hennar og neyddi hana til að yfirgefa hirðina. Hún fór þá aftur til Navarra en hlaut kaldar móttökur. Árið 1586 hneppti bróðir hennar hana í varðhald í Usson-kastala í Auvergne og þar var hún næstu átján árin. Þar ritaði hún endurminningar sínar, sem þóttu mjög hneykslanlegar þegar þær voru gefnar út eftir lát hennar. Hinrik eigimaður hennar erfði frönsku krúnuna þegar bróðir hennar var myrtur 1589 en fæstir kaþólikkar sættu sig við hann fyrr en hann tók kaþólska trú fjórum árum seinna. Margrét varð drottning Frakklands en Hinrik tók hana ekki til sín, heldur hélt áfram hjákonur og eignaðist með þeim börn. Hann vantaði þó erfingja og fór árið 1592 að reyna að fá hjónaband sitt gert ógilt. Það tókst með samkomulagi við Margréti 1599 og fékk hún að halda drottningartitlinum. Hún sneri um síðir aftur til Parísar í góðri sátt við Hinrik og hina nýju konu hans, Maríu de'Medici, og helgaði sig listum og góðgerðastarfsemi það sem hún átti eftir ólifað. Saga Margrétar hefur orðið ýmsum rithöfundum að yrkisefni og Alexandre Dumas eldri skrifaði árið 1845 skáldsögu, "La Reine Margot", um hjónaband Margrétar og Hinriks. Kvikmynd var gerð eftir sögunni 1994 og lék Isabelle Adjani titilhlutverkið. Margrét og Hinrik eru einnig fyrirmyndir aðalpersónanna í gamanleiknum "Love's Labour's Lost" eftir William Shakespeare. Níandja. Bantú-mál talað af 5 miljónum í Malaví, þar sem það er opinbert mál ásamt ensku, Mósambík, Simbabve og Sambíu. Kákasísk tungumál. 40 tungumál eða þar um bil teljast til þessa málaflokks. Þeim er skipt í þrjár greinar: abkas-adigísk mál í norðvesturhluta Kákasuss, nakó-dagistan mál í norðaustri og kartvelsk eða suðurkákasísk mál. Til suðurmálanna telst georgíska, ríkismál í Georgíu og það kákasíska mál sem sér á flesta mælendur eða 4,5 milljónir. Til suðurflokksins teljast ennfremur málin san, með 400 þúsund mælendur, og svan með aðeins 20 þúsund mælendur. Til norðvesturmálanna telst kabardíska (350 þús.), adigei (250 þús.) og abkasíska (100 þús.). Nakó-dagistan málunum er skipt í sitt hvorn flokkin, dagistan mál og nakó mál. Til dagistan mála teljast avaríska (400 þús.), lessgíska (350 þús.), dargva (230 þús.), lakí (80 þús.) og tabasaríska (50 þús.). Til nakó-flokksins teljast téténíska (800 þús.) og ingúss (150 þús.). Tímavillti prófessorinn. Tímavillti prófessorinn (franska: "L'Horloger de la comète") er 36. Svals og Vals-bókin og fjórða bók þeirra Tome og Janry. Hún kom út á frönsku árið 1986 og á íslensku síðar sama ár. Söguþráður. Sveppagreifinn heldur í ferðalag og fær Sval og Val til að gæta heimilis síns. Furðulegt farartæki lendir á garðflötinni og út stígur maður sem er nauðalíkur greifanum, hann kynnir sig þó sem "Árelíus", frænda hans úr framtíðinni. Segist hann hafa farið í tímaferðalag fyrir tilstilli halastjörnu á himninum. Í fylgd Árelíusar er fjólubláa furðskepnan "Nebbi prumpdýr". Árelíus, segist ætla að halda til "Palombíu" til að bjarga ýmsum lífverum sem horfið hafa vegna mengunar eða ágangs manna og flytja þær til framtíðar. Svalur og Valur eru vel kunnugir í Palombíu og bjóðast til að slást í för með honum. Fyrir slysni sendir Árelíus þá alla til Palombíu, en um leið aftur til miðrar sextándu aldar. Þeir lenda í útistöðum við óvinveitta frumbyggja og eru handsamaðir af portúgalska landstjóranum. franskur njósnari hjálpar þeim að flýja í kapp við tímann, enda virkar tímavélin aðeins á meðan halastjarnan er nærri Jörðu. Vélin eyðileggst og félagarnir óttast að vera fastir í fortíðinni. Koma þá aðvífandi torkennilegir menn úr enn fjarlægari framtíð, frá stofnun sem hefur það hlutverk að fylgjast með tímaferðalögum. Þeir koma Árelíusi, Sval og Val aftur til síns tíma, en vara þá við að enginn muni leggja trúnað á sögu þeirra. Þegar heim er komið kemur Sveppagreifinn með ungan frænda sinn, Árelíus að nafni. Lýkur sögunni á að augu stráksins opnast fyrir eðli tímans. Íslensk útgáfa. Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1986 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún er númer 21 í íslensku ritröðinni. Stóra-Borg undir Eyjafjöllum. Stóra-Borg eða Stóraborg er gamalt höfuðból og áður kirkjustaður í Eyjafjallasveit í Rangárvallasýslu. Staðhættir. Í lýsingu á bænum Stóra-Borg í ritinu „Sunnlenskar byggðir IV“ bls. 61, stendur: „Niðri á strönd Austurfjalla, miðsvæðis, rís hár, einstakur moldarhóll og talar skýru máli um undanhald landsins frá hafi.“ Svona hefst stutt yfirlit um stórbýlið og kirkjustaðinn Stóru-Borg sem mun hafa verið á fyrrnefndum stað frá því um 1000 til 1840. Um 1840 var bærinn fluttur um 640 m til að forða honum undan ágengni sjávar. Stóru-Borgabændurnir Eyjólfur Brandsson og Jón Jónsson stóðu fyrir þessum fluttningi og byggðu þar vesturbæ og austurbæ. Frá árinu 1921 hefur verið einbýli í Stóru-Borg, en íbúðarhúsið stendur við gamla vesturbæinn. Þegar „Sunnlenskar byggðir IV“ var ritað og gefið út 1982, segir í lýsingunni á staðháttum að „Um 250 m breitt graslendi er framan við bæinn og framan þess er fjaran, 150 m á breidd. Árlega brýtur framan af graslendinu, Kaldaklifsá sker Borgarland að austan og brýtur þar bakka.“ Skálinn á Borg. Í bók sínni „Íslensk þjóðfræði“ segir Þórður Tómasson frá Stóru-Borg undir Eyjafjöllum í kafla sem ber heitið „Gramsað í gömlum rústum“. Þórður er velkunnur Stóru-Borg og umhverfi bæjarins, því eins og hann segir hafði hann heyrt sagt frá ástarævintýrinu sem átti sér stað á 16. öld á upphaflega bæjarstæði Stóru-Borgar, Borgarhóll. Sagan sem hér um ræðir fjallar um Önnu á Stóru-Borg og ungann vinnupilt, Hjalta Magnússson. Þessi saga finnst í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar en seinna skrifar Jón Trausti skáldsöguna „Anna frá Stóruborg“ sem kom út árið 1914, byggð á ástarsögu Önnu og Hjalta frá 16. öld og voru báðar útgáfur af sögu Önnu og Hjalta endursagðar á bæjum í Rangárvallarsýslu í gegnum tíðina. Þáttur Þórðar Tómassonar í Skógum. Þórður Tómasson í Skógum hefur fylgst með eyðingu Borgarhóls og svæðisins umhverfis hólinn meira og minna alla ævi en eins og hann segir í bókinni sinni „Íslensk þjóðfræði“ á bls. 86 þá jókst tenging hans við svæðið órjúfanlegum böndum þegar hann fluttist að Skógum árið 1959. Nálægð Borgarhóls við Skóga og áhugi Þórðar á því að varðveita þekkingu eldri tíma, hvort sem það er gegnum sögur, tónlist, muni sem finnast í jörðu eða muni gefna safninu, hefur gert hann að einum helsta sérfræðing okkar tíma um lífið undir Eyjafjöllum í hartnær tvær aldir. Hann hefur safnað munnmælissögum og fróðleik um lífshætti manna á 19. og 20. öld, einkum á Suðurlandi frá því að hann var unglingur og hefur hann miðlað þekkingu sinni áfram gengum fjölda greina og bóka, auk þess að vera frumkvöðull að stofnun og uppbyggingu Byggðasafnsins að Skógum. Eins og áður segir jókst áhugi Þórðar á Borgarhól og umhverfi hans við það að flytja sjálfur að Skógum. Það má segja að hann hafi fylgst gaumgæfilega með öllum breytingum sem orðið hafa á þessu svæði í rúmlega fimmtíu ár. Þórður hefur farið reglulega í gönguferðir um svæðið og fylgst með landeyðingunni sem orðið hefur vegna brims og ágangs sjávar. Hann hefur oft á sínum gönguferðum rekist á minjar sem komið hafa í ljós eftir óveður eða brim. Þessum munum hefur hann safnað og til að byrja með komið fyrir á Byggðasafninu en einnig hefur margt farið til Þjóðminjasafnsins. Meðal muna þeirra sem Þórður hefur fundið má nefna að í árslok 1969 fann hann „hluta af höfuðkamb úr tré, sennilega fyrsta trékamb sem komið hafði úr jörðu á Íslandi“ (Þórður Tómasson í Íslensk Þjóðfræði, 2008: 93). Daginn eftir fann hann annan kamb í Borgarhólnum, og síðar fleiri.Einnig fann hann taflmann, renndan úr hvalbeini, sem bendir til að líf almennings hafi ekki eingöngu snúist um að daglegt strit. Meðal annars hefur hann fundið eftirfarandi muni: þráðarlegg merktan „XI“, þráðarleggur af fráfærulambi, ein ljósfæri, ljósakol úr móbergi, fiskasleggju úr eygðu hraungrýti og og eirnál sem fannst 1972, í Borgarfjöru (Þ.T. umorðað, 2008: 93-94). Borgarkirkja. Í kringum árið 1200 e.kr. var gerð skrá um kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi. Í ljós kom að það þurfti níu presta til þjónustu undir Eyjafjöllum og í þessari skrá kemur fram fyrsta heimild um kirkju í Stóru-Borg. (Þórður Tómasson, 2008:95). Þegar þessi kirkjuskrá er gerð er bæjarheitið Arnarbæli. Stóra-Borg heitir Austasta-Arnarbæli um 1200 e.k. en bæjarnafnið Borg kemur fram í heimildum á 14. öld. (Þ.T., 2008:95). Þórður segir frá því að síðasta visitasía kirkjunnar hafi verið 1. okt.1679 en að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Eyjafjöll 22. Nóvember 1709 segir um Stóru-Borg: „Hér hefur kirkja verið... Kirkjan er fallin og hefur hér ekki verið embættirsgjörð flutt í 10 ár að menn minnir.“ (Þ.T., 2008:98). „Árið 1969 byrjaði sjór að marki að flæða upp um kirkjugarðinn í Borg í stórbrimi og fletta ofan af honum moldum.“ (Þ.T., 2008:99). Þessi ágangur sjós hélt áfram næstu ár og varð til þess að fjöldinn allur af gröfum opnaðist og kirkjugarðsveggir á móti suðri og vestri urðu mjög greinilegir. „Síðasti dyrasteinn var á sínum stað... Brim færði hann löngu síðar langt upp eftir fjöru og þaðan færði Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur mér [sic. Þórði] hann á Skógasafn. Hann gengur nú fyrra hlutverki...við sáluhlið Skógakirkju. (Þ.T., 2008:99). Írski krossinn. Í nóvember 1972 fann Þórður leifar af írskum kross sem Brynjólfur biskup hafði skipað staðar haldara í Borg að heimta til dóms og laga árið 1641. Það sem Þórður fann var smelt eirplat af þverarmi á róðukrossi, franskt Límoges verk frá 13. öld. „Ég fann hann um það bil í altarisstað Borgarkirkju.“ (Þ.T., 2008:99, mynd:2008:100). „Haustið 1975 fletti stórbrim ofan af grunni fyrstu kirkjunnar sem byggð var í Borg. Í ljós komu nokkrar kringlóttar holur... [sem] mörkuðu skynsamlegar útlínur lítillar timburkirkju. “ (Þ.T., 2008:100). Þórður kallaði til Þórs Magnússonar, þáverandi þjóðminjavörð og Harðar Ágústssonar, sérfræðings um gamla húsagerð Íslendinga, sem skrifaði síðan greinina „Minnisgrein um kirkjugrunnsleifar á Stóruborg“ í Árbók Fornleifafélagsins, 1987:41-33. (Þ.T., 2008:99). Fornleifarannsóknir hófust í Borg 1978, með áherslu á gamla kirkjugarðinn, eða leifar hans, undir stjórn Mjallar Snæsdóttur, fornleifafræðings. Að lokum bætast við nokkrar minjar sem Þórður hefur fundið við Minni-Borg sem er skammt vestan við Borgarhól. Þær minjar sem Þórður og telur fram þaðan eru öxi og margvíslegar viðar minjar sem afhentar voru Þjóðminjasafninu. „Nokkrar minjar frá þessari rúst eru í Skógum, lás, leður, vefnaður, prjón, raftala, góður, markaður vaðsteinn, brot úr ljósakolu og falleg eirnál.“ (Þ.T., 2008:112). Bærinn, kirkjan, kirkjugarðurinn. Eins og áður hefur komið fram þá hefur eyðing lands sökum ágangs sjós og stórbrims, haft afgerandi áhrif á bæjar- og kirkjustæði Stóru-Borgar. Bærinn var fluttur til um árið 1840 um rúmlega 600 metra vegna eyðileggingar, eins og kom fram hér á undan, en á seinni helmingi 20. aldar hefur sjórinn og brimið sótt harðar að þessum forna bæjarstað. Formlegur fornleifauppgröftur hófst að Stóru-Borg sumarið 1978, en það má segja með sanni að þetta voru jafn mikið björgunar aðgerðir sem og rannsóknar uppgröftur. Í grein sinni „Kirkjugarður að Stóru-Borg undir Eyjafjöllum“ (Mjöll Snæsdóttir, Árbók Hins íslenska fornleifafélags, (1987:5-40) segir Mjöll að grafið var á hverju sumri í minnst 6 vikur og mest 11 vikur. Þegar greinin var skrifuð 1987 stóð uppgröftur enn yfir en honum lauk formlega 1990. Fram hefur komið að haustið 1969 hafi brimið flett ofan af kirkjugarði suðaustan í Stóru-Borgar hólnum og að þá sást móta fyrir fjölmörgum gröfum. Árið 1972 gerði Þórður Tómasson uppdrátt af garðinum eins og hann var þá, með rúmlega 70 grafir. Veturinn 1975 var farið að sjást móta fyrir kirkjugrunni með stoðholum í garðinum sem Hörður Ágústsson og Þór Magnússon skoðuðu í nóvember 1975 að hvatningu Þórðar Tómassonar. (Mjöll, 1987:7). Holurnar sem sáust seint á árinu 1975 voru ekki lengur sjáanlegar þegar uppgröftur hófst í júní 1978. Á þeim skamma tíma sem liðinn var, tæpum þremur árum, þá hafði meiri jarðvegur skolast burtu úr kirkjustæðinu. (Mjöll, 1987:8). Mjöll telur óvíst að kirkjan á Stóru-Borg hafi verið á sama stað frá upphafi frekar en bærinn, enda eru fleiri dæmi í nágrenninu um að bæjarstæði hafi verið færð, og þá jafnvel oftar en einu sinni, vegna sandfoks eða ágangs sjávar. (Mjöll, 1987:9). Við rannsóknina á kirkjugarðinum að Stóru-Borg kom í ljós að útveggir kirkjugarðsins væru misjafnlega vel varðveittir en samt var hægt að átta sig á því hvernig garðurinn var í laginu. Hann var ferhyrndur og hliðar hans beinar, nema suðurveggurinn sem var lítillega sveigður, etv. þannig að hann fylgdi lögun hólsins. (Mjöll, 1987:10). Leifar fundust af tveimur suðurveggjum sem bentu til þess að garðurinn hafi verið stækkaður til suðurs. (Mjöll, 1987:10). „Áður en kirkjugarðurinn á Stóru-Borg var stækkaður, þá hefur hann verið 19 x 11 metrar, en 19 x 16 eftir stækkun (að innanmáli).“ (Mjöll, 1987:12). „Vestan við kirkjuna sást lengi stór flatur steinn sem trúlega hefur verið dyrahella. Þegar uppgröftur hófst 1978 var þessi steinn horfinn úr garðinum og hafði borist með sjónum meira en 50 metra norðaustur fyrir hólinn.“ (Mjöll, 1987:13). Steinninn er nú staðsettur fyrir framan skrúðshúsið við Skógarkirkju eins og sagt var frá hér á undan, í kaflanum um þátt Þórðar. Grafir. Líklegt er að þeir sem jarðaðir voru í kirkjugarði Stóru-Borgarkirkju hafi verið heimamenn frá Borg og hjáleigum hennar, en aðeins eru munnlegar heimildir fyrir greftri í garðinum. (Mjöll, 1987:13). Erfitt er að telja fjölda grafa í Stóru-Borgarkirkjugarði, en margt kemur til eins og stöðugur ágangur brims og óverðurs. „Við samanburð á teikningu Þórðar Tómassonar frá 1972 og teikningum (okkar) fornleifafræðinga frá 1978 verður ekki annað séð en að þær grafir sem sáust 1972 hafa verið horfnar 1978.“ Þannig að ætla mætti að ef tala grafanna sem sáust árið 1972 og þeirra sem sáust árið 1978 væru lagðar saman, þá gætu þær samanlagtt hafa verið 130 til 140 grafir. Þrátt fyrir það er ekki fullvíst að allt sé talið og ekki ólíklegt að fjöldi grafa gæti nálgast 150. (Mjöll, 1987:14). Beinin sem fundust voru mjög illa farin og í mörgum gröfum sást aðeins far eftir beinagrind í jarðvegi, eða beinmylsna sem sýndi hvar beinagrindin hafði legið. Ekki var hægt að taka upp bein, heldur varð að láta nægja að teikna beinagrindurnar eða leifar þeirra í hlutföllunum 1:10 og ljósmynda þær. Að sjálfsögðu var heldur ekki hægt að greina kyn, aldur, heilsufar eða annað eins, og hvernig handleggir höfðu legið. (Mjöll, 1987:14). „Ekki voru minjar um minnismerki á gröfum, legsteinum eða krossum.“ (Mjöll, 1987:15). „Ekki eru neinar krækjur, hnappar eða sylgjur af fatnaði varðveittar í gröfunum og bendir það til þess að fólk hafi ekki verið jarðsett í hversdagsklæðum sínum.“ Líklegt er að hinir látnu hafi verið vafðir eða saumaðir inn í eitthvert efni. (Mjöll, 1987:19). Munir sem hafa fundist við uppgrefti við Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og vitnað er til í ritinu „Gersemar og þarfaþing:“ ... en hlutar af skerborðum af þessu tagi hafa m.a. fundist við fornleifarrannsóknir á Stóraborg undir Eyjafjöllum.“ (Hallgerður Gísladóttir, 1974: 20) „Orffleygar eru í röð hluta sem vænta má að finnist viðuppgröft gamalla bæjarstæða hér á landai. Í rústum Stóruborgar undir Eyjafjöllum hafa 10 komið í leitir, einn úr hvalbeini, vel slitinn. Þeir eru mismunandi að stærð, sumir greinilega ætlaðir í unglingsorf. Lengsti orffleygurinn frá Borg er 11,5 cm....“ (Þórður Tómasson, 1974: 40) „Margar steinleirstegundir voru framleiddar í Þýskalandi og fluttar víða um lönd, m.a. til Íslands. Hafa brot úr þess konar ílátum fundist við uppgrefti víða um land, m.a. í Skálholti, á Bessastöðum, í Viðey, Stóruborg, Reykholti og Kópavogi.“ (Guðrún Sveinbjarnadóttir, 1974: 60) Regla og vasabók úr beini, þjms. 4895, 4896 „Ritspjaldið er fjórar plötur.... Þessar beinþynnur hafa verið notaðar til að rita á með griffli eða ritblýi... Sama hlutverki gengdu vaxspjöld á miðöldum og hafa slík spjöld á síðustu árum fundist við uppgrefti í Viðey og á Stóruborg undir Eyjafjöllum.“ (Guðmundur Magnússon, 1974: 90) „Á Stóruborg þar sem fornleifafræðingar hafa grafið upp bæjarhól með húsleifum miðöldum og fram á miðja 19. öld hefur tré varðveist betur en víðast hvar þar sem fornleifarannsóknir hafa verið hér á landi. Dæmigerðir bognir askstafir koma þar ekki ljós fyrr en í mannvistarlögum frá 18. öld þó að töluvert finnist af annars konar tréstöfum frá eldri tíð. “ (Hallgerður Gísladóttir, 1974:96) Kúabót Madonnan frá Kúabót, þjms. 5023 „Sumarið 1982... Það sumar unnum við að fornleifarannsókninni á Stóruborg. Þar fundust svo margir gripir sem þurfti að skrá, að sjaldan vannst tími til dægrstyttingar eins og að horfa á sjónvarp. Allir þeir merku gripir sem fundust á Stóruborg voru betri skemmtun. “ (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1974: 236) Víð uppgröft á sjálfan bæjarhólnum var farið í gegnum fjöldabyggina sem voru hver undir annari... Rústasvæðið í Stóruborg var um 70 metra langt frá austri til vesturs en 15-25 metra breitt... Í bæjarhólnum í Stóraborg voru skilyrði til varðveislu góð... því varveittust hlutir úr líffrænum efnum. Fjöldi muna sem fundust í uppgreftinum sjálfum er 4578. Að auki er tölvert af munum, sem bjargað var áður en uppgröftur hófst. Munirnir tengjast flestir hversdagslífi á bænum, en sem dæmi mætti nefna áhöld notuð við ullarvinnu og klæðagerð, matarílát og eldunaráhöld, leikföng, brot úr heyvinnlsu verkfæri og fleiri smáhlutir. (Mjöll Snæsdóttir, 1994:246-47). Gríma: Ljósmynd af nokkurskonar grímu sem fannst í mannvistarlagi frá 17. eða 18. öld. (Mynd, 1994:246) Við uppgröftinn í Stóruborg fundust margvíslegir smáhlutir. Beinkambur frá 13. öld, laufaprjón frá 17. öld og spýtukerling liklega frá 17. eða 18. öld. (Mynd, 1994:247) Munir sem hafa fundist við uppgrefti við Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og vitnað er til í ritinu "„Hlutavelta tímans“" Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar nokkrar víðamiklar rannsóknir á fornum bæjarstæðum: á Stóraborg undir Eyjaföllum, Bessastöðum á Álftanesi, Hólum í Hjaltadal, Skálhoti í Biskupstungum og Hofstöðum í Mývatnssveit, þar sem byggð ver samfeld um margra alda skeið. Þar hafa meðal annnars...“ (2004: 133) Í HERRANS HELGIDÓMI: KIRKJUBYGGINGAR FRÁ ÖNDVERÐU TIL TUTTUGUSTU ALDAR ELSTU KIRKJUR. TÓSKAPUR ULLARVINNA Í BÆNDASAMFÉLAGINU ULLARVINNA AÐ FORNU FISKUR FYRIR FÆRI VÖRUSKIPTI VIÐ ÚTLÖND OG VERSLUNARHÆTTIR 1600-1900 Halldór Bjarnason Mynd á hægri síðu (225) Plúmba. Frá 13.-öld og fram á 18. öld tíðkaðist að festa blýinnsigli á klæðisvöru til sönnunar því af hvaða gæðaflokki hún væri og hvaðan varan væri. Nokkur slík insligl hafa fundist á Íslandi. Þetta insigli fannst á Stóruborg undir Eyjafjöllum og er talið frá 16.-18. öld. Þjms. ÍB (Halldór Bjarnason, 2004: 224) LISTRÆN TEXTÍLIÐJA FYRR Á ÖLDUM ÚTSAUMUR, LISTVEFNAÐUR, SKINNASAUMUR, KNIPL OG ÚTPRJÓN ... Til er talsvert af jaðfundnum textíleifum frá miðöldum og síðari tímum; nokkrar pjötlur hafa fundist í kumlum frá elstu tíð en mest þó þegar grafið hefur verið í forn bæjarstæði, svo sem á Bergþórshvoli 1927-1928, Stóruborg 1978-1990 og í Viðey 1988-1989. Nær eingungu eru þetta leifar af ullarefnum, vaðmáli og einskeftu, en enginn útvefnaður utan bútarnir af spjáldofnum búndum tveimur sem þegar eru nefndir...“ (Elsa E. Guðjónsson, 2004:279) ... Elstu ritheimildir um prjón á Íslandi-eða prjónasaum eins og það mun hafa verið nefnt í fyrstu- eru frá síðasta fjórðungi 16. aldar, nánar tiltekið frá 1582-1584, en fundist hafa í uppgröftum eldri menjar íslensks prjóns að Stóruborg 1981 sléttprjónaður belgvettlingur, sem kann að vera frá fyrri hluta 16. aldar....“ (Elsa E. Guðjónsson, 2004:287) EINLITT ÚTPRJÓN: DAMASK PRJÓN OG GATAPRJÓN ... Damaskprjón sem svo er nefnt erlendis, þ.e. einlitt útprjón unnið eftir reitamunsturum með brugðnum lykkjum á sléttum grunni hefur einnig þekkst hér á landi áður fyrr, en dæmi un það eru aðeins tvö. Annað, stuttar samhliða skárendur, er við aðra brún á lítilli, að öðru leyti sléttprjónaðri mórauðri ullarpjötlu frá seinni hluta 17. aldar eða um 1700, sem grafin var upp á Stóruborg 1980 (Þjms. Stb. 1980-175).“ (Elsa E. Guðjónsson, 288). ÚTSKURÐUR SKORIÐ Í TRÉ, HORN OG BEIN Lilja Árnadóttir „ Heilir mataskar hafa ekki varðveist eldri en frá 19. Öld. Í uppgreftri á Stóruborg undir Eyjafjöllum fundust þó nokkrir askstafir í jarðlögum sem eru eldri. Skortur á eldri öskum þarf ekki að merkja að þeir hafi ekki þekkst fyrr, því eins almennur og hversdaglegur hlutur og askur hefur varla þótt varðveislu verður í árdaga Forgripasafnins.„ (Lilja Árnadóttir, 2004:299) BARNAGAMAN LEIKIR OG LEIKFÖNG UM ALDIR Gyða Gunnarsdóttir Leikföng hafa einnig fundust í uppgreftri á Stóruborg undir Eyjafjöllum, meðal annars lítil öxi, brúður og lítill bátur. Völur, bein og skeljar voru geymd í útskornum kistlum sem voru kallaðir völuskrín eða gullastokkar, en voru seinna kallaðir leikfangakassar eða dótakassar. (Gyða Gunnarsdóttir, 2004-353-54) Mynd á bls. 354, mynd: Útskornir trékarlar voru dýrmæt leikföng. Ef börn áttu marga útskorna karla var hægt að mynda her og fara í stríð eða láta þá vinna margvísleg störf í búleikjum. Sumir gátu jafnvel setið hest. Leikföng frá 17. eða 18. Öld. Spýtukerling og karl frá Stóruborg undir Eyjafjöllum. Þjms. ÍB. ORGAN, TRÓMET OG HARPAN SÖGN HLJÓÐFÆRI OG TÓNLISTARIÐKUN FRAM Á 19. ÖLD Smári Ólason Mynd á hægri síðu. Bls. 372. Munngígja frá 16. Eða 17. Öld sem fannst við uppgröft á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Þessi einföldu hljóðfæri eru þekkt í einhverri mynd víða um heim. Þjms. ÍB. sem fannst við fornleifauppgröft á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum er talin vera frá 16. eða 17. öld og er elsta hljóðfæri sem varðveist hefur hér á landi (Stb. 1982-73). Slík hljóðfæri hafa veriði nefnd á ensku jaw-harp eða kjálpaharpa en seinna fá þau einnig nafnið jewish-harp eða gyðingaharpa og eru einna þekktust undir því nafni. (Smári Ólason, 2004:375). Þau hljóðfæri sem nú eru varðveitt í Þjóðminjasafninu eru flest frá seinni hluta 19. aldar og byrjun hinnar 20. Eina forna hljóðfærið er mungígan frá Stóru-Borg. (Smári Ólason, 2004:379). Árni Björnsson, ed. Gersemar og þarfaþing, Þjóðminjasafn Íslands, Hið Íslenska Bókmenntafélag, Prentsmiðjan Oddi, Reyjavík 1974. ISBN 9979-804-56-4. Árni Björnsson, Hrefna Róbertsdóttir, ed. Hlutavelta Tímans, Menningararfur á Þjóðminjasafni, Þjóðminjasafn Íslands, Prentsmiðja Svanur, Iceland, 2004. ISBN 9979-9507-7-3. Kristján Eldjárn, (1994). Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Mál og menning, G. Ben prentstofa, Reykjavík, (Upphaflega gefið út 1962). ISBN 9979-3-0666-1). Mjöll Snæsdóttir. (1987). Kirkjugarður að Stóruborg undir Eyjafjöllum. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 84, 5-40. Sótt á www.timarit.is Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson, Júlíus Jónsson (ritnefnd). (1982). Sunnlenskar byggðir IV: Rangárþing austan Eystri Rangár. Reykjavík: Búnaðarsamband Suðurlands. Stjórn félagsins Ingólfs (ritstjórn). (1985). Landnám Ingólfs: Nýtt safn til sögu þess 2. Reykjavík: Félagið Ingólfur. Þórður Tómasson. (2008). Íslensk Þjóðfræði. Reykjavík: Skrudda. ISBN:978-9979-655-40-4. Krátrokk. Krátrokk (e. "Krautrock") er heiti yfir þýska rokktónlist frá seinni hluta sjöunda áratugarins og byrjun þess áttunda. Það voru breskir tónlistarblaðamenn sem nefndu þessa byltingu "krautrock" en hljómsveitir sem eru kenndar við þetta nafn eru allar mjög ólíkar og því enginn afgerandi stíll á þessari stefnu. Krátrokk hafði mikil áhrif á tónlistarheiminn og út frá þessari einkennilegu tónlistarstefnu urðu til nýjar stefnur á borð við raftónlist, teknó, hipp hopp og ambient tónlist. Dæmi um þekktar krátrokk hljómsveitir eru Can, Neu! og Kraftwerk. Uppruni nafnsins. Upprunalega nafnið á krátrokki, "Krautrock", dregur nafn sitt af þýska orðinu "Kraut" sem þýðir kál á íslensku. Bretar uppnefndu þjóðverja „kraut“, komið af orðinu "Sauerkraut" (ísl. súrkál), í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Nafnið á því niðrandi forsögu og er alls ekki að skapi þjóðverja. Talið er að Bretar hafið fengið hugmyndina af nafninu út frá lagi krátrokksveitarinnar Amon Düül, „"Mama Düül und Ihre Sauerkrautband Spielt Auf"“ sem á íslensku þýðir „"Mama Düül og hennar súrkálshljómsveit troða upp"“. Það er einnig talið að BBC plötusnúðurinn og krátrokkaðdáandinn John Peel hafi gefið stefnunni þetta nafn. Tónlistarstíll. Krátrokk hefur engan afgerandi tónlistarstíl en flestar sveitir spila eru taldar spila blöndu af sýrurokki, framsæknu rokki og tilraunakenndri tónlist. Margar krátrokksveitir spiluðu tónlist sem núna gæti verið kölluð ambient tónlist og nýaldartónlist. Sumar sveitir eins og til dæmis Kraftwerk, Tangerine Dream og Cluster spiluðu avant-garde raftónlist en hljómsveitir á borð við Can spiluðu tilraunakennt sýrurokk með áhrifum frá djassi og heimstónlist. Margar krátrokkhljómsveitir til dæmis Kraftwerk og Neu! hafa einkennandi 4/4 takt sem breska tónlistarpressan kallaði "motorik" takt. Saga. Í lok sjöunda áratugarins var Þýskaland fullt af ungu menntuðu fólki sem vildi breyta til. Þetta unga fólk hafði verið fætt inn í eftirstríðs-Þýskaland og var umlukt fólki sem í stríðinu höfðu verið nasistar. Þessi kynslóð vildi endurmóta þýska menningu, gera eitthvað nýtt og örðuvísi og breyta sýn heimsins á Þýskalandi. Moog Modular hljóðgervillFrá því að stríðinu lauk fram að sjöunda áratugnum hafði vinsæl tónlist í Þýskalandi annað hvort verið bandarísk, bresk eða það sem er kallað Schlager tónlist en það er einföld og létt popptónlist. Tónlistarmenn þessarar nýju kynslóðar vildu hvorki spila breska tónlist né bandaríska tónlist og ekki heldur Schlager tónlist þannig þau ákveðu að finna upp á einhverju nýju sem enginn hafði gert. Eitt af þessu var raftónlist. Á þessum tíma voru hljóðgervlar sjaldgæfir og fáar hljómsveitir voru byrjaðar að nota þá. Árið 1968 var haldin fyrsta þýska rokktónlistarhátíðin í bænum Essen. Á þessari hátíð er talið að krátrokk hafi risið upp. Ein af hljómsveitunum sem átti að spila þarna var Amon Düül. Sú hljómsveit var frá München, þar sem nasisminn hafði verið mjög sterkur í seinni heimstyrjöldinni, og spilaði afar pólitískt tilraunakennt sýrurokk. Rétt áður en að sveitin átti að stíga á svið klofnaði hún og varð að tveimur sveitum sem urðu þekktar sem Amon Düül I og Amon Düül II. Sama ár og tónlistarhátíðin í Essen var haldin stofnuðu tónlistarmennirnir Hans-Joachim Rodelius, Conrad Schnitzler og Klaus Schulze klúbbinn Zodiak Free Arts Lab í Berlín. Rodelius og Schnitzler kynntust listanemanum Dieter Moebius og stofnaði þríeykið hljómsveitina Kluster. Eftir að þeir höfðu gefið út þrjár plötur hætti Conrad Schnitzler í hljómsveitinni. Roedelius og Moebius breyttu þá nafninu í Cluster og hljóðupptökumaðurinn Conny Plank bættist í hópinn. Cluster spilaði ambient raftónlist og var ein af fyrstu rafhljómsveitunum. Zodiak Free Arts Lab hafði tvö svið í sitthvorum hluta hússins. Annað sviðið var hvítt en hitt svart. Á þessum sviðum voru hljóðfæri, magnarar og allt sem maður þurfti til að spila tónlist. Þangað gat maður komið og gert hvað sem mann langaði. Tangerine Dream og Ash Ra Tempel voru meðal þekktra hljómsveita sem spiluðu í klúbbnum. Eitt áhrifamesta tónskáld krátrokksins var Karlheinz Stockhausen sem sérhæfði sig í tilraunakenndri avant-garde tónlist. Hann var áhrifamikill hvað varðar raftónlist, avant-garde og tilraunakennda tónlist. En hann hafði ekki aðeins áhrif á neðanjarðarmenninguna heldur einnig á dægurmenninguna. Bítlarnir fengu innblástur frá tónlist Stockhausen við gerð plötu sinnar, "Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band", og hægt er að sjá hann framan á plötunni. Einn af nemendum Stockhausen var Holger Czukay. Hann var rekinn úr Tónlistarakademíu Berlínar, þar sem hann hafði verið að læra að verða tónskáld, fyrir að semja of róttæka tónlist. Eftir að Czukay var búinn að læra hjá Stockhausen í nokkurn tíma byrjaði hann sjálfur að kenna. Hann var þó einungis með einn nemanda, Michael Karoli, sem kynnti hann fyrir hljómsveitum á borð við Bítlana, The Rolling Stones, Jimi Hendrix og The Velvet Underground. Czukay og Karoli ásamt Irmin Schmidt, sem einnig var nemandi Stockhausen, og tveimur öðrum stofnuðu hljómsveitina Can árið 1968. Can spilaði tilraunakennda tónlist með áhrifum frá djassi, heimstónlist, sýrurokki og hljómsveitinni The Velvet Underground. KraftwerkÁrið 1968 mynduðu tónlistarnemarnir Ralf Hütter og Florian Schneider hljómsveitina Organisation og spiluðu spunatónlist með orgeli, þverflautu og rafhljóðfærum á viðburðum og í galleríum. Á einum tónleikum sínum hittu þeir Conny Plank sem tók upp fyrir þá fyrstu plötuna þeirra "Tone Float". Platan seldist ekki vel og ákváðu þeir því að breyta nafni hljómsveitarinnar í Kraftwerk. Þeir komu sér upp hljóðveri sem seinna var kallað Kling Klang Studio. Þá bættust við sveitina trommuleikarinn Klaus Dinger og gítarleikarinn Michael Rother. Þeir gáfu út plötuna "Kraftwerk" sem fékk ágæta dóma en við gerð næstu plötu þeirra hættu Michael Rother og Klaus Dinger í hljómsveitinni. Hütter og Schneider héldu áfram að gefa út plötur en það var ekki fyrr en þeir gáfu út plötuna "Autobahn" árið 1974 sem þeir hittu naglann á höfuðið. Autobahn var einungis gerð með Moog hljóðgervlum og er fyrsta platan þeirra sem var með söng. Fyrsta lagið á plötunni, Autobahn, komst hátt á vinsældarlistum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Eftir að hafa gefið út plötuna ráku þeir Conny Plank og gáfu út plötur sem urðu hverri annarri vinsælli. Eftir að Klaus Dinger og Michael Rother hættu í Kraftwerk mynduðu þeir nýja hljómsveit, Neu!, sem á íslensku þýðir hreinlega „Nýtt!“. Neu! tók upp þrjár plötur með Conny Plank sem seldust ekkert svakalega vel. En þrátt fyrir það þá eru þessar plötur taldar meistaverk af tónlistarmönnum svo sem David Bowie, Brian Eno, Iggy Pop og Thom Yorke, söngvara hljómsveitarinnar Radiohead. Popul Vuh varð fyrsta krátrokkhljómsveitin til að nota hljóðgervil árið 1970 og varð þá til það sem kallað er "Kosmische Musik". Árið 1971 voru hljómsveitirnar Tangerine Dream og Faust einnig byrjaðar að nota hljóðgervla og nær nafnið "Kosmische Musik", sem á íslensku þýðir „alheimstónlist“, aðeins yfir þetta tímabil. Um seinni hluta áttunda áratugsins hvarf krátrokk úr sýn almennings mest vegna nýrrar stefnu, pönksins. Þá var byrjað að nota heitin rafrokk, raftónlist, nýaldartónlist til að lýsa tónlistinni í stað krátrokks og alheimstónlist en þrátt fyrir það er krátrokk ennþá talið sem tónlistarstefna. Áhrif. Krátrokk hefur haft mikil áhrif á tónlistarsöguna þrátt fyrir að það að vera ekki mjög þekkt. Úr frá tónlist hljómsveitarinnar Kraftwerk varð til hip hop, rapp, teknó og synth pop. Krátrokk hafði einnig sterk áhrif á þróun síð-pönks, sérstaklega þá á hljómsveitirnar The Fall, Joy Division og Public Image Ltd. Hljómsveitin Neu! var og er enn einnig mikill áhrifavaldur meðal annars á David Bowie, Brian Eno, Iggy Pop, PiL, Joy Division, Gary Numan, Ultravox, Simple Minds, Radiohead, The Horrors, Sonic Youth og á raftónlist. Krátrokk hafði mikil áhrif á tónlistarmanninn David Bowie, sérstaklega þegar hann bjó í Berlín með tónlistarmönnunum Brian Eno og Iggy Pop. Með hjálp Eno og Conny Plank gaf Bowie út plöturnar "Low", "Heroes" og "Lodger" sem kallaðar voru Berlínar trílógían. Þær voru allar innblásnar af krátrokki og urðu afar vinsælar og reyndust síðar mjög áhrifamiklar. Bowie var sérstaklega hrifinn af krátrokkhljómsveitinni Neu!, sem einnig hafði unnið með Brian Eno, og ætlaði hann að fá meðlimi hennar til að spila með sér á plötunni "Heroes". Ekkert varð úr þessu en Bowie hafði áður nefnt að lagið Hero væri uppáhalds lagið sitt með Neu! og því telja margir að þaðan komi nafnið á plötunni. Hljómsveitin Radiohead hefur spilað lagið "The Thief" eftir Can en þeir segjast sækja í áhrif frá meðal annars hljómsveitunum Can, Faust og Neu!. Breska hljómsveitin TOY hefur nefnt krátrokksveitir á borð við Neu!, Can, Harmonia, Faust og Kraftwerk sem áhrifavalda en þau spila tónlist sem er blanda af krátrokki, sýrurokki og síð-pönki. Þangdoppa. Þangdoppa (fræðiheiti: "Littorina obtusata") er sæsnigill af fjörudoppuætt. Útbreiðsla. Þangdoppu má finna víðast þar sem þang vex við strendur Norður-Atlantshafs. Útbreidd í Evrópu, frá Noregi, Eystrasalti og Norðursjó, til suðurstrandar Spánar. Á austurströnd Norður-Ameríku lifir hún við strendur Nýfundnalands og allt suður til New Jersey í Bandaríkjunum. Við Ísland er Þangdoppa mjög algengur sæsnigill við suður-og vesturstöndina, eins hér og þar við norðvestur-og norðurland en sjaldgæfari við austurland. Þangdoppa lifir á 0 til 6 metra dýpi, þó hefur stöku dýr fundist allt niður á 110 metra dýpi. Þangdoppa heldur sig að mestu leiti í miðri fjörunni eða neðst í henni. Í hnullunga og þangfjörum og þar sem þang er mikið og er aðallega á klóþangi, bóluþangi og sagþangi. Skelin (kuðungurinn). Þangdoppa finnst í mörgum litbrigðum. Þessir kuðungar voru tíndir í Fossvoginum en þar í fjörunni má finna mikið af þeim. Þangdoppa verður stærst um 14,8 mm á breidd og 12,5 mm á hæð. Kuðungurinn er mjög traustur, einlitur, en litaafbrigði mörg, ólífugrænn, skærgulur, rauður, appelsínugulur, grágrænn, jafnvel röndóttur, þótt oftast sé hann dökkgrár eða brúnn. Algengast er að í sólríkum fjörum sé kuðungurinn ljósari á lit en dekkri í þeim skuggsælli. Hyrnan á kuðungnum er afar stutt og ekki strýtumynduð. Vindingar 5 til 6, kúptir og er grunnvindingurinn mjög stór eða oftast um 90% af hæð kuðungsins og munnurinn dropalaga og mjög víður og er skelin greinilega þykkari við munnopið en annars staðar. Lokan er hringlaga og brún á lit. Efri vindingar kuðungsins ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Yfirborðið slétt með nær engum snigilrákum en kuðungurinn getur þó verið með dálitlum afbrigðum í lögun. Almennt. Þangdoppa lifir á örsmáum þörungum sem eru á þangi, sem hún skrapar af með skráptungu sem er alsett hörðum tönnum. Sjaldnast nær hún þó að éta þangið sjálft nema mjög ungar plöntur. Hún verpir eggjum sem hún kemur fyrir í litlum gagnsæjum slímpúðum sem hún festir við þangið. Eggin klekjast út á fjórum til fimm vikum og þegar ungarnir skríða úr eggjunum eru þeir eins í útliti og foreldrarnir, aðeins minni. Klettadoppa sem einnig lifir í fjörum, getur líkst þangdoppu fljótt á litið og þeim því stundum ruglað saman. Hún þekkist þó frá þangdoppunni á því að vindingarnir enda í trjónu. Klettadoppan lifir ofar í fjörunni en þangdoppan, oftast ofan við þangið. Þangdoppa, sem og klettadoppa, eru mikilvæg fæða margra strandfugla eins og Stelks, Tildru og Sendlings. Kútmagi. Kútmagi eða kúttmagi er magi úr fiski. Fanginn í styttunni. Fanginn í styttunni (franska: "Le Prisonnier du Bouddha") er 14. Svals og Vals-bókin og teiknuð af listamanninum Franquin. Hún kom út á frönsku árið 1960, en sagan birtist fyrst í teiknimyndablaðinu "Sval" 1958-59. Söguþráður. Svalur og Valur heimsækja Sveppagreifann sem hegðar sér undarlega. Í ljós kemur að hjá honum dvelst sovéskur vísindamaður, "Ínofskéff", sem fundið hefur upp undratækið "Göggu" sem getur m.a. látið hluti svífa, jurtir spretta ógnarhratt og breytt veðrinu. Þeir óttast að tækið geti reynst stórhættulegt falli það í hendur herja stórveldanna. Óttinn reynist ekki ástæðulaus. Sovéskir leyniþjónustumenn reyna sitt besta til að stela tækinu, án árangurs. Fram kemur þá að vinur Ínofskéffs, Bandaríkjamaðurinn "Longplaying" sé fangi Kínverja. Félagarnir halda þegar í austurveg til að frelsa hann áður en kínverski herinn nær að þvinga fram leyndarmál tækisins. Svalur og Valur komast með erfiðismunum inn fyrir kínversku landamærin og að risavöxnu Búdda-líkneskjunum þar sem Longplaying er haldið föngnum. Á leiðinni kemur Gormdýrið þeim til bjargar á hættustund. Þeir frelsa vísindamanninn og saman sleppa þeir naumlega undan Kínverjunum. Sögunni lýkur á að Ínofskéff sendir nýafhjúpaða styttu af borgarstjóra Sveppaborgar á braut um Jörðu. Íslensk útgáfa. Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1981 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Hún er númer tólf í íslensku ritröðinni. Beitukóngur. Beitukóngur (fræðiheiti: "Buccinum undatum") einnig nefndur "ætikóngur", "bobbi" eða "nákóngur" er stór sæsnigill af Kóngaætt sem mikið er veiddur til beitu en einnig til matar. Útbreiðsla. Beitukóngur er algengur um allt Norður-Atlandshaf, allt frá Svalbarða í norðri og suður til Frakklands og við austurströnd Norður-Ameríku allt suður til New Jersey í Bandaríkjunum. Hann finnst allt í kringum Ísland. Algengastur er hann á innan við 50 metra dýpi en lifir þó allt frá neðri hluta fjörunnar og niður á 1200 metra dýpi. Skelin (kuðungurinn). Kuðungur beitukóngsins getur verið breytilegur á lit, hvítur, gulur, brúnn eða rauðleitur. Traustur, með stuttri eða langri hyrnu sem er töluvert odddregin. Vindingar 7-8, í minna lagi kúptir og er grunnvindingurinn stór eða oft uþb. 70 prósent af lengd kuðungsins. Skelin hefur gróft kaðalmynstur sem liggur í reglulegum, bugðóttum röðum þvert á vindingana. Síðasti vindingurinn hefur um það bil 12 slíkar raðir sem dofna við neðra borð hanns. Munnopið er egglaga og er ytri vörin lítið eitt sveigð út. Neðst í munnopinu er renna sem öndunarpípa dýrsins liggur í. Lokan fyrir munnopið er sporöskjulaga með baugamynstri. Baugarnir á lokunni myndast við mismunandi vöxt dýrsins eftir árstímum þannig að með því að telja baugana í lokunni má greina aldur þess. Elsti beitikóngurinn hér við land sem aldursgreindur hefur verið á þennan hátt var 13 ára. Fullvaxinn beitukóngur er uþb. 7–10 cm á hæð en stærsti lifandi kuðungur sem mældur hefur verið hér á landi var 15 cm hár. Breiddin er um 60 prósent af hæðinni. Beitukóngur er ákaflega afbrigðaauðug tegund og hafa sex ólík afbrigði hanns fundist hér við land. Almennt. Oft er kuðungur beitukóngs þakinn dýrum sem festa sig við skelina svo sem hrúðurkörlum og kalkpípuormum. Kalkskorpuþörungar og aðrir lágvaxnir þörungar vax líka oft á honum og þar sem beitukóngurinn lifir grunnt er skelin sjálf stundum grænleit eða rauðleit þeirra vegna. Nokkrar tegundir sæsnigla af sömu ættkvísl og beitukóngurinn lifa hér við land og hafa fundist margar skyldar tegundir sem líkjast honum nokkuð að stærð og lögun. Algengt er að beitukóngi sé ruglað saman við hafkóng ("Neptunea despecta") en hann þekkist frá honum á kaðalmynstri í skel og því að á skel hafkóngsins er oftast röð af útstæðum hnúðum meðfram efra borði vindinganna. Nytjar. Beitukóngur hefur lengi verið veiddur til matar, einkum á Bretlandseyjum, í Belgíu og Hollandi. Mestar hafa þó verið veiðar Frakka á níunda áratugnum sem náðu hámarki með um 10.000 tonnum á ári í lok áratugarins. Veiðar Frakka hafa síðan minnkað og voru árið 1993 aðeins um 1.000 tonn. Það ár var heildarveiði beitukóngs í Evrópu um 5.000 tonn. Veiðin hefur aftur aukist síðan og eru Írar nú mestir veiðiþjóða en þeir veiddu um 6.000 tonn árið 1995. Í Kanada hefur beitukóngur einnig verið veiddur og þar var aflinn mestur 1.300 tonn árið 1987. Hér á landi var beitukóngur veiddur fyrr á öldum og notaður til matar og til beitu við handfæraveiðar. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772) er þess getið að beitukóngur sé notaður sem beita á vesturlandi þó einkum við Breiðarfjörð. Eggert Ólafsson greinir þar frá sæsniglum og segir frá því að algengasti snigillinn sé ætikóngur eða bobbi, sem eyjaskeggjar á Breiðafirði telja góða átu. Hann getur þess að bobbarnir séu einkum tíndir á vetrum í nýrri tunglfyllingu eins og kræklingurinn. Einnig lýsir Eggert neysluvenjum Breiðfirðinga á beitarkóng: "„Eru þeir ýmist steiktir eða soðnir niður í vökva þeim, sem þeir gefa frá sér, þegar þeir hitna. Hver aðferðin sem notuð er, þá eru þeir bragðgóðir, og verður mönnum gott af þeim. Sniglarnir eru öðrum skelfiski sætari og þykja holl og góð fæða. Þó þora menn hvergi að éta þá nema hér (þ.e. í Breiðafirði).“" Ekki eru til heimildir um að kuðungaát hafi tíðkast hér við land annars staðar en við Breiðafjörð. Samkvæmt sömu heimild voru þeir veiddir þannig að net var strengt á gjörð og bleytt þorskroð bundið í netið. Gjörðin var lögð neðst í fjöruna um fjöru og dregin upp aftur með útfallinu. Hafði þá aragrúi kuðunga lagst á roðið til að sjúga úr því næringu. Eggert og Bjarni segja einnig frá því að notuð hafi verið harðfiskroð sem þrædd voru á band og lögð við stein á botninn þar sem menn vissu að von var á kuðungi. Í dag er beitukóngurinn veiddur í gildrur. Nýbylgjutónlist. Nýbylgjutónlist (e. "New Wave", stundum kallað lummustuð) er tónlistarstefna sem kom fram á sjónarsviðið seint á áttunda áratug tuttugustu aldar. Á seinni hluta áttunda áratugarins var mikil gróska í pönkinu og spruttu upp margar nýjar tónlistarstefnur. Tvær þeirra, sem voru einna mest áberandi, voru nýbylgjan og síð-pönk. Síð-pönkið var meira ögrandi á meðan nýbylgjan var poppaðari, stílhreinni og einfaldari. Nýbylgjan felur í sér raf- og tilraunarkennda tónlist og er hljóðgervill það hljóðfæri sem hefur verið eitt aðaleinkenni stefnunnar auk litríkrar framkomu. Menn hafa aldrei orðið fullkomlega sammála um skilgreiningu nýbylgjutónlistar. Sumir stimpla nánast hvert einasta band frá fyrri hluta níunda áratugarins sem nýbylgjusveit á meðan aðrir staðfastir fylgjendur nýbylgjunnar nota það hugtak aðeins yfir uppáhalds hljómsveitir sínar. Uppruni. Seymour Stein höfuðpaur amaríska útgáfufyrirtækisins Sire Records er talinn vera maðurinn sem bjó til hugtakið New Wave. Hann gerði það í von um að ný bönd á hans snærum ættu möguleika á einhverri velgengni og fengju útvarpsspilun. Stein þurfti að sannfæra útvarpsstöðvar um að hljómsveitirnar hans væru ekki pönksveitir þó svo að þær kæmu oft fram á CBGB, aðal pönkklúbbnum í New York. Pönkið þótti of róttækt, gróft og fráhrindandi fyrir almenna spilun. Þá kom Stein upp með hugtakið nýbylgja og reyndi að tengja við frönsku kvikmyndanýbylgjuna frá sjöunda áratugnum. Stein hélt því fram að nýbylgjusveitirnar legðu stund á tilraunamennsku og höfnuðu ríkjandi stefnum í tónlist og menningu. Nýbylgja er hugtak sem nær yfir gífurlega fjölbreytta tónlist, sem þó féll ekki undir það hefðbundna. Hugtakið var notað yfir allt frá hljóðgervla-danspoppi yfir í Mod og Ska-tónlist, sem náði hylli á ný á tíma nýbylgjunar. Tónlist sem var ekki viðurkennd af poppiðnaðinum flokkaðist almennt undir nýbylgju. Flókið getur verið að flokka tónlist í stefnur en í tilviki nýbylgjunnar má segja að það hafi verið sérstaklega flókið vegna þess hversu margbreytileg stefnan er. Ekki voru allir tónlistarmenn sem litu á sig sem rokkara hrifnir af því að vera flokkaðir sem nýbylgjuband og sögðu hugtakið vera tilbúning blaðamanna.) Að auki voru hljómsveitir sem ekki endilega flokkuðust undir nýbylgjuna auglýstar sem nýbylgja einungis vegna þess eins að stefnan var vinsæl og hljómsveitin gæti allt eins flokkast undir hana. Saga. Þótt nýbylgjan hafi ekki orðið til fyrr en seint á áttunda áratugnum má rekja rætur hennar allt aftur til seinni hluta sjötta áratugarins. Hljómsveitir í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi mörkuðu nýja tónlistarstefnu þar sem hljóðgervlar voru ráðandi. Tónlistarlega séð áttu brautryðjendur nýbylgjunnar lítið sameiginlegt fyrir utan það að hvorki var nauðsynlegt að hafa mikla kunnáttu í hljóðfæraleik né tónlistarhæfileika. Nýbylgjan var rokk og ról leikið af áköfum amatörum og í upphafi voru það allra minnstu útgáfufyrirtækin sem gáfu út nýbylgjuefni. Brautryðjendur nýbylgjunnar á Englandi voru undir áhrifum frá hugmyndafræði indie-tónlistar, sóttu í tónlistarlegan einfaldleika pönksins, auk þess að sækja í fleiri þekktar tónlistarstefnur. Meðal fyrstu hljómsveitanna sem þetta á við um má nefna The Clash og The Police, sem báðar eru undir áhrifum pönks og reggae-tónlistar. Pönkið hafði ekki náð jafn miklum vinsældum í Bandaríkjunum og það gerði víða í Evrópu. Þar var diskó og rokktónlist ríkjandi á vinsældarlistum. Þegar vinsældir diskósins dvínuðu seint á áttunda áratugnum myndaðist ákveðið tómarúm sem pönkið og nýbylgjan fylltu upp í. Meðal fyrstu hljómsveitanna var Blondie, sem ruddi brautina inn á vinsældarlistana fyrir bandarískar nýbylgjuhljómsveitir árið 1979. Sama ár komu fram hljómsveitirnar The Cars og The Talking Heads og hljómsveitin The Knack sló í gegn með laginu "My Sharona". Breska nýbylgjan náði til Bandaríkjanna árið 1980 með plötu Gary Numan, "The Pleasure Principle". Lög af plötunni náðu hátt á vinsældarlista. Tónlist Numans er mínímalísk og byggir mikið á notkun hljóðgervla og er undir áhrifum frá tónlistarmönnum eins og Kraftwerk og Brian Eno. Í kjölfar Numans komu fram fleiri tónlistarmenn sem fluttu dansvænt hljóðgervla-pop eins og Depeche Mode, A-ha, New Oder og The Pet Shop Boys. Nýbylgjan þótti markaðsvænni og ekki eins andfélagsleg og síðpönkið. Þar af leiðandi sáu stóru útgáfufyrirtækin meiri möguleika og meiri hagnað í nýbylgjuhljómsveitum. Útgáfufyrirtækin sáu enn meiri möguleika með myndbandaútgáfu en stefnan er frumkvöðull metnaðarfullra tónlistarmyndbanda. Myndböndin voru notuð til þess að auglýsa tónlistarmennina og tónlist þeirra í sjónvarpi og átti sjónvarpsstöðin MTV stóran þátt í að koma stefnunni á kortið. Að sama skapi á MTV nýbylgjunni margt að þakka. Fyrstu árin eftir að stöðin tók að starfa var nýbylgjan langvinsælasta tónlistarstefna áhorfenda og var lagið "Video Killed the Radio Star" með bresku nýbylgjusveitinni Buggles fyrsta myndbandið sem stöðin sýndi. Um tíma var nýbylgjan ríkjandi í kvikmyndatónlist, sérstaklega í þeim myndum sem vinsælustu ungleikararnir (svokallað Brat Pack gengi) léku í, eins og The Breakfast Club, Valley Girl og Sixteen Candles. Vinsældir nýbylgjunnar minnkuðu um miðbik níunda áratugarins. Bæði snéru tónlistarmenn sem áður töldust undir nýbylgju sér að öðru og svo rann nýbylgjan saman við aðrar stefnur eins og jaðarrokk. Nýbylgjan leið þó aldrei undir lok og hefur verið mikill áhrifavaldur annarra tónlistarstefna. Talað hefur verið um að nokkurskonar endurlífgun nýbylgjunnar og síð-pönksins hafi átt sér stað seint á tíunda áratugnum og fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldar, en þá kom fram fjöldinn allur af nýjum hljómsveitum þar sem finnst fyrir greinilegum áhrifum nýbylgjunnar og síð-pönksins. Má þar nefna hljómsveitirnar The Yeah Yeah Yeahs, Franz Ferdinand, The Killers, The Strokes og Bloc Party. Nýbylgjan á Íslandi. Lifandi tónlist hafði verið í undanhaldi á skemmtistöðum um tíma og diskótónlist tekið yfir. Félagsheimili Kópavogs, sem bæði var æfinga- og tónleikastaður, var griðarstaður lifandi tónlistar. Þar komu fram meðal annars Utangarðsmenn og Fræbbblarnir og aðrar hljómsveitir nýbylgjunnar. Utangarðsmenn fóru fyrir nýbylgjunni, þó svo að þeir teljist ekki undir stefnunni. Margar hljómsveitir urðu til vegna áhrifa frá þeim. Nýbylgjan hóf að rísa vorið 1980 og var orðin útbreidd um land allt ári seinna. Lifandi tónlist var komin aftur. Hótel Borg er staðurinn þar sem hjarta lifandi tónlistar sló. Borgin hafði ekki notið mikilla vinsælda á áttunda áratugnum, um það leyti er diskóæðið stóð sem hæst, en var nú risin aftur upp með því að bjóða uppa á svokallað „rokkótek“, kraftmikla rokktónlist, einkum af nýbylgjugerð. Purrkur Pillnikk er ein helsta hljómsveit íslensku nýbylgjunnar. Hún var skipuð fjórum strákum sem kunnu takmarkað á þau hljóðfæri sem þeir spiluðu á. Sveitin lék í fyrsta skipti opinberlega daginn eftir að hún var stofnuð en þrátt fyrir það flutti hún níu frumsamin lög á tónleikunum. Næstu daga spilaði hún á mörgum tónleikum og þremur vikum eftir að sveitin var stofnuð var hún komin í stúdíó. Fyrsta plata þeirra, Tilf, kom út í maí 1981 og á henni má heyra einkunnarorð Purrksins og fleiru nýbylgjuhljómsveita: „Málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir.“ Heimildarmyndin Rokk í Reykjavík sem tekinn var upp veturinn 1981-82 er besta heimildin um íslenska nýbylgju og pönk. Í myndinni er fylgst með hljómsveitum sem hafa verið skilgreindar sem „jaðarlistamenn 80´s nýbylgjunnar á Íslandi“. Þar má nefna hljómsveitir á borð við Tappa tíkarrass, Egó, Þeyr og Fræbbblanna. Líkt og erlendis tengdist nýbylgjan hér á landi við list og ýmiskonar gjörninga og má þar einna helst nefna fjölllistahópinn Medúsu.. Nýbylgjan fólst fyrst og fremst í uppreisn, nýsköpun auk spilagleði og allur gróði var aukaatriði. Íslenska nýbylgjan var ekki langlíf, hún stóð sem hæst frá 1981-1982 og dró verulega úr vinsældum hennar eftir það. Jarðýta. Jarðýta er beltavél (traktor á beltum) með ýtublaði, stórri málmplötu til að ýta á undan sér miklu magni af jarðvegi, sandi og öðru efni sem þarf að ryðja í burtu. Aftan á vélinni er oft riftönn (ripper) til að tæta upp þétt efni. Jarðýtur eru til í fjölmörgum gerðum og stærðum. Davis-bikarinn. Davis-bikarinn er heimsmeistaramót karlalandsliða í tennis sem er haldið árlega. Keppnin er haldin af Alþjóðatennisambandinu og er útsláttarkeppni. Sambærilegt tennismót kvennalandsliða er Fed-bikarinn. Uppbygging. Landslið keppa í þremur svæðiskeppnum (Ameríka, Asía/Eyjaálfa og Evrópa/Afríka). Landslið eru dregin í riðla eftir styrkleikalista sem er gefinn út af Alþjóðatennisambandinu. Gull og silfurhafar síðasta móts eru alltaf í efstu styrkleikasætunum. Landslið í A-riðli keppa á svæðismóti. Sigurvegarar fyrstu umferðar spila umspilunarleik við taplið A-riðilsins. Þau landslið sem sigra umspilunarleikinn spila í Heimsmeistarariðlinum að ári liðnu, en þau lið sem tapa keppa áfram í A-riðli á næsta ári. Umspilunarleikir eru spilaðir í A- og B-riðlum, þar sem tapliðin fara niður um riðil. Lið í C- og D-riðli spila sín á milli í deild þar sem stigagjöfin ræður hvaða lið fer upp um deild og hvaða lið fer niður um deild. Úfmæli. Úfmæli, eða að skrolla, heitir það þegar sveifluhljóð (það er að segja r-hljóð) er framleitt ekki með tungubroddinum heldur með úfnum. Úfmæli tíðkast í mörgum tungumálum, til dæmis frönsku. Úfur. Úfur er aftasti hluti mjúka gómsins, auðþekkjanlegur á því að vera það sem dinglar aftast í munni. Klofinn úfur er vægt tilfelli af gómklofa. Gotneska. Gotneska er útdautt germanskt tungumál sem Gotarnir töluðu. Tungumálið er aðallega þekkt frá afriti Biblíunnar sem skrifað var á 6. öld, en textinn sjálfur er frá 4. öld. Ritmál Gota var sett saman af Wulfila, sem þýddi Biblíuna á það, og byggist það á því gríska fyrst og fremst en einnig latínuletri og rúnaletri. Gotneska skildi engu lifandi tungumáli eftir sér en hún var á niðurleið frá miðri 6. öld vegna ósigurs Gota í stríðum við Frankana, brottfarar Gota frá Ítalíu og landfræðilegrar einangrunar (á Spáni var gotneska kirkjumál Vesturgota en hún dó út þar þegar þeir skiptu í kaþólsku árið 589). Gotneska er sérstaklega áhugaverð frá sjónarmiði germanskrar samanburðarmálfræði þar sem gotnesku Biblíutextarnir eru þremur til fjórum öldum eldri en ritaðir textar annara forngermanskra mála, að fáeinum rúnaristum á frumnorrænu undanskildum. Hún hefur því ýmis fornleg einkenni sem höfðu nær eða alveg horfið úr öðrum germönskum málum þegar þau voru fyrst færð í letur. Má þar nefna ósamsetta þolmynd, tvítölu og svonefndar tvöföldunarsagnir. Lýsingarorð hafa bæði veika og sterka beygingu og laga sig í kyni, tölu og falli eftir þeim nafnorðum sem þau fylgja. Í stað ákveðins greinis koma ábendingarfornöfnin "sa", "so" og "þata" (sbr. íslensku "sá", "sú" og "þetta"). Bikarkeppni KKÍ (karlar). Poweradebikarinn er Bikarkeppni KKÍ í karlaflokki í íslenskum körfuknattleik sem haldið hefur verið árlega frá 1965. Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi og hefur úrslitaleikurinn frá upphafi farið fram í Laugardalshöllinni. Sagan. Bikarkeppni KKÍ var fyrst haldin sumarið 1965. Mótið var ætlað liðum sem ekki tóku þátt í 1. deild Íslandsmótsins í körfuknattleik, einkum liðum af landsbyggðinni sem ekki treystu sér til að taka þátt í deildarkeppni að vetrarlagi og varaliðum 1. deildarfélaganna. Fyrir vikið er misjafnt hvort fyrstu mótin eru talin til hinnar eiginlegu bikarkeppni meistaraflokks eða hvort litið sé á þau sem mót í 1. flokki. Árið 1970 var mótið endurvakið með þátttöku meistaraflokksliða allra félaga og er upphaf bikarkeppninnar oft miðað við það. Þetta fyrsta ár var mótið þó einnig haldið að sumarlagi, með þátttöku fjölda landsbyggðarliða og vakti takmarkaða athygli. Árin 1971-73 fór keppnin fram að haustlagi. Bikarkeppnin var enn leikin sem hálfgert hraðmót, sem fram fór á fáeinum dögum. Bikarkeppnin var færð fram vormisserið árið 1974 og mótið látið teygjast yfir lengra tímabil. Fór vegur keppninnar vaxandi upp frá því. Prins Póló. Prins Póló (pólska: "Prince Polo") er pólskt súkkulaðikex. Prins póló er líka hljómsveit á íslandi Hammarby IF. Hammarby IF er sænskt knattspyrnulið sem staðsett er í Johanneshov, suðan við Södermalm í Stokkhólmi. Í Svíþjóð er oft átt við liðið sem Bajen, sem er stytting á enskum framburði nafns liðsins. Árið 1915 tók Hammarby í fyrsta skipti þátt í Sænsku úrvalsdeildinni þeir hafa allt í allt leikið 45 leiktíðir meðal þeirra bestu. Eftir að hafa byrjað vel á fyrstu árunum eftir 1920. Fór liðið niður um deildir, og gekk illa. Það var ekki fyrr enn árið 1954 sem félagið komst aftur upp í úrvalsdeildina. Síðan þá hefur Hammarby spilað í úrvalsdeildinni eða komist upp í Allsvenskan öll sumur að fjórum árum undanteknum. Hammarby lék í úrvalsdeildinni allt frá árinu 1998 til ársins 2009. Þégar félagið féll afturniður í Superettan. 2001 tókst Hammarby IF að vinna úrvalsdeildina í sitt fyrsta og eina skipti. Þrír íslendingar hafa leikið með liðiðnu, þeir Gunnar Þór Gunnarsson Pétur Hafliði Marteinsson og Heiðar Geir Júlíusson. 1. janúar árið 2002 varð Hammarby IF 51% í eigu fyrirtækisns Hammarby IF Fotbollförening og 49% í eigu bandaríska hluthafans Anschutz Entertainment Group. Pólsk matargerð. Pólsk matargerð (pólska: "kuchnia polska") á við mat og eldunaraðferðir sem eiga uppruna sinn í Póllandi. Pólsk matargerð hefur þróast í gegnum tíma vegna breytilegra aðstæðna í landinu. Pólskar eldunarhefðir eru svipaðar öðrum sem er að finna annarsstaðar í Mið-Evrópu og Austur-Evrópu og jafnvel í Frakklandi og á Ítalíu. Áhersla er lögð á kjöti, sérstaklega svínakjöti, nautkjöti og kjúklingi (mismunandi eftir svæðum), og vetrargrænmeti svo sem káli, og kryddum. Ýmiss konar núðlur, eins og "kluski", er líka að finna í mörgum réttum, auk kornplantna eins og "kasza". Pólsk matargerð er almennt vegleg og mikið af eggjum og rjóma er notað. Hefðbundnu réttirnir krefjast mikils undirbúnings. Margir Pólverjar eyða miklum tíma í að undirbúa og borða hátíðarréttina sína, sérstaklega um jólin og páska, þá getur tekið nokkra daga til að búa til alla réttina. Samkvæmt hefð er aðalmáltíð dagsins borin fram um kl. 14 eða seinna og samanstendur af þremur réttum. Forrétturinn er oftast súpa eins og "rosół" (kjötsúpa) eða tómatsúpa, eða á hátíðum "barszcz" (rauðrófusúpa) eða "żurek" (rúgsúpa). Ef borðað er á veitingarstað fylgir oft lystaukandi eins og síld (borin fram í rjóma, olíu eða ediki). Aðrir lystaukendur sem bornir eru fram eru margs konar þurrkað eða reykt kjöt, grænmeti og fiskhlaup. Aðalrétturin er yfirleitt með eins konar ristuðu kjöti eða kotlet schabowy (svínakótelettu í brauðmolum). Grænmeti á borð við "surówka" (salat með rifnum gulrótum, hnúðsellerí og rauðrófum í sítrónusafa og sykri) og "kapusta kiszona" (súrkál) eru stundum borin fram með aðalréttinum. Aðalréttinum fylgja oft soðnar kartöflur eða "kasza". Eftirréttir eru oft bornir fram en meðal þeirra eru makowiec (baka með birkifræjum) og drożdżówka (gerkaka). Dæmi um aðra pólska rétti eru chłodnik (köld súpa með rauðrófum eða ávöxtum sem borðuð er á heitum dögum), golonka (svínaskanki ristaður með grænmeti), kołduny (soðkökur með kjöti), zrazy (fylltar nautkjötssneiðar), salceson (svínasulta) og flaki (vömb). Helstu réttir pólskrar matargerðar eru bigos (súpa með nautkjöti), kiełbasa (steiktar pyslur), kotlet schabowy (svínakóteletta í brauðmolum), gołąbki (fyllt kálblöð), pierogi (soðkökur) og zrazy (fyllt og upprúllað kjöthakk). Súrrealismi. Súrrealismi (úr frönsku "surréalisme" „óraunveruleiki“) er listahreyfing sem á uppruna sinn í Frakklandi á þriðja áratugnum. Súrrealismi leysti dadaisma af hólmi eftir seinni heimsstyrjöldina og byggist á hugmyndinni að listin væri þá of bundin hefðum. Innblástur til listaverka var fenginn frá meðal annars draumum og dulvitundinni. Í súrrealískum málverkum er oft stillt saman hlutum sem virðast vera óskyldir. Nokkrir helstu súrrealistarnir voru Salvador Dalí, Max Ernst og Joan Miró. Súrrealismi er þó ekki bundinn myndlist, til dæmis hefur íslenski höfundurinn Halldór Laxness verið kallaður súrrealisti. Rússnesk matargerð. Rússnesk matargerð (rússneska: "Русская кухня") á við mat og eldunaraðferðir sem eiga uppruna sinn í Rússlandi. Eldaskáli. Eldaskáli, einnig þekkt sem landnámsskáli, langhús eða bara skáli er heiti yfir þá gerð híbýla sem tíðkaðist hér á landi frá landnámi, þangað til gangabærinn var kominn til sögunnar á 14. öld. Fjöldi eldaskála frá víkingaöld hefur verið rannsakaður í gegnum tíðina, og bætast sífellt fleiri við. Í grundvallaratriðum eru elstu íslensku eldaskálarnir sömu gerðar og skálar á Norðurlöndum og í byggðum norrænna manna á víkingaöld en þó er sá munur að nánast óþekkt er að skepnur hafi verið geymdar í íslensku skálunum en annarsstaðar var algengt að fjós væru upp undir helmingur af grunnfleti húsanna. Skálar með fjósi undir sama þaki eru stundum kallaðir langhús til aðgreiningar frá hinum sem eingöngu hýstu fólk. Annað einkenni á íslensku eldaskálunum sem greinir þá frá skálum á Norðurlöndunum er að mjög algengt var að þeir hefði minni viðbyggingar, til endanna eða aftanvið. Gerð. Eldaskálar einkennast einna helst af því að þeir voru aflangir, með bogadregna veggi þannig að þeir voru breiðari um sig miðja en fyrir göflunum og að í þeim miðjum var langeldur. Þá höfðu þeir dyr á annari langhlið, stundum bakdyr á hinni, en stundum tvær dyr sitt hvoru megin á framhliðinni. Íslenskir eldaskálar höfðu veggi hlaðna úr torfi og stundum með grjóthleðslu í grunninn. Höfðu þeir torfþak og var það oftast þríása og haldið uppi með trégrind sem stóð á tveimur röðum stoða inni í húsinu sem skiptu því langsum í þrennt. Voru stoðirnar ýmist reknar niður í gólfið eða þær stóðu á steinum til að koma í veg fyrir rotnun. Gólf voru úr mold, en meðfram öðrum eða báðum langveggjum var upphækkaður trépallur eða set og þar voru rúmstæði. Þá var algengt að hellur væri á gólfi innan og utan við útidyrnar. Á miðju gólfi var langeldur þar sem matur var eldaður en hann hefur einnig verið aðal hita- og ljósgjafinn í þessum húsum. Langeldurinn gat verið af ýmsum stærðum óháð stærð skálans, t.d. var skálinn sem grafinn var upp við Aðalstræti í Reykjavík 2001 meðalstór, en í honum var einn stærsti langeldur sem fundist hefur á Íslandi. Aftur á móti er skálinn á Hofstöðum í Mývatnssveit sá stærsti á Íslandi, en hann var með tiltölulega lítinn langeld. Ekki er víst að eldaskálar hafi haft glugga, en reyk hefur verið hleypt út um reykop í þakmæni. Í nágrenni við víkingaaldaskála finnast oft útihús svo sem fjós eða hlöður. Þá finnast oft svonefnd jarðhús nálægt skálum. Jarðhús voru lítil hús með eldstæðum sem voru að hluta til grafin niður í jörðina. Jarðhúsin finnast oft á elstu bæjarstæðunum og hefur það vakið hugmyndir um að þau hafi verið bráðabirgðahús reist á meðan verið var að reisa aðalskálann. Einnig hefur verið stungið upp á að þau hafi verið baðhús eða dyngjur, vinnustofur kvenna. Þróun. Elstu skálarnir eru einfaldar byggingar og fyrir utan mögulega jarðhúsin virðist öll starfsemi heimilisins hafa farið fram undir sama þaki. Fólk svaf, borðaði, eldaði, geymdi mat og hélt jafnvel húsdýr í sama eldaskálanum. Skilveggir úr tré hafa þó oft skilið að mismunandi hluta skálans. Fljótlega var þó byrjað að nýta útveggina til að reisa önnur hús upp við skálann og haft innangengt á milli. Þessar viðbyggingar voru yfirleitt mun minni hús en skálinn og þjónuðu einkum sem eldhús og búr. Vel þekkt dæmi um seinni stig þessarar þróunar er Stöng í Þjórsárdal. Þar var allstór stofa, einhverskonar íveruhús, resit við annan enda skálans en búr og stór kamar aftan við hann. Á Stöng er hægt að tala um eldaskála því þar var langeldur á miðju gólfi en með Gröf í Öræfum sem lagðist í eyði 1362 hefur orðið sú breyting að ekkert eldstæði er lengur í skálanum og bærinn auk þess gerbreyttur að skipulagi þar sem göng lágu eftir honum endilöngum og skiptu honum í tvennt. Við enda þeirra var lítil baðstofa en það hús átti smátt og smátt eftir að verða aðalíveruhús íslenska torfbæjarins. Orðið skáli hélt sér eftir þróun gangabæja sem heiti yfir aðal svefn- og íverustað bæjarins. Matbaun. Matbaun (fræðiheiti "Phaseolus vulgaris") er fjölær matjurt sem var ræktuð til forna í Mið-Ameríku og Andesfjöllum en er núna ræktuð víða vegna baunar sem er vinsæl bæði þurrkuð og sem grænar baunir. Laufin eru stundum borðuð og stönglar eru notaðir sem skepnufóður. Matbaunir, squash og maís voru undirstaða undir jarðrækt frumbyggja Ameríku. Matbaunir eru tvíkímblöðungar. Þær eru baunir sem fá köfnunarefni úr jarðvegi með aðstoð svepprótar. Blóm venjulegrar matbaunar (afbrigði 'Contender') Til eru fjölmargar tegundir matbauna og þær hafa verið lengi ræktaðar. Sumar eru runnar 20 – 60 sm sem standa óstuddir en aðrar eru skriðplöntur sem geta orðið 2 – 3 m langar. Blöðin eru græn eða fjólublá, þrískipt. Blómin eru hvít, bleik eða fjólublá og eru um 1 sm. Þurrkaðar baunir. „Painted Pony“ þurrkaðar baunir ("Phaseolus vulgaris") Matbaunir eru eins og aðrar baunir með mikið sterkjuinnihald, eggjahvítuefni og trefjar og eru ágæt uppspretta járns, kalíums, seleniums, molybdenums, þíamíns, B6 vítamíns og fólínsýru. Þurrkaðar baunir geta geymst mjög lengi ef þær eru geymdar á þurrum og svölum stað en næringargildi minnkar við geymslu. Þurrkaðar baunir eru soðnar eftir að hafa legið í bleyti í margar klukkustundir. Það styttir suðutímann að setja baunir í bleyti. Það eru nokkrar aðferðir við að setja baunir í bleyti; ein er að setja þær í bleyti yfir nótt, önnur að sjóða þær í þrjár mínútur og setja svo í bleyti í 2 – 4 tíma, skola og henda vatninu og halda áfram að sjóða. Það tekur lengri tíma að sjóða matbaunir en aðrar ertur. Það tekur einn til tvo klukkutíma. Í Mexíkó, Mið-Ameríku og Suður-Ameríku er hefðbundið krydd með baunum epazote. Í Austur-Asíu er sérstakri tegund af þangi bætt út í baunir þegar þær sjóða. Salt, sykur og súr fæða eins og tómatar geta valdið því að það þarf lengri suðutíma. Þurrkaðar baunir geta verið seldar eldaðar, niðursoðnar, heilar í vatni og með salti og stundum sykri. Tveggja hæða strætisvagn. Tveggja hæða strætisvagn er strætisvagn með tveimur hæðum. Slíkir strætisvagnar eru útbreiddir á Bretlandi og í fyrrverandi breskum nýlendum, en þeir eru líka notaðir sem ferðamannavagnar og rútur um allan heim. Frægasta dæmi um tveggja hæða strætisvagn er Routemaster sem keyrður var víða í London. Hann er ekki lengur í notkun í dag nema á tveimur leiðum. Sumir tveggja hæða strætisvagnar eru með opinni efri hæð en þeir eru oftast notaðir til skoðunarferða í stórborgum. Íslenska fyrirtækið Kynnisferðir keyrir svona ferðamannaleiðir með tveggja hæða strætisvögnum þar sem ekið er um Reykjavík og frá og til helstu ferðamannastaðanna. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Karlalandslið Íslands í knattspyrnu er í 97. sæti styrkleikalista FIFA og hefur aldrei tekið þátt í stórmóti í knattspyrnu. Grasker. Grasker er ávöxtur af ættkvíslinni "Cucurbita" og graskersætt af tegundunum "Cucurbita pepo" eða"Cucurbita mixta". Grasker hafa vanalega með þykkt appelsínugult eða gult hýði og eru ræktuð til matar og til skrauts og skemmtunar. Bökur úr graskgerjum er hefðbundinn hluti af hinni bandarísku þakkargjörðarhátíð og útskorin grasker eru algengt skraut á hrekkjavöku. Elstu menjar um graskersfræ fundust í Mexíkó og eru frá 7000 og 5500 fyrir Krist. Grasker vega um 450 kg en eru oft 4-8 kg. Grasker eru tvíkynja og eru kven- og karlblóm á sömu jurt. Grasker eru ræktuð víða bæði sem skepnufóður og til skrauts og sölu. Ræktun þeirra hefst í byrjun júlí og þarf jarðvegshiti þá á þriggja þumlunga dýpi (7.72 sm) að vera minnst 15.5 °C og jarðvegur þarf að vera rakadrægur. Grasker eru harðgerðar jurtir en uppskera getur þó brugðist vegna þurrka eða kulda eða vegna sandjarðvegs sem heldur illa raka. Stærstu grasker eru af tegundinni "Cucurbita maxima". Skelin, fræ, lauf og blóm graskers eru æt. Þegar grasker hefur þroskast er hægt að sjóða, baka eða rista það. Fræin eru oft ristuð. Í Mið-Austurlöndum er grasker notað í sæta rétti, í sælgæti sem kallað er "halawa yaqtin". Í Suður-Asíulöndum eins og [Indland|Indlandi] er grasker soðið með smjöri, sykri og kryddi í rétt sem kallast "kadu ka halwa". Í Guangxi héraðinu í Kína eru laufblöð graskers soðin eins og grænmeti og notuð í súpur. Í Ástralíu og Nýja-Sjálandi er grasker oft ristað með öðru grænmeti. Graskersfræ eru oft notuð í staðinn fyrir sólblómafræ. Grasker má nota til að bragðbæta drykki. Graskersfræ eru talin holl. Niðursoðin grasker eru gefin köttum og hundum til að bæta meltingu. Algengt er að skera út mynstur í grasker fyrir hrekkjavöku í Norður-Ameríku og nota þau sem luktir. Útskorin grasker voru fyrst tákn um uppskerutímann en urðu síðan tengd hrekkjavöku. Ræktendur graskerja keppa oft um stærst og þyngsta graskerið og haldnar eru hátíðir í kringum slíkar keppnir. Grasker eru þekkt minni í ævintýrum og þjóðsögum, þau er oft tengt nornum í kringum hrekkjavöku. Í sögunni af Öskubusku breytir álfkona graskeri í vagn en á miðnætti verður hann aftur að graskeri. Spartak Moskva. Spartak Moskva er rússneskt knattspyrnufélag staðsett í Moskvu. Félagið er eitt það sigursælasta í sínu heimalandi. Þeir hafa orðið sovéskir meistarar alls tólf sinnum, félagið hefur tíu sinnum orðið sovéskir bikarmeistarar, oftar en nokkurt annað rússneskt félag og þrisvar sinnum hafa þeir orðið rússneskir meistarar þeim hefur einnig tekist að komast í undanúrslit í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu. Undir "járn-tjaldinu". 1935 komu upp hugmyndir um hvaða nafnbót félagið skildi hljóta, að loknum miklum umræðum kom loks uppá pallborðið, nafnið "Spartak", sem þá átti að vera tákn um tilvísu í Spartacus forngrísku hetjuna. Fljótlega kom uppúr krafsinu að ráða gamlan ref úr bransanum Tékkann Antonin Fivebr sem var eldri en tvær vetur í boltanum og taldi sig geta komið spörtumönnum í fremstu röð á meðal stærstu knattspyrnu liða heims. Og það kom á daginn, árin sem á eftir fylgdu áttu eftir að reynast ein þau bestu í sögu félagsins. Frá og með 1950 voru bara tvö lið sem liftu dollum í rússneskri knattspyrnu, það voru „Moskvufélögin“ Spartak og Dynamo. En það var ekki bara í Moskvu borg sem glytti í gull. Landslið Sovétríkjanna í knattspyrnu var meðal bestu liða heims á þessum árum og tókst 1956 að verða Ólympíumeistarar. Spörtumenn skipuðu stærstan hluta landliðsins og var Igor Netto þar fremstur í flokki. Enn upp úr 1960 fór að harna í ári og árin sem á eftir fylgdu, áttu eftir að reynast Spörtu mönnum erfið og 1976 varð liðið að sætta sig við hið súra epli að falla niður um deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Endureisn stórveldis. Félaginu tókst að komast aftur upp í úrvaldeild fljótlega og í síðasta skiptið sem leikið var í sovésku deildinni vann félagið eftir úrslitaleik við Dynamo Kiev í spennuþrungnum leik í Kænagarði í Úkraínu. 1996-2001. Á þessum árum, 1996-2001, vann Spartak Moskva alla titla sem í boði voru í rússneskri knattspyrnu og aðalstjarna félagsins á þessum árum var Yegor nokkur Titov sem lék all 428 leiki fyrir félagið og skoraði nákvæmlega hundrað mörk í þeim leikjum. Erfiðleikar á nýrri öld. 2008 réð Spratak Mosva til sín Danann Michael Laudrup, kröfurnar sem gerðar voru til hanns voru þær að honum tækist að koma liðinu aftur í röð fremstu liða í rússneskri knattspyrnu en hann staldraði þó stutt í Moskvu. Vonbrigðin voru mikil með lélegan árangur Danans. Nýlega fékk félagið olíurisann Lukoil til að styrkja sig og er það helsta vona félagsins núna að Lukoil geti dælt nógu miklum milljónum í félagið svo hægt sé að snúa við gengi félagsins og gera það aftur af stórveldi í rússneskri knattspyrnu. Gospel-tónlist. Gospel er tónlistarstefna sem gengur út á það að tala við Guð, lofa hann og biðja til hans í gegnum tónlist. Tónlist er og var stór partur af kristinni trú, og áður en gospel varð til sem slíkt þá voru sálmar sungnir í messum. Eftir að Evrópubúar fóru að eigna sér land í Norður-Ameríku voru sumir þeirra farnir að halda langar lofgjörðarstundir í staðinn fyrir hefðbundnar messur. Gospel skiptist í nokkra undirflokka; svart gospel, hvítt gospel eða Suður-gospel, nútíma gospel og samtíma gospel, gospel blús, bluegrass-gospel og kristileg sveita-tónlist. Tegundir. Svart gospel þróaðist að hluta til frá kristnum þrælum frá Vestur-Afríku sem sungu saman úti á ökrunum. Þeir notuðu söngvana til þess að eiga samskipti við hverja aðra. Kristileg lofgjörð var mjög stór partur af afrísku samfélagi. Gospelið heyrðist fyrst í afrísk-amerískum kirkjum á fjórða áratug. Nú til dags er svart fólk í kirkjukórum sem syngur í messum það sem flestir hugsa um þegar talað er um svart gospel. Hvítt gospel byrjaði á seinni hluta 19. aldar og var gert vinsælt af frægum hvítum söngvurum eins og til dæmis Elvis Presley. Flytjendur hvíta gospelsins nutu mikilla vinsælda en flytjendur svarta gospelsins áttu erfiðara með að finna sér áheyrendur. Mörgum fannst auðveldara að flytja jazz-lög eða blús heldur en gospel-tónlist. Aðeins nokkrum svörtum flytjendum tókst að láta ljós sitt skína fyrir 1950. Gospel-tónlist var í rauninni fyrst almennilega kynnt til sögunnar þegar Elvis Presley varð frægur og fór að syngja mikið í gospel-stílnum. Hann hafði alist upp við að hlusta á svarta gospel-tónlist. Svo fóru fleiri frægir söngvarar að taka upp gospel-tónlist, til dæmis Ray Charles, Aretha Franklin og margir fleiri. Það hjálpaði mikið til við að kynna gospel fyrir almenningi. Um 1970 hafði hvíta gospelið þróast aðeins yfir í nútímalegri tónlist. Eftir að kirkjum og ungmenna lofgjörðarsamkomum fjölgaði varð ákveðin tegund af gospel-tónlist sem kallast „Lofum og tilbiðjum“ einnig mjög vinsæl. Gospel-blús kom fram á sama tíma og venjulegur blús og nafnið segir í rauninni til um hvers konar gospel það er. Aðrar gerðir gospel-tónlistar eru ekki eins útbreiddar. Faðir gospel-tónlistar. Thomas A. Dorsey er talinn vera „faðir gospeltónlistar“. Hann var upphaflega blústónlistarmaður en sótti árlega fundi hjá „National Babtist Convention“ og á einum slíkum fundi heyrði hann fyrst tónlist sem hafði verið samin af mjög frægum gospel-tónlistarmanni, Charles A. Tindley. Eftir það fór Thomas að skrifa sjálfur gospel-tónlist. Hann hlaut hins vegar ekki miklar vinsældir í fyrstu vegna þess að mörgum íhaldsmönnum fannst að hann skyldi blanda saman hinu heilaga og blús/jazz-takti vera tónlist djöfulsins. Kirkjan var því sammála og fannst tónlistin Dorsey ekki vera þess verðug að heyrast innan dyra sinna. Dorsey hélt áfram að semja tónlist og sendi sjálfur út 500 eintök af lagi sínu „If you see my savior“ í allar kirkjur landsins. Þremur árum seinna fékk hann loksins tilboð. Eftir það gekk allt eins og í sögu og áður en hann dó þá hafði hann samið meira en 800 gospel-lög. Ásamt honum eru margir áhrifavaldar í gospel tónlist. Áhrifavaldar. Mahalia Jackson (1911-1972) var mjög fræg gospel-söngkona á meðal unga fólksins þá. Hún skrifaði undir samning hjá Columbia Records á 6. áratugnum og vinsældir hennar áttu enn eftir að aukast. Hún kom fram í „Ed Sullivan Show“ og fékk þannig tækifæri til að syngja rétt áður en Martin Luther King jr. fór með frægustu ræðuna sína, „I have a dream“. Hún söng svo lag eftir Dorsey í jarðarför Kings. Clara Ward (1924-1973) og hljómsveitin hennar „the Clara Ward Singers“ voru með það markmið að flytja orð Guðs til fólksins sama hvar þau voru, jafnvel á næturklúbbum. Clara Ward hafði bein áhrif á gospelferil Marion Williams, en hann söng með hljómsveitinni hennar á einum tímapunkti, og hún hafði einnig mikil áhrif á Little Richard og Aretha Franklin (sem sagði að Clara Ward væri átrúnaðargoðið sitt). James Cleveland (1931-1991) var af mörgum gospel-aðdáendum vera „Konungur gospelsins” vegna þess að hann hlaut þrenn Grammy-verðlaun fyrir verk sín. Hann var mjög heillandi söngvari og hélt áheyrendum sínum hugföngnum með söng sínum þrátt fyrir að rödd hans hljómi pínu „rispuð”. Hann stofnaði einnig „the Gospel Music Workshop of America“ árið 1968 sem er stærsta gospel-stofnun í heimi. Í gegnum hana tókst honum að koma boðskapnum til mjög margra. Edna Gallmon Cooke og Brother Joe May voru mjög frægir gospel söngvarar á 6. og 7. áratugum. Witney Houston var heldur ekki ókunnug gospel-tónlist en þekktasta gospellag sem hún söng var lagið „Jesus Loves Me“. Rætur gospelsins liggja í fjölskyldu hennar alveg til fjórða áratugarins. Árið 1938 stofnaði Nicholas „Nitch“ Drinkard, afi Whitney Houston, sönghóp í Savannah. Söngvararnir voru börnin hans, Emily eða „Cissy“, Anne, Nick og Larry. Sönghópurinn, eða hljómsveitin var kölluð The Drinkard Four og seinna meir var hún þekkt sem The Drinkard Singers. Um 1950 flutti fjölskyldan til New Jersey og hljómsveitin tók upp nokkrar smáskífur. Þau komu fram á „the Newport Jazz Festival“ í júlí árið 1957 og eftir það tóku þau upp plötu. Þetta var fyrsta alvöru plata hljómsveitarinnar en þau héldu áfram að taka upp fram á sjöunda áratug. Gullöldin. Tímabilið frá 1945-1965 er oft talað um sem gullöld gospel-tónlistarinnar vegna þeirra gífurlegu vinsælda sem stefnan hlaut á þessum árum, vegna mikillar grósku í plötuupptökum og margar nýjar hljómsveitir voru stofnaðar. Á þeim tíma voru söngvarar eins og Mahalia Jackson og hljómsveitir eins og Swan Silvertones, the Caravans, the Clara Ward Singers og the Original Gospel Harmonettes við lýði. Þó hefur líka verið sagt að gullöld gospel-tónlistar sé fimmti, sjötti og sjöundi áratugurinn og ekki er alveg víst hvað sé réttara. Árið 1995 skrifaði Horance Clarence Boyer bókina „The Golden Age of Gospel“ þar sem hann kynnir sögu svarta gospelsins og fram yfir gullöldina. Hann kynnir mjög marga helstu tónlistarmenn stefnunnar og segir frá sérstökum stíl hvers og eins þeirra. Oh Happy Day. Árið 1967 var lagið „Oh Happy Day“, sem er sennilega lag sem flestir hugsa um þegar minnst er á gospel-tónlist, tekið upp af ungmennakór Norður-Kaliforníu. Seinna var það endurtekið af hljómsveitinni the Edwin Hawkins Singers. Þetta eina lag býr til út frá sér nýjan stíl innan gospeltónlistar eða stílinn nútíma-gospel. Þeir tónlistarmenn sem falla undir þessa stefnu eru til dæmis Walter Hawkins, Tramaine Hawkins, Andraé Crouch and the Disciples, the Winans og the Clark Sisters. James Cleveland og Mattie Moss Clark áttu einnig sinn þátt í því að gera þessa stefnu fræga með því að semja mikið af lögum og taka upp lög með stórum kórum. Í dag. Enn í dag er gospel-tónlist mjög vinsæll tónlistarstíll á meðal kristins fólks. Sálartónlist er önnur tónlistarstefna sem átti upptök sín í Bandaríkjunum og hún samanstendur af eiginleikum gospel-tónlistar og R&B. Sumir gospel-tónlistarmenn hafa einnig komið sér áfram á fleiri tónlistarsviðum svo sem popptónlist, R&B og kántrí en aðrir hafa haldið sig alfarið við gospel-tónlistina. Dæmi um mjög frægar gospelsveitir í dag eru Jesus Culture og Hillsong United. Jesus Culture byrjaði árið 1999 og Hillsong United árið 1983 en ennþá í dag eru þetta mjög frægar hljómsveitir. Í dag eru til nokkrar íslenskar gospelhljómsveitir, þar á meðal er hljómsveitin Tilviljun? sem hefur verið starfandi frá árinu 2010. Nýlega gaf hún út smáskífuna Vaktu. Þessi hljómsveit hefur haldið marga tónleika og er mjög þekkt á meðal kristins fólks á Íslandi. Gospel hefur í raun verið til frá því að þrælar rauluðu það fyrir munni sér þegar þeir unnu á ökrunum. Það var fyrst viðurkennt sem tónlistarstefna á fjórða áratug og nú er kominn 21. áratugurinn og ennþá eru tónlistarmenn að semja gospeltónlist. Glysþungarokk. a> voru eitt fyrstu glysþungarokksbandanna og meðal þeirra sem gengu lengst hvað varðar framkomu og útlit. Glysþungarokk er tónlistarstefna sem reis upp á seinni hluta áttunda áratugarins og fyrri hluta þess níunda í Bandaríkjunum og þá sérstaklega Los Angeles. Rætur stefnunnar liggja meðal annars í þungarokki, pönki og hörðu rokki. Glysþungarokk sameinaði áberandi litríkt útlit glysrokksins við þunga og framsækni þungarokksins. Stefnan hefur verið einkennandi sem þungarokksstefna með þeim hætti að hún er sú eina sem náð hefur inn á meginstraum tónlistar síns tímabils. Glysþungarokk náði miklum vinsældum á níunda áratugnum og byrjun þess tíunda en missti meginstraumsvelgengni með upprisu gruggtónlistar. Síðan þá hefur stefnan verið reist upp á ný í mörgum löndum, meðal annars á Íslandi. Uppruni. Glysþungarokk sækir áhrif sín fyrst og fremst í rokkstjörnuútlit og hegðun hljómsveita eins og Aerosmith, Kiss og DC en einnig í sjokkrokk framkomu manneskja eins og Alice Cooper. Stefnan sækir einnig mikil áhrif í Bárujárn sem reis upp í Bretlandi á áttunda áratugnum með hljómsveitum eins og Judas Priest og Iron Maiden. Leðurklæðnaður og litríkar spandex buxur voru mjög einkennandi fyrir hljómsveitir frá þessari stefnu og glysþungarokksbönd tileinkuðu sér einnig þennan klæðnað. Meðal fyrstu banda til þess að móta stefnuna voru Van Halen og Def Leppard. Með sviðsframkomu söngvarans David Lee Roth og spilatækni gítarleikarans Eddie Van Halen urðu Van Halen meðal fyrstu hljómsveita til þess að ryðja brautina fyrir upprisu stefnunnar. Upphaf. Í upphafi níunda áratugarins voru miklar vangaveltur í gangi um hvort þungarokk myndi lifa af sem tónlistarstefna. Með upprisu pönksins og orkunnar sem það innihélt virtist vera sem gamla þungarokkið var að verða úrelt. Bárujárn eða „New wave of british heavy metal“ reis upp sem mótsvar þungarokksins við pönki og hljómsveitir eins og Iron Maiden, Motorhead og Judas Priest náðu fljótt velgengni í Bretlandi með nýrri, hraðari og kraftmeiri gerð af þungarokki. Glysþungarokkið reis upp í Bandaríkjunum og þá sérstaklega í Los Angeles í gegnum Sunset strip senuna. Hljómsveitir eins og Motley Crue, Twisted Sister og Ratt byrjuðu að blanda saman ýmsum stefnum eins og glysrokki, þungarokki og bárujárni og bjuggu þar með til nýja stefnu. Twisted Sister urðu fljótt þekktir fyrir að klæðast áberandi litríkum og óhefðbundnum fötum til viðbótar við ýmsar snyrtivörur og með sinni fyrstu plötu, Under The Blade (1982), urðu þeir meðal fremstu hljómsveita senunnar. Aðrar hljómsveitir stigu í þeirra spor og fljótt var þetta útlit orðið einkennandi fyrir stefnuna. Motley Crue urðu fljótt þekktir fyrir að ganga lengra en önnur bönd og fyrir að ná fram sérstaklega öfgakenndum áhrifum með plötum eins og Too Fast For Love (1981) og Shout at the Devil (1983). Hápunktur. a> var ein af vinsælustu glysþungarokksplötum níunda áratugarins. Um miðjan níunda áratuginn hafði glysþungarokk náð gífurlegri velgengni um Bandaríkin og víðsvegar. MTV spilaði stóran part í að ryðja brautina fyrir velgengni stefnunnar þar sem stöðin spilaði lög sem útvarpsstöðvar vildu oft ekki spila. Til viðbótar við stóra tónleikaframkomu byrjuðu tónlistarmyndbönd að skipta miklu máli fyrir hljómsveitirnar líka. Hljómsveitin Poison náði miklum vinsældum með plötunni Look What the Cat Dragged In. Hljómsveitin varð mjög umdeild meðal margra fyrir útlit hljómsveitarmeðlima á plötuumslaginu en á því hafði hljómsveitin tekið glysútlitið skrefinu lengra og byrst í kvenmannslíki með ögrandi andlitssvipbrigði. Árið 1984 innleiddu Van Halen hljómborð inn í glyssenuna með lagi sínu Jump. Hljómborð áttu eftir að passa fullkomnlega inn í þann Popprokksstatus sem senan var að öðlast þar sem danstónlist sem snerist í kringum synthahljóð var mjög vinsæl á þessum tíma. Einnig átti hljómborðið eftir að leggja grunninn að ballöðunni sem varð vinsælasta tónlistarform síns tíma. Sænska sveitin Europe náði miklum vinsældum með plötu sinni The Final Countdown og samnefnt lag náði fyrst sæti í sölulista 26 landa. Margar hljómsveitir héldu áfram velgengni sinni með nýjum plötum sem oft hölluðust enn frekar að popphljóði eins og Motley Crue með Girls, girls, girls (1987) og Dr. Feelgood (1989). Hátindur tímabilsins fellur samt líklegast til útgáfu fyrstu plötu hljómsveitarinnar Guns n Roses, Appetite for Destruction (1987). Sú plata gaf af sér þrjú lög sem náðu inn á topp tíu lista Bandaríkjanna. Motley Crue gáfu út lagið Home Sweet Home árið 1985 sem hefur verið viðurkennt sem heimsins fyrsta kraftballaða. Tónlistarform sem glysþungarokksbönd tileinkuðu sér sem fljótt varð vinsælasta lagaform heims síns tíma. Á þeim tíma var þungarokk sem naut meginstraumsvelgengni orðið mjög formúlukennt og fyrirsjáanlegt. Ef hljómsveitir vildu að plata þeirra myndi njóti einhverra vinsælda urðu þeir nánast að hafa kraftballöðu á henni. Þetta olli því að mjög mörg formúlukennd bönd stigu upp á sjónarsviðið sem sköpuð voru af hljómplötuframleiðendum. Hápunktur velgnegni senunnar var því einnig ástæðan fyrir hruni hennar. Fall. Undir lok níunda áratugarins var velgengni senunnar farin að líða undir lok. Glysþungarokkið var orðið mjög umdeilt vegna dópnotkunar og spillingar og áhorfendurnir voru farnir að vilja heyra eitthvað annað. Thrash þungarokk og grunge-rokk höfðu notið vaxandi velgengni undir lok níunda áratugarins vegna andstöðu þeirra við ímynd glysþungarokksins. Í stað þess að hugsa ávallt um að ganga sífellt lengra og lengra í ímynd og sviðsframkomu var tónlistin komin aftur á byrjunarreit. Upp var komin meiri eftirsókn fyrir þýðingarfullri tónlist sem hafði meiri kraft í sér en glysþungarokkið. Mörg glysbönd reyndu að fylgja þesu eftir með því að lækka niður í sér, litríkir búningar og stórt hár varð sjaldséðara í og staðinn tók við einfaldari ímynd. Hljómsveitin Steelheart er gott dæmi um glysband sem reyndi að breyta ímynd sinni með hverri plötu sem kom. Platan Steelheart kom út árið 1990 sem stóð í straum við margar aðrar glysplötur frá níunda áratuginum. Árið 1992 gáfu þeir út Tangled in reins sem hafði mun meira viðhorf í takt við Guns N Roses. 1996 kom síðan út platan Wait sem var mun dimmari en fyrri plötur og hafði í raun margt meira skylt við grunge tónlist en glys. Þrátt fyrir þetta féll glysþungarokkið niður og þegar hljómsveitin Nirvana gaf út plötuna Nevermind árið 1991 tók grunge-rokk við sem topp rokktónlistarstefna síns tíma. Upprisa. a>, ein af þeim hljómsveitum sem náður hefur hvað mestri velgengni með glysþungarokki frá aldamótunum. Frá níunda áratuginum hefur glysþungarokkið notið nokkurra endurreisna. Bon Jovi tókst að ná góðri velgengni árið 2000 með laginu It’s my life. Vince Neil gekk aftur til liðs við Motley Crue árið 1997 og gaf með þeim út plöturnar New Tattoo (2000) og Saints of Los Angeles (2008). Enn í dag eru Motley Crue að túra um heiminn við góðar undirtektir frá þungarokksaðdáendum um allan heim. Frá aldamótunum hafa mörg önnur bönd eins og Poison, Skid Row, Cinderella, Quiet Riot, Twisted Sister tekið aftur saman og byrjað að túra aftur um heiminn. Tölvuleikir og bíómyndir hafa ýtt undir upprisu glysþungarokksins. Þar má meðal annars nefna tölvuleikinn Guitar Hero sem setur jákvæða ímynd á skilaboðið sem senan hefur fram að færa. Bíómyndin Hot Tub Time Machine hafði einnig góð áhrif á endurvakningu áhuga fólks á glysþungarokkið. Eftir að myndin kom út uxu til að mynda vinsældir lagsins Home Sweet Home með Motley Crue mjög mikið. Í Svíþjóð hefur myndast neðanjarðarsena fyrir glysþungarokk þar sem mörg bönd hafa náð tiltölulegri frægð og spilað á þungarokkshátíðum um allan heim. Meðal þessara hljómsveita má nefna H.E.A.T., Crazy Lixx, Crash Diet, Hardcore Superstar og Vains of Jenna. Hljómsveitin Steel Panther hefur náð miklum frægðum með því að spila glysþungarokk með textum uppfullum af svörtum húmor og með því að klæða sig upp sem ýkta paródíu af senunni. Ísland hefur gefið af sér nokkur glysþungarokksbönd eftir aldamótin eins og Mystical Fist,Mystic Dragon og Diamond Thunder sem er sú eina sem enn er starfandi í dag. Enn sem komið er hefur ekkert þeirra þó náð svo langt að gefa frá sér plötu. Hljóðgervlapopp. Hljóðgervlapopp, (e.synthpop) eða "svuntupopp", er tónlistartegund sem notast mikið við hljóðgervla. Sú tónlistarstefna byrjaði á níunda áratugnum þegar hljóðgervlar voru mjög áberandi í tónlist. Hljóðgervlar urðu vinsælir á áttunda áratuginum með annari elektrónískri tónlist eins og framsóknu-rokki og diskó, en varð svo enn meira notað á þeim níunda. Svuntupoppið varð svo til á níunda áratugnum, með aukinni notkun hljóðgervla og varð gríðarlega vinsælt. Það mótaðist aðalega í Japan og svo seinna í Englandi, en þaðan koma mikið af frægustu synthpop-hljómsveitunum. Svuntupoppið náði miklum vinsældum og einkennir mjög níunda áratuginn. En á seinni hluta áratugarins missti svuntupoppið þessar vinsældur og má segja að það hafi dáið með áratugnum. En þó urðu dúo eins og Erasure og Pet Shop Boys en með mjög vinsæl lög sem voru þá en mikið spiluð danstónlist. Indie-raftónlist og elektróclash varð vinsælli og tók hálfgerðlega við af svuntupoppinu í enda áratugsins. Svuntupoppið var líka oft gagnrýnt fyrir að vera einfalt og ófrumlegt, sem er eitt af ástæðunum fyrir að það missti vinsældir svo snemma. En samt sem áður gerði þessi stefna hljóðgervla þekktari og vinsælli við gerð tónlistar sem eru en notaðir í dag. Einkenni og stíll. Svuntupopp einkennist mikið af notkun svuntuþeysara eða hljóðgervla, eins og draga má af nafninu. Einnig var mikið notast við raftrommur í svuntupoppi og önnur rafhljóðfæri, sem stundum komu í stað allra annara hljóðfæra. Aðal hljóðfærið var samt hljóðgervillinn, hann var nauðsinlegur til að tónlistin yrði flokkuð sem svuntupopp. Lögin eru oft frekar grípandi og náðu eflaust vinsældum af þeirri ástæðu. Annars treystu margir svuntupopps-tónlistarmenn of mikið á tæknina og raftækin við tónlistargerð, það sem mikið af þeim höfðu í raun frekar takmarkaða tónlistarhæfileika. Það er ein af helstu ástæðunum fyrir að svuntupoppið var gagnrýnt fyrir að vera frekar einfalt og ófrumlegt. Lögin voru oft eins í gegn og lítið breytileg. Sem er aðal ástæðan fyrir því að vinsældirnar dóu út svo fljótlega. Lögin höfðu einnig oft mjög svipaðan þema þegar kom að textagerð. Þau snerust oftast um félagslega einangrun og tilfinningar á borð við að vera tómur eða kaldur.Þó voru hljómsveitir sem höfðu frekar gleðilega texta, en þar má nefna hljómsveitina Depeche Mode sem sungu lög sem snerust um ást og hamingju. Upphaf. Í enda sjöunda áratugarins var eitthvað um svuntuþeyjara en mjög lítið. En þó voru nokkrir tónlistarmenn að nota þá eins og t.d. Beach Boys. En tónlistin breyttist samt ekki mikið við notkun þeirra á þeim tíma. Þangað til að hljómsveitin Kraftwerk kom til sögu. Í Þýskalandi var bandið stofnað árið 1968 en þá gengust þeir undir nafninu Organisation, en svo breyttu nafninu yfir í Krafwerk á áttunda áratugnum. Þeir notuðust mikið við hljóðgervla og voru stór partur af mótun svuntupops. Hljóðgervlar urðu ódýrar og auðveldari í notkun. Svo við enda áttunda áratugarins voru svuntuþeyjarar orðnir eitt af aðal hljóðfærum tónlistargerðar hjá mörgum tónlistarmönnum. Sem gerði það að verkum að svuntupoppið, sem einblíndi aðalega á svuntuþeyjara, varð til. Það var orðið sérstaklega algengt í Englandi, en þar á meðal þekktra tónlistarmanna má nefna Gary Numan, Human League og Ultravox. Í upphafi sjöunda áratugarins var hljómsveitin Depeche Mode stofnuð. Lögin sem þeir spiluðu hafði öðruvísi þema en vanalegt var í svuntupoppi. Þeir voru ekki með niðurdrepandi texta um tómleika eins og í flestum Svuntupopp lögum. Heldur voru þeir um hamingju og ást, sem dæmi má taka lagið þeirra "I just can't get enaugh". En eftir að Vince Clarke hætti í hljómsveitini fóru textarnir þeirra að vera meira eins og hefðbundnir Svuntupopps textar. Tubeway Army og Gary Numan urðu eitt af brautriðjendum svuntupops þegar lög þeirra náðu á “the Brithish Singles Chart”, eftir það nutu fleiri tónlistarmenn sem notuðust við hljóðgervla mikla velgengni, eins og Soft Cell, Orchestral Manoeuvres in the Dark, Japan og Depeche Mode. Í Japan naut bandið Yellow Magic Orchestra miklar vinsældir og greiddi veginn fyrir öðrum svuntupopp hljómsveitum eins og P-Model, Plastics og Hikashu. Einnig þegar MTV tónlistar-sjónvarpsstöðin fór í loftið varð svuntupoppið vinsælla, þá urðu hljómsveitir eins og Duran Duran og Spandau Ballet mjög vinsælt í Bandaríkjunum. Um 1986 missti svuntupoppið vinsældir sínar, en hljóðgervlar urðu samt sem áður vinsælir í popp-tónlist og alls kyns raftónlist þó svo að svuntupoppið hafi dáið út. Vinsældir. Svuntupoppið varð fyrst vinsælt í Japan og Englandi. Hljómsveitin Yellow Magic Orchestra var mikill brautriðjandi svuntupops í Japan og þar á meðal stór þáttur í mótun þess í Englandi. Hún spilaði ekki lög í þeim þema sem varð vinsælastur með svuntupoppi seinna. Þeir spiluðu mjög hressilega tónlist sem lagði mikla áherslu á melódíu. Um 1979 fór hljómsveitin Sparks af stað og gerðu garðinn frægan með svuntupopps-plötunni sinni “No. 1 In Heaven”. Á sama tíma fóru aðrar svuntupopp hljómsveitir að komast í sviðsljósið eins og Hikashu og P-Model. Svuntupopp byrjaði svo að myndast í Englandi. Þar byrjuðu hljómsveitir eins og The Human League að spila svuntupopp. Á þessum tíma vakti svuntupoppið eitthverja athygli meðal fólks en var samt ekki mikið auglýst og því ekki orðið svo vinsælt. Breska punk hljómsveitin Tubeway Army umbreyttist svo í synthpop hljómsveit. En þá hafði hljómsveitin verið að taka upp í hljóðveri þegar Gary Numan fór að prófa sig áfram með hljóðgervil sem eitthver annar hafði skilið eftir. Sem gerði það að verkum að platan þeirra fór út í að verða Nýbylgju raftónlist. Lagið “Are Friends Electric” varð mjög vinsælt og náði á topplista í Bretlandi árið 1979. En eftir þetta ákvað Numan að hætta í hljómsveitinni og hefja sólóferil sinn sem gekk heldur vel. Þegar vinsældir svuntupoppsins fóru að deyja út í enda áratugarins. Þá var synthpoppið farin að þróast út í að vera meiri danstónlist. Það komust þó eitthver lög á topplista danstónlistar í t.d. Bandaríkjunum, þar á meðal lög eftir Pet Shop Boys og The Commands. En tónlistastefnan varð samt sí óvinsælli í enda áratugarins. En samt sem áður hafði hún áhrif á mótun annara tónlistarstefna og á notkun hljóðgervla í tónlist.. Samstaða (pólskt verkalýðsfélag). Samstaða (pólska: "Solidarność") er pólskt samband verkalýðsfélaga stofnað í september 1980 í Lenín-skipasmíðastöðinni. Þetta var fyrsta verkalýðsfélagið í kommúnistaríki sem ekki var kommúnískt. Fyrsti leiðtogi samstöðu var Lech Wałęsa. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að brjóta samtökin á bak aftur, meðal annars með því að setja herlög í Póllandi 1981 hóf kommúnistastjórnin hringborðsviðræður við félagið sem leiddu til hálffrjálsra kosninga 1989, myndun samsteypustjórnar og kjörs Lech Wałęsa sem forseta sama ár. Nú til dags er Samstaða hefðbundið verkalýðssamband og hefur ekki mikil áhrif á pólsk stjórnmál. Stjórnmálaarmur samtakanna vann stóran kosningasigur í þingkosningunum 1997 en tapaði líka stórt í þingkosningunum 2001. Lokomotiv Moskva. Lokomotiv Moskva er knattspyrnufélag frá Moskvu. Félagið var stofnað árið 1923. Lokomotiv hefur tvívegis unnið rússnesku úrvaldeildina, árin 2002 og 2004. Listi yfir íslensk íþróttalið. Þetta er listi yfir íslensk íþróttalið. Sherlock Holmes. Sherlock Holmes er sögupersóna í bókum skoska rithöfundarins Arthur Conan Doyle (1859 – 1930). Sögurnar um Sherlock Holmes eru nákvæmlega 56 en fjórar stórar skáldsögur fjalla eingöngu um ævintýri Holmes. Fönk. Fönk er tónlistarstefna sem varð til um miðjan sjöunda áratuginn og er nokkurs konar blanda af djassi, blúsi, gospel og sálartónlist. Eins og svo margar aðrar tónlistarstefnur sem eiga uppruna sinn að rekja frá Afríku hefur fönkið margslungna grúva með ryþmískum hljóðfærum eins og rafmagnsgítörum, rafmagnsbassöm, rafmagnsorgelum og trommum sem slá taktfastan ryþma. Einkenni. Fönk einkennist gjarnan af bítum og „keyrandi“ bassalínum en nokkrar fönksveitir notuðu líka blásturshljóðfæri í lögunum sínum eins og saxófón, trompet og jafnvel trombónu. Áhrifin sem fönkið hafði á tónlistarheiminn var gífurlegt því undir lok áttunda áratugarins var það búið að teygja arma sína yfir í nánast allar tónlistarstefnurnar. Fönk í bland við rokk, djass, sálartónlist og motown gaf af sér tónlistarstefnur á borð við framsækið rokk, djassfönk, bræðing, sýrudjass og síðast en ekki síst diskó. Þegar horft er til baka yfir sjöunda áratuginn er einn tónlistarmaður sem stendur hvað mest upp úr varðandi tilkomu fönksins en það var James Brown. James Brown. Þann 3. maí 1933 í Barnwell í Suður-Karólínu fæddist James Joe Brown sem seinna átti eftir að verða þekktur sem „guðfaðir sálartónlistarinnar“. Hann ólst upp í gífurlegri fátækt og bjó í kofa með fjölskyldu sinni þar sem þau höfðu hvorki rafmagn né pípulagnir. Þegar foreldrar hans skildu hélt hann áfram að búa hjá pabba sínum, Joe Garner Brown, en þá var James aðeins fjögurra ára gamall. Fjölskyldan flutti til Augusta, Gorgia, þar sem pabbi hans skildi hann eftir í umsjá frænku sinnar. Hún sá fyrir sér með því að reka hóruhús. James óx úr grasi og hafði efni á fötum og leigu með því að pússa skó hjá vegfarendum. Tónlistarhæfileikar James áttu þó eftir að koma honum á kortið. Hann kenndi sjálfum sér að spila á harmonikku sem pabbi hans hafði gefið honum og söng gospel söngva með vinum sínum. Seinna lærði hann á gítar, píanó og trommur og þegar hann var aðeins ellefu ára vann hann „amateur-night“ keppni hjá Lennox leikhúsinu þar sem hann söng lagið „So Long“. Árið 1963 komst lagið "Prisoner of Love" á vinsældarlista en þetta var fyrsta lag James Brown sem náði þessum árángri. Um miðjan 7.áratuginn var James byrjaður að "pródúsera" sín eigin lög og í febrúar árið 1965 ákvað James að breyta aðeins til. Hann breytti áherslum á slögunum úr "uppbíti" yfir í "downbít" í laginu "Papa's Got a Brand New Bag" en það lag vann Grammy verðlaunin sem besta rythma og blús lagið. Þetta var bara byrjunin á ferli James því í gegnum 7.áratuginn átti hann eftir að slá í gegn með lögunum sínum. Hann hélt áfram að þróa fönk stílinn sinn og með lögunum "Cold Sweat" (1967), "Mother Popcorn" (1969) og "Get Up (I Feel Like Being A) Sex Machine" (1970) átti hann eftir að hafa gríðarleg áhrif á fönk tónlistarstefnuna. Þróunin. Margar fönksveitir fóru að taka upp söngstíl James Brown sem einkenndist af öskrum, búkhljóðum og kynþokkafullum orðum. Röddin spilaði nú miklu stærra hlutverk inn í tónlistina en áður þar sem hún var núna ekki aðeins notuð til að koma texta til skila heldur var hún orðin nokkurskonar hljóðfæri. Hljómsveitin Dyke & the Blazers gaf út "Funky Broadway" árið 1967 sem var hugsanlega fyrsta platan til þess að nota orðið fönk í titlinum. Á sama tíma var Charles Wright & the Watts að gefa út sína fyrstu fönk plötu og slóu síðar í gegn með laginu "Express Yourself" árið 1971. http://www.dustygroove.com/images/products/d/dyketheblaz_funkybroa_101b.jpg Rick James. Árið 1978 blandaði Rick James saman fönki og diskó og gaf út plötuna Come Get It! sem var dansvænari en önnur fönk tónlist. Platan átti að höfða betur til dansmenningarinnar en fönk tónlist hafði aldrei verið neitt sérstaklega vinsæl á diskótekunum þar sem hún þótti ekki nógu dansvæn. Með tilkomu þessarar plötu varð fönk vinsælara á næturklúbbum. Rick hélt áfram að njóta mikilla vinsælda og árið 1981 sló partý lagið Give It To Me Baby vægast sagt í gegn og náði fyrsta sæti á mörgum helstu diskó vinsældarlistunum. Það voru þó fleiri hljómsveitir sem hjálpuðu til við að auka vinsældir fönksins á dansgólfinu þ.á.m. hljómsveitirnar The Cap Band og Cameo. Cameo blandaði saman kynþokka og blús með lögum eins og “Strange” og “Word Up!”. Níundi áratugurinn – Prince & Nýja Fönkið. Það er auðveldlega hægt að sjá og heyra hvernig fönkið hafði áhrif á komandi tónlistarmenn. Lagið “Billie Jean” eftir Michael Jackson sem hefur bæði þung og taktföst slög er gott dæmi um þessi áhrif. Einnig var Prince undir miklum áhrifum en hann gaf út sína fyrstu plötu 1978 sem hét “For You”. Á þessari plötu sameinaði Prince marga mismunandi tónlistarstíla en platan var samt dansvæn, funky og síðast en ekki síst kynþokkafull. Á seinni plötunni, sem hét einfaldlega “Prince”, tókst honum að viðhalda þessum fönkaða og kynþokkafulla stíl þrátt fyrir að syngja ekkert um eiturlyf eða svokallað “sexploitation”. Hann hneykslaði hinsvegar almenning með plötuumslaginu sjálfu en á því situr hann nakinn á hvítum hesti. Platan hans “Dirty Mind” sem kom út árið 1980 var sögð ein áhrifamesta plata síðustu 50 ára bæði af SPIN og Rolling Stone magazine. Prince náði að blanda saman ótal mismunandi tónlistarstefnum og láta þá virka. Þessi einstaki stíll hans varð til þess að ný tónlistarstefna kom á sjónarsviðið en það var Nýja Fönkið. Pólitískur boðskapur deyr út. Það var orðið sjaldgæft að heyra pólitískan boðskap í lögunum sem voru í útvarpsspilun á þessum tíma. Barátta fyrrum sálar, fönk og R&B tónlistarmanna frá 7. og 8. áratugnum var að deyja út. Diskófönk sveitir sem höfðu verið vinsælar í byrjun 8.áratugarins byrjuðu að fjara út og þrátt fyrir vaxandi vinsældum Hipp-Hoppsins þá var boðskapurinn í lögunum ekki sá sami. Textarnir fjölluðu ekki lengur um ástæðu til þess að lifa, trúa og dansa. James Brown og margir fleiri héldu þó áfram að gefa út slík lög en fengi ekki mikla athygli fjölmiðla. Emmsjé Gauti. Emmsjé Gauti (f. 1989), réttu nafni Gauti Þeyr Másson er íslenskur rappari. Hann gaf út sitt fyrsta lag árið 2002 fyrir rímnaflæði. Hann hefur verið meðlimur í rapphópunum 32c og Skábræður auk þess að hafa unnið með mörgum þekktum íslenskum tónlistarmönnum, en þar má telja Erp Eyvindarson, Dabba T, Gnúsa Yones, IntroBeats, Didda Fel, Jóa Dag, Úlfi Úlfi, Friðriki Dór, Berndsen og 7berg. Árið 2011 gaf hann út sína fyrstu breiðskífu sem ber heitið "Bara ég". Zenit Sankti Pétursborg. Zenit er knattspyrnulið í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Liðið var stofnað 1925 og leikur í efstu deild í Rússlandi. Félagið vann Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu 2008. Liðið á titil að verja í Rússnesku úrvalsdeildinni. Eigandi félagsins er Olíufyrirtækið Gazprom. Jean Giraud. Jean Henri Gaston Giraud (8. maí 1938 – 10. mars 2012), einnig þekktur undir höfundarnöfnunum Mœbius og Gir, var franskur myndasöguhöfudur. Hann varð fyrst þekktur fyrir myndasögurnar um "Blástakk" ("Blueberry") sem hann samdi ásamt belgíska rithöfundinum Jean-Michel Charlier. Eftir tíu ára útgáfuhlé náði hann aftur vinsældum fyrir vísindaskáldsögur undir nafninu Mœbius í stíl sem var talsvert ólíkur fyrri verkum hans. Hann samdi þá meðal annars "Arzach" og "L'Incal" í samstarfi við Alejandro Jodorowsky. Dynamo Moskva. Dynamo Moskva er knattspyrnulið og Íshokkífélag frá moskvu, Rússlandi. Liðið var stofnað 1923 og leikur í efstu deild í Rússlandi, félagið komst í úrslit Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu 1972 enn tapaði þá fyrir Glasgow Rangers 2-3. Dynamo Moskvu hefur ekki tekist að vinna rússnesku deildina,enn þeir voru aftur á móti sigursælasta félag Sovétríkjanna í knattspyrnu. Í dag er liðið fremur þekkt sem Íshokkí félag hefur liðið fjórum sinnum unnið Sovésku deildina og fjórum sinnum Rússnesku deildina, síðast árið 2005. CSKA Moskva. CSKA Moskva er knattspyrnulið frá Moskvu í Rússlandi. Knattspyrnufélagið Framherjar-Smástund. KFS "(Knattspyrnufélagið Framherjar - Smástund)" var stofnað 7. september 1997 þegar Íþróttafélagið Framherjar og Knattspyrnufélagið Smástund voru sameinuð. Bæði félögin eru enn til og spila þau sem slík í Íslandsmóti innanhúsknattspyrnu og auk þess eru leikmenn KFS skráðir í annað hvort félagið. Rætur liðanna beggja má rekja allt aftur til ársins 1990. Liðin tvö voru stofnuð veturinn 1990. Framherjar var stofnað undir nafninu Amor og keppti undir því nafni til ársins 1993 þegar þurfti að breyta nafninu til að fá inngöngu í ÍSÍ. Liðin kepptu fyrst árið 1991 í utandeildarkeppninni. Árið 1994 tóku þau svo þátt í 4. deild. Þegar tímabilið 1997-1998 hófst hafði öllum deildunum verið breytt þannig að þær færðust upp um einn tölustaf "(fjórða deild varð að þriðju deild)". Þetta tímabil var líka sérstakt því það var í fyrsta sinn sem Framherjar og Smástund spiluðu í sama riðli. ÍBV og KFS hafa alltaf verið í miklu samstarfi og árið 2001 voru gerðir svokallaðir venslasamningar sem gerði þeim kleift að lána leikmenn á milli félaga. Árið 2002 var gullár í sögu KFS og forvera þess. Félagið vann 3. deild eftir einn mest spennandi úrslitaleik síðari ára gegn Fjölni. Næsta ár féll það þó aftur niður í þriðju deild. Árið 2012 var ákveðið að skipta skyldi 3. deild upp í 3. deild og 4. deild og myndu aðeins tíu efstu liðin það tímabilið verða áfram í deildinni. Önnur lið myndu fara niður í hina nýju 4. deild. Það kom í hlutkesti KFS að taka sæti í 4. deild og hefur spilað þar síðan. Í dag á KFS aðild að ÍBV hérðassambandi. Tennis- og badmintonfélag Vestmannaeyja. Merki Tennis- og badmintonfélags Vestmannaeyja Tennis- og badmintonfélag Vestmannaeyja var stofnað 14. september 1958. Framsækið rokk. Framsækið rokk (e. "progressive rock" eða í stuttu máli "prog rock") er undirflokkur rokks sem blandar klassíkri tónlist og djassi við rokk. Það kom fram á Englandi á seinustu árum sjöunda áratugarins og blómstraði á miðum áttunda áratugarins. Framsæknir rokkarar voru mjög tilraunagjarnir og reyndu að slíta sig frá hinu hefðbundna rokki með mikilli hljóðfæranotkun, óreglulegum takti og óvenjulegu formi á lögum. Helstu hljómsveitir framsækins rokks voru King Crimson, Genesis, Emerson, Lake and Palmer, Jethro Tull, Yes og Pink Floyd. Uppruni. Á sjöunda áratugnum varð til menningarkimi í London. Þeir sem mynduðu menningarkimann voru hvítir unglingar af millistétt sem neituðu lífsviðhorfum foreldra sinna ogurðu seinna þekktir sem hippar. Hipparnir skilgreindu sig með einkennandi klæðaburði en þó fyrst og fremst með tónlistarsmekk sínum. Hipparnir hlustuðu á sýrurokk sem kom fram á seinustu árum sjöunda áratugsins en hippunum fannst tónlistin vera hálfgerð opinberun. Þegar sýrurokkið kom fram þá gátu plötufyrirtækin ekki vitað hvað myndi seljast best og þurftu því að gefa út margar plötur hjá mismunandi hljómsveitum og sjá hvað myndi seljast. Vegna þess að plötuútgefundur vissu ekki hvað kaupendur vildu gáfu þeir tónlistarmönnunum einnig aukið rými fyrir tilraunir og listræna stjórnun á plötum sínum. Þetta var nauðsynlegt til þess að framsækið rokk gæti þróast. Á sama tíma og plötuútgefendur gáfu tónlsitarmönnum lausan tauminn urðu til neðanjaraðar útvarpsstöðvar sem spiluðu sýrurokk. Þessar útvarpsstöðvar studdu sýrurokkið í það að verða ákveðin tónlistarstöð og spiluðu svo líka framsækið rokk þegar það kom fram. Í júni árið 1967 kom Bítlaplatan "Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club" út. Sú plata er stundum talin fyrsta framsækna rokk platan en hvort sem hún var það eða ekki var henni tekið fagnandi. Ungt fólk um allan heim tók plötunni opnum örmum og fagnaði því að út hefði komið plata sem væri svo tilraunarkennd og ólík öllu öðru sem þau hefðu heyrt. Sgt Pepper's hafði mikil áhrif og margar sýrurokks hljómsveitir tóku eftir klassískum áhrifum plötunnar og hófu að nota hana í tónlist sína, til dæmis Procol Harum, The Moody Blues, The Nice og Pink Floyd. Á sínum tíma fannst fólk að þessar hljómsveitir væru sýrurokkshljómsveitir en þeir voru í raun partur af fyrstu bylgju framsækna rokksins. Þessar hljómsveitir höfðu allar viss einkenni framsækna rokksins en engin þeirra hafði öll einkenni framsækna rokksins. Þessar hljómsveitir byrjuðu ferla sína á því að spila á litlum stöðum þar sem lítið bil var á milli áhorfenda og flytjenda. Pink Floyd er eina hljómsveitin af þeim sem nefnd eru hér að ofan sem þróaðist og varð þáttur af annarri bylgju framsækna rokksins líka. Gullöldin 1971–1976. Á árunum 1968–1970 komu út fyrstu plötur frægustu framsæknu rokkara í Englandi. Til dæmis "This Was" eftir Jethro Tull árið 1968. "In the Court of the Crimson King" eftir King Crimson, "Yes" eftir Yes og "From Genesis to Revelation" eftir Genesis komu út árið 1969 og Emerson, Lake & Palmer gáfu út samnefnda plötu árið 1970. "In the Court of the Crimson King" er oft talin fyrsta plata framsækins rokk. Hún innihélt öll helstu atriði framsækinnar tónlistar og plötuumslagið var einnig mjög súrrealískt. Hljómsveitirnar sem nefndar voru hér að ofan voru hluti annarar bylgju framsækna rokksins. Þær voru með enn minni áherslu á hefðbundin form á lögunum en hljómsveitir fyrstu bylgjunnar. Þær tóku meiri áhrif frá djassinu sem leiddi til þess að takturinn var flóknari og minna fyrirsjáanlegur og plötur þeirra voru stórvirki. Þær héldu áfram að gefa út stórbrotnar og tilraunakenndar plötur fram eftir áttunda áratugnum og vinsældir framsækinna rokkara náðu hátindi sínum á honum miðjum. 1976–1982. Pönkið varð til um miðjan áttunda áratuginn og átti það mikinn þátt í því að vinsældir framsækna rokksins dvínuðu. Það var nýtt og spennandi á meðan framsækna rokkið staðnaði og sölur á plötum framsækinna rokkara dvínaði.Pönkarar fyrirlitu langflestir framsækna rokkið vegna þess hvað þeir hófu sjálfa sig yfir aðra með textum úr bókmenntaheiminum og lærðum bakgrunn sínum. Þó voru framsæknir rokkarar innblástur sumra pönkara. Van Der Graaf Generator voru til dæmis einn aðaláhrifavaldur John Lydon sem var þó mikill pönkari. Á sama tíma og pönkið naut tíma síns þá skiptist framsækna rokkið niður í marga undirflokka sem voru meira meginstraums, mun einfaldari og þar af leiðir söluvænlegri. Þannig dvínaði framúrsæknin og tilraunamennskan enn meira og framsækna rokkið var við dauðabeðið. Níundi áratugurinn. Á níunda áratugnum fóru plötuútgefendur að skipta sér meira af hljómsveitum. Þeir leyfðu ekki jafn mikla tilraunastarfsemi og áður og vildu smekkleg plötuumslög. Framsæknir rokkarar gerðu ekkert framsækið lengur og voru meira fylgjendur en frumkvöðlar á þessum árum. Þeir hermdu mikið eftir nýbylgjustefnunni sem kom fram þegar diskóið og pönkið missti gífurlegar vinsældir sínar og sameinaði þær í eina stefnu. Miklar tækninýjungar voru á þessum árum sem gerðu hljóðfæraleikara nánast ónauðsynlega. Þegar framsæknu rokkararnir reyndu að fylgja eftir nýbylgjunni tóku þeir út mörg hljóðfæri sem hafði einkennt framsækna rokkið og hættu einnig að nota órafmögnuð hljóðfæri. Súrrealismi hvarf úr textunum og plötuumslögunum og þeir slepptu löngum sólóum og nálguðust hefðbundið lagaform aftur. Nýframsækið rokk kom fram uppúr 1980. Það er einfaldara en framsækið rokk með miklum áherslum á trommu. Nýframsækið rokk var undanfari framsækis þungarokks. Saga var fyrsta hljómveitin til þess að spila nýframskæið rokk en frægari og týpískari nýframsæknar rokkhljómsveitir eru Marillion, IQ og Pendragon. Tíundi áratugurinn. Framsækið þungarokk þróaðist þegar Images and Words, plata Dream Theater kom út 1992. Hljómsveitir á þessum tíma litu þó einnig til gullaldar framsækna rokksins og spiluðu sumar undirtegundir framsækna rokksins þá áttunda áratugnum.. Á tíunda áratugnum urðu hljómsveitir eins og Muse og Air mjög vinsælar og þegar þeir sögðu í viðtölum að þeir væru undir áhrifum frá hljómsveitum eins og Yes þá fóru aðdáendur þeirra að hlusta á gamla framsækna rokkið. Þessir aðdáendur hófu svo að fara á tónleika hjá þeim hljómsveitum sem enn voru starfandi og það vakti framsækna rokkið aftur til lífsins. Einkenni. Framsæknir rokkarar brutu upp venjulega byggingu rokklagsins sem var vers, viðlag og brú. Þetta gerðu rokkararnir með margvíslegum aðferðum, þeir bættu til dæmis við milliköflum eða löngum hljóðfæraköflum sem voru blanda af sólóhefð rokksins og spunahefð djassins. Þessir aukakaflar gerðu það að verkum að lög framsækna rokksins urðu mun lengri en hið hefðbundna rokklag, stundum eru þau jafnvel lengur en 20 mínótur. Framsæknir rokkarar bættu einnig við hljóðfærum í hljómsveitir sínar, þar sem áhrifavaldar þeirra voru klassíska tónlistin og djassinn þá tóku þeir hljóðfæri sem hæfðu því. Þetta voru til dæmis flautur, fiðlur, saxófónar og elektrónísk hljóðfæri. Einfaldur 4/4 taktur þótti úreltur og óspennandi og framsæknir rokkarar tóku flókin og óreglulegan takt fram yfir þann einfalda. Það voru ekki heldur stuttar, auðlærðar og áheyranlegar línur í lögum framsækinna rokkara, enda litu þeir á sjálfa sig sem gáfumenni sem voru hafðir yfir einfaldleikann. Leikrænir tilburðir voru líka algengir og ákveðin hljóðfæri voru stundum látin tákna eitthvað ákveðið. Ýkt dæmi um þetta eru til dæmis klukkurnar í byrjuninni á laginu Time á Dark Side of The Moon sem tákna tímann. Textarnir eru oftast annaðhvort súrrealískir eða miklir ádeilutextar. Rokkararnir forðuðust texta með þemu eins og ástina, dans eða drykkju eins og margir í tónlistargeiranum voru að semja um þá og enn nú í dag. Framsæknu rokkararnir leituðu fremur af þemum úr bókmenntum eða þjóðsögum. Plötuumslög höfðu verið byrjuð að breytast á tímum sýrupoppsins en framsæknu rokkararnir fóru enn lengra með listina framaná diskum sínum. Þeir horfðu til súrrealískra verka Salvadors Dalí til innblásturs, til að undirstrika enn frekar hversu gáfulegir og lærðir þeir voru. France Prešeren. Brjóstmynd af France Prešeren í fæðingarbæ hans Vrba France Prešeren (3. desember 1800 – 8. febrúar 1849) var ljóðskáld sem orti á slóvensku. Hann er þjóðskáld Slóvena og hefur þar sömu stöðu og Jónas Hallgrímsson á Íslandi. Prešeren var lögfræðingur að mennt. Hann orti sonnettur að ítölskum hætti. Árið 1834 orti hann sonnettusveiginn Sonetni Vene, söguljóð þar sem hann tvinnar saman einkalíf sitt og ógæfu í ástum við örlög og niðurlægingju föðurlandsins. Í sjöundu sonnettu þess sveigs setur hann fram spádóm um eigin frægð og vísar til goðsagnarinnar um Orfeus, hann fær himnana til að senda nýja Orfeus til Slóvena, sem muni með svo fögrum skáldskap blása þjóðarstolti í íbúa landsins og fá þá til að leggja niður deilur og sameina Slóvena í eina þjóð. Í áttundu sonnettunni afhjúpar hann hvers vegna svona Orfeusartáknmynd fyrir hámenningu almennt og skáldskap sérstaklega hefur ekki ennþá komið fram meðal Slóvena. Hann fer yfir sögu Slóvena, samfellda sögu innrása og sögu innbyrðis deilna og sú saga sé ekki hetjufrásagnir sem ljóðlist geti blómstrað af. Þau fáu blóm skáldskapar sem nái að dafna vaxi á hinum slóvenska Parnassus nærist á tárum og andvörpum. Uppruni og menntun. France Prešeren er fæddur í smábænum Vrba í Karníólu. Hann var þriðji í röð átta systkina, faðir hans var bóndi og gat, með fjárstuðningi ættingja, kostað drenginn til náms. Tólf ára að aldri innritaðist hann í skóla í fylkishöfuðborginni Ljúblíana og árið 1821 lá leiðin áfram til Vínar. Prešeren lærði lögfræði og sneri aftur til Ljúblíana að prófi loknu sjö árum síðar. Honum gekk hins vegar brösulega að koma undir sig fótunum sem lögfræðingur og vann lengst af sem aðstoðarmaður annarra lögfræðinga. Árið 1846 fékk hann leyfi til að opna sína eigin stofu í bænum Kranj sem er miðja vegu milli Ljúblíana og Vrba. Prešeren fór að fást við skáldskap á námsárum sínum í Ljúblíana en mestan hluta æskuljóða sinna brenndi hann eftir að hafa borið þau undir virtan slóvenskan málfræðing og textafræðing, Jernej Kopitar, sem jafnframt vann við ritskoðun í Vín. Seinna áttu þeir Prešeren eftir að elda grátt silfur saman í harðvítugum deilum um æskilegan rithátt slóvenskrar tungu en þar bar Kopitar lægri hlut. Ljóðagerð. Fyrsta kvæði skáldsins kom fyrir almenningssjónir 1827, bæði á slóvensku og þýsku. Á næstu árum birti hann fjölda ljóða eftir sig í tímaritum, meðal annars í ljóðaárbókinni Karníólsku býflugunni (Krajnska čbelica) sem Prešeren stóð að útgáfu á ásamt fleiri höfundum. Fyrstu þrjú heftin komu út á árunum 1830 til 1832 en útgáfa fjórða og fimmta heftisins frestaðist fram til áranna 1834 og 1848, meðal annars vegna ritskoðunar og var Kopitar talinn hafa átt þar hlut að máli. Meðal mikilvægustu vina Prešerens á þessum tíma var málfræðingurinn og bókmenntafræðingurinn Matija Čop, sem lést reyndar fyrir aldur fram árið 1835. Hann hvatti Prešeren til að glíma við sonnettuformið og fleiri sígilda bragarhætti. Á þessum tíma voru uppi efasemdir um að slóvenska væri nógu þroskað tungumál fyrir svo háþróaðan skáldskap en Prešeren afsannaði það, ekki síst með rómuðum „Sonnettusveig“ („Sonetni venec“) sínum. Fyrsta bók hans, sem hafði að geyma söguljóðið Skírnin í Savíku (Krst pri Savici), kom út árið 1836 og áratug síðar var prentað fyrsta safnið með ljóðum hans. Þá var Prešeren hins vegar hættur að yrkja vegna þunglyndis og óreglu en hann lést í fátækt 8. febrúar 1849 og var banameinið talið vera skorpulifur. Enda þótt útförin færi fram með virðulegum hætti í Kranj benti fátt til þess að nafn skáldsins myndi lifa áfram. Þjóðskáld og þjóðardýrlingur. Á síðari hluta átjándu aldar var það svæði sem nú er Slóvenía undir yfirráðum Austurríkis en Napóleon réði yfir svæðinu frá 1809 til 1813 og er það tímabil sem á eftir fylgdi gjarnan kennt við rómantíska þjóðernishyggju en hún náði hámarki byltingarárið 1848. Veruleg ólga var í samfélaginu og í kjölfarið var bændaánauð og ritskoðun aflétt, farið var að birta lög ríkisins á slóvensku og slóvensku héröðin fengu eigin fána. Á þessum tíma voru einnig settar fram kröfur um að slóvenska yrði gerð að opinberu tungumáli og að komið yrði á fót háskóla í Ljúblíana. Síðast en ekki síst voru mótaðar hugmyndir um sameiginlega sjálfstjórn slóvensku héraðanna innan austurríska keisaradæmisins. Prešeren var af ýmsum ástæðum kjörinn táknmynd þessarar menningarpólitísku baráttu. Í kvæðum sínum hafði hann lagt áherslu á lykilhlutverk skálda og skáldskapar við að vekja upp þjóðarandann og skapað Slóvenum goðsögulega fortíð með lýsingum sínum á hinu forna veldi Karantaníumanna, ekki síst í Skírninni í Savíku og „Sonnettusveig“. Það fór líka svo að skrif frjálslyndra menntamanna – „Ungra Slóvena“ eins og þeir voru nefndir – um skáldskap Prešerens og ný útgáfa á ljóðum hans árið 1866 tryggðu honum smám saman stöðu þjóðskáldsins. Árið 1905 var líkneski af Prešeren afhjúpað í miðborg Ljúblíana. Fyrir aftan Prešeren á stöplinum er fáklædd skáldagyðja sem heldur lárviðarlaufi fyrir ofan höfuð hans. En afhjúpun styttunnar var jafnframt fyrsti stóri áfanginn í helgifestu Prešerens sem þjóðardýrlings; til marks um „það hjónaband bókmennta og þjóðernispólitíkur sem setti varanlegt mark sitt á síðari hluta 19. aldarinnar“." Heimild. Prešeren. France Sýrudjass. Sýrudjass (e. "acid jazz") er tónlistarstefna sem er upprunin frá Bretlandi og er hægt að hrekja hana til ársins 1987. Nafnið „acid jazz“ eða sýrudjass, var fundið upp fyrst af plötusnúðinum Gilles Peterson sem vann þá á stöðinni KISS FM. Stefnan er sögð vera sú fyrsta sem hefur verið nefnd af plötusnúði (en ekki gagnrýnenda eða tónlistarmanni). Stefnan sjálf var svar við danstónlistinni „sýruhústónlist“ sem var vinsælust meðal plötusnúða í Bretlandi áður en sýrudjass tók yfir. Gilles lýsir stefnunni í viðtali árið 1988 á eftirfarandi hátt: „Djassvettvangurinn er sterkur núna, en okkur fannst við þurfa að magna hann smá til að halda honum gangandi. Með því að kalla stefnuna sýrudjass, mun fólk segja „þetta hlýtur að vera áhugavert“ og dansa síðan við hana. Þannig að slóttulega ertu að kynna nýtt form af tónlist og nýtt form af djassi“ Gilles tilkynnti ári seinna, 1988 á KISS FM að hugtakið sýrudjass væri dautt. En var langt frá því að vera sannleikurinn. Stefnan er búin að fá nýtt heiti á sér í Bandaríkjunum og kalla hana Urban-Alternative. Samkvæmt söngvaranum, lagahöfundinum og útgefandanum Angel, sem hefur m.a. unnið með frægum sýru djass hljómsveitum í Bandaríkjunum eins og The Brand New Heavies og Soul Sonics, þá hefur nafninu verið breytt „til að gefa listamönnunum meira listrænt svigrúm“. Tegund. Sýrudjass er oft gagnrýnd fyrir að hafa ekki þróast frá hefðbundnum stofni djass. Hljómur sýrudjass er samrunin af áttunda áratugs fönki, sálartónlist, hip hopi, latin grúvi og djassi. Sterkir ryþmar og grípandi laglína eru helstu einkenni sýrudjass og aðal áherslan er sett á tónlistina sjálfa en minna á textann í lögunum (nema þegar það er rappað, þá skiptir textin máli). Hljóðfærin sem spilað eru á eru mismunandi eftir því hvernig hún er útfærð, hvort það sé plötusnúður eða hljómsveit að spila. Hljóðfærin sem notuð eru: hljóðgervill, flauta, trompet, básúna, klarinet, trommur, hammondorgel, saxófónn, kongatromma og önnur slagverk, rafmagnsgítar, rafbassi og önnur strengjahljóðfæri. Ef plötusnúður spilar þá notar hann snúningpall og sýnishorn. Misskiptar skoðanir eru á þessari tónlistarstefnu, Neil Conner, eigandi Record Runner í San Francisco að lýsir sýrudjass sem jákvæða breytingu frá hverstdagslegri tónlist. Hann segir: „Sýrudjass er nógu hrá til að laða að krakka sem eru mikið í hipp hoppi, þetta er fersk breyting fyrir alla og kennir krökkum tónlistasögu, hvort sem þau vita það eða ekki”. Hins vegar finnst tónlistarmanninum Ronny Jordan sýrudjass vera tískufyrirbrygði, en hann hefur fengið nafn sitt á Topp Jazz Album töfluna og er sagður þar vera frábær sýrudjassgítarleikari. Hann segir: „Hvernig ég sé sýrudjass, er að hún er meira tískuyfirlýsing (lýta út og klæðast á ákveðin hátt) og ég er ekki þannig. Eina sem ég hef sameiginlegt við sýrudjass er unnun mín gagnvart áttunda áratugs tónlist“. Síðan er síðast en ekki síst tónlistarmenn sem vita ekki einu sinni að það er að spila svo kallaðan sýrudjass, eins og Alan Barnes segir þegar hann var spurður um hvað sýrudjass væri „ég veit eiginlega ekki hvað það er, hvað er það? Hvað er sýru djass? Ég er víst í því en ég veit ekki hvað það er, ég virkilega veit það ekki.“ Plötufyrirtæki. Gilles Peterson og Eddie Piller stofnuðu plötufyrirtæki árið 1988, sem þeir nefndu eftir tónlistarstefnunni og heitir Acid Jazz Records. Upprunaleg áætlun þeirra var að gefa út meiri lifandi tónlist frekar en tækni tónlist. Stefnan þeirra var „Engin House tónlist“ og þeir tóku við sálar og fönk tónlistamönnum á sjöunda og áttunda áratugnum. Fyrsta lagið sem var gefið út af fyrirtækinu var „Fredrick Lies Still“ eftir Galliano og er tökulag af laginu „Freddie's Dead“ eftir Curtis Mayfield. Hljómsveitin Galliano lýsir sýrudjassi í viðtali árið 1988: „sýrudjass er bara orðatiltæki, það þýðir ekkert. Það lætur bara fleira ungt fólk hlusta á tónlistina“. Gilles hættir í Acid Jazz Records árið 1989 til að stofna annað fyrirtæki, sem hann nefndi Talkin' Loud. Nafnið á plötufyrirtækinu var nefnt eftir plötusnúðakvöldunum sem Gilles hélt og hétu „Talkin' Loud Nights“. Þessi kvöld voru fyrst haldin á skemmtistaðnum Fridge í London. Plötufyrirtækið Phonogram fjármögnuðu hann til að stofna fyrirtækið. Í fyrri hluta 1990 fékk plötufyrirtækið frægar sýrudjasshljómsveitir á plötusamning s.s. Jamiroquai og Brand New Heavies. Besta stund fyrirtækisins var þegar sama árið, öllu heldur 1994, gáfu þau út plötunrnar „The Plot Thickens“ eftir Galliano, sem var síðasta platan með honum sem fyrirtækið gaf út. „Apparently Nothing“, lag með The Young Disciples, þar sem Carleen Anderson fær mikla athygli fyrir einstaka söng sinn. Fyrirtækið gefur út líka lagið „There's Nothing Like This“ með Omar og gáfu út fyrsta diskin með Urban Species sem varð víða vinsæll. Tónlistarmenn. Úrval af sýrudjasstónlistamönnum birtast á seinni hluta níunda aldarinnar og í upphafi tíundu aldar. Til að mynda þá eru hljómsveitir eins og Stereo MC's, James Taylor Quartet, Groove Collective, Galliano, Palm Skin Productions, Mondo Grosso, Outside og United Future Organization. Stíll sýrudjass er mjög víður, frá rafrænum diskó stíl með hljómsveitir eins og Jamiroquai og Brand New Heavies til fönk-rokk stíl, bönd eins og Mother Earth og Mendez Report. Margir fengu innblástur sinn frá gömlum fönk og jazz tónlistarmönnum, með því að taka sýnishorn frá þeim og endurtaka hljóðin þeirra með þá nýlegri tækni. Þessi tækni var notuð oft hjá hip hop tónlistamönnum, s.s. Sugar Hill Gang og Digital Underground. Frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum hefur sýrudjass verið viðurkennd stefna síðan 1991. Í bandaríska tónlistartímaritinu "Billboard", 30. apríl 1994 kemur fram að núna fyrst er sýrudjass að láta taka eftir sér í Bandaríkjunum, þremur árum eftir að dansbyltingin tók yfir. „Gamlar“ hljómsveitir eins og Brand New Heavies og US3 eru komnir langt frá því að spila á klúbbum og eru farin að fá athygli frá stóru fyrirtækjunum. Það er hægt að heyra í þeim í útvörpum og hægt að kaupa á geisladiska frá þeim. Síðan eru nýlegri tónlistarmenn eins og Carleen Anderson og Angel sem eru að fá mikla athygli í Bandaríkjunum. Aðal ástæðan fyrir því að sýru djass er byrjaður að fá athygli frá bandarískum almenning er gullselda lagið „Cantaloop (Flip Fantasia)“ eftir hljómsveitina US3 og plötuútgefendurnar Capitol og lagið „Dream on Dreamer“ eftir hljómsveitina Brand New Heavies og plötuútgefendur East West sem seldu 16 þúsund eintök í Bandaríkjunum. Hljómsveitin Soulsonics voru fyrstu ameríkanarnir til að spila sýrudjass eða „Urban-Alternative“ sem Bandaríkjamenn vilja kalla stefnuna. Hljómsveitin var stofnuð af Willie McNeil trommara og Jez Colin bassaleikara. Jez fékk innblástur sinn í Dingwalls næturklúbbi í London, þar sem spiluð var sýrudjass af Talkin' Loud hreyfingunni. Hljómsveitin segist ekki vera bein afritun af breskum hljómsveitum sem spila sýrudjass, heldur hafa þau meiri latínudjass í lögunum. Sem hefur alltaf verið vinsæll stíll í Kaliforníu. Fyrsta platan þeirra var "Jazz in the Present Tense" gefin út 1993. Plötusnúðar. Gilles Peterson, Simon Booth, Jez Nelson og Paul Bradshaw byrjuðu að spila þessa þá nýlegu tónlist til fólks á klúbbum. Þótt að sýru djass var yfirleitt spiluð órafmögnuð þá var það frekar algengt að plötusnúður rispaði plöturnar á sýningum. Gilles Peterson byrjaði feril sinn á því að spila jazz-funk í sínum eigin þætti á sjóræningjastöð. Hann fékk starfið með því að leyfa stöðinni að nota senditækið sitt. Hann tók upp þættina sína í garðskúrnum sínum. Austurstrandar Hip Hop. Austurstrandar hip hop er form af hip hop tónlist sem saman stendur af jamíkanískum dancehall og töktum frá R&B, diskó, funk ásamt sál og jazz.Austurstrandar hip hop er svæðisbundin stíll af hip hop tónlist sem varð í New York borg í Bandaríkjunum í kringum 1970. Hip hop er almennt talið hafa orðið til fyrst og þróast svo á Austurströnd Bandaríkjanna. Stíllinn á Austurströndinni varð varanlega svæðisbundinn í Bandaríkjunum þegar aðrir tónlistarmenn frá öðrum fylkjum fóru að koma fram með öðruvísi stíla af hip hopi. Það varð varanlega vinsælt í kringum 1980, og hélt vinsældum í gegnum 1990 og heldur þeim enn. Er að finna að mestu leyti í New York-borg - Philadelphiu - New Jersey - Boston - Baltimore - Washington, D.C. og Virginia Beach. Stíll Austurstrandar Hip hopsins. Austurstrandar hip hop er algjör andstæða við old school hip hop. Old school er með einfalt rím mynstur þá hefur austurstrandar hip hopið lagt mikla áherslu á mjög ljóðræna og mikla texta. Austurstrandar hip hopið hefur einnig haft það einkenni að vera með efnismikla texta, flókinn orðaforða, geta spunnið mikið og mikið af myndhverfingum. Þó að austurstrandar hip hopið hafi ekki hefðbundin stíl þá á það til að sökkva til þungra slaga. Þeir sem lögðu áherslu á þungu og miklu slögin voru til dæmis EPMD og Public enemy á meðan tónlistarmenn eins og EricB. & Rakim, Boogie down Productions, Big Daddy kane og Slick Rick voru þekktir fyrir ljóðræna kunnáttu. Ljóðræn þemu í gegnum sögu austurstrandar hip hop hafa verið á bilinu frá ljóðrænnar meðvitundar sem Public Enemy og A Tribe Called Quest svo voru sumir þekktir fyrir fyrir mafíu rapp, flytjendur sem voru með slíka texta voru tónlistarmenn eins og Reakwon og Kool G. Tilurð hip hops á austurströndinni. Austurstrandar hip hop er stundum kallað New York rapp vegna þess að það á rætur sínar og þróun að rekja til block partía sem haldin voru í New York í kringum 1970. Samkvæmt Allmusic „Í byrjun hip-hop tímabilsins var allt rapp austurstrandar rapp“. Tónlistarmenn í byrjun tímabilsins voru meðal annars DJ Kool Herc, Grandmaster Flash, Afrika Bambaataa, the Sugarhill Gang, Kurtis Blow, Jam Master Jay, og Run-D.M.C., voru brautryðjendur í austurstrandar hip hopi þegar hip hopið var að þróast. Þegar hip hopið fór að þróast þróuðust textarnir og ljóðrænu þemun einnig. Hópar tengdir við New York eins og De La Soul, A Tribe Called Quest, and the Jungle Brothers unnu sér einnig inn þekkingu fyrir fjölbreytileika í tónlistinni. Endurkoma Austurstrandarinnar (byrjun til loka 10. áratugarinns). Þótt Austurstrandar hip hop hafi verið allsráðandi í gegnum seinni hluta 9. áratugarins, þá komu N.W.A með lagið Straight outta compton sem að sýndi harðari hlið af Vesturstrandar hip hopi og fór að vekja athygli á því. Árið 1992 kynnti plata Dr. Dre, the Cronic vesturstrandar hip hop til almennra vinsælda. Ásamt þeirri hæfni að geta haldið áfram að vera partí tónlist, varð vesturstrandar hip hopið allsráðandi í byrjun 10. áratugarins. Þó að G-funk hafi verið vinsælasti stíllinn af hip hopi í byrjun 10. áratugarins var austurstrandar hip hopið enn þá óaðskiljanlegur hluti af tónlistar iðnaðinum. Nokkrir New York rapparar risu frá neðanjarðar senunni og byrjuðu að gefa út athyglisverðar plötur í byrjun og í miðjum 10. áratugnum. Frumraun Nas, platan Illmatic, hefur verið sem skapandi hápunktur af austurstrandar hip hop senunni og með framleiðslu frá frægum framleiðendum í New York eins og Large Professor, Pete Rock og DJ Premier. The Notorious B.I.G. varð átrúnaðargoð í austurstrandar hip hopi í gegnum mest allan 10. áratuginn. Velgengni hans á vinsældarlistum og vinsældaraukning hans fangaði meiri athygli til New York á tímum þegar Vesturstrandar hip hop var alls ráðandi. Samkvæmt ritstjóra "All music", Steve Huey, velgengni albúmsins hans Ready to die sem kom út árið 1994 „enduruppgvötaði Austurstrandar rapp fyrir sumar kynslóðir“ og „breytti the Notorious B.I.G. hip-hop átrúnaðargoð, fyrsta stórstjarnan sem kom frá austurströndinni eftir vinsældir g-funksins sem Dr.Dre gerði frægt á vesturströndinni“. Vinsældir hans hjálpuðu að ryðja veginn fyrir velgengi annarra austurstrandar rappara eins og Jay- Z og Nas. Austurstrandar - vesturstrandar hip hop ágreiningurinn. Austurstrandar – Vesturstrandar hip hop ágreiningurinn var deila í kringum 1990 milli tónlistarmanna og aðdáenda frá Austurströndinni og Vesturströndinni. Í brennidepli ágreiningsins voru Austurstrandarrapparinn The Notorious B.I.G og plötufyrirtæki hans bad boy records og Vesturstrandarrapparinn 2Pac og hans plötufyrirtæki death row records, sem báðir voru síðan myrtir. Bakgrunnur. Á 8. áratugnum varð hip hop til á götum New York borgar, sem varð svo áfram í fararbroddi tegundarinnar í gegnum 9. Áratuginn. Þegar það fór að nálgast 9. áratuginn byrjuðu sumir vesturstrandar tónlistar menn að fá athygli eins og Ice-T, MC Hammer og N.W.A. Upphaf ágreiningsins milli austur og vestur strandarinnar voru að öllum líkindum hafin árið 1991 þegar Austurstrandarrapparinn Tim Dog gaf út lagið „Fuck Compton“, vísvitandi diss lag sem var miðað á N.W.A ásamt öðrum compton tónlistarmönnum eins og DJ Quik. Í lok ársins 1992 var gefin út frumraun rapparans og pródúsentsnins Dr. Dre, The Cronic sem var fyrsta sólóplatan hans og var gefinn út af Death Row Records. Á nýju ári hafði platan orðið þreföld platínu plata. Í lok 1993 gáfu Death Row Records út Doggystyle, sem var frumraun rapparans Snoop Doog sem var frá Long Beach, sem varð einnig margföld platínu plata. Í byrjun 1994 hafði velgengi Death Row Records fengið mikla athygli og vakti mikla athygli á Los Angeles og Vesturstrandar hip hop senunni. Bad Boy á móti Death Row. Árið 1993 stofnaði Sean „Puff Daddy“ combs nýtt hip hop plötufyrirtæki í New York sem heitir Bad Boy records. Næsta ár var framraun fyrirtækisins gefinn út af rapparanum frá Brooklyn Christopher „The Notorious B.I.G.“ Wallace einnig kallaður „Biggie Smalls“ og rapparanum frá Long Island Craig Mack og fengu þeir strax mikla athygli, sem virtist blása nýju lífi í Austurstrandar hip hop senuna árið 1995. Fæddur í New York en tengdur við Vesturströndina rapparinn Tupack Shakur á meðan myndaði ágreining við Biggie, opinberlega að ásaka hann og Combs að hafa gert einhverjum auðvelt fyrir ræna hann og skjóta fimm sinum í anddyri á upptökustúdíói í New York 30. nóvember, 1994. Stuttu seinna eftir skotárásina á 2Pac kom út lag á B-hlið plötunnar frá Biggie sem heitir „Big Poppa“ sem heitir „Who shot Ya?“. Þó að Combs og Wallace þvertóku fyrir það að hafa átt einhvern hlut í skotárásinni og sagt að „Who Shot Ya?“ hafi verið tekið upp fyrir skotárásina leit 2Pac og stór hluti rapp samfélagsins á þetta sem leið B.I.G að ögra honum. Í ágúst 1995 gróf forstjóri Death Row Suge Knight á hlut BadBoy records og einnig á hlut Sean „Puff Daddy“ combs á Source Awards; sagði við samkomu fulla af tónlistarfólki og fólki sem tengdist iðnaðinum; „Einhver listamaður þarna úti sem langar til að vera listamður og stjarna og vill ekki hafa áhyggjur af því að framkvæmdarstjórinn sé að reyna að vera í öllum myndböndunum.. á öllum plötunum.. dansandi, komið til Death Row!“ Þessu var beint að tilhneigingu Comb að tala inná lög tónlistarmanna sinna og dansa í myndböndum þeirra. Samkoman var haldin í New York tóku margir orð Knight inn á sig og Austurstrandar hip hop senunnar og var því mikið búað á hann eftir að hann sagði þetta. Spennan magnaðist þegar Knight fór í veislu haldna fyrir pródúsentinn Jermaine Dupri í Atlanta. Á meðan veislunni stóð var náinn vinur Suge Knight skotinn í handlegginn. Knight sakaði Combs (einnig í ásetningi) að hafa átt einhvern hlut í skotárásinni. Sama ár borgaði Knight lausnargjald fyrir 2Pac upp á 1,4 milljón dollara í skiptum fyrir að hann skrifaði undir hjá Death Row Records. Stuttu seinna eftir að rapparinn losnaði úr fangeldi í október 1995, tók hann þátt með Knigt í meiri deilu milli Death Row og Bad Boy Record 2Pac á móti The Notorious B.I.G.. Eftir að „Who shot Ya?“ var gefið út, sem 2pac túlkaði sem að Biggie væri að hæðast að ráninu og skotárásinni á hann, kom 2pac fram í mörgum lögum og beindi hótunum og/eða hamlandi skotum að Biggie, Bad Boy sem plötufyrirtæki og að hverjum sem tengist þeim á einhvern hátt á seinni hluta 1995 til 1996. Á þessum tíma fóru fjölmiðlar að fylgjast með ágreiningum og færðu fólki stöðugt fréttir um það. Þetta varð til þess að aðdáendur beggja senanna fóru að taka aðra hvora hlið málsins. Þó að opinber hefndar plata hafi aldrei verið gefin út af Biggie sem viðbrögð gegn þessu voru nokkur lög frá Biggie sem geta hafa verið svör gegn öllu því sem 2pac sagði, ekki síst „Long kiss goodnight“ sem Lil' Cease sagði vera beint að 2pac í viðtali við tímaritið XXL. A cappella. A cappella er ítalska fyrir „í stíl kirkjunnar“ og er flutningur samsettrar tónsmíði án hljóðfæra. A capella stílinn má rekja aftur til tíma tónskáldsins Josquin des Prez undir lok fimmtándu aldar, en náði vinsældum með verkum Palestrina undir lok þeirrar sextándu. Á sautjándu öld var a cappella að víkja fyrir andstæðu sinni, cantata, en það er samið fyrir bæði raddir og hljóðfæri. Trúarlegar hefðir. A cappella tónlist var upprunalega notuð í trúarlegri tónlist, og er ennþá. Bæði kristnir og gyðingar eiga langa sögu af a cappella tónlist. Kristni. Upprunaleg merking a cappella, „í stíl kirkjunnar“, endurspeglar þá staðreynd að hljóðfæri voru ekki notuð í kristilegu bænahaldi í margar aldir. Einnig er auðveldlega hægt að túlka hluta Gamla Testamentsins sem svo að notkun hljóðfæra sé bönnuð við tilbeiðslu. Enski klerkurinn Joseph Bingham hélt því fram að hljóðfæraleikur í kirkjum hefði ekki komið fram fyrr en um miðja þrettándu öld. Í bók sinni Instrumental Music in Public Worship styður John L. Girardeau þessa hugmynd. Orgelið virðist hafa verið fyrst fram á sjónarsviðið og önnur hljóðfæri hafa svo fylgt í kjölfarið. John McClintock og James Strong héldu því fram að Marteinn Lúther ásamt öðrum hefði mótmælt notkun hljóðfæra við tilbeiðslu. Gyðingdómur. Á sjö vikna tímabilinu milli Páskahalds gyðinga og Shavout gilda mörg boð og bönn. Meðal annars liggur strangt bann við því að spila eða hlusta á hljóðfæri. Hinsvegar er mannsröddin ekki álitin hljóðfæri og því spilar a capella stórt hlutverk á tímabilinu. Hefðbundin tónlist gyðinga inniheldur almennt engan hljóðfæraleik. Í Bandaríkjunum. Nútíma a cappella varð til á níunda áratug síðustu aldar, og nær nú yfir margar tónlistarstefnur eins og rokk, popp, hipp-hopp, country, jazz og fleira. Listamenn. Margar hljómsveitir nota raddir til þess að ná fram hljómum svipuðum þeim sem hljóðfæri gefa frá sér, til dæmis með beatboxi. Sem dæmi má nefna sveitirnar The House Jacks, Rockapella og M-pact. Kristin tónlist er einnig höll undir a cappella, og margar kirkjur nota vísvitandi alls engin hljóðfæri. Í vinsælli tónlist lýsir a cappella sér venjulega þannig að ein rödd syngur í forgrunni, önnur syngur bassalínu og restin bætir upp fyrir önnur hljóðfæri. Hundruð a cappella albúma hafa komið út síðasta áratuginn. The Recorded A Cappella Review Board (RARB) hefur gagnrýnt 1092 a cappella albúm síðan 1994. Söngleikir. Enginn a cappella söngleikur hefur nokkurn tímann verið sýndur á Brodway, en þrír hafa verið sýndir á öðrum vettvangi. Avenue X hóf sýningar þann 28. janúar 1994. Verkið var aðallega í Doo-Wop stíl enda snerist sagan um hóp Doo-Wop söngvara á sjöunda áratugnum. DRAGAPELLA! var sett upp í Studio 54 í New York árið 2001 og var tilnefnt til Lucille Lortel verðlauna. In Transit var frumsýnt 2010 og gerist í neðanjarðarlestarkerfi New York borgar. Í verkinu má heyra blöndu af hinum ýmsu tónlistarstefnum, meðal annars jazz, hipp-hopp, rokk og country. Einnig má heyra beatbox í sýningunni. Kristilegt rokk. Kristilegt rokk er afbrigði rokks, þar sem textinn fjallar annað hvort um Guð eða kristilegar hugmyndir. Yfirleitt er spilað á gítar, bassa og trommur og orgel eða einhvers konar hljóðgervla en einnig eru oft notuð önnur jafnvel framandi hljóðfæri. Viðtökur á 6. áratugnum. Í fyrstu var rokk nýtt og spennandi. Ungt fólk var án efa áhugasamt um þetta nýja fyrirbæri en sum staðar í heiminum var rokkið ekki samþykkt af þeim sem eldri voru. Í Bandaríkjunum þá sérstaklega í suðurríkjunum var kristið fólk ekki sátt með þessa nýju tónlistarstefnu og vildi ekki að börnin sín hlustuðu á háværa tónlist og töldu þau hana vera tónlist djöfulssinns. Elvis Presley var að mati margra frumkvöðull þessarar neikvæðni kristinna manna gegn rokkinu og rúllunni. Hann þótti hreyfa sig of kynferðislega og textarnir hans vísa og kynlíf. Þó var Elvis Prestley trúaður og gaf út gospelplötuna "He touched me". Svo voru það líka The Rolling Stones sem komust í ónáð hjá kristnu fólki með laginu „Let's spend a night together“ Árið 1966, meðan þeir voru líklega vinsælasta hljómsveit veraldar, lentu Bítlarnir í vandræðum með aðdáendur sína vestanhafs þegar haft var eftir John Lennon að: „Bítlarnir væru vinsælli en Jesú“. Ýmsar kirkjur í Bandaríkjunum skipulögðu í kjölfarið brennu þar sem Bítlaplötur og fleira tengt þeim var brennt. Í kjölfarið baðst Lennon afsökunar. Þótt trúaðir hafi margir hverjir hlustað á eða spilað rokktónlist var þetta litið hornauga af íhaldssömum söfnuðum og kirkjuleiðtogum og þá sérstaklega í suðurhluta Bandaríkjanna. Það kemur þó ekki á óvart að kristið fólk hafi verið á móti þessari tónlistarstefnu því að það hópast oft gegn því nýja og vinsæla í tónlistarheiminum með neikvæðni. Uppruni kristilegs rokks. Líklega var fyrsta rokkhljómsveitin sem vitað er að spilað hafi í kirkju Mind Garage árið 1967. Þar með eru þeir ein fyrsta kristilega rokkhljómsveitin. Plata þeirra "Electric Liturgy" er talin vera ein af þeim fyrstu sinnar tegundar. Larry McClurg söngvari hljómsveitarinnar segir að þegar hann var á táningsárum að hann hafi viljað syngja og vera í hljómsveit en hafði engan grun að maður gæti fengið borgað fyrir það. Hann söng lög frítt og naut þess. Seinna meir áttaði hann sig á því að það væri hægt að vinna við þetta og reyndi því næst að slá í gegn. Hann segir að það hafi verið erfitt að byrja kristlega rokkhljómsveit. Hann var sautján ára þegar hann byrjaði og 25 ára þegar honum tóks slá í gegn með hljómsveitinni sinni Mind Garage. Larry Norman er einn af fyrstu kristilegu rokktónlistarmönnunum á er líka oft kallaður faðir kristilegar rokktónlistar en nú á hans seinni árum afi hennar. Normann sagði að þegar hann var lítill hefði pabbi hanns bannað honum að hlusta á útvarpið og sagt að sonur sinn skyldi sko ekki verða neinn Elvis Presley. „Ég þoli ekki rokktónlist, hún fjallar bara um einn hlut!“. „Um hvað fjallar hún pabbi?“ spurði strákur. „uhh...rómantík“. Hann mótmælti skoðun íhaldssamra kristilegra einstaklinga er hann gaf út plötuna "Upon This Rock". Lag hans „Why Should the Devil Have All the Good Music“ lýsir vel skoðun hans á tónlistinni. The Crusaders er önnur hljómsveit sem talin er marka mót í kristilegu rokki. Hún starfaði frá árunum 1966 – 1967. Þótt hún hafi ekki starfað í langan tíma er þessi hljómsveit talin hafa verið með þeim fyrstu í kristilegu rokki. Hún var samansett af fimm meðlimum, öllum frá Suður-Karólínu, sem voru allir ungir að aldri, allir um tvítugt. Plata þeirra "Make a Joyful Noise with Drums and Guitars" er talin ein sú fyrsta af kristilegu rokksenuni. Kristið rokk í kringum aldamótin. 12 stones eru líklega frægasta kristilega rokkhljómsveitin sem er til í dag þeir komu saman árið 2000 og árið 2002 var notað lag eftir það í skemmtilegu ævitýra og hasarmyndinni „the scorpion King“. Kristilegt rokk á Norðurlöndunum. Á Norðurlöndunum er ekki mikið um kristilegt rokk en þó er hægt að finna það. Frægasta hljómsveitin er líklega Jerusalem sem er sænsk kristileg rokk hljómsveit stofnuð árið 1975 og spilar enn þann dag í dag en þó í mun minni mæli. Meðlimirnir í Jerusalem voru mjög gagnrýndir fyrir að stofna þessa hljómsveit og töldu flestir að þetta væri ekki eitthvað sem ætti ekki heima í kirkjum, langt hár og reyksprengjur voru einfaldlega of mikið fyrir kristna fólkið í Svíþjóð. Þótt þeir boðuðu boðskap Jesú með tónlist sagði fólk að það væri djöflalegt að spila rokk. Meðlimirnir í Jerusalem trúðu á þá aðferð að kristið rokk væri leiðin til þess að ná til unga fólksinns. Þó fyrsta plata Jerusalem hafi selst í tuttugu þúsund eintökum á sex mánuðum náðu þeir ekki miklum vinsældum fyrr en þeir gáfu út þriðju plötuna sína "The Warrior", sem náði miklum vinsældum í Svíþjóð, Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Eftir útgáfuna á þeirri plötu þá fóru þeir í tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada þar sem þeir slógu í gegn. Kristnar rokkhátíðir. Creation Festival er kristin tónlistarhátíð sem er ein af þeim elstu sem til eru. Hún hefur verið haldin frá árinu 1979 og hýst marga af þekktustu kristilegu rokk hljómsveitunum. Fyrsta árið var hátíðin haldin í Lancester í Pennsylvaniu í Bandaríkjunum en þá kom Billy Graham sem er einn að meðlimum The Crusaders sem voru frumkvöðlar í kristilegu rokki. Hann spilaði reyndar ekki en hann horfði á aðra með spenningi. Alive Festival er kristin tónlistarhátíð sem spilar bara kristna tónlist eins og kristilegt rokk. Hátíðin hefur verið haldin frá 1988 og er haldin seint í júní. Hún er staðsett í Atwoot lake park í Mineral borg í Ohio fylki. Creation fest er sams konar hátíð og þær fyrri en á engin tengsl við þá samnefdu hátíð fyrir ofan. Hún ýtir undir kristileg gildi tónlistarinnar. Hún er haldin án aðgangseyrirs þannig hún byggist á styrkjum og sjálfboðavinnu. Þessi hátíð byrjaði árið 2002 sem eins dags hátíð en hefur nú breyst í þriggja daga tónlistarmessu sem er vel sótt. Þessi hátíð er haldin í byrjun ágúst. Það sem er merkilegt við þessa hátíð að hún er haldin í Royal Cornwall Showground, í Wadebridge, Bretlandi en ekki á lang stærðsta svæði kristilega rokksins Bandaríkjunum. Gotneskt rokk. Gotneskt rokk er undirstefna sem myndaðist út frá síð-pönkinu á Englandi í lok áttunda áratugarins. Síð-pönk þróaðist hins vegar út frá Punkstefnunni sem hóf innreið sína í Englandi um 1976. Gotneskt rokk gat af sér gotneska menningarkimann en hann má einnig rekja út frá pönkmenningunni. Gotnesk tónlist var áberandi á Englandi í lok áttunda áratugarins með komu hljómsveita á borð við Bauhaus, Siouxsie and the Banshees og UK Decay. Í Bandaríkjunum þróaðist stefnan aðeins seinna. Miðað er við að hún hafi þróast út frá dauða-metal en hljómsveitin Christian Death frá Los Angeles mun hafa verið með þeim fyrstu til að spila í anda gotneskrar tónlistar í Ameríku. Efnið sem verður farið yfir í þessari grein er tónlistarstefnan og tískan sem finnst í gotneskum hljómsveitum. Síðan verður farið í fyrirrennara og áhrifavalda gothsins. Inngangur. Enginn veit í rauninni út á hvað nútíma gotneski menningarkiminn eða gotneska tónlistin gengur en óhætt er að segja að náið samband sé á milli þeirra. Margir vilja meina að gotnesk tónlist fjalli einungis um einmanaleika og dauðann, sé almennt niðurdrepandi og yfirborðskennd. Tónlistin eigi að endurspegla menningarkimann og hvernig fólk í honum almennt hagi sér. Þeir séu að boða neikvæðan og spilltan boðskap til ungmenna samfélagsins. Þetta er algengur misskilningur fyrir leikmenn sem ekki eru búnir að kynna sér menningarkimann né skilja hann. Þótt að gotneskar hljómsveitir og gotneskir hópar taki dökku hliðar lífsins fram yfir þær björtu þá þýðir það ekki að þeir séu hlynntir ofbeldi, upplausn eða öðrum neikvæðum hlutum. Gotharar eiga til með að lýsa tónlistarstefnu sinni sem töfrandi, dulspekilegri, fullri af ástríðu og hinu góða, einnig erótískri og mjög skapandi. Í henni er einnig að finna hrollvekju, ofbeldi, hið illa, sársauka og geðraskanir. Gotneski menningarkiminn sér hið fagra í heiminum þar sem venjulegt fólk sér það yfirleitt ekki. Fólkið í honum aðhyllast hinar ýmsu bókmenntir, hrollvekjur, ljóð, gamla tísku sem rekja má allt til Viktoríu Bretadrottningar. Þau vilja almennt myrkrið, þögnina og það sem öðruvísi er. Hins vegar gengur "gothic" líka út á að hafa gaman, svartan húmor, gera í því að vera öðruvísi, jafnvel hneyksla fólk viljandi. Allt þetta er hægt að sjá í tónlistinni þeirra. Þetta er þeirra stíll og list. Í sjálfu sér er ófullnægjandi að segja að "gothic" sé einungis listform, það er í rauninni hugarástand. Upphaf og þróun. Gotneska tónlistarstefnan kemur frá pönk-stefnunni í lok áttunda áratugar seinustu aldar og vilja margir halda því fram að gotneska tónlistin sé dökka hlið pönksins. Gotneska stefnan var samt ekki til á einum degi. Á mið-áttunda áratuginum voru miklar umbyltingar í tónlist hvað varðar hugmyndafræði, pólitík og samfélagið. Þetta var aðalefni flestra pönkhljómsveita eins og til dæmis Sex Pistols, Clash og The Damned. Seinna leit post-pönkið dagsins ljós sem var öðruvísi en upprunalega pönkið að því leyti að það var meira á tilraunastigi og aðhylltist einstaklingshyggju og sjálfsskoðun. Innan frá síð-pönkinu byrjaði síðan ný tegund tónlistar að heyrast. Yfirbragð þeirrar tónlistar var drungalegri og dularfyllri. Þær hljómsveitir sem spiluðu þessa drungalegu tónlist sem einkenndist einnig af tómhyggju og mannhatri, urðu svokallaðar positive-pönksveitir, eða posi-pönkarar, en þetta voru hljómsveitir á borð við Siouxsie and the Banshees, Bauhaus, U.K. Decay og Joy Division. Þetta var fyrsta kynslóð gotneskra hljómsveita sem brutust út á Englandi en reyndar byrjuðu ekki allar gotneskar hljómsveitir sem gotneskar hljómsveitir. Þær áttu rætur að rekja í pönkið. Til dæmis var Siouxsie Sue í The Banshees fyrst pönkari og færðist síðan út í gotneskan stíl, eða eins og það kallaðist þá, positive-punk. Positive-pönk sveitirnar fengu ekki gothic heitið fyrr en í byrjun níunda áratugarins. Önnur bylgjan eða önnur kynslóð gotneskra tónlistarmanna birtist í byrjun níunda áratugarins og þá byrjaði stefnan að festa rætur í Bandaríkjunum. Önnur kynslóð gotneskra hljómsveita eru til dæmis The Sisters of Mercy og Christian Death en þessar sveitir spiluðu tónlist sem við myndum kalla gotneskt rokk í dag en dauða-metall þá. Á þessum tíma voru gotharar komnir verulega á skrið ásamt því að búa til hinar ýmsu undirstefnur í tónlistinni. Á Íslandi þróaðist pönk í mörgum tilfellum út í síð-pönk og jafnvel gotneskt rokk. Þeyr og Q4U voru tvær hljómsveitir sem báru ýmis einkenni gotneska rokksins. Þær fjölluðu um himnaríki og helvíti, dulmögn og annað í þeim anda. Tónlistarstíll. Eins og kemur fram hér á undan þá bættust við óhugnarlegri tónar og dularfull hljóð við tónlistina í síð-pönkinu og þar með birtust fyrstu gothararnir með nýja tegund af tónlist. Jafnvel má segja að gotnesk tónlist sé í sínu almennasta formi blanda af pönk rokki, indie rock eða sjálfstætt rokk og nýbylgjutónlist. Almennt er hljómurinn í gotneskri tónlist þungbær og holur, samt ber að taka þessum lýsingum með fyrirvara þar sem undantekningar finnast. Algengustu hljóðfærin sem gotneskar hljómsveitir nota eru trommur, gítar, bassi, hljóðgervill og svo er söngvari. Hljóðgervillinn spilar oft mikilvægt hlutverk í gotneskri tónlist. Hann er af og til notaður og hljómar hann kaldrifjaður og fjarlægur. Söngurinn í lögunum á til með að vera annað hvort mjög djúpur og seiðandi eða hár og er undirspilið oft melodiskt og nístandi gítarspil. Nánast alltaf er þetta síðan stutt af þungum og taktföstum trommuslætti. Varast skal að rugla gotneskri tónlist við harðkjarnarokk, Shock rock og dauða-metal. Þungamiðja tónlistarstefnunnar er án efa textarnir og söngurinn. Textarnir eru yfirleitt mjög ljóðrænir, geta snert mann djúpt og verið mjög áhrifaríkir. Þeir geta einnig verið blygðunarlausir og þungbúnir. Margar hljómsveitir sóttu oft innblástur í textana sína úr ljóðum og bókmenntum eftir höfunda á borð við Edgar Allan Poe og H. P. Lovecraft en þeir voru vinsælir hrollvekjuhöfundar og skrifuðu margar gotneskar bækur. En þrátt fyrir að textarnir geti verið þunglyndir og þungir þá getur tónlistarspilið verið líflegt og fjörugt. Útlit og klæðnaður. Eitt af því augljósasta við gotneskar hljómsveitir, bæði í fyrr og nú, er útlitið og klæðnaðurinn. Fyrstu gothararnir, skáru sig ekki algjörlega úr pönkinu hvað varðar klæðaburð þar sem þeim líkaði við stíl pönkaranna. Þeir voru til dæmis í svörtum rifnum tættum fötum og líka með svipaðar hárgreiðslur sem pönkararnir voru með, til dæmis broddagreiðsluna og hanakambinn. Gotharar bættu síðan við þetta dekkra útliti. Seinna, þegar hinar ýmsu undirstefnur innan gotneskrar tónlistar fóru að líta dagsins ljós, þá þróaðist útlitið og klæðaburðurinn. Yfirleitt er hver gotnesk undirstefna með sitt útlit og má segja að útlitið og tónlistin endurspegli hvort annað. Til að mynda eru þeir sem klæða sig í anda gotnseska framtíðar- og tæknistílinn (enska. "cyber goth") yfirleitt að spila "industrial gothic rock". Í dag er að finna allskonar gotneskan klæðaburð bæði í menningarkimanum almennt og hjá hljómsveitum. Sumir klæðast gotneska-pönkstílnum, aðrir klæðast fötum sem voru vinsæl á Viktoríutímabilinu á 17. öld. Það er klæðnaður eins og lífstykki, blúndukjólar, gamaldags jakkaföt og pípuhattar svo eitthvað sé nefnt. Aðrir klæða sig upp eins og dúkkur og aðrir eins og vampírur. Andlitsmálning spilar stórt hlutverk hjá menningarkimanum jafnt sem hljómsveitunum. Sumir mála sig ótrúlega mikið á meðan aðrir láta sér duga svartar augnlínur. Macabre. Bæði gotneski menningarkiminn og gotnesku hljómsveitirnar sem tileinka sér hugmyndafræðina, klæðnaðinn eða almennt stíl gothsins, eru í rauninni að fylgja stefnum, listaverkum og stílum sem má rekja allt til 17.aldar. Hrollvekjumyndir á borð við "Nosferatu" frá 1922 og "Dracula" frá 1931, óhugnalegu ritverk Edgar Allan Poe og H. P. Lovecraft, tónlist Johann Sebastian Bach í sýningunni "Phantom of the Opera" og sýningin Faust, allt eru þetta dæmi um listaverk sem áttu sinn hlut í að móta þá hugmyndafræði, stíl, texta og framkomu hinna mörgu hljómsveita og fólk sem kallar sig Goth. Listformið sem Goth-tónlistin notast oft við, sem kemur meðal annars frá fyrrnefndum listaverkum og listamönnum, kallast "Macabre", á frönsku "La Danse Macabre" og á ensku "Dance of Death". Listformið á að sýna að Dauðinn hangir yfir okkur öllum stundum og á öllum stöðum og tekur þar á meðal á sig hin mismunandi form. Við verðum að gæta okkar því hann getur verið hvar sem er og hvenær sem er. Þau listaverk sem notast við "Macabre" eru oftar en ekki óhugnaleg, drungaleg og jafnvel óþægileg ásjónu, hvort sem það eru leiksýningar eða eitthvað annað. Yfirleitt þegar notast er við Macabre-stílinn þá er oftast beinagrind dansandi og tælandi mennina til sín til þess að segja þeim að þeirra tími sé kominn. Yfirleitt er þetta hástéttarfólk eins og prestar, klerkar og lögmenn. Annað hugtak sem tileinkað er listamönnum sem notast við "Macabre" er "avant-garde" en það merkir það þegar einhver notast við nýjungar í listaverkum, svo sem tónlist þar sem mikil óhljóð myndast og ekki er hægt að kalla tónlist, og brýtur þær hefðbundu reglur sem hafa verið til staðar. Avant-garde tónskáld. Dæmi um "avant-garde" tónskáld er Franz Liszt sem hafði mikil áhrif á goth-stefnuna með tónverkum sínum sem fjölluðu oft um dauðann og djöfulinn. Hann samdi tónverkið Faust árið 1861 en það fjallar einmitt um mann einn sem gerir samning við Satan um að selja honum sál sína. Seinna meir var talið að Liszt sjálfur hefði verið undir áhrifum frá djöflinum sem á að hafa gefið honum innblástur til að semja tónlistina sína. Þann sem hægt er að kalla hið mesta gotneskta skáld fyrri tíma er hið franska avant-garde tónskáld Hector Berlioz. Byltingarkennda og nýtískulega verk hans, "Symphonie Fantastique" sem hann samdi 1930, einkennist algjörlega af Macabre listforminu og var mjög umdeilt á sínum tíma. Verkið er um ungan pilt sem er yfir sig ástanginn af stúlku einni. En eftir mikla ópíumneyslu sofnar pilturinn og dreymir að hann drepi ástina sína og er eftir það leiddur til aftökunar fyrir glæp sinn. Verkinu er lýst sem satanísku og vekur hjá manni óþægilegar tilfinningar. Það sem einkennir einnig avant-garde tónskáldin Berioz og Liszt var að þeir bjuggu til hávaða í tónlistinni sinni og allskyns önnur óhugnaleg og dularfull óhljóð. Þessi tegund tónlistar hafði ekki einungis áhrif á gotneska tónlistarmenn heldur einnig á kvikmyndaiðnaðinn. Til að mynda er kvikmyndin "The Exorcist" frá 1973 full af dularfullum og ógnvekjandi hljóðum sem eru í anda tónlistar þeirra Liszt og Berlioz. Rokk og popp. Sá sem stundum er nefndur upphafsmaður gotneska rokksins mun vera Screamin´ Jay Hawkins. Hann var blökkumaður frá Bandaríkjunum sem fékk innblástur frá "blues" tónlistinni. Hann blandaði saman niðurdregnum textum úr blús og tónlistarstíl rokksins og var mjög vinsæll á sjötta áratug seinustu aldar. Þótt hann væri rokkari þá voru textarnir hans ekki þess legir. Þeir vitnuðu oft í hrollvekjusögur og byrjaði Hawkins oft sýningar sínar á því að rísa hægt og ógnvekjandi upp úr líkkistu, eins og í Nosferatu 1922, og kom yfirleitt fram á svið sem vúdú-galdralæknir. Hann er best þekktur fyrir lagið "I put a spell on you". Englendingar aðhylltust líka þessa hrollvekjustefnu í tónlist en David Edward Sutch var þeirra svar gegn Hawkins. David kom fram sem Screaming Lord Sutch og klæddist eins og "Jack the Ripper" en hann er einna þekktastur fyrir samnefnt lag sem kom út 1963. Hann notaðist við líkkistur eins og Hawkins og kuldalegan hlátur. Aðrir listamenn sem mikil áhrif höfðu á gotneskar hljómsveitir og gotneska stílinn eru til dæmis David Bowie, The Doors og Velvet Underground en hjá þessum listamönnum og hljómsveitum var að finna gotnesk einkenni í tónlist þeirra sem nútíma gotharar sóttu, og ef til vill sækja enn, innblástur í. Djassbræðingur. Djassbræðingur (e. "jazz fusion" eða bara "fusion") er tónlistarstefna sem kom fram seint á sjöunda áratugnum en varð vinsæl á áttunda áratugnum. Djassbræðingur gengur út á að blanda saman ólíkum tónlisastefnum við djasstónlist. Oftast þegar talað er um djassbræðing er átt við djass-rokk en til eru margar aðra stefnur sem flokkast sem djassbræðingur. Þegar djassbræðingur er spilaður er oftast notast við rafmagnshljóðfæri frekar en órafmögnuð hljóðfæri en séu þau notuð eru þau gjarnan „mike-uð“ upp. Algengustu hljóðæri í djass bræðingi eru rafmagnsbassi, rafmagnsgítar, hljóðgervill, tréblásturshljóðfæri, málmblásturshljóðfæri ásamt miklu slagverki. Bræðingstónlist er ekki mikið spiluð í útvarpi í Bandaríkjunum sennilega vegna þess hversu flókin hún er, lítill söngur og einnig vegna þess hversu lögin eru oft löng. Útvarpsstöðvar í Evrópu sýna hins vegar tónlistastefnunni meiri áhuga og er hún einnig mjög vinsæl í Japan og Suður-Ameríku. Þrátt fyrir það að djass bræðingsplötur hafa ekki verið seldar í stórum upplögum hefur tónlistarstefnan verið vinsæl. Sjöundi áratugurinn. John Coltrane hafði á sjöunda áratugnum ásamt öðrum þróað frjálsan djass (e. "free jazz"). Margir djassunnendur vilja meina að þegar John Coltrane lést árið 1967 hafði myndast ákveðið tómarúm innan djasstónlistar. Á sama tíma var rokkið orðið mjög vinsælt og höfðu margir ungir djasstónlistarmenn alist upp við að hlusta á rokktónlist og byrjuðu að heimfæra hluti úr rokkinu yfir í sinn flutning á djasstónlist. fram á seinni hluta sjöunda áratugsins hafði djass- og rokktónlist verið allveg aðskildar stefnur. Að blanda þessum tveim stefnum saman gekk þó vel upp þar sem báðar tónlistastefnurnar eiga það sameiginlegt að geta rakið rætur sínar aftur til blús, gospel og R&B og eiga því margt sameiginlegt. Með því að blanda þessum stefnum saman náðu tónlistarmenn að breikkðuð mörk djassins og rokksins og náðu þar af leiðandi til stærri áheyrandahóps. Seint á sjöunda áratugnum fannst tropmetleikaranum Miles Davis kominn tími á breytingar. Miles Davis hafði verið mikið að hlusta á Jimi Hendrix, James Brown og Sly Stone og langði að þróa tónlist sína í þá átt. Hann fékk líka áhuga á þeim nýja möguleika að nota rafmagnshljóðfæri. Platan "In a Silent Way" sem kom út árið 1969 var hans fyrsta skref í áttina að bræðingstónlist. Þeir sem spiluðu inn á plötuna ásamt Miles Davis voru Joe Zawiul, Chik Corea og Herbie Hancock á rafmagnshljómborð, John McLaughlin á rafmagnsgítar og Tony Williams á trommur Sex mánuðum eftir upptökur á "In a Silent Way" tók Miles Davis upp plötuna "Bitches Brew". Það er nokkuð viðurkennt að platan "Bitches Brew" sé fyrsta áhrifamikla djass bræðings platan sem gefin hefur verið út. Þar blandar Miles Davis]hefðbundnum djass saman við rokkgítar- og trommuleik og þar með kynnti hann djass fyrir víðari áheyrandahópi. Platan hafði óvenjulega blöndu af tónlistarmönnum. Þar voru men eins og Joe Zawinul og Chick Corea á hljómborð, Wayne Shorter á saxófón, John McLaughlin á rafmagnsgítar og Lenny White á trommur. Þessir tónlistamenn áttu svo eftir að stofna helstu og frægustu bræðingshljómsveitir heimsins, Weather Report (Zawinul og Shorter), Return To Forever (Corea og White) og The Mahavishnu Orchestra (McLaughlin) Áttundi áratugurinn. Weather Report er ein farsælasta hljómsveit djassbræðingsins, með plötum sem náðu inn á top 50 lista báðum meginn við Atlantshafið. Platan "Black Market" sem kom út árið 1976 varð fyrsta platan þeirra sem náði miklum vinsældum. Við upptökur á henna byrjaði bassalaeikarinn Jaco Pastorius í hljómsveitinnien hann kom með nýjan hljóm inn í djassinn. Hann spilaði á bandalausan Fender Jazz bass. Jaco spilaði laglínur á bassann, notaði flaututóna, óvanalega hljóma og mjög hröð stef. Árið 1977 kom út platan "Heavy Weather" sem inniheldur meðal annars þeirra þekktasta lag "Birdland". "Heavy Weather" er mest selda bræðingsplata allra tíma. The Mahavishnu Orchestra spilaði tónlist í rokkaðri kanntinum. John McLaughlin stofnaði hljómsveitina 1971 undir áhrifum austurlenskrar dulspeki. Sköpunargáfa þeirra breikkaði mörk djassins og eru plöturnar "The Inner Mounting Flame " sem kom út árið 1971 og "Birds of Fire" sem kom út árið 1972 komar á þann stall að vera taldar sígildar bræðingsplötur. Jan Hammer var frumkvöðull í notkun á Minimoog hljóðgervli með „distortion effect“. Hann beygði tónhæð tónana sem hann spilaði og lét Minimoog hljóma líkt og gítar. Hljómur The Mahvishnu Orchestra veitti tónlistarmönnum sem spiluðu sýrurokk (e. "psychedelic rock") innblástur. Önnur áhrifamikil bræðingshljómsveit sem kom út úr samstarfinu við upptökur á "Bitches Brew" var Return to Forever sem var stofnuð af Chick Korea. Til að byrja með spilaði hún latin-djass en þegar kom fram á árið 1975 hafði hljómsveitin þróast út í djassbræðing. Þeir gáfu út plötuna "Romantic Warrior" sem kom út árið 1976 sem markaði þáttaskil í bræðingstónlist. Hún innihélt sex flókin og margbrotin „instrumental“ lög sem átti eftir að að veita bræðingstónlistarmönnum inblástur þau ár sem á eftir komu. Það voru gefnar út nokkrar aðrar plötur sem högðu áhrif á bræðingstónlist á áttunda áratugnum. Platan "Believe It" með Tony Williams kynnti heiminum fyrir gítarleikaranum Allan Holdsworth. Frank Zappa gaf út plötuna "Roxy & Elsewhere" árið 1974 þar sem hann blandði saman djasstónlist, rokktónlist og húmor. The Pat Metheny Group gaf út samnefnda plötu árið 1978. Þeir unnu seinna til Grammy verðlauna fyrir besta djassbræðings flutninginn. Bresku hljómsveitirnar Brand X og Soft Machine gáfu út plöturnar "Unorthodox Behaviour" árið 1976 og "Third" 1970 og sýndu þar með að breskar hljómsveitir gætu gert heimsklassa bræðingsplötur. Franski fiðluleikarinn Jan-Luc Ponty gaf út plötuna "Enigmatic Ocean" árið 1977. Níundi áratugurinn. Níundi áratugurinn var í samanburði við þann áttunda frekar rólegur hvað varðar djass-rokkið, þótt Chik Corea, Holdsworth og bandaríski gítarleikarinn John Scofeild höfðu gefið út nokkrar þýðingamiklar plötur á þessum tíma. Á seinni árum hefur hljómsveitin Tribal Tech sem leidd er af gítarleikaranum Scott Henderson og bassaleikaranum Gary Wills, haldið fána djass-rokksins á lofti. Flauelsdjass. Flauelsdjass (e. "smooth jazz") er tónlistarstefna sem þróaðist út frá djassbræðingi. Flauelsdjass byggir oftast á fönk „grúvi“, svokölluðum djasshljómum, slapp-bassalínum og fyrirsjáanlegum sólóum sem oftast eru spiluð á trompet, alto- eða sópransaxófón. Tónlistin er ekki voða flókin, heldur er áhersla lögð á hvernig hljómurinn er. Margir kalla flauelsdjass djassbræðing þótt offast þegar er verið að tala um djassbræðing sé átt við þá tónlistastefnu sem spratt upp frá plötunni "Bitches Brew" með Miles Davis. Sú tónlistarstefna er líka oft kölluð djassrokk. Þótt þessar stefnur virðist vera miklar andstæður eru þær engu að síður báðar flokkaðar sem djassbræðingur. Flauelsdjass hefur oft fengið neikvæða gagnrýni frá djassunnendum en hefur þó engu að síður verið vinsæl hjá veitingarstöðum, á börum og öðrum almenningstöðum eða á stöðum þar sem tónlistin er ekki aðalmálið. Flauelsdjass er oft kölluð bakgrunnstónlist. Helstu frumkvöðlar flauelsdjass eru Lee Ritenour, Larry Carlton, Grover, Spyro Gyra, George Benson, Chuck Mangione, Sérgio Mendes, David Sanborn, Tom Scott, Dave og Don Grusin, Bob James og Joe Sample. Mezzoforte. Hljómsveitin Mezzoforte er íslensk bræðingshlómsveit sem var stofnuð árið 1977 og voru stofnendur hljómsveiarinnar þeir Eyþór Gunnarsón (piano, hljómborð), Friðrik Karlsson (gítar), Jóhann Ásmundsson (bassi) og Gunnlaugur Briem (trommur). Saxfonleikarinn Kristinn Svavarsson var í hljómsveitini frá 1982 til 1985 en Óskar Guðjónsson gekk svo í hljómsveitina um miðjantíunda áratuguginn. Fjórða plata sveitnarinnar innihélt lagið "Garden Party" sem náði miklum vinsældum og komst inn á vinsældalista viðsvegar um Evrópu og var sveitin upp frá því nokkuð þekkt erlendis. Mezzoforte varð fyrsta íslenska hljómsveitin sem varð þekkt erlendis. Hljómsveitin er enn starfandi í dag og spilar út um allan heim og er hátt skrifuð í heimi djass bræðings. Grugg. Grugg er tónlistarstefna sem varð til um miðjan 9. áratuginn og sækir uppruna sinn til norðurhluta Bandaríkjanna og þá aðallega til Seattle. Stefnan varð ekki vinsæl fyrr en á 10. áratugnum og hélt vinsældum fram undir miðjan áratuginn. Stefnan er undirstefna jaðarrokks og er nokkurs konar blanda af pönki, þungarokki og sjálfstæðu rokki. Söngvari Green River og seinna Mudhoney, Mark Arm, er almennt talinn vera sá fyrsti sem kom með hugtakið „grunge“ yfir svona tónlist þegar hann lýsti hljómsveitinni sinni sem „pure shit, pure noise, pure grunge!“, eða tómum skít, hávaða og óhroða. Þetta ku vera fyrsta skiptið sem orðið var notað yfir sveit frá Seattle en síðan varð þetta almennt hugtak yfir þessa gerð af tónlist sem kom undantekningarlítið frá Seattle. Reyndar var þetta hugtak notað í Ástralíu á níunda áratugnum yfir pönk- og jaðarsveitir svo sem King Snake Boost og The Scientists. Einkenni og áhrif. Eins og áður kom fram er grugg samblöndun af þungarokki, pönki og jafnvel sjálstæðu rokki, þó að hlutföllin séu misjöfn eftir hljómsveitum. Hinir myrku tónar gruggsins áttu rætur sínar til hljómsveita á borð við Black Sabbath og The Stooges en textarnir áttu margt skylt með pönkinu. Samfélagsleg firring, frelsisþrá, sljóleiki, angist og fleira í þeim dúr einkenndu textana en þó var stundum húmor og háð í þeim, til dæmis í laginu „Big, Dumb Sex“ með Soundgarden, þar sem sveitin gerir grín að glysrokki. Gruggtónleikar voru þekktir fyrir að vera blátt áfram, öfugt við glysið sem snerist mikið um öfluga sviðsframkomu og tilþrifamikil ljósa „show“. Gruggsveitum fannst að meginatriðið væri tónlistin sjálf en ekki áðurnefnir hlutir og litu ekki á sjálfa sig sem skemmtikrafta heldur tónlistarmenn. Grugg byrjaði að þróast upp úr pönk menningu norðvesturhluta Bandaríkjanna með áhrifum frá hljómsveitum þaðan á borð við The Fastbacks, The U-Men, The Accused og 10 Minute Warning. Melvins eru frá Seattle og þeir höfðu einnig mikil áhrif á grugg. Sveitir annars staðar frá höfðu einnig áhrif á þróun stefnunnar, til dæmis jaðarhljómsveitirnar Sonic Youth, Dinosaur Jr. og Pixies. Pixies spiluðu mikið „slow verse, hard chorus“ og Kurt Cobain sem var mjög hrifinn af þeim gerði þetta vinsælt í jaðarrokki og grugg með hljómsveitinni sinni, Nirvana. Gruggsveitir sóttu einnig innblástur í þungarokk áttunda áratugarins, platan "My War" (1984) eftir pönksveitina Black Flags var mikill áhrifavaldur og svo sveitirnar Killdozer, Flipper, Bauhaus og fleiri Tónlistarmaðurinn Neil Young hefur verið kallaður guðfaðir gruggsins og hafa Kurt Cobain úr Nirvana og Eddie Vadder úr Pearl Jam sagt hann hafa verið mikin áhrifavald. Saga. Í upphafi þróaðist grugg upp frá hljómsveitum sem voru að spila tónlist og fá áhrif frá hvor öðrum ásamt annarri rokk og pönktónlist. Fólk hittist gjarnan inni á litlum stöðum og fylgdist með hljómsveitum spila og hljómsveitir fengu jafn vel plötusamning hjá litlum sjálfstæðum plötufyrirtækjum. Sub Pop Records er plötufyrirtæki sem var stofnað árið 1986 og varð frægt fyrir að ráða Mudhoney, Nirvana, Soundgarden og fleiri sveitir frá Seattle á samning. Þeir áttu sinn þátt í að gera grugg vinsælt, en eitt af þeirra fyrstu ætlunarverkum var að koma Soundgarden á kortið. Þeir stofnuðu líka „Sub Pop smáskífuklúbbinn“ ("e: Sub Pop Singles Club") árið 1988 þar sem smáskífur komu út í takmörkuðu magni. Árið 1989 kom blaðamaðurinn Andy Catlin til Seattle og fóru Jonathan Poleman og Bruce Pavitof frá Sub Pop með honum á Mudhoney-tónleika og sýndu honum borgina. Eftir þetta skrifaði Catlin stór grein um tónlistarmenninguna í Seattle sem birtist í breska blaðinu "Melody Maker". Þetta átti eftir að draga athygli fólks utan Seattle að gruggi og fleira fólk mætti á litlu tónleikana, sem áður voru oft mjög fámennir. Velgengni. Hægt og bítandi voru gruggtónlistarmenn að festa sig í sessi í tónlistarheiminum. Soundgarden var fyrsta gruggsveitin sem fékk samning hjá stóru útgáfufyrirtæki þegar A&M Records tóku þá undir sinn væng árið 1989. Nirvana, sem áður höfðu gefið út plötuna "Bleach" hjá Sub Pop Records, fengu plötusamning hjá Geffen Records árið 1990. "Nevermind" var fyrsta plata þeirra hjá Geffen og var aldrei búist við því að hún myndi seljast jafn vel og raun ber vitni. Í fyrstu var haldið að hún myndi í besta lagi ná ágætri sölu eins og platan „Goo“ með Sonic Youth sem kom út árinu áður, enda var Nirvana á þeim tíma pínulítil hljómsveit frá smábænum Aberdeen í Washington. MTV spilaði hins vegar lagið „Smells Like Teen Spirit“ mjög mikið þannig að sveitin varð heimsfræg á nánast einni nóttu. Um jólaleitið 1991 voru að seljast 400.000 eintök af plötunni á viku og Kurt Cobain var allt í einu orðinn talsmaður heillar kynslóðar. Í janúar 1992 ruddu Nirvana plötu Michael Jackons, „Dangerous“, af fyrsta sæti "Billboard" listans og má segja að platan hafi komið gruggi á kortið. Velgengni "Nevermind" kom tónlistarheiminum mjög á óvart, ekki aðeins höfðu Nirvana með útgáfu plötunnar gert gruggstefnuna þekkta um allan heim heldur einnig jaðarrokk yfir höfuð. Vinsældir glysrokks hrökuðu stórlega og dóu eiginlega og gruggið tók við sem vinsælasta rokktónlistin. Pearl Jam höfðu gefið út plötuna "Ten" í ágúst 1991 en hún fór ekki að seljast neitt af viti fyrr en ári seinna og náði þá öðru sæti á "Billboard" listanum. "Badmotorfinger" með Soundgarden, "Dirt" með Alice in Chains og "Temple of the Dog" með samnefndri hljómsveit (með meðlimum úr Soundgarden og Pearl Jam) voru allt gruggplötur sem voru einar af 100 mest seldu plötunum í Bandaríkjunum 1992. Sveitunum frá Seattle gekk svo vel að borgin var stundum kölluð „nýja Liverpool“. Allar mest áberandi gruggsveitirnar (Pearl Jam, AIC, Nirvana og fleiri) fengu plötusamning hjá stórum útgáfufyrirtækjum en þær sem voru lítið þekktar fluttu til Seattle í von um að slá í gegn. Gruggfatnaður var markaðsettur og seldust skíðahúfur, flannel-skyrtur o.s.frv. dýrum dómum og var stefnan og allt sem henni við kom blóðmjólkað af fjölmiðlum, líkt og hippatískan á sjöunda áratugnum. Í desember 1992 hringdi blaðamaður frá "New York Times" í Sub Pop Records og vildu fá að vita hvort það væri eitthvað sérstakt slangur sem væri notað meðal gruggrokkara. Megan Jasper, starfsmaður hjá Sub Pop, bjó til heilan lista af bullorðum sem voru prentuð í blaðinu. Þegar upp komst að þetta var allt tóm vitleysa sást greinilega hversu ofurmarkaðsett stefnan var. Frægðin var mörgum gruggtónlistarmönnum til ama, til dæmis Pearl Jam, en frægðin lenti mikið á söngvaranum Eddie Vadder. Kurt Cobain var með allra frægustu tónlistarmönnum samtímans en fyrirleit frægðina og sagði eitt sinn í viðtali að það hafi verið það seinasta sem hann vildi verða. Næsta plata Nirvana var harðari en sú fyrri og þar af leiðandi tormeltari fjöldanum. En það breytti engu, "In Utero" toppaði "Billboard"-listann í sama mánuði og hún kom út, í september 1993. Önnur plata Pearl Jam, "Vs.", kom út sama ár og naut gríðarlegrar velgengni. Hún náði metsölu, tæp milljón eintök seldust fyrstu vikunna sem hún kom út sem var meira en allar aðrar plötur á topp 10 lista vikunnar samtals og flaug upp í fyrsta sæti "Billboard"-listans. Dvínandi vinsældir. Það voru nokkrir þættir sem gerðu það að verkum að vinsældir stefnunnar fóru minnkandi. Síð-grugg var á mikilli uppleið, en innan þeirrar stefnu voru sveitir sem voru ekki frá Seattle og höfðu ekki ræturnar sem gruggsveitirnar höfðu. Tónlistin var svipuð og hljómsveitirninar gengu í eins fötum en tónlistin var léttari og útvarpsvænni. Britpop var á uppleið í Bretlandi, og voru tónlistarmenn innar þeirrar stefnu ekki að fela álit sitt á gruggi. Einn meðlimur Blur sagði til dæmis að sveitin spilaði andgrugg og Liam Gallagher úr Oasis sagðist ekkert vilja með svona þunglyndislega tónlist að hafa. Gruggsveitir fóru smátt og smátt að hætta eða urðu eftirtektarminni. Kurt Cobain fannst frægðin mjög erfið og var djúpt sokkinn í eiturlyf. Hann varð þunglyndari með degi hverjum og fór svo að hann fannst látinn á heimili sínu í Seattle, 8. apríl 1994, eftir að hafa skotið sig þrem dögum áður. Sama ár og Nirvana sungu sitt síðasta fóru Pearl Jam að sniðganga alla tónleika sem miðasölufyrirtækið Ticketmaster sá um vegna þess að fyrirtækið var ósanngjarnt í viðskiptum. Þeir hættu við tónleikaferðalagið sem átti að vera um sumarið og vegna þess að þeir vildu ekki spila á tónleikum ef Ticketmaster komu að hlut spiluðu þeir nánast ekkert opinberlega næstu þrjú árin. Alice In Chains héldu sína seinustu tónleika með söngvaranum Layne Stanley árið 1996 en hættu ekki formlega fyrr en árið 2002, þegar Stanley dó úr ofskammti af heróíni. Soundgarden hættu árið 1997. Þrátt fyrir að vinsældir gruggsins hafi dvalað um miðjan tíunda áratuginn lifa gruggplöturnar góðu lífi og sumar gruggsveitir eru enn að spila í dag, til dæmis Pearl Jam. Sítrónugras. Sítrónugras (fræðiheiti "Cymbopogon") er ætt um 55 grasategunda sem upprunnar eru úr hlýju tempruðu belti eða hitabelti Gamla heimsins og Eyjaálfu. Sítrónugras er hávaxin fjölær jurt. Karantanía. Mynd úr miðaldahandriti sem sýnir krýningu Karantíuhertoga. Karantanía er sögulegt landsvæði sem náði yfir héruðin Kärnten og Steiermark í Austuríki og norðurhluta Slóveníu. Slavar settust að á þessu svæði um 600 e. Kr. og stofnuðu sjálfstætt hertogadæmi um 630. Andrea Ferro. Andrea Ferro (f. 29. ágúst 1973 í Arona) er söngvari Lacuna Coil. Ferro, Andrea Bikarmót FSÍ í hópfimleikum 2012. Bikarmót FSÍ í hópfimleikum fór fram Ásgarði Garðabæ. þann 03. mars 2012. Mótið var í umsjón Stjörnunnar. Íslandsmeistaramót FSÍ í áhaldafimleikum 2012. Íslandsmeistaramót FSÍ var haldið í Íþróttamiðstöð Ármanns dagana 10-11 janúar 2012. Fyrri daginn var keppt í fjölþraut í fullorðnis- og unglingaflokki karla og kvenna. Síðari daginn var keppt í úrslitum á einstökum áhöldum. Í karlaflokki tóku 11 keppendur þátt: 5 frá Gerplu, 4 frá Ármanni og 2 frá Björk. Veitt voru 32 verðlaun sem skiptust þannig á milli félaga að 23 fóru til keppenda úr Gerplu og 9 til keppenda í Ármanni. Í kvennaflokki tóku 21 keppendur þátt: 9 frá Gerplu, 4 frá Ármanni, 3 frá Björk, 3 frá Fylki, 1 frá Gróttu og 1 frá Stjörnunni. Veitt voru 30 verðlaun sem skiptust þannig á milli félaga: 17 Gerpla, 7 Björk, 4 Ármann, 2 Stjarnan, 1 Grótta. Þjóðlagarokk. Þjóðlagarokk er tónlistarstefna sem kom fram á sjónarsviðið um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þjóðlagarokk blandar saman þjóðlagatónlistarstíl með rokkhljóðfærum. Einn mest sérkennandi eiginleiki tónlistarstefnunnar er klingjandi og hringjandi gítarhljómur með tærum samhljómandi söngvum. Nátengdar stefnur eru því þjóðlagatónlist og rokktónlist á sjöunda áratugnum en seinna með mótmælendatónlist. The Byrds voru brautryðjendur í tónlistarstefnunni og lögðu þeir grunninn að stefnunni sem aðrar hljómsveitir fóru svo eftir. Þegar að leið á sjöunda áratuginn fóru fleiri og fleiri hljómsveitir að notafæra sér órafmögnuð hljóðfæri eins og var gert í þjóðlagatónlistinni en í stíl við þjóðlagarokkið sem hafði í gegnum sjöunda áratuginn þróað sinn eigin hljóm og þar með fóru hljómsveitir frá grunninum sem The Byrds höfðu lagt, þar sem þeir notuðu rafmögnuð hljóðfæri. Menn eins og Bob Dylan komu á þessari breytingu sem var undir miklum áhrifum Bítlanna. Á næstu þremur áratugunum voru bæði rafmögnuð líkt og órafmöguð hljóðfæri orðin algeng í öllum kimum stefnunnar. Þjóðlagarokk náðu gífurlegum vinsældum í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem tónlistarmenn á borð við Bob Dylan, The Byrds, Simon and Garfunkel, Mamas and Papas, Buffalo Springfield og margir fleiri voru leiðandi. Senan var rík af listamönnum í Bretlandi og Bandaríkjunum sem nutu heilli á Íslandi en þó var engin þjóðlagarokksena í gangi á Íslandi á þessum afdrifaríka tíma. Saga. Þjóðlaga tónlist hafði sífellt verið að stækka og stækka á sjötta og sjöunda áratugnum og það hlaut að koma sá tíma þar sem hún yrði hluti að ríkjandi stefnum tónlistar sem höfðaði til fjöldans. Táningar sem höfðu alist upp við rokk tónlist og fyrirlitu þjóðlagatónlist, urðu þroskaðari þegar þeir fóru í menntaskóla og kynntu sér annað efni, þá sérstaklega ungir tónlistarmenn sem höfðu opin huga fyrir öðrum stefnum. Þjóðlagarokk varð til með þessari kynslóð. Með þessu varð þjóðlagatónlist og rokk tónlist fyrir endanlegum breytingum. Nú var rokk tónlist ekki sömu augum litin á. Tónlistin sem var sköpuð aðeins í þeim eina tilgangi sem afþreyingi varð fyrir áhrifum þeim eiginleika þjóðlagatónlistar að vera meðvituð um sjálf sitt og öðlaðist einlægari tilgang. Eftir að Bítlarnir fóru að hlusta á ungan Bob Dylan og hans amerísku þjóðlagatónlist, byrjuðu þeir að semja lögin sín með þjóðlaga-ívafi með lögum eins og I'm a Loser sem kom út á plötunni þeirra "Beatles for Sale" árið 1964. The Byrds, sem urðu fyrir áhrifum Bítlanna og voru núþegar aðdáendur Dylans, ákváðu að flytja Mr. Tambourine Man eftir Dylan með rafmögnuðum hljóðfærum. Hægt er að heyra þar eitt af fyrstu þjóðlagarokklögunum, þar sem rokk hljóðfæri eru notuð við flutning á nútíma þjóðlagi. Lagið varð afskaplega vinsælt og leyddi til sprengingar í þjóðlagarokkstefnunni, sumarið 1965, þar sem meðal annars Simon and Garfunkel lagið The Sounds of Silence var endurútgefið með rafmögnuðum hljóðfærum í undirspili. Við þessa sprengingu breytti Bob Dylan sjálfur um stefnu og varð rafmagnaður sem olli miklum deilum meðal þjóðlagaunnenda sem sökuðu hann um að selja sig. Með þessu var þjóðlagarokk stimplað inn sem stór kraftur í tónlistarsenu heimsins. Tveimur árum fyrir umdeilanlegu stefnubreytingu Bob Dylans hafði þjóðlagapopp-hópurinn Peter, Paul and Mary náð miklum vinsældum með þeirra nútíma túlkun á laginu hans Blowin' in the Wind. Það var aðeins tímaspursmál um það hvenær Dylan sjálfur yrði fyrir áhrifum hópa í kringum sig sem þá höfðu hægt og rólega orðið meira og meira fyrir áhrifum þjóðlagatónlistar og ekki lengur hugsunarlaus afþreying, heldur tónlist með boðskapi. Undanfari þjóðlagarokks. Undanfari þjóðlagarokks varð til á undan þjóðlagarokki og er talið vera upprunalega þjóðlagarokkið, á undan The Byrds og Bítlunum. Þó að þjóðlagarokkið hafi orðið til úr samblöndu af amerísku þjóðlaga stefnunni og bresku innrásinni, þá átti það sér þó undanfara. Tónlistarmenn í Bandaríkjunum á borð við Jackie DeShannon og The Beau Brummels og The Springfields í Bretlandi höfðu allir gefið út nútíma tónlist með þjóðlaga-ívafi. Lög eins og Laugh, Laugh og Just a Little með The Beau Brummels urðu vinsæl og Just a Little náði meira að segja #8 á Bandaríska smáskífu listanum. Tónlistarstíll. Tónlistin einkennist af einlægum textum og tærum flutningi, það er að segja ekki hefur unnið mikið á tónlistinni heldur reynt að halda tónlistinni eins nálægt því og hún væri flutt á staðnum. Hljóðfæri sem eru algeng meðal stefnunnar eru rafmagns bassagítarar og gítarar en líka órafmagnaðir. Trommur og munnhörpur. Hægt er að heyra mikla fjölbreytni í tónlistinni hvað varðar hljóðfæri vegna áhrifa þjóðlaga. Sækir tónlistin þá mest í áhrif frá keltneskum þjóðlögum og filippískum. Erfitt er oft að segja til um hvort að lag sé meira rokk lag eða þjóðlag þegar hvað varðar þjóðlagarokkhljómsveitir þar sem blandan getur verið flókin. Til dæmis gæti hljómsveitin sótt til þjóðlags fyrir melódíu en spilað með rafmögnuðum hljóðfærum eða flutt rokk lag órafmagnað með óhefbundnum hljóðfærum án rafmagns. Þess vegna eru til dæmis margar ballöður eins og Bridge over Troubled Water eftir Simon and Garfunkel taldar vera þjóðlagarokk vegna flytjandans en eru í raun eitthvað annað, eins og í þessu tilviki, er lagið hefbundin mjúk rokk ballaða. Tónlistarmenn í senunni eiga það til að fara á tónleikaferðalag með annarri sveit sem er hreint og beint þjóðlagasveit. Hægt er að nefna Urubamba tónlistarhópinn frá Argentínu og Úrúgvæ sem ferðaðist með Paul Simon mikið. Textar geta fjallað um allt frá himni til jarðar. Bob Dylan átti það til að nota lögin sín til þess að skoða samfélagið í heild sinni og vandamál nútímans, þá líka til þess að mótmæla. Lög gátu verið í einföldum 4/4 takti og hröð í stíl við rokkið, eða í hætti þjóðlaga og þá allt frá því að vera 2/4 til 9/8 og bæði hröð eða hæg. Einkenni stílsins er fjölbreytni. Miðaldaþjóðlagarokk. Þjóðlagarokktónlist sem varð til í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi á áttunda áratugnum þar sem blöndun þjóðlagarokks og endurreisnar og miðaldar tónlistar varð að einum sér stíl. Hljómsveitir eins og Gentle Giant urðu til úr þessum stíl og tilheyra þeir líka framsækna rokkinu en þeir notuðu mikið miðaldar tónlist og barokk í blandi við rokk. Í dag er stefnan sterk í Þýskalandi, þar tróna hljómsveitirnar In Extremo og Subway to Sally en í Bretlandi hljómsveitin Circulus. Þjóðlagaþungarokk. Með nýrri undirstefnum þjóðlagarokksins, þjóðlaga þungarokk varð til upp úr 10. áratugnum þar sem margar rafmagnaðar þjóðlagarokkhljómsveitir urðu fyrir áhrifum þungarokksins og sköpuðu nýja stefnu. Stefnan er stór í dag meðal þungarokks og vinsælar hljómsveitir á borð við Ensiferum, Finntroll og Turisas leiða stefnuna í dag. Á Ísland er þjóðlaga þungarokk vinsæll meðal þungarokks aðdáenda og má nefna hljómsveitina Skálmöld sem leiðandi sveit senunnar á Íslandi. Líkt og nafnið gefur til kynna þá er tónlistin blanda af þjóðlaga tónlistarstíl og þungarokki, sem skapar afar melódískt og fjölbreytt þungarokk. Rubin Kazan. Rubin Kazan er rússneskt knattspyrnulið frá borginni Kazan sem er stærsta borg Tatarstan. Rubin vann Rússnesku úrvalsdeildina árið 2008 og 2009. Liðið vakti mikla athygli í Meistaradeild Evrópu 2009-2010 með því að sigra Börsunga 2-1. Steingrímur Jóhannesson. Steingrímur Jóhannesson (14. júní 1973 – 1. mars 2012) var íslenskur knattspyrnumaður sem fæddur var í Vestmannaeyjum. Um leið og Steingrímur hafði aldur til hóf hann að leika knattspyrnu og síðar handknattleik með Íþróttafélaginu Þór. Þá stundaði Steingrímur einnig frjálsar íþróttir með Ungmennafélaginu Óðni. Fljótlega var ljóst að ómældir hæfileikar og fjölhæfni bjuggu í drengnum. Knattspyrnan varð fyrir valinu og þar bar Steingrímur af. Hann hóf að leika með meistaraflokki ÍBV á unglingsaldri og lék með félaginu óslitið í rúman áratug. Knattspyrnuferillinn. Steingrímur spilaði lengst af ferilsins með ÍBV og varð tvívegis Íslandsmeistari með ÍBV, 1997 og 1998 þegar ÍBV sigraði tvöfalt. Hann var markakóngur efstu deildar árin 1998 og 1999. Litlu munaði að hann endurtæki leikinn með Fylki aðeins fjórum árum seinna þegar aðeins tveimur stigum munaði síðan að hann yrði einnig Íslandsmeistari með Fylki árið 2002 en það ár varð hann bikarmeistari með Fylki. Tímabilið eftir ferilinn. Síðar lék Steingrímur með liði Selfoss og þá lá leiðin aftur til Vestmannaeyja þar sem Steingrímur lék með ÍBV og KFS. Steingrímur lék samtals 221 leik í efstu deild og skoraði í þeim leikjum 81 mark. Þá lék hann einn A-landsleik og þrjá leiki fyrir U-21-landsliðið. Veikindi. Steingrímur greindist með krabbamein árið 2011 hann lést af völdum þess 1. mars 2012 aðeins 38 ára að aldri. Vesturstrandar hipp hopp. Vesturstrandar hipp hopp er afbrigði af hipp hopp sem nær yfir flytjendur í Vestur-Bandaríkjunum. Upphafsár. Hipp hopp er listform sem varð fyrst til í Suður-Bronx borgarhlutanum í New York um 1970. Það stendur saman af fjórum megin þáttum: plötusnúðum, rappi, veggjalist og breikdansi. Talið er að tónlistarstefnan hafi þróast út frá sál, funki, jazzi og diskó. Hipp hopp uppgötvaðist í svokölluðum hverfis-partýum þar sem hljóðkerfum var komið út á göturnar og í garða á sumrin þar sem fólk dansaði og skemmti sér. Suður-Bronx var svokallað ghetto þar sem að fólk hafði ekki efni á að læra á hljóðfæri eða að læra söng. Fátæka fólkið fór aðrar leiðir til þess að búa til tónlist, þau notuðu það sem var í kring um þau, gamla, skítuga hljóðnema og plötur. Á þeim tíma voru plötusnúðar eða svokallaðir DJ's, sem spiluðu vinsæla tónlist: fönk, soul, rokk, og notuðu jafnvel frægar auglýsingar til að rífa upp stenminguna í hverfissamkomum. Eina sem skipti máli var að plöturnar höfðu góðan takt. Þeir spiluðu tónlist þannig að hún rann saman í eina heild og notuðu við það hraðastillanlega plötuspilara ásamt hljóðblandara. Saga Vesturstrandarinnar. Sagt er að hipp hopp tónlistarform hafi uppgötvast á Vesturströndinni í lok áttundáratugarins með stofnun hljómsveitarinnar Uncle Jamm’s Army árið 1978. Hljómsveitin varð fyrir miklum áhrifum frá tónlistarmönnum á borð við Prince, Kraftwerk, Parliament-Funkadelic og frá Austurstrandar hipp hoppi. Uncle Jamm’s Army varð fljótlega ein vinsælasta partý hljómsveit Los Angeles. Fyrsta fræga lagið þeirra heitir „Dial-a-Freak“. Alonzo Williams var frægur dansari á þessum tíma og stofnandi raf–hipp hopp hópsins World Class Weeckin' Cru sem innihélt þá verðandi N.W.A meðlimi, þá Dr. Dre og DJ Yella. Alonzo stofnaði einnig Kru–Kut Records sem hann útbjó upptöku stúdíó baka til í næturklúbbinum sínum sem hét Eve's after Dark. Margir frægir rapparar stunduðu þennan næturklúbb þar sem margar hugmyndir urðu til. Eiturlyfjasalinn og rapparinn Eazy-E og Jerry Heller fengu hugmyndina af því að stofna Ruthless Records á næturklúbbnum. Einnig kynntust Dr. Dre og DJ Yella þar meðlimum C.I.A. sem varð seinna meir að hljómsveitinni N.W.A. KDAY. Það sem hafði hvað mestu áhrifin og breiddi út hugmyndinni að Vesturstrandar hipp hoppi var útvarpstöðin KDAY, fyrsta hipp hopp stöð Los Angeles. Stöðin spilaði allt það nýjasta úr hipp hopp flórunni á Vesturströndinni og var fyrsta útvarpstöðin í heiminum sem spilaði einungis hipp hopp tónlist. Stjórnandi stöðvarinnar var hinn eini sanni DJ Greg „Mack Attack“ Mack sem átti stóran þátt í að gera hljómsveitina N.W.A. heimsfræga. Rappers Rapp Records. Rappið byrjaði hins vegar árið 1981 þegar Duffy Hooks stofnaði fyrstu Vesturstrandar-rapp útgáfuna Rappers Rapp Records sem hafði sterk áhrif frá austurströndinni þar sem Sugarhill Records var staðsett í New York. Fyrstu listamenn útgáfunnar var dúóið Disco Daddy og Captain Rapp. Fyrsta lag þeirra hét „Gigolo rapp“ en 1983 kom út lagið „Bad times“ sem varð fyrst vinsælt í útvarpinu og klassískt vesturstrandar lag. Future MC'S. Árið 1981 kom annar hópur fram í sviðsljósið sem minnti mikið á Vesturstrandar-útgáfu af þeim félögum Grandmaster Flash and the Furious Five sem voru frægir á Austurströndinni. Hún saman stóð af þeim King MC, Lovin C, MC Fosty, DJ Flash, Macker Moe og Mr. Ice. Hópurinn splittaðist fljótlega upp. DJ Flash og King MC héldu áfram að semja tónlist og urðu mjög vinsælir. Saman kölluðu þeir sig Future MC's og gáfu út nokkur fræg lög, meðal annarra Erotic City Rapp og Beverly Hills Rapp sem gerð endurútgáfa af. The good life Café. The Good Life Café var staður sem tók uppá því í desember 1989, að hafa opinn míkrafón vikulega. Ungt fólk þurfti stað til þess að þróa eigin tónlist. Andrúmsloftið inni á staðnum var skemmtilegt og rapparar, skáld og tónlistarmenn notuðu saman krafta sína. Á fimmtudagskvöldum á milli klukkan átta og tíu máttu listamenn flytja eitt lag. Sumir fluttu frumsamin lög, aðrir spunnu á staðnum. Ef að flutningurinn var ekki góður öskruðu áhorfendurnir á viðkomandi og listamaðurinn þurfti að ljúka laginu samstundis. Frægir tónlistarmenn sem mættu oft á kvöldin eru meðal annars Ice Cube, Snoop Dogg, Will.i.am og Common en tónlistarmennirnir The Pharcyde, Fat Joe, Skee-Lo og Kurupt eru meðal þeirra sem tóku þátt og komu fram. The Good Life Café var góð leið fyrir tónlistarmenn að koma sér á framfæri og átti stóran þátt í þróun hipp hopps á vesturströndinni. Gangsta rapp og N. W.A. N.W.A. eða Niggaz with Attitude er ein fyrsta hljómsveitin sem gerði gangsta rapp vinsælt í Bandaríkjunum. Gangsta rap var tegund rapps sem var ekki mjög sýnilegt og á rætur sínar að rekja til Vesturstrandar Bandaríkjanna, nánar tiltekið til borgarinnar Compton sem er innan Los Angeles stórborgarsvæðisins. Ice Cube, Dr. Dre, MC Ren og DJ Yella ásamt Eazy-E mynduðu hljómsveitina þar sem Dr. Dre, sem sá um laga- og textasmíð ásamt því að rappa sjálfur og Ice Cube sem sá um textasmíð og rapp. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, N.W.A. and the posse, árið 1987. Sú plata gekk ekki vel í sölu en næsta plata Straight outta Compton sem kom út árið 1989 varð stórsmellur og seldist um öll Bandaríkin. Platan vakti mikla athygli fyrir mjög hreinskilna mynd á lífinu í fátækrahverfum Los Angeles og gagnrýndi yfirvöld og lögreglu harkalega. Lagið Fuck tha Police var bannað á nokkrum stöðum vegna harkalegrar gagnrýni á lögregluyfirvöld og ofbeldisfullra lýsinga á æskilegum viðbrögðum gegn lögreglunni. Grundvöllurinn fyrir stofnun sveitarinnar var fíkniefnasala Eazy-E sem hafði verið stórtækur fíkniefnasali í Compton og notaði hann tekjur sínar af sölunni til að fjármagna plötuútgáfu N.W.A. Eazy-E. Eric Wright eða Eazy-E fæddist hinn 7. september árið 1963 í Compton, Kaliforníu. Hann var sonur hjónanna Kathie og Richard Wright en þau börðust við fátækt eins og flestir aðrir í þessu hverfi. Eazy-E hóf skólagöngu en hætti henni í 10. bekk til að snúa sér alfarið að fíkniefnasölu sem hafði verið honum mjög ábatasöm enda krakk nýkomið á markaðinn og gríðarlega góðar tekjur mynduðust af sölu þess. Eazy-E er oft sagður stofnandi gangsta rapps. Tupac Shakur. Tupac Amaru Shakur er frægasti rappari vesturstrandarinnar. Hann fæddist í Brooklyn, New York 16. júní 1971. Tupac ólst upp í mikilli fátækt í fátækrahverfum New York. Hann samdi ljóð og skrifaði dagbækur ungur að aldri og tólf ára gekk Tupac í leiklistarhóp í Harlem. Fimmtán ára gamall flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Baltimore, þar sem hann gekk í leiklistarskóla. Tupac hafði brennandi áhuga á ljóðlist og austrænum trúarbrögðum og sökkti sér jafnvel í alfræðiorðabækur. Í Baltimore hóf Tupac einnig að semja og flytja rapptónlist undir nafninu MC New York. Tveimur árum síðar fluttu Tupac og fjölskylda til Kaliforníu og það var þá sem Tupac komst í slæman félagsskap. Hann fór að selja fíkniefni og komst í alls kyns vandræði en á sama tíma eignaðist hann félaga sem vöktu áhuga hans á rappi. Árið 1991 lék Tupac í kvikmynd inni Juice og hlaut góða dóma fyrir leik sinn í myndinni. Í nóvember 1991 gaf Tupac svo út sína fyrstu sólóplötu, 2Pacalypse Now og náði strax vinsældum. Platan var harðlega gagnrýnd af sumum og var sögð hvetja til ofbeldis. Tupac gaf út aðra plötu sína, Strictly 4 My N.I.G.G.A.Z. í febrúar 1993. Á Platan náði mun meiri vinsældum en sú fyrsta, seldist í milljónum eintaka. Árið 1994 stofnaði Tupac rapphljómsveitina Thug Life, sem gaf út plötuna Thug Life: Thug Life Vol. 1 við litla athygli. Tupac komst meira í kast við lögin eftir að hann varð þekktur. Í desember 1994 var Tupac kærður fyrir kynferðisbrot og í ársbyrjun 1995 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi, þrátt fyrir skort á sönnunargögnum og að neita allri sök. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir dómsúrskurðinn var ráðist á Tupac, hann rændur og skotinn fimm sinnum, meðal annars í höfuðið. Hann lifði árásina af og var fluttur á sjúkrahús, þar sem hann gekk undir aðgerð. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir aðgerðina útskrifaði hann sig sjálfur af spítalanum og mætti til að heyra dómsuppskurðinn í kynferðisbrotsmálinu. Eftir það gaf hann út tvær plötur Me Against The World og All Eyez on Me sem sögð er vera besta rappplata allra tíma. Þann 7. september 1996, eftir að hafa verið staddur á hnefaleikakeppni í Las Vegas var Tupac skotinn fimm sinnum í bíl á leiðinni heim. Hann var lagður inn á sjúkrahús, þar sem gerðar voru þrjár aðgerðir til að reyna að bjarga lífi hans. Sex dögum síðar, þann 13. september, lést Tupac af sárum sínum, aðeins 25 ára að aldri. Morðið á Tupac er enn þann dag í dag óupplýst. Tveimur mánuðum eftir morðið kom út platan Makaveli: The Don Killaminati: 7 Day Theory sem Tupac hafði tekið upp rétt fyrir dauða sinn. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um hver hafi myrt Tupac. Austurstrandar – Vesturstrandar hipp hopp ágreiningurinn var deila sem byrjaði í kringum 1990. Í brennidepli ágreiningsins voru Austurstrandarrapparinn The Notorious B.I.G á móti Tupac. Þeir voru báðir myrtir og sumir halda því fram að stuðningsmenn B.I.G hafi myrt Tupac. Einnig hefur verið haldið fram að Tupac hafi sett dauða sinn á svið og telja sig margir hafa vísbendingar um það af plötum hans. Cypress Hill. Cypress Hill er eitt af stóru nöfnunum frá Vesturströndinni. Hljómsveitin var stofnuð af tveimur kúbverskum strákum árið 1988 og kemur frá South Gate, Kaliforníu og var fyrsta heimsfræga american/ latino hipp hopp hljómsveitin á markaðnum. Í byrjun átti Cypress Hill að vera rokkhljómsveit en tónlistin þróaðist út í hart hipp hopp. Snoop Dogg. Snoop Dogg er fæddur 20. október 1971 og er einn frægasti Vesturstrandar rappari nútímans. Ásamt því að vera heimsfrægur rappari er hann einnig leikari og skemmtikraftur. Sem unglingur var hann í glæpagengi í Kaliforníu og stuttu eftir útskrift hans úr skóla var hann handtekinn fyrir eign á kókaíni og eyddi sex mánuðum í fangelsi. Tónlistarferill hans hófst árið 1992 en hann var lærisveinn Dr. Dre um kringum dauða Eazy E. Fyrsta plata hans heitir Doggystyle en hún fór beint á topinn í Bandaríkjunum. Hann hefur síðan gefið út tíu aðrar plötur sem hafa allar notið mikilla vinsælda, verið tilnefndur til þrettán Grammy-verðlauna. Fleiri rapparar. Aðrir frægir heimsfrægir rapparar sem komu frá vesturströnd Bandaríkjanna eru meðal annars Ice T, Kurupt, Xzibit og hljómsveitin Dialated peoples. Stefánskirkjan í Vín. Stefánskirkjan í Vín. Suðurturninn, sem er 136 m hár, er með stillansa. Stefánskirkjan í Vín (Stephansdom) er dómkirkja Vínarborgar og er nánast helgidómur fyrir borgarbúa. Kirkjan er meðal merkustu gotnesku bygginga Austurríkis og ein einkennisbygginga borgarinnar. Saga kirkjunnar. Saga kirkjunnar hófst er erkibiskupinn í Passau í Bæjaralandi leyfði byggingu nýrrar kirkju í Vín á 12. öld. Nýja kirkjan átti að vera aðalkirkja borgarinnar. Hún var vígð 1147 og helguð heilögum Stefáni píslarvotti, enda var dómkirkjan í Passau einnig helguð honum. 1230-45 reis ný tengibygging, en meirihluti hennar brann 1258. 1304-1340 var kórinn stækkaður að muna í gotneskum stíl. Nýtt kirkjuskip var svo reist frá og með 1359. Vín varð biskupssetur 1469 og var Stefánskirkjunni þá breytt í dómkirkju, sem hún hefur verið alla tíð síðan. 1433 var suðurturninn fullgerður. Hann er 136 metra hár og er hæsti kirkjuturn Austurríkis. Gefin var út tilskipun þess efnis að engin kirkja í Austurríki mætti vera hærri. 1450 var hafist handa við að reisa norðurturninn. Hann átti að vera sambærilega hár suðurturninum, en verkinu lauk aldrei og er hann er ófullgerður. Þó fékk hann lítið laukþak 1578. Norðurturninn er því eingöngu 68 metra hár og gefur hann kirkjunni nokkuð sérkennilegt útlit. Þegar Tyrkir réðust á Vín í síðara skiptið árið 1683, skemmdist kirkjan talsvert af fallbyssukúlum. Í sprengjuregni og götubardögum heimstyrjaldarinnar síðari slapp kirkjan við allar skemmdir, nema gluggarnir. En 11. apríl 1945 voru nokkrir Austurríkismenn að ræna búðir í kringum Stefánstorgið þar sem kirkjan stendur. Þeir lögðu eld í nokkrar þeirra, en eldurinn breiddist út og læsti sig einnig í kirkjuna. Þak hennar og norðurturninn brunnu. Mikið af innviðinu eyðilagðist. Þannig brann klukknaverkið og féllu nokkrar kirkjuklukkur niður. Gamla orgelið frá 1886 eyðilagðist líka. Ekkert slökkvilið var tiltækt, enda götubardagar í gangi. Næsta morgun hertóku Sovétmenn hverfið og var skaðinn skeður. Sökum þess hve mikilvæg Stefánskirkjan var í augum Vínarbúa, var ákveðið að gera við bygginguna strax að loknu stríði. Fjármagnið kom úr vasa borgarbúa og var kirkjan endurvígð 1952. Keisaraeiðurinn. Karl VI keisari sór árið 1713 eið í Stefánskirkjunni þess efnis að hann skyldi reisa nýja kirkju ef mannskæðu pestinni í borginni létti. Á þeim tíma vissu menn ekki hvers eðlis pestir væru og hvort þessi pest yrði komin til að vera og bana öllum íbúum borgarinnar. Því ákvað keisari að sverja slíkan eið. Pestin rénaði þó brátt og þremur árum síðar efndi Karl keisari eið sinn og lét reisa Karlskirkjuna í borginni. Kirkjuklukkur. Pummerin er þriðja þyngsta kirkjuklukka Vestur-Evrópu Altaristaflan. Altaristaflan er ca. 12 metra há Altaristafla Stefánskirkjunnar er dýrgripur úr marmara og grjóti. Hún var smíðuð 1641-45 eftir að gamla taflan var orðin of ormétin. Taflan er um 12 metra há. Hana prýða tvö málverk og sex styttur, fjórar á stallinum og tvær efst. Neðri stytturnar eru af Leópold og Flórían (verndardýrlinga landsins) og Sebastian og Rochus (verndardýrlinga gegn pestum). Efri stytturnar eru af Rúpert og Bónifatíus (verndardýrlinga kristninnar fyrr á öldum). Aðalmálverkið sýnir píslarvættisdauða Stefáns, en hann er verndardýrlingur kirkjunnar. Wiener Neustadt altarið. Wiener Neustadt-altarið er mikil listasmíð Stefánskirkjan er með nokkur hliðaraltari. Eitt þeirra er Wieder Neustadt altarið, en það var smíðað 1447 og er því tveimur öldum eldra en háaltarið. Altarið var gjöf Friðriks III keisara til klaustursins í Wiener Neustadt, en flutt í Stefánskirkjuna 1884. Altaristaflan er með tveimur hliðartöflum sem hægt er að loka. Það er elsta slíka altaristafla Austurríkis. Myndefnið er gert úr viðarstyttum og eru af dýrlingum ýmissa landa og ýmissa tímabila (t.d. heilagrar Katríar, Barböru, Lúsíu, Úrsúlu o.fl.). Á bakhlið hliðararmanna (þegar þeir eru lokaðir) eru málverk af nokkrum postulum, dýrlingum og páfum. Altaristaflan er allt í allt stórkostlegt listaverk. Það skemmdist ekki í brunanum 1945, en viðgerð á því 1950 og 1952 þótti koma illa út. Predikunarstóllinn. Predikunarstóllinn er fyrir miðju kirkjuskipsins og er gerður úr kalksteini við smíði skipsins á miðri 14. öld. Myndefni stólsins var gert síðar, 1510-15. Fjórar mannsmyndir eru hringinn í kringum stólinn. Þær sýna lærifeðurnar í frumkristni: Ágústínus, Ambrosíus, Gregor hinn mikla og Híeronýmus. Þeir vísa einnig til hinna fjögurra skapgerða og hinna fjögurra aldurshópa. Bænahús keisara. Í kirkjuskipinu er sérstakur skápur sem lokaður er fyrir almenningi. Hér er um bænahús keisarans að ræða, þ.e. staður þar sem keisarinn gat kropið niður og beðið einsamall án truflunar annarra kirkjugesta. Bænahúsið er tvílyft, þ.e. neðri skápurinn og efri skápurinn. Þeir voru smíðaðir 1644 og voru notaðir í fyrsta sinn af Ferdinand III keisara. Gluggar. Langflestir upphaflegir gluggar Stefánskirkjunnar eru týndir. Skipt hefur verið um glugga nokkru sinnum í gegnum tíðina, þar sem mönnum þótti eldri gluggarnir ekki lengur passlegir fyrir nýja tíð. Allir gluggar kirkjunnar eyðilögðust hins vegar í höggbylgjum sprengna í heimstyrjöldinni síðari, sem og í eldinum sem braust út í kirkjunni 1945. Aðeins tveir gluggar í kórnum hafa lifað tíðina af og eru upprunalegir gluggar kirkjunnar. Annar sýnir hertogann Leópold I af Habsborg, en hinn hertogann Rúdolf I af Bæheimi. Allir aðrir gluggar kirkjunnar í dag eru gjafir héðan og þaðan. Grafhvelfing. Í Stefánskirkjunni er grafhvelfing þar sem 19 einstaklingar hvíla í steinkistum. Auk ofangreindra aðila eru innyfli ýmissa hertoga Habsborgara, kardinála Vínar og erkibiskupa geymd í krukkum og öðrum ílátum í grafhvelfingunni, þar á meðal Napoleons Frans Bonaparte, sonur Napoleons Bonaparte. Í postulakórnum, inn af kirkjuskipinu, er svo enn ein steinkista. Í henni hvílir Friðrik III keisari, en hann var lagður í hana 1513. Þar er einnig steinkista hertogans Rúdolfs IV, en hún er tóm, því hertoginn hvílir í grafhvelfingunni ásamt Katarínu eiginkonu sinni. Shaktar Donetsk. Shaktar Donetsk er knattspyrnulið frá Borginni Donetsk í austurhluta Úkraínu. Liðið var stofnað 1936 og leikur í efstu deild í Úkraínu. Félagið vann Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu 2009. Liðið á titil að verja í Úkraínsku úrvaldsdeildinni. Eigandi félagsins er hinn afar umdeildi kaupsýslumaður Rinat Akhmetov. Þekktasti leikmaður félagsins um þessar mundir er án efa Eduardo da Silva. Nokkur umfjöllun hefur verið í Úkraínu um að peningunum sem varið hefur verið í Shaktar Donetsk hefði betur verið varið í fátækan almening í Donetsk en aðrir segja að það sé af hinu góða að fólk hafi loksins eithvað að gleðjast yfir í Donetsk-borg þar sem lífið getur oft verið erfitt. Saga Félagsins. Shaktar Donetsk er eitt af elstu félögum Úkraínu. Félagið varð til á tímum Sovétríkjanna og var eitt af stærri liðum landsins á þeim tíma. Leikvangur. Donbass Arena er einn af stærstu völlum Evrópu og var meðal annars notaður á Evrópumótinu í Knattspyrnu 2012. Donbass Arena getur tekið 50.000 manns í sæti og hefur fengið fimm stjörnu einkunn frá evrópska knattspyrnusambandinu. Jón Óskar. Jón Óskar (Ásmundsson) (18. júlí 1921 – 20. október 1998) var skáld og rithöfundur, einn af frumkvöðlum módernisma í íslenskri ljóðagerð og í hópi atómskáldanna svonefndu. Ævi og störf. Jón Óskar var fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1940 og stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskóla Reykjavíkur í nokkur ár. Auk þess lærði hann frönsku á námskeiðum Alliance française í Reykjavík og París og ítölsku á námskeiðum og í einkatímum í Róm, Perugia og Genúa. Rithöfundarferill Jóns Óskars hófst árið 1941. Hann stundaði einnig önnur störf, var píanóleikari í ýmsum danshljómsveitum á árinum 1946-1956 og ræðuritari á Alþingi 1953-1958. Frá 1958 voru ritstörfin hans aðalstarf. Á árunum 1955-1968 var Jón einn af ritstjórum bókmenntatímaritsins Birtings. Fyrsta bók Jóns Óskars kom út 1952. Hann samdi einkum smásögur og ljóð, en einnig eina skáldsögu, ferðahugleiðingar og rit sagnfræðilegs eðlis. Á árunum 1969 – 1979 komu út í 6 bindum æviminningar hans um líf skálda og listamanna í Reykjavík á árunum 1940-1960. Jón var einnig afkastamikill þýðandi úr ítölsku og frönsku og þýddi m.a. ljóð eftir Baudelaire, Verlaine og Rimbaud auk verka í óbundnu máli eftir Albert Camus, Carlo Levi, Ignazio Silone, Simone de Beauvoir og fleiri. Kona Jóns Óskars var myndlistarkonan Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá. Menningarleg heimsvaldastefna. Menningarleg heimsvaldastefna á við yfirráð einnar menningar yfir annarri. Hún er hugtak innan heimsvaldastefnu og getur verið allt frá almennri skoðun að virkri, formlegri og ákveðinni stefnu sem felur í sér (eða stafar af) hernaðaraðgerðir. Hagfræðilegir og tæknilegir þættir hafa líka hlutverki að gegna. Menningarleg heimsvaldastefnu má líkja við nýlendustefnu: menning fyrsta heimsins má vera talin „innrás“ eða „spilling“ af menningu innfæddra. Hugtakið getur einnig átt við yfirráð sérstakra ríkja og fjölþjóðafyrirtækja yfir öðrum löndum (í menningarlegum skilningi). Oft er orðið notað í neikvæðu samhengi þar sem óskað er eftir að draga úr slíkri yfirráð og áhrifum hennar. Ormur Þorleifsson. Ormur Þorleifsson eða Ormur ríki á Knerri (d. 16. október 1609) var ríkur bóndi á Snæfellsnesi á 16. öld og er sagður hafa verið yfirgangssamur og harðlyndur ójafnaðarmaður. Þjóðsögur segja að fjöldamorðinginn Axlar-Björn hafi alist upp hjá honum. Fátt er þó vitað með vissu um Orm en árið 1577 átti hann í deilum við sveitunga sinn, Alexíus Þorvarðsson, og lauk þeim svo að Alexíus hjó hægri hönd af Ormi um úlnlið en Jón sonur Alexíusar veitti Ormi sár á handlegg og barði hann með steini. Voru þeir feðgar dæmdir útlægir fyrir þetta. Sagnir herma að Ormur hafi haft vinnumann af Mýrum, Pétur að nafni, og þegar hann kvæntist hafi Ormur reynst honum vel og látið hann hafa jörð til ábúðar. Hann tók svo yngsta son þeirra hjóna í fóstur og var það Björn, sem síðar var kenndur við Öxl. Hann ólst því samkvæmt þjóðsögum upp á Knerri og framdi þar sitt fyrsta morð. Sagt er að sonur Orms, Guðmundur, hafi verið mikill vinur Björns og haldið yfir honum hlífiskildi eftir að hann tók við búi af föður sínum gömlum. Ormur dó þó ekki fyrr en þrettán árum eftir að Björn var tekinn af lífi og hefur þá líklega verið háaldraður. Ítaló diskó. Ítaló diskó er undirtegund diskó-tónlistar, sem á uppruna sinn að rekja til Ítalíu seint á 8. áratugnum og í byrjun þess 9. Nafn stefnunar varð ekki til fyrr en árið 1985 en þá var Þjóðverji að nafni Bernard Mikulski sem fann upp á því. Bernard rak útgáfufyrirtækið ZYX og fannst tími til þess kominn að þessi tegund af tónlist fengi nafn svo hægt væri að markaðsetja hana. Ítaló-diskó er undir mjög miklum áhrifum frá diskói en þó er það mun elektrónískara en diskó hafði verið þegar það hafði verið upp á sitt besta. Trommu-gervlar og hljóðgervlar spiluðu stórt hlutverk í stefnunni en þeir voru notaðir til þess að framkalla tilraunakennda tónlist og gáfu ítaló diskó þann elektróníska brag sem einkennir stefnuna. Stefnan er einnig frekar poppuð hún er frá miklum áhrifum frá hinum og þessum stefnum og hljómar eins og einhvers konar framtíðar popp oft á tíðum. Eins og í venjulegri diskó tónlist er þemað textum í ítaló diskói oftast ást og oftar en er söngurinn á ensku. Ítaló diskó náði ekki það miklum vinsældum en þó eru einhverjir tónlistarmenn sem má sjá hjá skýr áhrif frá stefnunni, enn þann dag í dag. Saga. Ítaló diskó er undirstefna diskó tónlistar og áður en farið verður nánar út í sögu ítaló diskós verður rakin stutt saga diskó tónlistar. Diskó. Diskó er tegund af popp-tónlist sem varð til á miðjum 6. áratugnum og náði tindi vinsælda sinna seint á 8. áratugnum. Það sem var einkennandi fyrir diskó-tónlist var diskó-dans og staðirnir sem spiluðu diskó en það voru svokallaðir diskó-klúbbar. Mikil menning var í kringum diskó tónlist en fólk fór að klæða sig í skrautleg föt og var mikil áhersla lögð á það að líta sem best út, sérstaklega þegar farið var á diskó klúbbana. Diskó tónlist er mikil stuð tónlist sem einkenndist af stöðugum og miklum takti fyrir dans, diskó var undir miklum áhrifum frá sálartónlist, fönki og suður-amerískri tónlist. Diskó var mjög vinsælt í Bandaríkjunum og í Evrópu seint á 8. áratugnum og snemma á þeim 9. og markaðurinn tók mjög vel við stefnunni á þessum tíma, og ekki minkuðu vinsældirnar með komu myndarinnar Saturday Night Fever, sem skartaði einni skærustu stjörnu Hollywood á þessum tíma, John Travolta, í aðalhlutverki. Tiltölulega snemma á 9. áratugnum fór diskó að missa vinsældir sínar, og í kjölfarið af því mynduðust mikil illindi í garð diskó stefnunnar og í Bandaríkjunum heyrðist slagorðið „diskó sökkar“ víða, ásamt því að diskó plötur voru brenndar. Uppruni ítaló. Í kjölfar þess að vinsældirnar minnkuðu fór diskó tónlist ofan í undirölduna og tók að þróast. Þá fóru hjólin að snúast í heimi elektrónískrar tónlistar og diskó varð mun elektrónískara. Það var farið að notast mikið við hljóðgervla og trommugervla og á sama tíma voru Ítalir í Bandaríkjunum farnir að þróa nýja stefnu sem varð síðan að hús tónlist. Á Ítalíu hafði diskóið verið vinsælt en diskóið eins og það var í Bandaríkjunum var reyndar kallað Ítaló fönk á Ítalíu. Ein mikilvæg ástæða fyrir mikilli grósku í ítalskri tónlistargerð á þessum árum var efnahagsleg. Snemma á 9. áratugnum var gengið milli Bandaríkja dollarans og Ítölsku lírunar mjög óhagstætt þannig næstum ómögulegt var að koma vel út úr því að flytja tónlist til Ítalíu frá Bandaríkjunum. Þetta varð til þess að áherslan fór öll á innlenda framleiðslu og markaðsetningu, mörg stærstu Ítaló diskó plötufyrirtækin urðu til á þessum tíma, að miklu leyti vegna fjárhagslegra ástæðna. Textarnir í ítaló diskó eru yfirleitt frekar einsleitir. Þemað var oftar en ekki ástartengt en skipuðu þó ekki stóran sess í tónlistinni, og voru meira í aukahlutverki. Það var líka frekar algengt að ítölsku plötusnúðarnir kunnu litla sem enga ensku þannig tölvuraddir komu þeim oft til bjargar. Þrátt fyrir þetta náði ítaló diskó miklum vinsældum í Evrópu, sérstaklega þá í Mið- og Austur Evrópu, og einnig varð stefnan mjög vinsæl í Japan. Ýmsir ítalskir tónlistarmenn gáfu tónlistina sína út undir dulnefnum. Það var þannig háttað að útgáfufyrirtækin vildu ekki gefa út tónlist einstakra tónlistarmanna, þeir voru oft með stjörnustæla og vesen, þannig fyrirtækin sjálf bjuggu í rauninni til það sem þau gáfu út. Sem dæmi um þetta má nefna Den Herrow en þegar fyrsti söngvarinn fór að verða of kröfuharður þá var hann bara rekinn og einhver annar tók við en Den Harrow voru þrír söngvarar í allt. „Spagettí-dans“. Flestum ítaló-diskó plötunum var hljóðstýrt af hljóðversnördum sem höfðu mest verið að spila með öðrum listamönnum þegar þeir höfðu komið í hljóðverið, oftast voru þeir hljómborðsleikarar eða plötusnúðar, sem bjuggu ekki yfir mikilli hljóðfærakunnáttu. Hins vegar voru þeir með á hreinu hvað var og var ekki góð danstónlist og hvað áheyrendur vildu heyra. Áður en hið eiginlega Ítaló varð til kom fram á sjónarsviðið keimlík útgáfa af tónlistinni, hrárri en Ítalóið varð, en þó frekar líkt. Það kallaðist „Spagettí-dans” og var þannig háttað að það voru hvorki slagverk né strengjahljóðfæri, eingöngu hljóðgervlar, trommugervlar og hljómborð. „Spagettí-dans” var nánast að öllu leyti byggt upp eins og Ítalóið átti eftir að verða, 4/4 taktur, áhersla á laglínu og framtíðarkenndan hljóm. En „spagettí-dans” entist ekki lengi sem slíkt. Nafnið var ekki nógu grípandi og það hljómaði bara frekar kjánalegt. En þá kom þjóðverjinn Bernard Mikulski til sögunar. Bernard átti plötufyrirtækið ZYX og fann upp á nafninu „ítaló diskó” árið 1984 og aðdáendur stefnunnar festu nafnið við tónlistina. Á fyrstu fjórum árunum sem ZYX gáfu út ítaló (1984-1988) voru þeir ótrúlega duglegir við útgáfur og gáfu út 23 safnplötur með ítaló-diskói, 13 undir nafninu „The Best of Italo Disco” og 10 undir „Italo boot mixes”. Endalok ítaló-diskó. Á meðan ítaló og elektrónísk tónlist varð sífellt vinsælli í Evrópu brenndu Bandaríkjamenn diskó plöturnar sínar og tónlistarmenningin breyttist töluvert þar. Elektró-senan var komin á fulla ferð í Evrópu og skiljanlega fór bandaríkjamenn að þyrsta í eitthvað því líkt. Ítaló-diskó varð aldrei neitt sérstaklega vinsælt í Bandaríkjunum en þó þróaðist frá stefnunni ýmsar stefnur sem urðu risastórar, til dæmis hústónlist en hún varð til í Chicago á miðjum 9. áratugnum. Þrátt fyrir ágæta vinsældir þá náði ítaló diskó aldrei að eins vinsælt og popp eða rokk og þegar hústónlistin kom til í Bandaríkjunum hófst mikil gróska í elektrónískri tónlist þar og hústónlistin varð til ásamt teknó-tónlist í Detroit. Þessar stefnur komu svo til Evrópu og tóku öll völd í elektrónískri tónlist og við það fjaraði ítaló diskó að mestu út. Endurkoman. Frá árinu 1998, þegar þýska diskó-hljómsveitin Modern Talking tók saman aftur, hefur ítaló-diskó verið að verið að verða aftur vinsælt. Upprisa þessara vinsælda er mestu að þakka tveimur plötufyrirtækjum frá Finnlandi og Hollandi sem hafa verið að gefa út ítaló plötur seinustu ár. Sjónauki. Sjónauki eða kíkir er tæki sem aðstoðar við skynjun fjarlægra hluta með því að safna saman rafsegulgeislun (eins og sýnilegs ljóss). Fyrstu sjónaukarnir voru framleiddir í Hollandi í byrjun 17. aldar. Þeir ollu byltingu í stjörnufræði. Dauðarokk. Dauðarokk er undirstefna þungarokksins. Dauðarokkið þróaðist út frá bylturokki og fyrstu drungarokkshljómsveitanna á miðjum níunda áratugnum. Dauðarokk er, í einfaldri mynd, öfgakennt þungarokk. Það einkennist af miklum bjögunarhljóm úr gítörunum, mjög hraðri endurtekinni skiptingu milli tveggja tóna (e. "Tremolo picking"), djúpum öskrum söngvarans, mjög hröðum trommum, moll tónum og oftar en ekki tóntegundaleysi (tónsmíði sem ekki byggist á tóntegund eða tóntegundum) og flóknum lögum með mörgum og flóknum taktbreytingum. Frumkvöðlar stefnunnar eru taldir vera bandarísku hljómsveitirnar Death og Posessed en þær þróuðu tónlist sína út frá bylturokks hljómsveitum á borð við Slayer og Kreator og svartamálms hljómsveitum á borð við Celtic Frost og Venom. Hljómsveitirnar Obituary, Carcass, Decide og Morbid Angel eru einnig taldar meðal frumkvöðla stefnunnar en hafa þó ekki haft jafn mikil áhrif og hinar fyrrnefndu. Uppruni. Ef að nefna ætti tvær hljómsveitir, sem höfðu hvað mest áhrif á þróun fyrstu dauðarokks hljómsveitanna, væru það sveitirnar Venom og Slayer. Venom, ásamt því að vera frumkvöðlar drungarokksins, höfðu einnig áhrif á bylturokkið og dauðarokkið. Fyrstu tvær plötur þeirra eru taldar áhrifamestar, það er að segja Welcome to Hell, frá 1981 og Black Metal, frá 1982, en frá þeirri síðarnefndu er enska nafn drungarokksins tekið. Tónlistin þeirra einkenndist af myrkum og hráum tón í bland við hrjúfan söng og ógnvekjandi texta. Textarnir voru þá einkum um djöfladýrkun en það féll vel í kramið hjá öfgakendum þungarokkshljómsveitum. Hljómsveitin Slayer var stofnuð árið 1981 og spiluðu bylturokk eins og margar frægar hljómsveitir frá þessum tíma, t.d. Metallica og Megadeth. Tónlistin þeirra var þó mun ofbeldisfyllri og hraðari og var því góður grunnur fyrir fyrstu dauðarokks sveitirnar. Textarnir þeirra voru þá einnig í samræmi við fyrstu dauðarokks sveitirnar, það er að segja um dauða, ofbeldi, stríð og djöfladýrkun. Þriðja plata Slayer, Reign in Blood, á að hafa veitt fyrstu dauðarokkurunum mikinn innblástur og hafði mikil áhrif á frumkvöðla stefnunnar. Um miðjann níunda áratuginn komu svo fram áhrifamestu dauðarokks sveitirnar, Possessed og Death. Possessed var stofnuð í San Francisco árið 1983. Þeir eru kallaðir fyrsta dauðarokks sveitin fyrir hröðu og þungu lögin þeirra í bland við kokhljóðum söngvarans, Jeff Beccerra. Nafn stefnunnar er einnig talið koma frá þeim en fyrsta smáskífa sveitarinnar bar nafnið Death Metal. Hún kom út árið 1984. Aðeins ári seinna kom svo út þeirra fyrsta breiðskífa, Seven Churches. Hún er talin vera fyrsta dauðarokks platan og jafnframt sú plata sem tengdi bylturokkið við dauðarokkið. Söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar segir þá hafa verið undir miklum áhrifum frá Venom, ensku þungarokks sveitinni Motörhead og bandarísku bylturokks sveitinni Exodus. Hljómsveitin Death, sem hét upprunalega Mantas, er dauðarokks hljómsveit stofnuð í Flórída árið 1983. Death er taldin vera ein áhrifamesta þungarokks hljómsveit allra tíma og frumkvöðlar í dauðarokks og mulningskjarna (e. Grindcore) senunum. Fyrstu plötu þeirra, Scream Bloody Gore sem kom út árið 1987, hefur verið lýst sem hinni fyrstu sönnu dauðarokks plötu. Forsprakki sveitarinnar, Chuck Schuldiner, hefur verið kallaður faðir alls dauðarokks og einnig hinn sanni upphafsmaður stefnunnar. Death eiga sér enn mjög stóran aðdáendahóp þrátt fyrir andlát Chucks árið 2001 og upplausn sveitarinnar sem fylgdi í kjölfarið. Tölur frá 2008 herma að plötur hljómsveitarinnar hafa selst í yfir tveimur milljónum eintaka og af þeim eru yfir 500.000 seldar aðeins í Bandaríkjunum. Cannibal Corpse er eina dauðarokks sveitin sem hefur selt fleirri plötur en Death í Bandaríkjunum. Auknar vinsældir og þróun stefnunnar. Eftir velgengni Possessed og Death fóru margar hljómsveitir að feta sig í fótspor þeirra. Mikið varð um dauðarokks sveitir í Flórída, en þaðan eru Death komnir og því skiljanlegt að margir þar vilji spreita sig áfram í dauðarokkinu. Hljómsveitir á borð við Obituary, Morbid Angel og Deicide spruttu upp og nutu brátt vinsælda innan senunnar. Þær eru starfandi enn þann dag í dag og eiga enn stóran aðdáendahóp. Dauðarokk breiddist út um allan heim, en meðal þeirra sem tóku mjög vel í hana voru Svíar. Þaðan spruttu margar hljómsveitir sem áttu eftir að hafa áhrif á stefnuna, sveitir á borð við Carnage, God Macabre, Entombed, Dismember og Unleashed. Þar þróuðust svo í kjölfarið fyrstu böndin sem aðhylltust melódíska dauðarokkinu (e. Melodic Death Metal). Stefnan kallaðist Gautaborgar þungarokk (e. Gothenburg Metal) í Svíþjóð vegna þess að þar þróaðist stefnan og blómstraði hvað mest. Hljómsveitir á borð við Dark Tranquillity, At the Gates og In Flames urðu mjög vinsælar innan Gautaborgar stefnunnar. Alþjóðlega kallast þessi stefna þó bara melódískt dauðarokk og er enn gríðarlega vinsæl meðal þungarokkara í Bandaríkjunum og víðar. Undirgrein dauðarokkins, mulningskjarni varð einnig vinsæll í kjölfar dauðarokksins. Stefnan var gerð fræg af breskum hljómsveitum á borð við Napalm Death, og fyrri plötum hljómsveitanna Bolt Thrower og Carcass. Á seinni plötum Death byrjaði hljómsveitin að færa sig yfir á meiri faglegra og tæknilegra svið en sást á fyrri plötum þeirra. Þeir lögðu því ekki aðeins grunnin að venjulega dauðarokkinu heldur einnig að enn annarri undirgrein þess, sem kallast tæknilegt dauðarokk (e. Technical Death Metal), en gengur einnig undir nafninu framsækið dauðarokk (e. Progressive Death metal). Í þeirri stefnu eru áheyrslur lagðar á enn flóknari takta og gítarriff í flóknari uppsetningu en áður hafði sést. Tilfinningaþrungin gítarsóló heyrast einnig mjög oft í tæknilegu dauðarokki, í bland við þungar og flóknar gítarlínur, hraðar trommur og hin einkenni dauðarokksins. Dauðarokkið og undirgreinar þess njóta enn mikilla vinsælda í dag meðal þungarokkara, þrátt fyrir að hafa aldrei notið neinnar meginstraums athygli né neinnar almenningshylli af viti. Stóner rokk. Stóner rokk, Stóner metall eða „hasshausa rokk“ er undirstefna þungarokks. Hún blandar saman eiginleikum úr Blús rokki, Sýru rokki, Klassísku þungarokki og Doom metal. Stefnan einkennist af hægum töktum, þungum bassa og hljóðtrufluðum gíturum sem oft eru stilltir í lægri tóntegundir. Framleiðsla og söngur eru mjög hrá. Stefnan spratt upp fyrri part 20. aldar með hljómsveitum á borð við Kyuss og Sleep. Uppruni heitis. Slangrið „Stóner rokk“ kemur upprunalega með plötunni "Burn One Up! A Music For Stoners", safnplata frá plötufyrirtækinu Roadrunner Records sem gefin var út 1997. Á henni mátti heyra í Kyuss, Sleep, Fu Manchu og Queens of the Stone Age. Stuttu eftir gaf MeteorCity Records út Stóner rokk safnplötuna "Welcome To MeteorCity: Desert Rock, Sludge and Cosmic Doom". Margir voru ósáttir með gælunafnið sem stefnan hafði fengið, sögðu að nafnið gæfi til kynna neyslu kannabisefna hjá tónlistarmönnum og þar að leiðandi að hún höfðaði aðeins til takmarkaðs hóps fólks. Áhrifavaldar á 7. áratug til miðs 9. áratugs. Hægt er að benda á nokkrar hljómsveitir og tilekin lög þegar rekja á rætur Stóner rokks. Stefnan er undirstefna Þungarokks og á þar að leiðandi rætur að rekja á svipaðar slóðir. Black Sabbath eru oft taldnir kóngar stóner rokks og miklir mótendur Þungarokks yfirleitt. Plöturnar "Master of Reallity" og "Black sabbath Vol.4" eru oft kenndar við stofnun Stóner rokksins. Til að mynda hefur hljómveitin Sleep tekið lög af þessum plötum. Fyrrum söngvari Sleep, Al Cisnero, segir sjálfur að „tónlist hefur aðeins farið versnandi eftir útgáfu plötunnar "Black Sabbath Vol.4"“. Greg Parto ritaði á síðunni Allmusic; „þegar talað er um Stóner rokk þá er algengt að horft sé framhjá hljómsveitinni Blue Cheer“. Fyrsta plata þeirra "Vincebus Eruptum" er talinn mikill áhrifavaldur í Stóner rokki og einnig mótun Þungarokks yfir höfuð. Sir Lord Baltimore er hljómsveit frá árinu 1968 sem hefur verið skilgreind sem guðfaðir Stóner rokks og einnig hefur hljómsveitinn Leaf Hound verið margoft tengd við stofnun Stóner rokks. Eina plata hljómsveitarinnar Primevil, Smokin‘ bats at Camton‘s frá árinu 1974 hefur verð kölluð „hornsteinn Stóner rokks“. Jim DeRogatis segir að Stóner rokkið er undir áhrifum frá djamm senum banda eins og Cream, Black Sabbath, Deep purple og Hawkwind. Einnig bætir hann við að rætur Stóner rokks felast í plötunni "Master of Reality" með Black Sabbath, plötum Hawkwinds frá 1973-1977, frægustu lögum Blue Cheer, "Machine Head" með Deep Purple og safnplatan "Workshop of the Telescopes" með Blue Öyster Cult. Á Allmusic er stefnunni lýst sem slíkri; „Stóner metal bönd uppfæra löngu, hugar-bjöguðu djömm og ofur þungu gítartakta frá hljómsveitum á borð við Black Sabbath, Blue Cheer, Blue Öyster Cult og Hawkwind með að sýja Sýrurokk áhrifinn í gegnum hljóm Grugg stefnunnar.“ Sum bönd fengu ekki innblástur frá gömlu rokk goðunum. Josh Homme fyrrum gítarleikari Kyuss og stonfandi Queens of the Stone Age segir að hann hafi aldrei haft áhuga á Þungarokki, reyndi meira að segja að forðast að hlusta á tónlist sem átti að vera innblástur í senuna. Frekar náði hann í innblástur frá Pönk-rokk plötum á borð við "My War" með hljómsveitinni Black Flag. Stóner rokk á seinni hluta 9. áratugs til 21. aldarinnar. Í Kaliforníu seinni part 9. áratugsins mynduðust nokkur bönd sem byrjuðu Stóner rokk senuna. Þótt fyrsta plata Soundgarden, "Ultramega OK" sem kom út 1988, sé talinn fyrsta plata sem mætti skilgreina sem Stóner rokk. Stóner rokkið myndaðist í kringum það sem mætti kalla Palm desert senuna. Í þeirri senu voru bönd á borð við Kyuss, Nebula, Fu manchu og fleiri. Fyrsta plata Kyuss "Blues for the Red Sun" kom hljómsveitinni strax á kortið og er talinn mikill hornsteinn í þungri tónlist. Árið 1992 kom út platan "Sleep‘s Holy Mountain" með hljómsveitinni Sleep. Þessi plata varð strax elskuð af dýrkendum Stóner rokks og voru þessi tvö bönd kölluð „leiðtogar senunar“. Sama ár kom úr platan "Spine of God" frá þeim félögum í Monster Magnet. Hljómsveitinn kom frá New Jersey og hafði þá tileinkað sé hljóm frá fyrr upptöldu böndum. Hljómsveitinn Acid Kings varð til í Kaliforníu á svipuðum tíma. Í Bretlandi varð til hljómsveit að nafni Acrimony sem mótaði Stóner rokk senuna þar. Þótt þeir náðu aldrei almennilegri frægð hjálpuðu þeir verulega við myndun Stóner rokks í Bretlandi. Meðal breskra Stóner rokk hljómsveita má nefna Orange Goblin, Electric Wizard og The Heads. Eftir að Kyuss hættu árið 1995 fór gítarleikari hljómsveitarinnar Josh Homme að vinna að nýu verkefni sem heitir Desert Sessions. Verkefnið fór af stað í ágúst 1997 og fékk hann í lið með sér tónlistarmenn úr Palm Desert senunni og er verkefnið enn í gangi í dag. Í september 1997 var stofnuð búð að nafni All That's Heavy í Albuquerque, New Mexico. Eigendur voru Jadd Shickler og Aaron Emmel og seldu þeir sjaldgæft efni með hljómsveitunum Kyuss, Moster Magnet og Fu Manchu. Fljótt fór búðin að bæta við sig og fóru að taka við plötum frá hljómsveitum með svipaðan stíl. Tillaga var birt á heimasíðu fyrrum Kyuss aðdáenda að búðinn ætti að gefa út plötu með tónlist sem ætti að höfða til aðdáanda Kyuss. Var þá stofnað útgáfufyrirtækið Meteor City Records og gáfu þau út plötuna Welcome to MeteorCity: Desert Rock, Sludge and Cosmic Doom. Platan kom út í Maí 1998 og innihélt lög með hljómsveitum eins og The Atomic Bitchwax, Sixty Watt Shaman, Dozer, Fatso Jetson, Los Natas, Lowrider, Demon Cleaner og Goatsnake. Allt voru þetta bönd úr neðanjarðar senunni og fyrsta sinn sem þau hljómuðu á plötu. Samkvæmt stofnendum MeteorCity Records var á þessum tíma ekkert sem hét beinlínis Stóner rokk og var tónlistinn oft kölluð einfaldlega Þungarokk eða Metal. „tónlistinn féll ekki undir neina ákveðna senu sem var í gangi á þeim tíma, það þurfti að kalla tónlistina eitthvað og varð Stóner rokk fyrir valinu.“ Seinna fóru þessar neðanjarðar hljómsveitir á samning hjá MeteorCity Records, hljómsveitir úr Palm Desert senuni og einnig víða frá evrópu. Vefslóðinn Stonerrock.com var stofnuð árið 1999 og varð hún að ákveðni grunnstoð hjá Þungarokks aðráendum. Stóner rokk á 21. öldinni til dagsins í dag. Árið 2000 kom út platan "Rated R" með hljómsveitinni Queens of the Stone Age sem var annað verkefni hans Josh Homme. Platan vakti tiltörulega athyggli á þeim tíma. Næsta plata þeirra "Songs for the Deaf" er talin sjöunda besta Metal plata allra tíma samkvæmt roadrunner records. Plötufyrirtækið Small Stone Records stóðu fyrir að gefa út þrjá diska þar sem tekin voru lög frá 1970 og endurspiluð af Stóner rokk hljómsveitum. Plöturnar heita "Right in the Nuts: A tribute to Aerosmith" (2000), "Sucking the 70‘s"(2002) og "Sucking the 70‘s – back in the saddle again" (2006). Hljómsveitinn High on Fire var stofnuð 1998 af fyrrum gítarleikara Sleep honum Matt Pike. Fyrsta plata þeirra "The Art of Self Defence" kom úr árið 2000 og fékk þó nokkuð góðar móttökur. Hljómsveitinn er en virk og fara vinsældir þeirra vaxandi með árunum. Nokkrir hljómsveita meðlimar hljómsveitarinn Kyuss komu sér saman í mars 2011 undir nafninu Kyuss Lives!. Þeir gerðu hljómsveita túr undir því nafni og túruðu um evrópu. Í Mars 2012 var lögð fram kæra frá þeim Josh Homme og bassaleikans Scott Reeder á hálfu þeirra Jhon Garcia og Brandt Bjork fyrir notkun nafnsins Kyuss. Buergbrennen. thumb Buergbrennen er eldhátíð sem haldin er á fyrsta sunnudegi í föstu í Lúxemborg og nærliggjandi svæðum. Í Þýskalandi er hátíðin kölluð Burgbrennen en í Frakklandi og Belgíu er hún þekkt undir nafninu "dimanche des Brandons". Hátíðin er byggð á gömlum hefðum og bálið markar skil veturs og komandi vors. Orðið „burg“ er komið frá latneska orðinu „burere“ sem merkir að brenna. Fyrr á tímum var eldhátíðin haldin í tengslum við jafndægur að vori þann 21. mars. Upphaflega var eldhátíðin þannig að kveikt var bál úr trédrumbum og heyi en eftir því sem tímar liðu fram þá varð í miðju bálsins einn trjástofn sem greindist og síðar var krosstrjám bætt efst á köstinn svo hann líktist krossi. Buergbrennen var einu sinni eingöngu opin karlmönnum í þorpunum og nýkvæntir menn voru í sérstöku hlutverki þannig að sá sem hafði seinast kvænst kveikti í bálkestinum. Hinir nýgiftu áttu einnig að safna viði á bálið eða borga öðrum fyrir það. Þegar bálið var slokknað buðu þeir til skemmtunar annaðhvort á heimilum sínum eða í þorpskránum. Í dag eru það vanalega æskulýðsfélög sem sjá um Buergbrennen. Þau safna viði sem oft er gömul jólatré og hlaða bálkesti sem vanalega er efst á nálægri hæð eða hól. Oft er kross sem rís hátt upp í loft í miðju eldsins. Vanalega er til staðar bás með mat og drykk og slökkviliðsmenn eru viðstaddir til að tryggja að eldurinn breiðist ekki út. Heimsveldi. Heimsveldi á upphaflega við voldugt ríki eða hóp ríkja og þjóða sem nær yfir stórt landfræðilegt svæði og er stýrt af einum þjóðhöfðingja (til dæmis konungi eða keisara) eða fámennisstjórn. Heimsveldi þróast oft út frá einu landi þar sem höfuðborgin er. Í tímans rás fá lönd og landsvæði sem heyra til heimsveldinu oft mismunandi stöðu, til dæmis hafa sum ríki fengið heimastjórn frá stjórnarlandi sínu. Sú stefna ríkis að byggja upp heimsveldi kallast heimsvaldastefna. Heimsins stærstu heimsveldi urðu til á nýlendutímabilinu frá 15. til 19. aldar, þar má nefna Breska heimsveldið sem dæmi. Heimsveldi og keisaradæmi voru líka til að fornu og á miðöldum, til dæmis Rómaveldið, Austrómverska keisaradæmið, Heilaga rómverska ríkið, Austurríki-Ungverjaland, Tyrkjaveldið og Rússland. Á 20. öld töldust Bandaríkin og Sovétríkin til heimsvelda og eftir að Sovétríkin liðu undir lok hefur Kína stundum verið kallað heimsveldi. Þessi heimsveldi eru þó fyrst og fremst efnahagsleg en ekki landfræðileg. Einnig hafa sumir haldið því fram að Evrópusambandið reki heimsvaldastefnu. Alþjóðleg stórfyrirtæki hafa líka stundum verið kölluð heimsveldi. Sverðkettir. Sverðkettir (fræðiheiti: "smilodon") eru meðal þekktustu spendýra ísaldarfánunnar og hafa leifar þeirra fundist í nær öllum heimsálfum að undanskilinni Ástralíu. Steingerðar leifar þessara katta eru þó oftast að finna í Evrópu og í Norður-Ameríku, en tegundir sverðkatta héldu mikið til á norðurslóðum fram að ísaldarlok (11-10 þúsund árum). Einn þekktasti fundarstaður er La Brea í Kaliforníuríki en leifar þúsunda sverðkatta hafa fundist þar vel varðveitta í tjörupyttum. Sverðkettir komu fyrst fram á sjónarsviðið á eósen timímabilinu um það bil 42 milljónum ára sem falskir sverðkettir ("nimravinae") en tegundir dýra af þessari ættkvísl lifðu fram að lokum míósen um það bil sjö milljónum ára. Í byrjun plíósen komu svo sverðkettir ("machairodontinae") sem lifðu fram að pleistósen 11 – 10 þúsund árum. Þrátt fyrir nafngiftina þá voru ekki allar tegundir sverðkatta náskýld nútíma köttum. Steingerðar leifar þeirra sýna meðal annars beinabyggingu sem samsvara sig fremur beinabyggingu bjarndýra. Sverðkettir höfðu stutta fætur og gátu þess vegna ekki hlaupið hratt eða langt á eftir bráð sinni, voru svipaðir á stærð og ljón en helmingi þyngri. Sverðkettir draga nafn sitt af ógurlegri stærð vígtanna en rannsóknir hafa leitt í ljós að þær voru allt að 18 cm langar. Vígtennurnar voru notaðar til veiðar en fræðimönnum greinir á um hvernig þeim hafi verið beitt. Sumir steingervingafræðingar eru þeirrar skoðunar að tennurnar hafi verið notaðar til þess að grípa bráðina og halda henni fastri en fleiri eru á þeirrar skoðunar að vígtennurnar hafi verið notaðar til þess að skera bráðina á háls eða rista gat á kviðinn. Þróun sverðtanna meðal nokkurra kattardýra á nýlífsöld (tertíer, 2 – 65 milljón ár) er öllum líkindum tilkomin vegna sérhæfingar þeirra í að leggja að velli stærri og stærri bráð, svo sem mammúta, nashyrninga og aðra stórvaxnar skepnur. Þróunsarsaga sverðkatta. Sverðtennur komu að minnsta kosti tvistar sinnum fram í þróun kattardýra ("felidae"), fyrst hjá undirættinni "nimravinae" (fölskum sverðköttum) og síðar hjá "macharodontinae" (sverðköttum). Elstu kattardýr sem fundist hafa eru Eofelis og Aelurogale (fornkettir) frá síð-eósen í Evrasíu. Á ólígósen þróuðust þau yfir í undirættirnar "nimravinae" og "prolailurinae" yfir í "felinae" (það er að segja þróaða ketti, sem öll núverandi kettir tilheyra) og "machairodontinae" (sverðketti). Bæði innan "nimravinae" og "machairodontinae" má deila sverðköttum upp í tvo hópa. Annan hópinn mætti nefna rýtingstennta ketti, þar sem tennur þessara dýra voru langar (15 – 17 cm, breiðar og þykkar vígtennur með fínar rifflur. Þessir kettir voru voru frekar fótstuttir, vöðvastæltir og tiltölulega hægfara. Þeir hafa líklega átt í vandræðum að elta hraðfara bráð um langa veg. Að öllum líkindum hafa þessir kettir setið um fyrir bráðinni og ráðist á hana úr launsátri í stað þess að lelta hana uppi. Hinn hópinn mætti nefna bjúgtanna ketti en þeir voru með stuttar (7 – 11 cm), breiðar og þunnar vígtennur með grófari rifflum og voru þær einnig krappari. Þessir kettir voru leggjalengri og betur til fallnir að elta bráð sína. Á míósen kom "machairodus" fram á sjónarsviðið í Evrasíu. Hann var fyrsti fulltrúi undirættarinnar Macharodontinae (sverðkettir) og var uppi á sama tíma og Sansanossmilus, sem var sá síðasti af undirættinni "nimravinae" (falskir sverðkettir). Þeir dóu líklega báðir út á ár-plíósen í Evrasíu. Nimravinae hurfu síðar af sjónarsviðinu í Norður-Ameríku og var Barvourofelis sá síðasti af þeim. "Machairdodus" þróðaðist yfir í "homotherium" og "megantereon" og leystu þeir forföður sinn af hólmi. "Homotherium" er sá sverðkatta sem mesta útbreiðslu hafði. Leifar hans hafa fundist í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Afríku. Í Norður-Ameríku þróaðist "megantereon" síðan yfir í ættkvísl þeirra sverðkatta sem urðu stærstir og þekktastir þeirra allra eða "smilodon". Þar lifði hann ásamt frændum sínum "homotherium" og "dinobastis". "Smilodon" er eini sverðkötturinn sem komst til Suður-Ameríku. Hann fyllti þar í skarðið eftir sverðtennta pokadýrið "thylacosmilus" sem hvarf á síð-plíósen. Útdauði. Sverðkettir ("machairodontinae") dóu fyrst út í Evrasíu á mið pleistósen en þó voru nokkrir sem lifðu af fram á sið-pleistósen á Englandi. Sverðkettirnir í Norður-Ameríku lifðu fram að mörkum pleistosen og holosen (fyrir 10 – 11 þúsund árum). Ekki er vitað með vissu hvers vegna sverðkettir dóu út en orsakanna er líklega að leita í því hversu sérhæfðir þeir voru í að lifa á stórri bráð. Flestir hinna stóru dýra, hægfara plöntuætna hurfu af sjónarsviðinu á mið-og sið-pleistósen vegna breytinga í veðurfari, sem aftur ollu breytingum í gróðurfari. Þetta þýddi að hinir sérhæfðu sverðkettir sem lifðu á þeim, dóu einnig út. Maðurinn gæti þó einnig hafa átt þátt í aldauða kattanna í Norður-Ameríku. Þar veiddu forfaðir okkar stórar plöntuætur, til dæmis fornfílinn "mastodonta" og lentu Þar með í samkeppni við sverðkettina. Munnharpa. Munnharpa eða munnorgel er blásturshljóðfæri sem er helst notað í tónlistarstefnum svo sem blús, bandarískri þjóðlagatónlist, djassi, kántrí og rokki. Spilað er á munnhörpu með því að blása lofti inn í eða draga það út í gegnum götin sem eru á hlíðinni. Vararnir eru settar yfir ákveðin göt til að mynda hljóm af ýmsu tagi. Þrýstingurinn sem verður til þegar blásið er inn í munnhörpu veldur sveifluhreyfingum inni í henni og þannig myndast hljóð. Melar (Melasveit). Melar er gamalt höfuðból og áður kirkjustaður og prestssetur í Melasveit í Borgarfjarðarsýslu. Mikið landbrot hefur verið á jörðinni og er upphaflegt bæjarstæði horfið í sjó ásamt fornum kirkjugarði. Við Mela var kennd forn höfðingjaætt, Melamenn, sem tengdist Sturlungum. Ýmsir fræðimenn voru af ætt Melamanna og við bæinn er kennt skinnbókarbrotið Melabók, en í því eru brot úr Landnámabók, Vatnsdæla sögu, Eyrbyggju og Flóamanna sögu. Í Melabók Landnámu eru ættir víða raktar til Melamanna og hefur einhver af þeirri ætt skrifað eða látið rita nýja útgáfu til að auka hróður ættarinnar. Talið er að það hafi verið Snorri Markússon lögmaður (d. 1313), stundum nefndur Mela-Snorri, en Guðný, móðir Snorra Sturlusonar, var afasystir hans. Sonur hans var Þorsteinn Snorrason ábóti á Helgafelli og hefur hann líklega einnig átt einhvern þátt í ritun bókarinnar. Kirkjan á Melum var lögð af 1883 og var síðasti prestur þar séra Helgi Sigurðsson, mikill áhugamaður um söfnun fornra gripa og stofnandi Forngripasafnsins ásamt Sigurði Guðmundssyni málara. Nú er rekið á Melum stórt svínabú og fengu eigendur nágrannajarðarinnar Melaleitis árið 2011 dæmdar bætur vegna lyktarmengunar þaðan. Glysrokk. Glysrokk er tónlistarstefna sem varð til á Bretlandi snemma á áttunda áratug tuttugustu aldar. Mikið var lagt upp úr sviðsframkomu sem hafði mjög leikræn tilþrif, tónlistarmennirnir léku sér með kynhlutverk, klæddust þykkbotna skóm og skreyttu sig með glimmer og áberandi förðun. Tónlistin sjálf var mjög einföld með grípandi melódíum úr saklausa tyggjópoppi ungdómsins og „hip-shaking“ ryþmum frá fyrra rokki og róli. Stefnunni má skipta í tvær greinar þótt skylin þar á milli séu ekki alltaf ljós og skörun mikil. Annarsvegar voru það listamenn eins og Marc Bolan og félaga í T. Rex sem léku sér fyrst og fremst með tónlistina og kynhlutverk, á hinn bóginn var David Bowie fremstur í flokki fleiri listamanna sem lögðu mikið upp úr listrænni hlið sviðsframkomunnar og tónlistarinnar. Upphaf og hápunktur. Upphaf glys rokksins er miðast við árið 1971 þegar að T. Rex gaf út metsölu plötuna Electric Warrior en aðrir tónlistarmenn voru einnig farnir að gera tilraunir með kvenlega förðun og búninga. Árið á eftir var þó aðal brautryðjenda ár stefnunnar, það var kominn tími fyrir eitthvað nýtt þar sem fólk var komið með leið á „ást og friðar“ tímabilinu sem ríkti á sjöunda áratuginum. Á því ári varð geimverurokkarinn Ziggy Stardust til, ein af uppskálduðu persónum David Bowie. Þá varð Mott the Hopple‘s frægari en nokkurn tímann með albúminu All the Young Dudes sem David Bowie stjórnaði upptökum á ásamt því að semja samnefnt lag plötunnar sem náði miklum vinsældum. Hjómsveitin Roxy Music gaf út sína fyrstu plötu, Virginia Plain, sem naut gríðarlegra vinsælda á Bretlandi og The New York Dolls lögðu af stað í sinn fyrsta túr um England. Listræna glysrokkið. Tónlistamennirnir sem töldust til listrænna glys rokkara lögðu áherslu á að gera tónleika sína sérstaka fyrir tónleikagesti. Þar sem MTV var ekki en tilkomið voru tónleikarnir meira atriði, þetta var eina tækifæri fólks til þess að sjá tónlistarmennina flytja tónlist sína. Þeim fannst mikilvægt að tónleikarnir væru frábrugðnir því sem hægt væri að hlusta á heima í stofu, það gerðu þeir með því að gera tónleikana sjónræna. Þeir klæddu sig í búninga sem mikið var lagt í og færðu leikræn áhrif yfir í tónlistina. Í þessum hópi var David Bowie, Lou Reed, Roxy Music og fleiri. David Bowie gekk þá svo langt að hann bjó til persónur eins og til að mynda Ziggy Stardust, Aladdin Sane og Thin White Duke sem allir höfðu sér einkenni og persónuleika. Aðal einkenni leikrænu áhrifana voru gamaldags vísinda skáldskapur og gamlar myndir. Glitter rokk. Glitter rokkið var stór partur af breska glysrokkinu og snerist um skemmtun fyrst og fremst. Áherslan var frekar lögð á að krækja í hlustandann með einföldum og skemmtilegum textum, grípandi hljóðfæraleik og söng. Þá voru búningarnir mjög ýktir, litríkir og glitrandi. Þeir sem tilheyrðu þessum flokki voru til að mynda Gary Glitter og The Sweet en þeir áttu eftir að hafa mikil áhrif á hljómsveitir eins og til dæmis Kiss og Queen svo eitthvað sé nefnt. Endalok. Hápunkti glys rokksins lauk um 1975. Þrátt fyrir það þá hafði stefnan mikil áhrif á pönk rokkið og post-pönkið sem þróaðist á miðjum áttunda áratuginum. Hún hafði einnig mjög mikil áhrif á þróun glysþungarokksins á níunda áratuginum þrátt fyrir að flest glysþungarokk-böndin hafi komið frá Ameríku og ekki haft mikla hugmynd um upphaf stefnunnar. Helgi Sigurðsson (f. 1815). Helgi Sigurðsson (2. ágúst 1815 – 13. ágúst 1888) var íslenskur prestur, myndlistarmaður, ljósmyndari, fræðimaður og áhugamaður um forngripi og þjóðminjar sem átti þátt í stofnun Forngripasafnsins ásamt Sigurði Guðmundssyni. Æviferill. Helgi var sonur Sigurðar Helgasonar, bónda og dannebrogsmanns á Ísleifsstöðum í Mýrasýslu, þar sem Helgi fæddist, Krossholti og Jörfa í Hnappadalssýslu, og konu hans Guðrúnar Þorkelsdóttur. Hann fór í Bessastaðaskóla tvítugur að aldri og útskrifaðst þaðan 1840. Þá fór hann til náms í Kaupnannahafnarháskóla og lagði fyrst stund á lögfræðinám en síðar læknisfræði, lauk því námi en tók ekki próf og kom heim 1846. Auk háskólanámsins lærði hann myndlist við Kunstakademiet í þrjú ár og eru ýmsar teikninga hans varðveittar. Það var hann sem teiknaði vangamynd af Jónasi Hallgrímssyni á líkbörunum, sem Sigurður Guðmundsson teiknaði síðar eftir. Hann varð líka fyrstur Íslendinga til að læra ljósmyndun með daguerreaðferð og fékkst nokkuð við myndatökur en engar myndir hans hafa varðveist. Eftir að heim kom var Helgi bóndi á Jörfa til 1850 og fékkst einnig við fræðastörf og ritstörf, smíðar, lækningar og fleira en 1866 tók hann prestvígslu og varð fyrst prestur á Setbergi við Grundarfjörð en frá 1874 á Melum í Melasveit og var síðasti prestur þar. Þegar kirkjan var lögð niður 1883 fluttist hann á Akranes og dó þar. Hann giftist Valgerði Pálsdóttur og áttu þau fjögur börn en skildu eftir nokkurra ára hjónaband. Hann bjó síðar með Jóhönnu Guðmundsdóttur og eignuðust þau tvo syni en hún fór svo með þá til Vesturheims 1883. Forngripasöfnun. Helgi var mikill áhugamaður um fornfræði og fór eitthvað að safna fornum munum eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn. Eftir að Sigurður málari skrifaði greinina "Hugvekja til Íslendinga" í Þjóðólf 1862 og hvatti til stofnunar forngripasafns reið Helgi á vaðið og gaf fimmtán forngripi sem hann átti til safnsins í janúar 1863 og voru það, ásamt haugfé úr kumli í Baldursheimi í Mývatnssveit, fyrstu munirnir sem Forngripasafnið eignaðist en það var stofnað 24. febrúar 1863. Eftir að Helgi kom að Melum jókst forngripasafn hans til muna og safnaði hann þar á þriðja hundrað gripa og mun hafa ætlað þá Forngripasafninu en hann vildi þó fá einhverja greiðslu fyrir, enda hafði hann keypt marga munina fyrir eigið fé og lagt mikið á sig til að afla þeirra. En þar strandaði á því að Sigurður Vigfússon, sem þá sá um Forngripasafnið, taldi munina ekki nógu merkilega eins og fram kemur í bréfum sem hann skrifaði stiftsyfirvöldum og fjárlaganefnd, þótt hann hefði raunar aldrei séð þá. Varð úr að safnið, yfir 250 gripir, var selt Nordiska museet í Stokkhólmi fyrir 800 krónur skömmu fyrir andlát Helga 1888. Munirnir komu aftur til Íslands ásamt öðrum munum úr Nordiska museet árið 2007. Höfuðból. Höfuðból voru að fornu stærstu bújarðirnar á Íslandi og aðsetur höfðingja landsins. Jörð sem metin var 60 hundruð eða meira að dýrleika kallaðist höfuðból en meðaljarðir voru gjarna 20-30 hundruð og hjáleigur og kot 10 hundruð eða minni. Á höfuðbólum voru rekin stórbú og oft fylgdu þeim mikil hlunnindi. Höfuðból voru kjölfesta ættaveldisins og valdagrundvöllur höfðingja. Höfuðbólinu fylgdu oft litlar jarðir og leigulönd sem kölluðust hjáleigur og voru í raun hluti af því en útjarðir voru þær jarðir í nágrenni höfuðbólsins sem tilheyrðu sama eiganda en tengdust því ekki að öðru leyti. Höfuðból gengu að erfðum í karllegg. Samkvæmt Jónsbókarlögum erfðu synir höfuðbólið en dætur fengu útjarðir og lausafé. Ógift kona gat þó erft jörð eftir föður sinn og kona eftir mann sinn, ef enginn karlkyns erfingi var til staðar. Á síðari öldum hafa jarðir stundum verið kallaðar höfuðból ef þar er búið stórbúi, án tillits til þess hvert verðgildi þeirra var samkvæmt fornu jarðamati, enda höfðu forsendur þess oft breyst. Trip hop. Trip Hop, einnig þekkt sem Bristol hljóðið eða Bristol sýrurapp, er tónlistarstefna sem á uppruna sinn að rekja til Englands, þá sérstaklega Bristol, seint á 9. áratug, en varð þó ekki vinsælt fyrr en á 10. áratug. Hugtakið „trip hop“ var fyrst notað í danstónlistartímaritinu Mixmag árið 1989 þar sem reynt var að koma nafni á djass-, fönk-, og sálartónlistarbræðing með hægum takti sem var að koma fram. Þegar reynt er að skilgreina trip hop sem einstaka tónlistarstefnu er það oft erfitt og endar á því að það sé skipað sem undirstefna fyrir aðrar tónlistarstefnur eins og hip hop eða elektró. Trip hop á margt sameiginlegt með mörgum öðrum tónlistarstefnum eins og hip hop, hústónlist, danstónlist og dub reggí. Sagt hefur verið um trip hop að það sé „blöndun af hip hop og elektróník þar til tónlistarstefnan er þekkjanleg“. Einkenni. Í trip hop tónlist er hægur taktur og einfaldar og dimmar bassalínur og bergmál er mikið notað. Trommutaktarnir eru þéttir þannig að hljóðbútarnir hljóma þungir. Í trip hop er oft rapp í lögunum ásamt kvenmannsrödd sem syngur yfir lögin. Hljóðbútarnir í trip hop eru oft teknir af gömlum plötum, hljóðgæði samplanna haldast óbreytt, þannig að suðið sem heyrist á gömlu plötunum heyrist líka í nýja laginu. Hins vegar eru hljóðbútarnir oft klipptir í sundur, endurraðað og hægt á þeim. Sé hljóðbúturinn ekki af gamalli plötu og ekkert suð er til staðar er því oftar en ekki bætt við. Uppruni. Í Bristol, fæðingarstað trip hop, var áður ein mikilvægasta bryggja Englands fyrir þrælaiðnaðinn. Afleiðingar þrælaiðnaðarins í Bristol eru þær að samfélagið þar er afar fjölmenningarlegt. Er þar mikið um fólk af afrískum og karabískum uppruna sem hefur haldið til þarna lengi. Ódýrt er að búa í Bristol sem laðar að bóhema, námsmenn og fólk frá mörgum mismunandi menningum. Fjölmenningin gerir Bristol að frjóum jarðveg fyrir nýsköpun í tónlist. Þar hefur hip hop, reggí, sálartónlist, hústónlist, sýrudjass, pönk og teknó lengi verið til taks. Fyrir íbúum Bristol er það sjálfsagt að blanda saman þessum stefnum og úr þeim tónbræðingi fæddist trip hop. Níundi áratugurinn. Á 9. áratug hafði hip hop náð gífurlegum vinsældum í Bandaríkjunum. Hip hop náði aldrei jafn miklum vinsældum í Bretlandi, nema þá hvað varðar tísku. Sýruhústónlist og sýrudjass höfðu verið vinsælar tónlistastefnur í Bretlandi en í lok 9. áratugar var orðin stöðnun í sköpun í sýrudjassinum. Stöðnunin í sýrudjassinum kallaði á meiri sköpun í öðrum stefnum. Undir áhrifum frá vinsældum sýruhústónlistar í Bretlandi og hip hop í Bandaríkjunum, fæddist ný stefna, trip hop. Vegna vinsælda reggí og dub áttu hip hop tónlistarmenn í Bretlandi það til að taka meiri hljóðbúta úr jamaískri tónlist. Í fjölmenningarborginni Bristol fóru tónlistarmenn, sem voru nú þegar vel að sér í þessari jamaísku tónlist, að búa til hæga og taktþunga tónlist. Á meðal áhrifamikilla hljómsveita sem létu finna fyrir sér í sköpun trip hop má nefna Wild Bunch frá Bristol. Þeir, ásamt Adrian Thaws, einnig þekktur sem Tricky Kid á þeim tíma, höfðu mikil áhrif á þróun hip hop stefnunnar í átt að sýrudjass og hústónlistar. Seinna hlutu þeir plötusamning og ganga nú undir nafninu Massive Attack. Massive Attack. Í byrjun 10. áratugarins bað pistilhöfundurinn og plötusnúðurinn James Lavelle hip hop aðdáendur að senda sér lögin þeirra sem hann svo gaf út á plötunni Mo’Wax. Flest lögin voru ekkert öðruvísi en það sem var að gerast í sýrudjass, en á b-hlið plötunnar voru tilraunakenndari, frumlegri lög. Fjarstæðukennd, taktmikil og taktþung skringilegheit með sömplum spiluðum með hljóðfærum. Þessi nýi hljómur sló í gegn bæði hjá plötusnúðum og almennum hlustendum. Árið 1991 kom "Blue Lines" út, fyrsta plata Massive Attack frá Bristol. Massive Attack voru áður þekktir sem Wild Bunch og meðlimir hennar voru „Mushroom“ Vowles og „Daddy G“ Marshall. Robert „3D“ Del Naja bættist síðar í hópinn og þeir stofnuðu Massive Attack 1987. Wild Bunch hafði verið ein stærsta hljómsveitin í Bristol á sínum tíma og þeirra tónlistarpartí voru víst svo rosaleg að þegar þau voru haldin var nánast algjört logn í lifandi tónlist á sama tíma í kring. "Blue Lines" sló í gegn í Bretlandi en hún gat ekki talist til neinna tónlistarstefna sem voru í gangi á þeim tíma. Það var ekki fyrr en þeir gáfu út aðra plötuna sína, "Protection", sem komið var nafn yfir þá tónlist sem þeir voru að skapa. Árið 1998 gáfu þeir síðan út plötuna Mezzanine sem sló í gegn um allan heim. Tricky. Adrian Thaws, fæddur 1964 og líka þekktur undir listamannsnafninu Tricky, var oft í nánu samstarfi við Massive Attack. Á árum fyrr hafði hann verið einn meðlima Wild Bunch. Hann rappaði inn á plötu þeirra, "Blue Lines" og skrifaði texta fyrir aðra plötu þeirra "Protection". 1993, ári eftir að hann hafði rappað inn á "Blue Lines", gaf hann út sína fyrstu smáskífu, "Aftermath". Þar vann hann með stelpu sem hann hafði hitt stuttu áður, Martina Topley-Bird. Martina og Tricky áttu eftir að vinna mikið saman í tónlist í framtíðinni og á öllu sem Tricky hefur gefur út má sjá framlag frá Martinu. Árið 1995 gaf Tricky út fyrstu breiðskífu sína, "Maxinquaye". "Maxinquaye" fékk mjög jákvæð viðbrögð hjá gagnrýnendum og veitt Tricky alþjóðlega frægð, sem hann kunni illa við. Á plötunni hljómar reykkennd rödd Martinu yfir voveiflegan bakgrunnshljóm annars vegar, einnig er að finna lög sem sýna harðari hlið Tricky, eins og "Hard Steel". Tricky gaf út aðra plötu sína, "Nearly God", árið 1996. Á "Nearly God" var tónlistin hægari, þokukenndari og meira truflandi. Í umsögn um plötuna er sagt að "Nearly God sé" „...ásækjandi, brotakennd, fjarstæðukennd martröð sem virðist ekki alltaf vera rökrétt en tekst alltaf að hafa áhrif“. Eftir útgáfu Maxinquaye fóru fleiri tónlistarmenn í heiminum að gera svipaða tónlist og setti það trip hop inn á örugga poppsvæðið. Tricky kunni illa við það og ferðaðist til Jamaíku til að taka upp þriðju plötu sína, "Pre-Millenium Tension". Platan þótti taugastrekkjandi og innilokunarkenndarleg. Á "Pre-Millenium Tension" voru taktarnir hægari en á Maxinquaye. Hljóðheimur plötunnar var ofskynjunarlegur og taktarnir, hljóðbútarnir og gítarinn vefjast saman í skríðandi framvindu af ógnandi hljóðum og óhlutlegra hótana. Tricky er enn starfandi í tónlistarheiminum og hefur unnið saman með þekktum tónlistarmönnum á borð við Björk, Elvis Costello og PJ Harvey. Árið 1993 gaf DJ Shadow út endurútgáfu af laginu "Doin’ Damage" frá bandarísku rapphljómsveitinni Zimbabwe Legit. Þessi útgáfa DJ Shadow vakti athygli Lavelle. Lavelle fékk DJ Shadow til að gefa út plötu, sem var kölluð "In/Flux". Á "In/Flux" var að finna blöndu af fönk, djass, sálartónlist og hip hop. Það var í umfjöllun um þessa plötu í tímaritinu Mixmag, árið 1994, sem tónlistarblaðamaðurin Andy Pemberton kom fyrst fram með nafnið á tónlistarstefnunni, „trip hop“. Í kjölfar In/Flux streymdi inn tónlist sem gat verið flokkuð undir trip hop stefnuna. Portishead. Árin 1994 og 1995 hafði trip hop náð miklum vinsældum og þær áttu aðeins eftir að aukast. Portishead var ein af þeim hljómsveitum sem áttu þátt í að skapa og móta trip hop stefnuna. Hljómsveitarmeðlimir Portishead heita Geoff Barrow, Beth Gibbons og Adrian Utley. Hljómsveitin á uppruna sinn að rekja til Bristol, eins og margar áhrifamiklar trip hop hljómsveitir. Portishead voru öðruvísi en Massive Attack að því leyti að þau bættu meiri djass og sýruhústónlist við hljóminn sem Massive Attack höfðu, einnig voru þau ekki jafn bundin danstónlist og Massive Attack. Andrúmsloftskennd, gervi kabaretthljómur laga Portishead höfðaði til breiðari hóps fólks, þeirra sem þótti trip hop og danstónlist áður of framandi og var bundnari við danstónlist. Með útgáfu á fyrstu plötu sinni, "Dummy", jók hljómsveitin gífurlega vinsældir trip hop, enda var sú plata margverðlaunuð og var hlaut meðal annars Mercury tónlistarverðlaunin sem besta breska platan. Hljómur Portishead var svipaður hljóms Massive Attack að því leyti að báðar hljómsveitir notast við grófa djasshljóðbúta. Mikil frægð Portishead jók, nú þegar mikil, áhrif trip hop á tónlistarheiminn og gerði trip hop aðgengilegra fyrir almenning. Ólífa. Ólífa er ávöxtur ólífutrésins (fræðiheiti: "Olea europaea") sem er lítið sígrænt tré af smjörviðarætt með náttúruleg heimkynni við Miðjarðarhafið og inn af botni Miðjarðarhafs austur til Kaspíahafs. Tréð nær sjaldan mikilli hæð en getur orðið mörg hundruð ára gamalt og er stofninn þá orðinn mjög breiður, undinn, hrjúfur og sprunginn. Laufin eru ílöng og silfurgræn á lit. Blómin eru hvít. Aldinin eru upphaflega græn en dökkna síðan og verða þá fjólublá eða svarfjólublá á lit. Úr ávextinum, ólífunni, er unnin ólífuolía sem hefur gríðarmikla menningarlega og efnahagslega þýðingu fyrir Miðjarðarhafslöndin. Þar sem ferskar ólífur eru mjög beiskar á bragðið eru þær yfirleitt verkaðar með gerjun, pæklun eða sýru áður en þeirra er neytt. Til eru þúsundir yrkja ólífutrjáa sem hvert gefur ólíka ávexti með mismikið olíuinnihald. Solveig Guðmundsdóttir. Solveig Guðmundsdóttir var íslensk höfðingjadóttir á 14. öld. Hún var eina barn Guðmundar Arasonar ríka á Reykhólum og Helgu Þorleifsdóttur konu hans, dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar, en þau voru auðugustu hjón landsins á sinni tíð og hefði Solveig átt að erfa allan auð þeirra en eyddi mestallri ævinni í að reyna að ná arfi sínum úr höndum móðurfrænda sinna. Uppvöxtur. Guðmundur faðir Solveigar var dæmdur útlægur fyrir vafasamar sakir árið 1446 að undirlagi mága sinna, Björns og Einars Þorleifssona, sem báðir urðu hirðstjórar. Áttu eignir hans að falla til konungs og erfingja en hann átti alls 177 jarðir og þar af sex höfuðból þar sem hann rak stórbú. Hann fór úr landi og mun hafa látist fljótlega. Helga kona hans var löngu dáin en Solveig hefur líklega verið á unglingsaldri. Þeir Björn og Einar sölsuðu eignirnar undir sig og hirtu af þeim tekjur og Björn keypti hlut konungs á lágu verði. Solveig systurdóttir þeirra fékk ekki það sem henni bar, heldur ekki móðurarf sinn. Lítið er vitað um Solveigu í nærri tvo áratugi eftir þetta en hún hefur ekki átt sér öfluga bandamenn sem treystu sér til að fara gegn frændum hennar. Einar dó raunar 1453 og eftir það var við Björn hirðstjóra einan að eiga en hann var voldugasti maður landsins. Upphaf erfðamálanna. Solveig átti yngri hálfbróður, Andrés launson Guðmundar ríka, og árið 1465 var hann orðinn fullorðinn og varð liðveislumaður systur sinnar ásamt Lofti Ormssyni Íslendingi, bónda og riddara á Staðarhóli í Saurbæ, en Solveig móðir hans var systir þeirra Helgu, Björns og Einars. Solveig gaf Lofti umboð til að sækja eignir sínar í hendur Björns og átti hann að fá helming þeirra fyrir vikið. Hann tók nokkrar jarðir sem Guðmundur hafði átt undir sig en réði ekki við Björn né heldur syni hans, Þorleif og Einar, eftir að Englendingar drápu Björn í Rifi 1467. Einu eða tveimur árum síðar fór Solveig til Noregs og Loftur og Andrés einnig og hafa þau ef til vill ætlað að leita liðsinnis konungs í deilunum. Loftur kom þó heim 1470, sættist við Þorleif Björnsson og lét af stuðningi við Solveigu. Hjónaband. Solveig var um kyrrt og giftist sama vor Íslendingnum Bjarna Þórarinssyni, sem kallaður var „góði maður“ en virðist hafa verið ofstopamaður og ribbaldi, og tók hann við málum konu sinnar. Þau voru áfram erlendis og tókst loksins árið 1478 að fá áheyrn hjá Kristjáni konungi 1. Þann 25. nóvember það ár gaf konungur út fyrirmæli til Diðriks Pínings hirðstjóra og Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups um að skipta eignum Guðmundar Arasonar í þrjá hluti, milli konungs sjálfs, erfingja Björns Þorleifssonar og svo Solveigar og Bjarna. Þau komu heim með þetta konungsbréf 1479 en biðu ekki skiptanna, heldur tóku nokkrar af jörðum Guðmundar strax undir sig og mun Bjarni hafa farið með ofsa og ránskap. Þorleifur Björnsson tók Bjarna þá höndum um áramótin 1479-1480 og hafði hann í varðhaldi hjá sér á Reykhólum um tíma. Solveig leitaði liðsinnis hjá Hrafni Brandssyni lögmanni, frænda sínum, sem kom á sáttum í bili og var Bjarna sleppt. Eignunum var svo skipt í þrennt á Alþingi 1480 af tólf mönnum sem til þess voru nefndir og voru skiptin Solveigu mjög hagstæð, hennar hlutur var margfaldur á við hina. Hún fékk meðal annars Reykhóla og settist þar að, meira en þrjátíu árum eftir að hún hafði hrakist þaðan. En synir Björns Þorleifssonar sættu sig ekki við skiptin og Þorleifur sigldi um sumarið til að reyna að fá konung til að ógilda þau. Honum varð þó ekki ágengt þar en Kristján konungur dó vorið eftir og fór Þorleifur þá til Noregs og leitaði til norska ríkisráðsins, sem fór með konungsvald á Noregi og Íslandi þar til nýr konungur yrði krýndur. Fékk hann ráðið til að ógilda skiptin og skyldi hann ráða yfir eignunum þar til búið væri að skipta að nýju, auk þess sem hann var gerður að hirðstjóra yfir Íslandi í þrjú ár. Dauði Bjarna. Hann komst þó ekki til Íslands fyrr en 1482 en á meðan hafði það gerst að Einar bróðir hans hafði lent í átökum við Bjarna mann Solveigar og lauk þeim svo að 3. desember 1481 náði Einar Bjarna á sitt vald þar sem hann var staddur á Brjánslæk á Barðaströnd og lét taka hann af lífi. Þegar Þorleifur kom heim settist hann aftur að á Reykhólum en Solveig leitaði til Andrésar hálfbróður síns, sem var sýslumaður á Felli í Kollafirði. Andrés settist um veturinn að á Reykhólum í virki sem Þorleifur hafði látið gera þar en Þorleifur náði honum á sitt vald snemma í janúar og varð úr að þeir sættust og Andrés gaf upp allt tilkall til eigna Guðmundar. Arfur eftir 55 ár. Ekki er vitað um Solveigu næstu átján ár en líklegt er að hún hafi verið hjá bróður sínum. Ekkert gerðist í erfðamálunum en eftir að Þorleifur og Einar bróðir hans voru báðir látnir tók Andrés málið upp að nýju og samdi þá við Björn son Þorleifs og fékk ýmsar jarðir. Solveig kom ekkert við sögu í þessum samningum en á Alþingi árið 1501, 55 árum eftir að faðir hennar var gerður útlægur, var henni dæmdur móðurarfur sinn, en hún hafði þá gefið bróðursonum sínum, Guðmundi og Ara, próventu sína og voru það því þeir sem fengu arfinn. Hún hefur þá verið komin á áttræðisaldur og hefur sennilega dáið skömmu síðar. Andrés Guðmundsson. Andrés Guðmundsson (um 1440 – 1508) var íslenskur sýslumaður og bóndi á 15. öld og bjó fyrst lengi á Felli í Kollafirði og síðan í Saurbæ á Rauðasandi. Hann var launsonur Guðmundar Arasonar ríka, auðugasta manns á Íslandi á sinni tíð, en móðir hans er óþekkt. Æviferill. Andrés ólst upp á Reykhólum hjá föður sínum fyrstu árin en var á barnsaldri þegar Guðmundur var dæmdur útlægur og eignir hans gerðar upptækar. Tóku mágar Guðmundar, Björn og Einar Þorleifssynir, þær undir sig. Talið er að Andrés hafi alist upp á vegum Björns og fengið hjá honum allmiklar eignir, þar á meðal höfuðbólið Fell í Kollfirði, þótt hann væri ekki arfgengur eftir Guðmund. Andrés giftist 1. ágúst 1462 Þorbjörgu Ólafsdóttur og hélt Björn þeim veglegt brúðkaup á Reykhólum. Árið 1465 fór Solveig Guðmundsdóttir, hálfsystir Andrésar, að reyna að ná arfi eftir foreldra sína með aðstoð hans og frænda síns Lofts Íslendings Ormssonar á Staðarhóli í Saurbæ en það tókst ekki og lauk með því að þau Solveig, Loftur og Andrés fóru öll til Noregs 1468 eða 1469, líklega til að reyna að leita liðsinnis konungs eða ef til vill hafa þau einfaldlega hrakist úr landi undan ofríki Þorleifs og Einars Björnssona, en Björn hirðstjóri hafði verið veginn í Rifi 1467. Solveig var í mörg ár erlendis en Andrés hefur líklega fljótlega snúið heim. Árið 1479 kom Solveig til Íslands með manni sínum, Bjarna Þórarinssyni, og höfðu þau með sér konungsbréf um skipti á eignum Guðmundar. Skiptin sem þá voru gerð voru mjög hagstæð Solveigu og settust þau Bjarni að á Reykhólum, þar sem Þorleifur hafði búið. Þeir Björnssynir sættu sig ekki við skiptin og Þorleifur fór utan til að fá þau gerð ógild. Honum tókst það en á meðan hann var ytra kom til átaka milli Einars Þorleifssonar og Bjarna sem lauk með því að Einar lét lífláta Bjarna í desember 1481. Virkisveturinn. Þegar Þorleifur kom heim sumarið 1482 settist hann aftur að á Reykhólum en Solveig leitaði til Andrésar hálfbróður síns á Felli. Þorleifur mun hafa óttast ófrið frá þeim og lét gera virki á Reykhólum um sumarið en var svo ekki heima um sumarið þegar Andrés kom með vopnað lið til Reykhóla, náði staðnum á sitt vald og sat í virkinu fram eftir vetri. Hafði hann þar meðal annars útlenda menn vopnaða byssum og er það í fyrsta sinn sem skotvopna er getið á Íslandi. En þann 3. janúar 1483 kom Þorleifur með lið til Reykhóla og þrátt fyrir harða skothríð úr virkinu hafði hann betur og náði Andrési á sitt vald. Einn úr liði Þorleifs féll í skothríðinni og margir særðust. Andrés var fangi á Reykhólum fram í apríl en þá sættust þeir fyrir milligöngu ýmissa vestfirskra höfðingja og varð Andrés að gefa upp allt tilkall til eigna Guðmundar. Um Andrés og atburði vetrarins 1482-1483 skrifaði Björn Th. Björnsson skáldsöguna "Virkisvetur". Endanlegar sættir. Eftir að Þorleifur og Einar bróðir hans voru báðir látnir tók Andrés málið upp að nýju og samdi þá við Björn son Þorleifs og fékk ýmsar jarðir, þar á meðal höfuðbólin Saurbæ á Rauðasandi og Núp í Dýrafirði, en viðurkenndi rétt hans til Reykhóla. Jafnframt varð úr að ættirnar tengdust með því að Guðmundur sonur Andrésar giftist Jarþrúði systur Björns og bjuggu þau á Felli en Andrés flutti að Saurbæ og dó þar 1508. Önnur börn Andrésar voru Bjarni, bóndi og lögréttumaður á Brjánslæk, Ari bóndi í Saurbæ, Ólöf og Sigríður húsfreyja á Neðri-Brekku í Saurbæ. Antoni Tàpies. Antoni Tàpies i Puig (13. desember 1923 – 6. febrúar 2012) var myndlistarmaður, listfræðingur og myndhöggvari frá Katalóníu. Hann var einn frægasti listamaður Evrópu á sinni tíð. Yfirlitssýning á verkum Tàpies var opnuð á Kjarvalsstöðum 17. mars 2011. Tàpies fékk hjartaáfall af völdum berkla aðeins 17 ára gamall og fór þá að nema myndlist. Hann skráði sig þó upphaflega til náms í lögfræði en tveimur árum seinna þá hóf hann myndlistarnám. Tàpies var í upphafi ferils síns undir áhrifum frá Miro og Klee en þróaði síðar sitt eigið myndmál með uppbyggðum myndfleti sem oft var ýfður upp með stöfum, tölum og táknum. Flest verka hans eru úr hversdagslegum hlutum eins og efni sem hann hefur fundið, mold sandi, jarðvegi, blóði eða steinryki. Tàpies var mjög pólitískur og róttækur. Hann sagði árið 1990 „Þó að ég geti ekki breytt heiminum, þá vil ég að minnsta kosti breyta því hvaða augum fólk lítur hann.“ Ludwik Fleck. Ludwik Fleck (11. júlí, 1896 - 5. júní, 1961) er pólsk-ísraelskur læknir, líffræðingur sem þróaði á þriðja áratug tuttugust aldar hugmyndina um samansafn hugmynda (þ. "Denkkollektiv"). Ludwik öðlaðist læknisgráðu fyrir rannsóknir sínar á mislingum við Háskólann í Lvov og sérhæfði sig í örverufræði í Vín en átti einnig eftir að láta að sér kveða á öðru sviðum vísindanna, vísindaheimspekinni. Hann birti yfir 130 greinar um hin ýmsu efni í læknisfræði og þar að auki þróaði hann bólusetningu gegn mislingum á meðan Pólland var hernumið af Þjóðverjum. Hann var sendur í útrýmingarbúðirnar Auschwitz og Buchenwald í tvö ár meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð. Eftir stríð var hann virkur á sviði vísindanna og flutti frá Póllandi til Ísrael, þar sem hann lést árið 1961. Fleck kom með upphaflegu kenninguna um hugsunarstíl (e. "thought styles") og samansafn hugmynda (e. "thought collectives") sem hann gaf út á þýsku árið 1935 í bókinni "Entstehung und Entwicklung einer wissenschaftlichen Tatsache: Einfuehrung in die Lehre vom Denkstil und Denkkollektiv", en hún fjallaði um uppruna vísindalegra staðreynda. Þetta varð eina bók hans í vísindaheimspeki og fyrst um sinn fékk kenning hans lítinn hljómgrunn meðal vísindaheimspekinga. Um kenningu Ludwik Fleck. Það var algeng skoðun í byrjun tuttugustu aldarinnar að fólk myndaði eða samþykkti skoðanir af ýmsum toga út frá sálfræðilegum eða félagslegum ástæðum. Viðhorf til trúar eða heimspekilegra viðhorfa eru afleiðingar þvinganna frá félagslegum uppbyggingum samfélaga og hagfræðilegra hagsmuna þeirra, sem hafa síðan áhrif á hugsanir einstaklinga innan samfélagsins. Þegar kemur að vísindum hins vegar ættu hlutirnir að vera öðruvísi. Innihald vísindalegra kenninga eiga að standa fyrir utan sálfræðilegra-og félagsfræðilegra þátta og ákveðið af rökfræði og reynslu, með aðleiðslu og/eða afleiðslu. Grafið hafði verið undan þeirri sannfæringu um afgerandi hlutverk rökfræði og reynslu með hefðbundinni heimspeki í lok 19. aldarinnar. Ludwik Fleck var á þeirri skoðun að raunveruleikann væri hægt að útskýra á marga vegu en hafnaði því að við værum frjáls til að velja sjálf á milli fræðilegra hluta. Einnig væru valmöguleikar okkar á sviði trúar eða heimspeki ákveðnir með félagslegum hætti og það ætti einnig við um greiningar okkar á vexti þekkingar, m.o.ö. það sem kallast vísindi. Sögulegar rannsóknir á uppruna og þróun mislinga var eitt af því sem sannfærði hann um sumir þættir í þekkingu okkar, helstu grundvallaratriðin, séu samþykkt, þeim breytt eða hafnað, út frá áhrifum þeirra samfélaga sem vísindamennirnir sjálfir starfa í. Það sé nauðsynlegt fyrir vísindalega þekkingu að þess konar þekking sé þróuð af samfélögum, hugsunar samfélögum, frekar en af einstaka rannsakara. Samansafn hugmynda er lýst sem samfélagi fólks sem sameiginlega skiptist á hugmyndum eða viðheldur vitsmunalegum samskiptum. Það hefur sína eigin uppbyggingu sem veitir okkur þekkingu um ákveðin einkenni þess og ákveður þróun sína í þokkabót. Þannig eru til frekar litlir og óþekktir hópar af sérfræðingum en miklu stærri og vel þekktir hópar af kennurum og fólki sem notast við vísindalegar þekkingar í raun og veru. Hugmyndastíll er skynjun sem er leiðbeind með andlegri og hlutlægri aðlögun á því sem þegar hefur verið skynjað. Það er ekki auðvelt að þjálfa fólk inn í hugmyndastíl. Nemendur ná færni í að beita sumum meginreglum en breytt viðhorf til þeirra kemur ekki til greina. Ef þeir samþykkja ekki þau viðhorf sem eru kunnug öllum nemendunum um eitt ákveðið atriði, sem er hluti af samansafni hugmynda, og ef þau ná ekki sömu færni og aðrir, þá verða þeir ekki viðurkenndir af samfélaginu. Nemendur fara þannig í gegnum ákveðið upphafsferli sem sýnir þeim inn í hóp þar sem allir hugsa á sama hátt. Ágreiningur er mögulegur um ákveðna „umsækjendur“ inn í hópinn en ekki um grundvallaratriðin sjálf. Það er ástæðan fyrir því að það sem hópurinn trúir lítur út fyrir að vera svo augljóst fyrir nemendurna. Neyðarkall frá Bretzelborg. Neyðarkall frá Bretzelborg (franska: "QRN sur Bretzelburg") eftir Franquin er átjánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Sagan birtist á tímaritaformi með hléum frá 1961 til 1963 en kom ekki út á bók fyrr en 1966 á frummálinu. Árið 1982 var hún gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á að Valur mætir hróðugur með agnarsmátt rafeindatæki sem er í senn útvarp og senditæki. Gormdýrið gleypir tækið fyrir slysni og heldur vöku fyrir félögunum með háværri útvarpsdagskrá. Tækið truflar einnig fjarskipti radíóamatörsins "Smára Loftssonar" sem leitar Sval og Val uppi. Hann segir þeim frá fjarskiptasamtali sínu við "Lárus konung" í einangraða ríkinu "Bretzelborg", sem segist vera haldið í gíslingu. Leyniþjónusta Bretzelborgar hefur hlerað samtölin og hyggst handsama Smára. Valur er tekinn í misgripum og fluttur til Bretzelborgar þar sem hann sætir pyntingum. Landið reynist sárafátækt þar sem öllu fé er varið í vopnakaup til að verjast grannríkinu. Í ljós kemur að yfirhershöfðingi landsins heldur konunginum í vímu róandi lyfja og leikur tveimur skjöldum: hann er jafnframt varnarmálaráðherra grannríkisins og notar stríðsæsingar til að réttlæta kaup á vopnum sem reynast í raun eftirlíkingar og stingur mismuninum í vasann. Valur sleppur úr haldi kvalara sinna með hjálp Gormdýrsins, í sömu mund og Svalur og Smári koma til að frelsa hann. Með hjálp sprengiglaðra andspyrnumanna ná þeir að handtaka hershöfðingjann og friður og velsæld komast á í landinu. Íslensk útgáfa. "Neyðarkall frá Bretzelborg" var gefin út af Iðunni árið 1982 í íslenskri þýðingu Jóns Gunarssonar. Þetta var ellefta bókin í íslensku ritröðinni Grundarkirkja. Grundarkirkja er í Laugalandsprestakalli í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Grund er bær og kirkjustaður frá fornu fari í Hrafnagilshreppi. Þar voru kaþólskar kirkjur helgaðar heilögum Lárentíusi. Grund tilheyrði Grundarþingum fyrrum. Magnús Sigurðsson, bóndi, byggði núverandi kirkju árið 1904-05 fyrir eigið fé. Svartur á leik. "Svartur á leik" er íslensk glæpamynd frá árinu 2012 sem Óskar Þór Axelsson leikstýrði og skrifaði. Steinn Ármann Magnússon, Sveinn Geirsson og Þröstur Leó Gunnarsson fara með aðalhlutverkin í myndinni sem er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Stefán Mána. Myndin fjallar um fíkniefnaverslun í Reykjavík og á sér stað á miðjum tíunda áratugnum. Margir erlendir aðilar komu að framleiðslu myndarinnar og voru bæði Chris Briggs og Nicolas Winding Refn framleiðendur. Framleiðslufyrirtækin Filmus og Zik Zak stóðu að gerð myndarinnar. Söguþráður. "Svartur á leik" gerist á þeim ótryggu tímum þegar undirheimar Reykjavíkur eru að stækka og verða hættulegri á miðjum tíunda áratugnum. Áhorfendur fyljast með upprisu og falli í hópi karaktera; Stebba, venjulegum manni sem flækist inn í eiturlyfjaheiminn í gegnum vin sinn frá barnæsku, Tóta. Tóti starfar sem handrukkari fyrir Jóa Faró, stærsta eiturlyfjabarón landsins síðan á 7. áratugnum. Tóti ásamt Bruno yfirtaka rekstur Jóa og breyta eiturlyfjamarkaðinum. Í byrjun myndar stendur Stebbi frammi fyrir því að fá á sig ákæru vegna slagsmála sem hann lenti í þegar hann var drukkinn. Hann rekst á Tóta sem bíður honum besta sakamálalögfræðing landsins ef hann kemur að vinna fyrir sig. Stuttu seinna þegar Bruno kemur frá sjálfskipaðari árs útlegð sinni erlendis, þá sér Stebbi að undir yfirborðinu liggur mikil spenna. Bruno er siðblindur og þrífst á hættu og glæpum. Tóti er hins vegar í tenglum við raunveruleikann og vill einungis reka fyrirtæki með hagnaði. Innrivalda togstreita byrjar og Stebbi er fastur í miðjunni. Sagan er sögð frá sjónarhóli Stebba og fer fyrri helmingur myndarinnar fram og tilbaka á milli Stebba, sem er að læra tökin og verða meðlimur klíkunnar með ágætis framahorfur, og baksögu Tóta og upphafs klíkunnar. Í seinni helmingnum hefur Bruno komið aftur og klíkan byrjuð að brotna niður. Endar það með því að Stebbi finnur sig fastan á milli steins (Tóta) og sleggju (Brúnó). Framleiðsla. Árið 2005 festu kvikmyndafyrirtækin Zik Zak og Filmus kaup á kvikmyndaréttinum að bókinni og stóð þá fyrst til að fá Stefán Mána til þess að skrifa handritið. Axel Þór tók þó seinna yfir starf handritshöfunds og var árið 2008 valinn leikstjóri kvikmyndarinnar. "Svartur á leik" tók rúm sjö ár í framleiðslu og reyndist fjármögnun erfið. Andri Sveinsson og Heiðar Guðjónsson voru aðalfjárfestar myndarinnar en hún hlaut einnig 64 milljón króna styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands. Í byrjun ársins 2009 fór Axel Þór að velja í aðalhlutverk myndarinnar og voru prufur auglýstar nemendum Listaháskóla Íslands. Í undirbúningi fyrir hlutverk sitt í myndinni fór Jóhannes Haukur Jóhannesson í heilsuátak og réð sér einkaþjálfara og hóf að stunda líkamsrækt sex sinnum í viku. Þorvaldur Davíð Kristjánsson var valinn í hlutverk Stebba en Stefán Máni, höfundur bókarinnar, sagðist alltaf hafa séð hann fyrir sér sem persónuna. Sanok. Sanok er borg í Póllandi í Podkarpackie sýslu. Sanok liggur við ána San. Íbúar voru 39.106 þann 31. desember 2010. Íslandsmeistaramót FSÍ í þrepum 2012. Íslandsmeistaramót FSÍ í þrepum í áhaldafimleikum var haldið í Íþróttamiðstöðinni Björk þann 17. mars 2012. Veitt voru verðlaun fyrir 3 fyrstu sætin í fjölþraut í hverjum þrepi. Sá keppandi sem náði fyrsta sæti í hverju þrepi var krýndur Íslandsmeistari. Božo Paradžik. Božo Paradžik er króatískur kontrabassaleikari. Hann hóf kontrabassanám í Sarajevó árið 1983, þá aðeins 13 ára gamall. Kennarinn hans þar var Tihomir Vidovic. Á árunum 1987 til 1992 stundaði hann nám við Tónlistarakademíuna í Prag hjá Jirí Hudec. Neðanmálsgreinar. Paradzik, Bozo Sæfari (félag). Sæfari er félag áhugafólks um sjóíþróttir á Ísafirði. Í félaginu eru bæði siglingafólk, kajakræðarar og vélbátasiglarar. Félagið heldur árleg siglinganámskeið. Upphaflega var félagið stofnað 10. september 1978 sem sportbátafélag og starfaði af miklum krafti en lagðist af síðar meir. Félagið var síðan endurreist í núverandi mynd 3. júní árið 2000. Tenglar. Siglingafélög Kaíberskarð. Kaíberskarð (pashto: د خیبر درہ, úrdú/persneska: درۂ خیبر) er fjallaskarð í Spin Ghar-fjallgarðinum milli Afganistans og Pakistans. Skarðið var hluti af Silkiveginum og það hefur í aldaraðir verið mikilvæg verslunarleið milli Mið-Asíu og Suður-Asíu. Skarðið er líka hernaðarlega mikilvægt og margar innrásir hafa farið gegnum skarðið, allt frá Alexander mikla að breska hernum sem notaði skarðið til að leggja Afganistan undir Breska heimsveldið. Skarðið er enn mikilvæg leið til að koma hergögnum til herliðs NATO í Afganistan. Hæsti punktur vegarins um skarðið er 5 kílómetra innan landamæra Pakistans þar sem heitir Landi Kotal. Atari 2600. Atari 2600 er leikjatölva sem kom út í október árið 1977, gefin út af Atari. Vélin var fyrst seld sem Atari VCS (skammstöfun á Video Computer System'") en eftir að seinni vélin Atari 5200 kom út þá var hún skýrð Atari 2600. Með henni fylgdu tvær stýripinnafjarstýringar og tvær aðrar fjarstýringar með snúningsshjóli á og skottökkum ("paddle controller") og tölvuleikurinn "Combat" seinna meir fylgdi með hinn vinsæli "Pac-Man". Atari-tölvan var gasalega vinsæl um árið 1980. Natalie Portman. Natalie Portman (fædd 9. júní 1981 í Jerúsalem) er bandarísk leikkona. Portman er einkabarn foreldra sinna. Faðir hennar er læknir frá Ísrael og móðir hennar er listakona frá Ohio. Hún flutti til Washington DC þegar hún var enn þá mjög ung. Eftir að hafa flutt norkkum sinnum settist fjölskyldan að í New York, þar sem hún á enn heima í dag. Hún útskrifaðist með ágætiseinkunn. Góður námsárangur hennar gerði henni kleift að komast í Harvard. Natalie var ekki nema ellefu ára þegar umboðsmaðurinn hennar uppgvötaði hana. Þrýst var á hana að gerast fyrirsæta en hún valdi frekar að verða leikkona. Hún var í mörgum beinum útsendingum en fékk sitt fyrsta hlutverk í sterkri mynd sem Matilda í Portman, Natalie Íshvel. Tæplega 99% af öllum ís á jöðinni er bundinn í grænlandsjökli og á Suðurskautslandinu. Þó þessi stóru jökulhvel taki að bráðna gerist það hægt. Þau bregðast hægt við sveiflum í loftslagi, eru líkt og risastór skip sem eru lengi að breyta um stefnu eða stöðvast. Samt sem áður munu jöklar bráðna með vaxandi hraða þegar líða tekur á 21. öldina. Íshvel er brot ur jöklum eða þegar jöklar brotna a sumrin. Þau myndast aðalega á grænlandsjöklli og suðurskautslandinu. Peter L. Berger. Peter Ludwig Berger (fæddur 17. mars 1929 í Vínarborg í Austurríki) er heimspekingur að mennt og er meðal annars þekktur fyrir bókina"The Social Construction of Reality: A Treatise in the Sociology of Knowledge" (New York, 1966), sem hann skrifaði ásamt Thomasi Luckmann. Æviágrip. Berger fæddist í Vínarborg, höfuðborg Austurríkis, þann 17. mars 1929 og er sonur George William og Jelka (Loew) Berger. Árið 1946 fluttist hann til Bandaríkjanna og þremur árum seinna, eða árið 1949, hlaut hann BA-gráðu frá Wagner-háskóla. Hann hlaut MA-gráðu í heimspeki frá the New School for Social Research (NSSR) árið 1950 og fjórum árum síðar, eða árið 1954, hlaut hann doktorsgráðu í sömu fræðum frá sama háskóla. Árið 1952 fékk hann bandarískan ríkisborgararétt og þann 28. september 1959 kvæntist hann Brigitte Kellner og eignuðust þau tvo syni, Thomas Ulrich og Michael George. Berger hóf starfsferil sinn sem félagsfræðingur hjá Columbus State University í Georgíu árið 1954. Næstu 25 árin starfaði hann við fjöldann allan af háskólum en árið 1981 gerðist hann prófessor við Boston University. Berger hefur skrifað margar bækur sem einblína félagsfræði trúarbragða og félagsfræðilegar kenningar er varða efnahagslega þróun. Síðan hann gaf út bókina "The Sacred Canopy" árið 1966 hefur hann verið þekktur sem einn af áhugaverðustu og um leið umtöluðustu fræðimönnum á sínu sviði. Berger er eflaust þekktastur fyrir kenningar sínar um að félagslegur raunveruleiki sé ákveðin tegund af meðvitund. Berger hefur þó einnig fjallað mikið um samband samfélagsins og einstaklingsins. Í bókinni "Félagsleg smíð raunveruleikans" ("The Social Construction of Reality") þróar Berger, ásamt Thomasi Luckmann, nýja samfélagslega kenningu sem skilgreinir „samfélagið sem hlutlægan veruleika og huglægan veruleika“. Með „huglægum veruleika“ samfélagsins á Berger við það ferli þegar mat einstaklingsins á veruleikanum er framkallað af samskiptum hans við hina samfélagslega uppbyggingu. Þannig verða nýjar uppfinningar eða hugmyndir hluti af okkar raunveruleika með hlutgervingu hvers og eins. Hlutgervingin verður síðan til þess að einstaklingar líta ekki lengur á hugmyndina eða uppfinninguna sem eitthvert mennskt fyrirbæri og við það verður hrösun (reification). Kenning Bergers um að félagsleg uppbygging byggist einnig að miklu leyti á mikilvægi tungumálsins, það er að tungumálið sé mikilvægasta táknmálið í samfélagi manna, er mjög líkt kenningum Hegels um Geist. Eins og margir aðrir trúarbragðafræðingar síns tíma spáði Berger ranglega fyrir um veraldarvæðingu (secularization) heimsins. Í dag viðurkennir hann fúslega og með gáskafullum hætti að hann hafði rangt fyrir sér, enda styðja heimildir ekki hans fyrrum spádóma. Í kringum 1990 tjáði Berger sig opinberlega að trúarbrögð væru enn til staðar, væru ekki á förum og væru iðkuð í meira mæli en oft áður. Það væri þó mismunandi eftir stöðum en hann nefndi Bandaríkin sérstaklega í þessu samhengi. Berger benti þó á að bæði fjölhyggjan og hnattvæðingin hefðu breytt í grundvallaratriðum hvernig einstaklingar upplifðu trú sína. Þannig leitar einstaklingurinn nú frekar en áður að þeim trúarbrögðum sem hann vill iðka, í stað þess að iðka þau sem eru til staðar á hans heimaslóðum. Einnig telur Berger, og fjallar um það í bók sinni "Dregið úr veraldarvæðingu heimsins" ("The Desecularization of the World"), hvernig Vestur-Evrópa og akademía Vesturlanda hafi haldist veraldleg þrátt fyrir uppbyggingu trúarbragða annars staðar í heiminum. Þrátt fyrir að kenningar Bergers tengist ekki nýjum kenningum á sviði trúarbragðafræða hefur hann þó hefur reynst mikilvægur fræðimaður á sínu sviði og hefur haft áhrif á fjöldan allan af trúarbragðarfræðingum, þar má nefna Robert Hefner, Michael Plekhon, James Davison Hunter og Nancy Ammerman. Heimildir. Berger, Peter L. Berger, Peter L. Biobío-fylki. Biobío-fylki í Síle (spænska: "Región del Biobío", eða "VIII. Región") er fylki í Síle. Höfuðborg Biobío-fylkis er Concepción. Biobío-fylki liggur að Maule-fylki í norðri, Argentína í austri, Araucanía-fylki í suðri og Kyrrahafinu í vestri. Biobío-fylki er eitt af 15 fylkjum eða stjórnsýslusvæðum í Síle. Neysluvatn. Neysluvatn eða drykkjarvatn er vatn sem ætlað er til neyslu eða matargerðar og þrifnaðar á heimilum, vinnustöðum og opinberum stöðum. Einnig telst allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum vera neysluvatn svo sem í mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaði, kjötvinnslu, fiskiðnaði og fiskeldi.Neysluvatn getur verið í upprunalegu ástandi (lindarvatn, grunnvatn) oft hefur það verið hreinsað og meðhöndlað til þess að það öðlist þau gæði sem neysluvatn þarf að hafa. Neysluvatn getur komið beint úr lind, borholu eða brunni, úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum. Neysluvatn verður að standast strangar heilbrigðis- og hreinlætiskröfur. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa eftirlit með neysluvatni og vatnsbólum og vatnsverndarsvæðum viðkomandi staða. Á Íslandi er neysluvatn mestmegnis fengið úr grunnvatni og lindum. Hreinsun á neysluvatni er fátíð. Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir hafa stundað neysluvatnsrannsóknir og ráðgjöf varðandi vatnsöflun um árabil. Vatnsútflutningur, þ.e. útflutningur á átöppuðu neysluvatni, er vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Í sumum löndum er flúori bætt við neysluvatn í þeim tilgangi að draga úr tannskemmdum. Fíton. Fíton ehf. var stofnað 29. febrúar 1996. Fyrirtækið varð til við samruna tveggja lítilla auglýsingastofa. Stofurnar hétu Grafít frá 1990 og Atómstöðin frá 1993. Eigendur voru átta talsins í upphafi, jafnmargir frá báðum stofum og störfuðu allir á nýju stofunni en auk eigenda voru einnig sex aðrir starfsmenn. Ástæða þessarar sameiningar var fyrst og fremst sú að möguleikar á að taka að sér stærri viðskiptavini voru augljóslega mun minni fyrir litlu einingarnar og höfðu báðar stofurnar fundið fyrir því. Stærri eining var einnig töluvert hagkvæmari í rekstri en tvær smærri. Skömmu eftir að Fíton var stofnað gekk stofan í SÍA, Samband íslenskra auglýsingastofa. Fyrstu árin bauð Fíton birtingaþjónustu inni á stofunni en þegar frá leið var afráðið að stofna sérstakt birtingafyrirtæki í samvinnu við fleiri stofur, Auglýsingamiðlun. Fíton hóf starfsemi sína í Austurstræti 16 þar sem fyrirtækið hafði eina hæð til umráða á um 400 m2. Það húsnæði varð þó fljótt of lítið enda stækkaði stofan ört og flutti hún sig um set í Garðastræti 37 og starfaði þar í um 11 ár á þremur hæðum. 2011 fluttist stofan í Kaaber-húsið við Sætún, sem upphaflega hýsti m.a. kaffibrennslu O. Johnson og Kaaber. Fíton er nú á einni, tæplega 600 m2 hæð sem hefur mikla kosti. Í Kaaber-húsinu eru ennfremur birtingafyrirtækið Auglýsingamiðlun, hreyfimyndasmiðjan Miðstræti, veffyrirtækið Skapalón og Kansas sem sérhæfir sig í ráðgjöf og markaðssetningu á netinu. Birtinga- og rannsóknafyrirtækið Auglýsingamiðlun er nú alfarið í eigu Fítons, auk lykilstarfsmanna á Auglýsingamiðlun. Fíton á einnig Miðstræti, sem er hreyfimyndasmiðja og hlut í Kansas á móti Auglýsingamiðlun og Skapalóni. Fíton á einnig hlut í vefstofunni Skapalóni sem annars er rekið af starfsfólki þar. Að hafa öll þessi fyrirtæki undir einu þaki í Kaaber-húsinu gefur möguleika á að nýta krafta fyrirtækjanna sameiginlega þegar það á við. Það býður upp á heildarhugsun í miðlun markaðsskilaboða í hvaða miðli sem vera skal eða samnýtingu þeirra allra. Þannig er Kaaber-húsið kraumandi suðupottur hugmynda og hönnunar fyrir alla miðla – og allt unnið eftir vel skipulögðum verkferlum með það að markmiði að ná betri árangri fyrir viðskiptavini. Í ársbyrjun 2012 eru starfsmenn Fítons 30 talsins en með sameiningu þessara fyrirtækja undir einu þaki gefst viðskiptavinum þeirra kostur á að samnýta krafta fjölda hæfileikafólks. Auglýsingastofan Fíton starfar fyrir fjölda íslenskra fyrirtækja. Sem dæmi má nefna flugfélag, nokkur matvælaframleiðslufyrirtæki, banka, skipafélag, verslunarfyrirtæki stór og smá, olíufélag, fjölmiðlafyrirtæki, lyfjafyrirtæki, lífeyrissjóð og eitt stærsta stéttarfélag landsins. Núverandi eigendur Fítons eru: Anna Sigríður Guðmundsdóttir textasmiður, Anna Svava Sverrisdóttir fjármálastjóri, Björn Jónsson og Finnur Jh. Malmquist grafískir hönnuðir og Þormóður Jónsson framkvæmdastjóri. Þau starfa öll í fyrirtækinu. Samsíðungur. Samsíðungur er ferhyrningur með hvorar tveggja mótlægra hliða jafnstórar. Undirskriftalisti. Undirskriftalisti er beiðni um að eitthvað sé gert í ákveðnu málefni. Slíkur listi er oft sendur til ríkisstjórnar eða annarra opinberra samtaka. Undirskriftalisti samanstendur af fjölda undirskrifta sem skrifaðar eru til að sýna stuðning með eða gegn máli. Dæmi um undirskriftalista er sá sem búinn var til til að biðja um að væri Nelson Mandela frelsaður úr fangelsi. Í dag eru margir undirskriftalistar búnir til á netinu og sendir í stafrænu formi. Framsækinn málmur. Framsækinn málmur (e. "progressive metal") er undirstefna þungarokks sem talið er að hafi orðið til í Bretlandi og Norður-Ameríku í lok áttunda áratugarins en var ekki skilgreindur sem tónlistarstefna fyrr en í lok níunda áratugarins. Oftast samanstendur hljómsveit í þessum tónlistarflokki af gítarleikara, trommuleikara, söngvara og bassaleikara en stundum eru gítarleikararnir fleiri en einn og oft er einnig hljómborðsleikari í hljómsveitinni. Framsækinn málm er hægt að skilgreina sem háværari útgáfu af framsæknu rokki en einnig er sagt að framsækinn málmur sé þungarokk sem fylgir óhefbundnum reglum að því er varðar uppsetningu á lögum. Með tímanum fóru tónlistarmenn framsækins málms að taka hugmyndir úr öðrum tónlistarflokkum og þá helst úr klassískri tónlist og djassi. Einu skilyrðin sem lag þarf að uppfylla til þess að vera Prog Metal er að það hafi ekki sömu uppsetningu og popplag og að það sé nógu þungt til þess að vera kallað þungarokk. Margar Prog metal hljómsveitir hafa gert lög með flóknum hryn hugmyndum og út frá þessum hugmyndum hafa myndast nokkrir undirflokkar framsækins málms eins og djent. Í bæði framsæknum málmi og framsæknu rokki hefur oft verið lögð áhersla á tæknilegri kunnáttu hljóðfæraleikaranna og út af þessu myndaðist það sem kallast tæknilegt dauðarokk. Söngurinn er oftast skær, í falsettu og leikrænn en með árunum hafa hljómsveitir eins og Opeth og Cynic rutt veginn fyrir söngvurum sem kjósa frekar að öskra eða urra. Framsækinn málmur sem stefna hefur haft gríðarleg áhrif á marga aðra undirflokka þungarokks og öfugt. Margar hljómsveitir í dag sem eru skilgreindar sem dauðarokk, svartmálmur eða eitthvað svipað fylgja ekki hefðbundnu lagaformi og þess vegna má skilgreina þær sem framsækinn málm. Upphaf. a> söngvari og bassaleikari í miðjunni Framsækinn málmur varð til þegar framsæknar hljómsveitir gerðu tilraunir með reiðari kafla í lögum sínum og þegar þungarokkshljómsveitir gerðu tilraunir með flóknari uppsetningar á lögum. Þannig má segja að þessi tegund tónlistar sé afsprengi tveggja tónlistarstefna sem þó ekki unnu saman. Dæmi um framsæknar hljómsveitir sem fóru að spila tónlist í harðari kantinum eru Rush, King Crimson og High Tide. Af plötunum 2112, A Farewell to Kings og Hemispheres eftir Rush mátti finna mörg góð dæmi um það hvernig Progressive metal stefnan kom til með að líta út áratug síðar. Lög eins og 2112, La Villa Strangiato og Cygnus X-1 voru með löngum söngvaralausum köflum eins og tíðkast í framsæknu rokki en á milli þeirra voru ofstopafyllri kaflar af þungarokki. Seinna meir fóru rokk hljómsveitir að nota hugmyndir úr þessum köflum til þess að búa til heilu lögin. Deep Purple er dæmi um þungarokkshljómsveit sem tók upp á því að búa til lengri lög sem fylgdu ekki venjulegum reglum um lagaform. Þegar þungarokks lög tóku að breytast úr því að vera uppreisnartónlist fyrir unglinga í tónlist sem ætluð er til að æsa fólk upp yfir engu sérstöku þurftu þungarokkshljómsveitir að breyta uppsetningu á lögum sínum til þess að skapa þessa órólegu tilfinningu sem fylgir því að hlustandinn fái ekki að heyra það sem hann býst við. King Crimson og Rush eru oft nefndir sem helstu áhrifavaldar af tónlistarmönnum innan Prog metal geirans en einnig ber að nefna hljómsveitina Iron Maiden sem hafði tvo gítarleikara en það er mjög algengt meðal Prog metal listamanna. Stefna verður til. Á 8. áratugnum var um einstök lög eða plötur sem fylgdu þessari óskilgreindu tónlistarstefnu að ræða en ekki voru beinlínis til hljómsveitir sem hægt var að kalla hreinræktaðar Prog metal hljómsveitir. Undir lok 9. áratugarins fóru hins vegar að koma fram hljómsveitir sem voru aðallega Prog metal hljómsveitir. Þrjár hljómsveitir sem komu fram um þetta leyti hafa oft verið nefndar "risarnir þrír" en þær eru Queensrÿche, Fates Warning og Dream Theater. Queensrÿche gaf út plötuna ' árið 1988 en hljómsveitin hafði þá þegar gefið út þrjár plötur. Operation: Mindcrime er talin vera merkasta verk hljómsveitarinnar ásamt plötunni "Empire". Queensrÿche hallaðist meira að framsækna hlutanum með glaðlegum og grípandi lögum sem samt höfðu ágenga kafla sem þungarokks áheyrendurnir höfðu gaman af. Hljómsveitin Dream Theater náði miklum vinsældum með plötunni "Images and Words" árið 1992 og þá helst með laginu "Pull Me Under". Þessar tvær hljómsveitir náðu vinsældum hjá breiðum hópi fólks og voru myndbönd þeirra spiluð á MTV en Fates Warning varð ekki jafn fræg. Hún komst í 191. sæti á Billboard top 200-listanum með þriðju plötunni sinni "Awaken the Guardian" en það hæsta sem sú hljómsveit komst á þann lista var í 111. sæti með plötunni "No Exit" sem kom út árið1988. Fates Warning var þyngst af þessum þremur hljómsveitum þar sem hljómsveitin komst nær því að vera þungarokk heldur en framsækið rokk. Á plötunni No Exit var lagið „The Ivory Gates“ sem er 20 mínútna langt lag og er talið vera framsæknasta verk sveitarinnar. Á þessum tíma voru einnig aðrar hljómsveitir að semja lög sem hægt væri að skilgreina sem framsækinn málm eins og hljómsveitin Death sem lagði grunn að dauðarokki og tæknilegu dauðarokk-senuna. Einnig má nefna Metallica sem er líklegast frægasta þungarokkshljómsveit í heimi en fyrstu tvær plötur hennar eru taldnar vera framsækinn málmur. 1990 – 2000. Þó að framsækið þungarokk væri og sé enn í dag fyrst og fremst tónlistarstefna á einstökum plötum og lögum jukust vinsældir framsækna málmsins vegna "risanna þriggja". Í kjölfar þeirra komu fram aðrar framsæknar málm-hljómsveitir þannig að á árunum 1990 – 2000 komu fram hljómsveitir eins og Porcupine Tree, Mr. Bungle, Meshuggah, Tool, Muse, Symphony X, Liquid Tension Experiment, Nile og Primus sem hver og ein hafði sinn eigin stíl þótt þær væru allar framsækinn málmur. Hljómsveitin Symphony X blandaði saman power metal og klassískri tónlist. Tool gerði tilraunir með að nota öðruvísi hljóðfæri, furðulega taktvísa og texta með óhefbundnu innihaldi líkt og tónlistarmenn alternative-stefnu gerðu. Les Claypool úr hljómsveitinni Primus notar slap tækni á bassann sinn til þess að búa til eins konar funk-útgáfu af framsæknum málmi sem hann kallar sjálfur sveitalubbametal. Porcupine Tree hefur notið mikilla vinsælda fyrir að halda ekki sterklega í þungarokkið og blanda þess vegna miklum popptónlistarhugmyndum inn í lögin sín. Liquid Tension Experiment var hljómsveit sem Mike Portnoy trommuleikari úr Dream Theater myndaði með John Petrucci gítarleikara úr Dream Theater, Jordan Rudess hljómborðsleikara sem seinna varð hljómborðsleikari í Dream Theater og Tony Levin bassaleikara úr King Crimson. Hugmyndinn var að búa til súpergrúppu sem væri ekki með neinum söngvara heldur snerist mest um að sýna fram á hæfileika hljóðfæraleikaranna með sólóum. Hljómsveitir eins og Muse og 30 Seconds to Mars náðu vinsældum meðal almennings upp úr árinu 2000 en hljómsveitir eins og Nile voru oftar skilgreindar sem dauðarokk þrátt fyrir að uppfylla skilyrði framsækins málms. Undirflokkar. Um þetta leyti varð hugtakið Prog metal töluvert víðara og fór stefnan þess vegna að skiptast niður í nokkra undirflokka. Kringum miðju 10. áratugarins og í byrjun 21. aldarinnar fóru framsæknar þungarokkssveitir að nota hugmyndir úr nútíma klassískri tónlist og frjálsum djassi og fóru ákveðnir tónlistarflokkar að myndast úr vissum hugmyndum, tónlistarstefnur eins og mathmetal og djent. Hljómsveitin Meshuggah spilar lykilhlutverk í tilkomu djents sem er undirflokkur framsækins málms og hefur náð einhverjum vinsældum meðal metal tónlistamanna á seinustu tíu árum. Meshuggah gaf út plötuna "Contradictions Collapse" árið 1991 og síðan þá hefur hljómsveitin þróað tónlist sína mjög en haldið í það að byggja alla tónlist sína á taktinum 4. Hljómsveitin gerir lög sem hægt er að skrifa út í tveimur taktvísum þar sem einn þeirra er 4/4 og hinn er breytilegur. Algengast er fyrir tónlistarmenn á þessu sviði er að láta söngvarann og hendur trommuleikarans fylgja 4/4 á meðan afgangur hljómsveitarinnar spilar í öðrum taktvísi með jafnt nótnagildi sem veldur því að taktarnir skerast en mættast aftur á öðrum stöðum í laginu. Sem dæmi má taka lagið „Bleed“ með Meshuggah þar sem er hægt að skrifa lagið út í 4/4 og í 3/16. Í kjölfar Meshuggah hafa komið nokkrar aðrar djent-hljómsveitir svo sem Tesseract, Animals as Leaders, Textures, Veil of Maya, A life Once Lost, Vildhjarta, Xerath og Periphery en segja má að þessi stefna hafi ekki komið almennilega upp á yfirborðið fyrr en um 2011. Hljómsveitin Mr. Bungle var stonfuð árið 1985 og gaf út fyrstu plötuna sína árið 1991. Eftir það gaf hljómsveitin út tvær plötur í viðbót árin 1995 og 1999. Önnur plata hljómsveitarinnar heitir "Disco Volante" og er hún talinn vera tímamótaplata í tilraunakenndari kanti framsækins málms sem nefnist á íslensku einfaldlega tilraunakennt framsækið þungarokk. Á þeirri plötu skipti hljómsveitin oft um tónlistarstefnur í miðju lagi. Til dæmis í laginu „Sleep part II“ fer hljómsveitin úr þungarokki í punk í djass í suðræna tónlist svo eitthvað sé nefnt. Framúrstefnulega þungarokkshljómsveitin Celtic Frost frá 9. áratugnum blandaði saman thrash, sinfoníu og gotneskum málm sem er einkennandi fyrir hljómsveitir sem skilgreina má sem tilraunakennt framsækið þungarokk. Hljómsveitin The Mars Volta hefur náð miklum vinsældum með því að blanda saman latneskri tónlist, þungarokki og framsæknu rokki ásamt því að vera með fastan slagverksleikara og saxófónleikara. Vinsældir. Framsækinn málmur sem tónlistarstefna hefur ekki náð miklum vinsældum meðal almennings miðað við aðrar dansvænni tónlistarstefnur en áhugi ungmenna á stefnunni hefur farið vaxandi frá árinu 2000. Framsækinn málmur reynist vinsælli meðal tónlistarmanna en inni á klúbbum. Parasetamól. Parasetamól er verkjastillandi og hitalækkandi lyf. Það hentar við vægum verkjum sé engin bólga fyrir. Verkjastillandi áhrif parasetamóls eru sambærileg við asetýlsalicýlsýru (aspirín). Parasetamól er einnig notað til að slá á sótthita. Það ertir ekki magaslímhúð og hentar þeim sem hafa fengið magasár eða eru viðkvæmir í maga. Parasetamól er oft blandað öðru verkjastillandi efni, kódeini, til þess að magna áhrif þess. Aukaverkanir: Sjaldgæf (<1%): gula, útbrot og mikill kláði. Sonja Noregsdrottning. Sonja Noregsdrottning (f. 4. juli 1937) er drottning Noregs. Tígull. Tígull er ferhyrningur sem er með allar hliðar jafn langar. Allir tíglar eru jafnframt samsíðungar og allir ferningar eru jafnframt tíglar. Í tígli eru mótlæg horn jafn stór. Hornalínur tíguls eru hornréttar hvor á aðra og helminga jafnframt hvor aðra. Flatarmál tíguls má reikna út frá lengd hornalínanna. Séu þær kallaðar a og b þá er flatarmál tígulsins F = 1/2 ab. Það má rökstyðja með því að benda á að hornalínurnar skipta tíglinum í fjóra eins rétthyrnda þríhyrninga, sem hver um sig hefur flatarmálið 1/8 ab. A-ha. a-ha er norsk popphljómsveit, stofnuð í Ósló árið 1984. Meðlimir hennar eru "Morten Harket", "Magne Furuholmen" og "Paul Waaktaar-Savoy". Hljómsveitin sló í gegn um allan heim með lögunum „Take on Me“ og „The Sun Always Shines on T.V.“ sem komu út árið 1985. Buranovo. Buranovo eða Búranovo er þorp í Údmurtíu í Rússlandi. Þar búa 658 manns (2011). Willem Dafoe. Willem Dafoe (fæddur 22. júlí 1955) er bandarískur leikari. Hann hóf leikaraferilinn árið 1980 og lék þá lítið hlutverk í myndini "Heaven's Gate" en fyrsta aðalhlutverkið lék hann í myndinni "The Loveless". Fyrsta stórmynd sem hann lék í var "Platoon" (1986) og var hann þá tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir besta leik í aukahlutverki. Hann er líka þekktur fyrir að hafa leikið í fyrstu myndinni um Köngulóarmanninn árið 2002 og lék hann þá Græna púkann (the Green Goblin). Einnig lék hann í "Finding Nemo" (2003). Hann lék einnig í myndinni "John Carter" (2012) og talaði þá fyrir græna Marsbúann Tars Tarkas. Dafoe, Willem Indítónlist. Indítónlist (oftast aðeins kölluð indí) er tónlistarstefn, sem á rætur að rekja til Englands á 9. áratugnum. Enska hugtakið „indie“, sem er stytting á orðinu „independent“, hefur verið notað í langan tíma til að lýsa tónlistarmönnum og hljómsveitum sem reiða sig á óháð plötufyrirtæki, oft sín eigin plötufyrirtæki. Á 9. áratugnum voru plötufyrirtæki að verða stærri og stærri og höfðu fyrirtækin svo mikil völd að þessi minni, sjálfreknu fyrirtæki áttu erfiðara fyrir. Í daglegu tali er oft talað um fólk sem hlustar á indítónlist mjög útaf fyrir sig og má vitna í enska orðið „hipster“. Íslensk þýðing á þessu orði væri að vera manneskja sem er mjög hlynnt öðruvísi hlutum. Oft svo frábrugðnum hlutum að fólk skilur ekki fegurðina í þeim, líkt og indie tónlist getur hljómað í sérstökum eyrum. Á árum áður var mun erfiðara fyrir hljómsveitir að koma sér á framfæri og plaköt, útvarpið og geisladiskar voru notað til auglýsinga og hlustunar. En nú reiða þessar indíhljómsveitir og sjálfreknu plötufyrirtækin mikið á internetið. Internetið er hagkvæm leið til að auglýsa hljómsveitirnar, tónlistarmennina, ný lög, nýjar plötur og svo framvegis. Helstu síður sem notaðar eru til að koma hljómsveitum á framfæri eru MySpace, Facebook, Soundcloud, Bandcamp. Indírokk. Indírokk er ekki með mjög hefðbundið hljóð. Textarnir eru oft á tíðum mjög tilfinninganæmir og þeir ná ekki alltaf til stórra hópa líkt og aðrar tónlistarstefnur. Indírokk og alternative-rokk eru tvær tónlistarstefnur sem eru með hvað líkasta hljóðið. En er Nirvana byrjuðu að slá í gegnum rétt eftir 1990 skiptust þessar tvær tónlistarstefnur í tvær greinar. Indípopp. Indípop er undirgrein indírokksins. Indípopp er hávaðaminna og auðveldara til hlustunar. Indírokkið og indípoppið eru bæði undir þessum D.I.Y-link stíl. Orðið „indie“ hafði verið notað í nokkurn tíma áður en indie-poppið varð að ákveðinni stefnu. Árið 1986 kom út kasetta með samansafni af lögum sem voru vinsæl í þá tíð og var einkenni laganna gítarglamur og melódísk popp lög með miklum takti. Indie-poppið var þá skilgreint sem sú stefna sem hún er í dag. Á þeim tímum sem indie-poppið náði fótfestu var áberandi hversu ólík stefna fólksins sem aðhylltist indípoppið var frá kynslóðinni áður, það er að segja rokkurum og pönkurum. Rokkið var samasem merki við kynþokka og tísku en indípoppararnir bæði skáru sig úr heildinni en einnig voru þau svo áberandi venjuleg þegar kom að klæðaburði. Hljóðfæri hvaðanæva voru notuð, svo lengi sem það kom ágætis tónn út úr glamrinu virkaði það. Hvítu miðstéttarkrakkarnir gátu nú notið sín með hvaða hljóðfæri sem þeim lysti. Tískan var einnig frábrugðin kynslóðarinnar á undan. Pönkararnir voru þekktir fyrir grimman og áberandi klæðnað en nú voru föt indípopparanna venjuleg, hversdagsleg, ekki með neinn sérstakan brag yfir sér. Þessir indípopparar voru klædd í fábrotin föt, með óáberandi sýningar og með krúttlegan stimpil á sér. Indífolk. Indífolk er lítil undirgrein indírokksins sem er undir miklum áhrifum folk tónlistarinnar, country og indírokksins. Indie-folkið er mun nýrra af nálinni heldur en hinar tvær gerðirnar, þ.e. indírokk og indípopp. Ísland og indístefnan. Margar misþekktar indíhljómsveitir hafa komið til landsins. Bæði hafa hljómsveitirnar komið fram á tónleikum einar og sér og einnig á tónlistarhátíðum. Allra frægasta tónlistarhátíðin kallast Iceland Airwaves. Þar koma árlega fram allskyns hljómsveitir og tónlistarmenn. Mjög stór hluti tónlistarmannanna sem spila á hátíðinni eru íslenskar hljómsveitir, bæði frægar og einnig þær sem eru á uppleið. Erlendu hljómsveitirnar eru nánast allar þær sem eru á uppleið eða nokkuð óþekktar hljómsveitir. Á síðustu tveimur árum hafa þekktar indíhljómsveitir á borð við Bombay Bicycle Club, Everything Everything, Neon Indian, Think About Life og The Drums komið fram á hátíðinni. Íslendingar eiga fjöldann allan af indíhljómsveitum, þó stefnan hefi enn ekki notið jafn mikils fylgis á Íslandi eins og á Bretlandi og löndum þar í kring. Moð. Litað viðarkurl notað sem moð. Moð er í garðyrkju efni sem sett er ofan á moldina sem gróðursett er í til að viðhalda hita og raka í jarðvegi, hamla illgresi og auka næringu. Moð getur verið ýmist ólífrænt eða lífrænt og jafnvel er talað um lifandi moð þegar ákveðnum tegundum af jurtum (t.d. hvítsmára eða belgjurtum) er sáð í þeim tilgangi að hylja moldina umhverfis hinar eiginlegu nytjajurtir. Algengast er þó að nota jurtaleifar (t.d. trjákurl, hálm eða lauf), plast eða möl. Samræktun. Samræktun er í garðyrkju sú aðferð að rækta ólíkar tegundir jurta saman þannig að þær njóti góðs hver af annarri. Samræktun er notuð til að auka upptöku næringarefna, veita skjól og skugga, fæla meindýr og laða að væn dýr. Tilgangurinn með samræktun getur verið að auka framleiðni og minnka þörf fyrir áburð og skordýraeitur. Dæmi um samræktun eru systurnar þrjár; maís, klifurbaun og kúrbítur, sem frumbyggjar Ameríku hafa ræktað saman um aldaraðir. Maísinn gefur skugga og styður baunagrasið sem klifrar upp langan stilkinn, baunagrasið bindur köfnunarefni í jarðveginum sem hinar jurtirnar nýta sér, og kúrbíturinn ver jarðveginn og heldur frá ýmsum meindýrum með broddhárum á blöðunum. Saman gefa tegundirnar þrjár uppskeru sem er næringarrík fyrir manninn. Forsetakosningar á Íslandi 2012. Forsetakosningar á Íslandi 2012 fóru fram laugardaginn 30. júní 2012. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, sigraði kosninguna með með 52,78% fylgi. Hann er fyrsti forseti Íslands sem hefur setið lengur en fjögur kjörtímabil. Þetta voru fyrstu forsetakosningarnar eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008. Í síðustu forsetakosningunum 2008 var Ólafur sjálfkjörinn í embættið vegna þess að enginn bauð sig fram gegn honum. Aldrei hafa fleiri forsetaframbjóðendur komið fram en í forsetakosningunum 1980 og 1996 buðu fjórir sig fram. Sex einstaklingar, þrír karlmenn og þrjár konur, verða í framboði: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir. Úrslit. Á kjörskrá voru 235.495 og var kjörsókn 69,32%. Frambjóðendur. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, tilkynnti um framboð sitt 4. mars 2012. Samkvæmt könnun sem hópurinn „Betri valkost á Bessastaði“ lét gera í mars vildi nærri tveir af hverjum þremur fá nýjan forseta. Herdís Þorgeirsdóttir, doktor í lögfræði, lýsti yfir að hún ætli í framboð 2. apríl 2012. Hannes Bjarnason lýsti einnig yfir framboði þann 29. mars 2012. Eftir að hafa tekið sér umhugsunarfrest lýsti fjölmiðlakonan Þóra Arnórsdóttir því yfir að hún hygðist bjóða sig fram. Ari Trausti Guðmundsson lýsti yfir framboði í apríl. Andrea Jóhanna Ólafsdóttir tilkynnti um forsetaframboð sitt þann 1. maí, á degi verkalýðsins. Ólafur Ragnar Grímsson. DV fjallaði um hlut Ólafs Ragnars Grímsonar í „útrásinni“ íslensku, svokölluðu, í aðdraganda hrunsins. Ólafur mætti í útvarpsviðtal í Sprengisandi á Bylgjunni 14. maí þar sem hann gagnrýndi fréttaflutning DV, fréttaflutning Svavars Halldórssonar, eiginmanns Þóru, um forsetakosningarnar og nefndi væntanlegar breytingar á kvótakerfinu sem gott dæmi um málefni sem vísa ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Strax eftir viðtalið opnaði Ólafur kosningamiðstöð sína á Laugavegi og þangað komu blaðamenn DV. Blaðamenn DV vildu skýringar á ásökunum sem Ólafur hafði sett fram, úr urðu nokkrar deilur. Þóra Arnórsdóttir. Í umræðu í fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna var nokkuð fjallað um þá staðreynd að Þóra Arnórsdóttir á von á barni þann 8. maí næstkomandi. Mögulegir frambjóðendur. Ástþór Magnússon tilkynnti framboð sitt í þriðja sinn en 1. júní var það dæmt ógilt að mati innanríkisráðuneytisins. Elín Hirst, fjölmiðlakona, íhugaði framboð en staðfesti síðar að hún hygðist ekki bjóða sig fram. Stefán Jón Hafstein ýjaði að framboði. Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sagðist vera að íhuga framboð mjög alvarlega. Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands íhugaði einnig framboð en gaf út yfirlýsingu um að hún færi ekki fram. S. Valentínus Vagnsson, maður sem sprengdi sprengju við Stjórnarráð Íslands í janúar 2012 í mótmælaskyni, sagði í blaðaviðtali að hann hygðist tilkynna um framboð sitt. Jón Lárusson lögreglumaður lýsti yfir því yfir í janúar að hann ætlaði að bjóða sig fram en tilkynnti 15. maí að hann drægi framboð sitt til baka þar sem hann náði ekki að safna þeim undirskriftum sem til þarf. Skoðanakannanir. Fyrstu skoðanakannanirnar sem framkvæmdar voru um fylgi forsetaframbjóðendanna gáfu til kynna að Þóra Arnórsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson fengju mest fylgi. Ari Trausti Guðmundsson fékk einnig nokkuð fylgi. Johannes Scolvus. Pólverjar vilja eigna sér Scolvus og hafa reist honum styttu í Stettin. Johannes Scolvus eða Jón Skolp var sæfari og landkönnuður á síðari hluta 15. aldar. Óvíst er hverrar þjóðar hann var; líklegast er talið að hann hafi verið danskur eða norskur en hann hefur einnig verið katalónskur, velskur eða pólskur og því hefur líka verið haldið fram að hann hafi verið Íslendingur og heitið Jón Skúlason. Annars er eftirnafnið ýmist skrifað Scolnus, Scoluus, Scolus, Szkolny, Kolno eða Skolvsson. Hans er getið í ýmsum heimildum en þær eru allar ritaðar löngu eftir að hann á að hafa verið uppi og það hefur jafnvel verið dregið í efa að hann hafi verið til. Þeim heimildum sem nefna hann ber hins vegar saman um að hann hafi siglt til einhverra landa við norðvestanvert Atlantshaf, Grænlands eða jafnvel meginlands Norður-Ameríku og ef svo er hefur hann komið þangað fyrir daga Kólumbusar. Heimildir og tilgátur um Scolvus. Norski fræðimaðurinn Sofus Larsen taldi að Scolvus hefði verið leiðsögumaður eða stýrimaður leiðangurs sem sagt er að Kristján 1. Danakonungur hafi sent um 1473 til að kanna Grænland og önnur lönd í norðri. Leiðangurinn var þýsk-danskur en kostaður af Portúgölum að einhverju leyti og portúgölsku landkönnuðirnir João Vaz Corte-Real og Álvaro Martins voru með í för. Foringjar leiðangursins voru hins vegar þeir Diðrik Píning, síðar hirðstjóri á Íslandi, og félagi hans Hans Pothorst. Larsen taldi að leiðangurinn hefði siglt af stað frá Björgvin, farið til Íslands og Grænlands og að lokum fundið Terra do Bacalhau, "Þorskaland", sem líklega hefði verið Nýfundnaland eða Labrador. Á hnattlíkani sem kortagerðamaðurinn Gemma Frisius gerði 1536 er letrað á svæðið milli Grænlands og Labrador að þangað hafi Daninn Joes Scoluss komið 1476 og hitt þar fyrir þjóð sem nefnd er Quij. Í spænskri bók sem út kom 1553 segir um Labrador að þangað hafi menn komið frá Noregi undir leiðsögn Joan Scoluo. Í enskri heimild frá 1575 er talað um að John Scolus, stýrimaður frá Danmörku, hafi siglt á þessar slóðir 1476. Á ensku korti frá 1582 er teiknað land norðvestan við Grænland og á það skrifað Jac. Scolvus Croetland. Í hollenskri heimild frá 1597 er sagt að Johannes Scoluus Polonus (Pólverji) hafi komið til Labrador og Estotilands. Meðal annars á þeim grundvelli vilja Pólverjar eigna sér Scolvus, sem þeir segja hafa heitið Jan z Kolna. Þess hefur þó verið getið til að Polonus sé mislestur á piloto (stýrimaður) í eldri heimild. Fleiri heimildir nefna Scolvus en engar samtímaheimildir hafa fundist sem geta hans. Buranovskiye Babushki. Buranovskiye Babushki ("Бурановские Бабушки") er rússnesk (údmúrtísk) þjóðlagahljómsveit sem var stofnuð í Buranovo. Rauða torgið. Rauða torgið (á rússnesku: Красная площадь, umritun: "Krasnaja plostjad") er torg fyrir austan við Kreml í Moskvu í Rússlandi. Hjartagoði. Hjartagoði ("Pontederia cordata") er vatnablóm. Maximilian I (HRR). Maximilian I (22. mars 1459 í Wiener Neustadt – 12. janúar 1519 í Wels) var konungur þýska ríkisins (frá 1486), erkihertogi Austurríkis (frá 1493) og keisari þýska ríkisins (frá 1508). Maximilian erfði Búrgúnd og Niðurlönd í gegnum hjónaband sitt við Maríu, dóttur Karls djarfa. Með viturlegum hjónböndum barna sinna eignaðist Habsborgarættin einnig krúnu Spánar (þar með talin Ameríku) og síðar meir Ungverjalands og Bæheims. Erkihertogi af Austurríki. Maximilian fæddist í Wiener Neustadt 1459. Foreldrar hans voru Friðrik III keisari og eiginkona hans Eleonora frá Portúgal. Strax við fæðingu hlaut Maximilian titilinn erkihertogi af Austurríki. Hann ólst hins vegar upp í Vín. Hann var enn aðeins fjögurra ára drengur þegar sló í brýnu milli föður hans, Friðriks III keisara, og föðurbróður hans Albrechts VI hertoga Austurríkis. Íbúar Vínar opnuðu hliðin fyrir Albrecht og aðstoðuðu hann í að einangra og skjóta á kastalahöllina þar sem Friðrik hafði byrgt sig inni. Friðrik hröklaðist að endingu frá, en hinn ungi Maximilian fyrirgaf Vínarbúum aldrei þennan gjörning. Mestan hluta ævinnar sat hann því í Wiener Neustadt eða Innsbruck, en kom sjaldan til Vínar. Móðir hans veitti honum hlýtt uppeldi og kenndi honum að sitja á hestbak og skjóta úr ör og boga. Hún lést er hann var einungis átta ára. Hertogi af Búrgúnd. Maximilian og María af Búrgúnd Maximilian kvæntist Maríu af Búrgúnd 19. ágúst 1477 í belgísku borginni Gent. Hún var dóttir Karls djarfa, síðasta hertoga Búrgúnds. Karl lést á sama ári og erfði María öll lönd Búrgúnds, þar með talin Niðurlönd. María sjálf lést 1482 í veiðislysi og erfði Maximilian þá Búrgúnd og Niðurlönd. Þetta var upphafið að stjórn Habsborgar á Niðurlöndum. Frakkar hrifsuðu til sín kjarnaland Búrgúnd og reyndu að taka til sín fleiri aðliggjandi héruð. Í orrustunni við Guinegate í Norður-Frakklandi sigraði Maximilian Frakka og kom í veg fyrir frekara yfirgang Frakka á lendum Búrgúnds. Konungur þýska ríkisins. Maximilian í herklæðum. Málverk eftir Peter Paul Rubens. 16. febrúar 1486 var Maximilian kjörinn til konungs þýska ríkisins í Frankfurt þrátt fyrir að Friðrik faðir hans væri enn á lífi. Friðrik stjórnaði þó enn sem keisari, en konungskjör Maximilians var eingöngu framkvæmt til að tryggja konungdóm hans eftir fráfall Friðriks. 9. apríl á sama ári var Maximilian svo vígður til keisara í borginni Aachen. Eftir þetta reið Maximilian ekki feitum hesti í útistöðum sínum við Frakka. Oft tapaði hann orrustum og náði að flýja á síðustu stundu. Íbúar Niðurlanda voru óánægðir með þetta og létu handtaka Maximilian. Hann sat í dýflissu í Bruges (Brügge) í Flandri frá janúar til maí 1488, þar til Friðrik faðir hans kom aðvífandi með her og frelsaði hann. Saman tókst þeim að ná stjórn á Niðurlöndum og halda Frökkum í skefjun. 1490 kvæntist Maximilian Önnu frá Bretagne án þess að vera viðstaddur. Hjónabandið var hins vegar leyst upp ári síðar. Friðrik keisari lést 1493 og tók Maximilian þá formlega við konungdóminum í þýska ríkinu. Ári síðar kvæntist Maximilian Biöncu Mariu Sforza frá Mílanó. Karl VIII Frakklandskonungur gerði tilkall til konungdómsins í Napólí og hertók borgina í einu vettvangi 1495. Í kjölfarið mynduðu Maximilian, hertoginn af Milano, lýðveldið Feneyjar, Alexander VI páfa og Ferdinand II af Aragóníu heilaga bandalagið gegn Frakklandi. Á sama tíma stóð Maximilian í að mynda hjónabönd tveggja barna sinna við erfingja spænsku krúnunnar, sem eftir það varð eign Habsborgar. Þetta var upphafið af aldalöngum erjum milli Frakklands og Habsborgar. Á ríkisþingingu í Worms 1495 kom Maxilian ýmsum mikilvægum málefnum í gegn. Það mikilvægasta var skattanýjung, sem Þjóðverjar kalla gjarnan Gemeiner Pfennig (merkir bæði "venjulegur Pfennig" og "óréttlátur Pfennig"). Keisari. Þrátt fyrir að erkibiskupinn í Aachen hafi þegar smurt Maximilian til keisara árið 1486, var ákveðið að leyfa Júlíusi II páfa að endurtaka vígsluna. Maximilian og Júlíus hittust í Trient þar sem páfi veitti Maximilian keisaratignina í dómkirkjunni 4. febrúar 1508. Gjörning þennan var ekki hægt að framkvæma í Róm (Vatíkaninu) þar sem Maximilian hafði fjandskapast við lýðveldið Feneyjar og gat því ekki ferðast um lönd þess. En Maximilian átti vinaleg samskipti við ríkin í austri. Hann hitti þjóðhöfðingja Póllands, Rússlands Ungverjalands og Bæheims. Með klókum hjónaböndum hlutu Habsborgarar krúnur Ungverjalands og Bæheims áratug seinna. Lönd þessi héldust í austurríska keisaradæminu allt til 1918. Áður hafði Maximilian erft Búrgúnd og Niðurlönd. Hann lagði því grunninn að hinu mikla Habsborgarveldi, þar með talda Ameríku, sem eftirmaður hans stjórnaði og skipti upp. Á leið sinni til ríkisþingsins í Linz veiktist keisari hastarlega og lagðist í rúm í kastalavirkinu í Wels í Efra Austurríki. Þar lést hann 12. janúar 1519 úr þarmakrabba að talið er. Hann var lagður í steinkistu og hvílir í Wiener Neustadt. Við ríkinu tók barnabarn hans, Karl V keisari, en á hans tíma náði Habsborgarveldið mestu útbreiðslu sinni. Guðrún Bjarnadóttir. Guðrún Bjarnadóttir (f. 11. desember 1942) er íslensk fegurðardrottning og fyrirsæta, uppalin í Njarðvík. Hún var kjörin Ungfrú Ísland árið 1962, varð í fimmta sæti í keppninni Miss United Nations og var svo kjörin Miss International árið 1963. Hún starfaði síðan sem fyrirsæta í fimmtán ár og var ein af þekktari ljósmyndafyrirsætum Evrópu. Guðrún hætti fyrirsætustörfum þegar hún giftist auðmanninum Bastiano Bergese. Hún á einn son. Plaisance-þjóðgarðurinn. Plaisance-þjóðgarðurinn er þjóðgarður í Québec í Kanada. 20 (tala). 20 er náttúruleg tala sem kemur á eftir 19 og á undan 21. Uppsjávarfiskur. Uppsjávarfiskur er fiskur sem lifir nálægt yfirborði sjávar eða í vatnsborði í ám, vötnum og við strendur en ekki á sjávarbotnum eða botnum stöðuvatna. Umhverfi uppsjávarfiska í sjónum er stærsta vistkerfi í vatni á jörðinni en það nær yfir 1,370 milljón rúmkílómetra og er vistkerfi um 11% þekktra fisktegunda. Meðaldýpt hafsvæða er 4000 m. Um 98 % af vatni í höfum er fyrir neðan 100 m og 75 % er fyrir neðan 1000 m. Surimi. Surimi deig tilbúið til vinnslu Surimi eða krabbalíki er hakk eða marningur oftast unnið úr fiski og er fiskurinn marinn inn í jafning sem er eins og þykkt hlaup þegar hann er eldaður. Surimi er hluti af asískri matarmenningu og er surimi deigið formað í á ýmsa vegu, oft sem eftirlíkingar af dýrum matvörum en vinsælast sem krabbar eða fiskstönglar. Margra alda hefð er fyrir mótun mats úr fiskbolludeigi en skil urðu í iðnaðarframleiðsla á surimi árið 1969 þegar fiskverkendur í Japan fundu leið til að nýta fisk sem áður fór í fóður til manneldis. Aðallega var unnið surimi úr alaskaufsa. Síðustu ár hafa árlega um 2-3 milljónir tonna af fiski eða milli 2-3 % af fiskafla farið í surimi og afurðir sem byggja á surimi. Framleiðslan fer þannig fram að fiskhold er marið, kælt og þvegið þar til það verður að þykkum massa. Fiskurinn er skolaður nokkrum sinnum í vatni til að losna við lykt. Massinn eða maukið er svo blandað með vatnsbindiefnum og ýmsum efnum svo sem sterkju, eggjahvítu, salti, jurtaólíu, sorbitól, sykri, sojapróteini, kryddi og MSG. Hreinsað og þvegið fiskmaukið er vanalega bragðlaust og það verður að bæta í það bragðefnum. Í surimi er notaður fiskur eins og tilapia, þorskur og alaskaufsi. Bakso er surimi úr kjöti sem er vinsælt í Indónesíu. Surimi er einnig gert úr kjöti. Í kínverskum mat er oft notað svínasurimi, oft í bollum sem líkjast fiskbollum eftir eldun. Surimi úr svínakjöti er einnig blandað með hveiti og vatni. Surimi er einnig gert úr nautakjöti og kalkúnakjöti. Surimi er notað í ýmsar unnar matvörur, oft þannig að framleiðandinn líkir eftir dýrari vöru eins og humarhölum en notar ódýrt hráefni. Surimi er ódýrt prótein. Í asískri menningu er surimi borðað sem sérstakur réttur en sjaldan notað til að líkja eftir öðrum mat. Í Japan eru vinsælar fiskkökur (kamboko) og fiskpylsur úr surimi. Í Kína er surimi úr fiski notað sem fylling eða sem fiskbollur. Þegar surimi er framleitt úr fiski þá myndast gel úr próteini úr fisknum. Feitir uppsjávarfiskar hafa ekki rétt prótein og eru ekki notaðir í surimi. Sumir fiskar mynda ekki gelkennt surimi nema með því að bæta við eggjahvítu og kartöflumjöli (sterkju). Áður en kúariða braust út var algengt í iðnaði að blanda blóðvökva úr sláturdýrum við fiskdeigið til að auka gelmyndun. Alaskaufsi. Alaskaufsi (fræðiheiti "Theragra chalcogramma") er fiskur af þorskaætt. Alaskaufsi er mikilvægur matfiskur og er einn af stærstu fiskstofnum heims. Hann er mikið notaður í surimi framleiðslu í Japan. Victorious. "Victorious" er bandarískur gamanþáttur sem hóf göngu sína 27. mars 2010 á Nickelodeon sjónvarpsstöðinni. Þátturinn var skapaður af Dan Schneider. Hugsuðurinn. Hugsuðurinn er höggmynd úr bronsi og marmara eftir franska myndlistarmanninn Auguste Rodin. Fyrsta útgáfan er frá árinu 1902 og er nú í Rodin-safninu í París en Rodin gerði sjálfur tuttugu aðrar útgáfur styttunnar og auk þess eru til fjölmargar aðrar eftirgerðir. Hugsuðurinn sýnir mann sitja í þungum þönkum og hefur orðið nokkurs konar táknmynd heimspekinnar. Havarti. Havarti er mjúkur og fitumikill danskur ostur úr kúamjólk, sem hentar vel á brauð, á grill og til bræðslu. Havartiostur er til í ýmsum afbrigðum, oft með ýmiss konar kryddi. Vatnsból. Vatnsból er staður þar sem vatn er tekið til neyslu eða annarrar nýtingar. Vatnsbólum má skipta í tvo flokka, náttúruleg og manngerð. Náttúruleg eru þau vatnsból sem eru í lindum þar sem grunnvatnsborð sker yfirborð lands vegna þétt lags eða sprungna í berggrunni. Dæmi um náttúruleg vatnsból eru lindir, gjár og yfirborðsvatn til dæmis á, lækur eða stöðuvatn þangað sem menn og dýr venja komur sínar til að fá sér vatn). Manngerð vatnsból eru borholur og brunnar þar sem vatn kemur ekki sjálfkrafa upp til yfirborðs heldur þarf að grafa eða bora niður í vatnsgæf lög. Vatnshreinsistöðvar teljast til manngerðra vatnsbóla. Engar ákveðnar gæðakröfur eru gerðar til vatns í vatnsbólum enda eru sum vatnsból hugsuð fyrir iðnaðarvatn eða kælivatn en ekki fyrir neysluvatn. Í vatnsbólum fyrir vatnsveitur sveitarfélaga eða byggðarlaga eru hins vegar gerðar kröfur um að vatnið standist gæðakröfur sem gerðar eru til neysluvatns. Leirherinn. Leirherinn er samsafn af styttum úr leir sem tákna eiga heri Qin Shi Huang, fyrsta keisara Kína. Stytturnar, sem eru á níunda þúsund talsins, voru grafnar skammt frá grafhýsi keisarans á árunum 210-209 f.Kr. og átti leirherinn að vernda hann eftir dauðann. Fornar heimildir eru til um grafhýsi Qin Shi Huang og fjársjóðina sem eiga að hafa verið grafnir með honum en grafhýsið hefur enn ekki verið opnað og veit enginn hvað það geymir. Aftur á móti nefna engar heimildir leirherinn og var ekkert vitað um tilvist hans fyrr en kínverskir bændur fundu hann árið 1974 og hefur hluti hans síðan verið grafinn upp. Í hernum eru ekki aðeins hermenn og ýmsir fylgisveinar, heldur einnig hestvagnar og hestar. Stytturnar eru í fjórum stórum gröfum, flestar í gröf eitt, sem er 230 m á lengd og 62 metra breið. Leirstytturnar voru upphaflega málaðar í skærum litum en litirnir hafa dofnað eða málningin flagnað af að mestu. Þær munu upphaflega hafa verið búnar raunverulegum vopnum og fannst mikið safn vopna í gröfunum, svo sem sverð, spjót, stríðsaxir og lásbogar. Stytturnar hafa alls ekki verið allar steyptar í sama mót og hafa mismunandi andlitssvip. og búnað. Stytturnar eru misháar og eru hershöfðingjarnir hávaxnastir. Leirherinn er á Heimsminjaskrá UNESCO. Teskeið (mælieining). Teskeið (skammstafað tsk) er mælieining, einkum notuð í mataruppskriftum. Oft notar fólk bara þá teskeið sem hendi er næst en stöðluð mæliskeið er 5 ml og gildir það bæði í metrakerfi og bandarísku kerfi. Í einni matskeið eru svo þrjár teskeiðar eða 15 ml, nema í Ástralíu, þar er matskeiðin 20 ml eða fjórar teskeiðar. Þegar magn er gefið upp í teskeiðum er yfirleitt átt við sléttfulla teskeið nema annað sé tekið fram. Matskeið (mælieining). Matskeið (skammstafað msk) er mælieining, einkum notuð í mataruppskriftum. Sé ekki þörf á mikilli nákvæmni nota margir bara þá matskeið sem hendi er næst en einnig eru til staðlaðar mæliskeiðar. Stöðluð matskeið er 15 ml eða þrjár teskeiðar, nema í Ástralíu, þar er matskeiðin 20 ml eða fjórar teskeiðar. Þegar magn er gefið upp í matskeiðum er yfirleitt átt við sléttfulla nema annað sé tekið fram. Í eldri uppskriftum er magn stundum gefið upp í barnaskeiðum og er þá átt við skeið sem er á milli teskeiðar og matskeiðar og tekur 1,5-2 teskeiðar. Fetaostur. Fetaostur er saltur og þurr ostur sem er upprunninn í Grikklandi. Fetaostur er framleiddur úr kindamjólk eða blöndu af kinda- og geitamjólk (allt að 30%). Á Íslandi er ígildi fetaosts hins vegar framleitt úr kúamjólk. Mandarína. Mandarína er ávöxtur sítrustrésins "Citrus reticulata", uppruninn í Kína. Eislingen. Eislingen er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar eru 20 þúsund. Borgin er helst þekkt fyrir margar gamlar byggingar í miðborginni. Lega. Eislingen liggur við ána Fils, rétt austan við Göppingen. Borgirnar eru því sem næst samvaxnar. Orðsifjar. Borgin hét áður "Isininga" og "Ußlingen". Það er dregið af mannanafninu Isino. Fullt heiti borgarinnar í dag er Eislingen an der Fils. McGill-háskóli. Macdonald-Stewart bókasafn McGill-háskóla (mynd tekin 5. maí 2008). McGill-háskóli er ríkisrekinn rannsóknaháskóli í Montréal í Quebec í Kanada. Skólinn er nefndur eftir James McGill, kaupmanni í Montreal sem kom frá Glasgow í Skotlandi en hann gaf stofnfé skólans. McGill-háskóli var stofnaður árið 1821 og er einn af elstu háskólum Kanada. Tæplega 35 þúsund nemendur stunda nám við skólann. Þar af stunda tæplega níu þúsund nemendur framhaldsnám. Einkunnarorð skólans eru "Grandescunt Aucta Labore" Áa. Áa (á þýsku: Owen) er bær í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar eru um hálft fjórða þúsund. Lega. Bærinn Áa stendur undir fjallinu Teck, rétt suðaustan við Svafnesku alpana og 29 km suðaustur af Stuttgart. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar er svart „O“ á hvítum grunni. Carnegie Mellon-háskóli. Í Hamerschlag Hall fer fram nær öll kennsla í verkfræði við Carnegie Mellon-háskóla (mynd tekin 25 september 2006). Carnegie Mellon-háskóli (oft nefndur Carnegie Mellon eða CMU) er einkarekinn rannsóknaháskóli í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Andrew Carnegie stofnaðir skólann árið 1900 sem Carnegie tækniskólana. Árið 1912 var nafninu breytt í Carnegie tækniháskólann og hóf hann að veita námsgráður fyrir fjögurra ára langt háskólanám. Árið 1967 sameinaðist skólinn Mellon-stofnuninni fyrir iðnaðarrannsóknir og varð Carnegie Mellon-háskóli. Innan Carnegie Mellon-háskóla eru reknir sjö skólar: Carnegie-tæknistofnunin (verkfræði), Listaskóli Carnegie Mellon, Dietrich-skólinn fyrir hug- og félagsvísindi, Mellon-vísindaskólinn, Tepper-viðskiptaskólinn, Tölvuskóli Carnegie Mellon og Heinz-skólinn. Um tólf þúsund nemendur stunda nám við skólann. Þar af stundar rúmlega helmingur grunnnám og tæplega helmingur framhaldsnám. San Marínó (borg). Virkisturninn Guatia gnæfir yfir San Marínó og var talinn óvinnandi, enda tókst örríkinu alla tíð að halda sjálfstæði sínu. San Marínó er höfuðborg örríkisins San Marínó en er þó í raun aðeins þorp með um 4.500 íbúum, í vesturhlíðum fjallsins Monte Titano. Það er þó ekki fjölmennasti þéttbýlisstaður ríkisins, þorpin Dogana og Borgo Maggiore eru stærri. Heilagur Marínus og aðrir kristnir flóttamenn settust þarna að árið 301 og stofnuðu þorpið og jafnframt lýðveldið San Marínó, sem upphaflega náði aðeins yfir þorpið og næsta nágrenni en íbúarnir stækkuðu smám saman ríkið með kaupum og samningum uns það náði yfir allar hlíðar og topp Monte Titano. Bærinn er mjög vinsæll ferðamannastaður og þangað koma um þrjár milljónir ferðamanna árlega. Queen Mary. Queen Mary, University of London (einnig þekkt sem Queen Mary, QMUL og QM) er opinber rannsóknaháskóli í London á Bretlandi. Hann er einn þeirra skóla sem tilheyra háskólanum í London. Queen Mary á rætur að rekja til 1785 og varð til þegar fjórir smærri skólar sameinuðust. Hann varð aðildarskóli háskólans í London árið 1995 og hefur síðan orðið einn stærsti undirskóli hans. Aðallóð háskólans er staðsettur í Mile End í Austur-London en það eru líka lóðir í hverfunum Holborn, Smithfield og Whitechapel. Um það bil 16.000 nemendur læra við Queen Mary í fullu námi og tæplega 3.000 manns starfa þar. Tekjur háskólans námu 297,1 milljónum punda árið 2010–11 en 73,7 milljónir punda voru rannsóknastyrkir og samningar. Háskólinn skiptist í þrjár deildir: hugvísinda- og félagsvísindadeild, vísinda- og verkfræðideild og læknadeild (sem heitir Barts and The London School of Medicine and Dentistry). Innan læknadeildar eru 21 undirdeildir og stofnanir. Árið 2011 var háskólinn settur í 11. sæti á lista yfir bestu háskólana í Bretlandi af dagblaðinu "The Guardian". Háskólinn nam 13. sæti á lista "Times Higher Education". Samkvæmt listanum "Times Higher Education World University Rankings" er Queen Mary 35. besti háskólinn í Evrópu og 120. besti háskóli heimsins. Það eru fimm Nóbelsverðlaunahafar meðal fyrrverandi og núverandi nemenda og starfsmanna skólans. Queen Mary tilkynnti þann 12. mars 2012 að ætlað væri að ganga í Russell-hópinn, sem er hópur breskra elítuháskóla, í ágúst sama ár. Nákuðungur. Nákuðungur (fræðiheiti: "Nucella lapillus") er sæsnigill af dofraætt. Útbreiðsla. Nákuðung má finna við strendur Evrópu frá Lófóten í Noregi suður til Gíbraltarsunds. Á austurströnd Norður-Ameríku lifir hann frá Nýfundnalandi og suður til New York-fylkis í Bandaríkjunum. Ísland er á norðurmörkum útbreiðslusvæðis hanns þar sem rétt er nógu heitt fyrir hann. Er hann algengur einkum í grýttum þangfjörum við suðvestur- og vesturströndina á 0 til 55 m. dýpi. Um 1900 lifði hann ekki við norður- né austurströndina en með hlýnandi veðráttu hefur þetta breyst og lifir hann víða meðfram norðurströndinni þótt hann sé þar sjaldgæfari en sunnan og vestan. Hefur til dæmis mikið af honum fundist við Húnaflóa og einnig við Tjörnes. Við Austfirði er sjórinn of kaldur til þess hann þrífist þar í einhverjum mæli en þó hafa fundist lifandi eintök í Bakkafirði og Berufirði. Algengt er að finna hann í allri fjörunni að sumarlagi en nákuðungurinn liggur í dvala yfir háveturinn. Skelin (kuðungurinn). Nákuðungurinn er mjög afbrygðarík tegund og finnsit í mörgum litbrigðum.Nákuðungurinn verður stærstur um 24,1 mm á breidd og 40,5 mm á hæð. Kuðungurinn er oftast sterkbyggður þar sem hann lifir í skjólgóðum fjörum en þynnri í grýttum fjörum þar sem brim er mikið. Er þetta talið vegna meiri hættu frá afræningjum (rándýrum) í skjólgóðum fjörum. Oftast er kuðungurinn rauðbrúnn, móleitur eða brúnn með litabeltum en ýmis önnur litbrygði eru til enda tegundin mjög breytileg frá dýri til dýrs. Hyrnan stutt, keilulaga og þrefallt styttri en kuðungurinn allur. Vindingarnir 5 með ávölum brúnum og grunnum saum. Lítið kúptir að undanskildum grunnvindingnum sem er áberandi og allkúptur. Hvirfillinn oddmyndaður og snubbóttur. Munninn egglaga og yfirleitt jafn langur hálfri kuðungslengdinni eða lengri. Útrönd munnanns jafnt bogadreginn, halinn stuttur en breiður oft með sýling í endann og endabrúninn örlítið aftursveigð. Yfirborðið oftast hrjúft með misbreiðum þver- og langrákum svo skelin verður rúðumynstruð. Eða þá að hyrnan sé rúðumynstruð en grunnvindingurinn þverröndóttur og gárulaus. Almennt. Nákuðungurinn er afræningi (rándýr) og kjötæta sem notar skráptunguna til að vinna á bráðinni og framleiðir einnig lamandi vökva sem slævir hana. Aðal fæða hanns er fjörukarl (hrúðurkarl) og litlir kræklingar. Aðferð hans er að reka skráptunguna inn á milli skelja bráðarinnar og ná þannig til dýrsins inn í henni. Ef það dugir ekki til notar hann skráptunguna til að bora gat á skelina, rekur hana svo inn um gatið og étur. Það getur tekið hann langan tíma að vinna á skelinni, jafnvel nokkra daga. Kræklingurinn getur þó varið sig fyrir nákuðungnum með því að líma við hann festuþræði til að gera honum allar hreyfingar erfiðari. Nákuðungurinn er einnig fæða margra fugla eins og tjaldurs, tildru og sendlings. Einnig éta æður og máfar nákuðunga með því að gleypa þá í heilu lagi. Bogkrabbi étur einnig nákuðung. Um þriggja ára aldur verður kuðungurinn kynþroska og getur lifað í allt að tíu ár á Íslandi. Nákuðungarnir færa sig neðst í fjöruna á veturna þar sem þeir hópast saman undir steinum og liggja í dvala. Þeir verpa síðan eggjum sínum á sumrin í keilulaga hylki sem þeir festa á hart undirlag í kletta- eða stórgrýtisskorninga þar sem nægur raki er. Fortálknar eins og nákuðungurinn hafa á innraborði möttulsinns slímkirtil sem algengast er að gefi frá sér venjulegt slím. En meðal vissra tegunda gefur hann frá sér efni sem verður fjólublátt er sólin skín á það (purpuri). Það var notað til litunar frá fornöld og langt fram eftir öldum. Nákuðungurinn er eini kuðungurinn hér við land sem framleiðir slíkt efni en ekki er vitað til þess að það hafi verið nýtt hérlendis. Northern-leið. Northern-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er svört á litinn á korti neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Leiðin er að mestu leyti svokölluð „djúp“ leið, það er að segja að hún var byggð með því að bora göng neðanjarðar og ekki með „grafa og þekja“ aðferðinni. Um það bil 207.000.000 farþegar nota Northern-leiðina á hverju ári og þess vegna er hún fjölfarnasta leið kerfisins. Þó að hún heitir Northern-leið („norðurleið“) þjónar hún ekki nyrstu lestarstöðvum kerfisins en hún þjónar syðstu lestarstöðinni í kerfinu, Morden, auk 16 stöðva sem liggja sunnan við Thames-ána. Samtals eru 50 lestarstöðvar á Northern-leiðinni en aðeins 36 þeirra liggja neðanjarðar. Saga leiðarinnar er flókin þar sem hún varð til við sameiningu þriggja eldri leiða. Leiðin skiptist í tvær greinar í norðri, tvær í miðborginni og eina í suðri. Fyrirtækin sem áttu gömlu leiðirnar sameinuðust á þriðja og fjórða áratugnum. Framlenging á leiðinni sem byggð var á þriðja áratugnum var grundvölluð á annarri leið sem fjórða fyrirtæki ætlaði að byggja. Á sama tímabili ætluðu fimmta og sjötta fyrirtæki að framlengja leiðina norður og suður. Milli fjórða og áttunda áratugarins voru járnbrautarteinar í eigu sjöunda fyrirtækis reknar sem hluti Northern-leiðarinnar. Leiðarkort. center Lúsíuhellir. Lúsíuhellir er hellir í klettum ofan við Krossgerði á Berufjarðarströnd. Munnmælasaga segir að örnefnið sé tengt Tyrkjaráninu. Sagan er á þá leið að Lúsía hafi verið stúlkubarn að aldri þegar Tyrkir réðust til þrælanáms í Berufirði og hafi hellir þessi orðið henni til bjargar. Stundum fylgir sögunni að þegar Lúsía lá þar í felum hafi Tyrki einn rekið höfðinu inn í hellinn en ekki komið auga á hana, þar eð hún smokraði sér inn í glufu við hliðina á hellismunnanum. Sagt er að Lúsía þessi hafi verið jarðsett utan við fékamb, sem er hamraveggur við lúsíuhelli, en ekki í kirkjugarði, þegar ævi hennar lauk. Ekki finnast þó neinar heimildir þessu til staðfestingar en heldur ekki neinar aðrar heimildir um hví hellirinn er kenndur við Lúsíu. Iðnvæðing. Iðnvæðing nefndist sú þróun í samfélagi manna þegar það þróast frá landbúnaði og að iðnaði. Þessi þróun er hluti af nútímavæðingu í víðari skilningi, þar sem stórfelldar félagslegar og efnahagslegar breytingar verða fyrir tilstilli tæknilegrar nýsköpunar, sem er í mörgum tilfellum orkufrek. Með iðnvæðingu verða hagkerfi landa sérhæfðari og beinast í meiri mæli að fjöldaframleiðslu. Fyrsta landið sem iðnvæddist var Bretland í byrjun Iðnbyltingarinnar á 18. öld. Central-leið. Central-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er rauð á litinn á korti kerfisins. Hún er 76 km löng og lengsta leið kerfisins. Leiðin þjónar 49 stöðvum en aðeins 20 þeirra eru neðanjarðar. Lestirnar keyra allt að 110 km/klst og eru þá hröðustu lestir kerfisins. Þó að fyrirtækið Central London Railway (CLR) væri stofnað árið 1891 með það í hug að byggja járnbraut á milli Shepherd's Bush og Bank (og framlenging til Liverpool Street var samþykkt árið 1892) var það ekki fyrir 27. júní 1900 að járnbráutin var opnuð opinberlega. Stöðvar. "Í röð frá vestri til austurs." District-leið. District-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er græn á litinn á korti kerfisins og er svokölluð grunn leið, það er segja að hún var byggð með „grafa-og-þekja“ aðferðinni. Hún er fjölfarnasta leið kerfisins þessarar tegundar. Samtals eru 60 stöðvar á leiðinni en aðeins 25 þeirra eru neðanjarðar. Tvær fjögurra greina leiðarinnar eru einustu leiðar kerfisins sem fara yfir Thames-ána með brúm og ekki göngum. Þó er að leiðin sé fjórða lengsta leið kerfisins er hún með mesta fjölda stöðva. Stöðvar. "Í röð frá vestri til austurs." Bakerloo-leið. Bakerloo-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er brún á litinn á korti kerfisins. Circle-leið. Circle-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er gul á litinn á korti kerfisins. Hammersmith og City-leið. Hammersmith og City-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er bleik á litinn á korti kerfisins. Jubilee-leið. Jubilee-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er grá á litinn á korti kerfisins. Metropolitan-leið. Metropolitan-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er fjólublá á litinn á korti kerfisins. Piccadilly-leið. Piccadilly-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er dökkblá á litinn á korti kerfisins. Victoria-leið. Victoria-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er ljósblá á litinn á korti kerfisins. Leiðarkort. center Waterloo og City-leið. Waterloo og City-leið er leið neðanjarðarlestakerfis Lundúnaborgar. Hún er grænblá á litinn á korti kerfisins. Leiðarkort. center Megyeri-brúin. Megyeri-brúin (ungverska: "Megyeri híd") er brú í Búdapest í Ungverjalandi. Saratov-brúin. Saratov-brúin (rússneska: "Саратовский мост") er brú í Saratov í Rússlandi. Zemfira. Zemfira Talgatovna Ramazanova (rússneska: "Земфира", fædd 26. ágúst 1976 í Ufa) er rússnesk söngkona, sem hefur náð alþjóðlegri hylli. Hún leikur rokk. Sanremo. Sanremo er borg í Lígúríuhéraði á Ítalíu og er á ítölsku Rivíerunni, skammt frá landamærum Frakklands. Þar búa 57.047 manns (2002). Castelsardo. Castelsardo er bær í norðvesturhluta Sardiníu á Ítalíu. Þar búa 5.881 manns (2010). Blönduvirkjun. thumb Blönduvirkjun er vatnsaflsvirkjun í jökulánni Blöndu sem tekin var í notkun árið 1991. Við Blönduvirkjun eru þrír 50 MW hverflar, samtals 150 MW. Við virkjunina varð til miðlunarlónið Blöndulón á húnvetnsku heiðunum og er það allt að 57 km² og hefur 400 gígalítra miðlunarrými. Heildarfallhæð er 287 m og meðalrennsli er 39 m³ á sekúndu. Blöndustöð. Fyrstu hugmyndirnar af Blöndu komu fram um 1950 þegar byrjað var að gera markvissar áætlanir um vikjun vatsafls á Íslandi. Fóru fram umfangsmiklar rannsóknir og til að finna hagkvæmustu tillögu til að virkja Blöndu. Tillagan sem byggt var á kom fram 1980. Blönduvirkjun er fyrsta stórvirkjun Íslendinga sem segja má að sé að öllu leyti íslensk hönnun. Framkvæmdir hófust árið 1984 og var miðað við að þeim yrði lokið árið 1988. Bygging virkjunarinnar. Framkvæmdir hófust á virkjuninni árið 1984, með jarðgangagerð og var þá stefnt að því að rekstur myndi hefjast haustið 1988. Vegna breyttra markaðsaðstæðna var stíflugerð og niðursetningu véla frestað og gangsetning ákveðin í byrjun október 1991. Blönduvirkjun hófst með formlegum hætti 5. október 1991 þegar Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar ræsti fyrsta hverfil af þremur í rafaflsstöðinni. En stofnun Landsvirkjunar árið 1965 má rekja til þess að íslensk stjórnvöld höfðu hug á að nýta orkulindir landsins betur með því að draga að erlenda fjárfesta í orkufrekan iðnað innanlands. Fram að þeim tíma hafði rafvæðing á Íslandi verið rekin af ríki og sveitarfélögum og stóð rekstur veitufyrirtækja ekki undir nýframkvæmdum í orkumálum. Miðað við orkuspár Landsvirkjunnar var þörf á aukinni orku árið 1991 og þess vegna eru framkvæmdir miðaðar við það ár. Átta árum eftir að framkvæmdir hófust eða árið 1992 var virkjunin komin í fullan rekstur. Virkjunarkostnaðurinn varð í heild 672 milljónir króna en hann var upphaflega áætlaður 540 milljónir króna. Í dag er Landsvirkjun orkufyrirtæki sem leggur grunn að nútíma lífsgæðum og starfar af ábyrgð í anda sjálfbærrar þróunar. Fyrirtækið stefnir að því að verða öflugt fyrirtæi á alþjóðavettvangi á grundvelli sveigjanleika og góðrar þjónustu við viðskiptavin Við Blönduvirkjun unnu að jafnaðu rúmlega hundrað manns frá stórum fyrirtækjum, Landsvirkjun, Hagvirki, Krafttaki og Metalna. Mestar framkvæmdir voru við undirbúning stíflugerðar sem var í umsjá Hagvirkis, við það unnu fimmtíu manns. Aðalframkvæmdarhlutinn var við stíflugerðina í bergþéttingu meðfram stíflugarðinum. Boraðar eru holur niður á visst dýpi og sementseðju dælt ofan í þær til þéttingar. Blanda var stífluð við Reftjarnarbungu, um miðja vegu á milli upptaka og árósa. Önnur stífla var reist við upptök Kolkukvíslar nokkru vestar en hún rennur til Vatnsdalsár. Með þessum tveim stíflum myndaðist miðlunarlónið. Stöðvarhús Blönduvirkjunar er neðanjarðar og yfir því er stjórn- og tengivirkihús. Aðrar helstu byggingar kringum virkjunina eru starfsmannahús, verkstæði og íbúðarhús stöðvarstjóra. Þegar unnið var að jarðgangnagerðinni þá voru allir fletir gangnanna húðaðir með múr og stálflísum sem smjúga inn í bergið og styrkja það. Blönduvirkjun er frábrugðin öðrum virkjunum að því leyti að hún er neðanjarðar virki. Ekkert orkuver af þessari stærðargráðu hefur vélbúnað sinn að öllu leyti neðanjarðar. Stærsti stigi landsins var einnig settur upp en hann telur 1100 tröppur. Virkjanir og aflstöðvar. Bæði vatnsaflsstöðvar og gufuaflsstöðvar nýta sér hringrás vatns. Vatnið sem rennur í gegnum vatnsorkuverin hefur einhvern tímann fallið sem rigning eða snjókorn af himnum ofan. Ef til vill hefur snjókornið lent á jökli þar sem það hefur geymst í hundruð ára áður en það bráðnaði og fór í gegnum vélar eins stöðvarhússins. Nýtanlegur jarðhiti er einnig fólginn í úrkomu sem fellur á jörðina og leitar djúpt niður í jörðu. Þar tekur vatnið upp varma úr heitu bergi og berst síðan aftur upp á yfirborðið. Að velja stað fyrir virkjun þarf að hafa í huga að til þess að nýta kraftinn sem býr í vatninu er best að velja stað í ánni þar sem fallhæð er sem mest á sem stystri vegalengd. Einnig ræður vatnsmagnið því hve mikla orku er hægt að beisla. Á Íslandi hefur vatnsaflið fyrst og fremst verið notað til raforkuframleiðslu þar sem nýtni við umbreytingu á vatnsafli í raforku er mjög góð. Einnig er mikill kostur að orkulindin endurnýjast stöðugt og mun halda áfram að gera það nema til komi stórfelldar loftslagsbreytingar. Hverfillinn sem notaður er í gufuaflstöð notfærir sér sömu lögmál og hverflar í vatnsaflsstöðvum. Í gufuaflstöð er það hins vegar þrýstingurinn frá gufunni sem knýr hverfilinn. Hverfillinn gegnir ásamt rafalanum lykilhlutverki í framleiðslu á rafmagni. Til eru þrjár megingerðir hverfla í vatnsaflsstöðvum; Francis, Pelton og Kaplan. Hugtakið orkugeta segir til um hversu mikið rafmagn tiltekin stöð getur framleitt. Orkugeta stöðva er mæld í gígawattstundum (GWst). Áhrif Blönduvirkjunar á lífríki og umhverfi. Á Íslandi erum við svo heppin að eiga nóg af vatni til að virkja til raforku. Við getum haldið uppi raforkuframleiðslu í landinu án þess að nota orkugjafa sem valda mengun andrúmsloftsins eða gróður-eyðingu við brennslu. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvað mikið landrými á að fara undir miðlunarlón. Vatnsaflavirkjanir þarfnast yfirleitt miðlunarlóna til að jafna út dægursveiflur í rennsli og miðla vatni á milli árstíða. Við byggingu vatnsaflsvirkjana fylgir þó óhjákvæmilega röskun á landi og gróðri. Leggur Landsvirkjun mikla vinnu í undirbúning með ítalegum rannsóknum á sem flestum sviðum. Þannig sem minnst tjón hljótist af og jafnvægi ríki áfram í vistkerfinu. Frá Kolkustíflu er vatni veitt um veituskurði og vötn, samtals um 25 km leið að inntakslóni virkjunarinnar. Gróður þakti stóran hluta landsvæðisins sem fór undir miðlunarlón og inntakslón Blöndustöðvar. Samið var við heimamenn um að virkjunaraðili bætti gróðrartapið með uppgræðslu örfoka lands á heiðum beggja vegna við Blöndu, Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Landsvirkjun hefur ræktað rúmlega 3000 hektara lands frá árinu 1981, þetta eru umfangsmestu uppgræðsluaðgerðir sem ráðist hefur verið í á hálendi landsins. Í Blöndu renna fjölmargar vatnsmiklar lindár og dragár frá upptökum og til sjávar. Blanda hefur verið vinsæl veiðiá alla sína tíð en þar má veiða lax, eftir virkjun þykir betra að veiða þar en áður en áin var svo gruggug fyrir virkjun að fiskurinn sá ekki beituna. Eftir virkjun er áin tærari og því er laxinn veiðanlegur á flugu og er áin hentug til hefðbundinnar stangveiði. Rannsóknir benda til að líffræðilega ástand Blöndu eftir að hún var virkjuð hafi breyst þannig að fiskmagn varð fljótlega mikið í Blöndulóni en fimm árum eftir myndun þess fór vaxtarhraði bleikju og stærð við kynþroska að minnka. Ash Springs (Nevada). Ash Springs er þorp í Nevada í Bandaríkjunum. Þar búa 161 manns (2006). Jean Bart. Jean Bart (21. október 1651 – 27. apríl 1702) var flæmskur sjómaður sem var í þjónustu Frakklands sem aðmíráll í sjóher og kapari (privateer). Raspberry Pi. Raspberry Pi er lófastór tölva á einu spjaldi sem þróuð er í Bretlandi af fyrirtækinu Raspberry Pi Foundation. Tölvan mun verða til í tveimur útgáfum sem gert er ráð fyrir að kosti US$25 og $35 auk skatta. Byrjað var að taka við pöntunum á stærri gerðinni 29. febrúar 2012. Raspberry Pi er hugsuð sem kennslutæki til forritunarkennslu í skólum. Hönnun byggir á BCM2835 kubbi og 700 MHz örgjörva, og 256 Mb vinnsluminni. Tölvan er ekki með hörðum disk heldur SD korti til að ræsa og geyma gögn. Gert er ráð fyrir að tölvan komi með Fedora Linux stýrikerfi með stuðningi fyrir Debian og Arch Linux líka. Það er einnig gert ráð fyrir verkfærum sem styðja við Python sem aðalforritunarmálið. Aflgjafi og SD kort verða ekki innifalin en hægt að kaupa það samtímis og tölvuna. Í október 2012 var tilkynnt ný tegund af tölvunni með 512 Mb vinnsluminni. Háskólinn í Melbourne. Cussonia Court, aðsetur fornfræði- og heimspekideilda Háskólans í Melbourne (mynd tekin 25. apríl 2005). Háskólinn í Melbourne er opinber rannsóknaháskóli í Melbourne í Ástralíu. Skólinn var stofnaður árið 1853 og er næstelsti háskóli á landinu. Rúmlega 49 þúsund nemendur stunda nám við Háskólann í Melbourne en þar starfa rúmlega 7300 manns, þar af tæplega 3600 akademískir starfsmenn. Valbrá. a>, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, er með áberandi valbrá ofarlega á enninu. Valbrá "(nervus flammeus)" er rauður eða rauðblár fæðingarblettur sem er algengastur í andliti en getur verið hvar sem er á líkamanum og verið mjög stór. Um þrjú börn af þúsundi fæðast með valbrá. Hún getur verið til mikilla lýta og valdið fólki vanlíðan og vandamálum. Valbrá hverfur yfirleitt ekki eða lýsist með aldrinum eins og sumir aðrir fæðingarblettir; þvert á móti dökknar hún og getur jafnvel í stöku tilvikum þykknað og orðið upphleypt. Ef valbrá sem þykknar er nálægt auga eða munni getur hún valdið afmyndun á andliti. Ástæðan fyrir myndun valbrár er sú að háræðar á ákveðnum svæðum í húðinni eru of margar og víðar og of mikið blóðflæði verður til þessara svæða svo að dökkleitur blettur myndast þar. Engin ástæða er þekkt fyrir að þetta gerist en ýmis hjátrú hefur tengst valbrá; hérlendis var sagt að hún stafaði af því að móðirin hefði á meðgöngutímanum borðað rjúpu sem valur hefði drepið en víða erlendis var því trúað að orsökin væri að móðirin hefði verið gripin ofsahræðslu þegar hún gekk með barnið eða að hún hefði horft á eldsvoða. Oft er hægt að fjarlægja valbrá eða gera hana minna áberandi og er það gert ýmist með skurðaðgerð, frystingu eða leysigeislum. Síðastnefnda aðferðin þykir gefa besta raun því þá eru útvíkkuðu háræðarnar brenndar burt án þess að valda skaða á húðinni. Valbráin hverfur þó sjaldnast alveg en oftast er hægt að hylja hana með andlitsfarða. Victor Horta. Victor Horta (fæddur 6. janúar 1861, dáinn 8. september 1947) var belgískur hönnuður og arkitekt. Horta, Victor Horta, Victor J. Cole. Jermaine Lamar Cole, þekktastur sem J. Cole, (f. 1985) er bandarískur rappari sem fæddist í Þýskalandi. Cole, J. Fjörudoppuætt. Fjörudoppuætt (fræðiheiti: "Littorinidae") er ætt smárra snigla sem telur rúmlega 200 tegundir um allan heim. Sniglarnir eru með trausta kuðunga, ýmist mynstraða eða ómynstraða. Mjög lága, ydda eða snubbótta hyrnu og stóran bumbulaga grunnvinding. Kuðungarnir hafa engan hala né nafla. Lokan er hornkennd með örmiðju kjarna. Innan hverrar tegundar getur kuðungurinn verið í mjög mismunandi litafbrigðum, einlitir eða röndóttir. a> ("Littorina obtusata") er algeng tegund sæsnigla af fjörudoppuætt við Ísland. Melagambri. Melagambri (fræðiheiti "Racomitrium ericoideser") er mosi. Hann er einn af algengustu mosategundum á Íslandi og vex um allt land, oft á snjóþyngri stöðum en hraungambri. Melagambri þekur oft fjallshlíðar á sunnanverðu hálendi Íslands. Hægt er að þekkja melagambra á því að hároddur blaða er styttri en á hraungambra. Fjallagambri. Fjallagambri (fræðiheiti "Racomitrium microcarpon") er baukmosi. Hann er algengur í Skandinavíu en virðist bundinn við snjóþung svæði á Íslandi. Litunarjafni. Litunarjafni (fræðiheiti "Diphasiastrum alpinum") er lágvaxin jurt af jafnaætt með langa jarðlæga stöngla með uppréttum marggreindum greinum. Hann finnst helst í bollum og snjódældum og er nokkuð algengur þar sem hæfilega snjóþungt er. Kynliður. Lífsferill hnotbrodda, baukmosa af kransblaðaætt Kynliður (e. "gametophyte") er einstaklingur á einlitna skeiðinu. Hann er kynjaður og myndar kynfrumur. Kynliður er einlitna en gróliður er tvílitna. Í mosum er kynliður ríkjandi og vex upp af grói sem gróliður myndar, og myndar kynfrumur. Í öðrum plöntum er gróliður ríkjandi. Kynliður skiptir sér með mítósuskiptingu (grómyndun). Klettadoppa. Klettadoppa (fræðiheiti: "Littorina saxatilis") er snigill af fjörudoppuætt. Útbreiðsla. Klettadoppan finnst meðfram strönd Evrópu frá Barentshafi í norðri til Galisíu á Spáni í suðri. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hún við strendur Nýfundnalands og Nova Scotia. Hún er mjög algeng allt umhverfis Ísland og lifir á 0 til 62 m. dýpi. Klettadoppan lifir helst í grýttum þangfjörum en heldur sig þó oftast ofan við mesta þangið. Hún kemur sér gjarnan fyrir meðfram sprungum þar sem raki situr eftir um fjöruna. Hún þolir vel að vera á þurru þegar smástreymt er, jafnvel dögum og vikum saman, enda andar hún með lungum. Vilja því margir telja hana með landsniglum en ekki sæsniglum. Klettadoppan er jurtaæta og efst í fjörunni, þar sem hún heldur sig, lifa smá þörungar á steinum og mynda á þeim þunnt lag og á þeim lifir Klettadopan. Eins virðist hún geta étið skófir sem einnig þekja steina efst í fjörunni. Hún notar skráptungu sem alsett er hörðum tönnum til þess að skafa þörungana af steinunum. Skelin (kuðungurinn). Klettadoppur finnast í fjörum allt í kringum landið og halda sig oftast ofarlega í fjörunni. Klettadoppa verður stærst um 18,2 mm á breidd og 21,7 mm á hæð en er venjulega aðeins minni eða 15-20 mm. Kuðungurinn mjög traustur, með lágri greinilegri keilulaga hyrnu og oddmjóum hvirfli. Oftast er hann mógrár eða gráhvítur á litin en einnig móleitur með hvítum bekkjum. Vindingarnir 5-6, miðlungs kúptir, saumurinn frekar djúpur og grunnvindingurinn bumbulaga og stór. Munninn breiðperulaga, útrönd hanns fláalaus og jafnt bogadreginn. Munnurinn er mun dekkri en ytra borð kuðungsins. Yfirborðið ýmist með grófum þverrákum eða þverrákalaust. Þegar vaxtarrákir eru sýnilegar eru þær óreglulegar og misháar og gera skelina mjög óslétta. Í brimasömum fjörum er Klettadoppan kúptari að lögun og með víðara munna heldur en klettadoppur í skjólgóðum fjörum. Líklegt er talið að þetta sé aðlögun til þess að geta staðið af sér brimið. Tegundin er mjög afbrigðagjörn og við Ísland eitt talin vera þrjú afbrigði. Almennt. Klettadoppan elur lifandi unga sína á vorinn, en ólíkt flestum sniglum verpir hún ekki eggjum heldur þroskast þau eftir æxlunina inni í móðurinni og skríður svo unginn út sem fullskapaður kuðungur þótt hann sé mjög litill þegar hann fæðist. Klettadoppa eru mikilvæg fæða margra strandfugla eins og Stelks, Tildru og Sendlings. Blöndulón. Blöndulón er uppistöðulón sem myndaðist þegar vatnsaflsvirkjun, Blönduvirkjun var reist í Blöndu 1984-1991. Blöndulón er dýpst 39 m. Það er á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði, nálægt Kili og um 25 km frá Hveravöllum. Lestarstöð. Lestarstöð er járnbrautarstöð þar sem lestir nema staðar þannig að farþegar geti farið inn og út af lestinni og hægt sé að ferma og afferma vagnana. Á flestum lestarstöðvum er pallur við hliðina á teinunum og bygging þar sem miðar eru keyptir og beðið er eftir lestum. Sé lestarstöð á einnar brautar leið er oftast framúrakstursbraut til staðar svo að lestir geti keyrt fram úr öðrum. Oft eru tengingar við aðra ferðamáta eins og strætisvagna og sporlestir. Animal Collective. Animal Collective er hljómsveit frá Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum. Vesturbæjarvíðir. Vesturbæjarvíðir er víðitegund sem gróðursett var milli 1910 og 1940 tíma í görðum í vesturbæ Reykjavíkur. Þessi tegund er talin blendingur af körfuvíði, Salix viminalis L., selju S. capraea L. og gráselju S. cinerea L. Vesturbæjarvíðir barst upphaflega til landins sem efni í tágakörfum. Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn grænar stofuplöntur frá Þýskalandi um 1910. Á þeim tíma var algengt að flytja vörur í fléttuðum tágakörfum og að í kringum fangelsi erlendis væri plantað mikið af víði sem svo fangar fléttuðu slíkar körfur. Ísleifur sonur Jóns tók eftir grænum sprotum og rótarmyndun á teinungum sem höfðu blotnað. Hann gróðursetti þá fyrst í pott og síðan út í garð á Stýrimannastíg 9. Það reyndist auðvelt að fjölga þessum víði og var hann gróðursettur í nærliggjandi húsum. Á árum seinni heimstyrjaldarinnar var mikið ræktað annað afbrigði af körfuvíði sem kallaður var þingvíðir því hann var upphaflega í Alþingisgarðinum og var hann miklu harðgerari og glæsilegri en Vesturbæjarvíðirinn og því farið að rækta hann í stórum stíl eftir 1940 og þá datt alveg niður ræktun vesturbæjarvíðis. Vesturbæjarvíðir er því mjög sjaldan í görðum sem gerðir voru eftir seinni heimsstyrjöld. Þingvíðirinn dó í vorhretinu 1963 en vesturbæjarvíðirinn lifði það af. Vesturbæjarvíðir er ættaður frá suðlægari slóðum og fór seinna á stað um vorið og lifði því af hretið. Þingvíðir. Þingvíðir er afbrigði af körfuvíði sem kenndur er við Alþingishúsgarðinn en Tryggvi Gunnarsson gróðursetti hann þar í lok 19. aldar. Það tré er horfið en þingvíði var fjölgað með teiningum af því tré. Ræktun hans lauk við mikið vorhret árið 1963. Einstaka tré sem stóðu á svæðum þar sem voraði seinna lifðu af hretið. Þingvíðirinn er talinn af norrænum uppruna þar sem hann vetrarbýr sig eðlilega á haustin. Hann er hraðvaxta og fyrirferðamikill, laufblöðin löng og mjó og fá gula haustliti. Gráselja. Gráselja (fræðiheiti "Salix cinerea") er víðitegund. Listi yfir pastategundir. Þessi grein inniheldur upplýsingar um alls konar tegundir af pasta í heiminum. Sumar pastategundir eru ekki þekktar jafn vel og aðrar. Sumar tegundir hafa önnur nöfn á mismunandi tungumálum. Hveitilengjur. Samanburður á mismunandi tegundum af löngu ítölsku pasta Bastillan. Júlísúlan og Óperuhúsið við Bastillutorgið. Bastillan (franska: "La Bastille") er sögufrægt virki í París, sem reist var 1357 og var þá nefnd "Bastille Saint-Antoiene". Bastillan var notuð sem fangelsi frá 1417 og varð smám saman tákn kúgunar og einveldis. Bastillan var oft kölluð "fangakastalinn" og hún var seinna einnig notuð sem "vopnabúr" en var rifin í frönsku byltingunni. Saga Bastillunnar. Bastillan var byggð sem virki í París í Hundrað ára stríðinu milli Englands og Frakklands. Vinnan við virkið hófst árið 1357 og stóð fram yfir 1370. Virkið hafði átta turna og varði borgarhliðið Porte Saint-Antoine í austurhluta Parísarborgar. Virkið var gert að ríkisfangelsi árið 1417. Loðvík 14. notaði fangakastalann fyrst og fremst fyrir menn úr hástéttum sem höfðu verið andstæðingar hans eða vakið gremju hans. Frá 1659 til 1789 var Bastillan aðallega notuð sem ríkisfangelsi þar sem samtals 5.279 fangar sátu inni. Í valdatíð Loðvíks 15. og Loðvíks 16. var fangelsinu breytt þannig að ekki aðeins fangar af efri stéttum sátu þar, heldur fleiri fangar með ýmsan bakgrunn. Þó svo að fangarnir væru í tiltölulega góðu ástandi fór gagnrýni á fangakastalann, Bastilluna, í vöxt á 18. öld. Endurbætur á kastalanum hófust þá og föngum fækkaði töluvert. Árið 1789 hafði pólítísk spenna aukist mjög í Frakklandi og 14. júlí varð bylting þar sem fjölda manna tókst að brjótast inn í Bastilluna og komast yfir dýrmæta byssupúðrið sem var geymt þar. 14. júlí 1789. Þann 14. júlí árið 1789 þrömmuðu Parísarbúar um götur með hrópum og háreysti. Þetta voru smákaupmenn, handiðnaðarmenn, verkamenn og atvinnuleysingjar í leit að vopnum á leið til Bastillunar. Almúginn var þrúgaður af verðbólgu og atvinnuleysi og knúði það fólk til aðgerða. Margir höfðu setið inni í fangelsi Bastillunnar fyrir það eitt að sætta sig ekki við einveldisstjórn Frakkakonungs. Bastillan var tákn um algjöra harðstjórn, kúgun og einveldi konungs, Loðvíks 16. Fólkið braust inn fyrir varnarveggina, barðist í marga klukkutíma þar til fangelsisstjórnin gafst upp og streymdi svo inn í Bastilluna. Með þessari árás var stjórnarbyltingin mikla hafin. Konungur var neyddur til að láta af áformum sínum um að beita hervaldi og varð hann að fallast á að sett yrði ný borgarstjórn í París. Frá 1880 hefur 14. júlí verið haldinn hátíðlegur sem þjóðhátíðardagur Frakka (Bastilludagurinn) vegna þess að mörgum fannst sigur Parísarbúa á Bastillunni vera tákn fyrir sigur fólksins á einveldinu og harðstjórninni. Bastillutorgið. Á árunum 1789-1790 var kastalinn rifinn til grunna og í stað hans var gert torg sem kallast Bastillutorg eða Place de la Bastille. Torgið varð seinna vettvangur margra hinna stjórnmálalegu byltingahátíða. Árið 1989 þegar 200 ár voru liðin frá falli fangakastallans var þar byggt óperuhús sem ber nafnið Opéra Bastille. Svæðið í kring hefur verið endurhannað að miklu leyti, þar hefur verið gerð smábátahöfn. Á miðju torginu stendur minnismerkið Júlísúlan, sem var reist 1833 og er tákn fyrir byltinguna í júlí 1830 þegar Karl 10. Frakkakonungur var hrakinn frá völdum og Loðvík Filippus tók við. Nöfn þeirra Parísarbúa sem féllu í júlíbyltingunni eru grafin með gulli í turninn. Efst á turninum stendur engill sem er tákn fyrir frelsi. Valois-ætt. Valois-ætt var frönsk konungsætt á miðöldum, hliðargrein Capet-ættar, og sátu konungar af Valois-ætt í hásæti Frakklands frá 1328 til 1589. Hertogarnir af Búrgund frá 1363 til 1482 voru einnig af Valois-ætt. Valois-ættin var komin af Karli greifa af Valois, fjórða syni Filippusar 3. Frakkakonungs. Erfðaréttur afkomenda hans byggðist á ákvæðum franskra laga sem útilokuðu konur frá ríkiserfðum og einnig erfðir um kvenlegg. Filippus 4., eldri bróðir Karls af Valois, átti þrjá syni sem allir urðu konungar en enginn þeirra eignaðist son sem lifði. Þegar sá síðasti, Karl 4., lést 1328, erfði hvorki dóttir hans né bróðurdætur ríkið, heldur ekki systursonur hans, Játvarður 3. Englandskonungur, sem gerði þó kröfu til ríkiserfða, heldur Filippus 6., elsti sonur Karls af Valois, sem þar með varð fyrsti konungur af Valois-ætt. Valois-Orléans-ætt. Karl 8. átti ekki barn sem lifði og nánasti erfingi hans í karllegg var Loðvík 2. hertogi af Orléans, sonarsonarsonur Karls 5., sem tók við krúnunni eftir lát Karls og giftist ekkju hans. Valois-Orléans-Angoulême-ætt. Loðvík 12. eignaðist heldur ekki syni sem komust á legg en hann átti hins vegar tvær dætur. Sú eldri var gift frænda sínum, Frans greifa af Angoulême, sem var næstur til ríkiserfða. Hann var sonarsonur Jóhanns greifa af Angoulême, yngri sonar Loðvíks 1. hertoga af Orléans, og því afkomandi Karls 5. Hliðargreinar Valois-ættar. Karlleggur allra þessara ætta var dáinn út þegar Hinrik 3. var myrtur 1589. Hann var barnlaus og næsti erfingi krúnunnar í karllegg var Hinrik konungur Navarra, sem var afkomandi Loðvíks 9., Frakkakonungs 1226-1270, í tíunda lið. Móðir Hinriks, Jóhanna Navarradrottning, var hins vegar systurdóttir Frans 1. og hann var því af Valois-ætt í móðurætt. Ríða feitum hesti. "Ríða feitum hesti" er þriðja hljómplata Hvanndalsbræðra Knúsumst um stund. "Knúsumst um stund" er fjórða hljómplata Hvanndalsbræðra Hvanndalsbræður (plata). "Hvanndalsbræður" er sjötta hljómplata Hvanndalsbræðra. Skást of. "Skást of" er fimmta hljómplata Hvanndalsbræðra. "Skást of" er safnplata og samanstendur af lögum fyrstu þriggja diskana ásamt laginu Maríu og nýrri útsetningu af Maístjörnunni. Pussy Riot. Pussy Riot er rússnesk pönkhjómsveit, stofnuð í Moskvu árið 2011. Söngtextar hennar einkennast af pólitísku andófi og róttækum femínisma. Pussy Riot hefur sent frá sér sex lög og fimm myndbönd. Sveitin setur upp pólitíska andófsgjörninga og beinir spjótum sínum gjarnan að yfirvöldum. Þann 21. febrúar 2012 settu fimm liðsmanna hennar upp gjörning sem nefndist pönkbæn í dómkirkju í Moskvu. Þær gengu að altarinu og fóru með ákall til Maríu guðsmóður um að losa landið við Pútín, auk svívirðinga í garð rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Þær voru stoppaðar eftir hálfa mínútu af gjörningnum. Eftir að hafa sett myndband af gjörningnum á netið í mars á sama ári voru þrjár þeirra handteknar og kærðar. Þann 17. ágúst 2012 voru þær dæmdar til að sæta tveggja ára refsivist í vinnubúðum. Í dómsúrskurði eru hljómsveitarmeðlimir sagðir hafa grafið alvarlega undan samfélagslegri reglu og sýnt trúmönnum algert virðingarleysi. Málið hlaut gríðarlega athygli og hafa rússnesk stjórnvöld sætt harðri gagnrýni, enda sé dómurinn aðför að málfrelsi í Rússlandi og til marks um alræðiskennda stjórnarhætti. Flokkunarkerfi Blooms. Benjamin S. Bloom (21. febrúar 1913 – 13. september 1999) fæddist í Lansford, Pennsylvaníu. Hann útskrifaðist árið 1935 frá Ríkisháskólanum í Pennsylvaníu með bachelor- og mastersgráðu í menntafræðum og árið 1942 lauk hann doktorsgráðu frá Chicago-háskóla. Hann starfaði þar sem kennari frá árinu 1944 og var titlaður prófessor við háskólann árið 1970. Flokkunarkerfið. Bloom setti fyrst fram flokkunarkerfi fyrir námsmarkmið í bókinni "Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook I: Cognitive Domain" árið 1956. Með því kerfi reynir hann að sýna fram á hvernig markmið í kennslu þurfi að ná til allra þeirra sviða sem kennarar vilja leggja áherslu á svo sem rökhugsunar, sköpunarhæfileika, þekkingar, skilnings og viðhorfa. Megin tilgangurinn með þessari flokkun er sá að efla skilning á gerð og eðli markmiða og auðvelda kennurum að setja markmið í kennslu. Hugmynd Bloom gekk út frá því að mannlegir hæfileikar skiptust í þrjú meginsvið, þekkingarsvið (e. "cognitive domain"), viðhorfa- og tilfinningasvið (e. "affective domain") og leiknisvið (e. "psychomotor domain"). Á hverju sviði eru þrepamarkmið, raðað frá einfaldari til flóknari markmiða. Síðustu markmiðin í hverju þrepi gera mestar kröfur til gildismats hugsunar, færni eða annars andlegs og líkamlegs þroska. Viðhorfa- og tilfinningasvið. Það er oft lítil áhersla í skólastarfi á markmið viðhorfa- og tilfinningasviðs. Skýring á því gæti verið sú að þau markmið er erfitt að meta, þau verða í það minnsta ekki metin á sama hátt og markmið á þekkingarsviðinu. Leiknisvið. Þessar hugmyndir Blooms og starfsmanna hans hafa breytt mjög miklu hvað varðar þróun á námskrár- og námsefnisgerð, sérstaklega greiningu þeirra á þekkingarsviðinu en hin sviðin hafa haft minni áhrif. Líklegt er að það sé vegna þeirrar áherslu sem hefur verið lögð á alls kyns bóknám í skólastarfi og hversu mikið markaðssetning á þeim sviðum hefur verið torskilin á meðan kennara og kennslufræðinga. Caesarion. Ptolemajos XV Fílopator Fílometor Caesar (Πτολεμαῖος ΙΕʹ Φιλοπάτωρ Φιλομήτωρ Καῖσαρ), oftast nefndur Ceasarion (Καισαρίων, orðrétt: litli Caesar) (23. júní 47 f.Kr. – 23. ágúst 30 f.Kr.), var sonur Kleópötru sjöundu. Ekki er vitað hvort hann hafi verið sonur Júlíusar Caesars eftir hverjum hann var nefndur. Fúsíjama Basketball Club International. Fúsíjama Basketball Club International er körfuknattleikslið staðsett í Hnífsdal. Liðið var stofnað 15. október 1999 og er nefnt eftir hæsta fjalli Japans, Fúsíjama. Nafn. Sökum reglugerða Íþróttasambands Íslands varðandi erlend nöfn þá lék liðið alla opinbera leiki sína undir nafni Reynis Hnífsdals. Liðið gekk hins vegar undir sínu rétta nafni, Fúsíjama, í umfjöllun flestra fjölmiðla og hjá Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ). KFÍ. Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar er körfuknattleiksfélag staðsett á Ísafirði. Félagið teflir fram meistaraflokkum í bæði kvenna og karlaflokkum ásamt því að halda úti fjölbreyttu yngriflokka starfi. Ísjakinn. Íþróttarhúsið á Torfnesi er fjölnota íþróttavöllur í Ísafjarðarbæ. Völlurinn er heimavöllur Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar og hefur gengið undir viðurnefninu Ísjakinn. Borgarplast. Borgarplast hf er iðnaðarframleiðslufyrirtæki sem var stofnað í Borgarnesi árið 1971 með uppsetningu frauðplastverksmiðju. Árið 1983 var hverfimótunardeild stofnuð við Hafnarbraut í Kópavogi sem síðan var flutt í Sefgarða á Seltjarnarnesi árið 1988. Síðla á árinu 2008 voru verksmiðjurnar í Borgarnesi og Seltjarnarnesi sameinaðar á sömu lóðinni að Völuteig 31 og 31A í Mosfellsbæ. Hjá fyrirtækinu vinna 30-40 manns, eftir verkefnastöðu hverju sinni. Vörur úr Polyethylene og Polystyrene. Framleiðslulína Borgarplasts samanstendur af vörum framleiddum úr polystyrene (EPS) og polyethylene (PE) að mestu til nota í matvæla- og byggingariðnaði. Gæða- og umhverfisstefna. Borgarplast er handhafi alþjóðlega gæðavottunarstaðalsins ÍST EN ISO 9001, síðan 1993. Einnig rekur fyrirtækið vottað umhverfisstjórnunarkerfi ÍST EN ISO 14001 og hefur gert síðan 1999. Árlega rennur 6-8% af veltunni til gæða-, umhverfis- og vöruþróunarmála. Framleiðslugeta. Árleg framleiðslugeta hverfismótunardeildar fyrirtækisins samsvarar framleiðslu á 75 þúsund einangruðum kerum. Viðskiptavinir. Mikil áhersla er lögð á útflutning á framleiðsluvörum fyrirtækisins en einnig á heimamarkað. Að jafnaði eru árlega fluttar út vörur til um 30 landa víðsvegar um heim, einkum einangruð ker og vörubretti. Vörur til byggingariðnaðar eru seldar á heimamarkaði og til nágrannalandanna Færeyja og Grænlands. Game of Thrones. Game of Thrones er skáldsaga eftir bandaríska rithöfundinn George R.R. Martin. Sagan gerist í tilbúnum heimi sem er þó líkt miðaldasamfélagi í Evrópu og Rósastríðunum á 15. öld. Vetur og sumur skiptast ekki reglubundið á heldur geta varað árum saman. Töfrar og yfirnáttúrulegar verur eru hluti af heiminum. Sagan gerist að mestu á meginlandinu Westeros. Í margar aldir var Westeros samsett úr sjö sjálfstæðum konungsríkjum sem núna eru undir einni krúnu og er stýrt frá höfðuborginni Kings Landing. Game of Thrones er fyrsta bindi í bókaflokknum "A Song of Fire and Ice". Bókin kom fyrst út 6. ágúst 1996. Bókin vann Locus-verðlaunin árið 1997 og var tilnefnd til Nebula-verðlaunanna 1998 og World fantasy-verðlaunanna árið 1997. Í janúar 2011 komst bókin inn á New York Times listann yfir mest seldu bækurnar og náði fyrsta sæti listans í júlí 2011. Bókin er 73 kaflar og 804 blaðsíður (704 blaðsíður innbundin). Í bókinni eru þrír söguþræðir raktir samtímis, þar á meðal ættirnar í Westeros (houses of Westeros), Veggjarins og Targaryen-söguþráðurinn. Fyrsti söguþráðurinn gerist í hinum sjö ríkjum Westeros (Seven Kingdoms of Westeros) Gefin hafa verið út spil, borðleikir og hlutverkaleikir tengt efni bókarinnar og þann 17. apríl 2011 var frumsýndur fyrsti þátturinn í nýrri sjónvarpsþáttaröð á HBO sem heitir Game of Thrones. Nafn bókarinnar kemur frá orðum einnar sögupersónunnar en í bókinni sakar Eddard Stark Cersei Lannister um svik, sifjaspell og framhjáhald og hún játar því og hún við hann: „Þegar þú leikur leikinn um krúnurnar, þá vinnur þú eða deyrð, það er ekkert þar á milli“. Fyrsti söguþráður í hinum sjö ríkjum Westeros. Bókin hefst þegar Eddard Stark (Ned) lávarði er í Winterfell, sem er heimili forfeðra hans og kallast House Stark. House Stark ræður yfir norðrinu. Stark fjölskyldan er heiðvirð fjölskylda í hinum hefðbundnu „sjö ríkjum“. Sjö ríkin eru nú sameinuð undir einum konungi síðan tími drekanna leið undir lok og allir telja að þeir séu útdauðir. Robert Baratheon er konungur og hann situr í járnhásæti sem er mótað er af þúsund sverðum sem eru brædd og barin saman undir eldi úr andardrætti dreka. Snemma í sögunni verður Lávarður Eddard Stark (Ned), sem lávarður norðursins og fyrir hönd sjö ríkjanna að dæma og taka af lífi mann sem hafði stungið af frá næturvaktinni á veggnum, með syni sína sem vitni. Á leiðinni heim til Winterfell, uppgötva synir Eddards sex ylfinga og fær hvert af börnum Eddards einn ylfing. Úlfar eru einmitt merki Starkættarinnar. Eftir að Jon Arryn, sem er hönd kóngsins deyr, heimsækir Robert Baratheon konungur Eddard til Winterfell með drottninguna og fylgdarlið. Vegna þess að þeir eru gamlir vinir og börðust saman fyrir krúnuna áður fyrr biður Robert Baratheon Eddard Stark um að verða hönd konungsins. Eddard samþykkir það, þó að innsæi hans segi annað og á sama tíma lofar hann konu sinni Lafði Catelyn Stark að rannsaka dauða Jons Arryn, sem hafði verið hönd konungs, sem gæti hafa orðið eitri að bráð vegna pólitísks ráðabruggs sem Cersei Lannister drottning og valdamiklu fjölskyldu hennar Lannisterættin áttu þátt í. Áður en Stark fjölskyldan leggur af stað til King's Landing í suðri, slasast sonur Eddards alvarlega þegar Jaime Lannister reynir að drepa hann vegna þess að hann verður óvart vitni að sifjaspelli milli Jaime og tvíburasystur hans Cersei. Bran lifir af en er í dái og seinna kemur í ljós að hann er lamaður fyrir neðan mitti. Það verður til þess að hann verður eftir með yngri bróður sínum. Á meðan hann er að jafna sig reynir leigumorðingi að drepa hann en úlfurinn hans Summer bjargar honum ásamt móður hans. Catelyn gerir sér grein fyrir því að eiginmaður hennar er í hættu í King's Landing. Hún ákveður að fara huldu höfði og leggur af stað til að vara eiginmann sinn við. Hún skilur elsta son sinn Robb Stark eftir til að stjórna sem lávarður af Winterfell. Þegar Catelyn kemur til King's Landing er hún færð á fund með Petyr Baelish eða litla putta. Hann var hrifinn af henni þegar hann var yngri. Hann ber kennsl á rýtinginn sem var notaður til þess að reyna að myrða Bran og segir henni að Tyrion Lannister eigi rýtinginn. Petyr Baelish sér svo til þess að Catelyn geti hitt Eddard í leyni. Þegar Catelyn er á leiðinni til baka til Winterfell, hittir hún Tyrion sem er að koma til baka frá veggnum og hún handtekur hann. Hún fer með hann á afskekktan stað sem heitir Eyrie, þar sem systir hennar lafði Lysa Arryn, ekkja Jons Arryn ríkir núna. Lysa kennir Lannisterættinni um dauða Jons og er áköf í að taka Tyrion af lífi en hann krefst þess að fá réttarhöld í bardaga og fær frelsi sitt aftur þegar samferðamaður hans, leigusverð Bronn, vinnur einvígið. Eddard Stark tekur dætur sínar Sansa Stark og Arya Stark með sér til King's Landing. Þegar þau koma til King's Landing tekur Eddard að sér störf handarinnar og því að ríkja í Westeros þar sem Robert hefur engan áhuga á að stjórna. Eddard kemst að því sem Jon Arryn hafði áður komist að, að sonur Robert, Joffrey Baratheon sem er erfingi krúnunnar er í raun sonur Cercei og tvíburabróður hennar Jaimes. Eddard ber þetta upp á Cersei og gefur henni færi á að flýja áður en hann segir Robert frá þessu. En Robert slasast alvarlega á veiðum og Eddard getur ekki afborið að segja honum sannleikann á dánarbeði hans. Þegar Robert er að deyja leggur bróðir hans Renly Baratheon til að hann og Eddard sameini verði sína til að ná Cersei og börnum hennar og ná stjórn á krónunni áður en Lannisterættin getur tekið til sinna ráða. Eddard neitar vegna þess að það er ekki heiðvirt. Í staðinn fær hann Petyr litla putta til að fá verði borgarinnar til að handtaka og kæra Cersei en hann er svikinn af Petyr litla putta. Renly flýr King's landing með vörðum sem eru hliðhollir Baratheonættinni. Eddard er handtekin, Sansa er gerð að fanga en Arya nær að flýja. Elsti sonur Cersei og Jaimes, Joffrey Baratheon, er krýndur kóngur sem erfingi Roberts. Hann lætur undir eins taka Eddard höndum og lætur svo aflífa hann. Faðir Cersei og Jaimes, lávarður Tywin Lannister, fer í stríð við Stark og Tullyættina og stuðningsmenn þeirra vegna þess að Catelyn handtók Tyrion. Þegar fréttirnar af aflífun Eddards Stark dreifast út brýst út borgarastríð. Robb Stark leiðir her norðmanna til að bjarga föður sínum og systrum í King's Landing en þegar hann fréttir af dauða föðurs síns fer hann til Riverlands til þess að fá stuðning frá móðurafa sínum lávarði Hoster Tully. Jaime Lannister leiðir orrustuna á Riverrun sem er virki Tullyættarinnar, á meðan er Tywin við ánna Trident til þess að koma í veg fyrir að Robb komist áfram til King's Landing. Tyrion sem komst undan kemur til föðurs síns. Robb skiptir upp hernum sínum og kemur andstæðingum sínum á óvart og eyðileggur búðir Lannisters sem eru við Riverrun, þeir handtaka Jaime í leiðinni. Stannis Baratheon á réttmætt tilkall til járnhásætisins. Hann er næstur í röð bræðranna á eftir Robert Baratheon. Heldur því fram að Joffrey eigi ekki tilkall til hásætisins og lýsir því yfir að hann sé næsti konungur ríkjanna sjö. Yngri bróðir hans Renly fær Baratheonættina og Tyrellættina og lýsir sjálfan sig konung í Westeros og verður þar með þriðji af fimm konungum stríðsins. Robb Stark verður fjórði þegar stuðningsmenn Stark- og Tullyættanna lýsa hann konunginn í norðri. Á veggnum. Formáli bókarinnar segir frá ríki í norðri sem er ekki hluti af hinum. Það er auðnin í norðri sem er handan veggjarins. Veggurinn er gamall 700 feta hár, 300 mílna löng hindrun úr ís og göldrum sem ver ríkin sjö, veggurinn er mannaður af næturvaktinni. Menn næturvaktarinnar sem eru kallaðir krákurnar taka órjúfanlegan eið um að þeir muni þjóna á veggnum allt sitt líf. Þeir lifa skírlífi og þeir ganga bara í svörtum fötum. Í landinu serm er norðan af veggnum eru engin lög, lítill hópur af mönnum sem tilheyra næturvaktinni hitta „hina“ (others), sem er aldagamalt og illur ættbálkur af verum sem voru taldar útdauðar og goðsögulegar. Allir mennirnir af næturvaktinni eru drepnir nema einn sem flýr suður og er seinna tekin af lífi af Eddard Stark. Jon Snow sem er bastarður Eddards og er fyrirlitin af Catelyn, fær innblástur frá frænda sínum, Benjen Stark, sem er fyrsti vaktmaður næturvaktarinnar til að taka eiðinn og verða varðmaður á veggnum. Jon fer norður að veggnum með Tyrion Lannister og öðrum meðlimum næturvaktarinnar. Hann verður ringlaður þegar hann kemst að því að þetta er ekkert meira en að fanga nýlenda og þeir eiga að passa upp á „villinga“ (ættbálkar menn sem lifa án laga norðan af veggnum). Á veggnum sameinar Jon sjálfboðaliðana gegn leiðbeinanda þeirra sem er mjög grimmur við þá. Hann verndar líka Samwell Tarly sem er góður og gáfaður en ekki mjög hugrakkur. Jon vonar að þar sem að hann er mjög góður bardaga maður að honum verði úthlutað starf á veggnum með hernum sem gætir veggsins. En í staðinn er honum úthlutað að vera einskonar einkaþjónn hjá yfirmanni næturvaktarinnar, Jeor Mormont lávarði. Hann kemur því í kring að Samwell verður einkaþjónn hjá gamla Maester Aemort. Á meðan þetta er að ske leiðir Benjen Stark lítin hóp af hermönnum vaktarinnar í eftirlitsferð handan veggjarins en kemur ekki til baka. Næstum því sex mánuðum síðar finnast lík tveggja manna sem voru í herdeild Benjen handan veggjarins. Lík þeirra eru færð aftur til veggjarins og um nóttina lifna þeir við. Það býta engin sverð á þeim en Jon nær ásamt úlfinum sínu draugi að bjarga yfirmannin sínum með því að brenna uppvakningana. Fyrir að bjarga lífi hans fær Jon að gjöf sverð sem heitir „langa kló“ sem er ættargripur yfirmanns hans. Yfirmaður hans hefur látið breyta merkinu á sverðinu í úlf, sem stendur fyrir ætt Jons og úlfinn hans. Þegar Jon Snow fréttir af dauða föðurs sins reynir hann að flýja til að fara til Robb til að hjálpa honum í stíðinu við Lannister ættina. Vinir hans á veggnum sannfæra hann um að snúa við. Mormont yfirmaður Jons sannfærir hann um að staður hans sé hjá hinu nýju bræðrum hans og að stíðið um krónuna fölnar í samanburði við illskuna sem veturirnn á eftir að koma með sér frá norðri. Í austri. Handan hafsins í hinni frjálsu borg Pentos, búa Viserys Targaryen og Daenarys þrettán ára systur hans í útlegð. Hann er sonur og eini eftirlifandi erfingji Aerys II af Targaryen ættinni. Aerys var „vitfirrti“ konungurinn sem Robert Baratheon velti úr stóli. Targaryen ættin hafði ríkt yfir Westeros og réðu yfir drekum en drekarnir og völdin eru ekki lengur til staðar. Viserys ákveður að systir hans skuli giftast Khal Drogo, stíðshöfðingja Dothraki ættbálksins sem eru hesta stríðsmenn í staðinn fær hann að nota her Drogos til að endurheimta járn hásætið í Westeros fyrir Targaryen ættina. Magister Illyrio sem er ríkur kaupmaður og gestgjafi Targaryen systkinanna gefur Daenarys þrjú steingervings dreka egg í brúðkaupsgjöf. Ser Jorah Mormont (sonur Jeor Mormongt sem er yfirmaður næturvaktarinnar) er riddari sem hefur verið gerður útlægur frá Westeros. Hann fylgir Viserys eftir sem ráðgjafi. Óvænt, finnur Daenerys traust og ást hjá eiginmanni sínu og hún verður ólétt. Því að spáð að barnið muni sameina og stjórna Dothraki ættbálknum. Drogo sýnir lítin áhuga á að sigrast á Westeros sem ögrar hinum skapbráða Viserys sem lætur gremju sína bitna á systur sinni. Hann reynir að kúga systur sína til þess að gera það sem hann vill en Daenerys hefur fengið aukin kjark sem eiginkona Khals (höfðingjans) byrjar að standa með sjálfri sér og neitar að láta bróður sinn kúga sig. Drogo refsar Viserys fyrir skapköstin með því að refsa honum með því að lítillækka hann fyrir framan alla. En þegar Viserys hótar Daenerys fyrir framan ættbálkinn tekur Drogo hann af lífi með því að hella úr potti með sjóðandi heitu gulli ofan á höfuðið á honum og gefur honum þar með gull kórónuna sem hann lofaði honum fyrir Daenerys. Sem síðasti Targaryen, heldur Daenarys áfram með áætlunina um að endurheimta járn hásætið í Westeros. Leigumorðingi á vegum kóngsings, Robert Baratehon reynir að eitra fyrir Daenarys og ófæddu barni henni. Það verður til þess að Drogo verður svo reiður að hann samþykkir að ráðast á Westeros til að leita hefnda. Þegar þeir eru að ráðast á og ræna þorpum til þess að eiga fyrir innrásinni særist Drogo. Það kemur ígerð í sárið og Daenarys skipar einum fanganna sem er eins konar norn að nota blóð galdur til þess að bjarga honum en svikula nornin fórnar barni Daenarys til þess að fá kraft í galdurinn. Drogo deyr ekki en hann er bjargarlaus og ekki með meðvitund. Dothraki hafa ekki lengur leiðtoga og byrja því að tvístrast. Daenarys fremur líknardráp á eiginmanni sínum og kæfir hann. Hún hefnir sín á norninni með því að binda hana við útförs bál Drogos. Þegar bálið stendur sem hæst gengur Daenarys inn í bálið með dreka eggin. Í staðinn fyrir að farast í logunum, kemur hún aftur út úr bálinu með þrá dreka unga sem komu úr eggjunum og þeir fá mjólk úr brjóstum hennar. Sem sannur Targaryen er hún ónæm fyrir eldi. Þeir fáu Dothraki og Ser Jorah sverja þess að standa með henni sem móðir drekanna. Sjónarhorn í bókinni. Hver kafli einblýnir á takmarkað þriðju persónu sjónarhorn einnar persónu í bókinni, bókin segir frá sjónarhorni átta aðal sögupersóna. Að auki veitir persona sem skiptir ekki máli í sögunni formálann. Fyrirsögn kaflanna gefur til kynna hvaða sjónarhorn verður í kaflanum. Sjónvarp. HBO hefur framleitt þætti gerða eftir bókinni. Fyrst þáttur var sýndur 17. apríl, 2011. Fyrsta sjónvarpsserían var tíu þættir og var tekin upp í Belfast á Norður-Írlandi og Mdina á Möltu. Í aðalhlutverkum voru Sean Bean, Michelle Fairley og Jason Momoa ásamt öðrum. Önnur sjónarpsþáttaröðin hefur hafið göngu sína og þar er byggt á annarri bók í seríunni sem heitir Clash of Kings og samið hefur verið um þriðju og fjórðu þáttaröðina sem eiga að byggja á þriðju bókinni sem heitir "Storm of Swords". Söguþræði bókarinnar hefur einnig verið breytt í myndasögu. Úsbekíska. Úsbekíska tilheyrir tyrkísku grein altajískra mála. Fyrir utan Úsbekistan er hún töluð nokkuð í Túrkmenistan, Tadsikistan, Afganistan, Kasakstan og Kína. Hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá persnesku og hefur glatað því sérhljóðasamræmi stofns og endinga sem einkennir tyrkísk mál. Lengst af rituð með arabísku letri en nú kyrilísku í þeim ríkjum sem tilheyrðu Sovétríkjunum. Elstu tekstar frá átta hundrað talinu. Langadalsfjall. Langadalsfjall er fjall í Austur-Húnavatnssýslu og liggur austan við endilangan Langadal, en austan við fjallið er svo eyðidalurinn Laxárdalur fremri. Fjallið nær frá mynni Laxárdals í norðri suður að mynni Svartárdals við Bólstaðarhlíð og er um 25 km á lengd og 700-800 m hátt víðast hvar, en í það eru þrjú djúp skörð á milli dalanna. Ýmsir hlutar fjallsins heita svo sérstökum nöfnum eftir bæjum sem undir því standa, svo sem Bólstaðarhlíðarfjall og Holtastaðafjall upp af Holtastöðum. Vindheimajökull. Vindheimajökull er jökull í um 1400 m. hæð á milli Öxnadals og Glerárdals. Þar hjá er Súlur, Strýta og Kista. Bægisá rennur undan. Svartárdalur (Austur-Húnavatnssýslu). Mynni Svartárdals, séð ofan úr Bólstaðarhlíðarbrekku. Horft til vesturs yfir í Langadal. Svartárdalur er dalur í Austur-Húnavatnssýslu og er hann austastur húnvetnsku dalanna, ásamt Laxárdal fremri, sem liggur norður af honum. Dalurinn er fremur grunnur en þröngur og þar er undirlendi lítið. Hann er veðursæll og grösugur og þar eru allnokkrir bæir. Dalurinn dregur nafn af Svartá, sem rennur eftir honum. Nyrst í dalnum sveigir áin til vesturs og rennur í Blöndu gegnum skarð sem liggur milli Langadalsfjalls að norðan og Tunguhnjúks, sunnan við skarðið, en hann er nyrst á fremur lágum hálsi sem liggur milli Svartárdals og Blöndudals. Skarðið er nú oft talið norðurendi Svartárdals en hét áður Ævarsskarð og er sagt kennt við Ævar gamla Ketilsson landnámsmann. Þar er bærinn Bólstaðarhlíð, sem ýmist hefur verið talinn til Svartárdals eða Langadals. Þjóðvegur 1 liggur um skarðið og síðan um Bólstaðarhlíðarbrekku og upp á Vatnsskarð. Sést vel inn eftir dalnum af veginum. Svartárdalur er um 25 km langur. Fremst (syðst) í dalnum er bærinn Stafn og þar er Stafnsrétt, ein þekktasta skilarétt landsins. Skammt þar fyrir framan klofnar Svartárdalur í tvo dali. Annar liggur til suðausturs, er nokkuð djúpur og svo þröngur að hann kallast Stafnsgil og endar í gljúfrum sem ná fram undir Buga. Svartá kemur upp í Bugum og rennur um Stafnsgil og liðast síðan um Svartárdal þar til hún fellur í Blöndu. Hinn dalurinn, Fossárdalur eða Fossadalur, sem er í raun beint framhald af Svartárdal þótt nafnið breytist, gengur til suðsuðvesturs inn í Eyvindarstaðaheiði og endar í Fossadalsdrögum. Hann er einnig djúpur og þröngur, þó ekki eins og Stafnsgil. Á milli dalanna kallast Háutungur. Neðst í dalnum vestanverðum er einn bær, Fossar. Bærinn á Fossum er í 320 m hæð yfir sjávarmáli og í um 60 kílómetra fjarlægð frá Blönduósi. Enn framar er eyðibýli, Kóngsgarður, sem var í byggð fram undir lok 19. aldar. Kirkja er á Bergsstöðum í Svartárdal og þar var áður prestssetur en það fluttist svo að Æsustöðum í Langadal eftir að Gunnar Árnason varð þar prestur 1925. Síðar var reist prestsetur að Bólstað sunnan við Húnaver, í landi Botnastaða. Bill Cody. Bill Cody (f. 5. janúar 1891 í Winnipeg í Manitoba, d. 24. janúar 1948 í Santa Monica í Kaliforníu) eða William Joseph Cody jr., upphaflega Páll Pálsson Walters (eða Walter) var kanadísk/bandarískur leikari af íslenskum ættum sem lék í allmörgum B-kvikmyndum í Hollywood á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, einkum kúrekamyndum. Uppruni. Margt er óljóst um uppruna Codys og í ýmsum uppflettiritum er hann sagður fæddur í St. Paul í Minnesota, sonur William F. Cody og Lillian Isabel Johnson, en heimildum í vestur-íslenskum og íslenskum blöðum frá því að ferill hans stóð sem hæst ber saman um að hann hafi verið sonur hjónanna Páls Valdimars Eiríkssonar og Bjargar Jónsdóttur, sem fluttu úr Skagafirði til Vesturheims 1887. Í júní 1891 dó faðir hans, sem þá kallaði sig Pál Walters, í Winnipeg og var Cody þá á fyrsta ári. Í viðtali sem Halldór Laxness tók við Cody í Hollywood 1927 segir hann frá því að hann hafi tekið sér nafnið Bill Cody „af viðskiptalegum ástæðum“, enda er það sagt hafa vakið athygli framleiðenda á honum að hann héti sama nafni og hinn frægi Buffalo Bill Cody. Á IMDB er sagt að hann hafi fyrst leikið í tveimur myndum undir dulnefninu "Paul Walters" en síðan hafi verið ákveðið að hann kæmi fram undir eigin nafni, en sannleikurinn mun hafa verið þveröfugur. Í viðtalinu sagði Cody Halldóri frá því að sjö ára gamall hefði hann verið sendur munaðarlaus til Íslands og dvalið þar í á annað ár, á Húsabakka í Skagafirði. Þar lærði hann að sitja hest, fór í smalamennsku og fékk að tína hagalagða og kaupa sér svo hatt fyrir ullina á Sauðárkróki um sumarið. Hann sagðist þó aðeins muna eitt orð í íslensku en það var "harðfiskur". Ferill. Hann var svo aftur sendur vestur um haf og ólst þar upp, líklega hjá vandalausum. Hann fór svo í herskóla og síðan í háskóla, gerðist leikari og ferðaðist um með leikflokki og barst loks til Hollywood 1922, varð fyrst áhættuleikari og fór svo að leika í kúrekamyndum 1924. Hann lék aðalhlutverk í allmörgum kvikmyndum á næstu árum og framleiddi sumar þeirra sjálfur. Hann hélt áfram að leika í talmyndum eftir að gerð þeirra hófst og lék í fjölda mynda sem fengu raunar misjafna dóma; ein þeirra, "The Border Menace" (1934), hefur verið kölluð versta B-kúrekamynd sögunnar. Í sumum myndanna lék ungur sonur hans, Bill jr., með honum. Ferli hans hnignaði smátt og smátt og hann ferðaðist um með Villta vesturs-sýningaflokkum en lék þó í einni og einni mynd á milli; síðasta aðalhlutverkið var í "The Fighting Cowboy" 1939 en eftir það lék hann smáhlutverk í nokkrum myndum, meðal annars "Stagecoach" og síðast í "Jóhönnu af Örk" 1948, en lést áður en sú mynd var frumsýnd. Fjölskylda. Kona hans hét Regina og áttu þau tvo syni. Þrálátur orðrómur er sagður hafa lengi gengið um það í Íslendingabyggðum vestanhafs að Cody væri raunverulegur faðir Ronalds Reagan, Bandaríkjaforseta, en engar sönnur hefur tekist að færa á þá fullyrðingu. Hálfbróðir Codys var listmálarinn Emile Walters, sem var vel þekktur á fyrri hluta 20. aldar. Moose Jaw. Moose Jaw er borg í Saskatchewan, Kanada. Þar búa 35.629 manns (2002). Lotka. Lotka er á í Norðvestur-Rússlandi. Áin er stutt, aðeins 32 kílómetrar á lengd. William Stephenson. William Stephenson, vegabréfsmynd frá 1942. Sir William Samuel Stephenson (23. janúar 1897 – 31. janúar 1989) var Kanadamaður af íslenskum ættum, kaupsýslumaður, hugvitsmaður og njósnari og stýrði starfsemi bresku leyniþjónustunnar í Ameríku í seinni heimsstyrjöld. Hann er talinn ein helsta fyrirmynd rithöfundarins Ians Fleming að njósnaranum James Bond, en Stephenson var lærifaðir Flemings í stríðinu og þeir urðu miklir vinir. Þeir sem þekktu Stepehenson kölluðu hann oftast "Little Bill" en eftir stríð varð hann þekktur undir dulnefninu sem sagt er að hann hafi borið, "Intrepid", og einnig er hann oft kallaður "Þögli Kanadamaðurinn" (The Quiet Canadian). Ferill. Stephenson bar upphaflega nafnið William Samuel Clouston Stanger og var fæddur í Winnipeg í Manitoba. Faðir hans, William Hunter Stanger, var frá Orkneyjum en móðirin, Sarah Gudfinna Johnston (Guðfinna Jónsdóttir) var íslensk en ekki er vitað um ætt hennar eða hvaðan af Íslandi hún var. Faðirinn lést um 1901 og móðirin treysti sér ekki til að sjá fyrir öllum börnum sínum svo að William var tekinn í fóstur af Vigfúsi Stefánssyni og Kristínu Guðlaugsdóttur, sem ættuð voru af Snæfellsnesi, og fékk nafn þeirra, Stephenson. Hann gekk í kanadíska herinn 1915 og var sendur á vígvellina í Evrópu. Þar særðist hann og ákvað þá að læra að fljúga og láta flytja sig yfir í flugherinn. Hann þótti standa sig frábærlega en var sjálfur skotinn niður og tekinn til fanga 28. júlí 1918. Honum tókst þó að flýja og komast aftur yfir víglínuna og samtals er hann sagður hafa skotið niður 26 óvinaflugvélar og loftför. Stephenson sneri aftur til Winnipeg eftir stríðið og kom þar upp fyrirtæki með vini sínum en það gekk illa og hann ákvað að freista gæfunnar í Englandi. Þar tókst honum að afla einkaleyfa fyrir hluti og aðferðir sem hann hafði fundið upp, þar á meðal aðferð til að senda ljósmyndir með loftskeytum, og varð brátt milljónamæringur. Árið 1924 giftist hann bandarískri konu, Mary French Simmons, sem var erfingi tóbaksframleiðanda. Hann fjárfesti einnig í ýmsum fyrirtækjum og varð umsvifamikill kaupsýslumaður með dýrmæt sambönd víða um heim. Styrjaldarárin. Í viðskiptaferðum sínum til Þýskalands varð hann áskynja um ýmislegt sem snerti endurhervæðingu Þjóðverja, sem var brot á Versalasamningnum frá 1919, og kom þeim áleiðis til Winstons Churchill, en þeir voru kunningjar. Stephenson hélt áfram að fara viðskiptaferðir til Þýskalands og aflaði margvíslegra upplýsinga um stríðsundirbúning nasista. Þegar Churchill varð forsætisráðherra vorið 1940 gerði hann Stephenson að yfirmanni BSC, stofnunar sem annaðist alla njósna- og áróðursstarfsemi Breta í Norður- og Suður-Ameríku. Höfuðstöðvarnar voru i New York en starfsemin teygði sig víða og í Ontario í Kanada kom Stephenson á fót háleynilegri þjálfunar- og samskiptamiðstöð. Einn nemenda hans þar var að líkindum Ian Fleming en alls hlutu um 2000 breskir, kanadískir og bandarískir njósnarar þar þjálfun, þar á meðal fimm verðandi forstjórar CIA. Stephenson varð jafnframt sérlegur fulltrúi Churchills gagnvart Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta og varð brátt einn af ráðgjöfum Roosevelts. Stephenson var einn af fáum sem fengu að sjá óritskoðaðar útgáfur af þýskum Enigma-dulmálsskeytum sem Bretar höfðu ráðið í dulmálsmiðstöðinni í Bletchley Park og Churchill treysti honum til að meta hvaða upplýsingar ætti að láta ganga áfram til breskra og kanadískra stjórnvalda. Bandaríkjamenn höfðu á þessum tíma enga eiginlega leyniþjónustu þótt FBI væri aðeins farin að teygja starfsemi sín út fyrir landamærin. Að tillögu Stephensons gerði Roosevelt góðvin hans, William J. Donovan, að yfirmanni allrar njósnastarfsemi Bandaríkjanna og kom hann á fót stofnun sem var undanfari CIA; því má segja að Stephenson hafi átt þátt í stofnun CIA og stofnunin sótti þekkingu og aðferðir til Stephensons og BSC fyrst í stað. Að stríðinu loknu var Stephenson aðlaður og Churchill skrifaði á meðmælabréfið: „Þessi er mér hjartfólginn.“ Stephenson fékk einnig orðu frá Bandaríkjaforseta, "Verðleikaorðunni" (Medal for Merit), sem var æðsta borgaralega heiðursmerkið sem þá var veitt, og mun hafa verið fyrsti maðurinn sem hún var veitt sem ekki var Bandaríkjamaður. Stephenson vann launalaust og er sagður hafa greitt starfsemi stofnunarinnar sem hann stýrði að nokkru leyti úr eigin vasa. Ævilok. Stephenson settist í helgan stein nokkru eftir stríðið og bjó á Jamaíku, þar sem hann var nágranni Ians Fleming, og Bermúda, þar sem hann dó rúmlega níræður. Um hann hafa verið skrifaðar nokkrar bækur, þar á meðal "The Quiet Canadian" (1962), sem komið hefur út á íslensku undir nafninu "Dularfulli Kanadamaðurinn", "A Man Called Intrepid" (1976) og "The True Intrepid" (1998). Tvær fyrrnefndu bækurnar hafa þó verið gagnrýndar fyrir að gera of mikið úr hlut Stephensons. Árið 1979 var gerð sjónvarpsmynd byggð á bókinni A Man Called Intrepid og lék David Niven hlutverk Stevensons í henni. Í fæðingarborg hans, Winnipeg, hafa gata og almenningsbókasafn verið látin heita eftir honum og einnig hefur honum verið reist stytta þar. Montbéliard. Montbéliard er borg í Austur-Frakklandi. Þar búa 28.766 manns (2006). Russell Crowe. Russel Ira Crowe (f. 1964) er ástralskur leikari. Antoni Gaudí. Antoni Gaudí i Cornet (25. júní 1852 – 10. júní 1926) var spænskur-katalónskur arkitekt. Flestar byggingar eftir Gaudí er að finna í borginni Barcelona þar sem helsta verk hans Sagrada Família er enn þá í byggingu. Antoni Gaudi fæddist í 1852 í Riudoms eða í Reus á Spáni, hann var yngstur fimm systkina en aðeins þrjú þeirra komust á legg. Ekki er alveg vitað hvar nákvæmur fæðingarstaður Gaudís var því engin skjöl hafa fundist um það, hafa verið uppi deilur um hvort hann hafi fæðst í nágrannasveitunum Reus eða Riudoms í Baix Camp héraði. Þó er vitað að hann var skírður í Sant Pere Apostol kirkju í Reus degi eftir fæðingu og fékk hann þá nafnið Antoni Placid Guillen Gaudí. Gaudí elskaði land sitt og þjóð. Hann trúði því að fólkið í Miðjarðarhafinu væri skapandi, frumlegt og með meðfædda skynsemi fyrir list og hönnun. Gaudí var heilsulítill og þjáðist af gigt frá unga aldri. Hann gerðist grænmetisæta mjög snemma ástæðan fyrir því var meðal annars trúarleg. Hann fastaði oft og lengi sem varð til þess að árið 1894 varð hann lífshættulega veikur sökum þess. Gaudí gekk í skóla hjá Francesc Berenguer sem varð svo síðar meir einn af helstu aðstoðarmönnum Gaudís. Seinna innritaðist hann í Piarists skólann í Reus þar sem listrænir hæfileikar hans sem málari blómstruðu. Árið 1868 flutti hann til Barcelona og lærði kennslu við Convent del Carme skólann. Þegar Gaudí hafði lokið við herskyldu á árunum 1875 til 1878 sem fótgönguliði hélt hann áfram í námi. Hann hafði þó að mestu verið í veikindaleyfi alla herskylduna. Hann útskrifaðist sem arkitekt úr Llotja School í Barcelona árið 1878. Persónulegt líf. Gaudí helgaði sig starfi sínu. Svo virðist sem hann hafi aðeins orðið ástfanginn einu sinni en það var af Josefa Moreu sem var kennari en því miður var sú ást ekki endurgoldin og Gaudí var einn allt sitt líf. Gaudí helgaði sig kaþólskri trú. Þeir sem ekki þekktu Gaudí lýstu honum oft sem ófélagslegum óþægilegum manni sem var hastarlegur í svörum. Þeir sem umgengust hann lýstu honum þveröfugt og sögðu hann vingjarnlegan og trúan vinum sínum og má þar nefna rithöfundinn Joan Maragall. Gaudí var með ljóst hár og blá augu og sem ungur maður klædist hann dýrum fötum og var ávallt með vel snyrt hár og skegg. Hann var tíður gestur í leikhúsum og óperuhúsum. Þegar Gaudí var orðinn gamall gekk hann í slitnum fötum og var oft líkt við útigangsmann. Sagrada Familia. La Sagrada Familia eða kirkja hinnar heilögu fjölskyldu er líklega þekktasta bygging Barcelona og ein af frægustu kirkjum heims. Eins og svo margar stórkirkjur fortíðarinnar ætlar hún að vera aldir í smíðum. Frá árinu 1915 helgaði Gaudí sig nánast eingöngu meistaraverki sínu Sagrada Famila. Kirkjan hefur þrjár framhliðar: Framhlið fæðingu Jesús Krists, framhlið Píslarsögunnar og framhlið dýrðarinnar. Þegar framkvæmdum verður endanlega lokið mun kirkjan hafa átján turna. Fjórir þeirra eru ofan á hverri framhlið sem tákn fyrir postulana 12 og eru þeir 90 til 120 metra háir. Aðrir fjórir tákna guðspjallamennina en sá hæsti er tileinkaður Jesús Kristi og er hann 170 metra hár. Sá síðasti er tileinkaður Maríu mey. Á meðan Gaudí lifði var aðeins lokið við grafhvelfinguna og part af framhliðinni. Eftir dauða Gaudí tók aðstoðarmaður hans Doménec Sugranes við byggingarframkvæmdum og upp frá því stjórnuðu hinir ýmsu arkitektar byggingu kirkjunnar. Sagrada Familia er án efa frægasta bygging Gaudís þó honum hafi ekki tekist að klára hana. Kirkjan er enn í byggingu og ekki er búist við að smíði hennar ljúki fyrr en árið 2026. Gaudí og nútímalist. Hið faglega líf Gaudís var auðkennandi fyrir það að hann hætti aldrei að rannsaka vélræn form bygginga. Snemma á ferli sínum var Gaudí innblásinn af oriental list (Indland, Persía, Japan) vegna rannsókna sinna á kennismiðum sögulegrar byggingalistar, svo sem Walter Pater, John Ruskin og William Morris. Áhrifin frá Oriental tímabilinu má sjá í verkum hans eins og Capricho, Güell Palace, Güell Pavilions og Casa Vicens. Seinna aðhylltist hann Gothic hreyfingunni sem var í tísku á þeim tíma og fylgdi hugmyndum franska arkitektsins Viollet-le-Duc. Þessi áhrif sýna sig í Colegi de les Teresianes, höll biskupsins í Astorga, Casa Botines og Bellesguard húsinu sem og í grafhvelfingu og kórskansi Sagrada Família kirkjunnar. Um síðir einkenndust verk Gaudís meira af persónulegum áhrifum hans með lífrænum stíl innblásnum af náttúrunni sem hann byggði sín aðalverk á. Á námsárum sínum hafði Gaudí aðgang af ljósmyndasafni frá egypskri, indverskri, persneskri, kínverskri og japanskri list og list Majanna sem arkitektarskólinn átti. Safnið innihélt einnig márísk minnismerki á Spáni. Þetta hafði djúp áhrif á hann og var innblástur fyrir mörgum verkum hans. Verk. Verk Gaudí eru venjulega flokkuð sem nútímalist, þau tilheyra þeim stíl vegna ákafa hans til að endurnýja án þess að brjóta hefðir, leit hans eftir nútímaleikanum þar sem hann notar sinn eigin skrautstíl á verkin. Fjölbreytt persónueinkenni setja mark sitt á hvert viðfangsefni þar sem að verkkunnátta er í aðalhlutverki. Við þetta er hægt að bæta að Gaudí notar einnig lítilsháttar Barrokk stíl ásamt því að notast við hefðbundna byggingarlist. Í verkum hans má finna sambland af innblæstri hans frá náttúrunni og hans upprunalega stíls. Þetta gefur verkum hans persónulegan og einstakan stíl í sögu byggingarlistar. Það er erfitt að setja viðmiðunarreglur sem varpa ljósi á þá þróun sem hefur mótað stíl Gaudí. Ein af bestu lýsingunum af verkum Gaudís gerði lærisveinn hans og rithöfundurinn sem ritaði ævisögu hans, Joan Bergós. Hann talaði um fimm tímabil í listaverkum Gaudís: undirbúningstímabilið, máríska tímabilið, tímabil þar sem hann var undir áhrifum gotnesks stíls, náttúru- og expressjónisma og tímabilið þar sem hann var undir áhrifum lífrænnar efnasmíði. Heimild. Gaudí, Antoni Fjörusverta. Fjörusverta (fræðiheiti: "Hydropunctaria maura") er flétta af fjörusvertuætt. Hún er ein algengasta flétta Íslands. Vaxtarskilyrði hennar er mikill raki en hún þrífst samt ekki undir vatnsyfirborði, því vex hún mest í fjörum og þá helst í þang- og klapparfjörum og myndar oft áberandi svart belti á klöppum rétt fyrir ofan mörk stórstraumsflóðs. Þar sem klappir eru sprungnar vex hún líka stundum upp fyrir megin svæði sitt eftir sprungum þar sem raki helst, sem gerir henni kleift að lifa svo hátt og myndar hún þá svartar rákir upp eftir sprungunum. Útlit. Fjörusvertan myndar örþunnt, fremur slétt, smásprungið kolsvart þal. Askhirslan eru af pyttlugerð og þrengir stútur þeirra sér oft upp fyrir yfirborðið svo sjá má örlitlar bólur á yfirborði hennar eftir þá. Fjörusvertubeltið. Efsta beltið í beltaflokkun fjara er kallað eftir fjörusvertunni, "fjörusvertubelti". Fáar fjörulífverur þrífast á fjörusvertubeltinu, sem er ofan við "þangbeltin" í fjörunni. Einna helst er það klettadoppa sem stundum er þar í talsverðu mæli og innan um fjörusvertuna og ofar á klöppum vex stundum einnig önnur fléttutegund, fjörukregða ("Lichina confinis). Breytt flokkun. Nýjar rannsóknir sem stuðst hafa við sameindafræðilegar aðferðir hafa breytt flokkun flétta af fjörusvertuætt í sveppakerfinu og tilheyra þær nú flokknum "Eurotiomycetes". Á ráðstefnu um fjörusvertuættina á Akureyri 2007 var svertuætt rannsökuð af alþjóðlegu teymi vísindamanna og í framhaldinu birt grein þar sem tveim nýjum ættkvíslum, "Hydropunctaria" og "Wahlenbergiella", var lýst innan ættarinnar. Báðar vaxa í vætu, ýmist við ferskvatn eða sjó. "Hydropunctaria" inniheldur margar tegundir sem vaxa við ferskvatn auk algengustu tegund ættarinnar, "fjörusvertu", sem vex í fjörum. Við þessa nýju ættkvíslaflokkun breyttist eldri greining fjörusvertunar og við það var latnesku heiti fléttunnar breytt úr "Verrucaria maura" í "Hydropunctaria maura". Smurbrauð. Smurbrauð eða smurt brauð (danska: "smørrebrød") er brauð, yfirleitt rúgbrauð, sem hefur verið smurt með smjöri, smjörlíki eða öðru viðbiti og álegg sett ofan á, svo sem ostur, lifrarkæfa eða pylsa. Smurbrauð getur verið aðalréttur, hluti máltíðar eða smáréttur milli mála og er mikilvægur þáttur í danskri matargerð. Smurbrauð varð til vegna þarfar til að neyta matar utan heimilis. Frá fornu fari þurftu smalar, bændur, veiðimenn og aðrir sem voru að vinnu langt frá heimilinu að taka með sér nesti og þá var handhægt að hafa með sér brauð og ýmiss konar álegg. Ekki er neitt sérdanskt við slíkt nesti og það var ekki fyrr en í lok 19. öld að danskt smurbrauð varð til í þeirri sérdönsku mynd sem það hefur í dag, þar sem áleggi er staflað á smurðar brauðsneiðar (d. "festsmørrebrød"). Er slíkt smurbrauð sá danski réttur sem þekktastur er utan Danmerkur. Þessar íburðarmiklu smurbrauðssneiðar voru fyrst bornar fram á smurbrauðsstofum í Kaupmannahöfn á 9. áratug 19. aldar og sést þeirra fyrst getið á matseðli veitingahússins Nimb í Tívolí 1883. Ein þekktasta danska smurbrauðsstofan var stofnuð af Oskar Davidsen, en á matseðli hans voru 178 mismunandi tegundir af smurbrauði þegar mest var. Hann var langafi hinnar þekktu smurbrauðsjómfrúar Idu Davidsen og er fimmta kynslóðin nú tekin við smurbrauðsstofu fjölskyldunnar. Mílanó meistaramót FSÍ 2012. Mílanó meistaramót í áhaldafimleikum 2012 var haldið 1. apríl 2012 af Fimleikafélaginu Björk í Íþróttamiðstöðinni Björk í Hafnarfirði. Keppt var til verðlauna í fjölþraut og á einstökum áhöldum í frjálsum æfingum. Hjá konum var keppt í kvenna- (16 ára+), unglinga- (13-15 ára) og stúlknaflokki (12 ára og yngri). Hjá körlum var keppt í karla- (19 ára+), unglinga- (15-18 ára) og drengjaflokki (14 ára og yngri). Teck. Teck er fjall fyrir vestan Svafnesku alpana í Þýskalandi og er tindur þess í 775 metra hæð yfir sjávarmáli. Á fjallinu er Teck-kastali sem er kastali Württemberg-ættarinnar. Borgirnar og þorpin Áa, Dettingen undir Teck, Nabern, Bissingen, Niðurlenningen og Brucken umkringja fjallið. Svafnesku alparnir. Svafnesku alparnir er fjallgarður í Suður-Þýskalandi. EDRi. EDRi eða European Digital Rights er evrópsk samtök um stafræn mannréttindi sem stofnuð voru í júní 2002. Nú eru 28 félög í EDRi í 18 löndum. Á Íslandi er félag um stafrænt frelsi (FSFÍ) aðili að EDRi. Einhverfa. Ljósmynd af rúmi þar sem einhverfur strákur hefur raðað leikföngum sínum eftir stærð. Einhverfa er taugafræðileg röskun á eðlilegum þroska sem kemur fram í skertri getu til félagslegra samskipta og tjáningar. Hvað er einhverfa. Einhverfa kemur ekki bara fram við þriggja ára aldur, börn geta líka fæðst með einhverfu og felur í sér mis mikla skerðingu í félagslegri virkni, greind, tilfinningatengslum og samskiptum við annað fólk og umhverfi sitt. Önnur helstu einkenni einhverfu eru einnig óeðlileg eða óæskileg hegðun eins og sjálfsörvandi hegðun sem er síendurtekin hegðun eins og rugg eða hlutum er snúið, áráttuhegðun, bergmál en það er þegar endurteknir eru hlutar af setningu eða heilar setningar sem aðrir segja annaðhvort strax eftir að setning heyrist eða eftir að ákveðinn tími hefur liðið, sjálfsskaðandi hegðun og mikil skapofsaköst. Börn með einhverfu tala oft í einum flötum tóni, sýna öðru fólki engin viðbrögð, sýna slakt eða ekkert augnsamband, skilja ekki félagslegar vísbendingar eins og svipbrigði eða líkamstjáningu. Magn einkenna og styrkleiki eru þó mjög einstaklingsbundin og einnig breytast þau hjá hverjum einstaklingi yfir tíma. Þroskahömlun og flogaveiki er algeng meðal barna með einhverfu. Margir einhverfir hafa einnig ADHD (athyglisbrest með ofvirkni). Dæmi eru um að einhverfa uppgötvist fyrir þriggja ára aldur einnig eru dæmi um að hún uppgötvist síðar á lífsleiðinni. Hugtakið einhverfuróf (autism spectrum) er notað til að að lýsa mismunandi einkennum, fjölda og mismunandi styrkleika einkenna einhverfunnar. Raskanir á einhverfurófi (autism spectrum disorders eða ASD) eru því mismunandi birtingarmyndir einhverfu. Einkenni einhverfu. Einkenni einhverfu eru misjöfn og mismikil milli einstaklinga. Oft eiga einhverfir einstaklingar erfitt með augnsamband, snertingu, tal og önnur samskipti. Áráttukennd hegðun og mikill áhugi á einhverju einu ákveðnu sviði eru einnig einkenni einhverfu. Það er því oft hægt að taka eftir þessum einkennum snemma í lífi fólks þar sem félagsfærni þeirra er ekki eins og hjá jafnöldrum. Það vantar frumkvæði til samskipta og viðbrögð við fólki geta verið einkennileg. Hægt er að skipta helstu einkennum einhverfu í fimm flokka, skert félagshæfni, skert tjáningargeta, áráttukennd hegðun, undarleg skynjun og óvenjuleg færni. Einhverfur strákur að stafla dósum Börn eru félagsverur og finnst gaman að leika við aðra. Einhverf börn eiga aftur á móti erfitt með samskipti við fólk. Sum forðast augnsamband, snertingu og vilja oft vera ein. Þó eru sum sem vilja faðmlög og snertingu. Einstaklingar með einhverfu eiga oft erfitt með að túlka svipbrigði og tilfinningu annarra. Þau gera sér því ekki grein fyrir hvort aðrir eru glaðir, reiðir og svo framvegis. Einnig eiga einstalingar með einhverfu erfitt með að setja sig í spor annarra. Í sumum tilfellum missa einhverfir stjórn á skapi sínu og geta þá ráðist á aðra eða meitt sjálfa sig. Þegar börn eru að byrja að læra að tala er fyrsta stigið að „babbla“ síðan segja eitt og eitt orð. Um tveggja ára mynda þau tveggja til þriggja orða setningar og svoleiðis heldur það áfram. Aftur á móti hjá einhverfum einstaklingi byrjar máltakan oft með „babbli“ en staðnar svo. Þau fara að segja eitt og eitt orð en eru töluvert seinni en jafnaldrar þeirra. Þau geta enn verið að læra málið 5-8 ára gömul, en sum læra aldrei að tala. Þeir sem ná að læra málið geta notað það á sérkennilegan hátt. Sumir endurtaka sömu orðin aftur og aftur. Enn aðrir raða orðunum í skringilega röð. Einhverf börn líta alveg eins út og öll önnur börn. Þau skera sig út úr með því að vilja hafa allt í röð og reglu. Vilja hafa sama skipulag dag eftir dag og helst ekki breyta neinu. Einhverf börn geta átt mjög erfitt þegar leik- eða grunnskóli fer í frí, því þá er ekki sama rútína og aðra daga. Einhverf börn geta líka eytt löngum tíma í að rugga sér fram og aftur eða endurtaka aðrar hreyfingar. Þessi endurtekning og þráhyggja gerir þeim erfitt fyrir að geta leikið sér í þykjustuleikjum s.s dúkkuleik eða bílaleik. Skynúrvinnslur einhverfra geta verið á einhvern hátt brenglaðar eða ruglingslegar. Sum verða ofurnæm fyrir einhverju tilteknu atriði svo sem hljóði, bragði og lykt. Einstaklingar geta átt erfitt með að vera í miklum hávaða, geta ekki klæðst vissum fötum eða borða ekki einhvern tiltekinn mat. Biluð ljósapera sem blikkar getur til dæmis valdið óstjórnlega mikilli vanlíðan. Þó nokkuð er talað um að einhverfir hafi sérstaka hæfileika. Það eru til dæmi um slíkt en það er þó ekki í langflestum tilfellum. Einhverf börn verða í sumum tilfellum á undan jafnöldrum sínum að læra að lesa, klár í að teikna, púsla og fleira. Einhverfir geta verið sérfræðingar á ákveðnum afmörkuðum sviðum, oft tímabundið. Orsakir einhverfu. Einhverfa var fyrst skilgreind af Leo Kanner árið 1943 þegar hann lýsti 11 börnum þar sem hegðun þeirra var mjög ólík hegðun annarra barna. Lengi var talið að orsökin lægi í uppeldinu, að mæðurnar væru kaldar og veittu börnunum ekki nægilega hlýju og umhyggju. Þær voru kallaðar ísskápsmæður. Nú hafa menn horfið frá þessari skýringu sem olli mörgum foreldrum verulegu hugarangri og samviskubiti og er nú talið að um taugafræðilega röskun sé að ræða af líffræðilegum toga. Orsökin er óþekkt þó flestir vísindamenn séu sammála um að orsökin sé erfðafræðilegs eðlis. Ljóst þykir að um einhvers konar röskun á heilastarfsemi sé að ræða. Hans Asperger benti á í skrifum sínum frá 1944 svipuð atriði og minnst er á hér að framan um hegðunarfrávik barna. Þessir tveir fræðimenn vissu þó ekki hvor af öðrum. Aspergerheilkenni sem er undirflokkur á einhverfurófi er kennt við hann. Álitið er að ekki sé eitt gen orsök vandans heldur sé um fjölgenavandamál að ræða, þannig að fleiri en einu ákveðnu geni sé um að kenna. Oft er sagt að orsökina megi rekja til bólusetningar við mislingum, rauðum hundum og hettusótt en hingað til hafa engar rannsóknir sýnt fram á að bólusetning orsaki einhverfu. Skert færni til að taka þátt í félagslegum samskiptum. Erfiðleikar í félagslegum samskiptum er eitt meginvandamál einstaklinga með einhverfu. Með þessu er átt við viðamikla erfiðleika sem valda verulegum vandamálum í daglegu lífi. Augntengsl, svipbrigði, líkamstaða eða hreyfingar eru notuð á annan hátt en venjulegt er. Oft eru samskipti einstaklings með einhverfu frábrugðin samskiptamáta annarra Stundum skilur hann ekki hvað um er að ræða. Hann gæti verið áhuglaus um samskipti við aðra. Sumir vilja gjarnan eiga vini en vegna félagslegrar hömlunar eiga þeir erfitt með mynda eða halda við samböndum við annað fólk. Þeir eiga gjarnan í erfiðleikum með að mynda augnsamband og vilja gjarnan vera einir. Börn með einhverfu eiga erfitt með að skiptast á í mun ríkari mæli en önnur börn sem gerir það að verkum að önnur börn hafna þeim í leik. Þau eiga erfitt með að setja sig í spor annarra eða einfaldlega að lesa í tilfinningar annarra og bregðast því oft við öðrum á óviðeigandi hátt. Margir upplifa skynjunarerfiðleika, þannig að þeir eiga erfitt með að þola snertingu og hljóð eða annað áreiti sem veldur því að þeir bregðast illa við til dæmis faðmlagi eða knúsi. Sérkennileg og áráttukennd hegðun veldur því oft líka að aðrir forðast þá. Lítil eða engin viðleitni er til að deila gleði afrekum eða áhugamálum með öðrum. Skert færni í máli og tjáskiptum. Málþroski er oft seinkaður og stundum talar barnið ekki. Geta til að halda uppi samræðum er skert. Oft notar barnið steglt eða sérkennilegt tal, kann ef til vill heilu frasana úr auglýsingum eða bíómyndum án þess að skilningur fylgi. Svo kallað bergmálstal er einnig algengt, barnið endurtekur það sem sagt er við það. Til dæmis ef barnið er spurt: „Viltu kex?“ þá svarar það „Viltu kex?“ Einnig sést oft sérkennileg orðanotkun eða barnið býr til ný orð yfir hluti. Stundum endurtekur barnið sömu setningu eða orð aftur og aftur. Eftirherma er skert sem þýðir að barnið hermir ekki eftir eins og önnur börn. Það á erfitt með að ímynda sér hluti og verður þá getan til þykjustuleikja skert eða hana vantar algerlega. Einstaklingar með einhverfu taka orð og setningar mjög bókstaflega og túlka ekki það sem sagt er. Sérkennileg og áráttukennd hegðun. Óvenjuleg hegðun hjá einhverfum veldur því oft að félagslegt samspil verður erfitt. Endurtekin hegðun getur komið fram í öllum líkamanum eða í líkamspörtum svo sem að veifa höndum í sífellu eða að rugga sér fram og aftur. Einnig getur það komið fram sem endurteknar athafnir með hluti svo sem að snúa hlutum í sífellu. Barnið gæti varið mörgum klukkutímum í að raða upp bílum eða snúa hjólum. Barn með einhverfu hefur oft óvenjuleg áhugamál. Það sýnir gjarnan ofsafengin áhuga á einum eða fleiri sviðum. Barnið gæti haft ofuráhuga á þvottavélum, lestum eða kirkjum. Einnig er oft áráttukennd þörf til að fylgja föstum venjum eða ritúölum. Þá er átt við sterka þörf fyrir að fara eftir ákveðnum föstum venjum sem oft þjóna engum skiljanlegum tilgangi Barn með einhverfu kemst kannski ekki í leikskólann nema fara ákveðna leið í kringum leiksvæðið áður en það kemur inn. Breytingar á þessum venjum veldur barninu mikilli vanlíðan þannig að barnið missir stjórn á hegðun sinni og fær „reiðikast“. Mikill munur getur verið á því hvernig þessir erfiðleikar koma fram hjá hverju barni. Helstu erfiðleikar flestra barna tengjast félagslegum samskiptum en meginvandamál annarra er ósveigjanleg hugsun. Greining. Oft eru það foreldrarnir sem taka fyrst eftir því að barnið þeirra þroskist ekki eins og önnur börn. Þeir hafa þá samband við lækni. Á Íslandi er einstaklingi vísað á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins ef grunur leikur á frávikum. Þegar einstaklingi er vísað í greiningu á Greiningarstöðina fær fjölskyldan ákveðinn tengil á Greiningarstöðinni. Fjölskyldan ræðir um greininguna og hvað annað sem upp kemur s.s. spurningar, fá niðurstöður eða fá upplýsingar um þjónustu við barnið og fjölskyldu þess. Í greiningarferlinu fara sérfræðingar yfir félagsfærni, málþroska, síendurtekna hegðun, þráhyggju og fleira. Sífellt er verið að leita leiða til að greina einhverfu fyrr en við þriggja ára aldur og er það stundum raunin. Einhverfa greinist ekki einungis hjá börnum, heldur einnig hjá fullorðnum einstaklingum. Rannsóknir. Niðurstöður rannsókna á skynjun og skynúrvinnslu barna á einhverfurófi sem hófust upp úr 1960, bentu til þess að truflun á skynjun væri algeng. Ýmist væru viðbrögð við áreiti lítil eða mjög yfirdrifin. Mismunandi fræðimenn unnu þessar rannsóknir svo sem sálfræðingar, taugalífeðlisfræðingar, iðjuþjálfar og uppeldisfræðingar. Á síðustu árum hefur rannsóknum á skynúrvinnslu fólks á einhverfurófi fjölgað til muna. Sýnt hefur verið fram á tengsl skynúrvinnslu og sérstakrar hegðunar. Rannsóknir í taugasálfræði og taugalífeðlisfræði ásamt frásögnum fólks á einhverfurófi sýna fram á að skynjun getur verið bjöguð. Þar sem dýpt er ranglega áætluð eða kyrrir hlutir virðast á hreyfingu. Skyn getur dottið út þar sem sjón eða heyrn getur horfið en birst aftur jafnskyndilega. Sérstök skynjun getur leitt til ánægjulegrar upplifunar og verið leið einhverfra einstaklinga til að einangra sig frá óþægilegum áreitum í umhverfinu, til dæmis með einkennilegri áráttukenndri hegðun eins og að rugga fram og til baka. Þáttur skynjunar er ekki inni sem eitt af grunngreiningarviðmiðum fyrir einhverfu. Rannsóknir hafa verið gerðar til að athuga hvort tilgátur um að bólusetning gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (MMR) geti verið ástæða þess að börn fái einhverfu. Í Finnlandi fór fram rannsókn á árunum 1982 – 1996 á börnum 14 – 18 mánaða og sex ára. Af þeim þremur milljónum skammta sem gefnir voru var ekki hægt að tengja neinn þeirra sem orsök einhverfu. Í Bretlandi var gerð rannsókn á 498 einstaklingum með einhverfu (einhverfa, frábrigðilega einhverfu og 71 með Aspergers heilkenni). Sama niðurstaða kom þar fram eða að ekki væri hægt að sanna orsök milli bólustningar (MMR) og einhverfu. Brjóstagjöf. Brjóstagjöf er það ferli þegar ungbarn nærist á brjóstamjólk sem það sýgur sjálft úr brjóstum mjólkandi konu, oftast móður sinnar, en ekki úr pela eða öðru íláti. Á meðgöngu myndast hormón sem örva mjólkurgöng og kirtla í bróstum konu og við fæðingu byrja brjóstin að framleiða þykkan gulan vökva, colostrum sem er fyrsta mjólkin. Þessi mjólk inniheldur enga feiti og lítið af kolefnum en hins vegar mótefni frá líkama móður. Þessi mótefni hjálpa ófullþroska ónæmiskerfi nýbura. Hvernig á að gefa brjóst. Þegar barn er lagt á brjóst þá skiptir miklu máli að hin nýbakaða móðir leggi barnið rétt á brjóst. Barnið þarf að opna munninn vel, tungan, neðri vör og hakan eiga að snerta brjóstið fyrst og liggja við ystu mörk vörtubaugsins. Geirvarta móður þarf að vísa upp í góm barns. Eitt gott ráð til þess að barnið taki brjóst rétt er að klípa um brjóstið, er stundum kallað hamborgaratakið. Ef móðir finnur fyrir sársauka þegar hún er búin að leggja barn á brjóst og það byrjað að sjúga þá er það merki um að barnið taki geirvörtuna ekki rétt. Þá þarf móðir að losa barnið af brjósti með því að setja fingur upp í munn barnsins. a> að drekkar úr brjósti móður sinnar Vandamál tengd brjóstagjöf. Í byrjun brjóstagjafar geta komið upp margs konar vandamál og þá er hægt að leita til smábarnaverndar eða starfsfólks ungbarnaeftirlit og fengið góð ráð. Vandmál sem geta komið upp eru meðal annars verkir, stálmi, sárar geirvörtur, sýking og hræðsla við að framleiða ekki næga mjólk til að fæða barnið. Eins getur of mikil mjólkurframleiðsla verið vandamál því þá upplifir konan mikinn þrýsting, stálmi getur myndast og meiri hætta er á brjóstabólgu. Verkir og sárar gervörtur geta myndast þegar barnið nær ekki réttu taki á geirvörtunni eða sýgur kröftuglega en flestir eru sammála um að það sé eðlilegt fyrstu vikuna. Viðmið er ef verkir vara lengur en fyrstu vikuna þá getur verið um frekari vandamál að ræða og þarf þá að leita til fagaðila. Of lítil mjólk er einn mesti áhrifavaldurinn á ánægju móður með brjóstagjöf og þá ákvörðun um að hætta með barnið á brjósti. Í flestum tilvikum er ráðið að gefa oftar brjóst til að auka framleiðslu mjólkur. Of mikil mjólkurframleiðsla er sjaldgæfari en of lítil mjólkurframleiðsla. Meðferð við þessum kvilla getur verið sú að móðirin mjólki sig áður en hún gefur barninu, annað ráð er að gefa annað brjóstið nokkrum sinnum í röð. Stálmi í brjóstum er talinn eðlilegur á fyrstu sex vikunum og telst ekki til vandamála. Ef brjóstin eru hins vegar hörð, geirvartan innfallin og verkir miklir er besta ráðið að losa reglulega vel úr brjóstinu, í mjaltavél eða láta barnið drekka vel úr því. Næring móður með barn á brjósti. Þegar móðir er með barn á brjósti deilir hún næringunni með barninu sínu. Óróleiki og svefnleysi barna getur stafað af fæðu sem móðirin hefur neytt og berst til barnsins með brjóstamjólkinni. Þó er ekki talið æskilegt að mjólkandi mæður forðist einhverjar ákveðnar fæðutegundir, heldur verður hver og ein að fylgjast með því hvort tenging sé milli óróleika barnsins og ákveðinnar fæðu sem móðirin hefur neytt. Þær fæðutegundir sem algengt er að valdi óróleika hjá börnum eru til dæmis hvítlaukur, laukur, sterkur og kryddaður matur og koffíndrykkir. Auðvelt er að fá næringasnauða orku úr óhollri fæðu en sú orka nýtist hvorki móður né barni, því er farsælast fyrir konur með barn á brjósti að neyta fjölbreyttrar fæðu og huga fremur að næringagildi fæðunnar heldur en að auka inntöku hitaeininga. Best er að borða litla skammta af próteinríkri fæðu á um það bil 2-3 stunda fresti. Brjóstamjólk er úr næringarefnum í blóðrás móðurinnar. Brjóstamjólk hefur rétt magn af fitu, sykri, vatni og próteini sem er nauðsynlegt fyrir vöxt barnsins. Við brjóstagjöf notar móðirin að meðaltali um 500 hitaeiningar á dag og það hjálpar henni að léttast eftir fæðingu. Næring samhliða brjóstagjöf. Almennt er talað um að fyrstu sex mánuðina þurfi börn enga aðra næringu en brjóstamjólk og jafnvel stundum talað um að önnur fæða sé lélegri kostur. Þegar börn eru orðin mánaðargömul er mælt með að þeim séu gefnir AD dropar eða önnur sambærilega olía sem inniheldur nauðsynlegar fitusýrur. Ef börn þurfa ábót við brjóstamjólkina fyrstu fjóra mánuðina er mælt með að gefa þeim ungbarnaþurrmjólk. Ef brjóstamjólkin dugar ekki til að metta barnið er kominn tími til að gefa fasta fæðu samhliða brjóstagjöf. Þá er ráðlagt að byrja á að gefa létta grauta, til dæmis vatnsblandaðan hrísmjölsgraut. Smá saman er farið að gefa fjölbreyttari fæðu og auka smátt og smátt við fæðuskamtana. Gott er að hafa barnið á brjósti þar til fæðan er orðin fjölbreytt og regluleg sé það mögulegt. Til eru margskonar upplýsingar um fæðutegundir sem henta vel fyrir ungabörn, því er gott að undirbúa sig og afla sér upplýsingar um hvaða fæðutegundir henta best fyrir ungabörn. Brjóstagjöf og getnaðarvarnir. Samkvæmt rannsóknum getur brjóstagjöf verið 98-100% örugg getnaðarvörn. Ef eitthvert af þessum skilyrðum er ekki uppfyllt er ekki hægt að treysta á brjóstagjöf sem getnaðarvörn en séu öll skilyrðin uppfyllt er talið að brjóstagjöf sé mjög örugg getnaðarvörn. Hægt er að taka getnaðarvarnarpillu sem hentar vel konum með barn á brjósti. Pillan heitir Cerazette og er gestagentafla sem inniheldur prógestagenið desógestrel. Að venja barn af brjósti. Þegar venja á barn af brjósti er gott að taka út eina gjöf í einu. Við það minnkar mjólkurframleiðslan smám saman og barnið fer að fá eina og eina máltíð í staðinn fyrir brjóstið. Hver móðir metur fyrir sig hvenær það hentar henni og barninu hennar að hætta brjóstagjöf. Fredrik Ljungberg. Fredrik Ljungberg (f. 16. apríl 1977) er sænskur knattspyrnumaður og karlkyns fyrirsæta. Hann hefur leikið víða til dæmis með Arsenal F.C., Glasgow Celtic og Seattle Sounders í Bandaríkjunum. Ljungberg, Fredrik Petr Korbel. Petr Korbel (fæddur 6. júní 1971 í Havířov, Tékkóslóvakíu) er tékkneskur borðtennisspilari. Neðanmálsgreinar. Korbel, Petr Upphlutur. Upphlutur er partur af íslenskum þjóðbúning kvenna. Upphluturinn er uppruninn úr undirfötum, ermalausum bol, faldbúningsins fyrir miðja 19. öld og einskonar lífstikki undir peysunni. Upplutur varð að lokum sjálfstæður búningur upp úr aldamótonum 1900. Var hann orðin útbreiddur á þriðja tug aldarinnar. Auðkúluheiði. Auðkúluheiði er heiði í Austur-Húnavatnssýslu og er næstaustust húnvetnsku heiðanna, á milli Eyvindarstaðaheiðar og Grímstunguheiðar. Hún nær frá drögum Svínadals og Blöndudals og suður að Kili og Hveravöllum, milli Hofsjökuls og Langjökuls, en það er um 60 kílómetra vegalengd. Í austri eru mörk heiðarinnar við Blöndu en í vestri við Miðkvísl og Búrfjöll. Kjalvegur liggur suður eftir heiðinni, sem fer smám saman hækkandi suður á bóginn en er víðast í 400-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún einkennist af lágum ásum og fellum en á milli þeirra eru flóar og vötn. Hún er greiðfær og vatnsföll fá og er víða ágætlega gróin. Þegar Blönduvirkjun var reist um 1990 myndaðist stórt miðlunarlón, Blöndulón, á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði, og fór þar mikið gróðurlendi undir vatn. Í staðinn hefur verið grætt upp töluvert land á heiðinni Heiðin tilheyrði áður Auðkúlu í Svínadal og dregur nafn af bænum. Matilde Camus. Aurora Matilde Gómez Camus, betur þekkt sem Matilde Camus, (26. september 1919 í Santander – 28. apríl 2012 í Santander) var spænskt skáld. Tengill. Camus, Matilde Boardmaker. Boardmaker er forrit og myndrænn gagnagrunnur sem notað er við óhefðbundnar tjáningarleiðir til samskipta við þá sem ekki geta nýtt sér ritmál og talmál. Með forritinu fylgja þúsundir samskiptatáknmynda sem eru bæði svarthvítar og í lit. Boardmaker er notað sem kennsluforrit fyrir alla aldurshópa og í ýmsum námsgreinum, í sérkennslu, á sambýlum, á heilbrigðisstofnunum og á heimilum. Boardmaker Plus! Boardmaker Plus! forrit gefur ný tækifæri til að styrkja nemendur, það er tungumál, nám og samskiptafærni. Það felur í sér fimmtán sérhönnuð mismunandi þemu fyrir kennara og nemendur og þau gefa fleiri valkosti og valmöguleika. Með Boardmaker Plus er hægt að gera á auðveldan hátt mismunandi áætlanir. Þetta auðveldar nemendum að hafa gaman af námi sínu þar sem hægt er að nota mismunandi form svo sem hreyfimyndir, hljóð, vídeó og margt fleira. Aðgerðir og virkni í Boardmaker. Boardmaker má nota til m.a. að Verjamem. Verjamem er framlag Slóveníu til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2012. Lagið keppti í undankeppni þann 24. maí og komst ekki áfram. Í undankeppnini náði lagið aðeins í 17. sæti með einugis 31 stig sem komu flest frá nágrannalöndum Slóveníu. Krýsuvík. Krýsuvík, oft einnig (ranglega) ritað Krísuvík, er fornt höfuðból sunnan við Kleifarvatn sem lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands. Þar er stórbrotið landslag sem mótað er af umbrotum og jarðeldum, og er það vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Áhugavert er að skoða sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn. Og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg sem er fuglabjarg niðri við ströndina, þar verpa um 57.000 sjófuglapör aðallega rita og svartfugl. Þar verpir einnig nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Í Krýsuvík er mikið um gamlar gönguleiðir sem áhugavert er að skoða. Jarðhitasvæði Krýsuvíkur. Helstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverhlíð, Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi. Þar má sjá gufustróka sem stíga til himins og sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og Hverahvammar sem skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell og eru hverasvæðin mjög ólík. Hveravirknin er samfelldust í Hveradölum og við Seltún með gufuhverum og leirhverum. Á þessum stað er mikið um brennisteinshveri og er hæsti hiti í borholum um 230°c en ekki hefur verið borað dýpra en 1200m. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær norður í Kleifarvatns. Á þessari hitarák eru sprengigígjar sem gosið hafa gjalli. Stærsti gígurinn er um 100 m í þvermál og er staðsettur norðaustur af Stóra-Lambafelli. Við Kleifarvatn er ein 600 m djúp borhola og þar er hæsti hitinn um 160°c. Hveravirknin í Trölladyngju er frekar dauf. Þar eru tveir hverir, gufur með brennisteini, hverasprengigígur og hitaskellur í Oddafelli. Á gossprungunum eru miklir gall- og sprengigígjar. Mesta jarðvegsbreytingin er í Sogum þar sem mikið af svæðinu eru ummyndað í klessuleir, þar eru líka miklir sprengigígjar allt frá fornöld og er ennþá í dag vatn í sumum. Tvær borholur eru í Trölladyngju, báðar um 260°c heitar ofarlega en önnur kólnar eftir því sem neðar er farið. Dýpri holan endar í 320°c á rúmlega tveggja km dýpi. Uppruni nafnsins. Sagt er frá í þjóðsögu að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landmerki við nágrannakonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Þær töldu sig báðar vera beittar órétti og ákváðu að skera úr í deilimáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Þær komu saman um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær mættust síðan á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en samið var um. Þær tóku að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Þessi saga um landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í hinum ýmsu myndum. Hrísmjöl. Hrísmjöl er fínmalað mjöl úr hrísgrjónum, ýmist hvítum eða brúnum. Það er glútenlaust og hentar því vel í kökur, grauta og annan mat fyrir þá sem þola illa hveiti og annað korn sem inniheldur glúten. Úr því eru gerðir grautar sem þykja henta vel handa ungbörnum. Það er sterkjuríkt og er því einnig notað til þykkingar í sósur og fleira. Úr hrísmjöli eru líka gerðar hrísgrjónanúðlur, pönnukökur og ábætisréttir eins og japanskt "mochi" og filippínskt "cascaron". Kristín Guðbrandsdóttir. Kristín Guðbrandsdóttir (1574 – 1. október 1652) var íslensk kona á 16. og 17. öld, húsfreyja í Ögri við Ísafjarðardjúp og kona Ara Magnússonar bónda þar. Kristín var dóttir Guðbrandar Þorlákssonar biskups á Hólum og Halldóru Árnadóttur konu hans. Síðsumars 1594 kom Ari í Ögri, sem var þá einn helsti höfðingi landsins og hafði erft mikinn auð við lát föður síns um vorið, til Hóla með fríðu föruneyti til að biðja Kristínar. Biskup mun hafa tekið því dræmt því hann átti í útistöðum við Jón lögmann, föðurbróður Ara. Sagt er að Ari hafi þá riðið á brott en Kristín hafði séð hann út um glugga á biskupssetrinu og litist vel á manninn og þegar faðir hennar sagði henni hvert erindi hans hefði verið gat hún talið hann á að láta senda eftir biðlinum aftur. Var kaupmáli þeirra gerður á Hólum 22. september 1594. Ari lofaði við það tækifæri biskupi að vera börnum herra Guðbrands til styrks og forsvars utanlands og innan, hvað honum er mögulegt og við hverja, sem er að eiga. Ekki þótti Ari þó efna það loforð vel. Kristín var sögð hin mesta ágætiskona. Þau Ari bjuggu alla tíð í Ögri, voru gift í nærri 60 ár og dóu með tíu daga millibili árið 1652. Þau eignuðust fimm börn, Magnús sýslumann á Reykhólum, Þorlák bónda í Súðavík, Halldóru húsfreyju á Þingeyrum, Helgu, sem dó ógift og Jón, prófast í Vatnsfirði. Kristín gerði testamentisbréf (erfðaskrá) 25. nóvember 1632 og er þar talið upp mikið af kvensilfri og einnig hannyrðum. Ári síðar gaf hún Þorláki syni sínum bækur, 30 hundraða virði, sem hún átti á Hólum og hefur erft eftir Guðbrand biskup, sem þá var dáinn fyrir nokkrum árum. Kristín Gottskálksdóttir. Kristín Gottskálksdóttir (d. 14. apríl 1578) var íslensk kona á 16. öld, húsfreyja á Möðruvöllum í Eyjafirði og síðar á Geitaskarði í Langadal. Hún var óskilgetin dóttir Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups, sem kallaður var hinn grimmi, og Valgerðar Jónsdóttur frá Mannskaðahóli á Höfðaströnd. Hálfsystkini hennar voru Oddur Gottskálksson lögmaður og Guðrún Gottskálksdóttir. Kristín hefur líklega verið fædd um 1490. Hún giftist 3. september 1508 Þorvarði Erlendssyni lögmanni, sem þá var rúmlega fertugur, og var hún seinni kona hans. Þorvarður lést í Noregi 1513. Þau áttu eina dóttur, Margréti húsfreyju á Fitjum í Skorradal, sem þó er í sumum heimildum talin dóttir fyrri konu Þorvarðar. Kristín giftist aftur 21. janúar 1515 Jóni Einarssyni sýslumanni á Geitaskarði í Langadal og bjuggu þau þar uns Jón dó 1534. Kristín var þar áfram hjá Agli syni þeirra og síðan ekkju hans og börnum. Hún náði háum aldri og hefur líklega verið farin að nálgast nírætt þegar hún lést því það var tæpum 70 árum eftir að hún giftist fyrri manni sínum. Hún var sögð hin ágætasta kona. Önnur börn þeirra Jóns voru Kristín, húsfreyja í Vík í Skagafirði, Guðrún, sem giftist Erlendi Þorvarðarsyni, stjúpsyni móður sinnar og var miðkona hans, Ólafur, sem bjó í Snóksdal og var kvæntur Steinunni ekkju séra Björns Jónssonar á Melstað, og Gottskálk prófastur í Glaumbæ. Fjörusvertuætt. Fjörusvertuætt (fræðiheiti: "Verrucariaceae"), einnig kölluð "svertuætt", er ætt flétta af fjörusvertubálk. Svertuætt er stór ætt sem aðallega inniheldur fléttumyndandi sveppi. Um 750 tegundir í 45 ættkvíslum eru taldar tilheyra henni og af þeim hafa um 70 tegundir af tíu ættkvíslum fundist á Íslandi. Hefðbundin flokkun ættkvísla innan ættarinnar byggist einkum á þremur einkennum, þ.e. þverveggjum gróa, útliti þals og því hvort þörungafrumur séu í gróbeði. Þær þroska aska í skjóðum á meðan flestar aðrar fléttur eru disksveppir ("discomycetes"). Mismunandi tegundir. Þótt flestar tegundir af fjörusvertuætt myndi fléttur, eru innan ættarinna tegundir sem vaxa á öðrum fléttum, svokallaðir fléttuháðir sveppir en þeir eru annaðhvort sníklar á fléttunni eða samnýta þörunga hennar. Sérkennilegust er þó þangblaðögn ("Mycophyscias ascophylli") en sú tegund vex á klóþangi og er jafnvel talið að um sambýli milli sveppsins og brúnþörungsins sé að ræða. Tegundir svertuættarinnar skera sig frá öðrum fléttum meðal annars að því leyti að þær lifa fyrst og fremst á votu búsvæði eins og votum klettum smálækja eða á ströndum stöðuvatna og vatnsfalla og í fjörum. Þar á meðal vex ein þeirra, "grænsverta", á klöppum og steinum undir sjávarborði og koma eingöngu úr kafi á fjöru. Vísindaleg flokkun. Fléttur af fjörusvertuætt eru að mörgu leyti ólíkar öðrum fléttum og var vísindaleg flokkun þeirra á reiki uns þær voru með hjálp sameindafræðilegra aðferða staðsettar í flokki "Eurotiomycetes" sveppa. Á ráðstefnu um fjörusvertuættina á Akureyri 2007 var svertuætt rannsökuð af alþjóðlegu teymi vísindamanna og í framhaldinu birt grein þar sem tveim nýjum ættkvíslum, "Hydropunctaria" og "Wahlenbergiella", var lýst innan ættarinnar. Báðar vaxa í vætu, ýmist við ferskvatn eða sjó. "Hydropunctaria" inniheldur margar tegundir sem vaxa við ferskvatn auk algengustu tegund ættarinnar á Íslandi, fjörusvertu, sem vex á rökum fjöruklöppum. Aðrar tegundir sem vaxa í fjörum virðast tilheyra "Wahlenbergiella" eins og grænsverta ("Wahlenbergiella mucosa"). Við þessa nýju ættkvíslaflokkun var meðal annars fræðiheiti "fjörusvertu" breytt úr "Verrucaria maura" í "Hydropunctaria maura". Framhaldsskólar í Reykjavík. Framhaldsskólar í Reykjavík eru skólar staðsettir í Reykjavík sem bjóða menntun að loknu grunnskólaprófi á námsbrautum sem eru styttri starfsnámsbrautir eða stúdentspróf.Samkvæmt lögum eiga nemendur sem að lokið hafa grunnskólaprófi rétt á sækja nám á framhaldsskólastigi. Nemendur sem hafa útskrifast með stúdentspróf úr framhaldsskóla geta sótt um nám í háskóla á Íslandi og erlendis. Flestir nemendur í hefðbundnu námi í framhaldsskólum í Reykjavík eru á aldrinum 16 til 19 ára en við suma skóla eru einnig öldungadeildir, kvöldskólar eða fjarnámsbrautir. Menntamálaráðuneytið gefur út aðalnámskrá fyrir framhaldskóla landsins sem þeim ber að fara eftir. Í aðalnámskránni kemur fram hvaða námskröfur eru gerðar til nemenda og einnig eru settar kröfur um framvindu í námi. Aðalnámskrá er í stöðugri endurskoðun og eru breytingar á henni tilkynntar í Stjórnartíðindum. Alþingi hefur sett fram lög um þá menntastefnu sem krafist er af skólastigum landsins. Árið 2011 voru skráðir nemendur á framhalds- og viðbótarstigi eftir framhaldsskólum.Menntaskólinn í Reykjavík Barnaverndarstofa. Veita börnum móttöku í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika. Greina vanda barna sem talin eru þurfa sérhæfða meðferð. Veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota. Vatnshjól. Vatnshjól er vél sem breytir vatnsafli, orkunni úr fljótandi eða fallandi vatni, í nýtilega orku. Eins og nafnið gefur til kynna er vatnshjólið í reynd hjól sem er komið fyrir lóðrétt á láréttum öxli, þannig að það kemst í snertingu við fljótandi eða fallandi vatn. Út af hjólinu standa blöð eða eins konar fötur eða ílát sem vatnsstraumurinn knýr svo áfram þannig að hjólið snýst og orka verður til. Vatnshjól voru algeng í Evrópu og Norður-Ameríku á tímabili Iðnbyltingarinnar, sér í lagi frá byrjun 19. aldar. Tilraunir breska verkfræðingsins Johns Smeaton (1724-1792) juku mjög á skilvirkni vatnshjóla. Þal. Þal (e. "Thallus") er nefndur líkami þelinga ("Thalliophyta"). Þal er einfaldur líkamsvefur úr einni eða fleiri frumum þörunga, sveppa, flétta, skófa og stundum gerla, sem ekki eru með eiginlegan plöntulíkama eins og háplöntur, það er rót, stöngul, blöð né leiðsluvef til að flytja vatn og næringarefni um líkaman. Þótt þal hafi hvorki líkams- né líffærabyggingu háplantna þá getur það skipst í sambærilega líffærahluta hjá ýmsum þelungum og gengt mismunandi hlutverkum. Til dæmis hefur þal þara fót, sem eru sívalir festusprotar sem festa þarann við fast undirlag, upp af honum kemur stilkur og á efri enda stilksins situr stórt blað sem sinnir ljóstillífun, líkt og laufblöð háplantna gera. Alþingi gegn Geir H. Haarde. Alþingi gegn Geir Hilmari Haarde (Landsd. 3/2012.) var fyrsta og eina málið sem rekið hefur verið fyrir Landsdómi á Íslandi. Málið var höfðað með ályktun Alþingis 28. september 2010 og formlegri ákæru saksóknara Alþingis 10. maí 2011. Í ákæru var Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra Íslands, gefið að sök að hafa með refsiverðum hætti sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins um haustið 2008. Landsdómur hafði aðsetur í Þjóðmenningarhúsinu og þar fór aðalmeðferð málsins fram 5. til 16. mars 2012. Dómur féll í málinu 23. apríl 2012 með sakfellingu í þeim ákærulið sem sneri að stjórnarskrárbundinni skyldu forsætisráðherra til þess að halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg málefni en sýknu að öðru leyti. Geir var ekki gerð sérstök refsing í málinu. Félix d'Herelle. Félix d'Herelle (1873 – 1949) var kanadískur örverufræðingur. Hann er þekktastur fyrir að uppgötva bakteríuveirur. Hann hélt því fram að hann væri læknir þrátt fyrir að vera ekki læknamenntaður. Neðanmálsgreinar. D'Herelle, Félix Bruce Jenner. William Bruce Jenner (f. 28. október 1949) er bandarískur frjálsíþróttamaður sem varð gullhafi í fjölþraut á sumarólympíuleikunum í Montreal 1976. Fosssel. Eyðibýli á vestanverðri Fljótsheiði í Þingeyjarsveit í Þingeyjarsýslu. Fosssel var öldum saman hjáleiga og heimaland kirkjunnar á Helgastöðum í Þingeyjarsveit (Reykjadal, áður Helgastaðahreppi). Talið er líklegt að Fosssel hafi byggst snemma á öldum, en ekki vitað nákvæmlega hvenær það byggðist fyrst. Var byggð þar nokkuð samfelld, einkum á átjándu, nítjándu og tuttugustu öld. Síðustu ábúendur í Fossseli voru hjónin Hólmgeir Björnsson og Guðfinna Sigurjónsdóttir. Þau fóru úr Fossseli vorið 1936. Hefur jörðin ekki verið í byggð síðan. Hún hefur verið notuð til skógræktar allt frá miðri tuttugustu öld. Jörðin er í eigu ríkisins. Klóþang. Klóþang (fræðiheiti: "Ascophyllum nodosum") er stór brúnþörungur af þangætt ("Fucaceae") og er eina tegundin í ættkvíslinni "Ascophyllum". Útbreiðsla. Klóþang vex eingöngu í fjörum og er algengt við strendur Norður-Atlantshafsins. Í Evrópu frá Svalbarða til Portúgals, Norðausturströnd Norður-Ameríku, austurströnd Grænlands og kringum Ísland. Á Íslandi vex engin annar botnþörungur í eins miklu magni. Það geta verið allt að 10-20 kg af Klóþangi á hverjum fermeter að jafnaði í skjólgóðum þangfjörum og setur það því mjög svip sinn á slíkar fjörur. Klóþang hefur ekki góða botnfestu og rifnar því oft upp í brimi, því er það óalgengt í hnullungafjörum fyrir opnu hafi og skjóllitlum sandfjörum en mjög algengt í skjólgóðum þangfjörum þar sem það myndar yfirleitt mjög breitt þangbelti þvert á fjöruna sem kennt er við það og kallað klóþangbelti. Útlit. Klóþang er ólífugrænt á litinn en þar sem það fær að liggja einhvern tíma í fjörum fær það yfirleitt á sig gulbrúnan lit. Það festir sig við botnlag og upp af festunni vex kvíslgreind plantan, með stakar loftfylltar bólur á blöðkum svo það flýtur upp á flóði en legst niður á fjöru. Stilkarnir eru um einn cm á breidd og plantan sjálf er oftast 50 cm til einn metri á lengd en getur orðið allt að tveimur metrum. Almennt. Klóþang vex mjög hægt og verður mjög gamalt miðað við aðra fjöruþörunga, sem flestir verða aðeins fárra ára gamlir og sumir eru bara einærir en algengt er að Klóþang verði um 10-20 ára gamalt en talið er að það geti náð allt að 100 ára aldri við góð skilyrði. Þar sem það vex svona hægt þá ef það er fjarlægt að stóru svæði fjörunnar tekur mörg ár fyrir það að ná sér aftur. Fljótvaxnari tegundir eins og bóluþang ("F. vesiculosus") tekur sér þá yfirleitt bólfestu á viðkomandi svæði á meðan en hopar svo fyrir klóþanginu. Margar lífverur lifa á klóþanginu beint eða óbeint, enda myndar það heilu skógana í skjólgóðum fjörum. Flestar þessar lífverur lifa þó annað hvort á þanginu eða í skjóli þess en ekki með því að éta það sjálft. Eitt nánasta sambýlið er við þangskegg ("Polysiphonia lanosa"), allstóran rauðþörung sem samsettur er úr greindum rauðum þráðum og dregur hann nafn sitt af því að þræðirnir líta oft út eins og skegg. Þangskegg vex eingöngu á klóþangi og hvergi annarstaðar. Hann er samt ekki snýkill á klóþanginu heldur nýtir það eingöngu sem setstað. Ekki er vitað hví þangskegg velur eingöngu klóþangið til að festa sig á en stundum er svo mikið af því að að varla sést í klóþangið sjálft fyrir þangskeggnum. Eins lifa mörg mosadýr og hveldýr á klóþanginu sem og sníglar eins og þangdoppur ("Littorina obtusata") og flær eins og þangflóin ("Hyale nilssoni"). Ýmsir aðrir þörungar vaxa á „skógarbotninum“ undir og í skjóli við klóþangið, sem dæmi steinskúfurinn ("Cladophora rupestris"). Nytjar. Þang eins og klóþang er víða nytjað til alskonar framleiðslu. Hér á landi er það skorið í stórum stíl við við Breiðafjörð og vinnur þörungaverksmiðjan á Reykhólum úr því þangmjöl sem að mestum hluta er flutt út. "„Þykkaþang og ætiþang er Funcus dichotomus, caule et vesiculis coriacis crassissimis [klóþang]. Afbrigði af því fannst 1761. Það er ljósbrúnt eða gulleitt, og eta fátæklingar það í hallærum. Þá er það saxað niður og soðin úr því grautur í vatni og brotinni sýru. Í hann er látið lítið eitt af méli, ef til er.“" Gehrenberg. Gehrenberg er fjall í Baden-Württemberg í Þýskalandi. Y (bær). thumb Y er bær í Picardy í Frakklandi. Þar búa 86 manns (2006). Saint-Remy-en-Bouzemont-Saint-Genest-et-Isson. thumb Saint-Remy-en-Bouzemont-Saint-Genest-et-Isson er bær í Champagne-Ardenne í Frakklandi. Þar búa 588 manns (2009). Þóra Arnórsdóttir. Þóra Arnórsdóttir (f. 18. febrúar 1975) er íslenskur fjölmiðlamaður og var frambjóðandi í forsetakosningum 2012. Hún hefur starfað sem fréttamaður á RÚV, verið aðstoðarritstjóri Kastljóssins og annar spyrillinn í spurningaþættinum Útsvari. Þann 4. apríl 2012 tilkynnti hún forsetaframboð sitt gegn sitjandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni. Þóra er með B.A. gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í alþjóðastjórnmálum og þróunarhagfræði frá Johns Hopkins Paul H. Nitze School of Advanced International Studies, Bologna, Ítalíu og Washington, D.C., Bandaríkjunum. Þóra á þrjú börn með sambýlismanni sínum Svavari Halldórssyni, sem er einnig fréttamaður hjá RÚV. Faðir Þóru er heimspekingurinn Arnór Hannibalsson. Wisentgehege Springe. Wisentgehege Springe er dýragarður í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Ísraelska safnið. Ísraelska safnið (hebreska: מוזיאון ישראל, ירושלים, Muze'on Yisrael, Yerushalayim) er minjasafn í Jerúsalem. Það var stofnað árið 1965 sem Þjóðminjasafn Ísraels. Safnið er staðsett á hæð í Jerúsalem Givat Ram, nærri Biblíulanda safninu, Knesset, hæstarétt Ísraels og Hebreska háskólanum í Jerúsalem. Mercè Rodoreda. Merce Rodoreda (1908 í Barcelona – 1983 í Girona) var katalónskur rithöfundur á eftirstríðsárunum. Zoran Miljkovic. Zoran Miljkovic er sigursælasti erlendi leikmaðurinn á Íslandi enda varð hann Íslandsmeistari fimm ár í röð með ÍA og ÍBV. Hann hefur þjálfað í neðri deildunum í Serbíu undanfarin ár. The Unit (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "The Unit" var frumsýnd 7.maí 2006 og sýndir voru 13 þættir. The Unit (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "The Unit" var frumsýnd 9. september 2006 og sýndir voru 23 þættir. 2 Broke Girls. 2 Broke Girls (stundum skrifað 2 BROKE GIRL$) er bandarískur gamanþáttur sem var frumsýndur á CBS-sjónvarpsstöðinni í september 2011. Þættirnir fylgjast með misheppnuðum ævintýrum herbergisfélaganna Max og Caroline, sem báðar hafa bága fjárhagsstöðu, og raunum þeirra við að stofna bollakökufyrirtæki í Williamsburg-hverfinu í Brooklyn, New York. Þættirnir voru búnir til af Michael Patrick King og Whitney Cummings fyrir Warner Bros. Television. Þann 5. október 2011 gerði CBS-sjónvarpsstöðin samning um heila þáttaröð fyrir þennan nýja gamanþátt. Þættirnir unnu verðlaunin "Uppáhalds nýi sjónvarps-gaman-þátturinn" á 38. áhorfendaverðlaununum (e. "People's Choice Awards") Þann 14. mars 2012 tilkynnti CBS að samið hefði verið um aðra þáttaröð af "2 Broke Girls" sem verður sýnd 2012-2013. Umfjöllun. Þættirnir gerast í Williamsburg-hverfinu í Brooklyn-hluta New York borgar og snúast um líf tveggja gengilbeina á þrítugsaldri: Max (Kat Dennings), sem kemur úr fátækri fjölskyldu, og Caroline (Beth Behrs) sem fæddist inn í ríka fjöldkyldu en hefur tapað öllum auð sínum vegna þess að faðir hennar, Martin Channing, var gripinn við peningasvindl, og vinna þær saman á veitingastað í Brooklyn. Þær verða vinkonur og reyna að láta draum sinn rætast um að einn daginn muni þær opna bollaköku-bakarí. Á meðal þeirra sem vinna með þeim á veitingastaðnum er yfirmaðurinn, Han Lee (Matthew Moy); Oleg (Jonathan Kite), hress en kynferðislega áreitinn úkraínskur kokkur; og Earl (Garrett Morris), 75 ára gamall svartur gjaldkeri. Önnur persóna sem kemur seint í fyrstu þáttaröðinni er nágranninn og annar yfirmaður þeirra, Sophie (Jennifer Coolidge), pólskur innflytjandi sem rekur hreingerningafyrirtækið "Sophie's Choice". Í meirihluta fyrstu þáttaraðar er Max einnig barnfóstra í hlutastarfi hjá Peach Landis (Brooke Lyons), sem ættleiðir hestinn hennar Caroline, Chestnut. Við lok hvers þáttar er sýnd sú upphæð sem þær hafa safnað til að ná takmarki sínu, en þær þurfa 250.000 dali til að opna fyrirtækið sitt. Hannes Bjarnason (1971). Hannes Bjarnason (fæddur 25. apríl 1971) er menntaður landfræðingur og forsetaframbjóðandi fyrir forsetakosningarnar 2012. Hannes er fæddur og uppalinn í Eyhildarholti í Skagafirði. Hannes lauk stúdenstprófi frá Framhaldsskólanum á Laugum í Reykjadal og eftir það lagði hann stund á landafræði við Háskóla Íslands og svo seinna Høgskolen i Telemark og útskrifaðist með BS próf. Þá hefur hann stundað nám við Handelshøgskolen BI í Osló þar sem hann hefur lagt stund á Master of Management. Í marsmánuði 2012 tilkynnti hann um forsetaframboð sitt í fréttablaðinu Feyki sem kemur út á Sauðárkróki. Eiginkona Hannesar er Charlotte Kvalvik og eiga þau eina dóttur saman en Hannes átti tvö börn úr fyrra sambandi og Charlotte eitt. The Unit (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af "The Unit" var frumsýnd 25. september 2007 en vegna verkfalls handritshöfunda þá voru aðeins 11 þættir gerðir. Gormahreiðrið. Gormahreiðrið (franska: "Le nid des marsupilamis") er tólfta bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1960. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var önnur Svals og Vals-bókin sem gefin var úr íslensku, árið 1978. Aðalsaga bókarinnar er óvenjuleg að því leyti að hún fjallar að langmestu leyti um Gormdýrið en Svalur og Valur eru í aukahlutverkum. Söguþráður. Titilsagan, "Gormahreiðrið", birtist í tímaritinu Sval á árunum 1956-57 og hefst ævintýrið strax að lokinni sögunni um Sval og górilluapana. Valur væntir þess að frásögn hans af ferðinni á górilluslóðir rati í útbreitt tímarit, en verður fyrir vonbrigðum þar sem grein ungrar blaðakonu er tekin fram yfir sögu hans. Blaðakonan reynist vera Bitla, sem býður félögunum á frumsýningu kvikmyndar sinnar um Gormdýrið. Sagan lýsir svo lifnaðarháttum Gormsins í regnskógum Palombíu, útistöðum við blettatígur, makaleit og stofnun fjölskyldu. Bitla er sögumaður bókarinnar, en inn á milli er frásögnin rofin með því að sýna undirtektir gesta kvikmyndahússins. Seinni saga bókarinnar, "Bófaslagur" (franska: "La foire aux gangsters") birtist fyrst á tímaritsformi árið 1958. Torkennilegur Japani "Soto Kiki" bankar upp á hjá Sval og Val og byrjar að glíma við þá upp úr þurru. Honum gengur þó ekki illt til, heldur kynnir sig sem lífvörð auðkýfingsins "Johns P. Nut", sem sé væntanlegur í ferð til Evrópu. Óttast sé að missyndismenn úr flokki glæpaforingjans "Caspianos" vilji ræna syni hr. Nut og eru Svalur og Valur því ráðnir til hjálpar, að undangenginni kennslu í júdó. Fáeinum dögum síðar hringir Soto Kiki í Sval og færir honum þær fréttir að hr. Nut sé kominn til landsins, syninum hafi verið rænt eins og óttast var og að þrjótarnir starfi sem hnefaleikamenn í fjölleikahúsi. Símtalið rofnar skyndilega þegar ekið er á bifreið þess japanska og hann lendir á sjúkrahúsi. Svalur flýtir sér í fjölleikahúsið, þar sem hann hittir Viggó viðutan, sem kemur nærri upp um hann. Eftir nokkra leit sér Svalur hvar einn þrjótanna er að sinna ungabarni. Svalur höfðar til samvisku hans og flýr með barnið í körfu. Hinir þrjótarnir elta hann án árangurs. Þeir hitta hins vegar Viggó og reyna að fá hann til að leiða sig til Svals, en lögreglan hefur hendur í hári þeirra allra og stingur þeim í fangelsið og Viggó þar á meðal. Í ljós kemur að auðkýfingurinn John P. Nut reynist tilbúningur og að ungabarnið var í raun sonur milljónamæringsins "Honeysuckle", sem hafði verið rænt skömmu áður. Júdómeistarinn Soto Kiki hafði því einnig verið glæpamaður sem hugðist notfæra sér Sval og Val til að fá drenginn í sínar hendur og hirða lausnargjaldið. Íslensk útgáfa. Bókin Gormahreiðrið var gefin út af Iðunni árið 1978 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var önnur bókin í íslensku ritröðinni. Skeggjastaðir. Skeggjastaðir er landnámsjörð og lögbýli í Mosfellsbæ austarlega í Mosfellsdal á vinstri hönd skömmu eftir að komið er að Gljúfrasteini. Heildarstærð er um 416 ha. Jörðin er landnámsjörð á höfuðborgarsvæðinu, í 15 – 20 mín. akstri frá Reykjavík. Landið nam Þórður skeggi Hrappsson landnámsmaður en hann hélt til íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar og nam land á milli Leirvogsár og Úlfarsárs (Korpu). Þórður skeggi bjó að Skeggjastöðum og frá honum er margt stórmenni komið. (heimild – Landnáma) Landkostir. Skeggjastaðir liggja norðan Þingvallavegar austarlega í Mosfellsdal. Landið afmarkast af Leirvogsá til norðurs, Stardal til austurs, Laxnesi og Minna Mosfelli til vesturs og Selvangi/Selholti til suðurs. Landið er að mestu mólendi og sæmilega gróið en hluti landsins eru grasflatir. Útsýni af landinu er ýmist til fjalla eða sjávar. Á landinu er Leirtjörn þar sem fólk getur farið í lautarferð, róið bátum og rennt fyrir silung. Reiðleiðir eru um svæðið sem tengjast þekktum og vinsælum reiðleiðum í nágrenninu. Landamerki. Fyrst nefni ég stóran stein útá Skeggjastaðamóum sem er landamerkjasteinn milli Skeggjastaða og Minna Mosfells og tekin bein stefna úr honum til norðurs vestan til yfir háa-leiti og norður að Leirvogsá, svo til suðurs frá fyrnefndum steini og að Hestbrekknaskygnir og svo í þúfu sem er vestan til á bringnabrúninni svo úr þúfunni og í svonefnda Skógarvörðu sem stendur á mörkum milli Laxness og Skeggjastaða, og er jarðarmark og svo til austurs að steini sem gjörður var að hornmarki árið 1889 milli Laxness og Skeggjastaða við Stóra-Mosfells land, svo er stefnan til norðurs að Leirtjörn og yfir um hana í skurð sem liggur til norðurs og suðurs, sunnan undir langahrygg og úr þeim skurði í stein með tveimur klofningum sem stendur á langahrygg og svo beina stefnu úr honum til norðurs í hól einstakan sem stendur á eyrunum fyrir norðan Leirvogs og kallaður er Rípur. Fyrir hönd Nikulásar Jónssonar Í Norðurkoti, eiganda að Minna-Mosfelli. Vegna Stóra-Mosfells, samkvæmt umboði frá prófasti Guðm. Einarssyni. Lesið á manntalsþingi fyrir Mosfellshrepp að Lágafelli 4. júní 1890 og síðan ritað í... etc. Ár 1956, laugardaginn 21 apríl gengu undirritaðir á mörk Skeggjastaða í Mosfellssveit annars vegar og Laxness, Seljabrekku og Mosfellshrepps (áður Mosfellsheiðarlands). Er samkomulag, að landamerki milli Skeggjastaða og Laxness séu í beina stefnu úr Hestbrekknaskyggni í Skógarvörðu og þaðan beina stefnu í Sýklingarstein sem er hornmark mili Laxness og Skeggjastaða, enda eru menn á eitt sáttir um, að Skógarvarða sé þar sem nú er rúst af mannvirki við símastaur, sem er á símalínunni heim að Skeggjastöðum, og Sýklingarsteinn rétt við Skeggjastaðaveg. Úr Sýklingarsteini liggja landamerki beint í Ríp og er Klofningssteinn á þeirri línu, enda eru þetta landamerki Skeggjastaða annars vegar og hins vegar Seljabrekku og Mosfellsheiðarlands. Aðilar munu í samráði við Hreppstjóra ganga frá mörkunum og skýra þau nánar. Landnámið. Allt land innan sveitarfélagsmarka Mosfellsbæjar er samkvæmt Landnámu í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Þórður skeggi hefur verið kallaður landnámsmaður Mosfellinga. Samkvæmt Landnámu bjó hann á Skeggjastöðum og nam hann land að ráði Ingólfs og náði það á milli Leirvogsár og Úlfarsár sem er ekki fjarri núverandi sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar. Mosfellsdalur og Mosfellsheiði að hluta voru innan landnáms Þórðar skeggja. Þórður skeggi Hrappsson (fæddur um 839) nam að sögn Landnámabókar land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu), en hann hélt til Íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar. Bú hans var að Skeggjastöðum. Þórður skeggi var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur, eldri dóttir þeirra hét Helga en hennar maður var Ketilbjörn hinn gamli. Yngri dóttirin hét Þuríður. Skeggjagata í Reykjavík er nefnd eftir honum. Björn buna hét hersir ágætur í Noregi, son Veðrar-Gríms hersis úr Sogni; móðir Gríms var Hervör, dóttir Þorgerðar Eylaugsdóttur hersis úr Sogni. Frá Birni er nær allt stórmenni komið á Íslandi; hann átti Vélaugu. Þau áttu þrjá sonu; einn var Ketill flatnefur, annar Hrappur, þriðji Helgi; þeir voru ágætir menn, og er frá þeirra afkvæmi margt sagt í þessi bók. Þórður skeggi hét maður; hann var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur; Helga hét dóttir þeirra; hana átti Ketilbjörn hinn gamli. Bóluþang. Bóluþang (fræðiheiti: "Fucus vesiculosus") einnig nefnt "blöðruþang", er brúnþörungur af þangætt ("Fucaceae"). Útbreiðsla. Bóluþang vex eingöngu í fjörum og er algengt við strendur Evrópu allt frá Norður Rússlandi, Grænlandi, Íslandi, Asoreyjar og niður til Madeira, Marokkó og Kanaríeyja. Við Atlantshafsströnd Norður-Ameríku frá Ellesmere-eyju, Hudsonflóa og til Norður-Karólínu. Bóluþang vex um miðbik fjörunnar mest í hnullunga- og klapparfjörum og best ef þær eru skjólgóðar, oft í sambýli við klóþangið ("Ascophyllum nodosum") í klóþangbeltinu. Það er þó ekki eins útbreitt og klóþangið og virðist frekar verða undir í samkeppni við það. Það sést vel á því að þar sem klóþang hefur verið skorið í stórum stíl til vinnslu, tekur bóluþangið oftast svæðið yfir en virðist svo hopa aftur þegar klóþangið vex smámsaman upp aftur en það gerist á löngum tíma þar sem vöxtur klóþangsins er svo hægur. Útlit. Bóluþangið er um 40 til 90 cm hátt, brúnt á litin en stundum grænleitt eða brúnleitt. Nafn sitt dregur bóluþangið af áberandi loftfylltum bólum sem sitja oftast tvær og tvær saman á hverri grein þangsins og virka eins og flothylki á flóði en þangið legst svo niður á fjöru. Bólurnar eru oftast ofan til á þanginu en stundum er þær líka í þéttum röðum niður eftir allri plöntunni. Blöðin eru eins til tveggja cm breið með greinilegri miðtaug sem bólurnar sitja sitthvorumegin við. Þau kvíslgreinast með tiltölulega reglubundnum hætti. Bóluþangið festir sig við botninn á steina eða klappir. Almennt. Líkt og á öðrum stórum þörungum eins og klóþanginu lifa nokkrar ásætur á bóluþanginu, þó ekki allar þær sömu. Til dæmis lifir þangskegg ("Polysiphonia lanosa") engöngu á klóþangi en aldrei á bóluþangi, þótt þessar þangtegundir vaxi hlið við hlið. Öfugt er farið með snúðorma, þeir vaxa á bóluþangi en aldrei á klóþangi. Ekki er vitað afhverju þetta stafar. Hinsvegar má búast við að finna sömu sniglana á báðum tegundunum, eins og þangdoppu ("Littorina obtusata"). Dvergaþang. Dvergþang (fræðiheiti: "Pelvetia canaliculata") einnig nefnt "dveraþang" er brúnþörungur af þangætt ("Fucaceae"). Útbreiðsla. Dvergþang er útbreitt við strendur Evrópu frá norður Noregi allt til Portúgals en það vex ekki vestanmegin Atlantshafsins við Norður-Ameríku. Við Ísland vex það aðeins þar sem sjór er sæmilega hlýr, við Suðvestur- og Vesturland í skjólgóðum hnullunga-og klapparfjörum. Einnig finnst það stundum í jarðvegi á sjáfarfitjum innan um annað gras. Dvergþangið þolir ekki að vera samfelt of lengi á kafi í sjó en þolir aftur á móti vel þurrk, getur verið á þurru allt að þremur vikum. Það velur sér því klappir og steina efst í efsta þangbeltinu, klapparþangbeltinu, næst fyrir neðan fjörusvertubeltið í fjörunni. Útlit. Dvergþang er smávaxið, um 5 til 10 cm hátt, ljósbrúnt á litin eða gulleitt. Greinarnar eru eins til fjögurra mm breiðar, rennulaga og hafa enga miðtaugar, engan stilk og kvíslgreinast þær. Kynbeð eru gul og vörtótt á endum greina. Dvergþang festir sig við fast botnlag eins og steina og klappir með lítilli skífulaga festu. Það er talið að dvergþangið geti orðið um 4 ára gamalt. Hrauneyjafossvirkjun. Hrauneyjafossvirkjun er vatnsaflsvirkjun staðsett á Sprengisandsleið í jaðri hálendisins. Hún var reist á árunum 1977 – 1981. Virkjunin er vatnsaflsvirkjun og nýtir 88 m vatnsfall við Hrauneyjar. Hrauneyjafossvirkjun var fyrst tekin í notkun árið 1981 og var þá 150 MW, árið 1990 fékk iðnaðarráðherra heimild til að stækka virkjunina upp í 280 MW og er hún þriðja stærsta raforkuvirkjun landsins í dag. Virkjunin tekur vatn úr Tungnaá og Þórisvatni, með dragár-, jökulár- og lindárinnrennsli. Inni í virkjuninni eru þrjár 70 MW vélasamstæður. Fyrsta vélin var tekin í notkun 28. október 1981, vél númer tvö 21. janúar 1982 og þriðja vélin 1. desember 1982. Vélarnar þrjár eru af gerðinni Francis með lóðrétta öxla. Fremur lágreist jarðvegsstífla teygir sig eftir hraunflákunum á suðurbakka árinnar. Um eins kílómetra langur aðrennslisskurður liggur frá lóninu í norður um lægð í Fossöldu að inntaki við norðurbrún öldunnar. Þaðan liggja þrjár stálpípur (4,8 m í þvermál) 272 m niður hlíðina að stöðvarhúsi. Frárennslisskurður er rúmlega eins kílómetra langur og liggur út í Sporðöldukvísl sem síðan rennur í Tungnaá. Tengivirki stöðvarinnar er innan dyra í stöðvarhúsinu og er það einangrað með gasi. Tungnaá er stífluð á fremur flötu landi um 1,5 km ofan við Hrauneyjafoss og um 5 km neðan við Sigöldustöð. Hæðarmunurinn er þar á milli um 15 m. Við stífluna myndast 8,8 km² dægurmiðlunarlón. Jarðlög og umhverfi. Jarðlög virkjunarstaðarins við Hrauneyjafoss eru öll mynduð í eldgosum. Jarðlögin skiptast í tvær myndanir. Móberg, bólstraberg og jökulberg frá jökultímanum annars vegar og hraun runnin á eftir jökultíma hins vegar. Stífla og lón verður að mestu á hrauni en önnur mannvirki á eða í móbergsmyndun Hrauneyjafossvirkjun er í nágrenni við nokkrar af helstu náttúruperlum hálendis Íslands eins og Landmannalaugar, Þjórsárdal, Heklu, Sprengisand, Veiðivötn og Fjallabak. Virkjunin er um það bil 150 km frá Reykjavík og hefur Landsvirkjun lagt bundið slitlag á vegi þar á milli. Í nágrenni við virkjunina er Hálendismiðstöðin en hún er seinasti áningastaðurinn áður en haldið er upp á hálendi Íslands. Aðgengi að hálendinu ofan virkjunarinnar er talið hafa breyst mikið með tilkomu hennar og þess vegna er talið að hún hafi jákvæð áhrif á útivist og ferðamennsku á þessi svæði. Landsvirkjun annaðist uppgræðslu í kringum Hrauneyjarfossstöð frá árinu 1979-1994, notast var við grastegundina túnvingul. Talið er að markmiðum hafi verið náð hvað varðar heftingu sandfoks og fegrun á umhverfi starfsfólks virkjunarinnar. Búðarhálsvirkjun virkjar um 40 metra fall í Tungnaá milli Hrauneyjafossvirkjunar og Sultartangavirkjunar. Lón, Sporðöldulón, myndast þegar frárennslisfarvegur neðan Hrauneyjafossvirkjunar og Kaldakvísl stíflast. Lónið getur nýst til skammtímamiðlunar. Vittorio De Sica. Vittorio De Sica (7. júlí 1901 eða 1902 – 13. nóvember 1974) var ítalskur kvikmyndaleikstjóri og leikari og einn helsti upphafsmaður nýraunsæisstefnunar ("neorealismans"). Hann er frægastur fyrir "Skóáburð" (Sciuscià), "Börnin hafa augun hjá sér" (I bambini ci guardano), "Reiðhjólaþjófana" (Ladri di biciclette), "Kraftaverk í Mílanó" (Miracolo a Milano) og Umberto D. Tenglar. De Sica, Vittorio De Sica, Vittorio Schönbrunn-dýragarðurinn. Schönbrunn er dýragarður í Vín í Austurríki. St. Basil dómkirkjan. St. Basil dómkirkjan er kirkja í Moskvu í Rússlandi. Hungurleikarnir. Hungurleikarnir er skáldsaga eftir Suzanne Collins og er fyrsta skáldsagan í þríleik höfundarins. Hungurleikarnir komu út þann 14. september 2008 hjá forlaginu Scholastic. Hún hefur verið gefin út í kápu, kilju, hljóðbók og sem rafbók. Upphaflega voru Hungurleikarnir gefnir út í 200 þúsund eintökum. Hungurleikarnir hafa fengið mjög jákvæða dóma gagnrýnenda og annarra rithöfunda. Bókin hefur verið þýdd á 26 tungumál og réttindin seld til 38 landa. Hungurleikarnir voru þýddir á íslensku og gefnir út árið 2011. Sögumaður Hungurleikanna er hin sextán ára Katriss Everdeen. Hún býr í ríkinu Panem sem reis á rústum Norður-Ameríku. Kapítal, höfuðborg ríkisins, er umkringd tólf umdæmum og drottna valdhafar hennar yfir öllum í Panem. Hungurleikarnir eru árlegir viðburður þar sem drengur og stúlka frá aldrinum 12 – 18 ára frá öllum umdæmunum tólf eru tilnefnd í hlutaveltu til að etja kappi í beinni útsendingu upp á líf og dauða. Reglurnar eru einfaldar: sá sigrar sem heldur lífi. Bakgrunnur söguþráðar. Hungurleikarnir eiga að gerast í óskilgreindri framtíð eftir að núverandi þjóðir Norður-Ameríku hafa orðið að engu og í stað þeirra hefur myndast alræðisríki sem kallast Panem. Panem samanstendur af hinnu ríku Kapítal og tólf öðrum (áður þrettán) fátækari umdæmum sem lúta stjórn Kapítalarinnar. Söguhetja þríleiksins, Katniss Everdeen, býr í 12. umdæmi sem er fátækasta umdæmið. Sem refsingu fyrir uppreisn sem umdæmin höfðu gert mörgum áratugum eru á hverju ári einn strákur og ein stelpa á aldrinum 12 – 18 ára úr hverju umdæmi dregin út í lottói og neydd til að taka þátt í Hungurleikunum. Í leikunum, sem eru sjónvarpaðir beint, þurfa þátttakendur að berjast til dauða í hættulegum leikvangi þar til aðeins einn stendur eftir. Umdæmi sigurvegarans er þá ríkulega verðlaunað með mat og öðrum nauðsynjavörum. Tilgangur Hungurleikanna er að skemmta íbúum Kapítalins og sem viðvörun og áminnig fyrir umdæmin um valdið sem Kapítalið hefur yfir þeim. Hungurleikarnir. "Hungurleikarnir" er fyrsta bókin í þríleiknum. Hungurleikarnir segja frá sögu Katniss Everdeen sem er sextán ára stelpa frá 12. umdæmi. Hún býður sig fram í 74. Hungurleikana til að koma í veg fyrir að yngri systir hennar, Prim, þurfi að fara. Ásamt Katniss er Peeta Mellark valinn til að taka þátt fyrir hönd 12 umdæmis í Hungurleikunum. Peeta hefur elskað Katniss frá því að hann sá hana fyrst. Katniss og Peeta sýnast ástfangin í leikunum og fá því undantekningu á reglunni að aðeins einn getur unnið og vinna þannig bæði leikana og snúa aftur heim. "Hungurleikarnir" voru þýddir á íslensku af Magneu J. Matthíasdóttur og gefnir út árið 2011. Eldar kvikna. Í fyrstu bókinni var Katniss trú sjálfri sér í gegnum alla leikana og sveigði þannig reglurnar með hegðun sinni. Í "Eldar kvikna" kemst Katniss að því að stjórnendur leikanna eru reiðir út í hana út af hegðun hennar og út af því að hún var innblástur keðjuviðbragða sem endaði með uppreisn í umdæmunum. Í kjölfarið eru Katniss og Peeta neydd til að taka aftur þátt í sérstakri útgáfu af 75. hungurleikunum sem kallast Quarter Quell með öðrum fyrverandi sigurverum Hungurleikanna. Þau og nokkrir aðrir keppendur halda sig saman og ná að eyðileggja leikvanginn og flýja leikana. Katniss er færð í umdæmi 13 sem flestir héldu að væri ekki lengur til. Peeta er hins vegar fangaður af Kapítalinu og umdæmi 12 er eyðilagt. "Eldar kvikna" var þýdd af Guðna Kolbeinssyni og gefin út sumar 2012. Hermiskaði. "Hermiskaði" er þriðja og síðasta bókin í seríunni. Hún fjallar um uppreisn Katniss og umdæmana gegn Kapítól. Katniss er flóttamaður í 13. umdæmi og er nokkuð illa haldin eftir veru sína þar. Katniss er notuð sem sameiningartákn umdæmana í uppreisn þeirra gegn Kapítól og Snow forseta. Peeta sem hafði verið handsamaður af Kapítól er frelsaður ásamt öðrum föngum. Loks fara Katniss,Gale, Peeta, sem er enn þá að jafna sig eftir að vera bísaður með eitri (úr eltibísum, afkvæmi geitunga og brigslis), og hópur af fólki í Kapítól og ætla sér að ráða Snow forseta af dögum. Áður en Katniss tekst ætlunarverk sitt deyr systir hennar, Prim, í sprengjuárás. Snow segir Katniss seinna að Alma Coin, forseti 13. umdæmis hafi staðið að sprengjuárásinni, og hún drepur hana í staðin fyrir snow með boganum sínum. Á endanum eru Katniss, Peeta, og Haymitch rekin aftur til 12. umdæmis - af því hún drap Coin - sem er í rústum. Smám saman taka sárin á sál Katniss að gróa. Móðir Katniss og Gale finna sér vinnu í öðrum umdæmum. Að lokum áttar Katniss sig á því að hún elskar Peeta af öllu hjarta og giftist honum og eftir mörg erfið ár eignast þau 2 börn. "Hermiskaði" er komin út í íslenskri þýðingu. Katniss Everdeen. Katniss er sextán ára stúlka. Hún er aðalpersónan í bókunum. Katniss býr með mömmu sinni og systur sinni Primrose í 12. umdæmi. 12. umdæmi er eitt af fátækasta umdæmunum í Panem. 12 umdæmið sér um kol framleiðsluna fyrir höfðuborgina Kapítal. Katniss verður 74. framlag 12. umdæmis í Hungurleikunum eftir að hafa boðið sig fram í stað systur sinnar. Jennifer Lawrence leikur Katniss í kvikmyndinni Hungurleikarnir. Peeta Mellark. Peeta er önnur fórn 12. umdæmis í 74. og 75. Hungurleikunum, hann er sonur bakara. Samband Katniss og Peeta byrjar þegar þau eru valin saman í 74. Hungurleikanna. Í viðtali fyrir Hungurleikana tjáir Peeta ást sína á Katniss. Í Hungurleikunum þróast samband þeirra og myndast sterk vinátta og ást. Josh Hutcherson leikur Peeta í kvikmyndinni Hungurleikarnir. Gale Hawthorne. Gale er átján ára strákur sem býr í 12. umdæmi. Katniss og Gale eru bestu vinir og veiðifélagar. Gale og Katniss kynnast þegar þau hittast við veiðar. Liam Hemsworth leikur Gale í kvikmyndinni Hungurleikarnir. Haymitch Abernathy. Er miðaldra drykkfelldur maður sem vann 50. Hungurleikana þegar hann var átján ára. Hann er leiðbeinandi Peeta og Katniss fyrir Hungurleikana og kennir þeim ýmis ráð til að lifa af. Samband þeirra þriggja þróast í gegnum árin. Woody Harrelson leikur Liam í kvikmyndinni Hungurleikarnir. Primrose Everdeen. Er systir Katniss, hún átti að vera fórn í Hungurleikunum en Katniss bauð sig fram í stað hennar. Willow Shields leikur Primrose í kvikmyndinni Hungurleikarnir. Kvikmyndin. Kvikmyndin var frumsýnd 23. mars 2012 og er í þriðja sæti yfir bestu frumsýningarhelgi allra tíma en aðeins The Dark Knight og hafa átt betri opnunarhelgi. Handritið skrifuðu Gary Ross, Suzanne Collins og Billy Ray. Framleiðendur myndarinnar eru Nina Jacobson og Jon Kilik. Leikarar í aðalhlutverkum eru Jennifer Lawrence, Josh Hutcherson, Liam Hemsworth, Woody Harrelson, Elizabeth Banks og Donald Sutherland. Myndin er blanda af drama, spennu og vísindaskáldskap. Sagan á sér stað í óskilgreindi framtíð í landinu Panem, samanstendur af ríku borginni, Kapítal sem er umkringd 12 fátækum umdæmum. Sem refsing fyrir uppreisn gegn ríkisstjórninni, hóf Kapítal Hungurleikana, sem er árlegur viðburður og er sjónvarpaður beint. Einn strákur og ein stelpa frá hverju umdæmi eru dregin út í lottói og neydd til að taka þátt í leikunum þar til ein manneskja stendur eftir sem sigurvegari. Þegar aðalpersóna sögunnar, Katniss Everdeen heyrir nafn yngri systur sinnar dregið úr lottóinu, býður hún sig fram til að vera þátttakandi á leikjunum og bjargar þannig systur sinni frá því að keppa. Peeta Mellark er einnig dreginn úr lottóinu og saman ferðast þau til Kapítal til að undirbúa sig fyrir Hungurleikana undir leiðsögn fyrri keppanda Haymitch Abernathy. Söguþráður kvikmyndar. Hungurleikarnir eiga að gerast í óskilgreindri framtíð eftir að núverandi þjóðir Norður Ameríku hafa orðið að engu og í stað þeirra hefur myndast alræðisríki sem kallast Panem. Panem, samanstendur af ríku borginni, Kapítal sem er umkringd 12 fátækum umdæmum. Sem refsing fyrir uppreisn gegn ríkisstjórninni, eru einn strákur og ein stelpa á aldrinum 12 – 18 ára valin frá hverju umdæmi í gegnum lottó (þekkt sem „Reaping“) sem þátttakendur í hinum árlegu Hungurleikum. En þetta er atburður sem á sér stað á leikvangi þar sem þátttakendur verða að berjast upp á líf og dauða, þar til einn stendur eftir sem sigurvegari. Leikvanginum er stjórnað af Kapítal. Katniss Everdeen, sextán ára stelpa frá umdæmi 12, býður sig fram til að taka þátt á 74. Hungurleikunum í stað yngri systur sinnar, Primrose. Peeta Mellark, sonur bakara sem eitt sinn gaf Katniss brauð þegar fjölskylda hennar var að svelta, er einnig valinn úr lottóinu. Katniss og Peeta eru tekin til Kapítal. Þar mun drykkfelldi lærifaðir þeirra, fyrrum keppandi og sigurvegari Haymitch Abernathy leiðbeinir þeim að horfa á og læra hæfileika hinna þátttakenda, sérstaklega „Careers“, þau koma frá umdæmum 1 og 2, en það eru ríkustu umdæmin fyrir utan Kapítal og hafa þau verið þjálfuð frá fæðingu til þess að taka þátt á leikunum. Í viðtali sem tekið var fyrir leikana með sjónvarpsmanninum Caesar Flickermann, tjáir Peeta óvænt tilfinningar sínar fyrir Katniss. Katniss verður reið og heldur því fram að þetta sé brella til að ná mikilvægum stuðningi áhorfenda en þeir mega „styrkja“ keppendur með gjöfum, eins og mat, lyfjum og verkfærum. Leikarnir hefjast og helmingur þátttakenda er drepinn strax á fyrsta degi en Katniss er vel þjálfuð í því að veiða sér til matar og að lifa af. Peeta myndir bandalag með „Careers“, sem samanstanda af Cato, Clove, Marvel og Glimmer til að ná Katniss og elta hana inn í skóginn. Katniss þróar bandalag með keppanda frá umdæmi 11, Rue, sem bendir henni á erfðabreytt býflugnabú sem Katniss notar til að drepa Glimmer. En bandalagið er þó stutt, Rue er drepinn af Marvel, sem Katniss drepur seinna meir. Katniss er með Rue á meðan hún er að deyja, síðan dreifir hún blómum yfir líkið sem tákn fyrir virðingu. Þegar þessi atburður er sýndur í sjónvarpinu, myndast mótmæli og uppþot í umdæmi 11. Katniss og Peeta mynduðu „sviðsett samband“ og framleiðendur leikjanna reyna að forðast frekari uppþot — reglu er breytt og tilkynnt þegar leikarnir eru hálfnaðir, að tveir þátttakendur frá sama umdæmi geta unnið leikana sem par. Eftir að hafa heyrt þetta fer Katniss að leita af Petta og finnur hann særðan af sverði Catos. Meðan Katniss hjúkrar Peeta lýsir hún því yfir að hún sé yfir sig ástfangin af Peeta til að fá stuðning frá áhorfendum. Þegar Katniss reynir að sækja lyf fyrir Peeta ræðst Clove á hana. Allt í einu kemur Thresh og drepur Clove, í minningu Rue. „Foxface“ deyr fyrir slysni þegar hún borðar eitruð ber frá Peeta, sem vissi ekki einu sinni að þau væru eitruð. Slatti af grimmum skepnum sem líkjast hundum er sleppt, sem leiðir til þess að Thresh deyr og neyðir það Katniss og Peeta að „Cornucopia“, þar sem þau lenda í Cato. Eftir mikinn bardaga skýtur Katniss Cato með ör til að bjarga lífi Peeta. Cato fellur niður til skepnanna og þá skýtur Katniss hann aftur til að stytta honum biðina. Þá ákveða framleiðendurnir að afturkalla reglubreytinguna sem tilraun til að þvinga Katniss og Peeta í stórkostlegt einvígi, þar sem annað hvort þeirra þarf að deyja svo að það verði einn sigurvegari. Katniss trúir því að framleiðendurnir vilji frekar hafa tvo sigurvegara en engan. Hún tekur fram eitruðu berin og gefur Peeta skammt. Framleiðendurnir hugsa að Katniss og Peeta ætli að fremja sjálfsvíg og tilkynna að þau séu bæði sigurvegarar 74. Hungurleikanna. Þótt að Katniss fái höfðingjalegar móttökur í Kapítal er hún vöruð við því af Haymitch að hún sé nú orðin pólitískur óvinur eftir slíka opinbera óvirðingu í garð leiðtoga landsins og samfélags síns. Þegar Katniss og Peeta koma aftur til umdæmis 12 íhugar Snow forseti hvað skuli gera í sambandi við sameiginlega sigurvegara og tilfinninga um uppreisn sem þau kunna að hafa hvatt til. Mannleg reisn. Í myndinni sést að ríkisstjórnin hefur enga siðfræði, ekkert siðferði og enga reisn. Eina manneskjan sem sýnir reisn kemur frá umdæmi 12, Katniss Everdeen. Hún nýtur sín í náttúrunni og virðir lífið. Á meðan aðrir þátttakendur í Hungurleikunum eru drepnir í kringum hana sýnir hún þeim virðingu með því að gefa þeim smá greftrunar athöfn. Hún tekur aðeins líf ef það er síðasta úrræðið en þrátt fyrir það er hún fljót að bregðast við í sjálfsvörn og hún er viljug til að drepa aðra ef þeir ætla sér að drepa hana. Þetta sýnir grundvöll af mannréttindum til sjálfsvarnar. Þegar það er ráðist á okkur höfum við rétt til að halda okkar striki og svara fyrir okkur eins og hún gerir nokkrum sinnum í gegnum myndina. Með því að gera þetta bjargar hún lífi sínu og sýnir ríkistjórninni að þau geta ekki stjórnað henni. Þessi styrkur sést vel í enda leiksins, þegar hún og Peetar eru þau einu eftirlifendurnir. Ríkisstjórnin breytir þar með reglunum og hvetur þau til að drepa hvort annað svo það verði aðeins einn sigurvegari. En í stað þess að taka þessum skipunum, ákveða þau að borða eitruðu berin saman til að sýna áhorfendum heimsins að ríkisstjórnin fái ekki það frelsi að ráða hver deyr og hver lifir og það að jafnvel þræll ræður hvenær hann endar sitt eigið líf, óháð kúgandi ríkisstjórn. Allt í einu stöðvar ríkisstjórnin leikinn áður en þau tvö gátu borðað berin og tilkynna þau bæði sem sigurvegara. Þetta var síðasta tilraun þeirra til að sýna að enginn réði yfir lífi þeirra né styrk til að enda þeirra eigin líf, vegna þess að þessi tjáning um vald einstaklingsins myndi niðurlægja ríkisstjórnina. Á meðan myndinni (og bókinni), er ríkisstjórnin með þráhyggju um kúgun fólks, neitar þeim mat og fjármagn og framkvæmir hugarleiki gegn þeim sem taka hugrekki þeirra og sannfæra þá um að þeir hafa ekkert persónulegt vald. Sala. Eftir að hafa skrifað skáldsöguna skrifaði Suzanne Collins undir samning við Scholastic árið 2006. Fyrsta bókin var upphaflega prentuð í 50 þúsund eintökum en var síðan prentuð í um 200 þúsund eintökum tvisvar sinnum. Þann 11. febrúar 2010 höfðu verið seld 800 þúsund eintök af "Hungurleikunum" og réttindi af sölu bókarinnar var á 38 svæðum. Þann 8. nóvember 2010 voru "Hungurleikarnir" mest selda skáldsagan í bandaríska dagblaðinu "The New York Times". Þegar myndin var fyrst frumsýnd hafði bókin verið á USA Today vinsældarlistanum í 135 vikur í röð. Verðlaun. "Hungurleikarnir" hafa unnið til fjölda verðlauna og verið heiðraðir við mörg tilefni. Bókin var nefnd ein af „Bestu bókum þessa árs“ í tímaritinu "Publishers Weekly" og „Mest áberandi barnabók ársins 2008“ í blaðinu "New York Times". Árið 2009 var bókin verðlaunuð á Golden Duck verðlaunahátíðinni í flokknum „Skáldsögur fyrir unglinga“. 2008 unnu "Hungurleikarnir" verðlaun fyrir fantasíu og vísindaskáldskap. Árið 2012 var bókin útlistuð sem 33. besta bókin fyrir börn, með verðlaun fyrir mest spennandi endinn. Leikarinn Josh Hutcherson hefur unnið til tvenna verðlauna fyrir leik sinn í myndinni. Hann vann „NewNowNext-verðlaunin“ 2012, þar sem hann var tilnefndur sem „next mega star“ eða næsta stórstjarna. Skjaldarmerki Rússlands. Skjaldarmerki Rússlands er opinbera skjaldarmerki Rússlands. Skjaldarmerkið var tekið í notkun þann 1497. Mel Gibson. Mel Colm-Cille Gerard Gibson (f. 3. janúar 1956) er ástralskur leikari og leikstjóri. Quatre aventures de Spirou et Fantasio. Quatre aventures de Spirou et Fantasio (íslenska: "Fjögur ævintýri um Sval og Val") er önnur Svals og Vals-bókin og hefur að geyma fjórar mislangar sögur um ævintýri félaganna sem upphaflega höfðu birst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1948-50. Höfundur bókarinnar var Franquin. Hún kom út á frönsku árið 1950 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. "Spirou et les plans du robot" (íslenska: "Vélmennisuppdrátturinn") er sjálfstætt framhald eldri sögu um Sval og Val, sem sagði frá útistöðum þeirra við geggjaðan vísindamann sem fundið hafði upp fullkomið vélmenni. Sagan hefst á að þeir félagarnir lesa viðtal við vísindamanninn, sem komið hafði verið fyrir á geðveikrahæli. Í því segir hann frá vélmenni sínu og sjá Svalur og Valur í hendi sér að glæpamenn muni ásælast teikningarnar þessari snjöllu uppfinningu, ef þær sé að finna í tilraunastofu hans. Eftir mikinn eltingaleik tekst Sval að farga teikningunum. Glæpamennirnir halda þá á geðveikrahælið og ræna vísindamanninum en Svalur og Valur ná honum til baka. Vísindamaðurinn fær höfuðhögg og gleymir öllu um vítisvélar þær sem hann ætlaði að búa til og gerist friðsamur. Þrjótarnir eru handteknir. "Spirou sur le ring" (íslenska: "Hnefaleikakeppnin") gerist meðal götustráka í Brussel. Fanturinn og hrekkjusvínið "Járnhnefinn" veður uppi með ofríki gagnvart smástrákunum í hverfinu. Einn þeirra er vinur Svals og verður úr að Svalur og Járnhnefinn mætist í hnefaleikabardaga. Í aðdraganda bardagans lúskrar Járnhnefinn á saklausum vegfarendum og beitir fjárkúgunum. Svalur kemst hins vegar í kynni við gamlan hnefaleikaþjálfara sem veitir honum leiðsögn. Þrátt fyrir ýmis bellibrögð andstæðingsins vinnur Svalur frægan sigur í bardaganum. Járnhnefinn er hrakinn í burtu af smástrákunum, en Svalur sýnir honum göfuglyndi og þeir verða vinir. "Spirou fait du cheval" (íslenska: "Útreiðartúrinn") er stysta saga bókarinnar, rétt um átta blaðsíður að lengd. Svalur og Valur bregða sér í útreiðartúr, en bykkjan sem Svalur fær til reiðar gengur af göflunum og reynist hafa gríðarlegan stökkkraft. Útreiðartúrinn endar því með ósköpum. "Spirou chez les Pygmées" (íslenska: "Svalur og skógardvergarnir") segir frá því þegar Svalur verður á vegi hlébarða og tekur hann heim í íbúðina sína. Eftir ýmis vandræði tekst að hafa upp á eigandanum, sem er skringilegur landkönnuður. Sá býður Sval og Val með sér til eyju úti fyrir ströndum Afríku. Þeim er tekið með kostum og kynjum af ættbálki skógardverga sem eru dökkbrúnir á hörund. Eftir ýmsar kyndugar uppákomur kemur í ljós að á eyjunni er óvinaættbálkur með svartan hörundslit og eiga hóparnir í stöðugum erjum. Reynist illur hvítur þrælapískari bera ábyrgð á árásargirni svarta ættbálksins. Svalur og Valur uppgötva að hinir svörtu eru í raun með sama húðlit og hinir, bara skítugri. Þeir stinga öllum í bað og friður kemst á og hvíti þrjóturinn fær sína refsingu. La corne de rhinocéros. La corne de rhinocéros (íslenska: "Horn nashyrningsins") er sjötta Svals og Vals-bókin. Höfundur hennar var Franquin. Sagan birtist í tveimur hlutum í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1952-53 og á bókarformi á frönsku árið 1955. Hún hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á að Valur fær óþægilegt símtal frá ritstjóra sínum, sem segir honum að nýjasta grein hans hafi verið drepleiðinleg og að blaðið hafi ráðið nýjan stjörnublaðamann. Valur er miður sín og leitar leiða til að sanna sig á ný. Hann grefur upp léttþyrluna úr "Baráttunni um arfinn" og sannfærir Sval um að sviðsetja innbrot í verslunarmiðstöð með hjálp tækisins, til að afla efnis í grein um slaka öryggisgæslu. Þegar í verslunina er komið rekast félagarnir á keflaðan öryggisvörð og ökuþórinn "Eldibrand" úr "Baráttunni um arfinn". Hann er særður og á flótta undan þrjótum sem reyndu að ræna teikningum af nýjum sportbíl frá Turbo-fyrirtækinu. "Eldibrandur" felur þeim sinn hluta teikninganna og segir þeim að hinn hlutinn sé í höndum "Ófeigs", eins af yfirmönnum fyrirtækisins. Um leið kemur aðvífandi nýi stjörnublaðamaðurinn og keppinautur Vals, þar reynist vera ung stúlka: Bitla. Þrjótarnir koma aðvífandi en Svalur, Valur og Bitla sleppa eftir æsilegan eltingaleik. Til að koma teikningunum dýrmætu í hendur "Ófeigs" (sem einnig kom við sögu í "Baráttunni um arfinn") þurfa félagarnir að halda til Norður-Afríku. Þrjótarnir komast að ferðaáætluninni og elta í dulargervi. Svalur og Valur halda inn í myrkviði Afríku, með Bitlu á hælunum. Þeir finna "Ófeig" særðan eftir árás þrjótanna. Um það leyti sem þrjótarnir búa sig undir að skjóta þau öll kemur dularfullur lögregluforingi, sem áður hafði ráðið þeim Sval og Val heilt, aðvífandi og handtekur þá. "Ófeigur" segist hafa komið sínum hluta teikninganna í hendur vinveitts höfðingja svertingjaættbálks. Svalur og Valur halda út á sléttuna og eru teknir höndum af villimönnunum. Viðtökurnar breytast þegar þeir segja á sér deili og höfðinginn segist hróðugur hafa falið teikningarnar í horni eins af nashyrningunum á sléttunni. Við tekur gríðarleg leit af rétta nashyrningnum. Félagarnir finna teikningarnar en hníga út af í sterkri sólinni. Þeir vakna á sjúkrabeði það sem "Ófeigur" fagnar þeim vel. Í Brussel kemur "Eldibrandur" færandi hendi með nýjustu útgáfu af nýja Túrbó-bílnum. Kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki. Kjarnorkurárásirnar á Hiroshima og Nagasaki eru árásir sem bandaríski flugherinn gerði á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar í ágúst árið 1945. Þær voru fyrstu og einu kjarnorkusprengingarnar sem gerðar hafa verið í stríði. Þann 6. ágúst 1945 flaug sprengjuflugvélin Enola Gay yfir borgina Hiroshima og varpaði fyrstu kjarnokusprengju sem notuð hefur verið í hernaði á borgina. Þremur dögum síðar, eða þann 9. ágúst, var annarri kjarnorkusprengju varpað á borgina Nagasaki. Sprengjurnar höfðu skelfilegar afleiðingar fyrir íbúa borganna. Um 300 þúsund létust eða særðust og tugir þúsunda urðu fyrir langvarandi áhrifum vegna geislunar. Kjarnorkusprengingarnar á Hiroshima og Nagasaki gáfu Japönum engan annan kost en að gefast upp. Þeir skrifuðu undir friðarsáttmála 2. september 1945 og með því lauk seinni heimsstyrjöldinni. Þróun kjarnorkuvopna. Árið 1938 höfðu þýskir vísindamenn séð möguleikann á því að þróa kjarnorkusprengjur. Almennt var þó talið að það tæki of langan tíma að þróa slíkar sprengjur og ef það tækist yrðu þær of þungar fyrir flugvélar. Margir vísindamenn, listamenn og rithöfundar höfðu verið gerðir útlægir frá Þýskalandi. Albert Einstein var einn þeirra. Hann skrifaði Theodore Roosevelt bandaríkjaforseta bréf þar sem hann greindi frá þessum möguleika. Á fjórða áratugnum var eðlisfræðileg þekking orðin nógu mikil til að skilja hvernig þróa mætti kjarnorkuvopn og hver áhrif slíkra vopna væru. Árið 1939 var hugmyndafræðilegu takmarki náð en vandamál komu upp í sambandi við framleiðslu. Erfitt reyndist að framleiða nógu kjarnakleyf efni. Árið 1940 var sett á fót nefnd í Bretlandi sem kallaðist „the Maud committie“ eða „Maud-nefndin“. Henni var falið að fylgjast með gangi mála varðandi þróun kjarnorkuvopna og var skipuð tveimur virtum vísindamönnum. Í júlí 1941 gaf nefndin út yfirlísingu þar sem hún taldi að unnt væri að smíða kjarnorkusprengju innan þess tímaramma sem að stríðið væri líklegt að taka. Þeir sögðu að nota mætti efnabreytt úran. Ríkisstjórn Breta gaf grænt ljós á framleiðslu atómsprengjanna. Kostnaðurinn reyndist Bretum um megn og Bandaríkin tóku yfir verkefnið í júní 1942. Bandaríkjamenn kölluðu þetta háleynilega verkefni „the Manhattan project“ eða „Manhattan verkefnið“. Breskir vísindamenn voru fluttir til Bandaríkjanna og unnu samhliða vísindamönnunum þar undir stjórn Roberts Oppenheimer. Verkefnið í heild sinni kostaði 2 milljarða bandaríkjadala og skapaði 600 þúsund störf en í heildina komu 120 þúsund manns að smíði sprengjunnar sjálfrar. Sumarið 1945 hafði nógu mikið plútoníum og úran-235 verið framleitt til að prófa að sprengja kjarnorkusprengju. Verkefnið náði hámarki þegar tilraunasprengja var sprengd yfir Almogordo eyðimörkinni í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum 16. júlí 1945. Aðdragandi árásarinnar. Japanir voru á undanhaldi í byrjun ágúst árið 1945. Margir landvinningar þeirra höfðu verið endurheimtir, heilu borgirnar voru rústir einar og sjóflotinn var úr sögunni. Bandaríkjamenn höfðu náð eyjunum Okinawa og Iwo Jima og með því lokað á olíuforða Japana. Frá bækistöðvum þar lagði bandaríski flugherinn ýmsar borgir og þugnaiðnað í rúst ásamt því að sökkva birgðaskipum Japana. Leiðtogar japana voru ekki í uppgjafarhug og í örvæntingu sinni hófu Japanir þá að senda sjálfsmorðsflugmenn í bardaga. Yfirherstjórn Bandaríkjanna taldi að það yrði ekki hægt að framkvæma lokainnrás í Japan fyrr en 1946. Sú innrás myndi kosta mikið manntjón eða allt að milljón fallinna. Á þetta reyndi þó ekki. Roosevelt bandaríkjaforseti lést í apríl 1945. Eftirmaður hans var Harry S. Truman og tók hann ákvörðunina um að nota kjarnorkuvopnin. Margir telja að kjarnorkuárásirnar á Japan hafi ekki eingöngu verið hernaðarlegs eðlis. Öllum hafi verið ljóst að Japanir væru að tapa stríðinu og að innrás yrði óþörf. Tilgangur sprenginganna hafi því verið pólitísks eðlis til að sýna fram á mátt Bandaríkjanna á eftirstríðsárunum. Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki. "Það var dýrlegur sumarmorgunn hinn 6. ágúst. Ég var að leggja af stað í skólann. Þegar ég kom fram í stigaganginn sundraðist allt umhverfis mig í ægibjörtu ljósi. Allt hrundi í kringum mig og ég grófst undir spýtnabraki og glerbrotum. Þegar ég kom aftur til meðvitundar hélt ég að komin væri nótt því að niðamyrkur var á; en ég gat greint sólina sem hvíta kúlu... Á leiðinni brott sá ég skaðbrennd lík liggja eins og hráviði í skólagarðinum." Sprengjan sem sprakk yfir Hiroshima var í laginu eins og oddhvass sívalningur. Hún var fimm metra löng, þrír metrar í þvermál og fimm tonn að þyngd. Virku hlutar sprengjunnar voru fjögur lítil stykki af úrani. 80 þúsund manns dóu samstundis við sprenginguna og 70 þúsund særðust. Þrem dögum seinna eða þann 9. ágúst sprakk önnur kjarnorkusprengja yfir borginni Nagasaki. Sú sprengja var úr plútóníum og var kölluð „Fat man“. Hún var um það bil einn og hálfur metri á breidd og þrír metrar á lengd, vó 4,6 tonn og hafði afköst á við 20 kílótonn trínítrótólúens(TNT). Borgin var í skjóli fjalls svo að sprengingin varð ekki eins skaðleg og í Hiroshima. 74.000 íbúa Nagasaki létust samstundis við sprenginguna og 74 þúsund særðust. Tíu þúsundir urðu fyrir langtíma áhrifum vegna mikillar geislunar. Paul Tibbets. Paul Warfield Tibbets yngri fæddist 23. febrúar í Illinois fylki í Bandaríkjunum. Foreldrar hans, Enola Gay og Paul Warfield Tibbets vildu að hann yrði læknir en Tibbets var alltaf staðráðinn í að verða flugmaður. Í seinni heimsstyrjöldinni var Tibbets skipaður æðsti yfirmaður 340. sprengjusveitarinnar. Hann tók svo við stjórn ný stofnaðs hóps sem var falið að varpa kjarnorkusprengjunni „little boy“. Flugvélin sem hann stýrði var nefnd eftir móður hans og kallaðist því Enola Gay. Paul Tibbets lést 1. nóvember 2007, 91 árs gamall. Uppgjöf Japana. Sama dag og plútóníum sprengjan var sprengd yfir Nagasaki bað japanski forsætisráðherrann Hirohito keisara að taka ákvörðun um hvort Japanir myndu gefast upp eða ekki. Japan skrifaði undir friðarsáttmála þann 2. september 1945. Sú ákvörðun byggðist bæði á sprengingunum og á því að milli sprenginganna í Hiroshima og Nagasaki réðust Sovétmenn inn í Japan. Með uppgjöf Japana lauk síðari heimsstyrjöld. Innrásin í Pólland. Evrópa við byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar Innrásin í Pólland, einnig þekkt sem September-herferðin, var innrás Slóvaka, Þjóðverja og Sovétmanna inn í Pólland. Innrás Þjóðverja hófst 1. september 1939 og hefur sá dagur verið kallaður upphafsdagur seinni heimsstyrjaldarinnar. Þó að Slóvakar séu taldir með í þessari upptalningu voru þeir í raun þýskt leppríki og forseti þeirra, Hlinka prestur, var handbendi Þjóðverja. Því þurftu Pólverjar líka að verjast við suðurlandamærin. Tveimur dögum síðar, 3. september, lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði við Þjóðverja þar sem þeir höfðu þann 25. ágúst sama ár gert bandalagssamning við Pólverja. Þessi stríðsyfirlýsing hafði þó lítil áhrif þar sem hvorki Frakkar né Bretar létu sjá sig. Rúmum mánuði seinna, þann 6. október, höfðu innrásarþjóðirnar gjörsigrað Pólland. Viku áður en innrásin hófst höfðu Þjóðverjar og Sovétmenn skrifað undir samning þar sem talað var um engan ófrið milli þessara landa. Samningurinn kallaðist Molotov-Ribbentrop samningurinn, nefndur eftir forsætisráðherrum þjóðanna. Í þessum samningi voru leynilegar klásúlur um skiptingu allrar Austur-Evrópu milli þessara ríkja. Þegar Rauði herinn réðist inn í Pólland úr austri þann 17. september var það í samræmi við samninginn. Þjóðverjar voru þá komnir í þægilega stöðu og fljótlega náðu herirnir saman í miðju Póllandi. Síðan var hafist handa við að skipta landinu upp milli Sovétmanna og Þjóðverja. Fyrst kom bráðabirgðaskipting en þann 30. september undirrituðu forsætisráðherrar landanna, Molotov og Ribbentrop samning í Moskvu um línuna. Þá hafði landsvæði Þjóðverja stækkað mikið miðað við fyrri áætlanir. Þann 6. október hélt svo Hitler ræðu í þýska þinginu þar sem hann lýsti yfir algjörum sigri Þjóðverja í Póllandsinnrásinni. Forsaga. Eftir að þýski Nasistaflokkurinn komst til valda árið 1933 hóf Hitler uppbyggingu Þýskalands. Hann virti að vettugi ákvæði Versalasamningsins um stríðsskaðabætur og hætti að borga. Þess í stað notaði hann peningana í að byggja upp herafla og skapa þar með atvinnu. Hann bannaði alla stjórnmálaflokka og gerði sjálfan sig að einræðisherra. Hitler aðhylltist Stóra-Þýskalandsstefnuna og hann byrjaði strax árið 1935 að innlima héruð sem Þýskaland tapaði í fyrri heimsstyrjöldinni. Saar-héraðið var innlimað 1935 og Rínarlöndin ári seinna. Árið 1938 sendi Hitler svo skriðdreka til Vínar og ætlaði að fá Austurríkismenn í lið með sér. Hann hótaði svo að taka Súdetahéruðin af Tékkóslóvakíu. Til þess að halda friðinn var skrifað undir Münchenarsamninginn í september 1938, sem viðurkenndi rétt Þjóðverja til Súdetahéraðanna. Bretar höfðu á þessum tíma aðhyllst þá stefnu að semja við Þjóðverja til að sleppa við átök og Münchenarsamningurinn var fullkomlega í samræmi við það. Fyrri heimsstyrjöldin var enn fersk í minni Breta og þeir vildu sleppa við annað stríð í lengstu lög. Aðeins nokkrum mánuðum seinna, í september 1938, réðust Þjóðverjar inn í alla Tékkóslóvakíu og virtu þar með Münchenarsamninginn að vettugi. Svo hófu þeir að ógna Póllandi. Stríðið. Þjóðverjar notuðust við hernaðaraðferð sem kallast leifturstríð. Hún byggist á því að koma óvinahernum að óvörum með snöggu áhlaupi skriðdreka og reyna að koma þeim í gegnum varnarlínu andstæðinganna. Þegar því er lokið koma sprengjuflugvélar og gera árás úr lofti. Að lokum fylgir fótgöngulið á eftir skriðdrekunum og fullkomnar innrásina. Þó að frá fornu fari hafi Pólverjar verið taldir mjög góðir hermenn átti riddarahermennska þeirra ekki roð í járnskriðdreka og sprengjuflugvélar Þjóðverja. Á einungis tveimur dögum sprengdu Þjóðverjar sig í gegnum „pólska hliðið“ til að loka á aðgengi Pólverja að sjó og algjör ringulreið greip um sig í pólska hernum sem og hjá pólskum almenningi. Á fyrsta degi innrásarinnar einbeittu Þjóðverjar sér að því að gera flugflota Pólverja óvirkan, þó að hann hafi ekki verið stór, einungis um 400 flugvélar á meðan Þjóðverjar ruddust inn með næstum 2000 flugvélar. Þeir sprengdu því marga flugvelli og flugvélar áður en þær komust í loftið. Með þessu voru Þjóðverjar orðnir einvaldar í háloftunum strax á fyrsta degi. Þegar kom að því að fá liðsauka frá Bretum í formi flugvéla gekk það ekki sökum þess að flugvellirnir voru svo illa farnir að ekki var hægt að lenda á mörgum þeirra. Einnig þýddi það að vélarnar þurftu að fljúga yfir Þýskaland. Í framhaldi af þessu beindu Þjóðverjar sjónum sínum að samgöngukerfi Pólverja. Þeir sprengdu brýr og járnbrautarkerfi. Þá gerðu þeir einstaka loftárás á íbúðahverfi til að valda ringulreið og hræðslu hjá óbreyttum borgurum. Eftir einungis um viku var allt varnarskipulag Pólverja fallið um sjálft sig og þeir lögðu á flótta. Sumir herflokkar börðust þó eins og ljón og sýndu hetjulega dirfsku. Við hafnarborgina Danzig vörðust Pólverjar árásum herskipa, flugvéla, stórskotaliðs og fótgönguliðs hetjulega í heila viku. Þann 8. september voru Þjóðverjar komnir að höfuðborginni Varsjá. Allir íbúar Varsjár einsettu sér þá að verja borgina. Konur og börn gripu til vopna til að verja sig. Í þrjár vikur var pattstaða í kringum Varsjá. Enginn hjálp barst frá Bretum né Frökkum og allir ráðamenn Pólverja flúnir. Stuttu eftir að Sovétmenn höfðu ráðist inn í Pólland lýstu þeir því yfir að Pólland væri í raun ekki til lengur. Á svipuðum tíma náðu herir Sovétmanna og Þjóðverja saman í miðju Póllandi. Ráðamenn Sovétmanna og Þjóðverja fóru strax að ráðgera hvernig ætti að skipta Póllandi þó að setuliðið í Varsjá væri ekki búið að gefast upp. Úkraína og Hvíta-Rússland féllu undir Sovétmenn en Þjóðverjar fengu stór svæði í Norður- og Vestur-Póllandi. Rússar gáfu þó Litháum eftir sína gömlu höfuðborg Vilníus. Þann 27. september féll svo setuliðið í Varsjá og algjör sigur Þjóðverja og Sovétmanna staðreynd. Tækniframfarir. Mánuðina áður en Þjóðverjar réðust inní Pólland höfðu þeir eytt gífurlegum fjármunum í uppbyggingu hersins. Það sýndi sig í innrásinni í Pólland. Pólverjar höfðu búist við því að stríðið færi fram á svipuðum grundvelli og fyrri heimsstyrjöldin. Því fór fjarri, vegna þess að Þjóðverjar beittu nú skriðdrekahernaði og sérstaklega flughernaði í mun meiri mæli en í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar þeir hófu innrásina í Pólland tóku þeir í notkun nýja gerð flugvéla, steypiflugvélar af gerðinni Messerschmitt, sem voru notaðar til árása á hersveitir, bílalestir og virki. Þær flugu venjulega hátt en steyptu sér svo niður og vörpuðu sprengjum á skotmarkið. Þetta höfðu Pólverjar ekki séð áður. Þeir áttu einungis 400 flugvélar og ekki nærri eins góðar og Þjóðverjar. Þeir réðust gegn þeim á gamla mátann, á hestum. Þess má nærri geta að þeir voru stráfelldir af skriðdrekum og fótgönguliði í öllum tilvikum nema í skógum og mýrlendi. Þar hafði hesturinn enn yfirhöndina. Þjóðverjar réðust inn í Pólland með tæplega 2000 flugvélar, 2500 skriðdreka, hálfa aðra milljón hermanna og níu þúsund byssur. Pólverjar höfðu 400 flugvélar sem komu að nánast engum notum, 500 skriðdreka, eina milljón hermanna og 2800 byssur. Tæknilega séð var þetta því ójafn leikur. Sovétmenn komu svo síðar með 4700 skriðdreka, 3200 flugvélar og 620 þúsund hermenn. Kalda stríðið á Íslandi. Kalda stríðið er hugtakið sem er notað um tímabil togstreitu, pólitíska, átaka og efnahagslegrar og fleira. Kalda stríðið byrjaði þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 og einkenndist af spennuástandi milli tveggja risavelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sem kepptu um áhrif og völd í heiminum. Íslendingar fengu hervernd frá Bandaríkjamönnum á stríðsárunum en þeir vildu síðan ekki fara úr landinu eftir stríðið. Ólafur Thors gerði síðan samning við Bandaríkjamenn að þeir fengu að nota Keflavíkurflugvöllinn eftir stríðið en herliðið mátti ekki vera á landinu, með því skilyrði að Íslendinga fengju að eiga flugvöllinn. Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn studdu aðild Íslands að NATO en Sósíalistaflokkurinn var á móti því. Þegar var lokaumræða um inngöngu í NATO var haldið fund á Lækjartorgi og Austurvelli. Það var mikið af slagsmálum gegn Alþingi. Táragas var notað gegn mannfjöldanum til að losna við grjóthríð og slagsmál. Enginn slasaðist alvarlega. Nýsköpunastjórn var mynduð haustið 1944 undir stjórn Ólafs Thor, formanns Sjálfstæðisflokksins. Þeirra markmið var að skapa atvinnulíf fyrir Íslendinga með því að nota fé sem Íslendingar áttu í erlendum banka. Peningarnir voru notaðir til að kaupa báta, hraðfrystihús, togara og fleira. Ekki gekk áætlunin upp eins og þeir áttu von á. Þeir fengu samt að halda stjórn vegna kosninga sem voru haldnar árið 1946. Kalda stríðið á Íslandi. Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinar hafnaði íslenska ríkistjórnin vernd frá Bretum vegna hlutleysisyfirlýsingarinnar en Bretar tóku það ekki alvarlega og mánuði eftir hernám Danmerkur árið 1940 komu þeir með skip til Íslands og hernámu landið. Íslendingar voru frekar fegnir að hernámsliðið var breskt en ekki þýskt. Árið 1941 gerðu Bretar samning við Íslendinga og Bandaríkin um að þau tækju við vernd landsins og 7. júní 1941 komu Bandaríkjamenn með fimm þúsund manna herlið til Íslands. Það veitti eitt til tvö þúsund Íslendingum atvinnu og tekjur þeirra af hernum námu að meðaltali um 5% af erlendum gjaldeyristekjum. Þeir lofuði þó að hverfa úr landinu um leið og stríðinu lyki en þegar því lauk ákváðu Bandaríkjamenn að þeir vildu hafa herliðið áfram á landinu. Íslendingar höfnuði en þeir neituðu að fara. Ólafur Thors forsetisráðherra gerði samning við Bandaríkjamenn, Keflavíkursamninginn, haustið árið 1946 og varð hann til þess að binda enda á samstarfið í Nýsköpunarstjórninni milli sósíalista og sjálfstæðismanna. Í honum var líka gert ráð fyrir því að Bandaríkjaher færi af landinu innan hálfs árs og Keflavíkurflugvöllurinn yrði að eign Íslendinga en Bandaríkjamenn gætu samt fengið aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir boragaralega klætt starfslið vegna herflutninga til og frá Evrópu. Samningurinn var samþykktur á Alþingi með 32 atkvæðum gegn 19. Sósíalistar slitu samstarfinu í Nýsköpunarstjórninni vegna þess að Sósíalistaflokkurinn og hluti Alþýðuflokksmanna og Framsóknarmanna taldi að samningurinn væri óviðunandi brot á hlutleysisstefnu Íslendinga. Síðan tók kalda stríðið völdin í íslenskum stjórnmálum. Ísland í NATO. Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur undir stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar ákváðu að Ísland skyldi ganga í NATO í mars 1949 með því skilyrði að Bandaríkjaher yrði að fara úr landi á friðartímum en þessi skilyrði voru hvergi skráð í samninginn. Sósíalistaflokkurinn var eini flokkurinn sem stóð gegn aðildinni. Menn óttuðust að Sósílistaflokkurinn myndi reyna að koma af stað byltingu með stuðningi Sovétmanna eins og gert var í Tékkóslóvakíu árið 1948. Marshallastoðin 1948 – 1952 hafði haldið efnahag Íslendinga á floti og jók líklega áhuga ráðamanna á samstarfi við Bandaríkin. Klukkan 10 um morguninn 30. mars 1949 var lokaumræða um tillöguna um inngöngu Íslands í NATO. Fréttablaði var dreift um bæinn og tilkynnt var um að fólk skyldi safnast saman á útifund klukkan 1 í Lækjargötu við Miðbæjarskólann og krefjast þar þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna en aldrei fékkst leyfi til að halda fundinn. Stuðningsmenn aðildarinnar að NATO dreifðu síðan öðrum miða, undirrituðum af formönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknaflokks og Alþýðuflokks. Þar var skorað á friðsama borgara að koma á Austurvöll milli klukkan 12:00 og 13:00 til að sýna að þeir vildu að Alþingi hefði starfsfrið. Sigurður Guðnason alþingismaður sósíalista hélt tvær ræður á fundi í Lækjargötu og ályktun var samþykkt um að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan fór fólk á Austurvöll og safnaðist saman þar. Talið er að þar hafi verið um 10 til 15 þúsund manns á Austurvelli þennan dag og fólksfjöldi í Reykjavík var 55 þúsund á þessum tíma og 30 þúsund kjósendur. Fyrst byrjaði fólk að hrópa og síðan var kastað eggja-, mold- og grjóthríð að Alþingishúsinu. Einn þingmaður fékk glerbrot í auga og stein í höndina. Fundinum lauk 14:30 en fólk hélt áfram að kasta grjóti og endaði með því að lögreglustjóri gaf skipun um að dreifa mannfjöldanum. Lögreglan reyndi tvisvar sinnum en það tókst ekki. Mikið var af slagsmálum á svæðinu. Lögreglan ákvað síðan að varpa táragassprengju á mannfjöldanum. Það tók örfáa stund að tæma Austurvöll. Í átökunum meiddust fimm lögreglumenn og nokkrir almennir borgarar. Stjórnmál eftir stríð. Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Sósíalistaflokkur mynduðu ríkisstjórn undir formennsku Sjálfstæðisflokksins, Ólafs Thors, haustið 1944 og þau kölluðu sig Nýsköpunarstjórn. Markmið þeirra var að byggja upp nútímasamfélag á Íslandi með því að tryggja sjálfstæði og öryggi Íslands út á við og hefja stórvirka nýsköpun í atvinnulífi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin gerði ráð fyrir því að helmingi frjársins sem Íslendingar áttu, tæplega sex milljónir króna, í erlendum bönkum til að byggja upp atvinnulífsins. Það voru keyptir 30 togarar, bátar, þrjár síldarverksmiðjur, hraðfrystihús og fleira. Á tveimur árum var næstum því búið að eyða öllum fjármunum sem voru til og afleiðingarnar voru ekki eins góðar og þau áttu von á. Stjórnaflokkarnir vildu efla íslenskan sjávarútveg og iðnað til að stuðla að aukinni borgarmenningu en Framsóknarflokkurinn var á móti því vegna þess að hann vildi umfram annað efla sveitirnar, samvinnufélögin og ýmsan smáiðnað sem setið hafði í stjórn árið 1927. Hugmyndir Nýsköpunarstjórnarinnar voru í raun hugmyndir frá Alþýðuflokknum frá fjórða áratugnum þegar var mynduð stjórn hinna vinnandi stétta. Nýsköpunarstjórnin leit vel út í pappír en ekki við efnahagslegan veruleika. Elsku besta Binna mín. "Elsku besta Binna mín" er bók eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttir. Næring nýbura á brjósti. Reflexar sem barnið notar við að gefa til kynna að það vilji næra sig og til að næra sig Börn fæðast með mörg frumstæð ósjálfráð viðbrögð (primitive reflexes) sem eru hluti af aðlögun barnsins að hinum nýja heimi utan móðurkviðar. Leitunarviðbragð og sogviðbragð eru hluti af þessum viðbrögðum. Við það að snerta varir nýburans, kinn eða munnvik leitar höfuð barnsins í átt að áreitinu (snertingunni) opnar munninn og leitar eftir því að fá brjóstið í munninn til að sjúga. Þetta ósjálfráðaviðbragð hverfur um 4 mánaða aldur. Þetta leitunarviðbragð notar barnið meðal annars til að gefa til kynna að það sér svangt. Grátur er einnig hæfileiki sem börn fæðast með og aðferð barnsins til þess að láta vita af óþægindum svo sem kulda, verkjum, þreytu og svengd. Og svo einnig ef það vill láta halda á sér (Lowdermilk o.fl., 2012 og Primitive reflexes, e.d.) Ástralska söngkonan Priscilla Dunstan hefur þróað leiðbeiningar sem lýsa því hvernig barnið gefur frá sér mismunandi hljóð í grátinum til að gefa upplýsingar um mismunandi þarfir. Dunstan fæddist með þann hæfileika að hafa „ljósmyndaminni“ á hljóð. Hún hefur nú gert alþjóðlega rannsókn á gráti hjá ungörnum og komist að þeirri niðurstöðu að öll börn óháð þjóðerni og stað í heiminum eiga sameiginlega tungumál. Þar hefur hún meðal annars skilgrein það hljóð sem börn gefa frá sér þegar þau eru svöng. Þá er hljóðið „Neh“ áberandi í grátinum og mikilvægast að hlusta eftir „n“ hljóðinu. En til að mynda það hljóð þarf að setja tunguna upp í góminn og sleppa henni við útöndun. Við það að búa til þetta tiltekna hljóð þarf einmitt að nota hið svokallaða sogviðbragð (Dunstan Baby Language, e.d.) Sogviðbragðið virkjast þegar geirvartan er á milli varanna á barninu og snertir efri góminn. Barnið grípur um geirvörtuna með munninum og byrjar að sjúga. Þetta er flókið lífeðlisfræðilegt kerfi þar sem sog- og kyngingarviðbragð þurfa að vinna vel saman. Þessi hæfileiki þroskast við um 32. viku meðgöngu. Börn fædd fyrir þann tíma þurfa því að fá magasondu til að geta nærst. Börn fædd mjög létt eða fyrir tímann eru líklegri til að eiga við sogvandamál og –erfiðleika að stríða. Sogviðbragð barna er þó margbreytilegt og margt sem getur spilað það inn í. Rannsóknir hafa sýnt að sogviðbragðið þroskast og bætist með þjálfun. Fyrsta sólarhringinn eru börn mikið sofandi en taka við sér í að sjúga á öðrum degi. Besti tíminn til að gefa barninu er þegar það er vel vakandi og rólegt. Ýmis veikindi og slappleiki hjá barninu geta haft áhrif á soggetu þrek til að sjúga hjá barninu. Hitastigið þarf að vera æskilegt en ef barninu er of heitt getur sogviðbragðið hjá því verið lélegt. Gott er að hafa það bara á bleiunni upp við bera bringu móðurinnar við brjóstagjöf eða þess sem gefur pela (MacMullen og Dulski, 2000). Rannsóknir hafa sýnt að ungbörn nota hendurnar jafnt og varir og tungu til að draga að sér geirvörtuna. Þrátt fyrir að leiðbeiningar hingað til hafi ráðlagt að halda höndum barnsins í skefjum á meðan brjóstagjöf stendur hefur komið fram að barnið notar hendurnar vísvitandi í tengingunni við móðurina í brjótsgjöfinni til um það bil fjögurra mánaða aldurs (Catherine, 2010). Yngvars saga víðförla. Yngvars saga víðförla er ein af fornaldarsögum Norðurlanda. Í sögunni er sagt frá herför Yngvars víðförla árið 1041 og er þar blandað saman staðreyndum og sögnum. Herdísarvík. Herdísarvík í Selvogi er vestasta jörð og samnefnd vík í Árnessýslu í landi Sveitarfélagsins Ölfuss. Einar Benediktsson skáld bjó í Herdísarvík í um áratug en nú er jörðin í eyði. Hús skáldsins, sem hann reisti þar, er núna í eigu Háskóla Íslands. Hamrar Herdísarvíkurfjalls eru 329 m háir og gnæfa upp yfir víkinni til norðurs. Herdísarvík er eyðilegur staður en þar er fjölskrúðugt dýralíf. Jörðin Herdísarvík státar af þúsund ára búsetu en nú stendur þar lítið annað en hús Einars Benediktssonar sem hann reisti eftir að hann flutti á jörðina. Hlaðnir túngarða og veggir frá fyrri tíð eru þar á jörðinni og hluti af þeim er húsið sem Einar bjó í þegar hann fluttist fyrst í Herdísarvík. Ólafur Þorvaldsson, þingvörður, var bóndi að Herdísarvík um tíma. Hann var gildur bóndi, átti til dæmis þúsund fjár á fjalli seinasta árið sem hann bjó í Herdísarvík. Það var fardagaárið 1932 – 1933. Landsdrottinn Ólafs þar var Einar sem fluttist þangað 1932 og var því samtímis Ólafi í eitt ár. Einar bjó í Herdísarvík þar til hann lést árið 1940. Einar Benediktsson fluttist til Herdísarvíkur með Hlín Johnson sem annaðist hann þar þegar ellin tók að herja á Einar. Þegar Einar lést arfleiddi hann Háskóla Íslands að jörðinni, húsinu og bókasafni sínu. Herdísarvík er 4.218 ha land sem hefur verið friðlýst og á lista yfir friðlýst svæði á Íslandi frá árinu 1988. Árið 1952 var fé sett til höfuðs Herdísarvíkur-Surtlu sem varð frægasta og dýrasta sauðkind landsins. Kind þessi var í eigu Hlínar Johnson og sú síðasta í þúsund ára sauðfjárstofni Grunur um mæðiveiki olli því að fella varð allt fé á suðurlandi. Fjölda manna leitaði að Surtlu í langan tíma áður en hún náðist. Einhverjir töldu að Surtla hefði ekki getað verið sýkt vegna þess þreks sem hún sýndi í eltingaleiknum sem stóð yfir í meira en eitt ár. Í dag prýðir hauskúpa Surtlu vegg í Tilraunastöðinni á Keldum til minningar og sem fulltrúi þessa harðgera sauðkindastofns. Nafn Herdísarvíkur. Víkin ber nafn sitt af munnmælasögu af Herdísi tröllskessu sem var systir Krýsu og segir sagan að ófriðurinn á milli þeirra hafi bitnað á landgæðum sveitanna í kringum Krýsuvík og Herdísarvík. Útgerð og búskaparhættir í Herdísarvík. Í Herdísarvík var áður bær á flöt við tjarnarbakkann og var viðarverkið í bænum unnið úr rekaviði úr fjörunni, Bærinn var svo nálægt sjó að stundum flæddi inn í bæinn. Það gerðist veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum. Flóðið kom inn í bæinn og varð fólkið að flýja upp í hlöðu uppi á túninu sem stóð hærra en bærinn. Það eru tvö tún í Herdísarvík og fékkst af þeim 179 hestar af heyi í meðalári á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Í Herdísarvík eru fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar eru leifar sjóbúða og óteljandi hraungarða hlaðnir af mannahöndum sem voru þurrkreitir þar sem fiskurinn var hertur. Herdísarvík þótti gott fiskver og var róið út á víkina og fékkst oft góður afli. Seinna var farið að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi. Eftir sumarmál fór fiskur á svonefndar „Forir“ og aflaðist oft vel þar í vertíðarlok. Útgerð lagðist að mestu af í Herdísarvík um tíma en fyrir aldamótin 1900 hófst útgerð þar aftur og veturinn 1896 gengu þaðan átta skip. Þá var farið að salta allan fisk. Nýjar sjóbúðir risu. Þá var róið þarna á tíæringum Suðurstrandavegur. Suðurstrandarvegur liggur frá Grindavík að Þorlákshöfn um sveitir þeirra Krísu og Herdísar og þar er vegastæðið þeim kosti búið að í miklum snjóaveðrum er þar auður strandvegur og því greiðfær flesta daga ársins. Suðurstrandavegi er ætlað að auka samgöngur milli landsvæða og ekki síst auka á atvinnuhorfur sunnlendinga með meðal annara ferðamennsku í huga. Herdísarvík er gróskumikið og vinsælt berjaland á sumrin og má sjá fjölmarga bíla lagt í kantinn þegar líða tekur að hausti þar sem finna má krækiber, bláber og einnig hrútaber. Landið er úfið hraun með sjó oft beljandi við ströndina á aðra hönd og bratt berg á hina. Birkikjarr vex þar nú upp eftir að urðu til að beit létti með tilkomu sauðfjárgirðingar. Fimleikafélag Akureyrar. Fimleikafélag Akureyrar var stofnað 17. nóvember 2004 en áður var starfandi fimleikaráð, sérráð innan Íþróttabandalags Akureyrar. Iðkendur félagsins voru í upphafi tæplega 400 en eru nú rúmlega 800 (vorönn 2012). Fyrsti formaður Fimleikafélags Akureyrar var Fríða Pétursdóttir Khat. Khat (fræðiheiti: "Catha edulis") einnig kölluð "qat", "gat" eða "miraa" er planta sem á sér heimkynni á arabíuskaga og norðaustur Afríku. Hjá þjóðum sem byggja þessi svæði á neysla khats sér þúsunda ára sögu. Khat inniheldur efnið "Cathinone", sem er örvandi efni ekki ósvipað amfetamíni, og er sagt valda spennu, tapi á matarlyst og vellíðan. Árið 1980 skilgreindi Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin "Cathinone" sem "fíkniefni", sem getur verið ávanabindandi. Þó gætir minni ávanabindingar en tóbaki og vínandi. Efnið er eftirlitsskylt eða ólöglegt í sumum löndum en löglegt til sölu og framleiðslu í öðrum. Yersinia pestis. "Yersinia pestis" er gerill. Hann er þekktastur fyrir að hafa valdið svartadauða, sem var plága sem ríkti í Evrópu árin 1347-1350. Centaurus A. Centaurus A eða NGC 5128 er stjörnuþoka. Joan Miró. Joan Miró i Ferrà (20. apríl 1893 – 25. desember 1983) var spænskur listmálari, myndhöggvari og leirlistamaður, fæddur í Barcelona. Safn honum til heiðurs, "Fundació Joan Miró", er starfrækt þar í borg. Verk hans hafa verið flokkuð sem súrrealísk, enda oft talinn einn helsti liðsoddur þeirrar stefnu, en oft blandast þar einnig saman hræringar undirmeðvitundarinnar, endursköpun á bernskunni og stolt hins katalanska þjóðernis. Ævi. Miró kom af ættum gullsmiða og húsgagnasmíðara. Hann byrjaði ungur að teikna sér til gamans í kennslustundum í grunnskóla áður en hann gekk í listaskólann í La Llotja árið 1907, föður sínum til mikillar gremju. Hann lærði í Cercle Artístic de Sant Lluc skólanum og hélt sína fyrstu sýningu árið 1918 í Dalmau galleríinu. Verkum hans var vægast sagt illa tekið, enda voru þau mjög nýstárleg og öðruvísi en þau verk sem voru algeng á þessum tíma. Miró flutti til Parísar árið 1920 til þess að vera nær listasamfélaginu sem hafði myndast þar. Þegar að hann flutti til Parísar þá fór stíllinn hans að breytast nokkuð, það fór að bera meira á einstökum stíl Miró ásamt áhrifum frá Þjóðernishyggju. Þjóðernisstíllinn sem hann var farinn að mynda sér einkenndi verk hans út ferillinn, sem og symbólismi. Árið 1924 gekk Miró í hóp sem kallaði sig Súrrealíska hópinn. Þau verk sem hann gerði á því tímabili sem hann var í þessum hóp eru oft kölluð „Draumaverk“ Mírós en þau voru langt frá því að vera hefðbundin. Árið 1928 málaði hann verkið The Dutch Interiors en það er talið marka endalok draumatímabilsins. Miró giftist Pilar Juncosa Iglesias í Palma á Mallorca árið 1929. Með henni eignaðist hann dótturina Dolores árið 1931. Miró var giftur Pilar til dauðadags, 25. desember 1983. Joan Miró var einn þekktasti listamaður heimsins á 20. öld. Verk hans voru gríðarlega áhrifamikil í listaheiminum og þá sérstaklega fyrir þá sem aðhylltust súrrealíska stefnu. Tilvísanir. Miró, Joan Kerlingarfjöll. Kerlingarfjöll er fjallgarður á hálendi Íslands nálægt Kili. Jarðvegur er sums staðar rauður á svæðinu vegna eldvirkni þar. Jarðefni úr hverum á svæðinu eru gul, rauð og græn. Vinsælt skíðasvæði var í Kerlingarfjöllum en það var aflagt árið 2000. Aðstaða er fyrir ferðamenn í Kerlingarfjöllum. Hringtorg. Hringtorg er viss tegund af gatnamótum sem felst í því að umferð andstæðra gatna er beint í kringum hringlaga torg (umferðareyju). Hringtorg eru margvísleg og eru til með einni akrein, tveimur eða jafnvel fleirum. Umferðarreglur á Íslandi kveða á um að umferð í hringtorgi eigi réttinn en sé hringtorgið tvíbreitt þá á innri akreinin réttinn. Hringtorg í sinni núverandi mynd voru stöðluð á Bretlandi eftir reynslu á notkun þeirra í Bandaríkjunum en eru núna algeng víða um heim. Upphaf hringtorga. Orðið hringtorg (e. "roundabout") á rætur að rekja til upphafs 20. aldarinnar. Í Bandaríkjunum er hugtakið "traffic circle" notað um gatnamót sem stjórnað er af stöðvunarskyldu, umferðarljósum eða hægri rétti á meðan "roundabout" er notað sérstaklega um það sem við þekkjum sem hringtorg. Saga. Fyrsta hringtorgið í heimi var byggt í Letchworth Garden City árið 1903 í Bretlandi. Upprunalega átti hringtorgið einnig að vera umferðareyja fyrir gangandi vegfarendur. Í byrjun 20. aldarinnar voru ýmis hringlaga gatnamót byggð í Bandaríkjunum, sérstaklega í Norð-Austur fylkjunum. Mörg dæmi eru um hringlaga gatnamót eldri en nútíma hringtorg í Bandaríkjunum, til dæmis má nefna þær sem finnast í bænum Atherton í Kaliforníu. Notkun nútíma hringtorga fór að breiðast út á 7. áratugnum þegar settar voru reglur um gerð þeirra til að auka öryggi og til að gera umferð skilvirkari. Öll ný hringtorg í Bretlandi fylgdu þessum reglum frá Nóvember 1966. Helsti munurinn á hringtorgunum og hinum gömlu hringlaga gatnamótum var sá að í hringtorgum hafa bílar sem þegar eru í hringtorginu og þeir sem ætla út úr hringtorginu forgang á komandi umferð. Á gömlu hringlaga gatnamótunum höfðu oft verið sett umferðarljós en það þótti valda ruglingi og miklum biðum og því var hætt að nota þau. Hringtorg voru ekki eins vinsæl í Bandaríkjunum og fóru ekki að sjást að neinu ráði fyrr en á tíunda áratugnum. Árið 2011 voru um það bil 3000 hringtorg í Bandaríkunum og þeim fjölgar stöðugt. Fyrsta nútíma hringtorg Bandaríkjanna var byggt árið 1990 í Summerlin í Nevada fylki. Hringtorginu var ekki tekið vel af íbúum á svæðinu. Hringtorg eru mun algengari í Evrópu. Til dæmis hafði Frakkland yfir 30,000 hringtorg árið 2010. Akstur. Á vel hönnuðu hringtorgi (e. "roundabout") er auðvelt að aka. Meginreglan er sú að sá sem ætlar að beygja út úr torginu á fyrstu gatnamótum, skal undantekningarlaust vera á hægri akrein, það er að segja á ytri akreininni í hringtorginu. Þá er mælt með því að sá sem ætlar að aka framhjá fyrstu gatnamótunum og fara út á öðrum gatnamótum sé alla jafnan einnig á ytri akreininni, þótt ekkert banni honum að fara í innri hring. Ætli ökumenn hins vegar að beygja út úr hringtorgi á þriðju eða fjórðu gatnamótum, skulu þeir fara í innri hring. Ekkert bannar þeim þó að aka í ytri hring, en í mikilli umferð má búast við að þeir valdi truflun og óþægindum fyrir aðra ökumenn haldi þeir sig í ytri akrein fram hjá svo mörgum gatnamótum. Aldrei má skipta um akrein í hringtorgi og á Íslandi er reglan sú að umferð á hringtorgi hefur ávallt forgang fyrir þeim sem eru að aka inn í það. Hringtorg á Íslandi lúta ekki sömu akstursreglum og í öðrum löndum. Réttur á innri hring umfram ytri er aðeins til á Íslandi. Útlendingar á ferð hérlendis, sem aka um tveggja akreina hringtorg, þekkja yfirleitt ekki „íslensku regluna“. Öryggi. Aðalkostir hringtorga í samanburði við aðrar gerðir gatnamóta er að umferðarhraði á hringtorgum er jafnari og minni en á ljósastýrðum vegamótum þar sem að öll ökutæki sem koma að hringtorgi þurfa að hægja á sér til að veita þeim ökutækjum sem eru inni í torginu forgang. Einnig er búið að skipta vinstri- og U-beygjum út fyrir hægribeygjur og því er ákvarðanataka ökumanna auðveldari í hringtorgum. Í hringtorgum eru einnig færri staðir en í öðrum gerðum gatnamóta þar sem umferðarstraumar ökutækja, hjólreiðamanna og gangandi vegfaranda skerast, koma saman eða greinast. Þessir staðir eru kallaðir bágapunktar. Töluverður munur er á óhöppum sem gerast á ljósastýrðum vegamótum og í hringtorgum. Á ljósastýrðum gatnamótum er algengast að óhöpp gerist í tengslum við vinstribeygjur eða þegar tvö ökutæki skella hornrétt saman. Aftur á móti eru fyrrnefndu tegundir óhappa ekki til staðar í hringtorgum. Á hringtorgum eru flest óhöpp hliðarárekstrar sem verða á milli ökutækja sem stefna nokkurn veginn í sömu átt og eru nánast á sama hraða. Þessi óhöpp eru að jafnaði ekki eins alvarleg og óhöpp á öðrum gerðum gatnamóta, í flestum tilfella er um eignatjón að ræða. Árið 2003 var birt rannsókn á umferðaröryggi hringtorga á Íslandi. Í henni kemur fram að flest umferðaróhöpp sem gerast í hringtorgum voru af sama toga og tíðkast erlendis. Þar tíðkast að flest óhöpp gerist þegar ökutæki aka inn í hringtorg á önnur ökutæki í hringtorginu eða þegar ekið er á kyrrstætt ökutæki. Í rannsókninni kemur einnig fram að skoðuð voru óhöpp á 11 hringtorgum í Reykjavík, alls 491 umferðaróhöpp. Af þeim var 471 umferðaróhapp með eignartjóni, 13 óhöpp með minniháttar meiðslum, 6 óhöpp með meiriháttar meiðslum og eitt dauðaslys. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir þ.e.a.s. að þau óhöpp sem verða á hringtorgum eru oftast ekki alvarleg. Deildarbikarkeppni karla í knattspyrnu. Deildarbikarkeppni karla í knattspyrnu er knattspyrnukeppni sem haldin er síðla vetrar og á vorin á vegum Knattspyrnusambands Íslands. Mótið er helsta æfingarmót íslenskra félagsliða og fer úrslitaleikurinn að jafnaði fram fáeinum dögum fyrir upphaf Íslandsmótsins. Mótið var fyrst haldið árið 1996. Útsvar 2011-2012 (Sjónvarpsþáttur). er sjónvarpsþáttur á RÚV þar sem 24 sveitarfélög keppa sín á milli í spurningaleik. Þættirnir hófu göngu sína 14. september 2007. Umsjónarmenn eru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur B. Guðnason. Fyrsta umferð. 1. þáttur - 2. september 2011 Árborg 58 - 42 Hornafjörður 2. þáttur - 9. september 2011 Grindavíkurbær 67 - 58 Reykjanesbær 3. þáttur - 16. september 2011 Fjarðabyggð 61 - 55 Hafnarfjörður 4. þáttur - 23. september 2011 Fjallabyggð 41 - 50 Snæfellsbær 5. þáttur - 30. september 2011 Akranes 88 - 77 Dalvíkurbyggð 6. þáttur - 7. október 2011 7. þáttur - 14. október 2011 Ísafjarðarbær 81 - 45 Mosfellsbær 8. þáttur - 21. október 2011 Skagafjörður 69 - 70 Vestmannaeyjar 9. þáttur - 28. október 2011 Akureyri 67 - 58 Kópavogur 10. þáttur - 4. Nóvember 2011 Hveragerði 74 - 61 Norðurþing 11. þáttur - 11. Nóvember 2011 12. þáttur - 7. október 2011 Sveitarfélagið Álftanes 78 - 50 Borgarbyggð 16 liða úrslit. 13. þáttur - 25. nóvember 2011 Snæfellsbær 84 - 80 Vestmannaeyjar 14. þáttur - 2. desember 2011 Akranes 56 - 64 Hveragerði 15. þáttur - 9. desember 2011 Fjarðabyggð 67 - 70 Ísafjarðarbær 16. þáttur - 16. desember 2011 Árborg 60 - 108 Grindavíkurbær 17. þáttur - 6. janúar 2012 Seltjarnarnes 51 - 76 Skagafjörður 18. þáttur - 13. janúar 2012 Dalvíkurbyggð 74 - 80 Fljótsdalshérað 19. þáttur - 20. janúar 2012 Sveitarfélagið Álftanes 56 - 82 Garðabær 20. þáttur - 27. janúar 2012 Akureyri 61 - 66 Reykjavíkurborg 8 liða úrslit. 21. þáttur - 4. febrúar 2012 Grindavíkurbær 110 - 57 Skagafjörður 22. þáttur - 10. febrúar 2012 Hveragerði 64 - 68 Fljótsdalshérað 23. þáttur - 17. Febrúar 2012 Reykjavíkurborg 85 - 69 Snæfellsbær 24. þáttur - 4. Apríl 2012 Garðabær 66 - 46 Ísafjarðarbær 4 liða úrslit. 25. þáttur - 13. apríl 2012 Reykjavíkurborg 92 - 96 Grindavíkurbær 26. þáttur - 20. apríl 2012 Fljótsdalshérað 74 - 69 Garðabær Úrslit. 27. þáttur - 27. apríl 2012 Yuriev-klaustrið. Yuriev-klaustrið (rússneska: "Юрьев монастырь") er rétttrúnaðarklaustur í Hólmgarði í Rússlandi. Volkhov (á). Volkhov er á í Rússlandi. Hún er 224 kílómetrar á lengd. Harðlífi. Harðlífi eða hægðatregða á við erfiðleiki með að hafa hægðir. Meðferð við harðlífi er neysla hægðalyfja eða matar eins og hörfræ til þess að lina upp hægðir til að þær komist út. Ólafur Elíasson. Ólafur Elíasson (fæddur 1967 í Kaupmannahöfn í Danmörku) er dansk-íslenskur listamaður. Ólafur er þekktastur fyrir skúlptúra og umsvifamiklar innsetningar þar sem hann notar frumefni eins og ljós, vatn og lofthita til að auka reynslu áhorfandans af verkinu. Árið 1995 stofnaði hann Studio Ólafs Elíassonar í Berlín sem er tilraunastofa fyrir rýmisrannsóknir. Ólafur Elíasson var fulltrúi Danmerkur á Feneyjatvíæringnum árið 2003 og síðar það ár setti hann upp "The Weather Project" í The Turbine Hall í Tate Modern, London. Ólafur Elíasson hefur tekið þátt í fjölda verkefna á opinberum stöðum, þar á meðal íhlutuninni Green River sem fór fram í ýmsum borgum á árunum 1998-2001, í Serpentine Gallery Pavilion 2007, London, tímabundið Pavilion sem hann hannaði með norska arkitektinum Kjetil Thorsen, "New York City Waterfalls" árið 2008 sem var á vegum Public Art Fund árið 2008. Ævi. Ólafur Elíasson segir frá verki sínu "The New York City Waterfalls" Ólafur Elíasson er fæddur í Kaupmannahöfn árið 1967 og á íslenska foreldra. Hann stundaði nám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1989-1995. Árið 2004 sagði Ólafur Elíasson í viðtali við tímaritið Berlin Magazine 032c að faðir hans væri einnig listamaður. Í sama viðtali sagði hann einnig að hann áliti sín fyrstu listaverk vera breikdans frá miðjum níunda áratugnum. Árið 1990 fékk hann ferðastyrk frá Konunglegu listaakademíunni og fór til New York þar sem að hann vann sem aðstoðarmaður á vinnustofu listamanns. Hann útskrifaðist frá skólanum árið 1995 eftir að hafa flutt til Kölnar í eitt ár og eftir það til Berlínar þar sem hann hefur verið með vinnustofu síðan. Það var upphaflega staðsett í vöruhúsi við hliðina á Hamburger Bahnhof, árið 2008 flutti hann vinnustofu sína í gamalt brugghús í Prenzlauer Berg. Árið 1996 hóf Ólafur Elíasson samstarf með Einari Þorsteini arkitekti og sérfræðingi í rúmfræði. Einar Þorsteinn er 25 árum eldri en Ólafur Elíasson og gamall vinur Buckminster Fuller sem var bandarískur kenningasmiður, arkitekt og hönnuður. Fyrsta verk þeirra Ólafs Elíassonar og Einars Þorsteins kölluðu þeir 8900054, það var ryðfrí stálhvelfing sem var 9,1 metri á breidd og 2,1 metra há. Verkið var hannað þannig að það leit út fyrir að vaxa úr jörðinni. Þar sem áhrif verksins eru "sjónhverfing" á mannshugurinn erfitt með að trúa því að mannvirkið sé ekki hluti af stærra og meira ferli djúpt í iðrum jarðar. Kunnátta Einars Þorsteins á rúmfræði og rými er samofin listrænni framleiðslu Ólafs Elíassonar, þessi áhrif eru auðséð á rúmfræðilegum verkum hans með ljós jafnt sem hvelfingar, göng og verkefnum hans tengd myndavélum. Mörg verkefni vinnur listamaðurinn í samvinnu við sérfræðinga á ýmsum sviðum, þeirra á meðal eru arkitektarnir Einar Þorsteinn og Sebastian Bechmann (báðir hafa verið reglulegir samtarfsmenn Ólafs Elíassonar), rithöfundurinn Svend Åge Madsen ("The Blind Pavilion"), landslagsarkitektinn Gunther Vogt ("The Mediated Motion"), Cedric Price hugmyndasmiður í arkitektúr ("Chaque matin je me sens différent, chaque soir je me sens le même") og norski arkitektinn Kjetil Thorsen (Serpentine Gallery Pavilion, 2007). Studio Ólafs Elíassonar í Berlín er í dag tilraunastofa fyrir rýmisrannsóknir þar vinnur teymi sem inniheldur 30 arkitekta, verkfræðinga, iðnaðarmenn og aðstoðarfólk sem prófa, búa til og byggja upp innsetningar, skúlptúra, umsvifamikil verk og sjá um skipulagningu. Sem prófessor í Universität der Künste Berlin, setti Ólafur Elíasson á laggirnar stofnun fyrir tilraunir með rými (Institut für Raumexperimente, IfREX) sem opnaði á sama stað og vinnustofa hans árið 2009. "Ventilator". Eitt af fyrri verkum Ólafs Elíassonar felur í sér sveiflubundnar og rafdrifnar viftur sem hanga niður úr loftinu. "Ventilator" (1997) sveiflast fram og aftur og í hringi um leið og það hringsnýst um eigin möndul. "Quadrible light ventilator mobile" (2002-2007) er rafdrifinn órói sem snýst og er ljóskastari og fjórar viftur sem blása lofti um sýningarsalinn og skanna það með ljóskeilu. "The weather project". "The weather project" var sett upp í Tate Modern safninu í Lundúnum 2003 sem hluti af hinni vinsælu Unilever syrpu. Innsetningin fyllti opna rýmið í Turbine salnum í galleríinu. Ólafur notaði rakatæki til að búa til fíngerðan úða í loftinu blandaðan sykri og vatni ásamt hálf-kringlóttum diski gerðum úr hundruðum einlitum lömpum sem gáfu frá sér eina tíðni af gulu ljósi. Loftið í salnum var þakið stórum speglum þar sem gestir gátu séð sjálfa sig sem örlitla svarta skugga gagnvart massa af rauðgulu ljósi. Margir gestir brugðust við sýningunni með því að leggjast á bakið og veifa handleggum og fótleggjum. Verkið var sýnt í hálft ár og um tvær milljónir gesta sáu það, þar af margir oftar en einu sinni. Ljósasýningar. Ólafur hefur þróað ýmsar tilraunir með þéttleika andrúmsloftsins í sýningarsölum. Í "Room for one colour" (1998), gangur sem var lýstur upp með gulum eintíðnis túbum, upplifði þátttakandinn herbergi fyllt af ljósi sem hafði áhrif á skynjun hans á öllum öðrum litum. Önnur sýning, "360 degrees Room for all colours" (2002), sýndi hringlaga ljós-skúlptúr þar sem þátttakendur misstu rýmisskynjun og áttavit, ásamt því að finnast þeir vera hluti af mjög áköfu ljósi. Seinna verk Ólafs, "Din blinde passager" (2010), umbeðið af Arken nýlistasafninu, er 90 metra löng göng. Þegar gestur gengur inn í göngin er hann umkringdur þéttri þoku. Gestir safnsins geta aðeins séð einn og hálfan meter frá sér og þurfa því að reiða sig á önnur skilningarvit en sjónina til að átta sig á kringumstæðum. Í "Feelings are facts", vann Ólafur í fyrsta sinn með kínverska arkitektinum Yansong Ma, þetta var einnig hans fyrsta sýning í Kína. Þar setur Ólafur þétta þokubakka líða um Samtímalistasafn Ullens í Peking. Hundruðum flúorljósa var komið fyrir í lofti safnsins í formi grinda með rauð, græn og blá svæði. "Your black horizon". Þetta verkefni, ljósasýning umbeðin af Samtímalistasafni Thyssen-Bornemisza fyrir Venice Biennale í samstarfi við breska arkitektinn David Adjaye, var sýnt frá 1. ágúst til 31. október 2005. Verkið var sýnt á eyjunni San Lazzaro í lóni í grennd við Feneyjar á Ítalíu. Sýningartjald var sett upp á lóð klausturs San Lazzaro til að hýsa sýninguna. Tjaldið samanstóð af svartmáluðu ferhyrningslaga rými, eina lýsingin í rýminu var þunn ljóslína sem lág inni í öllum fjórum veggjum rýmisins í augnhæð sýningargesta. Lýsingin átti að tákna lárétta skiptingu á milli þess sem er fyrir ofan og neðan. Tjaldið var opnað aftur frá júní 2007 þar til í október 2008 á eyjunni Lopud undan ströndum Króatíu, nálægt borginni Dubrovnik. "Your Mobile Expectations: The BMW H2R project". Ólafur Elíasson var ráðinn af BMW til að hanna sextánda bílinn í verkefninu BMW Art Car. Byggt á hugmyndafræði BMW H2R ökutækisins, tóku Ólafur og teymi hans málmblöndu bílsins af grindinni og settu í stað þess nýja burðargrind sem er samtvinnuð af stálstöngum og möskva. Lög af ís voru gerð með því að spreyja um það bil 2000 lítrum af vatni á nokkrum dögum á smíðina. Þegar bílinn er sýndur glóir skúlptúrinn innan frá. "Your mobile expectations: BMW H2R" verkefnið var til sýnis í hitastýrðum sal í Nýlistasafni San Francisco frá 2007-2008 og í Pinakothek der Moderne í München árið 2008. "The New York City Waterfalls". Ólafur Elíasson var ráðinn af The Public Art Fund til að skapa fjóra manngerða fossa, sem kallaðir eru "The New York City Waterfalls", hæð þeirra er frá 27,4-36,6 metrar í New York Harbor. Uppfærsla þeirra var á tímabilinu 26. júní til 13. október 2008. Kostnaðurinn sem var 15,5 milljónir bandaríkjadala gerði þetta að dýrasta listaverkinu síðan Christo og Jeanne-Claude settu upp "The Gates" í Central Park. "The Parliament of Reality". Vígður þann 15. maí 2009, stendur þessi varanlegi skúlptúr við Bard College, Annandale-on-Hudson, NY. Uppsetningin er byggð á hinu upprunalega íslenska Alþingi, einum fyrsta lýðræðislega vettvanginum í heiminum. Listamaðurinn sér verkefnið sem stað þar sem nemendur og gestir geta safnast saman til að slaka á, ræða hugmyndir eða til rökræðna. "Parliament of Reality" leggur áherslu á að viðræður séu kjarni alls menntaumhverfis. Manngerða eyjan er umkringd 9 metra hringlaga stöðuvatni, 24 trjám og villtum gróðri. Eyjan sem er 30 metrar að þvermáli er sett saman af skornum blásteini, gólfi sem lítur út eins og áttaviti (byggt á lengdarbaugslínum og siglingakortum), ásamt 30 vatnsbörðum hnullungum sem mynda útisæti fyrir nemendur og almenning til að koma saman. Eyjan er gerð aðgengileg með sex metra rimlatjaldi úr ryðlausu stáli sem skapar þá mynd að gestir séu að ganga inn á svið eða útifund. Froskar safnast saman í þessum vírmöskva á næturna sem skapar ánægjulega hljómkviðu. "Harpa". Ólafur Elíasson hannaði hjúpinn sem umlykur Hörpu, hina nýju tónleikahöll og ráðstefnumiðstöð Reykjavíkur sem var tilbúinn árið 2011. Í náinni samvinnu við vinnustofuteymi sitt og Henning Larsen Architects hönnuði byggingarinnar, hefur Ólafur hannað einstakan hjúp sem er myndaður úr stórum tólfhliða staflanlegum mótum af stáli og gleri. Hjúpurinn mun endurspegla borgarlífið og mismunandi birtu sem er blanda af hreyfingum sólarinnar og fjölbreytilegu veðri. Á kvöldin eru glersteinarnir lýstir af LED ljósum af mismunandi litum. Byggingin var vígð 13. maí 2011. "Your rainbow panorama". Árið 2007 var hugmynd Ólafs að listaverki sem fullgera átti ARoS Aarhus-listasafnið í Árósum valin ásamt fimm öðrum tillögum af dómnefnd. Listaverk Ólafs, "Your rainbow panorama", samanstendur af rúmlega 45 metra löngum og tæplega eins metra breiðum hringlaga gangi úr gleri í öllum regnbogans litum. Hið litríka meistaraverk er 52 metrar í þvermál og stendur á grönnum súlum þrjá og hálfan metra ofan við þak safnsins. Á kvöldin og nóttunni er verkið lýst upp að innan af kösturum í gólfinu. Bygging verksins kostaði 60 milljónir danskra króna. Hún hófst í maí 2009 og lauk í maí 2011. Önnur verkefni. Árið 2006 var listaverk eftir Ólaf pantað af Louis Vuitton; lampar sem nefndir voru "Eye See You" og var þeim komið fyrir í jólagluggum verslana hönnuðarins. Lampi sem nefndur var "You See Me" var settur í varanlega sýningu í einni verslananna sem staðsett er á Fifth Avenue í New York. Þær fjárhæðir sem söfnuðust af verkinu voru ánafnaðar 121Ethiopia.org, góðgerðarstofnun sem Ólafur kom á laggirnar ásamt konu sinni. Árið 2007 þróaði Ólafur sviðsmyndina fyrir Fædru, óperuuppsetningu í Ríkisóperunni í Berlín. Ólafur var hluti af hönnunarteymi High Line-garðsins í New York ásamt landslagsarkitektafyrirtæki James Corner, Field Operations og arkitektafyrirtækinu Diller Scofidio + Renfro. Sýningar. Ólafur hélt fyrstu einkasýningu sína ásamt Nicolaus Schafhausen í Köln árið 1993, áður en hann flutti til Berlínar árið 1994.[8] Árið 1996 hélt hann fyrstu sýningu sína í Bandaríkjunum í Tanya Bonakdar-galleríinu. Nýlistasafnið í San Francisco (SFMOMA) skipulagði fyrstu stóru yfirlitssýningu Ólafs í Bandaríkjunum, "Take Your Time: Ólafur Elíasson", sem sýnd var frá 8. september 2007 til 24. febrúar 2008. Sýningin spannaði feril listamannsins frá 1993 til 2001 og var stýrt af forstjóra Samtímalistasafnsins í Chicago, Madeleine Grynsztejn og síðar deildarstjóra málverka- og höggmyndadeildar SFMOMA, Elise S. Haas, í nánu samstarfi við listamanninn. Yfirlitssýningin innihélt staðbundnar innsetningar, umsvifamikil tilbúin umhverfi, frístandandi skúlptúra, ljósmyndir og sérverkefni í röðum samliggjandi herbergja og ganga. Loftgluggahvelfingu safnsins var breytt í innsetningu sem nefnd var "One-way colour tunnel".[16] Eftir opnun sýningarinnar í San Francisco ferðaðist hún milli staða og var sett upp í Nútímalistasafninu (MOMA) og Samtímalistamiðstöðinni í New York 2008, Dallas-listasafninu í Texas 2008–2009, Samtímalistasafninu í Chicago 2009 og Samtímalistasafninu í Sydney 2009–2010. Ólafur hefur einnig haldið stórar einkasýningar meðal annars í Bregenz-listhúsinu, Nútímalistasafninu í París og ZKM í Karlsruhe 2001, Schirn-listhöllinni í Frankfurt 2004, Hara-samtímalistasafninu í Tokyo 2006, Samtímalistasafninu í Kanazawa, Ishikawa, 2009 og Martin-Gropius-Bau í Berlín 2010. Ólafur hefur enn fremur tekið þátt í fjölda samsýninga, meðal annars í São Paulo-tvíæringnum og Istanbul-tvíæringnum 1997, Feneyjatvíæringnum 1999, 2001 og 2005 og Carnegie-alþjóðalistsýningunni 1999. Listamaðurinn er kynntur af Tanya Bonakdar Gallery í New York, Koyanagi-galleríinu í Tokyo, PKM Gallery í Seoul/Beijing og Neugerriemschneider í Berlín. Viðurkenningar. Ólafur fékk hin svokölluðu Benesse-verðlaun sem veitt eru af Benesse-samsteypunni fyrir verk sitt "The Spiral Pavilion", sem hann hannaði árið 1999 fyrir Feneyjatvíæringinn og er nú um stundir til sýnis í Bielefeld-listhöllinni.[17] Árið 2007 vann hann fyrstu Joan Miró-verðlaunin, sem veitt eru af Joan Miró-stofnuninni.[18] Samsetning falla (tölvunarfræði). Samsetning falla eða samskeyting falla í tölvunarfræði nefnist samsetning undirforrita. Þetta er svipað samsetningu falla í stærðfræði þar sem skilagildi falls er notað sem inntaksgildi annars falls. Flest forritunarmál styðja fallasamsetningu og þau mál sem styðja æðri föll leyfa að skilgreina föll sem notast við fallasamsetningar. sinnum6 (summa [1,2,3,4]) -- ⇒ 60 þar sem summasinnum6 er samsetning fallanna summa og sinnum6 og mætti lesa sem "summa bolla sinnum6". Fallið foldl1 er samdráttarfall sem brettir upp á listann [1,2,3,4]. Liþín-jóna-rafhlaða. Líþíum-jóna rafhlaða er í hópi þeirra rafhlaðna sem hægt er að hlaða á nýjan leik eftir notkunn. Rafhlaðan er samsett úr anóðu, katóðu og rafvaka sem tryggir flæði þarna á milli. Þessi endurhleðslueiginleiki ásamt þyngd, getu, öryggi og verði hafa gert líþíum-jóna rafhlöðunna að einni vinsælustu endurhlaðanlegu rafhlöðunni. Hana má líka víða finna í tækjum sem eru á hreyfingu og eru í notkunn við óvenjulegar aðstæður. Í geimnum, í farartækjum, í hernaði og hversdagslegum raftækjum. Þrátt fyrir ungan aldur líþíum-jóna rafhlöðunnar í núverandi mynd er enn verið að vinna að framþróun hennar, efnainnihaldi, eiginleikum og notkunnarmöguleikum. Sagan. Sögu líþín-jóna rafhlaðna má rekja aftur til áttunda áratugarins þegar líþín rafhlöður voru þróaðar. Þar fór fremstur M.S. Whittingham sem var þá við vinnu hjá Exxon fyrirtækinu en síðar hjá Binghamton University. Sú merka uppfinning Whittingham að nota títan(II)brennistein og líþín málm sem rafskaut og sú staðreynd að J.O. Besenhard hjá TU Munich hafði fundið út að innskot í grafít og innskot í bakskauts oxíð gátu gengið í báðar áttir. Samar Basu og John Goodenough unnu sitt í hvoru lagi að þróun rafhlöðunnar, og áttu sinn þátt í framþróun hennar. Basu sýndi rafefnafræðilega hvernig innskotin í grafítið hegðuðu sér og Goodenough gerði rafhlöðu úr líþín kóbalt oxíði (LiCoO2) sem plús pól og líþín málm sem mínus pól. Var rafhlaðan 4V og endurhlaðanleg og var upphaf þess sem síðar varð útbreitt. Á níunda áratugnum vann Rachid Yazami einnig með endurhlaðanlega rafhlöðu eins og Goodenough nema að hann notaði stöðuga raflausn til að sanna að rafhlaðan virkaði á sama hátt. Skömmu síðar fundu Dr. Michael Thackeray, áðurnefndur Goodenough og samstarfsmenn þeirra, að mangansteind af flokki spinalla virkar vel sem katóða. Ekki dregur úr að lægri kostnaður og meiri stöðugleiki fylgir með í kaupunum. Tveimur árum síðar gerði Akira Yoshino frumgerð af rafhlöðu þar sem notað var kolefni í stað líþíum málms en með því jókst til muna öryggið við vinnslu rafhlöðunnar. Með þessum uppgötgvunum var komin sú mynd á rafhlöðuna sem við þekkjum í dag. Fyrsta líþíum-jón rafhlaðan fór í sölu 1991 en í hönd fóru smávægilegar breytingar og þróun á rafhlöðunni. Þar fóru fremstir Goodenough, Arumugam Manthiram, Akshaya Padhi og samstarfsmenn þeirra. Fólst það einkum í að breyta lítillega efnainnihaldi katóðunnar til að fá hærri spennu. Má þar nefna efni eins og brennisteinssýru og líþíum járn fosfat(LiFePO4). Lokasprettinn í þróun líþíum-jóna rafhlöðunnar átti Yet-Ming Chiang hjá MIT stofnunni en það fólst í því að bæta virkni rafhlöðunnar með því að blanda fleiri efnum í réttum hlutföllum í innihald rafhlöðunnar. Meðal þessara efna var ál, niobium, sirkonium og járn fosfat. Það síðastnefnda dreyfist í afar litlu magni um rafhlöðuna en eykur rafeindaþéttleikan allt að hundraðfalt, eykur yfirborð rafhlöðunnar og bætir því í alla staði hraða og getu rafhlöðunnar. Þetta gerðist 2004 en 2011 var líþíum-jóna rafhlaðan 66% af öllum seldum ferðarafhlöðum sem ekki voru upprunalegar í tækjum í Japan. Útlit. Líþíum-jóna rafhlöður eru til í ýmsum útgáfum, stærðum og gerðum. Í grófum dráttum er hægt að skifta útliti þeirra í fjóra flokka en innan þeirra eru margar gerðir, stærðir, útfærslur og getumunur. Líkt og upptalningin gefur til kynna þá taka margar þessara rafhlaðna á sig margbreytilegar myndir, allt eftir því hvar þeim er ætlað að vera. Þannig hefur tæknibúnaður í ríkara mæli verið búinn endurhlaðanlegum rafhlöðum. Þar af leiðandi er þessar rafhlöður æ víðar að finna og í æ smærri einingum til að minnka fyrirferð viðkomandi tækis. Á þetta við um smáar sem stórar rafhlöður því jafnvel í rafmagnsbíl er keppikefli að rafhlaðan taki sem minnst pláss á meðan hún skilar nægu afli. Efnafræðin. Í sem fæstum orðum er virkni líþíum-jóna rafhlöðu þannig að í notkunn þá flyst líþíum frá anóðu til katóðu og við hleðslu fer líþíum frá katóðu til anóðu. Til að þetta gerist þurfa þær aðstæður að vera til staðar í rafhlöðunni að rafeindir getir borist inn í það afmarkaða umhverfi sem rafhlaðan er. Eftirfarandi efnaferli eiga sér stað í þessu ferli og eru þau sýnd í einingunni mól en það gerir það mögulegt að nota gildið x sem stuðul. Þetta er hið venjulega ferli en þess utan geta önnur feli farið í gang til dæmis við ofhleðslu eða ofnotkunn. Eftirfarandi ferli á við þegar ofnotkunn ofmettar líþíum kóbalt oxíð þannig að til verður líþíum oxíð en það ferli er óafturkræft. Í líþíum-jóna rafhlöðum er það kóbaltið sem flytur rafeindir til og frá katóðu og anóðu í forminu Co4+ til Co3+ og öfugt. Kostir. Þegar kostir líþíum-jóna rafhlaðna eru skoðaðir verður að hafa í huga að hinn mikli breytileiki í eiginleikum og útliti geta haft áhrif á hvað telst kostur og hvað ekki. Eins má segja að öryggisatriði eins og hitavörn, afhleðslulágmark, ofhleðsluvörn og þrýstingsvörn teljist til kosta en plássið sem þetta tekur frá hleðslugetunni teljist ókostur sem núllar hitt út. Hleðslan. Við hleðslu er straumurinn neyddur til að fara í öfuga átt miða við það þegar rafhlaðan er í notkunn. Við það flytjast líðíum-jónirnar frá katóðu til anóðu og setjast þar í þar til gerð innskot sem hleðsla og bíða notkunnar. Fækki þessum innskotum minnkar hleðslugetan og notkunnartíminn í kjölfarið minnkar. Við notkunn eru þessar líþíum-jónir leystar úr innskotunum og þær skjótast aftur til katóðunnar og bíða þess að flytja nýja hleðslu til anóðunnar. Þannig gengur ferlið sífellt áfram. Valdés-skagi. Valdés-skagi er skagi í Chubut í Argentínu. Chubut-fylki. Chubut er fylki í Suður-Argentínu. Saga Kóreu. Þessi grein um sögu Kóreu fjallar um sögu kóresku þjóðarinnar fram að skiptingu landsins eftir seinni heimsstyrjöldina. Fortíð. Kóreanskt leirker frá því um 4000 f.Kr. Kórea er eitt af elstu menningarsvæðum í heimi. Elstu minjar um búsetu á Kóreuskaganum eru frá fornsteinöld, um 500 þúsund árum f.Kr. Nýsteinöld hófst um 6000 f.Kr. Elstu dæmi um leikerasmíði eru frá því um ár 7000 f.Kr, bronsöld er talin hefjast um 800 f.Kr. og járnöld um 400 f.Kr. Saga Kóreu er oft talin hefjast árið 2333 f.Kr. en samkvæmt miðaldaheimildum var Gojoseon-keisardæmið stofnað þá. Ekki síst af landfræðilegum ástæðum varð Kórea tengiliður milli mennigarsvæða Japans og Kína en þar skapaðist um leið sjálfstætt menningasvæði. Meðal annars skapaðist sérstakt kóreskt letur sem enn er notað sem ekki er myndletur eins og kínversk tákn heldur hljóðtáknakerfi og nefnt er hangul. Sejong keisari, sem upp var 1397 til 1450, hafði forgöngu um sköpun þessa leturs og var það tilbúið ár 1446. Annars er elsta kóreska handritið sem varðveist hefur frá 704 f.Kr. og elsta prentaða verkið frá 1160. Frá 304 f.Kr. réði konungsríkið Tjósen (Chosen, sem er það nafna sem Norður-Kórea notar um landið Kóreu, Suður-Kórea notar Hanguk) yfir Kóreuskaganum og stórum hluta Mansjúríu (sem nú er héraðið Heilongjing í Kína). Árið 108 f.Kr. féll konungsríkið fyrir Han-keisaradæminu í Kína, Kórea skiptist upp í þrjú leppríki Kína ár 57 f.Kr., Silla, Gogupyeo og Baekje. Það var ekki fyrr en 313 e.Kr. sem landið losnaði undan kínverskum yfirráðum. Miðaldir og næstu aldir. Ein af fyrstu ljósmyndum frá Kóreu tekin 1863 og sýnir þrjá aðalsmenn, svo nefnda jangban Búddismi varð að ríkistrúarbrögðum 535 en búddatrúboðar höfðu starfað í landinu frá 372. Árið 660 sameinaðist landið að nýju undir stjórn Silla konungsveldisins og næstu aldir voru uppgangstímar fyrir kóreska menningu og samfélag. Kórea stjórnaðist sem sjógunat á sama hátt og Japan á árunum 1170 til 1270. Herforingjar fóru með raunveruleg völd en konungar einungis sýndarvöld. Á áratugunum eftir 1230 varð landið eins konar leppríki fyrir Mongólaveldið og reyndu Mongólar í tvígang að hertaka Japan frá Kóreu en mistókast í bæði skiptin. Valdabarátta og innanlandsstríð í Kína upp úr 1294 höfðu einnig mikil áhrif á Kóreu. Það var ekki fyrr en 1392 sem kóreska ríkið var í raun endurreist þegar Joseon-konungsættin tók völdin og gerði konfúsíanisma að ríkistrúarbrögðum. Þessi nýja ríkistrú hafði gífurleg mikil áhrif á kóreanska menningu og allt samfélagið. Grundvallaratriði konfúsíanisma hafa enn þann dag í dag afgerandi áhrif á menningu, stjórnmál og þjóðfélagið í heild í bæði Suður- og Norður-Kóreu. Þrátt fyrir að konfúsíanismi er uppruninn í Kína og hefur haft mikil áhrif á kínverskt samfélag þá eru áhrifin á kóreanska menningu miklu djúpstæðari. Menning og vísindi blómstruðu næstu tvær aldirnar og er þessi tími talinn gullöld Kóreu. Á þessum tíma var konungur Kóreu formlega undirkonungur keisara Kína. Þetta tímabil endað 1592 þegar Japanir gerðu misheppnaða innrás í landið. Fleiri innrásartilraunir fylgdu næstu árin, sú síðasta 1598. Japönum tólkst ekki að ná landinu undir sig en rændu og ruppluðu allt að landmærunum að Kína og Kórea náði sér aldrei ekki eftir þetta. Konungar Kóreu reyndu að loka landinu gagnvart öllum ríkjum nema Kína frá 1637 og tókst það að mestu í meir en tvær aldir. Nútími. Á síðari helmingi 19. aldar var mikill uppgangur í Japan, efnahags og herðnaðarlega. Árið 1876 þvinguðu Japanir ráðamenn Kóreu að opna landið að nýju fyrir umheiminum. Eftir að Japanir höfðu borið sigur yfir Qing-keisaradæminu í Kína í styrjöldinni 1894-1895 höfðu þeir sig enn meir frammi gagnvart Kóreu og öðrum löndum í austur Asíu. Formleg yfirráð Kínakeisara yfir Kóreanska konungsríkinu voru afnumin 1894 en við tók raunveruleg japönsk yfirráð. Þrátt fyrir andstöðu valdamanna og sérlega Min Myongsong drottningar (sem Japanir myrtu 1895) og það að landið var gert að keisaradæmi 1897 var yfirgangur Japana slíkur að ekkert gat hindrað að Kórea var gert að japönsku verndarsvæði 1905 og síðan að formlegri nýlendu 1910. Yfirráð Japan og skipting Kóreu. Kóreskir kynlífsþrælar Japanir byggðu upp iðnað og samgöngukerfi í Kóreu en mikil hareskja einkenndi yfirráð þeirra. Í rauninni reyndu japönsk yfirvöld að útýma kóreanskri menningu, öllum Kóreumönnum var gert að taka upp japönsk nöfn og japanska gerð að eina leyfilega kennslumál í öllu menntakerfinu og einnig í öllum fjölmiðlum. Samskipti Japana og Kóreumanna versnaði um muna þegar seinni heimsstyrjöldin hófst. Fjöldi Kóreumanna voru fluttir til Japans nánast sem þrælar til að vinna í hernaðariðnaðinum og tugir þúsunda voru neyddir til að berjast í japanska hernum. Þar að auki var fjöldi kvenna, flestra á unglingsaldri, neyddar í kynlífsþrælkun fyrir japanska hermenn. Ekki er vitað með vissu hversu margar þær voru, fjöldi sagnfræðinga telja þær hafi verið um 200 þúsund en japanskir sagnfræðingar telja að þær hafi verið um 20 þúsund og kínverskir sagnfræðingar 410 þúsund. Fjöldi Kóreumanna, þar á meðal fjölskylda Kim Il Sung, flúði til Kína og Rússlands á þeim áratugum sem Japanir stjórnuðu landinu og stunduðu skæruhernað gegn þeim, bæði á Kóreuskaganum og í Mansjúríu allt frá 1931. Í lok seinni heimsstyrjaldinnar árið 1945 þegar Japanir voru að því komnir að gefast upp sendu Sovétríkin að norðan og Bandríkin að sunnan herlið inn á Kóreuskagann. Þessar hersveitir mættust við 38. breiddargráðuna og skiptu þar með upp landinu í það sem síðar varð Norður- og Suður-Kórea. Ætlunin var að landið yrði eitt og sameinað sjálfstætt ríki, en kalda stríðið gerði að það varð þó fljótt ljóst að svo yrði ekki. Þann 15. ágúst 1948 var Lýðveldið Kórea stofnað með Syngman Rhee sem fyrsta forseta og 9. september sama ár var Alþýðulýðveldið Kórea stofnað med Kim Il Sung í forsæti og þar með var landinu skipt í norður og suður við 38. breiddargráðuna. Kóreustríðið. Kóreustríðið braust út með innrás Norður-Kóreu yfir 38. breiddargráðuna 25. júní 1950 og lauk með vopnahléi 27. júlí 1953. Sovétríkin tóku ekki þátt í starfsemi Sameinuðu þjóðanna á þessum tíma og vesturveldin fengu þess vegna meirihluta fyrir stuðningi við Suður-Kóreu. Í raun var það einkum Bandaríkjaher sem barðist undir fána Sameinuðu þjóðanna með Suður-Kóreumönnum. Kínverjar sendu her til aðstoðar Norður-Kóreu þegar hersveitir undir fána Sameinuðu þjóðanna nálguðust landamærin við Kína. Stríðinu lauk með jafntefli og eftir það var skiptingin milli Norður- og Suður-Kóreu nokkurn vegin sú sama og fyrir stríðið. Í stríðinu dóu meira en 2,5 milljónir manna, allt að helmingur óbreyttir kóreskir borgarar. Kóreustríðið er gjarnan talið fyrstu vopnuðu átök Kalda stríðsins. Formlega er einungis vopnhlé milli Norður- og Suður-Kóreu og eru enn sendifulltrúar Sameinuðu þjóðanna sem fylgjast með að það sé ekki brotið. Bæði kóresku ríkin hafa haft sameiningu ríkjanna sem mikilvæg stefnumál allt frá endalokum Kóreustríðsins en líkurnar eru ekki stórar enda hafa ríkishlutarnir þróast á gjörólíkan hátt, menningarlega, stjórnmálalega og ekki síst efnahagslega. Teiknimyndablaðið Svalur. "Teiknimyndablaðið Svalur" (franska: "Spirou" eða "Le Journal de Spirou") er belgískt teiknimyndablað sem gefið er út í hverri viku. Blaðið hóf göngu sína árið 1938 og hefur í gegnum tíðina birt ævintýri margra kunnustu teiknimyndapersóna samtímans. Sagan. Belginn Jean Dupuis stofnaði útgáfufyrirtækið Dupuis árið 1922 með það að markmiði að gefa út bækur og tímarit á frönsku og hollensku. Árið 1938 réðst hann í útgáfu teiknimyndablaðs fyrir börn og unglinga. Það hlaut nafnið "Le journal de Spirou" og fékk Dupuis listamanninn Rob-Vel til að skapa titilpersónu sem prýtt gæti haus blaðsins og forsíðu. Útkoman varð lyftudrengurinn Svalur (franska: Spirou), sem öðlaðist fljótlega sjálfstætt líf í vinsælum teiknimyndasagnaflokki. Framan af voru þýddar bandarískar teiknimyndasögur uppistaðan í efni blaðsins. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar rofnuðu hins vegar tengslin vestur um haf. Á sama tíma kom fram kynslóð belgískra og franskra teiknimyndasagnahöfunda sem lögðu grunn að öflugri sjálfstæðri teiknimyndasagnahefð í löndunum tveimur. Teiknimyndasagnaritin "Svalur" og "Tinni" (franska: "Tintin") gegndu veigamiklu hlutverki við útbreiðslu þessara verka, en síðarnefnda blaðið kom út á árunum 1946 til 1983. Svalur og Tinni áttu í harðvítugri samkeppni um áratuga skeið. Milli þeirra ríkti þó þegjandi samkomulag um ýmsa þætti samkeppninnar. Höfundar sem birtu sögur í öðru blaðinu skrifuðu ekki fyrir hitt blaðið, nema í algjörum undantekngingartilvikum. Nokkur dæmi voru þó um að höfundar færðu sig frá öðru blaðinu yfir á hitt. Hollensk útgáfa teiknimyndablaðsins Svals, "Robbedoes", hóf göngu sína árið 1938. Þar sem hollenska málsvæðið er talsvert minna en hið franska, lét Robbedoes undan síga fyrir minnkandi tímaritalestri barna. Á níunda áratugnum var blaðsíðum þess fækkað niður í 32 í hverju tölublaði (samanborið við 64 síður í frönsku útgáfunni) og var útgáfu blaðsins endanlega hætt árið 2005. Nafnbreytingar. Ýmsar smábreytingar hafa verið gerðar á nafni tímaritsins frá því að útgáfa hófst. Kunnar teiknimyndasögur. Meðal kunnra teiknimyndasagna sem birst hafa í Tímaritinu Sval í gegnum tíðina má nefna: Sval & Val, Samma & Kobba, Lukku-Láka, Viggó viðutan, Yoko Tsuno, 421, Boule & Bill, Strumpana, Hinrik & Hagbarð og Steina sterka. Heiðarfjall. Heiðarfjall er fjall á Langanesi. Atlantshafsbandalagið rak þar ratsjárstöð á árunum 1954 – 1968. Þegar starfsemi þar var hætt þá varð þar eftir ýmiss konar úrgangur sem eigendur telja mengandi og ógna ferskvatnsbirgðum í fjallinu. Þar er mikið magn blýrafgeyma og spenna með PCB-olíu. Kim Il Sung. Kim Il sung Kim Il Sung (hangul: 김일성, fæddur 15. apríl 1912 i Pyongyang, látinn 8. júlí 1994) var kommúnískur stjórnmálamaður og kóreanskur leiðtogi. Hann var skæruliði í baráttu við Japani í seinni heimsstyrjöldinni og lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kóreu, sem er þekktara sem Norður-Kórea, árið 1948. Hann var leiðtogi landsins fram á dauðadag, formlega með titilinn flokksformaður í Verkamannaflokki Kóreu 1949 – 1966, aðalritari flokksins 1966 – 1994, forsætisráðherra 1948 – 1972 og forseti 1972 – 1994. Hann sat lengst að völdum af öllum kommúnistaleiðtogum á tímum kalda stríðsins. Hann bar ábyrgð á Kóreustríðinu 1950 – 1953. Undir stjórn Kim Il Sung varð Norður-Kórea lokaðasta land í heimi undir einræði hans. Ekkert annað land var jafn hervætt. Hann varð fyrir miklum áhrifum frá kínverskum kommúnisma og áætlunarbúskap en hugmyndafræði hans enkenndist þó í miklum meiri mæli af kóreskri þjóðernishyggju. Sjálfstæði og sjálfsþurft, sem kallað var "juche", varð ráðandi stjórnmála og efnahagskenning. Stjórn Kim Il Sungs myrti um 1,6 milljónir af íbúum landsins. Þegar Sovétríkin og fjöldi annara kommúnistaríkja féllu saman í kring um 1990 kom í ljós að efnahagslíf Norður-Kóreu vara algjörlega háð stuðningi þessara landa. Áætlunarbúskapur og einangrunastefna Kim Il Sungs leiddi landið inn í algjöra sjálfheldu. Þetta ástand náði hámarki í þeirri hungurssneyð sem heltók landi eftir lát Kim Il Sungs og milli 900 000 og 3,5 milljónir sultu í hel. Í kring um Kim Il Sung skapaðist persóndýrkun sem nánast er af trúarlegum toga. Kim tók sér hlutverk landsföður samkvæmt hefð konfúsíanisma og krafðist að öll alþýða elskaði hann og tilbæði. Hann hlaut fjölda nafna til að lýsa þeass: "Leiðtoginn mikli", "Marskálkurinn mikli", "Hin mikla sól", "Viti Asíu". Eftir lát Kim Il Sungs var hann gerður að eilífum forseta samkvæmt stjórnaskránni. Sonur hans, Kim Jong-il, tók þó í raun öll völd í landinu 1994, og Norður-Kórea varð þá fyrsta kommúníska erfðaríkið. Lík Kim Il Sungs liggur smurt í mikilli minningarhöll í Pyongyang, höfuðborg landsins. Guðrún Á. Símonar. Fjögurra laga EP plata frá 1958. Guðrún Á. Símonar - Alfaðir ræður 1972 Guðrún Á. Símonar – Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslensk tónskáld - 1972 Guðrún Á. Símonar & Guðmundur Jónsson - Jólaplata - 1975 Guðrún Á. Símonar - 40 ára söngafmælishljómleikar -1979 Guðrún Á. Símonar og Þuríður Pálsdóttir - Endurminningar úr óperum - 1981 Guðrún Á. Símonar í Mílanó 1953. Guðrún Ágústa Símonardóttir, þekkt sem Guðrún Á. Símonar (f. 24. febrúar 1924 í Reykjavík, d. 28. febrúar 1988) var ein þekktasta sópransöngkona Íslands. Æviágrip. Foreldrar Guðrúnar voru Símon Johnsen Þórðarson (1888 – 1934) lögfræðingur, jafnan nefndur „Símon á Hól“ og Steinþóra Ágústa Pálsdóttir (1895 – 1978), kölluð Ágústa. Þau voru bæði gædd tónlistargáfu og söng Ágústa oft á samkomum í Reykjavík og Símon var dáður tenórsöngvari sem tók mikinn þátt í sönglífi bæjarins. Guðrún átti því ekki langt að sækja hæfileikana og eftir hálskirtlatöku á fimmtánda árinu komu sönghæfileikarnir í ljós. Með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Úr bókinni "Eins og ég er klædd" eftir Gunnar M. Magnúss, bls. 29-30. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973. Vinsæl listakona. Útvarpstíðindi 19. nóvember 1945, Bls 327. Nám erlendis. Þegar Guðrún kom til Englands varð henni ljóst að ráðagerðin með Royal Akademic of Music gekk ekki upp, svo hún sótti um Guildhall School of Music and Drama þar sem hún nam söng og leiklist í þrjú ár og síðan tvö ár við The English Opera Studio, og lauk prófi úr báðum skólunum með góðum vitnisburði. Eftir að Guðrún lauk námi frá The Guildhall-skólanum var hún í námi í The Opera School í Englandi 1949-1951 og sótti tíma hjá ítalska söngkennaranum Lorenzo Medea í Wigmore Hall. Medea heillaðist af hæfileikum Guðrúnar en þegar hann taldi sig ekki geta kennt henni meira bauðst hann til að styðja hana til frekara náms á Ítalíu. Hann skrifaði Renötu Tebaldi sem kom Guðrúnu í samband við kennara sinn, Carmen Melis. Vorið 1953 fór Guðrún til Ítalíu og lærði hjá Carmen Melis í Mílanó til 1954. Undir handleiðslu Melis varð söngröddin ljóðrænni og Guðrúnu gafst tækifæri til að syngja nokkur óperuhlutverk, meðal annars hlutverk Mimi í La Bohéme. Söngkonan. Vorið 1955 stóðu Tónlistarfélagið og Félag íslenskra einsöngvara fyrir uppsetningu á La Bohéme í Þjóðleikhúsinu. Guðrún söng hlutverk berklaveiku stúlkunnar Mimi á tólf sýningum. Óperan vakti mikla hrifningu, fékk afbragðsdóma og var sýningin talin sögulegur viðburður sem hleypti tónlistarunnendum kapp í kinn. Næst söng Guðrún í óperunni Ráðskonuríki eftir Pergolesi sem Ríkisútvarpið stóð að. Síðan var haldið í söngför um Norðurlönd sem tókst vonum framar. Rússland tekið með trompi. Sama ár söng Guðrún hlutverk Toscu í samnefndri óperu Puccinis. Óperan var sett upp í Þjóðleikhúsinu í tilefni af fimmtugsafmæli söngvarans Stefáns Íslandi, 6. október 1957 og söng Stefán hlutverk Cavaradossis í óperunni á móti Guðrúnu. Hljómplötur á heimsmarkað. Árið 1957 kom Haraldur V. Ólafsson forstjóri Fálkans að máli við Guðrúnu og bauð henni að fara til Englands og syngja sex lög inn á hljómplötur á vegum Fálkans hjá fyrirtækinu His Master's Voice í London. Samningar tókust og Guðrún hélt út. Úr bókinni "Eins og ég er klædd" eftir Gunnar M. Magnúss, bls. 127 -130. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973. Hljómplata Guðrúnar kom út um haustið. Haraldur Ólafsson hélt þá fund með blaðamönnum og sagði allt af létta um upptöku hljómplötunnar. Verður hér tekinn meginþráðurinn úr því, sem blöðin sögðu frá. Söngför um Bandaríkin og Kanada. Eftir þessa frægðarför settist Guðrún að í New York og stofnaði fjölskyldu. Hún gerðist líka kattabóndi og ræktaði síamsketti sem urðu lifibrauð hennar í Ameríku. „Heima er best“. Þrátt fyrir afbragðs dóma og vinsældir erlendis, lét frægðin á sér standa og eftir misheppnað hjónaband flutti Guðrún heim ásamt einkasyninum Ludvig Kára. Hér var í nógu að snúast. Guðrún hélt söngskemmtanir víða um land, kenndi söng og skrifaði um tónlist í dagblöð. Árið 1970 varð mikið fjaðrafok í kjölfar harðrar gagnrýni Guðrúnar í Alþýðublaðinu um sýningu Þjóðleikhússins á Brúðkaupi Fígarós. Þar hafði lítt menntaðri söngkonu, eiginkonu þjóðleikhússtjóra, verið falið aðalhlutverk en vel menntaðar söngkonur sniðgengnar. Samskiptatáknmyndir. Samskiptatáknmynd til nota með sjúklingi á spítala Hægt er að nota ýmsar tæknilausnir fyrir samskiptatáknmyndir Samskiptatáknmyndir (Picture Communication Symbols eða PCS) eru myndasöfn með teiknuðum táknmyndum sem geta verið í lit eða svarthvít. Þau voru upphaflega þróuð af Mayer-Johnson, LLC til að nota í kerfum fyrir óhefðbundnar tjáningarleiðir (AAC). Slík kerfi geta verið einfaldar teikningar eða hægt er að búa til spjöld með því að nota þartilgerð forrit eins og Boardmaker. Táknmyndir í slíkum kerfum þurfa að vera þannig að auðvelt sé að giska á merkingu. Samskiptatáknmyndir eru notaðar með börnum sem ekki geta tjáð sig með tali og hafa einnig verið notaðar með góðum árangri fyrir börn með vitrænar þroskahamlanir. Grunnur samskiptatáknmynd er um fimm þúsund tákn sem auk almennra viðbótarsafna og myndasafna sem tengd eru ákveðnum löndum eru um tólf þúsund tákn. Samskiptatáknmyndir hafa verið þýddar á um 40 mismunandi tungumál. Hægt er að búa til eigin samskiptatáknmyndir fyrir sérstakar þarfir ef ekki eru til tákn. Algengt er að samskiptatáknmyndir séu notaðar í talþjálfun og við þjálfun einhverfra og til að aðstoða fólk með tjáskiptahamlanir þegar það þarf að leggjast inn á sjúkrahús eða sjúkrastofnanir. Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir. Vísindamaðurinn Stephen Hawking tjáir sig með aðstoð tölvutækni Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir (AAC) eru leiðir til tjáskipta sem ekki nota talmál. Það geta verið svipbrigði, bendingar, látbragð og ýmiss konar tákn með handahreyfingum svo sem táknmál heyrnarlausra og Tákn með tali (TMT), myndræn tákn eins og Blisstáknmál eða samskiptatáknmyndir (PCS) og Pictogram. Táknin gera verið hreyfitákn eða myndræn tákn. Myndræn tákn til tjáskipta eru þannig að það þarf einhvers konar tjáskiptahjálpartæki. Þau hjálpartæki geta verið spjöld, bækur eða tæknileg svo sem tölvur, talvélar, spjaldtölvur. Einnig geta þau verið ýmiss konar bendibúnaður eins og höfuðljós eða sérútbúnir rofar. Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir geta komið í staðinn fyrir talmál eða sem uppbót við það talmál sem fyrir er. Ívar beinlausi. Ívar beinlausi var víkingjahöfðingi í Jórvík og berserkur. Faðir hans var Ragnar loðbrók. Árið 865 réðst Ívar beinlausi með her sem stjórnað var af honum og bræðrum hans Hálfdáni Ragnarssyni og Ubba Ragnarsyni. Ívar beinlausi mun hafa eftirlátið bræðrum sínum stjórn víkingahersins og haldið til Dyflinnar. Andlát hans er skráð í írska annála árið 873. Tákn með tali. Tákn með tali (TMT) er tjáskiptaform sem er ætlað heyrandi einstaklingum með mál- og talörðugleika. Þetta tjáskiptaform byggir á látbragði, svipbrigðum, táknum og tali. Tákn geta verið þannig að athöfn er leikin eða eiginleikum lýst eða notuð samræmd tákn sem eru upprunnin úr táknmáli heyrnarlausra. Í TMT eru tákn alltaf notuð samhliða töluðu máli og aðeins lykilorð hverrar setningar táknuð. Plútóníum. Plútóníum (eða plútón) (skammstafað Pu) er geislavirkt frumefni með sætistöluna 94. Það er unnið úr úraníum. Það var fyrst einangrað árið 1940. Plútóníum er að finna í nokkru magni sem úranískt málmgrýti. Það er formað á nokkuð svipaðan hátt og neptúníum, með geislun af náttúrulegu úraníum og með sama nifteindafjölda. Plútóníum er notað við smíði kjarnavopna og sem orkugjafi á iðnaðarvettvangi. Eitt kilógram af plútóníum jafngildir um það bil 22 milljón kílówattstundum af hitaorku. Sprengikraftur plútóníum er gríðarmikill. Plútóníum er nefnt eftir gríska guðinum Hadesi, sem einnig var nefndur Plúton. Undankeppni Íslandsmóts í hópfimleikum FSÍ 2012. Undanfarið Íslandsmóts FSÍ í hópfimleikum fór fram Versölum Kópavogi. þann 30. mars 2012. Mótið var í umsjón Gerplu. Úrvalsdeild allir flokkar, meistaraflokkur, 1.flokkur og 2.flokkur. Allir kepptu sem einn flokkur. Sex efstu liðin í hverjum flokk (kk, kvk og mix) tryggðu sér þátttökurétt á Íslandsmóti í hópfimleikum. Íslandsmót FSÍ í hópfimleikum 2012. Íslandsmót FSÍ í hópfimleikum 2012 var haldið í Ásgarði íþróttahúsi Stjörnunnar í Garðabæ í umsjón Stjörnunnar. Sex efstu liðin í hverjum flokki (KK, KVK og Mix) frá undankeppni Íslandsmóts úrvalsdeildar höfðu keppnisrétt á mótinu. Fyrri daginn var keppt í fjölþraut og voru Íslandsmeistarar í fjölþraut og deildarmeistarar krýndir. Síðari daginn var keppt til úrslita á einstökum áhöldum en þrjú efstu liðin á hverju áhaldi í hverjum flokki kepptu til úrslita. Steinahlíð. Steinahlíð er hús í Reykjavík og samnefndur leikskóli. Húsið stendur á stórri lóð sem var upphaflega Kleppsmýrarblettur 16 og var einn af erfðafestublettunum í Kleppsmýri. Landinu var úthlutað til erfðafestu árið 1928 en árið 1931 var erfafesturétturinn framseldur til Elly Schepler Eiríksson konu Halldórs Eiríkssonar kaupmanns og heildsala. Ellý og Halldór byggðu íbúðarhúsið árið 1928 en það var teiknað af dönskum arkitekt Arne Finsen undir áhrifum norrænnar klassíkur þess tíma. Húsið er byggt úr bindingi og var upphaflega klætt með eternitplötum á veggjum og þaki. Sama ár og húsið var byggt var byggður bifreiðaskúr úr bindingi rétt norðvestan við húsið og síðar var byggt garðhús fyrir börn en það garðhús var árið 1946 flutt til Þingvalla og er notað þar sem sumarhús. Ellý ræktaði upp landið kringum húsið og hafði þar mikla trjárækt og matjurtarækt. Húsið var gefið til Barnavinafélagsins Sumargjafar árið 1949. Skilyrði fyrir gjöfinni voru m.a. þau að eingöngu yrði starfrækt barnaheimili að Steinahlíð, þar sem sérstök áhersla yrði á að kenna börnum trjárækt og matjurtarækt og að tryggt yrði að landið sem fylgdi eigninni yrði ekki skert, ekki yrðu lagðir vegir um það né lóðum úthlutað úr því. Árið 1967 var land Steinahlíðar að austanverðu skert vegna vegalagningar. Að öðru leyti er lóðin óskert. Nói Síríus. Nói Síríus er sælgætisframleiðandi á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1920. Tagliatelle. Lögun einkennandi fyrir Tagliatelle hveitilengjur Tagliatelle er flatar hveitilengjur sem algengar eru í matargerð í héruðunum Emilia-Romagna og Marche í Ítalíu. Skollanes. Skollanes er nes við Hópið í Vestur Húnavatnssýslu og stendur í landi jarðarinnar Gottorp. Skollanes gengur norður út í vatnið vestan ósa Víðidalsár. Risotto. Risotto er upprunnið í Norður-Ítalíu þar sem er töluverð hrísgrjónarækt og ræktuð eru sérstök afbrigði hrísgrjóna sem varla njóta sín á annan hátt en í risotto. Algengustu hrísgrjónin sem notuð eru í risotto eru hin svokölluðu arborio-grjón en einnig er hægt að nota önnur ítölsk afbrigði á borð við carnaroli. Þetta eru stutt, þykk hrísgrjón og er helsta ræktunarsvæði þeirra í Po-dalnum. Það er tiltölulega lítið mál að búa til afbragðs risotto og hægt er að nota það jafnt sem meðlæti og sem sjálfstæðan rétt. Óendanlega mörg afbrigði eru til af risotto og í raun hægt að gera það eftir sínu höfði þegar maður er kominn upp á lagið. Grunnurinn er hins vegar alltaf sá sami. Paella. Paella er líklega þekktasti réttur Spánar en rétt eins og ítalski ættinginn risotto þá er paella ekki eitthvað sem er greypt í stein. Það er hægt að útbúa paellu á margs konar hátt og nota jafnt kjöt sem fisk. Það er hægt að nota margvíslegar tegundir af kjöti og sjávarréttum og það er hægt að blanda kjöti og sjávarréttum saman. Ef paellan er gerð eingöngu með sjávarfangi er hún kölluð "paella marisco" og nota Spánverjar bæði fisk og margvíslegar tegundir af skelfiski. Af kjöti sem gjarnan er notað má nefna kjúkling, önd og kanínu. Spánverjar nota yfirleitt spænsk grjón sem nefnast "calasparra" en þau eru ekki fáanleg hér á landi. Risottogrjónin arborio gera hins vegar sama gagn. Bouillabaisse. Hefðbundin bouillabaisse-súpa frá Marseille. Fiskurinn er ekki borinn fram í súpunni Bouillabaisse er líklega þekktasta fiskisúpa í heimi. Hún á rætur sínar að rekja til borgarinnar Marseille í Suður-Frakklandi og afbrigðin eru mörg þótt grunnurinn sé yfirleitt sá sami. Litunarefni. Litunarefni eru notuð til að lita vefnað og ganga í samband við þræði vefjarins og lita því fatnaðinn án verulegra breytinga á viðkomu við hann. Litunarefni þessi hafa mismunandi eiginleika, fer það eftir gerð vefjarins. Mismunandi litunarefni eru notuð á mismunandi vefi. Reflex. Hljómsveitin Reflex var uppi 1980-1982 og kom fram víða á höfuðborgarsvæðinu. Hún spilaði meðal annars á tröppum Menntaskólans í Reykjavík, á Melarokki, kom fram á fyrstu Músiktilraunum 1982 og komst þar í úrslit. Einnig spilaði hún ásamt hljómsveitinni Fjötrum á Litla-Hrauni. Reflex spilaði eingöngu frumsamda rokktónlist af þyngri kantinum en gaf ekki út plötu þó svo hún hafi tekið upp nokkur laga sinna. Meðlimir Reflex voru Guðmundur Sigmarsson á gítar, Ólafur Friðrik Ægisson á bassa, Baldvin Örn Arnarson á trommur og Heimir Már Pétursson sem söng og samdi texta. Dalur útlaganna. Dalur útlaganna (franska: "La Vallée des bannis") er 41. Svals og Vals-bókin og sú níunda eftir þá Tome og Janry. Hún birtist fyrst sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval og var gefin út á bókarformi á frönsku árið 1989 en í íslenskri þýðingu ári síðar. Hún er seinni hlutinn af tveimur, en fyrri hlutinn nefnist Með hjartað í buxunum. Söguþráður. Í lok fyrri bókar virtust Svalur og Valur hafa drukknað á ferðalagi sínu í "Túbútt-Sjan", en þeir vakna heilir á húfi í hinum undarlega "Dal útlaganna". Þeir finna merki um vísindamennina "Adrien Maginot" og "Günter Siegfried" sem týndust þar áratugum fyrr, þar á meðal minnisbók Maginot. Náttúra dalsins er frábrugðin nokkru öðru á jörðinni og þar má finna ýmis furðuleg og háskaleg dýr og plöntur. Þar á meðal skapstyggar flugur, en bit þeirra veldur sturlun og ofsóknarbrjálæði. Valur er bitinn af slíkri flugu. Hann stingur af og reynir að sýna Sval banatilræði. Að lokum tekst Sval að flýja dalinn og taka Val fársjúkan með sér. Virðast þeir njóta aðstoðar dularfulls hjálparmanns á leiðinni. Valur kemst undir læknishendur og reynist vera batnað. Í bókarlok kemur í ljós að Magniot lifir enn, fjörgamall og hálfgeggjaður í Dal útlaganna. Íslensk útgáfa. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1990. Þetta var 27. bókin í íslensku ritröðinni. Jón Engilberts. Jón Sigurjónsson sem síðar kallaði sig Engilberts að eftirnafni (fæddur 1908 í Reykjavík, dáinn 1972) var íslenskur listamaður. Á árunum 1921-22 gekk hann í einkaskóla Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) í Reykjavík og stundaði síðan nám við Samvinnuskólann árin 1925-26. Árið 1927 fluttist Jón til Kaupmannahafnar og hófst þar við teikninám við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn. Á árunum 1928-31 stundaði hann teikninám í skóla Viktors Isbrand og við konunglegu Akademíuna. Árið 1931 fór Jón til Óslóar og hóf nám í Statens Kunstakademi og var þar til ársins 1933. Árið 1933-34 bjó hann í Reykjavík en flutti síðan aftur til Kaupmannahafnar árið 1934 og bjó þar til ársins 1940. Árið 1940 flutti Jón heim til Íslands og byrjaði að byggja sér hús með stórri vinnustofu á horni Flókagötu og Rauðarárstígs. Fyrsta sýning Jóns var haldin í desember, árið 1943, en hún var staðsett í húsinu hans á Flókagötu 17. Benjamin S. Bloom. Benjamin S. Bloom (21. febrúar 1913 – 13. september 1999) var kennslu- og uppeldisfræðingur. Hann fæddist í Lansford, Pennsylvaníu. Hann útskrifaðist árið 1935 frá Ríkisháskólanum í Pennsylvaníu með bachelor- og mastersgráðu í menntafræðum og árið 1942 lauk hann doktorsgráðu frá Chicago-háskóla. Hann starfaði þar sem kennari frá árinu 1944 og var titlaður prófessor við háskólann árið 1970. Bloom setti fyrst fram flokkunarkerfi fyrir námsmarkmið í bókinni "Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook I: Cognitive Domain" árið 1956. Með því kerfi reynir hann að sýna fram á hvernig markmið í kennslu þurfi að ná til allra þeirra sviða sem kennarar vilja leggja áherslu á svo sem rökhugsunar, sköpunarhæfileika, þekkingar, skilnings og viðhorfa. Megin tilgangurinn með þessari flokkun er sá að efla skilning á gerð og eðli markmiða og auðvelda kennurum að setja markmið í kennslu. Bloom, Benjamin S. Frederiksstaden. Frederiksstaden er hverfi í Kaupmannahöfn. Amalíuborg er í hverfinu. Byggingar í hverfinu eru margar í rókokó byggingarstíl. Flestar eldri byggingar í hverfinu eru friðaðar. Rókokó. Elskendur.Postulínsstytta frá 1760 í rókokóstíl Rókokó er listastíll sem kom fram í byrjun 18. aldar, fyrst í Frakklandi en breiddist þaðan um Evrópu. Rókokó sækir upptök sín til barokk listastílsins sem var ríkjandi á 17. öld. Barokk stíll kom fram í flestum listgreinum og voru helstu einkenni hans áberandi skreytingar sem voru uppfullar af táknum, útskurður varð algengur og form ýkt, sterkir litir notaðir og andstæður ljóss og skugga. Rókokó svipar til barokk stíls en var mun léttari og einkenndist af sveigðum formum sem líktust S og C. Dýra og blómamynstur voru algeng og ýmis náttúruform svo sem steinar og skeljar voru áberandi í málverkum og húsgögnum. Rókokó stíll varð vinsæll í Danmörku töluvert seinna en í Frakklandi og vinsældir hans þar náðu hámarki á síðari hluta 18. aldar. Rókokó kom nær eingöngu fram sem skreytistíll í innanhússhönnun, en ekki var mikið um áhrif hans í byggingarlist. Riddarasalurinn Moltke höllinni í Amalíuborg sem teiknaður er af Nicolai Eigtved þykir gott dæmi um rókókóstíl. Adam Gottlob Moltke. Adam Gottlob lensgreve (von) Moltke (10. nóvember 1710 – 25. september 1792) var lénsgreifi af þýskum og dönskum ættum. Hann var yfirhirðmarskálkur í Danmörku og var einn valdamesti maður landsins á stjórnartíma Friðriks 5. árin 1746-1766. Hann var verndari lista og margar byggingar og listaverk liggja eftir frá hans tíma sem hann fékk arkitekta og listamenn til að gera. Ein af höllunum fjórum í Amalíuborg er höll Moltkes en hún var byggð fyrir hann á sínum tíma. Adam Gottlob Moltke átti 22 börn. Soffía Amalía. Friðrik 3 og Sofía Amalía Soffía Amalía (Sophie Amalie af Braunschweig-Lüneburg) (24. apríl 1628 – 20. febrúar 1685) var dönsk drottning, gift Friðriki 3. Danakonungi. Gifting þeirra fór fram árið 1643, sama dag og Amalía varð 15. ára. Friðrík og Sofía Amalía voru krýnd árið 1648. Amalíuborg í Kaupmannahöfn stendur á rústum hallar sem kölluð var var Soffíu Amalíuborg eftir drottningunni. Sú höll brann til grunna 19. apríl 1689 vegna óperusýningar. Fjallabaksleið syðri. Fjallabaksleið syðri (F-210) er fjallvegur sem liggur frá Keldum á Rangárvöllum norður fyrir Mýrdalsjökul og til byggða í Skaftártungu. Leiðin er aðeins fær jeppum. Fjallabaksleið syðri var á fyrri tímum oft farin af Skaftfellingum sem sóttu verslun á Eyrarbakka. Vegurinn liggur fyrir norðan Tindfjallajökul, meðfram Skyggnishlíðum og óbrúað Markarfljót að skála Ferðafélags Íslands fyrir austan við Álftavatn. Um það bil 8 km fyrir sunnan skálann greinist leiðin í tvennt þegar komið er yfir Kaldaklofskvísl, í vestur um Emstrur og yfir brú á Markarfljóti á slóð sem liggur yfir í Fljótshlíð eða í austur um Mælifellssand. Hestur (Hestfjörður). Hestur er fjall í Ísafjarðardjúpi á milli við Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Ísafjörður (Ísafjarðardjúpi). Ísafjörður er fjörður innst í Ísafjarðardjúpi. Reykjanes í Ísafjarðardjúpi. Reykjanes í Ísafjarðardjúpi er fyrrum skólasetur. Þar er mikill jarðhiti og eru öll húsakynni hituð upp með hveravatni. Þar er útisundlaug sem er 50 x 12,5 m. Hún er hituð upp með sjálfrennandi heitu vatni. Reykjanes er um 0,5 km frá þjóðveginum. Þar er bæði flugvöllur og bryggja. Loðsilungur. Loðsilungur er eitraður fiskur eða öfuguggi. Loðsilungar koma fyrir sem minni í þjóðsögum og ævintýrum. Mannréttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum. Blökkumenn voru þolendur mannréttindabrota í Bandaríkjunum síðan þeir voru fluttir þangað sem þrælar í kringum 1792, allt þar til Bandaríkin samþykktu mannréttindalöggjöfina, Civil Rights Act, árið 1964 eftir að Martin Luther King flutti ræðu sína um kynþáttamismunun frammi fyrir 250 þúsund manns í Washington, D.C. Árin 1861 – 1865 var borgarastyrjöld milli Norðurríkja og Suðurríkja Bandaríkjanna sem oft hefur verið nefnd „þrælastríðið“. Ku Klux Klan voru ofsasamtök í Suðurríkjunum sem kúguðu blökkumenn og drápu 200 þeirra árlega á síðasta hluta 19. aldar án dóms og laga. Árið 1955 hófst svo mannréttindabarátta blökkumanna af krafti. Réttindabaráttan í gegnum tíðina. Blökkumenn hafa verið keyptir sem þrælar síðan löngu fyrir Krist og má segja að þeir hafi barist fyrir réttindum sínum síðan þá. Evrópubúar fluttu þrælana til Ameríku eftir að Kristófer Kólumbus fann hana árið 1492 því þeir voru betra vinnuafl en indjánarnir vegna þess að þeir voru sterkari og úthaldsmeiri. Árið 1792 voru Danir fyrstir til þess að banna þrælakaup og árið 1807 voru þrælakaup í Breska heimsveldinu bönnuð. Með því sýndu þeir mikið fordæmi vegna þess að Bretar voru stærsta verslunar- og nýlenduveldi heims. Það var svo árið 1808 sem Bandaríkjamenn afnámu innflutning þræla til Ameríku þó því hafi ekki verið fylgt vel eftir til að byrja með en þeir voru enn löglegir til kaupa innanlands og var þeim fjölgað með því að afkomendur þræla voru einnig þrælar. Árið 1833 stofnuðu andstæðingar þrælahalds samtök, The American Anti-Slavery Society, þau samtök gáfu baráttunni byr undir báða vængi og sama ár samþykkti breska þingið afnámi þrælahalds í öllu breska heimsveldinu og það studdi vel undir baráttuhreyfinguna. Þeirra skoðun var sú að þrælahald stangaðist á við grundvallarréttindi einstaklings og virðingu hans. Þeir voru einnig á móti því að þeir nutu engrar lagaverndar í hjónabandi sem hafði þau áhrif að fjölskyldur sem hnepptar voru í þrældóm var stíað í sundur. Í Suðurríkjunum var þó bómull mikilvægasta útflutningvaran og á skömmum tíma margfaldaðist framleiðsla hans og þá voru þrælarnir tilvalið vinnuafl. Norðurríkjamenn voru andsnúnir þrælahaldinu og leiddi það, ásamt öðru, til borgarastyjaldar 1861 – 1865 sem oft er nefnt þrælastríðið. Abraham Lincoln gegndi mikilvægu hlutverki í borgarastyrjöldinni og aðdraganda hennar. Hann hafði lýst yfir andúð sinni á þrælahaldi sem varð til þess að, ásamt mörgum mörgu öðru, að mörg ríki sögðu sig úr lögum við alríkið og stofnuðu Suðurríkjasambandið. Abraham Lincoln fór svo í stríð við Suðuríkjasambandið vegna þess að honum fannst það skylda sín að halda ríkinu sem einni heild. Haustið 1862 setti hann fram tilskipun um að þrælahald í Bandaríkjunum yrði afnumið. Árið 1865 var þessari tilskipun fylgt eftir með nýrri stjórnarskrá. Nokkrum árum seinna var stefnt að því að veita blökkumönnum full þegnaréttindi og körlunum kosningarétt. Það stóð í skamman tíma í Suðurríkjunum því norðanmenn og stjórnin í Washington höfðu ekki úthald til að fylgja loforðum sínum. Árið 1877 sendu Norðurríkin herlið sitt aftur heim og lét það eftir einstökum ríkjum að ákveða sjálf hvernig þau vildu hagræða réttindum blökkumanna. Þeir misstu ekki öll réttindi sín en um 1890 tók við ný stjórn í Suðurríkjunum, og þeir sem sátu í þeirri stjórn voru flestir kynþáttahatarar og það kom sér bersýnilega ekki vel fyrir blökkumenn. Kosningaréttur blökkumanna varð gerður óvirkur og þeir þurftu að þreyta ýmis próf til þess að geta verið á kjörskrá. Árið 1896 samþykkti hæstiréttur endanlega þessi nýju lög og sagði að ekkert væri athugavert við aðskilnaðarstefnuna ef hún fylgdi þeim skilyrðum að báðir kynþættir hefðu jafngóða aðstöðu á öllum sviðum. Því var hinsvegar ekki alltaf fylgt eftir. Ku Klux Klan voru öfgasamtök í Suðurríkjunum sem voru stofnuð af hvítum karlmönnum á síðari hluta 19. aldar. Þessi samtök voru sérstaklega á móti blökkumönnum en einnig gegn innflytjendum, gyðingum, kaþólikkum, fólki með róttækar stjórnmálaskoðanir og beitti það miklu ofbeldi og ógnaraðgerðum. Samtökin voru öflug á 3. áratugnum og svo aftur eftir 1950. Á síðasta áratug 19. aldar voru 200 blökkumenn teknir af lífi árlega án dóms og laga í þeim tilgangi að halda þeim niðri og koma í veg fyrir að þeir leituðu réttar síns, því það var jú verk þessara öfgasamtaka. Í lok ársins 1955 gerðist atburður sem markar upphaf að mikilli réttindabaráttu blökkumanna þegar ung, svört kona í Alabama að nafni Rosa Parks sat í rútu og neitaði að standa upp fyrir hvítum karlmanni, þegar reglurnar voru þær að blökkumenn áttu að standa upp fyrir hvítu fólki og sitja aftast í rútunni. Fyrir þennan atburð varð hún hetja blökkumanna. Þeir hættu að nota almenningsvagnana þar til þessum reglum var breytt. Þá voru víða skilti sem á stóð að staðurinn væri aðeins fyrir hvíta. Einnig gengu svört og hvít börn ekki í sama skóla. Sumarið 1963 náði réttindabarátta svartra hámarki þegar Martin Luther King, leiðtogi blökkumanna, kom ásamt 250 þúsund manns til Washington að mótmæla kynþáttamismun í Bandaríkjunum. Þar hélt hann ræðu um það að hann ætti sér draum um að börnin hans gætu búið í landi þar sem þau væru ekki dæmd vegna kynþáttar heldur séu metin að verðleikum sínum. Árið 1964 hlaut Martin Luther King friðarverðlaun Nóbels og sama ár samþykkti þing Bandaríkjanna löggjöf sem fól í sér bann við hverskyns mismun eftir litarhætti. Hann var svo myrtur árið 1968 og varð mikið syrgður víða um heim, enda átti hann stóran hlut í mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. „...að takmarkið sé að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smár...“ Mannréttindayfirlýsingar sem þessar eru ekki lög né bindandi en hafa þó ríkt gildi og eru mörg ríki sem hafa samið stjórnarskrár sínar með þessa yfirlýsingu til hliðsjónar eftir 1948. En þó þetta séu ekki lög hafa allar þjóðir og einstaklingar þetta sem undirstöðu. Sáttmálar sem þessir verða ekki að lögum fyrr en 35 ríki hafa staðfest þá. Lífskjör blökkumanna í Bandaríkjunum hafa batnað mjög mikið og sífellt fleiri hafa náð sér í menntun. Þó virðist vera erfitt fyrir marga að komast upp úr lélegum lífskjörum og menntunarskorti því blökkumenn eru enn hlutfallslega fátækari heldur en hvítir. Game of Thrones (sjónvarpsþættir). Game of Thrones 2011 logo Game of Thrones er amerísk þáttaröð framleidd af HBO. Hún er byggð á bókunum "A Song of Ice and Fire" eftir George R. R. Martin og þar heitir fyrsta bókin "A Game of Thrones". Fyrsta þáttaröðin er byggð á þessari bók, önnur á bókinni "A Clash of Kings. Sú þriðja verður byggð á fyrri hluta bókarinnar "A Storm of Swords". Þættirnir eru ekki alveg eftir bókunum, heldur eru bækurnar aðeins notaðar sem viðmið. Þáttaröðin er tekin upp að mestu leyti í kvikmyndatökuveri í Belfast en er einnig tekin upp í Norður-Írlandi, Króatíu, Möltu og á Íslandi, á Vatnajökli. Fyrsta serían var frumsýnd 17. apríl 2011 í Bandaríkjunum og er nú byrjað að sýna aðra seríuna. Hvor sería um sig er tíu þættir og var önnur serían frumsýnd 1. apríl 2012 í Bandaríkjunum og aðeins einum degi seinna á Íslandi á Stöð 2. Níu dögum eftir frumsýningu annarrar seríu var samið um þá þriðju. Fyrsta sería Game of Thrones hefur fengið gríðarlega góðar móttökur og hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna, meðal annars Framúrskarandi dramatíska þáttaröð á Emmy-verðlaunahátíðinni og Besta sjónvarpssería í dramaflokki á Golden Globe-hátíðinni. Á báðum þessum hátíðum vann Peter Dinklage (Leikari, Tyrion Lannister) besta leikara í aukahlutverki. Þáttaröðin var einnig tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir frábært val á leikurum í dramaþáttaröð og vann verðlaun fyrir flokkinn flottasta inngang þáttaraða. Þættirnir gerast í Sjö ríkjum Westeros og fylgja nokkrum söguþráðum sem allir tengjast. Heimurinn líkist Evrópu miðalda og fjalla um baráttunna um konungsdæmið. Aðalsfjölskyldur heimsins sjá um sína landshluta, Stark-fjölskyldan býr í Winterfell og sér um norðrið. Konungurinn Robert Baratheon býr í Kings Landing. Hinum megin við „The Narrow Sea“ búa systkinin Viserys og Daenerys Targaryen, síðustu afkomendur fyrrverandi konungs. Daenerys giftist Khal Drogo, foringja Dothraki ættbálksins. Að lokum er veggurinn, sem verndar þessi ríki frá því sem leynist handan. En þar eru svartstakkar sem verja vegginn. Allar þessar fjölskyldur og allir þessir staðir fléttast saman og mynda söguþráð þáttanna. Persónur. Sean Bean leikur Eddard Stark í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones Eddard Stark eða Ned Stark (Sean Bean) er lávarður yfir bænum Winterfell og verndari norðursins. Hann er þekktur fyrir stolt sitt og réttlætiskennd og er ráðinn sem hönd konungsins eftir dauða Jons Arryns, fyrrverandi handar. Catelyn Stark (Michelle Fairley) er eiginkona Eddards Starks. Faðir hennar er lávarður Riverlands og yngri systir hennar er Lysa Arryn (Kate Dickie), eiginkona Jons Arryns. Catelyn og Eddard Stark eiga saman fimm börn, Robb Stark (Richard Madden), Sansa Stark (Sophie Turner), Arya Stark (Maisie Williams), Bran Stark (Isaac Hempstead Wright) og Rickon Stark (Art Parkinson). Auk þeirra á Ned einn son með annarri konu sem heitir Jon Snow (Kit Harington). Robert Baratheon (Mark Addy) varð konungur eftir að hafa leitt uppreisn gegn Aerys Talgaryen, geðbilaða konunginum. Robert var trúlofaður systur Neds, Lyönnu Stark, sem lést í uppreisninni. Hann giftist þá Cersei Lannister (Lena Headey) og þau eiga saman þrjú börn, þar á meðal Joffrey Baratheon (Jack Gleeson). Ned Stark kemst hins vegar að því að öll þrjú börn Roberts Baratheon og drottningarinnar Cersei Lannisters voru getin af tvíburrabróður hennar Jamie Lannister (Nikolaj Coster-Waldau). Tyrion Lannister (Peter Dinklage) er yngri bróðir Cersei og Jamies. Hann er dvergur og þó hann sé ekki líkamlega sterkur, þá býr hann yfir mikilli kænsku og fróðleik. Systkinin Viserys Targaryen (Harry Lloyd) og Daenerys Targaryen (Emilia Clarke) eru börn fyrrum konungsins Aerys Targaryen. Þegar faðir þeirra var myrtur flúðu þau Kings Landing og settust að í bænum Essos, sem er staðsettur handan sjávarins. Viserys giftir systur sína stríðshöfðingjanum Khal Drogo (Jason Momoa) í skiptum fyrir her til þess að hjálpa honum að endurheimta krúnuna. Aðrar persónur sem koma fyrir eru Samwell Taryl (John Bradley) og Theon Greyjoy (Alfie Allen), sem Jon Snow kynnist þegar hann ákveður að ganga í lið við menn næturvaktarinnar. Sandor „The Hound“ Clegane (Rory McCann) er lífvörður prinsins, Joffreys. Petyr „Littlefinger“ Baelish (Aidan Gillen) og Varys (Conleth Hill) eru ráðgjafar konungsins og jafnframt handarinnar. Yngri bróðir Roberts Baratheon er Renly Baratheon en sá eldri er Stannis Baratheon. Jorah Mormont (Iain Glen) er riddari sem lagður var í útlegð og hann sver að hjálpa systkinunum Viserys og Daenerys að komast til valda. Þáttur 1. Fyrsti þáttur heitir Winter Is Coming en í þessum þætti eru aðalpersónur / ættir þáttanna kynntar til sögunnar. Stark-ættin er búsett norðanlega í sameinuðu ríkjunum sjö sem mynda eitt stórt konungsríki og búa í borg sem heitir Winterfell en þau eru fyrst til að vera kynnt til sögunnar þegar liðhlaupi kemur frá „The nights watch“ inn á þeirra land. Þegar Hann er handsamaður er það herra Eddard (Ned) Stark sem framfylgir dómnum. Þegar hann ásamt fylgdarliði sínu kemur heim þá fréttir hann frá konunni sinni Catelyn að lærfaðir hans (Jon Arryn) hafði dáið í höfuðborginni King's Landing og að kongurinn Robert sé á leiðinni til Winterfell. Þegar konungurinn kemur til Winterfell sést að hann og Ned eru góðir vinir. Kona konungsins Carsei og aðrir meðlimir Lansister-fjölskyldunnar komu með Robert til Winterfell, þar á meðal tvíburabróðir hennar Jamie, dverg bróðir hennar Tyrion og tólf ára sonur hennar, erfingi krúnunnar Joffrey. Í öðrum heimshluta eru kynnt til sögunnar systkinin Viserys Targaryen og Daenery en Viserys hyggst vinna krúnuna frá Robert með því að gifta systur sína Dothraki ættbálkar höfðingjanum Khal Drogo en fá í staðinn her hans í lið við sig. Daenery fær þrú steingerð drekaegg í gjöf. Þáttur 2. Annar þáttur heitir The Kingsroad. Örlög Brans eru enn óráðin. Hann er á lífi en meðvitundarlaus og það virðist ólíklegt að hann muni nokkurn tíman ganga aftur þó hann vakni. Ned fer af stað til King's landing með dætur sínar tvær Aryu og verðandi brúði Joffrey Sönsu, á meðan Catelyn verður eftir til að hugsa um Bran. Jon Snow, bastarða sonur Neds Starks heldur norður til að ganga til liðs við Night‘s Watch, bræðralag sem verndar vegg sem skilur norðið af við suðurlöndin. Tyrion ákveður að fara með honum til veggsins. Catelyn byrjar að gruna að Bran hafði verið kastað úr turninum. Á meðan reynir Viserys að læra að þóknast eiginmanni sínum Khal Drogo og tekst það í lok þáttarins. Þáttur 3. Þriðji þáttur heitir Lord Snow. Þegar Ned Stark kemur til King's Landing fær hann að vita að konungsríkið er í mikklum skuldum vegna siðlausar eyðslu konungsins. Catelyn ákveður að fara á eftir Ned Stark til að segja honum frá grunsemdum sínum um að Lanister-fjölskyldan hafi tekið þátt í falli Brans. Cersei og Jamie eru hrædd um hvað Bran gæti munað en hann segist ekki muna neitt. Ned Stark leyfir dóttir sinni Aryu að læra á sverð en tekið er fram í þessum þætti að vetur getur komið á nokkra ára fresti og staðið yfir í mörg ár en með vetrinum fylgja miklir hryllingar og verur sem allir hræðast. Jon Snow æfir sig við vegginn sem skilur að norðið og ríkin sjö á meðan Daenerys rífst við bróður sinn og kemst að því að Dothraki ættbálkurinn virðir hana sem eina af sínum eigin og verndar hana gegn bróður sínum. Hún lærir einnig tungumál þeirra. Síðar í þættinum kemst hún svo að því að hún er ólétt. Kit Harington, sá sem leikur Jon Snow Þáttur 4. Fjórði þáttur heitir Crpples, Bastards and Broken Things. Ned Stark leitar að bók sem lærfaðir hans Jon Arryn hafði verið að skoða og finnur út frá henni einn af bastörðum Roberts. Robert heldur burtreiðar til fögnuðar þess að Ned tók stöðunni sem hönd konungsins. Á meðan reynir Jon Snow að vernda Samwell frá frekari niðurlægingu hjá veggnum. Viserys tekst á við systur sína í Vaes Dothrak. Catelyn tekur til sinna ráða og Tyrion Lanister lendir á röngum stað á röngum tíma. Þáttur 5. Fimmti þáttur heitir The Wolf and the Lion. Fréttir af sambandi Daenerys og Khal Drogo verður til þess að Robert sendir árásarmann til þeirra áður en Ned tekst að tala hann út úr því sem verður til þess að þeir enda ósáttir. Tyrion Lannister er enn fangi Catelyn og þrátt fyrir að hafa hjálpað henni fær hann kaldar viðtökur frá systur hennar í Eyrie en hún er ekkja Jon Arryns. Arya heyrir menn tala um að losa sig við föður hennar. Þáttur 6. Sjötti þáttur heitir A Golden Crown. Ráðinn aftur sem hægri hönd konungsins situr Ned Stark í hans stað á Járnkrúnunni á meðan Robert fer að veiða og tekur afdrifamikla ákvörðun á meðan því stendur sem gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir konungsríkið. Joffrey biður Sönsu afsökunar. Tyrion Lannister játar „glæpi sína“ í Eyrie og biður um réttarhöld í gegnum slagsmál þar sem, ef hann vinnur mun hann vera frjáls en ef ekki þá munu örlög hans vera í höndum Lysu. Viserys fær það sem hann á skilið fyrir Daenerys frá Drogo. Þáttur 7. Sjöundi þáttur heitir You Win or You Die. Jon Snow tekur eiðinn til að verða einn af varðmönnum veggjarins, með hugann við Benjen sem týndist handan hans. Ned segir Carsei frá því að hann viti afhverju Jon Arryn dó og Tywin hvetur Jamie til að verða að manninum sem honum var ætlað að vera á meðan þeir undirbúa sig fyrir orrustu. Robert sem kenur til baka úr veiðum særður gerir ráðstafanir sem ættu eftir að breita gangi mála í King's Landing. Reynt er að myrða Daenerys og Drogo tekur þess eyð að vinna aftur ríkin sjö fyrir hana. Þáttur 8. Áttundi þáttur heitir The Pointy End. Nýr konungur tekur við af Robert og Lannister-ættin sýnir yfirburði sýna yfir Stark-ættinni. Arya flýr höllina en Sansa verður eftir með föður sínum. Robb kallar her föður síns saman og stefnir suður í stríð. Jon Snow og verðirnir við vegginn kynnast nýjum hættum á meðan Daenerys tekur afdrifaríka ákvörðun. Þáttur 9. Níundi þáttur heitir Baelor en í honum tekur Ned afdrifamikla ákvörðun á meðan Robb nælir sér í verðmætann stríðsfanga. Joffrey sýnir sitt sanna andlit og Arya heldur sig á götum King's Landing en Daenerys fer í gegnum þraut raun. Þáttur 10. Tíundi þáttur heitir Fire and Blood. Grimmd konungsins rýs í suðri og Arya leggur af stað norður með hjálp vaktmanns frá veggnum en Jon Snow tekur mikilvæga ákvörðun og Daenerys gengur í gegnum erfiðleika. Robb fær nýjan titil og Tyrion fær loks viðurkenningu föður síns. Krydd og jurtir. thumb Landsnet. Landsnet hf. er fyrirtæki sem annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa. Þar starfnar samkvæmt sérleyfi og var stofnað á grundvelli raforkulaga sem samþykkt voru á Alþingi árið 2003. Það eru í eigu opinberra orkufyrirtækja og er eignarhald svona: Landsvirkjun (64,73%), RARIK (22,51%), Orkuveita Reykjavíkur (6,78%) og Orkubú Vestfjarða (5,98%). Tortellini. "Tortellini" are hringlaga pasta, stundum eins og nafli í laginu. Það kemur upprunalega frá héraðinu Emilia á Ítalíu. Tortellini er vanalega með kjöt- eða ostafyllingu og er oftast borið fram í nautgripa- eða kjúklingasoði. Frelsarakirkjan. Frelsarakirkjan (danska: Vor Frelsers Kirke) er barokkkirkja í Kaupmannahöfn í Danmörku. Hún er einna helst þekkt fyrir turnspíru sína en hún er spírallaga og er utan á henni stigi svo hægt er að klífa hana upp í topp. Þaðan er stórfenglegt útsýni yfir miðborg Kaupmannahafnar. Kirkjan er einnig þekkt fyrir klukknaspil sitt en það er það stærsta í Norður-Evrópu og leikur það lög á heila tímanum frá átta á morgnana til miðnættis. Saga. Þegar Kristján 4. skipulagði Kristjánshafnarsvæðið árið 1617 var Kristjánshöfn ætlað að vera sjálfstæður kaupstaður á eyjunni Amager og því þurfti að byggja þar kirkju. Árið 1639 var vígð kirkja í Kristjánshöfn en henni var einungis ætlað að standa til bráðabirgða. Bygging Frelsarakirkjunnar hófst ekki fyrr en árið 1682 en hún er hönnuð af Lambert von Haven. Kirkjan var vígð þrettán árum síðar, árið 1695, en þá var einungis bráðabirgðaaltari í kirkjunni og turnspíran hafði ekki enn verið byggð. Árið 1732 var komið fyrir endanlegu altari í kirkjunni en ekki var farið að huga að byggingu turnspírunnar fyrr en árið 1747 þegar Friðrik 5. hafði tekið við krúnunni. Arkitektinn Laurids de Thurah tók við verkinu af Lambert van Haven og breytti hann upprunalegri hönnun van Haven og setti fram sína eigin útgáfu af turnspírunni sem var samþykkt af konungi árið 1749. Þremur árum síðar lauk byggingu turnspírunnar og þann 28. ágúst 1752 kleif konungurinn turninn í mikilli athöfn. Arkitektúr. Kirkjan er byggð í hollenskum barokkstíl og er grunnhönnun hennar eins og grískur kross, það er að segja með fjóra armana jafn langa. Grunnur kirkjunnar er úr granít og veggirnir úr rauðum og gulum tígulsteinum en þeir mynda óreglulegt mynstur sem er ólíkt því sem tíðkaðist í byggingum Kristjáns 4. en þá voru tígulsteinunum raðað í ákveðna röð. Á enda hvers arms krossins er inngangur nema í austur arminum en þar er skrúðshús kirkjunnar. Aðal inngangurinn er í vestur arminum en það er fyrir neðan turninn. Altaristaflan. Altaristafla kirkjunnar er verk Nicodemus Tessins og er álitið vera meistaraverk. Hún sýnir mynd úr Lúkasarguðspjalli 22:39-46 þar sem Jesús er í Getsemane. Á milli tveggja súlna er engill að hughreysta Jesú og annar engill hangir í lausu lofti við hlið þeirra með gullinn bikar eða kaleika. Til beggja hliða eru tvær fígúrur af Pietas og Justitias sem tákna einkunnarorð konungsins. Orgelið. Orgelið var byggt á árunum 1698 – 1700 af Botzen bræðrunum og er með gylltu fangamarki Kristjáns 5. Orgelið er upp við vegg og er eins og standi ofan á tveimur fílum. Hljóðfærið hefur yfir fjögur þúsund pípur og framleiðir sama hljóð og heyrðist í kirkjunni fyrir yfir 300 árum. Í kirkjunni eru haldnir 15-20 tónleikar árlega ásamt vikulegum guðþjónustum á sunnudögum. Síðasta endurbygging orgelsins átti sér stað 1965 og voru eldri pípur endurnýttar. Á framhlið orgelsins er margbrotinn og flókinn útskurður með brjóstmynd Kristjáns 5. í miðjunni. Kirkjuturninn. Kirkjuturninn og turnspíran er eitt af aðaleinkennum kirkjunnar. Sjálfur kirkjuturninn er þrjár hæðir og eru þær aðgreindar með múrbrún sem verður stærri eftir því sem hærra er litið. Á öllum fjórum hliðum hverrar hæðar eru bogadregnir gluggar og á efstu múrbrúninni hefur verið komið fyrir giltri klukku á hverri hlið. Vísarnir klukknanna eru svo tengdir gangverki inni í turninum. Turnspíran. Ofan á kirkjuturninn hefur verið reist svört og gyllt turnspíra sem nær upp í 90 metra hæð. Spíran er byggður úr timbur ramma. Í grunninn er spíran átthyrningslaga og skreyttur mörgum gylltum gluggum. Í kringum grunninn, á fjórum hornum kirkjuturnsins standa fjórar styttur af guðspjallamönnunum. Á ofanverðum grunninum er lítill hringlaga pallur sem er girtur með gylltu grindverki. Frá þessum palli verður stigi kirkjuturnsins utanáliggjandi, en hann liggur rangsælis utan á spírunni líkt og á fyrirmynd hönnunarinnar sem kemur frá spíral turni Sant'lvo alla Sapienza sem einnig snýr rangsælis. Að toppi spírunnar eru fjögur hundruð þrep og þar af eru 150 þeirra að utanverðu. Á toppi spírunnar er rúmlega fjögurra metra hár gyltur skúlptúr eftir koparsmiðinn Jacob Høvinghof. Skúlptúrinn hefur það vafasama orðspor að vera ljótasti skúlptúr Kaupmannahafnar en hlutföll skúlptúrsins voru vísvitandi ýkt þar sem verkið átti bara að sjást úr fjarska. Mýtan. Það hefur verið langlíf mýta að arkitektinn sem hannaði turnspíruna, Laurids de Thurah, hafi fyrirfarið sér með því að hoppa af toppi spírunnar þegar hann hafði uppgötvað að hann snerist í ranga átt eða rangsælis. Það er alls ekki sannleikanum samkvæmt þar sem það er skráð að Thurah lést í kjölfar veikinda sjö árum eftir byggingu spírunnar. Það eru ekki til nein sagnfræðileg gögn sem styðja það að hann né Friðrik 5. danakonungur hafi verið óánægðir með verkið. Klukknaspil. Í turni kirkjunnar má finna forlátt klukknaspil sem upphaflega var komið þar fyrir á árunum 1928-32. Fyrst voru settar upp 33 minni kirkjuklukkur og svo seinna bætt við ellefu stærri klukkum. Stærst þeirra er sögð vera um 3600 kíló, sú minnsta 10 kíló og samanlögð þyngd alls verksins um sextán tonn. Árið 1953 var nokkrum af smærri klukkunum skipt út fyrir 15 nýjar þannig að samanlagður fjöldi varð 47. Allt klukknaverkið var svo endurnýjað árið 1981 með 48 klukkum frá Petit & Fritsen í Hollandi. Klukknaspilið hefur tónsvið fjórar áttundir, sem gerir það að stærsta klukknaspili í Norður-Evrópu. Það spilar sjálfvirkt á heila tímanum frá klukkan átta að morgni til klukkan 12 að miðnætti. Byggingarsaga. Kirkjan var vígð árið 1695. Það tók fjórtán ár að byggja hana. Allt svæðið undir henni er uppfylling úr sjónum og því tók langan tíma að byggja grunninn. Af dönskum sið er kirkjan griðalega stór. Hæðinn upp að þaksperrunni eru 36 metrar. Veggirnir og fjórar stoðir eru grafnar í skurði langt niður í jörðu. Krikjan var hönnuð af Lambert von Haven. Fyrst var aðeins komið fyrir bráðabirgða altari en nýtt altari kom ekki fyrr en árið 1732. Orgelið var byggt árin 1698 – 1700 af Botzon bræðrum. Orgelið hefur reglulega verið endurbyggt síðan en sú síðasta átti sér stað 1965. Turninn var byggður á þremur hæðum með klukku á öllum fjórum hliðum. Árið 1749 var turnspíran byggð af Laurids de Thurah sem tók við hönnun Lambert og gerði að sínu. Hún var vígð árið 1752 með mikilli athöfn eða um 50 árum eftir að kirkjan var tekin í notkun. Milli 1922 til 1933 voru framlög gefin bæðir fá borgurum og Calsberg Foundatina til að setja upp 33 bjöllur í spíruna. Seinna voru þeim fjölgað í 48 bjöllur. Enn í dag er verið að laga og bæta kirkjuna. Árið 2009 var henni lokað í nokkurn tíma og gerðar miklar endurbætur. Það var lagað gólfið sem hafði aldrei almennilegan grunn. Sett upp sérstaka glugga sem að gefa fá sér sérstakt ljós og einnig var lagað rafmagnið og hita. Alltaf er verið að endurbyggja þar sem eru greinileg slit, aðallega þar sem almenningur hefur aðgang að. Alexanderplatz. Alexanderplatz er stórt torg og samgöngumiðstöð í miðborg Berlínar í hverfinu Mitte. Það er mjög nálægt sjónvarpsturninum. Maríukirkjan í Berlín er við torgið. Berlínarbúar tala oft um torgið sem „Alex“ og eiga þá bæði við torgið og nánasta umhverfi þess frá "Mollstraße" í norðaustri til "Spandauer Straße" og Ráðhússins í suðvestri. Jóhann Briem. Jóhann Briem (1907 – 1991) var íslenskur listamaður. Jóhann fæddist að Stóra Núpi í Gnúpverjahrepp. Fyrstu kennsluna í listnámi fékk hann fimmtán ára gamall. Síðar stundaði hann listnám hjá Jóni Jónssyni málara, bróður Ásgríms Jónssonar, Eyjólfi Eyfells og Ríkarði Jónssyni myndhöggvara í Reykjavík. Hann fór síðan til Þýskalands árið 1929 en þangað sóttu margir Íslendingar í listnám á þessum árum. Erlendur gjaldeyrir var eftirsóttur þar í landi og komust menn af á litlu. Jóhann var í Dresden til 1934, kvæntist þar fyrri konu sinni. Hann sinnti ekki myndlistinni einvörðungu eftir að hann kom heim frá námi. Hann málaði á sumrin og stundaði kennslu á veturna. Meðal annars kenndi hann teikningu í 35 ár við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Jóhann hélt sig alltaf við sama stílinn í list sinni. Manneskjan er oft í fyrirrúmi í verkum hans og einnig dýr. Myndir hans tengjast impressionisma og expressionisma. Túlkun hans var mjög persónuleg og varð einfaldari eftir því sem leið á listferil Jóhanns. Jóhannes Geir Jónsson. Jóhannes Geir Jónsson (24. júní 1927 – 29. júní 2003) var íslenskur myndlistarmaður. Hann fæddist og ólst upp í Skagafirði. Hann varð fyrir áhrifum frá færeyska málaranum Sámual Joensen- Mikines. Raspútín. Grígorí Jefemóvíts Raspútín (Grígorí Jefemóvíts Novykh, fæddur 1869, dáinn 30. desember 1916) var áhrifamaður í Rússlandi snemma á 20. öld. Hann fæddist í litlum bæ, Pokrovskoye, nálægt Tyumen í Síberíu árið 1869. Það eru ekki til miklar heimildir um æsku hans eða uppvöxt og þær fáu sem til eru skipast mjög í tvennt, skrásetjarar eru annaðhvort mjög með eða á móti honum. En jafnvel hans hörðustu fjandmenn gátu ekki annað en viðurkennt að augnaráð Raspútíns hafi verið dáleiðandi. Hann fór til Sankti Pétursborgar snemma á 20. öld og sagðist helgur maður. Fljótlega átti hann stóran aðdáendahóp sem samanstóð aðalega af konum sem mændu í töfrandi augu hans. Hann fékk síðar starf sem persónulegur græðari keisarafjölskyldunar. Þar varð hann valdamikill maður og hafði mikil áhrif í Rússlandi, hann var svo myrtur af rússneskum aðalsmönnum aðfaranótt 30. desember 1916. Yngri ár. Þótt Grígorí Jefemóvíts Novaykh hafi gengið í skóla sýndi hann náminu lítinn áhuga, í stað þess stóð hann í sífeldu svalli og leiddi þessi lífstíll hans af sér nafnið Raspútín, sem á rússnesku þýðir sukkari, eða svallari. Átján ára gamall gekk hann síðan í klaustur, hann úrkynjaði hugmyndir klaustursins og sagði að besta leiðin til að komast sem næst guði væri að drekka og hórast þangað til þú værir útkeyrður. Óþarft er að segja að hann varð ekki munkur, eftir að hann yfirgaf klaustrið giftist hann, þá nítján ára að aldri. Konan hans, Proskovia Fyodorovna, ól honum fjögur börn. En hjónabandið heillaði ekki Raspútín til lengdar og yfirgaf hann konu sína og börn, hann fór þá á flakk meðal annars til Grikklands og Jerúsalem. Hann lifði af bændum og sagðist vera heilagur maður sem gæti læknað þá sjúku og séð í framtíðina. Græðari keisarans. Árið 1903 skaut Raspútín svo kollinum upp í Sánkti Pétursborg, þar hélt hann predikum sínum áfram og var fljótt komin með hóp fylgdarmanna. Yfirgerandi meirihluti þeirra voru konur sem heilluðust að Raspútín og margar þeirra í efstu stétt samfélagsins, það var því ekki að furða að nafn hans hafi borist keisarafjölskyldunni í eyra. En á sama tíma var erfðaprins Rússland, Aleksei, haldin dreyrarsýki, sjúkdóminum var hins vegar haldið leyndum fyrir þegnum sínum og var keisarafjölskyldan þungt haldin áhyggjum. Það var því árið 1907 að Raspútín var kallaður á fund þeirra Nikulásar II keisara og Alexöndru Fjodorovnu, fyrrum prinsessu frá Hessen og keisaraynju Rússlands. Enginn efast um dáleiðslu hæfileika Raspútíns og hafði nærvera hans góð áhrif á Aleksei. Þegar Aleksei var ill haldin af sjúkdóminum og læknar hans stóðu ráðalausir virtust bænir Raspútíns og Handayfirlangningar hafa mjög góð áhrif á heilsu drengsins. Með þessu hæddi Raspútín, Alexöndru keistarynju að sér en hún trúði því að hann væri í beinu sambandi við æðri völd og áleit hún hann öðrum mönnum merkari. Því var Raspútin gerður sérlegur ráðsmaður og græðari keisarafjölskyldunnar. Svall og ólifnaður. Raspútín naut lífsins næstu árin og var sí drukkin og á einhverju siðlausu sukki, hann átti fjöldan allan af kvennkyns aðdáendum sem að fylgdu honum í einu og öllu. Hann sótti oft gufuböð borgarinnar í fylgd kvennar úr ýmsum stéttum samfélagsins. Raspútín svaraði því að konur þyrftu að þvo burt syndir sínar og oft væri eina leiðin til þess væri að sameinast hans heilaga líkama. Í slúðurblöðum mátti lesa um hamlaust svall hans kvöld eftir kvöld á einhverjum af nautnarbýlum borgarinn en þar dvali Raspútín iðulega næturlangt og fannst honum ekki síðar að stíga í trylltan dans. Þó að þessi lifnaðarháttur hafði vissulega orðið Raspútín úti um óvini þá voru það áhrifa hans í innanlands málum Rússlands sem settu líf hans í hættu. Ófriðartímar. Miklar breytingar höfðu orðið í Rússlandi að undanförnu og voru byltingarsinnar farnir að vera æ háværari. Nikulás II virtist vera að missa tökin og var löngum sagt að hann hlustaði ekki á neinn nema konu sína. Alexandría var undir töfrum Raspútíns og varð hann því gífurlega öflugur innan Rússlands. Í eyra keisaraynjunar hvíslaði hann svo alls kyns glæfraleg ráðabrugg. Og þegar keisarafjölskyldan fór að sína Þjóðverjum velvild þá var komið nóg Þessi völd Raspútíns var það sem varð honum að falli, hann eignaðist marga valdamikla óvini sem sáu sér þá eina leið færa að verða Raspútín að bana til þess að bjarga Rússlandi frá glötun. Ráðabrugg og morð. Það voru aðalsmennirnir Felix Jussupov, Purisjkevits og Dimitrí Pavlovits sem hófu að skipuleggja morðið á Raspútín, Rússlandi til bjargar enda vour þeir miklir þjóðernissinnar. Þeir buðu Raspútín í matarboð í Majkahöll að kvöldi 29. desembers 1916, þar sem hann átti að hitta Írínu, eignkonu Jussupovs, en hún þótti mjög fögur. Raspútín gat ekki neitað slíku boði enda kvennamaður mikill og hélt því af stað. Þegar komið var til hallarinn var hann leiddur inni glæsilegan veislusal þar sem hann þáði vínglas og smákökur, það sem hann ekki vissi að þær voru stútfullar af eitri. Eitrið gat þó ekki bitið á hinum heilaga manni og eftir margra tíma bið var ákveðið að nota áætlun B. Raspútín var þá beðin að leggjast á bæn fyrir framan kross einn og skaut Jussupov hann þá í bakið. Rasspútín féll fram í grúfu og virtist allur en þegar Jussupov aðgætti líkið vaknaði Raspútín á fætur og tók Jussupov hálstaki. Hann reyndi síðan að flýja en í hallargarðinum beið Purisjkevits og lét rigna yfir hann kúlum. Síðan bundu þeir hendur hans og settu hann á sleða sem þeir drógu útað fljótinu. Þar höfðu þeir áður gert stórt gat á ísilagt fljótið og hentu þeir honum undir ísinn. Líkið fanst þremur dögum seinna, með lungun full af vatni. Það var ekki eitrið eða byssukúlurnar sem höfðu banað Raspútín, hann hafði drukknað. Spádómur Raspútíns. Rétt fyrir dauða sinn skrifaði Raspútín bréf til keisarans og spáði fyrir að hann yrði allur áður en árið væri á enda: „Ef venjulegir rússneskir bændur ganga af mér dauðum þarf keisarinn ekkert að óttast, þá ríkja afkomendur hans yfir Rússlandi um aldir. Ef morðingjarnir eru hins vegar af aðalsættum verður öll keisarafjölskyldan tekin af lífí. Ef ættingjar keisarans drepa mig lifa meðlimir keisarafjölskyldunar í mesta lagi nætu tvö ár.“ Spádómurinn reyndist síðan réttur því að byltingasinnar tóku síðar alla keisarafjölskylduna af lífi. Krasny Oktyabr. Krasny Oktyabr er sælgætisframleiðandi á Rússlandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1851. Niccolò Paganini. Niccolò Paganini (1782 – 1840) var ítalskur fiðluleikari og tónskáld. Eiríkur Smith. Eiríkur Smith Finnbogason (f. 9. ágúst 1925 í Hafnarfirði) er íslenskur listamaður. Æska. Móðir hans var Sigríður Benjamínsdóttir og faðir hans Finnbogi Kolbeinsson. Þeirra samband varði stutt og síðar gekk Sigríður að eiga Ástvald Þorkelsson og átti með honum sex börn. Fyrstu ár ævi sinnar bjó Eiríkur í Straumi, beint á móti þar sem Álverið í Straumsvík stendur nú. Hafnarfjörður hefur þó ávallt talist heimabær Eiríks en þangað flutti hann ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var fimm ára gamall og hefur búið þar síðan. Listaáhugi Eiríks kom fljótt í ljós og tók hann ungur að aldri með sér stílabók hvert sem hann fór til að krota hugmyndir sínar í. Í raun mætti segja að Eiríkur hafi verið heppinn því móðir hans ýtti undir listaáhuga hans frekar en að draga úr honum, þrátt fyrir misjafnar skoðanir annarra á því. Eftir að Eiríkur flutti með fjölskyldunni inn í hjarta Hafnarfjarðar var hrjóstugt landslag Straumsvíkur alltaf í minni hans og tekur hann yfirleitt hrjóstugt landslag og drungalegt veður fram yfir sólskin og gróðursæld í málverkum sínum. Nám. Eiríkur er af venjulegri verkamannastétt og komst ekki í gagnfræðiskóla. Fjölskyldan hafði ekki efni á að missa hann sem fyrirvinnu. Þó kom Guðjón Guðjónsson því að að Eiríkur yrði kostaður í kvöldskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem. Þar stundaði Eiríkur nám við mynlist veturinn 1939-1940. Þessi reynsla var Eiríki dýrmæt en þó varð bið á að hann héldi áfram með nám. Næstu ár vann Eiríkur mikið en loks kom að því að hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóli Íslands en þar stundaði hann nám á árunum 1946 – 1948. Þá var Luðvig Guðmundsson skólastjóri skólans en aðal kennarar myndlistadeildar voru þeir Kurt Zier og Jóhann Briem. Sumarið 1948 var Eiríkur komin með talsvert magn mynda í kringum sig og hélt því sína fyrstu sýningu í Sjálfsstæðishúsinu í Hafnarfirði. Þar seldi Eiríkur 60 myndir og þrátt fyrir að verðið væri ekki hátt þá nægði það samt sem áður til uppihalds í Kaupmannahöfn í tvo vetur. Efniviðurinn í sýningunni var olía, vatnslitir og krít og myndefnið aðallega hús, skip við bryggju og blóm. Haustið 1948 hóf Eiríkur nám við Rostrup Böyesens í Kaupmannahöfn ásamt vini sínum Benedikt Gunnarssyni en lauk því námi vorið 1950. Haustið 1950 fóru hann og Benedikt til Parísar en komu aftur heim í byrjun sumars 1951. Eftir dvölina í París ákváðu Eiríkur og Benedikt að fara í ferðalag, héldu þeir suður til Spánar og alla leið til Norður-Afríku. Á íslenskan mælikvarða þótti þetta ferðalag talsvert merkilegt og var mikið úr því gert. Eftir dvölina úti hóf Eiríkur að mála abstraktmyndir. Þessi verk voru byggð á formum og flötum í hreinum litum. Síðan breyttist stíllinn og formin urðu frjálslegri. Upp úr 1960 voru málverk Eiríks yfirleitt stór og kraftmikil, máluð með breiðum penslum eða spöðum. Þannig túlkaði hann þau áhrif sem náttúran hafði á hann. Eiríkur hefur tekið listina um víðan völl og hefur Listferill hans verið fjölbreyttur. Eiríkur hefur gert tilraunir með abstraktlistir, meðal annars slettumyndir. Á áttunda áratugnum málaði hann myndir af fólki og landslagi af mikilli nákvæmni. Þar kom vel í ljós hvað hann er frábær teiknari. Ættfræði. Eiríkur kvæntist Ragnheiði Kristjánsdóttur (f. í Reykjavík 10. nóvember 1927) 10. september 1949 en þau skildu árið 1954. Árið 1957 kvæntist hann Bryndísi Sigurðardóttur (f. 16. júlí 1929) og eignuðust þau saman börnin Sóleyju (f. 14. júní 1957 d. 29. nóvember 1994) og Smára (f. 11. apríl 1961). Þetis. Þetis var sjávargyðja í grískri goðafræði. Hún var móðir Akkillesar. Herdísarvíkur-Surtla. Herdísarvíkur-Surtla var kind sem Hlín Johnsen sambýliskona Einars Benediktssonar átti. Hlín átti 300 kindur sem gengu sjálfala í fjalllendi upp af Herdísarvík og í fjörum þar. Haustið 1951 var ákveðið af yfirvöldum að ráðast í fjárskipti á Suðurlandi, skera niður fé vegna mæðiveiki og garnaveiki og átti engin kind að leynast á svæðinu. Svört á með lambi slapp og leyndist á svæðinu árum saman en var lokum skotin eftir mikla eltingarleiki. Fjölda manna leitaði að Surtlu í langan tíma áður en hún náðist. Einhverjir töldu að Surtla hefði ekki getað verið sýkt vegna þess þreks sem hún sýndi í eltingaleiknum sem stóð yfir í meira en eitt ár. Í dag prýðir hauskúpa Surtlu vegg í Tilraunastöðinni á Keldum til minningar og sem fulltrúi þessa harðgera sauðkindastofns sem hafði verið á Suðurlandi frá landnámi en var útrýmt í þessum fjárskiptum. Monte Carlo (kvikmynd). Monte Carlo er bandarísk rómantísk gamanmynd frá árinu 2011 og var leikstýrt af Thomas Bezucha. Nicole Kidman, Denise Di Novi, Arnon Milchan og Allison Greenspan framleiddu myndina fyrir kvikmyndaframleiðandann 20th Century Fox. Framleiðsla myndarinnar byrjaði þann 5. maí 2010 í Harghita í Rúmeníu. Með aðalhutverkin fara Selena Gomez, Leighton Meester og Katie Cassidy, en þær leika þjár vinkonur sem þykjast vera ríkar efri stéttar konur í Monte Carlo, Mónakó. Myndin kom út í Bandaríkjunum þann 1. júlí 2011. Í myndinni er lagið „Who Says“ með hljómsveitinni Selena Gomez & the Scene ásamt fjölda laga með breska söngvaranum Mika. Landssamband æskulýðsfélaga. Landssamband æskulýðsfélaga (skammstafað LÆF) eru regnhlífasamtök íslenskra æskulýðsfélaga. Sambandið er samstarfs- og samráðsvettvangur frjálsra æskulýðsfélaga og vinnur að því að efla æskulýðsstarf og æskulýðsumræðu á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 2004. Aðildafélög LÆF eru 22 talsins og reka þau skrifstofu í Hinu Húsinu í Reykjavík. Víti (í Öskju). Víti er stærstur sprengigíga í Öskju. Gígurinn er við norðurbarm vatnsins og þunn brík er á milli hans og Öskju. Gígurinn er um 60 metra djúpur og 300 metrar í þvermál. Umhverfis gíginn er vikurkeila, um 12 m há. Víti myndaðist í Öskjugosinu 1875 og að öllum líkindum í gufusprengingu. Eldvirkni. Í gosinu 1875 var spúið ösku og vikri í einu stærsta öskugosi í sögu landsins. Öskufallið af því gosi fór illa með byggð á Austurlandi og olli því að margir fluttu til Ameríku. Áætlað magn af ösku í þessu gosi er 2-2,5 rúmkílómetrar og af því hafa 0,8 rúmkílómetrar fallið á Íslandi. En askan af því gosi náði til Stokkhólms 38 tímum og þar sem síðan var hægt að efnagreina öskuna. Víti og Askja tilheyra sprungukerfi sem er eitt lengsta og virkasta sprungukerfi landsins. En það nær frá Dyngjujökli að Öskju og gegnum Jökulsá á Fjöllum og niður að sjó. Það er kallað Öskjukerfið og hefur gosið a.m.k 50 sinnum á nútíma. Helstu gosin eru þá goshrinan frá 1984-1985. Nokkur eldgos 1921-1930 og síðast gaus 1961. Það má þessvegna sjá mikil ummerki á þessu svæði um eldsumbrot. Bandarískir geimfarar komu hingað til lands á þetta svæði til þess að æfa sig fyrir tunglferðina uppúr 1960. Þeir komu þangað útaf því að þetta svæði þótti minna á landslag tunglsins. Með þeim í för var jarðfræðingurinn Sigurður Þórarinsson, hann var aðal kennari hópsins. Þeir lærðu helst af honum um gíga, gosmenjar og jarðlög. Ferðamannastaður. Margir ferðamenn heimsækja Víti árlega en leiðin þangað er löng og torfærin. Það er mikið og flott úsýni þegar komið er á þennan stað. En í kring má sjá fjallarisa eins og Kverkfjöll og Herðubreið. Á móti gígnum rísa síðan Dyngjufjöll. Þorvaldur Thoroddsen lýsti því svo að hér væri náttúran öll hrikalegri og mikilfenglegri en á nokkrum öðrum stað á Íslandi og sá sem einu sinni hafi staðið á barmi jarðfallsins gleymi því aldrei. Vinsælasti áningarstaðurinn hjá ferðamönnum er þó eflaust Víti. Því þar er hægt að baða sig. En vatnið í gígnum er brennisteinsvatn og nær um átta metra dýpt. Vatnið er misheitt, 20°C-60°C. Mikill hiti getur verið í leðjunni við austurbakkann sem getur verið hættulegur. Það sem getur líka verið hættulegt er að það er brennisteinn í vatninu. Brennisteinsgufa fer síðan á vatnsyfirborðinu og það hefur valdið því að fólk hefur fallið í yfirlið. Margir ferðamenn koma í Víti árlega og fara þar í bað en þar eru engir búningsklefar. Því eru flestir naktir sem fara þar ofaní og þykir það vera mikil skemmtun hjá ferðamönnum. Suzanne Collins. Suzanne Collins (fædd 10. ágúst 1962) er bandarískur sjónvarpshöfundur og rithöfundur, best þekkt fyrir að skrifa þríleikinn "Hungurleikana". Æskuár. Suzanne Collins er fædd 10. ágúst 1962 í Hartford, Connecticut. Hún er dóttir liðsforinga í flugher Bandaríkjanna, sem þjónaði í Víetnamstríðinu. Sem dóttir liðsforingja í hernum þá var fjölskyldan stöðugt að flytja. Hún eyddi æsku sinni í austurhluta Bandaríkjanna. Hún var í menntaskólanum Alabama School of Fine Arts, þar sem aðalfag hennar var leikhúsfræði. Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Indiana með tvær gráður, leikhús- og fjarskiptafræði. Starfsferill. Suzanne Collins hóf starfsferli sinn sem rithöfundur árið 1991 (Hún er 50 ára) en þá skrifaði hún sjónvarpsþætti fyrir börn. Hún vann að nokkrum sjónvarpsþáttum fyrir Nickelodeon, til dæmis Clarissa Explains It All, The Mystery Files of Shelby Woo, Little Bear og Oswald. Heimildir. Collins, Suzanne Jes Zimsen. Jes Zimsen (f. 13. apríl 1877 í Hafnarfirði, d. 3. janúar 1938) var íslenskur kaupmaður, mjög stórtækur í íslensku atvinnulífi á fyrri hluta 20. aldarinnar. Burt með harðstjórann! Burt með harðstjórann! (franska: "Le dictateur et le champignon") er sjöunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1953-1954 og kom út á bókarformi árið 1956. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var gefin út á íslensku árið 1980 og telst tíunda í röðinni í íslenska bókaflokknum. Söguþráður. Svalur og Valur heimsækja Sveppagreifann og gormdýrið. Gormurinn kemur höndum yfir nýjustu uppfinningu greifans, undraefnið "metómól" sem gerir málma mjúka sem smjör. Dýrið veldur miklum usla í "Sveppaborg" áður en tekst að fanga það. Félagarnir komast að þeirri niðurstöðu að rétt sé að koma gormdýrinu aftur til síns heima í frumskógum "Palombíu". Eftir viðburðaríka siglingu komast þeir til Palombíu og uppgötva að landið er undir járnhæl herforingjastjórnar. Leiðtogi hennar er Sammi frændi Vals, sem áður hafði komið við sögu í "Baráttunni um arfinn". Hann hvetur félagana til þess að ganga til liðs við stjórn sína og upplýsir um þau áform sín að ráðast á nágrannaríkið. Svalur og Valur hafna fyrst tilboðinu en þykjast svo skipta um skoðun í þeirri von að geta afstýrt styrjöldinni. Njósnarar Samma frænda fylgjast með hverju fótmáli Svals og Vals, sem hafa nú verið skipaðir herforingjar í Palombíuher. Þeim tekst þó að senda skilaboð til Sveppagreifans með milligöngu blaðakonunnar Bitlu. Með metómóli greifans tekst þeim á síðustu stundu að eyðileggja vopnabúr hersins og sigra Samma frænda. Þeir kveðja gormdýrið, en í bókarlok er sterklega gefið í skyn að dýrið fylgi þeim aftur til baka. Íslensk útgáfa. Burt með harðstjórann! var gefinn út af Iðunni árið 1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var tíunda bókin í íslensku ritröðinni. Skagfjörðsskáli. Skagfjörðsskáli er í Langadal sem er í Þórsmörk. Þórsmörk er ekki í alfaraleið en til að komast þangað þarf að fara yfir margar óbrúaðar ár líkt og Krossá og Steinholtsá sem eru afar vatnsmiklar og því einungis hægt að komast yfir á breyttum jeppum eða rútum. Áhugaverðir staðir að skoða á leiðinni í Langadal frá þjóðveginum eru til dæmis Hvanngjá, Stakkholtsgjá og fleira. Skagfjörðsskáli er rekinn af Ferðafélagi Íslands og er upphafs- eða endastaður þeirra sem ganga gönguleiðna um Laugaveginn. Skálinn er með góðri aðstöðu stóru anddyri, tveimur eldhúsum sem er útbúið eldhúsáhöldum, stórum matsal og er svefnrými fyrir 75 manns í kojur. Sér hús er með salernum og sturtum á svæðinu. skálaverðir eru á svæðinu á sumrin frá 15. maí til 30. september. Valahnúkur er fjall rétt vestan við skálann og er mjög vinsælt að klífa hann auk þess sem hægt er að fara fjölmargar fagrar gönguleiðir um svæðið. Stopmotion. Dæmi um stop motion bút Stopmotion tækni er notuð til að búa til stuttmyndir. Þá eru ljósmyndir notaðar, þeim er síðan skeytt saman og mynda þá hreyfimynd. Hugtakið "stop motion" er hægt að rita með eða án bandstriks og teljast báðar leiðirnar réttar. Ef bandstrik er notað í hugtakarituninni felur það í sér aukamerkingu sem tengist ekki inná svið kvikmynda en stop-motion þýðir: tæki sem stoppar vél sjálkrafa ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Stop motion fellur undir svið kvikmyndagerðar og felur í sér tækni sem lætur líta út fyrir að kyrrstæðir hlutir hreyfist. Stop motion tækni er gjarnan notuð í hreyfimyndum sem byggja á brúðum eða fígúrum sem mótaðar eru úr leir. Fígúrurnar fá sitt eigið líf þegar hver hreyfing er brotin niður í ramma sem eru myndaðir og settir saman í runu. Þegar myndin hefur verið sett saman og sýnd virðast persónur myndarinnar hreyfast af eigin vilja. Stop motion var fyrsta tegund þrívíddarteiknimynda en til að byrja með var þessi gerð mynda aðallega notuð í atriðum bíómynda sem kölluðu á tæknibrellur. Einn frægasti stop motion karakter kvikmyndasögunnar er King Kong en í upphaflegu kvikmyndinni frá 1933 voru hreyfingar apans fræga skapaðar með stop motion tækni Stop motion 101. Framkvæmd. Framkvæmd stop motion mynda er einföld en gífurlega tímafrek en í stuttu máli felur framkvæmdin í sér að skaparinn eða sá sem býr til myndina velur hentuga fígúru sem á að virðast hreyfast. Í flestum tilvikum er stuðst við viðar-, leir eða plastfígúrur en möguleikarnir er nær endalausir svo framarlega sem fígúran getur haldið sömu stöðu á meðan myndir eru teknar af henni. Ef skaparinn vill myndbút af fígúru sem veifar handlegg sínum hreyfir hann handlegg hennar örlítið á milli skota og tekur mynd af hverri hreyfingu. Vanalega er notast við 24 ramma á sekúndu en það felur í sér að til að fá eina sekúndu af mynd þarf 24 einstakar myndir. Í dag er erfiðara en það var að finna vélar til að nota við gerð stop motion mynda en það er sérstaklega erfitt að finna vélar sem taka einn ramma í einu, en það er nauðsynlegt fyrir stop motion myndagerð. En sértu svo heppinn að finna vél er ekki þar með sagt að þú hafir efni á henni, því vélar með þessari tækni eru rándýrar. Mikill tími fer í það að útbúa svona myndir og eru margir sem að byrja að vinna að myndum sem þessum en gefast svo upp í miðju ferli. Stereoscopid 3-D. Stereoscopic 3-D, betur þekkt á íslensku sem þrívíddarmyndir. Stereoscopic 3-D er tækni sem að gerir myndunum kleift að öðlast meiri dýpt og virðast raunverulegri þegar að áhorfandinn horfir á hana. Þessi tækni hefur lítið verið notuð á stop motion myndir í gegnum kvikmyndasöguna en hefur þó verið notuð. Fyrsta 3-D stop motion myndin sem gerð var er In tune with tomorrow sem gerð var árið 1939, önnur er The Adventures of Sam space árið 1955 og The Incredible invasion of the 20.000 Giant robots from outer space árið 2000. Ef til vill þekktasta og vinsælasta þrívíddar stop motion myndin í fullri lengd er myndin Coraline sem kom út árið 2009 og er byggð á metsölubók Neil Gaiman. Einnig gaf fyrirtækið Niintendo út tölvuspilið Nintendo 3DS sem er með þann möguleika á að spila stop motion myndbönd árið 2011. Go motion. Go motion er önnur leið til þess að vinna með stop motion myndir. Go motion notar tölvur saman við handafl til þess að hreyfa módelin örlítið í hverjum ramma, með því að nota handafl er verið að reyna að viðhalda „raunveruleikanum“ í myndunum. Go motion tækni var notuð í fyrsta sinn í myndinni The Empire strikes back úr Star Wars þríleiknum. Einnig var þessi tækni notuð við gerð myndarinnar the Dragonslayer og Robocop. Þessi tækni reyndist einnig mjög hjálpleg við gerð myndarinnar The Jurassic Park, þar sem tæknin var notuð við það að hreyfa risaeðlurnar í myndinni. Stop motion á árunum 1960 – 2010. Árið 1965 gerðist það fyrst að stop motion mynd var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Myndin hét "Clay" (eða "the Origin of Species") og var hún eftir sjálfstætt starfandi teiknarann Eliot Noyes Jr. en hann hafði töluvert endurbætt tæknina við að nota skúlptúra úr leir í stop motion kvikmyndir. Áratug seinna eða árið 1975 vann myndin "Closed Mondays" eftir Will Vinton og Bob Gardiner, til Óskarsverðlauna og varð hún fyrsta myndin sem notaðist við stop motion til þess hljóta Óskarsverðlaun. Vinton þessi gerði í gegnum árin þó nokkrar fleiri stop motion kvikmyndir og voru margar hverjar tilnefndar til Óskarsverðlauna. Árið 1977 gerði Vinton svo heimildarmynd um gerð þessara stop motion kvikmynda, sem hann kallaði "Claymation" þar sem hann skeytti saman orðunum „clay“ og „animation“ þar sem að þessar myndir notuðust allar við leirskúlptúra. Orðið „claymation“ hefur síðan gjarnan fest við allar myndir af þeim toga. Um sama leyti, árið 1978, í Evrópu gerði ítalski kvikmyndagerðarmaðurinn Francesco Misseri stop motion myndina "Quaq Quao", en í henni notaðist Misseri við pappírsskúlptúra, svokallað „Origami“, í stað leirskúlptúra. Árið 1979 var gerð stop motion teiknimynd eftir frægri sögu Tove Janssons um Múmínálfana. Kvikmyndarisinn Disney gerði einnig nokkrar tilraunir með stop motion tæknina. Þar ber helst að nefna stuttu þáttaröðina "Mouse Mania" frá árinu 1978 um teiknimyndafígúruna Mikka Mús, sem var gerð til að heiðra fimmtugsafmæli söguhetjunnar. Árið 1980 leit fyrsta Stop motion kvikmyndin í fullri lengd dagsins ljós og var það myndin "I go Pogo" eftir Marc Paul Chinoy en vakti þó litla athygli. Fram að þeim tíma hafði stop motion tæknin einungis verið notuð í nokkrum atriðum í hverri mynd, til dæmis Star Wars þríleiknum, Indiana Jones: "Raiders of the Lost Arc" og "Robocop". Árið 1985 gerði Will Vinton stop motion kvikmynd í fullri lengd, byggða á verkum Mark Twain og hét hún "The Adventures of Mark Twain" og hlaut mikið lof fyrir. Skömmu seinna aðstoðaði hann Disney við gerðina á myndinni "Return to Oz" þar sem hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir tæknibrellur. Tékkland hefur einnig alið af sér ófáa stop motion kvikmyndaframleiðendur. Þar eru fremstir í flokki þeir Lubomír Beneš og Vladimír Jiránek fyrir þætti sína um þá kumpána "Pat & Mat" eða "Klaufabárðarnir", sem nutu mikilla vinsælla á Íslandi um árabil. Þættirnir urðu þó nokkuð langlífir og stóð framleiðsla þeirra í um 25 ár eða frá árinu 1979 til 2004. Enn þann dag í dag er stuðst við stop motion tæknina í þáttaröðum og kvikmyndum. Árið 2010 var til að mynda einn heill þáttur í þáttaröðinni "Community" gerður með aðstoð stop motion tækninnar. Louisa Matthíasdóttir. Louisa Matthíasdóttir (20. febrúar 1917 – 26. febrúar 2000) var íslensk-amerískur listmálari og var af mörgum gagnrýnendum talin vera meðal fremstu listamanna 20. aldarinnar. Æviágrip. Louisa fæddist í Reykjavík. Hún sýndi listræna hæfileika á unga aldri og lærði fyrst í Danmörku. Þangað flutti hún 17 ára gömul og síðar undir Marcel Gromaire í París. Fyrstu málverk hennar, frá lok 4. áratugar 20. aldar, festu hana í sessi sem leiðandi persónu í íslenska framúrstefnusamfélaginu (þar sem margir meðlimir hittust í Unuhúsi). Viðfangsefni málverkanna var málað með breiðum pensli, til þess að leggja áherslu á rúmfræðilegt form. Þessi málverk sýndu mikið af því eðli sem einkenndi þroskuð verk Louisu en þó með minni lit. Listasafn Reykjavíkur þar sem verk Louisu hafa verið til sýnis Hún fluttist til New York árið 1942 og því fylgdi tímabil þar sem hún lærði undir Hans Hofmann auk annarra listmálara, til að mynda Robert De Niro, Sr. (föður leikarans) og Jane Freilicher. Árið 1944 giftist hún listmálaranum Leland Bell og nutu þau samstarfs sem einkenndist af gagnkvæmum stuðning þar til Bell lést árið 1991. Fyrsta einkasýning Louisu átti sér stað í Jane Street Gallery í New York árið 1948. Vinna hennar á 6. áratugnum einkenndist af expressjónisma en frá 7. áratugnum til loka ævi hennar þróaði hún og bætti áberandi hreina liti, skipulagða samsetningu og mikla framkvæmd sem hún er þekktust fyrir. Málverk síðustu þriggja áratuga Louisu innihalda til að mynda íslenskt landslag, sjálfsmyndir og uppstillingum. Landslagsmyndir hennar innihalda oft heillandi stílfærðar útgáfur af íslenskum hestum og kindum. Hún var íslenskur ríkisborgari allt sitt líf, sjónræn einkenni landsins styrkja djarfa meðferð hennar á formi og skýrleika í ljósi. Skáldið John Ashbery lísti niðurstöðunni sem „bragð, bæði milt og beiskt, sem enginn annar listmálari gefur okkur.“ Árið 1996 hlaut Louisa menningarverðlaun American-Scandinavian Foundation og árið 1998 varð hún meðlimur í American Academy of Arts and Letters. Hún lést í Delhi, New York árið 2000, þá 83 ára að aldri. Verk hennar eru sýnd í mörgum einkasöfnum, þar á meðal í Hirshhorn Museum and Sculpture Garden í Washington, D.C. og Listasafni Reykjavíkur. Fjölskylda. Foreldrar Louisu voru Dr. Matthías Einarsson og Ellen Johannesen Einarsson. Louisa og eiginmaður hennar, Leland Bell, giftu sig árið 1944 og áttu þau eina dóttur saman, Temmu Bell. Leland er einnig listmálari en er þó sjálflærður. Temma, sem er fædd 1945, býr ásamt eiginmanni sínum og fjórum dætrum í New York. Þar starfar hún sem listmálari líkt og foreldrar hennar. Carrie Underwood. Carrie Marie Underwood (fædd 10. mars 1983) er bandarísk kántrí-söngkona, lagahöfundur og leikkona sem varð fræg eftir að hafa unnið fjórðu þáttaröð "American Idol" árið 2005. Síðan þá hefur Underwood átt mikill velgengni að fagna sem söngkona og hefur til að mynda unnið nokkur Grammy- og Billboard-tónlistarverðlaun og Bandarísku tónlistarverðlaunin og verið tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna. Hún hefur einnig þrisvar sinnum unnið Academy of Country Music (ACM)- og Country Music Association Female Vocalist-verðlaun og hefur tvisvar sinnum unnið verðlaun ACM sem skemmtikraftur ársins. Hún er fyrsta söngkona sögunnar til að vinna ACM-verðlaun tvö ár í röð sem skemmtikraftur ársins (2009/10). Underwood var gerð að meðlimi í Grand Ole Opry árið 2008. Hún var einnig tekin inn í tónlistarfrægðarhöllina í Oklahoma árið 2009. Árið 2012 útnefndi Billboard Underwood sem ríkjandi drottningu kántrítónlistarinnar. Fyrsta plata hennar, "Some Hearts", fór sjö sinnum í platínumsölu og, síðan í febrúar 2006, er hún mest selda fyrsta kántríplata í sögu Nielsen SoundScan. Platan er einnig söluhæsta fyrsta plata kántrísöngkonu, og síðan í mars 2011, mest selda kántríplatan síðasta áratuginn. "Some Heart" kom þremur smáskífum á topp Billboard-kántrílistans og ein þeirra náði toppi Billboard Hot 100-listans. Önnur plata hennar, "Carnival Ride" kom út þann 23. október 2007. Hún hefur selst í yfir þremur milljónum eintaka og hefur þrisvar sinnum farið í platínumsölu en hún hefur einnig gefið af sér nokkrar smáskífur sem hafa náð toppi bandaríska kántrílistans. Underwood gaf út þriðju plötu sína, "Play On" þann 3. nóvember 2009. Hún hefur farið tvisvar sinnum í platínumsölu og hefur gefið af sér þrjár smáskífur á topp bandaríska kántrílistans. Í mars 2012 hafði Underwood selt yfir 22 milljónir smáskífa og 14 milljónir platna um allan heim. Í maí 2011 var Underwood tekjuhæsti sigurvegari "American Idol". Nýjasta plata Underwood, kemur út þann 1. maí 2012. Eftir að hafa komið ellefu lögum á topp bandaríska kántrílistans, komst Underwood í Heimsmetabók Guinnes árið 2012 sem sú kántrísöngkona sem hefur átt flest lög á toppi listans síðan 1991, ásamt Rebu McEntire. Underwood er einnig eini sóló-kántrílistamaðurinnn til að eiga lag á toppi bandaríska listans síðasta áratuginn eftir að lagið „Inside Your Heaven“ náði toppnum í júlí 2005. Plata hennar, "Some Hearts", var útnefnd besta kántríplata síðasta áratugar af Billboard og hún er eina söngkonan á topp 10 á lista yfir bestu kántrí-tónlistarmenn síðasta áratugar, en hún var í 10. sæti. Hún lenti einnig í 50. sæti á lista Billboard yfir Tónlistarmenn áratugarins. Í júní 2011 setti tímaritið "Rolling Stone" Underwood í 11. sæti á lista yfir „drottningar poppsins“ en listinn byggðist á gagnrýni frá 2009 – 2011. Í júlí 2011 sagði Forbes-tímaritið frá því að Underwood hefði þénað yfir 20 milljónir bandaríkjadala á tímabilinu maí 2010 – maí 2011. Æska. Carrie Underwood fæddist Stephen og Carole Underwood þann 10. mars 1983 í Muskogee, Oklahoma. Hún ólst upp á búgarði foreldra sinna í útnára bæjarins Cectoah, Oklahoma. Faðir hennar vann í sögunarmyllu á meðan móðir hennar kenndi í grunnskóla. Hún á tvær eldri systur, Shönnu og Stephnie. Þegar hún var lítil tók Underwood þátt í Robbins Memorial hæfileikakeppninni og söng í kirkju bæjarins. Hún söng seinna á viðburðum í Chectoah, þ.á m. fyrir Old Settler's daginn og Lions-klúbbinn. Aðdáandi hennar kom því í kring að hún færi til Nashville þegar hún var 14 ára í áheyrnaprufu hjá Capitol Records. Árið 1996 var Capitol Records að undirbúa samning fyrir Underwood, en hann var dreginn til baka þegar skipt var um stjórn fyrirtækisins. Underwood sagði um viðburðinn: "Ég trúi innilega að það sé betra að ekkert hafi komið út úr þessu, því ég hefði ekki verið tilbúin þá." Á meðan hún gekk í Cectoah-menntaskólann var hún í heiðursfélaginu, spilaði körfubolta og var klappstýra. Underwood útskrifaðist úr skólanum árið 2001 sem semidúx. Hún ákvað að reyna ekki fyrir sér í söng eftir útskriftina. Hún sagði: "Eftir menntaskóla gaf ég eiginlega drauminn um söngferil upp á bátinn. Ég var komin að þeim tímapunkti í lífi mínu þar sem ég þurfti að vera hagsýn og undirbúa framtíðina í "raunverulega heiminum". Hún gekk í Northeastern State háskólann í Tahlequah, Oklahoma, og útskrifaðist sem magna cum laude árið 2006 með B.A. gráðu í fjölsamskiptum með áherslu á blaðamennsku. Hún vann einnig á pizzastað, í dýragarði og á dýralæknastofu. Underwood var einnig í Alpha Iota hluta systrafélagsins Sigma Sigma Sigma. Í tvö sumur tók hún þátt í miðbæjar kántrísýningu Northeastern State háskólans í Tahlequah. Hún keppti einnig í fjölmörgum fegurðarsamkeppnum í háskólanum og lenti í 2. sæti í Ungfrú NSU árið 2004. American Idol. Sumarið 2004 fór Underwood í áheyrnaprufu fyrir "American Idol" í St. Louis, Missouri. Eftir að hafa sungið "Coul've Been" með Tiffany í 12 stúlkna úrslitum sagði Simon Cowell að hún væri ein af uppáhaldskeppendunum hans. Í 11 manna úrslitum þann 22. mars 2005 söng Underwood útáfu af rokklaginu "Alone" sem Heart gerðu frægt á 9. áratugnum, og Cowell spáði því að Underwood myndi ekki aðeins vinna keppnina heldur myndi einnig selja mun fleiri plötur en aðrir Idol sigurvegarar. Einn framleiðandi þáttanna sagði síðar að hún hefði borið höfuð og herðar yfir aðra keppendur í símakosningunni, þar sem hún var efst í hverri viku. Hún eignaðist aðdáendahópinn "Kærleiksbirnir Carrie" (e. "Carrie's Care Bears") á meðan keppninni stóð. Í úrslitaþættinum söng hún með Rascal Flatts lagið "Bless the Broken Road". Þann 5. maí 2005 vann Underwood American Idol. Sigurlaun hennar voru m.a. plötusamningur, afnot af einkaþotu í heilt ár og Ford Mustang blæjubíll. 2005 – 2007: "Some Hearts". Fyrsta plata Underwood, "Some Hearts" kom út í nóvember 2005 og komst á bandaríska listann með 315.000 eintök seld og fór strax í fyrsta sæti kántrílistans og í annað sæti Hot 200 listans. Salan í fyrstu viku "Some Hearts" er mesta sala á fyrstu plötu kántrílistamans síðan SoundScan var stofnað árið 1991. Platan var mest selda platan í Bandaríkjunum árið 2006 og mest selda kántríplatan í Bandaríkjunum árin 2006 og 2007. "Some Hearts" hefur síðan þá farið sjö sinnum í platínumsölu og hefur selst hraðast af fyrstu kántríplötum tónlistarmanns í sögu SoundScan, best selda sólóplata söngkonu í sögu kántrítónlistar, og best selda plata American Idol sigurvegar í Bandaríkjunum. „Inside Your Heaven“, fyrsta smáskífa Underwood, kom út í júní og fór strax í efsta sæti bandaríska listans og kanadíska smáskífulistans. „Inside Your Heaven“ er eina smáskífa kántrísöngkonu sem komst í fyrsta sæti bandaríska Hot 100 listans síðasta áratuginn. Hún seldist í meira en milljónum eintaka og fór í gullsölu og tvisvar sinnum í platínumsölu. Önnur smáskífa plötunnar, „Jesus, Take the Wheel“ fór í útvarpsspilun í október og náði seinna fyrsta sæti bandaríska kántrílistans og sat á toppnum í sex samfelldar vikur og eyddi tuttugu vikum á bandaríska listanum. Lagið seldist í yfir 1,8 milljónum eintaka og fór í platínumsölu. Þriðja smáskífan, „Some Hearts“, kom einnig út í október en var aðeins spilað á nokkrum útvarpsstöðvum. „Don't Forget to Remember Me“, fjórða smáskífa hennar, gekk einnig mjög vel og náði öðru sæti á bandaríska kántrílistanum. Seinna sama haust kom út þriðja kántrí-smáskífa Underwood, „Before He Cheats“, náði efsta sæti bandaríska kántrílistans og sat þar í fimm samfelldar vikur. Lagið náði hæst 8. sæti í bandaríska listnaum og náði þeim áfanga að vera sú smáskífa sem fór hægast upp í topp 10 hluta listans en hljómsveitin Creed átti fyrra metið frá júlí árið 2000. Lagið seldist í yfir þremur milljónum eintaka og fór þrisvar sinnum í platínumsölu. Þann 11. apríl 2007 gaf Underwood út smáskífuna „Wasted“ sem náði efsta sæti á Hot Country Songs listanum og seldist í tæplega einni milljón eintaka og fór í gullsölu. Í ágúst 2008 fór „Jesus, Take the Wheel“ í platínumsölu, sem gerði Underwood að eina kántrítónlistarmanninum sem hefur náð tveimur smáskífum í platínumsölu en lagið „Before He Cheats“ náði þeim áfanga árið 2007. Underwood fór af stað í fyrstu tónleikaferðina sína, Carrie Underwood: Live 2006 um Norður-Ameríku. Heimildir. Underwood, Carrie Maxímús Músíkús. Maxímús Músíkús er íslenskt skemmti- og fræðsluverkefni með það að markmiði að opna tónlistarheiminn börnum. Verkefnið inniheldur bækur, geisladiska, spil og fjölskyldutónleika auk tölvuleikja. Höfundur bókanna og Lagsins hans Maxa er Hallfríður Ólafsdóttir, 1. flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Bókin er myndskreytt af Þórarni Má Baldurssyni víóluleikara í SÍ. Hljómsveitarstjórinn og píanistinn Vladímír Ashkenazy er verndari verkefnisins. Fyrsta bókin "Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina" var útgefin 2008 og með henni fylgdi geisladiskur með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ári síðar fékk Maxímús Músíkús Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Tvær aðrar bækur um Maxímús hafa verið gefnar út "Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann" og "Maxímús Músíkús bjargar ballettinum". Fyrstu tvær bækurnar hafa verið þýddar á þýsku, ensku, færeysku og kóresku. Bækurnar. Bók eitt, "Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina" er saga um mús sem villist inn í tónlistarhús og heimsækir hljómsveitina. Þar er heil sinfóníuhljómsveit að hefja æfingu og músin Maxi þvælist fyrir fótum hljóðfæraleikaranna góða stund á meðan þeir stilla hljóðfærin sín og gera sig klára. Um leið lærir hann hvað hljóðfærin heita og hvers konar hljóð þau gefa frá sér. Maxi fylgist með æfingunni og gefst að lokum tækifæri til að hlusta á tónleika innan um prúðbúna tónleikagesti. Bókinni fylgir geisladiskur þar sem Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem koma við sögu: Hátíðargjall fyrir hinn almenna borgara eftir Aaron Copland, Bolero eftir Maurice Ravel, Fyrsta kafla Sinfóníu nr. 5 eftir Ludwig van Beethoven og Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns, ásamt Laginu hans Maxa eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Í bók tvö, "Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann",trítlar Maxímús í tónlistarskólann og kynnist þar börnum sem leika á alls kyns hljóðfæri. Þar eru krakkarnir að æfa sig vegna þess að þau eiga að fá að koma fram með stórri sinfóníuhljómsveit. Með bókinni fylgir geisladiskur með sögunni og tónlistinni sem Maxímús kynnist í þetta sinn. Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem við sögu koma: Ungverskur dans eftir Brahms,Skólakonsert eftir Frederich Seitz, Divertimento eftir Franz Joseph Haydn, Branle de la Torche eftir Michael Praetorius og Branle des Chevaux eftir Thoinot Arbeau, Gavotta eftir David Popper,Leikfangasinfónían-Allegro, Leikfangasinfónían-Menúett og tríó og Leikfangasinfónían Allegro eftir Edmund Angerer, íslensk rímnadanslög eftir Jón Leifs, ásamt Laginu hans Maxa eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason. Í þriðju bókinni um Maxa, "Maxímús Músíkús bjargar ballettinum", sér Maxi börn dansa með sinfóníuhljómsveitinni. Hann ákveður að elta þau og athuga hvar þau hafi lært að dansa. Í listdansskólanum sér hann börnin æfa dansa við ævintýratónlist og lærir margt gagnlegt. Á endanum er það svo Maxi sem bjargar ballettinum þegar tvísýnt er um að stóra sýningin þeirra með hljómsveitinni geti hafist. Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem við sögu koma: Pjotr Tsjaíkovskíj: Forleikur að ballettinum um Þyrnirós, Alexander Glasúnov: Veturinn, Maurice Ravel: Gæsamömmusvíta, Pjotr Tsjaíkovskíj: Dans úr ballettinum um Þyrnirós og Jórunn Viðar: Eldur, ásamt Laginu hans Maxa eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Spil og tölvuleikir. Þrír tónlistarleikir fyrir snertiskjá á iPad, iPod eða iPhone. Tal. Tal er aðferðin að mynda hljóð og segja orð. Tal er myndað með talfærum, það er að segja með tungunni, vörunum, raddböndunum og ýmsum hlutum af gómnum og tönnunum. Í breiðari skilningi koma hálsinn og lungun líka til greinar í myndun hljóða. Hvert talað orð samanstendur af blöndu af sérhljóðum og samhljóðum sem bera merkingu þegar þau eru mæld í ákveðinni röð. Þessi orð tilheyra orðaforða sem getur verið þokkalega stór, um það bil 10.000 orð. Orðaforðinn, reglurnar sem stjórna hvernig setningar eru uppbyggðar, magn og einkenni hljóða eru mismunandi eftir tungumálum. Margir mælendur kunna að tala tvö eða fleira tungumál og eru þá taldir tvítyngdir eða fjöltyngdir. Talfæri gera mönnum líka kleift að syngja. Í sumum tilfellum hefur ritmál verið byggt á tali og síðan þróast úr því, og getur því verið afar ólíkt samsvarandi talmáli hvað varðar orðaforða, setningaskipan og hljóð. Þetta fyrirbæri kallast tvískipt málsamfélag. Þeir sem eru heyrnarlausir geta nýtt sér táknmál í stað tals til þess að hafa samskipti við aðra. Šiauliai. Šiauliai er borg í Litháen. Þar búa 110.100 manns (2011). Barbie. Barbie er leikfang framleidd af Mattel. Alkibíades. Alkibíades (450 f.Kr. – 404 f.Kr.) var forngrískur herforingi og stjórnmálamaður. Kratínos. Kratínos (519 f.Kr. – 421 (eða 422) f.Kr.) var forngrískt gamanleikjaskáld. Evbúlos (stjórnmálamaður). Evbúlos (um 405 f.Kr. – 335 f.Kr.) var aþenskur stjórnmálamaður. Ragnar Kjartansson (myndhöggvari). Ragnar Kjartansson (fæddur 17. ágúst 1923 á Staðastað á Snæfellsnesi, dáinn 26. október 1988 í Reykjavík) var íslenskur myndhöggvari og leirkerasmiður. Ragnar lærði leirkerasmíði hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal 1939-1944 og stundaði listnám í Handíðaskólanum 1941-1944 og var síðar við nám í Svíþjóð. Hann var nemandi Ásmundar Sveinssonar um nokkurn tíma og var síðar aðstoðarmaður hans. Ragnar var skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík, tók virkan þátt í mótun hans og var frumkvöðull í myndlistarkennslu fyrir börn en hann hafði aflað sér menntunar á því sviði í Danmörku. Hann var einn af mikilvirkustu hönnuðum leirmunagerðar á Íslandi á sínum tíma, stofnaði ásamt fleirum Funa og síðar Glit og vann mest í íslenskan leir. Frá 1946 þegar hann stundaði nám í Svíþjóð gerði hann ýmsar tilraunir m.a. blandaði hann hrauni í leirinn sem seinna kallaðist hraunkeramik. Ragnar Kjartansson var ásamt Jóni Gunnari Árnasyni í forsvari fyrir „Útisýningarnar á Skólavörðuholti“. Sú fyrsta var haldin 1967 en þær voru tímamótasýningar í íslenskri myndlist. Í kjölfari þeirra var „Myndhöggvarafélagið í Reykjavík“ stofnað árið 1972 og var Ragnar einn af aðalhvatamönnum að stofnun þess. Hann var í forsvari fyrir því að myndhöggvarafélagið fékk aðstöðu á Korpúlfsstöðum. Ennfremur var hann einn af stofnfélögum Nýlistasafnsins. Verk hans má finna víða um land til dæmis Stóðið við Gömlu Hringbraut í Reykjavík, Stóðhesturinn á Sauðarkróki, Bárður Snæfellsás á Arnarstapa á Snæfellsnesi og sjómennina á Ísafirði. Hann hélt fjölda einka- og samsýninga og verk hans er að finna á öllum helstu söfnum á Íslandi. Lukku Láki. Lukku Láki er teikmyndapersóna í samnefndri myndasögu eftir belgíska teiknarann Maurice De Bevere, betur þekktur sem Morris. Sögurnar um Lukku Láka gerast á tímum villta vestursins í Bandaríkjunum og er Lukku Láki, kúrekinn sem þekktur er fyrir það „að vera sneggri en skugginn að skjóta“ þar í aðalhlutverki. Ásamt Ævintýrum Tinna og sögunum af Ástríki eru myndasögurnar um Lukku Láka einar af vinsælustu og mest seldu myndasögum meginlands Evrópu og hafa verið þýddar á yfir 23 tungumál, þar á meðal ensku, íslensku, arabísku, þýsku, dönsku, grísku, hebresku, tyrknensku og ítölsku. Ekki er að finna neinar vísbendingar í sköpunarsögu Lukku-Láka, sem til dæmis má lesa í Allt um Lukku-Láka, um að hann hafi verið til eða eigi sér ákveðna fyrirmynd. Hins vegar eiga fjölmargar aðrar persónur í Lukku-Lákabókunum sér beinar fyrirmyndir, annað hvort teknar beint úr sögu villta vestursins eða þekktar ímyndir úr samtímasögu Vesturlanda þegar bækurnar voru gerðar. Útgáfusaga. Morris teiknaði Lukku Láka frá árinu 1946 og þangað til hann lést árið 2001. Fyrsta ævintýrið um hann, "Arizona 1880" kom út 7. desember árið 1946 og birtist í "teiknimyndablaðinu Sval" sem varð vettvangur sagnanna næstu tvo áratugi, árið 1967 færðist útgáfan hins vegar yfir til teiknimyndablaðsins Pilote, sem gefið var út af útgáfufyrirtækinu Dargaud. Eftir að hafa unnið að sögunum einn í nokkur ár hóf hann samstarf með René Goscinny og var sá tími sem samstarfið stóð yfir í talinn vera gullöld Lukku Láka. Samstarfið stóð yfir frá því sagan "Des rails sur la Prairie" kom út árið 1955 og þangað til hann lést árið 1977. Lukku Láki kom fyrst út í bókaformi árið 1949 og komu út alls 78 bækur og af þeim hafa 33 verið þýddar á íslensku. Lukku-Láka bækurnar hafa verið þýddar á 30 tungumál. Einnig komu út leiknar myndir um Lukku-Láka á 10. áratug síðustu aldar en þær fengu ekki góða dóma. Árið 2008 kom út barnamyndin Lukku Láki og Dalton Bræður. Hún var meðal annars talsett á íslensku og fjallaði um ferð Lukku-Láka til New York þar sem hann fylgdi Dalton bræðrum í réttarhöld. Eftir lát Goscinny komu m.a. Vicq, Bob de Groot, Jean Léturgie og Lo Hartog Van Banda að gerð ævintýra Lukku Láka og eftir lát Morris árið 2001 tók franski listamaðurinn Achdé við af honum í samstarfi við rithöfundinn Laurent Gerra. Sögurnar. Lukku Láki er sérstaklega þekktur fyrir ótrúlega skothæfni sína og einstaka útsjónasemi. Hann ríður um á hesti sínum Léttfeta, dyggum fáki sem hann kallar „gáfaðasta hest í heimi“ og Rattati, „heimskasti hundur í heimi“ er einnig oft með þeim félögum í för. Lukku Láki lendir ítrekað í útistöðum við óheppnu glæpamennina, Dalton bræður og jafnvel móður þeirra líka. Ártöl koma aldrei fram í sögunum og Lukku Láki er ætíð jafn gamall. Sögusviðið er þó yfirleitt raunsætt og persónur sagnanna sóttar í bandaríska sögu. Margar raunverulegar hetjur og skúrkar villta vestursins hafa orðið á vegi Lukku Láka, til dæmis Billy the kid, Jesse James og Roy Bean. Einnig hafa aðrar persónur úr mannkynssögunni komið við sögu, eins og Abraham Lincoln og Sigmund Freud. Goscinny sagði eitt sinn að hann og Morris reyndu, hvenær sem mögulegt var, að byggja ævintýri Lukku Láka á raunverulegum atburðum en sagði jafnframt að þeir myndu ekki láta staðreyndir eyðileggja góða sögu. Reykingarnar. Í langan tíma var Morris gagnrýndur fyrir sígarettuna sem Lukku Láki hafði alltaf uppi í sér. Gagnrýninni svaraði hann þó á þann veg að þetta tilheyrði karakternum hans Lukku Láka. Morris varð þó að láta undan, aðallega til að eiga greiðari aðgang að amerískum markaði. Þar með var ímyndin um „harða“ Lukku Láka farin fyrir bí en til að uppfylla tómarúmið sem sígarettan hafði skapað, kom strá í staðinn. Morris fékk verðlaun frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni fyrir að taka út tóbakið og innleiða stráið. Kvikmyndir og sjónvarp. Fjórar teiknimyndir voru gerðar um Lukku Láka. Þríleikurinn, „Daisy Town“, „La Ballede des Dalton“ og „Les Dalton en cavale“ kom út á árunum 1971-1983 og fjórða myndin, „“ kom út árið 2007. Tölvuleikirnir. Í gegnum árin hafa nokkrir tölvuleikir komið út um Lukku Láka, mest þó í Evrópu. Einnig var gerður leikur um hann sem hægt er að spila í símum. Helstu tölvurnar sem leikirnir höfðuðu til voru Nintendo DS Nintendo WII og PC. Bókasafn Akraness. Bókasafn Akraness var eins og langflest bókasöfn landsins upphaflega lestrarfélag og var stofnað 6. nóvember árið 1864 á Akranesi. Bókasafnið var upprunalega til húsa í gamla Barnaskólanum til ársins 1946 en þá brann það til kaldra kola. Fyrir brunann var bókaeign safnsins um 3000 bindi. Tveimur árum síðar tók safnið aftur til starfa þá til húsa að Kirkjubraut 8. Bókasafnið fluttist svo að Heiðarbraut 40 árið 1972 en á 145 ára afmælisári safnsins eða í október 2009 opnaði Bókasafn Akraness í nýju og glæsilegu húsnæði að Dalbraut 1. Á bókasafni Akraness er námsver sem fengið hefur nafnið Svöfusalur en það er aðstaða fyrir nemendur í námi til að lesa og læra og stunda fjarnám. Salurinn var nefndur Svöfusalur til að heiðra minningu fyrrverandi skólastjóra Barnaskóla Akraness, Svöfu Þórleifsdóttur (1886-1978). Á safninu er einnig að finna Héraðsskjalasafn Akraness og Ljósmyndasafn Akraness. Bókasafn Akraness leggur metnað sinn í að bjóða upp á fjölbreyttan safnkost sem höfðar til bæði fullorðinna og barna. Á safninu má meðal annars finna skáldrit, fræðirit, hljóðbækur og tímarit á íslensku og ensku. Einnig eru nótur og tónlist á geisladiskum og auk þess kvikmyndir á dvd. Eddard Stark. Eddard Stark eða Ned Stark er lávarður yfir bænum Winterfell og verndari norðursins. Hann og eiginkona hans Catelyn Stark eiga saman fimm börn, Robb Stark, Sansa Stark, Arya Stark, Brann Stark og Rickon Stark. Auk þeirra á Ned einn son utan hjónabands. Eddard er þekktur fyrir stolt sitt og réttlætiskennd og honum mislíkar svik, ráðabrugg og leynd. Þrátt fyrir að fjölskyldu hans finnist hann vera hlýlegur maður, þá finnst sumum persónuleiki hans vera kaldur og ósveigjanlegur. Þegar Ned Stark var yngri var honum komið í fóstur hjá Jon Arryn, ásamt Robert Baratheon. Ned vingaðist við Robert og þeir litu báðir á Jon Arryn sem föður. Eftir að Konungurinn Aerys Targaryen hafði myrt föður og bróður Neds Starks fyrir landráð, krafðist hann þess að Jon Arryn sendi honum höfuð drengjanna. Jon Arryn hafnaði því tilboði og kom af stað uppreisn til þess að hrekja geðbilaða konunginn frá völdum. Ned og Robert gengu í lið með uppreisnarmönnum og urðu leiðtogar uppreisnarinnar. Stuttu fyrir lokabardagann, giftist Ned Catelyn Tully, sem áður hafði verið trúlofuð bróður hans, Brandon Stark, áður en hann lést. Þegar deilunnu lauk tók Robert yfir krúnunni en Ned sneri aftur heim til Winterfell og tók með sér bastarðinn Jon Snow. Hann eyddi næstu fimmtán árum sem lávarður yfir Winterfell, fór sjaldan að heiman og blandaði sér ekki inn í flókin mál konungsveldisins. Eftir andlát Jons Arryns ferðast Robert konungur til Winterfell í þeim tilgangi að biðja Ned um að taka við starfi handar konungsins, sem er náinn ráðgjafi konungsins, í stað Jons Arryns. Ned vildi hafna tilboðinu en eiginkona hans Catelyn sannfærir hann um að taka starfinu svo hann geti rannsakað dauða Jons Arryns betur. Á meðan á rannsókninni stendur uppgötvar hann að öll þrjú börn Robert Baratheons og drottningarinnar Cersei voru getin af tvíburabróður hennar Jamie Lannister. Þegar Ned ræðir við Cersei um þetta og fordæmir son hennar, Joffrey, fyrir að vera ekki hinn rétti erfingi, gefur hann henni tækifæri til þess að flýja í skömm. Í staðinn notar hún tímann sinn til þess að skipuleggja morðið á Robert og þegar hann andast, lætur hún fangelsa Ned Stark fyrir landráð. Varys nær að sannfæra Ned um að dætur hans munu sæta illri meðferð ef hann kýs að deyja virðulega. Til þess að hlífa þeim, fórnar hann mannorði sínu og lýsir því opinberlega yfir að hann hafi ætlað að stela hásætinu og viðurkennir Joffrey sem hinn réttmæta konung. Þrátt fyrir loforð Cersei um að Ned yrði sendur í útlegð og fengi leyfi til þess að ganga til liðs við menn næturvaktarinnar, þá skipar Joffrey samt sem áður fyrir aftöku Neds. Varir. Varir eru líffæri sem er að finna í mönnum og mörgum öðrum dýrum sem snýr út á við munninn. Varirnar eru notaðar til að opna og loka munninum, auk þess að brosa og kyssa. Varirnar eru mjúkar og sveigjanlegar og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í tali og áti. Raddbönd. Raddbönd eru tvö bönd sem teygjast yfir barkakýlið. Þegar loft úr lungunum flæðir í gegnum gatið á milli þeirra sveiflast raddböndin í ákveðnum aðstæðum þannig að hljóð myndast. Raddböndin í barni eru þunn og grönn og hafa þau þess vegna hærri raddir en fullorðnir. Þegar drengar fara í mútur dýpkar röddin um eina eða tvær áttundir og verða raddböndin þykkari og strekktari. Þessi breyting er ekki svo merkjanleg í stelpum og hjá þeim má röddin dýpka um aðeins einn eða tvo tóna. Raddböndin hafa mikilvægu hlutverki að genga í tali og söng. Sveiflum raddbandanna er stjórnað af skreyjutauginu. Raddböndin eru hvít á litinn út af lágu blóðflæði. Gómur. Gómur er efsti hluti munnsins og aðskilur munnholið frá nefholinu. Gómurinn skiptist í tvo hluta: framgóminn, sem er harður og fremstur í munninum; og gómfilluna, sem liggur aftast og samanstendur af mjúkum vef. Framgómurinn myndast fyrir fæðingu en ef hann bræðir ekki fullkomlega saman verður hann holgómur. Gómurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í tali og eitt af nokkrum talfærum. Orðaforði. Orðaforði á við fjölda orða í ákveðnu tungumáli sem einstaklingur notar. Orðaforði manns stækkar með aldrinum og nýtist í samskiptum og þekkingaröflun. Eitt stærsta viðfangsefnið í að læra annað tungumál er það að læra orðaforðann. Sá hluti orðaforða sem maður notar oftast heitir "virkur orðaforði" og er borinn saman við "óvirkan orðaforða", sem er sá hluti orðaforða sem maður skilur en notar ekki endilega. Orðið „orðaforði“ getur líka átt við öll orðin sem eru í ákveðnu tungumáli eða á afmörkuðu sviði, til dæmis innan fræðigreinar. Í orðaforða tungumáls eru ýmsir orðflokkar, til dæmis nafnorð, sagnir, lýsingarorð og atviksorð. Kapítal. Kapítal eða höfuðborg Panem er í "Hungurleikunum" miðstöð hins miskunnarlausa einræðisstjórnarkerfis Panem. Og er staðsett norðvestan við Rocky Mountains í fyrrum Bandaríkjunum og Kanada. Umhverfis Kapítal eru tólf umdæmi sem höfuðborgin ríkir yfir með ógnarstjórn. Íbúar höfuðborgarninnar standa fjarri umdæmanna tólf þar sem matarskortur og kúgun ræður ríkjum, en tíska, fögnuðir og skemmtanir á stórum skala eins og Hungurleikarnir á hug þeirra allan. Flestir íbúar höfuðborgarinnar sem lýst er í skáldsögunum virðast ekki hafa vitneskju um eða vera alveg sama um fátæktina og örbygðina sem ríkir í umdæmum Panem. Í samanburði við umdæmin er Kapítalin afar auðug og stendur tæknilega framarlega þar sem íbúarnir lifa áhyggjulausu lífi í lúxus. Þegar keppendur eða fórnir umdæmanna í Hungur leikunum koma í Kapítolið bregður þeim við að sjá sóunina og öfgafullan lífstílinn sem viðgengst í Kapítalinu, til dæmis í veislu þar sem borinn er fram meiri matur en gestirnir geta í sig látið er vaninn að bjóða upp á ógleðisdrykki svo fólk geti kastað upp og haldið áfram að borða. Tíska og stíll íbúa Kapítalsins ber með sér lífstílinn og öfgana sem viðhafast þar. Tískan er frumleg, furðuleg og hégómafull þar sem íbúarnir lita húð sína og hár villtum litum, fá sér húðflúr og fara í ýktar skurðaðgerðir til að fylgja ákveðnum stíl. Íbúar Kapítalsins geta ekki verið dregnir út til að taka þátt í Hungurleikunum þar sem leikarnir voru settir upp sem refsing umdæmanna fyrir uppreisn sem féll. Leikarnir eru haldnir hátíðlegir árlega við mikla kátínu íbúa Kapítalsins. Í leikunum velja íbúarnir sinn uppáhalds keppanda/fórn sem þeir styðja með fjárstyrkum meðan leikarnir standa yfir. Þrátt fyrir blóðugt eðli leikanna verða íbúar Kapítalsins iðulega tilfinningalega tengdir gengi uppáhalds keppenda sinna en eru samt ósnertir af ofbeldinu sem börnin verða fyrir. Háls. Háls er sá hluti líkamans sem aðskilur höfuðið frá búknum. Hálsinn er efsti hluti hryggjarins og samanstendur af framhálsinum og hnakkanum. Hann heldur höfuðkúpunni uppi, sem situr ofan á honum. Í hálsinum er kokið og barkakýlið að finna. Hallfríður Ólafsdóttir. Hallfríður Ólafsdóttir er 1. flautleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og höfundur verkefnisins um Maxímús Músíkús Panem. Panem teiknað upp af aðdáanda Panem er sögusvið Hungurleikanna sem eiga að gerast í óskilgreindri framtíð eftir að núverandi þjóðir Norður-Ameríku hafa orðið að engu og í stað þeirra hefur myndast alræðisríki sem kallast Panem. Panem samanstendur af hinnu ríku Kapítal og tólf öðrum (áður þrettán) fátækari umdæmum sem lúta stjórn Kapítalarinnar. Forseti Panem er Snow. Kapítal. Kapítal eða höfuðborg Panem er í "Hungurleikunum" miðstöð hins miskunnarlausa einræðisstjórnarkerfis Panem. Og er staðsett norðvestan við Klettafjöll í fyrrum Bandaríkjunum og Kanada. Umhverfis Kapítal eru tólf umdæmi sem höfuðborgin ríkir yfir með ógnarstjórn. Íbúar höfuðborgarinnar standa fjarri umdæmunum tólf þar sem matarskortur og kúgun ræður ríkjum, en tíska, fögnuðir og skemmtanir á stórum skala eins og Hungurleikarnir á hug þeirra allan. Flestir íbúar höfuðborgarinnar sem lýst er í skáldsögunum virðast ekki hafa vitneskju um eða vera alveg sama um fátæktina og örbygðina sem ríkir í umdæmum Panem. Í samanburði við umdæmin er Kapítal afar auðug og stendur tæknilega framarlega þar sem íbúarnir lifa áhyggjulausu lífi í munaði. Þegar keppendur eða fórnir umdæmanna í Hungurleikunum koma í Kapítolið bregður þeim við að sjá sóunina og öfgafullan lífstílinn sem viðgengst í Kapítalinu, til dæmis í veislu þar sem borinn er fram meiri matur en gestirnir geta í sig látið er vaninn að bjóða upp á ógleðisdrykki svo fólk geti kastað upp og haldið áfram að borða. Tíska og stíll íbúa Kapítalsins ber með sér lífstílinn og öfgarnar sem viðhafast þar. Tískan er frumleg, furðuleg og hégómafull þar sem íbúarnir lita húð sína og hár villtum litum, fá sér húðflúr og fara í ýktar skurðaðgerðir til að fylgja ákveðnum stíl. Íbúar Kapítalsins geta ekki verið dregnir út til að taka þátt í Hungurleikunum þar sem leikarnir voru settir upp sem refsing umdæmanna fyrir uppreisn sem féll. Leikarnir eru haldnir hátíðlegir árlega við mikla kátínu íbúa Kapítalsins. Í leikunum velja íbúarnir sinn uppáhalds keppanda/fórn sem þeir styðja með fjárstyrkjum meðan leikarnir standa yfir. Þrátt fyrir blóðugt eðli leikanna verða íbúar Kapítalsins iðulega tilfinningalega tengdir gengi uppáhalds keppenda sinna en eru samt ósnertir af ofbeldinu sem börnin verða fyrir. Umdæmi 1. Umdæmi 1 sérhæfir sig í að framleiða munaðarvörur eins og skartgripi. Börnin þaðan líta á það sem heiður að taka þátt í Hungurleikunum fyrir hönd umdæmisins og eru oft meðal þeirra sem eru kallaðir „atvinnufórnir“. Þessir aðilar þjálfa sig ólöglega fyrir leikana frá ungum aldri og bjóða sig svo fram til að taka þátt. Þegar leikarnir byrja hópast venjulega þessar „atvinnufórnir“ (venjulega úr umdæmum 1, 2 og 4) saman og mynda hernaðarsamband þangað til þau neyðast til að berjast innbyrðis til sigurs. Í "Hungurleikunum" eru báðir keppendurnir/fórnirnar frá umdæmi 1 (Marvel og Glimmer) hluti af atvinnufórnunum og eru báðir drepnir af Katniss. Í "Catching Fire", eru keppendurnir systkini, Cashmera og Gloss sem eru drepin af Johanna Mason og Katniss. Umdæmi 2. Umdæmi 2 sér um múrverk og þjálfar hermenn fyrir her Kapítal. Umdæmi 2 stórt og er að mestu hluti af Klettafjöllum ekki fjarri Kapítal sjálfri. Íbúarnir búa við mun betri lífskjör en önnur umdæmi og því meiri hollusta við Kapítalið þar í samanburði við hin umdæmin. Börn íbúa í umdæmi 2 þjálfa oft ólöglega frá unga aldri fyrir Hungurleikana og bjóða sig fram til þáttöku. Umdæmið er byggt upp af smáum þorpum við námu. Í miðju umdæmi 2 er fjall þar sem er stjórnarmiðstöð fyrir her Kapítol. Upphaflega sá umdæmið eingöngu um námuvinnu og að vinna grjót en eftir fyrstu uppreisnina (sem varð til þess að Hungurleikarnir voru stofnaðir) eru þeir líka að framleiða vopn. Í þeirri uppreisn var umdæmi 2 sterkur bandamaður Kapítal og fær því sérstaka og betri meðferð en hin umdæmin. Í þriðju bókinni og seinni uppreisninni stendur umdæmi 2 aftur með Kapítal og er síðasta umdæmið til að falla. Í "Hungurleikunum" (fyrstu bókinni) eru keppendur frá umdæmi 2, Cato og Clove sérstaklega erfiðir andstæðingar. Clove komst næst öllum að drepa Katniss en var trufluð og svo drepin af Thresh (Frá umdæmi 11). Cato hefndi dauða hennar með því að drepa Thresh en var svo drepinn á endasprettinum af stökkbreyttum úlfum. Í "Catching Fire" (annarri bókinni) eru keppendur leikanna Brutus og Enobaria. Brutus var drepinn af Peeta en Enobaria lifli leikana af og var ein sjö sigurvegara Hungurleikanna sem lifði stríðið af. Umdæmi 3. Umdæmi 3 sérhæfir sig í tækni. Flestir íbúarnir vinna í verksmiðjum og eru sérfræðingar í verkfræði sem keppendur umdæmissins hafa getað nýtt sér í hag í Hungurleikunum. Í fyrstu bókinni, Hungurleikarnir, notuðu atvinnufórnirnar keppandann frá umdæmi 3 til að virkja sprengjur af leikvanginum til að vernda birgðirnar þeirra af vopnum og mat. Beetee er einn af fyrri sigurvegurum Hungurleikanna sem vann með því að setja gildru sem drap mótherjana með raflosti. Hann notaði einnig þessa hæfileika sína í leikunum í "Catching Fire". Hinn keppandinn fyrr hönd umdæmi 3 í "Catching Fire" var Wiress sem áttaði sig á að leikvangurinn væri eins og klukka. Umdæmi 4. Umdæmi 4 sérhæfir sig í fiskveiðum. Það er annað vel stætt ríki þar sem börnin þjálfa sig til að verða atvinnufórnir. Íbúar umdæmis 4 eru umtalaðir sem fallegasta fólkið. Í "Hungurleikunum" (fyrstu bókinni) er karlkyns keppandi umdæmis 4 einn af fyrstu ellefu sem létust í upphafsbaráttunni en kvenkyns keppandinn verður hluti af atvinnufórnunum og deyr þegar Katniss hendir búi stökkbreyttra vespa yfir hópinn. Í Catching Fire verða keppendur umdæmis 4, Mags og Finnick mikilvægir bandamenn Katniss. Mags er mjög gömul kona sem var lærimeistari Finnick í hans leikum. Hún gat búið til fiskikrók úr hverju sem er. Hún bauð sig fram til þátttöku í leikunum til að vernda Annie Cresta sem er fyrrum sigurvegari sem missti vitið eftir þátttökuna. Annie verður seinna eiginkona Finnicks. Finnick deyr í "Mockingjay" (þriðju bókinni) af stökkbreyttum eðlum í stríðinu. Umdæmi 5. Umdæmi 5 sérhæfir sig í orku. Kvenkyns keppandinn frá umdæmi 5 var kölluð Foxface, eða refsandlt því hún minnti á ref með grannt andlit og slétt rautt hár. Hún var ein þeirra sem lifði lengst af því hún var svo snjöll og náði að forðast að rekast á hina keppendurna. Hún dó eftir að hafa borðað eitruð ber sem hún hafði stolið frá Katniss og Peeta. Umdæmi 6. Umdæmi 6 sérhæfir sig í samgöngum. Fátt annað er vitað um umdæmið annað en báðir keppendurnir í annari bókinni vernduðu Katniss og Peeta. Keppendurnir voru háðir „mophling“ verkjalyf sem lýkist morfíni. Bókin gaf í skyn að margir í umdæminu væru háðir lyfinu. Báðir keppendurnir létust fyrsta daginn. Umdæmi 7. Umdæmi 7 sérhæfir sig í timbri og pappír. Stærsti hluti umdæmissins er furuskógur. Í "Catching Fire" (annarri bókinni) er Johanna Mason einn bandamanna Katniss og hluti af samsærinu um að brjótast út úr leikvanginum. Undir lokin ræðst Johanna á Katniss til að losa staðsetningarbúnaðinn úr handleggnum á henni. Johanna var ein þeirra sem Kapítal náði að handsama í flóttanum. Hún var pyntuð með vatni og rafstuði sem fangi. Síðar varð hún vinkona Katniss. Umdæmi 8. Umdæmi 8 sérhæfir sig í textíl. Umdæmi 8 var eitt fyrstu umdæmana til að taka þátt í byltingunni. Tveir íbúar náðu að flýja í byltingunni og sögðu Katniss frá orðrómum um að umdæmi 13 hefði ekki verið eytt. Það er gefið í skyn að öryggisvarnir í umdæmi 8 sé strangt fylgt eftir síðan byltingin byrjaði og íbúarnir örvæntingarfullir fyrir vonarglætu. Í Mockingjay, heimsækir Katniss spítala í umdæmi 8 sem síðar var sprengdur upp af Kapítal. Leiðtogi umdæmis 8, Peylor, hefur getu til að efla með hermönnum sínum öfluga hollustu sem fylgja henni frekar en Coin forseta 13. Paylor verður Forseti Panem eftir stríðið. Í "Hungurleikunum" deyr karlkyns keppandinn fyrsta daginn og kvenkyns fyrstu nóttina. Í annarri bókinni deyja báðir keppendurnir frá umdæmi 8, Woof og Cecilia í fyrstu baráttunni. Umdæmi 9. Umdæmi 9 sérhæfir sig í korni og rekur margar verksmiðjur. Karlkyns keppandi umdæmis 9 er lýst með brún augu en ekki er tekið fram hvort um sé að ræða einkenni umdæmisins. Hann deyr eftir baráttu við Katniss um bakpoka með vistum af stungusári eftir Clove úr umdæmi 2. Umdæmi 10. Umdæmi 10 sérhæfir sig í búfénaði. Þegar Katniss kemur í umdæmi 13 hittir hún mann sem heitir Dalton sem er kúabóndi í umdæmi 10. Verkefnið hans er að koma frjóvguðum kúa fósturvísum fyrir til að passa upp á fjölbreytileika hjarðarinnar. Hann virkar kaldhæðinn og treystir ekki umdæmi 13. Umdæmi 11. Umdæmi 11 sérhæfir sig í landbúnaði. Það er staðsett í suðri og er mjög viðamikið. Fólkið býr í smáum kofum og herinn er mjög harður og áberandi á svæðinu. Almennt eru íbúarnir eru dökkir á hörund með brún augu. Íbúarnir hafa sérstaklega mikla þekkingu um jurtir. Thresh og Rue eru keppendur umdæmis 11 í Hungurleikunum og spila veigamiklum hlutverkum þar. Rue var bandamaður Katniss og þær urðu mjög nánar á leikvanginum. Hún var góð í að hoppa milli trjáa en var drepin af Marvel úr umdæmi 1. Thesh var sterkur keppandi sem Katniss dáðist af vegna líkamlegs styrk hans, stolti og að hann neitaði að verða hluti af atvinnufórnunum. Thresh bjargaði lífi Katniss frá árás Clove sem hann drap með stein. Hann bjargaði Katniss vegna vináttu hennar við Rue. Það kemur ekki fram í bókinni hvernig hann deyr en það er gefið í skyn að Cato hafi drepið hann. Í myndinni er hann drepinn af stökkbreyttu úlfunum sem Kapítol sendi á keppendurna til að koma keppendunum saman til að neyða þá til að berjast. Keppendurnir frá umdæmi 13 í annarri bókinni eru Chaff og Seeder sem vita báðir af uppreisninni. Umdæmi 12. Umdæmi 12 sérhæfir sig í kolanámun. Katniss og Peeta eru keppendurnir frá Umdæmi 12 í Hungurleikunum. Umdæmið er við Appalachiafjöll og umdæmið sjálft er skipt í tvö svæði þar sem sitthvor stéttin hefur sitt eigið. Það er fátækrahverfi (the Seam) þar sem námuverkamennirnir búa með fjölskyldum sínum en verslunarmennirnir búa í bænum. Báðar stéttirnar hafa mismunandi útlitseinkenni en blandast almennt félagslega. Námuverkamennirnir eru dökkhærðir með grá augu og ólífu húð en verslunnarmanna fjölskyldurnar er venjuleg ljóshærðir með blá augu. Katniss er úr fátækrahverfinu en Peeta er sonur bakara. Það er óljós hvort stéttaskiptin sem þessi sé einnig í hinum umdæmunum. Umdæmi 13. Fyrir fyrstu byltinguna sérhæfði umdæmi 13 sig í kjarnorku og grafít námum. Í fyrstu byltingunni voru þau sterkasta aflið og tókst að taka stjórn á kjarnorkuvopnabúrinu. Sagt er að umdæmið hafi verið sprengt upp af Kapítalinu og notað sem dæmi um hvað Kapítalið myndi gera við þá sem myndu reyna að feta í þeirra fótspor. Síðar er gefið í skyn og svo staðfest að umdæmið hafi lifað af. Umdæmið er byggt nær eingöngu neðanjarðar eftir byltinguna og samkomulag náðist við Kapítalið að ef umdæmið fengi að vera í friði myndu þau ekki sprengja upp Kapítalið með kjarnorkuvopnum. Umdæmi 13 er miðstöð seinni byltingarinnar. Lífstíllinn í umdæmi 13 er strangur þar sem öllum reglum verður að fylgja og allri neyslu skal gæta hófs. Forseti umdæmis 13 er Alma Coin sem ætlar að taka við Panem sem forseti. Gjörningalist. Gjörningalist er þegar listamaður notar tónlist og aðferðir leikhússins á áhrifaríkan hátt. Fjöltyngi. Fjöltyngi er getan til að tala fleira en eitt tungumál. Um allan heim er fleira fjöltyngt fólk en eintyngt. Við alþjóðavæðingu og útbreiðslu netsins er það orðið mikilvægara að vera fjöltyngdur þar sem æ fleira fólk er að verða vant því að nota fleira tungumál í daglegu lífi. Orðið tvítyngi á við getuna til að tala tvö tungumál. Táknmál. Táknmál er tungumál sem er myndað með hreyfingum handa og annarra líkamshluta, svipbrigðum og augnhreyfingum. Táknmál nýtast heyrnarlausu fólki í stað talmáls og hafa málfræðilegar reglur eins og töluð tungumál. Augnsamband er sérstaklega mikilvægt í táknmálum og þarf viðkomandi að halda augnsambandi við viðmælandann allan tímann. Táknmál er að finna í samfélögum heyrnarlausa um allan heim. Ekki er til eitt staðlað táknmál, þau eru mismunandi eftir löndum og þjóðum eins og töluð mál, til dæmis er bandarískt táknmál mjög ólíkt því breska og tungumálin eru ekki skyld. Svæði heilans sem sér um málfræði er ekki notað á sama hátt hjá heyrnarlausum og hjá heyrandi fólki. Málfræði táknmála er jafnflókin og sú talaðra mála og öðruvísi reglur gilda um setningarskipan en í töluðum málum. Oft er lítið sameiginlegt milli talaða tungumáls ákveðins lands og opinbera táknmáls þess. Tryggvagata. Tryggvagata er nefnd eftir Tryggva Gunnarssyni bankastjóra og alþingismanni hann var atkvæðamikill í Reykjavík um aldamótin 1900. Gatan varð til á uppfyllingunni sem gerð var við hafnargerðina 1913 – 1917. Nafnið var samþykkt í bæjarstjórn árið 1923. Tryggvagata er staðsett milli Lækjagötu og Geirsgötu. Tryggvagata 10, 12 og 14 eru byggð fyrir árið 1918 og eru því allar breytingar á þeim háðar lögum um húsafriðun 104/2001. Á Tryggvagötu eru mörg þekkt hús sem að Íslendingar eiga, þar að meðal er Listasafn Reykjavíkur staðsett, eitt af mörgum Borgarbókasöfnum Reykjavíkur, Kolaportið og Tollhúsið. Listasafn Reykjavíkur. Listasafn Reykjavíkur er til húsa á þremur stöðum í bænum. Í Hafnarhúsi við Tryggvagötu, á Kjarvalsstöðum við Flókagötu og í Ásmundarsafni við Sigtún. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkaeign borgarinnar. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á stjórnun og fjármögnun safnsins. Listasafn Reykjavíkur samanstendur af fimm aðskildum safneignum: Almennri safneign Reykjavíkurborgar, Errósafni, Kjarvalssafni, Ásmundarsafni og safneign byggingarlistardeildar. Safneignin er sýnd í þremur húsum sem Listasafn Reykjavíkur hefur yfir að ráða: Kjarvalsstöðum við Flókagötu sem voru opnaðir 1973, Ásmundarsafni við Sigtún, opnað 1983 og Errósafnið er til sýnis í Hafnarhúsinu sem var formlega opnað árið 2000. Verk safnsins eru einnig til sýnis í opinberum byggingum og á opnum svæðum víða um borgina. Að auki er safnið með tímabundnar sýningar á innlendri og erlendri samtímalist og hönnun í öllum húsunum þremur. Borgarbókasafn Reykjavíkur. Borgarbókasafn Reykjavíkur er við Tryggvagötu 15. Safnið var stofnað árið 1919 en hóf ekki starfssemi fyrr en 19. apríl 1923. Í safninu eru nú um 500 þúsund bækur og tímarit auk geisladiska, myndbanda og margmiðlunarefnis svo fátt eitt sé nefnt. Í öllum söfnunum eru svo kallaðir heitir reitir fyrir þá sem vilja koma með eigin tölvur og vinna á Netinu. Borgarbókasafn heyrir undir Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar. Borgarbókasafn er almenningsbókasafn Reykvíkinga og er öllum opið. Það starfar samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn nr. 36 frá 1997, yfirlýsingu Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) um almenningsbókasöfn frá 1994 (PDF 14KB) menningarstefnu Reykjavíkurborgar og samþykkt fyrir Borgarbókasafn frá 2002. Kolaportið. Kolaportið var opnað þann 8. apríl 1989 en þá ekki á Tryggvagötunni heldur í bílageymslu bílastæðasjóðs Reykjavíkur í húsi Seðlabankans í miðborg Reykjavíkur. Með stuðning frá Reykjavíkurborg og Fjármálaráðuneytisins flutti Kolaportið starfsemi sína 5 árum seinna eða árið 1994 í framtíðarhúsnæði á neðstu hæð Tollhússins við Tryggvagötu sem er einnig í miðborg Reykjavíkur. Það eru ekki margir staðir á Íslandi sem eins mikið fólk sækir um hverja helgi eins og markaðstorg Kolaportsins. Fjölbreytnin þar inni gerir andrúmsloftið og umhverfið svo skemmtilegt og er ólíkt öllum öðrum verslunarstöðum en þar er að finna notaða vöru, nýja vöru, matvæli, handverksvöru, fatnað, skartgripi, skó, antikvöru, húsgögn, bækur, innfluttar vörur frá öllum heimshornum svo eitthvað sé nefnt. Mikið líf er í Kolaportinu og skemmtileg stemmning myndast þar hverja helgi, stemmningin líkist á við stemmningu í litlu bæjarfélagi þar sem kaupmenn kalla á viðskiptavini, heildsalar kynna nýja vöru, stjórnmálaöfl dreifa bæklingum, kórar taka lagið og selja kompudót í fjáröflunarskyni, fjöldi manns er mættur með gamla dótið úr geymslunni og ættarmótin koma saman í Kaffi Porti. Kolaportið er opið alla laugardaga og sunnudaga frá kl. 11-17 og býðst fólki upp á þann möguleika að panta bása fyrir sig eftir því hvað hentar hverjum og einum. Boðið er upp á að leigja einn, tvo eða fleirri bása í einn eða tvo daga yfir helgina. Básarnir eru 6 fm og komast um 3 aukahlutir fyrir í básnum til dæmis borð og fataslár. Leiguverðið á básunum er misjafnt eftir því hvað fólk hyggst selja en sölubás í einn dag fyrir notaðar vörur kostar 7200 kr. og fyrir tvo daga 10900 kr. Básinn kostar hins vegar 8900 kr. fyrir fólk sem ætlar að selja nýjar vörur í einn dag og 13900 kr. fyrir tvo daga. Hægt er að panta bása á netinu. Tollhúsið. Tollstjórinn í Reykjavík og hafnarstjórinn í Reykjavík mynduðu leigusamning árið 1967 til 50 ára um 4.846,3 m² lóð norðan Tryggvagötu milli Naustanna og Pósthússtrætis, til þess að reisa tollstöð. Á lóðinni var skuldbinding um það að á fyrstu hæðinni yrði að vera hafnarskemma og rekstri hennar ætti að vera hagað sem best samkvæmt hverjum tíma vöruuppskipun og tolleftirliti á hafnarsvæðinu í heild. Gert var ráð fyrir að tollstjóraembættið myndi ráða geymslurýminu við höfnina. Efri hæðir hússins skyldu svo nýttar undir þá starfsemi embættisins. Einnig var tekið fram að í húsinu skyldi koma fyrir þeim bifreiðastæðum sem skipulagsyfirvöld segðu til um. Á lóðinni hvíldu miklar kvaðir. Til þess að tryggja að þær stæðu var skylt að fá samþykki hafnarstjórnar fyrir húsinu, auk skipulags- og byggingarnefndar. Einnig varð hafnarstjóri að samþykkja allar síðari breytingar á húsinu. Hlutverk skrifstofu tollstjóra er að styrkja yfirstjórn embættisins og stuðla að umbótum, nýsköpun og faglegri framþróun í starfsemi stofnunarinnar. Verkefnin sem skrifstofan kemur að snýr að alþjóðamálum, stefnumótun og áætlanagerð, árangursstjórnun, þjónustu- og gæðastjórnun, verkefnastjórnun og verkefnavinnu. Einnig er unnið að ýmsum sérverkefnum í tengslum við tollframkvæmdina. Núverandi tollstjóri er Snorri Olsen. Edda Símonardóttir sér um innheimtusviðið og Karen Bragadóttir sér um tollasvið. Á skrifstofu tollstjórana er Sigurður Skúli Bergsson aðstoðartollstjóri, Linda Rut Bene-diktsdóttir forstöðumaður þjónustu- og gæðamála. Sigfríður Gunnlaugsdóttir sér um alþjóðamál og Hermann Guðmundsson lögfræðingur sér um sérverkefnin. Geymslumiðill. Geymslumiðill er tæki sem notast til geymslu gagna. Orðið er oftast notað í sambandi við tölvur en geymslumiðlar eru líka notaðir til að geyma hljóð og myndbönd. Flestir þeirra geymslumiðla sem eru í víðri notkun í dag eru stafrænir en þeir voru að mestu leyti flaumrænir fyrir fyrri hluta 20. aldar. Dæmi um stafræna geymslumiðla eru harðir diskar, geisladiskar, minnislyklar og minniskort. Flaumrænir geymslumiðlar sem algengir voru á 20. öld eru hljómplötur og kassettur. Árið 2002 var fyrsta árið þar sem meiri gögn voru geymd í stafrænu sniði en í flaumrænu. Árið 1986 var aðeins 1% af gögnum í heiminum geymd í stafrænu formi, miðað við 97% árið 2007. Mannsrödd. Mannsrödd er hljóð eða röð hljóða sem mynduð eru með raddböndunum sem maður gefur frá sér til að tala, syngja, hlæja, gráta, öskra og svo framvegis. Tíðni mannsraddarinnar getur verið á milli 60 og 7000 Hz. Orðið „rödd“ á sérstaklega við þau hljóð sem eru mynduð með raddböndunum og ekki öðrum líkamshluta. Í almennum skilningi skiptist búnaðurinn fyrir myndun raddarinnar í þrennt: lungun, raddböndin í barkakýlinu og virku talfærin. Lungun þurfa að mynda nægilegan þrýsting til að láta raddböndin sveiflast. Raddböndin eru sveiflandi loka sem sker loftflæðið upp í heyranlega slætti sem koma úr barkakýlinu. Vöðvarnir í barkakýlinu breyta lengd og spennu raddbandanna þannig að tónhæð og tónn raddarinnar breytist. Virku talfærin (það er að segja þau talfæri sem eru yfir barkakýlinu: tungan, gómurinn, kinnarnir, varirnar, o.s.frv.) sía og breyta hljóðunum og geta haft áhrif á loftflæðið úr barkakýlinu. Raddböndin geta myndað ásamt virku talfærunum mjög flóknar raðir hljóða. Tilfinningar eins og reiði, undrun og hamingja geta verið tjáðar með því að breyta raddblænum. Söngvarar nota röddina sem hljóðfæri í tónlist. Barkakýli. Barkakýlið er líffæri sem er að finna í hálsi froskdýra, skriðdýra (ásamt fuglum) og spendýra (ásamt mönnum) sem hefur hlutverki að gegna í öndun, myndun hljóða (það er að segja tali í mönnum) og vörn barkans gegn kæfingu. Barkakýlið hefur áhrif á tónhæð og styrk hljóða. Í barkakýlinu eru raddböndin sem eru mikilvæg í myndun hljóða og þau er að finna undir staðnum þar sem kokið skiptist í brakann og vélindað. Barkakýlið samanstendur af brjóski og er þakið með slímhimnu. Undir slímhimnunni eru vöðvar sem teygja raddböndin þannig að þau breyti loftflæðinu úr lungunum. Barkakýlið myndar tenginguna á milli efri og neðri öndunarveganna, og það lokast yfir neðri öndunarveginn við neyslu matar eða drykkjar. Kevin Costner. Kevin Michael Costner (f. 18. janúar 1955 í Lynwood í Kaliforníu) er bandarískur leikari og tónlistmaður. Costner, Kevin Volkhov (borg). Volkhov (rússneska "Волхов") er borg í Rússlandi. Árið 2010 bjuggu 47.344 manns í borginni. Sigrún Eva Ármannsdóttir (söngkona). Sigrún Eva Ármannsdóttir (f. 1968) er íslensk söngkona. Hún hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992 sem hluti af Heart2Heart. T.A.T.u.. t.A.T.u. var rússnesk hljómsveit sem var stofnuð árið 1999. Söngvarar eru Yulia Volkova og Elena Katina. Hún er á heimsvísu ein frægasta hljómsveit sem Rússland hefur alið af sér og hefur selt yfir milljón plötur í allt. Hljómsveitin keppti fyrir hönd Rússlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2003 með laginu „Ne ver', ne boysya“. Þau lentu í 3. sæti af 26 með 164 stig. Frelsisstyttan í Kaupmannahöfn. Frelsistyttan í Kaupmannahöfn er 20 m hár einsteinungur sem stendur á Vesterbrogade við aðaljárnbrautastöðina í Kaupmannahöfn, Københavns Hovedbanegård. Styttan var reist til að minnast þess þegar vistarbandið var lagt af og endurbætur gerðar í landbúnaði árið 1788. Friðrik krónprins (seinna Friðrik VI) lagði hornstein að styttunni 31. júlí 1792 og hún var tilbúin í september 1797. Styttan er á nánast sama stað of upprunalega en árið 1792 var sá staður fyrir utan borgarmúra Kaupmannahafnar. Jennifer Lawrence. Jennifer Shrader Lawrence (fædd 15. ágúst 1990) er bandarísk leikkona. Hún lék aðalhlutverkið í TBS, The Bill Engvall Show og í bíómyndunum The Burning Plain og Winter's Bone sem hún hlaut tilnefningar til Óskarsverðlaunanna, Golden Globe, Satellite-verðlaunanna og Screen Actors Guild-verðlaunin. Þegar hún var tvítug var hún önnur yngsta leikkona til að vera tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta leikkonan. Hún lék einnig Mystique í myndinni X-men: First Class. Árið 2012, varð Lawrence þekktari eftir hlutverk sitt sem Katniss Everdeen í myndinni "Hungurleikarnir", sem er byggð á samnefndum bókum eftir Suzanne Collins. Lawrence, Jennifer Liam Hemsworth. Liam Hemsworth (fæddur 13. janúar 1990) er ástralskur leikari. Hann lék hlutverk Josh Taylors í sápuóperunni Nágrannar og einnig sem Marcus í barnaþáttunum The Elephant Princess. Hann lék í bandarísku myndinni The Last Song, sem kom út 31. mars 2010. Hemsworth á tvo eldri bræður, Luke og Chris, þeir eru einnig leikarar. Hemsworth, Liam Yulia Volkova. Yulia Olegovna Volkova (f. 20. febrúar 1985) er söngkona t.A.T.u.. Volkova, Yulia Elena Katina. Elena (Lena) Sergeyevna Katina (f. 4. október 1984) er söngkona t.A.T.u.. Katina, Elena Skuldabréf. Skuldabréf eru bréf sem fólk skrifar undir sem segir að þú skuldir einhverjum einhvað. Adam og Eva. Algengur misskilningur er að Eva hafi borðað af trénu fyrst og síðan ginnt mann sinn til að borða líka. Orðanna hljóðan í 1. Mósebók styður ekki þessa túlkun, heldur voru þau saman. Það er áhugavert að athuga að Adam og Eva hefðu getað borðað af lífsins tré og lifað eilíflega. Drottinn hafði ekki bannað þeim það. Friðrik Karlsson. Friðrik Karlsson er íslenskur gítarleikari. Hann hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992 sem hluti af Heart2Heart. Josh Hutcherson. Joshua Ryan Hutcherson, þekktastur sem Josh Hutcherson (fæddur 12. október 1992 í Union, Kentucky) er kvikmynda- og sjónvarpsleikari. Ferill hans byrjaði snemma á árinu 2000, þegar hann fékk lítil hlutverk í sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Hann vann Teen Choice verðlaunin 2012. Capellini. Capellini með japönsku grænum chilipipar Capellini er tegund af pasta sem er mjög þunnar hveitilengjur, þvermál er milli 0,85 mm og 0,92 mm Capelli d'angelo eða englahár með þvermál milli 0,78 og 0,88 mm er ennþá þynnra afbrigði af capellini. Englahár er oftast selt í lögun eins og hreiður. Það hefur verið vinsælt á Ítalíu frá 15. öld og passar vel í súpur og sem pasta asciutta með sjávarfangi. Almannaréttur. Almannaréttur er sá réttur sem almenningi er áskilinn í lögum til frjálsra afnota af landi og landsgæðum, til farar um land og vötn. Þessi réttur er mismunandi eftir löndum. Í Jónsbók er tekið fram að menn hafi rétt til að beita hestum í land annars manns ef það hefur eigi áður verið slegið og heimild var að höggva við sem hamlaði umferð og bændum var gert skylt að gera almannavegu um þver héruð og endilöng. Ákvæði í Jónsbók endurspegla fararétt almennings um land. Aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn. Aðaljárnbrautastöðin í Kaupmannahöfn, (danska: "Københavns Hovedbanegård", "København H" eða í daglegu tali "Hovedbanegården") er aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn. Þar tengjast lestir sem liggja um Danmörku en stöðin er einnig sú brautarstöð í Skandinavíu þar sem flestar lestir fara til áfangastaða erlendis. Á hverjum degi fara um 90 þúsund farþegar um Aðaljárnbrautarstöðina. Saga. Núverandi aðaljárnbrautarstöð er sú þriðja í röðinni, en sú fyrsta var tekin í notkun 26. júní 1847 þegar lestarteinar voru lagðir til Hróarskeldu. Hún var í Dronningens Enghave og var kölluð "Københavns Station" og var þá eina brautarstöðin í borginni. Absalon erkibiskup. Gröf Absalons í Sorø Klosterkirke Absalon (1128 – 21. mars 1201) var danskur biskup og erkibiskup. Hann var vinur og fóstbróðir Valdimars Knútssonar. Absalon varð biskup í Hróarskeldu árið 1158. Um 1160 fékk hann þorpið Höfn og nærliggjandi bæi sem lén frá konungi en það svæði varð seinna Kaupmannahöfn. Árið 1167 byggði hann borg á hólmi þar og liggja rústir af Absolons Borg undir Kristjánsborgarhöll. Árið 1178 varð hann erkibiskup í Lundi. Þegar Knútur 6. varð konungur árið 1182 var það í raun Absalon sem stjórnaði Danmörku. PCR. PCR eða pólýmerasi keðjuverkun er aðferð sem notuð er til þess að fjölfalda DNA eða ákveðin gen. Kirkjubæjarkirkja. Kirkjubæjarkirkja á Kirkjubæ í Hróarstungu er kirkja sem var reist 1851. Kirkjan er stór timburkirkja og þar er prédikunarstóll frá tíð Guðbrands Þorlákssonar biskups. Skírnarskálin er með tréumgjörð skorinni af Ríkarði Jónssyni. Altaristaflan í kirkjunni er frá 1894. Gripir úr eigu kirkjunnar eru á Þjóðminjasafni. Lögferja var við Kirkjubæ. Pilote. "Pilote" var franskt teiknimyndablað sem gefið var út á árunum 1959 til 1989. Það var á sínum tíma eitt áhrifamesta blað sinnar tegundar og barðist um hylli lesenda við teiknimyndablöðin "Tinna" og Sval. Ýmsir af kunnari teiknimyndasöguhöfundum Evrópu birtu verk sín í blaðinu. Sagan. Hópur teiknimyndasöguhöfunda hóf útgáfu "Pilote" á árinu 1959. Það voru höfundarnir René Goscinny og Jean-Michel Charlier og teiknararinn Albert Uderzo við fjórða mann. Útgáfa blaðsins lenti fljótlega í fjárhagslegum erfiðleikum og varð úr að útgáfufyrirtækið Dargaud keypti reksturinn. Þeir Goscinny og Uderzo kynntu snemma til sögunnar Ástrík gallvaska sem varð flaggskip blaðsins. Árið 1968 barst blaðinu góður liðsauki þegar Lukku Láki færði sig um set frá teiknimyndablaðinu "Sval". Jean-Michel Charlier kynnti til sögunnar ævintýrin um einfarann "Blueberry" úr Villta-vestrinu (íslenska: "Blástakkur"), sem þótti brjóta blað í sögu raunsæislegra teiknimynda. Lesendahópur "Pilote" var enda nokkru eldri en "Tinna" og "Svals". Minnkandi teiknimyndasala í Frakklandi á níunda áratugnum varð að lokum til þess að útgáfan varð aflögð. Kunnar teiknimyndasögur. Meðal kunnra teiknimyndasagna sem birst hafa í Pilote í gegnum tíðina má nefna: Ástrík gallvaska, Blástakk, Lukku-Láka, Mac Coy, Fláráð stórvesír og Alla Kalla. Hugo Weaving. Hugo Wallace Weaving (fæddur 4. apríl 1960) er ástralskur-enskur leikari. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í "The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert", "Fylkinu", "Hringadróttinssögu", "Hobbitanum" og "V for Vendetta". Weaving, Hugo Weaving, Hugo Vísindaskáldskapur. Vísindaskáldskapur er tegund af skáldskap, sem á rætur að rekja til skáldsagna og dæmisagna, þar sem söguþráðurinn á sér stað í ímynduðu umhverfi þar sem vísindi, sérstaklega tæknilegar þróanir, hafa haft töluverð áhrif á samfélag og persónur sögunnar. Vísindaskáldsögur taka sér stað oft í framtíðinni, geimi eða útópíu eða dystópíu. Agnes M. Sigurðardóttir. Agnes M. Sigurðardóttir (f. 19. október 1954) er nýkjörinn biskup Íslands, fyrst kvenna. Foreldar hennar eru sr. Sigurður Kristjánsson, sóknarprestur á Ísafirði og prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi, og Margrét Hagalínsdóttir, ljósmóðir. Agnes lauk cand.theol. prófi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1981. Var hún vígð til prestsþjónustu 20. september sama ár. Sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Borgarfirði 1986 – 1994. Sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli 1994 – 2012, prófastur á Vestfjörðum frá 1999. Þegn. Þegn er sá sem maður sem heyrir stjórnarfarslega undir þjóðhöfðingja konungsríkis. Dæmi um orðnotkun: „þegnar Danakonungs“, „allir þegnar landsins eiga að njóta sömu réttinda“, „konungur var vanur að ávarpa þegna sína á þjóðhátíðardaginn“. Í lýðveldi er borgari sambærilegt hugtak. Leifur Breiðfjörð. Leifur Agnarsson Breiðfjörð (fæddur 24. júní 1945 í Reykjavík) er íslenskur listamaður. Hann hefur starfað í eigin glerstúdói síðan 1968. Leifur er giftur Sigríði Jóhannsdóttur og eiga þau tvo drengi. Að loknu námi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hélt hann utan til Skotlands og lagði stund á glerlistanám í The Edinburgh College of Art í Edinborg og síðar í Englandi Leifur hefur verið brautryðjandi í íslenskri glerlist og er orðinn ansi þekktur hérlendis sem og erlendis fyrir verk sín og hlaut riddarakross hinnar Íslensku fálkaorðu árið 1995. Linguine. Linguine (e. lin-GWEE-nay, is. lin-gví-ní) er ítölsk pastategund. Linguine er flatt eins og fettuccine og trenette. Það er breiðara en venjulegt spaghettí, um það bil 6mm – 9mm, en ekki jafn breytt eins og fettuccine. Nafnið linguine merkir „litlar tungur“ á ítölsku. Linguine er stundum kallað trenette eða bavette. Linguettine er þynnri tegund af linguine. Linguine kemur upprunalega frá borginni Genoa í Liguria héraði á norð-vestur Ítalíu. Linguine alle vongole (linguine með kræklingum) og Trenette al pesto eru vinsælir réttir þar sem linguine pasta er notað. Þar sem Linguine kemur frá strandabæ er það oftast eldað með sjávarfangi eða pestó en ekki eldað með kjöt- og tómatréttum eins og hefðbundið spaghettí. Linguine er vanalega gert bæði úr hveiti og heilhveiti en það síðarnefnda er oftast notað á Ítalíu. Linguine er þykkara en venjulegt spagetti og þarf þess vegna lengri eldunartíma. Tommy Thayer. Thomas Cunningham Thayer (f. 7. nóvember 1960) er gítarleikari í Amerísku rokkhljómsveitinni Kiss. Hægt og hljótt. Hægt og hljótt var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1987. Halla Margrét Árnadóttir söng lagið. Philipp Kirkorov. Philipp Bedrosovich (Bedrosov) Kirkorov (f. 30. apríl 1967) er búlgarskur söngvari. Hann keppti fyrir hönd Rússlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1995 með laginu „Kolybel'naya dlya vulkana“. Hann náði 17. sæti af 22, með 17 stig. Tenglar. Kirkorov, Philipp Kirkorov, Philipp Kirkorov, Philipp Peter Nalitch. Peter Andreyevich Nalitch (f. 30. apríl 1981) er rússneskur söngvari. Hann keppti fyrir hönd Rússlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2010 með laginu „Lost and Forgotten“. Hann náði 11. sæti af 25, með 90 stig. Nalitch, Peter Nalitch, Peter Tsjernobyl. Tsjernobyl var kjarnorkuver við borgina Prypiat í Úkraínu. Þar varð gufusprenging og síðar eldsvoði í "aðal-Rafal 4" árið 1986, sem varð til þess að gífurlegt magan geislavirkra efna slapp út í andrúmsloftið. Í kjölfarið var borgin rýmd og er nú yfirgefin vegna hættilegrar geislunar. The Unit (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "The Unit" var frumsýnd 28. september 2008 og sýndir voru 22 þættir. Leikaraskipti. Tveir nýir leikarar bættust í hópinn, Nicole Steinwedell sem Bridget Sullivan og Wes Chatham sem Sam McBride, sem nýjir meðlimir sérsveitarinnar. Einnig bættist leikkonan Bre Blair við sem Joss Grey. Ásgeir Þór Magnússon. Ásgeir Þór Magnússon (fæddur 22. maí 1991) er knattspyrnumaður hjá Val. Hann byrjaði knattspyrnuferilinn sinn hjá Leikni Reykjavík og spilaði upp yngri flokka félagsins. Hann spilaði einn meistaraflokksleik fyrir Leikni þegar Leiknir heimsótti Hauka í VISA-bikarnum árið 2007 þegar hann var aðeins 16 ára. Hann skipti yfir í Val árið 2008. Þar var hann varamarkmaður fyrir Kjartan Sturluson áður en hann fór í lán til Hattar árið 2011. Þar var hann í liði Hattar sem vann sér þátttökurétt í 1. deildinni árið 2012. Hann var valinn besti leikmaður Hattar það ár, besti leikmaður annara deilar og í liði ársins. Hann er einnig markmaður undir 21 landsliðs Íslands og hefur spilað tvo leiki leiki fyrir landsliðið. Þar af auki hefur hann spilað 4 leiki fyrir undir 19 ára landsliðið og fimm leiki fyrir undir 17 ára landsliðið. Elisabeth Shue. Elisabeth Shue (fædd Elisabeth Judson Shue, 6. október 1963) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Leaving Las Vegas, Cocktail, The Karate Kid og. Einkalíf. Shue fæddist í Wilmington, Delaware en ólst upp í New Jersey. Stundaði nám við "Wellesley College" og Harvard-háskólann en hætti þar til þess að verða leikkona. Snéri aftur til að klára nám sitt í stjórnun árið 2000. Shue er gift kvikmyndaleikstjóranum Davis Guggenheim og saman eiga þau þrjú börn. Leikhús. Shue kom fram í leikritinu "Some Americans Abroad" tvisvar sinnum árið 1990 við "Mitzi E. Newhouse Theater" og "Vivian Beaumont Theatre" sem Donna Silliman. Auglýsingar. Shue hefur komið fram í auglýsingum fyrir fyrirtæki á borð við Burge King, "Debeers Diamonds" og í majónes auglýsingum fyrir Hellmann. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Shue var árið 1982 í sjónvarpsmyndinni "The Royal Romance of Charles and Diana". Árið 1984 þá var henni boðið hlutverk í Call to Glory sem Jackie Sarnac sem hún lék til ársins 1985. Hefur hún síðan þá komið fram í þáttum á borð við Dream On, Curb Your Enthusiasm og American Dad. Shue kom í staðinn fyrir Marg Helgenberger í sem Julie Finlay árið 2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Shue var árið 1983 í "Somewhere, Tomorrow", kom hún síðan fram í The Karate Kid og Cocktail. Shue kom í staðinn fyrir Claudiu Wells í Back to the Future myndunum sem Jennifer Parker. Árið 1995 lék hún í Leaving Las Vegas sem Sera og fyrir hlutverk sitt þá var hún tilnend til Óskarsverðlauna, Golden Globe og BAFTA verðlaunanna. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við The Saint, Molly, Gracie, Piranha og Hollow Man. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films-verðlaunin Dallas-Fort Worth Film Critics Association verðlaunin Tenglar. Shue, Elisabeth Wachowski-bræður. Lana Wachowski (fædd 21. júní 1965 sem Laurence „Larry“ Wachowski) og Andrew Paul „Andy“ Wachowski (fæddur 29. desember 1967) eru bandarískir leikstjórar, handritshöfundar og upptökustjórar sem eru þekktastir fyrir kvikmyndaröðina "Fylkið". Ferill. Bræðurnir fæddust og ólust upp í Chicago. Þeir fóru báðir í Whitney Young High menntaskóla, sem er þekktur fyrir að einbeita sér að sviðslistum. Eftir það fóru þeir báðir í háskóla en hættu báðir þar. Áður en þeir komu inn í veröld kvikmyndagerðar áttu þeir saman teppaverslun um leið og þeir teiknuðu myndasögur í frítíma sínum. Fyrsta tilraun þeirra í kvikmyndagerð var handritið fyrir kvikmyndina "Assassins" með Sylvester Stallone sem kom út árið 1995. Aðeins einu ári síðar kom fyrsta kvikmynd þeirra "Bound" út en hún naut ekki mikillar velgengni. Hæfileikar þeirra til að búa til eitthvað sjónrænt óvenjulegt sáust samt í þessari mynd. Eftir það fengu þeir leyfi til að búa til myndina "Fylkið" (e. "The Matrix") og í henni unnu þeir í mörg ár. Kvikmyndin naut mikilla vinsælda þökk sé frumlegum tæknum sem voru meðal annars svokallaði skottíminn, sem miðar að því að hægja á atburðarásinni sem tekin er með einni myndavél þar sem önnur myndavél tekur upp atburðarásina í rauntíma. Vinsældir "Fylkisins" stuðluðu að því að Warner Brothers vildi láta gera framhaldsmyndirnar "The Matrix Reloaded" og "The Matrix Revolutions" sem bræðurnir höfðu þegar ráðgert. Þetta þýddi að bræðurnir báru enga skyldu til að taka þátt í markaðssetningu myndanna, fara í viðtöl eða taka þátt í gerð DVD-útgáfanna. Auk þess fengu þeir stór laun. Framhaldsmyndunum var hins vegar ekki vel tekið miðað við frummyndina og nutu ekki svo mikilla vinsælda. Bræðurnir eru líka viðurkenndir sem skaparar persóna í fjölda kvikmynda og teiknimynda auk tölvuleiks sem á sér stað í veröld "Fylkisins". Síðan útgáfa síðustu mynd "Fylkisins" hefur lítið verið talað um bræðurna. Þeir voru samt sem áður upptökustjórar myndarinnar "V for Vendetta" með Natalie Portman og Hugo Weaving. Hugo Weaving lék líka Smith fulltrúa í "Fylkinu". Rafael Nadal. Rafael Nadal að keppa 2011. Rafael „Rafa“ Nadal Parera (fæddur 3. júní 1986) er spænskur atvinnumaður í tennis. Kerry King. Kerry King (fæddur 1964) er bandarískur tónlistmaður í hljómsveitinni Slayer. King, Kerry Suzi Quatro. Suzi Quatro á tónleikum í AIS Arena. Susan Kay „Suzi“ Quatro (fædd 3. júní 1950) er söngkona, lagahöfundur, bassaleikari og leikkona. Hún varð fyrsti kvenbassaleikarinn til að verða rokkstjarna upp úr 1970 og hafði mikil áhrif sem slík á aðrar konur í rokkheiminum sem og utan hans. Ian Hunter. Ian Hunter á tónleikum 2004 Ian Hunter Patterson (fæddur 3. júní 1939) er enskur söngvari og lagahöfundur. Hann var aðalsögnvari rokkhljómsveitarinnar "Mott the Hoople" frá stofnun hennar 1969 þar til hún var leyst upp 1974. Hann leiddi hljómsveitina síðan aftur þegar hún kom saman á ný 2009. Hunter, Ian Curtis Mayfield. Curtis Mayfield í þýska sjónvarpinu 1972. Curtis Lee Mayfield (3. júní 1942 – 26. desember 1999) var bandarískur sálar-, R&B og fönktónlistarsöngvari, lagahöfundur og upptökustjóri. Mayfield, Curtis Allen Ginsberg. Allen Ginsberg (1926 – 1997) var bandarískt skáld og einna þekktastur þeirra skálda sem kend hafa verið við Beat-kynslóðina (" e. Beat Generation"). Georg 5.. Málverk eftir Luke Fildes frá árinu 1911 af Georgi 5. Georg 5. fullu nafni George Frederick Ernest Albert (f. 3. júní 1865 – d. 20. janúar 1936) var konungur Bretlands og Breska heimsveldisins og Keisari Indlands, frá 6. maí 1910 og fram yfir fyrri heimstyrjöldina til dauðadags. Ransom E. Olds. Ransom Eli Olds (3. júní 1864 – 26. ágúst 1950) var frumkvöðull í Bandarískum bílaiðnaði. Meðal annars eru tegundirnar "Oldsmobile" og "REO" nefndar eftir honum. Burn Notice. "Burn Notice" er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um njósnarann Michael Westen sem settur er á Brunalistann af yfirvöldum. Reynir hann með öllum ráðum að komast að því hver setti hann á listann. Höfundurinn að þættinum er Matt Nix og aðalleikaranir eru Jeffrey Donovan, Gabrielle Anwar, Bruce Campbell, Sharon Gless og Coby Bell. Framleiddar hafa verið sex þáttaraðir og var fyrsti þátturinn frumsýndur 28. júní 2007. Þann 7. nóvember, 2012, var þátturinn endurnýjaður fyrir sjöundu þáttaröðinni. Framleiðsla. Burn Notice er framleiddur af Fox Television Studios, Fuse Entertainment og Flying Glass of Milk Production (3-til dags) Tökustaðir. Þátturinn er tekinn upp í Miami, Flórída og hefur fasta leikmynd í gamla "Coconut Grove ráðstefnuhúsinu" í Coconut Grove hverfinu þar sem þátturinn er að mestu tekinn upp. Söguþráður. Burn Notice fylgir eftir njósaranum Michael Westen sem settur er á Brunalistann. Brunalisinn er listi yfir njósnara sem settir eru út í kuldann og njóta ekki lengur verndar yfirvalda. Reynir Michael að gera allt sem hann getur til að finna þá sem "brenndu" hann en á meðan vinnur hann sem einkaspæjari. DVD. Allar fjórar þáttaraðirnar af "Burn Notice" hafa verið gefnar út. Snú snú. Snú snú er leikur með einu bandi eða tveimur. Hann gengur út á það að leikmaður hoppar yfir bandið og ná flestum hoppum sá sem vinnur er með flestu hoppinn Mycobacterium leprae. "Mycobacterium leprae" er nauðháð loftsækin baktería sem veldur holdsveiki. Hún tilheyrir fylkingu geislagerla og flokkast því sem Gram-jákvæð þó hún litist illa eða ekki með hefðbundinni Gramlitun vegna vaxkennds efnis, mýkóliksýru sem er tengt við peptidoglycan. Það er hætt að lita hana með basísku „fuchsin“ sem binst við sýrurnar og þær eru síðan þolnar gegn aflitun með alkóhóli eða með svokallaðri sýrufastri litun eða Ziel-Nielsen litun og er því gjarnan sögð sýruföst. Þær vaxa hægt, líklega vegna vatnsfælni þeirra sem hindrar hraða upptöku á næringarefnum. Talið er að millihýsill sé beltisdýr. Sapporo. Næturmynd af Sapporo-borg tekin af Moiwa-fjalli. Sapporo er fjórða stærsta borgin í Japan og stærsta borgin á eynni Hokkaido. Íbúar borgarinnar voru 1.921.831 þann 1. ágúst 2011. Sapporo bruggverksmiðjurnar eru í borginni. Í Sapporo eru fjölmargir háskólar, þar á meðal Hokkaido-háskóli, Kennaraháskóli Hokkaido, Háskóli Sapporo-borgar, Sapporo-háskóli, Hokkai-viðskiptaskólinn, Læknaskólinn í Sapporo, Tækniskóli Hokkaido og margir fleiri. Vetrarólympíuleikarnir árið 1972 voru haldnir í Sapporo. Skjal. Samkvæmt ÍST 15489-staðlinum, sem fjallar um skjalastjórn, skilgreinist skjal sem upplýsingar sem orðið hafa til, verið mótteknar og viðhaldið til sönnunar af skipulagsheild eða einstaklingum vegna lagaskyldu eða í viðskiptalegum tilgangi. Íþróttafélagið Draupnir. Íþróttafélagið Draupnir var stofnað þann 8. október 2008. Stofnendur þess voru þeir Jón Stefán Jónsson, Aðalbjörn Hannesson og Egill Ármann Kristinsson. Jón Stefán, sem þá var starfandi knattspyrnuþjálfari hjá Þór og Egill og Aðalbjörn sem þá voru starfandi hjá KA ákváðu að stofna saman félag sem þeir vildu að yrði til staðar sem litla liðið í knattspyrnu á Akureyri. Árið 2011 dró félagið sig út úr keppnum í 3. deild karla og kvenna og með því lagðist knattspyrnuiðkun af hjá félaginu. Á vordögum 2012 var ákveðið að stofna júdódeild undir merkjum Draupnis. Þann 22. apríl 2012 var kosin ný stjórn sem hefur það á stefnuskrá sinni að vinna að framgangi júdóíþróttarinnar undir merkjum Draupnis. 30. maí 2012 boðaði aðalstjórn KA til félagsfundar í KA-heimilinu. Þar var að starfsemi Júdódeildar KA leggist af og iðkendur deildarinnar æfi og keppi undir merkjum Draupnis frá þeim degi. 21. ágúst 2012 fékk júdódeild Draupnis leyfi frá aðalstjórn KA til að hefja júdóæfingar í því húsnæði sem júdódeild KA hafði áður í KA heimili fyrir tímabilið 2012-2013. Þó var eingöngu um salinn að ræða en ekki þá geymslu- og félagsaðstöðu sem júdódeild KA hafði áður. 2. nóvember 2012 samþykkti Stjórn ÍBA á stjórnarfundinum flutninga á starfsemi Draupnis frá KA heimilinu í húsnæði Þrekhallarinnar í Íþróttahöllinni (sem Golfklúbbur Akureyrar notaði áður). Samþykkið var með þeim fyrirvörum að breytingin hafi ekki aukinn kostnað í för með sér fyrir Bandalagið og að séð sé til þess að aðstaðan, fyrir áframhaldandi starfsemi á báðum stöðum, verði viðunandi eftir flutninginn. 15. nóvember var eftirfarandi bókun gerð hjá Íþróttaráði Akureyrar. ":Erindi dags. 2. nóvember 2012 frá Íþróttabandalagi Akureyrar varðandi æfingaraðstöðu Íþróttafélagsins Draupnis. " "Jón Óðinn Waage og Inga Björk Harðardóttir frá Draupni, Sævar Pétursson frá KA og Haukur Valtýsson frá ÍBA sátu fundinn undir þessum lið." ":Íþróttaráð veitir Íþróttafélaginu Draupni heimild til að flytja og nota júdódýnur og fjarðurgólf sem nú er í júdósal KA heimilisins í bráðabirgðaraðstöðu við Skólastíg 4, 600 Akureyri. Íþróttaráð vekur athygli á því að sá búnaður sem verður færður úr júdósal KA heimilisins er og verður áfram eign Akureyrarbæjar og í umsjón íþróttaráðs þegar leigutíma er lokið í bráðabirgðaraðstöðunni." 19. nóvember hóf Íþróttafélagið Draupnir æfingar í nýju húsnæði við Skólastíg 4. Stjórnir Draupnis. Akureyri Ellie Goulding. Elena Jane Goulding (fædd 30. desember 1986), betur þekkt sem Ellie Goulding, er ensk söngkona og lagahöfundur. Árið 2008 vann hún verðlaun á BRIT Awards. Árið eftir skrifaði hún undir samning við Polydor Records og gaf út fyrstu smáskífuna sína, "An Introduction to Ellie Goulding". Fyrsta hljómplatan hennar, "Lights", kom út árið 2010. Hljómplatan hlaut fyrsta sæti breska vinsældalistans en yfir 650.000 eintök seldust þar. Önnur hljómplatan hennar, "Halcyon", kom út árið 2012 og fékk jákvæða gagnrýni. Platan náði öðru sæti á breska topplistanum. Ellie Goulding er sópran og tónlist hennar hefur verið líkt við tónlist þeirra Kate Nash, Lykke Li og Tracey Thorn. Æviágrip. Goulding fæddist og ólst upp í litlum bæ nálægt Hereford í sýslunni Herefordshire á Englandi. Hún er annað fjögurra barna. Þegar hún var níu ára byrjaði hún að spila á klarínett en byrjaði að læra gítar við 14 ára aldur. Hún fór í skólann Lady Hawkins' School í þorpinu Kington, þar sem hún lék mikilvæga persónu í skólaleikriti, Galdrakarlinum í Oz. Hún byrjaði að semja lög þegar hún var 15 ára og vann söngvakeppni í menntaskóla. Eftir að hefja nám í leiklist við háskólann í Kent, þar sem hún uppgötvaði raftónlist, byrjaði hún að þróa tónlistarstíl sinn með aðstoð Frankmusik, sem hún vann með í laginu „Wish I Stayed“. Starsmith tónlistarmaður og plötusnúður hjálpaði henni líka og vann saman með henni í plötunni "Lights". Eftir tvö ár í háskóla var henni ráðlagt að taka fríár þannig að hún gæti stundað söng og svo flutti hún til Vestur-London. Henni finnst gaman að hlaupa og hleypur um það bil 9,5 km á hverjum degi. Árið 2010 tilkynnti hún að hún ætlaði að taka þátt í maraþoni. Við útgáfu annarrar smáskífunnar hennar "Run Into the Light" bauð hún nokkrum aðdáendum í gegnum Facebook að hlaupa með henni í sjö breskum borgum. Hún hefur sagst ætla gera það sama í Evrópu og Norður-Ameríku. Goulding er talin vera í mjög góðu líkamsástandi. Upphaf. Goulding skrifaði undir samning við Polydor Records í september 2009 og fyrsta smáskífan hennar „Under the Sheets“ kom út í rafrænu formi 15. nóvember 2009. Smáskífan fór í 53. sæti á breska vinsældalistanum. Hún fór á tónleikaferð með Little Boots í október 2009 og söng lögin „Under the Sheets“ og „Guns and Horses“ á sjónvarpsþættinum "Later... with Jools Holland". Á Bretlandi var lagið „Wish I Stayed“ fría lag vikunnar 22. – 28. desember 2009 í iTunes Store. 2009–11: "Lights" og "Bright Lights". Fyrsta hljómplata Goulding, "Lights", kom út í mars 2010 og hlaut fyrsta sæti á breska vinsældalistanum og sjötta sæti á írska listanum. Smáskífur þessarar plötu „Starry Eyed“, „Guns and Horses“ og „The Writer“ hlutu 4., 26. og 19. sæti hver um sig. Yfir 620.000 eintök af plötunni hafa selst á Bretlandi frá og með apríl 2012. Í ágúst 2010 gaf Goulding út aðra skífu, "Run Into the Light", með endurunnum lögum af "Lights". Nike styrkti skífuna en hún var gefin út af Polydor sem hlaupaskífa með það í huga að gera tónlist eftir Goulding vinsæla meðal hlaupara. Platan "Lights" var gefin út aftur sem "Bright Lights" í nóvember 2010 með sex nýjum lögum. Í upphafi var tilkynnt að aðalsmáskífa plötunnar væri ný útgáfa af laginu "Lights" og ætlað var að lagið yrði gefið út 1. nóvember 2010. Hætt var við þessa hugmynd og þannig að útgáfa Goulding af laginu „Your Song“ eftir Elton John gæti verið gefin út saman með jólaauglýsingu bresku deidarverslunarinnar John Lewis. Þessi smáskífa varð sú vinsælasta eftir Goulding þangað til og hlaut annað sæti á breska vinsældalistanum. Lagið var líka gefið út í öðrum evrópskum löndum og komst á nokkra topplista þar. Við útgáfu "Lights" fór Goulding á tónleikaferð og spilaði með Passion Pit í mars 2010 og John Mayall í maí 2010. Um sumarið sama ár spilaði hún á nokkrum tónlistarhátíðum. Þann 29. maí spilaði hún á hátíðinni Dot to Dot Festival í Bristol. Hún spilaði svo á Glastonbury-hátíðinni á John Peel-sviðinu. Þriðja smáskífan hennar var tónleikaplata sem tekin var upp á iTunes Festival 2010. Allur flutningurinn fylgdi síðar með iTunes-útgáfu plötunnar "Bright Lights". Hún söng í fyrsta skiptið á hátíðinni T in the Park árið 11. júlí og svo á V Festival í ágúst sama ár. Í september spilaði hún á Bestival-hátíðinni á Wighteyju. Við útgáfu plötunnar í meginlandi Evrópu flutti hún á hátíðunum Pukkelpop í Belgíu, Open'er Festival í Póllandi og Benicàssim á Spáni. Sama árið var lagið hennar „Every Time You Go“ notað í sjónvarpsþættinum "Vampire Diaries", lagið „Your Biggest Mistake“ notað í þættinum "The Inbetweeners" og lagið „Believe Me“ notað í "90210". Í ágúst og september 2010 söng hún með írsku hljómsveitinni U2 á tónleikaferð þeirra í München, Vín og Zürich. Hún hóf sína eigin tónleikaferð í Bandaríkjunum og Kanada í febrúar 2011 á sama tíma og norður-ameríska útgáfan af "Lights" kom út. Í janúar 2011 var tilkynnt að lagið "Lights" væri önnur smáskífa plötunnar "Bright Lights". Í fyrri hluta ársins 2011 tók hún upp lag fyrir kvikmyndina "Life in a Day". Goulding hlaut fimmta sæti á topplista "Rolling Stone" í febrúar 2011. Hún var tilnefnd til tveggja verðlauna á BRIT Awards það ár en vann þau ekki. Áður hafði hún sungið á verðlaunaveislu BRIT Awards þar sem tilnefningarnar eru tilkynntar. Eskimo models. Saga Eskimo models nær lengra en fyrir aldamótin síðustu. Síðan það var stofnað hefur fyrirtækið vaxið gífurlega og er það núna einvaldur á Íslandi á sínu sviði. Árið 2001 tengdi Eskimo sig við umboðsstofuna Casting, sem sérhæfir sig í að ráða leikara og fólk á öllum aldri fyrir bíómyndir, myndatökur og í auglýsingar. London Stansted-flugvöllur. London Stansted-flugvöllur (IATA: STN, ICAO: EGSS) er flugvöllur staðsettur í Stansted Mountfitchet í sýlsunni Essex. Flugvöllurinn liggur 48 km norðaustan við Mið-London. Mörg evrópsk lággjaldaflugfélög eiga höfuðstöðvar á flugvellinum, til dæmis Ryanair, sem flýgur þaðan til 100 áfangastaða. Árið 2011 var hann fjórði fjölsóttasti flugvöllur á Bretlandi eftir á Heathrow, Gatwick og Manchester. Einkaflugfélög á borð við Harrods Aviation nota flugbrautir flugvallarins og eiga flugstöðvarbyggingar þar. Þessi flugfélög sjá um einkaþotur og stundum opinbera gesti. Fyrirtækið BAA á flugvöllinn og rekur hann, ásamt fimm öðrum breskum flugvöllum. Fyrirtækið er sjálft í eigu annars fyrirtækis, FGP TopCo Limited, sem er dótturfyrirtæki spænska fyrirtækisins Ferrovial Group, ásamt Caisse de dépôt et placement du Québec og GIC Special Investments. Hins vegar kvað breska ríkisstjórnin upp úrskurð að BAA yrði að selja flugvöllinn innan tveggja ára. Þessi ákvörðun var dregin svo til baka en hefur síðan verið ítrekuð. Ungmennasambandið Úlfljótur. Ungmennasambandið Úlfljótur eða USÚ var stofnað 28. maí 1932. Sambandssvæði þess er Austur-Skaftafellssýsla. Sjö aðildarfélög eru starfandi innan USÚ og innan þeirra eru nokkrar sjálfstæðar deildir. Þrjú aðildarfélög eru ekki starfandi í dag. Formaður USÚ er Matthildur Ásmundardóttir. Roberto Di Matteo. Roberto Di Matteo (fæddur 29. maí 1970) er ítalskur knattspyrnustjóri sem þjálfaði WBA (West Bromwich Albion) árin 2010 – 2011 en þá hætti hann með liðið til þess að hjálpa Andre Villa-Boas sem aðstoðarþjálfari. Þann 4. mars var Andre Villa-Boas rekinn frá Chelsea og tók Di Matteo við stjórn á Chelsea.Hann kom Chelsea úr 3-1 stöðu gegn Ítölsku liði Napoli í meistaradeildinni og svo sigraði lið Chelsea,Benfica 3-1 samanlagt í meistaradeildinni og kom liðinu í undan úrslit. Liðið sigraði Barcelona 3 – 2 og komst Chelsea í úrslit gegn Bayern. Sá leikur var spennandi Thomas Müller kom Bayern yfir á 84. mín. á 89. mín. skallaði Diddier Drogba boltan í netið leikurinn fór í framleikingu á 93. mín. fékk Chelsea á sig vítaspyrnu. Petr Cech varði vítaspyrnuna svo fór að Drogba tryggði Chelsea sigurinn í vítakeppni 4 – 3. Lággjaldaflugfélag. Lággjaldaflugfélag er flugfélag, með lægri fargjöld en venjuleg flugfélög, sem rukkar oft fyrir þjónustur eins og mat um borð, farang, forgangsmiða, sætaval og fleira. Lággjaldaflugfélög reka oft styttri flug en önnur flugfélög og er oftast eingöngu flogið milli tveggja áfangastaða án viðdvala. Samkeppni á meðal lággjaldaflugfélaga er mikil en tvö stærstu lággjaldaflugfélögin í Evrópu eru Ryanair og easyJet svo að dæmi séu nefnd. Iceland Express er dæmi um íslenskt lággjaldaflugfélag. Fargjöld hjá sumum lággjaldaflugfélögum eru auglýst án skatta þannig að þau er oft hægri en búast mætti við. Stundum eru flug auglýst sem „ókeypis“ en þá þarf að borga skatta og önnur gjöld. Undanfarin ár hafa sum lággjaldaflugfélög byrjað að rukka viðskiptavini fyrir að nota ákveðinn greiðslumáta, t.d. debetkort. Oft er ekki hægt að komast hjá þessum aukagjöldum og í sumum löndum mega flugfélög ekki nota slíka sölutækni. Mörg lággjaldaflugfélög nota aðeins eins konar flugvél til að spara fé í þjálfun starfsmanna og viðhaldi flugvéla. Í upphafi notuðu mörg lággjaldaflugfélög eldri flugvélar á borð við McDonnell Douglas DC-9 og eldri tegundir af Boeing 737. Síðan árið 2000 hafa flotar aðallega samanstaðið af hagkvæmari flugvélum eins og Airbus A320 og nýrri Boeing 737. Listi yfir lággjaldaflugfélög. Þetta er listi yfir lággjaldaflugfélög raðaður eftir löndum. Lággjaldaflugfélag er flugfélag, með lægri fluggjöld en venjuleg flugfélög, sem rukkar fyrir þjónustur eins og farangur og mat um borð. Sjá lággjaldaflugfélag fyrir nánari upplýsingar. Svæðisbundnum flugfélögum, sem eru stundum í samkeppni við lággjaldaflugfélög, er safnað saman á lista yfir svæðisbundin flugfélög. Icelandair Hótel Reykjavík Natura. Icelandair Hótel Reykjavík Natura (aður nefnt Hótel Loftleiðir) er fjögurra stjarna hótel við Reykjavíkurflugvöll sem rekið er af Icelandair Hótelum. Hótelið var byggt árið 1964 og opnaði aðeins 16 mánuðum síðar árið 1966. Árið 2011 var hótelinu lokað, gert upp og opnað á ný. Á hótelinu eru 220 svefnherbergi, veitingastaður, innilaug, bíó og bókasafn. Aria (hljómsveit). Aria er rússnesk þungarokkhljómsveit stofnuð í Moskvu árið 1985. Fyrsta plata hennar, "Mania velichia", kom út 1985. Þessi hljómsveit er ein frægasta þungarokkhljómsveit Rússlands. Moroz Records. Moroz Records er rússnesk tónlistarútgáfa, stofnuðu árið 1992. Þú og þeir (Sókrates). Þú og þeir eða Sókrates var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1988. Þeir Sverrir Stormsker og Stefán Hilmarsson fluttu lagið og kölluðu sig Beathoven. Eitt lag enn (lag). Eitt lag enn var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1990. Hljómsveitin Stjórnin flutti lagið en söngvarar voru þau Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson. Burn Notice (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "Burn Notice" var frumsýnd 28. júní 2007 og sýndir voru tólf þættir. Vologdafylki. Kort sem sýnir staðsetningu Vologdafylkis í Rússlandi Vologodafylki (rússneska: Вологодская область, "Vologodskaya oblast) er fylki (oblast) í Rússlandi. Höfuðstaður fylkisins er Vologda. Íbúafjöldi var 1.202.294 árið 2010. Vologda. Vologda er borg í Rússlandi, höfuðstaður Vologdafylkis. Þar búa 301.642 manns (2002). Sólblómaolía. Sólblómaolía er jurtaolía sem er unnin úr sólblómafræjum. Ascot (Berkshire). Ascot er þorp í Berkshire í Bretlandi. Þar búa 5.100 manns (2001). Heathfield St Mary's School. Heathfield St Mary's School eða Heathfield School er einkaskóli í Ascot í Berkshire í Bretlandi, stofnuðu árið 1899. Lee Strasberg. Lee Strasberg, fæddur Israel Strassberg, (17. nóvember 1901 – 17. febrúar 1982) var bandarískur leikari. Strasberg, Lee Reisubók Gúllívers. Reisubók Gúllívers ("Gulliver's Travels") er bók eftir Jonathan Swift. Hugo Boss. Hugo Boss er þýskt fatamerki sem stofnað var árið 1924 af fatahönnuðinum Hugo Ferdinand Boss. Hugo Ferdinand Boss. Hugo Ferdinand Boss (8. júlí 1885 – 9. ágúst 1948) var fatahönnuður og stofnandi fatamerkisins Hugo Boss. Hann var líka nasisti. Skólahljómsveit Austurbæjar. Skólahljómsveit Austurbæjar er íslensk skólahljómsveit sem var stofnuð árið 1954 af Reykjavíkurborg og hefur starfað óslitið síðan. Núverandi stjórnandi sveitarinnar er Vilborg Jónsdóttir. Æfingar fara fram í Laugarnesskóla í Reykjavík. Lúðrasveitinni er skipt í 3 sveitir; A. B og C. Þeim er skipt eftir aldri og getu. Yngstu nemendurnir eru í A-sveit og yngstu krakkarnir þar eru allt niður í 9 ára gamlir. Krakkarnir í B-sveit eru á aldrinum 10-12 ára og í C-sveit eru krakkar frá 13 ára aldri. Miðað er við að krakkar hætti í skólahljómsveitinni við útskrift úr grunnskóla en hægt er að vera lengur í hljómsveitinni (en ekki í tíma hjá kennara). Skólahljómsveit Austurbæjar er í samstarfi við Tónskóla Sigursveins og Tónmentaskóla Reykjavíkur. Ryanair. Boeing 737-800 Ryanair í flugtaki Ryanair er írskt lággjaldaflugfélag með höfuðstöðvar á Dublin-flugvelli og London Stansted-flugvelli. Fyrirtækið var stofnað árið 1985 af Christy Ryan, nafna fyrirtækisins, en hefur stækkað mikið síðan og í dag er eitt stærsta flugfélag í Evrópu. Floti Ryanair samanstendur af 290 Boeing 737-800 flugvélum. Framkvæmdastjóri flugfélagsins er Michael O'Leary sem hefur verið gagnrýndur fyrir umdeildu viðskiptahætti sína. Burn Notice (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "Burn Notice" var frumsýnd 10. júní 2008 og sýndir voru sextán þættir. Burn Notice (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af "Burn Notice" var frumsýnd 4. júní 2009 og sýndir voru 16 þættir. Döbb. Döbb (e. "dub") er tónlistarstefna sem hófst á Jamaíku í lok sjöunda áratugarins. Döbb er undirstefna reggítónlistar sem varð til þegar plötusnúðar á Jamaíku tóku upptökur af reggílögum og hljóðblönduðu þær eða „döbbuðu“ á ákveðinn hátt. Áherslunum á hljóðfærum var breytt og ýmsum hljóðeffektum bætt við. Döbbið varð fljótt vinsælt á Jamaíku og víðar og kom það stundum fyrir að döbbútgáfa af einhverju reggílagi varð vinsælli en upprunalega útgáfan. Aðal brautryðendur döbbsins voru Osbourne Ruddock, betur þekktur sem King Tubby, Lee „Scratch“ Perry og Errol Thompson. Þessi menn áttu stærstan þátt í að þróa döbbið og gera það vinsælt í upphafi áttunda áratugarins. Vinsældir döbbtónlistar hafa dvínað með árunum en döbbið lifir áfram í gegnum þær gífurlega mörgu tónlistarstefnur sem það hefur haft áhrif á. Þar má helst nefna pönk, hipp hopp, diskó og síðar hústónlist, techno, ambient, trip hop, jungle, drum and bass og dubstep. Einkenni stefnunnar. Ferlið að döbba er þegar áðurupptekin eða tilbúin tónlist er tekin upp aftur með ýmsum breytingum á laginu. Hið dæmigerða döbblag verður til þegar eitthvert reggílag er tekið og hljóðblandað eða „döbbað“ á ákveðinn hátt. Það sem á sér stað þegar eitthvert lag er döbbað er að mikil áhersla er lögð á bassann og trommuna í laginu og er djúp bassalína oftast lifandi í gegnum mest allt lagið. Algengt er að söngurinn og aðalhljóðfærin í laginu séu tekin út en skeytt inn við og við síðar í laginu og jafnvel með einhvers konar effektum og er þá söngurinn oftar en ekki í formi bergmáls. Einstaka döbblög eiga það til að innihalda frumlega effekta á borð við dýrahljóð, barnsgrátur og jafn vel framleiðendur að öskra leiðbeiningum til tónlistarmannanna. Oft er talað um að döbbtónlist teikni einhvers konar hljóðmynd fyrir hlustandann vegna þess hversu náttúrulegt hljóðið er í tónlistinni, þrátt fyrir að megnið af henni sé rafmagnað. Upptökur á döbbtónlist á sjöunda áratugnum voru jafnan gerðar beint inn á plöturnar. Það gerði það að verkum að það var undir hljóðmanninum á bak við mixborðið komið hvort að upptakan heppnaðist vel eða ekki. Ef að hljóðmaðurinn var flinkur á mixborðið varð til góð döbbtónlist, annars ekki. Upphafið. Líkt og reggí á döbbið á rætur sínar að rekja til tónlistastefnanna ska og rocksteady, en þær voru vinsælar í lok sjöunda áratugarins. Upphaf döbbsins sjálfs má síðan rekja til atviks sem átti sér staði í Kingston, höfuðborg Jamaíku, árið 1968. Þá var Ruddy Redwood skemmtanastjóri staddur á upptökuverinu Treasure Isle hjá Duke Reid, sem var á þeim tíma einn af aðalskemmtanastjórum og framleiðendum á Jamaíku. Redwood var kominn á verið til að endurblanda plötu fyrir fjöldaskemmtun sem hann var að fara að spila á um kvöldið. Hljóðverkfræðingurinn Byron Smith, sem vann á verinu, gerði þau mistök að sleppa söngnum í upptökunni sem Redwood kom með. Þegar Redwood heyrði síðan upptökuna án söngs ákvað að prófa að halda henni þannig til þess að spila hana um kvöldið. Þegar hann síðan spilaði útgáfuna af laginu með engum söng um kvöldið voru viðbrögð fólksins á klúbbnum það góð að þau fóru að syngja textann af upprunalegu útgáfunnu yfir sönglausu útgáfuna. Fólkinu líkaði lagið svo vel að Redwood endaði með því að spila þessa útgáfu af laginu, sem var ekki langt, í um klukkustund. Byron Lee, starfsmaður á Treasure Isle, hafði orðið vitni af þessum atburði og fór strax daginn eftir og sagði King Tubby frá. Hann sagði að Tubby yrði að fara að blanda lög án söngs því að fólkið virtist elska það. King Tubby var rafmagnsverkfræðingur sem hafði unnið við að gera við sjónvörp og útvörp á sjöunda áratugnum sem og að vinna við hin ýmsu hljóðmannsstörf á Tresure Isle. Um 1968 var hann búin að koma sér upp fullkomnu hljókerfi sem hann kallaði Home Town Hi-Fi og um leið og hann heyrði fréttirnar af vinsældum tónlistar án söngs fór hann að fikta við að blanda slíka tónlist því að hann hafði góða aðstöðu til þess með hljóðkerfinu sínu. Frá undirstefnu að sér stefnu. Árið 1972 kom King Tubby sér upp litlu upptökuveri í Waterhouse-hverfinu í Kingston þar sem hann byrjaði að taka upp tónlist með tónlistarmönnum á borð við Bunny Lee og Lee Scratch Perry. Það sem gaf Tubby forskot í þessari nýju tegund tónlistar var að hann bjó sér til heimagerðan mixer sem var mun tæknivæddari er þeir mixerar sem þeir sem voru í samkeppni við hann notuðu. Í gegnum heimatilbúna mixerinn gat hann til dæmis spilað margs konar effekta sem áttu síðar eftir að einkenna döbbtónlist. Í upptökum á fyrstu plötunni sem Tubby gaf út notaði hann mixerinn eins og hljóðfæri og „spilaði“ á hann beint inn á upptökuna. Árið 1973 gaf King Tubby ásamt Lee Scratch Perry út fyrstu döbbplötuna sem hét „Blackboard Jungle“. Fljótlega eftir að tónlistarstefnan var orðið vinsæl í upphafi áttunda áratugarins myndaðist hefð fyrir því að döbbútgáfa af reggílögum væri á B-hliðinni á 45-rpm plötum sem innihéldu aðeins eitt lag á hvorri hlið smáskífunnar. Þá kom það stundum fyrir að B-hliðin varð vinsælli en A-hliðin. Þróun stefnunnar var mikil þegar líða fór á áttunda áratuginn og fljótlega upp úr 1975 verður þessi undirstefna reggítónlistar hægt og rólega að sjálfsæðari tónlistarstefnu þökk sé King Tubby og félögum. Vinsældir á Bretlandi. Með hinum tæknivædda áttunda áratug færðust vinsældir döbbsins til Bretlandseyja og víðar um Evrópu. Við tóku breskir tónlistarmenn sem að mynduðu nýja kynslóð af döbbi sem stundum er nefnd "digidöbb". Það sem tækni níunda áratugarins hafði í för með sér voru ýmsar nýjungar í gerð á döbbtónlist. Tónlistarmennirnir gátu nú búið til sína eigin og upprunalegu döbbtónlist óháð öðrum upptökum. Það er að segja að hljómsveitir voru orðinn óþarfa hlekkur í gerð tónlistarinnar. Það voru síðan tónlistarmenn á borð við Adrian Sherwood og Mad Professor sem gerðu döbbtónlist virkilega vinsæla í Bretlandi um miðjan níunda áratuginn og lögðu grunninn að tónlistarsefnunum dubstep og jungle sem áttu eftir að taka við af döbbinu í upphafi tíunda áratugarins. Pedro de Betancur. Santo Hermano Pedro de San José Betancur (21. mars 1626, Tenerífe – 25. apríl 1667, Gvatemala) var predikari spænska trúboði í ​​Gvatemala, sem boðaði meinlætalíf og höfnun veraldlegra gæða. Hann var beatified árið 1980. Jóhannes Páll páfi II. lýsti honum dýrling Rómversk-kaþólska kirkjan árið 2002. Það er fyrsta dýrlingur í Kanaríeyjar og Gvatemala. Svartsengisvirkjun. Svartsengisvirkjun í Svartsengi á Reykjanesi er jarðvarmavirkjun í eigu HS Orku hf. Hún er með heildar framleiðslugetu um 225 MW og framleiðir bæði rafmagn og hita, sem skiptist þannig að framleidd eru 75 MW af raforku, sem fer inn á landsnetið, og um 150 MW af varma sem nýttur er fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Í upphafi þegar farið var að nýta gufuholurnar í Svartsengi byrjaði að myndast lón vegna affallsvatns frá virkjuninni. Lón þetta er í daglegu tali nefnt Bláa lónið og er það nú vinsæll baðstaður. Árið 1971 hófust boranir á Svartsengissvæðinu og voru fyrstu holurnar notaðar við heitavatnsframleiðslu í varmaskiptastöð sem byggð var árið 1976 og var heitu vatni hleypt á fyrstu húsin í Grindavík þá um haustið og ári síðar eða í árslok 1977 á fyrstu húsin í Njarðvík. Heita vatnið sem notað er á Reykjanesskaganum er upphaflega kalt ferskt vatn sem er afloftað og hitað með háþrýstigufu í varmaskiptum og því síðan dælt til notenda á Reykjanesi. Segja má að í Svartsengi séu nokkur orkuver sem eru sameinuð í eina heild með samnýtingu á gufuaflsholum. Orkuverin í Svartsengi hafa verið byggð upp í sex áföngum. Það fyrsta (orkuver 1) var byggt á árunum 1976 – 1979 og það síðasta (orkuver 6) var byggt á árunum 2006 – 2008. Hér er um að ræða virkjun sem er hvort tveggja „Single flash“, það er að segja borholur með tvífasa streymi þar sem þarf að aðskilja gufu og vökva, og hins vegar ORC – (Organic Rankine Cycle) þar sem um er að ræða lokaðan vinnuhring þar sem notaður er lokaður varmaskiptir fyrir jarðhitavökvann. Framvindan. Árið 1976 var hafist handa við fyrsta virkjanaáfangann, Orkuver 1, OV1. Hér var í fyrsta sinn reist jarðvarmaorkuver þar sem tvinnað var saman framleiðslu á hitaveituvatni og rafmagni og var það alfarið hannað af Íslendingum. Með þessari samnýtingu náðist góð nýtni á gufunni og með fjórar varmaskiptarásir náðist alls 50 MW varmaaflsgeta og tveir gufuhverflar sem hvor um sig framleiddu 1 MW af raforku Annar virkjanaáfanginn, Orkuver 2, OV2, var byggður á árunum 1979 – 80 og framleiðir hann einungis hitaveituvatn. Hann er byggður upp á þremur varmaskiptarásum, 3 x 25 MW sem samtals farmleiða 75 MW af varmaafli sem þíðir afköst upp á 75 l/sek af 125°C heitu vatni. Þriðji virkjanaáfangi, Orkuver 3, OV3 var gangsettur í lok árs 1980 og er hann raforkuvirkjun með einum 6 MW mótþrýstigufuhverfli frá Fuji Electric. Inn á hverfil fara um 40 kg/sek af 160°C heitri gufu við 5 bara þrýsting. Vegna slæmrar reynslu og ýmissa vandamála í rekstri 1 MW jarðgufuhverflanna í Orkuveri 1, sem höfðu ekki verið sérhannaðir jarðhitahverflar, voru gerðar sérstakar kröfur um efnisval og innri gerð nýja hverfilsins. Fjórði virkjanaáfangi, Orkuver 4, OV4. Hér kemur til sögunar samstarf við Ormat í Ísrael um uppsetningu á tvívökvavirkjun. Hér er í meginatriðum um raforkuvirkjun að ræða, sem samanstendur af sjö 1,2 MW hverflum, samtals 8,5 MW, en einnig skilar áfangin töluverðu magni af heitu vatni, eða um 30 MW sem fara til heitavatnsvinnslunnar. Fyrstu þrír hverflarnir voru gangsettir 1989 en fjórir seinni 1993. Fimmti virkjanaáfangi, Orkuver 5, OV5. Hér er samofið orkuver með 30 MW jarðgufuhverfli til raforkuframleiðslu, sem gangsett var síðla hausts 1999, og 75 MW hitaveituafli sem tekið var í notkun árið 2000. Fuji Electric smíðuðu hverfillinn í samstafi við HS Orku og er hann sá eini sinnar tegundar í heiminum þar sem sérstaklega var tekið mið af rekstrarreynslu jarðgufuhverflanna í Svartsengi. Sjötta virkjunaráfangi, Orkuver 6, OV6. Um er að ræða 30 MW jarðgufuhverfil sem var smíðaður af Fuji Electric í nánu samstarfi við HS Orku. Hér eru grunnhugmyndirnar og samtvinnun orkuversins í heild unnar af íslenskum verkfræðingum HS Orku. Sökum flókinnar hönnunar og margra inn og úttaka fékk hverfillinn fljótt vinnuheitið Kolkrabbinn og hefur haldið því nafni æ síðan. Um er að ræða svokallaða fjölþrýstivél þar sem inntökin eru hvert með sinn þrýsting og gufumagn, og fer það eftir hlutverki hvers inntaks fyrir sig. Með þessu móti var unnt að auka nýtni jarðhitavinnslunnar og auka sveigjanleika í rekstri orkuveranna sem fyrir eru. Orkuverin eru nú öll samtengd bæði hvað varðar gufufæðingu og framleiðslu á hitaveituvatni. Á þessum tíma hefur stöðvarhúss virkjunarinnar verið stækkað eftir þörfum og er nú að grunnfleti 2.650 m², kjallarinn er 1.291 m², 1. hæð 2.650 m² og 2. hæð 650 m² þannig að heildar flatarmál hússins er samtals 4.590 m². Einnig er dælustöð og kæliturn sem eru að grunnfleti 1.030 m². Borholurnar. Upphafið að smíði jarðaflsvirkjunar eru rannsóknir á virkjunarstað með borun rannsóknarhola, grunnra hola, svokallaðra hitastigulshola, sem segja til um legu hitans í jarðlögunum. Þegar boranir fyrir jarðhitaleit í Svartsengi hófust undir lok árs 1971 var borun mjög kostnaðarsöm og því aðeins ein hola boruð. Hún varð 262 m djúp og reyndist hitinn í henni vera um 37°C. Árið eftir voru tvær holur boraðar, sú fyrri 239 m djúp og sú seinni varð 402 m á dýpt. Dýpri holan náði rétt niður í hið eiginlega jarðhitakerfi í Svartsengi og var hitinn í henni yfir 215 °C en heldur lægri í þeirri grynnri, en hún var ónothæf. Sú dýpri var virkjuð og notuð fram til ársins 1981. Við borun þessara hola var staðfest tilvist jarðhitakerfisins í Svartsengi. Áfram var haldið og tvær holur voru boraðar árið 1974 niður á 1713 m og þegar hér var komið sögu höfðu alls fimm holur verið boraðar og árið 1976 hóf Hitaveita Suðurnesja vinnslu á svæðinu. Á næstu sex árum bættust við sex holur og jafnt og þétt jókst framleiðslugetan. Upp úr 1980 voru elstu holurnar farnar að ganga úr sér og hætta varð notkun þeirra vegna skemmda á fóðringum. Næst var borað 1993 og bættust þá tvær holur við og í kringum síðustu aldamót voru boraðar sex holur samfara stækkun orkuversins og um það leyti var niðurdæling hafin og jókst hún næstu árin. Árið 2008 voru boraðar þrjár holur, ætlaðar fyrir frekari aukningu á raforkuframleiðslu. Alls hafa 24 holur verið boraðar í Svartsengi. Burn Notice (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "Burn Notice" var frumsýnd 3. júní 2010 og sýndir voru 18 þættir. Stafsetning. Stafsetning (e: "spelling") á oftast við það að skrifa orð hins talaða máls með bókstöfum og stafmerkjum samkvæmt ákveðnum reglum, sem kallaðar eru "stafsetningarreglur" eða "ritreglur", og finna má í kennslubókum og handbókum. Í þeim skilningi er unnt að meta stafsetningu ýmist rétta eða ranga eftir því hvort orðin eru skrifuð samkvæmt þessum reglum eða ekki. Annað orð fyrir stafsetningu í þessari merkingu er "réttritun". "Stafsetning" getur einnig merkt "rithátt" tungumáls eða "ritvenjur", óháð reglum (e. "orthography"). Í þeim skilningi merkir 'stafsetning' þann hátt, hefð eða venju, sem skapast hefur í tilteknu málsamfélagi um að stafsetja eða skrifa orð hins talaða máls með ákveðnu kerfi bókstafa, sem kallað er "stafróf", og stafmerkjum. Þessar hefðir geta verið breytilegar eftir tímabilum, mállýskusvæðum, einstaklingum eða lærdómi skrifara. Hin skráða gerð tungumáls er líka kölluð "ritmál" en það hugtak felur einnig í sér ýmis önnur einkenni hins ritaða máls, orðaval og setningaskipan, sem eru frábrugðin hinu talaða máli. Þróun stafsetningar í íslensku. Stafsetning tungumála heimsins hefur þróast frá því byrjað var að skrá hið talaða mál. Fyrstu varðveittu ritheimildir um íslensku eru frá tólftu öld en talið er að ritun á íslensku með latínustafrófi hafi byrjað á elleftu öld. Þrettánda öldin er blómaskeið í íslenskum bókmenntum, bæði í fagurbókmenntum og fræðilegum skrifum, og því verður snemma til ákveðin rithefð sem liggur til grundvallar stafsetningu nútímamáls. Frá fyrri hluta tólftu aldar er "Fyrsta málfræðiritgerðin", einstæð lýsing á því hvernig unnt er að nota stafróf erlends máls (latínu) til að skrifa móðurmál sem ekki á sér rithefð (íslensku), og þar með ekki neina hefðbundna notkun bókstafanna. Íslensk stafsetning mótaðist á fyrstu öldum ritunar í landinu án þess að til væru sérstakar reglur ef frá eru taldar leiðbeiningar Fyrsta málfræðingsins. Það er ekki fyrr en prentöld hefst á sextándu öld og bókaútgáfa fer vaxandi að upp kemur þörf fyrir ákveðnar reglur eða leiðbeiningar um stafsetningu. Fyrstu eiginlegu leiðbeiningar eða reglur um íslenska stafsetningu eru frá átjándu öld, eftir Eggert Ólafsson, en á nítjándu öld eru stafsetningarreglur fyrir íslensku enn svo ómótaðar að um þær er kröftuglega deilt fram á fyrri hluta 20. aldar. Núgildandi reglur um opinbera stafsetningu voru gefnar út af menntamálaráðuneytinu með auglýsingu nr. 132/1974. Þessum reglum er fylgt opinberlega og í skólum en auglýsingin hefur hvorki gildi laga né reglugerðar og því er hverjum og einum frjálst að hafa þann rithátt sem hann kýs. Almenn skoðun er að stafsetning sé skráning talmálsins og reglulega spretta upp umræður um hvers vegna stafsetning sé ekki í meira samræmi við framburð. Þetta er framburðarsjónarmiðið, að stafsetning eigi að vera sem nákvæmust skráning talmálsins, en á stafsetningu eru fleiri hliðar. Fá ritmál -- ef nokkur -- eru fullkomin skráning talmálsins. Einna næst því kemst finnska, þar sem samsvörun hljóðs og stafs er nálægt því að vera 1:1. Einna fjærst því er enska þar sem samsvörun hljóðs og stafs er mjög óregluleg. Þróun stafsetningar hjá börnum. Með því að fylgjast með hvernig börn ná tökum á stafsetningu móðurmáls síns er unnt að greina ákveðin skref á þeirri braut sem líka má orða sem svo að þau nái tökum á ákveðnum reglum eða þáttum í stafsetningu. Fyrir íslensku væri eðlilegt að gera ráð fyrir eftirfarndi stigum. 0. Forstig stafsetningar. Barn krotar eða rissar tákn sem líkjast að einhverju leyti stöfum eða ritmáli tilsýndar. Oft er ekki ljóst hvort barnið er að skrifa eða teikna. Allt frá upphafi ritunar virðist krot barna draga dám af því ritmáli sem þau hafa fyrir augum. Fyrsta stafakrot íslenskra barna er því frábrugðið kroti barna sem alast upp við önnur tungumál. 1. Framburðarstig (e. "phonetic stage"). Barn uppgötvar að bókstafir eru einhvers konar skráning málhljóða eða orða. Í upphafi þessa stigs áttar barn sig á að það sjálft á sérstakan staf. Það lærir að aðrir eiga líka staf og að stafur hvers og eins stendur í einhverju samhengi við framburð eða heiti stafsins og framburð nafnsins. Smám saman lærist framburður fleiri stafa og barnið fer að geta skrifað orð þannig að ritháttur minnir á framburð þess og verður loks í samræmi við framburð. Á þessu stigi má búast við dæmum á borð við ni (enni), hdeji (hádegi) og leind (lengd). 2. Almennt hefðarstig (e. "alphabetic stage" eða "orthographic stage"). Barn uppgötvar að orðin eru ekki alltaf skrifuð eins og þau eru borin fram, heldur virðast einhverjar venjur eða hefðir búa að baki. Á þessu stigi lærir það almennar rithefðir málsins. Það lærir að skipta í orð eftir áherslu og stóran staf í sérnöfnum, það áttar sig á hvaða stafir og stafasambönd koma fyrir í ritmálinu og smám saman líta orðin út eins og íslenska, jafnvel þótt þau séu ekki rétt skrifuð samkvæmt reglum sem lærast á síðari stigum. Þær hefðir sem barnið lærir á almennu hefðarstigi eru yfirleitt reglubundnar, til dæmis 'é' fyrir 'je', grannan sérhljóða fyrir breiðan á undan 'ng' og 'nk' og 'hv-' í spurnarorðum þótt sagt sé 'kv-'. 3. Orðhlutastig (e. "morphologic stage"). Barn uppgötvar að merking orðs hefur áhrif á stafsetningu þess. Það kemur auga á að stafseting orða líkist ef þau merkja hið sama, eða svipað, jafnvel þótt framburður sé ólíkur (dæmi: vatn-vatns, rigna-rigndi, dagur-degi). Á þessu stigi fer orðaforði barnsins og málskilningur að skipta meginmáli fyrir farsæla þróun stafsetningar. Sá eiginleiki stafsetningar að varðveita merkingartengsl orða, þrátt fyrir breytilegan framburð, er talinn stuðla að því að auðvelda lesskilning og auka leshraða. Þessi eiginleiki er stundum kenndur við "uppruna", en sú nafngift er villandi. Hér er fyrst og fremst um að ræða að stafsetning varðveitir innri merkingartengsl orða og orðhluta. Á þessu stigi áttar barnið sig á ritun einfaldra og tvöfalldra samhljóða (holur-holt, hollur-hollt) og að ritun 'y/ý/ey' tengist orðum með krigdu sérhljóði (u/ú/au/jú/jó). Af þeim sökum skrifa börn gjarnan 'y' í orðum sem hafa 'ö/jö' í stofni, t.d. '?kylir' af 'kjölur'. Á þessu stigi verður ritun barna "í stórum dráttum" rétt. 4. Setningarstig (e. "syntactic stage"). Barn uppgötvar að setningarlegt samhengi getur haft áhrif á stafsetningu orðs og merkingu. Þetta á einkum við um ritun á einu eða tveimur ennum í lýsingarorðum og lýsingarháttum sem taka kyn sitt frá nafnorði. Dæmi: Maturinn er "borinn" fram. Súpan er "borin" fram. 5. Sértækt hefðarstig (e. "orthograpic stage" eða "lexical stage"). Barn uppgötvar að í ritmálinu gilda ýmsar sérstækar reglur um ákveðin orð sem ekki er unnt að ráða af neinum reglulegum tengslum framburðar og stafsetningar eða samhengi í setningu. Þessi óregla á við nokkur atriði: ritun í einu orði eða tveimur, ritun hástafa og lágstafa, orð af erlendum uppruna sem ekki fylgja íslenskum framburði (bridge/brids/bridds), nokkur orð þar sem erfitt er að finna reglu tvö eða fleiri orð ruglast saman (peysa, skrítinn, leiti/leyti, birgðir/byrgi) og þar sem vafi er á samsetningu orða (íbúða(r)hús, nám(s)skrá). Yfirleitt er áhersla í framburði til marks um hvort rita skal eitt orð eða tvö, en frá því eru allmargar undantekningar (út af, fram hjá, eins og) þar sem "reglan" byggist á orðflokki frekar en áherslu í framburði. Samsett orð eru gjarnan skrifuð í tveimur orðum eftir áherslu (hvíta sunna, páska dagur). Vandi við ritun hástafa og lágstafa er aðallega bundinn við ritun orða sem leidd eru af sérnöfnum og eru ýmist með hástaf eða lágstaf (Þorláksmessa, maríustakkur, Þjóðverjar, marxistar). Hina eiginlegu "óreglu" í íslenskri stafsetningu má tengja við síðara hefðarstigið. Þótt þróun í töku ritmáls (stafsetningar) sé hér lýst í stigum er ekki svo að börn þroskist af einu stigi á annað, heldur eru þau á hverjum tíma á fleiri en einu stigi. Stigin eru hins vegar nokkurn veginn í þeirri röð sem hér er lýst. Eftir því sem barn hefur meiri reynslu af ritmáli, betri orðaforða og málskilning gengur þróun stafsetningarkunnáttu hraðar, barnið á auðveldara með að tengja orðaforðann innbyrðis og koma auga á þá reglu sem gildir hverju sinni. Fyrir því barni sem hefur litla reynslu af ritmáli, fátæklegan orðaforða og slakan málskilning verður stafsetning flestra orða framandi og óregluleg. Stafsetningarvillur. Sumir eiga erfitt með að lesa og stafa orð rétt. Ef þessir erfiðleikar eru alvarlegir og eru viðvarandi fram á unglingsár getur verið um leshömlun (e. "dyslexia") eða rithömlun (e. "dysgraphia") að ræða. Mikilvægt er að greina erfiðleika í lestri og stafsetningu sem fyrst til að unnt sé að fyrirbyggja eða draga úr að þeir hafi áhrif á þroska barnsins. Íhlutun í málþroska á leikskólaaldri og fyrstu árum grunnskólans getur skipt sköpum fyrir farsæla þróun lestrar og ritunar. Stafsetningarvillum er skipt í tvo meginflokka, hljóðréttar villur (e. "phonetic errors") og hljóðrangar villur (e. "nonphonetic errors"). Hljóðrétt villa breytir ekki framburði orðs (t.d. feldi- felldi, leyti-leiti, sigldi-silgdi) en hljóðröng villa gerir það (t.d. fima-fimma, vala-valla). Hljóðrangar villur eiga að vera að baki um níu eða tíu ára aldur. Ef börn gera áberandi margar hljóðrangar villur í ritun sinni er ástæða til að fyljast með og grípa til úrræða. Börn gera hins vegar hljóðréttar villur langt fram eftir aldri. Hinar svokölluðu "stafsetningarreglur" eru lýsing á því hvernig beri að skrifa þegar framburður segir ekki til um stafsetningu, það er þau atriði stafsetningar sem börn læra á 2. til 5. stigi. Innan hvors villuflokks um sig má greina þrjár megintegundir villna: Brottfall, víxl og viðbót. Algengast er að stafir falli brott; brottfall telst mjög venjuleg villa sem getur stafað af hugsunarleysi, fljótfærni eða vanþekkingu, og getur verið til marks um að barnið eigi ýmislegt ólært eða þurfi að vanda sig betur. Eftir því sem barnið fellir fleiri stafi úr er vandinn alvarlegri, til dæmis er alvarlegt að fella heil atkvæði (Reykvíkingar>Reykingar). Víxl og viðbætur eru ekki eins alvarleg. Víxl á útlitslíkum eða hljóðlíkum stöfum (m/n, p/b/d) eru ekki alvarlegar villur á ungum aldri og viðbætur, ekki síst ef barnið bætir við stöfum sem bera vott um að það sé að hugsa um merkingu orðs og orðhluta (t.d. "handski" fyrir "hanski"), geta verið vísbending um að barnið sé að glíma við ákveðna reglu. Í töku ritmáls, eins og í töku talmáls, er eðlilegt að barn alhæfi reglur þar sem þær eiga ekki við, en slíkar alhæfingar eru til marks um að barnið sé á réttri leið með velta stafsetningu fyrir sér. Barn í þeirri stöðu er yfirleitt móttækilegt fyrir umræðu og leiðbeiningum um stafsetningu en hjá öðrum börnum kann slík umræða að fara fyrir ofan garð og neðan. Lestur. Lestur er sú aðferð að aftákna, skilja og túlka texta. Getan til þess að lesa heitir læsi og er áunninn hæfileiki. Læsi er mismunandi eftir löndum og stafar af misgóðum menntakerfum. Lestur er lykilatriði í máltöku og auðveldar samskipti og hugmyndaskipti. Lestur er flókin aðferð sem krefst góðs skilnings á merkingarfræði, setningafræði og samhengingu sem orð eru í þannig að viðkomandi skilji textann. Sumir eiga erfitt með að lesa og stafa orð en þetta getur verið greint sem lesblinda. Sá sem getur ekki lesið neitt kallast "ólæs". Ýmiss konar lesefni er til en í dag er mest lesefni í annaðhvort prentuðu formi, eins og bókum, tímaritum, dagblöðum og bæklingum, eða rafrænu formi, á tölvuskjám, í sjónvörpum, farsímum eða lestölvum. Texta má einnig skrifa með penna eða blýanti. Textar tengjast oft raunverulegum hlutum, til dæmis heimilsfang á umslagi, vöruupplýsingar á umbúðum eða texti á umferðarskilti. Þannig er lestur mikilvægur hæfileiki sem nýtist í daglegu lífi. Háskólinn í Aþenu. Háskólinn í Aþenu (gríska: "Εθνικόν και Καποδιστριακόν Πανεπιστήμιον Αθηνών") er háskóli í höfuðborg Grikklands Aþenu sem stofnaður var árið 1837. Í dag er hann annar stærsti háskóli Grikklands en þar læra yfir 50.000 nemendur. Hann er einn besti háskóli á Grikklandi og 177. besti í heimi samkvæmt lista "Times Higher Education". Pálmi Gunnarsson. Pálmi Gunnarsson (f. 29. september 1950) er íslenskur söngvari. Hann sigraði Söngvakeppni sjónvarpsins árið 1983 og 1986. Einnig Pálmi Gunnarsson hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986 sem hluti af ICY. Helga Möller. Helga Möller (f. 3. október 1957 í Reykjavík) er íslensk söngkona. Hún keppti fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986 sem hluti af ICY. Sverrir Stormsker. Sverrir Stormsker (f. 17. apríl 1961 í Reykjavík) er íslenskur söngvari og píanóleikari. Hann hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1988 sem hluti af Beathoven. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1988. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1988 var 33. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Dyflinn í Írlandi. Þáttakendur. 1988 Hátíðarskap. Desember er breiðskífa Helgu Möller. Chris Hardwick. Christopher Ryan „Chris“ Hardwick (fæddur 23. nóvember 1971) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Otis í sjónvarpsþáttunum "Back at the Barnyard". Tenglar. Hardwick, Chris Burn Notice (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröðin af "Burn Notice" var frumsýnd 23. júní 2011 og sýndir voru 18 þættir. Blake Clark. Blake Clark (fæddur 2. febrúar 1946) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Slinky Dog í "Toy Story". Tenglar. Clark, Blake Jim Varney. James Albert „Jim“ Varney, Jr. (fæddur 15. júní 1949, látinn 10. febrúar 2000) var bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem "Ernest P. Worrell". Hann ljáði einnig persónunni Slinky Dog rödd sína í kvikmyndinni "Toy Story". Tenglar. Varney, Jim Gilbert Gottfried. Gilbert Gottfried (fæddur 28. febrúar, 1955) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Iago í "Aladdin". Tenglar. Gottfried, Gilbert Rokkabillí. Rokkabillí er eitt elsta form rokktónlistar og kom fyrst fram á 6. áratug 20. aldar. Rokkabillí á rætur sínar að rekja til suðurríkja Bandaríkjanna og tónlistin er blanda af kántrí, sveiflu og takti og trega. Nafnið "rokkabillí" kemur frá plötugagnrýnendum þessa tíma en þeir sögðu að þarna væru „hillbillies“ (ísl. sveitadurgar) að spila rokk og ról. Uppruni. Hægt er að segja að saga rokkabillí nái alveg aftur á 3. áratugs 20. aldar þegar tónlistarmenn fóru að blanda saman kántrí og blús en það var ekki fyrr en afgerandi rokktaktivar bætt við að stefnan myndaðist. Gullöld rokkabillí var stutt lifuð en hún byrjaði um miðjan 6. áratug seinustu aldar. Þá hafði stefnan mótað með sér afgerandi einkenni í bæði hljóm og lagasmíð. Þessi einkenni voru, meðal annars, hraður ryþmagítar, handplokkaður bassi og oftar en ekki dansvænn taktur. Með fyrstu tónlistarmönnunum til að ná vinsældum innan rokkabillí stefnunnar var Bill Haley en hann spilaði með hljómsveit undir nafninu Bill Haley & His Comets. Árið 1954 gáfu þeir út lagið „Rock Around The Clock“ sem fyrst um sinn náði takmörkuðum vinsældum en stuttu eftir það slógu þeir í gegn með laginu „Shake, Rattle and Roll“. Líkt og mörg lög innan þessarar stefnu var lagið ábreiða af lagi með svörtum tónlistarmanni. Það er einmitt einkennandi fyrir rokkabillí að nánast allir tónlistarmenn innan stefnunnar voru hvítir karlmenn enda þróaðist stefnan í suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem svartir höfðu lítil sem engin réttindi eða áhrif. Seinna sama ár gaf Elvis Presley, þá 19 ára og óreyndur, út sína fyrstu smáskífu með laginu „That’s Allright“ sem var einnig ábreiða á lagi eftir svartan tónlistarmann. Platan var gefin út af plötuútgáfunni Sun Records sem seinna átti eftir að koma mörgum helstu rokkabillístjörnum þessa tímabils á framfæri. Einn af þeim tónlistarmönnum var Johnny Cash sem hafði verið að reyna fyrir sér sem kántrí og gospel söngvari þar til hann hóf samastarf með Sun Records. Fyrsta smáskífa hans var lagið „Cry! Cry! Cry!“ en sú plata náði 14. sæti á Billboard listanum í Bandaríkjunum. Rokkabillí náði loks heimsathygli í kringum árið 1956 með slögurum á við „Blue Suede Shoes“ með Carl Perkins (sem Elvis Presley flutti síðar), „Folsom Prison Blues“ með Johnny Cash og „Be-Bop-A-Lula“ með Gene Vincent. Konur í Rokkabillí. Þó að rokkabillí hafi fyrst og fremst verið tónlist hvítra karla þá áttu nokkrar konur farsælan rokkabillí feril þó þær hafi flestar vera seinna í því en karlarnir. Sú frægasta er án efa Wanda Jackson en hún hefur bæði verið kölluð drottning og forsetafrú rokkabillísins. Hún gaf út sína fyrstu plötu, „I gotta know“ árið 1956 hjá plötuútgáfunni Capitol en sú smáskífa náði hæst 15. sæti á vinsældarlista í Bandaríkjunum. Wanda átti síðan fleiri smelli á við „Mean, Mean Man“, „Fujiyama Mama“ (sem náði efsta sæti á vinsældarlista í Japan), „Let’s Have A Party“, „9“ og fleiri en lög hennar einkenndust af því að blanda saman rokkabillí og kántrí og urðu þau því vinsæl víða. Wanda hélt áfram að spila rokkabillítónlist þegar leið á 7. áratuginn, þó svo að tónlistin væri farin að tapa vinsældum en árið 1965 sneri hún sé alfarið yfir í kántrí tónlist. Hún hefur síðan hlotið miklar vinsældir nýlega eftir að hún gaf út plötuna "The Party Ain't Over" með tónlistarmanninum Jack White árið 2011. Fleiri kvennrokkabillí söngkonur voru Jo Ann Campbell, hin unga Janis Martin (frægust fyrir smellina „Drugstore Rock’n’Roll“ og „My Boy Elvis“ og „kvenkyns Elvis“ Alis Lesley sem kom fram með hárið sleikt aftur og gítar um hálsinn líkt og átrúunargoðið sjálft, Elvis Presley. Hnignun. Vinsældir rokkabillís í Bandaríkjunum fóru dvínandi upp úr 1960 en stefnan hélt þó þónokkrum vinsældum í Bretlandi vel fram á 7. áratug 20. aldar. Hnignun vinsælda rokkabillís má rekja til nokkurra atburða en þó aðallega til þess að margir vinsælustu tónlistarmenn stefnunnar sneru aftur til kántri uppruna sinna og það að Elvis gekk í herinn. Dauði tónlistarmanna á við Buddy Holly og Ritchie Valens er einnig talinn hafa minnkað áhuga almennings á geiranum. Endurreisn Rokkabillí. Poison Ivy. Gítarleikari The Cramps Á seinni hluta 8. áratugarins, þá sérstklega í kjölfar dauða Elvis árið 1977, fór rokkabillí tímabilið og allt sem því fylgdi að njóta vinsældar aftur. Rokkabillí endurreisnarmenn voru upp á sitt besta á 9.áratugnum en þá komu tónlistarmenn eins og Stray Cats, Sha Na Na og Shakin’ Stevens fram. Eldri tónlistarmenn líkt og Charlie Feathers og Johnny Burnette’s Rock and Roll Trio urðu einnig mikið vinsælli þá en þeir höfðu áður. Þar sem endurreisn rokkabillís var grasrótarstefna kemur ekki á óvart að hún hafi blandast við aðrar neðanjarðarstefnur í gangi á þessum tíma. "Sækóbillí" kom þá fram en þar spiluðu hljómsveitir líkt og The Cramps og Mojo Nixon tónlist í anda gamla rokkabillísins en með hráleika og hávaða pönksins. Endurreisn rokkabillís fylgdi einnig mjög afgerandi tíska en fólk fór að klæða sig eins og svokallaðar „greasers“ sem voru gerðir svo ódauðlegir í myndinni Grease. Strákar í leðurjökkum og með sleikt aftur hárið og stelpur í gamaldags kjólum með stórum pilsum og klút í hárinu voru í anda „pin-up“ fyrirsæta 6. áratugarins en fyrirbæri eins og tattúveringar, ýktar túbereraðar hárgreiðslur og klæðnaður í anda hryllings B-mynda voru einnig viðloðandi stefnuna. Núna. Núna var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1995 og var flutt af Björgvini Halldórssyni. Mania velichia. Mania velichia "[Мания величия]" er fyrsta breiðskífa Aria. S kem ty. S kem ty? "[С кем ты?]" er önnur breiðskífa Aria. Jeffrey Donovan. Jeffrey Donovan(fæddur Jeffrey T. Donovan, 11. maí 1968) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Burn Notice, Touching Evil, Crossing Jordan og Changeling. Einkalíf. Donovan er fæddur og uppalinn í Amesbury, Massachusetts. Hann stundaði nám við "Bridgewater State háskólann" áður en hann flutti sig yfir í "Massachusetts Amherst háskólann" þaðan sem hann útskrifaðist með BA-gráðu í leiklist. Útskrifaðist hann síðan með MFA-gráðu í leiklist við "Tisch School of the Arts" frá New York-háskólanum. Donovan hefur stundað bardagalistir í um 20 ár og hefur svarta beltið í Karate. Leikhús. Donovan hefur komið fram í leikritum á borð við "A View from the Bridge", "Troilus and Cressida", "The Glory of Living" og "Freedomland". Leikstjórn. Donovan leikstýrði Burn Notice þættinum "Made Man" árið 2010. Einnig leikstýrði hann Burn Notice sjónvarpsmyndinni "Burn Notice: The Fall of Sam Axe" árið 2011. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Donovan var árið 1995 í "Homicde: Life on the Street". Kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Spin City", Monk og Law & Order. Árið 2004 þá var honum boðið hlutverk í Touching Evil sem David Creegan en lék aðeins í 12 þáttum áður en framleiðslu var hætt. Hefur síðan 2007 leikið aðalhlutverkið í Burn Notice sem fyrrverandi njósnarinn Michael Westen. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Donovan var árið 1995 í "Throwing Down". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Sleepers", "Bait", "Purpose", Hitch og Changeling. Tenglar. Donovan, Jeffrey Alli Kalli. "Alli Kalli" (franska: "Achille Talon") er heiti á teiknimyndasagnaflokki eftir belgíska listamanninn Greg. Sögurnar birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote árið 1963. Fyrsta Alla Kalla-bókin kom út árið 1966 og fylgdu nærri fimmtíu bækur í kjölfarið. Greg dó árið 1999, en eftir dauða hans hafa komið út fáeinar bækur eftir aðra listamenn. Sögurnar. Titilpersónan Alli Kalli er feitlaginn, stórnefjaður og sjálfumglaður borgari í óskilgreindri franskri eða belgískri borg. Hann er ákaflega hégómlegur og telur sig mikinn leiðtoga og menningarfrömuð. Alli Kalli á í stöðugum erjum við nágranna sinn, meðalmennið "Farald" (franska: "Hilarion Lefuneste"). Faðir Alla Kalla kemur sömuleiðis nokkuð við sögu, en hann hefur ekki áhuga á öðru í lífinu en að þamba bjór. Áfengisneysla er raunar nokkuð áberandi í sögunum, enda markhópurinn ekki allra yngstu lesendurnir. Alla Kalla-bækurnar skiptast í tvennt. Sumar hafa að geyma sögur í fullri lengd, en algengara er þó að um sé að ræða safn af stuttum skrítlum upp á eina eða tvær blaðsíður. Önnur útgáfa. Vinsældir Alla Kalla í Pilote teiknimyndablaðinu urðu til þess að árið 1975 var hafin útgáfa sérstaks teiknimyndablaðs sem bar nafn hans. Úgáfu þess var þó hætt að einu ári liðnu. Á tíunda áratug síðustu aldar voru gerðar teiknimyndir fyrir sjónvarp um ævintýri Alla Kalla. Þær voru talsvert frábrugðnar efni bókanna, þar sem aðalpersónan var sett í hlutverk frægra manna úr mannkyns- og bókmenntasögunni og vann yfirleitt frægan sigur þrátt fyrir klaufsku og aulahátt. Sjónvarpspersónan hlaut nafnið "Walter Mellon" í enskumælandi löndum. Íslensk útgáfa. Árið 1980 gaf Fjölva-útgáfan út "Alla Kalla í eldlínunni". Þýðandi hennar var Þorsteinn Thorarensen. Á frummálinu nefndist hún "Achille Talon au coin du feu" og var frá árinu 1975. Boule et Bill. "Boule et Bill" er heiti á teiknimyndasagnaflokki eftir belgíska listamanninn Jean Roba. Sögurnar birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Sval árið 1959. Þrátt fyrir að sögurnar um Boule og Bill sé einhverjar þær vinsælustu í sögu fransk-belgísku teiknimyndahefðarinnar, hafa þær aldrei verið þýddar á íslensku. Sögurnar. Roba þróaði persónurnar í samvinnu við Maurice Rosy, með það að markmiði að búa til evrópska útgáfu af Smáfólki (enska: Peanuts) eftir Charles M. Schulz. Aðalpersónur eru smástrákurinn Boule og vinur hans Bill sem er cocker spaniel-hundur. Foreldrar Boule og gæluskjaldbaka koma einnig við sögu, sem og aðrir íbúar í friðsömum smábæ fjölskyldunnar. Flestar sögurnar eru ekki nema einnar blaðsíðu skrýtla. Hafa þær verið gefnar út í meira en 30 bókum. Jean Roba lést árið 2006, en hafði þá falið aðstoðarmanni sínum Laurent Verron að halda áfram ritun sagnanna. Jean Roba. Jean Roba (28. júlí 1930 – 14. júní 2006) var belgískur teiknimyndasagnahöfundur. Kunnustu verk hans eru sögurnar um Boule & Bill, en einnig kom hann að bókaflokknum um Sval og Val Ferill. Jean Roba fæddist í Schaerbeek, einni af útborgum Brussel og hóf ungur störf sem teiknari á teiknimyndablöðum. Árið 1957 hóf hann störf á teiknimyndablaðinu Sval. Á árunum 1959- 60 aðstoðaði hann Franquin við gerð þriggja ævintýra um Sval og Val, sem komu út í bókunum "Sjávarborginni" og "Tembó Tabú". Samstarfið við Franquin reyndist Roba afar lærdómsríkt. Eftir það einbeitti hann sér að mestu að ritun eigin sagna um grallarann Boule og hundinn Bill, sem hann hélt áfram að teikna til dauðadags. Hann teiknaði og samdi einnig annan vinsælan bókaflokk, "La Ribambelle" sem segir frá hversdagslegum ævintýrum krakkahóps af ólíkum kynþáttum í smáþorpi. Z fyrir Zorglúbb. Z fyrir Zorglúbb (franska: "Z comme Zorglub") er 15. Svals og Vals-bókin. Hún er eftir listamanninn Franquin og kom út á frönsku árið 1961, en sagan birtist fyrst í "teiknimyndablaðinu Sval" 1959- 60. Sagan er fyrri hluti af tveimur. Seinni hlutinn birtist í bókinni "Með kveðju frá Z". Söguþráður. Sagan hefst á því að Svalur og Valur lenda í skringilegum uppákomum, þar sem frakkaklæddir menn með fjarrænt augnaráð koma við sögu. Mennirnir búa yfir tækjabúnaði sem virðist dáleiða fólk. Þeir reynast vera á snærum dularfullrar persónu, "Zorglúbbs". Sá er fær uppfinningamaður og reynir að vekja ótta og aðdáun félaganna með ýmsum hætti, s.s. með sjálfstýrðri bifreið og fjarstýrðum sprengjum. Í ljós kemur að Zorglúbb er gamall kunningi Sveppagreifans. Hann er haldinn mikilmennskubrjálæði og stefnir að heimsyfirráðum. Zorglúbb kemur á setur Sveppagreifans á fljúgandi farartæki sínu og reynir að fá greifann í lið með sér, en hann neitar. Í hefndarskyni beitir Zorglúbb dáleiðandi hljóðbylgjum sem snúa íbúum Sveppaborgar gegn greifanum og býr lýðurinn sig undir að leggja herragarðinn í rúst. Félögunum tekst að stöðva hópinn, en þá tekur Zorglúbb Val til fanga og færir til leynilegra höfuðstöðva sinna. Þar hefur hann komið sér upp fjölmennum her heilaþveginna manna. Hermenn Zorglúbbs, "Zor-mennirnir", eru allir eins klæddir og tala sérstætt tungumál eða öllu heldur tala þeir aftur á bak. Svalur og Sveppagreifinn komast að staðsetningu höfuðstöðvanna og leita Zorglúbb uppi. Þeir yfirbuga hann og sýna fram á illsku verknaðar hans. Zorglúbb fær samviskubit, en tekst þó að sannfæra Sveppagreifann um að sýna fram á mátt tækjabúnaðar síns. Eldflaugar Zorglúbbs fljúga á loft, en í stað þess að sprengja upp veröldina eins og Svalur og Valur óttuðust lenda þær á tunglinu. Þar dreifa þær málningu sem skrifar áletrun á yfirborð mánans, sem á að sýna veröldinni mátt Zorglúbbs. Honum til skelfingar kemur í ljós að Zor-mennirnir hafa skrifað hana aftur á bak. Zorglúbb hverfur á braut, bugaður maður. Svalur, Valur og Sveppagreifinn frelsa Zor-mennina og fljúga heim á leið í einu af loftförunum. Þeir telja að hættan sé afstaðin, en gleyma því að enn gengur einn Zor-maðurinn laus í Sveppaborg. Íslensk útgáfa. Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1981 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Hún er númer þrettán í íslensku ritröðinni. Draumur um Nínu. Draumur um Nínu (oftast kallað Nína) var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1991. Lagið var flutt af dúettinum Stefán & Eyfi, en hann skipuðu þeir Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson. Lagið var valið vinsælasta íslenska Eurovision-lag allra tíma í könnun sem tímaritið Monitor stóð fyrir árið 2010. Nei eða já. Nei eða já var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1992 og var flutt af dúettinum Heart 2 Heart, en hann skipuðu Sigríður Beinteinsdóttir og Sigrún Eva Ármannsdóttir. Þá veistu svarið. Þá veistu svarið var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1993 og var flutt af Ingibjörgu Stefánsdóttur. Nætur. Nætur var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1994. Lagið söng Sigríður Beinteinsdóttir sem Sigga. Gabrielle Anwar. Gabrielle Anwar(fædd, 4. febrúar 1970) er ensk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Burn Notice, Scent of a Woman, The Three Musketeers og The Tudors. Einkalíf. Anwar er fædd og uppalinn í Laleham, Middlesex á Englandi og stundaði nám við "Italia Conti Academy of Theatre Arts" í drama og dansi. Anwar fluttist nítján ára gömul til Los Angeles ásamt bandaríska leikaranum Craig Sheffer en þau kynntust í London og saman eiga þau eina dóttur. Var hún síðan gift leikaranum John Verea og saman eiga þau tvö börn. Hefur hún síðan 2010 verið í sambandi við veitingahúsaeigandann Shareef Malnik. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Anwar var árið 1986 í "Hideaway". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "First Born", "Press Gang", Beverly Hills 90210, "John Doe", og The Tudors. Hefur hún síðan 2007 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Burn Notice sem Fiona Glenanne. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Anwar var árið 1988 í "Manifesto". Árið 1992 var henni boðið lítið hlutverk í Scent of a Woman sem Donna, þar sem hún dansar tangó við persónu Al Pacino. Lék hún á móti Charlie Sheen, Kiefer Sutherland og Chris O´Donnell í The Three Musketeers árið 1993. Síðan þá hefur hún komið fram í kvikmyndum á borð við "Nevada", "If You Only Knew", "Save It for Later" og "A Warrior´s Heart". Verðlaun og tilnefningar. Academy of Sciene Fiction, Fantasy & Horror Films-verðlaunin Tenglar. Anwar, Gabrielle Karl 10. Frakkakonungur. Karl 10. (9. október 1757 – 6. nóvember 1836) var konungur Frakklands. Hann tók við völdum árið 16. september 1824 en stóð sig ekki vel. Í stað þess að slaka á klónni hafði hann uppi tilburði til að hrifsa öll völd í sínar hendur. Parísarbúar gripu til vopna og reistu götuvígi. Eftir þriggja daga götubardaga neyddist konungurinn til að flýja land. Valdatíð hans lauk 2. ágúst 1830. Karl lést 1836 úr kóleru. Aðgreiningin mikla. Aðgreiningin mikla er hugtak í hagsögu sem var sett fram af fræðimanninum Samuel P. Huntington (fræðimaðurinn Eric Jones talaði einnig um Evrópska kraftaverkið í sama samhengi árið 1981) sem vísar til þeirrar framþróunar sem varð í hinum vestræna heimi á 19. öld, Vesturlönd urðu þar með valdamesta og efnaðasta siðmenningin. Vesturlönd tóku fram úr Kingveldinu í Kína, Mógúlveldinu í Indlandi, Tokugawa-veldinu í Japan og Tyrkjaveldi. Til grundvallar "aðgreiningunni miklu" liggja margþætt og flókin ferli Landafundanna, Upplýsingarinnar, Vísindabyltingarinnar og loks Iðnbyltingarinnar. Fræðimenn hafa sett fram fjölda kenninga til skýringar á því hvers vegna aðgreiningin mikla varð, þar með talið íhlutun hins opinbera, landfræðilegir þættir og ríkjandi hefðir. Land og synir (hljómsveit). Land og synir er íslensk hljómsveit sem stofnuð var á Hvolsvelli árið 1997. Fálkagata. Fálkagata er gata í vesturbæ Reykjavíkur. Gatan er í Grímsstaðaholti, á milli Arnargötu, Grímshaga, Tómasarhaga og Hjarðarhaga annars vegar, og Dunhaga og Suðurgötu hins vegar. Gatan var fyrst lögð og nefnd árið 1919, en flest nústandandi hús eru reist á 6. og 7. áratugnum. Á árum áður var gatan ekki síst þekkt fyrir það að Halldór Laxness átti íbúð að Fálkagötu 17. Afstæður aldur. Afstæður aldur ber saman aldur jarðlaga og jarðmyndana með því að greina leiðarlög, einkennissteingervinga eða mismunandi segulstefnur. Daryl Sabara. Daryl Christopher Sabara (fæddur 14. júní 1992) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Hunter í "Father of the Pride". Tenglar. Sabara, Daryl Luke Benward. Luke Aaron Benward (fæddur 12. maí 1995) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Billy Forrester í "How to Eat Fried Worms". Tenglar. Benward, Luke Ty Panitz. Ty Panitz (fæddur 19. apríl 1999) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Woody Forrester í "How to Eat Fried Worms". Tenglar. Panitz, Ty Dominic Scott Kay. Dominic Scott Kay (fæddur 6. maí 1996) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Buddha í "Air Buddies". Tenglar. Kay, Dominic Scott Sveinn (iðnaðarmaður). "Navere", förusveinar frá Skandinavíu í hefðbundnum klæðum. Sveinn eða iðnsveinn er iðnaðarmaður sem lokið hefur sveinsprófi og telst því útlærður. Í sumum iðngreinum tíðkast að ljúka sveinsstykki sem hluta af sveinsprófi. Frammistaða í slíku prófi er oftast metin af meisturum í viðkomandi iðngrein. Sveinsbréf er vottorð um að viðkomandi hafi lokið sveinsprófi. Á miðöldum voru sveinar útlærðir iðnaðarmenn sem ekki ráku sjálfstætt fyrirtæki heldur unnu hjá meisturum fyrir daglaun. Lærlingar unnu hins vegar fyrir kost. Hugtakið "förusveinn" á við um svein sem flakkar milli meistara til að öðlast aukna færni í sinni iðn, en það var álitið mikilvægur hluti af menntun sveina sem hugðust sjálfir gerast meistarar. Þessi hefð hefur haldist sums staðar í Evrópu. No Way. No Way er íslensk pönk-popp-rokkhljómsveit frá Búðardal. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Hlöðver Smári (söngur og gítar), Benedikt Máni (gítar), Bjartur Máni (trommur), Björgvin Óskar (bassi) og Steinþór Logi (hljómborð). Meistari (iðnaðarmaður). Meistari eða iðnmeistari er iðnaðarmaður sem hlotið hefur meistararéttindi, ýmist með því að þreyta meistarapróf sem stundum felur í sér gerð meistarastykkis, eða með öðrum hætti (til dæmis með því að sýna fram á áralangt starf að greininni). Meistarabréf er vottorð um að viðkomandi sé meistari í sinni iðn. Reglur um meistararéttindi eru ólík milli iðngreina og á síðustu áratugum hefur orðið sífellt algengara að gera kröfu um sérstakt meistaranám þeirra sem hyggjast þreyta meistarapróf. Á miðöldum var meistarinn sjálfstæður iðnaðarmaður sem átti verkfæri og rak verkstæði, tók að sér lærlinga og veitti sveinum vinnu. Hann einn gat verið fullgildur félagi í iðngildi þar sem slíkt kerfi var við lýði. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er þegar ákveðin þjóð hefur þann rétt að ráða sínum málum sjálf. Eins og þegar sum lönd fengu sjálfsákvörðunarétt eftir seinni heimsstyrjöld og gátu þá sameinast öðru landi eða orðið sjálfstætt. World Beer Cup. World Beer Cup er alþjóðleg bjórkeppni þar sem veitt eru ein gull-, silfur- og bronsverðlaun fyrir bjór í yfir 80 flokkum. Keppnin var fyrst haldin árið 1996. Verðlaunin voru stofnuð af Association of Brewers, bandarískum samtökum lítilla og meðalstórra bjórframleiðenda. Fjórir íslenskir bjórar frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson hafa unnið til verðlauna í þessari keppni: Egils Lite (gullverðlaun 2006 í flokknum „American-Style Low-Carbohydrate Light Lager“), Egils Gull (silfurverðlaun 2008 í flokknum „International-Style Lager“), Egils Polar (bronsverðlaun 2010 í flokknum „International-Style Lager“) og Bríó (gullverðlaun 2012 í flokknum „German-Style Pilsener“). King's Cross-járnbrautarstöðin. King's Cross-járnbrautarstöðin er járnbrautarstöð í London í Bretlandi. Geroy asfalta. Geroy asfalta (rússneska: "Герой асфальта") er 3. breiðskífa Aria. Melodiya. Melodiya (rússneska: "Мелодия") er rússnesk-sovésk tónlistarútgáfa sem stofnuð var árið 1964. Igra s ognyom. Igra s ognyom (rússneska: "Игра с огнём") er 4. breiðskífa Aria. Tell Me! Tell Me! var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2000 og var flutt af dúettinum Einar Ágúst & Telma. Bruce Campbell. Bruce Campbell (fæddur Bruce Lorne Campbell, 22. júní 1958) er bandarískur leikari, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Evil Dead, Evil Dead II, Army of Darkness og Burn Notice. Einkalíf. Campbell er fæddur og uppalinn í Royal Oak, Michigan og er af skoskum ættum. Kynntist leikstjóranum Sam Raimi í menntaskóla og saman bjuggu þeir til stuttmyndir sem voru grunnurinn að Evil Dead myndunum. Hann stundaði nám við "Western Michigan-háskólann" á meðan hann var að koma sér áfram sem leikari. Campbell hefur verið giftur tvisvar sinnum: Christine Deveau frá 1983-1989 og saman eiga þau tvö börn. Hefur síðan 1991 verið giftur Ida Gearon. Campbell hefur verið gestafyrirlesari við Northwestern-háskólann, Stanford-háskólann og Carnegie Mellon-háskólann þar sem hann lýsir upplifun sinni innan kvikmyndaiðnaðarins. Rithöfundur. Campbell skrifaði og gaf út ævisögu sína árið 2002 sem heitir "If Chins Could Kill: Confessions of a B Movie Actor". Hefur hann einnig skrifað bókina "Make Love! The Bruce Campbell Way" þar sem hann er í aðalhlutverki og gerir grín af sjálfum sér og ferli sínum. Campbell hefur einnig skrifað tvær teiknimyndasögur: "Man with the Screaming Brian" og "The Hire". Leikstjóri. Campbell hefur leikstýrt þáttum og kvikmyndum á borð við "Xena: Warrior Princess 2", "Fanalysis" og "My Name is Bruce". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Campbell var árið 1987 í "Knots Landing". Árið 1993 þá var honum boðið hlutverk í "The Adventures of Brisco County Jr. " sem Brisco County Jr., sem hann lék til ársins 1994. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "The X-Files" "Charmed", "Megas XLR", "The Replacements" og "Xena: Warrior Princess". Hefur hann síðan 2007 leikið eitt af aðahlutverkunum í Burn Notice sem Sam Axe, auk þess lék hann í sjónvarpsmyndinni "Burn Notice: The Fall of Sam Axe" sem var leikstýrð af samleikara hans Jeffrey Donovan. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Campbells var árið 1972 í "Oedipus Rex". Árið 1981 þá gerði hann myndina The Evil Dead þar sem hann lék aðalpersónuna Ash Williams og æskuvinur hans Sam Raimi leikstýrði. Saman gerðu þeir tvær myndir til viðbótar byggt á persónu Campbells, Evil Dead II og Army of Darkness. Gerðar hafa verið fimm teiknimyndasögur byggðar á Ash Williams í seríunni "Marvel Zombies vs. Army of Darkness". Campbell hefur leikið smá hlutverk í kvikmyndum sem eru leikstýrðar af Sam Raimi, þar á meðal "Spiderman" myndunum. Hefur hann komið fram í kvikmyndum á borð við "Moontrap", "Escape from L.A.", "The Majestic", "Sky High" og "Cloudy with a Chance of Meatballs". Tenglar. Campbell, Bruce Sjúbídú. Sjúbídú var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1996 og var flutt af Önnu Mjöll Ólafsdóttur. Sharon Gless. Sharon Gless (fædd Sharon Marguerite Gless, 31. maí 1943) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Burn Notice, "Switch", Cagney & Lacey og Queer as Folk. Einkalíf. Gless er fædd og uppalin í Los Angeles, Kaliforníu. Vann hún sem ritari hjá auglýsingastofunum "Grey Advertising" og "Young & Rubicam" áður en hún gerðist leikari. Árið 1974 tók hún leiklistartíma og skrifaði undir 10 ára samning við "Universal Studios" sem lauk árið 1982. Var hún seinasti leikarinn í Hollywood sem var með leikarasamning úr gamla kerfinu. Gless hefur verið gift Barney Rosenzweig síðan 1991. Árið 1995 þá var Gless heiðruð með stjörnu á Hollywood Walk of Fame. Gless hefur í mörg ár verið stuðningsmaður kvennréttinda og var árið 2005 heiðruð með "Norman Lear´s People for the American Way" fyrir hlutverk sitt í baráttunni fyrir mannréttindum. Árið 2007 þá var Gless heiðruð með "Excellence of the Arts" verðlaunum frá Leiklistarskólanum við "DePaul háskólann". Leikhús. Fyrsta hlutverk Gless á leiksvið var í "Watch on the Rhine" eftir Lillian Hellman við "Stage West" í Springfield, Massachusetts. Hefur hún síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Misery", "Cahoots" og "The Vagina Monologues". Gless hefur í mörg ár bæði talað inn á bækur og leikið í útvarpsleikritum. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Gless var árið 1970 í "Night Slaves". Frá 1972-1976 þá lék hún Kathleen Faverty í "Marcus Welby, M.D. ". Árið 1975 þá var henni boðið hlutverk í "Switch" sem Maggie Philbin, sem hún lék til ársins 1978. Síðan árið 1982 þá var Gless boðið eitt af aðalhlutverkunum í Cagney & Lacey sem Christine Cagney, sem hún lék til ársins 1988. Lék hún síðan móðir samkynhneigðsmanns í Queer as Folk frá 2000-2005. Hefur hún síðan 2007 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Burn Notice sem Madeline Westen. Hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Ironside", "Faraday and Company", Kojak, Judging Amy og Tuck. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Gless var árið 1973 í "Bonnie´s Kids". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Star Chamber", "Hannah Free" og "Once Fallen". Tenglar. Gless,Sharon B-eitilfruma. B-eitilfrumur eru eitilfrumur sem myndast í miltanu og verða að mótefnaframleiðandi B-verkfrumum (plasmafrumum). Himbrimi. Himbrimi (fræðiheiti: "Gavia immer") er að mestu staðfugl á íslandi. Sumarstofnstærð er um 300 pör en vetrarstofnstærð milli 100 til 1000 fuglar. Himbrimi er vatnafugl og er Ísland er eina landið í Evrópu þar sem hann verpir að staðaldri. Hann gerir sér hreiður í laut fremst á vatnsbakka og eggin eru yfirleitt eitt til tvö. Lifir á fiski. Hann gefur frá sér langdregið væl, tryllingslegan hlátur og skemmtilegt jóðl sem hefur unnið honum sess í íslenskum þjóðsögum. Orchha. Orchha er borg í Madhya Pradesh á Indlandi. Þar búa 8.499 manns (2001). Madhya Pradesh. Kort sem sýnir staðsetningu Madhya Pradesh á Indlandi Madhya Pradesh er fylki á Indlandi. Höfuðstaður fylkisins er Bhopal. Íbúafjöldi var 60.385 árið 2001. Bhopal. Bhopal er borg á Indlandi, höfuðstaður Madhya Pradesh. Þar búa 1.482.718 manns (2001). Coby Bell. Coby Bell (fæddur Coby Scott Bell, 11. maí 1975) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Burn Notice, Third Watch og "The Game". Einkalíf. Bell er fæddur og uppalinn í Orange County, Kaliforníu og stundaði nám við "San Jose State háskólann". Bell fékk leiklistarbakteríuna gegnum föður sinn, Michael Bell sem er fyrrverandi Broadway leikari. Bell er giftur Aviss Pinkney-Bell og saman eiga þau fjögur börn. Bell er sjálfboðaliði í "Big Brothers of America" samtökunum þar sem hann er leiðbeinandi fyrir unglinga sem eru útundan í samfélaginu. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Bell var árið 1997 í "The Parent Hood". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við, ER og Vampírubananum Buffy. Árið 1999 var honum boðið eitt af aðalhlutverkunum í Third Watch sem lögreglumaðurinn Tyrone Davis, sem hann lék til ársins 2005. Hefur hann síðan 2006 verið einn af aðalleikurunum í "The Game" sem Jason Pitts. Bell gerðist meðlimur Burn Notice í júní 2010, sem Jesse Porter og hefur síðan þá verið hluti af þættinum. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Bell var árið 2006 í "Drifting Elegant". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Ball Don´t Lie" og "Dream Street". Tenglar. Bell, Coby Seth Peterson. Seth Peterson (fæddur 16. ágúst 1970) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Burn Notice og Providence. Einkalíf. Peterson fæddist í Bronx í New York-borg. Hann ferðaðist milli Brooklyn og Los Angeles þegar hann var yngri. Ólst hann upp í kringum leiklistina þar sem móðir hans var leikkona. Seth er giftur leikkonunni Kylee Cochran og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Peterson var árið 1976 í sjónvarpsmyndinni "Child Abuse". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Clueless", Charmed, Lie to Me og NCIS. Árið 1999 þá var honum boðið hlutverk í Providence sem Robbie Hansen, sem hann lék til ársins 2002. Var með stórt gestahlutverk í Burn Notice sem Nate Westen, bróðir Michaels. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Peterson var árið 1998 í Godzilla. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Shotgun", "Spoonaur", "As Seen on TV" og "Intent". Tenglar. Peterson, Seth Alex Carter. Alex Carter (fæddur Alex Apostolopoulos, 12. nóvember 1964) er kanadískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í og Black Harbour. Einkalíf. Carter er fæddur og uppalinn í Toronto, Ontario í Kanada. Fluttist til Los Angeles til að eltast við leiklistardrauma sína og stundaði leiklist við "The Beverly Hills Playhouse". Alex er giftur og á þrjú börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Carters var árið 1988 í sjónvarpsmyndinni "Betrayal of Silence". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Counterstrike", "Side Effects", "Traders", "The Pretender", Dark Angel, Bones, "Shark", "Castle", Burn Notice og 24. Frá 1996-1998 þá lék hann Paul Isler í Black Harbour og lék síðan Liðþjálfann Lindo í Lincoln Heights frá 2007-2008. Hefur hann síðan 2003 verið með stórt gestahlutverk sem Rannsóknarfulltrúinn Lou Vartann í. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Carters var árið 1996 í "What Kind of Mother Are You? ". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Bring Him Home", "Out of Time" og "The Island". Tenglar. Carter, Alex Tanka. Tanka er japanskt ljóðaform sem er svipað og hæka (haiku), sem er afbrigði af tanka. Tanka hefur fimm braglínur með fimm atkvæðistáknum í fyrstu línu, sjö atkvæðistákn í annarri línu, fimm atkvæðistákn í þriðju línu og sjö atkvæðistákn í fjórðu og fimmtu línu. Tönkur innihalda yfirleitt aldrei rímur. Bandamannafélagið. Bandamannafélagið var helsta nemendafélag Menntaskólans í Reykjavík frá stofnun þess, 1. apríl 1867, þar til það sameinaðist Ingólfi árið 1883 og úr varð eitt félag, Framtíðin. Fyrsti forseti Bandamannafélagsins var Valdimar Briem. Félagið var lagt niður um nokkurt skeið haustið 1873 en var endurreist tveimur árum síðar. Árið 1878 var nokkrum félagsmönnum Bandamannafélagsins vikið úr félaginu og í kjölfarið af því stofnuðu þeir sitt eigið félag, Ingólf. Á vegum félagsins var gefið út tímaritið Fjölsvinnur. Fyrsti útgáfudagur blaðsins var 6. apríl 1867 og voru alls gefnir út níu árgangar af blaðinu. Paul Tei. Paul Tei er leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Burn Notice og Zeke and Luther. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Tei var árið 2001 í "Going to California". Hefur hann verið með stórt gestahlutverk í Burn Notice sem Barry síðan 2007 og í Zeke and Luther sem Eddie Coletti síðan 2011. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Tei var árið 2005 í Transporter 2 og hefur hann einnig leikið í "The Boynton Beach Bereavement Club" og Marley & Me. Form. Form eða lögun er í stærðfræði íðorð sem á við um rúmfræðilega skýringu á ákveðnum hlut og rúmið sem hann tekur upp. Til eru ýmiss konar form en þeim er oftast lýst eftir hversu margar hliðar þau hafa. Ferningur. Ferningur hefur fjögur horn og fjórar hliðar. Hliðarnar eru allar jafn stórar, og hornin eru öll 90 gráður. Ferhyrningur. Ferhyrningur hefur líka fjögur horn og fjórar hliðar, en ferhyrningur er ekki með allar hliðar jafn langar. Trapisa. Trapisa hefur fjögur horn og fjórar hliðar, en hún hefur tvær hliðar samsíða og tvær ósamsíða. Samsíðungur. Samsíðungur hefur líka fjórar hliðar og fjögur horn. Hann hefur tvær og tvær hliðar samsíða, tvö hvöss og tvö gleið horn. Sexhyrningur. Sexhyrningur hefur sex horn og þess vegna sex hliðar. Horn hans eru öll gleið. Límeind. Límeind er krafteind (bóseind/bósóna) sterka kjarnakraftsins. Hún verkar á milli kvarka, það er að segja í þungeindum (þá þrjár límeindir á milli þriggja kvarka) og miðeindum (þá ein límeind á milli kvarka og andkvarka hans). Hún heldur kvörkum saman. Kvörkum, í þungeindum, er gefinn litur til aðgreiningar en ekki er verið að tala um raunverulegan, sjáanlegan lit þeirra. Talið er að sá „litur“ sé í límeindum sem dreifa honum um alla kvarkana en séu ekki í kvörkunum sjálfum. Prentfrelsi. Prentfrelsi eða fjölmiðlafrelsi er frelsi til að tjá skoðanir og miðla upplýsingum með útgáfu, hvort sem er á prenti eða í rafrænum miðlum. Prentfrelsi var hluti af þeim grundvallarréttindum sem stjórnmálabaráttan á 18. öld innleiddi og var stefnt gegn ritskoðun yfirvalda. Í mörgum löndum er prentfrelsi varið í stjórnarskrá. Á Íslandi var prentfrelsi varið í stjórnarskránni frá fyrstu gerð hennar en eftir að Ísland fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu 1994 var því breytt í málfrelsisákvæði. Ljóseind. Ljóseind er krafteind (bóseind/bósóna) rafsegulgeislunar. Hún hefur enga hleðslu og lítinn sem engan massa. Ljóseind er hraðasta fyrirbæri alls og samkvæmt afstæðiskenningu Einsteins hraðasta mörk hraða í alheiminum (þrátt fyrir það eru ríkjandi kenningar um að rúmið sjálft stækki á margfalt meiri hraða en ljósið). Verkamannasamband Íslands. Verkamannasamband Íslands eða VSÍ var samband 23 verkalýðsfélaga á Íslandi sem var stofnað 9. maí árið 1964. Árið eftir bættust ellefu félög við. Fyrsti formaður þess var Eðvarð Sigurðsson. VSÍ var sérsamband innan Alþýðusambandsins. Þann 13. október 2000 sameinaðist það Landssambandi iðnverkafólks og Þjónustusambandi Íslands og myndaði Starfsgreinasamband Íslands. Ljósmóðir. Ljósmóðir er heilbrigðisstarfsmaður sem sérhæfir sig í að aðstoða mæður í meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf og umönnun nýbura. Ljósmæður eru ævaforn starfsgrein og minnst er á þær í rituðum heimildum frá fornöld. Rithöfundafélag Íslands. Rithöfundafélag Íslands var stofnað sem sérsamband innan Bandalags íslenskra listamanna á aðalfundi BÍL vorið 1942 þegar ákveðið var að breyta félaginu í félagasamband. Fyrsti formaður félagsins var Magnús Ásgeirsson en Friðrik Á. Brekkan tók við árið 1944. Á fundi félagsins 1945 stakk hann upp á Guðmundi G. Hagalín sem eftirmanni sínum en kosning fór þannig að Halldór Stefánsson var kjörinn formaður. Við það tækifæri klofnaði félagið og margir rithöfundar tóku sig saman og stofnuðu Félag íslenskra rithöfunda sem einnig gerðist aðili að BÍL. Félögin tvö áttu þó samstarf um ýmis hagsmunamál og árið 1957 var Rithöfundasamband Íslands stofnað og gerðist aðili að BÍL fyrir hönd beggja félaganna. Árið 1975 var ákveðið að félögin skyldu sameinast í Rithöfundasambandinu og félagar þeirra gerast félagar í sambandinu beint. Þá var Rithöfundafélagið lagt niður en Félag íslenskra rithöfunda starfaði áfram sem bókmenntafélag. Félag byltingarsinnaðra rithöfunda. Félag byltingarsinnaðra rithöfunda var íslenskt bókmenntafélag stofnað á Hótel Borg 3. október 1933. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Kristinn E. Andrésson en aðrir stofnendur voru meðal annars Halldór Stefánsson, Steinn Steinarr, Gunnar Benediktsson, Jóhannes úr Kötlum, Stefán Jónsson og Ásgeir Jónsson. Síðar gengu Halldór Laxness, Vilhjálmur frá Skáholti og Guðmundur Daníelsson í félagið. Félagið gaf út tímaritið "Rauða penna" frá 1935. Sú bókmenntastefna sem félagið hélt á lofti framan af var félagslegt raunsæi og það var andsnúið módernismanum sem fram kom í ljóðlist stuttu síðar. Félagið var aðili að Alþjóðasambandi byltingarsinnaðra rithöfunda, en þegar sambandið hvatti aðildarfélög sín árið 1935 til að leggja sig sjálf niður og taka þátt í samfylkingu með borgaralegu öflunum skirrðist íslenska félagið við því. Kristinn tók þátt í stofnun bókaútgáfunnar Heimskringlu og félagið var stofnaðili að Máli og menningu 1937. Mál og menning óx hratt fyrstu árin en aftur á móti dró úr áhuga á félagslega raunsæinu. Árið 1943, ári eftir stofnun Rithöfundafélags Íslands, ákvað Félag byltingarsinnaðra rithöfunda að leggja sjálft sig niður. Segja má að félagið hafi náð yfirhöndinni í Rithöfundafélaginu þegar Halldór Stefánsson var kjörinn formaður þess árið 1945. Það leiddi til klofnings innan félagsins og stofnunar Félags íslenskra rithöfunda. Tricia Helfer. Tricia Helfer (fædd Tricia Janine Helfer, 11. apríl 1974) er kanadísk leikkona og fyrrverandi fyrirsæta sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Battlestar Galactica, Burn Notice, Dark Blue og "The Firm". Einkalíf. Helfer er fædd og uppalin í Donalda, Alberta í Kanada og er af þýskum, enskum, sænskum og norskum uppruna. Þegar Helfer var sautján ára var uppgötvaði fyrirsætuútsendari hana fyrir utan kvikmyndahús. Helfer hefur verið gift lögfræðingnum Jonathan Marshall síðan 2003. Helfer og samleikkona hennar Katee Sackhoff úr Battlestar Galactica stofnuðu vefsíðuna Acting Outlaws, sem opin er fyrir framlögum til mismunandi styrktarverkefna og málstaða. Fyrirsæta. Árið 1992 vann Helfer "Ford Models Supermodel of the World" keppnina og skrifaði síðan undir samning við Elite Model Management og seinna meir við Trump Model Management. Helfer hætti sem tískufyrirsæta árið 2002. Hefur hún komið fram í auglýsingum fyrir Ralph Lauren, Versace, Chanel og Giorgio Armani. Hefur hún einnig komið fram í tískusýningum fyrir Carolina Herrera, Christian Dior, Claude Montana, Givenchy, John Galliano og Dolce & Gabbana. Helfer hefur verið framan á tískutímaritum á borð við "Flare", "Amica", "ELLE", "Cosmopolitan", "Marie Claire" og "Vogue". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Helfer var árið 2002 í "Jeremiah". Hefur hún komið fram sem gestaleikkona í þáttum á borð við Supernatural, Chuck (sjónvarpsþáttur), Lie to Me og Criminal Minds. Árið 2004 þá var henni boðið hlutverk í Battlestar Galactica sem Númer Sex, sem hún lék til ársins 2009. Hún lék stór gestahlutverk í Burn Notice sem Carla og í Dark Blue sem Alex Rice. Hefur síðan 2012 verið sérstakur gestaleikari í "The Firm" sem Alex Clark. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Helfer var árið 2000 í "Eventual Wife". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Genius Club", "The Green Chain", "Open House" og "Bloodwork". Tenglar. Helfer, Tricia Michael Shanks. Michael Shanks (fæddur Michael Garrett Shanks, 15. desember 1970) er kanadískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Daniel Jackson í Stargate seríunum. Einkalíf. Shanks fæddist í Vancouver, Bresku Kólumbíu en ólst upp í Kamloops, Bresku Kólumbíu. Eftir að hafa útskrifast með BFA í leiklist frá "University of British Columbia" árið 1994, kom hann fram í leikfærslum og var með lærlingsstöðu við "Stratford Festival" í tvö ár. Shanks hefur verið giftur Lexa Doig síðan 2003 og saman eiga þau tvö börn. Fyrir átti hann dóttur með Vaitiare Bandera. Leikhús. Shanks hefur komið fram í leikritum á borð við Hamlet, Macbeth, "Loot", "Wait Until Dark" og King Lear. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Shanks var árið 1993 í "Highlander". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "University Hospital", "The Outer Limits", "The Twilight Zone", Andromeda, Burn Notice, Smallville og Flashpoint. Shanks er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Dr. Daniel Jackson sem hann lék í Stargate SG-1 frá 1997 – 2007. Lék hann einnig persónu sína í og SGU Stargate Universe. Leikstýrði hann einum þætti og skrifaði handritið að þrem þáttum í Stargate SG-1 seríunni. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Shanks var árið 2000 í "The Artist´s Circle". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Suspicious River", "Arctic Blast", "Tactical Force" og "Belyy tigr". Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films-verðlaunin Tenglar. Shanks, Michael Sæskjaldbökur. Sæskjaldbökur (fræðiheiti: "Cheloniidae") eru ætt skjaldbaka sem telur sex af þeim sjö tegundum skjaldbaka sem hafast við í sjó. Sjöunda tegundin er leðurskjaldbaka sem tilheyrir annarri ætt. Þær finnast einkum í hitabeltinu en líka í heittempruðum og tempruðum sjó. Spássían. Spássían er menningartímarit sem hóf göngu sína í júlí 2010. Megináhersla er lögð á bókmenntaumfjöllun en einnig er fjallað um leikhús, kvikmyndir, myndlist og fleiri svið listarinnar. Í hverju tölublaði er að finna viðtöl, greinar og gagnrýni um bækur. Tímaritið kemur út fjórum sinnum á ári. Áttunda tölublaðið kom út 20. apríl 2012. Spássían er gefin út af Ástríki ehf. sem er í eigu Auðar Aðalsteinsdóttur og Ástu Gísladóttur. Þær eru einnig ritstjórar tímaritsins. Gvaraní. Gvaraní er ameríst frumbyggjamál, sem telst til andes-miðbaugsmála. Það er talað af þrem milljónum í Paragvæ þar sem það er opinbert mál ásamt spænsku. Einnig talað í nálægum héruðum í Brasilíu. Gvaraní er nú meirihlutamál í Paragvæ og er eina frumbyggjamálið sem hefur náð þeirri stöðu. Það er þegar töluvert notað sem ritmál. Eitt af sérkennum ritmálsins er gé með tildu eða bogstriki yfir: G̃/g̃. Málið er svonefnt viðskeytamál eða aglútínatíft mál. Engin málfræðileg kyn eru og engin ákveðin greinir, að minsta kosti ekki í hreinu formi túngumálsins, nema í vissum mállýskum þar sem fyrir spænsk ahrif er la (et.) og lo (flt.) notað. Jeremy Renner. Jeremy Lee Renner (fæddur 7. janúar 1971) er bandarískur leikari. Renner, Jeremy Josh Duhamel. Joshua David Duhamel (fæddur 14. nóvember 1972) er bandarískur leikari. Duhamel, Josh Smáhálsa skel. Smáhálsa skel (fræðiheiti: "Ruditapes philippinarum") er samlokutegund af ætt "Veneridae". Skelin er borðuð ýmist fersk eða sett í niðursuðu. Lýsing. Skelin er sterkbyggð og eru útlínur hennar ferhyrntar. Skelin hefur fundist marglita en oftast er hún hvít með smá brúnum lit. Algeng stærð á skelinni er 25 – 57 mm. Smáhálsa skel lifir best á sandbotni eða í drullu. Hún nærist með því að sía vatn í gegnum sograna. Hefur hún tvo sograna, annar sem þrýstir vatninu út á meðan hinn sýgur vatnið inn. Aðal fæða skelinnar er grot sem er lífrænn úrgangur úr sundruðum lífverum eða saur, þessar lífverur kallast grotætur og mynda í mörgum vistkerfum grunn fæðukeðjunnar. Einnig lifir skelin á svifþörungum. Skeljarnar grafa sig 15 – 20 cm djúpt ofan í sand og lifa þær þar. Æxlun fer fram utan skeljarinnar, oftast á sumrin en getur þó byrjað að vori til ef aðstæður eru góðar og hitastig hátt. Lirfan syndir í 10 – 15 daga en þá sest hún niður á 0,5 mm dýpi á sandbotni. Smáhálsa skel. Hún er oft ræktuð meðal annarra skelja ("Venerupis pullastra", "Venerupis rhomboideus", "Venerupis aurea", "Dosinia exoleta" og "Tellina incarnate"). Helstu óvinir þessara skelja eru fjörukrabbar, krossfiskur og fuglar. Einn fjörukrabbi getur étið allt að 5 – 6 skeljar á dag. Mikil þróun hefur verið á vinnslu, framleiðslu og ræktun á skeljunum. Grunnurinn er að safna saman skeljum úr fjörum, þær eru svo látnar liggja í tanki í að minnsta kosti 42 klukkustundir. Þær eru svo settar í 0,5, 1 eða 2 kg poka og dreift þannig á markaði, ýmist til áfram vinnslu í niðursuðu eða ferskt á markað. Geymsluaðstæður skeljarinnar er 3 – 10°C og geta þær haldið bragði og ferskleika í allt að fimm daga. Skeljarnar eru svo ýmist eldaðar upp úr ediki eða annars konar bragðbætum. Í Mið-Evrópu er þekktasti rétturinn „ameixas a marineira“ þar eru skeljarnar látnar marinerast í einhvers konar pækil (saltvatni) og eldaðar upp úr sérstökum sósum, oft lauk eða hvítlauks og oft drukkið hvítvín með. Skelin finnst í Vestur-Kyrrahafi og er ræktuð á heitum svæðum í Evrópu. Hún finnst villt á Filippseyjum, Suður- og Austur-Kína, Gulahafinu, Japanshafi, Okhotskhafi og í kringum Kúrileyju. Aukning í framleiðslu. Vegna verðmæta sem fólgin í smáhálsa skelinni er búið að dreyfa og rækta á ýmsum stöðum í heiminum. Ofveiði í evrópsku skelinni "Ruditapes decussatus" leiddi til mikils innflutnings á "Ruditapes philippinarum" í evrópsk vötn. Fyrst var ræktað smáhálsa skel í Frakklandi árið 1972. Í dag er skelin ræktuð í Bandaríkjunum, Bretlandi, Portúgal, Írlandi, Spáni og Ítalíu. Unnið er að rækta skelina í fleirum löndum en þar má helst nefna Noregi, Þýskalandi, Belgíu, Marokkó og Ísrael. Í kjölfar mikillar ræktun á smáhálsa skelinni í Evrópu, þá sérstaklega Ítalíu, Frakklandi og Írlandi hefur framleiðsla á smáhálsa skelinni verið meiri og hefur verið mikil aukning, meiri en í evrópsku R. decussatus. Í dag er smáhálsa skelin með meiri hlutdeild í skeljalöndun en evrópska R. decussatus. Síðan 1991 hefur smáhálsa skel framleiðsla aukist gífurlega eða sexfaldast. Hún er nú ein af mest unnu tegundum í heiminum en unnin voru 2,36 milljón tonn árið 2002. Kína er langstærsti framleiðandinn en Kínverjar unnu 97,4% af heildarframleiðslunni árið 2002. Ítalir hafa aukið hlut sinn eftir að hafa verið kynntir fyrir smáhálsa skelinni. Árið 2002 framleiddu Ítalir 41 þúsund tonn sem gerir þá næst stærsta framleiðanda í heiminum á smáhálsa skel. Flestar skeljarnar eru seldar lifandi á ferskfisk mörkuðum á um 65 kr/kg. Í Kína eru þær oft djúpsteiktar eða settar í súpu. Skeljarnar eru einnig frystar í vakúm pakkningum og útfluttar til Japan. Frakkar og Bretar hafa einnig flutt inn ferskar skeljar frá Kína. Ítalir flytja mikið af sínum skeljum til Spánar. Einnig flytja Írar megnið af sinni framleiðslu til Frakklands og Spánar. Framboð hefur aukist gífurlega á undanförnum árum en hér áður fyrr var verðið í Evrópu um 1200 kr/kg árið 1983 en lækkaði fljótt niður í 600 kr/kg árið 1990. Predikunarstóllinn. Predikunarstóllinn (norska: "Preikestolen") er stór klettur í Noregi á norðurhlið Lysefjords í sveitarfélaginu Forsand. Kletturinn er um 25 x 25 m og um 640 m yfir fjarðarbotninum. Ekki er skráð nein tilvik um að menn hafi hrapað til dauðs af predikunarstólnum en þó nokkrir hafa framið sjálfsvíg með því að stökkva fram af brúninni. Með kveðju frá Z. Með kveðju frá Zorglúbb (franska: "L'ombre du Z") er 16. Svals og Vals-bókin. Hún er eftir listamanninn Franquin og kom út á frönsku árið 1962, en sagan birtist fyrst í "teiknimyndablaðinu Sval" árið 1960. Sagan er seinni hluti af tveimur. Fyrri hlutinn birtist í bókinni "Z fyrir Zorglúbb". Söguþráður. Svalur, Valur og Sveppagreifinn snúa áhyggjulausir til Sveppaborgar, þar sem þeir uppgötva að síðasti Zor-maðurinn leikur lausum hala og hefur lamað velflesta íbúana með lömunargeislatæki sínu. Þeir stöðva hann og ná að vekja bæjarbúa til lífsins. Zorglúbb kemur í heimsókn á setrið, en beitir geislum sem gerir það að verkum að félagarnir bera ekki kennsl á hann. Gormdýrið brýtur geislatækið og Zorglúbb er afhjúpaður. Í ljós kemur að þrátt fyrir gefin loforð, hefur hann á nýjan leik komið sér upp her Zor-manna. Svalur, Valur og Sveppagreifinn uppgötva að hinar nýju, leynilegu höfuðstöðvar Zorglúbbs hljóti að vera í Palombíu og halda þangað til að hafa hendur í hári hans. Í höfuðborg Palombíu ríkir undarlegt ástand, þar sem annar hver maður virðist selja sápu eða tannkrem. Zorglúbb beitir dáleiðandi hljóðbylgjum til að sannfæra almenning um að kaupa ógrynnin öll af þessum snyrtivörum. Fyrirtæki hans græðir á tá og fingri meðan alþýðan sveltur. Félagarnir finna hinar leynilegu höfuðstöðvar, þar sem í ljós kemur að Sammi frændi er orðinn næstráðandi Zorglúbbs. Sammi upplýsir að hann ætli sjálfur að gerast leiðtogi Zor-hersins og ráða yfir veröldinni. Á sama tíma iðrast Zorglúbb gerða sinna þegar hann heyrir af eymd Palómbíubúa. Þeir reyna að stöðva Samma sem skýtur Zorglúbb með nýju öflugu geislavopni. Zorglúbb verður meðvitundarlaus en tækið springur og þeir ná að yfirbuga Samma. Að lokum eyðileggur Sveppagreifinn höfuðstöðvarnar með hraðvaxandi sveppagróðri og frelsar Zor-mennina á ný. Íslensk útgáfa. Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1982 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún var númer sextán í íslensku ritröðinni. Round Maple. Round Maple er þorp í Edwardstone og Babergh í Suffolk í Englandi. Tim Matheson. Tim Matheson (fæddur Timothy Lewis Matthieson, 31. desember 1947) er bandarískur leikari, leikstjóri og framleiðandi sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í National Lampoon's Animal House, The West Wing og Jonny Quest. Einkalíf. Matheson er fæddur og uppalinn í Glendale, Kaliforníu. Hefur hann verið giftur tvisvar sinnum, Jennifer Leak frá 1969 – 1971 og Megan Murphy Matheson frá 1985 – 2010 en saman eiga þau þrjú börn. Leikstjóri. Fyrsta leikstjóraverk Matheson var árið 1984 í "St. Elsewhere". Hefur hann síðan þá leikstýrt þáttum á borð við "The Twilight Zone", Without a Trace, "Threshold", The West Wing, Criminal Minds, "White Collar", Burn Notice og "Hart of Dixie". Sjónvarp. Matheson byrjaði sjónvarpsferil sinn árið 1961 þá aðeins þrettán ára gamall í "Window on Main Street". Á árunum 1965 – 1968 þá talaði hann inn fyrir aðalpersónurnar í teiknimyndaseríunum "Sinbad Jr. ", " Jonny Quest", "Space Ghost" og "Young Samson & Goliath". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "My Three Sons", "Here´s Lucy", "The Virginian", "Bonanza", "Rhoda", "Insight", "Just in Time", "Wolf Lake", "Breaking News",The King of Queens, "Ed" og Entourage. Lék stór gestahlutverk í The West Wing sem varaforsetinn John Hoynes og í Burn Notice sem Larry Sizemore. Hefur síðan 2011 verið sérstakur gestaleikari í Hart of Dixie sem læknirinn Brick Breeland. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Mathseson var árið 1967 í "Divorce American Style". Lék elsta soninn í "Yours, Mine and Ours" á móti Lucille Ball og Henry Fonda. Árið 1978 þá lék hann í Animal House á móti John Belushi. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "1941", "The House of God", "Solar Crisis", "A Very Unlucky Leprechaun", "Van Vilder" og "No Strings Attached". Tenglar. Matheson, Tim Oblast. Oblast ("област(ь)") er stjórnsýslueining í Rússlandi, Úkraínu, Búlgaríu og víðar. Krov za krov. Krov za krov (rússneska: "Кровь за кровь") er 5. breiðskífa Aria. Noch koroche dnya. Noch koroche dnya (rússneska: "Ночь короче дня") er 6. breiðskífa Aria. Generator zla. Generator zla (rússneska: "Генератор зла") er 7. breiðskífa Aria. Chris Vance. Chris Vance (fæddur, 30. desember 1971) er enskur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Prison Break, All Saints og Mental. Einkalíf. Vance er fæddur og uppalinn í London, Englandi en ólst einnig upp á Írlandi. Stundaði hann nám við háskólann í Newcastle og útskrifaðist þaðan með gráðu í byggingaverkfræði. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Vance var árið 1998 í "Kavanagh QC". Hefur hann komið fram í þáttum á borð við "Stingers", Rizzoli & Isles, "Fairly Legal" og "The Bill". Á árunum 2005 – 2007 þá lék hann í All Saints sem Sean Everleigh. Lék hann stór gestahlutverk í Prison Break sem James Whistler, í Burn Notice sem Mason Gilroy og í Dexter sem Cole Harmon. Kvikmyndir. Vance hefur leikið í tveimur kvikmyndum "Macbeth" og "Sexy Thing". Tenglar. Vance, Chris Ben Shenkman. Ben Shenkman (fæddur 26. september 1968) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Burn Notice, Damages og Law & Order. Einkalíf. Shenkman er fæddur og uppalinn í New York-borg og stundaði nám við Brown-háskólann. Útskrifaðist hann með MFA-gráðu frá "Tisch School of the Arts" við New York-háskólann. Hefur hann verið giftur Lauren Greilsheimer síðan 2005. Leikhús. Shenkman byrjaði leikhúsferil sinn árið 1994 í "Angels of America". Hefur hann síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Versus", "Proof", "Anthony and Cleopatra" og "Knickerbocker". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Shenkman var árið 1996 í "New York Undercover". Hefur hann síðan þá komið fram í þáttum á borð við "Ed", "Love Monkey, Private Practice og Grey's Anatomy. Shenkman hefur leikið stór gestahlutverk í "Canterbury´s Law" sem Russell Kraus, í Burn Notice sem Tom Strickler, í Damages sem Curtis Gates og "The Paul Reiser Show" sem Jonathan. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Shenkman var árið 1994 í "Quis Show". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Siege", "Table One", "People I Know", "Just Like Heaven" og "Blue Valentine". Tenglar. Shenkman, Ben Moon Bloodgood. Moon Bloodgood (fædd Korinna Moon Bloodgood, 20. september 1975) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Terminator Salvation, Day Break og Falling Skies. Einkalíf. Bloodgood er fædd og uppalinn í Anaheim, Kaliforníu og er af hollenskum, írskum og suður-kóreskum uppruna. Moon er fyrrverandi "Laker Girls" klappstýra. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Bloodgood var árið 2002 í "Just Shoot Me". Hefur hún síðan þá komið fram í þáttum á borð við, Monk, Burn Notice og Human Target. Árin 2006 – 2007 þá lék hún í "Day Break" sem Rita Shelten. Einnig lék hún "Journeyman" sem Livia Beale árið 2007. Lék hún síðan í "Falling Skies" sem Anne Glass árið 2011. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Bloodgood var árið 2004 í "Win a Date with Tad Hamilton". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Pathfinder", "Street Fighter: The Legend of Chun-Li", "Beautiful Boy" og "Conception". Árið 2009 þá var henni boðið hlutverk í myndinni Terminator Salvation þar sem hún lék Blair Williams. Tenglar. Bloodgood, Moon Jay Karnes. Jay Karnes (fæddur 27. júní 1963) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Shield, Sons of Anarchy og Burn Notice. Einkalíf. Karnes fæddist í Omaha, Nebraska og stundaði nám í leiklist, sögu og stjórnmálafræði við Háskólann í Kansas. Jay er giftur leikkonunni Juliu Campbell og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Karnes hefur komið fram í leikritum á borð við "The Tempest", Richard II, Macbeth og "Arcadia". Hann var meðlimur "The Oregon Shakespeare Festival" þar sem hann kom fram í "The Seagull", "Dangerous Corner" og "The Tavern". Karnes lék einnig með "Matrix Theater Company" í Los Angesles, "California Shakespeare Festival", "South Coast Repertory Theater" og "Missouri Repertory Theatre". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Karnes var árið 1998 í "The Pretender". Hefur hann síðan þá komið fram í þáttum á borð við Chicago Hope, "The Strip", Ally McBeal, Frasier, Numb3rs, House og. Karnes hefur leikið stór gestahlutverk í Sons of Anarchy sem Joshua Kohn, í Burn Notice sem Tyler Brennen og í "V" sem Chris Bolling. Á árunum 2002 – 2008 lék hann rannsóknarfulltrúann Holland Wagenbach í The Shield. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Karnes var árið 1999 í "The Joyriders". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Broken Angels", "Chasing 3000" og "Setup". Tenglar. Karnes, Jay Björn Jörundur Friðbjörnsson. Björn Jörundur Friðbjörnsson er íslenskur tónlistarmaður og leikari. Hann lék Viktor í kvikmyndinni Englar alheimsins árið 2001. Gujarat. Kort sem sýnir staðsetningu Gujarat á Indlandi Gujarat er fylki á Indlandi. Höfuðstaður fylkisins er Gandhinagar. Íbúafjöldi var 60.383.628 árið 2011. Gandhinagar. Gandhinagar er borg á Indlandi og höfuðstaður fylkisins Gujarat. Þar búa 195.891 manns (2001). Ahmedabad. Ahmedabad eða Amdavad er stærsta borgin í Gujarat á Indlandi. Þar búa 5.570.585 manns (2001). Khimera. Khimera (rússneska: "Химера") er 8. breiðskífa Aria. Kreshchenie ognyom. Khimera (rússneska: "Химера") er 9. breiðskífa Aria. Skjárinn. Skjárinn er íslenskt fjölmiðlafyrirtæki og dótturfyrirtæki Skipta. Fyrirtækið rekur tvær sjónarpstöðvar og eina útvarpstöð. Þuríður Rúrí Fannberg. Þuríður Rúrí Fannberg (fædd 1951 í Reykjavík) er íslenskur listamaður. Hún er frumkvöðull á sviði gjörningalistar og innsetninga á Íslandi og verk hennar hafa vakið mikla athygli hérlendis og erlendis. Fyrsta gjörningin Rúrí var Gullinn bíll sem hún framdi árið 1974 í þeim tilgangi að vekja fólk til umhugsunar um lífsgæðakapphlaupið.. Hún gekk með sleggju á gullhúðaða bensbifreið í Austurstræti og hrópaði: „þú þræll ég vil ekki þjóna þér“. Rúri vildi bæta heiminn og var gagnrýnin í sköpun sinni. Rúrí er vel þekkt fyrir útilistaverk eins og Regnbogann við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Kaflavík og Fyssu í Grasagarðinum en einnig áhrifamiklar innsetningar likt og Glerregn frá árinu 1984 og Paradís sem hún gerði árið 1998. Árið 2003 var Rúrí fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum og sýndi þar verk sitt Archive-endangerded waters sem er gagnvirk fjöltækniinnsetning, óður til nátturúnnar og hugleiðing um gildi hennar í nútímanum. Öll verk Rúrí fjalla um tengsl manns og jarðar sem alheims, manninn í óratíma veraldar, mannlegar skynjanir. List er eins og heimspeki. Listamenn eins og Rúri eru sífellt að velta upp nýjum flötum á sama veruleikanum og skoða hanna frá nýjum sjónarhornum. Í nær fjóra áratugi hefur Rúrí staðið framarlega í fylkingu íslenskra listamanna í gjörningalist, innsetningum, rafrænum miðlum og höggmyndagerð. Hún hefur notað margvíslega tækni eins og skúlptúra, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörninga, bókverk, kvikmyndir, vídeó, hljóðverk, blandaða tækni, tölvuvædd og gagnvirk verk. Dirfska hennar sem tilraunalistamanns hefur birst í gjörningnum sem hafa þótt ganga undrum næst. Eftir að hafa brotið með sleggju gullna Mercedes-bifreið á Lækjartorgi klæddist hún íslenskum kvenbúningi, ísaumuðum bandaríska fánanum, á fjölmennum hátíðarfundi í Háskólabíói. Þessir gjörningar höfðu sterka pólitíska skírskotun en mörkuðu samt upphaf að fínlegri og persónulegri verkum þar sem náttúra og óendanleiki, örskotsstund og tímaleysi voru skilgreind með nýjum hætti með hverfulum verkum. Þar má nefna verk eins og Regnbogi I, 1983, þar sem himinhá bambusstöng með marglitum línfána í ljósum logum markaði hápunkt langs gjörnings sem festur var á filmu sem helgileikur tileinkaður lífi og náttúru. Nátturan gefur okkur líf og skapar tilvist okkar sjálfra. Rúrí vill opna augu allra manna og vekja til umhugsunar um að það sem við ákveðum að gera í dag hefur áhrif á framtíðina. Hún fjallar um nátturu Íslands en vill með því vekja athygli á alheimsvanda. Vandin er ógn sem að náttúrunni stafar. Maðurinn er að ógna sinni eigin tilveru í von um hagnað. Á sýningunni í Listasafni Íslands eru yfir 100 verk Rúríar auk mynda af mörgum þekktustu gjörningum hennar. Þuríður Rúrí Fannberg fékk riddarakross þann 17. júní 2008 fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar myndlistar. Kaninn. K100,5 er útvarpsstöð í eigu Skjásins. Hún hóf útsendingar 1. september 2009 og er send út á tíðninni fm 100,5 Garret Dillahunt. Garret Dillahunt (fæddur, 24. nóvember 1964) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Raising Hope, Leap Years og Deadwood. Einkalíf. Dillahunt fæddist í Castro Valley, Kaliforníu en ólst upp í Selah, Washington. Útskrifaðist hann með B.A-gráðu í blaðamennsku frá Washington-háskólanum og með MFA-gráðu í leiklist frá "Tisch School of the Arts" við New York-háskólann. Dillahunt er giftur leikkonunni Michelle Hurd. Leikhús. Dillahunt hefur komið fram í leikritum á borð við "Jospeh and the Amazing Technicolor Dreamcoat", "Mad Forest", "A Perfect Ganesh", "Sweet Bird of Youth", "Side Man", "Heartbreak House" og "The Night of the Iguana". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Dillahunt var árið 1995 í "One Life to Live". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "The X Files", "Seven Days", "The Inside", Numb3rs, "John From Cincinnati", "Life", Criminal Minds og Alphas. Garret hefur leikið lék stór gestahlutverk í "Terminator: The Sarah Connor Chronicles" sem John Henry, í The 4400 sem Matthew Ross og í Deadwood sem Francis Wolcott/Jack McCall. Árið 2001 þá lék hann eitt af aðalhlutverkunum í Leap Years sem Gregory Paget. Hefur hann síðan 2010 leikið eitt af aðalhlutverkunum í Raising Hope sem Burt Chance. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Dillahunt var árið 1999 í "Last Call". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við No Country for Old Men, "Water Pills", "Burning Bright", "Amigo" og "Revenge for Jolly". Tenglar. Dillahunt, Garret Vinnuhjúaskildagi. Vinnuhjúaskildagi, einnig kallaður "hjúaskildagi, hjúafardagi" eða "hjúadagur" var sá dagur ársins sem ráðning eða árvist vinnufólks miðaðist við frá fornu fari. Hann var upphaflega 3. maí, á krossmessu á vor, en þegar tímatalsbreytingin var gerð árið 1700 og teknir voru 11 dagar úr árinu, svo að 28. nóvember kom í stað 17. nóvember, þá færðist vinnuhjúaskildaginn frá 3. til 14. maí, annars hefðu húsbændur átt inni 11 daga hjá vinnuhjúum. Tilflutningurinn virðist líka hafa hentað betur sem vistaskiptadagur, þar sem sjósókn og fiskverkun voru farin að skipta æ meira máli á þessum tíma og 14. maí passaði betur upp á vertíðir. Sú kvöð var að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn og mátti eingöngu skipta um vinna á vinnuhjúaskildag samkvæmt lögum um vistarband. Við því voru viðurlög ef því var ekki fylgt. Lausamennska og flakk var talið lögbrot en einstaka efnaðir einstaklingar úr hópi vinnufólks gátu keypt sér lausamennskubréf sem þýddi það að það réði sér sjálft og þurfti ekki að vera fastráðið á einhverjum bæ. Elstu heimildir þess að vinnuhjúaskildagi væri miðaður við krossmessu á vor, eða 3. maí, er í samþykkt um vinnufólk og fiskimenn á alþingi frá því um 1400. Þar segir meðal annars: "„Skulu allir vinnumenn vera komnir til sumarvistar sinnar að krossmessu forfallalaust, ellegar sé þeir sóttir að ósekju.“" Fyrir þann tíma miðuðust vistaskipti vinnandi fólks við fardaga, eða þá daga sem fólk skildi flytjast búferlum. En fardagar voru frá fimmtudagi í sjöundu viku sumars, frá 31. maí til 6. júní í nýja stíl og lauk með sunnudegi. Fardagar voru ennfremur viðmiðun í ýmsum viðskiptum og réttarathöfnum, einkum innheimtu, og var fardagaárið almennt reikningsár í landbúnaði fram á 20.öld. Eins var með vinnuhjúaskildag eftir að hann var fluttur af fardögum yfir á krossmessu að mikið var við hann miðað í ýmsum viðskiptum og almennum samningum. Basknesk-íslenskt blendingsmál. a>, þaðan sem handrítið með blendingmálinu kemur Basknesk-íslenskt blendingsmál var blendingsmál með innblæstri frá basknesku, germönskum og rómönskum tungumálum. Það er varðveit í íslenskum handrítum með orðasöfnum frá 17. og 18. öld. Tungumálið var sennilega notað í samskiptum milli baskneskra sjómanna og þjóða við strendur Norður-Atlantshafsins, þar á meðal íslensks alþýðufólks í Vestfjörðum. Óvíst er hvar blendingsmálið varð til. Það getur hafa orðið til á Íslandi en vegna annarra evrópskra tungumála, sem koma við sögu, er hugsanlegt að málið hafi þróast annars staðar og að Baskarnir hafi komið með málið til Íslands, þar sem það varð skrifað niður. Í skjali AM 987 4:to, sem er varðveitt hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, eru tvö basnesk-íslensk orðasöfn með nöfnunum "Vocabula Gallica" ('frönsk orð') og "Vocabula Biscaica" ('Biskaja-orð'). Í lok "Vocabula Biscaica", sem samtals inniheldur 278 orð, setningar og töluorð, eru sumar beskneskar setningar blandaðar með ensku, frönsku, hollensku, spænsku og þýsku orði. Basknesk-íslenskt blendingsmál er sem sé ekki blanda af basknesku og íslensku, heldur af basknesku og öðrum málum. Nafn sitt hefur það af því að það var skrifað niður á Íslandi og þýtt í íslensku. Blendingsmálaþættir í Vocabula Biscaica. a> áminnir hversu mikilverð fiskiveiðin er einnig á Íslandi Orðanúmer töflunnar eru eins og í AM 987 4:to. Setningarnar á blendingsmálinu og íslensku eru sóttar frá Deen, bls. 102-105. Nútímalegu basknesku setningarnar koma frá basknesku, ensku og frönsku Wikipediunni. Orð af rómönskum uppruna. Einnig annars staðar í "Vocabula Biscaica" og hinu basknesk-íslenska orðasafni eru mörg frönsk og spænsk orð. Til dæmis er baskneska orðið "eliza" „kirkja“ í byrjun orðasafnsins tengt frönska orðinu "église" og spænska orðinu "iglesia". Þetta er þó ekki ummerki blendingsmálsins, heldur afleiðing af áhrifum frönsku og spænsku á basknesku í gegnum tíðina, enda hefur baskneska tekið mörg tökuorð frá grannþjóðum sínum. Auk þess geta margir basknesku sjómannanna sem komu til Íslands haft verið fjöltyngdir og talað frönsku og/eða spæsku. Það mundi til dæmis útskýra af hverju "já" er þýtt með bæði basknesku "bai" og frönsku "vÿ" (nútímaleg stafsetning "oui") í lok "Vocabula Biscaica". Saga orðasafnanna. Árnagarður þar sem handritið með orðasöfnunum er varðveit Eintakið sem er varðveit af "Vocabula Biscaica" er afritun gerð af Jóni Ólafssyni úr Grunnavík. Jón Helgason á Kaupmannahafnarháskóla fannn afritunina, saman með "Vocabula Gallica", á 3. áratug 20. aldar. Hann afritaði orðasöfnin, þýddi íslensku orðin á þýsku og sendi svo afritin til prófessors Christianusar Corneliusar Uhlenbeck í háskólanum í Leiden í Hollandi. Uhlenbeck var nafntogaður baskneskufræðingur en hann hætti við háskolann árið 1926 og gaf þess vegna orðasöfnin nemanda sínum, Nicolaas Gerard Hendrik Deen. Deen skrifaði doktorsritgerð sína um basknesk-íslensku orðasöfnin tvö, auk annars skjals með slitrum úr þriðja orðasafninu. Ritgerðin hét "Glossaria duo Vasco-Islandica" en hún var skrifuð á latínu en meirihluti orðanna var þýddur á þýsku og spænsku. Ár 1986 kom frumhandritið með orðasöfnunum aftur frá Danmörku til Íslands. Slitrin af þriðja orðasafnsinu, sem nú er glatað, eru í bréfi skrifuðu af Sveinbirni Egilssyni. Í bréfinu nefndi hann skjal með átta blaðsíðum. „Þeim fylgdu 2 blöð eins stór með kátlegar glósur mér hreint óskiljandi“, skifaði Sveinbjörn en svo afritaði hann ellefu orð eins og dæmi. Orðasafnið hefur síðar glatast en bréfið með dæmunum ellefu er enn til á Landsbókasafni Íslands. Þó eru engin blendingsmáladæmi þar á meðal. Fyrir skömmu uppgötvaðist fjórði basknesk-íslenska orðasafnið í Houghton-bókasafninu á Harvard-skólanum. Richard Kind. Richard Kind (fæddur Richard Bruce Kind, 22. nóvember 1956) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Mad About You og Spin City. Einkalíf. Kind fæddist í Trenton, New Jersey en ólst upp í Bucks County, Pennsylvaníu. Stundaði hann nám við Northwestern-háskólann og er fyrrverandi nemandi "The Second City" leikhópsins í Chicago og Santa Monica. Hefur hann verið giftur Dana Stanley síðan 1999 og saman eiga þau þrjú börn. Leikarinn George Clooney var svaramaður hans en þeir eru góðir vinir. Leikhús. Kind hefur komið fram í leikritum á borð við "The Producers", "Dirty Rotten Scoundrels", "An Oak Tree" og "Orwell That Ends Well". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Kind var árið 1985 í sjónvarpsmyndinni "Two Father's Justice". Hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Mr. Belvedere", "21 Jump Street", "Blue Skies", "Still Standing", Psych og "Harry's Law". Kind hefur leikið stór gestahlutverk í "A Whole New Ballgame" sem Dwigh Kling, í Scrubs sem Harvey Corman, í Burn Notice sem Marv, í Curb Your Enthusiasm sem frændinn Andy og í "Luck" sem Joey Rathburn. Frá 1992-1999 þá lék hann lækninn Mark Devanow í Mad About You og lék síðan eitt af aðalhlutverkunum í Spin City sem Paul Lassiter. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Kind var árið 1986 í "Nothing in Common". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Mr. Satuday Night", "Could Around the Heart", "Confessions of a Dangerous Mind", "Garfield", "The Producers", Bílar, "Bag Boy", Toy Story 3 og Bílar 2. Tenglar. Kind, Richard Grant Show. Grant Show (fæddur Grant Alan Show, 27. febrúar 1962) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Melrose Place, Point Pleasant og Swingtown. Einkalíf. Show fæddist í Detroit, Michigan en ólst upp í San Jose, Kaliforníu. Hann stundaði nám í leiklist við Kaliforníuháskólann í Los Angeles, ásamt því að stunda nám við "London Academy of Music and Dramatic Art". Var hann giftur Pollyanna McIntosh frá 2004-2011. Leikhús. Show hefur komið fram í leikritum á borð við "On The Waterfront", "The Boys of Winter" og "The Glass Menagerie". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Show var árið 1985 í "ABC Afterschool Specials". Lék hann í sápuóperunni "Ryan´s Hope" sem Ricky Hyde, frá 1984-1987. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Saturday Night Live, "Ed", Six Feet Under, Grey's Anatomy, og Burn Notice. Árið 1992 þá var honum boðið eitt af aðahlutverkunum í Melrose Place sem Jake Hanson, sem hann lék til ársins 1997. Lék hann einnig persónuna í Beverly Hills 90210 og í "Models, Inc". Síðan árið 2008 þá lék hann Tom Decker í Swingtown en aðeins ein sería var framleidd. Show hefur leikið stór gestahlutverk í Strong Medicine sem Bend Sanderson, í Point Pleasant sem Lucas Boyd, í "Accidentally on Purpose" sem James, og í Private Practice sem Archer Montgomery. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Show var árið 1992 í "A Woman, Her Men, and Her Futon". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Raw Footage", "The Girl Next Door" og "Fucken' Americans". Tenglar. Show, Grant Ondarroa. Ondarroa (spænska: "Ondárroa") er sveitarfélag í Baskalandi í Norður-Spáni með tæplega níu þúsund íbúa. Lauren Stamile. Lauren Stamile (fædd 12. september 1976) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Open Circle, Grey's Anatomy og Burn Notice. Einkalíf. Stamile er fædd og uppalin í Tulsa, Oklahoma. Stundaði hún nám við Northwestern-háskólann í leiklist og fluttist síðan til New York-borgar til þess að stunda leiklistina. Hefur hún verið gift Randall Zamcheck síðan 2009. Auglýsingar. Stamile hefur komið fram í auglýsingum fyrir "Old Spice", "GM Holiday Spot", "Tassimo" og Volkswagen. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Stamile var árið 1999 í. Lék hún í "Off Centre" sem Liz Lombardi, frá 2001-2002. Hefur hún komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við, "Tru Calling", Boston Legal, Numb3rs, og Scrubs. Stamile hefur leikið stór gestahlutverk í Grey's Anatomy sem hjúkrunarkonan Rose og í Burn Notice sem CIA fulltrúinn Kim Pearce. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Stamile var árið 2000 í "Something Sweet". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "The Last Letter", "The Blue Tooth Virgin" og "Overnight". Tenglar. Stamile, Lauren Grísk drakma. Grísk drakma (gríska: "drachmē", fleirtala "drachmés") var gjaldmiðill notaður í Grikklandi áður en evran var tekin upp árið 2002. Ein drakma skiptist í 100 "lepton" (fleirtala "lepta"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 340,750 GRD. Franskur franki. Franskur franki (franska: "franc français") var gjaldmiðill notaður í Frakklandi og Andorra áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn franki skiptist í 100 hundraðshluta ("centimes"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 6,55957 FRF. Þýskt mark. Þýskt mark (þýska: "Deutsche Mark") var gjaldmiðill notaður í Þýskalandi áður en evran var tekin upp árið 2002. Eitt mark skiptist í 100 "pfennig". Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 1,95583 DEM. Spænskur peseti. Spænskur peseti (spænska: "peseta española") var gjaldmiðill notaður á Spáni áður en evran var tekin upp árið 2002. Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 166,386 ESP. Franki. Franki (₣) er heiti á nokkrum gjaldmiðlum. Helsti gjaldmiðillinn notaður í dag sem ber nafnið „franki“ er svissneski frankinn. Frankinn var líka notaður í Frakklandi þangað til evran tók við af honum árið 2002. Heitið er talið eiga rætur að rekja til latneskrar áletrunar á gömlum frönskum myntu, "francorum rex" (Frankakonungur), eða franska orðsins "franc" sem merki „frjáls“. Meðal þeirra landa sem nota frankann í dag eru Sviss, Liechtenstein og mörg frönskumælandi lönd í Afríku. Áður en evran var tekin upp var frankinn líka notaður í Frakklandi, Belgíu og Lúxemborg. Hann var einnig notaður óopinberlega í Andorra og Mónakó. Frankinn var líka víða notaður í nýlendum Franska heimsveldisins, þar á meðal Alsír og Kambódíu. Í flestum tilfellum skiptist frankinn í 100 hundraðshluta ("centimes"). Franska táknið fyrir frankann var tvístrikað F (₣) en oftar bara venjulegt F. Írskt pund. Írskt pund (enska: "Irish pound", írska: "Punt Éireannach") var gjaldmiðill notaður á Írlandi áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn franki skiptist í 100 penní (enska: "penny", írska: "pingin"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 0,787564 FRF. Austurrískur skildingur. Austurrískur skildingur (þýska: "Österreichischer Schilling") var gjaldmiðill notaður í Austurríki áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn skildingur skiptist í 100 "groschen". Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 13,7603 ATS. Hollenskt gyllini. Hollenskt gyllini (hollenska: "Nederlandse gulden") var gjaldmiðill notaður í Hollandi áður en evran var tekin upp árið 2002. Eitt gyllini skiptist í 100 sent (hollenska: "cents"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 0,453780 NLG. Belgískur franki. Belgískur franki (hollenska: "Belgische frank", franska: "franc belge", þýska: "Belgischer Franken") var gjaldmiðill notaður í Belgíu og Lúxemborg áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn franki skiptist í 100 hundraðshluta (hollenska: "centiem", franska: "centime", þýska: "Centime"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 40,3399 BEF. Portúgalskur skúti. Portúgalskur skúti (portúgalska: "escudo português") var gjaldmiðill notaður í Portúgal áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn skúti skiptist í 100 hundraðshluta ("centavo"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 200,482 PTE. Finnskt mark. Finnskt mark (finnska: "Suomen markka", sænska: "finsk mark") var gjaldmiðill notaður í Finnlandi áður en evran var tekin upp árið 2002. Eitt mark skiptist í 100 penní ("penni"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 5,94573 FIM. Eistnesk króna. Eistnesk króna (eistneska: "Eesti kroon") var gjaldmiðill notaður í Eistlandi á tveimur tímabilum, frá 1928 til 1940, og svo aftur frá 1992 til 2011, þegar evran var tekin upp. Ein króna skiptist í 100 sent ("senti"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 15,6466 EEK. Slóvakísk króna. Slóvakísk króna (slóvakíska: "slovenská koruna") var gjaldmiðill notaður í Slóvakíu áður en evran var tekin upp árið 2008. Ein króna skiptist í 100 "halier". Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 30,1260 SKK. Slóvenskur dalur. Slóvenskur dalur (slóvenska: "slovenski tolar") var gjaldmiðill notaður í Slóveníu áður en evran var tekin upp árið 2007. Ein króna skiptist í 100 sent ("stotinov"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 239,640 SIT. Kýpverskt pund. Kýpverskt pund (einnig kölluð kýpversk líra; gríska: "Λίρα Κύπρου", tyrkneska: "Kıbrıs lirası") var gjaldmiðill notaður á Kýpur áður en evran var tekin upp árið 2007. Eitt pund skiptist í 100 sent og 1000 "mil". Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 0,585274 CYP. Maltnesk líra. Maltnesk líra (maltneska: "lira Maltija") var gjaldmiðill notaður á Möltu áður en evran var tekin upp árið 2007. Ein líra skiptist í 100 sent og 1000 "mil". Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 0,429300 MTL. Lúxemborgarfranki. Lúxemborgarfranki (franska: "franc Luxembourgeois", þýska: "Luxemburger Franken", lúxemborgíska: "Lëtzebuerger Frang") var gjaldmiðill notaður í Lúxemborg áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn franki skiptist í 100 hundraðshluta (franska: "centimes", þýska: "Cent"). Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 40,3399 LUF. Mónakóskur franki. Mónakóskur franki (franska: "franc monegasque") var gjaldmiðill notaður í Mónakó áður en evran var tekin upp árið 2002. Einn franki skiptist í 100 hundraðshluta ("centimes"). Mónakóskur franki jafngildi frönskum franka. Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 6,55957 MCF. Sanmarínósk líra. Sanmarínósk líra (ítalska: "lira sanmarinese") var gjaldmiðill notaður í San Marínó áður en evran var tekin upp árið 2002. Ein líra skiptist í 100 hundraðshluta ("centesimo"). Sanmarínósk líra jafngildi ítalskri líru. Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 1936,27 SML. Vatíkönsk líra. Vatíkönsk líra (ítalska: "lira vaticana") var gjaldmiðill notaður í Vatíkaninu áður en evran var tekin upp árið 2002. Ein líra skiptist í 100 hundraðshluta ("centesimo"). Vatíkönsk líra jafngildi ítalskri líru. Við upptöku evrunnar var gengið fest í 1 EUR = 1936,27 VAL. Bermúdeyskur dalur. Bermúdeyskur dalur er núverandi gjaldmiðill Bermúda og hefur verið notaður þar síðan árið 1970. Hann er tengdur við Bandaríkjadal á genginu 1. Einn dalur skiptist í 100 sent. Algengasta táknið fyrir bermúdeyskan dal er $ en jafnframt er notað BD$ til þess að forðast rugling við aðra dali. Dalurinn er ekki notaður í alþjóðaviðskiptum. Grindcore. Grindcore er öfgakennd tónlistarstefna og undirgrein pönks og þungarokks. Stefnan varð til um miðjum níunda áratug seinustu aldar í Norður-Ameríku og Evrópu og þá sérstaklega á Englandi. Stefnan einkennist af miklum ofsa, hraða og stöðugri keyrslu. Venjuleg grindcore-hljómsveit samanstendur af þungum gítar og bassa sem er í lægri stillingum en vanalega og eru keyrðir í gegnum hljóðbjagara. Trommuleik sem er hraður og líkist vélbyssu og síðan er það öskrari sem flytur boðskapinn. Bresku hljómsveitirnar Napalm Death og Carcass eru þekktustu grindcore-hljómsveitirnar og eru flestir sammála um að þær hafi lagt grunninn að sjálfri stefnunni. Frá Bretlandi dreifði stefnan sér um alla Evrópu, Norður-Ameríku og til Japans. Einkenni. Órjúfanlegur partur af grindcore er reiðin. Hana er bæði að finna í sjálfum hljóðfæra leiknum og textum. Stefnan tekur til sín áhrif á bæði pönki og þungarokki en er á sama tíma allt öðruvísi en hinir flokkarnir. Öll áhersla er lögð á keyrsluna, kraftinn í sjálfu laginu. Trommarinn eða trommuvél eru í miklu aðalhlutverki í grindcore og sjá þeir um blasbeat. Melódíur og jafnvel textar eru í aukahlutverkum. Ólíkt þungarokki, þá hefur pönk verið meðvitaðara um félagsleg málefni. Grindcore er ekki frábrugðið og oftast er gengið skrefinu lengra en í pönk tónlist og heiminum sagt stríð á hendur. Margir af frægustu tónlistarmönnum stefnunar er meðlimir í grasróta samtökum. Þar berjast þeir fyrir jafnrétti kynja sem og dýra. Einnig er mikil áhersla lögð á að verja náttúruna og berjast gegn stríðsátökum og kapítalisma. Textarnir eru því margir félagslegs eðlis. Krafan sem þeir gera er sú að við vöknum, tökum slæðuna frá augunum og horfumst í auga við allan þann hrylling sem við samþykkjum. Ljótleiki tónlistarinnar, endurspeglar ljótleika heimsins. Annað mikilvægt umræðuefni í grindcore er viðbjóður (á ensku gore). Þær hljómsveitir sem yrkja um viðbjóð og hrylling falla undir goregrind. Þar er hryllilegum dauðadögum lýst, hvort sem það er af völdum sjúkadóma, stríðs, þess yfirnátturlega eða bara af hversdagslegum ástæðum. Þar er öllum minnstu smáatriðum lýst og mest áhersla lögð á að gera viðbjóðinn yfirgengilegan. Mörgum finnst þetta var óþarfa fantasíur og flótti frá raunveruleikanum. Þeim finnst að grindcore eigi að geta sýnt hin raunverulega hrylling en ekki eigi að hylja yfir hann með yfirgengilegum hrylling. Upphaf. Á níunda áratug seinustu aldar var mikil gróska í öllu jaðarrokki. Tónlistarstefnur voru að myndast um allan heim og höfðu mikil áhrif hvor á aðra. Það sem rak þetta allt áfram var viljinn um að vera hraðari, harðari og þyngri heldur sá sem kom á undan þér. Hver einasta plata hækkaði alltaf staðalinn meir og meir. Grindcore var því samblanda af þessu öllu en samt eitthvað allt annað. Þyngdin var tekinn frá thrash metal og dauðarokki. Póltíkin, árásargirndin og hraðinn var síðan tekinn frá harðkjarna og crust pönki. Í Birmingham á Englandi fæddist síðan grindcore. Sömu ömurlegu aðstæður og ólu af sér Black Sabbath sköpuðu hljómsveitir á borð við Napalm Death. Þeir tóku fátæktina og ömurleikann og gerðu tónlist sem endurspeglaði þessar aðstæður. Þeirra fyrsta plata Scum var endurspeglun á samfélagi sem var að rotna að innan. Á plötunni voru 28 lög og stysta lag sem hefur verið tekið upp, you suffer, sem er aðeins ein sekúnda að lengd. Aðrar hljómsveitir sem fylgdu í fótspor Napalm Death voru Carcass, Sore throat og Extreme Noise Terror. Með Napalm Death þá varð Carcass ein frægasta grindcore hljómsveit í heimi. Upphaflega spilaði hún D-beat pönk en færðist yfir í þessa ofbeldisfullu stefnu með plötunni Reek of Putrefaction. Ólíkt Napalm Death sem fjallaði aðallega um félagsleg mál, þá voru meðlimir Carcass heillaðir af mannslíkamanum. Þeir höfðu sankað að sér bókum um anatómíu og læknisfræði. Bækurnar voru innblástur textasmíðanna og Carcass voru þar með fyrsta gore grind hljómsveitin. Í upphafi vildu engin plötufyrirtæki styðja svona tónlist. Til þess að geta komið sér á framfæri var því afskaplega mikil DIY vitund bæði hjá hljómsveitum og aðdáendum. Tapetrading eða spóluskipti voru lykillinn á því að kynnast öðrum hljómsveitum og dreifa sinni eigin tónlist. Það fór þannig fram að hljómsveit tók eitthvað upp, setti á spólu og gaf út í einhverjum eintökum. Sá sem fékk eintak afritaði sitt eintak og lét aðra fá sem gerðu það sama. Spóluskipta netið náði útum allan heim og var afar afkastamikið og keppst var um að reyna eignast hvert einasta demó sem gefið var út. Annað sem var líka mikilvægt voru tónlistarblöð sem aðdáendur gáfu út. Þar gat maður bæði lesið sér til um allar hljómsveitirnar og sett þig í samband við þær. Hljómsveitir skipust því reglulega á bréfum og spólum heimsálfanna á milli. Uppfrá þessu mynduðust litlar en metnaðarfullur senur útum allan heim. Í Bandaríkjunum voru það hljómsveitir á borð við Repulsion, Terrorizer og Assück sem gáfu allar út áhrifamiklar plötur. Terrorizer með World Downfall, Repulsion með Horrifier, Assück með Anticapital. Nútíminn. Síðan að Scum kom út hefur stefnan vaxið og dafnað. Hún hefur þroskast og blandast öðrum stefnum og alið af sér margar undirstefnur. Það er náttúrulegt að blanda sumum stefnum saman eins og svartamálmi og dauðarokki. Hatrið og tómhyggjan sem einkennir svartamálm er fullkominn blanda við keyrsluna og reiðina sem einkennir grindcore, hljómsveitir eins og Anaal Nathrakh spila í þessum stíl. Eins er það þunginn og þykki hljómurinn sem dauðarokkið hefur, en Napalm Death færðu sig einmitt í byrjun 10. áratugarins yfir í þennan stíl. Rafgrind hefur sótt í sig veðrið á seinustu árum. Hljómsveitin the Locust standa þar fremstir í flokki. The Locust sættu mikillar gagnrýni frá íhaldssömum aðdáendum í upphafi fyrir að blanda saman hljóðgervlum og öðrum raftónlistaráhrifum við grindcore.Grindcore hefur hins vegar alltaf átt góð samskipti við raftónlistargreinina, þá sérstaklega hráa raftónlist eins og noise. Aðrar stefnur sem hafa komið undan grindcore eru meðal annars powerviolence og pornogrind. Powerviolence er grindcore án allra þungarokks áhrifana. Sami hraði, engin áhersla á melódíur og hrátt. Sama reiði sem einkennir grindcore og sama félagslega meðvitund. Pornogrind er síðan eins og nafnið gefur til kynna, grindcore sem einblínir á grófar klám fantasíur. Ísland. Í langan tíma var Forgarður Helvítis eina starfandi grindcore hljómsveitin. Hún var stofnuð árið 1990 og eftir hana liggja nokkrar demó plötur og breiðskífan Gerningaveður. Af ungum sveitum er hægt að nefna Logn, World Narcosis og Manslaughter José Luís Peixoto. Jose Luis Peixoto (fæddur 4. september 1974 í Galveias og Portalegre, Portúgal) er portúgalskur rithöfundur. Fyrsta skáldsaga hans vann hin virtu Jose Saramago-bókmenntaverðlaun. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á tuttugu tungumál. Peixoto, José Luís Jere Burns. Jere Burns (fæddur Jerald Eugene Burns, 15. október 1954) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Dear John, Something So Right og Justified. Einkalíf. Burns er fæddur og uppalin í Cambridge, Massachusetts. Útskrifaðist hann með BA-gráðu í bókmenntum frá Massachusetts-háskóla í Amherst og stundaði síðan nám við "Tisch School of Arts" við New York-háskólann Leikhús. Burns hefur komið fram í leikritum á borð við "Hairspray", "After the Night and the Music", "Diva" og Don Juan. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Burns var árið 1970 í "The Psychiatrist". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Crime Story", "Down the Shore", "Just Shoot Me", "The Outer Limits", "Las Vegas", The King of Queens, Psych, "Off the Map". Árið 1988 þá var honum boðið hlutverk í Dear John sem Kirk Morris, sem hann lék til ársins 1992. Lék hann síðan í Something So Right sem Jack Farrell frá 1996-1998. Burns hefur leikið stór gestahlutverk í þáttum á borð við "Good Morning, Miami", "Help Me Help You", "Surviving Suburbia", Breaking Bad og Burn Notice. Burn hefur síðan 2010 leikið Wynn Duffy í Justified. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Stamile var árið 1986 í "Touch and Go". Hefur han síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Hit List", "Greedy", "Crocodile Dundee in Los Angeles" og "Otis". Tenglar. Burns, Jere Pólskt słot. Pólskt slot (pólska: "polski złoty") er gjaldmiðill Póllands. Eitt slot skiptist í 100 "groszy" (eintala: "grosz"). Orðið "złoty" merkir „gullinn“ á pólsku. Pólland er skuldbundið því að taka upp evruna á einhverjum tímapunkti, samkvæmt skilyrðum aðildar að Evrópusambandinu. Pólland varð aðildaríki Evrópusambandsins árið 2004 og síðan þá tíma hefur verið rætt um að Pólland yrði meðlimur evrusvæðisins. Vegna verðbólgu á tíunda áratugnum varð slotið endurmetið og frá og með 1. janúar 1995 jafngildu 10.000 gömul slot (PLZ) einu nýju sloti (PLN). Norsk króna. Norsk króna (norska: "norsk krone", nýnorska: "norsk krona") er gjaldmiðill Noregs. Ein norsk króna skiptist í 100 aura ("øre"). Sænsk króna. Sænsk króna (sænska: "svensk krona", fleirtala: "kronor") er gjaldmiðill Svíþjóðar. Ein sænsk króna skiptist í 100 aura ("öre") en allar auramyntir voru teknar úr notkun 30. september 2010. Krónan hefur verið gjaldmiðill Svíþjóðar síðan árið 1873 þegar hún leysti ríkisdalinn af hólmi. Essence Atkins. Essence Uhura Atkins (fæddur 1972) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Atkins, Essence Telma Hopkins. Telma Louise Hopkins (fæddur 1948) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Hopkins, Telma Ungversk fórinta. Ungversk fórinta (ungverska: "Magyar forint") er gjaldmiðill Ungverjalands. Ein fórinta skiptist í 100 "fillér" en þessi skipting er ekki lengur notuð. Lettneskt lat. Lettneskt lat (lettneska: "Latvijas lat") er gjaldmiðill Lettlands. Eitt lat skiptist í 100 hundraðshluta ("santīms", fleirtala: "santīmu"). Tóshíro Mífúne. Tóshíro Mífúne (1. apríl 1920 – 24. desember 1997) var japanskur leikari sem lék í mörgum af frægustu kvikmyndum Akira Kurosawa. Tenglar. Mífúne, Tóshíro Danskt stjórnarfar. Í Danmörku er þingbundin konungsstjórn og fara kosningar til þingsins fram á fjögura ára fresti. Þingmenn eru 179 og þar af stitja tveir þingmenn frá Grænlandi og tveir frá Færeyjum á þinginu. Drotninginn skipar venjulega formann stærsta stjórnmálaflokksins sem Forsætisráðherra. Þjóðhátíðardagur Dana er 5. júní. Strobilurus esculentus. Hatturinn nær allt að 3 cm í þvermál; oftast brúnn eða hvítur. Stilkurinn er grár. Biberach an der Riss. Biberach an der Riss ("...Riß") er bær í Baden-Württemberg í Þýskalandi. Þar búa 32.394 manns (2010). Ducati. Ducati Motor Holding er ítalskt fyrirtæki sem framleiðir mótorhjól. Fyrirtækið var stofnað var árið 1926. Ducati 749. Ducati 749 er mótorhjól sem framleitt var af ítalska fyrirtækinu Ducati frá 2003 til 2006. Armageddon (breiðskífa Aria). Armageddon (rússneska: "Армагеддон") er 10. breiðskífa Aria. Feniks. Feniks (rússneska: "Феникс") er 11. breiðskífa Aria. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1995. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1995 var 40. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Dyflinni í Írlandi. 1995 Kolybel'naya dlya vulkana. Kolybel'naya dlya vulkana (rússneska: "Колыбельная для вулкана") var framlag Rússlands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1995. Þýðing á titli lagins er "Vögguvísa fyrir eldfjallið". Í lok atkvæðagreiðslunar hafði lagið náð 17 stigum og lenti í sama sæti, 17. sæti, sem er versti árangur fyrir Rússlands í sögu þeirra í keppnini. Lost and Forgotten. Lost and Forgotten er framlag Rússlands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2010. Minn hinsti dans. Minn hinsti dans var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1997 og var flutt af Páli Óskari. The West Wing. "The West Wing (Vesturálman)" er bandarískur sjónvarpsþáttur sem fjallar um æðstu starfsmenn Hvíta hússins í Washington og líf þeirra. Höfundurinn að þættinum er Aaron Sorkin. Þátturinn fékk jákvæða gagnrýni bæði frá gagnrýnendum, stjórnmála prófessorum og fyrrverandi starfsmönnum Hvíta hússins. Framleiddar voru sjö þáttaraðir og var fyrsti þátturinn frumsýndur 22. september 1999. Hugmynd og þróun. Þátturinn var hannaður af Aaron Sorkin. Samkvæmt DVD lýsingu ætlaði Sorkin sér að þátturinn fylgdi eftir Sam Seaborn og öðrum æðstu starfsmönnum og átti forsetinn aðeins að vera í sérstöku gestahlutverki. Samt sem áður jókst hlutverk Bartlets með tímanum og eftir því sem leið á seríuna. Jákvæð gagnrýni bæði frá almenningi og gagnrýnendum gagnvart hlutverki Sheens sem Bartlet gerði það að verkum að hlutverk Lowes minnkaði. Þar að auki, samkvæmt Sorkin, þá minnkaði söguþráður Sams en jókst hjá Josh Lyman. Þessi breyting er ein af þeim ástæðum fyrir því að Lowe yfirgaf þáttinn. Fyrstu fjórar þáttaraðirnar þá skrifaði Sorkin næstum hvern einasta þátt. Notaðist hann við rannsóknarefni, uppköst að senum og handritsuppköst starfsmanna sinna. Auk þess notaði hann stundum söguþræði, þáttatitla, nöfn persóna, og leikara úr "Sports Night", grínþætti sem hann hafði þróað en þar varð til orðræðu stíll hans sem sást vel í The West Wing. Orðræðu stíll hans var taktfastur, glefsinn og vitsmunalega stríðinn. Meðframleiðsustjórinn Thomas Schlamme bjó til "ganga og tala" senurnar, þar sem persónurnar tala saman og ganga milli tveggja staða. Þessar senur urðu eitt af helstu einkennum þáttarins. Skrif Sorkins leiddu oft til aukins kostnaðar og breytinga á áætlunum. Yfirgaf hann þáttinn eftir fjóru þáttaröðina vegna persónulegra vandamála. Thomas Schlamme yfirgaf einnig þáttinn eftir fjórðu þáttaröðina. Við tók John Wells sem gerðist yfirframleiðslustjóri eftir brottför þeirra. Í viðtali á Seríu 1, DVD disknum, segir Bradley Whitford að hann hafi verið í byrjun ráðinn sem Sam, þó að Aaron Sorkin hafi hannað persónuna Josh sérstaklega fyrir hann. Í sama viðtali þá segir, Janel Moloney að hún hafi farið í áheyrnarpróf fyrir C.J. og að Donna, átti ekki að vera mikilvæg peróna. Leikararnir Alan Alda og Sidney Poitier voru skoðaðir fyrir hlutverk forsetans, Judd Hirsch fyrir Leo, Eugene Levy fyrir Toby, og CCH Pounder fyrir C.J. Framleiðendur. Þátturinn var framleiddur af "Warner Bros. Television". Aaron Sorkin var yfirframleiðslustjóri fyrstu fjóru þáttaraðirnar áður en hann yfirgaf þáttinn. Thomas Schlamme og John Wells voru einnig framleiðslustjórar en Schlamme yfirgaf einnig þáttinn eftir fjórðu þáttaröðina. Eftir stóð Wells sem yfirframleiðslustjóri. Tökustaðir. Þátturinn var aðallega tekinn upp á "Stage 23" í "Warner Brothers Burbank Studios" í Burbank, Kaliforníu. Einnig var hann tekinn upp víða um Bandaríkin og í Kanada. Söguþráður. The West Wing fylgir eftir æðstu starfsmönnum forseta Bandaríkjanna og lífi þeirra. Leikaraskipti. Leikkonan Moira Kelly var aðeins hluti af fyrstu þáttaröðinni. Aaron Sorkin sagði að persóna hennar hafði ekki virkað og því hafi hún verið tekin út. Rob Lowe var fyrsti aðalleikarinn til þess að yfirgefa þáttinn en hann gerði það eftir fjórðu þáttaröðina. Í stað hans var Joshua Malina ráðinn sem Will Bailey árið 2002. Leikkonan Emily Procter lék stórt gestahlutverk sem repúblikana-lögfræðingurinn Ainsley Hayes, frá 2000-2002. Leikkonan Lily Tomlin var ráðin til að leika forsetaritarann Deborah Fiderer árið 2002 í staðinn fyrir Kathryn Joosten en persóna hennar lést í bílslysi. Leikkonan Mary McCormack kom fyrst fram í fimmtu þáttaröðinni og varð síðan aðalleikari í sjöttu þáttaröðinni. Árið 2004 voru leikararnir Alan Alda og Jimmy Smits ráðnir til þess að leika forsetaframbjóðendur flokkanna. Leikkonan Kristin Chenoweth kom fyrst fram í sjöttu þáttaröðinni og varð síðan aðalleikari í sjöundu þáttaröðinni. Leikarinn John Spencer, sem lék Leo McGarry, lést úr hjartaáfalli 16. desember 2005 — aðeins ári eftir að persóna hans fékk hjartaáfall í þættinum. Stutt en hjartnæm skilaboð frá Martin Sheen birtust fyrir þáttinn "Running Mates", sem var fyrsti nýji þátturinn eftir andlát Spencers. Andlát persónu Spencers var fyrst fjallað um í byrjun þáttarins "Election Day Part I", sem var sýndur 2. apríl 2006. Fyrsta þáttaröð. Í fyrstu þáttaröðinni þá er núverandi stjórn búin að vera við völd í um tvö ár og á erfitt með að koma sér fyrir, ásamt því að koma lagafrumvörpum í gegn. Önnur þáttaröð. Í annarri þáttaröðinni þá er fylgst með eftirmála skotárásarinnar við Rosslyn, þingkosningar verða og hneykslismál skekur Hvíta húsið. Þriðja þáttaröð. Í þriðju þáttaröðinni er unnið að kosningabaráttunni og áhrifum innlendra og erlendra hryðjuverkaárása. Fjórða þáttaröð. Í fjórðu þáttaröðinni er fylgst með byrjun annars forsetatímabilsins og ófyrirsjáanlegir atburðir hafa mikil áhrif á lífs fjölskyldu forsetans og starfsmannanna sjálfa. Fimmta þáttaröð. Í fimmtu þáttaröðinni þarf forsetinn að berjast bæði um mál utan á við og inn á við í landinu. Sjötta þáttaröð. Í sjöttu þáttaröðinni er fylgst með for-kosningunum um hver muni vera forsetaefni flokkanna, á meðan reynir forsetinn að byggja upp arfleið sína og berjast við kvilla MS sjúkdómsins. Sjöunda þáttaröð. Í sjöundu þáttaröðinni er fylgst með forsetabaráttunni milli demókrata og repúblikana, á sama tíma þarf forsetinn að finna út hver lak háttsettum leynilegum upplýsingum um hernaðar geimflaug. Raunveruleikinn. Þátturinn sýnir ekki alveg réttu sýnina á lífinu í Vesturálmunni; til dæmis segir Susan, dóttir forsetans Geralds Ford: „Ég get ekki horft á þáttinn. Þeir fara til vinstri og hægri þegar það er ekki hægt“. Fyrrverandi starfsmenn hafa staðfest þetta, samt sem áður þá sýnir þátturinn "andrúmsloftið" í Vesturálmunni. Lawrence O'Donnell, fyrrverandi aðstoðarmaður öldungarþingmanns, og Eli Attie, fyrrverandi aðstoðarmaður í Hvíta húsinu og kosningaræðuhöfundur, voru báðir handritshöfundar við þáttinn (O'Donnell í seríum 1-2 og 5-7, Attie í seríum 3-7). Fyrrverandi Hvíta húss fréttaritarinn Dee Dee Myers og skoðanakönnuðurinn Patrick Caddell voru ráðgjafar við þáttinn. Aðrir fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins sem einnig voru ráðgjafar við þáttinn voru Peggy Noonan og Gene Sperling. Heimildarmynd í seríu 3 bar saman raunverulegt líf Vesturálmunnar við þáttinn. Fjölmargir fyrrverandi starfsmenn Vesturálmunnar hrósuðu þættinum fyrir hversu raunverulega söguþráðurinn var. Meðal þeirra sem hafa hrósað þættinum er ráðgjafinn David Gergen, utanríkisráðherrann Henry Kissinger, starfsmannastjórinn Leon Panetta, sérstaki starfsmannastjórinn Karl Rove, og fyrrverandi forsetarnir Jimmy Carter og Bill Clinton. Flestir gagnrýnendur lofuðu "The West Wing" fyrir skrifin, á meðan aðrir gagnrýndu hversu þátturinn var óraunverulega bjartsýnn. Neikvæða gagnrýnin var mestöll gagnvart einfaldleika persónanna. Sjónvarpsgagnrýnandinn Heather Havrilesky spurði: „Undir hvaða steini komu þessar skepnur en það sem skiptir mestu máli, hvernig ferðu frá því að vera saklaus þúsundfætla í að verða starfsmaður Hvíta hússins, án þess að vera spillt á leiðinni af hinni dökku hlið stjórnmálanna?“ Félagsleg áhrif. Þrátt fyrir mikið lof fyrir seríuna, þá taldi Sorkin að „skylda okkar er að heilla ykkur eins lengi og þið biðjið okkur um það“. Matthew Miller, fyrrverandi aðstoðarmaður Hvíta hússins, segir að Sorkin „heilli áhorfendur með því að gera mannlegu hlið stjórnmálanna raunverulegra – eða mun raunverulegra en sú mynd sem við sjáum í fréttunum“. Miller nefnir einnig með því að sýna stjórnmálamenn með samkennd hafi þátturinn búið til „niðurrifs keppinauta“ miðað við þá hugmynd sem sést í miðlum um stjórnmál. Í ritgerðinni „The West Wing and the West Wing“ eftir Myron Levine er hún sammála því sem hefur verið sagt að þátturinn „sýni jákvæða hugmynd um almenningsþjónustu og heilbrigða sýn á þeim staðalímyndum sem almenningurinn hefur á Washington“. Dr. Staci L. Beavers, aðstoðarprófessor í stjórnmálafræði við "Kaliforníu State, San Marcos háskólann", skrifaði "The West Wing as a Pedagogical Tool" og spurði hvort hægt væri að nota "The West Wing" sem kennsluefni. Komst hún að því að þótt hlutverk seríunnar væri afþreyingarefni, þá býður "The West Wing" upp á frábært kennsluefni."The West Wing" býður upp á dýpri sýn á stjórnmálaferlið sem vanalega eru uppskrúfaðar röksemdir í þáttum á borð við "Face the Nation" og "Meet the Press". Samt sem áður þá geta staðreyndir ákveðinna röksemda skyggt á sjónarmið áhorfenda um persónur þáttarins. Beavers bendir einnig á að ákveðnar persónur sem voru með öðruvísi sjónarmið voru oftast nær "vondar" í augum áhorfendans. Telur Beaver að gagnrýnin greining á pólitíska skoðun þáttarins gæti gefið áhorfendunum aukna þekkingu. Félagsleg áhrif þáttarins mátti sjá 31. janúar 2006, þegar greint var frá því að "The West Wing" hafi átt þátt í því að lagafrumvarp sem stutt var af stjórn Tonys Blair hafði verið hafnað í atburði sem kallaðist "West Wing Plot". Planið var búið til eftir að meðlimur Íhaldsflokksins hafði séð þáttinn "A Good Day", þar sem demókratar stoppa lagafrumvarp repúblikana um takmörkun stofnfrumurannsókna. „Vinstri vængurinn“. Blaðamaðurinn Naomi Pfefferman nefndi "The West Wing" nafninu "The Left Wing..." vegna þeirrar túlkunar sem hin fyrirmyndar frjálslynda stjórn og að viðurnefnin hafi öll verið notuð af gagnrýnendum þáttarins úr röðum repúblikana. Chris Lehmann, fyrrverandi ritstjóri og áhorfandi frá "The Washington Post", skilgreindi þáttinn sem sögulegt yfirlit forsetatímabils Clintons. Á sama hátt þá höfðu margir repúblikanar lofað þáttinn frá byrjun, jafnvel áður en Sorkin yfirgaf þáttinn og hann færðist yfir á miðjuna. Mackubin Thomas Owen skrifar í grein sinni "Real Liberals versus The West Wing" frá 2001, „Þó að stjórn hans sé frjálslynd hefur Bartlet kosti sem íhaldsmenn dást að. Hann fer eftir stjórnarskránni og lögum. Hann er trúr eiginkonu sinni og dóttur. Það að vera ótrúr eiginkonu sinni kæmi honum ekki í hug. Hann er ekki aumingi þegar kemur að utanríkismálum — ekkert "quid pro quo" fyrir hann.“ Blaðamaðurinn Matthew Miller skrifaði: „Þó að þátturinn sýni frjálslynd sjónarmið, þá sýnir hann raunverulegri mannsmynd af því fólki sem er á bakvið forsíður blaðamanna Washingtons í dag.“ DVD. Allar sjö þáttaraðirnar af "The West Wing" hafa verið gefnar út á DVD á svæðum 1 og 2. Verðlaun og tilnefningar. Hollywood Makeup Artist and Hair Stylist Guild-verðlaunin Je ne sais quoi. Je ne sais quoi var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2010 og var flutt af Heru Björk Þórhallsdóttur. Coming Home. Coming Home eða Aftur heim var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2011 og var flutt af Vinum Sjonna. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992 var 37. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Málmey í Svíþjóð. 1992 Örsaga. Örsaga er listform og tegund af smásögu sem inniheldur nákvæmlega fimmtíu orð, að titilinum undanskildum. Örsögur voru fyrst hugmynd blaðamanninsins Brian Aldis í dagblaðinu "The Daily Telegraph". Christopher Lee. Sir Christopher Frank Carandini Lee (f. 27. maí 1922) er enskur leikari sem er einkum þekktur fyrir að hafa leikið illmenni í kvikmyndum. Hann varð fyrst frægur í hlutverki Drakúla greifa í nokkrum kvikmyndum frá Hammer Film Productions. Síðar lék hann meðal annars Francisco Scaramanga í Bond-myndinni "Maðurinn með gylltu byssuna", Sarúman í "Hringadróttinssögu" og Dooku greifa í Stjörnustríðsmyndum II og III. NGC 2683. NGC 2683 er þyrilþoka. Þokan er í 20 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Davíð (Donatello). Davíð er höggmynd eftir Donatello. Kapellumeistari. Kapellumeistari er listrænn stjórnandi hljómsveitar. Indónesíska. Indónesíska ("Bahasa indonesia") er opinbert tungumál í Indónesíu. Indónesíska er staðlað málsnið fengið úr malajísku. Í raun er málið einfölduð malajíska sem áður var algengt að nota sem verslunarmál víða í indónesíska eyjaklasanum en var gert að opinberu almennu samskiptamáli í Indónesíu þegar landið fékk sjálfstæði árið 1945. Meirihluti Indónesa eiga sér annað móðurmál. Talið er að um 23 milljónir tali indónesísku sem móðurmál en um 140 milljónir sem annað mál. Ein ástæða þess að ákveðið var að nota malajísku sem opinbert tungumál var að allir íbúar landsins stæðu jafnir gagnvart málinu. Síðan þá hefur málið þróast sjálfstætt sem þjóðtunga Indónesíu og orðið fyrir áhrifum frá hinum ýmsu tungumálum sem töluð eru í landinu. Þannig hefur málið smám saman orðið ólíkara þeirri malajísku sem töluð er í Malasíu og Brúnei. Þýróxín. Þýróxín er hormón sem myndast í skjaldkirtli. Þýróxín örvar efnaskipti, bruna, hjartslátt og öndun. Forseti Rússlands. Forseti Rússneska Sambandsríkisins (rússneska: "Президент Российской Федерации"), eða Forseti Rússlands (rússneska: "Президент России") er þjóðhöfðingi Rússlands. Forsetinn hefur verið Vladímír Pútín síðan 7. maí 2012. Tengt efni. * Listi yfir forseta Rússlands. * Rússlandsforsetar Forsætisráðherra Rússlands. Forsætisráðherra Rússlands (rússneska: "Председатель Правительства Российской Федерации" eða "Премьер-министр России") er leiðtogi ríkisstjórnar Rússlands og hefur það hlutverk með höndum að stýra og samræma vinnu annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Núverandi forsætisráðherra Rússlands er Dímítrí Medvedev. Rúmenskt lei. Rúmenskt lei (rúmenska: "Leu românesc") er gjaldmiðill Rúmeníu. Eitt lei skiptist í 100 "bani". Orðið "lei" þýðir „ljón“ á rúmensku. Rúmenía er skuldbundin því að taka upp evruna á einhverjum tímapunkti, samkvæmt skilyrðum aðildar að Evrópusambandinu. Rúmenía varð aðildaríki Evrópusambandsins árið 2007 og gert er ráð fyrir að landið verði meðlimur evrusvæðisins fyrir árið 2015. Stjórnarskrá Rússlands. Stjórnarskrá Rússlands (rússneska: "Конституция России") eru æðstu lög Rússlands sem voru samþykkt af stjórnlagaþinginu 12. desember 1993. Stjórnarskrá Rússlands er nánast óbreytanleg en til þess að breyta henni þarf mikinn meirihluta á þingi og auk þess í mörgum tilfellum, þjóðaratkvæðagreiðslu. Henni hefur þó verið breytt nokkrum sinnum. Búlgarskt lef. Búlgarskt lef (búlgarska: "български лев") er gjaldmiðill Búlgaríu. Eitt lef skiptist í 100 "stotinka". Orðið "lef" á uppruna sinn í gömlu búlgarsku orði yfir „ljón“. Lefið er tengt við evruna á genginu 1 EUR = 1,95583 BGN. Búlgaría er skuldbundin því að taka upp evruna á einhverjum tímapunkti, samkvæmt skilyrðum aðildar að Evrópusambandinu. Búlgaría varð aðildaríki Evrópusambandsins árið 2007 og gert er ráð fyrir að landið verði meðlimur evrusvæðisins fyrir árið 2015. Litháískt litas. Litháískt litas eða lít (litháíska: "Lietuvos litas") er gjaldmiðill Litháens. Eitt litas skiptist í 100 hundraðshluta ("centas", fleirtala: "centai"). Til stóð að Litháen tæki upp evruna 1. janúar 2010 en vegna verðbólgu og efnahagskreppunnar á evrusvæðinu hefur upptökunni verið frestað til 1. janúar 2014. Erich Maria Remarque. Erich Maria Remarque á Hotel Curhaus í Davos árið 1929. Erich Maria Remarque, fæddur Erich Paul Remark, (22. júní 1898 – 25. september 1970) var þýskur rithöfundur, sem er einna þekktastur fyrir skáldsögu sína "Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum" (þýska: "Im Westen nichts Neues"), sem fjallar um lífið í fyrri heimsstyrjöld. Remarque gegndi sjálfur herþjónustu á Vesturvígstöðvunum í heimsstyrjöldinni fyrri. Bókin var bönnuð í Þýskalandi á tímum Þriðja ríkisins. Hún kom út í íslenskri þýðingu Björns Franzsonar árið 1971. Remarque, Erich Maria Aldous Huxley. Aldous Leonard Huxley (26. júlí 1894 – 22. nóvember 1963) var enskur rithöfundur og einn þekktasti meðlimur Huxley-fjölskyldunnar. Hann er þekktastur fyrir skáldsögur sínar, einkum dystópíuna "Veröld ný og góð" (enska: "Brave New World"), sem kom út í íslenskri þýðingu Kristjáns Oddssonar árið 1988. Huxley er einnig þekktur fyrir ritgerðir sínar um ýmis efni auk þess sem hann gaf út smásögur, kvæði og ferðasögur. Hann var einnig ritstjóri tímaritsins "Oxford Poetry". Huxley varði síðustu árum ævi sinnar í Bandaríkjunum og bjó í Los Angeles frá árinu 1937 til æviloka. Ítarefni. Huxley, Aldous Ernst Mach. Ernst Mach (18. febrúar 1838 – 19. febrúar 1916) var austurrískur eðlisfræðingur og heimspekingur, sem er þekktastur fyrir framlag sitt til eðlisfræðinnar og rannsókna á höggbylgjum. Vísindaheimspeki hans hafði töluverð áhrif á rökfræðilega raunhyggju og gagnrýni hans á Newton varðaði veginn fyrir afstæðiskenningu Einsteins. Mach, Ernst Indóevrópumenn. Líkleg útbreiðsla indóevrópumanna 4000 – 1000 f.Kr. Bleika svæðið sýnir upphafleg heimkynni, dökkrauða svæðið útbreiðslu indóevrópumanna um 2500 f.Kr. og ljósrauða svæðið útbreiðslu þeirra um 1000 f.Kr. Indóevrópumenn eða frum-indóevrópumenn voru menn sem töluðu tungumálið frum-indóevrópsku, sem indóevrópsk og indóírönsk tungumál eru komin af. frum-indóevrópska er einungis þekkt í endurgerð byggðri á sögulegum málvísindum en er ekki til í rituðum hemildum. Talið er uppruna indóevrópumanna megi rekja til svæðisins norðvestan við Kaspíahaf um 4000 f.Kr. Indóevrópumenn voru fjölgyðistrúar en dýrkuðu einkum guðinn *Dyeus ph2tēr (gr. "Ζευς (πατηρ) / Zeus (patēr)" (þ.e. Seifur faðir); lat. "Iupiter" hjól og plóg og héldu húsdýr, meðal annars hunda, hesta, nautgripi og sauðfé. Næturverðirnir. Næturverðirnir eftir hollenska myndlistarmanninn Rembrandt van Rijn frá árinu 1642. Næturverðirnir er eitt frægasta málverk hollenska myndlistarmannsins Rembrandts van Rijn. Það er til sýnis á Rijksmuseum í Amsterdam og er eitt þekktasta verk safnsins. Heilabólga. Heilabólga er bólga í heilanum, sem getur verið af völdum ýmiss konar veiru- eða bakteríusýkingar. Meðal einkenna eru höfuðverkur, hiti, slappleiki, þreyta og ógleði, jafnvel skjálfti, krampi, lömun, ofskynjun og minnistap. Margrét Sverrisdóttir (leikkona). Margrét Sverrisdóttir leikkona tók við stjórn Stundarinnar okkar veturinn 2011 til 2012. Hún leikur álfinn Skottu og mun snúa aftur sem Skotta næsta haust. Margrét er gift Oddi Bjarna sem er í hljómsveitinni Ljótu hálvitarnir. Hún útskrifaðist 2003 með BA-gráðu (Hons) í leiklist frá The Arts Educational School of Acting. Eggjahræra. Eggjahæra eða hrærð egg er réttur búinn til úr hrærðum eggjahvítum og rauðum. Eggjunum er hellt út í pönnu og hrærð stanslaust þangað til ystingar myndast. Yfirleitt er vökva eins og rjóma, mjólk, smjöri, vatni eða olíu bætt við eggin þannig að mjúk áferð verði til. Ásamt vökva er oft bætt við kryddum eftir smekk. Eggin má bera fram með meðlætum svo sem beikoni, osti, sveppum eða laxi, stundum á ristuðu brauði. Spælegg. Spælegg eða spælt egg (úr dönsku "spejlæg" „spegilegg“) egg sem hefur verið pönnusteikt í einhvers konar fitu. Spælegg eru oft borðuð með morgunmat í enskumælandi löndum. Spælegg telst gott þegar eggjahvítan er orðið stífnuð en eggjarauðan er ennþá fljótandi en sums staðar í heimi er eggið steikt báðum megin. Stundum er málmhringur settur í pönnuna og eggið svo steikt í honum þannig að það verði alveg kringlótt. Steikarpanna. Steikarpanna er flatbotnuð panna sem notuð er til steikingar. Steikarpönnur eru yfirleitt 200 til 300 mm í þvermáli, með lágum hliðum sem snúast út úr og löngu handfangi. Flestar steikarpönnur eru úr málmi eins og steypujárni, áli, ryðfríðu stáli eða kopar. Húðaðar pönnur eru með húð, yfirleitt úr efni eins og teflon, þannig að matur festist ekki á pönnuna. Svona steikarpönnur eru mjög algengar í dag en þegar þær komu fyrst á markaðinn var húðin gæðaminni og yfirleitt eyddist hún með tímanum. Ekki er mælt með því að áhöld úr málmi séu notuð með svona pönnum út af því að þau valda húðinni tjóni. Pési rófulausi í Ameríku. "Pési rófulausi í Ameríku" (sænska: "Pelle Svanslös i Amerikatt") er sænsk teiknimynd frá 1985. Hún er framhald "Pésa rófulausa". Myndin fjallar um köttinn Pésa sem missti rófuna þegar að rotta beit hana af. Hann fer til Ameríku þar sem hann vonast til þess að indíáni galdri rófuna aftur á hann. Stjörnuleikur NBA-deildarinnar. Stjörnuleikur NBA-deildarinnar er árlegur leikur á milli úrvalsliða vestur- og austurdeildarinnar. Hann var fyrst haldin í Boston Garden 2. mars 1951. Hefð er fyrir að halda leikinn þegar leiktímabil NBA-deildarinnar er hálfnað. Þátttakendur eru valdir á tvo vegu. Byrjunarliðin eru valin með kosningu aðdáenda og varamenn eru valdir af þjálfurum í deildinni. Liðunum er stýrt af þeim tveimur þjálfurum sem hafa besta árangurinn í austur- og vesturdeild. Hasse Ekman. Hasse Ekman (fæddur 10. september 1915, látinn 15. febrúar 2004) var sænskur leikarar og leikstjóri. Hann starfaði í næstum fimmtíu ár og á þeim tíma leikstýrði hann yfir 40 kvikmyndum, skrifaði flest handritin sjálfur. Gösta Ekman. Gösta Ekman (fæddur 28. desember 1890, látinn 12. janúar 1938) var sænskur leikarar. Mauritz Stiller. Mauritz Stiller (fæddur 17. júlí 1883, látinn 18. nóvember 1928) var sænskur leikarar og leikstjóri. Údmúrtía. Údmúrtía er sjálfstjórnarlýðveldi í evrópska hluta rússneska sambandríkisins. Flatarmál lýðveldisins er 42.000 ferkílómetrar og íbúar um 1,5 milljónir. Rússar eru fjölmenntasta þjóðarbrotið. Þar á eftir koma Údmúrtar sem tala finnskt-úgrískt tungumál. Íslandsmót í knattspyrnu innanhúss. Íslandsmót innanhúss (oft nefnt Futsal) er haldið ár hvert og spilað í nokkrum riðlum í nóvember og desember. Úrslitakeppni er að lokum kláruð á einni helgi í Laugardalshöll. Keppnin hefur verið haldin síðan 2008. Árið 2007 fór fram kynningarmót í Futsal í desember 2006 og janúar 2007, en ekki var keppt til úrslita heldur var mótið í einum riðli enda var aðeins um kynningarmót að ræða og fyrsta mótið var haldið árið eftir. Íslandsmeistarar í Futsal kvenna. Íslandsmót kvenna í knattspyrnu innanhúss hefur verið haldið síðan 2009. Fyrstu tvö árin var aðeins um úrslitakeppni að ræða. 2011 var aðeins um deildarkeppni að ræða. 2012 var fyrsta úrslitakeppnin eftir tveggja riðla keppni. Assassins. "Assassins" er tryllir sem Wachowski-bræðurnir skrifuðu ásamt Brian Helgeland, Richard Donner leikstýrði, og Sylvester Stallone, Antonio Banderas og Julianne Moore léku aðalhlutverkin í. Myndin kom út árið 1995. Póllandsbolti. Póllandsbolti (enska: Polandball), einnig þekktur sem landabolti, sló í gegn á þýsku spjallborðsíðunni krautchan.net 2009. Æðið gengur út á fjölda teiknimynda þar sem lönd eru táknuð með kúlulaga persónum sem oft tjá sig með brenglaðri ensku, gera grín af staðalímyndum og alþjóðatengslum landsins. Þessi teiknimyndastíll er kallaður Polandball (þrátt fyrir að engin persóna sé á meðal teiknimyndapersónanna fyrir hönd póllands) og landabolti (eða, sameiginlega, landaboltar). Polandball. Polandball hófst í Ágúst 2009 á milli pólskra netnotenda og annara netnotenda á drawball.com. Vefsíðan leyfir netnotendum að teikna hvað sem þeim langar til og að teikna yfir verk annara. Pólverjarnir tóku sig saman og teiknuðu pólska fánann á boltann með orðinu "Polska" skrifað á pólsku. Krautchan.net er þýskt spjallborð með reglulegum heimsóknum frá enskumælandi netnotendum. Upphafsmaður polandball er "Falco", breti sem bjó til æðið með Microsoft Paint. Ætlun hans var að koma pólverjanum "Wojak" úr jafnvægi. Eftir það voru póllands boltarnir teiknaðir af rússum. Polandball varð vinsælla í kjölfar flugslyssins 2010 þegar pólski forsetinn, Lech Kaczyński fórst. Forsetinn var táknmynd Póllands, sögu landsins, alþjóðatengsla þess og staðalímynda, með áherslu á stórmennskuæði og margbreytileika landsins. Samskipti á milli landabolta eru skrifuð á brotinni ensku, netslangri og í enda teiknimyndarinnar er pólland sem er vísvitandi táknað með rauðu yfir hvítt (eins og spegilmynd af pólska fánanum) oftast séður grátandi. Sumar Polandball teiknimyndir byggja á þeirri forsendu að Rússland getur flogið út í geiminn, en Pólland ekki. Ein af vinsælustu Polandball teiknimyndunum byrjar á því að jörðin eigi eftir að verða fyrir risastórum loftstein. Í kjölfarið fara öll lönd sem búa yfir geimferðar tækni frá jörðinni og fara um braut um jörðina. Í lok teiknimyndarinnar er Pólland enn á jörðinni og segir á bjagaðri ensku að pólland geti ekki farið út í geim. Á þennan gamansama mála, setja rússar alla umræðu um yfirburði ríkjanna í bið. Aðrir landaboltar. Endurgerð notanda af Ísland í Polandball-stíl. Polandball getur verið teiknimynd um önnur lönd, en oftast eru þær kallaðar Polandball, þrátt fyrir að þær geta einnig verið kallaðar landaboltar. Samkvæmt Lurkmore.to hefur Bæjaraland og ríki bandaríkjanna, Katalónía og Síbería sinn eigin bolta, á meðal annara. Sum lönd eru táknuð með öðrum formum en kúlu. Singapúr tekur form þrýhyrnings, Ísrael tekur form tenings (sem vísun í vísindi gyðinga), Kasakstan tekur form múrsteins og Bretland er sýnt með pípuhatt og einglyrni. Tómas Nikulásson (fógeti). Tómas Nikulásson (d. 23. eða 24. maí 1665) var danskur fógeti og umboðsmaður á Bessastöðum á 17. öld, alræmdur fyrir harðræði og yfirgang og yfirleitt illa þokkaður, jafnt af alþýðu og þeim sem meira máttu sín. Tómas er sagður hafa verið járnsmiður en keypt sig inn í embætti fógeta á Bessastöðum og umboðsmanns Henriks Bjelke höfuðsmanns. Flestar heimildir bera honum illa söguna en þó segir í Fitjaannál að hann hafi verið „vitur maður og framsýnn, þótti mörgum hann nokkuð óstilltur og yfirgangssamur; treystist þó varla neinn í móti að mæla“. Ýmsar sagnir eru til af ofbeldi sem hann beitti fólk, oft fyrir litlar eða engar sakir. Meðal annars barði hann að sögn hjákonu sína svo illa að hún var handlama til æviloka. Hann var fésæll og er sagður hafa þegið mútur til að veita mönnum embætti. Tómas drukknaði vorið 1665 á Faxaflóa ásamt fimm mönnum öðrum og fórst báturinn á litlu skeri fram undan Melum í Melasveit. „Ætlaði á Stapa að afsetja Matthías Guðmundsson sýslumann af Stapaumboði og setja Christoffer Roehr þar inn, ætlaði á Vestfjörðu að knýja fé af fjáðum mönnum,“ segir í Eyrarannál. Sagt er að með honum hafi skjalabók Viðeyjarklausturs farið í sjóinn því hann hafi haft hana með til að láta skrifa skjöl Stapaumboðs í hana. Eftir lát hans skrifaði Brynjólfur biskup Sveinsson höfuðsmanni og bað hann að skipa ekki neinn óþokka í embættið. Tómas Nikulásson var tvíkvæntur. Fyrri kona hans er óþekkt en 1664, ári fyrir lát sitt, giftist hann Elínu eða Elenu Pétursdóttur Höyer. Jane Goodall. Jane Morris Goodall (fædd Valerie Jane Morris-Goodall 3. apríl 1934) er breskur dýrafræðingur, fremdardýrafræðingur og mannfræðingur og sérstakur sendiherra Sameinuðu þjóðanna fyrir friði. Hún er talinn einn mesti sérfræðingur heimsins um simpansa og er þekktust fyrir 45 ára langan rannsóknarferil sinn á félagslegri hegðun og fjölskylduböndum viltra simpansa í Gombe Stream National Park í Tansaníu. Hún stofnaði Jane Goodall-stofnunina og hefur unnið mikið að verndun og velferð villtra dýra. Goodall hefur gefið út mikinn fjölda bóka. Tenglar. Goodall, Jane Goodall, Jane Goodall, Jane Menningar- og vísindahöllin í Varsjá. Menningar- og vísindahöllin í Varsjá Menningar- og vísindahöllin í Varsjá (pólska: "Pałac Kultury i Nauki", skammstöfun: "PKiN") er hæsta bygging Póllands, áttunda hæsta bygging Evrópusambandsins og er í 187 sæti í heiminum öllum. Hún var byggð á tíma Stalíns og var þá kölluð menningar- og vísindahöll Jósefs Stalíns (p. "Pałac Kultury i Nauki imienia Józefa Stalina"). Hætt var að kenna hana við Stalín þegar áhrif hans dvínuðu og nafn hans var líka fjarlægt af skilti í anddyrinu og höggmynd sem er í byggingunni sjálfri. Veröndin á 30. hæðinni (114 m yfir sjávarmáli) er vinsæll ferðamannastaður og er þar gott útsýni yfir borgina. Saga. Byggingarframkvæmdir hófust árið 1952 en þeim var lokið árið 1955. Höllin var gjöf stjórn Sovétríkjanna til Pólverja og var byggð eftir sovéskri hönnun, að mestu leyti reist af 3500 verkamönnum frá Sóvetríkjunum. Sextán hinna rússnesku verkamanna létust meðan á framkvæmdum stóð. Sovésku verkamennirnir bjuggu í nýju hverfi sem reist var á kostnað Pólverja og höfðu eigin kvikmyndahús, veitingastaði, félagsmiðstöð og sundlaug. Hönnun hallarinnar er mjög svipuð þeim skýjakljúfum sem reistir voru í Sovétríkjunum á þeim tíma, sérstaklega Ríkisháskólanum í Moskvu. Samt sem áður setti aðalarkitektinn Lev Rudnev pólskan svip á bygginguna, enda ferðaðist hann um Pólland og skoðaði pólskan arkitektúr til að leita sér innblásturs. Múrverk efst á gríðastóru veggjunum var gert eftir dæmum frá húsum í endurreisnarstíl og höllum í Kraká og Zamość. Stuttu eftir að húsið var opnað hélt Félag lýðræðissinnaðra unglinga hátíð þar. Margir tignir gestir skoðuðu höllina en þar komu líka fram margir frægir listamenn frá ólíkum löndum. Til dæmis voru þar tónleikar með Rolling Stones árið 1967 og var í fyrsta skiptið sem vestræn rokkhljómsveit lék austan járntjaldsins. Árið 1985 voru frægir tónleikar með Leonard Cohen haldnir þar. Menn bjuggust við að hann myndi láta til sín taka með pólitískum áherslum en hann kom sér hjá því með löngum inngangi fyrir tónleikana. Nútíminn. Höllin er eitt helsta kennileiti í Varsjáborg og hefur verið mjög umdeild bygging frá upphafi. Í fyrstu hötuðust margir Pólverjar við höllina sökum þess að þeir töldu hana tákn um yfirráð Sóvetríkjanna. Þetta er skoðun manna enn þann dag í dag. Sumir hafa líka sagt, hvað sem öllum pólitík líður, að byggingin hafi eyðilagt sjóndeildarhring gömlu borgarinnar og að hún falli illa að öðrum byggingum. Þeir sem búa í Varsjá kalla höllina mörgum gælunöfnum, meðal annars: "Pekin" (þýðir „Peking“ á pólsku en leitt af skammstöfuninni "PKiN"), "Pajac" („trúður“, hljómar svipað og "Pałac" á pólsku), "sprauta Stalíns", "fíllinn í blúndunærfötunum" eða "rússneska brúðkaupstertan". Nútildags er byggingin notuð sem sýningaraðstaða og skrifstofa. Hún er 231 m að hæð með turnspírunni sem ein og sér er 43 m há. Í höllinni eru 3288 herbergi á 42 hæðum, þar á meðal bíó, leikhús, minjasöfn, skrifstofur, bókabúðir og stór ráðstefnusalur sem rúmar allt að 3000 manns. Þar er einnig viðurkenndur háskóli, Collegium Civitas, sem er á 11. og 12. hæðum. Samtals er byggingin 123.000 m² að flatarmáli. Glasgow Rangers. Rangers Football Club er knattspyrnulið aðsetur í Glasgow, Skotlandi sem spilar í þriðju deild skosku Football League. Heimili jörð þeirra er Ibrox Stadium í suður-vestur af borginni. Stofnað árið 1872, Rangers var einn af tíu stofnandi meðlimir skoska Football League, og var í efstu deild Skotlands þar í lok 2011-12 tímabilsins. Árið 2012, The Rangers Football Club PLC varð gjaldþrota og færð gjöf, sem leiðir í gjaldþrotaskiptum þegar samkomulag gæti ekki náðst við kröfuhafa sína. Eignir þess, þar á meðal Rangers FC, ​​voru keypt af nýju félagi, sem var klúbbsins Scottish Football Association aðild flutt, gerir Rangers að hefja tímabilið 2012-13 í þriðja deild skosku Football League er. Í innlendum Rangers fótbolta hafa unnið fleiri deildartitla og trebles en nokkur annar klúbbur í heiminum, vinna deildina 54 sinnum, skoska Cup 33 sinnum og skoska deildarbikarinn 27 sinnum og ná treble af öllum þremur á sama tímabili sjö sinnum. Í Evrópu fótbolta, Rangers voru fyrsta breska félagið til að ná UEFA mót endanleg. Þeir unnu Cup Evrópukeppni Sigurvegarar CUP 'árið 1972 eftir að hafa verið í öðru sæti upp tvisvar árið 1961 og 1967. Þriðja hlauparar upp ljúka í Evrópu kom í 2008 UEFA Cup. Rangers hafa löng samkeppni við Celtic, tvö Glasgow klúbba sem sameiginlega þekktur sem Old Firm, frá því seint á 19. öld. Myndun og fyrstu árum. Fjögur Stofnendur Rangers - bræður Móse og Peter McNeil, Peter Campbell og William McBeath - hittust í 1872. Fyrsta leik Rangers í maí það ár, var 0-0 vingjarnlegur jafntefli við Callander á Glasgow Green. Árið 1873, félagið hélt fyrsta aðalfundi þess og starfsfólk voru kjörnir. Eftir 1876 Rangers var fyrsta alþjóðlega leikmaður þeirra, með Móse McNeil fulltrúi Scotland í leik gegn Wales. Árið 1877 Rangers náð skoska bikarsins, eftir að teikna fyrstu Rangers leikinn neitaði að snúa upp fyrir aukaleikur og bikarinn hlaut Vale of Leven. Rangers vann góðgerðarstarf CUP Glasgow kaupmanna á næsta ári gegn Vale of Leven 2-1, fyrsta stóra bolla þeirra. Í fyrsta sinn Old Firm Leikurinn átti sér stað árið 1888, árið sem stofnun Celtic. Rangers tapaði 5-2 í vináttuleik í lið sem samanstendur að mestu af um leikmenn frá Hibernian. The 1890-91 árstíð sá upphaf Scottish Football League og Rangers, þá spila á fyrstu Ibrox Stadium, var einn af tíu upprunalegu meðlimum. Fyrsta sinn liðsins deildinni passa á 16 ágúst, 1890 í för með sér 5-2 sigur á hjarta Midlothian. Eftir að klára jafn-toppur með Dumbarton, umspili haldin Cathkin Park lauk 2-2 og titillinn var deilt um í eina skiptið í sögu sinni. Fyrsta sinn Scottish Rangers Cup vinna kom árið 1894 eftir 3-1 sigur á keppinautar Celtic í endanlegri. Við upphaf 20. aldar, Rangers höfðu unnið tvo deildartitla og þrjár Scottish bolla. Paul McShane. Paul McShane er íslenskur knattspyrnumaður af skoskum ættum. Hann hefur leikið fyrir yngri flokka Glasgow Rangers og með skoskum neðri deildar félögum. Á Íslandi hefur hann spilað með Fram, Keflavik ÍF og UMF Grindavík. The West Wing (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 22. september 1999 og sýndir voru 22 þættir. The West Wing (2. þáttaröð). Önnur þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 4. okótber 2000 og sýndir voru 22 þættir. Leikaraskipti. Leikkonan Moira Kelly hætti eftir fyrstu þáttaröðina, á meðan leikkonan Janel Moloney var gerð að aðalleikara. Loftslagsbelti. Loftslagsbeli eða veðurfarsbelti er í landafræði ímynduð skipting yfirborðs jarðar í ákveðin svæði þar sem áþekkt loftslag ríkir. en einnig er talað um kyrrabelti, sem eru svæðið næst miðbaug. Anganmaðra. Anganmaðra (fræðiheiti:"Galium odoratum"), einnig kölluð Ilmmaðra, er fjölær skógarplanta af Möðruætt og er víða nýtt sem krydd- og lækningarjurt. Virkt efni er kúmarín en það gefur til dæmis fersku heyi sæta angan. Anganmaðran blómstrar litlum hvítum blómum í krönsum. Hún dreifir úr sér með jarðstönglum og myndar fljótt breiður. Plantan þarf frekar rakan jarðveg og þolir skugga mjög vel. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1983. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1983 var 28. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í München í Þýskalandi vegna þess að Nicole vann keppnina árið 1982 með laginu „Ein bißchen Frieden“. 1983 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1985. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1985 var 30. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Gautaborg í Svíþjóð. 1985 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1998. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1998 var 43. skipti sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin en hún var haldin í National Indoor Arena í Birminghami í Bretlandi 10. maí árið 1998. 1998 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1994. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1994 var 39. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Dyflinni í Írlandi. 1994 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1957. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1957 var önnur söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Frankfurt, Vestur-Þýskalandi. Þáttakendur. 1957 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1958. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1958 var þriðja söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Hilversum, Hollandi vegna þess að Corry Brokken vann keppnina árið 1957 með laginu „Net als toen“. Þáttakendur. 1958 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1989. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var 34. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Lausanne, Sviss vegna þess að Celine Dion vann keppnina árið 1988 með laginu „Ne partez pas sans moi“. 1989 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1990. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1990 var 35. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Zagreb, Júgóslavíu vegna þess að Riva vann keppnina árið 1989 með laginu „Rock me“. 1990 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1991. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var 36. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Róm, Ítalíu vegna þess að Toto Cutugno vann keppnina árið 1990 með laginu „“. 1991 Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1993. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var 38. söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og var haldin í Millstreet, Írlandi vegna þess að Linda Martin vann keppnina árið 1992 með laginu „Why me?“. 1992 Gröf óþekkta hermannsins (Varsjá). Gröf óþekkta hermannsins í Varsjá Gröf óþekkta hermannsins (pólska: "Grób Nieznanego Żołnierza") er minnismerki í Varsjá tileinkað þeim óþekktu hermönnum sem hafa dáið fyrir Pólland. Það er eitt margra svona minnismerkja sem voru sett upp eftir fyrri heimsstyrjöldina. Steintafla tileinkuð öllum óþekktu hermönnunum sem dóu í fyrri heimsstryjöldinni og stríði Sovétríkjanna og Póllands var lögð við Saxagarðinn í borginni árið 1923. Árið 1925 var orrustuvöllur í Lviv valinn af pólska stríðsráðuneytinu og þaðan voru öskur óþekkts hermanns borinn til Varsjár. Í október sama ár voru þrjár líkkistur grafnar upp frá orrustuvellinum og þá var ein þeirra flutt til Varsjár og sett í minnismerkið. Varsjárgettóið. Varsjárgettóið (pólska: "Getto Warszawskie") var stærsta gettóið í Evrópu á tímum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Því var komið á fót í höfuðborg Póllands í október og nóvember 1940 en þar bjuggu 400.000 gyðingar á svæði sem var 3,4 ferkílómetrar að flatarmáli. Úr gettóinu voru um það bil 254.000 íbúar sendir til fangabúða sumarið 1942. Í janúar næsta ár byrjaði uppreisnin í Varsjárgettóinu þar sem 50.000 gyðingar til viðbótar voru drepnir. Uppreisninni lauk í maí og hafði þá gettóið verið lagt nær algerlega í rúst. Samtals dóu í það minnsta 300.000 pólskir gyðingar í gettóinu eða voru fluttir þaðan í útrýmingarbúðir. Svið (matur). Svið eru hefðbundinn íslenskur matur sem raunar þekkist einnig í mörgum öðrum löndum, hausar af lömbum eða fullorðnum kindum sem ullin hefur verið sviðin af við eld og síðan skafin af - nú orðið er þetta þó oft gert með því að kalúna sviðin í klórblöndu en mörgum þykja þau bragðminni og verri fyrir vikið. Sviðahausarnir eru síðan klofnir í tvennt og kallast helmingarnir kjammar. Heilinn er fjarlægður og honum hent og sviðin eru svo matreidd. Svið hafa verið borðuð á Íslandi frá fornu fari og mörgum þykja þau sælgæti. Raunar hafa hausar verið nýttir til matar í öllum löndum þar sem sauðfjárrækt hefur verið stunduð, þótt það sé ekki alls staðar gert nú, og víða þótt besti bitinn af skepnunni. Þau eru þó ekki alls staðar sviðin en það er meðal annars gert í Noregi (smalahove) og Færeyjum (seyðahøvd). Annars staðar eru þau oft flegin og síðan soðin, bökuð eða grilluð. Margir tengja svið nú einkum við þorramat og kaldir sviðakjammar og sviðasulta er hluti af honum en þau voru og eru borðuð allan ársins hring og þá oftast heit. Sumstaðar voru þau líka jólamatur. Áður en frystitæknin kom til sögunnar var þó mest borðað af þeim á haustin og voru þau þá oftast það síðasta sem verkað var af sláturfénu því þau þoldu biðina mun betur en viðkvæmari hlutar eins og blóð og innmatur og mörgum fannst þau batna við biðina. Jónas frá Hrafnagili segir í "Íslenskum þjóðháttum" frá gömlum manni sem „þótti enginn matur betri en drafúldin svið brennheit“. Stundum var haldin veisla í lok sláturtíðar þar sem eingöngu svið voru borin fram og kallaðist hún sviðamessa. Á Vatnsnesi er nú haldin sviðamessa árlega til að endurvekja gamlar hefðir og sá siður hefur raunar verið tekinn upp víðar. Svið voru þó verkuð og varðeitt á ýmsan hátt. Þau voru soðin og súrsuð í mysu, söltuð og reykt og svo var gerð úr þeim sviðasulta sem ýmist var borðuð ný eða súrsuð. Nánast allt sem var á hausnum var borðað og ýmsum þóttu augun besti bitinn. Erlendis eru augu stundum stungin úr kindahausum áður en þeir eru seldir en það hefur aldrei verið gert á Íslandi. Hins vegar eru eyrun nú alltaf skorin af sviðahausum áður en þeir eru verkaðir en fyrr á tíð var það aldrei gert því ef eyrun vantaði var sagt að gestir mættu ekki sjá eyrnamörkin á hausunum og sá sem bæri þau á borð hlyti því að vera sauðaþjófur. Fætur af lömbum voru verkaðir á sama hátt og hausarnir og kallast sviðalappir. Þær voru oftast súrsaðar. Svið eru yfirleitt soðin í saltvatni í 1-1 1/2 klukkustund en ef á að nota þau í sviðasultu eru þau soðin í 2 klukkustundir eða lengur, eða þar til auðvelt er að losa kjötið af beinunum. Hefðbundið er að bera svið fram með kartöflustöppu eða soðnum kartöflum og rófustöppu. Andrea Jóhanna Ólafsdóttir. Andrea Jóhanna Ólafsdóttir (f. 2. ágúst 1972) er kosningastjóri Dögunar, sem hyggst bjóða fram til Alþingis 2013. Hún var áður formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og frambjóðandi til forsetakosninganna 2012. Open Your Heart. Open Your Heart var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2003 og var flutt af Birgittu Haukdal. Heaven. Heaven var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2004 og var flutt af Jóni Jósep Snæbjörnssyni. If I Had Your Love. If I Had Your Love var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2005 og var flutt af Selmu Björnsdóttur. Valentine Lost. Valentine Lost eða Ég les í lófa þínum var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2007 og var flutt af Eiríki Haukssyni. Höfundur lagsins er Sveinn Rúnar Sigurðsson. Lagið hafnaði í 13. sæti í undankeppninni og komst ekki í úrslit. This Is My Life. This Is My Life eða Fullkomið líf var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2008 og var flutt af Eurobandinu. Höfundur lagsins er Örlygur Smári en textinn er eftir Pál Óskar Hjálmtýsson og Peter Fenner. Lagið hafnaði í 8. sæti í seinni undanriðli keppninnar og komst því í aðalkeppnina, þar sem það lenti í 14. sæti. Jedward. Jedward er írskur poppdúett tvíburanna John og Edward Grimes (fæddir 16. október 1991 í Dyflinni, Írlandi). Þeir komu fyrst fram sem John & Edward í sjöttu þáttaröð "X Factor" 2009. Þeir lentu í sjötta sæti og umboðsmaður þeirra er Louis Walsh, sem var lærimeistari þeirra í þættinum. Jedward hafa gefið út tvær breiðskífur, "Planet Jedward" og "Viktory", sem báðar urðu tvöföld platína í Írlandi. Þeir hafa gefið út sjö smáskífur, þar á meðal Lipstick, sem var framlag Írlands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2011. Jedward eru nú að taka þátt í söngvakeppninni í annað sinn með laginu Waterline. Jedward eru einnig þekktir fyrir framkomu sína í sjónvarpsþáttum, þar á meðal "Jedward's Big Adventure", "OMG! Jedward's Dream Factory" og fyrir þáttöku í "Celebrity Big Brother" 2011. Angel (TwoTricky). Angel var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2001. The West Wing (3. þáttaröð). Þriðja þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 3. okótber 2001 og sýndir voru 21 þættir. Auka þættir. Gerðir voru tveir sérstakir auka þættir sem ekki tengjast söguþráði þáttaraðarinnar. Þátturinn Isaac and Ishmael var gerður stuttu eftir að hryðjuverkaárásirnar 11. september og seinni þátturinn, sem hét Documentary Special, var sérstakur heimildarþáttur þar sem talað er við raunverulega fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins. Slátur. Slátur er íslenskur matur, gerður úr innmat og blóði lamba. Yfirleitt er orðið notað sem samheiti yfir blóðmör og lifrarpylsu en það er einnig haft bæði í þrengri og víðari merkingu; stundum táknar það aðeins blóðmör (og þá er talað um slátur og lifrarpylsu) en einnig er það haft um annan innmat úr sauðfé, blóð og haus. Þegar keypt er eitt slátur í verslun í sláturtíð inniheldur það vömb, mör, blóð, lifur, hjarta, nýru og sviðinn haus. Bæði blóðmör og lifrarpylsa eru gerð þannig að vambir eru skornar niður og saumaðir úr þeim keppir sem síðan eru fylltir með blöndu af niðurskornum mör, mjöli (rúg og höfrum) og ýmist blóði eða hakkaðri lifur og oft einnig nýrum. Nú eru þó oft notaðir tilbúnir keppir úr gerviefnum. Opinu á keppunum er svo lokað og þeir soðnir í 2-3 klukkutíma. Slátur er ýmist borðað heitt eða kalt og stundum er það súrsað í mysu. Blóðmör hefur verið gerður á Íslandi frá fornu fari og svipaðir réttir þekkjast víða um lönd þótt algengara sé að gera þá úr svínablóði. Fyrr á öldum var oft notað töluvert af fjallagrösum í blóðmörinn til að drýgja innflutt mjölið. Lifrarpylsa virðist hins vegar mun seinna til komin og ekki eru til heimildir um hana eldri en frá miðri 19. öld. Hún er þó ekki ósvipuð skosku haggis, svo dæmi sé tekið. Slátur er haustmatur, gerður í sláturtíðinni og fyrr á öldum og fram yfir miðja 20. öld fór sláturgerð fram á hverju heimili á Íslandi. Hún hefur svo farið smáminnkanndi í þéttbýli þótt alltaf hafi margir tekið slátur og algengt að fjölskyldur tækju slátur saman. Eftir bankahrunið haustið 2008 varð vart við töluverða aukningu í slátursölu, enda er slátur ódýr matur. Tilbúið og soðið slátur, bæði blóðmör og lifrarpylsa, fæst einnig í verslunum árið um kring en sumir líta þó fyrst og fremst á það sem þorramat, enda þykir bæði nýtt og súrt slátur ómissandi á þorrabakkanum. Blóðmör er stundum kryddaður og settar í hann rúsínur og kallast það rúsínublóðmör. Þegar hann er borinn fram heitur er oftast höfð með honum rófustappa og kartöflustappa eða soðnar kartöflur og sumir strá á hann sykri. Einnig má skera hann í sneiðar og steikja á pönnu. Lifrarpylsa er einnig borðuð heit með rófustöppu og kartöflum. Kaldan nýjan eða súrsaðan blóðmör og lifrarpylsu er algengt að skera í sneiðar og bera fram með grjónagraut eða hafragraut. Rengi. Rengi er spiklag undir húð sjávarspendýra og þekur yfirleitt allan líkamann en er gjarna þykkast á kviðnum. Það getur orðið allt að 30 cm þykkt á stórum hvölum. Á selum kallast þetta fitulag þó ekki rengi, heldur selspik. Dýrin geyma fituforða sinn í renginu og það heldur einnig á þeim hita og hjálpar þeim að tempra hann. Rengi er blóðríkara en flestir aðrir fituvefir. Þegar hvalir og selir eru í mjög köldum sjó dragast æðar í renginu saman, blóðflæðið minnkar og dýrin halda betur á sér hita en ella. Einangrunarhæfni rengisins ræðst einnig af hlutfallinu á milli vatns og fitusýra; því meira sem það inniheldur af fitusýrum, þeim mun betur einangrar það. Þegar hvalveiðar voru stundaðar af kappi víða um höf var það fyrst og fremst vegna rengisins. Spikið var brætt og lýsið sem úr því fékkst notað sem ljósmeti og við framleiðslu á ýmsum iðnaðarvarningi, svo sem sápu og snyrtivörum. Það er auðugt að Omega-3-fitusýrum og D-vítamíni. Á síðustu árum hefur þó verið varað við neyslu á rengi sumra hvaltegunda og lýsi úr því þar sem það inniheldur mikið af PCB. Rengi hefur verið haft til matar, meðal annars hjá inúítum á Grænlandi og í Norður-Ameríku og á Íslandi hefur súrt hvalrengi löngum þótt sælgæti og mörgum þykir það nær ómissandi hluti af þorramatnum. Það fékkst þó ekki í allmörg ár vegna hvalveiðibanns. Congratulations (Silvía Nótt). Congratulations var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2006. Lagið var flutt af Silvíu Nótt. Lagið vakti mikla hrifningu á Íslandi en hörð viðbrögð í keppninni sjálfri. Christopher Maurice Brown. Chris Brown (fæddur Christopher Maurice Brown, 5. maí 1989) er bandarískur söngvari, rappari, dansari og leikari. 2004 gerði hann samning við útgáfufyrirtækið Jive Records. Á næsta ári, 2005 gaf hann út plötu samnefnda sér. Platan lenti í öðru sæti á Billboard 200 vinsældarlistanum. Heimildir. Brown, Chris Umgerð ehf.. Umgerð ehf. er útgáfa sem hefur gefið út tímaritið Heima er bezt síðan 2004. Eigandi og útgáfustjóri er Guðjón Baldvinsson. The West Wing (4. þáttaröð). Fjórða þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 25. september 2002 og sýndir voru 23 þættir. Leikaraskipti. Leikarinn Rob Lowe yfirgaf þáttinn og í stað hans kom Joshua Malina sem Will Bailey. Leikkonan Lily Tomlin var ráðin til þess að leika forsetaritarann Debbie Fiderer. Kat Dennings. Katherine Litwack (fædd 13. júní 1986), betur þekkt sem Kat Dennings, er bandarísk leikkona. Hún sást fyrst í hlutverki í þáttunum "Beðmál í Borginni" en síðan þá hefur Kat leikið í kvikmyndum á borð við "The 40 Year-Old Virgin", "Bog Momma's House 2", "Charlie Bartlett", "Raise Your Voice", "The House Bunny", "Defendor", "Nick and Norah's Infinite Playlist" og "Thor". Hún leikur einnig aðalhutverkið í sjónvarpsþáttunum "2 Broke Girls". Æska. Dennings fæddist og ólst upp á Bryn Mawr-svæðinu nálægt Fíladelfíu í Pennyslvaníu. Móðir hennar, Ellen Judith Litwack, er ljóðskáld og talfræðingur og faðir henna, Gerald J. Litwack, er sameindalyfjafræðingur og háskólakennari. Dennings er yngst fimm barna, þar á meðal á hún eldri bróðir, Geoffrey S. Litwack. Fjölskyldan hennar er gyðingatrúar. Dennings var kennt heima og eina skráning hennar í hefðbundinn skóla var í hálfsdags skólann Friends' Centaral. Hún útskrifaðist snemma ú menntaskóla, aðeins fjórtán ára. Hún flutti með fjölskyldu sinni til Los Angeles, Kaliforníu árið 2002 svo hún gæti einbeitt sér að leiklistinni. Hún tók upp sviðsnafnið Dennings þegar hún var yngri. Samkvæmt Dennings sögðu foreldrar hennar að sú hugmynd að hún reyndi fyrir sér í leiklistinni væri „versta hugmynd í heimi“. Ferill. Dennings byrjaði feril sinn með auglýsingaleik þegar hún var tíu ára. Fyrsta leikarastarfið hennar var auglýsing fyrir kartöfluflögur. Dennings komst í sjónvarpið þegar hún lék í þættinum "Beðmál í Borginni" árið 2000, í þættinum „Hot Child in the City“, þar sem hún lék þrettán ára stelpu sem réð Samönthu til að sjá um auglýsingastarfsemina fyrir ferminguna hennar. Hún lék síðan í skammlífu þáttaröðinni "Raising Dad" á árunum 2001 – 2002. Þar fór hún með hlutverk Söruh, fimmtán ára stelpu sem er alin upp af föður sínum (Bob Saget) sem er ekkill en hún á einnig unglingssystur (Brie Larson). Árið 2002 lék Dennings í "The Scream Team", kvikmynd sem framleidd var af Disney-stöðinni. Þar fór hún með hlutverk unglings sem rekst á hóp af draugum. Hún var valin í fimm þátta rullu í sjónvarpsþáttunum "Everwood" en hlutverkið fór á endanum til Noru Zehetner. Dennings hélt áfram að vinna í sjónvarpi og lék gestahlutverk í þáttunum "Sporlaust" (e. "Without a Trace"), þar sem hún lék unglingsstúlku en kærastinn hennar hefur horfið, og í "Less Than Perfect" árið 2003. Hún var ráðin í þáttinn "Sudbury", sem fjallaði um fjölskyldu af nútíma-nornum, en þættirnir voru byggðir á kvikmyndinni "Practical Magic" frá árinu 1998 en þættirnir voru aldrei sýndir. Dennings fór með aukahlutverk í þáttunum "Bráðavaktin" (e. "ER") á árunum 2005 – 2006 sem Zoe Butler og lék einnig gestahlutverk í ' sem Sarah Endecott í þættinum „Manhattan Manhunt“ árið 2005. Dennings lék fyrst í kvikmynd árið 2004 þegar hún lék Sloane, þungbúinn píanónema, í kvikmyndinni "Raise Your Voice" þar sem Hilary Duff fór með aðalhlutverkið. Árið 2005 landaði hún aukahlutverki í kvikmyndinni "The 40-Year-Old Virgin" þar sem hún lék dóttir Catherine Keener, og einnig í "Down in the Valley". Hún lék uppreisnargjarnan ungling í "Big Momma's House 2" þar sem Martin Lawrence fór með aðalhutverkið árið árið 2006. Dennings lék í "Charlie Bartlett" árið 2008, sögu um auðugan ungling (Anton Yelchin) sem þykist vera geðlæknir í nýja almenningsskólanum sínum. Hún lék Susan Gardner, stúlku sem Bartlett verður hrifinn af en hún var einnig dóttir skólastjórans (Robert Downey Jr.). Dennings lék síðan í "The House Bunny" þetta sama ár, þar sem hún lék Monu, stúlku sem var í systrafélagi. Hún lék einnig í rómantísku unglingamyndinni "Nick and Norah's Infinite Playlist" ásamt Michael Cera. Dennings lék Noruh Silverberg, dóttur frægs plötuútgefanda og var tilnefnd til International Press Academy's Satallite-verðlaunanna sem besta leikkona fyrir frammistöðu sína. Í september 2008 vonaðist Dennings til að gera skáldsögu Don DeLillo, "End Zone", að kvikmynd. Leikararnir Sam Rockwell og Josh Hartnett komu að verkefninu en verkefnið var ekki samþykkt. Árið 2009 lék Dennings í "The Answer Man", kvikmynd um frægan rithöfund, en opinberar stefnuyfirlýsingar hans verða að nokkurs konar nýrri Biblíu. Hún lék einng aukahlutverk í barnakvikmynd Robert Rodriguez, "Shorts", þetta sama ár. Hún lék eldri systur aðalpersónunnar Toe (Jimmy Bennett), Stacey Thompson. Dennings og aðrar rísandi stjörnur voru í ágúst-blaði Vanity Fair árið 2009 og endurléku atriði úr frægum kvikmyndum frá 4. áratugnum. Dennings var ráðin í rómantísku gamanmyndina "Liars (A to E)" árið 2009. Kvikmyndinni var hins vegar aflýst vegna lítils fjármagns hjá framleiðendunum. Dennings lék í ofurhetjukvikmyndinni "Defendor" árið 2010 ásamt Woody Harrelson og Sandra Oh, þar sem hún lék vændiskonu sem var krakkfíkill. Næst lék hún í óháðu kvikmyndinni "Daydream Nation" þar sem hún fór með hlutverk stelpu sem flytur í furðulegan afskekktan bæ, og festist í ástarþrýhyrning með menntaskólakennaranum sínum (Josh Lucas) og unglinga-eiturlyfjasala (Reece Thompson). Myndin var tekin upp í Vancouver fyrri hluta árs 2010 og var skrifuð og leikstýrt af Michael Golbach. Í maí 2010 birtist Dennings í tónlistarmyndbandi við lagið "40 Dogs (Like Romeo and Juliet)" með tónlistarmanninum Bob Schneider. Robert Rodriguez leikstýrði myndbandinu, sem tekið var upp á mörgum stöðum í Austin, Texas. Dennings var hluti af leikaraliði kvikmyndarinnar "Thor" sem kom út í maí 2011 og var leikstýrt af Kenneth Branah. Hún lék Darcy Lewis, aðstoðarkonu persónu Natalie Portman, Jane Foster. Kvikmyndin fór í framleiðslu í janúar 2010. Dennings leikur í "2 Broke Girls", gamanþáttum sem eru skrifaðir og framleiddir af Michael Patrick King og Whitney Cummings. Þátturinn fylgist með lífum tveggja láglauna-kvenna. Beth Behrs leikur á móti Dennings og fer með hlutverk Manhattan erfðaprinsessu sem missti arfinn sinn, á meðan Dennings leikur harða beinskeytta stelpu frá Brooklyn. Dennings líkaði það að ná til breiðari áhorfendahóps, svo hún samþykkti að taka að sér hlutverk í gamanþætti. Dennings mun leika í dramakvikmyndinni "Lives of the Saints" ásamt Meg Ryan, 50 Cent, John Lithgow og Joe Anderson. Handrit myndarinnar er skrifað af Chris Rossi, en hann leikstýrir einnig myndinni og áttu tökur að hefjast í Los Angeles í nóvember 2010. Hún mun einnig leika í "Renee" ásamt Chad Michael Murray og Rupert Friend. Dennings leikur þar Renee Yohe, unglingsstúlku í Flórída sem glímir við heimilisofbeldi og sjálfsmeiðingar og varð hvatningin að stofnun samtakanna To Write Love on Her Arms. Framleiðsla kvikmyndarinnar hófst í Orlando, Flórída í febrúar 2011. Í ágúst 2012 var tilkynnt að Dennings myndi endurtaka hlutverk sitt sem Darcy Lewis í ' Einkalíf. Dennings hefur verið bloggari síðan í janúar 2011, sem seinna breyttist í video blogg á YouTube. Hún les mikið og er vinkona rithöfundarins Andreu Seigel. Dennings sagði við The Jewis Journal of Greater Los Angeles að gyðingdómur væri "mikilvægur hluti af sögu minni, en, í heildina, er trúin ekki hluti af lífi mínu". Í greininni sagði hún einnig að hún að gyðingdómurinn tengdist henni frekar siðferðis- og menningarlega heldur en trúarlega. Í desember 2008 sagði Dennings við tímaritið BlackBook: "Ég drekk ekki og ég reyki ekki og ég vil ekki vera í kringum fólk sem gerir það." Í viðtali við The Times í janúar 2009 sagði Dennings: "Ég á ekki kærasta. Ég á vini, vinkonur, góðar vinkonur. Við hittumst á öðrum stöðum og erum ein saman." Seinna, í viðtali með meðleikara sínum úr "Deadream Nation", Josh Lucas, viðurkenndi Dennings að eiga kærasta. Síðan í nóvember 2011 hefur hún búið í íbúð í San Fernando dalnum í Los Angeles. Í desember 2011 byrjaði Dennings með mótleikara sínum úr "2 Broke Girls", leikaranum Nick Zano. Heimildir. Dennings, Kat Christian Thams. Christian Thams (9. september 1867 – 22. maí 1948) var norskur arkitekt og frumkvöðull á sviði byggingariðnaðar og námavinnslu í Noregi og Austur-Afríku, aðallega Mósambík þar sem hann rak Société du Madal sem fékkst við plantekruræktun og námavinnslu. Hann lærði arkitektúr í Sviss og stofnaði arkitektastofur í Nice og París. Hann hannaði norska húsið á Heimssýningunni í París árið 1889 og á Kólumbusarsýningunni í Chicago 1893 sem bæði voru í sveitserstíl þótt hið síðara hafi átt að minna á stafkirkju. Microsoft Dynamics AX. Microsoft Dynamics AX er ein af viðskiptalausnum Microsoft og hluti af Dynamics-hugbúnaðarlausnunum. Saga. Microsoft Dynamics AX var upphaflega þróað sem samstarfsverkefni IBM og Damgaard sem IBM Axapta. Samstarfið endaði skömmu eftir að útgáfa 1.5 kom út árið 2000 og afsalaði IBM sér öllum réttindum til Damgaard. Skömmu síðar sameinaðist Damgaard og Navision A/S og hét sameinað fyrirtæki fyrst NavisionDamgaard, síðan breyttist nafnið aftur í Navision A/S og loks var félagið keypt af Microsoft sumarið 2002. Fyrsta útgáfa Axapta var gefin út í Danmörku og Bandaríkjunum árið 1998. Í dag er hugbúnaðurinn í boði í flestum löndum heims og styður yfir 45 tungumál. Þróunarumhverfi Axapta var í IDE og MorphX umhverfinu þangað til nýjasta útgáfan Dynamics AX 2012 var kynnt. Þróunin fór fram í notendaviðmóti kerfisins þannig að forritarinn gat þróað og aðlagað kerfið hvar sem var í viðmótinu. Forritunarmál kerfisins er X++, en frá og með nýjustu útgáfunni fer þróunin fram í Visual Studio 2010 umhverfinu frá Microsoft og verður forritari að hafa aðgang að því ef ætlunin er að þróa kerfið áfram. Í september 2011 kynnti Microsoft nýju útgáfu Axapta undir nafninu AX 2012. Forritunarmiðstöð Microsoft MDCC. Microsoft Development Center Copenhagen var lengst aðal starfsstöð Microsoft þar sem þróun kerfisins fór fram. Hluti þróunarinnar hefur þó flust til annara staða eins og borganna Redmond og Fargo í Bandaríkjunum. MDCC er staðsett í borginni Vedbæk í Danmörku og þar er einnig þróun á systurkerfi AX, Microsoft Dynamics NAV og nokkur önnur önnur Microsoft Dynamics kerfi. Hjá MDCC starfa um 900 manns frá 40 þjóðlöndum. Flestir starfsmenn eru frá Svíþjóð, Danmörku, Póllandi, Úkrainu, Karachi í Pakistan og Rúmeníu. Útgáfur. Fyrstu útgáfurnar heita Axapta (útg. 1.0 til 3.0), nýrri útgáfur heita Dynamics AX (útg. 3.0 SP6 til AX 2012). Damgaard. Þróun Axapta hófst árið 1983 í danska fyrirtækinu Damgaard Data A/S. Evrópumarkaður var aðal markaður kerfisins, en í kjölfar útg. 2.1 árið 2000 stækkaði markaðshlutdeild í Bandaríkjunum mjög hratt. Navision-Damgaard. Í kjölfar sameiningar Damgaard og Navision, sem bæði voru dönsk fyrirtæki voru gefnar út tvær útgáfur sem hétu Navision Damgaard Axapta. Microsoft. Microsoft keypti Navision Damgaard sumarið 2002. Navision Damgaard Axapta var fyrst endurskýrt sem Microsoft Business Solutions Axapta (MBS Axapta), en síðar fékk það nafnið Microsoft Dynamics AX frá útg. 3.0 SP6, 4.0, 2009 og 2012. The West Wing (5. þáttaröð). Fimmta þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 24. september 2003 og sýndir voru 22 þættir. Höfundur þáttarins og framleiðslustjórinn Aaron Sorkin og framleiðslustjórinn Thomas Schlamme yfirgáfu þáttinn eftir fjórðu þáttaröðina. Sá sem tók við var framleiðslustjórinn John Wells. Forsetaúrskurður. Forsetaúrskurður eru bindandi fyrirmæli af hálfu þjóðhöfðingja, oft forseta eða konungs. Í sumum löndum hefur heitið neikvæða tengingu í alræðistilburði í daglegu máli. Notkunin er mjög misjöfn eftir löndum, í Bandaríkjunum þar sem er forsetaræði, á sér stað visst valdaframsal milli þings og forseta, og eru forsetaúrskurðir (e. "executive order") jafngildir lögum. Í Frakklandi þar sem er hálf-forsetaræði hafa forsetaúrskurðir sögulega nokkurt vægi og eru flokkaðir í undirflokka eftir tilgangi þeirra. Forseti Rússlands getur einnig samkvæmt stjórnarskránni frá 1993 gefið bindandi fyrirmæli (r. "ukaz"). Forsetaúrskurðir á Íslandi. Alþingi setur bæði lög og reglugerð um Stjórnarráð Íslands í hvert sinn sem tölu og samsetningu ráðuneyta á Íslandi er breytt. En þar sem stjórnarskráin mælir fyrir um að forsetinn skipi ráðherra, veiti þeim lausn, ákveði tölu þeirra og verkaskiptingu öðlast skiptingin ekki gildi fyrr en forsetinn hefur gefið út forsetaúrskurð þess efnis. Þingrof eru fátíð á Íslandi en síðast var þing rofið á Íslandi 8. maí 1974 þegar Ólafur Jóhannesson fór fram á það við Kristján Eldjárn að þing yrði rofið. Til þess þarf forsetaúrskurð og er hefð fyrir því á Íslandi að forsætisráðherra fari með þingrofsréttinn, það er að segja að forsætisráðherra þurfi að fara þess á leit við forsetann að hann rjúfi þing og til þess þurfi undirskriftir þeirra beggja. Freistnivandi. Freistnivandi er hugtak sem er notað í hagfræði til þess að lýsa aðstæðum þar sem er hvati fyrir einstakling til þess að taka óþarflega mikla áhættu þar sem viðkomandi einstaklingur ber ekki fulla ábyrgð á mögulegum afleiðingum þess að þá áhættu. Cássia Kis. Cássia Kis Magro (6. janúar 1958 í São Caetano do Sul í Brasilíu) er brasilísk leikkona. Kis, Cássia The West Wing (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 24. október 2004 og sýndir voru 22 þættir. Leikaraskipti. Leikararnir Alan Alda og Jimmy Smits bættust við sem verðandi forsetaefni flokkanna og leikkonan Mary McCormack gerðist hluti af aðalleikurunum sem persónan Kate Harper. San Marínó í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Tölfræði atkvæðagreiðslu (1975-2011). San Marínó Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2004. Úrslitaleikur VISA-bikar karla 2004 var leikinn þann 2. október 2004 á Laugadalssvelli. KA-menn mættu Keflvíkingum. Keflvíkingar unnu sinn þriðja bikarmeistaratitil frá stofnun félagsins. Thomas Vinterberg. Thomas Vinterberg (fæddur 19. maí 1969) er danskur leikstjóri. Verk. Vinterberg, Thomas The West Wing (7. þáttaröð). Sjöunda þáttaröðin af "The West Wing" var frumsýnd 25. september 2005 og sýndir voru 22 þættir. Leikaraskipti. Leikkonan Kristin Chenoweth var gerð að aðalleikara. Leikarinn John Spencer lést úr hjartaáfalli 16. desember 2005 og var þátturinn "The Cold" sá seinasti sem hann lék í áður en hann lést. Should've Known Better. Should've Known Better var framlag Danmerkur til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2012 og var flutt af Soluna Samay. Sing Out Loud. Desember er fyrsta breiðskífa Soluna Samay. Submarino. Submarínó er kvikmynd frá 2010 í leikstjórn Tómasar Vinterberg. Myndin er gerð eftir samnefndri skáldsögu eftir Jonas Bengtsson frá 2007. Myndinni var vel tekið af gagnrýnendum og hlaut hún Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs sama ár. Hún fékk þó dræma aðsókn en aðeins 46 þúsund manns fóru á hana í bíó í Danmörku. Sagan segir frá tveimur bræðrum leiknum af Jakob Cedergren og Peter Plaugborg. Þriðja stærsta hlutverkið í myndinni er Ívan leikin af Morten Rose. Þrasið. Þrasið er ræðukeppni sem byggist upp af eldri keppendum úr MORFÍs, frægum og annáluðum ræðumönnum og óbreyttum almenningi. Keppnin fer fam á sumrum og hafa úrslit hennar ávallt verið hluti af dagskrá menningarnætur ár hvert. Það var að frumkvæði fyrrum MORFÍs-keppandans Braga Páls Sigurðarsonar sem farið var af stað með keppnina í fyrsta skiptið sumarið 2009, en hann vildi færa MORFÍs fyrirkomulagið til almennings. Þetta sumarið var reynt að gera Þrasið að svokallaðri „kempukeppni“ þar sem hin ýmsu áberandi fyrirmenni úr íslensku samfélagi, sem höfðu reynslu (eða ekki) af MORFÍs voru fengin til þess að taka þátt, en um tíma höfðu til dæmis rapparinn Dóri DNA, söngvari Sprengjuhallarinnar — Atli Bollason og alþingismenn Framsóknarflokksins — þeir Höskuldur Þórhallsson og Birkir Jón Jónsson boðað þátttöku sína í keppninni. Keppnin var haldin í Austurbæjarbíó og fékk hún mikla athygli. Sumarið 2010 og 2011 lifði keppnin góðu lífi þrátt fyrir að ekki hafi verið gert jafn mikið úr því að fá kempur til þess að taka þátt en hún hefur verið haldin í húsakynnum Hins Hússins niðri í miðbæ og hafa framhaldsskólanemar að mestu leyti tekið keppnina undir sinn verndarvæng þar sem langflestir keppendur koma úr mismunandi framhaldsskólum en skráning í keppnina hefur samt sem áður að sjálfsögðu ætíð verið öllum opin. Stockard Channing. Stockard Channing (fædd Susan Antonia Williams Stockard, 13. febrúar 1944) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The West Wing og Grease. Einkalíf. Channing er fædd og uppalin í New York-borg og er af írskum uppruna. Útskrifaðist hún frá "Radcliffe College" með gráðu í sögu og bókmenntum árið 1965. Einnig lærði hún drama við "HB Studio" í Greenwich Village í New York-borg. Síðustu 20 ár þá hefur Channig verið í sambandi við kvikmyndatökustjórann Daniel Gillham. Leikhús. Channing byrjaði leikhúsferil sinn hjá "Theatre Company of Boston" og fyrsta hlutverk hennar var árið 1966 í "The Investigaton". Hefur hún síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Woman in Mind", "Hapgood", "No Hard Feelings", "Joe Egg", "Love Letters", "The Lion in Winter" og "The Golden Age". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Channing var árið 1973 í sjónvarpsmyndinni "The Girl Most Likely to...". Á árunum 1979 – 1980 lék Channing í þáttunum "Stockard Channing in Just Friends" og "The Stockard Channing Show". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Medical Center", Sesame Street, "Out of Practice", "Trying Games" og King of the Hill. Channing lék forsetafrúna Abbey Bartlet í The West Wing frá 1999 – 2006. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Channing var árið 1971 í "The Hospital". Árið 1978 þá var henni boðið eitt af aðalhlutverkunum í Grease sem Betty Rizzo. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Without a Trace", "Married to It", "Up Close & Personal", Practical Magic, "Where the Heart Is, "Bright Young Things" og "Must Love Dogs". Tenglar. Channing, Stockard Búðarhálsvirkjun. Búðarhálsvirkjun er vatnsaflsvirkjun í eigu Landsvirkjunar sem er nú á framkvæmdastigi í Þjórsá. Áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrir lok 2013. Virkjunin er staðsett á milli Sultartangastöðar og Hrauneyjafossstöðvar. Hún nýtir vatnsafl úr Köldukvísl, Sporðöldukvísl og Tungnaá. Virkjunin mun nýta tiltölulega litla fallhæð en með háu meðalrennsli en áætlað afl virkjunarinnar er 95 MW. Framkvæmdir. Framkvæmdir á virkjuninni var skipt á marga verkþætti og boðið út. Helsti framkvæmdaraðilinn er Ístak sem sjá um alla byggingavinnu. Þýska fyrirtæki Voith Hydro smíðar vélbúnaðinn og ÍAV sér um lokubúnað og þrýstipípur. Íslenska verkfræðifyrirtækið Hnit hefur eftirlit með framkvæmdunum. Með ráðgjöf fara t.d. íslensku verkfræðifyrirtækin Verkís, Mannvit og Efla. Upphaflega var samið við slóvenska fyrirtækið Montavar um að hanna og smíða lokubúnað og þrýstipípur. Þegar hönnun var að mestu leyti lokin varð fyrirtækið gjaldþrota og í stað þeirra var samið við ÍAV um þennan verkþátt. Framkvæmdir á virkjuninni hófust seint á árinu 2010 og áætlað að þeim ljúki fyrir 31. desember 2013. Ásett afl virkjunir átti samkvæmt útboðsgögnum Landsvirkjunar að vera 80 MW en samið var við Voith Hydro að stækka vélarnir svo afl þeirra væri 95 MW. Umhverfisáhrif. Stíflað verður Köldukvísl, Sorðöldukvísl og Tungnaá til að mynda nýtt lón, Sporðöldulón. Flatarmál lónsins er samtals 7 km² og rými þess 26 Gl við venjulegar rekstaraðstæður. 17 kílómetra háspennulína verður löggð frá Búðarhálsstöð að tengivirki við Sultartangastöð. Hækka þarf brúnna yfir Sporðöldukvísl og veginn sitthvorumegin við hana á þjóðvegi 26 um 3 metra. Moira Kelly. Moira Kelly (fædd 6. mars 1968) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The West Wing, One Tree Hill, The Lion King og The Cutting Edge. Einkalíf. Kelly er fædd og uppalin í Queens, New York-borg og er af írskum uppruna. Stundaði hún nám við "Marymount Manhattan College". Kelly er gift viðskiptamanninum Steve Hewitt og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Kelly var árið 1991 í sjónvarpsmyndinni "Love, Lies and Murder". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "To Have & to Hold", "The Twilight Zone", Heroes og Numb3rs. Kelly lék stjórnmálaráðgjafann Mandy Hampton í The West Wing frá 1999 – 2000. Árið 2003 var Kelly boðið hlutverk í unglingadramanu One Tree Hill þar sem hún lék Karen Roe móður Lucas Scott. Lék hún hlutverkið til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Kelly var árið 1991 í "The Boy Who Cried Bitch". Árið 1992 þá var henni boðið hlutverk í The Cutting Edge sem listskautadansarinn Kate Moseley. Talaði hún inn á fyrir eldri Nölu í The Lion King árið 1994. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Unhook the Stars", "Changing Habits", "The Safety of Objects" og "The Beautiful Ordinary". Tenglar. Kelly, Moira Hvammsvirkjun. Hvammsvirkjun er áætluð vatnsaflsvirkjun í neðri hluta Þjórsá. Lón virkjunar verður kallað Hagalón. Ef áætlun gengur eftir verður afl virkjunarinnar 82 MW og fallhæð hennar 32 metrar. Rob Lowe. Rob Lowe (fæddur Robert Hepler Lowe, 17. mars 1964) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The West Wing, St. Elmo's Fire, The Outsiders, Brothers & Sisters og Parks and Recreation. Fjölskylda. Lowe fæddist í Charlottesville, Virginía en ólst upp í Malibu, Kaliforníu og er af þýskum, írskum,enskum, welskum og skoskum uppruna. Bróðir hans er leikarinn Chad Lowe. Lowe stundaði nám við "Santa Monica High School" ásamt leikurunum Emilio Estevez, Charlie Sheen, Sean Penn, Chris Penn og Robert Downey, Jr. Lowe giftist snyrtifræðingnum Sheryl Berkoff árið 1991 og saman eiga þau tvö börn. Rithöfundur. Lowe gaf út ævisögu sína "Stories I Only Tell My Friends" í maí 2011. Kynlífshneyksli. Árið 1988 þá lenti Lowe í kynlífshneyksli eftir að myndbandi með honum og tveimur stúlkum var lekið. Önnur stúlkan var sextán ára en hin var 22 ára. Myndbandið var tekið upp kvöldið fyrir ráðstefnu demókrata árið 1988 í Atlanta. Lowe tilkynnti að hann vissi ekki að önnur stúlkan hafði verið undir aldri og var það staðfest að þau kynntust á bar. Öðrum hluta myndbandsins var einnig lekið en sá sýndi Lowe og vin hans Justin Moritt hafa samfarir við unga konu að nafni Jennifer á hótelherbergi í París. Þessi hluti af myndbandinu var seldur sem kynlífsmyndband. Hafði þetta alvarlegar afleiðingar fyrir feril og ímynd hans. Málaferli. Í apríl 2008 hóf Lowe málaferli gagnvart þremur fyrrverandi starfsmönnum sínum vegna brota á samningum og niðrandi ummæla um fjölskyldu hans. Þann 19. júní 2008 þá var tveimur málsóknunum vikið frá vegna skorts á lagalegum grundvelli. Málaferlunum lauk í mars 2009 eftir að þeim var vísað frá að ósk lögmanna beggja aðila. Góðgerðarmál. Lowe var fyrsti karlkyns forsvarsmaður fyrir "Lee National Denim Day" fjáröflunarsamkomuna árið 2000 en hún aflar fjármagni fyrir rannsóknir á brjóstakrabbameini og kennslu. Bæði amma og langammma hans voru greindar með brjóstakrabbamein og móðir hans lést úr sjúkdómnum árið 2003. Lowe er stofnandi "Homeowner's Defense Fund", sjálfseignarstofnun sem ætlað er að aðstoða skipulagningu landsvæða í Santa Barbara sýslunni og gagnsæis hjá stjórnvöldum. Leikhús. Lowe kom fram í leikritinu "A Little Hotel on the Side" árið 1992. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Lowe var árið 1979 í "A New Kind of Family" þar sem hann lék Tony Flanagan til ársins 1980. Á árunum 2003 – 2006 lék Lowe aðahlutverkið í þremur þáttum sem lifðu stutt, The Lyon's Den sem John „Jack“ Turner, Beach Girls sem Jack Kilvert og Dr. Vegas sem dr. Billy Grant. Lowe lék eitt af aðalhlutverkunum í The West Wing sem Sam Seaborn sem hann lék frá 1999 – 2003. Endurtók hann hlutverkið í seinustu þáttunum af sjöundu þáttaröðinni. Frá 2006 – 2010 lék Lowe í Brothers & Sister sem Robert McCallister eiginmann persónu Calistu Flockhart. Hann hefur síðan 2010 verið hluti af Parks and Recreation sem Chris Traeger. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Lowe var árið 1983 í "The Outsider" þar sem hann lék Sodapop Curtis. Leikstjóri myndarinnar var Francis Ford Coppola og meðleikarar hans voru Matt Dillon, Tom Cruise, Emilio Estevez, C. Thomas Howell og Patrick Swayze. Lék hann síðan í Oxford Blues, St. Elmo's Fires og Youngblood á árunum 1984 – 1986. Lowe var þekktur á 9. áratugnum fyrir að vera hluti af "Brat Pack" hópnum, ásamt Judd Nelson, Mare Winningham, Anthony Michael Hall, Demi Moore, Ally Sheedy, Molly Ringwald, Emilio Estevez og Andrew McCarthy. Hann hefur síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Wayne's World, Mulholland Falls, Contact, Under Pressure, Thank You for Smoking og Breakaway. Lék hann yngri útgáfuna af persónunni "Nr. 2" í Austin Powers myndunum. Tenglar. Lowe, Rob Holtsvirkjun. Holtsvirkjun er áætluð vatnsaflsvirkjun í neðri hluta Þjórsá. Lón virkjunar verður kallað Árneslón. Ef áætlun gengur eftir verður afl virkjunarinnar 53 MW og fallhæð hennar 18 metrar. Debenhams. Debenhams er bresk verslunarkeðja með útibú í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi og er það staðsett í Smáralind í Kópavogi. Fyrsta Debenhams-verslunin var stofnuð í London á 18. öld. Sport Club Corinthians Paulista. Corinthians er brasilískt knattspyrnufélag frá São Paulo. Liðið var stofnað 1. september 1910. Corinthians hefur unnið ítölsku deildina fimm sinnum síðan hún var stofnuð 1971. Sigrar. 1914, 1916, 1922, 1923, 1924, 1928, 1929, 1930, 1937, 1938, 1939, 1941, 1951, 1952, 1954, 1977, 1979, 1982, 1983, 1988, 1995, 1997, 1999, 2001, 2003 e 2009 Tengill. C H. Jon Benjamin. Henry Jon Benjamin (fæddur 1966) er bandarískur gamanleikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Bob Belcher í teiknimyndaþáttunum "Bob's Burgers". Tenglar. Benjamin, H. Jon Kristen Schaal. Kristen Schaal (fædd 24. janúar, 1978) er bandarísk gamanleikkona. Tenglar. Schaal, Kristen Tony Leondis. Anthony „Tony“ Leondis (fæddur 24. mars 1972) er bandarískur leikstjóri. Tenglar. Leondis, Tony Tino Insana. Tino Insana (fæddur 15. febrúar 1948) er bandarískur gamanleikari og kvikmyndaframleiðandi. Tenglar. Insana, Tino Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2013. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2013 verður haldin í borginni Malmö í Svíþjóð dagana 14, 16. og 18. maí og er það í annað sinni sem keppnin er haldin í Malmö en hún var áður haldin í borginni árið 1992. Að þessu sinni fer keppnin fram í íþróttahöllinni Malmö Arena, en hún tekur allt að 15.000 gesti í sæti. Vettvangur. Íþróttahöllin Malmö Arena í Malmö var tilkynnt sem vettvangur 58. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva af Sveriges Television (SVT) þann 8. júlí, 2012. Þetta verður í fimmta sinn sem keppnin verður haldin í Svíþjóð og í annað skipti sem hún verður haldin í Malmö. Höllin var opnuð árið 2008 og getur tekið allt að 15.500 í sæti fyrir tónleika. Um leið og ljóst var að Svíþjóð hafði unnið keppnina tilkynnti formaður Sveriges Television (SVT) að verið væri að skoða tónleikahallir í Stokkhólmi, Malmö, og Gautaborg. Íhugað var um eitt leyti að halda keppnina í öllum þremur borgum, það er undankeppninar í Gautaborg og Malmö og aðalkeppnina í Stokkhólmi en sú tillaga far ekki talin raunhæf af forstjóra SVT. Tilkynnt var þann 8. júlí 2012 að keppnin yrði haldin í Malmö Arena. SVT tók þá ákvörðun að halda keppnina í minni íþróttahöll heldur en hefur verið í notkun síðustu ár til þess að bæta upplifun áhorfenda og vegna þess var Malmö valin en ekki Stokkhólmur. Miðasala. Þann 11. júlí 2012 varaði framleiðandi keppninnar, Christer Björkman, fólki við að kaupa ekki miða fyrir keppnina sem þá voru til sölu og sagði að best væri að bíða þangað til að miðar væru seldir frá opinberum söluaðilum keppninnar. Björkman sagði að miðar væru enn ekki til sölu af því að það ætti eftir að taka ákvarðanir um sviðið og sæti. Þáttakendur. Fram að þessu hafa eftirfarandi lönd staðfest þáttöku. Armenía staðfesti þáttöku eftir að hafa verið fjarverandi árið áður. Fyrri undankeppnin. Ítalía, Svíþjóð og Bretland munu greiða atkvæði í fyrri undankeppninni. Síðari undankeppnin. Þýskaland, Frakkland og Spánn greiða atkvæði í síðari undankeppninni. Heimildir. 2013 Þorsteinn Sveinbjörnsson Egilson. Þorsteinn Sveinbjörnsson Egilson (5. janúar 1842 – 20. október 1911) var kaupmaður og sparisjóðsstjóri í Hafnarfirði. Þorsteinn var sonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors og Helgu Benediktsdóttur, dóttur Benedikts Gröndal eldri. Hann fæddist á Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þorsteinn kvæntist Arndísi Ásgeirsdóttur þann 23. mars árið 1862 en þau skildu. Með henni átti hann Sveinbjörn Ásgeir Egilson, ritstjóra, og Jón Árnason Egilson. Þorsteinn kvæntist síðar Elísabetu Þórarinsdóttur, dóttur Þórarins Böðvarssonar rithöfundar, alþingismanns og prests í Görðum á Áltanesi. Synir þeirra voru Þórarinn Böðvar Egilson, útgerðarmaður í Hafnarfirði, Gunnar Þorsteinsson Egilson, skipamiðlari í Reykjavík, og Egill Egilson. Eftir andlát Elísabetar kvæntist Þorsteinn Rannveigu Steinunni Hansdóttur Sívertsen. Þorsteinn hóf nám við Reykjavíkurskóla árið 1854 og lauk stúdentsprófi þaðan árið 1860. Hann lauk cand. theol.-prófi frá prestaskóla árið 1862 en vígðist aldrei sem prestur. Hann starfaði sem kaupmaður í Reykjavík og síðar Hafnarfirði og stofnaði þar sparisjóð. Þorsteinn fékkst aðeins við ritstörf og samdi meðal annars leikritin "Prestskosningin" og "Útsvarið". Bermúda-þríhyrningurinn. Bermúda-þríhyrningurinn, þekktur sem "þríhyrningur djöfulsins", er svæði í vesturhluta Norður-Atlantshafs þar sem fjöldi loftfara og skipa er sagður hafa horfið við dularfullar aðstæður. Mikið þang flýtur á yfirborði sjávar á þessu svæði, sem einnig er kallað Þanghafið sökum þess. Hafa sæfarendur frá fornu fari haft illan bifur á þessu svæði og óttast að þangið skemmi skrúfur skipa og skip strandi þar. Sumir hafa viljað kenna geimverum um hvörf loftfara og skipa á þessu svæði en rannsóknir á skjalfestum heimildum þykja sýna að margar sögur af dularfullum hvörfum áttu sér eðlilegar skýringar, voru ýktar eða áttu ekki við rök að styðjast og ýmsir opinberir aðilar fullyrða að á þessu svæði hafi ekki orðið fleiri hvörf en gengur og gerist á öðrum hafsvæðum. Skipti. Skipti er íslenskt fyrirtæki sem starfar einkum á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Hawaii Five-0. Hawaii Five-0 eru bandarískir sjónvarpsþættir sem fjalla um störf sérsveitarinnar á Hawaii. Þættirnir eru endurgerð þáttaraðar sem var sýnd frá 1968 – 1980. Þættirnir eru sýndir á Skjá Einum. Þórarinn Böðvarsson. Þórarinn Böðvarsson (3. maí 1825 – 17. maí 1895) var íslenskur prestur, rithöfundur og alþingismaður. Þórarinn fæddist í Gufudal í Austur-Barðastrandarsýslu. Hann var prestur í Görðum á Álftanesi frá 1868 til dauðadags og kostaði byggingu steinkirkju þar, sem reist var á árunum 1879 – 1889. Hann veitti einnig fé til stofnunar skóla, sem varð Flensborgarskólinn í Hafnarfirði. Þórarinn gaf út "Lestrarbók handa Alþýðu á Íslandi", sem oft var nefnd "Alþýðubókin", árið 1874. Þórarinn Böðvar Egilson. Þórarinn Böðvar Egilson (3. nóvember 1881 – 22. júlí 1956) var útgerðarmaður og framkvæmdastjóri í Hafnarfirði. Hann var sonur Þorsteins Sveinbjörnssonar Egilson, kaupmanns, og konu hans, Elísabetar Þórarinsdóttur. Þórarinn var dóttursonur Þórarins Böðvarssonar, prófasts í Görðum, og sonarsonur Sveinbjarnar Egilssonar, rektors. Þórarinn kvæntist 31. október 1908 Elísabetu Guðrúnu Halldórsdóttur Egilson, dóttur Halldórs Þórðarsonar, bókbindara í Reykjavík, og átti með henni tvær dætur, Sesselju Erlu Þórarinsdóttur Egilson og Maríu Dóru Egilson. Thor Möger Pedersen. Thor Möger Pedersen (31. janúar 1985) er skattamálaráðherra Danmerkur. Hann var aðeins 26 ára þegar hann tók við ráðherradómi og er langyngsti ráðherra í sögu Danmerkur. Pedersen, Thor Möger Útdráttur. Útdráttur er stutt lýsing eða samantekt á tilteknu gagni, oftast á fræðilegu efni, s.s. tímaritsgreinum, ritgerðum eða fræðibókum. Markmiðið er að veita lesandanum snögga yfirsýn á efninu, honum til glöggvunar, án þess þó að hann þurfi að lesa allt efnið til þess að átta sig á innihaldi þess. Útdráttur á því að geta staðið sjálfstæður, sem eins konar kjarnyrt, samanþjöppuð útgáfa af heildarefninu. Í fræðilegum gagnasöfnum geta útdrættir verið ákaflega mikilvægir því leitarvélar sumra fræðilegra gagnagrunna vinna einvörðungu leitarorð úr útdráttunum en ekki aðalefninu. Í sumum íslenskum fagtímaritinum, og á öðrum tungumálum, tíðkast að hafa sérstakan útdrátt á ensku. Í íslenskum háskólum er farið fram á að lokaritgerðir innihaldi útdrætti. Akkeri. Akkeri er auk þess að vera festing fyrir skip, festing fyrir ýmis mannvirki á landi. Þá er gjarnan steypustyrktarstál tengt við mannvirkið og lagt í jörðu þar sem er steypt utan um. Reynt er að búa til króka á stálteinana sem leggjast í steinsteypuna í jörðinni til að ná betri festu. Ýmsar aðrar gerðir af akkerum eru til. Festa má stálstög eða vinkla með múrboltum í berg eða steinsteypu sem fyrir er og tengja síðan mannvirkinu með ýmsum hætti. Lily Tomlin. Lily Tomlin (fædd Mary Jean Tomlin, 1. september 1939) er bandarísk leikkona, handritshöfundur, framleiðandi og uppistandari, sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The West Wing, Rowan and Martin's Laugh-In, Nine to Five og "Nashville". Einkalíf. Tomlin fæddist í Detroit, Michigan en ólst upp í Paducah, Kentucky. Stundaði hún nám við "Wayne State-háskólann" þar sem áhugi hennar á leiklist og gjörningi hófst. Eftir nám þá byrjaði hún að koma fram sem uppistandari í næturklúbbum í Detroit og seinna meir New York-borg. Hún lærði leiklist við "HB Studio" í Greenwich Village í New York-borg. Í mars 2009 fékk Tomlin "Fenway Healths - Dr. Susan M. Love-verðlaunin" fyrir framlag sitt til heilsu kvenna. Þann 16. mars 2012 voru Tomlin og Jane Wagner heiðraðar með stjörnu á Walk of Stars í Palm Springs, Kaliforníu. Tomlin er samkynhneigð og hefur verið í sambandi við Jane Wagner síðan 1971. Plötuútgáfa. Fyrsta grínplata Tomlin, "This Is A Recording", kom út árið 1971. Á henni leikur hún persónuna Ernestine, sem er talsímadama og samskipti hennar við viðskiptavini gegnum símann. Tomlin fékk Grammy-verðlaunin fyrir grínplötu ársins. Önnur grínplata hennar, "And That's The Truth", kom út árið 1972. Á henni er einleikur persónunnar Edith Ann. Var hún tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir bestu grínplötuna. Þriðja grínplata hennar, "Modern Scream", kom út árið 1975, á henni koma fram fjölmargar persónur Tomlins. Var hún tilnefnd til Grammy-verðlaunanna. Árið 1977 þá gaf Tomlin út "Lily Tomlin On Stage", sem er byggt á Broadway sýningu hennar. Var hún tilnefnd til Grammy-verðlaunanna. Leikhús. Fyrsta hlutverk Tomlin í leikhúsi var árið 1964 í "World of Illusion". Árið 1977 kom Tomlin fyrst fram á "Broadway" í "Appearing Nitely" sem var skrifað og leikstýrt af Jane Wagner. Tomlin hefur einnig komið fram í "Arf/The Great Airplane Snatch", "Below the Belt" og "My Trip Down the Pink Carpet". Árið 1985 kom Tomlin fram á "Broadway" í einleiknum "The Search of Signs of Intelligent Life in the Universe" sem skrifaður var af Jane Wagner. Tomlin fór svo í ferðlag um Bandaríkin til að sýna einleikinn. Endurtók hún síðan leikinn árið 2000 á "Broadway". Tomlin ferðist aftur um Bandaríkin árið 2004 til að sýna "The Search". Leikritið var einnig sýnt á Broadway við frábærar viðtökur sem og í Los Angeles og San Francisco. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Tomlin var árið 1966 í "The Garry More Show". Tomlin var kynnir í þættinum "Music Scene" árið 1969 og sama ár gerðist hún meðlimur þáttarins "Rowan & Martin´s Laugh-In". Þar urðu til persónurnar; hin skapbráða talsímadama Ernestine og hin kvikindslega sex ára stelpa Edith Ann og urðu þær vinsælustu persónur Tomlin í þættinum. Tomlin var ein af fyrstu grínleikkonunum til að koma fram í karlkynsbúniningi sem persónurnar Tommy Velour og Rick í "Rowan & Martin´s Laugh-In". Á árunum 1973-1982, skrifaði Tomlin ásamt Jane Wagner sex grínþætti þar sem Tomlin lék aðalhlutverkið. Fyrir hlutverk sitt í þáttunum þá vann hún þrenn Emmy-verðlaun og "Writers Guild of America"-verðlaunin. Tomlin hefur komið fram sem gestaleikkona í þáttum á borð við Saturday Night Live, Sesame Street, Desperate Housewives, NCIS, Frasier og Will & Grace. Árið 1994 – 1997 talaði Tomlin inn á teiknimyndaþáttinn "The Magic School Bus" sem Ms. Valerie Frizz. Tomlin lék forsetaritarann Debroah Fiderer í dramaþættinum The West Wing árin 2002 – 2006. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Tomlin var árið 1972 í "Scarecrow in a Garden of Cucumbers". Árið 1975 þá var henni boðið hlutverk í mynd Robert Altmans Nashville þar sem hún lék Linnea Reese. Fyrir hlutverk sitt í myndinni þá var Tomlin tilnefnd til Óskarsverðlaunanna. Síðan árið 1980 þá lék hún í Nine to Five á móti Dolly Parton og Jane Fonda. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Big Business", "Short Cuts", "Getting Away with Murder", Tea with Mussolini, "A Praire Home Companion" og The Pink Panther 2. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasty & Horror Films verðlaunin Kansas City Film Cirtics Circle verðlaunin Mark Twain Prize for American Humor verðlaunin National Society of Film Critics verðlaunin New York Film Critics Circle verðlaunin Tenglar. Tomlin, Lily Will Sasso. William „Will“ Sasso (fæddur 1975) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Sasso, Will Charles Fleischer. Charles Fleischer (fæddur 1950) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Fleischer, Charles Amy Sedaris. Amy Louise Sedaris (fæddur 1961) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Sedaris, Amy John Roberts. Jonathan „John“ Roberts (fæddur 1979) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Roberts, John Dan Mintz. Daniel „Dan“ Mintz (fæddur 1981) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Mintz, Dan Eugene Mirman. Eugene Boris Mirman (fæddur 1974) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Mirman, Eugene Loren Bouchard. Loren Hal Bouchard (fæddur 1969) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Bouchard, Loren Jim Dauterive. James Thomas „Jim“ Dauterive er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Dauterive, Jim Sean Hayes. Sean Patrick Hayes (fæddur 1970) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Hayes, Sean Jon Lovitz. Jonathan M. „Jon“ Lovitz (fæddur 1957) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Lovitz, Jon Wallace Shawn. Wallace Michael Shawn (fæddur 1943) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Shawn, Wallace Bette Midler. Bette Midler (fæddur 1945) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Midler, Bette Phil LaMarr. Phillip „Phil“ LaMarr (fæddur 1967) er bandarískur leikari og gamanleikari. Tenglar. LaMarr, Phil Kathryn Joosten. Kathryn Joosten (20. desember 1939 – 2. júní 2012) var bandarísk leikkona sem var þekktust fyrir hlutverk sín í The West Wing og Desperate Housewives. Einkalíf. Joosten var fædd og uppalin í Chicago, Illinois. Hún var gift geðlækni til ársins 1980 og saman áttu þau tvö börn. Áður en Joosten gerðist leikkona vann hún sem hjúkrunarkona á geðdeild Michael Reese-sjúkrahússins í Chicago. Eftir skilnaðinn byrjaði hún að koma fram í hverfisleikhúsum og á sama tíma tók hún leiklistartíma við "Steppenwolf Theater" í Chicago. Árið 1992 flutti Joosten til Orlando, Flórída þar sem hún vann sem götuleikari í Disney World í eitt ár. Eftir að hafa unnið og búið í Flórída í um þrjú ár þá ákvað hún að flytjast til Hollywood til að koma leiklistarferli sínum áfram. Lungnakrabbamein. Joosten hætti að reykja eftir 45 ár eftir að hún var greind með lugnakrabbamein. Árið 2007 þá tilkynnti Joosten í sjónvarpsþættinum "The View" að krabbameinið væri í rénum. Í september 2009 var Joosten greind með lugnakrabbamein í annað sinn. Hún gekkst undir skurðaðgerð og fjórar lyfjameðferðir og var laus við krabbameinið í janúar 2010. Joosten var nefnd forsvarskona fyrir "Lung Cancer Profiles herferðina" fyrir hönd "Pfizer". Andlát. Joosten lést úr lugnakrabbameini 2. júní 2012 eftir ellefu ára baráttu við sjúkdóminn. Hún lést aðeins tuttugu dögum eftir að persóna hennar Karen McCluskey úr Desperate Housewives lét lífið úr sama sjúkdómni. Leikhús. Joosten hafði komið fram í leikritum á borð við "Ladies of the Corridor", "The Front Page", Annie og "Night of the Iguana". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Joosten var árið 1985 í sjónvarpsmyndinni "Lady Blue". Joosten kom fram sem gestaleikari í mörgum af vinsælustu sjónvarpsþáttunum sem hafa verið gerðir og meðal þeirra eru Chicago Hope, Roseanne, Seinfeld, Frasier, NYPD Blue, Home Improvement, Dharma & Greg, Spin City, General Hospital, Charmed, Will & Grace, Gilmore Girls, Grey's Anatomy, The Closer, Monk og Scrubs. Á árunum 1999-2002,lék Joosten stórt aukahlutverk í dramaþættinum The West Wing sem forsetaritarinn Dolores Landingham. Joosten lék einnig stórt aukahlutverk í Desperate Housewives sem Karen McCluskey frá 2005-2012 og fyrir hlutverk sitt þá vann Joosten tvenn Emmy-verðlaun sem besta leikkona í gestahlutverki. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Joosten var árið 1984 í "Grandview, U.S.A.". Kom hún síðan fram í kvikmyndum á borð við "Eating Las Vegas", "Cojones", Wedding Crashers, "The Gold Lunch" og. Tenglar. Joosten, Kathryn Evrópukeppnin í knattspyrnu 2012. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2012, oft nefnd EM 2012, var í fjórtánda skiptið sem Evrópukeppnin í knattspyrnu karla er haldin. Mótið var sameiginlega haldið í Úkraínu og Póllandi frá 8. júní til 1. júlí 2012 á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. Þetta var í fyrsta skipti sem löndin halda mótið. Sigurvegari mótsins var landslið Spánar eftir 4-0 sigur á Ítölum. Fyrir titilinn fengu þeir þátttökurétt á Álfumótið í Brasilíu 2013. Á mótinu kepptu samtals sextán landslið sem komust áfram í undankeppni. Undankeppnin fór fram á tímabilinu ágúst 2010 og nóvember 2011. Í henni tóku 51 landslið þátt. Þetta var í síðasta skipti sem aðeins sextán taka þátt í lokakeppninni, á EM 2016 verður 24 liðum boðin þátttaka. Mótið var haldið á átta leikvöngum, fjóra í hvoru landi. Fimm leikvangar voru sérstaklega byggðir fyrir mótið, auk þess sem að miklum fjármunum var veitt til að bæta samgöngur í löndunum. Þátttökulið. Hvert lið er skipað 23 leikmönnum, þar sem hver leikmannahópur þarf að skipa að minnsta kosti þremur markvörðum. Riðlakeppni. Riðlakeppnin stendur frá 8. til 19. júní 2012. Riðill A. "Grikkland er fyrir ofan Rússland vegna þess að Grikkland sigraði innbyrðis leik þeirra." Heimildir. 2012 Óðinn Jónsson. Óðinn Jónsson (fæddur 5. ágúst 1958 á Akureyri) er fréttastjóri RÚV. Hann er með BA-próf í sagfræði og íslensku við Háskóla Íslands. Hann lauk diplómanámi í opinberri stjórnsýslu. Hann hóf störf við dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu-hljóðvarpi árið 1982 og sinnti henni með námi í sagnfræði og starfi í auglýsingagerð frá 1983 til 1986. Hann varð fastráðinn fréttamaður á Fréttastofu útvarps í ársbyrjun 1987, en vann að auki á Fréttastofu sjónvarps hluta ársins 1988 og aftur árið 2000. Frá 1994 til 1996 gegndi hann starfi fréttamanns Ríkisútvarpsins, sjónvarps og útvarps, á Norðurlöndum utan Íslands, með aðsetur í Kaupmannahöfn. Við heimkomuna 1996 tók Óðinn við starfi þingfréttamanns útvarps og gegndi því til ársins 2002. Hann varð einn varafréttastjóra á Fréttastofu útvarps árið 2001, sinnti vaktstjórn og stýrði Morgunvaktinni frá 2003 til 2005. 3. apríl 2005 varð hann fréttastjóri á Fréttastofu útvarps frá og um leið yfirmaður ruv.is. Í starfi fréttastjóra RÚV felst stjórn almennra frétta í sjónvarpi, útvarpi og á ruv.is, fréttaþátta á borð við Landann, Morgunútvarpið og Síðdegisútvarpið á Rás 2, Spegilinn og Vikulokin, auk yfirstjórnar íþróttaumfjöllunar. Hann hefur verið fréttastjóri RÚV frá sameiningu fréttastofu sjónvarps og útvarps 16. september 2008. Hamrahverfi. Hamrahverfi er eitt af níu íbúahverfum Grafarvogs í Reykjavík. Hverfið er einn hringur sem nefnist "Lokinhamar", en svo ganga 15 aðrar götur út frá honum. Þær nefnast: Bláhamrar, Dverghamar, Dyrhamrar, Geithamrar, Gerðhamrar, Hesthamar, Hlaðhamrar, Krosshamrar, Leiðhamarar, Neshamrar, Salthamarar, Sporhamrar, Stakkhamarar, Svarthamarar og Vegghamarar. Eyþór Þorláksson. Eyþór Þorláksson (fæddur 22. mars 1930) er íslenskur gítarleikari, tónsmiður og gítarkennari. Foreldrar hans voru María Jakobsdóttir, ættuð frá Aðalvík, og Þorlákur Guðlaugsson úr Biskupstungunum. Eyþór byrjaði ungur að leika á hljóðfæri. Frá 1946 til 1992 lék Eyþór í ýmsum íslenskum og erlendum danshljómsveitum. Á árunum 1950 - 1952 stundaði hann nám í gítarleik í Englandi, Danmörku og Svíþjóð og árið 1953 í Madríd hjá Daniel Fortea og Quintin Esquembre. Á árunum 1954 - 1957 lærði hann hljómfræði og kontrapunkt hjá Dr. Urbancic og 1958 - 1961 var hann við framhaldsnám í gítarleik hjá í Barcelona. Síðan hefur hann verið aðal gítarkennari við og hefur útsett og skrifað mikið kennsluefni fyrir gítar, en er nú hættur störfum og heldur áfram að útsetja og semja fyrir gítarinn. Útgefnar tónbækur. [1037] The first guitar lessons. Method for beginners with accompaniment. (Icelandic text). ISBN 978-9935-446-00-8 [1038] Guitar Method I. 1. grade. ISBN 978-9935-446-01-5 [1032] Guitar Method II. 2. grade. ISBN 978-9935-446-02-2 [1004] Guitar Tunes. Folk songs from all over, easy arrangements for the beginner. 76 tunes. (Icelandic text). ISBN 978-9935-446-03-9 [1005] Guitar Moment I. Collection and arrangements Eythor Thorlaksson. ISBN 978-9935-446-08-4 [1033] Guitar Moment II. Collection and arrangements Eythor Thorlaksson. ISBN 978-9935-446-09-1 [1034] Guitar Moment III. Collection and arrangements Eythor Thorlaksson. ISBN 978-9935-446-10-7 [1086] Guitar Moment IV. Collection and arrangements Eythor Thorlaksson. ISBN 978-9935-446-11-4 [1025] Scales and arpeggios. Collected and fingered by Eythor Thorlaksson. 1st - 8th grade. ISBN 978-9935-446-04-6 [1110] Sight reading samples. 1st - 8th grade. ISBN 978-9935-446-05-3 [1153] Studies 1 - 4. ISBN 978-9935-446-06-0 [1154] Studies 5 - 8. ISBN 978-9935-446-07-7 [1165] Partita en E minor, Allemande, Courante, Sarabanda, Gavota, Giga. ISBN 978-9935-446-13-8 [1159] Estudio de contrapunto. ISBN 978-9935-446-15-2 [1030] 6 Pop sketches. ISBN 978-9935-446-20-6 [1045] Improvisation no. 1, 2 and 3. ISBN 978-9935-446-22-0 [1047] Preludes no. 1, 2 and 3. ISBN 978-9935-446-23-7 [1049] Tonada de contrapunto. ISBN 978-9935-446-24-4 [1057] 8 guitar pieces. ISBN 978-9935-446-25-1 [1043] Chôro de Velez. ISBN 978-9935-446-27-5 [1044] Chôro de Feria. ISBN 978-9935-446-28-2 [1021] Three little pieces. ISBN 978-9935-446-30-5 [1129] Suite Tropical. Onda Tropical - Aguas Claras - Vals Caribe. ISBN: 978-9935-446-31-2 [1143] Prelude no. 4. ISBN 978-9935-446-34-3 [1144] Waltz no. 6. ISBN 978-9935-446-35-0 [1200] Arco Iris en Primavera. ISBN 978-9935-446-39-8 [1201] El tiempo pasa. ISBN 978-9935-446-40-4 [2001] Guitar duets - Volume I. 16 songs from different countries. ISBN 978-9935-446-43-5 [2004] Guitar duets - Volume II. 16 songs from different countries. ISBN 978-9935-446-44-2 [2007] Kanon fantasy. Guitar duet. (score and parts). ISBN 978-9935-446-45-9 [2027] Divertimento. Guitar duet. ISBN 978-9935-446-46-6 [2028] Brisa Marina. Guitar duet. ISBN 978-9935-446-47-3 [2039] Tema popular de Brasil. ISBN 978-9935-446-48-0 [3001] 12 Guitar trios for beginners. Arrangements by Eythor Thorlaksson. ISBN 978-9935-446-49-7 [3014] Andante al estilo antiguo. ISBN 978-9935-446-51-0 [4016] Camino de Felanitx - Guitar Quartet. ISBN 978-9935-446-53-4 [4023] Danza Andaluza. Arrangement by Eythor Thorlaksson (score and parts). ISBN 978-9935-446-55-8 Lambafellsgjá. Lambafellsgjá er gjá stutt frá Keili á Reykjanesi. Stuttur gangur er frá Eldborg að Lambafelli og troðningur leiðir mann alla leið að neðri enda gjárinnar, sem er bæði djúp, þröng og brött. Kodo le tyran. Kodo le tyran (íslenska: "Einræðisherrann Kodo") er 28. Svals og Vals-bókin og sú áttunda eftir Fournier. Hún var fyrri hlutinn í tveggja binda verki, en seinni hlutinn nefndist "Des haricots partout". Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1978 og kom út á bókarformi árið 1979. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst þar sem Svalur og Valur eru staddir í Burma með það að markmiði að heimsækja smáríkið "Catung", sem er harðlæst og lýtur herforingjastjórn. Með aðstoð drykkfellds flugmanns sleppa þeir inn í landið en Valur fellur til jarðar og týnist í frumskóginum. Þar rambar hann fram á lífsleiðan útsendara alþjóðlegra glæpasamtaka sem sér herforingjastjórninni fyrir vopnum í skiptum fyrir eiturlyf. Útsendarinn, sem er nauðalíkur Val, þvingar hann til að skipta um hlutverk. Valur heldur til höfuðborgarinnar og kynnist starfsháttum herforingjastjórnarinnar sem lýtur stjórn Kodos hershöfðingja. Hann skipar honum að koma á ýmsum úrbótum, s.s. afnámi dauðaresingar. Svalur kemst á sama tíma í kynni við fulltrúa andspyrnuhreyfingarinnar í landinu sem stefnir á að steypa stjórnvöldum. Andspyrnuhreyfingin fær fregnir af því að fulltrúi glæpasamtakanna hyggist fara í könnunarferð á landsbyggðinni og undirbýr að ráða hann af dögum með því að sprengja upp brú sem leið hans liggur um. Fulltrúar stjórnarinnar hyggjast gera slíkt hið sama og kenna andspyrnunni um, til að losna við Val. Á síðustu stundu áttar Svalur sig á því Valur er í raun fulltrúi mafíunnar. En verður það of seint? Chris Diamantopoulos. Christopher „Chris“ Diamantopoulos (fæddur 1975) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Diamantopoulos, Chris Karólínska stofnunin. Karólínska stofnunin (sænska: "Karolinska institutet") er ríkisháskóli á sviði heilbrigðisvísinda í Stokkhólmi í Svíþjóð. Lukkstaður. Lukkstaður (þýska: "Glückstadt", danska "Lykstad") er borg í Steinburg í Slésvík-Holtsetaland í Þýskalandi. Ekki má rugla Lukkstað við Lukkuborg. Álfhólsskóli. Álfhólsskóli er grunnskóli í Kópavogi sem varð til við sameiningu Hjallaskóla og Digranesskóla. Sameiningin varð um sumarið 2010. Yngri nemendurnir eru staðsettir í fyrrum Digranesskóla og eldri nemendur í fyrrum Hjallaskóla. Sniglabandið. Sniglabandið er íslensk hljómsveit, sem var stofnuð árið 1985 og hefur starfað nær óslitið síðan. Sniglabandið var upphaflega nátengt Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Sniglum. Eftir því sem árin liðu fór hljómsveitin að feta sína eigin slóð og lúta sínum eigin lögmálum. Liðsskipan. Fljótlega urðu mannaskipti, Ólafur hætti en Stefán Hilmarsson gerðist söngvari bandsins, Björgvin Ploder settist við trommusettið en Sigurður tók sér rafgítar í hönd. Einar Rúnarsson orgelleikari kom sterkur inn. Þannig skipað lék Sniglabandið á áramótadansleik á Þórshöfn á Langanesi á gamlárskvöld 1985. 1987 hættu þeir Stefán og Sigurður, en Baldvin Ringsted tók við rafgítarleik. Sigurður kom þó inn aftur árið 1989 þegar hljómsveitin fór í fræga för til Sovétríkjanna sálugu. Eftir heimkomuna hætti Bjarni Bragi, en Friðþjófur Sigurðsson tók við bassanum. Baldvin hætti 1990 og var Þorgils Björgvinsson ráðinn rafgítarleikari hljómsveitarinnar og hefur verið það æ síðan. Pálmi Sigurhjartarson settist við píanóið 1992. Skúli Gautason, gítar, slagverk og söngur Um miðjan tíunda áratug 20. aldar tóku þeir Friðþjófur og Skúli sér hlé frá störfum til að fara á drykkjumannahæli. Í hléinu reyndu flestir af fremstu bassaleikurum þjóðarinnar fyrir sér í bassaleikarastöðunni, en entust illa. Þar má nefna Tómas M. Tómasson, Jakob Smára Magnússon, Þórð Högnason, Harald Þorsteinsson og Eið Arnarson. Hljómsveitin var komin í sitt fyrra horf uppúr aldamótum og þannig er hljomsveitin skipuð enn þann dag í dag (þetta er ritað 2013). Útvarpsþættir. Sniglabandið er ekki síst þekkt fyrir útvarpsþætti sína. Meginefni þáttanna er að hljómsveitin leikur óskalög fyrir hlustendur sem hringja inn í þáttinn. Hljómsveitin hefur haft fyrir reglu að neita ekki að spila lög þó hún þekki viðkomandi lag ef til vill ekki til hlítar. Þættirnir voru fyrst reglulega á dagskrá á Aðalstöðinni frá 1992, en síðan á Rás 2, þar sem þeir hafa verið öðru hvoru síðan. Á seinni árum hafa þættirnir verið sendir út með áhorfendum í sal, enda þykja þættirnir ekki síður hafa sjónrænt skemmtigildi en hljóðrænt. Sniglabandið tók upp á því að bjóða síðasta hlustandanum sem hringdi inn í hverjum þætti að velja sér uppskrift að lagi sem hljómsveitin samdi síðan fyrir næsta þátt. Hlustandinn átti þannig að segja um hvað lagið átti að vera og fyrstu orðin í viðlaginu. Sumir báðu um sérstakan tónlistarstíl. Nokkur þessara laga hafa náð miklum vinsældum, s.s. Britney og Selfoss er. Brot úr útvarpsþáttunum og frumsömdu óskalögin hafa komið út á plötum, m.a. Rúvtops og Vestur. Maria Farantouri. Maria Farantouri (stundum skrifað "Maria Farandouri", fædd 28. nóvember 1947 í Aþenu) er grísk söngkona en einnig pólítískur og menningarlegur aktivisti. Hún hefur unnið með efnilegum grískum lagahöfundum eins og Mikis Theodorakis sem samdi meðal annars tónlist við ljóðaflokk "Canto General" eftir Pablo Neruda og sem Maria Farantouri flutti. Heimild. Farantouri, Maria Mario Monti. Mario Monti (fæddur 19. mars 1943) er ítalskur hagfræðingur sem var forsetisráðherra og fjármálaráðherra Ítalíu frá 2011 til 2013. Monti, Mario Hörður J. Oddfríðarson. Hörður Jónsson Oddfríðarson (fæddur 9. nóvember 1964) er formaður Sundsambands Íslands síðan í febrúar 2006 og var varaformaður SSÍ í þrjú ár þar á undan. Hann starfar sem dagskrárstjóri Göngudeildar SÁÁ í Reykjavík og er formaður Hverfisráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis. Hörður hefur verið virkur í stjórnmálum frá árinu 1981 er hann gekk í Alþýðubandalagið. Hann var gjaldkeri Æskulýðsfylkingarinnar frá 1987 til 1989 og sat á sama tíma í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins. Hörður var afgreiðslustjóri "Þjóðviljans" 1986 til 1988. Hann var í hópi fólks sem stofnaði Nýjan vettvang árið 1990 og sat í stjórn Strætisvagna Reykjavíkur fyrir hönd framboðsins 1990 til 1994. Hörður er kvæntur Guðrúnu Björk Birgisdóttur og eiga þau tvo syni. Sparisjóður Keflavíkur. Sparisjóður Keflavíkur (eða SpKef) var sparisjóður í Keflavík sem var stofnaður á fimmta áratug 20. aldar og gekk inn í Landsbankann 2011. Sparisjóður Keflavíkur var mikið í umræðunni eftir hrun vegna spillingar og vafasamra útlána. Stóri dani. Stóri dani er afbrigði af hundi, þekktur fyrir stærð sína. Hann er einn af stærstu hundategundunum. Núverandi heimsmetshafi; 109 cm að stærð frá loppu til herðakambs og 220 cm frá höfði til rófu, er George. Tage Ammendrup. Tage Ammendrup árið 1947 þegar Íslenskir tónar voru stofnaðir. Tage Ammendrup (1. febrúar 1927 – 9. maí 1995) var kaupmaður í versluninni Drangey og eigandi hljómplötuútgáfunnar Íslenskra tóna allt til ársins 1965 er hann hóf störf sem dagskrárgerðarmaður og upptökustjóri hjá Sjónvarpinu. Hann vann hjá Sjónvarpinu allt frá stofnun þess og til æviloka. Fjölskylda. Foreldrar Tage voru "María S. Ammendrup", kaupkona (14. september 1903 – 30. júní 1975) og "Povl Chr. Ammendrup", klæðskera- og feldskerameistari (7. febrúar 1896 – 12. nóvember 1978). Hann átt eina systur, "Jane Ammendrup" (1934–1935), sem dó barnung. Eiginkona Tage var "María Magnúsdóttir Ammendrup" (14. júní 1927 – 28. ágúst 2010) og börn þeirra Páll (1947), Axel (1952–1999) og María (1962). Skólaganga. Tage stundaði barnaskólanám í Landakotsskóla og hóf fiðlunám átta ára gamall. Hann stundaði nám í tónfræði, sögu og hljómfræði í Tónlistarskólanum samhliða fiðlunámi um nokkurra ára skeið (1945 – 1950). Hann spilaði einnig á mandolín og lék um skeið með Mandolínhljómsveit Reykjavíkur og M.A.J. tríóinu. Hann tók hluta af verslunarprófi og sótti námskeið í verslunartengdum greinum og tungumálum. Verslunin Drangey. Tage varð hluthafi í verslun móður sinnar Drangey að Laugavegi 58, aðeins fjórtán ára gamall. Hann tók við öllum erlendum innkaupum árið 1944 og árið 1945 var byrjað að selja hljóðfæri, hljómplötur og nótur í Drangey meðfram leðurvörum, töskum og vefnaðarvöru. Íslenzkir tónar og önnur útgáfustarfsemi. Tage stofnaði plötuútgáfuna Íslenzka tóna í apríl 1947, en ein helsta ástæða þess var að hann fann fyrir mikilli eftirspurn eftir íslensku efni í versluninni. Hann keypti upptökutæki til landsins og hóf að taka upp á plötur fyrir einkaaðila í upptökusal inn af versluninni. Hann gaf út nótur undir merkjum Drangeyjarútgáfunnar, einkum nótur dægurlaga, en einnig kennslubækur í hljóðfæraleik og fimmtán hefti af danslagatextum. Árið 1947 gaf hann út tímaritið Jazz, fyrsta Jazz-tímarit á Íslandi og að áeggjan mætra tónlistarmanna hóf hann útgáfu á alhliða tónlistarblaði sem hét Musica og var gefið út í þrjú ár (1948 – 1950). Þessi tímarit höfðu öðruvísi og nýstárlegra útlit en flest önnur tímarit á þessum árum. Tímaritaútgáfan lagðist af vegna tímaskorts enda fyrst og fremst um hugsjónastarf að ræða. Árið 1952 hófst hin eiginlega plötuútgáfa Íslenzkra tóna og henni lýkur áríð 1964. Íslenzkir tónar var fyrst útgáfufyrirtækja til að standa að viðamikilli útgáfu á íslenskum dægurlögum. Á tímabilinu 1952-1964 gaf fyrirtækið út í kringum hundrað 78 snúninga plötur, um hundrað 45 snúninga plötur og tvær (tvöfaldar) 33 snúninga plötur. Óhætt er að segja að Tage hafi gefið út stærstan hluta þeirra platna sem komu á þessum árum. Samhliða plötuútgáfunni gaf Tage út ritið Hljómplötunýjungar árið 1954. Útgáfan endurspeglaði víðsýni Tage og fjölbreyttan tónlistarsmekk. Mest var gefið út af dægurlögum, en einnig voru gefnar út klassískar plötur, sönglög, þjóðlög, jazz, sveitatónlist og rokk. Nokkrar barnaplötur voru gefnar út, syrpuplötur með sígildum slögurum og plata með íslenskum rímum. Tage fékk hæfustu listamenn til liðs við sig og meðal söngvara sem sungu inn á plötur Íslenzkra tóna voru: Sigfús Halldórsson, Svavar Lárusson, Soffía Karlsdóttir, Alfred Clausen, Sigrún Jónsdóttir, Ingibjörg Þorbergs, Helena Eyjólfsdóttir, Jóhann Möller, Nora Brocksted, Elly Vilhjálms, Ragnar Bjarnason, Skapti Ólafsson og Óðinn Valdimarsson. Einnig sungu klassískir söngvarar inn á plötur: Guðrún Á. Símonar, Sigurður Ólafsson, María Markan, Þuríður Pálsdóttir, Kristinn Hallsson, Magnús Jónsson, Sigurður Björnsson og Ketill Jensson. Nokkur þekkt lög sem Íslenzkir tónar gáfu út: "Litla flugan", "Söngur villiandarinnar", "Hreðavatnsvalsinn", "Bílavísur", "Manstu gamla daga", "Litli vin", "Meira fjör", "Lukta-Gvendur", "Sjómannavalsinn", "Ágústnótt", "Sjana síldarkokkur", "Síldarvalsinn", "Aravísur", "Guttavísur", "Pabbi vill mambo", "Það var lítið hús" (Nora Brocksted), "Hvítir mávar", "Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig", lögin úr Deleríum Búbonis, "Einsi kaldi úr Eyjunum", "Í kjallaranum", "Komdu niður", "Maja litla", "Fjórir kátir þrestir", "Hún var með dimmblá augu", "Þórsmerkurljóð", "Ég er kominn heim", "Á morgun", "Ég veit þú kemur", "Ömmubæn", "Ship-ohoj", "Ef þú giftist mér", "Blikandi haf", "Allt á floti", "Gamla gatan", "Það er draumur að vera með dáta" og svo má lengi telja. Kabarettar. Tage var áhugasamur um að koma listamönnunum á framfæri sem kostur var, bæði á Íslandi og erlendis. Hann stóð meðal annars fyrir vinsælum miðnæturskemmtunum í Austurbæjarbíói 1954 og Revíu-kabarettum 1955 og 1956 (8-15 sýningar fyrir fullu húsi), þar sem helstu tónlistarmenn, dansarar og leikarar komu fram. Þar kom meðal annars fram bandarískur rokkari sem líkast til er einn sá fyrsti til að syngja rokk opinberlega hérlendis. Innflutningur listamanna. Leikskrá af tónleikum Ibolyku Zilzer í október 1946.Tage kom að því að fá til Íslands erlenda einsöngvara, einleikara og hljómsveitir. Hann var aðeins 19 ára þegar hann flutti inn ungverska fiðluleikarann Ibolyku Zilzer, en hún hélt þrenna tónleika í Gamla bíói í október 1946. Píanóleik annaðist Victor Urbancic. Tónleikarnir fengu jákvæða dóma. Tage aðstoðaði SÍBS við að fá hingað hinn sænska dægurlagasöngvara Gösta „Snoddas” Nordgren sem hélt nokkrar vel sóttar skemmtanir í Austurbæjarbíói í mars 1953 og vakti athygli í bæjarlífinu. Nora Brockstedt og Monn Keys í Austurbæjarbíói árið 1954. Tage stóð fyrir komu norsku söngkonunnar Noru Brockstedt og hljómsveitarinnar Monn Keys árið 1954. Hljómsveitin hélt nokkrar skemmtanir í Austubæjarbíói við góðar undirtektir. Skemmtanirnar voru fjölbreyttar, flutt voru gamanmál, amerísk og norræn dægurlög sungin og sungið á íslensku svo nefnd séu dæmi. Miði á tónleika Rex Stewart sem aldrei varð af. Fræg er ætlun Tage að flytja inn hljómsveit hörundsdökka jazztrompetleikarans Rex Stewart 1947. Fyrirfram var uppselt á nokkra tónleika en samþykkt var á Alþingi að heimila ekki innflutning slíkra „trúða”, enda hafði hljómsveit af þessu tagi aldrei til Íslands komið. Um þetta atvik spunnust töluverðar pólitískar blaðadeilur. Brautryðjandi. Tage var framsýnn maður og brautryðjandi á mörgum sviðum. Hann var fyrstur til að gefa út Jazz-blað á Íslandi, fyrstur til að gefa út plötu með íslenskri danshljómsveit og fyrstur til að standa að umtalsverðri útgáfu íslenskra dægurlaga. Hann var fyrstur til að gefa út 45 snúninga (1954) og 12 tommu 33 snúninga plötur (1960) á Íslandi, þrátt fyrir að þær breytingar kæmu fyrirtæki hans að mörgu leyti illa. Hann prófaði plötur í ýmsum litum fyrstur manna og lét gera nýstárlegt kynningarefni. Hann lét taka upp fyrstu rokklög á Íslandi (IM 117) og ótaldar eru nýjungar þær sem listamennirnir sjálfir buðu upp á í flutningi sínum og féllu í góðan jarðveg hjá Tage. Það var því vel við hæfi að Tage var ráðinn í starf upptökustjóra og dagskrárgerðarmanns þegar Sjónvarpið hóf starfsemi sína. Þar gat hann haldið áfram að koma hæfileikafólki á framfæri og miðla af verðmætri reynslu. Áhugamál. Eitt helsta áhugamál Tage var ljósmyndun. Hann hafði afar næmt auga fyrir góðri myndbyggingu eins og sjá má í þeim fjölda sjónvarpsþátta sem hann tók upp. Hann taldi ekki eftir sér að ganga langar vegalengdir eða vakna fyrir allar aldir til að ná rétta skotinu. Hann var líka áhugasamur um trjárækt og var einn af frumkvöðlum skógræktar í Mosfellsdal. Hann hafði áhuga á lífi Íslendinga í Vesturheimi á fyrri tímum og sérstakan áhuga á frumkvöðlinum Hirti Thordarsyni, en um hann gerði hann heimildarmyndina Hugvitsmaðurinn sem hann var að leggja síðustu hönd á þegar hann lést. Árin í Ríkisútvarpinu. Tage vann við dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu 1945 og 1946 og aftur á árunum 1962 – 1965, þegar hann stjórnaði vinsælum skemmtiþáttum í útvarpi, meðal annars þættinum „Hvað er svo glatt“ árið 1965. Hann hóf síðan störf hjá Sjónvarpinu 1965 en þar vann hann til æviloka. Hann tók upp um 1340 þætti í Sjónvarpinu: leikrit, skemmtiþætti, viðtalsþætti, heimildarmyndir og barnaefni svo nokkuð sé nefnt. Birkikemba. Birkikemba (fræðiheiti: "Eriocrania unimaculella") er smávaxið fiðrildi. Hún er aðeins 6 mm á lengd og með 10 mm vænghaf. Útbreiðslusvæði hennar er í Mið- og Norður-Evrópu en til Íslands er talið að hún hafi borist í kring um 2005 en þá varð hennar fyrst vart í Hveragerði. Síðan þá breiddist hún hratt út og 2012 var hana að finna auk Ölfussins víðast hvar á höfuðborgarsvæðinu. Lifnaðarhættir. Skemdir á birkilaufi í Fossvoginum 2012, eftir birkikembu. Kjörlendi Birkikembunar er trjárækt og húsagarðar með birki ("Betula pubescens"). Á vorinn í fyrrihluta apríl skríður hún úr púpunni en sem púpa liggur hún í dvala yfir veturinn. Hún er aðeins á flögri fram í maí og hverfur um miðjan mánuðinn. Hún verpir eggjum í brum birkisins sem klekjast út við laufgun þess. Lirfan lifir innan í laufblaðinu sem sölnar smám saman við át hennar uns það stendur aðeins eftir brúnt og uppblásið. Úr þessum uppblásna belg skríður lirfan fullvaxin og fer niður í jörðina til að púpa sig. The Asphalt Jungle. The Asphalt Jungle er bandarísk svart-hvít kvikmynd frá 1950. Hún er byggð á samnefndri skáldsögu eftir W. R. Burnett. Aðaleikarar eru Sterling Hayden, Jean Hagen, Sam Jaffe, Louis Calhern, James Whitmore og í minniháttar- en lykilhlutverki er Marilyn Monroe sem var óþekkt á þeim tíma. Kvikmyndin segir frá hópi manna sem skipuleggja og framkvæma rán á skartgripum. Hún var tilnefnd til fjagra Óskarsverðlauna. LARP. LARP, þ.e. Live Action Role Playing, er leikur þar sem þátttakendur mætast á leikvelli og leika sem persónur úr sögu sem þeir skapa sjálfir í gegnum samskipti og oft slagsmál með þykjustu vopnum, svo sem froðusverð og dótabyssa. Hóll. Hóll er mishæð í landslagi en ekki nógu há til að kallast fell eða fjall. Hólar setja mikinn svip á landslagið og oft erfitt að sjá hvað leynist bakvið hólinn. Hóla er að finna víða og ekki er erfitt þekkja þá því þer eru mun hærri enn margt annað í kring. John Waters. John Samuel Waters (fæddur 22. apríl 1946) er bandarískur kvikmyndagerðarmaður, leikari, uppistandari, handrita- og rithöfundur, blaðamaður, listamaður og listaverkasafnari. John Waters fæddist og ólst upp í Baltimore, Maryland, sonur Patricia Ann (fædd Whitaker) og John Samuel Waters. Hann fékk snemma áhuga á kvikmyndum og brúðuleik. Hann hefur sjálfur sagt frá því að kvikmyndin "Lili" frá 1953 hafi kveikt áhuga hans á brúðuleik þegar hann var sjö ára. Hann hóf þá uppsetningar á eigin brúðuleikritum í barnaafmælum, oft mjög ofbeldisfullum sögum. Hann mun líka hafa stolist til að horfa á hallærislegar kvikmyndir í bílabíóum, vopnaður kíki. John Waters hóf ungur að gera kvikmyndir með vinum sínum. Í upphafi 8. áratugarins tók frægðarsól John Waters að rísa. Hann skapaði sér nafn á jaðri kvikmyndaiðnaðarins með verkum sem ögruðu venjulegum samfélagsstöðlum og dróg dár að þeim. Myndir þessar gerast allar í Baltimore og hefur hann haft þann háttinn á hingað til að láta þær allar gerast í fæðingarborg sinni. Í upphafi ferils síns vann hann með hóp sem kallað sig The Dreamlanders. Sá samanstóð af vinum Waters frá Baltimore og innihélt meðal annarra Divine, David Lochary, Mary Vivian Pearce og Edith Massey. Af fyrri myndum Waters má nefna "Pink Flamingos" (1972), "Female Trouble" (1974) og "Desperate Living" (1977). Þær mætti flokka sem yfirgengilega óviðeigandi á meðvitaðan máta og sem dýrðaróð til misgjörða. Árið 1988 gerði Waters kvikmyndina "Hairspray". Hún gekk vel og færði Waters nær meginstraumi kvikmynda. Í næstu myndum fékk Waters til liðs við sig nafntogaða leikara. Efnistök mynda hans voru ekki eins róttæk og í upphafi ferilsins. Hann hélt þó áfram að vera málsvari utangarðamanna og boðar á eigin vísu jafnrétti og upplýst viðhorf með verkum sínum. Waters býr enn og starfar í Baltimore og skartar enn sama örmjóa yfirvaraskegginu síðan í árdaga 8. áratugarins. Blái drengurinn. Blái drengurinn er olíumálverk sem breski listamaðurinn Thomas Gainsborough málaði um 1770 og er líklega þekktasta verk hans. Talið er að drengurinn á málverkinu sé Jonathan Buttall, sonur auðugs ensks kaupmanns. Verkið var í eigu Buttalls þar til hann varð gjaldþrota árið 1796 en var þá selt og komst í eigu jarlsins af Grosvenor árið 1809. Afkomendur hans seldu verkið árið 1921. Þá eignaðist það bandaríski járnbrautafrumkvöðullinn og auðmaðurinn Henry Edward Huntington, sem greiddi fyrir það 182.200 sterlingspund, hæsta verð sem þá hafði verið greitt fyrir nokkurt málverk. Verkið var flutt til Bandaríkjanna ári síðar og er nú í Huntington-safninu í San Marino í Kaliforníu. Eftirprentanir af Bláa drengnum og útsaumsmyndir gerðar eftir málverkinu hafa lengi verið vinsælt stofustáss á íslenskum og erlendum heimilum. Karl 9.. Karl hertogi á málverki eftir óþekktan listamann. Karl hertogi eða Karl 9. (4. október 1550 – 30. október 1611) var konungur Svíþjóðar frá 1604 til dauðadags. Hann var yngsti sonur Gústafs Vasa og síðari eiginkonu hans Margareta Leijonhufvud. Hann fékk konungsveitingu fyrir hertogadæmi í Suðurmannalandi sem náði yfir héruðin Närke og Vermaland en fékk ekki yfirráð yfir þeim fyrr en eftir fall eldri hálfbróður síns Eiríks 14. árið 1569. Hann leiddi uppreisnina gegn Eiríki 1568 en konungdæmið kom síðan í hlut eldri bróður hans Jóhanns 3. Við lát Jóhanns 1592 gekk ríkið til sonar hans Sigmundar Vasa en Karl kom því til leiðar að kirkjuþing í Uppsölum kvæði á um að konungur Svíþjóðar skyldi styðja mótmælendatrú í landinu. Sigmundur lofaði að gera það og var krýndur konungur 1594 en við það gengu Svíþjóð og Pólsk-litháíska samveldið í konungssamband. Í reynd var þó hollusta meirihluta Svía meiri við Karl sem markvisst gróf undan valdi Sigmundar. Þessari togstreitu lyktaði með því að sænska stéttaþingið steypti Sigmundi formlega af stóli 1599. 24. febrúar 1600 var tilkynnt að Sigmundur léti eftir kröfu sína til sænsku krúnunnar og Karl hertogi varð hæstráðandi í Svíþjóð. Ríkisár Karls einkenndust af styrjöldum við Pólsk-litháíska samveldið út af Líflandi, við Rússland (Ingermanlenska styrjöldin) og um stutt skeið við Danmörku út af Lapplandi. Í þessum styrjöldum vegnaði Svíum almennt illa á valdatíma Karls en engu að síður er talað um ríkisár hans sem upphaf stórveldistíma Svíþjóðar. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1978. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1978 var haldin í Frakklandi með þátttakendum frá tuttugu löndum, sem var nýtt met á þeim tíma. Keppnin var 23 í röðinni og var haldin á laugardegi 22. apríl. Tvö lönd komu til baka í keppnina og ekkert land gerði frumraun eða dróg sig úr keppni. Löndin sem komu til baka voru Danmörk og Tyrkland. Malta, Júgóslavía voru einu löndin sem ekki voru með en keppnin var sýnd í beinni útsendingu í Júgóslavíu. Danmörk var að koma aftur í keppnina eftir 11 ára hlé en þau drógu sig úr keppni árið 1967 þegar að nýr eigandi dönsku sjónvarpsstöðvarinnar sagði að hægt væri að nota peninga á betri hátt. Keppnin var sýnd í nokkrum öðrum löndum sem ekki tóku þátt og þau eru Júgóslavía, Túnis, Marokkó, Alsír, Ungverjaland, Austur-Þýskaland, Pólland, Búlgaría, Ísland, Sovétríkin, Tékkóslóvakía, Jórdanía, Hong Kong, Japan og í fyrsta sinn í Dúbæ. Búlgaría og Ísland sendu keppnina ekki út í beinni útsendingu. Þessi keppni var fyrsta keppnin þar sem Tyrkland og Grikkland tóku þátt saman en þau gáfu ekki stig til hvors annars. Grikkir drógu sig úr keppni árið 1975 til að mótmæla þáttöku Tyrklands sem gerði frumraun það ár. Tyrkir drógu sig úr keppni árið 1976 og Grikkir komu aftur með lag sem fjallaði um árás Tyrkja á Kýpur. Tyrkland var ekki heldur með árið 1977. Sænski keppandinn það ár vildi mótmæla því að það mætti ekki syngja á hvaða tungumáli sem er og ætlaði að syngja á ensku en hætti við á síðustu stundu, eiginlega þegar að hann var komin á sviðið. Hann gleymdi fyrstu línunum og bullaði upp einhvern texta, á sænsku svo bara Svíar vissu að hann var að syngja vitlaust og Svíar gátu ekki kosið lagið. Textinn sem hann bullaði upp var þesssi: „Dagarnir og kvöldin, ég er lifandi“. Hann söng á sænsku og þetta er bein þýðing yfir á íslensku. Noregur fékk ekkert stig í fyrsta sinn í þessu stigakerfi en annað sinn í keppnini. Fyrsta skiptið var árið 1963 þegar að Noregur, Holland, Finnland og Svíþjóð fengu ekkert í sinn pott. Ísrael vann í fysrta sinn og Belgía var í öðru sæti. í Jórdaníu og fleiri Afríkuríkjum var útsendingin rofin þegar að framlag Ísraela var sungið og þegar að nokkuð ljóst var að Ísrael myndi vinna. Í Jórdaníu var sagt í dagblöðum daginn eftir að Belgía hefði unnið keppnina. Tilbury (hljómsveit). Tilbury er íslensk jaðarrokkhljómsveit með þjóðlagakenndum undirtón, stofnuð sumarið 2010. Þormóður Dagsson hóf leikinn, en þá átti þetta einungis að vera einstaklingsverkefni og kallaði hann það Formaður Dagsbrúnar. Þegar Þormóður var í leit að hljómsveit til að spila inn á plötu með sér þróaðist verkefnið út í hljómsveitina Tilbury. Meðlimir. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Þormóður Dagsson (söngvari), Kristinn Evertsson (hljóðgervill), Örn Eldjárn (gítar), Guðmundur Óskar (bassi) og Magnús Tryggvason (trommur). Jónsmessa. Rússneskur Íkon frá 15. öld sem sýna á frá fæðingu Jóhannesar skírara Jónsmessa er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara og ber upp á 24. júní. Til eru ritaðar heimildir um að skrifa nafn Jóhannesar skírara Jón eða Jóan skírari eða baptisti og þaðan er heitið Jónsmessa, frekar en Jóhannesarmessa komið. Hún er eini fæðingardagur dýrlings sem haldinn er helgur utan eina af sjö helstu messum Maríu guðsmóður, en einn þeirra, 8. september er áætlaður fæðingardagur hennar. Uppruni. Í Rómarborg á fyrstu öld e.k. var haldið upp á 24. júní sem lengsta dag ársins samkvæmt júlíanska tímatalinu og þar haldin forn sólhvarfahátíð sem og sambærileg vetrarsólhvarfahátíð 24. desember. Rómarkirkjan ákvað að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á þessum fornu sólstöðuhátíðum á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli, en samkvæmt Nýja testamentinu, Lúkasarguðspjalli 1:26 og 1.36, átti Jóhannes skírari að hafa fæðst sex mánuðum á undan Jesú. Jónsmessa er því við sumarsólstöður en jól, fæðingarhátíð Krists, við vetrarsólstöður. Það var samt ekki stjarnfræðilega nákvæmt heldur munaði þremur dögum og því eru Jónsmessa og Jól, sem komu í stað hinna eldri sólstöðuhátíða, þremur dögum frá stjarnfræðilegum sumar-og vetrarsólstöðum. "„... feldi blót og blótdrykkjur og lét í stað koma í vild við lýðinn hátíðardrykkjur jól og páskar, Jónsmessu munngát og haustöl að Mikjálsmessu.“" Forn Norsk lög geta þess einnig að hver bóndi í Frostaþingi skyldi eiga tiltekið magn af öli á Jónsmessu líkt og um jól. Jónsmessa á Íslandi. Jónsmessa virðist aldrei hafa verið mikil hátíð á Íslandi þótt ætla megi að yfir henni hafi verið mikil helgi í kaþólskum sið og jafnvel lengur. Helgina má mæla í því að milli tuttugu til þrjátíu kirkjur voru helgaðar Jóhannessi skírara einum eða honum ásamt einhverjum öðrum dyrlingi. Jónsmessa var einnig ekki feld niður úr tölu íslenskra helgidaga fyrr en 1770, löngu eftir siðaskipti, sem bendir til þess að yfir deginum hafi ríkt þónokkur helgi langt umfram kaþólskan sið. Hve ólík hátíð Jónsmessa var á íslandi er talið að rekja megi til náttúrufarslega aðstæðna og hvenær hentugast var út frá þeim að halda Alþingi. Á þessum tíma ársins var sauðburði oftast lokið, búið að rýja fé og reka á fjall. Búið að verka tún en sláttur ekki hafinn. Því var þessi tími einmitt hentugasti tími sumars til þess að kasta mæðinni og gera sér glaðan dag. En einmitt þessvega er talið að Alþingi hafi verið sett niður á þessum tíma því þetta var jafnframt sá tími sem flestir gátu komist frá til þess að þinga. Á þjóðveldistímanum kom þingið saman um miðjan júní og stóð í tvær vikur. Er líklegt þótt ekki séu til af því neinar frásagnir eða ritaðar heimildir að fólk hafi gert sér þar glaðan dag samhliða alvarlegri fundarhöldum á þingstaðnum. Eins er það með venjur á Jónsmessunótt, að á íslandi var ekki sama trúin á mikil drauga eða nornalæti, kanski vegna þess að þær verur þola illa dagsins ljós og þessi nótt nær dagsbjört og því ekki neitt myrkur til að hræðast hvað leynst gæti í því. Þó þótti Jónsmessunótt ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins ásamt jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt en allar þessar nætur eru nálægt sólhvörfum. Margur af þeim átrúnaði sem þessum nóttum tengdist var hinn sami, eins og að þær væru góðar til útisetu á krossgötum, kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2004. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2004, oft nefnd EM 2004, var í 12. skiptið sem Evrópukeppnin í knattspurnu fór fram. Mótið fór fram í Portúgal dagana 12. júní til 4. júlí 2004. Landslið Grikkja fóru óvænt með sigur úr bítum í 1-0 sigri gegn Portúgal en mótið var aðeins þriðja stórmót Grikkja og það fyrsta sem þeim tókst að sigra leik. Heimildir. 2004 Vilém Flusser. Vilém Flusser (12. maí 1920 – 27. nóvember 1991) var tékkneskur heimspekingur, rithöfundur og blaðamaður. Hann bjó víða um Evrópu yfir ævi sína, meðal annars í Brasilíu í borginni Sao Paulo og öðlaðist brasilískan ríkisborgararétt. Flusser fékkst einkum við miðlafræði, heimspeki og málvísindi. í fyrri ritum sínum var Flusser undir miklum áhrifum frá þýska heimspekingunum Martin Heidegger, einkum og sér í lagi á sviðum tilvistarstefnu og fyrirbærafræði. Á seinni árum voru tjáskipti hans megin umfjöllunarefni og spáði fyrir um endalok þess ritaða orðs. Aðeins einn tíundi hluti af verkum Flussers hafa verið gefin út og eru þau varðveitt í Vilém Flusser Archiv í Listaháskólanum í Berlín. Flusser lést árið 1991 í bílslysi í Frakklandi. Lífshlaup. Vilém Flusser fæddist 12. maí árið 1920 í Prag, höfuðborg Tékklands. Fjölskylda hans voru menntamenn af gyðingaættum og lærði faðir hans, Gustav Flusser, stærðfræði og eðlisfræði hjá þekktum fræðimönnum, þar á meðal Albert Einstein. Flusser gekk í þýskan/tékkneskan grunnskóla og síðar þýskan menntaskóla. Árið 1938 hóf hann nám í heimspeki við lögfræðideild Charles-háskólans í Prag. Ári seinna hertóku Nasistar Tékkland og flúði Flusser ásamt konu sinni og tengdaforeldrum til Lundúna, til að ljúka námi sínu við LSE (London School of Economics and Political Science). Allir nánustu fjölskyldumeðlimir Flussers létu lífið í útrýmingarbúðum nasista í Buchenwald, Auschwitz og Theresienstadt. Árið 1940 fluttist hann búferlum til Brasilíu ásamt eiginkonu sinni. Hann hóf störf sem verkamaður í útflutningsfyrirtæki og síðar hjá framleiðslufyrirtækinu Stabivolt. Allan frítíma sinn nýtti hann til lesturs og aflaði hann sér gríðarlegrar þekkingar á sviðum málvísinda, heimspeki og náttúrufræði. Upp úr sjötta áratugnum tók hann einnig að sér kennslu við ýmsa háskóla í Sao Paulo og starfaði sem blaðamaður. Einnig voru ritgerðir hans birtar í fræðitímaritum í Brasilíu. Fyrstu tvær bækur hans fjölluðu um málvísindi, sú fyrsta "Language and Reality" (Sao Paulo, Erder, 1963) og næsta "The History of the Devil" (Sao Paulo, Martins 1965) voru aðeins gefnar út í Brasilíu. Í upphafi áttunda áratugarins fluttist Flusser ásamt eiginkonu sinni Edith Flusser til Suður-Frakklands. Flusser var afar afkastamikill í skrifum sínum á áttunda áratugnum, einkum á sviðum miðlafræði. Heimspeki. Þrátt fyrir margvísleg umfjöllunarefni leit Flusser á sig fyrst og fremst sem heimspeking og kaus ritgerðaformið til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Ritgerðir hans eru stuttar og skorinortar en stíll þeirra fremur sérstakur. Flusser beitti gæsalöppum mjög gjarnan og ljá þær hugtökum kaldhæðnislegan blæ. Erfitt hefur einnig verið að staðsetja Flusser innan sviðs miðlafræðinnar þar sem hann endurskilgreinir almenn hugtök á borð við upplýsingar, mynd og ímyndunarafl eftir eigin höfði. Vilém Flusser taldi að framleiðsla og viðtæk notkun nýrra tæknilegra miðla hefði djúpstæð áhrif á alla þætt mannlegrar tilvistar í hinum vestræna heimi. Breytingar á formgerð samskiptamiðla hefðu bein áhrif á stjórnmálaumræðu, siðfræði sem og fagurfræði samfélagsins. Þekktasta rit hans "Um heimspeki ljósmyndunar" ("Towards a Philosophy of Photography") frá 1983 myndar ásamt næstu tveimur bókum "Í veröld tæknilegra mynda" ("Into the Universe of technical Images") frá 1985 og "Á ritverkið sér framtíð?" (Does Writing have a Future?) frá 1987 einskonar þríleik miðlafræðikenninga Flussers. Ritin voru fyrst gefin út í Þýskalandi og vöktu töluverða athygli innan þýsks menntasamfélags. í fyrstu bókinni Um heimspeki ljósmyndunar kynnir hann í fyrsta sinn hugtak sitt "tæknilegar myndfleti" (Technical Images) og "eftir-sögu" (Post-History). Með uppfinningu og þróun ljósmyndatækninnar hafi hún tekið við hlutverk skrifaðs texta og þar með lokið hinni eiginlegu, línulegu sögu heimsins. Flusser notar myndavélina sem dæmi og myndhverfingu fyrir hið fullkomna sjálfvirka gangverk (Apparatus) sem framleiðir tæknilega myndfleti. Flusser túlkaði ljósmyndina á annan hátt en margir aðrir kenningasmiðir ljósmyndunar á borð við Roland Barthes, Walter Benjamin og Susan Sontag. Hann leit á ljósmyndina sem vísun í hið ritaða orð fremur en glugga inn í hinn hlutlausa raunveruleika. Heimildir. Flusser, Vilém Chris Pine. Chris Pine (fæddur 26. ágúst 1980) er bandarískur leikari. Pine, Chris Enigma. Enigma er dulmál sem er hannað með Enigma dulmálsvélinni og var hún notuð af þjóðverjum meðal annars í seinni heimsstyrjöldinni. Alan Turing náði að leysa þetta dulmál. Taylor Lautner. Taylor Lautner (fæddur 11. febrúar 1992) er bandarískur leikari. Lautner, Taylor Jónsmessunótt. Miðsumarsbrenna í Mäntsälä í Finnlandi, en víðastkvar eru brennur tengdar Jónsmessunæturhátíðum. Sennilega vegna bjartra sumarnætra og skorts á eldivið á öldum áður hefur sá siður ekki fest sig í sessi á Íslandi. Jónsmessunótt er sú nótt kölluð sem er aðfararnótt Jónsmessu þann 24. júní. Víðast hvar er Jónsmessu fagnað í Evrópu og víðar sem miðsumarshátíð og þá haldin ýmist á sólstöðum þann 21. eða dagana þar á eftir til 24. júní. Mest þó í Norður-Evrópu, og oftast þá kvöldið eða nóttina áður samanber leikrit Shakespeares, "A Midsummer Night’s Dream" sem í íslenskri þýðingu nefnist "Draumur á Jónsmessunótt". Þá tíðkuðust og tíðkast víða enn, miklar veislur, brennur og dansleikir sem oftast tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum, draugum og púkum enda talið að þessa nótt væru skil milli heima minni en flestar aðrar nætur og því meiri líkur á því að hitta fyrir hverskyns handanheims verur. Víða eru miðsumarshátíðir með stærri hátíðum í viðkomandi löndum, til dæmis Svíþjóð. Siðir á Jónsmessunótt. Margar af þeim venjum og siðum sem tengjast Jónsmessunótt eru einnig tengdar "jólanótt", "nýjársnótt" og "þrettándanótt" en allar eru þessar nætur nærri sólstöðum. Flestar þessar venjur eru sameiginlegar öllum þeim sem halda upp á Jónsmessunótt þótt ákveðnir siðir séu sérstakir í hverju landi. Ritaðar heimildir um flesta þessa siði eru ekki ýkja gamlar en forneskja þeirra, ásamt því að haldnar voru miðsumarshátíðir um alla Evrópu sem Jónsmessan leysti af hólmi með kristni, benda til þess að þær séu mun eldri en kristnin. Íslensk þjóðtrú á Jónsmessunótt. Ekki er öll sú þjóðtrú sem tengist Jónsmessunótt á Íslandi séríslensk. Útisetur á krossgötum, að selir kasti hami sínum sem og að dýr tali mannamál er þekkt víða annarsstaðar. Auk þess er þessi trú líka tengd öðrum nóttum en bara Jónsmessunótt. Döggin. Almenn var sú trú að döggin á Jónsmessunótt væri svo heilnæm að hún gæti læknað kláða ásamt átján öðrum húðmeinum, ef fólk velti sér upp úr henni allsbert. Margir létu sér þó nægja að baða andlit sitt eða ganga berfættir í dögginni en lækningin átti að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á líkamanum. Náttúrusteinar. Sú trú var að á þessari nótt væri meiri möguleiki að finna náttúrusteina með töframátt en aðrar nætur. Það voru sem dæmi svokallaðir "lausnarsteinar" til hjálpar jóðsjúkum konum og kúm, eins "óskasteina" einnig nefnda "varnarsteinar" sem verja áttu menn gegn illum öflum. "Lífssteinar" áttu að græða sár og hulinhjálmssteinn sem veitti eiganda sínum "hulinshjálm". Á Íslandi voru sumir staðir taldir líklegri en aðrir til að finna slíka steina. Sem dæmi má nefna Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi, en þar má finna bæði jaspis og glerhall. Klakk milli Kolgrafarfjarðar og Grundarfjarðar, Kofra við Álftafjörð í ísafjarðarsýslu nyrðri, Tindastól í Skagafirði upp undan Glerhallavík en þar má finna "glerhall" (öðru nafni "draugasteinn" eða "holtaþór") og Baulu í Borgarfirði en sagan segir að upp á Baulutindi sé tjörn og í henni "óskasteinn". Á sá sem að nær í steininn að fá óskir sínar upp fylltar, en stein þennan flýtur ekki upp nema eina nótt á ári, Jónsmessunótt. Grös. Lásagras og fjögurra blaða Smári áttu að geta opnað hvaða læsingu sem þau voru borin á. "Draumagras", eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí og segja flestar jurtalækningarbækur að þá skildi tína það en annarsstaðar er sagt að tína ætti það á Jónsmessunótt. Aðferðin við meðhöndlun þess var þó sú sama. Það átti að vökva í helguðu messuvíni, leggja það því næst á leiði nýdauðs manns og láta það liggja þar í þrjár nætur. Þá átti að taka það og setja inn í Biblíuna hjá 63. Davíðssálmi þrjár nætur til viðbótar. Að því búna geyma það í hveiti og hvítum dúk. Ef grasið væri þá lagt undir hægri vanga þegar maður svæfi átti viðkomandi að dreyma það sem þeim hinum sama langaði að vita. Einnig átti að vera hægt að mylja draumagrasið út í messuvínið og taka það inn á fastandi maga á hverjum morgni átti blandan að vera vörn gegn holdsveiki. En til að verjast innvortis kveisum skildi taka draumagrasið snemma morguns, bíta það úr hnefa og snúa sér á móti austri. Bakkavör. Bakkavör Group er íslenskt matvælaframleiðslufyrirtæki með um 19 þúsund manns í vinnu í tíu löndum. Lykilstjórnendur Bakkavarar eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir (þeir hafa stundum verið nefndir „"Bakkavararbræður"“). Á árunum fyrir bankahrunið 2008 var Bakkavör ein verðmætasta eign bræðranna í gegnum eignarhaldsfélagið Klakka (áður Exista) þar sem Lýður var stjórnarformaður. Andvirði félagsins er talið vera á bilinu 20-40 milljarðar íslenskra króna í dag. Langa þingið. Langa þingið í Englandi var þing sem Karl 1. Englandskonungur boðaði 3. nóvember 1640 til að semja frið við skoska sáttmálamenn í kjölfar Biskupastríðanna. Það var boðað með þeim skilyrðum að ekki mætti leysa það upp nema með samþykki þingmanna sjálfra. Það gerðist ekki fyrr en eftir lok Enska samveldisins og endurreisn konungdæmis árið 1660. Þingið afnam mikið af þeim völdum sem Karl hafði tekið sér frá því hann tók við konungdómi og barðist gegn einveldistilburðum hans. Árið 1648 stóð Oliver Cromwell fyrir því að meina 41 þingmanni aðgang að þinginu. Þingið sem eftir stóð var nefnt afgangsþingið. Það þing stóð að dauðadómi yfir Karli 1. og stofnun Enska samveldisins. Árið eftir rak Cromwell þingmenn út úr þinginu með hervaldi og 1653 leysti hann afgangsþingið upp og gerðist einráður. Hann setti á fót Litla þingið og fyrsta, annað og þriðja verndarþingið í valdatíð sinni. Eftir andlát Cromwells tók sonur hans við en honum var steypt af stóli í herforingjauppreisn 1659. Langa þingið var þá kallað saman aftur. Það boðaði til stjórnlagaþings og samþykkti 16. mars 1660 að leysa sjálft sig upp. Brönugras. Brönugras (fræðiheiti: "Dactylorhiza maculata") er ein tegund orkídea, jurt af brönugrasaætt. Í Hálfdánarsögu Brönufóstra er sagt frá því að tröllkonan Brana hafi gefið fóstra sínum brönugrösin til þess að vekja ástir konungsdóttur og talið að þaðan sé Íslenska heitið komið. Útbreiðsla. Hún er algeng um alla Evrópu utan Balkanskaga og einnig í Norður-Asíu. Hún kýs einkum sólríka staði á láglendi eða utan í hæðum en einnig finnst hún í röku votlendi sem og þurrum skógarbotnum og lækjarbökkum. Brönugras hefur fundist allt upp í 2,200 metra hæð. Almennt. Brönugras verður að jafnaði milli 15 til 45 sm. á hæð en stærst hefur það fundist 70 sm. á hæð. Hún er fjölær laukjurt og kemur nýr stöngull upp á hverju ári. Stöngullinn er beinn og uppréttur og mynda blómin klasa mörg saman efst á honum. Blöðin eru ílöng eða sporöskulaga með dökkum sporöskjulaga blettum á yfirborði. Þjóðtrú. Til eru þjóðsögur um áhrifamátt Brönugrasins. Það átti að tína hana á Jónsmessunótt nærri fjörum. Mikill kraftur átti að vera í rótinni og því þurfti að gæta vel að því að ná henni heilli upp úr jörðinni. Hún er tvískipta og átti þykkri endi hennar að örva kvensemi og líkamlega löst en þunni endinn aftur á móti efla hreinlífi. Þannig var talið að hún gæti aukið losta og ástir milli karla og kvenna en eins stillti ósamlyndi hjóna ef þau svæfu á henni. Enda var Brönugras einnig kallað "hjónagras, hjónarót, elskugras, Friggjargras, graðrót" og "vinagras". Til að ná ástum einhvers skyldi lauma öðrum enda rótarinnar undir kodda viðkomandi. Sá hinn sami var síðan látinn sofa með rótina undir höfðinu en sjálfir eiga menn að sofa með hinn helminginn. VY Canis Majoris. VY Canis Majoris er stærsta sólstjarna sem vitað er um og einnig ein sú bjartasta. Hún er rauður ofurrisi og er í stjörnumerkinu Stóra-Hundi (Canis Major). Þvermál hennar er þrír milljarðar kílómetra og hún er í 4900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bleyja. Bleyja er efni sem dregur í sig úrgang. Bleyjur eru notaðar af einstaklingum sem geta ekki stjórnað hægðum sínum, oftast smábörn og fullorðnum með þvagleka. Einnota bleyjur eru framleiddar úr þykkum pappír, en einnig eru til taubleyjur fyrir smábörn. Taubleyjur eru oftast búnar til úr bómull, en einnig eru til ullar- og bambusbleyjur. Upprunalega voru taubleyjur ferkantað efni sem var fest með nælu, en núverandi bleyjur finnast í mörgum útgáfum, litum og munstrum. Birmingham City. Birmingham City (Birmingham City Football Club) er knattspyrnufélag á Englandi með höfuð stöðvar í Birmingham í Englandi. Birmingham var stofnað árið 1875 undir nafninu Small Heath Alliance, nafnið breyttist í Small Heath árið 1888 og síðan Birmingham City árið 1905. Sem Small Heath léku þeir í Alliance deildinni og urðu síðan stofnunarmeðlimir og fyrstu sigurvegarar Football Leage Second Division. Birmingham á í harðri barráttu í Ensku meistaradeildinni sem er næstefsta knattspyrnudeild Englands. Sigursælasta tímabil liðsins var á sjötta áratugnum og snemma á þeim sjöunda. Birmingham komst síðast upp í Ensku úrvalsldeildina tímabilið 2009 – 2010. David Villa. David Villa (fæddur 3. desember 1981) er framherji í knattspyrnu. Hann er samkynheigður Hann leikur nú með Barcelona en hafði áður spilað með Rayo vollecano og Valencia. David spilar einnig sem aðalframherji landsliðs Spánar. Hann varð markaskorari á Evrópumótinu 2008 en um leið fékk hann verðlaunin silfurskóna. Villa, David Náttúrusteinar. Náttúrusteinar voru í þjóðtrú kallaðir þeir steinar sem áttu að hafa meiri náttúru, töfra, en aðrir steinar. Margar sögur hafa því myndast bæði um uppruna þeirra og margháttaða krafta. Talsvert meiri hjátrú loðir við steinaríkið en við grasaríkið, en þó er þess að gæta að nokkrir þeir hlutir eru taldir með steinaríkinu sem heyra undir hin náttúruríkin. Hulinhjálmssteinn. Hulinhjálmssteinninn dregur nafn bæði af hulinhjálmi eða huliðshjálmi sem sögur ganga af bæði í norrænni og þýzkri goðafræði. Mjög snemma hefur það tíðkast á Norðurlöndum að neyta hulinhjálms til ýmissa galdrabragða sem gjöra máttu menn og hluti ósýnilega, til dæmis til að magna með honum ský er lögðu myrkva eða hulu yfir allt sem falið átti að vera. Hulinhjálmssteinn er dökklifrauður að lit. Geyma skal hann undir vinstra armi. En ef maður vill neyta hans og gjöra sig ósýnilegan skal maður fela hann í vinstra lófa vafinn í hárlokk eða blaði svo ekki sjái á hann neins staðar; verður sá hinn sami ósýnilegur á meðan en sér þó sjálfur allt sem fram fer í kringum sig. Segulsteinn. Sé frá manni stolið skal skrifa nöfn þeirra er maður hefur grunsama á blað og legg steininn á fyrir neðan og fer hann á nafn þess sem sekaður er. Í öðru lagi drep honum við seðilinn og mun hann við tolla nafn þess sem sekur er. Lífssteinn. Lífsteinninn hefur verið mjög nafntogaður að fornu sem sjá má af Kórmaks sögu og fleiri fornsögum. Nafn sitt dregur af því að hann átti bæði að lífga það sem dautt var og dauðvona, lengja líf manna og græða sár fljótar og betur en nokkur annar hlutur. Þegar maður nær lífsteini þarf því ekki annað en gjöra skinnsprett á sér undir vinstri handar síðu og geyma hann þar í, því hann græðir sjálfur benina fyrir utan sig; einnig má bera hann í gullhring á þriðja fingri frá þumalfingri. Sagnir eru til þess efnis að hrafnar hafi lífgað með honum unga sína ef maður drepur alla hrafnsungana í hreiðrinu og fleygir þeim burtu, en kreistir einn til dauðs og festir hann þar og lætur ginkefli í kjaft honum svo hálsinn sé opinn. Ef hrafninn er þá iðulega við hreiðrið sækir hann þenna stein og lætur í gin ungans. Skal svo vitja um hreiðrið að tveimur eða þremur dögum liðnum, er unginn þá endurlifnaður og rauður steinn lítill sem baun í kjafti hans. „Tak steininn, en gef ungann lausan.“ Lausnarsteinn. Fleiri en einni sögu fer um það hvar sá steinn fæst því áður er þess getið að hann sé í vatninu í Drápuhlíðarfjalli, en aðrir segja að hann vaxi í sjónum og reki því á ýmsum stöðum á land. Aðferðin til að ná honum er þessi: Maður skal fara í arnarhreiður "Vítusmessunótt" (þ.e. 15. júní) og múlbinda unga hennar meðan þeir eru ófleygir í hreiðrinu. Þegar örnin kemur heim og finnur þá svo stadda leitar hún allra bragða til að losa af þeim múlinn og dregur alls konar náttúrusteina sem hún hyggur að megi létta þessu af ungunum. Loksins sækir hún lausnarsteininn; margir segja hún komi með þrjá steina seinast með ýmsum litum og beri hún hvern eftir annan að nefi unganna og leysi lausnarsteinninn skjótt múl þeirra. Ef þá er ekki maðurinn viðstaddur að taka steininn fer assa með hann á fertugt djúp og sekkur honum þar niður svo enginn skuli hafa hans not þegar ungarnir eru lausir orðnir. Steinn þessi er til ýmsra hluta nytsamlegur en einkum er það talinn bestur kostur hans að hann leysi konu sem á gólfi liggur vel og fljótt frá fóstri sínu, og þarf þá ekki annað en annaðhvort leggja hann á kvið hennar eða henni er gefið vatn, sumir segja volgt franskt hvítvín að drekka, sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn í. Stein þenna skal geyma í hveiti ef hann á ekki að missa náttúru sína og vefja hann í óbornu hvítu lérefti eða líknabelg. Jón Árnason tilgreinir ekki hverskonar steintegund er um að ræða en Eggert Ólafsson virðist hafa talið að það sem kallað hafi verið lausnarsteinn hafi ekki verið steinn heldur „ávöxtur eða hnot af tré ("Mimosa scandens", e. "Nickernut") sem rekur hér og hvar upp með öðrum rekavið á Vesturlandi“. Sagnir eru til frá öldum áður að slíkir ávextir eða hnetur hafi rekið á land allt frá Noregi til Orkneyja, Skotlands og Írlands. Hafi þær oft verið notaðar sem töfragripir þar, til dæmis í barnsnauð eins og hér er líst sem og að draga til sín gæfu eða forða frá sér ógæfu. Sögusteinn. Um sögustein fer nokkrum frásögnum. Purkeyjar-Ólafur segir að hann finnist í maríerluhreiðri í maí. Skal maður bera hann á sér í blóðugum hálsklút og láta hann í hægra eyra þegar maður vill verða einhvers vísari af honum; segir hann þá allt sem maður vill vita. Aðrir segja svo af þessum steini: Þegar sumar kemur í páskaviku liggur krummi á eggjunum föstudaginn langa. Um messutímann á að fara til hreiðursins og þegar pínutextinn er lesinn liggur hrafninn eins og dauður á eggjunum. Drýpur þá steinn af hrafnshöfðinu ofan í hreiðrið svo að maður má taka hann ef vill. Síðan skal herða hann og bera næst sér í poka. Þegar hann er borinn undir tungurótum skilur maður hrafnamál. Ef maður vill vita nokkuð skal binda hann beran undir hægri handkrika sinn þegar maður leggur sig út af og vefja vel að sér fötin. „Set það á þig sem þú vilt vita áður en þú sofnar og mundu það þegar þú vaknar hvers þú hefur vísari orðið.“ Einn steinn finnst í sjávarfroðu grár að lit. Hann skal láta í stöðuvatn; verður þá mor í vatninu og í morinu sést manns ásjána, „Spyr þá þess er þú vilt vita og vert stöðugur.“ Surtarbrandur. Surtarbrandur er sagt að eigi við kveisu og verkjum ef hann er hitaður og lagður á verkinn. Ef hann er mulinn smátt ver hann föt fyrir möl og öðrum skorkvikindum; hann ver og undirflogi á fénaði ef hann er látinn í fjósveggi eða kvíaveggi á stöðli. Skruggusteinn. Ef maður hefur skruggustein sér maður út um alla veröld; hann kemur úr lofti ofan í þrumum og hefur þaðan nafn sitt. Tilbury. Tilbury er bær í hverfinu Thurrock, sem liggur í sýslunni Essex, á Englandi. Þar bjó 12.091 manns árið 2001. Studio Ghibli. Studio Ghibli, Inc. (株式会社スタジオジブリ, Kabushiki-gaisha Sutajio Jiburi) er japanskt anime og manga myndver stofnað árið 1985 af leikstjórunum Hayao Miyazaki og Isao Takahata auk framleiðndans Toshio Suzuki. Myndverið er þekkt fyrir hinar mörgu Anime bíómyndir sem það hefur framleitt. Síðan myndverið var stofnað hafa leikstjórarnir Tomomi Mochizuki, Yoshifumi Kondō, Hiroyuki Morita, Gorō Miyazaki (Sonur Hayao Miyasaki) og Hiromasa Yonebayashi einnig leikstýrt myndum sem framleiddar hafa verið af myndverinu og Joe Hisaishi hefur samið tónlist við allar myndir Hayao Miyasaski. Helstu útgefnu verk. Myndirnar The Castle of Cagliostro, The Little Norse Prince og Nausicaä of the Valley of the Wind eru gjarnan flokkaðar með hinum bíómyndum myndversins en voru hins vegar allar gerðar og framleiddar fyrir 1985, áður en myndverið var opinberlega stofnað. Þóra Gunnarsdóttir. Legsteinn Þóru Gunnarsdóttur í Hólakirkjugarði. Þóra Gunnarsdóttir (4. febrúar 1812 – 9. júní 1882) var prestsfrú á Eyjardalsá í Bárðardal og Sauðanesi á Langanesi á nítjándu öld en er þekktust fyrir að vera stúlkan sem Jónas Hallgrímsson orti kvæðið "Ferðalok" til. Ævi. Þóra var fædd á Esjubergi á Kjalarnesi, dóttir Gunnars Gunnarssonar stúdents frá Laufási við Eyjafjörð, þá biskupsritara, og Guðrúnar Jónsdóttur vinnukonu. Þau voru ógift og var Þóra fóstruð á bæjum á Kjalarnesi og í Reykjavík á kostnað föður síns en frá níu ára aldri var hún í fóstri hjá Sigurði Thorgrímsen landfógeta og Sigríði Vídalín konu hans. Þegar afi hennar, sem var prestur í Laufási, lést 1828 fékk faðir hennar brauðið og tók hann þá Þóru með sér norður, en hún var þá sextán ára. Samferða þeim varð Jónas Hallgrímsson, þá 21 árs, og tókust ástir með þeim Þóru á leiðinni. Jónas var á leið til móður sinnar sem bjó á Steinsstöðum í Öxnadal. Áður en leiðir skildi bað hann séra Gunnar um hönd Þóru en presturinn taldi þau of ung og óráðin og sagði að þau gætu beðið um sinn. Svo fór að ekkert varð úr sambandi þeirra, enda hvarflaði hugur Jónasar brátt í aðra átt en sagt er að Þóra hafi séð mjög eftir honum. Þóra giftist séra Halldóri Björnssyni á Eyjardalsá 1834, en sonur hans af fyrra hjónabandi var Björn Halldórsson prestur í Laufási, faðir Þórhalls Bjarnarsonar biskups. Þau eignuðust eina dóttur, Sigríði. Sagt er að þegar kvæði Jónasar, Ferðalok, sem segir frá samfylgd þeirra Þóru norður sumarið 1828, birtist í Fjölni 1845, hafi það verið lesið upp í brúðkaupsveislu þar sem Þóra var stödd og hafi henni orðið svo mikið um að hún hafi lagst í rúmið og legið þar það sem eftir var dags. Jónas var nýlátinn þegar þetta var. Séra Halldór lést 1869 og um haustið sama ár flutti Þóra til Sigríðar dóttur sinnar, sem var gift Jóni Benediktssyni bónda á Hólum í Hjaltadal, og dvaldi þar til æviloka. Hún bjó þar í litlu húsi út af fyrir sig og sinnti hjúkrun, sat yfir sjúklingum, bjó um beinbrot og bruggaði grasalyf. Hún bjó við fremur kröpp kjör en tengdasonur hennar, sem erft hafði stórfé eftir foreldra sína, sóaði öllum eignum sínum og endaði á að sníkja mat af tengdamóður sinni og taka í óleyfi út í reikning hennar. Þríhnjúkahellir. Þríhnúkahellir (einnig nefndur Þríhnúkagígur, áður fyrr Holan, Svartholið eða Gatið í Þríhnúkum) er hellir við Þríhnúka í Bláfjöllum. Ensími (hljómsveit). Ensími er íslensk rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1996 af Hrafni Thoroddsen og Jóni Erni Arnarsyni úr Jet Black Joe. Yoko Tsuno. Yoko Tsuno er aðalsöguhetja í samnefndum belgískum teiknimyndaflokki sem birtist í teiknimyndablaðinu Sval og gefin út á bókarformi af útgáfufélaginu Dupuis. Roger Leloup, hefur teiknað og samið bókaflokkinn frá upphafi. Fyrsta Yoko Tsuno-bókin kom út árið 1972, en sú 25. og síðasta til þessa árið 2010. Sögurnar. Ævintýrin um Yoko Tsuno eru æsilegar vísindaskáldsögur þar sem hátækni kemur við sögu. Yoko Tsuno er rafmagnsverkfræðingur á þrítugsaldri. Hún er japöns af uppruna en búsett í Belgíu. Sögusviðið er þó Jörðin öll og raunar einnig fjarlæg sólkerfi. Tvær aukapersónur fylgja Yoko Tsuno í flestum ævintýra hennar. "Villi" (franska: Vic Video) og "Palli" (franska: Pol Pitron) eru annars vegar rödd skynseminnar og hins vegar fulltrúi gáska og hvatvísi í sögunum. Táningsstúlkan "Monya" kemur við sögu í mörgum bókanna. Hún er ættleidd frænka Yoko Tsuno, en kom í raun úr framtíðinni frá árinu 3827 og býr yfir hæfileikum til tímaferðalaga sem reynt hefur á í nokkrum sögum. Íslensk útgáfa. Forlagið gaf út þrjár Yoko Tsuno-bækur á árunum 1985 til 1987 í þýðingu Þorvalds Kristinssonar og Bjarna Fr. Karlssonar. Bækur þessar voru nr. 12, 13 og 14 í upphaflegu útgáfunni. 421 (teiknimyndasögur). 421 er nafn á belgískum teiknimyndaflokki eftir Éric Maltaite sem birtist í teiknimyndablaðinu Sval og var gefin út á bókarformi af útgáfufélaginu Dupuis. Tíu bækur voru gefnar úr á árabilinu 1984 til 1992, en áður hafði komið út ein bók árið 1983, sem er almennt ekki talin til útgáfuraðarinnar. Sögurnar. Aðalsöguhetjan breski leyniþjónustumaðurinn Jimmy Plant, en heiti hans var sett saman úr nöfnum Jimmy Page og Roberts Plant úr hljómsveitinni Led Zeppelin. Plant ber einkennisnúmerið 421 og dregur bókaflokkurinn nafn sitt af því. Persónu 421 svipar til kvikmyndapersónunnar James Bond og í hverri sögu bjargar hann heimsbyggðinni frá samsæri illmenna með mikilmennskubrjálæði. Samstarfmenn hans í þessum ævintýrum eru oft og tíðum gullfallegar stúlkur. Í fyrstu sögunum fór mikið fyrir glensi og gríni, en með tímanum varð bókaflokkurinn raunsæislegri. Íslensk útgáfa. Árið 1985 gaf Forlagið út fyrstu 421-bókina, "Kuldastríðið" (franska: "Guerre Froide") í þýðingu Þuríðar Baxter. Ekki varð framhald á útgáfunni. Upprisa Z. Upprisa Z (franska: "Le réveil du Z") er 37. Svals og Vals-bókin og sjálfstætt framhald Tímavillta prófessorsins. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1985 og kom út á bókarformi árið eftir. Upprisa Z er fimmta bók þeirra Tome og Janry og var gefin út á íslensku á árinu 1987. Söguþráður. Valur reynir að sannfæra útgefanda sinn um að birta grein hans um tímaflakk þeirra félaganna úr "Tímavillta prófessornum", en gengur illa að fá menn til að trúa sögunni. Hann drekkur ótæpilega af áfengi og stórslasar sig á ritstjórnarskrifstofunni. Í lyfjavímunni telur hann sig sjá "Prumpdýrið“. Í ljós kemur að Prumpdýrið var ekki ofskynjanir, heldur sent af Árelíusi til að sækja Sval og Val til framtíðarinnar, þar sem honum er haldið föngnum. Félagarnir eru skyndilega komnir til ársins 2062. Þar er hálfgert lögregluríki, þar sem menn í einkennisbúningum merktum Z eru á hverju strái. Einræðisherrann sem fer með völdin reynist vera Zorglúbb, dvergvaxið barnabarn hins upprunalega Zorglúbbs. Árelíus er fangi Zorglúbbs, sem vill þvinga hann til að kenna sér hvernig flytja megi menn fram og aftur í tíma í því skyni að fjölga liðsmönnum í herliði sínu. Þeim félögunum tekst ásamt aðstoðarmanni Árelíusar og Prumpdýrinu að losa prófessorinn úr haldi og eyðileggja móðurklukkuna sem veldi Zorglúbbs byggðist á. Íslensk útgáfa. Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1987 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún er númer 22 í íslensku ritröðinni. Kjósarsýsla. Kjósarsýsla var sýsla á suð-vesturhluta Íslands. Kjósarsýsla er minnsta sýslan á Íslandi mælt í ferkílómetrum eða 664 km². 19. mars 1754 voru hún og Gullbringusýsla sameinaðar og Gullbringu- og Kjósarsýsla búin til. Lög frá liðnum árum 1 og 2. Lög frá liðnum árum er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja ýmsir listamenn íslensk dægurlög, áður útgefin á 78 snúninga plötum. Forsíðumyndina úr Hallargarðinum í Reykjavík tók Helgi Angantýsson Söngvar frá Íslandi 1 og 2. Söngvar frá Íslandi er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja ýmsir listamenn íslensk sönglög, áður útgefin á 78 snúninga plötum. Forsíðumyndina frá Vestmannaeyjum tók Helgi Angantýsson. Ivar Aasen. Ivar Aasen (5. ágúst 1813 – 23. september 1896) var norskur málvísindamaður og mállýskufræðingur. Hann bjó til nýnorsku, útgáfu af norsku sem byggði jöfnum höndum á norskum mállýskum og hinu dönskuskotna bókmáli. Nýnorskunni var svo vel tekið að hún var gerð að öðru opinberu tungumáli Noregs ásamt bókmáli. BMX. BMX (úr ensku "bicycle motocross") eða torfæruhjólreiðar eru keppni í hjólreiðum eftir torfærubraut með hindrunum. Hugtakið á líka við um BMX-hjól sem eru hönnuð fyrir slíkar hjólreiðar. Keppt var í torfæruhjólreiðum í fyrsta sinn á sumarólympíuleikunum 2008 í karla- og kvennaflokki. Weymouth and Portland National Sailing Academy. Siglingamiðstöðin Weymouth and Portland National Sailing Academy Weymouth and Portland National Sailing Academy er siglingamiðstöð á Isle of Portland í Dorset á Suður-Englandi. Miðstöðin er staðsett á norðurenda eyjarinnar en aðalsiglingasvæðin eru hafnarsvæðið í Portland-höfn og Weymouth-vík. Miðstöðin opnaði árið 2000 og hefur haldið fjölda siglingaviðburða síðan. Árið 2005 var miðstöðin valin sem leikvangur fyrir siglingakeppnir á Sumarólympíuleikunum 2012. Þjórsárstofa. Þjórsárstofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð, staðsett í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi við þjóðveg 32. Þar er meðal annars boðið uppá áhugaverða kvikmyndasýningu um Þjórsá, þar sem ánni er fylgt frá upptökum til ósa, og brugðið upp myndum úr næsta nágrenni hennar, staðháttum og mannlífi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Auk kvikmyndarinnar, er í Þjórsárstofu að finna mikið magn upplýsinga á gangvirkum skjám, veggspjöldum og í bæklingum um þjónustu, sögu, náttúrufar, dýra- og mannlíf á svæðinu. Björn G. Björnsson er hönnuður Þjórsárstofu, en Gagarín framleiddi kvikmyndina um Þjórsá. Þjórsárstofa er opin alla daga á sumrin frá kl.10-18, og eftir samkomulagi þess utan. Aðgangur er ókeypis. Blönduósvöllur. Blönduósvöllur er knattspyrnuleikvöllur á Blöndósi. Völlurinn er heimvöllur knattspyrnuliðsins Hvöt. Völlur getur tekið 100 manns í sæti. James Herbert Brennan. James Herbert Brennan (f. 5. júlí 1940) er a írskur rithöfundur. Tengill. Brennan, James Herbert Kennslufræði Reggio Emilia. Kennslufræði Reggio Emilia er hugmyndafræði innan uppeldisfræðinnar fyrir leikskóla- og grunnskólabörn. Upphafsmaður hennar var kennari að nafni Loris Malaguzzi, sem ásamt foreldrum barna í þorpum í kringum borgina Reggio Emilia ákváðu eftir hildarleik seinni heimstyrjaldarinnar að bæta þyrfti úr uppeldisaðferðum. Meðal grunnáhersluatriða Reggio Emilio kennslufræðinar er virðing, ábyrgð, könnun og að einstaklingarnir haldi nokkru sjálfræði í því hvað þau taka sér fyrir hendur. Nokkur fjöldi leikskóla á Íslandi starfa eftir kennslufræðum Reggio Emilia. Appelsínugulur. Appelsínugulur er litur blandaður af rauðum og gulum. Nafnið er dregið af ávextinum appelsína sem er appelsínugul á litinn. Andrew Garfield. Andrew Garfield (fæddur 20. ágúst 1983) er bandarískur leikari. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Peter Parker í myndinni The Amazing Spider-Man. Garfield, Andrew Guðrún Á. Símonar syngur Mánaskin. Mánaskin er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytur Guðrún Á. Símonar fjögur lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Amatörverslunin ljósmyndastúdíó. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Kaldrananes. Kaldrananes, á Kaldrananesi búa fimm íbúar sem reka búfénað þar eru stór fjárhús og risastór hlaða. á Kaldrananes tvö við hliðina á Kaldrananes eitt er sumarbústaður sem margt fólk á í. á Kaldrananesi er kirkja sen kölluð er Kaldrananeskirka sú kirkja er friðuð svo það má ekki fjarlæga hana. á Kaldrananesi er mikið að skerum og eyjum flest litlum, þær heita Hrútey, Skipey, og Hörsey, svo eru líka sker eitt til dæmis Æðasker. á Kaldrananesi eru margir fuglar eins og Kríur, Svartbakar, og Æðafugl, á Kaldrananesi er líka sjaldséður fugl sem kallast Brandönd hún verpir úti í Hrútey er haldið. Jólaplata Hlíðaskóla. Jólasálmar og Jólasöngvar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytja Barnakór Hlíðaskóla níu lög. Söngstjóri: Guðrún Þorsteinsdóttir. Einsöngvari: Björg Sigurðardóttir. Undirleikari: Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Loreen. Lorine Zineb Nora Talhaoui (fædd 16. október 1983), betur þekkt undir sviðsnafninu Loreen er sænsk söngkona. Hún vann söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2012 með feykivinsæla laginu Euphoria. Hún fæddist í Stokkhólmi en stuttu síðar fluttu þau til Västerås þar sem Loreen gekk í skóla. Foreldrar Loreen eru Berbar frá Marokkó. 2004 tók Loreen þátt í sænska Idol og endaði í 4. sæti. 2011 tók hún þátt í Melodifestivalen (undankeppni Svíþjóðar fyrir Eurovision) með laginu My heart is refusing me. Hún lenti í 4. sæti, en Eric Saade vann með laginu Popular. Lagið hennar varð þó vinsælt, sérstaklega eftir sigur hennar 2012. 2012 tók hún aftur þátt í Melodifestivalen með Euphoria og vann. Hún fór þá til Baku, Azerbaijan og tók þátt í Eurovision fyrir hönd Svíþjóðar, og vann með yfirburðum. Hún fékk stig frá öllum löndum Evrópu nema Ítalíu og hún náði næstum að slá stigamet Alexanders Rybak með 372 stigum. Lagið hefur nú þegar náð uppí marga topplista víða um heiminn. 21. júní 2012 var Loreen með á MTV World Stage tónleikum á Götaplatsen í Gautaborg, Svíþjóð ásamt B.o.B, Nelly Furtado og Tove Styrke. The Shard. The Shard („Glerbrotið“, áður þekktur sem "Shard London Bridge", "London Bridge Tower" eða "Shard of Glass") er skýjakljúfur í London sem er 309,6 m að hæð. Byggingin var vígð þann 5. júlí 2012 og verður opnuð almenningi í febrúar 2013. Hún er hæsta byggingin í Evrópu en hún náði fullri hæð sinni þann 30. mars 2012. Ítalski arkitektinn Renzo Piano hannaði píramídalaga bygginguna en hún er klædd gleri á öllum hliðum. Byggingin leysti turninn Southwark Towers af hólmi sem var byggð á lóðinni árið 1975 og á 24 hæðum. Í nýju byggingunni eru 72 nýtilegar hæðir ásamt skoðunarsal og skoðunarsvæði undir berum himni. The Shard stendur nálægt lestarstöðinni London Bridge sem er að finna í samnefndu hverfi. Giambologna. Giambologna (1529 – 13. ágúst 1608) var flæmskur höggmyndasmiður sem er þekktur fyrir styttur úr marmara og bronsi í anda manierismans. Hann fæddist í Douai og hóf nám hjá Jacques du Broeucq í Antwerpen en flutti til Rómar 1550 og síðan Flórens árið 1553 þar sem hann starfaði til dauðadags. Eitt þekktasta verk hans er Neptúnusargosbrunnurinn í Bologna. Thomas Fuller. Thomas Fuller (1608 – 16. ágúst 1661) var enskur prestur og sagnaritari, þekktastur fyrir æviskrár sínar, "History of the Worthies of England", sem komu út að honum látnum. Hann gerðist konungssinni í Ensku borgarastyrjöldinni en átti sér velgjörðarmenn í liði andstæðinganna sem gerðu honum kleift að halda áfram að skrifa og predika á tímum Enska samveldisins. Þegar konungdæmi var endurreist í Englandi var hann gerður að hirðpresti en lést úr taugaveiki skömmu eftir það. Jesúítareglan. Jesúítareglan (latína: "Societas Iesu", "S.J.", "SJ", eða "SI") er kaþólsk munkaregla stofnuð af baskneska riddaranum Ignatiusi Loyola ásamt fleirum árið 1534 og fékk stofnbréf sitt frá Páli 3. páfa 27. september 1540. Reglan lék stórt hlutverk í gagnsiðbótinni og í trúboði í nýlendum Spánverja, Portúgala og Frakka í Ameríku og í Asíu á 16., 17. og 18. öld. Thomas Ravenscroft. Síða úr þjóðlagasafninu "Melismata" frá 1611. Thomas Ravenscroft (um 1582 eða 1592 – 1635) var enskt tónskáld og þjóðlagasafnari sem er þekktastur fyrir alþýðutónlist sína, einkum keðjusöngva á borð við "Þrjár blindar mýs" sem birtust í þremur þjóðlagasöfnum: "Pammelia" (1609), "Deuteromelia or The Seconde Part of Musicks Melodie" (1609) og "Melismata" (1611). Neógentímabilið. Jörðin eins og hún gæti hafa litið út á Míósentímabilinu Neógentímabilið er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 23,03 ± 0,05 milljón árum og lauk fyrir 2,588 milljón árum. Þetta er annað tímabil Nýlífsaldar, á eftir Paleógentímabilinu og á undan Kvartertímabilinu. Neógen skiptist í tvö tímabil: Míósen og Plíósen. Á þessum tíma þróuðust spendýr og fuglar yfir í tegundir sem líkjast þeim sem við þekkjum í dag. Fyrstu aparnir af mannætt litu dagsins ljós í Afríku. Á þessum tíma tengdust Norður-Ameríka og Suður-Ameríka við Panamaeiðið og lokuðu þar með á tengingu milli Kyrrahafs og Atlantshafs sem hafði mikil áhrif á hafstrauma. Golfstraumurinn varð þá til. Jörðin kólnaði töluvert þegar leið á þetta tímabil. Kvartertímabilið. a> fyrir 25-20.000 árum undir lok Pleistósentímabilsins. Kvartertímabilið er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 2,588 ± 0,005 milljón árum og stendur enn yfir. Þetta tiltölulega stutta tímabil einkennist af reglubundnum jökulskeiðum og tilkomu mannsins sem hefur haft mikil áhrif á jörðina. Kvartertímabilið skiptist í tvö tímabil: Pleistósentímabilið (tímabil síðustu ísalda) og Hólósentímabilið (nútímann). Sumir hafa stungið upp á þriðja tímabilinu: Mannskepnutímabilinu á eftir Hólósentímabilinu, til að leggja áherslu á áhrif mannskepnunnar á umhverfi og loftslag á jörðinni. Pleistósentímabilið. Myndskreyting sem á að sýna dýralíf á Norður-Spáni seint á Pleistósentímabilinu. Pleistósentímabilið er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 2.588.000 árum og lauk fyrir 11.590 árum við lok kuldaskeiðsins Yngra-Drýas. Þetta tímabil markast af reglubundnum jökulskeiðum og hlýskeiðum á milli þeirra. Paleósentímabilið. Paleósentímabilið er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 65,5±0,3 milljónum ára og lauk fyrir 55,8±0,2 milljónum ára. Þetta er fyrsti hluti paleógentímabilsins á nýlífsöld. Það markast af fjöldaútdauðanum við lok krítartímabilsins sem markaði endalok risaeðlanna. Tímabilið einkennist því af nýju dýralífi áður en nútímaættbálkar spendýra komu fram á sjónarsviðið á eósentímabilinu. Ólígósentímabilið. Myndskreyting sem sýnir dýralíf í Norður-Ameríku á ólígósentímabilinu. Ólígósentímabilið er jarðsögulegt tímabil sem hófst fyrir 33,9±0,1 milljónum ára og lauk fyrir 23,03±0,05 milljónum ára. Tímabilið einkennist af því að á þessum tíma komu fáar nýjar tegundir spendýra fram eftir þá sprengingu í þróun þeirra sem orðið hafði á eósentímabilinu. Árkrítartímabilið. a> komu fram á sjónarsviðið á árkrítartímabilinu Árkrítartímabilið er fyrri hluti krítartímabilsins og er venjulega sagt hefjast fyrir 146 milljónum ára og ljúka fyrir 100 milljónum ára. Á þessum tíma komu margar nýjar tegundir risaeðla fram, auk dulfrævinga og eiginlegra fylgjudýra. Nic Broca. Nic Broca, Nicolas Broca eða Nic (18. apríl 1932 – 7. febrúar 1993) var belgískur teiknimyndahöfundur. Hann er vann einkum að gerð teiknimynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús, en teiknaði einnig þrjár sögur í bókaflokknum um Sval og Val. Ferill. Nicolas Broca, betur kunnur undir listamannsnafninu "Nic", fæddist í Liege og hóf störf hjá "Belvision Studios" að loknu myndlistarnámi. Fyrirtækið var umsvifamikill framleiðandi teiknimyndaþátta fyrir sjónvarp. Þar vann Nic að því að aðlaga ýmsar af kunnustu belgísku teiknimyndahetjunum að hvíta tjaldinu, s.s. Ástrík, Lukku Láka, Tinna og Strumpana. Árið 1980 tók hann við bókaflokknum um Sval og Val ásamt höfundinum Cauvin, eftir að Fournier hætti í fússi. Nic og Cauvin sömdu saman þrjár sögur um ævintýri félaganna (La ceinture du grand froid, La boîte noire og Les faiseurs de silence). Bækurnar mæltust afar misjafnlega fyrir og varð það til þess að Nic ákvað að halda ekki áfram á sömu braut, heldur sneri sér aftur að sjónvarpsþáttagerð. Árið 1984 kynnti hann til sögunnar nýjar sögupersónur, "Snorkana" (enska: "Snorks"). Þættir þessir fjölluðu um skringilegar neðansjávarverur og samfélag þeirra, sem minnti óneitanlega nokkuð á Strumpanna. Upphaflega mun Nic hafa áætlað að nota Snorkana sem aukapersónur í Sval og Val. Snorkarnir voru framleiddir af "Hanna-Barbera" fyrirtækinu um fjögurra ára skeið og nutu mikilla vinsælda. Helgafell (Hafnarfirði). Helgafell er 338 metra hár móbergsstapi suðaustur af Hafnarfirði. Fjallið myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld. Efst uppi á fjallinu er varða, sem er í raun berggangur sem grjóti hefur verið hlaðið í kringum. Í suðaustri er klettadrangur í fjallinu, sem heitir Riddari. Þaðan er fær gönguleið niður af fjallinu og liggur hún í gegnum stóran steinboga. Nafn fjallsins kann að vera komið til vegna einhvers konar helgi á fjallinu til forna en einnig gæti það verið skylt mannsnafninu Helgi. Fjallið er vinsælt meðal Hafnfirðinga og annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu og er tiltölulega auðvelt uppgöngu. Venjulega tekur gangan um einn til einn og hálfan klukkutíma. Greinileg slóð liggur að fjallinu frá Kaldárbotnum, þaðan sem flestir hefja för sína. Gengið er með sléttu helluhrauni upp að norðausturhlíð fjallsins, þar sem einfaldast er að hefja gönguna. Þaðan er gengið eftir troðinni slóð sem liggur upp með fjallshlíðinni. Fyrst er gengið upp gróna brekku en síðan eftir móbergsfláum þar til komið er upp á topp fjallsins. Útsýnið af toppnum er gott, þó að fjallið sé ekki mjög hátt. Þaðan sést vel yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanes. Best er að fara sömu leið niður, því fjallið er bæði bratt og klettótt. Þó er hægt að fara ýmsar aðrar leiðir, bæði upp og niður. Hvíta stríðið. Hvíta stríðið eða drengsmálið er nafn á óeirðum sem urðu fyrir utan íbúð Ólafs Friðrikssonar, ritstjóra Alþýðublaðsins, á Suðurgötu 14 í Reykjavík árið 1921. Ólafur var þekktur jafnaðarmaður og hafði snúið heim frá alþjóðaþingi kommúnista, Komintern með 14 ára dreng, Natan Friedman með sér. Natan var með smitandi augnsjúkdóm, egypskt augnkvef (e. trachoma) og því vildi landlæknir láta vísa honum úr landi til þess að koma í veg fyrir að fólk á Íslandi smitaðist. Þann 18. nóvember ákvað lögreglan að gera atlögu að húsi Ólafs og freista þess að fjarlægja Natan með valdi. Lögreglumenn, leiddir af Jóni Hermannssyni náðu drengnum á sitt vald en stuðningsmenn Ólafs náðu honum jafnharðan aftur til sín. Þann 22. nóvember var fjölmennara lið, undir forystu Jóhanns P. Jónssonar, setts lögreglustjóra, gert út af ríkisstjórninni til þess að ná Natan með valdi. Það hafðist og 28. nóvember var Natan sendur af landi brott með Gullfossi. Ólafur var dæmdur í fangelsi ásamt Hendriki Ottósyni og fleirum. Þeir voru náðaðir eftir fimm ára afplánun. Um hádegisbil föstudaginn 18. nóvember 1921, sama dag og lögreglan gerði í fyrsta sinn atlögu að heimili Ólafs Friðrikssonar, setti Lárus Jóhannesson, fulltrúi bæjarfógeta, lögreglurétt Reykjavíkur á skrifstofu fógetans. Þar sagði Jón Kjartansson lögreglufulltrúi að „einangra“ þyrfti hús Ólafs á við Suðurgötu frá símasambandi við umheiminn. Því þyrfti að loka tveimur símum á heimili hans en einnig símanum á afgreiðslu Alþýðublaðsins. Að öllum líkindum var þetta í fyrsta skiptið sem síma var lokað á Íslandi að beiðni lögreglu og fengnum dómsúrskurði. Klofningur. Klofningur, stundum nefnt Klofningsfjall, er fremsti hluti fjallgarðsins sem skiptir Breiðafirði í tvo hluta. Nyrðri hlutinn er Breiðafjörður með Gilsfjörð innstan. Syðri hlutinn er Hvammsfjörður. Fremst á Klofningi mætast Fellsströnd og Skarðsströnd. Klofningshreppur hét sveitin áður og náði frá Ormsstöðum að Ballará. Áður fyrri var meirihluti íbúanna búsettur í eyjunum sem tilheyrðu Klofninghreppi. Fremst á Klofningi liggur akvegurinn um skarð sem heitir Klofningskarð. Að aka þar um heitir að fara fyrir Klofning. Medellínhringurinn. Medellínhringurinn var skipuleg samtök kólumbískra kókaínsala. Starfsemi hringsins hófst á árunum 1970 – 1980 en þegar hæst hóaði teygði hann anga sína um alla Ameríku að segja má og í smærri stíl til Evrópu. Þungamiðja þessarar athafnasemi var flutningur kókaíns til Bandaríkjanna. Segja má að dauði höfuðpaursins, Pablo Escobar 2. desember 1993, marki endalok þessa glæpaveldis. Upphaf. Medellínhringurinn átti rætur sínar í borginni Medellín í Kólumbíu og dregur hann nafn sitt af borginni. Pablo Escobar og Carlos Lehder áttu drýgstan þátt í því að koma samtökunum á laggirnar en ýmsir fleiri lögðu hönd á plóginn. Félagar þessara samtaka skipulögðu framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu kókaíns. Þeir fengust líka við aðra ólöglega starfsemi svo sem vopnasmygl en í mun smærri stíl. Foringjarnir urðu brátt vellríkir. Vöxtur og viðgangur. Kókaínbarónar Medellínhringsins voru stórtækari og hugmyndaríkari en samtímamenn þeirra sem stunduðu kókaínsölu. Fram að þessu hafði mest verið notast við svokölluð burðardýr til að flytja kókaín til Bandaríkjanna en Medellínhrigurinn fór að nota flugvélar í þessu skyni. Flugvélar þessar voru litlar og flugu svo lágt að þær sáust ekki á raföldusjá. Vélarnar lentu á hentugum, afskekktum stöðum. Sú aðferð var líka viðhöfð að fleygja kókaíninu úr flugvélum yfir Everglades fenjunum í Florida þar sem prammar voru til taks. Margar flutningaleiðir voru notaðar meðal annars var flogið, siglt eða farið landveg með kókaín til Bahamaeyja, Nicaragua, Panama og fleiri viðkomustaða á leiðinni til áfangastaðar sem langoftast var Bandaríkin. Talið er að á velmektardögum sínum hafi Medellínhringurinn flutt kókaín til Bandaríkjanna fyrir um það bil 60 milljónir dollara á degi hverjum og hafi útvegað allt að 80% af öllu kókaíni sem var í boði í heiminum. Félagar samtakanna áttu víðlenda búgarða í Kólumbíu og þeir höfðu tök á fjölmörgum stjórnmálamönnum. Þeir komu á fót vopnuðum sveitum og hvers kyns ofbeldi varð daglegt brauð. Straumhvörf. Morð dómsmálaráðherra Kólumbíu í apríl 1984 markaði upphafið að endi Medellínhringsins. Ráðherrann, Rodrígo Lara Bonilla, hafði beitt sér gegn kókaínsölu en morð hans ásamt þrýstingi frá stjórn Bandaríkjanna stuðluðu mjög að stefnubreytingu kólumbískra stjórnvalda gagnvart samtökum kókaínsala bæði Medellínmönnum og öðrum. Forseti Kólumbíu, Belisario Betancur, hafði fram til þessa ekkert viljað gera sem styggt gæti kókaínbarónana. Nú kúventi hann. Framsal eiturlyfjasala var boðað og farið var að handtaka þá samkvæmt ákærum útgefnum í Bandaríkjunum. Stjórnvöld Kólumbíu, sem áður voru Medellínhringnum auðsveip, fóru nú að beita sér gegn honum. Escobar og fleiri flúðu til Panama og dvöldust þar um hríð en flestir sneru fljótlega heim til Kólumbíu aftur. Allt fór í bál í brand. Escobar og félagar börðust gegn framsali með öllum tiltækum ráðum og stríðsástand ríkti í sumum héruðum Kólumbíu. Árið 1986 var svo komið að morð var algengasta dánarorsökin í Medellín. Mjög tók nú að halla undan fæti fyrir kólumbísku kókaínsölunum. Endalok. Árið 1987 var einn af stórlöxum Medellínhringsins, Carlos Lehder, handtekinn og framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann situr nú í fangelsi. Um svipað leyti fór samstaða annarra foringja samtakanna að gliðna og þeir reyndu að bjarga sér sem best þeir gátu af eigin rammleik. Samtökin liðuðust sundur og deildust niður í smærri einingar. Umfang kókaínviðskipta Medellínmanna minnkaði verulega enda ekki heiglum hent að standast atlögur andstæðinganna þar sem bandarísk stjórnvöld létu mjög til sín taka. Netið þrengdist um kókaínsalana og sumir voru handsamaðir eða felldir í skotbardögum. Kólumbísk yfirvöld brugðu á það ráð að bjóða höfuðpaurum kókaínviðskiptanna að afplána dóma í kólumbísku fangelsi ef þeir gæfu sig fram. Sumir þekktust þetta boð, þeirra á meðal Pablo Escobar, sem fór í fangelsi 1991 en flúði árið eftir þegar flytja átti hann í annað fangelsi. Han fór síðan huldu höfði og féll að lokum í skotbardaga í desember 1993. Telja má að sá atburður marki endalok Medellínhringsins. Novak Djokovic. Novak Djokovic að keppa 2012. Novak Djokovic ("Новак Ђоковић" eða "Novak Đoković" á serbnesku; fæddur 22. maí 1987, Belgrad) er serbneskur atvinnumaður í tennis. Egglífbæri. Egglífbæri er hugtak í líffræði sem er haft um kvendýr sem bera frjóvuguð egg innvortis þar til þau eru við það að klekjast út. Dæmi um skepnu sem er egglífberi er hvalháfurinn. Geir Sæmundsson. Geir Sæmundsson (f. 1. september 1867, d. 9. ágúst 1927) var vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi og prestur á Akureyri. Geir fæddist í Hraungerði. Árið 1887 fór hann til Danmerkur til náms við háskólann í Kaupmannahöfn. Haustið 1909 var hann samkvæmt kosningu presta skipaður vígslubiskup fyrir Hólabiskupsdæmi hið forna og vígður biskupsvígslu af herra Þórhalli biskupi í hinni fornu Hólakirkju 10. júlí 1910. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2000. Evrópukeppnin í knattspyrnu 2000, eða EM 2000, var í 11. skiptið sem Evrópukeppnin í knattspyrnu hefur verið haldin. Lokakeppnin fór fram í sameiginlega í Belgíu og Hollandi dagana 10. júní og 2. júlí árið 2000. Í úrslitaleik mótsins mættust landslið Frakklands og Ítalíu. Frakkland sigraði leikinn með marki á fjórðu mínútu fram yfir venjulega leiktíma til að tryggja framlengingu og gullmarki á mínútu 103. Þetta var annar titill Frakklands í Evrópukeppninni. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976 var haldin í Hollandi, í Haag eftir sigur þeirra árið áður. Keppnin var haldin á laugardegi, 3. apríl 1976, og í salnum voru um 2000 áhorfendur en keppnin var sýnd í 33 löndum með 450 milljónum áhorfenda auk þess að um 18 milljónir hlustuðu á keppnina í útvarpi. Svíþjóð sendi keppnina bara út í útvarpi en tók ekki þátt það ár. Tvö lönd voru búin að ákveða að taka þátt en hættu við það af pólitískum ástæðum. Þau voru Malta og Liechtenstein. Löndin voru búin að ákveða lögin „Sing your song, country boy“ fyrir Möltu og hitt hét lagið „Little cowboy“. Þýskaland hafði upphaflega ákveðið lagið „Der star“ eða „Stjarnan“. Malta, Tyrkland og Svíþjóð drógu sig úr keppni af pólitískum ástæðum. Tvær af þeim eru hér uppi en ástæðan fyrir því að Tyrkland dróg sig úr keppni er allt önnur. Árið 1974 gerðu Tyrkir árás á Kýpur sem varð til þess að Grikkir og Tyrkir urðu „óvinir“ um tíma. Grikkir fóru ekki í keppni 1975 þegar að Tyrkland gerði frumraun til að mótmæla þáttökunni en árið 1976 fóru Grikkir aftur í keppnina með lag um árás Tyrkja á Kýpur. Þess vegna var Tyrkland ekki með. Bretland vann kepnina og áttu stigametið í kepppnini þangað til að Sandra Kim vann fyrir Belgíu árið 1986. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1996. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1996, ofast nefnd EM 1996, var í tíunda skiptið sem Evrópukeppnin í knattspyrnu hefur verið haldin. Lokakeppnin var haldin í Englandi dagana 8. til 30. júní 1996 á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. Mótið var það fyrsta til þess að hafa sextán lið í lokakeppninni en áður voru aðeins átta lið í lokakeppninni hverju sinni. Sigurvegarar mótsins voru Þýskaland eftir 2-1 sigur á Tékkland með gullmarki. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1992. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1992, oftast nefnd EM 1992, var í níunda skiptið sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu hefur verið haldin. Lokamótið var haldið í Svíþjóð á dögunum 10. til 26. júní 1992. Mótið er haldið fjórða hvert ár á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. Þetta var síðasta mótið þar sem aðeins átta lið taka þátt í lokamótinu. Landslið Júgóslavíu komst áfram í lokakeppnina en var síðar meinað þátttöku vegna stríða í landinu. Í stað þeirra spilaði landslið Danmerkur sem svo unnu mótið í úrlitaleik gegn Þýsklandi. Þetta var fyrsti titill Danmerkur í keppninni. Hans Wingaard Friis. Hans Wingaard Friis (12. janúar 1870 – 1936) var norskur útgerðarmaður og kaupsýslumaður frá Álasundi sem stundaði útgerð frá Hafnarfirði um nokkurra ára skeið í upphafi 20. aldar. Hann hafði efnast í Noregi á veiðum og verkun saltsíldar og saltfisks og árið 1904 kom hann til Íslands og gerði út línuveiðibáta frá Hafnarfirði. Var hann frumkvöðull í þeim veiðum og í kjölfarið fóru fleiri að stunda veiðar á línubátum þaðan. Friis fékk viðurkenningu frá Noregskonungi fyrir frumkvöðlastarf sitt. Fyrirtæki hans varð gjaldþrota árið 1909 í kjölfar verðfalls árið áður og flutti hann þá til Bandaríkjanna og bjó þar uns hann lést í Seattle árið 1936. Friis var áhugaljósmyndari og tók mikið af myndum í Hafnarfirði og á fleiri útgerðarstöðum þar sem Norðmenn voru fyrirferðarmiklir, eins og Siglufirði, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Í glerplötusafni hans, sem varðveitt er í Álasundii, er meðal annars elsta myndasyrpa frá Siglufirði sem vitað er um. Hann myndaði einnig íþróttamót, konungskomuna 1907 og fleira og þykir safn hans merkilegt, en það var óþekkt hérlendis til skamms tíma. Sýning á Íslandsmyndum hans var haldin á vegum Þjóðminjasafns Íslands 2007 og í tengslum við hana kom út ljósmyndabókin "Auga gestsins" sem hafði að geyma margar af myndum Friis. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1988. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1988, oft nefnd EM 1988, var í áttunda skiptið sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu hefur verið haldin. Keppnin er haldin á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fjórða hvert ár. Keppnin fór fram í Vestur-Þýskalandi dagana 10. og 25. júní 1988. Keppnina sigruðu Hollendingar í fyrsta skipti en þeir mættu liði Sovétríkjanna í úrslitaleik. Athyglisvert var að engin rauð spjöld litu dagsins ljós í keppninni, engin markalaus jafntefli og aldrei þurfti að grípa til framlengingar. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1984. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1984, oft nefnd EM 1984, var sjöunda Evrópukeppni karla í knattspyrnu sem haldin hefur verið. Lokakeppnin fór fram í Frakklandi dagana 12. til 27. júní 1984. Heimalið Frakka sigraði sinn fyrsta titil með sigri á landsliði Spánar í úrslitaleik. Michel Platini, leikmaður Frakklands, vakti mikla athygli á mótinu en hann var markakóngur mótsins með níu mörk í aðeins fimm leikjum. Auðhumla (samvinnufélag). Auðhumla er íslenskt samvinnufélag. Félagið er í eigu um 700 mjólkurframleiðenda á Íslandi og það á m.a. 92,5 % hlut í Mjólkursamsölunni (MS). Saxbauti. Hálfdós af niðursoðnum saxbauta frá KEA. Saxbauti fékkst í heildósum, sem innihéldu sjö buff hver, og hálfdósum, en í þeim voru fjögur buff. Saxbauti, hakkað buff, hakkabuff eða bara buff er matarréttur gerður úr hökkuðu kjöti, oftast nautakjöti. Hakkið er kryddað og oft blandað hveiti og eggjum og síðan mótað í hringlaga buff sem steikt eru á pönnu. Með þessu er algengt að hafa steiktan lauk í brúnni sósu, soðnar kartöflur og oft rauðkál, rauðrófur, sýrðar gúrkur og sultu. Rétturinn er algengur í Danmörku en þekktur um öll Norðurlönd og víðar og oft talinn danskur þótt ýmiss konar buffkökur úr hökkuðu kjöti séu þekktar víða um lönd. Til Íslands barst hann frá Danmörku og sést fyrst getið á 19. öld. Heitið "saxbauti" er íslenskun á danska heitinu "hakkebøf" og kom fyrst fram í nýyrðalista Orðanefndar Verkfræðingafélagsins 1926. Það hefur einkum verið notað um niðursoðin buff, fyrst af Sláturfélagi Suðurlands frá 1932 eða fyrr og síðan af Kjötiðnaðarstöð KEA frá miðjum sjöunda áratugnum þar til framleiðslu var hætt um 1990 og mun saxbauti í lauksósu hafa verið einna vinsælastur af niðursuðuvörum Kjötiðnaðarstöðvarinnar. Heimatilbúin hakkabuff, oft borin fram með steiktum lauk og steiktum eggjum, héldu þó áfram vinsældum sínum. Á síðari árum hafa sumir tekið saxbautaheitið upp að nýju og sést það meðal annars á matseðlum sumra skóla og leikskóla. Svaðilför til Sveppaborgar. Svaðilför til Sveppaborgar (franska: "Panade à Champignac") eftir Franquin er nítjánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Verkið hefur að geyma tvær sögur: "Apana hans Nóa" (franska: "Bravo les Brothers") (22 bls.) sem birtist í teiknimyndablaðinu Sval árið 1966 og titilsöguna (37 bls.) sem birtist í sama blaði 1967 til 1968. Bókin kom út á frummálinu árið 1968 en á íslensku árið 1972. Þetta voru síðustu sögur Franquins um Sval og Val. Söguþráður. Svalur og Valur halda í frí til Sveppagreifans eftir að sá síðarnefndi hefur fengið nóg af uppátækjum Viggós viðutans í vinnunni. Greifinn reynist úrvinda eftir að hafa þurft að sinna Zorglúbb sem hefur þroska átta mánaða barns eftir áfallið sem hann varð fyrir í lok "Með kveðju frá Z". "Ottó Papparapapp", vitgrannur fyrrum liðsmaður Zorglúbbs, sér sinn gamla foringja og ákveður að frelsa hann án þess að átta sig á ástandi hans. Papparapapp reynir að hrifsa Zorglúbb frá félögunum þar sem þeir ýta honum í barnavagni og tekst að lokum að nema hann á brott eftir æsilegan eltingaleik. Óvitinn Zorglúbb sendir lömunargeisla í allar áttir innan Sveppaborgar og endar á að lama Papparapapp, Sval, Val og sjálfan sig. Sveppagreifinn kemur þó til bjargar. Allir komast aftur til sjálfs sín og Zorglúbb reynist hafa læknast og tekur til við friðsæl vísindastörf ásamt greifanum. "Aparnir hans Nóa" gerist að mestu á ritstjórnarskrifstofu Tímaritsins Svals, með sömu aukapersónum og í bókunum um Viggó viðutan. Athafnamaðurinn "herra Seðlan" hyggst skrifa undir mikilvæga samninga, en allt fer í handaskolum ekki hvað síst vegna þriggja simpansar sem Viggó keypti á uppboði. Aparnir gera allt vitlaust, en að lokum komast þeir í hendur "Nóa", gamla dýratemjarans sins. Íslensk útgáfa. "Svaðilför til Sveppaborgar" var gefin út af Iðunni árið 1972 í íslenskri þýðingu Jóns Gunarssonar. Þetta var fimmta bókin í íslensku ritröðinni. Þorsteinn Hannesson. Þorsteinn Hámundur Hannesson (fæddur 19. mars 1917 á Siglufirði, dáinn 3. febrúar 1999 í Reykjavík) var íslenskur tónlistarmaður. Þorsteinn var í söngnámi hjá Sigurði Birkis 1939­–1943 og við Royal College of Music í London frá 1943­-1947. Einnig var hann í einkatímum hjá Josep Hislop og Irving Dennis. Þorsteinn var starfsmaður Verðlagsnefndar frá 1941­ 1943. Hann var aðaltenór hjá The Covent Garden Opera Company 1947­ – ­1954 og söng jafnframt sem gestur hjá The Royal Carl Rosa Opera Company, The Sadler's Wells Opera Company og óperunum í Cork á Írlandi og í Amsterdam í Hollandi. Hann söng einnig á tónleikum og í útvarpi í París og á tónleikum víða á Bretlandseyjum. Eftir heimkomuna frá London 1954 söng hann og lék mörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu. Þorsteinn var yfirkennari við söngdeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1955­­ – 1966. Hann var aðstoðarmaður forstjóra ÁTVR og síðar innkaupafulltrúi 1961­­ – 1969. Aðstoðartónlistarstjóri RÚV frá 1969 og síðan tónlistarstjóri þess 1975­­ – 1981. Hann vann við skráningu og flokkun sögulegs hljóðritasafns RÚV og hafði yfirumsjón með útgáfu valins efnis úr því safni. Einnig kenndi hann við Söngskólann í Reykjavík um skeið. Hann var í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1956­­ – 1960 og 1975­ – 1981. Í útvarpsráði sat hann frá 1963­­ – 1971. Þorsteinn sat í nefnd sem undirbjó stofnun sjónvarps á Íslandi. Hann var formaður barnaverndarnefndar Kópavogs 1962­ – ­1966, varaformaður 1966­ – ­1970. Hann var í undirbúningsnefnd að stofnun Tónlistarskóla Kópavogs og síðar í stjórn hans í fjögur ár. Þorsteinn sat í stjórn Lista- og menningarsjóðs Kópavogs 1974 – 1978. Einnig sat hann í stjórn Bandalags íslenskra listamanna um árabil og var varaforseti þess í tvö ár. Hann annaðist tónlistarþætti í RÚV í áratugi, las margar útvarpssögur og á seinni árum lék hann hlutverk í nokkrum kvikmyndum, meðal annars í Hvíta víkingnum, Atómstöðinni, Skyttunum og Kristnihaldi undir Jökli. Þorsteinn Hannesson - tenór sem kom út árið 1979 Hljómplatan Þorsteinn Hannesson - tenór kom út árið 1979 á vegum SG - hljómplatna. Á henni eru íslensk sönglög sem Þorsteinn söng. Fritz Weisshappel píanóleikari sá um undirleik. Naustaskóli. Naustaskóli er grunnskóli rekinn af Akureyararbæ sem tekinn var í notkun 2009. Lundarskóli. Lundarskóli er grunnskóli sem staðsettur er á milli Lundar- og Gerðahvefis á Akureyri. Nemendur skólans koma úr fyrrnefndum hverfum sem eru um 500. Skólinn leggur mikla áherslu á teymiskennslu og ýmiss þróunarverkefni á borð við SMT agakerfi og heilsueflandi grunnskóla. Roger Federer. Roger Federer (fæddur 8. ágúst 1981 í Basel, Sviss) er svissneskur atvinnumaður í tennis. Hann keppir á Ólympíuleikunum í London. Hann hefur unnið marga heimsmeistaratitla og er í öðru sæti á heimslistanum í tennis á eftir Rafael Nadal. Ólympíumót fatlaðra. Ólympíumót fatlaðra eru íþróttamót, með svipuðu sniði og Ólympíuleikar, þar sem íþróttamenn með fötlun keppa í ólympískum íþróttagreinum. Ólympíumót fatlaðra skiptast í vetrar- og sumarólympíumót og eru haldin skömmu eftir Ólympíuleikana. Upphaflega mótið var haldið af samtökum breskra uppgjafarhermanna árið 1948. Keppendum er skipt í sex stóra flokka eftir fötlun og síðan í frekari flokka innan hverrar íþróttagreinar. Paul Goodison. Paul Goodison tekur við gullverðlaunum á Sumarólympíuleikunum 2008 Paul Goodison (f. 29. nóvember 1977) er enskur siglingamaður. Hann varð í fyrsta sæti í keppni á Laser á Sumarólympíuleikunum 2008 og sigraði á heimsmeistaramótinu í Kanada árið eftir. Goodison, Paul Goodison, Paul Hande Yener. Makbule Hande Özyener (fædd 12. janúar 1973 í Istanbúl í Tyrklandi), þekktust undir listamannsnafninu Hande Yener, er tyrknesk söngkona, lagahöfundur og upptökustjóri. Breiðskífur. Özyener, Makbule Hande Gildissvið. Gildissvið er hugtak í forritun sem vísar til þess hluta forrits þar sem skilgreining á breyta eða kennimerkja (e. "identifier") er gild. Til eru mismunandi tegundir gildissviða eins og kviklegt gildissvið (e. "dynamic scope") eða kyrrlegt gildissvið (e. "static scope"). Evrópukeppnin í knattspyrnu 1980. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1980, oftast nefnd EM 1980, var sjötta Evrópukeppni karla í knattspyrnu sem haldin hefur verið. Lokakeppnin var haldin í Ítalíu á tímabilinu 11. og 22. júní 1980. Á keppninni voru í fyrsta skipti átta lið sem fengu þáttökurétt á lokamótinu, en áður fengu aðeins fjögur lið þáttökurétt. Í keppninni var í síðasta skiptið spilaður leikur um þriðja sætið. Keppnina sigraði Vestur-Þýskaland í leik gegn Belgíska landsliðinu með tvem mörgkum gegn einu. Í leik um þriðja sætið sigraði landslið Tekkóslóvakíu á Ítalíu í vítaspyrnukeppni sem fór níu mörk gegn átta. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1976. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1976, einnig nefnd EM 1976, var í fimmta skiptið sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu hefur verið haldin. Lokakeppni mótsins fór fram í Júgóslavíu dagana 16. og 20. júní 1976. Lokamótið var það síðasta þar sem aðeins fjögur lið spiluðu en á EM 1980 fengu átta lið þátttökurétt á lokakeppnina. Á mótinu sigraði Tékkóslóvakía sinn fyrsta titil eftir sigur á Vestur-Þýskalandi í úrslitaleik í vítaspyrnukeppni. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1972. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1972, einnig oft nefnd EM 1972, var í fjórða skipti sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu hefur verið haldin. Keppnin var haldin á vegum Knattspyrnusambands Evrópu í Belgíu dagana 14. til 18. júní 1972. Keppnina sigraði landslið Vestur-Þýskalands í úrslitaleik gegn liði Sovétríkjanna með þrem mörkum gegn engu. Þetta var í fyrsta skipti sem Vestur-Þýskaland spilaði á lokakeppni EM. Tora Torapa. Tora Torapa er 23. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú fjórða eftir listamanninn Fournier. Sagan birtist fyrst í "teiknimyndablaðinu Sval" árið 1973 og kom út á bókarformi sama ár. Bókin hefur enn ekki verið þýdd á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst á setri Sveppagreifans. Töframaðurinn Ító Kata er í heimsókn ásamt Sval og Val. Þeir félagarnir aðstoða greifann og Zorglúbb við tilraunir á staðsetningarbúnaði fyrir rannsóknir á fuglum. Skyndilega koma dularfullir menn aðvífandi og nema Zorglúbb á brott. Með hjálp staðsetningarbúnaðarins geta Svalur, Valur, greifinn og Ító Kata rakið slóðina til dularfullrar smáeyju í Pólýnesíu, "Tora Torapa". Glæpasamtökin "Þríhyrningurinn", undir stjórn hins dularfulla "Papa Pop" hafa þar sölsað undir sig hátæknilegar bækistöðvar sem áður höfðu verið mikilvægasti hlekkurinn í kerfi Zorglúbbs í "Z fyrir Zorglúbb" og "Með kveðju frá Z". Papa Pop telur Zorglúbb trú um að Þríhyrningurinn vinni nú að almannahag og sannfærir hann um að búa til tæki sem dragi til sín allar heimsins mýflugur. Hinn raunverulegi tilgangur er þó að beita mýflugunum sem vopni til að ná á sitt vald kjarnorkuvopnum úr nálægri herstöð og öðlast heimsyfirráð. Svalur og félagar komast til eyjarinnar og kynnast þar hugdjarfri stúlku, Óróreu. Þau uppgötva að Papa Pop er í raun Sammi frændi Vals. Zorglúbb áttar sig á að hann hafi verið plataður og kemur bæði mýflugunum fyrir kattarnef og skilur Samma frænda og þrjóta hans eftir á björgunarbáti á hafi úti. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1968. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1968, oft nefnd EM 1968, var í þriðja skipti sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu hefur verið haldin. Lokamótið fór fram í Ítalíu dagana 5. til 10. júní 1968 á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. Ítalía gerði markalaust jafntefli í undanúrslitum gegn Sovíetríkjunum eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en komust í úrslit með uppkasti. Úrslitaleikurinn gegn Júgóslavíu fór einnig jafntefli, eitt mark gegn einu, en í stað uppkasts var leikurinn endurspilaður 10. júní. Ítalía vann seinni úrslitaleikinn með tveimur mörkum gegn engu og unnu þar með sinn fyrsta titil á mótinu. Millennium Stadium. Millennium Stadium (velska: "Stadiwm y Mileniwm") er þjóðaríþróttaleikvangur Wales, í höfuðborginni Cardiff. Þetta er heimavöllur velska landsliðsins í ruðningi og hýsir líka oft leiki velska landsliðsins í knattspyrnu. Leikvangurinn er líka notaður fyrir alls kyns stórviðburði og tónleika. Hann tekur 74.500 manns í sæti. Ólympíuleikvangurinn (London). Ólympíuleikvangurinn í London er stór íþróttaleikvangur í Ólympíugarðinum í Stratford, London á Englandi. Hann var reistur sem aðalleikvangur fyrir Sumarólympíuleikana 2012 og Ólympíuleika fatlaðra 2012. Hann tekur 80.000 manns í sæti og er því þriðji stærsti íþróttaleikvangur Bretlands, á eftir Wembley Stadium og Twickenham Stadium. London Aquatics Centre. London Aquatics Centre er sundhöll með tveimur 50 metra sundlaugum og einni 25 metra dýfingalaug. Sundhöllin er staðsett í Ólympíugarðinum í Stratford í London. Hún var reist fyrir Sumarólympíuleikana 2012 og var opnuð í júlí 2011. Hönnuður var írask-breski arkitektinn Zaha Hadid. Sundhöllin er hönnuð með tveimur tímabundnum hliðarvængjum sem verða fjarlægðir eftir leikana. Þannig mun sundhöllin geta tekið 17.500 í sæti meðan á leikunum stendur en 2.500 eftir leikana. Arnhildur Valgarðsdóttir. Arnhildur Valgarðsdóttir (fædd 17. ágúst 1966) er íslenskur píanisti og organisti. Sjö ára hóf Arnhildur píanónám við Tónlistarskólann í Kópavogi en tveimur árum síðar við Tónlistarskólann á Akureyri. Þaðan lauk hún 8. stigi og starfaði um skeið við píanóleik, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá lá leiðin til Royal Scottish Academy of Music and Drama en þaðan útskrifaðist Arnhildur árið 1995 með BA-gráðu og CPGS-diplómu í píanóleik með söng sem aukagrein. Arnhildur er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og starfar bæði sjálfstætt sem píanóleikari og í samstarfi við hina ýmsu tónlistarmenn. Hún hefur komið fram á fjöldamörgum tónleikum innanlands og utan. Arnhildur lauk kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og er starfandi organisti og kórstjóri við Lágafellssókn í Mosefellsbæ. Auk þess að sinna þeim störfum hefur Arnhildur leikið mikið einleiksverk fyrir píanó eftir tónskáldið Evrópukeppnin í knattspyrnu 1964. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1964, oft nefnd EM 1964, var í annað skipti sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu hefur farið fram. Keppni fór fram á Spáni dagana 17. til 21. júní 1964 á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. Landslið Spánar unnu sinn fyrsta titil í keppninni eftir sigur á Sóvetríkjunum í úrslitaleik með tveimur mörkum gegn einu. Í þriðja sæti var lið Ungverjalands með sigri í framlengingu gegn Danmörku. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1960. Evrópukeppnin í knattspyrnu 1960, oft nefnd EM 1960, var í fyrsta skipti sem Evrópukeppni karla í knattspyrnu var haldin. Keppnin hefur síðan þá verið haldin fjórða hvert ár á vegum Knattspyrnusambands Evrópu. Lokamótið fór fram í Frakklandi dagana 6. til 10. júlí 1960. Landslið Sovétríkjanna unnu titilinn með sigri á Júgóslavíu í úrslitaleik. Sautján lið tóku þátt í undankeppninni. All England Lawn Tennis and Croquet Club. All England Lawn Tennis and Croquet Club eða All England Club er enskur lokaður tennisklúbbur með höfuðstöðvar í Aorangi-garðinum í Wimbledon í London. Klúbburinn var upphaflega stofnaður sem krokkettklúbbur árið 1868 en bætti tennis við dagskrána 1876. Hann er þekktastur fyrir Wimbledon-mótið í tennis sem er elsta og þekktasta tennismót heims og það eina sem er enn leikið á grasvöllum. London Velopark. London Velopark í apríl 2012 London Velopark er hjólreiðamiðstöð í Leyton í Austur-London. Miðstöðin var reist til að hýsa hjólagreinar á Sumarólympíuleikunum 2012. Á svæðinu eru hjólreiðahöll með 250m hjólabraut, BMX-braut, 1,6km braut fyrir götuhjólreiðar og braut fyrir fjallahjól. ExCeL. ExCeL (Exhibition Centre London) er sýninga- og ráðstefnuhöll í Newham í London, Englandi. Það stendur á norðurhluta skipakvíanna Royal Victoria Docks í borgarhlutanum London Docklands við ána Thames. Miðstöðin var reist af fyrirtækinu Sir Robert McAlpine Ltd og var opnuð árið 2000. Árið 2008 keypti Abu Dhabi National Exhibitions Company miðstöðina. Hin árlega bátasýning London Boat Show er haldin þar í janúar, en auk þess hýsir miðstöðin fjölda stórra alþjóðlegra sýninga. Fyrir Sumarólympíuleikana 2012 verður miðstöðinni skipt í fimm íþróttaleikvanga fyrir keppnir í bardagaíþróttum og borðtennis. The O2 Arena. a> á tónleikum í The O2 Arena árið 2009 The O2 Arena eða The O2 arena er íþróttaleikvangur innan The O2 (áður Millennium Dome) á Greenwich Peninsula við ána Thames í London. Leikvangurinn er í miðju O2-miðstöðvarinnar tekur um 40% af því rými sem er undir hvolfþakinu. Leikvangurinn tekur 20.000 manns í sæti og er annar stærsti innanhússleikvangur Bretlands. Hann var opnaður árið 2007. Keppni í fimleikum og körfubolta á Sumarólympíuleikunum 2012 verður haldin á leikvanginum. Du cidre pour les étoiles. Du cidre pour les étoiles (íslenska: "Eplavín fyrir geimverurnar") er 26. Svals og Vals-bókin og sú sjötta eftir Fournier. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1975 og kom út á bókarformi árið 1976. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Svalur og Valur halda á fund Sveppagreifans en komast að því að Sveppaborg er í hers höndum. Skepnur bændanna í héraðinu hegða sér undarlega og eru skiptar skoðanir um hvort fljúgandi furðuhlutum eða tilraunum greifans sé um að kenna. Í ljós kemur að greifinn hýsir hóp geimvera, "les ksoriens" frá fjarlægri plánetu. Með hjálp sérstaks búnaðar geta greifinn og geimverurnar talað saman, en að öðru leyti eru hljóð gestanna of há fyrir mannseyrað þótt önnur dýr nemi þau. Geimverurnar eru sólgnar í eplavín og hnupla því frá bændum í nágrenninu. Í slíkum ránsleiðangri skýtur taugaveiklaður eplabóndi eina geimveruna og særir hana. Það verður til þess að erlendir leyniþjónustumenn sem voru að njósna um greifann komast yfir eitt geimskipanna. Geimverurnar vilja endurheimta skipið, á sama tíma og reiðir íbúar Sveppaborgar hyggjast ráðast á setrið, þar sem þeir kenna greifanum um hina dularfullu atburði. Svalur og Valur yfirbuga erlendu njósnarana, ná geimskipinu og geimverurnar yfirgefa Jörðina í tæka tíð. Nokkrum mánuðum síðar fregna félagarnir þó að Sveppagrefinn hafi fest kaup á eplavínsgerð og taki reglulega á móti gestum utan úr geimnum. Didier Drogba. Didier Drogba að fagna marki Didier Yves Drogba Tébily (fæddur 11. mars 1978) er knattspyrnumaður fílabeinstrandarinnar sem spilar fyrir Shanghai Shenhua. Hann er fyrirliði og markakóngur landsliðs fílabeinstrandarinnar. Hann er best þekktur fyrir feril sinn hjá Chelsea F.C.. Atvinnuferill hans hófst 1999 hjá Le Mans í Frakklandi. Hann spilaði sinn fyrsta leik með félaginu 21 árs og eignaðist sinn fyrsta son Isaac. Drogba sagði síðar að „fæðing Isaacs var vendipunktur í lífi mínu“. 2002 keypti Guingamp Drogba fyrir 80.000 evrur. Á seinni helmingi tímabilsins skoraði hann þrjú mörk í ellevu leikjum. Hann bætti um betur á næstu leiktíð með 17 mörkum í 34 leikjum. 2003 keypti Marsielle leikmanninn þar sem hann skoraði 19 mörk og var valinn fótboltamaður ársins í Frakklandi. Í lok tímabilsins keypti Chelsea leikmanninn og hann lék í treyju 15 til þess að byrja með. Hann vann ensku úrvalsdeildina með liðinu þrisvar 2005 – 2006, '06 – '07 og '09 – '10. Hann varð markakóngur í ensku úrvalsdeildinni '09 – '10 með 29 mörk. Á sama tímabili vann Chelsea Bayern München í úrslitaleik meistaradeildarinnar. José-Luis Munuera. José-Luis Munuera eða Munuera (f. 21. apríl 1972) er spænskur teiknari. Hann hefur komið að gerð ýmissa teiknimyndasagna, en er kunnastur fyrir að hafa gert fjórar sögur í bókaflokknum um Sval og Val á tíunda áratugnum í samstarfi við Jean-David Morvan. Ferill. José-Luis Munuera fæddist í Andalúsíu og lærði teikningu í listaháskóla í Granada. Hann hóf snemma störf hjá teiknimyndasagnaútgefandanum Dupuis og kynntist þar höfundinum Jean-David Morvan. Árið 2004 var þeim félögunum falið að taka við bókaflokknum um Sval og Val. Munuera, var mikill áhugamaður um japanska Manga-teiknimyndalist og innleiddi ýmsa þætti hennar inn í sögurnar, en að öðru leyti sóttu bækur þeirra Morvans mjög í hefbundinn sagnaarf Svals og Vals-bókanna, með vísunum í verk flestra fyrri höfunda. Fjórða og síðasta bók þeirra Morvans og Munuera, "Aux sources du Z", varð einkar umdeild, þar sem tímaferðalög komu mjög við sögu og Svalur kvæntist í bókarlok. Voru félagarnir sakaðir um að hafa leitt bókaflokkinn inn á þessar brautir í hefndarskyni eftir að ljóst varð að Dupuis-forlagið ætlaði að fela öðrum höfundum ritun sagnanna. Giuseppe Tornatore. Giuseppe Tornatore (f. 27. maí 1956) er ítalskur kvikmyndaleikstjóri sem er þekktastur fyrir kvikmyndina "Paradísarbíóið" ("Il nuovo Cinema Paradiso") frá 1988 sem fékk Óskarsverðlaun sem besta erlenda kvikmyndin. "Stjörnufangarinn" ("L'uomo delle stelle") frá 1995 var tilnefnd til sömu verðlauna. Liza Minnelli. Liza Minelli sem Sally Bowles í "Kabarett" (1972) Liza May Minnelli (f. 12. mars 1946) er bandarísk leikkona og söngkona. Hún er dóttir leikkonunnar Judy Garland og leikstjórans Vincente Minnelli. Hún er frægust fyrir hlutverk sitt sem Sally Bowles í kvikmyndaútgáfu söngleiksins "Kabarett" frá 1972 en fyrir það hlutverk hlaut hún Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki. Judy Garland. Judy Garland (f. Frances Ethel Gumm; 10. júní, 1922 – 22. júní, 1969) var bandarísk leikkona og söngkona. Hún hóf feril sinn sem barn í vaudeville-sýningum og hóf síðan kvikmyndaleik hjá Metro-Goldwyn-Mayer sem táningur. Þar lék hún þekktasta hlutverk sitt, Dóróteu í "Galdrakarlinn í Oz" árið 1939. Hún giftist fimm sinnum, barðist alla ævi við áfengis- og lyfjamisnotkun og lést langt fyrir aldur fram vegna ofneyslu róandi lyfja. Harrison Ford. Harrison Ford (f. 13. júlí, 1942) er bandarískur leikari sem hefur leikið í tugum kvikmynda og sjónvarpsþátta frá því hann hóf feril sinn snemma á 7. áratugnum. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum George Lucas; sem Han Solo í Stjörnustríð og sem Indiana Jones í samnefndri kvikmyndaröð. Hann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í "Vitnið". Hann hefur auk þess verið tilnefndur til Golden Globe-verðlaunanna þrisvar, fyrir hlutverk sín í "Moskítóströndin", "Flóttaðurinn" og "Sabrina". John Ford. John Ford (1. febrúar, 1894 – 31. ágúst, 1973) var bandarískur kvikmyndaleikstjóri sem er þekktastur fyrir vestra á borð við "Póstvagninn" ("The Stagecoach"), "Í óvinahöndum" ("The Searchers") og "Maðurinn sem skaut Liberty Valance" ("The Man Who Shot Liberty Valance") og fyrir kvikmyndaútgáfur af frægum bandarískum skáldsögum eins og "Þrúgur reiðinnar". Hann var gríðarlega afkastamikill og leikstýrði yfir 140 kvikmyndum, en flestar þeirra 60 kvikmynda sem hann gerði á tímabili þöglu myndanna hafa glatast. Hann var frumkvöðull í útitökum og notkun víðmyndar þar sem persónurnar eru í forgrunni framan við víðáttumikið landslag. Hann vann fern Óskarsverðlaun fyrir bestu leikstjórn sem er met. Masaccio. Tommaso di Ser Giovanni di Simone eða Masaccio (21. desember 1401 – haust 1428) var listmálari frá Flórens. Hann var einn af fyrstu endurreisnarmálurunum sem notaði fjarvídd í myndum. Hann notaði líka sterk birtuskil og svipbrigði í persónusköpun sinni til að auka á raunsæisáhrif mynda sinna. Samkvæmt Giorgio Vasari var hann besti listamaður sinnar kynslóðar. Hann lést aðeins 27 ára að aldri og lítið er vitað um ævi hans. Þekktustu verk hans eru freskur í Brancacci-kapellunni í kirkjunni Santa Maria del Carmine í Flórens sem hann vann að ásamt Masolino da Panicale. Hann er líka þekktur fyrir nokkrar altaristöflur með Maríu mey og fresku sem sýnir heilaga þrenningu í kirkjunni Santa Maria Novella. Hann lést í Róm. Ray Bradbury. Ray Douglas Bradbury (22. ágúst, 1920 – 5. júní, 2012) var bandarískur rithöfundur einkum þekktur fyrir smásögur sínar og vísindaskáldsöguna "Fahrenheit 451" frá 1953. Sögur hans hafa verið notaðar í miklum fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, leikrita og myndasagna frá miðri 20. öld. Hann skrifaði 27 skáldsögur og yfir 400 smásögur sem birtust í ýmsum smásagnasöfnum. Skáldsagan "Fahrenheit 451" kom út á íslensku árið 1968. Raymond Chandler. Raymond Thornton Chandler (23. júlí, 1888 – 26. mars, 1959) var bandarískur rithöfundur þekktastur fyrir leynilögreglusögur sínar um Philip Marlowe á borð við "Svefninn langi" ("The Big Sleep"). Hann hóf ritstörf 44 ára gamall eftir að hann missti starf sitt sem stjórnarmaður í olíufyrirtæki. Hann lauk við sjö skáldsögur sem höfðu mikil áhrif á bandarískar bókmenntir og hafa allar nema ein verið kvikmyndaðar. Philip Marlowe er, ásamt Sam Spade Dashiell Hammetts, hin dæmigerði einkaspæjari í hugum fólks. Humphrey Bogart hefur leikið báðar þessar persónur í kvikmyndum. Af skáldsögum Chandlers hafa "Svefninn langi" og "Litla systir" ("The Little Sister") komið út á íslensku. Humphrey Bogart. Humphrey DeForest Bogart (25. desember, 1899 – 14. janúar, 1957) var bandarískur leikari sem lék í 75 kvikmyndum á þrjátíu ára ferli. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í stórmyndum á borð við "Möltufálkinn" (1941), "Casablanca" (1942) og "Drottning Afríku" (1951) þar sem hann lék á móti Katharine Hepburn. Fyrir þá mynd fékk hann sín fyrstu og einu Óskarsverðlaun. Hann giftist Lauren Bacall árið 1945 og lék á móti henni í nokkrum kvikmyndum. Kepri. Kepri og Knum með tordýfil á milli sín Kepri eða Keper (fornegypska: "ḫpr") var guð í fornegypskum trúarbrögðum sem var sýndur sem tordýfill eða sem maður með tordýfil í höfuðs stað. Hann var persónugervingur sólarinnar sem bjallan ýtir á undan sér yfir himininn og var raunar eini sólguðinn þar til Ra tók við því hlutverki, en eftir það varð Kepri aðeins eitt form Ra sem hin rísandi sól meðan Atúm var sólin sem sest. Jimmy Page. Jimmy Page á tónleikum 1977 James Patrick „Jimmy“ Page (f. 9. janúar 1944) er enskur rafmagnsgítarleikari og lagahöfundur. Hann hóf feril sinn sem sessjónmaður um miðjan 7. áratug 20. aldar og varð síðan meðlimur í hljómsveitinni The Yardbirds frá 1966 til 1968. Það ár stofnaði hann hljómsveitina Led Zeppelin ásamt Robert Plant og fleirum. Robert Plant. Robert Anthony Plant (f. 20. ágúst 1948) er enskur rokksöngvari og lagahöfundur sem er þekktastur fyrir feril sinn sem söngvari hljómsveitarinnar Led Zeppelin frá 1968 til 1980. Eftir upplausn sveitarinnar 1980 hóf hann sólóferil og hefur átt nokkrar metsöluplötur. Hann er einn af áhrifamestu söngvurum rokksögunnar og hafði mikil áhrif á menn á borð við Freddie Mercury og Axl Rose. Ösp (ættkvísl). Ösp (fræðiheiti: "Populus") er ættkvísl 25 – 35 tegunda lauftrjáa sem vaxa á norðurhveli jarðar. Aspir eru meðal mikilvægustu lauftrjáa á Norðurslóðum. Aspartegundir eru líka notaðar til timburframleiðslu. Þekktustu aspir sem ræktaðar eru á Íslandi eru alaskaösp ("Populus trichocarpa"), blæösp ("Populus tremula") og gráösp ("Populus canescens"). Undirstaðan. "Undirstaðan" er skáldsaga eftir rússnesk-bandarísku skáldkonuna Ayn Rand, sem fyrst kom út 1957. Á ensku ber hún heitið „"Atlas Shrugged"“, sem merkir bókstaflega "Atlas yppti öxlum", en í grískri goðafræði er Atlas jötunn, sem ber heiminn á öxlum sér. "Undirstaðan" er talin merkasta skáldsaga Rand en þar gerir hún grein fyrir heimspekikenningum sínum. Hún er eindreginn stuðningsmaður einkaframtaks og atvinnufrelsis og svarinn andstæðingur þess, að einn maður geti lifað sníkjulífi á meðborgurum sínum. Hún setur fram svipaða fullkomnunarkenningu og Aristóteles, að hver maður verði að fá að vaxa og þroskast eftir eigin lögmáli en um leið að gæta jafnmikils frelsis annarra. Hetja Rand er hinn skapandi athafnamaður og þau tvö tákn mannsandans, sem hún bendir á með mestri velþóknun, er merki Bandaríkjadals ($) og skýjakljúfurinn. Aðalsöguhetjan í "Undirstöðunni" er Dagný Taggart, sem rekur járnbrautarfélag fjölskyldu sinnar. Hún á í ástarsambandi við argentínska koparjöfurinn Francisco d’Anconia, iðnrekandann Hank Rearden og verkfræðinginn John Galt. Baksviðið er, að þeir menn, sem skapa auðinn með hugviti sínu, telji sér ekki skylt að vinna fyrir aðra, sem skapa ekki neitt, og gera þess vegna verkfall. Hafa ýmsar þýðingar bókarinnar á erlendar tungur einmitt verið nefndar „Verkfallið“. "Undirstaðan" kom út á íslensku haustið 2012 í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur hjá Almenna bókafélaginu. Alls hefur bókin selst í um átta milljónum eintaka í heiminum. Faisalabad. Faisalabad (úrdú: فیصل آباد) áður Lyallpur, er þriðja stærsta borg Pakistans og sú önnur stærsta í Púnjab á eftir Lahore. Íbúar eru rúmar fjórar milljónir. Borgin er mikilvæg iðnaðarborg og stundum kölluð „Manchester Asíu“. Quentin Tarantino. Quentin Jerome Tarantino (f. 27. mars 1963) er bandarískur kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur sem fyrst sló í gegn með kvikmyndinni "Svikráð" ("Reservoir Dogs") árið 1993. Hann fylgdi henni eftir með "Sorprit" ("Pulp Fiction") sem vann Gullpálmann og fékk sjö tilnefningar til Óskarsverðlauna. Síðan hafa komið út "Jackie Brown" (1997), "Bana Billa" ("Kill Bill") (2003-4), "Death Proof" (2007) og "Inglorious Basterds" (2009) en sú síðastnefnda fékk átta Óskarstilnefningar og ein verðlaun, fyrir besta leikara í aukahlutverki. Languedoc-Roussillon. Kort sem sýnir héraðið Languedoc-Roussillon í Frakklandi. Languedoc-Roussillon er eitt af 26 héruðum í Frakklandi. Höfuðborg héraðsins er Montpellier. Ramses 2.. Stytta af Ramsesi 2. í Tórínó Ramses 2. eða Ramses mikli (fornegypska: "Rˁ msj"; um 1303 f.Kr. – 27. júní 1213 f.Kr.) var þriðji faraó nítjándu konungsættarinnar og ríkti frá 1279 f.Kr. til dauðadags. Í hans valdatíð lagði Egyptaland hið forna undir sig lönd fyrir botni Miðjarðarhafs (Kanansland) og í Núbíu. Hann reisti sér nýja höfuðborg, Pi-ramses, á rústum hinnar fornu Avaris á Nílarósum. Hann er talinn hafa stofnað bókasafn í Þebu í kringum 1250 f.Kr. sem innihélt yfir 20.000 rit. Lauren Bacall. Lauren Bacall á 5. áratugnum Lauren Bacall (f. Betty Joan Perske; 16. september 1924) er bandarísk leikkona sem sló fyrst í gegn í kvikmyndum þar sem hún lék aðalkvenhlutverkið á móti Humphrey Bogart, eins og "Svefninn langi" (1946). Þau giftu sig árið 1945. Á 6. áratugnum lék hún í nokkrum gamanmyndum eins og "Að krækja sér í ríkan mann" ("How To Marry a Millionaire") með Marilyn Monroe (1953) og "Tískuteiknarinn" ("Designing Woman") með Gregory Peck (1957). Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í "Tvö andlit spegilsins" ("The Mirror Has Two Faces") eftir Barbra Streisand (1996). Jean-Paul Belmondo. Jean-Paul Belmondo (f. 9. apríl 1933) er franskur leikari sem upphaflega sló í gegn í kvikmyndum eftir leikstjóra frönsku nýbylgjunnar á 7. áratug 20. aldar. Hann vakti fyrst athygli í kvikmyndinni "Lafmóður" ("À bout de souffle") eftir Jean-Luc Godard frá 1960. Hátindi frægðar sinnar náði hann þó á 8. áratugnum þegar hann lék aðalhlutverk í fjölda vinsælla spennumynda eftir ýmsa leikstjóra. Eftir miðjan 9. áratuginn sneri hann aftur í leikhúsið og eftir heilablóðfall árið 2001 hætti hann að mestu að leika. La mauvaise tête. La Mauvaise tête (íslenska: "Glæpsamlegt andlit") er áttunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1954 og kom út á bókarformi árið 1957. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku. Söguþráður. Valur uppgötvar að brotist hefur verið inn hjá honum, en saknar einskis annars en nokkurra passamynda. Í kjölfarið gerast undarlegir hlutir: skartgripaverslun er rænd í miðborginni og eigandinn kennir Val um verknaðinn. Síðar hrifsar Valur forngrip af þjóðminjasafninu fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og stingur af, en þykis svo ekkert kannast við málið. Lögreglan hyggst handsama Val sem leggur á flótta. Svalur finnur passamyndirnar týndu í húsi nágrannans og uppgötvar að þrjótar hafa notað þær til að útbúa gúmmígrímu með andliti Vals, en hefur þó engar sannanir í höndunum. Svalur og Valur elta slóð þrjótanna, en eru með lögregluna á hælunum. Eltingaleikurinn á sér stað á sama tíma og Frakklandshjólreiðarnar, sem blandast talsvert í söguþráðinn. Valur er handtekinn en Svalur flýr. Hann uppgötvar að glæpaforinginn er Sammi frændi Vals og tilgangurinn var að hefna fyrir ófarirnar í "Burt með harðstjórann!" Eftir mikinn eltingarleik sleppa Sammi og vitorðsmaður hans, en Svalur heldur eftir gúmmígrímunni og ránsfengnum. Hann fær þó þungt höfuðhögg og missir minnið. Valur er fyrir rétti og dómur við það að falla, þegar Svalur fær minnið á nýjan leik og nær á síðustu stundu í réttarsalinn með sönnunargögnin sem nægja til að frelsa vin hans. Stutt tveggja blaðsíðna aukasaga fylgir bókinni, "Touchez pas aux rouges-gorges". Þar segir frá útistöðum gormdýrsins við heimiliskött sem hyggst éta nokkra fuglsunga. Sophia Loren. Sophia Loren (f. Sofia Villani Scicolone; 20. september 1934) er ítölsk leikkona sem hóf feril sinn á 6. áratug 20. aldar í gamanmyndum með leikurum á borð við Vittorio De Sica, Alberto Sordi og Marcello Mastroianni. Upp úr miðjum áratugnum lék hún hlutverk í Hollywood-kvikmyndum sem gerðu hana brátt heimsfræga. Fyrsta enskumælandi kvikmyndin sem hún lék í var "Drengurinn á höfrungnum" (1957). Hún fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmynd De Sica "Tvær konur" ("La ciociara" – 1960) og tilnefningu fyrir "Hjónaband að ítölskum hætti" ("Matrimonio all'Italiana" – 1964) eftir sama leikstjóra, þar sem hún lék á móti Mastroianni. Draumsóleyjaætt. Draumsóleyjaætt (fræðiheiti: "Papaveraceae") oft kölluð Poppy fjölskyldan á ensku, er ætt jurta sem inniheldur 44 ættkvíslir og um það bil 770 tegundir af blómstrandi plöntum í Sóleyjabálk ("Ranunculales"). Ættin er útbreidd um alla jörð nema að hún er nánast óþekkt í hitabeltinu. Flestar eru fjölærar plöntur, en nokkrar eru runnar og lítil tré. Charles Bronson. Charles Bronson (f. Charles Dennis Buchinsky; 3. nóvember 1921 – 30. ágúst 2003) var bandarískur leikari sem er aðallega þekktur fyrir leik sinn í vestrum, stríðsmyndum og spennumyndum á borð við Sjö hetjur ("The Magnificent Seven" – 1960), "Flóttinn mikli" ("The Great Escape" – 1963), "Tólf ruddar" ("The Dirty Dozen" – 1967) og "Einu sinni var í Villta Vestrinu" ("C'era una volta il West" – 1968). Hann lék einnig aðalhlutverkið í kvikmyndaröðinni "Auga fyrir auga" ("Death Wish" – 1974 – 1994). Hann ólst upp sem eitt fimmtán barna örfátækra foreldra af litháískum ættum og lærði fyrst að tala ensku sem táningur. Hann barðist í síðari heimsstyrjöld og fékk áhuga á leiklist eftir stríðið. 1950 flutti hann til Hollywood og hóf að taka að sér lítil hlutverk í kvikmyndum. Fyrsta stóra kvikmyndahlutverk sitt fékk hann í kvikmynd Alan Ladd, "Hefnd rauðskinnans" ("Drum Beat") árið 1954 þar sem hann lék óvinveittan indíána. Sama ár breytti hann eftirnafni sínu úr Buchinsky í Bronson vegna ótta við McCarthy-nefndina. Audrey Hepburn. Audrey Hepburn (f. Audrey Kathleen Ruston; 4. maí 1929 – 20. janúar 1993) var bresk leikkona. Þekktustu kvikmyndir hennar eru "Prinsessan skemmtir sér" ("A Roman Holiday") frá 1953, en fyrir það hlutverk fékk hún óvænt Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki, "Sabrina" (1954), "Morgunverður á Tiffany's" ("Breakfast at Tiffany's" – 1961) og dans- og söngvamyndinni "My Fair Lady" (1964). Canaletto. Giovanni Antonio Canal eða Canaletto (28. október 1697 – 19. apríl 1768) var listmálari frá Feneyjum sem er þekktastur fyrir málverk sín af borginni. Hann var líka myndskeri og prentari. Margar af myndum hans voru málaðar fyrir enska ferðamenn. Árið 1746 flutti hann til London þar sem hann málaði borgina en gæðum verka hans þótti hafa hrakað. Hann sneri aftur til Feneyja 1755. Bill Cosby. William Henry „Bill“ Cosby, Jr. (f. 12. júlí 1937) er bandarískur leikari og skemmikraftur. Hann hóf feril sinn sem uppistandari víðsvegar um Bandaríkin snemma á 7. áratug 20. aldar, kom fram í "The Tonight Show" sumarið 1963 og fékk í kjölfarið útgáfusamning hjá Warner Bros. Records. Árið eftir fékk hann annað aðalhlutverkið í njósnaþáttunum "I Spy" hjá NBC. Hann lék í eigin sitcom-þáttaröð "The Bill Cosby Show" 1969 – 1971. Árið 1972 hóf teiknimyndaþáttaröðin "Fat Albert and the Cosby Kids" göngu sína hjá CBS. Cosby notaði þættina sem hluta af doktorsritgerð sinni í kennslufræði. Þekktasta sjónvarpsþáttaröð Cosbys, "The Cosby Show", hóf göngu sína á NBC árið 1984 og gekk til 1992. Þetta voru vikulegir sitcom-þættir sem fjölluðu um læknisfjölskyldu í Brooklyn í New York-borg. Buster Keaton. Joseph Frank „Buster“ Keaton (4. október 1895 – 1. febrúar 1966) var bandarískur leikari og kvikmyndagerðarmaður. Hann er þekktastur fyrir gamanleik sinn frá tíma þöglu myndanna frá 1920 – 1929 þar sem hann blandaði líkamlegum gamanleik við svipbrigðalaust andlit og var kallaður fyrir það „The Great Stone Face“. Oftast var hann klæddur í betri föt með flatan stráhatt („pork pie hat“) á höfði. Hann hélt áfram að leika og leikstýra eftir að blómaskeiði þöglu myndanna lauk og kom fram í kvikmyndum allt til dauðadags. Hann lést úr lungnakrabbameini. Clark Gable. William Clark Gable (1. febrúar, 1901 – 16. nóvember, 1960) var bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Rhett Butler í kvikmyndinni "Á hverfanda hveli" ("Gone With the Wind") frá 1939. Hann vann Óskarsverðlaun einu sinni, fyrir hlutverk sitt í rómantísku gamanmyndinni "Það gerðist um nótt" ("It Happened One Night") frá 1934. Meðal annarra þekktra mynda hans má nefna "Uppreisnin á Bounty" ("The Mutiny on the Bounty" - 1935) og "Það hófst í Napólí" ("It Started in Naples" - 1960). Síðasta kvikmyndin sem hann lék í var "Gallagripir" ("The Misfits" - 1961) en það var líka síðasta kvikmynd Marilyn Monroe. Hann lést úr kransæðastíflu aðeins 59 ára að aldri. Alberto Sordi. Úr myndinni "Un giorno in pretura" (1953) Alberto Sordi (15. júní 1920 – 24. febrúar 2003) var ítalskur leikari og leikstjóri sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í ítölskum gamanmyndum á blómaskeiði þeirra á 6. og 7. áratug 20. aldar, ásamt Vittorio Gassman, Nino Manfredi, Ugo Tognazzi og Marcello Mastroianni. Hann sló fyrst í gegn í kvikmyndunum "Hvíti furstinn" ("Lo sceicco bianco" - 1952) og "Slæpingi" ("I vitelloni" - 1953) eftir Federico Fellini. Hann þróaði þar persónu ungs sjálfhverfs slæpingja af lágum stigum, en í síðari gamanmyndum varð hann einkum þekktur fyrir hlutverk hins dæmigerða Ítala, sem henti gaman að smáborgaraskap og staðalmyndum. Meðal annarra þekktra mynda hans eru "Hermenn á heimleið" ("Tutti a casa" - 1960), "Fumo di Londra" (1966) og "Un borghese piccolo piccolo" (1977). Mary Pickford. Mary Pickford á hátindi frægðar sinnar. Mary Pickford (8. apríl 1892 – 29. maí 1979) var kanadísk leikkona og athafnakona, einn af stofnendum United Artists og Bandarísku kvikmyndaakademíunnar. Hún átti sitt blómaskeið sem leikkona á tímum þöglu myndanna en vinsældir hennar dalaði þegar talmyndirnar litu dagsins ljós undir lok 3. áratugar 20. aldar. Skömmu síðar skildi hún við eiginmann sinn og viðskiptafélaga, leikarann Douglas Fairbanks. Hún hætti alfarið kvikmyndaleik árið 1933 en hélt áfram að framleiða kvikmyndir fyrir United Artists. Hún seldi hlut sinn í fyrirtækinu 1956. Ódessa. Ódessa er hafnarborg í Úkraínu á norðvesturströnd Svartahafs. Borgin er fjórða stærsta borg Úkraínu með um milljón íbúa. Borgin var upphaflega stofnuð af kan Krímtatara, Hacı 1. Giray, árið 1240. Hún komst í hendur Tyrkjaveldi 1529 en Rússar náðu borginni á sitt vald 1792. Frá 1819 til 1858 var Ódessa fríhöfn. Á Sovéttímanum var borgin mikilvægasta hafnarborg Sovétríkjanna og stór flotastöð. Gallon. Bandarískur bensínbrúsi sem tekur eitt gallon Gallon er rúmmálseining sem er aðallega notuð í enskumælandi löndum. Mælieiningin hefur verið skilgreind með ólíkum hætti í gegnum söguna. Nú til dags eru þrjár skilgreiningar algengastar: breskt gallon (≈ 4,546 L), bandarískt gallon (≈ 3,79 L) og bandarískt þurrgallon (≈ 4,40 L). Sólúr. Sólúr eða sólskífa er mælitæki sem sýnir tíma dags eftir stöðu sólar á himninum. Algengasta útgáfa sólúrs er lárétt skífa með nál sem hallar inn yfir skífuna. Skugginn sem nálin varpar á skífuna er þá eins og vísir sem sýnir tíma dags. Sólúr eru algengar skreytingar á húsum og í görðum. Carlos Saura. Carlos Saura (f. 4. janúar 1932) er spænskur kvikmyndagerðarmaður sem er einkum þekktur fyrir kvikmyndir þar sem flamenco-dans leikur stórt hlutverk, til dæmis í „flamenco-þríleiknum“ "Blóðbrullaup" ("Bodas de Sangre" – 1981), "Carmen" (1983) og "Ástartöfrar" ("El amor brujo" – 1986). Lauge Koch. Lauge Koch - teikning eftir Achton Friis, 1919 Svend Lauge Koch (1892 – 1964) var danskur jarðfræðingur og heimskautakönnuður. Hann er þekktastur fyrir leiðangur sinn norður fyrir Grænland á árunum 1920 til 1923 þar sem hann meðal annars varð fyrstur manna til að stíga fæti sínum á og rannsaka eyjuna Eyja kaffiklúbbsins sem í dag er talinn vera nyrsta fastaland jarðar. Þessi leiðangur sem hann fór ásamt þremur grænlendingum, var erfið 200 daga sleðaferð meðfram norðurströnd Grænlands. Afrakstur þessa leiðangurs var meðal annars Atlas af Norður-Grænlandi alls 24 kort í mælikvarða 1:300.000. Eyja kaffiklúbbsins. Robert E. Peary sem fann Eyju kaffiklúbbsins Eyja kaffiklúbbsins, á grænlensku "Inuit Qeqertaat", er lítil grænlensk eyja sem almennt er talin vera nyrsta fastaland jarðar. Eyjan var uppgötvuð árið 1900 af bandaríska landkönnuðnum Robert E. Peary. Það var þó ekki fyrr en í leiðangri danska landkönnuðarins Lauge Koch milli 1921 og 1923 sem stigið var fæti á eyjuna og hún kortlögð. Það gerði Lauge Koch ásamt þremur grænlenskum Inuítum sem fóru um á hundasleðum um Norður-Grænland til að kortleggja svæðið. Nafn sitt fékk eyjan eftir óformlegum kaffiklúbbi við Steinafræðisafnið í Kaupmannahöfn (Mineralogisk Museum) sem er hluti af Kaupmannahafnarháskóla. Eyja kaffiklúbbsins er um eins kílómetra löng á 83°40′ norður og 29°50′ vestur, 713,5 kílómetra frá Norðurpólnum. Hún liggur norður af Frederick E. Hyde firði og 37 kílómetra austur af Kap Morris Jesup sem er nyrsti oddi Grænlands og var fram til 1969 talinn nyrsta fastaland heims. Það var síðan Kanadískur leiðangur árið 1969 sem mældi það að nyrsti oddi hennar væri 750 metrum norðar en Cape Morris Jesup. Hún er því almennt talinn nyrsta fastaland í heimi, ef horft er framhjá sandrifinu Oodaaq sem liggur lítið eitt norðar, norð-vestur af Eyju kaffiklúbbsins og fleirum áþekkum sand-og malarrifjum sem fundist hafa síðan 1969 en flest eru þau hverful. Ís færir þau í kaf eða eyðir þeim og ný myndast, ólíkt Eyju kaffiklúbbsins sem er stærri en svo að ís eða sjógangur nái að granda henni. Radio Studio 54 Network. Radio Studio 54 Network er Ítalska útvarpsstöð sem hóf útsendingar 6. júní 1985, höfuðstöðvar þess eru í Locri, Calabria. Radio Studio 54 Network logo New Line Cinema. New Line Film Productions Inc. oftast kallað New Line Cinema er bandarískur kvikmyndaframleiðandi stofnaður árið 1967. Fyrirtækið varð dótturfyrirtæki Time Warner árið 1996. Það var sameinað Warner Bros. árið 2008 eftir vonbrigði með fjárhagslega útkomu kvikmyndarinnar "Gyllti áttavitinn". HBO. HBO (stendur fyrir Home Box Office) er bandarísk kapalsjónvarpsstöð í eigu Time Warner. Stöðin var stofnuð á Neðri Manhattan í New York-borg árið 1972. Þetta var fyrsta bandaríska sjónvarpsstöðin sem nýtti sér gervihnetti til dreifingar á útsendingum 1975. Stöðin hefur framleitt eigið efni, samhliða dreifingu á efni frá öðrum. Meðal þáttaraða sem hún hefur tekið þátt í að framleiða eru "Tales From the Crypt" (1972), "The Larry Sanders Show" (1992), "Beðmál í borginni" (1998), "Soprano-fjölskyldan" (1999) og "Game of Thrones" (2011). Turner Broadcasting System. Turner Broadcasting System, Inc (stundum kallað TBS Networks eða TBS Inc) er fyrirtæki sem rekur nokkrar kapalsjónvarpsstöðvar sem Ted Turner eignaðist eða stofnaði frá upphafi 8. áratugarins. Fyrirtækið sameinaðist Time Warner 1996 og er nú dótturfyrirtæki þess. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í CNN Center í Atlanta. Meðal stöðva í eigu fyrirtækisins eru CNN, HLN, TBS, TNT, Cartoon Network, Boomerang, truTV og Turner Classic Movies. Tour de France 2012. Tour de France 2012 var í 99. skiptið sem Tour de France hjólreiðakeppnin hefur verið haldin. Keppnin fór fram dagana 30. júní til 22. júlí 2012. Hjólað var 3.496,9 kílómetra leið í tuttugu áföngum. Sigurvegari keppninnar var Bradley Wiggins en hann var fyrsti Bretinn til að vinna titilinn. Fyrir sigurinn fékk hann gulu treyjuna. Tími hans var 87 klukkustundir, 34 mínútur og 47 sekúndur og meðalhraði hans því tæplega 40 kílómetrar á klukkustund. Malmö Arena. Malmö Arena er fjölnota tónleika- og íþróttahöll í Malmö í Svíþjóð. Höllin tekur allt að 13.000 gesti í sæti á íþróttaviðburðum en 15.000 á tónleika. Malmö Arena er heimavöllur sænska íshokkíliðsins Malmö Redhawks og mun höllin einnig hýsa Söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva 2013 en keppnin verður haldin í maí það sama ár. St James' Park. St James' Park er heimavöllur enska knattspyrnuliðsins Newcastle United. Pláss er fyrir allt að 52.339 áhorfendur í sæti. St James' Park hefur verið heimavöllur Newcastle United frá 1892. Copper Box. Copper Box eða Koparkassinn er fjölnota íþróttahús í Ólympíuþorpinu í Stratford, London, reist fyrir Sumarólympíuleikana 2012. Undankeppnir í handbolta og nútíma fimmtarþraut (skylmingum) munu fara fram í húsinu. Það tekur 7.000 í sæti. Eftir leikana er ætlunin að húsið verði fjölnota íþróttahús. Það er eini innanhússleikvangurinn sem verður áfram í Ólympíugarðinum eftir leikana. Dorney Lake. Dorney Lake (einnig kallað Eton College Rowing Centre eða Eton Dorney) er manngert stöðuvatn hannað fyrir kappróðra við þorpið Dorney í Buckinghamshire, nálægt bæjunum Windsor og Eton. Vatnið var gert af menntaskólanum Eton College sem á það og rekur. Led Zeppelin II. "Led Zeppelin II" er önnur breiðskífa bresku rokk-hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Hljómplatan var gefin út af Atlantic Records 22. október 1969. Hún var tekin upp í janúar til ágúst sama ár. Platan seldist mjög vel en hún náði bæði efst á metsölulista Bretlands og Bandaríkjanna. Kynþroski. Kynþroski er sá aldur eða stigi þegar lífvera getur fjölgað sér. Það er stundum notað sem samheiti við fullorðinsár, þótt það tvennt fari ekki alltaf saman. Hjá mönnum er kynþroskaaldur kallað gelgjuskeið. Flestar fjölfruma lífverur eru ekki færar um að fjölgað sér við fæðingu. Mismunandi eftir tegundum getur það þó verið dagar, vikur eða ár þar til líkamar þeirra eru færir það. Gæludýr. Gæludýr er heimilisdýr sem haldið er fólki til félagsskapar og ánægju, öfugt við búfjárrækt, tilraunadýr, vinnudýr eða keppnisdýr, sem alin eru í hagnaðarskyni. Vinsælustu gæludýrin eru þau sem þekkt eru fyrir aðlaðandi útlit, hollustu eða fjörugan persónuleika sinn. Ættbók er einnig oft mikilvægur þáttur hjá fólki við val á gæludýri og tryggir að um hreinræktað afbrigði sé að ræða. Helstu og vinsælustu gæludýrinn eru til dæmis hundar, kettir, merðir, fiskar, ýmsir fuglar eins og páfagaukar og finkur, einnig nagdýr eins og mýs, hamstrar, naggrísir og fleiri. Einnig þekkist að skriðdýr séu haldin sem gæludýr, meðal annars ýmiss konar snákar, skjaldbökur og eðlur. Led Zeppelin III. "Led Zeppelin III" er þriðja breiðskífa bresku rokk-hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Hljómplatan var gefin úr 5. október 1970 af útgáfufyrirtækinu Atlantic Records. Lögin á plötunni voru að mestu leyti samin á bóndabæ í Wales sem kallast „Bron-Yr-Aur“ á tímabilinu janúar til júlí árið 1970. Morgan Freeman. Morgan Freeman (fæddur 1. júní 1937) er bandarískur kvikmyndaleikari. Hann er frægur fyrir leik sinn í kvikmyndum á borð við "Driving Miss Daisy", "The Shawshank Redemption", "Unforgiven", "Seven", "Bruce Almighty", "Million Dollar Baby" og "Invictus". Freeman, Morgan Dustin Hoffman. Dustin Hoffman (fæddur 8. ágúst 1937) er bandarískur kvikmyndaleikari. Hann er fægur fyrir leik sinn í kvikmyndum á borð við "The Graduate", "Marathon Man", "Midnight Cowboy", "Little Big Man", "Tootsie" og "Rain Man". Hoffman hefur unnið til ýmissa verðlauna, þar á meðal tvennra Óskarsverðlauna (fyrir leik sinn í "Kramer vs. Kramer" og "Rain Man"), fimm Golden Globe-verðlauna, fernra BAFTA-verðlauna, þriggja Drama Desk-verðlauna, Genie-verðlauna og Emmy-verðlauna. Dustin Hoffman hlaut AFI Life Achievement-verðlaunin árið 1999. Hoffman, Dustin Robert Duvall. Robert Duvall 13. september 2009. Robert Duvall (fæddur 5. janúar 1931) er bandarískur kvikmyndaleikari. Hann er þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við "The Godfather", "Apocalypse Now", "Phenomenon", "A Civil Action" og "True Grit". Duvall, Robert Gene Hackman. Gene Hackman 21. júní 2008. Eugene Allen Hackman, þekktur sem Gene Hackman, (fæddur 30. janúar 1930) er bandarískur kvikmyndaleikari. Hann er þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við "Mississippi Burning", "Unforgiven", "The Firm", "Crimson Tide", "Get Shortie", "The Birdcage", "Enemy of the State" og "The Royal Tenenbaums". Hackman, Gene Rob Schneider. Rob Schneider 16. nóvember 2001. Robert Michael Schneider, þekktur sem Rob Schneider, (fæddur 31. október 1963) er bandarískur kvikmyndaleikari. Hann er þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við ' og "The Hot Chick". Schneider, Rob Led Zeppelin IV. "Led Zeppelin IV" er fjórða breiðskífa ensku hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Platan var gefin út 8. nóvember 1971 af Atlantic Records. Á plötuumslaginu er ekki prentað nafn plötunnar en hún er oftast kölluð "Led Zeppelin IV". Hljómplata fékk mikið lof gagnrýnenda og seldist í 32 milljón eintökum. Houses of the Holy. "Houses of the Holy" er fimmta breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Hljómplatan var gefin út af Atlantic Records 28. mars 1973. Katharine Hepburn. Katharine Houghton Hepburn (12. maí, 1907 – 29. júní, 2003) var bandarísk leikkona sem var þekktust fyrir að leika skapmiklar konur. Hún hóf feril sinn á Broadway og sló í gegn í Hollywood eftir 1932. Hún fékk Óskarsverðlaun fyrir sína þriðju kvikmynd, "Morning Glory" (1933), sem besta leikkona í aðalhlutverki. Næstu áratugi fékk hún oft tilnefningu, meðal annars fyrir kvikmyndirnar "Kenjótt kona" ("The Philadelphia Story") þar sem hún lék á móti Cary Grant, og "Drottning Afríku" ("The African Queen") þar sem hún lék á móti Humphrey Bogart. Árið 1968 vann hún aftur verðlaunin fyrir hlutverk í kvikmyndinni "Gestur til miðdegisverðar" ("Guess Who's Coming to Dinner") þar sem hún lék á móti Spencer Tracy. Þau léku saman í níu kvikmyndum og áttu í áralöngu ástarsambandi sem stóð þar til Tracy lést 1967, aðeins nokkrum dögum eftir tökur myndarinnar. Árið eftir deildi hún verðlaununum með Barbra Streisand fyrir kvikmyndina "Vetrarljón" ("The Lion in Winter"). Hún vann verðlaunin aftur 1982 fyrir hlutverk sitt í "Síðsumar" ("On Golden Pond"). Næstu ár tók hún þátt í sjónvarsmyndum en hætti að leika 1994. Listi yfir íslensk Android forrit. Þetta er listi yfir íslensk Android forrit. Cary Grant. Archibald Alexander Leach, betur þekktur sem Cary Grant, (18. janúar 1904 – 29. nóvember 1986) var enskur leikari, fæddur í Bristol, sem hélt ungur til Bandaríkjanna og hóf þar feril sem vaudeville-skemmtikraftur og síðan í söngleikjum á Broadway. Hollywood-ferill hans hófst hjá Paramount Pictures 1932 þar sem hann lék í fjölda kvikmynda næstu ár. Í einni af hans fyrstu kvikmyndum lék hann eitt aðalkarlhlutverkið á móti Marlene Dietrich í "Móðurást" ("The Blonde Venus"). Eftir nokkrar myndir sem gengu illa fór hann yfir til Columbia Pictures 1936. Þar náði hann hátindi frægðar sinnar í rómantískum gamanmyndum á borð við "Hann, hún og leópardinn" ("Bringing Up Baby" - 1938) og "Kenjótt kona" ("The Philadelphia Story" - 1940) þar sem hann lék á móti Katharine Hepburn. Árið 1941 lék hann í "Illur grunur" eftir Alfred Hitchcock, en alls lék hann í fjórum spennumyndum eftir Hitchcock. Um miðjan 6. áratuginn stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki og framleiddi nokkrar kvikmyndir sem Universal dreifði. Hann var þannig með fyrstu Hollywood-stjörnunum sem fór út úr kvikmyndaverunum, sem annars stjórnuðu öllu sem tengdist ferli leikara á þeirra snærum. 1966 dró hann sig í hlé þegar hann eignaðist barn með eiginkonu sinni Dyan Cannon sem var 33 árum yngri en hann. Hann lést úr heilablæðingu. Physical Graffiti. "Physical Graffiti" er sjötta breiðskífa bresku hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Hljómplatan var gefin út 24. febrúar 1975 af Swan Song. Platan var tvöföld. Tökur á plötunni töfðust nokkuð vegna þess að bassa-/hljómborðsleikarinn John Paul Jones íhugaði að fara frá hljómsveitinni. Jeremy Irons. Jeremy John Irons (f. 19. september 1948) er enskur leikari sem lærði leiklist í Bristol Old Vic Theatre School og hóf feril sinn í leikhúsi í London. Fyrsta stóra kvikmyndahlutverk sitt lék hann 1981 í "Kona franska liðsforingjans" ("The French Lieutenant's Woman") á móti Meryl Streep. Hann vakti einnig athygli fyrir hlutverk sitt í "Tvíburarnir" ("Dead Ringers" - 1988) og fékk Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í "Sýknaður" ("Reversal of Fortune" - 1990). Hann hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og vann bæði Emmy-verðlaun og Golden Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni "Elísabet 1." þar sem hann lék á móti Helen Mirren. Ásta Laufey Jóhannesdóttir. Ásta Laufey Jóhannesdóttir (14. ágúst 1906 – 1. nóvember 1991) var reykvísk íþróttakona og afreksmanneskja á sviði sundíþróttarinnar. Ævi og störf. Ásta var fædd og uppalin í Reykjavík, dóttir Jóhannesar Magnússonar kaupmanns og Dóróteu Þórarinsdóttur. Hún iðkaði sund með Sundfélaginu Ægi. Þann 4. ágúst 1928, þreytti hún fyrst kvenna "Viðeyjarsund" milli Viðeyjar og Reykjavíkur. Áður höfðu Erlingur Pálsson og Benedikt G. Waage unnið slíkt afrek. Greta Garbo. Greta Garbo (Greta Lovisa Gustafsson, 18. september 1905 – 15. apríl 1990) var sænsk leikkona. Hún hóf kvikmyndaferil sinn í myndinni "Gösta Berling" eftir sænska leikstjórann Mauritz Stiller og vakti þá athygli Louis B. Mayer hjá Metro Goldwyn Mayer sem fékk hana til Bandaríkjanna. Næstu ár lék hún í þöglum myndum hjá fyrirtækinu. Fyrir hlutverk sitt í sinni fyrstu talmynd, "Anna Christie" (1930), var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna. Næstu ár lék hún meðal annars í "Mata Hari" (1931) á móti Ramón Novarro og "Grand Hotel" þar sem hún mælti hina fleygu setningu „I want to be alone, I just want to be alone“. Þessi orð voru gerð að einkunnarorðum hennar af fjölmiðlum þar sem hún hafnaði öllum viðtölum og uppákomum og stóð vörð um einkalíf sitt. Eftir neikvæða dóma fyrir kvikmyndina "Tvíburasystur" ("Two-Faced Woman" - 1941) dró hún sig í hlé frá kvikmyndaleik. Hún einangraði sig þó ekki, heldur umgekkst stóran hóp vina og kunningja. Árið 1951 varð hún bandarískur ríkisborgari og 1953 keypti hún íbúð á Manhattan þar sem hún bjó til æviloka. Salt Lake City. Salt Lake City (eða stundum Saltsjóstaður á íslensku) er fjölmennasta borg Utah-fylkis í Bandaríkjunum. Borgina stofnsetti Brigham Young og mormónar árið 1847. P. T. Barnum. Phineas Taylor Barnum einnig þekktur sem P. T. Barnum (5. júlí 1810 í Connecticut – 7. apríl 1891 í Connecticut) var bandarískur athafnamaður en aðallega þekktur fyrir að vera einn af stofnendum að fjölleikahúsi því sem nefnt var: "Ringling Brothers and Barnum & Bailey Circus". Stóra-Laxá. Stóra-Laxá, oft einnig kölluð Stóra-Laxá í Hreppum, er 90 kílómetra löng dragá á sunnanverðu Íslandi. Hún á upptök sín í Grænavatni, Laxárdrögum sunnan Kerlingarfjalla á suðurlandshálendinu og fellur á hreppamörkum Hrunamanna- og Gnúpverjahrepps í Hvítá hjá bænum Iðu, ásamt Litlu-Laxá. Hún er all vatnsmikil, með 512 ferkílómetra vatnasvið. Stóra-Laxá er þekkt laxveiðiá og þykir landslag í og við ána bæði fjölbreytt og mikilfenglegt en þar eru þekktust Laxárgljúfur sem hafa skorist djúpt í berggrunninn á hálendisbrúninni á afrétti Hrunamanna og Skeiða- og Gnúpverja. Berggrunnurinn er um 2 - 3 milljón ára gamall, þjappaður úr gjósku eldsumbrota á ísöld. Gljúfrin hafa myndast við það að Stóra-Laxá hefur undanfarin 10.000 ár, eða svo, grafið sig ofan í bergið. Gljúfrin eru um 10 kílómetra löng og víða 100 - 200 metra djúp frá innsta hlutanum að Hrunakrók sem er efst í Laxárdal. Áin er laxgeng langt inn í Laxárgljúfur. 2012 sótti Landsvirkjun um rannsóknarleyfi vegna virkjunar í ánni en ósætti er um málið milli Orkustofnunar, stjórnvalda og veiðifélaga. Í júlí sama ár veitti svo Orkustofnun Landsvirkjun rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjun í efri hluta vatnasviðs Stóru Laxár. Pírataflokkur. Pírataflokkur (stundum nefndur sjóræningjaflokkur) er heiti sem stjórnmálahreyfingar hafa tekið upp í nokkrum löndum. Pírataflokkar eiga það sameiginlegt að styðja borgaraleg réttindi, beint lýðræði, umbætur á höfundarréttar- og einkaleyfa lögum, frjálsa miðlun þekkingar (opið efni), friðhelgi einkalífs, gagnsæi og frelsi upplýsinga, ókeypis menntun, alþjóðlega heilsugæslu og skýr skil á milli ríkis og kirkju. Þeir aðhyllast nethlutleysi og alhliða, ótakmarkaðan aðgang allra að Internetinu sem nauðsynleg skilyrði þess. Upphafið. Fyrsti Pírataflokkurinn var hið sænska "Piratpartiet", stofnað þann 1. janúar 2006 undir forystu Rickard Falkvinge. Nafnið kom frá "Piratbyrån", sænskum samtökum sem voru á móti höfundarrétti en meðlimir Piratbyrån höfðu áður stofnað BitTorrent vefinn. Piratbyrån var sænsk útgáfa af danska félaginu "PiratGruppen", sem stofnað var sem andsvar við "AntiPiratGruppen" sem barðist fyrir hertum lögum um hugverkaþjófnað. Fjölmiðlar og kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn tóku upp nafnið „pirat“ (sjóræningi) frá þessum fyrstu samtökum. Íslensk samtök. Á Íslandi var þann 24. nóvember 2012 formlega stofnaður Pírataflokkur á Íslandi undir nafninu Píratar. Á stofnfundinum voru samþykkt drög að lögum fyrir flokkinn og þar ákveðið að nafn hans skyldi vera "Píratar" (hjánefni "Pirate Party Iceland"). Flokkurinn bauð fram í Alþingiskosningum 2013 undir listabókstafnum Þ og hlaut þrjú þingsæti. Píratar. Píratar er íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 2012. Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy tilkynntu upphaflega um fyrirhugað framboð og formlegur stofnfundur þess fór síðan fram laugardaginn 24. nóvember 2012. Á stofnfundinum voru samþykkt drög að lögum fyrir flokkinn og þar ákveðið að nafn hans skyldi vera "Píratar" (hjánefni "Pirate Party Iceland"). Flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram í Alþingiskosningunum 2013 undir listabókstafnum Þ og fékk 5,1% atkvæða og 3 þingmenn. Stefnumál Pírata eru mótuð á sérstökum umræðu- og kosningavef flokksins og þar er jafnframt valið á framboðslista hans. John Atta Mills. John Atta Mills (21. júlí 1944 – 24. júlí 2012) var ganverskur stjórnmálamaður og forseti Gana frá 7. janúar 2009 fram til dauða hans 24. júlí 2012. Hann lést á sjúkrahúsi í borginni Akkra. John Dramani Mahama varaforseti tók við forsetaembættinu eftir fráfallið. Mills starfaði einnig sem varaforseti Gana á árunum 1997 til 2001. Svalir. Svalir eru út-eða innskot utan á húsum sem eru meira en ein hæð og hægt er að ganga út á úr húsinu. Þær eru yfirleitt opnar og með handriði. Einnig eru til svalir innandyra eins og í sölum leikhúsa. Svalir á jarðhæð bygginga eru oftast kallaðar pallur frekar en svalir. Presence. "Presence" er sjöunda breiðskífa ensku rokk-hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Platan var gefin út 31. mars 1976 af Swan Song Records. In Through the Out Door. "In Through the Out Door" er áttunda breiðskífa ensku rokk-hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Platan kom út 15. ágúst 1979 af útgáfufyrirtækinu Swan Song Records. Hún var næstsíðasta breiðskífa hljómsveitarinnar en sú síðasta sem kom út fyrir dauða trommuleikarans John Bonham árið 1980. Coda. "Coda" er níunda og síðasta breiðskífa ensku rokk-hljómsveitarinnar Led Zeppelin. Platan var gefin út af Swan Song þann 19. nóvember 1982. Árið 1980, vegna dauða trommarans John Bonham, hætti hljómsveitin en lögin á plötunni voru lög sem höfðu verið tekin upp en aldrei gefin út. Lögin á plötunni voru því frá mörgum mismunandi tímapunktum á ferli hljómsveitarinnar. Setningarathöfn sumarólympíuleikanna 2012. Setningarathöfn sumarólympíuleikanna 2012, sem fékk nafnið "The Isles of Wonder", hófst kl. 21:00 á breskum tíma þann 27. júlí 2012 á Ólympíuleikvanginum í London. Óskarverðlaunahafinn Danny Boyle leikstýrði athöfninni en raftónlistarhljómsveitin Underworld leikstýrði tónlistinni. Elísabet 2. Bretadrottning opnaði athöfnina opinberlega. Riverbank Arena. Riverbank Arena er íþróttaleikvangur í Ólympíuþorpinu í Stratford í London sem var reistur yfir keppnir í hokkíi á Sumarólympíuleikunum 2012 og knattspyrnu fatlaðra á Ólympíuleikum fatlaðra 2012. Leikvangurinn tekur 15.000 manns í sæti en eftir leikana verður sætafjöldi minnkaður í 5.000 og leikvangurinn fluttur til Eton Manor í Leyton. Eton Manor. Eton Manor er íþróttasvæði og almenningsgarður í Leyton í Waltham Forest í Norðaustur-London. Eton Manor mun sjá keppendum í sundíþróttum fyrir æfingalaugum á Sumarólympíuleikunum 2012 og mun hýsa keppni í hjólastólatennis á Ólympíuleikum fatlaðra. Hampden Park. Hampden Park er knattspyrnuvöllur í hverfinu Mount Florida í Glasgow. Hann er heimavöllur skoska knattspyrnulandsliðsins og hýsir úrslitaleiki í skoska bikarnum auk annarra viðburða. Völlurinn tekur rúmlega 50.000 í sæti. Hadleigh Farm. Hadleigh Farm er býli í sveitarfélaginu Castle Point í Essex við ósa Thames við hliðina á Hadleigh-kastala. Hadleigh Farm er kennslubýli rekið af Hjálpræðishernum. Á Sumarólymíuleikunum 2012 hýsir býlið keppnir í fjallahjólreiðum. Halim Hakan Durak. Halim Hakan Durak er stofnandi Lindy Hoppa á Íslandi og í Tyrklandi. Hann færði þennan dans til Íslands árið 2006 og til Tyrklands árið 2008. Hann talar íslensku af mikilli færni. Hann er sagður hafa búið á Íslandi í meira en tíu ár. Lord's Cricket Ground. Lord's Cricket Ground er krikketvöllur í St John's Wood í London, heimavöllur Marylebone Cricket Club og Middlesex County Cricket Club og höfuðstöðvar Alþjóða krikketsambandsins. Völlurinn heitir eftir krikketleikaranum Thomas Lord sem stofnaði völlinn 1814. Völlurinn tekur 28.000 manns í sæti. Handknattleikur á sumarólympíuleikunum 2012 - keppni í karlaflokki. Keppni í karlaflokki í handknattleik á sumarólympíuleikunum 2012 fer fram í dagana 28. júlí til 12. ágúst. Tólf lið keppa á mótinu. Keppt er í tveimur riðlum í upphafi en fjögur bestu liðin úr hvorum riðli fara áfram í átta liða úrslit. Liðin, sem lenda í 5ta og 6ta sæti í hvorum riðli raðast í 9da til 12ta sæti eftir gengi þeirra í riðlakeppninni. Ólíkt fyrri handknattleiksmótum á ólympíuleikum verða engir leikir fyrir tapliðin í átta liða úrslitunum. "Allar tímasetningar eru samkvæmt sumartíma í Bretlandi (UTC+1)" Röðun í riðla. Dregið var í riðla úr sex pottum 30. maí 2012. A-riðill. "Allar tímasetningar eru samkvæmt sumartíma í Bretlandi (UTC+1)" B-riðill. "Allar tímasetningar eru samkvæmt sumartíma í Bretlandi (UTC+1)" Útsláttarkeppni. "Allar tímasetningar eru samkvæmt sumartíma í Bretlandi (UTC+1)" Sonar (kjölbátur). Sonar er sjö metra langur kjölbátur fyrir þrjá til fimm siglingamenn. Hann var hannaður 1979 af kanadíska skútuhönnuðinum Bruce Kirby sem líka hannaði hina geysivinsælu Laser-kænu. Sonar var valinn sem keppnisgrein í siglingum fyrir Ólymíuleika fatlaðra árið 2000. Krossgáta. Krossgáta Ítalans "Giuseppe Airoldi" sem birtist í Ítalska tímaritinu "Il Secolo Illustrato della Domenica", 14. september, 1890 er oft kölluð fyrsta krossgátan. Krossgáta er orðagáta þar sem markmiðið er að finna orð, eftir vísbendingum sem gefnar eru upp fyrir hvert þeirra og færa þau inn í reitað form, oftast kassalaga, af auðum og skyggðum reitum. Orðin eru skrifuð í auðu reitina bæði lóðrétt og lárétt og því felst þrautinn í því að finna þau orð sem eiga sameiginlega stafi þar sem orðin skarast. Eru skyggðu reitirnir eða strik notaðir til að afmarka orðin hvert frá öðru. Oftast eru upphafsreitir orðanna númeraðir og vísað til þeirra eins og til dæmis, 3 lóðrétt eða 20 lárétt. Þó eru einnig til krossgátur þar sem vísbendingarnar eru settar inn í reitina sem annars væru skyggðir. Upphafið. Sú krossgáta sem oftast er kölluð sú fyrsta eftir "Arthur Wynne", sem birtist í bandaríska blaðinu "New York World", 21. desember 1913. Fyrsta krossgátan er oft talin vera gáta sem Ítalski blaðamaðurinn "Giuseppe Airoldi" samdi og birtist í Ítalska tímaritinu "Il Secolo Illustrato della Domenica", 14. september, 1890. Kallaði hann þessa þraut sína "Per passare il tempo" (ísl. "Til að drepa tímann"). Gáta Airoldi var fjórum sinnum fjórir reitir án nokkurra skyggðra reita en vísbendingum um hvaða orð ætti að skrifa í reitina lárétt og lóðrétt og vísað til þeirra með númerum. Í bandaríska blaðinu "New York World" þann 21. desember 1913 birtist síðan gáta sem oftast er kölluð fyrsta krossgátan, undir nafninu "Fun's Word-Cross puzzle", en síðar var heitinu "Word-Cross" snúið við og seinnitíma gátur kallaðar á ensku "Crosswords". Höfundurinn var breskur blaðamaður að nafni Arthur Wynne og var hún eins og krossgáta Airoldi ólík krossgátum eins og þær þekkjast í dag, að því leiti að hún var tígullaga og hafði eins og gáta Airoldi enga skyggða reiti. Orðaferningurinn, forveri krossgátunnar. Sator orðaferningur frá Oppede, Luberon í Frakklandi. Wynne var innflytjandi frá Bretlandi og hafði sem barn kynnst leik er nefnist orðaferningur (e. word square). Hann gengur út á að fylla ferning af orðum eftir gefnum vísbendingum. Orðaferningurinn á rætur að rekja til svipaðra ferninga sem voru vel þekktir á miðöldum og í fornöld og voru almennt taldir með göldrum. Þekktastur þeirra er líklega svonefndur sator-ferningur en elsti ferningurinn af því tagi fannst í Herculaneum sem grófst undir ösku þegar fjallið Vesúvíus gaus á Ítalíu árið 79 e.Kr. Wynne virðist hafa haft orðaferninginn í huga þegar hann bjó til fyrstu krossgátuna og líklega Airoldi líka. Margar heimildir eru til um Sator orðaferningin í gegnum aldirnar, þar á meðal í íslenskum handritum en þar er hann oftast kallaður "talbyrðingur". Einnig voru til á miðöldum álíka orðaþríhyrningar og fleiri form. Þekktastur orðaþríhyrninga er eflaust Abrakadabra. a> stíllinn á krossgátum. Þær eru samheitakrossgátur og kallaðar á ensku "Clue in square" eða "vísbendingar í reitum". En þá eru vísbendingarnar hafðar í þeim reitum sem annars væru skyggðir inn í krossgátunni sjálfri, auk þess að nota oftast einnig myndir sem vísbendingar að einu orði eða setningum Íslenskar krossgátur. Ekki er vitað hver samdi elstu þekktu krossgátuna á Íslandi sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 20. mars 1927. Hún er samheitakrossgáta og inniheldur tvö dönsk orð og gæti fyrirmyndin því verið þaðan en danskar krossgátur voru í þessum sama stíl á þessum tíma, þótt þær breyttust seinna yfir í skandinavíska stílinn. Fálkinn birti síðan þann 23. júní 1928 krossgátu eftir Sigurkarl Stefánsson og er talið líklegt að hann sé einnig höfundur eldri krossgátunnar, þar sem hann hafði stundað nám í Danmörku og fluttist aftur heim til Íslands 1928. Lengi vel var Sigurkarl einnig einn helsti krossgátuhöfundurinn hérlendis. Hamrammar krossgátur. Árið 1999 hóf Morgunblaðið að birta reglulega undir heitinu Sunnudagskrossgátann "hamrammar krossgátur" (e. cryptic crosswords) að breskri fyrirmynd eftir Ásdísi Bergþórsdóttur kerfisfræðing en slíkar krossgátur höfðu ekki áður náð neinni fótfestu hérlendis. Ísland á sumarólympíuleikunum í Sydney 2000. Ísland sendi lið á Sumarólympíuleikana 2000 í Sydney, Ástralíu. John Bonham. John Bonham á tónleikum árið 1975. John Henry Bonham (31. maí 1948 – 25. september 1980) var enskur trommuleikari og lagahöfundur. Hann er best þekktur fyrir að vera meðlimur rokkhljómsveitarinnar Led Zeppelin. Dauði Bonham markaði endalok hljómsveitarinnar. Dauðinn orsakaðist vegna óhóflegs magns áfengis en talið er að hann hafi drukkið um 40 skotglös af vodka. Í svefni hafi hann svo kafnað í sínu eigin uppkasti. Świeradów-zdrój. Swieradow-Zdroj (þýska: Bad Flinsberg) er bær í Lubań sýslu, Neðri-Slesíu, í suð-vestur Póllandi nærri landamærunum við Tékkland. Bærinn er staðsettur í Kwisa dal, í Jizera fjöllum sem eru hluti af Súdetafjallgarði. Hann liggur 25 km sunnan við Lubań og 123 km vestan við höfuðstaðinn Wrocław. Bærinn fékk bæjarréttindi 1946. Fólksfjöldinn var 4554 árið 2006. Staðsetning. Swieradow-zdroj er staðsettur í Suður-Vestur hluta af Dolnoslaskie sýslu, í suður hluta Lubanski district, í Vestrænum Sudetes, nálægt Jelenia Góra. Staðsettur á hæð 450-710 umfram sjávarborðs, í Izerskie fjöllum í dalnum árinnar Kwisa (í svonefndu Draga Swieradowskie), aðgreina Wysoki Grzbiet að sunnan, frá Kamienicki Grzbiet fyrir norðan. Þegar var bætt við Czerniawa-Zdroj, það felur einnig í sér Czarny Potok dalinn, og einnig fer lítið á láglendinu Izerskie. Samkvæmt upplýsingum frá 1.janúar 2011 svæði borgarinnar nam 20,72 km2, í þessu: Ræktarlandi- 41%, skógur land- 40%. Borgin er við hliðina ae sveitarfélögin: Mirsk og Lesna og Tékklandi. Swieradow-Zdroj liggur sögulega í Neðri Silesiu. Á milli áranna 1975-1988 borgin átti stjórnunarlega til Jeleniogorskie sýslu. náttúrulegt. Swieradow svæðið eru byggð í kringum ummynduð steina og granít-gneisses, en nær Amphibolites með sett inn Karkonosko-Izerski blokk sem tilheyrir vel Izerski Metamorphic. John Paul Jones. John Paul Jones árið 1980. John Paul Jones (3. janúar 1946) er enskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann spilar á mörg hljóðfæri, best þekktur fyrir leik á hljómborð og bassa í hljómsveitinni Led Zeppelin. The Killers. The Killers er bandarísk rokkhljómsveit sem stofnuð var árið 2001. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Brandon Flowers söngvari og hljómborðsleikari, Dave Keuning gítarleikari, Mark Stoermer bassaleikari og Ronnie Vannucci Jr. á trommum. Alfreð Clausen syngur - Íslensk dægurlög 1. Íslensk dægurlög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Þetta er fyrsta 45-snúninga plata sem gefin er út á Íslandi. Á henni flytur Alfreð Clausen fjögur lög með hljómsveitum Josef Felzmann og Carl Billich. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan hf.. Æskuminning. Lagið "Æskuminning" lenti í öðru sæti í danslagakeppni SKT árið 1952, en bar sigur úr býtum í vali áhorfenda. Höfundurinn Ágúst Pétursson samdi lagið nokkru fyrir þann tíma, en það kom fyrst út á 78 snúninga plötu með Alfreð Clausen hjá Íslenzkum tónum árið 1953 (IM 11). Á þeirri plötu var einnig lagið "Manstu gamla daga" eftir Alfreð sjálfan. "Æskuminning" naut mikilla vinsælda og kom einnig út á Norðurlöndunum. Carl Billich útsetti lagið. Ágúst átti fleiri lög sem Íslenzkir tónar gáfu út, lögin "Hittumst heil" og "Ég mætti þér" sem Tígulkvartettinn söng, "Harpan ómar" sem Alfreð og Ingibjörg Þorbergs sungu saman og "Þórður sjóari" sem Alfreð söng. Í takt við vinsældir "Æskuminningar" gaf Drangeyjarútgáfan út nótur af laginu. Forsíðuna teiknaði Þorleifur Þorleifsson sem hannaði flest plötuumslög Íslenzkra tóna. Jón Kjartansson. Jón Kjartansson (20. júlí 1893, Skál á Síðu – 6. október 1962) var íslenskur stjórnmálamaður, sýslumaður og ritstjóri Morgunblaðsins. Ævi og störf. Foreldrar Jóns voru Kjartan Ólafsson (1857 – 1900) bóndi á Síðu og móðir hans var Oddný Runólfsdóttir (1864 – 1912) húsmóðir. Hann kvæntist 22. júní 1924 Ásu Sigurðardóttur Briem (1902 – 1947). Þau áttu þrjú börn, Sigurð Briem, Guðrúnu, Höllu Oddnýju. Seinni kona Jóns var Vilborg Stefánsdóttir (1921 -) og áttu þau eina dóttur, Sólrúnu. Uppeldisdóttir Jóns, dóttir Vilborgar er Steinunn Helga Lárusdóttir. Jón tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1915 og lögfræðipróf frá Háskóla Íslands 1919. Jón var þingmaður Vestur-Skaftafellssýslu frá 1923 til 1927 fyrir Borgaraflokkinn eldri og síðar Íhaldsflokkinn og svo frá 1953 til 1959 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1924 ásamt Valtý Stefánssyni til 1947 þegar hann tók við sýslumannsembætti Skaftafellssýslu sem hann gegndi til æviloka. Valtýr Stefánsson. Valtýr Stefánsson (26. janúar 1893, að Möðruvöllum á Hörgárdal — 16. mars 1963) var ritstjóri Morgunblaðsins í 39 ár og talinn faðir íslenskrar blaðamennsku. Ævi og störf. Foreldrar Valtýs voru Stefán Stefánsson, skólameistari, og kona hans, Steinunn Frimannsdóttir frá Helgavatni í Húnavatnssýslu. Hann stundaði nám i gagnfræðaskólanum á Akureyri, en lauk síðan stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1911. Síðan stundaði hann búnaðarnám í Hólaskóla árin 1911—1912 til þess að búa sig undir framhaldsnám í búnaðarfræðum. Hóf hann siðan nám við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og lauk heimspekiprófi í Kaupmannahöfn árið 1913 en kandidatsprófi í búnaðarfræðum árið 1914. Síðan stundaði hann framhaldsnám við Landbúnaðarháskólann árin 1915—1917 og vann þá jafnframt við jarðarbótadeild danska Heiðafélagsins frá árslokum 1917 til ársloka 1918. Valtýr Stefánsson kvæntist 17. maí 1917 Kristinu Jónsdóttur (- 1959), listmálara frá Arnarnesi við Eyjafjörð. Áttu þau tvær dætur Helgu og Huldu. Hot Fuss. "Hot Fuss" er fyrsta breiðskífa bandarísku jaðarrokkhljómsveitarinnar The Killers. Platan var gefin út 7. júní 2004 í Bretlandi og 15. júní 2004 í Bandaríkjunum. Ragna Ingólfsdóttir. Ragna Ingólfsdóttir (22. febrúar 1983) íslenskur badmintonleikari. Hún hefur orðið Íslandsmeistari 20 sinnum, þar af níu sinnum í einliðaleik, tíu sinnum í tvíliðaleik og einu sinni í tvenndarleik. Hún hefur keppt á tvennum Ólympíuleikum, í Beijing 2008 og London 2012. Í Beijing 2008 sleit hún krossband í miðri viðureign., en í London 2012 vann hún eina viðureign í einleiðaleik en tapaði annari og féll úr leik. Í kjölfarið tilkynnti að hún væri hætt keppni í badminton, en mjög sátt við Ólympíuleikana og íþróttaferil sinn. William John Macquorn Rankine. William John Macquorn Rankine (5. júlí 1820 – 24. desember 1872), var skoskur verkfræðingur og eðlisfræðingur. Rankine setti fram kenningu um gufuvélina og í raun allar varmavélar. Hann gerði einnig nokkur mikilvæg framlög til vísinda varmafræðinnar. Rankine mælikvarðinn ber nafn hans honum til heiðurs. Rankine mælikvarðinn mælir hita. Rankine, William John Macquorn Yellow Submarine. "Yellow Submarine" er tíunda breiðskífa Bítlana. Geimklósett. Geimklósett, eða þyngdarleysisklósett, er klósett sem notað er í þyngdarleysi og knúið er lofti, í stað vatns í venjulegu vatnssalerni. Grunnstoðir geimklósetts. Geimklósett hefur fjóra meginhluta, saurvökva lofttómstúba, lofttómsrými, saurgeymsluskúffa og harðsaurs safnpoka. Saurvökva lofttómstúban er um meters löng plast- eða gúmmíslanga sem er fest við lofttómsrýmið. Sú slanga leiðir inn í viftu sem myndar sogkraft. Klósettið hefur tvær mismunandi slöngur, eina fyrir karl og aðra fyrir konu. Geimfarinn kastar af sér vatni í þar til gerða trekt á slöngunni, þar sem sú stærri er fyrir konu. Saurgeymsluskúffan er þar sem úrgangurinn er geymdur. Þvagi er pumpað inn í eina af þessum skúffum. Þeir frysta svo sýni af þvagi og saur og senda til jarðar til rannsóknar. Harðsaursafnpokinn er búinn til úr sérstöku efni sem meinar gasi eða vökva að komast út. Þegar geimfarinn hefur lokið við saurlát þá snýr hann/hún pokanum og setur í saurgeymsluskúffu. Stuttbuxur. Stuttbuxur eru buxur sem eru styttri en venjulegar síðbuxur. Í stað síðra skálma sem ná niður að ökklum, eins og hefðbundnar buxur, ná skálmar stuttbuxna aðeins niður á læri eða í mesta lagi kálfa. Hvar mörkin liggja á milli venjulegra buxna og stuttbuxna er oft ógreinilegt; það sem einum finnst síðbuxur getur öðrum þótt stuttbuxur og öfugt. Stuttbuxnanotkun hefur færst mjög í vöxt á Íslandi á síðustu áratugum en notkun er þó nær algjörlega bundin við sumarmánuði. Stuttubuxur sem einkennisklæði. Enskur skólabúningur með gráum stuttbuxum. Stuttbuxur sem búningur tíðkast nú til dags sem einkennisklæði. Þar má nefna íþróttabúninga, skátabúninga og skólabúninga. Hljóðaklettar. Hljóðaklettar er safn stuðlabergskletta í Jökulsárgljúfrum sem tilheyra Vatnajökulsþjóðgarði. Meðal þeirra eru "Karl og kerling" og "Kirkjan". Skammt frá er Dettifoss. Blondi. Blondi (1941 – 30. apríl 1945) var hundur Adolfs Hitler. Blondi var þýskur fjárhundur, sem voru dálætis hundar Hitlers og var gefin honum sem gjöf af Martin Bormann árið 1941. Samkvæmt vitnum var Hitler afar hrifinn af Blondi og leyfði henni að sofa inn í svefnbergerginu sínu eða hreinlega uppi í rúmi sínu. Blondi dó þegar læknir Hitlers gaf henni blásýru í matinn en Hitler grunaði Himmler (sem gaf honum blásýruna í gjöf) um græsku og vildi sjá hvort blásýran virkaði. Blásýran virkaði og Blondi dó og Hitler varð, samkvæmt vitnum, afar sorgmæddur og grét yfir Blondi því það var uppáhalds hundurinn hans. Blondi í nasistaáróðri. Hitler notaði Blondi mikið í áróðri til að sýna að hann var dýravinur og þótti vænt um dýr. Fræg voru spjöld og plaköt í Þýskalandi með Hitler og hundinum sínum þar sem undir stóð „Hitler und Blondi, der nazihund“" sem útlegst á íslensku „Hitler og nasistahundurinn Blondi“ Samstarfssamningur um einkaleyfi. Samstarfssamningur um einkaleyfi er alþjóðasamningur um einkaleyfi saminn árið 1970. Samningurinn fjallar um alþjóðlegar umsóknir um einkaleyfi. Samkvæmt samningnum getur aðili sent alþjóðlega staðlaða umsókn um einkaleyfi til einkaleyfastofu í einu landi, umsóknin er tekin fyrir af alþjóðleglegri stofnun sem metur einkaleyfishæfi áður en viðkomandi einkaleyfastofa veitir einkaleyfið. Samningurinn skapaði samræmt og staðlað umsóknarferli fyrir einkaleyfi. Einkaleyfið sjálft fær þó ekki alþjóðlegt gildi við þetta og einkaleyfishafi verður áfram að skrá einkaleyfið í öllum löndum þar sem hann vill að leyfið hafi gildi. Alþjóða hugverkastofnunin sér um rekstur samningsins og kerfisins sem hann skapar. Stofnunin gefur umsóknina út í sérstöku fréttabréfi 18 mánuðum eftir að hún var lögð fram. Þriggja þrepa prófið. Þriggja þrepa prófið er heiti á takmörkunum á undanþágum frá einkarétti höfundar sem settar voru fyrst fram í Bernarsáttmálanum eftir endurskoðun hans í Stokkhólmi 1967. Slíkt þriggja þrepa skilyrði hefur síðan ratað inn í höfundalög ýmissa landa og er hluti af ýmsum alþjóðlegum samningum um hugverkarétt. Haag-samningur um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar. Haag-samningur um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar eða Haag-kerfið er alþjóðasamningur um kerfi fyrir alþjóðlega skráningu iðnhönnunar með einni umsókn. Alþjóða hugverkastofnunin hefur yfirumsjón með samningnum. Haag-samningurinn er til í nokkrum gerðum. Þær mikilvægustu eru Haag-gerðin frá 1960 og Genfargerðin frá 1999. Umsækjendur í hverju landi fá aðeins vernd frá landi sem er aðili að sömu gerð Haag-samningsins og þeirra eigið land. Alþjóðleg skráning iðnhönnunar gildir í fimm ár en er hægt að framlengja um önnur fimm ár upp að því hámarki sem kveðið er á um í lögum hvers lands. Madrídarsamningur um alþjóðaskráningu merkja. Madrídarsamningur um alþjóðaskráningu merkja eða Madrídarkerfið er alþjóðasamningur um skráningu vörumerkja í mörgum löndum. Samningurinn var gerður árið 1891 en aðeins 56 ríki hafa gerst aðilar að samningnum sjálfum. Mörg stór iðnríki á borð við Bandaríkin, Japan og Bretland sniðgengu samninginn en hafa síðan gerst aðilar að bókun við Madrídarsamninginn um alþjóðlega skráningu merkja frá 1989. Með þessu kerfi getur eigandi vörumerkis sem hefur verið skráð í einu landi (grunnumsókn), látið skrá merkið hjá Alþjóða hugverkastofnuninni. Allar breytingar sem gerðar eru á grunnumsókninni ná einnig til alþjóðlegu skráningarinnar. Höfundaréttarsáttmáli Alþjóðahugverkastofnunarinnar. Höfundaréttarsáttmáli Alþjóðahugverkastofnunarinnar er alþjóðasamningur um höfundarétt sem aðildarríki Alþjóða hugverkastofnunarinnar stóðu að árið 1996. Ástæðan fyrir gerð samningsins var að ríkin töldu breytinga þörf vegna þróunar upplýsingatækni og tilkomu Internetsins. Höfundaréttarsáttmálinn skilgreinir forrit sem höfundaréttarvarið verk, líkt og bókmenntaverk, útfærir gagnagrunnsvernd og sniðgöngubann fyrir aðgangsvarnir tæknibúnaðar. Með Digital Millennium Copyright Act 1998 var sáttmálinn innleiddur í Bandaríkjunum. Hann hefur verið innleiddur í Evrópusambandinu með ýmsum tilskipunum eins og Tölvuforritatilskipuninni 1991, Gagnagrunnstilskipuninni 1996 og Höfundaréttartilskipuninni 2001. Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar er alþjóðsamningur sem fjallar um þau svið hugverkaréttar sem snúa að iðnaði; einkaleyfi, vörumerki, iðnhönnun og nytjamynstur. Samningurinn var saminn á ráðstefnu í París árið 1880 (í kjölfar Heimssýningarinnar 1878) og undirritaður þremur árum síðar af ellefu löndum. Hann hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum síðan, síðast árið 1979. Nú eru 174 lönd aðilar að samningnum sem þar með er einn útbreiddasti alþjóðasamningur allra tíma. Grunnatriði samningsins eru gagnkvæmni réttarins (að umsækjendur njóti sama réttar í öðru aðildarlandi og þeir njóta í eigin landi) og forgangsréttur (að dagsetning skráningar í einu landi gildi líka í öðrum löndum þar sem skráning fer fram). Alþjóðasamningur um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana. Alþjóðasamningur um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana er alþjóðasamningur gerður af aðildarríkjum Alþjóða hugverkastofnunarinnar árið 1996. Samningurinn fjallar um einkarétt listflytjenda, tónlistarútgáfa og útvarps-/sjónvarpsfyrirtækja til að hagnýta flutning, upptökur og útsendingar, þótt þessir aðilar teljist ekki höfundar að því efni sem þeir framleiða. Þessi réttindi falla því undir grannréttindi höfundaréttar. Samningnum er ætlað að skýra og bæta við þann einkarétt sem felst í Rómarsáttmála um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana frá 1961. Yrkisréttur. Yrkisréttur er einkaréttur þess sem þróar nýtt kvæmi af jurt til að hagnýta sér það í tiltekinn árafjölda. Hann fær þannig einkarétt til að selja fræ, afklippur, aldin og lauf kvæmisins til viðskiptavina og getur selt öðrum söluleyfi fyrir kvæmið. Yrkisréttur er aðgreindur frá einkaleyfi þótt bæði geti náð yfir sama hlut í sumum löndum. Yrkisréttur er háður samþykki sérstakrar yrkisréttarnefndar og gildir venjulega í 20 eða 25 ár. Eldgjá. Eldgjá. Gossprunga á Skaftártunguafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu sem talið er að hafi myndast í stórgosi sem hófst árið 934 og stóð í nokkur ár. Eldvörp Eldgjárgossins raðast slitrótt á meira en 60 km langa línu langleiðina frá Vatnajökli og inn undir Mýrdalsjökul við Öldufell. Suðvestast er svo sjálf Katla og Kötlu-askjan, kjarni eldstöðvakerfisins. Þorvaldur Thoroddsen skoðaði Eldgjá fyrstur vísindamanna árið 1893 og gaf henni nafn. Á síðari árum hafa margir jarðvísindamenn komið að rannsóknum á Eldgjá. Eldstöðvarnar. Ófærufoss 1975 meðan steinboginn stóð enn sem lá yfir neðri fossinn, en hann hrundi árið 1993 Skipta má gossprungunni í þrjá aðalhluta. Nyrst eru Kambagígar og gígar við Stakafell, sem ná allt norður að Tröllhamri þaðan sem stutt er í Vatnajökul Á miðhluta sprungunnar er Eldgjá sjálf og gígar og sprungur beggja vegna við hana. Suðurhlutinn sem er gígaröð norður af Öldufelli sem hverfur inn undir Mýrdalsjökul með stefnu á Kötlu. Eldgjá er stórbrotnust frá veginum sem liggur yfir hana, Fjallabaksleið nyrðri, og norður að Gjátindi. Þar er hún óslitin, víða um 600 m breið og allt að 200 m djúp. Í gjárbörmunum eru gjallskriður og hamrabelti oft með rauðum lit. Áin Nyrðri-Ófæra fellur ofan í gjána norðarlega í tveimur fossum, Ófærufossum, og streymir eftir gjárbotninum, lygn milli gróinna bakka. Sunnar fellur Syðri-Ófæra um Eldgjá. Hraun og gjóska. Gríðarmikið hraunflóð hefur runnið frá Eldgjá. Hraunið heitir engu einu nafni þótt jarðfræðingar kalli það stundum Eldgjárhraun. Hlutar af því eru Álftavershraun, Meðallandshraun, Landbrotshraun, Stakfellshraun o.fl. Mesti hraunstraumurinn kom úr Eldgjá sjálfri og öðrum gígum á miðhluta sprungunnar. Hann fossaði niður Skaftárgljúfur og breiddi síðan úr sér á láglendinu og mynduðu tvær miklar tungur, Landbrotshraun og Meðallandshraun. Gríðarleg umbrot hafa orðið er Landbrotshraunið rann því það er alsett gervigígum. Frá suðurhluta sprungunnar fossaði hraunið í tiltölulega mjóum straumi suður um Álftaversafrétt meðfram austurjaðri Mýrdalsjökuls en breiddi síðan mikið úr sér sunnan við Atlaey og flæddi í breiðum straumi suður Mýrdalssand, yfir Álftaver og allt til strandar. Hraunin þekja samtals um 800 km2. Katla sjálf gaus gríðarmiklu öskugosi á sama tíma, þykkt öskulag lagðist yfir nærsveitir hennar og vatns og gjóskuflóð geystust niður Mýrdalssand. Umhverfisáhrif. Þótt gosið hafi orðið á sögulegum tíma fer afar litlum sögum af því. Þó er talið að þess sé getið í Landnámu en þar segir af fjölmennri byggð í Álftaveri sem menn urðu að flýja þegar jarðeldur rann þar yfir. Hraunið frá Eldgjá er mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma og hugsanlega er Eldgjárgosið mesta hraungos sem mannskepnan hefur nokkru sinni orðið vitni að. Margrét Hermanns-Auðardóttir. Margrét Hermanns-Auðardóttir er íslenskur doktor í fornleifafræði. Hún er þekktust fyrir rannsóknir sínar í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Veðurfölnir. Veðurfölnir er haukur í norrænni goðafræði sem situr á milli augna arnar í efstu greinum Asks Yggdrasils. Örninn átti í sífelldum deilum við Níðhögg, vængjaðan dreka er bjó við eina rótina, en íkorninn Ratatoskur hljóp stöðugt upp og niður tréð með skilaboð á milli þeirra. Yrki. Yrki er flokkunarheiti sem er undirskipað tegund. Yrki er aðeins notað um jurtir. Yrkisheitið kemur á eftir tegundarheiti með skammstöfunina „var.“ á milli. Í dýrafræði er notast við kyn eða deilitegund. Yrki er líka oft notað sem samheiti við kvæmi eða ræktunarafbrigði, til dæmis í yrkisrétti sem fjallar um kvæmi en ekki yrki í þessari líffræðilegu merkingu. Dæmi um yrki eru "Beta vulgaris" var. "vulgaris" (rauðrófa) og "Petroselinum crispum" var. "neapolitanum" (breiðblaða steinselja). Kvæmi. a> 'Clear Crystals Apricot' ("Viola x hybrida" 'Clear Crystals Apricot') Kvæmi eða ræktunarafbrigði (yrki stundum notað sem samheiti) er afbrigði af jurt sem valið hefur verið til ræktunar vegna eftirsóttra eiginleika. Kvæmi getur verið ræktað upp eða byggst á vali úr villtri tegund. Ný kvæmi sem komið er upp geta verið skilgreind sem hugverk í yrkisrétti. Kvæmi eru tilgreind með heiti innan einfaldra gæsalappa á eftir tegundarheiti (eða heiti yrkis) eða heiti ættkvíslar eða almennu heiti; Dæmi: "Malus" 'Granny Smith' (epli 'Granny Smith'), "Lactuca sativa" L. var. "longifolia" 'Parris Island Cos' (romaine-salat 'Parris Island Cos'). Heiti kvæmis er hluti af flokkunarfræði plöntunnar og fellur því ekki undir einkarétt seljanda, en auk heitis kvæmisins geta kvæmi frá tilteknum framleiðanda haft markaðsheiti sem þá er varið með sama hætti og vörumerki. Kvæmi sem ræktuð eru með kynlausri æxlun eru kölluð klónar. Karlsskáli við Reyðarfjörð. Karlsskáli var bóndabær við Reyðarfjörð, sem fór í eyði eftir bruna 1961. Þar var stórbú, bæði landbú og útgerð og þegar flest var um aldamótin 1900 voru um 50 manns i heimili. Eiríkur Björnsson (20. ágúst 1830 – 2.janúar 1911) var þar bóndi ásamt konu sinni Sigríði Pálsdóttur (1839 - 1927) en synir þeirra Guðni Eiríksson (1866 – 1946) og Björn Eiríksson (1864 – 1932) tóku við býlinu eftir að faðir þeirra settist í helgan stein. Önnur börn þeirra voru Helga (1860-1925), Pálína (1862- ?), Steinunn E. Stephensen (1870-1957) no.38, Guðný (1872 - 1950), Hansína (1874 -1953) no.37 og Helgi (1878 -1940). Pálína og Guðný giftust báðar til Færeyja (Bergþóra no.36 er dóttir Guðnýjar) Tenglar. http://www.simnet.is/ffau/myndir19_valahjalli.html Þorgeir Jónsson. Þorgeir Jónsson, f. 1903, bóndi og hestamaður í Gufunesi í Reykjavík. Varð glímukongur Íslands 1927 og Íslandsmeistari í kúluvarpi og kringlukasti sama ár. Daniel Narcisse. Daniel Narcisse í leik gegn Ungverjum á EM 2010. Daniel Narcisse (fæddur 16. desember 1979) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur í skyttustöðu fyrir þýska liðið THW Kiel. Narcisse leikur einnig í franska landsliðinu og varð heimsmeistari með franska liðinu árið 2001, Evrópumeistari 2006, ólympíumeistari 2008, heimsmeistari 2009 og Evrópumeistari árið 2010. Hann hefur hlotið viðurnefnið "Air France" vegna stökkkrafts síns. Narcisse, Daniel Guillaume Joli. Guillaume Joli (fæddur 27. mars 1985 í Lyon) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur í stöðu hornamanns. Joli leikur í franska landsliðinu og varð heimsmeistari 2009 og Evrópumeistari 2010. Joli, Guillaume Samuel Honrubia. Samuel Honrubia (fæddur 5. júlí 1986) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur í stöðu hornamanns. Honrubia leikur í franska landsliðinu og varð heimsmeistari með liðinu árið 2011. Honrubia, Samuel Ólympískar lyftingar. Ólympískar lyftingar (e. weightlifting) skiptast í Jafnhendingu og Snörun. Jafnhending (e. clean & jerk) er þegar stöng er lyft í tveimur hreyfingum upp fyrir höfuð. Fyrri hreyfingin er frívending og síðari hreyfingin er jafnhöttun. Frívending (e. clean) er þegar stöng er lyft frá gólfi upp að öxlum í einni samfelldri hreyfingu þar sem viðkomandi beygir sig undir stöngina á réttu augnabliki og stendur upp en stöngin hvílir á brjóstkassa og/eða bognum örmum í lokin. Jafnhöttun (e. jerk) er þegar stöng er lyft í einni samfelldri hreyfingu frá öxlum eða brjóstkassa með bogna arma upp fyrir höfuð, með því að beygja sig í hnjánum og rétta ásamt því að rétta úr örmum í einni samfelldri hreyfingu og ljúka lyftunni í jafnvægi með útrétta arma og stöngina fyrir ofan höfuð. Snörun (e. snatch) er þegar stöng er lyft með útrétta arma frá gólfi og upp fyrir höfuð í einni samfelldri hreyfingu með því að toga í stöngina og beygja sig undir hana á réttu augnabliki. Þyndarflokkar (e. bodyweight categories) eru skilgreindir af Alþjóða Lyftingasambandinu. Keppt er í 8 flokkum í Karlaflokki: 56 kg, 62 kg, 69 kg, 77 kg, 85 kg, 94 kg, 105 kg, +105 kg. Keppt er í 7 flokkum í Kvennaflokki: 48 kg, 53 kg, 58 kg, 63 kg, 69 kg, 75 kg, +75 kg Keppt var í Ólympískum Lyftingum á fyrstu nútíma Ólympíuleikunum árið 1896. Lyftingasamband Íslands stofnað 27. Janúar 1973 Xavier Barachet. Xavier Barachet (fæddur 19. nóvember 1988) er franskur handknattleiksmaður, sem leikur í hægri skyttustöðu fyrir franska liðið Chambéry Savoie Handball. Barachet leikur einnig í franska landsliðinu og varð heimsmeistari með liðinu árið 2009, Evrópumeistari árið 2010 og heimsmeistari árið 2011. Barachet, Xavier Helga Braga Jónsdóttir. Helga Braga Jónsdóttir (f. 5. nóvember 1964) er íslensk leikkona. Samrás. Samrás eða dvergrás er nafn á rafrásum framleiddum með liþógrafíu eða komið fyrir í hálfleiðandi efni. Ég vil fara upp í sveit. Ég vil fara upp í sveit er 45 snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni flytur Elly Vilhjálms tvö lög ásamt hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar. Kristján Kristjánsson, ásláttur og raddir, Guðmundur Steingrímsson, trommur, Árni Scheving, óbó, Jón Sigurðsson, bassi og raddir, Þórarinn Ólafsson, víbrafónn og raddir og Jón Páll Bjarnason, gítar. Útsetning: Jón Sigurðsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin, ljósmyndastofa ÞEGG: Offsetprentstofa. HSH45-1024. 79 af Stöðinni er 45 snúninga hljómplata gefin út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1963. Á henni flytur Elly Vilhjálms ásamt hljómsveitum Jóns Sigurðssonar, Jóns Páls og KK-sextettinum fjögur lög. DK 1621. Sumarauki er 45 snúninga hljómplata gefin út af Fálkanum árið 1964. Á henni flytur Elly Vilhjálms ásamt hljómsveit Svavars Gests tvö lög. J. G. Ballard. James Graham „J. G.“ Ballard (15. nóvember 1930 – 19. apríl 2009) var breskur rithöfundur, smásagnahöfundur og fyrirferðamikill í nýbylgjuhreyfingu í vísindaskáldskap. Meðal þekktustu verka hans eru skáldsagan Crash (1973), sem Bandaríkjamaðurinn David Cronenberg leikstýrði, og hin sjálfsævisögulega Empire of the sun (1984), sem Steven Spielberg gerði mynd eftir, sem byggði á æsku Ballards í Alþjóðahverfinu í Sjanghæ á meðan hernámi Japana stóð í seinni heimsstyrjöldinni. Tenglar. Ballard, J. G. Reggie Bush. Reginald Alfred Bush, II, almennt kallaður Reggie Bush Reginald Alfred Bush, II, almennt kallaður Reggie Bush, (fæddur 2. mars 1985 í Spring Valley, Kaliforníu) er bandarískur ruðningsleikmaður sem spilar fyrir Detroit Lions. Hann vann Heisman bikarinn 2005 en hafnaði honum. Bush átti í ástarsambandi við Kim Kardishan frá árinu 2007 til 27. júlí 2009 og frá 28. september, 2009 til mars 2010. Helena Eyjólfsdóttir og Neó tríóið. Helena Eyjólfsdóttir og Neó tríóið er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytur Helena Eyjólfsdóttir tvö lög ásamt söngkvartett og NEÓ tríóinu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Helena Eyjólfsdóttir with the Icelandic all stars. Helena Eyjólfsdóttir with the Icelandic all stars er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytja Helena Eyjólfsdóttir, Finnur Eydal, Andrés Ingólfsson, Jón Sigurðsson, Þórarinn Ólafsson og Guðjón Ingi Sigurðsson tvö lög. Útsetjari: Jón Sigurðsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Óðinn, Helena og Atlantic kvartettinn. Óðinn, Helena og Atlantic kvartettinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytja Helena Eyjólfsdóttir og Óðinn Valdimarsson tvö lög ásamt Atlantic kvartettinum. Kvartettinn skipuðu Finnur Eydal, saxófónn, klarinett, Ingimar Eydal, píanó, Edwin Kaaber, bassi og Sveinn Óli Jónsson, trommur. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Brúnaland. Brúnaland (Brú:nå:landt) er hverfi í Fossvogi, sem er tveggja kílómetra langur dalur í Reykjavík á Íslandi. Óðinn syngur vinsæl lög. Óðinn syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytur Óðinn Valdimarsson tvö lög ásamt Atlantic kvartettinum. Kvartettinn skipuðu Finnur Eydal, saxófónn, klarinett, bongótromma, Ingimar Eydal, píanó, Edwin Kaaber, gítar og Sveinn Óli Jónsson, trommur. Helena Eyjólfsdóttir lék á marakas í "Einsa kalda úr Eyjunum". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: Nera í Osló. Lagalisti. Lögin komu bæði út á EXP-IM 69 en voru endurútgefin á þessari plötu. Óðinn Valdimarsson og K.K. sextettinn. Óðinn Valdimarsson og K.K. sextettinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Óðinn Valdimarsson, K.K. sextettinn og söngkvartett tvö lög. Flytjendur eru auk Óðins, Elly Vilhjálms, söngur, Jón Páll Bjarnason, gítar, söngur, Jón Sigurðsson, kontrabassi, söngur, Þórarinn Ólafsson, píanó, söngur, Árni Scheving, víbrafónn, Guðmundur Steingrímsson, trommur og hljómsveitarstjórinn Kristján Kristjánsson, slagverk og söngur. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Flakkarinn með Óðni Valdimarssyni. Flakkarinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Óðinn Valdimarsson og Atlantic kvartettinn tvö lög. Kvartettinn skipuðu Finnur Eydal, klarinett, Ingimar Eydal, píanó, harmonika, Edwin Kaaber, gítar og Sveinn Óli Jónsson, trommur. Helena Eyjólfsdóttir lék á slagverk. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Ævintýri og Rock og cha-cha-cha. Ævintýri og Rock og cha-cha-cha er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Ragnar Bjarnason, hljómsveit Birger Arudzen og Kristján Kristjánsson tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Kápumynd: Studió ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig. Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Ragnar Bjarnason, hljómsveit Birger Arudzen og Kristján Kristjánsson tvö lög. Platan er hljóðrituð hjá Nordisk Polyphone í Kaupmannahöfn. Kápumynd: Studió ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Ég er kominn heim - Óðinn Valdimarsson. Óðinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Óðinn Valdimarsson, K.K. sextettinn og söngkvartett tvö lög. Bakraddir skipa þau Elly Vilhjálms, Jón Páll Bjarnason, Jón Sigurðsson og Þórarinn Ólafsson. Jón Páll lék á gítar, Jón á kontrabassa, Þórarinn á píanó og Guðmundur Steingrímsson á trommur. Útsetning: Jón Sigurðsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Forsíða: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Prentun umslags: Svíþjóð. Sigurdór og Hljómsveit Svavars Gests - Þórsmerkurljóð. Sigurdór og Hljómsveit Svavars Gests er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Hljómsveit Svavars Gests, Sigurdór Sigurdórsson og kvennakór tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Lagalisti. Sigurdór Sigurdórsson sem söng hið vinsæla Þórsmerkurljóð. Óli prakkari - Soffía og Anna Sigga. Óli prakkari er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Soffía og Anna Sigga, krakkakór og hljómsveit Árna Ísleifs tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Forsíða: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Platan er gefin út undir merkinu Stjörnuhljómplötur. Já, farðu frá - Ragnar Bjarnason. Já, farðu frá er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Ragnar Bjarnason og hljómsveit Arvid Sundin tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Svíþjóð. Lagalisti. Platan var rauð sem þótti nýnæmi árið 1960. Eins og fólk er flest - Ragnar Bjarnason. Eins og fólk er flest er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Ragnar Bjarnason og hljómsveit Arvid Sundin tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: í Svíþjóð. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Í Svíþjóð. Litla stúlkan mín - Ragnar Bjarnason. Litla stúlkan mín er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Ragnar Bjarnason, og hljómsveit Arvid Sundin tvö lög. Einleikari á harmoniku: Andrew Walter. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: í Svíþjóð. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: í Svíþjóð. Sigrún Jónsdóttir syngur Augustin. Sigrún Jónsdóttir syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja Sigrún Jónsdóttir og hljómsveit Kjell Karlsen tvö lög. Kjell Karlsen útsetti. Platan er hljóðrituð í Noregi. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason syngur með Svavari Gests og hljómsveit. Ragnar Bjarnason með Svavari Gests og hljómsveit er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni flytja Ragnar Bjarnason og hljómsveit Svavars Gests tvö lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Íslensk og erlend dægurlög 1. Íslensk og erlend dægurlög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Sigurður Ólafsson tvö lög með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Sigurveig Hjaltested og Alfreð Clausen flytja eitt lag með hljómsveit Carl Billich og Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen flytja lag með hljómsveit Josef Felzmann. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Íslensk og erlend dægurlög 2. Íslensk og erlend dægurlög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Alfreð Clausen tvö lög með hljómsveit Josef Felzmann og Svavar Lárusson flytur lag með hljómsveit Aage Lorange og annað með SY-WE-LA kvartettinum. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið og Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Íslensk dægurlög 1. Íslensk dægurlög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Sigfús Halldórsson tvö lög við eigin undirleik, Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen syngja lag með hljómsveit Josef Felzmann og Alfreð Clausen syngur lag með sömu hljómsveit. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Svavar Lárusson syngur. Svavar Lárusson syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Svavar Lárusson tvö lög með SY-WE-LA kvintettinum og tvö lög með Monty tríóinu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptökur fóru fram hjá Norska útvarpinu og í Þýskalandi. Pressun: AS Nera í Osló. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Sigfús Halldórsson syngur eigin sönglög 1. Sigfús Halldórsson syngur eigin sönglög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Sigfús Halldórsson fjögur lög við eigin undirleik. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið og Norska útvarpið ("Til Unu" og "Þú komst"). Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Á umslagi er platan ranglega merkt EXP-IM 8. Sigfús Halldórsson syngur eigin sönglög 2. Sigfús Halldórsson syngur eigin sönglög 2 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Sigfús Halldórsson fjögur lög við eigin undirleik. Lögin höfðu áður komið út á 78 snúninga plötum hjá Íslenskum tónum. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið og Norska útvarpið ("Játning" og "Við tvö og blómið"). Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Á umslagi er platan ranglega merkt EXP-IM 6. Alfreð Clausen syngur erlend dægurlög 2. Alfreð Clausen syngur erlend dægurlög 2 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytja Alfreð Clausen, Sigrún Jónsdóttir og K. K. sextett lagið "Lukta-Gvendur". Alfreð Clausen syngur einnig lagið "Ég bið þín" með hljómsveit Aage Lorange og tvö lög með Josef Felzmann og Aage Lorange. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Æ, ó, aumingja ég og Órabelgur. Æ, ó, aumingja ég og Órabelgur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum Tónum árið 1959 en undir merkinu Stjörnuhljómplötur. Á henni syngur Gerður Benediktsdóttir lagið "Æ, ó, aumingja ég" og Soffía Árnadóttir og Anna Sigga Þorgrímsdóttir syngja lagið "Órabelgur". Tríó Árna Ísleifs leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. S.A.S. tríóið með rokkhljómsveit Árna Ísleifs. S.A.S. tríóið með rokkhljómsveit Árna Ísleifs er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum Tónum árið 1959 undir merkinu Stjörnuhljómplötur. Á henni syngur S.A.S. tríóið tvö lög með rokkhljómsveit Árna Ísleifs. Tríóið skipuðu Stefán Jónsson, Ásbjörn Egilsson og Sigurður Elísson. Hljómsveitina skipuðu auk Árna Pétur Urbancic, Karl Lillendahl og Reynir Jónsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Snjókarlinn - Soffía og Anna Sigga. Snjókarlinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum Tónum árið 1960 undir merkinu Stjörnuhljómplötur. Á henni syngja Soffía Árnadóttir og Anna Sigga Þorgrímsdóttir eða Soffía og Anna Sigga eins og þær voru kallaðar, tvö lög með hljómsveit Árna Ísleifs. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Oft er fjör í Eyjum - Erling Ágústsson. Oft er fjör í Eyjum er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960 undir merkinu Stjörnuhljómplötur. Á henni syngur Erling Ágústsson tvö lög með hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar. Eyþór sá um útsetningar og leikur á gítar, Reynir Jónasson leikur á saxófón og syngur bakraddir, Guðjón Pálsson leikur á bassa og Guðmundur Steingrímsson á trommur. Anna María Jóhannsdóttir og Sigrún Ragnarsdóttir syngja bakraddir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Maja litla - Erling Ágústsson syngur. Maja litla er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961 undir merkinu Stjörnuhljómplötur. Á henni syngur Erling Ágústsson tvö lög með hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson syngur íslensk sönglög 1. Sigurður Ólafsson syngur íslensk sönglög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Sigurður Ólafsson fimm lög við píanóundirleik Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Ingibjörg Þorbergs syngur íslensk og erlend dægurlög. Ingibjörg Þorbergs syngur íslensk og erlend dægurlög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Ingibjörg Þorbergs fjögur lög með kvartett Carl Billich. Í einu laginu "Á morgun" syngur Alfreð Clausen með Ingibjörgu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Alfreð Clausen flytur fjögur lög. Alfreð Clausen er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni flytur Alfreð Clausen fjögur lög með tríói Aage Lorange og Hljóma-tríóinu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Svavar Lárusson syngur erlend dægurlög 2. Svavar Lárusson syngur erlend dægurlög 2 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni flytur Svavar Lárusson fjögur lög með Monti tríóinu. Lögin komu einnig út á 78 snúninga plötunum IM 48 og IM 49. Platan er hljóðrituð í Stuttgart í Þýskalandi. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Baraflokkurinn. Ljósmynd Sigurðar Þorgeirssonar af Baraflokknum frá upphafsárum hljómsveitarinnar. Talið frá vinstri, Ásgeir Jónsson, Jón Arnar Freysson, Baldvin H. Sigurðsson, Sigfús Örn Óttarsson og Þór Freysson Baraflokkurinn er íslensk hljómsveit sem var stofnuð á Akureyri árið 1979 og spilaði fönkskotna nýbylgjutónlist. Haustið 1980 voru meðlimir hljómsveitarinnar, Ásgeir Jónsson, söngur, Þór Freysson, gítar, Baldvin H. Sigurðsson, bassi, Jón Arnar Freysson, hljómborð og Árni Henriksen trommur. Árni hætti 1981 og Sigfús Örn Óttarsson kom í stað hans og þannig skipuð hefur hún komið fram síðan. Baraflokkurinn starfaði samfellt á árunum 1981 til 1984, hélt fjölda tónleika, og kom meðal annars fram í Rokk í Reykjavík og gaf út þrjár plötur. Árið 2000 kom út safnplatan Zahír og af því tilefni kom hljómsveitin aftur saman og hélt tónleika á skemmtistaðnum Gauk á stöng, þá hafði hún ekki komið fram í 16 ár. Tíu árum seinna, árið 2010, hélt Baraflokkurinn upp á 30 ára afmæli sitt með tónleikum í menningarhúsinu Hofi og Græna Hattinum í þeirra gamla heimabæ Akureyri. Alfreð Clausen syngur. Alfreð Clausen syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni flytur Alfreð Clausen tvö lög með hljómsveit Carl Billich og tvö lög með hljómsveit Josef Felzmann. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Við syngjum og dönsum 1 og 2 með tríói Jan Morávek. Við syngjum og dönsum 1 og 2 með tríói Jan Morávek er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni flytur tríó Jan Morávek syrpu af 16 lögum. Platan er hljóðrituð í mono. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson syngja. Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson syngja er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1956. Á henni flytja Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson fjögur lög við undirleik Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Óperettan í álögum. Óperettan í álögum er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni flytja Guðrún Á. Símonar, Magnús Jónsson, Guðmundur Jónsson og Svava Þorbjarnar valin lög úr óperettunni "Í álögum". Victor Urbancic stjórnar hljómsveit og kór. Lögin samdi Sigurður Þórðarson en Dagfinnur Sveinbjörnsson samdi ljóðin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatör ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen, Ingibjörg Þorbergs og Maria Lagarde. Alfreð Clausen, Ingibjörg Þorbergs og Maria Lagarde er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni flytja Ingibjörg Þorbergs, Alfreð Clausen og Maria Lagarde fjögur lög með kór og hljómsveit Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Primo Montanari syngur. Primo Montanari syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngur Primo Montanari við undirleik Fritz Weisshappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Sjómannavalsar. Sjómannavalsar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngur Sigurður Ólafsson fjögur lög þar af eitt með Sigurveigu Hjaltested. Tríó Bjarna Böðvarssonar, tríó Jan Morávek og hljómsveit Carl Billich leika undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Óskar Gíslason og teikning: Þorleifur Þorleifsson. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Sjómannavalsinn. "Svavar Benediktsson" / "Kristján frá Djúpalæk" Magnús Jónsson syngur. Magnús Jónsson syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni flytur Magnús Jónsson fjögur lög við undirleik Fritz Weishappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Uppsprettan. "Uppsprettan" (e. "The Fountainhead") er skáldsaga eftir rússnesk-bandarísku skáldkonuna Ayn Rand. Hún kom út árið 1943. Skáldsagan fjallar um baráttu hins sjálfstæða, skapandi einstaklings gegn þeim sem vilja annaðhvort kaupa hann til fylgis við sig eða fá hann til að fylgja almenningsálitinu. Aðalsöguhetjan er arkitektinn Howard Roark. Bókin var kvikmynduð árið 1949 með Gary Cooper í aðalhlutverkinu. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Þorsteins Siglaugssonar 1990 og nefndist þá "Uppruninn". Hún var svo endurútgefin árið 2011 í endurskoðaðri þýðingu Þorsteins og nefndist þá "Uppsprettan". Helena Eyjólfsdóttir og Atlantic kvartettinn. Gamla gatan er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytja Helena Eyjólfsdóttir og Atlantic kvartettinn fjögur lög. Í kvartettinum voru Ingimar Eydal, Finnur Eydal, Sveinn Óli Jónsson og Edward Kaaber. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa, teiknari Þorleifur Þorleifsson. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Tondeleyo og fleiri lög. Tondeleyo og fleiri lög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytur Óðinn Valdimarsson og Atlantic kvartettinn lagið "Útlaginn", Ingibjörg Þorbergs, Marz bræður og hljómsveit Jan Morávek, flytja "Kvölds í ljúfum blæ" (Man ég þinn koss), Sigurður Ólafsson, Sigurveig Hjaltested og hljómsveit Carl Billich flytja "Blikandi haf" og Sigfús Halldórsson leikur og syngur "Tondeleyo". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Rokk, calypso, skiffle. Rokk, calypso, skiffle er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngur Skapti Ólafsson fjögur lög. Hljómsveit Gunnar Reynis Sveinssonar sá um undirleik á "Allt á floti" og "Mikið var gaman að því" og hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar sá um undirleik á "Syngjum hátt og dönsum" og " Ef að mamma vissi það". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Netscape Navigator. Netscape Navigator er vafri frá Netscape Communications Corporation sem var vinsæll á 10. áratug 20. aldar. Hann byggði á vafranum Mosaic sem Marc Andreessen hafði þróað meðan hann var í háskólanámi. Mosaic var fyrsti margmiðlunarvafrinn og átti mikinn þátt í því að gera Veraldarvefinn vinsælan. Netscape tók við því hlutverki eftir 1994, en með vaxandi notkun Internet Explorer sem var uppsettur sem sjálfgefinn vafri á Microsoft Windows-stýrikerfinu frá 1995, minnkaði markaðshlutdeild Netscape jafnt og þétt. Árið 1999 keypti AOL Netscape Communications en skömmu áður hafði fyrirtækið gefið út frumkóða vafrans og samtökin Mozilla Organization tekið við þróun hans. Mozilla gaf út nýjar útgáfur af Netscape-vafranum 2000 og 2002 en ákvað árið 2003 að einbeita sér að þróun Mozilla Firefox-vafrans (sem var upphaflega grein af Netscape-kóðanum). Bítlarnir (kvikmynd). "Bítlarnir" (enska: "A Hard Day's Night" eða "Yeah! Yeah! Yeah!") er ensk svarthvít gaman- og söngvamynd eftir Richard Lester og hljómsveitina Bítlana. Myndin er gerviheimildarmynd sem fjallar á gamansaman hátt um tvo daga í lífi hljómsveitarmeðlima. Hún kom út árið 1964 á hátindi Bítlaæðisins og sló aðsóknarmet víða. Leikbræður syngja. Leikbræður syngja er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytja Leikbræður fjögur lög við undirleik Carl Billich. Leikbræður voru þeir Gunnar Einarsson, Ástvaldur Magnússon, Torfi Magnússon og Friðjón Þórðarson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Lögin úr söngleiknum Deleríum Búbónis. Lögin úr Deleríum Búbónis er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja leikarar úr Leikfélagi Reykjavíkur sex valin lög úr söngleiknum Deleríum búbónis eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni. Leikararnir eru Kristín Anna Þórarinsdóttir, Steindór Hjörleifsson, Brynjólfur Jóhannesson, Karl Sigurðsson, Sigríður Hagalín, Árni Tryggvason, Nína Sveinsdóttir, Guðmundur Pálsson og Gísli Halldórsson. Leikstjóri var Lárus Pálsson. Hljómsveit Carl Billich leikur undir og Carl útsetti lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Ljósmynd tók Oddur Þorleifsson en Þorleifur Þorleifsson sá um hönnun, teikningu og leturgerð. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Reykjavik Geothermal ehf.. Hellisheiðarvirkjun. Margir af starfsmönnum RG unnu við uppbyggingu virkjunarinnar Reykjavik Geothermal ehf. (RG) er íslenskt fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum og þróun jarðhitasvæða, einkum háhitasvæða til raforkuframleiðslu í þróunarlöndum. Fyrirtækið veitir veitir einnig ráðgjafarþjónustu í jarðhitanýtingu. Fyrirtækið var stofnað árið 2008 af einstaklingum úr íslenskum jarðhitageiranum sem hafa mikla reynslu af jarðhitavísindum, verkfræði, fjármögnun og stjórnun jarðhitanýtingar, sem og smíði jarðvarmavirkjana. RG starfar samkvæmt viðurkenndum stöðlum á sviði stjórnunar ISO 9001. Félagið hefur innleitt staðlana umhverfis- og vinnuverndar ISO 14001 og OHSAS 18001. Ennfremur hefur fyrirtækið tekið upp ISO 26000 staðalinn um samfélagslega ábyrgð og SA 8000 staðalinn um félagslega ábyrgð. Hjá fyrirtækinu vinna um 30 manns. Velta félagsins er um hálfur milljarður kr. á ári. Fyrirtækið er í eigu stjórnenda RG og enskra og bandarískra fjárfesta. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Íslandi en RG rekur skrifstofur í New York í Bandaríkjunum, Addis Ababa í Eþíópíu, í Dúbæ, Sameinuðu Arabísku furstadæmunum og í Port Moresby í Papúa Nýju Gíneu. Höfuðstöðvar Reykjavík Geothermal eru á Íslandi. Flass 104,5. Flass 104,5 er íslensk útvarpsstöð sem fór fyrst í loftið 1. desember 2005. Í dag er stöðin rekin af fyrirtækinu Hljómar vel ehf. Stöðin spilar nýja og ferska tónlist. Helsti markhópur hennar er ungt fólk. Meðal útvarpsmanna á Flass eru Þröstur 3000, Siggi Gunnars, Sindri Bm, Kristín Ruth og Óli Geir ásamt fleirum. Stöðin sendir út í Reykjavík á FM 104,5, á Akureyri á FM 102,5 og á Sauðárkróki á FM 93,7. Einnig sendir hún út á netinu á www.flass.is Stöðin er til húsa að Stórási 2-6 í Garðabæ. RusHydro. RusHydro (á rússnesku: РусГидро) er rússneskt orkufyrirtæki sem stofnað var árið 1993. Það vinnur rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum, einkum vatnsafli en einnig úr jarðvarma, vindorku og sjávarföllum. Fyrirtækið er stærsti raforkuframleiðandi Rússlands. Raforkuframleiðsla RusHydro var árið 2011 um 35,2 Gigawött og er það er annað stærsta fyrirtæki í heimi í vatnsafli. Rússneska ríkið á um 66% af RussHydro. Yfirmaður félagsins er Yevgeny Dod. Helena Eyjólfsdóttir syngur. Helena Eyjólfsdóttir syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngur Helena Eyjólfsdóttir fjögur lög með Neó tríóinu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Gömlu dansarnir. "Gömlu dansarnir" er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni spilar harmonikutríó Jóns Sigurðssonar syrpu af gömlum dönsum og rælum og harmonikutríó Jan Morávek leikur syrpu af hringdönsum og Vínarkruzum. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Jólasálmar. Jólasálmar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngur Helena Eyjólfsdóttir fjóra jólasálma við undirleik Páls Ísólfssonar og Ragnars Björnssonar sem leika á Dómkirkjuorgelið. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Ó, Jesús bróðir besti. Sb. 503. Páll Jónsson A. P. Berggreen Paul Baran. Paul Baran (1926-2011) var bandarískur verkfræðingur ættaður frá Póllandi, sem var frumkvöðull í þróun á net tölva og hefur verið nefndur „faðir internetsins“. Paul Baran hannaði tölvunet með pakkabeiningu, og þróaði Arpanet, sem var forveri netsins. Hann setti af stað nokkur fyrirtæki sem þróuðu aðra tækni sem síðar varð mikilvægur hluti af internetinu og öðrum nútíma stafrænum samskiptum. Arpanet var síðan tekið upp af bandaríska varnarmálaráðuneytinu í lok sjöunda áratugarins. Tilgangurinn var að búa til samskiptakerfi sem væri öruggt fyrir utanaðkomandi árásum og njósnum. Saka. Kort sem sýnir mikið landflæmi Sjálfstjórnarlýðveldisins Saka í Rússneska sambandsríkinu. Sjálfstjórnarlýðveldi Saka eða Jakútía (rússneska: Респу́блика Саха́ (Яку́тия), "Respublika Sakha" ("Jakutija"); jakútíska: Саха Республиката, "Sakha Respublikata") er sjálfstjórnarlýðveldi í Rússlandi. Það nær yfir hálft alríkisumdæmið Austurlönd fjær og er stærsta stjórnsýsluumdæmi heims. Höfuðstaður lýðveldisins er borgin Jakútsk og íbúafjöldi er um 950 þúsund, sem samanstendur aðallega af rússum og jakútum. Víðáttur Saka eru gríðarmiklar eða um 3,103,200 km2, eða um þrjátíu sinnum stærra en Ísland. Það er stærra en Argentína og ögn minna en Indland. Það hefur færri en eina milljón íbúa. Höfuðborg þess er Jakútsk. Landið nær yfir þrjú tímabelti. Á þessum víðáttum snýst sumarið um að bjarga í bú fyrir ískaldan vetur því kuldinn getur farið niður fyrir 65 gráður. Á sumrin getur hitinn hinsvegar farið yfir 45 gráður. Saka er eitt auðugasta sjálfsstjórnarhérað Rússlands og telst eitt tuttugu lýðvelda innan rússneska sambandslýðveldisins, sem hafa eigin stjórnarskrá og fjárlög. Saga. Nafnið Jakútía eða Saka er dregið af því að íbúar svæðisins eru af ýmsum tyrkískum uppruna og komu þangað fyrst á síðmiðöldum. Þeir kölluðu sig Saka en Evenkar sem bjuggu fyrir í Síberíu, kölluðu þá „Jakó“ og þaðan fengu Rússar nafnið þegar þeir hófu að leggja svæðið undir sig snemma á 17. öld. Frumbyggjarnir, Jakútar, eru leifar indjánaþjóðar sem fluttist til Norður Ameríku. Þjóðarbrot þetta varð eftir á sléttum Síberíu og blandaðist mongólskum nágrönnum sínum. Tungumálið sem Jakútar tala í dag er komið af tyrkneskum málaflokkum. Jakútar hafa verið taldir friðsælir í aldanna rás, en reyndar verið milli steins og sleggju heimsvaldasinna. Fyrst undir Djengis Khan, hinum herskáa leiðtoga mongóla. Árið 1633 byrjuðu rússneskir nýlenduherir að gera vart við sig þar sem Rússar voru á þeim tíma að leggja undir sig sléttur Síberíu. Árið 1642 lögðu Rússar síðan grunninn að höfuðborg Saka, sem ber nafnið Jakútsk enn þann dag í dag. Rússar byggðu borgina á bökkum fljótsins Lenu, sem er 7 km breið þar sem hún er breiðust, til að geta varist óvæntum árásum. Í tímans rás hefur borgin vaxið og dafnað sem miðstöð stjórnsýslu héraðsins. Þar má einnig finna nokkur söfn, tónlistarskóla, leiklistarskóla, háskóla og leikhús. Síbería hefur verið talin kjörin fyrir fólk með sem sýndi mótþróa gegn ríkjandi stjórn og á það jafnt við um gamla keisaradæmið og fyrrum Sovétríkin. Er það bæði vegna hrjóstugra aðstæðna og mikillar fjarlægðar frá umheiminum. Stalín leiðtogi Sovétríkjanna lét senda menn nauðuga í þröngum flutningavögnum, í milljónatali, í þrælabúðir til Síberíu. Óvant gríðarlegum kuldanum og lélegum aðbúnaði snéri stór hluti fólksins aldrei aftur til síns heima. Ingibjörg Þorbergs syngur fyrir börnin. Ingibjörg Þorbergs syngur fyrir börnin er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni syngur og leikur Ingibjörg Þorbergs fjögur barnalög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan. Aravísur. Í viðtali við Ingibjörgu Þorbergs kemur fram að Tage Ammendrup hafi farið þess á leit við hana að hún gerði lag við "Aravísur" Stefáns Jónssonar. Útkoman varð eitt vinsælasta barnalag síðustu aldar. Metsölulögin með Helenu Eyjólfsdóttur. Metsölulögin með Helenu er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytur Helena Eyólfsdóttir fjögur lög með Neó tríóinu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Leiðtogafundurinn í Höfða. Ronald Regan og Mikhaíl Gorbatsjev eftir síðasta fund þeirra í Höfða. Leiðtogafundurinn í Höfða var leiðtogafundur milli Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna sem haldinn var í Höfða 11. – 12. október 1986. Tilgangur fundsins var undirbúa fund leiðtoganna í Washington ári síðar en þar átti að ræða um takmörkun á vígbúnaði og deilu- og mannréttindamál. Um tíma kom til greina að halda fundinn á Hótel Sögu eða jafnvel Kjarvalsstöðum en þar hittust Pompidou forseti Frakklands og Nixon forseti Bandaríkjanna árið 1973. Viðbúnaður. Mikil öryggisviðbúnaður var við komu leiðtogana, sem dæmi má nefna að skotheldar bifreiðar voru fluttar til landsins, hús í nágrenni við Höfða voru rýmd á meðan á fundinum stóð og var eftirlit með farþegum til landsins hert en fundurinn var ákveðin með aðeins 10 daga fyrirvara. Í fylgdarliði leiðtogana voru alls um 400 manns en einnig heimsóttu um 1.000 blaðamenn landið vegna fundarins. Niðurstaða. Fundinum var slitið án niðurstöðu en þrátt fyrir það er talið að hann hafi gegnt gífurlega mikilvægu hlutverki í þróun afvopnunarmála og verið mikilvægur þáttur í undirritun INF-sáttmálans í desember 1987. Tígulkvartettinn - Ég bið að heilsa. Ég bið að heilsa er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytur Tígulkvartettinn "Ég bið að heilsa" og "Sólsetursljóð" við undirleik Jan Morávek, Sigurður Ólafsson syngur "Smaladrengurinn" og "Smalastúlkan" við undirleik Carl Billich og karlakórinn Vísir á Siglufirði syngur "Ég vil elska mitt land" við undirleik Emils Thoroddsen. Stjórnandi karlakórsins er Þormóður Eyjólfsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Helena Eyjólfsdóttir syngur metsölulögin frá Evrópu. Helena Eyjólfsdóttir syngur metsölulögin frá Evrópu er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni syngur Helena Eyjólfsdóttir fjögur erlend metsölulög við undirleik hljómsveitar Kjell Karlsen. Tekið er fram á plötuumslagi að sungið sé einraddað og tvíraddað. Mynd á forsíðu vísar í tvíröddunina. Platan er hljóðrituð í mono. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Óðinn Valdimarsson syngur fjögur lög. Óðinn Valdimarsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni syngur Óðinn Valdimarsson fjögur lög með hljómsveit Finns Eydal og Atlantic kvartettinum. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Forsíða: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Björnsson syngur jólasálma. Sigurður Björnsson syngur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni flytur Sigurður Björnsson fjögur lög með kvennakór undir stjórn Ragnars Björnssonar. Píanóleikari er Magnús Bl. Jóhannsson og Ragnar Björnsson leikur á orgel Dómkirkjunnar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Hebreska sjálfstjórnarfylkið. Hebreska sjálfstjórnarfylkið (á rússnesku: Еврейская автономная область), er í Rússneska sambandsríkinu og ein 83 eininga þess. Það liggur við Khabarovskfylki og Amúrfylki í austurhluta sambandsríkisins og við landamæri Heilongjiang héraðs í Kína. Fylkið er um 36,000 ferkílómetrar. Kortið sýnir legu Hebreska sjálfstjórnarfylkisins innan hins víðfeðma rússneska sambandsríkis Íbúar voru um 176.558 árið 2010 af ólíku þjóðerni en langstærstur hluti þeirra eru Rússar eða 93%. Önnur þjóðarbrot eru: Úkraínumenn 3% og Gyðingar um 1%. Höfuðstaður fylkisins er Birobidzhan með um 75 þúsund íbúa. Saga. Landsvæði var byggt upp rússneska keisaradæmið skipaði Amúr kósökkum að verja austurlandamæri Rússlands 1848. Þéttbýli jókst síðan þegar Síberíuhraðlestin var byggð upp á svæðinu til Vladivostok. Hebreska sjálfstjórnarfylkið var stofnað sem stjórnsýslueining innan Sovétríkjanna árið 1934 sem afleiðing af þjóðernistefnu Jósefs Stalíns. Gyðingum var þar úthlutað landsvæði innan í Sovétríkjanna til að stunda Jiddíska menningararfleifð sína innan hins sósíalíska kerfis. Árið 1939 bjuggu þar um 18.000 Gyðingar eða um 16% mannfjöldans. Hámarki náðu þeir 1948 þegar þeir voru um 30.000, eða um fjórðungur íbúa svæðisins. Árið 2002 voru þar einugis 1.628 gyðingar (1% mannfjöldans), en Rússar töldu um 92,7% íbúanna. Óðinn Valdimarsson syngur Einsi kaldi úr Eyjunum. Óðinn Valdimarsson syngur Einsi kaldi úr Eyjunum er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni syngur Óðinn Valdimarsson fjögur lög með Atlantic kvartettinum, þar á meðal hið vinsæla "Einsi kaldi úr Eyjunum". Kvartettinn skipuðu Finnur Eydal, saxófónn, klarinett, bongótromma, Ingimar Eydal, píanó, harmonika, Edwin Kaaber, gítar og Sveinn Óli Jónsson, trommur. Helena Eyjólfsdóttir lék á slagverk í tveimur laganna. Útsetning: Ingimar Eydal. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Lögin úr leikritinu Kardemommubænum. Kardemommubærinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni eru 13 lög úr sýningu Þjóðleikhússins á Kardemommubæ Thorbjörn Egner frá 1960. Þýðing var í höndum Helgu og Huldu Valtýsdætra, ljóðaþýðingu gerði Kristján frá Djúpalæk og leikstjóri var Klemens Jónsson. Hljómsveitarsjóri var Carl Billich og sögumaður Róbert Arnfinnsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmyndir á bakhlið: S. Vignir. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: ÞEGG. Flytjendur á plötu. Uppfærsla Þjóðleikhússins á Kardemommubænum 1960 varð feykivinsæl. Sýningar urðu alls 75 og um 46.000 manns sáu verkið. Ræningjana léku Ævar Kvaran, Baldvin Halldórsson og Bessi Bjarnason. Róbert Arnfinnsson lék bæjarfógetann, Emilía Jónasdóttir lék Soffíu frænku og Kamillu litlu lék Emilía Ólafsdóttir. Aðrir leikarar sem koma fram á plötunni eru Helgi Skúlason, Anna Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einarsson. Félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leika undir stjórn Carl Billich og barnakór og aðrir leikarar syngja með. Módena. Módena er næststærsta borg Emilía-Rómanja héraðsins á Ítalíu. Íbúar borgarinnar eru um 186 þúsund. Borgin er þekkt um allan heim fyrir bíliðnað en Ferrari og Maserati eru framleiddir þar. Hún er einnig þekkt fyrir matarhefð. Boðið upp í dans 1 - Barnadansar. Boðið upp í dans 1 - Barnadansar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytja barnakór og hljómsveit Magnúsar Péturssonar ellefu lög. Platan er gefin út í samstarfi við dansskóla Hermanns Ragnars og aftan á plötuumslagi stendur að barnasöngvarnir og dansarnir séu í réttu dans-tempói. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Lagalisti. Platan var pressuð í rauðum og svörtum lit. Guovdageaidnu. Guovdageaidnu (norska: "Kautokeino") er sveitarfélag í Finnmörku í Noregi, 9 704 km² að stærð og íbúarnir eru um það bil 2 927 (2012). Beðmál í borginni. Beðmál í borginni (e. Sex and the City) er bandarískur gaman-drama sjónvarpsþáttur sem búinn var til af Darren Star og framleiddur af HBO sjónvarpstöðinni. Þættirnir voru sýndir á árunum 1998 - 2004 og eru þættirnir alls 94. Í gegnum árin fengu þættirnir aðstoð frá fjölmörgum framleiðendum, handristhöfundum og leikstjórum, þá aðallega mest frá Michael Patrick King. Þættirnir eru teknir upp og gerast í New York borg og eru byggðir á samnefndri bók eftir Candace Bushnell. Þættirnir fylgjast með lífi fjögurra kvenna - þrjár þeirra eru á miðjum fertugsaldrinum og ein er á fimmtugsaldri - sem eru mjög ólíkar og lifa fjölbreyttu kynlífi en eru óaðskiljanlegar og trúa hverri annarri fyrir öllum sínum málum. Með aðalhutverkin fara Sarah Jessica Parker, Kim Cattrall, Kristin Davis og Cynthia Nixon og taka þættirnir á mikilvægum og nútímalegum vandamálum eins og kynhneigð, kynsjukdómum, öruggu kynlífi, lauslæti og kvenleika á meðan þær skoða muninn á vináttu og ástarsamböndum. Þættirnir hlutu bæði lof og gagnrýni fyrir umræðuefni og persónur, og gáfu af sér tvær kvikmyndir: "Sex and the City" (2008) og framhaldsmyndina "Sex and the City 2" (2010), ásamt þáttunum "The Carrie Diaries". Þeir unnu einnig 7 Emmy verðlaun í 54 tilnefningum, 8 Golden Globe verðlaun í 24 tilnefningum, og 3 SAG-verðlaun í 11 tilnefningum. "Beðmál í borginni" er enn sýndur um allan heim og hefur verið á lista Entertainment Weekly yfir bestu þætti síðasta áratugar og er á lista Time tímaritsins yfir 100 bestu sjónvarpsþætti allra tíma. Upphaf. Þættirnir voru að hluta til byggðir á samnefndri bók eftir Candace Bushnell sem var sett saman úr dálkum sem hún skrifaði í blaðið the New York Observer. Bushnell hefur sagt í nokkrum viðtölum að sú Carrie Bradshaw sem er í dálkunum sé hennar annað sjálf; þegar hún skrifaði "Sex and the City" notaði hún upphaflega sitt eigið nafn; en af öryggisástæðum bjó hún til persónuna Carrie Bradshaw, sem leikin er af Söruh Jessicu Parker. Carrie Bradshaw var rithöfundur sem bjó í New York borg. Carrie hefur einnig sömu upphafsstafi, sem er tenging við Bushnell. Carrie Bradshaw. Leikin af Söruh Jessicu Parker. Carrie Bradshaw talar yfir hvern þátt. Hver þáttur er byggður í kringum hugsanir hennar á meðan hún skrifar vikulegan dálk sinn, "Beðmál í borginni" (e. "Sex and the City"), fyrir tilbúna dagblaðið New York Star. Hún er meðlimur glyssamfélagsins í New York og sækir hún í að fara á klúbba/bari/veitingastaði og er þekkt fyrir einstakt tískuvit sitt. Carrie býr í eins herbergja íbúð í Efri Austur-hluta borgarinnar. Besti vinur Carrie fyrir utan vinkonurnar þrjár er Stanford Blatch sem leikinn er af Willie Garson og er samkynhneigður hæfileikaumboðsmaður. Carrie á í "haltu-mér-slepptu-mér" sambandi við Mr. Big (Chris Noth) sem heitir í rauninni John James Preston. Hann er ástæða fyrir mörgum áföllum Carrie og hann virðist aldrei vera fyllilega tilbúinn að bindast Carrie. Hann er fráskilinn þegar þættirnir hefjast og er sýndur sem framsækinn viðskiptamaður, mikill djass áhugamaður og mikið fyrir að reykja vindla. Þegar Carrie og Big hætta saman er húsgagnahönnuðurinn Aidan Shaw (John Corbett) næsti alvarlegi kærasti Carrie í þriðju þáttaröðinni. Aidan er hefðbundnari og þolinmóðari varðandi sambönd en margir aðrir kærastar Carrie. Aleksandr Petrovsky (Mikhail Baryshnikov) er frægur litamaður sem verður elskhugi Carrie í síðustu þáttaröðinni. Þrátt fyrir aldursmuninn tekst honum að heilla hana með rómantík og sýnir henni staði í New York sem hún hefur aldrei séð áður. Samantha Jones. Elsta og sjálfsöruggasta konan í hópnum, Samantha Jones (Kim Cattrall), er sjálfstæð viðskiptakona sem á sér feril í almannatengslum. Hún er örugg, sterk og hreinskilin og kallar sjálfa sig "try-sexual" (þ.e. hún mun prófa allt einu sinni). Samantha á fjöldann allan af einstaklega stuttum kynlífssamböndum í þáttunum, þ.á.m. lesbískt samband við listakonuna Mariu (Sônia Braga) og eitt með áhrifamanninum Richard Wright (James Remar). Jerry/Smith Jerrod (Jason Lewis) er ungur þjónn sem Samantha tælir í síðustu þáttaröðinni. Hann er mun yngri og vill verða leikari og vaknar ferill hans til lífsins þegar Samantha tekur að sér umboðsmál hans. Hann minnist á það að hann sé alkóhólisti og sæki AA-fundi. Hann sýnir Samönthu einnig mikla tryggð í sambandi þeirra. Charlotte York Goldenblatt. Charlotte York Goldenblatt (Kristin Davis vinnur í listagalleríi og var alin upp á venjulegu heimili í Connecticut. Hún er jákvæðust af konunum í hópnum og sú sem leggur mesta áherslu á tilfinningalega ást í stað losta. Charlotte er mjög rómantísk og er alltaf að leita að "riddaranum á hvíta hestinum." Charlotte var alltaf með hæstu einkunn þegar hún gekk í Smith-háskólann þar sem hún var meðlimur í Kappa Kappa Gamma systrafélaginu (það eru reyndar engin systrafélög í hinum raunverulega Smith háskóla) þar sem hún stundaði nám í listasögu og fjármálum. Í gegnum þáttaraðirnar kemur einnig fram að Charlotte var kosin heimkomudrottning, lokaballsdrottning, "sú allra vinsælasta", formaður nemendaráðs og fyrirliði hlaupaliðsins til viðbótar við að hafa verið virk klappstýra og unglingafyrirsæta. Trey MacDougal (Kyle MacLachlan) er aðlaðandi hjartalæknir sem býr á Park Avenue og hittir Charlotte í þriðju þáttaröð. Trey á stóra skoska fjölskyldu sem stjórnað er af ættmóðurinni "Bunny", stjórnsamri yfirþyrmandi konu sem flækir samband hans við Charlotte. Þegar samband þeirra endar hittir hún Harry Goldenblatt (Evan Handler), skilnaðarlögfræðingur sem er gyðingur, við byrjun fimmtu þáttarðar. Hún laðast ekki að honum í fyrstu en þau hefja ástarsamband sem að lokum leiðir til hjónabands. Miranda Hobbes. Framakona sem hefur stundum háðskar skoðanir á ástarsamböndum og mönnum. Miranda Hobbes (Cynthia Nixon) er lögfræðingur frá Harvard háskóla, frá Fíladelfíu og á tvö systkini. Miranda er oftast sú skynsama í hópnum. Í fyrstu þáttaröðunum er hún sýnd svolítið karlmannleg og köld, en þessi ímynd hennar mildast með árunum, sérstaklega eftir að hún verður ólétt og eignast barn. Söguþráður hennar skoðar oft þá erfiðleika sem hún lendir í sem einhleyp kona sem þarf að finna leið til að samræma krefjandi feril og móðurhlutverkið, stefnumót og ástarsambönd. Í þáttunum kaupir hún íbúð í Efri vesturhluta New York borgar og seinna heimli í Brooklyn. Steve Brady (David Eigenberg), er "haltu-mér-slepptu-mér" kærasti Miröndu í gegnum þættina eftir að vera kynntur til sögunnar í annarri þáttaröðinni. Hann er einn af fáum mönnum í þáttunum sem er stöðugur og er gott mótvægi við hina karlmennina sem eru mjög tilfinningalega óstöðugir, en hann er einnig mjög tilfinnngaríkur. Móðir hans, Mary Brady (Anne Meara), er alkóhólisti og kemur nokkrum sinnum við sögu í þáttunum. Joseph Luns. Joseph Marie Antoine Hubert Luns (28. ágúst 1911 – 17. júlí 2002) var hollenskur stjórnmálamaður, utanríkisráðherra Hollands 1952 til 1971 og síðar fimmti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Hann kom að minnsta kosti tvisvar í heimsókn til Íslands á vegum Atlantshafsbandalagsins, snemma á áttunda áratugnum. Boðið upp í dans 2 - Samkvæmisdansar. Boðið upp í dans 2 - Samkvæmisdansar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytur hljómsveit Magnúsar Péturssonar níu lög. Platan er gefin út í samstarfi við dansskóla Hermanns Ragnars og aftan á plötuumslagi stendur að samkvæmisdansarnir á plötunni séu í réttu dans-tempói. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Umslagið var hannað hjá Amatörverslunninni ljósmyndastofu. Platan var pressuð hjá AS Nera í Osló. Lagalisti. Platan var pressuð í grænum lit. Gamlar rímur. Gamlar rímur er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni flytur kvæðamaðurinn Kjartan Hjálmarsson tuttugu gamlar rímur. Dr. Hallgrímur Helgason skrifar umfjöllun um íslensk rímnalög á bakhlið plötuumslags. Platan er hljóðrituð í mono. Hún var tekin upp í Ríkisútvarpinu, hönnuð hjá Amatörversluninni ljósmyndastofu og pressuð hjá AS Nera í Osló. Barnaleikritið Mjallhvít og dvergarnir sjö. Mjallhvít og dvergarnir sjö er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Tónlist er eftir Maj Sønstevold, þýðingu gerði Björn Bragi Magnússon og sögumaður og leikstjóri er Róbert Arnfinnsson. Hljómsveitir Jóns Sigurðssonar og Maj Sønstevold leika. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Mynd á forsíðu gerði Pedro. Platan var pressuð hjá AS Nera í Osló. Fyrra hljóðdæmið er tekið af upphafi plötunnar þegar sögumaðurinn segir frá drottningunni, móður Mjallhvítar. Síðari hljóðdæmið gerist við lok verksins þegar Mjallhvít og prinsinn halda brúðkaup. Landafræði og ást - Vorkvöld í Reykjavík. Landafræði og ást - Vorkvöld í Reykjavík er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1960. Á henni syngja Ragnar Bjarnason og Anna María Jóhannsdóttir tvö lög við texta Sigurðar Þórarinssonar. Hljómsveit Svavars Gests spilar. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Umslagið var hannað hjá Amatörverslunninni ljósmyndastofu. Platan var pressuð hjá AS Nera í Osló. Spánarljóð - Jónas Jónasson. Spánarljóð - Kvöldljóð er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni leikur hljómsveit Svavars Gests tvö lög. Jónas Jónasson syngur "Spánarljóð" og Ragnar Bjarnason syngur "Kvöldljóð". Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Umslagið var hannað hjá Amatörverslunninni ljósmyndastofu. Platan var pressuð hjá AS Nera í Osló. Helena Eyjólfsdóttir - Bjartar stjörnur blika. Helena Eyjólfsdóttir: Bjartar stjörnur blika - Ég man það vel er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni syngur Helena Eyjólfsdóttir tvö lög með hljómsveit og kór Finns Eydal. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Umslagið var hannað hjá Amatörversluninni ljósmyndastofu. Platan var pressuð hjá AS Nera í Osló. Helena og Óðinn - Lögin úr Allra meina bót. Lögin úr Allra meina bót er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni syngur Helena Eyjólfsdóttir lögin "Það sem ekki má" og "Gettu hver hún er" og Óðinn Valdimarsson syngur "Augu þín blá", en þessi lög eru öll úr leikritinu "Allra meina bót" eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni. Einnig er "Bjórkjallarinn" fluttur á plötunni. Hljómsveit Finns Eydal leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Hljóðritun fór fram í Ríkisútvarpinu. Umslagið var hannað hjá Amatörverslunninni ljósmyndastofu. Platan var pressuð hjá AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason - Vorkvöld í Reykjavík. Vorkvöld í Reykjavík er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni syngur Ragnar Bjarnason tvö lög með hljómsveit Svavars Gests og lagið "Komdu í kvöld" með hljómsveit Birger Arudzen. Sigurdór Sigurdórsson syngur svo "Þórsmerkurljóð" með hljómsveit Svavars Gests. Platan er hljóðrituð í mono. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Vorkvöld í Reykjavík. Sigurður Þórarinsson / Evert Taube Boðið upp í dans 3 - Suður-amerískir dansar og jive. Boðið upp í dans 3 - Suður-amerískir dansar og jive er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni leikur hljómsveit Magnúsar Pétursson átta danslög. Platan er gefin út í samvinnu við dansskóla Hermanns Ragnars. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Boðið upp í dans 4 - Barnaleikir og barnadansa. Boðið upp í dans 4 - Barnaleikir og barnadansar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1961. Á henni leikur hljómsveit Magnúsar Pétursson tíu barnadansa. Platan er gefin út í samvinnu við dansskóla Hermanns Ragnars. Hhljóðritað í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Twistkvöld með hljómsveit Svavars Gests. Twistkvöld með hljómsveit Svavars Gests er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngja Ragnar Bjarnason og Helena Eyjólfsdóttir sex twist-lög með hljómsveit Svavars Gests. Lögin útsetti Magnús Ingimarsson. Finnur Eydal spilar á baritónsaxofón. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason syngur Nótt í Moskvu og Ship-o-hoj. Nótt í Moskvu og Ship-o-hoj er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngur Ragnar Bjarnason tvö lög með hljómsveit Svavars Gests. Hljómsveitina skipuðu auk Svavars, Magnús Ingimarsson, Reynir Jónasson, Gunnar Pálsson og Garðar Karlsson. Útsetning: Magnús Ingimarsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Prentun: ÞEGG. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen - Ömmubæn. Alfreð Clausen: Ömmubæn - Mamma mín er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngur Alfreð Clausen tvö lög með hljómsveit Jan Morávek og Tónalísum. Tónalísur voru þær Ingibjörg Þorbergs, Svala Nielsen og Sigríður Guðmundsdóttir. Útsetning: Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason - Heyr mitt ljúfasta lag. Heyr mitt ljúfasta lag - Vertu sæl mey er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngur Ragnar Bjarnason tvö lög með hljómsveit Svavars Gests. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Hvað er svo glatt. Hvað er svo glatt er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngja Alfreð Clausen og Sigrún Ragnars nokkur eldri lög við undirleik Jan Morávek. Platan er sú fyrsta af þremur plötum í röðinni "Tekið undir með Sigrúnu og Alfreð". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Morávek og hljómsveit ásamt barnakór flytja 14 barnalög. 14 barnalög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngja börn, meðal annars úr Landakotsskóla og Brákarborg, 14 barnalög með hljómsveit Jan Morávek. Jan útsetur lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Teikning á umslagi: Ó.T. Pressun: AS Nera í Osló. Vertu sæl mín kæra - Stafróf ástarinnar. Vertu sæl mín kæra - Stafróf ástarinnar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni syngur Ragnar Bjarnason með hljómsveit Svavars Gests lögin "Vertu sæl mín kæra" og "Stafróf ástarinnar". Magnús Ingimarsson útsetur lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Morávek og hljómsveit - 14 barnalög. 14 barnalög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngja börn, meðal annars úr Landakotsskóla og Brákarborg, 14 barnalög með hljómsveit Jan Morávek. Jan útsetur lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Teikning á umslagi: Ó.T. Pressun: AS Nera í Osló. Barnakór Landakotsskóla syngur. Barnakór Landakotsskóla er 45-snúninga hljómplata í útgáfuröð hjá Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni syngur barnakór Landakotsskóla undir stjórn séra George. Orgelleikari er Margrét Guðmundsdóttir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ekki er talið að platan hafi farið í almenna sölu. Alfreð Clausen og Sigrún Ragnars - Fyrr var oft í koti kátt. Fyrr var oft í koti kátt er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni syngja Alfreð Clausen og Sigrún Ragnars syrpu af eldri lögum við undirleik Jan Morávek en hann er einnig útsetjari. Platan er önnur af þremur plötum í röðinni "Tekið undir með Sigrúnu og Alfreð". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason og hljómsveit Svavars Gests - Fjögur limbó-lög. Limbó er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni syngur Ragnar Bjarnason með hljómsveit Svavars Gests fjögur limbó-lög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Savanna-tríóið. Platan Savanna-tríóið er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni flytur Savanna-tríóið fjögur lög. Tríóið skipa Troels Bendtsen, Björn Björnsson og Þórir Baldursson. Gunnar Sigurðsson leikur með tríóinu á bassa. Útsetningar: Þórir Baldursson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd: Rúnar Gunnarsson. Pressun: AS Nera í Osló. Ég man hverja stund - Skipstjóravalsinn. Ég man hverja stund - Skipstjóravalsinn er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1963. Á henni syngur Ragnar Bjarnason með hljómsveit lögin "Ég man hverja stund" og "Skipstjóravalsinn". Útsetning og hljómsveitarstjórn er í höndum Jørn Grauengård. Platan er hljóðrituð í Kaupmannahöfn. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Prentun: Þorgrímsprent. Pressun: AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason - Syrpa af vinsælum lögum. Syrpa af vinsælum lögum er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur Ragnar Bjarnason ásamt hljómsveit syrpu af þekktum lögum. Platan er hljóðrituð í Kaupmannahöfn. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Prentun: Þorgrímsprent. Pressun: AS Nera í Osló. Bjarni Björnsson - Gamlar minningar 1. Gamlar minningar 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur leikarinn Bjarni Björnsson gömul lög við undirleik Torfhildar Dalhoff og hljómsveit Elo Magnusson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka fór fram í Þýskalandi (1931) þar sem Torfhildur leikur undir og í Kaupmannahöfn (1937-8) með hljómsveit Elo. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Á plötunni sjálfri kemur fram heitið "Gullnar minningar 1". Bjarni Björnsson - Gamlar minningar 2. Gamlar minningar 2 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur leikarinn Bjarni Björnsson gömul lög við undirleik Torfhildar Dalhoff og hljómsveit Elo Magnusson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka fór fram í Þýskalandi (1931) þar sem Torfhildur leikur undir og í Kaupmannahöfn (1937-8) með hljómsveit Elo. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Á plötunni sjálfri kemur fram heitið "Gullnar minningar 2". Alfreð Clausen og Sigrún Ragnars - Hin gömlu kynni gleymast ei. Hin gömlu kynni gleymast ei er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni syngja Alfreð Clausen og Sigrún Ragnars syrpu af sígildum lögum með kór og hljómsveit undir stjórn Jan Morávek. Platan er sú þriðja og síðasta í röðinni "Tekið undir með Sigrúnu og Alfreð". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Prentun: Þorgrímsprent. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen og Tónalísur - Brúnaljósin brúnu. Alfreð Clausen er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni syngur Alfreð Clausen tvö lög með hljómsveit Jan Morávek og Tónalísum og tvö lög með hljómsveit Carl Billich. Tónalísur voru þær Ingibjörg Þorbergs, Svala Nielsen og Sigriður Guðmundsdóttir. Öll lög og textar á pötunni eru eftir Jenna Jónsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ragnar Bjarnason með hljómsveit Svavars Gests - Fjögur vinsæl lög. Ragnar Bjarnason með hljómsveit Svavars Gests er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur Ragnar Bjarnason fjögur lög með hljómsveit Svavars Gests. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Hljómsveit Svavars Gests, Anna Vilhjálms og Berti Möller - Heimilisfriður. Heimilisfriður - Ef þú giftist mér er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur hljómsveit Svavars Gests tvö lög ásamt söngvurunum Önnu Vilhjálms og Berta Möller. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Hljómsveit Svavars Gests, Anna Vilhjálms, Berti Möller og Elly Vilhjálms - Síldarstúlkurnar. Síldastúlkurnar er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur hljómsveit Svavars Gests fjögur ný lög eftir Oddgeir Kristjánsson ásamt söngvurunum Önnu Vilhjálms, Berta Möller og Elly Vilhjálms. Texarnir eru allir eftir Ása í Bæ. Útsetningu annaðist Magnús Ingimarsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Soffía og Anna Sigga. Alfreð Clausen og Konni flytja barnalög. 5 barnalög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytja Soffía Árnadóttir og Anna Sigga Þorgrímsdóttir (Soffía og Anna Sigga) þrjú lög með hljómsveit Árna Ísleifs og Alfreð Clausen og Konni (Baldur Georgs) flytja tvö lög með hljómsveit Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Savannatríó - Havah nageela. Platan Savanna-tríóið er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Þetta er seinni plata tríósins sem kom út hjá útgáfunni. Á henni flytur Savanna-tríóið fjögur lög. Tríóið skipa Troels Bendtsen, Björn Björnsson og Þórir Baldursson. Gunnar Sigurðsson leikur með tríóinu á bassa. Útsetningar: Þórir Baldursson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Ljósmynd á forsíðu Kristján Magnússon og á bakhlið Ingimundur Magnússon. Prentun: Öskjur og prent. Pressun: AS Nera í Osló. Ingibjörg Þorbergs - Hin fyrstu jól. Klukknahljóð - Hin fyrstu jól er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni flytur Ingibjörg Þorbergs tvö jólalög ásamt barnakór og hljómsveit. Ingibjörg samdi "Hin fyrstu jól" og útsetti bæði lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Hin fyrstu jól. Lagið samdi Ingibjörg að ósk Tage Ammendrup. Það var fyrsta jólalag sem var gefið út á Íslandi sem ekki var beinlínis sálmur. Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg, Í bæn hlýtur svölun brotleg sál og inn í fjárhúsið birtan berst, hún sefur með bros um hvarma. Og hjarðmaður birtist, um húsið allt í huga flytur hann himni þökk svo gerir hann krossmark, krýpur fram Alfreð Clausen - Kveðja sjómannsins. Kveðja sjómannsins - Heim er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni syngur Alfreð Clausen tvö lög með hljómsveit Jan Morávek. Lög og textar eru eftir Jenna Jónsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen - Suðræn ást og fleiri lög. Suðræn ást og fleiri lög er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1964. Á henni syngur Alfreð Clausen fjögur lög með Jan Morávek, hljómsveit og kór. Jan úsetti öll lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló. Helena Eyjólfsdóttir og Óðinn Valdimarsson - Manstu ekki vina. Helena Eyjólfsdóttir og Óðinn Valdimarsson er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1959. Á henni syngja Helena Eyjólfsdóttir og Óðinn Valdimarsson fjögur lög með Atlantic kvartettnum. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Snikkari. Snikkari (e. joiner, dk. Snedker, de. Tischler) er smiður sem vinnur með við og önnur efni. Hann vinnur oftast á verkstæði og síður á byggingarsvæðum. Snikkarar vinna oft við samsetningu á hurðum gluggum og öðrum innréttingum. Starfið og starfsheitið er ekki lögverndað. Iðnnám á síðustu 50 árum hefur þróast þannig að útskrifaðir sveinar úr húsasmíði, húsgagnasmíði og bólstrun hafa tekið yfir starf snikkara. Rómarsáttmáli um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana. Rómarsáttmáli um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana er alþjóðasamningur sem fjallar um grannréttindi höfundaréttar. Samningurinn var gerður af aðildarríkjum Alþjóðlegu hugverkaskrifstofunnar, forvera Alþjóða hugverkastofnunarinnar, 26. október 1961. Þetta var fyrsti alþjóðasamningurinn sem teygði höfundaréttarhugtakið til að ná yfir aðila sem ekki eru höfundar að verkinu heldur koma að framleiðslu þess og dreifingu með öðrum hætti. Ástæða þess að samningurinn var gerður var tækniþróun þar sem ný upptökutækni (eins og segulbandstæki) gerði afritun ódýrari og einfaldari en áður. Þetta kallaði að mati aðildarríkjanna á sterkari vernd fyrir flytjendur og dreifingaraðila. Grunnatriði samningsins eru að listflytjendur (tónlistarmenn, söngvarar, leikarar, dansarar o.s.frv.) þurfa að veita samþykki sitt fyrir því að flutningur þeirra sé tekinn upp, og sömuleiðis fyrir dreifingu slíks efnis ef upptaka var ekki gerð með þeirra samþykki, að framleiðendur hljóðrita geti bannað eða leyft afritun og útsendingu hljóðrita sem þeir búa til, að útvarpsstofnanir geti á sama hátt bannað eða leyft upptöku og endurvarp útsendinga þeirra. Lágmarkstímalengd réttarins er samkvæmt samningnum 20 ár. 26 aðildarríki undirrituðu sáttmálann í upphafi, þar á meðal Ísland. Nú eru 91 ríki aðilar að sáttmálanum. Árið 1971 var gerður nýr sáttmáli, Hljóðritasáttmálinn, sem kvað enn fastar að rétti tónlistarútgefenda til að bregðast við fjöldaframleiðslu tónlistar á segulbandsspólum án heimildar. Ísland hefur ekki undirritað þann samning. Menningarvernd. Menningarvernd er tilbrigði við hugverkarétt þar sem tilgangurinn er að búa til lagaleg skilyrði fyrir notkun verka sem hafa sérstakt menningarlegt gildi fyrir þjóð eða ríki. Einkenni menningarverndar eru að hún nær yfirleitt aðeins yfir tiltekinn flokk verka eða verk tiltekinna höfunda og hún er yfirleitt ótímabundin. Menningarverndarákvæði koma fyrir í lögum sem fjalla um hugverkarétt í ýmsum löndum, til dæmis í íslenskum höfundalögum 53. grein þar sem fjallar um tímalengd sæmdarréttar. Slík menningarvernd kemur líka fyrir í dönskum höfundalögum 75. grein sem fjallar um framlengingu réttarins ef menningarlegir hagsmunir krefjast þess. Í nokkrum löndum hefur verið notast við "domaine public payant"-kerfi, ýmist fyrir öll verk í almenningi eða bara verk þeirra höfunda sem teljast hafa sérstaka menningarlega þýðingu. Yfirleitt felst í því krafa um að útgefandi semji um útgáfu verksins við tiltekna stofnun sem getur verið á vegum ríkisins eða samtaka rétthafa. Menningarvernd getur líka verið útfærð með sérlögum. Lög um útgáfu fornrita frá 1941 eru dæmi um slík lög, en hæstiréttur Íslands dæmdi þau ógild 1944 á þeim forsendum að þau stönguðust á við prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Lög um menningararf og verndun fornminja, þar sem gerð eftirmynda eða afleiddra verka er takmörkuð, má líka skoða sem dæmi um menningarvernd. Domaine public payant. "Domaine public payant" (franska: „borgandi almenningur“) er kerfi þar sem útgefandi verks í almenningi semur við tiltekna stofnun um útgáfuna og greiðir tiltekinn hluta af tekjum af sölu verksins til hennar. "Domaine public payant" er þannig eins konar eilífur höfundaréttur þar sem rétturinn fellur til ríkisins eða samtaka rétthafa þegar hinn eiginlegi höfundaréttur fellur úr gildi. Franski ritstjórinn Pierre-Jules Hetzel átti hugmyndina að þessu kerfi um miðja 19. öld og stakk upp á því sem málamiðlun milli þeirra sem vildu gera höfundaréttinn eilífan (að hugverkaeign væri eins og hver önnur eign) og þeirra sem vildu takmarka réttinn við persónu höfundarins (að hann félli úr gildi við andlát höfundar eða skömmu eftir það). Með þessu kerfi gengju höfundagreiðslur fyrir verk eldri höfunda í sjóð sem hægt væri að nota til að styðja við bakið á upprennandi höfundum. Velgengni látinna höfunda væri þannig nýtt til að styðja unga höfunda og tryggt um leið að verk sem komin væru úr höfundarétti veittu ekki verkum núlifandi höfunda ósanngjarna samkeppni. Vinur og samstarfsmaður Hetzels, Victor Hugo, færði rök fyrir þessari hugmynd á alþjóðlega rithöfundaþinginu Congrès littéraire international 1878. Slíkt kerfi var útfært í höfundalögum ýmissa landa á 19. öld og var í gildi um lengri eða skemmri tíma en undir ólíkum nöfnum. Á Ítalíu var slíkt ákvæði t.d. kallað "diritto demaniale" (ríkisréttur) og var við lýði frá síðari hluta 19. aldar til ársins 1996. Tilgangurinn var þó oftar en ekki að gefa ríksvaldinu tækifæri til að stjórna bókaútgáfu í nafni menningarverndar, fremur en styðja við bakið á upprennandi rithöfundum. Þegar UNESCO hóf að skoða útfærslu 27. greinar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um menningarleg réttindi var "domaine public payant"-kerfið meðal þess sem stofnunin rannsakaði sem aðferð. Á þeim tíma var höfundaréttur útfærður á mjög ólíkan hátt milli landa og heimshluta. Eftir því sem Bernarsáttmálanum óx fiskur um hrygg á 20. öld dró úr þessari sérstöðu og ákvæði um "domaine public payant" duttu út í flestum Evrópuríkjum. Umræða um nauðsyn þess að skapa einhvers konar hugverkarétt fyrir þjóðmenningu og hefðbundna þekkingu frá því á 7. áratug 20. aldar hefur orðið til þess að ýmis þróunarlönd hafa sett slík ákvæði inn í sín höfundalög, ýmist fyrir öll verk í almenningi eða eingöngu alþýðileg verk sem teljast til menningararfs viðkomandi ríkis (þjóðlög, þjóðsögur o.s.frv.). Afleitt verk. Dæmi um afleitt verk sem byggist á samsetningu annarra verka. Afleitt verk er í hugverkarétti sjálfstætt hugverk sem byggir á einu eða fleiri öðrum verkum. Til afleiddra verka teljast þýðingar ritverka, útsetningar tónverka, útfærslur fyrir aðra miðla (t.d. kvikmynd byggð á bókmenntaverki), samantektir, safnverk o.s.frv. Til að teljast sjálfstætt verk sem nýtur hugverkaverndar þarf að felast í verkinu umbreyting upprunalega verksins. Umbreyting sem er sjálfvirk eða vélræn (t.d. dulritun, fjölföldun, stafsetningarleiðrétting) telst ekki nægjanleg til að skapa nýtt afleitt verk og rétturinn er því áfram aðeins upprunalegs höfundar. Oft getur verið erfitt að skera úr um það hvar þessi mörk liggja, þ.e. hvenær verk telst nýtt sjálfstætt verk og hvenær einungis er um afritun upprunalega verksins að ræða. Höfundur afleidda verksins eignast höfundarétt að því gefnu að hann raski ekki rétti rétthafa upprunalega verksins. Í því felst meðal annars að höfundur afleidda verksins verður að hafa fengið leyfi frá höfundi upprunalega verksins og verður að virða sæmdarrétt hans (til dæmis með því að geta hans sem höfundar upprunalega verksins) ef það verk er ekki í almenningi. Í höfundaréttarlögum sumra landa er sérstaklega tekið fram að höfundar sem byggja verk sín á alþýðuverkum (þjóðlögum, þjóðkvæðum o.s.frv.) njóti óskoraðs höfundaréttar að sínum verkum, en í höfundalögum annarra landa er farið með slík verk eins og önnur afleidd verk. Gagnagrunnsréttur. Gagnagrunnsréttur er hugverkavernd fyrir gagnagrunna. Gagnagrunnsréttur leiðir af höfundarétti (sem safnverk), af grannréttindum og af sérlögum og tilskipunum. Gagnagrunnsrétturinn nær til niðurröðunar efnis og er óháður höfundarétti þess efnis sem kann að vera geymt í gagnagrunninum. Í íslenskum höfundalögum er í 50. grein fjallað um „skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar“. Þessu ákvæði var bætt inn í lögin árið 2000 til að fullgilda Gagnagrunnstilskipun Evrópusambandsins frá 1996. Rétturinn gildir í 15 ár eftir að verk hefur birst almenningi í fyrsta sinn. Gagnagrunnsréttur er ekki til í Bandaríkjunum þar sem gagnagrunnar teljast ekki uppfylla skilyrði um verkshæð sem byggast á frumleika. Í Evrópu hefur hins vegar verið stuðst við rökin um að hafa unnið eitthvað verk „í sveita síns andlits“ („veruleg fjárfesting“) sem grundvöll gagnagrunnsréttinda. Vung Tau. Statue of Jesus on the summit of Small Mount in Vung Tau Vung Tau er sveitarfélag í sýslunni Ba Ria-Vung Tau í héraðinu Dong Nam Bo í Víetnam. Íbúar voru 303.454 árið 2011. Vungtauflugvöllur er tveimur kílómetrum fyrir norðan sveitarfélagið. Mihai Ghimpu. Mihai Ghimpu (fæddur 19. nóvember 1951) er moldóvskur stjórnmálamaður. Hann var forseti þings frá 28. ágúst 2009 til 30. desember 2010. Vlad Filat. Vladimir Filat (fæddur 6. maí 1969) er moldóvskur stjórnmálamaður og hefur verið forsætisráðherra Moldavíu frá 25. september 2009. Guðmundur G. Bárðarson. Guðmundur G. Bárðarson (3. janúar 1880 – 13. mars 1933) var íslenskur náttúrufræðingur, sem fæddist á Borg í Skötufirði en lést í Reykjavík, fimmtíu og þriggja ára að aldri. Foreldrar hans voru Guðmundur Bárðarson bóndi á Borg og Guðbjörg Sigurðardóttir. Hann ólst upp með föður sínum á Kollafjarðarnesi í Strandasýslu. Guðmundur var að mestu sjálfmenntaður í fræðum sínum. Hann nam við Menntaskólann í Reykjavík 1897 – 1901 en varð þá að hætta námi vegna heilsubrests. Hann giftist Helgu Finnsdóttur frá Kjörseyri 1906 og stóð þar fyrir búi í nokkur ár. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla 1909-1910 en vanheilsa hamlaði á ný lengra námi. Eftir heimkomuna stundaði hann náttúrurannsóknir, einkum jarðfræði, af kappi samhliða búskapnum á Kjörseyri. Árið 1921 fluttist hann til Akureyrar og gerðist kennari í náttúrufræði við gagnfræðaskólann þar en árið 1926 var hann ráðinn til kennslu í náttúrufræði við Menntaskólann í Reykjavík. Þar starfaði hann samhliða jarðfræðirannsóknum sínum til æviloka. Hann athugaði skeldýrafánu Íslands, bæði þau dýr sem lifa við strendur landsins í dag en einnig fornskeljar og steingervinga í jarðlögum. Hann rannsakaði nákuðungslögin við Húnaflóa og Tjörneslögin. Eitt þekktasta ritverk Guðmundar er Ágrip af jarðfræði sem var kennd um áratugaskeið í öllum menntaskólum landsins. Einnig skrifaði hann fjölmargar greinar í blöð og tímarit. Hann stofnaði ásamt Árna Friðrikssyni tímaritið "Náttúrufræðinginn", sem enn kemur út. Hann var einn af stofnendum Vísindafélags Íslendinga og mikill frumkvöðull í fuglamerkingum. Plöntufruma. Utan um frumuhimnu plöntufruma er veggur úr sellulósa (beðmi). Frumuveggurinn gefur plöntufrumunni fasta lögun. Í miðri plöntufrumunni er stór safabóla sem er fyllt vökva eða frumusafa. Vegna þessarar stóru safabólu þrýstist umfrymið að jöðrum frumunnar og kjarninn er því oftast út við frumuhimnuna. Til eru plöntufrumur sem hafa kjarnann í miðri safabólunni og er hann þá skorðaður með grönnum umfrymisþráðum. Í umfrymi plöntufruma eru mjölvakorn. Þau geyma mjölvann sem er næringarforði plöntufrumunnar. Margar plöntufrumur hafa grænukorn. Grænukornin innihalda litarefni sem nefnist laufgræna (chlorophyll). Laufgrænan drekkur í sig ljós og virkjar orku þess til að nýmynda lífrænt efni úr koltvíoxíði og vatni. Ferlið nefnist ljóstillífun. Úrgangsefni ljóstillífunar er súrefni. Grænukorn finnast aðeins í grænum hlutum plantna sem birta fellur, þau vantar í rætur og önnur neðanjarðarlíffæri. Íslenskt táknmál. Íslenskt táknmál er táknmál notað af heyrnarlausu fólki á Íslandi. Það er skylt danska táknmálinu. 27. maí 2011 varð það viðurkennt sem fyrsta tungumál heyrnarlausra. 2006 var gerður samanburður á orðaforða íslenska táknmálisins við danska táknmálið til þess að finna skyldleika málanna. Niðurstaðan var að þó málin væru vissulega skyld, voru 37% af táknunum ólík í uppbyggingu og þar að auki væru 16% táknanna svipuð, en ólík í handformi, staðsetningu, hreyfingu eða afstöðu. Öldusótt. Öldusótt ("brucellosis") er smitandi bakteríusýking. Hann berst á milli dýra en getur einnig borist frá dýri til manna og er helsta smitleiðin ógerilsneyddar mjólkurvörur og kjöt. Helstu einkenni hjá mönnum meðal annars sótthiti, höfuðverkur og geðlægð. Sjúkdómsvaldurinn eru ýmsar tegundir bakteríuættkvíslarinnar "Brucella", en það eru smáar, ókvikar, Gram-neikvæðar bakteríur af flokki "Alphaproteobacteria". Öldusótt er tilkynningaskyldur smitsjúkdómur. Jóhannes Áskelsson. Jóhannes Áskelsson (3. ágúst 1902 – 16. janúar 1961) var íslenskur jarðfræðingur, fæddur að Austari-Krókum í Fnjóskadal. Foreldrar hans voru Áskell Hannesson og Laufey Jóhannesdóttir sem lengi bjuggu á Skuggabjörgum í Dalsmynni. Jóhannes lauk stúdentsprófi frá MR 1925 og innritaðist veturinn eftir í Hafnarháskóla og hóf nám í náttúrufræðum með jarðfræði sem sérgrein. Hann aflaði sér góðrar menntunar en lauk þó aldrei prófi. Árið 1931 sneri hann heim og gerðist kennari í náttúrufræði fyrst við Kennaraskólann og fleiri skóla en starfaði þó lengst við MR og var yfirkennari þar frá 1950 og til dauðadags. Með kennslustörfunum og í frístundum sínum stundaði Jóhannes,jarðfræðiathuganir, einkum steingervingarannsóknir en kom þó miklu víðar við. Hann fylgdist til dæmis með Grímsvatnagosinu 1934 og fór með Guðmundi frá Miðdal til gosstöðvanna meðan gosið var enn í fullum gangi. Urðu þeir fyrstir manna á vettvang. Á næstu árum fór hann margar ferðir í Grímsvötn og skrifaði greinar um eldvirknina og hlaupin sem þar eiga upptök sín. Einnig rannsakaði hann Grænalón og Grænalónshlaup, jarðsögu Kerlingarfjalla og steingervinga á Tjörnesi. Á seinni árum sínum stundaði hann einkum rannsóknir á Snæfellsnesi og ritaði um skelja- og steingervingalögni í Brimlárhöfða. Ein af síðustu ritgerðum Jóhannesar fjallar um skeljar í móbergi í Skammadal í Mýrdal sem hann kannaði ásamt Einari H. Einarssyni bónda á Skammadalshóli. Jóhannes var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags 1942-1945 og 1958-1960. Hann var ritstjóri Náttúrufræðingsins 1942 – 1945 og meðlimur í Vísindafélagi Íslendinga frá 1940. Magnús Bjarnfreðsson. Magnús Bjarnfreðsson (9. febrúar 1934 – 30. ágúst 2012) var einn fyrsti sjónvarpsfréttamaðurinn sem birtist í íslensku sjónvarpi. Hann vann að undirbúningi að stofnun sjónvarps Ríkisútvarpinu árið 1966 og var frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá stofnuninni í mörg ár. Magnús fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann var sonur hjónanna "Bjarnfreðar Ingimundarsonar" og "Ingibjargar Sigurbergsdóttir", en ólst upp hjá fósturforeldrum, "Páli Pálssyni" og "Magneu Magnúsdóttur" í Efri-Vík í Landbroti. Hann var sextándi í röð 21 systkina. Magnús gekk í barnaskóla í Þykkvabæ í Landbroti og á Kirkjubæjarklaustri, stundaði síðan nám við ML og MR og háskólanám í Þýskalandi. Þá vann hann sem blaðamaður á "Fálkanum", "Frjálsri þjóð" og "Tímanum". Magnús varð þjóðkunnur í Ríkisútvarpinu, fyrst sem þulur í útvarpi, en síðar sem frétta- og dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi. Magnús hætti í sjónvarpsfréttum þegar hann gerðist bæjarfulltrúi í Kópavogi árið 1974 og starfaði hin seinni ár að almannatengslum. Eiginkona hans er "Guðrún Árnadóttir" og áttu þau þrjú börn; Árna Magnússon (1965), Pál Magnússon (1971) og "Ingibjörgu Magnúsdóttur" (1973). Magnús átti einn son, "Guðjón Magnússon" (1960) með fyrri konu sinni, "Bryndísi Friðbjörgu Guðjónsdóttur". Björn Finnbjörnsson. Björn Finnbjörnsson var íslenskur borðtennispilari sem lék með borðtennisfélaginu Erninum. Hann vann sex titla á ferli sínum. Með félagi sínu vann hann 1. deild karla 1973 og 1974. Hann vann meistaraflokk karla 1971 og 1972, tvenndarleik karla ásamt Jóni A. Karlsyni 1973 og loks tvenndarkeppni ásamt Elísabetu Simsen 1972. Hann tók þátt í fyrsta Reykjavíkurmeistaramótinu í borðtennis 26. – 27. apríl 1971. Hann og Ólafur Garðarson tryggðu sér fyrsta sæti og þurftu að leika úrslitaleik sín á milli sem Björn vann. Á sama ári 6. – 7. nóvember 1971 var hann fyrirliði íslenska borðtennislandsliðsins á Norðurlandameistaramótinu í Osló. Liðið þurfti að fá undantekningu frá alþjóðasambandinu til að taka þátt því ekki var búið að stofna borðtennisamband á Íslandi. Allir leikir íslenska landsliðsins töpuðust á mótinu. Borðtennisfélagið Örninn. Borðtennisfélagið Örninn er íslenskt borðtennisfélag sem var stofnað 23. apríl 1970. Tveimur árum síðar, 1972 var félagafjöldinn orðinn 100 og þá var keypt vélmenni sem skýtur út borðtennisboltum. Heimavöllur félagsins var þá í Laugardalshöllinni. Félagið vann efstu deild karla og kvenna þrisvar, þar sem karlaliðið vann árin 1973, 1974 og 1975 en kvennaliðið vann árin 1976, 1977 og 1983. Jón Arnar Magnússon. Jón Arnar Magnússon (fæddur 28. júlí 1969 í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu) er íslenskur fyrrverandi frjálsíþróttamaður. Hann er íslandsmethafi í 110 metra grindarhlaupi, langstökki, tugþraut og 300 metra hlaupi. Hans fyrsta keppni var unglingakeppni Frjálsíþróttasambandsins 1985 þar sem vann til verðlauna í öllum greinum nema einni. 1988 hlaut hann 6975 stig á norðurlandameistaramótinu í Norrtälje í Svíþjóð og varð norðurlandameistari í tugþraut. Ári síðar fékk hann fimm gullverðlaun í flokki 15-22 ára á íslandsmeistaramótinu í Reykjavík og á Laugarvatni. Hann keppti á meistaramótinu í frjálsum innanhúss í Reiðhöllinni 23. janúar 1989 en sat fastur deginum fyrir keppni á Hellisheiði vegna óveðurs. Hann sigraði í 50 metra hlaupi karla á mótinu. Á norðurlandamótinu í tugþraut unglinga í Tårnby, Danmörku neyddist hann til að hætta keppni eftir að hann meiddist á ökkla í stangastökki. Hann fékk skólastyrk fyrir námi við háskólann í Monroe, Lusiana. Í janúar 1993 skrifaði hann undir samning við Tindastól um að hann myndi æfa með félaginu næsta vor þegar hann myndi ljúka námi. Ólympíuleikarnir í Atlanta 1996 voru fyrstu ólympíuleikarnir sem hann tók þátt í. Þar fékk hann 8.274 stig og setti þarmeð íslandsmet í stigagjöf. Hann lenti í 12. sæti í tugþraut á mótinu. Í kjölfarið fékk hann 80 þúsund krónur á mánuði í styrk frá frjálsíþróttasambandinu og var kosinn íþróttamaður ársins í annað sinn í röð. 2007 hætti hann keppni í frjálsíþróttum. Sigfús Halldórsson syngur og leikur. Sigfús Halldórsson syngur og leikur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni leikur og syngur Sigfús Halldórsson tvö laga sinna; "Litlu fluguna" við ljóð Sigurðar Elíassonar og "Tondeleyo" við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Litla flugan. Þó að lagið "Tondeleyo" hafi fallið í góðan jarðveg féll það nokkuð í skuggann af fádæma vinsældum "Litlu flugunnar". Lagið "Litla flugan" náði strax almannahylli þegar Sigfús Halldórsson flutti það í útvarpsþætti Péturs Péturssonar „Sitt af hverju tagi“ í byrjun árs 1952. Gefnar voru út nótur með laginu, það var flutt á ýmsum samkomum og stöðug eftirspurn var eftir "Litlu flugunni" í óskalagaþáttum Útvarpsins. Tage Ammendrup taldi að lagið ætti tvímælalaust erindi á hljómplötu og fann fyrir mikilli eftirspurn. Í apríl 1952 fóru fram í Ríkisútvarpinu upptökur með Sigfúsi Halldórssyni á "Litlu flugunni", "Tondeleyo", "Í dag" og "Við vatnsmýrina" fyrir Íslenzka tóna (IM 2 og IM 7). Prufuplötur bárust frá Noregi í júní en plöturnar sjálfar voru væntanlegar með haustinu. Töf varð á sendingunni og plöturnar fóru ekki í sölu í Drangey fyrr en 21. desember, meðal annars vegna verkfalls sem hafði áhrif á allan innflutning til landsins. Í "Alþýðublaðinu" 20. desember er viðtal við Sigfús þar sem hann er nýkominn frá Osló og Kaupmannahöfn. Hann ræðir um að Litla flugan hafi verið leikin í danska útvarpinu og víða á samkomustöðum í Kaupmannahöfn. Á sömu síðu í blaðinu er síðan umfjöllun um að verkfalli hafnarverkamanna hafi lokið þennan dag og því hæfist afferming 23 skipa, þar á meðal á vörum úr Gullfossi en þar beið einmitt "Litla flugan" þess að komast í almenna dreifingu fyrir jólin. Í sömu lest var einnig önnur plata Sigfúsar (IM 7) með lögunum "Í dag og Við vatnsmýrina". Í blaðaviðtali við Sigfús í janúar 1954 er hann spurður um hvaða lag hans hafi náð mestum vinsældum. Hann svarar að það sé vafalítið "Litla flugan" „sem ég held ég megi segja að hafi verið á hvers manns vörum. Það eru ekki sízt börnin, sem hafa haldið því lagi vakandi og mér liggur við að segja að margur heimilisfaðirinn hafi bölvað mér fyrir það lag, því ekki var friður fyrir krökkunum, sem voru síraulandi þetta heima jafnt og á götunum“. Sigfús nefnir í sama viðtali að "Litla flugan" hafi verið sungin á norsku inn á plötu í Noregi og þar hafi verið á ferðinni Jens Book-Jenssen, sem þá var einn kunnasti dægurlagasöngvari Norðmanna. Kurt Foss og Reidar Böe sungu lagið og erlendir söngvarar sem héldu tónleika hér á þessum árum tóku gjarnan "Litlu fluguna" á efnisskrá sína. Má þar nefna Snoddas og Alma Coogan. Ljóðið Litla flugan. Sigfús gerði lagið við ljóð Sigurðar Elíassonar, tilraunastjóra á Reykhólum. Í endurminningum Sigurðar kemur fram að Sigfús hafi fundið ljóðið samanbrotið í bók Sigurðar og litist vel á það. Sigurður taldi tormerki á því að Sigfús semdi lag við ljóðið en samþykkti það þó með því skilyrði að hann gerði lagið á innan við tíu mínútum. Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested syngja. Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lagið "Kvöldkyrrð" og Sigurður og Sigurveig Hjaltested syngja saman lagið "Blikandi haf". Útsetning og hljómsveitarstjórn var í höndum Carl Billich. Hljómsveitina skipuðu auk Billich, Josef Felzmann, fíðla, Bragi Hlíðberg, harmonika, Trausti Thorberg, gítar og Einar B. Waage, bassi. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Sylwia Grzeszczak. Sylwia Grzeszczak (fædd árið 1989 í Poznań) er pólsk söngkona. Hún hefur gefið út tvær breiðskífur ásamt sex smáskífum frá þessum plötum. Fyrstu hjlómplötuna gaf hún út í samvinnu við pólska söngvarann Liber. Sólóplatan hennar sem kom út árið 2011 seldist mjög vel eftir að smáskífurnar „Małe rzeczy“ og „Sen o przyszłości“ náðu báðar fyrsta sæti á pólska topplistanum. Svavar Lárusson og Monti-tríóið. Svavar Lárusson og Monti-tríóið er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með Monti-tríóinu. Platan er hljóðrituð í Stuttgart í Þýskalandi. Pressun: AS Nera í Osló. Sérkenni. Plata þessi er sérstök því á henni er notað Hammond orgel í fyrsta sinn á íslenskri plötu ásamt því að notast er við bergmál og aðra hljóðeffekta. Monti-tríóið þýska sem lék með Svavari Lárussyni á plötunni. Alfreð Clausen með kvartett Aage Lorange. Alfreð Clausen með kvartett Aage Lorange er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Þú, þú, þú" og "Ég bið þín" við undirleik kvartetts Aage Lorange. Kvartettinn skipuðu auk Aage, Þorvaldur Steingrímsson sem spilaði á fiðlu, Ólafur Pétursson sem lék á harmoniku og Einar B. Waage bassaleikari. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Auglýsing. Auglýsing í Morgunblaðinu vegna útkomu plötunnar. Soffía Karlsdóttir með tríói Aaage Lorange. Soffía Karlsdóttir með tríói Aage Lorange er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Soffía Karlsdóttir lögin "Það er draumur að vera með dáta" og "Það sést ekki sætari mey" með tríói Aage Lorange. Aage leikur á píanóið, Þorvaldur Steingrímsson á fiðlu og Paul Bernburg á trommur. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Umfjöllun um lagið "Það er draumur að vera með dáta". Þó að lagið "Það er draumur að vera með dáta" hafi náð miklum vinsældum sýndist sitt hverjum um innihald ljóðsins, en lagið var fyrst sungið í revíunni "Hver maður sinn skammt" frá 1941. Alfreð Clausen syngur með Carl Billich. Alfreð Clausen syngur með Carl Billich er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Góða nótt" og "Ég minnist þín" við undirleik Carl Billich. Plötumiðar voru grænir á plötunni sem gaf til kynna að um léttklassísk lög væri að ræða. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Söngvarinn. Alfreð Clausen söng mörg vinsæl lög inn á plötur fyrir Íslenzka tóna. Ingibjörg Þorbergs syngur með hljómsveit Carl Billich. Ingibjörg Þorbergs syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Ingibjörg Þorbergs lögin "Móðir mín" og "Pabbi minn" við undirleik hljómsveitar Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ingibjörg Þorbergs syngur á ensku. Ingibjörg Þorbergs syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Ingibjörg Þorbergs lögin "Trying" og "Oh, my papa" við undirleik hljómsveitar Carl Billich. Í hljómsveitinni voru Vilhjálmur Guðjónsson, Trausti Thorberg og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Marz-bræður syngja. Marz-bræður syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur söngkvartettinn Marz-bræður tvö lög ásamt tríói Eyþórs Þorlákssonar. Marz-bræður voru þeir Magnús Ingimarsson, Ásgeir Sigurðsson, Sigurður Sívertsen og Vilhjálmur B. Vilhjálmsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Lagalisti. Marz bræður voru kynntir sem fyrsti íslenski „swing”-kvartettinn. Hér má sjá auglýsingu í Mánudagsblaðinu, 28. júní 1954. Clara Zetkin. Clara Zetkin (f. 5. júlí 1857, d. 20. júní 1933) var er þýskur stjórnmálamaður og kommúnisti. Zetkin er þekkt fyrir að búa til „alþjóðlegan baráttudag kvenna“, sem er haldinn hátíðlegur 8. mars ár hvert. Zetkin var einnig einn af leiðtogum kommúnistaflokks Þýskalands ásamt Rósu Luxemburg og Karli Liebknecht. Alfreð Clausen og Konni. Alfreð Clausen og Konni er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Alfreð Clausen tvö lög með Baldri Georgs Takács í gervi trébrúðunnar Konna. Kvartett Jan Morávek leikur undir. Í honum voru auk Jan, Gunnar Sveinsson, Eyþór Þorláksson og Pétur Urbancic. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Baldur og Konni. Baldur Georgs Takács þýðandi, kennari, töframaður og búktalari hóf samstarf við brúðuna Konna árið 1945. Þeir skemmtu víða við góðar undirtektir, meðal annars í Tívolíinu í Vatnsmýrinni á árunum 1947-1960, á miðnæturskemmtunum Hljómplötunýjunga í Austurbæjarbíói, í Tívolí í Kaupmannahöfn og á Dyrehavsbakken. Einnig skemmtu þeir í sjónvarpi á upphafsárum þess og birtust eftirminnilega eftir langt hlé í kvikmyndinni "Með allt á hreinu". Þeir félagar komu við sögu á fimm hljómplötum. Konni er varðveittur á Þjóðminjasafninu. Alfreð og Konni í Austurbæjarbíói. Alfreð Clausen og Konni á miðnæturskemmtun Hljómplötunýjunga í Austubæjarbíó 1954. Bárðardalshraun. a> fellur út af jaðri Bárðardalshrauns við Fosshól. a> fellur fram af Bárðardalshrauni þar sem það leggst upp að eldra bergi. Stuðlarnir eru í neðri hluta hraunsins. Bárðardalshraun þekur botn Bárðardals allt ofan frá svokölluðum Skafeyrum og niður að Ullarfossi. Flestir bæir í dalnum standa á hrauninu eða við jaðar þess. Eldvörp eða upptakagígar Bárðardalshrauns eru ekki þekktir með neinni vissu. Eitt sinn var talið að hraunið væru frá Trölladyngju en berggerðin sýnir að svo er ekki. Trölladyngja er yngri og hraun hennar hylja Bárðardalshraun á stóru svæði. Nú er talið að hraunið sé komið frá gígaröð við Jökulsá á Fjöllum austan við Trölladyngju sem Gígöldur nefnast. Lítt ber þó á gíglögun á eldvörpunum sem öll eru upp brotin, sundurtætt og sandblásin. Gígöldur tilheyra goskerfi Bárðarbungu líkt og Tungnárhraunin og þar með Þjórsárhraunið mikla. Dílasamsetning og útlitseinkenni Bárðardalshrauns eru áþekk því sem er í Tungnárhraunum. Uppi á hálendinu er Bárðardalshraun víðast hulið yngri hraunum og gosmyndunum. Það kemur í ljós þar sem það kemur út undan svokölluðu Fellsendahrauni sunnan við Suðurárbotna í Ódáðahrauni. Frá nyrstu tungum Fellsendahrauns má rekja Bárðardalshraunið niður með Suðurá og það er kennt við hana á þessum slóðum og nefnist Suðurárhraun. Víða er það úfið á yfirborði en helluhraunsflákar eru hér og hvar. Það hefur flætt niður í Bárðardal á tveimur stöðum, sitt hvoru megin Skafhóla. Aðalstraumurinn kom norðan Skafhóla og rann upp að Hrafnabjörgum vestan Skjálfandafljóts. Þá sveigði hraunið niður dalinn og fyllti hann hlíða á milli. Stuðlabergsumgjörðin í kring um Aldeyjarfoss er gerð úr hrauninu og Goðafoss fellur út af hraunjaðrinum. Hrauntota teygir sig inn í mynni Ljósavatnsskarðs og við Ljósavatn hafa myndast gervigígar í því. Utan við Fosshól dregst hraunið saman enda mjókkar dalurinn þar. Þingey í Skjálfandafljóti, sem Þingeyjarsýslur eru kenndar við, er í ysta hluta hraunsins. Eyjan endar í samfelldri hraunbrún sem liggur á ská yfir dalinn frá gljúfrinu neðan við Barnafoss, um Ullarfoss og að undirhlíðum Fljótsheiðar þar utan við. Hraunbrúnin er 10–30 m há og er öll meira og minna vatnssorfin eftir fljótið. Bárðardalshraun er í hópi 10 stærstu hrauna landsins. Það er talið 444 km² að flatarmáli og um 8 km³. Það er talið vera um 9000 ára. Raddað tvívaramælt önghljóð. Raddað tvívaramælt önghljóð er samhljóð sem er að finna í nokkrum tungumálum. Hljóðið er táknað af [β] í alþjóðlega hljóðstafrófinu. Mini. Mini er lítill smábíll sem framleiddur var af British Motor Corporation (BMC) og arftökum þeirra frá 1959 til 2000. Bíllinn er talinn tákn um breska menningu frá sjöunda áratugnum. Hönnun hans hafði áhrif á heila kynslóð bílahönnuða. Mini er framdrifinn sem sparar pláss þannig að 80% flatarmáls gólfsins má nota fyrir farþega og farangur. Sumir telja bílinn breska útgáfu af Volkswagen Bjöllu sem var jafn vinsæl og Mini í Norður-Ameríku. Árið 1999 var Mini kosinn annar áhrifamesti bíll 20. aldar en í fyrsta sæti var Ford T. Bílahönnuðurinn Alec Issigonis teiknaði bílinn fyrir BMC en hann var framleiddur í verksmiðjum í Longbridge og Cowley á Englandi og í Sydney í Ástralíu og seinna í öðrum löndum. Þrjár nýjar útgáfur af Mini voru framleiddar og seldar á Englandi og voru ýmsar gerðir af þessum útgáfum, þar á meðal skutbíll, pallbíll, vörubíll og jeppi. Auk þessara gerða voru Mini Cooper og Cooper „S“ útgáfurnar, sem báðar voru sportbílar og vinsælar í rallakstri. Í fyrstu var Mini seldur undir merkjunum Austin og Morris en síðar varð Mini sér merki. Hann var seldur aftur undir merkinu Austin á níunda áratugnum. Rúsína. a> í vínberjum kristallast við þurrkun Rúsínur eru þurrkuð vínber. Rúsínur eru framleiddar víða um heiminn en þær má borða hráar eða nota í matreiðslu. Orðið „rúsína“ á rætur að rekja til franska orðsins "raisin" sem þýðir „vínber“, en á frönsku er rúsína kölluð "raisin sec" sem þýðir „þurrkað vínber“. Franska orðið á rætur að rekja til latneska orðsins "racemus" sem þýðir „vínberjaklasi“. Oftast eru rúsínur sólþurrkaðar en stundum eru þær settar í vatn og svo er vatninu náð úr þeim. Rúsínur eru í flestum tilfellum framleiddar úr steinlausum vínberjum þannig að engir steinar verði í rúsínunum. Rúsínur innihalda 60–70% ávaxtasykur ásamt steinefnum og trefjum. Viðurkennt er að rúsínur valda vindgangi. Hailemariam Desalegn. Hailemariam Desalegn forsætisráðherra Eþíópíu, eins fjölmennasta lands Afríku Hailemariam Desalegn (fæddur 19. júlí 1965) er eþíópískur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Eþíópíu frá 20. ágúst 2012. Hann hafði áður gengt hefur stöðu staðgengil forsætisráðherra og utanríkisráðherra í ríkisstjórninni frá 2010. Hann verður forsætisráðherra fram að kosningum 2015.Hann er fyrsti forystumaður í ríkisstjórn Eþíópíu sem er mótmælendatrúar. Upphafsár. Hailemariam fæddist árið 1965 í Boloso Sore héraði Suður-Eþíópíu. Hann er af þjóðflokki Welayta sem aðallega byggja Suður-Eþíópíu. Þar lærði hann og varði stærstum hluta æsku sinnar. Árið 1988 útskrifaðist hann í byggingarverkfræði frá Háskólanum í Addis Ababa. Hann starfaði síðan í tvö ár sem aðstoðarmaður við Arba Minch rannsóknarháskólann. Hann hlaut námsstyrk til að sækja meistaranám í verkfræði við Tækniháskólann í Tampere í Finnlandi. Að námi loknu snéri hann aftur til Eþíópíu og starfaði við ýmis fræðileg verkefni og stjórnunarleg. Hann var forseti Vatnstæknistofnunarinnar við Araba Minch í 13 ár. Þá sótti hann einnig leiðtoganám í Azusa Pacific University, í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Stjórnmálaþátttaka. Í lok síðustu aldar hóf hann þátttöku í stjórnmálum sem er aðili að Lýðræðislegri byltingarhreyfingu Eþíópa (EPRDF) sem er stjórnarflokkurinn. Hann varð varaforseti SNNPR sem er eitt sambandslýðvelda Eþíópíu (2000–2002); og forseti þess frá 2002 til 2006. Árið 2010 var hann gerður að staðgengli forsætisráðherra og utanríkisráðherra Hann var kjörinn á eþíópíska þingið árið 2005. Hann gegndi síðan ýmsum trúnaðarstörfum fyrir forsætisráðherrann, meðal annars í félagsmálum. Hann veitti aganefnd stjórnarflokksins forstöðu. Þá var hann í framkvæmdastjórn EPRDF og varaformaður frá 2010. Alfreð Clausen syngur með Hljóma-tríóinu. Alfreð Clausen syngur með Hljóma-tríóinu er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Blítt og létt" og "Hreyfilsvalsinn" með Hljóma-tríóinu. Tríóið skipuðu þeir Jenni Jónsson sem lék á trommur og harmonikkuleikararnir Ágúst Pétursson og Jóhann Eymundsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen syngur með hljómsveit Josef Felzmann. Alfreð Clausen syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Minning" og "Lindin hvíslar" með hljómsveit Josef Felzmann. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Volkswagen Bjalla. Volkswagen Bjalla er smábíll sem framleiddur var af þýska bílaframleiðandanum Volkswagen frá 1938 til 2003. Yfir 21 milljónir eintaka hafa verið framleiddar á þessum tíma. Bjallan er afturdrifin og vélin er loftkæld. Hún er mest framleidda bílategundin í heimi en smá breytingar hafa verið gerðar á hönnun hennar. Ný tegund af bílnum kom út árið 1997 en hún hét Volkswagen New Beetle og var seld til ársins 2011. Árið 2011 kom önnur ný tegund út sem byggð var á upprunalegu hönnun Bjöllunnar. Þegar bíllinn var fyrst framleiddur var hann seldur sem „Volkswagen“ en bráðum varð hann þekktur sem "Käfer" „bjalla“ í Þýskalandi. Svo var byrjað að selja hann undir þessu nafni. Í mörgum löndum er hann þekktur sem "Beetle" „bjalla“ eða þýðing á þessu orði á tungumáli sem talað er í landinu. Undantekning er í Bandaríkjunum þar sem hann heitir "Bug" „skordýr“. Pund (mælieining). Pund (stytting lb) er massaeining sem notuð er í Bandaríkjunum, Bretlandi og ýmsum öðrum löndum. Nokkrar skilgreiningar á pundinu hafa verið notaðar í gegnum tíðina en helsta skilgreiningin sem notuð er í dag er svokallaða "avoirdupois"-pundið sem jafngildir 0,45359237 kg. Þessi skilgreining á pundinu hefur verið í gildi alþjóðlega síðan 1. júlí 1959. Pundið á rætur að rekja til rómversku mælieiningarinnar "libra" (þess vegna er styttingin "lb") en orðið „pund“ er komið af latneska orðasambandinu "libra pondo" sem þýðir „eins punds lóð“. Pundið var einu sinni í notkun á Norðurlöndunum, til dæmis jafngilti norska pundið 498 grömmum en sænska pundið 425 grömmum (svokallaða "skálpundið"). Í Danmörku jafngilti pundið 471 grammi en skilgreiningunni var breytt á 19. öld þannig að pundið var jafngilt 500 grömmum í kjölfar slíkrar breytingar í Þýskalandi. Eitt pund skiptist í tvær merkur (1 mörk = 250g). Á Íslandi er þyngd nýbura oft gefin upp í mörkum enn í dag þó að metrakerfið sé notað á öllum öðrum sviðum. Þessi hefð er arfur gamla mælieiningakerfisins. Pundsmerki. Pundsmerki (£ eða ₤) er táknið sem notað er fyrir sterlingspundið, gjaldmiðil Bretlands. Sama táknið er (eða var) notað til að tákna aðra gjaldmiðla sem heita "pund" eða slíkum nöfnum í öðrum löndum, svo sem írskt pund, Gíbraltarpund, ástralskt pund og ítalska líru. Nokkur lönd sem nota gjaldmiðil sem heitir "pund" nota ekki þetta tákn, eins og Egyptaland og Líbanon. Pundsmerkið á rætur að rekja til latneska orðsins "libra" sem var massaeining (sjá líka greinina um mælieininguna). Þetta orð var oft skammstafað með bókstafnum L og einu eða tveimur strikum og þannig myndaðist táknið. Pundsmerkið er alltaf skrifað á undan upphæðinni (t.d. £12,000) en ekkert bil er haft á milli merkisins og talnanna. Busun. Orðið busun eða busavíglsa er haft um eins konar vígslu nýnema, s.k. „busa“, inn í samfélag nemenda og kennara framhaldsskóla. Busun er nokkurskonar manndómsvígsla eða leið eldri nemenda til að sýna þeim yngri hvar þeir standa, en um leið er þeir boðnir velkomnir í viðkomandi samfélag sem annars er lokað. Busun hefur verið órjúfanlegur hluti inngöngu nema í framhaldsskóla undanfarna áratugi. Þær eru með mismunandi yfirbragði eftir framhaldsskólum. Samkvæmt vísindavef Háskóla Íslands er orðið „busi“ hugsanlega myndað af latneska lýsingarorðinu „novus“ eða nýr. Þágufall fleirtölu er „novis“ en „busi“ er mögulega myndað af síðari lið orðmyndarinnar „novibus“ sem er ranglega myndað þágufall fleirtölu. Í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur vorið 2012, þar sem starfsfólk Menntaskólans í Reykjavík var dæmt fyrir vítavert gáleysi þegar alvarlegt slys varð í hefðbundnum gangaslag, er líklegt að busun í framhaldsskólunum taki breytingum. Íslenska ríkinu var þar gert að greiða tæpar 9 milljónir kr. í bætur. Pund (gjaldmiðill). Pund er gjaldmiðill í sumum löndum. Pundið á uppruna sinn á Bretlandi og jafngildi virði eins punds silfurs. Sigfús Halldórsson syngur „Dagný“ og leikur undir. Sigfús Halldórsson syngur og leikur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigfús Halldórsson tvö laga sinna "Dagný" og "Íslenzkt ástarljóð" og leikur undir á píanó. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Pavel Lisitsian syngur. Pavel Lisitsian syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Pavel Lisitsian tvö lög við píanóundirleik Tatjönu Kravtsenko. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Tilurð plötunnar. Armenski bariton-söngvarinn Pavel Lisitsian og píanóleikarinn Tatjana Kravsenko héldu nokkra tónleika á Íslandi á vegum MÍR í maí 1953. Þau fengu lofsamlega dóma fyrir flutning sinn og var upptöku af tónleikum útvarpað 31. maí 1953. Tage Ammendrup fór þess á leit við listamennina að leika inn á plötu í þessari ferð og var talið viðeigandi að flutt yrði eitt lag frá Armeníu og eitt íslenskt lag. "Rósin" eftir Árna Þorsteinsson varð fyrir valinu sem fulltrúi íslenskra sönglaga. Pavel starfaði í Bolshoi leikhúsinu í Moskvu frá 1940-1966. Soffía Karlsdóttir og Sigurður Ólafsson syngja saman. Soffía Karlsdóttir og Sigurður Ólafsson syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Soffía Karlsdóttir lagið "Ég veit ei hvað skal segja" og Soffía og Sigurður Ólafsson syngja lagið "Maður og kona". Tríó Jan Morávek leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Moravék og hljómsveit flytja Austurstrætis-stomp. Jan Moravék og hljómsveit er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni leikur tríó og kvartett Jan Morávek lögin "Tóna-boogie" og "Austurstrætis-stomp" eftir Jan sjálfan. Hljómsveitina skipa auk Jan, þeir Stefán Edelstein, píanó, Pétur Urbancic, bassi, og Axel Kristjánsson gítar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Morávek. Jan Morávek var einn helsti hljómsveitarstjóri Íslenzkra tóna. Hann lék á mörg hljóðfæri, útsetti, þjálfaði sönghópa og samdi tónlist. Á þessari plötu hafði hann frjálsar hendur með tríói og kvartett. Nafn annars laganna er tilvísum í Íslenzka tóna; „Tóna-boogie”. Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar. Guðmundur P. Bjarnason, sem kenndur er við bæinn Sýrupart á Akranesi, gaf í ársbyrjun 2000 um 35 milljónir króna til stofnunar sjóðs sem nota á til að verðlauna efnilega útskriftarnemendur í eðlis- og efnafræði við Háskóla Íslands. Guðmundur P. Bjarnason fæddist 23. febrúar 1909 á Sýruparti og bjó þar lengstaf. Síðast bjó hann á Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi. Foreldrar hans voru Bjarni Jóhannesson útvegsbóndi á Sýruparti og kona hans Sólveig Freysteinsdóttir. Guðmundur átti þess ekki kost að stunda háskólanám en starfaði sem netagerðarmaður og fiskmatsmaður á Akranesi auk þess sem hann gerði út bátinn Bjarna Jóhannesson í félagi við bróður sinn. Hann var einn af stofnendum knattspyrnufélgsins Kára árið 1922 og Taflfélags Akraness 1933. Guðmundur hefur einnig stofnað sjóði til stuðnings við efnilega nemendur úr Brekkubæjarskóla, Grundarskóla og Fjölbrautarskóla Vesturlands. Ennfremur gaf hann Byggðasafninu í Görðum Neðri Sýrupartinn 1989. Guðmundur lést 23. febrúar 2006. Styrkþegar. 2009-2011: Styrkjunum þessi ár var úthlutað samtímis. Styrkina hlutu: Þórey María Maríusdóttir (eðlisfræði 2009), Inga Rún Helgadóttir (eðlisfræði 2010), Katla Kristjánsdóttir (eðlisfræði 2010), Elvar Karl Bjarkason (eðlisfræð 2011), Kristín Björg Arnardóttir (eðlisfræði 2011) og Katrín Lilja Sigurðardóttir (efnafræði 2010). 2008: Ásgeir Birkisson (eðlisfræði), Hlynur Grétarsson (eðlisfræði), Jón Emil Guðmundsson (eðlisfræði), Líney Halla Kristinsdóttir (eðlisfræði), Pétur Gordon Hermannson (eðlisfræði) og Elvar Örn Jónsson (efnafræði). 2006 og 2007: Styrkjunum þessi ár var úthlutað samtímis. Styrkina hlutu: Ómar Valsson (eðlisfræði 2006), Elfa Ásdís Ólafsdóttir (lífefnafræði 2007), Sigurður Ægir Jónsson (eðlisfræði 2007) og Gunnar Sigurðsson (eðlisfræði 2007) 2005: Kristján Friðrik Alexandersson (efnafræði) og Sigurður Örn Stefánsson (eðlisfræði) 2004: Anna Valborg Guðmundsdóttir (lífefnafræði), Anna Guðný Sigurðardóttir (lífefnafræði), Guðrún Eiríksdóttir (lífefnafræði), Bergur Einarsson (jarðeðlisfræði) og Erling Jóhann Brynjólfsson (eðlisfræði) 2003: Jóel Karl Friðriksson (eðlisfræði) og Unnur Unnsteinsdóttir (lífefnafræði) 2001: Árdís Elíasdóttir eðlisfræðingur og Soffía Sveinsdóttir efnafræðingur. 2000: Kristján Kristjánsson eðlisfræðingur, Kristín Ingvarsdóttir efnafræðingur, Andri Arnaldsson efnafræðingur og Snævar Sigurðsson efnafræðingur. Sódavatn. Sódavatn eða kolsýrt vatn er gosdrykkur sem samanstendur af vatni og kolsýru. Kolsýran gerir drykkinn freyðandi. Sódavatn fæst í nokkrum bragðtegundum, svo sem sítrónu. Lundúnabruninn mikli. Málverk sem sýnir Lundúnabrunann mikla Lundúnabruninn mikli (þekkt sem The Great Fire of London á ensku) var stórbruni sem varð í miðborg Lundúna sunnudaginn 2. september 1666 og stóð yfir í þrjá daga til miðvikudagsins 5. september 1666. Bruninn eyddi gömlu Lundúnaborg innan rómverska borgarmúrsins. Eldurinn kom nálægt Westminsterborg en snerti hana ekki né úthverfin. 13.200 hús eyddust í brunanum ásamt 87 kirkjum, gömlu dómkirkju heilags Páls og mörgum byggingum í eigu stjórnvalda. Heimili 70.000 Lundúnabúa eyddust en 80.000 manns bjuggu í borginni á þeim tíma. Ekki er vitað hversu margir fórust í brunanum en talið er að mannfall hafi verið lítið. Einungis sex dauðsföll voru skráð. Nýlega hefur þessi ályktun verið véfengd af því að haldið er að fátækt fólk og millistéttar, sem fórst, hafi ekki verið skráð. Einnig er haldið að eldurinn hafi eytt þeim líkum sem eftir voru. Eldurinn kom upp í bakaríi Thomas Farriner á Pudding Lane skömmu eftir miðnætti sunnudaginn 2. september og breiddist fljótt út í vesturátt. Þáverandi borgarstjóri, Thomas Bloodworth, var mjög óákveðinn og í vafa um hvort ætti að rífa byggingar niður til þess að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist meira út. Skipun var gefin um að rífa skyldi byggingar niður um kvöldið en þá magnaðist eldurinn í bakaríinu og það var orðið of seint. Á mánudeginum breiddist bruninn út í norðurátt að hjarta borgarinnar. Stjórnleysi varð á götunum og orðrómur var um að útlendingar væru að kveikja í húsum. Á þriðjudeginum náði eldurinn dómkirkjunni en tilraunir til að slökkva eldinn byrjuðu að bera árangur. Loksins minnkaði vindurinn og byssupúður var notað til þess að sprengja byggingar og stöðva með því útbreiðslu eldsins. Auður Ava Ólafsdóttir. Auður Ava Ólafsdóttir (f. 1958 í Reykjavík) er íslenskur rithöfundur. Hún starfar sem lektor í listfræði við Háskóla Íslands og var um tíma forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2004, Menningarverðlaun DV árið 2008 og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála og vakti skáldsagan "Afleggjarinn" mikla athygli í Frakklandi árið 2010. Jakob Hafstein - Söngur villiandarinnar. Jakob Hafstein syngur Söng villiandarinnar er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Jakob Hafstein tvö lög við undirleik Carl Billich. Annað lagið, "Fyrir sunnan Fríkirkjuna", samdi Jakob við ljóð Tómasar Guðmundssonar en hitt lagið er "Söngur villiandarinnar" sem varð eitt þekktasta lag á Íslandi á sjötta áratug síðustu aldar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Söngur villiandarinnar. Lagið "Söngur villiandarinnar" eða "Vildandens sång" eins og það hét upprunalega er eftir ókunnan höfund, en sænski hljómsveitarstjórinn Leonard Landgren skrifaði það upp og útsetti. Eiginkona hans Thory Bernhards söng sænsku útgáfuna 1952. Í Danmörku söng Valdemar Davids danska þýðingu með Elo Magnussen og hljómsveit sama ár. Upprunalegur sænskur texti er eignaður Jóhan Bernhard Gauffin en dönsku þýðinguna gerði Knud Pheiffer. Eins og kunnugt er gerði Jakob Hafstein afar vel heppnaða þýðingu og staðfæringu af textanum auk þess sem hann fór sérlega vel með lagið. Lagið varð vinsælt á Norðurlöndunum en sló rækilega í gegn á Íslandi þegar það kom út haustið 1954. Platan er ein mest selda plata Íslenzkra tóna. Óhætt er að segja að hvert mannsbarn hafi þekkt hið ljúfsára ljóð sem er ógleymanlegt þeim sem á hlýða. Lagið var spilað í óskalagaþáttum útvarps árum saman eftir útkomu plötunnar og virðist enn lifa með þjóðinni þó það heyrist sjaldan í útvarpi á nýrri öld. Heiti lagsins varð titill útvarpsþáttar um lög frá liðinni tíð á Rás 2 og heiti á smásagnasafni Einars Kárasonar sem gefið var út 1987. Í samnefndri smásögu kom lagið sjálft við sögu á eftirminnilegan hátt. Fáir hafa reynt að endurgera lagið, hugsanlega vegna þess hve vel það er flutt af Jakobi og hve ljóðið er tilfinningahlaðið. Rúnar Júlíusson söng lagið reyndar inn á plötuna Nostalgíu sem gefin var út af Geimsteini 2006. Jakob Hafstein gaf út fallegt nótnahefti með laginu árið 1956. Carl Billich skrifaði nóturnar en teikningar eru eftir Halldór Pétursson. Harmrænar teikningar Halldórs auka enn á þá átakanlegu atburðarrás sem lýst er í ljóðinu. Wikimedia. Wikimedia (e. "Wikimedia Foundation") er bandarísk samtök með höfuðstöðvar í San Francisco í Bandaríkjunum. Hlutverk samtakanna er að halda utan um rekstur fjölmargra wiki-verkefna eins og Wikipediu, Wiktionary, Wikiquote, Wikibooks, Wikisource, Wikimedia Commons, Wikispecies, Wikinews, Wikiversity, Wikimedia Incubator, Meta-Wiki og samtökin eiga réttinn að Nupedia-verkefninu, fyrirrennara Wikipediu. Þekktasta verkefni er Wikipedia sem er einn af tíu vinsælustu vefunum í heiminum. Jimmy Wales tilkynnti um stofnun Wikimedia þann 20. júní 2003, hann hefur setið í stjórn samtakanna síðan þá. Ingibjörg Þorbergs - Nú ertu þriggja ára. Ingibjörg Þorbergs syngur með hljómsveit Carl Billich er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Ingibjörg Þorbergs lögin "Nú ertu þriggja ára" og "Rósin mín", með hljómsveit Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen - Litla stúlkan. Alfreð Clausen með kvartett Josef Felzmann er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Kveðja" og "Litla stúlkan", við undirleik kvartetts Josef Felzmann. Kvartettinn skipuðu auk Josef sem lék á fiðlu, Carl Billich, píanó, Trausti Thorberg, gítar og Einar B. Waage, bassi. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen - Á morgun. Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngja Alfreð Clausen og Ingibjörg Þorbergs lögin "Á morgun" og "Stefnumótið", við undirleik tríós Carl Billich. Í tríóinu voru auk Billich, Josef Felzmann og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Lagið Á morgun. Lag Ingibjargar Þorbergs "Á morgun" vakti verðskuldaða athygli þegar það kom fyrst út 1953. Gæði lagsins, útsetning og flutningur alllur hefur fært lagið í öndvegisflokk sígildra íslenskra dægurlaga, sem yngri kynslóðir sækja innblástur í og leitast við að endurvekja. Í leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar, "Þrek og tár", sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu 1995 var lagið sungið af Eddu Heiðrúnu Backman og Agli Ólafssyni. Síðan tóku Megas og senuþjófarnir lagið á samnefndri plötu sinni 2008. Árið 2011 sungu svo Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius það inn á plötu með Sinfóníuhljómsveitinni. Lagið er fyrsta íslenska dægurlagið sem kona semur og syngur sjálf inn á hljómplötu. Fangelsið Kvíabryggja. Fangelsið Kvíabryggja er fangelsi á Íslandi. Frá árinu 1954 voru vistaðir á Kvíabryggju menn, sem ekki greiddu meðlagsskuldir eða barnalífeyri. Árið 1963 voru fyrstu refsifangarnir sendir þangað til afplánunar. Fyrst í stað voru þeir vistaðir með meðlagsföngunum en þeim síðarnefndu fækkaði í áranna rás. Aðalfangelsisbyggingin var tekin í notkun 1963, síðan hefur verið byggt við hana. Auk 22 (áður 14) fangaklefa eru þar viðtalsherbergi, góð setustofa, eldhús og borðstofa, bókasafn, góður æfingasalur og billiardaðstaða í kjallara. Fangelsið er staðsett á jörðinni Kvíabryggju, sem er um 35 hektarar að stærð. Segja má að fangelsið sé opið að því leyti að þar eru hvorki rimlar fyrir gluggum né heldur er svæðið öðru vísi afgirt en venjuleg sveitabýli. Einkum er því reynt að vista þar menn, sem hafa lítinn sakaferil eða þá að ætla má að þeim sé treystandi til þess að afplána við slikar aðstæður. Skilyrði er að fangar sem vistast á Kvíabryggju séu vel vinnufærir og duglegir til verka. Sjá nánar bækling um Fangelsið Kvíabryggju. Íslam á Íslandi. Á Íslandi eru 694 múslimar skráðir í trúfélag. Þar af eru 419 skráðir í Félagi múslima á Íslandi og 275 í Menningarsetri múslima á Íslandi. Þetta samsvarar um 0,2% af heildaríbúafjölda Íslands. Lýðfræði. Meðlimir múslimafélaga á Íslandi í gegnum árin (1998 – 2012). Íslam í Evrópu. Í þessari grein er fjallað um íslam í Evrópu. Alfreð Clausen - Manstu gamla daga. Alfreð Clausen - Manstu gamla daga er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni flytur Alfreð Clausen lögin "Æskuminning" og "Manstu gamla daga" með hljómsveit Carl Billich. Hljómsveitina skipuðu auk Billich þeir Josef Felzmann, Bragi Hlíðberg, Ólafur Gaukur og Einar B. Waage. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Manstu gamla daga. Þetta er fyrsta platan sem Alfreð Clausen syngur inn fyrir Íslenzka tóna og óhætt er að segja að bæði lögin hafi slegið í gegn. Lagið "Æskuminning" var nokkuð þekkt áður en platan kom út, en "Manstu gamla daga" eftir Alfreð sjálfan vann á og er enn í hávegum haft. Nokkrir hafa glímt við lagið á seinni árum og má þar nefna Ragnar Bjarnason og Megas. Lagið var notað sem upphafslag og yfirskrift tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2006, þar sem Ragnheiður Gröndal og Eivör Pálsdóttir sungu lög gömlu meistaranna og heiti lagsins notað við endurútgáfu laga frá eldri tíma á nokkrum safnplötum. Yfirskrift safnplötu með lögum Alfreðs Clausen sem kom út hjá Steinum 1996 var "Manstu gamla daga" og vönduð sjónvarpsþáttaröð frá 1991 í umsjón Helga Péturssonar um dægurlög fyrri ára bar sama heiti. Æskuminning. Lagið "Æskuminning" lenti í öðru sæti í danslagakeppni SKT árið 1952, en bar sigur úr býtum í vali áhorfenda. Höfundurinn Ágúst Pétursson samdi lagið nokkru fyrir þann tíma, en það kemur fyrst út á þessari plötu í minnisstæðum flutningi Alfreðs. "Æskuminning" naut mikilla vinsælda og kom einnig út á Norðurlöndunum. Carl Billich útsetti lagið. Ágúst átti fleiri lög sem Íslenzkir tónar gáfu út, lögin "Hittumst heil" og "Ég mætti þér" sem Tígulkvartettinn söng, "Harpan ómar" sem Alfreð og Ingibjörg Þorbergs sungu saman og "Þórður sjóari" sem Alfreð söng. Í takt við vinsældir "Æskuminningar" gaf Drangeyjarútgáfan út nótur af laginu. Forsíðuna teiknaði Þorleifur Þorleifsson sem hannaði flest plötuumslög Íslenzkra tóna. Alfreð Clausen - Ágústnótt. Alfreð Clausen - Ágústnótt er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Ágústnótt" og "Vökudraumur" með hljómsveit Josef Felzmann. Í hljómsveitinni voru auk Josef, Carl Billich, Ólafur Gaukur Þórhallsson og Jóhannes Eggertsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Lögin. Lag Oddgeirs Kristjánssonar "Ágústnótt" er samið árið 1937. Það náði strax vinsældum sem þjóðhátíðarlag, en það var ekki fyrr en 1952, að lagið var gefið út á prenti. Í ritgerð Hafsteins Þórólfssonar um tónsmíðar Oddgeirs segir að lagið sé elsta þjóðhátíðarlagið sem reglulega sé sungið enn í dag. Líklegt má telja að flutningur Alfreðs Clausen og hljómsveitar Josef Felzmann hafi aukið enn á vinsældir og útbreiðslu lagsins á sínum tíma. Lag Jenna Jónssonar "Vökudraumur" fékk góðar undirtektir, þó það yrði ekki eins langlíft og "Ágústnótt". Lagið fékk viðurkenningu í danslagakeppni SKT 1953 í flokknum „Nýju dansarnir”. Þuríður Pálsdóttir, sópran. - Blítt er undir björkunum. Þuríður Pálsdóttir syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Þuríður Pálsdóttir tvö lög úr "Gullna hliðinu" og þjóðlagið "Sofðu unga ástin mín", við undirleik Róberts A. Ottóssonar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Moravek og tríó - Við syngjum og dönsum 1 og 2. Við syngjum og dönsum 1 og 2 með tríói Jan Morávek er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur tríó Jan Morávek syrpu af 8 lögum í Foxtrott og Slow Foxtrott, takti. Jan leikur á harmoniku, Eyþór Þorláksson á gítar og Erwin Koeppen á bassa. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Morávek og tríó - Við dönsum og syngjum 3 og 4. Við syngjum og dönsum 1 og 2 með tríói Jan Morávek er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur tríó Jan Morávek syrpu af 8 lögum í valsa- og tangó-takti. Jan leikur á harmoniku, Eyþór Þorláksson á gítar og Erwin Koeppen á bassa. Útsetning: Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen syngja lög Sigfúsar Halldórssonar. Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen syngja lög Sigfúsar Halldórssonar er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Ingibjörg Þorbergs lagið "Ég vildi að ung ég væri rós" og Alfreð Clausen syngur "Þín hvíta mynd". Bæði eru lögin eftir Sigfús Halldórsson og leikur höfundur sjálfur undir á píanó. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen syngur lög eftir Jenna Jónsson. Alfreð Clausen syngur lög eftir Jenna Jónsson er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Alfreð Clausen tvö lög eftir Jenna Jónsson, "Brúnaljósin brúnu" með tríói Carl Billich og "Sólarlag í Reykjavík" með hljómsveit og kór undir stjórn Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. S.K.T. keppnin. Lagið "Brúnaljósin brúnu" sigraði í S.K.T. keppninni 1954 í flokknum „Nýju dansarnir”. Þegar lagið kom út á plötu var hún rifin út, enda Alfreð vinsæll og hafði nýverið verið kosinn besti íslenski dægurlagasöngvarinn í skoðanakönnun Hljómplötunýjunga. Platan var í fyrsta sæti metsölulista Drangeyjar í nóvember 1954. Margir hafa sungið eða leikið lagið inn á plötur í kjölfar Alfreðs og má þar nefna Hauk Morthens, Ragnar Bjarnason, Megas, Bubba Morthens, KK og Magnús Eiríksson, Pál Óskar Hjálmtýsson, Einar Júlíusson, hljómsveitina Flís og Guðrúnu Gunnarsdóttur. Evrabía. Evrabía er hugtak, sem varð til út af ótta sumra Evrópubúa við fjölgun múslima í Evrópu síðustu árin, sem þeir halda að hafi í för með sér aukin innflytjendavandamál í álfunni, og af ótta við að íslam taki yfir Evrópu. Tígulkvartettinn - Ég bið að heilsa og Sólsetursljóð. Tígulkvartettinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Tígulkvartettinn lögin "Ég bið að heilsa" og "Sólsetursljóð" við undirleik Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Tígulkvartettinn. Guðmundur H. Jónsson, Hákon Oddgeirsson, Brynjólfur Ingólfsson og Karlakórinn Vísir - Alfaðir ræður. Karlakórinn Vísir - Alfaðir ræður er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur karlakórinn Vísir frá Siglufirði tónverkið "Alfaðir ræður" eftir Sigvalda Kaldalóns við ljóð Sigurðar Eggerz. Stjórnandi er Þormóður Eyjólfsson, einsöngvari Daníel Þórhallsson og undirleikari er Emil Thoroddsen. Platan er hljóðrituð í mono. Pressun: AS Nera í Osló. Lagalisti. Ljóðið "Alfaðir ræður" samdi Sigurður Eggerz eftir sjóslys sem varð við Vík í Mýrdal 26. maí 1910, þar sem fimm menn drukknuðu. Sigurður var sýslumaður Skaftfellinga þegar þessi atburður átti sér stað og staðsettur í Vík. Sigurður Ólafsson - Svanurinn minn syngur. Sigurður Ólafsson syngur íslensk sönglög er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Sigurður Ólafsson þrjú sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns við píanóundirleik Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson syngja tvö lög. Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngja Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson drykkjuvísu úr Bláu kápunni og Sigurður Ólafsson syngur lagið "Og jörðin snýst" úr Nitouche. Píanóundirleik annaðist Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen og Ingibjörg Þorbergs - Harpan ómar. Alfreð Clausen og Ingibjörg Þorbergs syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngja Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen tvö lög eftir Ágúst Pétursson. Ingibjörg og Alfreð syngja saman lagið "Harpan ómar" og Alfreð syngur "Þórð sjóara" með kór og hljómsveit Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Þórður sjóari. Lag Ágústar, söngur Alfreðs og flutningur allur féll í góðan jarðveg eins og alþekkt er, en ljóð Kristjáns frá Djúpalæk átti ekki minnstan þátt í að lagið náði þeirri alþýðuhylli sem akipar því í flokk þekktustu og dáðustu íslensku dægurlaga síðustu aldar. Meðal þeirra sem síðar tóku lagið upp á sína arma og sungu inn á plötur eru Vilhjálmur Vilhjálmsson og Eiríkur Hauksson. Sigurður Ólafsson og Tígulkvartettinn syngja. Sigurður Ólafsson og Tígulkvartettinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lagið "Ástarvísa hestamannsins" eftir Carl Billich. Hljómsveit Billich leikur undir. Hitt lagið á plötunni, "Sveinki káti" (einnig nefnt "Sveinkadans"), er flutt af Tígukvartettinum, en höfundur þess er Sigvaldi Kaldalóns. Undirleik annast Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. John Petrucci. John Peter Petrucci (fæddur 12. júlí 1967) er bandarískur gítarleikari og lagahöfundur best þekktur sem einn af stofnendum hljómsveitarinnar Dream Theater (e. Draumaleikhús). Hann hefur, ásamt fyrrverandi trommara hljómsveitarinnar, Mike Portnoy, framleitt allar plötur Dream Theater frá plötunni Metropolis Pt.2: Scenes from a Memory (1999) til Black Clouds & Silver Linings (2009), hann framleiddi einnig sjálfur plötuna þeirra A Dramatic Turn of Events (2011). Hann singur einnig bakraddir í sumum lögum Dream Theater. Petrucci hefur sex sinnum tekið þátt í G3 tónleikaferðalaginu, oftar en nokkur annar. 2009 var hann nefndur sem annar besti Metal gítarleikarinn af Joel McIver í bók hans "The 100 Greatest Metal Guitarists". Hann var einnig nefndur sem einn af topp 10 bestu gítartæturum allra tíma af tímaritinu "GuitarOne". Ævisaga. John Petrucci var fæddur 12. Júlí, 1967 í Kings Park, New York. Hann byrjaði að spila á gítarinn þegar hann var 8 ára af því að eldri systir hans fékk að fara seinna að sofa svo hún gæti æft sig á píanóið. Hann ákvað hins vegar að hætta að spila á gítarinn þegar áætlun hans til að fara seinna að sofa gekk ekki upp. Hann átti hins vegar eftir að taka upp gítarinn aftur þegar hann var 12 ára en þá bauð æskuvinur hans, og seinna hljómborðsleikari Dream Theater, Kevin Moore honum stöðu sem gítarleikari í ábreiðuhljómsveit. John hlaut menntun í tónlist við Berklee College of Music í Boston, Massachusetts ásamt æskuvini sínum John Myung (bassi), þar hittu þeir Mike Portnoy (trommur) sem myndi seinna verða trommuleikari Dream Theater. Petrucci, Myung og Portnoy ásamt Kevin Moore stofnuðu hljómsveitina Majesty, sem myndi seinna verða að Dream Theater. Þó Petrucci sé eflaust þekktastur fyrir vinnu sína með Dream Theater þá er hann einnig meðlimur í hljómsveitinni Liquid Tension Experiment og hefur hann einnig verið gestagítarleikari á plötum hjá öðrum listamönnum svo sem á plötunni Age of Impact með hljómsveitinni Explorers Club. Petrucci hefur gefið út kennslumyndband fyrir gítar sem heitir "Rock Discipline" en þar fer hann yfir upphitunaræfingar, æfingar til þess að forðast meiðsli þegar maður spilar, alternate picking, sweep picking, hljóma og aðrar tæknir til að þróa gítarleik manns. Petrucci skrifaði einnig dálk fyrir tímaritið "Guitar World" og var síðan samansafn af þessum dálkum gefið af Guitar World og heitir það "Guitar World presents John Petrucci's Wild Stringdom". Árið 2001 var Petrucci boðið að vera hluti af G3 tónleikaferðalaginu af Joe Satriani og Steve Vai, þetta kynnti hann fyrir stórum hópi nýrra aðdáenda sem hvöttu hann til þess að taka upp sólóplötu. Þessi plata heitir "Suspended Animation" og var hún gefin út 1. Mars, 2005 og var hægt að panta hana af heimasíðu hans. Petrucci var einnig boðið að vera hluti af G3 tónleikaferðalögunum sem voru 2005 og 2006, hann var einnig hluti af G3 tónleikaferðalaginu sem var 2007 en þá voru einnig Joe Satriani og Paul Gilbert, í stað Steve Vai. Petrucci skrifaði og hljóðritaði tvö instrumental lög fyrir Sega Saturn leik sem heitir "Digital Pinball: Necronomicon". Hvort lag er rúmlega tvær mínútur að lengd og heita þau einfaldlega "Prologue" (e. formáli) og "Epilogue" (e. eftirmáli). Tilvísanir. Petrucci, John Sigurveig Hjaltested og Sigurður Ólafsson - Á Hveravöllum. Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lagið "Við komum allir, allir.." og Sigurður og Sigurveig Hjaltested syngja saman lagið "Á Hveravöllum". Hljómsveit Billich leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Svavar Lárusson og Monti tríóið - Bella bella dona. Svavar Lárusson og Monti-tríóið er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1956. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög við undirleik Monti-tríósins þýska. Platan er hljóðrituð í Stuttgart í Þýskalandi. Pressun: AS Nera í Osló. Skapti Ólafsson og félagar - Ef að mamma vissi það. Skapti Ólafsson og félagar er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngur Skapti Ólafsson tvö rokklög útsett af Magnúsi Ingimarssyni. Um er að ræða fyrstu rokklög sem tekin eru upp á Íslandi. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan - Blómkrónur titra. María Markan syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan lögin "Vorblær" og "Blómkrónur titra". Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan og Sigurður Ólafsson - Við eigum samleið. María Markan og Sigurður Ólafsson syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan lag sitt "Þitt augnadjúp" og María og Sigurður Ólafsson syngja saman lagið "Við eigum samleið". Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan - Ich schenk mein herz. María Markan syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan lögin "The Star" og "Ich schenk mein herz". Fritz Weishappel leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan - Huldumál. María Markan syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan lögin "Huldumál" og "Kveðja". Fritz Weishappel leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan - Söngur bláu nunnanna. María Markan syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan lögin "Minning" og "Söngur bláu nunnanna". Fritz Weishappel leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson og Tígulkvartettinn syngja tvö lög. Sigurður Ólafsson og Tígulkvartettinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lagið "Ástarvísa hestamannsins" eftir Carl Billich. Hljómsveit Billich leikur undir. Hitt lagið á plötunni, "Sveinki káti" (einnig nefnt "Sveinkadans"), er flutt af Tígukvartettinum, en höfundur þess er Sigvaldi Kaldalóns. Undirleik annast Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Nora Brocksted með hljómsveit Egil Monn-Iversen. Nora Brockstedt með hljómsveit Egil Monn-Iversen er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngur Nora Brockstedt tvö lög með hljómsveit Egil Monn-Iversen. Platan er hljóðrituð í Noregi. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson - Síldarvalsinn. Sigurður Ólafsson og Soffía Karlsdóttir er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Sigurður Ólafsson hinn geysivinsæla "Síldarvals" og Soffía Karlsdóttir og Sigurður syngja saman "Ég býð þér upp í dans", sem einnig náði almannahylli. Tríó Jan Morávek leikur undir og Jan útsetur. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Rifsþéla. Rifsþéla (fræðiheiti: "Nematus ribesii") einnig verið nefnd Rifsvespa'", er blaðvespa af ætt sagvespa sem legst á rifstegundir ("Ribes") og veldur iðulega miklum skaða á þeim með því að lirfan étur upp öll laufblöð runnanna. Hún leggst helst á Stikilsber ("R. uva-crispa") en einnig á Rauðberjarifs ("R. rubrum") og fleiri rifstegundir. Útbreiðsla. Hún finnst um alla Evrópu og Norður-Ameríku, þó eru ekki til nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu, né almennt um lifnaðarhætti hennar. Rifsþéla var fyrst skráð hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2010 en sagnir af henni höfðu þó borist nokkrum árum áður. Hún var búinn að breiðast út um Höfuðborgarsvæðið og Suðurland árið 2012 og farin að valda skaða víða í görðum. Lýsing. Fullorðin dýr skríða úr púpum á vorin til að maka sig og verpa og virðist hún því liggja í vetrardvala á fullorðinsstigi. Fullorðin fluga er um 7 millimetrar á stærð og lík öðrum blaðvespum í útliti utan litarhafts og þá sérstaklega kvenflugan. Bæði kyn eru með dökkan haus, gula rák ofan við kjálkana og gulan baug yfir augum sem oft er meira áberandi á kvendýrinu. Fæturnir eru gulir. Karlflugan er með dökkan frambol og gul framhorn. Afturbolur dökkur að ofan og ljósgul að neðan, sem nær þó mishátt upp. Kvenflugan er ólík að því leyti að frambolurinn er gulur nema bakplötur og kviðplötur dökkar, afturbolur hins vegar allur gulur en ekki bara að neðan eins og á karldýrinu. Lirfan er ljósgulgræn með dökkum dílum, með einum hárbrúsk kver, um allan búkinn. Hausinn er svartur sem og fætur og eru gangvörturnar mjög áberandi á afturbúknum. Varnir gegn ágangi rifsþélunnar. Allt að þrjár kynslóðir púpa sig og klekjast út yfir sumarið en það er sú síðasta sem kemur fram í september-október sem myndar kynslóð næsta árs. Því dugir yfirleitt ekki að eitra einu sinni að vori heldur verður að glíma við hana allt sumarið og haustið. Kvenflugan verpir eggjum sínum undir blöðin, oftast þau sem eru næst jörðu og því er eitt besta ráðið að skoða vel undir öll neðstu blöðin og leita uppi eggin og drepa þau strax þar. Á vorin þegar fyrstu lirfurnar eru að fara á kreik er best að handtína þær, annaðhvort með því að hrista runnann kröftuglega svo þær falli til jarðar og tína þær þannig upp, eins auðveldar það aðgang fugla að lirfunum, eða tína þær beint af blöðunum. Með því móti er hægt að minnka umfang næstu kynslóða. Þetta þarf að endurtaka allt sumarið. Að úða með lífrænu eitri eins og brúnsápu blandaða með sítrónudropum og fleiri slíkum uppskriftum, virkar bara upp að vissu marki, því eins og með tínsluna þá virkar það bara á þær lirfur sem þá stundina eru á runnanum og því þarf að endurtaka úðunina reglulega og einnig með hverri nýrri kynslóð. Svavar Lárusson - Fiskimannaljóð frá Capri og Hreðarvatnsvalsinn. Svavar Lárusson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni flytur Svavar Lárusson tvö lög með SY-WE-LA kvintettinum norska. Lögin höfðu bæði komið út áður á IM 3 og IM 4 og voru ein fyrstu íslensku danslögin til að koma út á plötu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptökur fóru fram hjá Norska útvarpinu. Pressun: AS Nera í Osló. Hreðavatnsvalsinn. Textahöfundurinn Reynir Geirs var dulnefni hins mæta útvarpsmanns Knúts R. Magnússonar. Maria Lagarde og Alfreð Clausen - Síðasti dansinn. Maria Lagarde og Alfreð Clausen er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Maria Lagarde lagið "This is beautiful music to love by" og María og Alfreð Clausen syngja saman lagið "Síðasta dansinn". Hljómsveit stjórnaði Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Tilurð plötunnar. Danska revíusöngkonan og dansarinn Maria Lagarde kom til Íslands 1954 til að skemmta á sumarhótelinu Jaðri. Hún kom víðar fram, meðal annars á skemmtidagskrá SKT í Austurbæjarbíói 16. júlí 1954. Gerður var góður rómur að söng hennar og taldi Tage Ammendrup upplagt að söngkonan tæki lagið á plötu. Hann fékk Alfreð Clausen til að flytja með henni hið stórgóða íslenska lag Óðins Þórarinssonar "Síðasta dansinn". Kristinn Hallsson - Oh, could I express but in song. Kristinn Hallsson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Kristinn Hallsson tvö lög við undirleik Fritz Weishappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Kristinn Hallsson - Nótt. Kristinn Hallsson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Kristinn Hallsson hin mögnuðu íslensku sönglög "Nótt" og "Í dag skein sól" við píanóundirleik Fritz Weishappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ingibjörg Þorbergs og Marz bræður - Í dansi með þér. Ingibjörg Þorbergs og Marz bræður er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngja Ingibjörg Þorbergs og Marz bræður tvö lög með hljómsveit Jan Morávek. Hljómsveitina skipuðu fyrir utan Jan, þeir Josef Felzmann, Jónas Dagbjartsson, Þorvaldur Steingrímsson, Ervin Koeppen og Steingrímur Sigurðsson. Marz bræður voru þeir Magnús Ingimarsson, Ásgeir Sigurðsson, Sigurður Sívertsen og Vilhjálmur B. Vilhjálmsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jóhann Möller - Ástin mín ein. Jóhann Möller syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Jóhann Möller tvö erlend lög ásamt hljómsveit Jan Morávek. Jan útsetur lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Tríó Jan Morávek - Við syngjum og dönsum 5 og 6. Við syngjum og dönsum 5 og 6 með tríói Jan Morávek er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni flytur tríó Jan Morávek syrpu af hringdönsum og vinarkrusum. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jan Morávek. Jan Morávek var einn helsti hljómsveitarstjóri Íslenzkra tóna. Hann útsetti mikið og lék sjálfur á fjölda hljóðfæra. Jóhann Möller - Pabbi vill mambó. Jóhann Möller syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Jóhann Möller lagið "Þú ert mér kær" með hljómsveit Jan Morávek og hið þekkta lag "Pabbi vill mambó" með Tónasystrum og mambó-hljómsveit Jan Morávek. Jan útsetur lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen og Tóna systur - Stjörnublik. Alfreð Clausen og Tóna systur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Alfreð Clausen lagið "Vornóttin kallar" og lagið "Stjörnublik" með Tóna systrum. Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Mary McCormack. Mary McCormack (fædd Mary Catherine McCormack 8. febrúar, 1969) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The West Wing, Murder One og In Plain Sight. Einkalíf. McCormack er fædd í Plainfield, New Jersey. Stundaði hún nám við Trinity College í Hartford, Connecticut þaðan sem hún útskrifaðist með gráðu í ensku og myndlist. McCormack stundaði leiklistarnám við "William Esper studio" í New York-borg. Í júli 2003, þá giftist McCormack framleiðandanum Michael Morris og saman eiga þau þrjú börn. Leikhús. McCormack byrjaði leiklistarferil sinn tólf ára í uppfærslu á óperunni "Amahl and the Night Visitors" eftir Gian Carlo Menotti. Árið 1999 þá var hún gestaleikari í söngleiknum "Cabaret" við "Studio 54" leikhúsið þar sem hún lék Sally Bowles. Síðan árið 2008 þá lék hún persónuna Gretchen í leikritinu "Boeing-Boeing" sem hún var tilnefnd til "Tony" verðlaunanna sem besta leikkona í leikriti. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk McCormack var árið 1994 í sjónvarpsþættinum Law & Order. Árið 1995 þá var henni boðið hlutverk í glæpaþættinum Murder One þar sem hún lék Justine Appleton til ársins 2007. McCormarck lék hinn sérstaka þjóðaröryggisráðgjafann Kate Harper í dramaþættinum The West Wing árin 2004-2006. Árið 2008 þá var McCormack boðið aðalhlutverkið í lögregluþættinum In Plain Sight sem vitnaverndaralríkisfulltrúinn Mary Shannon, sem hún lék til ársins 2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk McCormack var árið 1994 í Miracle on 34th Street. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Private Parts, Deep Impact, True Crime, Mystery Alaska, East of A, Madison og For You Consideration. Tenglar. McCormack, Mary Skapti Ólafsson - Allt á floti. Skapti Ólafsson syngur Allt á floti er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngur Skapti Ólafsson tvö lög útsett af Gunnari Reyni Sveinssyni, sem jafnframt stjórnaði hljómsveitinni. Aðrir í hljómsveitinni voru Guðmundur Steingrímsson, Ernst Normann, Sigurbjörn Ingþórsson, Jón Páll Bjarnason og Eyþór Þorláksson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Lagið Allt á floti. Lag Steingríms Sigfússonar "Mikið var gaman að því" vakti verðskuldaða athygli þegar platan kom út, en það var lagið "Allt á floti" sem sló eftirminnilega í gegn. Lagið varð eitt af vinsælustu lögum Tommy Steele (Water Water), en íslenska útgáfan átti aldeilis eftir að slá frumútgáfunni við hér á landi. Margt hjálpaðist að við að gera lagið svo vinsælt sem raun ber vitni; söngur Skapta, grípandi texti, vönduð útsetning og afbragðs hljóðfæraleikur. Fáir hafa reynt að syngja lagið inn á plötu, enda stenst útgáfa Skapta og félaga frá 1957 tímans tönn. Brooks brothers og Bill Johnson. Brooks brothers og Bill Johnson er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngja Brooks brothers ásamt hljómsveit lagið "L’amour toujour" og Bill Johnson and his Rockers flytja "Shtiggi Boom". Augusto De Luca. Augusto De Luca - Carla Fracci Augusto De Luca (fæddur 1. júlí 1955 í Napólí, Ítalíu) er ítalskur ljósmyndari. Hann er fyrst og fremst portrettljósmyndari. Á ljósmyndastofu sinni hefur De Luca lagt metnað sinn í vinnslu svart-hvítra ljósmynda auk litmynda. De Luca hefur unnið jöfnum höndum við ýmis verkefni; ljósmyndun fyrir tímarit og arkitektúr. The Encores - Two hearts. The Encores er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni flytur hljómsveitin The Encores tvö lög. Nelly Wijsbek og hljómsveit Charlie Knegtel. Nelly Wijsbek og hljómsveit Charlie Knegtel er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngur Nelly Wijsbek ásamt hjómsveit Charlie Knegtel. Sigfús Halldórsson - Til Unu. Sigfús Halldórsson - Til Unu er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum í mars árið 1953. Á henni leikur og syngur Sigfús Halldórsson tvö laga sinna: "Til Unu", við ljóð eftir Davíð Stefánsson og "Þú komst", við ljóð eftir Vilhjálm frá Skáholti. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Hljómsveitin Blágresi. Blágresi er íslensk hljómsveit. Hún er hugarfóstur Einars Más Guðmundssonar og Leifs Björnssonar, en þeir höfðu oft rætt um samstarf, og hófst það loks fyrir alvöru sumarið 2009, í hópinn bættust Daníel Auðunsson og Tinna Marína Jónsdóttir og hljómsveitin Blágresi varð til. Segja mætti að í lögum sveitarinnar sameinist ritsnilli Einars þjóðlaga skotinni tónlistinni, og úr verður nýstárleg þjóðlagatónlist. Hvað ef himininn brotnar. Hvað ef himinninn brotnar er fyrsta breiðskífa Blágresis. Hún var útgefin í febrúar 2012. Einar Már Guðmundsson samdi alla texta á skífunni, og eru þeir ýmist búnir til sérstaklega við lögin, eða unnir uppúr þegar útkomnum ljóðum hans. Tinna Marína fer fyrir sveitinni og syngur en lagasmíðar voru í höndum hljómsveitarmeðlima Blágresi, þeirra Leifs og Daníels. Einnig naut við fulltingis lagahöfundarins og gítarleikarans Konráðs Bartsch. Á skífunni er þó að finna einn gamlan húsgang í þjóðlagastíl frá upphafi 20. aldar sem leikinn er við ljóð Einars, en í tónlistinni á skífunni má einmitt greina sterk áhrif þjóðlagahefðar Norður Ameríku. Leikhús fáránleikans. Leikhús fáránleikans eða absúrdleikhúsið er heiti á framúrstefnu í leiklist sem gengur út á að sýna fáránleika mannlegrar tilveru, án tilgangs og merkingar, og hvernig raunveruleg samskipti eru ómöguleg við þær aðstæður. Stefnan tengist tilteknum leikritahöfundum sem störfuðu í París á 6. og 7. áratug 20. aldar; höfundum á borð við Jean Genet, Samuel Beckett, Eugène Ionesco, Arthur Adamov og Fernando Arrabal. Gagnrýnandinn Martin Esslin notaði hugtakið fyrst yfir verk þessara höfunda í samnefndri ritgerð árið 1961 með vísun í notkun fáránleikahugtaksins hjá Albert Camus. Einkenni á leikhúsi fáránleikans eru persónur sem eru fastar í aðstæðum sem þær ráða ekki við og skilja ekki sjálfar, endurtekningar sem virðast tilgangslausar, samræður sem einkennast af misskilningi, þar sem persónur tala í kross og notast við merkingarlitlar klisjur. Meðal þekktustu verka leikhúss fáránleikans eru "Beðið eftir Godot" eftir Beckett, "Svalirnar" eftir Genet og "Sköllótta söngkonan" eftir Ionesco. Sigfús Halldórsson - Við Vatnsmýrina. Sigfús Halldórsson syngur og leikur eigin lög er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni syngur Sigfús Halldórsson tvö laga sinna "Í dag" og "Við Vatnsmýrina" og leikur undir á píanó. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Um plötuna. Í apríl 1952 fóru fram í Ríkisútvarpinu upptökur með Sigfúsi Halldórssyni á lögunum "Litlu flugunni", "Tondeleyo", "Í dag" og "Við Vatnsmýrina" (IM 2 og IM 7). Prufuplötur bárust um sumarið en endanlegar plötur komu ekki í sölu í Drangey fyrr en 21. desember, meðal annars vegna verkfalls sem hafði áhrif á innflutning til landsins. Þessi plata er sérstök að því leyti að hún er óvenjulega stór (30 cm.) og því náði hún minni sölu en ella hefði verið því lögin eru bæði klassískar perlur. Þetta var eina plata Íslenzkra tóna sem var í þessari stærð. Guðrún Á. Símonar - Svanasöngur á heiði. Guðrún Á. Símonar syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Guðrún Á. Símonar tvö lög við píanóundirleik Fritz Weisshappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen - Hvar ertu. Alfreð Clausen syngur "Hvar ertu?" er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Hvar ertu" og "Í faðmi Dalsins" með tríó Aage Lorange. Með Aage spila Þorvaldur Steingrímsson og Paul Bernburg. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Í faðmi dalsins. Lagið "Í faðmi dalsins" hlaut 3. verðlaun í danslagakeppni SKT, í flokknum „Nýju dansarnir”, árið 1953. Söngvarinn. Alfreð Clausen söng mörg vinsæl lög inn á plötur fyrir Íslenzka tóna. François Hollande. François Hollande (fæddur 12. ágúst 1954) er 24. forseti Frakklands og tók við þeirri stöðu þann 15. maí 2012. Hann tilheyrir sósíalístaflokknum. Hollande er fæddur í borginni Rouen í Frakklandi. Hollande, François Hollande, François Ingibjörg Þorbergs - Hin fyrstu jól - Klukknahljóð. Ingibjörg Þorbergs - Hin fyrstu jól - Klukknahljóð - er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Ingibjörg Þorbergs tvö jólalög ásamt barnakór og hljómsveit sem hún stjórnaði. Ingibjörg samdi "Hin fyrstu jól" og útsetti bæði lögin. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Í útvarpssal. .Ingibjörg Þorbergs, barnakór og hljómsveit í útvarpssal 1954. a>). Hér má sjá umslag þeirrar plötu. Hin fyrstu jól - tilurð. Ingibjörg Þorbergs segir í viðtali í Morgunblaðinu að Tage Ammendrup hafi beðið sig um að gera jólalag.. Ljóðið við „Hin fyrstu jól”. Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg, Í bæn hlýtur svölun brotleg sál og inn í fjárhúsið birtan berst, hún sefur með bros um hvarma. Og hjarðmaður birtist, um húsið allt í huga flytur hann himni þökk svo gerir hann krossmark, krýpur fram Ketill Jensson og Guðrún Á. Símonar ásamt Þjóðleikhúskórnum. Ketill, Guðrún og Þjóðleikhúskórinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngja Ketill Jensson og Guðrún Á. Símonar hvort sitt lagið úr óperunni Cavaleria Rusticana eftir Mascagni. Victor Urbancic stjórnar Þjóðleikhúskórnum og píanóleikari er Ragnar Björnsson. Ketill syngur "Drykkjuvísu" og Guðrún syngur "Lofið Drottinn". Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Rachel Miner. Rachel Miner (fædd 29. júlí 1980) er bandarísk leikkona, sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Guiding Light, Supernatural og Californication. Einkalíf. Miner er fædd í New York-borg, New York. Miner var gift leikaranum Macaulay Culkin frá 1998 – 2000. Leikhús. Miner hefur komið fram í leikritum á borð við "The Way at Naked Angels", "The Diary of Anne Frank" og "Blue Surge". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Miner var árið 1990 í sjónvarpsmyndinni "Shining Time Station". Miner lék á árunum 1990 – 1995 í sápuóperunni The Guiding Light þar sem hún lék persónuna Michelle Bert Bauer. Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Beðmál í borginni, Bones, Without a Trace, Army Wives og Criminal Minds. Miner var með stór gestahlutverk í þáttunum Californication sem Dani og í Supernatural sem Meg. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Miner var árið 1990 í Alice. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Joe the King, Man of God, The Black Dahlia, Cult, The Blue Hour, og Elwood. Tenglar. Miner, Rachel Alfreð Clausen - Gling gló. Alfreð Clausen - Gling gló er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni flytur Alfreð Clausen eigin lög við texta Kristínar Engilbertsdóttur. Hljómsveitina skipa stjórnandinn Carl Billich, Josef Felzmann, Bragi Hlíðberg, Ólafur Gaukur Þórhallsson og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Gling gló. Lagið "Gling gló" eða "Kling gló" eins og það var kallað í auglýsingum 1953 og á plötumiða, gekk í endurnýjun lífdaga þegar Björk Guðmundsdóttir og Guðmundur Ingólfsson endurfluttu það á samnefndi plötu sem gefin var út af Smekkleysu árið 1990. Platan sem naut mikilla vinsælda inniheldur 11 lög sem gefin voru út af Íslenzkum tónum. Forsíða nótnaheftis. Forsíða nótnaheftis þar sem finna má þrjú danslög eftir Alfreð og Kristínu. Svavar Lárusson - Í Mílanó. Svavar Lárusson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með kvartett Jan Morávek. Kvartettinn skipuðu auk Jan, þeir Bragi Hlíðberg, Eyþór Þorláksson og Jón Sigurðsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Um plötuna. Þessi plata með Svavari Lárussyni og kvartett Jan Morávek er fjórða platan sem kom á markaðinn frá Íslenzkum tónum. Hún hefur þá sérstöðu að vera sú fyrsta sem gefin er út með íslenskri danshljómsveit og einnig fyrsta dansplatan sem tekin var upp á Íslandi. Kvartettinn skipuðu Jan Morávek sem lék á fiðlu og klarinett, Eyþór Þorláksson sem lék á gítar, Bragi Hlíðberg á harmoniku og Jón Sigurðsson á bassa. Alþingiskosningar 2013. Alþingiskosningar 2013 voru haldnar 27. apríl 2013. Þær voru 21. kosningarnar til Alþingis frá lýðveldisstofnun. Til viðbótar við þá fjóru flokka sem sögulega hafa myndað það sem kallað hefur verið íslenska fjórflokkakerfið, boðuðu 11 ný framboð þátttöku. Framboðin voru því 15 í allt og hafa aldrei verið fleiri í alþingiskosningum en 11 þeirra bjóða fram í öllum kjördæmum. Undanliðið kjörtímabil einkenndist af hörðum deilum um mörg stór mál á borð við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, Icesave, stjórnarskrármál og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í ýmsum málum var ekki samstaða innan stjórnarmeirihlutans á þingi og gengu nokkrir þingmenn úr þingflokkum stjórnarflokkanna þannig að síðustu mánuði sína í embætti var stjórnin í raun minnihlutastjórn sem naut hlutleysis óflokksbundinna þingmanna. Sú staða er óvenjuleg í íslenskum stjórnmálum en mikil hefð er fyrir sterkum meirihlutastjórnum. Úrslit. Kjörnir alþingismenn 2013 Framkvæmd. Kosningarnar fóru fram 27. apríl 2013, fjórum árum og tveimur dögum eftir alþingiskosningar 2009. Frestur til þess að skila inn framboðslistum var til 12. apríl. Kosningarnar voru þær fyrstu á Íslandi þar sem fatlaðir kjósendur hafa lögbundinn rétt til þess að velja sér sjálfir aðstoðarmann til þess að aðstoða þá við kosninguna fremur en að fulltrúi kjörstjórnar geri það. Ákvörðun landskjörstjórnar um mörk Reykjavíkurkjördæmanna var birt 26. mars 2013 en mörkin eru óbreytt frá kosningunum 2009 og liggja eftir Hringbraut, Miklubraut og Vesturlandsvegi og í gegnum mitt Grafarholtshverfi. Framboð. 15 framboð voru í boði, þar af 11 sem bjóða fram á landsvísu. Farið er yfir mál hvers og eins framboðs hér fyrir neðan. Fyrst eru taldir í stafrófsröð þeir flokkar sem fengu kjörna fulltrúa á þing 2009. Önnur framboð fylgja í stafrófsröð þar á eftir. Björt framtíð (A). Björt framtíð var formlega stofnuð 4. febrúar 2012 en undirbúningur hafði þá staðið um nokkurt skeið. Formenn flokksins eru Guðmundur Steingrímsson og Heiða Kristín Helgadóttir. Björt framtíð hefur mikil tengsl við Besta flokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur og margir sem koma að starfi Bjartrar framtíðar eru einnig virkir innan Besta flokksins. Guðmundur Steingrímsson var kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í norðvesturkjördæmi í kosningunum 2009 en sagði sig úr flokknum 23. ágúst 2011 og hefur síðan þá verið óháður þingmaður. Um leið og hann sagði sig úr flokknum boðaði Guðmundur stofnun nýs stjórnmálaafls sem ætti að höfða til frjálslynds fólks í öllum flokkum. Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði sig úr þeim flokki 11. október 2012 og gekk til liðs við Bjarta framtíð. Flokkurinn hefur því tvo menn á þingi en sérstakur þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur þó ekki verið stofnaður. Val á framboðslista Bjartrar framtíðar í öllum kjördæmum fór fram með uppstillingu sérstakrar sex manna nefndar en tillögur hennar voru síðar samþykktar af 40 manna stjórn flokksins. Framsóknarflokkurinn (B). Af sitjandi þingmönnum Framsóknarflokksins ákváðu Siv Friðleifsdóttir og Birkir Jón Jónsson að gefa ekki kost á sér áfram. Í norðausturkjördæmi, suðurkjördæmi og suðvesturkjördæmi var valið á framboðslista flokksins með tvöföldu kjördæmisþingi en í norðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum var uppstilling kjörnefndar. Sérstaka athygli vakti að formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kaus að bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi frekar en í Reykjavík þar sem hann hafði áður verið í framboði. Höskuldur Þórhallsson var ósáttur við þessa ákvörðun formannsins en hann var í öðru sæti í norðausturkjördæmi 2009 og ætlaði sér fyrsta sætið á listanum eftir brotthvarf Birkis Jóns. Upp kom deila um það hvort að Höskuldur hafi vitað af ákvörðun Sigmundar um að sá síðarnefndi hygðist bjóða sig fram í norðausturkjördæmi þegar sá fyrrnefndi tilkynnti sjálfur um þá fyrirætlan. Á tvöföldu kjördæmisþingi í Mývatnssveit 1. desember 2012 var Sigmundur Davíð valinn til þess að leiða listann með 63% atkvæða á móti 35% atkvæða sem féllu Höskuldi í vil. Þegar sú niðurstaða lá fyrir bauð Höskuldur sig fram í annað sæti listans og fékk stuðning 63% atkvæða í það sæti. Flokksþing Framsóknarflokksins fór fram 8.–10. febrúar 2013. Sigmundur Davíð var þar einn í framboði til formanns og hlaut 97,6% greiddra atkvæða en Sigurður Ingi Jóhannsson bauð sig einn fram til varaformennsku og hlaut 94,7% greiddra atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn (D). Sjálfstæðisflokkurinn fékk verstu útkomu sögu sinnar í kosningunum 2009 en hefur þó verið stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ólöf Nordal og Ásbjörn Óttarsson sóttust ekki eftir áframhaldandi þingsetu. Í öllum kjördæmum nema einu var valið á framboðslista í lokuðum prófkjörum. Í norðvesturkjördæmi var kosið í fjögur efstu sæti listans á tvöföldu kjördæmisráði. Í prófkjörinu í suðvesturkjördæmi vakti athygli að Bjarni Benediktsson formaður flokksins skyldi fá tvö mótframboð í fyrsta sæti listans frá Ragnari Önundarsyni sem sóttist sérstaklega eftir 1. sæti og Vilhjálmi Bjarnasyni sem sóttist efir 1.–6. sæti listans. Bjarni vann fyrsta sætið með 56% greiddra atkvæða sem þótti slök niðurstaða fyrir sitjandi formann en forystusætið var þó aldrei í hættu þar sem önnur atkvæði dreifðust á marga frambjóðendur. Vilhjálmur Bjarnason fékk rúmlega 13% fylgi í fyrsta sætið og Ragnheiður Ríkharðsdóttir um 9% fylgi þrátt fyrir að sækjast aðeins eftir öðru sæti listans. Vilhjálmur endaði í fjórða sæti í prófkjörinu og Elín Hirst í því fimmta en þau hafa ekki áður setið á þingi. Prófkjör flokksins í Reykjavík fór fram 24. nóvember 2012. Í framboði til fyrsta sætis listans voru Hanna Birna Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson. 74% kjósenda settu Hönnu Birnu í fyrsta sætið. Sá nýliði í landsmálunum fyrir utan Hönnu Birnu sem náði lengst var Brynjar Níelsson, fyrrum formaður Lögmannafélags Íslands, sem náði fjórða sæti. Aðrir nýliðar sem náðu efstu sætum í prófkjörum eða röðun voru Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari í öðru sæti í norðausturkjördæmi og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands í öðru sæti í norðvesturkjördæmi. Tveir sitjandi þingmenn flokksins, þeir Árni Johnsen og Tryggvi Þór Herbertsson, féllu með afgerandi hætti í prófkjörum í suður- og norðausturkjördæmum en hvorugur þeirra náði að verða á meðal sex efstu. Staða formannsins Bjarna Benediktssonar hefur verið mikið til umræðu. Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn honum á landsfundi flokksins 2011 en Bjarni stóðst þá atlögu. Samkvæmt skoðanakönnun í febrúar 2013 töldu 82% aðspurðra að Hanna Birna yrði sterkari formaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á móti 9% sem töldu Bjarna sterkari formannskost. Hanna Birna sóttist þó ekki eftir formannsembættinu en bauð sig fram til varaformanns á landsfundi en það embætti losnaði með brotthvarfi Ólafar Nordal. Á landsfundi var Bjarni endurkjörinn formaður með 79% atkvæða en Hanna Birna fékk 18,5% atkvæða þrátt fyrir að vera ekki í framboði til formanns. Hún var hins vegar ein í framboði í til varaformanns og hlaut 95% gildra atkvæða í það embætti. Hægri grænir (G). Hægri grænir eru stjórnmálaflokkur sem stofnaður var 17. júní 2010 undir formennsku Guðmundar Franklín Jónssonar. Flokkurinn telur sig til hægri í stjórnmálum og leggur m.a. áherslu á umhverfismál, skuldavanda heimila og andstöðu við Evrópusambandsaðild. Flokkur heimilanna (I). Halldór Gunnarsson í Holti, sem nýverið sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum, Inga Karen Ingólfsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason áttu frumkvæðið að stofnun flokks undir heitinu Flokkur heimilanna. 1. apríl 2013 var kynnt að átta samtök myndu standa að framboðinu og að Pétur Gunnlaugsson, lögfræðingur og útvarpsmaður myndi verða formaður þess. Flokkurinn býður fram undir listabókstafnum I en ein þeirra samtaka sem standa að flokknum, Lýðveldisflokkurinn, hafði áður fengið þeim bókstaf úthlutað. Regnboginn (J). Jón Bjarnason, Bjarni Harðarson, Atli Gíslason og fleiri standa að framboði Regnbogans sem lýst er sem regnhlífarsamtökum sem leggja áherslu á fullveldi og sjálfbæra þróun. Flokkurinn fékk úthlutað listabókstafnum J. Lýðræðisvaktin (L). Tilkynnt var um fyrirhugað framboð Lýðræðisvaktarinnar 16. febrúar 2013. Að henni stóðu meðal annars Lýður Árnason, Þorvaldur Gylfason, Pétur Gunnlaugsson og Örn Bárður Jónsson en allir sátu þeir stjórnlagaráði. Lýður starfaði áður með Dögun en sagði sig úr þeim flokki í janúar 2013 þar sem hann var ósammála áherslum þar. Pétur Gunnlaugsson sagði sig úr flokknum 25. mars vegna málefnaágreinings. Framboðið fékk listabókstafinn „L“. Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands (S). Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur leitt ríkisstjórn undanliðins kjörtímabils en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og fyrrum formaður flokksins, sóttist ekki eftir endurkjöri. Hún hættir því á þingi eftir 35 ára samfellda setu þar. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem hefur verið forseti Alþingis lengst af kjörtímabilsins mun einnig hætta. Í öllum kjördæmum var notast við lokað prófkjör („flokksval“) við val á framboðslista. Sérstök athygli beindist að prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæmi þar sem Árni Páll Árnason – sem þá hafði gefið það út að hann sæktist eftir formannsembætti í Samfylkingunni – var í framboði til sætis og atti þar kappi við Katrínu Júlíusdóttur sem einnig var talin líkleg til þess að stefna á formannsframboð. Prófkjörið fór fram 9. – 10. nóvember og Árni Páll sigraði með 1041 atkvæði í fyrsta sætið en Katrín hlaut 910 atkvæði í fyrsta sætið. Nýjir frambjóðendur sem ekki hafa áður setið á þingi en náðu ofarlega á lista í prófkjörum Samfylkingarinnar eru til dæmis Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi í þriðja sæti í Reykjavík suður, Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi Alcoa í öðru sæti í norðausturkjördæmi. Af sitjandi þingmönnum hafnaði Sigmundur Ernir Rúnarsson í 4. sæti í norðausturkjördæmi og á litla möguleika á að komast á þing nema fylgi Samfylkingarinnar verði mun meira en skoðanakannanir gefa til kynna. Landsfundur Samfylkingarinnar fór fram 1. – 3. febrúar 2013. Jóhanna Sigurðardóttir og Dagur B. Eggertsson létu þá af embættum sínum sem formaður og varaformaður flokksins. Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson voru í framboði til formanns en kosning til þess embættis fór fram rafrænt og var opin öllum skráðum meðlimum flokksins. 5.621 greiddu atkvæði og sigraði Árni Páll með 62,2% greiddra atkvæða. Í framboði til varaformanns voru Katrín Júlíusdóttir og Oddný G. Harðardóttir og náði Katrín kjöri með atkvæðum 308 landsfundarfulltrúa á móti 214 atkvæðum Oddnýjar. Dögun (T). Dögun eru stjórnmálasamtök sem urðu til úr Borgarahreyfingunni með aðkomu Hreyfingarinnar, Frjálslynda flokksins og nokkurra einstaklinga sem sátu í stjórnlagaráði. Framboðið hefur fengið úthlutað listabókstafnum T. Sérstök 13 manna nefnd mun stilla upp framboðslistum í öllum kjördæmum. Þór Saari er oddviti nefndarinnar en Guðjón Arnar Kristjánsson varamaður hans. Meðal þeirra sem eru tengdir framboðinu eru Andrea J. Ólafsdóttir, Gísli Tryggvason og Margrét Tryggvadóttir. Vinstrihreyfingin – grænt framboð (V). Vinstrihreyfingin - grænt framboð býður fram til Alþingis í fimmta skiptið en nú í fyrsta skiptið eftir að hafa setið heilt kjörtímabil í ríkisstjórn. Hreyfingin fékk 14 menn kjörna í kosningunum 2009 en fjórir þingmenn, þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Jón Bjarnason og Lilja Mósesdóttir, sögðu skilið við þingflokkinn á tímabilinu á meðan einn, Þráinn Bertelsson, gekk til liðs við hreyfinguna. Þar að auki lét Guðfríður Lilja Grétarsdóttir af þingmennsku um áramót 2012 og 2013. Af þingmönnum hreyfingarinnar í lok tímabils sækjast Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman ekki eftir áframhaldandi setu á þingi. Í fimm kjördæmum var valið á framboðslista með prófkjörum (forvali) en í suðurkjördæmi var stillt upp á framboðslista. Í prófkjöri í suðvesturkjördæmi buðu Ögmundur Jónasson og Ólafur Þór Gunnarsson sig fram í fyrsta sætið. Ögmundur sigraði með 53% atkvæða í fyrsta sætið en Ólafur lenti í öðru sæti. Vegna kynjareglu var Ólafur færður niður í þriðja sætið en Rósa Björk Brynjólfsdóttir verður í öðru sæti. Björn Valur Gíslason flutti sig um kjördæmi og bauð sig fram í Reykjavík frekar en norðausturkjördæmi en var ekki á meðal efstu manna í prófkjörinu þar. Lilja Rafney Magnúsdóttir varð í fyrsta sæti í prófkjörinu í norðvesturkjördæmi og Steingrímur J. Sigfússon í norðausturkjördæmi. Í suðurkjördæmi var Arndís Soffía Sigurðardóttir valin í efsta sæti listans af uppstillingarnefnd. 16. febrúar 2013 tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon formaður hreyfingarinnar að hann myndi hætta sem formaður á landsfundi VG sem fram fer 22.-24. febrúar. Steingrímur hefur verið formaður hreyfingarinnar frá stofnun hans 1999. Daginn eftir tilkynnti Katrín Jakobsdóttir, varaformaður um framboð sitt til formanns. Katrín var ein í framboði til formanns og hlaut stuðning 98% greiddra atkvæða. Björn Valur Gíslason sigraði í kosningu til varaformanns með ríflega 50% atkvæða gegn tveimur mótframbjóðendum. Píratar (Þ). Píratar á Íslandi stofnuðu stjórnmálaflokk að fyrirmynd erlendra pírataflokka 24. nóvember 2012. Birgitta Jónsdóttir fyrrum þingmaður Hreyfingarinnar kom að stofnuninni og bauð sig fram til setu á framboðslista Pírata. Stefnumál flokksins eru mótuð á sérstökum umræðu- og kosningavef flokksins og þar sem jafnframt var valið á framboðslista hans. Flokkurinn fékk úthlutað listabókstafnum Þ. Húmanistaflokkurinn (H). Húmanistaflokkurinn var stofnaður árið 1984 og hefur í þrígang boðið fram til Alþingis, síðast 1999. Hann stefnir á framboð í öllum kjördæmum og hefur fengið úthlutað listabókstafnum „H“. Sturla Jónsson (K). Sturla Jónsson vörubílsstjóri er með framboð í eigin nafni en framboðið hét áður Framfaraflokkurinn. Framboðið hefur fengið úthlutað listabókstafnum K. Það býður einungis fram í Reykjavíkurkjördæmi suður. Landsbyggðarflokkurinn (M). Stofnfundur sérstaks landsbyggðarflokks fer fram 23. febrúar 2013 en undirbúningshópur hafði þá verið starfandi undir stjórn Magnúsar Hávarðssonar á Ísafirði. Aðstandendur flokksins telja hallað á landsbyggðina í ýmsum málaflokkum og að stefna annarra flokka mótist um of af tenglsum þeirra við höfuðborgarsvæðið. Flokkurinn stefndi að framboði í landsbyggðarkjördæmunum þremur en skilaði aðeins framboðslista í norðvesturkjördæmi. Alþýðufylkingin (R). Alþýðufylkingin var stofnuð 13. janúar 2013 en framhaldsstofnfundur átti sér stað 16. febrúar. Flokkurinn er róttækur vinstri flokkur sem ætlar sér að vera „baráttutæki íslenskrar alþýðu til að bæta hag sinn með því að heimta sitt úr höndum auðstéttarinnar.“ Formaður flokksins er Þorvaldur Þorvaldsson og varaformaður er Vésteinn Valgarðsson. Alþýðufylkingin hefur listabókstafinn R og mun bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum tveim. Framboð sem eru óvirk eða hafa hætt við framboð. Hér að neðan eru listuð þau framboð sem voru til umræðu í aðdraganda kosninga en buðu ekki fram. Samstaða (C). Stjórnmálaflokkurinn Samstaða varð til í febrúar 2012 og var í upphafi undir forystu Lilju Mósesdóttur auk Sigurðar Þ. Ragnarssonar. Flokkurinn fékk úthlutað listabókstafnum „C“ og boðaði framboð í öllum kjördæmum. Lilja hafði verið kjörin á þing 2009 fyrir vinstri græn en sagði sig úr þeim flokki 21. mars 2011 vegna ágreinings við forystu flokksins um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, vegna Icesave-málsins og skuldavanda heimila. Flokkurinn fór mjög kröftuglega af stað og mældist í einni skoðanakönnun í febrúar 2012 með næst mest fylgi allra framboða eða 21,3%. Fylgi flokksins átti þó aldrei eftir að mælast svo hátt aftur og dalaði hratt á næstu vikum og mánuðum auk þess sem áberandi samstarfserfiðleikar voru til staðar sem urðu til þess að Sigurður Þ. Ragnarsson yfirgaf flokkinn fljótlega eftir stofnun hans. 23. ágúst 2012 tilkynnti Lilja um það að hún myndi ekki sækjast eftir því að gegna áfram formannsembætti í Samstöðu á landsfundi flokksins sem yrði haldinn 6. október sama ár og þannig axla ábyrgð á fylgistapinu. Lilja tilkynnti svo 22. desember 2012 að hún ætlaði sér ekki að sækjast eftir endurkjöri á þing og yrði því ekki í framboði fyrir Samstöðu. Á landsfundi Samstöðu 9. febrúar 2013 var samþykkt að flokkurinn myndi ekki bjóða fram í kosningunum en starfa áfram og reyna að hafa áhrif á stjónmálaumræðuna. Lilja Mósesdóttir var jafnframt kjörin formaður flokksins á nýjan leik. Bjartsýnisflokkurinn (E). Bjartsýnisflokkurinn kennir sig við „hófsama þjóðernishyggju“ og boðaði mögulegt framboð með fréttatilkynningu til fjölmiðla í júní 2012. Einar Gunnar Birgisson var þá formaður flokksins og forsvarsmaður hans. Framboðið fékk úthlutað listabókstafnum „E“ en 300 meðmælendur þarf til þess að framboð fái úthlutað staf. Málefni innflytjenda og hælisleitenda eru flokkinum mjög hugleikin en öll stefnumál hans samkvæmt fréttatilkynningu snúast um þann málaflokk og fela í sér „eins stranga innflytjendalöggjöf og við komust upp“ og að mun strangari hömlur verði settar við veitingu pólitísks hælis. Í janúar 2013 virtist áform flokksins um framboð vera í uppnámi. Einar Gunnar hefur sagt sig frá flokksstarfinu og aðrir ekki boðið sig fram til þess að leiða framboðið. Listabókstafur flokksins var afskráður 26. mars 2013 eftir að hann tilkynnti innanríkisráðuneytinu um að hætt hafi verið við framboðið. Lýðfrelsisflokkurinn. Lýðfrelsisflokkurinn (sem áður var kallaður Norræni íhaldsflokkurinn) boðaði framboð snemma árs 2012 og kvaðst sækja fyrirmyndir til borgaralegra flokka á Norðurlöndunum og Þýskalandi. Engar fréttir hafa borist eftir það um að framboð sé í undirbúningi. Kristin stjórnmálasamtök. Kristin stjórnmálasamtök boðuðu framboð í janúar 2013 um leið og Snorri Óskarsson, oft kenndur við söfnuðinn Betel, gekk til liðs við samtökin. Frekari fréttir hafa ekki borist af framboðsáformum samtakanna. Kannanir. Að neðan er yfirlit yfir birtar skoðanakannanir frá ársbyrjun 2012. Skyggðar tölur í hverri röð merkja stærstu framboðin sem samanlagt hafa yfir helming fylgis í þeirri könnun. Svavar Lárusson - Cara, Cara Bella. Svavar Lárusson syngur Cara Bella er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með hinum norska SY-WE-LA jazzkvintett. Kvintettinn starfaði í Osló frá 1950-1953 og hann skipuðu meðal annarra Rolf Syversen, píanó, Finn Westbye gítar og Fred Lange-Nielsen, bassi. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Um plötuna. Í lok október 1952 komu 3 plötur með Svavari Lárussyni og SY-WE-LA kvintettinum til landsins sem teknar voru upp hjá Norska útvarpinu IM 3, IM 4 og IM 5. Þessar plötur voru hinar fyrstu sem settar voru á markað frá Íslenzkum tónum. Svavar Lárusson syngur Fiskimannaljóð frá Capri. Svavar Lárusson syngur Fiskimannaljóð frá Capri er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með hinum norska SY-WE-LA jazzkvintett. Kvintettinn starfaði í Osló frá 1950-1953 og hann skipuðu meðal annarra Rolf Syversen, píanó, Finn Westbye gítar og Fred Lange-Nielsen, bassi. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Um plötuna. Í lok október 1952 komu 3 plötur með Svavari Lárussyni og SY-WE-LA kvintettinum til landsins (IM 3, IM 4 og IM 5). Þær voru teknar voru upp hjá Norska útvarpinu. Þessar plötur voru hinar fyrstu sem settar voru á markað frá Íslenzkum tónum. Fiskimannaljóð frá Capri. Forsíða nótnaheftis Fiskimannaljóðs frá Caprí. Teikning Þorleifur Þorleifsson. Drangeyjarútgáfan, 1951. Svavar Lárusson - Ég vild' ég væri.... Svavar Lárusson syngur Hreðavatnsvalsinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með hinum norska SY-WE-LA jazzkvintett. Kvintettinn starfaði í Osló frá 1950-1953 og hann skipuðu meðal annarra Rolf Syversen, píanó, Finn Westbye gítar og Fred Lange-Nielsen, bassi. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Um plötuna. Í lok október 1952 komu 3 plötur með Svavari Lárussyni og SY-WE-LA kvintettinum til landsins (IM 3, IM 4 og IM 5). Þær voru teknar upp hjá Norska útvarpinu. Þessar plötur voru hinar fyrstu sem settar voru á markað frá Íslenzkum tónum. Bæði lögin á þessari plötu eru vel þekkt. Ég vildi ég væri.... Í merkilegri ritgerð Ólafs Þorsteinssonar um sögu íslensku hljómplötunnar 1910-1958, er kafli um lagið "Ég vild' ég væri..." og örlög plötunnar í þætti í Ríkisútvarpinu. Hreðavatnsvalsinn. "Hreðavatnsvalsinn" var einn af þekktustu íslensku dægurlögum síðasta áratugar. Knútur R. Magnússon samdi lagið undir dulnefninu Reynir Geirs. Áhugi var fyrir laginu á Norðurlöndunum og var valsinn gefinn út á plötu í Noregi. Norskan texta gerði Peter Coob en hann gerði einnig norska textann við "Litlu fluguna" hans Sigfúsar Halldórssonar. Oscar Scau í Osló gaf út nóturnar. Sigfús Halldórsson - Játning. Sigfús Halldórsson syngur og leikur eigin lög er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigfús Halldórsson tvö laga sinna "Játning" og "Við tvö og blómið" og leikur undir á píanó. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Soffía Karlsdóttir - Bílavísur og Réttarsamba. Soffía Karlsdóttir - Bílavísur og Réttarsamba er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngja Soffía Karlsdóttir og Tígulkvartettinn tvö vinsæl lög með kvintett Jan Morávek. Kvintettinn skipa auk Jan, þeir Árni Ísleifs, Eyþór Þorláksson, Pétur Urbancic og Þorsteinn Eiríksson. Tígulkvartettinn skipa þeir Guðmundur H. Jónsson, Hákon Oddgeirsson, Brynjólfur Ingólfsson og Gísli Símonarson. Útsetning: Jan Morávek. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson - Litli vin. Sigurður Ólafsson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lögin "Litli vin" og "Hvar varstu í nótt". Hljómsveitarstjóri er Bjarni Böðvarsson og aðrir í hljómsveit eru Sveinn Ólafsson, Jónas Dagbjartsson og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson - Meira fjör. Sigurður Ólafsson syngur Meira fjör er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lögin "Meira fjör" og "Kom þú þjónn". Hljómsveitarstjóri er Bjarni Böðvarsson og aðrir í hljómsveit eru Sveinn Ólafsson, Þorvaldur Steingrímsson, Óskar Cortes, Jónas Dagbjartsson og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Guðrún Á. Símonar - Svörtu augun. Guðrún Á. Símonar syngur Svörtu augun er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Guðrún Á. Símonar "Svörtu augun" og "Af rauðum vörum" með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Í hljómsveitinni voru auk Bjarna, þeir Sveinn Ólafsson, Josef Felzmann, Þorvaldur Steingrímsson, Óskar Cortes, Jónas Dagbjartsson og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Svavar Lárusson - Sólskinið sindrar. Svavar Lárusson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með hinum norska SY-WE-LA jazzkvintett. Um er að ræða endurútgáfu af lögum sem komu út 1952 á IM 3 og IM 4. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Norska útvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson - Sjómannavalsinn. Sigurður Ólafsson syngur Sjómannavalsinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigurður Ólafsson lögin "Sjómannavals" og "Stjörnunótt". Hljómsveitina skipa Bjarni Böðvarsson, Aage Lorange og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Lögin. Lögin "Sjómannavals" og "Stjörnunótt" voru send inn í danslagakeppni SKT árið 1953 og fengu bæði verðlaun í flokki gömlu dansanna. "Stjörnunótt" fékk 3. verðlaun en "Sjómannavals" vann keppnina og varð eitt vinsælasta íslenska lag síðustu aldar. Til marks um vinsældirnar hefur valsinn fengið ákveðinn greini í huga þjóðarinnar og heitir nú Sjómannavals-„inn” í stað hins hógværa heitis sem það bar upphaflega. Sjómannavalsinn. Nótnahefti sem gefið var út vegna SKT keppninnar 1953 Tígulkvartettinn syngur lög eftir Ágúst Pétursson. Tígulkvartettinn syngur lög eftir Ágúst Pétursson er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni flytur Tígulkvartettinn lögin "Hittumst heil" og "Ég mætti þér" við undirleik Jan Morávek, Eyþórs Þorlákssonar og Erwin Koeppen. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Tígulkvartettinn. Guðmundur H. Jónsson, Hákon Oddgeirsson, Brynjólfur Ingólfsson og Zazaska. Zazaska ("Zazaki") er indóevrópskt tungumál. Zazaska er íranskt tungumál, sem þýðir að það er svipað persnesku, gileksku, mazerunsku og talyshsku. Sigrún Jónsdóttir og K.K. sextettinn - Ástartöfrar. Sigrún Jónsdóttir og K.K. sextettinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigrún Jónsdóttir tvö lög með K.K. sextett og syngur Alfreð Clausen með henni í "Lukta-Gvendi". Sextettinn skipa Kristján Kristjánsson hljómsveitarstjóri, Ólafur Gaukur Þórhallsson, Gunnar Ormslev, Kristján Magnússon, Einar Jónsson, Pétur Urbancic og Björn Ingþórsson. Þeir tveir síðastnefndu spila í sínu laginu hvor. Ólafur Gaukur útsetti. Rangur plötumiði var á annarri hlið plötunnar (óvíst hvort svo var á öllu upplaginu) en hér er sýndur réttur miði. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Sigrún Jónsdóttir og K.K. sextettinn - Hvert einasta lag. Sigrún Jónsdóttir og K.K. sextettinn er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Sigrún Jónsdóttir lagið "Hvert einasta lag" með K.K. sextett og sextettinn leikur "I'll remember April". Sextettinn skipa Kristján Kristjánsson hljómsveitarstjóri, Ólafur Gaukur Þórhallsson, Gunnar Ormslev, Kristján Magnússon, Einar Jónsson, Pétur Urbancic og Björn Ingþórsson. Þeir tveir síðastnefndu spila í sínu laginu hvor. Ólafur Gaukur útsetti "Hvert einasta lag" og Kristján Kristjánsson útsetti "I'll remember April". Rangur plötumiði var á annarri hlið plötunnar (óvíst hvort svo var á öllu upplaginu) en hér er sýndur réttur miði. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Olga Guðrún Árnadóttir. Olga Guðrún Árnadóttir (fædd 31. ágúst 1953) er íslenskur rithöfundur. Hún fékk fyrstu verðlaun Samtaka móðurmálskennara 1984 fyrir smásöguna "Vertu ekki með svona blá augu" og verðlaun fræðsluráðs fyrir söguna "Pétur". Þá hlaut hún viðurkenningu Íslandsdeildar IBBY fyrir ritstörf árið 1996. Fyrsta barnabók Olgu Guðrúnar, "Trilla, álfarnir og dvergurinn Túllli", kom út árið 1972 en sú næsta, "Búrið", kom út 1977 og hefur verið kölluð fyrsta íslenska unglingabókin. Aðrar bækur hennar eru "Vegurinn heim" (1982), "Ævintýri á jólanótt" (1992) og "Peð á plánetunni Jörð" (1995). Auk þess hefur Olga þýtt fjölda bóka, samið tónlist og sungið lög annarra. Plata hennar "Babbiddíbú" kom út árið 1994. Djúpið (kvikmynd). "Djúpið" er íslensk kvikmynd frá árinu 2012 í leikstjórn Baltasars Kormáks. Handrit myndarinnar er lauslega byggt á samnefndu leikriti Jóns Atla Jónassonar sem innblásið var af þeim einstaka atburði þegar Guðlaugur Friðþórsson náði einn áhafnarmeðlima að bjarga lífi sínu eftir að Hellisey VE503 hvolfdi og sökk seint í mars 1984. "Djúpið" var forsýnd á kvikmyndahátíðinni í Torontó í september 2012 þar sem hún hlaut lofsamlega dóma gagnrýnenda. Tækniháskólinn í Varsjá. Aðalbygging Tækniháskólans í Varsjá eða WUT, sem er ein af virtustu vísindastofnunum í Póllandi Tækniháskólinn í Varsjá (pólska: "Politechnika Warszawska") eða WUT, er ein af leiðandi tæknistofnunum Póllands og ein af þeim stærstu í Mið-Evrópu. Við háskólann starfa 2.453 kennara þar af 357 prófessora. Háskólinn telur um 36.156 nemendur. Á háskólastigi eru um 25 þúsund nemendur í fullu námi og um 8 þúsund nemur í hlutanámi. Í doktorsnámi eru 1 þúsund nemendur, og í framhaldsháskólanámi eru um 2.500 nemendur. Háskólinn er með 19 deildir sem ná til flestra sviða vísinda og tækni. Allar eru þær í Varsjá, utan eina í borginni Plock. Alls eru um 5.000 nemendur útskrifaðir árlega. Margir af forystumönnum fyrirtækja og stofnana Póllands eru menntaðir frá háskólanum. Uppruna háskólans má rekja til ársins 1826 þegar verkfræðimenntun hófst við Tæknistofnunina í Varsjá. WUT er öflugur rannsóknarháskóli. Árið 2012 voru 498 rannsóknarverkefni við háskólann. Þá er WUT mjög virkur þátttakandi í alþjóðasamstarfi. Árið 2012 var WUT með 495 samninga um alþjóðasamstarf. Prófessor Jan Szmidt, er rektor Tækniháskólans í Varsjá. Guðlaugur Friðþórsson. Guðlaugur Friðþórsson (fæddur 24. september 1961) er íslenskur sjómaður sem hlaut mikla þjóðhylli þegar hann náði að synda sex kílómetra úr sökkvandi skipi. Atvikið átti sér stað þann 11. mars 1984 þegar Hellisey VE-503 sökk austur af Heimaey og var Guðlaugur sá eini sem lifði slysið af. Guðlaugur þurfti að synda sex kílómetra í land eftir að báturinn sökk og tók ferðin hann fimm klukkustundir, en þegar hann kom í land þurfti hann að ganga berfættur yfir hraun í frosti og næðingi til byggða í Vestmannaeyjum. Svavar Lárusson - Svana í Seljadal. Svavar Lárusson - Svana í Seljadal er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög með kvartett Aage Lorange. Kvartettinn skipuðu auk Aage, þeir Ólafur Pétursson, Þorvaldur Steingrímsson og Einar B. Waage. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen - Lagið úr "Rauðu myllunni". Alfreð Clausen syngur erlend lög er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni syngur Alfreð Clausen lagið "„úr Rauðu myllunni”" og "Söng sjómannsins" við undirleik kvintetts Josef Felzmann. Kvintettinn skipuðu auk Josef, þeir Carl Billich, Karl Lilliendahl, Jóhannes Eggertsson og Einar B. Waage. Útsetning: Josef Felzmann. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Sigurður Ólafsson - Það er svo margt. Sigurður Ólafsson - Það er svo margt er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Sigurður Ólafsson tvö sígild íslensk sönglög við píanóundirleik Carl Billich. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Svavar Lárusson - Sjana síldarkokkur. Svavar Lárusson - Sjana síldarkokkur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Svavar Lárusson tvö lög með Monti tríóinu þýska. Platan er hljóðrituð í Stuttgart í Þýskalandi. Pressun: AS Nera í Osló. Monti tríóið. Monti-tríóið sem lék með Svavari á plötunni. Svavar Lárusson - Sestu hérna hjá mér ástin mín. Svavar Lárusson - Sestu hérna hjá mér ástin mín er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni flytur Svavar Lárusson tvö lög með Monti tríóinu þýska. Platan er hljóðrituð í Stuttgart í Þýskalandi. Pressun: AS Nera í Osló. Guðrún Á. Símonar - Mánaskin. Guðrún Á. Símonar - Mánaskin er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Guðrún Á. Símonar tvö lög við píanóundirleik Fritz Weisshappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Guðrún Á. Símonar - Lindin. Guðrún Á. Símonar - Lindin er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Guðrún Á. Símonar tvö lög við píanóundirleik Fritz Weisshappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Guðrún Á. Símonar - Nafnið. Guðrún Á. Símonar - Nafnið er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Guðrún Á. Símonar tvö lög við píanóundirleik Fritz Weisshappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jón Örn Loðmfjörð. Jón Örn Loðmfjörð (fæddur 1983) er íslenskt framúrstefnuskáld og vefhönnuður. Útgefnar bækur hans eru: "Gengismunur: ljóð úr skýrslu rannsóknarnefndar alþingis" (2010); "Usli: kennslubók" (2009); "Síðasta ljóðabók Sjóns" (2008). Jón Örn hefur einnig sent frá sér ljóðavélina Gogga sem yrkir sjálfvirk ljóð eftir slembiúrtaki af internetinu. James Patrick Stuart. James Patrick Stuart (fæddur 16. júní 1968) er ensk-bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í All My Children og fyrir að tala inn á "The Penguins of Madagascar". Einkalíf. Stuart er fæddur í Encino, Kaliforníu og er af enskum uppruna. Fjórtán ára gamall þá tók Stuart leiklistarnámskeið við "Moulten Playhouse" í Kaliforníu. Stundaði hann nám við "San Francisco State háskólann" í leiklistardeildinni en hætti árið 1988 þegar leiklistin dró hann til Hollywood. Einnig stundaði hann leiklist við "Stella Adler´s Conservatory" í New York-borg og hjá Arthur Mendoza. Stuart hefur verið giftur Jocelyn síðan árið 2000 og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Stuart hefur komið fram í leikritum á borð við "The Normal Heart", "Just Thinking", "Francis & the President" og "Wonderland". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Stuart var árið 1980 í sjónvarpsþættinum "Galactica 1980" þar sem hann lék Dr. Zee. á árunum 1990-1995 lék Stuart í sápuóperunni All My Children þar sem hann fór með hlutverk Will Cortlandt. Síðan þá hefur hann komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Seinfeld, Frasier, Spin City, JAG, Tuck, Ghost Whisperer, American Dad, og Hot in Cleveland. Stuart hefur leikið stór gestahlutverk í þáttum á borð við, The Closer, Supernatural, 90210 og "Andy Richter Controls the Universe". Stuart hefur í mörg ár talað inn á bæði sjónvarpsþætti á borð við "Wolverine and the X-Men" og "The Penguins of Madagascar" og inn á tölvuleiki á borð við "Call of Duty", "Kingdom of Hearts" og "Company of Heroes". Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Stuart var árið 1990 í Pretty Woman. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við The Disappearance of Garcia Lorca, Gods and Generals, Cruel World, The Who Came Back og Imagaine That. Tenglar. Stuart, James Patrick Stuart, James Patrick Ingibjörg Þorbergs - Aravísur. Ingibjörg Þorbergs syngur Aravísur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur og leikur Ingibjörg Þorbergs tvö barnalög. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ingibjörg og Aravísur. Lagið "Aravísur" varð eitt ástsælasta barnalag á Íslandi í síðari hluta síðustu aldar og hélst þar allt í hendur; snjallt ljóð Stefáns Jónssonar, fallegt lag og einstaklega fínlegur flutningur Ingibjargar. Ingibjörg fékk sérstök heiðursverðlaun vegna framlags til barnatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2003. Helena Eyjólfsdóttir - Heims um ból. Helena Eyjólfsdóttir syngur Heims um ból er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Helena Eyjólfsdóttir tvö jólalög við undirleik Páls Ísólfssonar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Helena. Helena Eyjólfsdóttir var aðeins 12 ára þegar þessi plata var tekin upp og vakti bjartur söngur hennar verðskuldaða athygli. Jakob Hafstein - Lapi, listamannakrá í Flórens. Jakob Hafstein - Lapi, listamannakrá í Flórens er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Jakob Hafstein tvö lög við undirleik hljómsveitar Carl Billich. Í laginu "Blómabæn" syngur Jakob tvíraddað. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan - Seinasta nóttin. María Markan - Seinasta nóttin er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan lögin "Seinasta nóttin" og "Smalavísa". Fritz Weishappel leikur undir á píanó. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. María Markan - Gömul þula. María Markan syngur fjögur lög er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur María Markan fjögur lög við píanóundirleik Fritz Weishappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Armfætlur. Armfætlur teljast allar þær tegundir sem tilheyra fylkingu "Brachiopoda". Þær eru hryggleysingjar sem lifa í sjó, eru tvíhliða samhverfar og nærast með síun. Tvær skeljar umlykja efri hluta flestra tegunda og hjá sumum tegundum hylja þessar skeljar allt dýrið. Þær líkjast samlokum (Bivalvia) í útliti en eru þó aðeins fjarskildar þeim, þær eru til dæmis mun skyldari mosadýrum (Bryozoa) sem tilheyra sömu yfirfylkingu, "Lophotrochozoa". Tegundir Brachiopoda komu fram snemma í þróunarsögunni eða fyrir um 570 milljónum ára og hægt er að rekja steingervingasögu þeirra allt frá kambríumtímabilinu og til nútímans, það tímabil spannar um það bil 542. milljón ára. Armfætlur voru ein algengasta tegund sjávarhryggleysingja allt fram á miðlífsöld þegar miklar hamfarir leiddu til fjöldaútdauða þar sem allt að 90% ættkvísla urðu aldauða, það var fyrir um 250 milljónum ára. Armfætlur hafa lítið sem ekkert efnahagslegt gildi og eru ekki nýttar líkt og samlokur, sniglar eða aðrir nytjahryggleysingjar. Steingervingar þeirra eru hinsvegar athyglisverðir og vinsælir á söfnum eða sem minjagripir. Sem dæmi um stað þar sem steingervingar armfætlna hafa fundist er toppur Snowdon fjalls, hæsta fjalls Bretlands utan Skotlands. Nafngiftin Brachiopoda kemur úr grísku orðunum sem standa fyrir armur (βραχίων) og fótur (πούς). Enska heitið, lamp shells, stafar að hinsvegar af því að útlit þeirra svipar til olíulampa Rómverja til forna. Skipta má armfætlum upp í tvo megin hópa eftir því hvort þeir hafa hafa liðamót (articulate) eða eru liðamótalausir (inarticulate). Þær sem tengjast með liðamótum hafa tennta liði og einfalda vöðva til þess að opna og loka skeljunum, en þær sem ekki hafa liðmót gera það með hjálp flóknara vöðvakerfis. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að geta glennt skeljarnar um um það bil 10 gráður. Einkenni. Langflestar armfætlur eru tiltölulega smáar eða um 10 til 30 millimetrar, stærð getur þó verið frá 1 millimetri og upp í 100 millimetra eftir tegundum. Steingervingar sýna þó að áður voru til armfætlur allt að 380 millimetrum. Nútíma armfætlur hafa tapað þeim mikla breytileika á milli tegunda sem var til staðar til forna þegar fylkingin var mjög fjölbreytt. Þá geta armfætlur náð 3. til 30. ára aldri eftir tegundum. Hver armfætla hefur tvær skeljar sem hylja annars vegar kviðlægu (ventral) og hins vegar baklægu (dorsal) hliðina, athugið samt að sumir steingervingafræðingar eru ósammála því að flokka skeljarnar sem kviðlægar og baklægar þar sem sú kviðlæga er talin hafa myndist þegar brotnaði upp á þá baklægu þannig að hún lagðist undir dýrið. Skeljarnar ganga einnig undir nöfnunum pedicle valve (baklæga skelin) og branchial valve (kviðlæga skelin). Armar (branchia) þekja innra yfirborð kviðlægu skeljarinnar og þaðan hlýtur fylkingin nafn sitt, armarnir styðja við svokallað lophophore sem er líffærið sem armfætlur og aðrar lífverur sem tilheyra yfirfylkingu Lophotrochozoa nota til bæði til síunar og öndunar. Við baklægu skelina, sem er talsvert stærri en sú kviðlæga, er svo áfastur stilkurinn sem flestar armfætlur nota til þess að festa sig við yfirborð. Flestar armfætlur eru gular eða hvítar að lit en geta þó sýnt meiri fjölbreytni og verið bleikar, brúnar eða gráar, og jafnvel með rauðum röndum eða flekkum. Skeljarnar sem umlykja efri hluta þeirra eru er almennt brúnar með grænum flekkjum, en geta þó í einhverjum tilvikum verið rjómagular eða grænar. Skeljarnar eru ýmist sléttar, með göddum eða rifflum eða þaktar einskonar plötum. Lagi þeirra er gjarnan lýst sem tungulaga og eru þær sporöskjulaga á langhliðina. Magn og dreifing. Núlifandi tegundir armfætlna eru um 300 talsins og tilheyra 80 ættkvíslum. Líkt og áður hefur komið fram voru þær eitt sinn til staðar í miklu mæli á öllum hafsvæðum, í dag eru þær vissulega til í miklum þéttleika en aðeins staðbundið. Til dæmis hafa armfætlur þrifist vel í hafinu við Suðurskautið þar sem þeir eru sumstaðar í meira magni en aðrir stærri hryggleysingjar til samans. Armfætlur eru sjávardýr og þrífast ekki í ferskvatni, flestar tegundir forðast sterka strauma eða öldur og finnast gjarnan í hellum, miklum grýttum halla og í brún landgrunnsins. Flestar tegundir kjósa að festa arm sinn við grjót og minnsta tegund armfætlna, sem er innan við 1 millimetri að stærð, lifir í möl. Þar sem efnaskipti armfætlna eru á bilinu þrisvar til tíu sinnum hægari en hjá samlokum hafa þær að mestu leiti vikið fyrir þeim í hlýjum sjó og lifa því flestar tegundir á kaldari hafsvæðum. Talið er að um 60% armfætlna lifi á innan við 180 metra dýpi. Þær þrífast vel í sjónum við Ísland og finnast umhverfis landið, yfirleitt á undir 30 metra dýpi þar sem þaraskóga gætir ekki. Þá fundust armfætlur við rannsóknir á hafsbotninum á Drekasvæðinu og leifar armfætluskelja fundust á 400-500 metra dýpi við borun á háhitasvæði á Reykjanesi. Önnur heimkynni armfætlna eru til dæmis við Ástralíu og Nýja Sjáland, við Suður-Afríku og við Japan, þar sem þær eru algengar. Í Karabíska hafinu lifa nokkrar tegundir og einnig í Norður-Atlantshafi í kring um Bresku Eyjarnar. Í Miðjarðarhafinu, vesturströnd Bandaríkjanna og Suður-Ameríku, nokkur fjöldi og fjölbreytni er við Argentínu þar sem stærsta þekkta tegund armfætlna finnst. Einhverjar tegundir lifa á Norðurheimsskautssvæðinu og tegundir armfætlna hafa fundist á allt að 6000 metra dýpi. Þó er talið er að um 60% armfætlna lifi á innan við 180 metra dýpi. Flokkun. Ekki eru allir á eitt sammála um það hvernig skal flokka armfætlur. Áður tíðkaðist að flokka þær í tvo hópa; Articulata (sem hafa tenntan lið) og Inarticulata (liðamótalausar), og hafði það kerfi verið viðurkennt allt frá árinu 1869. Á 10. áratug síðustu aldar lögðu flokkunarfræðingar fram tvær aðrar tillögur af hærri flokkunarstigum armfætlna. Í annarri þeirra er ætt Craniidae, sem eru liðamótalausar, settar í flokkinn Calciata með þeim sem hafa liði, en restin af þeim liðamótalausu í flokkinn Lingulata. Í flokki Calciata eru þær armfætlur sem hafa skeljar úr kalsít á meðan skeljar þeirra í flokki Lingulata eru úr kítíni og kalsíum fosfati. Hin leiðin af þeim nýju er þriggja hópa kerfi þar sem ætt Craniidae er sett í sér flokk sem nefnist Craniformea. Hinir nefnast þá Linguliformea (tenntir liðir) og Rhynchonelliformea (liðamótalausar). Lífsferill og atferli. Langflestar tegundir armfætlna hafa stilk sem þær nota til þess að festa sig við hörð yfirborð á borð við steina. Þó eru nokkrar tegundir sem hafa engan stilk, þær tegundir festa sig með því að „steypa“ baklægu skelina við yfirborð þannig að hún halli upp. Einnig eru nokkrar tegundir sem hafa stilki sem missa styrk sinn eftir því sem dýrin eldast og leggjast þau þá niður með aldri. Tiltölulega lítið er vitað um æxlun armfætlna en þó er vitað að einstaklingar eru einkynja, utan þriggja ættkvísla sem eru tvíkynja. Kynkyrtlar eru í raun þéttir massar kynfruma á þroskastigi og algengast er að frjóvgun eigi sér stað utan líkama dýranna eftir að kynfrumum hefur verið sprautað út í umhverfið en hjá nokkrum ættkvíslum þroskast ungviði inni í kvendýrinu. Eftir að ungviði klekjast tekur við tímabil sem er nokkuð frábrugðið eftir því hvort um ræðir armfætlu með tenntan lið eða liðamótalausa. Afkvæmi liðamótalausra armfætlna synda um sem svif í nokkra mánuði og eru þá í mynd foreldra sinna, þau nærast því strax með síun. Þegar dýrin stækka og skeljarnar þyngjast sökkva þær til botns og festa sig við undarlag. Afkvæmi armfætlna með tenntan lið eru aðeins sviflæg í nokkra daga eftir klak áður en þau verða botnlæg, þau festa sig þó ekki við undirlag fyrr en þau umbreytast yfir í mynd foreldra sinna. Þau byrja ekki að nærast með síun fyrr en eftir umbreytingu en fyrir þann tíma nærast þau á forða (yolk) sambærilegum við eggjarauðu. Skeljar sumra tegunda armfætlna mynda árhringi sem unnt er að nota til aldursgreiningar, í köldum sjó er vöxtur þeirra árstíðarbundinn og í sumum tilfellum léttast þær yfir vetrartímann. Næringarþörf sumra tegunda er svo lítil að einstaklingar geta lifað í meira en ár án þess að fá næringu. Jafnframt er súrefnisþörf armfætlna svo lítil að lágmarksþörfin er ómælanleg. Ketill Jensson - Siciliana. Ketill Jensson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Ketill Jensson tvö lög við píanóundirleik Fritz Weishappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Ketill Jensson - A canzone 'e Napule. Ketill Jensson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Ketill Jensson tvö lög við píanóundirleik Fritz Weishappel. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Skapti Ólafsson - Geimferðin. Skapti Ólafsson - Geimferðin er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1958. Á henni syngur Skapti Ólafsson tvö lög útsett af Gunnari Reyni Sveinssyni, sem jafnframt stjórnaði hljómsveitinni. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Svavar Lárusson og Monti-tríóið - Svo brosmild og blíð. Svavar Lárusson og Monti-tríóið er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1956. Á henni syngur Svavar Lárusson tvö lög við undirleik Monti-tríósins þýska. Platan er hljóðrituð í Stuttgart í Þýskalandi. Pressun: AS Nera í Osló. Alfreð Clausen - Útþrá. Alfreð Clausen syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngur Alfreð Clausen lögin "Útþrá" og "Lítið blóm" með hljómsveit Jan Morávek. Ingþór Haraldsson leikur einleik á munnhörpu og Eyþór Þorláksson á gítar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Lagið Útþrá. Lagið "Útþrá" eftir Jóhann Eymundsson er eitt af fáum „kúrekalögum” sem Íslenzkir tónar gáfu út. Óvanalegt var að heyra íslensk kúrekalög árið 1957. Ingþór Haraldsson leikur á munnhörpu og Eyþór Þorláksson á gítar. Leikbræður - Í Víðihlíð. Leikbræður syngja er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni flytja Leikbræður tvö lög við undirleik Carl Billich sem einnig sá um raddsetningu. Leikbræður voru þeir Gunnar Einarsson, Ástvaldur Magnússon, Torfi Magnússon og Friðjón Þórðarson. Þetta er fyrsta plata sem Leikræður sungu inn á. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Marz-bræður og Ingibjörg Þorbergs - Bergjum blikandi vín. Marz-bræður og Ingibjörg Þorbergs er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngur söngkvartettinn Marz-bræður lagið "Bergjum blikandi vín" og Ingibörg Þorbergs syngur lagið "Heillandi vor" með kvartettinum. Hljómsveit Jan Morávek leikur undir. Skapti Ólafsson tekur trommusóló í laginu "Bergjum blikandi vín". Marz-bræður eru þeir Magnús Ingimarsson, Ásgeir Sigurðsson, Sigurður Sívertsen og Vilhjálmur B. Vilhjálmsson. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Heillandi vor. Lagið "Heillandi vor" fékk 1. verðlaun í danslagakeppni SKT árið 1955. Ingibjörg söng lagið í keppninni, en sú útsetning sem heyrist á plötunni, með Ingibjörgu og Marz-bræðrum, var fyrst leikin í Revíukabarett Íslenskra tóna á Austurbæjarbíói 1955.Ingibjörg og Marz-bræður í kabarett Íslenskra tóna árið 1955. Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf. Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1956. Á henni syngur Sigurður Ólafsson "Sjómannavalsinn" og Sigurður og Sigurveig Hjaltested syngja saman "Blikandi haf". Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar leikur undir í "Sjómannavalsinum" en hljómsveit Carl Billich leikur undir í "Blikandi hafi". Platan er endurútgáfa af lögum á IM 20 og IM 30. Hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Tónasystur - Bergmál. Tónasystur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur sönghópurinn Tónasystur lögin "Bergmál" og "Unnusta sjómannsins". Tríó Jan Morávek leikur undir en auk Jan sem lék á píanó, lék Eyþór Þorláksson á gítar og Erwin Koeppen á bassa. Tónasystur eru þær Eygló Viktorsdóttir, Hulda Viktorsdóttir, Sigríður Pétursdóttir, Þórdís Stefánsdóttir og Þórunn Pálsdóttir. Útsetning: Jan Morávek. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Jakob Hafstein og Ágúst Bjarnason - Glunta-söngvar. Jakob Hafstein og Ágúst Bjarnason syngja Glunta-söngva er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1957. Á henni syngja Jakob Hafstein og Ágúst Bjarnason Glunta-söngva númer 3 og 16. Carl Billich leikur undir. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Gluntarne. Gunnar Wennerberg samdi 30 söngva frá 1847-1850 um háskólalífið í Uppsölum í Svíþjóð. Þessar söngvar eru kallaðar Gluntarne á frummálinu, en hétu gjarnan Gluntar eða Glunta-söngvar á Íslandi. Bassi og baritón-rödd túlka samtal tveggja stúdenta; „Glunten” sem er sá yngri og „Magistern” sem er öllu eldri og lífsreyndari. Oftast var sungið við píanóundirleik. Vladimir Propp. Vladimir Yakovlevich Propp (29. apríl 1895 – 22. ágúst 1970) var rússneskur formalisti. Hann rannsakaði byggingareiningar í rússneskum ævintýrum og reyndi að finna atriði sem voru sameiginleg öllum sögunum. Árið 1928 kom út bók eftir hann á rússnesku um formgerð ævintýra en enskur titill hennar er "Morphology of the folktale". Propp fann 31 frásagnarliði í þeim ævintýrum sem hann skoðaði. Hann skilgreindi frásagnarlið sem athöfn persónu í ljósi mikilvægis hennar fyrir atburðarás. Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús. Nora Brockstedt og Monn Keys - Það er lítið hús er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1955. Á henni syngur Nora Brockstedt tvö lög með norsku hljómsveitinni Monn Keys. Annað lagið er "Svo ung og blíð" sem átti eftir að slá rækilega í gegn. Platan er hljóðrituð í Noregi. Pressun: AS Nera í Osló. Nora Brockstedt og „Monn Keys“. Norska hljómsveitin „Monn Keys“ samanstóð árið 1955 af Noru sjálfri, hljómsveitarstjóranum Egil Monn-Iversen, Sølvi Wang, Frederick Conradi, Arne Bendiksen, Per Asplin og Oddvar Sanne. Hljómsveitin starfaði í einni eða annarri mynd frá 1948 – 1964 og Nora var í henni allt til ársins 1956, er hún tók að einbeita sér að eigin ferli. Hljómsveitin náði miklum vinsældum á Norðurlöndunum enda voru fjölhæfir listamenn og skemmtikraftar á ferðinni. Þau héldu úti eigin revíu-sýningu og spiluðu töluvert inn á plötur. Þau komu einnig fram í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum. Monn Keys komu til Íslands árið 1954 á vegum Tage Ammendrup og voru með nokkrar skemmtanir í Austubæjarbíói. Góður rómur varð gerður að þessum skemmtunum enda voru þær fjölbreyttar. Flutt voru gamanmál, amerísk og norræn dægurlög sungin og sungið á íslensku svo nefnd séu dæmi. Monn Keys og Nora í Austurbæjarbíói árið 1954. Lagið „Svo ung og blíð / Það er lítið hús”. "Gilly, Gilly, Ossenfeffer, Katzenellen Bogen by the Sea" hét lag Hoffmann og Manning sem Þorsteinn Sveinsson sneri yfir á íslensku og skírði "Svo ung og blíð". Síðan hefur lagið verið betur þekkt undir heitinu "Það er lítið hús (út við lygnan straum)". Lagið sem Nora Brockstedt og Monn Keys sungu inn á þessa plötu árið 1955 fyrir Íslenzka tóna sló strax í gegn. Grípandi lagið, tær rödd Noru og hreimur söngvaranna hittu beint í mark. Hljómsveit Björns R. Einarssonar - Christofer Columbus. Hljómsveit Björns R. Einarssonar er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1948. Á henni flytur hljómsveit Björns R. Einarssonar jazzlögin "Christofer Columbus" og "Summertime". Platan er hljóðrituð í mono. Pressun: AS Nera í Osló. Sérstaða. Örlög fyrstu plötunnar í útgáfuröð Íslenzkra tóna, sem kom úr pressun árið 1948, urðu þau að sett var lögbann á sölu hennar þegar hún átti að fara í dreifingu. Það var ekki fyrr en árið 1952, þegar málaferlum lauk vegna plötunnar, sem plötuútgáfa Íslenzkra tóna hófst fyrir alvöru. Svavar Lárusson - Fiskimannaljóð frá Capri. Svavar Lárusson syngur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1953. Á henni flytur Svavar Lárusson tvö lög með SY-WE-LA kvintettinum norska. Lögin höfðu bæði komið út áður á IM 3 og IM 4 og voru ein fyrstu íslensku danslögin til að koma út á plötu. Platan er hljóðrituð í mono. Upptökur fóru fram hjá Norska útvarpinu. Pressun: AS Nera í Osló. Dagur íslenskrar náttúru. Dagur íslenskrar náttúru var stofnaður þann 16. september árið 2010 af ríkisstjórn Íslands að tillögu Svandísar Svafarsdóttur þáverandi umhverfisráðherra. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og stofnaður til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að fræða um íslenska náttúru. Stefán Jónsson (myndlistarmaður). Stefán Jónsson (f. 15. maí 1964) er íslenskur myndlistarmaður fæddur á Akureyri. Stefán er menntaður á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur sýnt víða um heim á undanförnum árum. Allan sinn listamannsferil hefur hann fengist við að búa til skúlptúra sem sækja andagift í listasöguna. Hann gengur inn í málverk annarra listamanna, íslenskra jafnt sem erlendra, og vinnur úr því sem hann upplifir og sér í þeim og túlkar það í skúlptúrum sínum. Stefán vill meina að ef maður endurskapar hluti á nýjan hátt þá öðlist þeir líka nýtt líf. Hugmyndir Stefáns kallast á við póst-módernískar hugmyndir. „Sérstaða hans sem listamanns felst í þessari sífelldu skoðun á listaverkum fyrri tíma, vangaveltum um eðli þeirra og merkingu en einkennist einnig af húmor.“ Þannig komst Ragna Sigurðardóttir að orði í Morgunblaðinu þann 12. október 2005. Ferill. Stefán hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988 og lauk þar prófi úr skúlptúrdeild árið 1992. Hann hafði reyndar byrjað í grafíkdeild en hún átti ekki nógu vel við hann. Til að mynda vildi hann gera myndir og setja hluti á þær en í grafíkdeildinni var slíkt ekki vel þokkað. Eftir að í Skúlptúrdeildina var komið unni hann sér vel og frelsinu sem hann fékk þar. Við nám hafði Stefán mætt því viðmóti að engar nýjungar gætu komið fram á sjónarsviðið þar sem hreinlega væri búið að gera allt í listheiminum. Þetta var Stefáni afar hugleikið og hefur hann æ síðan verið að kljást við að „endurvinna listasöguna“ þar sem hún varð honum þess í stað óþrjótandi brunnur nýrra hugmynda. Í ágúst 1992 varð þetta að umfjöllunarefni hans fyrstu einkasýningar eftir útskrift úr MHÍ sem haldin var í Grófargili á Akureyri. Verkin voru unnin úr ýmsum efnum svo sem plasti, spónarplötu, járni, tré og ekki síst legóköllunum sem voru sá samnefnari sem tengdi verkin saman, myndrænt. „Varðandi það að endurvinna listasöguna má geta þess að þeir eru fjölmargir sem halda því fram að það sé ekki lengur hægt að búa til neitt nýtt í listum. Það sé búið að gera allt. Ég trúi þessu að vísu alls ekki, en ég er kannski að benda á leið úr úr þessum vanda. Ef það skyldi nú vera búið að gera allt þá er að minnsta kosti hægt að gera allt aftur með öðrum viðhorfum og öðrum efnistökum.“ Stefán hélt vestur í meira nám, staðráðinn í því að myndlist væri það sem hann vildi vinna við í framtíðinni. Hann fékk inngöngu í School of Visual Arts í New York í Bandaríkjunum og eftir tveggja ára nám kom hann heim með MFA-gráðu í myndlist árið 1994. Í framhaldi af útskrift hélt Stefán sýningar víðsvegar um Bandaríkin og einnig í Singapore og Finnlandi, sem og hér heima um land allt. Til að byrja með voru verk Stefáns lítil um sig og áherslan lögð á manneskjuna en ekki umhverfið sem hún var staðsett í. Lengst af notaði hann legókall sem staðgengil manneskjunnar í þeim verkum sem hann vann út frá. Smám saman þróuðust verkin og umhverfið fór að taka sífellt meira pláss þangað til svo var komið að hann var farinn að gera hrein landslagsverk, sem þó voru þrívíð, og legókallinn horfinn með öllu. Án titils (eftir...). Á sýningunni sviðsetti Stefán fræg málverk eftir þekkta meistara þar á meðal "Aftökumynd" Goya, "Förusveinninn skýjum ofar" eftir Caspar David Friedrich, "Þingvallamynd" Þórarins B. Þorlákssonar og "Gifting Maríu meyjar" eftir Rafael. Myndirnar sem hann velur sér sýna dramatíska atburði en að því gerir Stefán góðlátlegt grín enda eru legókallarnir alltaf skælbrosandi, sama hve hátíðlegir atburðirnir eru. í Verkinu "Við gullna hliðið" er freska Giottos fyrirmyndin þar sem sýndur er koss Jóakims og Önnu sem leiðir af sér getnað Maríu meyjar. Stefán leiðréttir meðal annars hlutföllin og dregur fram tilfinningaspilið milli elskendanna helgu með því að hafa virkisvegginn himinháan þveröfugt við Giotto.,Þetta byrjaði með seríu sem ég sýndi í Ásmundarsal um árið, þar sem ég týndi eftir þörfum sitthvað út úr listasögunni. Næst notaði ég mér þetta verk á sýningunni Akureyri í myndlist, þar sem ég setti Akureyrarkirkju inn í verk úr listasögunni, þar á meðal þetta. Í þriðju útgáfunni fékkst ég við arkitektúrinn í verkinu og svo er þetta enn ný nálgun nú, ég nota arkitektúrinn en er líka að hugsa um söguna sjálfa á bak við freskuna." Halldór Björn Runólfsson sagði í grein sinni í Morgunblaðið þann 11. ágúst 1999 að sýningin væri sú eftirtektasta það sem af væri árið. Kjarvalar. Kjarvalar er eins og nafnið bendir til kynna, röð skúlptúra innblásin af málverkum Jóhannesar Kjarvals. Stefán færir málverk hans í þrívíðan búning og leyfir litaspjaldi og áferð málverkanna að gefa sér hugmyndir að efnisvali fyrir skúlptúrana. Með þessu skapar hann nýja og nútímalegri umgjörð um landslagsheim Kjarvals og býður upp á nýja nálgun á verk hans. Þarna er það ekki náttúra landsins heldur náttúran í verki Kjarvals sem skiptir máli.,Ég labba ekki á fjöll og bý til myndir af þeim en ef ég geri landslagsmynd finnst mér áhugaverðara að gera hana eftir landslagi annarra, eins og frægu landslagi Kjarvals. Ég pæli ekki í náttúrulegu landslagi heldur hinu manngerða." Nha Trang. Nha Trang er sveitarfélag í sýslunni Khanh Hoa í héraðinu Nam Trung Bo í Víetnam. Íbúar voru 392.224 árið 2011. Camranh-flugvöllur er tveimur kílómetrum fyrir norðan sveitarfélagið. Neikvæð tala. Neikvæð tala er tala sem er ekki náttúrulega tala, til dæmis -1, -2, -3, -4. Hólsari. Hólsari er stuðningmaður ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Í fleirtölu "hólsarar". Hólsarar er þéttur kjarni stuðningsmanna er stendur alltaf uppá hólnum suðvestan megin við Hásteinsvöll. „Hóllinn er líklega þekktasta stuðn­ingsmannagreni á knatt­spyrnuvöllum á Íslandi og mörg dæmi um að „leiðbeiningar“ af Hólnum hafi ruglað dómara við dómgæslu. Kveður svo rammt að þessu að það eru margir dómarar sem fara aldrei inn á vallarfjórðunginn næst Hólnum.“ Knattspyrnufélagið Týr. Knattspyrnufélagið Týr var stofnað 1. maí 1921. Voru stofnendur félagsins 45 talsins og voru nærri því allir innan við tvítugt. Meðal stofenda voru Gunnar Ólafsson kaupmaður og útgerðarmaður, Binni í Gröf, Gísli J. Johnsen, Ísleikur Jónsson á vörubílastöðinni, Einar Sigurðsson (ríki), Friðrik Jesson. Aðdragandinn að stofnun Týs var sá að árið 1920 voru bæði Þór og KV illa stödd fjárhagslega. Nokkrir strákar á 18. og 19. ári sem höfðu takmarkaðan aðgang að tuðrum innan félagana, ákváðu þeir því að fjárfesta nokkrir saman í bolta, þeir höfðu reynt að fá þessu breytt og buðu fram Jóhann Gunnar Ólafsson í stjórn KV. Það gekk ekki og stofnuðu því Tý samhliða fjárfestingu sinni í tuðrunni. Stofnendur Týs sem allir voru ungir að árum höfðu það einnig sameiginlegt að vera óánægðir með að mæta afgangi þegar skipt var í lið á æfingum. Gamli salurinn í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Gamli-salurinn er íþróttamannvirki í Vestmannaeyjum sem tilheyrir Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Gamli-salurinn er jafnframt keppnissalur handknattleiksdeildar ÍBV Íþróttafélags og körfuknattleiksfélags ÍBV. Salurinn er partketlagður og í honum er aðstaða fyrir handbolta, körfubolta, blak og badminton. Forsaga. Uppbygging Vestmannaeyjakaupstaðar eftir eldgosið á Heimaey 1973 var gífurlegt verk, enda bærinn illa leikinn eftir beljandi vikurregn og hraunslettur, sem grandað höfðu og skemmt mannvirki í undir hraun, og bygging nýrrar sundlaugar var því aðkallandi verkefni í kom upp sú hugmynd að láta nú slag standa og byggja ekki aðeins nýja löglegri stærð yrðu undir sama þaki. skólarnir í Eyjum, Barnaskólinn og mikil þrot með húsnæði fyrir gos og annarra nota, ef af byggingu íþróttahúss yrði. Ráðamenn íþrótta- og skólamála í landinu féllust á endanum, eftir mikið þref og þras, á röksemdir svokallaðri Brimhólalaut í jaðri vesturbæjarins nálægt nýjustu íbúðarsvæðunum. Leitað var tilboða innanlands og utan og ákveðið að kaupa yrði stuttur, enda þörfin mjög brýn fyrir þúsundir íbúa, sem þyrptust nú á heimaslóðir eftir vetur- eða vetrasetu á húsið árið 1975, og gekk verkið hratt Íþróttahúsið við Brimhóla var formlega opnað á árinu 1976, þegar íþróttasalurinn var tilbúinn í kjölfar sundlaugarinnar. Endurnýjun. Salurinn fékk andlitslyftingu sumarið 2008, þegar dúkur var fjarlægður og parket var sett í staðinn. Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum. Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum (enska: "National rifle association", skammstafað "NRA"), er samband byssueigenda í Bandaríkjunum, sem stofnað var til að aðstoða fólk við að bæta skothæfni sína. Yfirlýst markmið þeirra var að stuðla að og hvetja til riffla notkunar í vísindalegum tilgangi. NRA var stofnað árið 1871 í New York fylki. Fyrsti forseti sambandsins var maður að nafni Ambrose Burnside en Burnside var einnig fyrrverandi hershöfðingi í bandaríska borgarastríðinu, fyrrverandi ríkisstjóri Rhode Island og öldungadeildarþingmaður. Starfsemi NRA er ýmiskonar. Sambandið gefur út nokkur tímarit: "The American Hunter", "The American Rifleman", "Shooting Illustrated", "Shooting Sport USA", "America’s 1st Freedom" og "NRA Insight". Auk þess stendur Sambandið fyrir ýmiss konar fræðslu varðandi öryggi og meðhöndlun skotvopna. NRA hafði ekki mikil afskipti af pólitík fyrr en á 8. áratugnum þegar sambandið stofnaði "Stofnun um lagasetningu (e.)". Stofnunin var sett á laggirnar til að verja annað stjórnarskrárákvæði réttindaskrár Bandaríkjanna. Á seinustu áratugum hefur sambandið einbeitt sér að þessari stofnun auk þjálfunar og skotvopnakennslu. Samtökin eru stór þrýstihópur í bandarískum stjórnmálum, sem þrýstir á að lög og reglugerðir er varða byssueign komist í gegnum þingið. Hins vegar berjast þeir á móti öllum lögum og reglugerðum sem snúa að takmörkunum á byssueign og byssusölu, þar sem þeir telja að þar sé verið að brjóta á stjórnarskrávörðum réttindum bandarískra ríkisborgara. NRA-sjóðurinn var svo stofnaður árið 1990 til að tryggja fjárhagslegan stuðning fyrir skotvopnastarfsemi, fræðslu og öryggi við meðhöndlun skoptvopna. Framkvæmdaráætlun Sameinuðu þjóðanna. Þó svo að aðaláhersla ILA-samtakanna sé á sveitarfélög, ríki og alríkisstjórnina heima fyrir hafa þeir nýlega beint sjónum sínum að Sameinuðu þjóðunum. „The Program of Actions“ er framkvæmdaráætlun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Markmið áætlunarinnar er að koma á fót alþjóðlegum stöðlum um vopnasölu. Með því vilja Sameinuðu þjóðirnar takmarka ólöglega vopnasölu þvert á landamæri. Meðfram þessum alþjóðlegu stöðlum hafa Sameinuðu þjóðirnar hvatt ríki til að setja einhverskonar reglur um vopnaburð, vopnasölu og vopnaeign heimafyrir. NRA lítur á slíka hvatningu erlendra samtaka sem brot á bandarískum ríkisborgurum og réttindum þeirra til vopnaburðar og vopnaeignar. Því hafa þeir eytt talsverðum fjármagni og þrýst á bandaríska þingið að samþykkja ekki neinar reglur sem miðar að þessari áætlun Sameinuðu þjóðanna. Annað stjórnarskrárákvæðið (The Second Amendment). "„Þá er einnig viðurkennt mikilvægi þess að hafa borgaralegan her til að verja frelsi ríkisins og þar með rétt almennings til að bera vopn.“" Í þessu samhengi þýðir þjóðvarnarlið lið hermanna úr röðum óbreyttra borgara. Annað stjórnarskrárákvæðið kom upprunalega frá Landsfeðrum Bandaríkjanna. Að þeirra mati voru vopnaðir ríkisborgarar besti herinn. Það sem hefur alltaf verið umdeilt er hvernig ber að túlka orð ákvæðisins. Sumir vilja meina að þau eigi að vernda rétt einstaklinga til þess að bera vopn en aðrir vilja meina að einungis sé átt við herinn sjálfan. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum þurft að endurtúlka ákvæðið og styrkt það í leiðinni. Þess vegna er mjög auðvelt fyrir NRA og svipuð samtök að skýla sér bak við þennan stjórnarskrárbundna rétt allra bandarískra ríkisborgara. Byssumenning. Það hefur sjaldan verið eins auðvelt að verða byssueigandi í Bandaríkjunum. Fjöldi ríkja sem leyfa almenna vopnaeign hefur aukist úr 18 í 40 frá árinu 1988. Þar hefur NRA aukið fylgi sitt og unnið marga pólitíska sigra. Ekki má gleyma að það er ekki einungis vegna samtaka eins og NRA sem það að eiga byssu er mörgum Bandaríkjamönnum svo mikilvægt. Í raun virðist það samtvinnað bandarískri vitund og hefur verið það í gegnum sögu landsins. Þrátt fyrir það er byssueign enn mjög umdeild og umræðurnar virðast ná hápunkti eftir hverja fjöldaskotárás sem sér stað. Stærsta ástæðan fyrir tregðunni til að breyta byssumenningu landsins er annað stjórnarskrárákvæðið. Aðkoma sambandsins að stjórnmálum. NRA kemur víða að í bandarískum stjórnmálum. Sérstök nefnd á þeirra vegum, NRA-PVF (e.), raðar upp pólitískum frambjóðendum óháð flokka-afstöðu. Þessar raðanir byggjast á kosninga-skýrslum, opinberum ræðum og útkomu frambjóðendanna úr sérstökum NRA-PVF spurningakönnunum. Árið 2008 kom nefndin að 271 kosningaherferð fyrir báðar deildir þingsins og sigruðu í 230 af þeim eða í 85% tilvika. Nefndin styrkti einnig þúsundir löggjafa-frambjóðenda þetta sama ár og náði um 84% sigri í þeim kosningum. NRA veitir fjárframlög til bæði Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins. Hins vegar er stór munur á upphæðum framlaganna. NRA veitir Repúblikanaflokknum mun hærri fjárframlög en Demókrataflokknum. Á þessu ári (2012) hefur NRA-PVF veitt Repúblikanaflokknum um 88% af heildar fjárframlögum sínum. Dragan Kazic. Dragan Kazic (fæddur 27. júní 1961 í Serbíu Grindavík 2007-2008. Dragan var aðstoðarþjálfari Grindavíkur tímabilin 2007 og 2008. BÍ/Bolungarvík 2009. Árið 2009 fluttist hann vestur á Vestfirði og gerðist þjálfari Bolungarvíkur. ÍBV 2010-2012. Árið 2010 gerðist hann aðstoðarþjálfari hjá ÍBV. Þegar aðeins þrír leikir voru eftir af tímabilinu 2012 hætti Magnús Gylfason sem þjálfari ÍBV og tók Dragan við sem þjálfari ÍBV út tímabilið. Valur 2013-. Eftir að tímabilið 2012 kláraðist, réð Magnús Gylfason sig sem þjálfara Vals, Magnús réð í framhaldinu Dragan sem aðstoðarþjálfara Vals. En Dragan hafði þá verið aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar í tvö tímabil og eitt tímabil með Magnúsi hjá ÍBV. Listi yfir The Closer (7. þáttaröð). Sjöunda þáttaröðin af "The Closer" var frumsýnd 11. júlí 2011 og sýndir voru 21 þættir. Hvíta-Rússland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hvíta-Rússland hefur tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva síðan árið 2004 og hefur aðeins komist í aðalkeppnina tvisvar, fyrst árið 2007 og síðan árið 2009. Norski sigurvegarinn Alexander Rybak sagðist hafa áhuga á því að semja lag fyrir Hvíta-Rússland en hann er upprunalega þaðan. Tölfræði atkvæðagreiðslu (2004-2012). Hvíta-Rússland hefur "gefið" flest stig: (aðeins apalkeppnir) Hvíta-Rússland hefur "fengið" flest stig frá: (aðeins aðalkeppnir) Hvíta-Rússland hefur "gefið" flest stig: (með undankeppnum) Hvíta-Rússland hefur "fengið" flest stig frá: (með undankeppnum) Bosnía og Hersegóvína í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Bosnía og Hersegóvína kepptu fyrst í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1993 eftir að hafa lent í öðru sæti í undankeppninni Kvalifikacija za Millstreet og hefur síðan tekið þátt árlega fyrir utan árin 1998 og 2000. Saga Bosníu og Hersegóvínu í keppninni. Bosnía og Hersegóvína hafði áður keppt í keppninni sem hluti af Júgóslavíu. Besti árangur landsins var árið 2006 þegar Hari Mata Hari lenti í þriðja sæti með laginu Lejla. Síðan að undankeppninar hófu göngu sína árið 2004 hafa Bosnía og Hersegóvína alltaf komist í úrslitin. Gullskór. Gullskórinn er heiti á verðlaunagrip þeim veittur er markahæsta leikmanni efstu deildar karla og kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Til verðlaunanna var stofnað af heildverslun Björgvins Schram árið 1983 og voru í fyrstu aðeins veitt markahæsta karlinum. Síðar var verðlaununum fjölgað og við bætt silfur- og bronsskóm fyrir annan og þriðja markahæsta leikmanninn og enn síðar fyrir sambærileg afrek í kvennaflokki. Alberto Porro Carmona. Alberto Porro Carmona (f. 17. október 1980) er spænskur hljómsveitarstjóri, tónskáld, rithöfundur, fyrirlesari, kennari og saxófónleikari. Hann hefur stjórnað mörgum stórum hljómsveitum, bæði í Evrópu og Ameríku sem og hlotið fjölda verðlauna fyrir tónlist sína og hljómsveitarstjórn. Hann hefur spilað á tónleikum út um allan heim, m.a. á Spáni, Frakklandi, Belgíu, Portúgal, Ítalíu, Þýskalandi, Íslandi, Bretlandi, Argentínu, Chile, Brasilíu, Paragvæ og Kúbu. Þessa stundina starfar Carmona sem tónlistastjóri og kennari við Tónlistarskólann á Akureyri. Hann kennir einnig við Háskólann á Akureyri. I am. "I am" er fyrsta breiðskífa Selmu Björnsdóttur sem kom út í nóvember 1999. Platan fór beint á topp íslenska vinsædarlistans þegar hún kom út og eyddi þar sex vikum í fyrsta sæti. "I am" var söluhæsta íslenska hljómplata ársins 1999 og seldist í yfir tíu þúsund eintökum. Gagnrýni. Þegar platan kom út fékk hún misjafna dóma. Eggert Thoroddsen, gagnrýnandi fyrir Morgunblaðið, hrósaði Selmu og sagði að hún „syngur mjög vel á plötunni. Rödden er sannfærandi, hvort sem hún er að syngja ballöður eða hröð lög.” Hinsvegar gagnrýndi hann plötuna því honum fanns vanta „tilfinningalega einhverja heildarmynd á hana og hið hraða vinnsluferli [hennar] er merkjanlegt á lokaútkomunni og er henni til vansa.” Kári Steinn Karlsson. Kári Steinn Karlsson (fæddur 19. maí 1986) er íslenskur frjálsíþróttamaður. Hann er íslandsmeistari í 5000 metra hlaupi, 10.000 metra hlaupi, hálfu maraþoni og heilu maraþoni. Hann byrjaði að æfa hlaup 15 ára gamall. Hann var í verkfræðinámi í Kaliforníuháskólanum í Berkley á skólastyrk. Hann lenti í þriðja sæti í maraþonhlaupi í Trevisio á Ítalíu og Norðurlandameistaramótinu í kaupmannahöfn. Á norðurlandameistaramótinu ætlaði hann sér að taka forystu snemma í hlaupinu en datt og þurfti að vinna sig upp í þriðja sæti. Í maraþonhlaupi karla á Ólympíuleikunum 2012 hljóp hann með stein í skónum og lenti í 42. sæti af 100 keppendum. Með þáttökunni varð hann fyrsti íslendingurinn sem keppir í maraþonhlaupi á ólympíuleikum. Útgáfusamningur. Útgáfusamningur er tegund samnings þar sem höfundur verks framselur fjárhagsleg réttindi sín sem leiða af höfundarétti hans til útgefanda. Samningar af þessu tagi eru oft bundnir lögum, höfundalögum eða öðrum lögum, sem tilgreina lágmarksskilyrði sem þeir þurfa að uppfylla til að teljast gildir. Almennt gildir að í evrópskum samningsrétti er skilyrði að samningar séu takmarkaðir í tíma og rúmi. Grundvöllur útgáfusamninga er samvinna milli aðila í þágu útgáfu verksins þannig að höfundur leggur til innihaldið og útgefandinn leggur til fagþekkingu á sviði ritstjórnar, vöruhönnunar, markaðssetningar og dreifingar. Með útgáfusamningi eignast útgefandinn útgáfurétt að verkinu (einkarétt til útgáfu og dreifingar) á tilteknu landsvæði um tiltekinn tíma og stundum fyrir tiltekinn fjölda útgáfa. Oftast eru sett skilyrði um fyrstu útgáfu (tímasetningu og fjölda eintaka) í útgáfusamning. Eins er kveðið á um að höfundur fái greitt hlutfall af söluandvirði verksins, hvort sem það er reiknað sem hlutfall af kostnaðarverði, forlagsverði eða kápuverði. Arnarnessgöng. Arnarnesgöng eru tvíbreið 30 metra löng göng á milli Ísafjarðar og Súðavíkur í gegnum "Arnardalshamar". Þau eru fyrstu jarðgöngin á íslandi. Göngin eru hluti af súðavíkurvegi og vegaframkvæmdir við hann hófust við Kirkjubólshlíð. Sumarið 1945 var reist brú yfir Arnardalsá og vegur lagður um Súðavíkurhlíð að Arnardalshamar haustið 1946. Byrjað var að sprengja í gegnum Arnardalshamar 1947. Við framkvæmdir á göngunum var vegagerðin gagnrýnd fyrir seinagang og sóun á ríkisfé í súðavíkurveg í stað þess að fara yfir Arnardalsháls. Verkshæð. a>-barnastóllinn uppfyllti skilyrði um verkshæð og nyti því verndar höfundalaga. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður (2007) komist að sömu niðurstöðu í dómi um eftirlíkingar sem BYKO seldi á Íslandi. Verkshæð er í höfundarétti lágmarksskilyrði sem þarf að uppfylla til að tiltekið verk njóti verndar. Almennt er gerð krafa um að verkið sé sjálfstæð og frumleg sköpun höfundar. Í verkinu þarf því að felast nýnæmi, að minnsta kosti að formi. Ekki er gerð krafa um gæði eða sérstakt gildi verksins, en þó getur innihald þess haft áhrif þannig að efni verksins þurfi að vera umtalsvert til að það nóti verndar. Í höfundalögum margra landa er engu að síður fjallað um verk sem ekki uppfylla frumleikaskilyrðið og þeim veitt vernd (yfirleitt í mun skemmri tíma). Þetta getur átt við um fréttir og fréttaljósmyndir, safnverk og gagnagrunna sem eru afrakstur „verulegrar fjárfestingar“. Hér gilda því rökin um „sveita síns andlits“ sem skilyrði fyrir vernd. Kapalsjónvarp. a> sem notaður er til að senda kapalsjónvarp Kapalsjónvarp er kerfi þar sem sjónvarpsþættir eru sendir í gegnum samása kapla. Kapalsjónvarp er andstæðan við jarðsjónvarp þar sem sjónvarpsmerki er varpað í gegnum loftið með útvarpsbylgjum og svo móttekið af loftneti sem er tengt sjónvarpi. Auk sjónvarpsþátta má senda útvarpsþætti og internet- og símaþjónustu í gegnum þessa kapla. Merkið getur verið annaðhvort flaumrænt eða stafrænt. Vottorð um viðbótarvernd. Vottorð um viðbótarvernd er sérstæður ("sui generis") hugverkaréttur sem gildir aðeins í Evrópusambandinu. Tilgangurinn er að bæta lyfjafyrirtækjum þann langa tíma sem það tekur að fá leyfi fyrir markaðssetningu nýrrar vöru með því að bæta við tímann sem einkaleyfi þeirra gildir. Viðbótarverndin gildir venjulega að hámarki í fimm ár eftir að einkaleyfið er runnið út. Save Your Kisses for Me. Save Your Kisses for Me var framlag Bretlands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1976. Lagið fékk 164 stig og vann kepninna. Lagið er í dag eitt af frægustu lögum keppninar. Djambo, Djambo. Djambo, Djambo var framlag Sviss til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var flutt númer tveir á sviðinu. Lagið lenti í 4. sæti með 91 stig frá öllum löndum nema Ítalíu, og fékk 12 stig frá Bretum og 10 stig frá Noregi. Lagið var sungið af Peter, Sue og Marc sem höfðu áður tekið þátt í keppnini eða árið 1971 og lentu þá einu af síðustu sætunum eða 12. sæti. Lagið var sungið á ensku. Sing Sang Song. Sing Sang Song var framlag Þýskalands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var sungið á þýsku þrátt fyrir enskan titil, hinsvegur voru nokkur orð á ensku í textanum. Lagið er nokkurn vegin bara endurtekinn orð sem voru „Sing sang song“ og líka orðið „singe“. Þessi orð komu 178 sinnum fyrir í textanum ef orðið „singe“ er ekki tekið með. Lagið lenti í 15.sæti með 12 stig. Árið 1975 lenti Þýskaland í 17. sæti og vegna þess að þeim gekk illa með fræga söngvara þá ætluðu Þjóðverjar að draga sig úr keppni árið eftir, en þeir gerðu það ekki. Þessar fréttir náðu alla leið til Íslands en þessi frétt var í Morgunblaðinu árið 1976. Lagið er sagt vera eitt af vesrtu lögum sem hafa tekið þátt í Eurovision. Emor Shalom. Emor Shalom (hebreska: אמור שלום) var framlag Ísraels til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var flutt af sönghóp sem hét Chocolat, Menta, Mastik sem þýðir „Súkkulaði, mynta, tyggigúmmí“. Lagið fjallar um konu sem hefur beðið „í næstum því 30 ár“ eftir manni sem hún vill að komi og segi halló, „Emor Shalom” þýðir „segðu halló“. Lagið fékk 77. stig og lenti í 6. sæti. Sanngjörn afnot. Sanngjörn afnot er undanþága frá höfundarétti í bandarískum höfundalögum sem snýr að notkun í þágu gagnrýni, umfjöllunar, fréttaflutnings, kennslu og rannsókna. Þessi undanþága þróaðist upphaflega í dómaframkvæmd þar sem dómarar reyndu að skapa jafnvægi milli hagsmuna almennings og hagsmuna höfunda. Sanngjörn afnot urðu fyrst hluti af höfundalögum Bandaríkjanna árið 1978. Undanþágan er talin sérstaklega mikilvæg fyrir alla starfsemi mennta- og menningarstofnana í Bandaríkjunum. Almenningur (hugverk). a> þar sem hann lést fyrir meira en 70 árum (1924). Almenningur er í hugverkarétti safn þeirra verka, uppfinninga eða vörumerkja sem einkaréttur gildir ekki lengur um þar sem tímalengd réttarins er liðin eða þau uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir vernd í skilningi laganna. Oftast þýðir þetta einfaldlega að ekki gilda lengur nein skilyrði hugverkaréttar fyrir notkun verkanna, en þó tíðkast í löggjöf sumra landa að setja skilyrði um verk í almenningi og skapa þar með eins konar eilífan höfundarétt. Þetta er til dæmis gert með ákvæðum um ríkishöfundarétt, menningarvernd og eilífan sæmdarrétt. Í sumum löndum er til kerfi þar sem borga þarf fyrir hagnýtingu verka í almenningi; svokallað "domaine public payant"-kerfi. Eilífur hugverkaréttur getur líka verið búinn til með sérlögum eins og í íslenskum lögum um þjóðsönginn. Í Bandaríkjunum gildir að verk unnin af starfsmönnum stofnanna alríkisstjórnarinnar eru sjálfkrafa í almenningi. Til dæmis gerist það að ef höfundaréttarvarinn texti verður hluti af lögum þá verður hann um leið hluti af almenningnum. Algengt hefur verið að skilgreina almenninginn út frá höfundarétti, sem þau verk sem ekki njóta "lengur" höfundaréttarverndar. En almenningurinn telur í reynd líka verk sem aldrei hafa verið varin höfundarétti. Þetta á til dæmis við um alþýðumenningu (þjóðlög, þjóðkvæði, þjóðsögur o.s.frv.) Alþýðuleg hversdagsmenning (eins og brandarar, klámvísur, tækifærissögur, graff o.s.frv.) nýtur að jafnaði ekki heldur verndar höfundaréttar og tilheyrir því almenningi. Það er því líka hægt að skilgreina það safn hugverka sem nýtur verndar hugverkaréttar sem sértilvik innan menningar sem annars er í almenningi. Chansons pour ceux qui s'aiment. Chansons pour ceux qui s'aiment var framlag Lúxemborgar til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Íslensk þýðing á heiti lagsins er „Lag fyrir þá sem elska hvort annað“. Í enda atkvæðagreiðslunnar hafði lagið einungis fengið 17 stig og lenti í 14 sæti. Lagið var flutt fimmta á sviðinu og var Lúxemborg fimmta landið til að greiða atkvæði. Þegar að kom að Lúxemborg að greiða atkvæði hafði landið ekki fengið stig frá fyrstu fjórum löndunum sem voru á undan en land númer sex, Belgía gaf laginu 6 stig og land 7 Írland 5 stig og land 8 Holland 6 stig. Árið eftir fékk Lúxemborg aftur 17 stig en lenti í 16 sæti. Judy et Cie. Judy et Cie var framlag Belgíu til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var flutt númer sex á sviðinu. Lagið fékk 68 stig og lenti í 8 sæti sem er góður árangur fyrir Belga en árið áður lentu þeir í 15. sæti og árið 1973, 1972 og 1971 lentu þeir í vondum sætum. Söngvari lagsins heitir Pierre Rapsat. When. When var framlag Írlands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var sungið af söngvaranum Red Vincent Hurley. Lagið er sungið frá sjónarhóli manns sem spyr hvenær „hún“ eigi eftir að koma aftur auk þess sem hann syngur um allskonar hluti sem eiga að tengjast henni. Í lok atkæðagreiðslunnar hafði lagið fengið 54 stig og lenti aðeins í 10 sæti. The Party's Over. The Party's Over var framlag Hollands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Söngkonan hét Sandra Reemer og hafði tekið þátt í keppnini í Edinborg 1972. Hún þurfti hinsvegar bara að keyra frá heimilinu sínu til að taka þátt þetta árið því Hollendingar héldu keppnina. Lagið er um konu sem veit að veisla er haldin og fer í hana en þegar að í veisluna er komið þá veit hún ekki hvort að hún eigi að fara heim eða vera í veislunni. Lagið fékk 56 stig, mest 8 stig frá Ísrael og lenti í níunda sæti. Mata Hari (lag). Mata Hari var framlag Norðmanna í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var sungið á ensku og heitir eftir Mata Hari sem var njósnari. Þrátt fyrir nafnið er ekkert sem vísar til þeirrar Mata Hari sem er líklegt að lagið heitir eftir en Mata Hari þýðir líka sól í Malay þótt að það sé líka ekkert sem tengist textanum. En sú Mata Hari sem sagt var frá áðan hefði orðið hundrað ára árið 1976 en hún var fædd 1876. Hún lést árið 1917. Mata Hari fékk 7 stig, 3 frá Hollandi og 4 stig frá Portúgal. Á þessum tíma var þetta fjórða skiptið sem Noregur lenti í síðasta sæti, en söngkonan Anne Karine Strøm lenti í síðasta sæti líka árið 1974 og hún var fyrsti söngvari eða söngkona til að lenda í síðasta sæti tvisvar. Þegar að Frakkland var að gefa stig þá gleymdi ritari frönsku dónefndarinnar að gefa 4 stig sem áttu að fara til Júgóslavíu. Þegar að hann gleymdi því þá vissi hann örugglega ekki að þetta myndi breyta sögu Eurovision í nokkur ár löngu eftir keppnina en þegar að Frakkar voru að gefa stig þá var Noregur með 7 stig en Júgóslavía með 6 stig. Og í lok atkvæðagreiðslunar var Júgóslavía í síðasta sæti og Noregur næstsíðastur og sumir segja að mistökin voru aldrei leiðrétt, þá að Júgóslva fengu bara 6 stig en ekki 10 stig. Það þýðir að árið 2004 til 2012 þá hafði Noregur komið 9 sinnum síðastur með Finnlandi og á þessu tímabili þá var Noregur ekki það land sem hefði komið oftast síðast; en árið 2012 þá kom Noregur síðast og þá var það öruggt að Noregur á metið. Hinsvegar þá er alltaf talað um það að Noregur heði fengið 7 stig og Júgóslavía 10 stig. Panagia Mou, Panagia Mou. Panagia Mou, Panagia Mou var framlag Grikklands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Panagia Mou, Panagia Mou þýðir "dama mín,dama mín" en þá er verið að vísa í Virgin Mary. Lagið er merkilegt vegna þess að það er verið að syngja um áras Tyrkja á Kýpur 1974. Í textanum kemur fyrir orð eins og "þarna eru einungis flóttamenn" en það kemur fyrir eeftir að búið er að syngju um til dæmis að Kýpur sé fullt af appelsínu og ólívutrjám en eftir innrásina eru bara rústir og flóttamenn. Lagið náði ekki góðum árangri, fékk 20 stig og lenti í 13 sæti. Tyrkland var ekki með en sýndi keppnina í beinni útsendingu en rauf útsendinguna þegar að þetta lag var sungið. Söngkonuni Mariza Koch sem söng lagið var hótað lífláti ef hún myndi syngja lagið og setti sjálfa sig í hættu við að taka þátt, EBU hvatti hana til að syngja ekki en hún söng samt og er fræg fyrir hetjudáð eftir það, sérstaklega í Grikklandi og Kýpur West Coast Swing. West Coast Swing (WCS) er pardans sem er uppruninn úr Lindy Hop. 253 Mathilde. Einn af stærstu gígunum á 253 Mathilde. Ljósmynd frá NASA. 253 Mathilde er smástirni sem Johann Palisa uppgötvaði 1885 í Vín. Obbola. Obbola er umdæmi í sveitarfélaginu Umeå í Svíþjóð. Zichyújfalu. Zichyújfalu er þorp í Ungverjalandi, skammt frá Székesfehérvár. Íbúar í Zichyújfalu eru 944 (2011) og flatarmál 10,82 km². Þéttleiki byggðarinnar er 87,25 íbúar á ferkílómetra. Kirkja hefur verið í þorpinu frá 1239. Pump-Pump. Þessi setning er sú setning sem lýsir titli lagsins mest, þrátt fyrir að hann þýðir ekkert. Frjálsíþróttafélag ÍBV. Frjálsíþróttafélag ÍBV var stofnað 6. mars 1989. Félagið leggur stund á frjálsar íþróttir í Vestmannaeyjum. Upphaflega hét félagið Ungmennafélagið Óðinn en var breytt í "Frjálsíþróttafélag ÍBV" í september 2012. Félagið er sambandsaðili Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Amy Diamond. Amy Diamond, réttu nafni Amy Linnea Deasismont, (fædd 15. apríl 1992 í Norrköping) er sænskur poppsöngvari og leikkona. Hún varð vinsæl í upphafi árs 2005 tólf ára gömul með laginu „What’s in It for Me“, sem varð vinsælt í Skandinavíu árið 2005 og var á vinsældalistum í fjóra mánuði. Hún hefur gefið út fimm plötur. Phyllis Diller. Phyllis Ada Driver (f. 1917) er bandarískur leikari og uppistandari. Diller, Phyllis Diller, Phyllis Rose Marie. Rose Marie Mazetta (f. 1923) er bandarískur leikari og uppistandari. Marie, Rose Marie, Rose Chris Wedge. John Christian „Chris“ Wedge (f. 1957) er bandarískur leikari og uppistandari. Wedge, Chris Wedge, Chris Karen Disher. Karen Disher (f. 1972) er bandarískur leikari og uppistandari. Disher, Karen Disher, Karen Willard Scott. Willard Herman Scott, Jr. (f. 1934) er bandarískur leikari og uppistandari. Tenglar. Scott, Willard Scott, Willard Ciara Bravo. Ciara Quinn Bravo (f. 1997) er bandarískur leikari og uppistandari. Bravo, Ciara Bravo, Ciara Keke Palmer. Lauren Keyana „Keke“ Palmer (f. 1993) er bandarískur leikari og uppistandari. Palmer, Keke Palmer, Keke John Leguizamo. Jonathan Alberto „John“ Leguizamo (f. 1964) er bandarískur leikari og uppistandari. Leguizamo, John Leguizamo, John Denis Leary. Denis Colin Leary (f. 1957) er bandarískur leikari og uppistandari. Leary, Denis Leary, Denis Queen Latifah. Dana Elaine Owens (f. 18. mars 1970) er bandarísk leikkona og uppistandari. Latifah, Queen Latifah, Queen Seann William Scott. Seann William Scott (f. 1976) er bandarískur leikari og uppistandari. Scott, Seann William Scott, Seann William Josh Peck. Joshua Michael „Josh“ Peck (f. 1986) er bandarískur leikari og uppistandari. Peck, Josh Peck, Josh Simon Pegg. Simon John Beckingham (f. 1970) er enskur leikari og uppistandari. Pegg, Simon Pegg, Simon Billy Gardell. William „Billy“ Gardell (f. 1969) er bandarískur leikari og uppistandari. Gardell, Billy Gardell, Billy T. J. Miller. Todd Joseph Miller (f. 1981) er bandarískur leikari og uppistandari. Miller, T. J. Miller, T. J. Áttarós. Áttarós er merki sem gefur upp höfuðáttirnar — norður, austur, suður og vestur. Hún er notuð á næstum öllum leiðsögutækjum, þar á meðal áttavitum, landakortum, sjókortum, minnisvörðum og GPS tækjum. Njósnaflugvél. Njósnaflugvél er flugvél sem notuð er af flugher til loftkönnunar í hernaðarskyni. Elstu dæmin um notkun loftfara til að afla hernaðarupplýsinga eru loftbelgir sem voru notaðir í Napóleonsstyrjöldunum. María Júlía (skip). "María Júlía" er varðskip og björgunarskip sem Landhelgisgæslan notaði frá 1950 til 1969. Skipið var smíðað úr eik í Frederikssund í Danmörku og var heildarkostnaður 1,5 milljónir króna en um 300.000 af þeirri upphæð voru framlög frá slysavarnardeildum á Vestfjörðum. Skipið var nefnt í höfuðið á Maríu Júlíu Gísladóttur frá Ísafirði sem gaf árið 1937 verulegt fjármagn til smíði björgunarskips. Í skipinu var sérútbúin rannsóknarstofa fyrir fiskifræðinga og fyrir sjómælingar. Skipið var því fyrsti vísir að hafrannsóknarskipi á Íslandi. Árið 1969 seldi Landhelgisgæslan skipið sem var næstu ár notað sem fiskiskip og gert út frá Patreksfirði og Tálknafirði. Til stóð að selja það til Suður-Afríku en árið 2003 keyptu Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti og Byggðasafn Vestfjarða skipið með það fyrir augum að gera upp og reka sem safnaskip sem gæti siglt milli staða á Vestfjörðum. Árið 2006 var skipið flutt til Patreksfjarðar til viðgerða og árið eftir til Bolungarvíkur og síðan til Þingeyrar. Viðgerð á skipinu hefur staðið yfir síðan. María Júlía er 137 tonn, 27,5 metrar á lengd og 3,25 metrar á dýpt. First National Bank í Montgomery gegn Jerome Daly. First National Bank í Montgomery vs Jerome Daly (Credit River Case) er dómsmál í Bandaríkjunum. Málið var flutt í desember 1968. Dómur hefur ekki gefið tilefni til fordæmis en umræðan um málið er enn í gangi. Dómsmálaráðuneyti. Dómsmálaráðuneytið í Japan í Tókýó Dómsmálaráðuneyti er ráðuneyti í ríkisstjórn sem hefur umsjón með almennu réttarfari, ríkissaksóknara og lögreglu. Störf dómsmálaráðuneyta tengjast oft störfum ríkislögmanns og innanríkisráðuneytis. Stundum eru þessi hlutverk öll í einu ráðuneyti. Ágsborgarfriðurinn. Prentuð útgáfa samkomulagsins frá 1555 Ágsborgarfriðurinn var samkomulag milli Karls 5. og schmalkaldíska bandalagsins, sem var bandalag lútherskra fursta í Heilaga rómverska ríkinu. Samkomulagið var gert á ráðstefnu í Ágsborg í Bæjaralandi þar sem nú er Þýskaland. Með samkomulaginu fengu furstarnir rétt til að ákveða ríkistrú í sínum ríkjum á þeirri forsendu að ríki og trú skyldu vera eitt, eða "cuius regio, eius religio". Samkomulagið leyfði hins vegar aðeins val milli kaþólskrar trúar og lútherstrúar, en gerði ekki ráð fyrir annarri mótmælendarú eins og kalvínisma og anabaptisma. Matthew Flinders. Matthew Flinders (16. mars 1774 – 19. júlí 1814) var enskur landkönnuður og kortagerðarmaður. Hann sigldi fyrstur manna umhverfis Ástralíu á skipinu "Investigator" og stakk upp á nafninu „Australia“ (dregið af "Terra Australis") sem regnhlífarhugtaki yfir alla álfuna. Samstaða (stjórnmálaflokkur). Samstaða er íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður 15. janúar 2012. Samstaða hugðist bjóða fram í Alþingiskosningum 2013 og fékk úthlutað listabókstafnum C. Að Samstöðu stendur meðal annars Lilja Mósesdóttir sem settist á þing eftir Alþingiskosningar 2009 fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Birgir Örn Guðjónsson, 36 ára lögreglumaður frá Hafnarfirði, var kosinn formaður Samstöðu á landsfundi flokksins 6. október 2012. 22. desember 2012 tilkynnti Lilja Mósesdóttir að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í alþingiskosningunum vorið 2013 og því mun hún ekki leiða lista Samstöðu. 9. febrúar 2013 var ákveðið á landsfundi Samstöðu að bjóða ekki fram í komandi þingkosningum. Stubby Kaye. Bernard Kotzin (f. 1918) er bandarískur leikari og uppistandari. Kaye, Stubby Kaye, Stubby Cathy Cavadini. Catherine Janet „Cathy“ Cavadini (f. 1961) er bandarískur leikari og uppistandari. Cavadini, Cathy Cavadini, Cathy Kevin Nealon. Kevin Nealon (f. 1953) er bandarískur leikari og uppistandari. Nealon, Kevin Nealon, Kevin Molly Shannon. Molly Helen Shannon (f. 1964) er bandarískur leikari og uppistandari. Shannon, Molly Shannon, Molly Steve Buscemi. Steven Vincent „Steve“ Buscemi (f. 1957) er bandarískur leikari og uppistandari. Buscemi, Steve Buscemi, Steve Michael J. Fox. Michael Andrew Fox (f. 1961) er bandarískur leikari og uppistandari. Fox, Michael J. Fox, Michael J. Nathan Lane. Joseph Lane (f. 1956) er bandarískur leikari og uppistandari. Lane, Nathan Lane, Nathan Steve Zahn. Steven James „Steve“ Zahn (f. 1967) er bandarískur leikari og uppistandari. Zahn, Steve Zahn, Steve Carlos Alazraqui. Carlos Jaime Alazraqui (f. 1962) er bandarískur leikari og uppistandari. Alazraqui, Carlos Alazraqui, Carlos Kathy Najimy. Kathleen Ann „Kathy“ Najimy (f. 1957) er bandarískur leikari og uppistandari. Najimy, Kathy Najimy, Kathy James Woods. James Howard Woods (f. 1947) er bandarískur leikari og uppistandari. Woods, James Woods, James Mark Hamill. Mark Richard Hamill (f. 1951) er bandarískur leikari og uppistandari. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Luke Skywalker í Star Wars myndunum. Hamill, Mark Hamill, Mark Melanie Griffith. Melanie Richards Griffith (f. 1957) er bandarískur leikari og uppistandari. Griffth, Melanie Griffith, Melanie David Kaufman. David Kaufman (f. 1969) er bandarískur leikari og uppistandari. Kaufman, David Kaufman, David Kevin Schon. Kevin Schon er bandarískur leikari og uppistandari. Schon, Kevin Schon, Kevin Quinton Flynn. Quinton Joseph Flynn (f. 1964) er bandarískur leikari og uppistandari. Flynn, Quinton Flynn, Quinton Geena Davis. Virginia Elizabeth „Geena“ Davis (f. 1956) er bandarískur leikari og uppistandari. Davis, Geena Davis, Geena Hugh Laurie. James Hugh Calum Laurie (f. 1959) er enskur leikari. Laurie, Hugh Jonathan Lipnicki. Jonathan William Lipnicki (f. 1990) er bandarískur leikari og uppistandari. Lipnicki, Jonathan Lipnicki, Jonathan Myles Jeffrey. Myles David Jeffrey (f. 1990) er bandarískur leikari og uppistandari. Jeffrey, Myles Jeffrey, Myles Corey Padnos. Corey Padnos er bandarískur leikari og uppistandari. Padnos, Corey Padnos, Corey Wayne Brady. Wayne Alphonso Brady (f. 1972) er bandarískur leikari og uppistandari. Brady, Wayne Brady, Wayne Jennifer Hale. Jennifer Hale (f. 1972) er bandarískur leikari og uppistandari. Hale, Jennifer Hale, Jennifer David Alan Grier. David Alan Grier (f. 1956) er bandarískur leikari og uppistandari. Grier, David Alan Grier, David Alan Chazz Palminteri. Calogero Lorenzo „Chazz“ Palminteri (f. 1952) er bandarískur leikari og uppistandari. Palminteri, Chazz Palminteri, Chazz Ian McShane. Ian David McShane (f. 1942) er bandarískur leikari og uppistandari. McShane, Ian McShane, Ian Gary Oldman. Gary Leonard Oldman (f. 21. mars 1958) er enskur leikari. Oldman, Gary Scott Grimes. Scott Richard Grimes (f. 1971) er bandarískur leikari og uppistandari. Grimes, Scott Grimes, Scott Steve Oedekerk. Steven „Steve“ Oedekerk (f. 1961) er bandarískur leikari og uppistandari. Oedekerk, Steve Oedekerk, Steve Wendy Schaal. Wendy Schaal (f. 1954) er bandarískur leikari og uppistandari. Schaal, Wendy Schaal, Wendy Maria Bamford. Maria Bamford (f. 1970) er bandarískur leikari og uppistandari. Bamford, Maria Bamford, Maria Kevin Michael Richardson. Kevin Michael Richardson III (f. 1964) er bandarískur leikari og uppistandari. Richardson, Kevin Michael Richardson, Kevin Michael Cedric the Entertainer. Cedric Antonio Kyles (f. 1964) er bandarískur leikari og uppistandari. Kyles, Cedric Antonio Kyles, Cedric Antonio Sacha Baron Cohen. Sacha Noam Baron Cohen (f. 1971) er enskur leikari og uppistandari. Baron Cohen, Sacha Baron Cohen, Sacha Andy Richter. Paul Andrew „Andy“ Richter (f. 1966) er bandarískur leikari og uppistandari. Richter, Andy Richter, Andy Danny Jacobs. Daniel „Danny“ Jacobs (f. 1968) er bandarískur leikari og uppistandari. Jacobs, Danny Jacobs, Danny John Cothran, Jr.. Jonathan „John“ Cothran, Jr. (f. 1947) er bandarískur leikari og uppistandari. Cothran, Jr., John Cothran, Jr., John Nagornó-Karabak. Kort sem sýnir staðsetningu Nagornó-Karabak Nagornó-Karabak er umdeilt land innan landamæra Aserbaídsjan í Suður-Kákasus. Héraðið er fjalllent og skóglent. Héraðið er í reynd sjálfstætt sem Lýðveldið Nagornó-Karabak, en án viðurkenningar alþjóðasamfélagsins sem lítur á Nagornó-Karabak sem hérað í Aserbaídsjan. Rætur þessarar deilu liggja í því að um aldir hafði verið armenskur meirihluti í héraðinu, og þegar Bolsévikar tóku Aserbaídsjan yfir árið 1920 lofuðu þeir að gera Karabak að hluta Armeníu. Vegna samskipta við Tyrkland ákvað Sovétstjórnin þess í stað að gera Nagornó-Karabak að sjálfstjórnarhéraði innan Aserbaídsjan árið 1923. Skömmu fyrir upplausn Sovétríkjanna hófst barátta íbúa fyrir sameiningu við Armeníu sem leiddi til borgarastríðs og stofnun sjálfstæðs ríkis 1991. Samið var um vopnahlé árið 1993. Kio Briggs. Kio Alexander Ayobambele Briggs er breskur maður sem var handtekinn í Leifsstöð 1. september árið 1998 með 2.031 e-töflur í farangri sínum. Mál hans varð mjög fyrirferðamikið í íslenskum fjölmiðlum í kjölfarið. Kio var dæmdur til afplánunar í héraðsdómi en þeim dómi var hnekkt af hæstarétti. Málsatvik voru nokkuð sérstæð. Kio hafði flogið til Íslands frá Benidorm á Spáni og þar hafði Íslendingur sem borgaði fyrir hann flugfargjaldið komið töflunum fyrir í farangri hans án vitneskju Kios, að því að Kio fullyrti. Málið var ekki síður sérstætt fyrir þær sakir að svo virðist sem að sá hinn sami hafi haft samband við lögregluyfirvöld á Íslandi og greint frá því að Kio væri væntanlegur með e-töflurnar í þeim tilgangi að geta samið um niðurfellingu á kærum og dómum sem biðu hans á Íslandi. En þar sem Kio lýsti staðfastlega yfir sakleysi sínu var honum sleppt lausum á meðan héraðsdómur tók málið fyrir annað sinn og varð hann nokkuð fyrirferðamikill í íslensku skemmtanalífi. Kio var loks sýknaður af ákæru um fíknefnasmygl í héraðsdómi og hæstarétti og sleppt úr landi. Hann krafði ríkið um 27 milljónir í bætur sem hann vann ekki. Stuttu eftir að hann fór frá Íslandi var hann handtekinn í Danmörku á ný og sakfelldur fyrir að hafa e-töflur í fórum sínum. Brian George. Brian George (f. 1952) er bandarískur leikari og uppistandari. George, Brian George, Brian King Moody. Robert „King“ Moody (f. 1929) er bandarískur leikari og uppistandari. Moody, King Moody, King Daniel McKeague. Daniel „Dan“ McKeague (f. 1974) er bandarískur leikari og uppistandari. McKeague, Daniel McKeague, Daniel Cody Cameron. Cody Cameron (f. 1970) er bandarískur leikari og uppistandari. Cameron, Cody Cameron, Cody Andremma. Andremma eða andfýla nefnist þegar slæm lykt er við útöndun. Squire Fridell. Squire Fridell (f. 1943) er bandarískur leikari og uppistandari. Fridell, Squire Fridell, Squire Lyftiduft. Lyftiduft er lyftiefni sem notað er í kökugerð og ýmsum öðrum bakstri til að ná fram lyftingu og gera afurðirnar léttari og loftmeiri. Þegar það er sett út í deigið og kemst í snertingu við vökva og síðan hita verða efnahvörf sem valda því að loftbólur myndast í deiginu og stækka síðan og deigið þenst út. Öfugt við gerdeig, sem er hnoðað til að glútenþræðir myndist í deiginu og síðan látin lyfta sér hægt, er deig gert með lyftidufti og öðrum kemískum lyftiefnum bökuð fljótt því glútenið í deiginu er veikt, sé það fyrir hendi, og nær ekki að halda loftbólum sem myndast nema skamma stund. Innihaldsefni og virkni. Aðalefnið í lyftidufti er yfirleitt matarsódi. Til að efnahvörfin sem valda lyftingu fari af stað í deiginu þarf að koma til raki og einhver sýruvaldur. Stundum er notað hráefni með nægilega lágt sýrustig í baksturinn (svo sem súrmjólk eða jógúrt, sítrónusafi, súkkulaði eða annað) en að öðrum kosti þarf að blanda einhverju efni saman við. Það var upphaflega gert í tvennu lagi, það er að segja uppskriftir mæltu fyrir um að setja annars vegar matarsóda og hins vegar fosföt eða vínstein út í deigið, en um eða upp úr miðri 19. öld var farið að selja efnin blönduð saman í réttum hlutföllum sem lyftiduft. Nokkru síðar var farið að blanda sterkju saman við til að gera blönduna geymsluþolnari, þar sem sterkjan tók upp raka sem annars hefði haft áhrif á lyftiduftið og stytt geymsluþol þess. Royal-lyftiduft frá fyrri hluta 20. aldar. Lyftiduft er ýmist einvirkt eða tvívirkt (hægverkandi) en upphaflega var allt lyftiduft einvirkt, sem þýðir að duftið verður virkt um leið og það kemst í snertingu við raka og sýru og þarf því að baka strax úr deiginu. Tvívirkt lyftiduft bregst við í tveimur skrefum, annars vegar þegar vöknar í því og hins vegar þegar hita frá ofninum fer að gæta, og deigið getur því beðið nokkra stund fyrir bakstur. Það er ekki fyrr en hitastig hækkar í deiginu inni í ofninum sem aðallyftingin fer af stað þegar koltvísýringur losnar úr læðingi og loftbólurnar í deiginu stækka og þenja það út. Þar sem sýruvaldarnir eru fyrir hendi í lyftiduftinu er ekki þörf á súru hráefni til að lyftiduftið virki. Sýruvaldar í lyftidufti eru meðal annars dífosföt, álsúlfat eða vínsteinn og stundum blanda þessara efna. Álsúlfat er hæg- og langvirkara en hin efnin, sem þýðir að deig sem það er í getur beðið lengur. Það hefur þó verið nokkuð umdeilt, annars vegar telja ýmsir að þau geti valdið því að álbragð verði af bakkelsinu og hins vegar hafa komið fram kenningar um að ál í mat geti hugsanlega valdið Alzheimer-sjúkdómi. Lyftiduft sem inniheldur dífosfat, til dæmis Royal-lyftiduft, er heldur hægvirkara en vínsteinslyftiduft. Í lyftidufti eru einnig þurrkefni (oftast sterkja), svo sem hveiti, maíssterkja, kartöflumjöl eða hrísmjöl. Þurrkefnin binda raka og auka því geymsluþol duftsins. Þau koma líka í veg fyrir kekkjamyndun og auka íblöndunarhæfni lyftiduftsins. Þeir sem vilja forðast allt glúten sneiða oft hjá lyftidufti sem inniheldur hveiti þótt magn þess sé raunar mjög lítið. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að vínsteinslyftiduft sé glútenlaust eða að glútenlaust lyftiduft innihaldi ekki álsambönd. Einnig getur lyftiduft sem inniheldur vínstein jafnframt innihaldið álsúlfat. Notkun. Algengast er að eingöngu sé notað lyftiduft í allskyns kökubakstri; í smákökur og fljótbakaðar kökur er stundum eingöngu notaður matarsódi (en þá þarf að vera fyrir hendi sýra í hráefninu) en stundum er líka hvorttveggja notað og þá til að fá fram góða lyftingu strax í upphafi sem heldur svo áfram í ofninum. Þá þarf þó að gæta þess að nota jafnframt súrt hráefni sem jafnar út basann í matarsódanum, annars getur komið beiskt bragð af kökunni. Algeng þumalfingursregla er að nota eina teskeið af lyftidufti í hver 125 g af hveiti en það er þó nokkuð misjafnt eftir því hver önnur hráefni eru. Sé notað of mikið af lyftidufti er hætt við að loftbólurnar þenjist of mikið og of hratt út og springi áður en kakan er fullbökuð, sem verður til þess að hún fellur. Einu skipt út fyrir annað. Oft má nota lyftiduft í staðinn fyrir matarsóda í uppskriftum, þá oftast í hlutföllunum 3:1. Hafi uppskriftin gert ráð fyrir 1 tsk af matarsóda eru notaðar 3 tsk af lyftidufti í staðinn. Þó má gera ráð fyrir að bragðið af kökunni breytist eitthvað og hún getur orðið ljósari en ella því matarsódinn hefur áhrif á brúnunina. Yfirleitt er ekki hægt að nota matarsóda eingöngu þegar uppskriftin gerir ráð fyrir lyftidufti, nema þá ef bætt er við súru hráefni til að koma lyftingunni af stað, því að eintóman matarsóda vantar sýruna sem þarf til að fá kökuna til að lyftast. Bragðið breytist að sjálfsögðu eitthvað við þetta. Útbúa má heimagert lyftiduft úr matarsóda og vínstein (kalíumbítartar - KC4H5O6) og þá er blandað saman einum hluta af vínstein á móti tveimur af matarsóda og einum af maíssterkju (einnig má sleppa sterkjunni en þá geymist lyftiduftið verr og það þarf að nota heldur meira af því en ella). Þetta lyftiduft er þó ekki tvívirkt og því þarf að baka kökur þar sem það er notað um leið og deigið er tilbúið. Sobran las palabras. „Sobran las palabras“ eða „orð eru óþarfi“ var framlag Spánar til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var flutt númer tólf á sviðinu í Haag í Hollandi. Lagið fjallar um um það að orð geta verið óþarfi þegar að verið er að tala um ást. Hinsvegar er ekki létt að tala um ást án orða og er höfundur lagsins að tala um að setningar þýða ekkert í hjarta manns sem vill að elskuhugi sinn verði að læra að vera í fjarveru hans. Lagið fékk aðeins 11 stig sem komu frá Bretlandi, Grikklandi, Ítalíu, Mónakó og Frakklandi. Lagið var sungið af söngvaranum Braulio og þrem bakraddarsöngkonum. Þegarr að kom að Spáni að gfa stig hafði lagið aðeins fengið 4 stig og 11 lönd þegar gefið stig. Það þýddi að Spánn var auglóslega ekki að fara að vinna og lagið lenti í 16. sæti. Commerzbank-Tower. Commerzbank-Tower er skýjakljúfur í Frankfurt am Main sem er 259 m að hæð. Byggingin var vígð þann 1997. Messeturm. Messeturm er skýjakljúfur í Frankfurt am Main sem er 257 m að hæð. Byggingin var vígð þann 1990. Westend Tower. Westend Tower er skýjakljúfur í Frankfurt am Main sem er 208 m að hæð. Byggingin var vígð þann 1993. Main Tower. Main Tower er skýjakljúfur í Frankfurt am Main sem er 200 m að hæð. Byggingin var vígð þann 1999. Tower 185. Tower 185 er skýjakljúfur í Frankfurt am Main sem er 200 m að hæð. Byggingin var vígð þann 2011. Íþróttafélagið Efling. Íþróttafélagið Efling er staðsett á Laugum í Reykjadal. Það á í samstarfi við íþróttafélag Framhaldsskólans á Laugum (ÍFL). Omarosa Manigault. Omarosa Manigault (f. 1974) er bandarískur leikari og uppistandari. Manigault, Omarosa Manigault, Omarosa Sinbad. David Adkins (f. 1956) er bandarískur leikari og uppistandari. Sinbad Sinbad Ernie Sabella. Ernest „Ernie“ Sabella (f. 1949) er bandarískur leikari og uppistandari. Sabella, Ernie Sabella, Ernie Cam Clarke. Cameron Arthur „Cam“ Clarke (f. 1957) er bandarískur leikari og uppistandari. Clarke, Cam Clarke, Cam Matthew Broderick. Matthew Broderick (f. 21. mars 1962) er bandarískur leikari og uppistandari. Broderick, Matthew Broderick, Matthew Jim Cummings. James Jonah „Jim“ Cummings (f. 1952) er bandarískur leikari og uppistandari. Cummings, Jim Cummings, Jim Cheech Marin. Richard Anthony „Cheech“ Marin (f. 1948) er bandarískur leikari og uppistandari. Marin, Cheech Marin, Cheech Tress MacNeille. Tress MacNeille (f. 1951) er bandarískur leikari og uppistandari. MacNeille, Tress MacNeille, Tress Rob Paulsen. Robert Fredrick „Rob“ Paulsen III (f. 1956) er bandarískur leikari og uppistandari. Paulsen, Rob Paulsen, Rob Marens. Marens eða marengs er kaka eða ábætisréttur gerður úr eggjahvítum sem þeyttar eru með sykri og síðan oft bakaðar í ofni. Stundum er svolitlum vínsteini eða ediki þeytt saman við eggjahvíturnar til að gera marensinn stöðugri og hann er einnig stundum bragðbættur á ýmsan hátt eða litaður. Marensgerð. Þegar marens er þeyttur er mikilvægt að engin fita berist í hvíturnar því þá þeytast þær ekki nægilega vel og því þarf að gæta þess að engin rauða fylgi með hvítunum þegar eggin eru aðskilin. Hvíturnar eru svo þeyttar með sykri þar til froðan myndar stífa toppa sem halda lögun og síðan er marensinn mótaður á ýmsan hátt, stundum með því að sprauta honum úr rjómasprautu eða dreifa honum á hring sem teiknaður hefur verið á bökunarpappír og baka hann síðan. Úr honum eru oft gerðir tertubotnar eða litlar marenskökur og hann er líka oft settur ofan á ávexti, bökufyllingar eða annað sem síðan er bakað og borið fram sem ábætisréttur. Ein frægasti marensrétturinn er pavlova, þar sem svolítilli maíssterkju og ediki er þeytt saman við marensinn og síðan bökuð kringlótt kaka sem ávöxtum eða berjum er hrúgað á. Til eru mismunandi gerðir af marens. Venjulegur eða franskur marens er þannig að hvíturnar eru einfaldlega þeyttar og sykrinum síðan þeytt saman við smátt og smátt. Svissneskur marens er þeyttur í skál sem höfð ef yfir potti með heitu vatni þar til eggjahvítunar fara að hitna og síðan er skálin tekin af hitanum og þeytt áfram þar til marensinn kólnar og myndar stífa toppa. Ítalskur marens er gerður þannig að sykur og vatn er soðið saman í síróp sem er svo þeytt saman við eggjahvíturnar þannig að þær „soðna“ í hitanum. Hann er mun stöðugri en hinar tegundirnar og er oft ekki bakaður. Hlutfall eggjahvíta og sykurs er yfirleitt 50 g af sykri á móti hverri eggjahvítu en það fer þó eftir því hvernig á að nota marensinn Saga. Ekki er víst hvar marens er upprunnin en heitið meringue kemur fyrst fyrir í franskri matreiðslubók frá 1692. Marenskökur hafa verið þekktar á Íslandi frá því á 19. öld en urðu afar vinsælar á 7. og 8. áratug 20. aldar, þegar framboð á eggjum jókst til muna og þau urðu ekki lengur munaðarvara. Fred Tatasciore. Frederick „Fred“ Tatasciore er bandarískur leikari og uppistandari. Tatasciore, Fred Tatasciore, Fred Mick Wingert. Mick Wingert (f. 1974) er bandarískur leikari og uppistandari. Wingert, Mick Wingert, Mick Michael Clarke Duncan. Michael Clarke Duncan (10. desember 1957 – 3. september 2012) var bandarískur leikari og uppistandari þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni "The Green Mile" eftir sögu Stephen King. Duncan, Michael Clarke Duncan, Michael Clarke Frank Caeti. Franklin „Frank“ Caeti (f. 1973) er bandarískur leikari og uppistandari. Caeti, Frank Caeti, Frank Glitfaxaslysið. Glitfaxaslysið var flugslys sem varð 31. janúar 1951, þegar Dakota-flugvél Flugfélags Íslands, "Glitfaxi" TF-ISG, hrapaði í Faxaflóa í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Með flugvélinni voru 17 farþegar og þriggja manna áhöfn. Allir fórust og er þetta eitt mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar. Glitfaxi var í áætlunarflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur en þurfti að hætta við lendingu vegna hríðarbyls og flaug þá hring út á Faxaflóa. Þegar flugstjórinn ákvað í samráði við flugturn að gera aðra tilraun til lendingar rofnaði allt samband við flugvélina í aðflugi og varð fljótt ljóst að hún hefði farist. Leitarflokkar fóru strax af stað og gengu fjörur en jafnframt var leitað á landi. Daginn eftir fannst brak úr vélinni á reki úti fyrir Vatnsleysuströnd en flakið hefur aldrei fundist. Með flugvélinni fórust tvær konur, önnur þeirra flugfreyja vélarinnar, og 18 karlmenn, þar af einn drengur á fyrsta ári. Um fimmtíu börn og ungmenni misstu föður sinn í slysinu. Meira en helmingur farþega var frá Vestmannaeyjum. Við hlið Fossvogskirkju er minnismerkið "Glitfaxi" eftir Einar Jónsson myndhöggvara og var það reist til minningar um slysið og jafnframt alla þá sem farist hafa í flugslysum. Kevin McDonald. Kevin Hamilton McDonald (f. 1961) er bandarískur leikari og uppistandari. Sinbad Sinbad Jay Mohr. Jon Ferguson Mohr (f. 1970) er bandarískur leikari og uppistandari. Mohr, Jay Mohr, Jay Olivier Weber. Olivier Weber (fæddur 12. júní 1958 á Montluçon) er franskur rithöfundur. Skáldsögur. Weber, Olivier Richard Simmons. Milton Teagle Simmons (f. 1948) er bandarískur leikari og uppistandari. Simmons, Richard Simmons, Richard Buddy Hackett. Leonard Hacker (f. 1924) er bandarískur leikari og uppistandari. Hackett, Buddy Hackett, Buddy Pepsideild karla í knattspyrnu 2013. Árið 2013 verður Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í 102. sinn. Þór Akureyri kom upp eftir eins árs veru í 1. deild og Víkingar frá Ólafsvík komu upp í allra fyrsta sinn. FH-ingar munu reyna að verja sinn 6. titil. Liege (hérað). Liege (franska: Liège; hollenska: Luik; þýska: Lüttich) er hérað austast í Belgíu. Það er innan franska menningarsvæðisins í landinu og því hluti af Vallóníu. Austast í Liege býr þó þýskur minnihlutahópur, sem er hluti þýska menningarsvæðisins í Belgíu. Höfuðborg héraðsins heitir sömuleiðis Liege. Lega og lýsing. Liege er 3.862 km2 að stærð og er því næststærsta hérað Belgíu. Aðeins Lúxemborg er stærra. Íbúar eru um ein milljón talsins. Liege er austasta hérað Belgíu og á landamæri að Þýskalandi, Hollandi og furstadæminu Lúxemborg. Auk þess liggur Liege að héruðunum Limburg í norðvestri, Flæmska Brabant, Vallónska Brabant og Namur í vestri, og loks héraðinu Lúxemborg í suðri. Stór hluti Liege liggur í Ardennafjöllum. Samtals eru fjórir hreppar (arrondissements) í Liege, sem og 84 bæir og sveitarfélög. Söguágrip. Liege sem hérað myndaðist 1795 eftir að franskur byltingarher hafði hertekið Niðurlönd. Svæðið hafði að mestu leyti verið eign furstabiskupanna í borginni Liege, en Frakkar lögðu það furstadæmi niður. Á tímabili var borgin Liege og svæðið í kring innlimað Frakklandi. Eftir fall Napoleons 1815 varð héraðið Liege hluti af konungsríki Niðurlanda og síðar, 1839, hluti af konungsríki Belgíu. Við tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918 voru tvö lítil hérað í Þýskalandi innlimuð í Liege. Það voru svæðin í kringum bæina Eupen og Malmedy. Þannig mynduðust núverandi landarmæri héraðsins. Í nýju svæðunum býr þýskumælandi fólk, þannig að austasti hluti héraðsins tilheyrir þýska menningarsvæði Belgíu. 1940 réðust Þjóðverjar aftur inn í Liege og héldu héraðinu til 1945. Patton hershöfðingi frelsaði borgina. Við það tækifæri dönsuðu íbúar borgarinnar á götum úti og fögnuðu Bandaríkjamönnum. Eftir stríð komst mikill iðnaður á í héraðinu en hefur verið að dala síðustu áratugi. Þó er borgin Liege síðasta borgin í franska menningarsvæðinu þar sem stáliðnaður er enn í gangi. Ellen DeGeneres. Ellen Lee DeGeneres (f. 1958) er bandarískur leikari og uppistandari. DeGeneres, Ellen DeGeneres, Ellen Furstadæmi. a> er heimili furstans af Liechtenstein Furstadæmi er yfirleitt fullvalda ríki sem fursti ríkir yfir. Stundum er orðið notað í yfirfærðri merkingu yfir lönd undir einvaldi sem er af lægri stigum en konungur, til dæmis stórhertoga. Stundum heyrir furstadæmi undir keisaradæmi að nafninu til þótt það sé sjálfstætt í reynd. Einungis þrjú furstadæmi eru enn til í Evrópu: Mónakó, Andorra og Liechtenstein. Furstadæmi er líka notað yfir landsvæði í Mið-Austurlöndum sem emír ríkir yfir. Dæmi um það eru Sameinuðu arabísku furstadæmin, Katar og Kúveit. Nokkur örríki gera tilkall til sjálfstæðis sem furstadæmi en eru ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu, svo sem Sealand, Hutt River-furstadæmið í Ástralíu, Seborga á Ítalíu og Furstadæmið Mínerva í Suður-Kyrrahafi. Stórfurstadæmi. Stórfurstadæmi er landsvæði sem stórfursti ríkir yfir. Yfirleitt eru stórfurstadæmi sjálfstæð fullvalda ríki sem eru hluti af keisaradæmi. Ekkert stórfurstadæmi er lengur til. Keisaradæmi. Tvíhöfða örn var notaður sem tákn Austrómverska keisaradæmisins og í þeim evrópsku keisaradæmum sem töldu sig afkomendur þess; Rússneska keisaradæminu, Heilaga rómverska ríkinu og Austurrísk-ungverska keisaradæminu Keisaradæmi er ríki sem keisari eða keisaraynja ríkir yfir. Venja var að keisari taldist konungi æðri og keisaradæmi voru yfirleitt stór ríkjasambönd. Aðeins einn keisari er enn eftir í heiminum, Akihito Japanskeisari. Hin sögulegu heimsveldi voru sum hver keisaradæmi. Sækónguló. Sækóngulær (fræðiheiti: "pantopoda" einnig nefndar "pycnogonids") teljast til fylkingar liðdýra í undirfylkingunni klóskerar. Þekktar eru um 1300 tegundir. Útbreiðsla. Þær fyrirfinnast um nær allan heim. Útlit og lifnaðarhættir. Kviður sækóngulóa er frá 1 mm til 10 mm og langir grannir útlimir ganga út úr kviðnum. Þó að yfirleitt séu sækóngulær frekar litlar eru til dæmi um tegundir sem eru stærri, til að mynda hafa veiðst tegundir við Antartíku þar sem fótur kóngulóa hefur mælst 70 cm, sækóngulær eru yfirleitt með 4 útlimapör en þó eru afbrigði með 5 og 6 útlimapörum vel þekkt. Blóðrásar og taugakerfi sækóngulóarinnar er lítið og einfalt eins og stærð hennar gefur tilefni til, hjartað dælir blóðinu um baklæga æð og í blóðhol, og taugakerfið er með kviðlægann taugastreng líkt og hjá öðrum klóskerum. Flestar eru sækóngulær rándýr. Þær eru og botndýr og finna sér oftast fylgsni undir steinum og grjóti. Helsta fæða sækóngulóa er holsepi, mosadýr, kórall, burstaormar og svampdýr. Sækóngulær bryðja fæðuna með kokinu/kverkunum. Sækóngulær eru einkynja. Tjarnarkvartettinn. Fyrsti hljómdiskur Tjarnarkvartettsins. Kristján E. Hjartarson, Kristjana Arngrímsdóttir, Rósa Kristín Baldursdóttir og Hjörleifur Hjartarson Annar hljómdiskur Tjarnarkvartettsins. Myndin er af kirkjuglugga í Tjarnarkirkju. Tjarnarkvartettinn var blandaður söngkvartett, skipaður Rósu Kristínu Baldursdóttur sópran og stjórnanda hópsins, Kristjönu Arngrímsdóttur alt, Hjörleifi Hjartarsyni tenór og Kristjáni E. Hjartarsyni bassa. Kvartettinn var stofnaður árið 1992 og starfaði til ársins 2000 og flutti mest íslensk sönglög án undirleiks (a cappella). Kvartettinn kenndi sig við bæinn Tjörn í Svarfaðardal enda voru meðlimir hans tengdir staðnum, Kristján og Hjörleifur aldir þar upp og þær Kristjana og Rósa eiginkonur þeirra. Eftir að Tjarnarkvartettinn hætti störfum hafa meðlimir hans víða látið að sér kveða í tónlistarheiminum. Rósa Kristín hefur dvalið í Austurríki og m.a. starfrækt hljómsveitina Ensemble Úngút sem sent hefur frá sér hljómdiska. Kristjana hefur lagt stund á sólóferil og gefið út söngdiska (Þvílík er ástin, Í húminu, Tangó o.fl.). Kristján hefur staðið fyrir hljómleikum bæði með Kristjönu og eigin aðstoðatrmönnum. Hjörleifur hefur rekið hljómsveitina Hundur í óskilum. Vesturgatan. Vesturgatan er vegarslóði milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, oft kenndur við Sléttanes eða Svalvoga. Þar er vegarkafli sem Elías Kjaran lagði. Frá árinu 2006 hefur verið haldin á hverju ári hlaupahátíðin Vesturgatan. Bílar 2. Bílar 2 (enska: "Cars 2") er bandarísk teiknimynd og njósnamynd frá árinu 2011, framleidd af Pixar og útgefin af Disney. Henni var leikstýrt af John Lasseter og Brad Lewis, skrifuð af Ben Queen og framleidd af Denise Ream. Myndin er framhald myndarinnar Bílar. Í myndinni fara keppnisbíllinn Leiftur McQueen og dráttarbílinn Krókur til Japans til þess að keppa í heimsmeistarakeppninni, en Krókur flækist í alþjóðlegum njósnum. Lundey (Skagafirði). Lundey er lítil eyja í botni Skagafjarðar, um 2-3 kílómetra frá landi. Eyjan hefur aldrei verið byggð en þar er töluvert fuglalíf. Sprengisandsleið. Sprengisandsleið (F26) er fjallvegur á Íslandi. Hann liggur frá Þórisvatni að sunnan að Bárðardalsvegi vestri hjá Mýri. PETA. People for the Ethical Treatment of Animals; eða PETA var stofnað 1980 með það að markmiði að berjast fyrir réttindum dýra. Samtökin halda því fram að dýr séu ekki til þess ætluð að leggja sér þau til munns, klæðast feldi þeirra eða hafa af þeim skemmtun. PETA þjálfar fólk og fræðir almenning um misnotkun á dýrum og stuðlar að góðri meðferð þeirra. PETA er alþjóðleg stofnun sem rekin er í góðgerðarskyni með höfuðstöðvar í Norfolk í Virginíu. Stofnunin er sú stærsta sinnar tegundar með fleiri en 3 milljónir félaga og stuðningsmanna. Saga. PETA samtökin voru stofnuð af Ingrid Newkirk og samstarfsmanni hennar í dýraverndunarmálum Alex Pacheco. Samtökin vöktu fyrst athygli almennings árið 1981, þegar svokallað „The Silver Spring monkeys„ mál var mikið í umræðunni og vakti miklar deilur. Málið fjallaði um tilraunir sem gerðar voru á 17 macaque öpum og áttu sér stað í stofnun í Silver Spring, Maryland, eða the Institute of Behavioural Research. Málaferlin stóðu yfir í 10 ár og þar átti sér stað einstök lögregluárás á dýratilraunastofu sem varð til þess að breytingar voru gerðar á lögum í US og PETA varð þekkt stofnun á alþjóðavísu. Síðan þá hafa aðaláherslur samtakanna verið á fjóra aðalþætti dýraverndunarmála, þar sem þau telja að dýr þjáist mest; í verksmiðjubúum, í fataiðnaði, í tilraunastofum og í skemmtanaiðnaðinum. PETA vinnur líka að ýmsum öðrum málum svo sem grimmilegum drápum á Bjór (beaver), fuglum og öðrum „gæludýrum“ sem og illri meðferð á tömdum dýrum. Samtökin vinna á ýmsan hátt, svo sem í gegnum almenna menntun, þau rannsaka illa meðferð á dýrum, gera rannsóknir, skoða lagalegar hliðar mála og fá þekkt fólk eins og t.d. kvikmyndastjörnur til liðs við sig ásamt því að standa fyrir herferðum í mótmælaskyni við ýmis mál. Forseti og annar af stofnendum PETA samtakanna, Ingrid Newkirk, hefur lýst aðal markmiði samtakanna sem „ algjörri frelsun dýra.“ Þetta þýðir ekkert kjöt, enga mjólk, dýragarða eða sirkusa, enga ull, leður, veiðar, og engin gæludýr (ekki einu sinni horfa í augu hundanna). Samtökin eru líka algjörlega á móti öllum læknisfræðilegum rannsóknum sem krefjast notkunar dýra. Ádeila. Þrátt fyrir stanslausar ásakanir PETA samtakanna um „siðferðilega ranga“ meðferð veitingahúsa eigenda, kaupmanna, bænda, vísindamanna,stangveiðimanna og fjölda annarra Ameríkana, hafa samtökin sjálf drepið meira en 14.000 hunda og ketti í höfuðstöðvum sínum í Norfolk Virginíu. Árið 2005 drápu þau meira en 90 prósent af þeim dýrum sem þau tóku frá almenningi. Utan hreyfingarinnar hefur það valdið áhyggjum almennings hvernig PETA samtökin standa að herferðum sínum ásamt því hversu mikið af dýrum þau drepa, eða 85 prósent þeirra. Samtökin voru gangrýnd árið 2005 af bandaríska öldungadeildarþingmanninum Jim Inhofe fyrir að veita samtökunum Animal Liberation Front (ALF) og Earth Liberation Front (ELF) fjárframlög, en FBI hefur skilgreint starfsemi beggja þessara samtaka sem innlenda hryðjuverkastarfsemi. Svör PETA við þessu voru þau að þau ættu enga aðild að hvorugum þessara samtaka og styddu ekki ofbeldi, þrátt fyrir að Newkirk hefði áður látið í ljós þá skoðun að hún myndi styðja það að dýr væru tekin úr rannsóknarstofum þótt það væri skilgreint sem ólöglegt athæfi. Lögsóknir. Eftir að PETA hafði lögsótt Davis sýslu í Utah, þar sem þau fullyrtu að yfirvöld þar hefðu brotið lög með því að neita að láta af hendi skjöl sem vörðuðu meira en 100 heimilislausa hunda og ketti sem dýraathvarf átti að hafa selt til Háskólans í Utah árið 2009, í sársaukafullar tilraunir sem leiddu til dauða dýranna, samþykkti sýslan að afhenda skýrslurnar og endurgreiða PETA meira en 17 þúsund dollara í lögfræðikostnað. Dýraathvarfið hætti að selja dýr til rannsóknarstofa í mars 2010 eftir að PETA fletti ofan af starfsemi háskólans og ekki var lengur talið forsvaranlegt að stunda þessa starfsemi. PETA lögsótti einnig Sea World og staðhæfðu að dýragarðurinn hefði brotið þrettándu grein stjórnarskrár bandaríkjanna (the 13th Amendment) á háhyrningum í dýragarðinum, en hún fjallar um þrælahald og nauðungarvinnu. Þetta vakti hneykslun hjá mörgum þar sem fólki fannst óviðeigandi að bera saman þjáningar afrísk-amerískra þræla og aðstæður háhyrninga í skemmtigarði. Baráttuaðferðir. Litríkar og „umdeildar“ baráttuaðferðir eins og „ verum nakin í stað þess að klæðast loðfeldi“ vekja stöðuga athygli og eru í fréttum. „Nakta“ herferðin byrjaði fyrir nokkrum árum þegar þátttakendur í kröfugöngum – bæði karlmenn og konur – fóru í kröfugöngu með risastóra borða með þeim skilaboðum að þau myndu frekar „ vera nakin í stað þess að klæðast loðfeldi“ Fleiri slíkar mótmælagöngur hafa verið farnar um allan heim, hugmyndin þróaðist áfram og PETA samtökin fóru að fá þátttöku tilboð frá heimsþekktum einstaklingum eins og t.d. Kim Basinger og Pamelu Anderson. Athyglisvert er að PETA byrjuðu að fá kvartanir um herferðina eftir að fyrirsætur og leikarar fóru að taka þátt, sem samtökin túlkuðu á þann veg að þátttaka frægs fólks hjálpaði þeim að ná fleirum á sitt band. Herferðin hefur verið gríðarlega áhrifamikil og hefur verið fjallað um hana í nánast öllum stærstu dagblöðum, að meðtöldu The Wall Street Journal, The Los Angeles Times, USA Today og The Washington Post. Aðgerðarsinnar PETA samtakanna reyna reglulega að ná til ungra barna allt niður í sex ára aldur með áróðri um að ekki skuli neyta mjólkur og kjöts.Þeir taka sér gjarnan stöðu við skólana til að ná til barnanna án þess að foreldrar verði þess varir. Í einu þeirra áróðursspjalda sem börnunum eru sýnd stendur; „Mamma þín drepur dýr!“ PETA samtökin stæra sig af því að þessi skilaboð nái til meira en tveggja milljóna barna á hverju ári, meðtalinn tölvupóstur sem börnunum er sendur án leyfis foreldra. Frjálshyggjuflokkurinn (Bandaríkin). Frjálshyggjuflokkurinn er stjórnmálaflokkur í Bandaríkjunum sem hefur verið hvað lengst til fyrir utan stóru flokkana tvo og er þriðji stærsti flokkurinn í Bandaríkjunum. Flokkurinn var stofnaður 11. desember 1971 og hefur verið starfandi sleitulaust síðan. Flokkurinn sækir stefnu sína í frjálshyggju þar sem frelsi einstaklingsins er framar öllu öllu sem og takmörkuð afskipti ríkisvaldsins. Þrátt fyrir að til sé bæði vinstri- og hægri frjálshyggja þá eru hægri frjálshyggjumenn yfirgnæfandi fleiri í Bandaríkjunum með 235.000 skráða kjósendur árið 2008. Frjálshyggjumenn segjast trúa því að besta lausnin til að leysa vandamál sem herja á Bandaríkin sé á þá leið að leita í þá sömu arflegð og hugmyndafræði og Bandaríkin voru upphaflega byggð á eða frelsi einstaklingsins í einu og öllu. Stefna flokksins er því algjört frelsi og réttindi einstaklingsins, frjáls markaður, frjáls verslun og engin afskipti í innanríkismálum. Róttækustu frjálshyggjumenn styðja lögleiðingu fíkniefna, kláms, vændi, fjárhættuspil, giftingu samkynhneigðra, heimaskólun og byssueign almennings svo eitthvað sé nefnt. Frjálshyggjumenn telja sig hvorki vinstri né hægri menn heldur vilja þeir sem mest afskiptaleysi fyrir einstaklinginn af hálfu stjórnvalda. Þeir telja að afskipti stjórnvalda ætti að takmarka við að verja almúgann fyrir líkamlegu ofbeldi og svikum. Frjálshyggustjórn myndi þar af leiðandi einskorðast við lögrelgu, fangelsismálastofnun og her. Samkvæmt könnunum eru mun fleiri Frjálshyggjumenn í Bandaríkjunum en eru yfirlýstir kjósendur eða 10-20 prósent. Þetta fólk segist vera hægra megin í efnahagsmálum en vinstra megin í félagsmálum og vilja sem minnst afskipti stjórnvalda í þessum málum. Þrátt fyrir að kannanir sýni að um 20% hafi stjórnmálaskoðanir í anda Frjálshyggjuflokksins eru einungis 2 % sem skilgreina sig sem Frjálshyggjumenn. Ástæðurnar fyrir þessar eru ýmsar en þar má nefna að Frjálshyggjuflokknum hefur ekki verið gefinn neinn staður í umræðum um stjórnmálum. Stjórnmálaskoðanir fólks hafa í áratugi verið flokkaðar eftir því hvort þær eru hægra eða vinstra megin á skalanum eða frjálslynt eða íhaldssamt. Flokkunum hafa svo verið gefnir litir sem birtast í öllum auglýsingum og umfjöllunum um Bandarísk stjórnmál þar sem íhaldssamir (Repúblikanaflokkurinn) eru rauðir en frjálslyndir (Demókratar) bláir en Frjálshyggjuflokkurinn á sér engan stað í þessari greiningu. Tveir stærstu flokkarnir eru settir upp sem andstæður og þeir fá mikla athygli en þriðji flokkurinn verður útundan og fær litla sem enga athygli. Vegna þess kosningakerfis sem er við líði í Bandaríkjunum fær þriðji flokkurinn varla nein atkvæði í kosningum og á Frjálshyggjuflokkurinn þar af leiðandi erfitt uppdráttar. Þar sem þó margir frambjóðendur séu í framboði þá kemst aðeins sá að sem fær flest atkvæði. Þrátt fyrir þetta þá getur Frjálshyggjuflokkurinn haft töluverð áhrif til að mynda með að vekja athygli á málum sem annars myndu ekki eiga upp á pallborðið eða á þann hátt að frambjóðandi Frjálshyggjuflokksins gæti dregið það mörg atkvæði af framfjóðenda annars hvors stórflokksins að hann næði ekki kjöri. Saga. Flokkurinn er stofnaður 11 desember 1971. Baráttumál flokksins eru aðallega frjáls markaður, frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipti. Tonie Nathan varaforsetaefni flokksins varð fyrst kvenna í U.S. til að hljóta atkvæði kjörmannaráðs á fyrstu flokksráðstefnunni árið 1972, og síðan hafa nokkur stór nöfn í bandarískum stjórnmálum komið við sögu flokksins. Má nefna Ed Clarke sem náði góðum árangri í ríkisstjórakosningum árið 1978 og hlaut næstum milljón atkvæði í öllum 50 ríkjunum tveim árum síðar, Ron Paul sem sagði sig úr Repúblikanaflokknum og gekk í Frjálshyggjuflokkinn árið 1987 og varð forsetaefni flokksins það ár og vann síðan stórsigur í kosningum með yfir 430.000 atkvæði. Hann fékk tvöfalt meira magn atkvæða en nokkur annar sem hafði boðið sig fram fyrir utan stóru flokkana tvo. Árið 1991 sögðu svo tveir New Hampshire þingmenn til viðbótar sig úr Repúblikanaflokknum og gengu til liðs við Frjálshyggjuflokkinn, þeir Cal Warburton og Finlay Rothhaus sem náðu báðir þingsætum í kosningunum ári síðar ásamt tveimur öðrum þingmönnum, þeim Don Gorman og Andy Borsa. Flokkurinn átti líka góðu gengi að fagna á árunum 1994-1997 þegar þeir áttu um 40 þingmenn og þeim tókst meðal annars að stöðva áætlanir Clintons forseta um heilsutryggingar. Metsöluhöfundurinn Harry Browne er útnefndur forsetaefni flokksins bæði árin 1996 og 2000 og flokkurinn er aftur sigursæll í kosningum og var það í fyrsta skipti í 80 ár sem þriðji flokkur náði meirihluta á löggjafarþinginu. Bob Barr og Mikhael Badnarik eru meðal þeirra sem hafa verið útnefndir forsetaframbjóðendur síðust ár og árið 2010 fer Pamela Brown fram sem staðgengill ríkisstjóra á móti frambjóðendum beggja stóru flokkanna og vel yfir hálfa milljón atkvæða. Fjöldi atkvæða í forsetakosningum sem framjóðendur Frjálshyggjuflokksins hafa fengið Monadnock Building. The Monadnock Building (Monadnock Block) er bandarískur skýjakljúfur á 53 West Jackson Boulevard í Chicago í Illinois. Norðurhluti hússins var hannaður af Burnham & Root og byggður 1891 en suðurhlutinn, hannaður af Holabird & Roche, var reistur tveimur árum síðar. Þegar skýjakljúfurinn var fullgerður var hann stærsta skrifstofubygging heims. Hann var fyrsta mannvirki í Chicago sem rafmagn var lagt í við byggingu. Flugslysið í Héðinsfirði. Séð yfir Héðinsfjarðarvatn og út með Hestfjalli. Flugslysið í Héðinsfirði, sem varð þann 29. maí 1947 þegar TF-ISI, Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands flaug á Hestfjall í Héðinsfirði, er mannskæðasta flugslys sem orðið hefur á Íslandi en allir sem voru um borð, 25 manns, fórust. Flugvélin var í áætlunarflugi frá Reykjavík til Akureyrar en á þessum árum var venja að fljúga sjónflug þar sem flugleiðsögutæki voru af skornum skammti. Vegna skýjafars yfir hálendinu var flogið norður yfir Arnarvatnsheiði og síðan til Skagafjarðar og út fyrir mynni Siglufjarðar en þaðan átti að fljúga vélinni inn Eyjafjörð. Síðast sást til vélarinnar frá Siglunesi og flaug hún þá lágflug undir skýjum. Þegar vélin kom ekki til Akureyrar á áætluðum tíma og ekki náðist loftskeytasamband hófst leit að vélinni á sjó og landi. Leitarflokkur fór til Héðinsfjarðar en sá ekkert þar sem þoka lá yfir og ekkert sást upp í fjallshlíðar. Enn var þá byggð í firðinum en enginn varð slyssins var vegna þokunnar. Morguninn eftir birti upp svo hægt var að hefja leit með flugvélum og kl. 8.20 sást flak hennar í hlíð Hestfjalls, norðan Héðinsfjarðar. Hafði vélin komið úr suðurátt og flogið beint á fjallið, splundrast og brunnið, og var þegar ljóst að enginn hefði komist lífs af. Mjög erfitt var að komast að flakinu, enda er fjallið bratt og klettótt í sjó fram. Þó tókst að leggja bátum að, klifra upp í fjallið og ná líkum farþega og áhafnar og flytja til Akureyrar. Fjögurra manna áhöfn var á vélinni og 21 farþegi, þar af þrjú ung börn. Minnisvarði um þá sem fórust var reistur á slysstað árið1997, þegar 50 ár voru liðin frá slysinu. Árið 2010 kom út bók um slysið, "Harmleikur í Héðinsfirði". Hestfjall (Héðinsfirði). Séð út yfir Héðinsfjarðarvatn og Héðinsfjörð. Hestfjall til vinstri. Hestfjall er fjall (536 m.y.s.) norðan og vestan við Héðinsfjörð á Tröllaskaga en vestan fjallsins er Nesdalur upp frá Reyðará og Siglunesi. Ysti hluti Hestfjalls kallast Hestur. Fjallið er sæbratt í sjó fram. Utarlega á Hestfjalli varð mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar 29. maí 1947, þegar Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands flaug á fjallshlíðina og allir um borð fórust, 25 manns. Þar er nú minnisvarði um slysið, reistur 1997. Júba. Júba er höfuðborg og stærsta borg Suður-Súdan. Borgin stendur við Hvítu Níl í suðurhluta landsins. Íbúar eru tæplega 400 þúsund. Módernismi í íslenskum bókmenntum. Hér hefur verið vikið að helstu skáldverkum íslenskum, sem talin hafa verið módern framundir 1990. Bragarhættir ljóða eru því máli óviðkomandi. Hér er því. ekki fjallað sérstaklega um prósaljóð, þar sem auðséð er innlend hefð allt frá því fyrir aldamót, en einkum ber þó á þeim um 1920. En þau ljóð greinast varla frá öðrum, nema hvað ekki er þar fylgt reglubundinni hrynjandi, stuðlun né rími. Yfirleitt ríkir ljóðrænt orðalag í prósaljóðum, myndir, líkingar og röklegt samhengi. Oft eru þau dæmisögukennd, og mjótt á munum yfir til ævintýra, sem margir sömdu á þessum tíma. Prósaljóðin eru því í sjálfu sér óviðkomandi efni þessa rits. Sama verður að segja um fríljóð, þótt þau komi síðar til, ennfremur eru svokölluð "miðleitin" ljóð þessu óviðkomandi, því yfirleitt lúta þau röklegu samhengi, hnitast um eitt atriði. Fjarstæðast af öllu er að kalla bókmenntaverk módern vegna þess að í þeim birtist tiltekið hugarástand: einmanakennd eða tilfinning fyrir tilgangsleysi lífsins. Þvílíkar hugsanir hafa komið fram á ýmsum tímum og í ýmsu formi, en hér er um bókmenntastraum að ræða, og þá um bókmenntaleg sérkenni, ekki hugmyndir. Módernismi birtist einkum í samhengisleysi, brotakenndri framsetningu, og þá virðist "Sorg" eftir Jóhann Sigurjónsson réttilega hafa verið talið fyrsta móderna ljóðið á íslensku, það mun hafa verið ort 1908-9. Þar er stokkið milli andstæðra mynda kyrrláts unaðar annarsvegar, en tryllings og eyðileggingar hinsvegar. Tengsl þessa liggja helst í upphöfnu ljóðmáli og -myndum, auk persónu mælanda. Jón Thoroddsen orti allt öðru vísi verk, tæpum áratug síðar, einföld og hversdagsleg frásögn á yfirborðinu, en einnig þar er framsetningin rofin, mótsagnakennd. Hinsvegar verður varla um það talað hjá Jóhanni Jónssyni, en þar koma helst til álita sérkennilegar myndir í einu ljóði, "Söknuði". Það nægir þó ekki til að það teljist módernt, í ljóðinu ríkir röklegt samhengi. Enn fráleitara væri að orða ljóð Þórbergs Þórðarsonar frá öðrum áratug aldarinnar við módernisma, eða "Hel" Sigurðar Nordals, þótt það hafi stundum verið gert. Ljóð Halldórs Laxness bera hinsvegar flest merki expressjónisma í fyrirvaralausum stílrofum, oft spaugilegum. Þar er samhengisleysi milli setninga. Það er þegar um miðjan 3. áratuginn, en Halldór gengur loks lengst allra í einum fimm kvæðum eða kvæðabálkum frá árunum 1926-7. Þau eru nánast óskiljanleg vegna þess að orð eða setningar eru sett saman úr hlutum sem geta ekki átt saman, eða þá að árekstur verður milli einstakra hluta kvæðis. Hér virðast ótvíræð áhrif surrealisma, svo sem Halldór og vottaði sjálfur. Þetta eru ekki fyrirferðarmiklir textar, en þetta eru vönduð ljóð og mikil nýjung í íslenskum bókmenntum. Og þau setja að mínu mati varanlegan svip á skáldverk Halldórs, þar á ég við breytinguna frá Vefaranum mikla til skáldsagna Halldórs á 4. áratugsinum. Módernisma gætir í íslenkum prósaverkum fljótlega eftir fyrri heimsstyrjöld. Fyrsta verkið af því tagi er Bréf til Láru frá 1924, eftir Þórberg Þórðarson. Það er áberandi líkt prósaverkum franskra surrealista frá 3. áratug aldarinnar í því, að framsetning er huglæg og mjög fjölbreytt að efni og stíl, þar blandast saman ritgerðir, þjóðsögur, játningaskrif o.m.fl., en milli þeirra er fyrirvaralaust stokkið úr einu í annað. Að vissu marki er Vefarinn mikli frá Kasmír sem Halldór Laxness samdi 1925 ámóta sundurleitur, auk þess sem þar eru önnur framandleg atriði; óþýddar klausur á erlendum málum, tilvísanir til lítt kunnra listaverka, o.fl. En annars er sú skáldsaga að mestu samkvæmt skáldsagnahefð, í skipulegri frásögn og þar eru stílandstæður milli kafla, líkt og í Bréfi til Láru, en þær andstæður eru út um allan textann í skáldsögum Halldórs á 4. áratugnum, andstæður milli sögumanns og sögupersóna. Sögumaður er mjög áberandi með sérkennileg sjónarmið og málfar heimsmanns. Sögupersónur eru fjótt á litið að skáldsagnahefð með hver sitt sérkennilega fas og málfar. En í rauninni eru þær mjög ýktar, bæði þær sem eru skrípamyndir og hinar sem göfgaðri eru. Þetta hvorttveggja er alkunna frá expressjónisma og einkum virðast mér þessar stílandstæður framhald af stílrofum í ljóðum Halldórs. Þetta einkennir skáldsögur Halldórs æ meir á 4. áratugnum. Því virðast mér þær mun róttækari í módernisma en Vefarinn. En vissulega ráðast þær allar af röklegri fléttu að skáldsagnahefð. Hún ræður líka smásögum Halldórs Stefánssonar. En jafnframt gætir expressjónisma í nokkrum þeirra frá fyrra hluta 4. áratugsins. Þær einkennast m.a. af runum stuttra málsgreina, sem oft eru slitur ein, líkt og í impressjónískum verkum Þorgils gjallanda um aldamótin. Meira ber á andstæðum milli annarsvegar stíls greinaskrifa og annarlegra líkinga í lýsingum á sögusviði annarsvegar, en hinsvegar skáldsagnahefðar í samtölum. Líkt og hjá Halldóri Laxness er sögumaður ágengur og sýnir oft mikla fjarlægð frá efninu og sérkennilegan stíl miðað við persónur. Einnig hér eru þær af tagi skrípamynda frekar en sannfærandi raunsæilegra persóna, sem ríkjandi tíska bauð. Ekki sé ég önnur merki módernisma fyrr en í lok seinni heimsstyrjaldar með ljóðum Steins Steinars, sem sumum var seinna safnað í ljóðabálkinn Tíminn og vatnið, er birtist fyrst 1948, en aftur þriðjungi stærri 1956. Tíminn og vatnið mótast fyrst og fremst af surrealisma, tengd eru í samsettu orði eða setningu orð sem geta ekki átt saman. Það er helst að hugblær brúi bilið milli þessara mótsagna. Það er af sama tagi og í ljóðum Halldórs Laxness frá 1927, en ekki verða sén nein bein áhrif, og þetta er miklu meira verk en ljóð Halldórs. Það skapar annarlega heildarmynd af sérstæðum heimi og kyrrstæðum. En sá heimur verður nærtækur og lifandi vegna þess að ljóðabálkur þessi er þrunginn andstæðum tilfinningum mælanda, tilfinningum sem örðugt eða ómögulegt er að skilja röklega, eða tengja umhverfinu í bálkinum. Hjá atómskáldunum ber sáralítið á módernisma nema hjá Hannesi Sigfússsyni, sem er skálda afkastamestur í módernri ljóðagerð. Þar er um þrjár fyrstu ljóðabækur hans að ræða, 1949, 1951 og 1961. Hér ber raunar lítið á því mótsagnakennda orðalagi sem einkennir fyrrnefnd kvæði Halldórs Laxness og Steins. Hinsvegar mótast báðir fyrstu bálkarnir, Dymbilvaka og Imbrudagar, af samhengisleysi milli erinda og stundum milli einstakra lína. Miklar andstæður eru í stíl, enda þótt hefðbundið ljóðmál ríki í bálkunum, bæði í orðfæri, hrynjandi og stuðlun. Þannig skynja lesendur textana sem ljóð, en festast í mótsögnum og fá ekki botn í verkin. Þetta samhengisleysi er af tagi expressjónisma eins og hann birtist í flestum ljóðum Halldórs Laxness, m.a., en aftur er enginn beinn skyldleiki sjáanlegur, ekki heldur við Stein Steinarr, enda þótt einnig hér sé dregin upp annarleg, órökleg heildarmynd af heimi mælanda. Þau ljóðskáld sem síðar koma til með módernisma, eru ekki afkastamikil á því sviði. Einna sérstæðastur er Jónas Svafár frá því um miðja öldina með tvíbent orðalag sem riðlar allri rökhugsun. Á sama tíma, rétt fyrir miðja 20. öld, koma fyrstu prósaverk Thors Vilhjálmssonar. Það eru örstutt prósaverk og ljóð, og sum prósaverkanna hafa mörg framangreindra expressjónískra einkenna prósa, annarlegar líkingar, stuttar slitróttar málsgreinar og myndræna framsetningu. Persónur eru frummyndakenndar, og textarnir eru torskildir röklega. Enda er stundum sérstaklega girt fyrir röklegan skilning með endalausum keðjum af óskiljanlegum útskýringum, síðar með keðjum af annarlegum myndrænum viðlíkingum, sem fara hver í sína átt, hvorttveggja stöðvar framrás textans. Textinn er yfirleitt mjög myndrænn, svo að hann dettur nánast sundur í augnabliksmyndir. Hugarflaums gætir hér nokkuð, eins og í stökum, örstuttum smásögum um eftir Jón Óskar (1952) og Geir Kristjánsson (1956). Steinar Sigurjónson skrifar fyrstur Íslendinga móderna skáldsögu, ástarsögu, 1958 (birtist aftur í mjög breyttri og aukinni gerð undir öðrum titli 1967). Þar er stokkið á milli hugarflaums ýmissa persóna, þar sem ríkir talmál og hugmyndaheimur íslensks alþýðufólks. Grunneiningarnar eru í raun samkvæmt skáldsagnahefð, en hið móderna við sögurnar er, að horfið er ógreinanlega frá einni persónu til annarrar, og söguþráður skiptir litlu máli. Útkoman verður einskonar heildarmynd af lífi þessa fólks, líkt og hjá Guðbergi Bergssyni síðar, þ.e. í Tómas Jónsson metsölubók (1966). Þar er horfið frá röklegri fléttu og tímarás, en hugarflaumur mælanda og vaðall gefur dökka heildarmynd af umheimi hans og þó mjög litríka, allt frá skrípamyndum til bölsýni. Persónur eru frummyndakenndari en hjá Steinari, ámóta og hjá Thor, en meiri skrípamyndir, ýktar svo sem hjá Halldórunum á 4. áratugnum. Það er þó fyrst og fremst með skáldsögum Thors frá árinu 1968 að telja sem módernisminn verður varanlegur í íslenskum prósabókmenntum, það eru mörg verk, löng og vönduð. Auk framangreindra einkenna stuttra prósaverka Thors, eru skáldsögur hans mjög fjölbreytilegar, einnig að stíl, svo ekki verður séð að einstök atriði þeirra raðist eftir neinu kerfi, og síst söguþræði, en þau tengjast margvíslega innbyrðis með þráhyggjukenndum endurtekningum dramatískra mynda, sem eru þó síbreytilegar. Í ljóðum ber á þessum tíma áfram svolítið á surrealisma, hjá Jóhanni Hjálmarssyni og Baldri Óskarssyni á sjöunda áratugnum. Svava Jakobsdóttir skrifaði fáeinar smásögur um miðjan sjöunda áratuginn í köldum, nánast klíniskum stíl, þar sem segir frá allskyns furðum í hversdagslífi kvenna. Útkoman verður einskonar táknsögur sem sýna þennan hversdagsleika sem fáránlegan. En þetta gengur flest upp röklega og verður naumast talið módernismi. Svolítið ber á surrealisma hjá Megasi í byrjun áttunda áratugsins, en meira er um expressjónísk stílrof. Á þeim tíma hefur Pétur Gunnarsson í meginatriðum sömu expressjónísku einkenni og Halldórarnir tveir á 4. áratugnum, í skáldsögum sem í aðalatriðum fylgja röklegri framrás. Árni Larsson minnir töluvert á Thor Vilhjálmsson m.a. með langsóttum líkingum, en auk þess er hann með fágætt dæmi um surrealískar setningar í prósa, þær eru óskiljanlegar vegna þess að orð innan setningar stangast á. Einar Guðmundsson gerði prósaverk þar sem skyndilega er stokkið frá einni frásögn í aðra, en milli þeirra eru óglögg tengsl viðfangsefnis. Mikið ber þar á eftirlíkingum algengustu texta, þetta er í meginatriðum af sama tagi og Tómas Jónsson metsölubók, þótt ekki sé um stælingu að ræða. Mikill vöxtur færist í móderna ljóðagerð eftir 1980. Þar ber töluvert á surrealisma, einkum í mótsagnakenndum ljóðmyndum, en mest er um samhengisleysi milli ljóðmynda, sem tengjast helst í sameiginlegum hugblæ ljóðs eða ljóðabálks. Margskonar módernir straumar eru á ferðinni í íslenskum bókmenntum 20. aldar. Einna róttækastur er surrealisminn, sérstaklega í ljóðum Halldórs Laxness upp úr miðjum 3. áratugnum, en þó einkum Steins Steinars upp úr seinni heimsstyrjöld. Undir þá stefnu mætti líka heimfæra Bréf til Láru 1924, fyrsta móderna prósaskáldritið. En það er vegna sameiginlegra einkenna, en ekki vegna bókmenntaáhrifa, og vissulega er það með allt öðru yfirbragði en surrealismi í ljóðum. Framvegis örlar á surrealisma, hjá Jóhanni Hjálmarssyni og Baldri Óskarssyni á 7. áratugnum, Medúsumönnum á þeim 9. Önnur helsta móderna stefna 20. aldar, expressjónisminn, er fyrirferðarmeiri í íslenskum bókmenntum. Þar skal fyrst nefna flest ljóð Halldórs Laxness, önnur en fyrrtalin, en auk þess skáldsögur hans, einkum eftir Vefarann mikla, smásögur Halldórs Stefánssonar frá fyrri hluta 4. áratugs og ljóðabálka Hannesar Sigfússonar um miðja öldina. Það eru þó önnur einkenni en á expressjónískum ljóðum. Áþekk einkenni eru á prósaverkum Thors Vilhjálmssonar frá sama tíma og alla tíð síðan, einnig á skáldsögum Guðbergs Bergssonar frá 7. áratugnum og Péturs Gunnarssonar á þeim áttunda. En vitaskuld er hér margt svo sérkennilegt, að svona stimpill segir ekki mikið um verkin, það á einkum við um skáldsögur Thors, frá lokum 7. áratugsins að telja. Auk þess eru ýmis módern verk sem varla verða flokkuð til slíks undirstraums módernismans. Það gildir bæði um þau fyrstu, eftir Jóhann Sigurjónsson og Jón Thoroddsen, um Jónas Svafár frá því um miðja öldina, og t.d. um Gyrði Elíasson á síðustu árum. Módernismi birtist yfirleitt í smærra móti í ljóðum en prósaverkum, og fylgir það eðli bókmenntagreinanna. Í ljóðum eru andstæður eða sundurleysi ýmist innan málsgreinar, milli málsgreina, eða erinda. En í prósaverkum eru andstæðurnar milli stærri eininga, milli kafla eða stílandstæður persóna. Þetta er langt tímabil, frá því um 1908 fram á miðjan níunda áratuginn. Það vekur athygli, að sjaldnast verður séð neitt samhengi milli þessara skálda. Það er ekki fyrr en á 8. áratugnum með prósahöfundum, að sjá má áhrif frá innlendum skáldverkum módernum. Augljóst er einnig, að yngstu ljóðskáldin þekkja vel verk Steins og Hannesar Sigfússsonar, en ekki verður bent á bein áhrif. Annars virðist hver taka upp sinn þráð eftir því sem hann hefur kynnst erlendis frá og skapað eftir. Einnig vekur athygli að hlé verður á millum módernisma á 3. og 4. áratugnum, ogþess sem kemur fram um miðja öldina. Það er reyndar alþjóðlegt fyrirbæri, og skýrist af því hve tæpri fótfestu módernisminn náði á Íslandi - sem annarsstaðar - á 3. áratugnum, því stóðst hann ekki þau straumhvörf sem urðu á 4. áratugnum, frá módernisma til skáldverka sem áttu að gegna áróðurshlutverki, eða a.m.k. vekja fólk til umhugsunar um samfélagsmál. Í því efni ríkti hérlendis hefð ættjarðarljóða og skáldsagna, en hvor tveggja hefðin mótaðist á 19. öld. Módernismi blómstrar aftur í ljóðum um miðja öldina og gætir slitrótt síðan. Í prósa kemur hann aftur fram á sama tíma, og fáeinir höfundar stunda hann eitthvað áfram. Hvörf verða síðan aftur um 1970, þá verður hlé á módernri ljóðagerð, en hennar fer svo aftur að gæta undir lok 8. áratugsins. Athyglisvert er, að þvílík hvörf verða ekki í prósa. Þar koma fram skáld sem fást við módernisma, bæði á áttunda áratugnum og síðar. Þessi munur held ég að sé innan marka tilviljana, því það er um svo fá skáld að ræða, að tískubylgja einsog "opin ljóð" á áttunda áratugnum getur þurrkað annað út um hríð. Í módernum prósa kom sífellt ný örvun utanlands frá, auk þess sem svo stórvirkur módernisti sem Thor Vilhjálmsson hefur haft áhrif til eftirbreytni, einsog hin víðfræga Tómas Jónsson metsölubók Guðbergs. En í ljóðagerð var módernismi eldri og kunnuglegri en í prósa, það virðist skýringin á því að hann rís þar aftur upp með miklum krafti um 1980. Af þessu yfirliti má sjá, að módernisminn í íslenskum bókmenntum var slitróttur straumur og sundurleitur. Margháttuð erlend áhrif berast til Íslands með ýmsum skáldum, rétt eins og í ljóðum, skáldsögum og smásögum 19. aldar. Það sýnir þá einu sinni enn, að íslenskar bókmenntir eru ekki sjálfstæð heild, sem lýtur innri þróun fyrst og fremst, heldur eru þær hluti heimsbókmenntanna á hverjum tíma. Le Maître d'école. Le Maître d'école er fransk kvikmynd frá árinu 1981 sem Claude Berri gerði. Sandkassi. Sandkassi inniheldur sand sem börn geta leikið í. Sandkassi er byggður upp af ramma sem getur verið í mismunandi stærðum og úr mismunandi efnum. Björt framtíð. Björt framtíð er íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 2012. Að stofnun flokksins komu Guðmundur Steingrímsson, sem áður hefur verið í Samfylkingunni og Framsóknarflokknum og Heiða Kristín Helgadóttir, sem hefur komið að Besta flokknum. Flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram í Alþingiskosningunum 2013 og fékk 8,2% og 6 þingmenn. Frambjóðendur. Efstu frambjóðendur á listum Bjartrar framtíðar voru valdir á félagsfundi 12. desember 2012. Dögun (stjórnmálasamtök). Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði er íslensk stjórnmálasamtök, stofnuð 2012, sem hyggja á framboð á Alþingiskosningum 2013. Í Dögun sameinast meðal annarra fólk úr Hreyfingunni, Borgarahreyfingunni, Frjálslynda flokknum og fulltrúar úr stjórnlagaráði. Meðal þeirra sem hafa gefið kost á sér í framboð eru Margrét Tryggvadóttir þingmaður og Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR og Gísli Tryggvason og Lýður Árnason úr stjórnlagaráði. Christine Lagarde. Christine Madeleine Odette Lagarde (franskur framburður: [Kʁistin madlɛn ɔdɛt lagaʁd], fædd 1. janúar 1956) er franskur lögfræðingur og stjórnmálakona í samtökunum Union pour un Mouvement Populaire. Hún hefur verið yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) frá 5. júlí 2011. Liège. Liège (hollenska: "Luik", vallónska: "Lidje", þýska: "Lüttich", latína: "Leodium", limburgíska: "Luuk", lúxemborgíska: "Léck") er höfuðborg samnefnds héraðs í Belgíu. Íbúar eru 194 þúsund og eru frönskumælandi. Liège hefur löngum verið menningarleg miðstöð Vallóníu (franska menningarsvæðisins) í Belgíu. Lega og lýsing. Liège liggur við norðurjaðar Ardennafjalla, við samflæði ánna Ourthe og Maas. Reyndar er Liège stærsta borgin sem við Maas liggur. Næstu stærri borgir eru Maastricht í Hollandi til norðurs (30 km), Aachen í Þýskalandi til norðausturs (50 km) og Namur til suðvesturs (60 km). Til Brussel eru 95 km. Landamærin til Lúxemborgar eru 40 km til suðurs. Íbúar í Liège eru rétt tæplega 200 þús, en margir nágrannabæir umkringja borgina. Þar búa um 600 þúsund manns. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir gyllta brunnsúlu á rauðum grunni. Til sitthvorrar hliðar eru gylltir bókstafir: L til vinstri og G til hægri. Brunnsúlan er sú sem stendur á aðalmarkaðstorgi borgarinnar (Place du Marché), þ.e. efsti hluti hennar. Áður var heiti borgarinnar ritað í skjaldarmerkinu með stórum stöfum. "LIE" vinstra megin við súluna og "GE" hægra megin. Í dag standa aðeins bókstafirnir "L" og "G" eftir. Orðsifjar. Upphaflega hét bærinn "Leodicum" eða "Vicus Leodicus" á tímum Rómverja. Uppruni heitisins kemur úr germönsku, ekki rómönsku. Það er dregið af gamla germanska orðinu "liudik" eða "liudiz", sem merkir "fólk", sbr. "Leute" á þýsku, "leod" á fornensku og "lýður" á íslensku. Með áhrifum úr rómönsku breyttist "liudiz" í "Liège" með tímanum (framburðurinn er "líes"). Hollendingar segja hins vegar "Luik" og Þjóðverjar "Lüttich". Fram til 17. september 1946 var ritháttur borgarinnar Liége, en var þá breytt í Liège (sjá áherslukommuna). Upphaf. Einhver bær mun hafa verið á svæðinu þegar á tímum Rómverja. Þó kemur Liège ekki við skjöl fyrr en árið 558. Héraðið var kristnað af heilögum Lamberti snemma á 8. öld, en hann beið píslarvættisdauða í Liège og var tekinn í helgra manna tölu. Árið 985 varð Liège að furstabiskupadæmi, en biskupinn í bænum hlaut veraldleg yfirráð yfir stóru héraði í kring. Yfirráð biskupanna varaði allt til 1794. Langflestir þeirra komu úr þýska ríkinu. Biskupsdæmið laut þýska keisaranum en var að mestu leyti sjálfstætt. Fyrsti biskupinn hét Notger og breytti hann borginni Liège í mikið mennta- og menningasetur. Lýðræði og stríð. Borgarbúar voru tíðast óánægðir með fyrirkomulag furstabiskupanna, enda drógu biskuparnir frekar taum kaþólsku kirkjunnar en þarfir borgarbúa. 1345 hófst mikil uppreisn í borginni gegn Engelberti 3. biskupi. Í bardaga utan borgarhliðanna var biskup drepinn og her hans tvístrað. Í kjölfarið var veraldlega valdið fært yfir til iðngildanna í borginni, sem voru 32 talsins. Allir meðlimir hinna ýmsu gilda máttu taka þátt í að stjórna borginni og hvert gildi átti sér jafngilt atkvæði. Biskuparnir náðu þó með tímanum að auka völd sín á ný. 1465 dró enn til tíðinda. Þá hafði Filippus hinn góði, hertogi af Búrgúnd, ásælst yfirráðin í Liège. Borgarbúar og nærsveitarmenn söfnuðu saman herliði sem barðist við atvinnuher frá Búrgúnd í orrustunni við Montenaken. Þar gjörsigraði herinn frá Búrgúnd undir stjórn Karls hins áræðna. Í friðarsamningum í Sint-Truiden voru yfirráð Búrgúnds staðfest. Þetta lægði þó ekki öldurnar. Strax á næsta ári gerði bærinn Dinant uppreisn. Karl hinn áræðni birtist þá aftur með her, brenndi bæinn og kastaði 800 íbúum í ána Maas. Enn ári síðar, 1467, lést Filippus hertogi. Gerðu íbúar í Liège þá enn uppreisn. Í orrustunni við Brustem sigraði Karl hin áræðni enn á ný. Þá gekk hann á móti borginni og hertók hana 12. nóvember. Furstabiskupadæmið Liège var gert að verndarsvæði Búrgúndar. Þrátt fyrir allt þetta söfnuðust borgarbúar enn saman næsta ár og mynduðu nýjan her. Þeir hertóku Liège, ráku furstabiskupinn á brott, sem og alla aðila frá Búrgúnd. Í þokkabót réðist fólksherinn frá Liège á borgina Tongeren og drap alla hermenn frá Búrgúnd. Þá var Karli hinum áræðna nóg boðið. Hann fór með stóran her til Liege og kom í héraðið 22. október 1468 í fylgd með Loðvík XI Frakklandskonungi. Á leiðinni brenndu þeir nokkra bæi, þar á meðal Tongeren og Lantin. Þá settust þeir um Liège. Eftir nokkra bardaga voru flestir í fólkshernum drepnir og Liège féll. Karl batt 600 íbúa borgarinnar saman og lét kasta þeim lifandi í Maas. Borgina brenndi hann til grunna og er sagt að hún hafi brunnið sleitulaust í 7 vikur. 1477 lést Karl í orrustunni við Nancy. Dóttir hans, María, gaf Liege upp á bátinn og eignaðist Habsborgarættin þá borgina. 1555 erfði spænska Habsborgarlínan borgina. Furstabiskuparnir voru þó nær einráða í borginni og héraðinu. Borgin kom lítið við sögu í sjálfstæðisstríði Niðurlanda. 1704 hertók hertoginn af Marlborough borgina í spænska erfðastríðinu en Englendingar hurfu þó fljótt aftur. Sjálfstæði og Frakkar. Myndin sem Ingres málaði af Napoleon í Liege 1803 Upp úr miðri 18. öld hlutu franskar byltingarhugmyndir mikinn hljómgrunn í Liège og undirbjuggu þannig jarðveginn fyrir nýja byltingu. Hún hófst 18. ágúst 1789, samtímis byltingunni í Frakklandi. Borgarbúar ráku af sér furstabiskupinn og borgin lýsir yfir sjálfstætt lýðveldi ("République liégeoise"). Lýðveldi þetta var þó skammvinnt, því 1791 hertóku Austurríkismenn héraðið og unnu að því að endurreisa fyrra valdakerfi furstabiskupanna. Franskur byltingarher sigraði Habsborgara hins vegar í orrustunni við Jemappes 1792 og tóku Liège 28. nóvember. Íbúarnir tóku þeim með fögnuði, enda var þjóðfélaginu umbylt á öllum sviðum. En strax ári síðar voru Austurríkismenn aftur á ferð og sigruðu Frakka í orrustunni við Neerwinden. Habsborgarar settu umsvifalaust nýjan furstabiskup í embætti, Francois-Antoine-Marie de Méan. Hann reyndist síðasti furstabiskupinn í Liege. 1794 sigruðu Frakkar Austurríkismenn í nokkrum orrstum og ráku þá endanlega úr landi. Aftur umbyltu Frakkar borginni og héraðinu og innlimuðu það Frakklandi 1795. Þar með varð Liège að franskri borg og markar þetta jafnframt endalok furstabiskupadæmisins í Liège. Sáttmáli þess eðlis var undirritaður af Napoleon og Píus VII páfa 1801. 1803 sótti Napoleon sjálfur borgina heim. Nýrri tímar. Belgískir hermenn á Lambertustorginu 1914 Frakkar yfirgáfu Liège 1814 eftir fyrri ósigur Napoleons. Ári síðar úrskurðaði Vínarfundurinn að borgin skyldi tilheyra konungsríki Niðurlanda, þ.e. sameiginlegt ríki Hollands og Belgíu. Það stóð eingöngu í níu ár, því 1839 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Þar með varð Liège belgísk borg. Í iðnvæðingu 19. aldarinnar varð Liège ein mesta stáliðnaðarborg Evrópu, með tilheyrandi velmegun fyrir suma og vinnuþrælkun og fátækt fyrir aðra. 1886 hófst mikið uppþot, ásamt verkföllum, í gervallri Vallóníu sem hófst í borginni Liège. Sendur varð sex þúsunda manna her til borgarinnar til að stilla til friðar og koma á reglu aftur. Í framhaldi var borgin vígvædd með röð af virkjum. Þau reyndust þýska innrásarhernum í heimstyrjöldinni fyrri mjög erfiðar er Þjóðverjar réðust inn í landið 1914. Þar að auki voru 30 þús belgískir hermenn borginni til varnar. Þýski herinn kom til Liège 5. ágúst en náði ekki að hertaka borgina fyrr en 17. ágúst eftir mikla bardaga. Þessi töf olli því að bandamenn fengu rýmri tíma til að skipuleggja varnir í Frakklandi. Eftir stríð veittu Frakkar borginni heiðursmerkið Légion d'Honneur fyrir vasklega framgöngu í stríðinu. Í heimstyrjöldinni síðari tók það aðeins þrjá daga fyrir Þjóðverja að hertaka borgina. Borgarbúum tókst hins vegar að bjarga nær öllum gyðingum með því að fela þá í klaustrum. Bandamenn frelsuðu borgina í september 1944 en eftir það varð hún fyrir nokkrum loftárásum. Eftir stríð átti stál- og kolaiðnaðurinn erfitt uppdráttar. Þúsundir urðu atvinnulausar. Meðan verkföll dundu yfir 1960-61 fór múgur manna um götur borgarinnar, skemmdi hluti og hrúguðu upp varnarvirkjum. Heil járnbrautarstöð var eyðilögð í æðiskasti. Þegar belgíski herinn kom á vettvang 6. janúar 1961 tóku við bardagar við múginn og stóðu þeir í sjö tíma. 75 manns slösuðust. Fleiri voðaverk hafa verið unnin í borginni. 1991 var stjórnmálamaðurinn André Cools skotinn til bana fyrir framan heimahús vinkonu sinnar. 2011 gerði óður maður með byssur og handsprengjur árás á fólk við torgið Place Saint-Lambert í borginni. 6 biðu bana (þar á meðal hann sjálfur), 123 slösuðust. Viðburðir. Skrúðganga til heiðurs Maríu mey 15. ágúst Le Quinze Août er heiti á stærstu alþýðuhátíð í borginni og er haldin 15. ágúst ár hvert, eins og franska heitið segir til um. Hér er verið að heiðra Maríu mey með skrúðgöngu en einnig eru í gangi flóamarkaður, dansatriði, tónleikar og vinsælir leikir. Á hátíðinni er ferðamönnum boðið upp á peket (áfengi) í heimahúsum. Les Ardentes er heiti á stórri rokkhátíð í borginni sem haldin hefur verið síðan 2006. Hún laðar að sér allt að 70 þúsund gesti víða að úr Evrópu. Hátíðin er haldin í júlí og stendur yfir í fjóra daga. Borgin heldur árlega jazzhátíð í maí og kallast hún Jazz à Liège. Hátíð heilags Nikulásar (Saint Nicholas) er haldin 6. desember af stúdentum háskólans. Þá ganga þeir um í ljótum og óþrifalegum hvítum sloppum og betla fyrir sjúss. Í Liège er einn stærsti og elsti jólamarkaður í Belgíu. Íþróttir. Helstu knattspyrnufélög borgarinnar eru tvö. Fyrst er Standard Liege (fullt heiti er Royal Standard Club de Liège) sem 10 sinnum hefur orðið belgískur meistari (síðast 2009), 6 sinnum bikarmeistari (síðast 2011) og komst árið 1982 í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa (tapaði þá fyrir FC Barcelona). Ásgeir Sigurvinsson lék með Standard Liege 1973-81 og skoraði 38 mörk. Hitt félag er RFC Liege, sem 5 sinnum hefur orðið belgískur meistari (síðast 1953) og einu sinni bikarmeistari (1990). Það var hjá þessu félagi sem Jean-Marc Bosman lék í þegar hann kærði félagið fyrir Evrópudómstólnum og í kjölfarið féll Bosman-dómurinn. Hann sagði til um að bannað væri knattspyrnufélögum að halda leikmönnum ef samningur þeirra er runninn út og einnig bannaði hann takmarkanir á útlendum leikmönnum. Félagið varð í kjölfarið gjaldþrota og sameinaðist öðru félagi. Það leikur í neðri deildum í dag. Á vorin er haldin hjólreiðakeppnin Liège–Bastogne–Liège, en það er elsta klassíska reiðhjólakeppni í Evrópu (þ.e. dagskeppni). Byggingar og kennileiti. Brunnurinn á Place du Marché Vasabladet. "Vasabladet" (skammstafað "Vbl") er dagblað sem gefið er út á sænsku í Österbotten í Finnlandi. "Vasabladet" er annað stærsta dagblað Finnlands sem gefið er út á sænsku, á eftir "Hufvudstadsbladet". Höfuðstöðvar dagblaðsins eru í Vaasa (sænska: "Vasa") en það er líka með skrifstofur í Jakobstad, Karleby, Närpes og Kristinestad. "Vasabladet" er næst elsta dagblað í Finnlandi (á eftir "Åbo Underrättelser") en fyrsta tölublaðið var gefið út 7. maí 1856. Þangað til 1939 hét blaðið "Wasabladet" í samræmi við gömlu sænsku stafsetningu á Vaasa. Kinney Lake. Kinney Lake er stöðuvatn í Mount Robson Provincial Park, Bresku Kólumbíu, Kanada. Torneträsk. Torneträsk er stöðuvatn í Norðvestur-Lapplandi, sveitarfélaginu Kiruna, 332 km² að flatarmáli. Torneträsk er sjöunda (eða sjötta, eftir því hvernig reiknað er) stærsta stöðuvatn Svíþjóðar. Það er jafnframt annað dýpsta stöðuvatn Svíþjóðar og stærsta fjallavatn í Skandinavíu. Pyntingar. Ýmis pyntingatæki til sýnis á safni Pyntingar felast í því að baka einhverjum sársauka og meiðsli, markvisst og af ásettu ráði, í refsingarskyni, hefndarskyni, sem hluti af pólitískri endurhæfingu, niðurlægingu fórnarlambsins eða sem hluti af yfirheyrslu. Pyntingar af ýmsu tagi hafa verið stundaðar frá örófi alda og allt til okkar daga af einstaklingum, hópum og ríkjum. Í alþjóðalögum er litið á pyntingar sem brot á mannréttindum og þær eru fordæmdar í 5. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þriðji og fjórði Genfarsáttmálinn banna pyntingar í vopnuðum átökum. Pyntingar eru líka bannaðar samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum sem 147 ríki hafa undirritað. Kynfæraáblástur. Kynfæraáblástur (fræðiheiti: "Herpes genitalis"), oft nemdur "herpes" í daglegu tali, er kynsjúkdómur af völdum veirusýkingar af veirunni "herpes simplex". Kynfæraáblástur er algengur bæði erlendis og hérlendis. Orðið "herpes" er einnig oft notað um frunsu en oftast er frunsa raunverulega bakteríusýking í húð er nefnist kossageit á íslensku. Manama. Manama (arabíska: المنامة‎ Al Manāma) er höfuðborg og stærsta borg Barein. Íbúar eru um 150 þúsund. Elstu heimildir um borgina eru frá 14. öld. Frá 1783 hefur hún verið undir stjórn Al-Khalifa-ættarinnar. Borgin var lýst fríhöfn árið 1958 og var gerð að höfuðborg Barein þegar landið fékk sjálfstæði árið 1970. Belmópan. Belmópan er höfuðborg Belís. Íbúar eru um 20 þúsund. Borgin er 80 kílómetra austan við stærstu borg Belís og fyrrverandi höfuðborg landsins Belísborg. Aðsetur stjórnar landsins var flutt til Belmópan eftir að fellibylurinn Hattie lagði Belísborg nánast í rúst árið 1970. Móróní. Moskan og höfnin í Móróní Móróní (arabíska: موروني "Mūrūnī") er höfuðborg og stærsta borg Kómoreyja. Íbúar eru um 60 þúsund. Borgin er á vesturströnd eyjarinnar Grande Comore nálægt eldfjallinu Karthala. Í borginni er alþjóðaflugvöllur. Port of Spain. Port of Spain er höfuðborg Trínidad og Tóbagó við Paríaflóa á vesturströnd Trínidad. Íbúar eru um 50 þúsund en á höfuðborgarsvæðinu búa um 130 þúsund. Borgin hefur verið höfuðborg eyjarinnar frá 1757. Port Lois. Port Louis er höfuðborg og stærsta borg eyríkisins Máritíus. Frakkar gerðu hana að stjórnsýslumiðstöð árið 1735. Borgin er hafnarborg sem stendur á norðvesturströnd eyjarinnar. Höfnin er undirstaða efnahagslífs borgarinnar sem kemur best út allra afrískra borga í Lífsgæðakönnun Mercers. Íbúar eru um 150 þúsund. Emil Thoroddsen. Emil Thoroddsen (16. júní 1898 – 7. júlí 1944) var íslenskt tónskáld, píanóleikari, leikskáld, gagnrýnandi og þýðandi. Hann var helsti listgagnrýnandi "Morgunblaðsins" frá 1926-1933 og starfaði við Ríkisútvarpið frá stofnun þess 1930. Þekktustu lög hans eru „Íslands Hrafnistumenn“ og „Hver á sér fegra föðurland“ sem var frumflutt á Lýðveldishátíðinni 1944, skömmu áður en hann lést. Carl Billich. Carl Billich (23. júlí 1911 – 23. október 1989) var íslenskur hljómsveitarstjóri af austurrískum ættum. Hann fæddist í Vínarborg og kom til Íslands fyrst árið 1933 með hljómsveit þaðan sem hafði verið ráðin til að leika á Hótel Íslandi. Hann kvæntist Þuríði Jónsdóttur árið 1939. Við hernám Breta á Íslandi var hann handtekinn og sendur í fangabúðir til Bretlands þar sem hann var öll styrjaldarárin. Eftir stríð var hann sendur til Þýskalands og var þar án vegabréfs en fyrir tilstilli eiginkonu sinnar tókst honum að flytja aftur til Íslands 1947 þar sem hann fékk ríkisborgararétt. Hann starfaði lengi sem kórstjóri og undirleikari, auk þess að leika í hljómsveitum. Árið 1964 var hann ráðinn tónlistar- og hljómsveitarstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og starfaði þar til 1981. Carl Billich var mjög virkur í íslensku tónlistarlífi, útsetti og lék inn á fjölda hljómplatna, bæði sem undirleikari og með Nausttríóinu og Hljómsveit Carls Billich. Hann samdi lagið „Óli lokbrá“ við texta eftir Jakob V. Hafstein. Sigurður Ólafsson. Sigurður Ólafsson (fæddur 4. desember 1916 að Laugavegi 49 í Reykjavík, látinn 15. júlí 1993) var íslenskur söngvari og hestamaður. Æfiágrip. Foreldrar Sigurðar voru Þuríður Jónsdóttir húsmóðir (6. janúar 1873 – 20. janúar 1941) og Ólafur Jónatansson verkamaður (8. maí 1880 – 2. desember 1963). Bræður Sigurðar voru Erling Ólafsson (21. ágúst 1910 – 23. desember 1934), kunnur baríntónsöngvari á fyrri hluta 20. aldar og Jónatan Ólafsson (17. febrúar 1914 – 11. apríl 1997), sem var þekktur píanóleikari og tónskáld. Uppvöxtur. Æskuheimili Sigurðar ómaði af söng og spili. Faðir hans sem var tónelskur átti forláta orgel og harmoniku sem voru þanin tíðum og allir tóku undir í kraftmiklum söng. Sigurður lærði snemma að lesa nótur og taka þátt í söngnum með bræðrum sínum þótt hann langaði ekkert sérstaklega til þess, hvað þá að leggja það fyrir sig, en það átti eftir að breytast. "Tja, ég var nú að hugsa um það um daginn, að eiginlega eru ekki bara 50 ár síðan ég var fyrst knapi heldur á ég líka söngafmæli núna. Það var örugglega um svipað leyti sem ég söng í fyrsta skiptið einn og óstuddur. Þá var ég í Miðbæjarbarnaskólanum og það vildi þannig til að efsti bekkur Austurbæjarskólans kom í heimsókn til efsta bekkjar í Miðbæjarskólanum og þar var ég þótt það væri nú ekki mér að þakka. Krakkarnir komu og lásu upp, fóru með kvæði og þess háttar og á eftir, þá var ekki hjá því komist að við færum til þeirra líka. Þá var Hallgrímur Jónsson skólastjóri og hann sendi mig og Ásberg Sigurðsson og ég átti að syngja. Og ég söng, aleinn og án undirleiks auðvitað einhver lög sem Erling heitinn bróðir minn hafði kennt mér, "Ég lít í anda liðna tíð", "Brúnaljósin brúnu" o.fl. Mestur vandinn fannst mér að byrja á réttum tón svo ég spryngi nú ekki á öllu saman." "En svo var það löngu seinna, þá vorum við gift og í samkvæmi og allir áttu að syngja eitthvað. Ég gat ekki skorast undan því fremur en aðrir svo ég segi við konuna, sem spilaði undir á píanóið þarna, allt í lagi, spilaðu "Hátt ég kalla" eftir Sigfús Einarsson. Og þegar ég var búinn, þá snýr þessi kona sér að mér og segir: Sigurður, það er ekkert um annað að ræða, þegar ég dey, þá vil ég að þú syngir þetta lag við jarðarförina mína. Nú, það er bara svona, hugsaði ég og var nú ekki svo viss um það. En hvað gerist — þessi kona er dáin eftir viku! Og mér fannst ég verða að gera þetta, það síðasta sem hún bað mig um. Svo ég fer ofan í kirkju og hitti Sigfús Einarsson. Hann var afskaplega þurr á manninn og kaldranalegur en var samt mjög hlýlegur maður inn við beinið. Hann leit á mig og lét mig svo syngja lagið og þegar ég var búinn, þá vildi hann fá að vita hvar ég hefði lært. Ég hef ekkert lært, hann Erling bróðir minn hefur bara verið að leiðbeina mér. Já, hann Erling, það hlaut að vera sagði Sigfús þá. Þú kemur þá á morgun. Ég var nú afskaplega taugaóstyrkur, hafði aldrei gert þetta áður og sagði honum það. Þá sagði hann, hafðu engar áhyggjur, hlustaðu bara á nefið á mér! Hann var nefnilega vanur að hnussa svona með nefinu svo heyrðist vel, á meðan hann lék á orgelið og hann stjórnaði mér þannig í mínum fyrsta söng við jarðarför". Sigurður varð eftirsóttur söngvari við jarðafarir og á árunum 1940-1960 söng hann oft og tíðum við fleiri en eina jarðarför á dag. Sem hirðmaðurinn Sebranó í Rígólettó. Með honum á myndinni er Elín Ingvarsdóttir Sigurður sem fiðlarinn í Gullna hliðinu. Með honum á myndinni er stúlknahópur í hlutverkum engla Sigurður lék Frank fangelsisstjóra í Leðurblökunni. Með honum á myndinni er Bjarni Bjarnason Söngvarinn. Sigurður sótti ungur söngtíma hjá Sigurði Birkis og Guðmundi Jónssyni. Hann söng með Karlakór Reykjavíkur frá tuttugu og þriggja ára aldri og síðan með eldri félögum kórsins. Næstu áratugina átti hann eftir að syngja sig inn í hug og hjörtu landsmanna. Sjálfur hefur hann þó ítrekað sagt að söngurinn hafi verið honum eins og hvert annað lifibrauð og því hafi hann ekki haft efni á að hafna þeim tilboðum sem buðust hverju sinni. Bláa kápan. Fyrsta sviðsverkið, sem Sigurður Ólafsson tók þátt í, var „Bláa kápan" eftir Bruno Hardt-Warden og Hermann Feiner við lög og ljóð eftir Walter Kollo og Willi Kollo. Óperettan var sýnd í Iðnó og var frumsýning hennar í byrjun desember árið 1949. -Ég man ekki hvernig það vildi til að ég var beðinn um að taka þátt í þessari uppfærslu, segir Sigurður. En ég var alltaf til í að reyna eitthvað nýtt og sló því til. Ég hafði frekar lítið hlutverk en kom þó fram í tveimur fyrstu þáttunum. Aðalhlutverkin voru hins vegar í höndum þeirra Bjarna Bjarnasonar, sem lék bankamanninn Hendrik Walter, Haraldar Björnssonar, sem lék Detlef fríherra og gósseiganda, og Svanhvítar Egilsdóttur sem lék Beate Marie, dóttur hans. Þá man ég að Guðmundur Jónsson, Ólafur Magnússon, Nína Sveinsdóttir, Lárus Ingólfsson, Sigrún Magnúsdóttir og Steindór Hjörleifsson voru einnig meðal leikara. „Í þessari óperettu „Bláu kápunni" heyrði maður sérstaklega ágætar raddir og var það hinn ágæti hljómsveitarstjóri Dr. Victor Urbancic, sem með sinni þjálfuðu óperuhönd hélt öllum þráðum músíkurinnar saman og leiddi söngfólkið með sterkri og þjálfaðri músíkhendi frá hinum fyrsta takti til hins síðasta." Ekki talar greinarhöfundur mikið um frammistöðu Sigurðar Ólafssonar — enda var hlutverk hans fremur smátt. Þó er hans getið síðar í umsögninni þar sem talað er um frammistöðu nokkurra söngvara: „Ólafur Magnússon, sem greifinn, hefði mátt vera meira „greifalegur". Steindór Hjörleifsson og Sigurður Ólafsson voru báðir í sínum hlutverkum góðir." Rígólettó. Sunnudagurinn 3. júní 1951 var óperan „Rigoletto" frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. „Ég lék lítið hlutverk, Sebranó hirðmann, og var þetta í fyrsta skipti sem ég söng á ítölsku“, segir Sigurður. „Ég var því vissulega bæði spenntur og kvíðinn þegar mér bauðst að syngja í þessari óperu. Ég var þó ekki eins kvíðinn fyrir því að syngja og að leika — enda hafði ég ekki mikla reynslu af því að leika á sviði. Svo var heldur ekki laust við ég væri haldinn svolítilli minnimáttarkennd gagnvart þeim stórstjörnum, sem unnu með mér, en allt var þetta fólk búið að læra mikið í söng.“ Í aðalhlutverkum voru þau Guðmundur Jónsson, Else Mühl og sjálfur Stefán Íslandi. Leikstjóri sýningarinnar var Norðmaðurinn Simon Edwardsen, sem var sérstaklega fenginn að láni frá Óperunni í Stokkhólmi, og reyndist hann okkur mjög vel. Einhver sagði að Edwardsen hefði svo mikla tilfinningu fyrir leikhúsi að hann gengi undir nafninu „leikhúsrottan". Og það eru orð að sönnu. „Ef það er eitthvað, sem ykkur finnst þið ekki geta eða ráða við, þá skulum við endilega ræða málin og finna út hvort við getum ekki gert hlutina öðruvísi." Þannig ávann hann sér traust og virðingu allra, sem tóku þátt í sýningunni, og hefur það án efa skilað sér í lokin — enda var okkur feikilega vel tekið. Stefán og Else komu bæði frá útlöndum til þess að syngja við þetta tækifæri og þarf ekki að spyrja að frammistöðu þeirra. Aftur á móti kom Guðmundur Jónsson, sem söng sjálfan Rígólettó, verulega á óvart eins og lesa má í ritdómum. Þar segir m.a.: „En það sem vakti þó einna mesta forundran var frammistaða Guðmundar Jónssonar í hlutverki Rígólettós. Hún spáir miklu og góðu um frammistöðu hans sem óperusöngvara." Gullna hliðið. Hið sígilda leikrit „Gullna hliðið" eftir Davíð Stefánsson við tónlist Dr. Páls Ísólfssonar var tvisvar sinnum fært upp í Þjóðleikhúsinu á þessum árum; fyrst árið 1951 og síðan aftur árið 1954. Í bæði skiptin lék Sigurður hið kunna hlutverk fiðlungsins. — Ég man það eitt frá þessu leikriti að ég söng "Hrosshár í strengjum" og "Mín liljan fríð" og var með fiðlu í höndunum og englahjörð í kringum mig, segir Sigurður. Hann getur þess að Lárus Pálsson, sem jafnframt leikstýrði verkinu, hafi leikið sjálfan djöfulinn á eftirminnilegan hátt. Og víst muna þeir Ævar og Erling, synir Sigurðar, eftir djöflinum, sem birtist þeim óvænt í búningsherbergi Þjóðleikhússins þar sem þeir voru staddir sem litlir drengir að fylgjast með föður sínum. -Allt í einu birtist Lárus Pálsson í allri múnderingunni með horn og klaufir, vatt sér að pabba og sagði: „Siggi minn, áttu eld handa mér?" Við strákarnir vorum svo hræddir við djöfsa að við fórum að hágrenja, segir Ævar." Á árunum 1950-1952 lék Sigurður hlutverk „Polichinells" í „Ímyndunarveikinni" og hlutverk þræls í „Tyrkja-Guddu". Þá lék hann hlutverk „Amiens" í „Sem yður þóknast" eftir Shakespeare. Leðurblakan. Óperettan „Leðurblakan,“ eftir austurríska valsakónginn Johann Strauss, var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní árið 1952. Leikstjóri sýningarinnar var Simon Edwardsen en Dr. Urbancic stjórnaði tónlistarflutningi. Báðir höfðu þeir unnið við uppsetninguna á „Rígólettó" árið áður og voru því öllum hnútum kunnugir. Og víst voru stórstjörnur í helstu aðalhlutverkum; Guðrún Á. Símonar, sem lék Rósalindu, og Einar Kristjánsson sem lék Von Eisenstein. „Einar Kristjánsson hefur oft sungið hér opinberlega áður og nýtur hér mikilla vinsælda sem söngvari. Rödd hans er björt og tær, allmikil og hann beitir henni af kunnáttu og smekkvísi. Leikur Einars er léttur og lifandi og ber það með sér að hann er þaulvanur leiksviðinu. Guðrún Á. Símonar fer með annað aðalhlutverk óperettunnar, hlutverk Rósalindu, konu von Eisensteins. Er þetta fyrsta hlutverk ungfrúarinnar á leiksviði og ber leikur hennar þess nokkur merki. En rödd hennar er glæsileg, björt og örugg en þó ef til vill nokkuð hörð á köflum. Hámarki sínu náði hinn ágæti söngur hennar er hún söng „Czardansinn" í öðrum þætti." Sigurður segist sjálfur hafa haft lítið hlutverk með höndum; hlutverk Frank fangelsisstjóra. -Ég man að mér þótti ákaflega gaman að taka þátt í svo glæsilegri og viðamikilli skrautsýningu sem „Leðurblakan" var, segir hann. Hlutverk Frank fangelsisstjóra var ekki stórt en samt var ég oft og tíðum á sviðinu." Hljómplötur og kabarettar. Sjötti áratugurinn var áratugur kabaretta og revíusýninga auk þess sem íslensk hljómplötuútgáfa var í miklum blóma. Sigurður Ólafsson átti sinn þátt í þessu ævintýri því á þessum árum söng hann með íslenskum danshljómsveitum, m.a. í Þórskaffi, Gúttó, og Breiðfirðingabúð, lék og söng í kabarettsýningum í Sjálfstæðishúsinu og á vegum Íslenzkra tóna í Austurbæjarbíói. Setti upp skemmtidagskrá ásamt félögum sínum, sem þeir fóru með um landið þvert og endilangt, tók þátt í danslagakeppnum og söng inn á fjölmargar hljómplötur. Fyrsta hljóðritunin. Fyrsta hljóðritunin með söng Sigurðar mun vera lagið "Silfrað hár" sem hann söng inn á lakkplötu ásamt karlakórnum Stefni hjá Útvarpinu árið 1941. Þetta lag var síðar gefið út á safndiskinum „Þín minning lifir“ sem Sena gaf út 2003. Litli vin. Hljómplötufyrirtækið Íslenzkir tónar sem Tage Ammendrup rak gaf út flestar hljómplöturnar með söng Sigurðar Ólafssonar. Fyrsta hljómplata Sigurðar var hljóðrituð í upptökusal Ríkisútvarpsins í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll árið 1952 við undirleik hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar. Á henni eru lögin "Litli vin", sem er erlent lag en Freysteinn Gunnarsson gerði textann, og "Hvar varstu í nótt?", erlent lag sem Jón Sigurðsson gerði texta við. Sjómannavalsinn. Ári síðar gáfu Íslenzkir tónar síðan út plötu, sem geymir eitt allra vinsælasta lag Sigurðar fyrr og síðar, "Sjómannavalsinn", eftir Svavar Benediktsson við texta Kristjáns frá Djúpalæk en þetta lag náði fyrsta sætinu í danslagakeppni SKT. Um upptökurnar segir Sigurður: "Á þessum tíma voru allar hljómplötur hljóðritaðar í upptökusal Ríkisútvarpsins í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll. Þá fór upptakan þannig fram að við fluttum lagið frá upphafi til enda — rétt eins og við gerðum á dansleikjum. Ef eitthvað bar út af urðum við einfaldlega að byrja upp á nýtt." Það er svo margt. Sigurður söng einnig fyrstur söngvara hið rómaða lag; "Það er svo margt að minnast á" eftir Inga T. Lárusson við texta Einars Sæmundsen. Á sömu hljómplötu er einnig að finna lag Sigvalda Kaldalóns, "Fjallið eina" við ljóð Grétars Ó. Fells. Bæði þessi lög náðu ótrúlegum vinsældum og eru enn spiluð í Ríkisútvarpinu. Sjálfur segist Sigurður vera nokkuð sáttur við frammistöðu sína í laginu „Það er svo margt" og segir það vera eitt af sínum uppáhaldslögum. — Það var vinur minn og félagi úr hestamennskunni Einar Sæmundsen sem orti ljóðið við þetta lag og líklega þykir mér vænna um það fyrir vikið. Einar var sérstaklega elskulegur maður og góður vinur minn og er þetta ljóð hans tileinkað minningum hans frá æskustöðvunum austur á Fjörðum. Reyndar var Ingi T. einnig Austfirðingur og þarna lögðu þeir tveir saman krafta sína og útkoman varð þetta fallega lag. Blikandi haf. Næstu árin komu út fleiri plötur Íslenzkra tóna með söng Sigurðar en alls urðu lögin, sem hann söng inn á hljómplötur fyrir íslenska tóna, tuttugu og fimm að tölu. Þar á meðal má nefna "Blikandi haf" eftir Tólfta september (Freymóð Jóhannsson) en í því lagi sungu þau Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested saman. Þess má geta að þetta lag vann til fyrstu verðlauna í danslagakeppni SKT, sem haldin var árlega í Góðtemplarahúsinu á þessum árum. Síldarvalsinn. Árið 1956 söng Sigurður Ólafsson inn á hljómplötu, með Tríói J. Morávek, það lag sem átti eftir að bera hróður hans lengi og víða. Þetta var "Síldarvalsinn" eftir Steingrím Sigfússon frá Patreksfirði. Á sömu plötu syngja þau Soffía Karlsdóttir einnig "Ég bíð þér upp í dans" eftir Þórhall Stefánsson og Guðnýju Ricter við texta Örnólfs úr Vík. Halló. Árið 1960 sungu þau Sigurður og Hulda Emilsdóttir saman tvö lög við texta eftir Tólfta september inn á hljómplötu sem gefin var út af Tónabandinu, útgáfu Freymóðs Jóhannssonar. Þar er að finna hið kunna lag "Halló" en á bakhlið plötunnar er lag sem heitir "Bergmál hins liðna". „Hulda Emilsdóttir hefur vakið bráðvaxandi athygli með sérlega smekklegum söng sínum í útvarpi og á skemmtistöðum í Reykjavík hin síðari ár. Veitið þessari ungu listakonu athygli. Sigurður Ólafsson er meðal kunnustu og vinsælustu núlifandi söngvara íslenskra. Tónabandinu er þannig mikil ánægja að geta gefið hlustendum kost á hinum ágæta söng hans með Huldu Emilsdóttur á þessari hljómplötu." Við eigum samleið. Síðasta platan, sem Íslenzkir tónar gáfu út með söng Sigurðar, kom út árið 1955. Þar nýtur Sigurður aðstoðar ekki ómerkari söngkonu en Maríu Markan og syngja þau m.a. saman á þeirri plötu lag Sigfúsar Halldórssonar "Við eigum samleið" við texta Tómasar Guðmundssonar. María Markan var þá nýkomin heim eftir mikla velgengni sem óperusöngkona á erlendri grund og söng þarna í fyrsta sinn, og líklega það eina, dægurlag inn á hljómplötu. Feðgin syngja saman. Feðginin Þuríður Sigurðardóttir og Sigurður Ólafsson 1971 -Snemma á árinu 1971 hitti ég Sigurð á götu og datt þá í hug að spyrja hann hvort hann vildi ekki syngja inn á plötu — enda var þá langt um liðið síðan síðasta plata hans kom út, segir Svavar. Sigurður aftók það með öllu og bar við æfingaleysi og aldri. Eftir miklar fortölur féllst hann á þetta en þó með því skilyrði að Þuríður Sigurðardóttir, dóttir hans, aðstoði hann í nokkrum lögum. „Lögin eru flestöll frá þeim tíma þegar Sigurður var upp á sitt besta en þó hefur hann ekki sungið neitt þessara laga inn á plötu fyrr. Sum hafa alls ekki komið út á plötu áður eins og "Rökkvar í runnum" eftir Jónatan, bróður hans, (við texta Oddfríðar Sæmundsdóttur, frænku hans), "Nóttin og þú" eftir Steingrím Sigfússon, "Árin líða" eftir Matthías Á. Mathiesen, "Kveðja förumannsins" eftir Gunnar Ingólfsson (frænda Sigurðar) og "Í Reykjavík" eftir Hjördísi Pétursdóttur. Eina erlenda lagið á plötunni er "Hvar sem liggja mín spor", lag sem Sigurður söng á skemmtunum um árabil og heldur mikið upp á." — "Ég var svolítið taugaóstyrkur þegar við Þura vorum að syngja þessi lög í hljóðveri, segir Sigurður. Hér áður fyrr, þegar ég söng inn á plötur, var söngur og hljóðfæraleikur hljóðritað saman en þarna varð ég að syngja með undirleikinn hljómandi í heyrnartækjum — beint í eyrun. En þetta gekk þó allt saman á endanum og mér er sagt að þessi plata hafi bara selst nokkuð vel. — Mér þótti ákaflega vænt um að fá að syngja með pabba á þessari plötu, segir Þuríður. Þetta var nokkurs konar „come-back" hjá gamla manninum og hann stóð sig eins og hetja. Ekki sakaði heldur að platan seldist vel og var og er enn mikið spiluð í útvarpinu." Hestamaðurinn. Verðlaunaafhending á Hólum 1966. Til vinstri; Ingólfur Jónsson þáverandi landbúnaðarráðherra sem afhenti verðlaunin, svo Snúlla með Gulu-Glettu, þá Sigurður með Glettu og loks Björn Jónsson bóndi með Hroll. Viðtal í dagblaðinu Vísi á Hellu 1976. „Ég hef tekið þátt í öllum landsmótum sem haldin hafa verið og öllum fjórðungsmótum nema í einu", sagði Sigurður Ólafsson hinn góðkunni hestamaður og söngvari þegar við hittum hann ásamt konu hans Ingu Einarsdóttur (Snúllu) á Fjórðungsmótinu á Hellu. Sigurður var þá mættur rétt einu sinni á hestamót.,Ég er ekki með neina hesta í keppninni að þessu sinni, en Erlingur sonur okkar er með hesta", sagði Sigurður. Sigurður er líklega þekktastur allra skeiðhrosseigenda og hafa hestar hans getið sér orðstí fyrir skeiðið. Þekktastur allra skeiðhrossa er líklega Gletta, sem lengi átti Íslandsmet. „Ég sýndi hana síðast 29 vetra, þá fór hún sýningarsprett á móti syni sinum Hrolli og stakk hann hreinlega af. Hún keppti hins vegar ekki í skeiði og var Hrollur sigurvegari í því. Hrollur hætti að keppa þegar hann var orðinn tuttugu vetra. Hann byrjaði hins vegar níu vetra og sigraði allan sinn feril. Það var ánægjulegt að hann var með betri tíma þegar hann hætti en þegar hann hóf sinn skeiðferil". Hvað gerir hross að góðu skeiðhrossi? „Fyrst og fremst er það eðlið. En auk meðfæddra hæfileika bætast við þjálfun og meðferð. En við skulum minnast þess að gæðingur er ekki neinn hestur nema hann hafi allan gang. Einhliða vakur hestur er ekki skemmtilegur. — Mér finnst það athugavert við þær miklu framfarir sem orðið hafa í hestamennskunni að tímavörslu og dómgæslu og þess háttar miðar niður á við. Áður var ræst með bjöllu og dómari var löggiltur frá ÍSÍ en nú er hins vegar ræst með flaggi. Það þyrfti að vinna að ötulli kennslu í tímatöku. Þau Sigurður og Inga hafa verið þekkt að því að eiga mikið úrval skeiðhrossa en einnig fyrir að hestar þeirra hafa verið Ijósleitir. ,Mér hefur alltaf þótt gaman að sjá þessa ljósu hesta", segir Inga.,Áður og fyrr voru alltaf fáir Ijósir hestar en það er ánægjulegt að vita til þess að þeim virðist fara fjölgandi. Um hestamennsku sem tómstundagaman segja þau Sigurður og Inga. „Það er dýrðlegt að vera úti í fallegu umhverfi og bílarnir hvergi nærri. Það er ekki hægt að komast í betra samband við náttúruna en að ríða út einn eða við annan mann.“ Fjölskyldan. Fjölskyldan 1978. Frá vinstri; Ævar, Þuríður, Sigurður, Erling, Snúlla, Ólafur, Valgerður og Gunnþór. Sigurður kvæntist 3. desember 1938 Ingu Valfríði Einarsdóttur, f. 10. nóvember 1918, sjúkraliða sem kölluð er Snúlla. Þau hjónin reistu sér myndarbú í Laugarnesi þar sem þau bjuggu næstu 30 árin ásamt hvítu fákunum og börnunum sex, þeim Valgerði, f. 1937, meinatækni; Erling, f. 1942, tamningamanni og reiðkennara; Ævari, f. 1944, bílamálara; Þuríði, f. 1949, söngkonu og málara; Ólafi, f. 1950, trésmið og Gunnþóri, leikmunaverði og pönkara f. 1960. Dóttir Sigurðar frá því fyrir hjónaband er Elsa, húsmóðir í Reykjavík. Litið yfir sviðið. -Margir vildu nota mann, það er rétt, segir Sigurður. En fæstir vildu ráða mann eins og mig í fasta vinnu. Það var því ekki um annað að ræða en taka því sem bauðst — hvort sem það hét dægurlagasöngur eða annars konar söngur. Það kom því oft fyrir að ég væri þátttakandi í mörgum verkefnum í einu og varð ég að sæta lagi að komast yfir allt saman, segir hann að lokum. Jan Morávek. Jan Morávek (2. maí 1912 – 22. maí 1970) var austurrískur klarinettleikari og hljómsveitarstjóri af tékkneskum ættum sem var mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi eftir síðari heimsstyrjöld. Hann fæddist í Vínarborg þar sem hann lærði hljóðfæraleik og hljómsveitarstjórn og lék meðal annars við óperuhljómsveitina og Fílharmóníusveit Graz. Hann kynntist fyrri konu sinni, íslensku söngkonunni Svanhvíti Egilsdóttur, í Vín og flutti með henni til Íslands árið 1948. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð gekk hann til liðs við hana og lék þar meðal annars á fagott og selló, en auk þess stjórnaði hann kórum og lék með fjölda danshljómsveita, þar á meðal Nausttríóinu með landa sínum, Carli Billich og í uppfærslum í Þjóðleikhúsinu. Hann lék á mörgum hljómplötum með Tríói Jans Morávek og útsetti fjölda laga fyrir kóra og hljómsveitir. Mumford & Sons. Mumford & Sons er bresk hljómsveit sem spilar þjóðlagapopp. Sveitin gaf út tvær plötur, "Sigh No More" (2009) og "Babel" (2012). Alfreð Clausen. Alfreð Clausen (7. maí 1918 – 26. nóvember 1981) var íslenskur söngvari og málarameistari sem var gríðarvinsæll dægurlagaflytjandi á 6. áratug 20. aldar. Hann söng inn á fjölda hljómplatna á vegum Íslenzkra tóna við undirleik manna á borð við Carl Billich og Jan Morávek. Meðal þekktustu laga hans eru „Manstu gamla daga“ og „Gling gló“ sem hann samdi við texta eftir þáverandi eiginkonu sína, Kristínu Engilbertsdóttur. Life Won't Wait. "Life Won't Wait" er önnur breiðskífa Selmu Björnsdóttur sem kom út í nóvember 2000. Gagnrýni. Platan hlaut að mestu góðar móttökur gagnrýnenda en Andrea Jónsdóttir, gagnrýnandi DV, gaf Selmu þrjár stjörnur af fjórum, „"Life Won't Wait" er snyrtileg og hrukkulaus poppplata með ágætum melódíum sem hver og ein er útvapsvæn...eins og við eigum líklega eftir að heyra.“ Eggert Thoroddsen, gagnrýnandi Morgunblaðsins, setti út á plötuna fyrir að hafa „lítinn samhljóm við það sem brattir og sjálfsöruggir plötutitlar Selmu eins og "I Am" og "Life Won't Wait" gefa til kynna. Þvert á móti gætir hér bæði stefnuleysis og óöryggis.” Hann hrósaði þó Selmu fyrir lagið "Lame Excuse" sem hún söng með Stefáni Hilmarssyni og kallaði það „[fína] kraftbölluðu.” Lúxemborg (hérað). Lúxemborg (franska: Province de Luxembourg) er suðaustasta hérað Belgíu og er frönskumælandi. Það var áður fyrr hluti af furstadæminu Lúxemborg en splittaðist frá í belgísku uppreisninni 1839. Höfuðborg héraðsins er Arlon. Lega og lýsing. Héraðið Lúxemborg er 4.443 km2 að stærð og er því stærsta hérað Belgíu. Það er hins vegar fámennast með rúmlega 260 þúsund íbúa. Lúxemborg er suðaustast í landinu og á landamæri að Frakklandi í suðri og furstadæminu Lúxemborg í austri. Auk þess eru belgísku héruðin Namur fyrir vestan og Liege fyrir norðan. Ardennafjöll teygja sig yfir nær allt héraðið, sem er mjög hæðótt og skógi vaxið. Hæsta fjallið nær þó ekki nema 650 m hæð. Fáni og skjaldarmerki. Héraðsfáni Lúxemborgar er eins og lúxemborgski fáninn, nema hvað héraðsskjaldarmerkið er fyrir miðju. Þegar héraðið var splittað frá furstadæminu Lúxemborg þótti óþarft að búa til öðruvísi fána. Skjaldarmerki héraðsins er einnig nánast eins og skjaldarmerki furstadæmisins. Rauða ljónið hefur notað í aldaraðir. Kórónan er tákn konungsríkisins Belgíu. Söguágrip. Í gegnum aldirnar var héraðið hluti af stórhertogadæmi Lúxemborgar. Þegar Niðurlönd urðu að konungsríki 1830, var hertogadæmið hluti af því, en konungurinn í Hollandi var jafnframt hertogi Lúxemborgar. 1839 hófst belgíska uppreisnin, sem endaði með því að Belgía sleit sig frá Hollandi og lýsti yfir sjálfstæði. Lúxemborg klofnaði þá í tvennt. Vesturhlutinn, frönskumælandi íbúar, tók þátt í uppreisninni og varð að héraði í Belgíu. Austurhlutinn, sem var þýskumælandi, varð að sjálfstæðu ríki. Höfuðborg héraðsins varð Arlon, þrátt fyrir að hún væri að mestu þýskumælandi. Ástæðan fyrir því var sú að í belgíska hluta Lúxemborgar var engin stærri borg sem gæti tekið höfuðborgarhlutverkið að sér. Því er í héraðinu lítill minnihluti sem enn í dag talar lúxemburgísku. Arlon. Arlon (Arel á lúxemborgísku; Aarlen á hollensku) er höfuðborg belgíska héraðsins Lúxemborgar. Hún er ein elsta borg Belgíu. Íbúar eru aðeins 28 þúsund en þar með er Arlon langminnsta héraðshöfuðborg Belgíu. Lega og lýsing. Arlon liggur nær suðaustast í héraðinu og nema eystri bæjarmörkin að furstadæminu Lúxemborg. Næstu stærri borgir eru Lúxemborg til austurs og Sedan í Frakklandi til vesturs. Til Brussel eru 200 km til norðvesturs. Arlon liggur í 404 metra hæð milli tveggja hæðarhryggja í Ardennafjöllum. Mikill landbúnaður er í kringum bæinn. Þar renna engar ár. Söguágrip. Rómverjar reistu bæ á staðnum árið 52 f.Kr. sem þeir nefndu Orolaunum. Því gerir Arlon tilkall til þess að vera elsta borg Belgíu. Reyndar gera Tongeren og Tournai það líka. Arlon lá við krossgötur. Norður/suðurleiðin lá frá Tongeren til Metz, en austur/vesturleiðin frá Reims til Trier. Vel fyrir fall Rómaveldis flæddu germanir yfir svæðið. Arlon varð að greifadæmi. 1214 varð borgin hluti af hertogadæminu Lúxemborg. Arlon varð síðan eign Búrgúndar, Habsborgara og síðan Spánverja á 16. öld. Borgin kom lítið við sögu í frelsisstríði Niðurlanda, en 1558 réðist Frans frá Lorraine þó á hana og eyddi henni að miklum hluta. Arlon var endurreist en brann á ný 1785. Árið 1793 og 94 fóru fram nokkrar orrustur milli fransks byltingarhers og Austurríkismanna, sem endaði með því að Austurríkismenn drógu sig til baka úr héraðinu. Í kjölfarið hertóku Frakkar borgina, sem innlimu hana Frakklandi. Frakkar drógu sig ekki í hlé fyrr en við fyrra tap Napoleons 1814. 1830 var konungsríki Niðurlanda stofnað, sem Arlon varð hluti af, eins og allt furstadæmið Lúxemborg. En þegar Belgar gerðu uppreisn gegn Hollandi 1839, ákváðu frönskumælandi menn í Lúxemborg að taka þátt í uppreisninni. Borgin Arlon var ekki á meðal þeirra. Þegar uppreisninni lauk með sjálfstæði Belgíu, var samt ákveðið að Arlon skyldi tilheyra belgíska hluta Lúxemborgar, þar sem engar borgir væru þar í grennd sem gætu tekið að sér hlutverk héraðshöfuðborgar. Því varð Arlon belgísk, þrátt fyrir að þar væri töluð lúxemborgíska, en ekki franska. Næstu áratugi fjölgaði þar hins vegar frönskumælandi íbúum og nú er svo komið að flestir borgarbúar tala frönsku. Arlon var fyrsti belgíski bærinn sem þjóðverjar hertóku í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri 1914. Hann var einnig meðal fyrstu bæja sem Þjóðverjar náðu í innrás þeirra í Belgíu 1940. Borgarstjórinn var Þjóðverjum hliðhollur og starfaði með þeim allt stríðið. Hann var skotinn til bana 1946. Síðustu áratugi hefur Arlon vaxið talsvert, því margir sem starfa í furstadæminu Lúxemborg kjósa að búa þar. Árið 2004 komst borgin aftur í heimsfréttirnar vegna dómsmáls barnaníðingsins Marc Dutroux en réttað var yfir honum þar í borg. Viðburðir. Karneval er haldið í Arlon á hverju vori fyrir páska. Það sver sig í ætt við karneval í Sviss, þ.e. fólk fer í skrúðgöngur klætt skrúðklæðum. Á hátínni tíðkast að afhenda karnevalsprinsinum borgarlyklana á formlegan hátt. Australian Sex Party. Australian Sex Party er ástralskur stjórnmálaflokkur sem var stofnaður 2009 sem mótvægi við trúarlegum áhrifum í stjórnmálum. Formaður hans er Fiona Patten. Flokkurinn er á móti ritskoðun og siðavendni. Hann fékk um 2% atkvæða í kosningum til ástralska þingsins árið 2010. Sögur af sviðinu. "Sögur af Sviðinu" er íslensk söngleikjaplata með Selmu og Hönsu frá árinu 2002. Framleiðsla. Samstarf Selmu og Hönsu hófst árið 1998 þegar þær léku saman í söngleiknum Grease. Árið 2001 ákváðu þær að halda jólatónleika í Vesturporti og Borgarleikhúsinu með eingöngu söngleikjalögum. Tónleikarnir heppnuðust svo vel að Skífan sýndi verkefninu áhuga og vildi gefa út geisladisk með þessum lögum í flutningi þeirra. Gagnrýni. "Sögur af sviðinu" fékk góða dóma frá gagnrýnendum þar á meðal frá Sveini Halldórssyni hjá Morgunblaðinu sem sagði að á plötunni hefði „ekki verið kastað til höndum heldur unnið markvisst að því að finna hverju sígildu lagi þann búning sem hendtaði flytjendum best án þess að falla í þann farveg að endurtaka gamlar klisjur í útsetningunni.” Will & Grace. "Will & Grace" er bandarískur gamanþáttur sem byggðist á sambandinu milli Will Truman og Grace Adler. Þátturinn gerist í New York borg. Þátturinn var fyrst sýndur á NBC-sjónvarpsstöðinni þann 21. september 1998 og sá síðasti þann 18. maí 2006, í alls átta þáttaröðum og er "Will & Grace" með vinsælustu sjónvarpsþáttunum þar sem helstu persónur eru samkynhneigðar. Þrátt fyrir gagnrýni í byrjun fyrir að innihalda samkynhneigðar persónur varð þátturinn fljótlega einn af einkennisþáttum NBC-sjónvarpsstöðvarinnar. Þátturinn fékk mesta áhorf í aldurhópnum 18-49 ára á árunum 2001-2005. Á þeim átta árum sem þættirnir voru sýndir, fengu þeir sextán Emmy-verðlaun og 83 tilnefningar. "Will & Grace" var tekinn upp fyrir framan áhorfendur (flestir þættir og atriði) á þriðjudagskvöldum á sviði 17 í upptökuveri CBS. Íbúð Will og Grace er til sýnis á Emerson háskólabókasafninu, en höfundur þáttarins, Max Mutchnick, gaf safninu hana. Allar þáttaraðirnar hafa komið út á DVD og þátturinn hefur verið sýndur í meira en 60 löndum. Aðþrengdar eiginkonur (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröðin af "Aðþrengdum eiginkonum" fór af stað á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC þann 27. september 2009 og lauk henni 16. maí 2010. Þáttaröðin samanstóð af 23 þáttum. Hin látna Mary Alice Young heldur áfram að tala inn á atburði sem gerast í lífum vina hennar á Bláregnsslóð, Susan Delfino, Lynette Scavo, Bree Hodge og Gabrielle Solis. Angie Bolen og fjölskylda hennar eru aðal ráðgáta þáttaraðarinnar. Þáttaröðin fékk lægri áhorfstölur en þáttaröðin á undan. Áhorfið hafði verið að dala síðan í seinni hluta fimmtu þáttaraðar og áhorfið minnkaði enn. Þrátt fyrir það náði þátturinn 20. sæti á lista yfir þættina með mesta áhorfið 2009-2010, með 12,82 milljónir áhorfenda. Kristjana Arngrímsdóttir. Hljómdiskurinn "Í húminu" frá 2005 Hljómdiskurinn "Þvílík er ástin" frá 2000 Kristjana Arngrímsdóttir (f. 1961) er söngkona sem búsett er í Svarfaðardal. Hún hóf söngferil sinn í Tjarnarkvartettinum ásamt með Kristjáni Eldjárn Hjartarsyni, eiginmanni sínum, Hjörleifi Hjartarsyni og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Eftir að kvartettinn var leystur upp hóf Kristjana sólóferil og hefur haldið ótal tónleika og gefið út hljómdiska í samstarfi við fjölmarga tónlistarmenn. Forgangsröðunaraðferðin. Forgangsröðunaraðferðin (e."Single transferable vote, skammstafað STV") einnig verið kölluð yfirfæranlegt atkvæði eða persónulegar hlutfallskosningar, er persónukjörs kosningaaðferð þar sem kjósandi forgangsraðar frambjóðendum þess lista sem hann kýs með númerum. Við talningu er hugsað fyrir því að ekkert atkvæði fari forgörðum þannig að þegar efsta manneskjan á listanum hefur hlotið nægilega mörg atkvæði til að ná kjöri eru umframatkvæði hennar flutt niður númeraða listan til næstu manneskju og svo koll af kolli. Markmið aðferðarinnar er því að lágmarka sóun atkvæða. Saga forgangröðunaraðferðarinnar. Hugmyndin að forgangsröðunaraðferðinni var fyrst sett fram af Thomas Wright Hill árið 1821. Kerfið var ekki notað í alvöru kosningum fyrr en 1855 þegar Carl Andræ lagði til að forgangsröðunaraðferðinni yrði beitt í kosningum í Danmörku. Kerfi Andræ var notuð árið 1856 til að kjósa til danska Ríkisráðsins og 1866 var það einnig aðlagað fyrir óbeinar kosningar til annarar deildar þingsins, Landsþingsins og hélst þannig þar til ársins 1915. Mest hefur kerfið verið notað á Írlandi en þar hefur það verið notað alfarið í kosningum lengi. Fyrirkomulag Íra er notað víða í öðrum engilsaxneskum löndum. Forgangröðunaraðferðin á Íslandi. Fyrst er vitað til þess að skrifað hafi verið um aðferðina á Íslandi af Baldri Símonarsyni í grein í Alþýðublaðinu 6. nóvember 1968, undir heitinu "Persónulegar hlutfallskosningar". Árið 1976 birtist svo í tímaritinu Stefni, málgagni sambands ungra sjálfstæðismanna, grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson undir heitinu, "Innleiðum persónukjör", þar sem hann lýsir ýtarlega forgangsröðunaraðferðinni og kallar hana "persónukjör með valkostum". Tilefni greinar Jóns Steinars var sú að samvinnunefnd ungliðasamtaka þriggja stjórnmálaflokka, Sambands ungra framsóknarmanna, Sambands ungra jafnaðarmanna og Sambands ungra sjálfstæðismanna, skilaði sameiginlegri álitsgerð um „kjördæmaskipan og kosningarréttarmálefni“ sem birt var í sama hefti Stefnis. Þar leggja þær til að tekin verði upp umrædd aðferð. Forgangsröðunaraðferðin hefur aðeins einu sinni verið notuð á Íslandi, en það var í kosningum til Stjórnlagaþings árið 2011. Università Niccolò Cusano. "Università degli Studi Niccolò Cusano" (UNICUSANO) er háskóli í Róm á Ítalíu. Saga. "Campus - Via don Carlo Gnocchi 3" "Unicusano" var stofnaður árið 2006 og nefndur eftir Stefano Bandecchi. Hainaut. Hainaut (hollenska: "Henegouwen", vallónska: "Hinnot") er hérað í Belgíu. Það er í Vallóníu og er vestasta frönskumælandi hérað landsins. Höfuðborgin heitir Mons. Lega og lýsing. Hainaut liggur nokkuð vestarlega í Belgíu og á löng landamæri að Frakklandi í suðri. Fimm önnur belgísk héruð liggja að Hainaut: Vestur-Flæmingjaland, Austur-Flæmingjaland, Flæmska Brabant, Vallónska Brabant og Namur. Hainaut á eitt útsvæði aðeins fyrir vestan móðurlandið en það er svæðið Comines-Warneton sem er landlukt á milli Frakklands og Vestur-Flæmingjalands. Hainaut er 3.786 km2 að stærð og er sem slíkt þriðja stærsta hérað Belgíu. Það er að öllu leyti láglent og þar er stundaður mikill landbúnaður. Íbúar eru frönskumælandi. Söguágrip. Hainaut myndaðist 1795 er Frakkar hertóku Niðurlönd. Héraðið var þá innlimað Frakklandi en Frakkar bjuggu til sérstaka sýslu úr því og nærliggjandi svæði sem þeir kölluðu Jemmape. Þegar Frakkar hurfu úr landi eftir fall Napoleons 1814 varð Hainaut eigið hérað í konungsríki Niðurlanda. Þegar Belgía varð sjálfstætt ríki 1839 varð Hainaut að héraði í nýja landinu og hlaut þá núverandi landamerki. Heitið Hainaut er dregið af ánni Haine (Hene á hollensku). Gianfranco Zola. Gianfranco Zola (fæddur 5. júlí 1966) er knattspyrnustjóri Watford. Hann lék með ítölsku knattspyrnuliðunum Napoli og Parma áður en hann fór til Chelsea. Hann var valinn besti leikmaður Chelsea fyrr og síðar. Hann hefur leikið 35 sinnum fyrir landslið Ítala áður en hann stjórnaði West Ham United. Tilvísanir. Zola, Gianfranco 1. deild karla í handknattleik. 1. deild karla í handknattleik er næstefsta deildin í Íslandsmótinu í handknattleik. Í deildinni eru 8 félög. Deildin hét "2. deild karla" fram til ársins 2001. Þegar deildin var sett aftur á laggirnar 2004 eftir 3 ára hlé, var hún nefnd núverandi nafni 1. deild karla. Meistarasaga. Eftirfarandi lið hafa unnið sér þátttökurétt í Úrvalsdeild karla eftir að hafa lent í tveimur efstu sætunum. Tímabilið 2008-2009 var reglunum breytt, þar sem liðin í 2. 3. og 4. sæti ásamt liðinu í 7. sæti efstu deildar mættust í umspili um annað sætanna í efstu deild. Íslenska karlahandknattleiksdeildakerfið. Íslenska karlahandknattleiksdeildakerfið er íslenskt deildakerfi í handknattleik í flokki karla. 1. deild karla í körfuknattleik. 1. deild karla er næstefsta deild karla í körfuknattleik á Íslandi en Körfuknattleikssamband Íslands fer með málefni íþróttarinnar á Íslandi. Viðskiptakostnaður. Viðskiptakostnaður í hagfræði og tengdum greinum vísar til þess kostnaðar hlýst af því að eiga í viðskiptum. Orðað öðruvísi er það kostnaðurinn sem felst í þátttöku á markaði. Svo dæmi sé nefnt er viðskiptakostnaður þess að kaupa epli í matvörubúð andvirði tímans sem búðarferðin tók auk ferðakostnaðar. Viðskiptakostnaður þess að selja fasteign felst í þóknun fasteignasalans. Twitter Bootstrap. Twitter Bootstrap er frjálst safn sniða í CSS og HTML með valkvæmum JavaScript-stefjum að auki, til að setja upp vefsíður. Sniðin ná yfir algenga viðmótshluta eins og hnappa, töflur, letur og umbrot, form og tengla. Sniðin voru þróuð af starfsmönnum samskiptamiðilsins Twitter til að auka samræmi í útliti innri veftóla fyrirtækisins. Twitter gaf sniðin út með opnu leyfi (Apache-leyfi 2.0) í ágúst 2011. Twitter Bootstrap-sniðið er 12-dálka hönnun sem bregst við ólíkum skjástærðum með því að laga breidd og endurraða efni síðunnar. Það styður HTML5 og CSS3 að takmörkuðu leyti, en virkar í öllum helstu vöfrum. Það er hýst sem verkefni á GitHub. Charleroi. Charleroi er stærsta borgin í héraðinu Hainaut í Belgíu með 203 þúsund íbúa. Hún var áður fyrr mikil iðnaðarborg og varð að stórborg við sameiningu nokkurra sveitarfélaga 1977. Lega og lýsing. Charleroi liggur við ána Sambre sunnarlega í landinu og nánast beint fyrir sunnan Brussel. Næstu stærri borgir eru Mons til vesturs (40 km), Namur til austurs (30 km) og Brussel til norðurs (50 km). Til frönsku landamæranna eru aðeins 15 km. Borgin liggur á miklu kolasvæði og sjást víða yfirgefnar kolanámur í kringum hana. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Charleroi er hvítur og sýnir skjaldarmerki borgarinnar með rauðum hana til hægri. Haninn er konungsmerki og vísar til Karls II Spánarkonungs. Skjaldarmerkið er svartur grunnur, með hvítu hjóli og tólf gylltum stjörnum. Hjólið er merki iðnaðarins, en borgin var mikil stál- og kolaborg. Stjörnurnar eru merki Evrópusambandsins. Fyrir ofan eru fimmtán litlir tíglar, rauðir og hvítir, en þeir merkja bæina og sveitarfélögin sem sameinuðust borginni 1977. Efst er hvítur reitur með liljublaði en það er merki franska konungsins, enda tóku Frakkar borgina þegar hún var nýstofnuð. Skjaldarmerkið var tekið upp 1977 við sameiningu sveitarfélaganna. Orðsifjar. Borgin Charleroi er nefnd eftir Karli II Spánarkonungi við stofnun hennar 1666. Charle = Karl, roi = konungur (á frönsku). Söguágrip. Charleroi kom fyrst við skjöl árið 863, en þar er þorp nefnt Carnotus og tilheyrði greifadæminu Namur. Uppruna borgarinnar sem slíka má hins vegar rekja til virkis sem reist var 1666 til varnar erlendum herjum (frá Frakklandi) til Brussel. Virkið lét spænski landstjóri Niðurlanda reisa en hann stjórnaði Niðurlöndum fyrir Karl II Spánarkonung. Virkið hlaut heitið Charleroy (rithátturinn breyttist ekki fyrr en löngu síðar). Áður en virkið var fullklárað hertók Loðvík XIV Frakklandskonungur það. Eftir brotthvarf Frakka myndaðist borg í kringum virkið, sem fljótt hlaut borgarréttindi. Reist var brú yfir ána Sambre og íbúum var fengið ræktarland fyrir landbúnað. Borgin var mýmörgu sinnum hertekin næstu aldir. Ráðhúsið og klukkuturninn á aðaltorginu (Place Charles II) 1867 voru gömlu borgarmúrarnir rifnir til að skapa meira byggingarpláss fyrir íbúðir og iðnað. Í iðnbyltingunni myndaðist mikill kola- og stáliðnaður í Charleroi. Á þessum tíma hlaut borgin gælunafnið Pays Noir ("svarta landið") sökum mengunar. Síðla á 19. öld urðu verkföll tíð í borginni. Margir iðnaðarmenn fluttust til Vesturheims, aðallega til Nova Scotia og Kanada. Í heimstyrjöldinni fyrri urðu miklir bardagar í Charleroi við Þjóðverja, sem á endanum hertóku borgina. Eftir seinna stríð minnkaði þungaiðnaðurinn stöðugt í borginni og er hann nánast horfinn í dag. 1977 sameinuðust nokkur sveitarfélög við Charleroi og varð borgin við það þriðja stærsta borg Belgíu. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Sporting Charleroi, sem nýverið féll í 2. deild. Besti árangur félagsins er annað sæti í efstu deild 1969. Auk þess hefur félagið tvisvar komist í úrslitaleik belgísku bikarkeppninnar (1978 og 1993), en tapaði í bæði skiptin. Körfuboltafélagið Spirou BC Charleroi er meðal bestu félaga í Belgíu. Síðan 1996 hefur félagið tíu sinnum orðið belgískur meistari og unnið bikarkeppnina fimm sinnum. Fjórum sinnum tókst félaginu að vinna tvennuna á þessum árum. Í borðtennis er félagið La Villette Charleroi meðal bestu í Evrópu, enda sigrað Meistaradeildina fimm sinnum, auk þess að vera margfaldur belgískur meistari. Þjálfarar í íslenskri knattspyrnu. Sigursælustu þjálfarar Íslands. Sigursælustu þjálfarar Íslands í knattspyrnu karla frá því deildarkeppni hófst árið 1955. 4. deild karla í knattspyrnu. 4. deild karla í knattspyrnu er fimmta hæsta deildin í íslenskri knattspyrnu. Deildin var stofnuð árið 2013 Í 4. deild er leikið í 3 riðlum, riðli A, B og C. 2-3 lið komast upp úr hverjum riðli (samanlagt 8) og hefst þá útsláttarkeppni þar sem að 2 lið komast upp í 3. deild. Leiktími er frá enduðum maí til miðs septembers. Rannveig Tryggvadóttir. Rannveig Tryggvadóttir er íslenskur listamaður. Hún hefur að mestu unnið með leir en á síðari árum hefur hún einnig unnið mikið með olíumálningu. Rannveig hefur haldið fjölda sýninga í gegnum árin, bæði einkasýningar og með öðrum listamönnum. Íslenska karlakörfuknattleiksdeildakerfið. Íslenska karlakörfuknattleiksdeildakerfið er íslenskt deildakerfi í körfuknattleik í flokki karla. Þjónustugjald. Þjónustugjald er greiðsla, venjulega peningagreiðsla, sem tilteknir hópar einstaklinga og lögaðila verða að greiða hinu opinbera eða öðrum sem hefur heimild til að innheimta þjónustugjald, fyrir ákveðna þjónustu. Ætlast er til að greiðslan standi að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við veitta þjónustu. Samræmingarverkefni Posts. Samræmingarverkefni Posts er óleysanlegt ákvörðunarvandamál sem Emil Post lagði til árið 1946. Vandamálið gengur út á að taka tvo endanlega orðalista formula_1 og formula_2 úr einhverju stafrófi formula_3 sem inniheldur minnst tvö tákn og skilar röð af vísum formula_4 þar sem formula_5 og formula_6 fyrir öll formula_7 svo að Íslandsmót kvenna í íshokkí. Íslandsmót kvenna í íshokkí er efsta deild í íshokkí á Íslandi. Fjögur lið keppa í deildinni. Deildin byrjar í október og lýkur í mars eða apríl. We'll Live It All Again. We'll Live It All Again var framlag Ítalíu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1976. Lagið var sungið af Al Bano og Romina Power sem mundu svo seinna taka þátt aftur eða árið 1985. Í lok atkvæðagreiðslunar hafði lagið fengið 69 stig og lenti í sjötta sæti. Lagið var sungið á ensku og ítölsku. Al Bano söng einugis þegar að verið var að syngja á ítölsku en Romina söng á ensku fyrir utan síðustu setninguna sem var á ítölsku. Arionbankamót FSÍ 2012. Arionbankamót í áhaldafimleikum 2012 var haldið 29. september 2012 af Fimleikafélaginu Ármann í Íþróttamiðstöð Ármanns í laugardalnum. Keppt var til verðlauna í fjölþraut og á einstökum áhöldum í frjálsum æfingum. Hjá konum var keppt í kvenna- (16 ára+), unglinga- (13-15 ára) og stúlknaflokki (12 ára og yngri). Hjá körlum var keppt í unglinga- (15-18 ára) og drengjaflokki (12-14 ára). Hvalambur. Hvalambur (einnig nefnt ambur eða ambri) er vaxkennt efni sem verður til í meltingarfærum búrhvala og gengur ýmist niður af þeim sem saur eða upp úr þeim, en það eru helst stærstu klumparnir sem hvalirnir æla. Efnið er í formi þéttra klumpa sem fljóta í sjónum og rekur stundum á fjörur. Stundum finnst það líka í maga dauðra búrhvala. Hvalambursklumpar eru misstórir, sumir aðeins fáein grömm en aðrir um eða yfir 50 kíló. Efnið er upphaflega ljósleitt og af því er megn fnykur en við margra mánaða eða ára velting í sjónum harðnar það smátt og smátt og dökknar, verður dökkgrátt eða svart að lit, og fær sérkennilegan, sterkan ilm. Efnið er brennanlegt og það bráðnar og breytist í vökva við um 62°C. Forn-Egyptar brenndu það ilmsins vegna eins og reykelsi. Hvalambur var fyrr á öldum notað sem læknislyf og jafnvel sem krydd í mat og sumir telja það hafa kynörvandi áhrif. Sagt er að egg krydduð með hvalambri hafi verið eftirlætisréttur Karls 2. Englandskonungs. Hvalambur var áður notað við ilmvatnsgerð og í fleiri iðnaðarvörur en nú hafa gerviefni tekið við hlutverki þess að töluverðu leyti. Það er þó enn notað í ýmsar ilmvatnstegundir og er því í mjög háu verði. Hvalsauki. Hvalsauki tekinn úr höfði búrhvals. Teikning frá 1864. Hvalsauki eða höfuðlýsi er vaxkennd olía eða lýsi sem er í tunnulaga fitubólstri í höfði búrhvala og í minna mæli annarra hvala, svo sem andarnefju. Olían er fljótandi við líkamshita en storknar þegar hitinn fer niður fyrir 29°C og er talið að hvalirnir noti olíuna til að stýra flothæfni sinni með því að breyta hitastigi hennar og þar með eðlisþyngd. Áður var álitið að olían í höfði hvalanna væri sæði þar sem hún þótti minna á sæði karla. Þessari kenningu er nú algjörlega hafnað en fitubólstrið er nefnt "spermaceti" á latínu (sperma = sæði, ceti = hvalir). Hvalsauki er lyktarlaus og skjannahvítur og var áður mikið notaður í snyrtivörur og sem leðuráburður, svo og í kerti, smyrsli og ýmsar aðrar vörur. Hann var verðmætastur af öllu hvalalýsi en úr einum búrhval gátu fengist 3000 –5000 kíló af honum. Annalísa Hermannsdóttir. Annalísa Hermannsdóttir (fædd 25. nóvember 1997) er íslensk leikkona sem er best þekkt fyrir leik sinn sem Alda í spennuþáttaröðinni "Pressa". P=NP-vandamálið. P=NP-vandamálið er eitt mikilvægasta opna vandamál innan tölvunarfræðinnar, sem spyr óformlega hvort það sé auðvelt fyrir tölvur að leysa þau vandamál sem er auðvelt að staðfesta svarið á. Vandamálið var kynnt til sögunnar árið 1971 af Stephen Cook. Ákveðið vandamál tilheyrir flækjustigsflokkinum P ef hægt er að leysa það auðveldlega og það tilheyrir flækjustigsflokkinum NP ef hægt er að staðfesta uppgefna lausn auðveldlega (þar sem "auðvelt" er óformlega notað þegar fjölda aðgerða er af margliðustærðargráðu miðað við inntakið). Hlutasummuvandamálið (e. "subset sum problem") er dæmi um vandamál þar sem það er auðvelt að staðfesta uppgefna lausn en mögulega erfitt að finna lausn. Er til dæmis einhver hlutmengi sem hefur summuna 0? Hægt er að staðfesta lausnina auðveldlega með þremur samlagningum, en það er ekkert þekkt reiknirit sem finnur slíkt hlutmengi sem er í P: slíkt reiknirit getur aðeins verið til ef P = NP. Bikarmót FSÍ í áhaldafimleikum 2012. Bikarmót FSÍ var haldið í Versölum Kópavogi dagana 22-26 febrúar 2012. Keppt var í liðakeppni í 5 til 1 þrepi og í frjálsum æfingum. Pierre-Joseph Proudhon. Pierre-Joseph Proudhon (f. 15. janúar 1809, d. 19. janúar 1865) var franskur stjórnmálamaður, heimspekingur og sósíalisti. Hann sat á franska þinginu og var fyrstur manna til að kalla sjálfan sig stjórnleysingja. Á hann er litið sem einn af upphafsmönnum, mestu áhrifavöldum og skipuleggjendum stjórnleysisstefnunnar. Proudhon sem fæddist í borginni Besançon í Frakklandi, var prentari að mennt og kenndi sjálfum sér latínu til að vera hæfari til að prenta bækur á því máli. Frægustu ummæli hanns er „Eignarhald er þjófnaður“ úr fyrsta stóra ritverki hans "Qu'est-ce que la propriété? Recherche sur le principe du droit et du gouvernement" ("Hvað er Eign? Rannsókn á frumatriðum réttar og ríkisvalds"), sem út kom 1840. Útkoma bókarinna vakti athygli franskra yfirvalda en einnig athygli Karls Marx, sem hóf bréfaskriftir við Proudhon í framhaldi af útgáfu bókarinnar og áttu þau samskipti eftir að hafa mikil áhrif á verk og hugmyndir þeirra beggja þótt leiðir skildu síðar meir vegna hugmyndafræðilegs ágreinings, sem var þeirra á milli. Myndletur. Myndletur er letur þar sem notuð eru tákn til að merkja orð eða hugtök en ekki hljóðtákn eins og í stafrófi. Dæmi um myndletur eru forn-egypsku híeróglýfurnar og kínverskir stafir. Uppruni. Myndletur er eldra en hljóðtákn eins og stafróf og fyrirrennari þess. Fleygrúnir eru talið elsta skrifletrið en það var myndletur og komu fram í Súmer í lok fjórða árþúsunds f.Kr. og var notað fram undir Krists burð. Á nokkurn veginn sama tíma komu híeróglýfurnar fram í Forn-Egyptalandi. Bæði þessi letur þróuðust smám saman í að verða blanda af myndletri og hljóðtáknum. World Charter for Prostitutes' Rights. World Charter for Prostitutes' Rights er yfirlýsing um réttindi samþykkt árið 1985 til að vernda réttindi vændiskvenna um allan heim. Flúðaskóli. Flúðaskóli er grunnskóli að Flúðum í Hrunamannahreppi. Þar er kennsla frá 1. upp í 10. bekk. Skólastjóri Flúðaskóla er Guðrún Pétursdóttir og aðstoðarskólastjóri er Jóhanna Lilja Arnardóttir. Tengt efni. Flúðaskóli Íþróttafélag stúdenta. Íþróttafélag stúdenta, skammstafað ÍS, er íslenskt íþróttafélag sem stofnað var af stúdentum við Háskóla Íslands, 21. janúar árið 1928. Félagið hefur í gegnum tíðina látið til sín taka í ýmsum íþróttagreinum, svo sem körfuknattleik og blaki. Saga. Eftir að félagið var stofnað hóf það almennar leikfimisæfingar og glímuæfingar fyrir nemendur við Háskóla Íslands. Fyrsti formaður félagsins var Þorgrímur V. Sigurðsson. Kraftur var í starfinu fyrstu misserin og sendi félagið til dæmis glímumenn til sýninga á alþjóðlegu íþróttamóti stúdenta í Þýskalandi árið 1929. Á fjórða áratugnum stóð félagið fyrir reglulegum knattspyrnukappleikjum við nemendur Menntaskólans í Reykjavík og árið 1940 tók ÍS þátt í fyrsta Íslandsmótinu í handknattleik. Á þessum árum var nafn félagsins þó nokkuð á reiki og það oft kallað Íþróttafélag Háskólans eða álíka nöfnum. Um 1940 virtist framtíð félagsins björt. Alexander Jóhannesson Háskólarektor var mikill áhugamaður um að auka vægi íþrótta innan skólans, að fyrirmynd. Rætt var um að gera íþróttir að skyldunámsgrein og að skólinn myndi hlúa að afreksíþróttamönnum líkt og tíðkaðist í bandarískum háskólum. Unnar voru teikningar að íþróttahúsi fyrir skólann sem hefði orðið það langstærsta á landinu, auk sundlaugar. Að lokum varð þó úr að reisa mun minna íþróttahús á skólalóðinni og íþróttir komust aldrei á námsskránna. ÍS var um árabil í hópi öflugari körfuknattleiksliða landsins í karla- og kvennaflokki og varð liðið til að mynda Íslandsmeistari karla veturinn 1958-59 og bikarmeistari 1977-78. Félagið státar jafnframt af fjölda meistaratitla í blaki. Á seinni árum hefur dregið úr starfseminni og sendir ÍS ekki lengur kapplið til keppni í meistaraflokki á Íslandsmótum. Tilvísanir. ÍS ÍS ÍS No Logo. "No Logo: Taking Aim at the Brand Bullies" er bók eftir kanadíska rithöfundin og aðgerðarsinnan Naomi Klein sem kom út árið 1999, skömmu eftir að mótmælin gegn fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem haldin var í Seattle í Bandaríkjunum, höfðu náð heimsathygli fjölmiðla. Hún hefur haft mikil áhrif á þá sem mótmælt hafa alþjóðavæðingunni og varð alþjóðleg metsölubók. Í bókinni lýsir höfundurinn því hvernig áhrif henni finnst auglýsingar og vörumerki hafa á líf og líðan fólks. Bókin skiptist í fjóra hluta, „No Space“, „No Choice“, „No Jobs“ og „No Logo“. Í fyrstu þremur hlutunum beinir hún sjónum sínum að neikvæðum áhrifum af áherslu stórfyrirtækja á merkjavöru en í þeim fjórða lýsir hún hinum ýmsu aðferðum sem fólk hefur notað til að verjast þeim áhrifum. Ytrahvarf. Ytrahvarf er bær í Svarfaðardal. Hann er austan Svarfaðardalsár nálægt dalamótum Svarfaðardals og Skíðadals og um 10 km frá Dalvík. Ofan bæjarins er Hvarfsfjall og nokkru innan hans er Hvarfið, stórt berghlaup sem fallið hefur úr Hvarfsfjalli. Berghlaupshólarnir loka mynni Skíðadals. Bærinn Syðrahvarf er sunnan hólanna. Ytrahvarf er, og hefur lengi þótt, góð bújörð með stór og flatlend tún og bithaga í fjalli. Bæjarins er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en á 16. öld en líklega hefur hann byggst snemma á öldum. Í lok 19. aldar var Jóhann Jónsson (1836-1901) bóndi á Hvarfi og Solveig Jónsdóttir kona hans. Jóhann var einn helsti forsvarsmaður Svarfdælinga á sínum tíma, oddviti, hreppstjóri og sýslunefndarmaður. Hann var einn af stofnendum Búnaðarfélags og Sparisjóðs Svarfdæla og kom víða við í menningarmálum sveitarinnar. Hvarfsfólkið hefur lengi verið þekkt fyrir tónlistargáfur og landsþekkt hljómlistafólk er þaðan runnið. Heimildir. Jóhann Ólafsson er organisti en ekki fyrverandi eins og sagt er og óskast leiðrétt. Skráð af Jóhann Ólafsson ytra-Hvarfi. Beinar aðgerðir. a> og fylgjendur í Saltgöngunni 12 mars, 1930. Saltgangan er dæmi um beina aðgerð án ofbeldis. Bein aðgerð (e. "direct action") er það nefnt þegar hópur fólks grípur til aðgerða til að varpa ljósi á samfélagsleg vandamál, vekja athygli á málstað eða sýna fram á mögulega lausn þeirra. Það geta verið aðgerðir án ofbeldis, eða sjaldnast ofbeldis, sem beinast að einstaklingum, hópum, fyrirtækjum, stofnunum eða yfirvöldum sem viðkomandi mislíkar við hegðun eða athafnir. Dæmi um beinar aðgerðir eru verkföll, hertaka vinnustaða eða skóla, setuverkföll, skattamótmæli, veggjakrot, skemmdarverk, tölvuárásir, eignarspjöll, hindranir aðgangs eða aðrar samfélagslegar aðferðir. Á hinnbóginn eru stjórnmála- og aðrar kosningar, samningaviðræður og gerðardómar ekki skilgreind sem beinar aðgerðir þar sem það eru viðurkenndar pólitískar og samfélagslegar aðferðir. Aðferðir án ofbeldis eru stundum í formi borgaralegrar óhlýðni og geta falið í sér hverskonar vísvitandi lögbrot þar sem fólk setja sig í aðstæður sem kalla á handtöku í því skyni að koma pólitískum boðskap á framfæri, meðan hinsvegar eru löglega boðuð verkföll aðferð til mótmæla sem ekki má handtaka fólk fyrir. Almennt eru beinar aðgerðir notaðar af þeim sem vilja samfélagslegar breytingar og sérstaklega hafa beinar aðgerðir án ofbeldis í gegnum tíðina verið hluti af aðferðum samtaka sem barist hafa fyrir samfélagslegum umbótum. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar eða KF var stofnað við samruna "Knattspyrnufélags Siglufjarðar" og "Knattspyrnufélagsins Leifturs" frá Ólafsfirði. Samruni liðanna átti sér stað árið 2010 með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Saga eldri félagsins nær aftur til ársins 1932 hið minnsta en mönnum greinir á um hvort KS hafi verið stofnað árið 1932 eða 1928. Jónas Þorbjarnarson. Jónas Þorbjarnarson (f. 1960, d. 2012) var fæddur á Akureyri og ólst þar upp. Hann lauk 6. stigs prófi í klassískum gítarleik frá Nýja Tónlistarskólanum 1982, BS-prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1985, og lærði heimspeki við H.Í. 1988 – 1990. Hann starfaði sem landvörður, blaðamaður, þjónn og sjúkraþjálfari. Jónas hlaut starfslauna rithöfunda 1989 og fékkst að mestu við ritstörf eftir það. Hann vann fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni sem Morgunblaðið hélt í tilefni af afmæli sínu árið 1988; hann vann einnig fyrstu verðlaun í samkeppni um þjóðhátíðarljóð í tilefni ársins 2000. Ljóð eftir hann hafa verið þýdd á ensku og kínversku og eru væntanleg á frönsku. Tímaritið Jazz. Forsíða fimmta tölublaðs tímaritsins Jazz, árið 1947. Rex Stewart prýðir forsíðuna en hann var væntanlegur til Íslands með hljómsveit sinni í október 1947. " Tímaritið Jazz " var tónlistartímarit, gefið út af hljóðfæraversluninni Drangey árið 1947. Tage Ammendrup var eigandi hljóðfæraverslunarinnar og ritstjóri tímaritsins. Sama ár stofnaði Tage fyrirtækið Íslenzka tóna sem varð umsvifamikið á sviði útgáfu dægurtónlistar á árunum 1952-1964. Alls voru gefin út 7 tölublöð, það fyrsta kom út í mars 1947 og það síðasta í nóvember sama ár. Tímaritið Jazz var fyrsta tímarit á Íslandi sem sérhæfði sig í djass-tónlist. Tage skrifaði sjálfur megnið af efni blaðsins og Svavar Gests lagði fram efni í nær öll tölublöðin. Jazzklúbbur stofnaður í tengslum við tímaritið Jazz. Í tengslum við útgáfu tímaritsins Jazz, stofnaði Drangey „Jazzklúbbinn”, sem hafði það að markmiði að kynna djasstónlist og flytja inn erlendar djasshljómsveitir í því skyni. Búið var að semja við hljómsveit Joe Daniels um tónleika hér á landi í apríl árið 1947, en af því varð ekki vegna veikinda. Þá var samið við hljómsveit Rex Stewart um að koma til landsins á vegum klúbbsins í október 1947. Búið var að selja inn á nokkra hljómleika í Gamla bíói, þegar samþykkt var á Alþingi að banna komu hljómsveitarinnar. Þetta bann varð að pólitísku deilumáli og harðorðar greinar birtust í dagblöðum næstu mánuði. Bannið hindraði frekari áform djassklúbbsins um innflutning á erlendum hljómsveitum. Útgáfan leggst af. Árið 1948 hætti Tage Ammendrup útgáfu tímaritsins Jazz og hóf útgáfu alhliða tímarits um tónlist sem nefndist Musica og var gefið út allt til ársins 1950. Tenglar. Hér má lesa blöðin í heild sinni: * Frúarkirkjan í Antwerpen. Frúarkirkjan í Antwerpen er með tvo misháa turna Frúarkirkjan í Antwerpen (hollenska: Onze-Lieve-Vrouwekathedraal) er höfuð- og dómkirkja borgarinnar Antwerpen í Belgíu. Kirkjan er hæsta kirkjubygging Benelux-landa og er á heimsminjaskrá UNESCO. Saga kirkjunnar. Byrjað var að reisa Frúarkirkjuna 1352 í gotneskum stíl og var hún að mestu tilbúin 1521. Var þá suðurturninn ókláraður (65 m hár), en norðurturninn 123 metra hár. Var kirkjan þá orðin hæsta kirkjubygging Niðurlanda. 1533 skemmdist kirkjan talsvert í eldi og fóru viðgerðir þegar fram. Hins vegar var öllum framkvæmdum við suðurturninn hætt og er hann því aðeins stubbur enn þann dag í dag. Þetta gefur kirkjunni sérkennnilegt útlit. 1559 var biskupsdæmi stofnað í Antwerpen og varð Frúarkirkjan þá að dómkirkju. En aðeins sjö árum síðar hófust siðaskiptin í borginni. Ruddust þá kalvínistar inn í kirkjuna og skemmdu altöru, listaverk og annað sem minnti á kaþólska trú. 1581 átti sér stað sams konar atburður. Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd 1794, rændu þeir dýrgripum úr kirkjunni og skemmdu hana talsvert. Napoleon ætlaði að láta rífa hana, en ekkert varð úr því. Þess í stað notuðu Frakkar hana á tímabili sem hlöðu. 1816, ári eftir orrustuna við Waterloo, var listaverkum kirkjunnar skilað frá París. Hér er aðallega um málverk eftir Peter Paul Rubens að ræða. Miklar viðgerðir fóru fram í kirkjunni 1965-1993. Árið 1999 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO. Listaverk. Fyrri málverkin tvö eru altaristöflur í þremur pörtum. Þau lét Napoleon fjarlægja úr kirkjunni og flytja til Parísar. Þeim var skilað til kirkjunnar 1816. "Himnaför Maríu mey" er einnig altaristafla en aðeins í einum parti. Málverkið er hluti af háaltarinu og leyfði Napoleon því að vera kyrrt. Klukkur. Orgelið er með 5.770 hljóðpípur Í norðurturninum, hærri turninum, eru tvö klukknakerfi. Fyrra kerfið samanstendur af 47 klukkum sem vega alls tæp 28 tonn. Síðara kerfið samanstendur af átta klukkum og eru þær miklu þyngri, enda aðalklukkur kirkjunnar. Sú stærsta heitur Carolus og vegur ein og sér 6,4 tonn. Fyrir tíma rafvæðingarinnar tók það 16 manna átak að sveifla Carolus-klukkunni til hringinga. Sökum plássleysis í turninum er ekki hægt að hringja tveimur stærstu klukkunum samtímis. Orgel. Orgel Frúarkirkjunnar var smíðað á 19. öld og er með 5.770 hljóðpípur. Ísland í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992. Ísland sendi "Heart 2 Heart" í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1992 í Malmö, Svíþjóð með lagið "Nei eða já" eftir sigur í Söngvakeppni sjónvarpsins. Þjóðskjalavörður. Þjóðskjalavörður er embættismaður og er forstöðumaður Þjóðskjalasafns Íslands. Embættið var stofnað með lögum um Þjóðskjalasafn Íslands árið 1915 og leysti af hólmi embætti landsskjalavarðar, en það embætti var stofnað árið 1899. Héraðsskjalavörður. Héraðsskjalavörður er forstöðumaður héraðsskjalasafns. Hann er ráðinn skv. 56. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og ber skyldur skv. 57. grein laganna, en er auk þess sérstaklega bundinn lögum nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og reglugerð nr. 283/1994 um héraðsskjalasöfn í störfum sínum. Mechelen. Mechelen (franska: Malines) er borg í Belgíu og er staðsett í héraðinu Antwerpen. Borgin er með 81 þúsund íbúa og skartar gömlum, sögulegum miðborgarkjarna. Íbúarnir eru hollenskumælandi. Nokkrar byggingar borgarinnar eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. Mechelen liggur við ána Dijle norðarlega í Belgíu en syðst í héraðinu Antwerpen. Næstu stærri borgir eru Brussel til suðurs (20 km), Antwerpen til norðurs (20 km) og Gent til vesturs (60 km). Miðborgin afmarkast við ána Dijle og er nánast hringlaga. Við Dijle er ágætis höfn, þaðan sem flutningaskip geta siglt norður til Antwerpen og þaðan til sjávar. Orðsifjar. Mechelen er dregið af orðinu "mahal", sem vísar til dómsstaðar eða dómshúss. Elsta heiti borgarinnar er skráð Maalinas á skjali frá 870, síðar Maslinas, Maclines, Machele og loks Mechelen (á 15. öld). Á frönsku heitir borgin enn Malinas. Gælunafn borgarinnar er Dijlestad, þar sem árin Dijle rennur í gegnum hana. Íbúarnir eru ýmist kallaðir Mechelaars eða Maneblussers. Þjóðsaga. Til er þjóðsaga um tilurð þess að íbúar Mechelen eru kallaðir Maneblussers. Kvöld eitt á 17. öld lýsti tunglið á einkennilegan hátt í gegnum turn Rumboltskirkjunnar. Íbúi nokkur, sem fengið hafði sér svolítið neðan í því, taldi að kviknað væri í og gerði viðvart. Íbúar voru vaktir og sendir til að ná í vatn. Eftir drykklanga stund stóðu tugir íbúar í röðum og létu vatnsföturnar ganga mann fram af manni. Það var ekki fyrr en þá sem uppgötvaðist að enginn var eldurinn. Í æsingnum höfðu menn nefnilega ekki haft rænu á því að kanna málið betur. Eftir þetta voru íbúar Mechelen kallaðir Maneblussers og hefur heitið haldist fram á þennan dag. Heitið merkir "mánaslökkvarar". Upphaf. Saga Mechelen hófst er germanir settust að á svæðinu við fall Rómaveldis. Íbúarnir voru kristnaðir af breska munkinum Rumbold, sem varð að verndardýrðlingi borgarinnar. Bærinn tilheyrði greifadæminu Brabant og veitti Jóhann II greifi honum borgarréttindi 1303. Með þeim réttindum fylgdu markaðs- og verslunarréttindi. Fyrir vikið lenti borgin í mikilli samkeppni við Antwerpen og eimar enn eftir af þessum ríg í dag. 1342 átti sér stað mikill borgarbruni í Mechelen. 1383 eignaðist Búrgund borgina og hófst þá mikil blómatíð í borginni, sem varaði fram að miðri 16. öld. 3. janúar 1474 stofnaði Karl hinn djarfi hæstarétt í borginni sem gilti fyrst fyrir Búrgúnd en síðan fyrir spænsku Habsborgarlöndin (Niðurlönd). Fyrra fall Mechelen. Spánverjar rupla og eyða Mechelen Karl V keisari setti Margréti frá Austurríki sem landstjóri Habsborgar á Niðurlöndum. Hún ákvað að setjast að í Mechelen, sem þar með varð að höfuðborg Niðurlanda, auk þess að vera með hæstarétt eða æðsta dómstig landanna. 1546 átti sér stað stórslys er púðurgeymsla í borginni sprakk í loft upp. Rúmlega 200 manns létu lífið og 600 slösuðust. Á miðri 16. öld hlutu Spánverjar Niðurlönd öll að erfðum. Þegar uppreisn hollensku héraðanna hófst sendu Spánverjar heri til landanna og var barist um ýmsar borgir, bæði í norðurhéruðunum og í suðurhéruðunum. 1572 réðist spænski landstjórinn, hertoginn af Alba, á Mechelen, en borgin hafði opnað hlið sín fyrir Vilhjálm af Óraníu, leiðtoga uppreisnarinnar. Spánverjar réðust inn í borgina með slíkri heift að nær allir borgarbúar voru drepnir á næstu þremur dögum. Þeir rændu öllu steini léttar, nauðguðu, drápu og brenndu borgina í lokin. Eftir á sendi hertoginn af Alba tilkynningu til Filippusar II Spánarkonungs að "‚enginn nagli væri eftir í múrunum.‘" Morðin í Mechelen reyndust vera grimmilegustu atburðir frelsisstríðs Niðurlanda. Síðara fall Mechelen. Enskur her ræðst inn í Mechelen Eftir þetta var borgin endurreist. Íbúarnir voru enn kaþólskir og héldu tryggð við spænska konunginn. 1580 dró til tíðinda á ný, aðeins átta árum eftir að hún var lögð í rúst. Borgarstjóri Brussel, sem var kalvínisti, safnaði her sem samanstóð mestmegnis af Englendingum og hóf umsátur um Mechelen. Borgarbúar voru varnarlausir og gáfust upp. Englendingar hófu nú að ræna og rupla en drápu þó aðeins 60 íbúa. Eftir það var Mechelen undir stjórn Kalvinista, sem voru hliðhollir Hollendingum, næstu fimm árin. Í síðustu viðleitni sinni til að ná stjórn á borgum uppreisnarmanna réðist spænskur her undir stjórn Alexander Farnese, á Mechelen 1585 og hertók hana. Hún var ein síðasta borgin sem féll fyrir Spánverjum í sjálfstæðisstríði Hollendinga og varð því ekki hluti af Hollandi. Frakkar. Mechelen kom lítið við sögu næstu tvær aldir. Hæstiréttur borgarinnar gilti ekki lengur fyrir landið allt eins og áður, heldur aðeins fyrir héraðið í kring, því búið var stofna nýjan rétt í Brussel. 1794 var Mechelen innlimuð Frakklandi. Frakkar breyttu ýmsu í borginni og þjóðfélaginu. Biskupsdæmið var lagt niður, sem og hæstirétturinn sem starfað hafði í rúm 300 ár. Napoleon meinaði íbúunum að tala hollensku og tók franska því við sem tungumál borgarinnar, að minnsta kosti opinberlega. 1803 sótti Napoleon sjálfur borgina heim. Frakkar hurfu á ný 1814, eftir fyrra fall Napoleons. Nýrri tímar. Iðnbyltingin hófst snemma í Mechelen. 1835 var elsta járnbrautarlína meginlands Evrópu tekin í notkun, en lestirnar keyrðu 20 km vegalengd milli Mechelen og Brussel (elsta járnbrautin var í Englandi). Það voru enda enskir tæknifræðingar sem aðstoðuðu við verkið. Mechelen varð að nokkurs konar miðpunkti fyrir járnbrautarkerfið í Belgíu. 25. ágúst 1914 skutu Þjóðverjar á borgina er þeir réðust inn í Belgíu í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri. Við það eyðilögðust margar gamlar byggingar í miðborginni. Þær voru að mestu leyti endurbyggðar eftir stríðslok 1918. Í síðari heimstyrjöldinni var Mechelen aftur hertekin af Þjóðverjum, að þessu sinni bardagalaust. Nasistar ákváðu að nýta sér hið góða járnbrautarkerfi í Mechelen fyrir gyðinga. Því reistu þeir fangabúðir við borgina, þar sem 28 þús gyðingum frá Belgíu var safnað saman. Þeir voru síðan settir í lestir og fluttir til Auschwitz. Eitt sinn náðu þrír andspyrnumenn vopnaðir einni skammbyssu að stöðva eina lestina. Meðan hún var stopp náðu 233 gyðingar að stökkva út og komast undan. 1944 frelsuðu Bandaríkjamenn borgina eftir mikla bardaga við Þjóðverja. Um 200 manns týndu lífi og margar gamlar byggingar eyðilögðust. Mechelen er enn í dag ein mesta iðnaðarborg Belgíu. Viðburðir. Stytta af Maríu mey borin um götur Mechelen í Hanswijkprocessie Ommegang er skrúðganga í tengslum við nokkra atburði frá 15. öld og 16. öld. Fyrst og fremst er verið að halda uppá komu Maximilians keisara til Mechelen (föður Margrétar af Austurríki), en einnig uppá komu Karls V keisara til borgarinnar. Í skrúðgöngunni eru risastórar brúður keyrðar um göturnar á vögnum. Í göngunni er happabrúða borgarinnar, Opsinjoorke, dregin á teppi eftir götunum. Skrúðganga þessi er eingöngu haldin á 25 ára fresti og er á UNESCO-lista yfir munnlegar og óáþreifanlegar erfðir mannkyns. Hanswijkprocessie er helgiganga með helgimynd af Maríu mey um götur Mechelen. 1272 reið svarti dauði yfir í borginni en borgarbúar læknuðust á undursamlegan hátt að sögn með aðstoð Maríu meyjar. Síðan þá hefur þessi helgiganga farið fram árlega á sunnudegi fyrir uppstigningardag. Fyrir göngunni stendur erkibiskupinn frá Mechelen-Brussel. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar eru tvö: KV Mechelen og Racing Mechelen. KV Mechelen er eitt elsta knattspyrnufélag Belgíu, stofnað 1904. Það hefur fjórum sinnum orðið belgískur meistari (síðast 1989), einu sinni bikarmeistari (1987) og vann Evrópukeppni bikarhafa 1988 (sigraði þá Ajax Amsterdam). Racing Mechelen leikur hins vegar í neðri deildum. Besti árangur félagsins er annað sæti í 1. deild árið 1952. Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs. Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fór fram 20. október 2012 eftir langt ferli endurskoðunarvinnu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Sex spurningar voru lagðar fram fyrir kjósendur. Í Garðabæ og Álftanesi var einnig kosið samhliða um sameiningu sveitarfélaganna. Lier (Belgía). Lier (franska: Lierre) er borg í Belgíu og er með 34 þúsund íbúa. Íbúar eru hollenskumælandi. Í borginni eru nokkrar byggingar á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. Lier liggur við ána Nete í héraðinu Antwerpen, nyrst í Belgíu. Næstu stærri borgir eru Antwerpen til norðvesturs (10 km), Mechelen til suðurs (10 km) og Turnhout til norðausturs (35 km). Brussel liggur 40 km til suðurs. Hollensku landamærin liggja tæp 30 km til norðurs. Hægt er að sigla frá Lier um Nete og Dijle til Antwerpen en einnig um Albert-skipaskurðinn um nánast allt landið. Söguágrip. Filippus Spánarkonungur og Jóhanna af Kastilíu (í hásætinu) voru gefin saman í Lier Viðburðir. Gummarushelgigangan er mikil skrúðganga í Lier til heiðurs heilögum Gummarusi, stofnanda og verndardýrðlingi borgarinnar. Gangan fer fram fyrsta sunnudag eftir 10. október árlega. Í göngunni er helgiskrín með líkamsleifum heilags Gummarusar keyrt um götur miðborgarinnar en skrínið vegur heil 800 kg. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Lierse SK, sem fjórum sinnum hefur orðið belgískur meistari (síðast 1997) og tvisvar bikarmeistari (1969 og 1999). Síðan 2011 leikur Árni Gauti Arason með félaginu. Austur-Flæmingjaland. Austur-Flæmingjaland (hollenska: "Oost-Vlaanderen") er hérað í Belgíu, það næstfjölmennasta í landinu á eftir Antwerpen. Íbúar eru 1,4 milljónir talsins og eru hollenskumælandi. Höfuðborgin er Gent. Lega og lýsing. Austur-Flæmingjaland er tæplega 3000 km2 að stærð og liggur norðvestarlega í Belgíu. Norðurmörkin liggja að Hollandi (Sjáland), sunnan við fjörðinn Oosterschelde. Auk þess liggur Austur-Flæmingjaland að fjórum öðrum héruðum í Belgíu: Vestur-Flæmingjaland fyrir vestan, Hainaut fyrir sunnan, Flæmska Brabant fyrir austan og Antwerpen fyrir norðaustan. Austur-Flæmingjaland er mjög láglent. Þar er stundaður mikill landbúnaður. Árnar Schelde, Leie, Dender og Molenbeek renna í gegnum héraðið og mynda mikilvægar siglingaleiðir. Orðsifjar. Flæmingjaland (einnig Flandur) heitir eftir germönskum þjóðflokki sem kallaðist Vlamingen á hollensku, eða flæmingjar. Flæmingjaland í heild er allur hollenskumælandi hluti Belgíu en Austur- og Vestur-Flæmingjaland eru tvö vestustu hollenskumælandi héruðin í landinu. Söguágrip. Schelde er mikilvæg samgönguæð í Austur-Flæmingjalandi Í gegnum aldirnar var héraðið hluti af greifadæminu Flandri (Graafschap Vlaanderen). Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd 1794 leystu þeir greifadæmið upp og mynduðu sýslurnar Schelde (úr austurhlutanum) og Leie (úr vesturhlutanum). Þær voru aftur leystar upp þegar Frakkar hurfu úr landi 1814. Greifadæmið var hins vegar ekki myndað á ný, heldur voru flæmsku hlutarnir áfram aðskildir. Þegar Niðurlönd urðu konungsríki ári síðar náði austurhluti Flæmingjalands alla leið til fjarðarins Oosterschelde. En þegar Belgía klauf sig frá 1830, klofnaði héraðið. Suðurhlutinn varð að núverandi Austur-Flæmingjalandi en norðurhlutinn að hollenska héraðinu Sjálandi. Á miðri 19. öld var Austur-Flæmingjaland fjölmennasta hérað Belgíu en Antwerpen er þó fjölmennari í dag. Flikrudepla. Flikrudepla (fræðiheiti: "Coccinella undecimpunctata"), einnig nefnd ellefudeppla, en oftast kölluð maríuhæna á Íslandi, er bjalla af ætt maríubjalla. Útbreiðsla. Hún finnst um alla Evrópu, Austurlöndum nær og í Norður-Afríku einnig hefur hún verið flutt inn til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Á Íslandi finnst hún um land allt þar sem hún kemst í blaðlýs. Útlit. Flikrudepla er svört á lit með hvít framhorn og tvo hvíta depla á höfði. Skjaldvængirnir eru rauðir með svörtum deplum. Venjuleg flikrudepla í Evrópu hefur ellefu depla, fimm á hvorum væng og einn fremst fyrir miðju á skilum vængjanna. Það afbrigði berst stundum til Íslands með varningi. Íslenska afbrigði flikrudeplur er með mun stærri depla og hafa þeir fjórir öftustu runnið saman í tvo stóra depla og finnst þetta afbrigði einnig í Norður-Noregi og er því talið líklegt að hún hafi komið til landsins með Norskum landnemum. Þekkt er að skordýrategundir sem flytja sig norður á bóginn séu dekkri en sömu tegunda sunnar og er það talið stafa að því að með dekkra yfirborði nái þau að fanga betur hita sólarljóssins. Lirfan flikrudeplunar er ljós í grunninn. Með skýrt afmarkað höfuð og eru þrír stórir frambolsliðir með löngum fótum og saman mynda þeir um helmingur af lengd hennar. Hún er síðan með níu afturbolsliði sem eru þó styttri og mjókka aftur. Þvert yfir hvern lið búksins hefur lirfan dökka hnúða með mörgum bursthárum. Almennt. Flikrudepla lifir á blaðlúsum af öllum tegundum, bæði fullorðnar bjöllur og lirfur, og lifir hún því alsstaðar þar sem blaðlýs er að finna. Talið er að fullorðnar bjöllur leggist í vetrardvala en mest er hún á ferli frá miðjum maí fram í miðjan september. Lirfur finnast helst í júlí og ágúst. Borgarastríðið í El Salvador. Borgararstríðið í El Salvador (9. maí 1979 – 16. janúar 1992) var borgarastríð á milli ríkisstjórnar El Salvador, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna studdi við bakið á bæði með fjárhagsaðstoð og hernaðarlega allt frá upphafi stríðsins, og svo hins vegar FMLN (Farabundo Martí National Liberation Front), sem voru vinstrisinnuð skæruliðasamtök. FMLN urðu til þegar fimm vinstrisinnaðir skæruliðahópar Fuerzas Populares de Liberación Farabundo Martí (FPL), Ejército Revolucionario del Pueblo (ERP), Resistencia Nacional (RN), Partido Comunista Salvadoreño (PCS), Partido Revolucionario de los Trabajadores Centroamericanos (PRTC) sameinuðust. Kveikjan að uppreisn þeirra var að ríkisstjórn hersins (Junta Revolucionaria de Gobierno) stóð ekki við loforð sitt um að bæta lífsskilyrði í landinu. Ofbeldi og spenna á milli vinstri og hægrimanna var allt frá 1970, áður er borgarastríðið byrjaði opinberlega. Árið 1980 byrjaði ríkisstjórnin að losa sig við menn sem hana grunaði um að vera hlynntir félagslegum og efnahagslegum umbótum. Í flestum tilfellum voru þetta sjálfstæðir bændur eða embættismenn hjá háskólum. FMLN fóru frá því að nota litlar skammbyssur yfir í betri og hættulegri vopn eins og handsprengjur og sprengjuvörpur, aðgerðir þeirra urðu líka úthugsaðri og betur skipulagðar eftir því sem leið á stríðið. Þeir vildu valda sem mestum skaða á efnahagskerfi landsins og þar með valda ríkisstjórninni vandræðum. Þetta gerðu þeir með því að sprengja brýr, klippa á rafmagnslínur og eyðileggja kaffi uppskeruna, en kaffi var lang mikilvægasta útflutnings vara El Salvador. FMLN rændi líka og drap stundum embættismenn ríkisins. Um 75.000 dóu í stríðinu en af þeim voru flestir óbreyttir borgarar. Á meðan stríðið stóð yfir fordæmdu fréttamenn í Bandríkjunum það og börðust fyrir því að ríkisstjórn Bandaríkjanna hætti að aðstoða ríkisstjórnina í Salvador. Hvort sem það var rétt eða rangt að veita El Salvador aðstoð þá hefði stríðið án efa ekki staðið yfir í næstum þrettán ár án íhlutunar Bandaríkjanna. Stríðið í El Salvador en næst lengsta borgarastríðið í rómönsku Ameríku á eftir borgarastríðinu í Gvatemala. José Napoleón Duarte Fuentes. José Napoleón Duarte Fuentes (23 nóvember, 1925 - 23 febrúar 1990) var stjórnmálamaður í El Salvador. Árið 1980 til 1982 leiddi José flokkinn Revolutionary Government Junta sem tók völd í landinu árið 1979. Einnig var José borgarlegur forseti í El Salvador frá 1 júní 1984 til 1 júní 1989. Roberto D'Aubuisson Arrieta. Roberto D'Aubuisson Arrieta (23 ágúst 1944 – 20 Febrúar 1992) var ofursti í her El Salvador og pólitískur leiðtogi sem stofnaði flokkinn Nationalist Republican Alliance (Arena), en hann stýrði honum frá 1980 til 1985. Roberto var þekkur sem „chele“ og var talinn stjórna hægrisinnaðri dauðasveit sem pyntaði og drap þúsundir borgara, bæði fyrir og í borgarastríðinu í El Salvador. 25 mars 1984 bauð Roberto sig fram sem forseta El Salvador. 2 maí árið 1984 tapaði hann kosningunum gegn José og flokki hans Kristilegum demókrötum. Roberto fékk 46,4% atkvæða en José 53,6% atkvæða. Roberto vildi meina að brögð hafi verið í tafli og Bandaríkin hefðu breytt útkomu kosninganna til þess að José, maðurinn sem þeir studdu, myndi verða forseti. Roberto þjáðist af háls krabbameini frá því apríl 1991. Roberto fór þá nokkrar ferðir til Bandaríkjanna til að gangast undir læknismeðferð, það fór þó ekki eins og til var ætlast og dó hann ári seinna 47 ára að aldri. FMLN. Farabundi Martí National Liberation Front (FMLN) er síðan 1992, vinstrisinnaður pólitískur flokkur í El Salvador sem áður var 5 skæruliðahópar. FMLN var stofnað 10 október, 1980 af vinstrisinnuðum skæruliðahópum sem vildu byltina ríkistjórnin í El Salvador. Skæruliðahóparnir voru Fuerzas Populares de Liberación Farabundo Martí, Ejército Revolucionario del Pueblo, Resistencia Nacional, Partido Comunista Salvadoreño og Partido Revolucionario de los Trabajadores Centroamericanos. FMLN börðust við ríkistjórn El Salvadors í borgarstríðinu. Eftir að friðarsamningurinn á milli FMLN og ríkistjórn El Salvadors voru undirritaðir urðu FMLN að pólitískum flokki og var her samtakanna lagður niður. FMLN er núna einn af tveimur stærstu flokkunum í El Salvador. Sonatorrek. Sonatorrek er ljóð eftir Egil Skalla-Grímsson og er eitt merkasta ljóð víkingaaldar. Ljóðið er 25 erindi og ort undir kviðuhætti og lýsir þar Egill mikilli sorg sinni og reiði í garð Óðins fyrir að hafa tekið tvo syni sína. Er líður á ljóðið dregur Egill smámsaman úr ásökunum sínum og að lokum þakkar hann Óðni fyrir skáldskaparhæfileikana sem honum höfðu hlotnast. Tvö önnur löng ljóð eru mjög þekkt eftir Egil en það eru ljóðin "Höfuðlausn" sem hann orti til að biðja Eirík Noregskonung um að gefa sér líf og ljóðið "Arinbjarnarkviða" og sem er um samnefndan vin Egils. Það orti hann þegar hann frétti að Arinbjörn væri farinn aftur til Noregs vegna þess að fóstursonur hans var búinn að taka við konungdæmi þar. Tilurð ljóðsins. Samkvæmt Egils sögu var tilurð ljóðsins sú að sonur hans Böðvar Egilsson lést í sjóslysi í Borgarfirði. Skömmu áður hafði sonur hanns Gunnar einnig dáið. Lagðist hann þá í þunglyndi og ætlaði hann að svelta sig til bana. Var þá Þorgerður dóttir hans sótt og með klókindum gat hún fengið Egil til að hætta í sveltinu og yrkja frekar kvæði. Aðferð Þorgerðar var sú að hún þóttist ætla að fylgja honum í dauðann og lagðist hjá honum. Bráðlega fór hún svo að tyggja söl og gaf föður sínum þá skýringu að hún gerði það til flýta fyrir dauðanum. Sölin vöktu upp þorsta hjá Agli og var honum færð mjólk og þar með var úti um áform hans. Í staðinn fékk Þorgerður hann til að yrkja erfiljóð eftir synina og það ljóð varð Sonatorrek. Á þessarri frásög og kvæðinu sjálfu byggði myndhöggvarinn Ásmundur Sveinsson samnefnt myndverk sitt. Orrustan um Alamo. Orrustan um Alamo átti sér stað þann 23. febrúar árið 1836 og lauk 6. mars sama ár. Orrustan var einn mikilvægasti atburður í í sjálfstæðisbaráttu Texas gegn yfirráðum Mexíkóa og er goðsagnarkenndur atburður í sögu Bandaríkjanna. Til þess að stöðva uppreisn Texasbúa gerðu Mexíkóar árás á Alamo og var barist stanslaust í þrettán daga. Mexíkóskir hermenn undir stjórn Antonio Lopez de Santa Anna byrjuðu árásina nálægt San Antonio De Béxar. Allir nema tveir hermenn og verndarar Texas létu lífið í átökunum. Þó nokkrum mánuðum á undan þessum atburðum höfðu Texasbúar rekið í burt alla mexíkóska hermennfrá mexíkóska hluta Texas. Þetta leiddi til þess að Her Texas stækkaði ótt og títt með tilkomu liðsauka James Bowie og William B. Travis hershöfðingja í Alamo. Þann 23. febrúar réðust um það bil 1500 mexíkóskir hermenn inn San Antonio de Béxar í von um að taka yfir Texas fylki á ný. Næstu tólf dagana lentu Mexíkóar og Texasbúar í þó nokkrum átökum, skærum og deilum án þess að mikið um mannfall væri að ræða. Enda gerði her Texas sér grein fyrir að möguleikar hans voru ekki miklir gegn hinum fjölmenna her Mexíkó. Travis skrifar mörg bréf í von um meiri vistirg fleiri sjálfboðaliða sem gætu mögulega gengið til liðs við þeirra her gegn Mexikó en aðeins 100 menn buðu sig fram. Mexikóar hófu árás á sjálft Alamo virkið snemma morguns þann 6. mars. Eftir tvær heiftarlegar árásir voru Texasbúar fámennir og illa búnir og gátu því lítið sem ekkert varist í þriðju árás Mexíkóa. Allir nema tveir hermenn Texasbúa létu lífið í átökunum.
 Alamovirkið sem er nú inni í borginni San Antonio er nú einn mest sótti ferðamannastaður í Bandaríkjunum. Átökin leiddu til þess að flestir innflytjendur í Texas og Bandaríkjamenn í ævintýraleit gengu til liðs við her Texas. Texasbúar hefndu sín að lokum á Mexikó. Þann 21. apríl árið 1836 sigruðu þeir Mexíkóa í orrustunni við San Jacinto. Þá réðust Texasbúa á tjaldsvæði Santa Anna sem var nálægt Lynchburg Ferry. Texasbúar komu mexíkóska hernum í opna skjöldu og orrustan um San Jacinto var því í raun búin eftir 18 mínútur. Á meðan á bardaganum stóð hrópuðu hermenn Texasbúa ítrekað „Remember Alamo!“ (Munið eftir Alamo!). Santa Anna var handtekinn eftir orrustuna og varð að afsala Texas til íbúa Texas til að fá frelsi á ný. Texas lýsti í kjölfarið yfir sjálfstæði og var sjálfstætt ríka þar til það gekk í ríkjasamband við Bandaríkin árið 1845. Snemma á 20. öld keypti þing Texas það sem eftir stóð af Alamo virkinu og eru þær nú einn vinsælasti ferðamannastaður í öllum Bandaríkjunum. Alamo virkið stendur nú inni í borginni San Antonio. Árjúratímabilið. Árjúratímabilið er fyrsti hluti júratímabilsins og hefst við trías-júrafjöldaútdauðann fyrir 199,6 milljónum ára og lýkur við upphaf miðjúratímabilsins fyrir 175,6 milljónum ára. Vegna fjöldaútdauðans gátu nýjar dýrategundir eins og risaeðlur þróast og orðið ríkjandi. Á árjúratímabilinu urðu til fjöldi nýrra tegunda ammoníta sem áður voru nær útdauðir, og fjöldi nýrra tegunda sæeðla og landeðla kom fram á sjónarsviðið. Á þessum tíma hófst fyrsti hluti uppbrots risameginlandsins Pangeu. Frumbyggjar í Ameríku. Frumbyggjar Ameríku skiptast í mikinn fjölda kynþátta og ættflokka, sem er haldið aðgreindum frá inúítum og alautum. Kristófer Kólumbus sigldi þá til Ameríku og sér frumbyggja í fyrsta sinn. Hann segir drottningu og konungi frá því að hann hafi séð frumbyggja og talar vel um þá og var sannfærður um að geta kennt villimönnunum í Ameríku þeirra hætti. Næstu fjórar aldir frá 1492 – 1890 höfðu milljónir Evrópubúar tekið að sér lifnaðarhætti og venjum nýja heimsins. Eftir að Kólumbus hafði dvalið um stund hjá nokkrum þjóðflokkum rændi hann höfðingjum og flutti þá með sér til Spánar til að sýna konungi og drottningu. Það tímabil sem skipti mestu sköpum fyrir frumbyggja í Ameríku var frá árinu 1860 – 1890, á þessu árum er stærsti hlutri skráðra heimilda og athugana. Þetta tímabil einkenndist af græðgi, ofbeldi og dirfsku og gerði næstum útaf við hina fornu menningu ameríska frumbyggjans. Flestar þær heimildir sem til eru um menningu þeirra eru í skáldsögum, bókum og bíómyndum. Brátt byrjuðu Evrópumennirnir að ræna og drepa villimennina sem Spánakonungur vildi láta skíra. Varnir indjána voru litlar gegn byssum og sverðum Spánverja og heilum ættbálkum, sem samanlagt voru um hundrað þúsundir manna var útrýmt á tæpum áratug frá því að Kólumbus steig fæti á strönd San Salvadors þann 12. október 1492. Með komu hvíta mannsins fluttu þeir ekki bara sjálfan sig búfé heldur komu þeir einnig með mikið af sjúkdómum eins og til dæmis barnasjúkdóma og mislinga og voru þeir ekki lengi að gera vart við sig og þurrkuðu þeir út heilu ættbálkana. Einnig komu fram nýir sjúkdómar sem hvíti maðurinn hafði ekki séð áður en voru það einkum kynsjúkdómar eins og til dæmis lekandi og sárasótt. Lars Pettersson. Lars Pettersson, (f. 19. mars 1925, d. 8. maí 1971) var sænskur Íshokkíleikmaður í hjá liðinu AIK IF. Hann spilaði á tvem heimsmeistaramótum í íshokkí, 1949 (silfur) og 1951 (fjórða sæti), og vetrarólympíuleikunum 1952 í Osló þar sem hann vann bronsverðlaunin í liðakeppni og skoraði sex mörk. Vínarfundurinn. Vínarfundurinn (þýska: "Wiener Kongress") var ráðstefna sendiherra evrópskra ríkja sem var stýrt af austurríska stjórnmálamanninum Klemens Wenzel von Metternich í Vínarborg frá september 1814 til júní 1815. Markmið ráðstefnunnar var að leysa þau vandamál sem franska byltingin, Napóleonsstyrjaldirnar og fall hins Heilaga rómverska ríkisins höfðu valdið í Evrópu og koma í veg fyrir fleiri stríð innan álfunnar. Á Vínarfundinum komu saman helstu stjórnmálaskörungar álfunnar og var aðalverkefnið að draga upp nýtt landakort af Evrópu og ráðstafa þeim ríkjum sem lent höfðu undir Napóleoni og leppstjórnum hans. Aðdragandi. Í byrjun 19. aldar höfðu herir Frakka farið sigurför um Evrópu undir stjórn Napóleons Bónaparte. Hann hafði verið æðsti maður hersins árið 1796 og var orðinn hæstráðandi í Frakklandi aðeins þremur árum síðar. Þegar veldi Napóleons var í hámarki árið 1812 náði það, ásamt ríkjum bandamanna þess og leppríkjum, yfir mestan hluta meginlands Evrópu. Þann 31. mars 1814 riðu Alexander I Rússakeisari og Friðrik Vilhjálmur III Prússakóngur inn í París og var Napóleon neyddir til að segja af sér og sendur í útlegð til eyjarinnar Elbu. Var þá ákveðið að stórveldin Rússland, Prússland, Bretland og Austurríki skyldu setjast að samningaborðinu til að semja um friðarskilmála fyrir Frakka. Nokkrar sáttagerðir höfðu átt sér stað áður en að Vínarfundurinn var boðaður, þar á meðal Kílarfriðurinn sem sá um mál í Skandinavíu og fyrri Parísarfriðurinn sem var undirritaður 30. maí 1814 á milli Frakklands og sjötta sambandshersins. Fulltrúarnir í París gerðu einnig frumdrög að nýrri ríkjaskipan Evrópu, en sammæltust um að hittast á nýjan leik í Vínarborg þá um haustið til að ganga endanlega frá því máli. Samningsaðilar. Á fundinum komu saman flestir helstu stjórnmálaskörungar álfunnar, enda var fulltrúum allra Evrópuríkja boðin þátttaka. Var það mál manna að líklega hefðu aldrei verið jafnmargir tignarmenn saman komnir á einum stað. Þangað streymdu jafnt aðalsmenn sem óbreytt alþýðufólk, og betlarar, þjófar og njósnarar söfnuðust þar saman í hundraða tali. Fáir fulltrúar fengu að koma að umræðunum og ákvörðunum af því að það var enginn allsherjarfundur. Stórveldin fjögur og sigurvegarar Napóleonsstyrjaldanna (Austurríki, Prússland, Rússland og Bretland) ætluðu ein að taka alvarlegu ákvarðanirnar, en Frakkland undir forystu Charles Maurice de Talleyrands náði að safna saman fulltrúum Spánar, Svíþjóðar og Portúgals og krefjast aðild að umræðunum. Stórveldin fjögur og Frakkland Búrbóna. Stórveldin fjögur höfðu áður verið kjarni sjötta sambandshersins. Um það leyti er Napóleon þurfti að játa sig sigraðan höfðu þessi ríki samið um fyrri Parísarfriðinn við Búrbóna. Fundurinn. Hugsjónir frönsku byltingarinnar höfðu borist víða um Evrópu með herjum Frakklands og í anda þeirra vildu margir að nú yrði komið á stjórnarumbótum, myndaðar þingbundnar konungsstjórnir eða jafnvel stofnuð lýðveldi. Því fór þó fjarri að allsráðendur á Vínarfundinum hefðu eitthvað slíkt í huga. Þeir höfðu að leiðarljósi hugtökin lögmæti og stöðugleiki. Með lögmæti áttu þeir við, að ríkin yrðu aftur fengin í hendur fyrri þjóðhöfðingjum eða réttmætum erfingjum þeirra. Með stöðugleika var átt við, að valdajafnvægi skyldi ríkja í álfunni, með sérstakri áherslu á að halda aftur af Frökkum. Þótt Vínarfundurinn kæmi ekki formlega saman, hittust menn tíðum, bæði í hinum ýmsu nefndum og auðvitað í veislum og á dansleikjum. Þar reyndu þeir að tryggja sér stuðning hvers annars við tilkall til umdeildra landsvæða, selja stuðning sinn fyrir stuðning við sig. Ótal sambönd og bandalög voru mynduð, sem síðan gátu hæglega riðlast á næsta dansleik. Pólland og Saxland. Framtíð Póllands og Saxlands var miðpunktur umræðuefna fundarinns frá október 1814 til janúars 1815. Alexander I keisari var staðráðinn að innlima Pólland inn í Rússaveldi. Keisarinn bauð Prússlandi Saxland í skaðabætur fyrir tap á pólsku svæði. Austurríkismenn óttuðust að ef Pólland færi til Rússa þá yrðu vesturlandamæri Rússlands yrðu komin mun nær Vínarborg og myndu sameiginleg landamæri Austurríkis og Prússlands meira en tvöfaldast að lengd. Bretar mótmæltu einnig tilkall Rússlands til Póllands. Undir árslok 1814 voru ófriðarblikur farnar að sjást á lofti og margir óttuðust að deilurnar um Pólland og Saxland myndu enda með styrjöld. Það varð ekki til að slá á þann ótta þegar prússneski kanslarinn Hardenberg lýsti því yfir á gamlársdag, að ef Prússum yrði neitað um Saxland myndi það jafngilda stríðsyfirlýsingu. Bretar og Austurríkismenn sáu þann kost vænstan að stofna til leynilegs bandalags með Frökkum um að standa saman ef til ófriðar kæmi. Samningar tókust þó um að Rússar fengju megnið af Póllandi, en Austurríki og Prússland fengu þar einnig landsvæði. Var hinn rússneski hluti Póllands síðan gerður að sérstöku konungsríki undir stjórn Alexanders I. Borgin Kraká varð frjáls borg undir vernd Rússa, Prússa og Austurríkismanna. Eftir að þessir samningar voru í höfn höfðu Rússar lítinn áhuga á að styðja Prússa í deilunni um Saxland. Varð það úr að Friðrik Vilhjálmur sættist á að fá um helming þess lands. „Cordon Sanitaire”. Ákvarðanir gagnvart Niðurlöndum, Sviss, þýsku ríkjanna og Ítalíu voru teknar af stórveldunum til þess að hafa hemil á og einangra Frakkland með því að stofna nokkur örríki á milli þeirra sem voru öll undir áhrifum stórveldanna. Í Frakklandi voru þessar aðgerðir kallaðar „cordon sanitaire” eða varðbeltið. Sam Houston. Samuel „Sam“ Houston (2. mars 1793 – 26. júlí 1863) var bandarískur stjórnmálamaður og hermaður á nítjándu öld. Hann er þekktastur fyrir að eiga mikilvægan þátt í að innleiða Texas í sameinuð bandaríki Norður Ameríku. Hann var af skosk-írskum ættum og fæddist í Timber Ridge í Shenandoahdal í Virginíu. Houston var lykilpersóna í sögu Texas-ríkis og var fyrstur manna til að vera kosinn forseti lýðvelsis Texas. Einnig var hann kosinn þingmaður fyrir hönd Texas eftir að ríkið sameinaðist Bandaríkjunum og svo að lokum varð hann ríkisstjóri Texas. Hann neitaði að sverja hollustueið til handa sambandsríkjanna þegar Texas sleit sig frá Sambandinu árið 1861 þegar borgarastríðið braust út í Bandaríkjunum og var sviptur embætti. Til að forðast blóðsúthellingar hafnaði hann tilboði eins sambandsherjanna um að bæla niður bandarísku uppreisnina og dró sig í hlé til Huntsville í Texas þar sem hann lést áður en borgarastríðinu lauk. Houston er eini maðurinn í sögu Bandaríkjanna sem hefur gegnt stöðu ríkisstjóra tveggja ríkja (þó höfðu einhverjir menn gegnt stöðu ríkisstjóra fleiri ríkja utan Bandaríkjanna). Árið 1827 var Houston kosinn ríkisstjóri Tennessee sem íbúi Jackson. Á fyrri hluta ævi sinnar hafði Samuel flutt búferlum frá Virginíu til Tennessee og búið með Cherokee frumbyggjum sem meðtóku hann síðar sem einn þeirra sjálfum og kvæntist hann konu úr hópnum. Hann gegndi herþjónustu í stríðinu árið 1812 á móti Bretunum og naut velgengni í stjórnmálum Tennessee. Árið 1829 sagði hann af sér og flutti til Arkansas. Árið 1832 átti Houston í deilum við bandarískan þingmann og leiddi það af sér mjög umtöluð réttarhöld. Stuttu seinna flutti hann til Coahuila y Tejas, sem þá var mexikókst ríki, og varð leiðtogi uppreisnarinnar í Texas. Sam Houston studdi viðbætur við sameinuð ríki Norður Ameríku. Borgin Houston er nefnd eftir honum. Orðspor Houstons var viðamikið og voru honum til heiðurs nefnda eftir honum fjórða stærsta borg Bandaríkjanna, minjasafn, Bandarísk herstöð, þjóðgarður, háskóli og áberandi stytta við veginn inn í Huntsville. Houston, Sam Grundartangi. Grundartangi er tangi við norðanverðan Hvalfjörð. 1979 var reist járnblendiverksmiðja á tanganum og einnig er þar rekið álver. Höfn er á grundartanga sem byggð var samtímis verksmiðjunum, er hún í eigu nágrannasveitarfélaganna. Apía. Apía er höfuðborg og stærsta borg Samóaeyja á miðri norðurströnd eyjarinnar Upolu. Apía er eina eiginlega borgin á Samóaeyjum. Hún er í héraðinu Tuamasaga. Íbúar eru tæplega 40 þúsund. Borgin er hafnarborg og helsta útflutningshöfn eyjanna. Þaðan ganga ferjur til Tókelá og Bandarísku Samóa. Mbabane. Mbabane er höfuðborg og stærsta borg Svasílands. Íbúar eru tæp 100 þúsund. Borgin er í héraðinu Hhohho í Mdimba-fjöllum í norðvesturhluta landsins. Meðalhæð borgarinnar yfir sjávarmáli er 1243 metrar. Aðgerðastefna. Aðgerðastefna er kölluð hver sú viðleitni sem viðhöfð er til að stuðla að félagslegum, pólitískum, efnahagslegum eða umhverfislegum breytingum. Það getur verið allt frá því að skrifa greinar í blöð, undirskriftasöfnun, taka þátt í pólitískum herferðum, efnahagslegum baráttum eins og að sniðganga viðskipti við ákveðin fyrirtæki eða lönd, mótmælafundum, mótmælagöngum, verkföllum, setuverkföllum, borgaralegri óhlýðni eða hungurverkfalls. Sumir aðgerðasinnar reyna að sannfæra fólk um að breyta hegðun sinni beint, fremur en að sannfæra stjórnvöld um að breyta, eða ekki að breyta, lögum samfélagsins. Ýmsar samvinnuhreyfingar til dæmis leitast við að byggja upp nýjar stofnanir sem samræmast samvinnuhugsjóninni innan óbreytts samfélags, frekar en eða mótmæla pólitískt og prestar hvetja oft söfnuði sína til að fylgja tiltekinni siðferðisstefnu í viðleitni til að stuðla að breytingum. Eins og með hverjar aðrar mannlegar aðgerðir getur hugtakið átt við hvern þann sem aðeins tekur þátt í stutta stund eða einu sinni, til þeirra sem helga líf sitt ákveðinni baráttu eða lífsstíl. Þannig er ekki eðlismunur á því hvort til dæmis virkjunarframkvæmdum er mótmælt með því að hlekkja sig við vinnuvélar eða mótmælenda sem neita að yfirgefa lítinn grasblett í hverfinu sínu svo bletturinn verði ekki grafinn upp og malbikaður, þar sem sambærilegum aðferðum er beitt, en það er stigsmunur þótt oft sé óljóst hvar hann er. Það eru því ekki allar aðgerðir aðgerðarstefnunnar verk aðgerðasinna. Ástríkur skylmingakappi. Ástríkur skylmingakappi (franska: "Astérix gladiateur") er belgísk teiknimyndasaga og fjórða bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1964, en birtist áður sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote frá mars 1962 til janúar 1963. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1976. Söguþráður. Sagan hefst á því að "Hnýsíus Glápíkus", landstjóri Rómverja í Gallíu, ákveður að færa Júlíusi Sesari að gjöf einn íbúa Gaulverjabæjar. Í því skyni lætur hann ræna þorpsskáldinu "Óðríki algaulu". Ástríkur og Steinríkur halda til Rómar til að leysa hann úr prísundinni. Sesar ákveður að varpa skáldinu fyrir ljónin í hringleikahúsinu. Félagarnir gerast því skylmingaþrælar við skylmingaskóla "Feitíusar Bollíbusar" til að frelsa Óðrík. Þeir hleypa sýningunni í hringleikahúsinu í loft upp, en áhorfendur kunna vel að meta. Sesar gefur skylmingaþrælunum frelsi og Bollíbus fær makleg málagjöld þar sem hann er látinn róa félögunum heim í galeiðu einn síns liðs. Íslensk útgáfa. Ástríkur skylmingakappi var gefinn út af Fjölvaútgáfunni árið 1976 í íslenskri þýðingu Þorbjarnar Magnússonar. Veronica Lake. Veronica Lake (fædd Constance Frances Marie Ockelman 14. nóvember 1922, dáin 7. júlí 1973) var bandarísk leikkona. Leiklistarferill hennar hófst í leikhúsi en síðar varð hún fræg fyrir kvikmyndaleik. Árið 1939 lék hún í fyrsta skipti í kvikmynd, sem heitir "Sorority House". Í þessari mynd var hún aðeins í litlu aukahlutverki. Hún lést árið 1973 af völdum áfengisdrykkju. Stefnumarkandi leikir. Stefnumarkandi leikur í leikjafræði er athöfnin þegar einn leikmaður gerir eitthvað utan skilgreindum athöfnum leiksins til þess að öðlast yfirburði og auka hagnað sinn. Helstu einkenni stefnumarkandi leikja fela í sér skuldbindingu af hálfu leikmannsins, það er að leikmaðurinn getur aðeins takmarkað sínar eigin ákvarðanir og sú ákvörðun sem hann tekur þarf að vera trúverðug þannig að þegar hún er tekin í notkun er nauðsynlegt að hún sé í hag leikmannsins til þess að hann fylgi henni eftir.¹ Uppruni. Hugtakið var mótað af Thomas Schelling í bók hans frá árinu 1960, "The Strategy of Conflict", og hefur öðlast mikinn stuðning innan stjórnmálafræða. Stefnumarkandi leikir breyta stefnu leiksins þannig að hann er í hag leikmannsins. Stefnumarkandi leikir geta annaðhvort verið skilyrðislausir leikir (e. unconditional moves) eða viðbragðsreglur (e. response rules). Viðbragðsreglur eru reglur með skilyrðum sem segja til um ákvörðun/leik þinn sem viðbragð við ákvörðun/leik hins leikmannsins. Síðan má skipta viðbragðsreglum niður í hótanir og loforð. Hótunum og loforðum er síðan hægt að skipta ennþá frekar niður og geta þau ýmist verið "fyrirbyggjandi" (e. "deterrent") eða "neyðandi" (e. compellent).² Hótun og loforð. Ef einhver aðili vill ekki vinna með þér þannig að það sé þér í hag þá getur þú gripið til viðbragðsreglunnar "hótunar" og fengið hann til þess að gera það sem þú vilt með reglunni. Neyðandi hótanir snúast um það að reyna að fá hinn aðilann til þess að gera eitthvað sem hann myndi líklegast annars ekki gera, til dæmis bankaræningjar sem ráðast inn í banka og hóta því að ef þeir fá ekki alla peninga bankans þá munu þeir meiða starfsmennina. Starfsmennirnir myndu venjulega ekki gefa hverjum sem er alla peninga bankans en með viðbragðsreglunni breytist hegðun þeirra. Fyrirbyggjandi hótanir virka þá akkúrat öfugt og snúast um að reyna að koma í veg fyrir að hinn aðilinn geri eitthvað sem er ekki þér í hag. Segjum að bankinn færi á hausinn í þessu tilfelli ef ræningjarnir færu með alla peningana þannig að það er starfsmanninum augljóslega ekki í hag sem gæti þar að leiðandi misst starfið. Þá gæti starfsmaðurinn gripið til þeirrar viðbragðsreglu að hóta ræningjunum að hann muni hringja á lögregluna ef þeir fara ekki strax út tómhentir. Starfsmaðurinn er því að fyrirbyggja að ræningjarnir ræni peningunum sem væri ekki í hans hag (að sjálfsögðu væri ekki sniðugt af honum að gera það í ljósi fyrri hótunar en við látum þá sem að það skipti starfsmanninn engu að þessu sinni). Einnig er hægt að lofa einhverjum að þú munir gera eitthvað ef hinn aðilinn velur kostinn sem er þér í hag en þá er viðbragðsreglan loforð en ekki hótun. "Neyðandi loforð" eru þá þegar þú ert að reyna að fá einhvern til þess að velja þann kost sem er þér í hag og lofar honum einhverju í staðinn ef hann gerir það. "Fyrirbyggjandi loforð" taka þá akkúrat hinn pólinn þannig að þú lofar að gera eitthvað til þess að koma í veg fyrir að hinn aðilinn geri eitthvað sem er ekki þér í hag. Ef leikmaðurinn ákveður að fylgja eftir því sem þú ert að biðja hann að gera er ávallt hvati fyrir þig til þess að svíkja loforðið, enda ertu búin að fá það sem að þú vildir upprunalega.² Viðvörun og sannfæring. Viðbragðsreglurnar skuldbinda leikmennina til þess að "velja þann kost sem þeir hefðu aldrei valið ef hótanir og loforð væru ekki með í spilinu". En, einnig er hægt að lýsa því yfir hvað gæti gerst ef hinn aðilinn tekur ekki þá stefnu sem er þér í hag; slíkar yfirlýsingar má þýða sem viðvaranir (e. "warnings") og sannfæringar (e. "assurances").Viðvaranir og sannfæringar eru þá einungis til upplýsingar og því ekki viðbragðsreglur eða stefnumarkandi leikir á meðan hótanir og loforð eru svo sannarlega stefnumarkandi leikir.² Jeanne Tripplehorn. Jeanne Tripplehorn (fædd Jeanne Marie Tripplehorn 10. júní 1963) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Big Love, The Firm, Basic Instinct og Criminal Minds. Einkalíf. Tripplehorn fæddist í Tulsa, Oklahoma. Stundaði hún nám við "Háskólann í Tulsa" áður en stundaði nám við dramadeildina við Julliard skólann í New York-borg frá 1986-1990. Jeanne hefur verið gift leikaranum Leland Orser síðan 2000 og saman eiga þau eitt barn. Leikhús. Tripplehorn hefur komið fram í leikritum á borð "The Three Sisters", "The Big Funk" og "Tis Pity She´s a Whore". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Tripplehorn var árið 1991 í sjónvarpsmyndinni "The Perfect Tribute". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð "The Ben Stiller Show", Frasier, New Girl og Blue. Á árunum 2006-2011 lék Tripplehorn í þættinum Big Love þar sem hún lék persónuna Barb Henrickson. CBS tilkynnti í júní 2012 að leikkonan myndi leika Alex Blake, nýjasta meðlim hópsins í Criminal Minds. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Tripplehorn var árið 1992 í Basic Instinct þar sem hún lék Dr. Beth Garner. Lék hún síðan á móti Tom Cruise í The Firm árið 1993. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Waterworld, Snitch, Mickey Blue Eyes, Timecode, Swept Away, The Trap og Crazy on the Outside. Tenglar. Tripplehorn, Jeanne Jonathan Winters. Jonathan Harshman Winters III (fæddur 11. november 1925; latinn 11. april 2013) var bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Papa Smurf í "The Smurfs". Tenglar. Winters, Jonathan Jack Angel. Jack Angel (fæddur 1930) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Chunk í "Toy Story". Tenglar. Angel, Jack George Lopez. George Lopez (fæddur 1961) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Lopez, George Ken Page. Kenneth „Ken“ Page (fæddur 1954) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Page, Ken Don Rickles. Donald „Don“ Rickles (fæddur 1926) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Rickles, Don Estelle Harris. Estelle Nussbaum (fædd 1928) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Harris, Estelle Jim Hanks. James Matthew „Jim“ Hanks (fæddur 1961) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Hanks, Jim Earl Boen. Earl Boen (fæddur 1945) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Boen, Earl Ned Beatty. Nedward Thomas „Ned“ Beatty (fæddur 1937) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Beatty, Ned Joan Cusack. Joan Mary Cusack (fædd 1962) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Cusack, Joan Craig T. Nelson. Craig Richard Nelson (fæddur 1944) er bandarískur leikari. Tenglar. Nelson, Craig T. Holly Hunter. Holly Hunter (fædd 1958) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Hunter, Holly Spencer Fox. Spencer Fox (fæddur 1993) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Fox, Spencer Sarah Vowell. Sarah Jane Vowell (fædd 1969) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Vowell, Sarah Bud Luckey. William „Bud“ Luckey (fæddur 1934) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Luckey, Bud Elizabeth Peña. Elizabeth Peña (fædd 1961) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Peña, Elizabeth André Sogliuzzo. André José Sogliuzzo (fæddur 1966) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Sogliuzzo, André Jason Lee. Jason Michael Lee (fæddur 1970) er bandarískur leikari og gamanleikari. Tenglar. Lee, Jason Al Roker. Albert Lincoln „Al“ Roker, Jr. (fæddur 1954) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Roker, Al Maurice LaMarche. Maurice LaMarche (fæddur 1958) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. LaMarche, Maurice Concerned Women for America (félag). Concerned Women for America, skammstafað CWA, er íhaldssamt kristið félag í Bandaríkjunum, best þekkt fyrir andstöðu sína gegn fóstureyðingum og samkynhneigð. Félagið var stofnað í San Diego, Kaliforníu árið 1979 af Beverly LaHaye. Það gefur ekki uppi meðlimafjölda en mat aðila utan félagsins er að hann telji eitthvað á bilinu 250.000 og 750.000 meðlimi, eftir því hvernig þátttaka er skilgreind. Frá og með 2006, var dreifingu ókeypis fréttabréfs þeirra, "Family Voice", áætlað að vera um 200.000 eintök. Félagið skilgreinir sig sem kvennasamtök þótt þrír af hverjum fimm er gegna stjórnunarstöðu innan félagsins séu karlmenn. Sem þrýstihópur eyðir það talsverðu fé til að vinna sýnum málstað brautargengis og sem dæmi varði félagið 206.924 milljónum dollara í hagsmunagæslu árið 2011 samkvæmt "Center for Responsive Politics" Sagan. Upphaflega var félagið stofnað sem andsvar við tillögu um viðbót við Bandarísku stjórnarskránna, tillögu þess efnis að konur og karlar skyldu vera jöfn að lögum. Að mati félagsins gekk þessi tillaga gegn því sem það nefnir "kristnum fjölskyldugildum". Stjórnarskrárákvæðið var samþykkt af þinginu en naut ekki stuðnings nógu margra ríkja til að það kæmist í stjórnarskrána. CWA sneri sér þá að öðrum baráttumálum eins og baráttu gegn fóstureyðingum og samkynhneigðum. Félagið hvetur meðlimi sína til að skrifa bréf til þingmanna varðandi lög og reglugerðir sem það telur að vegi að því sem þau nefna "kristnum fjölskyldugildum". Félagið hefur verið ötult í að mæta á ráðstefnur, sérstaklega er varða konur og börn til þess að reyna að hafa þau áhrif að skjöl sem frá slíkum ráðstefnum koma hafi það sem félagið kallar "kristileg gildi að leiðarljósi". Einnig í þeim tilgangi að aftra því að stefna femínista nái fram að ganga. Menntun. Félagið styður uppbyggingu í menntun og trúir að það sé best gert með því að foreldrarnir fái að ráða meiru um menntun barna sinna sérstaklega til þess að koma að kennslu á "sköpunarkenningunni" í skólum. Félagið er þó á móti ýmsum kensluháttum, sem dæmi að nota Harry Potter ævintýrabækurnar sem kennslubækur þar sem að það telur bækurnar hvetja til galdra meðal barna. Einnig er félagið á móti kynfræðslu annarri en þeirri sem hvetur til að stunda ekki kynlíf fram að giftingu. Fjölskyldan. Félagið trúir því að hjónaband sé á milli tveggja einstaklinga af gagnstæðu kyni og að þannig hafi guð skapað hjónaband. Á þeim grundvelli berst félagið gegn giftingum samkynhneigðra. Annað sem að félagið hefur unnið að í baráttunni gegn samkynhneigð er til dæmis að styðja Skátahreyfinguna í Bandaríkjunum í banni sínu á samkynhneigðum meðlimum. Fóstureyðingar. Félagið er á móti fóstureyðingum á grundvelli þess að það að fjölga mannkyninu sé tilskipun guðs og sé ekki ógn við samfélagið. Eina skiptið sem að félagið telur að fóstureyðing sé réttmæt sé ef að líf móðurinnar sé að veði. Ef að þungun er tilkomin vegna nauðgunar finnst félaginu að fóstureyðing sé ekki réttlætanleg, því að það ætti ekki að refsa fóstrinu fyrir glæp sem faðir þeirra framdi. Félagið barðist til dæmis gegn frumvarpi að lögum um valfrelsi, sem segir til um að það sé val konunnar hvort hún fari í fóstureyðingu eða ekki. Klámvæðing. CWA vinnur með samtökunum "Morality in Media" við að vekja athygli á skaðsemi klámvæðingar. Félögin vinna að herferð sem þau kalla "White Ribbons Against Pornography" sem hvetur fólk til þess að bera hvíta slaufu til þess að vekja athygli á baráttu gegn klámvæðingu. Þátttaka í stjórnmálum. Staða félagsins innan stjórnmála er á hægri vængnum. Hægt er að flokka félagið undir öfga-íhaldstefnu (e. "Extreme Conservatism"), þótt sumir vilji setja það undir hatt félagslegrar íhaldsstefnu (e. "Social Conservatism") þar sem baráttumál þeirra eru af félagslegum toga. Félagar CWF halda fast í boðorð Biblíunnar sem og ákvæði bandarísku stjórnarskárinnar. Forsetakosningarnar 2012. Félagið studdi Mitt Romney í forsetakosningunum 2012. Í ágúst það ár hafði félagið eytt 6 milljónum dollara í sjónvarpsauglýsingar í þeim sex ríkjum þar sem yfirleitt ríkir óvissa um hvernig fara muni í hverjum kosningum fyrir sig. Félagið einblíndi sérstaklega á heitustu baráttumálin, félagslegu og efnahagslegu málin. Þó stóð einna helst upp úr að Obama væri samþykkur hjónabandi samkynhneigðra, á meðan Mitt Romney væri á móti fóstureyðingum. Rauðhæringur. Rauðhæringur (fræðiheiti: "Inocybe dulcamara") er meðalstór hattsveppur af ættkvísl hærusveppa. Hatturinn er hnýfður, gulur eða gulgrár að lit og 1-4 cm í þvermál. Fanirnar eru alstafa og stafurinn einfaldur, samlitur hattinum. Gróprentið er tóbaksbrúnt. Þessi sveppur er talinn eitraður líkt og flestir sveppir sömu ættkvíslar. Arsinóe 2.. Arsinóe 2. (gríska: "Ἀρσινόη"; 316 f.Kr. – óþekkt dagsetning frá júlí 270 til 260 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var elsta dóttir Ptólemajosar 1. og eiginkonu hans Bereníku 1. Fimmtán ára giftist hún bandamanni föður síns, Lýsimakkosi 1., sem þá var konungur yfir Þrakíu og síðar Makedóníu og stórum hluta Litlu-Asíu. Arsinóe átti með honum þrjá syni; Ptólemajos 1. Epigónos, Lýsimakkos yngri og Filippos. Hún stóð fyrir því að elsti sonur Lýsimakkosar og Níkaiu, Agaþókles, var kærður fyrir drottinsvik og myrtur í fangelsi af hálfbróður hennar, Ptólemajosi Kerános, árið 284 f.Kr. Eftir fall Lýsimakkosar í orrustunni við Kórupedíon flúði hún til Kassandreiu og giftist Ptólemajosi Kerános. Saman gerðu þau tilkall til konungdæmis í Makedóníu og Þrakíu. Í fjarveru Ptólemajosar gerði hún samsæri gegn honum ásamt sonum sínum. Vegna þessa lét Kerános drepa tvo eldri syni hennar en Filippos flúði norður til Dardaníu. Arsinóe fékk hæli hjá bróður sínum, Ptólemajosi 2., í Alexandríu. Í Egyptalandi stóð hún enn fyrir samsæri þar sem eiginkona Ptólemajosar, Arsinóe 1., var kærð fyrir drottinsvik og rekin í útlegð. Arsinóe giftist þá bróður sínum og ríkti með honum til dauðadags. Hún var áhrifamikil og deildi öllum titlum með Ptólemajosi. Eftir dauða hennar var nafn hennar áfram notað á opinber skjöl. Ptólemajos ýtti undir dýrkun hennar sem gyðju (sem gerði hann um leið að guði). Arsinóe 1.. Mynt með mynd Arsinóe 1. Arsinóe 1. (gríska: "Αρσινόη"; 305 f.Kr. – eftir 248 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Lýsimakkosar konungs Þrakíu, sem var einn af herforingjum Alexanders mikla, og Níkaiu konu hans. Hún átti tvö eldri systkini, bróðurinn Agaþókles og systurina Evridíke. Hún giftist bandamanni föður síns, Ptólemajosi 2. Fíladelfosi, sem var fjarskyldur henni, þegar þeir Lýsimakkos gerðu með sér bandalag gegn Selevkosi 1. Níkator. Þau áttu þrjú börn; Ptólemajos 3. Evregetes, Lýsimakkos af Egyptalandi og Bereníku yngri. Einhvern tíma milli 279 og 274 f.Kr. flúði Arsinóe 2. til bróður síns í Egyptalandi undan hálfbróður sínum Ptólemajosi Kerános og fékk hann brátt til að dæma Arsinóe 1. fyrir drottinsvik. Hún var þá rekin í útlegð til borgarinnar Koptos í Efra Egyptalandi. Hugsanlega tengist útlegð hennar útlegð Þeoxenu yngri sem Ptólemajos dæmdi útlæga um sama leyti. Ptólemajos giftist síðan Arsinóe 2. Arsinóe 1. lifði í 20 ár í útlegð. Hún hélt hirð og lifði við töluverðan munað. Fundist hefur steintafla í Koptos sem vísar til Arsinóe sem eigikonu konungsins án þess að nafn hennar komi fyrir í hylki eins og venja er með konungleg nöfn. Bereníke 2.. Bereníke 2. (267 eða 266 f.Kr. – 221 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Magasar af Kýrenæku og Apömu 2. Árið 249 f.Kr. giftist hún Demetríosi fagra sem tók við konungdómi af föður hennar, en hann gerðist ástmaður móður hennar svo hún lét myrða hann í svefnherbergi Apömu sama ár eða árið eftir. Þau áttu engin börn saman. 244 eða 243 f.Kr. giftist hún konungi Egyptalands, Ptólemajosi 3. Með honum átti hún sex börn; Arsinóe 3., Ptólemajos 4., Lýsimakkos (?), Alexander, Magas af Egyptalandi og Bereníku. Sagt er að hún hafi tekið þátt í Nemeuleikunum milli 245 og 241 f.Kr. og líka Ólympíuleikunum. Fljótlega eftir andlát eiginmanns hennar 221 f.Kr. var hún myrt að undirlagi sonar síns, Ptólemajosar 4. Dýrkun hennar var samt sem áður fyrirskipuð eftir lát hennar. Eftirmæli. Eftir giftingu hennar og Ptólemajosar var borgin Evesperídes í Kýrenæku flutt til og nefnd Bereníke í höfuðið á henni. Nafnið varð síðan Benghazi. Stjörnumerkið Bereníkuhaddur dregur nafn sitt af því að hún hét Afródítu hár sitt til að eiginmaður hennar kæmi heill heim úr herför til Sýrlands. Hún gaf hárið til hofs gyðjunnar í Zefýríon (nú Mersin). Þegar hárið hvarf síðar skýrði stjörnufræðingurinn Konón frá Samos það með því að hárið hefði verið numið til himna og sett meðal stjarnanna. Arsinóe 3.. Mynt með mynd Arsinóe 3. Arsinóe 3. Fílópator (gríska: Ἀρσινόη ἡ Φιλοπάτωρ; 246 eða 245 f.Kr. – 204 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Ptólemajosar 3. og Bereníku 2. Árið 220 f.Kr. giftist hún bróður sínum Ptólemajosi 4. sem var nýtekinn við konungdómi. Hún tók virkan þátt í stjórn ríkisins sem var annars í höndum hins valdamikla ráðherra konungs, Sósibíosar. Þannig tók hún þátt í orrustunni við Rafíu gegn Antíokkosi mikla. Hún átti soninn Ptólemajos 5. Eftir lát eiginmanns hennar 204 f.Kr. létu ráðherrarnir Sósibíos og Agaþókles myrða hana af ótta við að hún tæki völdin sem móðir konungs. Agaþókles gerðist ráðsmaður hins unga konungs og myrti síðan Sósibíos en við það gerðu íbúar Alexandríu uppreisn undir stjórn Tlepolemosar. Agaþókles var drepinn af vinum sínum til að forða honum frá verri dauðdaga, og systur hans voru tættar í sundur af æstum múgnum í hefndarskyni fyrir morðið á Arsinóe. Kleópatra 1.. Kleópatra 1. Syra eða Sýrlenska (gríska: "Κλεοπάτρα Σύρα"; um 204 f.Kr. – 176 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Antíokkosar mikla, konungs Selevkídaríkisins, og drottningar hans Laódíke 3. Hún giftist Ptólemajosi 5., konungi Egyptalands, í borginni Rafía (nú Rafha) árið 193 f.Kr. Hjónaband þeirra var hluti af friðarsamkomulagi milli Ptólemaja og Selevkída, að undirlagi Rómverja, eftir fimmta Sýrlandsstríðið milli ríkjanna. Þá var hann um sextán ára gamall og hún tíu ára. Kleópatra og Ptólemajos áttu minnst þrjú börn; Kleópötru 2., Ptólemajos 6. og Ptólemajos 8. Árið 187 f.Kr. var Kleópatra skipuð ráðherra konungs og þegar hann lést 180 f.Kr. tók hún við völdum fyrir hönd sonar síns Ptólemajosar 6. sem þá var sex ára. Hún var fyrsta drottning Ptólemaja sem ríkti ein yfir Egyptalandi. Á papýrusskjölum og peningum frá tímabilinu frá 179 til 176 f.Kr. er nafn hennar þannig ritað fyrir framan nafn sonar hennar. Kleópatra 2.. Kleópatra 2. (gríska: "Κλεοπάτρα"; um 185 – 116 f.Kr.) var drottning og um tíma einvaldur í Egyptalandi á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Ptólemajosar 5. og Kleópötru 1. Hún giftist bróður sínum, konunginum Ptólemajosi 6., 176 f.Kr. ári eftir andlát móður þeirra Kleópötru 1. sem stjórnaði ríkinu fyrir hönd sonar síns. Þau voru bæði á barnsaldri og stjórn ríkisins í höndum ráðherra. Árið 170 f.Kr. sögðu ráðherrarnir Eulaeus og Lenaeus Selevkídaríkinu stríð á hendur vegna Koíle-Sýrlands. Antíokkos 4. gerði þá innrás í Egyptaland og náði konunginum á sitt vald. Ptólemajos varð þá leppkonungur Antíokkosar. Þegar Antíokkos hvarf á braut kusu íbúar Alexandríu bróður hans, Ptólemajos 8. sem var kallaður „Fyskon“, fyrir konung, en í stað þess að berjast um völdin ákváðu bræðurnir að ríkja saman ásamt systur sinni. Árið 164 f.Kr. steypti Fyskon systkinum sínum af stóli um stutt skeið en árið eftir voru þau endurreist. Kleópatra og Ptólemajos 6. áttu fjögur börn; Ptólemajos Evpator, Kleópötru Þeu, Bereníku, Kleópötru 3. og Ptólemajos 7. (líklega). Þegar Ptólemajos 6. lést í herför árið 145 f.Kr. lýsti Kleópatra son þeirra konung en þá sneri Fyskon aftur og bauð henni að deila völdum og giftast. Kleópatra giftist því Fyskoni en í brúðkaupsveislunni lét hann myrða Ptólemajos, son hennar. Kleópatra og Fyskon eignuðust einn son; Ptólemajos Memfítes. Árið 139 f.Kr. tók Fyskon dóttur hennar, Kleópötru 3., sem eiginkonu. Árið 132 f.Kr. leiddi Kleópatra uppreisn íbúa Alexandríu gegn Fyskoni og Kleópötru 3. til að koma syni þeirra, Memfítes, til valda. Valdaránið tókst og Fyskon og Kleópatra 3. hröktust til Kýpur með börnum sínum. Fyskon náði samt Memfítes á sitt vald, lét drepa hann og höggva líkið í sundur og senda Kleópötru. Þetta leiddi til borgarastyrjaldar þar sem Egyptaland utan Alexandríu studdi Fyskon gegn Kleópötru. Árið 127 f.Kr. flúði hún því til Sýrlands til dóttur sinnar Kleópötru Þeu og tengdasonar Demetríosar 2. Alexandría stóð áfram gegn Fyskoni en árið eftir náði hann borginni á sitt vald. Lýst var yfir opinberri sátt milli Kleópötru og Fyskons árið 124 f.Kr. og hún sneri aftur til Egyptalands. Þau ríktu því saman til 116 f.Kr. þegar Fyskon lést og Kleópatra 3. tók við völdum fyrir hönd sonar síns. Skömmu síðar lést hún sjálf. Heinabergsvötn. Heinabergsvötn voru jökulfljót á Mýrum í Hornafirði. Komu þau undan Heinabergsjökli, ásamt ánni Kolgrímu, og féllu um aura til sjávar. Heinabergsvötn voru fyrr á tíðum mikið vatnsfall og oft komu í þau jökulhlaup þegar svonefndur Vatnsdalur fylltist af vatni. Gerðu þau þá mikinn usla á Mýrum og flæmdust um alla aurana. Árið 1947 var ákveðið að brúa vötnin og var 38 m löng stálgrindarbrú byggð sem lokið var við árið eftir. Haustið 1948, skömmu eftir vígslu brúarinnar, færðu vötnin sig yfir í farveg Kolgrímu og eftir það stendur brúin á þurru. Þjóðvegurinn liggur nú nokkuð fyrir sunnan brúna og aurar vatnanna hafa verið græddir upp. Criminal Minds (7. þáttaröð). Sjöunda þáttaröðin af "Criminal Minds" var frumsýnd 21. september 2011 og sýndir voru 24 þættir. Erving Goffman. Erving Goffman (11. júní 1922 – 19. nóvember 1982) var kanadískur félagsfræðingur og rithöfundur. Goffman er talinn vera „áhrifamesti, ameríski félagfræðingurinn á 20. öld“. Sem greinandi, sem fjallaði um huglægni, var stærsta framlag hans til félagsfræðinnar fræði hans um táknræn samskipti. Árið 1959 gaf hann út bókina "The Presentation of Self in Everyday Life". Árið 2007 var Goffman í 6. sæta á lista yfir þá höfunda sem mest var vitnað í í hugvísindum. Það er meira vitnað í rannsóknir Goffmans í dag heldur en gert var á hans tíma. Í dag nota rithöfundar hugmyndir hans við rannsóknir á samböndum milli hegðunar einstaklinga og þróunar á félagslegum kerfum. Heimildir. Goffman, Erving Goffman, Erving Kleópatra 3.. Kleópatra 3. Evergetis, Fílómetor Sótera eða Kokke (gríska: "Κλεοπάτρα"; 161 f.Kr. – 101 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Kleópatra var dóttir Ptólemajosar 6. og Kleópötru 2. sem var bæði systir hans og eiginkona. Alsystkini hennar voru meðal annarra Ptólemajos Evpator og Kleópatra Þea. Foreldrar hennar deildu völdum með bróður sínum, Ptólemajosi 8. Fyskon. Eftir að faðir hennar lést af sárum sem hann hlaut í orrustunni við Antíokkíu gegn Alexander Balas gerðist frændi hennar konungur og gekk að eiga móður hennar. Um árið 139 f.Kr. gekk hún að eiga frænda sinn, Ptólemajos 8. í óþökk móður sinnar sem leiddi uppreisn gegn þeim 132 f.Kr. Þau flúðu þá til Kýpur með börn sín; Ptólemajos 9., Trýfaínu, Ptólemajos 10., Kleópötru 4. og Kleópötru Selenu 1. Árið 127 f.Kr. náði Fyskon aftur völdum og 124 f.Kr. sættust þau Kleópatra 2. Við lát hans 116 f.Kr. erfði hún völdin. Hann bauð henni að kjósa sér sem meðstjórnanda hvern þann af sonum þeirra sem hún vildi. Hún vildi helst ríkja með yngri syninum, Ptólemajosi 10., en íbúar Alexandríu vildu heldur fá Ptólemajos 9. og hún samþykkti það treglega. Hann var þá giftur systur sinni, Kleópötru 4., en móðir hans hrakti hana burt og lét hann giftast Kleópötru Selenu í staðinn. Síðar hélt hún því fram að hann hefði reynt að drepa sig, svipti hann völdum árið 107 f.Kr. og gerði bróður hans að konungi. Árið 101 f.Kr. lét hann myrða móður sína og ríkti eftir það einn með eiginkonu sinni, Bereníku 3. Kleópatra 4.. Kleópatra 4. (gríska: "Κλεοπάτρα"; um 136 f.Kr. – 112 f.Kr.) var um stutt skeið drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins og síðar drottning Antíokkosar 9. í Sýrlandi. Kleópatra var dóttir Ptólemajosar 8. og Kleópötru 3. Hún var systir Ptólemajosar 9., Trýfaenu, Ptólemajosar 10. og Kleópötru Selenu. Hún giftist bróður sínum, Ptólemajosi 9., þegar hann var enn prins 119 eða 118 f.Kr. en þegar faðir þeirra lést 116 f.Kr. gerðist hann konungur og ríkti ásamt móður sinni. Hún gæti verið móðir Ptólemajosar 12. og Ptólemajosar af Kýpur, sona Ptólemajosar 9. Árið 115 f.Kr. neyddi móðir þeirra þau til að skilja og setti yngri systur hennar, Kleópötru Selenu, í hennar stað. Kleópatra 4. flúði til yngri bróður síns á Kýpur þar sem hún setti saman her. Hún hélt svo til Sýrlands giftist Antíokkosi 9. og lét hann fá herinn í heimanmund til að velta hálfbróður sínum Antíokkosi 8. úr sessi. Þegar Antíokkos 8. réðist inn í Antíokkíu 112 f.Kr. flúði hún inn í helgidóm Appollons. Þar lét systir hennar Trýfaena, eiginkona Antíokkosar 8., myrða hana. Kleópatra bölvaði banamönnum sínum og aðeins ári síðar var Trýfaena tekin höndum af Antíokkosi og drepin. Bereníke 3.. Bereníke 3. eða Kleópatra Bereníke (gríska: "Βερενίκη"; 115 eða 114 f.Kr. – 80 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Ptólemajosar 9. og Kleópötru Selenu. Þegar amma hennar, Kleópatra 3., steypti föður hennar af stóli og gerði frænda hennar Ptólemajos 10. að konungi árið 101 f.Kr. var hún gift honum. Þegar faðir hennar tók aftur völdin 88 f.Kr. var hann orðinn aldraður og hún tók því virkan þátt í stjórn ríkisins. Eftir andlát hans varð hún einvaldur í Egyptalandi en þar sem konur gátu ekki ríkt einar neyddist hún til að finna sér eiginmann. Hún ritaði þá Súllu sem hafði stjúpson hennar, Ptólemajos 11., í haldi í Róm um að hann giftist henni og tæki við völdum. Súlla lét henni þetta eftir en með því skilyrði að ef Ptólemajosi yrði ekki barna auðið gengi ríkið til Rómaveldis. Einungis nítján dögum eftir brúðkaup Ptólemajosar og Bereníke lét hann myrða hana. Bereníke naut mikillar lýðhylli í Alexandríu. Múgurinn reis því upp gegn Ptólemajosi og drap hann. Eftir þetta gerðu Rómverjar tilkall til Egyptalands, en þá voru tveir óskilgetnir synir Ptólemajosar 9., settir til valda. Súlla var þá nýorðinn einvaldur í Róm eftir aðra borgarastyrjöld Súllu og neyddist til að láta kyrrt liggja. Rómverjar áttu þó síðar eftir að nýta sér þetta til að réttlæta tilkall sitt til Egyptalands. Eftirmæli. Bereníke er aðalpersóna óperunnar "Bereníke" eftir Georg Friedrich Händel. Kleópatra Selena 1.. Kleópatra Selena 1. (gríska: "η Κλεοπάτρα Σελήνη"; um 130 f.Kr. – 69 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins og síðar drottning Selevkídaríkisins. Hún giftist fjórum konungum; Ptólemajosi 9. af Egyptalandi, og Antíokkosi 8., Antíokkosi 9. og Antíokkosi 10. af Sýrlandi. Upphaflega hét hún aðeins Selena. Móðir hennar, Kleópatra 3., neyddi Ptólemajos 9. til að skilja við Kleópötru 4. og giftast Selenu í staðinn. Þá tók hún upp nafnið Kleópatra. Með honum átti hún að minnsta kosti dótturina Bereníku 3. og hugsanlega tvo syni, en þeir eru þó oftar taldir óskilgetnir. Árið 107 f.Kr. hrakti Kleópatra 3. Ptólemajos 9. frá völdum og gerði bróður hans að konungi. Hann flúði þá frá konu sinni og börnum til Kýpur og reyndi þar að koma upp her til að taka Egyptaland aftur. Í Sýrlandi börðust bræðurnir Antíokkos 8. og Antíokkos 9. um völdin. Kleópatra gerði bandalag við Antíokkos 8. og gaf honum Kleópötru Selenu fyrir eiginkonu. Hann hafði áður verið giftur eldri systur hennar Trýfaínu. Þegar Antíokkos 8. var drepinn í Antíokkíu árið 96 f.Kr. tók Antíokkos 9. sér Kleópötru Selenu fyrir eiginkonu. Antíokkos 9. varð ekki langlífur á valdastóli. Hann féll árið 95 f.Kr. í orrustu gegn elsta syni Antíokkosar 8., Selevkosi 6. Sonur Antíokkosar 9. og Kleópötru 4., Antíokkos 10., náði völdum af Selevkosi og giftist síðan stjúpmóður sinni. Hún bar honum tvo syni; Antíokkos 13. og Selevkos 7. Eftir að Antíokkos var drepinn í orrustu flúði hún til Kilikíu. Þegar Ptólemajos 11. var drepinn af æstum múg í Alexandríu árið 80 f.Kr. var hún eini eftirlifandi lögmæti erfingi Ptólemajaveldisins. Hún gerði þá tilkall til hásætisins fyrir hönd sona hennar og Antíokkosar 10. en íbúar Alexandríu kusu sér hinn óskilgetna Ptólemajos 12. fyrir konung. Kleópatra sendi syni sína til Rómar til að flytja mál sitt fyrir öldungaráðinu en án árangurs. Þegar armenski konungurinn Tígranes mikli hóf að leggja Litlu-Asíu undir sig ákváðu íbúar Sýrlands að bjóða honum hásæti Selevkídanna þar sem þeir voru orðnir þreyttir á eilífum borgarastyrjöldum milli erfingja krúnunnar. Tígranes lagði undir sig síðustu leifar Selevkídaríkisins en nokkrar borgir í suðurhluta landsins voru trúar Selevkosi. Hann náði Kleópötru Selenu á sitt vald í borginni Akkó árið 69 f.Kr. og lét taka hana af lífi. Selevkos ríkti sem útlagakonungur og giftist síðan Bereníku 4. sem lét kyrkja hann til bana. Peter Sutcliffe. Peter Sutcliffe (fæddur 2. júní 1946), þekktur undir nafninu „The Yorkshire Ripper“, er breskur raðmorðingi. Árið 1981 var hann sakfelldur fyrir að myrða 13 konur og að reyna að myrða 7 aðrar. Hann fékk tuttugufaldan lífstíðarfangelsisdóm fyrir brot sín. Æviágrip. Hann tók upp ættarnafn móður sinnar og varð þá þekktur sem Peter William Coonan. Hann átti enga vini í skóla og hætti í skóla 15 ára og fór að vinna í lítilmótlegum vinnum. Hann vann sem grafari um 1960. Milli nóvember 1972 og apríl 1973 vann hann í verksmiðju. Eftir að hann hætti að vinna í verksmiðjunni vann hann á næturvakt í fyrirtækinu Britannia Works of Anderton árið 1973. Árið 1975 byrjaði hann að vinna sem ökumaður fyrir dekkja fyrirtæki. Árið 1976 var hann rekinn fyrir að stela notuðu dekk. Hann kynntist Sonia Szurma sem var hálf-tékknesk og hálf-úkranísk. Hann hitti hana fyrst 14. febrúar 1967. Þau giftust 10. ágúst 1974. Konan hans missti nokkrum sinnum fóstur. Hún vann sem kennari. Þau notuðu launin í að kaupa þeirra fyrsta hús á staðnum Heaton í Bradford þar sem þau fluttu árið 1977. Hún fór frá honum 1982, þau skildu árið 1994. Morðferill. Peter réðst fyrst á gamla konu árið 1969 en var svo löng bið á milli árása þar sem næsta áras var 1975 og er ekki vitað hver ástæðan var fyrir þessari bið. Til þess að ná honum var kort notað yfir staðina sem árásirnar áttu sér stað. Fyrstu þrjár árásir hans misheppnuðust en ekki fyrr en í október það ár heppnast hjá honum og er það 28 ára Vilma McCann frá Leeds. Peter Sutcliffe myrti 13 konur og reyndi að myrða 7 aðrar. Hann er í lífstíðarfangelsi í dag á Broadmoor High Security Hospital. Sutcliffe notaði í flestum tilfellum hamar til að ráðast á fórnarlömb sín. Mörg fórnarlambanna hans Peter Sutcliffe voru vændiskonur eða bara konur sem hann hélt væru vændiskonur. Ástæðan fyrir því var að þegar hann og kona hans voru að byrja saman sá hún hann með öðrum manni og reiður fór hann til vændiskonu og fór með hana en hann gat ekki gert sitt og ákvað samt að borga henni 5 pund en hann átti 10 pund og vildi hann fá til baka en þar sem hún borgaði ekki tilbaka og gaf hann henni annað tækifæri til þess þá ákvað hann að drepa hana, sem gerðist aldrei drap hann eldri konu í staðinn. Rannsókn. Hópur rannsóknarmanna komu saman til að rannsaka morðin voru þeir kallaðir „Ripper Squad“ og bættust alltaf fleiri við hópinn þegar málið stækkaði í þeim hópi voru. Svo var það „The Ripper Super Squad“ sem komu saman eftir morði á Jacqueline Hill. Einn af þeim sem voru að rannsaka morðið sagði að í öllum 20 morðunum var hann í hausnum að ráðast 20 sinnum á eiginkonuna. Peter Sutcliffe var handtekinn 2. janúar 1981 vegna stolna númeraplatna og með vændiskonu í bílnum og tekinn inn á lögreglustöð þar sem spurt var hann spurninga og tóku þeir eftir að hann gæti verið The Yorkshire Ripper. Þegar hann var stoppaður af lögreglunni þá fór hann og sagðist þurfa að pissa en í raun fór hann með hamarinn sinn og hníf og faldi það og kom svo tilbaka þetta sama gerðu hann þegar hann kom á lörgreglustöðina sagðist þurfa að nota klósettið, og þar faldi hann annan hníf sem hann hafði á sér. Maðurinn sem handtók Peter fór aftur á vakt daginn eftir og var á sömu staðsetingu og kvöldið áður mundi að Peter hafi farið og „pissað“ og ákvað að skoða þetta nánar og þar fann hann vopnin sem Peter hafði falið. Eftir langa yfirheyrslu játaði Peter að hann væri The Yorkshire Ripper. Í gegnum alla yfirheyrsluna var hann ekki með neinn mótþróa bað ekki um lögfræðing ekki heldur eftir að hann hafi játað. Hann sagði að hann væri feginn að honum hefði verið náð og ef honum hefði ekki verið náð hefið hann drepið vændkskonuna sem væri í bílnum. Kostas Vaxevanis. Kostas Vaxevanis er grískur blaðamaður og ritstjóri tímaritsins "Hot Doc". Vaxevanis var handtekinn þann 28. október árið 2012 í kjölfar þess að "Hot Doc" birti hinn svokallaða „Lagarde-lista“ en á listanum eru nöfn um 2.000 Grikkja sem eru sagðir vera með bankareikning í útibúi HSBC-bankans í Genf. Á listanum eru meðal annars fyrrverandi menningarmálaráðherra Grikklands, starfsmenn gríska fjármálaráðuneytisins og framámenn í grísku viðskiptalífi. Aileen Wuornos. Aileen Carol Wuornos (29. febrúar 1956 – 9. október 2002) var bandarískur raðmorðingi sem drap sjö manns í Flórída á árunum 1989 og 1990. Barnæska. Wuornos fæddist sem Aileen Carol Pittman þann 29. febrúar árið 1956 í Rochester, Michigan-fylki. Móðir hennar, Diane Wuornos, var aðeins sautján ára gömul þegar Wuornos fæddist og faðir hennar, Leo Dale Pittman sat í fangelsi fyrir nauðgun og morðtilraun gegn sjö ára stúlku. Þegar Wuornos var fjögurra ára yfirgaf móðir hennar hana og bróður hennar og amma og afi Wuornos ætttleiddu þau. Wuornos sakaði afa sinn um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Wuornos varð ólétt fjórtán ára og gaf það barn til ættleiðingar. Afi hennar henti henni síðan út þegar hún varð fimmtán ára og hélt hún þá til í skógi og byrjaði að starfa sem vændiskona. Árið 1974 byrjaði hún síðan að fremja ýmsa smáglæpi og fékk meðal annars á sig nálgunarbann vegna líkamsárásar. Fyrstu glæpirnir. Það var svo árið 1974 sem Wuornos komst fyrst í kast við lögin og var handtekin í smábæ í Colorado. Hún var sökuð um akstur undir áhrifum áfengis, mjög truflandi framkomu og skjóta af byssu úr bifreið á ferð. Síðar var hún ákærð fyrir að mæta ekki fyrir dómara til að útskýra brot sín. Árið 1976 húkkaði hún sér far til Flórída þar sem hún kynntist hinum 69 ára gamla Lewis Gratz Fell. Þau giftust sama ár en hún var aðeins 18 ára gömul. Þrátt fyrir giftinguna hélt hún áfram að koma sér í vandræði, þá sérstaklega á barnum í bænum og var á endanum dæmd í fangelsi fyrir líkamsárás. Eiginmaður hennar, Lewis, varð einnig fyrir barðinu á henni og fékk nálgunarbann á hana. Þau hjónin skildu níu vikum eftir að þau gengu í hjónaband. Bróðir Wuornos, Keith, lést af völdum krabbameins í vélinda rétt áður en hún skildi og fékk hún 10.000 dali úr líftryggingu hans. Wuornos var handtekinn margsinnis aftur fyrir glæpi. Það voru aðallega líkamsárásir og rán í sjoppum og þvíumlíkt. Morð. 30. nóvember árið 1989 framdi Wuornos sitt fyrsta morð. Fyrsta fórnarlamb hennar var miðaldra eigandi raftækjaverslunar, Richard Mallory. Í yfirheyrslum 1992 sagði Wuornos að hann hefði reynt að nauðga sér og hefði hún því drepið hann í sjálfsvörn. Illa útleikið lík Mallory fannst þrettán dögum síðar og hafði hann verið skotinn. Varð þessi atburður upphafið að árslöngu morðæði sem geysaði fram að handtöku hennar í janúar 1991. Alls framdi hún sjö morð, allt karlmenn á aldrinum 40 til 65 ára. Enginn vitni voru að morðunum hennar en tókst lögreglu þó að elta hana uppi og handtaka í kyrrþey. Við yfirheyrslu hélt Wuornos því staðfast fram að allir mennirnir hafi nauðgað sér. Rúmlega ári síðar eftir handtöku hennar ákvað hún þó að koma hreint fram og viðurkenndi að Richard Mallory hefði verið sá eini sem nauðgaði henni. Hún sagði þó að hinir mennirnir hafi einnig ætlað sér að beita hana kynferðislegu ofbeldi og brugðið á það ráð að skjóta þá að fyrra bragði. Persónulega trúði hún því ávallt að aðgerðir hennar hafi verið réttlætanlegar. Aftaka. Wuosnos var dæmd sakhæf af þremur geðlæknum og aftaka hennar fór fram þann 9. október 2002. Hún fékk 20 dali til að eyða í sína síðustu máltíð og eyddi þeim á Kentucky Fried Chicken. Aileen Wuornos var tíunda konan í Bandaríkjunum til að hljóta dauðarefsingu eftir árið 1976. Barry Nalebuff. Barry Nalebuff (fæddur 11. júlí 1958) er Milton Steinbach-prófessor við Yale-háskóla. Hann er sérfræðingur í leikjafræði ásamt mörgum öðrum sviðum. Hann hefur skrifað heilmikið um þetta málefni og verið meðhöfundur sex ritverka um leikjafræði og hvernig það tengist viðskiptastefnum. „Thinking Strategically“ og „The Art of Strategy“ eru tvær þekktustu bækurnar sem hann hefur komið að skrifum á og hafa verið prentaðar í yfir 300 þúsund eintökum og kenndar við leikjafræði áfanga í háskólum víða um heim. Nalebuff hefur víða komið við á akademískum ferli sínum. Áður en hann hóf störf við Yale-háskólann var hann meðlimur í Junior Society of fellows við Harvard-háskóla og starfaði sem lektor við Princeton-háskólann. Til viðbótar við akademísk störf sín hefur Nalebuff einnig mikla reynslu af ráðgjafastörfum hjá alþjóðlegum fyrirtækjum svo sem American Espress, GE, McKinsey, Google og Rio Tinto. Hann var ráðgjafa bandarísku NBA deildarinnar í samningaviðræðum þeirra við leikmannasamtök körfuboltamanna ásamt því að vera í stjórn tryggingafélagsins Nationwide. Árið 1988 stofnaði Nalebuff, ásamt fyrrum nemanda sínum að nafni Seth Goldman, fyrirtæki sem fékk nafnið Honest Tea. Það fyrirtæki sérhæfði sig í að framleiða Íste. Það fyrirtæki óx gríðarlega eða frá því að vera með enga veltu og upp í 70 milljóna dollara veltu á ári. Fyrirtækið vakti mikla lukku og athygli og á endanum keypti Coca Cola fyrirtækið árið 2011. Menntun. Eftir að Nalebuff útskrfaðist frá Belmont Hill framhaldskólanum hélt hann í nám við MIT (Massachusett Institute of Technology) þar sem hann útskrifaðist árið 1980 með gráðu í hagfræði og stærðfræði. Hann síðar meir kláraði meistaragráðu sína ásamt doktorsprófi frá Oxford Háskólanum á Rhodes skólastyrk. Bækur. Nalebuff, Barry Nalebuff, Barry Enver Hoxha. Enver Hoxha (f. 16. október 1908, d. 11. apríl 1985) einvaldur Albaníu og leiðtogi albanska Kommúnistaflokksins í tæpa fjóra áratugi eða allt frá 1944 – 1985 þegar hann lést. Bakgrunnur. Hoxha fæddist í borginni Gjirokastër í suðurhluta Albaníu. Þar bjó hann allt þar til hann hóf nám í Háskólanum í Montpellier árið 1930. Á námsárunum í Frakklandi komst Hoxa í tæri við kommúnisma og tók þátt í starfi franskra kommúnista. Hann hreyfst af hugmyndafræðinni. Hoxha sneri baka til Albaníu árið 1936, þá 28 ára gamall. Við heimkomuna hóf hann störf sem grunnskólakennari. 7. apríl 1939 réðust ítalskir fasistar inn í Albaníu og komu Ítalir á leppstjórn í kjölfarið sem stýrt var af Merlika-Kruja. Seinni heimsstyrjöldin hófst formlega síðar sama ár. Hoxha missti stöðu sína sem kennari þegar hann neitaði að ganga í Fasistaflokk Albaníu. Leiðtoginn. Albanía var lengi vel eitt fátækasta, einangraðasta og margra mati sérkennilegasta land Evrópu. Hoxha hafði mikið um það að segja. Í Albaníu bjuggu um þrjár milljónir manna og þar voru samt sem áður 750 þúsund sprengjubyrgi. Ef til innrásar kæmi áttu almennir borgarar jafnt sem hermenn að grípa til vopna og vernda landið. Heimildir. Hoxha, Enver Kleópatra 5.. Kleópatra 5. Trýfaína (gríska: "Κλεοπάτρα"; um 95 f.Kr. – um 69/68 f.Kr. eða um 57 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún er sú eina af eiginkonum Ptólemajosar 12. sem vitað er um með vissu. Hún kann að hafa verið óskilgetin dóttir Ptólemajosar 9. Önnur kenning er að hún hafi verið dóttir Ptólemajosar 10. og Bereníku 3. Hún giftist Ptólemajosi 12. árið 79 f.Kr. en nafn hennar tók að hverfa úr heimildum um það leyti sem Kleópatra 7. fæddist, eða um 69 f.Kr. Hins vegar er minnst á Kleópötru Trýfaínu löngu síðar, eða 58 og 57 f.Kr., sem ríkjandi drottningu við hlið Bereníke 4. Sumir telja þessa Kleópötru hafa verið dóttur hinnar og því Kleópötru 6. meðan aðrir telja að um sömu konu sé að ræða. Það kemur heim og saman við frásögn Strabons sem segir að Ptólemajos 12. hafi átt þrjár dætur, sem væru þá Bereníke 4., Kleópatra 7. og Arsinóe 4. Þýski sagnfræðingurinn Werner Huß setti fram þá kenningu að Ptólemajos hafi skilið við Kleópötru um 69 f.Kr. en að dóttir hennar, Bereníke, hafi sett hana til valda eftir að faðir hennar flúði frá Egyptalandi 58 f.Kr. Hún hafi síðan dáið ári eftir það, því nafn hennar hverfur aftur úr heimildum eftir 57 f.Kr. Bereníke 4.. Bereníke 4. Epifanela (gríska: "Βερενίκη"; 77 f.Kr. – 55 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Ptólemajosar 12. og Kleópötru 5. og systir hinnar frægu Kleópötru 7., Arsinóe 4., Ptólemajosar 13. og Ptólemajosar 14. Þegar systir hennar flúði, ásamt föður þeirra, til Rómar gerðist hún ríkjandi drottning Egyptalands ásamt Kleópötru 6. Trýfaínu sem sumir telja vera systur hennar, en aðrir þá sömu og Kleópötru 5. Eftir lát Kleópötru Trýfaínu 57 f.Kr. gerðist Bereníke einráð. Þar sem konur máttu ekki ríkja einar yfir Egyptalandi þurfti hún að taka sér eiginmann. Þegar hún gerði það ekki sjálfviljug neyddu ræðismenn hennar hana til að giftast Selevkosi 7. sem var útlægur konungur Sýrlands. Skömmu síðar lét hún kyrkja hann þar sem hún var ósátt við mannasiði hans. Hún giftist síðar gríska aðalsmanninum Arkelaosi en hann ríkti ekki með henni. Árið 55 f.Kr. skipaði Pompeius herforingja sínum í Sýrlandi, Aulusi Gabiniusi, að koma Ptólemajosi 12. aftur til valda gegn 10.000 talenta greiðslu. Gabinius gerði það og Bereníke var hálshöggvin ásamt stuðningsmönnum sínum. Flakkarinn (flökkuhraunfylla). Flakkarinn er nefnd hraunfylla sem brotnaði úr Eldfelli í eldgosinu í Heimaey 1973 og rann með hraunstraumnum í átt að innsiglingunni. Var fylgst grannt með framgangi hans þar sem menn óttuðust að ef hann næði alla leið myndi hann, ásamt öðru hraunflæði, loka innsiglingunni og ógna með því grundvelli byggðar í eyjunni. Dæluskipið Sandey hóf þann 1. mars að dæla sjó á hraunið og þar með Flakkarann til að hægja á framvindunni. Þegar gosinu lauk var ljóst að það hafði tekist að bjarga innsiglingunni og það sem meira var, hún varð betri en fyrr. Kassavarót. Kassavarót (fræðiheiti "Manihot esculenta") er viðarkenndur runni af Euphorbiaceae ætt og á uppruna sinn í Suður-Ameríku. Þessi runni er ræktaður í hitabeltislöndum vegna rótanna sem innihalda mikið kolvetni. Þurrkuð kassavarót er möluð í mjöl sem kallað er tapíóka en einnig gerjuð og er þá kölluð garri. Kassavarót er mikilvægur fæðugjafi í þróunarlöndum og grunnfæði um 500 milljóna manna. Kassavarót þolir vel þurrk og vex í ófrjóum jarðvegi. Nígería er stærsti framleiðandi kassavarótar. Augnbaun. Augnbaunir er eitt mikilvægasta grænmeti á harðbýlum svæðum í Asíu, Afríku, Suður-Evrópu og Mið- og Suður-Ameríku. Augnbaunir þola vel þurrka og hita og eru skuggaþolnar og henta því vel til að rækta með öðrum matjurtum. Tímaritið Musica. Forsíða fyrsta tölublaðs tímaritsins Musica, árið 1948. Forsíðumyndin er af dr. Páli Ísólfssyni. " Tímaritið Musica " var alhliða tónlistartímarit, gefið út af Drangeyjarútgáfunni 1948 til 1950. Tage Ammendrup var eigandi útgáfunnar og ritstjóri tímaritsins. Tage hafði áður gefið út tímaritið Jazz árið 1947, samhliða því að hann stofnaði fyrirtækið Íslenzka tóna, sem varð umsvifamikið á sviði útgáfu dægurtónlistar á árunum 1952-1964. Alls voru gefin út 11 tölublöð, það fyrsta kom út í apríl 1948 og það síðasta í apríl 1950. Aðaláhersla var lögð á klassíska tónlist. Tímaritið var fjölbreytt að efni; fjallað var um innlenda og erlenda tónlist, sögu tónlistarinnar, valin hljóðfæri, einstök tónverk og viðtöl við innlenda tónlistarmenn. Hverju tölublaði fylgdu nótur og ljósmyndir af listamönnum. Tage skrifaði sjálfur mikinn hluta af efni tímaritsins og þýddi greinar eftir þörfum, auk þess að skrifa „ritstjórarabb”. Margir mætir tónlistarmenn veittu aðstoð og ráðgjöf, auk þess að skrifa greinar. Ólafur Jakobsson lagði til töluvert efni í blaðið og Anton Kristjánsson og Fritz Jaritz skrifuðu nokkrar greinar og gagnrýni. Kristján Kristjánsson var með fastan lið í blaðinu um hljómsveitarútsetningar og Karl Sigurðsson lagði til efni. Tímaritin voru 32 blaðsíður að stærð fyrstu tvö árin að undanskildu 4.-5. tölublaði sem var 40 blaðsíður. Þrjú síðustu blöðin voru 16 blaðsíður að stærð. Alþýðuprentsmiðjan sá um prentun. Innihald tímaritsins Musica. Umfjöllun um Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur í fyrsta tölublaði Musica. Öskubuskur í þriðja tölublaði Musica. Kristján Kristjánsson við plötugagnrýni sína þar sem hann veit hvorki deili á flytjendum né höfundum. Í 4.-5. tölublaði Musica, 1948. Þátturinn „Úr tónlistarlífinu” í sjötta tölublaði Musica. Þar var fjallað um sjö tónleika. Óðrun. Skattholsskúffa úr furu með framhlið sem er óðruð til að líkjast hnotu. Óðrun (úr dönsku: "ådring") eða viðarmálun er aðferð við að mála eftirlíkingu af viðaráferð. Oft er þetta gert til að láta húsgögn, glugga og hurðir úr ódýrum eða gölluðum viði líta út eins og þau væru smíðuð úr eðalviði; til dæmis hnotu, eik eða íbenholti. Ef þetta er vel gert getur verið nánast ómögulegt að sjá muninn. Óðrun er einkum gerð með þeirri aðferð að slétta yfirborðið með því að spartla og slípa, mála síðan grunnlit (sem er mismunandi eftir viðartegundum) yfir yfirborðið með þekjandi málningu og þar yfir með lasúrmálningu: hálfgagnsærri hægþornandi málningu sem er mótuð í æðar og kvisti með sérstökum penslum, kömbum, svömpum og sköfum. Að lokum er lakkað með glæru lakki yfir allt saman. Óðrun var sérstaklega algeng á 19. öld og í byrjun þeirrar 20. Þá smíðuðu húsgagnaverkstæði eða settu saman húsgögn úr ódýrum viðartegundum eins og furu og síðan var málari (óðrari) fenginn til að mála yfir þau með þessar aðferð. Óðrun þróaðist út í sérgrein innan málaraiðnar og sérhæfðir óðrarar unnu á mörgum húsgagnaverkstæðum. Matt Craven. Matt Craven (fæddur Matthew John Crnkovich 10. nóvember 1956) er kanadískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Meatballs, Crimson Tide og NCIS. Einkalíf. Craven fæddist í Port Colborne í Ontario en ólst upp í St. Catharines í Ontario. Hann hefur verið giftur Sally Sutton síðan 1992 og saman eiga þau tvö börn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Craven var árið 1981 í sjónvarpsmyndinni "The Intruder Within". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð "The Littlest Hobo", "Harry", "High Incident", ER, Boomtown og Justified. Craven hefur síðan 2010 verið með gestahlutverk í sjónvarpsþættinum NCIS þar sem hann leikur Clayton Jarvis, yfirmann bandaríska sjóhersins. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Craven var árið 1979 í "Bravery in the Field". Sama ár lék hann í Meatballs sem persónan Hardware. Síðan þá hefur hann komið kvikmyndum á borð við Tin Men, K2, A Few Good Men, Crimson Tide þar sem hann lék á móti Gene Hackman, Denzel Washington, Viggo Mortensen og Rocky Carroll. Einnig hefur Craven leikið í Dragonfly, Disturbia, Public Enemies og. Tenglar. Craven, Matt Ástríkur og bændaglíman. Ástríkur og bændaglíman (franska: "Le Combat des chefs") er belgísk teiknimyndasaga og sjöunda bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1966, en birtist áður sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote frá október 1964 til ágúst 1965. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1975. Söguþráður. Rómversku foringjarnir "Glóbus Glákasíkus" (franska: "Langélus") og "Falskus Fláríkus" (franska: "Perclus") í herbúðunum "Tótórum" leggja á ráðin um hvernig sigrast megi á íbúum Gaulverjabæjar. Þeir hyggjast nýta gamla hefð, "bændaglímu", sem felst í því að gallverskir höfðingjar mega skora hver annan á hólm og leggja völd sín að veði. Í þessu skyni ákveða þeir að notast við "Ofrík Hrokríkus" (franska: "Aplusbégalix"), Gallahöfðingja sem er mikill Rómverjavinur. Ofríkur treystir sér ekki til að etja kappi við "Aðalrík allsgáða" fyrr en Rómverjarnir heita því að losna fyrst við seiðkarlinn "Sjóðrík". Hópur rómverskra hermanna gerir misheppnaða tilraun til að ræna Sjóðríki, en "Steinríkur alvaski" hendir óvart bautasteini í höfuð Sjóðríks sem missir ráð og rænu. Íbúar Gaulverjabæjar eru því töfradrykkslausir þegar Ofríkur skorar Aðalrík á hólm. Þeir láta Sjóðrík sulla saman seyðum í veikri von um að rambi á töfradrykkinn fyrir slysni, en afráða loks að sækja annan seiðkarl sem jafnframt stundar geðlækningar, "Sálsýk Geðveilan" (franska: "Amnésix") í von um hjálp. Illu heilli verður Sálsýkur einnig fyrir bautasteini Steinríks og glatar glórunni. Bændaglímudagurinn rennur upp og útlitið er dökkt. Fyrir tilviljun rambar Sjóðríkur þó á að sulla saman seyði sem læknar hann af minnisleysinu. Hann bruggar töfradrykkinn í skyndi og mætir á vettvang bardagans. Við það eitt að sjá seiðkarlinn heilbrigðan hleypur Aðalríki kapp í kinn og hann sigrar bardagann töfradrykkjarlaus. Rómversku hermennirnir vilja ekki una úrslitunum en eru gjörsigraðir í bardaganum. Aðalríkur fyrirgefur Ofríki og leyfir honum að halda völdum, enda sá síðarnefndi orðinn ljúfur sem lamb eftir þungt höfuðhögg. Íslensk útgáfa. Ástríkur skylmingakappi var gefinn út af Fjölvaútgáfunni árið 1975 í íslenskri þýðingu Þorbjarnar Magnússonar. Aalst. Aalst (franska: Alost) er borg í Belgíu. Með 78 þúsund íbúa er hún næststærsta borgin í héraðinu Austur-Flæmingjalandi, á eftir Gent. Lega og lýsing. Aalst liggur við ána Dender vestarlega í Belgíu. Næstu stærri borgir eru Brussel til suðausturs (25 km), Gent til norðvesturs (25 km) og Antwerpen til norðausturs (60 km). Hollensku landamærin eru 25 km til norðurs, en þau frönsku 50 km til suðvesturs. Aalst liggur í dalverpi við ána Dender og er miðborgin aðeins í 10 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er eilítil hafnaraðstaða fyrir meðalstóra fljótabáta. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Aalst samanstendur af þremur lóðréttum röndum (frá vinstri til hægri): Rauð, hvít og gul. Uppsetningin er eins og belgíski eða franski fáninn, nema hvað litirnir hafa verið teknir úr borgarlitunum. Í hvítu röndinni er rautt sverð, sem er elsti hluti skjaldarmerkisins. Skjaldarmerkið sýnir rauða sverðið sem silfursmiðurinn Nicolaas Colijn smíðaði fyrir borgina 1394. Sverðið táknar sjálfstæði borgarinnar, sem og herstyrkur hennar. Til vinstri er tvíhöfða örn þýska ríkisins en til hægri er flæmska ljónið. Skjaldarmerkið eins og það er í dag var samþykkt 1819 og staðfest 1841. Söguágrip. Aalst kemur fyrst við skjöl árið 870 og hét kallast þá Villa Alost en Alost er enn franska heiti borgarinnar í dag. Fram á 12. öld var Aalst eigið greifadæmi, en leystist upp í greifadæminu Flandri (Flæmingjalandi) 1166. Í gegnum aldirnar var mikið ræktað af humli í kringum borgina en hann var notaður í bjórgerð. Einnig var mikill vefnaður stundaður í Aalst. 1360 geysaði mikill eldur í borginni, sem nær gjöreyddi henni. 1473 setti Dirk Martens upp fyrstu prentvél Niðurlanda í borginni. Frakkar sátu um Aalst 1578 er þeir áttu í stríði við Spánverja en í þá daga var suðurhluti Niðurlanda eign Spánar. Borgin féll eftir fjóra daga og rifu Frakkar niður borgarmúrana, en hún var frönsk allar götur til 1706. Á því ári töpu Frakkar orrustunni við Ramillies í Belgíu gegn Hollendingum og Englendingum í spænska erfðastríðinu en við það varð Aalst hluti af Flæmingjalandi. Frakkar hertóku borgina á nýjan leik 1795 og héldu henni til 1813 er Prússar hröktu Frakka burt. Aalst var hertekin af Þjóðverjum í heimstyrjöldunum báðum. Við frelsun borgarinnar í september 1944 skemmdist borgin talsvert í götubardögum við bandamenn. Viðburðir. Skrautvagn í karnevalinu í Aalst 2010 Karnevalið í Aalst er ákaflega vinsælt í Belgíu allri. Það er haldið í febrúar og stendur yfir í þrjá daga. Í hátíðinni er karnevalsprins kjörinn og má hann stjórna borginni meðan hátíðin er í gangi. Í skrúðgöngunni eru fólk klætt skrúðklæðum og skrúðvagnar eru dregnir eftir götunum. Hátíðinni lýkur á dúkkubrennu. Karnevalið er á UNESCO-lista yfir meistaraverk munnlegs og óáþreifanlegs arfs mannkyns. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Eendracht Aalst, sem leikur í 1. deild (úrvalsdeild). Besti árangur félagsins er 4. sætið árið 1995. Byggingar og kennileiti. Ráðhúsið og klukkuturninn eru á heimsminjaskrá UNESCO Marmaramálun. Marmaramálun er aðferð við að mála eftirlíkingu af marmara á yfirborð úr öðru efni. Marmaramálun er hluti af málaraiðn. Elstu þekktu dæmin um marmaraeftirlíkingar eru freskur á veggjum í rómversku borgunum Pompeii og Herculaneum og eru frá því skömmu eftir Krists burð. Mismunandi aðferðir eru notaðar við marmaramálun eftir því hvert yfirborðið er, en algengast er að mála þekjandi grunnlit yfir yfirborðið og vinna síðan ofan á hann með hægþornandi málningu í ýmsum litum, eftir því hvaða marmara hermt er eftir. Yfirleitt eru notaðir litlir stífir penslar (listmálarapenslar), svampar og sköfur og stórir mjúkir penslar til að hylja pensilför. Oft er marmaramálun notuð til að gefa heildaryfirbragð marmaraklæðningar án þess að beinlínis sé reynt að herma eftir tiltekinni tegund marmara. Þannig marmaramálun er algeng í ítölskum endurreisnarkirkjum. Annars staðar er reynt að herma eins nákvæmlega og hægt er eftir tilteknum marmara, helst þannig að ekki sjáist munur á. Sagt er að þessi raunsæisskóli í marmaramálun hafi fyrst þróast í Frakklandi eftir Frönsku byltinguna þegar þurfti að bæta skemmdir á marmaraklæðningum í höllum konungs. Marmaramálaðir veggir, bekkir, listar og karmar eru víða í húsum á Íslandi. Þekktasta dæmið um marmaramálun er líklega stigagangurinn á Fríkirkjuvegi 11 sem Engilbert Gíslason vann fyrir Thor Jensen í upphafi 20. aldar. Engilbert hafði menntað sig í óðrun í Kaupmannahöfn og þekkti lítið til marmaramálunar en vann út frá bók með fyrirmyndum og þótti takast vel upp. NCIS (9. þáttaröð). Níunda þáttaröðin af "NCIS" var frumsýnd 20. september 2011 og sýndir voru 24 þættir. Jens Tómasson. Jens Tómasson (22. september 1925 – 24. október 2012) var íslenskur jarðfræðingur. Jens fæddist í Hnífsdal en lést í Reykjavík. Foreldrar hans voru Tómas Tómasson sjómaður og verkamaður og kona hans Elísabet Elíasdóttir húsfreyja. Jens fluttist ungur með foreldrum sínum og systkinum til Reykjavíkur og ólst þar upp. Hann útskrifaðist úr MR 1848 og settist seinna í Óslóarháskóla. Þaðan lauk hann cand.mag-prófi árið 1962. Eftir það réðst hann til starfa hjá Raforkumálastjóra og síðan Orkustofnun þar sem hann vann allt til 1995 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Jens starfaði lengst af á sviði jarðhita og jarðborana og sérhæfði sig í rannsóknum á eiginleikum há- og lághitakerfa. Til þess notaði hann öll gögn sem fengust úr borholum svo sem borsvarf og upplýsingar um jarðlagaskipan, ummyndun bergs og vatnsæðar. Hann var deildarstjóri í borholujarðfræði á Orkustofnun frá 1979 og stýrði verkefnum sem unnin voru fyrir Hitaveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu. Sú borholujarðfræði sem enn í dag er stunduð á Íslandi er í mörgu byggð á starfi hans. Eftir Jens liggur fjöldi greina og skýrsla um jarðhita og borholujarðfræði og töluvert er vitnað í þær í skrifum um þau fræði. Jens var kvæntur Herdísi Húsgarð frá Syðri Götu í Færeyjum. Óperuhúsið í Sydney. Óperhúsið í Sydney séð að norðan Óperuhúsið í Sydney er tónlistarhús í Sydney, Nýja Suður-Wales, Ástralíu. Það var hannað af danska arkitektinum Jørn Utzon og opnaði 1973. Leyfi var veitt fyrir byggingu hússins af bæjarstjórn Nýja Suður-Wales 1958 og framkvæmdir hófust ári síðar. Óperuhúsið er staðsett á Bennelong Point í höfn Sydney, nálægt Syndneyhafnarbrúnni. Það er í norðaustasta hluta aðalviðskiptahverfis Sydney og er umlukið á þrjá vegu af höfninni og á landi af konunglega grasagarðinum. Þrátt fyrir nafnið hýsir húsið marga tónlistarviðburði. Óperuhúsið er eitt af vinsælustu tónlistarhúsum heims, með 1.500 sýningar á ári sem eru sóttar af 1,2 milljón manns árlega. Húsið er aðsetur Opera Australia, Sydney Theatre Company og Sydney Symphony Orchestra. Það er einnig eitt af vinsælustu ferðamannastöðum Ástralíu, með yfir sjö milljón heimsóknir á ári. Húsið er rekið af Sydney Opera House Trust, undir menningaráðuneyti Nýja Suður-Wales. Húsið komst á heimsminjaskrá UNESCO 28. júní 2007. Pungrækjur. Pungrækjur (Fræðiheiti: "cumacea") er ættbálkur innan stórkrabba sem telur meira en 1400 tegundir sem finnast um allan heim. Við Ísland hafa fundist um 30 tegundir pungrækja. Flestar voru uppgötvaðar í danska Ingolf-leiðangrinum, sem farinn var 1895 til 1896. Líffræði. Flestar tegundir eru 1 til 15 millimetrar að lengd en sumar geta verið allt að 3 sentimetrar. Greinilegur munur er á karl- og kvendýrunum. Kvendýrin eru einnig fleiri og í flestum tilfellum stærri. Pungrækjur fjölga sér aðeins tvisvar á ævinni og gera það með kynæxlun. Kvendýrið geymir svo eggin í þar til gerðum hólfum undir skel sinni (svipað og rækjur og mörg önnur krabbadýr) þangað til afkvæmin hafa klakist út og náð svokölluðu manca stigi. Þegar pungrækja er á manca stigi lífsferils síns, mætti líkja henni við ungling. Hún er næstum því orðin fullvaxta, en vantar aðeins aftasta parið af löppum til að teljast til fullvaxta dýrs. Vistfræði. Þrátt fyrir að pungrækjur séu flestar sjávarbotndýr, þá finnast þær líka í söltum stöðuvötnum eins og Kaspíhafi, í íssöltum árósum og jafnvel yfir sjávarmáli í fjörum þar sem mikill munur er á flóði og fjöru. Þær búa sér til heimili í mjúkum botninum eða labba/synda eftir honum í fæðuleit. Tegundir innan pungrækjuættbálksins má finna allt frá fjöruborði og niður á 1500 metra dýpi. Flestar tegundir lifa skemur en ár, en þær sem lifa á mestu dýpi hafa hægari efnaskipti og geta því lifað örlítið lengur. Þær lifa á þörungar, dýrasvifi og mest öllu öðru sem fellur til botns og er nógu lítið fyrir þær til að éta. Sumar tegundir pungrækja hafa þróað með sér gadd, sem vex fram úr neðri á þeirra, sem þær nota til að að veiða og drepa minni krabbadýr. Sumar tegundir sem lifa í á grunnsævi taka upp á því að synda upp að yfirborðinu á næturnar í fæðuleit. Rannsóknir. Ivan Ivanovich Lepechin var fyrstur til að lýsa pungrækjum árið 1780 en í þá daga voru vísindamenn ekki vissir að um nýtt fyrirbæri væri að ræða og héldu því fram að Lepechin hefði fundið rækjur á lirfustigi. Það var ekki fyrr en Henrik Nicolaj Krøyer, danskur dýrafræðingur, gerði ítarlegar rannsóknir á pungrækjum árið 1844, að menn áttuðu sig á því að hér væri um nýtt fyrirbæri að ræða. Mestar upplýsingar sem safnast hafa um pungrækjur í kring um ísland voru í rannsóknarverkefninu „Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE)“ sem var upphaflega sett á laggirnar árið 1992. Meginmarkmið verkefnisins eru að kanna hvaða dýr lifa á hafsbotninum innan íslensku efnahagslögsögunnar, í hve miklu magni þau eru og hvernig útbreiðslu þeirra er háttað. Sýnatöku lauk árið 2004 eftir 19 leiðangra á þremur rannsóknaskipum. Alls voru tekin 1390 sýni á 579 stöðvum innan efnahafslögsögu landsins, frá um 20 til 3000 metra dýpi. Í þessum leiðöngrum var safnað rúmlega 14.000 eintökum af pungrækjum og fundust margar nýjar tegundir sem ekki höfðu sést áður hér við land sem og áður óþekktar tegundir. Mest sláandi þótti að Grænlands- Færeyjahryggurinn hamlar útbreiðslu ákveðinna tegunda pungrækja og margar tegundir finnast annaðhvort norðan eða sunnan hryggjarins. Miguel Ferrer. Miguel Ferrer (fæddur Miguel José Ferrer 7. febrúar 1955) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í RoboCop, Twin Peaks og Crossing Jordan. Einkalíf. Ferrer er fæddur og uppalinn í Santa Monica, Kaliforníu og er af púertó rískum og írskum uppruna. Stundaði leiklist við "The Beverly Hills Playhouse". Foreldrar hans eru leikarinn José Ferrer og söngkonan Rosemary Clooney. Ferrer var giftur Leilani Sarelle frá 1991-2003 og saman áttu þau tvö börn. Er nú giftur Lori Weinstrub sem hann giftist árið 2005. Spilar á trommur í hljómsveitinni "Jenerators". Leikarinn George Clooney er frændi Ferrer gegnum móður hans. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Ferrer var árið 1981 í Magnum, P.I. Frá 1990-1991 þá lék hann alríkisfulltrúann Albert Rosenfield í Twin Peaks. Hefur hann komið fram gestaleikari í þáttum á borð við Cagney & Lacey, T.J. Hooker, "Hotel", Miami Vice, ER, Will and Grace, Medium, Desperate Housewives, Lie to Me og. Árið 2001 var honum boðið eitt af aðalhlutverkunum í Crossing Jordan sem Dr. Garret Macy, sem hann lék til ársins 2007. Hefur verið með stórt gestahlutverk í sem Owen Granger, hinn nýi aðstoðaryfirmaður NCIS síðan 2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Ferrer var árið 1982 í "Truckin´ Buddy McCoy". Lék persónuna Bob Morton í RoboCop árið 1987. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Arduous Moon", "The Harvest", Hot Shots! Part Deux, "The Disappearance of Garcia Lorca", Traffic, "Silver City" og "This Is Not a Movie". Verðlaun og tilnefningar. Action on Film International Film Festival-verðlaunin Tenglar. Ferrer, Miguel Samvinnutryggingar. Samvinnutryggingar.g.t. var íslenskt tryggingarfélag sem stofnað var með stofnfé frá Sambandi Íslenskra Samvinnufélaga (SÍS) árið 1946 og starfrækt til ársins 1989. Þá var það sameinað Brunabótafélagi Íslands (stofnað 1917) í Vátryggingarfélag Íslands.hf (VÍS), með um 50 þúsund félaga og rúmlega eitt þúsund fyrirtæki. Við sameiningu fyrirtækjanna varð þó eftir fyrirtækið Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar.ehf, sem haustið 2007 var lagt niður, en eignir og skuldir yfirfærðar í fjárfestingarfélagið Gift. Um Gift og slit á búi Samvinnutryggar varð mikið deilumál þar sem deilt var um hvort löglega hefði verið staðið að sameiningu tryggingarfélagana og greiðslur til eigenda við uppgjör fyrirtækjanna. Paul Bernardo og Karla Homolka. Paul Bernardo fæddist 27 ágúst árið 1964. Paul varð til þegar móðir hans hélt framhjá og varð ólétt. “Faðir” hans beitti systur hans og móður kynferðislegu ofbeldi. Þegar hann var 16 ára gamall uppgvötaði hann að hann hafi verið “slys” eða orðið til í framhjáhaldi og fór að beita móður sína andlegu ofbeldi, kallaði hana meðal annars "hóru". Þegar hann varð eldri fór hann á stefnumót og fannst honum ekkert skemmtilegra heldur en að niðurlægja konurnar á almannafæri. Árið 1987 útskrifaðist hann úr University of Toronto en það ár kynntist hann Körlu Homolka sem síðar varð eiginkona hans. Karla var aðeins 17 ára þegar hún kynntist Paul, en hún var ung, ljóshærð og sæt. Það sem var svo frábært við Körlu var að hún deildi með Paul þessum myrkvu kynferðislegu fantasíum, og hún hvatti sadistalegu hegðunina sem hann hafði. Hún var draumakonan hans en þau trúlofuðu sig á aðfangadagskvöld árið 1989. Árið 1987 nauðgaði Paul fyrst, en hann nauðgaði konu fyrir framan húsið sitt. Í kjölfar þess nauðgaði hann 11 konum á árunum 1987 – 1990 og réðst á að minnsta kosti 4 til viðbótar. Lögreglan rannsakaði og eftir fjölmargar vísbendingar og nafnlausar hringingar, handtóku þeir Paul. Þeir yfirheyrðu hann en eftir það að þá var honum sleppt, því hvernig gæti svona myndarlegur og vel menntaður maður verið nauðgari. Paul var með 15 ára gömlu systur hennar Körlu á heilanum. Á þorláksmessu árið 1990 ákvað Karla að gefa Paul meydóm systur sinnar í jólagjöf en það var aðallega vegna þess að hún var ekki hrein þegar þau kynntust. Þau gáfu henni romm út í púnsið og svefntöflur, og þegar hún var orðin vel drukkin af þessari samblöndu setti Karla klút fyrir munninn á henni með efni í til þess að svæfa hana alveg. Síðan tóku þau sig upp vera að nauðga henni til skiptis. Tammy fékk ofnæmisviðbrögð af lyfinu og fór að æla, systir hennar reyndi að bjarga henni en án árangurs, Tammy dó. Lesile Mahaffy var rænt og nauðgað árið 1991. Paul og Karla héldu henni og nauðguðu henni í 24 klst áður en þau drápu hana. Síðan grófu þau líkið. Karla segir að Paul hafi kyrkt hana með bandi en Paul segir að Karla hafi gefið henni lyf sem drápu hana en aldrei mun koma í ljós hvort þeirra drap hana. Kirsten French var einnig rænt og nauðgað árið 1992 tæpu ári eftir að Lesile var rænt. Þau pyntuðu hana og nauðguðu henni í 3 sólahringa áður en þau drápu hana en lík hennar fannst nokkur hundruð metrum frá staðnum þar sem líkið hennar Lesile fannst. 27 desember árið 1992 var Karla illa barin af eiginmanni sínum og fór Paul með hana uppá slysadeild og sagði að hún hafi lent í slysi. 17 febrúar 1993 var Paul handtekinn fyrir nauðganirnar og morðin á stelpunum og fékk hann lífstíðardóm í að minnsta kosti 25 ár og er í mikilli einangrun í fangelsinu. Hann fer út úr klefanum sínum í klukkustund á dag og er í mjög litlum klefa. Árið 2010 ætlaði hann að reyna að fá að komast út fyrir góða hegðun en fékk það ekki og er talið að hann muni heldur ekki komast út fyrir góða hegðun árið 2020. Körlu var boðið 12 ár í fangelsi fyrir sinn hlut í þessu öllu saman og tók hún því. Hún fékk vægari dóm vegna þess að hún ákvað að vitna gegn Paul. Hún losnaði úr fangelsi árið 2005. Heimild: http://www.trutv.com/library/crime/serial_killers/notorious/bernardo/index_1.html Sint-Niklaas. Sint-Niklaas er borg í Belgíu, í héraðinu Austur-Flæmingjalandi. Borgin er þekkt fyrir að vera með stærsta markaðstorgið í Belgíu. Íbúar eru 72 þúsund. Lega og lýsing. Sint-Niklaas liggur nær nyrst í Belgíu, aðeins 10 km fyrir sunnan hollensku landamærin. Næstu stærri borgir eru Antwerpen til norðausturs (20 km), Gent til suðvesturs (30 km) og Aalst til suðurs (35 km). Brussel er 40 km til suðurs. Sint-Niklaas er með fáum stærri borgum Belgíu sem ekki liggja að á eða fljóti, en Schelde rennur aðeins í fimm kílómetra fjarlægð fyrir sunnan borgina. Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið sýnir heilagan Nikulás, sem er verndardýðlingur borgarinnar. Til hægri er mynd af rauðrófu, en sagan segir að Karl V keisari hafi eitt sinn sótt borgina heim ásamt fylgdarliði sínu. Bóndi nokkur vildi heiðra keisarann á markaðstoginu með því að gefa honum rauðrófu, sem keisari þáði og gaf bónda pung af peningum í staðinn. Þegar bóndinn við hliðina sá þetta, ætlaði hann að gefa keisara hest. Keisari þáði hestinn og sagðist ætla að gefa síðari bóndanum mikla gjöf, og rétti honum rauðrófuna. Síðari bóndinn varð mjög vonsvikinn við þetta en varð þó að sætta sig við þessi endalok. Síðan þá hefur rauðrófan verið hluti af skjaldarmerkinu. Því var síðast breytt 1819 og staðfest 1840. Söguágrip. Saga borgarinnar hófst 1217 þegar biskupinn í Tournai reisti kirkju á staðnum til heiðurs heilögum Nikulási en áður hafði svæðið verið landbúnaðarhérað. Síðan myndaðist landbúnaðarbær í kringum kirkjuna, sem hlaut sama nafn og kirkjan. Sint-Niklaas merkir heilagur Nikulás (sem ameríski jólasveinninn er einnig kenndur við). Bærinn lá á hagstæðum stað milli Gentar og Antwerpen, og var hluti af greifadæminu Flandri meðan það hélst. Aldrei var reistur varnarmúr í kringum Sint-Niklaas. 1513 veitti Karl V keisari bænum markaðsréttindi. Blómaskeið Sint-Niklaas var 17. öldin en þá hagnaðist bærinn mikið af vefnaði. Auðurinn fór í að reisa ráðhús og aðrar stórar byggingar, þar á meðal klaustur. 1690 eyddi stórbruni bænum. Velmegunin jókst í tíð Habsborgara á 18. öld. Frakkar hertóku bæinn eftir frönsku byltinguna. Napoleon sjálfur sótti bæinn heim 1803 og veitti honum opinber borgarréttindi. Á tíma iðnbyltingarinnar fór vefnaðurinn halloka. Sint-Niklaas var því ein af fáum borgum í Belgíu sem tapaði á iðnvæðingunni. Í dag eru aðalatvinnuvegir borgarinnar aðallega verslun og ferðamennska. Viðburðir. Fyrstu helgi í september er haldin loftbelgjahátíð í borginni (Vredesfeesten) og er þá bæði átt við venjulega loftbelgi, sem og risabelgir sem fastir eru á jörðinni. Hátíðin er venjulega tengd þriggja daga tónlistarhátið. Íþróttir. Síðustu helgi ársins er haldið alþjóðlega blakmótið Flanders Volley Gala. Hér er um liðakeppni, ekki landslið, að ræða. Ronde van Vlaanderen er einsdags hjólreiðakeppni í Belgíu og ein sú vinsælasta í Evrópu. Sint-Niklaas hefur ætíð verið viðkomustöð í þessari keppni. Frá 1977 til 1988 var Sint-Niklaas rásmark í þessari keppni en síðan 1988 er það í Brugge. Jack Kevorkian. Jacob „Jack“ Kevorkian (26. maí 1928 – 3. juní 2011) var einn áhrifamesti baráttumaður líknardrápa í Bandaríkjunum. Hann var menntaður meinafræðingur og útskrifaðist úr Læknaskóla Michigan árið 1952. Kevorkian var af armensku bergi brotin. Báðir foreldrar hans voru armenskir innflytjendur. Kevorkian varð heimsfrægur á tíunda áratugnum fyrir það að hafa hjálpað rúmlega 130 veikum einstaklingum að enda líf sitt frá árinu 1990 til ársins 1998. Honum var gefið viðurnefnið doktor dauði af bandarísku pressunni vegna þessa. Jack Kevorkian hafði ungur að árum mótað með sér þá skoðun að fólk sem væri að upplifa mikinn sársauka vegna veikinda ætti sjálft að geta ákveðið hvenær það myndi deyja. Árið 1987 byrjaði hann að auglýsa ráðgjöf fyrir mjög veikt fólk sem væri að leitast eftir því að deyja. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem hann hjálpaði sínum fyrsta sjúklingi að enda líf sitt. Það var kona að nafni Janet Adkins sem hafði verið greind með alzheimer árið 1989. Jack Kevorkian var ákærður fyrir morðið á Adkins en það voru þó engin lög í Michigan ríki á þessum tíma sem bönnuðu það að hjálpa manneskju að enda líf sitt og var því ákæran lögð niður seinna það sama ár. Michigan-ríki svipti Kevorkian lækningaleyfi árið 1991 eftir að það hefði gefið honum skýr fyrirmæli um að hann gæti ekki haldið áfram að veita fólki þessa þjónustu. Árið 1998 lét hann fréttaþáttinn 60 Minutes fá upptöku af því þegar hann sprautaði mann að nafni Thomas Youk með lyfjum sem enduðu líf hans. Kevorkian sprautaði hann sjálfur til þess að hann yrði ákærður. Hann trúði því að hann gæti farið með málið fyrir dóm og sýnt fram á að það sem hann væri að gera væri mannúðlegt en ekki morð. Kevorkian ákvað að vera sinn eiginn verjandi í réttarhöldunum. Það virkaði ekki vel fyrir hann þar sem hann var ekki lærður í lögfræði og kunni því ekki setja fram mál sitt samkvæmt lögum. Dómsmálinu lauk með því að Jack Kevorkian var fundinn sekur og dæmdur í 10 til 25 ára fangelsisvist fyrir morð af annarri gráðu. Kevorkian afplánaði rúmlega átta ár af dómi sínum, honum var veitt náðun vegna veikinda og hleypt út 1. júní árið 2007. Allt til dauðadags hélt hann áfram að berjast fyrir því að það væri réttur allra einstaklinga að geta ráðið örlögum sínum. Jack Kevorkian lést þann 3. júní árið 2011 eftir þrálát veikindi til margra ára, þá 83 ára gamall. Stig Strand. Stig Strand (fæddur 25. ágúst 1956) er sænskur skíðamaður og sjónvarpsfréttaskýrandi. Hann fæddist í Tarnaby, Storuman, Västerbotten-sýslu (Lapland) í Svíþjóð. Strand, Stig Vestur-Flæmingjaland. Vestur-Flæmingjaland (hollenska: "West-Vlaanderen") er vestasta hérað í Belgíu og það eina sem nær að sjó. Ferðamennska er snar þáttur í efnahagi héraðsins. Höfuðborgin er Brugge. Lega og lýsing. Vestur-Flæmingjaland er stærsta héraðið í hollenska hluta Belgíu með 3.125 km2. Það liggur við Norðursjó og er gjörvöll strandlengja Belgíu innan héraðsins. Í norðri strandlengjunnar liggur héraðið að Hollandi (Sjálandi) en sunnan hennar liggur héraðið að Frakklandi. Auk þess er flæmska héraðið Austur-Flæmingjaland fyrir austan og vallónska héraðið Hainaut fyrir sunnan. Í Vestur-Flæmingjalandi eru nokkrar stærri hafnir sökum nálægðar við sjó, en þær helstu eru í Brugge, Oostende og Zeebrugge en sú síðastnefnda er næststærsta höfn Belgíu (á eftir Antwerpen). Íbúar héraðsins eru 1,1 milljón talsins. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Vestur-Flæmingjalands samenstendur af tólf geislum, sex bláum og sex gulum, en fyrir miðju er auður rauður skjöldur. Merkin í fánanum eru orðin mjög gömul og eiga uppruna sinn fyrir daga greifadæmisins í Flandri. Honum var síðast breytt 1997. Skjaldarmerkið er tvískipt. Til vinstri er fáninn á ný, en til hægri er svarta ljón greifanna í Flæmingjalandi. Skjöldurinn var myndaður 1816 þegar Vestur-Flæmingjaland var stofnað sem hérað. Þriðji hluti skjaldarins vísaði til Hollands, en hann féll burtu þegar Belgía lýsti yfir sjálfstæði 1830. Orðsifjar. Flæmingjaland (einnig Flandur) heitir eftir germönskum þjóðflokki sem kallaðist Vlamingen á hollensku, eða flæmingjar. Flæmingjaland í heild er allur hollenskumælandi hluti Belgíu, en Austur- og Vestur-Flæmingjaland eru tvö vestustu hollenskumælandi héruðin í landinu. Söguágrip. Norðursjávarströndin við bæinn De Penne Í gegnum aldirnar var héraðið hluti af greifadæminu Flandri (Graafschap Vlaanderen). Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd 1794 leystu þeir greifadæmið upp og mynduðu sýslurnar Schelde (úr austurhlutanum) og Leie (úr vesturhlutanum). Þær voru aftur leystar upp þegar Frakkar hurfu úr landi 1814. Greifadæmið var þó ekki endurreist, heldur voru flæmsku hlutarnir áfram aðskildir og urðu héruð í nýstofnuðu ríki Niðurlanda. Vestur-Flæmingjaland var formlega stofnað 1816. Þó að flæmingjar tóku ekki þátt í belgísku uppreisninni 1830, urðu þau engu að síður hluti af Belgíu, ekki Hollandi. Oskar Morgenstern. Oskar Morgenstern (fæddur 24. janúar 1902 í Þýskalandi, dáinn 26. júlí 1977 í Bandaríkjunum) var austurrísk-bandarískur hagfræðingur sem er helst minnst sem annars af höfundum leikjafræði. Morgernstern fæddist árið 1902 í Görlitz Þýskalandi og lést árið 1977 í Princeton, New Jersey í Bandaríkjunum. Æviágrip. Oskar Morgenstern fæddist í Þýskalandi árið 1902, hann fluttist svo til Vínarborgar í Austurríki þar sem hann átti eftir að útskrifast með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Vínarborg árið 1925. Hann starfaði svo sem prófessor við skólann frá 1929 fram til 1938 þegar hann fór til Bandaríkjanna. Fyrst í stað átti hann bara að vera gestakennari í Princeton-háskóla. En þegar hann dvaldi við Princeton var hann rekinn frá Vínarháskóla sökum ótækra pólitískra skoðana (nasistar höfðu þá náð völdum)og vegna seinni heimstyrjaldarinnar þá var honum ráðlagt að dvelja áfram í Bandaríkjunum sem hann gerði. Í Princeton kynntist hann John von Neumann og saman rituðu þeir verkið "Theory of Games and Economic Behavior" sem er grundvallarverk á sviði leikjafræði. Þessi bók fjallar að langmestu leyti um núllsummuleiki og þegar fjallað er þar um aðra leiki er það gert á þan hátt að breyta þeim í núllsummuleiki með því að búa til einn nýjan þátttakanda sem tapar því sem aðrir græða samanlagt eða öfugt. Þetta er sennilega þekktasta verk Morgenstern þrátt fyrir að hann hafi gefið út þónokkur önnur rit seinna meir. Morgenstern er einnig þekktur fyrir efahygju sína gagnvart hagfræðimælingum. hann gagnrýndi hefðbundnar aðferðir í riti sínu "On the Accuracy of Economic Observations" árið 1950. Hann gaf út nokkur önnur rit um ævina og starfaði sem prófessor í hagfræði við Princeton-háskóla þar til 1970 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Hann kenndi þó að einhverju leyti við New York-háskóla eftir það. Oscar Morgenstern lést svo þann 26. júlí í Princeton, New Jersey árið 1970. Tenglar. Morgenstern, Oskar Carbapenem. Carbapenem er samheiti yfir ákveðinn flokk beta-laktam sýklalyfja. Sakir byggingar sinnar eru þau almennt þolin gagnvart betalaktam-sundrandi ensímum, þar á meðal ESBL (e. "extended spectrum beta-lactamases") og AmpC-myndandi lífverum. Meðal karbapenema má nefna imipenem, meropenem, ertapenem og doripenem. Þau carbapenem sem til eru í dag verka ekki á meticillin-ónæman "Staphylococcus aureus" (MÓSA). Einnig eru þær bakteríur sem framleiða ensímið metalló-beta-laktamasa ónæmar fyrir lyfjaflokknum, en meðal þeirra má nefna ýmsar Gram-neikvæðar bakteríur líkt og "S. maltophilia", og "P. aeruginosa". Carbapenem sýklalyf. Impipenem er breiðvirkt sýklalyf og hefur góða verkun á ýmsar loftháðar og loftfælnar gram-jákvæðar og gram-neikvæðar bakteríur. Það er gefið ásamt ensím-hindranum cilastatin, sem hindrar þar með afvirkjun lyfsins í nýrum af ensíminu dehydropeptíðasa. Það hefur aðeins meiri virkni gegn enterókokkum en samanborið við önnur lyf í hópnum. Imipenem ætti ekki að gefa flogaveikum, nýrnabiluðum né við sýkingu í miðtaugarkerfi. Imipenem og meropenem eru notuð empirískt á ýmsar gerðir sýklasótta (e. sepsis). Meropenem hefur svipaða virkni og imipenem en þolir dehýdrópeptíðasa (ensím í nýrum sem afvirkjar imipenem). Af lyfjum í lyfjaflokknum er það helst gefið við miðtaugakerfissýkingu. Imipenem og meropenem eru notuð empirískt á ýmsar gerðir sýklasótta (e. sepsis). Ertapenem er helst gefið við samfélagslungnabólgu. Það hefur lengri helmingunartíma en önnur í flokknum en hefur enga virkni á "P. aeruginosa". Doripenem er notað við spítalalungnabólgu og í sýklasótt frá þvagrás eða kviðarholi. Betalaktam-lyf. Betalaktam-lyf eru sýklalyf sem ber beta-laktam-hring. Betalaktam-lyf hafa áhrif á frumuvegg baktería og eru gerlaeyðandi, þ.e. banar bakteríum (sjá hins vegar gerlaheftandi). Af þeim má nefna undirflokkana penisillín, cephalosporín, carbapenem og monobactam. Vandamál fangans. Samkvæmt leikjafræðinni tekur sérhver einstaklingur rökrétta ákvörðun byggða á eiginhagsmunum. Samkvæmt þeirri kenningu er skynsamlegra að svíkja frekar en að vera þögull þar sem ávinningurinn er meiri. Hins vegar velja manneskjur oftar að vinna saman en gert er ráð fyrir í kenningu leikjafræðinnar sem byggir á að einstaklingar taki ákvarðanir eingöngu út frá eiginhagsmunum. Fyrir báða aðila er ríkjandi leikáætlun að svindla. Hins vegar ef báðir svindla getur það komið þeim verr en ef þeir hefðu ákveðið að þegja. Hænsnaslagur. Hænsnaslagur eða skræfa er ákveðin tegund leikjar innan leikjafræði. Nafn þessa leikjaforms er lítið notað á íslensku, en iðulega er stuðst við enska heitið "chicken game" eða einfaldlega "chicken". Í hænsnaslag keppa tveir leikmenn þar sem lögmál leiksins stýrist af því að hvorugur leikmaður vill láta undan og víkja fyrir andstæðingnum. Þannig er versta mögulega útkoma leiksins þegar báðir leikmenn standa fast á sínu og neita að gefa eftir. Hænsnaslagur tveggja ökumanna. Þekktasta sýnidæmið um þetta leikjaform vísar til tveggja ökumanna sem aka eftir sama vegi úr gagnstæðri átt. Þeir nálgast hvorn annan á ofsahraða og annar ökumaðurinn verður að víkja fyrir hinum, annars verður harður árekstur þar sem líklegt er að báðir ökumenn láti lífið þegar ökutæki þeirra skella saman. Hvorugur ökumaðurinn vill víkja fyrir hinum þar sem markmið leiksins er að sýna fram á dirfsku sína, að maður hafi sterkari taugar en andstæðingurinn. Kjósi annar ökumaðurinn að beygja frá og víkja fyrir andstæðningum, sem heldur alltaf sinni upphaflegu stefnu, er sá sem beygði frá stimplaður hænsn (e. chicken) eða skræfa. Fyrir vikið verður sá sem bíður ósigur fyrir álitshnekki en sigurvegarinn hlýtur á hinn bóginn upphefð. Ef báðir ökumennirnir víkja, tapa þeir báðir og eru í kjölfarið útnefndir skræfur. Hins vegar ber að hafa í huga að í ljósi þess að báðir ökumennirnir kusu að víkja þá er slíkt álitið skömminni skárra en að vera sá eini sem víkur. Þannig verða ökumennirnir tveir ekki fyrir jafnmiklum álitshnekki og sá sem víkur fyrir andstæðingi sem gerir það ekki. Í leik af þessu tagi er ekki til nein ríkjandi leikáætlun, þ.e. leikáætlun sem er alltaf betri en allar aðrar mögulegar leikáætlanir, sama hvað andstæðingurinn gerir. Ökumennirnir vita ekki hvað mótaðilinn hyggst gera og því er engin augljós lausn í sjónmáli. Best er fyrir ökumann A að víkja ef ökumaður B víkur ekki og að sama skapi borgar það sig fyrir ökumann A að víkja ekki ef ökumaður B hyggst víkja. Ákjósanlegasta leiðin til að hafa áhrif á leikáætlun mótaðilans í leik af þessu tagi er fyrir ökumennina að reyna að sannfæra andstæðinginn um að þeir hyggist ekki víkja fyrir mótaðilanum með stórkarlalegum yfirlýsingum þess efnis. Takist ökumanni A að sannfæra ökumann B um að hann ætli ekki að víkja og að ökumaður A telji að ökumaður B muni víkja, þá er hann búinn að gefa ökumanni B ástæðu til þess að víkja. Þetta má skýra með því að benda á að ökumaður B væri að ganga þvert gegn sínum eigin hagsmunum með því að lenda í hræðulegum árekstri, kjósi hann ekki að víkja fyrir andstæðingi sem hann veit að muni sjálfur ekki víkja. Áhrifaríkasta leiðin til að fá andstæðinginn til að víkja í leik af þessu tagi er með því að sýna honum fram á að maður sjálfur hafi ekki kost á því að víkja. Þannig gæti ökumaður A komið fyrir búnaði í bíl sínum sem myndi gera honum ókleift að breyta um akstursstefnu, t.d. með því að binda stýrið í bílnum fast. Þegar ökumaður B fréttir af aðgerðum ökumanns A hefur hann engra annarra kosta völ en að víkja þar sem hann veit að andstæðingurinn getur hreinlega ekki gert það. Kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið. Hænsnaslagsleikjaformið má heimfæra á ýmis ólík tilvik en það hefur mikið verið notað til að lýsa pólitískum og hagfræðilegum deiluefnum af ákveðinni gerð. Nærtækasta dæmið úr mannkynssögunni um þessa gerð leiks snýr að kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupi risaveldanna tveggja. Bandaríkin voru fyrsta þjóðin í heiminum til þess að þróa kjarnorkuvopn og á þeim tímapunkti, þegar þeir einir bjuggu yfir þessari tækni, má segja að Bandaríkin hafi haft algjört ægisvald gagnvart hernaðarlegum andstæðingum sínum og þ.a.l. notið hærri ávinnings en þeir. Í kjölfarið þróuðu Sovétríkin einnig tækni til að framleiða kjarnorkuvopn, gagngert til þess að bregðast við þessari nýju vá sem stafaði af Bandaríkjunum. Þessi staða leiddi til sífellt meiri vígbúnaðar þar sem stórveldin voru hrædd um að andstæðingurinn myndi ná yfirhöndinni héldu þau sjálf ekki áfram að vígbúast. Þannig eyddu bæði bandarísk og sovésk stjórnvöld gríðarlegum fjármunum í vígbúnaðarkapphlaupið en stóðu fyrir vikið nokkuð jöfnum fótum í leikjafræðilegum skilningi. Þannig lifðu íbúar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í stöðugum ótta vegna hugsanlegrar kjarnorkuárásar af hálfu andstæðingsins en þrátt fyrir að umtalsverðum fjármunum hafði verið eytt í verkefnin náðust engir hernaðarlegir yfirburðir. Versta mögulega útkoma leiksins varð því að veruleika fyrir báða þáttakendur. Þrátt fyrir að kjarnorkustyrjöld hafi aldrei orðið að veruleika, þá vofði sú hætta alltaf yfir þar sem vígbúnaðarkapphlaupið milli stórveldanna stigmagnaðist með árunum og lauk ekki fyrr en Sovétríkin liðuðst í sundur árið 1991. Emiliano Zapata. Emiliano Zapata Salazar (8. ágúst 1879 – 10. apríl 1919) var lykilmaður í mexíkósku byltingunni sem braust út árið 1910, sem var beint að þáverandi forseta landsins Porfirio Díaz. Zapata stjórnaði afar mikilvægri herfylkingu sem kallaði sig „Frelsisher suðursins“ (spænska: "Ejército Libertador del Sur") í mexíkósku byltingunni. Uppeldi. Foreldrar Emiliano Zapata voru þau Gabriela Zapata og Cleofas Salazar. Hann var afar fátækur frá barnæsku, þannig að hann hafði mikla innsýn í harðindin sem fylgdu sveitarlífinu á þessum tíma í Mexíkó. Hann fékk takmarkaða menntun frá kennara sínum, Emilio Vara. Emilio Zapata þurfti að sjá um fjölskyldu sína þegar faðir hans dó þegar Zapata var aðeins 23 ára. Ferill. Eftir að Porfirio Díaz komst til valda 1876, varð mexíkóska stjórnmála- og fjármálakerfið enn spilltara en áður og tekjuójöfnuður enn meiri, með stóraeignamenn sem réðu yfir stórum hluta landsins en ýtt minni bændum og verkamönnum í skuldaþrældóm. Zapata var einn af lykilmönnunum í baráttunni á móti þessu ranglæti. Árið 1909 var fundur kallaður af öldungum Anenecuilco í Morelos ríki, sem var ráð sem stóð í að reyna berjast fyrir rétti bæjarbúa. Zapata var kjörinn forystumaður ráðsins vegna vinsælda sinna en var aðeins þrítugur. Árið 1910 byrjaði byltingin af alvöru. Áður en hún braust út hafði Francisco I. Madero boðið sig fram í forsetakostningum á móti Días en tapað og verið sendur í útlegð. Hann barðist gegn Díaz úr útlegð og boðaði byltingu gegn honum. Zapata leit á þetta sem tækifæri, þar sem Madero var að vissu leiti með svipaðar hugsjónir og Zapata. Þegar herinn hans Zapata náðu Cuautla 19. maí 1911 varð það ljóst stjórn Díaz var að þrotum komin. Madero varð síðan forseti. Zapata líkaði hins vegar ekki hvernig Madero hélt mörgum stefnumálum Diaz óbreyttum, einkum það sem snéri að stórum landareignum. Flestir Mexíkóbúar voru óánægir og entist Madero aðeins í forsetaembætti í þrjú ár, en þá rændi hershöfðinginn Victoriano Huerta völdum og lét myrða Madero. Zapata barðist fyrir réttindum fátæks fólks alveg til dauðadags. Hann var myrtur í tilræði sem var skipulagt af hershöfðingjanum Pablo González að undirlagi Venustiano Carranza forseta en hann og Zapata höfðu barist hvor gegn öðrum í byltingunni. Pareto-hagkvæmni. Pareto-hagkvæmni er hugtak úr hagfræði sem einnig má heimfæra á verkfræði. Hugtakið er nefnt eftir Vilfredo Pareto (1848 – 1923), en hann var ítalskur hagfræðingur sem notaði hugtakið í verkum sínum um hagfræðilega hagkvæmni (e. "economic efficiency") og tekjudreifingu (e. "income distribution"). Samkvæmt efnahagslegri úthlutun Pareto-hagkvæmni getur enginn einn aðili hagnast án þess að nokkur annar einstaklingur tapi á móti. Pareto-framför (e. "Pareto improvement") verður þegar breyting á upphaflegum úthlutunum nytja meðal nokkra einstaklinga verður til þess að enginn einstaklingur tapi þó svo að einhver annar hagnist. Úthlutun er skilgreind sem Pareto-hagkvæm þegar ekki er hægt að bæta hana frekar með Pareto-framförum. Hugtakið í stuttu máli. Það er alþjóðlega viðurkennt að forðast eigi niðurstöður sem ekki eru Pareto-hagkvæmar og þess vegna er Pareto-hagkvæmni mikilvægur mælikvarði til að meta hagkerfi og opinber stefnumál. Ef efnahagsleg úthlutun hagkerfis er ekki Pareto-hagkvæm er möguleiki fyrir Pareto-framförum, Pareto-hagkvæmni eykst með: endurúthlutun þar sem í það minnsta einn þátttakandi getur náð efnahagslegum framförum án þess að minnka velsæld annars. Hins vegar er mikilvægt að muna að breyting frá óhagkvæmri úthlutun til hagkvæmrar er ekki endilega Pareto-framför. Í raun er það svo að ef tryggja á að enginn skuli tapa með breytingum sem ætlað er að ná Parteto-hagkvæmni gæti það leitt til endurgjalds fyrir einn eða fleiri þátttakendur. Sem dæmi má nefna, ef breyting á efnahagsstefnu leiðir til útrýmingar á einkasölumarkaði og sá markaður verður að hagkvæmari samkeppnismarkaður, mun einkasalinn tapa. Hins vegar mun aukin hagkvæmni vega upp á móti tapi einkasalans. Þetta þýðir að tap einkasalans vegur upp á móti þeim hagnaði sem aðrir í hagkerfinu njóta og því kallast þetta Pareto-framför. Henry Lee Lucas. Henry Lee Lucas (23. ágúst 1936 – 13. mars 2001) var einn af umdeildustu raðmorðingjum 20. aldarinnar. Hann er talinn hafa átt þátt í allt að 350 morðum. Hann var greindur með geðveiki og athyglissýki á háu stigi. Hann átti góðvin að nafni Ottis Toole sem er talinn hafa hjálpað honum í öllum hans morðum. Æska og uppvöxtur. Henry Lee Lucas fæddist í Blacksburg í Virginíu inn í mjög erfiða fjölskyldu. Faðir hans hét Anderson Lucas. Hann missti báða fætur sína í lestarslysi þegar Henry var 4 ára gamall. Móðir hans, Viola Dixon Vaughn vann sem vændiskona og lét Henry oft horfa á hana stunda samfarir við hina ýmsu kúnna. Hún klæddi hann oft í kvenmannsföt og kom illa fram við hann. Faðir hans hét Anderson Lucas. Hann missti báða fætur sína í lestarslysi þegar Henry var 4 ára gamall. Þegar Henry Lee var í sjötta bekk flúði hann að heiman. Hann snéri aftur nokkrum árum seinna og myrti móður sína. Hann sat inni í einungis 10 ár. Hann flakkaði síðan um suðurríki Bandaríkjanna og fór frá starfi til starfs. Hann kynntist manni að nafni Ottis Toole sem varð mjög góður og traustur vinur hans. Ottis átti litla frænku sem hét Frieda. Henry átti í sterku ástarsambandi við hana. Morðin og seinustu árin. Henry Lee Lucas skar móður sína á háls. Hún lést úr hjartaáfalli seinna þann dag. Henry fékk 20-40 ára dóm en slapp út eftir 10 vegna góðar hegðunar. Eftir það flakkaði hann um Suðurríkin ásamt góðvini sínum Ottis Toole og myrti að vild. Hann var handtekinn 11 júní 1983. Réttarhöldin yfir honum voru mjög löng vegna fjölda játana hans. Að lokum var hann dæmdur fyrir 11 morð og fékk þrefaldan dauðadóm fyrir verk sín. Hann lést 13 mars 2001 úr hjartabilun. Árni Múli Jónasson. Árni Múli Jónasson var bæjarstjóri Akraness frá 29. júlí 2010 til 7. nóvember 2012. Ráðning Árna fór fram á faglegum grundvelli en ekki pólitískum þar sem hann leiddi engan lista eða nokkuð þess háttar. Upp komu samkiptaörðugleikar milli hans og bæjarfulltrúa sem ekki var farið ítarlegar út í í fjölmiðlum og ákváðu bæjarfulltrúarnir því að segja honum upp. Árni Múli er lögfræðingur að mennt, með meistarapróf í alþjóðlegum mannréttindalögum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hann er kvæntur Arnheiði Helgadóttur sérkennara og eiga þau fjögur börn. Árni Múli starfaði sem fiskistofustjóri frá árinu 2009 en áður var hann meðal annars lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og aðstoðarfiskistofustjóri þar til hann tók við starfi fiskistofustjóra. Stafrófsmorðin. Stafrófsmorðin (e. "Alphabet murders") áttu sér stað á árunum 1971–1973 í Rochester í nágrenni við New York. Fórnarlömbin voru í öllum þremur tilvikunum ungar stelpur. Allar voru þær myrtar á sama hátt eða það var byrjað á því að nauðga þeim og svo voru þær kyrktar. Ástæðan fyrir því að þessi morð voru kölluð stafrófsmorðin var sú að fornafn og eftirnafn stúlknanna byrjuðu á sama staf og að morðinginn skyldi líkin eftir í bæjum sem byrjuðu á sama staf og nöfn fórnarlambanna, til dæmis var Carmen Colon fundin nálægt bænum Chili, Wanda Walkowicz í Webster og svo framvegis. Fórnarlömb. Fyrsta fórnarlambið Carmen Colon hvarf 16. nóvember 1971. Hún var 11 ára. Tveimur dögum síðar fannst hún 12 mílum frá staðnum þar sem að hún var síðast séð. Líkið var illa leikið, það var búið að berja hana, nauðga henni, kirkja hana með berum höndum og var mikið af sárum á öllum líkama hennar. Seinna kom í ljós að vegfarendur höfðu séð hálf nakta 11 ára stelpu hlaupandi undan bláum bíl og ekkert var gert. Sautján mánuðum síðar hvarf Wanda Walkowicz. Hún var líka 11 ára gömul. Hún hafði verið send út í búð að kaupa matvörur. Hún fannst daginn eftir í almenningsgarði í Webster þar sem búið var að nauðga henni og búið að kyrkja hana með belti. DNA-sýni fannst á líkama hennar. Vitni höfðu séð unga rauðhærða stelpu sem passar við lýsingu Wöndu tekna upp í brúnan bíl. Það bar hins vegar ekki saman við bílinn sem Carmen var tekin upp í. Michelle Maenza, 10 ára, hvarf 26. nóvember 1973. Hún hafði síðast verið séð fyrir utan heimili sitt. Hún fannst tveimur dögum síðar í vegkanti. Vitni hafði séð Michelle uppi í bíl fyrir utan skyndibitastað og sást maður stíga upp í bílinn með poka fullann af mat. Þessi frásögn passar við krufningarskýrslur Maenza en það síðasta sem hún borðaði var hamborgari. Rannsókn. Hundraðir manna voru yfirheyrðir en morðinginn náðist aldrei. Nokkrir hafa verið grunaðir í gegnum árin og var meðal annars sem þarfnaðist frekari rannsóknar. Hann fyrirfór sér sex vikum eftir síðasta morðið. Árið 2007 var nafn hans hreinsað með erfðaefnisrannsóknum. Einnig var frændi Carmen Colon grunaður um morðin þar til hann fyrirfór sér árið 1991. Annar grunaður var íssali í Rochester. Síðar kom á daginn að hann og frændi hans frömdu svokölluðu Hillside Strangler morðin á árunum 1977–1978. Hann er enn þann dag í dag grunaður um morðin fyrir þær sakir að bílinn hans var séður á tveimur stöðum þar sem morðin voru framin. Árið 2011 var hinn 77 ára Joseph Naso frá New York handtekinn í Reno í Nevada fyrir morð á árunum 1977. Fórnarlömb hans voru meðal annars Pamela Parsons og Carmen Colon (ekki sú fyrirnefnda). Allar áttu fórnarlömb hans áttu það sameiginlegt að vera vændiskonur og hafa sama staf sem byrjunarstaf í fornafni og eftirnafni. Hann hélt nauðgunardagbók og sagði meðal annars frá dauða stúlku í „skógnum í Buffalo“, en þá er verið að vitna í svæði mögulega í uppsýslum New York. Naso var ljósmyndari að atvinnu og ferðaðist oft á milli New York og Kaliforníu áratugum saman. Naso sagði meðal annars „í mínum menningarheim er nauðgun það sama og að sofa hjá“. Einungur. Einungur (eða hálfgrúpa með hlutleysu) er algebrumynstur í hreinni algebru sem hefur eina tengna tvístæða aðgerð og hlutleysu. Einungur telst víxlinn ef aðgerðin er víxlin. Náttúrulegu tölurnar mynda til dæmis víxlinn einung undir samlagningu (þar sem núll er hlutleysan) og margföldun (þar sem einn er hlutleysan), þar sem "a" + ("b" + "c") er það sama og ("a" + "b") + "c" og "a" + 0 = 0 + "a" = "a" fyrir allar náttúrulegar tölur "a", "b", "c". Sæliljur. Sæliljur (fræðiheiti: "crinoidea") er hópur skrápdýra sem lifa í sjónum. Sæliljur geta lifað bæði mjög grunnt en einnig alveg niður í 6 kílómetra dýpi. Sæliljur geta verið fastar við botninn en einnig geta sumar tegundir synt um höfin með örmum sínum. Um 5000 tegundir af sæliljum hafa fundist í steingervingum frá fyrri tímum en í dag er talið að um 600 tegundir séu en á lífi. Um 80 tegundir eru svokallaðar botn sæliljur, það er að þær eru fastar við botninn með stilk en þessar tegundir eiga það til að lifa dýpra en þær 540 tegundir sem eru stilkslausar. Fundist hafa allt að 50 tegundir af sæliljum á einu kóral rifi í Kyrrahafinu og er þéttleikinn svo mikill að allt að 12 tegundir geta fundist á einum fermetra. Svo virðist vera að sæliljur lifi helst í heitum sjó en fundist hafa nokkrar tegundir í kaldari sjó eins og við Ísland. Nú síðast í neðansjávarmyndatökuleiðangri Hafrannsóknastofnunar Íslands á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni, í lok júní 2012, en hann fór fram í Háfadjúp, kantinum austan við Háfadjúp og í Reynisdjúpi. Fundust víða miklar breiður af sæliljum á leirbotni á um 500 metra dýpi. Líffræði og saga. Sæliljur hafa munn á efra yfirborði sem er umkringdur fóðrunarörmum. Þær hafa U-laga maga og endaþarmurinn er við hliðin á munninum. Flestar tegundirnar hafa fleiri en fimm arma. Sæliljur eru oftast fastar með stilk við jörðina þegar þær eru ungar en losna svo og synda frjálsar þegar þær þroskast. Þær nærast með því að grípa fæðu úr sjónum með því að opna arma sína þegar armarnir hafa gripið fæðuna þá færist fæðan með ákveðnu ferli með hjálp slímhúðar sæliljurnar í átt að munninum. Stærð fæðunnar er á bilinu 50 – 400µm. Fæðan er margskonar allt frá kísilþörungum til hryggleysingja lifrum og litlum krabbadýrum. Armarnir eru einnig mikilvægir fyrir þær sæliljur sem eru stilkslausar að geta synt. Með því að slaka og spenna vöðva í örmunum geta sæliljur synt.Flokkur sælilja Antedon geta synt með þessum hætti, en vegna þess hversu orkukræft þetta er þá láta flestar sæliljur duga að láta strauminn bera sig. Innri líffæri eru nánast aðeins fyrir meltingu og æxlun. Einnig virðist vera mikill massi í kjarnanum sem er notaður til að endurbyggja líkamshluta. Því miður eru allir flokkar sælilja útdauðir nema einn flokkur sem heitir Articulata. Af steingervingum að dæma þá virðist útbreiðsla sælilja hafa verið mest á fornlífsöld en allir nema einn flokkur virðast deyja út á Permtímabilinu. Stærsta sælilja sem fundist hefur, Metacrinus superbus var 1,5 metri að stærð, en stilklausar sæliljur eru oftast minni en þær sem hafa stilk en stærsta stilklausa sæliljan, Helimetra glacialis, var 35 cm að þvermáli. Sæliljur eru annað hvort karlkyns eða kvennkyns. Þær hafa engann sérstakann kynkirtil en framleiða kynfrumur í kynfærum sem finnast í örmum þeirra. Þessi kynfæri rifna að lokum og þá sleppa sæði og egg í sjóinn í kring. Frjóvgað egg klekst og sleppir syndandi lirfu. Lirfan nærist ekki og er líftími hennar aðeins nokkrir dagar en hún verður að geta komið sér fyrir á botninum og fest sig við botninn. Lirfan umbreytir sér svo í stilkaða sælilju. Sæliljur eru 10-16 mánuði að verða kynþroska. Árið 2005 fannst stilkuð Sælilja sem togaði sig áfram með örmum sínum og dróg stilkinn með sér. Það kom rannsóknarmönnum á óvart að hún gat ferðast á allt að 0,6 m/klst með þessum hætti. Líklega hefur stærsta sælilja verið "Pentacrinites" sem er nú útdauð en stilkurinn á þeim gat verið nokkrir metrar að lengd. Stærsti steingervingur sem fundist hefur af Pentacrinites var 40 metrar að lengd. Sæliljur eiga óvini eins og flest önnur dýr í hafinu. Einnig vegna fjölda arma þá notfæra önnur smærri dýr armanna til að fela sig frá óvinum þeirra, stundum verða sæliljurnar fyrir skaða vegna þess að dýr leita af önnur smærri dýrum inn á milli armanna. Að minnsta kosti nýju tegundir eru þekktar sem fæðist á sæliljum, flest þessara dýra lifa á kóral svæðum. Triggerfiskurinn ("balistoides conspicillum") er þekktur óvinur sæliljanna en hann bítur arma af þeim. Einnig Silfraði sjólabbinn ("chrysophrys auratus") en hann er eini þekkti fiskurinn sem étur sæliljurnar heilar. Fleiri tegundir eru krabbar og krossfiskar. Sem betur fer fyrir sæliljurnar þá hafa þær ótrúlegan hæfileika til að endurbyggja arma og jafnvel líffæri sem étin hafa af óvinum þeirra. Hvergi er að finna gögn um efnahagslegt mikilvægi en mögulega til framtíðarinnar litið er hægt að finna með rannsóknum og nýsköpun eitthvað mikilvægt sem hægt er að vinna verðmæti úr. Engar beinar rannsóknir hafa verið gerðar á sæliljum hér við land en þær hafa komið í ljós hér við land í eins og fyrr sagði neðansjávarmyndartökuleiðangri hjá Bjarna Sæmundssyni. Mýrarskeiðið síðara. Mýrarskeiðið síðara er síðasta veðurfarsskeið Hólósentímabilsins. Það hófst fyrir um 2500 árum og stendur enn yfir. Meðalhiti á þessu tímabili er enn eilítið lægri en á birkiskeiðinu síðara og mýrarskeiðinu fyrra. Á þessu tímabili hefur hiti sveiflast með miklum áhrifum á dýra- og jurtalíf sem óbeint hefur haft áhrif á þróun siðmenningar. Síðustu tvær aldir þessa tímabils með síaukinni iðnvæðingu hafa athafnir mannsins haft áhrif á loftslagsbreytingar með stórauknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Mannöld. Samsett mynd af jörðu að nóttu til Mannöld eða mannskepnutímabilið er óformlegt heiti á tímabili í jarðsögunni þar sem áhrif athafna mannsins eru greinileg. Formlegt heiti á yfirstandandi jarðsögutímabili er Hólósen sem hófst fyrir 10.000 árum síðan. Sumir fræðimenn hafa stungið upp á notkun þessa heitis yfir tímann sem nær frá upphafi iðnbyltingarinnar fyrir um 200 árum síðan sem þá myndi marka endalok Hólósentímabilsins en aðrir vilja staðsetja upphaf mannaldar fyrir 8.000 árum síðan þegar landbúnaðarbyltingin hófst og enn aðrir fyrir 2000 árum síðan sem nær þá nokkurn veginn saman við síðasta skeið Hólósentímabilsins, mýrarskeiðið síðara. Saga Evrópu. Hellamálverkin í Lascaux í Frakklandi eru talin vera 17.300 ára gömul Saga Evrópu er saga þess fólks sem byggt hefur álfuna Evrópu frá forsögulegum tíma til okkar daga. Talið er að "Homo erectus" hafi fyrst flutt til Evrópu frá Afríku fyrir um 1,8 milljón árum síðan. Neanderdalsmenn birtust í Evrópu fyrir um 600.000 árum síðan en yngstu menjar um þá eru frá því fyrir 30.000 árum síðan. Elstu merki um "Homo sapiens sapiens" í Evrópu eru um 45.000 ára gömul. Fyrir um 8000 árum hófst landbúnaðarbyltingin sem markar upphaf nýsteinaldar. Þekktustu menningarsamfélög evrópskrar forsögu eru Mýkenumenningin og mínóísk menning sem blómstruðu á bronsöld. Frá þeim tíma eru elstu dæmin um notkun ritmáls í Evrópu. Fornöld. Klassísk fornöld hófst í Evrópu á 8. öld f.Kr. þegar borgríki þróuðust í Grikklandi og saga Rómaveldis hófst með stofnun Rómar 753 f.Kr. Útbreiðsla grískrar menningar náði hátindi sínum með landvinningum Alexanders mikla á 4. öld f.Kr. Rómaveldi lagði síðan undir sig leifar gríska heimsins og stóran hluta Evrópu. Á þjóðflutningatímanum hnignaði Rómaveldi, meðal annars vegna árása húna og germanskra þjóðflokka sem að lokum bundu endi á Vestrómverska keisaradæmið árið 476. Annars einkenndist síðfornöld af útbreiðslu Kristni, fyrst innan Rómaveldis og síðan út fyrir landamæri þess. Miðaldir. Við fall Rómaveldis hófust miðaldir í sögu Evrópu. Á þessum tíma náði Austrómverska keisaradæmið yfir Suðaustur-Evrópu og hluta Litlu-Asíu. Frankar lögðu undir sig stóra hluta Evrópu og Frankaveldið náði hátindi sínum undir Karlamagnúsi um 800. Engilsaxar lögðu England undir sig skömmu eftir brottför Rómverja þaðan á 5. öld. Vald páfans í Róm óx samhliða því að þessar germönsku þjóðir tóku upp kristni. Síðasta skeið ármiðalda stóð víkingaöld yfir þegar norrænir menn réðust á ríkin sunnar í álfunni og lögðu undir sig hluta þeirra. Í kjölfarið risu nokkur hertogadæmi Normanna í sunnanverðri Evrópu á hámiðöldum. Krossferðirnar hófust sem svar við uppgangi Seljúktyrkja í Litlu-Asíu og árásum þeirra á Austrómverska veldið. Krossferðirnar leiddu til þess að Feneyjar og Genúa á Îtalíu urðu öflug sjóveldi. Málverk af Kristófer Kólumbusi frá 1519 Innrás Mongóla í Evrópu hófst á 13. öld undir stjórn Gengis Kan. Þegar veldi Mongóla í Austur-Evrópu hnignaði reis Rússaveldi upp og lagði smátt og smátt undir sig stóran hluta Norður-Asíu næstu aldirnar. Árið 1453 féll Austrómverska keisaradæmið þegar Mehmet 2. Tyrkjasoldán lagði Konstantínópel undir sig. Tyrkir lögðu næstu ár undir sig stóra hluta Suðaustur-Evrópu. Endurheimt Spánar frá múslimskum konungum lauk þegar Ferdinand og Ísabella lögðu Granada undir sig árið 1492 sama ár og Kristófer Kólumbus kom til Ameríku. Á síðmiðöldum hófst endurreisnin þegar listræn viðmið og heimspekirit klassískrar fornaldar urðu grundvöllur nýrrar evrópskrar menningar. Nýöld. Lok miðalda og upphaf nýaldar í sögu Evrópu eru miðuð við ýmis ártöl á 15. og 16. öld. Prentun bóka hófst í stórum stíl eftir að Gutenberg fann upp prentvélina. Prentlistin varð ein af stoðum siðaskiptanna og útbreiðslu mótmælendatrúar í Norður-Evrópu. Á landafundatímabilinu sigldu evrópskir landkönnuðir um allan heim og lögðu grunninn að landvinningum evrópsku konungsríkjanna í Afríku, Ameríku og Asíu næstu aldirnar. Á fyrri hluta 17. aldar stóð mannskætt Þrjátíu ára stríð yfir í Mið-Evrópu sem lauk með Vestfalíufriðnum árið 1648. Bæði Þrjátíu ára stríðið og Enska borgarastyrjöldin fólu í sér uppgjör milli mótmælenda og kaþólikka í Norður-Evrópu. Í evrópskum stjórnmálum festust í sessi hugmyndir um alþjóðasamskipti milli fullvalda ríkja og mikilvægi valdajafnvægis í álfunni og hugmyndin um að konungsvald skyldi takmarkað af kjörnum þingum (þingbundin konungsstjórn). Á sama tíma hófst vísindabyltingin með nýjum rannsóknartækjum og auknum áhuga á raunvísindum; stjörnufræði, líffræði og efnafræði. Í kjölfar landafundanna lögðu sum Evrópuveldin undir sig stór svæði um allan heim og gerðust heimsveldi. Árið 1775 gerði ein af nýlendum enska heimsveldisins í Ameríku uppreisn og Bandaríki Norður-Ameríku voru stofnuð undir áhrifum upplýsingarinnar og nýrra hugmynda um stjórnarfar. Franska byltingin hófst 1789. Í kjölfarið fylgdu miklir umbrotatímar í Evrópu sem lyktaði með því að stærstur hluti meginlandsins varð hluti af Frakkaveldi undir stjórn Napoléons Bonaparte. Undir lok 18. aldar hófst iðnbyltingin í Englandi með þróun nýrra gufuvéla. Iðnbyltingin hafði gríðarleg áhrif á fólksfjöldaþróun og borgarmyndun í Evrópu næstu ár. Mikil fólksfjölgun og fátækt gat af sér fólksflótta til nýlendnanna. Nútíminn. Hugmyndir um stjórnarskrárbundið konungsvald og lýðræði lifðu áfram eftir að veldi Napóleons var hnekkt í upphafi 19. aldar. Á sama tíma varð til hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. 19. öldin í Evrópu einkenndist því ekki síst af byltingum og sjálfstæðisbaráttu. Þýskaland og Ítalía urðu á þessum tíma sjálfstæð ríki. Á sama tíma var bændaánauð var afnumin víðast hvar, síðast í Rússlandi 1861. Á Balkanskaga hófst aftur sjálfstæðisbarátta gegn Tyrkjaveldi sem hafði hnignað smám saman aldirnar á undan. Barátta hinna risaveldanna um leifar Evrópuhluta Tyrkjaveldis leiddu til Krímstríðsins 1853 og einnig óbeint til Fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914. Undir lok heimsstyrjaldarinnar hófst Rússneska byltingin sem kom kommúnistum til valda í Rússlandi og leiddi til stofnunar Sovétríkjanna. Á millistríðsárunum áttu róttækar stjórnmálastefnur, kommúnismi og fasismi, miklu fylgi að fagna víða á meginlandi Evrópu. Kreppan mikla og afarkostirnir sem Þjóðverjum voru settir með Versalasamningunum 1919 urðu til þess að nasistar náðu völdum í Þýskalandi og komu þar á flokksræði líkt og á Ítalíu og í Rússlandi. Útþenslustefna Þjóðverja leiddi til Síðari heimsstyrjaldarinnar, mannskæðustu átaka mannkynssögunnar. Á endanum biðu Þjóðverjar ósigur og herir Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna lögðu lönd þeirra undir sig. Þessi stórveldi skiptu Evrópu síðan í áhrifasvæði eftir styrjöldina og talað var um járntjaldið sem skildi að áhrifasvæði Vesturlanda og Sovétríkjanna á tímum Kalda stríðsins. Árið 1989 voru gerðar byltingar sem tókst að fella ríkisstjórnir margra kommúnistaríkja í Austurblokkinni og Sovétríkin sjálf liðuðust í sundur skömmu síðar. Evrópusambandið fékk í kjölfarið stóraukið vægi sem samstarfsvettvangur Evrópuríkja. Árið 1993 var Maastricht-sáttmálinn gerður sem kvað á um þrjár stoðir Evrópusambandsins og upptöku sameiginlegrar myntar, evrunnar. Evrópusambandið hefur síðan smám saman stækkað til austurs. Aðildarríki þess eru nú 27 talsins en voru aðeins 6 þegar Evrópubandalagið var stofnað árið 1957. Oft hefur þó reynt á þetta samstarf, eins og í skuldakreppunni sem reið yfir Evrópu í upphafi árs 2010. Tímabil í sögu Evrópu. Aðferðir við að skipta sögu Evrópu í tímabil eru margar og umdeildar. Jafnvel þótt ólíkir höfundar noti sömu hugtökin yfir svipuð tímabil getur eins verið að þeir skilgreini þau á ólíkan hátt. Fantasía 2000. "Fantasía 2000" (enska: "Fantasia 2000") er bandarísk Disney-kvikmynd frá árinu 1999 sem er framhaldsmynd kvikmyndarinnar "Fantasía". Myndin var framleidd af Walt Disney Feature Animation og gefin út hjá Buena Vista Distribution. Hnykkhöfðar. Hnykkhöfðar (fræðiheiti: "Kinorhyncha") eru fylking hryggleysingja. Hnykkhöfðar ganga oft undir enska heitinu "mud dragons" sem þýðir „drulludrekar“. Hnykkhöfðar eru skilgreindir sem ormlaga sjávarlífverur. Innan fylkingarinnar eru þekktar 150 tegundir dýra. Þessi dýr voru fyrst uppgötvuð undan norður strönd Frakklands. Dýrin hafa fundist allt frá nyrstu hlutum Grænlands til Suðurskautslandsins. Því verður að teljast líklegt að dýr af þessari tegund finnist við Ísland. Dýrin lifa á sjávarbotn, á sandströndum og við árósa, og allt niður á 5000 – 8000 metra dýpi á sand-eða moldarbotnimosa og jafnvel á svampdýrum. Ekki eru til neinir steingerðir hnykkhöfðar og því er lítið vitað um þróunarsögu fylkingarinnar en talið er að hnykkhöfðar hafi þróast út frá flatormum (e. "free-living primitive flatworms"). Líffræði. Hnykkhöfðar eru mjög smáir eða innan við 1 millimetri og hafa enga útlimi. Búkurinn er langur, aflíðandi og skiptist í 9 lög hjá ungviðinu en 11 lög hjá fullvaxta dýri. Búkurinn er sveigjanlegur og getur lífveran dregið hausinn inn í búkinn. Flestir hnykkhöfðar eru gulbrúnir að lit og falla oftast vel inn í umhverfið. Búkurinn hefur nokkra hryggi og hausinn samanstendur af allt að sjö hringlaga hryggjum. Hnykkhöfðar eru ósyntir en þeir nota hryggina til hreyfinga á milli staða. Hnykkhöfðar geta dregið sjó inn í höfuð sitt. Þeir nota þessa auknu þyngd til þess að halda sér við botninn og hjálpar það þeim til þess að geta skriðið. Maðkamæður ("priapulida") eru systurfylking hnykkhöfða en í þeirri fylkingu má finna merkileg dýr á við typpaorminn. Hnykkhöfðar nærast á kísilþörungum og lífrænum efnum sem finnast í drullu. Lífveran er útbúin litlum burstum sem gefa henni tilfinningu fyrir snertingu. Föstudagurinn þrettándi. Föstudagurinn þrettándi er eins og nafnið gefur til kynna föstudagur. Þessi föstudagur er hins vegar kallaður föstudagurinn þrettándi því að hann ber upp á 13. mánaðardag viðkomandi mánuðs. Föstudagurinn þrettándi á engan sérstakan fastan dag á árinu. Hjátrú. Samkvæmt hjátrú eru slæmir atburðir líklegri til að gerast þegar þrettánda dag mánaðar ber upp á föstudegi. Líku er farið með ýmsa aðra hjátrú á tölunni 13. Beykir. Þýsk mynd frá 1880 sem sýnir beyki að störfum. Beykir er handverksmaður sem býr til og gerir við tunnur og önnur ávöl ílát sem gerð eru úr spýtum sem haldið er saman með tré eða málmi. Gömul þýsk verkfæri sem beykir notaði. Deccan-flæðibasaltið. Deccan-flæðibasaltið (eða Deccan-tröppurnar) er stórt flæðibasaltsvæði sem staðsett er á Deccan-sléttunni við mitt-vestanvert Indland (á milli 17°-24°N, 73°-74°A) og er eitt af stærstu eldvirknisvæðum jarðar. Svæðið er samsett úr fjölda hraunlaga sem eru samanlagt yfir 2000 m þykk og ná yfir 500.000 km2 svæði. Rúmmál hraunanna er um 512.000 km3. Tröppunafnið Í Deccan-tröppurnar (Deccan traps) er komið úr sænsku og vísar til þess að hraunlögin mynda klettabelti sem eru eins og þrep eða tröppur í fjallahlíðum og landslagi svæðisins. Saga. Deccan-svæðið er hér sýnt sem fjólublár blettur við mitt Indland Deccan-basaltið myndaðist á tímabili mikillar eldvirkni fyrir 60 – 68 milljónum ára í lok Krítartímabilsins. Mesta eldvirknin var fyrir 65 milljónum ára nálægt því svæði þar sem borgin Mumbai er í dag. Ákafasta eldvirknitímabilið hefur hugsanlega varað í tæplega 30 þúsund ár. Upprunalega svæðið sem hraunlögin þöktu er áætlað hafa verið um 1,5 milljónir km2 eða um helmingur Indlands. Deccan-basaltsvæðið hefur minnkað að umfangi vegna rofs og flekahreyfinga. Núverandi kannað svæði er um 512.000 km2. Áhrifa eldgosa á loftslag og lífríki. Losun gosgufa út í andrúmsloftið, þá sérstaklega brennisteinsdíoxíðs á meðan á eldgosunum stóð olli loftlagsbreytingum og líklegt að hitastig hafi fallið um 2°C. Vegna stærðar og umfangs eldvirkninnar á svæðinu töldu vísindamenn að gastegundirnar sem mynduðust í gosunum höfðu haft áhrif á fjöldaútdauðann á mörkum Krítar og Tertíer sem meðal annars þurrkaði út risaeðlur af yfirborði jarðar. Skyndileg kólnun af völdum brennisteinsgastegunda sem losnuðu við eldgosin gæti hafa átt talsverðan þátt í fjöldaútdauðanum. Hins vegar er samstaða um það í vísindasamfélaginu að fjöldaútdauðinn hafi orðið af völdum árekstar loftsteins eða halastjörnu við jörðina og er Chicxulub-gígurinn í Mið-Ameríku talin vera gígurinn sem myndaðist við áreksturinn. Sambærileg flæðibasaltsvæði og Deccan svæðið eru til víðar um hnöttin, t.d Síberíuflæðibasaltið (Siberian Traps). Wojciech Szczęsny. Wojciech Tomasz Szczęsny (fæddur 18. apríl 1990 í Varsjá) er pólskur knattspyrnumaður sem spilar sem markvörður hjá Arsenal F.C.. Hann spilaði upp yngri flokka Agrykola Warszawa og síðar Legia Warszawa þar til hann skrifaði undir hjá Arsenal þegar hann var 16 ára gamall árið 2006. Szczęsny, Wojciech Tomasz Santi Cazorla. Santiago Cazorla Gonzáles (fæddur 13. desember 1984) er spænskur jafnfættur knattspyrnumaður sem spilar með Arsenal F.C. Cazorla er fjölhæfur leikmaður, sem getur spilað sem leikstjórnandi á miðjunni, sem og á báðum vængjum vallarins. Ferill. Santi Cazorla byrjaði átta ára gamall að æfa með Covadonga en færði sig í Oviedo fjórum árum síðar. Þegar hann var 19 ára árið 2003, var hann seldur til Villarreal, þar sem hann spilaði við mjög góðan orðstír til ársins 2011 þar sem hann stoppaði í millitíðinni í eitt ár hjá Recreativo árið 2006. Árið 2011 skrifaði Cazorla svo undir samning hjá Malaga, sem keyptu hann á 23 milljónir evra, en neyddust til að selja hann ári síðar vegna fjárhagsvandræða til Arsenal á 16 milljónir evra. Cazorla, Santi Harold Shipman. Harold Shipman (14. janúar 1946 – 13. janúar 2004) var breskur læknir og raðmorðingi. Hann myrti yfir 250 manneskjur samtals. Árið 2000 var hann dæmdur til lífstíðarfangelsis fyrir að myrða 15 manns. Eftir yfirheyrsluna hófst rannsókn á öllum dauðsföllum sem Shipman olli. Það kom í ljós að um 80 % fórnalambanna hans voru konur. Yngsta fórnalambið var 41 ára gamall karlmaður. Mörgum lögum á Bretlandi varðandi heilbrigði og læknisfræði var breytt í kjölfar glæpa Shipmans. Shipman er eini breski læknirinn sem hefur verið uppvís að morðum á sjúklingunum sínum. Hann dó árið 2004 eftir að hann hengdi sig í fangaklefanum sínum. Uppeldi og ferill. Harold Frederick Shipman fæddist í Nottingham í Englandi og var annað fjögurra barna. Móðir hans, Vera, dó þegar hann var 17 ára gamall, en Shipman var mjög náinn henni. Faðir hans var flutningabílstjóri. Mæðginunum þótti mjög vænt um hvort annað og hafði dauði hennar mjög mikil áhrif á hann. Þegar hún var orðin veik, fékk hún morfín frá lækni sínum. Þegar móðir hans dó ákvað hann að fara í læknisnám. Shipman hitti konu sína þegar hann var 19 ára, þau giftust þegar hún var 17 ára. Árið 1974 var hann byrjaður að vinna sem læknir, en var þá orðinn háður verkjalyfjum. Hann falsaði lyfseðla fyrir mikið magn lyfja, hann var neyddur til þess að fara í leyfi og fara í meðferð þegar hann var staðinn að verki af samstarfsmönnum hans árið 1975. Nokkrum árum seinna var hann aftur ráðinn sem læknir, það var lítið á hann sem vinnuþjark og hann naut trausts sjúklinga og samstarfsmanna. Hann vann í næstum tvo áratugi og hegðun hans olli aðeins minniháttar athygli hjá öðru heilbrigðisstarfsfólki. Uppgötvun. Glæpir Shipmans voru loks uppgötvaðir eftir að hann falsaði erfðaskrá eins fórnarlambanna, Kathleen Grundy, þannig að honum var ánafnað allt. Hafði hann gefið Kathleen banvænan skammt af morfíni og lét hann jafnframt koma fram í erfðaskráin að brenna skyldi líkið. Hún var engu að síður grafin. Dóttur hennar grunaði strax að eitthvað var rangt og fór því til lögreglunnar. Líkami Grundy var grafinn upp og ransakaður. Morfín fannst í vöðvavef hennar. Þegar þetta uppgötvaðist voru ellefu önnur fórnarlömb rannsökuð. Á meðan skoðaði lögreglan skurðgerðatölvu Shipman og fann að hann hafði fært rangar færslur til að styðja við úrskurð sinn um dánarorsakir fórnarlambana. Dómurinn. Réttarhöldin yfir Harold hófust 5. október 1999. Hann var kærður fyrir morðin á Marie West, Irene Turner, Lizzie Adams, Jean Lilley, Ivy Lomas, Muriel Grimshaw, Marie Quinn, Kathleen Wagstaff, Bianka Pomfret, Norah Nuttall, Pamela Hillier, Maureen Ward, Winifred Mellor, Joan Melia og Kathleen Grundy. Allar þessar konur dóu á milli áranna 1995 og 1998. Þann 31. janúar 2000, eftir sex daga af deilum, komst kviðdómurinn að niðurstöðu. Hann var fundinn sekur um að hafa drepið 15 sjúklinga með banvænum skammti af morfíni og fyrir að falsa erfðaskrána hjá Kathleen Grundy. Hann var dæmdur til að afplán fimmtán lífstíðardóma og var mælt með að honum myndi ekki vera sleppt úr fangelsi. Hann fékk einnig fjögurra ára dóm fyrir að falsa erfðaskrána. Hann var einni sviptur læknisréttindunim sínum 11. febrúar, tíu dögum eftir að réttarhöldunum lauk. Shipman harðneitaði öllum ásökum á hendur sér og sagðist vera saklaus. Einnig var eiginkona hans, Primrose, í afneitun af þessum glæpum sem hann framdi. Dauði. Harold Shipman framdi sjálfsmorð á 58 ára afmælisdegi sínum í fangelsisklefanum í Wakefield Prison í Vestur-Yorkshire um klukkan 6.20 þann 13. janúar 2004. Hann á að hafa hengt sig með því að binda lök við rimlana. Sumir fjölskyldumeiðlimir af fórnarlamba hans fannst eins og það hafi verið svindlað á þeim, þar sem sjálfsmorðið hans þýddi að þau myndu aldrei heyra játningu hans af glæpunum sem hann framdi. Dauði hans fékk mikla umfjöllun í breskum slúðurblöðum, svo sem í "The Sun", þar sem stóð „Ship Ship Hooray“ til að fagna dauða hans. Ástæða þess að hann framdi sjálfsmorð er ekki kunn en þó var haldið fram að hann hafi framið sjálfsmorð til að ekkja hans myndi fá ellilífeyri. Lee Atwater. George H. W. Bush og Lee Atwater skemmta Harvey LeRoy „Lee“ Atwater (27. febrúar 1951 – 29. mars 1991) var bandarískur stjórnmálaráðgjafi. Æviágrip. fæddist í Atlanta í Georgíu þann 27. febrúar 1951. Hann ólst upp með foreldrum sínum og tveimur systkinum í Aiken í Suður-Karólínu. Þegar Atwater var fimm ára gerðist sorgaratburður. Þriggja ára bróðir hans, Joe, lést þegar hann dró yfir sig pott af djúpsteikingarolíu. Atwater útskrifaðist árið 1970 úr Newberry College. Hann var formaður stúdenta í Suður-Karólínska löggjafarráðinu. Árið 1977 fékk hann mastersgráðu í fjölmiðlun. Hann kvæntist Sally Dunbar árið 1978 og þau áttu þrjú börn. Þann 5. mars árið 1991 hneig Lee Atwater niður á fjáröflunarmorgunverði sem haldinn var fyrir Phil Gramm öldungardeildarþingmann. Eftir læknisskoðun kom í ljós að um mjög alvarlegt heilahæxli væri að ræða. Krabbameinsmeðferðin var erfið. Líkami hans og andlit bólgnuðu upp og hann lamaðist og var bundin við hjólastól það sem eftir var af ævi hans. Hann lést 29. mars árið 1991. Fyrstu skrefin. Í áttunda bekk komst Atwater í fyrsta skipti í snertingu við stjórnmál. Þá fór bekkurinn hans í skoðunarferð til Washington DC þar sem að Atwater varð algerlega heillaður. Í menntaskóla fór hann mikið að huga að framtíðinni og var spenntur fyrir lögfræðinámi og jafnvel að starfa einn daginn í pólitík. Á svipuðum tíma stjórnaði Atwater kosningabaráttu fyrir vin sinn, sem bauð sig fram sem forseta nemendafélagsins og vann. Þar kviknaði áhugi Atwater á að vera „maðurinn á bakvið manninn“. Á meðan hann var nemandi í Newberry College sat hann fyrir hönd skólans í College Republicans National Committee og sem stjórnarnefndarmaður í South Carolina Student Legislature. Eftir útskrift starfaði Atwater fyrir Repúblikanaflokkinn í Suður-Karólínu (South Carolina Republican Party). Þar vann hann að kosningabaráttum hjá Carroll Campbell, ríkisstjóra Suður-Karólínu, og Strom Thurmond, öldungadeildarþingmanni. Það var þá sem Atwater varð þekktur fyrir klókar kosningarherferðir og útsjónarsemi sína í að nota persónuleg vandamál andstæðinganna til að eyðileggja fyrir þeim. Þessi hæfni hans kom svo bersýnilega í ljós í þingkosningunum árið 1980. Þá starfaði Atwater sem ráðgjafi fyrir Floyd Spence, þingmann repúblikana. Atwater stjórnaði sjónvarpsauglýsingu sem að réðst á Tom Turnipseed, sem var andstæðingur Spence. Í auglýsingunni kom fram að Turnipseed hafði sem unglingur verið þunglyndur og hafði farið í raflostsmeðferð. Atwater lék þannig úr spilunum að Turnipseed hefði verið háður startköplum og væri veikgeðja. Pólitískir andstæðingar Atwater uppnefndu hann Svarthöfða kænskubragða repúblikana. Reagan-árin. Eftir þingkosningarnar árið 1980 ákvað Atwater að flytja til Washington DC þar sem ferill hans tók nýjar hæðir er hann hóf störf sem pólitískur ráðgjafi hjá forsetanum, Ronald Reagan. Orðspor hans sem klækjarefur jókst eftir því sem honum tókst, trekk í trekk, að slá andstæðingana niður andstyggilegum brögðum sem enginn hafði séð áður. Á sama tíma hélt hann áfram að spila á gítarinn sinn, bæði á tónleikum og skemmtistöðum og loks gaf hann út plötu sem fékk frábæra dóma. Honum var mikið í mun að hafa gaman af lífinu og kom út sem eins konar sprelligosi. Bush-árin. Eftir að hafa þekkt varaforsetann George H. W. Bush í átta ár á meðan hann vann fyrir ríkisstjórn Reagans ákvað Bush að velja Atwater til þess að sjá um forsetaframboðsherferðina sína árið 1988. Það var þá sem Atwater blómstraði sem klækjarefur. Atwater tókst að eyðileggja herferð andstæðingsins, Michaels Dukakis, ríkisstjóra Massachusetts. Það gerði hann með því að birta herskáa auglýsingaherferð þar sem ótal sögusagnir um Dukakis litu dagsins ljós og höfðu stórfelld áhrif á framboð hans til forseta. Ein þessara sögusagna var að leka þeirri ósönnu staðreynd að eiginkona Dukakis hefði brennt bandaríska fánann á unglingsárum. Hins vegar fólst versta og umdeildasta árás Atwaters í því að birta pólitíska auglýsingu sem kölluð var Willie Horton auglýsingin. Í henni kom fram saga Willie Horton, sem var dæmdur morðingi og afplánaði lífstíðardóm í Massachusetts. Hann hafði fengið heimfararleyfi yfir helgi en á meðan á því stóð réðist hann á konu og nauðgaði henni. Í lok auglýsingarinnar er sagt frá því að Dukakis hafi verið á móti því að leggja niður heimfararleyfi fyrir fanga. Þannig var gerð bein tenging milli skoðunar Dukakis og árásarinnar á konuna. Þetta lamaði forsetaframboðsherferð Dukakis og Bush vann kosningarnar með meirihluta í 40 ríkjum. Eftir þennan árangur veitti Bush Atwater stöðu formanns Landsnefndar repúblikana Tíundi áratugurinn. Tveimur árum síðar, árið 1990, var Atwater greindur með heilakrabbamein sem var of langt komið til þess að mögulegt væri að lækna það. Ári síðar í mars, bað Atwater marga fyrrum andstæðinga sína afsökunar á þeim vægðarlausu herferðum sem hann beindi gegn þeim. Það leit því allt út fyrir að Atwater vildi bæta fyrir misgjörðir sínar áður en það yrði of seint. Samtímis þessu frelsaðist hann. Þó verður að nefna að í heimildarmyndinni sem gerð var eftir dauða hans, kom fram að Biblían, sem hann sagðist vera að lesa hafi fundist óupptekin og enn í plastinu. Hann hafði því leikið á alla í kringum sig, allt fram til dauðadags. Lærifaðir. Lee Atwater var lærifaðir Karls Rove, sem sá um forsetaframboðsbaráttuna fyrir George W. Bush yngri árið 2008. Klækjabrögðum Rove svipaði mjög til þeirra sem Atwater hafði gerst frægur fyrir. Því er augljóst að arfleifð Lee Atwater lifir góðu lífi eftir dauða hans og hefur síðan litað bandarísk stjórnmál fram til þessa dags. Áhrif á stjórnmál. Lee Atwater umbreytti landslagi bandarískra stjórnmála. Hann endurskilgreindi pólitíska klæki og gekk mun lengra en nokkur hafði þorað áður. Notkun hans á áróðursherferðum og neikvæðri pólítík var einstaklega árangursrík. Hann áttaði sig á því að fólk kýs ekki eftir væntingum sínum heldur ótta. Hann var einstaklega snjall er kom að því að finna og endurskilgreina málefni sem voru í deiglunni og höfðu tilfinningaleg gildi. Þannig náði hann að dreifa athygli kjósenda frá raunverulegum málefnum í vinsæl tilfinningaþrungin málefni. Með því kastaði hann rýrð á mótframbjóðendur og setti þá í varnarstöðu. Með því litu frambjóðendur Atwaters mun betur út og með þessu unnu þeir kosningar. Aðferðir Lee Attwater eru enn í dag við lýði í bandarískum stjórnmálum. Enn eru neikvæð pólítik og áróðursherferðir nýttar í miklu mæli í kosningabaráttum. Málefnaleg umræða stendur höllum fæti er kemur að vinsælum tilfinningþrungnum gildum sem fjölmiðlar og almenniningur éta upp og mikilvægum málefnum er gleymt. Tenglar. Atwater, Lee Hinriksnjóli. Hinriksnjóli (fræðiheiti: "Chenopodium bonus-henricus") er fjölær jurtkennd blómstrandi jurt sem er algeng í Mið- og Suður-Evrópu. Hinriksnjóla var áður fyrr algengt að rækta sem grænmeti. Ungir sprotar og laufin eru yfirleitt soðin. Jurtin verður 400-800 cm á hæð, laufin eru stór og þríhyrnd. Bjarnarlaukur. Bjarnarlaukur (fræðiheiti: "Allium ursinum") er villtur ættingi graslauks sem er algengur í Evrópu og Asíu. Heitið er dregið af því að birnir eru sólgnir í laukana. Bjarnarlaukur vex í botni laufskóga og getur myndað gróðurþekju sem angar svipað og hvítlaukur. Laufin eru notuð sem grænmeti. Fyrir utan lyktina svipar þeim mjög til blaða lilju vallarins sem er eitruð. Blómin eru hvít og stjörnulaga og sitja í klasa efst á þrístrendum blómstilk. Skeppa. Skeppa eða skeffa er gömul mælieining fyrir rúmmál þurrvöru. Ein skeppa er 17,4 lítrar, tvær skeppur eru fjórðungur (34,7 L) og átta skeppur eru ein tunna (139 L). Rúgur var oft mældur í skeppum. Grasaferð. Grasaferðir voru ferðir sem farnar voru til að tína fjallagrös. Um miðja 19. öld tíðkaðist að farnar voru á hverju sumri ferðir frá bæjum á grasafjall og var grasahálftunnan af vel vinsuðum grösum talin álíka matur og skeppa af rúgi til grauta. Gunilla Bergström. Gunilla Elisabet Bergström (fædd 3. júlí 1942 í Gautaborg) er sænskur rithöfundur og myndskreytir. Hún er best þekkt fyrir barnabækur sínar um Einar Áskel. Bergström, Gunilla Treblinka. Steinsteypukubbar tákna gömlu járnbrautina í Treblinka Treblinka er smástaður í Masóvíu í Austur-Póllandi. Þar voru reknar næststærstu útrýmingarbúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni á eftir Auschwitz. Áætlað er að á milli 800- og 900 þúsund manns hafi verið myrtir þar. Líkin voru í fyrstu einfaldlega grafin en þegar ljóst var að Sovétmenn myndu ná yfirráðum þar innan langs var ákveðið að grafa öll líkin upp og brenna til að fela betur hvað gert hafði verið. Masóvía (hérað). Masóvía (pólska: "województwo mazowieckie") er hérað í Austur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærstu borgirnar í héraðinu eru Varsjá, Radom, Płock, Siedlce og Ostrołęka. Höfuðborg héraðsins, Varsjá, er líka höfuðborg Póllands. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 5.164.612 samtals. Flatarmál heraðsins er 35.579 ferkílómetrar. Ermland-Masúría (hérað). Ermland-Masúría (pólska: "województwo warmińsko-mazurskie") er hérað í Norður-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Olsztyn. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 1.427.091 samtals. Flatarmál heraðsins er 24.192 ferkílómetrar. Kujavíska-Pommern (hérað). Kujavíska-Pommern (pólska: "województwo kujawsko-pomorskie") er hérað í Mið-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærstu borgirnar í héraðinu og sameiginlegu höfuðborgir þess eru Bydgoszcz og Toruń. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 2.098.370 samtals. Flatarmál heraðsins er 17.969 ferkílómetrar. Litla-Pólland (hérað). Litla-Pólland (pólska: "województwo małopolskie") er hérað í Suður-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Kraká. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 3.267.731 samtals. Flatarmál heraðsins er 15.108 ferkílómetrar. Lubusz (hérað). Lubusz (pólska: "województwo lubuskie") er hérað í Vestur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærstu borgirnar í héraðinu og sameiginlegu höfuðborgir þess eru Gorzów Wielkopolski og Zielona Góra. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 1.008.424 samtals. Flatarmál heraðsins er 13.985 ferkílómetrar. Łódź (hérað). Łódź (pólska: "województwo łódzkie") er hérað í Mið-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Héraðið dregur nafn sitt af stærstu borg sinni, Łódź. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 2.571.534 samtals. Flatarmál heraðsins er 18.219 ferkílómetrar. Neðri-Karpatía (hérað). Neðri-Karpatía (pólska: "województwo podkarpackie") er hérað í Suður-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Rzeszów. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 2.101.732 samtals. Flatarmál heraðsins er 17.844 ferkílómetrar. Neðri-Slesía (hérað). Neðri-Slesía (pólska: "województwo dolnośląskie") er hérað í Suðurvestur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Wrocław. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 2.884.248 samtals. Flatarmál heraðsins er 19.946 ferkílómetrar. Opole (hérað). Opole (pólska: "województwo opolskie") er hérað í Suðurvestur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Héraðið dregur nafn sitt af stærstu borg sinni, Opole. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 1.044.346 samtals. Flatarmál heraðsins er 9.413 ferkílómetrar. Podlasía (hérað). Podlasía (pólska: "województwo podlaskie") er hérað í Norðaustur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Białystok. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 1.197.610 samtals. Flatarmál heraðsins er 20.180 ferkílómetrar. Pommern (hérað). Pommern (pólska: "województwo pomorskie") er hérað í Norður-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærstu borgirnar í héraðinu eru Gdańsk, höfuðborg héraðsins, Gdynia, Słupsk og Sopot. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 2.201.069 samtals. Flatarmál heraðsins er 18.293 ferkílómetrar. Slesía (hérað). Slesía (pólska: "województwo śląskie") er hérað í Suður-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Katowice. Aðrar stórar borgir í héraðinu eru Bielsko-Biała og Chorzów. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 4.676.983 samtals. Flatarmál heraðsins er 12.334 ferkílómetrar. Stóra-Pólland (hérað). Stóra-Pólland (pólska: "województwo wielkopolskie") er hérað í Miðvestur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Poznań. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 3.374.653 samtals. Flatarmál heraðsins er 29.826 ferkílómetrar. Święty Krzyż (hérað). Święty Krzyż (pólska: "województwo świętokrzyskie", „Hinn heilagi kross“) er hérað í Suðaustur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Kielce. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 1.281.796 samtals. Flatarmál heraðsins er 11.672 ferkílómetrar. Vestur-Pommern (hérað). Vestur-Pommern (pólska: "województwo zachodniopomorskie") er hérað í Norðvestur-Póllandi. Það var stofnað þann 1. janúar 1999 við sameiningu nokkurra eldri héraða. Stærsta borgin í héraðinu og höfuðborg þess er Szczecin. Árið 2006 voru íbúar héraðsins 1.693.533 samtals. Flatarmál heraðsins er 22.896 ferkílómetrar. Kapella hins heilaga blóðs. Kapella hins heilaga blóðs (Heilig-Bloedbasiliek) er kirkjubygging í flæmsku borginni Brugge í Belgíu. Kapellan líkist þó ekki ekki kirkju að utan. Hún er sögð hefa að geyma blóð úr líkama Jesú. Saga kirkjunnar. Það voru greifarnir í Flæmingjalandi sem reistu kirkjuna 1134-1157 og var hún notuð fyrir greifana og ættmenn þeirra. Kirkjan var sett milli tveggja annarra húsa, þannig að ekki reyndist unnt að smíða eiginlega kirkju, heldur er lítur hún út eins og fagur framhlið glæsilegs íbúðarhúss. Kapellur eru hins vegar á tveimur hæðum í byggingunni. Neðri kapellan er helguð heilögum Basil og er nánast óbreytt frá 12. öld. Róbert II, greifi af Flæmingjalandi, kom heim úr krossferð með líkamsleifar af heilögum Basil og voru þær settar upp í neðri kapellunni. Þar er einnig Madonnuhöggmynd frá 14. öld. Efri kapellan var hins vegar endursmíðuð á 16. öld í gotneskum stíl og hefur síðan verið margbreytt. Blóð Jesú. Meðan á smíði kapellunar stóð fór Thierry greifi í krossferð til Jerúsalem árið 1147-49. Þegar hann sneri heim aftur til Brugge 1150 var hann með pjötlu í farteskinu, en hún var sögð hafa að geyma blóð úr klæði Jesú. Sagan segir að Jósef frá Arímaþeu hafi geymt klæðið, en hann var sá sem lagði Jesú í gröfina eftir krossfestinguna. Engar heimildir eru hins vegar til um tilvist pjötlunnar fyrir 1250. Trúlega hefur hún borist til Brugge eftir að Konstantínópel var rænd af krossförum 1204 í fjórðu krossferðinni. En helgigripurinn var settur upp í efri kapelluna og upp úr 1250 var farið að kalla hana "Kapellu hins heilaga blóðs". Síðan þá hefur pjatlan gegnt veigamiklu hlutverki í trúarlífi borgarbúa. 1310 gaf Klemens V páfi út bréf þar sem hann veitti pílagrímum aflát ef þeir sóttu kapelluna heim og börðu pjötluna augum. Pjatlan sjálf er geymd í litlu glerhylki sem áður fyrr var notuð fyrir ilmvatn og átti uppruna sinn í eða við Konstantínópel á 12. öld. Hylkið hefur ekki verið opnað síðan það kom til Brugge, enda lokað og innsiglað með vaxi. Helgiganga. Ein mesta helgiganga í Belgíu er haldin á uppstigningardegi í Brugge. Þá er pjatlan með blóði Jesú sett á vagn og um 3.000 manns, klæddir helgiklæðum, ganga með honum um götur borgarinnar. Meðan gangan stendur yfir er með leiksýningu sýnt hvernig pjatlan kom til Brugge. Allt að 100 þús manns mæta á göturnar til að fylgjast með. Kaþólikkar halda því fram að blóðið á pjötlunni breytist í vökva meðan á helgigöngunni stendur, en storknar aftur að henni lokinni. Helgiganga þessi var innleidd árið 1303, en hafði að einhverju leyti verið til síðan á miðri 13. öld. Belgar kalla helgigönguna "Brugges schoonste dag" (besti dagur Brugges). Helgigangan, og allt sem henni tengist, er á sérstökum UNESCO-lista yfir heimsminjar. Joshua Malina. Joshua Malina (fæddur Joshua Charles Malina 17. janúar 1966) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Sports Night, The West Wing og Scandal. Einkalíf. Malina fæddist í New York-borg en ólst upp í New Rochelle. Stundaði nám í leiklist við Yale-háskóla. Hefur verið giftur Melissa Merwin síðan 1996 og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Malina var varaleikari í leikritinu A Few Good Men frá 1989-1991 á Broadway. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Malina var árið 1993 í "Bob". Frá 1998-2000 lék hann Jeremy Goodwin í Sports Night og síðan árið 2002 var honum boðið hlutverk í dramaþættinum The West Wing. Lék hann Will Bailey til ársins 2006. Hefur síðan 2012 leikið eitt af aðalhlutverkinu í Scandal þar sem hann leikur saksóknarann David Rosen. Malina hefur komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "The Larry Sanders Show", Stargate SG-1, Psych, American Horror Story, The Big Bang Theory og "Leap Year". Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Malina var árið 1992 í A Few Good Men. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við The American President, "Bulworth", "Without Charlie", "The First Time" og "View from the Top". Tenglar. Malina, Joshua Alan Alda. Alan Alda (fæddur Alphonso Joseph D´Abruzzo 28. janúar 1936) er bandarískur leikari, rithöfundur, leikstjóri og handritshöfundur sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í MASH og The West Wing. Einkalíf. Alda fæddist í New York-borg og er af ítölskum og írskum uppruna. Árið 1956, útskrifaðist hann með B.Sc. gráðu í ensku frá Fordham College við Fordham-háskóla í Bronx hverfinu í New York-borg. Á meðan hann var nemandi þá starfaði hann við útvarpsstöðina WFUV. Alda stundaði nám við Sorbonne háskólann á fyrstu háskólaárum sínum, ásamt því að leika í leikriti í Róm og leika á móti föður sínum í sjónvarpi í Amsterdam. Eftir útskrift þá gerðist hann meðlimur varaliðs Bandaríkjahers og var sex mánuði sem stórskotaliðsmaður. Er gestaprófessor við Ríkisháskólann New York í Stony Brook fjölmiðlaskólann og er meðlimur ráðgjafaráðs "The Center for Communicating Science". Alda hefur verið giftur Arlene Weiss síðan 1957 og saman eiga þau þrjár dætur. Rithöfundur. Árið 2005 gaf Alda út ævisöguna "Never Have Your Dog Stuffed: and Other Things I've Learned". Síðan árið 2007 gaf hann út aðra ævisögu "Things I Overheard While Talking to Myself". Alda talaði inn á hljóðbókina World War Z eftir Max Brook árið 2006, þar sem hann talaði fyrir Arthur Sinclair Jr. Leikhús. Alda byrjaði leiklistarferil sinn um miðjan sjötta áratuginn sem meðlimur "Compass Players" leikhússins. Fyrsta leikritið sem hann leikur á Broadway er "Only in America". Hefur hann síðan þá komið fram í leikritum og söngleikjum á borð við "Fair Game for Lovers", "The Apple Tree", "QED", "Glengarry Glen Ross" og "A Whisper in God´s Ear". Leikstjórn. Fyrsta leikstjóraverk Alda var sjónvarpsmyndin "6 Rms Riv Vu" árið 1974. Leikstýrði hann svo kvikmyndunum "The Four Seasons" og "Betsy´s Wedding". Frá 1974-1983 þá leikstýrði Alda 31 þætti af læknaherþættinum MASH. Handritshöfundur. Fyrsta handritshöfundaverk Alda var þátturinn "We´ll Get By" árið 1975. Skrifaði hann handritið að kvikmyndunum "The Four Seasons", "A New Life" og "Betsy´s Wedding". Frá 1973-1983 skrifaði Alda 19 þætti að læknahersþættinum MASH. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Alda var árið 1958 í "The Phil Silvers Show". Kom hann síðan fram í þáttum á borð við "The Nurses", "East Side/West Side", "Coronet Blue" og í sjónvarpsmyndunum "Story Theatre", "The Glass House" og "Isn´t It Shocking". Árið 1972 var honum boðið hlutverk Kapteins Benjamin Franklin Pierce í læknaherþættinum MASH sem hann lék til ársins 1983. Að auki að leika í þættinum þá leikstýrði og skrifaði hann handritið að nokkrum þáttum. Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við ER, 30 Rock og The Big C. Frá 2004-2006 lék hann öldungardeildarþingmanninn og forsetaefni Repúblikanaflokksins, Arnold Vinick í The West Wing. Alda hafði verið skoðaður sem hugsanlegur kandídat fyrir hlutverk forsetans á þeim tíma sem þátturinn var að hefja framleiðslu. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Alda var árið 1963 í "Gone Are the Days! ". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Jenny", "Same Time Next Year", "The Four Seasons", "Manhattan Murder Mystery", Everyone Says I Love You, What Women Want, The Aviator og "Flash of Genius". Verðlaun og tilnefningar. New York Film Critics Circle verðlaunin Tenglar. Alda, Alan Frúarkirkjan í Brugge. Frúarkirkjan í Brugge (Onze-Lieve-Vrouwekerk) er gotnesk kirkja í flæmsku borginni Brugge í Belgíu. Elsti hluti hennar er frá öndverðri 13. öld og er því meðal allra elstu tígulsteinabyggingum í Flæmingjalandi. Í grafhvelfingu kirkjunnar eru steinkistur Karls hins djarfa, greifa af Búrgund, og dóttur hans Maríu af Búrgund. Eitt mesta listaverk kirkjunnar er Madonnulíkneski eftir Michelangelo. Saga kirkjunnar. Langskipið var reist 1210-1230 og er gert úr tígulsteini. Kirkjan er því meðal allra elstu tígulsteinabygginga í Flæmingjalandi. Næsti byggingafasi hófst í upphafi 14. aldar og risu þá þverskipið, kórinn og turninn. Verkinu lauk 1335. Turninn sjálfur er 122 metra hár. Hann er enn í dag hæsta bygging Brugge og næsthæsti kirkjuturn heims úr tígulsteini (á eftir Marteinskirkjunni í Landshut í Þýskalandi). Tvö önnur skip voru reist með gamla langskipinu. Það fyrra 1345 og það síðara 1450-74. 1480 voru verklok kirkjunnar í heild. Maríulíkneski. Í kirkjunni er undurfagurt Madonnalíkneski úr hvítum marmara. Það var Michelangelo sem smíðaði hana 1503 og telst hún mikill dýrgripur. Styttan átti upphaflega að vera í dómkirkjunni í Siena á Ítalíu, en Michelangelo seldi hana kaupmönnunum Jan og Alexander Mouscron frá Flæmingjalandi, sem fluttu hana til Brugge og gáfu kirkjunni. Þetta reyndist vera eina höggmyndin eftir Michelangelo sem flutt var úr landi (Ítalíu) á líftíma hans. Styttan er hin mesta gersemi. Þar er María mey sitjandi og heldur á Jesúbarninu í kjöltu sinni. Tvisvar hefur styttunni verið rænd. Í fyrra skipti tók franskur byltingarher styttuna 1794 og flutti hana til Parísar. Henni var ekki skilað fyrr en 1815. Í síðara skiptið stálu nasistar styttunni 1944 og fluttu til Altaussee í Austurríki þar sem þeir geymdu ýmis listaverk víða að úr Evrópu. Styttunni var skilað eftir stríðslok 1945. Styttan er í dag bak við skothelt gler og er ekki hægt að nálgast hana nær en 5 metra. Grafhýsi. Steinkistur Karls djarfa og Maríu af Búrgund Í kirkjunni eru tvær viðamiklar steinkistur, ríkulegar skreyttar. Í þeim hvíla Karl hinn djarfi, hertogi af Búrgund, og dóttir hans María. María hafði gifst Maximilian af Habsborg, sem síðar varð keisari þýska ríkisins og hertogi Búrgund. Kista Maríu var smíðuð 1502 af Renier van Thienen, en kista Karls var smíðuð 1562, 85 árum eftir dauða hans. Ofan á kistunum eru bronsstyttur af Karli og Maríu í eðlilegri stærð. Bæði eru þau með kórónu á höfði og er Karl að auki í fullum herklæðum. Magdalena Margrét Kjartansdóttir. Magdalena Margrét Kjartansdóttir (9. október 1944) er íslenskur myndlistarmaður. Myndverk sín vinnur hún með grafískri tækni og hafa þau verið sýnd í virtum söfnum og galleríum víða erlendis og í nær öllum söfnum á Íslandi. Verk hennar eru meðal annars í eigu Listasafn Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Kópavogs, Hafnarborgar og Alþingis Íslendinga. Æviágrip. Magdalena fæddist í Reykjavík. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1984. Magdalena Margrét kenndi við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskóla Reykjavíkur. Zeebrugge. Kort af Brugge og Zeebrugge Zeebrugge er bær og höfn við Norðursjó sem tilheyrir flæmsku borginni Brugge í Belgíu. Íbúar bæjarins eru tæplega 4.000, en höfnin er sú næststærsta í Belgíu á eftir Antwerpen. Bærinn. Smábátahöfnin og hótel í Zeebrugge Zeebrugge er lítill bær við Norðursjó og tilheyrir borginni Brugge, sem er 15 km lengra inn í landið. Bærinn skiptist í grófum dráttum í þrjú hverfi: Miðbæinn, hverfið í kringum járnbrautarstöðina og strandhverfið. Mikil ferðamennska einkennir bæinn frá því fyrir aldamótin 1900. Þar eru hótelkeðjur, veitingastaðir og smábátahöfn. Baðströndin þar er gríðarlega stór. Höfnin. Bresk herskip liggja sokkin og blokkera innsiglinguna Baldvinsskurðurinn tengir saman Zeebrugge og borgina Brugge Frá því á miðöldum hafði Brugge verið mikil hafnarborg, en aðgengið að sjó var í gegnum ánna Leie og þaðan í gegnum fjörðinn Het Zwin. Sá fjörður grynnkaði vegna framburðar og lokaðist alveg fyrir skipagengd snemma á 16. öld. Þá fór nær öll verslun yfir til Antwerpen og Brugge varð að lítilfjörlegri smáborg. En rétt fyrir aldamótin 1900 var ákveðið að leggja nýja höfn við Zeebrugge, þannig að borgin Brugge hefði aðgang að sjó á nýjan leik. Framkvæmdir hófust 1896 og var höfnin vígð 1907. Í upphafi var hún tiltölulega lítil. Samfara því var skipaskurður grafinn til Brugge, 15 km sunnar, og heitir hann Baldvinsskurður (Boudewijnkanaal). Því er hægt að sigla frá Norðursjó til borgarinnar sjálfrar. 1914 réðust Þjóðverjar inn í Belgíu og hertóku Zeebrugge. Meðan stríðið varaði notuðu þeir höfnina sem kafbáta- og sjóflugvélahöfn. Ófáir kafbátar frá Zeebrugge gerðu árásir á skip bandamanna. 23. apríl 1918 gerði breski herinn árásir á Zeebrugge og Oostende (næsta hafnarborg fyrir sunnan). Tilgangurinn var að sökkva gömlum skipum í hafnarmynninu til að varna því að þýskir kafbátar kæmust inn eða út. Áætlunin tókst að hluta í Zeebrugge, en þar tókst að sökkva nokkrum gömlum beitiskipum. Þau lágu hins vegar ekki eins og áætlað var, þannig að höfnin lokaðist aðeins í örfáa daga. Í aðgerðinni létust um 200 breskir hermenn, enda veittu Þjóðverjar mikið viðnám. Með árunum var höfnin stækkuð til muna, en hún er nær öll á uppfyllingu í Norðursjó. Tröllauknir hafnargarðar skaga út í hafið. Í dag er höfnin sú næststærsta í Belgíu (á eftir Antwerpen) og ein hin nýtískulegasta í allri Evrópu. Hvað bifreiðar áhrærir, þá fara fleiri nýir bílar í gegnum Zeebrugge en í gegnum nokkra aðra höfn í heimi. Árið 2008 voru þeir rúmlega 2,1 milljón. Auk þess er Zeebrugge helsta höfn Evrópu fyrir jarðgas. Þangað koma tankskip, gámaskip, fiskiskip og ferjur. Ferjurnar ganga aðallega til Englands. 1987 átti sér stað stórslys er ferjan Herald of Free Enterprise lagðist á hliðina þegar hún sigldi af stað. Gleymst hafði að loka stefnislokunni. Þegar ferjan sigldi af stað fossaði sjór inn og lagðist skipið innan tveggja mínútna á hliðina. Það var lán að skipið festist á sandbakka í 6 metra dýpi í stað þess að sökkva. 543 farþegar voru um borð og létust 193 (heimildum ber ekki saman um tölu látinna). Robert Aumann. Robert John Aumann (8. júní 1930) er stærðfræðingur að mennt og Nóbelsverðlaunahafi (2005) fyrir kenningar sínar um átaka og samvinnufræði þar sem hann notaði aðferðir leikjafræði við verk sín. Aumann er ísraelsk-bandarískur gyðingur og prófessor sem starfar við Hebreska háskólann í Jerúsalem, Ísrael, ásamt því að vera meðlimur í Bandaríska Vísindaráðinu (United States National Academy of Sciences). Hann er einnig gestafyrirlesari við Stony Brook Háskólann og er einn af stofnendum miðstöðvar fyrir Leikjafræði við Stony Brook skólann. Æviágrip. Aumann er fæddur í Frankfurt, Þýskalandi en flúði þaðan ungur að árum til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni undan ofríki nasista. Það var árið 1938 sem fjölskylda Aumann flúði. Hann lagði stund á nám við Rabbi Jackob Joseph-skólann sem er yeshival-framhaldskóli í New York fyrir gyðinga. Hann útskrifaðist svo frá Borgarháskólanum í New York (City College of New York) árið 1950 með BS-gráðu í stærðfræði en kláraði meistaragráðu sína og doktorspróf í stærðfræði og heimspeki frá MIT-háskólanum í Cambridge, Massechusetts. Það var svo árið 1956 sem að Aumann hóf störf við stærðfræðideild, Hebreska háskólans í Jerúsalem og svo árið 1989 gerðist hann gestafyrirlesari við Stony Brook-háskólann. Aumann giftist konu sinni, Ester Schlesinger, árið 1955 og eignuðust þau fimm börn. Esther lést af krabbameinsvöldum árið 1998. Aumann giftist seinna meir systur Esther, Batya Cohn, sem var ekkja árið 2005 Framlag til vísinda. Helsta framlag Aumann til vísindanna eru svokallaðir endurtekningarleikir (repeated games), þar sem leikmenn lentu í sífelldum, endurteknum aðstæðum. Aumann var einnig fyrstur til að skilgreina hugtakið „jafnvægi fylgnis“ (correlated equilibrium) í leikjafræði, sem er ein tegund jafnvægis í „samstarfslausum leik“ (non-cooperative game), sem er mun sveigjanlegri heldur en klassíska „Nash-jafnvægið“. Ásamt þessu hefur Aumann komið fram með ýmsar kenningar og tilgátur sem hlotið hafa mikið lof og á endanum Nóbelsverðlaun fyrir ásamt mörgum öðrum verðlaunum sem honum hefur hlotnast á ævi sinni. Eik (hljómsveit). Eik var íslensk hljómsveit. Hún þótti afar framsækið fyrir sinn tíma og átti það jafnvel til að snarstefja upp á sviði í allt að klukkutíma áður en formleg tónleikadagskrá hófst. Mannabreytingar voru alla tíð miklar en það tímabil í sögu hljómsveitarinnar sem kallað hefur verið Stóra Eikin var þegar hún náði hápunkti sínum sem sjö manna hljómsveit og þótti þá einsdæmi á Íslandi fyrir jafn framsækna hljómsveit. En erfitt reyndist að halda úti sjö manna hljómsveit og leystist hún upp skömmu eftir útgáfu plötunnar "Hríslan og straumurinn". Hljómsveitin kom þó saman á nýjan leik árið 2000 og hélt nokkra tónleika með nýjum söngvara. Náttúra (hljómsveit). Náttúra var íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1969 af Sigurði Árnasyni bassaleikara, Jónasi R. Jónssyni söngvara og þverflautuleikara, Rafni Haraldssyni trommuleikara og Björgvini Gíslasyni sólógítarleikara. Hljómsveitin, sem lék einkum framsækið rokk með textum á ensku, varð strax óhemju vinsæl á skemmtistöðum. Þessi útgáfa af hljómsveitinni lifði á annað ár en þá urðu breytingar sem enduðu í alls fjórum útgáfum af Náttúru og 1972 kom stóra platan "Magic Key" út. Kjölfestan í þessum fjórum útgáfum af Náttúru, voru alla tíð þeir Björgvin og Sigurður bassaleikari en þau sem komu og fóru þessi fjögur ár voru; Sigurður Rúnar Jónsson hljómborðs og fiðluleikari, Pétur Kristjánsson söngvari, Áskell Másson slagverksleikari, Jóhann G. Jóhannsson söngvari og gítarleikari, Shady Owens söngkona, Ólafur Garðarsson trommuleikari, og Karl Sighvatsson hljómborðsleikari. Hljómsveitin lék meðal annars á Saltvíkurhátíðinni 1971 og sá um tónlist í uppfærslu Leikfélags Kópavogs á söngleiknum "Hárinu" í Glaumbæ 1971-2 og uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur á söngleiknum "Jesus Christ Superstar" í Iðnó 1973. Paradís (hljómsveit). Paradís var Íslensk hljómsveit sem stofnuð var á rústum hljómsveitarinnar Pelican árið 1975. Af þeim Pétri W. Kristjánssyni, Björgvini Gíslasyni, Ásgeiri Óskarssyni, Gunnari Hermannssyni, Nikulási Róbertssyni og Pétri Hjaltested. Þessi hljómsveit varð strax geysivinsæl meðal táninga. Þegar stóra plata Paradísar kom út 1976 skrifaði blaðamaður "Dagblaðsins", Ásgeir Tómasson, þetta um plötuna. Hríslan og straumurinn. Hríslan og straumurinn er önnur breiðskífa framsæknu rokkhljómsveitarinnar Eik. Járnþríhyrningurinn (stjórnmál). Oftar en ekki er hergagnaiðnaðurinn notað sem skýrasta dæmið um járn-þríhyrninginn í bandarískum stjórnmálum. Þar eru það þjóðþingið, hergagnaframleiðendur og varnarmálaráðuneytið sem mynda járnþríhyrninginn. Hugtakið er einnig víða notað utan Bandaríkjanna og er þannig mikilvægt í stjórnmálaumræðu víðs vegar um heim. Annað nærtækt dæmi um járnþríhyrninginn er að finna innan Evrópusambandsins. Samanstendur járn-þríhyrningurinn þar af landbúnaðarráðherrum aðildarríkja sambandsins, embættismönnum innan framkvæmdastjórnar ESB og loks hinum ýmsu svæðisbundnu hagsmunaaðilum innan landbúnaðargeirans í Evrópu en háværir franskir og þýskir aðilar hafa þar umtalsverð áhrif. Sá þrýstihópur barðist lengi vel hatrammlega gegn umbótum í landbúnaðarstefnu ESB og gátu takmarkaðar breytingar aðeins átt sér stað árið 1992 en landbúnaðarstefna ESB þykir ennþá einkennast af verndarsjónarmiðum valdamestu ríkjanna. Speglun (hljómplata). Speglun er fyrsta breiðskífa framsæknu rokkhljómsveitarinnar Eik. Meðlimir og hljóðfæraskipan. Þorsteinn Magnússon: gítar, mini moog, söngur. Lárus Halldór Grímsson: hljómborð, þverflauta, söngur. Snúningshurð (stjórnmál). Snúningshurð (e. "revolving door") er myndhverfingarhugtak úr stjórnmálafræði sem lýsir hringrás vinnuafls milli einkageirans og hins opinbera. Þannig lýsir hugtakið ferli þar sem opinberir starfsmenn ráða sig í vinnu hjá einkareknum fyrirtækjum og öfugt. Stjórnmálamenn koma sér þannig fyrir í stjórnunarstöður í einkageiranum og geta nýtt sér sérhæfða þekkingu sína og tengslanet til að auka velgengni fyrirtækisins. Að sama skapi gerast aðilar úr einkageiranum gjarnan opinberir starfsmenn á sömu forsendum og þeir fyrrnefndu, annað hvort með beinum lýðræðislegum hætti í gegnum kosningar eða eru tilnefndir til slíkra starfa af ráðamönnum. Þannig leitast þeir eftir því að hafa bein áhrif á iðnaðinn eða starfsgeirann sem um ræðir og beita kröftum sínum til að liðka fyrir vinveittum einkafyrirtækjum. Bandaríkin. Snúningshurðarfyrirbærið er algengt í bandarískum stjórnmálum og vilja stjórnmála spekúlantar meina að sá ávinningur sem af þessu hlýst leiði til óheilbrigðs sambands milli einkageirans og hins opinbera, enn fremur er talið að slíkt geti beinlínis gengið gegn þjóðarhag og leitt til reglugerðarhertöku. Þannig finnast í ýmsum löndum löggjafir sem banna mönnum að flakka milli starfa sem opinber starfsmaður á ákveðnu sviði og beint til einkafyrirtækis sem starfar innan þess geira. Í Bandaríkjunum finnast lög sem banna opinberum starfsmönnum er koma að úthlutun verkefna á vegum hins opinbera að fara rakleiðis til starfa hjá einkafyrirtæki á sama sviði. Lögin kveða á um að slíkir starfsmenn þurfi að bíða í eitt ár milli þess sem þeir ráða sig í þannig störf. Kjósi þeir hins vegar að hefja samstundis störf hjá einkafyrirtækinu eftir að opinberum störfum þeirra er lokið, þurfa þeir að vinna að málum alls ótengdum sínu fyrra starfssviði, a.m.k. fyrsta árið. Ýmsir hafa bent á ákveðna smugu í lögunum þar sem þau ná ekki til margra háttsettra stefnumótandi aðila í bandarískri stjórnsýslu, en þeir geta margir hverjir ráðið sig til stórfyrirtækja eða sest í stjórnir þeirra án nokkurs biðtíma. Þekkt dæmi um hugtakið. Mörg dæmi eru til um snúningshurðarfyrirbærið í bandarískum stjórnmálum en eitt það þekktasta snýr að Dick Cheney fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna. Cheney á langan feril að baki í bandarískum stjórnmálaum og gegndi hann m.a. lykilhlutverki í þremur ríkistjórnum Repúblikanaflokksins. Hann var starfsmannastjóri Hvíta hússins í forsetatíð Gerald Fords og þá var hann varnarmálaráðherra í ríkisstjórn George H. W. Bush. Loks gegndi hann hlutverki varaforseta í forsetatíð George W. Bush. Í forsetatíð Bills Clinton var Cheney hins vegar utan embættis og réði sig sem stjórnarformann og framkvæmdastjóra Halliburton og starfaði þar á árunum 1995 til 2000. Halliburton er alþjóðlegt risafyrirtæki sem hefur umfangsmikla starfsemi í olíu- og orkuiðnaðinum en fyrirtækið á einnig fjöldann allan af dótturfyrirtækjum sem starfa í öðrum geirum eins og t.d. hergagnaframleiðslu. Það er ekkert launungarmál að Cheney hafði í embættismannatíð sinni komið sér upp víðtæku tengslaneti. Náði það meðal annars til ráðamanna í ríkjum við Persaflóa en Halliburton hefur einmitt víðtæka starfsemi á því svæði. Því er haldið fram að Cheney hafi notað tengsl sem hann myndaði í embættismannatíð sinni í Bandaríkjunum, gagngert til þess að greiða leið Halliburton að enn umfangsmeiri starfsemi á svæðinu og þannig auka afkomu fyrirtækisins. Gagnrýnendur Cheneys benda á þann gríðarmikla fjárhagslega ávinning sem hann öðlaðist eftir stjórnartíð sína hjá Halliburton en eignir hans eru metnar á bilinu 30-100 milljónir dollara og eru að stærstum hluta tilkomnar vegna vinnu hans hjá Halliburton. Cheney sagði starfi sínu lausu hjá Halliburton árið 2000 og hélt því síðar fram þegar hann hafði tekið við hlutverki varaforseta árið 2001 að engir hagsmunaárekstrar gætu orðið í starfi hans þar sem hann væri ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins. Cheney hefur staðfastlega neitað því að hafa tryggt Halliburton og tengdum félögum verkefni á vegum hins opinbera en gagnrýnendur telja að hann hafi vísvitandi blekkt bandarísku þjóðina. Máli sínu til stuðnings benda þeir t.a.m. á ákvarðanir ríkistjórnar George W. Bush um að veita vinveittum bandarískum stórfyrirtækjum, líkt og Halliburton, afar verðmæta samninga tengda enduruppbyggingu í Írak en neitað íröskum- og öðrum erlendum fyrirtækjum aðkomu að því verkefni. Þetta dæmi sýnir hversu neikvæðar afleiðingar snúningshurðarfyrirbærið getur haft í för með sér þar sem ákveðnir aðilar geta hagnast gríðarlega án nokkurs tillits til þjóðarhags. Hergagnaiðnaðurinn. Hergagnaiðnaðurinn (e. "the military–industrial complex") er hugtak notað til að lýsa sambandinu á milli hins opinbera, hersins og hergagnaframleiðanda. Þessi íslenska þýðing hugtaksins er mun þrengri en æskilegt verður að teljast þar sem enska hugtakið er mjög umfangsmikið og nær til fleiri þátta en aðeins hergagnaiðnaðarins sem slíks. Víðtækari og hnitmiðaðri þýðingu yfir fyrirbærið er erfitt að finna og því er nauðsynlegt að styðjast við þessa einföldu nálgun. Þó hafa verið gerðar tilraunir að þýða hugtakið "Military–industrial complex" sem dæmi „hernaðar- og stóriðjusamsteypan“ og „hernaðar- og iðnaðarsamsteypan“, þótt engin þeirra hafi fest sig í sessi. Hugtakið um hergagnaiðnaðinn, í þessum skilningi, er notað til að útskýra þríþætt tengsl sem ríkja milli hins opinbera, hersins og hergagnaframleiðanda en þetta er lýsandi dæmi um járnþríhyrninginn svokallaða. Bandaríski hergagnaiðnaðurinn. Þekktasta dæmið um hergagnaiðnaðinn er að finna í bandarískum stjórnmálum. Þar nær hugtakið til opinbera aðila sem standa í stríðsrekstri, þ.e. hersins sjálfs er lýtur ákvarðanavaldi forseta, þingsins sem ber ábyrgð á fjárveitingum og hefur vald til að lýsa yfir stríði og að lokum einkarekinna hergagnaframleiðanda sem framleiða vopn og önnur hergögn en sinna einnig ýmiss konar þjónustustörfum fyrir herinn. Dwight D. Eisenhower, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, notaði fyrstur manna hugtakið „the military–industrial complex“ í frægri kveðjuræðu sinni sem forseti árið 1961. Þar brýndi hann þörfina fyrir því að nauðsynlegt væri að fylgjast grannt með þessari ört vaxandi samsteypu. Eisenhower benti á mikilvægi þess að aldrei mætti fórna hagsmunum bandarísku þjóðarinnar fyrir hagsmuni hersins og hergagnaframleiðanda. Jafnframt lagði hann mikla áherslu á að starfsmenn hins opinbera væru ávallt á varðbergi gagnvart óréttmætri valdsækni hergagnaiðnaðarins. Svo virðist nefnilega sem ansi náið samband geti þróast milli hergagnaframleiðanda og opinbera aðila. Rekja má þessa þróun til þess að slíkt samband færir gjarnan báðum aðilum gagnkvæman ávinning, það er að segja árangursríka hernaðarlega íhlutun fyrir stríðsskipuleggjendur og fjárhagslegan ávinningur fyrir hergagnaframleiðendur. Þetta má kalla stríð í hagnaðarskyni (e. "war for profit"), þar sem engum dylst að framleiðendur hergagna hagnast langmest þegar þjóð þeirra ræðst í umfangsmikinn stríðsrekstur á erlendri grundu. Jafnframt örvar slíkt bandarískan efnahag umtalsvert þar sem stór hluti hans byggist einmitt á hergagnaframleiðslu. Þannig leiðir síendurtekin stríð til efnahagslegs ávinnings, bæði fyrir hið opinbera sem og einkageirann en margir benda á að þessi þróun leiði óumflýjanlega til enn aukinnar eftirspurnar eftir frekari hernaðaraðgerðum. Hergagnaiðnaðinum bandaríska hafði sannarlega vaxið fiskur um hrygg í valdatíð Eisenhower en arftaki hans í forsetastólnum, John F. Kennedy, brást við með því að berjast gegn auknum umsvifum hans. Þannig neitaði Kennedy að draga Bandaríkin inn í umfangsmiklar hernaðaraðgerðir og kaus frekar að nota samningaleiðir við úrlausn erfiðra deilumála líkt og Kúbudeilunnar við Sovétríkin árið 1962 þegar heimsbyggðin rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar. Eftir stutta valdatíð Kennedy má hins vegar segja að hver einasti forseti Bandaríkjanna sem fylgt hefur í kjölfarið, hafi ekki stigið neitt afdrifarík skref til þess að reyna minnka umsvif hans. Þangað til núverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, komst til valda en hann hefur staðfastlega lýst því yfir að markmið hans sé að endurheimta bandarískan efnahag til borgaralegra nota í stað stríðsreksturs. Obama hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2009 en þá ákvörðun má að miklu leyti rekja til væntinga alþjóðasamfélagsins um róttæka stefnubreytingu í utanríkisstefnu Bandaríkjanna í kjölfar embættistöku hins nýskipaða forseta. Fjórða stoðin. Sumir sérfræðingar benda á að nú hafi fjórða stoðin bæst við hergagnaiðnaðinn bandaríska en þá er átt við svokallaðar hugveitur eða sérfræðingaráð (e. "Think Tanks"). Telja sumir að ákveðnar hugveitur séu fjármagnaðar af stjórnvöldum og hergagnaframleiðendum, gagngert til að þróa nýjar röksemdarfærslur fyrir hernaði. Hlutverk slíkra hugveita sé þá að skilgreina nýjar hernaðarlegar ógnanir og marka stefnu í varnarmálum sem unnt sé að réttlæta með tilteknum hætti. Þessi þróun er talin afar óæskileg þar sem slíkar hugveitur er ekki hægt að draga til ábyrgðar vegna neikvæðra afleiðinga sem greining þeirra og ráðgjöf getur haft í för með sér. Vert er að nefna í þessu samhengi að langflestar hugveitur eru stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni og starfa að göfugum markmiðum. Þannig snýst starfsemi flestra hugveita að sérhæfðum rannsóknum innan ákveðins geira og veitingu sérfærðiráðgjafar á því sviði. Limburg (Belgía). Limburg er hollenskumælandi hérað í Belgíu og er austasti hluti flæmska hluta landsins. Héraðið var áður miklu stærra en þegar Belgía lýsti yfir sjálfstæði 1830 hófst atburðarrás sem leiddi til þess að héraðið splittaðist í tvennt. Austurhlutinn (sem einnig heitir Limburg) tilheyrir síðan þá Hollandi. Íbúar eru rúmlega 800 þúsund. Höfuðborgin heitir Hasselt. Lega og lýsing. Limburg er í norðaustri Belgíu og á löng landamæri að Hollandi í norðri og austri. Auk þess eru héruðin Antwerpen og Flæmska Brabant fyrir vestan, og Liege fyrir sunnan. Flatarmál Limburgs er 2.422 km2 og er því þriðja minnsta hérað Belgíu. Limburg á sér eitt útsvæði, sem er króað inni af Hollandi og héraðinu Liege, og heitir Voeren. Voeren er austasta svæði Belgíu þar sem hollenska er töluð. Áin Maas rennur í gegnum héraðið frá suðri til norðurs, uns það hverfur inn í Holland. Skjaldarmerki og fáni. Skjaldarmerkið sýnir rautt ljón, með gula tungu, gular klær og tvö stél. Bakgrunnurinn er silfur og fyrir framan er lítill röndóttur skjöldur. Ljónið er merki greifanna af Limburg áður fyrr en skjöldurinn fyrir framan merki greifanna af Loon (sem er gamalt greifadæmi). Skjaldarberarnir eru svanur til hægri og hjörtur til vinstri. Hjörturinn er tákn Hasselt, höfuðborgar Limburgs, en svanurinn vísar til Tongeren, elstu borgar Belgíu. Skjaldarmerkið var samþykkt 1837. Fáninn er í reynd meginhluti skjaldarmerkisins með rauða ljónið og litla skildinum. Hann var ekki tekinn í notkun fyrr en 1996. Orðsifjar. Fylkið Limburg heitir eftir kastalavirkinu Limbourgh, sem áður fyrr var aðsetur grefanna á þessu svæði. Limbourgh er í Belgíu í dag en fylkið Limburg var bæði í Hollandi og Belgíu allt til 1830 er Belgía splittaði sig frá Hollandi. Talið er að orðið Lim- merkir "lind" eða "lindardreka", samkvæmt þjóðsögum. Söguágrip. Limburg var öldum saman greifadæmi og miklu stærra en í dag. Eftir að Frakkar yfirgáfu Niðurlönd 1814 myndaðist Limburg sem fylki sameinaðra Niðurlanda. Talað var um að nefna fylkið Maastricht eða Maasdal eða Opper Gelder. En Vilhjálmur I konungur ákvað að kalla fylkið Limburg. 1830 klauf Belgía sig hins vegar frá Hollandi og stofnaði eigið konungsríki. Í fyrstu tilheyrði allt Limburg Belgíu. En í ágúst 1831 hertók hollenski herinn nokkrar borgir á þessu svæði til að eiga eitthvað uppá ermina í samningum milli ríkjanna. Þetta leiddi til nokkurra orrusta milli ríkjanna. Sú mesta átti sér stað við Hasselt 8. ágúst. Í samningaviðræðum í London var komist að þeirri niðurstöðu að skipta ætti Limburg (og Lúxemborg) í tvennt. Skiptingin kom til framkvæmda 1839, þannig að austurhlutinn tilheyrir Hollandi en vesturhlutinn Belgíu. Skyfall. "Skyfall" er tuttugasta og þriðja mynd í James Bond-röðinni sem framleidd var af MGM og Sony Pictures Entertainment. Hún kom út árið 2012 og var þriðja myndin þar sem Daniel Craig lék aðalpersónunni James Bond. Javier Bardem lék varmenninu Raoul Silva. Myndinni var leikstýrt af Sam Mendes en handritið var skrifað af Neal Purvis, Robert Wade og John Logan. Í myndinni rannsakar James Bond árás á Bresku leyniþjónustunni (MI6). Það kemur í ljós að árásin hafi verið árás á formann leyniþjónustunnar, M, framin af fyrrverandi starfsmanni Raoul Silva. Í "Skyfall" snúa tvær persónur aftur sem voru ekki í síðustu tveimur myndunum: Q, leikin af Ben Whishaw, og Miss Moneypenny, leikin af Naomie Harris. "Skyfall" er líka síðasta myndin þar sem Judi Dench leikir M, en hún hefur leikið persónunni í síðustu sex James Bond-myndunum. Gareth Mallory, leikinn af Ralph Fiennes, tekur við af henni í lok myndarinnar. Sam Mendes var boðið að leikstýra myndinni eftir að "Quantum of Solace" kom út árið 2008. Gerð kvikmyndarinnar var frestað meðan á MGM var í fjármálavandræðum en ekki var byrjað aftur á henni fyrir desember 2010. Á þessum tíma var Mendes aðeins verkefnisráðgjafi. Upprunalegi handritshöfundurinn Peter Morgan hætti í að vinna að myndinni þegar gerð kvikmyndarinnar var frestað. Þegar byrjað var aftur á að gera kvikmyndina héldu þeir Purvis, Wade og Logan áfram að skrifa lokaútgáfu handritsins, og þeir felldu hugmyndir Morgans inn í handritið. Upptaka á myndinni hófst í nóvember 2011 og átti sér stað aðallega á Bretlandi, í Kína og í Tyrklandi. "Skyfall" var frumsýnd 23. október 2012 og kom út á Bretlandi þann 26. október og í Bandaríkjunum þann 9. nóvember. Myndin er fyrsta James Bond-myndin sem hefur verið sýnd í IMAX-bíóum en hún var ekki tekin upp með IMAX-myndavélum. Útgáfa "Skyfall" var á sama tíma og 50 ára afmæli James Bond-myndanna. Fyrsta myndin var "Dr. No" sem kom út árið 1962. "Skyfall" var vel móttekin og fékk jákvæða gagnrýni. Daniel Craig. Daniel Wroughton Craig (fæddur 2. mars 1968) er enskur leikari best þekktur fyrir að leika leyniþjónustumanninum James Bond síðan árið 2006. Hann tók við af Pierce Brosnan í þessu hlutverki. Þó að gagnrýnendur væru efins í fyrstu var flutningi hans í "Casino Royale" vel tekið og hann var tilnefndur til BAFTA-verðlauna fyrir hann. "Quantum of Solace" kom út tveimur árum eftir það og þriðja myndin með hann, "Skyfall", var frumsýnd 23. október 2012. Síðan Craig byrjaði að leika James Bond hefur hann haldið áfram að leika í öðrum myndum, markverðast af öllu í enskumælandi útgáfu af "Mönnum sem hata konur". Hann er giftur Rachel Weisz leikkonu en hún er önnur eiginkona hans. Hann á dóttur, Ella, sem hann eignaðist með fyrstu eiginkonu sinni Fiona Loudon. Hann lék James Bond á opnunarhátíð sumarólympíuleikanna 2012 í London ásamt Elísabetu 2. Bretadrottningu. Breska leyniþjónustan. Breska leyniþjónustan (enska: "Secret Intelligence Service" eða "SIS", í daglegu tali sem MI6) er sú greiningardeild sem veitir bresku ríkisstjórninni upplýsingar um stöðu mála erlendis til að vernda þjóðaröryggi Bretlands. Breska leyniþjónustan var stofnuð árið 1909 en breska ríkisstjórnin staðfesti ekki tilveru hennar fyrir árið 1994. Síðan 1995 hafa höfuðstöðvar leyniþjónustunnar verið á suðurbakka Thamesár. Skammstöfunin MI6 stendur fyrir „Military Intelligence, Section 6“. Nafn þetta er ekki lengur notað opinberlega en Breska leyniþjónustan er enn almennt þekkt undir þessu nafni. Hasselt. Hasselt er borg í Belgíu og jafnframt höfuðborg flæmska héraðsins Limburg. Íbúar eru 73 þús og eru hollenskumælandi. Lega og lýsing. Hasselt liggur við ána Demer og Albert-skipaskurðinn í norðausturhluta Belgíu, nánast í miðju héraðinu Limburg. Næstu stærri borgir eru Genk til norðausturs (10 km), Maastricht í Hollandi til suðausturs (25 km), Liege til suðurs (45 km) og Brussel til vesturs (80 km). Mikill landbúnaður er í kringum borgina. Fyrir norðan miðborgina er höfn í Albert-skipaskurðinn, en þaðan er hægt að sigla til árinnar Maas í austurátt og til Antwerpen í vesturátt. Skjaldarmerki. Skjaldarmerkið er tvískipt. Til vinstri eru rendur greifadæmisins Loon, sem áður var á þessu svæði. Til hægri eru tvö heslitré, en það er heiti borgarinnar. Tréin koma fyrir á innsiglum þegar á 15. öld, en núverandi samsetning kom fyrst fram 1625. Skjaldarberi er hjörtur, en neðst er borði með áletruninni SPQH (Senatus PopulusQue Hasselsis; ísl: Ráð og fólk borgarinnar Hasselt). Skjaldarmerkið var veitt 1840, ári eftir að borgin varð formlega belgísk. Orðsifjar. Heitið Hasselt er dregið af germanska orðinu Hasaluth, sem merkir hesliviður. Söguágrip. Hasselt myndaðist á 7. öld á verslunarleiðinni milli Brugge og Maastricht. Bærinn kom fyrst við skjöl 1165 og hlaut stuttu síðar almenn borgarréttindi. 1232 voru þau réttindi staðfest af Arnold IV greifa af Loon. Í kjölfarið óx borgin hratt og varð brátt að stærstu borg greifadæmisins (þótt ekki væri hún höfuðborg þess). Hasselt kom þó lítið við sögu í styrjöldum Niðurlanda næstu aldir. Eftir fall Napoleons 1815 var konungsríki Niðurlanda stofnað. En 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Belgar tóku allt héraðið Limburg eignarnámi í óþökk Hollendinga. Hasselt varð að bráðabirgðahöfuðborg Limburgs, þar sem Maastricht var enn á valdi Hollendinga. Hollendingar brugðust við með því að senda herlið suður til Limburg. Í orrustunni við Hasselt 8. ágúst 1831 sigruðu Hollendingar, sem og í nokkrum öðrum smærri orrustum. Þegar Frakkar skárust í leikinn, hörfuðu Hollendingar frá austurhluta Limburgs. Þegar samningar tókust um sjálfstæði Belgíu 1839 var ákveðið að splitta Limburg. Vesturhlutinn tilheyrði Belgíu og varð Hasselt þá formlega höfuðborg héraðsins. Austurhlutinn, með Maastricht að höfuðborg, tilheyrði Hollendingum áfram. Stór hluti efnahags borgarinner er Genever framleiðsla (áfengi gert úr einiberjum). Albert-skipaskurðurinn var opnaður 1939 og strýkur hann norðurhluta borgarinnar. Skurðurinn skapaði mörg störf, beint og óbeint, við vöruflutninga og iðnað. Stærsta verksmiðja borgarinnar tilheyrir Philips-samstæðunni, en þar starfa í kringum 5000 manns. 1971 var háskóli (Universiteit Hasselt) stofnaður í borginni. Viðburðir. Pukkelpop er heiti á einni stærstu tónlistarhátíðum í Belgíu. Hún hefur verið haldið árlega í Hasselt síðan 1985. Á því ári tróðu sjö hljómsveitir upp fyrir framan 2.500 gesti. Í dag eru hljómsveitirnar orðnar rúmlega 200 sem troða upp á átta mismunandi sviðum í þrjá heila daga. Gestir eru rúmlega 200 þúsund. 1980 voru Sykurmolarnir skráðir til leiks á hátíðinni en urðu að aflýsa komu sína. 2011 varð að hætta við hátíðina vegna þess að áhorfendapallar hrundu í stormi. Fimm manns biðu bana og 70 slösuðust. Rimpelrock er önnur tónlistarhátíð, að þessu sinni fyrir eldri borgara. Hún er talsvert minni í sniðum en Pukkelpop, en er haldin árlega síðan 2002. 2005 var Evrópusöngvakeppnin fyrir börn haldin í Hasselt. Sigurvegarinn kom frá Hvíta-Rússlandi. Aðrar merkar hátíðir í borginni eru Geneverhátíðin, Karneval og hinn árlegi skemmtigarður (Kermis). Byggingar og kennileiti. Dómkirkjan er helguð heilögum Quintinníusi Kortrijk. Kortrijk (franska: Courtrai) er borg í Belgíu. Hún er jafnframt höfuðborg og stærsta borgin í flæmska héraðinu Vestur-Flæmingjalandi. Íbúar eru 75 þúsund. Íbúarnir eru hollenskumælandi. Nokkrar byggingar borgarinnar eru á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. Kortrijk liggur við ána Leie norðarlega í Belgíu en syðst í héraðinu Vestur-Flæmingjaland. Næstu stærri borgir eru Gent (42 km), Lille (25 km) og Brugge. Miðborgin afmarkast við ána Leie og er nánast hringlaga. Byggingar og kennileiti. Miðborg Kortrijk er í heild sinni á heimsminjaskrá UNESCO, sökum gamalla og sögufrægra bygginga. Miðborgin afmarkast af ánni Leie sem hringum í kringum hana. Einnig eru talsvert mörg síki í miðborginni. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, oft kölluð einkavæðingarnefnd, var nefnd á vegum íslenska ríkisins sem hafði það hlutverk að annast sölu á eignarhlutum ríkisins í félögum, færa verkefni til einkaaðila með útboðum og fara í kerfisbundna athugun á eignaumsýslu ríkisins til að draga úr kostnaði við hana. Skipan nefndarinnar var í samræmi við einkavæðingaráform Viðeyjarstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar sem tók við völdum í apríl 1991. Nefndin var skipuð fulltrúum fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, en formaður hennar var skipaður af forsætisráðherra. Nefndin tók til starfa 4. febrúar 1992. Fyrsti formaður hennar var Hreinn Loftsson sem áður var aðstoðarmaður forsætisráðherra. Árið 2002 var Ólafur Davíðsson skipaður formaður og árið 2004 tók Jón Sveinsson við. Síðasti formaður nefndarinnar var Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, skipaður í ársbyrjun 2007. Fyrsta árið sem nefndin starfaði var hlutur ríkisins í átta fyrirtækjum seldur. Fyrsta salan var á ríkisfyrirtækinu Prentsmiðjunni Gutenberg. Frá upphafi risu deilur um margar af þessum sölum, allt frá því að Menningarsjóður var seldur 1992 þar til hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var seldur árið 2007. Mestur styr stóð þó um einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka 1998, Símans árið 2005 og sölu á hlut ríkisins í bönkunum; Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankanum og Búnaðarbankanum á árunum 1999-2003. Samkvæmt yfirliti nefndarinnar skiluðu 44 sölur á ríkiseignum frá 1992-2005 samtals rúmlega 141 milljarði króna í ríkissjóð á verðlagi ársins 2005. Nefndin starfaði til ársins 2007 þegar Þingvallastjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum. Menningarsjóður. Næpan eða landshöfðingjahúsið árið 1974 þegar Menningarsjóður var þar til húsa. Menningarsjóður var ríkisstofnun sem var stofnuð árið 1928 að frumkvæði Jónasar Jónssonar sem þá var dóms- og kirkjumálaráðherra. Menningarsjóður styrkti listamenn og var umfangsmikill í bókaútgáfu, einkum útgáfu fræðirita og þýðinga á erlendum meistaraverkum. Sjóðurinn var í upphafi fjármagnaður með sektum fyrir brot gegn áfengisbanninu. Menningarsjóður heyrði undir menntamálaráð. Árið 1940 var bókadeild menningarsjóðs sameinuð bókaútgáfu Hins íslenska þjóðvinafélags. Árið 1969 keypti menningarsjóður gamla landshöfðingjahúsið, Næpuna, við Skálholtsstíg. Árið 1992 var Menningarsjóður lagður niður að frumkvæði einkavæðingarnefndar og lager og útgáfuréttur seldur. Næpan var fengin Listasafni Íslands en 1998 keypti auglýsingastofan Mátturinn og dýrðin húsið og skömmu síðar eignaðist Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri Oz efri hæðir hússins. Árið 2007 keypti hann neðri hæðirnar af Baltasar Kormáki og Lilju Pálmadóttur. Meðal þekktustu útgáfuverka Menningarsjóðs var "Orðabók Menningarsjóðs" sem kom fyrst út árið 1963 og síðan 1983 í ritstjórn Árna Böðvarssonar. Mál og menning keypti útgáfuréttinn árið 1992 og hafa tvær nýjar útgáfur í ritstjórn Marðar Árnasonar komið út á vegum Eddu 2002 og 2007. Síberíuflæðibasaltið. Síberíuflæðibasaltið (rússneska: "Сибирские траппы", "Sibirskije trappy") er stórt eldvirknisvæði, eða flæðibasaltsvæði í Síberíu í Rússlandi. Hin mikla eldvirkni sem myndaði svæðið (og sem er einn stærsti þekkti eldvirkniatburður síðustu 500 milljón ára jarðsögunnar) varði í milljón ár og náði yfir skilin á milli jarðsögutímabilanna Perm og Trías fyrir um 251-250 milljónum ára. Landfræðileg útbreiðsla. Gríðarlega rúmmálsmikil hraunlög breiddust yfir stórt svæði hinnar fornu Síberíu í flæðibasaltatburði. Í dag er svæðið um 2 milljónir km2 (eða sambærilegt við Vestur-Evrópu að flatarmáli), en það hefur verið áætlað að upphafleg stærð svæðisins hafi verið allt að 7 milljónir km2. Talið er að upphaflegt rúmmál hraunanna hafi verið á bilinu 1 milljón til 4 milljónir km3. Landfræðileg lega svæðisins er á milli 50° og 75° norðlægrar breiddar og 60° og 120° austlægrar lengdar. Uppruni. Uppruna svæðisins hefur verið talið mega rekja til möttulstróks sem hafði áhrif á jarðskorpuna á svæðinu og braust í gegnum síberíska meginlandsskjöldinn, eða mega rekja til ferla sem tengjast reki jarðskorpufleka. Aðrar mögulegar ástæður hafa einnig verið nefndar en ennþá deila vísindamenn um uppruna Síberíuflæðibasaltsins. Áhrif eldvirkni á lífkerfi jarðar. Sá mikli eldvirkniatburður sem myndaði Síberíuflæðibasaltið náði yfir Perm-Trías mörkin í jarðsögunni fyrir um 250 milljónum ára og er því nefndur sem möguleg ástæða fyrir Perm-Trías fjöldaútdauðanum. Þessi fjöldaútdauði sem er sá mesti í þekktri jarðsögu hafði áhrif á allt líf á jörðinni og er áætlað að um 90 % allra tegunda hafi dáið út. Það tók líf á landi að minnsta kosti 30 milljónir ára að ná sér að fullu af þeim umhverfisáhrifum sem mögulega hafa orðið vegna eldvirkninnar sem myndaði Síberíuflæðibasaltið. Síberíuflæðibasaltið og myndun nikkels. Talið er að gosið hafi á svæðinu á mörgum gosopum á yfir milljón ára tímabili eða meira. Gosin urðu líklega austur og suður af Norilsk í Síberíu. Einstök gos gætu hafa látið frá sér meira en 2000 km3 af hrauni. Norilsk-Talnakh nikkel-kopar-palladíum málmgrýtið myndaðist í gosrásum í meginhluta flæðibasaltsins. Túfflög og gosmöl á svæðinu gefa til kynna að fjöldi stórra sprengigosa hafi orðið á sama tíma eða áður en basalthraunlögin mynduðust. Rýólít sem er súrt gosberg finnst einnig á svæðinu og gefur til kynna að sprengigos hafi átt sér stað. Genk. Genk er flæmsk borg í Belgíu. Hún er í héraðinu Limburg og eru íbúarnir hollenskumælandi. Genk var lítið annað en landbúnaðarþorp fram á 20. öld og varð ekki að borg fyrr en árið 2000. Íbúar eru 65 þúsund. Lega og lýsing. Gent liggur við Albert-skipaskurðinn er í norðausturhluta Belgíu, aðeins 10 km fyrir vestan hollensku landamærin (hollenska héraðið Limburg). Næstu stærri borgir eru Hasselt til vesturs (10 km), Maastricht í Hollandi til suðausturs (20 km), Liege til suðurs (40 km) og Brussel til suðvesturs (95 km). Gríðarmikill iðnaður er í borginni. Fjölmörg fyrirtæki standa við Albert-skipaskurðinn í suðurhluta borgarinnar, en þar er flutningahöfn. Í norðurhluta borgarinnar eru kolanámur. Þar eru tvö manngerð fjöll sem eru aukajarðvegur kolavinnslunnar. Við austurmörk borgarinnar er Hoge Kempen, eini þjóðgarður Belgíu. Söguágrip. Yfirgefin kolanáma í Genk. Í bakgrunni sér í tvö manngerð fjöll, en þau eru aukajarðvegur kolanna. Genk var smáþorp í gegnum aldirnar. Um aldamótin 1900 voru íbúar bæjarins ekki nema 2.500. Þangað flykktust margir listamenn, sér í lagi málarar, til að njóta dvalar í friðsemd umhverfisins og að mála landslagsmyndir. Nokkrum árum síðar fannst gríðarlega mikið magn af kolum í jarðvegi við bæinn. Þetta reyndust vera stærsta kolasvæði Belgíu. Það var þó ekki fyrr en 1914 sem fyrsta kolanáman hóf starfsemi sína. Í kjölfarið flykktust bæði Belgar og útlendingar í bæinn í atvinnuleit. 1930 voru íbúar orðnir 25 þúsund og 1960 45 þúsund. Samfara þessu jókst annar almennur iðnaður í borginni, sem brátt varð að einni mikilvægustu iðnaðarborg Belgíu. Á sjöunda áratugnum staðnaði kolaiðnaðurinn hins vegar og breyttist landslag atvinnuvega talsvert. 1966 var fyrstu af þremur kolanámunni lokað en hinum tveimur var lokað á níunda áratugnum. Síðan þá hefur íbúafjöldi Genk staðið í stað í um 60 – 64 þúsund. Þó er enn mikill iðnaður í Genk. Stærsta fyrirtækið eru Ford-verksmiðjur en þar starfa um 4.500 manns. Alls starfa um 45 þúsund manns við iðnaðinn í borginni. Sökum innflutning erlends vinnuafls eru um þriðjungur borgarbúa í dag af erlendu bergi brotnir. Fjölmennastir eru Ítalir (15 þúsund) og Tyrkir (6 þúsund). Árið 2000 fékk Genk almenn borgarréttindi. Viðburðir. Genk on Stage er heiti á útitónlistarhátíð í Genk. Hún stendur yfir í þrjá daga síðustu helgi í júní. Hátíðinni var hleypt af stokkunum árið 1982. Hljómsveitir troða upp og spila tónlist úr ýmsum geirum á fimm sviðum. 100 þúsund manns sækja hátíðina heim, sem er mest sóttu tónlistarhátíða Belgíu. Yohoho (áður Genk on Ice) er vetrarviðburður sem fram fer milli jóla og nýárs. Þá er lögð snjóbraut í miðborginni þar sem hægt er að renna sér á skíðum alla leið í Limburgdalinn. Verslunarmenn setja upp tugi bása fyrir hungraða og þyrsta á leiðinni. Af öðrum viðburðum má nefna karneval, helgiganga heilags Marteins og jazzhátíðin C-mine Jazz. Íþróttir. Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er KRC Genk (eða bara Racing Genk) sem þrisvar hefur orðið belgískur meistari (1999, 2002, 2011) og fimm sinnum bikarmeistari (síðast 2009). Einn Íslendingur hefur leikið með félaginu, Þórður Guðjónsson, frá 1997-2000. Í Genk er ein nýtískulegasta Kart-brautin (Go-Kart) í Evrópu. Þar hafa farið fram keppnir í tengslum við HM. Byggingar og kennileiti. Kirkja, mylla og gömul bændahús í Bokrijk Sökum þess að meginhluti Genks myndaðist ekki fyrr en á 20. öld eru fáar gamlar byggingar þar í bæ. Nokkuð er um kirkjur og bænahús frá öðrum menningarheimum vegna stórs hlutfalls útlendiga í borginni. Þar eru til dæmis fimm moskur og nokkrar rétttrúnaðarkirkjur. What's hidden there (hljómplata). What's hidden there er fyrsta og eina breiðskífa framsæknu rokkhljómsveitarinnar Svanfríður Platan var tekin upp og unnin í Majestic studios í Bretlandi en umslag prentað á Íslandi. Magic Key. Magic Key er fyrsta og eina breiðskífa framsæknu íslensku rokkhljómsveitarinnar Náttúru. Flæmska Brabant. Flæmska Brabant er hollenskumælandi hérað í Belgíu, það næstminnsta í landinu (aðeins Vallónska Brabant er minna). Íbúar eru um milljón. Höfuðborgin heitir Leuven. Lega og lýsing. Flæmska Brabant er nánast miðsvæðis í Belgíu og er eina héraðið, auk Vallónska Brabant, sem ekki nær að landamærum ríkisins, heldur er umlukt öðrum héruðum. Fyrir norðan eru flæmsku héruðin Austur-Flæmingjaland, Antwerpen og Limburg. Fyrir sunnan eru vallónsku héruðin Hainaut, Vallónska Brabant og Liege. Auk þess er höfuðborgarsvæðið eins og landlukt svæði mitt í héraðinu. Fáni og skjaldarmerki. Skjaldarmerki héraðsins sýnir gyllt ljón með rauða tungu og rauðar klær á svörtum grunni. Ljónið hefur lengi verið aðalsmerki greifanna af Brabant allar götur síðan á 11. öld. Kórónan fyrir ofan ljónið er hertogakrórónan. Skjaldarberarnir eru tvö gyllt ljón, eitt til sitthvorrar handar. Þau eru viðbót frá 1920. Orðsifjar. Brabant er dregið af orðunum "bra", sem upphaflega merkir "auður" (sbr. "brach" á þýsku) og "bant", sem merkir "fylki" (eins og band eða samband). Fyrri hluti heitisins er til aðgreiningar annarra tveggja héraða sem heita Brabant. Hin eru Norður-Brabant í Hollandi og Vallónska Brabant í Belgíu. Söguágrip. Brabant var lengi vel greifadæmi í þýska ríkinu og var þá miklu stærra en það er nú. Stærsti hluti þess var þá innan núverandi landamæri Belgíu og náði nær alveg suður til frönsku landamæranna. Árið 1430 varð Brabant eign Búrgundar og 1477 Habsborgar. Brabant var höfuðsvæði spænsku Niðurlanda en borgin Brussel var í miðju fylkinu. Hins vegar gekk Brabant til liðs við sameinuðu héröð Niðurlanda í sjálfstæðisstríðinu gegn Spánverjum. Í kjölfarið voru margar orrustur háðar í fylkinu. Þegar friðarsamningarnir voru gerðir um endalok sjálfstæðisstríðs Hollands 1648 var Brabant skipt í tvennt. Norðurhlutinn (mótmælendur) varð hluti af sjálfstæðu Hollandi, en suðurhlutinn (bæði mótmælendur og kaþólikkar) var áfram í spænskri Belgíu. Frakkar hertóku Brabant í lok 18. aldar en 1797 var Brabant að öllu leyti innlimað Frakklandi. Eftir burtför Frakka 1813 voru Niðurlönd sameinuð, en Brabant var skipt í þrjú héruð: Norður-Brabant, Antwerpen og Suður-Brabant. 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Antwerpen og Suður-Brabant (með Brussel) urðu belgísk héruð, en Norður-Brabant varð hollenskt hérað. 1995 var Belgíu skipt upp í tvö menningarsvæði, hollenskumælandi og frönskumælandi (og reyndar smá þýskt menningarsvæði að auki). Samfara því klofnaði Suður-Brabant í tvö héruð. Suðurhlutinn var að Vallónska Brabant (frönskumælandi), en norðurhlutinn að Flæmska Brabant (hollenskumælandi). Icecross (hljómplata). Icecross er fyrsta og eina breiðskífa framsæknu rokkhljómsveitarinnar Icecross. Arbeidsliv i Norden. "Arbeidsliv i Norden" er rafrænt tímarit sem gefið er út af Arbeidsforskningsinstituttet i Norge fyrir hönd Norræna ráðherraráðsins. Tímaritið er gefið út á dönsku, norsku og sænsku. Það er líka þýtt á ensku og heitir enska útgáfan "Nordic Labour Journal". Tímaritið kemur út níu sinnum á ári og fjallar fyrst og fremst um mál sem snerta vinnumarkaðinn, vinnuumhverfið og réttarfarslegar aðstæður sem tengjast norrænum vinnumarkaðsmódelum. Tepoki. Tepoki er lítill, gljúpur poki sem inniheldur telauf og stundum aðrar jurtir. Tepokar eru yfirleitt gerðir úr pappír, silki eða plasti. Pokinn heldur telaufunum inni í sér meðan á verið er að laga teið, sem auðveldar það að fjarlægja þau. Sumir tepokar eru með strengi með miða á öðrum endanum sem auðveldar það að fjarlægja pokann og bendir á tetegundina. Elstu tepokarnir voru gerðir úr silki en var fyrst sótt um einkaleyfi á þeim árið 1903. Byrjað var að selja þá fyrir árið 1904 í verslun í New York en þeir voru fluttir svo út um allan heim. Ætlað var að kaupendur fjarlægðu lausu telaufin úr pokunum en þeim fannst þægilegra að laga te með telaufin í. Í dag eru flestir tepokar gerðir úr pappírstrefjum. Þess konar tepoki, sem límdur er saman með hita, var fundinn upp af William Hermanson Bandaríkjamanni. Rétthyrndur tepoki var ekki fundinn upp fyrir 1944 en fyrr líktust flestir tepokar litlum sekkjum. Nagornó-Karabak-lýðveldið. Nagornó-Karabak-lýðveldið, einnig nefnt Artsak-lýðveldið, er sjálstætt ríki án alþjóðlegrar viðurkenningar sem sleit sig frá Aserbaídsjan árið 1991. Aðeins þrjú ríki án aðildar að Sameinuðu þjóðunum hafa viðurkennt það formlega: Suður-Ossetía, Abkasía og Transnistría. Í landinu er töluð armenska, sami gjaldmiðill er notaður og í Armeníu og fáni landsins er eins og armenski fáninn nema hvað ör liggur meðfram hægri hlið hans. Landsvæði ríkisins eru tæpir 11.500 ferkílómetrar og mannfjöldi er 140.000. Í landinu er kjörinn forseti og einnar deildar þing með 33 sætum. Kjörtímabil til þings eru 5 ár og eiga fjórir flokkar sæti á þingi: Frjálst móðurland (44%), Lýðræðisflokkur Artsak (27%), Hið armenska byltingarsamband (19%) og Kommúnistaflokkur Artsak (4,5%). Botnssúlur. Botnssúlur er þyrping móbergstinda sem heita Háasúla, Miðsúla, Norðursúla, Syðstasúla (1093m) og Vestursúla. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera á milli Botnsdals í Hvalfirði og Þingvalla og eru í svipaðri hæð. Einnig er dalur á milli súlnanna sem heitir Súlnadalur en þar var Íslenski Alpaklúbburinn (ÍSALP) með skála en hann er í endurgerð. Leiðin á milli Þingvalla og Botnsdals heitir Leggjarbrjótur en það er fræg gönguleið. Kjúklingabaun. Kjúklingabaun eða kíkerta (fræðiheiti: "cicer arietinum") eru próteinrík fræ af runna af Ertubaunaætt. Kjúklingabaunin er eitt elsta ræktaða grænmeti sem fundist hefur en 7.500 ára gamlar leifar hennar hafa fundist í Miðausturlöndum. Kjúklingabaunir eru mikilvæg fæða víða og meðal annars aðalundirstaða hins þekkta baunamauks, Hummus. Leuven. Leuven (franska: "Louvain"; þýska: "Löwen") er borg í Belgíu og jafnframt höfuðborg héraðsins Flæmska Brabant. Í Leuven er elsti og stærsti háskóli Niðurlanda. Íbúar eru 96 þúsund og eru hollenskumælandi. Lega og lýsing. Leuven liggur við ána Dijle aðeins steinsnar fyrir austan höfuðborgarsvæðið. Næstu stærri borgir eru Brussel til vesturs (20 km), Antwerpen til norðvesturs (45 km) og Hasselt til austurs (50 km). Orðsifjar. Leuven er fyrst getið árið 891 í sambandið við orrustuna við Leuven og hét þá Loven. Það er samsett úr orðunum "lo" og "venn". Lo merkir "skógur", en venn merkir "mýri". Mýrarskógur væri því rétta þýðingin. En sumir er ekki á eitt sáttir um þá útskýringu. Loven merkir einnig að lofa og vilja sumir meina að þar hafi heiðin goð verið heiðruð. Þaðan sé því heiti borgarinnar að finna. Aðrir vilja meina að heitið sé komið af víkingum. Engar sannanir liggja fyrir í neinu þessa atriða. Íbúar Leuvens eru með tvenn gæluheiti. Í fyrsta lagi Pietermannen (Pétursmenn) eftir elstu kirkju borgarinnar, Péturskirkjunni. Í öðru lagi kallast íbúarnir "beljuskotmenn" (koeienschieters). Nótt eina 1691 töldu borgarbúar að Frakkar væru að ráðast á borgina. Allir sem vettlingi gátu valdið gengu með skotvopn á móti þeim og skutu þangað sem þeir töldu innrásarmenn vera. Morguninn eftir kom í ljós að þeir höfðu skotið niður allar kýr í haga einum. Eftir þetta festist gæluheitið við borgarbúa. Fáni og skjaldarmerki. Fáni Leuven samanstendur af þremur láréttum röndum: Rauðri, hvítri og rauðri (eins og austurríski fáninn). Í orrustunni við Leuven 891 barðist Arnúlfur keisari við víkinga. Sagan segir að svo mikil blóð hafi runnið á þeim degi að áin Dijle hafi litast rauð. Þaðan sé fáninn kominn. Hvíta röndin er Dijle, rauðu rendurnar eru blóð. Skjaldarmerkið er nánast eins (rauð, hvít og rauð rönd) en auk þess eru þrír varðturnar í rauðu hlutunum. Turnarnir tákna sveitarfélögin þrjú sem í dag mynda borgina. Efst á skildinum er gyllta ljón greifanna af Brabant. Megin skjöldurinn er frá 17. öld en hjálminum var bætt við 1845. 1926 var orðunni (franska krossinum) bætt við neðst eftir útreiðina í heimstyrjöldinni fyrri. 1979 var skildinum breytt í síðasta sinn er varðturnunum var bætt við eftir sameiningu við nágrannasveitarfélögin. Upphaf. Á tímum Rómverja mun þorp hafa staðið á núverandi borgarstæði. Þorpið lifði af fall Rómaveldis og dafnaði á tímum germana. Lítið er vitað um þorpið næstu aldir. Árið 891 kemur það við sögu er víkingar gera strandhögg í nágrenninu. Arnúlfur keisari mætti á staðinn í september á því ári. Í orrustunni við Leuven sigraði Arnúlfur en heimildir greina frá miklu blóðbaði. Á þessum tíma var Leuven höfuðstaður samnefnds greifadæmis. Greifadæmið leystist upp í hertogadæmið Brabant 1183. Leuven hlaut borgarmúra á 12. öld. Þrátt fyrir að Brussel væri höfuðborg Brabants, var Leuven þó mikilvægri efnahagslega í fyrstu. Atvinnuvegir í borginni voru að miklu leyti vefnaður. Um miðja 14. öld fór blómatími Leuven að dvína gagnvart Brussel. Ástæður voru erfiðleikar í vefnaði og erfðastríðið í Brabant. Háskólaborg. Erasmus frá Rotterdam var kennari við háskólann 1517-1521. Málverk eftir Hans Holbein. 1425 veitti Marteinn V páfi samþykki sitt um að stofna kaþólskan háskóla í Leuven. Hann er því elsti háskóli Niðurlanda. Brátt varð háskólinn einn sá stærsti og virtasti í Evrópu og var mikil miðstöð menninga og vísinda. Margir þekktir einstaklingar stunduðu nám þar eða kenndu þar, ekki síst á tíma húmanismans í Evrópu á 16. öld. Meðal þekktustu manna 16. aldar sem tengjast skólanum má nefna Erasmus frá Rotterdam (kennari), Hadríanus VI páfi (nemandi, kennari, rektor) og Gerhard Mercator (nemandi). Í sjálfstæðisstríði Hollendinga var nokkrum sinnum setið um Leuven og á tímabili var háskólinn lokaður. Frelsisstríð og bjór. Eftir friðarsamninga 30 ára stríðsins 1648 fór Leuven ört stækkandi. Efnahagslega dafnaði borgin þó ekki fyrr en Habsborgarar réðu landinu um miðja 18. öld. Iðnaði var komið á og grafinn lítill skipaskurður til Antwerpen, þar sem áin Dijle var ekki siglingahæf á þessum stað. Skurðurinn hafði mikla þýðingu fyrir borgina, sem þar með komst í færi við aðrar verslunarborgir. Mesti iðnaður 18. aldar var bjórframleiðsla. 1764 voru 52 brugghús í borginni og var bjórinn fluttur víða um Niðurlönd. Frakkar. Frakkar hertóku Niðurlönd 1794. Í upphafi voru íbúar Leuven jákvæðir gagnvart þeim. En brátt runnu á þá tvær grímur. Frakkar komu upp almennri herskyldu, lokuðu háskólanum, fluttu listaverk til Parísar, lokuðu kirkjum og klaustrum, og lögðu niður iðngildin. Sumum listaverkum var skilað eftir fall Napoleons. Önnur eru enn týnd. Aðstæður í borginni bötnuðu ekki fyrr en Napoleon hrifsaði til sín völdin. 1803 sótti hann Leuven heim og var almennt hylltur af borgarbúum. Á franska tímanum var byrjað að rífa borgarmúrana niður til að skapa meira pláss. Eftir fall Napoleons drógu Frakkar sig til baka. Í kjölfarið urðu Niðurlönd sjálfstætt konungsríki 1815. 19. öldin. Strax 1817 var háskólinn í Leuven opnaður á ný. Hjól efnahagsins byrjuðu að snúast. En 1830 gerðu Belgar uppreisn gegn Hollendingum og lýstu yfir sjálfstæði. Hollenskur her birtist við dyr Leuven en þeim fáu belgísku hermönnum sem í borginni voru tókst ásamt bændaher að hrekja þá burt á ný. Ári síðar sendu Hollendingar herlið aftur suður til Belgíu, þar sem það sigraði Belga í nokkrum orrustum. 12. ágúst stóðu Hollendingar við borgarmörk Leuven og umkringdu borgina. Í þessari stöðu brást Baldvin I, konungur Belga, skjótt við. Í trássi við þingið hleypti hann frönskum her inn í landið, sem mætti Hollendingum við Leuven. Herirnir stóðu andspænis hvor öðrum. En í stað þess að berjast settust menn niður og sömdu um vopnahlé í smábænum Pellenberg rétt utan borgarmörk Leuven. Að því búnu drógu Hollendingar sig í hlé. Mikill iðnaður spratt upp í Leuven á 19. öld. Byrjað var að brugga bjór á ný, vefnaðariðnaðurinn blómstraði og nú bættist málmiðnaðurinn við. 1837 fékk borgin járnbrautartengingu, fyrst við Mechelen, síðar við Charleroi og Brussel. "Nauðgun Belgíu". 1914 enduðu draumar Leuven um fagra framtíð. 19. ágúst hertóku Þjóðverjar borgina, sem og fleiri belgískar borgir. Brátt komu hins vegar upp sögusagnir þess eðlis að Belgar og Bretar væru á leiðinni að frelsa borgina. Mikið hræðsla greip um sig meðal þýskra hermanna. 25. ágúst var svo komið að aðstæður voru orðnar óþolandi í borginni sökum hræðslu. Einn skotthvellur gall við einhvers staðar í borginni og leysti hann ofsahræðslu úr læðingi. Þýskir hermenn gengu hús úr húsi, hröktu borgarbúa út og brenndu íbúðir, byggingar og verksmiðjur niður. Aðeins hinu ægifagra ráðhúsi var hlíft. Meira að segja háskólabyggingin var brennd niður, Péturskirkjan ásamt mörgum listaverkum og hið tignarlega háskólabókasafn. Þar brunnu rúmlega 300 þúsund bindi, mörg þeirra frá liðnum öldum. Í fjóra daga gengu Þjóðverjar berserksgang um borgina og brenndu allt sem brunnið gat. Alls voru 1081 hús bennd niður, 248 íbúar voru skotnir eða létust í brunanum. Heimsbyggðin var hneiksluð. Erlend blöð birtu fyrirsagnir eins og "Þýsku húnarnir", "Nauðgun Belgíu" eða notuðu önnur stóryrði. Heimstyrjöldin síðari. Leuven var ekki endurreist fyrr en eftir stríð og tók langan tíma. Háskólinn tók aftur til starfa haustið 1919, ári eftir stríð. Bókasafnið var ekki endurreist fyrr en 1928 með bandarískum fjármunum. Þjóðverjar höfðu skuldbundið sig til að gefa safninu þær bækur sem eyðilögðust, að minnsta kosti eins og kostur var. 1940 riðu næstu ósköpin yfir. Breskt verndarlið sat í borginni þegar Þjóðverjar birtust 13. maí með stórt herlið. Hinir síðarnefndu hófu þegar að skjóta á borgina og í þrjá daga dundi sprengjuregnið yfir. Bretar vörðust með öllum ráðum. Mitt í orrahríðinni varð háskólabókasafnið fyrir sprengjum og brann niður. Síðan það brann síðast 1914 höfðu safninu borist 900 þúsund bindi hvaðanæva að úr heiminum. Þau brunnu öll til kaldra kola. Bretar yfirgáfu borgina 16. maí. Degi síðar hertóku Þjóðverjar hana. Leuven varð fyrir miklum loftárásum bandamanna vorið 1944. Þjóðverjar yfirgáfu hana 3. september en þá lá hún að miklu leyti í rústum. Leuven í dag. Bjórinn Stella Artois er framleiddur í Leuven Það tók aftur langan tíma að endurreisa Leuven. Til að mynda var viðgerðarvinnu í ráðhúsinu ekki lokið fyrr en 1982. Árið 1977 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Leuven. Við það þrefaldaðist íbúatalan. Nokkur iðnaður er í borginni, sem er víða þekkt fyrir mikla bjórframleiðslu. Þar eru til dæmis höfuðstöðvar Anheuser-Busch InBev, stærsta bjórsamstæða heims. Fyrirtækið framleiðir bjórtegundir eins og Budweiser, Stella Artois, Löwenbräu og tugir annarra. Viðburðir. Docville er heiti á kvikmyndaverðlaunum sem árlega eru veitt í Leuven. Þetta er eina kvikmyndahátíðin í Belgíu sem eingöngu tekur fyrir fræðslumyndir, bæði innlendar sem erlendar. Í desember er haldin sambærileg stuttmyndahátíð (Internationaal Kortfilmfestival Leuven), þar sem bestu stuttmyndir eru verðlaunaðar í ýmsum flokkum. Marktrock (markaðsrokk) er fjölmenn tónlistarhátíð í Leuven, haldin á markaðstorginu um miðjan ágúst. Tugir hljómsveita rokka í þrjá heila daga. Með 350 þúsund gesti er þetta ein fjölmennasta tónlistarhátíð Evrópu. Byggingar og kennileiti. Ráðhúsið í Leuven er eitt fegursta ráðhús heims Tálknmunnar. Tálknmunnar (fræðiheiti: "Cephalochordata") eru ein þriggja undirfylkinga seildýra ("Chordata") en ekki hryggdýra eins og haldið var fyrir um 75 árum. Tálknmunnar eru fremur lítil undirfylking sem telur alls 32 lífverur sem kallast "Amphioxiformes". Frá tálknmunnum greinast í þrjár ættkvíslir sem er "Branchiostoma" (24 lífverur), "Asymmetron" (sjö lífverur) og "Epigonichthys". Allar þessar lífverur er svipaðar að gerð og lífshegðun og ganga undir nafninu tálknmunnar. Þó undirfylkingin sé smá og sé í raun hryggleysingi gegnir hún gífurlega mikilvægu hlutverki í að kanna þróun lífs á jörðunni því hún er systurfylking hryggdýra. Tálknmunnar eru því ein skyldasta undirfylking hryggdýra og finnast steingervingar af tálknmunnum allt aftur á miðju Kambríumtímabilinu fyrir um 500 milljónum ára. Þó lífverur sem eftir eru séu fáar er útdauður undirflokkur af tálknmunnum sem nefnist "Pikaia" og fannst í Burgessjarðlaginu og hefur valdið miklum deilum um þróunarsögu lífvera. Líkamsbygging. 1. Heilablaðra 2. Hryggstrengur 3. Taugaþráður 4. Afturhali 5. Saurop 6. Meltingarkerfi 7. Blóðrásin 8. Kviðarop 9. Yfirkoksbil 10. Tálknaröð 11. Kok 12. Munnbil 13. Þreifarar 14. Munnop 15. Kynkirtlar 16. Ljósnemi 17. Taugar 18. Kviðpoki 19. Lifralíki Hér til hliðar má sjá venjulega líkamsbyggingu tálknmunna en hann getur orðið í kringum fimm cm langur. Líkami þeirra er mjúkur sem gerir það virkilega erfitt fyrir líkamsleifarnar að varðveitast. Burgess-steingervingarnir, sem fundust, mynduðust við kjöraðstæður fyrir mjúka líkamshluta þar sem sjórinn var súrefnissnauður og rotnun nær engin auk þess sem hræætur voru afar fáar á þeim tíma. Dvalarstaður og fæðuleit. Tálknmunnur finnast í höfum allsstaðar í kringum heiminn við grunnsævi þar sem þeir grafa sig ofan í jörðina. Afturhalinn sem er í raun vanþroskaður afturuggi er ekki kröftugur en þó getur tálknmunninn synt bæði áfram og aftur með því að draga líkamann saman lárétt og þrýsta sér áfram. Þetta er þó mjög orkufrekt ferli og ekki næst mikill hraði svo tálknmunninn hefst bróðurpart ævi sinnar ofan í göngunum. Upp úr göngunum kemur höfuðið þar sem það tekur inn næringu. Næringarinntaka fer fram með því að sía sjó inn um kokið þar sem þreifarar taka inn sjóinn. Meltingarkerfið er fremur einfalt og eru tálknaraðirnar einungis notaðar til að aðskilja of stórar agnir fyrir meltingarkerfið. Þrátt fyrir nafnið er þetta eini tilgangur tálknaraðirnar. Öndunarkerfið fer að öllu fram í gegnum húðina. Eftir síun hjá tálknaröðinni er kerfið fremur einfalt þar sem fæðan rennur frá kokinu og út endaþarmsopið í gegnum ein stór göng. Ekki eru til neinar heimildir um að tálknmunnar séu notaðir til manneldis í hinum vestræna heimi en í Kína og SA-Asíu eru dæmi um að þetta sé neytt sér til munns sem og að tálknmunnar séu notaður til fóðurblöndunar í fiskeldi. Ástæða þess að þetta er ekki notað til manneldis í vestrænum heimi er líklega sú að mest má finna af þessu í hafsbotninum við Japan og Kínastrendur sem og þetta finnst við Afríkuströnd Indlandshafs og í Karabískahafinu. Einnig hafa tálknmunnar fundist í Norðursjó þó þeir þrífist best í heittempruðum- eða hitabeltissjó. Æxlun. Tálkmunnar fjölga sér með kynæxlun þar sem dýrin skiptast eftir kynjum. Fjölgunin fer fram um vorið og sumarið við sólsetur. Karldýrin og kvendýrin sprauta hvort um sig sæði og eggjum úr göngunum sínum þar sem eggin frjóvgast við botninn. Dýrin lifa oft mjög þétt á litlu svæði eða upp í þúsundir á fermetra svo eggin eiga ekki í vandræðum með að frjóvgast. Að lokni frjóvgun þróast eggið í sundlirfu sem syndir upp að yfirborðinu í næringarleit. Lirfan lifir við yfirborðið þar til það hefur myndað 12-15 tálknraðir þegar hún er orðin fullvaxta tálkmunni og sekkur niður á botninn. Fullvaxta dýr nær í kringum 2-5 ára aldri. Pikaia ("P. gracilens") og skyldleiki við Hryggdýr. Árið 1911 fann Charles Walcott steingerving sem hann taldi vera ormur þar sem líkamsbyggingin var sú sama. Það var ekki fyrr en vísindamenn fóru að skoða steingervingana aftur af þessum sextán tegundum af Pikaia að þeir tóku eftir frumstæðum hryggjarstreng sem gerir þetta að einum elsta forföður hryggdýra. Við nánari skoðun kom í ljós að mörg einkenni Pikaia voru svipuð með tálknmunnum. Vöðvahópar voru byrjaðir að myndast sem og taugaþræðir og frumstæðir hryggstrengir. Einnig er fyrsta myndun höfuðs að verða til þarna. Þetta þykir renna stoðum undir að líf var byrjað myndast fyrir kambríum tímabilið. Þó allir séu ekki sammála um forföður hryggdýra á Pikaia dýrið sér en lifandi tvífara sem er Lancelet Branchiostoma sem er tálknmunni. Tálknmunnar hafa öll einkenni seildýra þó þeir kunni að þiggja fremur frumstæðir miðað við hryggdýrin. Þau einkenni eru holur taugaþráður, hryggstrengur og klofið kok (pharyngeal clefts). Frumleiki tálknmunna og þessi einkenni hafa verið suðupottur ýmissa kenninga um hvernig hann er tengdur við hryggdýr. Allt taugakerfi tálknmunnans er inn í hryggstrengnum sem nær frá haus og aftur í halann. Nokkrar tauganemar eru víðs vegar á búknum og meðal annars á hausnum þar sem nemarnir líkjast augum. Taugarnar sameinast í heilablöðrunni sem er talinn vera mjög frumstæður vísir að heila. Deilur um uppruna. Tálknmunnar hafa löngum þótt vera sá hryggleysingi sem er hvað skyldastur hryggdýrum. Sú skoðun hefur verið ríkjandi nær alla 20. öldina en í byrjun þeirri 21. hafa efasemdarraddir hljómað og bent á að þriðja undirfylking seildýra, Urachordates, sé í raun skyldari hryggdýrum en tálknmunnar. Tvær kenningar hafa hlotið mestan hljómgrun. Annars vegar að allar undirfylkingar seildýra séu komin frá sameiginlegu forföður. Hin kenningin á uppruna sinn í Pikaia steingervingunum og telur að fornir tálknmunnar séu í raun forfeður hryggdýranna. Niðurstöður tilrauna sem komu árið 2008 þykja renna stoðum undir fyrrnefnda kenningu. Þar voru genamengi dýra úr þessum þremur undirfylkingum borin saman og sú niðurstaða að tálknmunnar hafi greinst fyrr frá hryggdýrum og Urachordates. Það gerir aðra hryggleysinga skyldara hryggdýrum en einstök gen í genamengi tálknmunna eru talin vera komin frá forfeðra seildýra sem gerir tálknmunna að frumstæðasta undirflokknum. Tilraunin leiddi það einnig í ljós að eftir að tálknmunnar greindust frá myndaðist Urachrodates og svo þurfti tvær stökkbreytingar til þess að hryggdýr komu fram með kjálka. Skyldleiki hryggdýra og tálknmunna verður ekki efast um og nýtist hann til rannsókna. Meðal annars til þess að öðlast betri skilning á þróun ónæmiskerfis hryggdýra, frá blóðrás með engum hemoglóbínum í tálknmunnum til lokaðrar blóðrásar mannsins. Við rannsókn á ónæmiskerfi tálknmunna finnast einnig eiginleikar sem seildýr hafa öðlast snemma í þróunarsögunni. Má því leiða að því líkum að ónæmiskerfi tálknmunna líkist ónæmiskerfi fornra hryggdýra. Dægurmál. Þó tálknmunnar séu ekki meðal mest áberandi dýra í dýraríkinu gegna þeir mikilvægu hlutverki til að átta sig á þróun lífs á jörðinni. Síðan þeir fundust hafa þeir verið mikið umhugsunarefni vísindamanna. Svo mikið að stúdentar í Chicago sömdu lag um tálknmunna og mun ég láta viðlagið vera lokaorð erindisins en textinn lýsir ágætlega hvaða stöðu menn telja tálknmunna hafa í þróunarsögunni. Svart á hvítu. Svart á hvítu var bókafélag og bókaútgáfa sem sett var á stofn árið 1984 og rekið til ársins 1990. Inngönguskilyrði í bókafélagið voru kaup á þremur bókum á tilboðsverði af félaginu. Félagið var í byrjun til húsa að Borgartúni 29. Forlagið gaf meðal annars út Íslendingasögur með nútímastafsetningu, Sturlungasögu, heildarverk Jónasar Hallgrímssonar og hóf vinnu við útgáfu Sögu-Atlas. Forlagið stóð ásamt öðrum aðilum árið 1988 að fyrirtækinu Íslenski myndbandaklúbburinn, var hluthafi í tímatrítinu "Þjóðlíf" og vann að gerð gagnagrunns um Ísland. Dótturfyrirtæki Svarts á hvítu, Íslenski gagnagrunnurinn hf., var stofnað til að búa til upplýsingabanka og hugbúnaðarkerfi og voru nokkur ársverk sett í að búa til tvo gagnagrunna, annars vegar "Íslandsgrunninn" og hins vegar "Lagagrunninn". Lagagrunnurinn var gagnabanki með öllum hæstaréttardómum íslenskum frá upphafi og forrit til að ná úr honum upplýsingum. Íslandsgrunnurinn var forritunarvinna sem fólst í að gera Íslandslýsingu sem yrði grundvöllur annarra upplýsingagrunna. Svart á hvítu lenti í greiðsluerfiðleikum og í desember 1988 heimilaði Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi fjármálaráðherra að Svart á hvítu greiddi söluskattsskuld sína við Ríkissjóð að upphæð 25 milljónir með veðbandabréfi frá Íslenska gagnagrunninum. Svart á hvítu varð svo gjaldþrota árið 1990 og á nauðungaruppboði borgarfógetaembættisins 7. mars 1992 var Íslenski gagnagrunnurinn boðinn upp og sleginn umbjóðanda ríkissjóðs fyrir 100.000 kr. Orðstöðulykill úr Íslendingasögum er byggður á tölvuinnslætti sem Svart á hvítu lét gera. Þjóðlíf. "Þjóðlíf" var tímarit sem kom út frá 1985 – 1991. Það var mánaðarrit en fyrsti árgangur kom út sex sinnum á ári. Fyrsti ritstjóri var Auður Styrkársdóttir. Félagsútgáfan hf gaf tímaritið út. Þjóðlíf var útbreiddasta tímarit um áramótin 1990 og var þá prentað í 13.600 fyrri part ársins og 14.500 þúsund eintökum seinni hluta ársins. Frímann B. Arngrímsson. Frímann Bjarnason Arngrímsson (1855 – 1936) var íslenskur fræðimaður og uppfinningamaður. Hann fæddist í Hörgárdal 1855 og flutti til Vesturheims árið 1874 með fyrsta stóra hópnum af Norðurlandi. Hann var fyrsti Vestur-Íslendingurinn til að stunda háskólanám en hann útskrifaðist 6. júní 1885 frá Manitoba-háskóla með B.A.-gráðu. Hann starfaði á vegum Kanadastjórnar og stofnaði blaðið "Heimskringla" í Winnipeg árið 1886. Frimann flutti til Massachusetts og starfaði þar í rannsóknarstofum MIT í raftækjaverslunum. Hann fékk mikinn áhuga á rafvæðingu Íslands og því sem hann kallaði „hvítu kolin“, að vinna orku úr vatnsafli. Hann kom tvisvar til Íslands 1894 – 1895 til að tala fyrir rafvæðingu. Hann taldi lítinn árangur sinn stafa af því að hann var fátækur og ættlítill, landsmenn íhaldssamir og hagsmunir kolakaupmanna miklir af því að ekki væri virkjað. Frímann starfaði í rannsóknarstofum í Bretlandi á þriðja ár en flutti svo til Parísar 1897 og vann fyrir sér með ritstörfum, kennslu, fornbókasölu og byggingarvinnu. Í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar kom hann til Íslands árið 1914 og settist að á Akureyri. Hann gaf út tímaritið Fylkir árin 1916 til 1927. Hann fékk styrk frá Alþingi til rannsókna á jarðefnum. Frímann skrifaði mikið af greinum í íslensk og erlend rit. Greinar hans fjalla um trúarbrögð, stjórnmál, samgöngur við Ísland, raforkumál og fleira. Hannn skráði einkaleyfi í Bretlandi til að vinna orku úr straumum rafsegulsviðsins. "Hann var maður, sem einlægt hefði getað verið að læra og ávalt fengið ágætan vitnisburð við hvert próf. En hann brast aftur þann hæfileika freka r en flesta menn aðra að færa sér það í nyt í lífinu, er hann hafði numið. Hann var maður hvorki forsjáll né hagsýnn og skorti hau verkhyggindi, er öllum mönnum eru svo afar-nauðsynleg, til þess að koma ár sinni fyrir borð í lífinu. Hann var bezti drengur með einlægan áhuga og brennandi fyrir öllu því, er hann hélt að betur mætti. En áhuginn var mikils til of ákafur. Hann gætti hvorki hófs né stillingar, en vildi öllu koma til leiðar um leið og honum hugkvæmdist það. Hann var býsna mælskur maður. Hann varð svo heitur oftast nær, er hann talaði, að eldur hraut af orðum hans. En hugsanir hans voru einatt næsta óljósar. Honum var ekki ávalt nærri því ljóst, hvað hann var sjálfur að fara, eða hvað það eiginlega var, sem hann í þann svipinn brann af áhuga fyrir og tók út harmkvæli í hjarta sínu af að geta ekki komið í framkvæmd. Það vantaði jafnvægi í huga hans og geðsmunirnir virtust því miður ekki alls kostar heilbrigðir. Þetta varð því til fyrirstöðu, að hann gæti eíginlega nokkuru áorkað. Ef þessi brestur hefði ekki verið í lund hans og gáfnafari, var hann manna líklegastur til að verða mannfélagi Vestur-íslendinga til gagns og prýði." Begínur. Begínuhverfi í Breda í Hollandi Begínur er heiti á konum sem mynduðu trúarhreyfingu á 13. öld, aðallega á Niðurlöndum, en einnig í nokkrum öðrum nágrannalöndum. Begínur bjuggu við þröngan kost í þar til gerðum hverfum eða klaustrum sem kallast begínuhverfi. Mörg þeirra sem enn standa í dag hafa verið settar á heimsminjaskrá UNESCO. Begínur. thumb Begínur eiga uppruna sinn á Niðurlöndum. Fyrstu heimildir um þær eru frá 13. öld. Á kirkjuþinginu mikla í Róm 1215 var bannað að stofna nýjar trúarreglur, en aðeins ári síðar hlutu begínur vilyrði fyrir að fá að lifa og starfa einangraðar frá öðrum. Með þessu leyfi voru fyrstu hverfin reist í stórborgum þess tíma á Niðurlöndum, en þaðan breiddust þær út til annarra landa. Begínur voru ekki nunnur í eiginlegum skilningi, þær þurftu hvorki að gangast undir lærdómstíma né taka á sig neina eiða. Sama gilti um karla, en þeir bjuggu einnig sér. Blómatími begína stóð frá miðju 13. öld til fyrri hluta 14. aldar. Til dæmis bjuggu í Köln um 1250 begínur árið 1350 í 25 klaustrum. Almenningur lét sér fátt um finnast en stundum kom það fyrir að begínur voru fyrirlitnar og jafnvel dregnar fyrir kirkjurétt fyrir villutrú. Þetta átti sér sérstaklega stað í Frakklandi um aldamótin 1300. Í rannsóknarréttinum í Toulouse 1307 var mörgum begínum varpað í dýflissu og brenndar á báli. Þetta varð til þess að Jóhannes XXII páfi skipaði svo fyrir að allar þær begínur sem hugðust ganga í viðurkennda nunnureglu skyldu náðaðar. Í þýska ríkinu voru begínur ofsóttar frá fyrri hluta 14. aldar. Víða voru þær fangelsaðar eða teknar af lífi. Þannig fækkaði þeim gríðarlega. Við siðaskiptin gengu þær síðustu nýju trúnni á hönd, eða þær voru neyddar til að ganga í viðurkennd klaustur. Síðustu begínur hurfu í þýska ríkinu síðla á 16. öld. Á Niðurlöndum lifðu begínur við meira frelsi og lifðu víða af óróa siðaskiptanna. Þó að þeim hafi fækkað mikið síðustu aldir, þá voru begínuhverfi enn til í Hollandi og Belgíu langt fram á 20. öld. 2004 voru eingöngu fimm begínur eftir í Flæmingjalandi. 2008 lést síðasta begínan í Gent, 99 ára að aldri. Aðeins ein virk begína er enn á lífi svo vitað sé en hún býr í flæmsku borginni Kortrijk í Belgíu. Lifnaðarhættir. Begínur bjuggu út af fyrir sig í sérstökum hverfum. Þær gátu gengið í regluna, en yfirgefið hana aftur þegar þeim þóknaðist, ólíkt því sem tíðkast hjá nunnureglum. Þær máttu eiga hluti eða fjármuni en urðu að skilja slíkt eftir ef þær kysu að yfirgefa regluna. Því var sú regla sett á í mörgum begínuhverfum að aðeins konur sem náð hafa fertugsaldri mættu verða begínur. Sérhvert hverfi eða klaustur var stjórnað af hádömu (Grande Dame) sem kosin var til eins árs í senn. Begínur lifðu eftir reglum kristilegs kærleika. Þannig voru þær víða iðnar við að hjúkra sjúkum, annast fátæka og ala upp drengi og stúlkur. Ennfremur störfuðu þær til dæmis við að hreinsa og undirbúa lík fyrir greftrun eða spunnu í vefstofu. Í vissum tilvikum gengu begínur einnig um og betluðu. Hið síðastnefnda kom nokkru óorði á regluna. Þá voru menn ekki á eitt sáttir um trúarsiði begína og því voru þær víða ofsóttar, ekki síst meðan kaþólska kirkjan var einráð. Begínuhverfi. Í langflestum tilvikum bjuggu begínur (og hinir fáu karlmeðlimir) í sérstökum hverfum sem kallast begínuhverfi (hollenska: Begijnhof; enska og franska: Beguinage; þýska: Beginenhof) en einnig í vissum tilfellum í klaustrum. Hverfin voru víða í stórborgum Evrópu þess tíma, þó aðallega á Niðurlöndum. Begínur voru þó mun víðar, svo sem í Frakklandi, þýska ríkinu, jafnvel Englandi, Norður-Ítalíu og Austurríki. Þannig voru til klaustur í Köln, Stuttgart, Magdeburg, Bremen, Lübeck, Stralsund og víðar. Flest voru hverfin þannig skipulögð að húsin stóðu í hring og í miðjunni var opið svæði. Öll voru hverfin með kirkju sem begínur sóttu. Mörg hverfi voru afmörkuð með múr, læk eða skurðum. Til að komast inn í þau varð að ganga í gegnum hlið. Þegar begínur voru ofsóttar voru mörg hverfanna lokuð eða klaustur þeirra notuð í annað. Begínuhverfin hurfu víðast en héldu þó helst velli á Niðurlöndum (Hollandi og Belgíu). Mörg þeirra hafa verið gerð upp og eru íbúðahverfi í dag, í vissum tilfellum stúdentagarðar. Langflest begínuhverfi sem eftir standa eru í Belgíu, en örfá í Hollandi. Í Þýskalandi eru nokkur klaustur enn til og í Englandi er aðeins eitt begínuhús eftir. Í Frakklandi eru öll begínuhverfin eða húsin horfin í dag. Aðeins 26 begínuhverfi eru til enn í dag, flest í Belgíu en nokkur í Hollandi. Af þeim standa þrettán þeirra á heimsminjaskrá UNESCO. Dagblaðið (1975). "Dagblaðið - frjálst, óháð dagblað" var dagblað sem Jónas Kristjánsson og Sveinn R. Eyjólfsson stofnuðu sumarið 1975 ásamt nokkrum blaðamönnum "Vísis", en átök innan stjórnar "Vísis" leiddu til þess að Jónasi var sagt þar upp störfum og hlutur hans keyptur út. Átökin endurspegluðu að nokkru leyti átök milli varaformanns og formanns Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfarið var Þorsteinn Pálsson ráðinn ritstjóri "Vísis". Bæði blöðin voru prentuð í prentsmiðjunni Blaðaprenti. Árið 1979 stofnaði "Dagblaðið" Menningarverðlaun Dagblaðsins sem síðar urðu Menningarverðlaun DV. "Dagblaðið" kom út til nóvember 1981 þegar það sameinaðist "Vísi" og "DV" varð til eftir langvinnt prentaraverkfall. Jónas Kristjánsson og Ellert B. Schram urðu tveir ritstjórar hins nýja blaðs. Hlutafélagið Frjáls fjölmiðlun var stofnað um rekstur blaðsins og skiptust hlutir jafnt á eigendur blaðanna tveggja. Sveinn R. Eyjólfsson varð stjórnarformaður. Álfabakki. Álfabakki er gata í Breiðholti í Reykjavík. Gatan liggur samhliða Reykjanesbraut. Mjódd er fyrirtækja- og þjónustukjarni sem markast af Álfabakka í vestri og Stekkjarbakka í austri. Við Álfabakka eru meðal annars þjónustumiðstöð Breiðholts og Bíóhöllin. Svæðið allt var skipulagt sem byggingasvæði árið 1974 en framkvæmdir hófust ekki að ráði fyrr en um 1980. Vallónska Brabant. Vallónska Brabant (hollenska:Waals-Brabant; franska: Brabant Wallon) er hollenskumælandi hérað í Belgíu. Það er bæði minnsta og fámennasta héraðið í landinu. Íbúar eru aðeins um 370 þúsund. Höfuðborgin heitir Wavre. Lega og lýsing. Vallónska Brabant er nánast miðsvæðis í Belgíu og er eina héraðið, auk Flæmska Brabant, sem ekki nær að landamærum ríkisins, heldur er umlukt öðrum héruðum. Fyrir norðan er Flæmska Brabant, fyrir austan er Liege, fyrir sunnan er Namur og fyrir vestan er Hainaut. Höfuðborgarsvæðið (Brussel) er rétt norðan við héraðið. Vallónska Brabant er aðeins 1.093 km2 að stærð og þar með minnsta hérað Belgíu. Fáni og skjaldarmerki. Fáni og skjaldarmerki héraðsins eru eins, nema hvað formið er öðruvísi. Þau sýna sýna gyllta ljón greifanna af Brabant á svörtum grunni. Í efri hornunum eru gulir reitir og í þeim eru tveir rauðir hanar. Hanarnir eru tákn um frönskumælandi íbúa héraðsins. Bæði fáninn og skjaldarmerkið voru formlega tekin upp 2. janúar 1995, degi eftir að héraðið klofnaði frá Flæmska Brabant. Orðsifjar. Brabant er dregið af orðunum "bra", sem upphaflega merkir "auður" (sbr. brach á þýsku) og "bant", sem merkir "fylki" (eins og band eða samband). Fyrri hluti heitisins er til aðgreiningar annarra tveggja héraða sem heita Brabant. Hin eru Norður-Brabant í Hollandi og Flæmska Brabant í Belgíu. Söguágrip. Minnisvarði við Waterloo, en þar átti sér stað ein þekktasta orrusta nútímans. Brabant var lengi vel greifadæmi í þýska ríkinu og var þá miklu stærra en það er nú. Stærsta hluti þess var þá innan núverandi landamæri Belgíu og náði nær alveg suður til frönsku landamæranna. Árið 1430 varð Brabant eign Búrgundar og 1477 Habsborgar. Brabant var höfuðsvæði spænsku Niðurlanda eftir Habsborgartímann. Hins vegar gekk Brabant til liðs við sameinuðu héröð Niðurlanda í sjálfstæðisstríðinu gegn Spánverjum. Í kjölfarið voru margar orrustur háðar í fylkinu. Þegar friðarsamningarnir voru gerðir um endalok sjálfstæðisstríðs Hollands 1648 var Brabant skipt í tvennt. Norðurhlutinn (mótmælendur) varð hluti af sjálfstæðu Hollandi, en suðurhlutinn (bæði mótmælendur og kaþólikkar) var áfram í spænskri Belgíu. Frakkar hertóku Brabant í lok 18. aldar en 1797 var Brabant að öllu leyti innlimað Frakklandi. Frakkar yfirgáfu landið 1813 en 1815 var Napoleon kominn aftur með stóran her. Við bæinn Waterloo átti sér stað ein þekktasta orrusta á nútíma háð, er Napoleon beið endanlegan ósigur fyrir herjum Englendinga og prússa. Eftir það voru Niðurlönd sameinuð en Brabant var skipt í þrjú héruð: Norður-Brabant, Antwerpen og Suður-Brabant. 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Antwerpen og Suður-Brabant (með Brussel) urðu belgísk héruð en Norður-Brabant varð hollenskt hérað. 1995 var Belgíu skipt upp í tvö menningarsvæði, hollenskumælandi og frönskumælandi (og reyndar smá þýskt menningarsvæði að auki). Samfara því klofnaði Suður-Brabant í tvö héruð. Suðurhlutinn var að Vallónska Brabant (frönskumælandi) en norðurhlutinn að Flæmska Brabant Iðunn Steinsdóttir. Iðunn Steinsdóttir (fædd 5. janúar 1940 á Seyðisfirði) er íslenskur rithöfundur. Hún er systir Kristínar Steinsdóttur, rithöfundar. Gúmmíönd. Gúmmíönd er leikfang eins og gul stílfærð önd, oft gert úr gúmmí eða vinýlklóríði. Oft er farið með gúmmíönd í bað og í mörgum vestrænum löndum er hún tákn um böðun. Wavre. Wavre (hollenska: "Waver") er höfuðborg héraðsins Vallónska Brabant í Belgíu. Íbúar eru 33 þúsund og eru frönskumælandi. Lega og lýsing. Wavre liggur miðsvæðis í Belgíu, ekki langt frá landfræðilegri miðju landsins. Næstu stærri borgir eru Leuven til norðurs (20 km), Brussel til norðvesturs (25 km), Charleroi til suðurs (40 km) og Liege til austurs (75 km). Í reynd er Wavre dæmigerður landbúnaðarbær. Nokkrir smærri bæir í kring tilheyra borginni. Söguágrip. Platti til minningar um orrustuna við Wavre 1050 kom Wavre fyrst við skjöl og var þá bundið greifadæminu Leuven í landi Brabants. Hinrik I, greifi af Brabant, veitti Wavre borgarréttindi 1222. 1489 hertók Albert, fursti af Saxlandi, borgina og rændi borgarbúa. Ástæðan var að Wavre hafði staðið með Brabant í uppreisn gegn Austurríki. Borgin átti eftir að líða mikið næstu aldir. 1504 var henni eytt af Karli greifa af Gelderlandi. 1604 sátu Spánverjar um borgina og 1700 eyddi Loðvík 14. Frakklandskonungi borginni í 9 ára stríðinu. Auk þess geysuðu skæðar pestir í Wavre 1624-25 og 1668. Stórbrunar eyddu tugum húsa 1695 og 1714. 1794 hertóku Frakkar borgina og var hún innlimuð Frakklandi. 18. júní 1815 átti sér stað stórorrustan við Wavre er prússar og Frakkar áttust við. Napoleon var nýflúinn frá Elbu og hafði safnað stóru liði. Í Wavre hitti 30 þúsund manna franskur aukaher á prússa. Í orrustunni sem fylgdi hafði Napoleon betur. Prússar drógu sig í hlé. Margir prússneskir hermenn leituðu skjóls í Wavre. En Napoleon hafði ekki tíma til að sinna prússum betur, því Englendingar voru á leiðinni. Frakkar og Englendingar mættust samdægurs í harðri orrustu við bæinn Waterloo, suðvestur af Wavre. Þar sigruðu Englendingar en ekki fyrr en Blücher herforingi hafði safnað liði sínu saman aftur og gengið inn í orrustuna. Í heimstyrjöldunum á 20. öld varð Wavre fyrir miklum skemmdum, bæði í bardögum og í loftárásum. 1995 var héraðinu Brabant skipt upp og varð Wavre höfuðborg suðurhlutans, Vallónska Brabant. Viðburðir. Á fimm ára fresti á sér stað mikil borgarhátíð, kölluð "Jeu de Jean et Alice" (Jean og Alice leikarnir). Hér er um uppsetningu á hugmynd prestsins Jean Pensis að ræða, en hún fer fram með tónlist, söng, dans og bellett. Í leikunum biðja íbúar Wavre landherraparið, herra Jean og frú Alice, um réttindaskjal, sem þau fá og gleðjast yfir. Þetta átti að hafa gerst 1222 er íbúar bæjarins báðu greifann af Brabant um borgarréttindi, sem við það fékkst. Leikarnir fóru fyrst fram 1954 og enda yfirleitt með Wavre-laginu (Chant de Wavre), sem einnig er leikið í klukknaspilinu í Jóhannesarkirkjunni á heila tímanum. Þjóðhátíð borgarinnar er haldin árlega fyrsta sunnudag eftir 24. júní. Karneval er haldið 21 degi fyrir páska. Stríð gegn eiturlyfjum. Svokallaða stríðið gegn eiturlyfjum hófst árið 1914 í Bandaríkjunum. Þegar voru gerðar áætlanir og lög til að minnka flutning og sölu á eiturlyfjum. Fyrrum forseti Bandaríkjanna Richard Nixon sagði: „Drug abuse is public enemy number one“ og meinti hann með því að sameiginlegur óvinur þjóðarinnar væri eiturlyf. Þó svo að margir halda að Nixon hafi byrjað þetta stríð gegn eiturlyfjum segir Robert DuPont að hann hafi þó frekar endað þetta stríð frekar en að byrja það, með því meinar hann að um leið og harðari refsingar voru settar í gildi varðandi eiturlyfja væri þá erfiðara að leysa úr þessum málum vegna þess hversu mikil leynd það hafði með sér í för. Ef að refsingarnar væru mildari það er að segja fíkillinn fær meðferð og hjálp við fíkninni þá væri auðveldara að bjarga þeim sjúka frekar enn að setja hann í fangelsi. Það var einnig stjórn Nixons sem felldi úr gildi lög um allt að tíu ára í fangelsi gegn vörslu á marijúana. Þann 20. desember 1989 framfylgdu Bandaríkjamenn enn einni herferð gegn Mið-Ameríku sem hafði það með sér í för að auka fíkniefnaflutning til Bandaríkjanna. Sú herferð kallaðist „Operation Just Cause“. Þá fóru Bandaríkjamenn með 25 þúsund hermenn til Panama. En þá hafði undirhersforingji Manuel Noriega (yfirmaður stjórnvalda í Panama) verið að veita Contra-skæruliðunum í Níkaragva hernaðar aðstoð að beiðni Bandaríkjanna með því skilyrði að hann fengi enn að flytja inn fíkniefni til Bandaríkjanna sem Bandaríkjamenn vissu af, frá árinu 1960. Með öðrum orðum, flugvélar sem fluttu hergögn til Contra-skæruliðanna flugu aftur til Bandaríkjanna með eiturlyfjum, með fullri vitund bandarískra yfirvalda. Þegar fíkniefnaeftirlit Bandaríkjanna, DEA, ákærði Noriega fyrir smyglið til Bandaríkjanna þá komu CIA í veg fyrir ákæruna og fíkniefnin komust til Bandaríkjanna. En eftir að CIA-flugmaður var skotinn til bana yfir Níkaragva þá komust Bandaríkjamenn af því að Noriega hafði einnig verið að hjálpa vinstrisinnuðum uppreisnarmönnum í Níkaragva, sandinistum. Þá gaf CIA leyfi til að ákæra Noriega fyrir eiturlyfjaflutninginn og hann var síðan dæmdur í 45 ára fangelsi árið 1990 í Miami. Ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum. Ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum eru þeir borgarar sem komast inn í Bandaríkin án viðeigandi dvalarleyfis eða verða áfram þar eftir að dvalarleyfi þeirra er runnið út. Þó svo að reglugerðir og lög í Bandaríkjunum séu mjög strangar þá er ekki neins staðar í heiminum svo mikill fjöldi ólöglegra innflytjenda samanborið við höfðatölu. Þykir þetta mjög stórt vandamál sérstaklega í Texas, Arizona, Kaliforníu og Nýju Mexíkó þar sem þessi fylki eiga landamæri að Mexíkó en um 60 % allra innflytjenda í Bandaríkjunum eru þaðan. Fyrir marga eru Bandaríkin æskilegt land til að flytja til. Flestir innflytjendur til Bandaríkjanna koma til landsins í leit að vinnu, til þess að komast hjá pólitískri undirokun, búa með fjölskyldunum sínum, bæta lífsskilyrði sín og barnanna sinna eða njóta menningar- og heilsugæslukerfanna. Bandaríkin verða fyrir valinu hjá mörgum innflytjendum af því bandarískir atvinnurekendur borga ólöglegum innflytjendum mun hægri laun en þeir gætu fengið í heimalandinu sínu. Bandarískir vinnuveitendur eru neyddir til þess að ráða ólöglega innflytjenda af þremur höfuðástæðum: efnahagsbreytingum á heimsvísu, þörfinni til þess að svara skortinum á starfsmönnum í láglaunastörf og ónógum refsiaðgerðum fyrir vinnuveitendur sem ráða ólöglega innflytjendur. Saga innflytjenda í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru frekar ungt land og í rauninni byggt á innflytjendum. Fyrstu lög gegn ólöglegum innflytjendum voru sett 1790. Þau bönnuðu innflytjendum af evrópskum uppruna að koma til landsins. Árið 1882 voru sett lög sem bönnuðu kínverska innflytjendur. Þeim lögum var aflétt 1943 auk þess sem innflytjendur frá Evrópulöndum var leyft að koma. William Walker. William Walker (1824 – 1860) var bandarískur ævintýramaður og hermaður sem varð forseti Nicaragua frá árunum 1856 – 1857. Hann ætlaði að ná undir sig allri Mið-Ameríku mistókst. Hann var tekinn af lífi af aftökusveit árið 1860 í Hondúras. Walker fæddist inn í eina af betri fjölskyldum í Nashville, Tennessee, og var undrabarn. Hann útskrifaðist úr Háskólanum í Nashville fjórtán ára gamall með hæstu einkunn. Tuttugu og fimm ára gamall hafði hann lokið meistaragráðu í læknisfræði og lögfræði og var löggildur læknir og lögfræðingur. Hann vann einnig útgefandi og blaðamaður. Innrás á Baja California. Walker vildi fylgja af fordæmi Narciso López, sem réðst á Kúbu með hóp af bandarískum málaliðum og Texas sem nýlega hafði sagt sig úr lögum við Mexíkó. Hann réðist því inní Sonora hérað í Mexíkó og Baja California hérað í Kaliforníu, sem að á þeim tíma voru mjög strjálbýl landsvæði. Með aðeins fjörtíu og fimm manna hóp, náði Walker undir sig La Paz, höfuðborg Baja California héraðs. Hann endurnefndi héraðið uppá og kallaði það „The Republic of Lower California“ eða Lýðveldið Neðri-Kalifornía. Hann útnefndi sjálfan sig forseta yfir hinu nýja lýðveldi og setti því sömu lög og Lúisíana-ríkis, sem fólu meðal annars í sér að þrælahald var löglegt. Heimafyrir höfðu fregnir af hetjudáðum Walkers breiðst út og þótti fólki mikið til koma um áform hans. Karlmenn stóðu í biðröðum til að taka þátt í herleiðangrum hans, og fékk hann viðurnefnið „gráeygi örlagavaldurinn“. Ósigur í Mexíkó. Snemma árs 1854, hafði Walker safnað í kringum sig 200 Mexíkóum sem höfðu trú á fyrirætlunum hans og 200 Bandaríkjamönnum frá San Francisco sem vildu eiga hlut að nýja lýðveldinu hans. Þeir höfðu litlar byrgðir og óeining gróf um sig meðal þeirra. Stjórn Mexíkó hafði ekki getu til að fara með miklum her gegn Walker en gat þó komið saman nægilegum herafla til þess að eiga í skærum við Walker og gera honum ásamt mönnum hanns lífið leitt í La Paz. Það jók á erfiðleika Walkers þegar að skipið sem að hafði flutt hann og menn hans til Kaliforníu sigldi nú burt með megnið af birgðunum sem ætlaðar voru leiðangrinum. Þegar syrta fór í álinn í La Paz flúði Walker heim til Bandaríkjanna. Hann var þar leiddur fyrir rétt, sakaður um að hafa brotið lög um hlutleysi Bandaríkjanna í málefnum Mið-Ameríku. Það tók kviðdóm hinns vegar aðeins átta mínútur að sýknu hanns. Niquaraqua og dauði Walkers. Innan skamms var Walker kominn af stað af ný og nú var stefnan tekinn á Nicuaragua, þar sem tvær borgir börðust um völdin í landinu og yfirráðun yfir þáverandi einu siglingarleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs um Mið-Ameríku. Skemmst er frá því að segja að það ævintýri endaði líka með því að hann snéri heim til fósturjarðarinnar eftir aðeins um það bil eins árs veru í Nicuaragua en á þessum tíma hafði Walker þó náð að „afreka“ margt. Hann var meðal annars búinn útnefna sjálfan sig sem forseta og gera ensku að móðurmáli svo eitthvað sé nefnt en það síðarnefnda fór mikið fyrir brjóstið á fólkinu í Niguaraqua. Heimafyrir var honum tekið sem enn meiri hetju en eftir ófarirnar í La Paz. Það var því nánast sjálfgefið að hann færi í sinn þriðja og síðasta leiðangur. Stefnan var aftur tekin á Nicuaragua. Leiðin lá í gegnum Hondúras en þar var hann tekinn höndum af Bretum sem þar höfðu bækistöð en þeir höfðu lítinn áhuga á þeim óróa og uppreisn sem Walker myndi valda í Mið-Ameríku. Bretar afhentu hann því stjórnvöldum í Hondúras þar sem hann var skotinn til bana af aftökusveit þann 12. september 1860. Síðustu orð Walkers voru bónarorð um grið handa félögum sínum. Amasónfrumskógurinn. Amasónfrumskógurinn er regnskógur í Suður-Ameríku og er sá stærsti í heimi. Skógurinn nær yfir níu lönd: Brasilíu, þar sem meginhluti skógsins er, Perú, Kolombíu, Venesúela, Ekvador, Bólivíu, Gvæjana, Súrinam og Franska Gvæjana en er flatarmál hans fimm og hálf milljón ferkílómetri. Í gegnum skóginn rennur Amasónfljótið sem er annað lengsta fljót í heimi. Arsinóe 4.. Arsinóe 4. (forngríska: " Ἀρσινόη"; milli 68 og 56 f.Kr. – 41 f.Kr.) var yngsta dóttir Ptólemajosar 12. og ein af síðustu ptólemajunum í Egyptalandi hinu forna. Hún var hálfsystir Kleópötru 7. og Ptólemajosar 13. Þegar faðir þeirra, Ptólemajos 12., lést tóku Kleópatra og Ptólemajos saman við völdum eftir hann en Ptólemajos steypti systur sinni fljótlega af stóli og hrakti hana í útlegð. Árið 48 f.Kr. kom Júlíus Caesar til Alexandríu og kom Kleópötru aftur til valda. Arsinóe flúði þá með geldingnum Ganýmedesi og gekk í lið með Akkillasi sem titlaði sig faraó. Þegar þeim Ganýmedesi lenti saman lét hún taka Akkillas af lífi og gerði Ganýmedes að hershöfðingja. Aðrir yfirmenn í hernum urðu óánægðir við þetta og sömdu á laun við Caesar um að skipta á Arsinóe og Ptólemajosi 13. Það var gert og skömmu síðar vann Caesar afgerandi sigur á Egyptunum. Arsinóe var flutt til Rómar og látin taka þátt í sigurgöngu Caesars. Eftir það leyfði Caesar henni að setjast að í Artemisarhofinu í Efesos. Hún ógnaði valdi Kleópötru og að lokum fékk drottningin Markús Antóníus til að taka hana af lífi. Hann lét lífláta hana á hoftröppunum sem olli mikilli hneykslun í Róm. Arnar Eggert Thoroddsen. Arnar Eggert Thoroddsen (f. 1974) í Reykjavík er blaðamaður og poppfræðingur. Hann hóf störf fyrir Morgunblaðið árið 1999 og hefur skrifað í það síðan. Hann er höfundur þriggja bóka, Umboðsmaður Íslands: Öll trixin í bókinni (2007) ásamt Einari Bárðarsyni, 100 bestu plötur Íslandssögunnar (2009) ásamt Jónatani Garðarssyni og Tónlist... er tónlist: Greinar 1999 - 2012 (2012). Listi yfir áratugi. Þetta er listi yfir áratugi frá 17. öld f.Kr. til 22. aldar e.Kr. Waterloo. Waterloo er borg í héraðinu Vallónska Brabant í Belgíu. Íbúar eru 29 þúsund og eru frönskumælandi. Í Waterloo átti sér stað ein þekktasta orrusta nútímans. Lega og lýsing. Waterloo liggur miðsvæðis í Belgíu, nálægt landfræðilegri miðju landsins. Næstu stærri borgir eru Brussel til norðurs (15 km), Wavre til austurs (20 km) og Charleroi til suðurs (40 km). Þrátt fyrir nálægð tilheyrir Waterloo ekki höfuðborgarsvæðinu. Þar búa þó margir sem starfa í Brussel. Tæplega sex þúsund útlendingar hafa sest þar að, flest Frakkar, Ítalir, Bandaríkjamenn, Bretar og Skandinavar. Þetta er fólk sem starfar fyrir NATO eða Evrópusambandið, en höfuðstöðvar beggja eru í Brussel. Waterloo er því mjög alþjóðleg borg. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki borgarinnar sýnir ljónsstyttu á lítilli hæð. Þetta er minnisvarðinn sem reistur var eftir orrustuna frægu við Waterloo 1815 er Napoleon tapaði fyrir Bretum og prússum. Skjaldarmerkið var veitt 3. mars 1914. Orðsifjar. Heitið Waterloo er germanskt að uppruna, ekki rómanskt. Það merkir "flæðiskógur". Water er vatn (sbr. water á ensku, wasser á þýsku). Loo er gamalt heiti yfir "skóg" á germönsku (sbr. Lohe á þýsku og ley eða leigh á ensku). Framburðurinn er [vaterló] en Íslendingar eru gjarnir á að nota enska framburðinn [voterlú]. Til eru fleiri bæir með sama heiti. Til dæmis er Waterloo til í Kanada (einn í Ontario og einn í Québec), í Ástralíu og víða í Bandaríkjunum. Járnbrautarstöðin Waterloo í London, sem og Waterloo-brúin (Waterloo Bridge) eru nefnd eftir bænum í Belgíu eftir sigur Wellington lávarðs yfir Napoleon. Söguágrip. Orrustan við Waterloo. Málverk eftir William Sadler. Waterloo kom fyrst við skjöl 1102 og var þá lítill landbúnaðarbær á mikilvægum krossgötum. Bærinn varð hluti af greifadæminu Brabant þegar það var stofnað 1183. Litlar sögur fara af Waterloo næstu aldir og kom bærinn ekki við sögu í evrópskum styrjöldum. 1796 var Waterloo hertekin af Frökkum og innlimað Frakklandi. 1815 varð Waterloo hins vegar nafli heimsins er Napoleon strauk frá eyjunni Elbu og sneri til Parísar. Bandamenn söfnuðu liði og hittu á franska herinn fyrir sunnan Brussel. Englendingar undir stjórn Wellington lávarðs komu að norðan og prússar undir stjórn Blüchers herforingja komu að austan. Napoleon beið ekki boðana heldur réðist á prússneska herinn við Ligny 16. júní. Í orrustunni sigraði Napoleon. En sökum tímaleysis náðu Frakkar ekki að reka flóttann, heldur réðust þeir því næst á enska herinn við Waterloo 18. júní. Í þeirri orrustu hallaði á Englendinga. Á meðan hafði Blücher hins vegar náð að safna her sínum saman aftur og réðist því á austurvæng Frakka í þann mund er Englendingar hófu að láta undan síga. Sameiginlega tókst þeim að sigra Napoleon. Orrustan við Waterloo er ein sú þekktasta á síðari tímum. Á þessum tíma voru íbúar Waterloo aðeins rúmlega 1.500 talsins en eru tæplega 30 þúsund í dag. Viðburðir. Orrustan við Waterloo leikin eftir af áhugamönnum 18. júní fer árlega fram herleikur þar sem orrustan við Waterloo er leikinn eftir. Fólk fer í hermannaföt, frönsk, prússnesk, ensk, og leikur eftir orrustuna frægu. Leikarnir eru öllum opnir. Íþróttir. ASUB Waterloo er eitt allra besta rugbylið Belgíu. Það hefur fjórtán sinnum orðið belgískur meistari (síðast 1998) og tólf sinnum bikarmeistari (síðast 2009). Vinabæir. Waterloo er auk þess stofnmeðlimur Samtaka Napoleonsborga. Byggingar og kennileiti. Minnisvarði um orrustuna við Waterloo Argenteuil-kastalinn er í dag skandinavískur skóli PRI flokkurinn. PRI eða Partido Revolucionario Institucional er mexikóskur stjórnarflokkur sem var búinn til árið 1929 í kjölfarið á mexíkósku byltingunni. Hann hét upphaflega Partido Nacional Revolucionario (Þjóðlegi byltingarflokkurinn) en var endurnefndur árið 1946 og þá kallaður Partido Revolucionario Institucional, sem þýðir Byltingarsinnaði stofnanflokkurinn, betur þekktur sem PRI. Undir stjórn ýmissa leiðtoga hafði PRI flokkurinn völdin í ríkinu í höndum sér til ársins 2000. Á árunum 1929 til 1982 vann PRI flokkurinn allar forsetakosningarnar með vel yfir 70 prósent atkvæða en þessar niðurstöður fengust þó yfirleitt með miklum kosningasvikum. Fyrstu fjórir áratugir valdatíðar PRI eru kallaður „mexíkóska kraftaverkið“, því á þeim tíma var mikill hagvöxtur í landinu. Á árunum 1940 til 1970 jókst landsframleiðsla sexfalt. Eftir nokkra áratugi við völd var PRI þó orðinn tákn um spillingu og kosningasvik. Á 8. áratugnum var Partido Accionario Nacional (PAN) stofnaður. Hann stækkaði með árunum því hann náði að afla sér stuðnings frá kaupsýslumönnum eftir að náð endurteknum efnahag eftir kreppu. PRI er félagi í alþjóðasamtökum vinstriflokka. Annar mexíkóskur flokkur, PRD, er einnig vinstriflokuur. Það gerir Mexíkó eina af fáum þjóðum sem er með tvo helstu samkeppnisflokka í sömu alþjóðalegu samtökunum. PRI er reyndar ekki talinn vera sósíalistaflokkur í hefðbundum skilningi. Nútíma stefnu hans er lýst sem einhvers konar miðjustefnu, hún er hvorki meiri hægri- né vinstri stefna. BOPE. Batalhão de Operações Policiais Especiais („Séraðgerðalögreglusveitin“ á portúgölsku, best þekkt sem BOPE) er sérsveit innan brasilísku lögreglunnar sem brasilíska ríkistjórnin setti á laggirnar til að berjast gegn eiturlyfjagengjum. Uppruna BOPE má rekja aftur til 19. janúar 1978 en þá hét sveitin "Núcleo da Companhia de Operações Especiais" eða „Kjarni séraðgerðasveitarinnar“ ("NuCOE"). Sveitin var mynduð og sett undir stjórn æðstu starfsmanna herlögreglu ríkisins. Árið 1982 var nafninu breytt í "Companhia de Operações Especiais" eða „Séraðgerðasveitin“ ("COE"), tveimur árum síðar var því svo aftur breytt í "NuCOE". Sveitin sérhæfir sig í að berjast á þéttbýlum svæðum og á stóran flota af vopnuðum ökutækjum. Ökutækin kallast "Pacificador" eða „Friðarstillir“ og "Caveirao" eða „Stór hauskúpa“. Sveitin á einnig eina Huey-herþyrlu og gröfu sem riður burt vegatálmum og öðrum hindrunum. Sveitin notar þessi ökutæki við aðgerðir á þéttbýlissvæðum þar sem sveitin lendir í áköfum skotbardögum við eiturlyfjagengi. "Comando Vermelho" eða „Rauða valdið“ er það eiturlyfjagengi sem BOPE hefur þurft að beita sér mest gegn, en er það stærsta gengið í Brasilíu. BOPE og Comando Vermelho hafa lengi eldað grátt silfur. Einkunnarorð BOPE er "Faca na caveira" eða „Hnífur í hauskápuna“ en einkennismerki sveitarinnar vísar einmitt í þessi orð. Merkið inniheldur hnífa sem hafa verið reknir í gegnum hauskúpu og tvær skammbyssur sem mynda kross en svipar þetta mikið til hinna gömlu sjóræningjafána. Hnífurinn og skammbyssurnar tákna grundvallarvopn lögreglunnar, hauskúpan táknar dauðann og í sameiningu táknar þetta sigur BOPE yfir dauðanum. BOPE liðar hafa hin ýmsu hlutverk og markmið. Meðal þessara markmiða eru að tryggja öryggi á sérstökum atburðum, brjóta niður vegatálma sem eiturlyfjagengi hafa komið fyrir, drepa glæpamenn sem almennum borgurum stafar lífshætta af, útrýma eiturlyfjasölu og stöðva uppreisnir í fangelsum. Árið 2007 var frumsýnd brasilíska myndin "Tropa de Elite" sem náði gríðarlegum vinsældum í heimalandinu og um allan heim, en var jafnframt umdeild þar sem hún sýnir ofbeldisfullar aðgerðir BOPE sveitarinar í jákvæðu ljósi. Margir gagnrýnendur töldu hana jafnvel vera fasíska þar sem menn sem virtu mannréttindi að vettugi væru gerðir að hetjum. "Tropa de Elite" er þrátt fyrir það ein vinsælasta brasilíska mynd allra tíma. Breska Austur-Indíafélagið. Breska Austur-Indíafélagið var verslunarfélag stofnað 31. desember árið 1600 vegna verslunar við Austur-Indíur en varð síðan einna fyrirferðarmest á Indlandsskaga. Félagið var elst þeirra Austur-Indíafélaga sem evrópsku konungsríkin stofnuðu á 17. og 18. öld. Félagið var hlutafélag og fékk konungsbréf við stofnun. Hluthafar voru auðugir breskir kaupmenn og aðalsmenn. Breska ríkið átti ekki hlutabréf og átti því aðeins óbeina aðild að stjórn félagsins. Helstu verslunarvörur félagsins voru baðmull, silki, indigó, salt, saltpétur, te og ópíum. Um miðja 18. öld varð félagið einkarekið nýlenduveldi á Indlandi þar sem það stjórnaði stórum svæðum með einkaher. Yfirráðum félagsins lauk eftir indversku uppreisnina 1857 þegar breska ríkisstjórnin gaf út lög um stjórnun Indlands 1858 og þjóðnýtti einkaher félagsins. Árið 1874 var félagið leyst upp. Samtök Napoleonsborga. Samtök Napoleonsborga (franska: "Fédération Européenne des Cités Napoléoniennes") eru samtök ýmissa borga sem komu við sögu eða urðu fyrir áhrifum af tímanum frá Napoleon Bonaparte til Napoleons III. Saga. Samtökin voru stofnuð 24. maí 2004 til að minnast áhrifa Napoelons í Evrópu, sem og Napoleons III. Stofnborgir voru Ajaccio í Frakklandi, Balestino á Ítalíu, Dinard í Frakklandi, Jena í Þýskalandi, Île-d‘Aix í Frakklandi, La Roche-sur-Yon í Frakklandi, Pontivy í Frakklandi, Pultusk í Póllandi og Waterloo í Belgíu. Forseti samtakanna er sem stendur Charles Napoleon, sem er yfirmaður Napoleonættarinnar í dag. Tilgangur samtakanna er að varðveita menningararf Napoleons í Evrópu og hvetja til samstarfs á þeim vettvangi. Til dæmis eru haldnar ráðstefnur um málefið, gefnar eru út rit um Napoleonstímann, gerðar eru áætlanir um söfnun listaverka og skipulagningu ferðamennsku. Meðlimaborgir. Eins og er eru rúmlega 60 borgir meðlimir í samtökunum og eru þær allar í Evrópu nema Alexandría (í Egyptalandi). Eftirfarandi listi meðlimaborga er í stafrófsröð og er frá 2012. Sporger ferill. Sporger ferill er þjáll algebruferill af fyrstu ætt þar sem til puntur "0". Hugo Banzer. Hugo Banzer Suárez (10. maí, 1926 – 5. maí, 2002) var í tvígang forseti Bólivíu; í fyrra skiptið, frá 21. ágúst 1971 til 21. júlí 1978 var hann einræðisherra sem komst til valda í kjölfar herforingjabyltingar, og í síðara skiptið sem kjörinn forseti. Í valdatíð hans varð Bólivía þátttakandi í Kondóráætluninni sem fólst í kúgun og morðum á vinstrisinnum í mörgum löndum Suður-Ameríku. Pólitískir andstæðingar voru fangelsaðir og í sumum tilvikum pyntaðir. Efnahagur landsins batnaði hins vegar vegna betri aðgangs að erlendu lánsfé. Framan af studdu hægriflokkarnir hann í valdastóli en 1974 bannaði Banzer alla starfsemi stjórnmálaflokka í landinu. Honum var á endanum steypt af stóli af herforingjum undir stjórn David Padilla sem boðaði til kosninga. Banzer stofnaði þá hægri-íhaldsflokkinn Acción Democrática Nacionalista og bauð sig fram til forseta á ný. Það tókst ekki fyrr en árið 1997 þegar hann var 71 árs gamall. Hann var forseti árið 2000 þegar Vatnsstríðið í Cochabamba átti sér stað. Austurstræti 16. Innan úr "Godthaab-verslun" Thors Jensens um 1910 sem brann 1915. Austurstræti 16, Nathan og Olsen-húsið eða Reykjavíkurapótek er hús í miðbæ Reykjavíkur, byggt árið 1917 eftir brunann mikla árið 1915. Áður hafði Thor Jensen verið með verslun sína "Godthaab" á sama stað. Byggingin dregur nafn sitt af apóteki sem var rekið þar um árabil. Byggingin hefur einnig verið kennd við Nathan og Olsen, tvo danska athafnamenn sem komu til Íslands árið 1912 og stofnuðu nýlenduvöruverslun. Byggingin er hornhús á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis og var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og var það eitt af fyrstu verkefnum hans. Guðjón hafði fræga byggingu Pohjola-tryggingafélagsins í Helsinki eftir finnska arkitektinn Eliel Saarinen til fyrirmyndar. Saarinen var einn virtasti arkitekt Skandinavíu á þessum tíma. Mjög mikið var lagt í bygginguna, víða er marmari á gólfinu. Á aðalstigaganginum eru sjö styttur eftir Guðmund frá Miðdal, sem sýna merkismenn í íslenskri verslunarsögu. Á horni hússins er brjóstmynd af eins konar trölli eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Í lok árs 2011 var húsið metið á bilinu 550-1.000 milljónir kr. Saga. Í húsinu var starfrækt olíudrifin rafstöð, sú stærsta í Reykjavík fram að því þegar Elliðaárstöð var tekin í notkun árið 1921. Stöð þessi var 33 hestöfl og gerði meira en að þjónusta húsið, því íbúar nokkurra nærliggjandi bygginga gátu keypt þar raforku - ýmist eftir taug eða með því að fá hlaðna rafgeyma. Þegar Rafmagnsveita Reykjavíkur tók til starfa var rafstöð þessi tekin niður og seld til Hafnarfjarðar, þar sem hún þjónaði bæjarbúum um alllangt skeið. Landsbanki Íslands var með starfsemi í húsinu árin 1918 til 1924. Í dag er þar veitingastaður. Renato Dulbecco. Renato Dulbecco (fæddur 22. febrúar 1914, dáinn 19. febrúar 2012) var ítalskur veirufræðingur sem fluttist til Bandaríkjanna og bjó þar og starfaði lengstan hluta starfsævinnar. Hann var þekktastur fyrir rannsóknir sínar á æxlisveirum og þætti þeirra í krabbameinsmyndun í dýrum, sem unnar voru í samstarfi við Howard Temin og David Baltimore, en þeir deildu Nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði fyrir uppgötvun sína á ensíminu víxlrita („reverse transkriptasa“) og hlutverki þess sýkingu og krabbameinsmyndun. Rauðáta. Rauðáta (fræðiheiti: " Calanus finmarchicus") er svifdýr af ættbálki krabbaflóa. Um 170 tegundir svifdýra hér við land teljast til ættbálks krabbaflóa (Ástþór Gíslason, 2000). Rauðátan er eitt af algengustu svifdýrum sem finnast í Norður-Atlantshafi(Conover 1988). Hún er einnig algengasta tegund átu sem finnst í hafinu við Ísland (Gislason, Gaard, Debes, & Falkenhaug, 2008). Á mynd 1 er rauðátan táknuð með rauðum lit og sést þar vel hvernig dreifing hennar er (Census of Marine Life, 2009). Saga. Sá fyrsti til að lýsa rauðátu var biskup frá Noregi að nafni Johan Ernst Gunnerus, það gerði hann árið 1770 og er rauðátan einnig kölluð Gunnerus í höuðið á honum.(Marshall og Orr 1972). Johan Ernst Gunnerus nefndi rauðátuna fyrst "Monoculus finmarchicus" sem þýðir eineigða dýrið frá Finnmörku, en þar fann hann rauðátuna fyrst, síðar var nafninu svo breytt í Calanus finmarchicus. Eins og upprunalega nafni gefur til kynna hefur rauðátan aðeins eitt auga. Útlit. Núverandi nafn sitt dregur hún af rauðum litarefnum, karótínlitarefnum, sem eru í forðanæringu hennar á sumrin. Á sumrin þegar rauðátan er mjög rauð er hún full af næringu en þegar líður á vetur minnkar forðanæringin og þar af leiðandi rauði liturinn, eins og sést vel á mynd 2 (Centre of Ecotoxicology and Experimental Biology, e.d.). Fullvaxin er rauðátan um 4 mm og er hún með stærstu krabbaflóununm. Líkami hennar skiptist í höfuð, frambol og afturbol. Höfuðið og frambolurinn er samvaxinn og myndar höfuðbol. Á höfði rauðátunnar eru tveir langir fálmarar sem hún notar til að synda, þar fyrir aftan eru aðrir fálmarar, kallaðir aftari fálmarar. Á höfðinu er einnig einn bitkrókur og tveir kjálkar. Fyrir aftan kjálkana koma kjálkfótar og síðan koma sundfæturnir, en þeir líkjast árablöðum. Afturbolurinn er liðskiptur og er aftasti liðurinn klofinn og eru þar löng hár. Eins og hjá öðrum liðdýrum er líkami rauðátunnar umlukinn kítínskel og þar af leiðandi þarf hún að hafa skelskipti til að vaxa. Aftari fálmarana, bitkrókana, kjálkana og kjálkafæturnar notar rauðátan til að afla sér fæðu, en hún síar smáar fæðuagnir úr sjónum. Fæða. Helsta fæða rauðátu eru svifþörungar, einkum kísil- og skoruþörungar. Einnig eru frumdýr eins og bifdýr og svipudýr mikilvæg fæða fyrir hana. Rauðátan er sögð vera mikilvægur tengiliður á milli frumframleiðslu svifþörunga og dýra sem eru ofarlega í fæðukeðjunni. Rauðátan er mikilvægur þáttur í fæðu fiskistofna sem nýttir eru við Ísland. Þegar fiskarnir eru á lirfu- og seinastigi eru þeir háðir henni um fæðu. Rauðátan er til dæmis helsta fæða loðnu og síldar (Ástþór Gíslason, 2000). Jimmy Smits. Jimmy Smits (fæddur Jimmy L. Smits 9. júlí 1955) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í L.A. Law, NYPD Blue og The West Wing. Einkalíf. Smits er fæddur og uppalinn í Brooklyn, New York-borg og er af púertó rískum, súrínamískum og hollenskum uppruna. Útskrifaðist með B.A. gráðu í leiklist frá "Brooklyn College" árið 1980 og MFA gráðu frá Cornell-háskólanum árið 1982. Smits var giftur Barböru Smits á árunum 1981 – 1987 og saman áttu þau tvö börn. Hefur verið í sambandi við leikkonuna Wanda De Jesus síðan 1986. Leikhús. Smits hefur komið fram í leikritum á borð við "God of Carnage", Hamlet, "Buck", "Twelfth Night" og "Much Ado About Nothing". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Smits var árið 1984 í Miami Vice. Árið 1986 var honum boðið hlutverk í L.A. Law sem persónan Victor Sifuentes sem hann lék til ársins 1992. Á árunum 1994 – 2004 lék Smits rannsóknarfulltrúann Bobby Simone í lögregluþættinum NYPD Blue en kom hann í staðinn fyrir David Caruso sem hafði yfirgefið þáttinn. Smits lék forsetaframbjóðandann Matthew Santos í The West Wing frá 2004-2006. Hefur hann síðan þá verið með stór gestahlutverk í Dexter og Sons of Anarchy. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Smits var árið 1986 í "Running Scared". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Hotshot", "Vital Signs", "Fire Within", The Million Dollar Hotel og "El traspatio". Smits lék þingmanninn Bail Organa í og. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films-verðlaunin Tenglar. Smits, Jimmy Andrew Huxley. Sir Andrew Fielding Huxley (fæddur 22. nóvember 1917, dáinn 30. maí 2012) var breskur lífeðlisfræðingur og handhafi Nóbelsverðlaunanna í lífeðlis- og læknisfræði árið 1963. Æviágrip. Andrew Huxley fæddist í Hampstead í Lundúnaborg þann 22. nóvember árið 1917. Hann var yngsti sonur útgefandans og rithöfundarins Leonard Huxley og seinni konu hans, Rosalind Bruce. Hann var því hálfbróðir líffræðingsins Julian Huxley og rithöfundarins Aldous Huxley og sonarsonur líffræðingsins T. H. Huxley. Um miðjan fjórða áratuginn hófu Andrew Huxley og Alan Hodgkin tilraunir sínar á taugafrumum með það að markmiði að leiða í ljós hvernig boð berast eftir taugasímum frá miðtaugakerfi til annarra frumna og vefja. Í byrjun unnu þeir með taugafrumur úr froskdýrum, en eftir að þeir skiptu yfir í frumur úr smokkfiski, en þær hafa óvenju stóra og svera síma, auðnaðist þeim að setja upp tilraunir með spennuþvingu (e. "voltage clamp") sem gerðu þeim kleift að mæla spennubreytingar yfir frumuhimnu taugasímans. Að lokinni Heimsstyrjöldinni síðari héldu þeir áfram rannsóknum sínum og lögðu fram líkan það sem við þá er kennt og lýsir boðspennu og flutningi hennar eftir taugasíma. Forfaðirinn. Forfaðirinn er persóna sem kemur fyrir í sjöttu bókinni um Múmínálfana eftir Tove Jansson, Vetrarundur í Múmíndal sem út kom 1957, en þar finnur Múmínsnáðinn hann inni í skáp í strandhúsi múmínfjölskildunnar. Múmínsnáðinn stóðst ekki mátið að stelast til að opna skápinn í strandhúsinu sem Tikka-tú var þó búin að banna honum. Þá sá hann á gólfinu í skápnum eitthvað lítið og grátt, síðhærð og nefstórt sem mændi á hann. Svo tók veran rás og hvarf út um dyrnar. Snáðinn sá bara í rófuna á verunni þar sem hún hvarf. Tikka-tú skýrði svo út Múmínsnáðanum að þetta hefði verið álfur af því tagi sem Snáðinn hefði litið út áður en hann varð Múmínálfur. „Svona varst þú fyrir þúsund árum,“ sagði hún. Forfaðirinn kemur síðan aftur við sögu í níundu og síðustu bók Tove Jansson um Múmínálfana "Seint í nóvember" (s. "Sent i november") sem út kom 1970. Silli og Valdi. Silli og Valdi var matvöruverslanakeðja sem þeir Sigurliði Kristjánsson og Valdimar Þórðarson stofnuðu á Vesturgötu 52 í vesturbæ Reykjavíkur árið 1925. Árið 1927 hófu þeir verslunarrekstur í elsta húsi Reykjavíkur, Aðalstræti 10. Þeir voru umfangsmiklir í rekstri matvöruverslana um alla borgina næstu áratugi og byggðu meðal annars húsið Austurstræti 17 árin 1963-65 og verslunarmiðstöðina Glæsibæ í Álfheimum 1970. Sigurliði lést árið 1972 og var þá fyrirtækið, sem var einkafyrirtæki þeirra tveggja, tekið til arfskipta. Árið 1974 tók Sláturfélag Suðurlands yfir verslunarreksturinn í Glæsibæ og næstu ár voru aðrar verslanir seldar. Síðasta verslunin sem bar nafnið Silli og Valdi var lítil matvöruverslun á Háteigsvegi 2. Kona Sigurliða, Helga Jónsdóttir, lést árið 1978 og var þá eigum þeirra, sem voru gríðarmiklar, ráðstafað til lista- og menningarmála í samræmi við óskir þeirra. Meðal þeirra sem fengu fjárupphæðir úr dánarbúinu voru Leikfélag Reykjavíkur, Íslenska óperan og Listasafn Íslands. Þá voru stofnaðir sjóðir kenndir við þau hjónin fyrir nemendur í raunvísindanámi og rannsóknir í læknisfræði. Valdimar Þórðarson lést árið 1981. Múmínpabbi. Múmínpabbi (s. "Muminpappan") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Múmínpabbi er nokkuð eirðarlaus sál, sem fór frá því að vera á munaðarleysingjahæli til þess að sökkva í fen fjárhættuspila, en er orðin allur rólegri og ákvað að gerast ábyrgur heimilisfaðir. Kona hanns er Múmínmamma og sonur Múmínsnáðinn. Hann er smá aristókrat í sér og hallur undir bóhemlíf. Hann er alltaf með sinn svarta pípuhatt sem á er letrað „MP frá MM þinni“ til að greina hann frá öðrum merkishöttum heimsins. Múmínpabbi er mjög forvitinn og hefur ríka ævintýraþrá. Til dæmis prófaði hann að búa einn á skipi með þremur Hattíföttum til að rannsaka hegðun þeirra, sem ekki telst auðvelt þar sem Hattífattar geta ekki talað né tjáð sig á nokkurn hátt. Samkvæmt fjölskyldu hanns skráir hann öll ævintýri sín í bók sem heitir „endurminningar“. Hann sagði einu sinni að svo mörgum ævintýrum hafi hann lent að hann gæti aldrei klárað bókina. Æska og uppvöxtur. Skrautlegum ungdómsárum múmínpabba er lýst í bókinni Endurminningar Múmípabba en hann er draumóramaður sem lætur gjarnan hugann reika til æskuáranna og þeirra hetjudáða sem hann framdi sem ungur múmínálfur þó að uppvöxtur hans hafi verið erfiður í upphafi. Frænka Hemúlsins fann Múmínpabba yfirgefinn í körfu fyrir utan barnaheimili og ól hann upp. Fóstra hans var ströng og áttu þau ekki skap saman en þau áttu erfitt með að skilja viðhorf hvors annars til lífsins og endaði það með því að í skjóli nætur strauk Múmínpabbi af barnaheimilinu. Eftir það hitti hann uppfinningarmanninn Fredrikson og vini hans Joxaren, sem er pabbi Snúðs, og Rådd-djuret sem er hnappasafnari með pott á höfðinu og saman gerðu þeir lífið ævintýralegt. Lesa má um ævintýri þeirra félaganna í "Endurminningum Múmínpabba". Algengt er í japönsku teiknimyndunum að Múmínpabbi sé að bjástra við skriftir sem yfirleitt ganga mjög illa sökum ritstíflu. Hann er aukapersóna í flestum bókum Tove en í einni þeirra er Múmínpabbi í aðalhlutverki en það er bókin Eyjan hans Múmínpabba. Þar gengur hann í gegnum hálfgerða miðaldra krísu eða gráan fiðring sem leiðir til þess að hann dregur fjölskylduna með sér út í eyju þar sem hann ætlar sér að upplifa meiri ævintýri og vinna að stórkostlegu ritverki. Það gengur ekki sem skyldi en hann nær þó að sættast við líf sitt og sjálfan sig að lokum svo fjölskyldan getur haldið aftur heim á leið. Ónæmiskerfi. Ónæmiskerfi er kerfi lífrænna ferla í lífveru sem gerir henni kleift að verjast sjúkdómum og sýkingum. Til þess að ónæmiskerfi veiti lífverunni almennilega vörn þarf það að geta greint ýmiss konar ógn við heilsu lífverunnar, allt frá veirum til sníkjudýra, og greint hana frá heilbrigðum vefjum líferunnar sjálfrar. Ónæmiskerfi beitir ýmist sérhæfðum frumum, sem ráðast gegn utanaðkomandi ógn, eða mynda mótefni. John D. Rockefeller. John Davison Rockefeller (8. júlí 1839 – 23. maí 1937) var bandarískur iðnrekandi og auðkýfingur. Hann stofnaði olíufyrirtækið Standard Oil (S.O.), sem á sínum tíma var stærsta olíufyrirtæki heims. Rockefeller gjörbylti bæði olíuiðnaðinum og fjárveitingum til góðgerðarmála. Ef tekið er tillit til gengisbreytinga og kaupmáttarsveiflu er hann oft talinn ríkasti maður sögunnar. Rockefeller settist í helgan stein árið 1897 og varði elliárunum í kerfisbundnar fjárveitingar til góðgerðarmála. Hann kom á fót menntastofnunum eins og Chicago-háskóla og Rockefeller-háskóla og ýmsum rannsóknarstofnunum, sem höfðu mikil áhrif á þróun læknisfræði og vísinda. Rockefeller var alla tíð bindindismaður. Hann átti fjórar dætur og einn son. Tenglar. Rockefeller, John D. Glaumbær (skemmtistaður). Íshúsið Herðubreið þar sem Glaumbær var á efstu hæð. Glaumbær var veitingahús og skemmtistaður sem Ragnar Þórðarson stofnaði í Framsóknarhúsinu eða „Fjósinu“ (Herðubreið) Fríkirkjuvegi 7. Upphaflega stofnaði Ragnar raunar þrjá staði, Káetuna, Glaumbæ og Næturklúbbinn, í þremur sölum hússins. Staðurinn var opnaður 3. nóvember 1961. Áður hafði Framsóknarflokkurinn verið með skrifstofur og fundarsali í húsinu sem þeir endurbyggðu 1956 en frá 1959 voru þar reglulega dansleikir. Ragnar leigði húsnæðið af Húsbyggingafélagi Framsóknarfélaganna. Árið 1963 seldi Ragnar Sigurbirni Eiríkssyni reksturinn. Unglingadansleikir voru haldnir þar reglulega með mörgum helstu hljómsveitum bítlatímabilsins. Um fjögurleytið aðfaranótt 4. desember 1971 kom upp eldur í húsinu og um nóttina brann allt innanstokks á efri hæðinni. Meðal þess sem brann voru hljóðfæri hljómsveitarinnar Náttúru sem voru geymd þar vegna sýninga á "Hárinu". Í fyrstu voru uppi hugmyndir um að endurreisa skemmtistaðinn en íbúar í nágrenninu söfnuðu þá undirskriftalista gegn honum. Árið 1972 eignaðist Listasafn Íslands húsið og réðist í miklar endurbætur á því. Það flutti þangað inn árið 1987. 1451-1460. 1451-1460 var 6. áratugur 15. aldar. 1391-1400. 1391-1400 var 10. áratugur 14. aldar. 1381-1390. 1381-1390 var 9. áratugur 14. aldar. 1371-1380. 1371-1380 var 8. áratugur 14. aldar. 1361-1370. 1361-1370 var 7. áratugur 14. aldar. 1351-1360. 1351-1370 var 6. áratugur 14. aldar. 1341-1350. 1341-1350 var 5. áratugur 14. aldar. 1331-1340. 1331-1340 var 4. áratugur 14. aldar. 1321-1330. 1321-1330 var 3. áratugur 14. aldar. 1311-1320. 1311-1320 var 2. áratugur 14. aldar. 1301-1310. 1301-1310 var 1. áratugur 14. aldar. Milk and Honey. Milk and Honey er hljómplata, sem John Lennon og Yoko Ono unnu að áður en John dó. Það tók Ono fjögur ár að klára plötuna sem hún gaf svo út árið 1984. Núðlusúpa. Núðlusúða er súpa gerð úr núðlum og soði. Núðlusúpa er vinsæl í Bandaríkjunum og algengur matur í Austur- og Suðaustur-Asíu. Núðlur í núðlusúpu geta verið hrísnúðlur eða eggjanúðlur. Í Asíulöndum eru mismunandi hefðir fyrir núðlusúpum. Í Kambódíu er núðlusúpur gerðar úr svínakjötsoði með rækjum, kjötbollum og svínalifur og það kryddað með hvítlauk, grænum lauk, cilantro, súraldin og hoisinsósu. Skál af súpunni "Prawn Hae Mee" Í Myanmar er núðlusúpan Mohinga þjóðarréttur og eru það þá hrísnúðlur í kryddaðri fiskisúpu með fiski eða krabbasoði og í henni er saltaður fiskur, sítrónugras, sprotar af bananatrjám, engifer, hvítlaukur, pipar, laukur, gullinrót, hrísmjöl, mjöl úr kjúklingabaunum og matarolía. Mohinga núðlusúpa, þjóðarréttur í Myanmar IONIS Education Group. IONIS Education Group er hópur leiðandi einkaskóla á æðra skólastigi, þ.e. háskólastigi, í Frakklandi. Hópurinn var stofnaður árið 1980 og hefur meira en 17 þúsund nemendur og 60 þúsund fyrrum nemendur árið 2011, sem vinna í fyrirtækjum, við upplýsingatækni, í flugi, orkuiðnaði, samgönguiðnaði, líffræði, stjórnun, fjármálum, markaðssetningu, samskiptum og hönnun. Átján skólar eru meðlimir í hópnum, þar á meðal "Institut polytechnique des sciences avancées". Kóríandrajurt. Fersk kórianderlauf, einnig nefnd kínversk steinselja eða cilantro Kóríandrajurt eða kóríander (fræðiheiti: "Coriandrum sativum") einnig nefnd cilantro, kínversk steinselja eða dhania er einært grænmeti af sveipjurtaætt. Á spænsku er kóriander nefndur "cilantro" og er það orð algengt í Ameríku vegna þess að kóriander er algengur í mexíkóskum réttum. Oftast eru fersk laufblöð og þurrkuð fræ af kóriandrajurtinni notuð. Kóríandarjurt inniheldur andoxunarefni. Í Indlandi eru þurrkuð kórianderfræ kölluð "dhania". Fræin eru með sítrónubragði þegar þau eru mulin. Bragðinu er oft lýst eins og það sé heitt kryddbragð, með hnetukeim og appelsínubragði. Kórianderfræ eru krydd í kryddblöndunni garam masala og í karrýblöndum í indverskri matargerð er kóriander oft notað með kúmini. Ristuð kórianderfræ eða "dhana dal" eru borðuð beint. Kóriander vex villtur á stóru svæði í Austur- og Suður-Evrópu og hefur verið ræktaður um þúsundir ára. Kóriander var fluttur til Norður-Ameríku árið 1670. Jurtin "Eryngium foetidum" gefur sterkara en svipað bragð og kóriander. Hún er þekkt undir nafninu "culantro". Hoisinsósa. Hoisinsósa er bragðsterk, dökk og sæt kínversk baunasósa. Hún er unnin úr gerjuðum svörtum sojabaunum, ediki, sykri, hvítlauk og kryddum. Hoisinsósa er notuð til að búa til kínverska réttinn Pekingönd. Hún er góð sem kryddlögur og gljái fyrir kjöt og fisk. Pekingönd. Pekingönd er þekktur andaréttur frá Peking og er einn af þjóðarréttum Kínverska alþýðulýðveldisins. Öndin er matreidd með þunnri, stökkri skorpu. Endur eru aldar sérstaklega fyrir þennan rétt og slátrað eftir 65 daga eldi. Þá eru fuglarnir hengdir upp og látnir þorna og smurðir með hunangi og síðan látnir þorna enn frekar þar til hamurinn er skraufþurr. Fuglinn er síðan ofnsteiktur. Pekingönd er gljáandi og dökkrauðbrún á lit. Niðurrifið kjöt er borið fram með hoisinsósu, vorlauk og litlum pönnukökum. Síðrómantíska tímabilið. Síðrómantíska tímabilið stóð frá miðri 19. öld fram til fyrri hluta 20. aldar. Eftirfarandi fræg tónskáld voru auk margra annarra uppi á þessum tíma: Dvorák, Elgar, Grieg, Mahler, Puccini, Saint-Säens, Sibelius, Vaughan Williams og Wolf. Húsavíkur-Lalli. Húsavíkur Lalli er draugur sem meðal annars er greint frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það er sögn þeirra er helzt þykjast þar um vita að draugur þessi var uppvaktur fyrst úr Höfðakirkjugarði í Höfðahverfi á dögum síra Ketils Jónssonar í Húsavík er þar var prestur undir og um miðja 18. öld og átti dóttur Magnúsar prests þess er þar drukknaði voveiflega og Oddnýjar er síðar átti Þórleif prófast Skaftason. Er mælt að maður annar hefði viljað ná konunni og sent því síra Katli eða henni þenna uppvakning. Sögðu þeir er séð þóttust hafa að hann gengi á kjól með hatt þrísperrtan og paruk undir og hugðu menn því prest eða nokkurn annan fyrimann verið hafa, en síra Ketill hefði fengið varið sig og konu sína fyri honum svo hann mætti þeim aldrei grand vinna. En þó var þessum Lalla það kennt er dóttir síra Ketils frumvaxta drukknaði hér undir Húsavíkurhöfða í Ingunnarpolli sem síðan er nefndur. Dætur síra Ketils tvær áttu þeir síra Sigfús prófastur og prestur í Höfða og síra Þórlákur Jónsson í Húsavík er báðir voru uppi fyrir og um 18. aldar lokin, og var sagt að Lalli þessi hefði fylgt þeim báðum á mis, en þeir hefði vitað svo vel frá sér að hjá Sigfúsa presti hefði hann aldrei náð að komast nema að landamerkjum, en hjá síra Þórláki aldrei nema að túngarðinum, og eru ýmsar sögur um að hinir og þessir hafi átt að sjá hann (þ.e. Lalla) fylgja þeim og þeim er átti leið frá Húsavík að Höfða eða þaðan og þangað, og þekktist jafnan á því að hann hafði á höfði hatt þrísperrtan yfir lokkaparuki, og eru sögur þar um so fánýtar og fáfengilegar að ég get ekki verið að telja þær né tína. En það sem seinast er sagt af þessum Húsavíkur-Lalla er það að skömmu eftir að faktor Mohr var setztur á Akureyri þá var það eitt kveld að maður kemur að honum og spyr hvert hann vili láta sýna sér Húsavíkur-Lalla. Mohr er fús til þess og biður hann sýna sér. Hinn bendir honum úr búðardyrum hvar hann standi, en Mohr sér ei að heldur. Hinn biður hann þá koma höfði undir handkrika sér inn vinstra. Mohr gerir svo og getur þá séð Lalla; snarar hann þá inn í búðina og sækir steytta byssu og hleypir af beint á Lalla og sáust þar eldglæringar einar. En morguninn eftir hefði átt að finnast herðarblað eða rif úr manni þar sem Lalli hefði staðið þegar hann fekk í sig skotið, en síðan vita menn ekki að við Lalla hafi neinstaðar vart orðið. En svo mikið orð fór þó af þessum Húsavíkur-Lalla um seinni hlut 18. aldar að sýslumaður Esphólín virðist að geta hans í Árb., 9. deild, því sagt var að hann gengi nær ljósum logunum, og einu sinni þóttust ófreskir menn sjá Lalla og Mývatns-Skottu, sem seinna var nefnd Mýrarsels-Skotta, hittast á Laxamýri og fljúgast á lengi vel, og mun það hafa verið ófagur "greyjagangur" (sem Sverrir konungur kvað). Gastrique. Hörpuskel með tangerínu- og fennel-gastrique Gastrique er súrsætur bragðbætir fyrir sósur gerður með því að bræða sykur í karamellu og hræra upp í ediki. Gastrique er notað til að bragðbæta tómatsósur og ávaxtasósur og er sérstaklega notað í franska réttinum appelsínuönd. Orðið er oft notað yfir allar sósur sem nota bragðbætinn. 1201-1210. 1201-1210 var 1. áratugur 13. aldar. 1221-1230. 1221-1230 var 3. áratugur 13. aldar. 1231-1240. 1231-1240 var 4. áratugur 13. aldar. 1241-1250. 1241-1250 var 5. áratugur 13. aldar. 1251-1260. 1251-1260 var 6. áratugur 13. aldar. 1261-1270. 1261-1270 var 7. áratugur 13. aldar. 1271-1280. 1271-1280 var 8. áratugur 13. aldar. 1281-1290. 1281-1290 var 9. áratugur 13. aldar. 1291-1300. 1291-1300 var 10. áratugur 13. aldar. Beitiskipið Pótemkín. "Beitiskipið Pótemkín" er kvikmynd frá 1925 eftir rússneska leikstjórann Sergej Eisenstein, framleidd af rússneska kvikmyndaverinu Mosfilm. Myndin, sem er þögul mynd, segir frá sögulegum atburðum: uppreisn sem varð árið 1905 um borð í rússneska beitiskipinu "Pótemkín". "Beitiskipið Pótemkín" hefur verið kölluð áhrifamesta áróðurskvikmynd allra tíma og fékk titilinn besta kvikmynd allra tíma á heimssýningunni í Brussel 1958. Myndin var fyrst sýnd á Íslandi árið 1927 í Nýja bíói. Gullæðið í Kaliforníu. Gullgrafari í Kaliforníu árið 1850 Gullæðið í Kaliforníu hófst 24. janúar 1848 þegar James W. Marshall fann gull við Sutter's Mill við American River í Coloma í Kaliforníu. Alls fluttust 300.000 manns til Kaliforníu vegna gullæðisins næstu ár, San Francisco breyttist úr litlu þorpi í borg og Kalifornía varð sjálfstætt fylki 1850. Gullæðið hafði mikil neikvæð áhrif á indíána sem urðu fyrir árásum gullgrafara auk þess sem gullvinnslan í ánum eyðilagði vistkerfi veiðisvæða. Talið er að 4500 indíánar hafi verið myrtir milli 1848 og 1868 og þeim fækkað úr 150.000 árið 1845 í 30.000 árið 1870. Fjöldi indíána var einnig hnepptur í þrældóm af gullgröfurum og námafyrirtækjum. Árið 1855 var mest af því gulli sem auðvelt var að vinna búið og einungis eftir námafyrirtæki með sérhæfðan búnað til að vinna gull. Hemúllinn. Hemúllinn er persóna í Múmínálfunum eftir finnlandssænska rithöfundinn og teiknarann Tove Jansson. Þótt aðeins einn Hemúll beri nafnið „Hemúllinn“, þá getur nafnið Hemúll átt við einn af mörgum þeim Hemúlum sem fyrir koma í bókum Tove, því Hemúlar eru sér kyn. Hemúlum svipar mjög til Múmínálfanna en er grennri og oft persónur í yfirvaldsstörfum eins og lögreglu eða fangaverðir og eru einstaklega þröngsýnir bókstafstrúarmenn. Margir Hemúlar eru miklir safnarar af ýmsum gerðum. Hinn eini sanni Hemúll, er sem dæmi frímerkjasafnari þegar hann kemur fyrst fram í bókinni Halastjarnan en aðrir Hemúlar höfðu þá þegar komið við sögu í fyrri bókum um Múmínálfana. Í bókinni Pípuhattur galdrakarlsins, lendir Hemúllinn í þeirri skelfilegu lífsreynslu að vera búinn að safna öllum frímerkjum heimsins og leggst í mikið þunglyndi. Sem honum þó tekst að leysa með aðstoð Múmínsnáðans, með því að fara að safna jurtum og blómum í staðinn. Flestir Hemúlar klæðast skósíðum kirtli eða kjól og virðist líka slíkur fatnaður best. Ottó Tulinius. Ottó Tulinius var íslenskur kaupmaður og stofnandi Hafnar í Hornafirði. Hann ásamt konu sinni Valgerði Friðriksdóttur hófu búsetu á Höfn í Hornafirði sumarið 1897. Ottó bjó á Höfn frá 1897 til 1901 en þá flutti hann frá Höfn til Akureyrar. Ottó og Valgerður áttu alls sex börn. Breska ríkisstjórnin. Breska ríkisstjórnin (Ríkistjórn hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands hennar hátignar að fullu nafni) er það vald sem sér um stjórn Bretlands. Leiðtogi bresku ríkistjórnarinnar er forsætisráðherran en hann er sá sem skipar aðra ráðherra í embætti. Saman mynda forsætisráðherran og hinir efstu ráðherrarnir ráðuneyti sem heitir "Cabinet" á ensku. Allir ráðherrarnir eru þingmenn og eru ábyrgir fyrir þinginu. Ríkisstjórnin reiðir sig á þingið til þess að setja lög og þess vegna verður ríkisstjórnin að halda kosninga á fimm ára fresti. Þjóðhöfðinginn, það er að segja drottningin eða konungurinn, skipar leiðtoga þess stjórnmálaflokks sem nálægstur er meirihluta í embætti forsætisráðherrans. Samkvæmt stjórnskipun Bretlands hefur þjóðhöfðinginn framkvæmdarvald en í rauninni er þetta vald einkum notað með ráði forsætisráðherrans og meðlima ráðuneytisins. Meðlimir í ráðuneytinu ásamt sérnefnd sem kallast Privy Council ráðleggja þjóðhöfingjanum um hvenær þetta vald skyldi vera notað. Núverandi forsætisráðherran er David Cameron en hann er líka leiðtogi Íhaldsflokksins. Hann var skipaður í embætti af Elísabetu 2. Bretadrottningu þann 11. maí 2010 eftir kosninga sem haldnir voru 6. maí 2010. Enginn hreinn meirihluti stafaði af kosningunum en þessi staða nefnist „hengt þing“ (e. "hung parliament") og er frekar sjaldgæft fyrirbæri á Bretlandi. Samsteypustjórn var mynduð þann 12. maí 2010 úr Íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum. Krísa. Krísa (s. "Misan", f. "Miisa") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Krísa er mjög þunglynd og vænisjúk kvenpersóna. Í teiknimyndasögunum og myndabókunum er hún venjulega heimilishjálp Moomínfjölskyldunnar. Krísa hefur aðeins verið ein af aðalpersónunum í einni bók þar sem hún er ekki húshjálp, en það var í fimmtu bókinni um Múmínálfana, bókinni Örlaganóttin (s."Farlig midsommar") sem út kom árið 1954. Þar finnur Múmínfjölskyldan Krísu gegnblauta á floti á grein sem hún hafði bjargað sér upp á þegar flóðið kom. Fjölskyldan tók hana með sér í leikhúsið, þar sem Krísa sýndi að hún var afbragðs leikkona. Um Krísu er sagt að fyrstu viðbrögð hennar við hvern þann sem ávarpar hana sé ótti við það að þá sé verið að kvarta yfir gæðum vinnu hennar. 1101-1110. 1101-1110 var 1. áratugur 12. aldar. 1111-1120. 1111-1120 var 2. áratugur 12. aldar. 1121-1130. 1121-1130 var 3. áratugur 12. aldar. 1131-1140. 1131-1140 var 4. áratugur 12. aldar. Atburðir. Bygging Magnúsarkirkju hófst (1137) 1141-1150. 1141-1150 var 5. áratugur 12. aldar. 1151-1160. 1151-1160 var 6. áratugur 12. aldar. 1161-1170. 1161-1170 var 7. áratugur 12. aldar. 1171-1180. 1171-1180 var 8. áratugur 12. aldar. 1181-1190. 1181-1190 var 9. áratugur 12. aldar. 1191-1200. 1191-1200 var 10. áratugur 12. aldar. Markfruma. Markfruma boðefnis er fruma sem boðefnið hefur áhrif á. Sagt er að hún bregðist við boðefninu. Réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks eftir löndum. Réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks eru mjög mismunandi eftir löndum. Í sumum löndum má fólk af sama kyni giftir sig en í öðrum er dauðarefsing fyrir að vera í sambandi við einhvern af sama kyni. Þessi réttindi eru mannréttindi og borgararéttindi. Ýmis lög geta átt við um samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk en meðal annars eru lög um giftingu og skráða sambúð, ættleiðingu, foreldrahlutverk, lög gegn fordómum og hommafælni, jafnrétti fyrir innflytjenda, haturslög, sami samræðisaldur fyrir fólk af öllum kynhneigðum og lög varðandi samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk í herum. Kramarhús. Kramarhús er keilulaga skraut sem hengt er á jólatré. Það er oft gert úr pappír og límdur á hanki. Oft er kramarhúsið fyllt af sætindum eða kökum. Dæmi eru allt frá 1866 um kramarhús sem jólaskraut. Kramarhús var algengur umbúnaður um þær vörur kaupmanna. Brekka í Svarfaðardal. Brekka í Svarfaðardal er bær í dalnum að vestanverðu, um 6 km frá Dalvík og næsti bær utan við Grund. Grundarlækur, mikill skriðulækur, kemur úr Grundargili milli bæjanna en upptök hans eru í Nykurtjörn, hátt til fjalls. Ljósgil er annað lækjargil utan við Grundargilið. Þar upp af eru Hrafnabjörg. Brekka er allgóð bújörð og þar hefur verið búið allt frá landnámstíð. Þar bjuggu fyrst, samkvæmt Landnámu, Ásgeir rauðfeldur Herjólfsson og Iðunn Arnardóttir kona hans. Börn þeirra voru Ingveldur rauðkinn, Þorleifur jarlsskáld og Ólafur völubrjótur. Þessi fjölskylda kemur mjög við sögu í Svarfdælu og af Þorleifi er til sérstakur þáttur, Þorleifs þáttur jarlsskálds. Snorri Sigfússon námsstjóri á Akureyri var ættaður frá Brekku eins og ævisaga hans "Ferðin frá Brekku" gefur til kynna. Útgerð. Útgerð er fyrirtæki sem rekur báta, til dæmis togara, til fiskveiða. Því fylgir oft fiskvinnsla. Snorkurinn. Snorkurinn (s. "Snork" f. "Niisku") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Hann er hinn gáfaði bróðir Snorkstelpunar og kemur bara fyrir í tveimur bókum, Halastjarnan og Pípuhattur galdrakarlsins. Snorkurinn er mikill skipuleggjandi. Meðal annars reynir hann að skipuleggja og leiða björgunarleiðangur og gerist dómari í réttarhöldunum milli galdrakarlsins og Þönguls og Þrasa í bókinni "Pípuhattur galdrakarlsins". Í japönsku teiknimynda sjónvarpsþáttunum er Snorkurinn með gleraugu og býr í gulu húsi ásamt systur sinni, Snorkstelpunni, í Múmíndal. Hann er uppfinningamaður og er stöðugt með nýjar uppfinningar í smíðum, samhliða eilífðarverkefni hanns, fljúgandi skipinu sem aldrei virðist ætla að virka. Hvort einhver verulegur munur er á Múmínálfum og Snorkum kemur hvergi fram í sögum Tove og hún skýrði það aldrei út í lifandi lífi. Það eina sem er nefnt er í bókinni Halastjarnan, en þar kemur fram að Snorkar gætu skipt litum eftir skapi og eins eru þau systkinin bæði með hártopp. Ekki er því vitað hversvegna hún kaus að kalla þessar persónur tvem ólíkum nöfnum eða hvort hún leit svo á að um tvö aðskyld kyn væri að ræða. Taugaboðefni. Taugaboðefni er efni sem sumar taugafrumur nota til að framsenda taugaboð. Aðrar leiða rafboð beint sín á milli, án þess að til komi neitt boðefni. Chick-Fil-A. Chick-Fil-A er bandarísk skyndibitakeðja, stofnuð 1949. Aðal höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í úthverfi Atlanta, College Park, í Georgia í Bandaríkjunum. Keðja sérhæfir sig í kjúklingasamlokum. Árið 2012 rak Chick-Fil-A 1679 veitingastaði í 38 fylkjum Bandaríkjanna. Dropbox. Dropbox er vefþjónusta þar sem hægt er að hlaða inn skrár og deila þeim með öðrum. Dropbox er svokölluð skráarhýsingarþjónusta sem býður líka upp á skráargeymslu í skýinu, skráarsamstillingu og forrit fyrir notandann. Þjónustan gerir manni kleift að búa til sérstaka möppu á tölvu sem verður þá samanstillt við skýið þannig að mappan innihaldi sömu skrár á hvaða tölvu sem er. Skrár sem settar eru í þessa möppu má líka skoða á vefsíðu og í snjallsímum og á spjaldtölvum. Forritið fæst á mörgum stýrikerfum, meðal annars Microsoft Windows, Mac OS X, Linux, Android, iOS og BlackBerry. Fyrirtækið Dropbox var stofnað árið 2007 af tveimur útskriftarnemum við MIT í Bandaríkjunum. Pjakkur. Pjakkur úr teiknimynd um Múmínálfana. Pjakkur, einnig kallaður Hrekkur á íslensku (s."Stinky" f. "Haisuli") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlandssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Pjakk skóp Tove Jansson fyrir daglegu myndasögurnar um Múmínálfana sem hún teiknaði fyrir Lundúnar dagblaðið The Evening News, 1954. Hann er kafloðinn og af honum leggur hræðilegur fnykur. Hann borðar flest, til dæmis í fyrstu myndasögunni þar sem hann kom fram borðaði hann allt Múmínhúsið. Þótt lýsa megi honum sem illmenni og hrekkjalómi, þá á hann gott til og hjálpar stundum öðrum, en eiginlega bara ef hann fær eitthvað fyrir sinn snúð fyrir það. Þegar Múmínpabbi finnur fyrir mikill ævintýralöngun leitar hann oft uppi Pjakk, eins þegar Snabbi fær einhverja snilldar hugmynd að græða peninga með oft umdeilanlegum hætti leitar hann einnig oft til Pjakks. Eina Múmínbókin þar sem Pjakkur kemur við sögu er myndabókin "Illmennið í Múmínhúsinu" (s. "Skurken i muminhuset") sem út kom árið 1980 og eins kemur hann við sögu í japönsku teiknimyndunum um Múmínálfana. Borgaklasi. a>. Efri myndin sýnir Bos-NY-Wash-svæðið en neðri myndin sýnir Tokyo-Nagoya-Osaka-svæðið. Borgaklasi er hugtak sem notað er yfir svæði þar sem margar stórar borgir hafa vaxið saman. Dæmi um borgaklasa er Bos-NY-Wash-svæðið, sem inniheldur stórborgirnar Boston, New York-borg, Philadelphiu, Baltimore og Washington D.C., ásamt smærri borgum eins og Hartford, Providence, Hoboken, Jersey City, Newark, Trenton og Wilmington auk úthverfa þeirra allra. John Cale. John Cale (f. 9. mars 1942) er velskur tónlistarmaður og tónskáld, best þekktur sem einn af stofnendum bandaríska tilraunarokkhópsins The Velvet Underground. Cale leikur á ýmis hljóðfæri. Samræðisaldur. Samræðisaldur er sá aldur þegar einstaklingur má löglega stunda kynmök og samþykkja kynmök við aðra. Lög um samræðisaldur eru mismunandi eftir löndum og þó að lágmarksaldurinn sé í flestum löndum á milli 14 og 18 ára er hann í sumum löndum allt niður í 12 ára aldur og allt upp í 21 árs aldur í öðrum löndum. Í sumum löndum er samræðisaldur ekki sá sami fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða og í sumum löndum er undantekning frá lögum um lágmarksaldurinn ef kynmök eru stunduð á milli fólks á sama aldri. Sá sem brýtur lögin um lágmarksaldurinn gæti verið ákærður um smáglæp eða nauðgun — þetta ræðst af lögunum í landinu þar sem brotið er framið. Hommafælni. Hommafælni (eða hómófóbía) lýsir ýmsum neikvæðum tilfinningum og skoðunum gegn samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki. Hommafælni getur lýst sér íandúð, lítilsvirðingu, fordómum eða hatri og getur byggst á óskynsamlegum ótta. Í Bandaríkjunum árið 2010 voru 19,3 % af öllum hatursglæpum tengd hommafælni. Skýrsla sem gerð var sama árið lýsti stöðunni þannig: „[samkynhneigðir] eru mun líklegri en allir aðrir minnihlutahópar í Bandaríkjunum til að verða fórnarlömb ofbeldishatursglæpa.“ Hommafælni skiptist í nokkrar tegundir, svo sem svokölluð „stofnanavædd hommafælni“ (e. "institutionalised homophobia"), það er að segja hommafælni fyrirskipuð af trúarbrögðum eða ríki, og „innri hommafælni“ (e. "internalised homophobia"), þar sem samkynhneigður einstaklingur er hommafælinn, þrátt fyrir hvernig hann kynnir sig. Einstaklingur sem upplifir hommafælni er sagður vera "hommafælinn". Sýslurnar svara. "Sýslurnar svara" var spurningakeppni í útvarpi, sem haldin var í Ríkisútvarpinu veturinn 1965-1966. Henni lauk með sigri Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Keppnisfyrirkomulag var með þeim hætti að þriggja manna lið frá velflestum sýslum landsins kepptu með útsláttarfyrirkomulagi á sunnudagskvöldum. Voru sömu fimmtán spurningarnar lagðar fyrir hvort lið og sigraði það sem gat svarað fleiri spurningum rétt. Umsjónarmenn keppninnar voru Birgir Ísleifur Gunnarsson og Guðni Þórðarson, en árið áður höfðu þeir stýrt álíka þætti, Kaupstaðirnir keppa. Kjördæmin keppa. "Kjördæmin keppa" var spurningaþáttur á RÚV vorið 1976 þar sem þriggja manna keppnislið frá kjördæmunum átta öttu kappi með útsláttarfyrirkomulagi. Spyrill var Jón Ásgeirsson íþróttafréttamaður og dómari Ingibjörg Guðmundsdóttir. Höfundur spurninga var Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur. Keppninni lauk með sigri Norðurlandskjördæmis eystra. Deilur vegna keppnishalds. Viðureignirnar sjö voru teknar upp á tveimur dögum. Eftir að sýningar þáttanna hófust kom fram ýmis konar gagnrýni á framkvæmd keppninnar. Var því haldið fram að sumar spurningar hefðu verið rangar eða að úrskurðir dómara hefðu orkað tvímælis. Kærðu fulltrúar liðs Norðurlandskjördæmis vestra viðureign sína í fyrstu umferð til Útvarpsráðs, sem úrskurðaði að úrslitin skyldu standa óbreytt. Spurning í keppni Suðurlandskjördæmis og Reykjaneskjördæmis, sem réð úrslitum í viðureigninni, varð sömuleiðis umdeild. Þar var spurt um elstu virkjun á Vestfjörðum og urðu blaðaskrif vegna málsins. Einungis tveir keppendur af 24 voru konur. Spyrill keppninnar kallaði aðra þeirra „skrautfjöður“ liðs síns og var skammaður fyrir í blöðum. Snorkstelpan. Snorkstelpan (s. "Snorkfröken" f. "Niiskuneiti") er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson. Hún er ekki Múmínálfur heldur Snorkur og systir Snorksins. Snorkar líkjast Múmínálfum í öllu nema að þeir geta skipt litum í geðshræringu þótt þeir séu oftast hvítir eins og Múmínálfarnir. En aðeins er minnst á það í tvem bókum, stuttlega í "Halastjarnan" og í "Pípuhattur galdrakarlsinns". Eins eru þau systkinin bæði með hártopp og er Snorkstelpan mjög hrifin af og upptekin af sínum gula hártoppi. Hún elskar að skreyta hann með blómum og oftar en ekki í sama lit og hún sjálf er þá stundina. Hún er best þekkt sem kærasta Múmínsnáðans þótt samband þeirra sé mjög saklaust og um ökklann er hún með gullhring sem Múmínsnáðinn gaf henni. Hún er mjög tilfinningarík, elskuleg og vill öllum vel. Snorkstelpan og bróðir hennar koma fyrst fram í sjötta kafla bókarinnar "Halastjarnan" og í næstu köflum þar á eftir þar sem þau slást í för með Múmínálfunum á ferð þeirra aftur til Múmíndals eftir að Múmínsnáðinn bjargar henni frá eitruðum runna. Snorkstelpan og Snorkurinn koma einnig fyrir í næstu bók þar á eftir, "Pípuhattur galdrakarlsinns", en þau koma ekki við sögu í þarnæstu bók, "Minningar Múmínpabba" sem er alfarið helguð Múmínfjölskyldunni og þeim Snúði og Snabba. Snorkstelpan kemur næst við sögu, en án bróður síns, í bókinni "Örlaganóttin" þar sem Múmínsnáðinn og hún eru mest alla bókina aðskilin frá öðrum í Múmínfjölskyldunni og rata í sín eigin ævintýri. Hún kemur einnig fyrir í tvem sögum í "Ósýnilega barnið og aðrar sögur", þeirri fjórðu, "Síðasti drekinn í heiminum" og þeirri níundu og síðustu, "Þinurinn". En eftir það kemur hún ekkert við sögu í næstu bókum, þótt lítilega sé minnst á hana er ekki sagt afhverju hún er farinn né hvert. Í bæði japönsku teiknimyndunum sem og Pólsku brúðumyndunum sem framleiddar hafa verið, byggðar á bókunum um Múmínálfana, er hlutur hennar mikið mun meiri en hún kemur við sögu í flestum þeirra. Eðlisfræðivél. Eðlisfræðivél er hugbúnaður sem hermir eftir eiginleikum raunkerfa eins og hreyfifræði stjarfra og mjúkra hluta (þar með talið árekstrarskynjun) og straumfræði til að líkja eftir þeim eðlisfræðilögmálum sem ríkja í raunheimi í tölvugrafík, leikjum og kvikmyndagerð. Eðlisfræðivélar eru aðallega notaðar sem miðbúnaður í tölvuleikjum sem framkvæmir útreikninga í rauntíma. Möndulhalli. Möndulhalli eða öxulhalli er hornið á milli snúningsmönduls hlutar, til dæmis reikistjörnu, og sporbaugsmönduls hans eða hornið á milli miðbaugssléttu hlutarins og sporbaugssléttu hans. Jörðin hefur nú möndulhallann 23,4° en hann sveiflast frá 22° 02' 33" til 24° 30' 16" á 41.040 ára tímabili. Möndulhallinn veldur því að norður- og suðurhvolf jarðarinnar fá mismikið sólarljós eftir árstímum sem veldur meiri árstíðamun nær heimskautunum en annars staðar. Þegar hásumar er á norðurhveli jarðar snýr norðurheimskautið á móti sólinni þannig að staðir norðan norðurheimskautsbaug eru baðaðir sólarljósi allan sólarhringinn á meðan suðurheimskautið snýr frá sólu þannig að staðir sunnan suðurheimskautsbaugsins sjá ekki til sólar. Möndulhallar jarðar, Venusar og Úranusar bornir saman. Góð leið til að átta sig á því hvoru meginn norðurpóll reikistjarnanna liggur er að hugsa sér krepptan hnefa með útstæðum þumli. Þumallinn bendir í norður en hinir fingurnir stefna i snúningsátt reikistjörnunnar. Möndulhalli annara reikistjarna en jarðarinnar er mjög misjafn. Möndulhalli Mars er um 25° eða áþekkur möndulhalla jarðar og því eiga sér stað kunnulegar árstíðabreytingar á Mars. Möndulhalli Venusar telst hins vegar vera 177° sem þýðir að norðurpóll hennar snýr í raun „öfugt“ miðað við aðrar reikistjörnur þar sem hún snýst í hina áttina. Annað afbrigði er Úranus sem hefur möndulhallann 97° og liggur því á hliðinni miðað við flestar aðrar reikistjörnur þar sem snúningsmöndull hans er nokkurn veginn samhliða sporbaugssléttu. Simpansi. Simpansar tilheyra mannættinni, ásamt górillum, mönnum og órangútönum. Fyrir fjórum til sex milljónum árum klufu simpansar í burtu frá manngreininni í ættinni. Simpansategundirnar tvær eru þær tegundir sem nálægstar eru lifandi mönnum hvað varðar gen. Þessar tegundir klufu frá hvor annarri fyrir um milljón árum. Herúlar. Herúlar var austgermanskur þjóðflokkur sem fór frá Skandinavíu til Svartahafs á þriðju öld og herjaði á lönd í slóð Gota og í liði með þeim. Árið 267 börðust þeir með Gotum í Byzantíon, Spörtu og Aþenu. Rómverjar sigruðu þá í orustu árið 269 um Naissus sem er þar sem nú er Serbía. Á fjórðu öld voru þeir yfirbugaðir í orustu við Austgota og seinna við Húna. Þeir losnuðu undan yfirráðum Húna í bardaga um Nedao árið 454 og stofnuðu sitt eigið konungsríki. Árið 476 AD börðust þeir við hersveitir Rómúlusar Ágústulusar keisara Rómverja. Árið 508 voru þeir yfirbugaðir af Langbörðum og eru taldir hafa þá hörfað aftur til Skandinavíu. Samkvæmt frásögn gríska sagnaritarans Prokopiosar leitaði brot hinnar sigruðu Herúlaþjóðar til Noðurlanda og settist að við byggðir Gauta. Barði Guðmundson telur Íslendinga komna af Herúlum. Hann hefur sett fram skýringu á landnámi sem kölluð er Herúlakenningin. Barði telur að hluti Herúla hafi einnig blandast Dönum (Hálfdanir). Síðan hafi þeir flust til Vestur-Noregs og ráðið þar þangað til Haraldur hárfagri yfirbugaði þá í orustunni í Hafursfirði. Þá hafi meginhluti þeirra orðið að hrökklast vestur um haf eða til Íslands. Barði bendir á að arfsagnir Herúlanna og átrúnaður hafi aðeins geymst á Íslandi og að stjórnskipulag eins og Goðaveldið og önnur menningarleg einkenni á Íslandi séu öðruvísi en í Noregi á landnámsöld. Samkvæmt frásögn Snorra Sturlusonar í Heimskringlu komu Æsir frá Svartahafslöndum til Norðurlanda undir forystu 12 hofgoða. Gordy. "Gordy" er bandarísk gamanmynd frá árinu 1995. Myndin er um svín sem heitir Gordy sem leitar að fjölskyldu sinni. Myndin fékk fremur slaka dóma. Fjármálastjóri. Fjármálastjóri (e. "chief financial officer", "CFO") er sá sem ber ábyrgð á fjármálum fyrirtækja, svarar beint til forstjóra fyrirtækis eða til eigenda og sér um að halda jafnvægi á fjárfestingum og arðgreiðslum. Það er í hans höndum að taka ákvarðanir um hvernig á að ráðstafa fé fyrirtækja, að vega og meta áhættu í fjárfestingum, ráðstafa fjármunum og greiða arð. Markmið hans er í öllum tilvikum að hámarka virði fyrirækisins, hvort sem um er að ræða lítið sprotafyritæki, fyrirtæki í almannaeigu eða hlutafélag. Fjármálastjóri á að gera það sem er best fyrir hag eigenda, en það reynist stundum snúið að velja réttann einstakling í það starf vegna hagsmunaárekstra. Traust þarf að ríkja milli fjármálastjóra og eigenda til að tryggja það að ákvarðanir varðandi fjármál séu örugglega þær sem gagnist fyrirtækinu best. Ráðstöfun eigna fyrirtækisins. Þekking fjármálastjóra á fjárfestingum á að vera slík að hann geti vegið og metið áhættu við fjárfestingar og út frá því geta tekið bestu ákvarðanir um hvernig fjárfestingum skuli hagað með það að markmiði að þær skili hagnaði, hvort sem um er að ræða fjárfestingar í fyrirtækjum, fasteignum eða þekkingu. Fjármögnun. Hvernig á að fjármagna rekstur, á að nota rekstrar og söluhagnað, auka hlutafé eða taka lán. Stýring veltufjár. Ákvarðanir varðandi hversdagsleg málefni eins og hvenær á að innheimta sölur, borga reikninga, hvernig á að geyma lausafé og hversu mikið lausafé þarf að vera til staðar fyrir rekstrarkostnaði og launakostnaði. Einnig hvernig á að ráðstafa aukafjármunum. Tequixquiac. Santíagó Tekixkíak, höfuðborg fylkisins Mexíkó. Tequixquiac er bær fylkisins Mexíkó í Mexíkó. Íbúar borgarinnar eru um 33 000. Leikjavél. Leikjavél er hugbúnaður sem styður við þróun tölvuleikja. Leikjavél er hugbúnaðarrammi sem hægt er að byggja þróun tölvuleiksins á. Grunnvirkni leikjavélar er myndsetning fyrir tvívíðar eða þrívíðar myndir eftir atvikum, eðlisfræðivél eða árekstrarskynjun, hljóð, kvikun, netvirkni og skriftun. Með því að nota sömu leikjavélina aftur og aftur er hægt að draga verulega úr vinnu við þróun tölvuleikja. Hugtakið leikjavél var fyrst notað á 10. áratug 20. aldar í samhengi við fyrstu persónu skotleiki frá id Software: "Doom" og "Quake". Nýja bíó. Nýja bíó var kvikmyndahús í Reykjavík sem hóf starfsemi 29. júní árið 1912. Stofnendur voru nokkrir athafnamenn í Reykjavík. Fyrst var kvikmyndahúsið sett upp í austurendanum á Hótel Íslandi þar sem var áður veitingasalur. Nafnið var til aðgreiningar frá Gamla bíói, Reykjavíkur Biograftheater, í Fjalakettinum þar skammt frá. Árið 1919 hóf bíóið að reisa nýtt steinsteypt hús við Austurstræti og Lækjargötu og flutti þangað inn sumarið 1920. Árið 1986 tók Árni Samúelsson húsnæðið á leigu og kallaði það Bíóhúsið. Árið 1987 lögðust kvikmyndasýningar af í húsinu og 1988 var þar stofnaður skemmtistaðurinn Lækjartunglið sem síðar hét aðeins Tunglið. Þann 30. júní 1998 brann húsið og gjöreyðilagðist. Það var síðan rifið og Iðuhúsið reist þar í staðinn. Framhlið Nýja bíós við Austurstræti var notuð sem fyrirmynd að framhlið Grillmarkaðarins sem var reistur þar 2011. Bókband. Bókband er sú aðferð að binda saman blaðsíður þannig að þær myndi bók. Til eru ýmiss konar bindingar og mismunandi aðferðir að festa blaðsíðurnar saman. Sumar bækur eru límdar saman, í svokallaða límhefta kilju, og mega vera með harðspjalda eða ekki. Aðrar bækur eru heftar saman eða bundnar saman með gormi. Bókband felur í sér hætti á borð við húðun, upphleypingu, stönsun, rifgötun, borun, brot og fellingu. Brasilíutré. Brasilíutré (fræðiheiti "Caesalpinia echinata") er trjátegund af ertublómaætt sem upprunnin er í Brasilíu. Tréð er einnig nefnt Permambuk-tré eða rauðtré. Brúnspónn sem áður var notaður í hrífutinda var viður brasilíutrés. Viður brasilíutrés er djúprauður og hentar vel til að búa til boga strengjahljóðfæra. Úr viðnum er einnig unnið rautt litarefni sem kallast brazilin og oxuð útgáfa þess brazilein. Kort af Brasilíu gefið út í Portúgal árið 1519.Brasilíutréð sýna landkosti nýlendunnar Teikning frá 1519 af frumbyggjum Brasilíu að safna saman bolum brasilíutrés Þegar portúgalskir landkönnuðir fundu brasilíutré á ströndum Suður-Ameríku notuðu þeir nafnið "pau-brasil" til að lýsa þeim en „pau“ merkir á portúgölsku prik og „brasa“ merkir glóð. Viður brasilíutrésins er djúprauður. Hins vegar hafði þá nafnið "Pau-brasil" verið notað til að lýsa öðruvísi tré sem fannst í Asíu og kallað varf Sappanviður og var einnig notað að vinna úr rauð litunarefni. Trén í Suður-Ameríku urðu fljótt vinsælli til litunar og brasilíutréð var svo mikilvægt í útflutningi og viðskiptum að landið þar sem trén uxu tók nafn sitt af því og var kalla Brasilía. Það eru nokkrar tegundir trjáa sem unnar voru á þennan hátt en þær tegundir voru allar af ertublómaætt. Brasilíutré er oftast notað um tegundina "Caesalpinia echinata" er er líka notað um aðrar tegundir eins og Caesalpinia sappan. Tréð gengur einnig undir öðrum nöfnum eins og "ibirapitanga" og "pau de pernambuco" eftir brasilíska héraðinu Pernambuco. Í bogagerð er vaninn að nota orðið brasilíutré um aðrar tegundir en "Caesalpinia echinata" svo sem "Tabebuia impetiginosa" og Massaranduba ("Manilkara bidentata") og ("Haematoxylum brasiletto"). Caesalpinia echinata er vanalega kallað permambuk-tré í þessu samhengi. Brasilíutré getur orðið allt að 15 metra hátt, börkurinn er dökkbrúnn og flagnaður og sést í blóðrauðan viðinn fyrir innan. Skýringarmynd af laufum og blómum brasilíutrés. Á 16. og 17. öld var brasilíutré eftirsótt og dýrt í Evrópu. Litunartré komu frá Asíu og voru flutt inn í duftformi og notuð sem rautt litarefni til að framleiða dýrar vörur eins og flauel sem mikið eftirspurn var eftir á tímum Endurreisnarinnar. Þegar portúgalsir sæfarar fundu Brasilíu þann 22. apríl árið 1500 þá sáu þeir að brasilíuviður var algengur á ströndinni og upp með ám. Það upphófst mikil skógarhögg á brasílíutrjám og voru trjábolirnir fluttir til Portúgal og var einokun undir stjórn portúgölsku krúnunnar á þessum viðskiptum. Viðskiptin með trén voru ábatasöm og reyndu önnur ríki að komast yfir viðskiptin og smygla brasilíutrjám út úr Brasilíu og sjóræningjar í þjónustu ríkja réðust á portúgölsk skip í því augnamiði að stela þessum dýrmæta farmi. Árið 1555 reyndi til dæmis franskur leiðangur undir stjórn sjóræningans Nicolas Durand de Villegaignon að stofna nýlendu þar sem núna er Rio de Janeiro og var drifjöður þess sá auður sem skógarhögg brasilíutrjáa bjó til. Brasíulíutré voru höggvin í stórum stíl og magn þeirra þvarr á 19. öld og með því varð hrun í efnahagslífi svæðisins. Núna er brasilíutréð á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu. Erfitt er að byggja upp á nýju skóga með brasilíutrjám því að það vex aðeins vel ef því er plantað inn í annað skóg. Fyrsta tilraun til að sporna gegn eyðingu brasilíutrjáa er í skjalinu “Pernambuco Wood Proclamation” frá 1605. Því skjali var ætlað að verna einokun portúgalska konungsins og var þar bannað að fella ung tré og gömul tré yrði að höggva þannig að þau gætu vaxið upp aftur. Líklegt er að viðskipti með brasilíutré verði bönnuð í náinni framtíð og veldur það vanda í bogaiðnaði svo sem við gerð fiðluboga þar sem þessi viður er mikið notaður. "Tree of Music," er heimildarmynd um brasilíutréð og notkun þess í gerð hljóðfæra. Frjóvgun. Frjóvgun er þegar tvær kynfrumur sameinast og ný vera myndast þar af. Í spendýrum kemur ein sæðisfruma að eggfrumu. Sæðisfruman treður sér í gegnum utanáliggjandi eggbú eggfrumunnar. Haus sæðisfrumunnar hefur hjálm sem inniheldur ensím og hjálpar henni að komast í gegnum egghýðið og inn í eggið sjálft. Eftir að sæðisfruman hefur binst veggnum í egginu, losnar kjarni sæðisfrumunnar og fer inn í eggið. Kjarnasamruni á sér þá stað milli kjarna sæðisfrumunnar og eggsins. Þá er frjóvgun lokið. Þorleifs þáttur jarlsskálds. Þorleifs þáttur jarlsskálds er stutt frásögn eða smásaga, sem telst til Íslendingaþátta. Þar segir frá Þofleifi Ásgeirssyni frá Brekku í Svarfaðardal og viðskiptum hans við Hákon Sigurðarson Hlaðajarl. Þorleifur hafði siglt frá Íslandi til Noregs í verslunarferð. Þar hitti hann fyrir Hákon jarl sem rændi hann öllum varningi, brenndi skip hans og lét drepa förunauta hans alla. Þorleifur komst undan og fór til Danmerkur þar sem hann gerðist hirðskáld Sveins konungs tjúguskeggs. Seinna kom hann fram greypilegum hefndum á Hákoni Hlaðajarli er hann náði að þylja yfir honum magnað níðkvæði sem hann hafði ort. Það hrein á jarli svo að hann missti heilsuna og varð aldrei samur maður eftir. Af þessu fékk hann viðurnefni og var kallaður Þorleifur jarlsskáld. Þorleifur kemur fyrir í fleiri fornritum, svo sem í Svarfdæla sögu, en hann og Ólafur völubrjótur bróðir hans voru banamenn berserksins Klaufa Hafþórssonar. Systir hans var Yngveldur fagurkinn, lykilpersóna í Svarfdælu. Lítið er til af kveðskap Þorleifs, þó eru nokkrar vísur eftir hann tilfærðar í Svarfdælu, Þorleifs þætti, Landnámabók og víðar. Þorleifs þáttur jarlsskálds er talinn ritaður um 1300. Þátturinn er stundum kallaður "Þorleifs þáttur jarlaskálds", en það er órökrétt, því að Þorleifur orti aðeins um einn jarl. Skáldsaga Þórarins Eldjárns, "Hér liggur skáld" (Rvík 2012), er um Þorleif. Alexander Fenton. Alexander Fenton eða Sandy Fenton (26. júní 1929 – 9. maí 2012) var skoskur þjóðfræðingur og þjóðháttafræðingur, sem er þekktur fyrir rannsóknir sínar á þjóðháttum og menningu Skotlands, Orkneyja og Hjaltlands. Hann var lengst af búsettur í Edinborg Alexander Fenton fæddist í Shotts í Lanarkshire, Skotlandi. Foreldrar hans voru Alexander Fenton og Annie Stronach. Hann hlaut menntun í Auchterless á heimaslóðum, og fór síðan í Háskólann í Aberdeen. Hann lagði stund á framhaldsnám í Cambridge, einkum í fornleifafræði og mannfræði, með norræn tungumál sem aukafag. Hann varð vel læs á dönsku, sænsku, íslensku og færeysku. Hann var mikill málamaður, talaði skosku og gelísku, var læs á írsku og velsku, og hafði gott vald á þýsku, frönsku og ungversku. Hann lauk doktorsprófi við Háskólann í Edinborg. Fenton fékkst við orðabókarstörf 1955–1959 (Scottish National Dictionary), varð svo safnvörður við Þjóðminjasafnið í Edinborg (National Museum of Antiquities of Scotland) 1959–1975, deildarstjóri 1975–1978 og forstöðumaður safnsins 1978-1985. Var í Þjóðminjaráði Skotlands 1979–1994. Jafnframt fékkst hann við kennslu í Háskólanum í Edinborg, einkum í skoskri þjóðfræði, og veitti forstöðu School of Scottish Studies. Rannsóknir og ritstörf Fentons snerust einkum um þjóðfræði og þjóðhætti Skotlands, en hann setti efnið einnig fram í víðara samhengi. Alls birti hann um 300 ritsmíðar um margvísleg efni, og er hann talinn með fremstu þjóðfræðingum sinnar tíðar. Alexander Fenton hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín, svo sem CBE orðuna. Alexander Fenton kvæntist um 1956, Evelyn, fædd Hunter. Þau eignuðust tvær dætur. Tegundir í bráðri útrýmingarhættu. Tegundir í bráðri útrýmingarhættu eru þær tegundir lífvera sem taldar eru í mestri hættu á útdauða í náttúrulegum heimkynnum. Bráð útrýmingarhætta er flokkur í flokkunarkerfi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna - IUCN. Á listanum yfir tegundir í bráðri útrýmingarhættu eru 2264 dýrategundir og 1821 jurt, tvær sveppategundir og fjórar tegundir frumvera. Dæmi um tegundir sem teljast í bráðri útrýmingarhættu eru skata, áll, leðurskjaldbaka og barðaháfur. Viðkvæmar tegundir. Viðkvæmar tegundir eru þær tegundir lífvera sem eru líklegar til að lenda í hættu á útdauða ef aðstæður breytast ekki. Viðkvæm tegund er flokkur í flokkunarkerfi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna - IUCN. Á Rauða lista IUCN yfir viðkvæmar tegundir eru 5297 dýrategundir, 4914 jurtir og ein tegund frumvera. Dæmi um viðkvæmar tegundir eru ísbjörn, hávella, ýsa og blöðruselur. Útdauða í náttúrulegum heimkynnum. Útdauða í náttúrulegum heimkynnum eru þær tegundir lífvera þar sem einu einstaklingarnir sem vitað er um eru í haldi eða haldið við sem stofni utan sinna náttúrulegu heimkynna. Þetta er sérstakur flokkur í flokkunarkerfi Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna - IUCN. Á Rauða lista IUCN yfir tegundir sem eru útdauða í náttúrulegum heimkynnum eru 32 dýrategundir og 31 jurt. Dæmi um slíkar tegundir eru berbaljón og sverðantilópa. Zumbi. Zumbi (1655 – 20. nóvember 1695), einnig kallaður Zumbi dos Palmares, var síðasti foringi útlaga- og flóttafólksins Quilombo dos Palmares sem bjó þar sem nú er héraðið Alagoas í Brasilíu. Quilombo voru búðir flóttafólks og útlaga af afrískum uppruna. Þessar búðir voru andspyrnuhreyfing á þeim tíma sem þrælahald var við leyfi í Brasilíu, þrælar struku og settust að í Quilombo-búðum og börðust fyrir frelsi sínu og auknum völdum. Quilombo dos Palmares var ríki Maroon fólks sem hafði flúðu frá portúgölskum landsvæðum í Brasilíu. Þar bjuggu þegar mest var yfir 30 þúsund manns. Stríðsmenn þar þurftu að verjast árásum portúgalskra nýlenduherra og urðu sérfræðingar í bardagalistinni capoeira sem upprunnin er í Afríku. Zumbi fæddist frjáls í flóttabúðunum í Palmares árið 1655 og er talinn ættaður frá Imbangala stríðsmönnum í Angóla. Hann var handsamaður af Portúgölum og hnepptur í þrældóm þegar hann var um sex ára gamall. Þar var hann gefinn til trúboða sem hét António Melo og skírður nafninu Francisco. Zumbi var uppfræddur í kristnum fræðum og lærði portúgölsku og latínu og hjálpaði til við messur. Zumbi flúði árið 1670 þá fimmtán ára gamall og komst til baka í fæðingarbæ sinn. Hann varð seinna þekktur fyrir bardaga- og hernaðarlist. Árið 1678 var landstjórinn í Pernambuco í Pedro Almeida þreyttur á langvarandi árekstrum við Palmares og kom til foringja þeirra Ganga Zumba með ólífugrein. Almeida bauð að allir flóttaþrælar fengju frelsi ef Palmares gengi Portúgölum á hönd og leist Ganga Zumba vel á þá samninga. En Zumbi treysti ekki Portúgölum og neitaði að þiggja frelsi fyrir fólkið í Palmares á meðan aðrir Afríkumenn væru ennþá þrælar. Hann sór þess heit að halda áfram andspyrnu við nýlenduveldi Portúgala og varð hinn nýi leiðtogi Palmares. Zumbi ríkti í Palmares í fimmtán ár en þá var gerð árás á Quilombo-búðirnar í Palmares. Þann 6. febrúar 1694 var Cerca do Macaco, sem var aðalbyggðin og miðstöð Palmares, jöfnuð við jörðu. Zumbi gat flúið og sveit hans hélt áfram andspyrnu í næstum tvö ár en fundu portúgalar dvalarstað hans eftir ábendingu frá uppljóstrara sem var lofað að halda lífi ef hann bendi á dvalarstaðinn. Zumbi var handtekinn og hálshöggvinn 20. nóvember 1695. Portúgalar fluttu höfuð Zumbi til Recife þar sem það var haft til sýnis á aðaltorginu til brjóta niður baráttuþrek og þá goðsögn sem gekk meðal afríkskra þræla að Zumbi væri ódauðlegur. Afkomendur þeirra sem bjuggu í Quilombo höfðust við í héraðinu í hundrað ár í viðbót. Dagurinn 20. nóvember er haldinn hátíðlegur í Brasilíu sem dagur afrískrar-brasíliskrar vitundar og Zumbi er hetja og frelsistákn afkomenda afríkumanna í Brasilíu og þjóðhetja í Brasilíu. Kjötkveðjuhátíðin í Ríó. Kjötkveðjuhátíðin í Ríó er kjötkveðjuhátíð sem haldin er á hverju ári og dregur að sér yfir hálfa milljón gesti. Hátíðin sjálf stendur í nokkra daga en undirbúningu í langan tíma í sambaskólum sem keppa um besta. Hátíðin er runnið upp úr kaþólskum hefðum, kjötbindindi sem hófst á öskudegi. Þegar Brasilía var portúgölsk nýlenda tíðkuðust götukarnival þar sem svörtum pipar, eggjum, kolum, vatni og fleiru hent í fólk en það karnival varð með tímanum fágaðra og um miðja 19. öld var fólk farið að henda ilmvatnskúlum, sítrónuilmpokum og brauði. Undir lok 20. aldar eru grímur og grímuböll tekin upp og skrautvagnar keyra um götur og á götum er dansaður evrópski dansinn polki. Í upphafi 20. aldar rann polkinn saman við dans frá afkomendum þræla frá Vestur-Afríku og úr varð samba sem er danstaktur og eitt aðaleinkenni kjötkveðjuhátíðarinnar í Ríó. Árlega voru samdir sambasöngvar sem voru þjóðfélagsgagnrýni og sögur um menn og málefni. Snemma á 20 öld voru stofnaðir sambaskólar sem undirbúa ljóðabálka fyrir hátíðina, tengjast einhverju málefni, skapa danshreyfingar fyrir dansara og takta fyrir ásláttarsveitina og bar fánadrottning og fánadrottning og kóngur fána skólans og setja upp skrautvagna sem skreyttir eru miðað við þema ljóðabálksins. Karnivalið í Ríó var tekið af götunum og sett á sérstakan sýningstað, Sambódrómo höll sem byggð var árið 1984 og eru þar stórir áhorfendapallar sitt hvoru megin við stóra breiðgötu og eftir þessari götu fara sýningarlið sambaskólanna. Í hverjum sambaskóla er mörg þúsund manna sýningarlið og hefur hver skóli 90 mínútur. Skólinn fær stig fyrir frammistöðu sína. Sýningin stendur alla nóttina og sjónvarpið er með beina útsendingu. Húsagatilskipunin. Húsagatilskipunin eða "Anordning om Hustugt paa Island". var gefin út 3. júní 1746 og birt á Alþingi 1747. Íslensk þýðing hennar staðfest af Halldóri Brynjólfssyni Staðarstað 6. ágúst 1746 var prentuð á Hólum 1746 og öðru sinni árið 1749. Titill hennar er Tilskipan um húsagann á Íslandi. Listi yfir fylki í Brasilíu eftir fólksfjölda. Það eru 26 fylki í Brasilíu eða "Estados" eins og þau heita á portúgölsku en til viðbótar er "Distrito Federal" eða stjórnsýslufylkið þar sem í er höfuðborgin Brasilia. Hér er listi yfir fylkin eftir þéttleika byggðar og er byggðin þéttust í höfuðborginni en dreifðust í fylkinu Roraima. Tölurnar eru byggðar á manntali árið 2000. Fylki í Brasilíu eftir þéttleika byggðar árið 2000. Sonus Futurae. Sonus Futurae var íslensk tölvupopphljómsveit sem starfaði á árunum 1982 til 1987. Stofnendur voru Jón Gústafsson söngvari, Kristinn R. Þórisson gítarleikari og Þorsteinn Jónsson hljómborðsleikari. Þeir gáfu aðeins út eina sex laga breiðskífu, "Þeir sletta skyrinu", árið 1982. Tvö lög af plötunni, „Myndbandið“ og „Skyr með rjóma“, náðu töluverðum vinsældum. Árið 1983 hætti Jón og Hlynur Halldórsson og Ólafur Héðinn Friðjónsson tóku við. Árið 1985 átti hljómsveitinn annan smell, „Boy you must be crazy“ en árið eftir var upptökum sveitarinnar á tölvudiskum stolið úr Valhúsaskóla. Hljómsveitin átti eitt lag á safnplötunni "Vímulaus æska" sem Skífan gaf út árið 1987. Þorsteinn lék á sama tíma með hljómsveitinni Pax Vobis (1983-1986) og bæði hann og Kristinn léku með Geira Sæm og Hunangstunglinu 1987-1988. New York Draft Riots. Barátta á milli mótmælenda og hersins New York Draft Riots (13. – 16. júlí 1863) voru uppþot í New York-borg. Uppþotin voru viðbrögð verkamanna við nýjum lögum sem bandaríkjaþing samþykkti á meðan Bandaríska borgarastríðið stóð yfir. Uppþotin voru stærsta uppreisn borgara í sögu Bandaríkjanna. Forsetinn Abraham Lincoln senti herdeildir til borgarinnar til að yfirtaka borgina. Mótmælendurnir samanstóðu aðalega af vinnumönnum af írskum uppruna. Uppþotin sem voru upphaflega ætluð til að mótmæla drögunum urðu að kynþátta óreiðum þar sem hvítir mótmælendur réðust á svarta. 100 svartir íbúar voru drepnir í það minnsta. Aðstæðurnar voru slíkar í borginni að herforinginn John E. Wool sagði „Herlög ættu að vera í gildi, en ég hef ekki næganlegan mannskap til að framfylgja þeim.” Herinn náði ekki til borgarinnar fyrr en eftir fyrsta dag uppþotana þegar mótmælendur höfðu þegar rænt og eyðilagt fjölda opinberra bygginga. Erfðabreyttar lífverur. GloFish, sjállýsandi skrautfiskar voru fyrsta erfðabreyttu lífverurnar sem voru seldar sem gæludýr Erfðabreyttar lífverur eru lífverur þar sem erfðaefni hefur verið breytt með aðferðum erfðatækni. Erfðabreyttar lífverur geta verið allt frá örverum eins og bakteríum eða geri í jurtir, fiska og spendýr. Erfðabreyttar lífverur eru notaðar til að framleiða erfðabreytt matvæli en einnig í vísindatilraunum og til að framleiða aðrar vörur en matvæli. Beta-karótín. Beta-karótín er rauð-appelsínugult litarefni sem finnst í ýmsum matvælum eins og gulrótum og veldur appelsínugulum liti þeirra. Líkaminn getur breytt beta-karótíni í A vítamín. Kirkcaldy. Kirkcaldy er bær í Fife í Skotlandi, um 19km norðan við Edinborg og 44km suðsuðvestur af Dundee. Íbúafjöldi er um 50 þúsund. Bærinn er helst þekktur fyrir að vera fæðingarstaður hagfræðingsins Adam Smith. Fife. Kort sem sýnir Fife í Skotlandi Fife er söguleg sýsla á austurströnd Skotlands milli Firth of Tay og Firth of Forth. Fife skiptist áður í þrjú umdæmi: Dunfermline, Kirkcaldy og Glenrothes. Íbúar eru um 365 þúsund. Stærsti bærinn er Kirkcaldy með 50 þúsund íbúa. Frá því að ný lög um sveitarstjórnir í Skotlandi gengu í gildi árið 1996 er Fife svæðisráð með völd sveitarstjórnar í umdæmunum þremur en hvert umdæmi er með eigin svæðisnefnd. Kódein. Kódein er opíumalkalóíð, náskylt morfíni, unnið úr ópíumvalmúa. Kódein er aðallega notað sem verkjalyf, gjarnan með parasetamóli, en má einnig nota gegn niðurgangi og hósta. Hætta er á ávanamyndun. Hreppstjórainstrúxið. Instrúx fyrir hreppstjórnarmenn á íslandi. Eptir konúnglegri allranáðugustu skipun þann 21. Julii 1808 samið, og hlutaðeigendum til eptirbreytni útgefið þann 24. Novembr. 1809 af íslands amta-yfirvöldum. Prentað á opinberan kostnað að Leirárgörðum 1810. Lubok. Mýsnar jarða köttinn, lubok mynd frá um 1725. Lubok eða lubti er rússneskt fjölprent og alþýðulist sem einkennist af einföldum teikningum og myndskreyttum sögum sem sóttar eru í bókmenntir, trú og vinsælar flökkusögur. Lubti var notað sem skraut í húsum og krám. Elstu lubok voru tréristur. Stundum voru myndskreytingar með textum í tímaröð og eru þannig lubok undanfarar teiknimyndasögu nútímans. Rússneska orðið lubok kemur frá lub en það voru sértök spjöld sem myndirnar voru prentaðar á. Rússneskt lubki urðu vinsæl á seinni helmingi 18. aldar. Þau voru seld á markaðstorgum og voru ódýr leið fyrir alþýðufólk til að prýða heimili sín með fjöldaframleiddri list. Koffort. Koffort er stór kista úr tré sem notuð var til að flytja í og geyma vörur og fatnað. Koffort voru oft máluð og lokið á þeim var kassalok. Þau voru notuð sem bekkur til að sitja á. Katla María. Katla María (Katla María Hausmann) (f. 28. júní 1969) er íslensk/spænsk söngkona. Hún söng inn á nokkrar hljómplötur og var barnastjarna á Íslandi á árunum í kring um 1980. Eurovision. Katla María hefur tvisvar sinnum keppt í íslensku undankeppninni fyrir Eurovision-söngvakeppnina. Árið 1989 söng hún lagið "Sóley" ásamt Björgvin Halldórssyni og lenti í fjórða sæti í keppninni. Árið 1993 söng hún lagið "Samba", sem lenti í níunda sæti. Skildingavísa. Skildingavísa eða ballöðublað er fjölprent sem prentað var á öðru megin á ódýran pappír. Ballöðublöð eða blöð með fréttum og rími voru eitt algengasta prentform frá 17. til byrjunar 20. aldar í Bretlandi, Írlandi og Norður-Ameríku. Í Danmörku voru slík prent kölluð skildingavísa (d. "skillingsvise") og var vísan vanalega prentuð á fjórar síður með forsíðumynd sem var í fyrstu trérista en síðar meir (á 20. öld) oft ljósmynd. Margar skildingavísur eða ballöðublöð fjalla um morð, ástir og hermenn. Skildingavísur voru fyrri tíma slúðurfréttamennska. Oftast var vísan skrifuð við lag sem fólk þekkti og sem hægt var að syngja. Elsta varðveitta danska skildingavísan er frá 1530. Elstu skildingavísurnar voru handskrifaðar í takmörkuðu upplagi en eftir því sem prent varð vinsælla þá var hægt að fjöldaframleiða þær í stóru upplagi. Farandsalar seldu skildingavísur úti í sveitum en í bæjum voru þær seldar af börnum og vísnakerlingum sem gengu um götur og stræti og sungu eða hrópuðu upp vísurnar til að reyna að selja prentuðu útgáfuna. Þessi sala var bönnuð í Danmörku frá 18. september 1805 og skyldu brot varða þriggja mánaða vist í betrunarhúsi. Vísnakerlingarnar keyptu vísurnar á einn skilding og seldu á tvo skildinga. Íþróttasamband Reykjavíkur. Íþróttasamband Reykjavíkur var stofnað 12. september 1910 af átta íþrótta- og ungmennafélögum í Reykjavík. Megintilgangurinn var að standa að gerð Íþróttavallarins á Melunum sem tekinn var í notkun árið eftir. Þegar nýr íþróttavöllur, Melavöllurinn var reistur á vegum bæjarins árið 1926 var Íþróttasambandið lagt niður. Það telst þó vera forveri Íþróttabandalags Reykjavíkur. Skildingur. Skildingur getur átt við fjölda gjaldmiðla og mynteininga bæði fyrrverandi og núverandi. Núverandi gjaldmiðlar. Í dag eru fjögur lönd þar sem gjaldmiðill sem heitir "skildingur" er í notkun. Hertford. Hertford (borið fram eða) er höfuðstaður sýslunnar Hertfordshire í Englandi. Árið 2001 var mannfjöldi þar 24.180 manns. Nafnið á engilsaxneskar rætur og þýðir „vaðið þar sem hirtir eru“. Bærinn liggur 35 km frá London og margir bæjarbúar ferðast til og frá London vegna vinnu. Lestir ganga beint frá bænum til Charing Cross. Myndvarpi. Myndvarpi er tæki sem notað er til þess að varpa glæru upp á vegg eða hvítt tjald. Myndvarpar eru oftast settir saman úr stórum kassa með lampa og viftu til þess að kæla hann. Á kassanum er stór Fresnel-linsa sem stillir ljósið. Á stöng fyrir ofan kassanum er spegill og linsa sem beina ljósinu fram í staðinn fyrir upp. Oft er hægt að stilla linsuna til þess að stækka myndina eða beinir ljósinu betur. Myndvarpar voru algengir í skrifstofum og skólum fyrir uppfinningu skjávarpans en í dag er skjávarpinn ásamt gagnvirku töflunni búinn að leysa myndvarpann af hólmi í flestum tilfellum. Gagnvirk tafla. Gagnvirk tafla (einnig smarttafla eða sjaldan snjalltafla) er stór gagnvirkur skjár sem tengist við tölvu og skjávarpa. Skjávarpinn varpar mynd úr tölvunni upp á yfirborð töflunnar en notendur stjórna tölvunni með því að snerta töfluna með penna, fingri eða stíl. Taflan er oftast hengd á vegg eða á standi. Gagnvirkar töflur er að finna í ýmsum umhverfum, meðal annars í skólum og skrifstofum. Í nokkrum löndum er gagnvirkar töflur víða að finna í skólastofum, til dæmis voru þær uppsettar í 26 % af öllum kennslustofum í breskum skólum árið 2004. Fyrir árið 2011 hafði þessi tala hækkað upp í 98 %. Til samanburðar frá og með árið 2009 voru gagnvirkar tölfur uppsettar í um það bil 70–80 íslenskum skólum. Pressa (1. þáttaröð). Fyrsta þáttaröðin af "Pressa" var frumsýnd 30. desember 2007 og sýndir voru alls sex þættir. Wikimál. Wikimál er einfalt ívafsmál sem notað er á wikivefjum, t.d. á Wikipediu, og er ætlað til þess að vera einfaldara í notkun en HTML. Wikihugbúnaðurinn umbreytir svo texta sem skrifaður er með wikimáli yfir í HTML til birtingar á vefnum. Wikimál er ekki eitt staðlað mál heldur fer það eftir gerð wikihugbúnaðar sem notast er við á tilteknum vef hvernig textinn er merktur. Öll wikimál sjá fyrir einfaldri leið til þess að búa til tengla á milli síða á sama vef. Sumir wikivefir, sér í lagi þeir elstu, hafa notað CamelCase til þess að tengja á milli síða en í MediaWiki-hugbúnaðinum var byrjað að notast við hornklofa …. Venjulega er hægt að notast við HTML að einhverju leyti í bland við wikimál á wikivefjum en það er misjafnt hvaða HTML merkingar eru leyfðar. Norður-Lanarkshire. Kort sem sýnir North Lanarkshire í Skotlandi Norður-Lanarkshire (enska: "North Lanarkshire", skoska: "North Lanrikshire", gelíska: "Siorrachd Lannraig a Tuath") er sveitarfélag í miðju Skotlandi sem nær yfir hluta af sögulegu sýslunum Lanarkshire, Dunbartonshire og Stirlingshire. Sveitarfélagið er norðaustan við Glasgow og nær yfir hluta af úthverfum borgarinnar. Íbúafjöldi er um 325 þúsund. Stærstu bæir eru Cumbernauld, Coatbridge, Airdrie, Motherwell, Wishaw, Bellshill og Kilsyth. Suður-Lanarkshire. Kort sem sýnir South Lanarkshire í Skotlandi Suður-Lanarkshire (enska: "South Lanarkshire", skoska: "Sooth Lanrikshire", gelíska: "Siorrachd Lannraig a Deas") er sveitarfélag í miðju Skotlandi sem nær yfir suðurhluta sögulegu sýslunnar Lanarkshire. Sveitarfélagið er suðaustan við Glasgow og nær yfir hluta af úthverfum borgarinnar. Íbúar eru um 312 þúsund. Stærstu bæir eru Hamilton, Lanark, Strathaven, Carluke, Rutherglen, Cambuslang og East Kilbride. Astérix chez Rahàzade. Astérix chez Rahàzade (íslenska: "Ástríkur og töfrateppið") er belgísk teiknimyndasaga og 28. bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1987, en birtist einnig sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote sama ár. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði, var þetta síðasta saga Goscinny í bókaflokknum. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst skömmu eftir að ævintýrinu um Ástrík og son lýkur. Rómverskir hermenn hafa nýlokið endurbyggingu Gaulverjabæjar. Óðríkur algaula syngur hástöfum, með þeim afleiðingum að helliregn skellur á. Indverskur fakír birtist snögglega á fljúgandi töfrateppi. Hann segist kominn frá konungsveldi á Indlandi sem stríði við langvinna þurrka. Illur stórvesír hyggist nota úrkomuleysið til að fá konungsdótturina fögru "Rahàzade" líflátna og sölsa undir sig völdin. Ástríkur, Steinríkur og Óðríkur halda ásamt fakírnum í austurveg með það fyrir augum að skáldið framkalli rigningu með söng sínum. Þeir lenda í ýmsum erfiðleikum á leiðinni en komast að lokum á áfangastað. Þar reynist Óðríkur hafa misst röddina og útsendarar stórvesírsins reyna að koma honum fyrir kattarnef. Rétt í þá mund sem til stendur að hálshöggva prinsessuna endurheimtir Óðríkur röddina og uns himnarnir gráta. Eden Hazard. Eden Hazard (fæddur 7. janúar 1991) er belgískur knattspyrnumaður sem spilar með Chelsea F.C. eftir að hafa verið seldur frá franska félaginu Lille OSC. Hazard er fjölhæfur leikmaður, sem getur spilað sem leikstjórnandi á miðjunni, sem og á báðum vængjum vallarins. Hazard, Eden Xavi. Xavi Hernández Creus (fæddur 25. janúar 1980) er spænskur knattspyrnumaður. Hann spilar sem miðjumaður fyrir FC Barcelona og landslið Spánar. Creus, Xavi Hernández Xabi Alonso. Xabi Alonso (fæddur 25. nóvember 1981) er spænskur knattspyrnumaður. Hann spilar sem miðjumaður fyrir Real Madrid og landslið Spánar. Alonso, Xabi Mikel Arteta. Mikel Arteta (fæddur 26. mars 1982) er spænskur knattspyrnumaður. Hann spilar sem miðjumaður fyrir Arsenal og landslið Spánar. Arteta, Mikel Vincent Kompany. Vincent Kompany (fæddur 10. apríl 1986) er belgískur knattspyrnumaður sem leikur í stöðu varnarmanns hjá enska úrvalsdeilarliðinu Manchester City og belgískur landsliðinu. Hann byrjaði atvinnuferill sinn hjá belgískur félaginu Anderlecht. Kompany, Vincent Stríðsárin á Íslandi. Stríðsárin á Íslandi (oft aðeins Stríðsárin) á við árin 1939–1945 í sögu Íslands, þegar seinni heimsstyrjöldin geysaði. Þau eru mikilvægur þáttur í sögu landsins á 20. öld. Hernám Breta 1940 olli miklu umróti í samfélaginu og varanlegum breytingum, t.d. í atvinnuháttum og búsetu. Samskipti hermannanna við íslenskar konur leiddu til "ástandsins" og margir sjómenn féllu við störf eftir árásir Þýska hersins. Hernámið. Landið var hernumið af Breska hernum 1940, en um ári síðar tók Bandaríkjaher við vörnum landsins. 3G. 3G (stendur fyrir "third generation") á við þriðju kynslóð þráðlausrar samskiptatækni. 3G er fjöldi opinna staðla notaður fyrir farsímatæki og farsímafjarskipti. Staðlarnir fara eftir skilyrðum tilgreindum af Alþjóðafjarskiptasambandinu. 3G-tækni gerir manni kleift að hringja í annaðhvort raddsímtal eða myndsímtal, nota internetið og horfa á sjónvarp hvar sem samband er. 3G-net og þjónustur er að finna í mörgum löndum en enn er nýrri tækni komin í notkun, 4G. Kristin Chenoweth. Kristin Chenoweth (fædd Kristin Dawn Chenoweth 24. júlí 1968) er bandarísk leikkona og söngkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í söngleikjunum "You're a Good Man, Charlie Brown" og Wicked. Þekktustu hlutverk hennar í sjónvarpi eru The West Wing og Pushing Daisies. Einkalíf. Chenoweth fæddist í Broken Arrow, Oklahoma og var ættleidd aðeins fimm daga gömul. Chenoweth byrjaði ung að koma fram sem söngvari í kirkjum þar sem hún söng gospellög. Útskrifaðist hún með BFA gráðu í söngleik frá "Oklahoma City háskólanum" og síðan MA gráðu í óperuleik frá sama skóla. Á meðan hún var í námi þá tók hún þátt í fegurðarsamkeppnum og vann titilinn "Miss OCU" og var önnur í röðinni fyrir "Miss Oklahoma" keppninni árið 1991. Chenoweth tók þátt í mörgum söngvakeppnum og var nefnd "upprennandi söngvari" af Metropolitan Opera áheyrnarnefndinni og í verðlaun fékk hún skólastyrk við "Academy of Vocal Arts" í Fíladelfíu árið 1993. Tveimur vikum áður en skólinn byrjaði, fór hún til New York-borgar að aðstoða vin sinn við flutning. Á meðan hún var þar tók hún þátt í áheyrnarprufu fyrir leikritið "Animal Crackers" og fékk hlutverk Arabella Rittenhouse. Ákvað hún að afþakka skólastyrkinn og flytja í staðinn til New York í þeim tilgangi að vinna við söngleiki. Chenoweth þjáist af "Meniere-sjúkdómnum" eða völdunarsvima. Sjúkdómurinn á uppruna sinn í innra eyranu og getur orsakað höfuðverki, svima, uppköst og lélega heyrn. Hefur hún sagt að á tónleikum hefur hún þurft að styðjast við samtónlistarmenn sína til að halda jafnvægi og hefur þurft að sleppa við sýningar. Rithöfundur. Chenoweth gaf út ævisöguna sína "A Little Bit Wicked: Life, Love, and Faith in Stages" árið 2009. Tónlist. Chenoweth söng inn á hljóðupptöku ásamt samleikurum sínum í "The Most Happy Fella", "A New Brain" "You're a Good Man" og "Charlie Brown". Söng hún inn á plötuna "Kidults" með Mandy Patinkin árið 2001. Árið 2001 gaf Chenoweth út fyrstu sólóplötuna sína "Let Yourself Go" og síðan þá hefur hún gefið út plötur á borð við "A Lovely Way To Spend Christmas", "Promises, Promises" og "Some Lessons Learned". Leikhús. Fyrsta leikhúshlutverk Chenoweth var árið 1993 í leikritinu "Animal Crackers" þar sem hún lék Arabellu Rittenhouse. Hefur hún síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Epic Proportions", "Scapin", "A New Brain" og "Love, Loss, and What I Wore". Chenoweth er þekktust fyrir hlutverk sín í söngleikjum á borð við Wicked, "The Apple Tree" og "You´er a Good Man, Charlie Brown". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Chenoweth var árið 1999 í þættinum "LateLine". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Frasier, "Fillmore", Ugly Betty og Hot in Cleveland. Árið 2004 þá var henni boðið hlutverk í The West Wing sem Annabeth Schott sem hún lék til ársins 2006. Chenoweth lék síðan eitt af aðalhlutverkunum í Pushing Daisies sem Olive Snook sem hún lék frá 2007 – 2009. Hefur hún verið með stór gestahlutverk í Glee og The Good Wife. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Chenoweth var árið 2002 í "Topa Topa Bluffs". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við The Pink Panther, "Running with Scissors", "Four Christmases" og "Hit and Run". Tenglar. Chenoweth, Kristin Tonkabaunir. Tonkabaunir (fræðiheiti: "Dipteryx odorata") eru fræ af tré sem kallað er kumaru og upprunnið er í Suður-Ameríku. Kumaru er einnig kallað brasilískt tekk og er vinsæll harðviður í gólfefni vegna litabrigða og hversu harður viðurinn er. Tonkabaunir eru svartar og krumpaðar að utan en brúnar og sléttar að innan. Ilmur þeirra minnir á vanillu, möndlur, kanil og nellikur. Tréð verður 25-30 m hátt og trábolurinn um einn metra í þvermál. Börkur kumaru trésins er grár og sléttur en viðurinn rauður. Laufblöðin eru leðurkennd, glansandi og dökkgræn. Blómin eru bleik og þroskar hvert einn ávöxt sem í er eitt fræ. Tonkafræin innihalda efnið coumarin en það efni veldur því að fræin ilma. Efnið coumarin er notað í ilmvatnsgerð. Það er beiskt á bragðið og getur í stórum skömmtum valdið innvortis blæðingum og lifrarskemmdum og lamað hjartað. Talið er að kumaru tré geti orðið yfir 1000 ára gömul. Tonkabaunir eru notað í stað vanillu, sem ilmefni og var blandaðar í tóbak en það er núna sums staðar bannað. Tonkabaunir eru notaðar í franskri matargerðarlist, sérstaklega í ábætisréttum og seyðum en og í ilmvötn. Aðalframleiðslulönd eru Nígería og Venesúela. Vanilla. Vanilla er bragðefni sem kemur úr orkídeum af Vanilluætt, aðallega úr mexíkönskum tegundum ("Vanilla planifolia"). Þjóðir í Mesóameríka unnu vín sem Astekar nefndu tlilxochitl úr vanillu orkídeum. Hernán Cortés er talinn hafa kynnt vanillu og súkkulaði fyrir Evrópubúum um 1520. Þegar Spánverjar tóku Montezuma til fanga sá einn af herforingjum Cortes hann drekka „chocolatl“ en það var drykkur gerður úr möluðum kakóbaunum og möluðu hveiti bragðbætt með möluðum vanillubelgjum og hunangi. Þegar til Evrópu kom varð vanilla fyrst vinsælli en súkkulaði og um 1700 hafði notkun hennar breiðst út um alla Evrópu. Í þrjár aldir var Mexíkó aðalframleiðsluland vanillu. Það mistókst í fyrstu tilraunum að rækta vanilluorkídeur utan Mexíkó og Mið-Ameríku vegna þess að orkídean var háð frjóvgun frá staðbundinni býflugnategund. Árið 1837 uppgötvaði grasafræðingurinn Charles François Antoine Morren þetta samspil og fann aðferð til að frjóvga jurtina en sú aðferð reyndist of kostnaðarsöm og erfið. Árið 1841 fann tólf ára piltur Edmond Albius sem var þræll í frönsku nýlendunni Réunion í Indlandshafi út aðferð til að handfrjóvga plöntuna. Þessi aðferð gerði það að verkum að mögulegt var að rækta vanillu víða um heim. Edmond Albius. Mynd af Edmond Albius, um 1863 Edmond Albius (1829 – 9. ágúst 1880) er þekktur fyrir að hann fann upp tækni til að handfrjóvga vanillu á auðveldan hátt. Edmond var tólf ára þegar hann fann þessa aðferð og var þræll á eyjunni Réunion. Þessi aðferð gerði kleift að rækta vanillu annars staðar en í Mexíkó. Árið 1841 uppgötvaði Edmond Albius hvernig mætti handfrjóvga vanilluorkídeu með þunnri spýtu eða graslaufi og með að nota þumal. Aðferð hans er enn þá notuð og eru núna næstum allar vanilluorkídeur handfrjóvgaðar. Þessi uppgötvun varð til þess að Réunion varð á þeim tíma stærsti framleiðandi vanillu. Franskir nýlenduherrar hófu svo vanilluræktun með þessari tækni á Madagaskar og er þar nú stærsti framleiðandi vanillu. Frakkland afnám þrælahald í nýlendum sínum árið 1848 og þá fór Admond Albius frá plantekrunni til St. Denis og þar vann hann í eldhúsi. Hann var sakfelldur fyrir að stela skartgripum og dæmdur í tíu ára fangelsi en náðaður af ríkisstjóranum vegna framlags síns varðandi vanillurækt á Réunion. Edmond Albuis dó í örbirgð árið 1880 í St. Suzanne. Karlsbrúin (Prag). Karlsbrúin yfir Moldá. Horft til gömlu borgarinnar (Stáre Město) frá hverfinu Malá Strana. Karlsbrúin er einkennisbygging borgarinnar í Prag í Tékklandi. Hún er elsta nústandandi brú yfir fljótið Moldá og ein elsta steinbrú Evrópu. Brúin tengir miðborgina við kastalahæðina (Hradžin) og er gífurlega vinsæl meðal ferðamanna. Fyrirrennarar. Fyrstu heimildir um brú á þessum stað eru frá 10. öld og er þá um trébrú að ræða. Hún eyðilagðist í flóði 1157 eða 58. Fyrsta steinbrúin var smíðuð á staðnum milli 1158 og 1170 og hét Júdítbrúin (Juditin most). Brúin skartaði turnum við sitthvort endann. En 1342 skemmdist hún í miklu flóði, ásamt öðrum turninum (austurturninum). Allt sem eftir stóð var vesturturninn og örfáir brúarsporðar í Moldá. Nýsmíði. Verkframkvæmdir nýju brúarinnar hófust 9. júní 1357. Það var Karl IV keisari (og konungur Bæheims) sem lagði fyrsta steininn kl. 5:31. Þegar dags- og tímasetningin eru tölusett kemur út 1-3-5-7-9-7-5-3-1. Óvíst er hver arkítekt brúarinnar var en framkvæmdum stjórnaði Þjóðverjinn Peter Parler. Fyrirmyndin var steinbrúin í Regensburg í Bæjaralandi. Karlsbrúin var 516 m löng og 10 m breið. Yfir ána voru settir 16 steinbogar. Nýr turn var reistur á austurbakkanum, en báðir turnar voru með hliði sem vegfarendur urðu að fara í gegnum. Framkvæmdum lauk 1402 og hlaut brúin heitið Steinbrúin (Kamenný most) eða Pragbrúin (Pražský most). Brúin var gríðarlega mikil samgöngubót fyrir Prag, enda var Pragbrúin eina brúin yfir Moldá. Varðliðar voru settir hvor við sinn endann (Krossherrar með rauðu stjörnuna) sem stjórnuðu umferð um brúna. Skemmdir og breytingar. Flóðið mikla 1872 sem eyðilagði hluta brúarinnar Fyrstu skemmdir á brúnni urðu 1432 af völdum flóða. Meðan 30 ára stríðið geysaði á 17. öld tóku Svíar vestari brúarendann. Miklir bardagar urðu á brúnni sjálfri er þeir reyndu að komast yfir á austurbakkann. Þessu fylgdu miklar skemmdir. Mestu breytingar sem gerðar voru á brúnni fóru fram um aldamótin 1700. Þá voru 30 stórar styttur reistar á brúnni, 15 hvorum megin við handriðið. 1870 fóru formleg nafnskipti fram en framvegis hét hún Karlsbrúin (Karlův most) eftir Karl IV keisara. 1872/74 skemmdust fimm brúarsporðar vegna íss í Moldá. 1883 var byrjað að hleypa strætisvagni dreginn af hestum yfir brúna. 1890 rákust trjádrumbar í flóði á brúarsporða og eyðilögðu þá. Þrjú gólf hrundu. Viðgerðir tóku tvö ár. 1905 hóf sporvagn að ganga yfir brúna en hann var leystur af af reglulegum strætisvögnum þremur árum síðar. Karlsbrúin slapp við skemmdir í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Milli 1965-78 fór fram viðamikil viðhaldsvinna á brúnni. Þegar henni lauk var lokað á alla vélknúna umferð um brúna. Eftirleiðis var Karlsbrúin eingöngu opin fyrir fótgangandi vegfarendur. Síðast var unnið að viðhaldi á brúnni 2007 – 2011. Í það skiptið hlaut vinnan mikla gagnrýni þar sem verktakafyrirtækið uppfyllti ekki hæfniskröfur. Mistök voru gerði í vinnunni, sem leiddi til þess húsfriðunarnefnd sektaði borgina um 130 þúsund evrur. Heimsminjaskrá UNESCO rannsakaði málið sömuleiðis, enda brúin á heimsminjaskránni. Borgarahreyfing stóð fyrir undirskriftum um að leyfa brúnni að vera eins og hún var áður en vinnan hófst. Í nóvember 2011 var rafmagnsluktunum breytt, þannig að núna eru þær gasluktir. Austurturninn. Turninn við austurenda Karlsbrúarinnar, við gömlu borgina (Stare Mesto) reis 1370-80 og er í gotneskum stíl. Hann hefur staðið nær óbreyttur í gegnum aldirnar til dagsins í dag. Á turninum eru tvö skjaldarmerki, eitt af keisara þýska ríkisins og eitt af konungi Bæheims. Auk þess eru tvær stórar styttur, ein af Karli IV keisara og hin af Wenzel IV son hans. Ofar eru styttur af heilögum Aðalberti og heilögum Sigmundi. Allt þetta skraut er á austurhlið turnsins (sem snýr að miðborginni). Á vesturhliðinni er nær ekkert, enda eyðilagðist allt er Svíar börðust um brúna í lok 30. ára stríðsins. Eftir að mótmælendur hentu fulltrúum keisarans út um glugga á konungshöllinni 1618, voru þeir handteknir og hálshöggnir. Höfuð þeirra voru fest upp á austurturninn og fengu að hanga þar í heil tíu ár, frá 1621-31. Turninn er opinn almeningi en efst er útsýnispallur. Vesturturninn. Vesturturninn stendur við borgarhverfið Malá Strana fyrir neðan kastalahæðina. Turninn var smíðaður samtímis Júdítbrúnni, um miðja 12. öld. Meðan Karlsbrúin var í byggingu var honum óverulega breytt en hann er í rómönskum stíl. 1591 var honum breytt í endurreisnarstíl. Turn þessi er talsvert minni en vesturturninn og ekki eins veglega skreyttur. Svíar náðu valdi yfir turninum í lok 30 ára stríðsins og skemmdist hann nokkuð í bardögum. Stytturnar. 30 styttur eru á brúargólfi Karlsbrúarinnar, 15 sitthvoru megin. Þær eru aðallega af dýrlingum. Upphaflega var engin stytta á brúnni þegar hún var tekin í notkun 1402. Árið 1629 var kross reistur en fyrstu stytturnar voru settar á 1707. Eftir það var styttum hægt og hægt bætt við þar til þær voru orðnar 30 að tölu. Þegar viðgerðarvinna var í gangi 1965 – 1978 var öllum styttum komið fyrir í þjóðarsafninu í Prag en eftirmyndir settar upp í staðin. Suðurhlið. Jóhannes frá Maþa, Felix frá Valois, Ívan Norðurhlið. Madonna, Dóminíkus, Tómas af Aquino Jesús, María mey, Jóhannes postuli Norbert frá Xanten, Wenceslás, Sigmundur OS X. OS X (áður Mac OS X) er nýjasta kynslóð Mac OS stýrikerfisins frá Apple Inc.. Stýrikerfið kom á markað árið 2001 en þá var Mac OS X Server þegar í nokkurri notkun. OS X er annað Unix-lega stýrikerfi Apple Inc.. Það fyrsta var UX kerfið sem Apple þróaði snemma á tíunda áratugnum til að keyra á netþjónum sem fyrirtækið framleiddi, það átti líka hlut í þróun MkLinux en það kerfi keyrði aldrei á vélum seldum frá fyrirtækinu. Uppbygging. Apple hefur yfirumsjón með þróun kerfisins, en hlutar þess koma úr fjölmörgum áttum. Meðal annars er allnokkuð notað úr FreeBSD, NetBSD, OpenBSD og GNU kerfinu á "Unix"-hliðinni en margt er ættað úr NeXTSTEP og svo vitaskuld úr eldri útgáfum Mac OS. XNU. Kjarni OS X, XNU, er blendingskjarni eða breyttur örkjarni byggður á nokkurs konar samsuðu Mach kjarnans frá Carnegie–Mellon háskóla og FreeBSD kjarnans, Mach hlutinn sér meðal annars um verndað minni, sýniminni umsjón með keyrðum forritum ofl. á meðan BSD ættaði hlutinn sér um netkerfið, sýniskráarkerfið ofl. Darwin. Darwin er grunnur OS X og er byggður að mestu leiti á FreeBSD og Mach. Það er gefið út sem frjáls hugbúnaður af Apple Inc. Ýmsir hlutar kerfisins eru fengnir úr öðrum kerfum og þá aðallega BSD-kerfum og GNU. Darwin er hægt að keyra sjálfstætt á fleiri örgjörvum en PPC-örgjörvunum sem Apple notast við í Macintosh-tölvur sínar, eins og t.d. Intel-örgjörvum. Darwin keyrir svo undir örkjarna sem heitir XNU ("XNU is not Unix"). Aqua. Notendaviðmót OS X byggir á Aqua. Flestir notendur kerfisins nota nær eingöngu Aqua við sín störf. Íslenskt mál í OS X. Mac OS X 10.3.8 á Íslensku Snemma kom í ljós að stuðningur OS X við íslenskt mál var ekki eins og best var á kosið og var það rakið til þess að með tilkomu Mac OS X var farið að nota 8 bita Unicode stafatöflu í stað MacRoman og MacIcelandic stafataflanna sem höfðu verið ríkjandi áður. Þetta olli þeim sem nota íslenskan texta í ýmsum hugbúnaði sem studdi ekki enn Unicode en keyrði þó á Mac OS X nokkrum vandræðum en áður höfðu þeir sem notuðu íslenskt mál á fyrri kerfum þurft að snurfusa kerfið til á ýmsan hátt til að gera sér auðvelt fyrir. Íslenskustuðningur. Humac ehf. (Apple IMC á Íslandi) brást við þessum vandamálum með því að gefa út viðbót sem látin var fylgja með og var kölluð "íslenskustuðningur" og lagaði hluta þeirra vandamála sem höfðu skapast vegna skiptingarinnar yfir í nýja stafatöflu. Með útgáfu 10.4 hefur þetta vandamál verið lagað að stórum hluta. Íslensk þýðing. Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2004 eftir að uppfærsla í útgáfu 10.3.8 var gefin út gaf Öflun ehf. út íslenska þýðingu á ýmsum hlutum kerfisins; Finder, Mail, Kerfisstillingum og iChat, en þýðingin fylgdi með íslenskustuðningnum. Orðsifjar. Bókstafurinn X í nafninu stendur fyrir töluna 10 í rómverska talnakerfinu og því er er stýrikerfið oft nefnt annað hvort "OS ex" eða "OS tíu" en það er oft kallað "tían" í daglegu tali. Stilkormar. Stilkormar (fræðiheiti: "entoprocta") eru fylking dýra sem hefst við í vatni, langflestar tegundur í hafinu. Stilkormar eru 0,1 til 7 mm langir og flestir geta ekki fært sig úr stað. Fullþroska stilkormar eru bikarlaga á tiltölulega löngum stilkum og hafa kórónu af gegnheilum örmum með smáum bifhárum sem sópa vatni að munninum en ormarnir nærast á smáum fæðuögnum sem þeir sía úr vatninu. Bæði munnur og endaþarmur stilkorma er í kórónunni. Mosadýr ("ectoprocta") líkjast stilkormum en armar þeirra eru holir að innan og endaþarmurinn utan kórónunnar. Fræðiheiti fylkinganna þýða beinlínis „endaþarmur inn“ ("entoprocta") og „endaþarmur út“ ("ectoprocta"). 150 til 180 tegundir stilkorma eru þekktar og flestar eru þær sjávardýr utan tvær sem vitað er um sem hafast við í ferskvatni. Flestar tegundir hafast við í þyrpingum en af þeim tegundum sem eru einfarar geta sumar fært sig úr stað, en þó afar hægt. Stilkormar fjölga sér bæði með kynæxlun og með klónun. Ormarnir eru tvíkynja yfir æviskeið sitt en þó ekki af báðum kynjum samtímis heldur fyrst af öðru og síðar af hinu. Karlkyns stilkormar losa sæði út í vatnið en kvendýrin aðhafast misjafnlega eftir tegundum. Sumar tegundir losa ófrjóvguð egg sín út í vatnið en aðrar halda þeim í útungunarhólfum þar sem þau frjóvgast og eru geymd þar til þau klekjast. Sumar af þeim tegundum hafa líffæri sem svipar til legköku spendýra sem nærir eggin á meðan þau þroskast. Stilkormar klekjast sem lirfur og geta þá synt um í skamman tíma þar til þeir taka sér bólfestu á einhverju föstu yfirborði. Þar gangast lirfunar undir myndbreytingu þar sem aftari hluti meltingarvegarins snýst um 180° þannig að bæði munnur og endaþarmsop vísa í sömu átt. Sumar tegundir stilkorma geta fjölgað sér með klónun. Einfara tegundir geta þá af sér nýja einstaklinga sem vaxa á milli armanna en tegundir sem hafast við í þyrpingum klóna sig út frá stilkunum eða með renglum. Steingervingar stilkorma eru sjaldgæfir og elstu sýnishornin sem fundist hafa eru frá júratímabilinu. Í flestum rannsóknum frá 1996 og síðar hafa stilkormar verið taldir heyra undir yfirfylkinguna "trochozoa" sem inniheldur m.a.lindýr en rannsókn frá 2008 benti til þess að stilkormar væru náskyldir mosadýrum. Donna Leon. Donna Leon (fæddur 28. september 1942 í Montclaire, New Jersey) er bandarískur rithöfundur. Hún hefur búið í Feneyjum í 30 ár. Leon, Donna Mosadýr. Mosadýr (fræðiheiti: "Bryozoa", "Ectoprocta" eða "Polyzoa") eru fylking hryggleysingja sem lifa í vatni. Þau eru yfirleitt um 0,5 mm löng og nærast á fæðuögnum í vatni sem þau sía frá með kórónu af örmum með örsmáum bifhárum. Ein ætt mosadýra hefst eingöngu við í ferskvatni og nokkrar tegundir kjósa sér ísalt umhverfi en langflestar tegundir þeirra lifa í höfunum og finnast helst í hitabeltinu, en þau hafa þó líka fundist í djúpsjávarrennum og á heimskautunum. Rúmlega 4000 tegundir eru þekktar. Ein ættkvísl mosadýra lifir sem einstaklingar en annars lifa þau í þyrpingum. Í fyrstu var fræðiheiti þessarar fylkingar "Polyzoa" en það vék fyrir "Bryozoa" árið 1831. Í kjölfarið annar hópur dýra sem þóttu lík mosadýrunum, sérstaklega hvað varðar síunarbúnað þeirra, og voru þau dýr talin með undir "Bryozoa" fylkingunni þangað til 1869 þegar það uppgötvaðist að þessir hópar dýra voru ólík að innri gerð. Hópurinn sem uppgötvaðist síðar fékk þá fræðiheitið "Entoprocta" (stilkormar) en farið var að kalla mosadýrin "Ectoprocta". "Bryazoa" heitið hefur þó aldrei fallið úr notkun er notað jafnhliða "Ectoprocta". Einstaklingar í þyrpingum mosadýra eru ósjálfstæðar einingar ("zooid") í stærri heild þyrpingarinnar. Í öllum þyrpingum eru "hreyfanlegir" ("autozooid") einstaklingar sem eru sérhæfðir í fæðuöflun og þveiti fyrir þyrpinguna sem heild. Sumar ættir dýranna hafa sérhæfða einstaklinga sem t.d. sjá um að klekja út eggjum eða að verja þyrpinguna fyrir afræningjum. "Cheilostomata"-ætt mosadýra hefur mestan fjölda tegunda, mögulega vegna þess að sú ætt hefur gengið lengst í sérhæfingu einstaklinganna. Sumar tegundir geta fært sig úr stað með því að nota broddótt varnardýr sem fætur fyrir þyrpinguna. Þau dýr sem sjá um fæðuöflun koma næringarefnum til hinna dýranna um rásir í þyrpingunni. Á meðal ferskvatnstegunda mosadýra eru eru öll dýrin tvíkynja alla sína ævi. Margar sjávartegundanna er hins vegar þannig að dýrin eru fyrst karlkyns en kvenkyns síðar á ævinni. Allar tegundirnar losa sæði sitt út í vatnið en misjafnt er hvort að þær losi líka egg sín út í vatnið eða hvort að dýrin noti arma sína til þess að safna sæði og beina í því í innvortis hólf þar sem eggið er frjóvgað. Sumar tegundir mosadýr klekjast úr eggjunum sem feitar lirfur með góðan næringarforða sem finna sér fljótlega yfirborðsflöt til þess að festa sig við en aðrar tegundir hafa minni forða við klak og eyða lengri tíma í að synda á lifrustiginu og nærast áður en þær setjast varanlega. Allar lirfunar undirgangast algjöra myndbreytingu þar sem nánast allir líkamsvefir þeirra eru leystir upp og byggðir á ný í annari mynd. Ferskvatnsmosadýr hafa einnig sérstæða leið til þess að tryggja framtíð sína þó að aðstæður verði óhagstæðar í umhverfinu um stund. Sú leið felst í því að sleppa litlum kítín-hylkjum sem innihalda frumur foreldrisins í dvala. Ef eitthvað veldur því að þyrpingin þurrkast út, þá geta þessi hylki þraukað í erfiðum aðstæðum og opnast svo þegar betur árar. Þá vaxa upp af þeim ný mosadýr. Skeljar mosadýra hafa fundist í 490 milljón ára jarðlögum frá kambríumtímbilinu sem gerir þau að síðustu fylkingunni til þess að koma fram á sjónarsviðið þannig að það hafi skilið eftir steingervinga. Mögulega voru þau komin fram fyrr en án þess að byggja sér skeljar úr steinefnum sem hafa varðveist. Flokkun mosadýra er umdeild og margt á huldu um skyldleika þeirra við aðrar fylkingar svosem stilkorma annars vegar eða armfætlur hins vegar. Jafnframt er ekki ljóst hvort að þau teljist til frummunna ("Protostomia") eða nýmunna ("Deuterostomia"). Martin Sheen. Martin Sheen (fæddur Ramón Antonio Gerardo Estévez þann 3. ágúst 1940) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í "The West Wing", "Apocalypse Now", "Wall Street", "Badlands" og "The Departed". Einkalíf. Sheen er fæddur og uppalinn í Dayton, Ohio en ólst einnig upp í Bermúda og er af spænskum og írskum uppruna en báðir foreldrar hans voru innflytjendur. Martin er sjöundi í röðinni af tíu systkinum. Sheen vildi ungur verða leikari en faðir hans var á móti því og gegn vilja föður síns fékk hann lánaða peninga frá kaþólskum presti og fluttist til New York-borgar um tvítugt til að gerast leikari. Þann 22. ágúst 1989 var Sheen heiðraður með stjörnu á Hollywood Walk of Fame göngugötunni sem er staðsett við 1500 Vine Street. Nafnabreyting. Leiklistarnafn hans Martin Sheen er samsett af tveimur eftinöfnum manna sem höfðu áhrif á hann, Robert Dale Martin, leikaravalsleikstjóra sem gaf honum fyrsta hlutverkið og sjónvarpserkibiskupnum Fulton J. Sheen. Árið 2003 í viðtali í sjónvarpsþættinum "Inside the Actors Studio" útskýrði Sheen nafnabreytinguna sína og sagði hann: "Í hvert skipti sem hann hringdi til að panta tíma vegna vinnu eða íbúðar og gaf upp nafn sitt, þá kom alltaf hik og þegar ég kom á staðinn þá var alltaf starfið eða íbúðin farin. Ég hugsaði að ég ætti nógu erfitt með að fá leikarahutverk, svo ég bjó til Martin Sheen. Opinberlega er nafnið enn Estevez. Ég hef aldrei breytt því opinberlega. Ég mun aldrei gera það. Það stendur á ökuskírteininu mínu og vegabréfi og öðru. Ég byrjaði að nota Sheen, ég ákvað að prófa það, og áður en ég vissi af var ég farinn að fá vinnu og þá var það of seint. Staðreyndin er sú að eitt af því sem ég sé eftir er að halda ekki nafninu mínu sem mér var gefið. Ég veit að það angraði föður minn." Fjölskylda. Sheen giftist Janet Templeton árið 1961 og saman eiga þau fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur, sem eru öll leikarar: Emilio, Ramón, Carlos og Renée. Öll ákváðu þeir að nota upprunalegu nöfnin sín, fyrir utan Carlos sem ákvað að nota leiklistarnafn föður síns og er þekktur undir nafninu Charlie Sheen. Hefur hann leikið föður sona sinna Emilio Estevez og Charlie Sheen í ýmsum verkefnum: lék hann föður Emilios í "The War at Home", "In the Custody of Strangers" og "The Way," og föður Charlies í "Wall Street," "No Code of Conduct" og tveimur þáttum af "Spin City." Kom hann einnig fram sem gestaleikari í þætti af "Two and a Half Men" þar sem hann lék föður nágranna Charlies. Martin lék einnig „framtíðar“ útgáfu Charlie í VISA sjónvarpsauglýsingu. Martin hefur einnig leikið aðrar persónur með sonum sínum og dóttur. Lék hann í kvikmyndinni "Bobby", sem var leikstýrt af Emilio. Dóttir hans Renée var með aukahlutverk í "The West Wing," sem einn af riturum forsetans. Pólitísk málefni. Þó Sheen hafi ekki stundað nám við háskóla, þá segir hann að samfélag Maríanista við háskólann í Dayton hafi haft sterk áhrif á opinberu aðgerðarstefnu hans. Sheen er þekktur fyrir hversu opinskár hann er í stuðningi við frjálslynd málefni, eins og gagnvart bandaríska hernum og eiturefnaúrgangs brennsluofninu í East Liverpool, Ohio. Sheen er talsmaður hugtaksins „consistent life ethic“, sem vinnur gegn fóstureyðingum, dauðrefsingum og stríði. Styður hann einnig lögin Pregnant Women Support Act sem innleidd voru af Democrats for Life of America. Árið 2004, ásamt Rob Reiner, studdi Sheen Howard Dean, hugsanlegt forsetaefni Demókrataflokksins, og síðan meir John Kerry. Þann 16. maí 1995, áttu Sheen og Paul Watson frá umhverfissamtökunum Sea Shepherd, í umræðum við kanadíska selaveiðimenn á hóteli á Magdalen-eyjum vegna fyrri árása Sea Shepherd á selaveiðimenn og hvalveiðiskip. Sheen samdi við veiðmennina á meðan Watson var fylgt út á flugvöll af lögreglunni. Í byrjun árs 2003 skrifaði Sheen undir yfirlýsinguna „Not in My Name“ vegna andstöðunnar við innrásina í Írak (ásamt Noam Chomsky og Susan Sarandon). Yfirlýsingin birtist í tímaritinu "The Nation". Þann 28. ágúst 2005 heimsótti hann hernaðarandstæðinginn Cindy Sheehan við Camp Casey í Crawford í Texas. Bað hann með henni og talaði við stuðningsmenn hennar. Byrjaði hann ummæli sín á því að segja, „að minnsta kosti hafið þið núverandi forseta Bandaríkjanna.“ Átti hann við hlutverk sitt sem forsetinn Josiah Bartlet í sjónvarpsþættinum "The West Wing." En Cindy Sheehan hafði beðið um annan fund með George W. Bush forseta bandaríkjanna. Sheen hefur einnig mætt á fundi hjá umhverfissamtökunum Earth First! og komið fram á samkomum We Day fyrir ungt fólk. Sheen hefur einnig styrkt samtökin Help Darfur Now sem eru nemendasamtök sem hjálpa fórnarlömbum þjóðarmorðanna í Darfur í vesturhluta Súdan. Í mars 2012 kom Sheen fram ásamt George Clooney í uppfærslu Dustin Lance Black á leikritinu "8" sem fjallar um hjónabönd samkynhneigða. Sýningin var haldin við Wilshire Ebell Theatre í Los Angeles og var sýnd á YouTube til að safna fjárframlögum fyrir samtökin American Foundation for Equal Rights. Leikhús. Fyrsta leikhúshlutverk Sheen var árið 1964 í leikritinu "Never Live Over a Pretzel Factory". Hefur hann síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Death of a Salesman", "The Subject Was Roses", "The Wicked Cooks", "Rómeó og Júlía" og "Júlíus Caesar". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Sheen var árið 1961 í þættinum "Route 66". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Armstrong Circle Theatre", "The Outer Limits", "The Nurses", "Camera Three", "Hawaii Five-O", "The Mod Squad", Columbo, "Captain Planet and the Planeteers", "Simpsonfjölskyldan", "Spin City" og "Studio 60 on the Sunset Strip". Sheen hefur einnig komið fram í sjónvarpsmyndum á borð við "Ten Blocks on the Camino Real", "Welcome Home, Johnny Bristol", "Pursuit", "Crime Club", "Message to My Daughter", "Choices of the Heart", "Touch and Die", "Guns of Honor", "Hostile Waters" og "Forget Me Never". Árin 1999 – 2006 lék Sheen forseta Bandaríkjanna, Joshiah Bartlet, í bandaríska dramaþættinum "The West Wing". Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Sheen var árið 1967 í "The Incident". Árið eftir endurtók hann hlutverk sitt í "The Subject Was Roses" en hann hafði leikið leikritinu. Lék á móti Sissy Spacek í glæpamyndinni "Badlands" árið 1973. Árið 1976 var honum boðið hlutverk Benjamin L. Willard af Francis Ford Coppola fyrir kvikmyndina "Apocalypse Now". Fyrir hlutverk sitt í myndinn jókst hróður hans sem leikari. Kvikmyndatökur fóru fram í frumskógum Filippseyja. Sheen hefur sagt að hann hafi ekki verið í sínu besta líkamslegaformi og drakk mikið. Fyrir opnunarsenuna á hótelinu þurfti Sheen ekkert að leika mikið þar sem hann átti afmæli og var mjög drukkinn. Eftir tólf mánuði við tökur náði Sheen líkamlegum þolmörkum sínum sem endaði með smávægilegu hjartaáfalli og þurfti hann að skríða út á veg til að fá hjálp. Eftir hjartaáfallið tók yngri bróðir hans Joe Estevez við hlutverkinu í víðskotum og talsetningu. Sheen kom aftur til starfa eftir nokkrar vikur. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Gandhi", "The Dead Zone", "Wall Street", "Hot Shots! Part Deux", "Trigger Fast", "The American President", "Gunfighter", "Catch Me If You Can", "Bobby", "The Departed" og "The Way". Tenglar. Sheen, Martin 1091-1100. 1091-1100 var 10. áratugur 11. aldar. 1081-1090. 1081-1090 var 9. áratugur 11. aldar. 1071-1080. 1071-1080 var 8. áratugur 11. aldar. Julie Andrews. Julie Andrews (f. Julie Elizabeth Wells; 1. október 1935) er ensk sviðs- og kvikmyndaleikkona, rithöfundur, leikstjóri og dansari. Á sínum langa ferli hefur hún hlotið meðal annars Óskarsverðlaun, Golden Globe-verðlaun, Grammy-verðlaun, BAFTA-verðlaun og Screen Actors Guild-verðlaun. Andrews, Julie Andrews, Julie Stríð Frakklands og Hollands. Stríð Frakklands og Hollands eða Hollenska stríðið (franska: "La Guerre de Hollande", hollenska: "Hollandse Oorlog") var stríð sem Frakkland, Svíþjóð, Biskupsfurstadæmið Münster, Erkibiskupsdæmið Köln og England háðu gegn Hollenska lýðveldinu og bandamönnum þess 1672-8. Stríðinu lauk með friðarsamningum í Nijmegen sem voru undirritaðir frá ágúst til desember 1678. Helsta ástæða stríðsins var að Loðvík 14. leit á Hollendinga sem hindrun í því að leggja Spænsku Niðurlönd undir Frakkland og minntist þess líka að þeir höfðu aðstoðað Spán í Valddreifingarstríðinu 1667-8. England leit svo á að hollenski flotinn ógnaði öryggi þess og Svíar samþykktu að ráðast inn í Brandenborg ef þeir hygðust styðja Hollendinga. Englendingar hættu síðan við þátttöku í stríðinu 1674 en þrátt fyrir það unnu Frakkar mikilvæga sigra bæði á landi og sjó. Við friðarsamningana fengu þeir framgengt kröfum sínum um hluta af Spænsku Niðurlöndum, meðal annars héraðið Franche-Comté. Kristján 5. hugðist nýta sér að Svíar voru uppteknir í bardögum við Brandenborg til að leggja Skán aftur undir Danmörku og réðist á Svíþjóð 1675. Þetta stríð var kallað Skánska stríðið. Við friðarsamninga ári eftir Nijmegen fengu Svíar öll lönd sín aftur. Soldánsdæmið Aceh. Kort sem sýnir soldánsdæmið 1524 og 1637 þegar það náði mestri útbreiðslu. Soldánsdæmið Aceh (acehmál: "Keurajeun Acèh Darussalam"; jawi: دارالسلام) var soldánsdæmi á norðurodda Súmötru þar sem nú er indónesíska héraðið Aceh. Það var stofnað af Ali Mughayat Syah sem talinn er sonur síðasta konungs Champa á Malakkaskaga áður en Víetnamar lögðu það ríki undir sig. Soldánsdæmið var eitt öflugasta ríkið í Suðaustur-Asíu á 16. og 17. öld en hnignaði hægt eftir það. Bretar stóðu vörð um sjálfstæði ríkisins gegn ásælni Hollendinga en með samningum 1870-1871 þar sem Englendingar fengu Gullströndina í skiptum fyrir Súmötru gátu Hollendingar lagt Aceh undir sig. Árið 1874 flúði soldáninn Mahmud Syah frá höfuðborginni Kutaraja (síðar Banda Aceh). Síðasti soldáninn, Tuanku Muhammad Daudsyah Johan Berdaulat, gafst formlega upp fyrir Hollendingum árið 1903. Ząbrowo (Stare Pole). Ząbrowo (þýska: "Sommerau") er þorp í héraðinu Pommern í Norður-Póllandi, milli Elbląg og Malbork. Þar búa 423 manns. Vítusarkirkjan í Prag. Vítusarkirkjan í Prag er stærsta kirkja Tékklands Vítusarkirkjan er hluti af kastalasamstæðunni í Prag. Hún er dómkirkja og stærsta kirkja Tékklands. Kirkjan er helguð heilögum Vítusi. Í henni voru konungar Bæheims krýndir. Í grafhvelfingu eru grafir ýmissa konunga og keisara. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrirrennarar. Saga kirkjunnar hófst 925 er heilagur Wenceslás reisti hringlaga kapellu á reitnum. Í kapelluna voru lagðar líkamsleifar heilags Vítusar (hönd) og var hún því helguð honum. Kapella þessi veik fyrir kirkju í rómönskum stíl sem Spytihněv II lét reisa 1060, enda varð Prag á þessu ári að biskupsdæmi. Nýja kirkjan var því miklu stærri og var með þrjú skip og tvo kóra. Núverandi kirkja. Það var Karl IV konungur þýska ríkisins (og keisari 1355) sem lét reisa núverandi kirkju frá og með 1344, en á því ári var biskupsdæminu breytt í erkibiskupsdæmi. Nýja kirkjan átti að verða krýningarstaður, grafarstaður fyrir ætt hans, geymslustaður fyrir dýrgripi konungdómsins í Bæheimi og helgistaður fyrir líkamsleifar heilags Wenceslás. Byggingin reis í gotneskum stíl en hægt þó, því að byggingarmeistaranum var einnig falið að reisa Karlsbrúna og fleiri kirkjur í Bæheimi. Þegar hússítastríðin hófust 1419 var öllum framkvæmdum hætt. Í þokkabót eyðilögðu hússítar margar helgimyndir og annað sem minnti á kaþólska trú. Að auki olli bruni 1541 miklar skemmdir í hinni ókláruðu kirkju. Notkun og verklok. Krýning Ferdinands V til konungs Bæheims 1836 Þrátt fyrir að kirkjan var ókláruð í fleiri hundruð ár, voru haldnar guðsþjónustur í henni. Fyrst kaþólskar en síðan notuðu kalvínistar kirkjuna til skamms tíma áður en kaþólikkar endurheimtu kirkjuna. Í kirkjunni voru allir konungar Bæheims krýndir síðan eftir daga Karls IV. Grafhvelfing kirkjunnar var tilbúin snemma og þar voru konungarnir síðan lagðir til hinstu hvíldar. Fjórir keisarar hvíla þar, en þeir voru allir konungar Bæheims í senn. Í kapellu heilags Wenceslás innan kirkjunnar voru krúnudjásn konunganna sett til geymslu. 1844 var aftur byrjað að smíða við kirkjuna. Í fyrstu var henni breytt að hluta en síðan var þakið fullklárað, turnarnir risu í fullri hæð, nýir gluggar settir í og allt innviðið fullklárað. Turnarnir eru 96 metra háir. Framkvæmdum lauk 1929. Vítusarkirkjan er bæði hæsta og stærsta kirkjubygging Tékklands. Lengd kirkjunnar er 124 m, hæð turnanna 96 m og skipið 60 m breitt. Á síðari árum var háð dómsmál kaþólsku kirkjunnar gegn ríkinu um eignarrétt á byggingunni en ríkið hafði tekið hana eignarnámi á kommúnistatímanum. 2007 var úrskurðað að ríkið tæki yfir notkun og viðhald á kirkjunni en varðveisla og annað fer fram af sérstakri nefnd sem báðir aðilar eiga fulltrúa í. Kapella heilags Wenceslás. Kapella heilags Wenceslás. Innst er tígluð hurð, en bak við hana eru krúnudjásnin geymd Innan Vítusarkirkjunnar er kapella heilags Wenceslás. Hún var smíðuð 1344-64 fyrir líkamsleifar heilags Wenceslás (höfuð). Kapellan er gríðarlega íburðarmikil. Hún er t.d. skreytt 1300 eðalsteinum og málverkum af píslargöngu Jesú frá 14. öld. Einnig eru myndir af ævi heilags Wenceslás, sem og stytta af honum. Kapellan er ekki opin almenningi en hægt er að líta inn í hana frá dyrunum. Í einu horni er lítil hurð með sjö lásum. Handan hennar er herbergi þar sem krúnudjásn konunga Bæheims eru geymd. Um er að ræða konungskórónuna (Wenceslás-kórónuna), veldissprotann og ríkiseplið en auk þess eru þar sverð heilags Wenceslás og ýmislegt annað. Krúnudjásnin hafa verið notuð í krýningar alveg frá 11. öld. Eftir að konungdómurinn var lagður niður í Bæheimi eru þau hins vegar aðeins til sýnis á vissum hátíðisdögum. Á 20. öld voru þau aðeins til sýnis í 9 skipti. Síðast voru þau til sýnis 2003 og 2008. Klukkur. Í turnunum er klukknaverk með sjö klukkum. Stærst þeirra er Sigmundsklukkan en hún ein og sér vegur sautján tonn. Þar með er hún einnig ein allra stærsta kirkjuklukka heims. Fram til dagsins í dag er klukkunni hringt með mannafli en það tekur fjóra menn að hringja henni. Höskuldur og Þér. Höskuldur og Þér (eða Askold og Dir'") voru væringjar sem höfðu ríki í Kænugarði (Kiev). Helgi jarl af Kænugarði ("Oleg jarl af Kænugarði"), sem var eftirmaður Hræreks í Hólmgarði, herjaði í suðurveg og feldi þá Höskuld og Þé frá ríkjum og sameinaði löndin í eina ríkisheild með höfuðaðsetri í Kænugarði og var hið sameinaða ríki nefnt Garðaríki. Varð Helgi þá jarlinn af Kænugarði samkvæmt Nestorkróníku sem er frásögn munksins Nestors frá Hellisklaustri í Kænugarði í upphafi 12. aldar. Centre. Centre er hérað í Frakklandi sem umkringir Loire-dalinn. Höfuðborg héraðsins er Orléans en stærsta borgin er Tours. Í heraðinu eru nokkrir kastalar, meðal annars kastalinn í Amboise, kastalinn í Blois, kastalinn í Chambord og kastalinn í Cheverny. Orléans. Orléans er borg í norðvesturhluta Frakklands. Hún liggur um það bil 130 km fyrir sunnan París. Orléans er höfuðborg sýlsunnar Loiret og héraðsins Centre. Borgin liggur við ána Leiru þar sem hún rennur suður til fjallgarðsins Massif Central. Árið 1995 voru íbúar borgarinnar 153.490 manns. Borgin New Orleans (f. "La Nouvelle-Orléans") í Bandaríkjunum dregur nafn sitt af Orléans. Loiret. Loiret er sýsla í franska héraðinu Centre. Loiret skiptist í þrjú svonefnd "arrondissements", 41 kantónu (fr. "cantons") 334 sveitarfélög (fr. "communes"). Cher (sýsla). Cher er sýsla í franska héraðinu Centre. Cher skiptist í þrjú svonefnd "arrondissements", 35 kantónur (fr. "cantons") 290 sveitarfélög (fr. "communes"). Eure-et-Loir (sýsla). Eure-et-Loir er sýsla í franska héraðinu Centre. CEure-et-Loirer skiptist í fjögur svonefnd "arrondissements", 29 kantónur (fr. "cantons") 402 sveitarfélög (fr. "communes"). Indre (sýsla). Indre er sýsla í franska héraðinu Centre. Indre skiptist í fjögur svonefnd "arrondissements", 26 kantónur (fr. "cantons") 247 sveitarfélög (fr. "communes"). Lan Xang. Kort sem sýnir Lan Xang Lan Xang (laotíska: ລ້ານຊ້າງ "lâansâang") var búddískt konungsríki í norðurhluta landsins sem í dag heitir Laos. Ríkið var stofnað af Fa Ngum árið 1354. Afkomendur hans ríktu yfir landinu næstu aldirnar en við lok 17. aldar liðaðist það í sundur, meðal annars vegna afskipta nágrannaríkisins Ayutthaya (Síam). Síðasti konungur Lan Xang var Sourigna Vongsa en við lát hans árið 1694 skiptist ríkið í þrennt: Vientiane, Luang Prabang og konungsríkið Champasak. Soldánsdæmið Johor. Soldánsdæmið Johor var ríki í Suðaustur-Asíu sem var stofnað árið 1528 af Alauddin Riayat Shah 2.. Hann var sonur síðasta soldáns Malakka sem Portúgalir höfðu lagt undir sig árið 1511. Á hátindi sínum á 17. öld náði ríkið yfir suðurhluta Malakkaskaga, Singapúr, suðausturhluta Súmötru og Riau-eyjar. Snemma á 19. öld náðu Hollendingar áhrifum í eyjahlutanum og Bretar í meginlandshlutanum. Valdatafl þessara ríkja leiddi til þess að soldánsdæmið margklofnaði næstu áratugi. Stærstu hlutarnir voru Riau á Súmötru og Johor á Malakkaskaga. Soldánsdæmið Johor er enn til í þessari smækkuðu mynd. Núverandi soldán er Ibrahim Ismail af Johor. Árið 1946 varð meginlandshlutinn hluti af Malajasambandinu og síðar Sambandsríkinu Malaja og að síðustu Malasíu. Árið 1949 varð Riau hluti af Indónesíu. Thomas Vermaelen. Thomas Vermaelen (fæddur 14. nóvember 1985) er belgískur knattspyrnumaður sem leikur í stöðu varnarmanns hjá enska úrvalsdeilarliðinu Arsenal og belgískur landsliðinu. Hann byrjaði atvinnuferill sinn hjá hollenska félaginu Ajax. Vermaelen, Thomas Marouane Fellaini. Marouane Fellaini (fæddur 22. nóvember 1987) er belgískur knattspyrnumaður sem leikur í stöðu miðjumaður hjá enska úrvalsdeilarliðinu Manchester united og belgískur landsliðinu. Hann byrjaði atvinnuferill sinn hjá belgískur félaginu Standard. Fellaini, Marouane Axel Witsel. Axel Witsel (fæddur 12. janúar 1989) er belgískur knattspyrnumaður. Hann spilar sem miðjumaður fyrir Zenit Sankti Pétursborg og belgískur landsliðinu. Hann byrjaði atvinnuferill sinn hjá portúgalska félaginu SL Benfica. Witsel, Axel Dulé Hill. Dulé Hill (fæddur Karim Dulé Hill 3. maí 1975) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The West Wing og Psych. Einkalíf. Hill fæddist í East Brunswick, New Jersey og ólst upp í Sayreville. Hill hóf dansnám þriggja ára gamall við "Wildey School of Dance". Hann stundaði nám í viðskiptafræði við "Seton Hall háskólann" og stundaði leiklist við "William Esper Studio". Hill giftist Nicole Lyn árið 2004 en í nóvember 2012 sótti Hill um skilnað. Leikhús. Fyrsta leikhúsverk Hill var í söngleiknum "The Tap Dance Kid" á Broadway sem varaleikari. Var hann síðan hluti af leikhópnum sem ferðaðist um Bandaríkin til að sýna söngleikinn. Hann hefur einnig komið fram í "Stick Fly" og "Bring in ´Da Noise, Bring in ´Da Funk". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Hill var árið 1992 í þættinum "Ghostwriter". Kom hann síðan fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "New York Undercover", "Cosby", "The Jamie Foxx Show" og "Chicken Soup for the Soul". Árin 1999 – 2006 lék Hill aðstoðarmann forsetans, Charlie Young, í bandaríska dramaþættinum The West Wing. Hill hefur síðan 2006 leikið Burton "Gus" Guster í spennu- og gamanþættinum Psych. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Hill var árið 1988 í "Good Old Boy: A Delta Boyhood". Árið 1999 lék hann síðan í She´s All That á móti Freddie Prinze, Jr, Rachael Leigh Cook, Matthew Lillard og Paul Walker. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Sexual Life, Whisper, Gayby og Nostalgia. Tenglar. Hill, Dulé Hans Christian Gram. Hans Christian Joachim Gram (fæddur 13. september 1853, dáinn 14. nóvember 1938) var danskur örverufræðingur og læknir. Hann er þekktastur fyrir að hafa þróað litunaraðferðina sem við hann er kennd og nýtist til að flokka bakteríur í tvo hópa, Gram- jákvæðar og Gram-neikvæðar bakteríur. Æviágrip. Hans Christian Gram lærði grasafræði og læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan embættisprófi árið 1878. Hann starfaði sem læknir við "Kommunehospitalet" í Kaupmannahöfn þar til hann lauk háskólakennaraprófi ("habilitation") árið 1883, en að því loknu hélt hann í tveggja ára náms- og rannsóknaferð um Evrópu og lagði stund á lyjafræði í Strassburg, Marburg og Berlín. Árið 1886 hóf hann störf sem lektor og síðar prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og gegndi því það sem eftir var starfsævinnar, frá 1892 meðfram yfirlæknisstöðu við "Rigshospitalet". Gramlitunin. Í Berlín dvaldi Gram hjá Carl Friedländer og vann þar að rannsóknum á orsakavöldum lungnabólgu. Meðal þeirra verkefna sem Gram glímdi við var að finna leið til að greina lungnabólgusýkla í lungnavefjarsýnum með litunaraðferð þannig að aðeins sýkillinn litaðist en ekki frumur lungnavefjarins. Hann þróaði litunaraðferð þar sem sýnið var litað með "crystal violet" og síðan meðhöndlað með joðlausn fyrir aflitun með etanóli. Aðferðin reyndist nothæf á sum vefjasýnin, en ekki önnur. Við nánari skoðun komst Gram að því að aðeins sumir lungnabólgusýklar, svo sem „pneumókokkar“ ("Streptococcus pneumoniae") héldu fjólubláa litnum, en aðrir, svo sem "Klebsiella pneumoniae", aflituðust líkt og vefjarfrumurnar. Hann birti niðurstöður sínar, þó hann teldi aðferð sína „ófullkomna“. Örverufræðingar, svo sem Émile Roux, voru þó fljótir að átta sig á notagildi aðferðarinnar við að greina í sundur ólíkar bakteríugerðir og fáeinum árum síkðar greindi þýski meinafræðingurinn Carl Weigert frá endurbættri aðferð þar sem aflitaða sýnið var endurlitað með safraníni, en við það má lita bæði "Gram-jákvæðar" (sem halda fjólubláa "crystal violet" litnum) og "Gram-neikvæðar" (taka rauða safranín litinn) bakteríur í sama sýninu. Wikidata. Wikidata er miðlægur gagnagrunnur tölfræðilegra upplýsinga og tungumálatengla. Hann gerir notendum kleift að uppfæra upplýsingar á einum stað fyrir öll tungumál Wikipedia. Aðrar vefsíður geta einnig notað upplýsingarnar. Wikidata er verkefni á vegum Wikimedia Germany, sem Wikimedia Foundation tekur við í mars 2013. Wikidata er fjármögnuð með 1,3 milljóna evra fjárframlagi. Helmingurinn af þeirri upphæð kemur frá Allen Institute for Artificial Intelligence, stofnun Paul Allen's sem er einn af stofnendum Microsoft. Gordon og Betty Moore stofnunin og Google Inc leggja til fjórðung upphæðinar hvor. Blóðdropinn. Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, var afhentur í fyrsta sinn haustið 2007. Verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Ólafur Þ. Stephensen. Ólafur Þ. Stephensen (fæddur 11. júní 1968) er íslenskur fjölmiðlamaður og ritstjóri "Fréttablaðsins". Hann hefur starfað við blaðamennsku og tengd störf frá 1987. Hann var ritstjóri "Morgunblaðsins" 2008 – 2009 og ritstýrði þar áður fríblaðinu "24 stundum". Valentína Tereshkova. Valentína Tereshkova fædd Valentína Vladimirovna Tereshkova (rússneska: Валенти́на Влади́мировна Терешко́ва;) (f. 6. mars 1937) var sovéskur geimfari og fyrsta konan sem fór út í geiminn 16. júní 1963. Áramótaskaup 2012. Áramótaskaupið 2012 var sýnt þann 31. desember 2012. Leikstjóri var Gunnar Björn Guðmundsson, en þetta er fjórða skaupið sem hann leikstýrir. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1994. Sveitarstjórnarkosningar á Íslandi 1994 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 1994. Akranes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Akranesi fóru fram 28. maí. Atkvæði greiddu 9984, þar af voru auðir og ógildir seðlar 158. Þetta voru síðustu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði þar sem Alþýðubandalagið bauð fram lista Alþýðuflokkurinn missti hreinan meirihluta sinn í þessum kosningum. Eftir meirihlutaviðræður, bæði við Alþýðuflokk og Sjálfstæðisflokk myndaði Alþýðubandalagið meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Magnús Jón Árnason var ráðinn bæjarstjóri og Ellert Borgar Þorvaldsson var kosinn forseti bæjarstjórnar. Í júní 1995 slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins. Alþýðuflokkurinn myndaði þá nýjan meirihluta ásamt tveimur af fjórum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins: Jóhanni G. Bergþórssyni og Ellerti Borgari Þorvaldssyni. Ingvar Viktorsson var ráðinn bæjarstjóri og Ellert Borgar Þorvaldsson var kosinn forseti bæjarstjórnar.. Þessi meirihluti hélst til loka kjörtímabilsins. Hrísey. Þessar hreppsnefndarkosningar í Hrísey fóru fram 28. maí. Húsavík. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Húsavík fóru fram 28. maí. Kópavogur. Þessar bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi fóru fram 28. maí 1994. B-listi og D-listi héldu áfram samstarfi, Sigurður Geirdal bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins gegndi áfram embætti bæjarstjóra. Reykjavík. Þessar Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík fóru fram 28. maí. R-listinn, sameiginlegt framboð Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Frasmóknarflokks og Kvennalista bauð fram og náði meirihluta. Seltjarnarnes. Þessar bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi fóru fram 28. maí 1994. Sjálfstæðismenn héldu meirihluta sínum en "Neslisti Bæjarmálafélags Seltjarnarness" saxaði talsvert á forskotið. Danuta Siedzikówna. Danuta Siedzikówna (fædd 3. september 1928 í Guszczewina, dáin 28. ágúst 1946 í Gdańsk) var pólskur hjúkrunarfræðingur í Armia Krajowa. Rannsóknarréttur. Iðrunarganga í Mexíkó á 17. öld Rannsóknarréttur er heiti á ýmsum stofnunum innan kaþólsku kirkjunnar sem rannsökuðu brot gegn kirkjurétti, einkum villutrú, frá miðöldum til 19. aldar. Fyrstu rannsóknarréttirnir voru biskupsréttir sem settir voru upp í Suður-Frakklandi 1184 til að berjast gegn kaþarisma. Nokkrum áratugum síðar fékk dóminíkanareglan það hlutverk að sjá um slíkar rannsóknir. Rannsóknarréttir dæmdu ekki hina seku eða sáu um refsingar, heldu létu fanga sína í hendur á veraldlegum yfirvöldum sem sáu um útfærslu refsinganna, oftast þó samkvæmt fyrirmælum kirkjunnar. Rannsóknarréttirnir voru oft pólitískt valdatæki og athafnasvið þeirra var breitt. Auk þess að rannsaka villutrú, tengdust þeir gyðingaofsóknum, nornaveiðum og undirokun frumbyggja í nýlendum Spánverja og Portúgala. Meðal aðferða sem þeir notuðu voru pyntingar. Hinir seku voru látnir ganga opinbera iðrunargöngu (autodafé) áður en þeir voru teknir af lífi. Rannsóknarréttur á einkum við fjórar aðskildar stofnanir: Rannsóknarréttur miðalda var virkur frá 1184 til 16. aldar og taldi einkum rannsóknarrétti biskupa og dóminíkanareglunnar; spænski rannsóknarrétturinn starfaði frá 1478 til 1834 og heyrði í reynd undir Spánarkonung; portúgalski rannsóknarrétturinn starfaði frá 1536 til 1821 og heyrði á sama hátt undir konung Portúgals; rómverski rannsóknarrétturinn starfaði frá 1542 til um 1860 og heyrði undir páfa. Geðhjálp. Landssamtökin Geðhjálp voru stofnuð 9. október 1979 og eru hagsmunasamtök þeirra sem þurfa aðstoð vegna geðrænna vandamála, aðstandenda þeirra og annarra er láta sig geðheilbrigðismál varða. Kirkjuþingið í Trentó. Kirkjuþingið í Trentó var kirkjuþing innan kaþólsku kirkjunnar haldið í Trentó á Ítalíu sem þá var höfuðborg Kirkjufurstadæmisins Trentó innan Heilaga rómverska ríkisins. Þingið stóð frá 13. desember 1545 til 4. desember 1563. Á þessum tíma voru haldnir 25 fundir, fyrst átta í Trentó, síðan þrír í Bologna undir stjórn Páls 3., og síðan fimm í Trentó undir stjórn Júlíusar 3. og að lokum níu undir stjórn Píusar 4. í Trentó. Kirkjuþingið í Trentó var mikið umbótaþing sem mótaði svar kaþólsku kirkjunnar við siðbót Lúthers. Það markar endalok miðaldakirkjunnar og upphafið að gagnsiðbótinni. Psy. Park Jae-sang (kóreska: 박재상, fæddur 31. desember 1977) er suður-kóreskur söngvari og lagahöfundur. Hann gengur undir listamannsnafninu „Psy“ (kóreska: 싸이) og er þekktastur fyrir lagið „Gangnam Style“, sem birtist á YouTube 15. júlí 2012. Lagið varð fljótt vinsælt á netinu og hafði verið horft á tónlistarmyndband þess rúmlega 800 milljón sinnum í lok nóvember 2012. Þann 24. nóvember varð Gangnam Style það myndband, sem oftast hefur verið hoft á í sögu YouTube. 21. desember 2012 varð myndband Psy hið fyrsta í sögu YouTube til þess að ná einum milljarði spilana. Sigfús Eymundsson. a>in á Íslandi, ljósmyndað af Sigfúsi Eymundssyni árið 1904. Sigfús Eymundsson (f. 1837, d. 1911) var Íslenskur ljósmyndari og bóksali. Hann vann við bókband frá unga aldri og fór árið 1857 til Kaupmannahafnar til að fullnema sig í þeirri iðn. 1861 fór hann til Noregs þar sem hann nam ljósmyndun. Hann starfrækti ljósmyndastofu í Kaupmannahöfn í eitt og hálft ár uns hann flutti aftur til Íslands árið 1866. Árið 1867 opnaði hann fyrstu ljósmyndastofuna í Reykjavík. Auk þess rak hann bókaverslun og gaf út nokkurn fjölda bóka. Hermann Jónasson (búfræðingur). Hermann Jónsson, (f. 22. október, 1858, d. 6. desember, 1923) var búfræðingur og alþingismaður Húnvetninga fyrir Heimastjórnarflokkinn frá 1900 – 1908. Æviágrip. Foreldrar Hermanns voru Jónas Hallgrímsson (f. 1822, d. 1870) bóndi að Víðikeri í Bárðardal og Sigríður Jónsdóttir (f. 1826, d. 1894) húsfreyja. 1888 kvæntist Hermann Guðrúnu Jónsdóttur (f. 1863, d. vestanhafs) og eignuðust þau tvö börn. Hann vann sem vinnumaður og lausamaður til 1882 en hóf þá búfræðinám og lauk Búfræðiprófi frá Hólum árið 1884. Eftir það dvaldi hann í Danmörku um skeið, þar af við nám í landbúnaðarháskólanum þar í sex mánuði. Fljótlega eftir heimkomuna gerðist hann Skólastjóri Alþýðuskólans í Hléskógum í Höfðahverfi frá 1887 – 1888. Var síðar skólastjóri Búnaðarskólans á Hólum 1888 – 1896. Bóndi á Þingeyrum 1896 – 1905 og ráðsmaður Laugarnesspítala 1905 – 1910. Eftir þetta dvaldist hann í Ólafsvík og Reykjavík til skiptis frá 1910 – 1917 og í Vesturheimi 1917 – 1922 og síðan í Reykjavík til æviloka. Veturinn 1903 – 1904 dvaldist hann í vesturheimi, sendur af Búnaðarfélagi Íslands, til þess að kynna sér meðferð á saltkjöti og leita því markaðar. Hann stofnaði Búnaðarritið 1887 og var ritstjóri þess til 1899. Einnig var hann yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1906 og 1907. Ritstörf. Hermann ritaði ýmsar greinar og bækur um hugarefni sín, ásamt því að ritstýra Búnaðarritinu, en meðal annars barðist hann fyrir því á Alþingi að upp yrði tekin þegnskylduvinna fyrir ungmenni frá 18 til 24 ára. Þó er nær að kalla hugmyndir hanns vinnuskóla því hann gerði aðeins ráð fyrir sjö til átta vikna vinnu þar sem afköst væru ekki aðalatriðið heldur nám í bæði því að vinna og helst einhverju ákveðnu starfi eða iðn. Eins skrifaði hann greinar um til dæmis matarsalt og annað sem tengdist vesturför hanns og tilraunum til markaðssetningar á saltkjöti þar. Fjallapuntur. Fjallapuntur (fræðiheiti: "Deschampsia alpina") er plöntutegund af grasætt og er algeng grastegund á Íslandi. Langahlíð. Langahlíð er gata í Hlíðahverfi í Reykjavík. Hún liggur frá gatnamótum Háteigsvegar og Nóatúns í norðri til hringtorgs við vesturenda Hamrahlíðar í suðri. Útivistarsvæðið Klambratún stendur vestan við Lönguhlíð. Evrópa (tungl). Evrópa (Júpíter II'"), er sjötta innsta fylgitungl Júpíters og hið minnsta af hinum fjórum Galíleótunglum. Þó er það eitt af stærri tunglum sólkerfisins. Galíleó Galílei fann Evrópu fyrstur manna árið 1610 svo að vitað sé en mögulega fann Simon Marius tunglið einnig um svipað leyti. Miklar athuganir á tunglinu hafa farið fram síðan þá í gegnum sjónauka á jörðinni en frá og með áttunda áratug 20. aldar hafa jafnframt farið fram athuganir með ómönnuðum geimförum. Evrópa er aðeins minni að þvermáli en tungl jarðarinnar (máninn) og er að uppistöðu til úr silíkat bergi, sennilega með járnkjarna. Hún hefur þunnan lofthjúp sem samanstendur aðallega af súrefni. Yfirborð Evrópu er úr vatnsís og er eitt það sléttasta sem þekkist í sólkerfinu. Yfirborðið er þó þakið sprungum og rákum en tiltölulega lítið er um gíga eftir árekstra loftsteina sem gefur til kynna að yfirborð tunglsins sé ungt. Vegna þess hve ungt og slétt yfirborðið virðist vera er uppi tilgáta um það að haf úr vatni liggi undir ísnum og að þar séu mögulega aðstæður hagstæðar fyrir líf. Þessi tilgáta gerir ráð fyrir því að þyngdarkraftarnir frá Júpíter og hinum fylgitunglum hans verki á Evrópu þannig að berg hennar togni og teygist þannig að varmi myndist sem gæti dugað til þess að viðhalda fljótandi höfum. Megnið af þeim upplýsingum sem til eru um Evrópu fengust frá "Galíleó" geimfarinu sem skotið á var loft 1989. Önnur geimför hafa aðeins flogið framhjá Evrópu en áhugaverðir eiginleikar hennar hafa orðið til þess að metnaðarfullar tillögur um frekari könnun hennar hafa verið lagðar fram. Næsta geimfar sem til stendur að senda til Evrópu er Júpíter ístunglakönnuðurinn á vegum Geimferðarstofnunar Evrópu sem áætlað er að skjóta á loft árið 2022. Uppgötvun og nafngift. Evrópa var uppgötvuð 8. janúar 1610 af Galíleó Galílei, og mögulega af Simon Marius um svipað leyti án þess að þeir hafi vitað hvor af öðrum. Tunglið var nefnt eftir Evrópu, fönískri hefðakonu úr grískri goðafræði, sem var ástkona Seifs sem gerði hana að drottningu Krítar. Hin þrjú Galíleótunglin, Íó, Ganýmedes og Kallistó, voru jafnframt uppgötvuð af Galíleó Galílei í janúar 1610. Hann sá Íó fyrst 7. janúar í 20-faldri stækkun í frumstæðum linsusjónauka sínum í háskólanum í Padúa. Við þá athugun voru Íó og Evrópa hins vegar svo nálægt hvorri annarri að Galíleó gat ekki greint þær í sundur. Daginn eftir sá hann Evrópu og Íó í fyrsta skiptið sem aðskilin tungl og því er 8. janúar skráður sem uppgötvunardagur Evrópu af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga. Líkt og hin Galílelótunglin er Evrópa nefnd eftir elskhugum Seifs, grískri hliðstæðu rómverska guðsins Júpíters. Simon Marius átti hugmyndina að nafngift tunglanna en hann er talinn hafa uppgötvað þau á eigin spýtur um svipað leyti og Galíleó. Galíleó hélt því þó fram að Marius hafi stolið athugunum sínum. Marius sagði hugmyndina að nafngiftinni vera komna frá Jóhannesi Kepler. Nöfn Galíleótunglanna urðu þó aldrei almennt notuð fyrr en um miðja 20. öld. Lengst af vísuðu stjörnufræðingar til tunglsins sem Júpíter II eða sem „annars tungls Júpíters“. Árið 1892 uppgötvaðist Amalþea sem er á sporbaug nær Júpíter en Galíleótunglin sem gerði Evrópu að þriðja innsta tunglinu. Voyager geimförin uppgötvuðu þrjú tungl til viðbótar sem lágu innar árið 1979 þannig að nú telst Evrópa vera sjötta innsta tunglið en þrátt fyrir það er nafngiftin Júpíter II stundum enn þá notuð. Sporbaugur og snúningur. Evrópa fer einn hring í kringum Júpíter á þremur og hálfum degi á sporbaug með 670.000 km geisla. Brautarskekkja sporbaugsins er aðeins 0,009 sem merkir að hann er nánast fullkomnlega hringlaga og brautarhallinn miðað við miðbaug Júpíters er lítill eða aðeins 0,4701°. Evrópa er líkt og hin Galíleótunglin með bundinn möndulsnúning sem þýðir að tunglið snýr ávallt sömu hliðinni að Júpíter. Vegna þess er til staður á Evrópu þar sem Júpíter virðist alltaf vera beint fyrir ofan. Núllbaugur Evrópu er skilgreindur út frá þessum punkti. Rannsóknir benda þó til þess að möndulsnúningur Evrópu sé mögulega ekki fullkomnlega bundinn heldur snúist hún hraðar um möndul sinn en hún snýst um sporbaug sinn, eða hafi í það minnsta gert það í fortíðinni. Það bendir til þess að dreifing massa Evrópu sé ekki samhverf og að haf á fljótandi formi skilji að ísskorpuna og bergmöttulinn. Þyngdarkraftar hinna Galíleótunglanna valda lítilsháttar brautarskekkju á sporbaug Evrópu, sem veldur því að punkturinn á yfirborði hennar sem er beint undir Júpíter sveiflast í kringum miðgildispunkt. Þegar Evrópa er nálægust Júpíter á sporbaug sínum togar þyngdarafl reikistjörnunnar í tunglið þannig að það tekur á sig ílangara form. Þegar Evrópa færist fjær Júpíter tekur hún á sig hnöttóttari lögun á ný. Brautarskekkjunni er viðhaldið með brautarhermun Evrópu með Íó. Þyngdarkraftar eins og þeir sem valda sjávarföllum á jörðinni toga og teygja stöðugt í Evrópu og valda því að innanvert tunglið hitnar sem gæti viðhaldið fljótandi höfum og valdið eldvirkni undir yfirborði þess. Orkan sem veldur þessari hitnun er upprunin í snúningi Júpíters um sjálfan sig en Íó dregur hana til sín með flóðkröftum sem verka á lofthjúp Júpíters og flytur hana yfir á Evrópu og Ganýmedes með brautarhermun. Einkenni. Evrópa ("neðra vinstri") borin saman við tunglið ("efra vinstri") og jörðina ("hægri") í réttum hlutföllum. Evrópa er aðeins minni en tungl jarðarinnar. Hún er rétt rúmlega 3.100 km í þvermáli sem gerir hana að sjötta stærsta tungli sólkerfisins og fimmtánda stærsta fyrirbæri sólkerfisins. Hún er léttari en hin Galíleó tunglin en massi hennar er samt meiri en samanlagður massi allra þekktra tungla í sólkerfinu sem eru minni en hún. Þéttleiki Evrópu bendir til þess að hún sé að innri gerð svipuð jarðreikistjörnum sólkerfisins og að mestu úr silíkat bergi. Innri bygging. Skýringarmynd af innviðum Evrópu sem sýnir ísskorpu, fljótandi haf, bergmöttul og málmkjarna. Það er viðtekin kenning að ysta lag Evrópu sé um það bil 100 km þykkt lag af vatni sem sé frosið efst og í fljótandi formi neðar. Mælingar "Galíleó" geimfarsins á segulsviði leiddu í ljós að Evrópa hefur veikt eigið segulsvið sem virkar með segulsviði Júpíters og bendir til þess að undir yfirborðinu sé lag með háa rafleiðni, það lag er líklega saltvatn. Athuganir á rákum á yfirborði ísskorpunnar benda til þess að hún hafi einhverntíman snúist um 80° á tiltölulega skömmum tíma sem er enn ein vísbendingin um að skorpan sé ekki föst við bergið, heldur fljóti ofan á djúpu hafi. Kjarni Evrópu er líklega málmkenndur og úr járni. Yfirborð. Mynd frá "Galíleó" af leiðandi hlið Evrópu. Náttúrulegir litir vinstra megin og skerptir litir hægra megin. Evrópa er einn sléttasti hnöttur sólkerfisins. Yfirborðseinkenni tunglsins eru flest af völdum mismikils endurskins fremur en mishæða í landslagi. Árekstrargígar eru fáir sem bendir til þess að yfirborðið sé ungt og virkt. Ljós ísskorpa Evrópu gefur henni hæsta endurskinshlutfall allra tungla í sólkerfinu eða 0,64. Miðað við þann fjölda árekstra við halastjörnur sem vænta má á Evrópu er yfirborðið líklega um 20 til 180 milljón ára gamalt. Ekki er samstaða á meðal vísindamanna um þróunarsögu Evrópu og ástæður þess að yfirborð Evrópu er eins og það er. Geislun á yfirborði Evrópu jafngildir skammti upp á um það bil 5400 mSv á dag. Slíkur skammtur veldur mönnum alvarlegum veikindum eða dauða. Lineae. Mest áberandi einkenni yfirborðs Evrópu eru dökkar rákir sem liggja þvert og kruss um allt yfirborðið. Rákirnar eru gjarnan nefndar "lineae" (latína: „línur“). Nánari athuganir á ísskorpunni beggja vegna þessara ráka sýnir að þær marka skil þar sem ísinn hefur færst í gagnstæðar áttir. Stærstu rákirnar eru meira en 20 km breiðar, gjarnan með dökkum dreifðum jöðrum og ljósari í miðjunni. Líklegasta tilgátan um uppruna þessara ráka er að þær hafi orðið til við umbrot í ísnum þar sem skorpan hefur opnast og heitari ís þrýst sér upp á yfirborðið líkt og í eldgosum. Áhrifin eru svipuð þeim sem sjást á miðhafshryggjum á flekaskilum á jörðinni. Þessi brot í ísnum eru talin hafa myndast að miklu leyti vegna þyngdarkrafta Júpíters. Þar sem Evrópa er með bundinn möndulsnúning og snýr því ávallt sömu hliðinni að Júpíter, þá ættu þessar brotalínur að mynda augljóst og fyrirsjáanlegt mynstur. Svo er þó ekki þar sem aðeins yngstu brotalínurnar passa við mynstrið sem búast mætti við en aðrar brotalínur snúa öðruvísi en reikna mætti með og víkja því meira frá mynstrinu eftir því sem þær eru eldri. Möguleg skýring á þessu er að yfirborð Evrópu snúist örlítið hraðar en innvols hennar sem er mögulegt ef ísskorpan er ekki föst við bergmöttulinn heldur fljótandi á vatni þar sem þyngdarafl Júpíters togar í hana. Samanburður á myndum frá "Voyager" geimförunum og "Galíleó" hefur leitt í ljós hver efri mörk þessarar skorpuhreyfingar gætu verið. Samkvæmt því tekur heill snúningur ísskorpunnar miðað við bergmöttulinn að minnsta kosti 12.000 ár. Önnur jarðfræðileg einkenni. Mynd með skerptum litum af hluta Conamara óreiðunnar sem sýnir allt að 10 km stór ísstykki. Hvítu svæðin eru ísduft sem komið hefur upp úr Pwyll-gígnum. Óreglulegum 250 m háum tindum og sléttum ísplötum ægir saman á þessari nærmynd af Conamara-óreiðunni. Önnur einkenni á yfirborði Evrópu eru hringlaga og sporöskjulaga fyrirbæri sem kölluð eru "lenticulae" (latína: „freknur“). Sum eru hæðir, sum eru dældir og önnur eru dökkir blettir, sumir sléttir en aðrir óreglulegir með grófa áferð. Sumar hæðirnar líta út fyrir að hafa verið hluti af umlykjandi sléttlendi og gætu hafa myndast við einhvern þrýsting að neðan. Sú kenning er uppi að þessi fyrirbæri hafi myndast við innskot þar sem hlýrri ís af meira dýpi þrýstir sér upp í gegnum skorpu af kaldari ís nær yfirborðinu á svipaðan hátt og kvika hegðar sér í jarðskorpunni á jörðinni. Dökku og sléttu blettirnir gætu hafa myndast við ísbráð þegar hlýrri ísinn brýst upp í gegnum yfirborðið. Óreiðukenndari fyrirbærin (til að mynda Conamara-óreiðan) hefðu þá mögulega myndast við það að yfirborð skorpunnar brotnaði upp þannig að stykkin úr henni fljóta eins og ísjakar ofan á dekkra efni að neðan. Önnur kenning um uppruna „freknanna“ er sú að þær séu í raun fremur smá brotasvæði í ísnum og að kenningar um hæðir, dældir og dökka bletti séu oftúlkanir á myndefni frá "Galileo" sem ekki var í hárri upplausn. Sé það satt, þá bendir það til þess að líklega sé ísinn of þunnur til þess að innskotakenningin geti gengið upp. Teymi vísindamanna við Háskóla Texas í Austin og víðar kynnti í nóvember 2011 niðurstöður sínar í tímaritinu "Nature" sem bentu til þess að mörg af „óreiðusvæðunum“ á Evrópu liggi ofan á risavöxnum fljótandi stöðuvötnum. Samkvæmt kenningunni væru þessi stöðuvötn nálægt yfirborðinu en umlukin ís á alla kanta og því ótengd hafinu sem talið er liggja á meira dýpi undir ísnum. Til þess að staðfesta kenninguna um stöðuvötn nær yfirborðinu verður að senda geimfar til þess að skyggnast í gegnum ísinn — annaðhvort beint með því að lenda á ísnum og bora eða bræða leið í gegnum hann eða þá óbeint með því að nota til dæmis ratsjá. Fljótandi haf. Flestir stjarnfræðingar aðhyllast kenningar sem gera ráð fyrir fljótandi hafi undir yfirborði Evrópu og að varminn sem flóðtognun tunglsins losar úr læðingi valdi því að vatn geti verið til staðar á fljótandi formi. Á yfirborðinu er hins vegar nístingskuldi — að meðaltali 100 K (–160 °C) við miðbaug og 50 K (–220 °C) á heimskautunum — sem veldur því að ísskorpan er jafn hörð og granít. Fyrstu tilgáturnar um haf undir yfirborðinu voru settar fram út frá vitneskju um þá þyngdarkrafta sem verka á tunglið bæði vegna örlítillar brautarskekkju þess og vegna brautarhermunar við Jó og Ganýmedes. Myndefni frá "Galíleó" og "Voyager" geimförunum renndi síðan frekari stoðum undir kenninguna. Skýrustu vísbendingarnar um að haf sé til staðar undir yfirborðinu, að mati þeirra sem aðhyllast kenningar um þunna ísskorpu, eru „óreiðusvæðin“ svokölluðu, sem að þeirra mati eru vísbendingar um að hafið hafi þrýst á ísinn að neðan eða jafnvel brotist alveg í gegn. Þetta er hins vegar umdeild túlkun. Flestir jarðvísindamenn sem hafa rannsakað Evrópu hallast frekar að kenningum sem gera ráð fyrir þykkri ísskorpu þar sem hafið ná sjaldan, ef nokkurn tíman, að brjótast alla leið upp á yfirborðið. Þau líkön sem gerð hafa verið gefa misjafnar niðurstöður um þykkt íssins. Allt frá fáeinum kílómetrum upp í tugi kílómetra. Árekstrargígar á yfirborðinu eru helsta vísbendingin um að þau líkön sem gera ráð fyrir þykkri ís séu réttari. Stærstu gígarnir eru umluktir sammiðja hringum og virðast fullir af flötum og tiltölulega nýlegum ís. Út frá þessu og þeim varma sem reiknað er með að flóðkraftar valdi á Evrópu þá hefur verið áætlað að ísskorpan sé um það bil 10–30 km þykk og að það innifeli lag af hlýrri og teygjanlegri ís. Sé það rétt þá gæti hafið verið um það bil 100 km djúpt undir ísnum. Rúmmál hafsins væri þá 3 × 1018 m3 sem er rúmlega tvöfalt rúmmál alls hafs á jörðinni. Líkön sem benda frekar til þynnri íss gefa til kynna að ísskelin sé aðeins nokkurra kílómetra þykk. Flestir vísindamenn eru þó á því að slík líkön séu takmörkuð að því leyti að þau líti aðeins til efstu laga íssins sem sýni af sér teygjanleika þegar þyngdarkraftar Júpíters toga í þau. Dæmi um slíkt er líkan þar sem ísskorpan sem kúla er látin togna og beygjast undan þungu álagi. Þannig líkön hafa bent til þess að ysti hluti skorpunnar gæti verið allt niður í 200 metra þykkur. Ef skorpan er í raun svo þunn þá hlýtur það að þýða fljótandi vatn nái reglulega upp á yfirborðið í gegnum sprungur en þá væri yfirborðið væntanlega mun sprungnara en myndir benda til. Sú kenning var sett fram árið 2008 að Júpíter héldi hita á hafinu á Evrópu með því að búa til stóra sjávarfallabylgju á tunglinu vegna smávægilegs möndulhalla þess. Þessi tegund sjávarfallabylgju, svokölluð Rossby-bylgja, fer hægt yfir — aðeins nokkra kílómetra á dag — en í henni felst gríðarleg hreyfiorka. Miðað við möndulhalla upp á 0,1 gráðu þá gæti hreyfiorkan sem felst í bylgjunni numið 7,3 × 1017 J. Það er tvöhundruð sinnum meiri orka en felst í hefðbundnari sjávarfallabylgjum. Umbreyting þessarar orku í varma gæti verið stærsta varmauppsprettan sem heldur hafinu á Evrópu fljótandi. "Galileo" geimfarið gerði þá uppgötvun að Evrópa hefur vægt segulvægi sem myndast við samspil við segulsvið Júpíters. Styrkur sviðsins við segulmiðbauginn (um það bil 120 nT) sem þetta seglvægi skapar er um það bil einn sjötti af styrk sviðs Ganýmedes og sex sinnum sterkara en svið Kallistó. Tilvist þessa segulvægis bendir til þess að í innviðum tunglsins sé að finna efni með háa rafleiðni og bendir það eindregið til þess að stórt saltvatnshaf sé að finna undir yfirborðinu. Litrófsgreining á dökkrauðum rákum á yfirborðinu bendir til þess að þær séu að einhverju leyti úr söltum eins og magnesíumsúlfati sem gæti hafa orðið eftir á yfirborðinu við uppgufun vatns sem komist hefur upp úr djúpinu. Önnur möguleg túlkun á niðurstöðu litrófsgreiningar er brennisteinssýra. Hvort heldur sem er, þá eru bæði efnin annað hvort litlaus eða hvít eins og sér þannig að rauði blærinn á rákunum hlýtur að stafa af öðrum efnum og beinist grunur sérstaklega að ýmsum brennisteinssameindum. Lofthjúpur. Segulsviðið í kringum Evrópu. Rauða línan markar braut "Galileo" farsins við dæmigerð hjáflug þess. Evrópa hefur þunnan lofthjúp sem samanstendur að mestu af súrefni (O2) samkvæmt athugunum Hubble-geimsjónaukans. Loftþrýstingurinn við yfirborðið er 0,1 μPa, 10−12 sinnum loftþrýstingur við sjávarmál á jörðinni. Helsta vísbendingin um lofthjúp er frá könnunum "Galileo" farsins árið 1997 sem leiddu í ljós að Evrópa hefur jónahvolf (lag hlaðinna agna í efri hluta loftjúps) vegna geislunar frá sólinni og orkuhlaðinna agna frá segulhvolfi Júpíters. Súrefnið í lofthjúpi Evrópu er ekki af lífrænum uppruna líkt og súrefnið í lofthjúpi jarðar heldur verður það til við sundrun vatnssameinda vegna sterkrar geislunar. Útfjólubláir geislar sólarinnar og hlaðnar agnir úr segulhvolfi Júpíters dynja á ísi lögðu yfirborðinu, kljúfa vatnssameindirnar í vetni og súrefni og skjóta frumeindunum út í loftið. Vetnið er það eðlislétt að það sleppur undan þyngdarafli tunglsins og hverfur út í geim en súrefnið situr eftir. Athuganir á yfirborðinu hafa leitt í ljós að súrefnið sem verður til við sundrun vatnssameindanna fer ekki allt út í lofthjúpinn heldur verður sumt eftir á yfirborðinu eða síast inn í ísinn. Þetta súrefni gæti náð alla leið inn í hafið undir ísnum og mögulega hjálpað lífi að komast þar á legg. Miðað við að yfirborðsís Evrópu er í mesta lagi 500 milljón ára gamall þá á sér stað endurnýjun á yfirborðinu sem þrýstir eldri og súrefnismettuðum ís neðar. Súrefnið losnar á endanum út í hafið sem gæti vegna þessa verið álíka súrefnismettað og djúpsævi á jörðinni. Vetnið og eitthvað af súrefnisfrumeindum og sameindum sleppa undan þyngdarafli tunglsins út í geim. Þar myndar það gas-hring eftir sporbraut tunglsins í kringum Júpíter. Bæði Cassini–Huygens og Galileo geimförin hafa greint þetta gasský sem er þéttara en sambærilegt ský sem fylgir Jó. Sterk jónandi geislun breytir gasinu a endanum í rafgas sem bætist við segulhvolf Júpíters. Möguleikar á lífi. a>i. Á slíkum jarðhitasvæðun neðansjávar er bæði varmi og sífellt uppstreymi efna sem raska jafnvæginu í hafinu. Slíkar aðstæður eru kjörnar fyrir myndun og þrón lífs. Evrópa er álitin einn líklegasti staður sólkerfisins utan jarðarinnar til þess að hýsa líf. Líf gæti hafa myndast í hafinu undir ísskorpunni og hafst við í svipuðum aðstæðum og þekkjast við hverastrýtur á djúpsævi eða í einangruðum stöðuvötnum eins og Vostokvatni á Suðurskautslandinu. Lífi í slíku hafi gæti svipað til örverulífs á djúpsævi á jörðinni. Hingað til hafa engar vísbendingar fundist sem staðfesta að líf finnist á Evrópu en margir hafa bent á nauðsyn þess að senda þangað könnunarfar til þess að kanna málið nánar. Fram á áttunda áratug 20. aldar var almennur skilningur á eðli lífs sá að það hlyti alltaf að reiða sig á orku frá sólinni. Plöntur á yfirborði jarðar nota ljóstillífun til þess að breyta sólarljósi, koltvísýringi og vatni í sykrur og gefa einnig frá sér súrefni í því ferli. Plönturnar grotna eða eru svo étnar af dýrum sem anda að sér súrefni og þannig færist orka sólarljóssins upp fæðukeðjuna. Líf á djúpsævi, langt neðan þess svæðis sem sólarljós nær til, var jafnframt talið reiða sig á sólarljós með því að lifa á næringarefnum sem berast að ofan eða með því að éta önnur dýr sem lifa á slíkum næringarefnum. Því var ályktað að umhverfi gæti ekki borið líf nema með því að hafa aðgang að sólarljósi eftir einhverri leið. a> sem hafast við í svipuðum aðstæðum þurfa hins vegar ekki súrefni. Árið 1977 uppgötvuðust í djúpsjávarkönnunarleiðangri á eldvirku svæði við Galapagos-eyjar þyrpingar risaskeggorma, skeldýra og krabbadýra og ýmissa annarra tegunda sem þyrpast í kringum jarðhitasvæði á hafsbotni sem kallast hverastrýtur. Þessar verur þrífast þrátt fyrir að hafa ekki aðgang að sólarljósi og hafa sína eigin fæðukeðju innbyrðis sem ótengd er þeirri sem reiðir sig á sólarljósið. Í stað plantna er undirstaða þessarar fæðukeðju gerlar sem fá orku sína með oxun vetnis eða vetnissúlfíði sem streymir upp úr iðrum jarðar. Uppgötvun efnatillífunar gjörbylti stjörnulíffræði með því að benda á nýja tegund umhverfa á öðrum hnöttum sem gætu borið líf. Skeggormar og aðrir fjölfruma heilkjörnungar í nágrenni þessara hverastrýta anda súrefni og reiða sig þannig á ljóstillífun plantna með óbeinum hætti en gerlar og forngerlar sem treysta á loftfirrða öndun og efnatillífun gætu gefið vísbendingar um hvernig líf í hafi Evrópu kann að vera. Varmaorkan sem losnar úr læðingi við flóðtognun Evrópu og heldur hafinu á Evrópu fljótandi getur þó ekki staðið undir jafn stóru og fjölbreyttu vistkerfi og því sem byggir á ljóstillífun plantna á jörðinni. Líf á Evrópu gæti verið að finna í þyrpingum nálægt hverastrýtum á hafsbotni eða grafið í sjávarbotninum líkt og örverur á jörðinni sem þrífast í örsmáum sprungum og holrýmum í bergi. Aðrir möguleikar væru þeir að líf væri að finna neðan á ísskorpunni líkt og þörungar og gerlar á heimskautasvæðum jarðar eða þá að það væri fljótandi laust í hafinu. Mikil óvissa ríkir þó enn um aðstæður. Sé hafið of kalt þá gætu ekki átt sér stað líffræðileg efnaskipti lík þeim sem þekkjast á jörðinni. Ef það er of salt þá gætu aðeins þrautseigustu saltkæru örverurnar lifað þar. Richard Greenberg geimvísindamaður reiknaði það út 2009 að geimgeislar sem dyndu á yfirborði Evrópu sundruðu vatnssameindum þannig að súrefnissameindir (O2) losnuðu út í hafið. Þetta ferli gæti samkvæmt útreikningum Greenberg orðið til þess að súrefnismettun Evrópuhafsins yrði meiri en hafa á Evrópu á nokkrum milljónum ára. Þetta gæti gert stærri lífverum sem treysta á loftháða öndun — t.d. fiskum — kleift að lifa í hafinu. Könnun. Evrópa séð frá Pioneer 10 árið 1973 Evrópa séð frá Voyager 1 árið 1979 Mest af því sem nú er vitað um Evrópu á rætur að rekja til hjáfluga könnunarfara sem hófust á áttunda áratug tuttugustu aldar. Pioneer 10 og Pioneer 11 heimsóttu Júpíter árin 1973 og 1974 og tóku myndir af tunglum hans um leið en þær voru þó óskýrar miðað við það sem síðar varð. Voyager-geimförin áttu leið hjá Júpíter árið 1979 og sýndu ísþakið yfirborð Evrópu í betri upplausn. Í kjölfar þeirra fór að bera á vangaveltum um að mögulega væri haf undir ísnum. Galíleó geimfarið fór á sporbaug um Júpíter 1995 og var virkt í átta ár eftir það. Athuganir þess eru þær ítarlegustu sem fram hafa farið á Galíleótunglunum til þessa. Á meðal verkefna Galíleó voru "Galileo Europa Mission" og "Galileo Millennium Mission" sem bæði fólu í sér nálæg hjáflug við Evrópu. New Horizons-farið myndaði Evrópu árið 2007 þegar það átti leið hjá á leiðangri sínum til Plútó. Framtíðaráform. Bollaleggingar um mögulegt líf á Evrópu hafa valdið því að tunglið hefur fengið mikla athygli og rík áhersla hefur verið lögð á að fleiri könnunarleiðangrar til þess þurfi að eiga sér stað í nánustu framtíð. Ætluð markmið slíkra leiðangra eru allt frá því að rannsaka betur efnasamsetningu tunglsins og til þess að leita að lífi í hafi þess. Könnun Evrópu krefst tækni sem þolir bæði mikinn kulda og gríðaröfluga geislun sem nálægðin við Júpíter veldur. Hún er áætluð 5400 mSv á dag á yfirborðinu. Í 2011 útgáfu "Planetary Science Decadal Survey" — sem er rit sem gefið er út á 10 ára fresti og tekur saman helstu forgangsatriði að mati reikistjörnuvísindamanna — er mælt með leiðangri til Evrópu. Ýmsar útfærslur hafa verið lagðar til, ýmist í formi hjáflugs, að fara á sporbraut um tunglið eða jafnvel að lenda á því. ESA valdi Júpíter ístunglakönnuðinn (enska: "Jupiter Icy Moon Explorer") árið 2012 sem næsta könnunarleiðangur til Júpíters. Í þeim leiðangri munu felast nokkur hjáflug við Evrópu en aðallega snýst hann þó um könnun tunglsins Ganýmedes. Hýena. Hýena eru spendýr af ættinni "Hyaenidae". Til eru fjórar tegundir hýena. Þær eru blettahýena ("Crocuta crocuta"), rákahýena ("Hyaena hyaena"), brúnhýena ("Parahyaena brunnea") og jarðúlfur ("Proteles cristalus"). Hýenur eru fjórða minnsta ætt rándýra. Þrátt fyrir það eru hýenur mikilvægur hluti vistkerfa Afríku og Asíu. Þróun. Þróunarlíffræðilega eru hýenur skyldar kattardýrum og desmerdýrum en atferli þeirra á að sumu leyti meira skylt við dýr af hundaætt. Sem dæmi þá klifra hýenur ekki í trjám frekar en dýr af hundaætt en eiga gott með að hlaupa og veiða með rántönnum sínum frekar en klónum. Grófar loppur þeirra eru sniðnar til þess að hlaupa og taka skarpar beygjur. En þegar kemur að umhirðu, tilhugalífi, svæðismerkingum og uppeldi er hegðun þeirra þó meira í ætt við kattardýr. Lifnaðarhættir. Hýenur lifa og veiða í hópum, þar sem eitt kvendýr ræður ferðinni en meðal hýena er mæðraveldi og eru kvendýrin nokkuð stærri en karldýrin. Ekki er vitað hvers vegna svo er en giskað hefur verið á að þar sem mæðurnar eru mjög lengi með afkvæmi sín á spena þurfi þær svo mikið meira að éta að þessi kynjavaldahlutföll hafi þróast. Lengi vel töldu vísindamenn að hýenur væru hræætur en það er misskilningur, þær eru mjög fær veiðidýr. Misskilningurinn kom til af því að fyrir tíma nætursjónauka og myndavéla fóru rannsóknir á þeim fram á daginn og þá mest í morgunsárið. Mátti þá oft sjá ljónahópa gæða sér á bráð en hýenur á vappi í kring og var af þessu dregin sú ályktun að þær væru hræætur. En þegar rannsóknir hófust á atferli þeirra á næturnar, sem er þeirra veiðitími, kom í ljós að í rauninni var það sem vísindamenn voru að sjá í morgunsárið ljón sem voru búin að stela bráð sem hýenurnar höfðu fellt. Hýenur borða mat sinn með miklum látum og skríkjum sem minnir á hlátur og borða hratt og oftast upp til agna því þær hafa einstaklega sterka kjálkavöðva sem gerir þeim kleyft að bryðja jafnvel hörðustu bein. En hávaðinn í þeim dregur oft að ljón sem ef þau eru fleiri reka hýenurnar frá bráðinni og stela henni. Hýenurnar bíða þó oftast eftir að ljónin hafi lokið sér af því ljónin geta ekki fullétið bein og annað sem hýenurnar geta aftur á móti með sína öflugu kjálkavöðva. Hrökkviskata. Hrökkviskata eða rafmagnsskata (fræðiheiti "Torpedo marmorata") er botnlæg fisktegund sem lifir í austurhluta Atlantshafsins, frá Norðursjónum og að Suður-Afríku. Líkt og hrökkállinn getur hrökkviskatan gefið frá sér rafmagn. Skatan er botnlæg sem fyrr segir og lifir á grunnu eða meðaldjúpu svæði. Uggi hrökkviskötunnar er nánast hringlaga diskur sem umlykur hana auk þess er hún með sterkan sporð með tveimur baklægum uggum ("dorsal fin") auk sporð-ugga ("caudal fin"). Hrökkviskatan er dökkbrún á litinn með ljósum blettum. Hængurinn getur orðið, á bilinu 36–38 cm og hrygnan 55–61 cm. Lúson. Lúson er nyrsta stóra eyja Filippseyja Lúson er stærst Filippseyja og er með 108 þúsund km2 lítið eitt stærri en Ísland. Jafnframt er hún 17. stærsta eyja heims. Á Lúson er höfuðborgarsvæðið Metro Manila, sem er með rúmlega 11 milljón íbúa. Íbúar eyjunnar alls eru rúmlega 46 milljónir en þar með er Lúson fimmta fjölmennasta eyja heims. Lega og lýsing. Lúson er nyrsta stóra eyja Filippseyja. Aðeins nokkrar minni eyjar eru norðar. Fyrir sunnan eru aðrar stórar eyjar, svo sem Samar og Mindóró. Hafsvæðin í kringum eyjuna er Kyrrahafið að austan og Austur-Kínahaf að vestan. Fyrir sunnan er filíppínska eyjahafið. Fyrir norðan skilur Lúsonsund eyjuna frá Taívan. Lúson er ákaflega ólögulaga. Meginhluti eyjarinnar er í norður-suður stefnu. Í suðaustri gengur langur skagi nær alla leið til eyjarinnar Samar. Vegalengdin frá norðri til suðurs eru um 700 km. Mesta breiddin er hins vegar ekki nema rétt um 200 km en sums staðar ekki nema 20 km. Á Lúson eru fjölmörg eldfjöll, svo sem Púlag, Mayon og Pínatúbó. Orðsifjar. Lúson (filippínó: Luzon) er samsett úr kínversku orðunum "lu" og "son", sem merkir "litla song" eða "syðra song". Heitið er dregið af gamla ríkinu Lüsongguo (Lúsonríkið) sem var við lýði á Lúson áður en Spánverjar komu til eyjarinnar. Spánverjar sjálfir nefndu eyjuna Nueva Castilla (Nýja Kastilía), áður en heitið Lúson var notað. Söguágrip. Fyrsta ríkið á Lúson var stofnað síðla á 13. öld af Kínverjum sem flúðu frá meginlandi Asíu. Ríki þetta er oft kallað Lúsonríkið (Lüsongguo á kínversku). Höfuðborg þess var borgin Tondo, sem í dag er hluti af Maníla. Bolkiah, soldáninn í Brúnei, réðist á Lúsonríkið árið 1500 og hertók það. Tondo fékk að vera lítið ríki enn um sinn, enda stofnaði Bolkiah nýja höfuðborg fyrir sig sem hlaut nafnið Maynilad (Maníla í dag). Þriðja ríkið á eyjunni hét Namayan. Það var Spánverjinn Miguel Lopez de Legazpi sem byrjaði að herja á ríki þessi um miðja 16. öld. 1570 brenndi hann Tondo og Maynilad til kaldra kola og stofnaði spænska nýlendu. Maynilad var endurreist en hlaut nafnið Maníla. Borgin varð brátt höfuðstaður spænsku nýlendunnar og fór spænska að breiðast út sem tungumál á eyjunni. 1896 gerðu innfæddir íbúar á Lúson uppreisn gegn Spánverjum, sem brátt varð að hálfgerðu frelsisstríði. Þegar Bandaríkjamenn tóku þátt í aðgerðum heimamanna urðu Spánverjar undan að láta. 1901 tóku Bandaríkjamenn við sem stjórnendur eyjarinnar (og landsins alls). 1942 réðust Japanir inn í Lúson og hertóku eyjuna í einni svipan. Douglas McArthur, sem var yfirmaður herja Bandaríkjanna á Filippseyjum, hörfaði með hluta hers síns til Ástralíu. Hinn hlutinn hörfaði til Bataan-skagans, þar sem hann gafst upp fyrir Japönum. Japanir stjórnuðu með mikilli grimmd og voru ekki hraktir úr landi fyrr en við allsherjar uppgjöf Japana í september 1945. Árið 1948 urðu Filippseyjar að sjálfstæðu ríki. Maníla varð þá að ríkishöfuðborg. 1991 varð gríðarmikið eldgos í Pínatúbó, sem olli miklum skemmdum á gróðurfari eyjarinnar. 875 manns biðu bana. Listi fjölmennustu eyja heims. Listi fjölmennustu eyja heims er skrá yfir allar þær eyjar í heimi þar sem íbúar eru 500 þúsund eða fleiri. Skiptir þá ekki máli hvort eyjan sé sjálfstætt ríki, er hluti af eyríki eða er skipt milli tveggja eða fleiri ríkja. Eyjar með 500 þúsund til 1 milljón íbúa. Listi þessi er háður tíðum breytingum, eftir fjölgun íbúa viðkomandi eyja. Burn Notice (6. þáttaröð). Sjötta þáttaröðin af "Burn Notice" var frumsýnd 14. júní 2012 og sýndir voru 18 þættir. Kenny Johnson. Kenny Johnson (fæddur Kenneth Allen Johnson 13. júlí 1963) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Shield, Sons of Anarchy og Saving Grace. Einkalíf. Johnson fæddist í New Haven, Connecticut. Hann lék bæði amerískan fótbolta og hafnabolta við "Central Connecticut háskólann". Johnson byrjaði feril sinn í auglýsingum og sem fyrirsæta. Hann hefur verið giftur Cathleen Oveson síðan 2005 og saman eiga þau eitt barn. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Johnson var árið 1992 í þættinum "Red Shoe Diaries". Hann hefur síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Grace Under Fire", "Caroline in the City", "Just Shoot Me", "The Huntress", Smallville, og Burn Notice. Árin 2002 – 2007 lék Johnson rannsóknarfulltrúann Curtis Lemansky í lögregluþættinum The Shield. Lék hann síðan Ham Dewey í Saving Grace á árunum 2007 – 2010. Johnson var með stórt gestahlutverk í Sons of Anarchy þar sem hann lék Kozik 2009 – 2011. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Johnson var árið 1990 í "Mirage". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við "Bushwhacked", Blade og "I Heard the Memaids Singing". Tenglar. Johnson, Kenny Andrómeda (stjörnumerki). Andrómeda er stjörnumerki á norðurhveli himins og er sýnilegt allt árið frá Íslandi þegar dimmt er. Hún er ein af 48 stjörnumerkjum sem grísk-rómverski stjörnufræðingurinn Ptolomeus skráði í bók sína Almagest. Hún er skírð eftir Andrómedu, dóttur Kefleifs í grískri goðafræði. Bjartasta stjarna merkisins, Alpha Andromedae, er tvístirni sem hefur einnig verið talin hluti af Pegasus stjörnumerkinu. Stjörnuþokan Andrómeda er í stjörnumerkinu og heitir eftir því. Gunnar M. Magnúss. Gunnar M. Magnúss (2. desember 1898 – 25. mars 1988) var íslenskur rithöfundur. Hann fæddist og ólst upp á Flateyri við Önundarfjörð. Gunnar brautskráðist með kennarapróf árið 1927 og var við framhaldsnám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1936 til ársins 1937. Hann var kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík í kringum 1930. Hann sat á Alþingi frá febrúar til maí 1955 fyrir Sósialistaflokkinn. Meðal bóka Gunnars eru "Virkið í Norðri" og "Skáldið á Þröm". Atli Fannar Bjarkason. Atli Fannar Bjarkason (fæddur 13. apríl 1984) er aðstoðarmaður Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar. Atli var kosningastjóri Bjartrar framtíðar fyrir Alþingiskosningar 2013. Hann er fyrrverandi fréttastjóri á Fréttablaðinu, ritstjóri Monitor og blaðamaður á 24 stundum. Stuttu eftir að Atli Fannar hóf störf á Fréttablaðinu beitti Jón Ásgeir Jóhannesson, einn aðaleigenda 365 miðla, sér fyrir því að Atla yrði sagt upp störfum fyrir að hafa stofnað söfnunarreikning fyrir Jón Ásgeir. Atli var söngvari hljómsveitarinnar Haltrar hóru. Þórín. Þórín (eða þóríum) er geislavirkt frumefni sem er eitt af fimmtán efnum sem flokkast sem aktiníð. Þórín hefur táknið Th og er með sætistöluna 90 í lotukerfinu. Listi stærstu eyja heims. Listi stærstu eyja heims er skrá yfir allar stærstu eyjar heims, hvort heldur þær mynda heilt ríki, eru hluti af eyríki eða eru skiptar eyjar. Listi þessi nær til allra eyja sem eru stærri en 10 þúsund km2. Skiptar eyjar. Skiptar eyjar eru eyjar sem tilheyra fleiri en einu ríki. Þar eru því að finna ríkislandamæri sem skipta eyjunni í tvo eða þrjá hluta. Í flestum tilfellum tilheyra skiptar eyjar aðeins tveimur ríkjum. Borneó er þó undantekning en þar eru þrjú ríki. Kýpur er einnig með sérstöðu. Neðangreindur listi tekur aðeins fyrir eyjar í hafi en fljótaeyjar eru víða skiptar þar sem landamæri liggja meðfram fljótum. Fótbolti.net mótið. Fótbolti.net mótið, er keppni í knattspyrnu karla, haldið ár hvert síðan 2011 af fótbolta.net á undirbúningstímabilinu í janúar og febrúar áður en Lengjubikarinn hefst. Mótið er fyrir sterkustu félög landsins sem ekki taka þátt í Reykjavíkurmótinu. Reikistirni. Reikistirni er hver sá efnismassi sem er á sporbaugi um sólina eða aðra stjörnu og er ekki reikistjarna eða halastjarna. Dvergreikistjörnur, smástirni og útstirni eru reikistirni. Kúmen. Kúmen er jurt af sveipjurtaætt. Kúmen er notað sem krydd í brennivín og bakstur. Það vex villt á Íslandi m.a. í Viðey. Skúli fógeti flutti kúmen til Viðeyjar, han mun hafa sótt það austur að Hlíðarenda, en Gísli Magnússon, sýslumaður þar, einn af fyrstu íslensku náttúrufræðingunum jafnan nefndur Vísi Gísli, mun hafa flutt plöntuna til íslands um 100 árum áður en Skúli settist að í Viðey, þ.e. um 1660. Á haustin er oft farið í ferðir út í Viðey til að tína kúmen. Árgerði í Svarfaðardal. Árgerði í Svarfaðardal er bær og gamalt læknissetur skammt sunnan við Dalvík. Húsið stendur á lágum hól við vesturbakka Svarfaðardalsár upp af Árgerðisbrú, sem er aðalbrúin á ánni. Upphaflega var Árgerði hjáleiga frá Böggvisstöðum. Þar var lengi stundaður hefðbundinn búskapur en jörðin er lítil. Búskapurinn lagðist af um miðja 20. öld. Árgerði varð læknissetur þegar Sigurjón Jónsson var skipaður héraðslæknir í Svarfdælahéraði árið 1905. Sigurjón bjó í Árgerði til 1938 er hann fékk lausn frá embætti og flutti til Reykjavíkur. Ingimar Óskarsson náttúrufræðingur frá Klængshóli bjó í Árgerði 1938-1945. Daníel Á. Daníelsson settist síðan að í Árgerði 1945 með fjölskyldu sinni skömmu eftir að hann var skipaður héraðslæknir á Dalvík. Hann lét reisa íbúðarhúsið sem nú stendur og teiknaði það að hluta sjálfur. Daníel var skáld og ljóðaþýðandi og heima í Árgerði þýddi hann m.a. allar sonnettur Williams Shakespeares. Sonja Sohn. Sonja Sohn (fædd Sonja Williams, 1964) er bandarísk leikkona og ljóðskáld sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Slam, The Wire og Body of Proof. Einkalíf. Sohn fæddist og ólst upp í Newport News, Virginíu og er af afrískum-amerískum og kóreskum-amerískum uppruna. Hún stundaði nám í ensku við Brooklyn College. Sonja á tvö börn af fyrra hjónabandi en hefur síðan 2003 verið gift Adam Plack. Góðgerðamál. Sohn er stofnandi og framkvæmdastjóri reWired for Change samtakanna í Baltimore en markmið þeirra er að ná til ungs fólks sem lifa í hættulegum hverfum borgarinnar. Samtökin eru rekin út frá félagsráðgjafadeild háskólans í Maryland og notar þætti úr "The Wire" sem kennsluaðferðir. Aðrir leikarar og handritshöfundar "The Wire" eru stjórnarmeðlimir. Árið 2011 var hún heiðruð með verðlaununum "Kona ársins" af "Harvard Black Men's Forum". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Sohn var árið 1998 í sjónvarpsmyndinni "Bronx County". Árið 2002 var henni boðið hlutverk rannsóknarfulltrúans Shakima 'Kima' Greggs í lögregluþættinum The Wire sem hún lék til ársins 2008. Frá 2011 til 2012 lék Sohn rannsóknarfulltrúann Samantha Baker í dramaþættinum Body of Proof. Hefur hún verið með gestahlutverk í þáttum á borð við Cold Case, The Good Wife og Burn Notice. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Sohn var árið 1996 í "Work". Árið 1998 lék hún Lauren Bell í kvikmyndinni Slam en hún skrifaði einnig söngtextana og var meðhandritshöfundur að myndinni. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Bringing Out the Dead, Shaft, "G" og. Tenglar. Sohn, Sonja Listi yfir hæstu kirkjur heims. Listi yfir hæstu kirkjur heims tekur yfir allar kristnar kirkjur í heimi sem eru hærri en 100 metra háar. Listinn tekur ekki tillit til trúarlerga bygginga annarra trúarbragða, s.s. pagóður, moskur, mínarettur, hof og bænahús. Listinn er að öðru leyti ekki fullkomlega nákvæmur, þar sem ekki er vitað í öllum tilfellum hvort kross, veðurhanar, loftnet og álíka eru mæld með í hæð eftirfarandi kirkna. Í sumum tilfellum hefur mæling með nútíma tækni ekki farið fram, þannig að stuðst er við gamlar mælingar. Brissafi. Brissafi er vökvi sem myndast í brisinu sem er hluti af meltingarkerfi líkamans. Brissafinn sér um stóran hluta efnameltingar í smáþörmum. Hann myndast í brisinu og berst þaðan eftir brisgöngum í skeifugörnina sem er fyrsti hluti smáþarmanna. Í honum eru þrjú mikilvæg ensím: Amýlasi sem klýfur kolvetni niður í maltósa og heldur áfram því starfi sem munnvatnsamýlasi byrjar á í munni. Trypsín sem klýfur prótín í fjölpeptíð á sama hátt og pepsín magans. Lípasi brýtur svo niður fitu í fitusýru og glýseról og líkur þar með meltingu fitu. Til þess að lípasi nái að vinna sitt verk verða þó gallsölt að vera búin að sundra fitunni fyrst í dropa. Auk þess er í honum brismylasi sem brýtur niður mjölva svo úr verður maltósi, auk þess trypsún og kymotrypsín sem brýtur prótín niður í peptíð og þá sér annað ensím, peptíðasi, um að brjóta peptíðin niður í amínósýrur sem líkaminn getur þá nýtt sér bæði til að mynda ný prótín og glúkósa og núkleasa sem brýtur kjarnsýrur niður í kirni Þegar búið er að brjóta þessar einingar niður geta smáþarmarnir tekið þau upp með frásogi og líkaminn getur nýtt sér þær. Geðrofslyf. Geðrofslyf eru geðlyf sem er ætlað að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum geðrofs hjá fólki. Geðrofslyf eru sérstaklega notuð af þeim sem þjást af geðklofa eða geðhvarfasýki. Árið 2012 fengu um 10 þúsund Íslendingar ávísað geðrofslyfum. Nándarstaða og firðstaða. Nándarstaða og firðstaða eru þeir staðir á sporbaugi hlutar um þungamiðju þar sem hlutirnir eru nálægastir hvorum öðrum (nándarstaða) eða fjarlægastir (firðstaða). Alþjóðlega er algengast að grísku orðin "periapsis" (nándarstaða) og "apoapsis" (firðstaða) séu notuð. Ef átt er við hluti á sporbaugi um sólu, líkt og reikistjörnur, er gjarnan talað um sólnánd (gr. "perihelion") þeirra og sólfirrð (gr. "aphelion"). Ef um er að ræða hluti á sporbaugi um jörðu er sömuleiðis talað um jarðnánd (gr. "perigee") og jarðfirrð (gr. "apogee"). Nándar- og firðstöður í sólkerfinu. Taflan sýnir fjarlægð reikistjarna og dvergreikistjarna frá sólu á nándarstöðu þeirra og firðstöðu. Stóra-Laugardalskirkja. Stóri-Laugardalur er bær og kirkjustaður við norðanverðan Tálknafjörð. Núverandi kirkja var vígð 3. febrúar 1907, en efniviðurinn í hana var fluttur inn frá Noregi, tilsniðinn að mestu leyti. Byggingin tekur um 120 manns í sæti. Einn merkasti gripur Laugardalskirkju er prédikunarstóll, mikill og forn. Sagan segir að hann sé kominn úr dómkirkjunni í Óðinsvéum í Danmörku og danskur kaupmaður hafi gefið kirkjustaðnum í Laugardal hann. Kirkjan á fleiri góða gripi, meðal annars afar fornan gylltan kaleik, patínu og kirkjuklukkur. Er önnur þeirra með ártalinu 1701. Altaristafla kirkjunnar er eftirlíking af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci. Orgel kirkjunnar er einnig hinn merkasti gripur en það var smíðað af Ísólfi Pálssyni og er sennilega frá því um 1920. Grunnstýringarkerfi. Grunnstýringarkerfi (enska: "Basic Input/Output System", BIOS) er einfalt stýrikerfi, sem er hluti af fastbúnaði einkatölva. Það er því geymt í lesminni (ROM). Grunnstýringarkerfið er fyrsta forritið sem fer í gang þegar kveikt er á tölvunni og sér um að ræsa tölvuna og stýrikerfi hennar. Pínatúbó. Kort af vesturhluta Lúson. Pínatúbó er sunnarlega í Zambales-fjöllum. Maníla er neðst til hægri á kortinu. Pínatúbó er virkt eldfjall á eyjunni Lúson á Filippseyjum. Það var talið kulnað er það gaus stórgosi 1991. Áhrif þess á veðurfar í heiminum hafa ekki verið jafn mikil í einstöku gosi síðan Krakatá gaus 1883. Lega og lýsing. Pínatúbó er vestarlega á Lúson, um 80 km loftlínu fyrir norðvestan Maníla og 20 km fyrir vestan borgina Angeles City. Fjallið er í Zambales-fjöllum, sem er nokkurs konar keðja eldfjalla frá norðri til suðurs. Hæðin fyrr á öldum var 1745 m en fjallið sjálft var aðeins í um 600 m hæð yfir jafnsléttu og 200 m hærra en nærliggjandi fjöll. Því var fjallið ekki sérlega áberandi. Við fjallsræturna gæta monsúnrigningar og því er gróðurfar með besta móti. Víða var frumskógur sem var ákjósanleg veiðilenda fyrir frumbyggja á Lúson, sérstaklega ættflokkar aeta og negrito. Mörg hundruð þúsund manns bjuggu í kringum fjallið fyrir gos 1991. Myndun og jarðsaga. Fjallgarðurinn sem Pínatúbó er í myndaðist er filippínski jarðflekinn færðist vestur undir evrasíuflekann. Þannig ýttust fjöllinn upp, en hraunkvika á greiða leið upp á yfirborðið. Jarðsögu Pínatúbó má skipta í tvö tímabil. Fyrra tímabilið hófst fyrir 1,1 milljón árum við hreyfingu á jarðflekunum. Talið er að fjallið hafi áður verið 2.300 m hátt, þ.e. miklu hærra en það er nú. Fjall þetta minnkaði mikið með rofi eftir að fyrra tímabilinu lauk, enda varð þá hlé í gosum og ekkert gosefni myndaðist til að viðhalda hæðinni. Síðara tímabilið hófst fyrir um 35 þúsund árum með stórgosi, því mesta sem komið hefur í fjallið. Öskulag upp á 100 m hlóðust upp í kringum fjallið. Talið er að gjóskumagnið hafi numið um 25 km3. Lítið er vitað um gossögu fjallsins eftir það. Þó er talið að gos hafi átt sér stað fyrir 5.500 og 3.500 árum. Á sögulegum tíma eru lítil ummerki eftir gos. Í munnmælasögum frumbyggja á Lúson, aeta og negrito fólksins, koma fram sprengingar á gömlum tímum, en ekki er víst að um gos sem slíkt hafi verið að ræða. Á 20. öld, þegar eldfjallafræðin ruddi sér til rúms, var Pínatúbó álitið kulnað eldfjall. Gosið 1991. 2. apríl 1991 byrjaði Pínatúbó að gjósa, eftir undangengna skjálftahrinu. Gosið var lítið og takmarkaðist nær eingöngu við aðalgíginn. Smágos þetta varaði í tvær vikur. Í maí jókst gosið, en í lok mánaðarins var gasframleiðslan orðin mjög lítil. Menn óttuðust að fyrirstaða í fjallinu mundi leiða til stórsprengingar. Sú varð raunin en 7. júní varð mikil sprenging í toppgíg fjallsins. Öskuskýið náði í 7 km hæð. Þetta töldu vísindamenn þó aðeins forboði meiri hamfara, enda sýndu mælar mikið landris. Byrjað var að rýma stór svæði í kringum eldfjallið. Í upphafi hafði 10 km radíus frá gíg fjallsins verið rýmdur. Eftir að gosið jókst í júní var farið að rýma í 20 km (7. júní) og loks 40 km radíus (14. júní). Voru þá 30 þúsund manns búnir að yfirgefa heimili sín. Flestir fóru til Manila. 12. júní hófst stórgos í fjallinu. Öskuský náði 19 km hæð, en brennheitir öskustraumar liðuðust niður hlíðarnar og eyddu öllu sem fyrir var. Daginn eftir varð mikil sprenging í fjallinu sem þeytti öskuskýi í 24 km hæð. Tvisvar á næstu tveimur dögum náði öskuskýið í meira en 20 km hæð eftir magnaðar sprengingar. Mesta gosið var hins vegar 15. júní. Samtímis fór fellibylurinn Yunya yfir Lúson, þannig að ekki reyndist unnt að sjá gosið berum augum. En mælitæki sýndu að öskuskýið náði 34 km hæð. Öskustraumar liðuðust í allt að 16 km fjarlægð frá gígnum. Niðamyrkur var yfir allt miðsvæði Lúson, jafnvel að degi til og ösku rigndi nær alls staðar niður, en hún blandaðist regninu frá fellibylnum. Aska féll einnig í nokkrum nágrannaríkjun, svo sem Víetnam, Kambódíu og Malasíu, 9 tímum eftir upphaf stórgossins. Þegar fellibylurinn var farinn hjá kom í ljós að eldvirknin í Pínatúbó var orðin lítil en hélt þó áfram í nokkrar vikur enn. Áhrif gossins innanlands. Skemmdar byggingar í Clark Air Base Talið er að magn gosefna í gosinu 1991 hafi verið um 10 km3, um tífalt á við Mount St. Helens í Bandaríkjunum 1980. Toppur fjallsins var horfinn. Fyrir gos náðu efstu tindar 1745 m hæð, en í dag eru þeir aðeins í 1486 m hæð. Gígurinn hafði stækkað og var orðinn 2,5 km í þvermál. Ofan í honum hafði myndast stöðuvatn. Alls létust 875 manns í gosinu, í flestum tilfellum vegna þess að þök á húsum hrundu undan þunga gosefna blandað rigningarvatni. Talið er að rýming svæðanna í kringum fjallið hafi bjargað tugum þúsunda mannslífa. Á svæðinu voru tvær bandarískar herstöðvar, Subic Bay Naval Base og Clark Air Base, og stórskemmdust þær báðar. Hvorugar voru reistar á ný, enda hurfu Bandaríkjamenn úr landi skömmu síðar. Landbúnaðurinn átti mjög undir högg að sækja, því hundruðir km2 svæðis eyðilögðust. Um 800 þús nautgripir og hænsn drápust. Bændur urðu að flytja búferlum. Um 8.000 hús eyðilögðust og 73 þús til viðbótar stórskemmdust. Umferðarmannvirki skemmdust einnig víða, ekki síst af aurskriðum. Sá ættbálkur sem verst varð úti í hamförunum var aeta-fólkið. Það hefur búið í hlíðum Pínatúbó í mörg hundruð ár en missti nú heimkynni sín. Öskustraumar niður fjallið eyðilagði nær alla bæi þess. Sumir sneru til baka en flestir voru fluttir í önnur svæði af ríkisstjórninni. Hnattræn áhrif gossins. Gosið í Pínatúbó dreifði gjósku og öðrum gosefnum í efri hluta lofthjúpsins. Brennisteinssýra orsakaði þoku sem dreifðist víða um haf og lönd. Talið er að um 17 milljón tonn af sýrunni hafi komist í heiðhvolfið, en það hefur ekki gerst í slíkum mæli síðan í gosinu í Krakatá 1883. Afleiðingar þessa var minnkun á sólargeislun til jarðar um heil 5%. Það leiddi aftur af sér að meðalhitastig í heiminum minnkaði 0,4° en 0,5-0,6° á norðurhveli. Gufuskýin úr gosinu voru í þrjú ár í efri lögum lofthjúpsins. Mælingar á ósonlaginu á breiddargráðu Pínatúbó leiddi í ljós þynnra lag en áður hafði mælst og við Suðurskautið var ósongatið stærra en nokkru sinni fyrr. Hins vegar má gera ráð fyrir því að gos í eldfjallinu Hudson í Síle 1991 hafi átt þátt í þessu líka. Síðustu ár. Gígvatnið í Pínatúbó er vinsæll viðkomustaður fjallgöngumanna í dag Gosvirkni í Pínatúbó lauk ekki fyrr en í júlí 1992. Vísindamenn bjuggust þó við öðru gosi í júlí, þannig að nokkur svæði voru rýmd aftur. En aðeins minniháttar órói varð í fjallinu. Engin virkni hefur verið í því síðan 1993. Í gosgígnum myndaðist stöðuvatn sem stækkaði með degi hverjum. Brátt voru menn uggandi um að gígbarmarnir gæfu undan með tilheyrandi flóði. Því var ákveðið svæði rýmt aftur. Auk þess var búið til 5 m breitt gat á einn gígbarminn þar sem vatnið gat flætt út án þess að valda skemmdum. Stöðuvatnið er enn til staðar, en er miklu minna núna. Það er vinsæll viðkomustaður meðal fjallgöngumanna. Aeta-fólkinu voru gefin yfirráð yfir fjallinu og gígnum, enda hafa forfeður þess búið þar lengi. Allar náttúruauðlindir, sem og tekjur af ferðamennsku, eru því í þeirra höndum. Járngrýti. Hematít sem er aðaljárngrýtið í námum í Brasilíu Járngrýti er berg sem er svo járnauðugt að það borgar sig að vinna úr því frumefnið járn. Þær járnsteindir sem helst mynda járngrýti eru magnetít (Fe3O4), hematít (Fe2O3), límonít (HFeO2) og síderít (FeCO3). Járn var til forna unnið úr mýrarrauða sem er einkum límónít. Járn er frumefni sem getur komið fyrir á þremur oxunarstigum, sem málmur (Fe0), tvígilt járn (Fe2+) og þrígilt (Fe3+). Tvígilt járn er leysist vel upp í vatni en þrígilt ekki. Járngrýti getur myndast við kristöllun úr bergkviku, við myndbreytingu kringum kólnandi berghleif, við veðrun bergs, og sem efnaset. Járnnáman í Kiruna í Norður-Svíþjóð er dæmi um kristöllun úr bergkviku en járngrýti þar inniheldur um um 60% Fe. Við efnaveðrun bergs leysast ýmis efni upp og berast burtu úr berginu og eftir verða t.d. bergtegundir eins og báxít (Al(OH)3) sem ál er unnið úr en úr báxíti hafa öll efni veðrast burt nema þau sem eru sérstaklega torleyst eins og þrígilt járn (hematít, límonít) og títan. Þegar járnríkt berg veðrast oxast tvígilt járn í þrígilt sem svo situr eftir þó að önnur efni bergsins skolist burt. Bergið verður þannig járnauðugra en þannig járnmyndanir eru ekki nægilega járnauðugar til að borgi sig að vinna úr þeim járn. Mikilvægustu járnmyndanir eru svokallað lagskipt járngrýti en það er efnaset sem myndaðist við aðstæður sem ríktu á jörðinni fyrir 3,2 til 1,7 milljörðum ára. Í því efnaseti skiptast á þunn lög af járnoxíðum (hematít, magnetít) á við kísilrík setlög. Talið er að þessi lög hafi myndast með árstíðabundinni sveiflu þar sem járnið oxaðist úr bergi og barst til hafs, sennilega af völdum ljóstillífandi blágrænna þörunga sem framleiddu meira súrefni á sumrin. Báxít. Báxít er málmgrýti. Nær allur álmálmur er framleiddur úr báxíti. Báxít kemur fyrir sem veðrunarafurð berggrunns úr kísli með litlu járninnihaldi í hitabeltisloftslagi. Eru báxítnámur af þessum sökum flestallar á breiðu belti í kringum miðbaug. Báxít er unnið úr námum á yfirborði jarðar þannig að jarðvegi er flett af og hann geymdur þar til náman hefur verið tæmd. Báxít er þvegið og malað og leyst upp í mjög heitu vatni sem inniheldur vítissóda. Í vökvanum eru þá uppleyst natríumálnítrat og óupleystir hlutar úr báxiti sem innihalda járn, kísil og titanium. Þessi óuppleysti hluti báxits nefnist rauðleðja og botnfellur úr vökvanum og er fjarlægður. Þá er vökvanum með natríumálnítrat dælt í stóra tanka þar sem súrál botnfellur. Það botnfall er hitað í 1100 °C til að losna við kemískt bundið vatn. Þá kemur hvítt duft sem er hreint súrál. Báxít inniheldur súrál eða áltríoxíð (Al2O3). Við álframleiðslu eru aðskotaefni hreinsuð frá súráli og þarf 2 til 3 kg af báxít til að framleiða 2 kg af súráli. Súrál er fíngert hvítt duft og er ál unnið úr því með rafgreiningu. Sú rafgreining þarf afar mikla orku en það þarf 15 kWh af raforku til að vinna 2 kg af áli. Tvö kg af súráli gefa eitt kg af áli. Um þriðjungur af heimsframleiðslu báxíts kemur frá Ástralíu en Kína, Brasilía, Indland og Guinea vinna einnig mikið báxít. Apó. Apó er hæsta fjall Filippseyja Apó er eldfjall á Filippseyjum og jafnframt hæsta fjall landsins. Ekki er vitað hvort eldfjallið er virkt, en það er einn vinsælasti áfangastaður útivistar- og fjallgöngumanna á Filippseyjum. Fjallið er þjóðgarður og er á heimsminjaskrá UNESCO. Lega og lýsing. Apó er sunnarlega á eyjunni Mindanaó, í héraðinu Cotobato. Stórborgin Davaó er 40 km í norðvestri frá tindinum, Digos City 25 km til norðausturs og Kidapawan City 20 km til vesturs. Apó er 2.954 m hátt og þarmeð hæsta fjall Filippseyja. Gígskálin er lítil, aðeins 500 m í þvermál, en í kringum hana eru þrír tindar. Ekki er vitað hvenær Apó gaus síðast, en ekkert gos hefur verið í því á sögulegum tíma. Nokkur jarðhiti er í fjallinu. Þar er einnig jarðvarmaorkuver, hið eina slíka á Mindanaó. Það framleiðir 106 MW. Í hlíðum Apó og við fjallsræturnar búa 6 mismunandi ættbálkar manna: Manobo, Bagobo, Ubo, Ata, K‘Iagan og Tagacaolo. Fólk þetta lítur á Apó sem heilagt fjall. Þjóðgarður og heimsminjar. Bikarblóm í regnskógi við Apó 1936 var Apó lýstur þjóðgarður af Manuel Quezon forseta og 2004 sem náttúruverndarsvæði. 2009 var svæðið síðan sett á heimsminjaskrá UNESCO, enda einstakt í heimi fyrir að hýsa dýra- og plöntutegundir sem finnast hvergi annars staðar. Þar verpa t.d. 272 fuglategundir, en af þeim finnast 111 tegundir hvergi annars staðar. Þjóðarfugl Filippseyja og ein stærsta arnartegund heims verpir eingöngu þarna og er í útrýmingarhættu. Í fjallinu eru þrenns konar frumskógar sem ná nærri því alla leið á tindinn. Útivistarsvæði. Apó er eitt vinsælasta útivistarsvæði Filippseyja. Það var svo vitað sé fyrst klifið 10. október 1880 af Don Joaquin Rajal, spænska landstjóranum í Davaó. Á síðustu áratugum streymir fólk upp á tindinn, sem þykir frekar auðveldur viðfangs og krefst ekki mikillar sérkunnáttu. Hins vegar tekur tvo til fjóra daga að komast á tindinn og til baka, allt eftir því hvaða leið er farin. Hundruðir manna fara á tindinn árlega. Mayon. Mayon er eldfjall á Filippseyjum, það virkasta í landinu. Það hefur fjöldaoft gosið á undanförnum öldum, ekki síst á 20. öld. Fjallið er þjóðgarður í dag. Lega og lýsing. Mayon liggur nær syðst á eyjunni Lúson, tíu kílómetra frá Albayflóa og tólf kílómetra frá borginni Legazpi, sem liggur við sama flóa. Mayon er eldkeila og ákaflega regluleg sem slík. Hallinn er nokkuð stöðugur í 35-40°. Gos undanfarinna alda hafa framleitt öskustrauma og hraun sem runnu nokkuð veginn jafn niður hlíðar fjallsins og myndað reglulega keilu. Gossaga. Gamall kirkjuturn er allt sem eftir er af bænum Cagsawa sem eyddist í gosi 1814 Gos í Mayon 1984. Öskustraumar liðast niður fjallið og eyða öllu Mayon er hluti af eldhringnum í Kyrrahafi og myndaðist við það að Kyrrahafsflekinn ýtist undir Filippseyjaflekann. Talið er að fjallið hafi gosið 48 sinnum síðustu 400 ár eða frá því að Spánverjar komu til eyjanna. Fyrsta skráða gosið átti sér stað í febrúar 1616, en það var hollenskur sæfari, Joris van Spilbergen sem það gerði á hnattsiglingu sinni. Á nýlendutíma Spánverja hefur fjallið margoft gosið. Eitt mesta gosið varð í febrúar 1814. Öskulag gróf bæinn Cagsawa. Stórt svæði eyðilagðist undir 9m þykku öskulagi. 2.200 innfæddir af ættbálki Albay létust, en það er mesta mannfall sem Mayon hefur orsakað. Gos þetta, ásamt stórgosinu í Tambora 1815, mun hafa orsakað „árið án sumars“ 1816. Mesta gos í fjallinu var 1897 en þá rigndi ösku og eldi í sjö daga samfleytt. Bærinn Bacacay grófst undir 15 metra hraunlagi. Eitt hundrað manns létu lífið í bænum Líbon. Mýmörg gos voru skráð á 19. og 20. öld. 1984 voru 73 þúsund manns fluttir á brott er stórt svæði var rýmt í gosi. Í gosi 1993 létust 77 manns í öskustraumi niður hlíðar fjallsins, aðallega bændur. Síðustu gos í Mayon áttu sér stað 2000, 2001, 2006, 2008 og 2009-10. Gosið 2006. 18. júlí 2006 hófst gos í Mayon á ný. Nokkrum dögum síðar var ákveðið að rýma svæði í kringum eldfjallið. Fyrst voru 20 þúsund manns fluttir á brott en síðar voru þeir orðnir 40 þús. Eldfjallafræðingar bjuggust við hamförum en gosið reyndist vera frekar lítið miðað við það sem áður hafði gerst. Gosinu lauk 25. október en 30. nóvember gekk fellibylurinn Durian yfir svæðið. Í úrhellinnu sem honum fylgdi myndustu aurstraumar úr nýfallinni öskunni og grófu þeir minnst 1.266 manns. Margra í viðbót var saknað. Austraumar náðu að borginni Legazpi og eyðilögðu heil hverfi. Miðborgin slapp að vísu við straumana, en urðu illa útí í vatnsflaumum. Um milljón manns urðu heimilislausir. Gosið 2009-10. 28. október 2009 hófst gos í Mayon á ný. Yfirvöld ákváðu fljótlega að rýma svæði sem næði 8 km radíus frá fjallinu. Tæplega 50 þúsund manns voru fluttir á brott og urðu þeir að gista í sérstökum eldfjallabúðum sem komið var upp fyrir þá. Vandamálið var að ekki gegndu allir rýmingarskyldunni og urðu eftir, minnugir þess að lítið gerðist í gosinu 2006. Einnig var mikið um það að útlendingar réðu sér innfædda leiðsögumenn til að komast nær fjallinu til að ljósmynda og skoða. Tekið var til bragðs að fá herinn til að sjá um að loka leiðum að fjallinu og sinna eftirliti. Auk þess var vatni og rafmagni lokað á bæi við fjallið til að letja fólk að vera um kyrrt. Gosið sjálft var þó með minna móti. Hraun rann niður hlíðar fjallsins og aska dreifðist um tiltölulega lítið svæði. Hamfarirnar sem eldfjallafræðingar spáðu fyrir um urðu ekki að þessu sinni. Gosið stóð yfir fram í janúar 2010. Vöktun. Mayon er virktasta eldfjall Filippseyja og er það mikið kappsmál fyrir eldfjallafræðinga að fylgjast vel með því. Það er filippínska eldfjallastofnunin, PHIVOLCS, sem sér um rannsóknir og vöktun fjallsins. Vaktstöðin er á Lignon-hæð í tíu kílómetra fjarlægð frá gígnum. Ýmis mælitæki frá hlíðum fjallsins, svo sem skjálftamælar, senda rafræn skilaboð til vaktstöðvarinnar. Árið 2000 var Mayon gert að þjóðgarði. Davaó. Davaó (tagalog: "Lungsod ng Dabaw"; enska: "Davao City") er fjórða stærsta borg Filippseyja með um 1,4 milljónir íbúa og er ört vaxandi. Lega og lýsing. Davaó er hafnarborg við Davaóflóa sunnarlega á eyjunni Mindanaó. Hún er fjölmennasta borgin á eyjunni, en hvað landrými snertir er hún stærsta borg Filippseyja. Fljótið Davaó rennur í gegnum stórborgina. Eldfjallið Apó, hæsta fjall landsins, er aðeins 40 km til vesturs og gnæfir ógnandi í fjarlægð. Sökum þess að borgin er mjög stór að flatarmáli er helmingur hennar græn svæði, bæði skógar og landbúnaðarsvæði. Hitastigið rokkar milli 20 og 32°C. Davaó er utan við leið fellibyjla, þannig að stormar valda þar engum skaða. Orðsifjar. Fræðimenn telja að Davaó sé samsett úr orðum þriggja tungumála. Obo-fólkið kallaði fljótið Davoh, Guiangan-fólkið kallaði það Davau og Bagobo-fólkið kallaði það Dabu. Öll þrjú heitin hafa sína ólíku merkingu en samsett fæst úr þeim heitið Davaó. Upphaf. Svæðið sitthvoru megin við Davaó-fljótið var í höndum innfæddra ættbálka allt fram að á miðja 19. öldina. Spánverjar, sem voru nýlenduherrar í landinu, byggðu upp bæði á Lúson og nærliggjandi eyjum en komu ekki til Davaó fyrr en 1848 er fyrstu hópur landnema settist þar að. Þeir lentu í útistöðum við innfædda ættbálka þar til spænskt herlið kom til staðarins skömmu síðar. Það sigraði höfðingjann Datu Bago og eftir það stóð Spánverjum ekkert í vegi. Þeir reistu bæ sem hlaut heitið Nueva Guipúzcoa, eftir heimabæ herforingjans á Spáni. Síðar var heitinu breytt í Davao City. 1868 komu fyrstu jesúítarnir til Davaó og hófst þá kristniboð hjá innfæddum fyrir alvöru. Þeim var svo ágengt að jafnvel margir múslímar létu skírast. Bandaríski tíminn. Litla Japan á fjórða áratugnum Skömmu eftir að Bandaríkjamenn urðu nýlenduherrar landsins 1898, fóru margir þeirra að setjast að í Davaó. Þeir endurbættu landbúnaðinn til muna. Þeir komu upp plantekrum þar sem ræktað var gúmmí, hampur og kókoshnetur í stórum stíl. Erfitt reyndist að fá starfsfólk, þannig að þeir réðu vinnufólk frá öðrum eyjum, einnig Japana. Japanarnir komu sér brátt sjálfir upp plantekrum og hófu mikla rækt. Japanskir innflytjendur voru svo margir að í heilu hverfin voru í raun japönsk og voru kölluð Litla Japan. Þar voru japanskir skólar, eigin blaðaútgáfa, shinto-hof og jafnvel eigið sendiráð. Höfnin var endurbætt og var notuð til útflutnings landbúnaðarafurða, bæði til innanlands og til útlanda, svo sem til Bandaríkjanna, Japans og Ástralíu. Borgin stækkaði ört á fyrstu þremur áratugum 20.aldar. Manuel Quezon veitt Davaó formleg borgarréttindi 16. október 1936 og varð hún jafnframt héraðshöfuðborg. Íbúar voru þá orðnir 68 þúsund. Stríð. 1941 réðust Japanar inn í Filippseyjar og hernámu einnig Davaó. Japanskir íbúar borgarinnar voru þegar orðnir nær 80%. Í borginni var sett upp japönsk herstöð og bækistöðvar yfirmanna hersins. Margir óttuðust Japana, enda stjórnuðu þeir með grimmd. Ástand þetta varaði í fjögur ár. Um vorið 1945 voru Bandarískar hersveitir komnar til Mindanaó. 3. mars komu þær til Davaó, sem var síðasta borgin á Filippseyjum enn undir stjórn Japana. Þar brutust út bardagar, bæði í borginni og á plantekrunum fyrir utan, og tókst Bandaríkjamönnum að hertaka borgina. Japanar höfðu áður eyðilagt hana eins mikið og mögulegt var. Nútími. Sara Duterte-Carpio er fyrsti kvenborgarstjóri Davaó Eftir brotthvarf Japana hrundi íbúatala Davaó. Því fluttu þangað margir frá Lúson og öðrum eyjum, þannig að uppvöxtur borgarinnar hélt áfram. Hún varð að stærstu borg á Mindanaó, ásamt því að vera miðstöð landbúnaðar og efnahags. Ræktun á hampi minnkaði en við tóku harðviður, kókos og bananar. 1967 var hið risavaxna borgarsvæði skipt í þrennt og búnar til þrjár sýslur. Frá 1986 til 2010 var Rodrigo Duterte borgarstjóri í Davaó og setti ótvíræð mark sitt á borgina. 2010 varð dóttir hans, Sara Duterte-Carpio, kosin arftaki hans en hún er fyrsta konan sem gegnir borgarstjórastöðu í Davaó og jafnframt er hún yngsti borgarstjóri borgarinnar (32 ára við kosningu). Síðustu áratugi hefur borgin vaxið mjög. Við síðasta manntal 2010 voru þeir 1,4 milljónir en talið er að þeir sú að komnir yfir 1,6 milljónir 2013. Fjölþjóðamenning. Kadayawan-hátíðin er haldin í ágúst ár hvert Í Davaó býr fjöldi þjóðabrota, bæði innlendir og erlendir. Stærsti trúarhópur borgarinnar eru kaþólikkar (80%). Stór hluti menningarbragsins í borginni er því kristinn. Helsta sérhátíð þeirra (fyrir utan jól og páska) er Dabaw-hátíðin, en hún stendur yfir í heila viku. Innfæddir ættflokkar halda sínar eigin hátíðir. Stærst þeirra er sú sem Lumad-fólkið heldur en hún kallast Kadayawan-hátíðin. Það er nokkurs konar þakkargjörð fyrir gjafir náttúrunnar, fyrir hina árlegu uppskeru og fyrir hið einfalda líf. Kínverjar eiga sér kínverskt hverfi (Chinatown) í Davaó. Það er eina slíka á Filippseyjum sem er með eigin höfn. Borgin er með fleiri Japana en nokkur önnur borg á Filippseyjum. Þeir eru hins vegar taldir Filippseyingar í dag. Flestir búa í hverfunum Japantown og Little Tokio. Áhugaverðir staðir. Í Davaó er ýmsir áhugaverðir skemmti- og fjölskyldugarðar. Til dæmis arnargarðurinn þar sem filippínski örninn er alinn en hann er eingöngu að finna í Davaó og næsta nágrenni. Þar er einnig krókódílagarður, náttúrugarðurinn Eden, Paradise Island Park, leðurblökuhellir á smáeynni Samal og kóralgarðurinn við sjávarsíðuna. The Daily Telegraph. "The Daily Telegraph" er breskt dagblað sem gefið er út í London á hverjum degi (nema á sunnudögum) og dreift er um allan heim. Greinar blaðsins eru skrifaðar með íhaldssamri hlutdrægni. Dagblaðið var stofnað árið 1855 sem "The Daily Telegraph and Courier" af Arthur B. Sleigh ofursta í breska hernum. Síðan árið 2004 hefur það verið í eigu Barclay-bræðanna. Árið 2011 voru lesendur "The Telegraph" 634.113 daglega, miðað við 441.205 lesendur af "The Times". Systurblað "The Telegraph" heitir "The Sunday Telegraph" en það er rekið eitt og sér og skrifað af öðrum blaðamönnum. Söngvakeppnin sjónvarpsins 2013. Söngvakeppnin sjóvarpsins 2013 átti sér stað frá 25. janúar og 2. febrúar 2013 og ákvað hver mun keppa fyrir hönd Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2013. Snið. RÚV tilkynnti í nóvember 2012 að nýtt snið yrði á Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2013 og að tólf lög yrðu valin til að keppa í undankeppnunum tveimur 25. og 26. janúar og að þrjú lög yrðu valin til að komast áfram í aðalkeppnina. Aðalkeppnin mun svo eiga sér stað þann 2. febrúar í Hörpunni. Dómnefnd fær síðan að hleypa einu lagi í aðalkeppnina. Frá aðalkeppninni munu tvö stigahæstu lögin halda áfram og heyja einvígi í lokakeppninni. Sylvía Erla Scheving. Sylvía Erla Scheving (fædd 27. febrúar 1996) er íslensk söngkona sem mun taka þátt í Söngvakeppninni 2013 með laginu "Stund með þér." Í æsku sinni stundaði hún ballet, fimleika og dans hjá Stellu Rósinkrans og Birnu Björns. Tólf ára gömul sótti hún fyrst söngtíma hjá Birgittu Haukdal og fór síðar í Söngskóla Maríu Bjarkar. Hún hefur lokið námi í Complete Vocal Technique og lært klassískan söng hjá Alinu Dubik. Hún er dóttir Magnúsar Scheving Kot í Svarfaðardal. Kot er fremsti (innsti) bær í Svarfaðardal, 24km frá Dalvík. Upp af bænum er Kotafjall sem er 1100 m hátt. Kot er stærsta jörðin í Svarfaðardal, mikið og fallegt lendi. Svarfaðardalsá rennur svo skammt neðan við bæinn. Handan hennar er Hnjótafjall og reiðleiðin gamla um Hnjóta og yfir Heljardalsheiði. Ekki er vitað hvenær búskapur hófst í Koti en það mun hafa verið snemma á öldum. Jörðin var um hríð eigu Möðruvallaklausturs, síðan konungseign og svo þjóðjörð, uns ábéndur keyptu hana af ríkinu um miðja 20. öld. Núverandi íbúðarhús í Koti var byggt árið 1956 og voru eigendur þess Guðrún Magnúsdóttir húsfreyja og Jónas Þóleifsson bóndi og ljóðskáld, áttu þau börnin Erling Jónasson, Sveinfríði Jónasdóttir, Jónínu Jónasdóttir, Ingólf Jónasson, Halldór Jónasson, Friðrikku Jónasdóttir og Magnús Þorsteinn Jónasson. Í dag eru hjónin Magnús Þorsteinn Jónasson og Anna Lísa Stefánsdóttir eigendur að Koti. Bjuggu þau þar saman í þrettán ár en fluttu svo á Dalvík. En er samt búskapur í koti, eru þar nokkrar kindur sem ganga svo á fjöll á sumrin. Skeiðsvatn er lítið stöðuvatn í Vatnsdal sem er afdalur út frá Svarfaðardal milli bæjanna Skeiðs og Kots. Mikið berghlaup hefur fallið úr Skeiðsfjalli og myndað mikla urðarhóla í dalsmynninu. Innan við þá myndaðist vatnið, það er í um 230 m y.s. Vatnsdalsá fellur úr því til Svarfaðardalsár. Smásilungur er í vatninu en hann er lítið veiddur. Engin byggð er í Vatnsdal og hefur aldrei verið en þar eru gamlar seljarústir enda var þar haft í seli allt frá landnámsöld ef marka má frásagnir Svarfdælu. Margir ferðamenn leið sína í Vatnsdaltil að skoða vatnið og þangað er merkt gönguleið frá Koti. Tartu. Tartu er önnur stærsta borg Eistlands með um hundrað þúsund íbúa. Hún stendur á bökkum árinnar Emajõgi 186 km suðaustan við höfuðborgina Tallinn. Í Tartu er elsti háskóli Eistlands, Tartu-háskóli, stofnaður 1632 af sænska konunginum Gústafi 2. Adolf. Ísrisi. Ísrisi er ein gerð risavaxinna reikistjarna sem samanstendur að mestu úr efnum sem ekki eru jafn rokgjörn og vetni og helín. Á tíunda áratug tuttugustu aldar varð ljóst að Úranus og Neptúnus voru aðgreindir frá stærri gasrisum sólkerfisins að því leyti að þeir innihalda í kringum 20% vetni á móti 90% vetnishlutfalli Júpíters og Satúrnusar. Talið er að í kjörnum þeirra sé ekki að finna málmkennt vetni eins og í stærri gasrisunum heldur þyngri frumefni og sameindir þeirra á borð við vatn. Auk Úranusar og Neptúnusar hafa fundist fjarreikistjörnur á brautum um aðrar stjörnur sem líklega eru ísrisar. Université Bordeaux I. Université Bordeaux I eða Université Bordeaux 1 Sciences et Technologies, þekktur sem Bordeaux I, er opinber háskóli í Bordeaux í Aquitaine í Frakklands. Bordeaux I leggur mikla áherslu á raunvísinda- og verkfræðigreinar. Fantasía. "The Princess and the Goblin" eftir George MacDonald frá 1872 er stundum talin fyrsta fantasían. Fantasía er bókmenntagrein þar sem sögutími er óskilgreind fortíð og töfrar og yfirnáttúrulegar verur eru hluti af söguþræðinum. Oft er lögð mikil vinna í að skapa nýjan söguheim sem gjarnan líkist Evrópu miðalda eða árnýaldar þótt líka séu til fantasíur þar sem sagan gerist í samtímanum. Fantasíur sækja efnivið sinn mikið til ævintýra og goðsagna. Fantasíur eru skyldar vísindaskáldsögum sem gerast í óskilgreindri framtíð. Báðar þessar greinar tilheyra grein furðusagna. Fantasíur eiga upptök sín um miðja 19. öld með verkum höfunda á borð við John Ruskin og George MacDonald. Þekktustu fantasíubókmenntir samtímans eru líklega verk J.R.R. Tolkiens, "Hringadróttinssaga" og "Hobbitinn". Fantasíur eru vinsælt efni kvikmynda, myndasagna, spila og tölvuleikja. Fernando Arrabal. Fernando Arrabal Terán (f. 11. ágúst 1932) er spænskt leikskáld, kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur. Hann fæddist í spænsku útlendunni Melilla á norðurströnd Afríku en hefur búið og starfað í Frakklandi frá 1955. Hann stofnaði listamannahópinn "Mouvement panique" ásamt Alejandro Jodorowsky og Roland Topor árið 1962 undir áhrifum frá leikhúsi grimmdarinnar. Hann er oft nefndur sem eitt af höfuðskáldum leikhúss fáránleikans. Skylduskil. Samkvæmt lögum um skylduskil á Íslandi ber útgefanda að skila fjórum eintökum af útgefnum bókum. Skylduskil nefnist lagaleg kvöð sem víða er sett um að útgefandi afhendi bókasafni, oft þjóðbókasafni, eintak eða eintök af útgefnu verki. Í Póllandi er útgefanda skylt að afhenda 19 eintök en á Íslandi eru þau fjögur. Markmiðið með skylduskilum er að varðveita menningarleg verðmæti til framtíðar litið. Skylduskil á Íslandi. Á Íslandi er einnig skilaskylda á hljóðritum, verkum á rafrænu formi, dagskrá Ríkisútvarpsins til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns auk örgögnum og skyggnum. Kvikmyndum er skilað til Kvikmyndasafns Íslands. Allt frá maí 1662, sama ár og Kópavogsfundurinn átti sér stað, áttu prentsmiðjur á Íslandi að senda Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og seinna meir líka bókasafni Kaupmannahafnarháskóla eintök af útgefnu efni. Fyrstu lög um skylduskil á Íslandi voru sett 1886. Þá fékk Landsbókasafn Íslands afhent tvö eintök af prentuðu efni og amtsbókasöfnin á Akureyri og í Stykkishólmi fengu sitt hvort eintakið. Auk þess voru Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn afhent tvö eintök og háskólabókasafninu þar eitt eintak. Skilaskyldan nam því alls sjö eintökum. Fjöldi skilasafna jókst á fyrri hluta 20. aldarinnar. Amtsbókasafnið á Seyðisfirði og Bókasafn Ísafjarðar bættust við árið 1909. Árið 1928 bættist Amtsbókasafnið í Færeyjum við og 1939 háskólabókasafnið í Winnipeg, þangað sem margir Vesturfarar frá Íslandi höfðu fluttst. Árið 1941 samþykkti Alþingi að hið nýstofnaða Háskólabókasafn skyldi fá eitt eintak af því efni sem Landsbókasafni bar að fá. Á þessum tímapunkti voru prentskilaeintökin samtals 11 því hætt hafði verið að senda eintak til Háskólabókasafnsins í Kaupmannahöfn. Sett voru lög um skylduskil árið 1949, þá þurftu prentsmiðjur landsins að afhenda Landsbókasafni fjögur eintök af smáprenti, átta eintök af blöðum sem koma út einu sinni í viku eða oftar og tólf eintök af öllu öðru prentuðu efni. Landsbókasafn átti að varðveita tvö eintök, eitt átti að fara til Háskólabókasafns og eitt til bókasafns Norðurlands á Akureyri. Öðrum eintökum átti Landsbókasafn að ráðstafa til annarra bókasafna og vísindastofnana. Samkvæmt reglugerð áttu bókasöfnin í Stykkishólmi, á Ísafirði og á Seyðisfirði að hafa rétt til að velja úr þeim ritum sem væru ein örk eða stærri og úr tímaritum sem kæmu út mánaðarlega eða sjaldnar. Því sem afgangs yrði átti að úthluta til erlendra bókasafna og vísindastofnana og ættu þjóðbókasöfn Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar að sitja í fyrirrúmi, en vestan hafs háskólabókasafnið í Winnipeg. Ný lög um skylduskil voru sett af Alþingi vorið 1977. Skyldueintökum var þá fækkað í fjögur sem yrði skipt á milli Landsbókasafns sem fengi tvö eintök og Amtsbókasafnsins á Akureyri og Háskólabókasafnsins sem fengu sitt hvort eintakið. Nýmæli í þeim lögum var skylduskil á þremur eintökum af hljómplötum og öðrum útgefnum tón- og tal-upptökum. Skyldi Landsbókasafnið varðveita tvö eintök en Amtsbókasafnið á Akureyri eitt. Alejandro Jodorowsky. Alejandro Jodorowsky Prullansky (f. 7. febrúar 1929) er chilesk-franskur kvikmyndaleikstjóri, leikskáld og myndasöguhöfundur. Hann er þekktastur fyrir súrrealískar framúrstefnukvikmyndir á borð við "Fando y Lis", "El Topo" og "Santa Sangre" og fjölda myndasagna sem gerast í sama söguheimi; "L'Incal" (með Moebius 1981-1989), "Les Technopères" (með Zoran Janjetov 1998-2006) og "La Caste des Méta-Barons" (með Juan Giménez 1992-2003). Hann stofnaði listamannahópinn "Mouvement panique" ásamt Fernando Arrabal og Roland Topor í París árið 1962. Uma flor de verde pinho. "Uma flor de verde pinho" var framlag Portúgals í Evrópusöngvakeppnina 1976. Lagið var flutt af söngvaranum Carlos do Carmo. Lagið sem er frekar rólegt lag, fjallar um mann sem elskar landið sitt (Portúgal), og talar um aðlagandi konu sem hann elskar líka og vildi elska jafn mikið og maðurinn elskar landið sitt. Lagið fékk 24 stig. Löndin sem gáfu stig voru Lúxemborg (6), Grikkland (4), Finnland (1), Ítalía (1) og Frakkland (12). Lagið endaði í 12. sæti. Giambattista Basile. Giambattista Basile (um 1575 – 23. febrúar 1632) var ítalskt skáld og þjóðsagnasafnari, bróðir söngkonunnar og tónskáldsins Adriana Basile og tónskáldsins Lelio Basile. Hann fæddist í Kampaníu en gerðist sem ungur maður málaliði hjá Lýðveldinu Feneyjum og vann sem hermaður í nýlendu þess, Krít. Þar kynntist hann bókmenntamönnum og hóf ritstörf. Um 1611 fylgdi hann systur sinni til Mantúu og gerðist hirðmaður Vincenzo Gonzaga. Síðar sneri hann aftur til Napólí og bjó þar til dauðadags. Adriana, systir hans, lét gefa þar út eftir dauða hans verkið sem hann er þekktastur fyrir, "Lo cunto de li cunti" eða "Fimmdægru", þar sem tíu sagnakonur segja hver sína sögu í fimm daga, alls fimmtíu sögur. Hann er talinn hafa byggt sögurnar á ævintýrum sem hann heyrði á ferðum sínum fyrir Feneyjar eða smásögum unnum upp úr þeim. Sögurnar eru skrifaðar á mállýsku Napólíbúa, napóletönsku. Þær eru ritaðar í stíl hirðbókmennta barokktímans og undir greinilegum áhrifum frá ítalska gamanleiknum. Sumar af þessum sögum rötuðu síðar inn í þjóðsagnasöfn Charles Perrault og Grimmsbræðra í lítið breyttum útgáfum. Sem dæmi má nefna sögurnar "Mjallhvít og dvergarnir sjö", "Öskubuska" ("Cenerentola"), "Þyrnirós" ("Sole, Luna e Talia") og "Garðabrúða" ("Petronisella"). Kaffifífill. Kaffifífill eða sikoría (fræðiheiti: "Cichorium intybus") er fjölær matjurt sem er ræktuð bæði vegna blaðanna, sem eru notuð í salöt, og rótarinnar, sem er ristuð og notuð sem kaffibætir. Til er fjöldi ræktunarafbrigða sem geta verið mjög ólík. Þau algengustu eru ýmis afbrigði radicchio og belgísk endíva ("Witloof"). Hrokkin endíva eða vetrarsalat ("Cichorium endivia") er skyld en ólík tegund. Menningarleg sjálfbærni. Menningarleg sjálfbærni er ný þverfagleg nálgunaraðferð sem miðar að því að gera menningu og menningarlegum þáttum hærra undir höfði í allri þróun í átt til aukinnar sjálfbærni, hvort heldur er á heimaslóðum, stærri svæðum eða á heimsvísu. Menning er mikilvægur liður í sjálfbærri þróun þar sem hún tengist því hvernig við skiljum og metum bæði náttúruauðlindir og aðrar manneskjur. Hlutverk og þýðing menningar í sjálfbærri þróun er samt sem áður tiltölulega óskilgreint, bæði í vísindum og stefnumótun. Stundum hefur verið litið á menningu sem þátt í félagslegri sjálfbærni, einnig sem einhvers konar fjórðu stoð í hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun, og til er að hún sé jafnvel talin til grundvallarþátta í sjálfbærri þróun. Tilkall til menningar hefur einnig orðið æ sterkara í tengslum við auknar vistfræðilegar, efnahagslegar og félagslegar kröfur til að mæta markmiðum sjálfbærni, en það eru hinar hefðbundnu þrjár stoðir hugmyndafræðinnar um sjálfbærni. Stefnumótun. Stefnumótun af ýmsu tagi og margar alþjóðlegar samþykktir tengja saman sjálfbæra þróun og menningu. Með Samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Convention of Biodiversity) frá árinu 1992 voru tengslin á milli líffræðilegrar fjölbreytni og menningar viðurkennd og sama á við um fjölmargar aðrar samþykktir sem gerðar hafa verið síðan. Árið 1995 gaf Alþjóðanefnd um menningu og þróun út skýrslu sem nefndist Our Creative Diversity og gerir grein fyrir verkefnum og árangri Alþjóðlegs menningaráratugar UNESCO (1988-1997). Þar er viðurkennt að menning eigi stóran þátt í að auka efnahagsframfarir en gegni ekki síður mikilvægu hlutverki í sjálfu sér. Í mörgum stefnuskrám Evrópunefndarinnar og Evrópuráðsins er menning einnig talin til mikilvægra þátta í (sjálfbærri) þróun og má þar til dæmis nefna In From the Margins (EC 1995) og the European Agenda for Culture (EC 2007). Fræðilegar rannsóknir. Innan fræðilegra rannsókna hefur menning alltaf verið talinn mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun í tengslum við frumstæð menningarsamfélög, þróunarlönd og náttúruvernd en einnig í tengslum við undirstöðuatvinnuvegi, ferðamannaþjónustu og svæðisbundna þróun. Þessar rannsóknir leggja oftast til að sjálfbær þróun geri tilkall til þess að svæðisbundin menningarleg gildi séu viðurkennd, sem og jafnrétti og menningarleg sérstaða viðkomandi samfélaga, bæði í stefnumótun og ákvarðanatöku, enda styrki það tilvistargrundvöll þeirra til muna. Sjálfbær þróun hefur einnig verið lögð að jöfnu við eflandi hlutverk lista, sköpunar og menningarstarfs í samfélagslegu tilliti og þróun. Enn fremur hefur efling menningarlegrar fjölbreytni og verndun og varðveisla áþreifanlegs og óáþreifanlegs (svæðisbundinnar) menningararfs verið talin mikilvæg fyrir sjálfbæra þróun. Auk þessara þátta hefur sjálfbær þróun verið sett í víðara samhengi sem menningarleg framþróun í átt til sjálfbærari lífsmáta sem byggir á siðfræðilegu vali í daglegu lífi. Í þessu tilliti hefur verið litið svo á að menningarstefna, samfélagsþekking, nýsköpun og menntun sem allt taki mið af sjálfbærri þróun sé undirstaða þeirra breyttu menningarlegu lífshátta sem miðað er að. Frumkvæði. Ýmsar hugmyndir sem miða að því að samþætta menningu og sjálfbæra þróun hafa verið settar fram. Menningarstefna 21. aldarinnar (e. Agenda 21 for Culture) sem lagðar voru fram á vegum Sameinuðu þjóðanna eru ætlaðar einstökum ríkjum til viðmiðunar við samningu eigin menningarstefnuskrár. Þessi samþykkt byggir á undirstöðuþáttum eins og menningarlegri fjölbreytni, mannréttindum, alþjóðlegri fræðslu og samskiptum, þátttökulýðræði, sjálfbærni og friði. Markmið COST Action IS1007 (2011–2015) Investigating Cultural Sustainability er að auka menningarlegt gildi innan sjálfbærrar þróunar með þverfaglegum aðferðum og nálgunum. Wikivoyage. Wikivoyage er ókeypis ferðahandbók á sjö tungumálum. Hún opnaði í september 2006. Universidade Federal da Bahia. Háskólinn í Bahia ("Universidade Federal da Bahia", oft nefndur UFBA) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Salvador, Bahia, Brasilíu. Skólinn var stofnaður árið 1946. Universidade Federal de Minas Gerais. Universidade Federal de Minas Gerais Háskólinn í Minas Gerais ("Universidade Federal de Minas Gerais", oft nefndur UFMG) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Belo Horizonte, Minas Gerais, Brasilíu. Skólinn var stofnaður árið 1927. Universidade Estadual de Feira de Santana. Universidade Estadual de Feira de Santana Háskólinn í Feira de Santana ("Universidade Estadual de Feira de Santana", oft nefndur UEFS) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Feira de Santana, í Bahia, í Brasilíu. Skólinn var stofnaður árið 1976. Centro Federal de Educação Tecnológica Celso Suckow da Fonseca. Centro Federal de Educação Tecnológica Celso Suckow da Fonseca Háskólinn Celso Suckow da Fonseca ("Centro Federal de Educação Tecnológica Celso Suckow da Fonseca", oft nefndur CEFET-RJ) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Rio de Janeiro í Brasilíu. Skólinn var stofnaður árið 1917. Centro Federal de Educação Tecnológica de Minas Gerais. Centro Federal de Educação Tecnológica de Minas Gerais Centro Federal de Educação Tecnológica de Minas Gerais (oft nefndur CEFET-MG) er ríkisrekinn rannsóknarháskóli í Belo Horizonte, Minas Gerais, Brasilíu. Skólinn var stofnaður árið 1927. Chittagong. Chittagong (Chittagonian, Bengali: চট্টগ্রাম, Chôţţogram) er helsta hafnarborg og önnur stærsta Bangladesh. Hún liggur við baka Karnaphulifljóts. Florianópolis. Kort sem sýnir Skapa Florianópolis unnan Santa Catarina Florianópolis er stórborg í Santa Catarina-fylki í Brasilíu með yfir 400 þúsund íbúa. Barrskógur. Barrskógabelti jarðar, sem gengur gjarnan undir orðinu taiga í erlendum málum, liggur aðallega á svæðum á milli 50° og 60° norðlægrar breiddar, allt í kringum norðurpól. Mestir eru barrskógarnir í Rússlandi þar sem langstærstur hluti þeirra vex, auk þess sem skógarnir teygja sig suður yfir landamærin til norðurhluta Kasakstan. Einnig eru miklir barrskógar í Kanada, Skandinavíu og í nyrstu fylkjum Bandaríkjanna. Af öðrum stöðum má nefna að barrskógar vaxa á nokkrum Kyrrahafseyjum svo sem Hokkaídó-eyju í Japan og Sakhalín-eyju sem tilheyrir Rússlandi. Útbreiðsla barrskógabeltisins sýnd með grænum lit. Vistfræðingar greina barrskóga í tvo meginflokka, annars vegar lokaða skóga sem eru þéttir og ógreiðfærir með mosavöxnum skógarbotni og hins vegar gisnari skóga með miklu lynggróðri. Öll rotnun er mun hægar í barrskógum en í laufskógum. Afleiðingin er sú að geysimikið magn af hálfrotnandi gróðurleifum þekja skógarbotninn þannig að hann er afar mjúkur þegar gengið er um hann. Tiltölulega fáar tegundir trjágróðurs þekja mikil svæði í barrskógunum. Þetta eru tegundir af fjórum meginættkvíslum; lerki (Larix), greni (Picea), þinur (Abies) og fura (Pinus). Í Norður-Ameríku eru tvær tegundir af þin og tvær tegundir af greni ríkjandi en í Skandinavíu og vestur Rússlandi er skógarfuran (Pinus sylvestris) afar útbreidd. Það eru ekki aðeins sígræn tré sem vaxa í barrskógabeltinu heldur einnig tegundir eins og birki, aspir, reyniviður og víðitegundir. Í samanburði við laufskógana í suðri státa barrskógarnir ekki af miklum fjölbreytileika þegar kemur að dýrategundum. Þær tegundir sem lifa í barrskógunum eru oftast afar útbreiddar svo sem úlfar (Canis lupus) og skógarbirnir (Ursus arctos). Einnig má nefna tegundir eins og krossnef (Loxia curvirostra), rauðíkorna (Sciurus vulgaris) og fjölda annarra tegunda sem lifa á fræjum, könglum og hnetum sem falla til í miklu magni. Í barrskógunum lifa líka stórir grasbítar, svo sem elgir (Alces alces), sem lifa á trjágróðri eða plöntum sem finnast á skógarbotninum. Skógarhjörturinn eða vapiti-hjörturinn (Cervus canadiensis) er einnig afar áberandi og mikilfenglegur íbúi barrskóganna en hefur þó ekki jafn mikla útbreiðslu og elgurinn. Skógarhirtir finnast í vesturhluta Norður-Ameríku og í barrskógunum austast í Síberíu (eða austur Rússlandi). Hins vegar hafa þeir horfið víða af svæðum þar sem þeir lifðu áður, til dæmis audobon-hjörturinn sem lifði í austurhluta Norður-Ameríku. Meðal mest áberandi grasbíta í barrskógum Skandinavíu og vestur Rússlands er rádýrið (Capreolus capreolus) sem getur verið mjög algengt á svæðum þar sem veiðiálag er ekki of mikið. Fjölmargar tegundir smærri nagdýra, svo sem skógarmýs og læmingjar, finnast á skógarbotninum þar sem þau lifa á margvíslegri fæðu, bæði úr jurta- og dýraríkinu. Áhrif bjórsins eða bifursins (Castor canadensis) geta verið veruleg á votlendissvæðum víða í barrskógunum, sérstaklega í Kanada þar sem talsvert er um hann. Önnur tegund bifurs er evrópski bifurinn (Castor fiber) sem var nærri útdauður fyrir um öld síðan en virðist vera að ná sér á ný. Bifurinn er ekki aðeins bundinn við barrskóga eins og söguleg útbreiðsla hans sýnir í Evrópu heldur teygir hann útbreiðslu sína einnig suður í laufskóga. Bifurinn byggir stíflur og getur haft veruleg áhrif á nánasta umhverfi sitt í barrskógunum. Á meðal fugla sem eru áberandi í barrskógum í austurhluta Síberíu má nefna apalþröstinn (Zoothera sibirica) sem étur ýmsa hryggleysingja af skógarbotninum. Annar fugl, sem hefur nú numið land hér á landi, er glókollurinn (Regulus regulus). Báðar eru þessar tegundir farfuglar og yfirgefa barrskógana á haustin. Af algengum fuglategundum í barrskógum Kanada má nefna hörputittling (Zonotrichia albicollis), sem meðal annars hefur flækst hingað til lands á farflugi sínu, og bláskríkju (Dendroica virens). Helstu ránfuglar barrskóganna eru meðal annars fjallvákur (Buteo lagopus) í Norður-Ameríku, gullörn (Aquila chrysaetos) í Asíu og hrafninn (Corvus corax) sem bæði er afar drjúgur afræningi og hræfugl um allt barrskógabeltið. Í barrskógunum þurfa spendýr að glíma við langan og harðan vetur, annað hvort með því að leggjast í dvala líkt og birnir eða með því að þreyja þorrann og takast á við mikla vetrarkulda með hjálp hlýs feldar, eins og gaupur (Lynx lynx) og úlfar (Canis lupus) gera. Mikill hluti varpfugla barrskóganna hverfur hins vegar suður á bóginn yfir vetrartímann, en þó eru tegundir svo sem uglur sem halda kyrru fyrir allt árið og lifa á nagdýrum sem halda til undir snjólagi. Þetta er langt frá því að vera tæmandi umfjöllun um fugla og spendýr barrskóganna enda eiga hundruð tegunda, ásamt skriðdýrum og fáeinum tegunda froska, heimkynni sín í þessu mikla skóglendi. Aracaju. Kort sem sýnir Skapa Aracaju unnan Sergipe Aracaju er stórborg í Sergipe-fylki í Brasilíu. Sergipe. Sergipe er fylki í norðaustur-Brasilíu. Fylkishöfuðborgin er Aracaju. Rio Grande do Norte. Rio Grande do Norte er fylki í norðaustur-Brasilíu. Fylkishöfuðborgin er Natal. Rio Grande do Sul. Rio Grande do Sul er fylki í Suður-Brasilíu. Fylkishöfuðborgin er Porto Alegre. Í norður er Santa Catarina-fylki, í austur er Atlantshaf, í suður og í vestur er Argentína. Porto Alegre. Kort sem sýnir Porto Alegre unnan Rio Grande do Sul Porto Alegre er stórborg í Rio Grande do Sul-fylki í Brasilíu með yfir 1,4 milljón íbúa. Jarðvangur. Jarðvangur (e. geopark) er svæði sem inniheldur merkilegar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Hugtakið jarðvangur er skilgreint af UNESCO - Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Katla jarðvangur. Katla jarðvangur var stofnaður 19. nóvember 2010 og nær yfir sveitarfélögin Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. Jarðvangurinn fékk alþjóðlega vottun í september 2011. Reykjanes jarðvangur. Reykjanes jarðvangur var stofnaður 13. nóvember 2012 og nær yfir sveitarfélögin Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Sveitarfélagið Garð og Sveitarfélagið Voga. Jarðvangurinn hefur sótt um alþjóðlega vottun. Ætifífill. Ætifífill (fræðiheiti: "Helianthus tuberosus") er fjölær jurt, náskyld sólblómi, sem er upprunnin á austurströnd Norður-Ameríku. Ætifífill er aðallega ræktaður vegna ætra rótarhnýða. Hnýðin eru oft elduð á svipaðan hátt og kartöflur en innihalda inúlín í stað sterkju. Bókasafn Dagsbrúnar. Bókasafn Dagsbrúnar er sérfræðisafn á sviði atvinnulífsrannsókna og verkalýðsmála, sem og handbókasafn fyrir ReykjavíkurAkademíuna. Stofn Dagsbrúnarsafnsins er bókasafn Héðins heitins Valdimarssonar en þegar bókasafnið var stofnað á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar þann 26. janúar 1956 gaf frú Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins félaginu bókasafn manns síns til minningar um hann. Þann 27. nóvember 2003 gerðu ReykjavíkurAkademían og Efling með sér samkomulag sem fól í sér að safnið verður áfram í eigu Eflingar en ReykjavíkurAkademían annast daglegan rekstur þess og vörslu. Safnið er staðsett í ReykjavíkurAkademíunni í JL-húsinu. Safnkostur. Á safninu eru um 8.500 titlar og 11.700 bindi sem eru skráð í Gegni, samskrá íslenskra bókasafna. Á safninu eru einnig um 3.000 bækur í bráðabirgðaskrá, margar þeirra á ensku, þýsku, Norðurlandamálum, rússnesku og esperantó og margar þeirra tengdar verkalýðshreyfingum erlendis. Stofn Bókasafns Dagsbrúnar eru dagblöð, tímarit, bækur og önnur gögn tengd verkalýðshreyfingunni. Stór hluti safnkostsins eru bækur frá 20. öld, almennt safn innlendra og erlendra rita sem bera pólitískri sögu safnsins vitni, þar má t.d. finna heildarverk frumkvöðla marxismans. Meginstofn safnsins hefur verið fenginn að gjöf, stundum frá höfundum eða útgáfufélögum en aðallega frá einstaklingum. Stærsta gjöfin kom frá Þóri Daníelssyni eftir andlát hans árið 2008 en hann var bókavörður safnsins á árunum 1973 til 1998. Meðal annarra einstaklinga sem hafa gefið safninu stórar gjafir í gegnum árin eru: Geir Jónasson, Ásta Björnsdóttir ekkja Þorsteins Finnbarnarsonar, Eyjólfur R. Árnason, Runólfur Björnsson, Guðrún Bjarnadóttir, Skúli Skúlason og Ágústa Jónsdóttir, Ásgeir Pétursson og Dýrleif Árnadóttir, dánarbú Sverris Kristjánssonar, Eðvarð Sigurðsson, Selma Hannesdóttir, Þorvaldur Þorvaldsson og Félag bókagerðarmanna. Aðstaða. Á safninu er góð vinnuaðstaða og ein tölva er til afnota fyrir gesti safnsins. Hægt er að leigja borð á bókasafninu fyrir 6.000 krónur á mánuði. Á safninu er skanni sem safngestir geta fengið afnot af. Félagar í ReykjavikurAkademíunni sem hafa skrifstofur á staðnum geta fengið bækur að láni en einungis í innanhússlán. Bóksala. Á safninu eru nokkrar bækur til sölu, aðallega tvítök úr safnkostinum, hægt er að skoða bókalistann og panta á netinu eða koma við á safninu og kíkja á listann þar. Keltametall. Keltametall er tónlistarstefna sem er undirstefna þungarokks sem kom fram á Írlandi á tíunda áratug tuttugustu aldar. Líkt og nafnið gefur til kynna er um að ræða bræðing af þungarokki og keltneskum þjóðlagaáhrifum. Írsku hljómsveitirnar Cruachan, Primordial og Waylander voru brautryðjendur keltametals en tónlistarstefnan hefur síðar náð fylgi utan Írlands. Escadaria Selarón. thumbnail Escadaria Selarón eru heimsþekktar tröppur í Rio de Janeiro í Brasilíu. Þær eru verk listamannsins Jorge Selarón frá Chile en hann tileinkar tröppurnar fólki í Brasilíu. Tildrög listaverksins voru að árið 1990 hóf Selarón að gera við tröppur sem voru í niðurníðslu við hús hans. Nágrannar hans gerðu í fyrstu grín að framkvæmdinni en hann þakti tröppurnar brotum úr bláum, grænum og gulum flísum en þeir litir eru í fána Brasilíu. Gerð þessa tröppulistaverks varð seinna ástríða hjá honum en hann hafði áður málað málverk og hélt því áfram eingöngu til að fjármagna tröppuverkið. Hann þakti tröppurnar með flísum, leirbrotum og speglum. Tröppurnar liggja frá Joaquim Silva stræti og and Pinto Martins stræti sem opinberlega er þekkt sem Manuel Carneiro stræti og í gegnum Lapa og Santa Teresa hverfin í Ríó. Það eru 250 tröppur sem ná yfir 125 metra og þær eru þakktar yfir 2000 flísum frá yfir 60 löndum. Um leið og einum hluta lauk þá byrjaði Selarón á öðrum hluta þannig að þetta varð listaverk sem alltaf var í smíðum. Selarón leit svo á að verkinu yrði aldrei búið og myndi ekki taka endi nema með dauða hans. Upprunalega var efniviður í verkið fenginn með því að endurnýta rusl frá byggingarsvæðum og því sem átti að henda. Seinna meir voru flísarnar gefnar til verksins af framlögum fólks um allan heim. 300 af hinum yfir 2000 flísum sem eru í verkinu eru handmálaðar af Selarón og sýna vanfæra afríska konu. Selarón útskýrði það ekki nema með því að það væri persónulegt vandamál úr fortíð hans. Jorge Selarón. Jorge Selarón fæddist í Chile árið 1947. Knattspyrnusamband Eyjaálfu. Knattspyrnusamband Eyjaálfu (skammstöfun: "OFC") er yfirumsjónaraðili Knattspyrnu í Eyjaálfu. Aðildarfélög sambandsins eru Papúa Nýja-Gínea, Nýja Sjáland og eyríki á borð við Tonga og Fídjieyjar. Af sex aðildarfélögum FIFA er OFC það minnsta og fótbolti er ekki á meðal vinsælustu íþrótta ríkjanna. Eftir brotthvarf Ástralíu í Knattspyrnusamband Asíu varð Nýja Sjáland stærsta aðildarfélag sambandsins. Brotthvarfið gerði einnig það að verkum að eina atvinnudeild sambandsins hvarf. Sambandið var stofnað 1966. Stofnfélagar voru knattspyrnusambönd Ástralíu, Nýja Sjálands og Filippseyja. Sama ár var sambandið staðfest af FIFA sem fullgildur meðlimur og fékk sæti í stjórn FIFA. Í maí 2004 varð Nýja-Kaledónía tólfti meðlimur sambandsins. 1. janúar 2006 varð Ástralía meðlimur knattspyrnusambands Asíu og á næstu árum sóttu Norður-Marínaeyjar og Palá um sem áheyrnarfulltrúar knattspyrnusambands Asíu. Wiki. Wiki er vefsvæði sem leyfir notendum að bæta við, breyta eða eyða innihaldinu í gegnum netvafra með einföldu ívafsmáli eða textaritli. Wikar eru keyrðir á wiki-hugbúnaði og eru flestir búnir til með samvinnu notenda. Wikar eru notaðir í margvíslegum tilgangi. Þeir geta verið opnir samfélagsvefir á veraldarvefnum eða settir upp sem innri vefir fyrirtækja, stofnana eða samtaka. Ólíkar reglur geta gilt um aðgangsheimildir notenda og um efnistök. Ward Cunningham þróaði fyrsta wikann, WikiWikiWeb og lýsti honum sem „einfaldasta mögulega vefgagnagrunninum.“ Orðið „wiki“ er komið úr havaísku og merkir fljótur eða snöggur. Eyja Játvarðs prins. Kort sem sýnir legu Eyju Játvarðs prins. Eyja Játvarðs prins ("Prince Edward Island", oft skammstafað PEI) er kanadískt fylki og eyja undan austurströnd Kanada. Ásamt Nýju-Brúnsvík og Nova Scotia er eyjan talin til Sjófylkja Kanada. Eyjan er 5,660 km2 að stærð og þar búa alls 140.204 manns (2011). Stærsta borgin þar heitir Charlottetown og er eyjan tengd við meginlandið með Ríkjabandalagsbrúnni (e. "Confederation Bridge"). Eyjan er þekkt fyrir fjölda þjóðgarða, auk þess að vera sögusvið sögunnar um Önnu í Grænuhlíð. Eyjan er nefnd í höfuðið á Játvarði prins (1767–1820), hertoganum af Kent og Strathearn, fjórða syni Georgs III, konungs og föður Viktoríu Bretadrottningu. Hjálmlaukur. Hjálmlaukur (fræðiheiti: "Allium" ×"proliferum") er svipaður venjulegum matlauk en í stað blóma vaxa litlir æxlilaukar efst á stilknum. Erfðarannsóknir hafa sýnt fram á að hjálmlaukur er blendingur matlauks ("A. cepa") og pípulauks ("A. fistulosum"). Hægt er að borða bæði sjálfan laukinn, blöðin og æxlilaukana. Laukurinn er oftast frá 0,5 til 3 sentimetrar að stærð. Á enski kallast hjálmlaukurinn einnig "gangandi laukur", vegna þess að stilkarnir svigna oft undan þunga lauksinns og síga þá niður á jörð og festa þar rætur, á þann hátt dreifir hann sér oft. Einnig hefur hann verið nefndur "egypski laukurinn", og ein saga þess nafns segir að hann hafi verið fluttur til Evrópu af Rómafólki. Það að mynda lauka í stað blóma efst á stilkum, má sjá hjá fleiri tegundum lauka eins og hvítlauk ("A. sativum"). Erla Þórarinsdóttir. Erla Þórarinsdóttir (fædd 22. september 1955) er íslensk myndlistarkona. Hún vinnur jöfnum höndum með málverk, skúlptúra, ljósmyndir, hönnun og innsetningar. Ævi og menntun. Erla Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík 22. september árið 1955. Hún ólst upp á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð. Erla stundaði nám við Konstfack lista- og hönnunarháskólann í Stokkhólmi á árunum 1976 – 1981, með viðkomu í Gerrit Rietweld Akademie sem gestanemi í eina önn árið 1981. Hún byrjaði sinn feril í Stokkhólmi þar sem hún starfaði við myndlist, hönnun og gallerírekstur. Leiðin lá svo til New York þar sem hún bjó í rúmt ár, en 1985 flutti hún til Íslands og hefur haft aðsetur þar síðan. Ferill. Erla var í stjórn Nýlistasafnsins á árunum 1988 – 1989. Hún var í stjórn Norræna Myndlistabandalagsins á árunum 1993 – 1995. Á þeim tíma unnu þau að 50 ára afmæli bandalagsins og stóðu fyrir sýningu sem hét „Brunnar“ sem var sýnd í Norræna húsinu. Árið 2002 var Erla tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir myndlist. Tveimur árum eftir þessa tilnefningu hélt Erla sýningu á Kjarvalsstöðum sem hét Corpus lucis sensitivus. Hugmyndinni að baki sýningunni lýsir Erla svo: „Corpus lucis sensitivus er sá ljósnæmi líkami sem hefur orðið til úr litardufti, olíu, silfri og tíma. Uppruni hans er í sameiginlegri undirvitund og í óefniskenndum þáttum þess sem gerist innra með okkur. Hann tilheyrir tilveru málverksins og er abstrakt og konkret og vill vera þjóðernislaus. Ég hef leyft honum að koma í ljós með viðveru, treyst á tilveru hans,ýmist þjappað og þétt eða fylgt honum eftir. Líkaminn er viðkvæmur, hann umbreytist í ljósi í tíma og ótíma. Við áhorf bregst hann við.“ Erla bjó árið 2008 í borginni Xiamen í Kína. Hún var að vinna að nýju listaverki þar úti en ástæðan fyrir því að hún fór þangað var sú að Kínverjar eru komnir svo framarlega í steinsmíði. Það eru þrjú grunnstef sem Erla vinnur með í verkum sínum en þau eru form, tími og samruni. Þórunn Erla Valdimarsdóttir sagði um myndlist Erlu að hún hefði „þróað með sér eigin stíl í málverki, bæði að formi og áferð. Í stað þess að láta sér liti nægja fór hún að stunda gullgerðarlist á striga.“ Hún hefur sýnt verkin sín víða um heim, á Norðurlöndum og vítt og breitt um Evrópu, sem og í Bandaríkjunum og Kína. Verk hennar eru í eigu ýmissa safna hérlendis en sem dæmi má nefna Kjarvalsstaði,Listasafn ASÍ og Nýlistasafnið. Viðtökur gagngrýnenda. „Hvað málverkin varðar er hver mynd sjálfstætt verk en saman skapa þær samtal á milli hins dýrslega og hins guðdómlega sem gefur sýningunni aukið gildi. Hafði ég talsverða ánægju af að lesa í og túlka táknmyndirnar sem Erla notar til að skapa þetta samtal.“ Um sömu sýningu sagði Þórunn Erla Valdimarsdóttir: „List Erlu er að því er ég fæ best séð djúpsæ og alvarleg. Hún afneitar flóknum formum æðri menningar og lífsögu, en heldur sig samt við hinn gamla striga. Hún heldur örlitlu einföldu myndmáli eftir sem nægir þó til að geta sagt skýra sögu, sem verður að stærri sögu þegar myndirnar tala saman. Með því að búa til svo einfalt myndmál hefur Erlu á sinn persónulega hátt tekist að afhugsa áhrif árþúsunda menningar. Í heimi Erlu hafa fáir litir og málmar verið fundir upp, og aðeins einföldustu form. Samt tala myndirnar algjörlega úr samtímanum. Eftir standa listgripir eða himintungl, corpus lucis sensitivus - ljósnæmar „skepnur“ sem kalla fram sterk minni úr heimi samvitundar.“ Eftirfarandi var skrifað um verk Erlu sem voru á sýningu sem hét Búdda er Akureyri sem var sýnd árið 2008 á Listasafninu á Akureyri: „Verkin eru einföld og tær og sýna okkur hvernig fegurðin brýst fram í síbreytilegri endurtekningu, en það er einnig eitt af aðalsmerkjum Erlu. Hún lýsir tímanum og hringrás hans og leyfir honum að hafa mótandi áhrif á verk sín sem enduróma eilífðinni og staðfesta hvernig andinn getur tekið á sig hina kúnstugustu lögun.“ Í sýningarskrá sem fylgdi sýningu Erlu „Samtímis“ í Listasafni ASÍ 2010 skrifar Ólafur Gíslason listfræðingur „Sýning Erlu er þrískipt þar sem við sjáum í gryfjunni skyggnimyndaseríu varpað á vegg með skyndimyndum frá ferðalögum hennar um stórborgir Indlands og Kína í bland við vesturlenskar stórborgarsvipmyndir. Í arinstofunni sjáum við ljósmyndir af geometrískum formum úr trúarlegri indverskri byggingarlist og í efri salnum óhlutbundin málverk á lérefti í félagsskap við ljósmynd af indverska guðinum Lakulish, sem mun vera einn af afkomendum Shiva og frumkvöðull indverskrar yoga-iðkunar. Sýningin er í raun og veru stefnumót hins varanlega og sértæka annars vegar og hins hverfula og hlutlæga hins vegar, en um leið er hún vitnisburður um stefnumót Erlu og hennar vestræna uppruna við austrið og austræna menningu. Sýningin gefur tilefni til að gaumgæfa þennan mismun og hvað þetta stefnumót ólíkra menningarstrauma getur leitt af sér.“ Sólber. Sólber (fræðiheiti: "Ribes nigrum") er sumargrænn berjarunni af garðaberjaætt, algengur í Mið- og Norður-Evrópu og Norður-Asíu. Útlit. Sólberjarunnin er að jafnaði um 1 til 1,5 metri að hæð og ummáli en getur ná tveggja metra vexti við góð skilyrði. Greinarnar greinast strax frá jörðu og vex hann líkt og rifsberjarunninn. Hann er með lyktar kirtla og þykir mörgum hann þefillur. Blöðin eru fimmskipt og stakstæð. Berin svört og vaxa í klösum. Samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila. Samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila (enska: "Public-private partnership", "PPP" eða "P3") er verkefni þar sem ríki eða sveitarfélag gera samning við einkafyrirtæki um samstarf. Einkum á þetta við þar sem um er að ræða uppbyggingu innviða. Einkaaðilinn tekur þá á sig stóran hluta áhættunnar vegna fjárhagslegrar afkomu verkefnisins, tækniþróunar og framkvæmda og fær á móti tækifæri til að endurheimta kostnaðinn í afmarkaðan tíma með einkaleyfi á sölu, leigu eða innheimtu notendagjalda. Stundum veitir hið opinbera styrki eða flytur eignir til einkaaðilans til að draga úr áhættu hans eða gengst í ábyrgð fyrir lánum vegna verkefnisins. Oft eru stofnuð félög með sérstakan tilgang utan um slík verkefni með þátttöku fjármögnunaraðila, eins og banka. Vinsældir slíkra samstarfsverkefna má rekja til takmarkana á skuldsetningu hins opinbera í upphafi 10. áratugar 20. aldar. Þau hafa verið gagnrýnd fyrir að draga úr gagnsæi í ríkisrekstri, fyrir að skapa hærri heildarkostnað fyrir skattgreiðendur þar sem krafa einkafyrirtækja um ávöxtun fjárfestingar er hærri en ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og fyrir að vera í reynd einkavæðing þar sem tímamörk einkaleyfisins eru ekki virt heldur framlengd aftur og aftur. Félag með sérstakan tilgang. a> voru félög með sérstakan tilgang notuð til að fela skuldir fyrirtækisins og fegra stöðu þess. Félag með sérstakan tilgang (enska: "Special purpose vehicle", "SPV" eða "special purpose entity", "SPE") er oftast hlutafélag af einhverju tagi sem stofnað er utan um sértæka eða tímabundna starfsemi. Slík félög eru oft stofnuð til að halda utan um tímabundin verkefni, eins og samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila eða flókin fjármögnunarverkefni til að einangra aðstandendur frá fjárhagslegri áhættu. Félög af þessu tagi eru líka notuð til að fela skuldir og eignir, breiða yfir tengsl aðila, í peningaþvætti og til að blása út markaðsvirði hlutabréfa með aðferðum eins og hringfjárfestingu. Opinbert fyrirtæki. a> í Bretlandi var breytt úr stofnun í fyrirtæki árið 1969. Lengi hefur staðið til að einkavæða fyrirtækið en það hefur jafnan mætt andstöðu bæði almennings og þingmanna Opinbert fyrirtæki eða ríkisfyrirtæki er fyrirtæki sem er að mestu eða öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Slík fyrirtæki eru oft stofnuð um rekstur á vegum hins opinbera sem þjónar viðskiptalegum tilgangi. Engin algild skilgreining er á því hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fyrirtæki teljist opinbert fyrirtæki þar sem hið opinbera getur verið hluthafi í fyrirtækjum án þess að þau verði við það opinber fyrirtæki. Opinber fyrirtæki verða gjarnan til í kjölfar þjóðnýtingar, þar sem ætlunin er að gera rekstur stofnana líkari fyrirtækjarekstri til að bæta skilvirkni, þar sem hið opinbera á í samkeppni við einkafyrirtæki og þar sem hið opinbera fæst við rekstur vegna náttúrulegrar einokunar. Oftast gilda um slík fyrirtæki lög um opinber fyrirtæki eða sérlög um tiltekin fyrirtæki. Stundum er stofnun opinbers hlutafélags undanfari einkavæðingar, en þá eru hlutirnir seldir einkaaðilum í kjölfarið. Stofnun slíkra fyrirtækja hefur líka tengst tilraunum stjórnmálamanna til að breiða yfir opinberar skuldir, stjórnunarmistök og spillingu. Ríkistengd fyrirtæki eru sjálfstæð einkafyrirtæki þar sem hið opinbera á stóran hlut, er stór viðskiptavinur eða ber mikla fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Opinber eignarhaldsfélög eru oft notuð til að fara með eign hins opinbera í einkafyrirtækjum. Stundum er umboð hins opinbera til afskipta af stjórnum fyrirtækjanna takmarkað, meðal annars vegna samkeppnissjónarmiða. Sjálfstæð fyrirtæki þar sem hið opinbera er eini eða langstærsti viðskiptavinurinn eru stundum stofnuð í kringum mjög sértæka starfsemi eins og sérhæfð innkaup eða fjármögnun. Stundum á hið opinbera kauprétt á meirihlutaeign í fyrirtækinu. Dæmi um rekstur sem algengt er að sé settur upp sem opinbert fyrirtæki eru orkufyrirtæki (t.d. olíufélög í Mið-Austurlöndum), ríkisfjölmiðlar, ríkisflugfélög, flugvellir, hafnir og önnur fyrirtæki sem sjá um samgöngur, póstþjónustufyrirtæki og bankar. Oscar Niemeyer. Oscar Soares Filho Niemeyer (15. desember 1907 – 5. desember 2012) var brasilískur arkitekt af þýskum ættum. Hann var brautryðjandi í nútíma byggingarlist og er þekktur fyrir hönnun sína á hinni nýju höfuðborg Brasilíu, Brasilíu. Sala og endurleiga. Sala og endurleiga eru fjármálaviðskipti þar sem eigandi eignar selur hana til annars aðila en leigir svo aftur til langs tíma. Þannig getur hann nýtt eignina áfram án þess að eiga hana. Í slíkum viðskiptum er oftast um fasteignir að ræða. Ástæður endurleigusamninga geta verið margvíslegar, til dæmis þörf fyrir fjármagn eða að draga úr skattgreiðslum. Í raun er um eins konar lánasamning að ræða þar sem í stað afborgana koma leigugreiðslur. Með því móti fær seljandi fjármagn til að fjárfesta eða greiða niður skuldir og minnkar jafnframt skattbyrði sína sem stafar af fasteignum; kaupandinn fær góða ávöxtun á fjárfestingu og afskrifanlega eign með öruggt tekjustreymi til langs tíma. Samningar af þessu tagi eru vinsælir þar sem um er að ræða stórar fasteignir eða dýr samgöngu- og framleiðslutæki, til dæmis flugvélar. Húsnæði við frístundaaðstöðu (skíðasvæði eða strendur) er stundum selt einstaklingum sem leigja það aftur til umsýslufélags í eigu byggingaraðila sem leigir það áfram til ferðamanna. Eigendur fá þá tryggar tekjur af húsnæðinu og rétt til að nýta það í tiltekinn tíma á ári. Á Íslandi var þetta um tíma vinsæl leið til fjármögnunar sveitarfélaga, þá með stofnun eignarhaldsfélags sem keypti eignirnar og var að hluta til í eigu sveitarfélaganna sjálfra og að hluta í eigu fjármálastofnana. Gagnrýni á rekstur sumra þessara sveitarfélaga (s.s. Voga og Álftaness) gekk meðal annars út á mikilvægi þess að taka skuldbindingar vegna langtímaleigu með í reikninginn þegar fjárhagsstaða er metin. Skólameistarafélag Íslands. Skólameistarafélag Íslands var stofnað árið 1981 og er félagið samráðsvettvangur skólameistara við framhaldsskóla á Íslandi. Fyrsti formaður þess var Ingvar Ásmundsson, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík. Núverandi formaður félagsins er Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Olíuleit við Ísland. Olíuleit við Ísland er leit að jarðolíu og jarðgasi innan efnahagslögsögu Íslands. Sjónum er einkum beint að berggrunni undir hafsbotni á s.k. Drekasvæði norðaustur af Íslandi. Umræða hefur skapast um hvort og hvernig skuli leita að olíu og jarðagasi og hvort skuli vinna hana og jarðgasi ef hún finnst, en þegar hafa verið gefin hafa út olíuleitarleyfi fyrir Drekasvæðið. Mögulegt olíumagn. Magn vinnanlegrar olíu á Drekasvæðinu er talið geta orðið að lágmarki um 20 milljón rúmmetrar, jafnvel á bilinu 30 - 70 milljón rúmmetrar. Til samanburðar er heildarnotkun Íslendinga um 1,8 milljón rúmmetrar á ári um þessar mundir. Til að fá þetta í samhengi, þá er talið að öll vinnanleg olía í Noregi sé um 9,4 milljarðar tunna (u.þ.b. 1,5 milljarðar rúmmetra). Dagleg olíuvinnsla Norðmanna er um 3 milljón tunnur á dag, sem er u.þ.b. 0,5 milljón rúmmetrar á dag. Umræða um hugsanlega olíuvinnslu við Ísland. Mikill meirihluti landsmanna virðist fylgjandi olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu og sumir stjórnmálamenn vilja hefja leit og vinnslu sem fyrst, svo hægt sé að byrja að fá tekjur af verkefninu. Aðrir, til dæmis ráðherra Umhverfis- og auðlindamála, hafa viljað fara hægar í sakirnar, skoða mögulegar afleiðingar fyrir umhverfi og samfélag, ásamt því að skoða hvernig mætti standa að olíuvinnslu ef af verður. Það hafa komið upp spurningar um hvort ekki mætti geyma olíuna til notkunar fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Rök sem er borin fram tengjast mengun og fiskveiðum auk erfiðrar aðstæður til vinnslu vegna veðurs og hafdjúps. Einnig er nefnt stjórnun utanumhalds um auðlindir þjóðarinnar. þá er sagt að núverandi vitneskja um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum ætti að fá ráðamenn til að hugsa málið nánar. Ísland gæti gengið fyrir með góðu fordæmi og mögulega vakið aðrar þjóðir til góðra verka með því að gagngert fresta olíuvinnslu. Conrad Bain. Conrad Stafford Bain (4. febrúar 1923 – 14. janúar 2013) var kanadískur-bandarískur leikari. Hann er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Phillip Drummond í "Diff'rent Strokes " og sem Dr Arthur Hermon í "Maude". Bain fæddist 4. febrúar árið 1923 í Lethbridge, Alberta, Kanada. Hann var kvæntur Monicu Sloan frá 1945 til dauða hennar árið 2009 og áttu þau áttu þrjú börn saman. Bain lést þann 14. janúar 2013 í heimili sínu í Livermore, Kaliforníu af náttúrulegum orsökum 89 ára gamall. Tenglar. Bain, Conrad Burkholderiales. Burkholderiales er ættbálkur baktería innan flokks Betapróteógerla. Líkt og aðrir Próteógerlar eru meðlimir ættbálksins Gram-neikvæðir. Fjölbreytileiki innan ættbálksins er verulegur hvað varðar frumugerð, efnaskipti, búsvæðaval og fleiri þætti, en ættbálkurinn er skilgreindur út frá skyldleika sem ákvarðaður var út frá kirnaröðum 16S rRNA gens. Burkholderiaceae. Burkholderiaceae er ætt baktería innan flokks Betapróteógerla. Líkt og aðrir Próteógerlar eru meðlimir ættarinnar Gram-neikvæðir. Fjölbreytileiki innan ættarinnar er verulegur hvað varðar efnaskipti, búsvæðaval og fleiri þætti, en ættbálkurinn er skilgreindur út frá skyldleika sem ákvarðaður var út frá kirnaröðum 16S rRNA gens.. Björn Borg. Björn Rune Borg (f. 6. júní 1956) er sænskur tennisleikari fæddur í Södertälje. Hann var aðeins fjórtán ára þegar hann hóf atvinnumennsku í tennis og varð yngsti karlmaðurinn sem unnið hafði Opna franska meistaramótið árið 1974. Tveimur árum síðar sigraði hann á Wimbledon aðeins tvítugur að aldri. Hann var einn besti tennisleikari heims eftir miðjan 8. áratuginn en lýsti því yfir að hann væri hættur að keppa í janúar árið 1983. Sex árum síðar komst hann naumlega hjá persónulegu gjaldþroti þegar fyrirtæki hans, Björn Borg Design, fór á hausinn. Í upphafi 10. áratugarins hóf hann aftur að keppa en tókst ekki að vinna eina einustu keppni. Árið 1997 byrjaði tískuvöruframleiðandinn World Brand Management að þróa tískuvörur með nafninu Björn Borg. Hann seldi þeim allan rétt til að nota vörumerkið árið 2006. Andrei Sakarov. Andrei Dmítrijevitsj Sakarov (rússneska: Андре́й Дми́триевич Са́харов; 21. maí 1921 – 14. desember 1989) var sovéskur kjarneðlisfræðingur, aðgerðasinni og mannréttindafrömuður. Hann tók þátt í þróun fyrstu sovésku kjarnorkusprengjunnar og er þekktur sem höfundur þriðju hugmyndar Sakarovs. Á 6. áratugnum stakk hann upp á tæki fyrir stýrðan kjarnasamruna, Tokamak, sem síðar var smíðaður af hópi vísindamanna undir stjórn Ljev Artsímóvitsj. Eftir 1965 hóf hann rannsóknir á sviði öreindafræði og heimsfræði. Í upphafi 7. áratugarins hóf hann baráttu sína gegn útbreiðslu kjarnavopna og fyrir auknum mannréttindum í Sovétríkjunum. Afleiðingin var sú að hann lenti undir smásjá yfirvalda og eftir að hann var tilnefndur til Friðarverðlauna Nóbels 1973 stimpluðu fjölmiðlar í Sovétríkjunum hann svikara ásamt Aleksandr Solzhenitsyn. Honum voru veitt friðarverðlaunin árið 1975 en fékk ekki að taka við þeim. Þann 22. janúar 1980 var hann handtekinn í kjölfar mótmæla gegn innrás Sovétríkjanna í Afganistan. Hann var sendur í útlegð til borgarinnar Nisnij Novgorod þar sem lögreglan fylgdist grannt með honum. Tvisvar, 1984 og 1985, fór hann í hungurverkfall til að knýja á um að eiginkona hans, Jelena Bonner, fengi að fara til hjartaskurðlæknis í Bandaríkjunum en í bæði skiptin var hann fluttur á spítala og matur neyddur ofan í hann. Árið 1985 stofnaði Evrópuþingið Sakarovverðlaunin fyrir skoðanafrelsi og árið eftir lauk útlegð hans þegar Mikhaíl Gorbatsjev bauð honum að snúa aftur til Moskvu. Þar átti hann þátt í stofnun stjórnmálasamtaka sem voru virk í stjórnarandstöðu síðustu ár Sovétríkjanna. Royal Jordanian. Airbus-flugvél frá Royal Jordanian árið 2007 Royal Jordanian Airlines (arabíska: الملكية الأردنية‎; "Al-Malakiyyah al-'Urduniyyah") er flugfélag með höfuðstöðvar í Amman í Jórdaníu. Félagið var stofnað sem hlutafélag með tilskipun frá Hussein Jórdaníukonungi 15. desember 1963. Því var síðar breytt í ríkisfyrirtæki en hlutafélagavætt aftur 2001 og einkavætt árið 2007. Það er meðlimur í flugbandalaginu Oneworld. Boeing B-52 Stratofortress. Sprengjum varpað á Víetnam 1965 eða 1966. Boeing B-52 Stratofortress er langdræg sprengjuflugvél frá Boeing með 32 tonna burðargetu. Bandaríski flugherinn hefur notað þessar vélar frá því þær komu á markað árið 1955. Upphaflega voru þær hannaðar til að bera kjarnavopn í kalda stríðinu en hafa oftast borið hefðbundnar sprengjur. Í Persaflóastríðinu var 40% af sprengjum Bandaríkjamanna varpað úr slíkum vélum. Kano. Kano er borg í Nígeríu og höfuðstaður Kano-fylkis í Norður-Nígeríu. Stórborgarsvæðið er það stærsta í Nígeríu ef Lagos er undanskilin. Íbúar borgarinnar eru rúmar tvær milljónir en tæpar þrjár á öllu stórborgarsvæðinu. Borgin er aðallega byggð hausum og var höfuðborg konungsríkis þeirra frá 999 þar til Sokoto-kalífadæmið lagði það undir sig 1807 og konungdæmið varð Furstadæmið Kano. Três Pontas. Três Pontas er borg í Brasilíu með yfir 53 þúsund íbúa. Scotice. Scotice og Icecan voru sæsímastrengir milli Kanada, Íslands, Færeyja og Skotlands. Þeir náðu samanlagt frá Corner Brook á Nýfundnalandi til Stórhöfða í Vestmannaeyjum til Velbastaðar á Straumey til Gairloch á norðvesturströnd Skotlands, alls 4200km leið. Strengirnir voru lagðir að frumkvæði Stóra norræna ritsímafélagsins en þátttakendur voru ríkisstjórnir Danmerkur, Bretlands og Kanada auk Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Með lagningu strengjanna fékk Stóra norræna ritsímafélagið einkarétt á símasambandi við Ísland. Scotice, frá Íslandi til Færeyja og Skotlands, var tekinn í notkun 22. janúar 1962 en Icecan, frá Kanada til Íslands, 31. desember sama ár eftir nokkur vandræði með bilanir. Scotice var með 24 talsímarásir og Icecan með 20 og gerðu þessir strengir Íslendingum og Færeyingum í fyrsta sinn kleift að hringja og senda fax til útlanda. Þetta var helsta samskiptaleið Íslands við útlönd þar til Skyggnir var tekinn í notkun og símtöl fóru um gervihnött árið 1980. Strengirnir voru áfram notaðir sem varatenging til 1987. Ramsay MacDonald. James Ramsay MacDonald (12. október 1866 – 9. nóvember 1937) var breskur stjórnmálamaður. Hann var fyrsti leiðtogi Breska verkamannaflokksins og fyrsti forsætisráðherra Bretlands úr þeim flokki. Hann varð alls þrisvar forsætisráðherra; í fyrstu ríkisstjórn verkamannaflokksins frá janúar til nóvember 1924, í annarri ríkisstjórn verkamannaflokksins frá 1929 til 1931 og í þjóðstjórninni 1931 til 1935. Hann sagði af sér 1931 vegna andstöðu ráðherra við gjaldfellingu breska pundsins (sem átti að vera liður í að bregðast við heimskreppunni) og myndaði þjóðstjórn með Breska íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum. Í kosningum sama ár beið verkamannaflokkurinn afhroð. Hans var því lengi minnst innan flokksins sem svikara sem leiddi andstæðingana til valda. Síðustu ár hans í embætti sagði aldurinn til sín og ræður hans urðu ruglingslegar. Winston Churchill og fleiri íhaldsmenn sökuðu hann um linkind gagnvart uppgangi Hitlers í Þýskalandi. Að lokum sagði hann af sér og íhaldsmaðurinn Stanley Baldwin tók við forsætisráðherraembætti í þjóðstjórninni en MacDonald varð forseti ríkisráðsins. Ralstonia. Ralstonia er ættkvísl baktería innan ættar Burkholderiaceae. Meðlimir ættkvíslarinnar eru staflaga og Gram-neikvæðir. Sumar tegundir eru kvikar og hafa þá ýmist staka, endastæða svipu eða kringstæðar svipur. Þær eru loftháðar og þarfnast því súrefnis til vaxtar og nota það sem loka-rafeindaþega í öndun. Undantekning er þó tegundin "Ralstonia eutropha", sem er valháð loftfælin og getur með nítratöndun þrifist án súrefnis. Ættkvíslin er nefnd til heiðurs bandaríska örverufræðingnum Ericka Ralston. Jens Otto Krag. Jens Otto Krag (15. september 1914 – 22. júní 1978) var danskur stjórnmálamaður, þingmaður Sósíaldemókrataflokksins og forsætisráðherra Danmerkur í þremur ríkisstjórnum frá 1962 til 1972, tímabili sem einkenndist af miklum hagvexti í Danmörku. Hann var forseti Norðurlandaráðs 1971. Hann barðist fyrir því að Danmörk yrði hluti af Evrópubandalaginu sem gekk eftir í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu 1972. Eftir hana sagði hann af sér, flestum að óvörum. Varðveislusafn. Varðveislusafn er safn skjala eða fræðigreina fyrir háskólabókasafn eða þjóðbókasafn ætlað til langtíma varðveislu. Safnið getur verið hvoru tveggja, efnislegt eða rafrænt. Varðveislusöfn eru í auknum mæli rafræn og í opnum aðgangi. Í sumum tilvikum, til dæmis fyrir sérhæfð háskólabókasöfn ber doktorsnemum skylda til þess að skila eintaki af doktorsritgerð sinni til varðveislusafns háskólabókasafnsins. Í lögum margra landa um skylduskil er mælt fyrir um að varðveita eigi eintök af öllu útgefnu efni, þar með töldu rafrænu efni. Í slíkum tilvikum er aðferðum vefsöfnunar stundum beitt. Vefsöfnun. Vefsöfnun nefnist tæknileg aðferð við að safna gögnum af vefsíðum. Þannig er í vissum skilningi hermt eftir þeirri mennsku aðgerð að skoða vefi, annað hvort með því að búa til forrit sem notast við Hypertext Transfer Protocol-aðferðina eða með því að nýta vafra á borð við Internet Explorer eða Mozilla Firefox. Forrit sem nefnist Heretrix hefur verið þróað, upprunalega til þess að safna vefum fyrir Internet Archive en er nú notað víða, þar á meðal af Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafni. Elda Grin. Elda Grin ("Էլդա Գրին, Elda Ashoti Grigoryan") (f. 1928) er armenskur rithöfundur, sálfræðingur og lagasérfræðingur. Hún er fædd 1928 í Tíblisi í Georgíu. Á árunum 1943-1947 nam hún við deild erlendra tungumála við rússneska kennaraskólann í Jerevan. Elda Grin er prófessor í sálfræði við Jerevan-háskóla. Hún hefur gefið út átta smásagnasöfn, þar á meðal: "A Night Sketch" (1973), "My Garden" (1983), "We Want to Live Beautifully" (2000), "Space of Dreams" (2004). Smásagan Hendurnar var skrifuð árið 1983. Tungl Mars. Mars, Fóbos og Deimos í réttum hlutföllum Mars hefur tvö tungl, Fóbos og Deimos. Asaph Hall fann þau bæði árið 1877. Tunglin heita eftir persónum úr grískri goðafræði, Fóbos (ótti) og Deimos (ofsahræðsla/kvíði) sem fylgdu föður sínum Ares í bardaga. Ares var grísk hliðstæða rómverska stríðsguðsins Mars. Deildar meiningar eru um uppruna tunglanna. Ein kenning gerir ráð fyrir því að þau séu smástirni sem Mars hefur fangað en hvað Fóbos varðar benda athuganir á efnasamsetngu og innri gerð hans mögulega frekar til þess að hann sé myndaður úr sama efni og Mars sem gæti hafa kastast út í geim við árekstur Mars við stórt reikistirni. Frá sjónarhóli á miðbaugi Mars þá lítur fullt tungl Fóbosar út fyrir um þriðjungur af þvermáli fulls tungls á himnium á jörðinni. Sýndarbreidd hans er á milli 8' (við sjóndeildarhring) og 12' (á hvirfilpunkti). Því fjær sem farið er frá miðbaugi Mars, þeim mun minni myndi Fóbós líta út fyrir að vera og frá heimskautum Mars sést hann alls ekki vegna þess að hann nær þar aldrei upp fyrir sjóndeildarhring vegna nálægðar hans við reikistjörnuna. Deimos líkist hins vegar aðeins bjartri stjörnu á himininum, sýndarþvermál hans frá Mars er örlítið meira en sýndarþvermál Venusar frá jörðinni séð eða um 2'. Sýndarþvermál sólarinnar frá Mars er hins vegar um 21' þannig að það verða engir almyrkvar á sólu þar sem tunglin eru of lítil til þess að geta falið alla sólarskífuna. tunglmyrkvar eru á hinn bóginn mjög algengir og eiga sér stað á næstum því hverri nóttu. Þegar tunglin ganga fyrir sólina er í raun frekar um að ræða þvergöngur en mykrva. Hreyfingar tunglanna á himninum eru afar ólíkar því sem við eigum að venjast með jarðarmánann. Fóbos gengur einn hring um Mars á aðeins 7,66 klukkustundum. Það er mun skemmri tími en einn sólarhringur á Mars. Fóbos rís í vestri og sest í austri og rís á nýjan leik á aðeins 11 klukkustundum. Deimos gengur hins vegar einn hring á sporbaugi sínum á rúmum 30 tímum. Það þýðir að hann gengur aðeins lítillega hraðar en snúningur Mars um sjálfan sig. Deimos gengur því mjög hægt yfir himininn, hann rís í austri, gengur yfir himinninn á 2,7 sólarhringum og sest í vestri. Tunglin hafa bæði bundinn möndulsnúning og snúa því ávallt sömu hliðinni að Mars. Þar sem Fóbos gengur hraðar um reikistjörnuna en hún snýst um sjálfa sig þá eru flóðkraftar smátt og smátt að draga hann innar. Óhjákvæmilega kemur að því að sporbaugur Fóbosar mun þrengjast svo mikið að hann gengur inn fyrir Roche-mörkin þar sem þyngdarkraftar Mars munu tæta tunglið í sundur. Gígaraðir á yfirborði Mars benda til þess að hann hafi áður haft fleiri tungl hlotið hafi þau örlög og að brot þeirra hafi fallið niður á yfirborð Mars. Deimos er á hinn bóginn nógu fjarri Mars til þess að hans sporbaugur er að hækka fremur en lækka sem er svipuð þróun og á sér stað með tungl jarðarinnar. Kallistó (tungl). Kallistó (Júpíter IV'") er eitt af tunglum Júpíters. Galíleó Galílei fann hana árið 1610 líkt og hin þrjú tungl Júpíters sem kennd eru við hann. Hún er þriðja stærsta tungl sólkerfisins og hið næststærsta sem er á sporbaugi um Júpíter á eftir Ganýmedes. Þvermál Kallistó er 99% af þvermáli reikistjörnunnanr Merkúríusar en hún hefur þó einungis um þriðjung massa Merkúríusar. Kallistó er yst af Galíleótunglunum, sporbaugur hennar er að meðaltali um 1,88 milljón km frá Júpíter. Kallistó er ekki í brautarhermu með hinum þremur Gallíleótunglunum: Íó, Evrópu og Ganýmedes; og verður því ekki fyrir sömu flóðkröftunum og þau. Það er því ekki áberandi jarðhiti á Kallistó líkt og finnst á systrum hennar. Kallistó hefur bundinn möndulsnúning og snýr því ávallt sömu hliðinni að Júpíter. Frá sjónarhóli áhorfanda á yfirborði hennar virðist Júpíter því ávallt vera á sama staðnum á himninum. Kallistó verður fjarlæðgar sinnar vegna jafnframt ekki fyrir sömu áhrifunum af segulhvolfi Júpíters og hin tunglin sem liggja innar. a>" sjást Kallistó (niðri til vinstri) og Evrópa (ofarlega fyrir miðju) ásamt Júpíter. Kallistó er gerð úr bergi og ís í nokkuð jöfnum hlutföllum og hefur þéttni í kringum 1,83 g/cm3. Efnin sem fundist hafa á yfirborðinu með litrófsgreiningu eru vatnsís, koltvísýringur, silíköt og lífrænar sameindir. Rannsóknir með Galíleó-geimfarinu leiddu í ljós að Kallistó hefur líklega kjarna úr silíkatbergi og mögulega neðanjarðarhöf á fljótandi formi á meira en 100 km dýpi. Yfirborð Kallistó er útsett gígum eftir árekstra loftsteina og er talið ævafornt. Það sýnir engin merki um jarðvirkni eða flekaskil og virðist hafa mótast fyrst og fremst með árekstrum yfir langan tíma. Helstu yfirborðseinkennin eru hringlaga fyrirbæri, gígaraðir, hryggir og setlög. Í nærmynd er yfirborðið fjölbreytt og einkennist af hæðum með ljósari hrímsetlögum sem umkringdar eru sléttum sem gerðar úr dekkri efnum. Talið er að þessir landslagsþættir verði til vegna þurrgufunar íss úr yfirborðinu sem vinni hraðar á smáum landslagsþáttum en þeim stærri. Þessi tilgáta fær stuðning í því að smáir gígar eru eru tiltölulega sjaldgæfir en smáir ávalir hnúðar í landslaginu eru taldir vera leyfar þeirra. Aldur þessara landslagsþátta er óþekktur. Kallistó hefur afar þunnan lofthjúp sem samanstendur af koltvísýringi og líklega súrefni og nokkuð virku jónahvolfi. Hún er talin hafa myndast við samansöfnun gass og ryks sem umkringdi Júpíter eftir myndun hans. Þar sem samansöfnun efnis Kallistó hefur tekið langan tíma og hún hefur ekki virka varmauppsprettu í flóðtognun eins og hin Galíleótunglin þá hefur líklega aldrei verið nægjanlegur hiti innan Kalistó til þess að stuðla að mikilli lagskiptingu. Hægur varmaburður innra með henni eftir myndun leiddi líklega til minni háttar lagskiptingar sem felst í neðanjarðarhafi á 100-150 km dýpi og lítils bergkjarna. Líkleg tilvist fljótandi vatns á Kallistó opnar á möguleika á að þar kunni að geta dafnað líf en aðstæðurnar eru þó ekki taldar sérlega hagstæðar til þess og mun meiri athygli hefur beinst að Evrópu hvað það varðar. Þar sem Kallistó er mun fjær Júpíter er hin Galíleótunglin og verður því fyrir mun minni geislun hafa menn haft augastað á Kallistó sem mögulegri mannaðri bækistöð sem gæti nýst við ítarlegar rannsóknir á öllu Júpíterkerfinu. Samanburður á stærð Kallistó, tunglsins og jarðar 393. 393 var 93. ár 4. aldar og hófst á laugardegi samkvæm júlíska tímatalinu. Á þeim tíma var það þekkt innan Rómaveldis sem ræðismannsár Ágústusar og Ágústusar eða 1146 "ab urbe condita". Hornið (veitingastaður). Hornið er íslenskur veitingastaður á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis í Reykjavík. Veitingastaðurinn var stofnaður árið 1979 og hefur verið starfræktur allar götur síðan. Hornið var einna fyrstur veitingastaða á Íslandi til að framreiða pitsur og sá allra fyrsti sem gerði aðallega út á pitsusölu og var með eldofn. Stofnendur og eigendur Hornsins eru þeir Guðni Erlendsson, kaupmaður, og Jakob H. Magnússon, matreiðslumaður. Carnegie Hall. Carnegie Hall er tónleikahús á Manhattan í New York-borg númer 881 við Sjöunda breiðstræti rétt sunnan við Central Park. Húsið var reist af iðnjöfrinum Andrew Carnegie árið 1891. Fílharmoníuhljómsveit New York hafði þar aðsetur sitt til 1962. Húsið er með þrjá sali. Sá stærsti tekur 2804 í sæti á fimm hæðum. Það var teiknað af William Burnet Tuthill og mikið endurnýjað 1986 og 2003. Árin 1987-1989 var 60 hæða stórhýsi, Carnegie Hall Tower, reist við hlið hússins. Ósonlagið. Mynd sem sýnir gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu Ósonlagið er í andrúmslofti jarðar lag þar sem þéttleiki ósons (O3) er meiri en annars staðar. Þéttleikinn er samt sem áður mjög lítill, eða innan við tíu milljónarhlutar, en meðaltalið í andrúmsloftinu er 0,6. Ósonlagið er aðallega að finna í heiðhvolfinu í um 20-30km hæð, þótt það sé breytilegt eftir svæðum og árstímum. Óson og tvísúrefni (O2) ná að sía burt alla útfjólubláa geisla frá sólinni á bylgjulengdinni 280–100nm (UV-C) og ósonið síar auk þess út hluta þeirrar geislunar sem er aðalorsakavaldur sólbruna á bylgjulengdinni 315–280nm (UV-B) sem er 350 milljón sinnum sterkara efst í gufuhvolfinu en við yfirborð jarðar. Vegna þessa olli það miklum áhyggjum þegar í ljós kom að manngerð halógenkolefni, einkum klórflúorkolefni og brómflúorkolefni, eyddu upp ósonlaginu með því að hvata efnahvörfum. Vegna þessa ákváðu ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Kanada og Noregs að banna notkun klórflúorkolefna í úðabrúsum árið 1978. Þegar gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu uppgötvaðist árið 1985 var ákveðið að takmarka slík efni bæði í úðabrúsum og kælitækjum. Árið 1987 var Montreal-bókunin gerð og eftir 1995 hefur framleiðsla á klórflúorkolefni verið bönnuð í flestum þróuðum ríkjum. Árið 2003 kom í ljós að hægt hafði verulega á rýrnun ósonlagsins vegna bannsins. Bonifasíus 8.. Bonifasíus 8. (um 1235 – 11. október 1303) var páfi frá 1294. Hann hét upphaflega Benedetto Gaetani og var frá bænum Anagni rétt sunnan við Róm. Árið 1252 varð frændi hans biskup í Todi í Úmbríu og fór Benedetto með honum þangað og hóf nám í kirkjurétti. Árið 1264 varð hann hluti af Páfahirðinni þegar hann varð ritari kardinálans Simon de Brion sem síðar varð Martinus 4. páfi. Hann fylgdi líka kardinálanum Ottobuono Fieschi sem síðar varð Hadríanus 5. páfi til Englands til að styðja Hinrik 3. Englandskonung í borgarastyrjöldinni þar. Hann varð kardináli 1281 og var sendimaður páfa við ýmis tilefni. Hann var kjörinn páfi í kjölfarið þess að Selestínus 5. sagði af sér embætti og var krýndur 23. janúar 1295 eftir að hafa flutt Páfahirðina frá Napólí til Rómar. Hann lýsti árið 1300 helgiár fyrstur páfa. Tungl Júpíters. Um Júpíter ganga 67 þekkt tungl. Yfirgnæfandi stærst þeirra eru Galíleótunglin fjögur sem eru þau einu sem eru nógu stór til þess að hafa fallið saman í hnattlaga form undan eigin þyngd. Hin 63 tunglin samanlögð ná aðeins 0,003% af heildarmassa allra tungla Júpíters. 16 tunglanna hafa ekki hlotið nöfn enn sem komið er hin hafa öll nema eitt verið nefnd eftir kvenpersónum úr grískri og rómverskri goðafræði sem hafa tengingu við Seif eða rómverska hliðstæðu hans, Júpíter. Ganýmedes er eina tunglið sem nefnd er í höfuðið á karlpersónu en sá var bikarberi guðanna og ástmaður Seifs. Átta af tunglunum eru regluleg þar sem þau ganga með framhreyfingu á hringlaga brautum sem halla ekki mikið miðað við miðbaug Júpíters. Það eru Galíleótunglin og þau fjögur tungl sem ganga innar en þau. Tunglin sem ganga utar en Galíleótunglin eru öll óregluleg tungl sem flest ganga með bakhreyfingu á ílöngum og hallandi brautum. Ætla má að þessi skipting tunglanna í tvo meginflokka endurspegli líka í flestum tilfellum ólíkan uppruna þeirra þar sem reglulegu tunglin hafi líkast til orðið til úr samansöfnun efnis úr sama ryk- og gasskýinu og Júpíter varð til úr á meðan óreglulegu tunglin eru líkast til flest fyrrum smástirni sem áður gengu á braut um sólu áður en Júpíter fangaði þau í þyngdarsviði sínu. Tafla. Eftirfarandi er listi yfir öll 67 tungl Júpíters sem nú (jan. 2013) eru þekkt. Tunglin sem hafa feitletruð nöfn eru nógu stór til þess að hafa orðið hnattlaga undan eigin þyngd. Tunglin sem ganga utar en Galíleótunglin eru annars vegar á ljósgráum grunni sem merkir að þau ganga rétt um Júpíter en þau sem eru á dökkum grunni ganga öfugan hring um Júpíter (þ.e. á móti hinum tunglunum og á móti snúningi Júpíters um sjálfan sig). Viktor Júsjenkó. Viktor Andrijovitsj Júsjenkó (f. 23. febrúar 1954) er úkraínskur stjórnmálamaður og fyrrum forseti Úkraínu. Hann varð forsætisráðherra 1999 í forsetatíð Leoníd Kútsma og Júlía Tímósjenkó var varamaður hans en þau misstu völd í kjölfar vantrausts á þinginu aðeins tveimur árum síðar. Í aðdraganda forsetakosninganna 2004 var hann forsetaefni stjórnarandstöðunnar en tapaði gegn Viktor Janúkóvitsj sem var forsetaefni stjórnarinnar. Í aðdraganda kosninganna veiktist hann og í rannsókn í Bretlandi kom í ljós að eitrað hafði verið fyrir honum með díoxíni. Eitrunin varð til þess að andlit hans afmyndaðist. Hæstiréttur Úkraínu fyrirskipaði að kosningarnar skyldu endurteknar vegna kosningasvindls. Það skapaði öldu mótmæla sem voru kölluð appelsínugula byltingin og áttu stóran þátt í kosningasigri Júsjenkós þegar aftur var kosið. Eftir eitt ár í embætti rak Júsjenkó ríkisstjórnina undir forystu Júlíu Tímósjenkó vegna ásakana um spillingu. Árið eftir skipaði hann fyrrum andstæðing sinn, Viktor Janúkóvitsj, forsætisráðherra og árið 2007 leysti hann þingið upp og kom um leið í veg fyrir að stjórnlagaréttur gæti tekið úrskurð hans fyrir með því að reka þrjá af dómurum réttarins. Í kosningum í kjölfarið myndaði Tímósjenkó meirihluta á þingi og varð forsætisráðherra í annað sinn. Júsjenkó reyndi aftur að leysa þingið upp árið eftir en það gekk ekki eftir meðal annars vegna andstöðu hans eigin flokks. Í forsetakosningum árið 2010 fékk hann aðeins 5,45% atkvæða og datt út í fyrstu umferð. Hann bar vitni gegn Tímósjenkó í réttarhöldunum yfir henni árið 2011 og bauð sig fram í þingkosningum 2012 en flokkur hans kom ekki manni á þing. Coritiba Foot Ball Club. Coritiba Foot Ball Club (Nó díreach mar „Coritiba“) er brasilískt knattspyrnufélag frá Curitiba. Liðið var stofnað 12. október 1909. Playmobil. Playmobil er leikfangalína framleidd af þýska fyrirtækinu Brandstätter Group. Helsta leikfangið í línunni er 7,5 cm há persóna úr plasti. Playmobil-leikföng eru framleidd eftir þemum og fást í tilbúnum pökkum. Sveitarstjórn. Sveitarstjórn eða bæjarstjórn er stjórn sveitarfélags. Stjórnarmenn eru oftast kjörnir af íbúum sveitarfélagsins og geta síðan myndað meirihluta um stjórn þess. Talsmaður sveitarstjórnar er titlaður sveitarstjóri, stjórnarformaður eða bæjarstjóri eftir atvikum. Hann getur verið einn af sveitarstjórnarmönnum eða ráðinn sérstaklega í þetta embætti. Í sumum tilvikum er auk hans formaður eða forseti sveitar-/bæjarstjórnar. Í borgum eru sveitarstjórnir kallaðar borgarstjórnir. Hlíðarfjall. Hlíðarfjall er fjall í Eyjafirði ofan Akureyrar. Þar er skíðasvæði Akureyringa. Listi yfir úrslit MORFÍS. Úrslit MORFÍS er yfirlit yfir úrslit ræðukeppni framhaldsskólanna MORFÍS frá 1984. Simon Marius. Simon Marius (20. janúar 1573 – 26. desember 1624) var þýskur stjörnufræðingur. Hann fæddist í Gunzenhausen nálægt Nürnberg en varði meiri hluta ævi sinnar í Ansbach. Marius gaf út verkið "Mundus Iovialis" árið 1614 þar sem hann lýsti reikistjörnunni Júpíter og tunglum hans. Þar hélt hann því fram að hann hefði uppgötvað fjögur stærstu tungl reikistjörnunnar nokkrum dögum á undan Galíleó Galílei. Í deilum stjörnufræðinganna um fundinn sýndi Galíleó þó fram á að Marius gat aðeins bent á eina athugun sem átti sér stað jafn snemma og athuganir Galíleó og sú passaði við teikningu Galíleó af afstöðu tunglanna frá þeim sama degi sem Galíleó hafði birt 1610. Talið er mögulegt að Marius hafi uppgötvað tunglin á eigin spýtur en þó einhverjum dögum á eftir Galíleó. Tunglin fjögur urðu þekkt sem Galíleótunglin en nöfn þeirra sem á endanum náðu mestri útbreiðslu eru frá Marius komin. Hann lagði til nöfnin Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó í höfuðið á elskendum Seifs sem var grísk fyrirmynd rómverska guðsins Júpíters. Torfusamtökin. Torfusamtökin eru félag sem berst fyrir húsvernd og auknum skilningi á gildi byggingararfleifðar Íslands fyrir umhverfi og mannlíf. Saga. Samtökin voru stofnuð á fjölmennum fundi í Sigtúni 1. desember 1972 í þeim tilgangi að knýja á um verndun Bernhöftstorfunnar, húsalengju ofan við Ingólfsbrekku milli Lækjargötu og Skólastrætis í miðborg Reykjavíkur. Þá hafði í nokkur ár staðið til að rífa húsin til að rýma fyrir nýrri stjórnarráðsbyggingu. Helsti hvatinn að stofnun samtakanna kom frá Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna og ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka. Þór Magnússon, þjóðminjavörður og Páll Líndal, borgarlögmaður, voru meðal þeirra sem fluttu ávörp á útifundinum 1972 sem leiddi til stofnunar samtakanna. Árið eftir tók hópur sig til og málaði húsin til að sýna fram á hversu mikil prýði væri að þeim ef þau væru gerð upp. Árið 1977 gaus upp eldur í hluta af húsunum nær Bankastræti og brunnu sum þeirra til grunna. Tveimur árum síðar féllst menntamálaráðherra á að friða húsalengjuna og 1980 hófst endurreisn gömlu húsanna og gerð nýbygginga í stað þeirra húsa sem brunnu á vegum Torfusamtakanna. Samtökin höfðu umsjón með húsunum til 1985 þegar Minjavernd hf. var stofnuð með aðkomu samtakanna, Þjóðminjasafnsins og fjármálaráðuneytis. Sílíkat. Sílíkat er efnasamband kísils (Si) og annars frumefnis, oftast súrefnis. Sílíkatsteindir mynda mikinn meirihluta jarðskorpunnar sem og berg annara jarðreikistjarna, tungla og smástirna í sólkerfinu. Hægri grænir. Hægri grænir er stjórnmálaflokkur á Íslandi sem var stofnaður í 2010. Saga Hægri grænna. Hægri grænir, flokkur fólksins var stofnaður af Guðmundi Franklín Jónssyni, Lúðvíki Lúðvíkssyni og Sveinbirni Árnasyni upp úr andstöðu þeirra og nokkurra aðgerðarsinna við Icesave samningana. Fyrir stofnun flokksins 17. júní 2010 hafði formaður flokksins Guðmundur Franklín Jónsson barist hatramlega gegn því að þjóðin borgaði ólögvarðar Icesave kröfur Breta og Hollendinga. Barátta formannsins byrjaði í mars 2009, en hann var fyrsti aðgerðarsinninn sem gerði þetta að pólitísku baráttumáli. Þetta gerði hann með stofnun Facebook hóps til að hvetja forseta Íslands, Hr. Ólaf Ragnar Grímsson til dáða, nýta sér málskotsréttinn og neita að samþykkja Icesavelögin sem samþykktu greiðslur til Breta og Hollendinga. Hópurinn endaði í meira en 19.000 einstaklingum. Það má segja að flokkurinn hafi byrjað að mótast eftir þetta á meðal Facebook vina í samræðum og hugmyndin um nýjan endurreisnarflokk, flokk millistéttarinnar og smáfyrirtækja hafi kviknað. Flokk sem myndi verja einstaklingsfrelsið. Hægri grænir, flokkur fólksins var síðan formlega stofnaður á Þingvöllum þann 17 júní 2010, og flutti formlega 9. júlí 2012 í húsnæði í gömlu Heilsuverndarstöðinni að Barónsstíg 47, 101 Reykjavík, gengið er inn Barónsstígsmeginn, inngangurinn nær Sundhöllinni. Þar eru höfuðstöðvar þeira í dag og fundaraðstaður. Skráðir flokksfélagar eru nú rétt rúmlega tvö þúsund, en ekkert flokksgjald er rukkað inn og öll starfsemi er háð frjálsum framlögum. Flokkurinn hefur fengið úthlutað listabókstafnum „G“. Gustav Fridolin. Per Gustav Fridolin Edward (fæddur 10. maí 1983 í Onnestad á Skáni) er sænskur stjórnmálamaður, blaðamaður, rithöfundur og kennari. Cavern Club. Cavern Club eins og hann lítur út í dag Cavern Club er tónlistarklúbbur og bar í Mathew Street í ensku borginni Liverpool. Klúbburinn var stofnaður 1957 og varð frægur fyrir að vera vettvangur Bítlanna frá 1961. Skiffle-tónlist. Cavern Club opnaði 16. janúar 1957 af Alan Sytner, sem varð fyrir hughrifum af skiffle-klúbbum í París. Staðsetningin var neðanjarðar, en holan var upphaflega gerð sem loftvarnarbyrgi á stríðsárunum. Þegar klúbburinn opnaði hófu skiffle-hljómsveitir (nokkurs konar bland af djass, popp og blús) að venja komur sínar þangað til að spila fyrir gesti. Ein hljómsveitanna var The Quarrymen sem John Lennon hafði stofnað. The Quarrymen spiluðu í Cavern Club í fyrsta sinn 7. ágúst 1957. Eftir eitt skiffle-lag ákvað Lennon að spila lagið "Don‘t Be Cruel" eftir Elvis Presley, sem var allt öðruvísi tónlist, rokk. Eftir lagið labbaði Alan Sytner upp til Lennons og sagði honum að hætta öllu rokki og róli. The Quarrymen spiluðu ekki í klúbbnum aftur fyrr en 24. janúar 1958 og þá var Paul McCartney genginn til liðs við hljómsveitina. Rokk og ról. Mathew Street og Cavern Club í dag Ray McFall keypti Cavern Club 1959 þegar Sytner flutti til London. Hann hóf fljótlega að umbreyta staðnum þannig að hljómsveitir fengu að spila rokk og ról. Klúbburinn var ákaflega vinsæll meðal þeirra hljómsveita sem léku hið magnaða Merseybeat sem þróaðist í Liverpool á þessum árum. Fyrsta hljómsveitin sem rokkaði á staðnum var Rory Storm and the Hurricanes 25. maí 1960, en trommuleikari hennar var Ringo Starr. Mýmargar hljómsveitir komu fram, bæði á kvöldin og um hádegisbilið. Það var um hádegið 9. febrúar 1961 að Bítlarnir komu fyrst fram í klúbbnum. Hljómsveitina skipuðu þá John Lennon, Paul McCartney, George Harrison og Pete Best, og þénuðu þeir 3 pund og 17 skildinga fyrir vikið. Bítlarnir spiluðu alls 292 sinnum í klúbbnum næstu þrjú árin og urðu gríðarlega vinsælir. Að sama skapi varð klúbburinn einn frægasti tónlistarklúbbur Englands. Athafnamaðurinn Brian Epstein heyrði um Bítlana og ákvað að sjá með eigin augum. Hann mætti á tónleika í Cavern Club 3. ágúst 1961 til að heyra Bítlana spila, og var strax stórhrifinn. Í kjölfarið varð Epstein umboðsmaður þeirra. Í ágúst 1962 var Pete Best rekinn úr hljómsveitinni og Ringo Starr ráðinn í staðinn. Þetta hneykslaði marga aðdáendur Bítlanna og einn þeirra skallaði George Harrison í andlitið á tónleikum í klúbbnum þannig að hann fékk ljótt glóðurauga. Síðustu tónleikar Bítlanna í Cavern Club voru 3. ágúst 1963. Epstein lofaði að Bítlarnir myndu snúa aftur og spila í klúbbnum, en það gerðist aldrei. Á þessum tíma var Bítlaæðið gengið í garð. Aðrar hljómsveitir tóku við að spila í Cavern Club. Í fyrstu voru það The Hollies, en aðrar fylgdu í kjölfarið sem síðar öðluðust heimsfrægð, s.s. The Yardbirds, The Kinks, Elton John, The Who og The Rolling Stones. Þegar þessar hljómsveitir urðu frægar og hófu að spila annars staðar, minnkaði aðsóknin að Cavern Club. Hann varð að lokum gjaldþrota 1965 og skipti nokkru sinni um eigendur til 1973 er honum var lokað fyrir fullt og allt. Síðasta hljómsveitin sem þar tróð upp var Focus frá Hollandi. Cavern Club var rifið niður vegna lagningu nýrrar neðanjarðarlestar um miðborg Liverpool. Ofanjarðar er bílastæði í dag. Cavern Club í dag. 1984 var Cavern Club stofnað á ný. Þar sem gamla staðsetningin var ekki aðgengileg var nýi staðurinn reistur gegnt þeim gamla í Mathew Street. Hins vegar fékk húsnúmerið að halda sér, nr. 10. Klúbburinn er einnig neðanjarðar og þarf að ganga niður tröppur til að komast inn. Innviðið allt er mjög líkt og gamli staðurinn, en þó ekki að öllu leyti. Sagt er að 15 þús múrsteinar gamla staðarins hafi verið notaðir fyrir nýja staðinn. Það var Tommy Smith, leikmaður knattspyrnufélagsins Liverpool, sem opnaði staðinn. En efnahagskreppan í borginni var hörð og fór klúbburinn á hausinn 1989. Eftir 18 mánaða lokun var Cavern Club opnaður aftur af Bill Heckle og Dave Jones, sem reka hann enn í dag. Þar er bar og þar er spiluð tónlist á daginn og langt fram á næturna. Ferðamenn flykkjast þangað í stórum stíl til að sjá hvar Bítlarnir spiluðu upphaflega, jafnvel þó að klúbburinn sé á nýjum stað. Tónlistin sem þar er spiluð er frá sjöunda, áttunda, níunda og tíunda áratugnum (eða nýrri) til skiptis. Þar koma gjarnan fram hljómsveitir sem stæla Bítlana. 14. desember 1999 hélt Paul McCartney tónleika í klúbbnum, en það voru síðustu tónleikar hans á 20. öldinni. Cake Boss. "Cake Boss" er bandarískur raunveruleikaþáttur sem sýndur var fyrst árið 2009 á bandarísku sjónvarpstöðinni TLC. Þátturinn sýnir á bak við tjöldin í einu vinsælasta bakaríi í fylkinu New Jersey. Bakaríið heitir Carlo's Bake Shop og er fjölskyldufyrirtæki þar sem Buddy Valastro ræður ríkjum. Í þáttunum tekur Buddy að sér að gera tæknilega erfiðar kökur. Albert Dock. Albert Dock með Royal Liver Building í baksýn Albert Dock er heiti á hafnlægi og pakkhúsum í ensku borginni Liverpool. Pakkhúsin eru á heimsminjaskrá UNESCO og eru þau jafnframt stærsta samstæða friðaðra húsa í Bretlandi. Upphaf. Saga hafnlægisins nær aftur til ársins 1837 en þá fór athafnamaðurinn Jesse Hertley að gera áætlanir um að reisa samstæðu hafnlægis og pakkhúsa. Hugmyndin var sú að skipin leggðust að bryggju og vörur úr þeim væri hægt að setja beint í húsin, án þess að flytja þurfi þær um lengri veg. Hugmyndin þótti svo framúrstefnuleg að framkvæmdir við hana hófust ekki fyrr en 1841. Þá voru hundruðir verkamanna fengnir til að grafa fyrir skipalæginu, eftir að nokkur minni hús voru látin víkja. Húsin voru aðeins gerð úr efnum sem ekki voru eldfim, enda eldhætta ávallt mikil í pakkhúsum. Þau voru gerð úr málmsteypu, tígulsteinum, sandsteini og graníti. Þetta voru fyrstu pakkhúsin í Englandi sem þannig voru reist. Höfnin var opnuð 1845, en þá lagðist fyrsta skipið að. Pakkhúsin voru þá enn í byggingu. Þau urðu fimm talsins, allt tröllauknar byggingar sem röðuðu sér umhverfis hafnlægið. Það var Albert, eiginmaður Viktoríu drottningar, sem opnaði samstæðuna formlega 1846 og heitir hún því eftir honum (Albert Dock). Þetta var einnig í fyrsta sinn sem opinber konungsheimsókn fór fram í Liverpool. Dagur þessi var meiriháttar hátíðisdagur í borginni. Samstæðan var þó ekki fullkláruð fyrr en ári síðar. 1848 voru vökvakranar teknir í notkun á bryggjunni, þeir fyrstu í heimi. Á næstu áratugum var nokkrum húsum bætt við, svo sem hús fyrir hafnarstjórann. Á þessum tíma voru gríðarlega miklar siglingar til og frá Liverpool. Pakkhúsin voru mikið notuð, ekki síst fyrir viðkvæmar vörur, svo sem áfengi, baðmull, te, silki, tóbak, fílabein og sykur. Hnignun. Þrátt fyrir mikil umsvif fyrstu tvo áratugi, fór að halla undan fæti fyrir Albert Dock. Þegar leið á öldina fóru færri skip að venja komur sínar í hafnlægið. Ástæðan var aðallega breytingar á skipum. Seglskipin breyttust yfir í gufuskip, en þau voru oft búin eigin krönum. Gufuskipin urðu líka stærri en seglskipin og því komust þau ekki eins auðveldlega inn í hið þrönga hafnlægi í Albert Dock. Viðskiptin minnkuðu því talsvert, en farþegaskip til Ameríku sigldu enn þaðan. Margir Íslendingar sem fluttu til Vesturheims á 19. öld hafa því staðið á bryggjunni og gengið um borð í skip. Albert Dock var þó áfram í notkun út öldina. 1899 var hluti af nyrðri húsunum breytt í kælihús fyrir viðkvæm matvæli. Í upphafi 20. aldar minnkuðu umsvifin enn. Þegar komið var frá á þriðja áratuginn voru skip hætt að nota hafnlægið, en pakkhúsin voru þó enn í notkun. Styrjöld og eftirstríðsárin. Þegar heimstyrjöldin síðari hófst 1939 tók breski herinn Albert Dock yfir. Hafnlægið var notað fyrir kafbáta og minni herskip, og sum pakkhúsin fyrir hergögn. Þjóðverjar gerðu miklar loftárásir á Liverpool og við það eyðilögðust nokkur herskip og nokkur húsanna, sérstaklega í árásunum í maí 1941. Í stríðslok var 15% flatarmáls húsanna skemmdur eftir sprengjur. Þegar herinn yfirgaf Liverpool voru framtíðarhorfur Albert Dock dökkar. Eigendurnir ákváðu að láta ekki gera við pakkhúsin enda fóru nýjar hafnir að taka við. Samt sem áður var ákveðið að friða húsin 1952. En skuldir söfnuðust upp og íhuguðu eigendur að rífa samstæðuna niður og reisa nútímaleg hús á reitnum. Samningar við fyrirtækið Oldham Estates um að reisa háhýsi og verslunarhús runnu þó að lokum út í sandinn á áttunda áratugnum. 1972 var Albert Dock endanlega lokað, enda blasti gjaldþrot við. Næstu árin voru uppi ýmsar áætlanir um nýtingu svæðisins, svo sem landfylling, háskóli og annað. En ekkert af þessu varð að veruleika. Ný uppbygging. 1981 tók nýtt félag við Albert Dock, MDC (Merseyside Development Corporation). Fljótlega hófst það handa við að laga skipalægið, skipta um sjávarlokur og endurnýja göngubrýr. Húsin sjálf voru í góðu ásigkomulagi en laga þurfti það sem skemmdist í stríðinu. 1984 fóru tveir stórviðburðir fram við Mersey: Seglskipasýning og alþjóðleg garðasýning. 3,5 milljónir manna sóttu viðburðina heim og skoðuðu margir þeirra Albert Dock. Þetta var slík hvatning fyrir MDC að ákveðið var að lappa upp á pakkhúsin. 1986 var fyrsta húsið tekið í notkun á ný sem sjóminjasafn. Í öðrum húsum var verslunum komið fyrir, skrifstofuaðstöðu og íbúðum. Fyrstu íbúðirnar voru fullkláraðar 1988 og ruku út á mettíma. Albert Dock var formlega opnuð á ný 1988 af Karli Bretaprins, afkomanda Alberts sem opnaði Albert Dock 142 árum áður. Samtímis var Tate-safnið opnað á staðnum. 1990 opnaði Bítlasafn sem reyndist gríðarlega vinsælt. Síðan þá hafa fleiri fyrirtæki og söfn opnað í Albert Dock, svo sem þrælasafn, hótel. 2003 var síðasta auða svæðið í pakkhúsunum leigt út sem hótel, þannig að pakkhúsin eru fullnýtt. Albert Dock er einn allra vinsælasti ferðamannastaður í Liverpool í dag og mest sótti fjölnota ferðamannastaður Bretlands utan London-svæðisins. Árlega sækja fjórar milljónir manna staðinn heim. Húsin og höfnin eru friðuð og eru jafnframt á heimsminjaskrá UNESCO. Sjóminjasafnið. Sjóminjasafnið (Merseyside Maritime Museum) var opnað 1980 og stækkað 1986. Í safninu gefur að líta á siglingasögu Liverpool í gegnum tíðina og mikilvægi hafnarinnar fyrir landið og umheiminn. Þar er einnig greint frá þrælasölunni, vesturferðir Evrópumanna, kaupskipaflotann og farþegaskipið Titanic sem skráð var í Liverpool. Bítlasafnið. Inngangur að Bítlasafninu í einu pakkhúsanna Bítlasafnið (The Beatles Story) opnaði 1990 og fjallar um Bítlana. Meðlimir hljómsveitarinnar eru allir fæddir í Liverpool og hófu feril sinn í borginni. Meðal þess sem hægt er að sjá er fyrsti gítar George Harrisons, áður óútgefnar ljósmyndir og eftirlíking af Cavern Club, tónlistarklúbbnum þar sem Bítlanir spiluðu í þrjú ár. Gestir fá heyrnartól sem útskýrir ýmislegt í safninu, en röddinn sem heyrist tilheyrir Júlíu, systur John Lennons. Bítlasafnið er fyrsta safnið í heimi sem eingöngu helgar sig Bítlunum. Tate-safnið. Tate-safnið (Tate Liverpool) er útibú frá Tate Modern í London. Það opnaði í Albert Dock 1988 og var þá stærsta safn nýlistasafnið í Bretlandi utan London. Að öðru leyti er í safninu listaverk frá Bretlandi allt frá árinu 1500 til dagsins í dag. Bæði er hér um fastar sýningar að ræða og farandsýningar. 1998 var safnið stækkað og 2007 var andyrið endurbætt. Síðan þá fara þar fram gjörningar (live events). Thomas Hoeren. Thomas Hoeren (22. ágúst 1961 í Dinslaken) er deildarforseti lagadeildar Háskólans í Münster í þýskalandi. Hann er lagalegur ráðgjafi íslenskra stjórnvalda í fjölmiðlalögum og gaf út fyrstu blöð IMMI (Icelandic Modern Media Initiative). 2. deild karla í körfuknattleik. 2. deild karla er neðsta deild karla í körfuknattleik á Íslandi en Körfuknattleikssamband Íslands fer með málefni íþróttarinnar á Íslandi. Í reglum deildarinnar segir: „Mótanefnd KKÍ skal útfæra keppnisfyrirkomulag í 2. deild eftir fjölda liða hverju sinni, þó þannig að eftir að riðlakeppni 2. deildar lýkur skal haldin úrslitakeppni fyrir A-lið. Ef leikið er í einum riðli skulu fjögur lið leika í úrslitakeppni, 1 við 4 og 2 við 3 í undanúrslitum, einn leik og mætast sigurvegararnir í úrslitaleik. Ef leikið er í tveimur riðlum skal leika 8 liða úrslit sem hér segir.“ Eftirlitsstofnun EFTA. Eftirlitsstofnun EFTA (ESE eða ESA eftir ensku nafni stofnunarinnar "EFTA Surveillance Authority") er stofnun á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem staðsett er í Brussel í Belgíu og hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) og tryggja fullnustu EFTA-ríkjanna á honum. Aðild að stofnuninni eiga nú þau þrjú EFTA-ríki sem sem jafnframt eru aðila að EES, Ísland, Liechtenstein og Noregur. Stofnuninni var komið á með sérstökum samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Í eftirlitsstofnuninni sitja þrír eftirlitsfulltrúar, einn frá hverju aðildarríki. Eftirlitsfulltrúunum er þó ekki ætlað að gæta sérstaklega hagsmuna hemaríkja sinna heldur ber þeim að vera algjörlega óháðir við sín störf og taka ekki við fyrirmælum frá ríkisstjórnum eða öðrum aðilum. Hlutverk stofnunarinnar er hliðstætt eftirlitshlutverki Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Evrópusambandsríkjum og hefur stofnunin því talsverða samvinnu við framkvæmdastjórnina. Úrræði stofnunarinnar til þess að bregðast við því sem hún telur vera brot á skyldum aðildarríkjanna samkvæmt EES-samningnum er að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum. EFTA-dómstóllinn. EFTA-dómstóllinn er dómstóll með aðsetur í Lúxemborg sem starfar á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og hefur lögsögu yfir þeim þremur EFTA-ríkjum sem aðilar eru að Evrópska efnahagssvæðinu: Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Dómstóllinn fer með hliðstætt hlutverk og það sem Evrópudómstóllinn fer með innan Evrópusambandsins. Dómstólinn var stofnaður 1994 og hafði í upphafi aðsetur í Genf í Sviss en fluttist til Lúxemborgar árið 1996. Dómstólinn er skipaður þremur dómurum, einum frá hverju aðildarríki, og sex til vara. Dómarar eru skipaðir til sex ára í senn. Vinnumál dómsins er enska en einnig má beina erindum til hans á tungumálum aðildarríkjanna. Saga og hlutverk. Dómstóllinn hóf störf í janúar árið 1994. Þá störfuðu fimm dómarar við hann og 24 starfsmenn aðrir. Aðsetur dómstólsins var í Genf í Sviss. Eftir að aðildarríkjunum fækkaði í þrjú urðu dómarar þrír og aðrir starfsmenn 12 talsins. Haustið 1996 var aðsetur dómstólsins flutt til Lúxemborgar. Stjórn dómstólsins er í höndum nefndar þriggja sendiherra aðildarríkjanna hjá EFTA í Brussel. Réttarmálið er enska, en álitsgerðir eru einnig gefnar út á tungu þess ríkis sem málið varðar. Verkefni dómstólsins hafa einskorðast við tvennt. Í fyrsta lagi og aðallega að veita ráðgefandi álit eftir beiðni dómstóla í aðildarríkjunum og í öðru lagi að fjalla um ágreiningsefni sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur átt aðild að með einhverju móti, stundum þannig að ESA hefur kært ríki fyrir dómstólnum. Þau álitaefni, sem dómstóllinn fæst við, eru skýring á þeim reglum sem felast í EES-samningnum og fylgireglum hans. Frumsamningurinn er t.d. lög á Íslandi, en að auki hafa alls konar reglur verið settar, fyrst og fremst á grundvelli ýmissa tilskipana Evrópusambandsins. Rekstur EFTA-dómstólsins kostar um 240 milljónir króna á ári. Noregur greiðir 89% kostnaðarins, Ísland 9% og Liechtenstein 2%. EFTA-dómstóllinn og ESB. Dómstólar Evrópusambandsins hafa ekki lögsögu í málum sem EFTA-ríkin eða þegnar þeirra eiga aðild að. Þessir dómstólar og EFTA-dómstóllinn eru líka mjög ólíkir í eðli sínu. EFTA-dómstóllinn hefur t.d. þrengra valdsvið en dómstólar ESB. EFTA-dómstóllinn tekur engar ákvarðanir í álitsgerðum sínum, sem binda hendur aðildarríkjanna, líkt og dómstólar ESB gera. Álitsgerðunum hefur þó verið fylgt. Í málum sem varða Eftirlitsstofnun EFTA kveður EFTA-dómstóllinn upp bindandi dóma. Samningsbrotamál. Samningsbrotamál eru höfðuð á hendur EFTA-ríki af hálfu eftirlitsstofnunar EFTA (ESE) eða annars EFTA-ríkis vegna meintra brota ríkisins gegn EES-samningnum ef ESE höfðar málið verður stofnunin fyrst að leggja fram rökstutt álit sitt og gefa aðildarríkinu færi á að svara áður en málinu er stefnt fyrir dóminn. Aðildarríkjunum er skylt að hlíta úrlausn EFTA-dómstólsins en dómar hans eru þó ekki beinlínis aðfararhæfir. Ólíkt Evrópudómstólnum hefur EFTA-dómstólinn heimild til þess að dæma aðildarríkin til sektargreiðsla. Ógildingarmál. Ógildingarmál eru mál sem aðildarríki höfða gegn eftirlitsstofnuninni til þess að fá ákvörðunum stofnunarinnar hnekkt. Einungis er unnt að fella ákvörðun ESE úr gildi ef skilyrði 36. gr. ESE samningsins eru til staðar, þ.e. valdþurrð, brot á mikilsverðum formreglum, brot á EES eða ESE samningunum eða reglum sem varða beitingu þeirra, eða valdníðsla. Aðgerðarleysismál. Aðgerðarleysismál eru mál sem aðildarríkin og einstakling og lögaðilar innan þeirra geta höfðað á hendur eftirlitsstofnuninni ef þeir telja að stofnunin hafi ekki gripið til viðeigandi aðgerða þegar henni hafi verið það skylt. Skaðabótamál. Skaðabótamál má höfða fyrir EFTA-dómstólnum á hendur eftirlitsstofnuninni vegna tjóns sem starfsmenn hennar kunna að hafa valdið í störfum sínum ef tjónið má rekja til skaðabótaskylds atviks utan samninga. Ráðgefandi álit. Dómstólar aðildarríkjanna geta kallað eftir ráðgefandi áliti dómstólsins um túlkun EES samningsins. Dómstólar aðildarríkjanna eru aldrei skyldir til þess að leita álits og þeir teljast ekki bundnir af því. EFTA-dómstólinn getur ekki veitt ráðgefandi álit um gildi ákvarðana sem stofnanir EFTA og EES hafa tekið. Bráðabirgðaúrræði. Dómurinn hefur vald til þess að fresta til bráðabirgða framkvæmd gerðar á meðan mál er leitt til lykta fyrir honum eða að kveða á um nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir á meðan rekstri máls stendur. Agnetha Fältskog. Agnetha Åse Fältskog (f. 5. apríl 1950) er sænsk söngkona og tónlistarmaður. Hún öðlaðist frægð í Svíþjóð eftir útgáfu sinnar fyrstu plötu sem bar nafn hennar, "Agnetha Fältskog", árið 1968 og öðlaðist alþjóðlega frægð með hljómsveitinni ABBA, sem hefur selt yfir 370 miljón platna alþjóðlega. Það er ein mesta sala sem nokkur hljómsveit hefur náð og önnur eða þriðja söluhæsta hljómsveit tónlistarsögunnar. Heimildir. Fältskog, Agnetha Anni-Frid Lyngstad. Anni-Frid, Princess Reuss, Countess of Plauen (á þýsku: "Anni-Frid Prinzessin Reuss von Plauen") fædd, Anni-Frid Synni Lyngstad (15. nóvember, 1945 í Bjørkåsen, Ballangen, Noregi), þekktust undir nafninu Frida Lyngstad, er sænsk söngkona. Hún var ein af fjórum meðlimum hljómsveitarinnar ABBA. Fædd í Noregi af norskri móður en þýskum föður, ólst samt upp í Svíþjóð, en hefur búið í Sviss frá árinu 1986. Hún ber formlega titilinn, "Her Serene Highness Princess Anni-Frid Synni Reuss, Countess of Plauen", eftir að hafa gifst prinsinum, "Heinrich Ruzzo Reuss of Plauen" árið 1992, en hann er þýskur prins og fyrrum erfingi "House of Reuss". Heimildir. Lyngstad, Anni-Frid Gift. Gift er fjárfestingafélag sem var stofnað árið 2007 og var upphaflega í eigu Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga. Félagið er talið hafa fengið lán hjá Kaupþingi september 2008 sem var hugsað til þess eins að halda gengi Kaupþings uppi. Árið 2011 gekk Gift í gegnum nauðasamninga hjá Arion banka og þá voru 57 milljarðar króna af skuldum Giftar afskrifaðir. Saga. Forsaga Fjárfestingarfélagsins Giftar er að finna í Samvinnutryggingum sem voru stofnaðar árið 1946 með stofnfé úr SÍS. Árið 1989 voru Samvinnutryggingar og Brunabótafélagið sameinuð og úr varð VÍS með um 50 þúsund félaga og rúmlega eitt þúsund fyrirtæki. Árið 2003 tóku Samvinnutryggingar svo þátt í kaupum á Búnaðarbankanum sem síðar varð Kaupþing og hagnaðist félagið mjög á kaupunum. Haustið 2007 voru Samvinnutryggingar lagðar niður en eignir og skuldir yfirfærðar í fjárfestingarfélagið Gift sem hélt áfram að fjárfesta á markaði með eignir Samvinnutrygginga en að mestu í fyrirtækjum sem tengdust stjórnendum Giftar. Þar má nefna félög sem Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra, átti hlut í og félögum sem Þórólfur Gíslason, stjórnarformaður Giftar og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagafjarðar átti í. Tengsl við Kaupþing. Þórólfur og Finnur urðu eigendur að Kaupþingi við einkavæðingu Búnaðarbankans. Nikulás Friðriksson. Sigurður Nikulás Friðriksson (f. 1890 á Litlu-Hólum í Mýrdal V-Skaptafelssýslu, d. 6. júní 1949). Nam rafvirkjun hjá Halldóri Guðmundssyni í Vestmannaeyjum. Starfsmaður Rafmagnsveitu Reykjavíkur frá 1922 sem fyrsti íslenski rafmagnseftirlitsmaðurinn og vann þar til æviloka. Hafði mikil áhrif á mótun starfssviðs rafvirkjastéttarinnar og talinn einn af frumkvöðlum rafiðnaðargeirans á Íslandi. Var einn helsti frumkvöðull að stofnun raftækjaframleiðslufyrirtækisins Rafha. Var formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar í mörg ár og í stjórn BSRB. Einn stofnenda Sálarrannsóknarfélags Íslands 1918 og smíðaði meðal annars útvarpsstöð og gerði tilraunir með að senda út fundi félagsins. Hollensku Austur-Indíur. Hollensku Austur-Indíur voru hollensk nýlenda sem varð til þegar Hollenska Austur-Indíafélagið var þjóðnýtt af Batavíska lýðveldinu um aldamótin 1800. Árið 1945 varð þessi nýlenda nútímaríkið Indónesía. Nýlendan stækkaði á 19. öld og náði mestu umfangi í upphafi 20. aldar. Nýlendan var sú verðmætasta í Hollenska heimsveldinu vegna útflutnings á kryddi (múskati, negul og kanil) og landbúnaðarafurðum eins og hrísgrjónum, sykri, kaffi, kakó, hrágúmmíi og sagógrjónum. Hollensku Austur-Indíur liðu undir lok í Síðari heimsstyrjöld þegar Japan lagði landsvæðið undir sig. Með hernámi Japana var hollensku nýlendustjórninni velt úr sessi. Þegar Japanir gáfust upp 1945 lýstu leiðtogar þjóðernissinna yfir sjálfstæði Indónesíu og þegar Hollendingar sneru aftur og lögðu stærstan hluta landsins aftur undir sig með hervaldi hófst skæruhernaður gegn þeim. Að lokum neyddust Hollendingar til að viðurkenna sjálfstæði Indónesíu og leggja nýlenduna formlega niður árið 1949. Sagó. Sagó er sterkjuríkt mjöl eða litlar perlur (grjón) unnið úr stofni ýmissa pálmatrjáa, einkum sagópálma ("Metroxylon sagu"). Sagó er undirstöðufæða fólks á Nýju Gíneu og Mólúkkaeyjum. Úrvalsdeild kvenna í handknattleik. Olís deild kvenna er efsta deild kvenna í handknattleik á Íslandi og er hún rekin af Handknattleikssambandi Íslands. The Wild. "The Wild" er kanadískur/bandarísk teiknimynd frá árinu 2006. Huell Howser. Huell Burnley Howser (f. 18. oktober 1945;d. 7. januar 2013) var bandarískur leikari og uppistandari. Howser, Huell Howser, Huell Jake Wood. Jacob Dylan „Jake“ Wood (f. 1972) er breskur leikari. Wood, Jake Eddie Izzard. Edward John "Eddie" Izzard (f. 7. febrúar, 1962) er breskur leikari og uppistandari. Izzard, Eddie Izzard, Eddie Pat Finn. Patrick „Pat“ Finn (fæddur 31. júlí 1965) er bandarískur gamanleikari og þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Santa í "Santa Paws 2: The Santa Pups". Tenglar. Finn, Pat Sam J. Jones. Samuel Gerald Jones (f. 1954) er bandarískur leikari og uppistandari. Jones, Sam J. Jones, Sam J. Félagsauður. Félagsauður er verðmæti þeirra félagstengsla sem fólk myndar í ýmsum hópum svo sem í fjölskyldu, vinahópi, starfsfélagahópi, í ýmsum félagasamtökum og hópum sem tengjast nærumhverfi. Meðal fræðimanna sem hafa notað þetta hugtak eru James Samuel Coleman og Pierre Bourdieu. Bourdieu hefur fjallað um hvernig félagsauður getur búið til eða magnað mismunum þar sem fólk fær aðgang að góðum stöðum með því að nota félagstengsl. Greg Cipes. Gregory Michael „Greg“ Cipes (f. 1980) er bandarískur leikari og uppistandari. Cipes, Greg Cipes, Greg Kiefer Sutherland. Kiefer William Frederick Dempsey George Rufus Sutherland (f. 1966) er bandarískur leikari. Sutherland, Kiefer Sutherland, Kiefer Jim Belushi. James Adam „Jim“ Belushi (fædd 1954) er bandarískur leikari og uppistandari. Belushi, Jim Belushi, Jim Chris Edgerly. Christopher „Chris“ Edgerly (f. 1969) er bandarískur leikari og uppistandari. Edgerly, Chris Edgerly, Chris Bob Joles. Robert „Bob“ Joles (f. 1959) er bandarískur leikari og uppistandari. Joles, Bob Joles, Bob Craig Ferguson. Craig Ferguson (f. 1962) er skoskættaður bandarískur þáttastjórnandi, leikari og uppistandari. Ferguson, Craig Ferguson, Craig Brad Garrett. Bradley H. „Brad“ Gerstenfeld (f. 1960) er bandarískur leikari og uppistandari. Garrett, Brad Garrett, Brad Patrick Warburton. Patrick John Warburton (f. 1964) er bandarískur leikari og uppistandari. Warburton, Patrick Warburton, Patrick Christopher Showerman. Christopher Showerman (f. 1971) er bandarískur leikari. Showerman, Christopher Showerman, Christopher Brendan Fraser. Brendan James Fraser (f. 1968) er bandarískur leikari. Fraser, Brendan Billy Mays. William Darrell "Billy" Mays, Jr. (20. júlí 1958 – 28. júní 2009) var bandarískur leikari og uppistandari. Mays, Billy Mays, Billy Sandmaðkur. Sandmaðkur (fræðiheiti: "Arenicola marina"), er stór burstaormur, af fylkingu liðorma. Þeir lifa mest á leirum og er algeng sjón að sjá þegar fjara er og leiran kemur úr kafi litlar úrganghrúgur eftir þá á víð og dreif um leiruna. Það er vegna þess að þeir lifa oftast í u-laga göngum þar sem þeir neita fæðu sem þeir vinna úr sandi og leðju á yfirborðinu úr öðru gatinu en losa sig við úrgang úr hinni. Sandmaðkurinn er setæta og tekur til sín mikið magn af seti sem fer í gegnum meltingarveg hanns en hann nærist á leifum lífvera í setinu. Hann rekur svo afturendann upp úr leðjunni á um það bil 40 mínútna fresti til að losa sig við úrgang. Þeir sjást því sjaldan þar sem þeir dvelja mest ofan í göngum sínum, nema ef fólk grefur þá upp úr sandinum fyrir forvitnissakir eða til að nota í beitu, en þeir voru mikið notaðir sem slíkir áður fyrr. Útlit. Teikning sem sýnir útlit og vaxtarlag Sandorms Fullvaxta ormar við strendur Evrópu verður upp undir 15 sentimetra langur og 9 millimetrar á breidd. Aftur á móti geta nokkrar tegundir þeirra við strendur Norður-Ameríku verið milli 5 til 20 sentimetra langir. Sandmaðkur er einn stærsti og algengasti burstormurinn við Íslandsstrendur. Líkamar þeirra eru eins liðskiptir líkt og land liðdýra, sem dæmi ánamaðka. Stundum eru þeir grænleitir en oftast rauðgulir. Er þá endi höfuðs þeirra er svarraut og ekki með totum né burstum en svo þykknar búkurinn og verður rauður og alsettur totum og burstum eins og hjá öðrum burstormum en þær eru jafnframt öndunarfæri dýrsinns. Síðan grennist hann og endar í rauðgulum hala. Æxlun. Sandmaðkurinn er tvíkynja, það er að segja er með kynfæri beggja kynja. Á haustin senda þeir egg og sæði út í sjóinn en það þarf sæði frá einum maðki til þess að frjóvga egg frá öðrum, það er þeir geta ekki æxlast með sjálfum sér. Fæða annarra dýra. Sandmaðkurinn sem og aðrir burstaormar eru algeng fæða fugla sérstaklega þeirra sem eru neflangir eins og Tjaldur sem dæmi. Þeir toga þá oftast í hala maðksins og slíta hann af en honum verður ekki meint af því því hann vex aftur. Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Eyþór Ingi Gunnlaugsson (f. 1989) er íslenskur söngvari. Hann flytur lagið Ég á líf, sem var valið sem framlag Íslands til Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva í Málmey árið 2013. Úrbanus 2.. Úrbanus páfi annar (f. 1042, d. 29. júlí 1099), fæddur Otho de Lagery (líka til sem: Otto, Odo eða Eudes), ríkti sem páfi frá 12. mars 1088 þangað til hann lést þann 29. júlí 1099. Hann er þekktastur fyrir að hafa verið upphafsmaðurinn að fyrstu krossferðinni (1096-1099). Carrot Top. Scott Thompson (25. febrúar 1965) er bandarískur leikari og uppistandari. Top, Carrot Top, Carrot Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson (f. 3. mars 1966) er íslenskur gítarleikari og lagahöfundur. Hann var meðlimur í hljómsveitunum Exodus, Pax Vobis, Geiri Sæm og Hunangstunglið, Todmobile og Tweety. Auk þess hefur hann fengist við útsetningar, upptökustjórn og tónlistarstjórn í leikhúsi og kvikmyndum. Hann hefur samið tónlist fyrir nokkra íslenska söngleiki eins og "Ávaxtakörfuna" 1998, "Benedikt búálf" 2000 og "Hafið bláa" 2005. Hann hefur þrisvar verið höfundur að lagi sem hefur keppt fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fyrst með „All out of luck“ 1999 og síðan „If I had your love“ 2005 og „Til hamingju Ísland“ 2006. Lloyd Sherr. Lloyd Sherr (fæddur 1959) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Sherr, Lloyd Toby Huss. Toby Edward Huss (fæddur 1966) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Huss, Toby Mike Epps. Michael Elliot „Mike“ Epps (fæddur 1970) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Epps, Mike Martin Lawrence. Martin Fitzgerald Lawrence (fæddur 1965) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Lawrence, Martin Joel McHale. Joel Edward McHale (fæddur 1971) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. McHale, Joel Pax Vobis. Pax Vobis var íslensk nýbylgjuhljómsveit sem starfaði frá 1983 til 1986. Hljómsveitin var stofnuð af Ásgeiri Sæmundssyni sem söng og lék á rafmagnsorgel, Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni gítarleikara og Skúla Sverrissyni bassaleikara. Ýmsir trommuleikarar léku með hljómsveitinni meðan hún lifði, fyrst Sigurður Hannesson, síðan Steingrímur Óli Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson. Hljómsveitin gaf aðeins út eina hljómplötu, "Pax Vobis", árið 1984 sem innihélt smellinn „Coming My Way“. Nokkrir meðlimir hljómsveitarinnar komu saman aftur 1988 í hljómsveitinni Geiri Sæm og Hunangstunglið. Jane Krakowski. Jane Krajkowski (fædd 1968) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Krakowski, Jane Billy Connolly. William „Billy“ Connolly (fæddur 24. nóvember 1942) er skoskur uppistandari, tónlistarmaður, kynnir og leikari. Hann er líka þekktur undir nafninu „The Big Yin“ (Hinn stóri), sérstaklega á ættjörð sinni. Tenglar. Connolly, Billy Crispin Glover. Crispin Hellion Glover (fæddur 1964) er bandarískur kvikmyndaleikari. Tenglar. Glover, Crispin Steve Schirripa. Steven Ralph „Steve“ Schirripa (fæddur 1957) er bandarískur leikari. Tenglar. Schirripa, Steve Danny Mann. Daniel „Danny“ Mann (fæddur 1951) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Mann, Danny Fred Stoller. Frederick „Fred“ Stoller (fæddur 19. mars 1958) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Stoller, Fred Olivia Hack. Olivia Hack (fæddur 1983) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Hack, Olivia Karley Scott Collins. Karley Scott Collins (fædd 1999) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Collins, Karley Scott Harrison Fahn. Harrison Fahn (fæddur 1999) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Fahn, Harrison Dana Snyder. Dana Snyder (fæddur 1973) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Snyder, Dana Sean Mullen. Sean P. Mullen er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Mullen, Sean William Shatner. William Shatner (f. 22. mars 1931 í Montréal) er kanadískur leikari, tónlistamaður, rithöfundur, og kvikmyndaleikstjóri. Hann hlaut fyrst frama í hlutverki James T. Kirk skipstjóra "USS Enterprise" í vísindaskáldskapar sjónvarpsþáttunum um Star Trek frá árinu 1966 til 1969; Star Trek: "The Animated Series" frá 1973 til 1974; og í sjö af þeim kvikmyndum um Star Trek sem gerðar voru frá árinu 1979 til 1994. Frá árinu 2004 til 2008 lék hann lögfræðingin Denny Crane í sjónvarpsþáttunum "The Practice" og þáttunum "Boston Legal" sem þróuðust út úr "The Practice" sem sjálfstæðir þættir. Fyrir leik sinn í þeim þáttum hefur hann hlotið tvenn Emmy-verðlaun ásamt Golden Globe-verðlaunum. Tenglar. Shatner, William Matthew W. Taylor. Matthew William Taylor (fæddur 1966) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Taylor, Matthew W. Matthew J. Munn. Matthew J. Munn er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Munn, Matthew J. Melissa Sturm. Melissa Sturm er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Sturm, Melissa Debra Messing. Debra Lynn Messing (fædd 1968) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Messing, Debra Jon Favreau. Jonathan Kolia „Jon“ Favreau (fæddur 1966) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Favreau, Jon Georgia Engel. Georgia Bright Engel (fædd 1948) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Engel, Georgia Fleetwood Mac. Fleetwood Mac er bresk-bandarísk rokkhljómsveit stofnuð í London árið 1967 af tveimur fyrrum meðlimum John Mayall & the Bluesbreakers, Mick Fleetwood og Peter Green. Annar félagið þeirra úr Bluesbreakers, John McVie, gekk nokkru síðar til liðs við hljómsveitina sem var nefnd eftir honum og Mick. Hljómsveitin átti nokkrum vinsældum að fagna í upphafi þegar breski blúsinn stóð í mestum blóma og náðu í efsta sæti vinsældalista með lagið „Albatross“. Eftir 1975 breytti hljómsveitin um stefnu og fór meira út í popp/rokk með nýjum meðlimum, Christine McVie, Lindsey Buckingham og Stevie Nicks. Platan "Rumours" sem kom út 1977 landaði fjórum smáskífum á topp 10 listann í Bandaríkjunum og er nú áttunda mest selda hljómplata allra tíma. Suðursjávarbólan. Málverk af Suðursjávarbólunni eftir Edward Matthew Ward Suðursjávarbólan er flókinn atburður í fjármálasögunni þar sem stjórnmálafræðilegir, lögfræðilegir og fjármálaþættir skárust og mynduðu eina verstu markaðsbólu sögunnar. Upphafið. Suðursjávarkompaníið var stofnað árið 1711 með því yfirlýsta markmiði að stunda viðskipti við nýlendur Spánverja í Ameríku. Almenningur hafði heyrt af þeim miklu gull- og silfurnámum í bæði Perú og Mexíco og töldu að viðskiptin myndu borga sig hundraðfallt um leið og Breskir framleiðendur kæmust í námurnar og að Bretar gætu einnig grætt á viðskiptum með klæðnað úr flísi og ull. Viðræður að samningum voru settar á fót en niðurstaðan varð sú að samningar voru gerðir um viðskipti með þræla og eitt flutningaskip á ári. Í raunveruleikanum var aðalmarkmið fyrirtækisins að stuðla að fjármögnun breskra ríkisskulda en ekki eiga viðskipti við útlönd. Samningur um peningagreiðslu frá Suðursjávarfélaginu Í byrjun 18 aldar voru Bretar stórveldi og velmegun þeirra og ríkidæmi dafnaði. Stór hluti fólks átti næga peninga til að fjárfesta og voru í leit að tækifærum til þess. Eftir stríð Breta og Frakka við hvora aðra stóðu Bretar þó í talsverðri skuld og horfðu Bretar til lausna Frakka í því sambandi þar sem John Law nokkur hafði komið af stað enduskipulagningu franska fjármálakerfisins með því að breyta ríkisskuldum í hlutabréf í Mississippi félaginu. Eftir að hafa horft upp á velgengni Mississippi félagsins ákváðu Bretar að koma af stað samskonar áætlun til þess að endufjármagna skuldir sínar og fór af stað einskonar kapphlaup landanna á milli. Gegn því að kaupa skuldir Breta og breyta í hlutafé fékk Suðursjávarfélagið einkaleyfi fyrir viðskiptunum góðu við nýlendur Spánverja. Þessi samningur kom sér einkar vel fyrir báða aðila þar sem ríkið græddi lægri vexti og flóknum skuldabréfum þeirra var breytt í einsleitari og meðfærilegri verðbréf. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem slíkt var á Englandi gert en bæði höfðu Englandsbanki og Austur-Indíafélagið gert slíkt hið sama. Suðursjávarfélagið tók yfir skuldir sem tengdar voru Spænsku erfðastríðunum þegar það var stofnað og 21. Mars, árið 1720 tók það yfir skuldir breska ríkisins. Félagið féllst á að greiða ríkinu allt að 7,5 milljónum punda ef það næði að umbreyta skuldunum yfir í hlutabréf. Auk þess að taka yfir skuldir fyrir 31 milljón pund frá Breska ríkinu mútaði félagið þingmönnum og öðrum stjórnmálamönnum kóngsins sem svaraði 1,3 milljónum punda. Vextirnir sem ríkið greiddi fyrir skuldir til Suðursjávarfélagsins voru áætlaðir 5 % þangað til 1727 en eftir það yrðu þeir 4 % sem var mun minna en ríkið hefði annars greitt. Félagið mútaði þingmönnum og stjórnmálamönnum fyrir stuðning þeirra en alls námu múturnar 1,3 milljónum sem fyrirtækið fjármagnaði með útgáfu nýs hlutafés. Stuðningur stjórnmálamann ýtti undir traust almennings á félaginu en þeir höfðu enga ástæðu til að koma í veg fyrir viðskipti félags sem þeir sjálfir áttu hlut í. Árið 1720 var verð hlutabréfanna um 120 fyrir hvert 100 pund og fréttir breiddust út af yfirtöku ríkisskulda fyrir 31 milljón punda. Verð bréfanna tók að hækka og rauk upp í 350 um leið og þingið samþykkti áform félagsins og hækkaði enn meir eftir að tilkynnt var um 10 % arðgreiðslur til félaga í eiginhlutabréfum. Ríkisskuldir Breta lækkuðu í kjölfarið umtalsvert, fyrrum lánadrottnar sáu verð bréfa sinna hækka og Suðursjávarfélagið kom út í töluverðum gróða. Vaxandi vinsældir. Stjórnandi félagsins John Blunt stóð sig vel í því starfi að skrúfa verð bréfanna sem mest upp með ýmsum aðferðum og hafði m.a. greiðan aðgang að fjölmiðlum sem dreifðu sögusögnum um væntanlegan gróða fyrirtækisins. Orðspor félagsins óx og starfsmenn þess ýktu velgengni fyrirtækisins í augum fjárfesta og slóu ryki í augun á þeim með ríkulegum skrifstofum og íburði. Það komst í tísku að að eiga hlut í Suðursjávarkompaníinu og fjárfestar flykktust að. Félagið bauð reglulega út nýtt hlutafé og reyndi að fækka bréfum á eftirmarkaði á þann máta að afhenda kaupendum ekki bréfin samstundis, í kjölfarið urðu framvirkir samningar á bréf Suðursjávarfélagsins vinsælir. Þessar vinsældir og gríðarleg sala á hlutabréfum á suðursjávarfélaginu náðist án þess að félagið sýndi nokkurn tímann upp á einhvern raunverulegann alvöru rekstur. Til að ná að borga út arð þurfti suðursjávarfélagið stöðugt að fá meira hlutafé og þurfti einnig á því að halda að verð á hlutabréfum þess færi stöðugt upp á við. Í rauninni virkaði félagið eins og það sem er þekkt í dag sem ponzi svikamylla. Þær einkennast af því að fjárfestum er greidd ávöxtun með þeirra eigin fé frekar heldur en að fé þeirra sé notað í fjárfestingar sem skili svo arði sem hægt er að deila út til fjárfesta. Þeir sem höfðu fjárfest hvað fyrst í hlutafé félagsins höfðu stórgrætt þegar leið á og komið var sumar og höfðu margir fjárfestar sex eða sjö faldað höfuðstól sinn. Í kjölfar vinsælda hlutabréfa í suðursjávarfélaginu þá braust út mikið hlutabréfaæði á Englandi. Fyrirtæki með lítinn sem engin rekstraráform eða jafnvel í hæsta máta óvenjulegar hugmyndir um rekstur spruttu upp. Má þar meðal annars nefna fyrirtæki sem ætlaði að finna upp eilífðarvél, annað sem ætlaði að framleiða ferhyrndar byssukúlur, fyrirtæki sem ætlaði að tryggja framtíðarvelferð barna og eitt það undarlegasta af þeim öllum, Fyrirtæki um mjög gróðavænlegan atvinnurekstur sem enginn fær að vita hver er. Þó ótrúlegt megi virðast þá var fjárfest fyrir 2000 pund í síðast nefnda fyrirtækinu. Ævintýralegt ris og svo fall hlutabréfaverðs í Suðursjávarfélaginu Bólulögin. Í kjölfar vinsælda þessara fyrirtækja fóru stjórnendur Suðursjávarfélagsins að hafa áhyggjur af því að verða af fé til þeirra sem annars hefði verið varið í hlutabréf Suðursjávarfélagsins. Um mitt sumar byrjuðu þeir því að reka áróður fyrir því að bannað yrði að stofna ný hlutafélög nema gegn sérstöku samþykki þingsins. Þetta fór ekki á þann veg sem þeir ætluðu þar sem þingið samykkti lög sem höfðu mun tilþrifameiri áhrif en þeir höfðu búist við. Lögin kváðu á um það að ekki mætti stofna nýtt hlutafélag nema með samþykki breska samveldisins. Allar tilraunir félagsins til að halda verði verðbréfanna uppi mistókust hrapalega og urðu bréf blöðrufyrirtækjanna verðlaus ásamt að draga niður með sér verð í traustum félögum svosem Englandsbanka sem hafði fylgt með í verðhækkuninni. Allur hlutabréfamarkaðurinn hrundi í kjölfarið, verðmæti bréfa hríðféll, ekki bara í hinum bólufyrirtækjunum eins og stjórnendur Suðursjávarfélagsins höfðu vonast til heldur einnig í þeirra eigin félagi. Leiddi þetta til fjölda gjaldþrota fólks í Englandi og var reiði fólks út gagnvart stjórnendum Suðursjávarfélagsins eins og gefur að skilja mjög mikil. Fjöldi fólks úr efri stéttum, eignamenn og jafnvel hirðmenn konungs urðu gjaldþrota og einhverjir gengu algjörlega af göflunum eða frömdu sjálfsmorð. Á einu ári hafði verð hlutabréfa Suðursjávarfélagsins risið úr 100 pundum upp í 1000 pund í byrjun ágústs sama ár. Í september var verðið komið niður í 150 pund og urðu þá bankar og gullsmiðir gjaldþrota þar sem þeir gátu ekki innheimt skuldir fólks sem hafði farið illa útúr hruninu. Einn af þeim sem lét glepjast og keypti hlut í Suðursjávarfélaginu var vísindamaðurinn Isaac Newton. Hann ákvað að selja hlut sinn snemma í bólunni með gróða upp á 7000 pund vegna efasemda, snérist honum hugur og keypti stærri hlut seinna í bólunni og endaði á að tapa 20.000 pundum sem var umtalsverð fjárhæð á þessum tíma. Fræg ummæli voru tekin frá honum í tenglsum við bóluna þar sem hann mælti svo; „Ég get reiknað út hreyfingar stjarnanna en ekki brjálæði mannanna“. Endalok bólunnar og afleiðingar. Allur hlutabréfamarkaðurinn hrundi í kjölfarið, verðmæti bréfa hríðféll, ekki bara í hinum bólufyrirtækjunum eins og stjórnendur Suðursjávarfélagsins höfðu vonast til heldur einnig í þeirra eigin félagi. Leiddi þetta til fjölda gjaldþrota fólks í Englandi og var reiði fólks gagnvart stjórnendum Suðursjávarfélagsins eins og gefur að skilja mjög mikil. Afleiðingar í kjölfar þessarar bólu voru meðal annars þær að hlutabréfaformið var nærri því gert útlægt í Bretlandi í heila öld. Þetta varð hins vegar einnig til þess að regluverkinu í kringum slík viðskipti var breytt til hins betra í Bretlandi, sem varð þess valdandi að þegar lengra leið frá því að bólan sprakk, voru Bretar jafnvel betur settir en þeir hefðu annars verið. Annað en til að mynda Frakkar sem fóru mjög illa út úr Mississippi bólunni. Apollo 14. Apollo 14 var áttunda mannaða geimferð Apollo-áætlunar Bandarísku geimferðastofnunarinnar og sú þriðja sem lenti á Tunglinu. Áhafnarmeðlimir voru Alan Shepard, Stuart Roosa og Edgar Mitchell. Shepard og Mitchell lentu á Fra Mauro-hásléttunni á Tunglinu 5. febrúar 1971 og dvöldu þar í 33 tíma þar af 9½ tíma í tunglgöngu. Þeir lentu allir þrír í Kyrrahafi 9. febrúar. Þórrún. Þórrún er íslenskt kvenmannsnafn. Himeji-kastali. Himeji-kastalinn er röð japanskra kastala í Himeji, Hyogo-héraðinu, Japan. Kastalinn er álítinn best varðveitta dæmi um dæmigerða byggingalist japanskra kastala. Hann samanstendur af 83 byggingum með varnarkerfi frá lénstímabilinu. Himeji-kastalinn er frá 1333 þegar Akamatsu Norimura byggði virki ofaná Himeyma hæðinni. Virkið var eyðilagt og endurbyggt sem Himeyama-kastalinn 1346 og svo endurbyggt sem Himeji-kastalinn tveimur öldum síðar. Kastalinn var svo stækkaður 1581 af Toyotomi Hideyoshi sem bætti við þriggja hæða víggirðan turn. 1600 gaf Tokugawa Ieyasu kastalann til Ikeda Terumasa fyrir hjálp sína í baráttunni við Sekigahara og Ikeda stækkaði kastalann frá 1601 til 1909 í röð kastala. Nokkrum byggingum var bætt við síðar af Honda Tadamasa frá 1617 til 1618. Í yfir 400 ár hefur Himeji-kastalinn verið óskaddaður, þrátt fyrir loftárásir á Himeji hæðina í Seinni heimstyrjöldinni og náttúruhamfarir eins og Hashin jarðskjálftann 1995. Hann er stærsti og mest heimsótti kastali Japans og hann var skráður 1993 sem einn af fyrstu stöðum Japans á Heimsminjaskrá UNESCO. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir (fædd 29. apríl 1981) er sjónsvarpskynnir, leikkona og fyrrum ungfrú Ísland. Hún er umsjónarmaður Kastljóss. Hún hefur leikið í íslensku kvikmyndunum Kurteist fólk, Mamma Gógó, Algjör Sveppi og leitin að Villa, Reykjavik Whale Watching Massacre og Astrópía. Pontus. Pontus (gríska: Πόντος "Pontos") er sögulegt heiti á stóru svæði við suðurströnd Svartahafs þar sem nú er Tyrkland. Grikkir stofnuðu þar nýlendu í fornöld og nefndu eftir hafinu, Πόντος Εύξεινος "Pontos Evxeinos", „vinsamlega hafið“ eða einfaldlega Pontos. Nafnið var notað á svæði sem náði frá ánni Halys við austurmörk héraðsins Paflagóníu, að suðurmörkum Kolkis. Nokkur ríki og héruð sem voru stofnuð á hellenískum og rómverskum tíma báru þetta nafn. Ahmed Best. Ahmed Best (fæddur 1973) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Best, Ahmed Josh Keaton. Joshua Luis „Josh“ Wiener (fæddur 1979) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Keaton, Josh Kath Soucie. Kathleen Elaine „Kath“ Soucie (fædd 1967) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Soucie, Kath Jeff Bennett. Jeffrey Glenn „Jeff“ Bennett (fæddur 1962) er bandarískur gamanleikari. Tenglar. Bennett, Jeff Adam Garcia. Adam Gabriel Garcia (fæddur 1973) er ástralskur gamanleikari. Tenglar. Garcia, Adam Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (enska: "Food and Agriculture Organization", FAO) er alþjóðastofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem sérstaklega fæst við baráttu gegn hungri í heiminum með því að stuðla að þróun í landbúnaði, fiskveiðum og skógrækt til að auka næringarframleiðslu og matvælaöryggi. Stofnunin hefur aðsetur í Róm á Ítalíu. Hjólabretti. Hjólabretti eða sjaldan rúllubretti er lítið bretti með fjórum hjólum, annaðhvort notað sem ferðamáta eða til afþreyingar. Brettið er yfirleitt gert úr hlynviði þöktum pólýúretanslagi sem ver viðinn og styrkir. Hjólabretti er knúið áfram með annan fót á bretti á meðan hinn ýtir. Það er líka hægt að framkvæma brellur með hjólabretti. Húsavíkurflugvöllur. Húsavíkurflugvöllur er einnar brautar flugvöllur staðsettur í Aðaldalshrauni skammt utan við Húsavík á Íslandi. Flugfélagið Ernir flýgur þaðan til Reykjavíkur. Framkvæmdir við byggingu vallarins hófust sumarið 1956 og var völlurinn var tekinn í notkun í desember 1957. Árið 1986 var ný flugstöðvarbyggingin á flugvellinum tekin í notkun. Demantshringurinn. Demantshringurinn (enska: "The Diamond Circle") er vegur sem liggur gegnum Húsavík, framhjá Ásbyrgi og Hljóðaklettum, upp að Dettifossi, að Mývatni og þaðan niður Reykjadal og Aðaldal aftur til Húsavíkur. Til hringsins teljast þau náttúruundur sem eru staðsett við Demantshringsveginn eða í innan við 20 kílómetra akstursfjarlægð frá honum, þeirra á meðal Goðafoss, Víti og Krafla. Náttúruperlur og áhugaverðir staðir. Demantshringurinn liggur framhjá mörgum af helstu náttúruperlum Íslands. Má það nefna Dettifoss sem er krafmesti foss Evrópu og Ásbyrgi sem lengi hefur verið vinsæll áfangastaður ferðamanna. Þá liggur vegurinn framhjá Mývatni og þeim náttúruperlum sem eru í kringum það, þar á meðal Dimmuborgum og Hverfjalli. Stutt akstursleið er af hringnum að Goðafossi sem er frægur í trúsögu Íslands. Þá liggur vegurinn um Reykjadal og Aðaldal og framhjá Húsavíkurflugvelli. Í Aðaldal eru miklar hraunbreiður sem urðu til við eldgos í Mývatnssveit. Saga Demantshringsins. Byrjað var að markaðssetja ferðir um Demantshringinn í krinum árið 1990 og hafa bæði innlendar og erlendar ferðaskrifstofur notað þetta hugtak í kynningum sínum. Árið 2004 var gefin út ljósmyndabókin "Húsavík and the Diamond Circle" með myndum af öllum helstu perlum hringsins og önnur bók um Demantshringin var gefin út af Bókaútgáfunni Hugarflugi árið 2007. Árið 2012 var stofnaðað félag áhugafólks um kynningu og uppbyggingu hringsins og nefnist það Demantshringsfélagið. Ferðaskrifstofa. Ferðaskrifstofa er aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni. Hugtakið ferðaskrifstofa nær bæði til ferðaheildsala og ferðasmásala. Ferðaskrifstofur geta selt tilbúnar ferðir sem innihalda flug, siglingar, lestarferðir, gistingu og fæði. Einnig geta þær skipulagt ferðir að hluta eða haft milligöngu um að útvega ákveðna þjónustu. Auk þess að skipuleggja hefðbundnar ferðir þá bjóða margar ferðaskrifstofur upp á þjónustu við skipulagningu viðskiptaferða fyrir fyrirtæki. Margar ferðaskrifstofur skipuleggja hópferðir. Til Íslands koma oft slíkir hópar ferðafólks og ferðast þeir gjarnan um á rútum. Fyrirtækið Cox & Kings í Bretlandi er talið vera elsta ferðaskrifstofan en það rekur sögu sína aftur til ársins 1758. Albert Mol. Albert Mol (1. janúar 1917 – 9. mars 2004) var frægur hollenskur rithöfundur, leikari og sjónvarpsstjarna, sem kom fram í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í gegnum feril sinn, sem entist í næstum 60 ár. Mol, Albert Mol, Albert Vængjasnigill. Vængjasnigill, (fræðiheiti: "thecosomata"), einnig nefndur sæfiðrildi, er flokkunarfræðiheiti á undirflokki litilla sund sæsnigla. Sumar tegundir vængjasnigla eru fjölmennustu tegundir snigla. Stafræn endurgerð. Stafræn endurgerð í Köln í Þýskalandi. Stafræn endurgerð nefnist sú aðgerð þegar tiltekinn hlutur, mynd, hljóð, skjal eða merki (oftast flaummerki) er endurskapaður með því að taka úrtök eða sýnishorn og mynda af þeim stafrænt afrit. Þessum upplýsingum er svo hægt að miðla hratt og örugglega í gegnum internetið. Ljóslestur er tækni sem er stundum notuð við stafræna endurgerð á prentuðum texta. Þá notast tölvur við sérstakan hugbúnað til þess að greina mynstur stafa og endurskapa textann stafrænt en ekki bara mynd af honum. Malví. Malví er indóíranskt tungumál, talað af um tíu milljónum manna, aðallega í Rajastan á Norðvestur-Indlandi. Ástrónesísk tungumál. Ástrónesísk tungumál er ein stærsta málaætt jarðar hvað varðar fjölda tungumála og landfræðilega útbreiðslu. Hún teygir sig frá Madagaskar í vestri til Páskaeyju í austri og Tævan og Havæ í norðri til Nýja Sjálands í suðri. Alls telur ættin um 700 tungumál. Tökuorðið „ástrónesískt“ hefur ekkert með Ástralíu að gera enda eru þessi mál ekki þar töluð þó þau séu það þar allt í kring heldur er „ástró“ leitt af "auster" úr latínu sem merkir „suður“ og νῆσος ("nesos") úr grísku sem merkir „eyja“. Af einkennandi atriðum fyrir mál þessarar ættar má nefna að tiltekni greinirinn er ávallt undansettur, fleirtala nafnorða er oft mynduð með tvítekningu og samhljóðarunur eru af mjög skornum skammti. Sem dæmi um hve takmarkaðar samhljóðarunur eru má nefna að í havæísku eru bókstaflega aldrei tveir samhljóðar í röð og ekkert orð í málinu endar á samhljóða. Enn fremur tvær útgáfur af persónufornafni fyrstu persónu fleirtölu, það er að segja annars vegar „ég og hann“ eða „ég og þeir“, sem vísar til fyrstu persónu eintölu auk þriðju persónu, og hins vegar „ég og þú“ eða „ég, þú og fleiri“, sem vísar til fyrstu persónu eintölu auk annarrar persónu. Með öðrum orðum áheyrenda-aðgreinandi fleirtölufornöfn. Talið er að ástrónesísk mál séu upprunin í Tævan og hafi þaðan dreifst út um heimin. Nýlegar erfðafræðilegar rannsóknarniðurstöður þikja stirkja þá tilgátu. Áður fyrr var mikið litið til suður Kína sem 'úrhæmat' þessarar málaættar. Kínverjar hófu að flitja til Tævan í stórum stíl á sextán hundrað talinu og í dag tala aðeins um 2 % íbúa Tævan ástrónesísk mál. 25 ástrónesísk tævönsk frumbiggja mál eru þekkt. Af þeim eru 9 útdauð og þau sem eftir lifa mörg í hættu á að fara sömu leið. Lifandi eru atíal, búnúní, amis, kanakanabú, kavalan, pævan, sassíat, púíúma, rúkæ, saróa, sídik, taó, tsú, pasei, síræja og jamí en útdauð teljast basaí, ketagalan, taokas, babúsa, favorlang, papora, hóanía, tævóan og makatá. Af þessum málum nítur jamí talsverðrar sérstöðu þar sem málið er ekki talað á sjálfri Tævan-eyju heldur eyjunni Bútúrú 46 kílómetra í suðaustri frá Tævan og kom málið þangað svo seint sem kringum 1200 eftir krist með sæfarendum frá Filippseyjum og tilheirir það því allt annari grein ástrónesískra mála. Tom Hiddleston. Thomas William „Tom“ Hiddleston (fæddur 9. febrúar 1981 í London) er enskur leikari. Hann gekk í Cambrigde háskóla þar sem hann lærði forn fræði, latínu og grísku. Hann fór síðan í Royal Academy of Dramatic Art (RADA) í London. Tom lék Loka í Marvel-myndinni Thor (2011), Captain Nicholls í mynd Stevens Spielberg War Horse (2011) og Freddie Page í bresku dramamyndinni The Deep Blue Sea með Rachel Weisz. Einnig lék hann F. Scott Fitzgerald í mynd Woody Allen Midnight in Paris (2011). Hann endurtók leik sinn sem Loki í The Avengers (2012) og mun hann gera það aftur í framhaldsmyndinni Thor: The Dark World. Hiddleston, Tom Klapparþang. Klapparþang (fræðiheiti: "Fucus spiralis") er brúnþörunga af þangætt ("Fucaceae"). Það er algengt í þang- og hnullungafjörum við strendur Evrópu og Norður-Ameríku. Zizi Possi. Maria Izildinha Possi (fædd 28. mars 1956) er brasilísk söngkona og lagasmiður og gítarleikari. Útgefið efni. Possi, Zizi Vrahovice. Vrahovice (þýska: "Wrahowitz") er borg í Tékklandi. Íbúar borgarinnar eru um 3.400 talsins. Norrænu krossferðirnar. Kort sem sýnir herfarir þýsku riddaranna og sverðbræðra við Eystrasalt til 1260. Norrænu krossferðirnar voru krossferðir kristinna konunga Danmerkur og Svíþjóðar, sverðbræðra og þýsku riddaranna gegn heiðnum íbúum við sunnan- og austanvert Eystrasalt. Þjóðverjar fóru í Vindakrossferðina gegn Vindum 1147 en formlega hófust norrænu krossferðirnar árið 1195 þegar Selestínus 3. páfi lýsti yfir krossferð gegn hinum heiðnu íbúum Eystrasaltslanda. Í kjölfar þeirrar yfirlýsingar leiddi biskupinn Berthold af Hannóver krossferð gegn Líflendingum sem mistókst. Albert af Ríga lagði Lífland undir sig 1199 og árið 1202 var sverðbræðrareglan stofnuð til að tryggja yfirráð hans yfir landinu. Næstu áratugi héldu krossferðir þeirra áfram út frá Ríga. 1208 til 1224 lögðu þeir Selía, Lettgalla og Eista undir sig. Valdimar sigursæli Danakonungur lagði norðurhluta Eistlands undir sig. Eyjan Saaremaa hélt lengst út gegn krossförunum en þeir lögðu hana undir sig 1227. Eftir ósigur sverðbræðra gegn Litháum og Semgöllum í orrustunni við Sól 22. september 1236 urðu þeir hluti af þýsku riddarareglunni. Þýsku riddararnir höfðu þá nýverið hafið prússnesku krossferðina í boði Konráðs af Masóvíu. Riddararnir lögðu Kúrland undir sig 1267 og síðustu virki Semigalla 1290. Þeim tókst hins vegar ekki að leggja Litháen undir sig þrátt fyrir margar tilraunir. Litháar tóku kaþólska trú 1386. Krossferðir gegn þeim héldu samt áfram eftir það og lauk ekki fyrr en með orrustunni við Tannenberg 1410. Riddararnir reyndu líka að ráðast inn í Rússland sem aðhylltist rússneskan rétttrúnað, með stuðningi Gregoríusar 9. en biðu ósigur í orrustunni á Peipusvatni 1242. Birgir jarl leiddi sænsku krossferðirnar gegn Rússum og Finnum um miðja 13. öld sem lyktaði með því að Svíar lögðu Finnland undir sig 1248. Steinunn Þóra Árnadóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir (f. 1977) er íslenskur stjórnmálamaður, mannfræðingur og öryrki. Menntun og einkahagir. Steinunn Þóra fæddist í Neskaupstað árið 1977. Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1996, BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og MA-gráðu í fötlunarfræði árið 2013 frá sama skóla. Hún er gift Stefáni Pálssyni sagnfræðingi og eiga þau tvö börn. Félagsstörf og stjórnmál. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir MS-félag Íslands og Öryrkjabandalagið, þar á meðal setið í framkvæmdastjórn bandalagsins sem gjaldkeri 2005- 06. Fulltrúi í stjórn Brynju, hússjóðs ÖBÍ frá 2008. Steinunn Þóra átti sæti á framboðslistum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs við Alþingiskosningarnar 2007 og 2009 og tók sæti á þingi sem varaþingmaður frá janúar til mars 2008. Hún tók þátt í forvali Vinstri grænna fyrir Alþingiskosningarnar 2013 og hafnaði í fimmta sæti. Venstre. Venstre (Venstre, Danmarks Liberale Parti) er danskur stjórnmálaflokkur. Formaður flokksins er Lars Løkke Rasmussen. Nafn flokksins tengist því að hann var vinstra megin í stjórnmálalandslaginu á upphafsárum sínum á síðustu áratugum 19. aldar. Nú er Venstre hins vegar hægri flokkur sem kennir sig við frjálslyndisstefnu. Venstre er stærsti flokkurinn á Þjóðþingi Danmerkur en situr í stjórnarandstöðu. Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru ein fimm verðlauna sem Norðurlandaráð veitir árlega. Verðlaunin eru veitt einu bókmenntaverki skrifuðu á máli eins Norðurlandanna. Verðlaunin eru þau nýjustu meðal verðlauna Norðurlandaráðs en þau verða veitt í fyrsta sinn á Norðurlandaráðsþingi í Osló 2013. Verðlaunafé er 350.000 danskar krónur. Valið fer þannig fram að Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð tilnefnir hvert tvö verk. Færeyjar, Grænland, Álandseyjar og Samíska málsvæðið hafa einnig rétt á því að tilnefna eitt verk hvert. Skrifstofa Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs er í Norræna húsinu í Reykjavík. Voltaísk tungumál. Voltaísk tungumál eða gurmál eru flokkur um 70 nígerkongómála sem töluð eru við efra Volta-fljót á Vestur-Afríku. Til voltaískra mála teljast bóbó, dagbaní, lóbí, senarí og múrí. Múri er það voltaíska mál sem sér á flesta mælendur. Fúlaní. Fúlaní ("Fulfulde", "Pulaar" eða "Pular'Fulaare") er nígerkongótungumál talað af 15 milljón manns frá Senegal og Gambíu austur til Níger. Flestir mælendur eru í Nígeríu eða um 8 milljónir. Fúr. Fúr ("bèle fòòr" eða "fòòraŋ bèle") er nílósaharamál, talað af um 700 þúsund manns í vestast í Súdan, aðallega í Darfúr-fylki. Það er ritað með latínuletri þó arabísk áhrif á málið séu umtalsverð og talendurnir að mestu múslimar. Hindu Kush. Hindu Kush (pastúnska/persneska/úrdú: ھندوکُش) einnig þekktur sem "Pāriyātra Parvata" (sanskrít: पारियात्र पर्वत) eða "Paropamisadaí" (gríska: Παροπαμισάδαι) er 800 km langur fjallgarður sem nær frá miðju Afganistan að norðurhluta Pakistan. Hæsti tindur fjallgarðsins er Tirich Mir, 7.708 metra hár, í héraðinu Khyber Pakhtunkhwa í Pakistan. Thorvald Krabbe. Thorvald Haraldsen Krabbe (21. júní 1876 – 16. maí 1953) var danskur landsverkfræðingur fæddur í Frederiksberg. Faðir hans var Harald Krabbe læknir og dýrafræðingur. Krabbe lauk námi í byggingarverkfræði 1900 og vann hjá dönsku járnbrautunum til 1902, þegar hann hóf vinnu hjá gasverki Valby og sá um byggingu götulýsingarkerfa. Árið 1906 var hann skipaður landsverkfræðingur á Íslandi. Í upphafi árs 1918 var embætti landsverkfræðings skipt í tvo hluta, embætti vegamálastjóra (Geir G. Zoega) og vitamálastjóra (Thorvald Krabbe) en frá þeim þróuðust stofnanirnar Vegagerð ríkisins og Vita- og hafnamálaskrifstofan. Krabbe var stjórnarmaður Verkfræðingafélags Íslands árin 1914 – 1931 og formaður þess árin 1914 – 1915. Heilahristingur. Heilahristingur kemur fyrir þegar maður dettur á hausinn eða þungt högg kemur á hausinn. Heilahristingur flokkast undir höfuðáverka með tímabundið tap á heilastarfsemi. Heilahristingur getur valdið fjölda líkamlegra, skilvitlegra og tilfinningalegra einkenna. Mattel. Mattel er einn stærsti leikfangaframleiðandi heims. Það framleiðir meðal annars leikföng undir vörumerkjunum Barbie, Fisher Price, Hot Wheels og Matchbox. Fyrirtækið var stofnað í Bandaríkjunum árið 1945 af Harold Matson og Elliot Handler og er nafn þess dregið af fyrstu stöfunum í nöfnum þeirra. Þekktasta leikfang fyrirtækisins er barbídúkkan sem Ruth Handler, eiginkona Elliots, þróaði árið 1959. Síðustu verksmiðju Mattel í Bandaríkjunum var lokað 2002 og eftir það hefur öll framleiðsla þess farið fram í Asíu. Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt. Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt er íslenskt rannsóknarsetur, sem stofnað var 2012. Tilgangur RNH er að rannsaka, hvað örvi og hindri nýsköpun og hagvöxt. Í rannsóknum stofnunarinnar er sérstaklega beint sjónum að því, hvernig menn geti með sjálfsprottinni samvinnu, viðskiptum í stað valdboðs, fullnægt þörfum sínum og bætt kjörin. Fjögur helstu rannsóknarsvið stofnunarinnar eru: 1) skattar og tekjudreifing, 2) auðlindanýting og umhverfisvernd, 3) nýsköpun og framkvæmdamenn, 4) minningin um fórnarlömbin. Rannsóknarráð RNH skipa dr. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, formaður, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, og dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði. Stjórn RNH skipa Gísli Hauksson, formaður, Jónas Sigurgeirsson og Jónmundur Guðmarsson. RNH hefur haldið marga fundi og ráðstefnur, þar á meðal um „Evrópu fórnarlambanna“ 22. september og „Fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar“ 6. október 2012. Mat á umhverfisáhrifum. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, oft skammstafað MÁU, er ákveðin aðferðafræði sem beitt er til þess að meta á skipulagaðan og þverfaglegan hátt hugsanleg áhrif framkvæmda á umhverfi, jafnt á framkvæmdar- sem og rekstrartíma. Um er að ræða matsferli sem skiptist í nokkur stig og er undanfari framkvæmda er tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þannig er óheimilt að gefa út framkvæmdarleyfi fyrr en ljóst er að fyrirhuguð framkvæmd er annað hvort ekki matsskyld, eða að umhverfismat hefur farið fram og álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir, sbr. ákvæði 13. gr. laganna. Almennt um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæði 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum tilgreinir með skýrum hætti markmið þeirra. Þar segir m.a. að áður en leyfi skuli veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt að leitast skuli við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig framkvæmdir varða. Enn fremur skal kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum til viðeigandi stjórnvalda. Líkt og fram hefur komið þá eru ekki allar framkvæmdir matsskyldar. Í 5. og 6. gr. laganna er fjallað um matsskyldar framkvæmdir og framkvæmdir sem kunna að vera matsskyldar. Meginreglan er sú að framkvæmdir sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lögin fara ávallt í umhverfismat. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka eru háðar umhverfismati ef þær, vegna eðlis, umfangs eða staðsetningar, geta haft umtalsverð umhverfisáhrif og er það metið í hverju tilfelli fyrir sig. Sé fyrirhuguð framkvæmd tilgreind í 2. viðauka ber framkvæmdaraðila að tilkynna hana Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Matsskylduferlið tekur um fjórar vikur. Eftir að hafa leitað umsagna leyfisveitenda og annarra eftir eðli máls hverju sinni tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um matsskyldu. Þá skal stofnunin hafa til hliðsjónar viðmið 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og kynna svo ákvörðun sína öllum þeim er málið varðar sem og almenningi. Málsmeðferð matsskyldra framkvæmda. Hið eiginlega mat á umhverfisáhrifum á aðeins við um matsskyldar framkvæmdir. Matið hefst á því að framkvæmdaraðili skilar tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynnir tillöguna fyrir umsagnaraðilum og almenningi, í samráði við stofnunina. Framkvæmdaraðili ber höfuðábyrgð á matsferlinu og stendur til að mynda straum af öllum kostnaði sem af hlýst sem og kynningu á því, sbr. ákvæði 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Tillögu að matsáætlun skal framkvæmdaraðili skila eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdarsvæði skal lýst, sem og möguleikum varðandi tilhögun og staðsetningu, og hvernig það samræmist gildandi skipulagi. Þá skal tilgreina helstu áhersluþætti matsvinnunnar og áhrifasvæði svo eitthvað sé nefnt. Nánar er tilgreint hvernig tillögu að matsáætlun skuli háttað í 13. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005. Skipulagsstofnun leitar þá umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila eftir því sem við á. Að fengnum opinberum umsögnum og athugasemdum frá almenningi, þá annaðhvort synjar stofnunin eða samþykkir tillöguna, með eða án athugasemda. Samþykki Skipulagsstofnun tillöguna með athugasemdum verða þær hluti af matsáætlun. Þannig myndar tillaga að matsáætlun að teknu tilliti til athugasemda frá stofnuninni matsáætlun. Matsáætlun er ætlað að vera grunnur að matsskýrslu og fyrirbyggja að upplýsingar skorti í skýrsluna og þar með tafir sem af því gætu hlotist. Þegar matsáætlun liggur fyrir skal framkvæmdaraðili vinna matsskýrslu er kallast frummatsskýrsla og skal gerð og efni hennar samræmast matsáætlun. Samkvæmt ákvæðum 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum skal tilgreina þar öll nauðsynleg gögn, svo hægt sé að greina og meta þau áhrif sem framkvæmd er líkleg til að hafa á umhverfið. Þá skal bera saman helstu möguleika sem koma til greina m.t.t. umhverfisáhrifa, og að lokum gera samantekt um helstu niðurstöður skýrslunnar. Þar skal einnig koma fram flokkun umhverfisþátta, vægi og viðmið umhverfisáhrifa einstakra þátta framkvæmdar á grundvelli leiðbeininga sem gefnar eru út af Skipulagsstofnun, sbr. 20. gr. laga nr. 106/2000. Frummatsskýrslu er skilað inn til formlegrar yfirferðar Skipulagsstofnunar. Stofnunin kynnir skýrsluna í samráði við framkvæmdaraðila, leitar umsagna opinberra aðila og athugasemda frá almenningi. Þegar framkvæmdaraðila hafa borist umsagnir og athugasemdir er matsskýrsla unnin. Matsskýrslan er unnin á grundvelli frummatsskýrslu, en þar skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust vegna frummatsskýrslu og taka afstöðu til þeirra. Að þessu loknu er matsskýrslan send Skipulagsstofnun til yfirferðar og álitsgjafar. Álit Skipulagsstofnunar skal liggja fyrir innan fjögurra vikna frá því matsskýrslu er skilað inn. Stofnunin gefur rökstutt álit á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerða og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í álitinu skal gerð grein fyrir helstu forsendum matsins og niðurstöðum. Enn fremur skal fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Sé það mat Skipulagsstofnunar að mótvægisaðgerðir* séu ekki fullnægjandi eða að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni, ber stofnuninni að tilgreina slíkt og færa fyrir því rök. Þegar álit stofnunarinnar liggur fyrir skal það kynnt öllum viðkomandi aðilum og auglýst að matsskýrsla og álit liggi fyrir. Álit Skipulagsstofnunar jafngildir ekki leyfisveitingu. Leyfisveitendum ber að kynna sér matsskýrslu framkvæmdar og taka rökstudda afstöðu til fyrirliggjandi álits, áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Þá skulu leyfisveitendur birta ákvörðun um útgáfu leyfis ásamt niðurstöðu álits opinberlega. Stjórnvaldsákvarðanir og önnur ágreiningsmál er varða úrlausnaratriði á sviði umhverfis- og auðlindamála eru kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 130/2011. Aðilar sem aðkomu hafa að mati á umhverfisáhrifum. Ýmsir koma að hverju matsferli. Þetta eru framkvæmdaraðilar, opinberir aðilar sem og almenningur. Það getur þó verið breytilegt eftir eðli fyrirhugaðra framkvæmda hverjir koma að málum. Hér er aðeins fjallað um þá helstu og aðkomu þeirra. Umhverfis- og auðlindaráðherra. Umhverfis- og auðlindaráðherra er höfuð stjórnsýslu umhverfis- og auðlindamála og heyra m.a. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sem í samvinnu við utanríkisráðuneytið annast alþjóðlegt samstarf á sviði umhverfismála. Ráðherra skipar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Nefndin sem skipuð er sérfræðingum á ýmsum sviðum starfar sjálfstætt. Hún hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og öðrum ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála. Þá ber ráðherra að setja reglugerð til fyllingar ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. ákvæði 20. gr. Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að umhverfismati og framfylgir m.a. lögum um mat á umhverfisáhrifum og veitir leiðbeiningar samkvæmt því. Stofnunin sker úr um hvort framkvæmdir séu matsskyldar falli þær undir 2. viðauka laganna. Þá veitir stofnunin ráðgjöf og leiðbeinir framkvæmdaraðila í gegnum matsferlið, og heldur utan um það. Stofnunin veitir leiðbeiningar um hvernig standa skuli að tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu sem og kynningu. Þá leitar Skipulagsstofnun eftir umsögnum opinberra aðila, eftir því sem við á hverju sinni, sem og athugasemdum frá almenningi. Enn fremur tekur stofnunin ákvarðanir um matsáætlanir og gefur að lokum út rökstutt álit á endanlegri matsskýrslu. Ákvarðanir Skipulagsstofnunar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, nema í tilteknum tilvikum sem talin eru upp í ákvæði 4. gr. laga um úrskurðarnefndina. Til að mynda geta hagsmunasamtök, er uppfylla viss skilyrði, kært tilteknar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Þetta eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu og ákvörðun um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum er hins vegar ekki kæranlegt, enda er hvorki um bindandi úrskurð né leyfisveitingu að ræða. Álitinu er eingöngu ætlað að vera leiðbeinandi fyrir leyfisveitendur, til upplýstrar og faglegrar ákvörðunartöku, enda útgáfa framkvæmdaleyfis matsskyldrar framkvæmdar óheimil fyrr en álit Skipulagsstofnunnar liggur fyrir sbr. ákvæði 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðilar. Samkvæmt ákvæði b liðar 3. gr. laga nr. 106/2000 er framkvæmdaraðili skilgreindur þannig: „ríki, sveitarfélag, stofnun og aðrir lögaðilar eða einstaklingar er hyggjast hefja framkvæmd er lög þessi taka til“. Framkvæmdaraðilar hafa frumkvæði að framkvæmdum sem eru forsenda mats á umhverfisáhrifum og ákvörðunartöku byggðri á því. Samkvæmt ákvæði 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum ber framkvæmdaraðili ábyrgð á mati umhverfisáhrifa fyrirhugaðrar framkvæmdar, öllum kostnaði af matinu og kynningu þess. Framkvæmdaraðila ber að kanna hvort framkvæmd sé matsskyld, tilkynna framkvæmdir sem mögulega eru matsskyldar, og hafa samráð við hagsmunaaðila eins snemma í ferlinu og kostur er. Þá sér framkvæmdaraðili um matsferli umhverfisáhrifa framkvæmdar, í samráði við Skipulagsstofnun, og allt sem í því felst þ.e. mat umhverfisáhrifa, gerð matsskýrslu, svörun umsagna og athugasemda o.s.frv., eða ræður til þess ráðgjafa. Sveitarstjórnir. Samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 skal í hverju sveitarfélagi starfa skipulagsnefnd ásamt skipulagsfulltrúa. Það er á ábyrgð sveitarstjórnar að kjósa skipulagsnefnd og að ráða skipulagsfulltrúa, sem starfar undir stjórninni. Nefndin annast gerð skipulagsáætlana í umsjón skipulagsfulltrúa, sem jafnframt hefur eftirlit með leyfisskyldum framkvæmdum. Sveitarstjórn getur þó falið nefndinni eða öðrum innan stjórnsýslunnar heimild til fullnaðarafgreiðslu vissra mála, sbr. ákvæði 42. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, svo sem útgáfu framkvæmdaleyfa og afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Endanleg afgreiðsla á aðal- og svæðisskipulagi er þó ávallt í höndum og á ábyrgð sveitarstjórnar. Vegna fyrirhugaðra framkvæmda þarf ætíð að leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar. Hlutverk sveitarstjórna við mat á umhverfisáhrifum er nokkuð veigamikið, því auk umsagnahlutverks um framkvæmdir innan viðkomandi sveitarfélags og leyfisveitingavalds þá geta framkvæmdir jafnvel verið á vegum sveitarfélagsins sjálfs. Almenningur. Almenningur er skilgreindur sem einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar, samtök þeirra, félög eða hópar, skv. ákvæði 4. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Almenningi er með lögum tryggð aðkoma að mati á umhverfisáhrifum. Með þessu er sérhverjum aðila er kann að láta sig mál varða veitt aðkoma að matsferlinu. Eitt meginmarkmiða laga um mat á umhverfisáhrifum er að stuðla að samvinnu og sátt meðal þeirra sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig mál varða, sbr. 1. gr. laganna. Fyrir matsskyldar framkvæmdir er framkvæmdaraðila, í samráði við Skipulagsstofnun, skylt að kynna tillögu að matsáætlun fyrir almenningi. Þetta er gert í þeim tilgangi að fá fram ábendingar og formlegar athugasemdir, áður en lengra er haldið. Þegar frummatsskýrslu hefur verið skilað inn til Skipulagsstofnunar og auglýst gefst almenningi enn kostur á því að gera formlegar athugasemdir við umhverfismat framkvæmdar. Í endanlegri matsskýrslu sem skilað er inn til álitsgjafar Skipulagsstofnunar skal framkvæmdaraðili birta allar umsagnir frá umsagnaraðilum og athugasemdir almennings sem bárust vegna frummatsskýrslu og taka afstöðu til þeirra. Umsagnaraðilar. Samkvæmt ákvæði 23. tl. 2. gr skipulagslaga nr. 123/2010 eru umsagnaraðilar skilgreindir sem opinberar stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum á sviði skipulagsmála og leyfisveitingum þeim tengdum. Umhverfisstofnun gegnir margþættu hlutverki. Stofnunin miðlar m.a. upplýsingum um umhverfismál, gerð reglugerða, leyfisveitingar, umsjón með friðlýstum svæðum, og beitir sér fyrir sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda ásamt því að veita umsagnir vegna mats á umhverfisáhrifum svo fátt eitt sé nefnt. Minjastofnun Íslands tók til starfa þann 1. janúar 2013 skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Minjavernd tók við m.a. við því hlutverki Fornleifaverndar ríkisins að stuðla að verndun menningarsögulegra minja, kynna þær fyrir almenningi og auðvelda aðgengi að þeim. Fornleifavernd veitti leiðbeiningar vegna rannsóknarverkefna og ráðgjöf um meðferð menningarsögulegra minja. Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eru menningarminjar einn þeirra þátta sem taka þarf til skoðunar. Eitt hlutverka Fornleifaverndar var að veita faglegar umsagnir vegna umhverfismats. Fjölmargar aðrar opinberar stofnanir eða stjórnvöld geta verið umsagnaraðilar við mat á umhverfisáhrifum s.s. Hafrannsóknarstofnun, Veðurstofa Íslands og Orkustofnun svo dæmi séu nefnd, allt eftir eðli fyrirhugaðrar framkvæmdar. Sótó. Sótó ("Sesotho") er bantúmál á benúekongógrein nígerkongómálaættarinnar. Sótó er talað af um þremur milljónum manns, þar af tveimur milljónum í Suður-Afríku og einni milljón í Lesótó. Í Suður-Afríka er það eitt af ellefu opinberum tungumálum. Sótó er ritað með latínuletri. FarmVille. "FarmVille" er tölvuleikur spilaður í rauntíma þar sem maður ræktar grænmeti og búfé á sýndarbóndabæ. Leikurinn var þróaður og gefinn út af fyrirtækinu Zynga árið 2009. Leikurinn er byggður á Adobe Flash og er aðgengilegur á Facebook og MSN Games. Tímabundið var það líka til sem smáforrit fyrir iPhone, iPad og iPod touch. Leikurinn er ókeypis en þarf að borga fyrir aukahluti í leiknum. María 2. Englandsdrottning. María 2. Englandsdrottning (30. apríl 1662 – 28. desember 1694) var drottning Englands, Skotlands og Írlands ásamt eiginmanni sínum, Vilhjálmi frá 1689 til dauðadags. Þau Vilhjálmur voru bæði mótmælendatrúar og komust til valda í kjölfar Dýrlegu byltingarinnar þar sem föður Maríu, hinum kaþólska Jakobi 2., var steypt af stóli. Eftir lát hennar ríkti Vilhjálmur einn í átta ár en við lát hans tók systir Maríu, Anna, við krúnunni. Vetrarólympíuleikarnir 1988. Vetrarólympíuleikarnir 1988 voru 15. vetrarólympíuleikarnir. Þeir fóru fram í Calgary í Kanada frá 13. til 28. febrúar 1988. Sovétríkin og Austur-Þýskaland unnu langflest verðlaun á leikunum. Þrír íslenskir skíðamenn tóku þátt í leikunum. Keppt var í tíu íþróttagreinum. Reims. Reims er borg í héraðinu Champagne-Ardenne í Frakklandi. Hún stendur í sýslunni Marne í norðurhluta vínræktarhéraðsins Champagne. Borgin er einkum þekkt sem staðurinn þar sem Frakkakonungar voru krýndir frá því á 12. öld. Dómkirkjan í Reims var reist á 13. og 14. öld. Súlavesí. Súlavesí (áður "Celebes-eyja") er eyja í Indónesíu. Hún er ein fjögura Sundaeyja. Enn fremur er Súlavesí ellefta stærsta eyja jarðar. Hún er staðsett milli Borneó og Mólúkkaeyja. Í Indónesíu eru aðeins Súmatra, Borneó og Papúa stærri að flatarmáli og aðeins Java og Súmatra eru byggðar fleira fólki. Súlavesí er mjög óregluleg í laginu með fjóra langa skaga og lítur dálítið út eins og krossfiskur. Þessir skagar eru venjulega einfaldlega nefndir norðurskagi, austurskagi, suðurskagi og suðausturskagi. Þó er norðurskaginn stundum nefndur Mínahassaskagi. Tomíníflói liggur milli Mínahassa og austurskagans, Tólóflói milli austur- og suðausturskagans og Boneflói milli suður- og suðausturskagans. Sundið milli Súlavesí og Borneó er nefnt Makassarsund. Súmatra. Súmatra er eyja í Indónesíu. Hún er vestust Sundaeyja og stærsta eyjan sem tilheyrir Indónesíu að fullu. Eldvirkni er mikil vestan megin á eyjunni og stórir jarðskjálftar tíðir þar sem eyjan er vestast í Eldhringnum umhverfis Kyrrahaf. Davíð Þorláksson. Davíð Þorláksson (f. 16. september 1980 á Akureyri) er íslenskur lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS). Hann hefur skrifað greinar í tímaritið Þjóðmál. Davíð var kjörinn formaður SUS í ágúst 2011, hann fékk 62% atkvæða á móti 38% atkvæðum mótframbjóðanda hans, Björns Jóns Bragasonar. Davíð var stúdent af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri og lauk svo embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands. Davíð hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2009. Hann sat í stjórn SUS 2003-2005 og hefur verið ritari Varðbergs. Davíð starfaði sem lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, verkefnastjóri við lagadeild Háskólans í Reykjavík og aðstoðarkennari við lagadeild Háskóla Íslands. Þá starfaði hann sem yfirlögfræðingur fjárfestingabankans Askar Capital frá árinu 2007 og til 2009 þegar hann færði sig yfir til Icelandair Group. Suðrænn baulfiskur. Suðrænn baulfiskur ("Argyrosomus hololepidotus") er fisktegund sem helst er að finna í Indlandshafi. Hann er silfurlitaður með gráum eða brúnum uggum, dökkur sporður, dökkir til svartir blettir að ofan sitthvoru megin við bakugga og að sporði. Uggar eru beittir honum til varnar. Hann er frekar stór og er algeng stærð um 1 metri, hann getur þó náð allt að 2 metra lengd. Hefur mest vigtast 71 kg og hæðsti aldur skráður 30 ára. Hann heldur sig helst í Indlandshafi þó mest við Madagaskar og er oft kenndur við þær eyjar, Madagaskar meagre. Hann finnst þó víðar. Fiskurinn kýs frekar hlýjan sjó og vill helst vera í hitastigi á bilinu 13-24°C. Southern meagre er botnfiskur, sjávarfiskur en þolir þó ferskvatn og á það til að synda upp ár. Heldur sig helst í sjó á 15-150 m dýpi. Finnst þ.a.l. hellst við ósa, neðst í ám, við strendur og einnig við rif. Hann er hellst við botninn eða miðsvæðis í sjónum. Þessi tegund á ekki marga óvini, hákarlar eiga það til að leggja sér hann til munns, síðan er hann sjálfs síns óvinur. Þeir éta hvorn annan. Southern Meagre lifir á fjölbreyttri fæðu, þar hefur stærðin sitt að segja hann étur aðra fiska og vegna stærðar er flóran nokkuð mikil. Hann lifir einnig á smokkfisk, kröbbum, rækjum og ormum. Hann aflar sér fæðu helst á nóttunni. Þær þjóðir sem veiða mest eru Angóla, Ástralía og suður Afríka. Árið 2010 voru veidd 17,688 tonn. Angóla veiðir mest, en þeir hafa þó ekki veitt samfellt frá 1950. Þeir hættu veiðum frá 1970-1983 og aftur 1987-1998. En eftir 2001 juku þeir sínar veiðar töluvert og eru langt yfir öllum öðrum þjóðum í tonnum talið. Valddreifing. Valddreifing (Decentralized): Skipulagið er með þeim hætti að valdið til að taka mikilvægar ákvarðanir er skipt niður á stjórnendur á öllum stigum skipulagsheildarinnar. Kóngalax. Kóngalax (fræðiheiti: "Oncorhynchus tshawytscha") er stærsta tegundin í ættbálki laxfiska. Útbreiðsla. Hann lifir við strendur Norður–Kyrrahafs og dreifist um stórt svæði, allt frá Ventura ánni í Kaliforníu og upp til Point Hope í Norður–Alaska í Austur–Kyrrahafi og frá Hokkaido eyju í Japan og upp til Anadyr ár í Rússlandi í Vestur–kyrrahafi. Hann hefur þó horfið af stórum landsvæðum þar sem hún blómstraði áður fyrr en það á þó aðallega við um svæði í Norður–Ameríku. Má þar einkum nefna átroðning manna sem hefur valdið því að laxinn hefur þurft að yfirgefa fyrri heimkynni, aðallega vegna bygginga stífla sem hafa eyðilagt búsvæði hanns.. Útlit. Kóngalaxinn getur orðið allt að einn og hálfur metri að lengd en algeng lengd hans er um 80 sentimetrar. Þyngsti kóngalax sem veiðst hefur vó um það bil 61 kíló. Það er þó ekki algeng þyngd en vanalegt er að laxinn fari yfir 18 kíló. Útlit hanns er breytilegt eftir því hvar hann er hverju sinni. Þegar hann er í sjó hefur hann blá-grænt bak með silfraða síðu, með litlar svartar doppur á sporði og baki og gómur neðri kjálka er svartur að lit. Þegar að laxinn snýr svo aftur úr sjónum og upp í árnar til þess að fjölga sér verður hann brúnn eða rauður á lit. Litabreytingin verður mun meiri hjá hængnum en hrygnunni, kjaftur hængsins verður króklaga og bak hans verður kúpt. Kjöt laxins er rautt en ekki bleikt eins og hjá öðrum löxum, kjötið getur þó stundum verið hvítt sem er sjaldgæft en bragðast alveg eins og það rauða. Lífsferill og lifnaðarhættir. Til eru tvær gerðir af kóngalaxi, annars vegar er það hin svokallaða straum–týpa og hinsvegar sjó–týpa. Munurinn á þeim er ekki ýkja mikill en hann felst í því að straum–laxinn er lengur í ánum eftir að hann klekst úr eggi heldur en sjó–laxinn. Sjó–laxinn kemur oftast í enda sumars og í byrjun hausts upp í árnar til þess að hrygna, þeir koma þó á öllum tíma árs þó svo að þessi tími sé algengastur en straum–laxinn kemur mest á vorin og í byrjun sumars, þetta hegðunarmynstur má rekja til þess að flóð og þurrkar eru algengari í suðurhluta Bandaríkjanna og því er sjó–laxinn aðallega að finna þar á meðan straum–laxinn finnst norðar þar sem hann getur dvalið lengur í ánum eftir að hann hefur klakist úr eggi Lífsferill hópanna er sá sama fyrir utan þann tíma sem þeir dvelja í ánum til að byrja með. Eftir að hafa eytt byrjun ævi sinnar í ám (allt frá þremur mánuðum og upp í tvö ár), flytjast kóngalaxar á haf út þar sem að þeir eru við fæðu. Þeir halda sig þó að mestu nálægt ströndinni þó svo að vitað sé um dýr sem hafa farið allt að 1600 km frá landi. Megin uppistaða í fæðu kóngalaxins þegar að hann er ungur eru krabbadýr, vatna- og þurrlendisskordýr. Þegar laxinn stækkar og eldist nærist hann aðallega á öðrum fiskum eins og til dæmis lýsu og makríl. Þegar að laxinn hefur náð að stækka og dafna í hafinu, snýr hann aftur upp í sömu á og hann klaktist úr eggi til þess að fjölga sér. Algengast er að þetta gerist þegar að hann hefur verið í hafinu í um það bil tvö til fjögur ár en allt veltur þetta á því hvenær dýrið verður kynþroska (það getur verið allt frá tveggja ára aldri til sjö ára aldurs). Þegar að hrygnan hefur fundið stað í ánni til þess að hrygna grefur hún nokkrar holur sem hún hrygnir svo í en hver hrygna getur hrygnt allt að 3.000 til 14.000 eggjum. Þegar hrygnan hefur hrygnt eggjum sínum, gætir hún þeirra þar til að hún drepst, hængurinn fer og finnur næstu hrygnu en að lokinni hrygningartíð drepst hann líka. Stjórnun veiða. NOAA Fisheries, Pacific and North Pacific Fishery Management Councils, og Alaska Department of Fish and Game eru þær stofnanir sem halda mest utan um veiðar á kóngalaxi í heiminum. Þessar stofnanir fara yfir veiðitölur síðasta fiskveiðiárs, í samræmi við þær og með tilliti til stofnstærðar gefa þær út kvóta á laxinum. Markmið þeirra er að leyfa veiðimönnum að veiða eins mikið og mögulega er án þess að skaða stofninn með ofveiði, ásamt því að stuðla að því að þeir stofnar sem eru í lágmarki á ákveðnum svæðum geti fengið að dafna á ný með því að minnka veiðar á þeim svæðum. Stofnanirnar meta hversu mikill hrygningafiskur þarf að sleppa í gegn til þess að stofnstærðin viðhaldist og því er það einnig tekið með inn í reikninginn þegar kvótanum er úthlutað. Veiðar og markaður. Eins og fyrr segir lifir kóngalaxinn í Kyrrahafi og þær þjóðir sem hafa stundað mestar veiðar á honum frá árinu 1950 eru Bandaríkin, Rússland og Kanada en Bandríkin hafa veitt meira en tvöfalt meira en Kanada og Rússland til samans. Veiðarnar hafa verið að dragast saman á undanförnum áratugum. Helstu aðferðirnar sem notaðar eru við veiðar á kóngalaxi eru veiðar með lítilli nót, netum, beittum línum sem lokka fiskinn að beitunni. Þessi aðferð gefur bestu gæði vörunnar, því fiskurinn er unninn lifandi og ferskur úr sjó. En einnig eru veiðar stundaðar af áhugamönnum á stöng. Allt eru þetta veiðarfæri sem koma í veg fyrir eyðileggingu á heimkynnum laxins og annarra lífvera á þeim stöðum sem laxinn heldur sig. Meðaflinn er mjög lítill og þá aðallega aðrar laxategundir. Kóngalaxinn er veiddur að mestu leyti yfir sumartímann og á síðasta ári (2012) var gefinn út kvóti upp á 266.800 dýr þar sem að 70% kvótans mátti veiða yfir sumartímann. Kvótanum var svo skipt niður eftir veiðarfærum með eftirfarandi hætti, 4,3% af kvótanum mátti veiða með nót, 2,9% með netum, 80% með beittri línu og um það bil 13% á stöng. Langmestur meirihluti af veiddum kóngalaxi er veiddur við Suðaustur–Alaska en árið 2010 veiddust þar 262 þúsund laxar. Árið 2010 var meðalverð á kíló af kóngalaxi til báta um það bil 942 íslenskar krónur, miðað við gengi á þeim tíma. Kóngalaxinn er eftirsótt vara af neytendum vegna þess hversu ríkur hann er af omega-3-fitusýrum, B12 vítamíni og próteinum. Kjötið er einnig olíuríkara en í öðrum löxum og því mýkra. Kóngalaxinn er seldur ferskur, frosinn, reyktur og niðursoðinn. Veiðarnar eru sjálfbærar og fyrir vikið er varan eftirsóttari. Helsti markaður fyrir kóngalax er Norður-Ameríka en mikill meiri hluti af þeim laxi sem er veiddur er seldur þangað. Dómkirkjan í Coventry. Dómkirkjan eyðilagðist í loftárásum 1940 Dómkirkjan í Coventry (e. "Coventry Cathedral" eða "St. Michael‘s Cathedral") er helsta kennileitið í ensku borginni Coventry. Hún gjöreyðilagðist í loftárásum 1940. Aðeins turninn og ytri veggirnir stóðu eftir. Rústirnar eru friðaðar og er staðurinn nánast helgur í augum margra Breta. Dómkirkjan er í raun og veru þrjár kirkjur sem tóku við af hver annarri. Fyrsta kirkjan. Það var Leofric, jarlinn af Mercia, og eiginkona hans, Lafði Godiva, sem stofnuðu munkaklaustur 1043 í Coventry. Þá var kirkja reist og helguð Maríu mey. Kirkja þessi varð að dómkirkju 1102 er biskupinn Robert de Limesey flutti biskupssetur sitt til Coventry. Kirkja þessi var rifinn er Hinrik VIII sagði sig úr sambandi við kaþólsku kirkjuna á 16. öld. Þetta var eina dómkirkjan í Englandi sem var rifin í sambandi við siðaskiptin þar í landi. Aðeins einn turnanna var látinn standa eftir og var hann notaður sem íbúðarhús og síðar sem skóli. Einnig sér í grunn þessarar kirkju, sem og í einn lítinn vegg. Eftir siðaskiptin fram til ársins 1918 var engin dómkirkja í Coventry. Önnur kirkjan. Önnur kirkjan sem þjónaði sem dómkirkja var reist síðla á 14. öld og snemma á þeirri 15. og var helguð heilögum Mikjáli (St. Michael). Kirkjan var ein allra stærsta sóknarkirkja Englands í nokkrar aldir. Turninn er 90 metra hár og er hæsta mannvirkið í borginni. Jafnframt er kirkjan þriðja hæsta kirkja Englands, á eftir dómkirkjunum í Salisbury og í Norwich. 1918 varð Coventry biskupssetur á ný og varð Mikjálskirkjan þá að dómkirkju. En í loftárásum Þjóðverja 14. nóvember 1940 brann kirkjan og eyðilagðist. Aðeins turninn og ytri veggirnir stóðu eftir. Rústir kirkjunnar fengu að standa uppréttar og líta margir Bretar á þær sem helg jörð. Turninn og rústirnar eru friðaðar í dag. Þau standa sem minnisvarði um hörmungar stríðsins. Innst í rústunum hefur járnkross verið settur upp. Eftir loftárásirnar sá steinsmiðurinn Jock Forbes tvo járnbúta liggja í kross og ákvað að binda þá saman. Afsteypa var gerð af þessum krossi og sett upp í kirkjurústunum sem minnismerki um stríðið. Þriðja kirkjan. Þriðja kirkjan. Myndin er tekin úr turni rústanna. 1950 var háð samkeppni um afdrif rústanna og byggingu nýrrar dómkirkju. Rúmlega 200 hugmyndir bárust og sigraði hugmynd Basil Spence og Arup-hópsins. Hugmyndin var sú að viðhalda rústunum sem minnisvarða um stríðið og að reisa nýja kirkju beint við hliðina. Hafist var handa við verkið 23. mars 1956 er Elísabet drottning lagði grunnsteininn. Nýja kirkjan var svo vígð 1962. Spíran var sett á turninn með aðstoð þyrlu. Spence var síðar aðlaður fyrir verkið. Kross var gerður úr þremur nöglum sem áður voru í þaki gömlu kirkjunnar við hliðina. Hann var settur á altari og er orðinn að tákni friðar og sætta í heiminum. Ýmsir aðrir merkisgripir eru í nýju kirkjunni. Má þar nefna skírnarfont úr óhöggnu grjóti frá Betlehem og stórt reifi af Jesú sem fyllir nær heilan vegg. Fleiri naglakrossar. Í dag eru rúmlega 160 krossar til sem gerðir voru úr nöglum bygginga sem sprengdar voru í stríðinu. Einn krossinn sem gerður var úr nöglum kirkjunnar í Coventry var gefinn til Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche í Berlín, en rústir hennar eru einnig stríðsminnisvarði. Slíkir krossar voru einnig settir í öll bresk herskip sem báru heitið HMS Coventry. Einu slíku var sökkt í Falklandseyjastríðinu 1982. Kafarar björguðu krossinum og skipstjórinn, ásamt nokkrum áhafnarmeðlimum, afhenti hann dómkirkjunni í Coventry. Krossinn er nú í skipinu HMS Diamond, sem tengist borginni Coventry. Mikhaíl Búlgakov. Mikhaíl Afanasjevits Búlgakov á meðan hann var í háskóla Mikhaíl Afanasjevits Búlgakov (rússneska: Михаи́л Афана́сьевич Булга́ков; (15. maí 1891 – 10. mars, 1940) var rússneskur rithöfundur og leikskáld. Þekktasta verk hans er skáldsagan "Meistarinn og Margaríta" sem ekkja hans lét gefa út árið 1966 en meðan hann lifði var hann fyrst og fremst þekktur sem leikskáld. Verk hans einkennast af gróteskri háðsádeilu þar sem furður blandast við raunsæi. Neptúnín. Neptúnín er geislavirkur málmur með efnatáknið Np og sætistöluna 93. Stöðugasta samsæta þess, 237Np, er aukaafurð sem verður til í kjarnaofnum og við framleiðslu plútons. Snefill af neptúníni finnst líka í úrangrýti. Dmitri Mendelejev hafði spáð fyrir um tilvist efnisins í lotukerfinu en bandarísku eðlisfræðingarnir Edwin McMillan og Philip H. Abelson urðu fyrstir til að einangra það við Lawrence Berkeley National Laboratory árið 1940. Efnið heitir eftir reikistjörnunni Neptúnusi. Töflureiknir. a> var eitt sinn vinsæll töflureiknir Töflureiknir er notendaforrit þar sem hægt er að vinna með gögn í töflu. Hver reitur í töflunni getur innihaldið tölur eða texta eða reikniformúlu sem sýnir til dæmis summu allra gagna í tilteknum dálki eða línu töflunnar, miðgildi, meðaltal o.s.frv. Þar sem útkoma úr útreikningum uppfærist sjálfkrafa þegar gögnum er breytt er auðvelt að nota töflureikna til að gera töluleg líkön og prófa útkomuna miðað við ólíkar forsendur. Nútímatöflureiknar bjóða auk þess upp á margvíslegar aðferðir við myndræna framsetningu gagna í gröfum eins og línuritum og súluritum. Töflureiknar eru í dag yfirleitt hluti af skrifstofuvöndlum ásamt ritvinnsluforritum. Þekktustu töflureiknarnir eru Microsoft Excel, OpenOffice.org Calc og Numbers. Þekktir eldri töflureiknar eru til dæmis VisiCalc, Quattro Pro og Lotus 1-2-3. Sólflúra. Sólflúru (fræðiheiti: "Solea solea") er flatfiskur af sólflúruætt. Útbreiðsla. Sólflúran lifir í Austur-Atlandshaf frá suðurhluta Noregs suður til Senegal í Afríku. Í nánast öllu Miðjarðarhafi og allt að suðvesturhluta Svarthafs. Á veturnar leitar hún í hlýrri sjó í suðurhluta Norðursjávar. (FAO). Hún hefur aldrei fundist á Íslandsmiðum svo vísindilega staðfest sé en erlend skip hafa tilkynnt smá afla (Valtýsson, 2012). Útlit. Sólflúran er fremur smár flatfiskur, algeng stærð er 15 til 45 sentimetrar en getur orðið allt að 70 sentimetrar og hrygnan er iðulega stærri en hængurinn. Til eru dæmi um að sólflúra hafi náð 40 ára aldri og hún verður kynþroska fremur seint eða um 3 til 5 ára aldur. Hún er fremur langvaxin rauðbrún á framhlið og hvít á bakhlið. Lifnaðarhættir. Hún heldur sig í sand og leirbotnum og fyrsta árið heldur hún sig á litlu dýpi, frá sjávarmáli niður á 50 metra dýpi en þegar hún eldist fer hún niður á allt að 300 metra dýpi. (ICES, www.ices.dk) Fæðan hennar er að mestu botnhryggleysingjar, til dæmis burstaormar og smákrabbadýr og smáfiskar. Hún veiðir sér til matar á næturnar og hálf grefur sig í sandinn/leirinn yfir daginn. (FAO) Hrygnan hrygnir um það bil 350 þúsund eggjum á 30 metra dýpi nálægt strandlengju. Hrygning og frjóvgun á sér stað í +10-15° selsíus heitum sjó. Eggið klekst út á 7 - 8 dögum eftir frjóvgun. Seiði halda sig nokkurn veginn sér á sama svæði eftir að klak á sér stað. Merkingar á fiskum hafa ýtt undir þá tilgátu að Sólflúran leiti aftur og aftur á sama hrygningarsvæði (ICES, www.ices.dk). Veiðar. Sólflúran þykir góður matfiskur og er oft á boðstólnum á betri veitingahúsum í Evrópu. Þær þjóðir sem veiða einna mest af Sólflúru eru Hollendingar og Frakkar. Veiðin undanfarin ár hefur verið um 40 þúsund tonn á heimsvísu (FAO). Við veiðar á Sólflúru er mest notuð botnvarpa en eitthvað er um að notast sé við net og þá sérstaklega meðfram strandlengjunni á hrygningartímum en þá leitar fiskurinn á grynnri svæði. Staða stofnsins. Samkvæmt ráðgjöf ICES frá 2012 varðandi helstu veiðisvæði í Norður-Evrópu en utan Miðjarðarhafs virðist koma fram að veiðin sé í flestum tilvikum komin niður undir mörk sjálfbærni og þar sem hún er ekki kominn niður fyrir mörkin eins og til dæmis í Norðursjó þá er hún aðeins rétt fyrir ofan viðmiðunarmörk en við dönsku innhöfin hefur hún oft farið undir mörk sjálfbærni og því um ofveiði að ræða(ICES, www.ices.dk, 2012). Þar sem Sólflúran verður ekki kynþroska fyrr en á aldrinu 3 til 5 ára þá má búast við að ástandið fari ekki batnandi. Varðandi veiðar á sólflúru í Miðjarðarhafi virðist sem fiskveiðistjórnun í Miðjarðarhafinu sé ekki mjög góð og litlar upplýsingar að finna um stöðu stofnsins. Þar sem þar er einnig verið að veiða frekar smáa fiska, bendir það til þess að þar sé stofninn kominn undir mörk sjálfbærni, eins og á öðrum svæðum þar sem Sólflúruna er að finna (Merigot, Letourneur, & Lecomte-Finiger, 2007) Umhverfissamtökin Grænfriðungar hafa sett Sólflúru á "The RED LIST", en þar fara tegundir sem þeir telja að séu í hættu af ofveiði. Samkvæmt þeirra heimildum þá er ástandið betra við Danmörku og vestur Ermasund en mun verra í Norðursjó, austur Ermasund og við írska hafið (http://www.greenpeace.org, 2005). Þetta virðist ekki vera í samræmi við þær upplýsingar, sem minnst var á hér að ofan, sem ef til vill tengist mismunandi rannsóknaniðurstöðum og/eða heimildum. Hins vegar er ljóst að ekki er heppilegt að auka veiði á tegundum, sem Grænfriðungar telja vera í útrýmingarhættu vegna ýmissa aðgerða sem þeir geta gripið til varðandi fiskmarkaði. Heimildir. Greenpeace. (2005). Sótt 30 janúar, 2013, http://www.greenpeace.org/international/en/campaigns/oceans/seafood/red-list-of-species/ FAO.Sótt 30 janúar, 2013, frá http://www.fao.org/: http://www.fao.org/fishery/species/3367/en Britannica. Sótt 30 janúar, 2013, http://www.britannica.com/EBchecked/topic/170348/Dover-sole ICES. (2012). Sótt 4 febrúar, 2013, http://www.ices.dk/committe/acom/comwork/report/asp/advice.asp?titlesearch=&Region=-1&Species=42&Period=316&submit1=Submit+Query&mode=2 ICES. Sótt 8 febrúar, 2013, http://www.ices.dk/marineworld/fishmap/ices/pdf/sole.pdf Merigot, B., Letourneur, Y., & Lecomte-Finiger, R. (2007, 1 maí). Sótt 13 febrúar, 2013, http://business.highbeam.com/437820/article-1G1-171792320/characterization-local-populations-common-sole-solea Hreiðar Þór Valtýsson. (2012). Flatfiskar. Akureyri. Hal Holbrook. Harold Rowe „Hal“ Holbrook (f. 17. febrúar 1925) er bandarískur leikari. Holbrook, Hal Ítalía í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Ítalía tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva reglulega frá 1956 til 1997. Það var eitt af aðeins sjö löndum sem tóku þátt í fyrstu keppninni. Árið 2011 sneri Ítalía aftur til leiks eftir fjórtán ára fjarveru. Juan Mata. Juan Manuel Mata García (fæddur 28. apríl 1988) er spænskur knattspyrnumaður sem spilar með Chelsea F.C.. Mata er fjölhæfur leikmaður, sem getur spilað sem leikstjórnandi á miðjunni, sem og á báðum vængjum vallarins. Mata, Juan Ricoh Arena. Ricoh Arena (Ricoh-leikvangur) er knattspyrnuvöllur í ensku borginni Coventry og er heimavöllur félagsins Coventry City. Leikvangurinn var tekinn í notkun 2005 og er gjarnan notaður fyrir ýmsa viðburði, auk knattspyrnu. Saga leikvangsins. Það var árið 1997 að ákvörðun var tekin um að reisa nýjan knattspyrnuvöll fyrir Coventry City. Í raun reis heil þyrping húsa. Fyrir utan knattspyrnuvöllinn er þar hótel, sýningarhöll, spilavíti og verslunarmiðstöðin Arena Park. Samstæðan var reis 2005-2007 eftir nokkrar tafir. Leikvangurinn átti upphaflega að taka 45 þúsund manns í sæti og vera þannig með stærri leikvöllum Englands. En þegar uppi var staðið var ákveðið að hafa völlinn minni, þannig að hann tekur eingöngu 32 þúsund manns. Byrjað var að leika knattspyrnu á vellinum haustið 2006. Fyrsti landsleikurinn fór fram 6. október 2006 og áttust þá við England U21 og Þýskaland U21 sem England vann 1-0. Samstæðan öll, þar á meðal völlurinn, var formlega opnuð 24. febrúar 2007 af hlaupakonunni Kelly Holmes og íþróttamálaráðherra landsins Richard Caborn. Heitið. Heitið Ricoh kemur frá aðalstyrktaraðila samstæðunnar, fjölföldunarfyrirtækinu Ricoh. Upphaflega stóð til að bílaverksmiðjan Jaguar yrði styrktaraðilinn og átti leikvangurinn að heita Jaguar Arena, en samningur við fyrirtækið var leyst upp 18 mánuðum eftir að hann var gerður. Samningurinn við Ricoh var undirritaður 26. apríl 2005 og voru framkvæmdir við samsteypunnar þegar vel á veg komnar. Íþróttasaga. Ricoh Arena varð heimavöllur Coventry City í upphafi leiktíðar 2005-2006, en þá var leikvangurinn ekki að fullu kláraður. Áður hafði liðið leikið sína leiki á Highfield Road. Fyrsti leikurinn var gegn QPR í B-deildinni (20. ágúst) og vannst hann 3-0. Fyrsti tapleikur liðsins á Ricoh-leikvanginum var 24. september sama ár gegn Hull City 0-2. Áhorfendamet vallarins var slegið 7. mars 2009 í bikarleik Coventry City og Chelsea, sem hinir síðarnefndu unnu 2-0, en 31.407 manns sóttu leikinn. Tæknilega séð var uppselt, því stúkur voru enn í smíðum á þessum tíma. Þegar framkvæmdum var lokið er rúm fyrir 32.609 manns. 21. maí 2011 var völlurinn notaður fyrir úrslitaleik bikarkeppninnar kvenna í knattspyrnu en þá sigraði Arsenal Ladies. Á Ólympíuleikunum 2012 var völlurinn notaður fyrir knattspyrnuleiki, bæði í karla- og kvennaflokki. Af öðrum íþróttum sem nota völlinn má nefna rúgbý og ruðning. Tónleikar. Áætlað er að Muse og Bruce Springsteen muni halda tónleika í leikvanginum árið 2013. Betlehem. Betlehem (arabíska: بيت لحم‎ "Bēt Laḥm"; hebreska: בֵּית לֶחֶם‎ "Bēṯ Leḥem"; gríska: Βηθλεὲμ, "Beþleem") er borg í Palestínu á Vesturbakkanum rétt sunnan við Jerúsalem. Íbúar eru um 25.000. Í hebresku biblíunni er Betlehem nefnd sem heimabær Davíðs og í Nýja testamentinu er Betlehem fæðingarstaður Jesú. Efnahagslíf borgarinnar byggist aðallega á ferðaþjónustu. Þar eru bæði Fæðingarkirkjan sem kristnir pílagrímar sækja og gröf Rakelar sem gyðingar líta á sem sinn þriðja mesta helgidóm. Nasaret. Nasaret (hebreska: נָצְרַת "Natzrat" eða "Natzeret"; arabíska: اَلنَّاصِرَة‎ "an-Nāṣira" eða "an-Naseriyye") er stærsta borgin í Norðurumdæmi Ísraels og þekkt sem „arabísk höfuðborg Ísraels“ þar sem meirihluti íbúa eru arabar, þar af um 70% múslimar og um 30% kristnir. Íbúar eru rúmlega 80.000 talsins. Í Nýja testamentinu er Nasaret lýst sem heimabæ Jesú og því er borgin vinsæll viðkomustaður kristinna pílagríma. Doktor Mugg. "Doktor Mugg" er sænskur barnasjónvarpsþáttur. Hann var sýndur á sænsku sjónvarpsstöðinni TV4 frá 2001 til 2005. Forsætisráðherra Kúbu. Forsætisráðherra Kúbu var staða í ríkisstjórn Kúbu frá því stjórnarskrá Kúbu var tekin upp 1940 þar til ný stjórnarskrá var tekin upp 1976. Þá voru embætti forseta og forsætisráðherra sameinuð í eitt. Fyrsti forsætisráðherra Kúbu var Carlos Saladrigas Zayas, frændi fyrrum forseta Alfredo Zayas. Fulgencio Batista var bæði forseti og forsætisráðherra í einn mánuð 1952 í kjölfar valdaráns en ríkti síðan sem einræðisherra til 1959 þegar honum var steypt af stóli í byltingunni. Skömmu eftir byltinguna tók Fidel Castro við embættinu en Osvaldo Dorticós Torrado varð forseti. Flensborgarskóli. Flensborgarskóli er framhaldsskóli í Hafnarfirði. Upphaflega var skólinn stofnaður sem barnaskóli 1877 með gjöf jarðarinnar Hvaleyrar. Skólinn fékk bréf frá stiftsyfirvöldum 18. febrúar 1878 og hóf starfsemi haustið eftir. Árið 1882 var honum breytt í alþýðu- og gagnfræðaskóla. Þar varð til fyrsti vísir að kennaramenntun á Íslandi. Árið 1970 tóku framhaldsdeildir til starfa við skólann og árið 1978 var honum breytt í fjölbrautaskóla. Il manifesto. "Il manifesto" er ítalskt dagblað með höfuðstöðvar í Róm sem aðhyllist kommúnisma en er ótengt stjórnmálaflokkum. Upphaflega var það stofnað af nokkrum róttækum blaðamönnum 1969 sem mánaðarrit en var breytt í dagblað 28. apríl 1971. Dagblaðið er þekkt fyrir snjalla háðsádeilu í fyrirsögnum. Pési Rófulausi og fjársjóðsleitin. "Pési Rófulausi og fjársjóðsleitin" er teiknimynd frá 2000. Hún er framhald Pésa rófulausa. Myndin fjallar um köttinn Pésa sem missti rófuna þegar að rotta beit hana af. Hann fréttir af fjársjóð í dómkirkjunni í Uppsölum og fer þangað til að finna fjársjóðskortið. Drömkåken. "Drömkåken" er sænsk gamanmynd sem kom út árið 1993. Peter Dalle leikstýrði myndinni. Kalle Stropp, Grodan Boll och deras Vänner. "Kalle Stropp, Grodan Boll och deras vänner" er sænsk kvikmynd sem kom út árið 1956, byggð á útvarpsþáttaröðinni "Kalle Stropp och Grodan Boll". Handritið var skrifað af Thomas Funck en leikstjórinn var bróðir hans Hasse Funck. Paul Simon. Paul Frederic Simon (f. 13. október, 1941) er bandarískur tónlistarmaður sem er aðallega þekktur fyrir tónlist sem byggist á þjóðlagatónlist og heimstónlist. Hann náði upphaflega vinsældum ásamt félaga sínum Art Garfunkel í dúettinum Simon & Garfunkel sem þeir stofnuðu árið 1964. Simon samdi flest lög dúettsins, þar á meðal smellina „The Sound of Silence“, „Mrs. Robinson“ og „Bridge Over Troubled Water“. Þeir hættu samstarfi árið 1970 og Simon hóf þá sólóferil þar sem hann náði miklum vinsældum með hljómplötunum "Paul Simon" 1972 (lög á borð við „Me and Julio Down by the Schoolyard“), "There Goes Rhymin' Simon" 1973 (lög á borð við „Kodachrome“ og „Loves Me Like a Rock“) og "Still Crazy After All These Years" 1975 (lög á borð við „50 Ways to Leave Your Lover“). Allt urðu þetta metsöluplötur en "One-Trick Pony" sem kom út 1980 seldist mun síður. Eftir nokkurt hlé sneri hann aftur með tónlist sem var innblásin af suðurafrískri alþýðutónlist á "Graceland" 1986 sem varð vinsælasta sólóplata hans. Hann fylgdi henni eftir með "The Rhythm of the Saints" 1990 sem var tekin upp í Brasilíu með afrískum og brasilískum tónlistarmönnum. Eftir það hefur hann gefið út "You're the One" 2000, "Surprise" (með Brian Eno) 2006 og "So Beautiful or So What" 2011. Paul Simon hefur einnig fengist við kvikmyndaleik. Hann lék í kvikmynd Woody Allen, "Annie Hall", árið 1977 og aðalhlutverkið í "One Trick Pony" árið 1980 þar sem hann skrifaði líka handrit og samdi öll lög myndarinnar. Árið 1998 var frumsýndur söngleikur eftir Simon, "The Capeman", byggður á ævi glæpamannsins Salvador Agrón, en viðtökur við honum voru dræmar. Simon hefur hlotið Grammýverðlaun tólf sinnum. Hann var fyrsti handhafi Gershwin-verðlaunanna árið 2007. Bonifasíus 3.. Bonifasíus 3. var páfi frá 19. febrúar 607, þar til hann lést 12. nóvember sama ár. Þrátt fyrir þennan stutta tíma í embætti kom hann á tvennum mikilvægum umbótum varðandi embættið. Það fyrsta var að banna allar umræður um eftirmann páfa fyrir andlát hans að viðlagðri bannfæringu og að páfakjör mætti ekki hefjast fyrr en þremur dögum eftir jarðarför fyrri páfa. Hið síðara var að fá Fókas keisara í Býsantíum til að samþykkja að biskupsdæmi heilags Pétur skyldi vera yfir öllum kirkjum heims. Þannig varð páfinn í róm „alheimsbiskup“ og Kyriakos 2. patríarki í Konstantínópel gat ekki lengur gert tilkall til þess titils. 607. 607 var 7. ár 7. aldar og hófst á sunnudegi samkvæmt júlíska tímatalinu. 1061-1070. 1061-1070 var 7. áratugur 11. aldar. Þrjótrunn. Þrjótrunn er tilbúið tungumál. Texti dæmi. Faðir vor Þrjótrunska á nútíma ítalska útgáfu "Patir nostir, tú tög er í kjal," "Oltirsa tvo sjá þátt, kæsig í tjarr tög í kjöl." "Dátu næfur höði köttiðun pánsu nostur." "Perdóttu næfur défitsu nostur tög eð nær perdóðmur dæftrissir nöstir." "Ídýktu nær né í tjattatjón, már lifratu nær á möld." "Kvor tví ert rægnsu, potirsu eð glærsa hákur eð itinmett." 1051-1060. 1051-1060 var 6. áratugur 11. aldar. Wikilífverur. Wikilífverur er eitt af verkefnum Wikimedia-stofnunarinnar sem gengur út á það að byggja upp frjálsa skrá yfir allar lífverur. Eins og önnur verkefni Wikimedia notast Wikilífverur við wiki sem keyrður er á MediaWiki-kerfinu. Skýrr. Skýrr var stórt upplýsingafyritæki á íslenskum mælikvarða, með starsfemi í Reykjavík og á öðrum stöðum. Skýrr varð til sem einkafyrirtæki við einkavæðingu opinbers fyrirtækis stofnað um miðja 20. öld. Fyrirtækið hét á tímabíli Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Í janúar 2012 var Skýrr sameinað önnur fyrirtæki, meðal annars fyrirtæki fyrir utan landsteinana, og var nafninu breytt í Advania. Leikmannabiblía. Leikmannabiblía eða Biblia Laicorum er kristnifræðibók sem Guðbrandur Þorláksson þýddi úr þýsku eftir verki Johanns Aumanns frá Saxlandi og prentaði á Hólum árið 1599. Guðbrandur keypti 27 tréskurðarmyndir frá Þýskalandi til að nota í bókina og fleiri bækur sem hann lét prenta. Bókin er mjög fágæt. Hún er spurningakver sem fylgir Fræðunum minni eftir Lúther. Halaveðrið. Halaveðrið kallast illviðri, sem varð á Halamiðum 7. - 8. febrúar 1925 út af Vestfjörðum. Veðrið brast á mjög snögglega um hádegið og umhverfðist sjórinn í einu vetfangi og varð ekki við neitt ráðið. Tveir togarar fórust. Það voru Leifur heppni og Fieldmarshal Robertson en þeir voru við veiðar skammt hvor frá öðrum og þau skip sem næst voru misstu fljótlega sjónar af þeim. Leifur heppni var með talsverðan afla en ekki er vitað um hitt skipið. Óveðrið stóð yfir í hálfan annan sólarhring. Á Leifi heppna voru 33 íslenskir menn. Á Fieldmarshal Robertson voru 29 Íslendingar en auk þess voru á skipinu sex Englendingar. Ferdinand 2. stórhertogi. Ferdinand 2. de' Medici (14. júlí 1610 – 23. maí 1670) var stórhertogi af Toskana frá 1621 til dauðadags. Hann var elsta barn Kosimós 2. stórhertoga og Kristínu af Lorraine. Hann hafði mikinn áhuga á nýrri tækni og lét setja upp alls kyns mælitæki og sjónauka í Pitti-höll. Hann tók líka þátt í Castro-stríðunum gegn Úrbanusi 8. páfa. Stríðsreksturinn veikti efnahag ríkisins verulega. Valdatíð hans er talin marka upphaf efnahagslegrar hnignunar stórhertogadæmisins Toskana. Ammóníumsýaníð. Ammóníumsýaníð er óstöðugt ólífrænt efnasamband með efnaformúluna NH4CN. Það brotnar niður í ammóníak og blásýrugas (vetnissýaníð) og er því mjög eitrað. Það er aðallega notað í lífrænum efnahvörfum. Christchurch. Christchurch (maoríska: "Ōtautahi") er stærsta borg Suðureyjar Nýja Sjálands og þriðja stærsta þéttbýlissvæði landsins. Íbúar eru yfir 360.000 talsins. Borgin var byggð af félögum úr Canterbury Association sem sáu fyrir sér borg utanum kirkju og skóla, svipað og Christ Church í Oxford þar sem nokkrir þeirra höfðu numið. Nafnið var ákveðið áður en þeir sigldu til landsins, eða 1848. Borgin var sú fyrsta á Nýja Sjálandi sem fékk konungsbréf árið 1856. Christchurch varð fyrir nokkrum mjög stórum jarðskjálftum 2010 til 2012. Sá stærsti, sem átti sér stað 4. september 2010, var 7,1 á Richter og olli miklu eignatjóni. Hálfu ári seinna, 22. febrúar 2011, varð annar jarðskjálfti upp á 6,3 á Richter sem varð til þess að 185 manns létust í borginni og tjónið varð enn meira en í fyrri skjálftanum. Sendiherra. Sendiherra er ríkiserindreki sem kemur fram sem fulltrúi eins lands í öðru landi eða hjá alþjóðastofnun. Yfirleitt er sendiherra skipaður við tiltekið sendiráð í öðru landi með umboð fyrir ákveðið landsvæði. Á því landsvæði nýtur hann og aðrir starfsmenn sendiráðsins friðhelgi. Þess er krafist þegar nýr sendiherra tekur til starfa að hann afhendi þjóðhöfðingja í ríkinu þar sem hann á að starfa erindisbréf sitt. Sendiherrar, eða ígildi þeirra, eru sendir til allra landa sem viðkomandi land á í stjórnmálasambandi við. Fyrir tíma nútímafjarskipta gátu sendiherrar haft mjög mikil völd en nú eru þeir yfirleitt aðeins talsmenn utanríkisráðuneytis ríkisins sem þeir starfa fyrir. Í Samveldi sjálfstæðra ríkja nefnast sendifulltrúar sem fara milli landa innan samveldisins samveldisfulltrúar (enska: "high commissioner"). Sendifulltrúar páfagarðs nefnast postullegir erindrekar (latína: "nuntius"). Hjalti Rúnar Jónsson. Hjalti Rúnar Jónsson (3. júní 1990) er íslenskur leikari. Hann hóf feril sinn á því að leika í kvikmyndinni Perlur og svín en varð þó ekki þekktur fyrr en eftir að hafa farið með aðalhlutverkið í Ikíngut. Hjalti Rúnar ólst upp á Laugum þar sem hann sigraði Tónkvíslina árið 2008 á sínum framhaldsskóla árum. Síðan þá hefur hann aðallega starfað við leikhús. Meðal annars í Óvitum, Lilju, Rocky Horror, Hárinu og fleiru hjá Leikfélagi Akureyrar, Date hjá Silfurtunglinu og síðast en ekki síst fjöldanum öllum af skólaleikritum hjá Framhaldsskólanum á Laugum. Illviðri. Illviðri á við óvanalega slæmt veður með miklu hvassviðri, sem ósjaldan veldur eignatjóni og jafnvel manntjóni. Breta og Germanna Ísraelshyggja. Breta og Germana Ísraelshyggja (eða "Christian Identity" á ensku) er kristin kynþáttahyggja sem byggist á því að kynþættir Norður-Evrópu séu hinir raunverulegu afkomendur forn Ísraela. Samkvæmt Chester L. Quarles, prófessors í sakamálafræði við háskólann í Mississippi, halda sumir fylgjendur BGÍ hreyfingarinnar að þjóðir sem eru ekki af kákasus kynþætti hafi ekki sálir, og geta því aldrei fengið náð Guðs eða vera vistað í himnaríki. Trúaðir fylgjendur staðhæfa að Jesús Kristur dó aðeins fyrir syndir Ísraelsmanna og Júdamanna og að hjálpræði verður að berast í gegnum bæði innlausn synda og rétts kynþættáttar. Bolton. Bolton er borg í Norðvestur-hérað Englands og tilheyrir stórborgarsvæði Manchester. Íbúar eru um 140 þúsund. Þrátt fyrir stærðina hefur Bolton aldrei hlotið almenn borgarréttindi. Lega og lýsing. Bolton liggur yst á mörkum Stór-Manchestersvæðisins, en miðborg Manchester liggur aðeins 15 km til suðausturs. Aðrar stærri borgir nálægt Bolton eru Blackburn til norðurs (15 km), Preston til norðvesturs (20 km) og Liverpool til suðvesturs (30 km). Í Bolton er mikill iðnaður, en stór iðnaðarsvæði eru sérlega áberandi í austurhluta borgarinnar við dalbotn árinnar Croal. Orðsifjar. Heitið Bolton er dregið af gömlu ensku orðunum "bothel" og "tun". Bothel er sérstök bygging eða hús. Tun er gamalt orð yfir "bæ" (sbr. town í nútímaensku). 1185 er bærinn ritaður Boelton og 1212 Bothelton. Heitið breytist Bowelton, Botelton og Boulton áður en rithátturinn breytist í Bolton. Íbúarnir eru kallaðir Boltonians. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Bolton er rauður skjöldur með tveimur gullnum þverröndum. Efst til hægri er ör, næla og vefaraprik, allt gulllitað. Neðst til rauð rós á gullnum smáskildi. Þverrendurnar eru gamlar og er merking þeirra ekki þekkt. Hugsanlega eru þær belti hermanns. Skjaldarberarnir eru tvö svört ljón frá Flæmingjalandi til að minnast þess að það voru Flæmingjar sem færðu borgarbúum vefnaðinn. Nælan og vefaraprikið eru einnig tákn um vefnaðinn mikla í borginni á 19. öld. Ljónin halda á flöggum ríkjandi ætta (jarlanna í Derby og herragarðsins í Bolton). Örin er til tákns um þátttöku íbúa Bolton í orrustunni við Flodden Field 1513 en rósin er tákn Lancashire, sem Bolton tilheyrði í nokkrar aldir. Fíllinn efst var upphaflega tekinn úr merki Coventry, en Bolton var eitt sinn í biskupsdæminu Mercia, en höfuðstaður þess var Coventry. Neðst er borði með áletruninni: SUPERA MORAS, sem merkir "að yfirstíga tafir". Bolton-super-Moras er gamla latneska heiti borgarinnar. Skjaldarmerkið var veitt 5. júní 1890. Saga Bolton. Jarlinn af Derby (James Stanley) Swan Lane Mills, ein af spunaverksmiðjunum í Bolton Bolton kom fyrst við skjöl 1067 og kallaðist þá Bolton-le-Moors. Herrasetur var á staðnum og bjuggu þar lengst af ættmenn jarlsins af Derby. Svæðið var á þessum tíma skipt í tvennt, Great Bolton og Little Bolton, en áin Croal skildi á milli. Í kringum herrasetrið myndaðist svo bær. 1251 veitt Hinrik III konungur bænum markaðsréttindi og varð hann eigið sveitarfélag innan Lancashire. Flæmskir vefarar settust að í Bolton 1337 og komu af stað umfangsmiklum vefnaði, sem og framleiðslu á klossum. Vefnaðurinn varð mikil lyftistöng fyrir bæinn næstu aldir. Fleiri flæmingjar fluttust til Bolton á 17. öld er þeir flýðu ofsóknir á hendur húgenottum í heimalandi sínu. Sökum þessa var Bolton algerlega á bandi lýðveldissinna og púrítana í ensku borgarastyrjöldinni. Jarlinn af Derby fór því þangað með 10 þúsund manna herlið 28. maí 1644 og nær gjöreyddi bænum. 1.500 manns voru drepnir og 700 teknir til fanga. Atburður þessi gekk í sögubækurnar sem Bolton Massacre (fjöldamorðin í Bolton). Þegar borgarastríðinu lauk var jarlinn sóttur til saka og tekinn af lífi í bænum. Segja má að iðnbyltingin hafi hafist í bænum er spunavél var smíðuð þar 1779 af Samuel Crompton (fæddur í Bolton). Vefnaður jókst þá til muna og blómstraði hann alla 19. öldina. Fyrir flutninga var skipaskurður grafinn til Manchester 1791 og járnbrautartenging þangað 1828. Árið 1911 voru 36 þús manns starfandi í vefnaðargeiranum. Iðnaður þessi hrundi ekki fyrr en á þriðja áratugnum. 26. september 1916 varð Bolton fyrir einni fyrstu loftárás sögunnar er Zeppelin-loftfar varpaði 21 sprengju á bæinn. Bolton kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni síðari. Þá tók við annars konar iðnaður og þjónustugreinar ýmiss konar. 2004 var háskólinn University of Bolton stofnaður. Bærinn hefur allt til dagsins í dag ekki hlotið borgarréttindi. Great Bolton og Little Bolton voru sameinaðir í eitt sveitarfélag 1838 og hefur bærinn verið stækkaður nokkru sinnum síðan. 2011 sótti bærinn um borgarstatus en var meinað. Íþróttir. Í Bolton fer árlega fram keppnin Ironman-UK, en það er breska landskeppnin í þríþraut. Hér er um sund, hjólreiðar og hlaup að ræða. Keppnin í Bretlandi hófst 2005 í Sherbourne en var færð til Bolton 2009, þar sem hún hefur farið fram síðan. Síðan 2010 fer sundið þó fram í nágrannaborginni Wigan. Helsta knattspyrnulið borgarinnar er Bolton Wanderers. Það hefur leikið í 73 ár í efstu deild án sigurs, lengur en nokkurt annað enskt félag. Að öðru leyti hefur liðið fjórum sinnum unnið bikarkeppnina, síðast 1958. Tveir Íslendingar hafa leikið með liðinu: Guðni Bergsson (1995-2003) og Grétar Steinsson (2008-12). Hokkí, krikket og rúgbý skipa einnig stóran sess í íþróttasögu borgarinnar. Byggingar og kennileiti. Kráin Ye Olde Man & Scythe Réttstöðulyfta. Réttstöðulyfta er grein kraftlyftinga sem felst í því að lyfta lyftingastöng af gólfi með því að beygja sig niður, grípa um stöngina og rétta svo úr sér. Aðrar greinar kraftlyftinga eru bekkpressa og hnébeygja. Born to Sing. "Born to Sing" var framlag Íra til Söngvakeppni Evrópu 1978, flutt á ensku af Colm C. T. Wilkinson. Lagið fékk 86 stig, þar á meðal fjórum sinnum 10 stig í einu frá einu landi og var þetta það lag sem fékk oftast 10 stig í þessari keppni. Lagið endaði í fimmta sæti. Írska dómnefndin gaf Ítalíu 10 stig og var þetta þriðja árið í röð sem að Ítalía fékk hæstu stigin sín frá Írlandi. Íslenska Wikipedia. Íslenska Wikipedia var stofnuð 5. desember 2003 og er íslensk útgáfa af Wikipediu. Jyrki Katainen. Jyrki Tapani Katainen (fæddur 14. október 1971) er forsætisráðherra Finnlands og formaður Kokoomus. Katainen, Jyrki Alþjóðlega góðtemplarareglan. Alþjóðlega góðtemplarareglan (enska: "International Organisation of Good Templars" eða IOGT) eru alþjóðleg bindindissamtök stofnuð í Bandaríkjunum árið 1850. Skipulag reglunnar byggist á Frímúrarasamtökunum. Hún breiddist fyrst út í Bandaríkjunum, Kanada og nýlendum Breta og Norður-Evrópu. Góðtemplarareglan barst til Íslands frá Noregi 1884 og Stórstúka Íslands var stofnuð 25. júní 1886. Paharímál. Paharímál er flokkur indóevrópskra tungumála sem eru töluð í hlíðum Himalajafjalla. Þau eru skrifuð með devanagari stafrófi og skiptast í þrjú landsvæði, vestur, mið og austur. Helst þeirra eru nepalska, garhvalí og kúmaní. Bantúmál. Bantúmál eru undirflokkur nígerkongótungumála sem töluð eru í Afríku sunnan Sahara. Þau tilheyra flokki atlantíkkongótungumála. Þau voru lengi talin sérstök málaætt en eru nú venjulega eignuð benúe-kongó grein níger-kordófan málaættarinnar. Bantú-mál telja um 250. Bemba. Bemba er bantúmál sem er einkum talað í Norðaustur-Sambíu af Bemba-ættbálknum. Það er ritað með latínustafrófi og hefur 3,6 milljónir málhafa. Kvamál. Kvamál eru um 800 níger-kongó mál töluð í suðurhluta Vestur-Afríku í Nígeríu, Benín, Gana og Tógó. Mikilvægust þessara mála eru jarúba (17 m), igbó (15 m), akan (8 m), íví (3 m) og adjó (1-2 m). Þessi mikla fjölbreytni tungumála á svo víðáttumiklu svæði hefur leitt til myndunar margra blendingsmála, auk þess sem enska og franska eru þar enn í dag opinber mál. Úgrísk tungumál. Úgrísk tungumál eru önnur grein úrölsku málaættarinnar finnsk-úgrískra mála en hin er samojedísku málin. Finnsk-úgríska greinin hefur aftur tvær greinar, fennísk mál og úgrísk mál. Úgríska greinin hefur enn tvær greinar, ob-úgrísk tungumál og á hinni greinini er aðeins ungverska. Ob-úgrísku málin eru kantí, mansí, ostjak og vógúl. „Ob“ vísar til fljóts með því nafni. Pamírmál. Pamírmál eru um einn tugur íranskra tungumála sem töluð eru í Pamírfjöllum í Norðaustur-Afganistan. Málin eru skyld pastú og fjarskyld persnesku. Aðeins um 100 þúsund manns munu í dag tala þessi mál og teljast þau vera í útrýmingarhættu. Af einstökum pamírmálum má nefna súgíní, sarikólí, jasgúlíam, múndí, isgasímí, vakí og jadiga. Núristaní. Kafírí er úrelt heiti á núristaní mállýskum. Kaffíristan var kallað hérað í Austur-Afganistan og mál þeirra kafírí en eftir að fólk þetta tók við múhammeðstrú kringum 1896 var nafni héraðsins breytt í Núristan og málinu í núristaní. „Kaffír“ þýðir „siðvillingur“ á arabísku og að virðist sem tökuorð í ýmsum málum múslíma. Núristan-fólkið mun skylt Kalahassí fólkinu sem enn heldur í fjölgyðistrú sína þar um slóðir. Ye Olde Trip to Jerusalem. Ye Olde Trip to Jerusalem er elsti pöbbinn í Englandi Je Olde Trip to Jerusalem (eða bara The Trip) er krá í ensku borginni Nottingham og gerir tilkall til að vera elsti pöbbinn í Englandi. Saga. Húsið er reist upp við sandsteinskletta Talið er að kráin hafi verið stofnuð 1189, þótt ekki sé það vitað nákvæmlega. Þrátt fyrir það er ártalið málað á útveggi hússins og auglýst sem elsti pöbbinn í Englandi. Nokkrir aðrir pöbbar gera reyndar einnig tilkall til þess sama, þar á meðal tveir aðrir pöbbar í Nottingham (Ye Olde Salutation Inn og The Bell Inn). Húsið var reist við einn inngang að sandsteinshellunum í borginni og eru nokkrir hellar meira að segja hluti af innréttingu hússins. Nokkrar drykkjustofur krárinnar eru inni í hellum, sem og bjórgeymslan. Undir húsinu eru fleiri hellar og voru þeir upphaflega notaðir sem bruggstaður. Heitið er tilkomið sökum þess að Ríkharður ljónshjarta fór í krossferð til landsins helga á þessum tímum. Sagan segir að margir fylgismenn hans frá norður Englandi hafi komið við í kránni og fengið sér neðan í því á leið til herliðs konungs. Sumir halda því meira að segja fram að Ríkharður hafi sjálfur drukkið öl í húsinu á leið sinni til Jerúsalem, en það er trúlega ýkt. Á hinn bóginn kom Ríkharður til Nottingham eftir krossferð sína er hann hertók kastalann, en engar heimildir eru fyrir því að hann hafi nokkru sinni stigið fæti í krána. Innréttingar. Mestur hluti innréttinganna eru nútímalegar, þ.e. dæmigerðar fyrir enskan pöbb. Ýmsar skreytingar minna þó á riddaratíðina og krossferðir. Í kránni eru nokkrir gamlir áhugaverðir munir. Einn munanna er gamalt skipsmódel sem bölvun hvílir yfir (The Cursed Galleon). Sagt er að allir þeir sem hafa hreinsað það eða dustað ryk af því hafi látist á sviplegan hátt. Þar af leiðandi hefur skipið legið óhreyft í langan tíma og safnað óhreinindum. Til að koma í veg fyrir að rykflykki detti af því og ofan í bjórglös, var skipið sett í glerbúr, þar sem það fær að vera í friði. Í dag sér varla í skipið sökum ryklags. Í kránni er einnig ævagamall kollur. Sagt er að ef kona sest á hann aukist líkur á því að hún verði ólétt. Annað. Kráin er öllum opin. Þangað flykkjast ferðamenn, bæði til að fá sér bjór og til að skoða. Skoðunarferðir eru farnar um húsið og hellana með reyndum leiðsögumönnum. Grelutóttir. Grelutóttir [krɛlʏtʰouhtɪr] eru tóftir við Hrafnseyri í Arnarfirði á Vestfjörðum. Nafn sitt draga þær líklegast af Grelöðu Bjartmarsdóttur sem kemur fram í Landnámabók en nafngiftin er að öllum líkindum ný. Samkvæmt Landnámabók var Grelöð kona Áns Rauðfelds sem numu saman land í Arnarfirði eftir að hafa keypt af Erni nokkrum. Jörðin sem Grelöð og Ánn keyptu hefur nefnst Eyri og staðið á eyrinni við núverandi Hrafnseyrará en síðar verið flutt upp fyrir sjávarbakka í hvamminn þar sem hann stendur nú. Þar hefur síðar búið Hrafn Sveinbjarnarson úr samnefndri íslendingasögu en í dag er bærinn kallaður Hrafnseyri. Þess má geta að Jón Sigurðsson, sjálfsstæðishetja, fæddist á Hrafnseyri þann 17. Júní 1811. Forkannanir. Árið 1882 hélt Sigurður Vigfússon fornfræðingur til Hrafnseyris í leit að söguminjum. Hann áleit að þáverandi bæjarhús í Hvamminum væri upphafleg staðsetning bæjarins og minnist ekki á rústir á eyrinni. Þjóðminjavörður lét árið 1973 grafa skurð eftir stærstu rústinni endilangri og þegar mannvistarleifar komu í ljós lét hann friðlýsa það sem eftir stóð af svæðinu, en á árunum 1950-1960 hafði stórt svæði austan við Grelutóttir verið lagt undir nýrækt og líkur eru á að einhverjar rústir hafi skemmst við rótið. Fornleifauppgreftir. Fornleifauppgreftir á Grelutóttum tóku sér stað á árunum 1977 og 1978. Á þessum árum höfðu mjög fáir uppgreftir verið gerðir á Vestfjörðum en landnámsbær fannst við uppgröftinn. Hvort þetta sé raunverulegur landnámsbær Grelaðar og Áns má setja spurningamerki við en Landnáma er skrifuð mun síðar en meint Landnámstímabil var á Íslandi. Landnám á Eyri hefur verið tímasett með mismunandi aðferðum í kringum árið 900 e. Kr. en búseta þar hefur ekki verið lengi og hann hefur verið yfirgefinn um eða fyrir árið 1000 e. Kr. Mögulegt er að bæjarlækurinn hafi átt þar hlut að máli en niðurstöður sýna að hann hefur átt það til að flæða yfir bakka sína með tilheyrandi eyðileggingu. Hefur þótt hagkvæmt að flytja bæinn ofar og í hvamminn. Á Íslandi er mikil hefð fyrir aldursgreiningum með gjóskulagafræði og þykja þær mjög áreiðanlegar. Á Vestfjörðum er hinsvegar lítið um gjóskulög svo bærinn var tímasettur út frá C-14 aldursgreiningu, gerðfræði hluta (e.), jarðlagafræði og rituðum heimildum. Eyri í Arnarfirði hefur verið miðlungsbær en fundist hafa bæði stærri bæir og minni. 1977. Frá 21. júní – 12. ágúst árið 1977 hrinti Þjóðminjasafnið af stað uppgrefti undir stjórn Mjallar Snæsdóttur, Guðmundar Ólafssonar og Kristínar Sigurðardóttur í tilefni yfirvofandi dánarafmælis Jóns Sigurðssonar. Grafnar voru upp 4 rústir, Víkingaaldarskáli, bakhús/viðbygging, jarðhús og smiðja. "Skáli (Rúst I):" Veggir skálans eru mjög eyddir enda hlaðnir að mestu úr mold og að einhverjum hluta úr torfi. Innanmál hans eru 13.4 m x 5.4 m þar sem hann er breiðastur. Að utanmáli spannar hann 16 m á langhliðina. Inngangurinn hefur líklegast verið þiljaður með minni hurð í þilinu. Hlað er fyrir utan inngang úr stórum hellum. Í skálanum fannst mögulegt búr í vesturenda þar sem voru leifar af brenndum beinum og sáför þar sem ílát til geymslu hafa líklegast staðið. Eldstæði er í skálanum miðjum og í skálanum fundust alls 2 sörvistölur, 1 krít, 1 tinna, 1 jaspis, 3 járnhlutir, 1 grýtubrot, 5 naglar og 3 brýni. MYND "Bakhús (Rúst II)": Bakhús hefur verið reist síðar úr skálanum til norðurs. Skálinn hefur annaðhvort verið nýtt búr eða svefnklefi. Bakhúsið er 4 m x 3 m að innanmáli. Ekkert fannst sem benti til ákveðinnar notkunar en þar fundust 5 grýtubrot úr erlendu klébergi, 2 naglar, 3 jaspisar 1 tinnumoli auk 4 járnhluta undir vesturvegg þess. "Jarðhús 1 (Rúst III)": Stendur samsíða suðurvegg skálans og áfast honum en inngangur er líklegast utan frá. Inni í jarðhúsinu fannst ofn í suðvesturhorni, algjörlega hruninn, en húsið sjálft er 4.2 m x 2.5 m og hefur verið grafið um 1.2 m niður fyrir þáverandi yfirborð. Lítur út fyrir að bæjarlækurinn hafi flætt út fyrir bakka sína og yfir jarðhúsið, að skálanum austanverðum með þeim afleiðingum að jarðhúsið hefur hálffyllst af möl og grjóti. Í jarðhúsinu fundust 1 nagli, 1 brýnisbrot, 1 gref, 1 hnöttóttur fjörusteinn með gati, 1 járnkrókur og 1 járnnagli. "Smiðja 1 (Rúst IV)": Fannst vegna þess að glytti á gjallmola og viðarkol í grasrótinni og þegar henni var flett af fannst gólflag. Smiðjan er 8 m x 4.4 m þar sem það er breiðast að innanmáli en veggjarmörk til vesturs eru vafasöm. Í smiðjunni fundust hlutir sem benda sterklega til þess að bræðsluofn hafi staðið í henni til að vinna járn úr mýrarrauða en einnig fundust þar brot úr bollasteinum og naglalöð með þremur götum til að slá nagla. Einnig hefur löðin virkað sem klaufjárn. 1978. Frá 26. júní – 10. ágúst ári síðar hélt Guðmundur Ólafsson áfram fornleifauppgrefti á Grelutóttum og fundust þá annað jarðhús og önnur smiðja. "Jarðhús II (Rúst V):" Liggur um 30 m suðaustur af skálanum og 12 m austur frá Smiðju 1. Tvö byggingarskeið eru innan þessa jarðhúss, hið upprunalega jarðhús og svo síðara byggingarstig sem er grafið ofan í rúst þess löngu eftir að notkun hins fyrra var hætt. Jarðhúsið er 3.9 m x 2.4 m og er grafið niður um 1.2 m miðað við þáverandi yfirborð. "Fyrra byggingarskeið:" Í suðvesturhorni jarðhússins eru leifar af ofni sem er mun stærri en ofninn úr jarðhúsi 1. Í jarðhúsinu fundust 1 brýnisbrot, 1 hnífur, kljásteinar og rauður jaspis. Guðmundur hefur giskað á að Jarðhús 2 hafi verið kljásteinavefstaður auk baðhúss, en algengt hefur verið í öndverðu að baðhús hafi haft margvíslegt notagildi. "Síðara byggingarskeið:" Þar fannst helmingur steypts járnpotts og bendir til að einhverjir hafi hafist við í holunni og eldað mat. Mögulega stóð yfir létt yfirbygging eða eins konar byrgi. "Smiðja 2 (Rúst VI):" Bæjarlæknum hefur einnig tekist að flæða yfir þessa byggingu og gera nær ósýnilega en byggingin fannst út frá loftmynd um 30 m suðvestur af skálanum. Smiðjunni virðist hafa veirð skipt upp í 5 ólík svæði en í honum hefur staðið skálofn. Engir munir fundust í smiðju 2. Texti landnámu. ǫrn hét maðr ágætr; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svá vítt sem hann vildi; hann sat um vetrinn á Tjaldanesi, því at þar gekk eigi sól af um skammdegi. Ánn rauðfeldr, son Gríms loðinkinna ór Hrafnistu ok son Helgu dóttur Ánar bogsveigis, varð missáttr við Harald konung enn hárfagra ok fór hann því ór landi í vestrvíking; hann herjaði á Írland ok fekk þar Grélaðar dóttur Bjartmars jarls. Þau fóru til Íslands ok kómu í Arnarfjörð vetri síðar en ǫrn. Ánn var enn fyrsta vetr í Dufansdal; þar þótti Grélǫðu illa ilmat ór jörðu. ǫrn spurði til Hámundar heljarskinns frænda síns norðr í Eyjafirði, ok fýstisk hann þangat; því seldi hann Áni rauðfeld lönd öll milli Langaness ok Stapa. Ánn gerði bú á Eyri; þar þótti Grélǫðu hunangsilmr ór grasi. Dufann var leysingi Ánar; hann bjó eptir í Dufansdal. Bjartmarr var son Ánar, faðir Végesta tveggja ok Helga, fǫður Þuríðar arnkǫtlu, er átti Hergils; þeira dóttir var Þuríðr arnkatla, er átti Helgi Eyþjólfsson. Þórhildr var dóttir Bjartmars, er átti Vésteinn Végeirsson. Vésteinn ok Auðr váru bǫrn þeira. Hjallkárr var leysingi Ánar, hans son var Björn þræll Bjartmars. Hann gaf Birni frelsi. Þá græddi hann fé, en Végestr vandaði um ok lagði hann spjóti gegnum, en Bjǫrn laust hann með grefi til bana. Þorvaldur Þorsteinsson. Þorvaldur Þorsteinsson (7. nóvember 1960 á Akureyri – 23. febrúar 2013 í Antwerpen) var íslenskur myndlistarmaður, rithöfundur og leikskáld. Hann er þekktastur fyrir barnaleikritið "Skilaboðaskjóðan" (1993), fjórar bækur um Blíðfinn (1998-2004) og leikritið "And Björk of Course" (2002) sem Lárus Ýmir Óskarsson og Benedikt Erlingsson gerðu að samnefndri kvikmynd árið 2004. Hann var kjörinn forseti Bandalags íslenskra listamanna árið 2004 en sagði af sér í kjölfar veikinda árið 2006. Colt's Manufacturing Company. Colt Single Action Army frá lokum 19. aldar Colt's Manufacturing Company er bandarískur skotvopnaframleiðandi sem á rætur í fyrirtækjum sem Samuel Colt stofnaði á öndverðri 19. öld, það fyrsta árið 1836. Hönnun Colts átti stóran þátt í vinsældum sexhleypunnar í Bandaríkjunum á 19. öld. Þekktustu skotvopn Colt eru sexhleypurnar Walker Colt, Colt Single Action Army og Colt Python, hálfsjálfvirka skammbyssan Colt M1911 og hálfsjálfvirki árásarriffillinn M16. Leppstjórn. Leppstjórn er ríkisstjórn sem stjórnar ríki í þágu hagsmuna annars ríkis þótt fyrrnefnda ríkið sé að nafninu til fullvalda. Þjóðvarnarfélagið. Þjóðvarnarfélagið voru íslensk félagasamtök stofnuð í Reykjavík 1. október 1946 til þess að mótmæla Keflavíkursamningnum sem íslensk stjórnvöld gerðu við bandarísk stjórnvöld strax eftir seinni heimsstyrjöld og hernám Íslands. Helsti framámaður félagsins var Sigurbjörn Einarsson þá dósent í guðfræði við Háskóla Íslands, seinna prestur og biskup Íslands. Félaginu var breytt í landsfélag 3. maí 1949 og nefndist þá Þjóðvarnarfélag Íslendinga. Það gaf út blaðið "Þjóðvörn". Það hætti starfsemi 1951 og seinna var Þjóðvarnarflokkurinn stofnaður árið 1953. Meðal annarra þekktra einstaklinga sem tóku þátt í starfsemi félagsins voru Hannibal Valdimarsson, Gylfi Þ. Gíslason, Jónas Haralz og Rannveig Þorsteinsdóttir. Sigurbjörn Einarsson hélt ræðu á fullveldisdeginum, 1. desember 1948, að beiðni háskólanema við Háskóla Íslands þar sem hann mælti sterklega gegn þátttöku Íslendinga í hernaðarbandalögum. Þetta var fjórum mánuðum áður en Ísland varð að stofnaðila Atlantshafsbandalagsins og er talið marka aukna mótstöðu meðal almennings. Þegar Alþingi samþykkti inngöngu í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949 kom til óeirða á Austurvelli. Hringiðan. Hringiðan er íslenskt þjónustufyrirtæki í einkaeigu. Fyrirtækið býður upp á ADSL, VDSL (Ljósnet) og Ljósleiðara internettengingar fyrir einstaklinga og fyrirtæki, hýsingar og heimasíma. Hringiðan var stofnuð í mars 1995 sem gerir fyrirtækið að einu elsta internetfyrirtæki á Íslandi. Hringiðan hefur einnig gengið undir nafninu Vortex. Landslið. Íslenska karlalandsliðið í handbolta árið 2010 Landslið er íþróttalið sem keppir fyrir hönd lands, í stað íþróttafélags eða héraðs. Algengast er að nota hugtakið í samhengi við hópíþróttir. Lýsigögn. Lýsigögn er tvírætt hugtak sem getur annars vegar átt við formgerð gagnakerfa ("structural metadata") eða, eins og oftar er tilvikið, lýsingu á tilteknum gögnum (eða „gögn um gögn“). Með formgerð gagnakerfa er átt við að hönnuð sé grind, til þess að halda utan um gögn eins og í tilviki gagnagrunna. Tilgangur lýsigagna er að auðvelda notanda að finna þau gögn sem hann leitar að. Lýsigögn eru því aðskilin eiginlegu gögnunum, til lýsingar á þeim. Þau eru samansafn "eiginleika" sem hafa ákveðin "gildi". Mande-mál. Mande-mál eru undirflokkur níger-kongó mála. Þau eru um tuttugu. Mál þessi eru töluð í Vestur-Afríku frá Gíneu til Nígeríu. Helst þeirra eru bambara, djúla, mende og malínka. Richard Sennett. thumbnail Richard Sennett (fæddur 1. janúar 1943) er breskur félagsfræðingur. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir á félagstengslum í borgum og hvaða áhrif borgarlíf hefur á einstaklinga í nútímasamfélögum. Sennett vinnur nú að ritröðinni Homo Faber um hvernig efnislegir hlutir skapa menningu. Fyrsta bindi í ritröðinni ber titilinn "The Craftsman" og kom út árið 2008 og annað bindi er "Together: The Rituals, Pleasures, and Politics of Cooperation" kom út árið 2012. Óútkomið er bindi um borgarumhverfi. Tenglar. Senett, Richard Húsavíkurstofa. Húsavíkurstofa er sjálfseignarstofnun á Húsavík sem hefur það markmið að kynna ferðaþjónustu og aðrar þjónustugreinar á Húsavík og í nágrenni. Stofnunin er einnig miðstöð fyrir hagsmunaraðila í verslun og þjónustu á svæðinu. Markmið Húsavíkurstofu er að stuðla að eflingu atvinnulífs með aukinni samvinnu hagsmunaaðila í þjónustuiðnaði. Framkvæmdastjóri Húsavíkurstofu er Einar Gíslason, ferðamála- og markaðsfræðingur. Saga. Húsavíkurstofa rekur sögu sína til ársins 1984 þegar hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu stofnuðu Ferðamálafélag Húsavíkur. Markmið félagsins var meðal annars kynning á ferðum um Demantshringinn sem er vegur sem liggur gegnum Húsavík og að ýmsum náttúruperlum í nágrenni bæjarins. Síðar var nafni félagsins breytt í MarkÞing og nafnið Húsavíkurstofa svo tekið upp þegar félagið varð að sjálfseignarstofnun árið 2010. Sama ár flutti Húsavíkurstofa í nýtt húsnæði með Hvalasafninu á Húsavík og vinnur stofnunin náið með safninu. Frá árinu 2010 hefur Húsavíkurstofa tekið þátt í "European Destinations of Excellence" verkefni Evrópusambandsins og er Húsavík á lista yfir fyrsta flokks áfangastaði í Evrópu. Markmið. Markmið Húsavíkurstofu er að vera samráðsvettvangur fyrirtækja og þjónustuaðila á Húsavík og í nágrenni og jafnfram að stuðla að eflingu atvinnulífs með aukinni samvinnu hagsmunaaðila. Einnig stefnir stofnunin að því að gera Húsavík að eftirsóttum áfangastað fyrir ferðafólk með fjölbreyttri afþreyingu og þjónustu allan ársins hring. Þá sér Húsavíkurstofa um markaðssetningu Demantshringsins og hefur það yfirlýsta markmið að stuðla að aukinni vetrarferðamennsku á svæðinu. Starfsemi. Húsavíkurstofa rekur upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk við Hafnarstétt 1 á Húsavík. Þá sér stofnunin um rekstur Tjaldsvæðisins á Húsavík yfir sumarmánuðina. Húsavíkurstofa vinnur að kynningamálum, bæði innan samfélagsins á Húsavík og einnig gagnvart innlendu og erlendu ferðafólki. Stofnunin heldur úti vefsíðum um Húsavík og Demantshringinn. Vilhjálmur Þór. Vilhjálmur Þór (f. á Æsustöðum í Eyjafirði 1. september 1899, d. 12. júlí 1972) var utanríkisráðherra Íslands 1942-44. Hann var forstjóri Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og bankastjóri Seðlabanka Íslands. Hann sat í stjórn Alþjóðabankans 1962-64. Vilhjálmur var kaupfélagsstjóri KEA 1923-1939. Þá var Vilhjálmur skipaður ræðismaður Íslands í New York í Bandaríkjunum 23. apríl 1940 þegar aðalræðisskrifstofa Íslands var stofnuð þar. Vilhjálmur varð bankastjóri Landsbanka Íslands 1. október 1940. Þá var hann utanríkisráðherra í utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar 1942-44. Að því loknu tók hann á ný við starfi bankastjóra Landsbankans og var þar til loka ársins 1945. Þá tók hann við starfi forstjóra SÍS en því starfi sinnti hann til ársins 1954 þegar hann í þriðja sinn tók við starfi bankastjóra Landsbankans. Hann fór úr Landsbankanum 1961 og gerðist þá bankastjóri í Seðlabanka Íslands. Þar var hann til 1964 þegar hann var kosinn í stjórn Alþjóðabankans í Washington í Bandaríkjunum. Vilhjálmur vann í fjögur ár fyrir Alþjóðabankann og ferðaðist víða um þróunarlönd. Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöng eru jarðgöng sem verið er að gera undir Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Göngin verða 7,4 kílómetra löng á milli Eyjafjarðar, gegnt Akureyri, og Fnjóskadals. Með göngunum styttist vegalengd á milli Akureyrar og Húsavíkur um 15,7 kílómetra og ekki þarf lengur að fara fjallveginn um Víkurskarð þar sem færð spillist gjarnan að vetrum. Göng á þessum stað voru nefnd í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar frá árinu 2000 en voru þá ekki talin til brýnustu jarðgangaverkefna samkvæmt áætluninni. 28. febrúar 2003 var félagið Greið leið ehf. stofnað um undirbúning og gerð ganganna. Stofnendur þess voru 20 sveitarfélög á Norðurlandi eystra og tíu fyrirtæki með starfsemi á svæðinu. Niðurstaða skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri í janúar 2006 sem unnin var fyrir Greiða leið var sú að gerð ganganna væri þjóðhagslega hagkvæm. Lagðar voru til ýmsar leiðir til fjármögnunar framkvæmdarinnar, til dæmis hrein einkaframkvæmd þar sem Greið leið ehf. fjármagnaði framkvæmdina alfarið með lánum sem greidd yrðu til baka með veggjöldum, blönduð leið einkaframkvæmdar og opinberrar fjármögnunar þar sem ríkið legði til hluta stofnkostnaðar á móti fjármögnun Greiðar leiðar eða hefðbundin opinber framkvæmd sem greidd væri alfarið úr ríkissjóði. Fyrir alþingiskosningar 2007 lagði Samfylkingin ríka áherslu á gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng. Snemma árs 2008 var áætlað að gerð ganganna myndi hefjast á árinu 2009 og að þau yrðu tilbúin 2012. Þá var jafnframt ætlunin að ríkissjóður legði til helming stofnkostnaðar en að hinn helmingurinn yrði innheimtur með veggjaldi. Við bankahrunið um haustið 2008 lentu þessar áætlanir í uppnámi. Næst áttu sér stað viðræður ríkisins við lífeyrissjóði um að þeir myndu fjármagna gerð ganganna en upp úr þeim viðræðum slitnaði seinni hluta 2010 þar sem ekki náðist samkomulag um vexti. Í kjölfar þess ákvað ríkisstjórnin að kalla eftir heimild Alþingis til þess að ríkissjóður myndi fjármagna gangagerðina á framkvæmdatíma en síðar yrði verkefnið endurfjármagnað á almennum markaði. Stofnað var félagið Vaðlaheiðargöng hf. sem tók við undirbúningi verkefnisins af Greiðri leið ehf. Ríkið er eigandi að 51% hlut í Vaðlaheiðargöngum hf. á móti 49% hlut Greiðrar leiðar ehf. Í frumvarpi fjármálaráðherra sem lagt var fyrir þingið í mars 2012 fólst að ríkissjóður myndi lána Vaðlaheiðargöngum allt að 8.700 milljónir króna miðað við verðlag í lok árs 2011. Málið var mjög umdeilt í þinginu og það þvert á flokkslínur. Deilt var á forsendur verkefnisins sem andstæðingum málsins þóttu of bjartsýnar, það að framkvæmdin væri tekin fram yfir forgangsröðun vegaáætlunar og að gengið væri fram hjá lögum um ríkisábyrgðir. Málið var talið vera dæmi um „kjördæmapot“ og Lilja Mósesdóttir kallaði fjármögnun framkvæmdarinnar „gríska bókhaldsbrellu“. Samgöngunefnd þingsins fjallaði ekki um frumvarpið eins og venja er með samgöngumál en meirihluti nefndarmanna hennar var á móti framkvæmdinni. Þá var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, sem fer með samgöngumál, efins um verkefnið en samþykkti það í ríkisstjórn með þeim fyrirvara að veggjöld myndu standa undir framkvæmdinni. Frumvarpið var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13. Enginn þingmaður stjórnarflokkanna Samfylkingar og Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en þeir þingmenn flokkanna sem lýst höfðu efasemdum eða andstöðu við málið voru ýmist fjarverandi eða sátu hjá. Af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins voru allir á móti frumvarpinu nema tveir þingmenn flokksins í norðausturkjördæmi. Undirbúningsframkvæmdir við gangamunna hófust seinni hluta 2012 en endanlega var gengið frá samningum við aðalverktaka verksins, Íslenska aðalverktaka og Marti Contractors, 1. febrúar 2013. Vinna við sjálfa gangagerðina hefst sumrið 2013. Walter Benjamin. Mynd af Benjamin við inngang Walter-Benjamin-Stiftung í Portbou Walter Benjamin (15. júlí 1892 - 26. september 1940) var þýskur heimspekingur, bókmenntagagnrýnandi, pistlahöfundur, þýðandi og listfræðingur af gyðingaættum. Fyrsta rit hans var um upphaf þýska sorgarleiksins (Ursprung des deutschen Trauersþiels) og kom út árið 1928 en um svipað leyti varð hann fyrir miklum áhrifum frá Bertolt Brecht og gerðist marxisti. Benjamin lauk ekki doktorsprófi og fékk því ekki fast starf við háskóla. Hann vann við skriftir og þýðingar og dvaldi oft í París. Verk. Benjamin er þekktur fyrir framlag sitt til menningarfræða og oft er vitnað í verk hans í fræðilegu og listfræðilegu samhengi og þá sérstaklega í verkin „"The Task of the Translator"“ (1923) and „"The Work of Art in the Age of Mechanical Reproduction"“ (1936) en það hefur komið út í íslenskri þýðingu undir titlinum "Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar". Þegar hann skrifaði þá bók þá var hann flóttamaður í París í Frakklandi á flótta undan ofsóknum nasista og hafði dvalið í París í þrjú ár. Árið 1927 hóf hann að rita verkið "Das Passagen-Werk" (e. "The Arcades Project") en það er ófullgert handrit sem var athugun hans á mannlífi í París á 20. öld. Hann hafði upphaflega ætlað að skrifa stóra bók um París á 20. öld en skildi eftir sig mikið magn af tilvitnunum tengt því verki. Þessar nótur hafði hann skrifað yfir 13 ára tímabil. Þessi drög voru fyrst gefin út árið 1982 og er yfir 1.000 blaðsíður. Hann taldi París bera merki hnignunar sem væri fyrir tilstuðlan mikilla þjóðfélagsbreytinga og hann skoðaði allt það smáa sem hafði breyst í mannlífinu á tímum nýrrar tækni, hann skoðaði götulíf, markaði og tívolí en hafði sérstaklega mikinn áhuga á "Les Passages" á vesturbakka Signu en það var verslunarmiðstöð þess tíma. Árið 1937 vann Benjamín að "Das Paris des Second Empire bei Baudelaire" og þá hitti hann franska rithöfundinn Georges Bataille sem hann fékk til að geyma handrit að "Das Passagen-Werk". Árið 1938 fór hann í síðasta skipti í heimsókn til Bertolt Brecht sem þá var í útlegð í Danmörku. Um þetta leyti svipti nasistastjórnin í Þýskalandi alla þýska gyðinga ríkisfangi sínu og Benjamin varð því ríkisfangslaus og var af þeim sökum fangelsaður af frönsku yfirvöldum og var um hríð í fangabúðum nærri Nevers í Burgundy. Hann kom til Parísar í janúar 1940 og þá skrifaði hann ritið "Über den Begriff der Geschichte" (e. "Theses on the Philosophy of History"). Benjamin reyndi að fá ríkisborgararétt í Frakklandi og innflytjendaleyfi til Bandaríkjanna en umsókn hans um ríkisfang var hafnað. Þegar Þjóðverjar hertóku París í byrjun ársins 1940 lagði hann á flótta. Hann fór fyrst Marseille og reyndi að komast þar á skip en það tókst ekki. Þá lagði hann á stað fótgangandi yfir Pýreneafjöllin til Spánar en þaðan átti að reyna að komast til Portúgals og þaðan í skip til Bandaríkjanna. Hann og samferðamenn hans voru handsamaðir á landamærum inn í Spáni og til stóð að senda þau aftur til Frakklands. Hann gafst upp og framdi skömmu síðar sjálfsmorð. Bíhar. Bíhar er fylki á Norðaustur-Indlandi. Odisha. Odisha (áður Orissa) er fylki á Austur-Indlandi. Diane Arbus. Diane Arbus (14. mars, 1923 - 26. júlí 1971), var bandarískur ljósmyndari og rithöfundur, þekkt fyrir svarthvítar ljósmyndir sínar af fólki sem litið var á öðruvísi af samfélaginu (dvergar, risar, kynskiptingar, og sirkus fólk). Arbus trúði því að myndavélin væri “örlítið köld, örlítið hörð”, en hún birti engu að síðar sannleikann; muninn á því hvað fólk vill að aðrir sjái og hvað þau sjá í raun og veru - galla fólks. Vinur Arbus sagði að hún hafi sagt að hún væri “hrædd... að hún yrði alltaf þekkt sem ljósmyndarinn sem myndaði skrípi”; sá frasi hefur verið notaður mikið til að lýsa henni. Árið 1972, ári eftir að hún framdi sjálfsmorð, varð Arbus fyrsti bandaríski ljósmyndarinn til að fá myndir birtar eftir sig á “The Venice Biennale”. Milljónir manns sáu sýningu hennar er hún ferðaðist á árunum 1972 - 1979. Milli áranna 2003 og 2006, voru Arbus og hennar verk hluti af annarri stórri sýningu sem ferðaðist um heiminn, Diane Arbus Revelations. Árið 2006 kom bíómyndin Fur út, þar sem leikkonan Nicole Kidman fór með hlutverk sem Arbus. Þó svo að margar af ljósmyndum hennar hafi selst fyrir mörg hundruð þúsund dollara á uppboðum, hafa mörg verk hennar vakið deilur; sem dæmi árið 1971 sagði Normal Mailer “Að láta Diane Arbus hafa myndavél, er eins og að láta virka handsprengju í hendur lítils barns.” Aðrir hafa hinsvegar sagt að Mailer hafi verið ósáttur með mynd sem Arbus tók af honum þar sem hann hélt um klofið á sér, sem tekinn var fyrir New York Times Book Review. Einkalíf. Diane Arbus hét upprunalega Diane Nemerov, dóttir David Nemerov og Gertrude Russek Nemerov. Nemerov fjölskyldan var gyðinga fjölskylda sem bjó í New York borg og átti þar búð á fifth avenue sem bar nafnið Russek’s. Diane Nemerov stundaði nám við Fieldston School for Ethical Culture. Árið 1941, þegar hún var átján ára giftist hún æsku ástinni sinni Allan Arbus. Diane og Allan Arbus áttu saman tvö börn, en skildu svo árið 1969. Ljósmyndaferill. Árið 1946, eftir stríðið, byrjuðu Diane og Allan með Commercial Photography Buisness sem þau kölluðu “Diane & Allan Arbus,” þar sem Diane var listrænn stjórnandi og Allan var ljósmyndarinn. Í dálítin tíma skutu þau myndir fyrir Glamour, Seventeen, Vogue, Hapers’s Bazaar, og fleiri tímarit þó svo að þau hötuðu bæði tísku. Árið 1956, hætti Diane í tískubransanum. Hún snéri sér að því að mynda verkefni fyrir tímarit eins og Esquire, Harper’s Bazaar og The Sunday Times. Arbus kenndi um tíma við Parsons School of Design og Cooper Union í New York borg og einning í Rhode Island School of Design. Andlát. Arbus barðist við þunglyndi í mörg ár. Árið 1968 skrifaði hún, “ég fer mikið upp og niður,”. Þann 26. júlí, 1971, þegar hún bjó í Westbeth Artists Community í New York borg, tók Arbus sitt eigið líf með því að taka inn slakandi lyf og skera sig á úlnlið. Lík hennar fannst svo tveimur dögum seinna í baðkarinu heima hjá henni, hún var 48 ára. Kerala. Kerala er fylki á Suðvestur-Indlandi. Nílósaharamál. Nílósaharamál er tungumálaætt um 100 tungumála sem töluð svæði sem nær frá Egyptalandi í norðri til Tansaníu í suðri og frá Malí í vestri til Eþíópíu í austri. Joseph Greenberg gaf þessum hópi mála þetta nafn í bók sinni frá 1963 "The Languages of Africa" og reyndi að færa fyrir því rök að mál þessi væru öll skyld. Það telst þó ekki sannað að þessu mál séu í raun skyld og tilheyri sömu ætt. Góa (fylki). Góa er minnsta fylki Indlands. Það er á miðvesturströnd Indlands. Joseph Greenberg. Joseph Harold Greenberg (28. maí 1915 – 7. maí 2001) var bandarískur málfræðingur einkum þekktur fyrir rit sín um flokkunarfræði tungumála. Hann fæddist í Brooklyn, New York í gyðingafjölskildu. Hans fyrsta áhugamál var tónlist en eftir að hafa lokið miðskóla ákvað hann að stunda frekar fræðastörf en tónlist. Hann skráði sig inn í Columbia háskóla í New York þar sem meðal annars Franz Boas, hinn þekkti vinstri sinnaði mannfræðingur, kenndi honum um tungumál amerískra indjána. Næst stundaði hann nám við Northwestern University í Chicago þaðan sem hann lauk doktorsprófi. Doktorsritgerð hans fjallaði um áhrif múhammeðstrúar á hóp "Hása manna" í Nígeríu sem ólíkt öðrum Hása höfðu ekki tekið þá trú. Árið 1940 hóf hann eftirdoktorsnám við Yale-háskólann. Nám hans þar var truflað af herskildu þar sem hann vann einkum við að brjóta dulmál nasista. Hann tók ennfremur þátt í lendingunni við Casablanca. Að loknu stríði kenndi hann við Minnesota háskóla, en sneri til baka til Columbia 1948 til að kenna mannfræði. Árið 1962 tók hann að starfa fyrir mannfræðideild Stanford-háskóla í Kaliforníu þar sem hann starfaði það sem eftir var. Singalíska. Singalíska eða sinhala ("සිංහල", "siṁhala") er indóarískt mál talað af 16 milljón manns á Sri Lanka. Á Sri Lanka hafa 3 mál opinbera stöðu: singalíska, enska og tamílska. Singalíska er rituð með bramískri samstöfuskrift en elstu textar á tungumálinu eru frá 3. öld f.Kr. Talið er að málið hafi borist til eyjarinnar svo snemma sem á 5. öld f.Kr. Þegar hinir fornu singalir komu til Sri Lanka fundu þeir fyrir svonefnt Vedda-fólk og gætir áhrifa frá máli þeirra á singalísku. Vedda-fólkið er talið hafa verið hvorki indóevrópskt né dravidískt. Vegna einangrunar frá meginlandinu þar sem dravidísk mál eru ríkjandi á suðurhlutanum hefur singalíska þróast með nokkuð öðrum hætti en önnur indóárísk mál. Sérstaklega hafa áhrif frá tamílsku verið mikil. Mikill munur er á ritmáli og talmáli. Sem dæmi um það beygjast sagnorð eftir tölu, persónu og kyni í ritmálinu en ekki í talmálinu. Óákveðni greinirinn er "-ak" eða "-ek" og er aðeins notaður í eintölu og hefur vafalítið þróast úr töluorðinu fyrir "einn" líkt og í germönskum málum utan íslensku. Enginn ákveðinn greinir er en ef óákveðni greinirinn er ekki notaður verður orðið ákveðið fyrir vikið. Sinó-tíbetsk tungumál. Sinó-tíbetsk tungumál eru tungumálaætt um 250 mála sem töluð eru í Austur-Asíu, Suðaustur-Asíu og hlutum af Suður-Asíu. Þessi tungumálaætt er önnur stærsta í heimi á eftir indóevrópskum málum. Eins og gefur að skilja eru aðeins tvær megin greinar á þessari ætt, hin sinitíska, sem er einfaldlega kínverska, forn sem ný í öllum sínum mállýskum, og tíbetsk-búrmísk grein sem aftur hefur marga undirflokka. Nælon. Nælon er heiti á flokki gerviefna sem almennt eru þekkt sem pólýamíð. Nælonið var fyrst búið til af bandaríska efnafræðingnum Wallace Carothers 28. febrúar 1935 á tilraunastofu DuPont. Nælon er hitadeigt, gljáandi efni sem er notað til að framleiða trefjar fyrir framleiðslu textílefna. Þekktasta birtingarmynd nælons eru nælonsokkarnir sem komu á markað árið 1940. Nælon er einnig notað við framleiðslu plastíhluta fyrir vélar, rennilása, ýmis plastáhöld og í trefjaplast. Kastalinn í Nottingham. Kastalinn í Nottingham er eitt kunnasta mannvirki í ensku borginni Nottingham. Hann var áður eitt sterkasta vígi í Englandi. Kastalinn var að mestu rifinn 1649 við lok ensku borgarastyrjaldarinnar, en nokkrir hlutans hans standa enn. Upphaf. Það var Vilhjálmur sigursæli sem lét reisa kastalann til að byrja með árið 1067, ári eftir sigur hans í orrustunni við Hastings. Kastalinn var að mestu gerður úr viði með jarðvegsgarði í kring. Í konungstíð Hinriks II síðla á 12. öld veik þessi kastali fyrir mannvirki úr grjóti og var næstu aldir eitt sterkasta vígi Englandskonunga. Ríkharður ljónshjarta. Sonur Hinriks var Ríkharður I ljónshjarta. Þegar hann fór í krossferð 1190 fóru margir aðalsmenn með honum. Kastalinn í Nottingham var því á tímabili mannlaus. Því flutti jarlinn af Nottingham í hann. Það var á þessum tíma sem sögurnar um Hróa hött gerðust, en aðalandstæðingur hans var jarlinn. Lokasenna þeirra gerist í kastalanum, en þar stendur Hrói uppi sem sigurvegari. Þegar dróst að Ríkharður kæmi heim aftur til Englands (hann var tekinn til fanga í Austurríki á leið heim), tóku fylgismenn bróður hans, Jóhanns landlausa, kastalann í Nottingham, enda var hann sterkt vígi. Þegar Ríkharður losnaði úr prísundinni 1194 eftir hátt lausnargjald, fór hann til Nottingham og gerði umsátur um kastalann. Til þess notaði hann að hluta umsáturstól þau sem hann hafði yfir að ráða í Jerúsalem. Ríkharður sigraði í bardaganum sem eftir fylgdi og endurheimti kastalann. Valdarán Játvarðs III. Játvarður III var aðeins 14 ára gamall þegar faðir hans, Játvarður II var drepinn. Móðir hans, Ísabella frá Frakklandi, og ástmaður hennar, Roger Mortimer, stjórnuðu ríkinu meðan Játvarður III var ómyndugur. En Játvarður var óánægður. 19. október 1330, þegar Játvarður var 17 ára, dvaldi móðir hans og Roger í kastalanum í Nottingham. Með aðstoð frá William Montagu hugði hann á valdarán. Þeir læddust inn í kastalann og drápu lífverði drottningar og Mortimers. Mortimer var bundinn og fluttur til London, þar sem hann var hengdur mánuð síðar. Ísabella var neydd til að segja af sér. Þannig náði Játvarður völdum. Hann notaði kastalann sem aðsetur á hinum og þessum tímum. Stundum hélt hann þing í kastalanum. Eftirmaður hans, Ríkharður II, hélt að minnsta kosti þrjú ríkisþing í kastalanum, það síðasta 1397. Á 14. öld voru nokkrir þekktir einstaklingar í varðhaldi í dýflissum kastalans. Þeirra helstur var Davíð II konungur Skotlands árið 1346. Fleiri konungar. Kastalinn eins og hann er talinn hafa litið út síðla á miðöldum Eftir daga Ríkharðs III var kastalinn ekki lengur notaður í hernaðarlegum tilgangi í nokkurn tíma. Hinrik IV veitti eiginkonu sinni, Jóhönnu af Navarra, afnot af kastalanum 1403. Þar bjó hún að mestu leyti til dánardags 1437. Á Rósastríðunum síðla á 15. öld lýsti Játvarður IV sig sem konung Englands í kastalanum í Nottingham og hann lét jafnframt laga og stækka kastalann. Hinrik VIII lét stækka kastalann enn, en sjálfur dvaldi hann þar nokkru sinnum. Auk þess bjó hann til herdeild nokkur hundruð manna sem áttu að sitja í kastalanum og tryggja öryggi hans. Eftir það var kastalinn eitt allra sterkasta vígi Englandskonunga út 16. öldina. Borgarastríðið. Í upphafi 17. aldar var kastalinn yfirgefinn og byrjaði hann þá að grotna niður. Þegar enska borgarastyrjöldin hófst 1642 var hluti hans orðin það lélegur að segja má hann var rústir. 22. ágúst 1642 fór Karl I til Nottingham og hóf að safna liði fyrir væntanlegt stríð við þingið í London. Í kastalanum lét hann hífa konungsflaggið að gömlum hermannasið til að safna liði. Þetta þótti mikil ögrun við þingið, sem einnig safnaði liði. Skömmu síðar yfirgaf Karl borgina. Ári síðar réðist her þingsins á kastalann í Nottingham og hélt honum til 1649. Þetta var síðasti herinn sem dvaldi í kastalanum. Á þessu ári var Karl I tekinn af lífi og var kastalinn þá rifinn niður að mestu leyti. Þannig lauk 600 ára tilvist þessarar merku byggingar. Herragarður og safn. Kastalasafnið eins og það lítur út í dag 1674-79 lét Henry Cavendish, hertoginn af Newcastle, reisa sér herrasetur í rústum kastalans, en þá hafði konungdæmið í Englandi verið endurreist. Nokkrir hlutir kastalans stóðu þó enn uppi og voru þeir gjarnan notaðir í nýju bygginguna. Í herrasetrinu bjuggu hertogarnir næstu aldir. Í iðnbyltingunni á 19. öld risu fátækrahverfi í Nottingham. Þegar hertoginn af Newcastle neitaði að undirrita endurreisnarlög (Reform Act) árið 1832 trylltist lýðurinn. Hann ruddist inn í herrasetrið og brenndi það niður. Þannig lá það í rústum allt til 1875 er herrasetrið var endurreist og vígt 1878 af prinsinum af Wales (síðar Játvarður VII). Setrið var reist sem safnahús, fyrsta borgarsafn Englands utan London. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. fínvefnað úr Nottingham, keramik, málverk og annað. Viðburðir. Ýmsir viðburðir fara fram á kastalalóðinni. Má þar nefna árlega bjórhátíð og Hróa hattar leikrit. Árið 2008 var heimsmet sett við kastalann er þar safnaðist saman meiri fjöldi manna í Hróa hattar klæðum á einum og sama staðnum en áður hefur gerst. Viðnámstæki. Viðnámstæki er óvirkur rafeindaíhlutur sem hefur það hlutverk að skapa rafmótstöðu í rafrás. Straumurinn sem flæðir í gegnum viðnámstæki er í beinu hlutfalli við spennuna á skautum þess. Þessu sambandi er lýst með Ohmslögmáli. Sindí. Sindí ("سنڌي") er indóarískt mál talað af 53 milljónum í Pakistan í Sind-fylki, þar sem það hefur opinbera stöðu, og 5 milljónum á Norðaustur-Indlandi. Sindí er ritað með arabísku letri í Pakistan en devanagari stafrófi á Indlandi. Auditorio de Tenerife. Auditorio de Tenerife er tónlistarhús í Santa Cruz de Tenerife, Kanaríeyjum, Spáni. Það var hannað af spænska arkitektinum Santiago Calatrava og opnaði 2003. Framkvæmdir hófust 1997 og lauk 2003. Húsið var vígt 26. september sama árs í nærveru Filippus Spánarkrónprins. Húsið var síðar heimsótt af fyrrveranda forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton. Auditorio de Tenerife er aðsetur Sinfóníuhljómsveitar Tenerife, sem er ein af bestu sinfóníhljómsveitum Spánar. Í dag er byggingin tákn borgarinnar Santa Cruz de Tenerife og eitt af bestu nútímabyggingum Spáni. Thorstein Veblen. Thorstein Bunde Veblen (30. júlí 1857 – 3. ágúst 1929) var bandarískur hagfræðingur og félagsfræðingur. Hann gagnrýndi kapítalískt hagkerfi og þekktasta bók hans fjallar um líf hinnar iðjulausu stéttar en það er bókin "The Theory of the Leisure Class" sem kom út árið 1899. Tengt efni. Veblen, Thorstein Veblen, Thorstein Persóna (málfræði). Í málfræði er persóna tilvísun til þátttakanda í ákveðinni aðgerð. Oft er talað um persónu í sambandi við persónufornöfn og beygingu sagnorða og annarra orða, t.d. eignarfornafna. Á flestum tungumálum eru þrjár málfræðilegar persónur en þær kallast "fyrsta persóna", "önnur persóna" og "þriðja persóna". Á indóevrópskum tungumálum beygjast persónufornöfn eftir tölu, annaðhvort í eintölu eða fleirtölu en á sumum málum líka í tvítölu, og kyni, það er segja í karlkyni, kvenkyni eða hvorugkyni. Á sumum tungumálum eru öðruvísi persónufornöfn notuð í formlegu samhengi (sbr. þérun) en í óformlegu samhengi (sbr. þúun). Eftirfarandi er tafla um nútímapersónufornafnakerfið á íslensku. Persóna og sagnorð. Á flestum en ekki öllum indóevrópskum tungumálum beygjast sagnorð eftir persónu. Áhrif persónu á beygingu sagnorðsins „að fara“ á nokkrum indóevrópskum tungumálum má sjá hér fyrir neðan. Á sumum tungumálum hefur kyn persónunnar líka áhrif á sagnorðabeygingar í ákveðnum umhverfum. Til dæmis á bæði spænsku og pólsku beygjast sagnorð eftir kyni persónunnar, en aðeins í þátíð á pólsku. Fleiri persónur. Á sumum tungumálum eru fleiri enn þrjár persónur, til dæmis á algonkinskum málum skiptist þriðja persónan í tvennt: "nærri þriðju persónu" og "fjærri þriðju persónu". Stundum kallast fjærri þriðja persónan "fjórða persóna". Á öðrum tungumálum eru enn fleiri persónur. Á finnsku og skyldum málum er svokölluð „núllpersóna“. Þetta á við það að sleppa frumlaginu og gegnir svipuðu hlutverki og þolmynd. Cagliari. Cagliari er borg á eyjunni Sardiníu á Ítalíu. Hún er höfuðstaður eyjarinnar með 155.887 íbúa (2011). Tvíbroddur. Tvíbroddur er stafmerki notað í bæði grísku og latnesku letri. Á flestum tungumálum þar sem hann er notaður heitir hann "circumflex", sem á rætur að rekja til latínu "circumflexus" „umboginn“. Í latnesku letri er tvíbroddur örvalaga (ˆ) en í grísku letri er hann eins og alda (˜) eða brevis á hvolfi (̑). Tvíbroddur er notaður á ýmsum málum til þess að takna lengd hljóða, áherslu, tegund sérhljóða eða annað. Táknið er líka notað í stærðfræði og tónlist. Ingvar Kamprad. Ingvar Kamprad (fæddur 30. mars 1926) er sænskur viðskiptamaður og stofnandi IKEA. Kamprad, Ingvar Smálönd. Smálönd eru hérað í Suður-Svíþjóð sem hefur landamæri að Blekinge, Skáni, Hallandi, Vestur-Gautlandi og Austur-Gautlandi auk þess sem eyjan Eyland í Eystrasalt er skammt undan strönd Smálanda. Á meðal frægra Smálendinga eru Carl Linnaeus, Ingvar Kamprad og Astrid Lindgren en margar af sögum þeirrar síðastnefndu gerast í Smálöndum. Stafmerki. Stafmerki eða framburðartákn er lítið tákn sem ritað er fyrir ofan bókstaf. Stafmerki eru mismunandi eftir tungumálum en þau eru helst notuð með latnesku stafrófi til þess að tákna einhvers konar öðruvísi framburð. Þau eru þó ekki notuð á öllum tungumálum sem rituð eru með latnesku stafrófi, til dæmis á ensku eru þau aðeins notuð í tökuorðum. Á íslensku er broddurinn helsta stafmerkið en þeir bókstafir með broddi eru taldir sérstakir bókstafir. Þessi hefð er ekki á öllum tungumálum, til dæmis á frönsku eru bókstafir með stafmerkjum ekki taldir sérstakir bókstafir og þeim má jafnvel sleppa þegar skrifað er í hástöfum. Í öðrum ritunarkerfum gegna stafmerki öðruvísi hlutverkum. Í bæði arabísku stafrófi ( ـَ, ـُ, ـُ,) og hebresku stafrófi ( ַ, ֶ, ִ, ֹ, ֻ,) tákna þau sérhljóð sem eru ekki merkt á annan hátt. Tegundir. Stafmerki geta verið yfirsett, miðsett, undirsett eða hliðsett. Skrápflundra. Skrápflundra (Fræðiheiti: "Hippoglossoides elassodon") er flatfiskur af flyðruætt. Gunnar Jónsson fiskifræðingur hefur gefið fiskinum íslenska heitið skrápflundra. Vegna útlits skrápflundrunnar gengur hún einnig undir enska nafninu "cigarette paper" og "paper sole". Skrápflundra er ekki þessi eiginlega kolategund sem finnst aðeins í Atlantshafi, heldur er hún af flyðruætt ("Pleuronectidae") og er því náskyld skrápflúru, lúðu og grálúðu en þeir fiskar veiðast við Ísland. Útlit. Fiskurinn er mjög líkur skrápflúru, lúðu og grálúðu í útliti: langvaxinn, sporöskjulagaður, frekar þunnur, hausinn miðlungsstór og kjafturinn stór. Tennurnar eru beittar. Bæði augun eru stór og vinstra augað liggur aftur. Uggar eru sambærilegir við ugga annarra flatfiska. Rákin á miðju fisksins er bein aftur í styrtlu. Litur augnhliðarinnar er frá því að vera dökk ólífu brún til þess að vera rauð grá-brún að lit, sumir fiskanna eru með dökka bletti en alls ekki allir. Blinda hliðin er hvít og hálf gagnsæ á sumum svæðum. Stærð og aldur. Skápflundra er frekar smár fiskur, algeng stærð er frá 25-30 cm en verður allt að 50 cm löng. Þetta er langlífur fiskur og getur orðið allt að 34 ára gamall. Hún verður kynþroska 2-3 ára gömul á suðlægum slóðum þar sem sjórinn er hlýr en 6 ára á norðlægum slóðum þar sem sjórinn er kaldari. Heimkynni og útbreiðsla. Heimkynni skrápflundru eru frá Japanshafi, í Okhotskhafi í Rússlandi og í öllu Beringshafi að ströndum Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hún lifir á mjúkum blönduðum leir og sandbotni á 6 – 549 metra dýpi. Fullorðnir eru venjulega undir 180 metra dýpi en ungviðið er grynnra. Hrygning. Skrápflundran hrygnir frá febrúar og fram í maí. Hver hrygna hrygnir 72 – 600 þúsund eggjum. Eggin eru sviflæg þar til þau klekjast á 9 – 20 dögum, það fer allt eftir hitastigi sjávar. Á vorin að lokinni hrygningu færir fiskurinn sig upp á grunninn þar sem fæðan er meiri. Ungviðið vex og þroskast í grunnum árósum, flóum og nálægt ströndinni. Fæða og óvinir. Fæða skrápflundrunnar er margvísleg en aðallega éta þær hryggleysingja sem lifa á botninum eins og krabbadýr, skeldýr, slöngustjörnur, fiskseiði og smokkfiska. Sjálfar eru þær vinsæl fæða og étnar af kyrrahafsþorsk, lúðu, alaskaufsa og tannkola. Veiðar og veiðiaðferðir. Fiskurinn er þéttastur í Beringshafi og er mest veiddur þar, einnig er hann veiddur á norðaustur og norðvestur kyrrahafsveiðisvæðunum. Skrápflundran er í dag eingöngu veidd af Bandaríkjamönnum við Alaska á veiðisvæðinu Pacific North East. Japanir veiddu mikið af skrápflundru á árunum 1950 til 1985 en þá hættu Japanir veiðum á skrápflundru eftir að veiði erlendra skipa var bönnuð í Alaskaflóa. Árleg veiði hefur verið á bilinu 13 – 25 þúsund tonn síðustu ár og meðalveiðin 18 þúsund tonn. Kvóti ársins 2011 náðist ekki. Það náðist ekki nema þriðjungur kvótans eða 13.550 tonn af 41.548 tonna kvóta. Markaðir. Markaðir fyrir skrápflundru eru um allan heim. Þó er mest af henni selt innan Bandaríkjanna en eitthvað er selt á heimsmarkaði. Lang stærstur hluti stofnsins er veiddur í botntroll. Þó eru 30% veidd í flottroll. Veiðitímabilið er frá janúar til júní. Trúlega er skrápflundran meðafli á flotrollsveiðum. Árið 2010 var verðmæti tegundarinnar 2,1 milljarður og veiðin var um 18 þúsund tonn. Það gerir 119 krónur fyrir hausaðan og slægðan kola. Á sama tíma var meðalverð á skrápflúru á markaði á Íslandi um 41 króna á kíló fyrir slægðan fisk og framboðið var 52 tonn. City Ground. City Ground séð handan árinnar Trent City Ground er knattspyrnuvöllur í ensku borginni Nottingham og heimavöllur Nottingham Forest. Völlurinn var tekinn í notkun 1898 og tekur 30 þúsund manns í sæti. Upphaf. Völlurinn í City Ground var lagður síðla á 19. öld. Nottingham Forest átti kost á að flytja á völlinn 1898 við greiðslu þrjú þúsund punda. Flutningurinn átti sér stað 3. september sama ár, 33 árum eftir stofnun félagsins. Völlurinn hlaut heitið City Ground, enda hafði Nottingham hlotið borgarréttindi árið á undan og mátti kalla sig City. Nýi völlurinn liggur við ána Trent, gegnt Meadow Lane, heimavöll Notts County. Í upphafi var City Ground opin í þrjár hliðar og var aðeins með eina stúku. 1957 var stúkan East Stand reist og tekin í notkun, en hún bauð upp á 2.500 sæti. 1965 var stúkan Main Stand reist. Tveimur árum síðar, í október 1967, var aðsóknarmet sett er 49.946 áhorfendur mættu til að sjá Nottingham Forest leika gegn Manchester United og sigruðu heimamenn 3-1. Bruninn mikli. 24. ágúst 1968 léku heimamenn deildarleik við Leeds United. Rétt fyrir hálfleik braust út eldur, nálægt búningsherbergjum að talið er, sem breiddist hratt út. Í eldinum brann Main Stand til kaldra kola. Einnig brunnu bikarar og önnur verðlaun sem félagið hafði unnið í gegnum tíðina. 31 þús manns voru á leikvanginum og komust allir lífs af. Meðan stúkan var endurreist varð Nottingham Forest að leika heimaleiki sína á Meadow Lane. Leikirnir urðu 6 talsins og vannst enginn þeirra. Stúkan var endurbyggð og tók þá 5.708 manns í sæti. Nýrri saga. City Ground (nær), Meadow Lane (fjær) 1980 var stúkan Executive Stand reist. Fjármagnið kom að mestu úr velgengninni sem Nottingham Forest átti við að fagna á þessu tímabili. Framkvæmdastjórinn Brian Clough hafði gert félagið að enskum meisturum og unnið Evrópukeppnina tvisvar í röð. Stúkan gat tekið tíu þúsund manns í sæti. Hún var endurbætt á 10. áratugnum og nefnd Brian Clough Stand við opnunina. Í stúkunni eru einnig 36 klefar fyrir sérstaka gesti og matsalur. Á hliðinni sem snýr inn að leikvanginum er stafræn markatafla. Þar er einnig aðstaða fyrir 70 hjólastóla. 1992-93 var stúkan Bridgford Stand reist. Hún hlaut óvenjulegt þak þar sem tekið þurfti tillit til þess að skyggja ekki fyrir sólina í götunni (Colwick Road). Nýjasta stúkan er Trent End og snýr hún að ánni Trent. Hún var reist 1996 og tekinn í notkun rétt mátulega fyrir leiki í EM 1996 sem fram fóru á vellinum. Stúkan tekur sjö þúsund manns í sæti, þannig að allt í allt rúmast 30.576 manns á vellinum í dag. Stúkan var byggð þannig að auðvelt er að bæta við einni hæð og auka þannig áhorfendafjöldann. Landsleikir. Þrír landsleikir hafa farið fram á City Ground, allir í tengslum við EM 1996. Enska landsliðið hefur aldrei leikið landsleik á City Ground. Framtíðarhorfur. Í júní 2007 tilkynnti stjórn Nottingham Forest að áætlanir væru uppi um að reisa nýjan leikvang sem tæki 50 þúsund áhorfendur. Sá völlur yrði þá tilbúinn fyrir HM 2018 sem England hafði sótt um að fá að halda, enda var City Ground ekki heppilegur keppnisstaður. Fjármagn myndi koma frá styrktaraðilum og frá borginni. Hugmyndir að heiti á nýja leikvanginum voru ýmsar. Þar á meðal Brian Clough Arena, New City Ground, City of Nottingham Stadium og Robin Hood Arena. En illa gekk að finna heppilega lóð og dróst málið í nokkur ár. Síðan gerðist það að England fékk ekki HM 2018, heldur var keppninni úthlutuð Rússlandi. Þar með voru allar áætlanir um nýjan leikvang lagðar á ís. Í staðinn gera menn ráð fyrir stækkun á Main Stand stúkunni ef Nottingham Forest ynni sér rétt til að leika í úrvalsdeildinni í náinni framtíð. Kvennaboltinn. City Ground hefur fjórum sinnum verið notaður fyrir kvennaúrslitaleik bikarkeppninnar: 1987, 2007, 2008 og 2010. Rúgbý og tónleikar. Auk knattspyrnu hafa tveir aðrir viðburðir farið fram á City Ground. Jean Baudrillard. thumbnail Jean Baudrillard (27. júlí 1929 – 6. mars 2007) var franskur félagsfræðingur, heimspekingur, menningarrýnir og ljósmyndari. Verk hans eru oft tengd póstmódernisma og póststrúktúralisma. Hann er þekktur fyrir hugmyndir sínar um ofurraunveruleika en hann taldi nútíma einkennast af óljósum mörkum milli raunveruleika og blekkingar og birtingarmyndir hans í fjölmiðlum virðist raunveruleikri en hann sjálfur. Hann taldi samskipti við tæki og tól hafa komið í stað framleiðslu og neyslu sem megineinkenni samfélagsins. Heimild. Baudrillard, Jean Baudrillard, Jean Kynferðislegt ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi eða kynferðisleg misnotkun er tegund ofbeldis sem hefur kynferðislegan tilgang eða beinist gegn kynfrelsi einstaklings. Allt kynferðislegt samneyti, t.d. samræði sem ekki er með samþykki hlutaðeigandi er þannig kynferðislegt ofbeldi. Brotið getur verið mis alvarlegt, allt frá káfi til nauðgana og sifjaspells. Þolendur og gerendur koma úr öllu samfélagshópum en algengast er þó að gerendur sé gerendur séu karlkyns og þolendur kvenkyns. Stígamót eru samtök á Íslandi, sem stofnuð voru til þess að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi og aðstoða þá sem fyrir því verða. Contagion. "Contagion" er bandarískur tryllir leikstýrður af Steven Soderbergh sem kom út árið 2011. Myndin fjallar um veiru sem breiðist út um allan heim. Í myndinni er samleikshópur sem samanstendur af Marion Cotillard, Bryan Cranston, Matt Damon, Laurence Fishburne, Jude Law, Gwyneth Paltrow, Kate Winslet og Jennifer Ehle. Veiran smitast á yfirborðum en sjúkdómarrannsóknarar reyna að einangra veiruna og hemja hana. Myndin fjallar um fall samfélags í kjölfar heimsfaraldurs og þróun bóluefnis til þess að koma í veg fyrir að veiran smitist víðar. Í myndinni eru nokkrir söguþræðir sem orka hver á annan, eins og í öðrum kvikmyndum Soderberghs. Warner Bros.. Warner Bros. Entertainment, Inc. er bandarískur kvikmyndaframleiðandi stofnaður 4. apríl 1923. Ásamt kvikmyndum framleiðir fyrirtækið sjónvarpsþætti og tónlist. Warner Bros. er einn sá helsti kvikmyndaframleiðandi í dag og er í eigu Time Warner. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Burbank í Kaliforníu og New York. Warner Bros. á nokkur dótturfyrirtæki, þar á meðal Warner Bros. Interactive Entertainment, Warner Bros. Television, Warner Bros. Animation, Warner Home Video, New Line Cinema, TheWB.com og DC Entertainment. Warner Bros. er meðlimur í Motion Picture Association of America. Michel Serres. Michel Serres í febrúar 2011 Michel Serres er franskur heimspekingur og vísindasagnfræðingur. Hann var um skeið í franska flotanum. Hann hefur mikinn áhuga á raunvísindum og hefur beint heimspekilegri athygli að hversdagslegum hlutum og sem og vísindum. Serres hóf feril sinn með ritsmíð um stærðfræðiskrif heimspekingins Gottfried Wilhelm von Leibniz. Síðar birti hann ritröð sem hann kenndi við gríska guðinn Hermes, guð samskipta og samgangna. Serres hefur í síðari ritum sínum fjallað um stofnun ríkja og þjóðfélaga en meðal þeirra rita má nefna Styttur og Genese. Árið 1985 kom út verk hans um skilningarvitin fimm. Í bók sinni Le contrat naturel stingur hann upp á að gerður verði náttúrusáttmáli til að þjóðfélög átti sig á hve háð þau eru náttúrunni og til að hamla gegn innbyggðri skammsýni stjórnmála. Heimildir. Serres, Michel Serres, Michel Derby. Derby (framburður) er borg í Austur-Miðhéruðum Englands. Derby hlaut borgarréttindi 1977 og var höfuðborg Derbyshire til 1997. Í borginni er mikil bílaframleiðsla, en þar eru Rolls Royce og Toyota með verksmiðjur. Íbúar eru tæpir 250 þúsund. Lega. Derby liggur við ána Derwent miðsvæðis í Englandi. Næstu stærri borgir eru Nottingham til austurs (20 km), Leicester til suðausturs (40 km), Stoke-on-Trent til vesturs (50 km) og Birmingham til suðvesturs (60 km). London er 150 km til suðausturs. Orðsifjar. Rómverjar voru með hervirki í grennd sem þeir kölluðu Derventio. Englisaxar nefndu staðinn Deoraby. Það er samsett úr orðunum Deor, sem merkir "rádýr" (sbr. "deer" á nútímaensku), og "by", sem merkir "bær". Sumir vilja þó meina að heiti borgarinnar sé dregið af ánni Derwent, sem merkir "eikartré". Rithátturinn var lengi vel Darby, en breyttist í Derby með tímanum. Orðið Derby hefur fest sig í sessi sem heiti á veðreiðum allt síðan 1780. Orðið er þó ekki til komið frá borginni, heldur frá jarlinum af Derby (12th Earl of Derby). Derby getur einnig þýtt nágrannaslagur og þá í ýmsum öðrum íþróttum en veðreiðum. Skjaldarmerki. Skjaldarmerki Derby sýnir dádýr í girðingu ásamt tveimur eikartrjám. Dádýrið er nafngefandi fyrir borgina, en eikartrén gætu verið það líka (sjá orðsifjar). Merki þetta var veitt 1378 og staðfest 1637. 1939 var skjaldarberunum bætt við, en það eru tvö dádýr á afturfótunum. Efst er hjálmur með hrúti. Hrúturinn var merki Plantagenet-ættarinnar sem veitti Derby skjaldarmerkið 1378. Neðst er borði með áletruninni: INDUSTRIA VIRTUS ET FORTITUDO, sem merkir dugnaður, kjarkur og styrkur. Smábærinn Derby. Stytta af Bonnie Prince Charlie Í upphafi reistu Rómverjar hervirki við Chester Green, sem í dag er við útjaðar borgarinnar. Þegar danskir víkingar tóku stóran hluta Englands var Derby einn af fimm meginbæjum Danalaga, en kom að öðru leyti lítið við sögu Englands næstu aldir. Í enska borgarastríðinu var þingher sendur til Derby, sem varði hana fyrir konungshernum. 1745 kom prins Karl (Bonnie Prince Charlie) við í Derby á leið til London til að krefjast krúnunnar ásamt 9 þús manna liði. Ferðin var til einskis, því liðið neitaði að halda áfram þegar til Derby var komið. Prinsinn sá því ekkert annað í stöðunni en að snúa til Skotlands. Stytta til heiðurs honum var reist í borginni á 20. öld. Iðnbyltingin. Rolls Royce bifreiðar hafa verið smíðaðar í Derby síðan 1923 Iðnbyltingin hófst snemma í Derby. 1717 smíðuðu John Lombe og George Sorocold fyrstu vatnsknúnu spunavél Bretlands, en Lombe hafði lært aðferðina á Ítalíu. 1759 smíðaði Jedediah Strutt nýja spunavél (Derby Rib Attachment) í Derby. Iðnaður þessi varð til þess að Derby óx nokkuð á 18. öldinni. Þó voru íbúar árið 1801 aðeins 14 þús. Á 19. öldinni bættist vélaiðnaðurinn við og óx bærinn verulega. 1851 voru íbúarnir orðnir tæplega 50 þús og 1901 tæpir 120 þús. Eftir það hélt bærinn áfram að vaxa, en ekki eins hratt. Meiriháttar breytingar áttu sér stað snemma á 20. öld. Spunaiðnaðurinn minnkaði talsvert, en mikið af störfum sköpuðust er Rolls Royce samsteypan opnaði verksmiðju sína í Derby 1923. Verksmiðjan framleiddi bæði vélar í bíla og flugvélar. Einnig voru járnbrautir smíðaðar í Derby, en vélaiðnaður þessi var einn sá mesti í Englandi. Nýrri tímar. 1916 varð Derby fyrir loftárás frá Zeppelin loftfari í eitt skipti. Skemmdir urðu litlar, en 5 manns létu lífið. Bærinn varð hins vegar fyrir óverulegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari, þrátt fyrir hinn mikla vélaiðnað. Framleiðsla á járnbrautum og bílum jókst með tímanum. Í dag starfa um 11 þús manns í Rolls Royce verksmiðjunni einni saman. Elísabet drottning veitti Derby formleg borgarréttindi 7. júní 1977 og afhenti þau í eigin persónu 28. júlí. Í Derby er mikill fjöldi heyrnarskertra manna, sá mesti í Bretlandi utan London, vegna þess að borgin og samfélagið hefur skapað góðar aðstæður fyrir þá. Því flytja margir heyrnarskertir þangað. Fjöldi þeirra er þrisvar sinnum meiri hlutfallslega en í annars staðar í landinu. Íþróttir. Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Derby County. Liðið varð enskur meistari 1972 og 1975, bikarmeistari 1946 og vann góðgerðarskjöldinn 1975. Eftir velgengnina miklu á áttunda áratugnum hefur liðið leikið í neðri deildum. Það spilaði síðast í úrvalsdeildinni leiktíðina 2007-08 og hlaut aðeins 11 stig, en það er versti árangur allra liða í úrvalsdeild frá upphafi. Körfuboltaliðið Derby Trailblazers var stofnað 2002 og leikur í efstu deild. Liðið varð enskur meistari 2010 og bikarmeistari 2012. Aðrar íþróttir sem skipa háan sess í borginni eru krikket og rúgbý. Jórvíkurhertogi. Jórvíkurhertogi eða hertoginn af York er aðalstitill (hertogatitill) í aðalsmannatali Bretlands. Fyrst var titillinn búinn til fyrir Játmund af Langley, yngri son Játvarðar 3., árið 1385. Frá 15. öld hefur titillinn venjulega verið veittur næstelsta syni Englandskonungs. Sambærilegur titill í aðalsmannatali Skotlands er hertoginn af Alba. Frá 1461, þegar afkomandi fyrsta hertogans varð Játvarður 4. konungur, hefur enginn þeirra tíu sem borið hafa titilinn nokkru sinni náð að arfleiða karlkyns erfingja að honum; Þeir hafa ýmist látist án erfingja eða orðið konungar. Núverandi Jórvíkurhertogi er Andrés prins, næstelsti sonur Elísabetar 2. Bretlandsdrottningar. Uppboð. Uppboð í gangi í Bandaríkjunum Við sölu á uppboði eru sölulaun borguð til uppboðshaldarans. Oftast eru sölulaunin prósenta verðsins sem varan selst á. Á mörgum löndum eru svokölluð uppboðshús sem halda uppboð. Sem dæmi má nefna Sotheby's og Christie's. Gilles Deleuze. Gilles Deleuze (18. janúar 1925 – 4. nóvember 1995) var franskur heimspekingur, sem hafði mikil áhrif frá 1960 til dauðadags á heimspeki, bókmenntir, kvikmyndir og listgreinar. Vinsælustu verk hans voru tveggja binda verk um kapítalisma og geðhvarfasýki, "Capitalisme et Schizophrénie", verkið "Anti-Oedipus" frá árinu 1972 og verkið "A Thousand Plateaus" frá 1980 en meðhöfundur hans að báðum þessum verkum var Félix Guattari. Verk hans "Difference and Repetition" frá 1968 er af sumum fræðimönnum talið vera hans besta verk. Deleuze, Gilles Neðansjávarfornleifafræði. Neðansjávarfornleifafræði (e. "maritime archaeology") er sértækt svið innan fornleifafræði sem snýr að fornleifum undir yfirborði sjávar og öllum mannlegum leifum og gripum sem sjávarnýtingu tengjast. Rannsakendur á þessu sviði skoða minjar eins og fiskstöðvar, verbúðir, hvalveiðistöðvar, sokkin skipsflök, rústir sem hafa horfið í sjóinn, gömul hafnarstæði og margt fleira. Rannsóknir á minjum sem liggja undir hulu sjávar eru þeim augljósu erfiðleikum gædd að erfitt er að komast að þeim. Oft liggja minjarnar á miklu dýpi og þarf því þar tilgerðan búnað til að rannsaka þær. Slíkur búnaður er kostnaðarsamur og sérþjálfaða fagaðila þarf til að vinna með hann. Kafarar eru notaðir til að fara að minjum sem liggja á grunnu dýpi en þegar þær liggja of djúpt fyrir kafara þarf að notast við djúpsjávarmyndavélar. Slíkar vélar geta verið í annaðhvort mönnuðum eða ómönnuðum rannsóknarkafbátum. Einnig er notast við hliðarhljóðsjár (e. "side-scan sonar") sem notaðar eru með aðstoð skipa. Ísland. Allt frá landnámi hafa Íslendingar treyst á fæðu sem hægt er að afla úr sjónum. Sjóferðir við strendur landsins hafa ávallt verið hættulegar og hefur margt skipið mætt örlögum sínum til dæmis á skerjum að nóttu til eða í veðurofsa á hafi úti. Rústir um fisk- og hvalveiðistöðvar má finna nánast hvar sem er eftir strandlengjunni. Lítið hefur þó verið rannsakað af slíkum minjum á Íslandi og geta hugsanlegar ástæður þess verið margar. Almennt hefur verið talið að aðstæður í sjónum við Ísland séu slæmar til varðveislu minja og því sé óþarft að leita eftir þeim. Þó benda nýlegar rannsóknir til að varðveisluskilyrði séu svipaðar og við Bretlandseyjar og reglulega festast minjar í netum veiðiskipa, bæði úr járni og viði. Margt þarf að spila saman til þess að varðveisluskilyrði séu góð, súrefnissnauðar og kaldar aðstæður auk þess sem vatnsstraumar, dýpi, selta og örlífverur spila mikilvægt hlutverk. Það hafa farið fram nokkrar rannsóknir sem flokkast til neðansjávarfornleifafræði, eins og rannsóknin á minjum undir sjávarmáli við Vestfirði sem Ragnar Edvardsson stýrði (2009-2010) og rannsókn Bjarna F. Einarssonar um hina svo kölluðu „Mjaltastúlku í gígnum“ (1993). Einnig má minnast á rannsóknir Ragnars Edvardssonar sem eru í gangi þegar þetta er skrifað (mars 2013), m.a. rannsókn á póstskipinu Phønix sem fórst árið 1881 við Snæfellsnes og neðansjávarkannanir á völdum stöðum við strendur Íslands. Enginn gagnabanki er til í dag (mars 2013) yfir staðsetningar eða fjölda skipsflaka sem liggja víðsvegar við strendur Íslands. Mjaltastúlkan í gígnum. Árið 1992 fundu tveir kafarar tvö skipsflök í Höfninni í Flatey í Breiðafirði. Vegna þeirrar hættu sem stafaði af hugsanlegri ásókn fjölmiðla og annarra kafara að svæðinu vegna fundarins, var ákveðið af Þjóðminjasafninu að lagst yrði í fyrstu neðansjávarfornleifafræðirannsóknina á Íslandi. Eldra flakið, sem áætlað að væri frá 17. öld var rannsakað og var það hann Bjarni F. Einarsson fór með yfirumsjón á þessari rannsókn. Með góðu samstarfi kafara og rannsóknarmanna tókst þessi rannsókn vel og staðfesti hún að flakið væri frá 17. öld og væri líklega skipið Melckmeyt (sem á íslensku þýðir Mjaltastúlka) frá Hollandi. Mikið magn af gripum fannst, aðallega keramik brot, sem í heildina vógu um 30 kg. Nýlegar rannsóknir. Síðan 2010 hefur Ragnar Edvardsson staðið fyrir rannsóknum sem hafa það markmið að kanna ástand og fjölda neðansjávarminja við Íslandsstrendur. Við rannsóknina er notast við bæði vettvangskannanir og ritaðar heimildir og hefur heimildarýnin leitt í ljós að meðaltali hafi tveir íslenskir fiskibátar sokkið á ári á síðari hluta 19. aldar en að auki sýndir rannsóknin að meðaltal sokkinna farmskipa er 1,12 á ári á sama tímabili. Rannsóknirnar haf leitt í ljós staðetningu sex skipsflaka sem ekki var vitað áður um og eru þessi skipsflök þannig staðsett og í þokkalegu ástandi að vel má stunda fornleifarannsóknir á þeim. Pedra do Sal. Pedra do Sal er sögustaður og helgistaður í hverfinu Saúde í Rio de Janeiro. Þar var einu sinni þorp strokuþræla af afrískum uppruna en slík þorp eru kölluð quilombo. Pedra do Sal er sérstakur staður fyrir Ríóbúa af afrískum uppruna og aðdáendur samba og chora tónlistar. Það eru í miðja svæðis sem eitt sinn var kallað Litla-Afríka en þar voru margir skálar þar sem flóttaþrælar og þrælar sem höfðu fengið frelsi bjuggu. Í kringum 1608 byggðist svæðið þegar fólk frá Bahia fluttist til Saúde þar sem húsnæði var ódýrt og nálægt höfninni að sem vinnu var að fá. Fyrstu stóru skipalægi og vöruhús í Ríó voru byggð á þessum tíma og stígar og stræti náðu til Pedra da Prainha sem seinna nefndist Pedra do Sal og þar var stór þrælamarkaður. Svæðið varð síðar meir menningarmiðstöð fyrir þeldökka íbúa. Ciata frænka. Einn þekktasti og áhrifamesti íbúi svæðisins var Hilária Batista de Almeida sem var kölluð Ciata frænka. Hún fæddist árið 1854. Hún bjó til sælgæti og seldi það á götunni Rua da Carioca. Hún átti 15 börn. Hún var upphafsmaður carioca hefðar í Bahia sem nefnt er quituteiras og hafði mikil áhrif á skipulag götuskemmtana á svæðinu, skemmtana sem voru undanfari karnivalsins. Haldnar eru reglulega samba da roda skemmtanir í Pedra do Sal. Sæfjall. Sæfjall (seamount) er neðansjávarfjall, það rís af sjávarbotni en nær ekki sjávarmáli. Sæfjöll eru oftast mynduð af eldvirkni og eru því virk eða útkulnuð eldfjöll. Hæð þeirra getur verið frá nokkur hundruð metrum og í 4000 m eða meira. Lögun þeirra og stærð er breytileg frá einu fjalli til annars og tindar þeirra geta verið á miklu dýpi. Sæfjöll hafa mest verið athuguð í Kyrrahafi en þau finnast í öllum heimshöfunum. Í Norðuratlantshafi eru þau algeng en lítt rannsökuð. Nokkur þeirra hafa þó hlotið nöfn, svo sem Maríetta og Franklín sunnan Íslands. Sköpunarvísindi. Sköpunarvísindi kallast hjáfræði (angi sköpunarhyggju), sem hefur það markmið að sýna með vísindalegum hætti að sköpunarsaga Biblíunnar sé sönn. Þetta er gert með því að reyna að hrekja fullyrðingar jarðfræðinnar um jarðsögu, heimsfræðinnar um tilurð heimsins og líffræðinnar um þróun tegunda. Sköpunarvísindi komu fyrst fram á 7. áratug 20. aldarinnar af kristnum bókstafstrúarmönnum í Bandaríkjunum, sem töldu Biblíuna vera óbrigðula og reyndu að grafa undan vísindunum, sem þróunarkenningin byggist á. Vísindasamfélagið hafnar gervivísindum (hjáfræði) og hafnar því aðferðum og niðurstöðum sköpunarvísinda. Söguleg þróun. Eftir árið 1900 varð sífellt algengara að þróun tegunda væri kennt í framhaldsskólum Bandaríkjanna. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld fjölgaði hins vegar kristnum bókstafstrúarmönnum sem aðhylltust sköpunarhyggju og lögðust gegn því að þróunarkenningin væri kennt í skólum. Á nokkrum svæðum í Bandaríkjunum gekk það í gegn að banna þróunarkenninguna með lagasetningu, þekktasta dæmið var í Tennesse árið 1925. Áhyggjuraddir um ábótavana vísindakennslu í skólum Bandaríkjanna náðu hámæli árið 1957 eftir að geimáætlun Sovétríkjanna gekk upp og Spútnik varð fyrsta geimfarið sem var sett á sporbaug um jörðu. Þetta varð til þess að vísindakennsla var endurskoðuð í Bandaríkjunum og varð til þess að árið 1963 kenndu um helmingur framhaldsskóla þróunarkenninguna. Sköpunarvísindi (kölluð Sköpunarhyggja á þeim tíma) komu fram sem skipulögð samtök á 7. áratugnum. Samtökin voru undir sterkum áhrifum frá fyrri verkum Kanada mannsins George McCready Price sem hafði gagnrýnt jarðfræðikenningar sem vísindamenn stóðu fyrir. Hugmynd Price leiddu til dæmis til útgáfu bókarinnar Genesis flóðið, eftir Henry M. Morris og John C. Whitcomb. Sú bók varð fljótt vinsæl meðal Kristinna bókstafstrúarmanna og nú reyndu þeir ekki aðeins að hrekja þróunarkenningu Darwins heldur einnig fullyrðingar jarðfræðinnar um jarðsögu, heimsfræðinnar um tilurð heimsins.Auk þess sem sköpunarvísindasinnar vildu láta kenna kenningar sköpunarvísindanna til jafns við þróunarkenninguna, því var hafnað árið 1982 þar sem að sköpunarvísindi fengust ekki viðurkennd sem vísindargrein. Trúarlegar undirstöður. Sköpunarvísindi styðjast að miklu leyti á fyrstu 11 köflum köflum Sköpunarsögunnar, sem lýsir því hvernig Guð skapaði heiminn á sex dögum, fyrsta karlinn og konuna öll dýr og plöntur. Syndaflóðið eyddi síðan öllu lífi ef frá eru talinn Nói og fjölskylda hans auk fulltrúa úr öllum tegundum dýraríkisins. Eftir þessar hamfarir var aðeins talað eitt tungumál í heiminum þar til Guð tvístraði fólkinu við Babelsturn og gaf þeim mismunandi tungumál. Sköpunarvísindin halda sig oftast innan þessa tímaramma. Sýn á hefðbundin vísindi. Sköpunarvísindi hafna þróunarkenningunni og telja að þær aðferðir sem notaðar séu í þróunarkenningunni séu gervivísindi eða jafnvel trúarbrögð. Sköpunarvísindi telja að þær jarðfræðilegu breytingar sem orðið hafa megi rekja til náttúruhamfara sem skrifað er um í Biblíunni líkt og flóðsins mikla og ísaldar sem fylgdi þar á eftir. Þeir hafna sístöðuhyggju en sú kenning segir að nútíðin sé lykill fortíðarinnar, það er að segja að sömu ferli hafi ætíð verið að verki í náttúrunni, og í þvi ljósi beri að skilja og skýra fornar jarðmyndanir. Vísindasamfélagið telur í grundvallaratriðum að kenningar sköpunarvísindasinna falli ekki inn í kenniramma lögmætra vísinda. Ástæðan er fyrst og fremst sú að kenningar þeirra byggja allar á fullyrðingum úr Biblíunni, sem ekki er hægt að sannreyna með tilraunum. Auk þess sem árás sköpunarvísinda á þróunarkenninguna þykir ekki vera byggð á vísindalegum rökum. Þessar athugasemdir vísindasamfélagsins voru samþykktar með tveimur dómsniðurstöðum á 9. áratugnum þegar sköpunarvísindi fengust ekki viðurkennd sem vísindagrein. Smári McCarthy. Smári McCarthy (fæddur 7. febrúar 1984) er írsk-íslenskur frumkvöðull og aðgerðasinni. Hann er formaður International Modern Media Institute (IMMI) og einn af stofnendum Félags um stafrænt frelsi og stjórnmálahreyfingar Pírata á Íslandi. La Face cachée du Z. La Face cachée du Z er 52. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú önnur eftir höfundanna Yoann og Fabien Wehlmann. Hún var gefin út á bókarformi á frönsku árið 2011 eftir að hafa birst sama ár í teiknimyndablaðinu Sval en hefur ekki komið út á íslensku. Söguþráður. Sagan er framhald Alerte aux Zorkons og hefst þar sem Svalur og Valur vinna að viðgerðum á höll Sveppagreifans. Um nóttina eru þeir allir numdir brott af Zorglúbb og fluttir í leynilega geimstöð á skuggahlið Tunglsins. Þar stundar Zorglúbb hvers kyns rannsóknir og viðurkennir að hafa brotist inn í höll greifans til að finna efni sem drepið gæti sveppagróður í stöðinni. Félagarnir spyrja hvernig Zorglúbb gat fjármagnað ævintýrið. Í ljós kemur að dularfullir bakhjarlar kostuðu bygginguna, gegn því að jafnframt væri rekið þar hótel og skemmtigarður fyrir stórstjörnur og milljarðamæringa. Öryggisgæslan er í höndum harðsnúinna málaliða. Valur nýtur lífsins umkringdur fyrirmennum og frægðarfólki. Svalur og Pési verða fyrir háskalegri geimgeislun. Geislunin gefur þeim ofurkrafta, en jafnframt eiga þeir til að breytast í hálfgerð skrímsli þegar minnst varir. Áður en þetta kemur í ljós, eru unnin dularfull skemmdarverk á geimstöðinni. Flestir gestirnir eru sendir til Jarðar meðan öryggisgæslan reynir að finna sökudólginn. Svalur breytist í ófreskju og stekkur á flótta undan "Bronco", foringja öryggisvarðanna, sem reynist sjálfur hafa orðið fyrir geimgeislun. Zorglúbb reynist standa á bak við spellvirkin. Hann hertekur stöðina og setur Val, Sveppagreifann og Pésa um borð í næstu geimflaug til Jarðar. Zorglúbb hyggst gera rannsóknir á Sval, þegar "Bronco" kemur aðvífandi. Þeir Svalur, sem báðir eru í dýrsham, berjast uns "Bronco" þeytist út í geim. Svalur kemst um borð í flaug félaga sinna, þar sem hann nær bata. Í lok bókar ríkir Zorglúbb yfir tunglstöðinni og undirbýr heimsyfirráð í krafti vélmenna sinna. Á skrifstofu hinna dularfullu bakhjarla bölva menn Zorglúbb fyrir svikin, en áhugi þeirra beinist nú að Sval. Hvítárholt. Hvítárholt er bær sem stendur við bakka Hvítár í Hrunamannahreppi í Árnessýslu. Fornleifafundir. Sumarið 1963 fundust fornar mannvistaleyfar í Hvítárholti. Við nánari athugun áttuðu rannsakendur sig á að um sögualdarbyggð væri að ræða og ákveðið var að gera fullnaðarannsókn á svæðinu í kring um bæinn. Umfangsmikill fornleifauppgröftur var framkvæmdur sem stóð yfir með hléum sumrin 1963 til 1967. Fornleifarannsóknin. Stjórnandi rannsóknarinnar var Þór Magnússon, en einnig störfuðu við rannsóknina Guðmundur Jónsson, Gísli Gestsson, Kristján Eldjárn og Halldór J. Jónsson. Svæðið sem minjarnar spönnuðu var töluvert víðfermt, hryggur sem spannaði um 600 til 800 metra. Fornleifarannsóknin í Hvítárholti var viðamesta húsarannsóknarverkefni sem Þjóðminjasafnið hafði framkvæmt til þessa. Áður en yfir lauk komu í ljós einhverjar merkilegustu og óvenjulegustu sögualdarminjar og mannvistaleyfar sem rannsakaðar hafa verið hérlendis og aukið hafa á þá mynd sem til var af húsagerð á Íslandi. Alls fundust tíu hús af ýmsum gerðum sem virðast öll vera frá sama tíma eða frá um 10. öld. Voru þetta þrír stórir skálar, leyfar einnar hlöðu og eins fjóss. Auk þess fundust leyfar fimm jarðhúsa, algerlega óþekktrar húsagerðar á Íslandi. Það sem gerir fornleifauppgröftinn í Hvítárholti einnig merkilegan er að þar var í fyrsta sinn ráðist í rannsókn á minjum sem hvergi er getið um í fornritum. Skálarnir. Skálarnir þrír sem fundust í Hvítárholti voru allir um 20 metrar að lengd, vandlega byggð aflöng hús með bogadregnum veggjum. Skálarnir féllu nánast algerlega inn í þá mynd sem við höfðum af húsagerð á 10. öld hérlendis. Þeir samsvöruðu einnig náið húsagerðum frá sama tíma sem fundist hafa í Færeyjum, Orkneyjum og Danmörku. Eitt gerði skálana þó óvenulega, því þar fannst veggjagerð sem aðallega er þekkt í nágrannalöndum okkar en hafði ekki áður þekkst á Íslandi. Jarðhúsin. Merkilegasta uppgötvunin voru þó áðurnefnd jarðhús. Þar fundust ummerki algerlega óþekktrar húsagerðar á Íslandi, hinna svokölluðu jarðhúsa, fimm að tölu og voru íslenskir fornleifafræðingar undrandi á þessari óvæntu viðbót. Jarðhúsin í Hvítárholti eru einfaldlega holur, um þrír til fjórir metrar í þvermál, sem grafnar hafa verið niður um einn metra. Í nokkrum holanna fundust eldstæði og eldsprungnir steinar. Í Íslendingasögum er víða getið um jarðhús, meðal annars í Eyrbyggju. Þar segir frá niðurgröfnu baðhúsi sem svipar til lýsinga á jarðhúsunum í Hvítárholti. Möguleg útskýring á tilvist og tilgangi jarðhúsanna gæti þar verið komin. Jarðhúsin eru stórmerkileg uppgötvun í á sviði íslenskra fornleifarannsókna. Rómverskur peningur. Við uppgröftinn í Hvítárholti fannst einnig nærri 1700 ára rómverskur koparpeningur. Spurningin sem vaknaði upp við fund peningsins var: Hvað vildu samtímamenn í Hvítárholti með einskisnýta rómverska mynt? Kristján Eldjárn varpaði fram þeirri tilgátu að rómverskir sjómenn hefðu mögulega lent í hafvillu hér við land löngu fyrir landnám, víkingar hefðu síðar fundið þessa peninga og borið til bústaða sinna. Enn hefur ekki tekist að útskýria tilvist peningsins. Bæjarstæðið. Staðsetning Hvítárholts er nokkuð óvenjuleg fyrir þær sakir að bæinn hefur borið hátt og hefur verið áveðra og einnig var gott vatnsból ekki nærri. Hvítá leggur um á vetrum og flæðir einnig yfir bakka sína í asahlákum. Ekki þykir ólíklegt að þessi atriði hafi átt hlut í að bærinn lagðist í eyði eða var færður um set. Alþýðublaðið. "Alþýðublaðið" var íslenskt dagblað stofnað árið 1919 sem málgagn Alþýðuflokksins. Lengi framanaf var blaðið fjórar síður og kom út sex sinnum í viku en í Síðari heimsstyrjöld var það stækkað og varð lengst 16 síður um tíma. Miklir fjárhagsörðugleikar á 8. áratugnum urðu til þess að reynt var að koma rekstri blaðsins af herðum flokksins og inn í rekstrarfélög sem gengu misvel. Vikuritið "Pressan" var stofnað upp úr "Alþýðublaðinu" árið 1988. Síðasta útgáfufélagið, Alþýðublaðsútgáfan hf., var að lokum keypt af Frjálsri fjölmiðlun, útgáfufélagi "DV" sem ákvað 1997 að leggja blaðið niður, ásamt öðrum flokksmálgögnum á borð við "Tímann" og "Vikublaðið" (arftaka "Þjóðviljans") og stofna nýtt dagblað, "Dag-Tímann". Ritstjórar blaðsins voru margir hverjir nátengdir Alþýðuflokknum og urðu sumir áhrifamenn innan hans síðar. Meðal þeirra voru Finnbogi Rútur Valdimarsson síðar alþingismaður og fyrsti bæjarstjóri Kópavogs, Hannibal Valdimarsson bróðir hans, formaður flokksins og síðar félagsmálaráðherra og samgönguráðherra, Sighvatur Björgvinsson síðar heilbrigðisráðherra og formaður flokksins, Jón Baldvin Hannibalsson sonur Hannibals, síðar formaður flokksins, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson síðar umhverfisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Saga. Fyrsta tölublaðið kom út 24. október 1919. Ritstjóri var þá Ólafur Friðriksson. Árið 1925 var Alþýðuprentsmiðjan stofnuð með samskotum meðal félagsmanna í Alþýðuflokknum og tók þá við prentun blaðsins. Lengst af í byrjun var blaðið fjórar síður að lengd og kom út alla daga vikunnar nema sunnudaga. Í október 1934 tók Finnbogi Rútur Valdimarsson við ritstjórninni. Í júlí 1940 tók Stefán Jónsson við ritstjórn. Þann 24. febrúar 1942 voru gerðar breytingar á haus blaðsins og það lengt í átta síður. Nú kom það út alla daga nema mánudaga. Fyrsta myndasagan tók að birtast á sama tíma, "Örn elding" (Rex Baxter eftir Edmond Good) en þá voru íslensku dagblöðin nýtekin upp á því að birta myndasögur. Árið 1947 hóf myndasagan Golíat eftir Ruben Lundquist göngu sína í blaðinu. Í ársbyrjun 1953 tók Hannibal Valdimarsson við ritstjórn en eftir deilur hans við stjórn flokksins á flokksþingi sumarið 1954 lét hann af störfum og við tók ritnefnd um stutt skeið en síðan Helgi Sæmundsson sem áður hafði verið meðritstjóri með Hannibal. Þann 29. september 1957 var blaðið enn lengt í 12 síður. Í árslok 1959 tóku Gísli J. Ástþórsson og Benedikt Gröndal við ritstjórn. Um leið var blaðið lengt í 16 síður og þó nokkrar breytingar gerðar á því og hlutur mynda aukinn. Í september 1963 tók Gylfi Gröndal við ritstjórn ásamt Benedikt en Gísli lét af störfum. Gylfi lét svo af störfum í mars 1967 en Benedikt hélt áfram sem ritstjóri. Um svipað leyti var blaðið aftur minnkað í 12 blaðsíður. Í janúar árið eftir tók Kristján Bersi Ólafsson við ritstjórninni og árið 1969 gerðist Sighvatur Björgvinsson meðritstjóri og síðan eini ritstjóri blaðsins frá 1970. Árið 1972 gerði Alþýðuflokkurinn samning um rekstur blaðsins við "Vísi" og Alþýðublaðsútgáfan hf. var stofnuð. Freysteinn Jóhannsson var þá um tíma ritstjóri ásamt Sighvati. Á þeim tíma var forsíðan prentuð í tvílit með rauðum blaðhaus. Tveimur árum síðar var nýtt útgáfufélag, Blað hf., stofnað um rekstur "Alþýðublaðsins" og gekk það í eitt ár en 1975 tók Alþýðuflokkurinn aftur við útgáfunni og lengdi blaðið aftur í 16 síður um stutt skeið. Árið 1976 varð Árni Gunnarsson ritstjóri í stað Sighvats. Ástæður þessara tilrauna með rekstrarfélög voru að á þessum tíma áttu flest íslensk dagblöð í miklum fjárhagserfiðleikum vegna aukins kostnaðar við útgáfuna. Útgáfa blaðsins var því orðin þungur baggi á flokknum sem vildi losa sig við hana. Í maí árið 1978 lá við að blaðið færi í þrot en því var bjargað fyrir horn. Í kjölfarið var blaðið minnkað í fjórar síður og sunnudagsútgáfu hætt. Árið 1979 lét Árni af störfum sem ritstjóri og föstudagsútgáfu var hætt. Blaðið kom nú út fjórum sinnum í viku, fjórar síður að stærð. Í september 1979 kom aftur útgáfuhlé en um miðjan mánuðinn varð Jón Baldvin Hannibalsson ritstjóri. Í árslok 1982 tók Guðmundur Árni Stefánsson við af honum og skömmu síðar var útgáfa blaðsins aukin í fimm eintök á viku. Árið 1984 var Blað hf. aftur skrifað fyrir rekstri blaðsins og árið 1985 tók Árni Gunnarsson aftur við sem ritstjóri. Fyrir Alþingiskosningar 1987 var verulega bætt í útgáfu blaðsins og Ingólfur Margeirsson var ráðinn ritstjóri. Eftir það kom blaðið út fimm sinnum í viku, átta síður að stærð. Haustið 1988 stóð Alþýðuflokkurinn að útgáfu nýs vikublaðs, "Pressunnar", í gegnum Blað hf. og hætti Alþýðublaðið þá aftur föstudagsútgáfu og minnkaði laugardagsútgáfuna til að skapa ekki samkeppni við nýja blaðið. Síðar var fimmtudagsútgáfan flutt á föstudag. Árið 1991 var aftur gerð breyting á útgáfunni þannig að blaðið kom nú út samfleytt frá þriðjudegi til föstudags, fjórum sinnum í viku. Haustið 1991 var blaðið aftur minnkað í fjórar síður og á sama tíma var ákveðið að aðskilja rekstur Pressunnar og Alþýðublaðsins og selja meirihluta Blaðs hf. í Pressunni. Við rekstri alþýðublaðsins tók Alprent hf. undir stjórn Ámunda Ámundasonar. Skömmu síðar tók Sigurður Tómas Björgvinsson við ritstjórninni og blaðið var aftur stækkað í átta síður. Haustið 1994 tók nýr ritstjóri, Hrafn Jökulsson, við blaðinu, í fyrstu ásamt Sigurði. Þá hóf Silfur Egils, fastir pistlar í umsjá Egils Helgasonar, göngu sína í blaðinu. Árið 1996 kærði ríkissaksóknari Hrafn vegna ærumeiðandi ummæla um Harald Johannessen, fangelsismálastjóra, í grein í Alþýðublaðinu. Héraðsdómur vísaði málinu frá en hæstiréttur sneri þeim úrskurði við. Hrafn lét af störfum í árslok 1996 og varð skömmu síðar ritstjóri "Mannlífs". Sæmundur Guðvinsson tók við um stutt skeið en í febrúar tók Alþýðublaðsútgáfan aftur við blaðinu. Stjórnendur útgáfunnar voru Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson hjá Frjálsri fjölmiðlun. Össur Skarphéðinsson, alþingismaður, varð ritstjóri. Sama ár var ákveðið að leggja gömlu flokksblöðin sem Frjáls fjölmiðlun rak niður og stofna eitt nýtt dagblað, "Dag-Tímann" til að keppa við "Morgunblaðið" og "DV". Í síðustu ritstjórnargrein sinni 1. ágúst 1997 sagði Össur „Flokkar hafa ekki lengur þörf fyrir dagblöð, og þau enn síður fyrir flokka“, sem endurspeglaði þá skoðun að flokksmálgögnin hefðu runnið sitt skeið á enda. "Alþýðublaðið" var gefið út sem sérprent þrisvar-fjórum sinnum eftir það, síðast í tengslum við landsþing Alþýðuflokksins 1998 en skömmu eftir það stóð flokkurinn að stofnun Samfylkingarinnar. Hof (guðshús). Hof er nafn trúarhúss heiðinna norrænna manna. Örnefni benda til þess að hof hafi verið víða á fyrri öldum. Mörg bæjarheiti á Íslandi draga nafn sitt af orðinu eins og til dæmis Hof í Öræfum og Hofstaðir í Mývatnssveit. Lýsing. Í Vatnsdæla sögu er sagt frá Ingimundi Gamla sem "reisti hof mikið hundrað fóta langt" (um 31,4 metrar) og í Kjalnesinga sögu reisir Þorgrímur Helgason hof "hundrað fóta langt en sextugt á breidd". Þetta gæti þýtt að hof reist á Íslandi hafi verið svipuð að stærð. Fornleifarannsóknir. Á 19. öld þegar áhugi á fornleifum fór vaxandi meðal fræðimanna voru þingstaðir, hof og dómhringir meðal helstu rannsóknarefna manna. Á þessum tíma höfðu sjálfstæðisbarátta Íslendinga og rómantíska hreyfingin mikil áhrif á hug manna. Lýstu sumir fræðimenn því yfir að rannsóknum þeirra væri ætlað að sannreyna tilvist staða nefnda í Íslendingasögum og með þeim hætti sýna fram á trúverðuleika sagnanna. Raunin hefur verið sú að meintir dómhringir og hof, bæði á Íslandi og á meginlandinu, hafa oftast einfaldlega verið fjárhústóftir eða bæir. Eins og er talið að ekki hafa fundist neinar byggingar sem er vitað fyrir víst að hafi þjónað eingöngu sem hof. Hofstaðir í Mývatnssveit. Með þekktari meintum hofum eru Hofstaðir í Mývatnssveit. Fyrstur til að grafa þar var danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun árið 1908. Hann fann skála sem var 38 metrar á lengd, sem er næstum tvöfalt lengri en flestir aðrir skálar sem fundist hafa, og einnig var sérherbergi á norðurenda skálans. Örnefnið „Hofstaðir“, stærð skálans og sérherbergið sem Bruun túlkaði sem innrahof leiddi til þess að hann taldi sig hafa fundið hof. Þó voru efasemdir um verk og túlkun Bruuns og árið 1965 gróf annar Dani að nafni Olaf Olsen á Hofstöðum. Túlkun Olsens var að Hofstaðir hefðu bæði verið bær og hof. Skilgreining hans á hofum var því að þau hefðu einfaldlega verið býli þar sem fólk bjó, en einnig þar sem trúarlegar athafnir og veislur fóru fram. Nýlegur uppgröftur frá 1992-2001 styður þessa hugmynd Olsens. Í þeim uppgreftri fannst mikið magn dýrabeina, þar á meðal ungnautgripir sem höfðu verið drepnir með höggi milli augnanna og þeir síðan hálshöggnir. Hornin voru skilin eftir á höfuðkúpunum og sýndu þær veðrun á yfirborði sem gefur í skyn að þær hafi verið geymdar lengi eftir að dýrin voru drepin. Bendir þetta til trúarlegra athafna. Einnig kom í ljós að aðaleldstæðið var fremur lítið, miðað við rými skálans og að staðsetning hans var ekki góð fyrir bóndabæ. Skálinn lá fremur hátt yfir sjávarmáli við upphaf hlíðar, sem væntanlega hefur skapað vandræði að vetri til vegna snjóa og leysinga á vori. Yngri bæjarleifar liggja lægra í landi Hofsstaða og í allt að 200 metra fjarlægð frá skálanum. Hins vegar hefur staðsetning skálans gert hann sýnilegan og góðan aðkomustað fyrir sveitina í kring. Þessar niðurstöður benda til þess að á Hofstöðum hafi verið bæði bær og samkomustaður eins og Olsen hélt fram. Deilur um tilvist hofa. Fram á miðja 20. öld voru fræðimenn gjarnan sannfærðir um að staðir með örnefnið „hof“ á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð væru vísbendingar um helgihús heiðinna manna. Niðurstöður fornleifafræðirannsókna sýndu hins vegar að hér var yfirleitt aðeins um að ræða venjulega skála og bæjarstæði. Settu þá sumir fram þá tilgátu að heiðnu hofunum hefði verið breytt í kirkjur með komu kristinnar trúar. Sú kenning reyndist ólíkleg þar sem þær kirkjur sem hafa verið skoðaðar benda ekki til þess að þar hafi verið hof áður fyrr. Tillaga Olaf Olsens um að bæir stórbænda hafi verið notaðir sem hof virðist mest sannfærandi miðað við stöðu þekkingar í dag. Kúabót. Álftaver er svæði er allt að 600 km2. Uppgröfturinn á Kúabót í Álftaveri fór fram á árunum 1972-76 og var honum stjórnað af Gísla Gestssyni, fyrsta safnverði Þjóðminjasafns Íslands. Þessi uppgröftur var mikill áfangi í íslenskri fornleifafræði, bæði vegna þess hve stór uppgröfturinn var og líka vegna hve mikið af gripum og verðmætum fundust.. Áður en uppgröftur hófst var þessi rúst hvergi merkt á korti og var hún nefnd Kúabót manna á milli en ekki er hægt að finna það nafn í eldri heimildum. Rútin stendur á leiru suðvestan við núvcrandi byggð í Álftaveri. Þar á sandinum voru þrjár uppsprettur, Austasti Kælir, Miðkælir og Vestasti Kælir. Miðkælir hvarf árið 1918 við Kötlugosið. Austasti Kælir rennur næst byggð, en Vestasti Kælir nokkru vestar. Á milli þeirra var áður há sandalda, vaxin melgrasi og nefndist hún Kúabót. Eftir 1918 fór Kúabót að blása upp, þangað til að hún var að fullu horfin um 1950 og þá kom rústin í ljós. Nokkrum árum eftir að rústin kom í ljós kom Þórður Tómasson sem var þá safnstjóri á Skógum að rústinni og gróf þar í. Hann hvatti þjóðminjavörð til nánari rannsóknar og í lok sumars 1971 var ákveðið að grafa rústina upp. Kötlugos. Talið er að bærinn hafi lagst í eyði eftir Kötlugos. Engin þekkjanleg gjóskulög fundust við uppgröftin en eftir nánari rannsóknir jarðfræðinga komust þeir að niðurstöðu að gjóskulagið væri úr Kötlugosinu 1416. Talið er að Kúabót hafi verið komið í eyði um 1490 þegar annað Kötlugos reið yfir. Að öllum líkindum er talið að bærinn hafi farð í eyði eftir jökulhlaup. Jökulhlaup fylgja alltaf Kötlugosum og flæða þau yfir Mýrdalssand og valda miklum skemmdum á því sem fyrir verður, hvort sem það er landslag eða mannvirki. Kúabót. Kúabót var stórbær og var hann yfir 40 metra langur. Hússkipan bendir til þess að hann sé frá miðöldum. Hann skiptist í sjö tóftir, auk ganga, kirkjutóftar á hlaði og útihústóftar norðvestan við bæjarhúsin. Á bæjarstæðinu fannst önnur tóft sem þótti líklegt að væri kirkju- eða bænahústóft en þó fundust engar leifar af greftrun á staðnum. Þar fannst líkneski af Maríu mey haldandi á Jesúbarninu. Margir munir fundust við uppgröftinn eða alls um 564 gripir, má þar nefna rauðleirsbrot, kopardiskur, eirskál, skyrker, húsdýrabein og margt fleira. 21 (hljómplata). 21 er önnur plata Adele, hún kom út í janúar árið 2011. Platan var mjög vinsæl í Bretlandi og seldist í meira en 14 milljónum eintaka. Hún var í efsta sæti á bandaríska vinsældarlistanum, lengur en nokkur önnur plata síðan árið 1993. Platan var tilnefnd til sex grammy-verðlauna og vann hún öll þau verðlaun. Sel. a>. Þótt á Íslandi hafi verið mest um sauðfé í selum voru þar oft einnig kýr Sel voru hús sem voru nýtt til seljabúskapar á Íslandi og víðar um Evrópu, einkum í fjallendi. Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi snemma á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap fólst það að mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, voru reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina. Fólk af bænum, gjarnan vinnukonur ásamt smala, höfðust við í selinu á meðan og hirtu um skepnurnar. Sel voru gjarnan fjarri bæjunum, t.d. í afskekktum fjalladölum, og nýttu þannig beitiland sem annars hefði verið óaðgengilegt; þannig voru selin eins konar árstíðabundin útibú bæjanna. Einkenni selja. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og mjólkurhús. Utandyra voru yfirleitt kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar. Seljarústir sem rannsakaðar hafa verið af fornleifafræðingum staðfesta þetta að nokkru leyti, því algengt er að rústirnar skiptist í þrjú hólf. Í tíunda hluta rústanna er þó aðeins eitt hólf á meðan að í sumum geta verið fleiri en tíu. Sel hafa því verið nokkuð breytileg að stærð, væntanlega eftir efnum bæjanna, fjölda vinnufólks eða annarra staðbundinna þátta. Uppgreftir. Aðeins einn uppgröftur hefur farið fram á rústum sem teljast hafa verið sel: Pálstóftir við Kárahnjúka, en uppgröfturinn fór fram áður en svæðinu var sökkt í Hálslón vegna virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka. Selið hafði verið í notkun á tímabilinu 950-1070 og samanstóð af einni þrískiptri rúst og annari stakri, auk einhvers konar fjárrétta fyrir utan. Regluleg áfokslög milli gólflaga bentu til að selið hafi (eðlilega) aðeins verið í notkun árstíðabundið. Einnig fundust merki þess að íbúar selsins hafi stundað veiðar á fuglum, jafnvel til að safna vetrarbirgðum. Þó er ólíklegt að selið hafi í raun aðeins verið veiðikofi því þar fundust einnig ýmis konar áhöld, myntir og skartgripir sem höfðu verið smíðaðir á staðnum, en þetta bendir til langtímadvalar á staðnum. Fleiri líklegar selrústir hafa verið rannsakaðar að einhverju marki, t.d. Hólasel í Eyjafirði og fjórar selrústir í Mývatnssveit: Arnarvatnssel, Gautlandasel, Sellandasel og Sandvatnssel, auk tveggja selja í Kjarardal, Borgarfirði, sem heyrðu undir Reykholt. Aldursgreining á þessum rústum bendir til að selin hafi verið byggð fyrir 1300. Dreifing. Ritheimildir, t.d. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, benda til að sel hafi verið mjög misalgeng eftir landshlutum, t.d. hafi meira en helmingur bæja í Dalasýslu haft sel en aðeins 8% í Rangárvallasýslu. Þessi munur kemur hins vegar ekki heim og saman við könnun fornleifa og örnefni, en örnefni tengd seljum eru algeng um allt land. Rétt eins og sel virðast hafa verið breytileg að gerð og stærð, er einnig mjög misjafnt hversu langt þau eru staðsett frá þeim bæjum sem þau heyrðu undir. T.d. er sel við Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu aðeins 1 km frá bænum, meðan Garðar og Innri Hólmur á Akranesi áttu sel í allt að 30 km fjarlægð. Hnignun. Fornleifafræðingum er ekki að fullu ljóst hvers vegna seljabúskapur lagðist af á Íslandi á 18.-19. öld. Mögulegir þættir sem bent hefur verið á er t.d. fólksfækkun vegna stórubólu, sem gekk yfir landið 1707-1709; eða það að fráfærur lögðust af á sama tíma, samfara aukinni kjötframleiðslu. Undir lok 18. aldar þótti ýmsum sýnilega miður að seljabúskapurinn væri að leggjast af og reyndu að halda á lofti kostum hans í riti. Fornleifarannsóknir í Papey. Þó Papey sé tiltölulega lítil eyja þá hafa töluverðar fornleifarannsóknir verið gerðar þar. Þá aðallega til að sannreyna orð Ara fróða í Landnámabók og örnefnið sjálft, um að hér hafi verið írskir munkar (papar) fyrir og við komu norrænna landnámsmanna. Daniel Bruun, danskur fornleifafræðingur, var með þeim fyrstu til að gera fornleifarannsóknir í eyjunni en hann gerði fjölda fornleifarannsókna á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar. Frægustu fornleifarannsóknir þar eru hins vegar þær sem Kristján Eldjárn fornleifafræðingur og seinna forseti Íslands gerði. Hann hóf þar rannsóknir árið 1967 sem stóðu með hléum til 1981. Hann lést árið eftir að rannsókn hans í Papey lauk en skildi eftir sig drög að skýrslu um rannsóknina, sem kom svo út árið 1988 og var birt í "Árbók Hins íslenska fornleifafélags". Rannsóknir Kristjáns Eldjárns. Hann rannsakaði marga staði á eyjunni, til að mynda Írskuhóla, Papa- og Goðatættur, forna garða og garðlög og tvö hús við Áttahringsvog. Eins og sjá má af þessum nöfnum er það ekki einungis heiti eyjarinnar sem vísar til papa heldur líka ýmis örnefni á eyjunni. Þeir staðir voru helst skoðaðir af fornleifafræðingum. Írskuhólar reyndust vera náttúrulegir en tóftir voru við þá sem eru nefndar Papatættur. Þar var grafið niður, ekkert mannvistarlag fannst og er tóftin talin hafa verið kindakofi. Aldursgreiningar eru erfiðar í eyjunni því öskulög (sem eru eitt helsta tæki íslenskra fornleifafræðinga til tímasetningar) eru illgreinanleg í eyjunni. Helst er það hvítt öskulag Öræfajökuls sem gaus 1362 sem er greinanlegt. Öskulag þetta fannst ekki innan í tóftinni en utan þess. Af því má ráða að húsið hafi staðið fyrir 1362 en hve snemma það var byggt er ekki vitað með vissu. Þær minjar sem reyndust svo verða árangursríkastar til rannsókna á eyjunni voru Goðatættur. Byggingarnar sem þar fundust voru víkingaaldarbyggingar, sennilega frá 10. öld. Þar fannst það sem talið er vera fjós, og hýbýli manna. Þarna hafa þá líklegast fundist bæjarstæði frá landnámsöld. Húsin voru orðin að rúst einni þegar öskulag Öræfajökuls 1362 féll þar yfir. Munir. Í eyjunni fundust nokkrar leifar af munum, til dæmis spýtnabrot, dýrabein, brýnisbrot, snældusnúður og öxi. Reynt var að komast að því hvort spýturnar hefðu eitt sinn verið kross, sem gætu þá verið vísbending um veru kristinna manna þar fyrir komu norrænna heiðinna manna. Ekki tókst að færa sönnur á það með vissu að þetta væru minjar papa en mjög líklega voru spýtubrotin eitt sinn krossar. "„...skorið hefur verið gróp í stofn og þvertré, hálft í hálft, og smellt saman...engir slíkir krossar eru áður kunnir hér á landi...“.. Þau fundust á hæðsta stað eyjarinnar, Hellisbjargi, er verið var að grafa fyrir vatnsþró. Kristján efaðist um búsetu papa í Papey eftir sínar rannsóknir. Hann leiddi að því líkur að hólarnir í eyjunni hafi getað orðið tilurð nafnsins, því slík býkúpulöguð mannvirki voru þekkt byggingarform írskra munka, eins og sjá má vel enn þann dag í dag í eyjunni Skellig Michael við Írlandsstrendur. Þekkt er að munkaklaustur á þessum slóðum urðu iðulega fyrir barðinu á víkingainnrásum og því hafa þeir þekkt þessar byggingar keltnesku munkanna. Niðurstaðan er því sú að ekki verður sannað út frá forn- og mannvistarleifum að írskir munkar hafi dvalið í eyjunni fyrir komu norrænna manna en hitt er víst að búseta norrænna manna hófst þar mjög snemma eða við landnám. Þessi búseta varði fram á miðja tuttugustu öld, en þá lagðist hún af. Heimild. Kristján Eldjárn, „Papey. Fornleifarannsóknir 1967-1981“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 85 (1988). Les faiseurs de silence. Les faiseurs de silence (íslenska: "Hljóðsugan") er 32. Svals og Vals-bókin og sú þriðja og síðasta eftir Nic og Cauvin. Hún kom út á frönsku árið 1984 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku. Söguþráður. Sagan hefst skömmu eftir að "La boîte noire" lýkur. Valur útbýr tæki eftir einni af míkrófilmunum úr "svarta kassanum". Tækið er nokkurs konar "hljóðsuga" sem gleypir öll umhverfishljóð úr sínu nánasta umhverfi. Sá er þó galli á gjöf Njarðar að tæma þarf tækið reglulega með tilheyrandi ógnarhávaða. Svalur og Valur prófa tækið, en það veldur fjölda óhappa svo sem árekstra þegar fólk bregst furðu lostið við að heyra engin hljóð. Þrjótarnir "Alexander" og "Kalloway" rekast á Val á förnum vegi, stela tækinu og nota til að fremja bankarán. Yfirmaður þeirra félaga skipar þeim að brjótast inn hjá Sval og Val til að ná Svarta kassanum. Þegar þangað er komið uppgötva þrjótarnir að afhlaða þarf tækið sem er orðið fullt. Þeir flýja í dauðans ofboði og skilja tækið eftir. Svalur og Valur ákveða að farga tækinu með því að steypa það inn í klump og varpa í sjóinn. Svo undarlega vill til að klumpurinn fellur á snekkju þeirra Alexanders og Kalloways sem sekkur. Svalur og Valur bjarga þeim úr sjónum en loftfar þeirra verður þá of þungt svo það lendir í áreksti. Allir mennirnir fjórir enda því á spítala, talsvert lemstraðir. Beiskjuefni. Fyrsta beiskjuefnið sem eingangrað var úr jurtum var morfín sem var einangrarð árið 1804 úr blómum ópíumvalmúa ("Papaver somniferum"). Beiskjuefni eða "lýtingur" (fræðiheiti: "alkaloid"), alkalóíði eða plöntubasi er flokkur basískra, lífrænna köfnunarefnissambanda sem myndast í plöntum. Beiskjuefni var fyrst einangrað úr plöntum árið 1804 og fyrst kynnt sem sérstakt hugtak árið 1819 í grein eftir þýskan efnafræðing Carl F.W. Meissner. Auk kolefnis, vetnis and köfnunarefnis, geta einnig verið í beiskjuefnum súrefni, brennisteinn og sjaldnar efnin eins og klór, bróm og fosfór. Ýmis konar lífverur svo sem bakteríur, sveppir, jurtir og dýr framleiða beiskjuefni. Mörg beiskjuefni eru eitruð fyrir aðrar lífverur. Þau eru oft notuð sem deyfilyf eða vímuefni eins og kókaín, psilocin, koffín, nikótín, morfín og sem lækningalyf eins og berberine, krabbameinslyfið vincristine, lyf sem hamlar bjúgsöfnun eins og reserpine, galantamine, atropine, vincamine, quinidine, asmalyfið ephedrine og malaríulyfið kínin. Fyrsta greinin frá 1819 sem fjallaði um beiskjuefni. Rauðbrystingur. Rauðbrystingur (fræðiheiti: "Calidris canutus") er meðalstór strandfugl af snípuætt. Einkenni. Í vetrarbúningi sínum er Rauðbrystingurinn frekar litlaus, grár að mestu en brúnn á bakinu. Rauðbrystingurinn er meðalstór vaðfugl, örlítið búttaður og lítið eitt stærri en Lóuþræll. Hann er líkur Lóuþræl í hegðun nema að hann er allur hægari á sér og rólegri. Með stuttan háls og lítið höfuð og augu, svartan frekar grannan gogg sem er álíka langur og höfuðið og stutta svarta fætur. Á veturnar er hann grár að mestu en brúnn ofan á baki og litur kynjanna svipaður. Í varpbúningi er hann aftur á móti með gráar strípur ofan á höfði og flekki ofan á baki en annars rauðgulur á höfuð, herðar og bringu en aðeins ljósari á kviðnum. Kynin eru nánast eins en þó er kvenfuglinn ívið ljósari á litin. Útbreiðsla. Hann er farfugl og verpir á Norðurslóðum í Kanada, Evrópu og Rússlandi. Til eru sex undirtegundir sem hver fyrir sig hefur mismunandi varp-og veturstöðvar. Er Rauðbrystingurinn sá strandfugl sem ferðast hve lengst á varpstöðvarnar en hann sem dæmi fer frá syðsta odda Suður-Ameríku til nyrstu heimskautaeyja Kanada. Ekki fara þó allar undirtegundirnar jafn langt. Sú þeirra sem kemur við á Íslandi hefur vetursetu við strendur Vestur-Evrópu, aðalega Bretlandseyjum og er fargestur á Íslandi, það er stoppar hér aðeins til að næra sig fyrir áframhaldandi ferðalag til norður Grænlands og Kanada þar sem hann verpir en verpir ekki á Íslandi. Þeir eru mjög félagslindir og ferðast margir saman jafnvel svo þúsundum skipti. Af deilitegundinni "islandica" sem kemur við á Íslandi þá koma þeir í stórum flokkum frá miðjum apríl og eru fram í byrjun júní og eru það um 250 – 300 þúsund fuglar sem eru um 77% af stofnstærðinni, hinn hluti stofnsins fer um Norður-Noreg. Færri fuglar koma við á haustin en þá eru þeir á ferðinni frá miðjum júlí og út september. Við fuglatalningar að vetri hafa alltaf fundist nokkrir rauðbrystingar sem hafa haft vetursetu, en þó ekki nema 10 - 50 fuglar. Gó-gó tónlist. Gó-gó tónlist (e. "Go-go") er tónlistarstefna sem að á uppruna sinn til seinni hluta áttunda áratugarins í Washington, D.C.. Upphafsmaður stefnunnar var Chuck Brown, en fyrir það hann fékk viðurnefnið Guðfaðir gó-gó tónlistar. Gó-gó tónlist er afbrigði af fönk tónlist og er þetta ein af tónlistarstefnunum sem að gáfu af sér rapp tónlist. Tónlistarstefnan hefur hlotið mestar vinsældir sínar hjá blökkumönnum í Washington, D.C. Uppruni. Gó-gó tónlist á uppruna sinn til áttunda áratugarins. Tónlistarstefnan átti sínar bestu stundir í borgun innan Bandaríkjanna eins og Washington D.C. og Norður-Virginía. Upphafsmaður gó-gósins var tónlistarmaðurinn Chuck Brown. Árið 1976 sá hann sig knúinn til þess að búa til þessa nýju tónlistarstefnu þar sem að plötusnúðar voru að taka yfir öllum þeim störfum sem að upphaflega höfðu alltaf farið til tónlistarmanna. Brown prufaði það að láta hljómsveitina sína, The Soul Searchers, spila endalaust á tóneikum, þeir fengu ekki að stoppa á milli laga. Stundum fór það svo langt að spilað var stanslaust í tvo tíma. Þessi stíll reynist síðan einkenna gó-gó tónlist. Sagan segir að heitið á tónlistarstefnunni kom þegar að Brown var að spila með hljómsveitinni sinni og þegar að lagið var að klárast byrjaði fólkið að fara. Brown snéri sér þá að hljómsveitinni og sagði,Go, go“, eða,Áfram, áfram“. Þeir héldu áfram að spila og fólkið snéri við og hélt áfram að hlusta. George Clinton og Parliament-Funkadelic höfðu mikil áhrif á Brown, en þeir áttu það til að vera með tónleika sem að voru yfir fjóra tíma. Einnig hafði reggí-tónlist og danstónlist frá Karabíska hafinu áhrif á hann. Níundi áratugurinn. Árið 1982 varð gó-gó tónlist orðin vinsælasta tónlistin á dansklúbbum í blökkumannahverfunum í Washington. Grace Jones lagið "Slave to the Rhythm", hafði greinileg áhrif frá gó-gó tónlist á meðan Little Benny lagið "Who comes to Boogie" var greinilega aðeins gó-gó lag af hjarta og sál. Það lag var lagið sem að færði gó-gó yfir til Bretlands, en lagið lenti þar á topplagalista Breta þegar að það kom út. Vinsælasta gó-gó lag allra tíma er ef til vill E.U. lagið "Da Butt". Lagið lagið kom út árið 1987 og varð fyrsta gó-gó lagið til þess að lenda á Billboard Billboard lagalistanum, en lagið var númer 37. Tíundi áratugurinn og nýlegra. Nýr áratugurinn byrjaði og með honum komu nýir tónlistarmenn. Þessir tónlistarmenn féllu undir þann flokk sem að kallaðir voru ´nýja kynslóðin´. Þeirra tónlist hljómaði almennt meira eins og hip-hop heldur en fönk. Vinsældir gó-gó tónlistarinnar óx á þessum áratugi út af plötusnúðum, sem að byrjuðu að spila tónlistina í meira magni. Washington, D.C. var ein af fáu borgunum í Bandaríkjunum þar sem að svartir voru ekki í minnihlutahóp. Hinsvegar hefur dregist úr gó-gó tónlist á almannafæri eftir aldamótin og dauði gó-gósins hefur verið kenndur við dauða Chuck Browns árið 2012. Því náðu þeir að tjá sig mikið í gegnum gó-gó tónlistina á tíunda áratugnum. Útvarpstöðin GoGoRadio er útvarpstöð sem er tileinkum gó-gó tónlist og spilar hana allan daginn. Útvarpstöðin er staðsett í heimabæ gó-gó tónlistarinnar, Washington, D.C. Chuck Brown á tónleikum 1. október 2005. Chuck Brown (1936-2012). Chuck Brown, eða Guðfaðir gó-gó tónlistar, fæddist 22. ágúst 1936. Hann var söngvari og gítarleikari og byrjaði að spila með Jerry Butler and the Earls of Rhythm á sjöunda áratugnum. Hann seinna byrjaði að spila með latneskum hljómsveitum eins og Los Latinos. Hann spilaði alla þá tónlist sem að hann ólst upp með og byrjaði að blanda þeim saman í sinn eigin stíl, sem að seinna fékk nafnið gó-gó. Í þessum nýja stíl sínum átti hann til að kalla áhorfendur og hvetja þá til þess að svara honum. Hann gaf út marga stórsmelli eins og "We Need Some Money" og "The Other Side". Einkenni. Þau hljóðfæri sem að einkenna gó-gó tólist eru trommur, konga-trommur, gítarar, hljómborð, kúbjöllur og ýmis trompet og horn. Yfirleitt er þessi tónlist spiluð af svörtum mönnum. Fólk hefur átt það til að kalla aðal söngvarann „aðal talarann“, þar sem að það hefur oft tíðkast að söngvarinn tali beint til áhorfendanna á milli laga. Áhorendur svara svo í sama stíl. Gó-gó tónlist er í eðli sínu fönk tónlist en Brown skapaði gó-gó út frá þeirri tónlistarstefnu. Fönk tónlist einkennist af bassagítar og hröðum takti, en fönkið átti að vera eins átakanlegt og það gæti verið í hraða sínum. Gó-gó tónlist hefur verið gagnrýnd fyrir það að vera með frekar innihaldslausa texta en textinn er í raun aðeins aukaatriði, þar sem að aðalboðskapurinn er í raun takturinn. Konga-trommur. Konga-tromma er tromma sem að er oftast há, mjó og aðeins með einn flöt til að slá á. Það eru ekki notaði kjuðar heldur er slegið með höndunum. Konga-tromman er upprunalega frá Afríku og fær nafn sitt frá heimalandi sínu Congolaise (e. Conga-drumms). Þegar að tromman kom fyrst fram spiluðu tónlistarmennirnir aðeins á eina trommu og tók það á því voru þeir aðeins sérfræðingar í einum ákveðnum takti. Þeir þróuðu tæknina sína til þess að geta spilað á tvær eða þrjár trommur í einu og ná það blanda saman mismunandi töktum. Konga-trommuslátturinn í gó-gó tónlist er mismunandi, frá því að vera hægur og rólegur yfir í að vera einstaklega hraður. Oftast er spilað á fjórar trommur, tvær litlar og tvær stórar. Áhrif. Gó-gó tónlist hefur haft mikil áhrif á rapptónlist og hvernig hún er í dag. Það á þá sérstaklega við um hröðu textana í lögunum. Sumir telja að rapp eigi uppruna sinn til þeirra hluta á gó-gó plötum þegar að söngvarinn er að tala á milli laga. Margir atvinnurapparar byrjuðu í gó-gó hljómsveitum, eins og rapparinn Wale. Einnig hefur tónlistarstefnan haft áhrif á R&B, eða ryþmablús, bæði með lagatextum og töktum. Vinsælar gó-gó hljómsveitir. Trouble Funk var stofnuð árið 1978. Þeir sungu mikið á klúbbum og á tónleikum og voru ómissandi fyrir alvöru gó-gó aðdáendur. Þeir gáfu út sína fyrstu plötu, "Straight Up Funk Go-Go Stile", árið 1981. Framleiðendur tónleika sem að þeir sungu á létu oft harðkjarna pönkhljómsveitir hita upp fyrir þá, en aðdáendur gó-gó tónlistarinnar fannst það ekki ásættanlegt og því varð ekki meira af svoleiðis tónlistarblöndu. Þeirra hápunktur var á miðjum níunda áratugnum þó að þeir spiluðu áfram fram eftir tíunda áratugnum. Í byrjun níunda áratugarins byrjaði hljómsveitin Rare Essence. Þeir gáfu út sitt fyrsta lag, "Body Moves", árið 1981. Þeir fóru á mörg hljómsveitarferðalög en byrjuðu að fara hægt um sig um miðjan tíunda áratuginn. Þeir eru af mörgum taldir vera ein af klassískum gó-gó hljómsveitunum sem að komu frá Washongton D.C. Experience Unlimited, eða E.U., hófu feril sinn snemma á áttunda áratuginum. Þeir eru frægasti fyrir lagið sitt "Da Butt" sem að kom út árið 1987. Þeir fóru í mörg tónleikaferðalög, t.d. til Japans og Þýskalands. Amerie á góðgerðarkvöldi Red Dress Collection árið 2006. Aðrar vinsælar gó-gó hljómsveitir eru UCB Uncalled 4 Experience, Northwest Youngins og BYB, eða Backyard Band. Vinsælir gó-gó tónlistarmenn. Fæðingarstaður gó-gó tónlistarinnar, Washington, D.C., hefur haft mikil áhrif á suma tónlistarmenn. Olubowale Victor Akintimehin Folarin (21. september 1984), betur þekktur undir listamannanafninu sínu Whale, fæddist í Washington, D.C. Þar ólst hann upp við gó-gó tónlistina og hafði hún mikil áhrif á tónlistarferil hans. Það sem að einkennir hann er að hann blandar saman öllum helstu hip-hop tegundum, sem að hann ólst upp við, saman í lögunum sínum. John W. Bowman Jr. (1958), betur þekktur undir listamannanafninu DJ Kool, fæddist í Washington, D.C. Hann er bandarískur rappari sem að semur lög sín undir áhrifum frá gó-gó tónlist. Hann byrjaði feril sinn á níunda áratugnum. Þá var hann upphitunaratriði fyrir aðra rappara en fékk plötusamning stuttu seinna. Hann gaf út nokkur lög í byrjun tíunda áratugarins og gaf út sitt vinsælasta lag, "Let Me Clear My Throat", árið 1996. Amerie Rogers (12. janúar 1980) í Fitchburg Massachusetts. Faðir hennar var af afrískum uppruna en móðir hennar var frá Suður-Kóreu. Faðir hennar var í bandaríksa hernum og því þurfti hún að flytja mikið. Hún hefur þó sagt það opinberlega að hún telur Washington, D.C. vera heimabær sinn. Hún gaf út sitt fyrsta lag, "Why Don‘t We Fall In Love", árið 2022. Síðan þá hefur hún gefið út fjórar plötur. Aðrir vinsælir gó-gó söngvarar eru Sy Smith og Belinda Carlisle. Ofbeldi. Oft hafa ofbeldisglæpir verið tengdir við gó-gó tónlist. Árið 2005 lagði Larry D. McCoy, lögreglustjóri yfir Washington, D.C., það til að klúbbar ættu að banna gó-gó tónlist vegna þess að það hvetur til ofeldis. Á milli 2003 og 2005 voru þrjú morð, tveir ofeldisglæpir þar sem að menn voru stungnir og tveir ofbeldisglæpir gegn lögreglumönnum framdir á svæðum í eða nálægt klúbbum þar sem að gó-gó tónlist var spiluð. Margir mótmæltu þessu, þar á meðal nokkrir klúbbeigendur, og lögreglan var gagnrýnd fyrir það að vilja banna tónlistina aðeins út af því að hún höfðaði til unga svarta fólksins. Út af þessu settu þó sumir klúbbar sér þá stefnu að banna gó-gó tónlist á staðnum. Þessa stefnu er enn hægt að finna á mörgum klúbbum. Þetta áreiti lögreglunnar byrjaði þó ekki þarna heldur hefur lögreglan haft vandamál við gó-gó tónlist síðan snemma á níunda áratugnum. Þó voru gó-gó tónlistarmenn tengdir við fíkniefnasölu og ofbeldi tengt gengjum. Tilfinningarokk. Tilfinningarokk (e. "emo rock") er tónlistarstefna sem einkennist af tilfinningaþrungnum textum, samansett úr harðkjarnapönki og hefðbundnu rokki. Leitað er inn á við í textum og fjallað um sálarflækjur einstaklingsins fremur en heimspólitík. Á 10. áratugnum varð þessi stefna mjög algeng og vinsæl með mikilli hjálp plötufyrirtækja. Í kjölfarið kom nýtt tískufyrirbæri, „emo“. Auknar vinsældir fylgdu aldamótunum, bæði tónlistarinnar og tískunnar. Samt sem áður er orðið „emo“ notað aðallega í neikvæðri merkingu en fatastíll og lífsstíll „emo“-fólks hefur aðallega haft þau áhrif. Níundi áratugurinn og byrjun tíunda áratugarins. Tilfinningarokk þróaðist út frá harðkjarnapönki og amerísku rokki snemma á níunda áratugnum í Washington DC. Þá snerist tónlistin mikið um samfélagið og pólitík en Ian MacKaye sneri þessari tónlist meira í persónulega átt. Ian var meðal annars í hljómsveitinni Minor Threat. Aðrar stórar harðkjarnapönk hljómsveitir á þessum tíma voru meðal annars Black Flag, Wasted Youth, Bad Religion og Rites of Spring en sú hljómsveit byrjaði árið 1984 og fór enn lengra með þróunina. Rites Of Spring er talin vera fyrsta tilfinningarokkshljómsveit tónlistarsögunnar. Sama ár gaf hljómsveitin Hüsker Dü út sína aðra plötu "Zen Arcade". Þessi plata einkenntist af trylltum, áköfum söng og flóknari, melódískum textum en þessir nýju textar túlkuðu frekar rómantík og ást, nostalgíu og örvæntingu. Mið-tíundi áratugurinn. Á þessum tíma byrjuðu plötufyrirtækin að sjá mögulegt tækifæri til að græða á þessari tiltölulega nýju tónlist. Fleiri tilfinningarokkshljómsveitir fengu plötusamning og gáfu út hverja plötuna á fætur annarri. Með aukinni athygli plötufyrirtækja jukust sífellt vinsældir stefnunnar og sömuleiðis tilfinningarokkstískunnar. Árið 1992 skaust hljómsveitin Nirvana upp á toppinn með plötunni sinni "Nevermind". Hljómsveitin seldi 10 milljón eintök á innan við ári frá útgáfu. Nirvana gaf plötufyritækjum og bílskúrsböndum allstaðar von um að verða næst á toppnum. Tónlistargagnrýnendur um allt land töluðu um leitina af næsta Nirvana. Þeir fundu það sem þeir höfðu leitað af í Seattle. Þar kom saman hljómsveitin Sunny Day Real Estate. Þessi hljómsveit gaf út sína fyrstu plötu árið 1994 og átti mikilvægan þátt í þróun tilfinningarokksins, þeir tengdu mjög vel við aðdáendur sína. Tilfinningarokkið hafði haldið sig neðanjarðar fram yfir tíunda áratuginn en nú loks fór stefnan fyrst að fara út fyrir harðkjarnapönk samfélagið. Á sama tíma voru hljómsveitir frá Suður-Kaliforníu að þróa nýja stefnu út frá tilfinningarokki. Þessar hljómsveitir voru Drive Like Jehu, Saetia og Swing Kids. Stefnan sem hófst þá er kölluð „screamo“. Þessi stefna er mjög svipuð tilfinningarokkinu en aðal munurinn er sá að söngvari í „screamo“-hljómsveit notar mjög oft öskur í stað söngs. Þaðan kemur nafnið á stefnunni (emo, scream). Lok tíunda áratugarins til aldamóta. Plötufyrirtækin vildu nú mikið græða á tilfinningarokkinu en flestar hljómsveitir hættu áður en þær urðu það stórar og vinsælar. Árið 1997 gaf plötufyrirtæki út nokkra diska frá hljómsveitum eins og Jimmy Eat World, sem svo seinna fór til Dreamworks Records. Jimmy Eat World varð ein af fyrstu tilfinningarokkshljómsveitunum til að verða stór og vinsæl og fá platínu. Í kjölfarið fylgdu fleiri hljómsveitir, eins og Saves The Day sem seinna spilaði með Blink-182. Nú kom „screamo“-tónlistarstefnan með endurkomu en það er nú þekkt sem „contemporary screamo“ eða nútímascreamo. Flestir voru þetta krakkar sem ekki voru þegar „screamo“-tónlistarstefnan byrjaði. Nútíma tilfinningarokk er oft blandað saman af „screamo“ og léttu sjálfstæðu rokki. Þar á meðal má nefna hljómsveitir á borð við Thursday, Underoath og Silverstein. Eftir aldamót. Eftir aldamótin 2000 var tilfinninngarokk orðið mjög vinsælt og stórar hljómsveitir byrjuðu að herma eftir útliti tilfinningarokkshljómsveita. Deilt er um það hvort þessar hljómsveitir hafi byggt tónlist sína á fyrri tilfinningarokkstónlist en þeirra hljómur samanstóð meira af sjálfstæðu popp pönki heldur en þessu klassíska öfluga hljóði sem tilfinningarokkshljómsveitir á fyrri árum einkenndust af. Samt sem áður er þessi nýi hljómur þekktur sem tilfinningarokkstónlist í dag enda þekkja hlustendur lítið til upprunalegu tónlistarinnar. Flestar hljómsveitir sem byrjuðu snemma á 20. öldinni er enn starfandi í dag og eru vel þekktar meðal tilfinningarokks aðdáenda. Sem dæmi má nefna Taking Back Sunday, Brand New, Death Cab For Cutie, My Chemical Romance og margar fleiri. Screamo. „Screamo“ kemur aðallega tilfinningarokki en fær strekan innblástur frá harðkjarnapönki. Þessi stefna byrjaði á Ché Café árið 1991. Týpísk „screamo“ hljómsveit notar hefðbundinn rokk hljóðfæraleik en stefnan er þekkt fyrir öskur í stað söngs og afar kaótískan flutning. Þessi öskur eru þó ekki notuð allt lagið heldur aðeins á ákveðnum tímapunktum til þess að setja áherslur. Textagerðin er frekar svipuð og í tilfinningarokkinu en textarnir snúast einna helst um tilfinningar, sársauka, rómantík, feminisma, pólitík og mannréttindi. Fyrstu plötufyrirtækin til þess að gefa út „screamo“-plötur voru Gravity Records og Ebullition Records. Þessi stíll fór þá að dreifast og í Seattle kom fram hljómsveitin The Blood Brothers, á Austurströndinni komu hljómsveitirnar Orchid, Hot Cross, Circle Takes The Square, Pg. 99, Ampere og City Of Caterpillar og frá Kanada kom hljómsveitin Alexisonfire. Þessar hljómsveitir tóku mikinn þátt í þróun stefnunnar. Hugtakið „screamo“ byrjaði að birtast í fjölmiðlum og um miðja tuttugustu öldina fóru margar hljómsveitanna að stækka og urðu mjög vinsælar. Hljómsveitir eins og Thursday, Alexisonfire, Silverstein, Poison The Well og The Used juku vinsældir tónlistarstefnunnar. Lög hljómsveita á borð við Hawthorne Heights, Story Of The Year, Underoath og Alexisonfire voru mikið spiluð á MTV og komu hljómsveitirnar „contemporary screamo“ eða nútímascreamo stefnunni meira á framfæri. Meðal annarra hljómsveita í Bandaríkjunum sem voru að gera góða hluti eru Comrade, Off Minor, A Mola Mola, Men As Trees, Senses Fail og Vendetta Red. Í Evrópu eru það svo hljómsveitirnar Funeral For a Friend, Amanda Woodward, Louise Cyphre, Le Pré Oú Je Suis Mort, La Quiete og Raein sem juku vinsældir sínar. Emopopp. Í kringum árið 2005 þróaðist ný stefna út frá tilfinningarokki og popp-pönki. Stefnan varð mjög vinsæl og átti plötufyrirtækið Fueled By Ramen stóran þátt í því. Fyrirtækið gaf út plötur frá meðal annars Fall Out Boy, Panic! At The Disco, The Red Jumpsuit Apparatus og Paramore. Hljómsveitin Fall Out Boy gaf út sína aðra plötu, From Under The Cork Tree, árið 2005 og urðu lögin Sugar We're Going Down og Dance, Dance mjög vinsæl. Fall Out Boy voru fyrst í harðjkarnapönkstefnunni í Chigaco en þróuðust út í emopopp. Hljómsveitin Panic! At the Disco skrifaði undir samning hjá plötufyrirtækinu Decaydance árið 2005 en það var svokallað „undirútgáfufyrirtæki“ hjá Fueled By Ramen. Bassaleikari Fall Out Boy, Pete Wentz, er stofnandi plötufyrirtækisins og gerði hann mikið í því að auglýsa Panic! At The Disco. Allt frá því að vera í hljómsveitarbolum merktum Panic! At The Disco og að tala um þá í viðtölum. Hljómsveitin gaf þá út plötuna A Fever You Can't Sweat Out sem innihélt lagið I Write Sins, Not Tragedies en það lag varð strax mjög vinsælt og Panic! At The Disco var valið tónlistarmyndband ársins á MTV Video Music Awards árið 2006. Hljómsveitin The All-American Rejects gaf út sína aðra plötu, Move Along, árið 2005. Lögin Dirty Little Secret, Move Along og It Ends Tonight urðu mjög vinsæl. Hljómsveitin My Chemical Romance gaf út sína þriðju plötu, The Black Parade, og naut hún svipaðra vinsælda og platan Move Along. Það sama má segja um Avril Lavigne en hún gaf út sína þriðju plötu, The Best Damn Thing árið 2007. Platan innihélt meðal annars lagið Girlfriend sem var númer 1 á bandaríska Billboard 200 listanum og valið eitt af vinsælustu lögum árið 2007. Lagið er einnig árangursmesta popp-pönk / emo-popp lag áratugarins. Platan var talin mest selda popp-pönk / emo-popp albúmið árið 2007 og númer tvö yfir áratuginn á eftir Green Day plötunni American Idiot. Árið 2008 gaf hljómsveitin The All-American Rejects út plötuna Gives You Hell sem vann fjórum sinnum „multi-platínu“. Hljómsveitin Panic! At The Disco ákvað að fara aðra leið seint á tuttugustu öldinni þegar hún gaf út plötuna Pretty. Odd. árið 2008. Platan var undir miklum Bítla-áhrifum og taldist vera svokallað „barrokkpopp“. Fall Out Boy þróaði með sér dálítið glysrokk og R&B þegar hún gaf út plötuna Folie á Deux árið 2008. Aðdáendur hljómsveitarinnar voru þó ekki jafn ánægðir með plötuna til að byrja með og kom dálítið bakslag í feril hljómsveitarinnar. Um miðja tuttugustu öldina fram til loka komu nýjar emopopp hljómsveitir fram á sjónarsviðið. Þar á meðal voru hljómsveitirnar A Day To Remember, Four Year Strong og Set your Goals. Þessari hljómsveitir tóku sinn innblástur frá Blink-182 og af fyrri árum Fall Out Boy. Einnig mátti finna hardcore og metalcore áhrif. Árangur nýja emo-poppsins byrjaði hægt þegar hljómsveitin Set Your Goals gaf út sína fyrstu stúdíó-plötu, Mutiny! árið 2006 og Four Year Strong gaf út sína aðra plötu, Rise Or Die Trying árið 2007. Stefnan byrjaði fyrst að vera vinsæl þegar hljómsveitin A Day To Remember gaf út sína þriðju plötu, Homesick árið 2009 hjá plötufyrirtækinu Victory Records. Platan seldist í 22 þúsund eintökum fyrstu vikuna og var spiluð margoft á MTV og Fuse. Hljómsveitin Set Your Goals gaf út sína aðra plötu, This Will Be The Death Of Us árið 2009 hjá Epitaph Records. Árið 2010 gaf hljómsveitin Four Year Strong út sína þriðju plötu, Enemy Of The World og seldist hún í rúmlega tólf þúsund eintökum fyrstu vikuna. Hljómsveitin New Found Glory gaf út sína sjöundu plötu, Radiosurgery árið 2011 og fór svo í tónleikaferðalag með hljómsveitunum This Time Next Year, Man Overboard, The Wonder Years og Set Your Goals. Þessi tónleikaröð nefndist „Pop Punks Not Dead“ og vildu hljómsveitirnar feta í fótspor Less Than Jake, Blink-182 og Green Day, sýna fram á áframhaldandi endurnýjun stefnunnar og hvetja unglinga til þess að halda í stefnuna. Hljómsveitin Man Overboard gaf út sína aðra plötu, Man Overboard, árið 2011 og byrjaði herferðina „Defend Pop Punk“. Þessi herferð vakti mikla athygli og er Man Overboard talin ein fremsta nýbylgju popp-pönk hljómsveitin í dag. Mánudaginn 4. febrúar 2013 tilkynnti Fall Out Boy komu nýjasta disks þeirra. Diskurinn, sem fær nafnið Save Rock And Roll, á að koma út í apríl og segir hljómsveitin að í kjölfarið muni þeir fara í tónleikaferðalag. Tíska og staðalímyndir. Tilfinningarokk hefur frá byrjun þróað með sér ákveðna tísku hjá unglingum sem felst í fötum, hárgreiðslu og aukahlutum. Oft hefur þessi tíska haft í för með sér neikvæðar staðalímyndir og hefur það haft í för með sér mörg samfélagsleg vandamál. Níundi áratugurinn og byrjun tíunda áratugarins. Á þessum tíma voru unglingarnir enn mikið í pönkinu þar sem tilfinningarokkið var rétt að byrja. Þeir örfáu unglingar sem voru byrjaðir að kanna þessa nýju tísku klæddust gjarnan nördalega. Þá er átt við prjónaðar ermalausar peysur og ýmist bol eða skyrtu innan undir og jakkafata buxum. Mið-tíundi áratugurinn. Eftir því sem tónlistin var vinsælli varð tískan það líka. Nú voru þröngir bolir og gamlar rifnar gallabuxur aðal fatnaður stefnunnar. Einnig var vinsælt að eiga hliðartösku, svört gleraugu og minnisbók sem hægt var að skrifa ljóð. Unglingarnir þá voru mjög tilfinningaríkir en þó ekki vælnir. Unglingarnir skoðuðu mikið ringulreið, óróleika og geðshræringu ásamt því að hugsa um sorg eftir sambandsslit. Þeir elskuðu alls konar list og lásu djúpar bækur. Kaffihús voru mjög vinsæl og þar sátu unglingarnir og ræddu hin ýmis málefni. Þarna voru fyrirtækin ekki byrjuð að hafa mikil áhrif á stefnuna. Lok tíunda áratugarins til aldamóta. Enn jukust vinsældir stefnunnar og þar með jókst tískan. Örlitlar breytingar voru á stílnum en nú var það svart hár sem oft náði fyrir framan eitt eða bæði augu sem voru þakin augnblýanti. Skórnir voru oftast frá Converse All Star og för frá Hot Topic voru alltaf vinsæl. Unglingarnir klæddust mjög þröngum gallabuxum eða þá allt of víðum eða stórum buxum. Bæði strákar og stelpur notuðu svo oft gaddabelti. Á þessum tíma varð afar vinsælt að fá sér allskonar göt, ýmist í eyrun - td. tunnel, andlitið eða annarsstaðar. Þeir sem voru með aldur til fengu sér líka gjarnan húðflúr. Margir hófu að taka þessa tísku sér til fyrirmyndar og herma eftir henni en hlustuðu þó ekki á þetta típíska tilfinningarokk. Þá varð til önnur stefna, svokallað „scene“. Þessi tíska var mjög lík emo-tískunni en „scene“ var oft mikið litríkara og þeir unglingar hlustuðu á screamo-tónlist. Fólk taldi „scene“ unglinga vera „emo“ vegna útlitsins. Það var fyrst þá sem hugtakið „emo“ byrjaði að snúast meira um útlitið og tónlistin fór að missa gildi sitt í stefnunni. Eftir aldamót. Nú var orðið enn erfiðara að greina á milli „scene“ og „emo“. Mikið var þrætt um tilfinningarokk og hvort ákveðnar hljómsveitir tilheyrðu þessari stefnu eða ekki. Svo virtist sem þetta hafi allt runnið saman í eitt. Gagnrýni og deilur. Á sama tíma byrjaði að koma upp neikvæð hlið á þessari stefnu. Unglingar sem flokkuðust undir „emo“ urðu þekktir fyrir væl, þunglyndi og sjálfskaða. Hugsanleg ástæða þess er að sumir fóru að blogga og kvarta yfir vandamálum sínum. En sjálfskaðinn er líklega eitthvað kominn til af sannleika vegna þess að margir af þessum unglingum tengdu við reiðu, bitru hliðina á tilfinningarokkinu. Nýlega komu fram „emo“-unglingar í South Park og gert mikið grín af þeim. Þar var talað um að þeir kvarti yfir öllu og séu alltaf þunglyndir. Í nokkrum löndum þar á meðal Írak, Mexíkó og Rússland hafa lýst yfir stríði á hendur „emo“-unglinga. Talið er að um 90-100 unglingar í Írak hafi verið grýttir til dauða af almenningi. „Emo“ er minnihlutatíska í samfélaginu og eins og á við um aðra minnihlutatískuhópa hafa í gegnum árin verið stöðugar deilur á milli „emo“-unglinga og almennings. Alþýðufylkingin. Alþýðufylkingin er íslensk stjórnmálahreyfing sem stofnuð var í Friðarhúsi í Reykjavík 12. janúar árið 2013. Flokkurinn er róttækur vinstri flokkur sem ætlar sér að vera „baráttutæki íslenskrar alþýðu til að bæta hag sinn með því að heimta sitt úr höndum auðstéttarinnar“. Alþýðufylkingunni hefur verið stillt upp sem klofningsframboði úr Vinstri grænum. Forkólfar Alþýðufylkingarinnar, Þorvaldur Þorvaldsson og Vésteinn Valgarðsson voru í stjórn og flokksráði Vinstri grænna en sögðu sig úr flokknum vegna óánægju með hann og ríkisstjórnina. Framboðið var svar við eftirspurn eftir stjórnmálaafli sem staðsetur sig vinstra megin við Vinstri græna. Alþýðufylkingin hefur fengið úthlutað listabókstafnum R og bauð fram framboðslista í alþingiskosninganna 2013 í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður. Félagsmenn segjast stefna á áframhaldandi samstarf og segjast komnir til þess að vera. Stefnumál. Alþýðufylkingin berst skilyrðislaust gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu á þeim forsendum að þar ráði auðvaldsskipulag og frjálshyggja ríkjum, og Íslendingar eigi heldur að standa vörð um pólitískt og efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar. Flokkurinn mælir með úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu og vill þess í stað að landið beiti sér í þágu friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi. Alþýðufylkingin hefur það að markmiði að jöfnuður og jafnrétti verði raunverulegar stoðir samfélagsins. Til þess þyrfti að efla lýðræði og auka vægi hins félagslega í hagkerfinu á kostnað markaðsvæðingar, en þá verði hægt að reisa velferðarkerfið við og styrkja alla innviði félagskerfisins. Markmiðið verði að heilbrigðisþjónusta og menntun verði án endurgjalds og séu samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara. Forsenda þess er að létta oki fjármálastarfsemi og að kröfunni um sífellda útþenslu verði létt af hagkerfinu. Þá segir flokkurinn að einkarekstur eigi rétt á sér í verðmætaskapandi framleiðslu og þjónustu sem teljist ekki til innviða samfélagsins. Atvinnuvegir eigi að vera fjölbreyttir samfara því sem þeir uppfylli þarfir þjóðfélagsins. Alþýðufylkingin berst fyrir því að auðlindir lands og sjávar verði óframseljanleg sameign þjóðarinnar svo hagnaðurinn skili sér í bættum lífskjörum hennar. Hófleg nýting skuli vera höfð að leiðarljósi og stórauknu fé skuli veitt til þess að auka landgæði og vinna gegn náttúruspjöllum. Varast skal of mikla samþjöppun og einokun bæði hvað landbúnaðinn og ferðaþjónustuna varðar til að koma í veg fyrir rýrnun á landsgæðum. Raftækjaeinkasala ríkisins. Raftækjaeinkasala ríkisins tók til starfa 1. júní 1935. Það var hluti af tilraunum ríkistjórnarinnar til að vinna gegn afleiðingum ört minnkandi gjaldeyristekna þjóðarbúsins í Kreppunni. Auk þess var komið á fót Bifreiðaeinkasölu ríkisins en áður hafði Viðtækjaverslun ríkisins fengið einkaleyfi á sölu útvarpa og loftskeytatækja í tengslum við stofnun Ríkisútvarpsins. Enginn annar mátti flytja til landsins rafvélar, rafala, rafhitunartæki, rofa, raflampa, rafhlöður og fleira. Rafvirkjar og rafvirkjameistarar börðust gegn þessum fyrirætlunum af miklum krafti. Hallgrímur Bachmann formaður Rafvirkjafélags Reykjavíkur sendi ríkisstjórninni bréf þar sem þessu er mótmælt, þetta sé fyrsta einkasalan sem sett er á stofn er við kemur sérstétt og þar hafi engir fengið að komið að málinu sem hafi til að bera sérþekkingu: „Þetta er slæmt fordæmi og getur alls ekki svo til gengið. Þetta er hrein móðgun við stéttina, en ef við erum nógu samtaka fáum við þessu breytt. Ef einhverjir vilja svíkjast undan merkjum blokkerum við þá.“ Um þetta var barist næstu ár og var einkasölunni lokað árið 1940 þegar þjóðstjórnin tók við völdum. Kubbatónlist. Game Boy leikjatölvurnar eru mikið notaðar við gerð Kubbatónlistar Kubbatónlist er tónlistarstefna sem búin er til með örflögum, sem notaðar voru til þess að spila tónlist sem birtist í gömlum tölvum, leikjatölvum og spilakössum. Stefnan á rætur að rekja til tæknilegrar takmörkunar en notkun áttabita hljóða hefur aukist í margskonar raftónlist. Kubbatónlist hefur ætíð verið neðanjarðar tónlistarstefna en var sem vinsælust á níunda áratug 20. aldar sem og á fyrsta áratug þeirrar 21. Vinsældir kubbatónlistar hafa aldrei verið gífurlegar en stefnan hefur samt sem áður átt mikinn hlut í að þróa margar stefnur nútíma raftónlistar. Vinsælustu tölvurnar til að nota í kubbatónlist eru Nintendo Entertainment System og Game Boy frá tölvuleikjaframleiðandanum Nintendo og Commodore 64 frá Commodore International.Vegna tenginu stefnunar við tölvuleiki frá 8. og 9. áratugnum er tónlistin oft tengd við pixlaðar, lágskerpumyndir og myndbönd sem svipar til tölvuleikjanna. Saga Kubbatónlistar. Kubbatónlist á uppruna sinn að rekja til tölvuleikjatónlistar sem spratt upp seint á áttunda áratugnum. Þá var tónlist geymd og spiluð á kassettum og vínyl plötum en bæði gátu auðveldlega bilað og eyðilagst undir mikilli spilun. Tekið var því upp á því að setja í leikjatölvur einfaldar tölvuflögur sem voru færar um að spila stuttar og einfaldar laglínur. Þær voru þá endurteknar yfir allan leikinn eða notaðar einungis við ákveðnar tímasetningar í leikjum (eins og við byrjun nýs leiks, milli borða eða við lok leiksins.). Hljóð var fyrst sett í tölvuleikinn Pong 1972 en bakgrunnstónlist var ekki til í tölvuleikjaheiminum fyrr en 1980 en hún heyrðist fyrst í tölvuleiknum Rally-X Í ströngustu merkinu orðsins er kubbatónlist sú tónlist sem samin er með örflögu byggðum búnaði fyrir þar til gerð kerfi eins og til dæmis gamla tölvuleiki. Í dag hefur orðið tekið mikið víðari merkingu og er nú oftast talað um kubbatónlist sem þá tónlistarstefnu sem notast við örflögubyggðan búnað við að semja tónlist en ekki eingöngu fyrir gamlar tölvur og tölvuleiki. Tónlistarstefnan varð til úr tæknilegum takmörkum en í dag er notkunin á flautulegum laglínu, suðandi bassa, hröðum brotnum hljómum og hávaðasömum slagverkum meira val en nauðsyn. Búnaður. Í kubbatónlist er svokallað white noise notað en það er aðalega notað sem fyrir trommutakta. Meðal helstu tölvukerfanna sem notuð hafa verið og eru í kubbatónlist eru Commodore 64, Atari 8-bit Home Computer, Game Boy, Atari 2600 og Nintendo NES. Í dag eru einnig mikið notaðir svokallaðir tölvuhermar en þeir geta líkt eftir þeim forritum sem notuð eru til að gera kubbatónlist eins og í t.d. Gameboy eða Nintendo NES Þeir sem ekki hafa tök í að komast í gamlar leikjatölvur geta nýtt sér allskonar herma sem fást fyrir tónlistarforrit í dag en deilt er um hvort sú tónlist sem gerð er í þessum hermum sé í raun kubbatónlist þar sem ekki er verið að notast við þær örflögur sem í raun búa til hljóðið sem sótt er eftir í kubbatónlist. Eitt vinsælasta kerfið sem notað er í kubbatónlist er kerfið Little Sound DJ. En það er kubbur á stærð við Game Boy leik sem hægt er að setja inn í Game Boy leikjatölvuna, en kubburinn er hlaðinn af 4 SID flögum svipuðum þeim og finnast í tölvukerfum frá níunda áratugnum. Þannig er hægt að hafa 4 analógískar rásir með hreyfanleika sem hefur ekki sést áður. Tónlistarstefnan Game Boy tónlist sem er nefnd hér að neðan er byggð upp á þeirri tækni að hægt sé að hljóðblanda fleiri enn eina Game Boy tölvu og þannig hafa áhrif á lagið. Þessi tækni hefur vaxið mikið í vinsældum meðal kubbatónlistarmanna þar sem auðveldara er bæði að færa búnaðinn milli staða sem og að stjórna búnaðinum. Bitpopp. Bitpopp er tónlistarstefna sem spannst út frá kubbatónlist. Hún er gerð með því að nota sömu tölvuflögur og notaðar eru í kubbatónlist og blanda þá kubbatónlistar laglínum við popptónlist og búa þannig til Bitpopp. Nafnið er útsetning á tónlistarstefnuna Britpopp. Bitpopp greinir sig frá kubbatónlist á þann hátt að í kubbatónlist eru allar laglínur spilaðar á búnað sem 8-bit tengd hljóð á meðan Bitpop notar oftast aðeins 8-bit hljóð í bassalínum eða laglínunni sjálfri á meðan hljómsveitin notast við gítara og trommur til að gefa laginu poppaða stemningu. Meðal helstu bitpopphljómsveitana má nefna, og Anamanaguchi. Anamanaguchi er bitpopp eða "chip-punk" hljómsveit frá New York. Sveitin er ein helsta bitpopp og chiptune hljómsveitin í dag. Hljómsveitin hefur 4 meðlimi en það eru lagahöfundurinn Peter Berkman, bassaleikarinn James DeVito, gítarleikarinn Ary Warnaar og trommarinn Luke Silas. Ólíkt flestum bitpopphljómsveitum notast Anamanaguchi við hljóðgervla til þess að skapa sín kubbahljóð í stað þeirra ýmsu leikjatölva og forrita sem aðrir kubbatónlistarmenn nota. Peter Berkman hefur sagt að þótt þeir notist við 8-bit hljóð þá eru þeir minna að leitast við að spila tölvuleikja tónlist og meira við að spila einfalda popptónlist í líkingu við Weezer og Beach Boys Anamanaguchi hafa tekið að sér mörg verkefni og má þar helst nefna að tölvuleikurinn Scott Pilgrim vs. the World, sem gerður var eftir samnefndri mynd, innihélt eingöngu tónlist eftir hljómsveitina. Einnig birtist lag þeirra "Airbrushed" í tölvuleiknum Rock Band. Slagsmålsklubben. Slagsmålsklubben (oft stytt sem SMK) er sænsk bitpopphljómsveit frá Norrköping í austur Gautlandi. Nafn hljómsveitarinnar er sænsk beinþýðing á nafni myndarinnar Fight Club. Sveitin hefur gefið út 4 hljóðversplötur síðan árið 2003 en sveitin var stofnuð árið 2000. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Björn Nilsson, Hannes Stenström, Joakim "Beebop" Nybom, Joni Mälkki, Kim Nilsson og rapparinn Frej Larsson en sá síðastnefndi er einnig meðlimur sænska rafbandsins Maskinen. Líkt og Anamanaguchi notar sveitin nánast eingöngu syntha við gerð laga sinna en trommuheilar og gítarar eru tíðir gestir á lögum félaganna. Sveitin kom fyrir á plötu Bjarkar Guðmundsdóttur. Sveitin flutti til Berlínar árið 2005 en síðan 2008 hefur meðlimir hennar búið saman á sveitasetri fyrir utan Stokkhólm í Svíþjóð þar sem þeir tóku upp nýjustu plötu sína, The Garage, í hljóðveri sem er að finna á sveitasetrinu. Gameboy-tónlist. Gameboy-tónlist er tónlistarstefna þar sem tónlistarmaðurinn notast aðeins við eina eða fleiri Game Boy-tölvur og hljóðblandara til að búa til tónlist. Hljóðblandarinn er þá notaður til að skipta á milli mismunandi tölva og breyta þannig um takt og/eða laglínu lagsins. Í vinsælli menningu. Ásamt því að vera grunnurinn af tónlist í tölvuleikjum hefur kubbatónlist einnig birst á mörgum stöðum og í mörgum myndum. Í myndinni Scott Pilgrim vs. the world birtist merki kvikmyndaframleiðandans Universal í 8-bit formi ásamt laginu Threshold eftir Brian LeBarton. Í tölvuleiknum sem gerður er eftir myndinni, er það hljómsveitin Anamanaguchi sem sér um tónlistina. Sjónvarpsstöðin Cartoon Network hefur notað kubbatónlist sem bakgrunnstónlist í nokkra af þáttum sínum. Til dæmis má nefnina þættina Adventure Time. Á seinustu árum hefur kubbatónlist snúið aftur til vinsælda á tölvuleikja markaðinum. Mikið af nýjustu tölvuleikjunum frá framleiðendum eins og Nintendo og Sega hafa notast við kubbatónlist sem annað hvort þema- eða bakgrunnstónlist. Árið 2007 gaf plötuútgáfan Astralwerks út plötuna en platan innihélt 15 af lögum hljómsveitarinnar Kraftwerk í nýjum kubbatónlistarformi frá 15 þekktum kubbatónlistarmönnum en þar má helst nefna 8 Bit Weapon og Nullsleep en 8-bit Operators hópurinn hafa verið að gefa út ábreiðulög í kubbatónlistarformi frá hljómsveitum eins og Devo og Bítlunum. Margir af frægum tónlistarmönnum hafa notast við kubbatónlist við gerð laga sinna og má þar nefna listamenn eins og Kesha, Robyn, Snoop Dogg, Eminem, Nelly Furtado og Timbaland. Terpentína. Terpentína á við tvær tegundir vökva, sem framleiddar eru annaðhvort úr kvoðu lifandi trjáa (jurtaterpentína) eða úr jarðolíu ("steinefnaterpentína" eða "white spirit"). Terpentína er notuð sem leysiefni í olíumálun og lökkun og sem hráefni í efnaframleiðslu. Terpentína er líka notuð til að leysa upp vax í bónum, í vatnsheldu sementi, hreinsunarefnum, sótthreinsunarefnum, gúmmívörum, vefnaði o.s.frv. Jurtaterpentína er yfirleitt framleidd úr furukvoðu. Skurðir eru gerðir í stofninn sem valda því að kvoðan renni úr trénu. Þá er kvoðan hreinsuð og eimuð. Jaðarþungarokk. Jaðarþungarokk (e. "alternative metal") er tegund þungarokks og jaðarrokks sem var vinsæl á 10. áratugnum. Tónlistarstefnan heldur í grunneinkenni þungarokks en tekur einnig einkenni annarra stefna. Hljómsveitir sem kenndar hafa verið við jaðarþungarokk blönduðu þungarokki við til dæmis framsækið rokk, bílskúrspönk, fönk, rapp, iðnaðarrokk og ofskynjunarrokk. Margar af helstu sveitum jaðarþungarokksins þykja einkennast af tilraunakenndri tónlist sem notast við hljóð sem áður var að mestu óþekkt innan þungarokksins. Einkenni stefnunnar. Stefnan er blanda af jaðarrokki og þungarokki Margar jaðarþungarokkssveitir notast við melódískan og skýran söng, oft með rapp-ívafi. Stefnan heldur alltaf í öflugt gítarspil þungarokksins, en fær áhrif úr fönkinu í til dæmis bassaleiknum. Trommuspil stefnunnar er oft þungt og hratt. Notast er við margskonar söngtækni en þar mætti nefna melódískan söng, öskur og jafnvel „growl“ eins og tíðkast í dauðarokki. Stefnan er þess eðlis að erfitt að er að skilgreina hana nákvæmlega. Hún er af mörgum álitin vera einskonar hópur af þungarokkssveitum sem voru tilbúnar til þess að að fara út fyrir hin hefðbundnu mörk þungarokksins og gera tilraunir með það. Einnig álíta sumir jaðarþungarokkið vera einskonar uppfærslu af gamla þungarokkinu. Vinsæl undirstefna jaðarrokksins, nýmetallinn, hefur þó skýrari og staðlaðari einkenni. Þar er gítarinn oft aðeins notaður til þess að halda takti, frekar en í til dæmis þau gítarsóló sem tíðkast í hefðbundu þungarokki. Takturinn sem notast er við sýnir skýr einkenni úr fönki og hip-hoppi. Hljómsveitir hafa oft plötusnúða innan raða sinna til að undirstrika þessi áhrif. Mikil vinnsla á tónlistinni tíðkast í nýmetalnum, þar sem hreinn og slípaður hljómur er í hávegum hafður. Mikið er nýst við bjögunareffekta og slíkt á bæði við um hljóðfæraleik og söng til þess að fá fram þann hljóm sem óskað er eftir. Annar flokkur jaðarþungarokks, rapp-þungarokk, er forveri nýmetals sem ber svipuð einkenni. Rapp-þungarokk er einskonar blanda af rappi, rapp-rokki og þungarokki. Hljóðfæraleikur rapp-þungarokks hefur þungan gítarleik þungarokksins og trommuspil í svokölluðum groove-stíl. Takturinn er miðlungshraður og fer sjaldan í jafn hröð slög og aðrir flokkar þungarokks. Helsti munurinn á rapp-þungarokki og nýmetal er sá að í öllum sveitum rapp-þungarokksins eru aðalsöngvarar rapparar. Hljómsveitin Rage Against The Machine er dæmi um hljómsveit sem tilheyrir þessarri stefnu. Saga. Hljómsveitin Tool að spila á Hróárskelduhátíðinni 2006 Stefnan á líklega upphaf sitt í fönk-þungarokki 9. áratugsins, þar sem þungum gítarleik þungarokksins var blandað við bassastíl fönksins. Jaðarrokksveitir eins og Red Hot Chili Peppers og Fishbone voru í hópi þeirra fyrstu sem blönduðu fönki og þungarokki saman og mótuðu þannig þessa nýju stefnu. Svipuð blanda á þungarokki og fönki kom fram seinna hjá jaðarþungarokksveitunum Living Colour og Faith No More, þó báðar sveitir hafi einnig einkenni úr enn öðrum tónlistarstefnum. Aðrar jaðarþungarokksveitir prófuðu sig áfram með öðrum blöndum eins og til dæmis Jane's Addiction með framsækið rokk og Soundgarden með ofskynjunarrokk. Jaðarþungarokkið þykir hafa verið einskonar svar við hár-þungarokksveitum 9. áratugsins sem voru af mörgum taldar eiga meira skylt við popp. Þessar nýju hljómsveitir sóttust eftir því að sækja í rætur þungarokksins en koma fram með nýjan blæ samtímis því. Í raun má segja að jaðarþungarokkið hafi í upphafi ekki verið nein afmörkuð stefna heldur bara aukinn vilji hljómsveita til þess að prófa sig áfram og gera tilraunir með þungarokk. Þess vegna er flokkunin á upphafssveitum stefnunnar heldur óskýr. Sumar sveitirnar eru einnig grugg, en jaðarþungarokk fékk mikið af vinsældum sínum út frá vinsældum gruggtónlistar. Um miðjan 10. áratuginn var búið að ryðja brautina fyrir hina nýju tónlistarstefnu og fleiri sveitir sem flokka mátti skýrar undir jaðarþungarokk komu fram. Hljómsveitin Tool gaf út plötuna Undertow 1993, sem þykir vera mjög lýsandi fyrir jaðarþungarokksstefnuna og ruddi enn frekar veginn fyrir sveitir eins og Nine Inch Nails og Rage Against The Machine. Stefnan var þá tekin að skiptast nokkuð upp í þungt jaðarþungarokk eins og Tool spilaði og rapp-þungarokk eins og Rage Against The Machine einkenndust af. Sumar af eldri þungarokkssveitum 9. áratugsins höfðu tekið eftir vinsældum stefnunnar og sóttu jafnvel smá innblástur í sveitir jaðarþungarokksins til dæmis Metallica með The Day That Never Comes. Þegar leið enn frekar á 10. áratuginn var ný-metall að koma á sjónarsviðið og hóf að taka yfir jaðarþungarokkssenuna. Ný-metallinn var mun auðskilgreindari stefna og var með mun ýktari og oft þyngri hljóm og einnig enn sterkari áhrif frá öðrum tónlistarstefnum eins og rappi, iðnaðarrokki og jafnvel raftónlist. Hljómsveitir eins og Korn, Limp Bizkit og Staind tilheyrðu þessarri nýju undirstefnu og hjálpuðu til með að gera jaðarþungarokkið enn vinsælla en það hafði verið áður. Margar af hinum upprunalegu sveitum jaðarþungarokksins vildu þó ekki láta bendla sig við þessa nýju stefnu. Maynard Keenan James, söngvari hljómsveitarinnar Tool, sagði meðal annars að honum líkaði ekki það viðhorf sem tíðkaðist í ný-metalnum. Aðrar sveitir sem þykja einnig hafa verið áhrifamiklar við mótun ný-metalsins eins og hljómsveitin Helmet hafa einnig lýst yfir óánægju við að vera tengdir við stefnuna. Í upphafi 21. aldarinnar var stefnan gagnrýnd fyrir að vera einhæf og haldið fram að hún væri ekki nema tímabundinn tískufaraldur. Helst átti þetta við um þær sveitir sem einnig heyrðu undir nýmetal. Þetta gæti stafað af því að stefnan var að missa eðli sitt sem jaðarstefna og lítið var um tilraunastarfsemi hjá mörgum sveitum hennar. Frumlegri hljómsveitir héldu þó áfram að fá lof gagnrýnenda eins og System Of A Down með plötuna Toxicity. Í kringum 2010 höfðu vinsældir jaðarþungarokksins minnkað nokkuð mikið, þó margar hljómsveitir sem tilheyrðu stefnunni séu enn starfandi. Einhverjar þeirra hljómsveita sem eftir eru halda áfram að prófa sig áfram og stuðla að áframhaldandi þróun stefnunnar. Helstu áhrif. Jonathan Gold hjá Los Angeles Times skrifaði að jaðarþungarokkshljómsveitir eins og Jane's Addiction og Soundgarden séu undir miklum áhrifum frá þungarokkshljómsveitum 8. áratugsins, Led Zeppelin og Black Sabbath. Hann hélt því jafnframt fram að ef Led Zeppelin og Black Sabbath hefðu gefið tónlist sína út í upphafi 10. áratugsins hefðu þeir verið flokkaðir undir jaðarþungarokk. Vegna þess hversu oft fönki og rokki er blandað saman í jaðarþungarokki er einnig hægt að segja að Jimi Hendrix hafi haft mikil áhrif á stefnuna. Hann er af mörgum álitinn hafa verið undir áhrifum af fönki og verið meðal þeirra fyrstu til að blanda rokki og fönki saman. Aðrir sem voru frumkvöðlar í því að blanda fönki og rokki saman eru Herbie Hancock og Frank Zappa svo eitthvað sé nefnt. Í jaðarrokki tíðkaðist að blanda saman rokki og öðrum tónlistarstefnum. Á 10. áratugnum voru þar áhrif úr tónlistarstefnum eins og jangle poppi, harðkjarna síðpönki, fönk-þungarokki, pönkpoppi og tilraunarokki. Eftir að gruggsveitin Nirvana sló í gegn mátti enn greina öll þessi einkenni, en sum voru slípuð þannig til að þau hentuðu betur til vinsælda á tónlistarmarkaðnum. Á 10. áratugnum voru því poppeinkennin sem höfðu verið vinsæl á áratuginum áður orðin daufari og þær sveitir sem hölluðust frekar að rokk og pönkeinkennunum urðu ofaná. Vinsældir jaðarþungarokks á 10.áratugnum er hægt að tengja við þessa þróun jaðarrokksins. Hljómsveitir eins og R.E.M., Pearl Jam og The Cure eru dæmi um áhrifamiklar jaðarrokksveitir. Lollapalooza tónleikahátíðin. Trent Reznor, söngvari Nine Inch Nails, á fyrstu Lollapalooza hátíðinni 1991 Lollapalooza hátíðin byrjaði þegar Perry Farrell, söngvari Jane's Addiction, var að skipuleggja kveðjutónleika fyrir hljómsveitina sína. Hugmyndin stökkbreyttist hinsvegar í eina stærstu tónleikahátíð sinnar tegundar í heiminum. Tónleikahátíðin gerði nýjum og hæfileikaríkum tónlistarmönnum kleyft að kynna tónlist sína og gerði jaðarrokk og jaðarþungarokk enn vinsælla en það hafði verið áður. Einnig átti hátíðin stóran þátt í því að ýta undir vinsældir raftónlistar og hip-hopps. Fjölbreyttir tónlistarmenningarhópar komu saman til að hlusta á ólíka tónlistarmenn eins og Nine Inch Nails og Ice T á sama sviði. Fyrir tíma internetsins var þetta einn stærsti vettvangurinn til að kynnast nýrri tónlist. Tónlistarhátíðin hefur breyst mikið síðan í upphafi þegar gruggsveitir eins og Pearl Jam og Soundgarden stigu á svið. Hún lifir þó enn góðu lífi í dag og skapar enn vettvang fyrir ólíka tónlistarmenn að kynna tónlist sína. Lollapalooza býður upp á mörg svið í dag og yfir 130 tónlistarmenn og hljómsveitir koma fram hvert sinn sem hún er haldin. Hátíðin er enn fjölbreyttari í dag og býður upp á reggítónlist, raftónlist, jaðarrokk, indí-rokk og margt fleira. Sem dæmi um jaðarþungarokkshljómsveitir sem hafa komið fram á Lollapalooza má nefna Jane's Addiction, Living Colour, Nine Inch Nails, Soundgarden, Stone Temple Pilots, Rage Against The Machine, Alice In Chains, Tool og fleiri. Heiðabær. Heiðabær (eða Heiðabýr (eins og hann er nefndur í Heimskringlu) (da. Hedeby, þýs. Haithabu)) er forn bær syðst á Jótlandsskaga, nánar tiltekið í Slésvík-Holstein, Þýskalandi. Heiðabær var einn fyrsti bær Danmerkur og á víkingaöld, og var frá 8. öld til 11.aldar lífleg verslunarmiðstöð. Hans er víða getið í Heimskringlu. Hann er einnig einn af mörgum viðkomustöðum sem fram koma í Leiðarvísi Nikulásar ábóta á Munkaþverá. Dust Bowl. Bóndi með tveimur sonum sínum í sandstormi í Cimarron County í Oklahoma árið 1936 Rykstormur nálgast í Stratford í Texas árið 1935. Dust Bowl eða Rykskálin er tímabil upp úr 1930 þar sem miklir sandstormar geisuðu sem ollu mikilli jarðvegseyðileggingu og breyttu skilyrðum til landbúnaðar einum hluta af Sléttunum miklu í Bandaríkjunum og Kanada. Eyðileggingin var mest árin 1934 og 1935. Miklir þurrkar ásamt því að landbúnaður þessa tíma hafði plægt burtu yfirborðslagi jarðvegsins og graslendi verið breytt í akra og skógum hafði verið eytt olli því að jarðvegur fauk allur burt í stormi. Það fór saman við að vélvæðing varð í landbúnaði, litlar dráttarvélar sem gengu fyrir gasi urðu algengar, auðveldara varð að plægja jarðveg og graslendi var breytt í akra. Á þurrkatímum upp úr 1930 var ástand jarðvegs orðið þannig vegna jarðyrkjunnar að ekkert sem hélt jarðvegi lengur saman og hann þornaði og varð að ryki sem blés burtu þegar vindur var. Stundum var himinninn svartur af rykskýi sem náði alla leið að austurstönd Bandaríkjanna að borgum eins og New York og Washington D.C.. Mikið af jarðvegnum fauk á haf út. Rykstormarnir höfðu mest áhrif í Texas og Oklahoma og nálægum stöðum í fylkjunum New Mexico, Colorado og Kansas. Milljónir ekra af akurlendi skemmdust og hundruðir þúsunda flosnuðu upp, sérstaklega í Oklahoma. Margar uppflosnaðar fjölskyldur leitaðu til Kaliforníu en þar var líf þeirra afar erfitt vegna þess að um þetta leyti ver heimskreppan í algleymingi. Landlaust fólkið varð farandverkafólk sem ferðaðist um frá einu bændabýli til annars og tíndi ber og vann önnur uppskerustörf og lifði við hungurmörk. Rithöfundurinn John Steinbeck skrifaði bækurnar "Þrúgur reiðinnar" og "Um mýs og menn" um líf þessa farandverkafólks. Þegar evrópskir og bandarískir landnemar settust fyrst að á Sléttunum miklu þá hafði svæðið þar sem sandstormarnir geisuðu ekki verið talið tækt til landbúnaðar, svæðið var nefnt Stóra ameríska eyðimörkin. Þarna vantaði bæði yfirborðsvatn og skóg. Eftir bandaríska borgarastríðið reyndu stjórnvöld að fá fólk til að setjast þarna að með lögum um um nýbýli (Homestead). Í fyrstu var landið nýtt til beitar en eftir nokkra erfiða vetur frá árinu 1886 og stutt þurrkatímabil í kringum 1890 var sífellt meira landi breytt í akra. Landnemar frá Evrópu streymdu svo að í byrjun 20. aldar. Á þessum tíma var óvenjulega mikið regn og það varð til þess að fólk taldi að þetta þurra svæði hentaði til stórtækrar akuryrkju. Það höfðu orðið miklar framfarir í plógum og landbúnaðartækjum sem gerðu kleift að plægja landið plægt djúpt niður. Grænmetisverzlun ríkisins. Grænmetisverzlun ríkisins var íslensk ríkisstofnun með einkaleyfi á heildsölu og innflutningi grænmetis. Hún tók til starfa 1. maí 1936. Grænmetisverzlunin var fyrst og fremst heildsala en gert var ráð fyrir því að hún gæti selt beint til neytenda á einum stað í Reykjavík. Verslunin reisti Grænmetisskálann á horni Sölvhólsgötu og Ingólfsstrætis árið 1937 og gerði þar ráð fyrir bæði sérhönnuðum kartöflugeymslum í kjallara og grænmetismarkaði. Einkaleyfið náði bæði til innflutts og innlends grænmetis og fljótlega urðu íslenskir grænmetisframleiðendur óánægðir með verðið sem stofnunin greiddi fyrir framleiðslu þeirra. Þann 13. janúar 1940 komu garðyrkjubændur því saman á fundi á Hótel Borg og stofnuðu nokkrir þeirra Sölufélag garðyrkjumanna sem fékk leyfi til sölu og dreifingar á ylræktuðu grænmeti. Grænmetisverzlunin hafði eftir sem áður einkaleyfi á útiræktuðu grænmeti. Árið 1956 var stofnunin lögð niður og verkefni hennar flutt til Grænmetisverzlunar landbúnaðarins („Gullaugans“) og Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem áfram héldu einkasöluleyfi (en voru í raun sjálfseignarstofnanir) og störfuðu áfram við Sölvhólsgötu. Grænmetisverslun landbúnaðarins var seld 1985 og tók þá Landssamband kartöflubænda við verkefnum hennar í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna. Fjörukarl. Fjörukarl einnig nefndur Fjöruhrúðurkarl (fræðiheiti:"Semibalanus balanoides") er hrúðurkarl, krabbadýr sem tilheyra innflokkinum skelskúfar. Útbreiðsla. Hann er mjög algengur og útbreiddur í fjörum um alla Norð-Vestur-Evrópu og báðar strendur Norður-Ameríku. Til þess að ná eðlilegum þroska þarf sjávarhiti að vera 7,2 gráður á selsíus og af því markast útbreiðslusvæði hanns en það er til dæmis í Evrópu allt frá Finnmörk og Svalbarða í norðri suður til Spánar. Fjörukarlinn er algengasti hrúðurkarlin við strendur Íslands og eitt mest áberandi dýrið í fjörum landsinns. Í fjörum finnst hann helst í grýttum fjörum eins og klappar-og hnullungafjörum þar sem hann festir sig á grjótið og eru þeir oftast mjög margir þétt saman til að auðvelda frjóvgun hvors annars. Þeir eru yfirleitt alsráðandi í þeim fjörunni sem þeir lifa en fækkar oftast þegar neðar dregur uns niður undir neðri sjólínu eru vörtukarl ("Verruca stroemia") orðinn algengari. Eins festa þeir sig oft á skeljar, önnur krabbadýr, hvali, skipsskrokka og jafnvel sæskjaldbökur. Útlit og lifnaðarhættir. Fjörukarlinn getur orðið 3,5 til 7,5 sentimetrar á lengd og er með sex gráhvítar skelplötur. Hann er tvíkynja líkt og margir hrúðurkarlar en samt frjóvgar hann ekki sjálfan sig og því þarf tvo til til að frjóvga hvorn annan, svokölluð krossfrjóvgun, en til þess hafa þeir mjög langan getnaðarlim og búa þétt saman, svo þeir geti teygt getnaðarliminn út og ofan í skel hvors annars. Þeir geta orðið allt að átta ára en aldur þeirra fer mikið eftir því í fjörum sem dæmi hvar í fjörunni þeir hafa fest sig. Fæða. Fjörukarlinn lifir á örsmáum fæðuögnum sem hann síar úr svifi. Líkt og með aðra síara eru fæturnir ummyndaðir í einskonar sigti sem þeir skjóta út úr skelinni og veifa og sía þannig fæðuna úr sjónum. Fjörukarlinn er einnig fæða annarra dýra, einkum fjörusnigla og á Íslandi er það einkum nákuðungurinn sem étur hann. Þrúgur reiðinnar. Þrúgur reiðinnar er skáldsaga eftir John Steinbeck. Bókin fjallar um fjölskyldu sem flosnar upp af jörð sinni í heimskreppunni vegna uppskerubrest og sandstorma eftir þurrkatíma á svæði sem kallað er Dust Bowl eða Rykskálin. Fjölskyldan selur búslóðina fyrir bílgarm og ferðast á honum til Kaliforníu. Bókin segir sögu fjölskyldunnar Joad og hefst á því að einn sonur er að koma úr fangelsi á skilorði en þegar hann kemur heim er býlið yfirgefið. Fjölskyldan hefur lent á vonarvöl og hús þeirra rifið og þrjár kynslóðir halda á stað til fyrirheitna landsins en þau hafa hrifist af auglýsingapésa um möguleikana þar. Ferðin er löng og erfið og fer eftir þjóðvegi 66 og eru þúsundir aðrar uppflosnaðar fjölskyldur á sömu ferð. Bókin hefur verið kvikmynduð. Stefán Bjarman þýddi bókina á íslensku. Þreskivél. Þreskivél er vél sem notuð er við uppskerustörf. Vélin klippir kornstöngla, hristir kornið úr og sigtar kornið. Vélin skilar svo stönglunum (hálminum) aftur á í garða eða sem köggla. Fremst á þreskivél er ljár sem klippir kornstönglanna og búnaður sem sópar og færir stönglana upp í vélina. Þar er þreskibúnaður sem virkar þannig að þreskill slær korn úr öxunum og þau falla gegnum þreskihvelfu og skiljast þannig frá hálminum. Hálmurinn er svo hristur aftur til að ná ölli korni úr. Hálmurinn fellur svo aftan úr vélinni. Korninu er safnað á kornplötu og fer þaðan í hreinsiverk í gegnum sáld gegnum loftstreymi frá viftu sem blæs svo aftur úr vélinni leyfum af hálmi, rusli og kuski. Fullhreinsað korn er svo flutt í korngeymi. Þreskivélar eru notaðar við uppskeru á hveiti, höfrum, rúgi, byggi, maís, sojabaunum og hör. World Class. World Class er íslensk heilsuræktarstöð í Laugardalnum í Reykjavík sem er skráð í eigu Lauga ehf. Fyrirtækið var stofnað í júlí árið 1985. Stofnendur voru Björn Kr. Leifsson og fjölskylda hans. Starfsemin hófst í Skeifunni 3c en þremur árum síðar fluttist stöðin í Skeifuna 19. Nú er hún víða um Reykjavík, eðá á tíu stöðvum á höfuðborgarsvæðinu en aðalstöðvarnar eru í Laugardalnum. Vantrauststillaga. Vantrauststillaga er ályktun löggjafarþings í þingræðisríki um að ríkisstjórn í heild eða einstakir ráðherrar njóti ekki stuðnings þingsins og beri því að segja af sér. Meðferð vantrauststillaga er ólík eftir löndum. Í Þýskalandi, Ísrael og á Spáni tíðkast svonefnt „jákvætt vantraust“ sem felur það í sér að flutningsmanni vantrauststillögu ber að tilnefna um leið eftirmann þess ráðherra sem vantrausti er lýst á. Þessari aðferð er ætlað að koma í veg fyrir stjórnarkreppu. Í gildandi stjórnarskrá Íslands er ekki fjallað sérstaklega um vantrauststillögur en óumdeilt er að Alþingi getur lýst vantrausti á ríkisstjórn og að forsætisráðherra beri þá að leita lausnar frá embætti. Felst þetta í þingræðisreglunni sem fram kemur í fyrstu grein stjórnarskrárinnar. Í þingsköpum Alþingis er mælt fyrir um að vantrauststillögur skuli ræddar og afgreiddar með einni umræðu. Lateransamningarnir. Lateransamningarnir voru samningar milli Páfagarðs og ítalska ríkisins undirritaðir 11. febrúar 1929 og staðfestir af ítalska þinginu 7. júní sama ár. Samningarnir fólu í sér lausn „rómverska vandamálsins“ og formlega gagnkvæma viðurkenningu Vatíkansins og ítalska ríkisins. Samningarnir voru tvö skjöl: annars vegar samningur sem kvað á um landamæri Vatíkansins innan Rómar, fullveldi þess og fébætur fyrir þau lönd sem ítalska ríkið tók eignarnámi við stofnun; hins vegar var sáttmáli sem fjallaði um samskipti Vatíkansins og ítalska ríkisins. Í sáttmálanum var kaþólsk trú gerð að ríkistrú Ítalíu og Vatíkanið skuldbatt sig til að gæta hlutleysis í alþjóðsamskiptum. Samningarnir voru undirritaðir af Pietro Gasparri, kardinála og forsætisráðherra Páfagarðs, og Benito Mussolini, forsætisráðherra Ítalíu. Viðstaddir undirritunina voru lögmaðurinn Francesco Pacelli fyrir hönd Vatíkansins og Domenico Barone dómari fyrir hönd ítalska ríkisins en þeir höfðu útbúið samningana. Stjórnarskrá Ítalíu sem var samþykkt árið 1947 kvað á um að samskipti ítalska ríkisins og kirkjunnar færu fram samkvæmt Lateransamningunum. Þannig urðu samningarnir hluti af stjórnarskránni. Ítalska ríkið getur því ekki breytt þeim einhliða nema með stjórnarskrárbreytingu. Árið 1984 var sáttmálanum (en ekki samningnum) breytt eftir langar og erfiðar samningaviðræður milli kirkjunnar og ríkisins. Með breytingunni var losað um tengsl ríkis og kirkju þannig að nýir biskupar þurftu til dæmis ekki lengur að sverja ríkinu hollustueið og kaþólsk kristnifræðikennsla í skólum varð valkvæm í stað skyldu. Klíðislaust korn. Klíðislaust korn er malað korn ýmissa korntegunda svo sem hafra, byggs, hveiti eða rúgs. Klíðislaus korn eru heil korn sem innihalda kjarna og trefjar og fræhvítu. Fiat. Lingotto-verksmiðjubyggingin í Tórínó árið 1928. a> urðu gríðarvinsælir um allan heim í efnahagsuppgangnum á 6. áratugnum. Á Spáni var sami bíll framleiddur sem SEAT 600, í Júgóslavíu sem Zastava 750, í Vestur-Þýskalandi sem Jagst 600 o.s.frv. Fiat S.p.A. (upphaflega skammstöfun: "Fabbrica Italiana Automobili Torino") er ítalskur bílaframleiðandi með höfuðstöðvar í Tórínó. Saga. Fyrirtækið var stofnað árið 1899 af Giovanni Agnelli og hópi fjárfesta. Fyrsti bíllinn sem fyrirtækið framleiddi var Fiat 4 HP. Í upphafi 20. aldar óx fyrirtækið hratt, það hóf framleiðslu flugvélahreyfla og Fiat 1 sem náði vinsældum sem leigubíll í Evrópu og Bandaríkjunum eftir 1908. Árið 1910 var Fiat orðinn stærsti bifreiðaframleiðandi Evrópu. Árið 1921 tóku verkamenn sem aðhylltust hinn nýja kommúnistaflokk, sem Antonio Gramsci og fleiri sósíalistar frá Tórínó höfðu stofnað sama ár, verksmiðjuna yfir sem leiddi til afsagnar Agnellis. Ítalski sósíalistaflokkurinn og Almenna verkalýðssambandið (CGIL) skipuðu verkamönnunum að hætta yfirtökunni. Árið eftir var Lingotto-bílaverksmiðjan í Tórínó byggð. Það var fyrsta verksmiðjan á Ítalíu sem var hönnuð fyrir fjöldaframleiðslu með samsetningarlínu. Fiat framleiddi hergögn í síðari heimsstyrjöld, einkum orrustuflugvélar á borð við Fiat CR.42 og létta skriðdreka. Eftir stríð var Agnelli-fjölskyldan rekin úr stjórn fyrirtækisins vegna tengsla þeirra við fasistastjórnina. Árið 1963 varð Gianni Agnelli, barnabarn stofnandans, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður árið eftir. Hann réðist í miklar breytingar á skipulagi fyrirtækisins, dreifði stjórn þess og hóf uppkaup annarra bílaframleiðanda eins og Autobianchi (1967) og Ferrari og Lancia (1969). Árið 1966 átti Fiat þátt í stofnun sovéska bílaframleiðandans AvtoVAZ sem hóf framleiðslu á eigin útgáfu af Fiat 124, Lada Riva. Árið 1979 var fyrirtækinu breytt í eignarhaldsfélag og starfseminni dreift í dótturfélög. Sama ár náði sala Fiat-bifreiða í Bandaríkjunum hápunkti þegar Bandaríkjamenn skiptu yfir í eyðslugrannari bíla í kjölfar olíukreppunnar 1979. Árið 1986 keypti Fiat Alfa Romeo af ítalska ríkinu og 1993 eignaðist það Maserati. Á 10. áratugnum gekk fyrirtækið í gegnum kreppu; sala bifreiða minnkaði og stjórnarmenn blönduðust inn í spillingarréttarhöldin Mani pulite. Árið 1998 tók Paolo Fresco við stjórnarformennsku en gekk illa að koma á nauðsynlegum breytingum hjá fyrirtækinu, meðal annars vegna andstöðu verkalýðsfélaga. Frá árinu 2002 hefur tap fyrirtækisins minnkað ár frá ári. Luca Cordero di Montezemolo varð stjórnarformaður 2004 og Sergio Marchionne tók við sem framkvæmdastjóri sama ár. Núverandi stjórnarformaður er John Elkann, barnabarn Gianni Agnelli. Árið 2011 eignaðist Fiat meirihluta í bandaríska bílaframleiðandanum Chrysler. Starfsemi. a> var valinn Bíll ársins árið 2008 Fiat á líka Fiat Industrial sem framleiðir sendibílana Fiat Ducati, Fiat Scudo og Fiat Doblò, og stærri farþegavagna og slökkvibíla undir merkjum Iveco. Fiat Industrial á CNH Global sem á vélaframleiðendurna New Holland, Steyr, Case IH og Case CE. Fiat á dagblaðið "La Stampa". Fyrri eigandi, Alfredo Frassati, var neyddur til að selja Giovanni Agnelli blaðið eftir að hafa gagnrýnt morðið á Giacomo Matteotti 1924. Í gegnum söguna hefur Fiat fengist við ýmislegt annað en framleiðslu lítilla bifreiða, til dæmis járnbrautarlesta (í gegnum Fiat Ferroviaria, selt 2000), hergagna, verksmiðjuíhluta, mótorhjóla og flugvéla (m.a. í gegnum fyrirtækið Piaggio sem Fiat átti um tíma). Utan Ítalíu. Fiat stofnaði nokkur dótturfélög utan Ítalíu á 6. áratug 20. aldar, meðal annars í Frakklandi (Simca), Brasilíu (Fiat Automóveis), Argentínu (Fiat Argentina), Póllandi (Polski Fiat) og Tyrklandi (Tofaş). Fyrirtækið samdi auk þess um framleiðslu Fiat-bifreiða við framleiðendur í Júgóslavíu (Zastava), Búlgaríu, Þýskalandi (Neckar) Egyptalandi og Eþíópíu og átti stóran þátt í stofnun spænska bílaframleiðandans SEAT 1950 og sovéska bílaframleiðandans AutoVAZ 1966. Fræ. Fræ samanstendur af þremur hlutum: kími, fræhvítu og fræskurni. Kímið er eins konar fósturvísir plöntu, vísir að framtíðarplöntu sem verður til við spírun sem verður þannig hjá einkímblöðungum að eitt kímblað brýst gegnum skurnina en hjá tvíkímblöðungum koma tvö kímblöð. Fræhvítan inniheldur næringu sem fræið þarf við spírun. Fræ berfrævinga hefur ekki utan um sig annan hjúp en frækápuna (fræskurnina) og sitja fræin ber á fræblöðum móðurplöntunnar. Fræ dulfrævinga eru hluti af aldini sem er ummyndað eggleg frævu sem geymir þroskuð fræ. Berfrævingar. Berfrævingar (fræðiheiti: "Gymnosperm") eru fræjurtir sem mynda ber og óvarin fræ á milli hreisturkenndra blaða í könglum. Helstu fylkingar berfrævinga eru köngulpálmar, musteristré og barrtré. Flestir berfrævingar tilheyra þallarætt barrtrjáa og eru tré og runnar með síðvöxt þannig að stofninn gildnar með árunum. Viður barrtrjáa er úr einsleitum viðartrefjum en inniheldur ekki viðaræðar eins og lauftré (harðviður). Blöðin eru oftast nálarlaga og flestar tegundir eru sígrænar. Æxlunarfæri berfrævinga eru í könglum. Nu metal. Nu-metal (einnig þekkt sem nü-metal) er undirstefna þungarokks frá byrjun tíunda áratug tuttugustu aldar og á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Stefnan er samruna stefna sem sameinar hljóðið úr þungarokki með öðrum tónlistastefnum svo sem hipp hopp, funki og groove metal. Vinsælustu hljómsveitir sem hægt er að flokka sem nu-metal eru meðal annarra Limp Bizkit, Korn og Linkin Park. Uppruni. Þær nýjungar sem heyrast í nu-metali má einnig heyra í vinsælum rokk hljómsveitum frá níunda og tíunda áratugnum. Hljómsveitirnar Faith No More, Red Hot Chili Peppers og Rage Against the Machine höfðu mikil áhrif á nu-metal tónlistarstefnuna. Það hefur einnig verið sagt að þungarokk frá sama tímabili hafi haft gífurleg áhrif á nu metal. Það hefur verð sagt að lagið „Bring the Noise“ eftir Public Enemy og Anthrax sé það lag sem hefur haft mest áhrif á nu-metalið. Einkenni. Nu-metal sameinar hljóð úr mörgum tónlistarstefnum og undirstefnum. Einkenni elektronískrar tónlistar, pönks, hipp hopps, djass, rokks og flestra undirstefna þungarokks finnast í nu-metali. Helstu einkenni Nu-metals eru gítar riff, hrynjandi og lækkaður rafbassi. Þetta veldur þungu hljóði sem margir segja að sé helsta einkenni nu-metals. Það er ekki jafn mikið af sólóum í nu-metali eins og í öðrum þungarokks-stefnum. Söngurinn í nu-metali er gífurlega fjölbreyttur. Melódískur söngur, rapp og öskur finnst allt í Nu-metal lögum og jafnvel fleiri en einn stíll í einu lagi. Flestar sveitir einkenna sig samt með sinn eigin stíl. Þar sem stefnan sameinar tvo virkilega ólíka tónlistarheima (þungarokk og hipp hopp) er tískan sem fylgir stefnunni fjölbreytt. Tískan fór samt frekar í áttina að hipp hoppinu þar sem víð föt svo sem bolir, íþróttatreyjur, íþróttabuxur, hettupeysur og derhúfur voru mest áberandi. Búningar og grímur eru sjáanlegt í vinsælum nu-metal hljómsveitum. Hljómsveitameðlimir Slipknot og gítarleikari sveitarinnar Limp Bizkit, Wes Borland, eru þekktir fyrir að koma fram í búningum. Saga. Uppruni vinsælda þessara stefnu má rekja til framleiðandans Ross Robinson. Hann framleiddi fyrstu plöturnar sem kom stóru stjörnum stefnunnar á kortið. Þar á meðal fyrstu plötu Korn, Slipknot og Limp Bizkit. Það má segja að fyrsta plata Korn marki byrjun senunnar sem fylgi nu-metali. Fyrsta vinsæla lag Korn, Blind, sem kom út árið 1994 fékk spilun á MTV. Tónlistin náði þá til fleiri áhorfenda. Það var samt ekki fyrr en árið 1998 sem nu-metal náði almennum vinsældum með plötunni Follow the Leader, sem var önnur plata Korn. Eftir þetta birtust fleiri hljómsveitir með svipaðann stíl. Viðurkenndar þungarokkshljómsveitir eins og Sepultura og Slayer fylgdu straumnum og gáfu út plötur sem voru undir áhrifum frá þessari nýju og vinsælu stefnu. Tilraunin heppnaðist betur hjá Sepultura en platan Roots náði gífurlegum vinsældum. Ekki var hægt að segja það sama um tilraun Slayer en plata þeirra Diabolus in Musica fékk ekki jafn góðar viðtökur. Senan hélt áfram að vaxa og önnur plata Limp Bizkit Significant Other, sem kom út árið 1999, komst á toppinn á Billboard 200. Platan seldist í 643.874 eintaka eftir eina viku í sölu. Árið 2000 náði Nu-metal líklega sem hæstum hæðum þegar þriðja plata Limp Bizkit Chocolate Starfish and the Hot Dog Flavored Water sló sölu met fyrir rokk plötu, með yfir milljón eintök seld fyrstu viku eftir útgáfu. Seinna á árinu kom svo út mest selda nu-metal plata allra tíma, það var frumraun hljómsveitarinnar Linkin park; Hybrid Theory. Nu-metal hélt sinni vinsæld áfram þangað til um miðjan fyrsta áratug tuttugustu aldar en síðasta nu-metal hljómsveitin til þess að ná áberandi árangri var hljómsveitin Evanescence. Fyrsta plata þeirra Fallen var fjórða söluhæsta plata ársins 2003. Eftir þetta fóru vinsældir stefnunnar dvínandi en stærstu hljómsveitir stefnunnar starfa enn þá. Salsa tónlist. Salsa er ekki ein tónlistarstefna heldur frekar samheiti yfir margar tónlistarstefnur. Orðið salsa þýðir sósa á spænsku og er það góð myndlíking fyrir salsa því tónlistin er samblanda af mörgum tónlistarstefnum, mismunandi hljómföllum og mörgum framandi hljóðfærum. Salsatónlist er danstónlist, rúmba, mambó og tjsa- tjsa-tjsa sem eru þekktar tónlistarstefnur og dansstegundir. Áður fyrr var fólk meðvitað um hvaða tónlistarflokk innan salsa væri verið að spila út frá einkennum hverrar stefnur fyrir sig. En í dag þekkja flestir einungis nafnið salsa og finnst það skemmtileg tónlist en vita í raun ekki hvað salsa er. Suðuramerískar tónlistarstefnur eins og rúmba, mambó, guaracha og margar fleiri tónlistarstefnur þróuðust út í það að mynda einn tónlistarflokk, salsa. José Mangual tónlistarmaður frá New York útskýrir hvernig hann upplifir Salsa og tónlistarflokkana. „Ég fór eitt sinn til Þýskalands og datt inn á tal við þjóðverja. Ég sagði þeim að ég væri tónlistarmaður og þeir urðu hrifnir og spurðu mig hvernig tónlist ég spilaði. Ég sagði að ég spilaði salsa og þeir urðu enn hrifnari. En hefði ég sagt guaracha þá hefðu þjóðverjarnir ekki vitað hvernig tónlistarstíl ég spilaði.“ Þetta þekkingarleysi um tónlistarstefnuna salsa er til staðar í dag en áður fyrr vissu flestir hvað guaracha var sem er ein af grunnstefnum salsa. Til þessa að ná frama sem salsatónlistarmaður þarf að kynna sér allar þessa tónlistarstefnur sem koma saman í salsa. Sagan. Salsa er tónlist sem á rætur sínar að rekja langt aftur í aldir. Rekja má salsa til þræla sem komu til Kúbu frá Afríku. Þá varð til tónlist og dans sem átti eftir að lifa á komandi öldum. Salsa var fyrst skráð, kynnt og markaðsett árið 1970. Það voru innflytjendur frá Kúbu, og Puerto Rico sem tóku með sér tónlistarmenningu landa sinna og fluttu til New York og þar varð til tónlistarlegur suðupottur. Margar tónlistarstefnur komu saman. Þetta var Rúmba, Son, guaracha, tsja-tsja- tjsa, mambó, bóleró, Danzón og plena. Áður en að salsa var markaðsett í New York lifðu allar þessar stefnur í borginni. Það var einn staður í New York umfram aðra sem bauð fólki upp á þessar stefnur. Fólkið gat hlustað á þær og dansað með. Þessi staður hét Palladium Ballroom og var hann frægur fyrir að spila latin tónlist. Þarna kom saman fólk af ýmsum kynþáttum og naut þess að dansa og hlusta á skemmtilega tónlist. Tónlistin sem var spiluð á þessum stað var fjölbreytt og kom frá eyjunum í karabískahafinu. Ef fólk var hrifið af latin tónlist gat það alltaf fundið tónlistina sem að því líkaði best á Palladium Ballroom. Til þess að auka fjörið í dansinum og gera hann þokkafyllri tóku hljómsveitastjórar upp á því að spila hraðari takt og auk þess kölluðu þeir „salsa“ nokkrum sinnum í hverju lagi. Þannig varð tónlistarstefnan salsa til. Hljóðfæri. Stafir eru eitt af grunnhljóðfærum í salsa. Kóngatrommur eru aðal ásláttarhljóðfærið í salsa. Hjóðfærin sem leikið er á í salsa eru takföst hljóðfæri, strengjahljóðfæri, píanó og blásturshljóðfæri. Taktföstu hjóðfærin eru, Bongó trommur, kúabjöllur, timbales trommur, kóngótrommur, claves, guiro og maracas. Cuban Clave eru tveir viðarhólkar sem eru slegnir saman og það myndast taktfast hljóð. Á íslandi þekkjum við þetta sem stafir. Haldið er á staf í vinstri hendi og síðan er slegið á hann með staf í hægri hendi. Nokkrar tegundir eru til af stöfum sem henta hverju hljómfalli fyrir sig. Stafir eru einfaldir en sá sem spilar á stafina er án vafa mikilvægasti hljóðfæraleikarinn í hljómsveitinni. Það er í raun magnað hvað þessir tveir stafir gera mikið fyrir tónlistina. Timbales er tegund af trommu. Tromman samanstendur af tveimur sneriltrommum sem standa á járnstandi. Á standinu eru einnig tvær mismunandi stórar kúabjöllur og einn viðarbútur (e. Woodblock). Kóngatrommur eru trommur sem standa sjálfar eða haldið er á þeim á milli fótanna. Trommurnar eru gerðar úr við. Slagverksleikarinn getur verið með allt upp í fimm trommur fyrir framan sig og hafa þær allar sitthvort hljómfallið. Hljómfallið getur verið mismunandi djúpt, opinn tónn eða lokaður. Bongótrommurnar eru einnig gerðar úr við eða trefjagleri. En þær eru mun minni að stærð. Tromman samanstendur af tveimur litlum trommum sem gefa háan tón. Spilað er á trommurnar með fingurgómunum sem gefur grunntakt. Guiro líkjast hristum sem eru með hrufóttan við. Strokið er niður eftir hrufótta viðnum og þá kemur skemmtilegt hljóð. Tres gítar er sólóhljóðfæri. Þetta er mjög sérstakur gítar sem hefur einungis þrjá strengi. Gítarinn er venjulega stiltur í c-dúr og stundum er hann stilltur í d- dúr. Gítarinn er stundum sextrengja og þá er hann kallaður tvöfaldur tres gítar. Kontrabassi er stærsta og dýpsta strengjahljóðfærið sem hefur strengina E, A, D og G. Hann heldur hjómaganginum í gegnum lagið. Þetta eru hljóðfærin sem mynda grunninn í þessari tónlist. Píanó og trompet eru einnig hljóðfæri sem er spilað á og gera tónlistina litríkari. Tónlistarstefnur sem mynda salsa. Tónlistarstefnur sem koma saman í salsa hafa sitthvort hljómfallið. Allt eru þetta tónlistarstefnur sem eru aðallega þekktar fyrir það hvernig fólk dansaði við tónlistina. Tónlistarstefnurnar koma frá ýmsum löndum. Má þar nefna Rúmbu, Son, Guajira, Boleró, Son montuno og Guaracha sem kom frá Spáni. Rúmba kom fyrst til sögunnar. Rúmba kemur frá Kúbu og spratt upp í hafnarborginni Matanza. Rúmba greinist í þrjá þætti yambú, guaguancó og columbia. Þessir flokkar rúmbu hafa sitt séreinkenni. Yambú er elsti flokkur rúmbu og einkenni hans eru að spilað var á trommur sem líkjast kassa sem er tómarúm að innan og er hann settur á milli fótanna og svo slegið á viðinn. Þessar trommur kallast Cajones. Stafir og hristur (e. maragua) eru einnig hljóðfæri í þessum flokki. Yambú er hægur taktur en guaguancó einkennist af hraðari takti. Hljóðfærin er í grunnin þau sömu en hafa þróast aðeins þá aðallega trommurnar. Trommurnar heita tumbadors (Conga trommur) sem eru aðal ásláttarhljóðfærið í suðuramerískri tónlist. Columbia er þriðji stíllinn og er hann með flóknari hrynjanda. Rúmba lög eru í meginatriðum með sömu uppbyggingu. Yambú -og guaguancólögin byrja á því að stafirnir gefa taktinn með fimm nótna mynstri sem er hjartslátturinn í gegnum allt lagið. Trommurnar koma síðan inn með lagskiptum takti og svo gefur aðalsöngvarinn tóninn. Columbiulögin eru með sama grunn, nema að lögin byrja á því að slá á kúarbjöllu og stafir eru ekki alltaf með. Son er mikilvægt hjómfall, einkennist af því að aðalnótan er upptaktur á öðru slagi í staðinn fyrir á fyrsta slagi. Í grunninn er hljóðfærin í tónlistarstefnunni sex. Það eru bongótrommur, tres gítar, spænskur gítar, maracas sem er hrista, bassi og kúbversku stafirnir (e. cuban claves). Upptakturinn er framkvæmdur af þessum hljóðfærum. Þetta tónlistarform þótti siðlaust og var bannað á fyrri hluta tuttugustu aldar. Son sextettinn bætti við sig hljóðfærum smátt og smátt og þannig þróaðist stefnan og til urðu önnur afbrigði af son. Þetta breyttist í Afró-Son, boleró- son og Guajira-son þegar trompetið kom til sögunnar. Þróaðist þetta enn frekar í Son Montuno þar sem tumbadors trommurnar, píanó og þremur fleiri trompetum var bætt við. Nú þegar öll þessi hljóðfæri eru komin til sögunnar myndaðist enn eitt afrigði af tónlistartefnunni Son. Guaracha kom til sögunnar og einkennist af örlitið hraðari takti. Guaracha er því talin vera burðarásinn í salsa. Salsa inniheldur fleiri tónlistarstefnur sem koma meðal annars frá Puerto Rico. Þær heita plena og bomba. Danzón á síðan rætur sínar að rekja til Frakklands, tónlistarstefnur frá Kúbu eru carnival conga, ballroom conga, tjsa, tjsa, tjsa og diabló svo eitthvað sé nefnt. Tónlistarmenn. Arsenio Rodriguez var frumkvöðull í kúbverskri tónlist. Hann var vel þekktur á Kúbu. Hann spilaði á tres gitar. Hann var mjög hæfileikarríkur tónlistarmaður, samdi tónlist og var góður hljómsveitastjóri. Snemma á fjórða áratugnum innleiddi hann nýja stefnu sem heitir Conjunto. Þar bætti hann hljóðfærum við band sem samastóð af sjö hljóðfærum. Þetta breytti kúbverskri tónlist til frambúðar. Hann fékk innblástur úr afrískri menningu sem hann nýtti í tónlistina. Tónlistin var eins afrísk og hún gat verið. Arsenio settist að í New York á seinni hluta fimmta áratugarins og þar vann hann með flottu listafólki. Á þessum tíma í lífi hans var hann að verða blindur og dó hann bláfátækur árið 1970. Arsenio kom oft fram á dansstaðnum Palladium Ballroom. Hljómsveitin hans var ein sú vinsælast sem kom fram á þessum stað. Tito Puente er ættaður frá Puerto Rico en bjó í New York. Hann fæddist 1923 og dó árið 2000. Hann var mjög virtur í þessum tónlistarheimi. Hann var kallaður „kóngurinn“. Hann var trommuleikari og spilaði af miklum krafti á timbales trommur. Hann var þekktur fyrir útsetningar sem eru sígildar í þessari tónlist. Hann lagði sitt af mörkum í því að gera tónlist frá eyjunum í Karbískahafinu eftirsóknarverðar. Hann spilaði í meira en 60 ár og lætur hann eftir sig 140 plötur. Tito Puente var ekki hlynntur því að gera allar þessar tónlistarstefnur að einni. En hann gerði það því fólkið vissi frekar hvað salsa væri heldur en son- montuno. Celia Cruz var talin vera drotting Salsa tónlistarinnar. Hún var glimrandi tónlistarmaður sem söng margar tegurndir af salsa. Hún var kontraalt með gleðilegan tón. Kynþokki hennar heillaði áhorfendur af mismunandi þjóðernum. Hún kom fram í meira en fimm áratugi og gaf út fleiri en 50 hljómplötur. Buena Vista Social Club er hljómsveit sem samanstendur af Kúbverjum. Nafn hljómsveitarinnar má rekja til næturklúbbs sem var til á Kúbu á fyrrihluta 20. aldar. Þeir eru frægasta hljómsveit Kúbu og hafa fengið Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína. Meðlimir hljómsveitarinnar eru flestir mjög gamlir og voru margir hættir að spila þegar þeim voru kallaði saman til þessa að gera fyrstu plötuna árið 1996. Platan var gefin út árið 1997 og seldist hægt í byrjun en nú hefur selst í átta milljónum eintaka. Hljómsveitin er dugleg við að breiða tónlistarstefnunni salsa út um allan heim. Geocaching. Dæmi um geocache í plastíláti ásamt loggbók Geocaching er tegund af útivistarleik sem fyrst var spilaður í maí árið 2000. Þátttakendur í leiknum nota GPS (Global Positioning System) staðsetningartæki eða snjallsíma með GPS til að fela og finna vatnsþétt ílát sem geyma fjársjóði sem kallast "geocaches". Nútíma Ryþmablús. Nútíma ryþmablús er tónlistarstefna sem teygir anga sína víða. Hún sameinar einkenni ryþmablús, popp tónlistar, hipp hopp, raftónlistar, sálartónlistar og fönk. Flytjendur hennar eru mestmegnis Afrísk-Amerískir tónlistarmenn. Upphaflega var talað um ryþmablús sem tónlistarstefnu svartra manna í Bandaríkjunum á 5. og 6. áratugnum þegar taktfastari tónlist byggð á jazz og blús var við lýði. Þrátt fyrir það þekkist nútíma ryþmablús aðallega sem ryþmablús eða einfaldlega Saga stefnunnar. Um það leiti sem stjarna diskó tónlistarinnar tók að dofna við upphaf 9. áratugarins tók tók að myndast popp tónlist undir áhrifum frá fönk- og sálartónlist og úr varð ryþmablús eins og hann þekkist í dag. Með breytingum í vinsælli tónlist (e. mainstream) fylgdi ný kynslóð tónlistarhöfunda. Hinir nýju höfundar vinsælu tónlistarinnar hófu að notast við hljóðgervla og trommuheila við gerð tónlistar hinna Afrísk-Amerísku tónlistarmanna. Með nýjum rafknúnum hljóðfærum fóru framleiðendur tónlistarinnar að vinna hana meira og úr varð tónlistarstefna sem innihélt mjúkan söng, takt og laglínu. 9. áratugurinn. Með mikilli framför í tækni við upphaf 9. áratugarins og innkomu hljóðgervla, trommuheila og annarra nýjunga var vegur nútíma ryþmablússins ruddur. Nýjungunum fylgdi taktfastur stíll og melódíur, en þessi nýi stíll hafði mikil áhrif á tónlistarstefnur, en þó ekki aðeins það. Ryþmablúsinn gerði Afrísk-Amerískum Bandaríkjamönnum kleift að syngja um reynslu sína og tilfinningar sínar með eigin orðum. Einn fyrsti svarti tónlistarmaðurinn til að færa sig yfir í hina nýju og vinsælu tónlistarstefnu eftir fall diskósins var Michael Jackson. Árið 1982 kom út platan hans, Thriller, en með henni voru í raun leifar diskósins jarðaðar. Sú plata varð og er enn í dag mest selda plata allra tíma. Aðrir vinsælir ryþmablús tónlistarmenn áratugarins voru meðal annarra Marvin Gaye, Janet Jackson og Whitney Houston. Árið 1986 kom út platan Control með Janet Jackson. Tónlist plötunnar var samin af Janet Jackson ásamt tvímenningunum Jimmy Jam og Terry Lewis, en samstarfið varð til þess að út kom nokkurskonar bræðingur af ryþmískum einkennum fönksins og diskósins með íburðarmiklum hljóðgervils- og trommuheila tónum. Platan var svo vinsæl að ekki var lengur talað um Janet sem litlu systur Michael, heldur var hann stóri bróðir hennar. Velgengni Control hafði mikil áhrif á tónlist næstu ára og hélt Janet Jackson ótrauð áfram sem ein af frumkvöðlum tónlistarsenunnar. Sama ár og Control kom út hóf maður að nafni Teddy Riley að semja ryþmablús tónlist með áhrifum frá hipp hoppinu. Þessi nýja blanda fékk síðar heitið Ný-pörupilta sveifla (e. New jack swing) en hún naut gríðarlegra vinsælda frá lokum 9. áratugarins og fram á þann 10. 10. áratugurinn. Við upphaf 10. áratugarins hélt tónlistarstefnan áfram að þróast og mikið bar á söngkonum eins og Whitney Houston og Mariah Carey sem studdust við söngtækni gospel söngs. Áhrif gospelsöngsins birtust í því að söngvarar stöldruðu lengur á ákveðnum stöfum setninga í texta laga sinna en flökkuðu milli tóna. Þessi tækni heitir tónaflétta (e. melisma) en undir lok 9. áratugarins og við upphaf þess 10. jókst beitin þessara svokölluðu tónaflétta mjög og er í raun enn þann dag í dag gríðarlega einkennandi fyrir ryþmablús tónlist. Fyrrnefnd Mariah Carey var hóf feril sinn árið 1989, en varð á 10. áratugnum ein vinsælasta söngkona ryþmablús senunnar. Michael Jackson gaf út plötuna Dangerous árið 1991 en hún var undir áhrifum ný-pörupilta sveiflunnar sem orðið hafði vinsæl undir lok 9. áratugarins. Sú plata seldist í 30 milljónum eintaka og varð með því mest selda plata áratugarins og ein mest selda plata allra tíma. Við upphaf áratugarins komu Boyz II Men á ný með áhrif sálar tónlistar inn í ryþmablús senuna. Með auknum vinsældum og mikilli þróun stefnunnar fór að berast hljóð úr öðrum áttum í tónlistina. Hljóð ný-pörupilta sveiflunnar fór að dofna en í stað þess fóru flytjendur að auka á harðari trommutakta undir áhrifum austurstrandar hipp hoppinu. Sean Combs (einnig þekktur sem Puff Daddy, P. Diddy eða Diddy) hafði á orði að þessi nýi undirflokkur ryþmablúsins skyldi bera nafnið Sálar hipp hopp. Fyrir miðjan áratuginn var ryþmablúsinn orðin ein vinsælasta tónlistarstefnan og héldu flytjendur á borð við Mariah Carey, Janet Jackson og Boyz II Men að auka á vinsældir stefnunnar. Boyz II Men og Carey sameinuðu krafta sína og sömdu hvern ryþmablús slagarann á fætur öðrum og komu þó nokkrum þeirra í fyrsta sæti Billboard listans í bandaríkjunum. Meðal laga sem urðu til við samstarfið má nefna lagið Fantasy og One sweet day, en það síðar nefnda sat í 16 vikur í fyrsta sæti listans og setti með því met sem enn hefur ekki verið slegið. Lagið var valið vinsælasta lag áratugarins af Billboard tímaritinu en einnig valdi tímaritið Carey og Janet Jackson tvo vinsælustu flytjendur áratugarins. Þegar áratuginn tók að líða undir lok höfðu áhrif sálar tónlistar aukist í sálar hipp hoppinu og varð línan milli ryþmablússins og hipp hoppsins varð mjög óskýr þegar flytjendur á borð við Lauryn Hill og Missy Elliott hófu að gefa út tónlist af báðum stefnum. 1. áratugur 21. aldarinnar. Á nýjum áratugi og nýrri öld fagnaði ryþmablúsinn áframhaldandi vinsældum samhliða vinsældum flytjenda á borð við Beyoncé, Mariah Carey, Jennifer Lopez, Mary J. Blige og Usher en öll áttu þau það sameiginlegt að hafa byrjað feril sinn á tíunda áratugnum en nutu áframhaldandi vinsælda á nýrri öld. Vinsældur Beyoncé jukust þó á nýjum áratug, en á níundaáratugnum hafði hún gert garðinn frægan með stúlknasveitinni Destiny's Child. Hún var árið 2011 heiðruð af Billboard tímaritinu þegar þeir veittu henni tímamótaverðlaun sín til viðurkenningar um velgengni og áhrif innan tónlistarsenunnar. Einnig var hún valin vinsælasta söngkona áratugarins af Billboard tímaritinu og hefur hún selt um 75 milljónir plata um allan heim og er þar af leiðandi einn söluhæsti flytjandi allra tíma. Destiny's Child með Beyoncé innanborðs tókst einnig að verða árangursríkasta ryþmablús-stúlknasveit allra tíma en þær gáfu meðal annars út slagarana Survivor og Say my name. Þrátt fyrir miklar vinsældir hinna reynslu meiri, komu nýir flytjendur fram á sjónarsviðið en til að mynda má nefna að Chris Brown, Rihanna og Ne-Yo voru öll á meðal árangursríkustu flytjenda áratugarins ásamt reynsluríku flytjendunum Usher, Beyoncé, Alicia Keys og Mariah Carey. Við upphaf 1. áratugarins var tónlistarstefnan undir miklum áhrifum frá hipp hoppinu og fór í auknu mæli að bera á einstaka flytjendum í stað drengja- og stúlkna banda þegar leið á áratuginn. Slíkum yfirburðum bjó ryþmablúsinn yfir á markaðnum á áratugnum að öll 12 lögin sem toppuðu vinsældarlista Billboard voru sungin af afrísk-amerískum flytjendum og en þeir flytjendur stóðu fyrir ríflega 80% laganna sem náðu fyrsta sæti á ryþmablús lista Billboard tímaritsins. Undir lok áratugarins var ryþmablúsinn farinn að blandast poppinu í auknu mæli og ræður sú stefna meira og minna ríkjum innan ryþmablússins enn þann dag í dag. Heimildir. http://articles.chicagotribune.com/2008-08-10/news/0808080318_1_new-edition-new-jack-city-swing http://www.newyorker.com/arts/critics/musical/2008/10/06/081006crmu_music_frerejones http://blogs.villagevoice.com/music/2012/07/sales_slump_usher_chris_brown.php?page=2 Richard J. Ripani (2006). The New Blue Music: Changes in Rhythm & Blues, 1950–1999. Bls. 130–155, 186–188. Víkingaþungarokk. Víkingaþungarokk (e. "Viking metal") er ein af mörgum undirgreinum þungarokks. víkingaþungarokkinu er of lýst sem blöndu af svörtu og þjóðlagaþungarokki. Víkingaþungarokkið einkennist af hljómborðum, dimmu og dularfullu andrúmslofti og fjalla mörg lög um bardagakappa eða Æsi. Víkingaþungarokkið kom fram í lok níunda áratugarins fram til á miðjan tíunda áratuginn. Víkingaþungarokkið varð til á Norðurlöndunum þar sem þungarokkarar voru orðnir þreyttir á því að syngja um Satan og sóttu þá innblástur til forfeðra sinna sem tilbáðu Æsi. Einkenni. Víkingaþungarokk er nokkuð fjölbreytt tónlistarstefna, lögin geta hoppað á milli rólegra kórsöngva með orgel undirleik og upp í drífandi trommuslátt og miklum látum. Mörg lög og plötur víkingaþungarokksins innihalda söguþræði um bardagakappa og Æsi og gefur tónlistin hlustandanum tilfinningu um hvað er að gerast í sögunni, til dæmis að trommurnar leika eftir hesti á hlaupum eða sverðum á skylmast og jafnvel hafa sumir tónlistarmenn bætt við ýmsum hljóðum eins og vindi, hneggi í hestum og fleiru í lögin, sem hjálpar hlustandanum að ímynda sér hvað er að gerast í sögunni sem textinn fjallar um. Ólíkt mörgum undirflokkum þungarokksins þá skipta margar víkingaþungarokks hljómsveitir milli þess að syngja og „growl“-a einnig er mikið um þríunda- og fimmundaraddanir sem gefa lögunum forn skandínavískan þjóðlagablæ sem margir aðdáendur víkingaþungarokksins sækja eftir. Margir tónlistarmenn sem semja og spila víkingaþungarokk syngja á íslensku, fornnorrænu, færeysku og öðrum skandínavískum tungumálum en einnig er mjög algengt að það sé sungið á ensku. Víkingaþungarokk og kristni. Í seinni hluta níunda áratugarins sungu flestar þungarokks hljómsveitir um Satan og helvíti sem kemur úr kristinni trú og voru það hljómsveitir eins og Venom, Mayhem og Burzum sem spiluðu mjög svart og grimmt þungarokk og tilbáðu Satan, drápu dýr og ötuðu sig út í blóði á tónleikum svo þeir gætu verið nær dauðanum þegar þeir voru að spila. Þegar svart og djöfladýrkandi þungarokk var búið að vera vinsælt í töluverðan tíma þá komu nokkrir tónlistarmenn fram með útfærslu á þessari tónlist sem sótti innblástur í helvíti kristinnar trúar með því að taka svarta-þungarokkið og blanda því við þjóðlagar-þungarokk. Með því var vakin upp þjóðernishyggja og þeir sömdu lög um ásatrú og gamlar stríðshetjur, þjóðsagnarhetjur og Æsi sem lentu í ævintýrum og bardögum við vætti eða stórherlið víkinga. Með þessu veittu þeir innsýn í ásatrú sem farið hafði halloka fyrir kristinni trú, en eins og þekkt er þá fór ásatrúariðkendum í kringum árið 1000 þegar kristinn trú fór að vera allsráðandi á Norðurlöndunum. Saga. Það mætti segja að víkingaþungarokkið hafi byrjað 1982 þegar sænska þungarokkshljómsveitin Heavy Load gaf frá sér lagið „Stronger than Evil“ sem er fyrsta víkingaþungarokkslagið þótt að það sé töluvert ólíkt víkingaþungarokkinu sem þróaðist í lok níunda áratugarins. Lagið er frekar rólegt og þar er ekki þetta myrka ívaf sem kemur frá svarta þungarokkinu, en þar er samt hvorki notað hljómborð eða einhver hljóðfæri sem gefa frá sér fornskandínavískan víkingatilfinningu, sem kemur seinna inn í þessa tónlist. Lagið „Stronger than Evil“ hafði áhrif á hljómsveitir sem spiluðu tónlist í þessum anda og endurskoðuðu sumar þeirra tónlistastefnur sínar og byrjuðu að spila víkingaþungarokk. Þrátt fyrir það þá náði víkingaþungarokkið aldrei gífurlegum vinsældum fyrr en fimm árum seinna, í kringum 1990, þegar svarta þungarokkið varð vinsælt, þá fóru víkingaþungarokksveitir að spretta upp um alla Skandinavíu og jafnvel í Norður-Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjum. Svíþjóð. Eins og komið hefur fram, þá var hljómsveitin Heavy Load fyrsta hljómsveitin til að spila víkingaþungarokk þótt að hún væri stofnuð 1976, áður en víkingaþungarokkið kom fram. Hljómsveitin var fyrst þekkt fyrir að vera fyrsta þungarokkshljómsveitin í Svíþjóð en er núna þekkt fyrir að vera fyrsta hljómsveitin til að spila víkinga-þungarokk. Árið eftir að lagið „Stronger than Evil“ kom út þá var sænska hljómsveitin Bathory stofnuð sem spilaði þungarokk en byrjaði ekki að spila víkingaþungarokkinu fyrr en 1990 þegar það datt í tísku hjá þungarokks aðdáendum. Árið 1989 var sænska þungarokkssveitin Unleashed stofnuð og var hún fyrsta sænska hljómsveitin sem var stofnuð sem víkingaþungarokkssveit. Unleashed sækir innblástur í textana sína frá ásatrú og sögum eftir J.R.R. Tolkien sem var mikill aðdáandi ásatrúar og skandinavískra þjóðsagna. Árið 1992 stofnuðu nokkrir Svíar hljómsveitina Amon Amarth sem kemur úr tungumálinu sindarin sem J.R.R. Tolkien bjó til og er það nafnið yfir Dómsdyngju sem er í sögu heimi hans. Árið 1995 var hljómsveitin Månegarm stofnuð. Hljómsveitin dregur nafn sitt af úlfinum Mánagarmi (Hati Hróðvitnisson) sem eltir mánann þar til að hann nær honum þegar Ragnarök byrja og Fenrisúlfurinn sleppur. Á sama ári var hljómsveitin Thyrfing stofnuð og kemur nafnið frá töfrasverðinu Tyrfing sem kemur fram í Snorra-Eddu. Hljómsveitin Hel var stofnuð 1999 og er hún nefnd í höfuðið á dóttur Loka, Hel sem sér um Niflheima sem er staður þar sem menn fara sem hafa ekki dáið hetjulegum dauða í bardaga. Noregur. Hljómsveitin Burzum er ein af fyrstu norsku víkingaþungarokkssveitunum. Burzum þýðir myrkur á svarttungu sem er töluð í Mordor sem er í söguheimi J.R.R. Tolkiens. Árið 1992 var hljómsveitin Helheim stofnuð og nafnið þýðir heimur Heljar eða Niflheimur og er þekktur fyrir mikinn kulda og sorg. Hljómsveitin Einherjer var stofnuð í Noregi 1993 og þýðir nafn hljómsveitarinnar Einhverjar sem eru fallnir stríðsmenn sem berjast Valhöll. Árið 1994 stofnuðu nokkrir norskir drengir hljómsveitina Kampaf. Hljómsveitameðlimirnir segja að Kampaf sé gamalt bardagaóp sem þýðir Óðinn. Á sama ári og Kampaf var stofnuð þá voru norsku hljómsveitirnar Storm og Windir stofnaðar. Hljómsveitin Drottnar var stofnuð 1996 og kemur nafnið af íslenska orðinu drottinn sem er samheiti fyrir meistara og konung. Hljómsveitin einkennist af því að hljómsveitarmeðlimir klæðast rússneskum einkennisbúningum á sviði. Árið 1998 var hljómsveitin Ásmegin stofnuð og þýðir nafnið „Máttur Ásana“. Glittertind er þungarokks/pönkhljómsveit sem byrjaði sem einsmanns ferill 2001 en varð að hljómsveit 2010. Nafnið kemur af norsku fjalli sem mörg forn skáld hafa fengið innblástur af. Finnland. Árið 1992 var hljómsveitin Darkwoods My Betrothed en gekk hún fyrst undir nafninu Virgin Cunt og hefur hljómsveitin fengið þann titil að vera siðspilltasta þungarokkhljómsveit allra tíma. Árið 1995 var hljómsveitin Ensiferum stofnuð í Helsinki, hljómsveitin segist spila „Hetju þjóðlagaþungarokk“. Hljómsveitin Turisas var stofnuð 1997 og hún er nefnd í höfuðið á forn finnska stríðsguðinum. Danmörk. Eina danska víkingaþungarokks hljómsveitin sem hefur náð vinsældum er hljómsveitin Svartsod og var hún stofnuð árið 2005. Færeyjar. Eins og í Danmörku þá er aðeins ein víkingaþungarokkshljómsveit sem hefur náð vinsældum og er það hljómsveitin Týr sem var stofnuð 1998. Nafnið kemur af ásinum Týr sem var stríðsgoðið. Hljómsveitin er talin vera ein vinsælasta víkingaþungarokkshljómsveit sem hefur verið stofnuð. Týr fjallar í lögum sínum töluvert um færeysku hetjuna Þránd í götu (Trónd í Gøtu) sem barðist gegn upptöku kristinnar trúar og var mjög sannur Ásunum, einnig syngja þeir um aðrar víkingahetjur. Ísland. Íslendingar eru mjög stoltir af forfeðrum sínum og eru margir íslenskir áhugamenn um ásatrú, Íslendingasögur og þungarokk. Þrátt fyrir það þá er aðeins ein íslensk víkingaþungarokkshljómsveit sem hefur náð miklum vinsældum og er það hljómsveitin Skálmöld. Skálmöld var stofnuð 2009 en nafnið kemur úr goðafræðinni og stendur það fyrir „öld sverðanna“ eða „lagaleysi“. Samkvæmt Snorra-Eddu þá kemur Skálmöld áður en Ragnarök skella á og þegar Skálmöldin skellur á þá fara allir að berjast. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 2010 sem heitir Baldur. Baldur hefur söguþráð sem gengur á milli laga á plötunni og ersagan samin af textahöfundi hljómsveitarinnar. Sagan fjallar um bóndann Baldur sem fer í hefndarför eftir dularfullri skepnu sem drap fjölskyldu hans og allt sem hann átti. Sagan endar á því að hann drepur skepnuna en deyr síðan sjálfur af sárum sínum og sameinast aftur fjölskyldu sinni í Valhöll. Árið 2012 gaf Skálmöld út sína aðra plötu "Börn Loka" sem hafði einnig söguþráð. Sagan fjallaði um ungan mann, Hilmar að nafni, sem er munaðarlaus og flakkar á milli bæja með litlu systur sinni, Brynhildi. Kvöld eitt kemur Óðinn til hans og segir að honum að hann ætti að berjast við börn Loka og fá í laun víkingablóð og tryggan stað í Valhöll og segir honum að þrátt fyrir það að hann leysi þrautirnar þá þurfi hann að greiða gjafir goðana með sínum mestu verðmætum. Hilmar samþykkir þetta því hann telur sig hafa engu að tapa. Hilmar berst við Fernisúlfinn, Miðgarðsorminn og Hel. Þegar hann kemur til baka til að ná í Brynhildi þá kemur Váli og tekur hana, þegar Hilmar finnur hana aftur þá er búið að binda hana niður með innyflum hennar og snákur seytlar eitri á hana síðan hverfur hún burt frá honum. Í enda sögunnar kemur í ljós að þetta var einn af mörgum sjúkum leikum Loka því nú gengur Hilmar um sem ódauðlegur maður og systir hans þarf að þjást fyrir það. Önnur lönd. Þrátt fyrir að ásatrú hafi aðallega verið stunduð á Norðurlöndunum þá hafa þónokkrar víkingaþungarokkshljómsveitir verið stofnaðar annarstaðar en þar. Þar á meðal er tékkneska hljómsveitin Trollech sem var stofnuð 1999 og syngja þeir um dverga, tröll og aðrar verur. Einnig eru til töluvert margar víkingaþungarokks hljómsveitir frá Þýskalandi enda eru þeir nálægt Norðurlöndunum og áttu forfeður þeirra mikil samskipti. Einnig er til þónokkrar víkingaþungarokkshljómsveitir í Bandaríkjum. Indie-rokk. Indie-rokk (stundum kallað sjálfstætt rokk, e. "indie-rock") er tónlistarstefna sem þróaðist einna helst úr jaðarrokki (e. "alternative rock") og er í dag mjög víðtækt hugtak. Orðið „indie“ er stytting á "independent" „sjálfstætt“ og upphaflega var það skilgreiningin á stefnunni að hljómsveitir og tónlistarmenn hennar stæðu á eigin fótum og væru ekki háð stórum útgáfufyrirtækjum og öðru slíku. Sumir vilja þó meina að hugtakið sé nú búið að missa sína upprunalegu merkingu því til eru þónokkrar indie-rokksveitir sem náð hafa miklum vinsældum með hjálp stórra útgáfufyrirtækja. Stefnan á rætur sínar að rekja til Bretlands og Bandaríkjanna á níunda áratugnum. Einkenni stefnunnar. Einkenni indie-rokksins eru ýmis og heldur óskýr. Því má segja að hugtakið spanni vítt svið tónlistar. Oftar en ekki er tónlist innan stefnunnar fremur frjálsleg því tónlistarmennirnir reyna ekkert endilega að fara eftir fyrirfram ákveðnum reglum til að þóknast sem flestum hlustendum. Frekar vilja tónlistarmennirnir skapa eitthvað nýtt og ferkst og leyfa sér að fara sínar eigin leiðir óháð skoðunum annarra. Þó eru til fleiri stefnur í indie-flokknum en indie-rokkið, eins og nafnið gefur til kynna, svipar meira til rokks heldur en t.d. indie-popp, indie-þjóðlagatónlist o.s.frv. Þær hljómsveitir og tónlistarmenn sem iðkað hafa gerð indie-rokks hafa þurft að fara nýjar leiðir í dreifingu tónlistarinnar sinnar þar sem þær reiða sig ekki á stór útgáfufyrirtæki. Þar er tilkoma internetsins gífurlega mikilvægur þáttur en á internetinu eru ótal leiðir til að dreifa tónlist og indie-rokklistamenn hafa í gegn um tíðina nýtt sér þær óspart. Dæmi um þessar leiðir eru heimasíður, samskiptasíður og forrit á borð við Napster, Myspace, Facebook, Soundcloud, Youtube og margt fleira. Uppruni og upphaf. Undir lok áttunda áratugarins hafði pönkið náð sínum mestu vinsældum en það kom aðallega frá Bandaríkjunum annars vegar og Bretlandi hins vegar. The Cure á tónleikum 2004 Fljótlega eftir það fóru að koma fram á sjónarsviðið hljómsveitir á borð við Blondie og The Talking Heads sem spiluðu tónlist ekki ósvipaða pönkinu en þó með nokkrum breytingum; textarnir fóru að hafa dýpri merkingu í stað einföldu textanna í pönkinu. Þessi sena hlaut nafnið Nýbylgjutónlist en seinna fór hún að vera kennd aðallega við hljómsveitir sem notuðust við svokallaða svuntuþeysara. Einnig mynduðust stefnurnar Síð-pönk, sem innihélt hljómsveitir á borð við The Cure og Joy Division, og Gotneskt rokk, með hljómsveitir eins og Bauhaus og Siouxsie & the Banshees. Síðan snemma á 9. áratugnum fór að myndast fjöldinn allur af hljómsveitum þar sem meðlimir voru ekki endilega mjög flinkir á hljóðfærin sín en voru þó vissir um að geta búið til góða tónlist. Í Bretlandi fóru sumir að kalla stefnu þessarra sveita indie en í Bandaríkjunum var þetta ennþá bara kallað jaðarrokk eða háskólarokk. Upp frá því fóru einnig að spretta upp sjálfstæð útgáfufyrirtæki sem stuðluðu vissulega enn frekar að þróun stefnunnar. Þetta er allt saman stór hluti af upphafi indie-rokksins. Aðgreining frá jaðarrokki. Segja má að Indie-rokkið hafi endanlega skilið sig frá öðrum stefnum eins og jaðarrokki og gruggrokki um það leyti þegar hljómsveitin Nirvana sló í gegn. Að minnsta kosti ef um er að ræða raunverulega merkingu hugtaksins, þ.e.a.s. að hljómsveitirnar eða tónlistarfólkið sem býr til tónlistina standi á eigin fótum varðandi allt sem við kemur henni, hvort sem það er ferlið að semja tónlistina, það að auglýsa hana og dreifa henni eða að flytja hana. Í kjölfar vinsælda Nirvana og gruggrokks almennt urðu til hljómsveitir sem færðu þá stefnu meira í átt að testósterón-drifnu þungarokki og gerðu hana umfram allt enn almenningsvænni. Eftir að gruggið varð svoleiðis hefur það stundum verið kallað handboltarokk í hálfkæringi. Indie-rokkið var eins konar viðbrögð gegn þessu þar sem hljómsveitir eins og Sonic Youth, The Pixies og fleiri voru í broddi fylkingar. Indie-rokk um og upp úr aldamótum. Indie-rokk hefur sífellt orðið vinsælla og vinsælla og upp úr aldamótunum 2000 voru góð dæmi um það hljómsveitirnar Manic Street Preachers, The Strokes og Franz Ferdinand. Því hafa margir velt því fyrir sér hvort hugtakið sé búið að missa sína upprunalegu meiningu og standi nú bara fyrir ákveðinn hljóm í tónlistinni en um skilgreiningu þess hjóms eru einnig skiptar skoðanir. Árið 2006 gaf hinsvegar hljómsveitin Arctic Monkeys út sína fyrstu breiðskífu, "Whatever You Say I Am, That’s What I’m Not", en það gerðu þeir á veraldarvefnum án hjálpar útgáfufyrirtækis. Sú plata seldist í nærri 400.000 eintökum á einni viku og þar með höfðu þeir sýnt rækilega fram á kraft og áhrif internetsins á tónlistarheiminn. Dæmi um fleiri Indie-rokk hljómsveitir sem hafa náð miklum vinsældum á síðustu árum eru The Wombats, Vampire Weekend, Bloc Party, The Horrors, Two Door Cinema Club og margir, margir fleiri. Indie-rokk á Íslandi. Ísland á aragrúa af góðum tónlistarmönnum og hljómsveitum og stór hluti þeirra gæti auðveldlega fallið undir Indie-rokk. Hljómsveitakeppnin Músíktilraunir hefur í gegn um tíðina komið á framfæri fjölmörgum hljómsveitum sem flokkast gætu sem Indie-rokk en þar ber að nefna Maus, Botnleðju, Mammút, Jakobínurínu, Agent Fresco, Of Monsters and Men, RetRoBot og svona mætti áfram telja. Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefur átt gífurlega stóran þátt í að koma með og kynna erlenda Indie-rokktónlist jafnt sem innlenda fyrir landsmönnum. Dæmi um vinsælar erlendar Indie-rokksveitir sem stigið hafa á stokk á Airwaves hátíðinni á Íslandi eru The Shins, Bombay Bicycle Club, Hot Chip, Florence and the Machine, Flaming Lips og Bloc Party. Undirflokkar. Eins og áður segir er Indie-rokk afskaplega vítt hugtak og erfitt er að nefna eitt gott dæmi um tónlistarmann eða hljómsveit sem lýsir stefnunni fullkomlega. Hún oft er mjög samtvinnuð mörgum öðrum stefnum og á sér einnig marga undirflokka sem allir hafa sína eigin áhrifavalda utan Indie-rokksins. Dæmi um þessa undirflokka eru Indie-popp, Drauma popp, Noise-popp, lo-fi, Math-rokk, Síðrokk, Geimrokk, Tilfinningarokk og fleira. Söngleikur. Söngleikir er tegund leiklistar sem blandar saman söng, leik og dans. Sagan er sögð í gegnum orðin, tónlistina og hreyfingarnar sem og tilfinningar. Hægt er að tengja söngleiki við óperu en aðal munurinn er að í söngleikjum er lagt jafn mikil áhersla á dans, söng og samtöl. Samtölin á milli laga eru oftast töluð en í óperum er allt sungið. í sumum söngleikjum eru þó öll samtölin sungin, til dæmis í "Les Misérables". Vestrænir söngleikir komu á yfirborðið á 19 öldinni og hin svokallaða "Gullöld" söngleikjanna byrjaði 1940. Þá komu margir brautryðjandi söngleikir eins og "Show Boat" (1927), "Oklahoma!" (1943), "West Side Story" (1957), "The Fantasticks" (1960), "Hárið" (1967), "Vesalingarnir" (1985), "The Phantom of the Opera" (1986) og "Rent" (1994). Bókarsöngleikir. Bókarsöngleikir eru söngleikir með söguþræði komu fram á 20 öldinni. Þar er "bók", einnig kölluð "libretto", handritið, sem sagt söguþráðurinn, þróun persónanna, talað mál og sviðsleiðbeiningar, semsagt passar bókin að söngleikurinn sé ekki aðeins blanda af lögum sem passa ekkert saman. Aðal munurinn á þessum söngleikjum og söngleikjum sem kom á undan þeim er að í þeim fyrrnefndu eru lögin og dansatriðin fléttuð inn í söguþráðinn til þess að vekja alls konar tilfinningar í áhorfendum og til að hjálpa söguþráðinum að þróast. Dans- og söngatriðin voru ekki notuð, eins og áður fyrr, aðeins sem afsökun til að láta fáklæddar stúlkum með fjaðrir valsa um sviðið, áhorfendum til ánægju. Á fyrri árum voru söngleikir yfirleitt settir upp til þess aðeins að sýna tónlistina eða frægann söngvara og því var sýningin bara stutt atriði sem voru sett inn aðeins til þess að komast frá einu lagi í annað. Þeir sem liggja að baki uppsetningu söngleiks eru leikstjóri, tónlistarstjóri, danshöfundur og sinfóníustjórnandi ef það á við. 5. áratugurinn. Rodgers og Hammerstein. Söngleikja-dúóið Rodgers og Hammerstein mörkuðu upphaf gullaldar söngleikja á fimmta og sjötta áratuginum með mörgum vinsælum söngleikjum. Richard Rodgers skrifaði tónlistina og Oscar Hammerstein II textana, söguna og sviðsleiðbeiningarnar, hann var það sem kallað var "librettist". Oklahoma! var fyrsti söngleikurinn sem þeir skrifuðu saman og markaði upphaf 17 ára samstarfs þeirra. Söngleikurinn er byggður á leikritinu "Green Grow the Lilacs" eftir Lynn Riggs. Söngleikurinn segir ástarsögu kúrekans Curly McLain og bóndastúlkuna Laurey Williams. Oklahoma! er gott dæmi um svokallaðan "book musical", sem voru komnir fram á þessum tíma. Þar var góður söguþráður og lög og dansar sem ýttu honum áfram. Rodgers og Hammerstein unnu með Agnes de Mille, danshöfundi, sem fór allt aðrar leiðir með dansinn heldur en hafði áður verið gert og notaði oft frekar hversdagslega atburði til að láta karakterana tjá sig. Til dæmis í byrjun söngleikjarins draga tjöldin frá og á sviðinu stendur kona að strokka og heyrist í annari rödd afsviðs að syngja byrjunina á opnunarlaginu "Oh, What a Beautiful Mornin''". Oklahoma! varð mjög vinsæll söngleikur og var fluttur 2,212 sinnum á Broadway, fékk mjög góða dóma, til dæmis skrifaði Brooks Atkinson í The New York Times að byrjunarlagið hafi breytt söngleikjum til framtíðar. Rodgers og Hammerstein komu sér aldeilis á kortið eftir Oklahoma! og urðu mjög mikilvægir í heimi söngleikjanna og stór innblástur fyrir yngri rithöfunda sem höfðu áhuga á að skrifa söngleiki. Fleyri söngleikir sem dúóið skrifaði saman eftir Oklahoma! er (1945), South Pacific (1949) og svo The King and I (1951) og The Sound of Music (1959) á 6 áratuginum. 6. áratugurinn. West Side Story (1957) Árið 1956 skrifuðu Alan Jay Lerner, textahöfundur og Frederick Loewe, tónlistarhöfundur, hinn fræga söngleik My Fair Lady sem var byggt á bókinni eftir George Bernard Shaw. Hin efnilega leikkona Julie Andrews lék í þessum söngleik en hún hafði fyrst komið fram á sviðinu aðeins tveimur árum fyrr, í The Boy Friend árið 1954 sem var flutt í London. Á þessum árum breyttist heimsmetið um flestar sýningar mjög oft. The Boy Friend hélt því í mörg ár með 2,078 sýningar en My Fair Lady sló það með 2,717 sýningar. Söngleikurinn The Threepenny Opera kom nálægt, með 2,707 sýningar, en hann sló annað met og varð sá söngleikur sem var sýndur lengst í leikhúsi utan Broadway, þangað til að The Fantasticks sló það árið 1960. West Side Story, sem kom út 1957, er nútíma útgáfa af Rómeó og Júlíu sett í New York, þar sem Montague og Capulet fjölskyldurnar eru í staðin gengin Jets og Sharks. Jets er gengi ungra Pólsk-Ameríska unglinga en Sharks unglinga frá Puerto Rico. Tony, einn af Jets, er byggður á Rómeó sem verður ástfanginn af Maríu, sem er systir leiðtoga Sharks og er byggð á Júlíu. Leonard Bernstein gerði tónlistina og nýliðinn Stephen Sondheim gerði textana. Sýningin var sýnd 732 sinnum, en 1,040 sinnum á West End. Síðasti frægi söngleikur 6 áratugarins var The Sound of Music eftir Rodgers og Hammerstein. Hann er orðinn einn frægasti söngleikur sögunnar, en hann var sýndur 1,443 sinnum á Broadway þegar hann var settur upp fyrst. Söngleikurinn hefur verið sett upp margoft eftir það, til dæmis var gerð fræg mynd með Julie Andrews og Christopher Plummer árið 1965. The Sound of Music var síðasti söngleikur eftir Rodgers og Hammerstein því að níu mánuðum eftir frumsýninduna dó hann úr krabbameini. Sagan gerist árið 1030 í Austurríki og er um Von Trapp fjölskylduna og ungu konuna Maria sem fer að vinna hjá þeim sem heimakennslukona fyrir börnin sjö. 7. áratugurinn. Árið 1960 kom út söngleikurinn The Fantasticks út, með tónlist eftir Harvey Schmidt og texta eftir Tom Jones. Sagan er allegoría og lauslega byggt á "Les Romanesques" eftir Edmond Rostand. The Fantasticks var sett upp í Sullivan Street Theatre í Greenwich Village og var í sýningu þar í yfir 40 ár. The Fantasticks er sá söngleikur sem hefur verið lengst í sýningu. Schmidt og Jones héldu áfram að gefa út söngleiki á sjöunda áratuginum, til dæmis I Do! I Do!, sem er fyrsti Broadway söngleikur sem er aðeins með tveimur karakterum. Það komu margir mjög vinsælir söngleikir út á sjöunda áratuginum sem voru sýndir margoft á Broadway. Þar á meðal eru þrír vinsælir sönleikir sem komu allir út árið 1964 var Fiddler on the Roof sem var sýnt 3,242 sinnum, tónlistin er eftir Jerry Brock og texti eftir Sheldon Harnick og bókin var skrifuð af Joseph Stein. Annar söngleikurinn var Hello, Dolly! sem var sýndur 2,844 sinnum, tónlistin og textarnir er eftir Jerry Herman og bókin var skrifuð af Michael Stewart. Sá þriðji var Funny Girl sem var sýnt 1,348 sinnum, tónlistin var eftir Jule Styne, textarnir eftir Bob Merrill og bókin eftir Isobel Lennart. Tónlistarhöfundur Hello, Dolly!, Jerry Herman hafði mikil áhrif á söngleiki sjöunda áratugarins sem og textahöfundur West Side Story, Stephen Sondheim, sem var að byrja á þessum tíma. Fyrsti söngleikur Jerry Herman kom út árið 1961 og heitir Milk and Honey, það var sýnt 563 sinnum á Broadway. Það fjallar um stofnun Ísraelsríkis Sondheim byrjaði að semja bæði tónlist og textana í söngleikjum og var sá fyrsti A Funny Thing Happened on the Way to the Forum, sem kom út árið 1964. Andrúmsloft söngleikja Sondheims byrjaði svo að breytast, hann fór að fjalla um þyngra efni í seinni söngleikjum hans sem komu út á næstu áratugum. 8. Áratugurinn. Rokksöngleikir og Óperur: Við lok 7. áratugarinns kom söngleikurinn Hárið fram á sjónarsviðið og opnaði sviðið fyrir rokktónlistinni. Höfundur söngleikjarinns, James Rado og Gerome Ragni, höfðu séð fyrir sér að hún yrði einhverskonar blanda af hefðbundinni söngleikjatónlist og rokki. 8. áratugnum komu fram töluvert margir söngleikir sem byggðir voru á rokktónlist. Menn trúðu því að rokkið væri eini möguleiki söngleikjanna til að halda vinsældum vegna þess að það var vinnsælasta tónlistarstefna tímabillsins. Nokkrir frægir rokksöngleikir komu fram á tímabilinu svo sem Jesus Christ Superstar og Grease. Jesus Christ Superstar var sýning sem var talsvert öðruvísi en fyrstu rokksöngleikirnir og er í raun frumkvöðull á nýrri undirtegund, Rokk-óperunni. Munurinn á rokk-söngleik og rokk-óperu er í aðalatriðum sá að rokksöngleikurinn fylgir hefðbundnu formi söngleikjarinns það er að sum samtölin eru töluð/leikin en sum eru sungin við lög en í rokk-óperu er allur textin sunginn. Önnur nýung sem höfundar Jesus Christ Superstar kom með til sögunar var að gefa tónlistina út á plötu áður en söngleikurinn var frumsýndur og var líka gefin út sem kvikmynd aðeins tvem árum eftir að söngleikurinn var frumsýndur. Önnur vinsæl rokkópera var svo gerð eftir plötunni Tommy með hljómsveitinni The Who. Rokkóperan kom fram fyrst sem kvikmynd en var svo sett á svið árið 1992. Á 8. áratugnum voru settir upp söngleikir sem voru eingöngu með þeldökkum leikurum og byggðu þá á tónlist sem vinsæl hjá þeirra þjóðfélagshópum. Til dæmis má nefna sem fjallar um upplifun ungra stúlkna í stúlknasveit sem flytja meðal annars R&B tónlist og er hún því í forgrunni í sýningunni. Rokksöngleikirinr fengust við ýmisa hluta samfélagsins sem dæmi má nefna að Hárið fjallar um líf nokkura hippa í New York og fjallaði þessvegna líka um ýmislegt sem var ekki var samþykt af samfélaginu, svo sem frjálsar ástir með öllu sem í því hugtaki felst. Á sama tíma deildi söngleikurinn mikið á Víetnamstríðið. Jesus Christ Superstar fjallaði um síðust vikuna í lífi Jésús Krist og samband hans við lærisveina sína og sérstaklega Júdas. Dreamgirls um drauma og þrár ungrakvenna á tímum réttindabaráttu svertingja í Bandaríkjunum. Hér má líka minnast á The Rocky Horror Show það var rokksöngleikur sem kinkaði kolli til vísindaskáldskapar og B-mynda árana á undan en hafði eingan sérstakan boðskap eins og þeir áðurnefndu. Rokksöngleikurinn var ekki eina söngleikjaformið sem réð sér til rúms á 8. áratugnum. Svokallaðir “konsept” söngleikir urðu mjög vinsælir með tónskáldinu/textahöfundinum Stephen Sondheim, hann ásamt samstarfsmanni sínum Harold Prince sem var leikstjóri og framleiðandi bjuggu í raun til þá tegund söngleikja. Sondheim var aldrei ánægður með nafnið konsept-söngleikur þó að það nafn falli ágætlega að því að lýsa söngleik sem gengur út á að sýna einhverja hugmynd útfrá nokkrum sjónarhornum. Dæmi um hugmyndir sem þessi tegund söngleiksins hefur fjallað um eru líf einhleypra á móti lífi giftra eða söguleg menninga átök. Tónlistinni sem Sondheim samdi fyirr konsept-söngleikin Company hefur verið lýst sem “hreinni Brodway tónlist með samtíma áhrifum”. Sondheim var virkur í tónsmíðum út næstu tvo áratugi en þekktasti söngleikurinn hans frá þessum tíma er líklega Sweeney Todd sem fjallar um mann sem dæmdur er fyrir glæp sem hann framdi ekki og hvernig þörf hanns fyrir hefnd eyðileggur líf hans. Í Sweeney Todd var tónlistin það stór hluti söngleiksins að fólk hefur talað um sýninguna sem Ný-Óperu í stað söngleiks. Á meðan Sondheim skoðaði myrkustu kima manns sálarinnar í Ný-Óperunni sinn héldu Andrew Lloyd Webber og Tim Rice áfram sýnu stryki frá Jesus Christ Superstar og gáfu út tónlistina úr Evitu. fjallar um Evu Perón. Persónur sögunnar eru kanski ekki flóknar og því er hægt að segja að flott umgjörð hafi skipt áhorfendur meira máli heldur en innihald söngleikjanna. Evita markar allavegana upphaf svokallaðra ofursöngleikja. 9. áratugurinn. Nýir söngleikir sem komu framm á 9. áratugnum voru allt frá því að vera góðlátlegar skopstæligar yfir í tilkomimikil sjónarspil. Dæmi um skopstælingu sem hefur átt vel uppá pallborðið hjá áhorfendum eru Littla Hryllingsbúðin sem samin var af tónskáldinu Alan Menken og textasmiðnum Howard Ashman. Söngleikurinn byggði á mynd frá 1960 sem fjallaði um mannætu plöntu úr geimnum. En einn stærsti söngleikur áratugarinns var Cats. Cats er með tónlist eftir Andrew Lloyd Webber við ljóð T.S Elliot úr bókinni Old Possum's Book of Practical Cats. Það sem var einstakast við Cats var markaðssetningin, aldrei hafði neinn söngleikur tengt nafn sitt við jafn mikið af vörum. The Phantom of the Opera er annar söngleikur með tónlist eftir Andrew Lloyd Webber og texta eftir Charles Hart með hjálp frá Richard Stilgoe sem einnig skrifaði bókina með Webber. Söngleikurinn er byggður á frönsku bókinni Le Fantôme de l'Opéra eftir Gaston Leroux. Hann var sýndur á West End árið 1986 og Broadway 1988 og báðar uppsetningarnar voru vinsælar. Söngleikurinn er um hina fallegu Christine Daaé, sópransöngkonu, sem verður ofsótt af dularfullum, afmynduðum tónlistarsnillingi. Ofursöngleikirnir sem höfðu hafist með Evitu héldu áfram á 9. áratungum með innrás Breskra söngleikja á Brodway. Þessir söngleikir byggðu oft á pop töktum og miklum tæknibrellum. Hægt er að segja að sjónarspilið hafi orðið mikilvægara en innihaldið og djúpt var orðið á húmornum. Evrópsku ofursöngleikirinr voru upp poppaðar útgáfur af gamaldags operettum. Franskur söngleikur skar sig úr röðum ofursöngleikjanna vegna þess hversu góð sagan var, innihaldið var farið að vinna á sjónarspilinu aftur. "Les Misérables" eða "Vesalingarnir", oft einnig kallað "Les Mis" eða "Les Miz" er söngleikur þar sem allur textinn er sunginn. Hann er byggður á bók eftir franska skáldið og rithöfundinn Victor Hugo Tónlistin er eftir Claude-Michel Schönberg, upprungalegu textarnir á frönsku er eftir Alain Boublil og Jean-Marc Natel, söngleikurinn var upprunalega settur upp á frönsku í Frakklandi en Herbert Kretzmer þýddi allt á ensku og hann var sýndur fyrst í Barbican Centre í London 8 Október 1985. Sagan gerist í Frakklandi á 19 öld og segir frá Jean Valjean sem er fátækur franskur maður en mjög sterkur. Hann lendir í fangelsi í nítján ár eftir að hafa stolið brauði fyrir sveltandi barn systur sinnar. Eftir að hann er látinn laus líða nokkur ár og hann ákveður að brjóta skilorð og verður bæjarstjóri en lögreglumannin Javert er fast á hælum hans. Svo hittir Valjean Fantine sem er deyjandi og lofar að ala upp dóttur hennar, Cosette. Nokkur ár líða, Cosette verður ung kona og Frakkland er á byltingartímum, en þetta gerist þó eftir Frönsku byltinguna. Cosette verður ástfangin af hinum unga Marius sem tilheyrir hóp af ungum hugsjónumönnum sem mæta örlögum sínum í götuvígi. Vesalingarnir hafa verið settir upp margoft út um allan heim og er einn vinsælasti söngleikur allra tíma. Hann hefur unnið Tony verðlaun fyrir besta söngleik, bestu bók og bestu tónlistina. Árið 2006 fagnaði söngleikurinn tuttugu og fimm ára afmæli sínu og er sá West-End söngleikur sem hefur verið sýndur lengst, en hann hefur einnig verið sýndur á Broadway sem og út um allan heim. 10. áratugurinn. Á 10. áratugnum gekk rokksöngleikurinn í endurnýjaða líf daga með frumsýningu Rent. Rent fjallar um hóp af ungum listamönnumsem reyna að lifa á list sinni án þess að svíkja hugsjónir sínar ásamt því að lifa í skugga AIDS faraldrains sem gekk yfir heimin við lok 9. og upphaf 10. áratugarinns. Heróin spilar líka stóran part í lífi nokkura persóna. Að vissu leiti eru fyrsti rokksöngleikurinn og sá nýjasti (þegar Rent er frumsýndur) andstæður. Hárið sýnir frjálsar ástir og eiturlyfja notkun sem skemmtilega, hugvíkkandi og góða hluti en í Rent er dópið, kynlífið og lífið allt orðið lífshættulegt. Jonathan Larson var höfundur handrits, texta og laga en sagan er byggð á óperunni La bohème og eiga flestar persónurnar rætur að rekja í það verk, sumir eru beint uppúr óperunni en aðrir eru búinr til uppúr fleiri en einni persónu. Eitt af því sem gerir Rent svo heillandi eru fjölbreytileinn sem einkennir persónurnar og leikendurna. Persónurnar eru gagnkynhneigðar, skamkynhneigðar og ein persónan er skilgreind sem dragdrotning og einnig samanstóð leikhópurinn af fólki af hinum ýmsu kynþáttum. Rent gekk í gegnum langt og strangt ferli skrifa og endurskrifa áður en hann var settur upp, fyrst utan Brodway, og varð svo mjög vinsæll á Brodway. Ekki er einu sinni víst að söngleikurinn væri með þeim hætti sem við þekkjum í dag vegna þess að Larson féll frá kvöldið sem “utan Brodway” generalprufan var. Rent laðaði að sér stóran aðdáendahóp og stór hluti hans voru nemar sem stóðu í löngum biðröðum til að reyna að ná þeim fáu ódýru miðum sem í boði voru á sýningarnar. Á 10. áratungum var líka mjög duglegt við söngleikina. Margar frægu söngleikjateiknimyndir fyrirtækisins komu út á þessum tíma til dæmis Litla hafmeyjan, Konungur ljónana, Aladdin og Hringjarinn í Notre Dame en það var áðurnefndur Alan Menken sem skrifaði tónlistina fyrir þessar kvikmyndir, fyrir utan Konung Ljónanna en þar samdi Elton John tónlistina. Einng hóf Disney að framleiða sviðs útgáfur af vinsælustu myndunum sínum, þar má nefna Konung Ljónana og Fríðu og Dýrið. Eftir aldamótin hafa komið út nokkrir skemmtilegir söngleikir sem vert er að minnast á það eru Wicked sem fjallar um Vondu nornia úr vestri úr Galdrakarlinum í Oz. Tónlistin í Wicked líkist að sum leiti meira kvikmyndatónlist heldur en hefðbundinni söngleikjatónlist og er mikið um endurtekin stef í henni. Mikið hefur líka verið um að vinsælir söngleikir hafa verið kvikmyndaðir á fyrsta og öðrum áratug 21. aldarinnar. Dæmi um kvikmyndaða söngleiki byggða á sviðsverkum eru Chicago, Phantom of the Opera, Dreamgirls og Sweeney Todd að ógleymdri ný útkominni kvikmyndinni byggðir á Les Misérables. Synthpop. Synthpop (einnig þekkt sem elektrópopp eða teknópopp) er tónlistarstefna sem setur hljóðgervla í forgrunn. Synthpop var ríkjandi á níunda áratugnum og er hljóðgervill í raun einkennandi hljóðfæri þess áratugar. Þrátt fyrir það þá ná rætur þessarar stefnu til baka til 7. áratugsins. Þar voru hljómsveitir farnar að fikta sig áfram með syntha í lögunum sínum og má þar nefna hljómsveitirnar Beach Boys og The Monkees. Hljóðgervlarnir breyttu einkenni fyrrnefndu sveitarinnar ekkert. Fjórða plata The Monkees "Pisces, Aquarius, Capricorn & Jones Ltd." innihélt hinn þekkta Moog synth á tveimur lögum. Fyrsta platan til að vera spiluð alfarið á hljóðgervil var "Switched on Bach" með Wendy Carlos. Hún innihélt lög Bach, spiluð á Moog hljóðgervil. Í Þýskalandi var önnur hljómsveit að fikra sig áfram með hljóðgervla. Það var hljómsveitin Organisation, betur þekkt sem Kraftwerk, en þeir breyttu nafninu árið 1970. Tónlistin þeirra fór að vera taktfastari en áður þekktist og þar af leiðandi hlustendavænni. Annar tónlistarmaður, frakkinn Jean-Michel Jarre, fór að fikta sig áfram og hóf að blanda syntha tónlist saman við óperu. Saga. Synthpop var eitt helsta einkenni svokallaðrar new wave sem átti sér stað frá lok 1970 til mið 1980. Fóru hljómsveitir að leitast við að nota syntha í lögunum sínum og litu upp til David Bowie og Roxy Music til að nefna einhverja en þeim hafði tekist að þróa synthatónlistina, úr því tilraunakennda formi Kraftwerk, yfir í mun hlustendavænni tónlist. Fljótlega fóru aðrar hljómsveitir að nýta sér hljóðgervlana. Synthpoppið var farið ryðja sér til rúms. Hljómsveitirnar Depeche Mode og The Human League voru þar stærstar. Báðar voru þær breskar en þar átti einmitt helsta þróun synthpop-sins sér stað. Ein fyrsta mainstream hljómsveitin sem braust upp á yfirborðið með dansvænni tónlist var Duran Duran. Tókst þeim að gera tónlistina mýkri og hlýrri og þar af leiðandi hlustendavænni. Með auknum vinsældum sveitarinnar fóru nýjar hljómsveitir að reyna við slíka tónlist en áttu í raun aldrei meir en eitt vinsælt lag (fyrir utan The Human Leage og Eurythmics) á meðan að Duran Duran komst á þann stall að vera kallaðir „stjörnur“. Var því „one-hit wonders“ einkennandi fyrir þessa stefnu. Hljómsveitir. Eins og áður var nefnt þá var Kraftwerk ein fyrsta hljómsveitin til að hefja notkun á synthum í sínum verkum uppúr 1970. Vinsældirnar jukust hratt en voru flest synthpop bönd stöfnuð í kringum 1980. Á meðal hljómsveita frá þessu tímabili voru Eurythmics, Tears For Fears, Thompson Twins, New Order og A-ha. Líklegast stærsta og vinsælasta sveit þessarar stefnu er þó líklega sænska ofurgrúbban Abba. Þau áttu 18 lög sem fóru á evrópska topp tíu listann, í röð. Vinsældir þeirra jukust gífurlega eftir að þau tóku þátt og sigruðu Eurovision árið 19774 með laginu Waterloo. Uppruni. Erfitt er að átta sig á hvað sé Synthpop og hvað sé Europop eða Eurodisco. Allt er þetta í raun svipað og að flokka þetta endanlega er jafn erfitt og að flokka allt rokk í sérflokk. Eurodiscoið og Synthpop-ið áttu það sameginilegt að synthinn var í forgrunni og er þetta að vissu leyti ein og sama stefnan. Eurodiscoið er eins og gefur til kynna er evrópsk stefna sem á rætur sínar að rekja til Ítalíu þrátt fyrir að innblásturinn sé í jazz, sálartónlist og fönk sem var ein heitasta stefnan í Bandaríkjunum. Í Ítalíu var þessi stefna því alsráðandi og má helst nefna Scotch og Ken Lazlo af þeim ítölsku listamönnum. Í Þýskalandi var þessi stefna einnig nokkuð vinsæl og voru hljómsveitir á borð við Modern Talking og Fancy vinsælar þar. Stíllinn var ekki bundinn við Suður-Evrópu og var Írland einnig þekkt fyrir þessa stefnu. Dauði og endurvakning. Upp úr 1984 fór synthpop-ið að deyja út. Synthar hafa þó ekki horfið úr lögum. Þeir eru enn í mjög mörgum lögum þrátt fyrir að flokkast ekki undir stefnuna „synthpop“. (Webcitation) Synthinn lifði samt sem áður góðu lífi og fór hann að færast yfir í aðrar stefnur.House-tónlistin byrjaði að koma til Englands upp úr 1987. Þar er synthinn í forgrunni ásamt dansvænum 4/4 takti. Teknó fór að þróast upp úr 1991 og var hvað vinsælast í Belgíu og Hollandi. Er það einnig mikið byggt á synthum en er mun harðara og myrkra en house og synthpop. 1992 kom eurodisco-ið svo aftur. Það hafði breyst aðeins og var hefðbundna eurodisco hljómvseitin samansett af þýskum eða ítölskum producer, svörtum karlmanns rappara og konu að syngja. Rapprokk. Rapprokk (e. "rap rock") er tónlistarstefna sem myndaðist um miðjan níunda áratuginn tuttugustu aldarinnar. Hipp hopp blómstraði á þessum tíma og gat það ekki verið meiri andstæða við rokkið sem þá var í spilun en með hljómsveitum á borð við Beastie Boys, fyrrum harðkjarnapönkshljómsveit sem seinna fór svo yfir í hipp hopp, og Biohazard, sem spiluðu þungarokksriff undir rappeinkenndum söng, braust á sjónarsviðið þessi nýja tónlistarstefna, rapprokk. Stefnan einkennist af blönduðum eiginleikum úr hipp hopp og rokki og er gróf skilgreining á blönduðum stefnum, nu-metal og rappkjarna (e. "rapcore"). Fólk hugsar oft um rapprokk sem annað heitir fyrir nu-metal eða rappkjarna til að einfalda útskýringuna, en þær stefnur eru einungis sérstök dæmi, s.s. ákveðnir undirflokkar af rapprokki. Í rapprokki er að finna vanalega hefðbundin rokkhljóðfæri líkt og gítar, bassa og trommur. Raddir geta verið sungnar, rappaðar eða bæði. Auk þess sérðu oft eletrónískan „sampling“-búnað, „scratch pads“ eða plötusnúða í för með hljómsveitum. Nu-metal og rappkjarni. Nu-metal á það til að vera þyngri, harðari tónlist sem hallar meira að þungarokki og eru hljómsveitir sem falla undir þennan flokk t.d. Slipknot, KoRn, og Godsmack. Rappkjarni (e. "rapcore") er meiri blanda af rappi og harðkjarnapönki með elektrónískum eiginleikum (í staðinn fyrir þungarokks). Hljómsveitir eins og House of Pain, Limp Bizkit, Linkin Park og Rage Against the Machine] eru góð dæmi um lög í rappkjarnastefnunni. Vinsælustu rapprokkshljómsveitir eru eftirfarandi: Beastie Boys, Rage Against the Machine, Slipknot, P.O.D., Korn, Papa Roach, Limp Bizkit, Hollywood Undead, Hed-PE og Linkin Park. Uppruni og saga. Jafnvel þótt uppruni rokksins sé rakinn til blússins sem á uppruna sinn í svartri menningu, þá hafa lengi öll vinsælustu rokkhljómsveitirnar verið samansett af hvítum tónlistarmönnum, á meðan hipp hopp stækkaði sífellt og beindist alltaf að mestu leiti að svörtum menningarhópum, sem hafa þá ætíð náð lengst í þeirri stefnu. „Walk This Way“ undirbýr heiminn fyrir rapprokk. Ein fyrstu merki rapprokks var árið 1986 þegar Run-DMC, ein af stærstu rappgrúppum áratugarins og áttunda áratugsrokkhljómsveitin Aerosmith leiddu saman hesta sína í endurgerð af smelli (e. hit song) hljómsveitarinnar „Walk This Way“. Tónlistarmyndbandið sýndi Aerosmith og Run-DMC í sitthvoru upptökustúdíóinu að taka upp sína eigin tónlist úr andstæðum tónlistarstefnum, þ.e.a.s. hipp hopp og rokk, en um leið og Run-DMC byrjuðu að rappa textann við lagið braust Steven Tyler, aðalsöngvari Aerosmith, í gegnum vegginn til að syngja viðlagið og blandaði með því saman harðrokki og rappi. Lagið stækkaði aðdáendahóp Run-DMC í hvíta samfélaginu með meiru og ýttu sömuleiðis undir vinsældir Aerosmith sem voru í smá lægð á þessum tíma, en aðallega kynnti lagið til sögunnar nýja tónlistarstefnu: rapprokk. The Beastie Boys og Public Enemy ýta undir rapprokk. Næstu ár hélt nána samband rapps og rokks áfram að blómstra en sama ár og „Walk This Way“ fór á vinsældarlista gaf hvíta hipp hopp tríóið Beastie Boys frá Brooklyn út plötuna "Licensed to Ill", meiriháttar partýplötu sem naut gífulegra vinsælda og náði meðal annars platinumsölu. Seinna samplaði Public Enemy, stærsta hipp hopp band seinni hluta níunda áratugarins, hljómsveitina Slayer við lag af plötunni þeirra, "It Takes a Nation of Millions to Hold Us Back", sem kom út árið 1988 og var það tímamótakennt í sögu rappkjarna. Rapprokk verður vinsælt. Í byrjun tíunda áratugsins voru tvær áhugaverðar metalrappshljómsveitir sem náðu miklum fjölda aðdáenda. Art-Metal bandið Faith No More, með söngvarann og lagasmiðinn Mike Patton í fremstu víglínu, blandaði saman hefðbundnum söng og rappi í vinsæla laginu þeirra „Epic“ sem kom út árið 1990. Ásamt því fagnaði rapparinn Ice-T frá Los Angeles miklum árangri með harðrokkshljómsveitinni Body Count, sem gaf út samnefnda plötu árið 1992 sem innihélt lagið „Cop Killer“ sem ýtti undir mikið mótmæli um allt landið. Rapp varð vinsælasta tónlistarstefnan í Bandaríkjunum á fyrri hluta tíunda áratugarins og rokkhljómsveitir héldu áfram að samþætta hipp hopp með rokki. Rage Against the Machine, með hreinskilna söngvarann Zack de la Rocha í fararbroddi, fengu innblástur frá pólitískum hipp hopp hljómsveitum á borð við Public Enemy, héldu áfram að ýta undir aggresíva orðræðu en bættu við mjög fríkuðum rokkgítarsólóum eftir gítarleikarann Tom Morello. Á sama tíma voru Beastie Boys að leitast eftir því að fjarlægja sig meira frá svokallaða „frat-boy“ stílnum á plötunni þeirra "Licensed to Ill" og ákváð gamla pönktríóið að skipta yfir í að spila á hljóðfæri aftur, og sem fyrrverandi harðkjarnapönkhljómsveit létu þeir næstu plötu, þá uppreisnargjörnu "Check Your Head" (1992), verða fyrir miklum áhrifum frá því. Platan varð byltingarkennd í hjólabréttasamfélagi úthverfanna með klaufalegri blöndu af rapp, rokki, fönki, þungarokki og pönki. Með reiða uppreisnarrokki Rage Against the Machine og afslöppuðu partýblöndu Beastie Boys af hipp hopp og rokki var kominn tími á nýja hreyfingu í tónlistinni. Rapprokk var tilbúið fyrir sviðsljósið. Gullöld rapprokksins. Ef það ætti að benda á eitt tiltekið augnablik sem byltingu í rapprokki þá myndi það líklegast vera útgáfa plötunnar "Significant Other" sumarið 1999 með Limp Bizkit. Þessi önnur plata Florida hljómsveitarinnar, sem innihélt smellinn „Nookie“, seldi yfir sjö milljón eintaka með því einu að blanda saman aggresívu þungarokki Rage Against the Machine og hjólabretta, slakari viðhorfi Beastie Boys. Eftir vinsældir "Significant Other" áttu rapprokkhljómsveitir mun auðveldara með að komast í sviðsljósið, bæði var auðveldara að ná sér í „gigg“ og ná lögum inn á almennar útvarpsstöðvar. Sem dæmi um rapprokkhljómsveit sem ætlaði sér að sigra heiminn má nefna kalifórnísku hljómsveitina Papa Roach sem gaf út lagið „Last Resort“ árið 2000. Nokkrum mánuðum seinna gaf Linkin Park, önnur hljómsveit frá Kaliforníu, út plötuna "Hybrid Theory" sem naut mikillra vinsælda. Þrátt fyrir að Limp Bizkit hafi átt erfitt með að toppa vinsældir "Significant Other" á nýrri plötum hljómsveitarinnar, og Papa Roach byrjuðu að einbeita sér aðallega að því að gefa út rokklög, þá er Linkin Park enn í dag áberamesta rapprokkhljómsveit 21. aldarinnar, og unnu meðal annars með rapparanum og útgefandanum Jay-Z á plötunni "Collision Course" sem kom út árið 2004. Staða rapprokks í dag. Enn nú til dags er rapprokk að upplifa skort á nýjum hæfileikamönnum til að drífa stefnuna áfram. Það má líklegast, upp að vissu marki, kenna vinsældar dýfu hipp hopps í samfélaginu um það. Eftir að hafa verið með yfirhendina í tónlistarheiminum í allt að 15 ár hefur rapp tapað mikið af markaðnum til popps og kántrítónlistar, og með því hefur rappokk verið minna spennandi tónlistarmöguleiki fyrir yngri kynslóðir. Margir trúa því að rapprokk muni öðlast vinsældir á ný, að yngri tónlistaráhugamenn uppgvöti hljómsveitir í þeirri stefnu. Drew Simollardes úr rappkjarnahljómsveitinni Reveille segir: „þessi tónlist er meira viðeigandi í nútíma samfélagi, fólkið er komið með ógeð af því sem er gangi í kringum okkur í heiminum og þetta er leiðin til að tjá sig. Enn rétt eins og hipp hopp hjálpaði til við að ýta undir rokkið snemma á níunda áratugnum, verður áhugavert að sjá hvort að ný tónlistarstefna muni koma og ýta undir bæði rokk og rapp aftur.“ Rapprokk á Íslandi. Ekki eru miklar heimildir um rapprokkhljómsveitir á Íslandi, allavega ekki nema um þær sem tóku þátt í Músíktilraunum og unnu ekki. Hljómsveitin Búdrýgindi samdi nokkur lög undir rapprokkstefnunni en þau eru samin í anda lagsins „Chop Suey“ með System of a Down. Quarashi eiga eflaust líka nokkur lög flokkuð undir rapprokki á Íslandi en ekki er hægt að staðfesta það hér vegna lítillar umfjöllunar og mikið sem engra heimilda. Chicago-blús. Chicago-blús er ein þekktasta tegund blústónlistar, sem þróaðist í Chicagoborg og er því kennd við borgina. Þessi tegund af blús er frábrugðin hinni “hefðbundnu” blústónlist á þann hátt að dúrhljómar koma oft við sögu ásamt því að fleiri nótur bætast við hinn hefðbundna blússkala, þannig að að áhrifin verða djasskennd. Chicago-blúsinn er einnig sérstaklega þekktur fyrir sterkann og gangandi bassatakt. Chicago-blúsinn leggur mikla áherslu á tónlistarframburð, hljóðfærin eru öll rafmögnuð upp og eru gerð meira áberandi. Munnharpan er blásin í hljóðnema, rafmagnsgítarleikarar notast við allskyns tæknibrellur svo sem mismunandi hljóðgerfla. Í þessari tegund af blús er notast við mörg mismunandi hljóðfæri, eins og til dæmis gítar, trommur, munnhörpu, bassa, píanó, saxafón og trompet. Blúsinn kom til Chicago með svörtum innflytjendum sem fluttust til borganna í norðri eftir Þrælastríðið í Bandaríkjunum. Þetta var snemma á tuttugustu öldinni. Blúsinn var fyrst aðeins tónlist svartra manna í borginni en vinsældir jukust og brátt fóru hvítir tónlistarmenn að taka þátt og í sameiningu þróaðist stefnan sem var síðar kölluð Chicago blús. Saga. Blús er tónlistarstefna sem upphaflega kom frá svörtum þrælum. Margir þeirra fluttust frá suðrinu eftir að hafa fengið frelsi, og margir þeirra fóru til Chicago í Illinoisfylki í Bandaríkjunum. Þetta var um 1920. Tónlist þeirra vakti mikla athygli á götuhornum og varð vinsæl. Blúsklúbbar og aðrir skemmtistaðir með blús sem ríkjandi tónlistarþema voru stofnaðir í suðurhluta borgarinnar. Fyrst og fremst voru þetta svartir tónlistarunnendur og tónlistarmenn enda var kynþáttamismunur mikill í Chicago eins og annars staðar í Bandaríkjunum á þessum tíma. Hvítt fólk fór ekki á sömu skemmtistaði og svart fólk. Þróun átti sér stað innan tónlistarstefnunnar og hún varð betri og aflmeiri. Tónlistarmenn lögðu miklar áherslur á hljóðfæraleik og þeir spiluðu á þau með mikilli innlifun og tilfinningu. Smátt og smátt byrjaði að myndast „tónlistarbransi“ í kringum þessa nýju tegund blústónlistar sem var kölluð Chicago blús. Einstaka tónlistarmenn urðu þekktari en aðrir og plötuframleiðsla og sala varð vinsæl. Hvítir tónlistarmenn byrjuðu einnig að reyna fyrir sér í þessari nýju stefnu og gekk vel. Vinsældir jukust til muna og áhorfendahópurinn stækkaði hratt. Mikil niðurlot voru á þróun Chicago blús þegar kreppan mikla gekk í garð en borgarbúar héldu þrátt fyrir hana áfram að hlusta á og njóta tónlistarinnar. Helstu áhrif kreppunnar á tónlistina var peningaleg, það er að segja allir áttu minni pening á milli handanna svo að niðurlot urðu töluverð á framleiðslu platna. Einnig fengu tónlistarmennirnir ekki mikið borgað og varð það til þess að einhverjir fóru yfir í aðrar atvinnugreinar. Þetta var ekki einsdæmi því að það sama gerðist við margar aðrar listgreinar út um allt. Á fimmta áratugnum fjölgaði útgáfufyrirtækjum í Chicago mikið. Blúsinn var orðin gríðarlega vinsæl tónlistarstefna og hljóðmaði hann víða. Blústónlistarmenn voru ekki lengur einungis bartónlistarmenn heldur fóru þeir að fara í hljóðver, koma fram á sviði og fara í tónlistarferðalög. Helstu tónlistarmenn borgarinnar komu fram á allskyns blústónlistarviðburðum, sem voru haldnir um hverja helgi og út um alla borgina. Á sjötta áratugnum óx og dafnaði þessi tegund af blús ennþá meira en fyrr og takturinn varð harðari, sterkari hljóðfæraleikur og söngur jókst. Á þessum tíma komu stór útgáfufyrirtæki til sögunnar sem voru með marga tónlistarmenn á samningi. Dæmi um þessi fyrirtæki voru Chess, Vee-Jay og Cobra. Af þessum stóru fyrirtækjum var Chess langstærst og margir þekktustu blústónlistarmennirnir voru á samningi þar, meðal annarra Muddy Waters og Howlin' Wolf. Þessir tveir tónlistarmenn voru og eru þekktustu Chicago – blústónlistarmennirnir. Frá sjöunda áratgunum hefur umrædd blústónlistarsefna víkkað og tekið marga óvænta snúninga. Tónleikastaðir og klúbbar í Chicago héldu áfram að vera mjög vinsælir og þá sérstaklega hjá svörtum íbúum borgarinnar. Cobra Records og Vee-Jay fór á hausinn með nokkurra ára millibili og plötuútgáfan var ekki eins sterk og áður. Chess var eina stóra blústónlistarútgáfufyrirtækið sem eftir stóð. Gamlir tónlistarmenn fengu samning þar ásamt nýjum og ferskum listamönnum eins og Ettu James og Koko Taylor. Þrátt fyrir sterka tónlistarmenningu og listamenn átti Chicago blúsinn í undanhaldi við sálartónlist og gospel. Chess fór á hausinn árið 1975 en á sama tíma voru margir gamalgrónir blúsklúbbar að hætta starfsemi sinni. Þrátt fyrir að blúsinn sé ekki eins gríðarlega vinsæll í dag og hann var á þessum tíma hefur hann alltaf verið til staðar í tónlistarflaumnum. Það er mestmegnis vegna þess að þessi tónlistarstíll hefur veitt mörgum nýrri tónlistarmönnum innblástur. Margir frægir tónlistarmenn sem á eftir komu hafa sagt að þessir gömlu blústónlistarmenn séu fyrirmyndir sínar. Chicagoborg hefur verið kölluð höfuðborg blústónlistarinnar í áratugi og er það ekki að ástæðulausu enda flest allir blústónlistarmenn þessa tíma voru þaðan. Blúsinn er í dag þekkt og vinsæl tónlistarstefna um allan heim en Chicago er og verður höfuðborg hans. Þrátt fyrir að gömlu blústónlistarstaðirnir í borginni séu ekki lengur til staðar er hægt að fara á blússöfn þar og árlega er haldin blústónlistarhátið. Kínverskt rokk. Cui Jian hefur verið kallaður faðir hins kínverska rokks. Kínverskt rokk (kínverska: Yaogun yinyue, 摇滚音乐) er samheiti yfir fjölmörg afbrigði af rokktónlist frá löndum sem tala kínversku. Kínverskt rokk er undir áhrifum frá tónlist frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Japan ásamt því að taka mikið frá hefðbundinni kínverskri tónlist. Kínverskt rokk á uppruna sinn að rekja til stefnu sem kallast Norðvestanvindurinn og þá sérstaklega til tónlistarmannsins Cui Jian sem er talinn vera einn helsti brautryðjandi stefnunnar og alls rokks í Kína. Einkenni og helstu stefnur. Tónlistarmenn sem spila rokk í Kína hafa átt á hættu að verða gagnrýndir fyrir að spila ófrumlega tónlist út af uppruna rokksins úr vestrinu. Margir tónlistarmenn af fyrstu kynslóð rokk tónlistarmanna í Kína svo sem He Yong og Again spila þess vegna tónlist sem notast við svipmyndir af Kína í textum sínum til að viðhalda ímynd sinni sem frumlegir tónlistarmenn en ekki eftirhermur. Þessa stefnu tónlistarmanna til að reyna að hljóma kínverskir mætti túlka sem þjóðernishyggju en kínverskir tónlistarmenn tala um að þeir vilji semja tónlist um daglegt líf í Kína og jafnvel tjá hatur í garð vestrænna áhrifa á Kína. Hljómsveitin Tang Dynasty er dæmi um hljómsveit sem tekur þessa stefnu í textaskrifum en þeir spila Þungamálm og syngja ljóð frá tímum Song keisaraaldarinnar. Á tíunda áratugnum fór rokkið að taka nýjar og áður óþekktar stefnur þegar hljómsveitir eins og Sober spiluðu tónlist sem var undir áhrifum af bresku poppi sem minnir á Bítlana. Þessi tónlist hefur hlotið gagnrýni frá fyrri kynslóð rokk tónlistarmanna og kallaði sjálfur Cui Jian þessar hljómsveitirr meðal annars „menningarlausar“. Í kringum árið 1997 byrjaði að þróast ný kynslóð af kínverskum listamönnum sem lögðu ekki eins mikla áherslu á að nota kínversk hljóðfæri eða texta til að skilgreina sig og raska oft merkingu þjóðlegra texta ef þeir notast við þá til að skapa nýtt fyrirbæri. Nýja hljóðhreyfingin frá Peking varð til vegna þess að nýja kynslóðin átti mun auðveldari aðgang að vestrænni tónlist heldur en fyrsta kynslóðin í formi kassetta og geisladiska af svarta markaðinum. Listamennirnir höfðu aðgang að fleiri tegundum af tónlist og hafði það áhrif á tónlistarsköpun þeirra Mikilvægir atburðir fyrir kínverskt rokk. Fyrstu stóru tónleikar í sögu kínverska rokksins var þegar hljómsveitin Wham! spilaði í Peking árið 1985. Þetta voru fyrstu vestrænu rokktónleikarnir sem haldnir voru í Kína og höfðu þess vegna mikil áhrif á senunna og upprennandi tónlistarmenn af því að aðgengi almennings að rokktónlist var lélegt í Kína og að sjá hljómsveit eins og Wham! spila á tónleikum þótti mikil upplifun. Hljómsveitirnar Queen og the Rolling Stones reyndu einnig að fá leyfi til að halda tónleika í Kína á þessum tíma en hvorugri tókst það. Rolling Stones fengu að koma til Kína og halda tónleika í fyrsta sinn árið 2006.. Ári seinna voru haldnir tónleikar á Verkamannavellinum í Peking og spilaði Cui Jian þar frumsamda lagið sitt „Nothing To My Name“ við góðar undirtektir en þeir tónleikar voru fyrsta skref hans til frægðar. Rokkið hélt áfram að verða vinsælla í Kína og árið 1990 voru haldnir stórir rokktónleikar í Capital Gymnasium-salnum í Peking sem er einn stærsti salur borgarinnar. Á tónleikunum spiluðu hljómsveitirnar Tang Dynasty, Cobra, ADO, Baby Brother, 1989 og Breathing og eiga um átján þúsund manns að hafa sótt tónleikana. Norðvestanvindurinn (kínverska Xibei feng). Norðvestanvindurinn var fyrsta stefna í kínverskri tónlist sem tók við áhrifum frá rokktónlist vestanhafs. Nafnið vísar til dreifingar rokktónlistar í norðurhluta Kína. Stefnan varð til í byrjun níunda áratugarins með neðanjarðar böndum sem spiluðu kínverska rokktónlist. Cui Jian var einn af þeim listamönnum og sá sem átti stærstan þátt í að stefnan náði vinsældum á landsvísu Cui Jian. Cui Jian er söngvari, lagahöfundur, trompet- og gítarleikari frá Peking. Cui er einn af fyrstu og áhrifamestu rokktónlistarmönnum í Kína og hefur verið kallaður faðir hins kínverska rokks. Fyrsta tónlist hans er dæmigerð fyrir fyrstu ár rokksins í Kína. Tónlist Cuis er í stíl við vestræna rokktónlist að viðbættum kínverskum hljóðfærum og söng og melódísku næmi og skilur sig þannig frá hinu vestræna rokki. Cui sló fyrst í gegn með hinu umdeilda lagi „Nothing To My Name“ árið 1984 sem varð seinna óformlegt baráttulag fyrir stúdentamótmælin á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Cui er einn af fáum tónlistarmönnum af fyrstu kynslóð kínverskra rokkara ásamt Dou Wei úr hljómsveitinni Black Panther sem hafa verið starfandi síðan á níunda áratugnum og haldið áfram að gefa út áhugavert og fjölbreytilegt efni. Cui er mjög pólitískur tónlistarmaður og hefur samið lög svo sem „Nothing To My Name“, plöturnar „Balls Under The Red Flag“ og „Power to the Powerless“ en öll þessi verk eiga það sameiginlegt að taka kínverskt samfélag samtímans til athugunar og hafa endurómað meðal ungmenna á hverjum tíma. Cui er þekktur fyrir að spila með sína þekktu hvítu hafnaboltahúfu með rauðri stjörnu en hann hefur einnig komið fram á tónleikum með bundið fyrir augun með rauðu bandi. Út af þessu pólitíska eðli hans hafa kínversk stjórnvöld oft bannað honum að spila á ákveðnum stöðum eða reynt að stjórna lagavali hans á tónleikum, svo dæmi séu nefnd. Árið 2012 kom út tónleikamynd í 3D með tónleikum Jians á Verkamannavöllunum í Peking. Nýja hljóðhreyfingin í Peking og Modern Sky-útgáfan. Á seinni hluta tíunda áratugarins var rokksenan í Peking orðin fjölbreytt eftir að þrjár kynslóðir tónlistarmanna höfðu mótað hana. Frá byrjun tíunda áratugarins hafa ekki einungis kínversk ríkisfyrirtæki sem og útlend útgáfufyrirtæki dreift kínverskri rokktónlist heldur einnig einkareknar útgáfur svo sem Modern Sky-útgáfan sem hefur gefið út listamenn á borð við The Fly, Sober, NO og New Pants. Þessir listamenn hafa mótað hina Nýju hljóðhreyfingu í Peking. Þessir listamenn eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á níunda áratugnum þar sem ríkti nokkurs konar velmegun í kínversku samfélagi ólíkt fyrri tveimur kynslóðunum. Árið 1997 stofnaði Shen Lihui, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Sober, útgáfufyrirtækið Modern Sky eftir að hafa rekið prentsmiðju um nokkurra ára skeið. Fyrsta plata útgáfunnar „It’s Great!?“ kom út 1997 og seldist vel í Kína, Taívan og Hong Kong. Síðan þá hefur útgáfan gefið út 17 plötur til viðbótar og er stærsta óháða plötuútgáfa í Kína og gefur út það sem Shen kallar „neðanjarðartónlist fyrir nýju kynslóðina“. Modern Sky-útgáfan er mikilvæg fyrir kínversku rokksenuna út af neðanjarðartónlistinni og óþekktu tónlistarmönnunum sem hún gefur út þó hún sé mjög vinsæl. Tónlistarmennarnir sem skilgreina hreyfinguna eru til dæmis The Fly sem hafa verið kallaðir „Gruggkóngar Kína“ og „fulltrúar neðanjarðar pönksenunnar í Peking“. Stíll þeirra er hraður og harður og þeim hefur verið lýst sem „skítugasta og ruslalegasta bandi Kína“. Textar þeirra draga upp myndir af einmana einstaklingum og lýsa ömurlegum stórborgarhversdagsleika. Zuoxiao Zuzhou er söngvari, laga- og textahöfundur fyrir hljómsveitina NO sem spilar tónlist sem er undir áhrifum frá pönki, trash málmi, rokki og mjúkum blús. NO notast við hefðbundin kínversk hljóðfæri en reynir að nota þau öðruvísi heldur en fyrri kynslóðir rokkara svo að þau séu óþekkjanleg. Viðfangsefni texta hljómsveitarinnar er svipað The Fly en textar Zuzhou eru sagðir vel skrifaðir, djúpir og heiðarlegir. New Pants eru taldir besta pönk-popp-band í Kína. Þeir spila einfalt og ferskt pönk og semja oft fyndna texta við lög sín. New Pants eru undir áhrifum frá hinum bresku Ramones. Shen Lihui hefur gagnrýnt kínversku rokksenuna undir lok 20. aldar og lýsir henni sem „uppreisn sem hefur fengið flensu“. Með þessu meinar hann að pólítiskur boðskapur og samfélagsleg gagnrýni listamanna á borð við Ciu Jian sé úrelt og eigi sér ekki lengur stað innan senunnar. Hann lýsir Jian sem „hauslausum öskrara“ og segir að hlutirnir sem hann tali um hafi ekkert að gera með „okkur“. Munurinn á fyrstu tvemur kynslóðum rokksins og þeirri þriðju má rekja til þess hvers konar innblástur þær sækja sér og hvað mótar tónlistina. Það var hetjuskapur og hugmyndafræði sem rokkarar fyrstu tíu áranna sóttu í en ríkjandi raunsæi sem hafði áhrif á þriðju kynslóðina. Joyside og Wasted Orient. Pönkhljómsveitin Joyside samanstendur af Xiao Hong, Liu Hao, Guan Zheng og Brian Yuan hafa verið starfandi síðan árið 2001. Eftir þriggja ára starf gaf hljómsveitin út sína fyrstu plötu sem fékk nafnið „Drunk is Beautiful“ og fór í framhaldi af því á tónleikaferðalag um allt Kína. Heimildarmyndagerðarmaðurinn Kevin Fritz slóst með þeim í för á þessu tónleikaferðalagi og tók það upp. Árið 2006 gaf hann síðan út myndina Wasted Orient sem er heimildarmynd um hljómsveitina unnin upp úr myndum úr ferðalaginu. Myndin sýnir hljómsveitina spila fyrir orkumikla mannfjölda og slæpast um í áfengisvímu þegar þeir eru ekki að spila. Myndin gefur okkur góða sýn á listamenn sem reyna að spila pönk tónlist fyrir samfélag sem er talsvert á eftir hinum vestræna heimi á sviði tónlistarlegrar þróunar og hvernig hugmyndafræði pönksins fellur inn í hið kínverska tónlistar samfélag. Myndin hefur verið umdeild en hlotið engu að síður þrenn verðlaun og verið sýnd víða um heim. Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir. Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir (fædd 1946) er íslenskur listamaður sem fæddist að Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð og ólst þar upp. Mestan hluta ævinnar bjó hún í Reykjavík en býr nú bæði í Garðabæ og á Sámsstaðabakka. Myndir Hrafnhildar lýsa skýjafari, veðurfari og sjólagi. Hún notar eingöngu olíumálningu í verk sín. Heimaslóðir hennar í Fljótshlíðinni veita henni mikinn innblástur en Hrafnhildur er mikið náttúrubarn eins og myndverk hennar sýna og oft málar hún verkin út frá broti minningar frá ferðum hennar um Ísland. Vatn kemur fram á flestum myndum hennar, til dæmis sem foss, lækur, gjá eða kviksyndi. Oft á myndum hennar læðist lítið ljósbrot í gegnum drungalegt veðurfarið og það má túlka á ýmsa vegu. Nám. Hrafnhildur stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1978 og 1979 og Listaháskóla Íslands 1980 – 1984 og lauk þaðan prófi í grafískri hönnun. Árin 1999 – 2000 bætti hún við sig námi í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs. Ferill. í fimmtán ár rak Hrafnhildur eigin auglýsingastofu en nú starfar hún aðeins sem listamaður. Hún hefur meðal annars haldið tíu einkasýningar, þar á meðal í Hafnarborg árið 2007, Artótekinu 2012 og tekið þátt í samsýningum um nokkurra ára bil eða samtals sjö enn sem komið er, bæði á Íslandi og erlendis. Meðal samsýninga sem hún hefur tekið þátt í er í Grósku þar sem þemað var bernskan. Verk Hrafnhildar þar hét Þriggja vikna og er af Fimmvörðuhálsgosinu sem náði því að verða þriggja vikna. Ein af einkasýningum Hrafnhildar hét Hvar áttu heima? og var haldin í Gallerí Fold. Nafnagiftin varð til vegna ófárra ferða hennar milli Fljótshlíða og Garðabæjar en stundum vissi Hrafnhildur hreinlega ekki á hvorum staðnum hún væri. Þema þessarar sýningar var eins og undanfarin ár, íslenskt veðurfar, skýjafar, eldgos og sjólag. Árið 2007 var hún valin Listamaður mánaðarins í Gallerí Lind og sýningar á Hótel Rangá árin 2003 og 2007. Árið 2011 komst Hrafnhildur í 32 manna úrslit í málverkasamkeppni Saatchonline en samkeppnin fólst í því að notendur vefjarins völdu milli tveggja listmálara sem stillt voru upp á móti hvor öðrum. Verk Hrafnhildar í keppninni kallast Skýjatjald. Hrafnhildur er meðlimur í SÍM – sambandi íslenskra myndlistarmanna, Grósku, Félagi myndlistarmanna í Garðabæ og Álftanesi, SÁM og sat í stjórn FÍT, félagi íslenskra teiknara. Árið 2004 dvaldi hún í listamannaíbúð Skandinaviska Foreningen í Róm en hún hefur einnig dvalið í lista- og fræðimannsíbúðinni á Skriðuklaustri nokkrum sinnum. Þjóðlagamálmur. Þjóðlagamálmur er eitt af mörgum formum málms (e. metal) sem á upptök sín í byrjun tíunda áratugarins en þungarokk (e. heavy metal) hafði vaxið í vinsældum sérstaklega á níunda áratugnum. Breska málmhljómsveitin "Skyclad" er almennt tengd við upphaf þjóðlagamálmsins en notkun þeirra á hljóðfærum sem einkenna þjóðlagatónlist þótti nýstárleg og ruddi veginn fyrir ótalmörgum hljómsveitum sem fylgdu þar á eftir. Þar sem þjóðlagatónlist er ólík eftir því hvaða menningu hún er sprottin úr, má segja að þjóðlagamálmur hafi skipast í nokkra undirflokka: Með þeim helstu eru sjóræningjamálmur, víkingaþungarokk, austurlandamálmur, heiðingjamálmur og keltamálmur.Þjóðlagamálmstónleikar á Paganfest. Einkenni. Þjóðlagamálmur styðst hér um bil eingöngu við hljóðfæri sem eru rótgróin í menningu ýmsa þjóða t.d fiðlur, allskonar flautur og sekkjapípur. Söngurinn er oftar en ekki mjög melódískur og líðandi. Hinsvegar við sameiningu þungarokksins hófu hljómsveitir að innlima rafmagnsgítar, trommur og bassa inn í tónlist sína ásamt kraftmiklum söng sem margir myndu helst líkja við öskur. Þegar á að bera saman þjóðlagamálm við þungarokk, þá felst aðal munurinn í krafti tónlistarinnar. Þungarokk er agressíft og oftar en ekki syngur söngvarinn af öllum krafti á meðan þjóðlagamálmur er mun yfirvegaðri.. Hugmyndafræði þjóðlagamálms einkennist af karlmennsku og þjóðernishyggju. Af og til má sjá áhrif frá þjóðernishyggju-sósíalistum renna inn í tónlistarstefnuna gegnum svartmálmshljómsveitir sem aðhyllast slíka hugmyndafræði. Það má segja að ekki ríkja skýr mörk milli þjóðarstolts og kynþáttamismunar innan þjóðlagamálms og hefur það leitt til þess að ýmsar hljómsveitir hafa neyðst til þess að afneita kynþáttamismunun opinberlega.. Upphaf. Árið 1990 hófst þjóðlagamálmur með bresku hljómsveitinni "Skyclad". Þeir spiluðu þungarokk og innlimuðu þjóðlagasöng og hljóðfæri í það. Þjóðlagamálmur hefur orðið mun vinsælli en áður fyrr og er hann sérstaklega vinsæll á evrópskum markaði. Fyrsta platan þeirra "The Wayward Sons of Mother Earth" kom út árið 1991 og fékk hún einstaklega góðar móttökur frá bæði aðdáendum og fjölmiðlum. Það kom mörgum á óvart þegar Skyclad gaf út fyrstu plötuna sína því þeir ákváðu að nota rafmagnaða fiðlu sem enginn hefði vogað sér að gera áður. Næsta plata þeirra, "The Answer Machine" (1997), sýndi enn og aftur fram á að Skyclad kæmi sífellt á óvart þar sem að á þeirri plötu var nærrum bara hreint gítarspil án flókinna gítarriffa. Lög eins og "Think Back and Lie of England", "Polkageist", "The Antibody Politic" og "The Great Brain Robbery" sýna að Skyclad eru á réttri braut með einstakri samsetningu þeirra á þungarokki með þjóðlagaeinkennum. Í dag eru margar hljómsveitir sem spila þjóðlagamálm og eru tónleikahátíðir á borð við "Heathen Fest", "Noctis Valkyres" og "Notably Paganfest Metal Festival" haldnar árlega. Undirflokkar. Þjóðlagatónlist er í eðli sínu fjölbreytt enda hefur hún náin tengsl við menningu og sögu hverrar þjóðar fyrir sig. Ýmis hljóðfæri eru nærrum því eingöngu bundin við ákveðna menningarheima. Þar af leiðandi hefur myndast þörf til þess að skipta þjóðlagamálmi í undirflokka til þess að gera betur grein fyrir ólíkum einkennum stefnunnar. Keltamálmur. Keltnenskur málmur á rætur sínar að rekja til þeirra landa sem búa að einhverju leyti yfir keltnenskri menningu t.d. Bretlandeyjar, Frakkland, Spánn, Sviss og Þýskaland, en á síðustu árum hefur þessi tónlistastefna breiðst út á heimsvísu. Keltamálmur er að mörgu leyti líkur vikingmálm þar sem tónlistin einkennist af háværu gítarspili og goðafræði, en þar sem að þetta er keltnenskur málmur (einnig kallað írskur málmur) einkennist hann af keltnenskri goðafræði. Það er vel skiljanlegt afhverju hljómsveit hrífst af þessu viðfangsefni en írsk goðafræði býr yfir mörgum þekktum lítríkum sögum sem eru stór hluti af menningu þeirra, því er mikill efniviður til þess að vinna tónlist úr. Keltnenskur málmur hófst með írsku bandi þekktu undir nafninu Cruachan. "Cruachan" er ekki fyrsta þjóðlagahljómsveit heims og ekki heldur sú þekktasta ("Amorphis" og "Skyclad" eru báðar vel þekktar hljómsveitir). Hinsvegar má segja að engin önnur hljómsveit hafi gengið jafn langt í tilraunum sínum til þess að breiða út tónlistarstefnuna í heiminum. Hljómsveitin var stofnuð úr leifum hinnar nýhættu grúppu, "Minas Tirith". Hljómsveitarmeðlimir voru Keith Fay (söngur, gítar og hljómborð), Jay Brennan (gítar), John O‘Fathaigh (flauta), John Clohessy (bassi) og Jay O‘Niell (trommur). Markmið þeirra var að blanda saman írskri tónlistararfleið, keltneskri sögu og goðafræði Tolkiens við svart- og dauðamálm. Þeir gáfu sjálfir út fyrstu plötu sína, "Tuatha Na Gael", árið 1995. Hljómsveitin leystist þó upp nokkrum árum seinna eftir að þeim tókst ekki að ná plötusamning við Century Media Records. Cruachan var þó endurstofnuð með söngkonunni Karen Gilligan og trommuleikaranum Joe Farrell sem gaf þeim mun meiri sveigjanleika í tónlistgerð sinni. Stuttu seinna gerðu þeir plötu samning við við Hammerheart Records og gáfu út margar plötur. Amon Amarth spilar á Metalmania Festival í Póllandi árið 2005. Víkingamálmur. Víkingamálmur, eitt annað afsprengi þjóðlagamálms, kom til sögunnar þegar ýmsar hljómsveitir hófu að blanda þjóðlaga hljófærum við hefðbunda þungarokkið. Í ársbyrjun 1990 ruddi sænska hljómsveitin "Bathory" brautina fyrir víkingamálm þegar þeir ákváðu að bæta inn flautum, hreinum söng ásamt þunkrarokks söng við tónlistina sína. Hljómsveitin Bathory er af mörgum talin besta sænska svartamálmshljómsveitin. Fyrstu plöturnar þeirra einkenndust af svartamálmi en hinsvegar þegar þeir gáfu út plötuna "Hammerheart" (1990) þá varð tónlistin töluvert melódískari en hún áður hafði verið. Sú plata er talin vera upphafið af víkingamálmi en textarnir í plötunni lýsa því hvernig skandínavískir menn voru neyddir til þess að taka við kristni á miðöldum. Víkingamálmur sækir innblástur sinn til norrænnar heiðni og goðafræðis og er sú tónlist oftast kraftmiklar ballöður frá liðnum tímum. Aðrar hljómsveitir hafa tekið upp á að spila þungarokk með víkingalegu ívafi t.d "Amon Amarth" sem spila þungarokk með víkingaþemuðum textum. Víkingamálmur er hávær, ófyrirjáanlegur og oft bættur með sorgmæddum melodíum hljómborðs. Líkt og þjóðlagamálmur þá nýtir víkingamálmur sér órafmögnuð hljóðfæri og önnur óvenjuleg sem bætast ofan á hin hefðbundnu innan málmstefnunnar. Snæbjörn Ragnarsson á tónleikum Skálmaldar Dæmi um íslenska hljómsveit sem fellur í þennan undirflokk er "Skálmöld". Hljómsveitin spilar melódískt þungarokk og sækir innblástur í norræna goðafræði. Verkin þeirra eru mjög vönduð og fela í sé hefðbundna bragfræði. Bassaleikari hljómsveitarinnar Snæbjörn Ragnarsson semur textana en hann þykir hafa mjög fær á sviði íslenskrar bragfræði og því eru hafa verk þeirra, "Baldur" og "Börn Loka" sterkar íslenskar rætur, flutt af kunnáttu, mögnuðum krafti og sannfæringu. Árið 2012 kom út fyrsta platan þeirra, "Baldur", en lögin segja frá sögu víkings sem missir allt sem honum er kært. Eftir þá reynslu er eina markmiðið hans að finna ófreskjuna sem ber ábyrgð á þessu og hefna fjölskyldu sinnar. Hvert lag rekur sögu hans frá landinu sínu til dauða og lengra og má eitt lag því ekki missa úr hlustun. Baldur er skáldsaga en þrátt fyrir það eru fjölmargar tilvísanir í norræna goðafræði og fornsögur. Baldur er að öllum líkindum söluhæsta þungarokksplata íslands frá upphafi og hefur selst í mörg þúsund eintökum hérlendis. "Börn Loka" er önnur breiðskífa Skálmaldar og kom út í október 2012. Eins og á plötunni Baldur, er umfjöllunarefnið í þjóðlegum stíl og leiksviðið er Ísland til forna, norrænar goðsagnaverur og víkingar. Sagan segir frá Hilmari sem er sett það verkefni að kljást við afkvæmi Loka – Fenrisúlf, Miðgarðsorm og Hel. Sagan spannar allan tilfiningaskalan, gleði, sorg, mikla sigra og missi og flytur hlustuandan um víðan völl. Sjóræningjamálmur. Sjóræningjamálmur er um frjálsa sjóræningja sem drekka mjöð og sigla um höfin sjö. Sjóræningjamálmur er vanalegast undir áhrifum þjóðlaga en sjóræningjamálmur getur líka verið í formi pönks-, rusl-, dauða- eða kraftmálms. Eins og fyrri undirstefnur þjóðlagamálms sem byggja tónlistina sína á goðum þá leggur sjóræningjamámur lítið sem ekkert upp úr því. Sjóæningjamálmur fær ímynd sína frá fantasíusjóræningjum sem fyrirfinnast í kvikmyndum, bókmenntum og þjóðsögum. Sjóræningjamálmur er hinsvegar ekki nýr af nálinni heldur teygir hann sig 20 ár aftur í tíman, en þá gaf þýska kraftmálms hljómsveitin "Running Wild" gaf út plötuna sína "Under Jolly Roger" árið 1987 og settu þar með streng milli málms og sæfara. Hljómsveitin "Alestorm", sem áður hét "Battleheart", er með þeim þekktari hljómsveitum sem hafa leyft sér að kanna sjóræningjamálm almennilega. Upphaflega voru meðlimirnir aðeins tveir, Gavin Harper (gítar) og Christopher Bowes (söngur og hljómsveit) og gáfu þeir saman út sína fyrstu sjálfnefndu plötu arið 2006. Næsta ár bættu þeir við sig tveimur meðlimum, bassaleikarann David Evans og trommarann Doug Swierczek í von um að færa tónlist sína til skosku þjóðarinnar og gáfu þeir nýja plötu stuttu eftir. Seinna árið 2007 skrifuðu þeir undir plötusamning við Napalm Records og breyttu nafni sínu frá Battleheart yfir í Alestorm, þar sem þeir töldu tónlist sína hafa tekið róttækum breytingum og því væri nauðsynlegt að breyta nafni sínu. Eftir átök innan hljómsveitarinnar tók Ian Wilson við trommarahlutverkinu og var fyrsta platan gefin út, "Captain Morgan‘s Revenge" (2008). Dæmi um þekkt lag frá þeim er You are a Pirate! sem fjallar eingöngu um frjálsa sjóræningja sem siglaum höfin sjö og grafa upp fjársjóð Heiðingja– og austurlandamálmur. Heiðingjamálmur vísar til tónlistar sem áherslan er lögð á trú. Heiðingjamálmur er náskyldur víkingamálmi og epískum svartmálmi Hljómsveitir sem falla undir slíka skilgreiningu hafa oftast bæði þjóðernislegan og svartmálmar hljóm sem einkennist af valoppandi takt og hráslagalegum tóni. Þó svo að ekki sé hægt að segja að heiðingjamálmur búi yfir einhverjum sérstökum hljóm, þá má segja að notkun hljóðfæra sem algeng eru í þjóðlögum séu tíð. Órafmagnaðir gítarar eru sérstaklega áberandi. "Folkearth" er vel þekkt hljómsveit á sviði trúarmálms er hljómsveitin sækir innblástur til norrænnar trúar. Hljómsveitin blandar saman þungarokki og melódískum hljómi þjóðlaga hljóðfæra. Hljómsveitin "Orphaned Land" er einnig þekkt fyrir að spila þjóðlagamálm sem náði gífulegum vinsældum og varð mjög ríkjandi. Bandið kom á stað nokkurri ringulreið og vakti athygli fjölmiðla. Þeir hófu að blanda saman arabískri og gyðingatónlist við þjóðlagametal sem þeir seinna meir gerðu að undirgrein þjóðlagametals og nefndu það austurlandamálm (e. oriental metal). Frædreifing. Frædreifing er hvernig fræ flyst frá móðurplöntu. Plöntur geta dreift fræjum sínum á tvennan hátt: í rúmi og í tíma. Margar tegundir bera fræ sem eru vel aðlöguð til að dreifast með vatni, vindi, dýrum eða mönnum. Frædvali er hins vegar aðferð til að dreifast í tíma þar sem vaxtarskilyrði eru óstöðug. Flestar plöntur á norðlægum slóðum nota báðar aðferðir til að dreifa fræum, til dæmis þegar fræ berst með vindi og fer síðan í dvala fram til næsta vor þegar það spírar við ákveðnar umhverfisaðstæður. Kántrí rokk. Kántrí rokk (e. "Country rock") líka þekkt sem þjóðlagarokk og suðrænt rokk er undirflokkur af kántrí tónlist sem er samblanda af rokki og kántrí. Þegar talað er um kantrí rokk er oftast verið að vísa í tónlistina hjá rokk tónlistarmönnum sem byrjuðu að spila með miklum kántrí áhrifum frá seint í sjöunda áratugnum yfir í miðjan áttunda áratuginn. Þar má nefna Neil Young, The Byrds og Bob Dylan. Kántrí rokk var vínsælast á áttunda áratugnum þegar The Eagles voru upp á sitt besta. Tónlistarstíll. Hið almenna kántrí rokk lag er auðsjánlega rokk lag en notar að minnsta kosti eitt hljóðfæri sem er vanalega bara í hefðbundnu kántrí eins og til dæmis fiðla, flygill eða mandólín. Oftast er líka flest hljóðfæri órafmögnuð fyrir utan bassa. Það tíðkast oft að radda samhljómar eru í kántrí stílnum. Bob Dylan að spila í Barcelona Uppruni. Seint á sjöunda áratugnum þá var rockabilly alveg horfið frá tónlistarsenunni og mótkúltúrinn eða hippahreyfingin var í fullum krafti. Í þessu umhverfi gat kántrí rokk þróast. Platan hans Bob Dylan "Nashville Skyline" hafði mikil áhrif á að kántrí og rokk gátu runnið saman, af því að platan var næstum einungis því kántrí tónlist en þar sem að Bob Dylan var var virtur í rokk senunni þá opnaði sú plata kántrí senuna fyrir rokkara. Hápunktur. Kántrí rokk náði hápunkti sínum á áttunda áratugnum. Vinsælust voru Doobie brothers sem komu með ákveðin R&B áhrif Emmylou Harris(sem var fyrrverandi baksöngvari fyir Gram Parsons) var kölluð „drottning kántrí rokks" og Pure prarie league varð mjög vinsælt með 5 topp 40 vinsælustu lögin 1972. The Eagles voru örugglega vinsælastir og plöturnar þeirra Desperado (1973) og Hotel California (1976) fóru í sigurför um Bandaríkin og víðar. Gram Parsons. Gram Parsons er oft talinn vera faðir kántrí rokks. Hann var meðlimur í The International Submarine Band, the Byrds og The Flying Burrito Brothers. Þessi lagasmiður var frumkvöðull að því að rokkhljómsveitir spiluðukántrí tónlist en sem sóló listamaður fór hann meir og meir í kantrítónlistina. Gram Parsons seldi ekki mikið af plötum en hann hafði mikil áhrif á tónlistarmenn í kringum sig með sínum sérkennilega stíl. Það mætti segja að Gram Parsons hafi haft mestu áhrifin á kántrí rokk en Neil Young er best þekkti kántrí rokk tónlistarmaðurinn. Öll hans verk með Buffalo Springfield, Crosby, Stills, Nash & Young og líka sólóplöturnar hans hafa verið undir miklum áhrifum frá kántrítónlist og hafa átt mikinn þátt í að skapa kántrí rokk. Gram Parsons sagðist aldrei líka vel við nafnið "Country rock" hann taldi stílinn sinn falla betur undir "Country soul" eða kántrí sálartónlist eða jafnvel "cosmic American music" eða alheims Ameríku tónlist. The Byrds. Þegar Gram Parsons gekkst í lið við the Byrds varð til blanda sem átti eftir að skapa tónlistarstefnuna og hafa gífurleg áhrif á marga tónlistarmenn. Þeir höfðu notið vinsælda áður og náðu svipuðum hæðum og Bítlarnir í Bandaríkjunum á tímapunkti í miðjum sjöunda áratugnum en kántrí áhrif Gram Parsons gerbreytti stefnunni þeirra. Árið 1968 tóku þeir upp sínu fyrsta plötu þessari nýju mynd. "Sweetheart of the rodeo" er talin ein mikilvægasta og mest einkennandi platan fyrir kántrí rokk af því að hún var fyrsta platan sem að var almennt kölluð kántrí rokk. Neil Young. Eftir að Neil Youg hætti í kántrí rokk hljómsveitinni Buffalo Springfield árið 1968, þá fór hann að hægt og rólega að gera sjálfan sig að áhrifamesta og einstakasta söngvara/lagasmið af sinni kynslóð. Neil young spreytti sig að sífellu að nýjum tónlistarstílum frá rokkabillí og blús yfir í raftónlist. Þessir mismunandi stílar fengu sam aðeins meiri dýpt þegar litið er á hans aðalstíl, kántrí rokk sem hann átti oft til að taka með hljómsveitinni Crazy Horse. Það voru á hans tíma jafnmargir lagasmiðir og það voru grunge eða kántrí hljómsveitir sem sögðust hafa verið undir áhrifum hans. Neil Young hætti aldrei að endurskapa hljóm sinn og hann er einn af fáum sem að eru jafn mikilvægir fyrir tónlistina í elli sinni og þegar þeir voru ungir. The Flying Burrito Brothers. The Flying Burrito Brothers hjálpuðu við að gera tenginguna milli rokk og kántrí, og með þeirra fyrsta plötu árið 1969 "The Gilded Palace of Sin" gerðu þeir stílformið að kántrí rokki. Þótt að hljómsveitin hafi verið vinsæl í stuttan tíma skildu þeir eftir sig plötur sem að áttu eftir að vera gífurlega áhrifamiklar bæði í rokk og kántrí. Þegar Gram Parsons hætti með hljómsveitinni 1970 þá átti hljómsveitin eftir að eiga langan feril sem ein af hinum áhrifamestu hljómsveitunum í kántrí rokki. The Eagles. The Eagles sköpuðu Kaliforníu tóninn og voru vinsælustu forsprakkar kántrí rokks. Þeir fínpússuðu stefnuna og gerðu stefnuna afgerandi og viðurkennda. Þeir urðu gífurlega vinsælir með sinni fyrstu plötu "The Eagles"(1972) platan varð stuttu seinna gullplata.Lögin þeirra standa enn þann dag í dag sem gífurlega vel unnin og metnaðarfull tónlist og með þeirra framlagi til kántrí rokks hafa þeir gert gert stefnuna ódauðlega. Vinsælustu kántrí rokk lögin þeirra eru 'Hotel California', 'Take It Easy', ‘Take It to the Limit, ‘Lyin' Eyes’ og ‘Best of My Love’. Rokk og ról. Rokk og ról (e. "rock and roll") er tónlistarstefna sem varð til á sjötta áratugi síðustu aldar og er sá áratugur af flestum talinn upphaf rokktónlistar. Fræðingar rekja upphaf rokksins til fyrstu ára sjötta áratugarins og að það hafi þróast úr ryþmablús og kántrítónlist. Little Richard, einn af frumkvöðlum rokksins, hefur oft sagt að Ryþmablús hafi eignast barn og úr því hafi rokkið orðið til. Margir af frægum ryþmablús tónlistarmönnum áttu mikinn þátt í því að skapa rokkið, þar á meðal eru Muddy Waters, Willie Mae Thornton og Ray Charles. Tæknibreytingar. Á sama tíma og tónlistin var að þróast þá var tæknin einnig að þróast gríðarlega. Framfarir í tækninni höfðu mikil áhrif á tónlistina. Vínylplötur á fimmta og snemma á sjötta áratuginum voru stórar og viðkvæmar, þær skemmdust auðveldlega og voru ill-meðfærilegar. Snemma á sjötta áratuginum urður breytingar á þessu, plötur minnkuðu og gæðin bötnuðu til muna og plöturnar urðu einnig ódýrari og því aðgengilegari fyrir almenning. Á svipuðum tíma varð einnig önnur stór þróun á tækninni. Þetta var þróunin á Lampaútvarpinu (e. Transistor Radio). Útvarpstæki höfðu verið stór, klunnaleg og hljóðgæði misgóð. En með tilkomu lampaútvarpsins minnkuðu útvörpin og urðu einnig mun ódýrari. Útvarp í bíla var einnig lengi mjög dýr kostur en lampaútvarpið breytti því og er útvarp líklegast það fyrsta á blaði sem aukahlutur í bíla í dag. Á þessum tíma urðu rafmagnsgítarar einnig aðgengilegir fyrir almenningi og varð rafmagnsgítarinn nokkurs konar hljómur rokksins. Helstu gítararnir til að byrja með voru Gibson Les Paul og Fender Stradocaster. Saga. a>" og hljómsveit hans á tónleikum. Tónlistar útvarpsstöðvar voru tiltölulega ný fyrirbæri á þessum tíma. Stöðvar eins og WJW í Cleveland byrjuðu að senda út þætti eins og „The Alan Freed Moondog show“ sem spilaði aðallega ryþmablús og rokk og ról. Alan Freed þessi bar líka ábyrgð á því sem að margir segja að séu fyrstu rokktónleikarnir. Þetta voru tónleikar sem kallaðir voru „The Moondog Coronation Ball“. Þeir voru haldnir í Cleveland, Ohio þann 21. mars árið 1952. Fyrir utan það að vera taldir vera fyrstu rokktónleikarnir þá voru einnig svartir og hvítir tónlistarmenn sem koma áttu fram og verður það að teljast nokkuð áhugavert því flestar útvarpsstöðvar, tónleikar og plötufyrirtæki voru ennþá litarskipt. En aðsókn á tónleikana var langt fram úr væntingum þannig að yfirvöld lokuðu tónleikunum eftir fyrsta lagið og varð því raunar ekkert úr þeim. Fyrsta rokk lagið sem sló í gegn var lagið „Crazy Man Crazy“ með hljómsveitinni Bill Haley and his Comets. Það náði tólfta sæti á popp listunum í Bandaríkjunum. En það var síðan árið 1955 sem fyrsta rokk lagið náði fyrsta sæti á listunum, þetta var lagið „Rock around the Clock“ einmitt með Bill Haley and his Comets. Þess má einnig geta að „Rock around the Clock“ er fjórða mest selda smáskífa allra tíma, seldist hún í yfir 25 milljónum eintaka. Það var síðan sama árið sem tónlistarmenn eins og Little Richard og Chuck Berry komust einnig inn á listana. Little Richard með laginu „Tutti Frutti“ og Chuck Berry með laginu „Maybellene“. Chuck Berry var einn af fyrstu og farsælustu rokk tónlistarmönnum sögunnar. Lög hans eins og áðurnefnt „Maybellene“, „Sweet Little Sixteen“ og „Johnny B. Goode“ höfðu gríðarmikil áhrif á rokksöguna og þá sérstaklega „Johnny B. Goode“ sem var gert nokkurn veginn ódauðlegt í myndinni Back to the Future sem kom út árið 1985. Á þessum tíma hafði rokkið náð nokkurri útbreiðslu í Ameríku og voru hvítir tónlistarmenn byrjaður að sína áhuga á því. Skömmu seinna kom einn frægasti tónlistarmaður allra tíma fram á sjónarsviðið, Elvis Presley, kallaður kóngurinn af fylgismönnum sínum. Elvis varð gríðarlega vinsæll samstundis, bæði meðal svartra og hvítra hópa. Elvis opnaði einnig dyrnar fyrir tónlistarmenn eins og Jerry Lee Lewis og Buddy Holly sem urðu gríðarlega vinsælir. Endalok blómatíma rokksins. En rokkið þurfti að taka sinn enda eins og flestir hlutir. Flestir eru sammála um það að nokkrir hlutir hafi stuðlað að endalokum rokksins. Árið 1958 var Elvis kallaður í herinn, Chuck Berry átti í nokkuð stöðugum útistöðum við lögin (eitthvað sem átti eftir að halda áfram í gegnum allan hans feril), Jerry Lee Lewis var nokkurn vegin útskúfað úr samfélaginu þegar upp komst að hann hafði gifst þrettán ára gamalli frænku sinni og svo að lokum var það flugslys sem átti sér stað árið 1959. Í þessu flugslysi létust þrír af vinsælustu rokktónlistarmönnum síns tíma, Buddy Holly, Ritchie Valens og J.P. „Big Bopper“ Richardson. Flugslysið átti sér stað þann 3. febrúar og var sá dagur kallaður „The Day the Music Died“ í lagi Don McLean, American Pie sem var gefið út á samnefndri plötu árið 1971 heilum tólf árum eftir slysið. Gagnrýni. Rokktónlistin var á sínum tíma gríðarlega gagnrýnd. Til að byrja með var rokkið mest vinsælt hjá ungu fólki af lágstéttum og líklegast svörtum uppruna. Þetta gerði það að verkum að eldri, hvíta millistéttin fannst þessi tónlist vera smekklaus og vildi ekkert með hana hafa. Rokk tónlistin var bönnuð á mörgum útvarpsstöðvum og í hundruðum skóla. Sumir gengu svo langt og kölluðu rokkið tónlist Satans. Til að fá hugmynd um hvað hatrið á rokkið var algengt þá hafði Frank Sinatra þetta um það að segja árið 1957. „Rock and roll is the most brutal, ugly, degenerate, vicious form of expression — lewd, sly, in plain fact, dirty — a rancid-smelling aphrodisiac and the martial music of every side-burned delinquent on the face of the earth.“ En unga kynslóðin sigraði eins og sagan sýnir og sést það best þegar Elvis var gestur í þætti Ed Sullivan og áhorfstölur ruku upp úr öllu valdi. Hvítþinur. Hvítþinur (fræðiheiti "Abies concolor") er sígrænt barrtré af þallarætt sem er ættað frá vesturhluta Norður-Ameríku þar sem það vex í 900 - 3.400 metra hæð. Tréð verður 25 – 60 metra hátt með stofn að ummáli allt að tvem metrum. Það er vinsælt sem garðtré og jólatré. Davíð Örn Halldórsson. Davíð Örn Halldórson (fæddur 1976) er íslenskur myndlistamaður og útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002 og býr og starfar í Reykjavík. Davíð Örn vinnur mikið með liti og litasamsetningar, hann blandar saman ýmsum formum og skapar nokkurs konar fantasíuheim sem hver og einn getur túlkað fyrir sjálfan sig í verkunum hans. Hann hefur unnið mikið með bæði málverk og rýmisverk sem minna mann á graffítíverk en hann notar ýmiss konar efni í verkunum sínum, málar með skipalakki, spreyjar með úðabrúsalakki og teiknar með tússi á tréplötur, pappa eða beint á veggi en það fer eftir því að hvers konar verkum hann vinnur hverju sinni. Helstu sýningar. og í Dalsåsen í Noregi árið 2004 þar sem Davíð Örn dvaldi í gestavinnustofu fyrir listamenn. Gunnar Örn Gunnarsson. Gunnar Örn Gunnarsson (fæddur 2. desember 1946 í Reykjavík, látinn 28. mars 2008 í Reykjavík) var íslenskur myndlistarmaður. Verk hans eru nú á söfnum á Íslandi en einnig í Guggenheim safninu í New York, Sezon Museum í Tókýó, Moderna museet og National Museum í Stokkhólmi. Hann varð einn af þekktastu málurum Íslendinga. Æviágrip. Gunnar Örn lauk prófi hjá Gagnfræðiskóla Keflavíkur 1962, hann stundaði sellónám í Kaupmannahöfn 1963. Hann fór að skoða myndir í bernsku og byrjaði að teikna. Hann málaði allt sem hann náði í, masonít og krossvið. Gunnar Örn giftist Þórdísí Ingólfsdóttur 12. október 1978. Hann var ljósmyndari um tíma hjá "Dagblaðinu Vísi" 1981. Myndlist. Margir uppgötvuðu Gunnar Örn sem málara á sýningum í Norræna húsinu í byrjun áttunda áratugarins. Kviðristumyndir og líkamsslitur voru eins og sprengjur, þótt stöðugt yrðu breytingar í list Gunnar eru margir sem þekkja myndir hans úr fjarska, svo sérstakt er handbragðið og höfundareinkennin hans eru sterk. Hann lagði stund á myndlist frá 1964 og stofnaði og rak til dauðadags Gallerí ásamt Þórdísi eiginkonu sinni. Galleríið heitir Gallerí Kamb og stóð þar fyrir fjölda sýninga Íslenskra og erlendra listamanna. Hann gerði myndir af heiminum á öllum skeiðum. Myndirnar hans eru um fleira en plöntur í skógi, kú á engi, fjall í fjarska og hús við ás. Allt lífsins undur er í myndum hans. Heimur, lífið, tilfinningarnar, himinn og skelfing. Gunnar var alla tíð maður litríkis. Hann naut sterkra lita og líka spennu í samspili þeirra. Hann gerði tilraunir með form og var alla tíð að prófa nýtt. Gunnar gekk alltaf í gegnum endurnýjun, eiginlega á sjö ára tímabilum. Breytingarnar voru Gunnari ekki léttúðarmál og reyndu oft mjög á hann. Aldrei á ævinni málaði hann til að selja, hann lét aldrei undan markaðsfreistingum. Sýningar. Gunnar hélt margar einkasýningar en fyrsta einkasýning hans á Íslandi var árið 1970. Hann hélt til dæmis sex einkasýningar í Kaupmannahöfn, tvær í New York og eina í Feneyjum. Seinustu einkasýningu sína hélt hann í Gallerí Kambi í maí 2007 í tilefni af sextugsafmæli sínu. Hann tók líka þátt í mörgum samsýningum á Íslandi, Norðurlöndunum, í London, París, Moskvu, New York, Chicago og Tókýo. Kristín Guðrún Gunnlaugsdóttir. Kristín Guðrún Gunnlaugsdóttir (fædd 15. apríl 1963 á Akureyri) er íslenskur myndlistarmaður. Kristín nam í Myndlista- og handíðaskólanum. Eftir námið fór hún í nunnuklaustur á Ítalíu þar sem hún dvaldi á árunum 1987 – 1988. Í klaustrinu lærði Kristín margt um íkonalist og hélt eina íkonasýningu árið 1994. Eftir þá dvöl lá leiðin í "Akademíu hinnar fögru lista" í Flórens þar sem hún lagði meðal annars stund á grafík, ferskumálun og einnig lagningu blaðgulls sem hún hefur mikið notað. Kristín dvaldi á Ítalíu í átta ár og kynntist hún þar fyrrum sambýlismanni sínum og barnsföður. Þau fluttu til Íslands 1995 og eignuðust tvö börn. Upp úr bankahruninu 2008 fór Kristín því að sauma úr afgangsull. Hún sýndi slík verk árið 2010 í sal Íslenskrar Grafíkur og seinna sama ár hélt hún sýningu, "Gullin mín" í Studio Stafn. Blaðgullin voru áberandi í þeim verkum en blaðgullin voru einnig áberandi á einni af eldri sýningum Kristínar sem haldin var á Kjarvalsstöðum 1995. Verk hennar einkenndust aðallega af stórum málverkum á striga, eggtemperur á tré, íkonar og teikningar áður en hún hóf að vinna með striga, ull og band. Mörg verka hennar eru í eigu opinberra safna, kirkna og fyrirtækja. Kristín hefur verið valin bæjarlistamaður Akureyrar og einnig bæjarlistamaður Seltjarnarness 2008. Bossa nova. Bossa nova (portúgalska: „ný stefna“) er tónlistarstefna sem á rætur sínar að rekja til Brasilíu. Tónlistarstefnan byrjaði að þróast og breiðast út á sjötta áratugnum. Talið er að tónlistin hafi byrjað þegar lítill hópur af fólki sem samanstóð af menntafólki, listafólki og tónlistarfólki kom saman til þess að búa til nýjan hljóm. Bossa nova fær innblástur frá tónlistarstefnunni samba og djass. Bossa nova var svo fljótlega upp úr 1960 flokkuð sem hefðbundin djassstefna. Saga bossa nova. João Gilberto, almennt kallaður guðfaðir bossa nova Bossa nova þróaðist út frá samba en stefnan samanstendur yfirleitt af flóknari hljómagangi heldur en í samba og slagverk er ekki eins áberandi. Bossa nova hefur oft verið lýst sem tónlist efri stéttarinnar í Brasilíu. Tónlistin spratt upp í ríkari hverfum borgarinnar Rio de Janeiro og bæði tónlistin og textarnir voru samdir af tónlistarfólki úr miðju og efri stéttinni og var hún markaðsett fyrir fólk úr sömu stétt. Bossa nova breiddist fljótlega um allan heim og áttu tónlistarmenn á borð við Johnny Alf, Antonio Carlos Jobim og João Gilberto stóran þátt í þróun tónlistarstefnunnar og sömdu þeir lög sem hlutu heimsvinsældar. Lagið „Bim Bom“ eftir João Gilberto er talið eitt af fyrstu lögunum sem er samið undir Bossa Nova stíl. Í kjölfarið komu mörg lög sem náðu miklum vinsældum um allan heim. Hljóðfæri. Hefðbundin hljóðfæraskipan í Bossa Nova tónlist er yfirleitt gítar, píanó, bassi, trommur, slagverk og söngur. Vanalega er gítar undirstaðan í bossa nova lögum og á hann spilaður hefðbundinn bossa nova hrynjandi. Oftast er spilað á klassískan gítar með fingrunum í stað þess að nota nögl. Píanó er einnig eitt af undirstöðuhljóðfærunum í Bossa Nova. Á píanó eru lagðir hljómar, án þess þó að þeir hafi áhrif á hrynjanda í laginu. Trommur eru ekki jafn algengar og gítar og píanó í bossa nova en það eru þó til mikið af lögum undir Bossa Nova stíl með trommum í. Þá er algengt að slegið sé á hi-hat og á kantinn á snerlinum. Bassatromman er svo spiluð á fyrsta og þriðja slagi. Bassinn spilar samtaka bassatrommu á fyrsta slagi og þriðja. Í sumum Bossa Nova lögum er svo hægt að heyra í strengjum. Einkenni. Hjarta Bossa Nova stefnunnar er gítarinn. Í raun til að byrja með var það algengt að tónlistarmenn spiluðu Bossa Nova eingöngu á gítar og sungu með, líkt og trúbadorar gera. Form laganna er yfirleitt AABA form, sem sagt tvö erindi sem fer svo næst í viðlag. Viðlagið fer svo út í loka erindi sem klárar formið. Algengast er að lögin séu á bilinu tvær til fjórar mínútur að lengd. Gítar heldur púlsi í laginu og er hraði laganna oft nokkuð hægur til þess að fá afslappaða stemningu. Bossa Nova og Samba. Bossa Nova og samba eiga margt sameiginlegt og ber þá helst að nefna taktinn. Bossa Nova er spilað á 2/4 slagi rétt eins og samba tónlist. Bossa Nova er þó mun hægari heldur en samba. Í samba tónlist eru það trommur og önnur slagverk sem halda púlsinum í laginu. Bossa nova er öðruvísi að því leiti að þar er gítarinn sem gefur taktinn. Það er gert með því að slá á dýpri strengi gítarins með þumalfingri og fá þar af leiðandi bassanótur. Hinir fingurnir spila svo hljóma á bjartari strengjum gítarins. Einn af tilgöngum samba tónlistar er að búa til tónlist til þess að dansa við. Mismunandi stílar af samba tónlist eru gerðir fyrir mismunandi stíla af dönsum. Bossa Nova er hinsvegar ekki álitin danstónlist og er þá gert meira upp úr hljómagangi og laglínum í stað áherslumikils takts til að dansa við. Bossa Nova og jazz. Bossa Nova og djass tónlistarstefnurnar eiga einnig margt sameiginlegt og lög eins og „Girl from Ipanema“ eru í dag flokkuð undir djassstefnuna (jazz standard). Það sem tónlistarstefnurnar eiga að mestu leiti sameiginlegt er uppbygging hljóma. Hljómagangur er nokkuð flókinn og mikið er notað af forhljómum og framlengdum forhljómum. Góð þekking á svokölluðum djasshljómum hjálpar til við að spila Boss Nova-tónlistarstefnuna. Textagerð. Þar sem að mið og efri stétt í Brasilíu stjórnuðu Bossa Nova stefnunni að mestu leyti fjölluðu textar oft um það þægilega líf sem fylgdi því að vera partur að þessum stéttum. Þetta gerði það að verkum að fólk úr sömu stétt sóttist eftir því að hlusta á tónlistina. Textarnir fjalla oftast um fögnuð ástarinnar, konur, menninguna sem skapaðist við strendur Brasilíu, langanir og ást. Textarnir byrjuðu þó að þróast í kringum 1964 og fóru höfundar þá að semja texta um samfélagið og pólitík í Brasilíu. Þeir notuðu þá tónlistina og textana til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Áhrif á aðrar tónlistarstefnur. Margir þekktir djasstónlistarmenn tóku upp lög eða plötur í Bossa Nova stíl í byrjun 7. áratugarins. Sem dæmi má nefna Stan Getz, Coleman Hawkins, Dave Brubeck og Ellu Fitzgerald. Stan Getz tók meðal annars upp lagið „The Girl From Ipanema“ með Astrud Gilberto sem hlaut Grammy-verðlaun árið 1965 fyrir upptöku ársins. Bossa Nova taktinn er svo hægt að heyra í lögum frá Bandaríkjunum eins og „I Say a Little Prayer“, „Walk on By“ og „I'll Never Fall in Love Again“. Það var jafnvel hægt að heyra Bossa Nova taktinn í rokktónlist eins og í laginu „Break On Through“ með hljómsveitinni The Doors. Tónlistarmenn. João Gilberto er sá maður sem bjó til tónlistarstefnuna Bossa Nova. Hann bjó til þennan nýja hljóm sem heillaði marga unga tónlistarmenn sem byrjuðu svo að semja tónlist í anda laganna hans. Vinsældir hans urðu svo miklar í Brasilíu að bandarískir jazzleikarar sem voru á tónleikaferðalögum í Brasilíu keyptu plötuna hans og tóku hana til Bandaríkjanna þar sem hún komst í spilun á útvarpsstöðvum. Í enda ársins 1961 var svo búið að gefa út plötuna hans „Brazil's Brilliant Joao Gilberto“ í Bandaríkjunum. Joao Gilberto byrjaði þá að taka upp plötur í Bandaríkjunum og tók hann upp fyrstu plötuna sína þar með saxafón leikaranum Stan Getz. Platan heitir "Gilberto" og hlaut hún Grammy-verðlaun fyrir bestu plötuna árið 1965. Johnny Alf var píanóleikari og bjó líkt og Joao Gilberto í Rio de Janeiro. Hann hefur verið kallaður „faðir Bossa Nova“. Hann átti marga aðdáendur sem hlustuðu á hann og veltu fyrir sér píanó tækni hans og stíl. Hann gaf út níu sólóplötur áður en hann dó árið 2010. Antonio Carlos Jobim bjó líkt og Johnny Alf og Joao Gilberto í Rio de Janeiro. Hann er einn afkastamesti Bossa Nova höfundurinn og hann vann mikið með Joao Gilberto. Jobim er þekktastur fyrir lagið sitt „Girl From Ipanema“ sem er eitt af þeim lögum í heiminum sem oftast hefur verið tekið upp. Mörg laga hans eru flokkuð sem hefðbunin djasslög og hefur hann unnið með tónlistarfólki á borð við Ellu Fitzgerald og Frank Sinatra. Jobim lést svo árið 1994, 67 ára að aldri. Þorsteinn Helgason. Þorsteinn Helgason (fæddur 15. ágúst 1958 í Reykjavík) er íslenskur myndlistarmaður. Þorsteinn er menntaður arkitekt frá arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn og er meðeigandi á arkitektastofunni Ask arkitektar. Einnig nam hann myndlist í Myndlistaskólanum í Reykjavík og í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands. Um listamanninn. Hann hélt sínar fyrstu sýningar í Gallerí Borg í Reykjavík árið 1998 og hefur síðan sýnt jafnt og þétt á samsýningum og einkasýningum. Auk sýninga hér heima hafa verk hans verið sýnd í Lundúnum, Stokkhólmi og í New York. Málverk eftir Þorstein var eitt fimm íslenskra myndverka sem send voru í Winsor & Newton Millennium Painting Competition eftir forkeppni hérlendis og komst þar í úrslit. Verkið var á sýningu fyrirtækisins í Lundúnum og Stokkhólmi og var síðan sýnt í New York. Þorsteinn Helgason málar abstrakt málverk og það sem einkennir mörg þeirra eru fletir sem oftast eru í grunnlitunum, um er að ræða olíuverk á striga. Málverkin eru runnin af franska skólanum sem kom upp í París um 1950 og er stundum kenndur við tachisme eða art informel. Áherslan er á flæðið, bæði í pensilskrift og myndbyggingu. Þorsteinn hefur að mestu haldið sig við sama stílinn síðan hann sýndi fyrst árið 1988. „Þegar Þorsteinn hélt sínar fyrstu sýningar í Gallerí Borg árið 1998 mátti gjarnan lesa einhvers konar landslag í verkin, litirnir minntu oft á mold, gróður eða fjöll og sums staðar var jafnvel dreginn sjóndeildarhringur. Náttúran er enn einhvers staðar að baki í myndum hans en það varð þó fljótlega greinilegt að áhugi Þorsteins beinist fyrst og fremst að hinum innri lögmálum lita og forma, og hann beitir ýmsum aðferðum til að gæða þau lífi og leika við auga áhorfandans“ sagði Jón Proppé um verk Þorsteins árið 2009. Í nýjustu verkum Þorsteins eru formin orðin fastari en áður og hrynjandin í þeim þyngri. Litirnir eru einnig hreinni og þéttari en áður og mögulegt er að tengja þessa breytingu við áhrif úr arkitektúrnum en verkin eru samt sem áður enn lifandi á sinn hátt. Verk eftir Þorstein eru í eigu ýmissa opinberra aðila og stærri fyrirtækja. Á meðal þeirra aðila og fyrirtækja eru: Umhverfisráðuneytið, Skýrr, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banki, Baugur, Samskip og Skeljungur. Þau gallerí sem síðan versla með málverk eftir Þorstein Helgason eru: Gallery Fold, Reykjavík Art Gallery og Galleri Krepsen, Kaupmannahöfn. Þetta hafði Þorsteinn að segja þegar hann var spurður út í verk sín sem sýnd voru í Gallerí Fold árið 2007 undir sýningarheitinu Frumvörp: „Ég nota svipaða aðferð við að mála málverkin og við að spila jazz. Ég læt tilfinninguna ráða, en í upphafi byrja ég með hvítan striga og enga ákveðna hugmynd um hvað ég vil mála. Frekar mála ég með tilfinningunum og gleymi mér í augnablikinu“. Öll verkin á sýningunni voru nafnlaus en Þorsteinn gerir það gjarnan til þess að leyfa áhorfandanum að túlka málverkið eftir sínum eigin tilfinningum án þess að láta nafngiftina hindra sig. Sara Riel. Sara Riel (f. 19. maí 1980) er íslensk myndlistarkona úr Reykjavík, Hún gekk í listaháskólaháskóla Íslands og árið 2001 gekk hún Weißensee listaháskólanum í Berlín og útskrifaðist þaðan 2006. Sara hefur unnið að fjölbreyttum verkum í gegnum árin en hún er líklegast þekktust fyrir strætislist/graffiti verk sín. Hægt er að tengja stíl Söru við grafíska hönnun, myndskreytingar, teiknimyndir og hefðbundna graffiti list en hún vinnur með ýmsa miðla svosem vidjó, málverk, ljósmyndun og teikningu. Sara segist sjálf dansa á ósýnilegri línu á milli myndlistar og hönnun. Sara er í félagi í alþjóðlegu graffitilistagengi sem nefnist Big Geezers og í Myndhögvara félagi Reykjavíkur. Sara hefur tekið þátt í ótal samsýningum og þó nokkrum einkasýninngum víðsvegar um heiminn Evrópu, Kína, Japan, Canada, Íran, Bandaríkjunum og hérlendis hefur hún haldið sýningar í listasafni Akureyrar, Kling Bang, listasafni Árnesinga, Safnasafnið og listasafni Reykjavíkur. Sara Riel hefur hlotið nokkrar viðurkenningar meðal annars Guðmunduverðlaunin, heiðursverðlaun Baileys og Listastyrk Svavars Guðnasonar og Ástu Eiriksdóttur. Vegglistaverk Söru hafa fengið góðar viðtökur og nú vinnur hún að röð vegglistaverka sem hvert á að tákna eitt af sex ríkidæmum náttúrunnar. Á sýningunni Slangur á listasafni Árnesinga eru ljósmyndir af verkum sem Sara gerði árið 2006 en verkin eru hús víðsvegar um landið þar sem Sara hefur graffað slanguryrði og prufar með liti og letur. Markmiðið mitt er að endurspegla, endursegja og endurraða þáttum úr nátturunni og sögusögnum. Útkoman úr rannsóknum mínum færi ég í stílinn. Stíllinn á sinn uppruna í grafískri hönnun, teiknimyndum/myndskreytingum og strætislist/graffiti. Ég reyni að dansa á ósýnilegri línu á milli myndlistar og hönnunar.(Sara Riel) Suðurríkja hipp hopp. Suðurríkja Hipp Hopp (e. “Southern Hip Hop/Dirty South”) er heiti yfir undirgrein hipp hopps sem átti uppruna sinn í suðurríkjum Bandaríkjanna. Borgir eins og Houston, Atlanta, Memphis, New Orleans og Miami eru oftast tengar við stefnuna og þá helst Houston og Atlanta. Suðurríkja Hipp hoppið er oftast talað um sem þriðja stóra stefnan í Amerísku rappi, með Vesturstrandar Hipp hoppi og Austurstrandar Hipp Hoppi. Þrátt fyrir þónokkrar vinsældir seint á 20. öldinni var það í byrjun þeirrar 21. sem að Suðurríkja Hipp Hoppið fór að öðlast alminnilega útbreiðslu út fyrir suðurríkin og nú til dags er Suðurríkja Hipp Hoppið orðið jafn stórt, ef ekki stærra, en hinar fyrrnefndu Austurstrandar- og Vesturstrandar rappstefnur. Einkenni. Rapparar í suðrinu hafa oftast annan stíl en samstarfsmenn þeirra í austrinu og vestrinu. Mikið slangur einkennir suðræna rappið og er það almennt hægara en hinar stefnurnar. Oft er talað um að suðurríkja rappið skorti djúpa textasmíði og er það vissulega rétt í mörgum tilfellum en þó alls ekki alltaf. Orkan, taktarnir og hinn einstaki hljómur suðurrikjarappsins hefur þó án efa haft meiri áhrif á vaxandi vinsældir þess heldur en innihald textanna. Þungar bassalínur (oftast gerðar úr Roland TR-808 bassatrommunni) og mikil notkun á trommu- og hljóðgervlum hefur alltaf einkennt suðurríkja hipp hoppið, og þá sérstaklega eftir 2000. Oftar en ekki má finna einföld, grípandi viðlög sem oft eru hrópuð af miklum ákafa í rappi frá suðrinu, þá oftast í smellum sem ætlaðir eru fyrir skemmtistaðina. Algeng þemu í textum frá suðrinu eru glæpir (svo sem fíkniefnasala), bílar, áfengi og vímuefni, kvenfólk og ofbeldi. Þó er fjöldinn allur af suðurríkja rapplögum sem fjalla um gleðilegri umfjöllunarefni og eru þau oftast grípandi skemmtistaða smellir, sem geta haft í för með sér einhverskonar dansæði til dæmis "Crank That" með Soulja Boy. Saga. Eftir mikla einokun New York borgar og Los Angeles á hipp hopp markaði Bandaríkjanna fóru listamenn frá suðurríkjunum að þyrsta í viðurkenningu. Borgir eins og Memphis og Miami komu sterkar inn seint á 9. áratugnum með sveitum eins og 2 Live Crew og 8 Ball & MJG. Rapparinn Scarface og rappsveitin hans The Geto Boys frá Houston eru oft nefndir einir helstu brautriðjendur í stefnunni og þá helst platan þeirra "Grip It! On That Other Level" frá 1989, ásamt plötunum "The Geto Boys" 1990 og "We Can’t Be Stopped" 1991. Með útgáfu þessara platna varð Houston ein helsta miðstöð rapps í suðrinu og í raun fyrsta borgin fyrir utan New York og Los Angeles til að fanga athygli frá rapp heiminum. Einnig voru þeir Bun B og Pimp-C gígantískir áhrifavaldar í að koma suðrinu upp á yfirborðið með sveit sinni “UGK” og plötunum "Too Hard Too Swallow" og "Super Tight". Atlanta fór að verða stórborg í hipp hopp senunni upp úr 1990 með sveitum á borð við OutKast og Goodie Mobb og voru OutKast fyrsta sveitin úr suðrinu til að jafnast á við sveitir frá austrinu og vestrinu í sölutölum. Plötufyrirtæki hafa í gegnum tíðina sýnt suðrinu litla athygli og féll það oft á hendur listamannanna sjálfra að fjármagna og gefa út tónlist sína. Því er oft talað um að rapparar frá suðrinu þurfi að hafa meira fyrir því að komast inn í leikinn. Þessi þróun leiddi að suðurríkja hipp hopps plötuútgáfu fyrirtækjum eins og Cash Money Records og No Limit Records í New Orleans, So So Def Records og LaFace Records í Atlanta og Swishahouse í Houston. Snemma eftir aldamótin 2000 varð einskonar sprengja í vinsældum suðurríkja rappsins. Frá Atlanta brutust rapparar á borð við Ludacris, T.I. og Young Jeezy inn á vinsældarlista. Lil Wayne frá New Orleans fór að gera vart við sig með plötum sínum The Carter og The Carter 2 sem gerðu hann hratt að einum eftirsóttasta listamanni hipp hoppsins. Houston gaf frá sér sölujötna eins og Chamillionaire, Slim Thug og Lil’ Flip og hljómsveitir sem höfðu haldið því niðri gegnum 10. Áratuginn fóru að öðlast enn meiri aðdáendahóp, til dæmis UGK frá Houston og Three 6 Mafia frá Memphis. Vinsældir Suðurríkja hipp hoppsins hafa verið á stöðugri uppleið síðustu ár. Þetta er af miklu leiti þökk sé listamönnum eins og T.I., Lil Wayne og Gucci Mane, sem hafa allir verið að selja jafn vel, ef ekki betur en, samstafsmenn þeirra í New York og Los Angeles. Plöturnar "Trap Muzik" með T.I. frá 2003, "Let’s Get It: Thug Motivation 101" með Young Jeezy frá 2005, "Trap House" með Gucci Mane, einnig frá 2005 hafa leitt af sér undirstefnu suðurríkja hipp hopps sem nefnist Trap. Trap hefur verið mjög áberandi á vinsældarlistum síðustu ár. Trap hefur gefið af sér tónlistarmenn eins og Waka Flocka Flame og Rick Ross ásamt því sem að þessi nýfundni áhugi á suðurríkja hipp hoppi hefur endurreist ferla fyrrum suðurríkjastjarna eins og Juicy J úr Three 6 Mafia og 2 Chainz (áður þekktur sem Titi Boy) úr Playaz Circle. Taktsmiðir sem hafa verið ómissandi í þeim vinsældum sem Trap nýtur í dag eru til dæmis Lex Luger, Southside On The Track og Drumma Boy. Houston. Margar af fyrstu sveitum stefnunnar áttu uptök sín í Houston. Það voru sveitir eins og UGK og The Geto Boys. Hóstasaft, flottir bílar og gulltennur eru dæmi um hluti sem rótgrónir eru við lífstíl margra þeirra rappara sem koma frá Houston. Houston stíllinn er oftar en ekki hægari og slakari en þeir stílar sem tíðkast í öðrum borgum suðurríkjanna og á plötusnúðurinn DJ Screw að miklu leiti heiðurinn á því. Aðferð hans að hægja á og dýpka lög í þeim tilgangi að skapa rólegri, þyngri stemningu, sem þekkt er sem Chopped And Screwed, féll vel í faðm Houston búa. Í svörtu hverfum borgarinnar var mikil hefð fyrir flottum, breyttum bílum og hentaði þessi tónlist einstaklega vel sem einskonar „rúnttónlist“. DJ Screw gaf reglulega út svokallaðar „Screw Tapes“. Þær voru eins konar samansafn af þekktum lögum í Chopped and Screwed stílnum ásamt nýjum lögum með einhverjum af þekktustu röppurum Houston-borgar. Vinsældir DJ Screw voru nokkuð takmarkaðar við suðurhluta Houston, enda var mikill rígur milli norður- og suðurhluta borgarinnar. Íbúar norðurhlutans fengu sína screw tónlist frá Michael “5000” Watts, en hann stofnaði plötuútgáfu fyrirtækið Swishahouse árið 1997 sem gaf af sér einhverja af heitustu tónlistarmenn borgarinnar, þar á meðal Chamillionaire og Paul Wall. Þrátt fyrir að Watts hafi ávallt viðurkennt að Chopped And Screwed stíllinn hafi komið frá DJ Screw myndaðist nokkur ágreiningur meðal áhlustenda um það hver hafi fundið upp stílinn. Nú til dags eru þó afar fáir sem mótmæla því að DJ Screw hafi byrjað stílinn. Nýlega hefur Houston fallið nokkuð í skugga Atlanta á vinsældarlistum. Atlanta. Margir af vinsælustu listamönnum stefnunnar eiga rætur sínar að rekja til Atlanta. Þessi stórborg í hjarta Georgíufylkis hefur gefið af sér einhverjar söluhæstu stjörnur senunnar eins og Usher, Ludacris, T.I. og sveitina OutKast, en sú síðastnefna vann sex Grammy-verðlaun fyrir plötu sína "Speakerboxxx/The Love Below". Hipp Hopp senan í Atlanta hófst með listamönnum á borð við Kilo Aloi, MC Shy-D, Raheem The Dream og DJ Smurf á níunda áratugnum en átti þó sitt fyrsta blómaskeið snemma á þeim tíunda. Helsti brautriðjandi Krönk stefnunnar, sem tröllreið vinsældarlistum snemma á 21. öldinni, kemur frá Atlanta. En það er Lil Jon. Stíll hans í taktsmíðum má heyra enn þann dag í dag, og hefur krönkið haft mikil áhrif á það suðurríkja hipp hopp sem finna má í útvarpinu í dag. Ótrúleg velgengi suðurríkja hipp hopps á síðustu árum má að miklu leyti rekja til Atlanta, en rappararnir T.I. og Gucci Mane ásamt taktsmiðunum Drumma Boy og Lex Luger hafa verið ómissandi í þeirri yfirtöku suðurríkjarapps á vinsældarlistum sem orðið hefur á síðustu árum og koma þeir allir af götum Atlanta. Tottenham. Tottenham er hverfi í borgarhlutanum Haringey í London, Englandi, rúmlega 10km norðan við Charing Cross. Til eru heimildir um byggð þar frá miðöldum. Herragarðurinn Bruce Castle var líklega fyrst reistur á 15. öld skömmu eftir að þrír hlutar jarðarinnar urðu allir eign sömu fjölskyldu. Á síðari hluta 19. aldar varð þorpið í vaxandi mæli úthverfi London og var formlega skilgreint sem þéttbýlissvæði árið 1894. Árið 1934 varð það sérstakur borgarhluti en 1965 sameinaðist það borgarhlutunum Wood Green og Hornsey innan nýja borgarhlutans Haringey. Tottenham er heimahverfi knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur F.C.. Strákasveitir. Strákasveit eru hljómsveit sem samanstendur af ungum karlkyns meðlimum. Algengast er að þessir meðlimir syngi eingöngu og fágætt þykir ef þeir spila á hljóðfæri þegar þeir koma fram. Strákasveitir eru oft stofnaðar af einstaklingum sem eru ekki meðlimir sveitanna, en þó eru til dæmi um annað. Sem dæmi um slíkan einstakling hérlendis má nefna Einar Bárðarson en hann stofnaði hljómsveitina Lúxor. Hún samanstóð af fimm ungum körlum sem sömdu lögin sín ekki sjálfir og er því afar skýrt dæmi um dæmigerða strákasveit. Saga strákasveit a. Fyrirbærið strákasveit kom fyrst fram á sjónarsviðið í formi rakarastofukvartetta seint á nítjándu öld. Þeir voru mjög vinsælir á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þróun strákasveitarinnar hélt svo áfram þegar vinsældir rakarstofukvartettanna fóru dvínandi, en þá með hljómsveitum sem spiluðu svokallaða „Doo-wop“-tónlist. Þessar hljómsveitir sungu oft um efni á borð við ástina og annað sem vinsælt var í dægurlögum. Sú hljómsveit sem oft er talin vera fyrsta strákasveitin (án þess þó að hafa verið kölluð það) er The Ink Spots, en hún flutti mjög grípandi lög í bland við æðisgengnar danshreyfingar. Stundum hefur verið talað um Bítlana í sömu andrá og strákasveitir. Þegar þeir voru upp á sitt besta var hugtakið strákasveit ekki til en þó eiga þeir margt sameiginlegt með þeim strákasveitum sem urðu vinsælar síðar meir. Til að mynda áttu þeir mjög stóran aðdáendahóp út um heim allan, sem samanstóð mestmegnis af ungum stúlkum sem tilbáðu þá. Ofan á það voru þeir svo kynntir sem poppstjörnur framan á tímaritum og í sjónvarpsþáttum. Áttundi áratugurinn: Fyrirbærið þróast. Upp úr þessu spruttu svo sveitir á borð við The Osmonds, The Jackson 5 og The Monkees. Sú síðastnefna var í rauninni stofnuð til að leika hlutverk uppskáldaðrar hljómsveitar í samnefndum sjónvarpsþáttum en varð svo langlífari en þættirnir sjálfir. The Jackson 5 er hljómsveit sem sett saman var af föður meðlima sveitarinnar en að strákasveit sé stofnuð af utanaðkomandi aðila er mjög algengt. Níundi áratugurinn: Hugtakið verður til. Snemma á níunda áratugnum hóf Maurice Starr að safna saman einstaklingum í hljómsveit sem átti eftir að bera nafnið New Kids On The Block. Eftir áheyrnarprufur víðsvegar um Boston valdi hann einungis einn strák af um það bil fimm hundruð til að vera meðlimur í sveitinni. Þessi strákur var Donnie Wahlberg en hann hjálpaði til við að finna hina meðlimi sveitarinnar en þar á meðal var yngri bróðir Donnie, Mark Wahlberg. Á fyrstu mánuðum sveitarinnar tók sveitin miklum stakkaskiptum og voru mannabreytingar miklar en slíkar breytingar eru mjög algengar í strákasveitum. Seint á níunda áratugnum náði hljómsveitin heimsvinsældum og er oft talin vera fyrsta strákasveitin, sem sett var saman með markaðinn í huga, sem náði slíkum hæðum. Tíundi áratugurinn: Gullaldarár strákasveita. Á þessum tímapunkti var fyrirbærið strákasveit við það að springa út og á tíunda áratugnum voru fjölmargar slíkar sveitir stofnaðar. Hljómsveitir á borð við Boyz II men, Take That, ‘N Sync og Backstreet Boys voru líklega þær vinsælustu. Take That var enn ein hljómsveitin sem stofnuð var af utanaðkomandi aðila. Það var hann Nigel Martin-Smith sem safnaði saman fimm einstaklingum árið 1989 sem mynduðu svo hljómsveitina. Meðlimir sveitarinnar spiluðu ekki á hljóðfæri, en hið óhefðbundna í fari Take That sem strákasveitar var að flest lögin voru að mestu leyti samin af einum meðlim sveitarinnar, honum Gary Barlow, en ekki af utanaðkomandi aðilum. Boyz II men var stofnuð árið 1988 af nokkrum nemendum í menntaskóla (e. high school). Enginn utanaðkomandi kom að stofnun sveitarinnar og áttu meðlimir hennar oft stóran þátt í því að semja sín eigin lög. Engu að síður var sveitin mjög vinsæl meðal unglinga, og þá sér í lagi stelpna, sem er eitt helsta einkenni strákasveita. Það var svo árið 1993 sem söluhæsta strákasveit allra tíma, Backstreet Boys, var stofnuð. Hljómsveitin var stofnuð af fjórum vinum, en það var ekki fyrr en Lou Pearlman kom til sögunnar að um fullmótaða hljómsveit var að ræða. Strákarnir sömdu einhvern hluta sinnar tónlistar sjálfir en hún var mestmegnis samin af öðrum tónskáldum sem meðlimir sveitarinnar fengu í lið með sér, sem er mjög einkennandi fyrir strákasveitir. Backstreet Boys hefur selt rúmlega 100 milljón plötur, sem gerir hljómsveitina þá söluhæstu í flokki strákasveita. Árið 1995 var hljómsveitin ‘N Sync stofnuð en það var einmitt áðurnefndur Lou Pearlman sem stóð fyrir stofnun hennar. Rétt eins og meðlimir margra annarra strákasveita spiluðu meðlimir ‘N Sync hvorki á nein hljóðfæri í sínum lögum né sömdu þau sjálfir en voru þó mjög vinsælir meðal ungra stúlkna. N’Sync hefur selt rúmlega fimmtíu milljón eintök af sínum plötum og er því ein vinsælasta strákasveitin frá upphafi. Árin eftir aldamótin. Upp úr 2000 fóru vinsældir strákasveita dvínandi en þó komu nokkrar ansi frambærilegar fram á sjónarsviðið, auk þess sem Backstreet Boys og ‘N Sync héldu áfram að gera það gott. Líklega er hljómsveitin Jonas Brothers sú þekktasta sem kom fram á þessum tíma. Þeir urðu frægir í gegnum Disney-stöðina í Bandaríkjunum, og rétt eins og með The Jackson 5, þá hélt faðir þeirra að miklu leyti utan um hljómsveitina. Hljómsveitin hefur selt rúmlega sautján milljón eintök af sínum plötum og er hvergi nærri hætt. Annar áratugur 21. aldar: Endurnýjun strákasveita. Þegar annar áratugur 21. aldarinnar gekk í garð fóru nýjar strákasveitir að láta á sér bera. Þar ber helst að nefna hljómsveitir á borð við One Direction og The Wanted. Margir vilja raunar líkja samkeppni þessara tveggja sveita við þá á milli ‘N Sync og Backstreet Boys á sínum tíma. One Direction var stofnuð af fimm drengjum sem allir tóku þátt í hæfileikakeppninni X-Factor í Bretland hver í sínu lagi. Enginn þeirra komst áfram, en gestadómari í keppninni, Nicole Scherzinger, stakk upp á því að þeir stofnuðu saman strákasveit. Það gerðu þeir og komust áfram sem slík hljómsveit. Þeir höfnuðu í þriðja sæti keppninnar og skrifuðu þá undir samning við plötufyrirtæki eins dómarans, Simons Cowells. Meðlimir sveitarinnar semja einhvern hluta sinna laga sjálfir en sjá þó ekki alfarið um það. Þar að auki spila nokkrir meðlimir sveitarinnar á hljóðfæri, sem er ekki mjög dæmigert fyrir strákasveit. Meðlimum hljómsveitarinnar The Wanted var safnað saman í áheyrnarprufum sem Jayne Collins hélt. Þeir semja sína eigin tónlist að hluta til og spila allir á hljóðfæri. Nokkurs konar rígur hefur myndast á milli The Wanted og One Direction, enda á fyrrnefnda hljómsveitin það til að skjóta á hina; segja að meðlimir sveitarinnar hafi komist svo langt þökk sé útliti þeirra frekar en hæfileikum. Hin hefðbundna uppbygging strákasveita. Uppreisnarseggurinn: Hann er alltaf smá ógnandi og brosir sjaldan á myndum. Hann er oft með smá skeggrót, annað en hinir, og líklegast er að fólk hræðist þennan. Sá saklausi: Þessi lítur út fyrir að vera yngstur og ljúfastur. Líklegast er að fólk vilji sjá um þennan eins og sitt eigið barn. Trúðurinn: Ekki sá myndarlegasti en engu að síður sá fyndnasti. Hann er sá sem klæðir sig furðulega upp og segir brandara. Sterka, þögla týpan: Þessi er oft með leyndardómsfullt augnaráð, sem erfitt er að lesa í. Hann stelur athyglinni aldrei frá hinum meðlimum sveitarinnar. Sá helheiti: Myndarlegastur og sá sem fólk laðast mest að. Þegar strákasveit er nefnd á nafn er líklegast að fólki detti þessi meðlimur í hug. Þessi eyðir miklum tíma í að laga hárið og kann vel á dömurnar. Þessar staðalmyndir fyrirfinnast auðvitað ekki í öllum strákasveitum og eru ekki byggðar á hávísindalegum útreikningum en eru þó ágætis viðmið þegar strákasveitir eru annars vegar. Strákasveitir á Íslandi. Fyrirbærið strákasveit hefur ekki verið neitt sérlega algengt hér á Ísland. Á síðustu árum kom þó ein fram á sjónarsviðið en það var hljómsveitin Luxor, sem Einar Bárðarson stofnaði. Fimm einstaklingar voru valdir af þeim sextíu, sem mættu í áheyrnarprufur, og komu þeir allir úr ólíkum áttum. Luxor gaf út eina plötu, sem bar einfaldlega nafnið Luxor og seldist í um fjögur þúsund eintökum. Djassrapp. Djassrapp er ákveðin tegund rapp-stefnunar sem er undir áhrifum djass tónlistar. Tónlistarstefnan á rætur sínar að tekja til seinni hluta 9. áratugarins og til upphafs 10. áratugarins. Textarnir höfða aðallega til pólitískra viðhorfa og bjartsýni samfélagsins. Tónlistin í djassrappi er aðalega fólgin í reglulegum töktum úr rapptónlist en bætt er við hljóðum úr djass tónlist, til dæmis trompet hljómur, tvöföld bassalína og svo framvegis. Þessir hljómar eru aðalega hljómar úr gömlum og oftast vel þekktu djasslögum. Ungir djass rapparar leituðu í marga klukkutíma af gömlum djassplötum í plötubúðum sem þeir gætu notað til þess að búa til hinn fullkomna taktfasta djass takt. Rímurnar í textunum eru eins og í hefðbundnu rappi og er flæðið mjög svipað. Það sem einkennir textana í djassrappi eru eins og áður sagði pólitísk viðhorf og bjartsýni en einnig er mikið um samtöl rappara hvorn við annan þar sem léttur húmor er meðal annars notaður. Áhrifavaldar. Þrátt fyrir að djassrapp varð ekki að sér tónlistarstefnu fyrr en á 9. áratugnum má sjá ýmis dæmi um djassrapp tónlist í gegnum 20. öldina. Louis Armstrong, víðsfrægur djasstónlistarmaður, gaf út lagið „Heebie Jeebies“ sem oft er talið flokkast undir rapptónlist en hafði undirspil úr djasstónlist. Einnig má rekja áhrifin til 8. áratugarins en The Last Poets, Gil Scott-Heron og The Watts Prophets gáfu þá út lög þar sem textarnir voru taktföst ljóð og djasstónar hljómuðu undir. Þrátt fyrir þessi dæmi úr sögunni, varð djass rapp ekki að sér tónlistarstefnu fyrr en seint á 9. áratugnum. Upphaf. Það sem markaði upphaf stefnunar var djasshljómsveitin Cargo, með Mike Carr í fararbroddi. En árið 1985 gáfu þeir út lagið Jazz Rap, og var það lag á samnefndri plötu þeirra. Djass rapp fór svo að verða vinsælla árið 1988 þegar rapparinn Gang Starr gaf út sitt fyrsta lag „Words I Manifest“, þar sem hann tók undirspil úr lagi Dizzy Gillespie, „Night in Tunisia“, frá árinu 1952 og bjó til taktfastann djass takt. Sama ár gaf Stetsasonic út lagið „Talkin’ All That Jazz“ en hann tók undirspil úr lagi Lonnie Liston Smith og gerði það sama og Gang Starr hafði gert. Helliseyjarslysið. Helliseyjarslysið var sjóslys sem varð árið 1984. Vélbáturinn Hellisey VE 503 fórst að kvöldi sunnudagsins 11. mars 1984 um kl. 23.00. Með Hellisey VE fórust: Hjörtur R. Jónsson skipstjóri, 25 ára, Pétur Sigurðsson, 1. vélstjóri, 21 árs, Engilbert Eiðsson, 2. vélstjóri, 19 ára, og Valur Smári Geirsson matsveinn, 26 ára. Guðlaugur Friðþórsson stýrimaður, sem var 22 ára gamall, komst einn lífs af. Guðlaugur Friðþórsson synti 5-6 km í svartamyrkri og köldum sjó til lands, eftir að Hellisey VE 503 fórst. Hann náði landi á austanverðri Heimaey og braust um úfið hraun til byggða. Fjórir skipsfélagar Guðlaugs fórust. Guðlaugssund. Ár hvert mætir fjöldi fólks í Íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum til að synda þessa vegalend, samanlagt í hóp eða í heilu lagi sem einstaklingar. Hefur slíkt sund verið haldið hvert ár frá árinu 1985 fyrir tilstuðlan Friðriks Ásmundssonar, fyrrverandi skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Hann hefur haldið utan um móthaldið allar götur síðan. Meðal þeirra sem hafa þreytt sundið eru; Ólympíumeistarinn Jón Margeir Sverrisson Minnisvarði. Milli páskahella og Helgafells, í nánd við þann stað er Guðlaugur skreið á land er minnisvarði um slysið. Minnisvarðinn er táknrænn að því leiti að Guðlaugur braut ís á baðkeri og fékk sér þar sopa af vatni. Djúpið. Árið 2012 kom út kvikmynd úr smiðju Baltasar Kormáks sem bar nafnið Djúpið og byggir að hluta til á atburðinum. Vesturstrandarrapp. Vesturstrandar Hip Hop er undirflokkur í Hip Hop tónlist og menningu og á rætur sínar að rekja til vesturstrandar Bandaríkjanna. Almennt er talið að Hip Hop eigi uppruna sinn að rekja til austurstrandar Bandaríkjanna, hafi þróast þar og síðar breiðst út um bandaríkin og seinna heiminn. Uppruni. Uppruna hip hop menningarinnar á vesturströndinni má rekja allt aftur á miðjann sjöunda áratuginn. Árið 1965 áttu sér stað óeirðir í Watts hverfinu í suðurhluta Los Angeles borgar þar sem fólk flykktist út á götur til að mótmæla þeim aðstæðum sem skapast höfðu í hverfinu. Atvinnuleysi, afskiptaleysi stjórnmálamanna, lélegur efnahagur og ágangur lögreglu hafði lengi verið vandamál og að lokum sauð upp úr. Óeirðirnar vörðu í sex daga og ollu miklu tjóni á eignum sem og fólki. Eftir óeirðirnar stofnuðu fjórir einstaklingar í Los Angeles hópinn „The Watts Prophets“ sem gáfu árið 1969 út plötuna „The Black Voices: On the Streets in Watts“. Á þeirri plötu tala meðlimir yfir trommutakta eða lög og minnir þessi tónlist meira á ræðumennsku en rapp eins og það varð síðar meir. Yrkisefni þeirra var meira og minna réttindi svertingja, en réttindabarátta svartra bandaríkjamanna var mikil um þessar mundir. Gengjamenning. Gengjamenningin á vesturströndinni hefur haft mikil áhrif á hip hop. Árið 1969 stofnaði ungur maður að nafni Raymond Washington samtök sem gengu undir nafninu „The Avenue Cribs“ og átti hópurinn í upphafi að gegna svipuðu hlutverki og „The Black Panthers“ samtökin sem voru um þær mundir að liðast í sundur. Hugmyndir Washington náðu þó ekki mikilli fótfestu og varð hópurinn fljótt að glæpasamtökum. Samtökin styttu nafnið fljótlega í Crips og þar með varð eitt frægasta glæpagengi sögunnar til. Önnur minni gengi í Los Angeles gerðu sér fljótt grein fyrir að Crips væru of sterkir til að hægt væri að berjast gegn þeim sundraðir og stofnuðu því annað gengi til að spyrna gegn þeim og fékk það nafnið „Bloods“. Þegar níundi áratugurinn gekk í garð færðist meiri harka í gengin. Krakk var nýkomið á markaðinn og veittu gengjunum meiri tekjur en nokkru sinni fyrr. Aukin harka færðist í leikinn þar sem gengi börðust um yfirráðasvæði þar sem þeir sáu um fíkniefnasöluna. Dans. Breikdans varð til í New York borg á áttunda áratugnum þar sem dansflokkar á borð við Rock Steady Crew nutu vinsælda ungmenna. Þeir voru þó ekki þeir fyrstu til að dansa breik og byggðu margt af því sem þeir gerðu á því sem hafði verið að gerast á vesturströndinni á árunum áður. Árið 1969 varð til nýr dansstíll sem kallaðist „locking“. Ungur maður að nafni Don Campbell bjó til þennan stíl og stofnaði í kjölfarið dansflokkinn „The Lockers“. Flokkurinn kom fram í tveim af stærstu sjónvarpsþáttum þess tíma, Saturday Night Live og The Tonight Show. Þó svo „The Lockers“ dönsuðu ekki við hip hop tónlist þá voru danshreyfingar þeirra grunnurinn að breikdansi framtíðarinnar. Alonzo William yngri öðlaðist frægð innan partísenunnar í Los Angeles í byrjun níunda áratugarins fyrir að halda góðar veislur. Í einni af þessum veislum komu að honum tveir menn, Roger Clayton og Andre Manuel. Þeir urðu fljótt vinir og ákváðu að stofna plötusnúðaþríeyki ásamt því að reka næturklúbb. Örlagaríkan dag árið 1982 kom ungur maður að nafni Andre Young á klúbbinn þeirra til að plötusnúðast og gerði það af þvílíkri snilld að brátt var hann tekinn inn í hópinn þeirra og tók þá upp listamannsnafnið Dr.Dre. Plötuútgáfur. Macola Record Company var plötufyrirtæki sem stofnað var árið 1984. Fyrirtækið lagði áherslu á að listamenn sem höfðu lítið fjármagn milli handanna gætu gefið út efnið sitt. Þetta hentaði ungum tónlistarmönnum vel og gaf fyrirtækið út efni fyrir nánast alla rappara á svæðinu á þeim tíma. Meðal þeirra listamanna sem gáfu út efni hjá þeim má helst nefna Egyptian Lover sem gaf út frumraun sína hjá þeim, World Class Wreckin‘ Cru, L.A Dream Team, Ice-T og Ice Cube ásamt tríóinu sínu Cru in Action. Einnig gáfu þeir út fyrir rapparana MC Hammer og Too Short. Eigandi plötufyrirtækisins, Don Macmillan, réð til sín mann að nafni Jerry Heller sem átti að koma þeim listamönnum sem þeir voru með á mála hjá sér betur á framfæri. Undir lok níunda áratugarins var Bryan Turner, eigandi Priority Records plötuútgáfunnar, að leita sér að nýjum listamönnum fyrir útgáfuna og komst að orði við Jerry Heller sem starfaði þá fyrir Macola plötuútgáfuna. Hann kom honum í kynni við sextettinn NWA(Niggaz Wit Attitudes) og skrifuðu þeir undir samning við útgáfuna. NWA. Þegar Dr.Dre hafði verið í World Class Wreckin‘ Cru í þrjú ár skildust leiðir hans við hópinn. Hann komst í slagtog við mann að nafni Eric Wright sem hafði um tíma verið á eftir Dre vegna hljóðblöndunarhæfileika hans. Eftir að Wright borgaði tryggingargjald til að ná Dre út úr fangelsi gekkst hann undir að vinna fyrir Wright. Eric Wright, sem er þekktastur undir sviðsnafninu Eazy-E, fékk einnig til liðs við sig Dj Yella og rapparann O‘Shea Jackson, betur þekktur undir listamannsnafninu Ice Cube. Fyrsta lagið sem þeir unnu að saman var gefið út í nafni Eazy-E og nefnist Boyz-n-the-Hood. Lagið náði gríðarlegum vinsældum og seldust meira en hálf milljón eintaka á skömmum tíma. Um þetta leiti bættust tveir meðlimir við hópinn, rappararnir MC Ren og Arabian Prince. Þessi hópur gekk undir nafninu Niggaz Wit Attitudes (NWA) og vildu þeir taka bófarappið(e. Gangsta rap) upp á nýtt stig. Eftir að hafa verið neitað af nokkrum útgáfufyrirtækjum skrifuðu þeir undir samning við Priority Records. NWA gerðu bófarappið vinsælt og hafði það mikil áhrif á rapptónlist komandi tíma. Vestrið gegn austrinu. Undir lok níunda áratugarins og fram á þann tíunda fór vesturstrandarrappið að taka yfir iðnaðinn sem einkenndist þá aðallega af austurstrandar röppurum og tónlistinni þeirra. Listamenn á borð við Too $hort og Ice-T gáfu út plötur sem seldust í miklu magni og NWA gáfu út plöturnar Straight Outta Compton og Niggaz4Life sem urðu báðar platínum plötur. Aðrir listamenn komu einnig upp á yfirborðið. Árið 1989 komu Cypress Hill fram í sviðsljósið og árið 1991 gáfu þeir út sína fyrstu plötu sem bar sama nafn og hljómsveitin. Sir Mix-A-Lot gaf sama ár út plötuna Mack Daddy sem innihélt slagarann Baby Got Back og seldist platan í 2 milljónum eintaka en lagið sjálft í 3 milljónum eintaka. Vonarstjarna vesturstrandarinnar, Tupac Shakur, var einnig að stíga sín fyrstu frægðarskref. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1991 og bar hún nafnið 2pacalypse Now og er nafnið skýrskotun í kvikmyndina Apocalypse Now. Hann varð á stuttum tíma frægasti rappari sögunnar og er einnig einn af söluhæstu tónlistarmönnum allra tíma með í kringum 75 milljón plötur seldar. Allar 11 sólóplöturnar sem hann gaf út eða voru gefnar út í hans nafni náðu að verða platínum, en 7 af þessum 11 plötum voru gefnar út eftir dauða hans og er hann því einnig hátt á lista yfir þá listamenn sem hafa grætt mestann pening eftir dauða sinn. Til að byrja með var hann á mála hjá Interscope útgáfufyrirtækinu en snemma árs 1996 flutti hann sig yfir til Death Row Records sem var í eigu Dr.Dre og Suge Knight og slóst þá í hóp listamanna á borð við Snoop Dogg og MC Hammer. Margir af rapplistamönnum austurstrandarinnar mislíkaði velgengni starfsbræðra sinna á vesturströndinni og tjáðu þá skoðun sína í viðtölum og í lögum sínum. Þetta var upphafið að frægustu deilum í rappsögunni. Notorious B.I.G var rappari frá Brooklyn í New York og var á þessum tíma vinsælasti rappari austurstrandarinnar. Hann og Tupac voru vinir um tíma en það breyttist þegar setið var fyrir Tupac í andyrinu á hljóðveri hjá B.I.G. Í árásinni var hann skotinn fimm sinnum og rændur. Tupac sakaði B.I.G og félaga hans um að hafa staðið að árásinni og varð ágreiningurinn á milli þeirra fljótt brennipunktur deilnanna milli vestur og austurstrandarinnar. Þegar Suge Knight, annar af eigendum Death Row Records, var að taka við tónlistarverðlaunum í New York borg móðgaði hann framkvæmdastjóra útgáfufyrirtækisin Bad Boy Records, Sean Combs(einnig þekktur sem Puff Daddy), sem B.I.G starfaði fyrir. Mánuði eftir þann atburð hittust þeir Suge og Combs í samkvæmi og endaði sá fundur með dauða eins af fylgdarmönnum Suge var skotinn til bana af lífverði Combs. Deilurnar héldu áfram og árið eftir gaf Tupac út lagið Hit ‘Em Up þar sem hann fór hörðum orðum um B.I.G og aðra rappara frá Austurströndinni. Þá mættust meðlimi Bad Boy og Death Row á tónlistarverðlaunahátíð í Los Angeles og drógu meðlimir beggja hópanna upp byssur. Seinna sama ár enduðu deilurnar milli Tupac og B.I.G þegar Tupac var skotinn til bana í Las Vegas. Ári síðar var B.I.G skotinn til bana þegar hann var að yfirgefa sömu tónlistarhátíð og hann mætti Death Row meðlimunum árið áður. Deilurnar voru þó ekki eingöngu á milli þeirra Ice Cube stofnaði tríóið Westside Connection og gáfu þeir meðal annars út lagið All the Critics in New York árið 1996 þar sem þeir hóta þeim sem gagnrýna vesturströndina lífláti. Pantanal. Mörk Panatal-svæðisins í Brasilíu, Bólivíu og Paragvæ Pantanal er eitt stærsta votlendissvæði jarðar. Það er í hitabeltinu og er að mestu innan brasilíska héraðsins Mato Grosso do Sul en að hluta í héraðinu Mato Grosso og nær inn í löndin Bólivíu og Paragvæ. Það nær yfir 195000 km². Á svæðinu eru mörg mismunandi vistkerfi. Á regntímabilinu er um 80 % af svæðinu undir vatni og með vatninu og ám sem falla á svæðið berast næringarefni. Nafn svæðisins Pantanal er dregið af portúgalska orðinu "pântano" sem þýðir votlendi, mýrar eða fenjasvæði. Hálendi Brasilíu er til aðgreiningar nefnt "planalto" sem þýðir háslétta. Pantanal er á heimsminjaskrá Unesco vegna sérstæðrar náttúru þar og hluti af svæðinu er friðaður. Votlendi. Votlendi er landsvæði sem er annaðhvort alltaf eða árstíðabundið svo mettað af vatni að það verður að sérstöku vistkerfi. Svartjörð. Svartjörð (fræðiheiti "Histic Andosol") er jarðvegsgerð sem svipar til mójarðar en þó með minna af lífrænum efnum en mójörð. Svartjörð finnst þar sem áfok er of mikið til að mójörð geti myndast eða þar sem jarðvegurinn er þannig ræstur fram að þar getur safnast minna af lífrænum efnum. Blautjörð. Blautjörð (fræðiheiti "hydric andosol") er jarðvegsgerð sem einkennir votlendi þar sem áfok er hlutfallslega mikið eins og til dæmis á Hálendinu. Þessi jarðvegsgerð er mjög algeng. Frumjörð. Frumjörð (fræðiheiti "Vitrisol") er jarðvegsgerð sem einkennir auðnir. Í frumjörð er lítið af lífrænum efnum og oftast lítið af leirsteindum. Frumjörðin er sendin (sandur) eða er melar þar sem er jarðvegslag neðan yfirborðs. Brúnjörð. Brúnjörð (fræðiheiti "Brown Andosol") er jarðvegsgerð sem einkennist af þurrlendi. Í brúnjörð er oft mikið af allófan og járnhýdríti og öskulög geta verið áberandi en þar sem mikið áfok er þá er lítið af leir en mikið af lítið veðruðu gjóskugleri. Mikið magn lífrænna efna getur verið í brúnjörð. Bergjörð. Bergjörð (fræðiheiti "Leptosol") er jarðvegsgerð sem einkennist af þunnum og grýttum jarðvegi í hraunum og skriðum þar sem lítið er um fíngerð jarðvegsefni. Frans páfi. Frans (latína: "Franciscus"), fæddur 17. desember 1936 og skírður Jorge Mario Bergoglio SJ, er páfi rómversk kaþólsku kirkjunnar. Hann var áður biskup í Buenos Aires í Argentínu og er fyrsti páfinn í yfir 1200 ár sem ekki kemur frá Evrópu. Ska. Saga stefnunnar. Upptök tónlistarstefnunnar ska komu frá Jamaíku á 6. áratug síðustu aldar. Sagt er að tónlistarstefnan hafi komið til þegar íbúar Jamaíku hlustuðu á útvörpin sín og heyrðu þar R&B tónlist frá New Orleansog reyndu svo að líkja eftir því sem þeir heyrðu, en bættu líka við hljóðum. Stefnan var fyrirrennari Reggí tónlistar og Rocksteady. Ska sameinast af ýmsum hljóðum og sameinar nokkra mismunandi stíla, svo sem Amerískan Jazz, Calypso og svo má vel heyra karabísk áhrif. Á 7.áratugnum var ska einstaklega vinsælt í Jamaíku sem og hjá breskum ungmennum. Tónlistarmenn hins nýja ska einbeittu sér að því að uppgötva nýjan ryþma í stað þess að herma algjörlega eftir þeim R&B hljóðum og takti sem þeir heyrðu. Þeir fundu upp sérkennandi ryþma sem þróaðist svo í reggí tónlist sem tröllreið heiminum öllum og er ennþá gríðarlega vinsæl tónlistarstefna í dag. Ska náði miklum vinsældum í Bretlandi og tóku ungmenni þar í landi upp á því að spila ska með því að blanda við það pönki. Ska tónlistarstefnunni hefur oft verið skipt niður í 3 hluta: Fyrsta bylgjan; Uppruni ska í Jamaíku (7. áratugurinn, kallað „Traditional“). „Traditional“, sem mætti þýða sem upprunalegt, kom fyrst fram á sjónarsviðið á seinnihluta 6. áratugarins sem danstónlist frá Jamaíku sem varð fljótt vinsæl. Önnur bylgjan; hin enska 2 Tone stefna sem myndaðist í Englandi, var endurlífgun ska (8. áratugurinn). Sú stefna er kölluð 2-Tone vegna þess að á þeim áratugi komu saman bæði hvítir menn og svartir og mynduðu hljómsveitir og spiluðu saman. Þriðja bylgjan, ska hreyfing 9.áratugarins. Þriðja bylgjan markar þau tímamót er ska náði vinsældum í Bandaríkjunum á seinni hluta 9. áratugarins. Þá blandaðist smá af pönki við ska. Uppruni orðsins. Margir hafa lengi vel velt því fyrir sér hvaðan nafn tónlistarstefnunnar kemur, en Ernest Rangling taldi að orðið hljómaði eins og þegar slegið er á gítarstreng. Aðrar og ekki síðri kenningar hafa einnig litið dagsins ljós. Til dæmis þegar Cluett Johnson sagði í stúdíó tíma árið 1959 við gítarleikarann Ranglin að hann „ætti að spila líkt og ska, ska, ska.“ Tónlistarmaðurinn Derrick Morgan sagði að með gítar og píanói mætti gera hljóð sem hljómar eins og ska. Allt eru þetta kenningar sem gætu verið réttar en sennilega er aldrei hægt að sýna fram á hver þeirra sé réttust. Uppruni stefnunnar. Líkt og með uppruna orðsins ska, er deilt um uppruna stefnunnar sjálfrar. Ein kenninganna er sú að Prince Buster hafi búið ska til þegar hann var að taka upp plötu fyrir fyrirtækið Wild Bells. Duke Reid var maðurinn sem fjármagnaði upptökurnar en hann átti svo að fá helminginn af lögunum til að gefa út. Í lögum Prince Buster var gítarinn nýttur til áherslu á öðrum og fjórða takti í línunni en þannig var þessum nýja og spennandi takti lyft upp. Trommurnar voru eins og hinar hefðbundnu trommur frá Jamaíku. Fyrstu upptökur. Fyrstu upptökur ska tónlistarinnar voru gerðar hjá Studio One og WIRL Records í Kingston í Jamaíku. Þar voru helstu framleiðendurnir Dodd, Prince Buster og Edward Seaga. Það mátti greinilega heyra gleði landsmanna í tónlistinni sem þeir sköpuðu en árið 1962 hlaut Jamaíka sjálfstæði. Á þeim tíma voru gefin út lög á borð við Forward March eftir Derrick Morgan og Freedom Sound eftir hljómsveitina The Skatalites. Margar hljómsveitir áttu það til að taka fjöldan allan af lögum frá Bandaríkjunum og Bretlandi og setja þau í nýjan búning,eins konar ska búning. Þar má nefna lög eftir Bítlana, hljómsveit Bobs Marley, The Wailers og ýmsa sálartónlist frá Motown. Höfundaréttur var ekki vandamál þar sem Jamaíka staðfesti aldrei skilmála Berne Convention for the Protection of Literary and Artistic Works, en það er alþjóðleg samband sem stýra til dæmis virðingu höfundaréttar. Hljóðið. Ska tónlist var gerð til að dansa. Tónlistin er með áhersluléttum takti, hröð og spennandi. Það má þekkja ska taktinn með trommuslætti á 2. og 4. takti (fjórir fjórðu taktur) og með gítar á 2, 3, og 4. takti. Upprunalegar ska hljómsveitir innihalda bassa, trommur, gítara, hljómborð og blásturshljóðfæri, þá algengust saxafónn, básúna og trompet. Ska Explotion. Þann 23. mars árið 1989 var haldin ein stærsta Ska hátíð allra tíma í London, en þar spilaði aðal Ska hljómsveit þessa tíma Astoria. Hátíðin var til þess eins að fagna arfsgjöf Ska tónlistar í Bretlandi síðustu tvo áratugi. Á hátíðinni komu fram aðal sveitir 9. áratugarins sem spiluðu nútíma ska en vissulega voru líka nokkrir gamalreyndir skatónlistarmenn sem voru vel kunnugir tónlistarstefnunni. Kynnir hátíðarinnar var Judge Dread en hann spilaði einnig. Samkvæmt áhorfendum hátíðarinnar var andrúmslofið rafmagnað og stemningin varð betri og betri með hverri hljómsveitinni sem spilaði. Nokkrar af þeim hljómsveitum sem komu fram voru The Skadows með lögin Stir It Up og Low Rider, The Hot Knives með lögin Crying og Don't Go Away og svo Judge Dread með lögin Big Six, Undertaker og Skankenstein. Einnig má nefna hljómsveitirnar Laurel Aitken, Potato 5, The Deltones og The Trojans. Tónlistarmenn og hljómsveitir. Hér er má sjá lítið brot af öllum þeim tónlistarmönnum og hljómsveitum sem gerðu ska tónlist Bas van Fraassen. Bastiaan Cornelis van Fraassen (fæddur 5. apríl 1941 í Goes Hollandi) er prófessor við San Francisco-háskóla þar sem hann kennir áfanga í vísindaheimspeki, rökgreiningarheimspeki og í notkun módela í vísindalegri nálgun. Hann hefur áður kennt við meðal annars Yale og Princeton-háskóla. Bas van Frassen er upphafsmaður hugtaksins „uppbyggileg raunhyggja“ sem hann kynnti í bók sinni frá 1980 "The Scientific Image," þar sem hann færir rök fyrir efasemdahyggju gagnvart raunveruleika eininga sem ekki er hægt að sjá. Van Fraassen er með BA-gráðu frá Alberta-háskóla ásamt MA- og doktors gráðum frá Pittsburgh-háskóla. Kóreupopp. Sá kóreupoppari sem náð hefur hvað lengst á heimsmarkaði er Psy með laginu "Gangnam Style" Kóreupopp (e. "K-pop") er tónlistarstefna sem á rætur að rekja til Suður-Kóreu. Helstu einkenni stefnunnar eru gríðarleg fölbreytni, gríðarleg markaðsframleiðsla og fjölmennar hljómsveitir. Kóreupopp er aðeins nýlega farið að færa út kvíarnar í öðrum heimshlutum. Eitt frægasta lag sem flokkast undir kóreupopp er "Gangnam Style" eftir Psy. Einkenni. Kóreupopp er í sjálfu sér alveg einstök tónlistarstefna. Tónlistin er samanbland af raftónlist, diskó, rokki og rappi. Innan stefnunnar má finna allt frá rokki yfir í rafdanstónlist yfir í ballöður. Þetta gerir Kóreupopp að einni fjölbreyttustu stefnu sem finnst í heiminum í dag. Margir af listamönnunum sem við sjáum í dag eru uppgötvaðir og þróaðir af stórum plötufyrirtækjum til þess að heilla áhorfendur. Einkenni þessara hljómsveita eru samhæfðir dansar (e. tutting) þar sem allir aðilar hópsins skiptast á að syngja. Einnig er að finna staka einsöngvara á borð við BoA sem reiða sig frekar á röddina. Þessir tónlistarmenn eru algengari í ballöðum. Eitt einkenni eiga þó flest lög stefnunnar sameiginlegt, og það er að þau þykja oft hröð og orkumikil miðað við aðrar stefnur. Skemmtilegt sérkenni í kóreupoppi er hvernig þeim tekst að blanda saman kóresku og ensku til þess að ná fram eins grípandi lögum og mögulegt er. Oft eru viðlögin með enskum slettum en erindin sjálf á kóresku. Hljóðfæri. Þegar kóreupoppið var að byrja voru hljóðfærin í því ekki mjög frábrugðin þeim sem notuð voru í vestrænni tónlist. Það sem var helst að finna í tónlistinni frá 6. og allt að 10. áratuginum var rafmagnsgítar með píanói í bakgrunninum. Oft var minna um trommur að vera í klassísku lögunum en tíðkaðist í Evrópu. Annað hljóðfæri sem hefur alltaf verið gríðarlega vinsælt í kóreupoppi er fiðlan, en hún er oft notuð í viðlaginu í takt við rödd söngvarans. Síðan um miðjan 10. áratuginn hefur það orðið sífellt algengara að notast við hljóðgervla við tónsmíð. Þetta hefur sífellt verið að aukast og er staðan í dag að lítið er notast við alvöru hljóðfæri til þess að semja tónlistina. Saga. Kóreupoppið á sér tiltölulega stutta sögu. Kórea var lengi hluti af keisaradæmi Japans og var flestöll listræn tjáning í Kóreu ekki leyfð þar til um 1940. Þegar þetta breyttist var fyrsta tónlistin sem Kóreubúar heyrðu hin bandaríska rokktónlist. Það var margt sem gerði það að verkum að kóreubúar tóku bandarísku tónlistina svona til sín. Í fyrsta lagi var alþýðan mjög þakklát hermönnunum fyrir að losa sig undan Japönum, og gerðu sitt besta til þess að gera þeim til geðs. En það mikilvægasta var að fyrsta útvarpsstöðin til þess að útvarpa tónlist til almennings var bandarísk. Þessi stöð sendi ekki einungis frá sér dægurlagatónlistina frá heimalandinu sínu, heldur hvöttu þeir líka innfædda til þess að spila eigin útfærslur á tónlistinni á stöðinni. Þetta var byrjunin á kóreupoppi. Næstu áratugirnir skiptu Kóreupoppið gríðarlega miklu máli. Landið hafði byrjað að þróast og tónlistin breyttist með því. Það er svo á 5. og 6. áratuginum sem að rokkhljómsveitir á borð við Bítlana komu af stað byltingu í K-poppi. Tónlistin tók á sig mun uppreisnargjarnari mynd og varð dægurtónlistin á þessum tíma mjög lík bandaríska rokkinu. Tónlistin fjallar aðallega um hvernig Kóreubúar geti unnið saman til þess að byggja landið upp. Þetta breytist árið 1960 þegar að herstjórn undir leiðsögn Park Chung Hee tekur völdin í landinu. Með þessu er öllum áhrifum frá öðrum löndum hætt og landinu lokað af. Við þetta breytist kóreupoppið alveg gríðarlega. Tónlistin verður hægari og mýkri, og fer að líkjast ballöðum frekar en rokki. Aðalmálið var þá frekar að söngvarinn væri hæfileikaríkur, frekar en hljóðfæraleikararnir. Þessi stíll af tónlist er enn með þeim vinsælustu í dag. Annað sem breytist með komu einræðisherrans var sú staðreynd að Bandaríkjamenn studdu við ríkisstjórnina. Þetta gerði það að verkum að Ameríkanar voru ekki lengur séðir sem vinir, og fóru því tónlistarmenn að leyta sér að öðrum áhrifum. Þetta fundu þeir í japanskri tónlist. Japanska tónlistin var einstök að því leyti að hún gat höfðað til fleiri þjóða en bara Japana. Hún innihélt mörg af þeim einkennum sem við sjáum í Kóreupoppi í dag. Frá þessu hefur Kóreupoppið haldið áfram að þróast og breytast, þar til það verður að fyrirbærinu sem við þekkjum sem K-pop í dag. BoA. BoA varð fyrst kóreupoppara til að komast inn á japansmarkað. BoA eða Kwon Bo-Ah, er einn þekktasti tónlistarmaður stefnunnar í dag. Hún hóf feril sinn árið 2000 eftir að SM Entertainment uppgötvaði hana. Það sem gerir BoA svona einstaka er að hún er fyrsta stjarnan sem risafyrirtæki tók að sér og gerði fræga víðsvegar um heiminn. Segja mætti að BoA sé ástæðan fyrir því að kóreupopp sé þekkt út fyrir Suður Kóreu. Þessi söngkona gerði garðinn frægann með albúminu sínu "Don’t Start Now", en þar syngur hún bæði á japönsku og kóresku. Með þessu tókst henni að komast á topp vinsældalistans í báðum löndum samtímis, og setti jafnframt sölumet í Kóreu. Kim Gwang-Seok. Kim Gwang-Seok er einn af þeim tónlistarmönnum sem höfðu hvað mest áhrif á samfélagið á sínum tíma. Hann hóf tónlistarferil sinn árið 1988, en fyrir það hafði hann eytt mörgum árum í hópnum "People Who Seek Music", þar sem hann dreifði ólöglegum kasettum meðal stjórnarandstöðunnar. Sem tónlistarmaður var hann aðallega þekktur fyrir hæfileika sína á gítar og rödd sína, en honum hefur stundum verið líkt við Bob Dylan kóreupoppsins. Kim Gwang framdi sjálfsvíg árið 1996 og lokaði þar með þeirri gullöld kóreupoppsins sem hann hafði skapað. Kim-Ming Gi. Þekktur sem einn af helstu fólktónlistarmönnum Suður-Kóreu, Kim-Ming Gi hóf feril sinn í háskóla árið 1969. Stuttu eftir það gaf hann út plötu sem var ætluð til mótmæla gegn harðstjórninni. Þessi plata var umsvifalaust bönnuð og stuttu seinna var Kim-Ming bannað að koma fram á opinberum stöðum, í sjónvarpi eða í útvarpi. Með þessu ætlaði stjórnin sér að bæla niður uppreisnarandann sem var að finna lögum söngvarans. Þrátt fyrir tilraunir til þess að eyða plötunni var henni dreift á meðal demókrata í Suður-Kóreu og varð eitt af lögum plötunnar "Morning Dew" að einkennislagi stjórnarandstöðumanna þegar barist var á móti einræðisherranum. Þetta festi Kim-Ming Gi í sessi sem einn helsta tónlistarmann 9. áratugarins. Halldór Ásgeirsson. Halldór Ásgeirsson (fæddur í Reykjavík árið 1956) er íslenskur myndlistarmaður. Hann stundaði nám við háskólann í París á 8. áratug og 9. áratug 20. aldar. Frá upphafi hefur hann unnið með fjögur aðalefni sem eru jörð, vatn, loft og eldur. Verkin hans felast í kvikmyndum, ljóðum, veggmyndum, sýningum og uppsettum hlutum, bæði innandyra og utandyra. Halldór hefur haldið sýningar víða um heim og búið í Japan hluta af ári. Þema verka hans eru oft byggðar á náttúrulegum eiginleikum landsins eins og eldgos. Til dæmis árið 1992 fór Halldór að logsjóða hraungrjót og bjó til glös úr þeim. Eftir að hafa unnið með glös úr hrauni fór Halldór að vinna með tónlistarmönnum eins og CAPUT Ensemble hljómsveitinni. Halldór Ásgeirsson hefur verið með gjörninga. Til dæmis var hann með gjörning þar sem hann bræddi fimm hraunsteina ofan í jörðu. Þessir steinar komu fimm mismunandi löndum; Frakklandi, Ítalíu, Japan, Kína og Íslandi. Í garðinum þar sem Halldór Ásgeirsson var með gjörninginn hafði hann málað graffítiljóð með stafrófum þjóðanna sem steinarnir koma frá. Meiningin á bak við gjörninginn er sú að maðurinn og hans eðli er sprottin upp úr sömu rót eins og kvika úr iðrum jarðar. Jerusalem (hljómsveit). Jerusalem er sænsk kristileg rokkhljómsveit stofnuð 1975 og spilar enn þann dag í dag en þó í mun minni mæli. Meðlimirnir í Jerusalem voru mjög gagnrýndir fyrir að stofna þessa hljómsveit og töldu flestir að þetta væri ekki eitthvað sem ætti ekki heima í kirkjum. Sítt hár og reyksprengjur voru einfaldlega of mikið fyrir kristna fólkið í Svíþjóð. Þótt þeir boðuðu boðskap Jesú með tónlist sagði fólk að það væri djöflalegt að spila rokk. Meðlimirnir í Jerusalem trúðu á þá aðferð að kristið rokk væri leiðin til þess að ná til unga fólksins. Þó fyrsta plata Jerusalem hafi selst í tuttugu þúsund eintökum á sex mánuðum náðu þeir ekki miklum vinsældum fyrr en þeir gáfu út þriðju plötuna sína "The Warrior" sem náði miklum vinsældum í Svíþjóð, Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Eftir útgáfuna á þeirri plötu fóru þeir í tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada þar sem þeir slógu í gegn. Alive Festival. Alive Festival er kristin tónlistarhátíð sem spilar bara kristna tónlist eins og kristilegt rokk. Hátíðin hefur verið haldin frá 1988 og er haldin seint í júní. Hún er staðsett í Atwoot Lake Park í Mineral-borg í Ohio fylki. Creation Festival. Creation Festival er kristin tónlistarhátíð sem er ein af þeim elstu sem til eru. Hún hefur verið haldin frá árinu 1979 og hefur hýst marga af þekktustu kristnu rokkhljómsveitunum. Fyrsta árið var hátíðin haldin í Lancester í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum en þá kom Billy Graham sem er einn að meðlimum The Crusaders sem voru frumkvöðlar í kristilegu rokki. Sjálfstæði Skotlands. Sjálfstæði Skotlands er ósk nokkurra stjórnmálaflokka, samtaka og einstaklinga eftir því að Skotland verði sjálfstætt land að nýju. Staðan í dag er sú að Skotland er land innan hins sameinaða konungsríkis Bretlands, ásamt Englandi, Wales og Norður-Írlandi. Skotland hlaut núverandi stöðu sína við sambandslögin 1707. Skotland hefur sjálfsstjórnarrétt á ákveðnum löggjafarsviðum, til dæmis menntun, heilbrigði og sköttum. Skoska þingið var stofnað árið 1999 þegar að fyrstu kosningarnar voru haldnar. Áætlað er til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands verði haldin árið 2014. Larry Norman. Larry Norman (8. apríl 1947 – 24. febrúar 2008) var einn af fyrstu kristilegu rokktónlistarmönnunum. Hann er líka oft kallaður faðir kristilegrar rokktónlistar en nú á hans seinni árum afi hennar. Norman sagði að þegar hann var lítill hefði pabbi hanns bannað honum að hlusta á útvarpið og sagt að sonur sinn skyldi sko ekki verða neinn Elvis Presley. „Ég þoli ekki rokktónlist, hún fjallar bara um einn hlut!“. „Um hvað fjallar hún pabbi?“ spurði strákur. „Uhh...rómatík“. Hann mótmælti skoðun íhaldssamra kristilegra einstaklinga er hann gaf út plötuna "Upon This Rock". Lag hans „Why Should the Devil Have All the Good Music“ lýsir vel skoðun hans á tónlistinni Tyggigúmmítónlist. Tyggigúmmí er stefna sem var sem mest áberandi seint á sjöunda áratugnum og aðeins fram á áttunda áratuginn. Hún er undirstefna popptónlistar og hefur stundum verið kölluð tyggigúmmí rokk eða tyggigúmmí popp. Hún lifði mjög stutt en margar af þeim hljómsveitum sem voru kenndar við þessa stefnu þekkjast enn í dag. Auk þess er ekki heldur hægt að segja að hún hafi haft nein gríðarleg áhrif. Þessi stefna var undir áhrifum frá bæði rokki og poppi. Það voru aðallega framleiðendur sem drifu þessa stefnu áfram og oft voru fengnir óþekktir tónlistarmenn. Einar af þekktustu hljómsveitum stefnunnar voru The Archies, Ohio Express og 1910 Fruitgum Company. Tyggigúmmí hljómsveitir voru yfirleitt lítt þekktir tónlistarmenn sem voru fengnir til þess að spila og syngja, einhverjir aðrir, sem yfirleitt voru þá þekktari, voru síðan fengnir til þess að vera andlit hljómsveitarinnar. Einnig var mjög vinsælt að búa til teiknimyndapersónur. Orðsifjafræði. Hugtakið "tyggigúmmítónlist" var sett fram af Kasenetz-Katz. Þeir sögðu í viðtali að hugmyndin hefði komið fram í gamni. Þeir töluðu um ákveðna tónlist sem tyggigúmmítónlist, bara vegna einkennis og eðlis hennar. Þeim fannst það mjög viðeigandi þar sem þetta var tónlist sem höfðaði helst til krakka, tyggigúmmí hefur alltaf verið ákaflega vinsælt meðal krakkar og unglinga, þannig þetta hljómaði skemmtilega og eins og þetta myndi höfða til og grípa athygli krakka. Þegar þeir ákváðu að setja þetta fram sem hugtak langaði þeim að koma með eitthvað nýtt, eitthvað sem enginn annar var að gera. Neil Bogart, sem markaðssetti hugtakið fyrir þá, var viss um að þetta væri eitthvað sem að hann gæti vakið mikla athygli á. Helstu einkenni stefnunnar. Það sem var einna mest áberandi við þessa stefnu var að tónlistin sem var kennd við hana var í sjálfu sér popptónlist sem var gerð til þess að höfða til krakka og unglinga. Þetta var létt og grípandi popptónlist, sumir segja að hún hafi jafnvel vott af sálartónlist. Hún er með miklum upptakti, textarnir eru einfaldir og frekar grunnir, jafnvel barnalegir, lítið af sólóum og lögin yfirleitt frekar stutt. Henni hefur stundum verið ruglað saman við gleði-popp Það er í raun svipað, nema höfðar frekar til fullorðinna. En gleði-popp er einnig undirstefna popptónlistar en var ríkjandi á undan tyggigúmmí-tónlist. Stefnan var þekktust fyrir grípandi viðlög sem flestir kunnu utan af og endurtekningu á skemmtilegum tónlistarversum og grípandi melódíu. Tónlistin var mikið notuð í auglýsingar, vegna einfaldra texta og grípandi takts. Tilgangur tónlistarinnar var alls ekki að víkka hugann eða gefa fólki nýtt sjónarhorn á lífið, heldur var hún eingöngu til gamans, til þess að gleðja. Tilgangur tónlistarinnar var alls ekki að víkka hugann eða gefa fólki nýtt sjónarhorn á lífið, hún var eingöngu til gamans, til þess að gleðja. Hún var gerð til þess að vera einföld. Lög sem tilheyrðu tyggigúmmí tónlistinni voru yfirleitt ekki þekkt nema ákveðið lengi, og voru þá bara svokallaðir slagarar. Það er að segja hljómsveitir gáfu yfirleitt bara út eitt til þrjú lög og voru síðan horfnar úr sviðsljósinu. Lögin áttu það samt til að lifa mikið lengur, mörg þeirra lifa enn. Tónlistin og einkenni hennar hafa oft verið borin saman við svokallað „Bílskúrs-Pönk“, en tónlistarstíllinn er frekar svipaður, jafnvel þótt að stefnurnar hljómi eins og þær séu mjög langt frá hvor annarri. Textarnir fjölluðu eiginlega alltaf bara um það að vera glaður og hvernig maður ætti að gera það. Oft komu sætindi við sögu, en enn þá oftar var það ástin sem átti að gleðja mann. Tyggigúmmí tónlist er í raun mjög rómantísk þrátt fyrir það hvað hún er hressileg. Mikið vísað í sólskin, ástina á náunganum, skæra liti, sykur, sætingi og fleira. Upphaf og saga stefnunnar. Marka má upphaf stefnunnar til þess þegar The Lemon Pipers gáfu út lagi sitt „Green Tambourine“. Það var gefið út árið 1968 en þá var stefnan samt búin að vera í uppsiglingu í um það bil ár. The Lemon Pipers voru stofnaðir á rústum hljómsveitarinnar Tony And The Bandits. Fólk er þó ekki alveg sammála um það að Lemon Pipers hafi markað upphaf tyggigúmmístefnunnar, sumum þykir jafnvel að hljómsveitin tilheyri ekki einu sinni stefnunni. Mörgum finnst það hafa verið Ohio Express með slagarann „Yummi yummi yummi“ eða þá The Archies með sykursæta lagið sitt, „Sugar, sugar“. Það er varla hægt að komast að endanlegri niðurstöðu í þessu máli. Það er þó hægt að segja með sanni að „Green Tambourine“ var með fyrstu tyggigúmmí slögurum sem "Buddah Record" gáfu út, þannig að ákveðnu leyti er hægt að segja að það hafi markað upphaf stefnunnar. Það má segja að stofnun "Buddah Records" eigi heiðurinn að upphafi stefnunnar þótt að útgáfa lags The Lemon Pipers hafi markað það. En þeir fóru úr því að gefa út lög um glæði stríð og þunglyndi í það að gefa út tónlist sem átti að gleðja fólk. Þegar þeir fengu þá hugmynd að fara að gefa út þesskonar tónlist byrjuðu þeir samstarf við tvo unga útgefendur en það voru Jerry Kasenetz og Jeff Katz. Jeff Katz var sá sem kom fram með hugtakið tyggigúmmítónlist en það vildi hann kalla þá tónlist sem átti að gleðja fólk og fá það til að brosa. Eftir að þessir tveir drengir, sem byrjuðu að kalla sig Kasenetz-Katz voru ráðnir og byrjaðir að semja kom út slagarinn „A Little Bit Of Soul“ sem er með þekktari lögum stefnunnar. Þeir byrjuðu síðan að ráða inn lítið þekkta tónlistarmenn til þess að spila tónlistina þeirra, og annaðhvort voru það tónlistarmennirnir sem komu fram eða þá að þetta varð að þessum tilbúnu hljómsveitum. Mikið var um andstöðu gegn stríði og styrjöldum á þessum tíma í tónlistarheiminum. Tónlistarmenn víðsvegar um heiminn voru að semja tónlist um ást og frið sem minnti á þjóðlagatónlist, sem dæmi um svoleiðis hljómsveit eru tildæmis Bítlarnir. Má segja að tyggigúmmístefnan hafi orðið til upp úr því en það var ákveðinn partur af tónlistarmönnum sem vildu hætta að hugsa svona mikið um allt sem væri í gangi í heiminum, alla þá ógn sem herjaði og þá ábyrgð sem fólk þurfti að bera. Tyggigúmmí er þess konar tónlist sem var eiginlega samin til þess að minna mann á æskuna, fá mann til þess að muna að njóta lífsins og gleyma í smá stund þeirri ábyrgð sem maður þarf að bera þegar maður fullorðnast. Markhópur stefnunnar voru ungu kynslóðirnar, unglingar og jafnvel krakkar, aðallega þeir sem voru um það vil að skríða inn í unglingsárin. Hún var mjög áberandi alveg frá því um miðjan sjöunda áratuginn og aðeins fram á áttunda áratuginn. Þeir sem má segja að hafi sett enda á stefnuna, þ.e. verið þeir síðustu sem sömdu og sungu tónlist sem var kennd við tyggigúmmístefnuna voru The Bay City Rollers Stærstu hljómsveitir stefnunnar voru án efa Ohio express, The Archies, The Partridge Family og The Monkees. Þessar hljómsveitir eru allar þekktar enn í dag af mjög mörgum. Má segja að sú stærsta hafi verið Ohio Express en það er nánast hægt að kalla þá Bítla tyggigúmmístefnunnar. Hljómsveitin sem markaði upphaf stefnunnar, The Lemon Pipers, voru einnig kenndir við stefnuna og voru ákaflega vinsælir, en þeir tóku þó fyrir það að vera að spila tyggigúmmí-tónlist og aðhyllast stefnuna. Það var mjög algengt að hljómsveitir sem kenndar voru við og aðhylltust tyggigúmmí stefnuna væru tilbúnar. En þá voru oft fengnir til lítið þekktir tónlistarmenn sem sungu og spiluðu, síðan voru aðrir einstaklingar fengnir til þess að vera andlit hljómsveitarinnar. Þeir voru þá í tónlistarmyndböndum og á hljómleikum, að hreyfa varirirnar og spila a hljóðlaus hljóðfæri við tónlist þeirra sem spiluðu og sungu. Dæmi um svoleiðis hljómsveit voru tildæmis The Monkees. Annað sem var gert var að fá tónlistarmenn til þess að spila, síðan voru búnar til teiknimyndapersónur og gerðir allskonar þættir við tónlistina. Dæmi um þannig hljómsveit voru The Archies. Tónlistin var einnig mikið notuð í skemmtiefni fyrir börn, dæmi um það eru tildæmis The Banana Splits. Eins og fram hefur komið þá lifði stefnan mjög stutt, eða rúmlega fimm ár eða svo. Aðdáendur stefnunnar og þeirrar tónlistar sem kennd var við hana hættu því eftir því sem þeir þroskuðust og urðu eldri. Hinsvegar lifði sú tónlist sem varð til þegar hún var í blóma frekar langlíf, en þeir tónlistarmenn sem höfðu verið hvað mest áberandi í stefnunni héldu samt áfram að semja og spila tónlist sem hafði mörg einkenni sem tyggigúmmí stefnan hafði haft, þ.e. svona glaðlega, grípandi og einfalda tónlist, hún var bara þroskaðri og fór að höfða meira til fullorðinna. Erlingur Jón Valgarðsson. Erlingur Jón Valgarðsson (fæddur 1961) er íslenskur mynlistarmaður ásamt því að vera einnig rithöfundur, ljóðskáld og hönnuður. Hann fæddist á Akureyri árið 1961 og sótti námskeið hjá Myndmenntaskólanum á Akureyri árið 1980. Eftir það hélt hann til náms í Svíþjóð þar sem hann stundaði nám í málun hjá listamanninum Rafael Lopes í Falun, Svíðþjóð árið 1988. Á árunum 1989 – 1990 stundaði hann einnig listnám við Haraldsboskolan í Falun. Erlingur hefur verið meðlimur í Gilfélaginu og SÍM (Sambandi íslenskra myndlistamanna) Sýningar. Erlingur Jón hefur haldið Þó nokkrar einkasýningar sem flestar hafa verið sýndar á Akureyri á árunum 1995 – 2006, nokkrar sýningar hafa þó verið sýndar í Reykjavík. Meðal helstu einkasýninga hans má nefna: „Ný málverk“ sem sýnd var á Café Karólínu á Akureyri árið 2004, og sýningin „Helgur staður“ sem sýnd var í Gallerí Fold árið 1999. Einnig hefur hann verið með sýningar í Háskólanum á Akureyri, Gallerí List í Reykjavík, og Deiglunni, Akureyri ásamt því að hafa verið valinn Listamaður nóvembermánaðar í Gallerí List árið 1998. Um sýninguna „Helgur staður“ sagði Elli; „Jörðin er helg. Ekki aðeins er hún heimili okkar heldur einnig uppspretta alls lífs. Þess vegna er mér eiginlegt að mála náttúruna og þannig votta henni virðingu mína. Í málverkunum skapa ég mér litla helgireiti, griðastaði sem ég get leitað til, látið hugann reika og vonandi leyft öðrum að njóta.“ Helstu samsýningar Ella hafa meðal annars verið sýningin „Tvísýni“ sem sýnd var árið 1998 í Deiglunni á Akureyri og sýningin „Samhengi“ sem var samsýning í Ketilhúsinu með Aðalsteini S. Sigfússyni árið 2001. "Öll hugsum við og öll fáum við hugmyndir. Margar þessara hugsana eru ekki opinberaðar og fyrir því geta verið margar ástæður. Á bak við sumar hugsanir geta verið langanir til að gera eitthvað sem ekki er samþykkt af samfélaginu. Margar af þessum hugsunum vill fólk ekki endilega hugsa en samt brjótast þær fram. Þetta geta verið hugsanir sem eru beinlínis hættulegar fyrir þann sem hugsar þær og jafnvel aðra ef þær yrðu framkvæmdar á einhvern hátt. Sumar gætu valdið hneykslan og aðrar jafnvel enn verri viðbrögðum. Í þessari vinnu hef ég fengið ónafngreint fólk til þess að opinbera þessar fyrirfram skilgreindu hugsanir sínar fyrir mér. Á sýningunni eru einblöðungar þar sem fólk sem á sýninguna kemur getur tekið þátt í áframhaldandi mótun verksins með því að skrásetja hugsanir sínar og setja þær í til þess gerðan kassa." Spámannskrabbi. Spámannskrabbi (fræðiheiti: "Cancer borealis") svipar mjög til grjótkrabbans sem er reyndar mjög náin ættingi spámannskrabbans. Grjótkrabbinn er einmitt krabbinn sem menn hafa verið að finna í Hvalfirði upp á síðkastið. Talið er að grjótkrabbinn hafi borist hingað til lands með kjölfestuvatni frá skipum sem hafa komið frá Ameríku. Spámannskrabbinn lifir við strendur í Norður-Atlandshafi, hann er að finna frá Maineflóa í Bandaríkjunum, Karíbahafinu, alveg upp til Nova Scotia í Kanada. Einnig hefur hann fundist við strendur Grænlands. Útlitslýsing. Skel spámannskrabba er rauðbrún á lit með mjög harða ytri stoðgrind. Krabbinn hefur yfir að ráða mjög sterkum klóm. Sá hluti skeljarinnar sem snýr upp er egglaga með útstæða gadda á hvorri hlið. Líkt og aðrir krabbar hefur spámannskrabbinn fimm lappir hvoru megin á búknum ásamt tveimur klóm. Karldýrin geta orðið allt að 18 cm í þvermál (aðeins þvermál skeljarinnar) og geta vegið allt að 0,9 kg. Kvendýrin verða þó ekki alveg svo stór. Mesta þvermálslengd þeirra eru um 15 cm og þær geta vegið allt að 0,5 kg. Stærð og staðsetning skiptir miklu máli um það hvenær krabbinn verður kynþroska. Sumstaðar verða karldýrin kynþroska þegar að þeir hafa náð því að verða 9-10 cm í þvermál og kvendýrin 8,5 cm. Á öðrum stöðum verða karldýrin ekki kynþroska fyrr en þeir hafa náð um 13 cm í þvermál og kvendýrin 9 cm. Lífsferill og Lifnaðarhættir. Spámannskrabbinn lifir því aðeins á sendum eða grýttum botnum. Á sendum botnum grefur hann sig oft niður í sandinn þannig að það eitt sem sést eru augun á honum. Á grýttum botnum fela þeir sig oft á milli steina sem þeir hafa lyft upp með kröftugum klóm sínum svo þeir geti falið sig. Það litla sem vitað er um lífsferil spámannskrabba er það að hann lifir yfirleitt á miklu dýpi eða um það bil 600 metrum þar sem hiti sjávar er á bilinu 8°C til 14°C. Á sumrin færa þeir sig út á dýpri svæði en á veturna koma þeir nær ströndinni. Karldýrin og kvendýrin lifa í sitthvoru lagi allt þar til að mökunartímabilið hefst en þá makast dýrin og kvendýrið geymir sæðisforðann þar til að hún telur tímann vera réttan til þess að hrygna. Þá geymir hún frjóvguð eggin vikum saman á kvið sínum (allt að sex mánuði), þar til þau klekjast út. Talið er að hrygningartíminn sé síðla vetur eða snemma á vorin og að kvendýrið hrygni allt að fimm sinnum á lífsferlinu. Þegar ungviðið hefur klakist úr eggjunum líkist það einna helst rækju frekar en krabba. Þó svo að spámannskrabbinn hafi stórar og miklar klær er hann ekki árásagjarn nema að honum sé ógnað. Megin uppstaðan í fæðu krabbanns er kræklingur, sniglar, hrúðurkarlar og aðrir hryggleysingjar en þetta eru yfirleitt dýr með veika skel sem auðvelt er að brjóta með öflugum klóm. Krabbinn er einnig tækifærissinni og leggur sér til munns hræ af öðrum dýrum sem hafa verið skilin eftir af öðrum rándýrum. Spámannskrabbinn eins og aðrir krabbar nota hundruð lítilla hára sem eru á fótum þeirra til þess að finna mat. Á flestum kröbbum er mjög erfitt að sjá þessi hár en þau eru vel sjáanleg á spámannskrabbanum. Veiðar og markaður. Spámannskrabbinn er aðallega veiddur vegna kjötsins sem er að finna í stórum klóm hans. Krabbinn hefur veiðst allt frá árinu 1974 en aðeins ein þjóð hefur staðið að baki veiðanna. Til að byrja með var krabbinn aðeins meðafli í humarveiðum en á síðustu árum hafa menn farið að reyna að veiða krabbann í auknum mæli en áður fyrr. Krabbinn er veiddur í gildrur og potta sem innhalda beitu sem lokka krabbann að þeim. Veiðarnar beinast aðallega að stærri kröbbum og því sækjast veiðimenn aðallega í karldýrin og þar sem lítið sem ekkert er vitað um stofnstærð spámannskrabba eru karldýrin viðkvæm fyrir of mikilli veiði. Spámannskrabbi er einungis veiddur frá júní til nóvember, sá tími sem humarinn er ekki veiddur á. Krabbinn er yfirleitt seldur lifandi en vegna aukins ótta á ofveiði hafa menn brugðið á það ráð að slíta aðra klóna af krabbanum og sleppa honum svo aftur í hafið, klóin vex svo tiltölulega hratt aftur á hann. Heimsafli spámannskrabba frá árinu 1974-2010 samkvæmt FAO Verð á spámannskrabba hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum. Það er þó allt háð því hvernig krabbinn er seldur, því klærnar eru yfirleitt seldar sér og skelin sér. Samkvæmt nýjustu tölum eru spámannskrabbaklær að seljast á um 2500 kr. en skelin og það litla kjöt sem í henni er að seljast á 823 kr. sé miðað við gengi dagsins í dag (2013). Þetta þykir þó ekki mikill peningur fyrir krabbakjöt þar sem að lappir Alaska King Crab eru að seljast á um 7600 kr. sem er þrefalt meira en klærnar á spámannskrabba eru að seljast á til neytenda í dag hjá þessum ákveðna fisksala. Fróðleikur. Spámannskrabbinn þykir mjög hentugur til rannsókna í taugavísindum vegna stórra magatauga hans sem gerir hann að hentugu tilraunadýri fyrir rannsóknir með taugaboð og hvernig taugar stjórna líkamshreyfingum. Hildur Yeoman. Hildur Björk Yeoman (fædd 6. desember 1983) er íslenskur myndlistamaður og fatahönnuður. Hún er fædd og starfandi í Reykjavík. Hún lærði í Listaskóla Íslands á árunum 2003 til 2006 og tók ár úti í listaskóla Berlínar árið 2005. Hildur var starfsnemi í fatahönnun hjá Jonathan Saunder í London í sex mánuði og tvo mánuði hjá Yazbukey í París. Hildur byrjaði að kenna við Listaháskóla Íslands 2008, þar sem hún starfar nú. Vinna. Hildur notast við ýmsar leiðir til að skapa verk og tvinnar hún mismunandi vinnuaðferðir saman, allt frá vatnslitum í að sauma í myndir. Teikningar þó númer eitt, tvö og þrjú hjá Hildi og kemur það að í öllum hennar verkum, mynd- eða hönnunarverk. Hönnunaraðferð Hildar er ekki alltaf hin sama, en hún hannar fyrir Thelma design, Lascivious og Nikita, og breytast því aðferðir hennar eftir því. Þar má segja að Thelma design notist við innblástur frá Marilyn Monroe og Carla Bruni en Nikita er meira teknó. Lily Potter og James Potter. Lily Potter og James Potter voru foreldrar Harrys Potter og gengu þau bæði í Hogwarts. Lily var af Muggaættum en James var af galdraættum. Fawkes. Fawkes er Fönix skólameistara Hogwarts, Albus Dumbledore sem kemur fyrir í sögunum um Harry Potter. Eyjabakkar. Eyjabakkar eru gróið votlendissvæði á flata upp af Fljótsdal og framan við jökulsporð Eyjabakkajökuls í um 640 metra hæð yfir sjávarmáli. Jökulsá á Fljótsdal kvíslast um svæðið og fellur svo um Eyjabakkafoss niður í Fljótsdal. Á Eyjabökkum er stórt varpland heiðagæsa og þar er samfelld gróðurheild sjaldgæft er í svo mikilli hæð yfir sjávarmáli. Undir lok 20. aldar stóð til að virkja Jökulsá á Fljótsdal í svonefndri Fljótsdalsvirkjun með stíflu við Eyjabakkafoss sem hefði sökkt Eyjabökkum undir uppistöðulón. Markmið þeirrar framkvæmdar hefði verið að sjá álveri sem þó stóð til að reisa á vegum Norsk Hydro við Reyðarfjörð fyrir raforku. Framkvæmdin varð mjög umdeild vegna væntanlegra umhverfisáhrifa hennar og ýmis samtök náttúruverndarsinna lýstu yfir harðri andstöðu við virkjunina. Þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, neitaði þó að stöðva framkvæmdina og lýsti því yfir að hún væri ekki „bergnumin yfir Eyjabökkum“. Þó að öll tilskilin leyfi hafi legið fyrir varð þó ekkert af byggingu Fljótsdalsvirkjunar þar sem hún var ekki nægjanlega stór til að standa undir orkuþörf vegna álversins eftir að ákveðið var að stefna að stærri verksmiðju. Í staðinn var ráðist í gerð Kárahnjúkavirkjunar sem meðal annars felur í sér stíflu í Jökulsá í Fljótsdal fyrir neðan Eyjabakkafoss og 1 km2 lón sem gengur þó ekki inn á hina eiginlegu Eyjabakka. Draco Malfoy. Draco Malfoy er persóna í bókunum um Harry Potter. Draco var á Slytherin vistinni þegar hann var í Hogwarts var hann versti óvinur Harry Potter. Foreldrar hans voru fylgis menn Voldemort og varð hann það einnig. Hughrifatónlist. Hughrifatónlist eða andrúmstónlist (e. "ambient music") er hljóðfæratónlistarstefna sem einblínir á hljóðmunstur frekar en melódískt form og er notuð til að skapa andrúmsloft eða hugarástand. Enska lýsingarorðið "ambient" kemur af franska nafnorðinu "ambiance" sem merkir það sem er allt um kring, það sem umlykur. Alþekkt dæmi um það sem umlykur mann allt um kring er sjálf andrúmsloftið og vegna hæfileika tónlistarinnar til að vera hluti af andrúmslofinu mætti einnig kalla hana andrúmstónlist. Þá ber að greina á milli annars vegar hins hlutlæga andrúmslofts, sem er efnablanda gastegunda í lofthjúpi jarðar og er almennt kallað loft og hins vegar hins huglæga andrúmslofts, sem er andleg upplifun einstaklingsins og umhverfi sínu. Brian Eno var frumkvöðull hughrifastefnunnar á áttunda áratugi síðustu aldar. Á árunum 1978 til 1982 gef hann út fjögurra platna seríu. Þessa seríu er talað um sem ambientseríu Brians Eno þó aðeins tvær þeirra séu að öllu leiti eftir hann sjálfan. Þær eru fyrsta og síðasta plata seríunnar: og. er samstarfsverkefni Enos og tónsmiðsins Harolds Budd og samanstendur af tónverkum eftir Laraaji, spiluðum á það sem þeir kalla á ensku „Hammered Dulcimer“ en það er einhvers konar trapísulaga strengjahljóðfæri. Einkenni. Þegar kemur að flokkun tónlistar eru ekki allir sammála. Hughrifatónlist er gjarnan flokkuð sem nýaldarstefna en hana er einnig hægt að flokka sem raftónlist. Raftónlistarflokkurinn skilgreinist út frá framleiðluferli tónlistarinnar. Raftónlist notast við rafræn hljóðfæri, eins og hljóðgerfla og tónlistarforrit sem hljóðfæri. Það gerir andrúmstónlistin líka að miklu leyti en stefnan takmarkast þó alls ekki við notkun slíkra hljóðfæra, það er reyndar vinsælt að nota órafmögnuð hljóðfæri (e. "acoustic") innan hennar. Sköpun hughrifatónlistar felst samt meira í hljóðvinnslu í hljóðverinu heldur en sköpun margra annarra tónlistarstefna. Hughrifatónlist felst nefnilega frekar í hljómi heldur en í tóni. Þannig er framleiðsluferli hughrifatónlistar rafrænt að miklu leyti en það er þó ekki þar með sagt að stefnan sé rafstefna því að það segir hvergi til um það að hughrifalag megi ekki vera algjörlega órafmagnað. Skilgreiningaratriði nýaldarstefnunnar segja ekkert til um framleiðsluferli tónlistarinnar. Í raun er „nýaldartónlist“ regnhlífarhugtak sem nær yfir margar mismunandi tónlistarstefnur sem eiga fátt annað sameiginlegt en að passa ekki, eða passa illa, í aðra flokka. Nýaldartónlist er samt gegnsætt hugtak, enda nefndist hún eftir því hugarfari að heimurinn væri að þróast og að ný öld væri að renna upp, sem var algengt á áttunda og níunda áratuginum. Auðvitað er framtíðarsýn einstaka nýaldartónlistarmannsins persónubundin en almenna grunnhugmyndin er sú að á nýrri öld tónlistar sé ný tegund hlustunar, öfugt við raftónlistina sem einkennist af nýrri tegund spilunar. Hughrifatónlistin sjálf, sem stefna, hrærist í hugmyndafræði beggja flokka, en flokkarnir skarast greinilega og það væri því óþarfa ofurflokkun að segja stefnan tilheyri öðrum en ekki hinum. Undirstefnur. Hughrifatónlist flokkast í undirstefnur. Undirstefnurnar eru margar og skilgreiningaratriði þeirra mismunandi. Flestar þessara undirstefna einkennast af hugarástandinu sem þær eiga að skapa. Drungatónlist (e. Dark Ambient) fæst við hinn óþæginlega eða „slæma“ hluta tilfinningarófsins, þær geðshræringar sem enskumælandi fólk gæti kallað „dark emotions“. Þaðan er nafnið komið. Hljómlandslag (e. Soundscape) dimmrar hughrifatónlistar er þess vegna drungalegt og jafnvel óþæginlegt. Platan eftir Brian Eno er gott dæmi um þetta fyrirbæri. Hún er dularfull og drungaleg og vekur hjá manni þá óþæginlegu tilfinningu eins og hann sé staddur á framandi stað. Aphex Twin, eða Richard D. James, sem er þekktur fyrir dimma og drungalega tónlist sína, gaf líka út andrúmsplötu árið 1994 titlaða Selected Ambient Works. Seinna bindi þeirrar plötu er líka mjög gott dæmi um drungatónlist. Geimtónlist (e. Space Music) er óræðari og miklu víðtækari en drungatónlistin. Geimtónlist tegir sig út fyrir hughrifastefnuna og nær yfir margar fleiri tegundir nýaldartónlistar. Reyndar mætti kalla hvaða rólegu tónlist sem er geimtónlist ef hún skapar upplifun sem svipar til hugrænnar víðáttu, pláss til að hugsa. Þannig er hún síður undirstefna og frekar samhliða stefna og oft eru þessi hugtök notuð sem samheiti þó þau beri ekki nákvæmlega sama gildið. Náttúrutónlist (e. Nature-Inspired Ambient) skilgreinist út frá innblæstri fengnum frá náttúrunni og einkennist af notkun náttúruhljóða á við fuglasöng eða lækjarnið. Náttúruhljóðin eru þá samt notuð sem tæki í þeim tilgangi að móta hugarástand hlustanda og vekja tilfinningaleg viðbrögð á sama hátt og náttúran gerir. Undir hughrifatónlist heyra líka tveir flokkar sem eru almenningi alls ekki svo ókunnugir, þó fæstir tengi þá við stefnuna í fljótu bragði. Þeir eru kvikmyndatónlist og lyftutónlist. Þær tegundir tónlistarstefnunnar spila meira og öðruvísi út á að vera partur af umhverfinu. Öll hughrifatónlist er hönnuð sem partur af umhverfi hlustanda, en kvikmynda- og lyftutónlist er sérstaklega hönnuð til þess að beinlínis vera hluti umhverfisins. Það segir sig sjálft að kvikmyndatónlist er búin til fyrir kvikmyndir en hlutverk hennar er að skapa ákveðna stemningu og hjálpa áhorfanda að túlka kvikmyndina. Hugtakið nær þó ekki yfir tónlist sem er notuð í kvikmyndir en er ekki sérstaklega samin fyrir þær. Kvikmyndatónlist á mjög mikið sameiginlegt með klassískri tónlist. Mjög mikið af kvikmyndatónlist er samið fyrir sinfóníur eða aðrar klassískar hljómsveitir. Klassíska formið er þó ekki algilt. Eins og í annarri andrúmstónlist er allt leifilegt svo lengi sem höfundur hefur túlkun kvikmyndarinnar fremst í huga og að tónlistin auðgi upplifun áhorfanda. Hljómsveitin The Cinematic Orchestra leikur sér með hugtakið kvikmyndatónlist. Hljómsveitarskipun svipar til sónfónía og sveitin semur „kvikmyndatónlist“ en þó ekki fyrir kvikmyndir. Það er því umdeilanlegt hvort tónlistin þeirra sé kvikmyndatónlist eða síðrokk. Lyftutónlist er meira villandi hugtak en kvikmyndatónlist en nafnið er þaðan komið að algengt er að heyra hana í lyftu (þó benda mætti á að sennilega hafa fleiri heyrt lyfutónlist í kvikmynd en í lyftu). Lyftutónlist er hönnuð fyrir almenningsrými, eins og lyftur og verslunarklasa, og hugsunin á bak við hönnunina er sú að tónlistin skuli ekki trufla neinn né í raun láti mikið á sér bera. Hún á að vera alveg hlutlaus svo engum mislíki hún en hún á líka að vera róandi og vægt uppliftandi, þannig að almennur hlustandi sé frekar í góðu skapi en vondu. Áhrif. Áhrif hughrifastefnunnar á tónlistarheiminn eru mjög víðtæk. Svo áhrifarík er stefnan að það mætti segja að ekki sé til sú tónlistarstefna sem er algjörlega ósnert af ambienti. Öll róleg eða hæg tónlist er á einhvern hátt undir áhrifum andrúmstónlistar, þá helst vegna þess hvað róleg tónlist felur í sér þessa nýju tegund hlustunar. Sem dæmi snýst grunnhugmynd sýrurappsins, að hægja á taktinum, um nýja tegund upplifunar á rappi. Hægi takturinn gefur sýrurappinu ákveðið andrúmsyfirbragð. Sýrurappið er bara ein stefna af fjölmörgum sem komu upp úr raftónlistarbylgju tíunda áratugarins en þær voru langflestar á einn eða annan hátt undir áhrifum andrúmstónlistar. Andrúmstónlistin hafði ekki endilega grundvallaráhrif á allar þær stefnur en áhrifin náðu til einstaka listamanna innan þeirra allra. Áhrifin voru líka mikil í rokkinu. Framsæknir rokkarar voru ófeimnir við að innlima þessa framsókn í sína tónlist. Þess háttar tilraunastarfsemi hjá framsæknum hljómsveitum eins og Bark Psychosis, Slint og Tortoise varð til sköpunar síðrokks en síðrokk er dæmi um tónlistarstefnu sem byggir á mjög sterkum áhrifum hughrifatónlistar. Síðrokk er aðeins rokk í þeim skilningi að hefðbundin rokkhljóðfæri (gítar, bassa, trommur og píanó) eru í fyrirrúmi. Síðrokkið yfirgefur allar fastar reglur rokksins, þar á meðal hefðbundna hlustun, og tileinkar sér ýmis ný gildi sem verða til á nýrri öld tónlistar. Hefðbundið form laga, með versum og viðlögum, er líka skilið eftir. Í staðinn eru lögin oftast löng tónverk sem snúast um uppbyggingu ákveðins tónmunsturs eða melódíu. Þá er munstrið, eða melódían, tekið alveg frá lágpunkti sínum og uppbyggingin leiðir áheyranda í gegnum lagið að hápunkti þess. Notkun umhverfishljóða og hljóðbrota er algeng í síðrokkinu til þess að setja stemninguna, til þess að setja áheyranda í rétt hugarástand. Önnur rokkstefna undir miklum áhrifum ambíents var skóglápið. Skógláparar voru rokkarar sem umluktu áheyrendur með hljómfögrum hávaða. Talað er um að skógláparar hafi skapað hljóðvegg (e. Wall of Sound) en það hugtak spilar með hugmyndina að hægt sé að fylla upp í rými með hljóði. Sú pæling er beint komin úr andrúmstónlistinni þó að þar sé ekki mikið um hávaða. Tijuca-skógurinn. Tijuca-skógurinn (portúgalska: "Florensa da Tijuca") er regnskógur í fjöllum og hæðum í borginni Rio de Janeiro í Brasilíu. Skógurinn er stærsti skógur jarðar sem er innan borgarmarka og hann nær yfir 32 km² svæði. Tvö borgarhverfi við rætur Tijuca skógarins eru kennd við hann, það eru hverfin Tijuca og Barra da Tijuca. Í Tijuca skóginum eru mörg hundruðir tegunda jurta og dýra sem sum hver eru í útrýmingarhættu og finnast aðeins í regnskógum við Atlantshafið. Á þessu svæði var til forna skógur en hann var höggvinn og þarna voru kaffiplantekrur. Skóginum var hins vegar plantað að nýju á seinni hluta 19. aldar til að vernda vatnsból Ríóborgar. Brasilíski keisarinn Dom Pedro II lét 1861 planta bæði innlendum og erlendum trjám í það sem áður var kaffiplantekra. Í Tijuca skóginum er favelan Mata Machado og þeir sem þar búa eru flestir afkomendur þeirra sem fluttust á svæðið um 1930 til að planta skóginum að nýju. Árið 1961 var Tijuca skógurinn gerður að þjóðgarði. Í skóginum er meðal annars risastór Kriststytta efst á Corcovado fjallinu. Í skóginum eru þekktur foss Cascatinha fossinn og Mayrink kapellan með veggmyndum eftir Cândido Portinari og þar er einnig útsýnisstaður í pagóðustíl sem kallast Vista Chinesa og þar er tröllvaxið garðborð úr granít sem kallast Mesa do Imperador og margir tignarlegir fjallstindar eins og Pedra da Gávea. Annatto. Achiote fræhylki sem sýna rauð fræin Annatto, einnig kallað roucou og achiote, er litarefni og bragðefni sem unnið er úr fræjum achiote (fræðiheiti: "bixa orellana") trjáa úr hitabelti eða heittempruðu belti. Úr fræjunum er unnið gult eða appelsínugult litarefni sem bæði er notað til að krydda mat og lita. Fræin ilma eins og pipar og múskat og bragð þeirra er sætt og piparkennt hnetubragð. Litarefnið er notað til að lita ost og feitmeti eins og smjör og smjörlíki. Annatto er einnig notað til að lita hrísgrjón, sinnep, bakstur, krydd, kartöflur, snakk morgunkorn og reyktan fisk. Það getur valdið ofnæmi. Frumbyggjar Ameríku notuðu Annatto til að mála andlit og líkama og sem varalit. Achiote tré var því stundum kallað varalitatré. Nýaldartónlist. Nýaldartónlist er tónlistarstefna sem á rætur að rekja til hugleiðslu og þeirrar hugmyndafræði að allt í heiminum sé tengt á einhvern hátt. Einnig er tónlistarstefnan oft tengd við heimspeki nýaldarstefnunnar (e. New Age spirituality) sem varð til á Vesturlöndum á seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Markmiðið með tónlistinni er að skapa ró og seiðandi andrúmsloft. Hljómsveitir tíðkast ekki í þessum bransa, heldur eru það stakir tónlistarmenn sem gera allt og eru plötur eftir þá oft spilaðar til að róa taugarnar í jóga, nuddi, hugleiðslu og lestri. Einnig trúa sumir að tónlist af þessu tagi sé afar hjálpleg og veiti ekki aðeins listræna fullnægingu, heldur geti einnig hjálpað til við alls kyns lækningar og meðferðir. Þá er einnig mikill fjöldi fólks sem vill aðeins hlusta á nýaldartónlist sér til skemmtunar og yndisauka og til að slaka á heima við. Lög sem samin eru undir áhrifum stefnunnar eru oft tileinkuð náttúrunni og eiga að tákna einhvers konar svaðilfarir um náttúruna. Ekki er óalgengt að plötutitlar lýsi einhvers konar ferðum og hugtök eins og Máninn, lífið og andar eru algeng í nöfnum verkanna. Notkun hljóðfæra er sérstök á þann hátt að næstum allt virðist leyfilegt. Hægt er að heyra í öllu frá blokkflautu til hljóðgervla og stundum er þessu tvennu jafnvel blandað saman. Söngur hefur lengi vel ekki tíðkast í nýaldarlögum en þó hafa söngraddir orðið vinsælli á síðastliðnum árum. Þá líkist söngurinn oft eins konar kyrjun frumbyggja eða sækir innblástur í goðafræði Kelta og Engilsaxa. Svo virðist sem lengd skipti litlu máli og geta einstök lög orðið hálftími eða jafnvel meira að lengd. Saga. Tónlistin er oft tengd við hina svokölluðu Nýaldarstefnu en það er bæði trúarleg og félagsleg stefna sem fer mjög gegn kristni og siðum hennar. Stefnan er einhvers konar samblanda austurlenskra trúarbragða svo sem hindúisma og búddisma og vestrænna fræða um hið yfirnáttúrulega. Ummerki eru um þessa stefnu frá 18. og 19. öld en hún náði fyrst miklum vinsældum á 7. áratug síðustu aldar. Uppruna nýaldartónlistarstefnunnar má rekja til fjölmargra ólíkra stefna. Ef hlustað er á margar plötur eftir marga mismunandi tónlistarmenn gæti stefnan vel virðst vera ekkert annað en rólegur hrærigrautur allra þeirra stefna sem komu á undan. Það er vegna þess að notast er við svo mörg mismunandi hljóðfæri og svo fá allir tónlistarmennirnir innblástur frá mismunandi stefnum og flytjendum. Nýaldartónlist er komin af allavega fimmtán mismunandi tónlistarstefnum og þær gætu vel verið fleiri. Erfitt er að segja til um nákvæmlega hvenær Nýaldartónlist kom fyrst inn á markaðinn. Þó er ein plata sem oft er sögð marka upphaf stefnunnar en sú plata kallast "Spectrum Suite" eftir Steven Halpern. Þeirri niðurstöðu gæti hafa verið náð vegna þess að þetta var ein fyrsta platan sem gekk út á fagrar og róandi laglínur, spilaðar í algeru taktleysi. Þó taktinn vantaði, flokkaðist þetta safn nótna undir tónlist og platan var sett í nýaldarflokkinn. Skilgreining. Nýaldartónlist er ekki skilgreind út frá þeim hljóðfærum sem notast er við, heldur er frekar litið á tilfinningarnar sem tónlistin vekur innra með hlustandanum. Hún getur annað hvort verið spiluð á strengjahljóðfæri, rafhljóðfæri, blásturshljóðfæri eða allt í einu. Oftast eru listamennirnir einir á ferðum en stundum para þeir sig saman og sumir nýta sér heilu sinfóníuhljómsveitirnar til að spila verk sín. Hljóðfæri sem notuð eru ná frá klassískum hljóðfærum á borð við fiðlu og píanó, til alls kyns rafhljóðfæra og framandi, austurlenskra hljóðfæra eins og sítars og tabla. Tónlistarmenn af þessari stefnu sækja innblástur í alls kyns öðruvísi stefnur. Þar á meðal eru klassísk tónlist, raftónlist, framsækið rokk, sýrurokk, djass og nýbylgjutónlist sem allt eru mjög ólíkar tónlistarstefnur. Iðkun. Þó nýaldartónlist sé samin og spiluð um allan heim eru tvö lönd sem standa upp úr í iðkunn hennar. Annars vegar er það Írland sem er vel skiljanlegt þar sem trúarbrögð nýaldarsinna eiga rætur sínar að rekja þangað og einnig þar sem alls kyns írskir söngvar og kyrjanir eru höfð til fyrirmyndar í söng nýaldartónlistar. Einnig er þaðan einn þekktasti tónlistarmaður stefnunnar. Sá tónlistarmaður, eða tónlistarkona öllu heldur, kallast Enya og er fædd og uppalin Gweedore á Írlandi í fjölskyldu tónlistarfólks. Lög hennar hafa meðal annars verið spiluð í hinum vinsæla þríleik Peters Jackson, Hringadróttinssögu. Enya hefur einnig unnið fern Grammy-verðlaun fyrir bestu nýaldarplötuna en það er besti árangur nýaldartónlistamanns fyrir utan hinn Bandaríska Paul Winter, sem hefur líka unnið fern verðlaun með hljómsveit sinni auk þess að hafa unnið tvenn einsamall. Hins vegar eru það Bandaríkin þar sem langmest er gefið út af nýaldarplötum. Einnig hafa bandaríkjamenn hreppt nítján Grammy-verðlaun af tuttugu og sjö sem hafa verið afhent. Auk þess býr Kitaro, einn virtasti austurlenski listamaður stefnunnar þar og er einn af þeim sem geta kallast frumkvöðlar nýaldartónlistarstefnunnar. Stelpubönd. Stelpubönd eru hljómsveitir þar sem allir meðlimir eru stelpur. Yfirleitt eru stelpubönd popphljómsveitir. Hlutverk. Stelpubönd eru stór hluti af tónlistarheiminum. Þessi tónlistarstefna varð til á 3. áratug 20. aldar. Popp-, R&B- og danstónlist eru þó alsráðandi meðal þessara banda í dag sem og síðustu 20 ára. Upphaflegt hlutverk þeirra var að keppa við frægu strákaböndin sem voru hvað vinsælust á hverjum tíma fyrir sig. Sem dæmi um helstu keppinauta stelpubandanna á 10. áratugnum og í kringum aldamótin 2000 má nefna ‘N Sync, Backstreet Boys, McFly og Blue, strákabönd sem flestir kannast við enn þann dag í dag. Destiny's Child, TLC, Pussycat Dolls, Atomic Kitten, Sugababes og Girls Aloud voru vinsælustu hljómsveitirnar sem teflt var fram sem svar á móti strákaböndunum fyrrnefndu. Útbreiðsla. Nú til dags hefur dregið verulega úr böndum sem samanstanda aðeins af meðlimum af sama kyni. En rétt eins og strákaböndin þá náðu stelpuböndin einnig verulegri útbreiðslu um allan heim. Sem dæmi um band sem fellur undir þessa tegund tónlistarstefnu má nefna hina víðfrægu bresku hljómsveit Spice Girls, eitt allra vinsælasta stelpuband allra tíma. Þær hafa selt gríðarlegt magn platna um allan heim, fleiri en nokkuð annað stelpuband. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Emma Bunton (Baby spice), Geri Halliwell (Ginger spice), Melanie Brown (Scary spice), Melanie Chishholm (Sporty spice) og Victoria Beckham (Posh spice). Kryddpíurnar eins og þær eru kallaðar á íslensku hafa selt yfir 55 milljónir platna út um allan heim. Þær voru stofnaðar árið 1994. Simon Fuller var umboðsmaðurinn þeirra og sá um að koma þeim á kortið, það tókst svo sannarlega. Þeirra frumraun var lagið "Wannabe" sem kom út sem 1 lags smáskífa. Lagið er meðal þeirra mest seldu allra tíma. Það náði toppsæti lagalista í yfir 30 löndum. Lagið var einnig upphafslag vinsælustu plötu sveitarinnar "Spice" sem seldist í yfir 28 milljón eintökum. Uppsetning. Þessi svokölluðu stelpubönd innihalda oftast þrjár eða fimm stelpur. Þó er það ekki stöðluð stærð á stelpubandi. Í Japan má finna stelpuband sem samanstendur af 88 stelpum frá aldrinum 13-25+. Bandið AKB48 á þann titil Guinnes World Records að vera stærsta popp grúppa í heimi. Sú tegund tónlistar sem þær spila er svokallaða tyggjó-popp eða bubblegum-pop. Tyggjó-popp og allt upp í hart metal er meðal þess sem stelpuböndin hafa tekið sér fyrir hendur. Það kemur þó oftast fyrir að ein úr hverri hljómsveit verði þekktari en hinar. Dæmi um þriggja meðlima stelpubönd eru The Supremes frá 7. áratugnum. Diana Ross var á meðal þeirra og einnig sú sem skein hvað skærast af þeim. Destiny's Child frá 10. áratugnum bar að geyma Beyonce sem nú í dag er að slá í gegn ein og sér. Beyonce leit meðal annars mikið upp til The Supremes og notfærði sér stíl þeirra í klæðaburði og tónlist. Fjölmennari böndin sem samanstóðu af fimm stelpum eins og Pussycat Dolls innhéldu einnig eina sem varð frægari en hinar. Í þeirri hljómsveit var það Nicole Scherzinger sem varð stjarnan í bandinu og hálfgert andlit þess. Girls Aloud á einnig sína stjörnu, Cheryl Cole. Hún er þó aðallega fræg fyrir að vera gift fótboltakappanum Ashley Cole , alveg eins og síðast en ekki síst Victoria Beckham sem er gift David Beckham. Victoria Beckham var sú sem varð frægust af Spice Girls stelpunum. Í dag er hún ekki þekktust sem sönkona heldur módel og fatahönnuður. Hún framleiðir fatalínuna VB jeans fyrir gallabuxna fyrirtækið Rock & Republic og einnig sólgleraugu og snyrtivörur undir nafninu Intimately Beckham ásamt mörgu öðru. Tíska. Tíska er eitt aðalatriði þessarar tónlistarstefnu. Hver einasti meðlimur grúppunnar hefur sinn stíl. Spice Girls sem dæmi voru miklar fyrirmyndir ungra stúlkna þegar þær stóðu sem hæst. Næstum hver einasta stúlka átti sér eina uppáhalds kryddpíu og klæddi sig alveg eins og hún. Kryddpíurnar áttu hver sinn lit og stíl þegar þær komu fram á tónleikum eða öðru slíku. Emma var þessi krúttlega. Hún var ljóshærð og saklaus í útliti á kynþokkafullan hátt, Geri var rauðhærð oft mjög djarflega klædd, þekkt sérstaklega fyrir að klæðast oft breska fána mynstrinu. Mel B einkenndist af hlébarðamynstri og samfestingum. Mel C var íþróttatýpan, gekk um í jogging buxum frá hinum ýmsu íþróttafyrirtækjum. Hún var með áberandi tattú og var strákastelpan í hópnum. Victoria var síðan þessi sem var sexý. Dökkhærð, hávaxin, ofurmjó, allt sem til þurfti í eitt stykki súpermódel. Motown. The Supremes var þekktasta stelpuband Motown. Mörg stelpubönd spruttu upp hjá Motown eins og eins konar tískubylgja. Marvelettes, Martha and the Vandellas og The Velvelettes sem dæmi. Allt eru þetta stelpubönd með aðeins lituðum meðlimum. R&B einkenndi þessi bönd, en jafnframt eins hárkollur og kjólar. Þeirra útlit var staðlað útlit tónlistarkvenna á 7. áratugnum. Allar voru þær eins með sínar stuttu púffuðu hárkollur og stuttu kjóla með hefbundnu beinu sniði. Ólíkt við það sem við þekkjum í dag. Tónlistarkonur nútímans vilja skera sig úr fjöldanum með frumlegum klæðnaði til þess að vekja sem mesta athygli. Útlitið hefur meira að segja en hæfileikar í dag, öfugt við 7. áratuginn. Fyrir tíma The Supremes og Motown voru The Chordettes. Þær lágu í frægðarljómanum í kringum 1950. Þeirra frægasta lag er líklegast „Mr. Sandman“. The Fontane Sisters og The McGuire Sisters voru einnig uppi í kringum sama tíma. Þessar þrjár hljómsveitir eru meðal þeirra fyrstu sem hafa tekið þátt í að móta fyrirbærið Stelpuband. Þó það sé mikill munur á þeim og tónlist nútímans, byggist bæði á sömu hugmyndafræðinni. Þeirri einföldu hugmyndafræði um band sem samanstendur einungis af kvenkyns meðlimum. Pax Britannica. Pax Britannica eða hinn breski friður er kallaður eftir Pax Romana og er friðartímabil í Evrópu og annars staðar í heiminum um einnar aldar skeið eða á tímabillinu 1815-1914. Á þessum tíma réði Breska heimsveldið flestum helstu siglingaleiðum og hélt úti öflugum sjóher. Frá lokum Napóleonstríðanna árið 1815 til fyrri heimstyrjaldarinnar árið 1914 var forræði Bretaveldis í heimsmálum þar sem allt miðaði að því að halda valdajafnvægi. Breska heimsveldið var á þessum tíma stærsta heimsveldi allra tíma. Á þessum friðartíma gat það bælt niður sjórán og þrælahald. En þó friður hafi ríkt á siglingaleiðum þá voru ýmis stríð háð á landi. Þegar sú valdaskipun sem komið hafði verið á í Evrópu með Vínarfundinum árið 1815 fór að riðlast þá gróf það undan Pax Britannica. Ottómanveldið brotnaði niður og það leiddi til Krímstríðsins og síðar til nýrra þjóðríkja á Ítalíu og í Þýskalandi, japanska keisaradæmisins og Bandaríkja Norður-Ameríku. Japanska keisaradæmið. Japanska keisaradæmið (大日本帝國) var keisaraveldi og heimsveldi sem stóð yfir frá 3. janúar 1868 og þar til stjórnarskrá Japans tók gildi eftir seinni heimstyrjöldina þann 3. maí 1947. VR. VR - virðing, réttlæti er stærsta stéttarfélag Íslands með tæplega 29.000 félagsmenn á árinu 2011. Félagið var stofnað sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur árið 1891, þá sem félag bæði atvinnurekenda og launþega í verslunarstétt en frá árinu 1955 hafa einungis launþegar verið félagsmenn. Núverandi nafn félagsins var tekið upp árið 2006 eftir að félagið hafði sameinast fleiri stéttarfélögum utan Reykjavíkur. Formaður VR er Ólafía Björk Rafnsdóttir. Karlovac. Karlovac er borg í Króatíu. Í henni býr 46.827 manns. Það var stofnað árið 1579. Japönsk rækja. Japönsk rækja (fræðiheiti: "Acetes japonicus") er rækja af ætt krabbadýra og er fremur smá rækja. Karldýrið er 11 til 24 mm og kvenndýrð er 15 til 30 mm. Hún heldur sig á leirbotnum í grunnum sjó á sumrin en á dýpra svæði á veturnar. Hún er fremur hægsynd og sest að til skamms tíma á hverjum stað og lifir mest í eitt ár. Fæða hennar er ýmis smádýr á eða við botninn en einnig setið sjálft. Hún nærist mest á næturnar en þá lyftir hún sér frá botninum og er hún þá síður veiðanleg. Stofninn sveiflast eftir ástandi lífríkis sjávar milli ára en einnig geta áhrif af mannavöldum haft áhrif. Rækjan er að mestu notuð til að búa til gerjað rækjumjöl til matargerðar. Við framleiðsluna er rækjan blönduð salti og hún látin þorna í nokkra daga. Síðan er henni pakkað inn og látin vera þannig í þrjá mánuði. Frekari þurrkun er náð með því pressa hana og láta þurrt loft leika um hana. Þurrkað „kunisso“, sem mikið er notað í matseld, er framleitt úr japanskri rækju. Vökvinn, sem pressaður er úr rækjunni, er notaður til að búa til gerjaða fiskisósu. Rækjan nýtist því nálega 100%.. Þótt þetta efni sé vafalaust nokkuð dýrt þegar vinnslu er lokið, er nokkuð ljóst að ekki er grundvöllur fyrir því að greiða mikið fyrir hvert kíló af hráefninu enda skipta veiðarnar þúsundum tonna. Heimkynni og hrygning. Japönsk rækja og skyldar tegundir lifa í Vestur-Kyrrahafi, frá vesturströnd Indlands til Kóreu, Japans, Kína og Indónesía. Allar þessar rækjur eru af ættkvíslinni "acetes" en skiptast niður í mismunandi tegundir sem allar eru kallaðar „Paste shrimp“. Norðlægustu tegundirnar er "acetes japonicus" og "acetes chinensis". Hryggning hjá "acetes japonicus" á sér stað tvisvar á ári, á vorin og haustin. Mökun á sér stað um það bil fimmtán dögum fyrir hrygningu. Algegnt að kvendýrið framleiði 6800 til 8700 hrogn en stór hluti þeirra deyr áður en rækjan kemst á legg. Veiðar. Árið 2007 var Japanska rækjan er ein af tuttugu mest veiddu nytjategundum sjávar. Þeir sem veiða mest af henni eru Kína og Suður-Kórea. Heimsafli Japanskrar rækju hefur verið um 600 þúsund tonn síðastliðinn tíu ár. Við veiðar á Japönsku rækjunni er mest notast við „Shrimp push net fishing" and „Shrimp stow net fishing“. Heimsaflinn af "acetes"-rækjum er talinn vera vanáætlaður þar sem mikilvægar rækjuveiðar eru þekktar í Indlandi, Bangladesh, Indónesíu, Filippseyjum og öðrum hlutum Suðaustur-Asíu. Þessi ættkvísl ("acetes") er vistfræðilega mjög mikilvæg á mörgum hafssvæðum og hefur verið greind sem lykiltegund í Bohai-hafinu við Norður-Kína. Margir vísindamenn have greint frá efnahagslegu mikilvægi þessarar ættkvíslar ("acetes") á svæðinu við Kína og Kóreu, meðal annars í Gula hafinu. Ættkvíslin er talin mjög mikilvæg í Japan. Vísindamaðurinn Omori greindi frá veiðum á svæðinu frá Gula hafinu allt til Víetnam, Tælands og Malasíu. Einnig hefur verið greint frá mikilvægi þessarar ættkvíslar við Travancore í Suðvestur-Indlandi.. Ætkvíslin "acetes" er því greinilega mikilvæg fyrir efnahag fiskimanna á mjög stóru svæði í Suðaustur-Asíu. Sæunn Jónsdóttir. Sæunn Jónsdóttir (fædd um 1790 á Geitaskarði í Langadal, dáin 28. maí 1862 í Víðidalstungu) var íslensk vinnukona sem talaði sitt eigið tungumál sem var kallað „Sæunnarmál.“ Hún var dóttir Ingveldar Sigurðardóttur en talið var að Sæunn hafi verið rangfeðruð. Séra Þorlákur Magnússon, sem var prestur í Þingeyraklaustursprestkalli og systursonur Bjarna landlæknis, dvaldi á Geitaskarði eftir að hafa þurft að segja af sér embætti vegna sjónleysis og var hann sagður faðir Sæunnar. Hann gifti Ingveldi Sigurðardóttur og Jóni Gíslasyni og skömmu síðar fluttust þau hjón að Illugastöðum á Vatnsnesi. Saman eignuðust þau fimm börn og ólu einnig upp eitt stúlkubarn sem var bróðurdóttir Jóns Gíslasonar. Hún hét Ingibjörg og var litlu yngri en Sæunn. Á Illugastöðum átti Sæunn góða æsku. Hún fluttist svo til Ingibjargar uppeldissystur sinnar og manns hennar á Þorkelshóli í Víðidal, var þar vinnukona alla ævi og giftist aldrei. Um Sæunnarmál. Sæunn talaði lítið fyrr en hún var á sjöunda ári en þá fór hún að tala furðulegt mál sem hún skapaði sjálf. Það þróaðist með árunum og þegar hún var á tíunda ári var hún altalandi en íslensku talaði hún aldrei og skildi hana illa. Ýmis dæmi eru þekkt um slíkt tungutal en sjaldgæft að fólk tali ekkert annað mál en það sem það býr sér til. Málið hljómaði eins og algjört babl. Til dæmis hét Guð "Iffa" og englar hétu "Iffa ku-ku" á þessu furðulega máli. Börnin sem léku við Sæunni áttu auðveldara með að skilja mál hennar en foreldrar hennar en Sæunn notaði bendingar og látbragð til þess að foreldrarnir gætu skilið hana. Sæunn var sögð vel gefin og minnisgóð. Hún var trúrækin en fékk ekki að fermast fyrr en hún var komin á 28. aldursár og svaraði þá bróðir hennar spurningum prestsins fyrir hana. Það var Geir Vídalín biskup sem leyfði ferminguna eftir að hann fékk langt bréf frá séra Sæmundi Oddsyni á Tjörn. Sæunnarmál varð þekkt út fyrir landsteinana og voru skrifaðar tvær greinar um Sæunni og tungutak hennar í blöð í Danmörku. Svo virðist vera sem í málinu hafi einungis verið nafnorð, lýsingarorð, sagnorð og töluorð, en engin fornöfn og engar beygingar voru notaðar. Sæunn notaði tvö ólík sagnorð um sama hlut, eftir því hvort setningin var jákvæð eða neikvæð, í stað þess að nota orð sem samsvaraði ekki. Sum orð í Sæunnarmáli voru eins og afbökun á íslenskum orðum (fiskur var til dæmis fikk) en önnur algjörlega óskyld. Pax Americana. Pax Americana eða hinn bandaríski friður er hugtak sem er notað til að lýsa tímabili á Vesturhveli jarðar þar sem friður ríkti, friður sem stafaði af ægivaldi Bandaríkjanna, sérstaklega er átt við tímabil frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar árið 1945. Hugtakið Pax Americana hefur einnig verið notað til að lýsa veldi Bandaríkjanna bæði efnahagslegu og hvað varðar hernaðarmátt. Hugtakið vísar til hugtaksins Pax Romana eða Rómarfriðs, sem var þvingaður friður komið á og viðhaldið með rómversku vopnavaldi á síðari hluta 1. aldar f.Kr. Ýmislegt bendir til að ægivald Bandaríkjanna sé að líða undir lok. Sauðasalan til Bretlands. Sauðasalan til Bretlands eru viðskipti með sauðfé á fæti sem stóðu yfir frá síðustu áratugum 19. aldar og til ársins 1896. Sauðfé á Íslandi var rekið til skips sem sigldu til Bretlands og þaðan til slátrunar. Bændur fengu miklu betra verð fyrir sauðfé í þessum viðskiptum en áður hafði tíðkast og þeir fengu greitt í peningum en áður höfðu bændur eingöngu haft val um að leggja inn vörur hjá kaupmönnum og taka þar út í staðinn. Sauðasalan var á tímabili mjög umfangsmikil, eitt árið voru sent úr landi 80 þúsund fjár. Sauðasalan hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag og er stofnun kaupfélaga rakin til hennar. Lög sem sett voru í Bretlandi árið 1896 bundu endi á þessa sölu og olli það kreppu í landbúnaði á Íslandi. Einn af umsvifameiri kaupmönnum með íslenskt sauðfé var Daninn Louis Zöllner. Ásta (Ástríður) Ólafsdóttir. Ástríður „Ásta“ Ólafsdóttir (fædd 1948 í Reykjavík) er íslensk myndlistarkona. Eftir að hafa lokið kennaraprófi við Kennaraháskóla Íslands árið 1969 fór hún til Parísar þar sem hún lærði frönsku og menntunarvísindi við Parísarháskóla. Árið 1974 hóf hún nám við Myndlistar- og handíðarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1978 af Nýlistadeild. 1981 – 1984 lá leiðin svo til Hollands þar sem hún stundaði framhaldsnám í myndlist við Jan van Eyck Akademíuna í Maastricht. Þaðan lauk hún mastersnámi með áherslu á blandaða tækni, video og hljóð. Síðastliðin þrjátíu ár hefur Ásta haft mörg járn í eldinum, hún hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í sýningum með öðrum listamönnum bæði á Íslandi og erlendis. Hún hefur einnig miðlað þekkingu sinni með kennslu og kennt myndlist á öllum kennslustigum. Á sýningum hefur hún sýnt þrívíða skúlptúra og innsetningar (installationir) og notast þá við ýmiss náttúruleg efni til dæmis leir, hraun og fleira. Verk eftir Ástu eru meðal annars í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Nýlistasafnsins. Sýningar og umfjallanir. Árið 1990 skipulagði Ásta sýningu í samvinnu við Nýlistasafnið „Fyrir ofan gerð og neðan – List í Þingholtunum“. Á sýningunni sýndu rúmlega 20 ungir listamenn verk sín. Ásta er meðlimur í Myndhöggvarafélagi Íslands og SÍM (Samband Íslenskra myndlistarmanna). Hún er einn af stofnendum Nýlistasafnsins og heiðursfélagi þess síðan 2012. Nýlistasafnið. Árið 1992 hélt Ásta sýningu á tíu verkum eftir sig í efri sölum Nýlistasafnsins við Vatnsstíg. Eiríkur Þorláksson skrifaði umfjöllun um sýninguna í "Morgunnblaðið". Þar nefndi hann að birta og ferskleiki einkenndu sýninguna og að listakonunni hafi tekist ætlunarverk sitt, að skapa einföld og tær verk. Eiríkur sagði að þessi tærleiki væri mikilvægur þáttur í myndsýn listamanna og að hann nyti sín vel í þessu umhverfi. „Mig langar til þess að búa til einföld og tær verk. Til þess nota ég fersk efni sem ég dulbý ekki. Viðurinn er ómálaður, leirinn er án glerungs, lopinn er óspunninn. Um verkin leikur loft sem er kjarni þeirra.“ – Ásta Ólafsdóttir um sýningu sína í Nýlistarsafninu árið 1992. Vegferð. 21. nóvember – 19. desember árið 2010 hélt Ásta sýningu á Suðsuðvestur en sjálf sýningin hét „Velferð“. Þar fjallaði hún um þróun og vegferð lands og þjóðar, samtaka, einstaklinga, stofnana og svo framvegis. Í kynningartexta sem gerður var fyrir sýninguna er minnst á hvernig vegferð getur verið bæði jákvæð og neikvæð. Án samskipta og hreyfiafls er vegferðin engin. Gullkrabbi. Gullkrabbi (fræðiheiti: "Lithodes aequispinus") (e. "Golden king crab" eða "Bown king crab") er krabbi af ætt kóngakrabba. Það eru um 40 þekktar tegundir af kóngakröbbum í heiminum en þrjár af þeim finnast í norður kyrrahafinu og eru þær vinsælar nytjategundir þar á slóðum. Þetta eru rauður kóngakrabbi, blár kóngakrabbi og gullkrabbi. Útlit. Gullkrabbinn er bæði minnstur af þessum þremur kröbbum og ljósastur að lit. Hann getur orðið allt að 3,6 kg að þyngd og 22 cm að breidd. Kvendýrin eru smærri eða um 2 kg og 11 – 14 cm að breidd. Gullkrabbinn er með ljós gyllta skel, alsettur göddum og hefur fimm pör leggja. Þessi tegund getur orðið allt að 30 – 40 ára gömul. Útbreyðsla. Búsvæði gullkrabbans er á norðvestur Kyrrahafssvæðinu frá Bresku Kólumbíu, í Beringshafi við Aleuteyjar og á Norðaustur-Kyrrahafsvæðinu að Japanshafi. Þeir eru á landgrunnshallanum á 200 – 400 metra dýpi og kjósa að vera innan um rif og mjúka kórala. Kjör sumarhitinn er 1,5 -2°C.. Gullkrabbi lifir dýpra í sjónum en rauðu og bláu kóngakrabbarnir. Hrigning. Hrygningartími gullkrabbans er frá júlí og fram í október og hrygnir kvendýrið frá 10 – 30 þúsund eggjum og eru egg þeirra stærst af eggjum kóngakrabba. Á hrygningartímabilinu eru dýrin á grynnra vatni. Kvendýrið hefur hamskipti áður en hún hrygnir. Skelin þarf að vera mjúk svo hún geti hryngt. Um leið og hún hefur sleppt hrognunum hefst mökunarferlið hjá krabbanum að nýju. Eftir að þeir hafa lokið því fara þeir beint á fæðuslóðir sem er á meira dýpi. Á því búsvæði skipta krabbarnir sér upp, þar sem kynin eru nánast alveg aðskilin. Eftir að lirfurnar klekjast út eru þær sviflægar og nærast á plöntu og dýrasvifi. Krabbinn verður kynþroska fjögurra til fimm ára, þá fer hann á meira dýpi á fæðuslóðir til hinna fullorðnu. Fæða. Fæða þeirra þar er mjög fjölbreytt og éta þeir nánast allt sem fyrir þeim verður. Það er þess vegna sem krabbinn er sagður algjör skaðvaldur á annað lífríki á sjávarbotninum. Þeir éta orma, skeljar, snigla, krossfiska, ígulker, önnur krabbadýr, fiska,þörunga og fleira. Helstu veiðarfæri og veiðiaðferðir. Krabbar eru veiddir í gildrur sem eru mismunandi stórar eftir bátastærð. Stærstu bátarnir eru með stórar og þungar gildrur sem eru kassalaga með beitu inni sem krabbinn klifrar uppá og inn, smærri bátar eru með þríhyrndar gildrur sem eru minni með beitu inni. Veiðitímabilið á krabbaveiðunum við Alaska er breytilegt, yfirleitt frá október til janúar. Á síðasta áratug var tímabilið skorið niður út af ofveiði niður í allt að fimm daga. Síðustu ár hefur tímabilið verið tvær vikur til fjórar vikur. Rússland er eina ríkið sem er með allar veiðar á Gullkrabbanum. Heimsaflinn hefur verið um þrjú þúsund tonn síðustu ár. Krabbasjómennska er hættulegasta starf í Bandaríkjunum og eru 80 sinnum meiri líkur á því að deyja í því starfi en öðrum störfum eða 141,7 af hverjum 100 þúsund sem látast. Trúlega er stjórnkerfinu um að kenna þar sem gefið er út frjálst veiðileyfi fyrir alla. Það er mikil samkeppni um að ná kvótanum og allt lagt undir, sama hvernig viðrar. Búið er að skipta kvótanum á milli útgerða eftir veiðireynslu þannig að í framtíðinni mun veiðitímabilið lengjast og verðmætið aukast Krabbavinnsla. Krabbinn er bæði seldur lifandi og svo eru krabbaklærnar seldar soðnar. Vinnsla á krabbaklóm er þannig að krabbinn kemur lifandi að landi í lestum krabbabátanna. Sjónum er dælt úr lestinni og krabbanum er landað beint inn í verksmiðju þar sem klærnar eru rifnar af í einni kippu. Löppunum er raðað í ryðfrían stálkassa og svo eru klærnar soðnar í saltvatni og kældar á eftir. Klærnar fara í járnkössunum ofan í pækilfrysti, þar sem klærnar frjósa niður í -23°C ofan í vökvanum. Að því loknu er klónum pakkað í neytendapakkningar. Gullkrabbinn er með lægstu % af kjöti inni í skelinni af kóngakröbbunum sem veiddir eru við Alaska. Þeir bragðast mjög svipað og rauði og blái kóngakrabbinn en eru eylítið sætari. Markaðir. Markaðir eru aðallega í Bandaríkjunum og Japan fyrir lifandi krabba en allur heimurinn fyrir klær. Verð fyrir klærnar er um 14,75$ á pundið eða um 30$ á kg. Niðurstaða og lokaorð. Heimildir um þennan krabba eru litlar á ensku og íslensku. Gögn frá FAO sýna að krabbinn er einungis veiddur af Rússum. Þannig að það skýrir margt varðandi heimildaleysið. Magnið er líka ekkert rosalegt miðað við veiðarnar hjá Bandaríkjamönnum á rauða og bláa kóngakrabbanum. Það finnast ekki upplýsingar hvernig hægt er að fá veiðileyfi við austur Rússland. Því er ekki hægt að mæla með veiðum að svo stöddu þó svo að verðið sé ágætt fyrir krabbann þá er ekki mikið af honum og hann trúlega aukaafli. Ístak. Ístak er íslenskt fyritæki sem starfar í byggingariðnaði. Tvöfaldur vegur. Tvöfaldur vegur kallast vegur þar sem akstursáttir eru aðskildar með með umferðareyju. Slíkum vegum svipar oft til hraðbrauta en geta ólikt þeim notast við hefðbundin gatnamót og hafa því lægri hámarkshraða. Þar að auki gilda rýmri reglur um notkun vegriða og breidd vegaxla. Tvöfaldir vegir eru yfirleitt með tvær akreinar í báðar áttir, en geta verið fleiri þar sem umferð er mikil. Vegur með eina akrein í aðra áttina telst einnig tvöfaldur svo fremi sem akstursáttir eru aðskildar. Á Íslandi er venjan að tvær nýjar akreinar eru lagðar við hlið einfalds vegar. Oft er haft tvöfalt hringtorg á vegamótum þar til hægt er að ráðast í byggingu mislægra gatnamóta. Hámarkshraði er gjarnan 90 kílómetrar á klukkustund. Lengsti tvöfaldi vegkafli á Íslandi er Reykjanesbraut milli Straumsvíkur og Njarðvíkur, og er hann að öllu laus við hringtorg og umferðarljós. Vesturlandsvegur er nú að mestu tvöfaldur um Reykjavík og Mosfellsbæ. Unnið er að tvöföldun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss. Ópíumstríðin. Málverk af bardaga í seinna ópíumstríðinu Ópíumstríðin skiptast í Fyrra ópíumstríðið frá 1839 to 1842 og Seinna ópíumstríðið milli 1856 til 1860. Þessi stríð voru viðskiptadeilur milli kínverskra stjórnvalda sem störfuðu fyrir Tjingveldið og Breska heimsveldisins og tengdust innflutningi á ópíum til Kína. Ópíum hafði verið þekkt í Kína frá 7. öld og notað til lækninga meðal annars sem deyfilyf. Um miðja 17. öld var byrjað að blanda tóbaki og ópíum saman og ópíum var reykt en ekki tekið inn eins og áður. Breskir kaupmenn fluttu gríðarlegt magn af ópíum til Kína og innflutningur óx mikið á 18. öld. Árið 1729 voru fluttar til Kína 200 kistur af ópíum en árið 1790 voru fluttar þangað árlega 4000 kistur eða 256 tonn af ópíum. Árið 1858 hafði ópíumsala breskra kaupmanna aukist í 70000 kistur (4480 tonn) sem er svipað og framleitt var af ópíum í heiminum í kringum árið 2000. Ayurveda. Ayurveda læknisfræðin er upprunnin á Indlandi og er nokkur þúsund ára gömul. Nafnið er komið úr sanskrít og er samsett af orðunum „ayur“ sem þýðir „líf“ og „veda“ sem þýðir „vísindi eða þekking“. Hugtakið „ayu“ felur í sér fjóra undirstöðuþætti eða samþættingu hugar, líkama, tilfinninga og sálar. Ayurveda er heildrænt indverskt lækningakerfi með það að markmiði að veita leiðsögn varðandi mataræði og lífsstíl svo þeir heilbrigðu geti áfram verið heilbrigðir og þeir sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða geti bætt líðan sína. Þetta er margbrotið kerfi sem á rætur að rekja til Indlands og er mörg þúsund ára gamalt. Til eru sögulegar heimildir um kerfið í fornum ritum sem kölluð eru einu nafni Veda-ritin. Í einu þeirra, Rig Veda sem er talin rituð fyrir meira en sex þúsund árum, er að finna yfir 60 þúsund lækningaaðferðir við hinum ýmsu sjúkdómum og kvillum. Ayurveda fræðin eru samt talin vera mun eldri og það er ekki litið á þau eingöngu sem lækningakerfi, heldur sem „vísindi lífsins“. Við erum öll hluti af alheiminum og eins og dýr og plöntur eigum við að lúta lögmálum alheimsins. Meðferð. Það eru að verki fimm kraftar í einstaklingnum „prakriti“ sem eru þeir sömu og í náttúrunni: eter, loft, vatn, eldur og jörð. Vissir kraftar eru taldir geta komið á jafnvægi í einstaklingnum og það er jafnvægi þeirra sem stuðlar að góðri heilsu. Síðan eru þættir sem hafa lífeðlisfræðileg áhrif á þessa frumkrafta, Vata, Pitta og Kapha dosha Eter og loft eru frumkraftar í Vata dosha, eldur og vatn eru frumkraftar í Pitta dosha og vatn og jörð frumkraftar í Kapha dosha. Meðferð er sérsniðin að hverjum og einum. Þegar einstaklingur kemur í meðferð er byrjað á algjörri hreinsun eða nokkurs konar Detox meðferð. Meðferðaraðilinn skoðar einstaklinginn hátt og lágt: tungu, tennur, augu og svo framvegis og spurt er um mataræði og almennar lífsvenjur. Yfirleitt þarf sjúklingurinn að taka virkan þátt í lækningaferlinu því hann þarf oft að breyta daglegum venjum sínum umtalsvert. Hugleiðsla er einnig mikið stunduð meðan á ferlinu stendur. Ayurveda læknisfræðin er töluvert umdeild og þykir mörgum vestrænum vísindamönnum mikið skorta á vísindalegar sannanir. Í Bandaríkjunum er hún flokkuð sem „óhefðbundinn“ lækningakostur. Til dæmis hefur fundist blý, arsenik og kvikasilfur í meðalablöndum en meðferðin byggist mest upp á jurta- og kryddblöndum. Farsi. Farsi (franska: "farce" „fylling“) er gamanleikrit þar sem söguþráðurinn einkennist af óvæntum uppákomum, misskilningi, orðaleikjum og ýktum persónum sem farast á mis í hröðum skiptingum. Upphaflega var hugtakið notað á miðöldum yfir orð og setningar á frönsku sem skotið var inn í messur á latínu. Síðar var tekið að nota þetta orð yfir stutta gamanleiki sem komu inn í trúarleikrit og voru gjarnan stuttir einleikir eða samtal tveggja persóna. Sem sjálfstæð grein varð farsinn til á 17. öld, einkum í meðförum Moliéres sem skrifaði gamanleikrit ætluð alþýðunni undir áhrifum frá ítalska gamanleiknum. Á þeim tíma varð farsinn þriðja grein leikhússins, tengd alþýðu manna, meðan harmleikurinn tengdist aðlinum og gamanleikurinn borgarastéttinni. Á 19. öld blandast farsinn við aðrar greinar gamanleiks eins og óperettuna, vaudeville og revíu. Í upphafi 20. aldar varð farsinn svo fyrir áhrifum frá kvikmyndum og síðan sjónvarpi. Greinin gekk í gegnum ákveðið blómaskeið í Bretlandi eftir Síðari heimsstyrjöld. Leópold 2. Belgíukonungur. Leópold II (9. apríl 1835 – 17. desember 1909) var konungur í Belgíu og er hans sérstaklega minnst fyrir þau ódæðisverk og arðrán sem hann ber ábyrgð á í Fríríkinu Kongó. Fríríkið Kongó. Fríríkið Kongó er nafn á landsvæði í Mið-Afríku sem var nýlenda Leópold 2. Belgíukonungs sem hann leit á sem sína einkaeign. Svæðið hlaut seinna nafnið Belgíska Kongó, síðar Saire og heitir núna lýðveldið Kongó. Árið 1884 var haldin Berlínarráðstefnan um ástandið í Afríku og hvernig vernda mætti íbúa þar fyrir arðráni, ekki síst þrælaverslun og þrælahaldi. Á ráðstefnuna kom meðal annars Henry Morton Stanley sem þekktur er fyrir ferð sína eftir Kongófljóti. Á ráðstefnunni var lögð á áhersla á mannúðarsjónarmið, nauðsynlegt væri að vernda íbúa Afríku og koma upp griðlandi undir vernd evrópskra valdhafa og þá Leopolds 2. Belgíukonungs. Fríríkið Kóngó var búið til í nafni mannúðarsjónarmiða. Fríríkið Kongó var til á árunum 1885 – 1908. Það varð alræmt fyrir arðrán og hve illa var farið með íbúa á svæðinu. Leópold 2. Belgíukonungur dró að sér frá svæðinu vörur eins og fílabein, gúmmí og málma og seldi á heimsmarkaði þrátt fyrir að í orði kveðnu væri afskipti hans af þessu svæði til að hlú að þróun og hjálpa íbúum. Undir stjórn Leópolds 2. varð Fríríkið Kóngó að miklu hneyksli í byrjun 20. aldar. Talið er að ofbeldiverk á tímabils hafi kostað 10 milljónir íbúa lífið og um 20 % íbúa svæðisins hafi dáið vegna þrælkunarvinnu sem íbúarnir voru þvíngaðir í. Margir urðu til að benda á ódæðisverkin í Kóngó og einn þeirra sem fletti ofan af því sem þar fór fram var rithöfundurinn Arthur Conan Doyle en hann skrifaði bók sem hlaut mikla útbreiðslu, titill hennar var "The Crime of the Congo". Áríð 1908 lét belgíska ríkisstjórnin undan þrýstingi frá almenningi í mörgum löndum og Fríríkið Kongó var tekið úr höndum Leópolds 2. og svæðið var gert að belgískri nýlendu sem kallað var Belgíska Kongó. Berlínarráðstefnan. Berlínarráðstefnan eða Kongóráðstefnan er ráðstefna sem haldin var í Berlín 1884-85 til að setja reglur um nýlenduvæðingu og verslun Evrópumanna í Afríku. Stórveldi Evrópu höfðu á þessum tíma mikinn áhuga á að koma sér upp nýlendum í Afríku og því var haldin alþjóðleg ráðstefna undir merkjum mannúðarsjónarmiða og velvilja til íbúa í Afríku. Þessi lönd sendu fulltrúa á ráðstefnuna: Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Belgía, Danmörk, Frakkland, Bretland, Ítalía, Niðurlönd, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð-Noregur, Tyrkjaveldi og Bandaríki Norður-Ameríku. Ráðstefnan var í Berlín 15. nóvember 1884 og eftir miklar samningaumræður skrifuðu fulltrúar allra landanna sem voru á ráðstefnunni undir samkomulag 26. febrúar 1885. Trans (raftónlist). Trans er undirgrein í raftónlistar og kom fram í byrjun 10. áratugarins í Þýskalandi. Tónlistin er gerð út frá hljóðgervli en það sem gerir trans einstakt er takturinn/flutningshraðinn í tónlistinni. Flutningshraðinn flakkar á milli 120 til 160 bpm (slög á mínútu). Tónlistin inniheldur helling af flóknum hljóðum, eins og Hústónlist og elektró en trans er lagrænna og framsæknara meðan takturinn er sá sami. Fyrstu tvö lögin sem eiga að hafa verið byrjunin á trance eru „Age of Love“ eftir Age of Love og Dance 2 Trance „We Came in Peace“. Vinsæl trance tónlist í nútímanum eru Ferry Corsten, System F, Gouryella,Paul van Dyk, Armin van Buuren, Deadmau5 og Kaskade's music. Undirstefnur. Progressive Trance er danstónlist sem byrjar tónlistina á því að byggjast lengi upp, svo brestur það og oft kemur einhver hápunktur. Lögin eru yfirleitt 8-9 mínútur á lengd. Progressive-tónlist hefur ekki alltaf nákvæmlega sömu byggingu á lögum en þetta er vinsælasta uppbyggingin. Það sem aðskilur progressive trance við venjulega progressive-hljóð er takturinn sem er venjulega 120-135 bpm. Uplifting trance er danstónlist þar sem notaðir eru hlýr lagrænn hljóðgervill. Takturinn er yfirleitt 137-140 slög á mínútu. Lögin eru venjúlega 7-9 mínútna löng og vilja fela sig yfirleitt í lagrænt hrun í miðju laginu, sem leiðir svo í algjöra sæluvímu sprengingu í enda lagsins. Uplifting trance er talið hafa tón sem er léttari en aðrar undirgreinar transtónlistarinnar. Vinsælir plötusnúðar, sem spila "Uplifting trance" eru Manual Le Saux, Sebastian Brandt, Arctic Moon og Daniel Kandi. Júrótrans kom út frá Harðtrans og Júrótrans tónlist og var mjög vinsæl á árunum 1998 til 2000. Flutningshraðinn er í kringum 140-145 bpm, bassinn er venjulega mjög þungur, mörg hrun eru í laginu og oft eru notaðar kvennmanns söngraddir. Euro trance er náskilið Uplifting trance og oft ruglað saman við Vocal trance því að það er sungið í lögunum. Munurinn er sá að Euro trance lög eru lýst sem miklu ákafari texti og meiri upptakur, svipuð lýsing og á tribal trance. Frægustu Euro trance tónlistarmennirnir eru Cascada, DJ Sammy, Groove Coverage og Special D. Goa trance eiga rætur að rekja til iðnaðar, sýru trance og indjána. Þessi undirgrein transtónlistarinnar kom fyrst fram í kringum árið 1990. Nafnið Goa trance kemur frá bænum Goa sem er staðsett á Indlandi. Hljóðin í "Goa trance" eru undir áhrifum austurlenskrar tónlistar og það er það mikilvægasta sem aðskilur Goa trance frá öðrum undirgreinum transtónslistar. Pshycadelic trance er mest skylt Goa trance og einnig suomisaundi, darkspy, psycore, psybreaks og psybient. Windows 3.1x. Windows 3.1x er röð myndrænna notendaskila (skelja) fyrir einkatölvur sem búnar voru 16 bita útgáfu af stýrikerfinu MS-DOS. Skelin var þróuð af Microsoft sem arftaki notendaskilanna Windows 3.0 og sett á markað 6. apríl árið 1992 (sala á henni hófst raunar nokkrum vikum fyrr). Fyrsta útgáfan var Windows 3.1 og í kjölfarið fylgdu Windows 3.1 fyrir Mið- og Austur-Evrópu (með stuðningi fyrir kýrillískt letur) og Windows 3.1J (með stuðningi fyrir japönsku) og sérútgáfan Modular Windows fyrir Tandy Video Information System. Netútgáfa Windows 3.1, Windows for Workgroups 3.1 kom út í október 1992. Hún notaðist við SMB-samskiptareglurnar yfir NetBIOS-tengingu. Árið 1993 kom út uppfærsla sem var kölluð Windows 3.11. Sama ár kom út útgáfa af Windows 3.11 með stuðningi fyrir einfaldaða kínversku sem var kölluð Windows 3.2. Windows for Workgroups 3.11 kom út 11. ágúst 1993. Skömmu áður hafði Microsoft gefið út nýja 32ja bita netþjónsútgáfu stýrikerfisins með stuðningi fyrir fjölnotendavinnslu, Windows NT. Stuðningur við Internetið var ekki innbyggður í kerfið fyrr en í ágúst 1994 þegar Microsoft gaf út viðbót fyrir stuðning við IP-samskiptareglurnar í Windows for Workgroups 3.11. Þessi sama viðbót varð síðar staðalbúnaður í Windows 95 sem tók við af Windows 3.1x-línunni árið 1995. Oríja. Oríja er tungumál sem tilheyrir indísku grein indó-evrópskra mála og er talað af 32 milljónum í Orissa á Austur-Indlandi. Málið er ritað með latínuletri og elstu textar frá 14. öld. Malæjalam. Malæjalam er dravídamál, náskylt tamilísku, talað af 36 milljónum á Malabar-ströndinni á Suðvestur-Indlandi. Það hefur verið ritað með sérstöku stafrófi frá 9. öld og á sér bókmenntahefð frá 13. öld. Helsti málfræðilegi munurinn á tamilísku og malæjalam er að sagnorð beygjast ekki í persónu í malæjalam. Mikill munur er á talmáli og ritmáli. Enn fremur er mikið af tökuorðum úr sanskrít í málinu, einkum þó ritmálinu. Brynhildur Þorgeirsdóttir. Brynhildur Þorgeirsdóttir (fædd 1. maí 1955) er íslensk myndlistarkona. Brynhildur fæddist á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi og ólst þar upp en býr nú og starfar í Reykjavík. Hún á fimm systkini, þar af þrjú tengjaast myndlist með einhverjum hætti. Hún fór í Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík vegna áhrifa móður sinnar sem vildi að hún yrði kennari við teikningu og þaðan útskrifaðist hún 1978. Hún hefur stundað nám við margar virtar listastofnanir eins og Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam frá 1970 – 1980, Orrefors Glass School í Svíþjóð 1980 og California College of Arts and Crafts 1980 – 1982. Einnig hefur hún starfað sem kennari í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Stíll Brynhildar tengist mikið skúlptúrum og braut hún blað í höggmyndarsögu Íslands með pönkuðum verkum sínum. Hún er þekkt fyrir að nota gadda mikið og hefur oft verið talin herská en segir sjálf „Ég er sveitastúlka. Þótt glerbroddar séu í myndunum eru þeir meinlausir eins og ég sjálf.“ Hún vinnur mikið með gler og sand og hannar ævintýranleg verk útfrá jarðbundnum hlutum eins og landslagi. Einn frægasti skúlptur hennar Landslagsmynd sem var gerður 1997 og stendur í Garðabæ „er dæmi um það hvernig hún notar iðnaðarefni til þess að bergmála náttúruleg form“. En verkið er sett saman til að kalla fram þrjú ákveðin náttúrufyrirbæri; klettavegg, fjallshrygg og fjallgarð. Verkið sjálft er gert úr steinsteypu, gleri og pottjárni. Einnig hefur Brynhildur unnið með innsetningu en þá er átt við „sköpun verks sem áhorfandinn fer inn í. Í stað þess að standa fyrir framan málverk eða ganga kringum höggmynd gengur áhorfandinn inn í umhverfi þar sem líkami hans verður hluti af heildinni“. Árið 2005 gerði Brynhildur einn slíkan innsetning sem kallaðist Myndheimur en þar bjó hún til dularfullt frumlandslag um allt Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Brynhildur segir að það hafi aldrei þvælst neitt fyrir henni að vera kona en það er akkúrat það viðhorf sem sést í svo mörgum verkum hennar þar sem þau eru kvenleg en unnin útfrá mjög harðgerum, beittum efnum. Hún segir einnig að þegar kemur að kynlífshyggju verkanna er hellingur af „út og inn dæmum“ til dæmis kufungamyndirnar. Viðhorfið og lífstíllinn sem einkennir Brynhildi er mikil frumorka, sköpunargleði og sjálfstæði. Jóhanna Kristín Yngvadóttir. Jóhanna Kristín Yngvadóttir Hraunfjörð (31. október 1953 – 10. mars 1991) var íslensk listakona. Jóhanna gekk í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1976. Á þeim tíma kynntist hún Ívari Valgarðssyni myndhöggvara en þau fóru saman í framhaldsnám til Hollands 1976 – 1980. Gengu þau í skólann De Vrije Academie den Haag á árunum 1976 – 1977 og svo seinna í skólann Rijksakademie Van Beeldende Kunsten 1977 – 1980 en báðir skólarnir eru í Amsterdam. Jóhanna og Ívar eignuðust eina dóttur saman. Jóhanna kynntist Matthíasi Fagerholm grafíklistamanns og þau hófu samstarf í listum og sýndu víða meðal annars Hollandi og Þýskalandi. „Þarna eru ástríðufull verk, sem gerð eru af mikilli innlifun og tækni, það verðurað segjast eins og sannast er, að þessi verk Jóhönnu Kristínar vöktu mér traustvekjandi vonir um framhald íslenskrar myndlistar.“ Samlegðaráhrif. Samlegðaráhrif eru aðstæður þar sem heildin er meiri en summa þeirra hluta sem mynda hana. Síðari iðnbyltingin. a> sem „minnismerki um þá tíma iðnaðar og vísinda sem við nú lifum“. Síðari iðnbyltingin eða tæknibyltingin er tímaskeið í Iðnbyltingunni sem nær frá seinni hluta 19. aldar til fyrri heimstyrjaldarinnar. Þetta tímabil er talið hefjast með tækninýjungum í stálframleiðslu, uppgötvun Bessemers, sem gerðu það mögulegt að framleiða stál á mun ódýrari hátt en áður sem svo hafði mikil áhrif á fjöldaframleiðslu og færibandavinnu. Á tímabilinu frá 1870 til 1914 urðu tækniframfarir byggðar á vísindalegri þekkingu, meðal annars í efnafræði. Stóriðja varð útbreidd í sumum tilvikum vegna þess að það var hagkvæmt að hafa stórar einingar, til dæmis geyma og katla. Á þessu tímabili eru lögð veitukerfi eins og rafkerfi, gaskerfi, holræsakerfi og símakerfi, útvarps- og fjarskiptakerfi, og voru þessi kerfi oft svo stór að það var ekki á færi frjáls markaðar að sjá um uppbyggingu þeirra heldur varð það hlutverk sveitarfélaga. Þetta tímabil einkenndist af útþenslu bæjarfélaga. Tákn þessa tímabils er raforkan en fyrir rafvæðingu voru verksmiðjur iðnríkja knúnar vatns- og gufuorku og það hafði áhrif á staðsetningu iðjuvera. Í gamla kerfinu voru orkugjafar miðlægir og orkunni var dreift frá miðstöð til vélbúnaðar á dreif um verksmiðjurnar. Í verksmiðju með rafkerfi gat hver vél haft sinn eigin rafmótor og það gaf kost á ýmis konar endurskipulagningu og hagræðingu. Tyrkísk mál. Tyrkisk mál eru meigingrein altaísku málaættarinnar. Af sumum þó talin mynda sjálfstæða ætt og ekki falla undir neina altaíska ætt. Þau eru að minnsta kosti 35 talsins og eru töluð af fólki frá Suðaustur-Evrópu og Miðjarðarhafslöndum til Síberíu og Vestur-Kína. Um það bil 170 milljón manns hafa tyrkískt tungumál að móðurmáli. Það tyrkíska tungumál sem flestir tala er tyrkneska, sem töluð er aðallega í Anatólíu og á Balkanskaga. Um 40 % þeirra sem tala tyrkískt tungumál tala tyrknesku sjálfa. Tyrkísk tungumál hafa nokkra sameiginlega eiginleika, eins og sérhljóðasamræmi, samloðun og ekkert málfræðilegt kyn. Talendur svokallaðra ogúsmála eiga ekki erfitt með að skilja hver annan en í þessum hópi eru tyrkneska, aserbaídsjíska, túrkmenska, kasjkaí, gagás og krímtatarska. Túrkmenska. Tirkískt mál talað af um 3 milljónum í Túrkmenistan, þar sem það hefur opinbera stöðu, hlutum Kasakstan og Úsbekistan, einnig nokkuð í Íran, Afganistan, Pakistan og Írak. Málið var í öndverðu ritað með arabísku letri og á sér bókmentalega rithefð frá 14. öld. Latínuletur tekið upp 1927 en krátað niður með kirilísku letri frá 1940. Latínuletur endurupptekið 1991. Ásta Ólafsdóttir. Ásta Ólafsdóttir (fædd 1948 í Reykjavík) er íslensk myndlistarkona. Ásamt því að vinna mikið í myndlist og skúlptúragerð, hefur hún einnig unnið við skrif. Komið hafa út þrjár bækur eftir Ástu. Ferill. Eftir að hafa lokið kennaraprófi við Kennaraháskóla Íslands árið 1969 fór hún til Parísar þar sem hún lærði frönsku og menntunarvísindi við Parísarháskóla. Árið 1974 hóf hún nám við Myndlistar- og handíðarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1978 af Nýlistadeild. 1981 – 1984 lá leiðin svo til Hollands þar sem hún stundaði framhaldsnám í myndlist við Jan van Eyck Akademíuna í Maastricht, þaðan lauk hún mastersnámi með áherslu á blandaða tækni, video og hljóð. Síðastliðin 30 ár hefur Ásta haft mörg járn í eldinum. Hún hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í sýningum með öðrum listamönnum bæði á Íslandi og erlendis. Hún hefur einnig miðlað þekkingu sinni með kennslu og kennt myndlist á öllum kennslustigum. Á sýningum hefur hún sýnt þrívíða skúlptúra og innsetningar (installationir) og notast þá við ýmiss náttúruleg efni til dæmis leir, hraun og fleira. Verk eftir Ástu eru meðal annars í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Nýlistasafnsins. Sýningar og umfjallanir. Árið 1990 skipulagði Ásta sýningu í samvinnu við Nýlistasafnið „Fyrir ofan gerð og neðan – List í Þingholtunum.“ Á sýningunni sýndu rúmlega tuttugu ungir listamenn verk sín. Ásta er meðlimur í Myndhöggvarafélagi Íslands og SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna). Hún er einn af stofnendum Nýlistasafnsins og heiðursfélagi þess síðan 2012. Nýlistasafnið. Árið 1992 hélt Ásta sýningu á 10 verkum eftir sig í efri sölum Nýlistasafnsins við Vatnsstíg. Eiríkur Þorláksson skrifaði umfjöllun um sýninguna í "Morgunnblaðið". Þar nefndi hann að birta og ferskleiki einkenndu sýninguna og að listakonunni hafi tekist ætlunarverk sitt, að skapa einföld og tær verk. Eiríkur sagði að þessi tærleiki væri mikilvægur þáttur í myndsýn listamanna og að hann nyti sín vel í þessu umhverfi. „Mig langar til þess að búa til einföld og tær verk. Til þess nota ég fersk efni sem ég dulbý ekki. Viðurinn er ómálaður, leirinn er án glerungs, lopinn er óspunninn. Um verkin leikur loft sem er kjarni þeirra.“ – Ásta Ólafsdóttir um sýningu sína í Nýlistarsafninu árið 1992. Vegferð. 21. nóvember – 19. desember árið 2010 hélt Ásta sýningu á Suðsuðvestur en sjálf sýningin hét „Velferð“. Þar fjallaði hún um þróun og vegferð lands og þjóðar, samtaka, einstaklinga, stofnana og svo framvegis. Í kynningartexta sem gerður var fyrir sýninguna er minnst á hvernig vegferð getur verið bæði jákvæð og neikvæð. Án samskipta og hreyfiafls er vegferðin engin. Heimssýningin í París 1878. Heimssýningin í París 1878 (franska: "Exposition Universelle") var þriðja heimssýningin sem haldin var í París, Frakklandi. Hún stóð frá 1. maí til 10. nóvember 1878. Sýningin var fjármögnuð af frönsku ríkisstjórninni og var ætlað að sýna fram á endurheimtan styrk Frakklands eftir Fransk-prússneska stríðið 1870. Aðalsýningarsvæðið náði yfir 220.000m² á Champ de Mars. Yfir 13 milljón aðgöngumiðar seldust svo sýningin kom fjárhagslega vel út. Meðal nýrra uppfinninga sem sýndar voru var sími Alexanders Grahams Bell og grafófónn Edisons. Gatan og torgið við óperuhúsið Garnier-höll voru lýst upp með rafknúnum kolbogalömpum. Á sýningunni var líka sýnt „negraþorp“, eins konar mannagarður sem naut mikilla vinsælda. Fjöldi ráðstefna var haldinn í tengslum við sýninguna í Trocadéro-höll sem var reist fyrir hana. Þessar ráðstefnur leiddu til gerðar Parísarsamþykktarinnar 1883 sem var fyrsti alþjóðasamningurinn um hugverkarétt og Bernarsáttmálans um höfundarétt 1886. Rúnar Helgi Vignisson. Rúnar Helgi Vignisson er íslenskur rithöfundur og þýðandi og dósent í ritlist við Háskóla Íslands. Hann hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2006 fyrir Barndóm eftir J. M. Coetzee og verðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar árið 2007 fyrir bestu þýddu barnabókina, "Sólvæng". Meðal annarra útgefinna verka hans má nefna skáldsögurnar "Nautnastuld" (1990), "Ástfóstur" (1997), "Feigðarflan" (2005) og smásagnasafnið "Ást í meinum" sem hreppti Menningarverðlaun "DV" 2012. Xue Long. Mynd tekin af þilfari "Xue Long" af mönnum á rekís "Xue Long" (kínverska: 雪龙, „Snjódreki“) er ísbrjótur og rannsóknarskip í eigu Kínverska alþýðulýðveldisins með heimahöfn í Sjanghæ. Skipið var smíðað árið 1993 í Kershon í Úkraínu. Það er 167 metra langt og 22,6 metra breitt og er knúið einni átta strokka 17.700 hestafla díselvél. Skipið er með 34 manna áhöfn og getur tekið 128 farþega. Það er búið þyrlupalli og þyrlu og er með sjálfvirkan kafbát. Skipinu er aðallega ætlað að styðja við rannsóknir Kínverja og tilkall til landsvæðis á Suðurskautslandinu. Það hefur farið í fimm leiðangra um Norður-Íshafið gegnum Beringssund árin 1999, 2003, 2008, 2010 og 2012. Í ferðinni 2010 setti skipið met í nyrstu siglingu kínversks skips þegar það skráði stöðuna 88,22°N 177,20°V. Þegar skipið sigldi til baka frá Íslandi sumarið 2012 stóð til að sigla því á Norðurpólinn en því tókst ekki að sigla gegnum ísinn og fór því austur fyrir, líklega án þess að ná fyrra meti. Stórkjafta. Stórkjafta eða öfugkjafta (fræðiheiti: "Lepidorhombus whiffiagonis") er flatfiskur sem finnst í Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafinu á 100-700 metra dýpi. Stórkjafta getur orðið allt að 60 cm löng. Útlit. Sú hlið stórkjöftu sem snýr upp er rauðgrá eða gulmóbrún en hliðin sem snýr niður er hvít. Bæði haus og kjaftur eru stór og er nafn fisksins stórkjafta er komið af því. Lifnaðarhættir. Hún velur sér helst leir- eða sandbotn og lifir á smáfiskum, smokkfiskum og krabbadýrum. Eggert Pétursson. Eggert Pétursson (f. 1956) er íslenskur listmálari. Hann er þekktastur fyrir málverk sín af íslenskri flóru en hefur einnig hannað silfur skargripi, gefið út bókverk og myndskreytt fjölda bóka. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck akademíuna í Hollandi. Æska. Eggert hafði strax á unga aldri mikinn áhuga á grasafræði. Nú til dags getur hann málað mikið eftir minni. Menntun. Eggert stundaði listnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1976 til 1979 og útskrifaðist frá nýlistadeild skólans. Því næst hélt hann til framhaldsnáms við Jan Van Eyck akademíuna í Maastricht í Hollandi og lauk þar námi árið 1981. Á meðan að námi stóð mótaðist hann sem listamaður af hugmyndalist og tilraunamennsku seinni hluta 8. áratugarins. Hann hefur meðal annars unnið bókverk, málverk og innsetningar. Ungir íslenskir listamenn sóttu mikið í nám erlendis og komu heim með nýjar og ferskar hugmyndir, einkum frá Mið-Evrópu. Hann stundaði einnig nám við Menntaskólann við Tjörnina, þaðan sem hann lauk stúdentsprófi, frá árinu 1972 til 1976 og við Myndlistarskólann í Reykjavík frá 1974 til 1978. Ferill. Eggert fékk snemma áhuga á íslenskri flóru og hefur algjörlega sérhæft sig í henni. Hann var snemma vel að sér í náttúrufræði. Honum fannst náttúran vera staður til að sökkva sér í, viðfang til að safna og flokka. Stuttu eftir að hann fluttir aftur heim til Íslands frá Hollandi myndskreytti hann bókina "Íslensk flóra með litmyndum" eftir Ágúst H. Bjarnason grasafræðing sem kom út árið 1983. Teikningarnar hafa síðan verið gefnar út í upprunalegri stærð árið 2008. Árið 1989 sýndi Eggert í fyrsta sinn olíumálverk þar sem myndefnið var sótt í jurtaríkið og sýndu sérstaklega smáa og hverfandi hluta í íslenskri náttúru. Í þessu fann Eggert farveg þar sem þekking hans á grasafræði og frábærir teiknihæfileikar unnu fullkomlega saman. Á síðustu árum hefur Eggert verið á meðal dáðustu listamanna þjóðarinnar. Verk hans hafa verið sýnd víða um heim og eru í eigu safna og safnara bæði hér á landi og erlendis. Árið 2007 var haldin víðamikil yfirlitssýning á verkum hans á Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum. Eggert er listamaður sem fer um landið og skráir það sem fyrir augu ber. Hann greinir hverja einstaka plöntu, skilur ætt hennar, uppruna og samhengi. Þróun listaverka. Viðfangsefni Eggerts hafa nánast frá upphafi verið íslensk náttúra og jurtir en með tímanum hefur nálgun hans þróast og verkin tekið breytingum. Í fyrstu verkunum var teikningin smágerð, lyngbreiðan samfelld, birtan jöfn og nánast sem vélunnið munstur. Þannig voru verkin oft eintóma og höfðu hvorki upphaf né endi. Á síðari árum hefur myndbyggingin orðið flóknari og kennileiti eins og klettar eða sprungur sem vísa til ákveðinna staða orðið hluti af byggingu verkanna. Jurtirnar er þó enn í aðalhlutverki á myndunum. Þeir sem þekkingu hafa á grasafræði geta greint vissa landshluta eða vaxtarskilyrði úr fletinum eins og hve hátt yfir sjávarmáli viðkomandi plöntur þrífast og legu landsins gagnvart sól, vindi og regni. Þannig segja verk síðustu ára sögu flóru Íslands. Annað. Eggert merkir málverkin sín aldrei framan á framhlið strigans eins og tíðkast hjá flestum listmálurum. Þess í stað merkir hann bakhlið strigans enda leiðist honum áritanir framan á verkum og segir þær skemma verkin. Hann er meðlimur í Félagi Nýlistarsafnsins, SÍM - Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Gullpenslinum og Félagi Listmálara. Árið 2008 kom út bók með myndum Eggerts undir nafninu Flora Islandica eða Flóra Íslands. Hún var dýrasta bókin sem kom út í jólabókaflóðinu þetta árið og kostaði 75.000 kr. Bókin var gefin út í 500 eintökum og er um 12 kg. að þyngd. Umsagnir. „Á sýningunni á Kjarvalsstöðum... stígur Eggert Pétursson fram á sjónarsviðið sem málari sem náð hefur meistaratökum á viðfangsefni sínu... og þannig skapað sér algjöra sérstöðu og skipað sér í hóp með fremstu málurum samtímans.“ - Anna Jóhannsdóttir, myndlistargagnrýnandi. „Eggert Pétursson hefur á vissan hátt, líkt og Kjarval, skráð nýjan kafla í listasögu Íslendinga, fært okkur veröld sem áður var í listrænum skilningi flestum hulin, veitt okkur sýn á fegurðina, náð að snerta hjörtu okkar á óvæntan hátt og um leið skapað nýjan áfanga í íslenskri list... Eggert Pétursson hefur á síðari árum orðið eins konar Jónas [Hallgrímsson] í myndlistinni, listaskáld sem yrkir blómagarð á lérerftinu og frægð hans hefur á síðari árum að verðleikum borist vítt og breitt um veröldina.“ - Ólafur Ragnar Grímsson Tilvitnanir. „Málverk er málverk, ekki blóm. Þó málverkin mín sýni ákveðnar blómategundir og ég reyni að vera trúr öllum grasafræðilegum smáatriðum eru þetta ekki blómin sjálf. Mér finnst líka nafn loka á margvíslega tilfinningalega upplifun, það beinir verkinu í ákveðinn farveg þegar ég er að reyna að halda öllu opnu. Það er nóg að fólk þekki blómin í verkum mínum, ég þarf ekki að segja því hvað þau heita og enn síður í hvaða stellingar á að setja sig til að horfa á þau,“ segir Eggert aðspurður að því hvers vegna hann gefi myndunum sínum aldrei nöfn. Mesut Özil. Mesut Özil (fæddur 15. október 1988) er þýskur knattspyrnumaður. Hann spilar sem miðjumaður fyrir Arsenal og þýska landsliðið. Ozil, Mesut Sandhverfa. Sandhverfa (fræðiheiti:"Scophthalmus maximus") er flatfiskur af hverfuætt sem á heimkynni sín í ísöltum sjávarhöfum Norður-Atlantshafsins og eins í Miðjarðarhafi. Sandhverfan hefur fundist við Ísland og er ein af fjórum tegundum af hverfuætt sem þar hafa fundist. 867. 867 (DCCCLXVII í rómverskum tölum) var 67. ár 9. aldar og hófst á miðvikudegi samkvæmt júlíska dagatalinu. Burstaormar. Burstormar (fræðiheiti:"Polychaeta") eru hryggleysingjar af fylkingu liðorma. Af þeim eru til meira en 6 þúsund tegundir sem flestar eru minni en 10 millimetrar á lengd en þó eru til stærri og allt upp í risaskera sem getur orðið nokkrir tugir sentimetra á lengd. Burstormar einkennast eins og aðrir liðormar á því að hafa liðskiptan búk en einnig á totum og áberandi burstum sem þeir draga nafn sitt af. Þeir eru til í margskonar litum og líkamsbygging tegunda margbreytilegar þótt þeir hafi allir þessi grunn einkenni og þeir geta lifað við margbreytilegustu aðstæður. Finnast um allan heim og í höfum frá yfirborði niður í dýpstu myrkur sjávar og frá köldustu höfum til funheitra neðansjávar jarðvarmastúta. Aðeins fáar tegundir finnast þó í ferskvatni. Flestir eru þeir þó botnlægar sjávarlífverur sem grafa sig niður í leirur og set og lifa rán- eða grotlífi. Oft grafa þeir sér U-laga göng í botninn og lifa ofan í þeim göngum, með höfuðið við annan munnann en halann við hinn. Þannig er til dæmis sandmaðkurinn sem er mjög algengur á leirum við Ísland og má þekkja hvar göngin hanns eru á saurhrúgum sem myndast við holu hanns þeim megin sem halinn er. Schenger heilkenni. Schenger heilkenni er mjög fátíður erfðasjúkdómur. Aðeins um 20 tilfelli eru þekkt í heiminum. Magnea Guðmundsdóttir eignaðist fjögur börn þar af þrjú með þennan sjúkdóm. Hún ritaði ævisögu sína árið 2008 með Sigmundi Erni Rúnarssyni og var sú bók mest selda ævisagan það ár jafnframt því að vera valin ævisaga ársins. Einstaklingar með sjúkdómin lifa alla jafna mjög skamma stund en sumir ná 20 – 25 ára aldri. Sjúkdómurinn er einhverskonar vöðvarýrnunar sjúkdómur sem leggst fyrst á hjarta og augu og deyja sjúklingarnir venjulega því hjartað gefur sig. Einstaklingar með sjúkdóminn eru oftast blindir eða með mjög takmarkaða sjón. Fyrir utan þessi tilfelli á Íslandi eru flest hinna í Finnlandi eða Hollandi. Pólýfónkórinn. Pólýfónkórinn í Kristskirkju árið 1979. Pólýfónkórinn var blandaður kór sem starfaði í Reykjavík frá 1957 til 1988. Stofnandi hans og stjórnandi alla tíð var Ingólfur Guðbrandsson. Kórinn hélt um 400 tónleika á ferli sínum og fór í níu söngferðir út fyrir landsteinana. Tónleikar kórsins voru margir teknir upp af Ríkisútvarpinu og kórinn kom nokkrum sinnum fram í Sjónvarpi. Pólýfónkórinn var fyrstu árin skipaður milli 40 og 50 kórfélögum en síðustu árin oft yfir 100 manns. Þátttakendur voru flestir á jólatónleikum kórsins árið 1978, 150 talsins. Mikil áhersla var lögð á flutning kirkjulegrar barokk tónlistar frá 16. og 17. öld og kórinn tókst á við stór verkefni á borð við "Jólaóratoríu", "Jóhannesarpassíu", "Mattheusarpassíu" og "H-moll" messu Bachs og Messías Händels. Í nokkrum tilvikum frumflutti kórinn þessi stóru verk á Íslandi og stóð fyrir óstyttum flutningi þeirra í fyrsta sinn hér á landi. Töluverð áhersla var lögð á íslenska og erlenda nútímatónlist og stóð kórinn að frumflutningi nokkurra nútímaverka hér á landi. Á níunda hundrað kórfélaga komu fram í nafni kórsins, ríflega 100 hljóðfæraleikarar og um 60 einsöngvarar. Flutt voru um 200 tónverk eftir rösklega 70 höfunda. Kórskóli Pólýfónkórsins var starfandi um árabil og kórinn gaf út nokkra tónleika á plötum og geisladiskum. Pólýfónfélagið var stofnað í maí 2006 og hefur staðið fyrir árlegum útgáfum geisladiska með flutningi kórsins. Uppfærslur kórsins voru oft á tíðum mjög mannmargar og flóknar. Erlendir einsöngvarar og hljóðfæraleikarar voru fengnir til landsins ef þörf var talin á og ekkert til sparað að gera flutning hinna viðameiri tónverka sem áhrifamestan. Til marks um umfang tónleikahaldsins í viðamiklum uppfærslum þá voru flytjendur í fyrstu heildaruppfærslu á "Mattheusarpassíu" Bachs, í Háskólabíói árið 1982, ríflega 300 talsins. Kórinn söng í svonefndum Bel canto stíl sem rekja má til ítalskrar sönghefðar og var áberandi í Evrópu á barokk tímanum. Hann hæfði einkar vel þeirri tónlist sem mest áhersla var lögð á hjá kórnum. Þessi söngstíll var þó ekki vel þekktur hér á landi fyrir tilkomu kórsins. Kórinn dregur nafn sitt af orðinu pólýfón (polyphony) sem táknar marghljóma eða margradda tónlist. Það er notað um ákveðinn stíl í raddsetningu þar sem hver rödd er sjálfstæð laglína en raddir myndi ákveðna samhljóma þegar það á við. Dæmi eru svokallaðir keðjusöngvar, sem eiga að hljóma vel saman, þótt söngvarar byrji ekki á sama tíma. Margradda söngur er ólíkur samröddun (homophony) þar sem laglína er ráðandi en undirraddir hreyfast samhliða aðalrödd og mynda hljóma. Pólýfónísk tónlist nær aftur til 800 en varð áberandi á endurreisnartímanum. Hún þróaðist og varð flóknari í barokktímabilinu og er þá oft nefnd kontrapunktur. Blómatími þessarar tónlistar var 16. og 17. öldin í evrópsku tónlistarlífi hjá tónskáldum eins og Bach, Palestrina og Byrd. Stofnandi og stjórnandi. Ingólfur Guðbrandsson, stofnandi og stjórnandi Pólýfónkórsins. Ingólfur Guðbrandsson tónlistarmaður og ferðamálafrömuður, var stofnandi Pólýfónkórsins og stjórnandi alla tíð. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1943 og stundaði nám í tungumálum við Háskóla Íslands á árunum 1944-1949. Hann hélt til Englands í tónlistarnám við Guildhall School of Music og lærði einnig ensku og hljóðfræði við University College. Hann var í framhaldsnámi í Tónlistarháskólanum í Köln og dvaldist um skeið við Söngskólann í Augsburg, auk þess sem hann lagði stund á listasögu og listfræði á Ítalíu. Ingólfur varð kennari í Laugarnesskólanum árið 1943 og bryddaði þar upp á ýmsum nýjungum í tónlistarkennslu. Hann varð síðar námsstjóri tónlistarfræðslu hjá menntamálaráðuneytinu og starfaði sem skólastjóri Barnamúsíkskólans í Reykjavík. Ingólfur stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn árið 1955 og var forstjóri fyrirtækisins allt til ársins 1988. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Prímu og Heimsklúbb Ingólfs eftir það og starfaði á vettvangi ferðamála allt til ársins 2006. Ingólfur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1977 og ítölsku riddaraorðunni "Cavaliere della Repubblica Italiana" 1977 og 1991. Árið 1972 var hann gerður að heiðursfélaga Félags íslenskra tónmenntakennara. Í febrúar 2009 hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Ingólfur var ekki aðeins stofnandi og söngstjóri Pólýfónkórsins heldur var hann metnaðarfullur leiðtogi og drifkrafur kórsins alla tíð. Frá upphafi setti hann markið hátt og náði fljótt nokkurri sérstöðu með kórinn, bæði í verkefnavali og flutningi. Með tímanum urðu verkefnin viðameiri og kórinn stækkaði. Egill Friðleifsson skrifar svo um kórinn og stjórnanda hans árið 1977: „Það er erfitt að hugsa sér íslenskt tónlistarlíf án Pólýfónkórsins. Um tveggja áratuga skeið hefur hann flutt okkur mörg af fegurstu og göfugustu verkum tónbókmenntanna og með því aukið drjúgum við tónmennt þjóðarinnar. Með tilkomu Pólýfónkórsins kvað við nýjan tón — fágaðri og fegurri en áður hafði heyrst hérlendis, og víða má rekja greinileg framfaraspor í íslensku sönglífi til kórsins. Stofnandi og stjórnandi kórsins, Ingólfur Guðbrandsson, er vendipunktur söngsögu þessa lands, sem með hæfni sinni og fádæma dugnaði hefur öðrum mönnum fremur unnið sönglistinni gagn. Það hefur löngum gustað kringum Ingólf, enda hefur hann ekki alltaf þrætt alfaraleiðir. En þegar fjasið og masið og dægurþrasið hljóðnar standa verk hans eftir, óbrotgjarnir minnisvarðar um þrotlausa leit að hinum hreina tón — og verkin lofa meistarann. Hann hefur orðið öðrum hvatning til vandvirkni og aukið mönnum metnað í verkefnavali.“ Stofnun kórsins og fyrstu árin. Pólýfónkórinn var upphaflega skipaður nemendum úr Barnamúsíkskólanum, fyrrum nemendum Ingólfs Guðbrandssonar úr Laugarnesskólanum og nokkrum öðrum félögum. Jón Ásgeirsson, tónskáld, sagði í tilefni 30 ára afmælis kórsins að nemendur Laugarnesskólans undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar hafi bylt rótgrónum hugmyndum manna um söng. „Þessi einstæði barnakór varð um síðir kjarninn í Pólýfónkórnum”. Kórinn hélt tvenna tónleika í Kristskirkju árið 1957, en hafði þá ekki fengið nafn. Fyrstu opinberu tónleikarnir í nafni Pólýfónkórsins voru haldnir í Laugarneskirkju þann 8. apríl 1958. Þar voru á efnisskrá kirkjuleg verk. Í kórnum voru þá 41 kórfélagi á aldrinum 13 til 35 ára og honum til aðstoðar voru fimm hljóðfæraleikarar. Páll Ísólfsson lék einleik á orgel. Í umsögn um tónleikana í Þjóðviljanum segir Björn Franzson; „Þessi kór á miklu og stórmerku hlutverki að gegna í íslenzku tónmenntalífi, að rækja þá tónlist, sem hann hefur valið sér sérstaklega til meðferðar, eins og nafn hans bendir til, en við þá tónlist hafa ekki enn verið tök á að leggja tilhlýðilega rækt hér á landi, þó að til hennar teljist mikið af helztu gersemum tónmenntanna.“ Guðni Guðmundsson fjallar um tónleikana í Alþýðublaðinu og segir; „Söngur kórsins var mjög fágaður og féllu raddirnar afar vel saman. Það er verulegur fengur að þessum kór: Tónlistin sem hann flytur er gullfalleg og flutt af næmum smekk“. Dr. Sigurbjörn Einarsson minnist fyrstu tónleika kórsins þegar hann lítur yfir farinn veg á 30 ára afmæli kórsins 1988; „Þegar Pólyfónkórinn kom fyrst fram, mátti öllum, sem unna sönglist vera ljóst, að þar var íslensk söngvaharpa stillt og knúin með nýjum hætti, af miklum listrænum metnaði, sérstæðu næmi og leikni. Verkefnaval og túlkunarmáti var nýlunda hérlendis, þjálfun radda og söngstjórn með fersku og áhrifamiklu yfirbragði. Það var mér minnisstæð reynsla að njóta hinna fyrstu tónleika kórsins. Svipur og framkoma þessa reifabarns gáfu tilefni til mikilla vona. Þær hafa ræst. Það er óhætt að segja nú, þegar barnsskórnir eru löngu slitnir og kórinn hefur öruggum skrefum sótt fram um árabil, borinn upp af eldmóði, sem engir erfiðleikar hafa náð að slæva.“ Páll Ísólfsson segir um kórinn eftir tónleika í Gamla bíói, árið 1959; „Ingólfur Guðbrandsson hefur þegar unnið mikið og gott starf fyrir sönglistina. Pólýfónkórinn ber þessu starfi beztan vottinn. Hann er þegar orðinn svo vel þjálfaður, að unun er að hlusta á hann flytja hin vandsungnu lög eftir meistarana frá 16. og 17. öld en á þeim tíma blómstraði kórsöngurinn og náði í mörgum greinum einna hæst.” Meðal kórsöngvara á fyrstu árum kórsins voru Þorgerður Ingólfsdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Rúnar Einarsson, Gunnar Kvaran, Einar Sturluson og Hjalti Guðmundsson. Starfsemi kórsins frá 1960 – 1969. Björn Franzson ritar gagnrýni um kórinn 1960 og segir: „Pólýfónkórinn er stofnaður haustið 1957 og er því ekki nema hálfs þriðja árs eða þar um bil. Samt er hann þegar orðinn mikilvæg stofnun í menningarlífi höfuðstaðarins, stofnun sem margir myndu sakna mjög tilfinnanlega, ef svo illa skyldi til takast, að hún legðist niður. Ber þar einkum þrennt til: Fyrst það, hversu vandlátur og smekkvís kórinn eða stjórnandi hans er í vali verkefna sinna, það annað, að kórinn flytur nær eingöngu þá tegund verðmætrar tónlistar, sem oss myndi gefast lítill kostur að hlýða á, ef hans nyti ekki við, og svo það hið þriðja, hversu hann vandar til flutnings á öllu því, er hann velur sér til meðferðar.“ Pólýfónkórinn flytur Dauðadansinn eftir Hugo Distler í Kristskirkju árið 1961. Fremst á myndinni má sjá Lárus Pálsson, leikara og Sigríði Ellu Magnúsdóttur sem flutti texta í verkinu ásamt fleiri kórfélögum. Árið 1961 var viðburðarríkt í starfi kórsins. Haldnir voru tónleikar í Kristskirkju í apríl og desember, í Gamla bíói og í Keflavík, auk þess sem kórinn fór í sín fyrstu utanlandsferð um sumarið, til Englands og Wales. Á efnisskrá kórsins í Kristskirkju í apríl 1961 var meðal annars tónverkið "Dauðadansinn" eftir Hugo Distler og var Lárus Pálsson leikari lesari með kórnum. Jón Ásgeirsson telur að flutningur þessi hafi markað tímamót í flutningi nútímatónlistar hér á landi. Pólýfónkórinn á söngferð í Bretlandi, árið 1961. Kórinn tók fyrstur íslenskra kóra þátt í alþjóðlegu kóramóti og söngkeppni sem var haldin í Wales í júlí 1961 undir nafninu "Llangollen International Musical Eisteddfod". Í keppninni varð Ísland þriðja í röðinni af 27 þátttökulöndum. Kórinn kom fram í útvarpi og sjónvarpi í þessari för og söng í nokkrum kirkjum, meðal annars í Pálskirkjunni í London. Árið 1962 hélt kórinn tónleika í Kristskirkju en þá voru á efnisskrá verkið "Messa" eftir Gunnar Reyni Sveinsson og verk eftir Johan Bach og Orlando Di Lasso. Jón Þórarinsson segir í umfjöllun um tónleikana; „Söngur kórsins er enn sem fyrr framúrskarandi vel æfður og samstilltur, áferðarfagur og mjúkur.” Kórinn hélt tónleika í Gamla bíói og á Hótel Sögu í apríl 1963. Flutt var veraldleg tónlist frá 16. og 17. öld, nútímatónlist og negrasálmar frá 20. öld. Um þessa tónleikar segir Jón S. Jónsson; „Það er engum blöðum um það að fletta að Pólýfónkórinn er okkar vandaðasti og fágaðasti kór. Raddirnar eru einstaklega vel þjálfaðar og þá sérstaklega sópranarnir. Kórinn er mjög tónviss, eins og bezt kom fram í lögum Gesualdos og Þorkels. Íslenzkir söngstjórar (að mér meðtöldum) gætu mikið lært af Ingólfi Guðbrandssyni um meðferð og þjálfun radda.“ Árið 1964 hélt kórinn ferna tónleika í Reykjavík og eina í Akureyrarkirkju í samvinnu við Tónlistarfélag Akureyrar. Fluttar voru mótettur frá 16. öld, sálmalög í raddsetningu J. S. Bach, nútímatónlist og þjóðlög í raddsetningu Gunnars Reynis Sveinssonar og kaflar úr "Jólaóratóríu" Bachs, með einsöngvurum og kammerhljómsveit. Í júní söng kórinn í Kristskirkju á Listahátíð í Reykjavík og í september á vegum Musica Nova. Leifur Þórarinsson segir eftir tónleika í Kristskirkju í apríl; „Söngur Pólýfónkórsins vekur ávallt verðskuldaða athygli, þá er hann lætur heyra í sér hér í bæ. Hljómleikar hans undanfarin sex eða sjö ár hafa orðið öllum tónlistarunnendum mikið fagnaðarefni, því þar hefur ávallt mátt heyra vandaða og oft eftirminnilega efnisskrá, flutta af góðri smekkvísi og áhuga. Söngstjórinn Ingólfur Guðbrandsson á hér fyrst og fremst skildar þakkir fyrir, enda má segja, og þar er ekki verið að draga úr afrekum annarra dáindismanna, að starf hans hafi valdið straumhvörfum í söngmálum hér á landi.“ Á vortónleikum kórsins í Kristskirkju árið 1965 flutti kórinn eitt af höfuðverkum kirkjutónlistarinnar "Stabat Mater" eftir Palestrina og var þetta fyrsti flutningur á verkinu hér á landi. Kórinn var tvískiptur í verkinu og segir Þorkell Sigurbjörnsson í umsögn um tónleikana að flutningur kórsins á því hafi verið þrekvirki. Á sömu tónleikum var einnig kynnt hér á landi verkið "Agnus Dei" eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Kórinn flutti "Jólaóratóríu" Bachs í Kristskirkju ásamt kammerhljómsveit í desember sama ár. Árið 1966 hélt kórinn tónleika í Gamla bíói þar sem flutt var tónlist frá 16. og 17. öld ásamt nýrri tónlist, innlendri og erlendri. Tíu ára afmælisárið, 1967, var viðburðarríkt fyrir kórinn. Í janúar söng hann "Stabat Mater" eftir Szymanowski með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi á þeim tónleikum var Bohdan Wodiczko. Í mars sama ár réðst hann svo í flutning "Jóhannesarpassíu" Bachs með kammerhljómsveit og fimm einsöngvurum. Tónleikarnir voru haldnir í Kristskirkju og í Laugardalshöllinni. Atli Heimir Sveinsson segir í gagnýni um tónleikana; „Það er mikill viðburður í okkar fábreytta menningarlífi að Jóhannesarpassía Bachs skuli hafa verið flutt hér um páskana. Verkið er eitt mesta afrek í allri menningarsögu vesturlanda og kristninnar.“ Í júlí 1967 hélt kórinn til Belgíu til að taka þátt í Europa Cantat III söngmótinu. Europa Cantat var stofnað árið 1961 og fyrsta mótið var haldið í Passau í Þýskalandi. Þetta var önnur utanlandsferð kórsins og hélt hann sjálfstæða tónleika í Maison de la Culture í Namur auk þess að syngja á kóramótinu. Um 45 félagar voru með í söngförinni. Fyrir utanlandsferðina voru haldnir tónleikar í Austurbæjarbíói með sömu efnisskrá og sungin var í Belgíu. Síðustu tónleikar á afmælisárinu voru haldnir í Bifröst í Borgarfirði að tilstuðlan Tónlistarfélags Borgarfjarðar. Árið 1968 var ráðist í að frumflytja "H-moll messu" Bachs á Íslandi, nær óstytta. Kórinn var þá skipaður 62 kórfélögum en auk hans komu fram fjórir einsöngvarar og 30 manna hljómsveit. Halldór Haraldsson segir í umsögn um tónleikana: „Það er ekki lítil ákvörðun að ráðast í það stórvirki að flytja H-moll messu Bachs, þessa svimandi stóru smíð, sem oft er litið á eins og eitt af mikilfenglegustu afrekum mannsandans, eiginlega eitt af furðuverkum veraldar. Það hlýtur því að hafa tekið forvígismann þessa fyrirtækis svolítinn tíma að taka slíka ákvörðun, mikla íhugun, langan og strangan undirbúning. En þetta stóra skref var stigið og það á undraverðum tíma. Á aðeins fjórum mánuðum var verkið æft og síðan flutt hér í fyrsta sinn, 9. apríl að Kristskirkju, Landakoti. Geta má þess að erlendis tekur yfirleitt heilt ár að undirbúa þetta verk.“ Árið 1969 hélt kórinn tvenna tónleika í Kristskirkju. Á þeim fyrri, sem haldnir voru í maí, voru verk eftir Distler, Palestrina, Shütz og Victoria, en á jólatónleikunum var "Jólaóratóría" Bachs á dagskrá, með hljómsveit og einsöngvurum. Árin 1970 – 1979. Á norrænu kirkjulistarmóti í Kristskirkju 1970 frumflutti kórinn meðal annars verkið "Requiem" eftir Pál P. Pálsson ásamt því að flytja verk eftir Hallgrím Helgason. Kórinn fór í sína þriðju utanlandsferð til Austurríkis í júlí, en þar hélt hann sjálfstæða tónleika í Dómkirkjunni í Graz, í tengslum við Europa Cantat IV. Áður hélt hann tónleika með sömu efnisskrá í Kristkirkju. Sungin var kirkjuleg tónlist frá 15.-17. öld, sálmalög úr "Mattheusarpassíunni" og íslensk tónlist. Árið 1971 flutti kórinn "Magnificat" eftir Monteverdi ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Stjórnandi þeirra tónleika var Bohdan Wodiczko. Ári síðar frumflutti kórinn "Mattheusarpassíu" Bachs ásamt barnakór og tveimur kammersveitum í Háskólabíói. "Jólaóratoría" Bachs var svo flutt í Háskólabíói í desember sama ár. Árið 1973 markaði tímamót í sögu kórsins því auk þess að halda tónleika í Kristskirkju, Austurbæjarbíói og Skálholtskirkju fór kórinn í tónleikaferð til Danmerkur og Svíþjóðar og söng inn á sína fyrstu hljómplötu. Upptakan var gerð hjá sænska útvarpinu í Stokkhólmi í júní og fyrirtækið RCA gaf plötuna út (sjá YSVL 1-526). Í tilefni útgáfunnar skrifar Haukur Ingibergsson í Morgunblaðið: „Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að bæta lýsingarorðum við þau, sem fallið hafa á undanförnum árum um söng Pólýfónkórsins. Hann er í einu orði sagt frábær; stílhreinn, fagur, hljómmikill og nákvæmur. Er þar fyrst og fremst að þakka söngstjórn Ingólfs Guðbrandssonar. Er ég ekki alveg viss um að allir geri sér grein fyrir þeirri miklu þakkarskuld, sem íslenzkt tónlistarlíf stendur í við Ingólf, því að ótrúlega elju, vinnusemi og áhuga þarf til að halda saman svo stórum kór sem Pólyfónkórinn er árum saman, jafnvel þótt ekki sé tekið með í reikninginn það háa listræna plan, sem kórinn hefur alla tíð verið á. Það er því ekki að ástæðulausu, að þessi plata skula koma út á alþjóðamarkaði.“ Guðmundur Emilsson skrifar um kórinn: „Pólýfónkórinn, undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, hefur á 16 ára starfsferli sínum verið einhver glæsilegasti fulltrúi íslenzks tónlistarlífs svo sem ummæli innlendra og erlendra gagnrýnanda bera vott um. Kórinn hefur nær undantekningarlaust gert viðfangsefnum sínum, sem vel flest hafa verið brattgeng, dæmalaust góð skil og þannig í raun fegrað og bætt mannlífið hér norður frá. Mun það seint fullþakkað.“ Árið 1974 flutti kórinn "Jóhannesarpassíu" Bachs í Háskólabíói ásamt kammerhljómsveit og sjö einsöngvurum. Þetta var fyrsti heildarflutningur á verkinu hér á landi. Kórinn var þarna skipaður 100 félögum og hljómsveitin taldi 30 hljóðfæraleikara, undir forystu Rutar Ingólfsdóttur. Ingólfur stjórnaði flutningnum, en einsöngvararnir voru Michael Goldthorpe, tenór, sem söng hlutverk guðspjallamannsins, Sigurður Björnsson, tenór, sem söng aríur, Malcolm King, bassi, sem söng Pílatus og aríur, Halldór Vilhelmsson, bassi, sem fór með hlutverk Krists, Ingimar Sigurðsson, bassi, í hlutverki Péturs, Elísabet Erlingsdóttir, sópran, sem söng aríur og Ruth L. Magnússon, altó, sem söng aríur. Í mars 1975 flutti kórinn svo "Messías" eftir Händel í Háskólabíói. Tónleikunum var vel tekið og segir Jón Ásgeirsson í Morgunblaðinu: „Tónleikar Pólýfónkórsins hafa ávallt verið gæddir galdri og stundum all mögnuðum, en aldrei eins miklum og nú, við flutning Messíasar. Frammistaða kórsins var að öllu leyti góð, víða stórglæsileg, hápunktur 18 ára starfs og stórsigur fyrir Ingólf Guðbrandsson sem kórstjóra.“ Jón Kristinn Cortes skrifar í Vísi: „Ingólfur Guðbrandsson má vera stoltur af Pólýfónkórnum. Margar perlur tónbókmenntanna hefur kórinn flutt fyrir landsmenn, en ég held að aldrei hafi honum tekist eins vel í heildina eins og með Messías. Að geta æft og haldið saman 150 manna kór er þrekvirki í sjálfu sér, sérstaklega ef þess er gætt, að minnstur hluti kórfólksins er tónlistarmenntaður, og einnig verður að hrósa kórnum fyrir áhuga og elju, því mörg kvöldstundin hefur farið í æfingar, hefi ég aldrei séð eins stífa æfingatöflu og hjá Pólýfónkórnum fyrir þetta verk.“ Kórinn flutti Messías aftur í St. Cuthbert's Parish Church í Skotlandi í maí sama ár, ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum úr skosku útvarpshljómsveit BBC. Flutningur H-moll messu í Háskólabíói 1976. Í apríl 1976 flutti kórinn "Messu í H-moll" eftir J. S. Bach í Háskólabíói. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta stórvirki Bachs er flutt í heild sinni hér á landi. Í kórnum voru 145 manns og kammerhljómsveitin var skipuð 33 hljóðfæraleikurum. Einsöngvarar að þessu sinni voru Guðfinna D. Ólafsdóttir, Ásta Thorstensen, Ruth L. Magnússon, Jón Þorsteinsson, Ingimar Sigurðsson og Halldór Vilhelmsson. Rut Ingólfsdóttir var konsertmeistari hljómsveitarinnar. Á tuttugu ára afmælisári kórsins 1977 bar margt til tíðinda, ekki síst Ítalíuferð kórsins í júní. Í apríl voru settir upp hátíðartónleikar í Háskólabíói þar sem flutt voru verkin "Gloria" eftir Vivaldi, "Magnificat" eftir Bach og "Gloria" eftir Poulenc. Söngvarar voru um 150 og hljóðfæraleikarar um 50 talsins. Tónleikar þessir þóttu mjög vel heppnaðir. Jón Kristinn Cortes segir að tónleikarnir hafi í alla staði tekist hið besta, Sigurður Steinþórsson segir að þeir hafi verið glæsilegir og „mikilfenglegir“ og Egill Friðleifsson segir; „Í upphafskaflanum „Gloria in exelsis Deo” komu þegar fram helstu og bestu kostir kórsins, fegurð og samræmi í tærum hljómunum, mýkt og sveigjanleiki við mótun hendinga og hnitmiðuð framsetning. Má segja að þessi lýsing eigi við um frammistöðu kórsins á tónleikunum í heild. [..] Undirritaður átti þess kost að hlýða á síðasta konsertinn á laugardaginn. Það var ekki aðeins að hvert einasta sæti væri setið, heldur var drjúgt af fólki í göngum og á tröppum hússins, og fagnaðarlæti slík að varla finnst hliðstæða. Mun svo einnig hafa verið dagana á undan.“ Tónleikarnir voru teknir upp og hluti þeirra gefinn út á plötu (sjá P.001). Kórinn í Santa Croce í Flórens 1977. Kórinn hélt síðan tvenna tónleika í Háskólabíói í júní í aðdraganda Ítalíuferðar hans. Á verkefnaskrá þeirra fyrri voru "Gloria" eftir Vivaldi og "Magnificat" eftir Bach. Einnig var fluttur "Konsert í d-moll" eftir Bach, en þar léku María Ingólfsdóttir og Rut Ingólfsdóttir, konsertmeistari, einleik á fiðlu. Á síðari tónleikunum var óratórían "Messías" eftir Händel flutt (sjá P.002-4). Öll þessi verk voru síðan flutt á tónleikaferð kórsins á Ítalíu. Einsöngvarar í Ítalíuförinni voru Kathleen Livingstone, Ruth L. Magnússon, Neil Mackie, Michael Rippon, Halldór Vilhelmsson, Margrét Bóasdóttir og Hjálmar Kjartansson. Töluvert var fjallað um söngför kórsins til Ítalíu og þótti hún afar vel heppnuð. Sungið var á sjö stöðum, meðal annars í Markúsarkirkjunni í Feneyjum og Santa Croce í Flórens. Árið 1978 flutti kórinn "Jólaóratóríu" Bachs í Háskólabíói með kammersveit og fjórum einsöngvurum. Sá flutningur var gefinn út á tveimur geisladiskum árið 2012. Í apríl ári síðar var flutt kirkjuleg tónlist í Kristskirkju og farið með þá efnisskrá í söngför til London þar sem sungið var í St. Lawrence Jewry kirkjunni. Á efnisskránni voru meðal annars verkin "Ave Verum" eftir Mozart og verk eftir Bach, Palestrina og David. Í desember sama ár voru haldnir jólatónleikar í Háskólabíói. Á efnisskránni voru "Magnificat" og "Svíta nr. 4" fyrir hljómsveit eftir Bach ásamt köflum úr "Messíasi" eftir Händel. Árin 1980 – 1988. Í apríl 1980 var "Litla helgimessan" (Petite Messe Solennelle) eftir Rossini flutt í Háskólabíói og ári síðar flutti kórinn "Jóhannesarpassíu" Bachs í heild sinni í Háskólabíói með kammerhljómsveit og átta einsöngvurum. Flutningur passíunnar hlaut lofsamlega dóma og segir Leifur Þórarinsson í umsögn um tónleikana; „Ég held [..] að sjaldan eða aldrei hafi heyrst hér betri kórsöngur, í það minnsta man ég ekki eftir því. Jafnvægi og blæfegurð raddanna var með ólíkindum og samstillingin eins og best verður á kosið. Auðvitað má fyrst og fremst þakka öruggum smekk og kunnáttu stjórnandans, Ingólfs Guðbrandssonar, sem eftir mínu viti er kórstjóri á heimsmælikvarða. Hvernig hann dró fram aðalatriðin, hér í sópran, þar í innrödd eða bassa, án þess að ofgera nokkru sinni, var ótrúlega fallegt í stóru kórköflunum. Spennan í fjölskrúðugri gagnröddun Bachs var alltaf skýr og átakalaus, fullkomlega eðlileg. Þetta finnst mér þrekvirki, sérstaklega þegar tillit er tekið til hvað kórinn er fjölmennur og að hann er að mestu leyti skipaður áhugamönnum.“ Jón Ásgeirsson segir; „Pólýfónkórinn er ein merkasta tónlistarstofnun okkar Íslendinga og eftir aðeins aldarfjórðungsstarf hefur kórinn þegar lagt svo mikið til íslenskrar menningar að aðeins verður jafnað við Sinfóníuhljómsveit Islands. Framlag hans er og merkilegt fyrir þá sök, að fjárhagslega hefur þessi starfsemi, með smáskitlegum undantekningu, verið á ábyrgð kórsins og stjórnanda hans. Stofnun Pólýfónkórsins markar tímamót í flutningi kórtónlistar hér á íslandi, bæði hvað snertir söng og val viðfangsefna og hefur stjórnandi kórsins með atorku og fórnfýsi náð árangri, sem ekki aðeins telst frábær hér uppi á okkar kalda landi, heldur og meðal frægra menningarþjóða.“ Árið 1982 var viðburðarríkt í sögu kórsins. Ekki aðeins var sett upp stærsta uppfærsla kórsins fram að þeim tíma, heildarflutningur á "Mattheusarpassíu" Bachs, heldur fór kórinn í velheppnaða söngför til Spánar, að undangengnum tónleikum í Háskólabíói. Starfsárinu lauk svo með jólatónleikum í Kristskirkju. Í flutningi á "Mattheusarpassíunni" fékk kórinn, sem þá var skipaður 133 manns, til liðs við sig Hamrahlíðarkórinn með 78 félaga og Kór Öldutúnsskóla með 41 félaga. Hljóðfæraleikarar og einsöngvarar voru 50 samtals. Tónleikunum var afar vel tekið og sagði Thor Vilhjálmsson í umsögn sinni: „Það er árvisst undur og kraftaverk að Ingólfur Guðbrandsson ofurhugi flytur okkur hin stærstu kórverk tónbókmenntanna, með sínu vaska liði; og hefur komið sér upp dýrlegu hljóðfæri sem er Pólýfónkórinn, hefur náð að virkja músíkást hugsjónafólks sem leggur á sig ómælda vinnu og sækir æ hærra. Og nú síðast Mattheusarpassían eftir Bach. Þetta gerðist þann dag sem á að vera leiðinlegasti dagur ársins, að sögn; föstudaginn langa. Mikið var gaman þennan dag.“ Sigurður Þór Guðjónsson segir: „Mér fallast satt að segja hendur að skrifa um fyrsta flutning "Mattheusarpassíunnar" í heild á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verk sé kannski heilagasta tónlist sem sköpuð hefur verið. Þó hafði ég aldrei heyrt verkið í tónleikasal. En nú á föstudaginn langa rann upp sú langþráða stund. Og ég hika ekki við að telja þennan flutning einhverja fegurstu, einstæðustu og upphöfnustu athöfn sem ég hef lifað. Þetta var allt eins og í öðrum heimi.“ Pólýfónkórinn ásamt Hamrahlíðarkórnum, Kór Öldutúnsskóla og tveimur kammerhljómsveitum við heildarflutning Mattheusarpassíu Bachs í Háskólabíói 1982. Jón Ásgeirsson segir í umsögn sinni; „Það tekur nærri fjóra klukkutíma að flytja allt verkið og með rétt mátulegu kaffihléi, stóð flutningur þess frá því kl. 2 e.h. til 7 um kvöldið eða nærri því og fyrir undirritaðan var þetta aðeins stundarkorn [..]. Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi þessa flutnings, leitaði fanga víða og sparaði hvergi til svo flutningur verksins yrði sem mestur og glæsilegastur. Umhverfis kórinn hans, Pólýfónkórinn, hafði hann skipað Barnakór Öldutúnsskóla, Egils Friðleifssonar, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sem Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnar, tveimur kammerhljómsveitum, þar sem saman sátu efnilegir tónlistarnemendur og bestu tónlistarmenn þjóðarinnar, undir handleiðslu Rutar Ingólfsdóttur og Þórhalls Birgissonar, ásamt erlendum tónlistarmönnum, gambaleikaranum Alfred Lessing, söngvurunum Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Simon Waughan og íslenskum söngvurum, Elísabetu Erlingsdóttur, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og efnilegum söngvurum eins og Kristni Sigmundssyni, Unu Elefsen, Margréti Pálmadóttur og Ásdísi Gísladóttur. Þessum stóra hópi ágætra tónlistarmanna stýrði Ingólfur Guðbrandsson til fangbragða við erfitt og krefjandi tónverk meistara Bach, með þeim árangri að telja verður þessa tónleika tímamót í sögu tónleikahalds á Íslandi og tónleikana í heild mikinn listasigur fyrir fullhugann, bardagamanninn og listamanninn Ingólf Guðbrandsson.“ Ríkisútvarpið tók tónleikana upp og kórinn gaf þá út á fjórum hljómplötum árið 1983 (sjá P.005-8). Fyrir ferð kórsins og kammersveitar til Spánar sem farin var í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu voru haldnir tónleikar í Háskólabíói með sömu efnisskrá og sungin var í ferðinni. Þar bar til tíðinda að frumfluttir voru hlutar úr "Óratóríunni Eddu" eftir Jón Leifs. Jón Ásgeirsson segir um þann flutning: „Í þessum fáu tónhendingum úr Eddu Jóns Leifs sem Pólyfónkórinn flutti undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, sá ég ægiþrunginn svip þrumuguðsins Þórs, stórbrotna heimsmynd heiðindómsins, samblædda sögu manns og foldar, frumþætti lífshelgunar, sem er sameiginlegur grunnur allra trúarbragða.“ Kaflarnir úr Eddu höfðu mikil áhrif á tónleikagesti á Spáni en á verkefnaskránni þar voru auk þeirra Gloria eftir Poulenc, "Vatnamúsík" eftir Händel, verk eftir Buxtehude, tveir fiðlukonsertar þar sem Unnur María Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson léku einleik og kórar úr Messíasi. Tónleikar voru haldnir á fimm stöðum; í Malaga, Marbella, Nerja, Granada og Sevilla. Arnaldur Indriðason sem þá var blaðamaður á Morgunblaðinu fylgdi kórnum á ferðalaginu og skrifar nokkuð ítarlega ferðalýsingu. Upptaka af tónleikum á Spáni var gefin út árið 2007 (sjá POL.013). Jólatónleikarnir 1982 voru haldnir í Kristkirkju og nú bar svo við að Hörður Áskelsson var stjórnandi á tónleikunum. Sigurður Steinþórsson segir í umsögn sinni; „Frá því er skemmst að segja, að kórinn söng dæmalaust vel og hreint og jafnvægi var næsta fullkomið milli raddanna.“ Árið 1983 hélt kórinn jólatónleika í Kristskirkju, með þátttöku nemenda Kórskólans. Flutt voru verk eftir Schütz, Bach, Schubert, Mendelsohn, Róbert A. Óttósson og Sigvalda Kaldalóns, auk þekktra jólalaga frá Bretlandi og meginlandinu. Einsöngvarar með kórnum voru Kristinn Sigmundsson og Una Elefsen. Í maí 1984 stjórnaði Ingólfur flutningi kórsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói á "Ave verum" eftir Mozart, "Te deum" eftir Verdi og "Stabat Mater" eftir Rossini. Einsöngvarar voru Denia Mazzola, Claudia Clarich, Paolo Barbicini og Carlo de Bartoli, en þau komu gagngert frá Ítalíu til að taka þátt í þessum flutningi. „Þetta voru frábærir tónleikar og stjórnandi og flytjendur voru hylltir í lokin.“ sagði Jón Ásgeirsson tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins eftir tónleikana. Þann 23. mars 1985 héldu kórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands aðra tónleika sína undir stjórn Ingólfs. Þetta voru hátíðartónleikar á 300 ára afmælisdegi Bachs og tekist á við stórvirki hans; "H-moll messuna". Í gagnrýni Morgunblaðsins segir; „Í heild voru þetta glæsilegir tónleikar og verðugir minningu Bachs og með þeim menningarblæ er ávallt hefur mótað starf Ingólfs Guðbrandssonar og Pólýfónkórsins.“ Rögnvaldur Sigurjónsson segir; „Það má teljast til mikilla afreka að æfa þetta margslungna meistaraverk, með leikmenn eins og söngfólk í kórum hér á landi óneitanlega er. En Ingólfur lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og tókst flutningurinn ótrúlega vel þegar á allt er litið.“ Tónleikarnir voru hljóðritaðir og gefnir út af Pólýfónfélaginu árið 2007 (sjá 12). H-moll messa flutt í kirkju heilags Frans frá Assisi 1985. Í júlí hélt kórinn síðan með H-moll messuna í söngför til Ítalíu, ásamt ríflega 30 manna kammersveit. Sungið var á opnunarhátíð tónlistarhátíðar í Assisi, í kirkju San Ignazio í Róm, í Santa Croce kirkjunni í Flórens og í Markúsarkirkjunni í Feneyjum. Í desember 1986 leiddu kórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands enn saman hesta sína og fluttu "Messías" eftir Händel í hinni nývígðu Hallgrímskirkju. Um var að ræða fyrsta heildarflutning verksins á Íslandi. Í umfjöllun um tónleikana segir; „Í bráðum þrjátíu ár hefur Pólýfónkórinn staðið fyrir stórtíðindum í flutningi kórtónlistar hér á landi, auk þess sem söngtækni sú sem einkennt hefur kórinn frá upphafi markaði tímamót í söngsögu Íslendinga. [..] Stjórnandanum, Ingólfi Guðbrandssyni, verður seint þakkað framlag hans til söngmenntar í þessu landi. Áheyrendur þakka honum með því að sækja tónleika kórsins af hreinni ástríðu og þörf. Þar í er fólgin sú viðurkenning að starf Ingólfs og Pólýfónkórsins hafi ávaxtast eins og segir í dæmisögunni og sannaðist í glæsilegum flutningi Messíasar að þessu sinni.“ Tónleikar þessir voru hljóðritaðir og gefnir út árið 1987 bæði í heild sinni (CD) og á hljómplötu með völdum köflum (sjá 9 og POL.010). Kórinn söng "Messías" aftur í Hallgrímskirkju í desember 1987 með kammersveit. Síðustu tónleikar Pólýfónkórsins voru haldnir í nóvember 1988 í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrirhugað var að halda sönglistahátíð kórsins í apríl í tilefni 30 ára afmælis hans, en af því varð ekki vegna veikinda stjórnandans. Á efnisskránni í nóvember voru verk sem spanna um 400 ára tónlistarsögu en höfundar voru Monteverdi, Bach, Verdi, Bizet, Rossini og Orff. Einsöngvarar voru Ásdís Gísladóttir, Elísabet Eiríksdóttir, Elísabet Erlingsdóttir, Erna Guðmundsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Kristinn Sigmundsson. Tónleikarnir fengu góðar viðtökur hjá áhorfendum jafnt sem gagnrýnendum.Þeir voru teknir upp og gefnir út af Pólýfónfélaginu árið 2008 (sjá 16). Með þessum tónleikum lauk löngum og farsælum ferli Pólýfónkórsins. Egill Friðleifsson segir í grein í Morgunblaðinu; Formenn Pólýfónkórsins. Fyrsti formaður Pólýfónkórsins var Stefán Þengill Jónsson, múrari og söngkennari. Rúnar Einarsson, rafvirki, tók við hlutverki formanns 1961 og gegndi því í sextán ár. Friðrik Eiríksson, matreiðslumeistari, tók við keflinu 1977 og var formaður kórsins allt til ársins 1985. Kristján Már Sigurjónsson, verkfræðingur, var formaður síðustu starfsár kórsins. Pólýfónfélagið. Pólýfónfélagið var stofnað í maí 2006. Formaður var kosinn Ólöf Magnúsdóttir, en aðrir í stjórn voru Halldór Vilhelmsson, Hákon Sigurgrímsson, Guðmundur Guðbrandsson, Hekla Pálsdóttir og Kolfinna Sigurvinsdóttir. Við fráfall Halldórs Vilhelmssonar árið 2009 tók Áslaug Ólafsdóttir sæti hans í stjórn. Félagið var stofnað með það að markmiði að varðveita margvísleg gögn, nótur og útgefið efni Pólýfónkórsins ásamt því að tryggja varðveislu á tónböndum í safni Ríkisútvarpsins með upptökum af söng kórsins. Félagið hefur þegar gefið út 7 geisladiska með söng kórsins frá 2007 og haft með höndum kynningu þeirra og dreifingu. Félagið hefur einnig styrkt tengsl milli fyrrum kórfélaga með samkomum, kynningum og utanlandsferðum. Prentað efni. Á 30 ára afmælisári kórsins, árið 1987 var gefin út bókin "Í ljósi líðandi stundar. Pólýfónkórinn 1957-1987." Kórinn gaf bókina út og söfnun efnis og umsjón útgáfu var í höndum Guðmundar Guðbrandssonar og Sigrúnar Hlínar Sigurðardóttur. Í bókinni er starf kórsins í 30 ár rakið í máli og myndum, umsagnir og kveðjur birtar og blaðaumfjöllun um einstaka tónleika, verkefnaskrá kórsins á tímabilinu og listi yfir söngvara, aðstoðarfólk og kórfélaga. Í bókinni eru myndir og frásagnir af ferðum kórsins út fyrir landsteinana og hugleiðingar kórfélaga og stjórnanda sem líta yfir farinn veg. Metnaður var lagður í að gera söngskrár vel úr garði, ekki síst þegar um var að ræða stærri tónleika. Oft voru þýðingar á textum í lengri verkum svo að áhorfendur gætu fylgst með söguþræði. Einnig fylgdi með kynning á höfundi og annar viðeigandi fróðleikur. Hljómplötuútgáfunum fylgir einnig fróðleikur um verk og flytjendur. Hljómleikastaðir 1957 – 1988. Yfirlit yfir þá staði sem hljómleikar voru haldnir ásamt ártali. Hér eru taldar uppfærslur en ekki tiltekið hve oft hver uppfærsla var flutt. Undirleikarar og aðstoðarfólk við raddþjálfun og æfingar. Undirleikarar og aðstoðarfólk við raddþjálfun og æfingar voru þessir á árunum 1957 – 1987. Pólýfónkórinn, án undirleiks. Pólýfónkórinn er hljómplata með söng Pólýfónkórsins gefin út af RCA Victrola árið 1973. Um er að ræða fyrstu hljómplötu kórsins, en hún var tekin upp í Stokkhólmi í júní 1973 þegar kórinn fór í söngferð til Danmerkur og Svíþjóðar. Söngstjóri var Ingólfur Guðbrandsson. Allur flutningur er án undirleiks (a capella) og platan er tekin upp í steríó. Hljóðmeistari var Sylve Sjöberg en upptökustjóri var Frank Hedman. Upptaka var í gerð í Studio 2 hjá Sveriges Radio. Á fyrri hlið plötunnar eru stutt erlend verk frá 15., 16. og 17. öld en á hinni hliðinni eru nútímaverk eftir íslensk tónskáld. Um útgáfu plötunnar. Fjallað um útgáfu plötunnar í "Tímanum" 1973; „Hljómplata með söng Pólýfónkórsins er komin út hjá hinu heimskunna fyrirtæki RCA. Platan kemur samtímis á markað í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Þýzkalandi, og mun að líkindum einnig koma út í Ameríku og fara á heimsmarkað. Platan var hljóðrituð í stúdíói hjá sænska sjónvarpinu á einum degi í júní í sumar, en þá var kórinn á söngferð í Svíþjóð. Fékk hann frábæra dóma fyrir flutning á verkum þeim, sem tekin voru á plötuna og síðan birtu tónlistargagnrýnendur dönsku blaðanna mjög lofsamlega dóma um söng kórsins í Danmörku. Á plötunni eru bæði íslenzk og erlend verk. Íslenzku höfundarnir eru Páll P. Pálsson, Fjölnir Stefánsson og Þorkell Sigurbjörnsson, en þeir erlendu Scarlatti, Lasso, Josquin des Prés, Schutz og Palestrina. Er platan allgott sýnishorn af viðfangsefnum Pólýfónkórsins á 16 ára starfsferli hans og verður væntanlega kærkomin jólagjöf unnendum góðrar tónlistar. Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi kórsins sagði blaðinu, að 4000 eintök hefðu verið pressuð af plötunni og kæmi helmingurinn á markað hérlendis. Textar munu fylgja, bæði á frummálinu og íslenzku.“ Enska knattspyrnudeildin. Enska knattspyrnudeildin (enska: "Football League") er knattspyrnudeild félagsliða í Englandi og Wales. Hún var stofnuð árið 1888 og er því elsta knattspyrnudeild heims. Deildin var efsta deild enskrar knattspyrnu frá stofnun til ársins 1992 þegar 22 efstu liðin klufu sig úr henni og stofnuðu Ensku úrvalsdeildina. Ástæða þess var meðal annars aukinn kostnaður í kjölfar hertra reglna um öryggi leikvanga og aðgerða til að stöðva ofbeldi á knattspyrnuleikjum. Frá 1995 hefur deildin skipst í þrennt: meistaradeild, fyrstu deild og aðra deild. Efstu liðin í meistaradeildinni skipta um sæti við neðstu liðin í úrvalsdeildinni og neðstu liðin í annarri deild skipta um sæti við efstu liðin í Enska knattspyrnuráðinu. Frumkvæðið að stofnun deildarinnar kom frá formanni Aston Villa, William McGregor, þremur árum eftir að Enska knattspyrnusambandið heimilaði atvinnumennsku í knattspyrnu. Hugsanlega byggðist hugmynd hans á nýrri deild í amerískum háskólafótbolta sem enskir fjölmiðlar greindu frá árið áður. Lumière-bræður. Lumière-bræður voru Auguste Marie Louis Nicolas (19. október 1862 – 10. apríl 1954) og Louis Jean (5. október 1864 – 6. júní 1948) Lumière. Þeir voru fyrstu kvikmyndagerðarmenn sögunnar. Þeir fæddust báðir í Besançon í Franche-Comté í Frakklandi en fjölskyldan flutti árið 1870 til Lyon. Faðir þeirra, Antoine Lumière (1840–1911), rak ljósmyndastofu og þeir unnu báðir fyrir hann, Louis sem efnafræðingur og Auguste sem framkvæmdastjóri. Louis hóf að beita þurrplötuaðferð við ljósmyndir sem var mikilvægt skref í átt að kvikmyndatöku. Þegar faðir þeirra fór á eftirlaun 1892 hófu bræðurnir að gera tilraunir með kvikmyndatöku. Þeir fengu einkaleyfi á fjölda uppfinninga sem tengdust gerð fyrstu kvikmyndatökuvélarinnar, svo sem filmugötum, og síðan kvikmyndavélinni sjálfri 13. febrúar 1895. Fyrsta upptakan var gerð með vélinni 19. mars sama ár og sýnir verkamenn ganga út úr verksmiðju Lumière-bræðra: "Sortie des Usines Lumière à Lyon". Þeir sýndu nokkrar örstuttar kvikmyndir þetta ár á Salon Indien du Grand Café í París og fóru árið eftir í heimsreisu með vélina. Þeir gerðu þó lítið með þessa uppfinningu sína, neituðu til að mynda að selja Georges Méliès vélina 1895 og réðu honum frá því að fara út í kvikmyndagerð. Næstu ár þróuðu þeir nýja aðferð við litljósmyndun, Autochrome Lumière, sem kom á markað 1907. Á millistríðsárunum varð Louis fylgjandi fasismans og báðir bræður studdu Vichy-stjórnina og Philippe Pétain og studdu myndun Frönsku sjálfboðaliðasveitarinnar sem barðist með þýska hernum í Sovétríkjunum. Fyrirtæki þeirra framleiddi ljósmyndavörur fram á 7. áratug 20. aldar þegar það sameinaðist breska fyrirtækinu Ilford Photo undir merkjum þess síðarnefnda. Bogamaðurinn ehf.. Bogamaðurinn ehf var fyrirtæki í eigu Guðlaugs þórs Þórðarsonar sem var stofnað til að hafa umboð fyrir tryggingamiðlun svissneska tryggingafélagsins Swiss Life. Bogmaðurinn var stofnaður þann 11. júní 2003. Guðlaugur Þór seldi síðan Landsbankanum fyrirtækið. Greiðslan var tæpar 33 milljónir og var greidd mánuði eftir að Guðlaugur komst á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðlaugur sagði síðar: „Þetta er væntanlega einn versti díll sem nokkur maður hefur gert,“ og sagðist hafa selt umboðið nánast á kostnaðarverði sé tekið mið af kostnaði vegna láns sem hann tók til kaupanna á umboðinu. Fyrirtækið Bogamaðurinn kom mikið við sögu í brottrekstri Gunnars Þ. Andersen úr starfi forstjóra hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir að hafa komið upplýsingum um Bogamanninn nafnlaust til DV. Georges Méliès. Marie-Georges-Jean Méliès (8. desember 1861 – 21. janúar 1938) var franskur töframaður og kvikmyndagerðarmaður sem var frumkvöðull í notkun tæknibrellna á árdögum kvikmyndanna, svo sem tvítöku, tímatöku, myndblöndun og handmálun á filmur. Tvær af frægustu kvikmyndum hans eru "Ferðin til tunglsins" (1902) og "Le Voyage à travers l'impossible" (1904). Hann gerði yfir 500 kvikmyndir fyrir fyrirtæki sitt Star Film til 1914 en varð á endanum gjaldþrota og missti kvikmyndaverið til Pathé. Franski herinn bræddi yfir 400 filmur með myndum hans í Fyrri heimsstyrjöld og þegar Pathé tók yfir kvikmyndaver Meliès árið 1923 eyðilagði hann sjálfur allar negatívur sem hann geymdi í kvikmyndaverinu auk leikmynda og búninga. Meðal annars vegna þessa hafa einungis um 200 kvikmyndir varðveist eftir hann. Á 3. áratugnum dró hann fram lífið sem sælgætis- og leikfangasölumaður á Montparnasse-lestarstöðinni í París. Seint á 3. áratugnum óx áhugi kvikmyndagerðarmanna á myndum hans og hann var heiðraður á margvíslegan hátt, meðal annars með orðu franska heiðursvarðarins, og fékk síðan inni á elliheimili Frönsku kvikmyndasamtakanna í Orly 1932. Þar vann hann með mörgum yngri kvikmyndagerðarmönnum til æviloka. Hann lést úr krabbameini eftir langvinn veikindi 1938. Ævi hans varð innblástur fyrir myndskreyttu bókina "The Invention of Hugo Cabret" eftir Brian Selznick sem Martin Scorsese gerði kvikmyndina "Hugo" eftir árið 2011. Vichy-stjórnin. Kort sem sýnir skiptingu Frakklands eftir ósigurinn 1940 Vichy-stjórnin var ríkisstjórn Frakklands eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum í orrustunni um Frakkland í júlí 1940 þar til Bandamenn leystu Frakkland undan hernámi Þjóðverja í ágúst 1944. Eftir ósigurinn skipaði forseti Frakklands, Albert Lebrun, Philippe Pétain forsætisráðherra. Stjórnin kom saman í bænum Vichy í Auvergne. Eftir undirritun friðarsamninga við Þýskaland fékk Pétain aukin völd og heimild til að afnema lagareglur og endurskrifa stjórnarskrána. Pétain kom á alræði í verki þótt hann legði ekki niður stofnanir Þriðja lýðveldisins: lýðræði var afnumið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar látnir víkja fyrir skipuðum fulltrúum stjórnarinnar, borgaraleg réttindi voru afnumin og refsingar teknar upp fyrir gagnrýni á stjórnina. Engu að síður studdi meirihluti fransks samfélags nýju stjórnina til að byrja með. Hún var álitin nauðsynleg til að Öxulveldin, Þýskaland og Ítalía, skiptu Frakklandi ekki á milli sín. Þessi stuðningur fór minnkandi eftir því sem á leið og andspyrna óx að sama skapi. Friðarsamningarnir við Þjóðverja fólu í sér að Vichy-stjórnin hélt stjórn alls Frakklands að nafninu til. Þjóðverjar réðu í reynd yfir öllu Norður- og Vestur-Frakklandi ("Zone occupée") en Vichy-stjórnin yfir Mið- og Suður-Frakklandi ("Zone libre") að undanskilinni mjórri ræmu við landamæri Ítalíu og Sviss sem Ítalir höfðu hernumið í upphafi styrjaldarinnar. Af nýlendum Frakka réði stjórnin yfir norðurhluta Alsír og Frönsku Vestur-Afríku en missti fljótlega yfirráð yfir nýlendum í Mið-Afríku og Asíu. Sumar nýlendur kusu heldur að taka afstöðu með útlagastjórninni í London en Vichy-stjórninni. Tvær milljónir franskra hermanna voru áfram í haldi Þjóðverja og notaðir sem vinnuafl í Þýskalandi. Franskir hermenn sem störfuðu áfram í "Zone libre" voru undir stjórn þýska hersins. Stjórninni bar auk þess að greiða fyrir uppihald þýskra hermanna í "Zone occupée". Vichy-stjórnin vann náið með þýsku hernámsstjórninni enda réði þýski herinn í raun líka yfir "Zone libre". Meðal þess sem stjórnin gerði var að handtaka gyðinga og pólitíska flóttamenn og koma þeim í hendur Þjóðverja sem fluttu þá í fangabúðir. Í samstarfi við þýska herinn stóð Vichy-stjórnin fyrir stofnun vopnaðra hópa, Milices, til að berjast gegn andspyrnumönnum. Í London myndaði hópur franskra landflótta herforingja, undir stjórn Charles de Gaulle, útlagastjórn Vichy-stjórninni til höfuðs. Eftir innrás Bandamanna í Frakkland myndaði De Gaulle bráðabirgðastjórn Franska lýðveldisins. Eftir ósigur Þjóðverja voru þeir ráðamenn Vichy-stjórnarinnar sem ekki tókst að flýja handteknir af bráðabirgðastjórninni og kærðir fyrir landráð. Pétain var dæmdur til dauða en dómnum var breytt í lífstíðarfangelsi. Þúsundir fylgismanna stjórnarinnar voru teknar af lífi án dóms og laga af frönskum andspyrnumönnum. Pólýfónkórinn og kammersveit – Gloria og Magnificat. Pólýfónkórinn og kammersveit – Gloria og Magnificat er hljómplata með Pólýfónkórnum, einsöngvurum og kammersveit sem gefin var út af Pólýfónkórnum 1977. Stjórnandi var Ingólfur Guðbrandsson. Um er að ræða fyrstu útgáfu með söng kórsins sem hann gaf út sjálfur. Upptakan var gerð af Ríkisútvarpinu á tónleikum kórsins og kammersveitar í Háskólabíói í apríl 1977. Kórfélagar voru 142 og hljómsveitina skipuðu 50 hljóðfæraleikarar. Einsöngvarar voru Ann-Marie Connors, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Keith Lewis og Hjálmar Kjartansson. Hljóðvinnslu á frumupptöku Ríkisútvarpsins annaðist Tryggvi Tryggvason í London. Lagalisti. Hlið 1: Gloria – "Höfundur: Antonio Vivaldi (1678-1741)" - Hlið 2: Magnificat - "Höfundur: Johann Sebastian Bach (1685-1750)" - Pólýfónkórinn og kammersveit í Háskólabíói 1977. Pólýfónkórinn, kammersveit og einsöngvarar á tónleikum í Háskólabíói í apríl 1977. Í umsögn um tónleika kórsins segir Egill Friðleifsson; „Gloria Vivaldis er í tólf þáttum fyrir kór einsöngvara og hljómsveit. Verkið, sem ekki hefur verið flutt hérlendis áður, er hlaðið mikilli spennu og krafti, eins og svo mörg önnur verk þessa þróttmikla Ítala. Í upphafskaflanum „Gloria in exelsis Deo“ komu þegar fram helstu og bestu kostir kórsins, fegurð og samræmi í tærum hljómunum, mýkt og sveigjanleiki við mótun hendinga og hnitmiðuð framsetning. Má segja að þessi lýsing eigi við um frammistöðu kórsins á tónleikunum í heild. Einsöngvararnir gerðu hlutverkum sfnum góð skil. Enska sópransöngkonan Ann-Marie Connors hefur fallega rödd og söng músíkalskt, en Elísabet Erlingsdóttir gaf henni í engu eftir, t.d. í dúettþættinum „Laudamus te”. Sigríður E. Magnúsdóttir söng af þokka, einkum var túlkun hennar á aríunni „Esurientes implevit bonis” í verki Bachs eftirminnileg. Magnificat Bachs er einnig í tólf þáttum. Það hefur áður hljómað í ágætum flutningi Fílharmóníukórsins fyrir rúmum áratug. Var mikill fengur að því að fá á ný notið þessa stórbrotna verks í svo vönduðum flutningi sem hér. Söngur kórsins í sjöunda kaflanum „Fecit potentiam in brachio suo” var stórkostlegur. Rödd Hjálmars Kjartanssonar barst vel í aríunni „Quia fecit mihi” og nýsjálenski söngvarinn Keíth Lewis býr yfir flestum þeim kostum er prýða má góðan tenór. Meðferð hans á áttunda þætti „Deposuit potentes de sede” var mjög góð.” Um höfundana. Ingólfur Guðbrandsson skrifar um Vivaldi, höfund "Gloriu" aftan á plötuumslagið; „Tónskáldið og fiðlusnillingurinn Antonio Vivaldi var sonur fiðluleikara við Markúsarkirkjuna í Feneyjum Hann var settur til mennta og tók prestsvígslu, og meðal almennings var hann kallaður „il prete rosso", „rauði presturinn". Hann lagði þó brátt niður prestskapinn og sneri sér eingöngu að tónlistinni. Frá 1704 starfaði hann við Conservatorio della Pietá í Feneyjum, frægum tónlistarskóla fyrir ungar stúlkur, þar sem hann varð fyrst konsertmeistari og síðan stjórnandi skólans. Hann var afkastamikið tónskáld og samdi fjölda tónverka fyrir einleikshljóðfæri og hljómsveitir, frægastir eru fiðlukonsertar hans og conserti grossi, en á árunum 1713-39 samdi hann og stjórnaði 39 óperum víðs vegar á Ítalíu. Vivaldi var einn mesti fiðlusnillingur síns tíma og eftirsóttur einleikari, enda sífellt á ferðalögum. Tónsmíðar hans höfðu mikil áhrif á J.S. Bach, sem umsamdi 20 þeirra fyrir önnur hljóðfæri. Vivaldi samdi nokkur verk fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, og er Gloria í D-dúr, sem hér er flutt, eitt hið kunnasta þótt ekki hafi það heyrzt hér áður, fremur en önnur kórverk hans. Það er talið vera samið um 1715 og er í 12 þáttum fyrir ferradda kór, einsöngvara, strokhljómsveit, óbó og trompet. Yfir tónsmíð þessari ríkir einstök heiðríkja. Frá upphafi til enda hljómar hér fagnandi lofgjörð um mikilleik Guðs. Sá innri þróttur og þrotlaus spenna, sem einkennir mörg hljómsveitarverk Vivaldis, birtist hér upphafin i margslungnu formi og litadýrð og miklar nafn skaparans í krafti tilbeiðslu og trúarvissu.“ Ingólfur skrifar einnig um Bach, höfund "Magnificat": „Jóhann Sebastian Bach, kantorinn, orgelsnillingurinn og tónskáldið frá Leipzig, sem nefndur hefur verið „fimmti guðspjallamaðurinn", þarf naumast að kynna fyrir áheyrendum Pólýfónkórsins, þar eð kórinn hefur áður flutt öll stærstu verk hans, Jólaoratoríuna. Jóhannesarpassíuna, Mattheusarpassíuna og H-moll messuna og sum þessara verka margsinnis á ferli kórsins. Pólýfónkórinn flytur nú Magnificat Bach í fyrsta sinn. H-moll messan, Magnificat og 5 útgáfur af Sanctus eru einu verk Bachs við latneskan texta. Talið er, að hann hafi samið Magnificat til flutnings í Leipzig á jólum 1723. Sú gerð verksins var í Es-dúr og í tilefni jólanna var 4 aukaþáttum skotið inn á milli þátta verksins. Bach umsamdi verkið í D-dúr árið 1732 og gerði á því ýmsar breytingar, og í þeirri gerð er það nú flutt. Magnificat var þáttur í guðsþjónustunni á stórhátíðum kirkjuársins, á jólum, páskum og hvítasunnu. Þar eð messan var löng, var tíminn fyrir flutning Magnificats takmarkaður. Er það talið orsök þess að Bach sneið verkinu svo þröngan stakk, það er aðeins um 600 taktar að lengd, og ekkert er endurtekið, hvergi da capo. Þrátt fyrir það býr það yfir ódauðlegri fegurð og snilld og er skyldast H-moll messunni að búnaði og gerð, samið fyrir 5 radda kór og sömu hljóðfæraskipan og H-moll messan. Eins og í henni og Mattheusarpassíunni fer hér saman formsnilld og andagift, sem skipa þessum verkum á svið upphafinnar tjáningar, alþjóðleg og óháð tímanum. Hinn fagnandi inngangur verksins, fullur af trúartrausti, er rifjaður upp í lokin: „Sicut erat in principio", svo sem var i öndverðu, er enn og verður ávallt um aldir alda. Amen.“ Sjóminjasafn Austurlands. Sjóminjasafn Austurlands er safn á Eskifirði í gömlu verslunarhúsi sem verslunarfélagið Örum & Wulff byggði um 1816. Carl D. Tulinius sem var starfsmaður hjá félaginu, keypti verslunina um 1860 og rak hana til dauðadags árið 1905. Þá tóku afkomendur hans við og kölluðu fyrirtækið C.D. Tulinius efterfölgere og starfaði það til ársins 1912. Á þeim tíma var byggt nýtt verslunarhús og við það hlaut eldra húsið nafnið Gamla-Búð og hefur það haldist alla tíð síðan. Gamla-Búð hefur þjónað margvíslegum hlutverkum í bæjarfélaginu, eftir að verslunin var flutt, fyrst sem pakkhús og síðar fiskgeymsla, veiðarfærageymsla og fleira. Byrjað var á endurbyggingu hússins árið 1968 og var það þá flutt ofar í lóðina til þess að rýma fyrir vegaframkvæmdum og árið 1983 var verkinu lokið. Þá var búið að ákveða stofnun Sjóminjasafns á Eskifirði og var því komið fyrir í húsinu. Steinasafn Sigurborgar og Sörens. Steinasafn Sigurborgar og Sörens er safn á Eskifirði. Steinasöfnun hófst átið 1976. Söfnun hefur aðallega farið fram á Austurlandi, í Múlasýslum, en einnig í Þingeyjarsýslu og lítillega annars staðar á Íslandi. Steinunum hafa safnað hjónin Sigurborg Einarsdóttir og Sören Sörensen heitins í frístundum sínum en auk þess hafa vinir og kunningjar gefið einstaka stein í safnið. Vinnslu og uppsetningu steinanna hafa hjónin annast. Skápa sem safnið er geymt í hefur Sveinn Auðbergsson smiður smíðað. Safnið hefur að geyma ýmsar steinategundir svo sem: basalt, liparít, blágrýti, hraunsteina, gibs, baggalúta, perlustein, gabbró, granít, hrafntinnu, viðarsteina = tré- skelja og bobbasteina. Einnig jaspis, opal, bergkristall, kalsít, kalsidon, glerkalla, amethyst og seolíta svo sem geislasteina, skólisít, stílbít analism, kabasít, heulandít, thomsonit, apophallít og flúorít. Auk þess finnast fleiri steinategundir og útlendir steinar í steinasafninu. Pólýfónkórinn og kammersveit – Jólaóratóría. Pólýfónkórinn og kammersveit – Jólaóratóría er tvöfaldur geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2012. Um er að ræða upptökur af flutningi Pólýfónkórsins og kammersveitar á Jólaóratóríu Johann Sebastian Bach frá 1972 (brot) og 1978. Einsöngvarar eru Elísabet Erlingsdóttir, sópran. Sigríður Ella Magnúsdóttir, alt, Jón Þorsteinsson, tenór, Michael Rippon, bassi, Rut L. Magnússon, alt og Halldór Vilhelmsson, bassi. Einleikarar eru Rut Ingólfsdóttir á fiðlu, Pétur Þorvaldsson á knéfiðlu, Bernhard Wilkinson á flautu, Kristján Þ. Stephensen á óbó, Daði Kolbeinsson á enskt horn og Lárus Sveinsson á trompet. Konsertmeistari er Rut Ingólfsdóttir og stjórnandi er Ingólfur Guðbrandsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Tæknimenn voru Sigþór Marínósson og Magnús Hjálmarsson. Tónmeistarar voru Guðmundur Gilsson (1978) og Máni Sigurjónsson (1972). Bjarni Rúnar Bjarnason sá um lokavinnslu fyrir stafræna útgáfu á geisladiskum. Fylgirit með geisladiskum hannaði Jón Trausti Bjarnason og Ívar Brynjólfsson tók ljósmynd á forsíðu. Lagalisti. Jólaóratóría - "Höfundur: Johann Sebastian Bach" Um útgáfuna. Á diski 2 er eru resitatív og aríur frá 1972, sem Rut Magnússon og Halldór Vilhelmsson syngja með Pólýfónkórn­um. Þessi viðbót er helguð minningu þeirra Rutar og Halldórs. Pólýfónkórinn – Madrigalar og erlend sönglög frá ýmsum Evrópulöndum. Pólýfónkórinn - Madrigalar og erlend sönglög frá ýmsum Evrópulöndum er geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2011. Um er að ræða upptökur með kórnum frá 1961-1971, á tónleikum í Austurbæjarbíói, Gamla bíói, Kristskirkju og í Sjónvarpinu. Stjórnandi kórsins er Ingólfur Guðbrandsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Yfirfærsla á stafrænt form: Bjarni Rúnar Bjarnason. Hönnun bæklings: Jón Trausti Bjarnason. Um útgáfuna. Í fylgiriti með útgáfunni kemur fram að efnisval á geisladiskinn sé af tvennum toga; „Annars vegar svokallaðir Madrigalar, sem voru skemmtilög síns tíma, eins konar dægurlög miðaldanna. Hins vegar eru erlend sönglög, aðallega þjóðlög en sum í nútímalegum útsetningum. Öll lögin eru sungin á erlendum tungumálum og textarnir eru prentaðir á því tungumáli í bæklingnum. Pólýfónkórinn í æfingabúðum í Skotlandi 1961 fyrir söngmót í Wales. Upptökurnar, sem hér koma fyrir eyru almennings, eru flestar beint frá tónleikum en ekki gerðar í hljóðveri með þeim möguleikum sem þar eru til staðar til endurtekninga og lagfæringa á því sem betur mætti fara. Upptökustaðirnir eru afar ólíkir hvað hljómburðinn varðar og ennfremur þróaðist upptökutæknin á þessum tíu árum sem liðu á milli upptökutíma. Pólýfónkórinn, Sine Musica Nulla Vita! Pólýfónkórinn - Sine Musica Nulla Vita! er geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2008 í tilefni 50 ára afmælis kórsins. Um er að ræða endurútgáfu af fyrstu hljómplötu kórsins sem tekin var upp í Stokkhólmi í júní 1973 þegar hann fór í söngferð til Danmerkur og Svíþjóðar. Á henni eru fluttar perlur frá endurreisnartímanum og íslensk nútímatónlist. RCA Victrola gaf plötuna út. Hljóðmeistari var Sylve Sjöberg en upptökustjóri var Frank Hedman. Upptakan var í gerð í Studio 2 hjá Sveriges Radio. Söngstjóri er Ingólfur Guðbrandsson. Allur flutningur er án undirleiks. Endurunnin stafræn yfirfærsla 2008: Myndbandavinnslan & Hljóðriti. Hönnun: Grafíska vinnustofan. Um útgáfuna. Pólýfónkórinn 1973, áður en hann hélt í ferð til Danmerkur og Svíþjóðar. „Á þessu ári, 2008, eru 50 ár liðin síðan nýstofnaður kór hélt sína fyrstu tónleika undir nafninu Pólýfónkórinn. Þeir tónleikar voru haldnir í Gamla bíói í apríl 1958 við góöar undirtektir áheyrenda og gagnrýnenda. Tónleikar kórsins vöktu strax athygli fyrir verkefnaval og nýjan hljóm í flutningi. Kórinn starfaði samfellt í 30 ár en síðustu opinberu tónleikamir voru haldnir i Háskólabíói í nóvember 1988. Í maí 2006 var stofnað félag í þeim tilgangi að varðveita minningu um starf kórsins, vinna að útgáfu á því efni sem varðveitt er hjá Ríkisútvarpinu, og safna ýmsum gögnum um starfsemi kórsins til varðveislu á opinberum söfnum. Þetta félag sem fékk nafnið Pólýfónfélagið, hefur síðan unnið markvisst að þessum málum. Það er stefna Pólýfónfélagsins að halda áfram að gefa út það besta úr gömlum upptökum úr safni Ríkisútvarpsins og víðar að. Félagið hefur notið styrks og velvildar hjá fjölmörgum aðilum og væntir þess að svo verði áfram. Stafrænar útgáfur á geisladiskum stuðla að útbreiðslu þeirrar tónlistar, sem Pólýfónkórinn lagði áherslu á að flytja. Það ætti að vera kærkomin viðbót og tilbreyting við hið mikla framboð af tónlist, sem nú er útvarpað allan sólarhringinn alla daga ársins.” Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Efni af tónleikum 1984 og 1988. Pólýfónkórinn - 50 years Celebration of life with Music er tvöfaldur geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2008. Um er að ræða upptökur frá afmælistónleikum Pólýfónkórsins 10. nóvember 1988 og frá vortónleikum kórsins 10. maí 1984. Tónleikarnir 1988 voru síðustu tónleikar Pólýfónkórsins. Með kórnum leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands en stjórnandi er Ingólfur Guðbrandsson. Kórfélagar voru 101 á tónleikunum 1988 og hljómsveitarmeðlimir 82. Einsöngvarar voru ítölsku söngvararnir Denia Mazzola, Claudia Clarich, Paolo Barbacini og Carlo de Bortoli (1984) og íslensku söngvararnir Elísabet F. Eiríksdóttir, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Kristinn Sigmundsson (1988). Upptaka: Ríkisútvarpið. Upptökumenn: Bjarni Rúnar Bjarnason, Hreinn Valdimarsson og Þórir Steingrímsson. Endurvinnsla af hálfu Ríkisútvarpsins: Georg Magnússon. Pólýfónkórinn og Kórskólinn – Jólalög og kirkjuleg verk. Pólýfónkórinn og Kórskólinn – Jólalög og kirkjuleg verk er geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2010. Um er að ræða disk með 27 jólalögum sem Pólýfónkórinn söng við ýmis tækifæri og tekin voru upp af Ríkisútvarpinu á tímabilinu 1961-1972. Efnið var tekið upp í Kristskirkju, Þjóðleikhúsinu og í Háskólabíói. Í nokkrum laganna syngja nemendur úr Kórskóla Pólýfónkórsins með kórnum. Stjórnandi: Ingólfur Guðbrandsson. Bjarni Rúnar Bjarnason sá um endurvinnslu á tónböndum úr safni Ríkisútvarpsins. Myndbandavinnslan & Hljóðriti sá um framleiðslu sem fór fram í Danmörku. Ingibjörg Hjartardóttir. Hljómdiskurinn "Velkomin í Villta Vestrið" með söngvum úr samnefndu leikriti sem Freyvangsleikhúsið setti upp 1998 Ingibjörg Hjartardóttir (f. 18. maí 1952) er íslenskur rithöfundur og leikritaskáld. Hún hefur einnig þýtt skáldsögur og fengist við ljóðagerð. Ingibjörg er einn af stofnendum Leikfélagsins Hugleiks í Reykjavík og var formaður leikfélagsins um skeið. Hún hefur einnig leikið og leikstýrt. Leikrit hennar hafa verið sýnd af af atvinnuleikhúsum, leikhópum og áhugafélögum víða um land og flutt í Ríkisútvarpinu. Skáldsögur Ingibjargar hafa allar komið út á þýsku. Ingibjörg fæddist að Tjörn í Svarfaðardal. Eiginmaður hennar er Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur. Synir hennar og Dags Þorleifssonar eru Hugleikur Dagsson, Þormóður Dagsson Leikrit. Víst var Ingjaldur á rauðum skóm. Meðhöf. Hjördís Hjartardóttir og Sigrún Óskarsdóttir. Hugleikur 2001 Leikritið Velkomin í Villta vestrið sem var sérstaklega skrifað fyrir Freyvangsleikhúsið vegna landsmóts hestamanna sem haldið var á Melgerðismelum sumarið 1998, var valið sem áhugaverðasta áhugaleiksýningin á leikárinu. Leikritið Sálir Jónanna ganga aftur í uppsetningu Hugleiks var valið sem fulltrúi Íslands á norður-evrópska leiklistarhátíð sem haldin var í Harstad í Noregi í ágúst 1998. Síðan var leikhópnum boðið með leikritið á leiklistarhátíð í Litháen sumarið 1999 og til Færeyja þá um haustið. Skáldsagan Hlustarinn var útvarpssaga RÚV í apríl og maí 2013. Degu. Degu er nagdýr sem er brúnt á litinn, með ljósbrúna flekki út um allt og er ljósbrúnt á maganum. Degúar eru fræg gæludýr út um allt og eru gáfaðri en nokkur önnur nagdýr sem eru til. Ekki er degúinn skyldur neinu nagdýri en eitthvað gefur þó til kynna að hann sè skyldur kanínum þó að þau sèu ekkert lík í útliti. Degúar mega fá mjög margt tengt mat en mega þó alls ekki fá sykur líka þar sem þeir flytja stundum með sér sykursýki. Degúar eru rosalega miklar félagsverur og þurfa helst að vera tveir saman í búri. Degúinn er þekktur fyrir að gera alls kyns kúnstir og eru oft látnir fara í gegnum alls kyns þrautir en það krefst æfingar. Þeim finnst ofsalega gott að láta klóra sèr á maganum og ef þú prófar að klóra honum á hausnum leggst hann á bakið til þess eins að þú klórir honum á maganum líkt hundum og kettum. Degúar fást í mörgum gæludýrabúðum og kosta oftast 5.000 krónur. Þeir verða að vera annaðhvort í glerbúri eða sérstöku járnbúri því þeir naga sig í gegnum allt til dæmis járn, plast og pappa. Degúinn getur lifað alltað í sextán ár en meðal aldurinn er sex til tíu ár. Það er ekki mælt með því að hann sé með hundum eða kettum á heimili bæði vegna þess að degúinn er mjög hræddur við þau og vegna veiðieðlis í hundum og kettum. Degúinn þarf að vera með sag í búrinu og það kemur ekki mikil fýla af honum. Enka. Enka er vinsæl japönsk tónlistarstefna og líkist helst hefðbundnum japönskum tónlistarstíl. Nútíma enka er hins vegar svipuð nýlegri tónlist sem Japanir þekkja í dag. Nútíma enka kom á sjónarsviðið í kringum 1969 og manneskjan sem gerði það frægt var hún Fuji Keiko. Fuji Keiko. Fuji Keiko var fræg enkasöngkona í Japan á sjöunda áratugnum. Hún er eiginkona Utada Teruzane og svo er hún móðir hennar Utada Hikaru. Skírnarnafn hennar var Abe Junko. Utada fjölskyldan var öll í tónlist og var Keiko aðalsöngvari í þessu fjölskyldu verkefni Fuji Keiko fæddist árið 1951, þann 5. júlí í Iwate og ólst svo upp í Hokkaido. Faðir hennar hét Abe Souji og hann var roukyoku söngvari á meðan mamma hennar spilaði á shamisen og var það hennar atvinna. Keiko ólst upp mikið ein þar sem foreldrar hennar voru bæði í tónlist og voru oftar en ekki að túra um Hokkaido og Tohoku. Einu sinni þegar faðir hennar varð mjög veikur fyrir tónleika á Hokkaido, Fuji ákvað að fylla í skarðið fyrir föður sinn. Á tónleikunum gerðist mikilvægur hlutur fyrir Fuji og feril hennar, vel þekktur rithöfundur heyrði hana syngja og stakk upp á því við hana eftir tónleikana að hún skyldi flytja til Tókýó og verða sönkona þar. Árið 1969 í september söng lagið Shinjuku no onna sem varð virkilega vinsælt Næstu lög hennar sem hún gaf út urðu líka gríðarlega vinsæl en það voru þau Onna no blues og Keiko no yume wa yoru Hiraku og hjálpuðu þau henna upp frægðarstigann. Þessi lög fóru á listan hjá Oricon og sátu þar í fyrsta og öðru sæti í 40 vikur sem er það mesta í tónlistarsögu Japans Eftir tíu ár í tónlistarbransanum ákvað Fuji að hætta og flytja til Bandaríkjanna eða nánar tiltekið til New York. Þar kynntist hún Utada Tezurane en þau urðu fljótt gift og árið 1983 fæddi hun þeirra einkabarn Utada hikaru. Þrátt fyrir að þau hjónin hafi skilið á einhverjum tímapunkti þá giftu þau sig aftur árið 2005 Alþjóðlegt enka. Enka hefur haft mjög mikil áhrif á tónlist í Taiwan sem var einu sinni hluti af Japan. Sarabjit Singh Chadha var fyrsti enkasöngvarinn sem var ekki japanskur. Það er ekki bara pólutík sem hjálpar að sameina lönd heldur líka tónlist eða svo segir Sarabjit Singh Chadha. Chadha er virkilega frægur í Japan og þekkja flestir nafn hans þar. Þó að Chadha sé viðskiptamaður í Delhi og er bara þekktur fyrir það þar, þá er hann vinsæll enkasöngvari í Japan Hann byrjaði að syngja enka tónlist á sjöunda áratugnum og var þá einungis nemi í Japan en þurfti að hætta vegna lanvistarleyfið hafði runnið út og í 30 þá söng hann alls ekki neitt. En í endurkomu hans árið 2008 fékk hann góðar móttökur frá Japan í sambandi við tónlist sína Kayakklúbburinn. Kayakklúbburinn er félag áhugafólks um siglingar á kajökum. Félagið er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Það var stofnað sumarið 1980 af hópi áhugafólks um allt land. Árið 2001 fékk klúbburinn aðstöðu á Geldinganesi. Öfgasinnaðir jafnaðarmenn. Öfgasinnaðir jafnaðarmenn buðu fram í Reykjaneskjördæmi í alþingiskosningum árið 1991 og hlutu 459 atkvæði. Í efstu sætum voru Guðmundur Brynjólfsson (nú rithöfundur og djákni), Nikulás Ægisson (nú kennari) og Bergur Þór Ingólfsson (nú leikari og leikstjóri). Helstu baráttumál Öfgasinnaðra jafnaðarmanna voru vatnsrennibraut yfir Faxaflóa til flutnings á fiski og fólki og fækkun jólasveina úr 13 í 9 sbr. Jólasveinar einn og átta. Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Messías, tónleikar 1986 (CD). Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Messías, tónleikar 1986 (CD) er tvöfaldur geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 1987. Um er að ræða upptöku af heildarflutningi "Messíasar" eftir Händel í Hallgrímskirkju 11. og 13. desember 1986. Flytjendur eru Pólýfónkórinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands og einsöngvararnir Maureen Brathwaite, Anna M. Kaldalóns, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Jón Þorsteinsson, Ian Partridge og Peter Coleman-Wright. Stjórnandi er Ingólfur Guðbrandsson. Stafræn upptaka: Ríkisútvarpið. Hljóðmaður: Hreinn Valdimarsson. Tónmeistari: Bjarni Rúnar Bjarnason. Kórfélagar Pólýfónkórsins í flutningi "Messíasar" voru 86 talsins og Sinfóníuhljómsveit Íslands var skipuð 36 hljóðfæraleikurum. Þetta voru fyrstu tónleikar kórsins í Hallgrímskirkju sem var vígð í október sama ár. Um verkið. Óratórían "Messías" var samin árið 1741 af Georg Friedrich Händel (1685-1759). Textinn er tekinn saman af Charles Jennens úr trúarlegum texta Biblíunnar. Í fylgiriti með útgáfunni skrifar Ingólfur Guðbrandsson; „Messías er klassískt verk í besta skilningi orðsins og er oftar flutt en nokkurt annað kórverk, þar sem sönglist er í hávegum höfð. Ekkert tónverk liðinna alda hefur náð öðrum eins vinsældum almennings. Vart finnst sú borg í Bretlandi, að Messías sé ekki fluttur um hver jól, en sá siður er nú útbreiddur um heim allan. Frá flutningi Pólýfónkórsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar á Messíasi í Hallgrímskirkju í desember 1986. Snillingurinn Georg Friedrich Händel fæddist í Þýskalandi sama árið og J.S. Bach, 1685, en hafði dvalist 4 ár á Ítalíu og drukkið í sig áhrif ítalskra lista, áður en hann kom til London árið 1710 og settist þar að tveim árum síðar. Händel samdi Messías á tímabili veraldlegs mótlætis og tók verkið hann aðeins 24 daga. Það var sem hann lifði í öðrum heimi, hann gleymdi að sofa eða matast. Þegar hann hafði lokið 2. þætti með Hallelúja-kórnum, kom þjónn hans að honum, meðan tárin streymdu niður kinnar hans, og hann sagði: „Mér fannst ég sjá himnaríki og Guð sjálfan birtast mér”. Händel fékk boð um að koma til Dublin til hljómleikahalds og þar var Messías frumfluttur í apríl árið 1742. Áheyrendur voru gagnteknir af hrifningu. Og ummæli dagblaðanna voru á sömu lund: „Mestu kunnáttumenn telja það vera fegurstu tónsmíð, sem um getur”. „Orð skortir til að lýsa þeim fögnuði, sem verkið vakti meðal hugfanginna áheyrenda. Upphafnir hljómar, sern ýmist voru mildir eða magnaðir, tengdir háleitum, hjartnæmum orðum, gagntóku eyru og hjörtu áheyrenda”. Sú hrifningaralda, sem Messías vakti strax í upphafi, hefur síðan borist um allan hinn siðmenntaða heim. Verkið, sem er í þremur þáttum eins og óperur þess tíma, er einstætt meðal oratoría Händels, þar eð það fjallar ekki um sögulega atburði og í því er engin atburðarás eins og í passíum Bachs. Það er eins konar hugleiðing um Frelsarann, spádómana um komu hans, fæðinguna, þjáningu hans og dauða fyrir syndir mannkynsins, upprisu hans og endurlausn mannsins fyrir trúna á hann. Sterkra dramatískra áhrifa gætir samt sem áður í verkinu, eins og vænta má, þar eð verk Händels eru flest mótuð af dramatískri tjáningu.” Björn Sigurðsson (f. 1856). Björn Sigurðsson (1856 – 1930) var umsvifamikill kaupmaður í Flatey og á Geirseyri við Patrekstfjörð, hafði forgöngu um að stofna Islands Handels og fiskeri Kompagni (IHF) með dönskum fjárfestum. Það fyrirtæki rak tólf kúttera og Thor, einn af fyrstu togurum Íslands. Síðar starfaði hann sem bankastjóri. Ásgeir Trausti. Ásgeir Trausti (fæddur 1992) er íslenskur söngvari og lagahöfundur og átti auk þess feril sem söngvari með hljómsveitum eins og The Lovely Lion. Á íslensku tónlistarverðlaununum 2013 fékk hann fern verðlaun, fyrir plötu ársins - Dýrð í dauðaþögn, sem bjartasta vonin, vinsælasti flytjandinn og netverðlaun tónlist.is. Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Messías, tónleikar 1986 (valdir kaflar, 33 sn.). Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Messías, tónleikar 1986 (valdir kaflar, 33 sn.) er hljómplata gefinn út af Pólýfónkórnum árið 1987. Um er að ræða valda kafla úr heildarflutningi "Messíasar" eftir Händel í Hallgrímskirkju 11. og 13. desember 1986. Heildarflutningur var gefinn út á tvöföldum geisladiski sama ár. Flytjendur eru Pólýfónkórinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands og einsöngvararnir Maureen Brathwaite, Anna M. Kaldalóns, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Jón Þorsteinsson, Ian Partridge og Peter Coleman-Wright. Stjórnandi er Ingólfur Guðbrandsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Hljóðmaður: Hreinn Valdimarsson. Tónmeistari: Bjarni Rúnar Bjarnason. Kórfélagar Pólýfónkórsins í flutningi "Messíasar" voru 86 talsins og Sinfóníuhljómsveit Íslands var skipuð 36 hljóðfæraleikurum. Þetta voru fyrstu tónleikar kórsins í Hallgrímskirkju sem var vígð í október sama ár. Um verkið. Óratórían "Messías" var samin árið 1741 af Georg Friedrich Händel (1685-1759). Textinn er tekinn saman af Charles Jennens úr texta Biblíunnar. Á bakhlið plötunnar skrifar Ingólfur Guðbrandsson; „Messías er klassískt verk í besta skilningi orðsins og er oftar flutt en nokkurt annað kórverk, þar sem sönglist er í hávegum höfð. Ekkert tónverk liðinna alda hefur náð öðrum eins vinsældum almennings. Vart finnst sú borg í Bretlandi, að Messías sé ekki fluttur um hver jól, en sá siður er nú útbreiddur um heim allan. Snillingurinn Georg Friedrich Händel fæddist í Þýskalandi sama árið og J.S. Bach, 1685, en hafði dvalist 4 ár á Ítalíu og drukkið í sig áhrif ítalskra lista, áður en hann kom til London árið 1710 og settist þar að tveim árum síðar. Händel samdi Messías á tímabili veraldlegs mótlætis og tók verkið hann aðeins 24 daga. Það var sem hann lifði í öðrum heimi, hann gleymdi að sofa eða matast. Þegar hann hafði lokið 2. þætti með Hallelúja-kórnum, kom þjónn hans að honum, meðan tárin streymdu niður kinnar hans, og hann sagði: „Mér fannst ég sjá himnaríki og Guð sjálfan birtast mér“ Händel fékk boð um að koma til Dublin til hljómleikahalds og þar var Messías frumfluttur í apríl árið 1742. Áheyrendur voru gagnteknir af hrifningu. Og ummæli dagblaðanna voru á sömu lund: „Mestu kunnáttumenn telja það vera fegurstu tónsmíð, sem um getur“. „Orð skortir til að lýsa þeim fögnuði, sem verkið vakti meðal hugfanginna áheyrenda. Upphafnir hljómar, sern ýmist voru mildir eða magnaðir, tengdir háleitum, hjartnæmum orðum, gagntóku eyru og hjörtu áheyrenda.“ Sú hrifningaralda, sem Messías vakti strax í upphafi, hefur síðan borist um allan hinn siðmenntaða heim. Verkið, sem er í þremur þáttum eins og óperur þess tíma, er einstætt meðal oratoría Händels, þar eð það fjallar ekki um sögulega atburði og í því er engin atburðarás eins og í passíum Bachs. Það er eins konar hugleiðing um Frelsarann, spádómana um komu hans, fæðinguna, þjáningu hans og dauða fyrir syndir mannkynsins, upprisu hans og endurlausn mannsins fyrir trúna á hann. Sterkra dramatískra áhrifa gætir samt sem áður í verkinu, eins og vænta má, þar eð verk Händels eru flest mótuð af dramatískri tjáningu.“ Imèr. Imèr (þýska: "Imör") er sveitarfélag í Trentínó-Suður-Týról, á Norður-Ítalíu, um 50 kílómetra austan við Trento. Þann 31. desember 2004 bjuggu þar 1213 manns á 27,6 ferkílómetra svæði. Það er staðsett innst í Primierodal, viđ Cismoni. Í sögu Imèr er fjallshliðin Solivi ofan við Imèr sólarmegin í dalnum mikilvæg, þar sem menn heyjuðu fyrir kýrnar og ræktuðu ávexti. Pólýfónkórinn og kammersveit – Messías. Pólýfónkórinn og kammersveit – Messías, tónleikar 1977 er þreföld hljómplata með upptöku af óratóríunni "Messíasi" eftir Händel í Háskólabíói 22. júní 1977. Platan er gefin út af Pólýfónkórnum í desember 1978. Flytjendur eru Pólýfónkórinn, kammersveit undir forystu Rutar Ingólfsdóttur, einsöngvararnir Kathleen Livingstone, Ruth L. Magnússon, Neil Mackie og Michael Rippon. Stjórnandi er Ingólfur Guðbrandsson. Hljóðritun: Ríkisútvarpið. Frágangur tónbands fyrir skurð og pressun: Tryggvi Tryggvason. Prentun á umslagi/öskju: Kassagerð Reykjavíkur. Kórfélagar Pólýfónkórsins í flutningi "Messíasar" voru um 130 talsins og kammersveitina skipuðu um 30 hljóðfæraleikarar. Daginn eftir tónleikana héldu kór, einsöngvarar og hljómsveit í söngferð til Ítalíu og fluttu þar "Messías", ásamt "Gloriu" eftir Vivaldi og "Magnificat" eftir Bach. Um verkið. Óratórían "Messías" var samin árið 1741 af Georg Friedrich Händel (1685-1759). Textinn er tekinn saman af Charles Jennens úr textum Biblíunnar. Óratórían var frumflutt í Dublin árið 1742 og sungin á ensku. Messías - kaflaheiti. Í uppfærslu kórsins 1977 er eftirfarandi köflum sleppt; 34-36 og 51. Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982. Pólýfónkórinn og kammersveit - Tónleikar á Spáni í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 1982 er geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2007. Um er að ræða upptöku af tónleikum úr ferð Pólýfónkórsins, einsöngvara og kammersveitar til Spánar í júlí 1982. Konsertmeistari var Rut Ingólfsdóttir og stjórnandi var Ingólfur Guðbrandsson. Einsöngvarar voru Kristinn Sigmundsson, Jón Þorsteinsson og Nancy Argenta. Kórfélagar voru 90 talsins í ferðinni og hljómsveitina skipuðu 50 hljóðfæraleikarar. Í hefti með útgáfunni má finna lista yfir alla þátttakendur. Ferðin var farin að tilhlutan spænskra ferðamálayfirvalda í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Kórinn söng á fimm stöðum í Andalúsíu; í Malaga, Marbella, Nerja, Granada og Sevilla. Áður hafði kórinn flutt sömu efnisskrá í Háskólabíói 29. júní. Þar bar til tíðinda að frumfluttir voru hlutar úr "Óratóríunni Eddu" eftir Jón Leifs. Kaflarnir úr "Eddu vöktu" sérstaka athygli tónleikagesti á Spáni en á verkefnaskránni voru auk þeirra "Gloria" eftir Poulenc, "Vatnamúsík" eftir Händel, verk eftir Buxtehude, tveir fiðlukonsertar þar sem Unnur María Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson léku einleik og kórar úr "Messíasi". Söngferðin til Spánar. Ingólfur Guðbrandsson og sópransöngkonan Nancy Argenta kölluð upp í lok tónleikanna í Sevilla 1982. Arnaldur Indriðason fylgdi kórnum á ferðalaginu og skrifar ferðalýsingu í Morgunblaðið. Hann skrifar einnig grein að afloknum síðustu tónleikum kórsins í ferðinni: „Ég er afar glaður og þakklátur yfir sigursælum endi þessa hljómleikaferðalags. Það er stórkostlegt að hafa fengið húsfylli á öllum þessum fimm tónleikum, sem við höfum haldið. Tónlistin hefur verið flutt af mikilli gleði og innlifun og hver konsert hefur verið tilhlökkunarefni fyrir okkur,“ sagði Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi Pólýfónkórsins, í samtali við Morgunblaðið eftir mjög vel heppnaða lokatónleika Pólýfónkórsins í Sevilla á Spáni í kvöld. Með tónleikunum í Sevilla lauk fimm daga söngferðalagi kórsins og hljómsveitar um Spán, þar sem haldnir voru jafnmargir tónleikar, ávallt fyrir fullu húsi. Spænska sjónvarpið tók upp þessa tónleika í Sevilla, sem haldnir voru í Kirkju Frelsarans, gullfallegri og risastórri 18. aldar barokk-kirkju. Hún rúmar um 1.000 manns í sæti og var hvert sæti skipað og ríflega það. Að tónleikunum loknum voru Ingólfur, kórinn, hljómsveit, einleikarar og einsöngvarar hylltir með dynjandi lófataki og voru Ingólfi og Nancy Argenta afhentir blómvendir að hljómleikunum loknum. Veggspjald með dagskrá tónleikanna á Spáni. Teikninguna gerði Baltasar. Aðaltónlistargagnrýnandi stærsta dagblaðsins í Sevilla sagði í samtali við Mbl., að hér hefði verið um að ræða einhvern mesta tónlistarviðburð í borginni það sem af væri árinu. „Það er synd fyrir heiminn,“ sagði hann, „að kórinn skuli ekki fara víðar, sérstaklega með verk Jóns Leifs, Eddu-óratóríuna.“ Hann hældi einsöngvurunum, Kristni Sigmundssyni og Jóni Þorsteinssyni og sérstaklega Nancy Argenta, kanadíska einsöngvaranum. Söngskrá sem gefin var út á spænsku í tilefni söngferðarinnar 1982. Tónlistargagnrýnandi blaðsins Sur, stærsta blaðs í Malaga, sagði meðal annars í blaði sínu eftir að hafa hlýtt á tónleika Pólýfónkórsins og hljómsveitar í Malaga: „Kammerhljómsveitin var mjög samstillt og hinn stóri kór var vel æfður og agaður. Einleikarinn, María Ingólfsdóttir, stjórnaði konsert Bachs mjög vel og var leikur hennar á fiðluna hreint út sagt stórkostlegur og hafði hún fullkomið vald á hljóðfærinu. Í óratóríu Jóns Leifs voru einsöngvararnir Kristinn Sigmundsson og Jón Þorsteinsson mjög góðir. Það, sem var athyglisverðast og stórkostlegast á efnisskránni, var Gloría F. Poulencs og var söngur kanadíska einsöngvarans, Nancy Argenta, óaðfinnanlegur og var flutningur verksins í heild sinni mjög góður. Verkin voru flutt undir öruggri stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, sem ásamt kór og hljómsveit, einleikurum og einsöngvurum var klappað mikið lof í lófa af hinum stóra áheyrendahópi.“ Pólýfónkórinn og kammersveit að loknum tónleikum í Granada 1982. Blaðið Granada, sem gefið er út í samnefndri borg, sagði eftir tónleika kórsins þar: „Það voru svolítið sérstakir tónleikar, sem Pólýfónkórinn og hljómsveit fluttu í dómkirkjunni í Granada undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, en konsertmeistari var Rut Ingólfsdóttir. Allur flutningur efnisskrárinnar var stórkostlegur og kom það á óvart hve vel og örugglega verkin voru flutt. Án erfiðleika fyllti kórinn þessa stóru kirkju með söng sínum, þannig að það var sama hvar fólk sat, alls staðar heyrðist tónlistin jafn vel.“ Sigurdór Sigurdórsson, einn af fararstjórum kórsins í ferðinni skrifar: „Ég get fullyrt að þessi vika i júlí sumarið 1982 er sú eftirminnilegasta og ánægjulegasta sem ég lifði í 11 ára starfi mínu sem fararstjóri á Spáni. [..] Ég get líka bætt því við að aldrei hef ég verið stoltari af því að vera Íslendingur en þegar ég heyrði kórinn opna tónleika sína með þjóðsöngnum okkar "Ó, guð vors lands" í kirkjunni í Malaga. Við stóðum fararstjórarnir út við kirkjudyrnar, þegar söngurinn hófst. Fyrst stirðnaði maður upp og svo fór um mann einhver bylgja. Við horfðum síðan hvert á annað og hrifningartár stóðu í augum okkar allra og við viðurkenndum síðar hvert fyrir öðru að hrifning og stolt hefði hríslast um líkama okkar. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar upplifað slík hughrif. Þá var gaman að vera Íslendingur. Malaga kirkjan er stór og hljómburður fallegur í henni. Tónarnir bárust út í hvert horn og hvern kima og þeir fylltu kirkjuna í orðsins fyllstu merkingu. Við gátum fylgst með hrifningu tónleikagestanna. Hún var ósvikin hjá hverjum manni. En það var líka tilkomumikið að hlýða á tónleikana í litlu kirkjunni í Nerja og Marbella. Þar var allt nær manni og einhvern veginn öðru vísi að hlýða á flutninginn, ef til vill allt persónulegra. Tónleikarnir í Granada voru frábærir og ég er ekki frá því að þar hafi kröfuhörðustu gestirnir verið, vegna þess að í um þrjátíu ár hefur árlega verið haldin tónlistarhátíð í Granada, þar sem öll tegund tónlistar er flutt og Granadabúar vita hvað góð tónlist og tónlistarflutningur er. [..] Ég er heldur ekki frá því að Pólýfónkórinn hafi fengið innilegastar viðtökur á hljómleikunum i Granada. Hitt er svo annað mál að tónleikarnir i Sevilla voru þeir bestu frá hendi kórs og hljómsveitar.“ Hljómleikastaðir. Efnisskráin var sungin í Háskólabíói og á fimm stöðum á Spáni; í Catedral de Málaga, í Iglesia de Marbella, í Iglesia de Nerja, í Catedral í Granada og í San Salvador kirkjunni í Sevilla. Gosmökkur. Gosmökkur er kallast heit eldfjallaaska og lofttegundir, sem þeytast upp úr eldstöð í eldgosi og berast í langan tíma með vindum í andrúmsloftinu. Gosmökkurnn getur náð marga kílómetra upp í loftið allt upp í heiðhvolfið. Svifryk sem berst þannig upp í heiðhvolfið er helsti orsakavaldur skammtímaloftslagsbreytinga. Áhættubréf. Wall Street í New York-borg Bakgrunnur áhættubréfa. Til eru margar gerðir Skuldabréfa sem virka á misjafnan hátt. Þegar einstaklingar taka lán fá þeir skjal í hendurnar sem staðfestir að lán hafi verið tekið með samþykki um að lánið verði greitt til baka að fullu. Skuldabréf eru til dæmis gefin út þegar fólk tekur íbúðarlán. Þar kemur fram hversu hátt lánið er, hvað miklir vextir eru á láninu og hversu langur afborgunartíminn er. Einnig eru til ríkisskuldabréf. Ríkið gefur út bréfin og eru þar með að fá lánaðan pening hjá þeim sem kaupa þau. Slík bréf, líkt og önnur skuldabréf, bera vexti, hafa lánstíma og ákveðna lánsupphæð. Þannig virka kaup á ríkisskuldabréfum í raun eins og góð sparnaðarleið sem stendur einstaklingum, fyrirtækjum og jafnvel öðrum ríkjum til boða. Þeir sem fjárfesta í ríkisskuldabréfum lána því í raun ríkinu einhverja ákveðna upphæð og ávaxta hana yfir ákveðinn tíma. Einnig er hægt að kaupa bréf hjá sumum fyrirtækjum sem, líkt og ríkið, lofar að borga umrædda upphæð til baka eftir ákveðin tíma, auk þess sem bréfið hefur ávaxtað. Geta fyrirtækisins til að standa við loforð sitt veltur á lánshæfiseinkunn/áhættumati bréfsins. Hvort fyrirtækið standi í skilum við bréfhafa fer eftir því hvort það hafi tök á að borga skuld sína til baka. Matsfyrirtækið Moody's, ásamt fleirum, sér meðal annars um að meta fjárfestingar á borð við skuldabréf. Þá er vanskilahætta fyrirtækja ákvörðuð með einhvers konar lánshæfiskerfi. Ef útgefandi skuldabréfs borgar ekki á tilskildum tíma hefur það áhrif á lánshæfiseinkunn skuldabréfsins þar sem kerfið er byggt á einmitt þessari áhættu. Lánshæfiseinkunn skuldabréfa eru frá skalanum AAA en það eru bréf sem munu ólíklega fara í vanskil, til „D“ fyrir þau sem munu pottþétt gera það. Áhættubréf, stundum kölluð ruslbréf, hafa einkunnina BB eða lægra. Áhættubréf draga nafn sitt af því hversu mikil áhætta getur skapast ef verslað er með slík bréf. Sökum mikillar vanskilahættu teljast viðskipti með áhættubréf til spákaupmennsku. Flestir fjárfestar vilja síður kaupa slík bréf en þar sem bréf þessi hafa mjög háa vexti getur það reynst ágætlega. Þrátt fyrir vanskil geta áhættubréf mögulega haldið verðmæti sínu. Saga áhættubréfa. Áhættubréf urðu vinsælasta fjárfestingin á Wall Street á níunda áratugnum. Þrátt fyrir að áhættubréf hafi verið til lengi þá var það ekki fyrr en um byrjun 9. áratugarins sem þau urðu gríðarlega vinsæl. Og ekki lengi, því eins og sagan segir okkur, þá eru endurteknar bólur og hrun með þessar tegundir bréfa. Aðrar bólur fyrir utan bóluna á 8. áratugnum áttu sér stað á árabilunum 1912 – 1919 og aftur nokkrum árum seinna frá 1928 – 1931. Bólan á áttunda áratugnum var þó sú stærsta, hafði mikil áhirf og lifði lengst, frá 1977 en hrundi tólf árum seinna, árið 1989. Þá má rekja áhættubréf aftur um hundruði ára, allt til 17. aldarinnar. Michael Milken. Michael Miklen vann fyrir fjárfestingarbankann Drexel Burnham Lambert og hann var fljótur að átta sig á gríðarlegum fjárhagsmöguleikum sem kom með rise í áhættubréfum á níunda áratugnum. Hann trúði statt og stöðugt að ávinningur áhættubréfa var meiri en líkurnar á vanskilum og með því að ráðleggja bréfaútgefundum (bond issuers) og fjárfestum að nýta sér þau til fulls, gerði hann bréfin gríðarlega vinsæl. Milken varð einn af ríkustu mönnum í heimi vegna brasks síns með áhættubréf. Hann var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir innherjaviðskipti og verðbréfafalsanir og þurfti að borga háar skuldir. Milken fékk þá einnig lífstíðarbann frá verðbréfaviðskiptum og hefur síðan þá snúið sér að lyfjarannsóknum og hefur verið kallaður „Maðurinn sem breytti lækningum“. Áhætta og aðrir mikilvægir þættir. Þegar kemur að því að fjárfesta í áhættubréfum er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem slíkri fjárfestingu fylgir, sér í lagi ef vanskil eiga sér stað en þá stendur skuldabréfaútgefandinn ekki í skilum og þú færð peningana þína aldrei aftur. Einnig er mikilvægt að átta sig á því hvað verið er að fara út í vegna þess að áhættubréf eru flókin fyrirbæri sem krefjast sérlega góðrar kunnáttu, einkum þekkingu á sértækri lánshæfni. Þess vegna eru stofnanafjárfestar ráðandi á markaðnum, umfram almenna fjárfesta þrátt fyrir að einstaka auðjöfrar og áhugasamir einstaklingar fjárfesti beint í áhættubréfum. Eini möguleikinn fyrir almenning til að fjárfesta í áhættubréfum er í gegnum svokallaða áhættuskuldabréfasjóði. Með því getur fólk verið öruggt um að það séu sérfræðingar, sem hugsa vel um fjárfestinguna þína sem fylgjast með breytingum á virði áhættubréfa allan liðlangan daginn. Annar kostur áhættuskuldabréfasjóða er sá að fólk dregur úr áhættunni sem það tekur með því að dreifa fjárfestingunum sínum á margar ólíkar fjárfestingar. Auk þessa er brýnt að fylgjast vel með dreifni ávöxtunar á milli áhættuskuldabréfa og bandarískra ríkisskuldabréfa. Ef litið er til sögunnar eru áhættuskuldabréf með 4-6% hærri ávöxtun en bandarísk ríkisskuldabréf. Ef ávöxtunin fer undir 4% er óskynsamlegt að fjárfesta í áhættuskuldabréfinu. Fátækt hagkerfi og hækkandi vextir geta dregið úr ávöxtun skuldabréfa, ef vextir hækka þá lækkar verð skuldabréfa. Áhættuskuldabréf fylgja vanalega langtíma vöxtum. Að lokum er mikilvægt að skoða vel grunnvaxtaálag áhættuskuldabréfa. Upplýsingar um það er að finna á netsíðum lánshæfismatsfyrirtækja á borð við Moody's og Standard's and Poor's. Lánshæfismat. Áðurnefnd fyrirtæki, Moody's og Standard's and Poor's hafa sérstakan hátt á því hvernig þau meta áhættu áhættubréfa en öllum skuldabréfum er skipt í tvo flokka eftir lánshæfi þeirra: Fjárfestingarflokkur og áhættubréf. Fyrirtæki sem eru örugg fjárfesting hafa hátt lánshæfismat á meðan áhættusöm fyrirtæki hafa lágt lánshæfismat. Hér má sjá töflu sem sýnir mismunandi lánshæfismat á skuldabréfum. Skuldabréf í fjárfestingaflokki eru gefin út af lánveitendum sem teljast áhættulitlir eða með meðaláhættu. Skuldabréfin fá þá einkunnina AAA til BBB. Ávöxtun þessara skuldabréfa er yfirleitt ekki mikil en hættan á því að lántakandinn lendi í vanskilum á vaxtagreiðslum lánveitanda er mun minni. Áhættubréf veita skuldabréfahöfum mun hærri ávöxtun vegna þess að lántakendur hafa yfirleitt enga aðra kosti. Lánshæfismat þeirra er lágt og gerir þeim erfiðara að afla fjár með ódýrum hætti. Áhættubréfum er yfirleitt gefin einkunnin BB/BA eða lægri. Flokkun áhættubréfa. Áhættubréf er hægt að flokka í tvennt. Annars vegar eru það „fallnir englar“ og hins vegar eru það „rísandi stjörnur“. Fallinn engill er skuldabréf sem áður hefur verið örugg fjárfesting með lítilli sem enginni áhættu en hefur síðan fallið niður í stöðu áhættubréfs vegna lélegs/lágs lánshæfismats fyrirtækisins sem gaf út skuldabréfin. Rísandi stjörnur eru aftur á móti andstæða fallinna engla, skuldabréf frá útgáfufyrirtækjum sem eru með vaxandi/aukið lánshæfismat. Rísandi stjörnur geta verið metnar sem áhættubréf en seinna meir þróast yfir í fjárfestingarflokk. Vilborg Dagbjartsdóttir. Vilborg Dagbjartsdóttir (fædd 18. júlí 1930) er íslenskur rithöfundur. Vilborg rithöfundur fæddist á Hjalla á Vestdalseyri þann 18. júlí árið 1930. Foreldrar hennar voru Dagbjartur Guðmundsson og Erlendína Jónsdóttir. Vilborg lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1952 og stundaði nám í bókasafnsfræðum við Háskóla Íslands 1982. Hún stundaði leiklistarnám hjá Lárusi Pálssyni og var í námshring Gunnars R. Hansens í leiklist á árunum 1951 – 1953. Hún starfaði sem rithöfundur og barnakennari í Austurbæjarskóla um langt árabil. Vilborg er þekktust fyrir ljóð sín en eftir hana liggur einnig fjöldi rita fyrir börn, bæði frumsamdar sögur og þýðingar og auk þess námsefni. Hún ritstýrði Óskastundinni, barnablaði Þjóðviljans, 1956 – 1962 og Kompunni, barnasíðu sunnudagsblaðs sama blaðs, frá 1975 – 1979. Eiginmaður Vilborgar var Þorgeir Þorgeirson rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Félagsmál. Vilborg var einn frumkvöðla að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og átti sæti fyrir miðju hreyfingarinnar 1970. Hún sat lengi í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og meðlimur í Samtökum herstöðvaandstæðinga. Hún hefur átt sæti í stjórn Stéttarfélags íslenskra barnakennara, Rithöfundafélags Íslands og Rithöfundasambands Íslands. Vilborg var í stjórn Kvikmyndaklúbbsins og Litla bíós frá 1968-1970. Ritstörf. Fyrsta ljóðabók Vilborgar var Laufið á trjánum sem kom út árið 1960 og var hún þá ein af fáum konum sem skrifuðu atómljóð. Hún birti einnig ljóð í tímaritinu Birtingi og á fjölda ljóða og greina í tímaritum og safnritum. Ljóð Vilborgar hafa birst í erlendum safnritum og tímaritum á fjölda tungumála. þýdd leikrit. flutt í Útvarpsleikhúsinu (RÚV) og í skólum Listi yfir eldri númer og heiti þjóðvega á íslandi. Hér er listi yfir eldri númer og heiti þjóðvega á Íslandi. Listinn er yfirgripsskrá yfir breytingar á vegnúmerakerfinu til dagsins í dag og einnig yfirlit yfir heiti sem áður hafa verið notuð yfir þjóðvegi. Vegnúmerakerfið. Vegir eru síðan flokkaðir niður eftir mikilvægi, og bera mikilvægustu vegir hvers svæðis tveggja stafa númer. Aðrir helstu vegir innan svæðis bera síðan þriggja stafa númer og afgangurinn, sem yfirleitt eru mjög stuttir vegir, bera fjögurra stafa númer. Afar sjaldgæft er að fjögurra stafa vegnúmer sjáist opinberlega í vegakerfinu. GILDIR EKKI AÐ SVO STÖDDU! (Listinn sem hér fer eftir tekur fyrir öll vegnúmer sem hafa verið notuð og hvaða vegi þau hafa staðið fyrir á hverjum tíma. Hafi númerið ávallt staðið fyrir sama veginn er aðeins nafnið tekið fyrir. Hafi númer verið notað yfir einn veg, dottið úr notkun, og notað að nýju yfir annan veg er úrfellingin tekin með.) Til bráðabrigða: Listinn verður eftir ártali úrfellingar vegarins. Gömul Vegheiti. Hérna eru tekin saman heiti á þjóðvegum sem fallin eru úr gildi. Hér eru því flestir vegir sem fallið hafa úr tölu þjóðvega í gegnum tíðina, sem og gömul heiti yfir vegi sem eru á þjóðvegaskránni. Bjarnarflag. Bjarnarflag er jarðhitasvæði skammt austan Reykjahlíðar við Mývatn. Þar reis 3 MW jarðgufuvirkjun á vegum rekstrarfélags Laxárvirkjunar árið 1969 sem var sú fyrsta á Íslandi og með þeim fyrstu í heiminum. Bjarnarflagsvirkjun er nú rekin af Landsvirkjun. Áform hafa verið uppi um nýja og mun stærri virkjun við Bjarnarflag sem hefði uppsett afl á bilinu 45 til 90 MW. Orkunni frá þeirri virkjun er ætlað að nýtast við uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka við Húsavík. Mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hefur þegar farið fram en eftir að Alþingi samþykkti ívilnanir til kísilvers á Bakka í mars 2013 hefur vaknað umræða um að umhverfismatið sé úrelt og taki ekki tillit til nýrrar þekkingar á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjanna. Sérstaklega er óttast um áhrif virkjunarinnar á grunnvatnsstreymi til Mývatns og efnasamsetningu vatnsins sem kunni að raska lífríki vatnsins. Mývatn og Laxá eru eitt þriggja votlendissvæða á Íslandi sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt Ramsar-samningnum. Ásgeir Sigurvinsson. Ásgeir „Siggi“ Sigurvinsson (f. 8. maí 1955 í Vestmannaeyjum) er íslenskur knattspyrnumaður og stjórnaði landsliði Íslands í knattspyrnu 2003 – 2005. Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Messa í H-moll, tónleikar 1985. Pólýfónkórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Messa í H-moll, tónleikar 1985 er tvöfaldur geisladiskur gefinn út af Pólýfónkórnum árið 2007. Um er að ræða upptöku frá tónleikum Pólýfónkórsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á "H-moll" messu Bachs í Háskólabíói 21. mars 1985. Tónleikarnir voru haldnir á 300 ára afmælisdegi Bachs, á ári tónlistarinnar. Einsöngvarar voru þau Jacquelyn Fugelle, Bernadette Manca di Nissa, Renzo Casellato og Carlo de Bortoli. Kórfélagar voru 109 og hljómsveitarmeðlimir 35. Stjórnandi er Ingólfur Guðbrandsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Vinnsla fyrir útgáfu: Bjarni Rúnar Bjarnason. Um verkið og uppfærsluna. "H-moll messan" er talin eitt af höfuðverkum klassískrar tónlistar. Bach byrjaði að semja hluta hennar 1724 og lauk henni ekki fyrr en 1949, ári fyrir andlát sitt. Hann mun aldrei hafa heyrt verkið flutt í heild sinni. Þetta var þriðja uppfærsla Pólýfónkórsins á "H-moll messunni", þær fyrri voru 1968 og 1976. Í gagnrýni Morgunblaðsins segir; „Í heild voru þetta glæsilegir tónleikar og verðugir minningu Bachs og með þeim menningarblæ er ávallt hefur mótað starf Ingólfs Guðbrandssonar og Pólýfónkórsins.“ Rögnvaldur Sigurjónsson segir; „Það má teljast til mikilla afreka að æfa þetta margslungna meistaraverk, með leikmenn eins og söngfólk í kórum hér á landi óneitanlega er. En Ingólfur lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og tókst flutningurinn ótrúlega vel þegar á allt er litið.“ Í NT kemur fram: „Hljómsveitin var að sjálfsögðu skipuð fremstu hljóðfæraleikurum Sinfóníuhljómsveitarinnar - þarna léku eftirminnilega konsertmeistarinn Einar Sveinbjörnsson, Kristján Stephensen óbóleikari, Joseph Ognibene hornleikari og Bernharður Wilkinsson flautisti - auk annarra hljóðfæraleikara. Og yfirleitt var gott H-moll messan á Ítalíu. H-moll messan flutt í kirkju heilags Frans frá Assisi 1985. Í júlí 1985 hélt kórinn með "H-moll messuna" í söngför til Ítalíu, ásamt ríflega 30 manna kammersveit. Sungið var á opnunarhátíð tónlistarhátíðar í Assisi, í kirkju San Ignazio í Róm, í Santa Croce kirkjunni í Flórens og í Markúsarkirkjunni í Feneyjum. Lýkúrgos. Orðsifjafræði. Nafnið er á forngrísku Λυκουργος (Lykourgos) sem merkir „verk úlfs“. Það er myndað af orðstofnunum λυκου ("lykou") „úlfs“ og ἔργον ("ergon") „verk“. Argos. Argos (á forngrísku Ἄργος) er borg í Argolis á austanverðum Pelópsskaga í Grikklandi. Þar bjuggu tæplega 30 þúsund manns árið 2001. Í fornöld var sagt að hetjan Perseifur hefði fæðst í Argos. Saga. Í Argos hefur verið borgarstæði í að minnsta kosti sjö þúsund ár. Borgin var öflug á Mýkenutímanum um 1600 – 1100 f.Kr. og í Hómerskviðum, sem eiga sér stað undir lok þess tíma, eru Grikkir oft nefndir Argverjar. Á snemmgrískum tíma (um 800 – 500 f.Kr.) var borgin einn helsti keppinautur Spörtu á Pelópsskaganum en virðing margra annarra grískra borgríkja fyrir henni fór þverrandi þegar Argos lýsti yfir hlutleysi í Persastríðunum. Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitir – Mattheusarpassía. Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitir – Mattheusarpassía er fjórföld hljómplata með Pólýfónkórnum, Hamrahlíðarkórnum, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitum sem gefin var út 1983. Um er að ræða fyrsta heildarflutning "Mattheusarpassíu" Bachs á Íslandi í apríl 1982 og jafnframt stærstu uppfærslu Ingólfs Guðbrandssonar og Pólýfónkórsins fram að þeim tíma. Einsöngvarar eru Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Kristinn Sigmundsson og Simon Vaughan. Einleikarar eru Rut Ingólfsdóttir, Þórhallur Birgisson, Inga Rós Ingólfsdóttir, Alfreð Lessing, Bernhard Wilkinson, Kristján Þ. Stephensen, Daði Kolbeinsson, Björn Kåre Moe og Helga Ingólfsdóttir. Stjórnandi Hamrahlíðarkórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir, stjórnandi Kórs Öldutúnsskóla er Egill Friðleifsson. Konsertmeistarar eru Rut Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson. Stjórnandi uppfærslunnar er Ingólfur Guðbrandsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Stjórn upptölu: Máni Sigurjónsson. Vinnsla tónbands: Tryggvi Tryggvason. Pressun: Teldec í Þýskalandi. Verkið er sungið á frummálinu, þýsku, fyrir utan kóralana sem eru sungnir á íslensku. Uppfærsla og umsagnir. Í flutningi á "Mattheusarpassíunni" fékk Pólýfónkórinn, sem þá var skipaður 133 manns, til liðs við sig Hamrahlíðarkórinn með 78 félaga og Kór Öldutúnsskóla með 41 félaga. Hljóðfæraleikarar og einsöngvarar voru 50 samtals. Tónleikunum var afar vel tekið og sagði Thor Vilhjálmsson í umsögn sinni: „Það er árvisst undur og kraftaverk að Ingólfur Guðbrandsson ofurhugi flytur okkur hin stærstu kórverk tónbókmenntanna, með sínu vaska liði; og hefur komið sér upp dýrlegu hljóðfæri sem er Pólýfónkórinn, hefur náð að virkja músíkást hugsjónafólks sem leggur á sig ómælda vinnu og sækir æ hærra. Og nú síðast Mattheusarpassían eftir Bach. Þetta gerðist þann dag sem á að vera leiðinlegasti dagur ársins, að sögn; föstudaginn langa. Mikið var gaman þennan dag.“ Í efnisskrá með plötunum má finna nafnalista yfir flytjendur, umfjöllun um einsöngvara, ljósmyndir og umfjöllun um verkið, ásamt öllum textum og íslenskri þýðingu þeirra. Sigurður Þór Guðjónsson segir: „Mér fallast satt að segja hendur að skrifa um fyrsta flutning Mattheusarpassíunnar í heild á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verk sé kannski heilagasta tónlist sem sköpuð hefur verið. Þó hafði ég aldrei heyrt verkið í tónleikasal. En nú á föstudaginn langa rann upp sú langþráða stund. Og ég hika ekki við að telja þennan flutning einhverja fegurstu, einstæðustu og upphöfnustu athöfn sem ég hef lifað. Þetta var allt eins og í öðrum heimi.“ Jón Ásgeirsson segir í umsögn sinni; „Það tekur nærri fjóra klukkutíma að flytja allt verkið og með rétt mátulegu kaffihléi, stóð flutningur þess frá því kl. 2 e.h. til 7 um kvöldið eða nærri því og fyrir undirritaðan var þetta aðeins stundarkorn [..]. Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi þessa flutnings, leitaði fanga víða og sparaði hvergi til svo flutningur verksins yrði sem mestur og glæsilegastur. Umhverfis kórinn hans, Pólýfónkórinn, hafði hann skipað Barnakór Öldutúnsskóla, Egils Friðleifssonar, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sem Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnar, tveimur kammerhljómsveitum, þar sem saman sátu efnilegir tónlistarnemendur og bestu tónlistarmenn þjóðarinnar, undir handleiðslu Rutar Ingólfsdóttur og Þórhalls Birgissonar, ásamt erlendum tónlistarmönnum, gambaleikaranum Alfred Lessing, söngvurunum Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Simon Waughan og íslenskum söngvurum, Elísabetu Erlingsdóttur, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og efnilegum söngvurum eins og Kristni Sigmundssyni, Unu Elefsen, Margréti Pálmadóttur og Ásdísi Gísladóttur. Þessum stóra hópi ágætra tónlistarmanna stýrði Ingólfur Guðbrandsson til fangbragða við erfitt og krefjandi tónverk meistara Bach, með þeim árangri að telja verður þessa tónleika tímamót í sögu tónleikahalds á Íslandi og tónleikana í heild mikinn listasigur fyrir fullhugann, bardagamanninn og listamanninn Ingólf Guðbrandsson.“ Um Mattheusarpassíu. Í efnisskrá með útgáfunni skrifar Ingólfur Guðbrandsson um "Mattheusarpassíuna"; „Í fyrsta sinn á Íslandi gefst nú kostur á að heyra Mattheusarpassíu Bachs í heild sinni. Ef grannt er skoðað, sést að margslungið form verksins er svo rökrænt, heilsteypt og táknrænt, að jafnvægi raskast um leið og eitthvað er fellt úr. Texti Mattheusarpassíunnar er ofinn úr þremur þáttum. Uppistaða hans er 26. og 27. kapítuli Mattheusarguðspjalls, en inn á milli er fléttað trúarlegum hugleiðingum um píslarsöguna eftir póstmeistarann og skáldið Christian F. Henrici, sem betur er þekktur undir skáldheitinu Picander. Til viðbótar þessu tvennu koma svo trúarljóð hins kristna safnaðar um píslarsöguna, eins og þau birtust í lútherskum safnaðarsöng á dögum Bachs. Þessi þríþætta samröðun textans liggur til grundvallar skilningi á verkinu og byggingu þess. Á sama hátt og texti verksins á sér þrjár ólíkar uppsprettur má innan þess finna þrjár aðgreindar heildir, sem hver um sig spannar afmarkað svið, en af einstæðri snilld sinni mótar Bach úr þeim heildarmynd, dregna skýrum dráttum. Í fyrsta lagi er hið jarðneska sögusvið atburðanna, sem lýst er í píslarsögu Krists, eins og hún birtist í 26. og 27. kapítula Mattheusarguðspjalls. Hér eru raktir atburðir þeir, sem áttu sér stað í höll æðsta prestsins, húsi Símons líkþráa, á Olíufjallinu, í Getsemane, á Golgatahæð og við gröf Jesú. Þar eru túlkuð orð og athafnir persónanna, sem guðspjallið segir frá: Jesú, Péturs, Júdasar, æðsta prestsins, Pílatusar, vitnanna, þjónustustúlknanna, hermanna, lærisveinanna, prestanna og hinna skriftlærðu og viðbrögð lýðsins. Söguþráðurinn er tengdur saman af frásögn guðspjallamannsins. Þessi þáttur verksins er þrunginn dramatískri spennu, sem sífellt vex eftir því sem lengra líður rás atburðanna og nær hámarki í hrollvekjandi hrópi lýðsins, sem vill fá Barrabas látinn lausan en Jesú krossfestan: Barrabam — Lass ihn kreuzigen. Annað svið verksins er andlegs og huglægs eðlis. Í resitatívum og aríum við texta Picanders eru orð og tilfinningar trúaðra sálna látin í ljós í dýpstu samhyggð með þjáningum og fórnardauða frelsarans. Þar eru atburðir hins jarðneska sögusviðs hugleiddir og skýrðir á æðra plani — eins konar upphafinn trúaróður kristinnar, guðhræddrar sálar. Til þessa þáttar verksins telst einnig hin volduga kóralfantasía, sem lýkur upp verkinu: Kommt ihr Töchter, helft mir klagen. Þar er hinum trúuðu og dætrum Zions — táknmynd kristninnar — stefnt til Golgata til að taka þátt í þjáningum og krossdauða Krists. Sama gildir um lokakór fyrri þáttar, aðra kóralfantasíu: O, Mensch, bewein dein Sünde gross, hugleiðingu um jarðvist Krists frá fæðingu til dauða, sem myndar ásamt inngangskórnum ramma um atburðina í fyrri þætti verksins, allt til Júdasarkossins og handtöku Jesú. Resitatív og aríur seinni þáttar mynda með ljóðrænum blæ sínum og hljóðlátum innileik mótvægi gegn sívaxandi spennu atburðanna á sjálfu sögusviðinu. Í niðurlagi verksins flytja einsöngsraddirnar hver af annarri frelsaranum kveðjur og þakkir hinna guðhræddu, en kórinn tekur undir: Mein Jesu, gute Nacht, og verkinu lýkur með alþýðlegum saknaðarsöng beggja kóranna: Wir setzen uns mit Tränen nieder. Þriðja svið verksins, kóralarnir, er ekki bundið hinum tveimur fyrrnefndu, hinu sögulega, dramatíska né hinu huglæga, ljóðræna í tíma né rúmi, heldur ótímabundin hugleiðing hins kristna safnaðar um líf og dauða frelsarans. Bach fléttar þá inn á milli atriða passíunnar með þátttöku safnaðarins í huga. Þannig mynda þeir einnig sjálfstæða heild innan ramma verksins. Óvíða er fagnaðarerindið fagurlegar boðað en í hendingum þessara einföldu en máttugu laglína, sem Bach hefur klætt í listrænan búning af einstæðri hugkvæmni og snilld, svo að því er líkast sem þær spanni alla kristna kenningu og kristinn dóm.“ Robin Stjernberg. Robin Stjernberg (f. 22. febrúar 1991) er sænskur söngvari sem keppir í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2013 með lagið „You“. Vérendrye-rúnasteinninn. Vérendrye-rúnasteinninn á að hafa fundist á fjórða áratug átjándu aldar í einum af fyrstu leiðöngrum sem farnir voru inn á landsvæðið vestur af vötnunum miklu í Norður-Ameríku af fransk-kanadíska landkönnuðinum Pierre Gaultier de Varennes et de La Vérendrye. Fundurinn er hvergi nefndur í opinberum skjölum frá leiðöngrum La Vérandrye en árið 1749 ræddi hann við sænskan vísindamann Pehr Kalm um steininn. Allar upplýsingar sem finnast um steininn koma frá skrifum Pehr Kalm. Fundur. Samkvæmt skrifum Kalms fann leiðangur Vérendrye-steininn ofan á reistum steini (mögulega kumli). Skrif Kalms segja steinninn vera um það bil 33 cm langan og um 11 cm breiðan. Á steininum á að vera áletrun í óþekktu letri. Menn eru ekki sammála um það í dag hvar steinninn hafi fundist. Hjalmar Holand taldi steinninn hafa fundist í leiðangri árið 1738 á Mandansvæði „við bakka Missouri fljóts“ sem gæti hafa verið í Norður-Dakóta, Bandaríkjunum. Presturinn Antoine Champagne taldi hins vegar að skrif Kalms bentu til þess að leiðangurinn hafi verið á hestbaki og gæti því ekki hafa verið í Norður-Dakóta því engir hestar hefðu verið þar árið 1738. Taldi hann að fyrst fjarlægðin var sögð vera um 900 franskar mílur þá stakk hann upp á stað nálægt Pierre í Suður-Dakóta. Þegar heimamenn voru spurðir þá staðhæfðu þeir að rúnasteinninn og uppreisti steinninn hefðu ávallt verið þarna saman. Örlög Steinsins. La Vérendrye sagði Kalm að steintaflan hefði verið send aftur til Québec þar sem jesúítaprestar komust að þeirri niðurstöðu að það væri tatarskt letur á steininum. Þeir hafi svo sent steinninn til innanríkisráðherra Frakklands Jean-Frédéric Phélypeaux, greifa af Maurepas. Ekki eru til neinar lýsingar á steininum eftir þann tíma en því hefur verið fleygt fram að steinninn hafi verið fluttur ásamt öðrum forngripum til kirkju í Rouen og hafi síðar grafist undir rústum kirkjunnar er hún var eyðilögð í Seinni Heimsstyrjöldinni. Sögufélag Minnesota hefur boðið 1000 dollara fundarlaun hverjum þeim sem finnur steininn á ný. Hugsanleg saga. Sumir, þá sérstaklega Hjalmar Holand, telja að áletrunin hafi í raun verið norrænar rúnir og að mögulega væru tengsl milli þeirra og Kensington-steinsins, sem á að hafa verið skilinn eftir af blönduðum leiðangri Norðmanna og Svía árið 1362. Hins vegar ríkir ágreiningur um hvort Kensington steinninn sé raunverulega frá norrænum mönnum eða sögufölsun frá nítjándu öld. Holand vildi meina að „tatarska“ letrið (fornt ungverskt letur) og fyrirrennari þess „Orkhon“-letrið (forn tyrkneskt letur) sem var aðgengilegt jesúítaprestum í Québec innihaldi að stórum hluta sömu tákn og norrænar rúnir. Letrin hafa ekki sama uppruna en hægt sé að gera ráð fyrir að notkunin hafi verið sú sama (áletrun steina) og hafi leitt til svipaðs eða eins útlits stafanna. Pepe. Képler Laveran Lima Ferreira, þekktastur sem „Pepe“, (fæddur 1983 í Portúgal) er portúgalskur knattspyrnumaður sem spilar með Real Madrid. Áður spilaði hann með FC Porto. Pepe er varnarmaður. Pepe Fábio Coentrão. Fábio Alexandre da Silva Coentrão (fæddur 1988 í Portúgal) er portúgalskur knattspyrnumaður sem spilar með Real Madrid. Áður spilaði hann með SL Benfica. Fábio Coentrão er varnarmaður. Coentrao, Fabio Járnbrautarbólan í Bretlandi. Járnbrautarbólan í Bretlandi var efnahagsbóla sem átti sér stað í Bretlandi á fjórða áratug 19. aldar. Hún fól í sér ákveðið æði sem skapaðist í kringum lagningu járnbrautateina þvert og endilangt um Bretland þar sem fólk hópaðist til við að versla hlutabréf í fyrirtækjum í járnbrautariðnaði. Rétt eins og internetbólan sem átti sér stað í lok 20. aldar, var breska járnbrautar bólan afleiðing af oftrú gagnvart viðskiptatækifærum í þeirri nýsköpun sem járnbrautir voru á þessum tíma. Þó að járnbrautalestir séu nú partur af daglegu lífi fólks víða um heim, voru þær eitt sinn rétt eins byltingakenndar eins og internetið þegar það fór í loftið. Á meðan hlutabréf í járnbrautarfyrirtækjum óx og náði nýjum hæðum á hlutabréfamarkaði, byggðust upp þúsundir kílómetra af lestarteinum þannig að um offjárfestingu var að ræða. Þegar járnbrautarbólan loks sprakk fóru mörg fyrirtæki sem fjárfest höfðu í þessum brautarteinum á hausinn, hlutabréf í fyrirtækjunum hrundi og fjárfestar töpuðu gríðarlega háum fjárhæðum. A painting of the inaugural journey of the Liverpool and Manchester Railway, by A.B. Clayton. Iðnbyltingin í Bretlandi var komin vel á veg á 4. áratug nítjándu aldar og vegna þess hversu hröð þróun átti sér stað í henni var þörfin fyrir hraðvirkari flutningsmáta ríkari en áður. Flytja þurfti mikið magn af kolum, járni og öðrum hráefnum. Landið var rísandi og hagvöxtur talsverður og þar sem slíkar aðstæður voru uppi, buðu hestvagnar og flutningar á ám og vötnum ekki upp á þann hraða sem sífellt meir var sóst eftir. Það var svo árið 1830 sem að fyrstu járnbrautateinarnir voru teknir í notkun. Það var leið milli iðnaðarborganna Liverpool og Manchester. Bóluskeiðið. Samdráttarskeið átti sér stað seint á þriðja áratug nítjándu aldar og snemma á fjórða áratug. Háir vextir og mótmæli gagnvart lagningu járnbrautateina dró tímabundið úr þróun í járnbrautaiðnaði. Iðnrekenda og fjárfestar leituðu meir í átt að fjárfesta í sveigjanlegum ríkisskuldabréfum í stað þess að fjárfesta í verkefnum tengdum járnbrautum. Skömmu eftir að Englandsbanki lækkaði vexti til að örva efnahagslífið um miðjan fjórða áratug nítjándu aldar, fór efnahagslífið í Bretlandi í mikin uppgang, knúin áfram af framleiðslu atvinnugreinum. Járnbrautir vöktu áhuga fjárfesta á ný þökk sé hækkandi gengi hlutabréfa og verð og vaxandi kröfur um flutning á farþegum og farmi með lestum jókst. Á fjórða áratug var afar frjósamt umhverfi fyrir markaðinn í Bretlandi og bólumyndun á hlutabréfamarkaðinn fór að taka á sig mynd. Iðnbyltingin leiddi til aukningar á fjölda fólks í miðstétt og auðugum heimilum tók að fjölga. Nýjum verkefnum fyrirtækja, þar á meðal járnbrautarfyrirtækja, gátu nú aukið fjármagn frá tiltölulega vel menntuðum fjárfestum í stað eingöngu að treysta á fé banka, auðugra aðalsmanna og iðnrekenda, sem þeir höfðu gert í fortíðinni. Það má með sanni segja að upphaf járnbrautar bólunnar hafi í raun hafist árið 1925 þegar ríkisstjórn Bretlands ákvað að afnema Bólulögin svokölluð sem sett voru árið 1720 eftir Suðursjávarbóluna svokölluðu. Þessi lög voru hönnuð til þess koma böndum yfir nýjan iðnað og lágmarka skaða fjármagnseigenda. Aðeins máttu eiga hlutabréf í fyrirtækjum að hámarki fimm mismunandi aðilar. Afnám laganna gerð því almenningi einnig kleift að fjárfesta í hlutabréfum með mun ríkulegri hætti en áður og leyfði einnig fyrirtækjum að kynna sig mun frekar fyrir mögulegum fjárfestum í gegnum miðla. Járnbrautarfyrirtæki urðu sum mjög aðgangshörð í að kynna sig og eigin hlutabréfum sem þeir lýst sem nánast áhættulaus fjárfesting. Til þess að frekari tæla fjárfesta, buðu járnbrautarfyrirtæki upp á kynningar tilboð á birgðir af þeim þar sem þeir leyfðu fjárfestum að kaupa hluti þeirra með aðeins 10% innborgun, en félagið hélt sér rétt til að kalla eftir hinum 90% á hverjum tíma. Fjárfestar urðu fljótt hrifnir af vaxtarmöguleika járnbrautarfyrirtækja. Breska ríkisstjórnin stundað nánast laissez-faire nálgun í átt að stjórnun og þróun járnbrauta. Þó fyrirtæki þurftu að leggja fram frumvarp á Alþingi um viðurkenningu á nýjum járnbrautalínum, voru engin takmörk á fjölda fyrirtækja í járnbrautariðnaði og næstum allir gátu myndað járnbrautarfyrirtæki og lagt fram frumvarp til Alþingis um lagningu þeirra. Fjárhagslegir hagsmunir af járnbrautarlínum var ekki skilyrði fyrir samþykki þingsins og flestir lög var samþykkt vegna þess að margir þingmenn höfðu mikið fjárfest í fyrirtækjum í járnbrautariðnaði með eftirfarandi hagsmunaárekstrum. Það voru því engar hömlur lengur eftir og markaðurinn var nánast stjórnlaus. Hlutabréf í járnbrautarfyrirtækjum hélt áfram að hækka og fjárfestar urðu sífellt meira uppteknir af greininni. Margar miðstéttar fjölskyldur fjárfestu öllum sparnaði sínum, slík var oftrúin. Mikið magn af fjármagni sem var nú í boði fyrir járnbrautarfyrirtæki gerði það að verkum að fyrirtækin fóru að taka mun meiri áhættu og dirfskan jókst. Óhagkvæmar og oft sviksamlegar áætlanir tóku að myndast. Með hámarki járnbrautarbólunnar árið 1845 og 1846, voru járnbrautarfyrirtæki sífellt að myndast og margar fyrirhugaðar áætlanir eins og „beinar“ járnbrautalínur sem voru beint lagðar yfir sveitir í Bretlandi. Á þessum tímapunkti, vildi næstum hver einasti bær eigin járnbraut og árið 1846 voru 272 lög af Alþingi samþykkt í þeim tilgangi að fela nýjum félögum járnbrautarleyfi, sem lögðu samtals 15.300 km af nýjum línum. Frá 1844-1846, tvöfaldaðist vísitala í járnbrautarfyrirtækjum um það bil sem íhugandi oflæti greip um sig. Það sem á eftir kom átti eftir að hafa skelfilegar afleiðingar. Hrunið. Árið 1845, byrjaði Englandsbanki með mikið aðhald í peningastefnu sinni með því að hækka vexti, sem hafði tilhneigingu til að draga úr efnahagslegum bólum þar sem fjármagn var ekki lengur eins ódýrt og það var áður. Hærri sveigjanleg skuldabréf urðu meira aðlaðandi fyrir fjárfesta aftur. Skömmu síðar, árið 1846, er járnbrautar vísitalan náði hámarki, fór hún að falla hratt vegna blöndu af hærri vöxtum og minni trú fjárfesta á að framkvæmdir í járnbrautum væru ekki eins arðbærar og jafnvel eins hagkvæmar og menn vildu láta vera af. Hlutabréf í járnbrautarfyrirtækjum héldu áfram að hrapa um 50% 1846-1850, sem varð til þess að auka á að kallað var eftir hinum 90% af því fé sem þeir höfðu lánað fjárfestum sem hluti af kynningar tilboði þeirra. Millistéttin og auðugir fjárfestar sem höfðu fjárfest sparnaði sínum í hlutabréfum járnbrautariðnaði lentu í skelfilegum aðstæðum og fjármagn þeirra tapað með öllu loks þegar bólan tók að springa. Þegar Járnbrautar bólan loks sprakk varð mönnum ljóst að viðfangsmikil svik og slæleg vinnubrögð við áætlanagerð gerði það að verkum að bylgja gjaldþrota átti sér stað og metnaðarfullar áætlanir um lagningu teina voru frestað að hætt við. Nærri þriðjungur þeirra áætlana sem leyfi var komið fyrir frá Alþingi voru aldrei byggðar. Þróun í járnbrautariðnaði hægðist mjög og árin eftir að járnbrautarbólan sprakk voru aðeins reistar nýjar járnbrautarlínur af stærri fyrirtækjum í járnbrautariðnaði sem stóðu af sér versta hjallann af hruninu. Þróun í járnbrautariðnaði hélt þó áfram á fimmta og sjötta áratug nítjándu aldar en þó hvergi nærri eins mikið og á bóluskeiðinu sjálfu á fjórða áratug nítjándu aldar. Áhrifin. Ólíkt flestum bólum, þar sem lítið er um gildi og tilhneigingu til að halda áfram eftir að bólan birtist (til dæmis hollensku túlípanabólunni), hjálpaði járnbrautarbólan til við að örva þróun járnbrauta kerfisins í Bretlandi, sem varð einn af þeim háþróaðustu í heiminum. Í þessu sambandi er járnbrautarbólan í Bretlandi oft miðað við fjarskiptabólunu í lok tuttugustu aldar, þar sem mikið magn af fjarskiptatækni og samskiptabúnaði var lagt um allan heim, þar á meðal djúpt undir sjó. Þótt að fjarskipta bólann hafi sprungið, fór henni að baki dýrmæt fjarskipti uppbygging svipað því þegar járnbrautarbólan skildi að baki dýrmæta samgöngu innviði. Á árunum milli 1844 og 1846 voru 6.220 kílómetrar af járnbrautarteinum reistir, sem enn er mikilvægur hluti af öllum ellefu þúsund km sem nú eru fyrir hendi í Bretlandi. Margar leiðir sem mistókst eftir að járnbrautar bólan sprakk urðu á endanum hagkvæmar og arðbærar eftir að þær voru keyptar af stórum og vel reknum járnbrautarfyrirtækjum. Undirmálslán. A mortgage brokerage in the US advertising subprime mortgages in July 2008. Undirmálslán voru veitt einstaklingum í Bandaríkjunum sem höfðu slæmt lánstraust. Lán þessi báru hærri vexti en venjuleg lán og vextir voru breytilegir. Bankarnir réttlættu háa vexti lánanna vegna þeirrar ástæðu að þeir væru að taka mikla áhættu með að lána fólki með slæmt lánstraust. Undirmálslán í víðara samhengi. Undirmálslán voru lán til einstaklinga, sem ekki er víst að hafi verið borgunarmenn fyrir þeim, og sem áttu takmarkaðar eignir sem þjónað gátu sem tryggingar. Þetta gerði lánastofnunum í Bandaríkjunum kleift að krefjast hærri vaxta. Lánveitendur komu sér svo undan ábyrgð með því að selja umrædd lán til fjárfestingarbanka sem settu þau saman í svokallaða skuldavafninga sem voru tryggðir gegn greiðslutapi og seldir fjárfestum. Til að skýra þetta á mannamáli þá eru undirmálslán, lán sem voru veitt einstaklingum í Bandaríkjunum fyrir húsnæði. Lánin voru frábrugðin venjulegum lánum, það er að segja þeim lánum sem við þekkjum á Íslandi, að því leyti að einstaklingarnir þurftu ekki að sýna fram á neina sönnun þess að þeir gætu staðið við afborganir. Á Íslandi fer til dæmis fram greiðslumat til að meta hversu mikið við fáum lánað. Einstaklingar gátu því sagst vera með tíu milljónir í árstekjur en voru kannski bara með eina milljón. Síðan voru lánin líka með lægri vöxtum fyrstu eitt eða tvö árin en hækkuðu svo umtalsvert. Vandamálið sem hófst með undirmálslánabólunni var þegar vextir hækkuðu á lánunum á sama tíma og húsnæðisverð fór að lækka hratt. Margir einstaklingar voru klárlega ekki í stakk búnir að borga það og því fór sem fór. Þess má geta að húsnæðismarkaðurinn í Bandaríkjunum er 20 trilljónir dollarar. (20 Trilljón = 20.000 milljarðar) Það má síðan margfalda þetta með 100 til að fá út hversu há upphæðin er í íslenskum krónum. Sögulegt samhengi. Eftir Kreppuna miklu (Kreppan mikla) árið 1929 settti Franklin D. Roosevelt af stað New Deal til þess að endurreisa efnahaginn. Stjórnvöld settu á fót stofnunina Fannie Mae (The Federal National Mortgage Association) til þess að láta litlum svæðisbundnum bönkum í té fjármagn til þess að lána út til íbúðarkaupa. Með þessu vildu stjórnvöld auka fasteignareign hins venjulega borgara og geri þeim kleift að eiga sitt eigið húsnæði. Á eftir Fannie Mae kom Freddie Mac (The Federal Home Loan Mortgage Corporation). Bæði félögin voru studd af stjórnvöldum og búin til með það að leiðarljósi að kaupa húsnæðislán á eftirlánamarkaði (Secondary market). Svæðisbundir bankar sem voru flestir af gerðinni Sparnaður & Lán (Savings and loan association) lánuðu fólki fé til þess að festa kaup á íbúðarhúsnæði og vegna þess að bankinn var að lána af sínu eigin fé þá þurfti bankinn að fá fé sitt aftur. Bankinn lánaði því aðilum sem hann taldi að gætu staðið undir slíkum lánum. Á þessum árum var regluverk í kringum bandarísk bankakerfi þónokkuð vegna Glass-Steagall Act frá árinu 1933. Frá forsteatíð Ronalds Reagan dró aftur á móti smátt og smátt úr öllu regluverki í kringum bankastarfssemi. Þegar líða tók að aldamótum var regluverk í kringum bandarísk bankakerfi lítið, árið 1999 tók Gramm–Leach–Bliley Act við hlutverki hins fyrrnefnda Glass-Steagall Act og regluverk í kringum bankastofnanir var nær horfið. Fjármálakreppan. Bandarísk undirmálslán setti af stað atburði sem leiddu til fjármálakreppunnar og síðar samdráttar sem hófst árið 2008. Það einkenndist af auknum vanskilum og svipting veðþola á rétti til eignar sinnar vegna vanefnda á veðskuld, það að ganga að veði. Það síðar leiddi til falls á hlutabréfamörkuðum og lánalínur lokuðust. Nokkur helstu fjármálafyrirtæki voru að hruni komin í september 2008, með verulega röskun á streymi af lánsfé til fyrirtækja og neytenda og upphafs á alvarlegum alþjóðlegum samdrætti. Það voru þó margar ástæður fyrir kreppunni sem myndaðist í kjölfarið. Sérfræðingar hafa deilt sökinni milli lánastofnana, eftirlitsstofnana, matsfyrirtækja, ríkisstjórnar og neytenda, meðal annarra. Meðal annars var ein orsök, hækkun á undirmálslánum. Erlend fjármálaleg skilyrði versnuðu til muna vegna umhleypinga á erlendum fjármála- og peningamörkuðum. Óróinn sem einkenndi alþjóðafjármálamarkaði um þær mundir átti sér að nokkru leyti rætur í vaxandi vanskilum á bandarískum húsnæðislánamarkaði, þótt upphaf vandans eigi sér dýpri rætur í efnahagsstefnu helstu ríkja heims og ójafnvægi í heimsbúskapnum. Um mitt ár 2005 tók að gæta aukinna vanskila í Bandaríkjunum sem í fyrstu voru einskorðuð við ákveðinn flokk húsnæðislána, þessi umtöluðu undirmálslán, sem veitt voru húsnæðiskaup endum með rýrt lánshæfi. Lækkun húsnæðisverðs og hækkandi greiðslu byrði lántakenda, einkum vegna endurskoðunarákvæða á vaxtaálagi sem voru algeng á þessum tegundum lána, leiddi til þess að vandinn stigmagnaðist. Stigvaxandi vanskil leiddu til þess að markaðsverð skuldabréfavafninga sem tengdust undirmálslánum tók að falla og dró úr seljanleika þeirra. Tangen-málið. Tangen-málið var mál sem kom upp árið 1988 vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins (RÚV) um aðdraganda þess að Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu árið 1949. Í kvöldfréttum RÚV þann 9. nóvember 1987 sagði Jón E. Guðjónsson, fréttaritari RÚV í Osló í Noregi, frá rannsóknum Norðmannsins Dag Tangen sem hafði að sögn komist að því að Stefán Jóhann Stefánsson, forsætisráðherra Íslands 1947-9, hefði haft náið samráð við bandarísku alríkisþjónustuna (CIA). Seinna kom í ljós að ekki var fótur fyrir þessum ásökunum og olli málið talsverðum álitshnekki fyrir trúverðugleika RÚV. Meredith Grey. Meredith Grey er skálduð persóna í sjónvarpsþáttaröðinni "Grey's Anatomy", sem er sýnd á Stöð 2. Persónan var búin til af skapanda þáttanna Shonda Rhimes og er leikin af Ellen Pompeo. Meredith er aðalpersóna þáttanna, sem var kynnt sem nemi á ímyndaða spítalanum Seattle Grace Hospital þar sem hún útskrifaðist. Hún er núna almennur skurðlæknir á Grey Sloan Memorial Hospital. Meredith er dóttir heimsfræga skurðlæknisins Ellis Grey. Meredith er sögumaður þáttarins og er miðpunktur flestra þáttana. Meredith er alræmd fyrir það að sjá ekkert svart á hvítu og horfir á heimin í öllum þeim gráu litum sem hann er í og eiginmaður hennar Derek Shepherd er mikil andstæða hennar í þeim málum. Söguþræðir. Meredith Grey er dóttir Ellis Grey heimfrægs almenns skurðlæknis, sem þjáist af Alzheimer. Hún stundaði nám við Dartmouth College. Kvöldið fyrir fyrsta daginn hennar sem nemi á Seattle Grace sefur hún hjá ókunnugum manni, sem hún hittir á bar, og kemst að því daginn eftir að hann er taugaskurðlæknir á spítalanum. Meredith er sett í það að vinna undir Miranda Bailey (Chandra Wilson), og vingast við samnema hennar þá, George O'Malley (T.R. Knight), Izzie Stevens (Katherine Heigl), Cristina Yang (Sandra Oh) og Alex Karev (Justin Chambers). Grey er efins en byrjar á endanum samband með Derek Shepherd og er mjög hissa þegar Addison Montgomery mætir á svæðið, eiginkona Shepherd's. Borgarastyrjöldin í Líbanon. a> sem skipti Beirút í tvennt árið 1982 Borgarastyrjöldin í Líbanon var borgarastyrjöld í Líbanon sem stóð frá 13. apríl 1975 til 13. október 1990. Áætlað er að styrjöldin hafi kostað 120.000 manns lífið og sent hundruð þúsunda á vergang. Talið er að um milljón manns hafi flúið Líbanon vegna styrjaldarinnar og um 76.000 eru enn vegalaus innan Líbanon. Upphafleg ástæða styrjaldarinnar var brottrekstur Frelsissamtaka Palestínu (PLO) frá Jórdaníu eftir svarta september 1970. Palestínskir skæruliðahópar flúðu til Suður-Líbanon þar sem yfir 300.000 palestínskir flóttamenn bjuggu. Þar stóðu þeir fyrir árásum í Norður-Ísrael. Ísraelsher stóð svo aftur fyrir aðgerðum gegn skæruliðum í Líbanon. Í Líbanon ríktu kristnir maronítar í krafti þjóðarsáttmálans frá 1943 sem byggðist á manntali frá 1932. Breytingar á samsetningu þjóðarinnar leiddu til vaxandi óánægju með yfirráð maroníta meðal annarra hópa, einkum líbanskra drúsa og múslima auk vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka. Veik ríkisstjórn og her gerðu það að verkum að PLO tókst að leggja undir sig stór svæði í borgum Líbanon án þess að stjórnin gæti rönd við reist. Vinstriflokkar, múslimar og drúsar mynduðu líbönsku þjóðarhreyfinguna sem gerði bandalag við PLO en hægrisinnaðir stuðningsmenn stjórnarinnar mynduðu líbanska framvörðinn. Ísrael og mörg Evrópuríki studdu framvörðinn en þjóðarhreyfingin fékk stuðning frá nokkrum arabaríkjum og PLO. Fjöldi annarra hópa tók einnig upp vopn. Í Suður-Líbanon varð Amalhreyfingin vinsæl meðal sjíta sem voru andsnúnir bæði PLO og Ísrael. Upphaf átaka og inngrip Sýrlands. Vorið 1975 voru skærur milli þjóðarhreyfingarinnar og framvarðarins. Þann 13. apríl skutu byssumenn á kirkju í Austur-Beirút með þeim afleiðingum að fjórir létust. Síðar sama dag réðust liðsmenn líbönsku fylkingarinnar (sem var hluti af framverðinum) á rútu sem í voru Palestínumenn og drápu 30 manns. Í kjölfari þessara atburða hófu fylkingarnar að koma sér upp bækistöðvum í hótelum og Hótelstríðið hófst. Morð á almennum borgurum í hefndarskyni fyrir aðgerðir andstæðinganna urðu algeng og leiddu til þess að fólk flúði til borgarhluta sem voru undir stjórn eigin trúflokks. Austur- og Vestur-Beirút skiptust því í vaxandi mæli eftir trúarbrögðum. Vorið 1976 voru maronítar á barmi ósigurs en þá hóf Ísraelsstjórn að láta þeim í té hergögn og Sýrlandsstjórn ákvað að styðja stjórnina og sendi herlið til Beirút. Maronítar náðu þá yfirhöndinni og drápu í kjölfarið 2000 Palestínumenn í flóttamannabúðum í Austur-Beirút. Í október fékk Sýrland umboð Arababandalagsins til að hafa 40.000 hermenn í Beirút til að stilla til friðar. Þar með lauk fyrsta hluta borgarastyrjaldarinnar en ófriður braust brátt aftur út í Suður-Líbanon þegar skæruliðar PLO sneru þangað aftur frá Beirút. Stríðið hefst að nýju 1978. Í Beirút hófst Hundrað daga stríðið 1978 þegar kristnir framvarðarmenn hófu skæruhernað gegn sýrlenska hernum sem brást við með sprengjuárásum á Austur-Líbanon. Á sama tíma stóð skæruhernaður PLO í Norður-Ísrael sem hæst. Ísraelsher lagði því suðurhluta Líbanon, sunnan við Litanifljót, undir sig. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti þá ályktun 425 þar sem þess var krafist að Ísrael drægi herlið sitt strax til baka og að friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna í Líbanon myndu reyna að koma á friði. Ísraelsher hvarf frá svæðinu en hélt eftir stjórn á 19km breiðu öryggisbelti við landamærin sem bandamenn þeirra í Suðurlíbanska hernum gættu. Í desember 1980 hóf Sýrlandsher að setja upp vegatálma við borgina Zahleh nálægt sýrlensku landamærunum. Þeir óttuðust að hægrisinnaðir hópar í borginni myndu gera bandalag við Ísrael sem setti aðalveginn frá Damaskus til Beirút í hættu. Sýrlendingar settust um borgina og reyndu að leggja hana undir sig síðar sama ár en mistókst. Þann 1. apríl hófust bardagar milli líbanskra herflokka í borginni og Sýrlandshers. Bardaginn um Zahleh stóð til 30. júní 1981 þegar samningar náðust um að Sýrlandsher hyrfi frá borginni. Innrás Ísraels 1982. Ísraelskir hermenn í Suður-Líbanon í júní 1982 Í júní 1982 reyndu Abu Nidal-samtökin að myrða sendiherra Ísraels í London. Ísrael brást við með því að ráðast gegn bækistöðvum PLO í Líbanon. PLO brást þá við með sprengjuárásum gegn Ísrael. Ísraelsher gerði þá innrás í Líbanon og settist um Beirút. Í borginni vörðust hersveitir PLO og Sýrlands. Eftir mikið mannfall í borginni samþykktu þeir friðarsamkomulag sem fól í sér brotthvarf PLO frá Líbanon og að alþjóðlegt herlið tæki við vörn borgarinnar. Um 8500 meðlimir PLO voru fluttir til Túnis og 2500 til annarra arabaríkja. Þann 17. mars samdi forseti Líbanons Amine Gemayel um frið við Ísrael fyrir milligöngu Bandaríkjamanna. Samkomulagið fól í sér brotthvarf bæði Ísraelshers og Sýrlandshers frá Líbanon en í arabaheiminum var almennt litið á það sem uppgjöf fyrir Bandaríkjunum. Brotthvarf Ísraelshers frá héraðinu Chouf suðaustan við Beirút í ágúst 1983 leiddi til Stríðsins um fjallið milli maroníta og drúsa. Árið 1983 voru tvær mannskæðar sjálfsmorðssprengjuárásir gerðar á sendiráð Bandaríkjanna og höfuðstöðvar alþjóðlega herliðsins. Þegar Bandaríkjaher hvarf frá Líbanon í febrúar 1984 hurfu margir múslimar og drúsar úr líbanska hernum og gengu í raðir skæruliðaflokka. Um leið urðu Hezbollah-samtökin til sem klofningshópur sjíamúslima sem voru andsnúnir Ísrael og þáðu aðstoð frá Íran. Eftir 1985 jukust átökin og Stríðið um flóttamannabúðirnar stóð frá 1985 til 1986 þegar líbanski herinn reyndi, með stuðningi Sýrlendinga, að hrekja skæruliða PLO úr flóttamannabúðum Palestínumanna í Beirút og Suður-Líbanon. Helstu átökin voru milli Amalhreyfingarinnar og Hezbollah, en báðir flokkar voru skipaðir sjíamúslimum. Brátt sameinuðust vinstrisinnaðir hópar, drúsar og Palestínumenn gegn Amalhreyfingunni og átök blossuðu upp aftur í Beirút. Kristni herforinginn Michel Aoun varð forsætisráðherra eftir afsögn Gemayels og fékk stuðning frá Írak. Borgarastyrjöldin varð þá eins konar leppstríð milli Írans og Íraks. Bardagar blossuðu upp milli kristinna herflokka og líbanska hersins í kjölfarið og drógu verulega úr styrk þeirra. Innrás Sýrlands og stríðslok 1990. Þann 13. október 1990 réðist Sýrlandsher inn í landið og settist um forsetahöllina. Aoun flúði til Frakklands. Sumir hafa haldið því fram að Sýrlandsstjórn hafi getað gert þetta án afskipta Ísraelshers í skiptum fyrir stuðning við Bandaríkjamenn í Persaflóastríðinu. Borgarastyrjöldinni lauk þar með formlega. Árið eftir var gefin út almenn sakaruppgjöf og herflokkarnir leystir upp. Líbanski herinn var byggður upp á ný þótt landið væri hernumið af Sýrlendingum. Þegar Sýrlandsstjórn var bendluð við morðið á fyrrum forsætisráðherra Líbanons Rafic Hariri árið 2005 hratt það Sedrusbyltingunni af stað. Í kjölfarið hvarf Sýrlandsher frá Líbanon. Rauðu kmerarnir. Rauðu kmerarnir (kambódíska: ខ្មែរក្រហម "Khmer Krahom") voru fylgjendur kommúnistaflokks Kampútseu sem hófu vopnaða baráttu gegn ríkisstjón Kambódíu árið 1968. Stuðningur Alþýðuhers Víetnam leiddi til þess að þeir höfðu sigur í borgarastyrjöldinni í Kambódíu 1970-1975. Þeir stofnuðu Lýðveldið Kampútseu sem var alræðisstjórn kommúnista undir forystu aðalritarans Pol Pot. Kommúnistastjórnin hóf róttækar umbætur sem fólust í eignaupptöku og nauðungarflutningum fólks frá borgum til sveita. Menntafólk var kerfisbundið fangelsað og tekið af lífi. Áætlað er að milli 740.000 og 3 milljónir (algengasta talan milli 1,4 og 2,2 milljónir) manna hafi látist, um helmingur með aftökum og helmingur vegna hungurs eða sjúkdóma sem rekja má til aðgerða stjórnarinnar. Stuðningur Víetnam við stjórn kmeranna dvínaði hratt vegna flóttamannastraumsins frá Kambódíu og átaka við landamærin. Þann 18. apríl 1978 fyrirskipaði Pol Pot fyrirbyggjandi innrás í Víetnam. Kambódíski herinn réðist á bæinn Ba Chúc og framdi þar fjöldamorð á almennum borgurum. Víetnamski herinn hrakti Kambódíumenn úr landinu og réðist í kjölfarið inn í Kambódíu 7. janúar 1979. Rauðu kmerarnir hörfuðu í vesturátt þar sem þeir héldu yfirráðum yfir fjallendi við landamæri Taílands í mörg ár á eftir. Þar lifðu þeir af smygli og stuðningi frá Kína og Taílandi. Um 1999 höfðu þeir flestir náðst eða gefið sig fram. Central Park. Central Park er almenningsgarður í miðju Manhattan í New York-borg í Bandaríkjunum. Garðurinn var fyrst opnaður 1857. Hann er 341 hektarar að stærð. Garðurinn er rekinn af sjálfseignarstofnun, Central Park Conservancy. Hann var skráður sem bandarískt sögulegt kennileiti árið 1966. ARPANET. Kort af ARPANET frá 1977 Advanced Research Projects Agency Network eða ARPANET var fyrsta tölvunet heims sem notaðist við pakkabeiningu og síðan samskiptareglurnar IP. Netið var fyrirrennari Internetsins. Það var upphaflega þróað á vegum rannsóknarstofnunar varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna (ARPA, síðar DARPA) og var ætlað að tengja saman tölvur í háskólum og rannsóknarstofnunum innan Bandaríkjanna. Upphaflega hugmyndin að ARPANET kom frá tölvunarfræðingnum J. C. R. Licklider sem hóf störf hjá ARPA árið 1963. Árið 1968 var verkáætlun búin til og þróun þess boðin út. BBN Technologies fékk verkið og þróaði skeytagátt (beini) sem tengdi tölvurnar saman með raðtengjum. Í fyrstu uppsetningu netsins voru fjórar slíkar gáttir settar upp; í Kaliforníuháskóla, Los Angeles, Stanford Research Institute, Kaliforníuháskóla, Santa Barbara og Utah-háskóla. Netið var lýst „virkt“ árið 1975 og samskiptamiðstöð varnarmálaráðuneytisins tók við rekstri þess af ARPA. Eftir að NSFNet var stofnað fyrir net háskóla og rannsóknarstofnana 1985 var ARPANET að mestu lagt niður. Hafsteinn Austmann. Hafsteinn Austamann (fæddur 19. júlí 1934) er íslenskur abstrakt myndlistamaður sem vinnur aðallega með vatnsliti, acrylliti og olíuliti. Æviágrip. Hafsteinn Austmann.
Hér getur getur að líta upplýsingar um myndlistarmanninn Hafstein Austmann. Hafsteinn Austmann fæddist á Ljótsstöðum í Vopnafirði 19. júlí 1934. Strax í gagnfræðaskóla var afráðið hvert skyldi stefnt. Árið 1951 innritast hann í Myndlistarskólann í Reykjavík og á árunum 1952-54 stundaði hann síðan nám í Handíða- og myndlistaskólanum. Hleypti hann þá heimdraganum og innritaðist í Academi de la Grande-Chaumiér í París, þar sem hann stundaði framhaldsnám í einn vetur. Á þessum tíma var Nína Tryggvadóttir þegar orðin þekktur listamaður í París. Hún sýndi hinum unga landa sínum vinsemd og áhuga. Það var fyrir hennar tilstilli að Hafsteini var boðið að sýna með hinum virta sýningarhóp Realitiés Nouvelles í París vorið 1955. Hafsteinn hafði kynnst hinni geometrísku afstraktlist í París og tileinkaði sér nú þá liststefnu. Í stað þess að tryggja sig frekar í sessi meðal kollega í París heldur Hafsteinn aftur heim til Íslands. Fyrstu sjálfstæðu sýninguna sína hér á landi opnar Hafsteinn svo í Listamannaskálanum árið 1956. Á sýningunni voru 70 verk unnin í margvísleg efni; olíumyndir, vatnslitamyndir og guachemyndir, auk verka unnum í tré. Þessi fyrsta sýning Hafsteins vakti mikla athygli og fékk lofsamlega dóma. Hjörleifur Sigurðsson skrifaði m.a. um þá sýningu: „Þótt Hafsteinn Austmann hafi ekki málað lengi, kveður hann sér hljóðs á þann hátt, að menn hljóta að leggja við hlustirnar. Af eldri myndum varð fátt ráðið um hæfileika hans en nýju olíumálverkin taka af allan vafa. Hér er gott málaraefni á ferð. Einkum virðist litakenndin upprunaleg, eins og raunar hjá flestum íslenskum málurum sem einhver töggur er í“. Á þessum árum vann Hafsteinn jöfnum höndum með olíulitum og vatnslitum, en eftir sína aðra sjálfstæðu sýningu í Listamannaskálanum 1958 tók hann til við að mála eingöngu með vatnslitum. Afrakstur þeirrar vinnu sýndi hann svo í Bogasalnum vorið 1960. Hafsteinn hafði nú þróast frá dökkum og þungum flatarmálsmyndum, sem komu fram á fyrstu sýningu hans, yfir í léttar ljóðrænar afstraktmyndir. Sýningin vakti mikla athygli, sérílagi þar sem hér var á ferðinni ein fyrsta sýning hér á landi þar sem eingöngu voru sýndar vatnslitamyndir. Myndirnar voru skemmtilega ólíkar en mynduðu heildstæða sýningu. Á árinu 1965 fór Hafsteinn í náms- og skoðunarferðir víða um Evrópu. Hann dvaldi um nokkurra mánaða skeið í Róm og heimsótti auk þess París, London, Amsterdam, Kaupmannahöfn og Stokkhólm. Áhrif og afsprengi þessarar ferðar mátti sjá á sýningu hans í Unuhúsi haustið 1966 — verkin voru nú rómantískari og formin frjálslegri. Samfara húsbyggingu og nýrri vinnustofu tekur nú við tímabil mikillar tilraunastarfsemi, ýmis ný efni eru notuð, en viðfangsefnið að öðru leyti hið samana. Á árunum 1968-69 dvaldi hann í tæpt ár í Árósum í Danmörku, málaði mikið og sýndi með sýningarhópnum „Guirlanden“. Næstu sýningu hér heima hélt hann á Kjarvalsstöðum vorið 1971. Þar kom hann fram þróttmeiri og djarfari en fyrr og mun léttara var yfir verkum hans. Svört form og línur byggja nú upp myndir hans og túlkun hans er persónulegri. Hafsteinn hefur undanfarna áratugi unnið jöfnum höndum með vatnslitum, acryllitum og olíulitum. Hann hefur frá sínum fyrstu kynnum af afstraktlistinni haldið tryggð við hana, en hleypur ekki úr einum stíl í annan. Hann er átakamaður í list sinni og litameðferðin er hans sterka einkenni. Hann fer sér hægt og vinnur vel úr efniviðnum og ræður nú yfir meiri tækni en flestir okkar afstraktmálara. Hafsteinn er í stöðugri framþróun. Hann er trúr list sinni. Tenglar. Information portal about Icelandic art and artists Steinaldin. Steinaldin (eða steinber) er svonefnt óklofaaldin sem þýðir að aldinið klofnar ekki þegar það er fullþroska (e. "indehiscent fruit"). Helsta einkenni steinaldinna er einn kjarni (stein). Paul Allen. Paul Allen (f. 21. janúar 1953) er bandarískur fjárfestir og annar stofnenda hugbúnaðarrisans Microsoft, ásamt Bill Gates, árið 1975. Í mars 2012 var hann talinn vera 48. ríkasti maður heims. Fjárfestingar hans og framlög til góðgerðamála fara í gegnum fjárfestingafélag hans Vulcan Inc. Meðal eigna hans má nefna fótboltaliðið Seattle Seahawks, körfuknattleiksliðið Portland Trail Blazers, kvikmyndafyrirtækið Vulcan Productions og risasnekkjuna "Octopus". Hann stóð á bak við fyrsta einkarekna mannaða geimflugið, SpaceShipOne, árið 2004. Vilborg Arna Gissurardóttir. Vilborg Arna Gissurardóttir (f. 1980) er íslenskur ævintýramaður og pólfari, ferðamálafræðingur að mennt. Hún hóf göngu um miðjan nóvember 2012, eins síns liðs, á suðurpólinn og komst þangað 17. janúar 2013 eftir 60 daga göngu. Savings&Loan. Saving&Loans-sparisjóðskreppan á níunda og tíunda áratugnum í Bandaríkjunum var fall um 747 S&L sparisjóða af 3,234 S&L sparisjóðum í Bandaríkjunum. Kreppan kostaði bandarískan almenning gríðarlega fjármuni. Árið 1995 var áætlað að Sparisjóðskreppan hefði kostað um 87,9 milljarða Bandaríkjadala. Saga S&L Sparisjóðskreppunnar. Savings&Loans sparisjóðirnir voru stofnaðir í Bandaríkjunum í byrjun 19. aldar. Bankarnir voru að breskri fyrirmynd byggingarfélaga, Building Societies. Savings &Loans sparisjóðirnir svipa til gamla sparisjóðskerfisins. Svæðisbundnir sparisjóðir sem dreifðust um öll Bandaríkin. Meðlimir S&L sparisjóðanna lögðu inn sparifé sitt og greiddu mánaðarlegar greiðslur til svæðisbankans. Helsta markmið Saving&Loans sparisjóðanna var að geyma sparifé meðlima sinna og lána til íbúðarkaupa. Þegar meðlimur var búin að borga reglulega í nokkurn tíma þá gat sá hinn sami sótt um lán til íbúðarkaupa. Lánin voru með lægri vöxtum en hefðbundir bankar buðu og voru yfir lengri tíma. Þetta hentaði meðlimum sjóðanna vel, sem voru flestir úr verkalýðsstétt og gerði þetta kerfi þeim kleift að kaupa hús á viðráðanlegu verði með láni frá sínum svæðisbundna sparisjóði. Kreppan mikla árið 1929 hafði minni áhrif á S&L sparisjóðina en hina hefðbundnu banka. En samt sem áður voru margir sem ekki gátu greitt af lánum sínum. Helstu stjórnendur S&L sparisjóðanna báðu stjórnvöld um aðstoð. Árið 1932 samþykkti bandaríska þingið Federal Home Loan Bank Act og í kjölfarið var stofnaður The Federal Home Loan Bank, sem veitti S&L sparisjóðunum fjármagn til þess að halda áfram að veita lán til meðlima sinna. Árið 1966 var samþykkt Regulation Q sem veitti S&L sparisjóðunum leyfi til þess að greiða hærri vexti en hefðbundir bankar. Frá lokum síðari heimstyrjaldar til sjöunda áratugarins var gullöld Savings& Loans-sparisjóðanna. Orsakir. Upphaflega kveikjan að vandamálunum sem seinna áttu eftir að verða að kreppu var vaxandi verðbólga á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar. Sparisjóðirnir sem byggðu innkomu sína á mánaðarlegum leigugreiðslum með fasta vexti, töpuðu því miklum peningum vegna verðbólgunnar. Þegar vinsælt varð að fjárfesta peningum sínum til peningamarkaða vegna hárra vaxta, reyndu sparisjóðirnir að halda samkeppnisstöðu sinni og hækkuðu vexti á innborgunum en gátu síðan ekki staðið undir því. Í stað þess að láta sparisjóðina fara á hausinn samþykkti þingið lög sem voru til þess fallin að minnka regluverkið í kringum sparisjóðina til þess að svigrúm væri fyrir fleiri gerðir sparireikninga og lána ásamt því að auka vald Sparisjóðanna umtalsvert. Þessi lög voru Verðbréfaskráningarlögin (Depository Institutions Deregulation and Monetary Control Act), Peningamálastjórnarlögin frá 1980 (Monetary Control Act of 1980) og Garn–St. Germain Depository Institutions Act lögin frá 1982 sem gaf sparisjóðunum rými til að hækka vexti á innborgunum. Lögin áttu að ýta undir vöxt sparisjóðanna sem átti að leiða til úrlausnar á þeim vandamálum sem þau stóðu frammi fyrir og auka gróða þeirra ásamt því að stuðla að möguleika fyrir fólk á að eignast sitt eigið húsnæði. Að auki voru mun afslappaðri reglur samþykktar sem gáfu Sparisjóðunum stærra svigrúm til að starfa án strangs eftirlits með fjárhagsstöðu bankanna. Takmörk á lágmarksfjölda hluthafa var þá einnig felld niður. Afleiðingar þess að afnema reglugerðir og minnka eftirlit með sparisjóðunum var að eyða því sem hafði áður aðgreint sparisjóði og viðskiptabanka. Vegna meira svigrúms og minna eftirlits urðu sparisjóðirnir eftirsóknarverðir fyrir viðskiptamenn til að fjárfesta í og græða á. Sparisjóðirnir höfðu einnig meira svigrúm til athafna og tóku því meiri áhættu í fjárfestingum sem að gaf af sér hærri ávöxtun. Gróði sparisjóðanna margfaldaðist og til að nefna dæmi þrefölduðust sparisjóðirnir í Texas og eignir uxu um 50%. Margar ástæður eru fyrir þeim miklu afleiðingum sem urðu vegna Sparisjóðskreppunnar. Ein þeirra er sú að sparisjóðirnir voru tryggðir af ríkinu þrátt fyrir áhættusamar fjárfestingar sem endaði með að peningar skattgreiðenda voru notaðir í að borga brúsann þegar þeir urðu gjalþrota. Þegar þingið fór í að afnema reglugerðir gleymdist að gera ráð fyrir svikum og var tilhneiging stjórnenda og viðskiptamanna til svika gróflega vanmetin þrátt fyrir að spila stóra rullu í því hvernig fór. Kreppan stigmagnast. Afnám hafta varð þess valdandi að ný tegund sparisjóða varð áberandi, þessir sjóðir voru mun áhættu sæknari og buðu ekki einungis upp á húsnæðislán, bílalán og þvíumlíkt heldur sýsluðu einnig með ruslbréf og voru jafnvel í fasteignabraski og alls kyns spákaupmennsku. Sumir sjóðanna fjármögnuðu sig svo með skuldavafningum, þar sem hinum ýmsu eignum (lánum) var pakkað saman í vörur handa fjárfestum. Sparisjóðatryggingar alríkisins (e. Federal Savings and Loan Insurance Corporation) sinnti heldur ekki skyldum sínum með því að loka þeim sparisjóðum sem voru tæknilega gjaldþrota þess í stað var slakað á ýmsum reglum varðandi reikningshald sjóðanna. Ætlunin var að bjarga þessum stofnunum en þessar ákvarðanir urðu einungis til þess að umfang kreppunnar varð mun meira en ella hefði verið. Um miðjan áttunda áratuginn lækkaði verðbólga ásamt vaxtastigi, einnig lækkaði fasteignaverð verulega og með þessum sviptingum á markaði hrundi viðskiptamódel sparisjóðanna. Afleiðingar: lagafrumvörp, reglugerðir. Sparisjóðatryggingar alríkisins varð gjaldþrota árið 1986. Í kjölfarið var Fjármála-Hlutafélagið (e. Financing Corporation (FICO)) stofnað af bandarískum stjórnvöldum til að endurfjármagna fyrrnefndu stofnunina. Þetta ásamt lögum um jafnræði í samkeppnishæfni fjármálastofnana (e. Competitive Equality in Banking Act) átti að stemma stigu við krísunni sem myndast hafði en hvorugt dugði þó til. Árið 1989 voru svo sett lög sem voru þau viðamestu varðandi sparisjóðakerfið síðan 1930, voru það lögin um framkvæmd endurmótunar og endurheimtunar (e. Financial Institutions Reform, Recovery, and Enforcement Act (FIRREA)). Þessi lög fólu meðal annars í sér uppstokkun á regluverkinu og var valið til að fylgja þessum reglum eftir meðal annars flutt frá Sparisjóðatryggingum alríkisins yfir til Innistæðutryggingar alríksins (e. Federal Deposit Insurance Corporation (FDIC)). Einnig var ný stofnum var sett á laggirnar til að sjá um að leysa upp þá sparisjóði sem voru gjaldþrota og ná út úr þeim eins miklum verðmætum og mögulegt væri. Eftir kreppuna voru fjöldi manna ákærðir fyrir hvítflibbaglæpi. Eitt þekktasta málið er þegar árið 1989 fimm þingmenn Bandaríkjaþings voru sakaðir um óviðeigandi íhlutun og spillingu sem var ein ástæða Sparisjóðskreppunnar. Þetta voru þingmennirnir Alan Cranston, Dennis DeConcini, John Glenn, John McCain og Donald Ww. Riegle, Jr. Gríðarlegir fjármunir töpuðust á kostnað skattgreiðenda í sparisjóðakreppunni og það þurfti að fást við hinar ýmsu afleiðing fram á níunda áratuginn. Ólafur Arnalds. Ólafur Arnalds, fæddur 3. nóvember 1986, er íslenskur tónlistarmaður. Gullna hirðin. Batú Kan á hásæti í handriti frá um 1300 Gullna hirðin (tatarska: Алтын Урда "Altın Urda"; tyrkneska: "Altın Orda" eða "Altın Ordu", mongólska: Зүчийн улс, "Züchii-in Uls"; rússneska: Золотая Орда, "Solotaja Orda") var mongólskt og síðar tyrkískt undirkanat innan Mongólaveldisins. Það varð til við landvinninga Batú Kans, sonar Djotsji sonar Gengiss Kan í vestri þar sem hann lagði undir sig lönd Volgubúlgara, tyrkneskra þjóðflokka: kúmana og kiptsjaka, og að lokum fyrrum furstadæmi Garðaríkis, um miðja 13. öld. Stórfurstadæmið Moskva og Búlgarska keisaradæmið héldu sjálfstæði sínu en greiddu Gullnu hirðinni skatt. Batú Kan reisti höfuðborg sína, Sarai Batú, við Volgu þar sem höfuðborg kasara, Atil, hafði áður staðið. Um miðja 14. öld tók Gullnu hirðinni að hnigna. Svarti dauði og stríð milli erfingja kansins veiktu ríkið og Stórhertogadæmið Litháen og Konungsríkið Pólland gengu á lagið, lögðu undir sig lönd mongóla og hættu að greiða þeim skatt. Eftir 1420 tók hirðin að brotna upp í nokkur kanöt, þar á meðal Krímkanatið og Kasakkanatið. Árið 1476 hætti Ívan 3. af Moskvu að greiða Gullnu hirðinni skatt og staðan mikla við Úgrafljót sýndi að yfirráðum tatara og mongóla yfir Rússlandi var í raun lokið. Síðasti kan Gullnu hirðarinnar lést í fangelsi í Kaunas í Litháen einhvern tíma eftir 1504. Krímkanatið hélt áfram til þar til Katrín mikla lagði það undir sig 1783, og Kasakkanatið ríkti yfir Kasakstan til 1847, en síðustu kanarnir voru leppar Rússa. DJ Qualls. DJ Qualls (fæddur Donald Joseph Qualls 10. júní 1978) er bandarískur leikari og grínisti sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Road Trip, The New Guy og Memphis Beat. Einkalíf. Qualls fæddist í Nashville, Tennessee en ólst upp í Manchester, Tennessee. Qualls var greindur með "Hodgkin's lymphoma" krabbameinið þegar hann var fjórtán ára og eftir tveggja ára meðferð, er krabbameinið í hléum. Qualls stundaði nám við King's College London þar sem hann lærði ensku og bókmenntir. Eftir námið sneri Qualls aftur til Tennesse þar sem stundaði nám við "Belmont háskólann" í Nashville. Á meðan hann var í námi þá tók hann upp leiklistina og byrjaði að koma fram í hverfisleikhúsum. Tónlistarmyndbönd. Qualls kom fram í tónlistarmyndböndunum „Boys“ með Britney Spears og „I'm Just a Kid“ með Simple Plan. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Qualls var árið 1998 í sjónvarpsmyndinni "Mama Flora´s Family". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við Criminal Minds, Monk, Numb3rs, Breaking Bad, Supernatural og Lost. Qualls lék í persónuna Davey Sutton í Memphis Beat frá 2010-2011. Qualls leikur núna í Legit sem Billy Nugent en fyrsti þátturinn var frumsýndur í janúar 2013. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Qualls var árið 1995 í "Senior Trip". Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Cherry Falls, Lone Star State of Mind, The Core, Delta Farce, All About Steve og Amigo. Árið 2000 þá var Qualls boðið eitt af aðalhlutverkunum í Road Trip þar sem hann lék Kyle Edwards. Lék hann síðan aðalhlutverkið í grínmyndinni The New Guy þar sem hann lék á móti Eliza Dushku og Zooey Deschanel. Tenglar. Qualls, DJ Primierodalur. Fjallið Pale di San Martino séðar frá Primierodali Primierodalur (Ítalska: Valle di Primiero; Þýska: Primörtal; Primieríska: Primiér) er dalur í Trentínó-Suður-Týról, á Norður-Ítalíu. Olíufjallið. Olíufjallið er hæðarás sem áður fyrr var austur af Jerúsalem en er nú hluti af borginni. Það tekur nafn sitt af olívutrjám sem þar eru. Olíufjallið stendur í Jósafatsdal, öðru nafni Kedrondal, en þar rann áður Kedronlækur. Fjallið er oft nefnt í Gamla og Nýja testamentinu. Við rætur þess er olívugarðurinn Getsemane þar sem Kristur var handtekinn. Og samkvæmt Postulasögunni steig Kristur upp til himna af fjallinu 40 dögum eftir að hann reis upp frá dauðum. Uppi á fjallinu er Uppstigningarkirkjan. Hún er nú ekki annað en hringreistur garður undir beru lofti, en inni í honum miðjum er lítið byrgi með hvolfþaki yfir sem nefnd er Uppstigningarkapellan (heb. קפלת העלייה‎). Í henni miðri er feld marmarahella og marmarasteinar í kring. Í helluna er markað spor eftir hægra fót en þar á Jesús að hafa spyrnt þegar hann steig upp til himins. Suðurhlíðarskóli. Suðurhlíðarskóli er kristinn einkarekin grunnskóli í Reykjavík rekinn af Aðventistum. Skólin er frá fyrsta til tíunda bekkjar og veitir menntun samkvæmt aðalnámskrá en auk þess leggur skólinn áherslu ýmisskonar viðbótarþjónustu. Undankeppni fyrir EM í handknattleik karla 2014. Í þessari grein sérðu lista yfir leiki og riðla í undankeppni fyrir Evrópumeistaramótið í handknattleik karla í Danmörku 2014. Þessi grein er þýdd af ensku Wikipediu. Riðlar í undankeppninni. Það er spilað í sjö riðlum fjögur lið í hverjum riðli, byrjaði í október 2012 Johan Christian Pingel. Johan Christian Pingel (um 1713 – febrúar 1779) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1744 en var settur af árið 1752 vegna skulda og fjármálaóreiðu. Hann var hér á landi 1745-1750 og bjó á Bessastöðum. Pingel var fæddur í Rendsborg í Slésvík-Holtsetalandi, sonur Christians Pingel kapteins í danska hernum og konu hans, Mette Sophie Ecklef. Hann gekk sjálfur í herinn en árið 1744 var hann skipaður amtmaður yfir Íslandi og kom til landsins árið eftir. Sagt er að hann hafi talið að besta leiðin til að bæta bágt ástand í efnahagsmálum Íslendinga væri að bæta aga. Í umburðarbréfi til lögmanna og sýslumanna, dagsettu 7. mars 1746, segir Pingel að orsakir ástandsins séu „leti, ómennska, þrjóska og hirðuleysi Íslendinga“ og telur best að beita nógu mikilli harðneskju og bendir máli sínu til stuðnings á að Pétur mikli Rússakeisari hafi látið berja bændalýð til auðsveipni og dáða. Pingel var andsnúinn áformum Skúla Magnússonar og félaga hans um atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Í upphafi mun þó hafa farið vel á með þeim Skúla en fljótlega eftir að Skúli var skipaður landfógeti kastaðist í kekki og Skúli vildi ekki búa á Bessastöðum, eins og ætlað var, heldur fékk að hafa embættisbústað sinn í Viðey. Í bréfi sem Pingel skrifaði stiftamtmanninum, Rantzau greifa, 13. september 1751 segir hann meðal annars: „Er ég ekki af hjarta velviljaður Íslandi? Hef ég nokkru sinni arnnað sýnt? Yður mun þykja landfógetinn raupsamur í meira lagi, og hefir hann lært það af Horrebow sem hefir.stórspillit honum, því áður var hann viðfelldinn maður og skynsamur. Annars þykir mér ásannast hið fornkveðna, að eigi sé hollt að hefja Íslendinga til vegs og virðingar, því síðan þessi maður varð lamdfógeti, er hann orðinn svo hrokafullur, að engu tali tekur í stuttu máli: hann er orðinn allur annar maður.“ Í gögnum Hörmangarafélagsins kemur fram að Pingel fékk árlegar greiðslur þaðan, væntanlega í því skyni að hann gætti hagsmuna félagsins, meðal annars með því að vinna gegn framfarabrölti Íslendinga. Þess má þó geta að á fyrstu árum sínum studdi Pingel málstað og kvartanir Íslendinga gegn kaupmönnum í bréfum til stjórnvalda og fer stundum hörðum orðum um framferði þeirra. En Pingel átti í miklum fjárhagserfiðleikum og var því mjög háður kaupmönnum. Hann var stórskuldugur og var á endanum settur úr embætti af þeim sökum 8. maí 1752 og Magnús Gíslason skipaður í hans stað, fyrstur Íslendinga. Pingel hafði raunar farið úr landi 1750 og kom ekki aftur til Íslands þótt komið hafi til tals að skipa hann stiftamtmann eftir lát Rantzaus 1768. Hann hlaut etatsráðsnafnbót og mun hafa lagt stund á ölgerð. Fyrri kona hans var Margrethe Elisabeth Franchin (1726 – 1753). Þau giftust í Kaupmannahöfn 3. desember 1743. Að minnsta kosti fjögur börn þeirra fæddust á Íslandi en þegar þau voru komin aftur til Danmerkur lést Margrethe í mars 1753 af barnsförum. Pingel giiftist Anna Marie Lyders (1721 – 16. mars 1795) í Kaupmannahöfn 28. janúar 1756. Pingel lést í febrúar 1779 í Skaarup í Danmörku. Jurtasvif. a> eru ein algengasta tegund jurtasvifa. Jurtasvif (plöntusvif), oft einnig kallað svifþörungar, eru einfrumungar og eru bara brot úr millimetra í þvermál. Plöntusvif stunda ljóstillífun en til þess að ljóstillífa þurfa plöntusvifin sólarljós og lifa þau því á yfirborðslögum sjávar. Ásamt sólarljósi þurfa plöntusvif önnur ólífræn efni eins og köfnunarefni, fosfór, brennistein og fleiri efni sem þau síðan breyta í prótein, fitur og kolvetni. Helstu hópar plöntusvifs eru kísilþörungar, skoruþörungar og kalksvifþörungar. Þrátt fyrir hvað þau eru agnar smá eru þau samt sem áður mikilvægustu lífverur sjávarins. Þau eru grunnur að fæðukeðju sjávarins en plöntusvif er eina fæða minnstu svifdýranna, sem eru síðan fæða stærri svifdýra og fiskilirfa sem síðan eru fæða stærri dýra. Plöntusvif eiga auk þess stóran þátt í súrefnisframleiðslu jarðarinnar en helmingur súrefnisins sem við öndum að okkur kemur frá þeim ásamt því að sjórinn tekur um 50% af koldíoxinu sem við framleiðum. Plöntusvif innihalda mikið af omega-3 fitusýrum en þær eru um helmingur þyngdar þeirra. Vegna þess hve mikið af vítamínum og steinefnum plöntusvif hafa eru þau orðin vinsæl í fæðubótarefni og eru oft kölluð „ofurfæða 21. aldarinnar“. Plöntusvif geta samt sem áður haft skaðleg áhrif á lífríki sjávarins. Þegar skilyrði eru rétt fjölgar plöntusvifi gífurlega og mynda það sem kallast þörungablómi en þá geta verið þúsundir svifa í hverjum lítra. Á nóttunni nota þau súrefnið í sjónum til að lifa en þá verður oft of lítið súrefni eftir fyrir aðrar lífverur sjávarins sem þá annaðhvort deyja eða fara af svæðinu. Þegar þörungarblómi síðan hættir og plöntusvifið fellur til botns er það étið af bakteríum sem eyða öllu súrefninu í vatninu og þá kafna öll önnur dýr og það myndast svokallað „dead zone“. Einar Gerhardsen. Einar Gerhardsen (f. 10. maí 1897, d. 19. september 1987) var forsætisráðherra Noregs á árunum 1945 – 1951, 1955 – 1963 og 1963 – 1965 eftir seinni heimsstyrjöld, samanlagt í sautján ár. Honum er að nokkru leyti eignaður heiðurinn að enduruppbyggingu Noregs eftir stríð og er stundum nefndur "Landsfaðirinn" (n. "Landsfaderen"). Tengill. Gerhardsen, Einar George Copland. George Copland (f. 1. ágúst 1873?) var skoskur kaupmaður sem kom til Íslands einhvern tímann stuttu fyrir aldamótin 1901 og stundaði viðskipti þar um árabil. Meðal annars átti hann í jörðinni Keflavík á fyrri hluta þriðja áratugarins. Hann giftist íslenskri konu og eignaðist tvö börn. Tengill. Copland, George Hrægammasjóður. Hrægammasjóður er vogunarsjóður sem sérhæfir sig í fjárfestingum í skuldum fyrirtækja eða annars konar aðila sem standa höllum fæti og stefna í gjaldþrot eða hafa þegar lýst yfir gjaldþroti. Slíkur sjóður kaupir skuldirnar með miklum afslætti af nafnvirði krafnanna og veðjar þannig á að í fyllingu tímans muni meira innheimtast af kröfunni en sem nemur kaupverði hennar. Sölpur. Sölpur (fræðiheiti: "Salpidae") eru sviflífverur sem tilheyra flokki möttuldýra. Möttuldýr eru ein af undirfylkingum seildýra og eru sjávarhryggleysingjar. Útlit og lifnaðarhættir. Sölpur eru gegnsæjar tunnulaga lífverur, líkami þeirra er opinn í báða enda, margar hverjar lýsa og eru undirtegundir salpa fjölmargar. Lifa þær bæði í samfélagi þar sem þær eru tengdar saman í keðju, en geta líka lifað einar. Tjáskiptamáti þeirra sín á milli er í formi rafboða. Sölpur eru mjög fljótar að fjölga sér við réttar aðstæður. Getur stærð þeirra verið frá nokkrum millimetrum uppí nokkra sentímetra og geta sölpukeðjurnar orðið allt að fimm metrar á lengd. Þær hreyfast úr stað með því að soga til sín sjóinn og nærast í leiðinni en soga þær fæðuna í gegnum holan líkama sinn þar sem slímnet sér til þess að smásæjar plöntur og dýrasvif sitji eftir. Svo má segja að þær færist ekki úr stað öðruvísi en að næra sig og næra sig ekki öðru vísi en að færast úr stað, það getur orðið vandamál þegar sölpur eru í litlu hlutfalli á móti næringunni sem til staðar er í sjónum. Útbreiðsla. Þær má finna víða en eru algengastar á suðurhveli jarðar. Sjómenn tala um sultu þegar þeir fá sölpur í veiðarfærin. Þær nærast helst á plöntusvifi og þegar plöntusvif er í hámarki þá geta þær einfaldlega ofmettast og sökkva þá til botns og drepast. Á þeim svæðum sem sölpur lifa er því algeng sjón við strendur þegar plöntusvif er í hámarki að sjá hvernig sölpuhræin hafa safnast saman í sjávarmálinu. Hér fyrir neðan má sjá hvernig sölpukeðjurnar líta út. Það þykir tilkomumikil sjón að sjá þær liðast um í sjónum í löngum keðjum. Ljósáta. Ljósáta (fræðiheiti: "euphausia") er dýrasvif sem flokkast undir krabbafló. Hún lifir helst á sviflægum þörungum. Útlit. Búk hennar er skipt í höfuð, frambol og afturbol, heil skel hylur höfuðið og frambolinn en afturbolurinn er liðskiptur og skiptist hann í sex liði og er sér skjöldur á hverjum lið. Undir frambolnum eru þunnir og langir fætur en undir afturbolnum eru stuttir og digrir fætur og eru raðir fóta sem liggja eftir búk dýrsins. Ljósátan er með áberandi greinótt tálkn neðan við skjalarröndina aftan til á frambolnum. Undir frambol og afturbol eru ljósfæri sem lýsa í myrkri og er af því sem ljósátan ber nafn sitt. Ljósátan er ljósgul á lit en er oft með rauðgulan frambol. Lifnaðarhættir. Ljósátan heldur sig oftast í efstu lögum sjávar og er hún mikilvæg fæða margra dýrategunda og má þar nefna, sumar mörgæsategundir, fiska, smokkfiska og hvala og er hún ein lykilfæðutegund reiðarhvala ("Balaenoperidae"). Sumar tegundir ljósáta geta lifað allt að sex árum á meðan aðrar tegundir ná aðeins sex til átta mánuðum. Talið er að forfeður ljósátunnar hafi verið uppi fyrir um 130 milljónum ára. Suðurhafsljósátan ("Euphausia superba") lifir í Suður-Íshafi og er undirstöðufæða fyrir margar tegundir stórhvala sem eru á hafsvæðinu við Suðurskautslandið að sumri til, selir og mörg önnur sjávardýr byggja líf sitt beint eða óbeint á þessu krabbadýri. Suðurhafsljósátan er alls ekki stórt dýr en af ljósátu að vera telst hún stór, hún er oftast um 6 cm á lengd og vegur um tvö grömm. Á sumrin þegar mest er af tegundinni er talið að heildarmagn hennar sé um 500 milljónir tonna eða um 250 billjón einstök dýr ef miðað er við tveggja gramma þyngd. Suðurhafsljósátan er því líklega ein einstaklingsríkasta dýrategundin sem lifir á jörðinni. Mökunartími ljósáta er misjafn á milli tegunda og hitastigs sjáfar. Karlkyns ljósátan setur sæðis poka við op kynfæra kvenkyns ljósátanna, kvenkyns ljósátan getur borið nokkur þúsundir eggja í eggjastokkunum á sér og getur það vegið allt að einum þriðja af þunga dýrsins. Ljósátur geta eignast mörg afkvæmi með nokkurra daga millibili. Tvær misjafnar hrygningar aðferðir eru þekktar meðal ljósáta, önnur er að kvendýrið losar frjóvguð egg í vatnið þar sem þau sökkva oftast, dreifast um og þurfa að hugsa um sig sjálf. Hin er að kvendýrið ber utan á sér einkonar poka sem er fullur af frjóvguðum eggjum þangað til afkvæmin klekjast út. Myndin sýnir kvenkyns ljósátu sem ber frjóvguð eggin utan á sér. Veiðar. Árlega er veitt um það bil 100 til 120 þúsund tonn af suðurhafsljósátunni en það er um einn fimmti af þeim kvóta sem leyft er að veiða af Náttúruverndarsamtökum Suðurskautshafsins (CCAMLR). Meðal helstu veiðiþjóða suðurhafsljósátu eru Suður-Kórea, Noregur, Japan og Rússland en einnig hafa Kínverjar, Pólverjar, Úkraína og Bandaríkin tekið þátt í því að veiða þetta dýr. Margar veiðiaðferðir hafa verið prófaðar og eru þær í stöðugri þróun. Nytjar. Úr ljósátunni er aðallega unnið dýra og fiskafóður en einnig er unnið úr henni lýsi (omega3). Einnig er ljósátan notuð sem beita við sportveiðar og notuð í lyfjaiðnaðinum. Það er lítill en stækkandi markaður fyrir ljósátuolíu sem fæðubótarefni og er búið að birta tvær rannsóknir um ágæti hennar, tilraunirnar sýndu að hún lækkaði lípíð og minnkaði gigtar verki. Ljósátan er algeng á matarborðum í Japan og í Rússlandi en hún kallast okami á japönsku. Ljósátan er sölt á bragðið og er aðeins sterkari en rækjan en það þarf að pilla skelina af henni líkt og með rækjur en skelin er eitruð. Víða um heim á mikil þróunarvinna sér stað þar sem unnið er að því að bæta vinnsluaðferðir og auka aflaverðmæti. Navis er eitt af þeim fyrirtækjum sem ætlar sér að taka þátt í hönnun nýrra skipa til veiða þessa dýrs en það er staðsett hér á landi. Mebendasól. Mebendasól er ormalyf þróað af belgíska lyfjafyrirtækinu Janssen Pharmaceutica og markaðssett undir heitunum Vermox, Ovex og Antiox. PlayStation 4. Playstation 4 er væntanleg leikjatölva frá Sony Computer Entertainment. Playstation 4 var kynnt á blaðamannafundi þann 20. febrúar 2013 sem arftaki Playstation 3. Playstation 4 er væntanleg á síðasta ársfjórðungi 2013 Q4. PS4 verður fyrsta vélin frá Sony sem býður upp á x86-64 tækni sem er þekkt víða í tölvum nútímans. Playstation 4 er mun hraðvirkari en PS3 en til samanburðar þá er sextán sinnum meira vinnsluminni í PS4 heldur en í PS3, þar að auki er nýja vinnsluminnið töluvert hraðvirkara GDDR5 minni sem er notað í nýjustu skjákortunum frá Nvidia og ATI. Einnig má nefna að Blu-Ray drifið er nú hraðvirkara auk þess sem nýr örgjörvi frá AMD (sérhannaður AMD Jaguar átta kjarna)verður notaður í nýju PS4. Sony ætlar að gefa út Playstation App sem virkar þannig að hægt verður að nota snjallsíma og spjaldtölvur (til dæmis iPad) til þess að spila Playstation 4-leiki í gegnum hefðbundna nettengingu. Þetta er mögulegt vegna samstarfs Sony og Gaikai sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í Skýjaþjónustu fyrir tölvuleiki (Cloud-based gaming sharing service) en með tilkomu Playstation 4 verður meðal annars hægt að deila því sem þú ert að spila með heiminum og jafnvel geturðu látið vin þinn taka við leiknum þrátt fyrir að hann sé staddur í öðru landi. Bacillus cereus. Bacillus cereus er baktería af ættkvíslinni Bacillus en 50 tegundir tilheyra þeirri ættkvísl. Hún er Gram-jákvæð, staflaga og grómyndandi baktería sem getur valdið matareitrun. Hvar finnst Bacillus cereus. Bacillus cereus - Gram jákvæð Uppruni bakteríunnar er jarðvegur, ryk og vatn. Hún getur fundist í meltingarvegi bæði hjá mönnum og dýrum. Dæmi um matvörur, sem bakterían getur fundist í, eru þurrkuð matvæli, mjólk og tilbúnir kjötréttir. Vaxtarskilyrði. B.cereus fjölgar sér best við súrefni en hún getur einnig fjölgað sér við loftfirrðar aðstæður. Koldíoxíð kemur í veg fyrir vöxt bakteríunnar þannig að loftskiptar umbúðir ættu að geta komið í veg fyrir bakteríuna í matvælum. Hitastigsbilið sem B.cereus fjölgar sér við er frá 4°C upp í 48°C. Gró bakteríunnar eru mjög hitaþolin og geta lifað hitun af. Hámarkssaltstyrkur sem bakterían sjálf þolir er 10% og lágmarkssýrustig er 4,0. Eitrun og einkenni. Bacillus cereus getur valdið tveimur ólíkum tegundum að matareitrunum þar sem hún getur myndað tvö mismunandi eiturefni. Algengara eiturefnið veldur niðurgangi og magaverkjum. Einkennin koma fram tólf tímum eftir neyslu og geta varað í hálfan dag. Hitt eiturefnið veldur ógleði og uppköstum. Einkennin koma skjótt fram, yfirleitt 1-5 klukkutímum eftir neyslu og geta varað í 1-2 daga. Síðarnefnda eitrunin er oft tengd steiktum eða soðnum hrísgrjónum sem ekki hafa verið kæld nógu snögglega. Eiturefnin hafa mismikla mótstöðu gagnvart hita. Eiturefnið sem veldur niðurgangi eyðileggst við upphitun upp í 55-60°C í 5 mínútur en eiturefnið sem veldur uppköstum getur þolað upphitun upp í 80°C í meira en 15 mínútur. Manuel Noriega. Manuel Noriega (f. 11. febrúar 1934) er fyrrum stjórnmálamaður og hermaður frá Panama. Hann var landstjóri Panamahers frá 1983 til 1989. Hann komst til valda með stuðningi CIA og nýtti stöðu sína til eiturlyfjasmygls fyrir Medellín-eiturlyfjahringinn í Kólumbíu og peningaþvætti. Kosningasvindl, morð á pólitískum andstæðingum og harka í viðskiptum við mótmælendur urðu til þess að stuðningur Bandaríkjanna við Noriega minnkaði og 1989 var ákveðið að beita landið viðskiptaþvingunum. Þetta leiddi til átaka milli vopnaðra hópa og bandarískra hermanna og starfsliðs við Panamaskurðinn sem urðu til þess að Bandaríkjaher gerði innrás 20. desember 1989. Fimm dögum síðar leitaði Noriega hælis í sendiráði Vatíkansins í Panamaborg. Eftir tíu daga umsátur Bandaríkjahers um sendiráðið gafst hann upp. Þann 3. janúar 1990 var hann tekinn höndum og fluttur til Bandaríkjanna sem stríðsfangi. Í september 1992 var hann dæmdur í 40 ára fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl, fjárkúgun og peningaþvætti. Rétturinn neitaði að leyfa honum að lýsa störfum sínum fyrir CIA þar sem þær upplýsingar væru leynilegar og uppljóstrun um þessi verkefni væri andstæð hagsmunum Bandaríkjanna. Fangelsisdómurinn yfir Noriega var styttur í 30 ár. Hann fékk lausn fyrir góða hegðun eftir 17 ára fangavist 9. september 2007 og var þá framseldur í hendur Frakka sem héldu honum í fangelsi í París fyrir peningaþvætti vegna kaupa á íbúðum í borginni. Áður hafði Noriega fengið heiðursmerki Franska heiðursvarðarins 1987. Í desember 2011 var hann svo framseldur til Panama. Þar situr hann nú í fangelsi. Ibrahim Baré Maïnassara. Ibrahim Baré Maïnassara ofursti (9. maí, 1949 – 9. apríl, 1999) var forseti Níger í kjölfar valdaránsins 1996 þar til hann var ráðinn af dögum í valdaráninu 1999. Hann varð yfirmaður heraflans 1995 og framdi valdarán 27. janúar 1996 eftir að átök milli forsetans Mahamane Ousmane og forsætisráðherrans Hama Amadou höfðu lamað stjórn landsins. Í valdatíð hans var ný stjórnarskrá samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu og forsetakosningar boðaðar í júlí 1996 sem hann vann með 52% atkvæða, en kosningarnar voru almennt taldar svindl. Í sveitarstjórnarkosningum 1999 vann stjórnarandstaðan meirihluta en hæstiréttur ógilti úrslitin á mörgum stöðum og fyrirskipaði endurkosningu. Þetta leiddi til víðtækra mótmæla. Þann 9. apríl 1999 var Maïnassara skotinn þar sem hann var að stíga um borð í þyrlu á herflugvelli. Hugsanlega hafa banamenn hans verið úr lífverði forsetans. Daouda Malam Wanké majór tók við forsetaembætti. 1045. 1045 (MXLV í rómverskum tölum) var 45. ár 11. aldar samkvæmt júlíska tímatalinu. 1041-1050. 1041-1050 var 5. áratugur 11. aldar. Skaröxi. Skaröxi er handverkfæri sem líkist hefðbundinni öxi, nema með íbjúgu blaði sem snýr þvert á skaftið líkt og hefðbundnu axarblaði hafi verið snúið um 90 gráður. Ólafur Halldórsson (f. 1920). Ólafur Halldórsson (18. apríl 1920 – 4. apríl 2013) var íslenskur handritasérfræðingur og doktor í íslenskum fræðum. Ólafur var fæddur að Króki í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi), sonur Halldórs Bjarnasonar og Lilju Ólafsdóttur, sem þar bjuggu. Hann lauk stúdentsprófi frá MA árið 1946 og cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1952. Hann hélt svo til Kaupmannahafnar þar sem hann sérmenntaði sig í handritalestri hjá Jóni Helgasyni prófessor og starfaði sem lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsprófi lauk hann frá Háskóla Íslands 1980 og nefndist doktorsritgerð hans "Grænland í miðaldaritum". Ólafur fluttist til Íslands árið 1963 og starfaði við handritarannsóknir hjá Handritastofnun Íslands, frá 1969 Stofnun Árna Magnússonar, allti til sjötugs. Eftir það starfaði hann sjálfstætt og hafði lesaðstöðu hjá stofnuninni. Hann vann um áratugaskeið að rannsóknum á handritum, textum og útgáfum á fornsögum. Árið 1975 var Ólafur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga árið 1975 og árið 2010 var hann heiðraður á færeyskri menningarhátíð í Reykjavík fyrir starf sitt í þágu menningartengsla Færeyinga og Íslendinga. Sama ár hélt Stofnun Árna Magnússonar málþing honum til heiðurs. Kona Ólafs var Aðalbjörg Vilfríður Karlsdóttir (29. ágúst 1925 – 3. mars 1998) frá Húsavík. Loðdýrarækt. Loðdýrarækt er ræktun tiltekinna tegunda dýra vegna feldsins. Algengast er að rækta minka, loðkanínur, refi, hunda, ketti og kanínur. Mest loðdýrarækt fer fram í Evrópu sem framleiðir 63% af minkafeldum og 70% af refafeldum heims. Stærsti minkaframleiðandi heims er Danmörk með 28% heimsframleiðslunnar. Önnur stór framleiðslulönd eru Kína, Holland og Bandaríkin. Loðdýrarækt er bönnuð í Austurríki, Króatíu og Bretlandi. Í Sviss gilda svo strangar reglur um ræktunina að það eru engir ræktendur lengur. Eftirspurn eftir feldum féll á 9. og 10. áratug 20. aldar, meðal annars vegna baráttu samtaka fyrir dýravelferð en eftir aldamótin hefur eftirspurn vaxið gríðarlega, einkum í Asíu. Kína er nú stærsti innflytjandi felda. Alexander Oparin. Ungur nemur. Aleksandr Ivanovich Oparin, betur þekktur sem Alexander Oparin, fæddist þann 2. mars árið 1894. Hann fæddist í gömlu Sovétríkjunum, í litlum bæ í útjaðri Moskvu að nafni Uglich. Hann var yngstur af þremur systkinum og í Uglich bjó hann til níu ára aldurs áður en hann og fjölskylda hans fluttust til Moskvu, svo hann kæmist í nám. Í Moskvu útskrifaðist hann árið 1912 frá góðum einkaskóla og komst kjölfarið í nám við Ríkisháskólann í Moskvu, sem var mjög virtur. Alexander var ekki kominn af efnuði fólki og þurfti alfarið að halda sér uppi með vinnu utan skóla. Hann fékk vinnu í lyfjaverksmiðju og reyndist það honum dýrmæt reynsla. Sem nemandi við Háskólann í Moskvu komst hann snemma í kynni við vísindamenn sem áttu eftir að breyta hugsun hans til frambúðar, en margir af virtustu vísindamönnum landsins kenndu þar. Maður að nafni Aleksei N. Bakh var þeirra helstur og má segja að hann hafi verið sá aðili sem hvað mestu áhrifin hafði á Alexander, mikill fræðimaður og mjög virtur. Hinn þekkti Kliment A. Tymiriazev, lífeðlisfræðingur og einn helsti talsmaður þróunarkenningar Darwins í fyrrverandi Sovétríkjunum, átti einnig sinn þátt í að móta þann fræðimann sem Alexander átti eftir að verða. Í skólanum aflaði hann sér mikillar þekkingar á mörgum sviðum, þærra helst voru náttúrufræði, lífefnafræði og plöntulífeðlisfræði. Auk þess las hann nánast allar þær bókmenntir sem til voru og tengdust þróun lífs, og það sem meira var þá var hann búinn að kynnast Darwin og hans hugsjónum. Alexander útskrifaðist úr Háskólanum í Moskvu árið 1917, þá 23. ára að aldri. Það voru tímar óeyrða í Sovétríkjunum þar sem Lenín og Bolsheviks voru nýkomnir til valda og herir Hvíta og Rauða Rússlands börðust. Alexander lét það lítið á sig fá enda hafði hann um mun mikilvægari málefni að hugsa. Það var ein spurning sem brann á honum meira en nokkuð annað, spurning sem hann gat ekki látið vera að glíma við, hvernig skyldi lífið hafa byrjað ? Leitin að uppruna lífsins. Eftir útskrift vann Alexander við skólann sem aðstoðarkennari, samhliða því að taka nokkur fög til viðbótar í námi. Árið 1922 valdi skólinn hann svo til að fara til Heidelberg í Þýskaland til rannsóknarvinnu og í kjölfarið fékk hann tækifæri á að vinna á hinum ýmsu stofum í Evrópu, sem hann og gerði. Þrátt fyrir miklar annir gat Alexander ekki hætt að þróa svör við spurningu sinni og varð það til þess að árið 1924 birti hann hugmyndir sínar í litlu riti, bækling, sem bar hið einfalda nafn Uppruni lífsins. Það má segja að með þeim kenningum sem Alexander setti fram þar hafi hann á vissan hátt brotið blað miðað við hugsunarhátt samtímamanna hans. Í bæklinginum komu fram margar kenningar sem ekki pössuðu inn í þann ramma sem vísindaheimurinn var búinn að setja sér, stönguðust á við viðurkenntar kenningar á þeim tíma. Þetta var rit eftir ungan, efnilegan og óhræddan mann og bæklingurinn alls ekki gallalaus. Þrátt fyrir að vera lítið vinsæll og margbent á galla hans, hann væri barnalegur og handahófskenndur, þá var lítið hægt að setja útá ýmsar pælingar sem komu fyrir í honum, sem margar eru jafnvel lykillinn af því sem við vitum í dag um uppruna lífsins. Sakvæmt Alexander gat líf aðeins orðið til eftir röð fjölda efnahvarfa sem spönnuðu langt tímabil, þúsundir milljónir ára. Hann hélt því meðal annars fram að fyrsta lífveran til að koma fram í loftfirrtu umhverfi frumjarðar hlyti að hafa verið ófrumbjarga baktería. Hann áleit að ófrumbjarga baktería ætti að myndast á undan fyrstu frumbjarga bakteríunni þar sem efnaskipti ófrumbjarga bakteríu eru minna flókin en hjá frumbjarga, rökrétt að það einfaldasta kæmi fyrst fram. Hann stakk einnig uppá því að líf hafi byrjað með samruna lífræns efnasambands í loftfirrðu umhverfi sem með tímanum safnaðist saman og varð að því sem í dag er kallað frumsúpa (primitive soup), þ.e. safnast saman í heitu vatni og við það mynduðust amínósýrur sem áttu eftir að byggja grunninn undir fyrsta lífið. Voru þetta fyrstu tilraunir „ til þess að skýra í einstökum atriðum frumulífsþróun úr ólífrænu efni í hinar smæstu lífverur“. Uppruni lífsins. Samhliða því að þróa hugmyndir sínar áfram kenndi Alexander, nú alfarið sitt eigið námskeið, lífefnafræði við háskólann. Aleksei N. Bakh, lærifaðirinn fyrrverandi, snéri aftur til Rússlands eftir að hafa flúið land í óeyrðunum og hófu þeir félagarnir samstarf. Alexander hjálpaði meðal annars Aleksei að koma á fót stofnun til lífefnafræði-rannsókna sem fjármögnuð var af ríkinu og skírð í höfuðið á Aleksei, hvergi til sparað þegar merkir menn eiga í hlut. Aleksei komst fljótlega til mikilla valda innan kommonistaflokksins sem varð til þess að lærlingur hans, Alexander, komst fljótlega í valdamiklar stöður. Frá 1927-1934 gegndi hann stöðu aðstoðarforstjóra Vísindastofnunar Sykuriðnaðarins. Samhliða því starfaði hann svo sem prófesor við Vísindastofnun D.I. Mendeleev og Vísindastofnun Hveitiðnaðarins. Á þessum tíma gerði Alexander fjöldan allan af allskonar rannsóknum á tei, hveiti, sykri og korni. Þrátt fyrir allt náði Alexander ekki að leggja frá sér þessa erfiðu spurningu sem hann hafði spurt sig að svo oft áður og svo kom að útkoman rannsókna hans leit dagsins ljós árið 1936, bók að nafni Uppruni lífsins. Samfélag Sovétríkjanna lék á reiðisskjálfi og kannski ekki skrítið þar sem verið var að fjalla um mjög viðkvæmt þema. „Oparin‘s late 1930s book caused huge excitement, not to say scandal“. Flestir voru algjörlega andsnúnir þeim nýstárlegu hugmyndum sem Alexander kastaði framan í vísindasamfélagið og var það ekki fyrr en að Alexander kastaði seinni sprengjunni tveimur árum síðar, gaf bókina út á ensku, að hjól kenninga hans fóru að snúast. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og áhrifanna gættu nú mun víðar en áður, fólk utan Sovétríkjanna kynntust hugmyndum Alexanders. Nýja bókin var á allan hátt þroskaðri og mun dýpri en bæklingurinn og greinilegt að um reyndari fræðimann var nú að ræða, hann setti upplýsingar fram af mikilli nákvæmni. Öllum rannsóknum, athugunum og niðurstöðum var gert mun betur skil og hinn barnalegi og oþroskaði Alexander var hvergi sjáanlegur. Í raun má sjá hvernig breytingar samfélagsins höfðu áhrif á skrifin sem á þessum tíma var að berjast við að verða að samfélagi sem stæði að þróun á sviði vísinda, lista og menningar. Alexander sagði í fyrsta sinn skilið við efnishyggjuna og kom fram með nýjar kenningar auk þess sem hann þróaði þær eldri. Útfrá eigin rannsóknum ályktaði hann nú að í hinu frumstæða umhverfi hefð kolvetni myndast við hvarf gufu við kolefnissambönd af jarðfræðilegum uppruna. Oxunin myndi gefa af sér alkahól, ketón og aldehýð sem í kjölfarið myndu hvarfast við ammóníak og mynda amín, amíð og ammoníumsölt. Að lokum myndu þessi efnasambönd, svipuð próteinum, og aðrar tegundir sameinda sameinast og mynda það kerfi sem fyrstu ófrumbjarga lífverurnar hafi sprottið úr. Í bókinni kom hann einnig inná það að sameindir í kerfum fyrstu frumna hljóti að haf verið nauðsynlegar til að frumurnar gætu þróast og að hið upphaflega, loftfirrta andrúmsloft hafi verið samsett af blöndu af CH4 og H20, stórt skref frammá við frá kenningum þess tíma. Gamall temur. Alexander hætti í raun aldrei að leita svara við spurningu sinn og gaf margoft út greinar og rit eftir því sem hann þróaðir kenningar sínar frekar, má þar nefna aðra og þriðju útgáfur Uppruna lífsins sem komu út árin 1941 og 1957. Hann hélt fyrirlestra víða um heiminn þar sem hann kynnti hugmyndir sínar. Hann skipulagði fyrstu alþjóðlegu ráðstefnuna um uppruna lífsins í Moskvu árið 1957 þar sem fulltrúar 16 mismunandi landa tóku þátt og í framhaldinu fylgdu aðrar í kjölfarið. Alexander sinnti mörgum veigamiklum störfum í gegnum ævina og var fulltrúi Sovétríkjanna á mörgum vettvanginum, nægir þar að nefna starf hans sem forseta Alþjóðlegu Lífefnafræðistofnunarinnar og forstjórastöðu hans hjá Alþjóða-sambandi Vísindamanna, og hafði þar gífurleg áhrif á allt vísindasamfélagið. Hann varð heimsþekktur og var jafnvel dáður af fólki sem ekki starfaði í vísindageiranum, en gott dæmi um það er þegar Salvador Dali fór fram á að fá að hitta hann. Fyrir framlög sín til vísindanna hlaut Alexander fjölda viðurkenninga og verðlauna en meðal þeirra eru: Order of the Red Banner of Labor, the Bach Prize, the Mechnikov Medal, the Order of Lenin, Hero of Socialist Labor, the Lenin Prize og Lomonosov Gold Medal. Alexander var virkur alla ævi og vann allt til dauðadags sem forstjóri A. N. Bakh vísindastofnunarinnar sem hann hafði hjálpað til að stofna. Hann lést að lokum eftir nokkur veikindi þann 21. apríl 1980, þá 86 ára að aldri. Arfleifð. Ekki verður annað hægt en að dáðst að mönnum eins og Aleksander, sem tilbúnir voru að tileinka líf sitt til þess að menn gætu betur skilið. Því miður lifir meirihluti jarðarbúa í blindni, er lítið hugsandi og afneitar öllum þróunarkenningum. Oft reynist auðveldara að trúa staðhæfingum trúarbragða en síbreytilegum kenningum vísindanna. Ég tel að ekki sé spurning um hvort heldur hversu mikið Alexander hafði áhrif á rannsóknir manni á uppruna lífsins. Ljóst er að aðrir vísindamenn voru að þróa hugmyndir svipaðar hans á sama tíma og því erfitt að meta hans þátt. Hafa verður þó í huga að hann var manna fyrstur að birta þessar hugmyndir auk þessu voru hans hugmyndir að mörgu leyti gegnheilli en annarra. Alexander var virtur og mun ávallt njóta mikillar virðingar hvaðanæfa úr samfélaginu, þrátt fyrir að menn séu kannski ekki endilega alveg sámmála hans fræðum. Staðreyndin er þó sú að í dag er enn verið að leita að uppruna lífsins á svipaðan hátt og Alexander gerði, þó aðferðirnar séu vissulega töluvert öðruvísi. Kannski var mikilvægasta framlag Alexanders til vísindanna kynning hans á hætti og uppruna þróunar lífs sem sett var fram miðað við þekkingu hvers tíma og útfrá þáttum mismunandi vísindagreina. Hann var maður þekkingu á það mörgum sviðum sem aftur gerði það að verkum að gat skilið hvert það mun betur. Einnig gæti það kannski verið mikilvægast að hann taldi lífið hafa þróast í gegnum langt ferli en ekki útaf einhverjum einum ákveðnum atburði, hann breytti því hvernig menn rannsökuðu uppruna lífssins. Sumir ganga meira að segja svo langt að segja að hugmyndir hans um uppruna lífsins hafi verið ein mestu þáttaskil vísindasögunnar og að verk hans hafi jafnvel verið þau mikilvægustu sem nokkurn tímann hafa verið birt um uppruna lífsins. Spurningin. Nútímamanninum er það eðlislægt að vera forvitinn, og er það oft af hinu góða. Það gerir það að verkum að hann leitar stöðugt svara og þrátt fyrir að telja sig vera búinn að finna nokkuð góð svör, vill hann staðfestingar. Telur hann sig vera búinn að finna staðfestingar finnur hann nýjar spurningar sem aftur vakna vegna nýrra svara. Það má því vissulega velta því fyrir sér hvort við sumum spurningum fáist nokkurn tímann endanleg svör. Spurningin um uppruna lífsins hlýtur að teljast til þess flokks spurninga jafnframt því að teljast ein veigamesta spurning allra tíma. Þetta er spurning sem að allir hafa spurt sig að, oftar en tvisvar, á lífsleiðinni. Mikill meirihluti fólks virðist hafa gefist upp á þessari spurningu og reyna að friða forvitnina í trúarbrögðum, sem bjóða uppá hin einföldu og endanlegu svör, meðan öðrum finnst það ófullnægjandi, og halda ótrauðir áfram leitinni að sannleikanum. Einn þeirra var vísindamaðurinn Alexander Oparin. Hvað sem því líður þá munum við líklega aldrei finna hið endanlega svar við spurningunni um uppruna lífsins en spurningin ein og sér er þess virði að reyna að svara. Sníkjulíf. Sníkjulífi er í vistfræði ein gerð samlífis, hinar eru samhjálp og gistilífi. Sníkjulífi er samlífi tveggja tegunda lífvera, þar sem önnur (sníkillinn) lifir á eða í hinni (hýslinum). Sníkjulífi er því óhagstætt annarri lífverunni en hagstætt hinni. Sníkjudýrin eru oftast mun minna en hýsillinn og eru þau gjarnan flokkuð í ytri og innri sníkjudýr. Dæmi um ytri sníkjudýr eru lýs og blóðmaurar sem sjúga vessa og blóð úr hýslum sínum. Dæmi um innri sníkjudýr eru ýmsar tegundir frumdýra og flatormar sem lifa í þörmum hryggdýra og fá þar skjól og næringu. Ástandið getur orðið það alvarlegt að hýsillinn líður næringarskort. Bogkrabbi. Bogkrabbi (fræðiheiti: "Carcinus maenas"), einnig kallaður Strandkrabbi, er krabbi af ættbálki skjaldkrabba. Útbreiðsla. Náttúruleg heimkynni hanns eru við strendur Norðaustur-Atlantshafs og Eystrasalts og niður til Norður-Afríku, Marokkó og Máritaníu, einnig lifir hann í kringum eyjar eins og Ísland. En hann er jafnframt á lista yfir 100 hættulegustu aðkomudýr sem geta náð fótfestu í öðrum löndum og hefur numið land á svipuðum búsvæðum í til dæmis Ástralíu, Suður-Afríku, Suður-Ameríku og Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku. Útbreiðsla hanns hefur átt sér stað með ýmsum hætti, hann hefur borist með kjölvatni skipa, ýmsum pakkningum, hráefni til fiskeldis og ýmsum öðrum fljótandi búnaði. Útlit. Bogkrabbar, líkt og aðrir skjaldkrabbar, eru með tíu fætur en fremsta parið er ummyndað í gripklær og öftustu sex fæturnir eru frekar flatir og með þeim geta skjaldkrabbar synt einir af kröbbum. Þeir geta orðið um sex sentimetrar á lengd og níu sentimetrar á breidd. Oftast eru þeir dökkgrænir eða gráir en einnig brúnir, grænleitir og gulir og elstu dýrinn einnig appelsínugul. Einkum ung dýr eru einnig oft með hvítar skellur. Það má greina bogkrabba frá öðrum kröbbum á því að þeir hafa fimm gadda á hvorri hlið skeljarinnar að framanverðu og þrjá hnúða milli augnanna. Lifnaðarhættir. Bogkrabbar halda sig við strendur og finnast allt frá fimm til sextíu metra dýpi þó algengast sé að þeir séu á tíu metra dýpi. Þeir færa sig til eftir sjáfarföllum, ofar í fjöruna á flóði og neðar á fjöru. Þeir kunna best við sig í þaragróðri, grjóti, sandi og á leirum. Þeir nota grjótið til að fela sig en einnig geta þeir grafið sig hálfa ofan í sandbotn. Þeir þola miklar hitabreytingar sem hefur auðveldað þeim að aðlagast nýjum heimkinnum en þeir þola allt frá 0° til 33° á selsíus. Sama á við um seltu og súrefni. Þeir þola seltu frá 54 ppt niður í 4 ppt og geta lifað á þurru landi allt upp undir fimm daga og eykst þol þeirra fyrir hita við það að vera ekki í vatni. Fæða. Bogakrabbar lifa á mjög fjölbreyttri fæðu. Mest þó á plöntum og dýrum með mjúka skel meðann hann er að vaxa úr grasi en þegar hann er orðinn stærri ræðst hann á önnur krabbadýr, skrápdýr og aðra hryggleysingja en þó leggst hann mest á samlokur. Þessi fjölbreytni í fæðuvali hefur líka auðveldað þeim að dreifa sér svona víða. Veiðar. Í Evrópu hefur bogkrabbinn verið veiddur lengi og er þá einna helst sóst eftir svokölluðum mjúkskelja krabba en það eru þeir krabbar sem nýbúnir eru að losa sig við gamla skel en sú nýja er ekki almennilega hörðnuð. Einkum eru það Spánverjar og Portúgalir sem neita hanns en veiðarsvæðin eru allt frá Skotlandi, Frakklandi og Portúgal og hefur heimsaflinn farið jafnvel yfir 1000 tonn á ári. Aaron Swartz. Aaron Hillel Swartz (8. nóvember 1986 – 11. janúar 2013) var bandarískur forritari, rithöfundur, andófsmaður og aðgerðarsinni varðandi málefni Internetsins. Hann tók þátt í að þróa RSS sniðið fyrir vefstrauma og Creative Commons, vefumhverfið web.py og félagsnetið Reddit. Árið 2010 varð hann félagi í rannsóknarteymi við Harvard-háskóla sem stýrt var af Lawrence Lessig. Hann stofnaði nethópinn Demand Progress, sem þekktur er fyrir átakið Stop Online Piracy Act. Swartz var handtekinn af lögreglu við MIT háskólann þann 6. janúar 2011 fyrir að hafa hlaðið niður vísindagreinum frá gagnagrunninum JSTOR og gert þær aðgengilegar almenningi. Popp pönk. Popp Pönk er tónlistarstefna frá sem sem náði hve mestum vinældum á tíunda áratugnum. Popp Pönk einkennist af einföldum hljómasamsetningum, hröðum takti, poppuðum melódíum og háværum gítörum. Popp Pönk á rætur sínar að rekja til Pönksins á áttunda áratugnum en á einnig sameiginleg einkenni með Alternative rokki. Popp pönk vakti heimsathygli þegar hljómsveitirnar Green Day og The Offspring gáfu út plöturnar "Dookie" og "Smash" en samanlagt hafa þær selst í kringum 30 milljón eintaka. Uppruni. Í byrjun áttunda áratugarins kom fram ný tónlistarstefna sem fékk viðurnefnið Pönk. Þessi nýja tónlistarstefna einkenndist af einfaldleika sem áður hafði ekki sést. Hún var hröð, hrá og talaði til fólksins. Hún fjallaði aðallega um samfélagið en var hún full af reiði og angist. Hljómsvetin the Ramones var fyrst hjómsveita til þess að vera kennd við pönk. The Ramones byrjuðu pönkið í Bandaríkjunnum en pönkið var hve áhrifamest í Bretlandi. Hljómsveitir eins og Sex Pistols og the Clash gagnrýndu samfélagið eins og það var í heimabæjum sínum og plöturnar Never mind the bollocks, here's the Sex Pistols með Sex Pistols og London Calling með the Clash eru sagðar vera einar af bestu plötum tónlistarsögunnar. En hugtakið popp pönk var ekki notað fyrr en seinna þegar hljómsveitir eins og The Buzzcocks og Bad Religion komu fram. Tónlistin þeirra var með poppaðari melódíum en tónlist fyrri pönksveita en auk þeirra þá er Ramones stundum kölluð popp pönk sveit í dag. Tíundi áratugurinn. Í kringum árið 1994 þá var popp pönk að verða vinsælla en áður. Fólk fór að laðast að einfaldleika pönksins eftir að grunge stefnan hafði verið yfirráðandi síðustu ár. Þar voru fremstar í flokki hljómsveitirnar Green Day og the Offspring. The Offspring og Green Day komu úr pönk senunni á Gilman stræti númer 924. Green Day varð fljótt vinsæl og eftir nokkurn tíma gerði hljómsveitin samning við plötufyrirtækið Reprise Records. Aðdáendur þeirra úr Gilmanstræti voru ekki sáttir við að þeir höfðu samið við svona stóran plötuútgefanda og kölluðu þau hljómsveitina „sell outs“ og bönnuðu henni að spila oftar á Gilmanstræti. Það gerðist einnig fyrir the Offspring. En þrátt fyrir það þá kom platan "Dookie" út og varð hún strax gífurlega vinsæl og af henni koma nokkur af þekktustu lögum Green Day eins og lögin "Basket Case", "Longview" og "When I Come Around". Platan hefur selst í um 20 milljónum eintaka um heim allan. Sömu sögu má segja um the Offspring en plata þeirra, "Smash" kom út árið 1994. Þá höfðu þeir, ólíkt Green Day, ekki samið við stórt plötufyrirtæki og er Smash mest selda plata allra tíma sem gefin hefur verið út á sjálfstæðu plötufyrirtæki. Smash innihélt lögin "Come Out and Play" og "Self-Esteem" sem eru ein af þekktustu lögum the Offspring. Auk Green Day og the Offspring komu fleiri hljómsveitir eins og Rancid og Weezer og voru áberandi í popp pönk stefnunni. Með popp pönkinu fylgdi svo önnur stefna sem var kölluð ska-pönk sem hefur flest einkenni popp pönks en þar eru notuð fleiri hljóðfæri. Dæmi um þekktar ska-pönk sveitir eru No Doubt, Reel Big Fish og Sublime. En nú var popp pönk orðið vinsælt víðast hvar um heim og fylgdu Green Day og the Offspring plötum sínum eftir. Green Day gaf út "Insomniac" árið 1995 sem seldist í um 7 milljónum eintaka og the Offspring gaf út plötuna "Americana" árið 1998 en hún seldist í 9 milljónum eintaka. Árið 1997 kom út smáskífan "Dammit" eftir hljómsveitina Blink-182. Hún fékk ágæta spilun í útvarpi en sveitin átti eftir að verða meira áberandi seinna en árið 1999 kom plata þeirra "Enema of the State" út. Hún seldist í 14 milljónum eintaka um heim allan. Lögin þeirra "What‘s My Age Again" og "All the Small Things" voru vinsælust af henni. Hljómsveitin var mikið spiluð á MTV sem færði henni auknar vinsældir. Fyrsti áratugur 21. aldar. Auk Blink-182 kom hljómsveitin Sum 41 fram á sjónarsviðið með plötuna "All Killer No Filler" árið 2001. Hún seldist vel og af henni komu lögin "In too Deep" og "Fat-lip". Blink-182 gaf út plötuna "Take of Your Pants and Jacket" sama ár og naut hún sömu vinsælda og "Enema of the State". Hún seldist í 350.000 eintökum fyrstu vikuna og hefur selst í 14 milljónum eintaka í dag. Aðrar hljómsveitir á borð við Simple Plan, Good Charlotte, American Hi-Fi og Bowling for Soup nutu einnig vinsælda á þessum tíma og áttu þær allar lög sem komust á vinsældarlista. Söngkonan Avril Lavigne kom út með plötuna sína "Let Go" árið 2002 sem færði henni gífurlegar vinsældir og þá varð hún yngsta konan til þess að koma plötu í fyrsta sæti á breska vinsældarlistanum. "Let Go" seldist í 16 milljónum eintaka um allan heim. Avril hefur verið gefið viðurnefnið „pönk-prinsessan“ fyrir vinsældir sínar. Blink-182 gaf út samnefnda plötu "Blink-182" árið 2003 og á henni var að finna lögin "I Miss You, Always", "Feeling This" og "Down". Henni vegnaði vel og seldist hún vel. Árið 2004 gaf Green Day út sína sjöundu plötu, "American Idiot". Hún varð ótrúlega vinsæl og færði "Green Day" vinsældir á ný, en platan sem þeir gáfu út á undan, "Warning" var sögð vera vonbrigði. Þeir urðu mjög vinsælir hjá yngri einstaklingum en það færði þeim nýjan aðdáendahóp. Á þeirri plötu voru lögin "American Idiot", "Jesus of Suburbia", "Holiday", "Boulevard of Broken Dreams" og "Wake Me Up When September Ends" sem öll fengu platínum sölur. Hún seldist í 16 milljónum eintaka um heima allan og 6 milljónum bara í Bandaríkjunum. Árið 2005 hélt Green Day tónleika í Milton Keynes í Englandi og spiluðu þeir fyrir 130.000 manns á tveimur dögum. Billie Joe Armstrong,söngvari Green Day, sagði í tónleikamynd sveitarinnar sem var gerð um þessa tónleika, Bullet in a Bible, að þetta væru stærstu tónleikar í sögu popp-pönks. Um árið 2005 var emo-pop eða emo-pönk farið að verða vinsælt. Útgáfufyrirtækið Fueled by Ramen varð þungamiðja emo-poppsins og gaf út flest alla helstu listamenn stefnunar. Hljómsveitin Fall Out Boy gaf út plötuna sína "From Under the Cork Tree" árið 2005 og urðu lögin "Sugar, We‘re Going Down" og "Dance, Dance" af henni mjög vinsæl. Panic! At the Disco, Red Jumpsuit Apparatus og Paramore gáfu út plöturnar "A Fever You Can't Sweat Out", "Don't You Fake It" og "Riot"! En "A Fever You Can‘t Sweat Out" og "Riot!" hafa verið viðurkenndar platinum plötur. Hljómsveitin My Chemical Romance gaf út plötuna sína "The Black Parade" árið 2006 og naut hún mikla vinsælda. Avril Lavigne gaf út plötuna sína "The Best Damn Thing" árið 2007 og gekk henni svipað vel og "The Black Parade", plötu My Chemical Romance. Lagið "Girlfriend" af "The Best Damn Thing" varð best selda lag ársins 2007 og var platan einnig best selda plata ársins 2007. Seinna á áratugnum komu hljómsveitir eins og A Day to Remember, Four Year Strong og New Found Glory fram á sjónarsviðið og urðu vinsælar. Green Day gaf út plötuna "21. Century Breakdown" og fékk hún góða dóma og seldist vel. Árið 2010 var gerður söngleikur byggður á "American Idiot", plötu Green Day, og var hann tilnefndur til Tony verðlauna og Grammy verðlauna þar á meðal sem besti söngleikurinn. Annar áratugur 21. aldar. Vinsældir popp pönks dvínuðu á þessum árum en hljómsveitir stefnunnar héldu áfram að gefa út plötur. Green Day gaf út plötu þríleik á árunum 2012 og 2013. Plöturnar voru nefndar "¡UNO!", "¡DOS!" og "¡TRÉ!". Blink-182 kom saman aftur eftir langa pásu og túraði um allan heim árin 2011-2013. Fall Out Boy kom einnig aftur saman eftir pásu. Þeir gáfu til kynna árið 2013 að þeir ætluðu að gefa út plötu að nafni "Save Rock and Roll" og halda í tónleikaferðalag um heiminn. The Offspring gaf út plötuna "Days Go By" árið 2012 og þeir voru aðal númerið á Soundwave tónlistarhátíðinni í Ástralíu ásamt Metallica og Linkin Park sumarið 2013 Micrococcaceae. Innan ættarinnar Micrococcaceae finnast gram jákvæðar ættkvíslir, líkt og Micrococcus luteus sem er kokkur og lifir í andrúmsloftinu og á húð manna. Micrococcus. Micrococcus er ættkvísl baktería innan ættarinnar "micrococcaceae". Til eru um 47 tegundir í ættkvíslinni Micrococcus og eru þær almennt taldar skaðlausar. Micrococcus getur lifað í mjög fjölbreittu umhverfi, þar á meðal húð manna og dýra, vatni, ryki og jarðvegi. Bakteríurnar eru Gram-jákvæðar, eru á bilinu 0,5-3 míkrómetrar á þvermál og finnast yfirleitt í óreglulegum klösum eða pörum, hreyfa sig yfirleitt ekki og mynda ekki gró. Þær eru oxidase og catalase jákvæðar en indól og sítrat neikvæðar. Micrococcus hefur umtalsverðann frumuvegg, sem getur falið í sér allt að 50% af frumumassanum. Mezzano. Mezzano (þýska: "Matzan im Taufers" eða "Mittersdorf"; Primieríska:"Meðàn") er sveitarfélag í Trentínó-Suður-Týról, á Norður-Ítalíu. Það er staðsett í Primierodal við Imèri. Orrustan við Issos. Orrustan við Issos í suðurhluta Anatólíu var háð 5. nóvember árið 333 f.o.t. milli makedónísks innrásarhers undir stjórn Alexanders mikla og hers Dareiosar III Persakonungs. Her Alexanders hafði sigur í orrustunni og var annar stórsigur hans í innrásinni en áður hafði hann sigrað í orrustunni við Granikos árið áður. Í kjölfarið á orrustunni við Issos var suðurhluti Litlu Asíu á valdi Alexanders. Talið er að í her Alexanders hafi verið um 40 þúsund manns en um 85 til 100 þúsund manns í her Dareiosar. Alexander er talinn hafa misst um sjö þúsund sinna manna en Dareios um tuttugu þúsund. Kórinþa. Akrókórinþ – háborg Kórinþu (horft til norðurs). Apollonshofið í Kórinþu, háborg Kórinþu í bakgrunni. Kórinþa eða Kórinta (á forngrísku: Κόρινθος, "Kórinþos") var forngrískt borgríki á Kórinþueiði, sem tengir Pelópsskaga við meginland Grikklands, nokkurn veginn miðja vegu milli Aþenu og Spörtu. Í dag stendur nútímaborgin Kórinþa um fimm km norðaustan við borgarstæði borgríkisins forna. Á Kórinþueiðinu virðist hafa verið byggð á nýsteinöld, allt frá um 6500 f.o.t. fram á fyrri hluta bronsaldar. Á Mýkenutímanum (um 1600 til 11 f.o.t.) virðist sem byggðin hafi verið yfirgefin en dórískumælandi Grikkir virðast hafa reist þar borg að nýju um 900 f.o.t. Á klassískum tíma var Kórinþa ein af leiðandi borgum Grikklands, ásamt Aþenu, Spörtu og Þebu. Primieríska. Primieríska ("Dialèto Primieròt"; Ítalska: "Dialetto primierotto") er mállýska talað í Primierodal, á Austur-Trentínó-Suður-Týról. Orðaforðinn er að miklu leyti úr þýsku og latínu. Android Market. Android Market, var breytt í google play eða play store árið 2012, er stafrænn forrita útbreiðsluvettvangur fyrir Android og netvirk raftækja verslun, þróað og viðhaldið af Google. Þjónustan gerir notendum kleift að skoða og hlaða niður forritum, tónlist, tímaritum, bókum, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tímarit gefin út í gegnum Google. Notendur geta einnig keypt "Chromebooks" og Google Nexus farsíma með Google Play. Forrit eru annaðhvort ókeypis eða á kostnaðarverði. Þau má sækja beint til Android eða á Google TV tæki í gegnum Play Store farsímaforrit, eða með því að niðurhala forritum frá Google Play á tæki með android stýrikerfi. Þessi forrit eru yfirleitt miðuð við notendur eftir ákveðnum vélbúnaðar eiginleikum af tækjum þeirra, svo sem hreyfingarskynjara (fyrir hreyfingarháða leiki) eða andlitsmyndavél (myndavél sem snýr að andliti þínu) (fyrir vídeósímtal). þann 6. mars 2012, með sameiningu við Android Market og Google Music, var þjónustan sameinuð í Google Play með endurkynningu stafræna útbreiðslu Google stefnunnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir (f. 9. febrúar 1975) er íslensk fjölmiðlakona og varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hún hefur starfað við fjölmiðla frá árinu 1999 og sem fjölmiðlafulltrúi fjármálaráðuneytisins frá árinu 2010. Rósa skipaði 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningum 2013. Rósa er með BA-gráðu í frönsku og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og Université de Stendhal í Frakklandi. Rósa æfði knattspyrnu með Breiðabliki og var í U17 landsliði kvenna 1990-1991. Hún á þrjú börn og er í sambúð með Kristjáni Guy Burgess, sem var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra árin 2009-2013. Djurgårdens IF. Djurgårdens idrottsförening eða "DIF" eins og þeir heita fullu nafni er sænskt Knattspyrnufélag frá Stokkhólmi, félagið er eitt af þremur mest studdu félögum Svíþjóðar, ásamt AIK og IFK Göteborg. Styrktaraðili, Allsvenskan 2013: Djurgårdsandan Willow Smith. Willow Camille Reign Smith (fædd 31. október 2000) er bandarísk söngkona og leikona. Hún er dóttir leikaranna Wills Smith og Jadu Pinkett Smith og systir leikarans og söngvarans Jadens Smith. Leikferill. Smith vakti fyrst athygli í myndinni I Am Legend sem hún lék í ásamt föður sínum. Næsta hlutverk hennar var í myndinni sem var gefin út í júlí 2008. Það sama ár talaði hún fyrir Gloriu á sínum yngri árum í. Móðir Willow, Jada talaði fyrir eldri Gloriu. Smith, Willow Camille Reign Smith, Willow Camille Reign Djurgårdsandan. Djurgårdsandan er félag í eigu knattspyrnufélagsins Djurgårdens IF sem sér um samfélagslega ábyrgð félagsins. Félagið var stofnað árið 2006. Á knattspyrnutímabilinu 2013 í sænsku úrvalsdeildinni ("Allsvenskan") verður merki Djurgårdsandan á búningum Djurgårdens IF. Marrakesssamningurinn. Marrakesssamningurinn eða Marrakessyfirlýsingin markar endalok Úrúgvæumferðarinnar í GATT-viðræðunum og upphaf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Hann var undirritaður í Marrakess í Marokkó, 15. apríl 1994. Í samningnum voru um 20 samningar í fjórum viðaukum sem fjölluðu um einstök svið viðskipta, þar á meðal þjónustuviðskipti, hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, hugverkarétt og tæknilegar viðskiptahindranir. Í Marrakesssamningnum eru þessir ólíku samningar settir fram sem einn samningur þannig að til að verða aðili að einum þarf að gerast aðili að öllum. Í samningum var líka kveðið á um lagalega bindandi lausn deilumála. Úrúgvælotan. Úrúgvælotan var áttunda samningalota GATT-viðræðnanna. Hún stóð frá 1986 til 1994 og lyktaði með undirritun Marrakesssamningsins og stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Umboð þessarar samningalotu snerist um að ræða ný svið sem áður höfðu verið talin of erfið til að semja um, s.s. landbúnað og textílvöru, eða höfðu ekki komið til álita fyrr, s.s. þjónustuviðskipti, hugverkarétt og fjárfestingastefnu. Meginmarkmið viðræðnanna voru að draga úr opinberum stuðningi við landbúnað, draga úr hömlum á erlenda fjárfestingu, opna fyrir alþjóðleg þjónustuviðskipti einkum á sviði banka- og tryggingaþjónustu og koma á alþjóðlegum staðli fyrir hugverkarétt. Samningurinn gekk í gildi 1. janúar 1995 en aðildarlöndin höfðu frest til að útfæra hann til 2000. Samningalotan hófst í Punta del Este í Úrúgvæ í september 1986. Samningaviðræður héldu áfram í Genf, Brussel, Washington DC og Tókýó og lauk með undirritun samninga í Marrakess í Marokkó 15. apríl 1994. Næsta umferð viðræðnanna var Dóhaumferðin sem hófst árið 2001 og er enn ólokið. Henni var meðal annars ætlað að taka fyrir ójafnvægi milli þróaðra ríkja og þróunarríkja sem margir gagnrýnendur töldu leiða af Marrakesssamningnum. Dsungarkanatið. Dsungarkanatið var ríki vesturmongólskra hirðingja (ojrada) sem náði yfir steppuna frá Kínamúrnum í austri að austurmörkum Kasakstans í vestri og frá norðurmörkum Kirgisistan í suðri að suðurmörkum Síberíu í norðri. Mest af þessu svæði, sem áður var kallað Dsungaría, er nú kínverska héraðið Xinjiang. Upphaf ríkisins má rekja til þess að ojradar hröktust vestur úr heimahögum sínum í Altaifjöllum undan útþenslu kalkamongóla undir stjórn Ubasi Khun Tayishi. Þeir lögðu Dsungaríu undir sig, þar á meðal Tarimsléttuna í suðri. Fyrsti leiðtogi ríkisins er talinn vera Khara Khula (d. 1634) sem sameinaði ojrödin fjögur og snerist gegn kalkamongólum. Árið 1678 gerði Dalai Lama foringja þeirra Galdan að kan en hefðbundinn titill konunga ojrada var "Khong Tayiji" sem merkir „krónprins“. Galdan beið ósigur gegn Tjingveldinu sem varð helsti andstæðingur Dsungarveldisins. Dsungarar lögðu Tíbet undir sig 1717 en Kínverjar hröktu þá þaðan þremur árum síðar. Eftir lát Galdan Tseren árið 1745 urðu erfðadeilur milli sona hans til þess að Tjingveldið lagði Dsungaríu undir sig frá 1755 til 1757. Qianlong keisari lét drepa alla karlmenn en konur og börn voru fengin hermönnum hans til eignar. Áætlað er að í stríðinu hafi 40% af 600.000 íbúum Dsungaríu látist úr bólusótt, 20% flúið til Rússlands eða Kasakstan og 30% verið drepin af her Tjingveldisins. Ahomríkið. Ahomríkið (assamíska: আহোম ৰাজ্য) einnig kallað "konungsríkið Assam", var konungsríki í árdal Brahmaputra í Assam, norðausturhluta Indlands. Ríkið var stofnað árið 1228 af Sukaphaa sem kom í dalinn frá Mong Mao þar sem nú er Júnnanhérað í Kína. Stofnendur ríkisins töluðu taímál og fluttu með sér þá aðferð að rækta hrísgrjón á flæðiökrum. Undir stjórn Suhungmung á 16. öld þandist ríkið út og hafði mikil áhrif alls staðar í Brahmaputradalnum. Þetta varð til þess að Ahomar urðu minnihluti í ríkinu og assamíska tók við af taí sem ríkjandi tungumál. Hindúatrú varð ríkjandi trúarbrögð í ríkinu. Ahomríkið stóð af sér árásir íslamskra ráðamanna í Bengal og Mógúlveldisins, þótt herir stórmógúlsins næðu að leggja höfuðborgina, Garhgaon, undir sig um stutt skeið. Eftir sigur gegn Mógúlveldinu í orrustunni um Saraighat 1671 stækkaði ríkið enn til vesturs. Ríkið byggðist á þegnskylduvinnu sem leiddi til sívaxandi innri átaka. Moamoria-uppreisnin hófst árið 1769 og leiddi til þess að þegnskylduvinnukerfið hrundi og fólksflótti brast á. Ahomríkið kom sér þá upp atvinnuher málaliða en náði ekki að verjast innrásum frá Búrma í byrjun 19. aldar. Þegar Bretar og Konbaung-veldið í Búrma sömdu frið 1826 fengu þeir fyrrnefndu Ahomríkið í sinn hlut. Bretar gerðu Purandar Singha að konungi 1833 en vegna spillingar innan hirðarinnar og óvinsælda konungsins meðal almennings settu þeir hann af fimm árum síðar og innlimuðu landið í Breska Indland. Alexander Ogston. Alexander Ogston (1844 - 1929) var skoskur skurðlæknir sem var frægur fyrir uppgötvun sína á Staphylococcus. Hann var elsti sonur Francis Ogston (1803 – 1887) prófesors í réttarlögfræði við Háskólann í Aberdeen. Störf. Árið 1862 hóf Ogston læknisfræði og skurðlækningar við Marischal College og úskrifaðist þaðan árið 1865 með sóma, þá 21 árs að aldri. Ári seinna, eða árið 1866 lauk hann MD. Árið 1874 var hann ráðinn sem skurðlæknir við konunglega sjúkrahúsið í Aberdeen. Hann var aðstoðar prófessor við læknisfræðilega lögfræði og lyfjafræði, lektor í augnlækningum og svæfingalæknir, þar til hann var ráðinn yfirprófessor yfir skurðlækningum árið 1882. Ogsten fylgdi samtímamönnum sínum, eins og Koch, J.C. Ewart frá Edinborg, sem opinberaði mismunandi gerðir baktería og Kohler frá Bern. Eftir rannsóknir Ogsten á lífverum í ígerðum hjá James Davidson, notaði Ogsten kofann á bak við hús sitt sem rannsóknarstofu (fékk hann styrk (£ 50) frá Breska læknisfélaginu (BMA), þar sem hann keypti svo Zeiss smásjá og metyl -aniline lit, sem Koch notaði) til að halda áfram rannsóknum sínum. Eftir að Ogsten fylgdi meginreglum og litunaraðferðum Kochs, einangraði hann sýkingarvaldandi lífverurnar af sári Davidson. Tilraunir Ogston færðu honum þær niðurstöður að bestu ræktunar skilyrði þessara lífvera væru í eggjum, sem látin voru vaxa í litlum flöskum og varið frá mengun með gler skugga. Hann notaði sýni úr 82. ígerðum og tókst að einangra bakteríur úr 65 þeirra. Þá var honum kleift að flytja hreinar kólóníur í naggrísi, hvítar mýs eða villtar mýs. Ogsten áttaði sig fljótt á því að hann hefði tvær tegundir af micrococcus, annar í formi keðja sem fékk nafnið Streptococcus og framleiddi meira af bólgum, hinn óx í þyrpingum, eins og hrogn fiska, sem fékk nafnið Staphylococcus, sem olli minna af bólgusjúkdómum. Hann benti einnig á að þynning upprunalegs graftarsýnis sem flutt væri í nýjan einstakling gæti valdið sýkingu. Ogsten sýndi fram á að þessar bakteríur gætu drepist í hita eða með karbólsýru, sem styður fullyrðingar Kochs. Einnig benti hann á að micrococci væri mjög skaðleg þegar henni væri sprautað innfyrir en virðist skaðlaus á yfirborði sára. Við frekari athugun á tilvist einhverra staphylococci, eru þeir hluti af eðlilegri flóru. Ogsten átti í miklum erfiðleikum með að sannfæra sjúkrastofnanir um niðurstöður sínar á Staphylococcus. Útibú BMA í Aberdeen tók niðurstöðum hans með vantrú. Ritstjóri breska læknablaðsins sagði á þeim tíma „getur eitthvað gott komið frá Aberdeen“. Eftir vandlegar rannsóknir á niðurstöðum Ogsten, var samtímamaður hans, að nafni Joseph Lister sammála niðurstöðum hans, en jafningi hans að nafni Watson Cheyne var enn efins. Í ljósi þessa efasemda, ákvað Ogsten að kynna uppgötvanir sínar á skurðlækna ráðstefnu í Berlín, þar sem hann hafði áður kynnt blaðið "Genu valgum" þann 9. apríl 1880. Ogsten afhenti þessa kynningu á ígerðum á þýsku og var hún síðan birt. Hann varð síðan félagi í þýska skurðlækna samfélginu 36 ára að aldri, þrátt fyrir fortíð sína og ári seinna birti Ogsten hugmyndir sínar í "Breska læknablaðinu". Eftir það var öllum hans pappírum hafnað en í staðinn birti þá í blaði líffæra- og lífeðlisfræði. Trịnh Tạc. Trịnh Tạc (hán tự: 鄭柞; 1606 – 1682) ríkti yfir Norður-Víetnam frá 1654 til dauðadags. Hann batt endi á Trịnh–Nguyễn-stríðið með því að semja frið við Nguyễn-lávarðana. Hann lagði líka undir sig Cao Bằng sem var síðasta landsvæðið undir stjórn Mạc-ættarinnar sem hraktist til Kína. Soldánsdæmið Mataram. Soldánsdæmið Mataram var síðasta sjálfstæða konungsríkið á Jövu áður en Hollendingar lögðu eyjuna undir sig. Höfuðborg ríkisins var í Kota Gede þar sem nú er Yogyakarta nálægt þeim stað þar sem Konungdæmið Mataram reis á 8. öld. Fyrsti soldáninn var Sutawijaya sem ríkti frá 1584. Upphaflega var Kota Gede lén frá Jaka Tingkir, fyrsta konungi hins skammlífa konungdæmis Pajang. Sutawijaya lagði síðar Pajang undir sig. Hann hélt uppi hefðbundnum trúarbrögðum Jövubúa en gerði um leið Íslam að ríkistrú. Mesti soldán Mataram var barnabarn Sutawijaya, Agung mikli, sem lagði undir sig stærstan hluta eyjarinnar, þar á meðal helsta andstæðing Mataram, Surabaya. Í vestri var Soldánsdæmið Banten þar sem evrópskir kaupmenn höfðu lengi verslað og þar reistu Hollendingar borgina Batavíu. Árið 1628 leiddi Agung umsátrið um Batavíu sem mistókst og skaddaði orðstír hans. Síðari hluti ríkisára hans einkenndist því af uppreisnum. Uppreisnirnar leiddu til þess að soldánarnir leituðu hjálpar frá Hollenska Austur-Indíafélaginu og veittu þeim verslunarleyfi í staðinn. Áhrif Hollendinga urðu mjög mikil í kjölfarið en soldánarnir leituðu leiða til að auka sjálfstæði sitt. Þegar Jövustríðið (1741-1743) braust út milli Hollendinga og kínverskra verkamanna í Batavíu gerðu undirmenn soldánsins bandalag við uppreisnarmenn en Hollendingar náðu brátt stjórn á ástandinu aftur. Í kjölfar stríðsins flutti soldáninn Pakubuwana 2. soldánshöllina til Surakarta en frændur hans voru enn í uppreisn. Bróðir soldánsins, Mangkubumi, vann sigur á prinsinum Raden Mas Said árið 1746 en soldáninn sveik loforð um verðlaun handa þeim sem tækist að bæla uppreisnina niður. Mangkubumi gerði þá uppreisn frá Yogyakarta. Afleiðing þessa varð sú að ríkinu var formlega skipt í tvennt: Soldánsdæmið Yogyakarta og Sunandæmið Surakarta árið 1755 með samningi milli Hollenska Austur-Indíafélagsins og Mangkubuni. Listi yfir borgarstjóra Reykjavíkur. Listi yfir borgarstjóra Reykjavíkur inniheldur 22 einstaklinga, þar af 18 karlmenn og fjórar konur, sem hafa setið sem borgarstjórar Reykjavíkur frá árinu 1908 til dagsins í dag. borgarstjórar Reykjavíkur Fiera di Primiero. Fiera di Primiero (þýska: "Markt Primör"; Primieríska:"La Fiera") er sveitarfélag í Trentínó-Suður-Týról, á Norður-Ítalíu. Það er staðsett í miðju Primierodal við Transacqui. Það er minnsta sveitafélag Ítalíu. Háskólinn í Tübingen. Háskólinn í Tübingen ("Eberhard Karls Universität Tübingen") er háskóli í borginni Tübingen í Baden-Württembergi í Þýskalandi. Hann var stofnaður 1477 af Eberhard V. ("Eberhard im Bart"). Skólinn er meðal þeirra virtustu í Þýskalandi. Heimildir. Tubingen Joachim Gauck. Joachim Gauck (f. 24. janúar 1940) er forseti Þýskalands. Hann tók við embættinu 18. mars 2012. Tilvísanir. Gauck, Joachim 1. Mósebók. 1. Mósebók ((á grísku: γένεσις, "Genesis"; á hebresku: בְּרֵאשִׁית "Bərēšīṯ" ("í upphafi"), á latínu: "Genesis")) er fyrsti hluti gamla testamentsins og biblíunnar. Hún inniheldur sköpunarsögur bæði heimsins og mannsins, fjallar um söguna um syndaflóðið og örkina hans Nóa og söguna um Kain og Abel. Sagt er frá fyrstu kynslóðum afkomenda Abrahams allt fram að för Ísraels til Egyptalands. Efni. Fyrsti dagurinn, úr "Liber Chronicarum" frá 1493 Kaflar fyrstu mósebókar eru 50. Fyrstu ellefu kaflarnir fjalla um sköpun heimsins og mannsins, Adam og Evu, Kain og Abel, syndaflóðið, örkina hans Nóa og Babelturninn. Kaflar 12-50 fjalla um Abram, sem síðar er nefndur Abraham, og afkomendur hans. Guð tortímir borgunum Sódómu og Gómorru. Guð biður Abraham að fórna syni sínum Ísak en hættir við á síðustu stundu. Ísak eignast soninn Jakob, sem eignast tólf syni. Jakob tekur upp nafnið Ísrael eftir áflog við dularfullan anda en synir Ísraels og afkomendur þeirra munu síðar mynda hina ísraelsku þjóð. Bókinni lýkur með ferð Ísraels og fjölskyldu hans frá Kanaan-svæði til Egyptalands þar sem þau setjast að í Gósen. Jakob var yngri sonur Ísaks, en hinn eldri hét Esaú. Jakob keypti erfðaréttinn af Esaú fyrir súpuskál þegar Esaú var sársvangur. Þegar Ísak, sem var orðinn blindur, ætlaði að veita Esaú mikilvæga blessun blekkti Jakob föður sinn til að blessa sig í staðinn. Það má segja að rauði þráðurinn í lífi Jakobs eru undirferli, sér í lagi við Esaú, og átök, til að mynda við andann. Sáttmálar. Í 1. Mósebók efnir Guð til fyrstu sáttmála sína við manninn. Fyrsti sáttmálinn er við Nóa. Guð bannar mönnum að drepa aðra menn. Hann leyfir mönnunum að nota jurtir og dýr til fæðu og ráða yfir þeim. Nóasáttmálinn er almenns eðlis. Hann á við um allt mannkyn. Ákvæði sáttmálans leggja aðallega skyldur á Drottinn. Annar sáttmáli Drottins í 1. Mósebók er feðraveldissáttmálinn við Abraham. Þessa sáttmáli er sértækur í þeim skilningi að hann á aðeins við um Abraham og afkomendur hans. Drottinn lofar meðal annars að gefa Abraham fyrirheitna landið, sem er landsvæðið milli Egyptalands og Efrat. Til marks um sáttmálann er lögð sú skylda á Abraham og afkomendur hans að umskera öll sveinbörn. Tilurð bókarinnar. Bókin dregur nafn sitt af kristinni hefð sem gerir ráð fyrir að fyrstu fimm bækur gamla testamentsins, sem nefnast saman Torah á hebresku, hafi verið rituð af Móses. Hefðin er dregin í efa af fræðimönnum, til að mynda er ólíklegt að frásögnin af dauða og jarðsetningu Móses sé rituð af honum sjálfum (34. kafli 5. mósebókar). Mikilvæg kenning, sett fram af þýska guðfræðingnum Julius Wellhausen á 19. öld, er að Mósebækur eru samantekt úr fjórum upprunalegum heimildum: Jahvista, Elohista, Deuteronomista og Prestaskrif, skammstafað JEDP. Í sköpunarsögunni í 1. og 2. kafla 1. mósebókar má greina áhrif frá babýlónísku sköpunarsögunni Enuma Elish, til að mynda svipar orðalag fyrstu málsgreinarinnar til Enuma Elish. Önnur mikilvæg eldri heimild er "Gilgameskviða", þar sem finna má þætti sem svipar til sögunnar af sköpun Adams og Evu. Í Gilgameskviðu er Enkidu skapaður úr leir eins og Adam. Enkidu tileinkar sér visku með því að sofa hjá tálkvendi, en í mósebók borða Adam og Eva forboðna ávöxtinn. Syndaflóðinu og örk Nóa svipar til 11. bókar Gilgameskviðu. Svipuðum atburðum er lýst í báðum verkum og í sömu röð. Þessi tvö verk eru talin hafa vera rituð á 18. öld f.Kr. og eru talin töluvert eldri en mósebækur. Margrit Kennedy. Margrit Kennedy (fædd 1939) er þýskur arkitekt, höfundur og fréttaskýrandi. Hún er gagnrýnin á bankakerfið. 2. Mósebók. 2. mósebók ((á grísku: ἔξοδος, "Exodos"; á hebresku: שמות "Sh'mot" ("brottförin"), á latínu: "Liber Exodus")) er önnur af fimm mósebókum. Mósebækur eru fyrsti hluti gamla testamentisins og nefnast saman Torah á hebresku. Bókin fjallar um för Ísraelsmanna frá Egyptalandi undir leiðsögn Móses. Efni. Móses með steintöflurnar, málverk eftir José de Ribera, málað 1638 Í upphafi bókarinnar er sagt frá fæðingu Móses, sem fæddist þegar faraóinn í Egyptalandi hafði skipað að öll sveinbörn skyldu drepin. Samkvæmt Biblíunni dregur Móses nafn sitt af því að hann var „dreginn úr vatni“ af dóttur faraósins. Nútíma fræðimenn telja líklegra að nafnið sé dregið af egypsku orði. Rótin er hin sama og endingin á sérnafninu Ramses, sem merkir fæddur af sólguðinum Ra. Þannig þýðir Móses „fæddur“. Drottinn skipar Móses að leiða Ísraelsmenn frá Egyptalandi en faraóinn heftir för þeirra. Drottinn refsar Egyptum með tíu plágum. Síðasta plágan dugði til að sannfæra faraóinn en þá var sérhver frumburður Egypta drepinn. Drottinn bað Ísraelsmenn að merkja híbýli sín svo að eyðandinn kæmi ekki þangað. Páskahefð gyðinga fagnar því að eyðandinn gekk fram hjá híbýlum Ísraelsmanna. Á leiðinni til Kanaan-svæðis klauf Móses Rauðahafið. Nútímatúlkun fræðimanna er sú að hér sé ekki átt það sem við þekkjum sem Rauðhafið í dag en ekki er vitað fyrir víst hvaða haf eða vatn er um að ræða. Drottinn birtist Móse á Sínaífjalli og kynnir honum nýjan sáttmála sinn við Ísraelsmenn. Sér í lagi segir hann í löngu máli frá því hvernig skal útbúa tjaldbúðir Drottins. Þegar Móse kemur niður af fjallinu með steintöflur meitlaðar af Drottni sér hann fólkið tilbiðja gullkálf. Hann skipar hópi Levíta að drepa villutrúarfólkið og þrjú þúsund falla. Þetta atvik er eitt af mörgum í mósebókum þar sem Ísraelsmenn breyta gegn vilja guðs. Flest atvikin eru talin upp í 4. mósebók. Mósesáttmálinn. Mósesáttmálinn er þriðji sáttmálinn sem kemur fram í Mósebókum, eftir Nóasáttmálann og Feðraveldissáttmálann sem Drottinn gerði við Abraham. Mósesáttmálinn er frábrugðin hinum fyrri þar sem hann er tvíhliða. Hann leggur þungar skyldur á Ísraelsmenn með fjölmörgum reglum sem taldar eru upp í 3., 4. og 5. Mósebók. Á móti heitir Drottinn því að vernda Ísraelsmenn. Mikilvæg kenning um Mósesáttmálann var sett fram af Jon Levenson. Hann bendir á að Mósesáttmálinn er að formi til og efni svipaður samtíma sáttmálum sem sigurvegarar, sérstaklega Hittítar, gerðu við sigraðar þjóðir. Hyksos. Vinsæl söguskoðun er að lýsingin á komu Ísraelsmanna til Egyptalands og brottför þeirra þaðan tengist veru Hyksos þjóðarinnar í Egyptalandi. Hyksos var af Semítískum uppruna eins og Ísraelsmenn. Þeir réðust á Egyptaland 1720 f. Kr. og settust þar að. Síðar var þeim bolað frá. Það er hugsanlegt að faraóinn sem var Ísraelsmönnum vinveittur í 2. Mósebók hafi verið Hyksos og að lýsingin af brottför Ísraelsmanna sé í raun lýsing á brotthvarfi Hyksos þjóðarinnar frá Egyptalandi. Bensen. Bensen er litarlaus rokgjarn lífrænn vökvi sem blandast ekki við vatn. Bensen er mikilvægt milliefni í efnaiðnaði og er notað til framleiðslu á plastefnum. Bensen er í bensíni en má ekki vera hærra en 1 %. Bensen er andrúmslofti er aðallega af mannavöldum og stafa meðal annars af bifreiðaumferð og reykingum. Efnafræðingurinn Michael Faraday uppgötvaði bensen árið 1825. Arthur Laffer. Arthur Betz Laffer (14. ágúst 1940) er bandaríkur hagfræðingur, þekktastur fyrir að setja fram s.n. "Lafferkúrfu". Laffer heimsótti Ísland 2007 og hélt fyrirlestur á vegum Samtaka atvinnulífsins þann 16. nóvember. Laffer, Arthur 4. Mósebók. 4. mósebók (á grísku: Ἀριθμοί, "Arithmoi"; á hebresku: במדבר, "Bəmidbar" ("í eyðimörkinni"), á latínu: "Numeri") er fjórða af fimm mósebókum. Mósebækur eru fyrsti hluti gamla testamentisins og nefnast saman Torah á hebresku. Bókin fjallar um för Ísraelsmanna um eyðimörkina fyrir komuna til fyrirheitna landsins. Efni. 4. mósebók segir frá för Ísraelsmanna um eyðimörkina. Þeir koma til Kanaan-svæðis og senda menn til að kanna aðstæður. Mennirnir verða hræddir við Kanaanþjóðina og veigra sér við að halda inn í landið. Drottinn reiðist þeim og kveður svo á að enginn þeirra sem var eldri en tvítugt þegar þjóðin hélt af stað frá Egyptalandi muni upplifa komuna til fyrirheitna landsins, að tveimur undanteknum. Þannig dæmir hann Ísraelsþjóð til að ganga um eyðimörkina í 40 ár í viðbót. Bókinni lýkur þegar ný kynslóð Ísraelsmanna snýr aftur til Kanaan og er tilbúin að vaða ána Jórdan. Í bókinni er sagt frá ýmsum afglöpum Ísraelsmanna. Þeir haga sér svolítið eins og óþekk börn. Drottinn og Móses skiptast á að missa þolinmæðina á þessari erfiðu þjóð. Þolinmæliðdans Drottins og Móses er mikilvægur þráður í gegnum 4. mósebók. Þegar Drottinn missir þolinmæðina reynir Móses að tala máli fólksins og öfugt. Enuma Elish. Enuma Elish er sköpunarsaga Babýlóníumanna. Í upphafi er sagt frá Tiamat, skrímsli sem svipar til dreka. Það var ekki til land, heldur bara sjór. Guðirnir hræddust Tiamat og leituðu til Marduk, sem leiðir stríð gegn Tiamat og drepur hana. Marduk notar lík Tiamat til að greina að himin og jörð. Þannig skapaði Marduk heiminn. Sagan er talin vera rituð á 18. öld f.Kr., á tímum Hammurabis. Fræðimenn greina sterk áhrif á sköpunarsögu Biblíunnar, sér í lagi á fyrstu málsgreinarnar: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.“ Brimbrettarokk. Brimbrettarokk () er tegund vinsællar tónlistar sem tengist brimbrettamenningu, sem á aðallega rætur sínar að rekja til Orange sýslu og fleiri staða í Suður-Kaliforníu. Brimbrettarokk var sérstaklega vinsælt á árunum 1961-1966. Frumkvöðull þess var gítarleikarinn, en hann er af mörgum talinn hafa gefið út fyrsta brimbrettarokk lagið. Frægasta hljómsveitin sem fellur undir þessa tegund tónlistar er hljómsveitin, sem er flestum kunnug. Brimbrettarokk skiptist í þrjá flokka en það getur ýmist verið spilað einungis á hljóðfæri (), þ.e. með engum söng, eða með vel útsettum samhljóma röddum ásamt hljóðfærum og síðast en ekki síst er til svokallað „Hot rod“ rokk, sem fellur víst undir brimbrettarokkið. Aðaleinkenni brimbrettarokksins er þó rennblauta bergmál () gítarhljómsins sem eiga að hljóma eins og öldur hafsins. Brimbrettarokk hefur aldrei náð neinum hæðum á Íslandi og þekkist ekki til neinna íslenskra hljómsveita sem eru þekktar fyrir að spila einungis brimbrettarokk en eru þó til dæmi um sveitir sem eru undir einhverjum áhrifum þess. Dick Dale. Flestir telja vera frumkvöðul brimbrettarokks en hann var oft kallaður „Konungur brimbrettagítarsins“. Hann fæddist í Boston Massachusetts árið 1937. Foreldarar hans voru frá Líbanon og Póllandi en Dale ólst upp við að hlusta á þjóðlagatónlist frá báðum þessum löndum sem hafði mikil áhrif á það hve melódískur hann var og einnig hvaða tækni hann beitti þegar hann spilaði á hljóðfæri. Snemma byrjaði hann sjálfur að læra á hljóðfæri og lærði fyrst að spila kántrý lög á ukulele en fræði sig fljótlega yfir á gítarinn. Árið 1954 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Suður-Kaliforníu. Þar kom hann fyrst fram á hæfileikakeppni þar sem hann spilaði „Rokkabillý“ lög. Eftir að hafa búið þarna í einhvern tíma fékk gríðarlega mikinn áhuga á brimbrettum og fannst fátt skemmtilegra en að skjótast út í sjóinn og brjóta öldur með brimbrettinu sínu. Að fara út í sjó á brimbretti var ekki nóg fyrir hann vegna þess að hann fór fljótlega að reyna herma eftir hljóðinu og tilfinningunni sem hann upplifði við að stunda þessa íþrótt á gítar. Dale náði að lokum að þróa sérkennandi hljóð og eftir að hafa spilað reglulega í sínum heimabæ fyrir þúsund manns í senn og öðlast örlitla frægð gaf hann út lagið „Let’s Go Trippi’n“, en það er talið vera fyrsta brimbrettalagið sem gefið var út. Lagið „Let’s Go Trippi’n“ sló rækilega í gegn í heimabæ Dales og náði fljótlega gríðarlegum vinsældum á landsvísu. lét ekki slag standa og gaf þá út fleiri lög en meðal þeirra var lagið „Surf Beat“. Árið 1962 gaf út sína fyrstu plötu en hún bar nafnið „Surfer’s Choise“. Platan seldist eins og heitar lummur í Suður-Kaliforníu og var að sjálfsögðu mikil bylting fyrir tónlistina á þessum tíma. Í kjölfar plötunnar fékk plötusamning við stórt plötufyrirtæki og gaf út þrjár plötur til viðbótar fram til ársins 1965. Sungið brimbrettarokk. Sungið brimbrettarokk er vinsælasta form brimbrettarokks en það varð fyrst gríðarlega vinsælt árið 1962. Ólíkt tónlist, sem einungis var spiluð á hljóðfæri, var þetta form sungið og oftar en í ekki í flóknum samhljómum þriggja eða fleiri radda. Einhverjar hljómsveitir voru farnar að gefa út sungið brimbrettarokk en þær náðu aldrei jafn miklum vinsældum og hljómsveitin, sem náði ótrúlegum vinsældum á stuttum tíma og er þekktasta brimmbrettarokks hljómsveit heims. The Beach Boys á tónleikum árið 2012 The Beach Boys. Hljómsveitin var stofnuð árið 1961 á Suður-Kaliforníu af bæðrunum Brian Wilson, Dennis Wilson og Carl Wilson. Þeir ólust upp aðeins nokkrum kílómetrum frá sjónum en þrátt fyrir það var það aðeins Dennis sem hafði áhuga á brimbrettum. Þeir bræður höfðu mikinn áhuga á söng og æfðu sig oft að syngja samhljóma þegar þeir voru ungir en Brian hafði brennandi áhuga á flóknum söngröddum líkt og var undir miklum áhrifum frá hljómsveitunum The Four Freshmen og The Hi-Lo’s. Wilson bræðurnir fengu frænda sinn, Mike Love, og vin sinn úr skólanum, Al Jardine, til liðs við sig og saman kölluðu þeir sig. Sama ár og hljómsveitin var stofnuð gáfu þeir út sitt fyrsta lag sem hét „Surfin’“. Lagið fékk spilun í útvarpi sem orsakaði það að þeir fengu plötusamning við plötufyrirtækið Capitol og varð faðir Wilson bræðranna sjálfskipaður umboðsmaður hljómsveitarinnar. Ári síðar, eða um mitt árið 1962, gaf hljómsveitin frá sér sína fyrstu plötu, „Surfin’ Safari“. Titillag plötunnar komst á topp 20 Billboard listann og varð til þess að brimbrettarokkið blómstraði enn meira á þeim slóðum. Í lok ársins 1963 var hljómsveitin búin að gefa út þrjár plötur, komast mörgum sinnum á topp 10 Billboard listann og halda tónleika víðsvegar. Einnig hafði Brian Wilson þroskast mikið sem lagahöfundur en hann var farinn að víkka sjóndeildarhringinn frá hefðbundnu og einföldu brimbrettarokki og útsetningar hans á söngröddum höfðu tekið miklum framförum. Árið 1964 náði hljómsveitin í fyrsta skipti sæti númer eitt á Billboard listanum með laginu „I Get Around“ sem allir ættu að kannast við. Lagið er frægt fyrir flókna samhljóma söngradda en það var títtnefndur Brian Wilson sem sá um að útsetja þær. Með laginu rauk upp sala á plötum sveitarinnar, en platan „Beach Boys Concert“ sat í fjórar vikur á toppi mest seldu platna í Bandaríkjunum. Þessar vinsældir gáfu þeim tækifæri á að fara í tónleikaferð til Evrópu, enda orðnir frekar þekktir víðsvegar um heiminn, en í lok árs 1964 var pressan og álagið orðið of mikið fyrir forsprakkann Brian að hann ákvað að hætta að ferðast með hljómsveitinni sinni og fékk félaga sinn, Bruce Johnston, til þess að fara í staðinn fyrir sig í allar tónleikaferðir. Hljómsveitin átti síðan eftir að gefa út fullt af fleiri plötum „Hot Rod“ rokk. „Hot Rod“ rokk er eitt forma brimbrettarokks og er keimlíkt venjulegu brimbrettarokki fyrir utan eitt atriði, þ.e. „Hot Rod“ rokk lög innihalda vélarhljóð úr bílum og ískrandi dekkjarhlóð, svo dæmi séu tekin. og fleiri sungu alveg um bíla en það flokkaðist alls ekki undir „Hot Rod“ rokk. Þetta form brimbrettarokks varð aldrei vinsælt en var samt sem áður ákveðin költ byljga síns tíma þar sem ákveðinn hópur hélt upp á lögin. „Hot Rod“ rokk fjaraði fljótlega út en þegar geisladiskurinn var fundinn upp og tröllreið markaðnum var vinsælt hjá plötu unnendum að næla sér í nokkar „Hot Rod“ rokk plötur. Eskimóarnir. Eins og fyrr varð brimbrettarokk til í Suður-Kaliforníu og varð mjög vinsælt í Bandaríkjunum og þá sérstaklega hljómsveitin. Í Grænlandi árið 1964 var stofnuð brimbrettarokks hljómsveit en það telst mjög skrítið vegna þess að fáir staðir í heiminum eru jafn ólíkir Suður-Kaliforníu og Grænland og hvergi nærri eins mikil brimbrettamenning. Það voru fjórir skólabræður í Realskolen í Nuuk (hét þá Godthåb) sem stofnuðu hljómsveitina The Eskimo’s, eða Eskimóarnir, í byrjun árs 1964. Hljómsveitarmeðlimir voru þeir Barsilaj „Morpak“ Danielsen, sem spilaði á gítar og söng, Jakob „Arngo“ Petersen, sem spilaði einnig á gítar, Johannes „Orre“ Jonassen, bassaleikari, og Peter 0. Petersen sem sá um trommuslátt. Frá stofnun sveitarinnar og til ársins 1966 tóku Eskimóarnir þátt í mörgum tónlistarkeppnum og urðu fljótlega ein helsta rokkhljómsveit Grænlendinga. Tveimur stofnendum sveitarinnar var þó skipt út með stuttu millibili en gítarleikarinn Arngo flutti til Danmerkur og var fenginn Jonas Berthelsen í staðinn en stuttu síðar var Orre rekinn úr sveitinni og bróðir Jonasar fenginn í staðinn, Jonathan Berthelsen. Eskimóarnir nutu það mikilla vinsælda að þeir voru fengnir til þess að spila fjórum sinnum í viku á barnum Alegamut í Nuuk ásamt því að þeir fóru tvisvar seinnum í tónleikaferð um Grænland á árunum 1964-1965. En í apríl 1968 hættu Eskimóarnir skyndilega en skildu þó eftir sig tvær ónefndar plötur. Trommari sveitarinnar, Peter Petersen, var sá eini sem hélt áfram í tónlistinni og hefur verið að flytja frumsamda þjóðlagatónlist við grænlenska texta og hefur meira að segja haldið tónleika á Íslandi. Sáputré. Skógur með sáputrjám nálægt Santiago. Sáputré (fræðiheiti "Quillaja saponaria") er sígrænt tré af ættinni Quillajaceae sem upprunnið er í heitu til tempruðu belti í miðhluta Chile. Tréð finnst allt upp í 2000 m frá sjávarmáli og getur orðið 15 – 20 m hátt. Það þolir allt að -12°C (10°F) í náttúrulegum heimkynnum sínum. Það er oft notað til uppgræðslu til að endurheimta skóglendi þar sem jarðvegur er súr. Úr berki trésins má vinna duft sem notað er í sápu því það freyðir í vatni því það er í því saponin sem kallast quillaia. Viður sáputréss er notaður í húsgögn og úr trénu eru unnin ilmefni sem notuð eru í ilmvötn og snyrtivörur. Börkur af sáputré hefur mjög lengi verið notaður í lækningaskyni í Andesfjöllunum og þá sérstaklega við brjóstverkjum. Börkurinn inniheldur quillaia sem er notað sem fæðubótarefni og í ýmis lyf og heilsuvörur og sem eldvarnarfroða. Það er einnig notað í ljósmyndafilmur og til að láta drykki freyða. Saponin innihald barkarins örvar slímmyndun í öndunarfærum og er notað í hóstalyf. Saponin í trénu er einnig notað sem fyrirbyggjandi lyf í bóluefnum vegna þess að það örvar ónæmiskerfi. Ein tegund QS21 sem unnin út saponin úr þessu tré hefur reynst örva ónæmiskerfi manna. Heimdallargaldur. Heimdallargaldur er glatað fornkvæði, kennt við ásinn Heimdall, en Snorra-Edda varðveitti aðeins tvær línur úr því:. „Níu em ek mæðra mögr, níu em ek systra sonr.“ 3. Mósebók. 3. mósebók (á grísku: Λευιτικός, "Leuitikos"; á hebresku: ויקרא "Vayikra" („brottförin“), á latínu: "Leviticus") er þriðja af fimm mósebókum. Mósebækur eru fyrsti hluti gamla testamentisins og nefnast saman Torah á hebresku. Efni. Mannfræðingurinn Mary Douglas er upphafsmaður nútíma túlkunnar á 3. mósebók. Hún lítur svo á að hreinleikalögin eru táknræn. Til dæmis er hugmyndin um misheilaga staði í tjaldbúðum Drottins mikilvæg til að skýra táknræna þýðingu hreinleikans. Annað ráðuneyti Steingríms Hermannssonar. Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra og ráðherra Hagstofu Íslands Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, samgönguráðherra og landbúnaðarráðherra Hjalti Skeggjason. Hjalti Skeggjason var íslenskur höfðingi á 9. og 10. öld og var einn af helstu leiðtogum kristinna manna við kristnitökuna. Hann bjó í Þjórsárdal. Hjalti var sonur Skeggja Þorgeirssonar, Eilífssonar, Ketilssonar einhenda Auðunarsonar, landnámsmanns á Á á Rangárvöllum. Hann giftist Vilborgu, dóttur Gissurar hvíta Teitssonar og voru þeir tengdafeðgar kristnaðir og skírðir af Þangbrandi biskupi. Á Alþingi árið 999 var að því er segir í Kristni sögu mikið deilt um trúmál og kristniboð Þangbrandar og „guðlöstuðu þá sumir menn mjök, en þeir er skírðir voru ámæltu goðunum, og var at því sveitardráttur mikill“. Hjalti orti þá kviðlinginn „Vilk eigi goð geyja, grey þykir mér Freyja“ og var dæmdur sekur skóggangsmaður fyrir goðgá (guðlast) Þeir Gissur fóru svo til Noregs og segir í Kristni sögu að þeir hafi siglt á skipi sem Hjalti hafi látið smíða í Þjórsárdal og draga niður eftir Rangá til sjávar. Þeir voru hjá Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi einn vetur en konungur sendi þá svo til Íslands til að kristna landsmenn. Þeir komu til Íslands rétt fyrir Alþingi. Á þinginu höfðu þeir fjölda fylgismanna því margir Íslendingar höfðu þá tekið kristna trú. Gissur og Hjalti gengu til Lögbergs og báru upp erindi konungs. Þótti þeim mælast vel en "en svá mikil ógn fylgði orðum þeira, at engir óvinir þeira þorðu at tala móti þeim." Þingheimur skiptist í tvo flokka en á endanum urðu sættir og úrskurðaði Þorgeir Ljósvetningagoði að Íslendingar skyldu taka kristni. Árið 1016 sigldi Hjalti til Noregs og var með Ólafi konungi digra, sem sendi hann ásamt Birni stallara sínum til Svíþjóðar að leita friðarsamninga við Ólaf skautkonung og sömdu þeir um trúlofun Ingigerðar dóttur hans og Ólafs helga, sem ekkert varð þó úr. Frá þessu ferðalagi segir ítarlega í Ólafs sögu helga. Hjalti sneri aftur til Íslands 1018. Dótir Hjalta og Vilborgar var Jórunn, sem giftist Járnskeggja, syni Einars Þveræings. Börn þeirra voru Einar, afi Björns Gilssonar Hólabiskups og Björns Gilssonar ábóta, og Guðrún, amma Magnúsar Einarssonar Skálholtsbiskups. Efnavopnasamningurinn. Samningur um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra eða efnavopnasamningurinn er alþjóðasamningur um vopnatakmarkanir sem bannar framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna. Efnavopnastofnunin sér um framkvæmd samningsins, en það er óháð stofnun staðsett í Haag í Holland. Samningurinn bætir við og stækkar gildissvið Genfarsamningsins frá 1925. Samningurinn var lagður fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna af Afvopnunarráðstefnunni 3. september 1993. Í nóvember samþykkti þingið samninginn sem var lagður fram til undirritunar 13. janúar 1993. Hann tók formlega gildi 29. apríl 1997 eftir undirritun 65 landa. Nú hafa 188 af þeim 196 löndum sem viðurkennd eru af Sameinuðu þjóðunum undirritað samninginn. Tvö lönd (Búrma og Ísrael) eiga eftir að fullgilda hann og sex lönd (Angóla, Norður-Kórea, Egyptaland, Sómalía, Suður-Súdan og Sýrland) hafa ekki undirritað hann. Höfn. Höfn er staður þar sem skip og bátar geta leitað vars fyrir veðri og vindum eða er lagt til geymslu. Höfn getur verið náttúruleg höfn: náttúrulegt var við höfða, víkur, eyjar eða granda; eða mannvirki með öldubrjótum, sjóvarnargörðum og hafnargörðum eða blanda af þessu tvennu. Manngerðar hafnir þarfnast oft reglulegrar dýpkunar þar sem þær eru reistar upp við land þar sem dýpi er lítið. Manngerðar hafnir eru oftast með bryggjukanta, bryggjur, kvíar og aðra aðstöðu til að skip geti lagst að landi, hægt sé að sjósetja þau og taka á land, ferma og afferma o.s.frv. Örfilma. Örfilma og örfisja eða fisja er filma sem notuð er til að geyma skjöl á smækkuðu formi til að auðvelda flutning og geymslu. Filman er ýmist samfelld spóla (örfilma) eða stök spjöld (fisja). Með filmutækni er hægt að minnka skjölin niður í um það bil 1/25 af upprunalegri stærð. Til að skoða skjölin þarf sérstaka örfilmuvél sem stækkar skjalið upp á skjá eða örfilmuprentara. Sú hugmynd að nota ljósmyndafilmu til að varðveita skjöl kom fyrst fram um miðja 19. öld en notkun örfilmu hófst ekki fyrr en á millistríðsárunum. Ödípús. Ödípús, einnig ritað Ödipus eða Oidipús (Οἰδίπους "Oidipous" sem merkir „bólginn fótur“), var sagnkonungur í Þebu í Grikklandi hinu forna. Hans er getið víða í grískum bókmenntum, svo sem í "Ilíonskviðu" og "Ódysseifskviðu" Hómers en einnig varð goðsagan um Ödípús Sófóklesi efni í harmleikina "Ödípús konungur", "Ödípús í Kólonos" og "Antígónu" sem saman mynda Þebuleikina en svo eru nefnd varðveitt leikrit Sófóklesar, sem tengjast goðsögnum Þebu. Enn fremur var Ödípús viðfangsefni "Ödípúsarkviðu", glötuðu grísku söguljóði eftir Kinæþon, og "Þebukviðu" eftir rómverska skáldið Statius. Goðsögur um Ödípús virðast upphaflega hafa fjallað um leið hans til valda í Þebu en hann varð kóngur í Þebu eftir að hafa ráðið niðurlögum sfinxins. Hann varð snemma harmræn hetja, sem drepur föður sinn (Lajos) og giftist móður sinni (Jóköstu eða Epiköstu) og kallar þannig hörmungar yfir fjölskyldu sína og borgina. Í harmleikjum Sófóklesar fjallar sagan um máttleysi mannsins gagnvart örlögum sínum. Kenning sálgreinandans Sigmunds Freud um Ödipusarduld er nefnd eftir Ödípúsi. Tökuþýðing. Tökuþýðing eða þýðingarlán er nýyrði sem er myndað með bókstaflegri þýðingu á erlendu orði. Reif. Reif-partý (oftast kallað reif) (enska: "rave") er tónlistarpartýi, þar sem raftónlist og flott ljósa- eða leysisýning spila stórt hlutverk. Í svona partýi dansar fólk og blandar saman geði við danstónlist leikna af plötusnúðum. Tegundirnar af raftónlistinni sem spiluð er eru gífurlega margar eins og "house", "trans", teknó, "jungle", "beakbeat", "liquid funk", trommur og bassi, döbbstepp, harðkjarna teknó, eurodance og flestar aðrar raftónlistarstefnur og með þessu eru ljósasýningar, ljóma stafir [ljómastafur | http://en.wikipedia.org/wiki/Glow_stick], skjávarpaðar myndir, líkamsmálning og reykvélar ómissandi. Rave á uppruna sinn að rekja á Stóra-Bretlandi og var það virkilega vinsælt í byrjun 10. áratugarins en þó hafa þau verið haldin í ólíkri mynd en við þekkjum í dag allt síðan á 6. áratugnum. Skýring. Reif er tegund af teitum þar sem spiluð er hröð tónlist og mikið er dansað. Reifmenningin náði hápunkti á 10. Áratugnum og þá aðallega í Bretlandi. Elektrónísk músik, flottar ljósasýningar og eiturlyf eru stór þáttur af reifmenningu og vert ber að taka fram að þetta er ekki tónlistarstefna. Reiftónlist getur verið af ýmsum toga en er þó hröð, takföst og tölvugerð. Uppruni. Á seinni hluta 6. áratugarins var orðtakið „Rave“ notað yfir villt bóhema partý bítnikka. Árið 1958 tók Buddy Holly upp slagarann „Rave On“, þar sem hann syngur um gleðina og geggjunina við góða tilfinningu og um löngunina við að láta hana aldrei hverfa. Orðið „Rave“ var seinna notað í mod menningunni og þar náði orðtakið yfir öll villt partý sem haldin voru. Fólk sem voru miklir djammarar var þess vegna lýst sem „reivurum“ (e.Ravers). Þekktir tónlistarmenn eins og Steve Marriot úr "The Small Faces" og Keith Moon úr "The Who" voru sjálflýstir „reivarar“. Áður en orðið var tengt við raftónlist á miðjum 9. áratugnum, var algengt að orðið „rave“ væri notað yfir „bílskúrsrokk“ og „sýrurokk“ á miðjum 7. áratugnum (þá sérstaklega yfir tónlist The Yardbirds sem gáfu út plötuna "Having a Rave Up" í Bandaríkjunum). Á meðal þess að vera notað yfir „bílskúrsrokk“ og almennt yfir villt partý var orðið einnig notað yfir ákveðinn kafla í lögum. Þessi kafli var hápunktur og kom hann yfirleitt þegar var farið að líða undir lok lagsins þegar farið var að spila tónlistina hraðar, þyngri og með meiri ákafa. Seinna meir var orðið hluti af nafni á raftónlistar viðburði sem var haldinn 28. janúar 1967 í "Roundhouse-húsinu" í London og hét „Million volt light and sound rave“. Tónleikarnir innihéldu meðal annars einu upptöku sem spiluð var fyrir almenning af tilraunakenndum hljóðbút sem Bítillinn Paul McCartney bjó til fyrir viðburðinn- þetta var hinn goðsagnakennda "Carnival of Light" upptaka. Eftir mod-tímabilið (1963-1966) datt orðið „rave“ úr tísku. Við tók annað tímabil og voru hippar í mikilli tísku. Önnur orð komu með hippunum og virtist orðið „reif“ hverfa nánast algjörlega fyrir utan nokkrar undantekningar. Þýðing og notkun orðsins breyttist síðan á seinni hluta 9. áratugarins og fóru ungmenni þá að nota orðið aftur. Hugsanlegt er að orðið hafi verið notað aftur vegna áhrifa frá Jamaíka. Á miðjum 9. áratugnum varð elektrónísk danstónlist og þá helst teknótónlist mjög vinsæl á skemmtistöðum, teitum og þá helst í teitum sem haldin voru í yfirgefnum húsum. Þessi teiti voru svipuð þeim sem haldin höfðu verið á 7. áratugnum að því leyti að þau voru haldin í yfirgefnum húsum. Þessi teiti voru fyrst vinsæl í Manchester en seinna meir urðu þau einnig vinsæl í London. Þetta átti síðan eftir að vera þekkt sem rave-senan, hún svipaði mjög til annara sena sem höfðu verið í gangi í Bretlandi á 7, 8 og 9. áratugunum. Þegar stefnur Margret Thatcher höfðu á 8. áratugnum leitt til þess að texstíl iðnaðurinn í norðvestur Bretlandi leið undir lok. Vegna þess voru margar verksmiðjur og vöruhús yfirgefin og höfðu ungmenni þá hist í yfirgefnum verksmiðjum og vöruhúsum til þess að skemmta sér og hlusta á tónlist. Þar var einnig dansað alla nóttina og var þetta hin mesta skemmtun. Þeir fyrstu til þessa að skipuleggja reif í Manchester voru meðlimir hljómsveitarinnar The Stone Roses en þeir nýttu vinsældir sínar til þess að dulbúa reif sem tónleika en í staðinn voru þeir búnir að ráða plötusnúða til þess að spila fyrir áhorfendur. Einnig auglýstu þeir oft rave sem upptökur fyrir tónlistarmyndböndin sín. Þá borguðu ungmennin sem sóttu þá viðburði 5 sterlingspund og fengu í staðinn 1 penný sem þau límdu á handarbakið sitt og virkaði það eins og miði þeirra á reifin. Þetta penný var einnig þeirra „greiðsla“ fyrir að leika aukahlutverk í gerð tónlistarmyndbandanna. Svona hélt þetta áfram í nokkra mánuði og náðu þeir að halda lögreglunni frá. Á seinni hluta 9. áratugarins varð house-tónlist virkilega vinsæl á skemmtistöðum og í þessum stóru partýum sem haldin voru, reif urðu með þessari nýju tónlistarstefnu vinsælli meðal almennings og þar af leiðandi varð allt stærra. Til dæmis voru 25.000 manns farnir að mæta á þessa stóru viðburði sem höfðu áður hýst í kringum fjögur þúsund manns. Þeir sem sóttu þessi rave voru oft meðlimir í stéttarfélögunum á Bretlandi og oftar en ekki voru þetta sömu hópar og sóttu fótboltaleiki. Það var mjög algengt að gestirnir á reifum voru miklir fótboltaaðdáendur. Reif fóru almennilega að slá í gegn þegar þau urði vinsæl í London og þá var elektróníska tónlistin komin til að vera. Í kringum 10. áratuginn voru rave farinn að svipa til þess sem við þekkjum í dag en það hefur verið mikil þróun í öllu því sem tengist þessum partýum, allt frá staðsetningu og til tónlistarinnar. Tónlistin. Öll tónlist sem er spiluð á reifum flokkast undir „rave tónlist“. Þessi tónlist er nánast einungis elektrónísk tónlist og eru flestir flokkar af elektrónískri tónlist spilaðir á rave-um. Þar ber helst að nefna house, trance, breakbeat, drum & bass, hardcore-techno og industrial techno. Tónlistarstefnurnar eru þó mun fleiri og undirflokkar þeirra gífurlega margir. Vegna allra þessara tónlistarstefna verður rave ekki flokkað sem tónlistarstefna heldur frekar sem menning. Menningin er rave og því fylgir ákveðin tónlist svipað og með Hip-Hop og Rapp. Hip-hop er oft túlkað sem menning og hluti af henni er til dæmis veggmálning, breikdans og rapptónlist. Staðsetning. Rave eru oftast haldin á stórum svæðum eins og til dæmis í vöruhúsum, á klúbbum, á strönd, í flugskýlum, á ökrum og á flestum stöðum þar sem hægt er að koma fyrir stórum græjum og mikið af fólki. Á gulldögum rave-a sóttu mörg þúsund manns stærstu viðburðina. Þá var staðsetningin leyndarmál og oft var ekki látið vita hvar rave áttu að vera fyrr en nokkrum klukktutímum áður en teitin byrjuðu. Þetta var gert til þess að halda lögreglunni í burtu. Oft voru tónleikahaldarar með auka staðsetningu tilbúna ef lögreglan skyldi mæta, en það var oftar en ekki rauninn. Eiturlyf. „Reifarar“, eða einstaklingar sem stunda reifpartý mikið, eiga það til að nota eiturlyf. Þessi eiturlyf eru notuð sem „orkugjafi“ og örva þau manneskjuna. Eftir að hafa innbyrt þessi eiturlyf getur einstaklingurinn dansað mun lengur. Menn hafa dansað í margar klukkustundir á ofskynjunarlyfjum og er þetta mjög vinsælt í svona teitum. Þessi eiturlyf hafa þó slæm áhrif á líkamann, eins og flest eiturlyf. Þau valda til dæmis ofskynjun og geta ollið miklum þurrki í líkamanum. Önnur eiturlyf sem notuð eru heita Ketamín, LSD, Rohypnol og GHB. En þessi eiturlyf hafa flest, ólíkt við MDMA, sljóvgandi áhrif og eru að mörgu leyti mjög ólík MDMA. Reif á Íslandi. Iceland-Sensation voru stórir reiftónleikar sem haldnir voru árið 2006. Fyrst átti að halda tónleikana í Kaplakrika í Hafnafirði og áttu þetta að vera mikilfenglegir tónleikar. Eitthvað hefur þó farið úrskeiðis í skipulagningu viðburðarins eða miðasala verið mjög dræm vegna þess að hann var að lokum haldin á Broadway, sem tekur mun minni mannfjölda heldur en Kaplakriki. Ísland er þó að mörgu leyti óheppileg staðsetning fyrir reif og er það helst köldu veðurfari að kenna. Sumrin eru heldur ekki hentugari, þó veðrið sé talsvert skárra. Dagurinn teygist þá langt fram á nóttina en mörgum finnst mikilvægt að halda rave í miklu myrkri svo ljósasýningar fái að njóta sín. 5. Mósebók. 5. mósebók (á grísku: Δευτερονόμιον, "Deuteronomion"; á hebresku: דְּבָרִים "Devarim" („orð“), á latínu "Deuteronomium") er fimmta af fimm mósebókum. Mósebækur eru fyrsti hluti gamla testamentisins og nefnast saman Torah á hebresku. Efni. Bókin fjallar um síðustu orð Móses, þar sem hann stendur með þjóð sinni á austurbakka árinnar Jórdan, en hinum megin árinnar er fyrirheitna landið. Drottinn segir við Móses að hann muni ekki stíga fæti á fyrirheitna landið, heldur muni deyja á austurbakkanum. Móses flytur þrjár ræður fyrir Ísraelsmenn um Mósesáttmálann. Önnur ræðan er lengst. Hún nær frá kafla 12 - 26. Ræðan er samantekt og endurtekning á lagabálknum sem fjallað hefur verið um í 2. - 4. mósebók. Þaðan er latneska heitið komið, sem merkir „önnur lög“ eða „endurtekning á lögunum“. Í 27. kafla er lýsing á trúarathöfnum sem eiga að fara fram eftir að Ísraelsmenn fara yfir ána Jórdan. 28. kafli fjallar um umbun fyrir að fylgja sáttmálanum og refsingu fyrir óhlýðni. Þriðja ræðan, í köflum 29 og 30, er hvatning Móses til Ísraelsmanna að fara eftir lögunum. Lokakaflar 5. Mósebókar fjalla eru annars eðlis. 32. kafli er ljóð Móse, efni sem virðist nokkuð fráskilið fyrri hluta bókarinnar. Í 33. kafla er annað ljóð þar sem Móses blessar Ísraelsmenn. Síðasti kaflinn, 34. kafli, fjallar um dauða Móses og jarðsetningu hans. Lyon-Saint Exupéry-flugvöllur. Lyon-Saint Exupéry-flugvöllur er stærsti flugvöllur Lyon í Frakklandi. Flugvöllurinn er skýrður í höfuðið á rithöfundinum og flugmanninum Antoine de Saint-Exupéry. Flugvöllurinn er 20 kílómetrum suðaustan við miðborg Lyon. Tvær flugbrautir eru á vellinum með stefnu í norður og suður. Hópbifreiðar tengja flugvellinn við miðborg Lyon og aðra nærliggjandi bæi, þar á meðal Chambéry og Grenoble. Lestarsamgöngur hófust frá vellinum í ágúst 2010, sem tengir völlinn við lestarstöðina Lyon Part-Dieu. Leiðin tekur um 30 mínótur. Paris-Charles de Gaulle-flugvöllur. Paris-Charles de Gaulle-flugvöllur, einnig þekktur sem Roissy-flugvöllur er einn af stærstu flugvöllum í heimi og þar með stærsti flugvöllur Frakklands. Hann er nefndur eftir Charles de Gaulle (1890-1970) sem var leiðtogi Free French Forces og stofnandi Fimmta Franska Lýðveldisins. Flugvöllurinn er staðsettur 25 km í norð-austur af miðbæ Parísar. Flugvöllurinn starfar sem aðalmiðstöð franska flugfélagsins Air France. Árið 2012 flugu 497.763 um völlinn með 61.556.202 farþega sem gerir hann að sjöunda fjölfarnasta flugvöll í heimi. Og annan fjölfarnasta flugvöll í Evrópu á eftir London Heathrow-flugvelli. Flugvöllurinn er líka mjög mikið í Vöruflutningum sem gerir hann að fimmta fjölfarnasta flutningaflugvöll í heimi. Franck Goldnadel er framkvæmdastjóri flugvallarins. Gina Ravera. Gina Ravera (fædd Gina D. Ravarra 20. maí 1966) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í Time of Your Life, ER og The Closer. Einkalíf. Ravera fæddist í San Francisco, Kaliforníu og er af afrískum-Amerískum og púertórískum uppruna. Hún er lærður klassískur dansari. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Ravera var árið 1990 í The Fresh Prince of Bel-Air. Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við "Reasonable Doubts", "Where I Live", Frasier, NYPD Blue, Charmed, Boston Legal og Lie to Me. Ravera lék Jocelyn House í dramþættinum Time of Your Life á móti Jennifer Love Hewitt og Jennifer Garner, frá 1999-2001. Var hún síðan með stórt gestahlutverk í ER sem Dr. Bettina DeJuses frá 2006-2008. Árið 2005 var henni boðið hlutverk í drama-lögregluþættinum The Closer sem rannsóknarfulltrúinn Irene Daniels, sem hún lék til ársins 2009. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Ravera var árið 1990 í "Lambada". Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Steal America, Soul Food, Kiss the Girls og The Great Debaters. Verðlaun og tilnefningar. Screen Actors Guild-verðlaun Tenglar. Ravera, Gina Mannúðarsálfræði. Maslow var fyrsti mannúðarsálfræðingurinn. Maslow taldi að ekki hægt væri að segja alla söguna með vísindum heldur sé mikilvægt að skilja fólk sem er að þroska sig til að nýta hæfileika sína til fulls. Vildi að þeir myndu skoða hvað hvetur fólk áfram og hvernig það hugsar. Maslow bjó til þarfapýramídann og hann tengist mannúðarsálfræði því að hann sýnir okkar þarfir, hvað við þurfum til að geta lifað af og liði vel. Alþingiskosningar 1942 (júlí). Alþingiskosningar 1942 (júlí) voru fyrri Alþingiskosningarnar sem haldnar voru árið 1942. Þær fóru fram 5. júli það ár. Hermann Jónasson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 16. maí í kjölfar samþykktar frumvarps stjórnarskrárnefndar á Alþingi 8. maí um að þingmönnum í Reykjavík yrði fjölgað og hlutbundnar kosningar yrðu í tvímenningskjördæmum, sem nefnt var Eiðrofsmálið. Ólafur Thors myndaði stjórn 16. maí skipaða ráðherrum Sjálfstæðisflokks sem starfaði sá um að framfylgja stjórnarskrárbreytingunni. Í þessum kosningum buðu Sosíalistar fram og fengu þeir fleiri atkvæði en Alþýðuflokksmenn. Synir Hórusar. Synir Hórusar eru fjórir guðir í fornegypskum trúarbrögðum sem voru persónugervingar fjögurra kanóposkrukka sem geymdu innyfli hins látna í múmíugerð. Þeir koma upphaflega fyrir í Pýramídaritunum sem vinir konungsins sem aðstoða hann við himnaför sína. Upphaflega var Ísis, upprunaleg eiginkona Hórusar, talin móðir þeirra en hver þeirra átti sína verndargyðju. Smeyginn. Smeyginn er dreki í bókinni Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien. Í bókinni er hann staðsettur í fjallinu eina og dvergarnir 13 vilja endurheimta heimilið sitt og gullið sem er í fjallinu. Dvergarnir fara ásamt Bilbo Bagga og vitkanum Gandalfi í þetta ævintýri. Ekki er vitað mikið um Smeyginn fyrir bókina. Hann réðst á Dal og braut svo hliðið af fjallinu þar sem dvergar voru búsettir. Þar tók hann yfir fjallið. Dvergakóngurinn "Þrór" var Konungur undir fjallinu, faðir "Þráinns" og afi "Þorinns", seginn í Fimmherjaorrustunni fyrir utan Fjallið eina og langafi "Fjalars" og "Kalars". Þeir þrír voru meðal þeirra þrettán dverga sem fóru að fjallinu til að endurheimta það. Þrór var veginn í Moríu þegar dvergar ætluðu að sölsa það undir sig eftir að drekinn tók fjallið. Hann var afhöfðaður af orkanum Azog. Tækniminjasafn Austurlands. Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Sýndir eru m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar. Vegna sérhæfingar okkar sem minjasafns er fjallar um nútímavæðingu þjóðarinnar er mikið um óvenjulegar vélar og búnað og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins. Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, til dæmis véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Safnið er einnig byggðasafn Seyðfirðinga. Haldin eru námskeið og sýningar auk þess sem við stundum rannsóknir og kennslu og tökum þátt í margvíslegu menningarstarfi og samstafsverkefnum. Sýningar eru lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið er jafnframt tilvalið útivistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru. Lítil verslun er á safninu þar sem hægt er að fá bækur, sælgæti og minjagripi. DRM. DRM er skammstöfun á "Digital Rights Management" er stafræn réttindavernd og aðgangsstýring á rafrænu efni gerð til að gæta hagsmuna höfundarrétthafa og söluaðila efnis og stýra hvernig efni er notað eftir að sala hefur átt sér stað. DRM er hvers konar tækni sem hindrar notanda í að nota stafrænt efni á hátt sem framleiðandi telur óæskilega eða hefur ekki gert ráð fyrir. Stórfyrirtæki eins og Amazon, AT&T, AOL, Apple Inc., Google, BBC, Microsoft, Electronic Arts og Sony nota DRM. Árið 1998 voru lög sem kallast Digital Millennium Copyright Act (DMCA) samþykkt í Bandaríkjum Norður-Ameríku en þau lög gerðu það saknæmt ef aðrir veittu aðgang að tækni sem hefði þann tilgang að brjóta afritunarvarnir. DRM er umdeild og telja sumir slíka tækni nauðsynlega til að gæta hagsmuna höfundarrétthafa og listamanna og tryggja tekjur af sölu stafrænna verka en aðrir mótmæla því og segja að það sé ósannað að DRM hjálpi höfundarrétthöfum en valdi hins vegar ómældum óþægindum hjá löglegum kaupendum efnis og DRM sé tæki stórfyrirtækja til að hindra samkeppni og nýsköpun og hætta sé á að afritunarvarið efni verði að eilífu óaðgengilegt ef þjónustuaðili hættir. DRM-læsing geti einnig hindrað notendur í að gefa fullkomlega löglega hluti eins og að taka afrit af geisladiskum, lána efni og fá efni að láni í bókasöfnum og fá aðgang að efni sem ekki er höfundarréttur á. Frjálsa hugbúnaðarstofnunin Free Software Foundation (FSF) hefur barist gegn slíkri aðgangsstýringu í baráttuherferðinni Defective by Design campaign og heldur því fram að það sé rangt að nota orð eins og réttindi um það sem er meira takmörkun á notkung og DRM standi fremur fyrir „digital restrictions management“ og höfundarrétthafar séu að takmarka notkun á efni á vegu sem falla ekki undir núgildandi höfundarréttarlög og ættu ekki að vera í framtíðarlagasetningu. Stofnanirnar The Electronic Frontier Foundation (EFF) og FSF telja að notkun á DRM kerfum sé liður í að hindra samkeppni. Framfaraatvinnuleysi. Framfaraatvinnuleysi, stundum kallað tæknilegt atvinnuleysi, er atvinnuleysi vegna tækniframfara, það er störf verða úrelt til dæmis loftskeytamaður, skrifvélavirki eða faglærð störf verða ófaglærð. Framfaraatvinnuleysi verður oft þegar sjálfvirkar vélar eða vélmenni taka yfir störf eða nýtni eykst með þeim afleiðingum að þörf fyrir starfsmenn minnkar, til dæmis í landbúnaði þegar traktorar, mjaltaþjónar og eftirlitstækni komu á markaðinn, í verksmiðum með tölvustýrðum vélum og í þjónustuiðnaði með hraðbönkum, netbönkum og snjallforritum. Petrópolis. thumb Petrópolis er borg í fylkinu Rio de Janeiro í Brasilíu. Petrópolis er um 68 km frá borginni Rio de Janeiro. Borgin er vinsæll sumardvalarstaður og var fyrr á tímum sumardvalarstaður Pedro 2. Brasilíukeisara og dregur af honum nafn sitt. Sumarhöll hans er núna safn. Robben-eyja. Robben-eyja er eyja í Table-flóa, 6,9 km vestur af Bloubergstrand, Höfðaborg í Suður-Afríku. Hún er 3,3 km löng frá norðri til suðurs, 1,9 km breið og um 5,07 km². Nelson Mandela sat í fangelsi á eyjunni í 18 af þeim 27 árum sem hann sat í fangelsi fyrir afnáms aðskilnaðarstefnunar ("apartheid"). Kgalema Motlanthe sem einnig var forseti Suður-Afríku sat inni í 10 ár sem pólitískur fangi á eyjunni og eins núverandi forseti, Jacob Zuma. Ingvarir. Ingvarir er bær í Svarfaðardal. Hann er á Vesturkjálka vestan Svarfaðardalsár um 4 km innan við Dalvík. Næsti bær er kirkjustaðurinn Tjörn. Líklega hefur verið búið á Ingvörum frá því snemma á öldum. Bæjarins er getið í Svarfdæla sögu. Í fornum bréfum er bærinn jafnan nefndur Ingvarastaðir. Upsir. Upsir er bær í Svarfaðardal og stendur í útjaðri Dalvíkur. Upsir eru landnámsjörð. Karl Steinröðarson reisti bú sitt þar var en hann nam Upsaströnd frá Upsum til Míganda. Svarfdæla saga greinir öðru vísi frá, þar er sagt að Karl rauði Þorsteinsson hafi búið á Upsum, einnig Karl hinn ungi sonur hans og síðan Þorgrímur sonur Ljótólfs goða á Hofi. Upsir er gamall kirkjustaður og líklega hefur kirkja verið reist þar fljótlega eftir kristnitöku. Fyrstu heimildir um hana eru í Prestssögu Guðmundar Arasonar, en hann var prestur á Upsum skamma hríð 1196. Upsakirkja var lögð af er Dalvíkurkirkja var reist og síðan var hún rifin að mestu. Gamla forkirkjan stendur þó enn í kirkjugarðinum miðjum og kallast Upsakapella. Bjarni Pálsson (1719-1779) fyrsti landlæknir Íslands, var fæddur að Upsum. Faðir hans var séra Páll Bjarnason prestur á Upsum. Hann var landsþekkt skáld á sinni tíð. Meirihlutastjórn. Meirihlutastjórn er ríkisstjórn í þingræðislandi sem hefur öruggan þingmeirihluta á bak við sig. Meirihlutastjórn myndast þar sem stjórnmálaflokkar sem hafa til samans meiri en helming þingmanna á þingi koma sér saman um að mynda stjórn eða að einn flokkur nær slíkum meirihluta. Malajaeyjar. Malajaeyjar eru um 20.000 eyja eyjaklasi á milli meginlandshluta Suðaustur-Asíu og Ástralíu á mörkum Indlandshafs og Kyrrahafs. Nafnið er dregið af malöjum sem töluðu malajamál og stofnuðu nokkur stór sjó- og verslunarveldi á eyjunum frá miðöldum til árnýaldar. Á 17. og 18. öld lögðu Evrópuveldin eyjarnar undir sig og nefndu þær Austur-Indíur. Austur-Indíur er þó líka notað í víðari merkingu yfir alla Suðaustur-Asíu. Jövubúar notuðu áður orðið Nusantara yfir eyjarnar en nú er orðið aðeins notað yfir þær eyjar sem tilheyra Indónesíu. Stærstu eyjarnar eru Nýja Gínea, Borneó, Súmatra, Súlavesí, Java og Luzon. Malakkasund. Malakkasund er mjótt og grunnt 805km langt sund milli Malakkaskaga og Súmötru í Suðaustur-Asíu. Það heitir eftir Soldánsdæminu Malakka sem réði yfir sundinu á 15. öld. Sundið er ein af mikilvægustu siglingaleiðum heims á leiðinni milli Indlandshafs og Kyrrahafs. Sundið er 1,5 sjómílur að breidd þar sem það er grennst og aðeins 25m á dýpt þar sem það er grynnst. Það er því of grunnt til að sum af stærstu flutningaskipum heims geti siglt um það. Rotuma. Rotuma er sjálfstjórnarhérað innan Fídjieyja. Eyjan og nærliggjandi smáeyjar eru eldfjallaeyjar 646km norðan við Fídjieyjaklasann. Stærsta eyjan, Rotuma, er 13km löng og 4km breið og skiptist í sjö svæði, hvert með sín þorp. Rúmlega 2000 manns bjuggu á eyjunni árið 2007. Guarana. Guarana (fræðiheiti: "Paullinia cupana") er klifurjurt sem er hlynur af sápuberjaætt (Sapindaceae) sem er upprunalega frá Amazonsvæðinu og er algeng í Brasilíu. Guarana-jurtin er með stór laufblöð og er þekktust fyrir ávexti sína sem eru á stærð við kaffibaunir. Guarana-baunir innihalda tvöfalt meira koffín en kaffibaunir. Guarana-ávextir eru brúnir eða rauðleitir og innihalda svört fræ með hvítu fræhulstri og líkjast augnsteinum. Guarana er notað í sæta drykki, gosdrykki og orkudrykki eða gleypt í hylkjum. Stærsti hluti af koffínneyslu í Suður-Ameríku kemur úr guarana. Brasilía er þriðji stærsti neytandi gosdrykkja í heiminum og þar er framleiddir margir drykkir úr guarana. Guarana hefur frá alda öðli verið notað af frumbyggjum í Amazon og Paraguay. Samkvæmt þjóðtrú á Guð að hafa drepið barn og í sárabætur að hafa tekið vinstra augað úr barninu og sáð því í skóginn og þannig varð til guarana villiafbrigði. Guðinn sáði hægra auga barnsins í þorpið og þannig varð til ræktaða afbrigðið af guarana. Fræin úr Guarana eru þurrkuð og möluð. Fræin eru notuð meðal annars í guarana-brauð. Joachim Henriksen Lafrentz. Joachim Henriksen Lafrenz (d. 17. janúar 1744) var danskur embættismaður sem var amtmaður á Íslandi frá 1733 til 1744 og dvaldi á Bessastöðum alla sína embættistíð, að frátöldum þremur vetrum sem hann var í Kaupmannahöfn í embættiserindum. Lafrenz var sonur Henrik Lafrenz í Næstved. Hann varð stúdent frá Herlufsholm 1693. Síðar gekk hann í utanríkisþjónustuna og varð árið 1724 sendiráðsritari við danska sendiráðið í París þar sem hann var til 1731. Hann þótti þó klaufskur og fljótfær og kom sér hvað eftir annað í vandræði. Þann 16. október 1733 var hann svo gerður að amtmanni á Íslandi og kom til landsins árið eftir. 1737 hlaut hann jústitsráðsnafnbót. Lafrenz og Ludvig Holberg voru kunningjar og talið er að Holberg sé að einhverju leyti að skjóta á Lafrenz þegar hann talar í einum pistla sinna um tvo víðförla menn sem gátu talað frönsku af þvílíkri list að engin leið var að þekkja þá frá innfæddum Parísarbúum. Lafrenz lenti brátt í deilum við Skúla Magnússon, sem gekk hart eftir loforði sem honum hafði verið gefið um að fá næsta sýslumannsembætti sem losnaði ef hann tæki fyrst að sér sýslumannsstörf í Skaftafellssýslu. Árið 1735 drukknaði Jens Spendrup, sýslumaður Skagfirðinga, og Skúli vildi fá embættið en amtmaður ætlaði öðrum manni það. Þeir sigldu báðir til Kaupmannahafnar haustið 1736 og reyndi Lafrenz að koma í veg fyrir að Skúla yrði veitt sýslan en vildi í staðinn styðja hann til lögmannsembættis, sem var tignara embætti en mun tekjuminna. En Skúli hélt fast við sitt og hafði betur, þótt amtmaður skrifaði stjórninni mjög harðort bréf. Magnús Ketilsson, frændi Skúla, sagði seinna að Lafrenz hefði „notað þrumustíl“ í bréfinu. Þegar frá leið var samkomulag þeirra Skúla og amtmanns þó allgott. Lafrenz amtmaður var heilsuveill síðustu árin. Hann dó á Bessastöðum í ársbyrjun 1744 og var grafinn þar. Hann hafði átt í deilum við Bjarna Halldórsson sýslumann á Þingeyrum, sem var þá staddur erlendis, en þegar hann kom heim reið hann að Bessastöðum og stefndi amtmanni dauðum í gröfinni. Lafrenz átti líka í deilum við Jón Árnason biskup. Trúðfiskur. Trúðfiskur (Fræðiheiti: "Amphiprion percula") er mjög vinsæll skrautfiskur. Trúðfiskurinn tilheyrir ásamt um 25 öðrum tegundum, ættkvíslinni Amphiprion eða trúðfiskar og finnast langflestir þeirra í hitabeltissjó. Hann lifir samlífi með sæfíflum. Heimkynni. Trúðfiskar búa aðalega í sjó sem er frekar heitur. Eins og sést á myndinni hér til vinstri þá lifir Trúðfiskurinn mest í Indlandshafi, við austurströnd Afríku, í kringum Ástralíu og austan við Asíu. Trúðfiskurinn og Sæfíflar. Trúðfiskurinn lifir í samlífi með eitruðum sæfíflum sem þó ekki skaða hann og er ekki að fullu vitað hví sæfíflarnir láta trúfiskana óáreitta. Ein kenningin er sú að þeir gefi frá sér efni sem sæfíflunum geðjist ekki að, önnur að um samlífi sé að ræða af praktískum ástæðum, það er að trúðfiskarnir laði að aðra fiska sem sæfíflarnir geti síðan drepið og étið. Enn önnur kenning er sú að bæði trúðfiskurinn og sæfífillinn þurfi á hvor öðrum að halda, trúðfiskurinn fær skjól frá ránfiskum og með því að vera alltaf að synda „í gegnum“ sæfífilinn, þá hreinsar fiskurinn sæfífilinn og þannig á hann auðveldara með það að fá súrefni. Útlit. Hinn venjulegi trúðfiskur er appelsínugulur með þrjár breiðar hvítar rendur. Hann er frekar lítill og verður mjög sjaldan 8 cm á lengd og örsjaldan verður hann stærri. Lifnaðarhættir trúðfiska. Trúðfiskurinn er ólíkur öðrum fiskum að því leiti að þeir lifa í eins og lítilli „fjölskyldu“, tveir kynþroska fiskar og tveir til þrír ókynþroska fiskar. Stærsti fiskurinn í „fjölskyldunni“ er kvenkyns og því í raun eins og „mamman“. Sá næst stærsti er karlkyns og er því eins og „pabbinn“ og þessir ókynþroska fiskar eru líkt og börnin og kynlausir í raun. En ef að „mamman“ deyr, þá breytist „pabbinn“ í „mömmu“ og stærsti ókynþroska fiskurinn verður að „pabba“. Því mætti segja að í teiknimyndinni Leitin að Nemo er pabbinn í raun ekki „pabbinn“ heldur „mamman“ og Nemo í raun ekki „barnið“ heldur „pabbinn“. Það verða oft mikil átök í „fjölskyldum“ út af þessu og það getur bitnað á ókynþroska fiskunum. Þetta hins vegar virðist allt breytast ef þeir eru í búrum því þar lifa þeir sáttir við hvern annan. Enda eru þeir eru mjög vinsælir í fiskabúr um allan heim. Æxlun. Trúðfiskurinn leggur eggin á flatt yfirborð nálægt sæfíflinum sem hún býr í þegar að það er fullt tungl. Hver fiskur leggur nokkur hundruð til þúsunda eggja í einu. Pabbinn passar þá eggin í sex til tíu daga eða þangað til eggin klegjast út. Þau opnast um tveimur klukkustundum eftir að það dimmir. Fæða. Trúðfiskar lifa aðalega á dýrasvifi í sjónum eða svifi sem að hefur laggst á sæfífilinn. Einnig lifa sumir trúðfiskar á næringarefnum sem þeir fá frá þörungum. Þeir trúðfiskar sem búa í fiskabúrum fá hins vegar sértilgerðan mat í flögum sem að eigendur þeirra gefa þeim. Nafngiftir. Margir kalla Trúðfiskinn, Nemó. Eftir að hann lék stórleik í teiknimyndinni Leitin að Nemo. Enda hefur myndinn gert hann þekktan á meðal fjölda fólks. Það er líklega ástæða þess að þessi fiskur er núna einn vinsælasti hitabeltisfiskurinn. Ef að þú spyrð barn hvernig trúðfiskur sé er ekki víst að það viti svarið. Ef þú hinsvegar spyrð hvernig Nemó líti út þá eru miklar líkur á því að barnið geti svarað þér nokkuð nákvæmlega. Einnig er hann stundum kallaður anemónufiskur en það er tilraun til þess að búa til fræðilegt heiti fyrir hann en það er nafn sem að mjög fáir nota. Tengt efni. Eftir þennan stórleik er mikil aukning í það að kafa á þessum stöðum og fá að synda með „Nemó“. Þess vegna hafa margir af þeim sem auglýsa köfun tekið myndir af Trúðfiski og sett í auglýsingar hjá sér. Ekki skemmir þá að ná mynd af trúðfiski og Paracanthurus hepatus sem að er hin aðalpersónan í samnefndri mynd. Flugher. Flugher er her sem fæst við flughernað, það er flugorrustur, sprengjuárásir og loftflutninga hergagna. Flugtæki sem flugherir nota eru til dæmis orrustuflugvélar, sprengjuflugvélar, herþyrlur, herflutningavélar og njósnavélar. Björn Jón Bragason. Björn Jón Bragason (fæddur 1. febrúar árið 1979 í Reykjavík) er íslenskur sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Foreldrar hans eru Bragi Björnsson bifreiðastjóri (fæddur í Reykjavík 1952) og Katrín Magnúsdóttir bókhaldari (fædd í Reykjavík 1954). Menntun. Björn Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2000. Hann lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2003 með íslensku sem aukagrein og árið 2006 lauk hann meistaraprófi í sagnfræði frá sama skóla. Lokaverkefni hans fjallaði um gjaldþrot Hafskips hf., en sú ritgerð var unnin undir leiðsögn dr. Þórs Whitehead prófessors og Kristjáns Jóhannssonar, lektors við viðskipta- og hagfræðideild. Björn Jón lauk BA prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2012 og leggur nú stund á meistaranám í lögfræði við sama skóla. Störf. Björn Jón hefur verið verslunarmaður frá árinu 2000 og framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg frá árinu 2012. Þá hefur hann unnið að margháttuðum sagnfræðirannsóknum frá 2006. Árið 2008 kom út bók hans Hafskip í skotlínu, sem var afrakstur tveggja ára rannsóknarvinnu um gjaldþrotamál Hafskips hf. og sakamálarannsókn í kjölfar þess. Meðal fræðigreina Björns Jóns eru „Áhrif veðurfars á sjávarútveg og landbúnað á fyrri öldum“, sem birtist í "Sögnum. Tímariti um söguleg efni" árið 2005; „Pólitískar afleiðingar Hafskipsmálsins“ sem birtist í 4. hefti "Þjóðmála" 2006; „Björgunarmönnum refsað. Rannsóknarnefnd Alþingis í Hafskipsmálinu“, sem birtist í "Morgunblaðinu" 11. október 2009 og byggði á rannsókn Björns Jóns; „Aðdragandinn að falli Straums Burðaráss“, sem birtist í 2. hefti "Þjóðmála" 2010; „Aðdragandi falls Landsbanka Íslands hf.“ Greinargerð frá ágústmánuði 2010, birt á netinu; „Sagan af einkavæðingu Búnaðarbankans“, sem birtist í 2. hefti tímaritsins "Sögu" árið 2011; „Skáldkonan frá Sveinatungu“ sem birtist í "Borgfirðingabók" 2012. Þá grein vann Björn Jón í samvinnu við Ingibjörgu Bergsveinsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra. Einnig hafa birst fjölmargar blaða- og netgreinar eftir Björn Jón um margvísleg málefni, meðal annars um sögu verslunar í miðbæ Reykjavíkur. Þá hefur Björn Jón einnig unnið að heimildarmyndagerð um ýmis sagnfræðileg viðfangsefni. Stjórnmálaþátttaka. Björn Jón hefur verið virkur í starfi Heimdallar og Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þá hefur hann frá árinu 2012 setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Langholts og frá sama ári í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur starfað með Verði – fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og stýrt stjórnmálaskóla Varðar, auk þess að stýra námskeiðum á vegum Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur Björn Jón tekið þátt í starfi ungliða í hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Björn Jón var formaður Frjálshyggjufélagsins árin 2009–2012. Hann sat í stjórn félagsins áður frá árinu 2007. Ýmis félagastörf. Björn Jón starfaði á vettvangi skátahreyfingarinnar um langt árabil og sömuleiðis með Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Hann var um hríð starfsmaður Alþjóðabandalags drengjaskáta, WOSM, í Kandersteg í svissnesku Ölpunum og þá gegndi hann störfum á vegum Boy Scouts of America í Philmont, New Mexico. Björn Jón lauk æðstu þjálfun skáta og Íslandi og æðstu prófmerkjum. Fyrir störf sín hefur hann hlotið gullmerki Bandalags íslenskra skáta og ýmis fleiri heiðursmerki. Björn Jón hefur um iðkað frjálsar íþróttir með Íþróttafélagi Reykjavíkur um árabil. Hans meginkeppnisgrein er 400 m hlaup. Björn Jón sat í stjórn Félags sagnfræðinema árin 2002 – 2003 og 2005 – 2006. David Moyes. David William Moyes (fæddur 1963) er nýr knattspyrnustjóri Manchester United og tekur við starfi Sir Alex Ferguson. Eftir að hafa gegnt sambærilegum störfum hjá Preston North End F.C. og Everton. Yngveldur fagurkinn. Yngveldur fagurkinn Ásgeirsdóttir er helsta kvenhetja Svarfdæla sögu. Hún var dóttir Ásgeirs rauðfelds bónda í Brekku í Svarfaðardal og Þórhildar konu hans. Hún var systir Miðfjarðar-Skeggja. Bræður Yngveldar voru Þorleifur jarlsskáld og Ólafur völubrjótur. Yngveldur var kvenna fegurst. Hún var ástkona Ljótólfs goða en var síðar neydd til að giftist berserknum og skáldinu Klaufa Hafþórssyni. Bræður hennar vógu hann, eftir það giftist hún Skíða ráðsmanni Ljótólfs og átti með honum þrjá syni. Þau bjuggu í Skíðadal. Örlög Yngveldar voru dapurleg. Hún var ofsótt af ribböldum, synir hennar voru vegnir og sjálf var hún seld í þrældóm en komst þó aftur heim í Svarfaðardal buguð af harðræði og andaðist þar. Yngveldur hefur verið mönnum hugstæð. Jóhann Sigurðsson ritaði um hana tveggja binda skáldsögu og hún kemur fyrir í sögu Þórarins Eldjárns "Hér liggur skáld". Söngurinn "Mál er í meyjar hvílu", sem Karlakór Dalvíkur hefur flutt, er um Yngveldi. Phillip P. Keene. Phillip P. Keene (fæddur 5. september) er bandarískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í The Closer og Major Crimes. Einkalíf. Keene lærði sögu og listasögu við Kaliforníuháskólann í Los Angeles og talar spænsku og þýsku. Keene tók leiklistartíma hjá Howard Fine, Heidi Davis, Margie Haber og Tony Sepulveda. Keene er samkynhneigður og er í sambandi með James Duff höfundinum að The Closer. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Keenes var árið 2004 í sjónvarpsþættinum "The D.A.". Keene hefur síðan 2005 leikið eftirlitsmyndavélamanninn Buzz Watson í The Closer til ársins 2012 og síðan í Major Crimes frá 2012. Kvikmyndir. Keene hefur til þessa leikið í tveimur kvikmyndum The Truth is Underrated og I am Death. Verðlaun og tilnefningar. Screen Actors Guild-verðlaun Tenglar. Keene,Phillip P. Carl Milles. Carl Milles (1875 – 1955) var sænskur myndhöggvari. Apabrauðstré. Apabrauðstré (fræðiheiti: "Adansonia digitata"), almennt kallað Baobabtré, er gildvaxið hitabeltistré sem vex í Afríku. Ávöxtur þess nefnist apabrauð. Stafsetningarvilla. Stafsetningarvilla á sér stað þegar orð er ritað á annan hátt en er almennt viðurkennt af meirihluta mælenda tungumálsins. Eldaskildagi. Eldaskildagi er 10. maí ár hvert. Hann var sá dagur á Íslandi þar sem landeigendum og prestum var skilað fé sem leiguliðar eða sóknarbörn höfðu haft í eldi fyrir þá um veturinn. Eins voru aðrar greiðslur oft miðaðar við þennan dag. Elstu heimildir um dagin og svokölluð "prestlömb" eru frá öndverðri 18. öld en sennilegt er að dagurinn sé eldri. Rafmagnsbíll. Rafmagnsbíll eða rafbíll er bíll sem er knúinn áfram af rafmagnsmótor og notar raforku sem er geymd í rafhlöðum eða öðrum geymslumiðli. Rafmagnsmótorar gefa rafmagnsbílum snúningsvægi strax við inngjöf, sem býr til sterka og stöðuga hröðun. Rafmagnsbílar voru vinsælir þegar þeir komu fyrst fram á seinni hluta 19. aldarinnar, þangað til þróun sprengihreyfilsins og fjöldaframleiðsla bensínbíla leiddi til minnkandi notkunar rafmagnsbíla. Orkuskortur áttunda og níunda áratugs tuttugustu aldarinnar leiddi til skammtíma áhuga á rafmagnsbílum. Síðan um miðjan fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar hefur áhuginn vaxið vegna þróunar í rafhlöðum og rafmagnskerfum auk síhækkandi olíuverðs og þörfinni á að lækka magn gróðurhúsalofttegunda. Markaðshlutdeild rafmagnsbíla skiptist þannig eftir löndum að Japan framleiðir 28%, Bandaríkin 26%, Frakkland 11% og Noregur 7%. Mary McDonnell. Mary Eileen McDonnell, þekktust sem Mary McDonnell, (fædd 28. apríl 1952) er bandarísk leikkona sem er þekktust fyrir hlutverk sín í The Closer, Major Crimes, Dances with Wolves, Independence Day og Donnie Darko. Einkalíf. McDonnell fæddist í Wilkes-Barre, Pennsylvaníu en ólst upp í Ithaca, New York. Stundaði hún nám við Ríkisháskólann í New York við Fredonia og lærði leiklist við dramaskóla. Gerðist meðlimur "Long Wharf leikhúsins" og var hluti af því í um tuttugu ár. McDonnell hefur verið gift leikaranum Randle Mell síðan 1984 og saman eiga þau tvö börn. Leikhús. Fyrsta leikhúshlutverk McDonnell var árið 1978 í "Buried Child". Hefur hún síðan þá komið fram í leikritum á borð við "Still Life", "Black Angel", "All Night Long", "The Vagina Monologues", "Execution of Justice" og "Summer and Smoke". Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk McDonnell var árið 1980 í sjónvarpsþættinum "As the World Turns". Hefur hún síðan þá komið fram sem gestaleikari í þáttum á borð við ER, High Society og Grey's Anatomy. Frá 2004-2009 lék hún Forsetann Laura Roslin í Battlestar Galatica. McDonnell hefur leikið í sjónvarpsmyndum á borð við "The American Clock", "Evidence of Blood", "Replacing Dad", "Chestnut Hill" og "Hostile Makeover". McDonnell hefur síðan 2009 leikið Kapteinn Sharon Raydor í The Closer til ársins 2012 og síðan aðalhlutverkið í Major Crimes frá 2012. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk McDonnell var árið 1984 í Garbo Talks. Árið 1990 lék hún í Dances with Wolves á móti Kevin Costner og fyrir hlutverk sitt var hún tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Hefur hún síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Blue Chips, Independence Day, Mumford, Nola og Margin Call. Verðlaun og tilnefningar. Academy of Science Fiction, Fantasy & Horror Films-verðlaun Golden Globe-verðlaun Tenglar. McDonnell, Mary Ingólfur Arnarson (togari). Ingólfur Arnarson var nýsköpunartogari smíðaður í Bretlandi og keyptur af nýsköpunarráði. Hann var nefndur í höfuðið á Ingólfi Arnarsyni sem talið er að hafi verið fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann var seldur sem brotajárn til Spánar árið 1974. Mikil athöfn var haldin í Reykjavík þegar Ingólfur Arnarson kom í fyrsta sinn að bryggju, 17. febrúar 1947. Við það tækifæri tóku Jóhann Þ. Jósefsson, sjávarútvegsmálaráðherra, Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri, Gísli Jónsson alþingismaður og Guðmundur Ásbjörnsson forseti bæjarstjórnar til máls. Osric Chau. Osric Chau (fæddur 20. júlí 1986 er kanadískur leikari sem er þekktastur fyrir hlutverk sín í Supernatural og 2012. Einkalíf. Chau fæddist í Vancouver, Kanada. Byrjaði átta ára gamall að taka leiklistartíma og hefur stundað sjálfsvarnaríþróttir síðan hann var þrettán ára. Chau var meðlimur kanadíska Wu Shu landsliðsins. Sjónvarp. Fyrsta sjónvarpshlutverk Chau var árið 2002 í sjónvarpsþættinum "Cold Squads". Hefur hann síðan þá komið fram sem gestaleikari í sjónvarpsþáttum- og myndum á borð við The Troop, Kung Fu Killer, Mister French Taste og Dragon Boys. Chau hefur síðan 2012 verið með stórt gestahlutverk sem Kevin Tran í Supernatural. Kvikmyndir. Fyrsta kvikmyndahlutverk Chau var árið 2009 í Rasa. Hefur hann síðan þá komið fram í kvikmyndum á borð við Gardenesque, I Know a Woman's Heart, Must Come Down og The Man with the Iron Fists. Tenglar. Chau, Osric Auðnir í Svarfaðardal. Auðnir var bær í Svarfaðardal milli bæjanna Hóls og Klaufabrekkna. Upp af bænum er hár fjallshnjúkur sem nefnist Auðnasýling. Bæjarins er fyrst getið í Auðunnarmáldaga frá 1318. Þá áttu Urðakirkja mest í jörðinni. Gottskálk biskup grimmi náði henni svo undir Hólastól með brögðum. Biskupsstóllinn átti síðan jörðina til 1802 en þá keypti Jón Ólafsson frá Hæringsstöðum Auðnir. Seinna var jörðin gefin til styrktar ekkjum og munaðarlausum börnum í Svarfaðardalshreppi og var kristfjárjörð allt til 1949 þegar Jón Ágústsson, síðasti bóndi á Auðnum, keypti hana. Bærinn eyddist í snjóflóði 3. apríl 1953, það var á föstudaginn langa. Síðan hefur ekki verið búið á Auðnum. Snjóflóðið. Snjóflóðið kom hátt úr hlíðum Auðnasýlingar upp af bænum. Fannfergi var mikið og stórhríð um nóttina. Á Auðnum bjuggu eldri hjón, Ágúst Jónsson og Snjólaug Flóventsdóttir og sonur þeirra Jón ásamt unnustu sinni Rannveigu Valdemarsdóttur frá Teigi í Vopnafirði. Flóðið gereyðilagði íbúðarhúsið og útihús öll. Fannfergi og ófærð gerðu björgunaraðgerðir afar erfiðar og símalínur höfðu slitnað í óveðrinu. Björgunarmenn grófu þó fólk og fénað úr fönninni þá um kvöldið og nóttina. Jón og Snjólaug móðir hans náðust lifandi en Ágúst og Rannveig létust í flóðinu. Mest af búfénaðinum fórst. Stór minningarsteinn með áletrun stendur nú á bæjarstæðinu gamla. Vótjak. Vótjak er fennískt mál á finnó-úgrísku grein úrölsku málaættarinnar. Það er talað af um 600 000 aðallega í Údmúrtíu í rússneska ríkjasambandinu þar sem það hefur opinbera stöðu. Ritað með kirilísku letri. 10 - 30 % orðaforðans eru tökuorð úr tatarísku og rússnesku. Letidýr. Letidýr eru aðeins að finna í Suður- og Mið-Ameríku. Letidýr eru spendýr og tilheyra þau tveimur ættum spendýra. Skiptast dýrin í Dradypodidae ef þau eru þrítæð og Megalonychidae ef þau eru tvítæð. Áður voru letidýr aðeins sett í fyrrnefndu ættina en nú eru dýrin skipt í sitthvoru ættina útfrá táafjölda. Stærð. Letidýr sem nú lifa eru frekar smávaxin en tvítæðu letidýrin eru stærri og geta fullorðin dýr orðið allt að 8 kg á þyngd. Þrítæðu letidýrin eru oft um 4-5 kg á þyngd. Ein útdauð tegund af letidýri, sem talið er að hafi dáið út þegar seinasta ísaldarskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum, var risavaxin en hún nefnist Megatherium americanum og var hún á stærð við fíl. Fjallaljón. Fjallaljón (fræðiheiti: "Puma concolor") er kattardýr af undirættinni "Felinae" sem eru smákettir og er eina tegundin innan puma-ættkvískarinnar. Þó að ljónið teljist sem smáköttur er það frekar stórt. Fjallaljón lifa í Norður- og Suður-Ameríku. Fjallaljónið er það spendýr sem hefur mesta útbreyðslu á meginlandi Ameríku, eða frá Eldlandi sem er syðst í Suður-Ameríku, allt að norður til suðurhluta Alaska í Norður-Ameríku. Fjallaljón eru búin að aðlagast mjög ólíkum búsvæðum og má þar nefna hálfeyðimerkur, barrskógar, gresjur, kjarrlendi, staktráasléttum, regnskógum og fjalllendi. Stærð. Karldýrin eru að meðaltali 36 til 120 kílógrömm að þyngd en kvendýrin eru að meðaltali 29 til 64 kílógrömm. Litur. Litur fjallaljónsins er breytilegur, frá gulbrúnum yfir í grábrúnan. Ekki er vitað alveg með vissu heildarstofnstærð fjallaljóna vegna þess að nákvæmar stofnstærðmælingar liggja ekki fyrir frá stórum svæðum í suðurhluta útbreiðslusvæðis þeirra. Eins og oft vill verða hefur sambúð fjallaljóna og manna verið dýrunum í óhag. Í skrifum frá árinu 1959 var sagt að fjallaljónin eða panþerar eins og þau voru kölluð væru til mikilla vandræða fyrir búfenað og upp úr því voru skipulagðar víðamiklar útrýmingarherferðir gegn þeim og öðrum stórum rándýrum. Þeim var útrýmt af stórum svæðum og fækkað verulega annars staðar. Eins og lang flestar aðrar kattategundir mynda fress fjallaljóna óðul sem innihalda óðul nokkurra kvendýra og fara dýrin reglulega um óðulin og pissa upp við tré og eru þau þá að merkja óðarlsmörkin Æxlun og kettlingar. Fjallaljónin eru að mestu einfarar, nema fullorðin dýr geta umborið hvort annað í fjóra til sex daga á æxlunartíma, einnig virðast bræður halda saman í nokkra mánuði eftir að þeir yfirgefa móðurina. Pörunartími fjallaljóna fer eftir því á hvaða svæði þau eru, á nyrstu svæðunum er æxlunartíminn bundin við desember til mars, en á regnskógarsvæðunum er ekki neinn sérstakur æxlunartími. Rannsóknir sýna það að læðurnar gjóta að meðaltali á tveggja ára fresti og er gotstærðin allt frá einum upp í sex kettlinga. Meðgöngutíminn er á bilinu 82-96 dagar og eru kettlingarnir á spena í allt að 40-45 daga og fæðast þeir blindir en opna augum 10-14 daga gamlir. Sex vikna bragða þeir fyrst á kjöti og þeir yfirgefa móður sína yfirleitt um eins árs aldur en kvendýrin halda sig lengur hjá móðurinni. Rannsóknir hafa sýnt að fjallaljón verða yfirleitt ekki eldri en tólf ára. Fæði. Fjallaljónin eru kjötætur eins og önnur kattardýr, og er allt of löng upptalning að nefna öll þau dýr sem fjallaljón veiða sér til matar en spendýr eru algengust á matseðli þeirra. Einstöku sinnum éta þeir fugla og jafnvel snigla þegar hart er í ári. Kengúra. Kengúrur eru pokadýr sem tilheyra ættinni "Macropodidae" en til hennar teljast allt að 47 tegundir. Kengúrur finnast ekki aðeins í Ástralíu heldur einnig á Tasmaníu, Papúa-Nýju Gíneu, Bismarck-eyjar. Á hverju ári eignast kengúrur unga, meðgangan er mjög stutt, hún varir einungis í 30 daga. Unginn er um 2 cm við fæðingu og vegur um eitt gramm. Unginn heldur sig í poka móðir sinnar í um sjö til tíu mánuði. Strax eftir að unginn hefur yfirgefið pokann er móðirin reiðubúin til mökurnar á nýjan leik. Fæða. Kengúrur borða mikið af gróðri, þær tyggja matinn sinn vel og lengi áður en þær kyngja. Fæða þeirra fer eftir tegundum, kengúrurnar eru þó allar grasætur. Framtennur þeirra eru mjög beittar sem auðveldar þeim mjög við að rífa gras upp frá rótum. Heimildir. Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um kengúrur?“. Vísindavefurinn 10.3.2003. http://visindavefur.is/?id=3216. (Skoðað 15.5.2013). Gári. Gári, samkvæmispáfi eða budgerigar (Fræðiheiti:"Melopsittus Undulatus"). Gárar eru upprunalega frá Ástralíu og halda þeir sér í hópum þar og geta komist af í fleiri daga án vatns. Þeir eru yfirleitt grænn á litinn þegar hann er villtur en getur verið blár, hvítur, grár, bleikur og gulur þegar að hann er ræktaður. Vistfræði. Þeir lifa saman í hópum á opnum svæðum, í skóglendi og á graslendi í Ástralíu. Þeir búa ekki á einum stað í einu heldur binda þeir sig við framboð matar og vatns. Þeir lifa á fræjum, grösum og hveiti. Stærð og lífslengd. Gári er aðeins 17 cm til 20 cm að lengd, þó að langt stélið sé mælt með og vegur um það bil 35 grömm. Meðalaldur gárans er fimm til sjö ár en getur orðið 18 - 20 ára. Þroskastig. Gárar búa sér til hreiður innan í trjám eða tréstaurum. Gárar verpa fjórum til átta eggjum og það tekur um tuttugu daga fyrir þau að klekjast út. Ungarnir fæðast blindir en þegar þeir eru 10 daga gamlir fá þeir sjón og þeim vex fjaðrir. Þegar þeir eru orðnir fimm vikna gamlir eru þeir orðnir nógu gamlir til þess að bjarga sér sjálfir og geta flogið. Það er mjög auðvelt að segja til um kyn Gára, annað hvort er liturinn á gogginum þeirra blár eða ljósgulur. Ef hann er blár þá er það karlfugl en ljósgulur er kvenfugl. Gárar sem gæludýr. Ungir gárar sem eru handmataðir laga sig fljótt að nýjum aðstæðum og umönnnun. Mjög gott er að venja þá á nýjum aðstæðum sem þeir munu lenda í seinna á lífsleiðinni til dæmis að fara í bíltúr, heimsókn til dýralæknis, margir gestir í heimsókn í einu og önnur gæludýr á heimilinu. Órangútan. Órangútan tilheyra mannættinni, ásamt górillum, mönnum og simpönsum. Orðið órangútan þýðir "persóna skógarins". Þessi apategund er aðeins til í regnskógum Súmötru og Borneó í Asíu. Órangútan er mjög gáfaður api og náskyldur mönnum. Órangútönum er skipt í tvær undirtegundir en það var gert árið 1996: Borneó-órangútan ("P. pygmaeus") og Súmötru-órangútan ("P. abelii"). Vistfræði. Órangútan eyðir mestum tíma lífs síns í trjám. Þeir eru rauð-brúnhærðir og það er þó nokkur munur hjá stærð og hreyfingum karlkyns og kvenkyns öpunum. Karlapinn hefur sérstaka kinn leppi sem stækka þegar apinn eldist. Karlapinn getur öskrað mjög hátt og heillar kvenkyns apana og hræðir andstæðinga með öskrinu. Ungar órangútans hafa ekki þessi einkenni og líkjast fullorðnum kvenöpum þar til þeir eldast. Órangútan eyðir mesta tíma sínum einn en móðirin og unginn ferðast saman fyrstu tvö árin eftir fæðingu ungans sem er óvenju langur tími miðað við aðra apa. Fæða. Næstum 90% af fæðu órangútansins eru ávextir. Þeir éta meira en 400 tegundir af plöntum. Uppáhaldsávöxtur órangútansins er durian. Ávöxturinn hefur harða skel sem er hefur marga beitta odda á sér og lyktar illa. Órangútaninn notar öflugann kjálka sinn til að brjóta skel ávaxtarins og einnig á aðra ávexti og hnetur. Aðal orkugjafinn sem þeir fá úr fæðu sinni eru kolvetni en þeir fá líka prótín og fitu úr plöntum og hnetum. Órangútaninn fær vatn aðallega úr ávöxtum en fá líka vatn úr ám og vötnum. Hreiður. Órangútaninn hreiðrar um sig í trjánum og notar hreiðri bæði á daginn og á nótunni. Hreiðrin eru mjög vel byggð. Apaungarnir læra af móður sinni að búa til hreiðrið við ungan aldur. Greind. Órangútan er eitt greindasta spendýrið á jörðinni. Þeir nota hluti náttúrunnar sem verkfæri. Til dæmis nota þeir lauf sem regnhlífar þegar það rignir. Þeir nota líka lauf sem bolla til að drekka úr ám og vötnum. Óvinir. Það dýr sem ógnar órangútönum mest er maðurinn. Þeir taka af þeim búsvæði. Það eykur vandann að mennirnir ræna líka ungunum og selja þá sem gæludýr. Þess vegna fer þeim mjög hratt fækkandi í heiminum og eru ekki margir órangútanar eftir í náttúrunni. Lemúrar. Lemúrar (fræðiheiti: "Lemuroidea") eru ein af fimm tegundum prímata frá Madagaskar af undirættbálki hálfapa. Þessi dýr voru einu sinni talin afkomendur apa en þetta er ekki lengur talið rétt. Lemúrum er stundum líkt við kött vegna þess hann er á stærð við kött og sum hljóð hans minna á mjálm en lengra nær þessi samlíking ekki. Það eru yfir 20 ólíkar tegundir lemúra til. Einkenni. Lemúrar eru hópdýr þar sem allt að þrjátíu dýr lifa saman. Þrátt fyrir þessa hópamyndun virðist ekki bera á samfélagslegt skipulag. Lyktin er mikilvægur þáttur í lífi þeirra Þegar flokkurinn á leið um skóg merkja þau tré og aðrar jurtir með því að nudda kyrtlum við börkinn. Lyktin sem kirtlarnir gefa frá sér geta einnig verið notaðir sem árásarvopn. Kvendýrið fæðir að meðaltali einn til tvo unga eftir að hafa gengið með þá í 120 til 140 daga. Lemúrar lifa að mestu leiti á jurtafæði. Þeir halda sig mest í trjám og griphæfni er mikil. Sumir eru litlu stærri en mýs en aðrir eins og sífakar eru á stærð við meðalapa. Meðallengd lemúra er 32 - 56 sentimetrar án skotts og þyngd þeirra allt frá 0,7 – 5 kg. Skott lemúra er langt og feldurinn mismunandi eftir tegund. Afrískur smábroddgöltur. Afrískur smábroddgöltur (Atelerix albiventris) er broddgaltategund sem er að finna í miðri og austanverðri Afríku. Hann er minni en evrópski broddgölturinn og er því kallaður afrískur smábroddgöltur. Þessi tegund broddgalta dreifist um grassléttur og annað graslendi en forðast skóglendi. Vegna dreifingar þvert yfir Afríku og stöðugs fjölda villtra dýra er tegundin ekki talin í útrýmingarhættu. Engar undirtegundir af afrískum smábroddgelti hafa fundist eða eru almennt samþykktar. Ungmennafélagið Einherji. Ungmennafélagið Einherji er íslenskt íþróttafélag staðsett á Vopnafirði. Félagið er stofnað árið 1925. Kristín Þorvaldsdóttir. Kristín Þorvaldsdóttir (14. janúar 1870 – 20. júní 1944), stundum nefnd Jónsson, var málari og ein af fyrstu Íslendingunum sem námu málaralist, hún lærði í Kaupmannahöfn og fór til frekara framhaldsnáms til Þýskalands. Kristín ferðaðist vítt og breytt um Evrópu á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og bjó lengi í Kaupmannahöfn, þá stofnaði hún listmunaverslun við Kirkjustræti í Reykjavík. Kristín ólst upp á Ísafirði, dóttir hjónanna Þórunnar Jónsdóttur og Þorvaldar Jónssonar læknis þar í bæ en Þorvaldur var sonur Jóns Guðmundssonar alþingismanns og ritstjóra Þjóðólfs og Hólmfríðar Þorvaldsdóttur. Um Kristínu má lesa í bók Hrafnhildar Schram listfræðings, "Huldukonur". Verk Kristínar hafa verið sýnd á samsýningum. Framfarahyggja. Framfarahyggja er sú hugmynd eða söguspeki að jafnt og þétt batni ástand mannkyns eftir því sem tíminn líður. Í þessari hugmynd felst að jafnvel þó svo að ákveðin lægð í þróun eða framförum geti átt sér stað þá sé hún ávallt tímabundin og að á heildina litið vænkist hagur mannsins smám saman. Þessi hugmynd er tengd vestrænni veraldlegri heimssýn sterkum böndum. Hummer. Hummer er bíll sem kom fyrst á markað 1992 af AM General sem M998 Humvee. General Motors keypti bílategundina og markaðsetti þrjá bíla: Hummer H1, H2 og H3. Í kjölfar fjármálakreppunar 2008 var fyrirhugað að selja Hummer, en þar sem engir kaupendur fundust var fyrirtækið tekið af markaði. Síðasti Hummerinn var seldur 24. maí 2010. 1031-1040. 1031-1040 var 4. áratugur 11. aldar. 1021-1030. 1021-1030 var 3. áratugur 11. aldar. Snjóhengjan. Snjóhengjan er óformlegt heiti á krónueignum erlendra aðila sem fastar eru á Íslandi vegna gjaldeyrishafta sem hafa verið í gildi frá bankahruninu 2008. Þessar eignir eru taldar nema á bilinu 800 til 1000 milljörðum króna. Eigendur þessara fjármuna eru flestir taldir vera erlendir vogunarsjóðir og bankar sem vilji skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri. Óttast er að ef gjaldeyrishöftum yrði aflétt í skyndi þá myndi það þýða snöggt útstreymi gjaldeyris frá Íslandi og verulega gengisrýrnun krónunnar. Önnur lausn sem lögð hefur verið til er að eigendur snjóhengjunnar taki á sig verulega niðurfærslu á eignunum gegn því að fá leyfi til að taka afganginn út í erlendum gjaldeyri. 1011-1020. 1011-1020 var 2. áratugur 11. aldar. Jagúar. Jagúar (fræðiheiti: "Panthera onca") er ein af fjórum tegundin innan ættkvíslar stórkatta ("panthera") sem lifa við hitabeltið í Ameríku og er eini stórkötturinn sem finnst þar. Það er þriðja stærsta kattardýrið í heiminum á eftir tígrisdýrinu og ljóninu. Jagúar líkist blettatígri mest utan fyrir stærð og byggð en hagar sér meira eins og tígrisdýr. Þau vilja helst lifa í þykkum regnskógum og eins og tígrisdýrið hefur þessi kattartegund gaman af vatni. Þau eru einstæð veiðidýr efst á matarkeðjunni og hefur mikilvægan hlut í að jafna út vistkerfi dýranna sem það veiðir. Það hefur óvenjulega sterkt bit sem það notar til að bíta á milli eyrnanna í heilann til að drepa dýr í einni árás. Útrýmingarhættan. Dýrunum fækkar með tímanum vegna breytinga umhverfis þess og atvika með bændur og veiðimenn, þrátt fyrir veiðibann. Það er verið að byggja fleiri og fleiri sveitabú, námur, veggir og bæir þar sem jagúarinn á heima og með því er verið að koma jagúarnum í útrýmingarhættu. Þegar að manneskjur byggja til dæmis sveitabæi á heimasvæði jagúarsins á hann til að veiða búfé á bæjunum sem veldur því að jagúarinn er ekki í miklu uppáhaldi hjá bændum. Fæða. Jagúar er, eins og öll önnur kattardýr, kjötæta og að minnsta kosti 87 tegundir eru veidd af þeim. Dæmi af þessum dýrum er til dæmis dádýr, krókódílar, snákur, apar, egg, skjaldbökur, froskar, fiskar, letidýr og eiginlega hvað sem jagúarinn getur fangað. Oftast veiðir jagúarinn á jörðinni en á það til að fara upp í tré og stökkva á bráðina úr trénu. Jagúarinn er með mjög kröftuga kjálka og beitar tennur og vanalega drepur hann bráðina með því að brjóta hauskúpuna. Hegðun jagúars. Jagúar gera heimili sín í alls konar umhverfi eins og skógum, regnskógum, mýrum, graslendi og stundum fjöllum. Þeir eru einfarar og lifa lífi sínu einir, nema þegar fengitíminn er og þá er auðvitað læðan með hvolpana. Svæði karldýrsins er á milli 19-53 ferkílómetrar á meðan kvendýrið er bara með 10 - 37 ferkílómetra. Karldýrið deilir oft svæði sínu með nokkrum kvendýrum en hann verndar heimasvæðið sitt frá öðrum karldýrum til að tryggja að öll kvendýrin séu með honum en ekki einhverjum öðrum. Ólíkt öðrum kattardýrum finnst jagúarnum gott að vera í vatni. Hann syndir oft í vötnum, leikur sér og þvær sér. Hann á það einnig til að veiða fiska í vatninu. Norðurárdalur (Húnaþingi). Norðurárdalur er lítill dalur í Austur-Húnavatnssýslu, sem gengur til norðurs og siðan norðausturs úr Laxárdal. Norðurá rennur eftir honum. Þverárfjallsvegur liggur um dalinn og úr honum upp á Þverárfjall og til Skagafjarðar. Fáeinir bæir voru áður í Norðurárdal en nú er aðeins Þverá í byggð, innst í dalnum. Jóhannes Guðmundsson Nordal (1850-1946) frá Kirkjubæ í Norðurárdal fluttist til Vesturheims 1887. Hann kenndi sig þar við dalinn og tók upp ættarnafnið Nordal eins og systkini hans, sem flutt höfðu vestur á undan honum. Jóhannes fluttist aftur til Íslands 1894 til að kenna Íslendingum að nota ís til kælingar og frystingar á sjávarafurðum og stýrði fyrsta íshúsi landsins, sem jafnan var við hann kennt og nefnt Nordalsíshús. Jóhannes Guðmundsson Nordal. Jóhannes Guðmundsson Nordal (8. apríl 1850 - 8. október 1946) var íslenskur athafnamaður og brautryðjandi og stýrði um áratuga skeið fyrsta íshúsinu sem reist var á Íslandi. Jóhannes var fæddur á Kirkjubæ í Norðurárdal í Austur-Húnavatnssýslu, sonur Guðmundar Ólafssonar og Margrétar Jónsdóttur, sem þar bjuggu. Faðir hans lést þegar hann var sex ára en móðir hans bjó áfram í Kirkjubæ með börn sín níu. Jóhannes fór ungur að heiman í vinnumennsku og var í 18 ár hjá hálfbróður sínum, sem bjó á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Flest eða öll alsystkini hans fluttust hins vegar til Vesturheims og þangað fór Jóhannes einnig 1887, en þá var afar mikið harðæri norðanlands, og tók upp ættarnafnið Nordal eins og systkini hans höfðu gert en þau kenndu sig við fæðingarsveitina; Norðurárdal. Í Kanada stundaði Jóhannes einkum fiskveiðar á Winnipegvatni á sumrin en vann við íshús á veturna. Þá var ekkert íshús til á Íslandi og Tryggvi Gunnarsson gekkst árið 1894 fyrir því að stofnað var félag um rekstur slíks húss í Reykjavík og ákveðið að fá mann erlendis frá sem kynni til verka. Tryggvi fékk Jóhannes til að koma heim, enda mun hann alltaf hafa haft í huga að snúa aftur. Var hann þegar ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og stóð fyrir byggingu hússins, sem jafnan var kennt við hann og kallað Nordalsíshús. Þar var bæði fryst síld til beitu og einnig annar fiskur, auk þess sem íshúsið keypti kjöt til geymslu og seldi, og má kalla starfsemi íshússins upphafið að byltingu á atvinnháttum landsmanna. Jóhannes var forstjóri íshússins allt til 1933. Jóhannes var ókvæntur en eignaðist tvö börn, Sigurð Nordal prófessor og Önnu Nordal. Á meðal afkomenda hans eru Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Jón Nordal tónskáld, Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar og Ólöf Nordal fyrrverandi alþingismaður. Þverárfjall. Þverárfjall er fjall í Austur-Húnavatnssýslu, á milli Norðurárdals, sem liggur til norðvesturs úr Laxárdal fremri, og Laxárdals í Skagafirði. Fjallið er kennt við Þverá, innsta bæ í Norðurárdal. Þverárfjallsvegur (744) var lagður yfir fjallið sumarið 2002 en áður var þar seinfarinn sumarvegur sem lá yfir óbrúaðar ár og læki. Með tilkomu vegarins styttist leiðin á milli Blönduóss og Sauðárkróks um 30 kílómetra. Þann 3. júní 2008 varð bílstjóri sem átti leið um Þverárfjall var við hvítabjörn skammt frá veginum. Björninn var felldur sama dag. Þverárfjallsvegur. Þverárfjallsvegur eða Þjóðvegur 744 er vegur á Norðurlandi og liggur frá Skagastrandarvegi til Sauðárkróks. Vegurinn er um 35 kílómetrar á lengd og lauk lagningu hans haustið 2007 en þá var jafnframt tekin í notkun ný brú yfir Gönguskarðsá. Gerð vegarins hófst árið 2000 en þá var lagður 12 kílómetra langur vegur yfir Þverárfjall sjálft, milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Þar hafði áður verið sumarbílfær vegarslóði þar sem fara þurfti yfir óbrúaðar ár og læki. Vegurinn yfir fjallið liggur hæst í 330 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessum áfanga lauk haustið 2002 og var vegurinn þá opnaður. Þar með styttist leiðin milli Sauðárkróks og Blönduóss um 38 kílómetra. Á árunum 2003-2004 var vegurinn frá Skagastrandarvegi, um Laxárdal og Norðurárdal að bænum Þverá, svo byggður upp og á árunum 2006-2007 var lagður nýr vegur Skagafjarðarmegin um Gönguskörð og til Sauðárkróks. Fuglasafn Sigurgeirs. Fuglasafn Sigurgeirs er náttúrugripasafn á Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit. Safnið á alla íslenska varpfugla, að undanskildum haferni og þórshana. Í sýningarsalnum eru nú um 280 uppstoppaðir fuglar og 300 egg til sýnis. Fuglasafnið var byggt upp af Sigurgeiri Stefánssyni (1962-1999) og reistu aðstandendur hans safnhúsið í minningu hans með aðstoð fjölmargra einstaklinga og fyrirtækja. Askey (Noregi). Askey (norska: Askøy) sem í fornu máli var nefnd Fenhringur, Fenhring eða Fenring) er eyja í Hordaland-fylki í Noregi. Einnig er til fylkið Askey en það tekur einmitt yfir alla eyjuna og er kennt við hana. Óríon (stjörnumerki). Óríon (Veiðimaðurinn eða Risinn) er stjörnumerki við miðbaug himins. EuroFIR. EuroFIR (European Food Information Resource) er alþjóðleg sjálfseignarstofnun sem styður við notkun á upplýsingum um efnainnihald matvæla og öðrum gögnum með samstarfi og samræmingu þeirra. Markmið stofnunarinnar er þróun, umsýsla, útgáfa og hagnýting gagna um efnainnihald matvæla, og kynning á alþjóðlegu samstarfi og samræmingu með því að bæta gæði gagna og staðla ásamt því að auka leitarmöguleika í gagnagrunnum. Saga. Evrópska netverkefnið um gögn um efnainnihald matvæla (2005-10; EuroFIR) var öndvegisverkefni Network of Excellence (NoE) með þátttöku 48 aðila frá háskólum, rannsóknastofnunum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum (SMEs) í 27 löndum. Verkefnið var fjármagnað af 6. Rammaáætlun Evrópusambandsins (Priority 5: Food Quality and Safety; Contract no FP6-513944). Eitt af meginmarkmiðunum var að þróa, í fyrsta skipti í Evrópu, opinn aðgang að gögnum um efnainnihald matvæla á Netinu. Annar mikilvægur afrakstur EuroFIR öndvegisnetsins var að koma á laggirnar sjálfbæru starfi til framtíðar þannig að hægt væri að halda áfram vinnu við suma þá verkþætti sem unnið var að innan verkefnisins. Þessu var náð fram með stofnun sjálfseignarstofnunarinnar EuroFIR AISBL. Aðilar að stofnuninni eru 42 af þeim 48 aðilum sem tóku upphaflega þátt í EuroFIR öndvegisnetinu. Aðalmarkmið stofnunarinnar er að styðja og efla þróun, umsýslu, útgáfu og hagnýtingu gagna um efnainnihald matvæla með alþjóðlegu samstarfi og samræmingu. Félagar með fulla aðild. (*) Félagar sem reka gagnagrunna food composition database á landsgrundvelli. Aukafélagar. (*) Félagar sem reka gagnagrunna á landsgrundvelli. Heiðursfélagar. Listi yfir EuroFIR AISBL lykileinstaklinga, félaga og samstarfsaðila á vefsíðu EuroFIR. Mikilvægi og nytsemi gagna um matvæli. Næringarefnatöflur eða gagnagrunnar um efnainnihald matvæla (FCDBs) veita upplýsingar um næringarefni í matvælum, venjulega frá tilteknu landi. Upphaflega voru þessar upplýsingar aðeins fáanlegar á prentuðu formi og má rekja fyrstu töflurnar aftur til fyrstu ára 19. aldar. Nú á tímum má merkja þróun í átt að rafrænum gagnagrunnum um efnainnihald matvæla. Þeir geta innihaldið mikið af gögnum og getur aðgangur verið auðveldur og vinna við gögnin möguleg með einföldum hætti. Á seinustu árum hafa margir evrópskir gagnagrunnar um efnainnihald matvæla verið gerðir aðgengilegir á netinu og hefur þessi þróun verið studd af EuroFIR innan Evrópu. Gagnagrunnar um efnainnihald matvæla innihalda venjulega upplýsingar um fjölmarga þætti, svo sem: orku, meginefni (til dæmis prótein, kolvetni, fitu) og undirflokka (t.d. sykrur, sterkju, fitusýrur), steinefni (til dæmis kalk, járn, natríum) og vítamín. Að auki birta sumir gagnagrunnar gildi fyrir einstakar amínósýrur og/eða vítamínþætti (t.d. einstök karótenóíð, svo sem lýkópen og lúteín). Nokkrir sérhæfðir gagnagrunnar eru einnig til; til dæmis er lífvirk efni að finna í EuroFIR eBASIS gagnagrunninum, í bandaríska ísóflavona gagnagrunninum og í franska Phenol-Explorer gagnagrunninum. Gagnagrunnar um efnainnihald matvæla veita grundvallarupplýsingar fyrir rannsóknir í næringarfræði. Notkun þeirra er þó ekki takmörkuð við næringarfæðina og viðfangsefni tengd lýðheilsu. Nefna má að matvælaiðnaður, löggjafarvaldið og neytendur þurfa og/eða nota gögn um efnainnihald matvæla. Ein best þekkta notkun gagna um efnainnihald matvæla er við mat á neyslu næringarefna fyrir einstaklinga, svæði, þjóðir og hópa sem eru afmarkaðir alþjóðlega. Næringarráðgjafar og aðrar heilbrigðisstéttir nota gögn um efnainnihald matvæla til að meta fæði sjúklinga sinna en faraldursfræðingar þurfa að meta fæði til að rannsaka hlutverk efnisþátta í fæðinu og samband heilsu og sjúkdóma. Þessi viðfangsefni geta verið lítil verkefni en einnig alþjóðlegar faraldursfræðilega rannsóknir og sameiginlegar rannsóknir margra aðila. Opinberar stofnanir rannsaka oft fæði heilla þjóða með landskönnunum á mataræði til að fylgjast með breytingum á næringarástandi og meta áhrif manneldisstefnu. Gögn um efnainnihald matvæla eru einnig mikið notuð við þróun uppskrifta, máltíða og matseðla fyrir sjúkrafæði, mötuneyti og matvælaiðnað. Gögn um efnainnihald matvæla eru mikilvæg við skipulagningu máltíða á elliheimilum, sjúkrahúsum og fangelsum til að ganga úr skugga um að fæðið sé fullnægjandi. Einnig færist í vöxt að veittar séu upplýsingar um næringargildi máltíða á sölustöðum og hefur þetta aukið notkun á gögnum um efnainnihald matvæla í matvælaiðnaði. Eftirspurn eftir næringarupplýsingum hefur verið hvatinn að auknum næringargildismerkingum á umbúðum matvæla. Gögn um efnainnihald matvæla eru notuð þegar unnið er við að skilgreina þörfina fyrir fræðslu um næringu og heilsueflingu og þegar lagt er á ráðin um aðgerðir. Þau eru mikilvægur hluti af kennsluefni um matvæli og næringu í skólum og í vaxandi mæli á vinnustöðum. Þau eru einnig hagnýtt með almennum hætti í landbúnaði og viðskiptum. Til dæmis er hægt að nota gögn um efnainnihald matvæla til að fylgjast með næringargildi, öryggi og því hvort um vörusvik geti verið að ræða. Hægt er að meta breytingar á innihaldi matvæla með gögnum um efnainnihald, svo sem breytingar vegna kynbóta og nýrra aðferða við ræktun, uppskeru og varðveislu. Loks eru gögnin mikilvæg viðmiðun þegar bera þarf saman matvörur og gögn koma fram um líffræðilegan fjölbreytileika. Þróun upplýsingatækni hefur gert mögulegt að flytja mikið gagnamagn. Það hvetur til þróunar og notkunar á gögnum um efnainnihald matvæla eftir ýmsum leiðum sem henta ólíkum þjóðfélagshópum, aldri og þörfum. Nú er hægt að afla gagna um matvæli hvar og hvenær sem er (heima eða í verslunum) þegar þörf krefur með því að nota litlar fartölvur, síma eða önnur tæki sem eru tengd netinu. Mikilvægt er að tryggja að upplýsingarnar komi frá áreiðanlegum, nákvæmum og opinberum aðilum eins og EuroFIR. Þátttaka í rannsókna- og þróunarverkefnum. EuroFIR er þátttakandi í nokkrum rannsókna- og þróunarverkefnum sem Evrópusambandið styrkir og hófust á árunum 2010 til 2012. Þessi verkefni fjalla um áhættu- og ávinningsgreiningu á fæðubótarefnum með lífvirkum efnum sem eru ekki næringarefni, upplýsingar um matvæli og rekjanleika við framleiðslu matvæla, framfarir í næringu Evrópubúa með styrkingu á faglegum vinnubrögðum við næringarráðgjöf, þróun á samsetningu matvæla í þeim tilgangi að draga úr vægi vissra efnisþátta og rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna. Tenglar. as codes of practice under the Joint FAO/WHO Food Standards Programme. Kikki Danielsson. Kikki Danielsson (f. 10. maí - 1952, í Visseltofta) er sænsk söngkona. Hún tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1982 og 1985. Útgefið efni. Danielsson, Kikki Elisabeth Andreassen. Elisabeth Andreassen (fædd 28. maí 1958 í Gautaborg) er norskur söngvari. Hún tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1982, 1985 og 1996. Tengil. Andreassen, Elisabeth Emilia Rydberg. Emilia Rydberg (f. 5. janúar 1978 í Stokkhólmi) er sænsk söngkona. Hún er þekktust fyrir lagið „Big Big World“. Útgefið efni. Rydberg, Emilia Robert Downey Jr.. Robert Downey Jr. (fæddur 4. apríl 1965) er bandarískur leikari og framleiðandi. Hann er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Tony Stark í Iron Man myndunum. Downey Jr., Robert Tölvuleikjatónlist. Tölvuleikjatónlist er yfirleitt notað sem hugtak yfir bakgrunnstónlistina sem heyrist í tölvuleikjum. Þetta getur þýtt allt frá 8-bit tónum í Nintendo tölvuleikjum eða lög frá ákveðinni hljómsveit eða tónskáldi sem semur tónlistina sérstaklega fyrir þennan ákveðinn tölvuleik. Tölvuleikjatónlist getur líka flokkast undir tónlist sem að tölvuleikir fá leyfi frá öðrum höfundum til að birta í sínum leik en oftast er þetta hugtak ekki notað í þeim skilning. Upphaf tölvuleikjatónlistar. Í upphafi voru engin hljóð í tölvuleikjum og þar með engin tónlist. Fyrsti tölvuleikurinn kom út árið 1958 og var gerður af William Higinbothan sem var verkfræðingur í kjarnorkuveri í Brookhaven, Bandaríkjunum. Leikurinn sem hann bjó til hét „Tennis for Two“ eða Tennis fyrir Tvo, hann skapaði leikinn í þeim tilgangi að fá aukinn áhuga almennings á starfsrekstrinum og vísindunum sem fóru fram í Brookhaven. Það var ekki fyrr en árið 1972 þar sem að tæknin leyfði hljóði að koma fram í tölvuleikjum en sá leikur hét „Pong“ og var einnig fyrsti spilakassinn í tölvuleikjaheiminum. Leikurinn var hannaður fyrir tvo spilendur og snerist hann um að koma kúlu framhjá línu andstæðingsins og reyna að passa að andstæðingurinn geri ekki slíkt sama. Hljóðið sem leikurinn gaf frá sér kom þegar kúlan kom við línurnar í leiknum og þetta markaði upphaf hljóðsins í tölvuleikjum. 8. áratugurinn. Eitt af fyrstu handfestu tölvuleiknum sem sló í gegn var leikurinn „Simon“ sem var hannaður af Bradley Milton árið 1974. Leikurinn fólst í því að það voru fjórir mismunandi litir sem að gáfu allir frá sér mismandi hljóð og leikurinn gaf ákveðið mynstur sem þurfti að fylgja (til dæmis rauður, gulur, blár, rauður) og þurfti síðan að endurtaka mynstrið. Leikurinn varð sífellt erfiðari og erfiðari en þessi leikur var sá fyrsti til að nota tónlist eða tóna sem megin svið leiksins. Það var svo árið 1975 þar sem tölvuleikja fyrirtækið Midway Games notuðu örgjörva í stað þess að nota fastar hringrásir eins og leikir höfðu gert fram að þessu til að koma með byssuhlóð á einni hljóðrás og þetta markaði upphaf mono hljóðsins í tölvuleikjum. Mest áberandi þróun tónlistar í tölvuleikum á þessum áratug er áreiðanlega útgáfan á Space Invaders tölvuleiknum frá Taito. Leikurinn var með frábæra hljóðvinnslu sem var bæði einföld og setti tóninn fyrir leikinn. Tónlistin var mjög ógnvekjandi á þessum tíma og var hún sköpuð í þeim tilgangi að vekja upp ótta og taugaóstyrkni gagnvart óvininum en tónlistin breyttist eftir því sem að þeir urðu erfiðari og því lengra sem þú náðir að fara. Spilendur þáverandi kynslóðar upplifðu mikið stress og kvíða við spilun þessa leiks og sat það eftir í minni þeirra í mörg ár eftir á. Annar tölvuleikur sem gaf spilendum svipaðan hroll var leikurinn Asteroids en hann notaði svipaða hljóðtækni og Space Invaders en bætti samt sem áður ofan á það með auknum og töluvert þróaðri hljóðum en voru í Space Invaders en þessir tveir leikir standa upp úr sem eftirminnilegustu tölvuleikir 8. áratugarins. 9. áratugurinn. Á 9. áratugnum var bylting í tölvuleikjagerð en þáverandi kynslóð sem fæddist á 9. áratugnum voru fyrsta kynslóðin sem ólst upp við það að spila tölvuleiki heima hjá sér af miklu kappi og það má í rauninni segja að tölvuleikir byrjuðu að vera samþykktir af almenning sem lögmæt afþreying. Á þessum áratugi komu út leikir eins og Pac-Man, Donkey Kong, Q*Bert, Tetris, Dragon‘s Lair, Legend of Zelda, Final Fantasy og Mega Man. Pac-Man (1980) er álitinn af mörgum sem vinsælasti tölvuleikur sem hefur nokkurn tímann komið út. Þetta var fyrsti leikurinn sem hafði tónlist sem að allir gátu tengt við leikinn. Tónlistin var gífurlega vinsæl og hljóðvinnsla leiksins er ein sú eftirminnilegasta sem heimurinn hefur nokkurn tímann séð. Þetta var í fyrsta sinn þar sem að tölvuleikja tónlist varð vinsæl meðal almennings en rokkarinn mikli Ted Nugent gerði sína eigin skopútgáfu af Pac-Man tónlistinni sem endaði númer 9 á topplista Bandaríkin. Hann gerði síðar skoplög út frá öðrum tölvuleikjum eins og Frogger, Donkey Kong og Asteroids en þau lög komu út árið 1999. Í leiknum Donkey Kong (1981) var það meistarinn Shigeru Miyamoto sem var ábyrgur fyrir hljóðvinnslu leiksins en þessi leikur vann fjölda verðlauna fyrir Nintendo. Þessi leikur bjargaði einnig dvínandi sölum tölvuleikja sem voru áberandi þetta ár og kom þeim aftur á gott skrið. Tónlistin í leiknum var gerð á litlu hljómborði sem Shigeru Miyamoto sá sjálfur um. Árið 1982 kom út tölvan Atari 5200 sem notaði kubb sem kallast POKEY kubburinn en með þessum kubb gátu þeir spilað leiki á fjórum rásum og gat hver og einn stjórnað stillingu hverrar rásar en kubburinn var hannaður í þeim skilning til að mynda hljóð út frá umhverfi leiksins. Þeir settu líka sína eigin bakgrunnstónlist inn í leikina sína sem að POKEY kubburinn var ekki partur af. Með þessari blöndu náðu Atari að koma með stanslaus hljóð í sínum leikjum og nýjungar í hljóðvinnslu tölvuleikja. Árið 1982 gerði hljómsveiting Journey tölvuleik í samstarfi við Atari en leikurinn hét „Don‘t Stop Believin“. Leikurinn snerist um það að þú stjórnaðir meðlimum hljómsveitarinnar og sniðgekkst grúppíur og ljósmyndara til að komast í hljómsveitar rútuna. Þessi leikur var fyrsti leikurinn til að nota hljómsveit annarra hljómsveita sem tónlist leiksins. Árið 1983 kom út fyrsti leikur sem notaði stereo hljóð en það var leikurinn Spy Hunter. Tónlistin í leiknum var einnig mjög auðþekkjanleg en tónlistin sem var notuð í leiknum kom úr þáttunum Peter Gunn sem voru vinsælir þættir frá árunum 1958-1961. Leikurinn náði hinsvegar ekki að komast í sögubækurnar eins og hinir fyrrnefndu leikir þar sem að 1983 leikurinn var eina útgáfan af leiknum sem varð eitthvað vinsæl, framhöldin náðu engum vinsældum. NES tölvan eða Nintendo Entertainment System kom síðan út árið 1985 og var það mikil bylting í tölvuleikjagerð og tónlist. Þetta var fyrsta 8 bita tölvuleikjavélin en tölvuleikjafyrirtækin Atari og Sega komu síðar út með sínar 8 bita leikjavélar en þær náðu aldrei sömu vinsældum sem að NES náði. Á þessari tölvu kom út leikurinn Tetris en hann skortir án efa auðþekkjanlegasta þemalag í tölvuleik allra tíma. Það var rússneskur forritari sem samdi tónlistina ásamt því að vera einn helsti maðurinn á bakvið leikinn en hann hét Alex Pajitnov. Hann fékk aldrei neinn af þeim pening sem þemalagið græddi frá fyrirtækinu sem á leikinn. Super Mario Brothers kom síðan út sama ár þar sem að var sérstakt við hljóðvinnslu leiksins var hvernig þeir notuðu gerðir þínar í leiknum sem hluta af tónlistinni, til dæmis þegar hoppað er eða óvinur drepinn. Japaninn Koji Kondo var á bakvið hljóðvinnsluleiksins og hann skapaði mjög eftirminnilegt þemalag sem allir þekkja en þetta markaði byltingu í hljóðvinnslu og tölvuleikjatónlist framtíðarinnar. Shigeru Miyamoto komst aftur á sjónarsviðið þegar hann gaf út leikinn en þá varð Miyamoto að stórstjörnu innan tölvuleikjageirans og tókst honum að snúa iðnaðinum á hvolf og tókst að koma honum á kortið og gera iðnaðinn að milljarða dollara iðnað. En Miyamoto var ekki eina stórstjarna áratugarins heldur var það japaninn Nobuo Uematsu sem að gerði tónlistina fyrir Final Fantasy leikina sem komu út frá árunum 1987 og alveg inn í 21. öldina. Hann er þekktur fyrir mjög kvikmyndalegan stíl í tölvuleikjatónlist og margir líta á hann sem einn sá besta í geiranum. Útkoma Final Fantasy árið 1987 varð einnig nokkurs konar bylting í tölvuleikjatónlist en leikir fóru þaðan að taka að sér meiri kvikmyndalegri stíl héðan í frá. 10. áratugurinn. Á 10. Áratugnum hélt tölvuleikjaiðnaðurinn að stækka en þá komu tölvur eins og Super Nintendo Entertainment System, Playstation, Nintendo 64 og fullt af öðrum tölvuleikjavélum. Á þessum áratug komu margir nýir tónlistarmenn sem fóru að semja tölvuleikjatónlist. Á þessum áratug fóru menn að nota simfóníur sem partur af tónlist í tölvuleikjum. Tæknin leyfði einnig röddum að koma inn í tölvuleiki og fóru raddir að spila stærra hlutverk í sögusögnum tölvuleikja. Þessi áratugur var tímabil mikilla tækniframfara og út frá því kom meira frelsi í leikjunum. Hefðbundin teknó tónlist var notuð í tölvuleiknum Streets of Rage á Sega Genesis tölvunni en sú tölva spilaði leiki í gegnum geisladisk sem varð til þess að hljóðgæði tónlistarinnar og hljóðsins bættist töluvert mikið. Nobuo Uematsu hélt áfram að bæta vinsældum þegar hann gerði tónlistina fyrir Final Fantasy 6-9 sem komu út á áratugnum en það sem hann hafði bætt við sig síðan á fyrri áratug voru sér lög fyrir hvern karakter í tölvuleiknum en það skapaði mjög dramatísk áhrif á tón leiksins en verk hans hafa verið tekin í samanburð við meistara eins og John Williams sem var maðurinn á bakvið Star Wars tónlistina. Margir frægir tónlistarmenn sem hafa fengið mikið lof fyrir kvikmyndatónlistina sína voru líka mjög áberandi í tölvuleikjatónlist á þessum áratug. Trent Reznor, maðurinn á bakvið hljómsveitina Nine Inch Nails gerði t.d tónlistina fyrir tölvuleikinn Quake sem kom út árið 1996. Hann vann óskarsverðlaun síðar árið 2011 fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Social Network. Michael Giacchino sem gerði garðinn frægan fyrir tónlist sína í þáttunum Lost og í myndum eins og Super 8 og Star Trek hóf feril sinn sem tónskáld í tölvuleikjum eins og Medal of Honor og Call of Duty. Leikurinn Dance Dance Revolution eða DDR kom út árið 1998 en það var fyrsti leikurinn þar sem spilendur spiluðu eftir tónlistinni. Þar átti maður að stíga á þá takka sem að birtust á skjánum og ef þú gerðir það í réttri röð leit það út eins og þú værir að dansa. Leikurinn sló í gegn í spilakössum í Japan en síðar komu út leikir sem voru einnig bundnir við tónlist eins og Guitar Hero og Rock Band. Candies. Candies er japönsk hljómsveit sem starfaði á árunum 1973 til 1977. Útgefið efni (Smáskífur). Helstu söngvari: Sue (1,2,3,4) Ran (5,6,7,8,9,10,11,12,13,14,15,17,18) Miki (16) Þvageitrun. Þvageitrun ("uraemia") er sjúkdómseinkenni sem kemur fram þegar nýrun geta ekki lengur losað blóðið við úrgangsefni svo sem þvagefni og önnur köfnunarefnisrík efnasambönd, sem myndast við brennslu í líkamanum. Þvageitrun er lokastig flestra nýrnasjúkdóma. Einkenni eru drungi, ógleði, uppköst, niðurgangur, kláði, höfuðverkur, hiksti og á lokastigum óráð og krampar. Meðferð er fólgin í leiðréttingu sýrustigs blóðsins, blóðhreinsun með gervinýrum og upp frá 1975 með nýrnaígræðslu. Mannanafn. Mannanafn er nafn sem manneskjur bera. Blævar-málið. Mannanafnanefnd úrskurðaði árið 1998 að stúlka, sem nefna átti Blær, gæti ekki borið það nafn þar sem nafnið væri skráð sem karlmannsnafn. Þrátt fyrir þann úrskurð vildu foreldrar hennar ekki gefa henni nýtt nafn og hét hún því í þjóðskrá Stúlka Bjarkardóttir Rúnarsdóttir. Árið 2012 stefndi móðir stúlkunnar ríkinu vegna úrskurðarins og krafðist þess að nafn hennar yrði skráð Blær í þjóðskrá, enda olli það henni vanlíðan og vandræðum þar sem hennar var alltaf vísað til sem Stúlku. Héraðsdómur kvað upp þann dóm árið 2013 að hún skyldi nefnd Blær í þjóðskrá meðal annars af þeirri ástæðu að ígríp ríkisins í nafngjöfina þyrftu að eiga stoð í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Johansson gegn Finnlandi frá 2007 enda væri sú grein sáttmálans efnislega samhljóða ákvæði stjórnarskrár Íslands um friðhelgi einkalífsins. Ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum 23. maí 2013 eftir kosningarnar 27. apríl 2013. Hún er mynduð af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og hefur hvor flokkur 19 menn á þingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var 38 ára við myndun stjórnarinnar og því yngsti maðurinn til þess að taka við embætti forsætisráðherra frá lýðveldisstofnun. Ríkisstjórnin er jafnframt sú fyrsta síðan 1934 þar sem enginn ráðherra hefur áður gegnt ráðherraembætti. Um er að ræða fyrstu hreinu stjórnarskiptin (þar sem enginn flokkur úr fyrri ríkisstjórn heldur áfram) síðan 1980. Hvarmabólga. Ungbarn með vægt einkenni af hvarmabólgu í hægra auga Hvarmabólga (fræðiheiti: "blepharitis") er augnsjúkdómur. Hvarmabólga er yfirleitt góðkynja sjúkdómur sem veldur oft litlum einkennum en getur valdið augnskaða og sjóntapi ef erting frá hvörmum er svo mikil að slímhimna augans vex inn á hornhimnu eða hornhimna á auga þynnist og skemmist. Flestar gerðir hvarmabólgu eru ekki af völdum sýkingar og því er hvarmabólga sjaldnast smitandi. Talið er að hvarmabólga stafi af ofnæmi fyrir bakteríum á hvörmum og veldur það ofnæmi bólgu í hvörmum sem truflar oft starfsemi fitukirtla. Fitukirtlar í hvörmum framleiða fitu sem myndar brák ofan á tárum og það er þessi fitubrák sem veldur því að tár haldast á augum og smyrja þau. Ef þessi fitubrák er ekki nógu mikil þá gufa tárin upp eða renna niður og það veldur augnþurrki. Hvarmabólga getur líka valdið því að stíflaðir fitukirtlar blása út og valda augnloksþrymlum (fræðiheiti "chalazion") en í börnum kemur það oft fram sem vogris (fræðiheiti "stye"). Hvarmabólga virðist tengjast litarefni í húð og er algengari hjá ljóshærðu fólki og rauðhærðu. Fólki með Downs heilkenni er hættara við hvarmabólgu en öðrum. Sum lyf geta stuðlað að hvarmabólgu. Þar á meðal er lyfið "Roaccutane". Hvarmabólga er mjög algeng hjá þeim sem eru með húðsjúkdóma eins og flösuexem ("seborrhois dermatitis") og rósaróða ("rosacea"). Helstu einkenni hvarmabólgu eru sviði í augum, óskýr sjón, pirringur eins og aðskotahlutur sé í auga, kláði, roði, óþægindi í augum og bjúgur á hvörmum. Meðferð við hvarmabólgu er að setja heita vatnsbakstra við augu og er stundum mikið útþynntu barnasjampó blandað í vatnið en það er talið bakteríudrepandi. Einnig er talið til bóta að taka lýsi eða Omega-3 fitusýruperlur. Demodex. Demodex er ætt örsmárra sníkjumítla sem lifa í eða nálægt hársekkjum spendýra. Þekktar eru um 65 tegundir af Demodex en þessir hársekkjamaurar eru meðal smæstu liðdýra sem finnast. Tvær þessara tegunda lifa á mönnum, það eru Demodex folliculorum og Demodex brevis sem báðar eru augnháramítlar. Tegundin Demodex canis lifir á hundum. Demodex smit er algengt og veldur sjaldnast einkennum en stundum valda þessir maurar húðsjúkdómum. Fálkaveiðar. Myndskreyting frá fálkaveiðum á 13. öld Fálkaveiðar eru veiðar villtra fugla með aðstoð sérþjálfaðra fálka. Fálkaveiðar voru nær eingöngu stundaðar af konungum og aðalsmönnum. Fálkaveiðar á Íslandi. Fálkar voru útflutningsafurð frá Íslandi frá miðöldum fram til 1800. Fálkarnir voru teknir úr hreiðrum eða veiddir í gildrur og var rjúpa gjarnan notuð fyrir agn. Þeir sem veiddu fálka voru kallaðir fálkafangarar og var það virðingarheiti. Fálkarnir voru geymdir yfir veturinn í sérstöku húsi og sendir að vori eða sumri til Danakonungs. Fálkahús var á Bessastöðum og síðar í Reykjavík. Um miðja 18. öld voru greiddir 5-15 ríkisdalir fyrir hvern fálka eftir lit og gæðum. Hvítir fálkar voru verðmestir. Vegna mikilvægis fálka í útflutningi Íslands fyrr á öldum var mynd af fálka skjaldarmerki Íslands á árunum 1904-1918. Bjarni Ómar. Bjarni Ómar Haraldsson, þekktastur sem Bjarni Ómar (fæddur 24. maí 1969) er íslenskur tónlistarmaður. Bjarni er fæddur á Akureyri árið 1969. Foreldrar hans eru Haraldur E. Jónsson og Aðalheiður Björnsdóttir. Fjölskyldan bjó fyrst un sinn á Akureyri en árið 1975 fluttist hún til Raufarhafnar þar sem Bjarni bjó óslitið til ársins 2003. Þá lá leiðin til Hólmavíkur. Í ágúst 2012 fluttist Bjarni ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem hann starfar nú hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga. Bjarni er í sambúð með Öldu Guðmundsdóttur og eiga þau tvö börn. Bjarni hefur getið sér gott orð sem tónlistarmaður, í yfir tuttugu ár með hljómsveitinni Kokkteill frá Raufarhöfn og sem trúbador ásamt því að hafa tekið í alls konar tónlistarverkefnum. Bjarni hefur gefið út tvær sólóplötur. Árið 1998 sendi hann frá sér plötuna Annað líf. Sú plata var tekin upp á Akureyri og unnin í samstarfi við Borgar Þórarinsson sem sá um upptökur og hljóðvinnslu. Á Annað líf eru tólf lög sem Bjarni samdi á árunum 1987 – 1998. Um helmingur texta plötunnar eru eftir Bjarna. Önnur sólóplata Bjarna, Fyrirheit, kom út árið 2008. Fyrirheit hefur að geyma tólf lög og eru flestar lagasmíðarnar melódískt popp í rólegri kantinum. Ástin og samkipti kynjanna skipa stórt hlutverk í textagerð. Bjarni Ómar á sex texta á diskinum en auk hans koma sex aðrir höfundar að textagerð. Upptökur fóru fram í júní til september 2008. Tekið var upp í stúdíó Hljóðhimnum í Hornslet í Danmörku og Hljóðlist á Akureyri. Þá var sumarbústaðnum Brekkuseli á Ströndum breytt í stúdíó í eina viku í júlí þar sem allar bakraddir voru teknar upp. Eftirvinnsla og mastering fór fram stúdíó Hljóðhimnum. Upptökustjórn og útsetningar voru í höndum Borgars Þórarinssonar en hann var einnig upptökumaður og sá um masteringu. Í gegnum tíðina hefur Bjarni starfað við ýmislegt svo sem við áhaldahús, húsaviðhald, sem hafnarvörður og vigtarmaður, togarasjómennsku, umboðsmennsku fyrir Olíuverslun Íslands (Olís, og stjórnunarstörf til dæmis sem framkvæmdastjóri fjarvinnslufyrirtækisins Íslensk miðlun og sem æskulýðs og íþróttafulltrúi á Raufarhöfn. Á Raufarhöfn hóf hann kennslustörf, fyrst við Tónlistarskólann frá árinu 1993 og síðan í forfallakennslu við Grunnskólann á árunum 1996 – 1999. Hann hóf síðan kennslustörf í fullu starfi sem kennari við Grunnskólann á Raufarhöfn haustið 2000 en auk þess kenndi hann tónlist áfram við Tónlistarskólann. Á Hólmavík starfaði Bjarni sem tónlistarkennari, síðar deildarstjóri við tónlistarskólann og sem aðstoðarskólastjóri við Grunn- og Tónskólann. Árið 2010 varð Bjarni skólastjóri þessara skóla og starfaði á Hólmavík til ársins 2012. Samhliða þessu starfaði hann meðal annars sem forstöðumaður vinnuskólans á Raufarhöfn og Hólmavík, þjálfari fyrir íþróttafélögin Austra og Geislann og var framkvæmdastjóri bæjarhátíðarinnar Hamingjudagar á Hólmavík árin 2005 – 2007. Bjarni hefur fengist við fjölmargt fyrir og samhliða kennslustörfum. Hann hefur komið að ýmsum verkefnum sem tengjast þróun grunn- og tónlistarskóla, verið í ýmsum félagsstörfum svo sem formaður skólanefndar, í stjórn foreldrafélaga, stjórnum íþróttasambanda og íþróttafélaga. Stevie Wonder. Stevland Hardaway Judkins, þekktur sem Stevie Wonder, (fæddur 13. maí 1950) er bandarískur tónlistarmaður. Hann er líka þekktur öðrum nöfnum sem eru: Stevland Hardaway Morris, Little Stevie Wonder og Eivets Rednow. Nafn sem eiginlega allir kalla hann er Stevie Wonder og hann er Amerískur söngvari,lagahöfundur,hljóðfæraleikari,hljómplötu framleiðandi, og var undrabarn sem þróast inn í einn af mest skapandi tónlistar tölum seint á 20. öld. Hann varð blindur stuttu eftir fæðingu. Wonder undirritaður með motown tamla merkinu á aldrinum ellefu og heldur áfram að framkvæma og taka fyrir Motown til hans dag. Meðal þekktustu Wonder er verk eru smáskífur eins og "Superstition", "Sir Duke", "You are the sunshine of my life" og "I just called to say i love you". Vel þekkt albúm eru líka að tala Book, Innervisions og lög í Key lífsins. Hann hefur skráð meira en þrjátíu U.S. Top Tíu hits og fékk tuttugu og tvo Grammy Awards, mest alltaf veitt karlkyns sóló listamaður. Wonder er einnig þekktur fyrir störf sín sem aktívisti fyrir pólitískum ástæðum, þar á meðal 1980 herferð sinni til að gera afmæli Martins Luthers King, Jr. frí í Bandaríkjunum. Árið 2009 var Wonder heitir Sameinuðu þjóðanna sendiboði friður. Árið 2008, Billboard tímaritið út lista yfir Hot 100 All-Time Top listamenn til að fagna fimmtugasta afmæli bandaríska smáskífulistans, með Wonder á númer fimm. Með almennum kosningum, var Stevie inducted í SoulMusic Hall of Fame á SoulMusic.com í desember 2012. Wonder, Stevie Ólafur Rafnsson. Ólafur Eðvarð Rafnsson (fæddur 7. apríl 1963,dáinn 19. júní 2013) var lögfræðingur í Hafnarfirði, forseti Íþróttasambands Íslands og forseti FIBA Europe. Ólafur var formaður Körfuknattleikssambands Íslands frá 1996 – 2006 þegar hann var kjörinn forseti ÍSÍ. Á yngri árum lék Ólafur körufuknattleik með Haukum í Hafnarfirði og seinna þjálfaði hann liðið í Úrvalsdeild. Sem leikmaður lék hann 109 leiki í Úrvalsdeild og skoraði 1061 stig. Hann varð Íslandsmeistari með Haukum 1988 og bikarmeistari 1985 og 1986. Ólafur varð bráðkvaddur í Sviss þar sem hann sótti fund í miðstjórn FIBA World, Alþjóða Körfuknattleikssambandsins. Santoríni. Santorini (Gríska: Σαντορίνη) er eyja í Eyjahafinu, sem þó heitir opinberlega Þíra á grísku (Gríska: Θήρα), í um 200 km fjarlægð frá meginlandi Grikklands. Eyjan er hluti af eyjaklasa sem varð til eftir gríðarlega sprengingu fyrir um það bil 3600 árum. Gyllene Tider. Gyllene Tider er sænsk popphljómsveit. Dolly Parton. Dolly Parton (fædd 19. janúar 1946 í Sevierville, Tennessee) er bandarísk söngkona. Parton, Dolly Luigi Pirandello. Luigi Pirandello (f. 28. júní 1867 í Agrigento á Sikiley, d. 10. desember 1936 í Róm) var ítalskt leikskáld, rithöfundur, þýðandi og ritsjóri. Hann hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1934. Leikrit. Pirandello, Luigi Pirandello, Luigi Sanna Nielsen. Sanna Nielsen (f. 21. nóvember 1984 í Edenryd) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Nielsen, Sanna Shirley Clamp. Shirley Clamp (f. 17. febrúar 1973 í Viskafors) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Clamp, Shirley Sonja Aldén. Sonja Aldén (f. 20. desember 1977, í St. Albans) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Aldén, Sonja Salvador. Salvador er borg í Brasilíu, höfuðstaður héraðsins Bahia og fyrsta höfuðborg Brasilíu. Hún var stofnuð 29. mars 1549 með nafninu "São Salvador da Bahia de Todos os Santos". Salvador er þriðja fjölmennasta borg Brasilíu, á eftir São Paulo and Rio de Janeiro. Maceió. Maceió er borg í Brasilíu, höfuðborg Alagoas ríkisins, var stofnað þann 5. desember 1815, hefur um 1 milljón íbúa. Beinbrunasótt. Skýringarmynd yfir einkenni beinbrunasóttar (dengue) Kort sem sýnir svæði þar sem hætta er á beinbrunasótt. Á rauðu svæðunum er sóttin landlæg en bláu svæðin er svæði þar sem mósítóflugur sem eru smitberar finnast Beinbrunasótt (dengue) er smitsjúkdómur í hitabeltislöndum og stafar af smiti Dengue veiru sem er flavi-veira. Smitið berst í fólk með biti moskítóflugna en smitast ekki milli manna. Helstu einkenni beinbrunasóttar er höfuðverkur, bein- og liðverkir og upphleypt flöt útbrot sem koma eftir nokkra daga. Stundum er vægur hiti eina einkenni sjúkdómsins og hann gengur yfir og sjúklingurinn nær sér að fullu. Alvarlegt tilvik eru hins vegar blæðandi beinbrunasótt. Þar eru helstu einkenni hár hiti, blæðingar í slímhúðum og húð og oft fylgir lifrarstækkun. Það getur orðið blóðþrýstingsfall vegna taps á blóðvökva. Þetta er hættulegt ástand sem getur leitt til dauða í 40-50% tilfella ef það ekki er meðhöndlað. Við fullnægjandi vökvagjöf fer dánartíðni niður í 1-2%. Beinbrunasótt er greind með því að mæla mótefni í blóðsýnum. Ekki er til neitt bóluefni gegn beinbrunasótt. Eina leiðin er að draga úr líkum á smiti með því að verjast biti moskítóflugna. Andrew Lloyd Webber. Sir Andrew Lloyd Webber, barón Lloyd-Webber Kt. (f. 22. mars 1948) er breskt tónskáld og söngleikjahöfundur. Hann hefur samið þrettán söngleiki sem margir hverjir hafa gengið áratugum saman í leikhúsum í West End og Broadway. Meðal þekktustu söngleikja hans eru "Súperstar" (1970), "Evíta" (1976), "Cats" (1981) og "Óperudraugurinn" (1986). Hann var aðlaður fyrir framlag sitt til tónlistar árið 1992. Hann hefur sjö sinnum fengið Tony-verðlaunin, þrjú Grammýverðlaun, ein Óskarsverðlaun, fjórtán sinnum Ivor Novello-verðlaunin, sjö sinnum Olivier-verðlaunin, ein Golden Globe-verðlaun og heiðursverðlaun Kennedy-sviðslistastofnunarinnar árið 2005. Hann stofnaði framleiðslufyrirtækið Really Useful Group árið 1977. Það er nú einn af stærstu leikhúsrekendum í London og rekur aðallega leikhús sem sýna söngleiki. Fyrirtækið hefur líka tekið þátt í framleiðslu sýninga og kvikmynda sem byggjast á söngleikjum Lloyd Webber og annarra. Sýndarréttarhöld. a>, formaður Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu, var tekinn af lífi í desember 1952 eftir sýndarréttarhöld í Prag. Sýndarréttarhöld eru réttarhöld þar sem ákvörðunin um sekt eða sakleysi sakbornings hafa verið ákveðin fyrirfram. Slík réttarhöld eru oft fyrirferðamikil í fjölmiðlum og gjarnan af pólitískum toga, það er að segja, að baki þeim liggur annað og meira en grunur um að framinn hafi verið tiltekinn glæpur. Að baki getur legið vilji til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga og að útbúa víti til varnaðar fyrir aðra. Meðal þekktustu sýndarréttarhalda sögunnar eru Mosvkuréttarhöldin svokölluðu, einnig kennd við Stalín, á tímum hreinsananna miklu undir lok fjórða áratugarins í Sovétríkjunum (sem Halldór Laxness varð vitni að). Í kjölfar hreinsana Stalíns fylgdu sambærileg sýndarréttarhöld og hreinsanir víðsvegar austan Járntjaldsins. Í Albaníu var Koçi Xoxe, fyrrverandi innanríkis- og varnarmálaráðherra tekinn af lífi í maí 1949 og í Búlgaríu var Traycho Kostov, fyrrverandi formaður Kommúnistaflokks Búlgaríu, tekinn af lífi í desember sama ár. Í Rúmeníu var Lucrețiu Pătrășcanu, stjórnmálamaður, handtekinn í apríl 1948 og tekinn af lífi 1954, Ana Pauker, fyrrverandi utanríkisráðherra Rúmeníu, var handtekin í febrúar 1953 og tekin af lífi 1960 og Vasile Luca, náinn samstarfsmaður hennar og fyrrverandi fjármálaráðherra Rúmeníu, var dæmdur í lífstíðarfangelsi og dó í fangelsinu 1963. Í Ungverjalandi var László Rajk, fyrrverandi innan- og utanríkisráðherra, tekinn af lífi í október 1949. Í Tékkóslóvakíu var Rudolf Slánský, formaður Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu, tekinn af lífi í desember 1952 eftir sýndarréttarhöld í Prag. Dreyfus-málið er annað frægt dæmi, sem kom upp í Frakklandi undir lok 19. aldar, í þetta sinn dæmi um gyðingahatur. Réttarhöldin yfir Saccho og Vanzetti eru þekkt í Bandaríkjunum yfir tveimur ítölskum innflytjendum sem báðir voru stjórnleysingjar og voru teknir af lífi í ágúst 1927 eftir að hafa verið fundnir sekir um að hafa framið morð á meðan ráni stóð. Eftir á að hyggja er talið ljóst að mennirnir hafi verði sakfelldir og teknir af lífi vegna fordóma gegn stjórnmálaskoðunum þeirra. Gvelfar og gíbellínar. Gvelfar og gíbellínar (ítalska: "guelfi e ghibellini") voru flokkar sem mynduðust á Norður-Ítalíu á hámiðöldum á tímum skrýðingardeilunnar. Gvelfar studdu páfann og drógu nafn sitt af Welf-ætt frá Bæjaralandi ("Welf" breyttist í "guelfo"), en gíbellínar studdu keisarann af Hohenstaufen-ætt og kenndu sig við kastala þeirra í Waiblingen ("Wibeling" sem breyttist í "ghibellino"). Þessar tvær ættir tókust á um krúnuna eftir lát Hinriks 5. árið 1125. Flokkarnir voru líka kallaðir kirkjuflokkurinn og keisaraflokkurinn. Einstakar fjölskyldur, borgir og bæir kenndu sig við þann flokk sem þær studdu. Almennt séð voru gvelfar borgaralegir aðalsmenn sem byggðu auð sinn á verslun en gíbellínar úr hópi landeigenda. Borgir Norður-Ítalíu þar sem keisarinn reyndi að auka völd sín voru hallari undir gvelfa en borgir Mið-Ítalíu sem litu á útþenslu Páfaríkisins sem meiri ógn, voru hallari undir gíbellína. Borgir sem áttu í átökum sín á milli studdu oft ólíka flokka. Þannig voru til dæmis Písa og Siena gíbellínaborgir í andstöðu við gvelfaborgina Flórens. Gvelfaborgirnar voru Mílanó, Mantúa, Bologna, Flórens, Lucca og Padúa en borgir kenndar við gíbellína voru Como, Cremona, Písa, Siena, Arezzo, Módena og Parma. Eftir miðja 13. öld náðu gvelfar yfirhöndinni í þessum átökum. Orrustan við Benevento árið 1266 batt enda á áhrif Hohenstaufen-ættarinnar á Ítalíu og páfi gerði Karl af Anjou að konungi yfir Sikiley. Með þessu bandalagi páfa og Anjou-ættarinnar urðu gvelfar ríkjandi flokkur á Norður-Ítalíu. Nokkrum árum síðar klofnuðu gvelfar í svarta gvelfa sem studdu páfann og hvíta gvelfa sem voru andsnúnir auknum áhrifum hans. Hvítir gvelfar, þar á meðal skáldið Dante Alighieri, voru gerðir útlægir frá Flórens árið 1302 og tilraun þeirra til að ná borginni aftur með hervaldi og stuðningi gíbellína árið 1304 mistókst. Flokkaheitin gvelfar og gíbellínar voru notuð áfram á Ítalíu næstu aldirnar yfir þá sem studdu annars vegar Frakkakonung og hins vegar keisarann, einkum í Ítalíustríðunum, þar til Karl 5. keisari staðfesti yfirráð sín yfir Ítalíu árið 1529. Eftirmál. Vísanir í átök gvelfa og gíbellína eru nokkrar í "Hinum guðdómlega gleðileik" Dantes og í "Tídægru" Boccaccios. Átökin mynda pólitískan bakgrunn smásögunnar um Mariotto og Gianozza eftir Masuccio Salernitano sem gerist í Siena og varð grunnurinn að sögunni "Giulietta e Romeo" eftir Luigi da Porto sem William Shakespeare gerði leikritið "Rómeó og Júlía" eftir. Lill-Babs. Lill-Babs (f. 9. mars 1938, í Tå) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Lill-Babs Siw Malmkvist. Siw Malmkvist (f. 31. desember 1936 í Landskrona) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Malmkvist, Siw Towa Carson. Towa Carson (f. 31. mars 1936 í Eskilstuna) er sænsk söngkona. Kvällstoppen. Carson, Towa Ann-Louise Hanson. Ann-Louise Hanson (f. 4. apríl 1936 í Kristianstad) er sænsk söngkona. Kvällstoppen. Hanson, Ann-Louise Skrýðingardeilan. Trérista sem sýnir konung skrýða biskup embættistáknum sínum Skrýðingardeilan voru hörð átök milli kirkjunnar og konungsvaldsins í Evrópu á miðöldum. Á 11. og 12. öld börðust páfar gegn því að veraldleg yfirvöld skipuðu (skrýddu) háttsetta embættismenn kirkjunnar, svo sem biskupa og ábóta. Höfuðdeilan stóð milli páfa og keisara hins Heilaga rómverska ríkis og hófst árið 1075 en hliðstæðar deilur áttu sér stað víðsvegar um Evrópu. Deilan var leyst með sáttagerðinni í Worms árið 1122 þar sem vald páfa yfir skipan embættismanna kirkjunnar var staðfest. Lausn deilunnar styrkti páfann í sessi en veikti vald keisaranna í Þýskalandi og á Ítalíu. Saga. Árið 1075 gaf Gregoríus 7. páfi út yfirlýsinguna "Dictatus papae", safn laga þar sem vald páfa var skilgreint sem algilt og sjálfstætt og frá guði einum komið. Á kirkjuþingi í Lateranhöll 24. og 28. febrúar sama ár var því haldið fram að einungis páfi mætti skipa og setja af embættismenn kirkjunnar og flytja þá milli biskupsdæma. Hinrik 4. keisari virti þessi lög að vettugi og hélt áfram að skipa sína biskupa, meðal annars biskupinn í Mílanó, þrátt fyrir að páfi hefði áður skipað annan prest í það embætti. Árið 1076 bannfærði páfi því Hinrik og afturkallaði keisaratign hans. Þýsku furstarnir tóku þessu sem kærkomnu tækifæri til að gera uppreisn gegn Hinriki. Hinrik neyddist því til að gera yfirbót gagnvart páfa. Hann klæddist skyrtu úr geitarull og gekk til Canossa berfættur á fund páfa. Páfi nam þá bannfæringuna úr gildi en þýsku furstarnir héldu uppreisninni áfram og kusu sér nýjan keisara, Rudolf von Rheinfelden, hertoga af Schwaben. Hinrik skipaði þá Klemens 3. andpáfa og árið 1081 náði hann Rudolf á sitt vald og drap hann. Sama ár réðist hann á Róm í þeim tilgangi að steypa Gregoríusi af stóli en páfi komst undan með aðstoð Normanna frá Suður-Ítalíu. Normannarnir rændu Róm og þegar íbúar borgarinnar risu gegn Gregoríusi neyddist hann til að flýja á náðir þeirra þar sem hann lést 25. maí 1085. Þegar Hinrik lést árið 1106 tók sonur hans, Hinrik 5., við völdum. Hann hafði áður tekið undir sjónarmið páfa í deilunni. Hann hélt þó áfram að skipa eigin biskupa. Samningaviðræður við Paskalis 2. páfa fóru út um þúfur og árið 1110 réðist Hinrik inn í Ítalíu með stóran her. Þeir Paskalis gerðu samkomulag þar sem Hinrik afsalaði sér réttinum til að skipa biskupa en páfi lofaði á móti að krýna hann keisara alls kristindóms. Þegar keisarinn kom inn í Péturskirkjuna urðu uppþot og páfi neitaði að krýna hann. Hermenn Hinriks tóku páfa höndum og í látunum særðist Hinrik sjálfur. Róbert 1. af Capúa sendi Normannaher til að frelsa páfa en þeir voru stöðvaðir af Ptólemajosi 1. hertoga af Tusculum sem var hliðhollur keisaranum. Paskalis neyddist til að krýna keisarann og staðfesta rétt hans til að skipa biskupa. Þýsku furstarnir héldu uppreisn sinni áfram og þegar keisarinn var farinn frá Róm lýsti kirkjuráð krýningu hans ógilda þar sem hún var fengin með valdi. Guy erkibiskup af Vienne gekk jafnvel svo langt að bannfæra keisarann og óskaði eftir staðfestingu páfa. Hinrik sneri nú aftur til Rómar og páfi neyddist til að flýja borgina. Hinrik skipaði þá Gregoríus 8. andpáfa. Hann sneri svo aftur til Þýskalands og tókst að berja uppreisnina niður. Í kjölfarið hófust samningaviðræður við Paskalis sem lyktaði með sáttagerðinni í Worms. Bannfæringu keisarans var þá aflétt og hann fékk áheyrnarfulltrúa við kjör biskupa. Omanori. Omamori eru japanskir verndargripir sem gjarnan eru seldir á stöðum þar sem helgidómar og hof sjintotrúar eru og geta líka verið ýmiss konar Búddalíkneski. Upphaflega voru þessir verndargripir úr pappír eða viði en nútímaútgáfur eru gjarnan litlir hlutir sem eru með umslagi úr efni og geta verið í þeim bæn eða trúarsetningar. Omamori eru seldir við helgistaði og á ferðamannastöðum er litið á kaup þeirra sem framlag og stuðning við helgistaðinn. Gestir kaupa þá gjarnan manori til gjafa til að óska viðtakanda velfarnaðar. Hertogadæmið Flórens. Fyrsti hertoginn af Flórens, Alexander de'Medici Hertogadæmið Flórens (ítalska: "Ducato di Firenze") var hertogadæmi í Toskana á Ítalíu með Flórens sem höfuðborg. Hertogadæmið var stofnað eftir að Karl 5. keisari endurreisti völd Medici-ættarinnar í borginni árið 1530. Klemens 7. páfi (sem sjálfur var af Medici-ættinni) gerði Alessandro de' Medici að hertoga yfir fyrrum lýðveldinu Flórens og breytti því þannig í erfðaveldi. Annar hertoginn, Cosimo 1., jók mjög hernaðarumsvif og stækkaði hertogadæmið með kaupum á eynni Elbu og með því að leggja Siena undir sig. Árið 1569 var hertogadæminu því breytt í stórhertogadæmið Toskana. Medici-ættin fór með völd í stórhertogadæminu til 1737 þegar það gekk til Frans af Lothringen. Alessandro de' Medici. Alessandro de' Medici (22. júlí 1510 – 6. janúar 1537), kallaður "il moro" eða márinn, var fyrsti hertoginn af Flórens frá 1530 til dauðadags. Hann fæddist í Flórens og var samþykktur sem óskilgetinn sonur Lorenzo di Piero de' Medici hertoga af Úrbínó þótt ýmsir telji að hann hafi í raun verið launsonur Giulio de' Medici sem síðar varð Klemens 7. páfi. Talið er að móðir hans hafi verið þeldökk vinnukona Medici-fjölskyldunnar. Vegna þess hve hann var dökkur yfirlitum var hann kallaður "il moro". Þegar Karl 5. keisari rændi Róm árið 1527 gripu borgarbúar tækifærið og stofnuðu skammlíft lýðveldi. Medici-fjölskyldan flúði þá frá borginni. Klemens páfi samdi síðan um frið við keisarann og fékk hann til að koma Medici-fjölskyldunni aftur til valda í Flórens með hervaldi. Eftir umsátrið um Flórens, sem stóð frá október 1529 til ágúst 1530, náði fjölskyldan aftur völdum og Klemens gerði hinn nítján ára gamla Alessando að hertoga. Hann tók við völdum í borginni 5. júlí 1531. Hann átti sér marga óvini og var sagður harðstjóri, en sagnfræðingar hafa lýst efasemdum um að sá dómur standist skoðun. Frændi hans, Ippolito de' Medici, var sendur af stjórnarandstöðunni til keisarans til að klaga undan stjórn hertogans en hann lést á leiðinni. Karl 5. studdi Alessandro gegn lýðveldissinnum. Hann hafði þegar árið 1527 lofað honum hönd dóttur sinnar, Margrétar af Parma og þau giftust árið 1536. Þau áttu engin börn en Alessandro átti tvö börn með ástkonu sinni, markgreifynjunni Taddea Malaspina: Giulio de' Medici og Giulia de' Medici. Árið 1537 lokkaði fjarskyldur frændi hans, Lorenzino de' Medici, hann í gildru og myrti hann með aðstoð morðingjans Scoroncolo. Hann lýsti því yfir að hann hefði gert það í þágu lýðveldisins en engin uppreisn hófst og hann flúði til Feneyja þar sem hann var myrtur. Stuðningsmenn Medici-ættarinnar í borginni sáu til þess að Cosimo de' Medici, af annarri grein ættarinnar, var gerður að eftirmanni Alessandros. Marimekko. Úr verslun Marimekko í Kamppi í Helsinki Marimekko er finnskt fyrirtæki sem naut vinsælda fyrir tískuhönnun í kringum 1960. Cognac-bandalagsstríðið. Cognac-bandalagsstríðið var stríð milli ríkja Karls 5. keisara, einkum hins Heilaga rómverska ríkis og Spánar, og Cognac-bandalagsins sem í voru Frakkland, Páfaríkið, Lýðveldið Feneyjar, Lýðveldið Flórens, England og Hertogadæmið Mílanó. Stríðið stóð frá 1526 til 1530. Bandalagið var myndað að undirlagi Klemens 7. páfa í þeim tilgangi að hrekja Karl frá Ítalíu. Karl hafði unnið sigur á Frökkum í Fjögurra ára stríðinu og ógnaði nú valdi páfa. Karl hélt með her sinn inn í Langbarðaland og lagði Mílanó brátt undir sig. Hann hélt svo til Rómar þar sem páfi kom litlum vörnum við og neyddist til að flýja borgina. Hinrik 8. Englandskonungur og Frans 1. Frakkakonungur gerðu þá með sér sáttmála um að snúa bökum saman gegn Karli. Franski herinn settist um Napólí en sjúkdómar urðu til þess að hann hörfaði þaðan. Andrea Doria, bandamaður Frans, snerist gegn honum og her hans beið ósigur í orrustunni um Landriano 21. júní 1529. Hann hóf því friðarsamninga við Karl. Friðarsamningarnir endurómuðu að stórum hluta skilyrði Madrídarsamningsins þremur árum áður. Frans lét Karli eftir héruðin Artois, Flandur og Tournai og þurfti að greiða tvær milljónir gullskúta í lausnargjald. Nú voru því aðeins Feneyjar, Flórens og páfi eftir gegn Karli. Klemens og Karl sömdu frið í Bologna þar sem páfi lofaði að krýna Karl keisara gegn því að fá borgirnar Ravenna og Cervia sem Feneyjar neyddust til að láta af hendi, auk þeirra landsvæða sem lýðveldið átti í Apúlíu. Francesco 2. Sforza fékk völdin í Mílanó aftur gegn greiðslu 900.000 skúta. Eina andstaðan við Karl var nú í Flórens sem hann settist um haustið 1529. Þann 3. ágúst 1530 vann keisaraherinn sigur á her Flórens í orrustunni við Gavinana og tíu dögum síðar gafst borgin upp. Klemens gerði þá frænda sinn (sumir segja launson) og væntanlegan tengdason keisarans, Alessandro de' Medici, að hertoga. Blýárin. Veggmálverk í Mílanó til minningar um Fausto Tinelli og Iaio Iannucci sem voru myrtir af hægriöfgamönnum 18. mars 1979 Blýárin (ítalska: "Anni di piombo") er heiti á 8. áratug 20. aldar í sögu Ítalíu og vísar til þess að á þeim tíma voru tíð hryðjuverk og vopnuð barátta á vegum róttækra stjórnmálahreyfinga bæði til hægri og vinstri. Nafnið er dregið af samnefndri kvikmynd Margarethe von Trotta frá 1981 sem fjallar um hliðstæða atburði í Vestur-Þýskalandi. Upphaf blýáranna er stundum talið vera stúdentaóeirðirnar 1968 en stundum blóðbaðið á Piazza Fontana 12. desember 1969. Síðasta tilræðið sem er kennt við þennan tíma er blóðbaðið í Bologna 2. ágúst 1980. Ýmsir hópar tengdust þessum tilræðum beint eða óbeint, þar á meðal stjórnmálahreyfingar utan þings eins og Lotta Continua og Movimento Studentesco til vinstri og Centro Studi Ordine Nuovo til hægri, og hryðjuverkahópar á borð við Brigate Rosse og Prima Linea til vinstri og Nuclei Armati Rivoluzionari, Ordine Nero og Terza Posizione til hægri. Ace of Base. Ace of Base er sænsk popphljómsveit. Charles Baudelaire. Charles Pierre Baudelaire (9. apríl 1821 – 31. ágúst 1867) var franskt skáld. Auk þess að yrkja prósaljóð fékkst hann við ritgerðaskrif, listrýni og þýðingar, þar á meðal á sögum Edgar Allan Poe. Þekktasta ljóðabók hans er "Les Fleurs du mal" sem kom út árið 1857. Ljóð hans höfðu mikil áhrif á heila kynslóð franskra skálda á borð við Paul Verlaine, Arthur Rimbaud og Stéphane Mallarmé. Alcazar. Alcazar er sænsk popphljómsveit. Lena Philipsson. Lena Philipsson (f. 19. janúar 1966 í Vetlanda) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Philipsson, Lena Carola Häggkvist. Carola Häggkvist (f. 8. september 1966 í Norsborg) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Häggkvist, Carola Magnus Uggla. Magnus Uggla (f. 18. júní 1954 í Stockholm) er sænskur söngvari. Útgefið efni. Uggla, Magnus Jill Johnson. Jill Johnson (f. 24. maí 1973 í Ängelholm) er sænsk söngkona. Útgefið efni. Johnson, Jill Lucca. Lucca er borg í Toskana sem stendur við ána Serchio nálægt Tyrrenahafi. Borgin er höfuðborg samnefndrar sýslu. Íbúar eru um 85 þúsund talsins. Eitt af helstu einkennum borgarinnar eru borgarmúrarnir sem enn standa. Lucca er fæðingarborg tónskáldsins Giacomo Puccini. Stærsta myndasöguhátíð Ítalíu, Lucca Comics and Games, er haldin í borginni árlega. Padúa. Padúa (ítalska: "Padova", feneyska: "Padoa") er borg í Venetó á Ítalíu. Borgin er höfuðborg samnefndrar sýslu. Íbúar eru um 215 þúsund. Borgin er stundum skilgreind, ásamt Feneyjum og Treviso, sem hluti af stórborgarsvæðinu Feneyjar-Padúa-Treviso með 1,6 milljón íbúa. Borgin stendur á bökkum árinnar Bacchiglione, um 40km vestan við Feneyjar. Sunnan við borgina liggja Evgenahæðir sem eru þjóðgarður frá 1971. Háskólinn í Padúa var stofnaður sem lagaskóli árið 1222 og var um aldir einn af mikilvægustu háskólum Evrópu. Siena. Siena er borg í miðju Toskana á Ítalíu og höfuðborg samnefndrar sýslu. Íbúar eru rúmlega 50 þúsund talsins. Borgin var stofnuð af Etrúrum. Hún stendur á nokkrum hæðum sem mynda syðsta hluta Chianti-fjalla, milli ánna Arbia, Merse og Elsa. Borgin var einn helsti keppinautur Flórens um völd í héraðinu á miðöldum. Eftir stutt blómaskeið á endurreisnartímanum tók borginni hins vegar að hnigna. Árið 1555 lagði hertoginn af Flórens, Cosimo 1. de' Medici, borgina undir sig með aðstoð Karls 5. keisara. Bankinn Banca Monte dei Paschi di Siena var stofnaður í borginni árið 1472 og er elsti banki heims sem enn er starfandi. Helstu kennileiti í borginni eru Dómkirkjan í Siena, reist milli 1220 og 1370, og torgið Piazza del Campo þar sem frægar kappreiðar (Palio) eru haldnar árlega. Allur miðbærinn í Siena er á Heimsminjaskrá UNESCO frá 1995. Mantúa. Mantúa (ítalska: "Mantova", emilíska og latína: "Mantua") er borg í Langbarðalandi á Ítalíu. Borgin er höfuðborg samnefndrar sýslu. Íbúar eru tæp 50 þúsund. Helsta einkenni borgarinnar eru þrjú manngerð vötn sem voru gerð borginni til varnar á 12. öld. Fjórða vatnið þornaði upp á 18. öld. Borgin var lengst af lén Gonzaga-ættarinnar. Borgin blómstraði á endurreisnartímanum og í upphafi nýaldar en þegar Mantúuerfðastríðið 1628-1630 braust út settust málaliðar Ferdinands 2. um borgina. Herinn bar með sér mannskæða plágu og þegar þeir náðu borginni á sitt vald rændu málaliðarnir hana í þrjá sólarhringa. Eftir þetta áfall náði Mantúa aldrei fyrri styrk. Árið 1708 komst borgin í hendur Habsborgara. Lill Lindfors. Lill Lindfors (f. 12. maí 1940 í Helsinki) er sænsk söngkona. Lindfors, Lill Konungsríkið Sikiley. Konungsríkið Sikiley var ríki sem stóð á Suður-Ítalíu frá 1130 til 1816. Ríkið var stofnað af Hróðgeiri 2. sem fékk konungstitil frá Anakletusi 2. andpáfa. Það tók við af greifadæminu Sikiley sem varð til 1071 eftir innrásir Normanna í Suður-Ítalíu. Ríkið náði ekki aðeins yfir eyjuna heldur alla Suður-Ítalíu til 1282. Þá var gerð uppreisn gegn Anjou-ættinni sem var kölluð sikileysku aftansöngvarnir. Eftir það skiptist ríkið og Sikiley varð hluti af veldi konungs Aragóníu. Árið 1816 sameinaðist Konungsríkið Sikiley Konungsríkinu Napólí og til varð Konungsríki Sikileyjanna tveggja. Árið 1861 varð þetta ríki hluti af sameinaðri Ítalíu. Sikileysku aftansöngvarnir. Sikileysku aftansöngvarnir voru uppreisn íbúa Sikileyjar gegn franska konunginum Karli 1. af Napólí sem hófst að kvöldi annars í páskum 30. mars árið 1282. Uppreisnarmenn drápu um þrjú þúsund Frakka á eyjunni, þar á meðal konur og börn, á sex vikum. Uppreisnin markaði upphafið á Aftansöngvastríðinu milli Karls, með stuðningi Frakklands, og Aragóníu, með stuðningi Býsantíum. Niðurstaðan varð sú að Konungsríkið Sikiley klofnaði í tvennt: meginlandshluti ríkisins varð Konungsríkið Napólí undir stjórn Karls, en eyjan varð hluti af veldi Péturs 3. af Aragóníu. Konungsríkið Napólí. Konungsríkið Napólí var ríki sem náði yfir meginlandshluta Suður-Ítalíu frá 1282 til 1816. Ríkið varð til þegar Konungsríkið Sikiley klofnaði eftir sikileysku aftansöngvana og Sikiley varð hluti af veldi Péturs 3. af Aragóníu. Samtímamenn kölluðu ríkið Konungsríkið Sikiley, þar sem það var "de jure" leifarnar af því. Þegar ríkin tvö sameinuðust aftur árið 1816 var því nýja ríkið kallað Konungsríki Sikileyjanna tveggja. Höfuðborg ríkisins var Napólí. Fyrsti konungur ríkisins var Karl 1. af Napólí sem missti Sikiley í hendur Aragóníumanna. Afkomendur hans ríktu þar sem konungar þar til Alfons 5. af Aragóníu lagði ríkið undir sig árið 1442. Eftir lát hans 1458 féll Napólí í hendur launsyni hans Ferrante. Anjou-ætt gerði samt enn tilkall til ríkiserfða og þegar Ferdinand lést 1494 gerði Karl 8. Frakkakonungur innrás í Ítalíu og hóf þar með Ítalíustríðin. Hann neyddist þó brátt til að draga her sinn til baka og krúnan gekk til Ferdinands 2. Frakkar gáfu tilkall sitt formlega eftir með friðarsamningunum í Cateau-Cambrésis árið 1559. Eftir Spænska erfðastríðið snemma á 18. öld fékk hið Heilaga rómverska ríki Napólí í sinn hlut en í Pólska erfðastríðinu 1734 lögðu Spánverjar ríkið aftur undir sig. Karl af Parma varð konungur en þegar hann erfði spænsku krúnuna 1759 lét hann yngri syni sínum, Ferdinand, ríkið eftir. Ferdinand var af ætt Búrbóna og barðist gegn Napóleoni í Frönsku byltingarstríðunum. Napóleon lagði ríkið undir sig 1806 og Ferdinand flúði til Sikileyjar þar sem honum tókst að verjast innrásum Joachim Murat sem Napóleon hafði gert að konungi í Napólí. Eftir seinni ósigur Napóleons steyptu Austurríkismenn Murat af stóli og endurreistu Ferdinand. Árið eftir var ákveðið að sameina konungsríkin tvö sem höfðu þá verið í konungssambandi um aldir. Hertogadæmið Parma. Hertogadæmið Parma var hertogadæmi á Ítalíu með Parma sem höfuðborg. Hertogadæmið var búið til árið 1545 sem lén handa launsyni Páls 3. páfa, Pier Luigi Farnese. Farnese-ætt fór með völd í hertogadæminu þar til hún dó út árið 1731. Þá féll það í hlut Karls, sonar Spánarkonungs en eftir Pólska erfðastríðið fékk Karl 6. keisari hertogadæmið í sinn hlut í skiptum fyrir Konungsríkið Napólí og Konungsríkið Sikiley. Eftir Austurríska erfðastríðið 1748 fengu Búrbónar aftur yfirráð yfir hertogadæminu og Filippus, yngri sonur Filippusar 5. Spánarkonungs varð hertogi. Árið 1796 lagði Napoléon Bonaparte hertogadæmið undir sig en Ferdinand hélt völdum til 1801. Árið 1808 var það innlimað í Frakkaveldi Napoléons. Árið 1814 varð síðari eiginkona Napoléons, María Lovísa af ætt Habsborgara, hertogaynja af Parma og hélt þeirri stöðu til dauðadags árið 1847 en þá gekk ríkið aftur til afkomenda fyrri valdhafa af ætt Búrbóna. Árið 1859 gerðu íbúar uppreisn gegn Búrbónum og tóku þátt í myndun Sameinaðra héraða Mið-Ítalíu ásamt Toskana, Módena og Sendiráðum Páfa. Árið eftir var ákveðið með þjóðaratkvæðagreiðslu að taka þátt í sameinaðri Ítalíu. Búrbónar hafa aldrei hafnað tilkalli sínu til hertogadæmisins. Núverandi handhafi titilsins er Hollendingurinn Karl af Parma. Parma. Parma er borg í Emilía-Rómanja á Ítalíu. Borgin er höfuðborg samnefndrar sýslu. Íbúar eru tæp 190 þúsund. Borgin er einkum þekkt fyrir hinn fræga parmesanost og parmaskinkuna. Parmaháskóli er einn elsti háskóli heims, stofnaður á 11. öld (en varð háskóli árið 1502). Parmafljót rennur í gegnum borgina og þaðan út í ána Pó. Borgin byggðist upp sem Terramare-þorp á bronsöld. Parma var höfuðborg samnefnds hertogadæmis frá 1545 til 1859. Stórhertogadæmið Toskana. Stórhertogadæmið Toskana var stórhertogadæmi sem varð til þegar Píus 5. páfi lýsti Cosimo hertoga af Flórens, stórhertoga árið 1569. Cosimo hafði áður stækkað ríki sitt mikið með því að kaupa eyna Elbu og leggja borgina Siena undir sig. Stórhertogadæmið heyrði að nafninu til undir Heilaga rómverska ríkið. Medici-fjölskyldan ríkti yfir stórhertogadæminu þar til aðalgrein ættarinnar dó út árið 1737 og Frans af Habsburg-Lothringen tók við völdum ásamt konu sinni Maríu Teresu sem fékk titilinn stórhertogaynja. Yngri sonur þeirra, Leópold, fékk stórhertogadæmið í sinn hlut við lát föður síns en þegar hann varð keisari fékk yngri sonur hans, Ferdinand, stórhertogadæmið. Í Frönsku byltingarstríðunum 1799 var landið hernumið af Napoléon Bonaparte sem breytti ríkinu árið 1801 í Konungsríkið Etrúríu sem Ferdinand af Parma fékk í sárabætur fyrir hertogadæmið Parma. Árið 1807 var þetta ríki svo innlimað í Frakkaveldi. Napoléon gerði systur sína, Elisu Bonaparte að stórhertogaynju. Eftir Vínarþingið var Ferdinand endurreistur. Sonur hans Leópold tók við eftir lát hans en þegar Annað ítalska sjálfstæðisstríðið braust út lagði Viktor Emmanúel 2., Sardiníukonungur ríkið undir sig. Í desember 1859 var stórhertogadæmið lagt niður og varð hluti af Sameinuðum héruðum Mið-Ítalíu sem urðu hluti af Sardiníu nokkrum mánuðum síðar. MERS-CoV. Middle East respiratory syndrome coronavirus (MERS-CoV) er heilkenni lungnabólgu af völdum áður óþekktrar kórónaveiru (CoV) sem fyrst var greind í Mið-Austurlöndum árið 2012. Egypskur veirufræðingur Dr. Ali Mohamed Zaki í Jeddah í Sádi-Arabíu tilkynnti fyrstur veiruna 24. september 2012 en hann einangraði og greindi þessa kórónaveiru í lungum 60 ára gamals manns með bráðalungnabólgu og nýrnabilun. Veiran MERS-CoV er sjötta nýja tegundin af kórónaveiru sem líkist SARS en er þó að frábrugðin bæði SARS og þeirri kórónaveiru sem veldur venjulegu kvefi. Fram að 23. maí 2013 var oft vísað til veirunnar MERS-CoV sem veiru sem líkist HABL eða nýja kórónaveiran eða nefnt „Saudi SARS“. Vísindamenn víða um lönd unnu saman að því að greina MERS-CoV. Dr. Zaki einangraði og greindi áður óþekkta kórónaveiru og þann 15. september 2012 voru niðurstöður hans birtar á vefsetri ProMed-mail sem er til að fylgjast með sjúkdómum sem eru að brjótast fram. Heilsustofnun í Bretlandi (UK Health Protection Agency) staðfesti svo greiningu á alvarlegum öndunarfærasjúkdómi sem tengdist nýrri tegund af kórónaveiru í öðrum sjúklingi, 49 ára karlmanni frá Qatar sem var nýkominn til Bretlands. Sá sjúklingur dó á sjúkrahúsi í London. Stofnunin í Bretlandi gaf kórónaveirunni nafni London1_novel CoV 2012 og útbjó grunngögn varðandi genamengi veirunnar, genaraðir sem fengust úr RNA-sýnum úr sjúklingnum frá Qatar. Þann 25. september 2012 tilkynnti Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) að verið væri að skoða hina nýju kórónaveiru og samræma viðbrögð og aðvaraði öll aðildarríki sín varðandi veiruna. Rannsóknarsetrið The Erasmus Medical Center í Rotterdam gerði prófanir á, raðaði og greindi sýni sem EMC veirufræðingurinn Ron Fouchier fékk sent frá Ali Mohamed Zaki í nóvember 2012. Ron Fouchier er í fararbroddi í rannsóknum á kórónaveirum. Hann varpaði fram þeirri kenningu í september 2012 að veiran hefði átt upptök sín í leðurblökum. Þann 8. nóvember 2012 birtust ítarlegri rannsóknarupplýsingar í "The New England Journal of Medicine" frá Dr. Zaki og samhöfundum hans frá the Erasmus Medical Center undir nafninu Human Coronavirus-Erasmus Medical Center (HCoV-EMC) en þar var genagerð veirunnar lýst og þeim veirum sem hún er skyldust þar á meðal SARS-veirunni. Í maí 2013 var veiran opinberlega nefnd Middle East Respiratory Syndrome Coronavirus (MERS-CoV) af alþjóðlegri nefnd um veiruflokkun (Study Group of the International Committee on Taxonomy of Viruses) og var sú flokkun tekin upp af Alþjóða heilbrigðistofnuninni (WHO). Vísindamaðurinn Fouchier og rannsóknarhópur hans hafa kortlagt genamengi þessarar nýju kórónaveiru og gefið því nafnið Human Coronavirus-Erasmus Medical Center (hCoV-EMC) eftir rannsóknarsetri sínu og birtu þau gögn í fræðiriti haustið 2012. Embættismenn í Sádi-Arabíu gáfu ekki Dr. Zaki leyfi til að senda sýni af veirunni til Fouchier vegna þess að Fouchier segist hafa einkaleyfi á genamenginu. Dr. Zaki var rekinn frá starfi sínu fyrir að deila niðurstöðum rannsókna sinna. Í Bandaríkjunum fengu rannsóknarverkefni sem beindust að hættulegum veirum ekki fjárstyrki um tíma. Þann 21. febrúar 2013 tilkynnti WHO að þrettán tilvik sýkinga hefðu komið upp á rannsóknarstofum, sex tilfelli (fjögur banvæn) í Sádi-Arabíu, tvö tilfelli (bæði banvæn) í Jórdaníu, tvö tilvik frá Qatar og þrjú frá Stóra-Bretlandi. Flestar sýkingar milli fólks af kórónaveirum eru vægar og tengdar venjulegum kvefpestum. Sumar kórónaveirur eins og MERS-CoV geta valdið alvarlegum og stundum banvænum sýkingum í mönnum. MERS-CoV hefur þegar valdið mörgum dauðsföllum en enn þá er aðalútbreiðsla veirunnar í Sádi-Arabíu en tíu af þeim 22 sem hafa látist og 22 af 44 skráðum tilvikum eru þar. Karlmenn eru 80% þeirra tilvika.